Kirkjuból í Valþjófsdal

Kirkjuból í Valþjófsdal

Frá landamerkjunum við Brimnes í fjörunni undir Sporhamri er varla nema hálftíma gangur heim í hlað á Kirkjubóli. Skammt innan við landamerkin er Hamarinn þar sem áður þurfti oft að sæta sjávarföllum (sjá hér Mosdalur). Nú er leiðin greið um veginn sem sprengdur var inn í bergið fyrir nokkrum áratugum. Áður á árum urðu menn að fara nokkru hærra þegar klöngrast var yfir Hamarinn.[1] Sú leið var erfið með hesta og var því yfirleitt reynt að sæta sjávarföllum og fara framan við Hamarinn áður en veldi hans var skert með sprengingum. Í stórstraumi varð jafnan ófært fyrir þennan farartálma drjúga stund á hverri flæði en í smástraumi var hér oft reiðfjara á flóði og komið gat það fyrir að gangfjara færi heldur ekki af.[2] Á þeim árum sem ostagerð var starfrækt á Þorfinnsstöðum í Valþjófsdal (sjá hér Þorfinnsstaðir) var mjólk flutt á hestum úr Mosdal inn í Valþjófsdal og jafnan brotist yfir Hamarinn þegar ekki var fært fyrir framan hann.[3] Í Hamrinum er svolítil hola. Sagt var að eitt sinn hefði köttur farið inn í hana og komið út á Fjallaskaga í Dýrafirði.[4]

Héðan frá Hamrinum er gott að virða fyrir sér klettabeltin í Sporhamri. Þrír gangar sjást í fjallinu. Upp undir fjallsbrún er Efstigangur og nær inn á Urðarhjalla í Skáladal fyrir ofan Kirkjuból.[5] Neðar er Miðgangur og neðst Kálfagangur sem er fyrir neðan miðja kletta og liggur eftir fjallinu endilöngu.[6] Sagt er að eitt sinn hafi kálfur úr Mosdal komist eftir þessum síðast nefnda þræðingi inn í Valþjófsdal[7] og þótti vel af sér vikið. Í Kálfagangi mun hafa verið tekið eitthvað af surtarbrandi.[8] Allir þessir þrír gangar eru nú taldir sæmilega færir fyrir menn sem vanir eru í klettum.[9]

Dálítið innan við Hamarinn stígum við upp úr fjörunni þar sem heitir Kapalhvammur.[10] Ekki er ólíklegt að hér í hvamminum hafi menn stundum geymt hesta sína þegar þeir fóru snögga ferð út í Mosdal eða á Ingjaldssand og kynni það að vera skýringin á nafni hvammsins. Innan við Kapalhvamm breikkar graslendið ofan við fjöruna. Á flöt einni  eru þar tvær hlaðnar tóttir og heita Hlöð.[11] Önnur þeirra virðist vera gömul rétt en hin, sem er hringlaga, hefur að öllum líkindum verið sauðabyrgi en slík mannvirki voru til þess ætluð að skýla fé í illviðrum. Í riti sínu um aldarfar og örnefni í Önundarfirði nefnir Óskar Einarsson læknir Seljahvamm á þessum slóðum[12] en þeir sem nú búa á Kirkjubóli kannast ekki við það örnefni hér.[13] Ólíklegt verður að telja að hér hafi verið sel.

Skammt innan við Hlöðin komum við á Stekkjarhrygg og innan við hann er gömul stekkjartótt.[14] Stóri steinninn þar rétt hjá heitir Stekkjarsteinn.[15] Hér erum við komin á Grundarenda, ysta hluta Dalsgrunda[16] og fyrr en varir opnast Valþjófsdalurinn til fulls. Frá Stekkjarhryggnum má hraða för um Dalsgrundir heim á Dalshúsahrygg þar sem Skáladalsá rennur í átt til sjávar.[17] Þaðan er skammur spölur í hlað á Kirkjubóli. Vegalengdin frá sjávarströndinni við hornið á Sporhamri og þangað heim er um það bil hálfur annar kílómetri.

Kirkjuból í Valþjófsdal er forn bújörð og þar hefur sóknarkirkja staðið frá árinu 1470.[18] Í Þórðar sögu kakala, sem talið er að hafi verið rituð á árunum upp úr 1270, er talað um Kirkjuból í Önundarfirði.[19] Sterkar líkur benda til þess að þar sé átt við Kirkjuból í Valþjófsdal (sjá hér bls. 9-10). Gera má ráð fyrir að jörðin hafi þó borið annað nafn í fyrstu því ólíklegt verður að telja að hinir fyrstu landnámsmenn í dalnum hafi verið kristnir. Svo virðist reyndar sem bújörð þessi hafi löngum átt sér tvö nöfn og ýmist verið nefnd Kirkjuból eða Dalur eins og hér verður brátt rakið nánar. Í Hrafns sögu Sveinbjarnarsonar, sem rituð var um miðbik 13. aldar, er sagt frá manni er Þorbjörn Magnússon hét og þess getið að hann hafi átt heima í Valþjófsdal (sjá hér bls. 8-9). Vera má að þar sé átt við Kirkjuból og jörðin hafi í fyrstu borið sama nafn og dalurinn. Í bréfum og skjölum frá 15. og 16. öld er jörðin oftast nefnd Kirkjuból en þó er stundum talað um kirkjuna í Valþjófsdal og jafnvel Valþjófsdal[20] sem bendir til þess að ekki aðeins dalurinn heldur líka bærinn hafi verið nefndur því nafni. Bæjarheitið Dalur kynni því að vera stytting úr Valþjófsdalur. Á 17., 18. og 19. öld var kirkjustaður þessi í Valþjófsdal mjög oft nefndur Dalur[21] þó að Kirkjubólsnafnið væri notað jöfnum höndum og þá einkum í opinberum heimildum.[22] Frá byrjun 18. aldar má reyndar líka finna dæmi um þriðja nafnið á þessari sömu jörð því í manntalinu sem tekið var árið 1703 er hún nefnd Dalstaður.[23] Í Jarðabókinni frá 1710 er jörðin nefnd Kirkjuból en tekið fram að almennt sé hún kölluð Dalur.[24]

Í Valþjófsdal voru frá fornu fari fjórar bújarðir, Kirkjuból, Tunga, Grafargil og Þorfinnsstaðir. Af þessum jörðum er Kirkjuból langstærst og var með hjáleigunni Dalshúsum oftast talið 48 hundruð eða jafnstórt og hinar þrjár jarðirnar allar til samans.[25] Á fyrri öldum var Kirkjuból reyndar stundum metið á 52 hundruð[26] og finnanleg eru einstök dæmi frá 15. og 18. öld um að jörð þessi hafi verið virt á 60 hundruð.[27] Ætla má að þá hafi Mosdalur fylgt með ( sjá hér bls. 15).

Að fornu mun Kirkjuból hafa átt allt land í Valþjófsdal vestan Dalsár en hún kemur ofan af Dalsdal. Hjáleigan Dalshús, sem byggðist í Kirkjubólslandi fyrir minni þeirra manna sem uppi voru í byrjun 18. aldar, fékk síðar í sinn hlut part úr þessari miklu landareign.[28] Að öðru leyti hafa landamerkin verið óbreytt fram á þennan dag. Framan við túnið á Kirkjubóli fellur Dalsá í Þorfinnsstaðaá en norðan við Kirkjubólstún féll síðarnefnda áin fyrrum í sveig vestur undir Kirkjubólsengjar en er farvegi hennar var breytt dálítið lentu eyrar úr landi Þorfinnsstaða vestan við hana.[29] Þessar eyrar fylgja enn Þorfinnsstöðum en að öðru leyti segir áin til um landamerkin[30] eins og áður var. Í landamerkjalýsingu frá árinu 1882 er áðurnefnd landræma Þorfinnsstaða vestan árinnar afmörkuð þannig: … milli Kirkjubóls og Þorfinnsstaða eru merki í Þorfinnsstaðaá upp að Búðarlæk eftir honum að brúnni og svo eftir veginum heim að brúnni milli bæjanna.[31]

Búðalækur, sem þarna var nefndur, rennur í Þorfinnsstaðaá rétt ofan við sjávarkambinn en vegurinn sem landamerkin fylgdu mun vera gamla reiðgatan sem farin var frá Kirkjubóli til sjávar og lá yfir brúna á Búðalæk.[32] Reiðgatan lá nær ánni en akvegurinn sem nú er farinn.[33] Gamla brúin á Þorfinnsstaðaá, milli bæjanna, var mjög skammt frá brúnni sem nú stendur þar en framan við gamla brúarstæðið á Kirkjuból allt land vestan Þorfinnsstaðaár upp að ármótum hennar og Dalsár en þaðan í frá allt land vestan Dalsár á fjall upp fyrir botni Dalsdals. Fremst í Dalsdal er það eystri (syðri) kvísl árinnar sem skilur að lönd jarðanna Kirkjubóls og Tungu.[34]

Á Kirkjubóli er enn búið góðu búi en hinar jarðirnar í dalnum eru nú allar komnar í eyði. Dalshús fóru í eyði árið 1957, Tunga 1991, Grafargil 1989 og Þorfinnsstaðir 1989 (sjá Firðir og fólk 1900-1999, 341-346).

Á 19. öld voru bæirnir á Kirkjubóli tveir og hét annar Skáli en hinn Efribær.[35] Báðir þessir bæir stóðu skammt frá kirkjunni sem enn er á sínum stað, Skáli neðar, nær ánni, en Efribær nær fjallinu.[36] Jóhannes Davíðsson, sem þekkti til á Kirkjubóli á árunum upp úr  aldamótunum 1900, segir að bæirnir hafi staðið svo að segja samhliða og kirkjan verið nær því á hlaðinu.[37] Skák sú úr túninu sem bæirnir stóðu á var nefnd Kirkjupartur[38] en báðir munu bæirnir hafa staðið nær ánni en íbúðarhúsið sem nú er búið í. Milli gömlu bæjanna og timburhússins, sem Bernharður Guðmundsson byggði snemma á tuttugustu öld, var aðeins mjótt sund[39] en hús Bernharðs, sem nú er horfið, stóð nánast beint fram af kirkjunni og aðeins örfáir metrar á milli.[40] Líklegt er að hið elsta bæjarstæði á Kirkjubóli hafi verið þar sem Skálabærinn stóð á 19. öld og þar hafi höfðingskvinnan Þóra í Dal búið á fyrri hluta 17. aldar en frá henni er sagt hér litlu aftar (sjá hér bls. 25-31).

Árið 1710 bjuggu tveir bændur á Kirkjubóli en orðalag í Jarðabókinni frá því ári bendir til þess að þeir hafi báðir búið í sama bænum. Í Jarðabókinni segir svo: Túnið er til þriðjunga afbrotið af á sem fellur þar hjá og gengur þessi á árlega meir og meir á túnið og líkast að bæinn verði undan henni að flytja.[41]

Þarna er talað um bæinn en ekki bæina eða neðri bæinn og verður að teljast vísbending um að á Kirkjubóli hafi aðeins verið einn bær í byrjun 18. aldar. Ef svo hefur verið má ætla að Efribær hafi komið síðar til sögu. Ekki er kunnugt um að bærinn, sem árið 1710 var talinn í hættu vegna ágangs árinnar, hafi orðið óbyggilegur af hennar völdum. Oft mun Dalsá þó hafa gert fólkinu á Kirkjubóli gramt í geði og stundum verið gripið til ráðstafana í því skyni að stöðva landbrotið. Dæmi um það sjáum við í dagbók Jóns Guðmundssonar frá Grafargili. Í dag höfum við verið 6 að taka upp grjót til að hlaða fyrir Dalsána fyrir framan bæinn, skrifar Jón í dagbók sína 7. janúar 1896[42] og vel má vera að drjúgur hluti varnargarðsins sem nú stendur þar við ána sé frá þessum tíma.

Í neðri bænum á Kirkjubóli, þeim sem nefndur var Skáli, var búið allt til ársins 1905.[43] Á því ári hóf Jón Guðmundsson frá Grafargili búskap á annarri hálflendunni á Kirkjubóli, þeirri sem fylgt hafði Skála.[44] Hann flutti með sér íbúðarhús úr timbri sem hann hafði sjálfur komið upp níu árum fyrr þar sem heitir Árnes, rétt ofan við sjávarkambinn og utantil við Þorfinnsstaðaána, í landi Kirkjubóls (sjá hér bls. 59-61). Í þessu húsi hafði Jón búið um nokkurra ára skeið og stundað smíðar áður en hann byrjaði búskap á Kirkjubóli en þegar hann fékk umráð yfir hálfri jörðinni árið 1905 flutti hann þetta íbúðarhús sitt heim í tún og setti það niður fyrir ofan báða gömlu bæina, nær fjallinu,[45] um það bil 20 metrum fyrir ofan íbúðarhúsið sem nú er búið í.[46] Á næstu árum festist nafnið Efribær við hús Jóns Guðmundssonar og þá var farið að nefna gamla efri bæinn Neðribæ,[47] enda munu hin fornu bæjarhús í Skála aldrei hafa verið notuð sem mannabústaður eftir 1905.

Frá bæjarhólnum á Kirkjubóli er sjálfsagt að líta yfir dalinn og átta sig á helstu kennileitum áður en gengið verður bæ frá bæ. Valþjófsdalur er grösugur og búsældarlegur dalur sem liggur upp frá fjarðarströndinni með nær beina stefnu í suður. Vegalengdin neðan frá sjó og fram að fjallinu Tunguhorni, sem skiptir dalnum í tvennt, er um það bil tveir og hálfur kílómetri og breiddin hlíða á milli víðast hvar um það bil einn kílómetri. Við Tunguhorn klofnar dalurinn í tvo afdali, austan við hornið er botn Valþjófsdals[48] en vestan við það er Dalsdalur[49] með stefnu í suðvestur. Báðir þessir afdalir eru gróðurlitlir, nema allra neðst, en skerast alllangt inn í fjalllendið milli Önundarfjarðar og Dýrafjarðar. Nærri lætur að lengd þeirra hvors um sig sé þrír kílómetrar.

Meginárnar í Valþjófsdal eru tvær, Dalsá sem kemur af Dalsdal og Grafargilsá sem kemur úr botni Valþjófsdals og fær nafnið Þorfinnsstaðaá á landamerkjum Grafargils og Þorfinnsstaða.[50] Því nafni heldur hún síðan alla leið til sjávar[51] en sú vegalengd er tæplega 2 kílómetrar. Í bók sinni Aldarfar og örnefni í Önundarfirði segir Óskar Einarsson læknir að Þorfinnsstaðaá, sem hér er nefnd því nafni, heiti reyndar Langá en tekur samt fram að Langárnafnið heyrist sjaldan.[52] Því miður færir Óskar engin rök fyrir máli sínu og þeir sem nú eru kunnugastir í Valþjófsdal og hafa átt þar heima í um og yfir 70 ár kannast alls ekki við nafnið Langá.[53] Í landamerkjalýsingu frá árinu 1882 heitir áin líka Þorfinnsstaðaá[54] svo óhjákvæmilegt er að halda sig hér við það nafn, enda ekki kunnugt um að áin sé nokkurs staðar nefnd Langá í rituðum heimildum frá fyrri tíð.

Sé horft frá akveginum neðan við Kirkjuból fram í botn Valþjófsdals sjást þrjár ár renna niður hlíðarnar fyrir botni dalsins. Sú austasta er Grafargilsá. Sú í miðið heitir Krosstunguá og fellur í Grafargilsá alllangt fyrir framan bæina Grafargil og Tungu en vestast er Tunguá sem rennur um túnið í Tungu og fellur í Grafargilsá rétt norðan við áðurnefnda tvo bæi.[55]

Eins og áður var getið fellur Dalsá síðan í Þorfinnsstaðaá rétt framan við túnið á Kirkjubóli svo vatnið úr öllum þessum ám fellur til sjávar í einum farvegi síðasta spölinn. Í lýsingu Holtsprestakalls frá árinu 1840 er Dalsá eina áin í Valþjófsdal sem nefnd er á nafn og þar er hún sögð renna í sjó.[56] Sú staðreynd bendir til þess að um miðbik 19. aldar hafi Dalsá haldið sínu nafni allt til sjávar þó að núlifandi menn, sem kunnugastir eru í Valþjófsdal, kannist ekki við það og þessi neðsti hluti árinnar sé nefndur Þorfinnsstaðaá í landamerkjalýsingu frá 1882 eins og hér var áður nefnt.

Á fyrri öldum mun Dalsá reyndar hafa runnið fyrir ofan garð í Dal,[57] það er vestan við bæina á Kirkjubóli og áfram til sjávar án þess að sameinast Þorfinnsstaðaá. Óskar Einarsson læknir fullyrðir í riti sínu að svo hafi verið og segir að á fyrri hluta tuttugustu aldar hafi enn sést móta fyrir gömlum árfarvegi sem vitnað hafi um þetta.[58] Sá farvegur er nú ekki sjáanlegur í fljótu bragði en vel má hugsa sér að áin hafi runnið þarna forðum tíð því að engar hindranir loka leiðinni. Mjög hæpið verður þó að telja að áin hafi enn runnið fyrir ofan garð þegar komið var fram undir miðja 19. öld og sóknalýsingin, sem hér var áður nefnd, var færð í letur. Líklegra er að höfundi sóknalýsingarinnar frá 1840 hafi verið tamt að láta ána halda Dalsárnafninu neðan við ármót Dalsár og Þorfinnsstaðaár og sú skilgreining virðist einnig hafa átt upp á pallborðið hjá þeim sem gengu frá lýsingu á landamerkjum Þorfinnsstaða um 1920 því þar segir að Dalsá falli til sjávar á landamerkjum.[59] Í munni núlifandi folks, sem vel þekkir til í Valþjófsdal er það hins vegar Þorfinnsstaðaá sem heldur nafni sínu neðan við ármót hennar og Dalsár og þannig er þetta líka í landamerkjalýsingunni frá 1882 eins og fyrr var nefnt.

Á Uppdrætti Íslands frá árinu 1977 er Grafargilsá nefnd Tunguá og þar er nafnið Valþjófsdalur látið ná yfir afdalinn vestan við Tunguhorn en hann heitir án nokkurs vafa Dalsdalur.[60] Á sama uppdrætti frá árinu 1977 er afdalurinn austan við Tunguhorn aftur á móti nefndur Tungudalur en sá dalur ber sama nafn og megindalurinn og heitir því Valþjófsdalur.[61] Nafnið Tungudalur mun þó hafa verið notað fyrrum um þann hluta dalsins sem er í landi Tungu en sú jörð á land að Grafargilsá.[62]

Fjöllin umhverfis Valþjófsdal eru flest álíka há og brúnir þeirra í 600-700 metra hæð yfir sjávarmáli. Tunguhornið sem klýfur dalinn framantil er dálítið lægra, 529 metrar, og fyrir botni dalsins ná fjallabrúnirnar sums staðar um og yfir 700 metra hæð. Útverðir Valþjófsdals eru fjöllin sitt hvoru megin við dalsmynnið, Sporhamar að utan en Þorfinnur að innan. Bæði eru fjöll þessi með hinum allra svipmestu í Önundarfirði og þó víðar væri leitað. Við höfum þegar gengið fjöruna undir Sporhamri og átt þess kost að virða hann fyrir okkur en að Þorfinni, sem blasir við beint á móti Kirkjubóli verður vikið nánar síðar (sjá hér Þorfinnsstaðir).

Fjallið Sporhamar nær inn að Skáladal,[63] sem er svolítill fjalldalur eða kvos nær beint upp af Kirkjubóli en þó aðeins utar. Úr botni Skáladals geta fjallfærir menn komist yfir í Nyrðri-Kika í Mosdal.[64] Við Sporhamarsröndina yst í Skáladal festir mjög sjaldan snjó og heitir þar Lífteigur og er hann neðan við Urðarhjalla.[65] Sagt var að kindur gætu lifað veturinn af ef þær kæmust í Lífteig.[66] Framan við Skáladal og rétt framantil við Kirkjuból rís fjallið Stakkur[67] og líkist þríhyrningi að lögun. Þar fyrir framan skerst Bessaskál inn í háfjallið,[68] hömrum girt á þrjá vegu. Framan við skálina er Torfabrekkuhorn, sem er endinn á Torfabrekkufjalli,[69] en klettabrún þess gnæfir yfir vesturhlíð Dalsdals. Framan við Torfabrekkugil, þar í hlíðinni, tekur svo við Galtargilsfjall og nær að Galtargili en þar fyrir framan er Heiðarfjall.[70] Um heiðina Klúku sem farin var úr Valþjófsdal á Sandsheiði er rætt hér nánar á öðrum stað (sjá hér bls. 67-69).

Fyrir botni Dalsdals, austan við heiðarskarðið, er Þverfell en sunnan þess hallar niður í Dýrafjörð. Austan við Þverfell er dálítill kiki, klettalaus og heita þar Skörð.[71] Úr þeim kemur eystri kvísl Dalsár, sú sem skiptir löndum milli Kirkjubóls og Tungu framantil á Dalsdal. Austan (suðaustan) við Dalsdal rís fjallið Tunguhorn og blasir við frá Kirkjubóli. Þegar fjær dregur mannabyggð fær sú hlið þess sem snýr að Dalsdal nafnið Tungurðarfjall.[72] Fyrir botni Valþjófsdals, austan við Tunguhornið, sjáum við hömrum krýndan fjallahring sem ekki verður þó fjallað hér um að sinni (sjá Grafargil). Austan við dalbotninn eru þar allmargar hvilftar sem vekja athygli þegar augum er rennt með efstu brúnum. Þær heita Grafargilshvilftar (sjá hér Grafargil).

Andspænis Kirkjubóli rís hið mikla fjall Þorfinnur yfir austurhlíð Valþjófsdals og fangar augu flestra sem til hans líta. Hátt í suðurhlíð Þorfinns eru Veturlönd. Þar er klettalaust og gott uppgöngu en lítið eitt framar í dalnum er fjallið Skjöldur og er þá komið að Grafargilshvilftum.[73] Rétt norðan við Skjöldinn er Manntapaskarð[74] og er sagt að þar hafi eitt sinn farist 18 menn úr Valþjófsdal er voru á heimleið frá vikivakagleði í Hjarðardal.[75]

Frá hlaðinu á Kirkjubóli sjáum við til allra bæjanna í Valþjófsdal. Á fyrri hluta tuttugustu aldar sást þó aðeins neðri bærinn á Kirkjubóli frá hlaðinu í Tungu því Sjónarholt, sem hér liggur á milli, skyggði á efri bæinn sem þá var.[76] Þorfinnsstaðir eru nær beint á móti Kirkjubóli, hinum megin við ána, og örskammt á milli. Fram að Tungu er um það bil einn og hálfur kílómetri og örskammt frá Tungu að Grafargili sem er austar og aðeins nær sjó. Frá Kirkjubóli sést líka yfir að Flateyri sem er handan við fjörðinn, rétt innan við Valþjófsdal og beint á móti fjallinu Þorfinni.

Fyrir þá sem bjuggu í Valþjófsdal var á fyrri tíð býsna örðugt að komast landveg til næstu nágranna. Út á Ingjaldssand varð ekki komist nema um torleiði undir Hrafnaskálarnúpi eða yfir Klúku sem er einn erfiðasti fjallvegur á Vestfjörðum (sjá hér bls. 67-69). Væri ætlunin að fara inn í Hjarðardal eða á bæi innar í firðinum varð hins vegar ætíð að fara yfir Dalsófæru undir fjallinu Þorfinni en ófæra þessi var oft á tíðum illfær eins og hér er nánar lýst á öðrum stað (sjá hér Þorfinnsstaðir). Af þessum ástæðum munu bændur og búalið í Valþjófsdal hafa farið flestar sínar ferðir á sjó áður en leiðin yfir Dalsófæru var lagfærð með sprengingum haustið 1892.

Allt til áranna kringum 1790 urðu Önfirðingar að sækja verslun til Þingeyrar og þangað munu bændur úr Valþjófsdal efalaust hafa farið ríðandi en er verslunarútibú var sett upp á Flateyri árið 1789 breyttist þetta og næstu 100 árin voru nær allar kaupstaðarferðir úr Valþjófsdal farnar á sjó. Sá ferðamáti var reyndar iðkaður langt fram á 20. öld enda tekur varla nema hálftíma að róa yfir fjörðinn og jafnvel enn skemmri tíma í logni.

Af ástæðum sem hér hefur þegar verið lýst hlýtur það líka að hafa verið mikill léttir fyrir alla Dalmenn þegar hálfkirkjan á Kirkjubóli var gerð að alkirkju árið 1470 (sjá hér bls. 16-19) svo þeir þurftu ekki lengur að sækja tíðir að Holti eða flytja þangað lík til greftrunar. Æ síðan hafa bæirnir í Valþjófsdal og Mosdal verið sérstök kirkjusókn.

Um mannlíf í Valþjófsdal á fyrstu öldum byggðar í landinu er ekkert vitað. Líklegt er að ýmsir hafi nokkuð snemma látið sér detta í hug að þar hafi fyrstur manna búið maður að nafni Valþjófur. Á hann er þó hvergi minnst í fornum ritum og því með öllu útilokað að sanna eða afsanna hvort maður með þessu nafni kynni að hafa búið í dalnum á 10. öld.

Í Miðdal fyrir botni Valþjófsdals er allhátt uppi grjóthjalli einn sem nefndur er Valþjófur.[77] Einhverjir munu hafa haldið því fram að þarna uppi á grjóthjallanum sé Valþjófur landnámsmaður heygður og engan getur víst sakað að þeir taki slíkt trúanlegt sem það vilja.

Í rituðum heimildum er Valþjófsdalur fyrst nefndur á nafn í Hrafns sögu Sveinbjarnarsonar sem talið er að hafi verið færð í letur um miðbik 13. aldar. Þar segir að Þorbjörn Magnússon hafi búið í Valþjófsdal er söguhetjan Hrafn Sveinbjarnarson á Eyri við Arnarfjörð var veginn[78] árið 1213. Sú staðreynd að höfundur sögunnar, sem verið hefur vel kunnugur á Vestfjörðum, segir ekki hvar í Valþjófsdal Þorbjörn bjó gæti bent til þess að eina stórbýlið þar hafi borið nafn dalsins fram á 13. öld en Kirkjubólsnafnið gæti þó hafa verið notað jöfnum höndum (sjá hér bls. 2). Hér hefur þess áður verið getið að á 18. og 19. öld var jörðin Kirkjuból yfirleitt nefnd Dalur í daglegu tali sem líka bendir til þess að upphaflegt nafn hennar hafi verið Valþjófsdalur. Á 13. öld mun stórbýli þetta þó einnig hafa verið nefnt Kirkjuból eins og hér verður brátt rökstutt nánar.

Um fyrsta heimamann í Valþjófsdal sem þekktur er með nafni segir svo í Hrafns sögu:

 

Þorbjörn hét maður. Hann var Magnússon. Hann bjó í Valþjófsdal. Hann gekk út um nótt fyrir Ambrósíusmessu þann vetur er Hrafn lést. Hann sá í landsuður í loftinu hvar eldur fór úr landsuðri í vestur. En eftir eldinum sá hann mann ríða hvítum hesti í standsöðli. Hann hafði skjöld hvítan og hjálm á höfði, höggspjót mikið í hendi og lagði spjótið fram milli eyrna hestinum. Og sá hann að spjótið tók lengra fram en hesturinn og svo aftur. Og þar eftir sá hann annan mann ríða. Sá hafði hest rauðan og hálflitan skjöld, hálfan rauðan en hálfan hvítan. Sá hafði og hjálm á höfði og gyrður sverði og spjót mikið í hendi og fór svo með sínu spjóti sem hinn fyrri. Hann sá ríða hinn þriðja mann með slíkum hætti sem hina fyrri, utan hann hafði brúnan hest og svartan skjöld og öll kolmerkt klæði. Hann hafði á höfði sem biskupsmítur væri. Þennan atburð sá Þorbjörn svo gerla að hann sá allan fótaburð hestanna og svo það að mennirnir stóðu í stigreipin.[79]

 

Fögur reið hefur þetta verið og hrífandi að líta til lofts en ekki er kunnugt um að menn og hestar hafi sést fara um himinhvelið yfir Valþjófsdal síðan þá.

Í Íslendinga sögu Sturlu Þórðarsonar er nokkrum sinnum minnst á Guðmund Sigríðarson, gildan bónda í Önundarfirði, sem átti ýmis konar samskipti við helstu héraðshöfðingja á Vestfjörðum og Vesturlandi á árunum 1230-1242.[80] Þar er líka á einum stað getið um Guðmund Sigurðarson sem virðist hafa búið í Valþjófsdal[81] og er að líkindum sami maður og annars staðar í sögunni er nefndur Guðmundur Sigríðarson. Í Þórðar sögu kakala segir beinum orðum að Guðmundur Sigríðarson hafi búið á Kirkjubóli í Önundarfirði á árunum kringum 1240[82] og sýnist þá komin gild ástæða til að ætla að allt sé þetta einn og sami maður og hann hafi búið á Kirkjubóli í Valþjófsdal. Sigríðarson hefur bóndi þessi efalaust verið því svo er hann nefndur fjórum sinnum en aðeins einu sinni Sigurðarson, sem hæglega getur verið misritun.

Sé allt sem ritað er í Íslendinga sögu Sturlu og í Þórðar sögu kakala um Guðmund þennan skoðað í samhengi getur niðurstaðan vart orðið önnur en sú að yfirgnæfandi líkur bendi til þess að hann hafi búið á Kirkjubóli í Valþjófsdal. Kirkjubólin í Önundarfirði hafa þó lengi verið fjögur og ekki er alveg útilokað að þarna sé um tvo menn að ræða, annars vegar Guðmund Sigurðarson í Valþjófsdal og hins vegar Guðmund Sigríðarson á einhverju Kirkjubólanna innar í firðinum. Líkurnar á því verða þó að teljast ákaflega litlar, enda varla rúm í Önundarfirði fyrir fleiri en einn stórbónda með þá vigt sem fram kemur í sögunum að Guðmundur hefur haft. Eðlilegast var líka að slíkur mektarmaður, einn fjögurra stærri bænda í Vestur-Ísafjarðarsýslu,[83] byggi á stærsta Kirkjubólinu en ekki á hinum minni jörðum með því nafni. Kirkjuból í Valþjófsdal var aldrei metið lægra en á 48 hundruð og frá fyrri hluta 15. aldar finnst dæmi um að jörð þessi hafi verið virt á 60 hundruð (sjá hér bls. 2-3). Kirkjuból í Korpudal var hins vegar aldrei svo kunnugt sé talið vera nema 30 hundraða jörð og þaðan af lægra var matið á hinum tveimur Kirkjubólunum í Mosvallahreppi (sjá hér Kirkjuból í Korpudal, Kirkjuból í Bjarnardal og Selakirkjuból). Hér er líka vert að rifja upp að í byrjun 15. aldar var allur Valþjófsdalur í eigu eins og sama mannsins (sjá hér bls. 14) og svo kynni einnig að hafa verið um lengri eða skemmri tíma á 13. öld. Með því móti bætast 48 hundruð við Kirkjubólseignina hér í dalnum en hver sem átt hefði allan dalinn gat tvímælalaust flokkast í hóp hinna stærri bænda á Vestfjörðum á Sturlungaöld.

Frásagnir Sturlu sagnaritara af Guðmundi Sigríðarsyni eru ekki margorðar en athyglisverðar engu að síður. Guðmundur kemur fyrst við sögu vorið 1230 og er þá nefndur Sigurðarson.[84] Bræðurnir Þórður og Snorri Þorvaldssynir úr Vatnsfirði höfðu þá selt Sturlu Sighvatssyni sjálfdæmi um bætur fyrir Sauðafellsför þeirra Vatnsfirðinga.[85] Ákveðið var að Sturla lyki upp gerðinni í Holti í Önundarfirði og við það miðað að flokkar beggja mættust þar en þó eigi fjölmennari en svo að 30 menn væru í hvoru liði.[86] Bræðurnir Þórður og Snorri fóru fyrst í Valþjófsdal en fréttu þar að Sturla sæti með 100 menn í Holti[87] og hefði því svikið samningsákvæðið um fjöldatakmarkanir. Nú voru góð ráð dýr. Ákveðið var að Snorri Þorvaldsson, sem var sá yngri bræðranna úr Vatnsfirði, aðeins 17 ára, færi norður í Bolungavík en Þórður bróðir hans tæki áhættuna sem í því fólst að ganga á fund Sturlu.[88] Tveir menn fóru síðan með Þórði inn til Holts á fund Sturlu og var Guðmundur Sigurðarson annar þeirra en hinn er ekki nefndur með nafni.[89]Riðu þeir Þórður í melana skammt frá garði en Guðmundur reið heim í Holt og segir Sturlu hver efni í voru, skrifar sagnaritarinn.

Nú gæti einhverjum dottið í hug að sá Guðmundur, sem þarna er nefndur, væri einhver úr herflokki Vatnsfirðinga en ekki bóndi í Valþjófsdal. Slíkt má þó heita útilokað því ef vopnabróðir bræðranna úr Vatnsfirði hefði verið valinn í hið vandasama hlutverk að ganga á fund Sturlu við þær aðstæður sem þarna voru fyrir hendi, þá má ætla að sá hinn sami kæmi víðar við sögu þar sem helstu liðsmenn Vatnsfirðinga eru taldir upp með nöfnum. Enginn Guðmundur Sigríðarson (eða Sigurðarson) er hins vegar finnanlegur í hinum ýmsu frásögnum af liðsmannasveit Vatnsfirðinga. Með hliðsjón af þeirri staðreynd mun óhætt að slá því föstu að sá sem gekk á fund Sturlu Sighvatssonar í Holti vorið 1230 hafi verið Guðmundur bóndi Sigríðarson sem á öðrum stað er sagður hafa verið vitur maður og frændmargur.[90] Líklegast er að hann gangi á fund Sturlu sem óháður milligöngumaður en allir hafa vitað að betra væri að hafa hann með sér en móti í tafli um völd og áhrif á Vestfjörðum. Viðræður hans við Sturlu sýnast líka hafa skilað góðum árangri. Að minnsta kosti var Þórður úr Vatnsfirði ekki drepinn þar í Holti og næsta dag lauk Sturla upp gerðum.[91]

Ekki er ólíklegt að Guðmundur Sigríðarson hafi bjargað lífi Þórðar Vatnsfirðings vorið 1230 en svo virðist sem framferði bræðranna í Vatnsfirði á næstu misserum hafi valdið honum vonbrigðum. Þetta haust [1231] fóru Vatnsfirðingar víða um fjörðu að afla til bús síns og þóttust vinir Sturlu þar mjög kulda af kenna, segir sagnaritarinn og bætir strax við þessum orðum: Þá kom vestan Þórður, sonur Guðmundar Sigríðarsonar, og sagði Sturlu mikið af framferði þeirra. og segja það sumir að hann færði ekki í þurrð. En Sturlu fannst fátt um.[92]

Ætla verður að Þórður Guðmundarson hafi riðið á fund Sturlu með samþykki föður síns eða í erindum hans og greinilegt að er hér var komiö sögu hafa Þorvaldssynir verið búnir að glata trausti sáttasemjarans frá fundinum í Holti. Líklega hafa það verið aðferðir þeirra við öflun fanga til búsins í Vatnsfirði sem gengu fram af honum en í þeim erindum segir sagnaritarinn þá hafa farið víða um Vestfirði. Á þessu skeiði létu ýmsir héraðshöfðingjar sig hafa að fara með ránum og gripdeildum og kúga fé af almúga er matfanga var aflað til að fæða fjölmennar liðsmannasveitir. Í þeim efnum munu Vatnsfirðingar ekki hafa verið barnanna bestir og kynnu að hafa höggvið nærri góðbóndanum á Kirkjubóli í slíkum aðdráttarferðum. Ekki verður því haldið fram hér að Guðmundur Sigríðarson hafi ráðið mestu um líf og dauða bræðranna í Vatnsfirði en ekki hafa lífslíkur þeirra aukist við ferð Þórðar sonar hans á fund Sturlu Sighvatssonar haustið 1231. Örfáum mánuðum síðar lét Sturla taka þá Vatnsfjarðarbræður, Þórð og Snorra Þorvaldssyni, af lífi er þeir voru á ferð suður í Reykholt og áðu hjá stakkgarði neðan við bæinn Hundadal í Miðdölum.[93] Áður en bardaginn hjá stakkgarðinum í Hundadal hófst náði Þórður Þorvaldsson tali af presti og bað hann bera til Sturlu þau boð að hann trúi eigi að það séu sakir er Þórður Guðmundarson lýgur á oss eins og það er orðað í sögunni.[94] Af þessu má ráða að er Vatnsfirðingar voru leiddir til höggs hafi þeir talið skilaboðin úr Önundarfirði valda mestu um endurvakta reiði Sturlu í þeirra garð. Sendiboðinn úr Önundarfirði, sonur Guðmundar Sigríðarsonar, tók reyndar þátt í bardaganum við stakkgarðinn í Hundadal. Hann var þar í liði Sturlu og var því viðstaddur þegar Vatnsfirðingar voru teknir af lífi.[95] Þrátt fyrir ærinn liðsmun vörðust Vatnsfirðingar bæði vel og lengi og er leið á bardagann var enn leitað um sættir. Önfirðingurinn Þórður Guðmundarson frá Kirkjubóli varð þá fyrri til svars en Sturla sjálfur og mælti: Vel er boðið en ekki munu þeir af halda ef þeir fá nokkurn kost annan en deyja. Er þeim nú og meir til vorkunnar að virða en fyrr.[96]

Á þessi orð hlýddi Sturla, leit á þann sem beiddi Vatnsfirðingum griða og kvað upp dóminn með þessum orðum:

 

Trautt mun ég trúa þér,

                            tröll, kvað Höskollur.[97]

 

Varð þá enn hin harðasta hríð en að lokum tókst að yfirbuga hina hraustu Vatnsfirðinga og voru báðir bræðurnir, Þórður og Snorri, teknir af lífi þar undir stakkgarðinum.[98]

Svo virðist sem Þórður bóndasonur frá Kirkjubóli hafi jafnan verið í hópi tryggustu liðsmanna Sturlu Sighvatssonar, allt frá haustinu 1231, er hann kom á hans fund með skilaboðin úr Önundarfirði um framferði Vatnsfirðinga, og þar til þeir féllu báðir á Örlygsstöðum 21. ágúst 1238.[99] Er Sturla sagnaritari telur upp þá sem féllu með frændum hans á Örlygsstöðum nefnir hann Þórð Guðmundsson og segir hann hafa verið frá Vestfjörðum.[100]

Guðmundi Sigríðarsyni, bónda á Kirkjubóli, varð lengri lífdaga auðið en Þórði syni hans, enda bendir ýmislegt til þess að hann hafi verið friðsamari. Nokkru eftir að synir Þorvaldar Vatnsfirðings voru teknir af lífi við stakkgarðinn hjá Hundadal settist bróðir Þórdísar stjúpmóðir þeirra að í Vatnsfirði og tók þar stjórntaumana í sínar hendur. Sá maður var Órækja Snorrason, hinn lánlitli sonur sagnameistarans í Reykholti. Er Órækja kom í Vatnsfjörð hafði hann fullan hug á að drottna þaðan yfir öllum Vestfjörðum og lét strax afla matfanga til búsins með harðindum … sem lengi hafði siður verið til í Vatnsfirði.[101] Ekki leið á löngu uns innbyrðis flokkadrættir hófust í því fjölmenna liði er Órækja hafði safnað að sér í Vatnsfirði og svo fór að ýmsir liðsmannanna snerust gegn þessum foringja sínum. Einn þeirra var Snorri Magnússon, prestssonur úr Aðalvík, og veturinn 1234-1235 tók hann að safna liði gegn Órækju og hafði uppi áform um að brenna hann inni.[102] Snorra varð í fyrstu allvel ágengt við liðsafnaðinn en á Kirkjubóli fékk hann daufar undirtektir. Frásögn Sturlu sagnaritara er á þessa leið:

 

Snorri fór út í Önundarfjörð að finna Guðmund Sigríðarson og vildi koma honum í þetta vandræði og taldi honum upp alla þá er í höfðu gengið þetta mál.

Guðmundur var vitur maður og frændmargur. Hann bar málið fyrir Steinþór prest í Holti og Steingrím tréfót. Tók Guðmundur það upp að margir vissu og þótti eigi örvænt að upp kæmi fyrir því að þá var löng stund til þess er þeir ætluðu að fram skyldi koma en þóttist vita að allir myndu fyrir stórsökum hafðir, þeir er vissu með Snorra, ef upp kæmi. Var það ráð þeirra að senda Órækju mann og vara hann við og segja honum þessa ráðagerð, það er þeir vissu af.[103]

 

Framganga bóndans á Kirkjubóli í þessu máli bendir til þess að hann hafi verið hygginn maður og líklega ekki allur þar sem hann var séður. Hann hefur kunnað fótum sínum forráð og ógjarnan viljað lenda þar í flokki sem menn voru dæmdir til að tapa. Trúnaður hans við Órækju mun að líkindum eingöngu hafa byggst á tímabundnum hagkvæmniástæðum og kunnáttu í að haga seglum eftir vindi.

Svolítið undarlegt er að sjá Guðmund Sigríðarson, roskinn bónda úr Önundarfirði, í liði Órækju fáum mánuðum síðar suður í Borgarfirði er Órækja fór með her að föður sínum í Reykholti. Líklega hefur hann séð fyrir að takast myndi að stilla til friðar áður en villidýrið í Vatnsfirði, sem nú vildi gerast höfðingi Borgfirðinga, bæri vopn á sinn eigin föður. Frá herferð Órækju í Reykholt segir Sturla sagnaritari á þessa leið:

 

Órækja reið af Seljaeyri upp í Reykjaholt með átta tigu manna. Var þar með honum Markús af Melum, Ásgrímur Bergþórsson, Guðmundur Sigríðarson og flestir hinir stærri bændur úr Vestfjörðum.

Í Reykjaholti voru fyrir tvö hundruð manna. … Var þar skipað mönnum í virki um allan bæinn. En Órækju menn gengu um virkið og varð ekki að sótt. Þeir Þorleifur og Loftur [þ.e. Þorleifur Þórðarson í Görðum og Loftur sonur Páls Jónssonar biskups – innsk. K.Ó.] fóru á meðal þeirra feðga og leituðu um samningar. Kom því svo að þeir sem í virkinu voru fundu eigi fyrr en Órækju menn allir voru komnir í húsin og höfðu gengið upp eftir forskála frá laugu. – Höfðu þeir Loftur þá samið með þeim feðgum. Voru þeir þar allir um nóttina. En um morguninn var það samið með þeim að Órækja skyldi taka við Stafaholti. Reið hann þá þangað og tók þar við búi. En bændur allir fóru vestur aftur heim.[104]

 

Forskálinn frá laugu, sá sem menn Órækju gengu upp eftir þar í Reykholti sumarið 1235, stendur enn að hluta, endurnýjaður að vísu en sama grjótið notað í hleðslurnar og Snorralaug er líka enn á sinum forna stað. Fróðlegt hefði verið að vita hvað bóndinn á Kirkjubóli í Valþjófsdal var að þenkja er hann þrammaði við hlið Órækju um hin dimmu göng upp frá lauginni í Reykholti fyrir 760 árum. Svör við þeirri spurningu eru ekki í boði en jarðgöngin á setri Snorra munu vera eina byggingin á landi hér sem geymir svo gömul spor nema ef vera kynni undirgöngin í Skálholti.

Um Guðmund Sigríðarson er síðast getið þar sem greint er frá atburðum ársins 1242 í Þórðar sögu kakala. Hann er þá enn nefndur sem einn fárra stórbænda í Ísafjarðarsýslu og sagður búa á Kirkjubóli í Önundarfirði.[105] Þar kemur líka fram að Bárður Þorkelsson á Söndum í Dýrafirði (Sanda-Bárður), sem barðist með Þórði kakala í Flóabardaga árið 1244 (sjá hér Sandar), hafi átt Sesilíu, dóttur Guðmundar Sigríðarsonar, fyrir konu.[106] Um niðja Guðmundar, aðra en börn hans, Þórð og Sesilíu, sem hér hafa verið nefnd, er þó ekkert vitað.

Frá því Guðmundur Sigríðarson hverfur af blöðum sögunnar árið 1242 mun hvergi vera getið um Kirkjuból í Valþjófsdal í varðveittum heimildum fyrr en í byrjun 15. aldar. Eigandi Kirkjubóls var þá Ari Guðmundsson sýslumaður á Reykhólum sem árið 1394 kvæntist Ólöfu, dóttur Þórðar Sigmundssonar á Núpi í Dýrafirði.[107] Sonur Ara og Ólafar var Guðmundur Arason ríki á Reykhólum sem á blómaskeiði sínu mun hafa verið einn allra auðugasti maður sem á liðnum öldum hefur uppi verið á landi hér. Um hugsanleg ættartengsl foreldra Guðmundar ríka við Guðmund Sigríðarson á Kirkjubóli er ekkert vitað en tvímælalaust er að Ari Guðmundsson, faðir hans, átti Kirkjuból og allar hinar jarðirnar í Valþjófsdal.

Vorið 1420 gekk laundóttir Ara Guðmundssonar sýslumanns, sem Oddfríður hét, að eiga mann að nafni Halldór Jónsson. Til kaups við Halldór gaf Ari þessari dóttur sinni hálfan Valþjófsdal en seldi honum hinn helminginn.[108] Frá samningi um þetta var gengið á Núpi í Dýrafirði 27. maí 1420 og þar er tekið fram að Guðmundur, sonur Ara, sé samþykkur þessum ráðstöfunum.[109] Svo virðist sem Valþjófsdalur allur hafi þarna verið metinn á tvisvar sinnum 60 hundruð[110] en síðar voru jarðirnar fjórar í dalnum yfirleitt virtar á 96 hundruð.[111]

Líklegt er að þau Halldór Jónsson og Oddfríður Aradóttir hafi búið á Kirkjubóli í nokkur ár en í janúarmánuði árið 1428 virðist Halldór hafa búist við dauða sínum því hann tekur sig þá til og ráðstafar öllum jarðeignum sínum í Valþjófsdal.[112] Oddfríður kona hans fékk þá Kirkjuból í sinn hlut og fylgdi Mosdalur með[113] en dætur þeirra, Valgerður og Ingibjörg, fengu Þorfinnsstaði, Grafargil og Tungu.[114] Þrjár síðast nefndu jarðirnar eru í þessari erfðaskrá virtar á samtals 48 hundruð en Halldór mælti svo fyrir að auk jarðanna skyldu dæturnar tvær fá 12 hundruð í lausagóssi svo hvor þeirra fengi 30 hundruð í sinn hlut, það er fullan helming af arfahlut Oddfríðar móður þeirra.

Í öðru skjali kemur fram að þau Halldór og Oddfríður á Kirkjubóli hafa eignast eina dóttur enn og er það Bergljót sem sögð var 80 ára gömul árið 1508.[115] Hún hefur því fæðst á sama ári og faðir hennar skipti eignum sínum milli móður hennar og systra og þá að líkindum ekki komið í heiminn fyrr að honum látnum.

Vitnisburður Bergljótar Halldórsdóttur frá árinu 1508 er um ætt og afsprengi Grundar-Helgu, konu Einars jungherra í Vatnsfirði og móður Björns Einarssonar Jórsalafara.[116] Hún segir þar að Halldór faðir sinn, síðar bóndi á Kirkjubóli og eigandi að öllum Valþjófsdal, hafi á yngri árum verið sveinn hjá Þorleifi Árnasyni og hjá hústrú Kristínu í Vatnsfirði,[117] það er hjá Vatnsfjarðar-Kristínu, dóttur Björns Jórsalafara og móður Björns Þorleifssonar, hirðstjóra á Skarði. Sem heimildarmann að frásögn sinni af niðjum Grundar-Helgu nefndi Bergljót föðurömmu sína, Guðrúnu Sigmundsdóttur, er hún sagði hafa dáið 92ja ára gamla.[118] Sú kona hefur verið móðir Halldórs Jónssonar, bónda á Kirkjubóli, en óvíst er hver Jón faðir hans var. Ekki er heldur kunnugt um ætt Guðrúnar en vel gæti hún hafa verið systir Þórðar Sigmundssonar á Núpi í Dýrafirði (sjá hér Núpur). Guðrún Sigmundsdóttir hefur geymt margan fróðleik og ekki er ólíklegt að hún hafi dvalist hjá Oddfríði Aradóttur, tengdadóttur sinni á Kirkjubóli í Valþjófsdal, á sínum efri árum. Þar eða einhvers staðar á næstu grösum hefur Bergljót, sonardóttir þessarar gömlu konu, numið af henni fræði á sínum uppvaxtarárum.

Þann 23. janúar árið 1433 voru nákvæmlega 5 ár liðin frá því Halldór Jónsson á Kirkjubóli gekk frá skjalinu sem hér hefur verið kynnt með fyrirmælum um skiptingu eigna hans. Þann dag gekk ekkja hans, Oddfríður Aradóttir, aftur í hjónaband og giftist þá Hákoni Jónssyni.[119] Lítið er vitað um Hákon og hann er ekki nefndur á nafn í kaupmálabréfi sem gengið var frá 27. nóvember 1439 er Ingibjörg Halldórsdóttir, stjúpdóttir hans, gekk að eiga Þórð Sigurðsson frá Haga á Barðaströnd.[120] Þar segir hins vegar að Oddfríður Aradóttir hafi kjörið Ingibjörgu dóttur sína málakonu í garð Þórðar og fékk Ingibjörg Þorfinnsstaði í Valþjófsdal og sex hundruð í lausafé til að leggja á borð með sér á þessum brúðkaupsdegi.[121] Ekki er ólíklegt að Oddfríður hafi verið orðin ekkja í annað sinn er hér var komið sögu en hálfbróðir hennar, Guðmundur Arason ríki á Reykhólum, hefur þá verið henni innan handar, enda var hann einn brúðkaupsvottanna er Ingibjörg Halldórsdóttir frá Kirkjubóli gekk að eiga Þórð Sigurðsson frá Haga.[122]

Allar líkur benda til þess að Oddfríður Aradóttir hafi ráðið húsum hér í Kirkjubóli í Valþjófsdal í 38 ár, frá 1420-1458, ýmist ein eða við hlið eiginmanna sinna. Með seinni eiginmanninum, Hákoni Jónssyni, eignaðist hún soninn Halldór sem tók við jörðinni úr hendi móður sinnar árið 1458. Frá því ári hefur varðveist vitnisburðarbréf þar sem staðfest er að Ingibjörg Halldórsdóttir, hálfsystir Halldórs Hákonarsonar, og eiginmaður hennar hafi fallist á að Oddfríður gæfi þessum syni sínum Kirkjuból.[123] Á öðrum stað má sjá að Bergljót, alsystir Ingibjargar, og hennar maður hafa látið sams konar samþykki í té[124] en þriðja systirin, Valgerður, hefur máske verið dáin þegar frá þessu var gengið.

Halldór Hákonarson var aðsópsmikill lögréttumaður og bjó alla sína tíð á Kirkjubóli að því er best er vitað.[125] Hans er síðast getið á Alþingi árið 1480.[126] Í vitnisburðarbréfi frá árinu 1510 eða því sem næst sést að kona Halldórs Hákonarsonar hefur verið dóttir Jóns Ásgeirssonar, sýslumanns í Ögri, og konu hans, Kristínar Guðnadóttur, lögréttumanns á Hóli í Bolungavík, Oddssonar lögmanns lepps Þórðarsonar.[127] Þessi ættstóra eiginkona bóndans á Kirkjubóli mun hvergi vera nefnd með nafni í varðveittum heimildum en ljóst er að hún hefur verið föðursystir Björns Guðnasonar í Ögri, hins valdamikla og auðuga héraðshöfðingja sem á fyrstu áratugum 16. aldar var aðsópsmestur allra Vestfirðinga.

Um Halldór Hákonarson lögréttumann er það helst kunnugt að hann fékk Skálholtsbiskup til að ákveða að Holtsprestakalli yrði skipt í tvær sóknir og nýrri sóknarkirkju valinn staður á Kirkjubóli þar sem fyrir var hálfkirkja er áður hafði verið bænhús.[128] Jafnframt veitti biskup Halldóri leyfi til að ráða sér heimilisprest er gæti annast tíðasöng á Kirkjubóli og veitt íbúum hinnar nýju sóknar alla klerklega þjónustu.[129]

Skömmu áður en prestakallinu var skipt (sjá hér bls. 41) hafði Halldór bóndi hér átt í hatrömmum deilum við séra Narfa Böðvarsson sem sat í Holti og átti að þjóna öllum íbúum Mosvallahrepps. Ekki verður nú séð í heimildum um hvað deilur þeirra snerust en frá haustinu 1462 er til vitnisburður sjö manna um bardaga sem háður var í og við kirkjugarðinn í Holti milli séra Narfa og hans manna annars vegar en hins vegar Halldórs Hákonarsonar á Kirkjubóli og hans liðsmanna. Þar segir meðal annars svo:

 

Það gerum vér … góðum mönnum kunnugt með þessu voru opnu bréfi að vér vorum í hjá, sáum og heyrðum á um áskilnað þessara manna er varð í Holti í Önundarfirði á Lárentsíusmessudag [þ.e. 10. ágúst], séra Narfa Böðvarssonar … en af annarri hálfu Halldórs Hákonarsonar og Ólafs Jónssonar og þeirra manna. Sáum vér hvorki höggvið né slegið af þeim né þeirra mönnum í kirkjugarðinum og eigi í kirkjugarðinn í fyrrgreindum stað í Holti fyrr en áðurgreindur séra Narfi og bræður hans snöruðu grjóti út úr áðurgreindum kirkjugarði. Kom sá steinn er séra Narfi snaraði fyrir brjóst greindum Halldóri. Lýsti Halldór Hákonarson oftnefndur prestinn í banni en kirkjugarðinn saurgaðan. Létu þeir og bera grjót í kirkjugarðinn áðurgreindan og snöruðu því sama grjóti út að fyrrgreindum mönnum. Skutu þeir og tvö skot af lásboga út úr þráttnefndum kirkjugarði að oftnefndum mönnum og hér eftir viljum vér sverja ef þurfa þykir.[130]

 

Sem betur fer mun vera heldur fátítt að prestar grýti sóknarbörn sín en vitnisburðurinn sýnir að sumarið 1462 hafa deilur Halldórs við séra Narfa verið komnar á mjög alvarlegt stig. Í ljósi þess sem frá er greint í bréfi hinna sjö vitna kæmi víst engum á óvart þó stórbóndinn á Kirkjubóli hefði sett fram þá kröfu við biskup að séra Narfi yrði sviptur embætti ellegar þá að prestakallinu yrði skipt og annar prestur fenginn til að þjóna í Valþjófsdal. Um slíka kröfugerð eru að vísu engin gögn finnanleg en frá árinu 1467 er varðveitt opinber tilkynning er Sveinn Pétursson, biskup í Skálholti, sem kallaður var hin spaki, gaf út 21. september það ár. Þar segir svo:

 

Vér Sveinn með guðs náð biskup í Skálholti gjörum góðum mönnum kunnugt með þessu voru opnu bréfi að vér höfum skipað hálfkirkju á Kirkjubóli í Valþjófsdal. Skal þar syngjast annan hvern helgan dag og gjaldast þar presti tvær merkur kaups. Svo þó að Halldór Hákonarson gefi í heimanfylgju sagðri kirkju jörðina Mosdal í Önundarfirði fyrir tíu hundruð og þar til þrjú kúgildi og tvö geldfjárhundruð sem lög til standa svo og að hann gefi peninga til Holtskirkju í Önundarfirði í hverrar kirkjusókn nefnd hálfkirkja er fúnderuð, − sem þeim séra Narfa Böðvarssyni og nefndum Halldóri vel saman kemur og kirkjan fái öngvan skaða af.

Skulu þar takast heima ljóstollar allir og tíundir bónda og húsfreyju og allra þeirra sem þar eru heimilisfastir. Þenkjum vér að gera þar fjögra marka kirkju og heimamannagröft nær þá vér vísiterum á Vestfjörðu ef guð vill lofa.[131]

 

Ljóst er að tilkynning biskups er byggð á samningi sem lögréttumaðurinn á Kirkjubóli hefur náð að gera við þennan æðsta yfirmann kirkjunnar í Skálholtsbiskupsdæmi. Í tilkynningunni frá 21. september 1467 kemur fram að ákvörðunin um hálfkirkju sé aðeins til bráðabirgða en ætlunin sé að breyta henni í alkirkju þegar Sveinn biskup vísiteri næst á Vestfjörðum. Í hálfkirkjum voru tíðir sungnar annan hvern helgan dag og fyrir þjónustu sína á slíkum kirkjum munu prestar hafa fengið tvær merkur í kaup eins og fram kemur í þeim orðum úr tilkynningu biskups sem hér var vitnað til.[132] Í bréfi sínu tekur biskupinn hins vegar fram að ef guð lofi muni hann í sinni næstu heimsókn breyta hálfkirkjunni á Kirkjubíli í fjögra marka kirkju og veita heimild til að lík verði færð þangað til greftrunar. Ætla má að allar fjögra marka kirkjur hafi verið alkirkjur þar sem tíðir voru sungnar hvern helgan dag.

Í tilkynningu Sveins biskups kemur fram að áður en bænhúsið á Kirkjubóli fái réttindi hálfkirkju verði Halldór Hákonarson að leggja fram nokkra fjármuni og semja um uppgjör við prestinn í Holti með þá viðmiðun í huga að kirkjan þar verði ekki fyrir skaða af tekjutapi. Bæði þessi skilyrði uppfyllti Halldór innan eins árs.[133] Við séra Narfa samdi hann um að greiða honum andvirði fimm hundraða í jörð eða nánar til tekið tvær kýr og tvö naut þrevetur og tvö naut veturgömul og tvö naut tvævetur.[134] Sumarið 1468 mun Halldór hafa riðið til Alþingis en 7. júlí á því ári kom hann í Skálholt og fékk hjá biskupi kvittun fyrir því að greiðslan til prestsins í Holti hefði verið innt af hendi og guðshúsið á Kirkjubóli mætti kallast hálfkirkja.[135]

Þann 5. september 1470 var Sveinn biskup staddur í Valþjófsdal og vígði þá hina nýju kirkju.[136] Sex dögum síðar lét hann frá sér fara opinbera tilkynningu þar sem tekið var fram að hin nýja kirkja á Kirkjubóli í Valþjófsdal væri alkirkja og hefði verið vígð með sínum kirkjugarði í heiður við guð, jómfrú Maríu og hinn helga Þorlák biskup.[137]

Í máldaganum sem fylgir þessari tilkynningu Sveins biskups um hina nýju alkirkju á Kirkjubóli segir svo:

 

Skal þar vera heimilisprestur ef bóndi vill sem þar býr svo og taki hann þar af fjórar merkur í sitt tíða offur eða hafi sá prestur þar þing og curam animarum sem þingaprestur er í Holti í greindri sveit. Þar skal og undir liggja héðan í frá ævinlega gröftur, tíundir og tollar og allar aðrar skyldur þær sem áður hafa legið til Holtskirkju í fyrr sagðri sveit í millum Hrossagötugils og þar sem til tekur Hrafnaskálarnúpur að osttollum fráteknum.[138]

 

Með þessu ákvæði máldagans var látið laust hvort bændur á Kirkjubóli héldu þar heimilisprest eða samið yrði við prestinn í Holti um að annast kirkjulega þjónustu í Valþjófsdal. Í máldaganum er kveðið skýrt á um sóknarmörk hinnar nýju sóknar en þau voru Hrafnaskálarnúpur og Hrossagötugil. Örnefnið Hrossagötugil mun nú vera tapað[139] en fullvíst má telja að það sé eða hafi verið í Dalsófæru undir fjallinu Þorfinni eða í næsta nágrenni við hana (sjá hér Þorfinnsstaðir). Í Kirkjubólssókn hafa því allt frá upphafi verið fimm jarðir, fjórar í Valþjófsdal og ein í Mosdal.

Um eignir Kirkjubólskirkju segir svo í máldaganum frá 1470:

 

Hefur Halldór bóndi Hákonarson gefið oftnefndri kirkju á Kirkjubóli til ævinlegrar eignar jörðina í Mosdal fyrir 12 hundruð og þar til 8 hundruð í fyrrgreindri jörðu á Kirkjubóli þar í heimalandi, fimm kúgildi og einn tólfæring með rá og reiða og hér með hundraðs eign í skóginum á Eyri í fyrr skrifuðum Önundarfirði, eldiviðarstöðu á Kálfeyri til þess er hann má vel fluttur verða heim til títtnefnds Kirkjubóls og þar til þeirra hrossa beit á hverju ári sem greindur eldiviður er á fluttur til áðurnefndrar Kálfeyrar svo lengi sem þar stendur þörf til.[140]

 

Gjafaskrá þessi sýnir að Halldór lögréttumaður á Kirkjubóli hefur gefið kirkjunni andvirði 25 hundraða í jarðeignum og lausum aurum og að auk hinn mikla tólfæring og skógarítakið á Eyri. Skógargjöfin bendir til þess að jörðin Eyri í Önundarfirði hafi á þessum tíma verið í eigu hins ríka bónda á Kirkjubóli í Valþjófsdal.

Líklegt er að Halldór hafi einnig gefið kirkju sinni flest þau klæði og gripi sem um er getið í þessum elsta máldaga hennar. Þar er kirkjan í Valþjófsdal sögð eiga:

 

Messuklæði, kaleik, altarisklæði nýtt, annað fornara, altarisstein nýjan, altarisdúk, kirial, róðukross, Maríuskrift, Þorláks líkneski, Jóns líkneski baptista, líkneski postula, Andrésar líkneski.[141]

 

Ekki verður annað séð en hin nýja kirkja hafi verið allvel búin með sinni Maríumynd og fjórum líkneskjum. Sveinn biskup spaki hefur þó gjarnan viljað að hún fengi fleiri gjafir og lýkur því tilkynningu sinni frá 11. september 1470 með því að bjóða öllum sem kynnu að vilja gefa þessari nýju kirkju peninga að fá í staðinn allar sínar syndir í 40 daga fyrirgefnar hjá almættinu.[142] Ekki er ólíklegt að ýmsir bersyndugir Önfirðingar hafi notfært sér svo hagstætt tilboð. Eignir Kirkjubólskirkju í Valþjófsdal urðu þó aldrei miklar.

Í Gíslamáldaga, sem skráður var á bók er um það bil hundrað ár voru liðin frá vígslu fyrstu sóknarkirkjunnar (alkirkjunnar) í Valþjófsdal, segir að kirkjan þar eigi 12 hundruð í jörð, fjögur kúgildi og skógarítakið á Sauðanesi í landi Eyrar sem hér var áður nefnt.[143] Jörðin sem þarna er nefnd er vafalaust Mosdalur sem kirkjan eignaðist 1467 eða 1468 og átti enn árið 1887 (sjá hér bls. 42). Svo virðist sem þau 8 hundruð í heimajörðinni sem Halldór Hákonarson gaf kirkjunni á Kirkjubóli hafi hins vegar gengið undan henni því þau eru ekki nefnd í Gíslamáldaga og ekki heldur í Jarðabókinni frá 1710.[144]

Um 1570 voru líkneskjurnar og Maríumyndin horfnar úr Kirkjubólskirkju enda var þá búið að vísa páfatrúnni út í ystu myrkur og taka upp lúterskan sið. Í Gíslamáldaga sjáum við hvernig kirkja Dalmanna var búin að klæðum 30 árum eftir siðaskiptin og hvaða gripir voru þá í hennar eigu. Upptalningin er stutt: Ein messuklæði, eitt altarisklæði, ein klukka stór, kórbjalla og blýkaleikur.[145] Allt hefur þetta verið mjög við hóf.

Eins og áður hefur verið nefnt var Halldóri Hákonarsyni veitt heimild til að ráða heimilisprest að Kirkjubóli árið 1470 (sjá hér bls. 18). Ætla má að hann hafi fært sér þá heimild í nyt þó ekki sé útilokað að hann hafi sæst við séra Narfa í Holti og samið við hann um tíðasöng á Kirkjubóli. Eftir siðaskipti var kirkjunni í Valþjófsdal jafnan þjónað frá Holti og líklegt er að svo hafi einnig verið drjúgan hluta af því 70 ára tímabili sem þar var kaþólsk sóknarkirkja. Í bréfi frá árinu 1488 má sjá að séra Narfi, sem þá var enn prestur í Holti,[146] hefur unað því illa að annar prestur sæti á Kirkjubóli eða bændur þar næðu að halda réttinum til að ráða þangað prest eins og Halldór Hákonarson hafði fengið leyfi til átján árum fyrr. Bréf þetta frá árinu 1488 er vitnisburðarbréf tveggja manna um vígslumáldaga Kirkjubólskirkju og greinilega runnið undan rifjum séra Narfa, enda full ástæða til að ætla að annað vitnið sé Jörundur bróðir hans.[147] Því sem þar er skráð varðandi réttindi Dalmanna til að ráða sér sérstakan prest ber reyndar engan veginn saman við það sem stendur í sjálfum vígslumáldaganum og hér hefur áður verið birt (sjá hér bls. 18). Vitnin tvö, sem séra Narfi í Holti tefldi fram árið 1488, segjast hafa verið viðstödd er Sveinn biskup Pétursson gekk frá máldaga Kirkjubólskirkju árið 1470 og fullyrði að í máldaganum hafi verið tekið fram að sá prestur sem héldi kirkjuna í Holti til forræðis skyldi hafa kirkju til söngs í Dal sér til léttis og hundrað í kaup, hvort hann syngi mikið eða lítið.[148]

Ekki verður annað séð en þessi vitnisburður stangist algerlega á við það sem stendur í sjálfum vígslumáldaganum og hér var áður rakið en vel má þó vera að þegar Halldór Hákonarson var fallinn frá og leiguliðar farnir að búa á Kirkjubóli hafi niðurstaðan fljótlega orðið sú í reynd sem séra Narfi gerði kröfu um, það er að Kirkjubólskirkju yrði þjónað frá Holti.

Halldór Hákonarson kemur síðast við skjöl árið 1480[149] og líklegt er að hann hafi þá átt skammt eftir ólifað. Dóttir hans, sem Vigdís hét, erfði Kirkjuból eftir föður sinn[150] og líklega hefur hún verið eina barnið sem hann náði að koma á legg. Til þess bendir að minnsta kosti sú staðreynd að er Vigdís Halldórsdóttir dó á ungum aldri var það amma hennar í móðurætt sem erfði jörðina.[151] Vigdís mun því hvorki hafa átt mann eða börn á lífi er hún andaðist og ekki heldur systkini.

Konan sem fékk Kirkjuból í Valþjófsdal í arf eftir dótturdóttur sína hét Kristín Guðnadóttir og hafði verið gift Jóni Ásgeirssyni í Ögri sem var sýslumaður í Ísafjarðarsýslu og andaðist árið 1478.[152] Árið 1495 var Kirkjuból í eigu Vigdísar Halldórsdóttur eða Kristínar ömmu hennar en Páll Jónsson, sýslumaður á Skarði á Skarðsströnd, mun þó hafa verið umráðamaður yfir jörðinni því fram kemur í skjölum að hann var þá ábyrgur fyrir kirkjunni á Kirkjubóli gagnvart Stefáni Jónssyni, biskupi í Skálholti.[153] Páll á Skarði var móðurbróðir Vigdísar Halldórsdóttur á Kirkjubóli og sonur Kristínar Guðnadóttur í Ögri og má ætla að hann hafi farið með umráð yfir jörðinni í umboði þeirra. Í einu skjali er að vísu fullyrt að Kristín Guðnadóttir hafi gefið Páli syni sínum Kirkjuból í Valþjófsdal[154] en vafasamt verður það að kallast því heimildum ber ekki saman og svo mikið er víst að það voru bræður Páls en ekki börn hans sem erfðu jörð þessa að honum látnum.

Páll Jónsson, sem hér var síðast nefndur, var tengdasonur Björns Þorleifssonar, hirðstjóra á Skarði, og konu hans Ólafar ríku Loftsdóttur. Hann féll í bardaga árið 1496.[155] Er Kristín Guðnadóttir í Ögri andaðist, öðru hvoru megin við aldamótin 1500, fengu tveir synir hennar Kirkjuból í Valþjófsdal í arf.[156] Annar þeirra var Guðni Jónsson sýslumaður, sem bjó á Kirkjubóli í Langadal við Djúp og átti einn Kirkjuból í Valþjófsdal er hann andaðist árið 1507.[157] Kona Guðna var Þóra Björnsdóttir, laundóttir Björns Þorleifssonar, hirðstjóra á Skarði, en sonur þeirra var Björn Guðnason í Ögri sem gerðist snemma aðsópsmikill héraðshöfðingi og átti í illvígum deilum við Stefán Jónsson, Skáholtsbiskup.

Í vitnisburðarbréfi frá árinu 1522 má sjá að Ingibjörg Halldórsdóttir, sem hér hefur áður verið nefnd og var hálfsystir Halldórs Hákonarsonar, hefur ekki verið sátt við að Kristín, tengdamóðir Halldórs, skyldi fá allt Kirkjuból í sinn hlut að Halldóri og Vigdísi, dóttur hans, báðum önduðum.[158] Er Guðni Jónsson var orðinn eigandi jarðarinnar kom Ingibjörg á hans fund, er hann var staddur í Valþjófsdal, og bar enn fram kvartanir sínar vegna þessara erfðamála.[159] Ingibjörg gekk í hjónaband árið 1439 (sjá hér bls.15) og hefur því verið orðin gömul kona er hún ræddi við Guðna um þessi erfðamál, varla undir áttræðu. Í vitnisburðarbréfinu frá 1522 er því haldið fram að á þessum fundi Ingibjargar og Guðna hafi hann svarað henni og sagt að hún hafi áður fengið allan þann arf eftir Halldór sem hún ætti nokkurn rétt á að lögum en engu að síður skyldi hann gera henni nokkra glaðning.[160]Fékk hann henni þá fjögur málnytukúgildi [þ.e. 24 ær], þrjá fjórðunga smjörs [þ.e. 15 kíló], sæng og sex álnir með smátt vaðmál, segir í vitnisburðinum og þar er síðan tekið fram að með þetta hafi Ingibjörg gert sig ánægða og lýst yfir að hún hefði engar frekari kröfur fram að færa varðandi Kirkjuból.[161]

Er vitnisburður þessi var festur á blað árið 1522 voru a.m.k. 15 ár liðin frá viðræðum þeirra Guðna og Ingibjargar og hvorugt þeirra lengur á lífi að því er ætla má. Um sannleiksgildi þess sem í vitnisburðinum stendur er því best að hafa fullan fyrirvara, enda var hann aðeins borinn fram af einum manni[162] sem ef til vill hefur verið handbendi þeirra sem umráð höfðu yfir jörðinni þegar vitnisburðurinn var lagður fram.

Björn Guðnason í Ögri erfði Kirkjuból í Valþjófsdal árið 1507 er Guðni faðir hans andaðist[163] og mun hafa átt jörðina til dauðadags en hann safnaðist til feðra sinna árið 1518.[164] Þann 1. mars 1507 voru Björn Guðnason og Ragnhildur Bjarnadóttir, kona hans, stödd í Valþjófsdal og gengu þá frá samningi um helmingafélag sín á milli sem undirritaður var á Kirkjubóli þann dag.[165] Með samningnum var ákveðið að helmingafélagið skyldi ná yfir allar þáverandi eignir þeirra beggja og einnig þær eignir sem þau kynni að eignast síðar.[166] Í vitnisburði um þennan samning frá árinu 1507 segir meðal annars svo um réttindi Ragnhildar húsfreyju

 

Undir þetta þeirra helmingafélag skyldi greind húsfrú Ragnhildur eiga kost að kjósa hvenær sem hún vildi í sinn helming þau höfuðból af þeirra góssum sem hún vildi og skyldi hún hafa hvort hún vill silfur eður tygi í sinn hlut.[167]

 

Ekki er ljóst hvaða ástæður hafa valdið því að þessi merkilegi samningur skyldi einmitt vera undirritaður úti í Valþjófsdal. Ekki er alveg útilokað að Björn og Ragnhildur hafi setið þar part úr vetri en hitt er þó líka hugsanlegt að þau hafi bara verið á ferðalagi og notað tækifærið til að ganga frá samningnum í náttstað á Kirkjubóli. Ragnhildur hefðarfrú í Ögri hefur þó varla tekið sig upp um hávetur og lagst í ferðalög nema brýna nauðsyn hafi borið til eða um eitthvert sérstakt tilefni hafi verið að ræða. Slíkt tilefni gæti hafa verið brúðkaup en þess má minnast að sama ár og gengið var frá helmingafélagssáttmálanum á Kirkjubóli gekk dóttir hjónanna í Ögri að eiga Bjarna Andrésson á Brjánslæk á Barðaströnd.[168]

Björn Guðnason andaðist árið 1518 en Ragnhildur kona hans lifði nokkru lengur.[169] Að Birni látnum náði Ögmundur Pálsson, biskup í Skálholti, undir sig mörgum jarðeignum sem Björn hafði átt og var sumt af því kallað sektarfé.[170]

Svo virðist sem Ólöf, dóttir Björns Guðnasonar, og eiginmaður hennar, Sigfús Brúnmannsson á Hrauni í Keldudal, hafi fengið Kirkjuból í Valþjófsdal í arf eftir Björn í Ögri því það var Sigfús sem fékk Ögmundi biskupi jörðina til meðferðar á árunum kringum 1530.[171] Í bréfi Ögmundar um þessi viðskipti þeirra Sigfúsar er jörðin nefnd Dalur í Valþjófsdal.[172] Sumarið 1536 lét Ögmundur jarðirnar Kirkjuból og Grafargil í Valþjófsdal af hendi við Sigríði Andrésdóttur en fékk í staðinn allan arf sem til hennar kynni að falla eftir bróður hennar, sem þá var látinn, Ara Andrésson, bónda í Saurbæ á Rauðasandi.[173] Í samningi Ögmundar og Sigríðar um þessi viðskipti er Kirkjuból virt á 60 hundruð.[174]

Líklegt er að höfuðbólið í Valþjófsdal hafi komist aftur í eigu Ögmundar biskups á næstu árum með einum eða öðrum hætti. Þegar Ögmundur var fluttur nauðugur til Danmerkur og siðaskipti urðu í Skálholtsbiskupsdæmi árið 1541 tók konungur flestar jarðeignir hans undir sig (sjá hér Mýrar). Sú staðreynd að umboðsmaður konungsjarða á Vestfjörðum var talinn ábyrgur fyrir kúgildum í Mosdal á árunum kringum 1550 (sjá hér Mosdalur) bendir til þess að kóngur hafi þá talið sig eiga Kirkjuból í Valþjófsdal því Mosdalur var eign kirkjunnar á Kirkjubóli eins og hér hefur áður verið greint frá (sjá hér bls. 19-20). Með hliðsjón af þessu verður að telja líklegt að Kirkjuból hafi verið ein þeirra jarða sem kóngur sló eign sinni á í átökum siðaskiptanna eins og svo margar aðrar jarðir sem Ögmundur biskup hafði átt. Sumar þessara jarða lét kóngur aftur af hendi fáum árum síðar og vitað er að erfingjar Björns Guðnasonar í Ögri lögðu mikið kapp á að fá konung til að skila sér aftur þeim jarðeignum er þeir töldu Ögmund biskup hafa náð með rangindum. Í þeim efnum lét Bjarni Narfason á Mýrum í Dýrafirði, sem var tengdasonur Björns í Ögri, mjög til sín taka (sjá hér Mýrar) en hann mun hafa andast um 1550. Ekkja hans, Sigríður Björnsdóttir frá Ögri, taldi sig sannanlega eiga Kirkjuból í Valþjófsdal sumarið 1551[175] og verið gæti að kóngur hafi þá um vorið skilað einhverju af jarðagóssi til erfingja Björns Guðnasonar.

Í ágústmánuði sumarið 1551 tók Sigríður Björnsdóttir sig til og skipti helstu eignum sínum milli sona sinna, þeirra Björns og Þorleifs Bjarnasona.[176] Kirkjuból kom þá í hlut Björns og með fylgdi jörðin Sellátur (Látur) í Mjóafirði við Djúp en Þorleifur fékk höfuðbólið Mýrar.[177]

Er Björn Bjarnason eignaðist Kirkjuból í Valþjófsdal sumarið 1551 mun hann að líkindum hafa verið innan við þrítugt því 56 árum síðar virðist hann vera enn á lífi eins og hér verður brátt leitt í ljós. Í skjölum frá árunum 1554 til 1560 sést að maður að nafni Björn Bjarnason hefur á þeim árum fylgt Eggerti Hannessyni lögmanni á embættisferðum hans norðanlands og vestan og verið handgenginn lögmanninum.[178] Nær fullvíst má telja að þessi trúnaðarmaður lögmannsins sé Björn Bjarnason frá Mýrum, sá sem eignaðist Kirkjuból í Valþjófsdal árið 1551, enda hafa útgefendur Fornbréfasafns leyft sér að álykta að svo væri.[179] Þeir Eggert lögmaður og Björn frá Mýrum voru systrasynir og áttu báðir Björn Guðnason í Ögri fyrir afa. Í varðveittum skjölum frá árunum 1554-1560 má finna um það bil 20 dæmi þess að Eggert hafi Björn við hendina á ferðum sínum um landið.[180] Skjölin sýna að við undirritun skjala um jarðakaup Eggerts hér og þar var Björn mjög oft kvaddur til sem vottur að kaupsamningum og þegar lögmaðurinn þurfti að nefna menn í dóm, ýmist norðanlands eða vestan, kom það alloft í hlut þessa sama fylgdarmanns að setjast í eitt dómarasætið.[181]

Allar líkur benda til þess að enginn þeirra sem áttu Kirkjuból á árunum 1490-1550 hafi búið á jörðinni. Björn Bjarnason virðist hins vegar hafa tekið sér þar bólfestu og verið fyrsti sjálfseignarbóndinn á Kirkjubóli frá því Halldór Hákonarson andaðist á árunum upp úr 1480. Beinar sannanir fyrir því að Björn hafi búið á Kirkjubóli liggja reyndar ekki á lausu en allt sem um hann er vitað bendir til þess að svo hafi verið enda ekki kunnugt um að hann hafi átt neitt annað höfuðból. Skjöl sem Björn hefur látið rita eftir 1560 til að tryggja sína fjárhagslegu hagsmuni eru yfirleitt rituð á Kirkjubóli og má þar nefna vitnisburðarbréf um arf eftir móður hans, ritað 1562, og vitnisburðarbréf frá árinu 1571 um kaup Björns á jörðunum Veðrará og Fremri-Breiðadal í Önundarfirði í skiptum fyrir Látur í Mjóafirði[182].

Í bréfi sem séra Sveinn Símonarson í Holti skrifar vorið 1607 og hefur að geyma rökstuðning fyrir því að jörðin Kirkjuból í Valþjófsdal sé 52 hundruð að dýrleika kemst hann svo að orði: Í sama máta hef ég það frekasta sem ég kunni við Björn eftir gengið um staðarins [þ.e. Kirkjubóls] dýrleika svo hann hefur sín skjöl og skilríki í té látið.[183]

Í þessu sama bréfi kemur fram með ótvíræðum hætti að Björn sá sem þarna er nefndur er hinn sami og fékk Kirkjuból að erfðum árið 1551. Orðalagið á bréfi séra Sveins bendir mjög eindregið til þess að Björn hafi enn verið á lífi árið 1607 en hlýtur þá að hafa verið háaldraður. Reyndar bendir fleira en orð séra Sveins til þess að Björn hafi orðið gamall maður því nafn hans kemur fyrir í dómsskjölum úr Önundarfirði frá árunum 1589 og 1594.[184] Líklegast er að Björn Bjarnason hafi búið á Kirkjubóli í Valþjófsdal til elli. Bogi Benediktsson, fræðimaður á Staðarfelli, segir að vísu að Bjarni Jónsson, sem um skeið var lögsagnari í vesturhluta Ísafjarðarsýslu á árunum upp úr 1570, hafi búið á Kirkjubóli í Önundarfirði eða Dýrafirði.[185] Líkur á því að hann hafi setið á Kirkjubóli í Valþjófsdal eru þó engar því varla hafa þeir Björn Bjarnason setið þar báðir í senn. Langlíklegast er hins vegar að Bjarni lögsagnari hafi búið á Kirkjubóli í Korpudal (sjá hér Kirkjuból í Korpudal).

Viðtakandi bréfsins sem séra Sveinn Símonarson í Holti ritaði um Kirkjuból vorið 1607 var Þóra Jónsdóttir, húsfreyja á Kirkjubóli í Langadal við Djúp. Eiginmaður Þóru, séra Snæbjörn Torfason, sem fyrstur presta sat á Kirkjubóli í Langadal, andaðist 1606 eða 1607[186] og mun Þóra hafa verið orðin ekkja er séra Sveinn sendi henni bréfið. Efni þess ber með sér að hún var þá að velta fyrir sér hugsanlegum kaupum á Kirkjubóli í Valþjófsdal og í gömlum reikningum má sjá að frá kaupunum var gengið fyrir lok ársins 1607.[187]

Milli ekkjunnar á Kirkjubóli í Langadal og öldungsins sem seldi henni Kirkjuból í Valþjófsdal voru sterk ættartengsl því tengdafaðir Þóru, Torfi Jónsson lögsagnari, og Björn Bjarnason voru systrasynir og áttu báðir Björn Guðnason í Ögri fyrir afa. Sjálf var Þóra hins vegar komin norðan úr landi, dóttir Jóns Björnssonar, sýslumanns á Holtastöðum í Húnaþingi, en hann var sonarsonur Jóns Arasonar biskups.[188] Er séra Snæbjörn á Kirkjubóli í Langadal andaðist mun Þóra kona hans hafa verið um eða innan við fertugt og börn þeirra lítt stálpuð. Líklega hefur Þóra setið áfram á Kirkjubóli í Langadal næstu árin því enginn prestur fékk veitingu fyrir Kirkjubólsþingum frá því eiginmaður hennar andaðist og þar til Torfi, sonur þeirra hjóna, tók prestvígslu árið 1616 eða 1618 og gerðist eftirmaður föður síns.[189] Ómögulegt er reyndar að sjá hvenær Þóra Jónsdóttir fluttust frá Kirkjubóli í Langadal að Kirkjubóli í Valþjófsdal en líklegast virðist að hún hafi fært sig um set þegar sonur hennar, séra Torfi Snæbjörnsson, tók við búsforráðum á prestssetrinu í Langadal árið 1618 eða þar um bil. Hér gæti þó skeikað allmörgum árum á annan hvorn veginn en fullvíst er að hin norðlenska prestsekkja lauk æfinni á eignarjörð sinni Kirkjubóli í Valþjófsdal.

Andaðist fróm og heiðarleg höfðingskvinna, Þóra Jónsdóttir í Dal og Þorbjörg í Holti Gvöndardóttir … , skrifar séra Jón Arason í Vatnsfirði í annál sinn við árið 1652[190] og getur vart farið á milli mála að þar sé átt við fyrrnefnda Þóru á Kirkjubóli (í Dal) í Valþjófsdal og Þorbjörgu Guðmundsdóttur, konu séra Jóns Sveinssonar í Holti í Önundarfirði. Báðar þessar höfðingskvinnur hafa því andast sama árið og Þóra í Dal þá verið orðin háöldruð. Séra Jón Arason, sem færir okkur fréttina af andláti húsfreyjunnar í Dal, var reyndar einn margra ættingja hennar í hópi fyrirmanna en þau voru þremenningar að frændsemi því Magnús Jónsson prúði var afi séra Jóns en Steinunn, systir Magnúsar prúða, var amma Þóru. Um andlát Þóru Jónsdóttur í Dal árið 1652 er líka getið í Eyrarannál[191] og í einu handriti þess annáls frá því um 1700 skrifar Magnús Magnússon, sýslumaður á Eyri í Seyðisfirði við Djúp, skýrum stöfum að það sé Þóra Jónsdóttir í Valþjófsdal sem hafi andast árið 1652.[192] Hér er því ekki um að villast.

Er Þóra Jónsdóttir andaðist árið 1652 voru rétt liðlega 100 ár liðin frá því Björn Bjarnason fékk Kirkjuból að erfðum árið 1551 (sjá hér bls. 24). Allan þann langa tíma sýnast þau tvö hafa verið einu eigendur jarðarinnar, fyrst Björn og síðan Þóra. Bæði munu þau líka hafa staðið mjög lengi fyrir búi á Kirkjubóli eins og hér hefur verið rakið og fullvíst má telja að sá búskapur hafi verið mun stærri í sniðum en almennt var hjá bændafólki á þeirri tíð. Ætla má að bæði Björn og Þóra hafi verið mun betur efnum búin en flestir eða allir sveitungar þeirra, ef frá eru taldir prestarnir í Holti, því bæði voru þau af sterkefnuðu fólki komin og í nánum ættartengslum við ýmsa helstu fyrirmenn samtímans á Vestfjörðum og víðar um land.

Snemma á búskaparárum Björns Bjarnasonar var Mosdalur lagður undir Kirkjuból og stóð svo uns 40 ár voru liðin frá andláti Þóru en þá var aftur farið að búa í Mosdal (sjá hér Mosdalur). Í Mosdal hafa stórbændur þessir á Kirkjubóli efalaust látið sauðahjarðir sínar ganga á beit en þar er land vel fallið til sauðagöngu. Rústir af gamalli sauðarétt í Mosdal heita enn Þórutótt og fólkið sem þar bjó um  aldamótin 1900 taldi að tótt þessi væri kennd við Þóru í Dal (sjá hér Mosdalur).

Börn Þóru Jónsdóttur á Kirkjubóli, sem náðu að verða fullorðin, voru þrjú, tveir synir og ein dóttir.[193] Ekkert þeirra tók við búi á Kirkjubóli og öll fluttust þau burt úr Önundarfirði. Dóttirin, Þorkatla Snæbjörnsdóttir, giftist Magnúsi Gizurarsyni, bónda og bartskera í Lokinhömrum, en hann var sýslumannssonur frá Núpi í Dýrafirði og hálfbróðir Brynjólfs biskups Sveinssonar (sjá hér Lokinhamrar). Eldri sonur Þóru, Torfi Snæbjörnsson, varð prestur á Kirkjubóli í Langadal en einn sona hans var Páll Torfason, sýslumaður á Núpi í Dýrafirði, faðir Mála-Snæbjörns.[194] Þóra í Dal var því langamma Mála-Snæbjörns.

Yngri sonur Þóru var Björn Snæbjörnsson, sem talinn er hafa fæðst um svipað leyti og faðir hans andaðist, árið 1606 eða því sem næst.[195] Líklegast er að Björn hafi flust með móður sinni að Kirkjubóli í Valþjófsdal er hann var enn á barnsaldri og að þar hafi hann síðan alist upp. Hann var á líkum aldri og Brynjólfur, yngsti sonur séra Sveins Símonarsonar í Holti, og haustið 1624 sigldu þessir tveir piltar úr Önundarfirði til háskólanáms í Danmörku. Báðir innrituðust þeir í Kaupmannahafnarháskóla sama dag, þann 27. september 1624, og dvöldust saman við menntabrunna Hafnar hin næstu ár.[196] Brynjólfur Sveinsson varð síðar atkvæðamikill biskup í Skálholti eins og alkunnugt er. Þeir Björn frá Kirkjubóli og Brynjólfur frá Holti hafa verið æskufélagar, tengdir sterkum böndum. Þegar Brynjólfur tók við biskupsembættinu í Skálholti árið 1639 var Björn þar fyrir því hann hafði orðið rektor Skálholtsskóla þremur árum fyrr og gegndi því embætti í ellefu ár, frá 1636-1647.[197] Þessir tveir lærdómsmenn úr Önundarfirði fylgdust því oftast að uns báðir voru komnir yfir fertugt, − fyrst á æskuslóðum vestra, síðan í Kaupmannahöfn og svo í Skálholti. Hvort vinátta þeirra hefur verið heil eða hálf veit þó enginn.

Séra Jón Halldórsson í Hítardal, sem var 14 ára gamall er Björn Snæbjörnsson andaðist, segir nokkuð frá honum í riti sínu um skólameistara í Skálholti og greinir þar m.a. frá á þessa leið:

 

Anno 1643 sat Brynjólfur biskup hans kaupöl vestur í Holti í sinni vísitatíu en anno 1644 stóð þar brúðkaup hans og bjó Björn skólameistari svo nokkur ár búi sínu vestur á Vestfjörðum. Fór á haustin austur í Skálholt með konu sína og var hún þar hjá honum um vetrartíma en á vorin fóru þau vestur til bús síns. Hann hafði þá og biskupstíundaumboð um Vestfirði og græddi góða peninga á þeim árum.[198]

 

Áður en lengra er haldið skal þess getið að konan sem Björn festi sér að Brynjólfi biskupi viðstöddum árið 1643 var Þórunn, dóttir séra Jóns Sveinssonar í Holti í Önundarfirði en hann var hálfbróðir Brynjólfs biskups.

Búið sem séra Jón í Hítardal segir Björn skólameistara hafa átt vestur á fjörðum á árunum upp úr 1640 er án nokkurs vafa búið á Kirkjubóli í Valþjófsdal. Sönnun þess að Björn hafi verið talinn þar fyrir búi um 1640 er að finna í vísitatíugerð frá árinu 1639. Þann 19. ágúst á því ári vísiteraði Brynjólfur biskup kirkjuna í Valþjófsdal og í vísitatíugerðinni sem þá var skráð er beinlínis tekið fram að Björn Snæbjörnsson sé eigandi Kirkjubóls og kirkjunnar þar.[199] Er Brynjólfur biskup kom að Kirkjubóli í þetta sinn voru bæði Björn og Þóra, móðir hans, þar í fyrirsvari sem eigendur jarðar og kirkju eins og sjá má í vísitatíugerðinni.[200] Móðir Björns, Þóra í Dal, hefur þá verið komin um sjötugt, að því er ætla má, því eldri sonur hennar tók prestvígslu árið 1618.[201] Árið 1639 átti Þóra enn 13 ár ólifuð en svo virðist sem hún hafi þá þegar verið búin að ánafna Birni, syni sínum, jörðina.

Séra Jón Halldórsson í Hítardal, sem getur um árlegar ferðir skólameistarahjónanna vestur á firði, hefur löngum þótt vera mjög traustur sagnaritari og fer yfirleitt ekki með fleipur. Frásögn hans um ferðir Björns og Þórunnar hljótum við því að taka trúanlega. Á vorin hafa skólameistarahjónin, sem bæði voru úr Önundarfirði, riðið hina löngu leið úr Biskupstungum vestur í Valþjófsdal þar sem lærdómsmaðurinn stjórnaði búverkum á Kirkjubóli sumarlangt. Á hverju hausti taka þau föggur sínar saman á ný og ríða til baka sömu leið, suður í Skálholt. Þannig mun þetta hafa gengið til í nokkur ár en vorið 1647, er Björn skólameistari frá Kirkjubóli var orðinn liðlega fertugur, tók hann við prestsembætti á Staðastað á Snæfellsnesi[202] og þaðan í frá hefur hann varla dvalist sumarlangt í Valþjófsdal. Prestsembættinu hjá Snæfellingum gegndi Björn Snæbjörnsson til dauðadags en hann andaðist árið 1679. Séra Jón í Hítardal, sem fæddur var árið 1665, náði á ungum aldri að sjá þennan son Þóru í Dal sem þá var kominn um sjötugt og orðinn ullhvítur af hærum.[203] Í skólameistarasögum sínum lætur séra Jón þess getið að þessi gamli prestur á Staðastað hafi verið maður tortrygginn og  því miður látinn en verðugt var af þénurum sínum, landsetum og sóknarfólki sumu.[204]

Aðrar heimildir frá efri árum séra Björns benda líka til þess að hann hafi þá verið orðinn var um sig, stríðlundaður og lítt vinsæll af almúga. Til þess bendir meðal annars dómur sem dæmdur var á Miðgörðum í Staðarsveit sumarið 1661 en þar kemur fram að þrír vinnumenn, sem skikkaðir höfðu verið til vistar hjá séra Birni, létu ekki sjá sig á prestssetrinu.[205] Þessa óhlýðni vinnumannanna kærði séra Björn til sýslumanns og var dómur í málinu kveðinn upp á Miðgörðum þann 12. júní. Eins og vænta mátti gekk dómurinn presti í vil og í dómsniðurstöðunni er tekið fram að þvílíkir óhlýðnismenn … og laganna foraktarar skuli hvar sem þeir hittast teknir höndum af sýslumanni eður bændum, færðir á þing og hafi refsing af böðlinum en vinni síðan í sinni sveit þar sem áður löglega af hreppstjóra skikkað var.[206]

Þessi kærumál séra Björns benda óneitanlega til þess að hann hafi ekki verið hjúasæll á efri árum og tortrygginn hefur hann verið meir en góðu hófi gegndi eins og best sést á því að þegar lítið fiskaðist á bátinn hans á vetrarvertíðinni árið 1674 fékk prestur þá hugmynd að þurrabúðarmaður nokkur undir Jökli væri valdur að fiskileysinu.[207] Mann þennan, Böðvar Þorsteinsson á Gufuskálum, lét séra Björn grípa og færa til yfirheyrslu. Í lögréttu var Böðvar fundinn sekur um ókennilegar skiparistingar og fiskibragðahindrun og brenndur á Þingvöllum 3. júlí 1674 fyrir iðkun slíkra galdra.[208]

Kæra séra Björns á hendur Böðvari á Gufuskálum sýnir að galdrafárið sem hér geisaði á hans dögum hefur náð að skerða dómgreind þessa kennimanns úr Valþjófsdal mjög verulega. Í hinu mikla stríði sem flestir 17. aldar menn urðu að heyja við galdragrillur samtímans féll séra Björn flatur en Brynjólfur biskup, hans forni félagi, bjargaðist af með sóma og lét galdrahríðina aldrei villa sér sýn. Þorkatla Snæbjörnsdóttir í Lokinhömrum, systir séra Björns sem hér hefur áður verið nefnd, átti það hins vegar sameiginlegt með bróður sínum að eiga drjúgan þátt í að koma galdramanni á bálið (sjá hér Lokinhamrar). Á árunum 1625-1683 var 21 maður tekinn af lífi fyrir galdra á landi hér. Segja má að börn Þóru í Dal hafi átt sök á að tveir þessara vesælu manna voru færðir á bál og þannig hafi þau borið ábyrgð á dauða eins tíunda hluta þeirra galdramanna sem hér voru brenndir.

Séra Björn Snæbjörnsson andaðist árið 1679 eins og hér hefur áður verið nefnt og þá mun Snæbjörn, sonur hans, hafa erft Kirkjuból í Valþjófsdal. Til þess bendir að minnsta kosti sú staðreynd að 27 árum síðar var það Snæbjörn sem átti jörðina eins og sjá má í Fitjaannál en þar er þess getið að árið 1706 hafi Snæbjörn Björnsson frá Staðastað andast á eign sinni Valþjófsdal í Önundarfirði.[209] Líklega hefur Snæbjörn verið á ferðalagi vestra er hann dó því vitað er að hann átti lengst heima á Tjaldanesi í Saurbæ í Dalasýslu.[210]

Svo virðist sem heimamenn í Valþjófsdal hafi um skeið átt í nokkrum útistöðum við Snæbjörn þegar hann var eigandi kirkjunnar á Kirkjubóli. Víst er að árið 1689 sáu þeir ástæðu til að tregðast við að hlaða upp kirkjugarðinn á sinn kostnað og sendu kirkjuyfirvöldum fyrirspurn um hvort kirkjueigandanum bæri ekki skylda til að leggja eitthvað fram til viðhalds garðinum. Þessari fyrirspurn svaraði Þórður biskup Þorláksson með bréfi, dagsettu 7. apríl 1690.[211] Þar segir biskup að sóknarmönnum Kirkjubólskirkju beri að lagfæra kirkjugarðinn upp á sinn eigin kostnað þegar þeim tilsagt verður og þörf gerist en bætir síðan við að sér sýnist þó rétt og billegt að staðarins eignarmaður standi þeim fyrir kost og fæði meðan að garðhleðslunni sé unnið.[212]

Snæbjörn Björnsson, sem var lærður bartskeri, kvæntist aldrei[213] og við skipti á dánarbúi hans mun Kirkjuból hafa komið í hlut tveggja systra hans sem báðar hétu Þorbjörg.[214] Þær voru þá báðar orðnar ekkjur en höfðu verið giftar prestum á Snæfellsnesi.[215] Í Jarðabók Árna og Páls frá árinu 1710 eru þessar tvær sonardætur Þóru í Dal sagðar vera eigendur Kirkjubóls og tekið fram að þær eigi hálfa jörðina hvor.[216] Er Þorbjörg eldri andaðist árið 1733 gekk eignarhluti hennar í Kirkjubóli til Sigurðar Jónssonar, sýslumanns á Hvítárvöllum í Borgarfirði, samkvæmt erfðaskrá hennar,[217] nema ef vera kynni að hún hafi áður verið búin að láta þessa eign sína af hendi. Sigurður sýslumaður var ekki í hópi nánustu ættingja Þorbjargar og virðist jörðin því hafa gengið úr ættinni, að minnsta kosti að hálfu, á síðustu árum þessara tveggja systra eða við andlát þeirra. Sextíu til hundrað ár voru þá liðin frá þvi amma þeirra, Þóra í Dal, andaðist og allan þann tíma munu leiguliðar hafa búið á jörðinni.

Til gamans skal þess að lokum getið að einn af mörgum niðjum Þóru í Dal, sem báru nafn hennar, var Þóra Björnsdóttir Thorlacius, eiginkona Halldórs Brynjólfssonar, biskups á Hólum, en hún var 4. ættliður frá Þóru í Dal.[218] Þessi yngri Þóra var mikið fyrir gleðskap eins og lesa má um hjá séra Jóni Steingrímssyni[219] og vel má vera að dýrkun hennar á lystisemdum heimsins hafi verið arfur frá Þóru í Dal. Í Djáknaannálum segir svo við árið 1746:

 

Annan dag jóla fæddi húsfrú Halldórs biskups, Þóra Björnsdóttir, stúlkubarn er Margrét hét sem taldist sjö, aðrir segja fimm, mánaða frá því hann kom inn í landið. Hann varð undarlega við en sefaðist nokkuð við umtölur sýslumanns Skúla.[220]

 

Skúli sýslumaður, sem þarna er nefndur, er efalaust Skúli Magnússon, síðar landfógeti, en hann var kvæntur hálfsystur biskupsfrúarinnar. Um barnsfæðinguna á Hólum 26. desember 1746 var þetta kveðið:

 

Biskupsfrúin barnið átti á Hólum.

                           Bar það til á annan dag í jólum.

                           Síra Halldór sagður var

                           sannur faðir að barni þar

                           og þarf ei par

                           að undrast um þó ekki með hún gengi

                           eins og aðrar lengi.[221]

 

Á þeim árum sem höfðingskvinnan Þóra Jónsdóttir bjó á Kirkjubóli mun hún að líkindum hafa haft alla jörðina til ábúðar að frátöldum tveimur hjáleigum, Dalshúsum heimari og Dalshúsum ytri. Í sumum heimildum frá 19. öld er þó talið að Arnór Símonarson, faðir séra Bjarna Arnórssonar, prests í Dýrafjarðarþingum, hafi búið á Kirkjubóli í Valþjófsdal á fyrsta þriðjungi 17. aldar[222] og ef til vill hefur hann verið þar einhver ár í sambýli við Þóru. Hitt gæti þó alveg eins verið að þarna hafi menn ruglast á Kirkjubólum eða þá að Arnór hafi verið landseti Þóru í Valþjófsdal um nokkurra ára skeið áður en hún fluttist hingað norðan frá Djúpi.

Um hjáleigurnar tvær á Kirkjubóli, sem í Jarðabók Árna og Páls frá árinu 1710 eru nefndar Dalshús heimari og Dalshús ytri, er rætt sérstaklega litlu aftar í þessu riti en tvímælalaust er að þær voru báðar í byggð frá því um 1600 og fram á 19. öld (sjá hér bls. 51-55). Önnur hjáleigan var talin tíu hundruð að dýrleika en hin sex hundruð[223] svo heimajörðin sjálf var virt á 32 hundruð. Um 1830 eða máske litlu fyrr voru hjáleigurnar sameinaðar í eitt býli, Dalshús, og þar var búið allt til ársins 1957 (sjá hér bls. 53-54 og 58, sbr. Firðir og fólk 1900-1999,341).

Í Jarðabókinni frá 1710 er að líkindum gert minna en skyldi úr landkostum á Kirkjubóli í Valþjófsdal en um jörðina segir þar m.a. svo:

 

Hætt er hér kvikfé bæði fyrir skriðufalli, klettaógöngum og flæðum undir  Sporhamri. … Túnið er til þriðjunga afbrotið af á sem fellur þar hjá og gengur þessi á árlega meir og meir á túnið og líkast að bæinn verði undan henni að flytja. Engjunum spilla til stórskemmda á og lækir sem á renna og bera á grjót og aur. Annars vegar spilla engjunum skriður sem renna úr fjalli. Haganna einum hluta hafa skriður spillt svo er og vegur þangað svo tæpur orðinn að nautpeningur ekki þangað gengið getur. … Ekki rekur hér þó jörðin eigi nokkuð til sjóar. Ristulítið er hér orðið. Útigangur á vetur hefur í betra lagi verið á Sporhamarshlíð … en nú er sú beit af skriðum fordjörfuð. … Útræði getur hér verið ef vill og er góð lending en ekki brúkast hér útræði á vetur sökum langræðis.[224]

 

Í sóknalýsingunni frá 1840 fær Kirkjuból reyndar líka heldur lélega einkunn. Séra Tómas Sigurðsson í Holti segir þar að heyskapur sé hér lítill, jörðin mögur til beitar og undirköstuð skaða af ánni.[225]

Í heimildum frá byrjun 20. aldar er aftur á móti látið mun betur af búskaparskilyrðum á þessari stærstu jörð í Valþjófsdal. Sem dæmi má nefna að í gerðabók undirmatsnefndar vegna fasteignamats frá árunum 1919-1922 er túnið á Kirkjubóli sagt vera grasgefið og í góðri rækt, útengi greiðfært en beitiland laklegt og lítil vetrarbeit.[226] Önnur jarðargæði og hlunnindi eru þá sögð vera: Mótak, beitutekja og útræði.[227] Árlegur töðufengur á Kirkjubóli, að meðtöldum Dalshúsum, var þá talinn 240 hestar en af útheyi fengust að jafnaði 550 hestar á ári.[228]

Hér var þess áður getið að árið 1710 voru tvær sonardætur Þóru í Dal eigendur Kirkjubóls en árið 1733 eignaðist Sigurður Jónsson, sýslumaður á Hvítárvöllum í Borgarfirði, hálfa jörðina (sjá hér bls. 30). Nokkru síðar komst jörðin í eigu þriggja bræðra, sem líka áttu heima suður í Borgarfirði, en þeir seldu hana árið 1770 Bárði Illugasyni í Arnardal við Skutulsfjörð,[229] ættföður Arnardalsættar sem nefndur var hinn ríki.[230] Kaupsamningurinn sem Bárður undirritaði 18. júní 1770 sýnir að hann hefur keypt Kirkjuból á 360 ríkisdali og að jörðin er þá talin 60 hundruð að dýrleika.[231] Í öðrum heimildum frá 18. og 19. öld er Kirkjuból með Dalshúsum hins vegar yfirleitt virt á 48 hundruð.[232] Skýringin á þessu mun vera sú að við kaupin á Kirkjubóli árið 1770 fylgdi Mosdalur með því hann var eign kirkjunnar á Kirkjubóli  og kirkjan og hennar eignir fylgdu jörðinni.

Bárður Illugason mun aldrei hafa búið á Kirkjubóli[233] en fullvíst er að hann átti alla jörðina að meðtöldum báðum hjáleigunum. Í annarri þeirra, Dalshúsum neðri, sem einnig voru nefnd Dalshús ytri, bjó hins vegar lengi sonur Bárðar sem Árni hét. Ljóst er að Árni Bárðarson og Margrét Björnsdóttir, kona hans, hafa farið að búa í Dalshúsum ytri mjög skömmu eftir að faðir Árna festi kaup á Kirkjubóli og sést það m.a. á því að elstu börn þessara hjóna eru fædd í Dalshúsum á árunum kringum 1775.[234] Árni bjó í Dalshúsum til dauðadags en hann andaðist 16. júní 1806.[235] Fimm árum síðar dó Margrét kona hans úr holdsveiki[236] en hún var dóttir Björns Jónssonar á Núpi í Dýrafirði[237] sem hér er frá sagt á öðrum stað (sjá hér Núpur). Svo má heita að niðjar Árna Bárðarsonar og Margrétar Björnsdóttur hafi búið á Kirkjubóli eða í Dalshúsum alla 19. öldina og fram yfir aldamótin 1900[238] en oftast í sambýli við aðra ábúendur.[239] Við undirbúning þessara skrifa var ekki kannað hversu lengi Kirkjuból og Dalshús héldust í eigu Bárðar Illugasonar eða niðja hans en þess má geta að afkomendur Bárðar, sem þar bjuggu á þremur býlum um miðbik 19. aldar, voru allir leiguliðar.[240]

Á síðari hluta 19. aldar var yfirleitt tvíbýli á Kirkjubóli og þá bjó jafnan aðeins einn bóndi í Dalshúsum.[241] Áður voru býlin á Kirkjubóli og í hjáleigunum þar hins vegar oft fjögur eða fimm[242] og þegar allsherjarmanntal var fyrst tekið á Íslandi árið 1703 voru þau sjö. Þá bjuggu fjórir bændur á Kirkjubóli og þrír í Dalshúsum.[243] Í því manntali er Kirkjuból reyndar nefnt Dalstaður og Dalshús heita þar Dalstaðarafbýli.[244]

Hér var þess áður getið að á nítjándu öld hefðu fleiri eða færri niðjar Árna Bárðarsonar og Margrétar konu hans í Dalshúsum jafnan búið þar eða á Kirkjubóli. Þegar Árni andaðist, árið 1806, var Jón sonur hans farinn að búa í Dalshúsum en elsta dóttirin, Guðný að nafni, var þá orðin húsfreyja á Kirkjubóli.[245] Hún giftist haustið 1800 Jóni Guðmundssyni, sem var liðlega hálfþrítugur ekkjumaður á Kirkjubóli, og bjuggu þau þar síðan uns synir þeirra tveir, Guðmundur og Guðni, tóku við búsforráðum árið 1834.[246] Jón Guðmundsson á Kirkjubóli í Valþjófsdal var einn fárra formanna úr Önundarfirði sem náðu landi í mannskaðaveðrinu mikla 6. maí 1812 þegar sjö bátar héðan úr firðinum fórust með allri áhöfn (sjá hér Mosvallahreppur, inngangskafli). Jón andaðist 3. desember 1835 og var þá um sextugsaldur.[247]

Meðal barna Jóns Guðmundssonar og Guðnýjar Árnadóttur á Kirkjubóli voru Guðmundur, fæddur 1802, og Guðni, fæddur 1810.[248] Bræður þessir tveir gengu báðir í hjónaband sama daginn, 15. október, 1834, og tóku á því ári við búi af foreldrum sínum.[249] Stúlkan sem Guðmundur gekk að eiga hét Dóróthea Þórðardóttir og var dóttir Þórðar Jónssonar á Skjaldfönn í Nauteyrarhreppi en brúður Guðna var Gróa, dóttir Greips Oddssonar, bónda í Neðri-Breiðadal, sem týndi lífi í mannskaðanum mikla vorið 1812.[250]

Bræðurnir Guðmundur og Guðni Jónssynir bjuggu saman á Kirkjubóli í 18 ár, frá 1834 til 1852.[251] Í fyrstu höfðu þeir aðeins annan helming jarðarinnar til umráða[252] en fyrir 1850 voru þeir komnir með jörðina alla og bjuggu þá í tvíbýli.[253] Sturla Jónsson, hálfbróðir þeirra, bjó á þessum árum í Dalshúsum (sjá hér bls. 55-56) og var eini ábúandinn þar svo ljóst er að saman hafa þessir þrír bræður haft hálfan Valþjófsdal undir í sínum búskap.

Þann 10. janúar 1852 varð það hörmulega slys að áttæringur frá Kirkjubóli fórst í hákarlalegu og drukknuðu allir sem á skipinu voru.[254] Formaður í þessari leguferð var bóndinn Guðni Jónsson á Kirkjubóli, sem þá var liðlega fertugur að aldri, en með honum fórust allir hásetar hans, átta að tölu.[255] Þeir voru:

 

Jón Guðmundsson, vinnumaður á Kirkjubóli, 24 ára,

Ólafur Guðmundsson, vinnumaður á Kirkjubóli, 29 ára,

Jón Sveinsson, vinnumaður á Kirkjubóli, 37 ára,

Guðlaugur Brynjólfsson, vinnumaður á Grafargili, 24 ára,

Jóhannes Brynjólfsson, vinnumaður á Grafargili, 19 ára,

Jóhann Jónsson, vinnumaður í Dalshúsum, 40 ára,

Benedikt Jónsson, vinnumaður í Dalshúsum, 22ja ára, og

Jóhannes Jónsson, kvæntur vinnumaður í Mosdal, 38 ára.[256]

 

Af þeim sem þarna týndu lífi voru átta úr Valþjófsdal, þar af fimm frá Kirkjubóli. Níundi maðurinn var frá Mosdal svo þeir voru allir úr hinni fámennu Kirkjubólssókn þar sem íbúatalan var um og innan við áttatíu.[257] Nærri lætur að helmingur vinnufærra karlmanna í sókninni hafi farist er áttæringurinn frá Kirkjubóli hvarf í hafið því árið 1845 voru þar aðeins sextán karlmenn á aldrinum 20-60 ára.[258] Áfallið sem yfir dundi er Guðni Jónsson og hásetar hans drukknuðu var því meira en orð fá lýst. Sagnir herma að skipið hafi farist á hafi úti í norðanáhlaupi en undan því manndrápsveðri sluppu Sandmenn naumlega á Hring sem var þeirra hákarlaskip.[259]

Að Guðna Jónssyni látnum hélt ekkja hans, Gróa Greipsdóttir, áfram búskap á Kirkjubóli. Skömmu eftir að Guðni týndi lífi gerðist Jóhann Árnason, sem ættaður var úr Strandasýslu, ráðsmaður hennar en hann fórst með þilskipinu Katrínu frá Kaldá vorið 1854 og var hann skipstjóri í þeirri veiðiferð (sjá hér Kaldá). Litlu síðar gekk Gróa að eiga Kristján Jónsson úr Ketildölum í Arnarfirði.[260] Þau eignuðust engin börn saman en ólu upp Jóhönnu Kristínu Jónsdóttur, bróðurdóttur Kristjáns.[261] Hún giftist Davíð Davíðssyni og andaðist háöldruð árið 1953 hjá sonum sínum í Neðri-Hjarðardal í Dýrafirði (sjá hér Álfadalur).

Kristján Jónsson var maður vel látinn, lengi meðhjálpari í Dalskirkju, laginn barnafræðari og ágætur skrifari.[262] Hann var einn af fimmtán formönnum sem reru frá Kálfeyri vorið 1857.[263] Bænabók sem Kristján ritaði og batt inn var lengi notuð við húslestra og mun enn vera til.[264] Þau Kristján og Gróa kona hans bjuggu á Kirkjubóli fram yfir 1870 og jafnan í tvíbýli en mótbýlismenn þeirra voru, fyrst Guðmundur Jónsson, mágur Gróu sem áður var nefndur, en seinna Sveinbjörn Halldórsson.[265]

Eina barn Gróu Greipsdóttur var Guðný Guðnadóttir, fædd 1848, sem var á fjórða aldursári er faðir hennar drukknaði.[266] Líklega hafa ýmsir viljað ná í þessa heimasætu á Kirkjubóli en hlutskarpastur varð Finnur Eiríksson frá Hrauni á Ingjaldssandi sem kvæntist Guðnýju haustið 1870.[267] Þau Finnur og Guðný tóku við búsforráðum á Kirkjubóli skömmu eftir hjónavígsluna og bjuggu þar í farsæld allt til ársins 1905[268] er þau fluttust að Hrauni á Ingjaldssandi þar sem Finnur hafði alist upp. Síðustu sjö árin sem Finnur var á Kirkjubóli mun Bernharður Jónsson, tengdasonur  hans, þó hafa verið talinn fyrir búinu (sjá Firðir og fólk 1900-1999, 341). Hér hefur áður verið sagt nokkuð frá Finni (sjá hér Hraun) en Guðný kona hans var einnig merk, – saumakona mikil með afbrigðum, ljósmóðir langa hríð og reri fjórar vertíðir til fiskjar úr heimavör við Dalssjó.[269] Þau Guðný og Finnur bjuggu í neðri bænum á Kirkjubóli, þeim sem nefndur var Skáli (sjá hér bls. 3-4) og ætla má að faðir hennar og afi hafi einnig búið þar.

Þegar Finnur Eiríksson afhenti Bernharði, tengdasyni sínum, búsforráð í neðri bænum á Kirkjubóli vorið 1898 voru jarðarhúsin tekin út. Baðstofan var þá 8 x 5,5 álnir,[270] það er liðlega 17 fermetrar. Hún var með þiljuðu lofti, sem skiptist í fjögur stafgólf, og í henni voru fjögur rúm.[271] Þrír gluggar voru á baðstofunni.[272] Bæði búr og eldhús voru 6 x 5 álnir hvort,[273] það er nær 12 fermetrar, og hafa þetta mátt kallast góð húsakynni á þeirrar tíðar mælikvarða.

Er Guðný Guðnadóttir fluttist frá Kirkjubóli að Hrauni árið 1905 voru a.m.k. 130 ár liðin frá því langafi hennar, Árni Bárðarson frá Arnardal, fór að búa í Dalshúsum, hjáleigunni frá Kirkjubóli (sjá hér bls. 32 og 33), og allan þann tíma höfðu hann og niðjar hans staðið fyrir búi í hjáleigunni eða á höfuðbólinu hér í Valþjófsdal. Við brottflutning Finns og Guðnýjar urði því þáttaskil.

Á þeim 35 árum sem Finnur Eiríksson og Guðný kona hans bjuggu á Kirkjubóli var þar oftast tvíbýli og auk þess nokkuð um húsfólk. Oft var þá mannmargt og má sem dæmi nefna að árið 1890 áttu 29 manneskjur heima á Kirkjubóli og svo15 í Dalshúsum.[274]

Einn sambýlismanna Finns Eiríkssonar á Kirkjubóli var Sveinbjörn Halldórsson, sem fæddur var árið 1827, sonur Halldórs Eiríkssonar, bónda á Grafargili (sjá hér Grafargil), og konu hans, Þórunnar Einarsdóttur.[275] Kona Sveinbjörns var Kristín Kjartansdóttir frá Tröð í Önundarfirði en hún andaðist 32ja ára gömul 1865.[276] Eitt barna þeirra var Jón Sveinbjörnsson, sem fæddur var árið 1855, og ólst hann upp á Kirkjubóli en fluttist með föður sínum að Þorfinnsstöðum árið 1881.[277]

Jón Sveinbjörnsson á Kirkjubóli þótti mjög efnilegur ungur maður og árið 1880 hafði hann forystu um kaup á skonnortunni Svani sem nokkrir Önfirðingar keyptu norðan úr Eyjafirði.[278] Skip þetta var um 20 smálestir, smíðað úr eik á Akureyri arið 1868[279] Í hreppsbók Mosvallahrepps sést að Jón Sveinbjörnsson og sameignarmenn hans hafa eignast Svaninn á fardagaárinu 1880-1881 (sjá hér Mosvallahreppur, inngangskafli) en þeir sem stóðu að kaupunum virðast hafa verið: Jón Sveinbjörnsson frá Kirkjubóli, Guðmundur Sturluson í Dalshúsum, Kristján Friðriksson frá Mosdal, þá verslunarmaður á Flateyri og síðar skipstjóri þar, Guðmundur Jónsson á Kaldá, Halldór Guðmundsson á Þórustöðum, Páll Guðlaugsson í Tröð, síðar söðlasmiður á Flateyri, og Bóas Guðlaugsson á Kroppstöðum (sjá hér Mosvallahreppur, inngangskafli) en hann bjó síðar á Innri-Veðrará og var um skeið oddviti Mosvallahrepps (sjá hér Innri-Veðrará). Allir áttu þessir sjömenningar einn áttunda part í skonnortunni nema Guðmundur Sturluson og Jón Sveinbjörnsson sem í hreppsbókinni eru sagðir hafa átt tvo áttundu parta hvor (sjá hér Mosvallahreppur, inngangskafli). Hreppsbókin sýnir að þessir sjö menn eignast allir hlut í þilskipi á síðari hluta árs 1880 eða fyrri hluta ársins 1881, fimm einn áttunda part hver og tveir einn fjórða part hvor sem sýnir að einn úr hópnum hefur keypt hlut í einhverju öðru skipi en Svaninum ef allt er rétt bókað.

Allt voru þetta ungir menn sem með kaupum á skipinu sýndu merkilegt framtak því næstu 22 ár á undan hafði enginn sléttur bóndi í Önundarfirði verið þátttakandi í skútuútgerð ef frá er talinn Arngrímur Vídalín Jónsson í Ytri-Hjarðardal sem sjálfur var skipherra og átti einn fjórða part í skútu (sjá hér Mosvallahreppur, inngangskafli og Ytri-Hjarðardalur).

Jón Sveinbjörnsson frá Kirkjubóli, sem hafði beitt sér fyrir kaupum á Svaninum, varð sjálfur skipstjóri á skútunni og var skipið gert út á þorskveiðar.[280] Fjórtán menn munu hafa verið í áhöfninni.[281] Jón Guðmundsson frá Grafargili segir í dagbók sinni að nafni hans Sveinbjörnsson frá Kirkjubóli hafi verið part úr vetri í Bretlandi við nám í kaupmannareikningi.[282] Þann 13. nóvember 1881 skrifaði Hjálmar Jónsson, kaupmaður á Flateyri, Jóni Sveinbjörnssyni, sem staddur var í Leith í Skotlandi, bréf frá Kaupmannahöfn.[283] Bréfið sýnir að Hjálmar hefur lofað að lána Jóni 300,- krónur sem hann kveðst munu senda honum í janúarmánuði.[284] Allar líkur benda til þess að Jón sá Sveinbjörnsson sem fékk í hendur þetta bréf frá Hjálmari hafi verið Jón Sveinbjörnsson frá Kirkjubóli og má því ætla að það hafi verið veturinn 1881-1882 sem hann dvaldist um tíma í Bretlandi og lærði kaupmannareikning. Í öðru bréfi, sem Hjálmar kaupmaður skrifaði Torfa Halldórssyni 12. janúar 1881, minnist hann á kaupin á Svaninum sem þá voru nýlega um garð gengin.[285] Þar talar Hjálmar um skipið er þið keyptuð[286] sem bendir reyndar eindregið til þess að Torfi hafi verið einn þeirra sem keyptu Svaninn af Eyfirðingum. Hugsanlegt er að Torfi hafi með einum eða öðrum hætti haft milligöngu um kaupin fyrir hönd hinna ungu sveitunga sinna sem urðu eigendur að skipinu og hér voru áður nefndir.

Jón Sveinbjörnsson, skipstjóri á Svaninum, varð skammlífur því mislingar urðu honum að bana sumarið 1882. Jón Guðmundsson frá Grafargili greinir frá því í dagbók sinni að mislingasóttin hafi verið farin að ganga í Önundarfirði um miðjan júní og 15. júlí var hann sjálfur að veikjast af mislingum.[287] Þann 23. júlí 1882 skrifar hann svo þetta í dagbókina:

 

Nú er Jón Sveinbjörnsson dáinn úr mislingum. Var hann jafngamall mér. Hann var 27 ára. Það var afbragðsmaður. Vel orðinn menntaður. Bóknám, danska, reikningur, landafræði, enska, skrift og réttritun. Hann sigldi til Englands og lærði þar kaupmannareikning en nokkuð af vetrinum var hann í Kaupmannahöfn.[288]

 

Þremur dögum síðar bætir Jón frá Grafargili þessum orðum við: Sóttum lík Jóns sáluga Sveinbjörnssonar fram á Svaninn, fluttan frá Dýrafirði. Hann dó á Söndum.[289] Í prestsþjónustubókinni frá Holti sést að Jón andaðist 21. júlí og þar er hann nefndur skipstjóri á Þorfinnsstöðum.[290]

Að Jóni Sveinbjörnssyni, sem dó svo ungur, var mikill mannskaði en félagar hans héldu áfram útgerð á Svaninum í nokkur ár, að því er virðist fram undir 1888, og tók Bóas Guðlaugsson, sem var einn eigendanna, við stjórn á skipinu.[291] Á árunum 1882-1888 munu ýmsar breytingar hafa orðið á eigendahópnum en svo virðist sem Guðmundur Sturluson á Sæbóli (áður í Dalshúsum), Sveinbjörn Halldórsson á Þorfinnsstöðum og Torfi Halldórsson á Flateyri hafi verið aðaleigendur skipsins í lok ársins 1886 og átt einn fjórða part í því hver.[292] Í kladda frá verslun Hjálmars Jónssonar á Flateyri má líka sjá að skonnortan Svanur var þar í viðskiptum á árunum 1881 og 1882.[293] Meðal þess sem tekið var út á hennar nafni vorið 1881 voru 2 frönsk færi, 3 dönsk færi, 12 önglar, 2 bakkar, 68 pund af brauði, 24 pund af smjöri, 6 ½ pund af kaffi, 6 ¼ pund sykur, 4 pund hvítasykur og einn ketill.[294] Þann 11. apríl 1882 hafa menn verið að búa Svaninn út á veiðar. Þann dag var eitt og annað tekið út í hans nafni hjá versluninni á Flateyri, m.a. mikið af nöglum og svolítið af timbri en líka 50 pund af hrísgrjónum, 45 pund af brenni, ein kasterolla, ein skál, 16 pottar af brennivínni, einn pottur af rommi, ein ediksflaska, ein steinolíuflaska og 4 pund af sýrópi.[295]

Líklega hefur Jón Sveinbjörnsson enn verið í Englandi (sjá hér bls. 37) þegar þessi varningur var tekinn út því næsta dag, þann 12. apríl 1882, er Guðmundur skipherra á Svaninum sagður fá greiddar 10,- krónur í peningum hjá versluninni á Flateyri.[296] Minnt skal á að tveir Guðmundar voru í hópi þeirra sem festu kaup á Svaninum veturinn 1880-1881 (sjá hér bls. 36) og vel má vera að annar hvor þeirra hafi stýrt skipinu til veiða í byrjun úthalds árið 1882 meðan þess var beðið að Jón Sveinbjörnsson kæmi heim frá Bretlandi.

Þegar Sveinbjörn Halldórsson, faðir Jóns skipstjóra á Svaninum, fluttist frá Kirkjubóli að Þorfinnsstöðum vorið 1881 tók Eyjólfur Jónsson við hálflendunni sem hann hafði haft til ábúðar. Eyjólfur kom hingað frá Hóli á Hvilftarströnd[297] og settist að í gamla efri bænum á Kirkjubóli sem eftir 1905 var farið að kalla neðri bæ (sjá hér bls. 4-5). Bæjarhúsin voru þá að heita má alveg hin sömu og stærð þeirra óbreytt frá því sem verið hafði þegar Sveinbjörn hóf sinn búskap hér á Kirkjubóli árið 1864.[298] Hér var áður gerð grein fyrir stærð bæjarhúsanna hjá Finni Eiríkssyni sem lengi var sambýlismaður Eyjólfs á Kirkjubóli (sjá hér bls. 35) en baðstofan, sem Eyjólfur tók við árið 1881, var 9,50 x 4,25 álnir,[299] það er tæplega 16 fermetrar. Loft var í henni með timburþiljum og niðri var líka eitt þiljað herbergi.[300] Á þessu baðstofuhúsi voru a.m.k. fjórir gluggar og hæðin frá gólfi og upp í rjáfur var nær 3,8 metrar.[301] Búrið sem Eyjólfur fékk afhent var um það bil 9 fermetrar en eldhúsið tæplega 6 fermetrar.[302] Lofthæð í búri og eldhúsi var 5 álnir,[303] það er 3,14 metrar. Önnur göngin í þessum bæ lágu frá baðstofu til búrs og voru aðeins 125 sentimetrar á lengd. Hin til útidyra en lengd þeirra var um það bil 4,4 metrar.[304] Hálflendunni, sem Eyjólfur fékk til ábúðar, fylgdi fjós fyrir 4 kýr og fjárhús fyrir 20 ær.[305]

Eyjólfur Jónsson var þrítugur að aldri þegar hann fór að búa á Kirkjubóli, fæddur 2. júní 1851 í Mýrartungu í Reykhólasveit.[306] Til Önundarfjarðar kom hann eigi síðar en 1874 og var í desember 1880 í húsmennsku á Hóli á Hvilftarströnd.[307] Hann var þá kvæntur Kristínu Jónsdóttur sem fluttist með honum yfir í Valþjófsdal vorið 1881 en hún var dóttir Jóns Sveinssonar, bónda í Fremri-Breiðadal og síðast á Hvilft, og konu hans, Járngerðar Indriðadóttur.[308] Eyjólfur bjó á Kirkjubóli til ársins 1912 er dóttir hans og tengdasonur tóku þar við búi en niðjar hans hafa æ síðan búið á jörðinni og búa enn (sjá Firðir og fólk 1900-1999, 342). Bróðir Eyjólfs var Steinþór Jónsson sem lengi bjó í Dalshúsum.[309] Veturinn 1880-1881 voru þeir bræður báðir í húsmennsku á Hóli á Hvilftarströnd (sjá hér Hóll á Hvilftarströnd). Jón Guðmundsson á Grafargili getur þess í dagbók sinni að þeir hafi þá farið í hákarlalegu þann 15. desember.[310] Sú leguferð er síðasti hákarlaróðurinn úr Önundarfirði sem Jón getur um í dagbókinni. Vera má að þeir bræður hafi þó farið í einhverja slíka róðra eftir 1880 og þá úr Valþjófsdal en fullvíst má telja að í síðustu hákarlalegur úr Önundarfirði á opnum skipum hafi verið farið fyrir 1888 því Jón Guðmundsson getur þess sérstaklega í dagbók sinni þá um vorið að nú fari ekki aðrir í hákarlaleguferðir en Kristján Oddsson á Núpi í Dýrafirði.[311]

Á síðustu áratugum 19. aldar reru formenn úr Valþjófsdal ýmist frá Kálfeyri eða Dalssjó á vorvertíð. Eyjólfur Jónsson á Kirkjubóli og Vigfús Eiríksson í Tungu í Valþjófsdal voru báðir formenn á Kálfeyri vorið 1897.[312] Í dagbók Jóns Guðmundssonar á Grafargili kemur hins vegar fram með skýrum hætti að einnig var róið frá Dalssjó á vorvertíð á árunum kringum 1890.[313] Þar var eina lendingin í Valþjófsdal sem hentaði allvel til sjósóknar[314] því við Þorfinnsstaðasjó er brimasamt og illt að vakta skip frá skaða.[315] Líklegt er að Þorfinnsstaðamenn hafi þó stundum róið til fiskjar úr heimavör á fyrri tíð og þar voru miklar tóttir við sjóinn á fyrstu áratugum tuttugustu aldar, sem menn töldu þá að væru leifar af fornum naustum.[316]

Frá Dalssjó í landi Kirkjubóls var sjór sóttur á vorvertíð en einnig á öðrum árstímum þegar henta þótti. Beitt var ljósabeitu og sandmaðki sem sóttur var inn í Holtsodda[317] og á síðustu árum 19. aldar einnig síld og kúfiski.[318] Kræklingur var líka hafður í beitu.[319]

Vorvertíðin byrjaði um sumarmál. – Fóru á sjó fyrst hér, fiskuðu 100 af þorski og steinbít og viðlíka á Kálfeyri, skrifar Jón Guðmundsson á Grafargili í dagbók sína 22. apríl 1896.[320] Í dagbók Jóns má þó sjá að stundum byrjuðu Dalmenn mun fyrr að róa. Þann 21. mars 1883 kemst hann til dæmis svo að orði: Er búið að fiska hér í Valþjófsdal 1221 þessa undanfarna daga og víða annars staðar gróflega mikið.[321] Ætla má að á þessum löngu liðnu góudögum hafi verið stillur til hafsins. Fleiri dæmi sýna að Dalmenn reru stundum til fiskjar á úthallandi vetri[322] þó að eiginleg vertíð hæfist ekki fyrr en um sumarmál.

Á haustin var sjór líka oft sóttur af kappi úr Valþjófsdal á árunum fyrir aldamótin 1900 og ekki hætt fyrr en langt var liðið á nóvember.[323] Þeir hér úr Dalnum fiskuðu 130 – 190 – 90, skrifar Jón á Grafargili í dagbókina 19. nóvember 1892[324] og verður vart skilið á annan veg en að bátarnir sem þá reru frá Dalssjó hafi verið þrír.

Á haustin fiskaðist oft talsvert af skötu og spröku.[325] Fórum á sjó og fiskuðum 17 lóur og 6 skötur, skrifar Jón á Grafargili 13. september 1889.[326] Stundum fiskuðu menn líka mikið af þorski í haustróðrum frá Dalssjó. – Höfum farið á sjó alla vikuna, fiskað hæst 270 og minnst 170 af stútung, skrifar sami dagbókarhöfundur í október 1889[327] og þarf ekki frekari vitna við. Ýsan gekk líka á grunnmiðin og stundum var hún meginhluti aflans í haustróðrum.[328]

Sköturóðrarnir lífguðu upp á tilveruna þegar vel veiddist og frásagnir úr þeim lifðu stundum lengi á vörum manna. Sagt er að Finnur Eiríksson, sem bjó á Kirkjubóli frá 1870-1905, hafi oft sagt frá sköturóðrinum mikla er hann lenti við Dalssjó með 49 stórar skötur í sínum litla bát.[329]Mikill déskoti gat þá verið af skötunni, sagði karlinn, er hann í elli sinni greindi yngri mönnum frá þessum góða aflafeng.[330]

Í ritgerð sinni um aldarhátt í Önundarfirði á 19. öld minnist Guðmundur Eiríksson á Þorfinnsstöðum líka á skötu- og sprökuveiðarnar og gerir nokkra grein fyrir verkun og nýtingu þessara góðu fiska. Hann segir:

 

Að haustinu var oft róið, sérstaklega utantil úr firðinum. Fiskaðist þá skata og spraka. Skatan var látin í kös, síðan tekin upp og hert. Einnig var hert bæði riklingur og rafabelti af sprökunum. Skötulifrin var brædd og brúkuð til ljósa. Magarnir, bæði úr skötu og spröku, voru hirtir – þeir voru kallaðir bumlingar – soðnir og súrsaðir.

Þessi veiðiaðferð var þannig: Á fráferðinni var stjaldrað við annað hvort annesið og veiddur þar smáfiskur á bert járn. Svo var haldið á nokkuð út fyrir fjarðarmynnið, legið við stjóra, smáfiskinum beitt og fiskað á handfæri. Skata fékkst oft í strauma en spraka ekki nema í straumaskipti sem kallað var liggjandi.[331]

 

Skömmu eftir aldamótin 1900 hófst vélbátaútgerð frá Valþjófsdal og var þá oft mikið um að vera við Dalssjóinn eins og frá er sagt á öðrum stað í þessu riti (sjá hér bls. 61-63).

Þau fáu orð sem hér hafa verið rituð um fiskiróðra frá Dalssjó á fyrri tíð nægja til að sýna hversu stór þáttur sjósóknin var í búskap þeirra sem bjuggu á Kirkjubóli og hinum jörðunum í Valþjófsdal á fyrri tíð en minnt skal á að Dalmenn reru líka oft frá Kálfeyri á vorvertíð (sjá hér Mosvallahreppur, inngangskafli) og þegar þilskipaútgerð hófst fóru margir þeirra á skúturnar.[332]

Við höfum nú dvalist alllengi á Kirkjubóli í Valþjófsdal, þessu forna höfuðbóli sem áður var nefnt Dalur. Enn eigum við samt eftir að ganga hér um landareignina, niður að sjó og fram á Dalsdal til að skoða það sem fyrir augu ber. Áður en lagt verður upp í þá ferð er hins vegar skylt að staldra við hjá kirkjunni, sem enn þjónar hér sínu hlutverki, og hyggja nánar að hvaða sögu hún hefur að geyma.

Á þessum blöðum var áður frá því greint að sóknarkirkja var fyrst vígð á Kirkjubóli haustið 1470 en áður hafði verið þar hálfkirkja í örfá ár og þar á undan að líkindum bænhús um langa hríð (sjá hér bls. 16-19). Í vígslumáldaga kirkjunnar frá árinu 1470 kemur fram að henni hafði þá þegar verið gefin jörðin Mosdalur og átta hundruð í heimalandi á Kirkjubóli, einnig skógarítak í landi Eyrar, handan fjarðarins, og tólfæringur með rá og reiða (sjá hér bls. 16-19). Svo virðist sem nýnefndur partur úr heimajörðinni hafi fljótlega gengið undan kirkjunni því í Gíslamáldaga frá árunum upp úr 1570 er hann ekki talinn með eignum hennar.[333]  Jörðina Mosdal átti Kirkjubólskirkja hins vegar í meira en 400 ár því hún var enn í eigu kirkjunnar árið 1887.[334]

Um skógarítak Kirkjubólskirkju í landi Eyrar er víða getið í heimildum[335] en skógarteigur kirkjunnar mun hafa verið í Barðsurðum, á Sauðanesi[336] skammt fyrir utan Kálfeyri (sjá hér Eyri). Ætla má að talsverður skógur hafi verið á þeim slóðum um 1470 þegar skógarreiturinn var gefinn kirkjunni (sbr. hér bls. 19) en í Jarðabókinni frá 1710 segir að skógur þessi hafi eyðst fyrir minni þeirra manna sem þá lifðu[337] og má því ætla að síðustu trén hafi fallið fyrir 1650.

Tólfæringinn góða sem kirkjan eignaðist árið 1470[338] kynni hún að hafa átt í allmarga tugi ára en ekki er getið um þá eign í Gíslamáldaga frá árunum upp úr 1570.[339] Þegar Brynjólfur biskup Sveinsson vísiteraði á Kirkjubóli sumarið 1639 tók þáverandi eigandi jarðarinnar, Þóra Jónsdóttir í Dal, sérstaklega fram að tólfæringurinn hefði ekki fylgt með þegar hún tók við jörð og kirkju[340] sem mun hafa verið árið 1607 (sjá hér bls. 25).

Meðal gjafa sem kirkjunni voru gefnar árið 1470 voru fimm kúgildi[341] en hundrað árum síðar voru þau orðin einu færri[342] og árið 1639 átti kirkjan enn fjögur kúgildi.[343] Í byrjun 18. aldar átti Kirkjubólskirkja þrjú kúgildi í Mosdal en í stórubólu fækkaði þeim niður í tvö og virðast það hafa verið einu kúgildin sem kirkjan átti er þar var komið sögu.[344] Í vísitazíu frá haustinu 1742 er líka aðeins getið um tvö málnytukúgildi sem kirkjan eigi í Mosdal.[345]

Aðrar eignir en þær sem hér hafa verið taldar mun Dalskirkja ekki hafa átt nema skrúða og áhöld sem notuð voru við kirkjulegar athafnir. Hér hefur áður verið sagt frá gripum kirkjunnar fyrir siðaskipti (sjá hér bls. 19-20) en þegar Brynjólfur biskup Sveinsson vísiteraði á Kirkjubóli sumarið 1639 voru kirkjugripirnir orðnir færri. Eigendur og umráðamenn kirkjunnar voru þá höfðingskvinnan Þóra í Dal og sonur hennar, Björn Snæbjörnsson, sem þá var rektur í Skálholti, en hér hefur áður verið sagt nokkuð frá þessum mæðginum (sjá hér bls. 25-29). Í vísitazíugerð Brynjólfs frá árinu 1639 er tekið fram að kirkjan sé stæðileg og þar sést að hún hefur verið þiljuð, a.m.k. öðru megin.[346] Helstu gripir kirkjunnar árið 1639 voru altari og predikunarstóll og tvær klukkur.[347] Aðra klukkuna hafði Björn Snæbjörnsson gefið og var hún kólflaus.[348] Klæði sem kirkjan átti þá voru fábrotin, einn gamall og bættur hökull, bærilegur sloppur og svo altarisklæði.[349] Fleira er ekki nefnt en með hliðsjón af því sem upp er talið í vísitazíugerð frá árinu 1742 má ætla að gripirnir hafi verið eitthvað fleiri.

Frá átjándu öldinni eru til nokkrar skilmerkilegar vísitazíugerðir sem sýna vel hvernig þá var umhorfs í Dalskirkju á Kirkjubóli. Ein þessara vísitazíugerða er frá árinu 1742, önnur frá 1775 og sú þriðja frá 1790.[350]

Kirkjan sem stóð á Kirkjubóli árið 1742 var torfkirkja í fimm stafgólfum.[351] Líklegt er að hvert stafgólf hafi verið tvær álnir (sjá hér bls. 45-46) og hefur kirkjan þá verið um það bil 6,3 metrar á lengd. Árið 1775 virðist kirkjan, sem stóð á Kirkjubóli 33 árum fyrr, hafa staðið þar enn en árið 1790 var búið að endurbyggja kirkjuna og þó í sama formi og áður að því er best verður séð.[352]

Hér verður nú birt lýsing Hannesar biskups Finnssonar frá árinu 1790 á kirkjunni í Valþjófsdal, skrúða hennar og áhöldum en sú lýsing er á þessa leið:

 

Sjálf er hún [kirkjan] í 5 stafgólfum, af hverjum það í kórnum er með höggsperrum, bitalaust. Öll er hún þiljuð umhverfis með fjalagólfi. Í kórnum eru hálffóðraðir bekkir með bríkum við dyr, laus skriftastóll. Fyrir altarinu er lítilfjörleg gráða og upp yfir því glergluggi með 6 rúðum, sæmilegur. Milli kórs og kirkju er þiljað undir bita með pílárum í miðið. Dyr með öllum umbúningi og predikunarstóll nýr, ómálaður en sæmilegur. Sunnantil er hálffóðraður langbekkur, einnig þverbekkur sem endast með brík við dyr.

Að kórbaki er slagþil með vindskeiðum en að framan listað þil með vindskeiðum. Dyr með öllum umbúningi, skrá, lykli og koparhring. Húsið er nýendurbætt og ekki óstæðilegt. Kirkjugarðurinn er allur standandi. Ornamenta og instrumenta eru þessi:

Hökull af rauðu ullardamaski með rauðu léreftsfóðri en leggingarnar utanmeð og krossinn eru af gulu silkidamaski, prýðilegur. Rykkilín af hvítu lérefti vel sæmilegt. Altarisklæði af rauðþrykktu sirskatum með bláröndóttu léreftsfóðri. Brún af hvítu líndamaski, mjög slitin. Stólur af hvítu, fínu lérefti. Við altarisklæðið er áfastur altarisdúkur af hvítu lérefti, fóðraður með sama og altarisklæðið.

Kaleikur af messing með patínu af sama. Þar til er corporalisklútur af hvítum … dúk með gulum silkiskúfum.  Skírnarfat af messing, stórt og vænt. Kaleikur af tini patínulaus. Þrjár messingspípur ósamkynja og tvær af þeim mjög gallaðar. Ljósberi af tini, líttbrúkanlegur. Tvær klukkur á ramböldum, misstórar, þó sæmilega heilar og hljóðgóðar. Í bókum á kirkjan grallara, gamla guðspjallabók og Nýjatestamentið. Í graftólum 2 rekur en proprietarii [þ.e. eigendur] hafa í sinni á þessu ári að tilleggja járnkarl og pál.[353]

 

Svo virðist sem Dalskirkja hafi verið í býsna góðu standi árið 1790 og allvel búin að áhöldum og skrúða. Í vísitazíugerðinni frá 1790 tekur biskup fram að auk þess sem áður er talið hafi Kirkjubólskirkja átt tvo járnkarla en andvirði þeirra muni ganga til kaupa á hinum nýju graftólum sem kirkjan átti að fá og hér voru áður nefnd.[354]

Við lestur vísitazíugerðar Hannesar biskups vekur athygli að skriftastóll skuli enn hafa verið í kirkjunni á Kirkjubóli árið 1790, þegar nær 250 ár voru liðin frá siðaskiptum, en vel má vera að Holtsprestar hafi haldið áfram að taka Önfirðinga til skrifta allan þann tíma.

Af gripum sem kirkjan átti árið 1790 og ekki voru í hennar eigu árið 1775 er helst að nefna predikunarstólinn og að minnsta kosti aðra klukkuna.[355] Gamli predikunarstóllinn, sem var með nokkrum máluðum myndum, áföstum, var íslensk smíð og talin forn árið 1742.[356] Hannes biskup segir klukkurnar tvær sæmilega heilar og hljóðgóðar svo ætla má að önnur þeirra hafi verið ný því 1742 og 1775 átti kirkjan líka tvær klukkur en þá er önnur þeirra sögð rifin og með gati.[357] Bækurnar þrjár, sem kirkjan átti árið 1790, munu reyndar einnig hafa verð komnar í hennar eigu fyrir stuttu því 1742 og 1775 er þess ekki getið að kirkja hins fámenna safnaðar í Valþjófsdal og Mosdal eigi bækur. Ýmsir gripir sem kirkjan hafði átt árið 1742 voru hins vegar ekki lengur fyrir hendi þegar Hannes biskup Finnsson kom í Valþjófsdal á vísitazíuferð sinni nær hálfri öld síðar og er þar helst að nefna málaðan dúk sem áður hékk yfir altarinu og sagður er hafa verið fjórskiptur.[358] Að lokum er vert að minnast hér á hringinn sem stóð á hurð torfkirkjunnar á Kirkjubóli á 18. öld. Slíkir hurðarhringir náðu oft að halda velli í margar aldir og svo kynni að hafa verið hér. Í hringinn var greypt latnesk áletrun: Nomen Domini fortissima turris[359] sem útleggst: Öðrum turnum sterkara er Drottins nafn.

Þegar Hannes biskup Finnsson vísiteraði á Kirkjubóli árið 1790 lagði hann til að í staðinn fyrir gamla kaleikinn, sem var úr messing, yrði sem fyrst keyptur silfurkaleikur.[360] Þremur árum síðar höfðu eigendur kirkjunnar orðið við þessum tilmælum eins og sjá má í vísitazíugerð prófasts frá 8. nóvember 1793. Þar segir: Proprietarii hafa bestillt og innkeypt til kirkjunnar nýjan og vænan silfurkaleik með patínu, hvorutveggja að innan forgyllt og að öllu forkostulegt.[361] Silfurkaleikurinn og patínan kostuðu samtals 56 ríkisdali og 30 skildinga[362] eða sem svaraði andvirði 14 kúgilda[363] sem var hreint ekki svo lítið. Báðir þessir gripir eru enn varðveittir í kirkjunni á Kirkjubóli og líka, að því er ætla má, skírnarfatið sem Hannes biskup nefnir í vísitazíugerð sinni frá árinu 1790 (sjá hér bls. 49). Sams konar skírnarfat var í kirkjunni á Stað í Súgandafirði og er nánari lýsingu að finna þar sem ritað er um gripi Staðarkirkju (sjá hér Staður).

Í vísitazíugerð séra Ásgeirs Jónssonar prófasts frá árinu 1830 sjáum við að þá stendur torfkirkja með timburgöflum á Kirkjubóli og árið 1838 var hún byggð upp undir sama byggingarformi.[364] Búin kirkjan í Dal, skrifar séra Sigurður Tómason í Holti í dagbók sína 28.6.1838[365] sem sýnir að þá hefur byggingu kirkjunnar verið lokið. Þessi nýja kirkja var um 20 fermetrar eða rétt liðlega það, 10 álnir á lengd og frekar 5 á breidd, segir séra Sigurður Jónsson, prófastur á Rafnseyri, og tekur fram að þetta sé sama stærð og á gömlu kirkjunni.[366]

Í lýsingu sinni á hinni nýju kirkju og gripum hennar kemst séra Sigurður meðal annars svo að orði:

 

Súðin beggja megin öll ný. Fjalagólf með slám, allt nýtt. Þrjú sæti eru henni að nýju tillögð, hvar af eitt er henni gefið af þremur bræðrum er það létu byggja fyrir konur sínar. Ein messuklæði eru henni tilheyrandi, þó mikið borin [þ.e. slitin – innsk. K.Ó.], kaleikur vænn, tréhjálmur renndur sem skal vera gefinn henni af prófasti, séra Ásgeiri Jónssyni. Tvær klukkur gamlar í framkirkjunni. Predikunarstóll gamall.[367]

 

Vart þarf að efa að bræðurnir þrír, sem gáfu kirkjunni sæti fyrir eiginkonur sínar, séu þeir Guðmundur, Guðni og Sturla Jónssynir sem allir bjuggu á Kirkjubóli eða í Dalshúsum þegar kirkjan var byggð (sjá hér bls. 33-35 og bls. 53-56). Ásgeir Jónsson prófastur, sem gaf kirkjunni tréhjálm þann sem nefndur er í vísitazíugerð séra Sigurðar á Rafnseyri, dó árið 1835 og má því ætla að hjálmurinn hafi fyrst verið hengdur upp í gömlu kirkjunni sem tekin var niður þegar sú nýja var reist árið 1838.

Kirkjan frá 1838 var í 5 stafgólfum[368] eins og sú sem hér stóð á sama grunni 100 árum fyrr (sjá hér bls. 43). Í vísitazíugerð séra Lárusar M. Johnsen í Holti frá árinu 1852 er að finna ágæta lýsingu á þessari kirkju og gripum hennar en nokkrir þeirra virðast hafa verið hinir sömu og kirkjan átti 1742. Séra Lárus ritar:

 

Í kórnum eru hálffóðraðir bekkir með bríkum við kórdyr. Altari sæmilegt með hurð á hjörum og trésnerli fyrir því gráðu vantar. Á kórbaki eru gluggar tveir, annar með fjórum en hinn með sex rúðum. Milli kórs og kirkju eru pílárar uppundir bita. Dyraumbúningur milli kórs og kirkju. Predikunarstóll sæmilegur. Í framkirkjunni, norðanvert, eru þrjú þversæti og tveir hálffóðraðir langbekkir fram úr. Sunnanvert eru einn stóll og tveir langbekkir með bríkum. Fyrir framan og aftan kirkju er slagþil með tveimur vindskeiðum. Dyrnar eru með öllum viðvanalegum umbúningi, með hurð á hjörum, skrá og lykli og koparhring. Yfir predikunarstól er gluggi með einni rúðu. …

Orna- og instrumenta eru þessi:

Hökull af svörtu, rósuðu léreftstaui, fóðraður með svörtu lérefti með rauðum silkikrossi, lögðum með gulum óektavírborða. Annar af rauðu rósasilki, fóðraður með rauðum rafndúk og lagður allt í kring með gulum, rósuðum silkiborða. Tvö rykkilín úr lérefti brúkanleg. Altarisklæði úr rauðu hvítþrykktu lérefti, fóðrað með bláröndóttu lérefti. Annað úr rauðu, hvítu og svartþrykktu lérefti, fóðrað með hvítu lérefti. Brún úr röndóttu lérefti, fornfáleg. Önnur úr hvítu lérefti með rauðu silkitvinnakögri.

Kaleikur úr silfri með patínu af sama, hvort tveggja gyllt innan. Þrjár kertapípur af kopar og ljósasöx af járni. Bakstursdósir af blikki, rauðmálaðar. Ljósberi af blikki. Tveir tréhjálmar, lítilfjörlegir. Tvær klukkur, sú stærri með þremur götum, hin heil og hljóðgóð. Í graftólum á kirkjan einn járnkarl. pál og varrekur. Hlerar eru fyrir kórgluggum. Skírnarfontur stór úr látúni.[369]

 

Er séra Oddur Sveinsson, prófastur á Rafnseyri, vísiteraði á Kirkjubóli sumarið 1855 var kirkjan frá 1838 orðin mjög léleg, enda þótt aðeins væru liðin 17 ár frá því hún var reist. – Kirkjan er að viðum orðin mjög svo hrörleg og komin að falli, einkum hvað alla suðurhlið hennar snertir, segir séra Oddur, og tekur fram að kórgaflinn sé líka svo gisinn að varla sé hægt að halda ljósum lifandi á altarinu.[370] Sumarið 1855 voru gripir kirkjunnar hinir sömu og verið hafði þremur árum fyrr nema hvað bæst höfðu við tvær altarispípur er Guðrún Thorstensen, sýslumannsekkja í Ytri-Hjarðardal hafði gefið kirkjunni.[371]

Sumarið 1856 var ráðist í að byggja nýja kirkju og ákveðið að hún yrði timburkirkja[372] en ætla má að allar hinar fyrri kirkjur í Valþjófsdal hafi verið torfkirkjur. Ekki tókst að ljúka við smíði kirkjunnar sumarið 1856 og þegar prófastur kom að vísitera í júní 1857 lá hið nýja guðshús undir skemmdum því ytra þakið vantaði með öllu og ekki var búið að fóðra gaflana.[373]

Séra Stefán Stephensen tók við prestsembætti í Holtsprestakalli árið 1855 og hefur því náð að syngja messu í torfkirkjunni á Kirkjubóli. Sumarið 1858 afsagði hann hins vegar með öllu að messa í nýju timburkirkjunni næsta vetur nema búið yrði að gera við hana.[374] Ytra þakið vantaði þá enn á kirkjuna og fleira var ófrágengið svo prestur taldi að hún væri enganveginn messufær.[375] Auk þess töldu prestur og prófastur gamla altarið vera öldungis óbrúkanlegt og músin var búin að skemma annan hökulinn.[376]

Sumarið 1860 tókst loks að ljúka við byggingu kirkjunnar, nema hvað dyragaflinn var lengi enn óþiljaður og einnig kórgaflinn fyrir ofan bita.[377] Þessi nýja timburkirkja var örlítið stærri en torfkirkjan frá 1838 hafði verið en þar munaði þó mjög litlu því utanmál nýju kirkjunnar segir Oddur prófastur hafa verið 11,5 x 5,75 álnir.[378] Reyndar taldi prófastur kirkjuna vera fullstóra fyrir hinn fámenna söfnuð.[379] Á timburkirkjunni frá 1856 voru tveir gluggar á hvorri hlið og 6 rúður í hvorum þessara glugga.[380] Yfir predikunarstól var svo gluggi með 4 rúðum.[381] Hurðin af gömlu kirkjunni var sett á þá nýju og skrúði og áhöld voru hin sömu og áður.[382] Altarið, sem talið var óbrúkanlegt árið 1858, gegndi áfram sínu hlutverki allt til ársins 1864 er Torfi Halldórsson á Flateyri, sem þá var einn af eigendum Dalskirkju, tók sig til og gaf henni nýtt altari.[383]

Árið 1871 átti Dalskirkja aðeins ein brúkanleg messuklæði en árið 1880 eignaðist hún nýtt rykkilín og nýjan hökul[384] í stað þess sem músin skemmdi þrettán árum fyrr.

Árið 1882 var timburkirkjan frá 1856 orðin mjög hrörleg í mörgu tilliti og varla messufær á vetrum, enda segir prófastur að hún hafi verið byggð af vanefnum.[385] Þá um haustið voru veggirnir umhverfis kirkjugarðinn byggðir upp – Vorum að byggja kirkjugarðinn, 21 maður og 12 hestar til að reiða á torfið, segir Jón Guðmundsson á Grafargili í dagbók sinni þann 3. október.[386]

Timburkirkjan, sem nú stendur á Kirkjubóli, var byggð árið 1886. Lokið var við smíðina á jólaföstu og kirkjan vígð á annan dag jóla á því ári.[387] Kirkjusmiðir voru tveir, þeir Jón Guðmundsson á Grafargili og Sigurður snikkari frá Dýrafirði.[388] Í dagbók sinni nefnir Jón frá Grafargili hvorki föðurnafn né heimilisfang Sigurðar snikkara, sem vann með honum að kirkjusmíðinni, en lætur nægja að taka fram að hann hafi verið frá Dýrafirði. Gunnar Hvammdal veðurfræðingur, sem þekkir manna best til fólks í Dýrafirði á síðari hluta 19. aldar, segir að hér komi aðeins einn maður til greina og er það Sigurður Jónsson snikkari sem við lok ársins 1886 var búsettur í húsi F.R.Wendel faktors á Þingeyri en átti fjórum árum síðar heima í Höll í Haukadal.[389] Sigurður snikkari, sem var maður ókvæntur, var árið 1886 orðinn 55 ára gamall.[390] Hann var Skagfirðingur að ætt og uppruna, sonur Jóns Samsonarsonar, fyrsta alþingismanns Skagfirðinga, og Guðrúnar Sigurðardóttur, konu hans,[391] en hafði lengi verið búsettur í Dýrafirði þegar hann tókst á hendur að reisa nýja kirkju í Valþjófsdal. Hin nýja kirkja var talsvert stærri en sú eldri og í vísitazíugerð prófasts frá haustinu 1887 er henni lýst á þess leið:

 

Kirkjan er 12 álnir á lengd og 7 álnir á breidd og rúmar 4 álnir undir bita. Sperrur eru 7 með gaflasperrum og bitar undir sperrunum nema tveimur hinum innstu yfir kórnum. Stóls- og gráðupallur er nýtt. Bekkir eru umhverfis í kórnum og einn lausabekkur með bakslá. Í framkirkjunni eru sex þversæti með bakslám. Kirkjan er að utan klædd plægðum borðum. Súðin er plægð og klædd pappaþaki. Á kirkjunni eru 3 sex rúðna gluggar á hvorri hlið með hlerum fyrir. Kirkjan er máluð ljósgrá að utan en gluggar hvítir og hurð og dyraumbúningur Húsið stendur á grunni hlöðnum úr grjóti. Á vesturgafli er turn. Yfir höfuð er kirkjan vandað hús og mjög laglegt, björt og svipgóð og vel frá henni gengið.[392]

 

Kostnaður við byggingu þessarar nýju kirkju, sem enn stendur, varð 871,68 krónur.[393] Hjá kirkjunni frá 1886 stóð á vígsludegi hennar klukknaport sem líka  hafði verið byggt þá um haustið.[394]

Sumarið 1882 var Kirkjubólskirkju gefinn nýr ljósahjálmur, með 8 pípum og skálum, en tréhjálmurinn sem Ásgeir Jónsson prófastur gaf hálfri öld fyrr (sjá hér bls. 45) mun þá hafa verið orðinn lélegur því hann er ekki talinn með gripum kirkjunnar á næstu árum.[395] Almenningur í sókninni lagði fram fé til kaupa á nýja hjálminum sem kostaði 39,- krónur en forgöngu um þá fjársöfnun hafði Jón Sveinbjörnsson skipstjóri, bóndasonur frá Kirkjubóli, sem andaðist 27 ára gamall úr mislingum sama sumar og ljósahjálmurinn var keyptur.[396] Úr mislingunum dóu að minnsta kosti 14 manneskjur úr Holtsprestakalli sumarið 1882 og þá um haustið.[397]

Áhöld og skrúðklæði Dalskirkju haustið 1885 voru auk ljósahjálmsins þessi:

 

Tvenn messuklæði, önnur ný síðan 1880, hin forn en þó nokkurn veginn nýtileg. Fjórir ljósastjakar, tveir úr látúni laglegir en hinir úr járnblikki. Skírnarfat. Silfurkaleikur með ártali 1792 og silfurpatína, korpóralklútur.[398]

 

Ennfremur átti kirkjan þá tvær klukkur, einn járnkarl, tvær skóflur og tvær rekur en í vísitazíugerð frá 13. september 1885 tekur prófastur sérstaklega fram að kirkjan eigi engar sálmabækur.[399] Þegar kirkjan var afhent söfnuðinum, sjö árum síðar, var búið að bæta úr þessum skorti  því þá átti hún þrjár sálmabækur, allar gefnar út árið 1884.[400]

Flesta gripi sem Kirkjubólskirkja átti árið 1885 á hún enn. Má þar nefna ljósahjálminn, ljósastjakana, skírnarfatið, kaleikinn frá 1792, patínuna og klukkurnar tvær. Ártalið á kaleiknum sýnir að skjótt hefur verið brugðist við ábendingu Hannesar biskups Finnssonar frá árinu 1790 um nauðsyn þess að kirkjan fengi nýjan kaleik (sjá hér bls. 43-45). Á kaleiknum og einnig á patínunni, sem mun vera frá sama tíma, standa bókstafirnir GBS sem líklega eru nafnstafir gefandans en hver hann var veit nú líklega enginn.

Skírnarfatið sem enn er hér mun tvímælalaust hafa verið komið í eigu kirkjunnar árið 1790 eins og sjá má á orðum Hannesar biskups Finnssonar sem hér hefur áður verið vitnað til. Líklegt er að kirkjan hafi eignast þetta skírnarfat alllöngu fyrr. Þess er þó ekki getið í vísitazíugerð Brynjólfs biskups Sveinssonar frá árinu 1639.[401]

Jón biskup Árnason nefnir aftur á móti skírnarfat í vísitazíugerð sinni héðan frá Kirkjubóli, sem rituð er árið 1725,[402] en lætur vera að lýsa því. Magnús Snæbjörnsson, prófastur á Söndum í Dýrafirði, vísiteraði hér 20. september 1742 en úr þeirri vísitazíugerð eru ýms orð máð út.[403] Þar má þó enn lesa : …t messing[404] og ekki ólíklegt að þetta t hafi verið síðasti bókstafurinn í orðinu skírnarfat. Sumarið 1774 segir sami prófastur kirkjuna hér á Kirkjubóli eiga skírnarfat af messing, yfrið fornt og óbrúkanlegt.[405]

Ljóst er að þessi kirkjugripur hefur alls ekki fallið að smekk Magnúsar en nokkrar líkur benda engu að síður til þess að skírnarfatið, sem hann taldi óbrúkanlegt árið 1774, hafi verið og sé það sama og enn er varðveitt hér á Kirkjubóli.

Í vísitazíugerð frá árinu 1775 er getið um skírnarfat af messing í Kirkjubólskirkju og það sagt vera ofurgrunnt og þess vegna varla ……t.[406] Þarna hefur að líkindum staðið og þess vegna varla brúkanlegt en nokkrir stafir eru nú máðir út.

Það var Björn prófastur Halldórsson í Sauðlauksdal sem var á ferð hér á Kirkjubóli sumarið 1775 og sú lýsing hans á skírnarfatinu að það sé ofurgrunnt passar alveg við það skírnarfat úr messing sem hér er enn. Það gera líka orð Hannesar biskups Finnssonar, sem bókuð voru hér í kirkjunni árið 1790, en hann segir skírnarfatið vera stórt og vænt (sjá hér bls. 44). Um skírnarfont eða skírnarfat hér í Kirkjubólskirkju er líka getið í vísitazíugerðum frá 1852 og 1885 (sjá hér bls. 46-49) og ekki annað að sjá en allt sé þetta einn og sami gripurinn.

Frá því fyrsta og allt til ársins 1892 var kirkjan á Kirkjubóli í Valþjófsdal eign þeirra sem jörðina áttu á hverjum tíma og taldist því vera bændakirkja nokkuð á fimmtu öld. Ráðagerðir um að söfnuðurinn tæki við kirkjunni voru til umfjöllunar árið 1891[407] en eigendur kirkjunnar voru þá Steinþór E. Jónsson, bóndi í Dalshúsum, og Ólafur Guðmundsson á Arnarnúpi í Dýrafirði.[408] Ólafur var maður ókvæntur en sagður fyrirvinna á búi mágkonu sinnar, Guðbjargar Bjarnadóttur á Arnarnúpi, sem orðin var ekkja.[409] Þann 22. ágúst 1892 var gengið frá málinu og tók söfnuðurinn við kirkjunni þann dag.[410] Er kirkjan var afhent söfnuðinum skuldaði hún eigendum sínum 374,11 krónur[411] eða sem svaraði um 43% af kostnaði við byggingu nýju kirkjunnar frá 1886. Þessa skuld féllust bændurnir, sem átt höfðu kirkjuna, á að gefa eftir.[412]

Kirkjan í Valþjófsdal hefur jafnan verið annexía eða útkirkja frá Holti, nema ef vera skyldi að einhverjir heimilisprestar hafi sungið hér tíðir í kaþólsku (sjá hér bls.16-20). Í Jarðabókinni frá 1710 er haft eftir gömlum mönnum að á fyrri tíð hafi Holtsprestar embættað fjórða hvern sunnudag á Kirkjubóli en nú í langan tíma aðeins fjórum sinnum á ári.[413] Ekki er ólíklegt að messunum hafi fækkað þegar Þóra í Dal féll frá árið 1652 og leiguliðar fengu jörðina til ábúðar í stað ríkra eigenda sem þar höfðu áður búið um langt skeið (sjá hér bls. 24-30). Seinna fjölgaði þó aftur messunum á Kirkjubóli og í sóknalýsingunni frá árinu 1840 kveðst séra Tómar Sigurðsson messa þrjá sunnudaga í röð í Holti en fjórða hvern á annexíunni, Kirkjubóli.[414]

Ekki verður annað séð en hinar eldri kirkjur hér á Kirkjubóli hafi staðið á sama stað og sú sem nú prýðir staðinn og stutt mun jafnan hafa verið milli bæjar og kirkju. Hér er á öðrum stað reynt að gera grein fyrir hvar nítjándu aldar bæirnir tveir, Skáli og Efribær, muni hafa staðið (sjá hér bls. 3-5).

Finnur Eiríksson og Guðný Guðnadóttir, kona hans, sem stóðu fyrir búskap á Kirkjubóli frá 1870 til 1905, bjuggu þar í neðri bænum sem nefndur var Skáli og nær fullvíst má telja faðir Guðnýjar, Guðni Jónsson, bóndi á Kirkjubóli, sem drukknaði árið 1852, hafi einnig búið þar. Tveimur árum fyrir dauða sinn gaf Guðni Dalskirkju grindarhurð í sáluhlið á kirkjugarðinum.[415] Það sáluhlið mun hafa snúið að bænum og varla verið langt á milli því frásögn af þessari gjöf Guðna orðar prófastur svo: Bóndinn Guðni Jónsson gaf henni [kirkjunni] grindarhurð í sáluhlið sem er frá bænum út í kirkjuna en sáluhlið annað grindarlaust.[416]

 

Frá kirkjunni víkjum við skamma stund að hjáleigunni Dalshúsum sem öldum saman stóð hér og lágu þá saman túnin á höfuðbólinu og í hjáleigunni. Bæjarlækurinn á Kirkjubóli skildi þar á milli en hann kom úr Lambakeldu sem er uppspretta á Bólinu framan við túnin.[417] Þar í grennd var búsmali frá Kirkjubóli og Dalshúsum vanur að skipta sér á Krossgötum er svo voru nefndar.[418]

Í Dalshúsum var búið allt til ársins 1957 (sjá Firðir og fólk 1900-1999, 341). Bærinn sem þar stóð síðast var í um það bil 200 metra fjarlægð frá núverandi íbúðarhúsi á Kirkjubóli í átt til norðvesturs.[419] Á bæjarstæðinu í Dalshúsum stóð enn uppi skorsteinn sumarið 1993 og ein hrísla. Síðustu 125 árin sem búið var í Dalshúsum var þar jafnan aðeins eitt býli en áður voru hjáleigurnar tvær um langt skeið. Í byrjun 18. aldar voru hjáleigur þessar nefndar Dalshús heimari og Dalshús ytri.[420] Fyrrnefnda hjáleigan var þá talin 10 hundruð að dýrleika en hin 6 hundruð.[421] Í Jarðabókinni frá 1710 eru líka nefnd Miðhús, þriðja hjáleigan í landi Kirkjubóls, en tekið fram að þar hafi enginn búið yfir hundrað ár.[422] Í Miðhúsum hefur byggð því fallið niður um 1600 eða máske fyrr. Í byrjun 18. aldar voru hins vegar vallgrónar rústir þar sem bær þessi hafði staðið[423] og í byrjun 19. aldar voru Mðhús höfð til beitar frá Dalshúsum ytri.[424]

Á fyrri hluta 20. aldar voru miklar rústir fremst í Dalshúsatúninu, fjallmegin við Kirkjuból, og báru nafnið Dauðibær.[425] Örnefnið Dauðibær lifir enn og hreint ekki ólíklegt að þarna hafi staðið býli. Munnmæli herma að fólkið á bæ þessum hafi allt dáið snögglega af hákarlsáti eða vegna neyslu einhvers annars nýmetis sem það þoldi ekki.[426]

Enda þótt hjáleigurnar á Kirkjubóli, sem um er kunnugt, hafi verið þrjár munu aldrei hafa verið nema tvær í byggð á sama tíma. Hér hefur áður verið nefnt að hætt var að búa í Miðhúsum um 1600 eða jafnvel nokkru fyrr en í Jarðabókinni frá 1710 er tekið fram að í Dalshúsum ytri hafi búskapur ekki byrjað fyrr en fyrir 100 árum eður þar um.[427] Þeir sem áttu heima í Valþjófsdal árið 1710 gátu hins vegar enga grein gert fyrir því hvenær búhokur hefði hafist í Dalshúsum heimari[428] og má því gera ráð fyrir að sú hjáleiga hafi verið nokkru eldri og ef til vill mun eldri.

Í heimildum frá 18. öld eru Dalshús ytri stundum nefnd Dalshús neðri eða bara ytri hús og líka finnast dæmi um að Dalshús heimari sé nefnd Dalshús efri eða innri hús[429] og í Manntalinu frá 1703 eru bæði kotin nefnd Dalstaðarafbýli.[430] Allt eru þetta þó vafalaust nöfn á sömu hjáleigunum sem aldrei voru nema tvær í byggð. Í minni hjáleigunni, Dalshúsum ytri, var þó stundum tvíbýli[431] og hefur þá verið þröngt setinn bekkurinn.

Í byrjun 18. aldar var landskuld af Dalshúsum heimari þrjár vættir[432] eða sem svaraði hálfu kýrverði. Þessari hjáleigu fylgdu þá þrjú innstæðukúgildi og voru leigurnar fyrir þau borgaðar í smjöri[433] eins og algengast var. Eftir Jónsbókarlögum ætti smjörgjaldið að hafa verið 30 kíló á ári fyrir þessi þrjú kúgildi.[434] Allt þetta smjör varð hjáleigubóndinn að færa prestinum í Holti upp í þá vætt smjörs sem þangað átti að gjaldast frá Kirkjubóli[435] en sú smjörvætt hefur verið greiðsla til prestsins fyrir tíðasöng í Dalskirkju.

Landskuld af Dalshúsum ytri var á fyrstu árum 18. aldar tvær og hálf vætt og þar voru leigukúgildin tvö.[436] Kotungnum sem þar bjó var gert að borga leigurnar með specie peningum en í þeim viðskiptum var einn ríkisdalur virtur á við 25 pund af smjöri.[437]

Árið 1805 var enn búið í báðum Dalshúsunum. Árni Bárðarson og Margrét Björnsdóttir, kona hans, voru þá í Dalshúsum ytri en Jón Árnason, sonur þeirra, og Ólöf Jónsdóttir, kona hans, í Dalshúsum efri eða heimari.[438] Árni Bárðarson, sem hér hefur áður verið nefndur, var sonur Bárðar Illugasonar í Arnardal við Skutulsfjörð sem keypti Kirkjuból í Valþjófsdal og Dalshúsin með árið 1770 (sjá hér bls. 32-33). Árni andaðist í Dalshúsum liðlega sextugur að aldri sumarið 1806[439] og flest bendir til þess að Dalshús ytri hafi þá farið í eyði. Svo mikið er víst að í marsmánuði árið 1818 var Jón Árnason eini bóndinn í Dalshúsum[440] en hann bjó þrettán árum fyrr í Dalshúsum efri (heimari). Bóndi þessi í Dalshúsum var hreppstjóri og er titlaður signor í sóknarmannatalinu sem tekið var árið 1818.[441] Jón Árnason bjó í Dalshúsum frá 1796 til 1821[442] og dvaldist þar síðan áfram hjá börnum sínum.

Árið 1829 var tvíbýli í Dalshúsum en þá bjuggu þar bændurnir Sturla Jónsson og Árni Jónsson.[443] Árni var kvæntur Sigríði Narfadóttur en kona Sturlu var Margrét Jónsdóttir, systir Árna.[444] Þau Margrét og Árni voru bæði börn Jóns Árnasonar sem lengi bjó í Dalshúsum[445] og hér var áður nefndur. Í sóknarmannatalinu frá 1829 verður ekki séð hvort þeir mágar, Sturla og Árni, bjuggu báðir í sama bænum.[446] Börn Árna, Ólöf og Engilbert, sem voru annað fjögra ára en hitt eins árs árið 1829, eru þó sögð fædd í Dalshúsum ytri,[447] sem bendir til þess að foreldrar þeirra hafi búið þar. Við fæðingu þessara barna segir presturinn foreldra þeirra hins vegar eiga heima á Dalshúsum og tekur ekki fram að það séu Dalshús ytri.[448] Með hliðsjón af því sem segir í sóknarmannatalinu um fæðingarstað barnanna verður þó að telja mjög líklegt að Árni Jónsson hafi búið í Dalshúsum ytri en hann hefur þá verið síðasti bóndinn sem þar bjó.[449] Árni Jónsson fluttist, ásamt konu sinni og börnum, frá Dalshúsum að Álfadal á Ingjaldssandi vorið 1833[450] en drukknaði þá um sumarið eins og frá er greint á öðrum stað í þessu riti (sjá hér Álfadalur). Ólöf Árnadóttir, sem fluttist barn að aldri með foreldrum sínum frá Dalshúsum að Álfadal vorið 1833, eignaðist síðar barn með stjúpföður sínum og var dæmd til dauða fyrir sifjaspell (sjá hér Álfadalur).

Er Árni Jónsson fluttist á Ingjaldssand varð Sturla Jónsson, mágur hans, eini bóndinn í Dalshúsum og þá voru báðar hjáleigurnar sameinaðar í eitt býli sem æ síðan var nefnt Dalshús án frekari kennimerkja. Er hjáleigurnar voru sameinaðar í eitt býli urðu Dalshús 16 hundraða jörð[451] því Dalshús heimari töldust vera 10 hundruð og Dalshús ytri 6 hundruð eins og hér var áður nefnt. Á 19. öld var Kirkjuból með Dalshúsum jafnan talið 48 hundruð að dýrleika[452] svo ljóst er að ábýli bóndans í Dalshúsum hefur verið metið til jafns við hálfa heimajörðina á Kirkjubóli.

Flestum hjáleigum fyrri tíðar fylgdi aðeins svolítill túnblettur og eitthvert engjapláss en ekkert afmarkað haglendi. Beitarréttindi hjáleigubænda voru því illa tryggð og oft komin undir náð þeirra sem sátu á heimajörðinni. Þannig háttaði líka til í Valþjófsdal í byrjun 18. aldar því í Jarðabók Árna og Páls er tekið fram að beitilandið sé óskipt milli Kirkjubóls og Dalshúsa.[453] Síðar var landinu skipt og sérstök landamerki ákveðin milli Kirkjubóls og Dalshúsa. Í landamerkjaskrá Kirkjubóls frá árinu 1882 segir:

 

Ítök í Kirkjubólslandi eiga Dalshús frá Torfabrekku heim í vörðu á Svartabakka og frá garði, sem liggur fyrir framan Kirkjubóls- og Dalshúsatúnin, beint frá Dalsá upp í fjall og að vörðunum fyrir utan Skáladal er þær bera hvor í aðra. Fjörubeit og skipsuppsátur að réttu hlutfalli við Kirkjuból.[454]

 

Til skýringar skal þess getið að Skáladalur skerst inn í háfjallið ofan við Dalshús og Kirkjuból. Framan við hann er fjallið Stakkur, þá Bessaskál og síðan Torfabrekkuhorn[455] en niður undan því er Torfabrekka[456] sem um er getið í landamerkjalýsingunni. Svartibakki, sem þar er nefndur, er hins vegar hár árbakki við Dalsá, skammt fyrir framan túnið á Kirkjubóli.[457]

Landamerkjalýsingin frá 1882 sýnir að við skiptingu haganna hafa Dalshús fengið í sinn hlut Skáladal og nær alla hlíðina frá gömlu heimatúnunum og fram undir mynni Dalsdals. Kirkjuból hélt hins vegar öllu sínu landi í Dalsdal og hlíðinni utan og neðan við Skáladal.[458] Ekki hefur verið kannað til hlítar hvenær högunum var skipt með þessum hætti en það hefur tvímælalaust gerst á tímabilinu frá 1710-1882 eins og sjá má á því sem hér hefur verið ritað. Líklegast er að frá skiptingunni hafi verið gengið þegar bræðurnir þrír, Guðmundur, Guðni og Sturla Jónssynir, bjuggu á Kirkjubóli og í Dalshúsum á árunum 1834-1852.

Í landamerkjaskrá Dalshúsa frá árinu 1891 er tekið fram að Dalshús eigi tvö engjastykki innan um Kirkjubólsengjar og þau nefnist Stóripartur og Sund.[459] Bæði þessi slægjulönd eru í Dalsengi, mýrlendi sem náði frá Dalshúsatúni niður að sjávarkambinum.[460] Parturinn sem nefndur var Sundin var efst í Dalsengi en Stóripartur neðar og náði niður að ánni og Búðalæk.[461] Um hann lá upphlaðinn vegur niður að sjó[462] þar sem nú er akvegurinn (sjá hér bls. 58).

Frá því um 1775 og til 1885 bjó sama fólkið í Dalshúsum og tók þá jafnan sonur eða dóttir við búi af sínum foreldrum. Eins og áður var getið hóf Árni Bárðarson sinn búskap í Dalshúsum ytri um 1775 (sjá hér bls. 32-33) og bjó þar til dauðadags árið 1806. Er Árni lést var Jón sonur hans farinn að búa í Dalshúsum heimari (efri) og bjó síðan fyrstur manna, svo um sé kunnugt, einn á báðum  hjáleigunum (sjá hér bls. 53). Jón Árnason missti konu sína árið 1821[463] og um 1825 munu sonur hans og tengdasonur, þeir Árni Jónsson og Sturla Jónsson, hafa tekið við búsforráðum. Báðir bjuggu þeir í Dalshúsum árið 1829 en þegar Árni fluttist á Ingjaldssand vorið 1833 voru báðar hjáleigurnar í Dalshúsum sameinaðar endanlega í eitt býli (sjá hér bls. 53-54) og þar bjó Sturla til dauðadags árið 1865.[464] Sonur Sturlu, Guðmundur að nafni, tók þá við af föður sínum og bjó í Dalshúsum uns hann fluttist á Ingjaldssand árið 1885.[465] Þá fyrst var heimilið, sem til var stofnað í Dalshúsum um 1775, tekið upp og nýtt fólk settist á jörðina.

Sturla Jónsson, sem bjó í Dalshúsum frá því um 1825 og til 1865, var fæddur 2. ágúst 1798, sonur Jóns Guðmundssonar, bónda á Kirkjubóli, sem hér hefur áður verið nefndur, og fyrri konu hans er hét Guðrún Sturludóttir.[466] Tveir hálfbræður Sturlu, Guðmundur og Guðni Jónssynir, bjuggu honum samtíða á Kirkjubóli eins og hér hefur áður verið rakið. Sturla var tvíkvæntur eins og faðir hans. Fyrst kvæntist hann Margréti, dóttur Jóns Árnasonar í Dalshúsum, og var brúðkaup þeirra haldið haustið 1824.[467] Margrét dó tíu árum síðar en haustið 1835 gekk Sturla að eiga Kristínu Ebenezersdóttur, sem var systir Kristjáns Ebenezerssonar er síðar varð stórbóndi og dannebrogsmaður í Reykjarfirði við Djúp.[468]

Sturla Jónsson í Dalshúsum mun hafa verið gildur bóndi á sinnar tíðar vísu. Vorið 1850 átti hann fjórar kýr í fjósi, eina kvígu og einn kálf.[469] Ærnar í Dalshúsum voru þá 24 en Sturla átti líka 16 sauði og hrúta, 12 gemlinga, 20 lömb og tvo hesta.[470] Bátaeign Sturlu var um þetta leyti meiri en annarra bænda í Mosvallahreppi ef frá er talinn Magnús Einarsson á Hvilft.[471] Bóndinn í Dalshúsum átti vorið 1850 hálfan áttæring, einn sexæring eða fjögra manna far og einn minni bát.[472] Einn bátur, sem Sturla átti, gekk frá Kálfeyri vorið 1852[473] og fimm árum síðar var hann enn formaður þar á vorvertíð[474] þó orðinn væri nær sextugur. Sturla Jónsson í Dalshúsum var lengi hreppstjóri í Mosvallahreppi[475] og það hafði Jón Árnason tengdafaðir hans, sem áður bjó í Dalshúsum, líka verið (sjá hér bls. 53).

Einn þriggja sona Sturlu og Kristínar, konu hans, sem upp komust var Guðmundur Sturluson, fæddur 1839.[476] Hann tók við búi í Dalshúsum er faðir hans andaðist árið 1865 og bjó þar í 20 ár. Á sínum búskaparárum mun Guðmundur hafa haldið prýðilega í horfinu og á einum stað er frá því sagt að á áttunda og níunda áratug 19. aldar hafi bóndinn í Dalshúsum verið talinn annar sá ríkasti í röðum bænda þar í hreppnum.[477]

Fyrri kona Guðmundar Sturlusonar var Kristín, dóttir Jóns Bjarnasonar, bónda á Sæbóli á Ingjaldssandi, en síðari kona hans var Guðrún Jóna Sakkaríasdóttir frá Alviðru í Dýrafirði.[478] Árið 1885 brá Guðmundur í Dalshúsum á það ráð að taka sig upp og flytjast að Sæbóli á Ingjaldssandi. Búskapur hans þar stóð þó stutt því hann andaðist í janúarlok árið 1887 og var þá tæplega 48 ára gamall.[479] Sonur Guðmundar Sturlusonar, sem Ágúst hét, bjó síðar lengi á Sæbóli og börn hans bjuggu  þar enn árið 1993.

Er Guðmundur fluttist á Ingjaldssand árið 1885 gerðist Jón Gabríelsson bóndi í Dalshúsum en bjó þar aðeins í tvö ár, 1885-1887.[480] Hann bjó síðar lengi á Fjallaskaga í Dýrafirði (sjá hér Fjallaskagi). Vorið 1887 settust hjónin Steinþór E. Jónsson og Margrét Jóhannesdóttir að í Dalshúsum og tóku þar við búsforráðum.[481] Steinþór var bróðir Eyjólfs Jónssonar, sem hóf búskap í efri bænum á Kirkjubóli í Valþjófsdal vorið 1881 (sjá hér bls. 38-39), en báðir voru þeir fæddir í Mýrartungu í Reykhólasveit.[482] Fyrir 1887 hafði Steinþór átt heima á Kirkjubóli í fáein ár og nytjaði part úr Dalshúsum allt frá árinu 1885.[483]

Þegar Steinþór tók við búi í Dalshúsum vorið 1887 voru þar býsna myndarleg húsakynni. Baðstofan var 12,5 x 5 álnir,[484] það er 24,6 fermetrar. Hæð baðstofuhússins var 4,4 metrar og loft var í því öllu.[485] Allt baðstofuloftið var undir súð og á baðstofunni voru timburgaflar til beggja enda og náðu niður fyrir neðri glugga.[486] Á baðstofuloftinu voru 5 gluggar og svo 2 gluggar niðri.[487]

Bæjargöngin voru um 3,8 metrar á lengd og liðlega einn metri á breidd.[488] Búrið í Dalshúsum var árið 1887 um það bil 10 fermetrar og hæð þess liðlega 3 metrar.[489] Eldhúsið var nokkru minna eða því sem næst 7 fermetrar og hæðin sú sama og í búrinu.[490]

Eitthvað höfðu bæjarhúsin látið á sjá í búskapartíð Jóns Gabríelssonar en við úttektina sem fór fram 4. júní 1887 greiddi hann samstundis álagið sem var 103,- krónur með ýmsu innanhúss.[491]

Þess er svo vert að geta að þegar Guðmundur Sturluson hóf búskap í Dalshúsum vorið 1867, tuttugu árum á undan Steinþóri, stóðu hér að kalla hin sömu bæjarhús og Steinþór fékk til umráða.[492] Stærð baðstofunnar og eldhússins var óbreytt.[493] Síðan þá hafði búrið hins vegar skroppið saman en göngin verið stækkuð dálítið[494] Í úttektinni frá 11. júní 1867 er líka tekið fram að niðri á baðstofugólfinu sé skrálæst hús með tveimur rúmum,[495] sem merkir að undir baðstofuloftinu hefur verið eitt alþiljað herbergi.

Steinþór E. Jónsson, sem tók við búi í Dalshúsum vorið 1887, var umsvifamaður í búskap og kappsamur sjósóknari. Í ýmsum heimildum er hann nefndur Steindór en sjálfur ritaði hann Steinþór.[496] Hann bjó í Dalshúsum í 40 ár, frá 1885-1925 (sjá Firðir og fólk 1900-1999,341) en hafði þar aðeins jarðarpart til ábúðar fyrstu tvö árin eins og fyrr var getið. Árið 1892 var hann annar tveggja eigenda Kirkjubóls og Dalshúsa[497] og um 1920 átti hann 10 hundruð í Dalshúsum og 8 hundruð í Kirkjubóli.[498] Meðeigendur hans voru þá Eyjólfur, bróðir hans á Kirkjubóli, sem átti aðra hálflenduna þar ásamt Steinþóri, og Guðrún Sakkaríasdóttir á Sæbóli, sem átti 6 hundruð í Dalshúsum,[499] en hún var ekkja Guðmundar Sturlusonar sem hér hafði búið næstur á undan Steinþóri.

Í dagbók sinni frá síðasta áratug 19. aldar minnist Jón Guðmundsson frá Grafargili stöku sinnum á sjósókn Steinþórs í Dalshúsum. Þann 5. nóvember 1892 fékk Steinþór 160 þorska og ýsur framundan Klofningnum í einum róðri[500] og þremur árum síðar var hann farinn að beita síld[501] sem þá mátti heita nýjung.[502] Niður við Dalssjó var Steinþór með hjall sem stóð yst á kambinum, utantil við naustin.[503]

Árið 1925 tóku synir Steinþórs, Ólafur og Jóhannes, við búsforráðum í Dalshúsum (sjá Firðir og fólk 1900-1999, 341). Jóhannes bjó aðeins í fáein ár með bróður sínum en Ólafur Steinþórsson hélt áfram búskap allt til ársins 1952. Þeir feðgar, Steinþór E. Jónsson og Ólafur Steinþórsson, stóðu því fyrir búi í Dalshúsum í 67 ár en skömmu á undan þeim bjuggu þar aðrir feðgar í 60 ár, þeir Guðmundur Sturluson og Sturla Jónsson, eins  og hér hefur áður verið rakið. Samtals stóðu þessir tvennir feðgar því fyrir búi í Dalshúsum í 127 ár.

Frá bæjarhólnum á Kirkjubóli höfum við fyrir skömmu litið til fjalla hér í Valþjófsdal og reynt að gera okkur grein fyrir landslaginu í höfuðdráttum (sjá hér bls. 5-8). Nú mun tímabært að hefja göngu um hina fornu landareign Kirkjubóls í því skyni að líta nánar á eitt og annað sem þar er að sjá. Frá rústum bæjarins í Dalshúsum horfum við fyrst litla stund upp í hlíðina þar sem bæjarlækur fólksins sem hér bjó skoppar glaður niður brattlendið. Þarna í hlíðinni heitir hann reyndar Bjartilækur[504] og ber nafn með réttu.

Talið er að Dalsá hafi fyrr á öldum runnið fyrir ofan garð í Dal (sjá hér bls. 6), það er fjallmegin við bæina á Kirkjubóli, og sáust þess enn merki á fyrri hluta tuttugustu aldar.[505] Þessi ummerki blasa ekki lengur við augum og má vera að ræktunarframkvæmdir á síðustu áratugum valdi þar nokkru um. Við tökum því stefnuna í átt til sjávar og fylgjum akveginum. Sá vegur liggur þar sem lagður var upphleyptur vagnvegur yfir mýrlendið fyrir bílaöld.[506] Leið okkar til sjávar liggur um hin fornu engjalönd Kirkjubóls, Dalsengið, en stórum hluta þess hefur nú verið breytt í tún. Geldingaholt hefur verið ræktað upp en er þó enn á sínum stað, skammt neðan við gömlu túnin. Sagt var að þar byggi álfkona sem beitti fé sínu uppi í Skáladal.[507] Dalsengi var áður á árum skipt í fjölmarga engjaparta og segir á einum stað að 20 partar hafi fylgt hvorri hálflendu á Kirkjubóli.[508]

Á leið okkar til sjávar gefum við gaum að Þorfinnsstaðaánni sem fellur okkur á hægri hönd. Áður féll hún í sveig lengra til vesturs en nú er.[509] Landamerki Kirkjubóls og Þorfinnsstaða fylgdu þá meginfarvegi árinnar en þegar ráðist var í að breyta farveginum og veita ánni framrás beinustu leið til sjávar lenti svolítill skiki úr landi Þorfinnsstaða vestan ár en landamerkin fylgja enn hinum eldri farvegi árinnar.[510]

Landamerkjaskrá Kirkjubóls frá árinu 1882 ber með sér að þá hefur verið búið að breyta farvegi árinnar en þar segir að landamerki milli Kirkjubóls og Þorfinnsstaða séu: Þorfinnsstaðaá upp að Búðarlæk, eftir honum að brúnni og svo eftir veginum heim að brúnni milli bæjanna.[511]

Lækinn sem hér kemur við sögu nefna menn nú Búðalæk[512] en hann kemur úr mýrinni og rennur í Þorfinnsstaðaá rétt ofan við sjávarkambinn.[513] Brú var yfir hann þar sem gamla reiðgatan lá niður að sjó, um það bil miðja vega milli árinnar og akvegarins en þó nær veginum,[514]og árið 1882 var komin brú á Þorfinnsstaðaá (sjá hér Þorfinnsstaðir), milli bæjanna eins og landamerkjalýsingin ber með sér.

Spölurinn frá Kirkjubóli og Dalshúsum niður að sjó er ekki langur, aðeins tæplega einn kílómetri. Fyrr en varir stöndum við hjá Búðalæk[515] rétt ofan við sjávarkambinn. Annar lækur í Dalsengi, þar sem hétu Augnapartar, ber nafnið Morðingi[516] og mun hafa grafið sig niður svo skepnum stafaði hætta af.[517]

Frá sjávarkambinum liggur hér svolítill rani upp með ánni og heitir Árnes.[518] Þar byggði Jón Guðmundsson, smiður frá Grafargili, timburhús árið 1896[519] og segir Óskar Einarsson læknir að það hafi líklega verið fyrsta íbúðarhús úr timbri í núverandi Mosvallahreppi.[520] Um Jón Guðmundsson frá Grafargili er getið víða á þessum blöðum og margvíslegar upplýsingar sóttar í hans góðu dagbók frá árunum 1880-1897. Jón var bóndasonur, fæddur árið 1854. Ungur að árum fór hann að fást við smíðar og voru þær um alllangt skeið hans aðalstarf ásamt verkstjórn við ýmsar verklegar framkvæmdir, ekki síst vegagerð.

Í byrjun júní árið 1895 hófst vegavinna á Hvilftarströnd og þar var Jón verkstjóri. Hann skrifar þá í dagbók sína þann 2. júní: Vestan gott veður. Var á Flateyri. Borðaði þar morgunmat og hádegiskaffi. Trúlofaði mig með Marsibil Kristjánsdóttur á Sólbakka klukkan að ganga 12.[521]

Um það leyti sem Jón og Marsibil hétu hvort öðru eiginorði fór hann að hugsa til þess að koma upp húsi sem þau gætu búið í og virðist fljótlega hafa fengið augastað á Árnesi sem heppilegum stað fyrir þennan framtíðarbústað. Um veturnætur haustið 1895 fer Jón vestur í Keldudal í Dýrafirði í þeim tilgangi að fá pláss undir húsið mitt við Dalssjóinn eins og hann kemst sjálfur að orði.[522] Ólafur Guðmundsson á Arnarnúpi í Keldudal var þá einn eigenda Kirkjubóls og við hann samdi Jón um kaup á einu hundraði að nýju mati úr landi Kirkjubóls.[523] Fyrir þessa landspildu greiddi Jón 135,- krónur,[524] 25,- krónum meira en hann greiddi næsta sumar fyrir kú er hann keypti á Mosvöllum.[525]

Er lóðin var fengin hófst hinn trúlofaði smiður þegar handa við að undirbúa bygginguna. Þann 29. nóvember 1895 var hann að bera við inn á Kamb[526] og rétt eftir áramótin var búið að reisa einhvern hluta hússins eða koma upp bráðabirgðaskýli sem hægt var að sofa í. Dagbókarskrif Jóns sýna þetta því 7. janúar 1896 ritar hann þessi orð: Er ég nú búinn að sofa hér í tvær nætur einn og sef ég hér í nótt þá þriðju og kalla ég þetta pláss Árnes.[527]

Þann 25. mars 1896 fer Jón yfir að Sólbakka og sækir sex tylftir af borðum og 50 af múrsteini til hússins[528] og 15. apríl þá um vorið lætur hann þess getið að húsið eigi að verða 14 álnir á lengd en 10 álnir og 8 tommur á breidd.[529] Fyrir miðjan júlí um sumarið var búið að setja pappann á[530] og þann 21. júlí kom unnusta Jóns, sem hann kallar Billu, yfir fjörðinn frá Sólbakka og lét gluggatjöld fyrir svefnherbergisgluggann.[531] Þá hefur húsið verið tilbúið svo hægt væri að taka á móti kvenmanni. Sex dögum síðar voru þau gefin saman í hjónaband. Frá brúðkaupinu segir smiðurinn með þessum orðum: Í dag höfum við látið gifta okkur, Jón Guðmundsson og Marsibil Kristjánsdóttir. … Var 21 í veislunni okkar og hélt Hans Ellefsen hana.[532] Það er Ellefsen, hvalveiðaforstjóri á Sólbakka sem heldur veisluna en þar hafði Marsibil verið vinnukona.

Þann 24. mars 1897 var hús Jóns Guðmundssonar í Árnesi tekið út og virt til peningaverðs á 1.900,- krónur.[533] Að sögn virðingarmannanna var grunnflötur hússins 14 x 10 álnir eða rétt liðlega 55 fermetrar en því fylgdi líka skúrbygging sem var 7 x 5,5 álnir.[534] Húsið var portbyggt[535] og hefur því verið á tveimur hæðum en uppi á loftinu var allt óinnréttað þegar húsið var tekið út.[536] Að sögn virðingarmannanna var húsið með pappaþaki[537] en á þessum árum voru þök og veggir timburhúsa stundum klædd með tjörupappa sem átti að heita vatnsheldur.

Hús Jóns Guðmundssonar í Árnesi stóð þar í 9 ár og þar gisti alþýðuskáldið Magnús Hjaltason, hjá þeim Marsibil og Jóni, þann 13. mars árið 1899.[538] Árið 1905 réðst Jón í að hefja búskap á annarri hálflendunni á Kirkjubóli og flutti þá timburhúsið með sér þangað heim (sjá hér bls. 4).

Einu byggingarnar, sem nú standa hér við Dalssjóinn (1993), eru nýlegur sumarbústaður og þar rétt hjá lítið geymsluhús sem honum fylgir, líka fárra ára gamalt. Síðarnefnda húsið er byggt á grunni íbúðarhússins sem Jón Guðmundsson byggði árið 1896.[539] Kjallaraveggirnir sem Jón hlóð úr vænum steinum fyrir 100 árum standa enn og blasa við augum sé kíkt inn í litla húsið sem nú stendur hér á sama grunni.

Hér hefur áður verið sagt lítið eitt frá sjósókn Dalmanna áður en vélar fóru að koma í bátana (sjá hér bls. 39-41) en skömmu eftir aldamótin 1900  og eigi síðar en 1906 var farið að gera héðan út vélbáta.[540] Í Önundarfirði urðu Dalmenn einna fyrstir til að koma sér upp vélbátum og með vélvæðingunni hófst hér við Dalssjóinn blómaskeið í útgerð sem stóð í hálfan annan áratug eða því sem næst. Til marks um þetta má nefna að á árunum kringum 1910 var mjög algengt að Sandmenn reru héðan úr Valþjófsdal á bátum Dalmanna.[541]

Um það leyti sem vélbátaútgerðin hófst eða litlu síðar byggðu Eyjólfur Jónsson, bóndi á Kirkjubóli, og synir hans myndarlegt timburhús niður við Dalssjóinn. Hús þetta var í fyrstu notað sem verbúð og lágu synir Eyjólfs, þeir Jón og Kristján, hér við á sumrin.[542] Þeir voru þá báðir formenn á vélbátum sem þeir áttu sjálfir, Jón á Trausta en Krisstján á Valþjófi.[543] Jón Eyjólfsson fluttist til Flateyrar árið 1916[544] en Kristján, bróðir hans, lét breyta verbúðinni í íbúðarhús og fór að búa í því árið um kring um það leyti sem hann gekk í hjónaband en það var árið 1919.[545] Kona Kristjáns Eyjólfssonar var María Einarsdóttir og árið 1920 fluttust foreldrar hennar, þau Einar Jóhannesson og Ragnhildur Bjarnadóttir í Valþjófsdal.[546] Þau munu þá þegar hafa sest að við Dalssjóinn[547] og í manntali frá 1.12.1920 er Einar sagður stunda fiskvinnu.[548] Timburhúsin við Dalssjó voru þá tvö og bjó Kristján í öðru og Einar í hinu.[549] Samtals voru 10 manneskjur þá búsettar á þessum tveimur heimilum hér á sjávarkambinum.[550]

Í fasteignamatsskjölum frá því um 1920 eru bæði íbúðarhúsin við Dalssjó skilgreind sem verbúðir[551] en athygli vekur hversu hátt þessar verbúðir voru metnar. Annað húsið var metið á 1.800,- krónur en bæjarhús á fjölda býla í hreppnum voru þá virt til mun lægra verðs.[552] Hitt timburhúsið við Dalssjó var ásamt hjalli virt á 700,- krónur en til samanburðar má nefna að kirkjan, sem enn stendur á Kirkjubóli, var á sama tíma virt á 900,- krónur.[553] Fleiri byggingar stóðu við Dalssjó árið 1920 og er þar helst að nefna fisktökuhús sem var virt á 900,- krónur og úthýsi, virt á 700,- krónur.[554] Í einhverju þessara húsa,líklega fisktökuhúsinu, var fært upp leikritið Maður og kona eftir Jón Thoroddsen og var sú sýning lengi í minnum höfð.[555]

Árið 1920 var eitt og annað í ráðagerðum, sem varðaði eflingu byggðar í Valþjófsdal, og má sem dæmi nefna að á því ári voru samþykkt á Alþingi lög um að löggilda þar verslunarstað.[556] Sú lagasetning sýnir að stefnt hefur verið að því að við Dalssjó yrði uppskipunarhöfn fyrir verslunarvörur en þau áform munu aldrei hafa orðið að veruleika.

Þegar árið 1921 gékk í garð benti flest til þess að byggðin hér á sjávarkambinum ætti framtíð fyrir sér en oft skipast veður í lofti með skjótum hætti. Þann 22. september 1921 fórst mótorbáturinn Valþjófur með allri áhöfn í fiskiróðri.[557] Formaður á honum var Kristján Eyjólfsson sem hér bjó, 38 ára að aldri, en með honum fórust Pétur Einarsson, mágur hans, 24 ára, Guðjón Jörundsson, 27 ára húsmaður á Flateyri og bróðir Guðjóns, Gísli G. Jörundsson, 19 ára vinnumaður á Álfadal.[558] Pétur átti heima hjá foreldrum sínum hér við Dalssjóinn þegar hann drukknaði.[559]

Segja má að hið þunga áfall sem yfir dundi þegar Valþjófur fórst hafi orðið upphafið að endalokum bátaútgerðar frá Dalssjó. Ekkjan María Einarsdóttir og foreldrar hennar fluttust burt úr Valþjófsdal árið 1922[560] og settust að á Flateyri. Bæði íbúðarhús þeirra voru líka flutt til Flateyrar og stóðu þar enn sumarið 1993. Hús Kristjáns og Maríu var þá í eigu Kíwanismanna og er númer 15 við Grundarstíg en hús Einars og Ragnhildar stendur við Ránargötu, gjörbreytt frá því sem áður var.[561]

Frá árinu 1922 hefur aldrei verið búið við Dalssjóinn en einum eða fleiri vélbátum var haldið þaðan til róðra allt til ársins 1927. Síðast var það Flosi sem Hallgrímur Guðmundsson á Grafargili átti en þann bát rak upp haustið 1927 og lagðist þá niður öll vélbátaútgerð  héðan.[562]

Fjórtán árum síðar, vorið 1941, fór Gísli Þorsteinsson, er þá bjó á Þorfinnsstöðum, hins vegar að róa á lítilli trillu frá Dalssjónum. Hásetar hans voru þrír og sváfu, þegar ekki var farið heim, í skemmu sem Bernharður Guðmundsson, bóndi á Kirkjubóli, átti og stóð hér á sjávarkambinum.[563] Kristján Ebenezersson frá Tungu í Valþjófsdal, er var einn hásetanna hjá Gísla, minnist þess að þarna í skemmunni voru föst rúm,[564] sem bendir til þess að þar hafi menn áður legið við, og kunnugt er að áhöfnin á vélbátnum Flosa, sem Hallgrímur Guðmundsson á Grafargili gerði út frá Dalssjó á árunum um og upp úr 1920, lá við í þessari sömu skemmu.[565] Gísli á Þorfinnsstöðum mun aðeins hafa gert héðan út trillu þetta eina vor, 1941, og síðan þá hafa fiskiróðrar aldrei verið stundaðir frá Dalssjó þó eitthvað hafi verið um að menn fengju sér í soðið.[566]

Útgerð af öðru tagi var hins vegar haldið uppi frá þessum sama fjörukambi um alllangt skeið á árunum fyrir og eftir 1940 en þar átti hlut að máli Daníel Benediktsson, bóndi á Kirkjubóli, sem þá stundaði kúfiskveiðar á mótorbát sínum Æsu ÍS 355. Kúfiskinn veiddi Daníel í Önundarfirði og í nálægum fjörðum og seldi í beitu.

Ekki langt frá sumarbústaðnum, sem áður var nefndur, og rétt ofan við fjöruna sjáum við dálitla steinhrúgu úr malarhnullungum. Þar gekk á land kýrin frá Neðri-Breiðadal sem fyrir nokkrum árum slapp úr höndum manna, er voru að flytja hana í sláturhús á Flateyri, og bjargaði lífi sínu með því að synda yfir Önundarfjörð. Ekki var talið við hæfi að flytja hana til baka í sláturhúsið og fékk hún að lifa í allmörg ár á Kirkjubóli í Valþjófsdal. Þar bar hún nafnið Sæunn og hvílir nú hér undir sömu fjörusteinum og áður færðu henni lífið.

Utan við haug Sæunnar og spölkorn frá eru grasigrónar tóttir og virðist ein þeirra vera af gömlu nausti. Þessar grónu rústir eru fornar en skammt frá þeim er húsgrunnur úr steinsteypu sem sýnir hvar fisksöltunarhúsið stóð á árunum kringum 1920.[567] Þar litlu utar mun íbúðarhús Kristjáns Eyjólfssonar hafa staðið og hér er enn, beint upp af lendingunni, spilið sem Daníel Benediktsson notaði þegar kúfiskbáturinn Æsa var settur upp eða ofan.[568]

Frá Dalsnaustum lögðu þeir upp í sína hinstu för á fyrstu dögum ársins 1852, Guðni Jónsson, bóndi á Kirkjubóli, og hásetar hans, átta að tölu. Úr þeim hákarlaróðri kom enginn til baka því allir hlutu þeir vota gröf (sjá hér bls. 34). Öld fram af öld var bátum Dalmanna ýtt héðan úr vör og hér komu þeir að landi, stundum eftir langan barning en oft með góðan aflafeng.

Lending var talin góð við Dalssjó, nema í norðvestan stórsjó, og langræði ekki til verulegs baga þegar fisk var að fá á grunnmiðum.[569] Frá hinum fornu naustum sér prýðilega til hafs sem oft gat komið sér vel þegar ráða þurfti í margvísleg teikn lofts og lagar til að gera sér grein fyrir veðurhorfum áður en lagt var í róður. Áður en vélar komu í bátana stóðu hér sjóhús og fiskhjallar og að líkindum ein eða fleiri verbúðir því sumir Dalmenn lágu hér stundum við á vorin[570] þó að ekki sé langt frá ströndinni til bæja.

Handan við fjörðinn sjáum við þorpið á Flateyri, sem er hér beint á móti, en þangað hafa Dalmenn sótt verslun frá árinu 1789 og fluttu allt á sjó fram undir miðja 20. öld. Ýmsir þurftu líka að fá sig flutta hér yfir fjörðinn en haustið 1898 kostaði eina krónu að láta skjóta sér frá Flateyri yfir í Valþjófsdal.[571] Stundum voru það líka sjómenn af frönskum skútum sem stigu hér á land og þvoðu plögg sín í ánni.[572] Við þá verslaði Finnur Eiríksson, sem bjó á Kirkjubóli á síðasta þriðjungi 19. aldar, og fékk hjá þeim ferkantað brauð eða kex fyrir sokka og vettlinga.[573]

Frostaveturinn mikla, árið 1918, var hér ís fyrir landi. Allur Önundarfjörður fyrir innan Flateyri og Valþjófsdal var þá lengi ísi lagður.[574] Um skeið náði lagnaðarísinn út undir Mosdal[575] og með landinu alla leið út á Ingjaldssand (sjá hér Sæból). Yst í firðinum var svo landfastur hafís og snemma í janúar þennan vetur sást hvergi í auða vök ofan af Barða.[576] Frostið mældist þá yfir 30 stig en kol til upphitunar illfáanleg af styrjaldarástæðum.[577] Í þessum hörkum voru lík flutt á hestasleðum yfir fjörðinn, frá Flateyri að Holti.[578]

Skammt fyrir utan og ofan hinar fornu tóttir við Dalssjó sést enn móta fyrir stóru ferhyrndu byrgi en veggir þess, sem nú eru orðnir mjög signir, eru hlaðnir úr lábörðu grjóti. Sagt er að byrgi þetta, sem ber nafnið Þrælatraðir, hafi verið um það bil tvær dagsláttur að stærð[579] eða nálægt 12.000 fermetrum og sýnist ekki fjarri lagi. Lengd byrgisins er mun meiri en breiddin og áður var því skipt niður í 6 jafnstóra bletti með þvergörðum.[580] Hvor hálflenda á Kirkjubóli átti þrjá þessara bletta.[581] Þvergarðarnir eru nú horfnir og hafa ef til vill verið fjarlægðir til að auðvelda slátt en grasið í Þrælatröðum mun jafnan hafa verið slegið á fyrstu áratugum tuttugustu aldar[582] og ef til vill eitthvað lengur. Hér er jarðvegur hins vegar svo grunnur að tilgáta um hugsanlega kornrækt í þessum tröðum til forna sýnist vart geta átt erindi upp á pallborðið. Um 1950 var gjörsamlega fyrnt yfir það til hvers mannvirki þetta hefði verið notað en munnmæli voru um að þrælar hefðu unnið sér það til frelsis að hlaða veggina.[583] Óskar Einarsson læknir, sem lýst hefur Þrælatröðum í rituðu máli, taldi að grjótveggirnir þar hefðu verið ætlaðir til steinbítsherslu og vel má vera að þar sé komin hin rétta skýring. Steinbítsgarðar, hlaðnir úr grjóti, fylgdu flestum eða öllum verstöðvum á Vestfjörðum en lega þeirra var  oftast nær óregluleg svo skipting Þrælatraða í sex jafnstóra reiti vekur grun um að gátan um tilgang þessa forna mannvirkis sé þó enn óráðin.

Frá Dalssjónum tökum við nú stefnuna til baka því ætlunin er að ganga fram í botn á Dalsdal og ljúka þar könnun á landareign Kirkjubóls. Vegalengdin neðan frá sjó og fram í dalbotninn er um það bil 5 kílómetrar. Á ferð okkar utan úr Mosdal að Kirkjubóli námum við staðar á Dalshúsahryggnum niður undan Skáladal og þangað liggur leiðin nú í annað sinn. Á Hryggnum, sem svo var nefndur í daglegu tali, stóðu áður beitarhús frá Dalshúsum[584] sem nú eru löngu fallin. Skáladalsáin, sem fellur niður Hrygginn, er ekki til trafala og leiðin greið fram dalinn, ofan við túnin á Kirkjubóli.

Tún þessi eru nú miklu stærri en áður var og Dalsbólið gamla, þar sem ær voru áður mjaltaðar í kvíum,[585] hefur nú verið ræktað upp og gert að túni.[586] Fremst og efst á Bólinu stóð Grásteinn.[587] Hann stendur þar enn, ofarlega í nýju túni, dálítið framan við bæinn á Kirkjubóli,[588] og sýnir okkar nú hvar Bólið var.

Þegar við hefjum gönguna fram dalinn er fjallið Stakkur á hægri hönd en í neðstu klettum þess dregur að sér athygli stór hamar sem stendur lítið eitt heiman við Grástein. Sá heitir Einhamar og er ókleifur.[589]

Skammt framan við fremsta túnið á Kirkjubóli er Gjáhryggur en þar fyrir framan Seljahryggur, sem gengur niður úr Bessaskál, en skál þessi, sem skerst hömrum girt inn í fjalllendið, tekur við þegar komið er fram fyrir fjallið Stakk.[590]

Við mynni Dalsdals hér litlu framar er snotur foss í Dalsánni og heitir Seljafoss.[591] Svolítið framan við Seljahrygginn, sem áður var nefndur, en skammt heiman við Seljafoss segir Örnefnaskrá vera sjáanlegar tóttir af seli frá Kirkjubóli.[592] Tóttir þessar eru rétt ofan við árdalinn og heiman við fossinn. Ein tóttin er nokkuð stór en lítt áberandi því þarna virðist jarðvegsmyndun vera ör. Rétt hjá henni virðist móta fyrir annarri tótt af minna húsi en nokkrum metrum norðar er hringlaga tótt sem ef til vill hefur verið notuð sem kví en síðar nýtt sem sauðabyrgi. Í kringum selið er ágætt slægjuland[593] á mælikvarða fyrri tíðar en enginn veit nú hvenær seljabúskap var hætt á þessum stað.

Fram að Seljafossi í mynni Dalsdals eru tæplega tveir kílómetrar heiman frá Kirkjubóli og nærri lætur að Dalsdalur sé tveir og hálfur kílómetri á lengd. Dalsdalurinn er þröngur og fremur hrjóstrugur. Þar er samt allgott beitiland og eitthvað var heyjað þar á fyrri tíð. Austan eða suðaustan við þennan afdal rís Tungurðarfjall en næst byggðinni lækkar það verulega og við tekur Tunguhorn.[594] Þessi tvö fjöll kljúfa fremsta hluta Valþjófsdals í tvennt. Hér hefur áður verið gerð grein fyrir fjöllunum sem gnæfa andspænis Tungurðarfjalli og Tunguhorni yfir hlíðum Dalsdals en þau eru Torfabrekkufjall, Galtargilsfjall og Heiðarfjall (sjá hér bls. 7).

Brekkurnar við mynni Dalsdals heita Torfabrekkur.[595] Framar er Stórabrekka og nær þvert yfir dalinn. Niður hana falla tvær árkvíslar sem sameinast neðarlega í Dalsdal og mynda Dalsána.[596] Eystri kvíslin kemur úr Skörðum, dálitlum kika austan við fjallið Þverfell sem gnæfir yfir dalbotninum.[597] Hún skiptir löndum milli Kirkjubóls og Tungu. Vestri kvíslin kemur undan Berghelluholti sem er klapparholt fram í dalbotninum.[598] Í hana fellur Galtargilslækur en neðarlega í Dalsdal, þar sem heita Tungurðir, sameinast kvíslarnar tvær og mynda báðar Dalsána.[599]

Allt landið milli kvíslanna heitir Tungur og um þær liggur hinn forni reiðvegur í átt til heiðarinnar Klúku sem er fyrir botni dalsins.[600] Hér sést víða móta fyrir þessari gömlu götu og sums staðar er hún dálítið niðurgrafin. Nokkuð framarlega í Tungunum, þar sem styst er milli árkvíslanna, eru aðrar seltóttir frá Kirkjubóli og heitir hér Gamlasel.[601] Eftir nafninu að dæma ætti þetta sel að vera eldra en hitt sem er heiman við Seljafoss og áður var frá sagt. Vel má vera að svo sé en seltóttirnar hér í Tungunum eru þó miklu greinilegri en hinar og bera augljós auðkenni þess að hér hafi verið sel. Tóttir þessar eru alveg við hina fornu reiðgötu og mjög skammt frá vestri árkvíslinni. Hér hafa greinilega verið þrjú sambyggð selhús en einnig minni kofar og kvíin skammt frá.

Dálítið framan við selið og nær Galtargilsfjalli eru Fornugrafir.[602] Nafnið sýnir að þar hafa menn tekið upp mó á fyrri tíð. Sagt er að mórinn í þessum gröfum hafi verið tíu eða tólf stungur og tvær stungur eða því sem næst niður á mólagið.[603] Til að koma mónum upp úr gröfunum urðu menn því að búa út palla eða þrep svo hægt væri að kasta hnausunum stall af stalli uns yfirborði jarðar væri náð.[604] Framan við Fornugrafir er Álfhólsengi, svolítið mýrlendi sem mun hafa verið slegið á fyrri tíð. Slægjuland þetta nær fram undir Galtargil[605] en um það fellur Galtargilslækur sem hér var áður nefndur.[606] Gilið er nokkuð stórt og dregur að sér athygli þeirra sem hér skyggnast um. Á móts við það en þó aðeins heimar liggur Stórabrekka, þvert yfir dalinn. Um hana lá gamla reiðgatan og yfir Berghelluholt fram í dalbotninn.[607]

Frá brún Stórubrekku er gott að virða fyrir sér dalinn og fjöllin í kring. Torfabrekkufjall nær frá mynni Dalsdals að Torfabrekkugili en þá tekur við Galtargilsfjall og loks Heiðarfjall framan við Galtargil.[608]

Rétt framan við Galtargil liggur rafmagnslína yfir á Ingjaldssand og þar skammt frá er Álfhóll við rætur Heiðarfjalls. Í örnefnalýsingu er tekið fram að hóllinn sé fyrir framan Galtargil og sagt að hann sé víðáttumikill.[609] Með þessa lýsingu í huga er hann auðfundinn um það bil 500 metrum fyrir framan gilið. Nafnið sýnir að hér hefur fólk talið vera álfabyggð en sagnir um þá góðu álfaþjóð, sem hér átti bústað sinn, liggja ekki á lausu. Sumt eldra fólk, sem ólst upp í Valþjófsdal, kannast þó enn í dag við nafnið á hólnum.[610]

Á Álfhól skulum við hvíla lúin bein. Þetta er fallegur gjóthóll, vaxinn mosa og lyngi en kollinn prýðir lambagras. Frá Álfhól eru aðeins einn til tveir kílómetrar fram í dalbotn en framan við hólinn er þó svolítið beitiland og heita þar Heiðarteigar, vestantil í dalbotninum.[611]

Um heiðina Klúku var farið úr Valþjófsdal á Sandsheiði og síðan áfram út á Ingjaldssand eða niður í Gerðhamradal í Dýrafirði. Leiðin lá upp úr botni Dalsdals um heiðarskarðið vestan við Þverfell en úr skarðinu er varla nema hálfur kílómetri yfir á alfaraveg um Sandsheiði.

Er Þorvaldur Thoroddsen náttúrufræðingur ferðaðist um Ísafjarðarsýslu sumarið 1887 fór hann Klúku úr Valþjófsdal til Dýrafjarðar.[612] Henni og nánasta umhverfi lýsir Þorvaldur svo:

 

Heiði þessi er örmjó, hrjóstrug hið efra og 574 metrar á hæð. Fjallið skiptist hið efra í álmur og rana því dalir ganga inn ur öllum áttum, Valþjófsdalur, Mosdalur, dalirnir upp af Ingjaldssandi, Nesdalur og Gerðhamradalur.[613]

 

Leiðin yfir Klúku þótti mjög ill yfirferðar og var oftast farin fótgangandi en þessi tröllavegur var þó einnig farinn með hesta. Þau ummæli eru höfð eftir Þorvaldi Thoroddsen að á öllum sínum ferðum fyrir 1887 hafi hann aldrei farið verri fjallveg en Klúku.[614] Guðmundur Bernharðsson, sem fæddist í Valþjófsdal árið 1899 en átti lengst heima á Ingjaldssandi, lýsir leiðinni yfir Klúku svo:

 

Klúka er fjallvegur milli Ingjaldssands og Valþjófsdals, þó hvergi samfelld reiðgata, aðeins rudd leið upp úr botni Dalsdals í Valþjófsdal um stórgrýttar urðir, klettahjalla og er þar efst kallað Klif. Gatan var snarbrött með miklu lausagrjóti svo að á nokkrum stöðum runnu hestar til baka á uppleið eða settu framfætur fyrir sig og spyrntu við fótum á niðurleið. Um Klúku þessa var aðalleið Sandmanna til Önundarfjarðar eða Ísafjarðar þegar farið var ríðandi eða með fjárrekstra.[615]

 

Sami höfundur segir á öðrum stað að leiðin úr Valþjófsdal upp í heiðarskarðið hafi legið um eins konar einstigi og Klúka verið draugaleið í myrkri. Einstigi það sem þarna er nefnt mun vera þar sem heitir Klif en það er stuðlabergsdrangur sem liggur frá heiðarbrún yfir stórgrýtisurð neðan við brúnina.[616] Þarna er urðin gjörsamlega ófær með hesta og verður því að fara Klifið.[617] Neðar í Dalsdal sáust lengi djúpar götur sem fætur manna og hesta höfðu markað í svörðinn.[618]

Á síðasta þriðjungi 19. aldar og fyrstu árunum eftir aldamótin 1900 mun oft hafa verið ráðist í að ryðja leiðina úr Dalsdal upp á heiði og hafði Finnur Eiríksson, sem þá bjó á Kirkubóli í Valþjófsdal, forystu um þær vegabætur.[619] Finnur mun líka hafa verið fenginn til að fylgja Þorvaldi Thoroddsen yfir Klúku sumarið 1887. Frá því Finnur fluttist úr Valþjófsdal á Ingjaldssand árið 1905 mun leiðin yfir Klúku sjaldan eða aldrei hafa verið rudd og talið að þar sé nú ekki farandi með hesta.[620]

Hér hefur áður verið minnst á ferðir Sandmanna yfir Klúku en þeir urðu oft að fara þessa leið því ófært er með hesta fyrir Hrafnaskálarnúp og illfært gangandi mönnum (sjá hér Villingadalur). Nokkru fyrir aldamótin 1900 var farið að reka sláturfé af Ingjaldssandi til Ísafjarðar og var þá jafnan farin Klúka með þessa fjárrekstra. Auk heimamanna í Valþjófsdal og einstaka langferðamanna lögðu líka ýmsir, sem bjuggu við utanverðan Dýrafjörð, leið sína yfir Klúku á ferðum í Önundarfjörð eða til Ísafjarðar. Úr hópi slíkra ferðalanga má nefna sjómenn úr Keldudal, sem fóru til skips á Flateyri en allmargir Kelddælingar voru á skútum frá Flateyri um og fyrir aldamótin 1900[621] Slíkir ferðamenn gistu oft á Kirkjubóli og fengu þaðan flutning yfir Önundarfjörð.[622]

Lausgangandi menn, sem kunnugir voru og fóru úr Valþjófsdal um Dalsdal á Ingjaldssand, munu reyndar ekki alltaf hafa farið Klúku en þess í stað stytt sér leið og farið beint af augum upp með Galtargili, sem hér var áður nefnt, en það er heimantil við Álfhól. Á þeirri leið verður hins vegar að fara kletta í fjallsbrúninni. Jón Guðmundsson á Grafargili í Valþjófsdal þurfti að bregða sér á Ingjaldssandi haustið 1888 og tók þá strikið upp með Galtargili og ofan Brekkufjall þegar komið var á brúnina hinum megin.[623] Jón gekk þetta á tveimur klukkutímum, frá Grafargili að Hrauni á Ingjaldssandi,[624] og gætu að líkindum fáir leikið eftir nú á dögum. Frá Alviðru í Dýrafirði að Grafargili í Valþjófsdal gekk sami maður á þremur tímum, hálfu öðru ári seinna og hefur þá farið Klúku.[625]

Um aldamótin 1900 mun heiðin, sem hér hefur nú verið frá sagt, tvímælalaust hafa verið nefnd Klúka af mörgum sem um hana ræddu[626] og það nafn notar Þorvaldur Thoroddsen.[627] Ætla má að nafnið sé gamalt. Hins vegar greinir Óskar Einarsson læknir svo frá að Bernharður Guðmundsson, sem lengi bjó á Kirkjubóli í Valþjófsdal á fyrri hluta tuttugustu aldar, hafi sagt sér að gamalt fólk þar í dalnum hafi yfirleitt ekki notað Klúkunafnið í daglegu tali en þess í stað talað um Heiðarskarð og að fara Heiði.[628] Enn annað nafn á heiðarskarðinu fyrir botni Dalsdals er Dalsskarð[629] en réttast mun vera að líta svo á að Klúka taki við þegar komið er upp úr skarðinu. Orðið Klúka merkir hrúga og sýnist í alla staði eðlilegt nafn þegar horft er frá Sandsheiði til fjallshryggjarins fyrir botni Dalsdals því Klúka er nokkru hærri en Sandsheiði. Séra Jón Sigurðsson á Gerðhömrum segir reyndar beinum orðum í sóknalýsingum sínum frá árinu 1840 að það sé fjall þetta eða háls, milli Sandsheiðar og Dalsdals, sem heiti Klúka eða Klúkuheiði.[630]

Í Chorographica Islandica, riti sem var í eigu Árna Magnússonar, handritasafnara og prófessors, og talið er að hann hafi skrifað sjálfur að mestu, er heiðin Klúka nefnd Klukkudalsheiði.[631] Líklegast er að Klukka standi þarna fyrir Klúku en nafnið bendir til þess að Dalsdalur hafi stundum verið nefndur Klúkudalur á fyrri öldum.

Hér verður nú látið staðar numið. Við sitjum enn á Álfhól niðri í Dalsdal og látum nægja að virða fyrir okkur dalbotninn og líta upp til urðarinnar neðan við heiðarskarðið. Gaman væri að ganga yfir Klúku en við erum nú á annarri leið og förum milli bæja í Valþjófsdal. Álfhóll er okkar síðasti áfangastaður í landareign Kirkjubóls og þaðan förum við nú yfir þveran Dalsdal og vöðum á þeirri leið árkvíslarnar tvær sem færa Dalsánni ár og síð vatn af fjöllum ofan. Sú eystri þessara tveggja kvísla rennur á landamerkjum eins og áður var nefnt og hér fram undir dalbotninum er spölurinn skammur hlíða á milli. Fyrr en varir stígum við okkar fyrstu spor í landareign jarðarinnar Tungu.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

– – – – – – – – – – o o o o o – – – – – – – – – –

[1] Guðmundur Steinar Björgmundsson. – Viðtal K.Ó. við hann 5.7.1993.

[2] Óskar Einarsson 1951, 143.

[3] Guðni Ágústsson. – Viðtal K.Ó. við hann 2.8.1993.

[4] Örnefnaskrá.

[5] Óskar Ein. 1951, 136.

[6] Sama heimild.

[7] Sama heimild.

[8] Óskar Ein.: Viðauki við örnefnalýsingu, handrit sem Örnefnastofnun varðveitir.

[9] Guðm. St. Björgm. – Viðtal K.Ó. við hann 5.7.1993.

[10] Óskar Ein. 1951, 136.

[11] Sama heimild.

[12] Óskar Ein. 1951, 136.

[13] Guðm. St. Björgm. – Viðtal K.Ó. við hann 5.7.1993.

[14] Örn.skrá.

[15] Sama heimild.

[16] Sama heimild.

[17] Óskar Ein. 1951, 136.

[18] D.I. V, 579-580.

[19] Sturlunga III, 15.

[20] D.I. XII, 296.

[21] Óskar Ein.: Ópr. viðbætir við bók hans Aldarfar og örnefni í Önundarfirði, handritið er varðv. hjá Örn.st.

[22] Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns VII, 95. Manntöl 1801, 1816 og 1845.

[23] Manntal 1703.

[24] Jarðab. Á. og P. VII, 95.

[25] Jarðab. Á. og P. VII, 95-99.  J. Johnsen 1847, 194-195.

[26] D.I. XII, 297-298.

[27] Sama heimild og D.I. IV, 525. Alþingisbækur Íslands XV, 221.

[28] Óskar Ein. 1951, 135 og Örn.skrá.

[29] Örn.skrá.

[30] Sama heimild.

[31] Sama heimild.

[32] Guðm. St. Björgm. – Viðtal K.Ó. við hann 5.7.1993.

[33] Sama heimild.

[34] Örn.skrá.

[35] Óskar Ein.: Ópr. viðbætir við bók hans Aldarfar og örnefni í Önundarfirði, handritið er varðv. hjá Örn.st.

[36] Sama heimild.

[37] Jóhannes Davíðsson 1976, 93.

[38] Óskar Ein.: Ópr. viðbætir við bók hans Aldarfar og örnefni í Önundarfirði, handritið er varðv. hjá Örn.st.

[39] Eyjólfur Jónsson. – Viðtal K.Ó. við hann 28.6.1993.

[40] Guðm. St. Björgm. – Viðtal K.Ó. við hann 5.7.1993.

[41] Jarðab. Á. og P. VII, 96.

[42] Lbs. 45824to, Dagbók Jóns Guðmundssonar frá Grafargili 7.1.1896.

[43] Óskar Ein.: Ópr. viðbætir við bók hans Aldarfar og örnefni í Önundarfirði, handritið er varðv. hjá Örn.st.

[44] Sama heimild.

[45] Sama heimild.

[46] Guðm. St. Björgm. – Viðtal K.Ó. við hann 5.7.1993.

[47] Óskar Ein.: Ópr. viðbætir við bók hans Aldarfar og örnefni í Önundarfirði, handritið er varðv. hjá Örn.st.

[48] Sami 1951, 133.

[49] Örn.skrá.

[50] Vigfús Ebenesersson. – Viðtal K.Ó. við hann 3.7.1993. Guðmundur Hallgrímsson. – Viðtal K.Ó. við

hann 5.7.1993.

[51] Sömu heimildir.

[52] Óskar Ein. 1951, 122.

[53] Vigfús Ebenesersson og Guðm. Hallgrímsson. – Viðtöl K.Ó. við þá 3.7.1993 og 5.7.1993.

[54] Örn.skrá.

[55] Vigfús Ebenesersson. – Viðtal K.Ó. við hann 3.7.1993.

[56] Sóknalýsingar Vestfjarða II, 100.

[57] Óskar Ein. 1951, 127.

[58] Sama heimild.

[59] Fasteignamatsskjöl. Gjörðabók undirmatsnefndar í V-Ísafjarðarsýslu, löggilt 26.3.1919, bls. 147.

[60] Örn.skrá. Óskar Ein. 1951, 122. Sóknalýs. Vestfj. II, 99.

[61] Óskar Ein. 1951, 122. Vigf. Eben. og Guðm. Hallgr.  – Viðtal K.Ó. við þá 3.7.1993 og 5.7.1993.

[62] Vigfús Ebenesersson. – Viðtal K.Ó. við hann 3.7.1993

[63] Örn.skrá.

[64] Óskar Ein. 1951, 135.

[65] Örn.skrá.

[66] Sama heimild.

[67] Óskar Ein. 1951, 135. Örn.skrá.

[68] Sömu heimildir.

[69] Óskar Ein.: Ópr. viðbætir við bók hans Aldarfar og örnefni í Önundarfirði, handritið er varðv. hjá Örn.st.

[70] Guðmundur Hallgrímsson. – Viðtal K.Ó. við hann 5.7.1993.

[71] Óskar Ein. 1951, 134.

[72] Sama heimild, 133-134. Vigfús Ebenesersson. – Viðtal K.Ó. við hann 3.7.1993.

[73] Guðmundur Hallgrímsson. – Viðtal K.Ó. við hann 5.7.1993.

[74] Sama heimild.

[75] Vestfirskar sagnir III, 100-101.

[76] Vigfús Ebenesersson. – Viðtal K.Ó. við hann 3.7.1993.

[77] Guðmundur Hallgrímsson. – Viðtal K.Ó. við hann 5.7.1993. Óskar Ein. 1951, 122.

[78] Sturl. I, 367.

[79] Sturl. I, 367.

[80] Sturl. II, 203, 257 og 269.

[81] Sama heimild, 192.

[82] Sturl. III, 14-15.

[83] Sturl. III, 15.

[84] Sturl. II, 190-192.

[85] Sama heimild.

[86] Sama heimild.

[87] Sama heimild.

[88] Sama heimild.

[89] Sama heimild.

[90] Sturl. II, 257.

[91] Sama heimild 192-194.

[92] Sama heimild, 203.

[93] Sama heimild, 203-221.

[94] Sama heimild, 208.

[95] Sturl. II, 208-221.

[96] Sama heimild, 214.

[97] Sama heimild.

[98] Sama heimild, 216-218.

[99] Sama heimild, 278, 312, 350 og 353. Sturl III, 470.

[100] Sturl. II, 353.

[101] Sama heimild, 226.

[102] Sama heimild, 256-258.

[103] Sturl. II, 257-258.

[104] Sturl. II, 269.

[105] Sturl. III, 14-15.

[106] Sama heimild.

[107] D.I. IV, 278-279. Íslenskar æviskrár I, 15 og V, 111.

[108] D.I. IV, 278-279.

[109] Sama heimild.

[110] Sama heimild.

[111] Jarðab. Á. og P. VII, 95-99.

[112] D.I. IV, 353-354.

[113] Sama heimild.

[114] Sama heimild.

[115] D.I. VIII, 196-197 og D.I. IX, 55-56.

[116] D.I. VIII, 196-197.

[117] Sama heimild.

[118] Sama heimild.

[119] D.I. IV, 525.

[120] D.I. IV, 602-603.

[121] D.I. IV, 602-603.

[122] Sama heimild.

[123] D.I. V, 159-160.

[124] D.I. IX, 55-56.

[125] Lögréttumannatal, bls. 218.

[126] Sama heimild.

[127] D.I. IX, 53-56. Sbr. Ísl. æviskrár III, 53-54. og II, 196.

[128] Sbr. Ól. Lár. 1944, 315-316 (Byggð og saga).

[129] D.I. V, 579-180.

[130] D.I. V, 376-377.

[131] D.I. V, 491.

[132] Sbr. einnig D.I. II, 786-787.

[133] D.I. V, 524-525 og 531-532.

[134] Sama heimild, 531-532.

[135] Sama heimild, 524-525.

[136] Sama heimild, 579-580.

[137] Sama heimild.

[138] D.I. V, 579-580.

[139] Óskar Ein. 1951, 119.

[140] D.I. V, 579-580.

[141] D.I. V, 579-580.

[142] D.I. V, 579-580.

[143] D.I. XII, 296 og D.I. XV, 574.

[144] D.I. XV, 574.  Jarðab. Á. og P. VII, 95.

[145] D.I. XV, 574.

[146] Sveinn Níelsson 1950, 192.

[147] D.I. VI, 627, sbr. D.I. V, 376-377.

[148] D.I. VI, 627-628.

[149] Lögr.m.tal, bls. 218.

[150] D.I. IX, 55-56.

[151] Sama heimild.

[152] Sama heimild og Ísl. æviskrár III, 53-54.

[153] D.I. VII, 285-286.

[154] D.I. VIII, 338-340.

[155] Ísl. æviskrár IV, 123.

[156] D.I. IX, 55-56.

[157] Sama heimild og Ísl. æviskrár II, 195.

[158] D.I. XII, 78-79.

[159] Sama heimild.

[160] Sama heimild.

[161] Sama heimild.

[162] Sama heimild.

[163] D.I. IX, 55-56.

[164] Ísl. æviskrár I, 216.

[165] D.I. VIII, 136-138.

[166] D.I. VIII, 136-138.

[167] D.I. VIII, 136-138.

[168] Ísl. æviskrár I, 155-156.

[169] Páll Eggert Ólason 1944, 27-29 (Saga Íslands IV).

[170] Sama heimild.

[171] D.I. IX, 561-562.

[172] Sama heimild.

[173] D.I. X, 83-84.

[174] Sama heimild.

[175] D.I. XII, 295-296.

[176] Sama heimild, sbr. D.I. XIII, 419-420.

[177] Sama heimild.

[178] D.I. XI, XII og XIII.

[179] Sömu heimildir, registur.

[180] D.I. XI, XII og XIII.

[181] Sömu heimildir.

[182] D.I. XIII, 419-420 og D.I. XV, 194-196.

[183] D.I. XII, 297-298.

[184] Alþ.b. Ísl. II, 151 og III, 61.

[185] Sýslumannaæfir II, 181 og 619-623.

[186] Sveinn Níelsson 1950, 200. Ísl. æviskrár IV, 311.

[187] D.I. XII, 297.

[188] Ísl. æviskrár III, 73-74.

[189] Sveinn Níelsson 1950, 200. Ísl. æviskrár V, 30-31.

[190] Annálar III, 76.

[191] Sama heimild, 266.

[192] Sama heimild, 266, − sjá þar bls. 246.

[193] Ísl. æviskrár IV, 311.

[194] Sama heimild V, 30-31.

[195] Sama heimild I, 248-249.

[196] Sama heimild I, 248 og 286.

[197] Sama heimild.

[198] Jón Halldórsson 1916-1925, 133 (Skólameistarar í Skálholti).

[199] Bps. A. II, 6 – biskupsvísitatía að Kirkjubóli í Valþjófsdal 19.8.1639.

[200] Sama heimild.

[201] Ísl. æviskrár V, 30-31.

[202] Jón Halldórsson 1916-1925, 134 (Skólameistarar í Skálholti).

[203] Sama heimild.

[204] Sama heimild.

[205] Alþ.b. Ísl. VI, 674-675.

[206] Alþ.b. Ísl. VI, 674-675.

[207] Sama heimild VII, 279-281.

[208] Sama heimild.

[209] Annálar II, 363-364.

[210] Ísl. æviskrár IV, 308. Manntal 1703.

[211] Skj.s. prófasta XIII. 1. B. 1. – Bréfa- og skjalabók 1333-1708 frá Holti í Önundarfirði, bls. 177-178.

[212] Sama heimild.

[213] Ísl. æviskrár IV, 308.

[214] Jarðab. Á. og P. VII, 95.

[215] Ísl. æviskrár I, 35 og 349.

[216] Jarðab. Á. og P. VII, 95.

[217] Ísl. æviskrár I, 35 og IV, 235.

[218] Jón Halldórsson 1916-1925, 136.

[219] Jón Steingrímsson 1973, 61, 66, 91, 111-112, 114 og 132 (Æfisagan og önnur rit).

[220] Annálar VI, 65.

[221] Annálar V, 16.

[222] Sýslum.æfir II, 619-623. Lbs. 23684to, 348-350  (Prestaæfir S.Gr. B.).

[223] Jarðab. Á. og P. VII, 95-97.

[224] Jarðab. Á. og P. VII, 96.

[225] Sóknalýs. Vestfj. II, 104.

[226] Gjörðabók undirmatsnefndar í Vestur-Ísafjarðarsýslu, löggilt 26.3.1919.

[227] Sama heimild.

[228] Sama heimild.

[229] Alþ.b. Ísl. XV, 221 og 226, sjá einnig registur þar.

[230] Vestfirskar ættir I, 55.

[231] Alþ.b. Ísl. XV, 221.

[232] Jarðab. Á. og P. VII, 95.  J. Johnsen 1847, 194. Sóknalýs. Vestfj. II, 104. (Sbr. hér bls. 53b).

[233] Vestf. ættir I, 55.

[234] Vestf. ættir II, 413 og 429. Manntal 1816, 695-696.

[235] Sóknarm.töl og prestsþj.b. Holtspr.kalls.

[236] Sömu heimildir.

[237] Vestf. ættir I, 39 og II, 413.

[238] Vestf. ættir II, 413, 429, 432 og 433.

[239] Sóknarm.töl og Manntöl frá 19. öld.

[240] Manntal 1845.  J. Johnsen 1847, 194.

[241] Manntöl 1850, 1855, 1870, 1880 og 1890.

[242] Manntöl 1762, 1801, 1835, 1840 og 1845.

[243] Manntal 1703.

[244] Sama heimild.

[245] Sóknarm.töl Holtspr.kalls. Vestf. ættir II, 413 og 429.

[246] Sama heimild. Vestf. ættir II, 429 og 432-433. Manntal 2.2.1835.

[247] Vestf. ættir II, 429.

[248] Sama heimild, 429 og 432-433.

[249] Vestf.ættir II, 429 og 432-433. Manntal 2.2.1835.

[250] Vestf. ættir II, 429 og 432-433.

[251] Sóknarm.töl og manntöl frá 19. öld.

[252] Manntal 2.2.1835.

[253] Manntal 1.10.1850.

[254] Eyjólfur Jónsson 1992,153-158 (Ársrit S.Í.).

[255] Sama heimild.

[256] Sama heimild.

[257] Manntal 1845.

[258] Sama heimild.

[259] Frá ystu nesjum I, 120-121.

[260] Guðmundur Bernharðsson 1985, 17. Manntal 1855.

[261] Jóh. Dav. 1976, 95-96.

[262] Jóh. Dav. 1976, 95-96.

[263] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. B. 2. Verslunarskýrslur 1850-1878.

[264] Jóh. Dav. 1976, 95-96.

[265] Manntöl og sóknarm.töl úr Holtspr.kalli frá árunum 1850-1870.

[266] Vestf. ættir II, 432-438.

[267] Sama heimild.

[268] Sama heimild.

[269] Guðm. Bernh. 1985, 17. Sbr. Jóh. Dav. 1976, 94.

[270] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Mosvallahr. 7. Úttektabók 1875-1905, bls. 107.

[271] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Mosvallahr. 7. Úttektabók 1875-1905, bls. 107.

[272] Sama heimild.

[273] Sama heimild.

[274] Manntal 1890.

[275] Ólafur Þ. Kristjánsson / Önfirðingar.

[276] Sama heimild.

[277] Sóknarm.töl Holts í Önundarf. Prestsþj.b. Holts í Önundarf., dánir 1882.

[278] Gils Guðmundsson 1977, I, 214-215. Sbr. hér Mosvallahreppur, inngangskafli.

[279] Aðalskipaskrá nóv. 1870 – sept. 1896, bls. 218-219. Gils Guðm. 1977, II, 112-113.

[280] Gils Guðm. 1977, I, 214-215.

[281] Halldór Guðmundsson / Sjómannablaðið Víkingur X. 5, maí 1948, 143-144.

[282] Lbs. 45824to, Dagbók J. Guðm. frá Grafargili 23.7.1882.

[283] Lbs. án safnnúmers. Gögn úr fórum Hjálmars Jónssonar, kaupmanns á Flateyri. Bréfabók Hjálmars frá

árunum 1879-1886, bréf hans 13.11.1881 til Jóns Sveinbjörnssonar, afrit.

[284] Sama heimild.

[285] Sama bréfabók. Bréf Hjálmars Jónssonar 12.1.1881 til Torfa Halldórssonar, afrit.

[286] Sama heimild.

[287] Lbs. 45824to, Dagbók J. Guðm. frá Grafargili 17.6. og 15.7.1882.

[288] Lbs. 45824to, Dagbók J. Guðm. frá Grafargili 23.7.1882.

[289] Sama dagbók 26.7.1882.

[290] Prestsþj.b. Holts í Önundarf.

[291] Gils Guðm. 1977, I, 215. Sbr. hér Mosvallahreppur, inngangskafli og Innri-Veðrará.

[292] Hsk. Ísf. nr. 0123. Höfuðbók frá útibú Ásgeirsverslunar á Flateyri, viðsk.reikn. skonnortunnar Svans.

[293] Hsk. Ísf. askja nr. 240, Cladd frá árunum 1881 og 1882.

[294] Sama heimild.

[295] Sama heimild.

[296] Sama heimild.

[297] Sóknarm.töl Holts í Ön.f. Sbr. Lbs. 45824to, Dagbók J. Guðm. frá Grafargili 15.12.1880 og 30.4.1881.

[298] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Mosv.hr. 6. Útt.bók 1835-1874, bls. 130 og 7. Útt.bók 1875-1905, bls. 16-17.

[299] Sama heimild.

[300] Sama heimild.

[301] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Mosv.hr. 6. Útt.bók 1835-1874, bls. 130 og 7. Útt.bók 1875-1905, bls. 16-17.

[302] Sama heimild.

[303] Sama heimild.

[304] Sama heimild.

[305] Sama heimild.

[306] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[307] Sóknarm.töl Holtspr.kalls.

[308] Eyj. Jónsson 1967, 65 og 111 (Niðjatal Sveins Jónssonar á Hesti).

[309] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[310] Lbs. 45824to, Dagbók J. Guðm. frá Grafargili 15.12.1880.

[311] Lbs. 45824to, Dagbók J. Guðm. frá Grafargili 24.1.1888. Sjá einnig hér Lokinhamrar.

[312] Lbs. 22174to, Dagbók  Magnúsar Hjaltasonar frá árinu 1897.

[313] Lbs. 45824to, Dagbók J. Guðm. frá Grafargili.

[314] Jarðab. Á. og P. VII, 96 og 100.

[315] Sama heimild.

[316] Örn.skrá.

[317] Guðmundur Eiríksson 1957, 66-67. Lbs. 45824to, Dagbók J. Guðm. frá Grafargili 17.6.1889.

[318] Lbs. 45824to, Dagbók J. Guðm. frá Grafargili 4.11.1895. Óskar Ein. 1951, 49.

[319] Óskar Ein. 1951, 49.

[320] Lbs. 45824to, Dagbók J. Guðm. frá Grafargili 22.4.1896.

[321] Sama dagbók 21.3.1883.

[322] Sama dagbók 5.4.1889.

[323] Sama dagbók 12.11.1881, 19.11.1892 og 4.11.1895.

[324] Sama dagbók 19.11.1892.

[325] Guðm. Eiríksson 1957, 66-67.

[326] Lbs. 45824to, Dagbók J. Guðm. frá Grafargili 13.9.1889.

[327] Sama dagbók 17.10.1889.

[328] Sama dagbók 6.10.1892.

[329] Jóh. Dav. 1976, 96-97.

[330] Sama heimild.

[331] Guðm. Eiríksson 1957, 66-67.

[332] Jóh. Dav. 1976, 99. Lbs. 45824to, Dagbók J. Guðm. frá Grafargili maí, júní og júlí 1883.

[333] D.I. XV, 574.

[334] Jarðab. Á. og P. VII, 94. J. Johnsen 1847, 194. Skj.s. próf. XIII. 1. A, 5, 6, 7 og 8, vísitazíug. 1847-1887.

[335] Bps. A. II, 6, vísitazíug. frá 19.8.1639. Kirkjustóll Kirkjubóls í Valþj.d., – vísitazíug. próf. frá 20.9.1742.

[336] Jarðab. Á. og P. VII, 96.

[337] Sama heimild.

[338] D.I. V, 579-580.

[339] D.I. XV, 574.

[340] Bps. A. II, 6, vísitazíugerð frá 19.8.1639.

[341] D.I. V, 579-580.

[342] D.I. XV, 574.

[343] Bps. A. II, 6, vísitazíugerð frá 19.8.1639.

[344] Jarðab. Á. og P. VII, 94-97.

[345] Kirkjustóll Kirkjubóls í Valþjófsdal 1742-1811, vísitazía 20.9.1742.

[346] Bps. A. II, 6, vísitazíugerð frá 19.8.1639.

[347] Sama heimild.

[348] Bps. A. II, 6, vísitazíugerð frá 19.8.1639.

[349] Sama heimild.

[350] Kirkjustóll Kirkjubólskirkju í Valþjófsdal 1742-1811, vísitazíugerð Magnúsar Snæbjörnssonat prófasts 20. 9. 1742. Bps. A. II, 22, – vísitazíugerð Björns Halldórssonar prófasts, fyrir  hönd biskups, 22.6.1775. Bps. A. II, 24, vísitazíugerð Hannesar Finnssonar biskups 13.8.1790.

[351] Sömu heimildir.

[352] Sömu heimildir..

[353] Kirkjustóll Kirkjubólskirkju í Valþjófsdal 1742-1811, vísitazíugerð Magnúsar Snæbjörnssonar prófasts 20.9.1742. Bps. A.II,22, – vísitaziugerð Björns Halldórssonar prófasts, fyrir

hönd biskups, 22.6.1775. Bps. A. II, 24, vísitazíugerð Hannesar Finnssonar biskups 13.8.1790.

[354] Sömu heimildir.

[355] Sömu heimildir.

[356] Sömu heimildir.

[357] Kirkjustóll Kirkjubólskirkju í Valþjófsdal 1742-1811, vísitazíugerð Magnúsar Snæbjörnssonar prófasts 20.9.1742. Bps. A.II,22, – vísitazíugerð Björns Halldórssonar prófasts, fyrir

hönd biskups, 22.6.1775. Bps. A. II, 24, vísitazíugerð Hannesar Finnssonar biskups 13.8.1790.

[358] Sömu heimildir.

[359] Bsp. A. II, 22. – Vísitazíugerð Björns Halldórssonar prófasts 22.6.1775.

[360] Kirkjustóll Kirkjub.kirkju í Valþj.dal 1742-1811, vísitazíugerð Hannesar biskups Finnssonar 13.8.1790.

[361] Sami kirkjustóll, vísitazíugerð séra Jóns Ásgeirssonar prófasts 8.11.1793.

[362] Sami kirkjustóll, vísitazíugerð séra Jóns Ásgeirssonar prófasts 20.8.1794.

[363] Sigfús Haukur Andrésson 1988, I, 144-145 (Versl.saga Ísl. 1774-1807).

[364] Kirkjustóll Kirkjub.kirkju í Valþj.dal, vísitazíugerðir prófasta 1.11.1830 og 5.6.1839.

[365] ÍB 8258vo, Dagbók séra Sigurðar Tómassonar.

[366] Kirkjustóll Kirkjub.kirkju í Valþj.dal, vísitazíugerð prófasts 5.6.1839.

[367] Kirkjustóll Kirkjub.kirkju í Valþj.dal, vísitazíugerð prófasts 5.6.1839.

[368] Skj.s. prófasta XIII. 1. A, 5 – vísitazíugerð frá 18.8.1852.

[369] Skj.s. prófasta XIII. 1. A, 5 – vísitazíugerð frá 18.8.1852.

[370] Skj.s. prófasta XIII. 1. A, 5 – vísitazíugerð frá 17.7.1855.

[371] Sama heimild.

[372] Skj.s. prófasta XIII. 1. A, 6 – vísitazíugerðir 28.6.1856 og 22.6.1857.

[373] Sama heimild.

[374] Sama heimildasafn, XIII. I.A,6 – vísitazíugerð 25.7.1858.

[375] Sama heimild.

[376] Sama heimild.

[377] Sama heimildasafn XIII.I.A, 6 og 7 – vísitazíugerðir 13.10.1860, 8.8.1871 og 3.10.1880.

[378] Skj.s. prófasta XIII. 1. A, 6 – vísitazíugerðir 22.6.1857 og 13.10.1860.

[379] Sama heimild.

[380] Sama heimild.

[381] Sama heimild.

[382] Sama heimild.

[383] Sama heimildasafn – vísitazíugerð 28.9.1865.

[384] Sama heimildasafn – vísitazíugerðir 8.8.1871 og 3.10.1880.

[385] Skj.s. prófasta XIII. 1. A, 7 – vísitazía 17.9.1882.

[386] Lbs. 45824to, Dagbók J. Guðm. frá Grafargili 3.10.1882.

[387] Skj.s. prófasta XIII. 1. A, 8 – vísitazía 2.10.1887.

[388] Lbs. 4582 4to, Dagb. J. Guðm. frá Grafargili, yfirlit um árið 1886.

[389] Gunnar Hvammdal Sigurðsson. – Viðtal K.Ó. við hann 9.9.1993. Sóknarm.töl Sandaprestakalls.

[390] Sóknarm.töl Sandapr.kalls.

[391] Ísl. æviskrár III, 253.

[392] Skj.s. prófasta XIII. 1. A, 8 – vísitazía 2.10.1887.

[393] Sama heimildasafn, − reikningar Kirkjubólskirkju í fardögum 1888.

[394] Lbs. 45824to, Dagbók J. Guðm. frá Grafargili, yfirlit um árið 1886.

[395] Skj.s. prófasta XIII. 1. A, 7 – vísitazíugerð 17.9.1882 og A, 8 – vísitazíugerð 13.9.1885.

[396] Sama heimild. Lbs. 45824to, Dagbók J. Guðm. frá Grafargili 23.7.1882. Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[397] Prestsþj.b. Holtspr.kalls.

[398] Skj.s. prófasta XIII. 1. A, 8 – vísitazía 13.9.1885.

[399] Sama heimild.

[400] Skj.s. prófasta XIII.I.A.8 – fundargerð 22.8.1892.

[401] Bps. A. II, 6 – Vísitazíubók Brynjólfs biskups Sveinssonar, Kirkjuból í Valþjófsdal 19.8.1639.

[402] Bps. A. II, 17 – Vísitazíubók Jóns biskups Árnasonar, Kirkjuból í Valþjófsdal ágúst 1725.

[403] Kirknasafn. Kirkjust. Kirkjub. í Valþj.dal 1742-1811. Vísitazíug. Magnúsar próf. Snæbj.s. 20.9.1742.

[404] Sama heimild.

[405] Sami kirkjustóll, vísitazíugerð Magnúsar prófasts Snæbjörnssonar 19.8.1774.

[406] Bps. A. II, 22. – Vísitazíugerðir Björns prófasts í Sauðlauksdal Halldórssonar í umboði Finns biskups

Jónssonar, Kirkjuból í Valþjófsdal 22.6.1775.

[407] Lbs. 45824to, Dagbók J. Guðm. frá Grafargili 1.3.1891.

[408] Sama heimild.

[409] Sóknarm.tal Sandapr.kalls 31.12.1891.

[410] Skj.s. prófasta XIII. 1. A, 8 – fundargerð 22.8.1892.

[411] Sama heimild.

[412] Sama heimild.

[413] Jarðab. Á. og P. VII, 95.

[414] Sóknalýs. Vestfj. II, 108.

[415] Kirkjustóll Kirkjubóls í Valþjófsdal – vísitazíugerð prófasts 27.6.1850.

[416] Sama heimild.

[417] Óskar Ein. Viðbætir við örnefnalýsingu, handrit sem Örn.stofnun varðveitir.

[418] Sama heimild.

[419] Guðm. St. Björgmundsson. – Viðtal K.Ó. við hann 5.7.1993.

[420] Jarðab. Á. og P. VII, 96-97.

[421] Jarðab. Á. og P. VII, 96-97.

[422] Sama heimild.

[423] Sama heimild.

[424] J. Johnsen 1847, 194.

[425] Óskar Ein. 1951, 135 og Örn.skrá.

[426] Vigfús Ebenesersson Tungu.- Viðtal K.Ó. við hann 3.7.1993.

[427] Jarðab. Á. og P. VII, 96-97.

[428] Sama heimild.

[429] Bænda- og skuldaskrár úr Ísafj.sýslu frá því um 1735. Sóknarm.tal Holtspr.kalls 1793.

[430] Manntal 1703.

[431] Bænda- og skuldaskrár úr Ísafj.sýslu frá því um 1735. Jarða- og bændatal úr Ísafj.sýslu frá árinu 1753.

[432] Jarðab. Á. og P. VII, 95-97.

[433] Sama heimild.

[434] Þorvaldur Thoroddsen / Lýsing Íslands III, 45.

[435] Jarðab. Á. og P. VII, 95-97.

[436] Jarðab. Á. og P. VII, 95-97.

[437] Sama heimild.

[438] Sóknarm.tal Holtspr.kalls 1805. Vestf. ættir II, 413.

[439] Prestsþj.b. Holtspr.kalls.

[440] Manntal 1816.

[441] Sama heimild.

[442] Vestf. ættir II, 413.

[443] Sóknarm.tal Holtspr.kalls 1829.

[444] Sama heimild. Vestf. ættir II, 413.

[445] Vestf. ættir II, 413.

[446] Sóknarm.tal Holtspr.kalls 1829.

[447] Sóknarm.tal Holtspr.kalls 1829.

[448] Prestsþj.b. Holtspr.kalls.

[449] Sóknarm.töl Holtspr.kalls og manntöl 1835-1900.

[450] Eyjólfur Jónsson 1976, 147.

[451] Sóknalýs. Vestfj. II, 104.

[452] J. Johnsen 1847, 194. Sóknalýs. Vestfj. II, 104. VA III, 407-412, búnaðarskýrslur 1837-1850.

[453] Jarðab. Á. og P. VII, 97.

[454] Örn.skrá.

[455] Óskar Ein. 1951, 135 og sami: Viðbætir við örnefnalýsingu, handrit sem Örn.stofnun varðveitir.

[456] Sama heimild.

[457] Óskar Ein. 1951, 135 og sami: Viðbætir við örnefnalýsingu, handrit sem Örnefnastofnun varðveitir.

[458] Guðm. St. Björgmundsson. – Viðtal K.Ó. við hann 5.7.1993.

[459] Örn.skrá.

[460] Sama heimild og Óskar Ein. 1951, 135-136.

[461] Sömu heimildir.

[462] Sömu heimildir.

[463] Vestf. ættir II, 413.

[464] Sama heimild I, 236.

[465] Sama heimild I,237. Sóknarm.töl Holtspr.kalls

[466] Vestf. ættir I, 236 og II, 429.

[467] Sama heimild II, 413.

[468] Sama heimild I, 236-240.

[469] VA III, 412, búnaðarskýrsla 1850.

[470] VA III, 412, búnaðarskýrsla 1850.

[471] Sama heimild.

[472] Sama heimild.

[473] Ársrit Sögufél. Ísf. 1986, 97-98.

[474] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. B. 2. Verslunarskýrslur 1850-1878.

[475] Vestf. ættir I, 236.

[476] Sama heimild, 236-240.

[477] Jóh. Dav. 1976, 92.

[478] Vestf. ættir I, 237.

[479] Sama heimild.

[480] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[481] Sama heimild.

[482] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[483] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[484] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Mosvallahreppur 7.  Úttektabók 1875-1905, bls. 59-61.

[485] Sama heimild.

[486] Sama heimild.

[487] Sama heimild.

[488] Sama heimild.

[489] Sama heimild.

[490] Sama heimild.

[491] Sama heimild.

[492] Sama skjalasafn Mosvallahreppur 6. Úttektabók 1835-1874, bls. 152-153.

[493] Sama heimild.

[494] Sama heimild.

[495] Sama heimild.

[496] Skj.s. prófasta XIII. 1. A, 8 – fundargerð frá 22.8.1892.

[497] Sama heimild.

[498] Fasteignamatsskjöl: Gjörðabók undirmatsnefndar í V-Ís., löggilt 26.3.1919.

[499] Sama heimild.

[500] Lbs. 45824to, Dagbók J. Guðm. frá Grafargili 5.11.1892.

[501] Sama dagbók 4.11.1895.

[502] Jón Þ. Þór 1988, 50-53 (Saga Ísafjarðar).

[503] Lbs. 45824to, Dagbók J. Guðm. frá Grafargili 2.2.1896.

[504] Óskar Ein. 1951, 135.

[505] Sama heimild, 127.

[506] Guðm. St. Björgmundsson. – Viðtal K.Ó. við hann 5.7.1993.

[507] Örn.skrá.

[508] Óskar Ein.: Viðbætir við örnefnalýsingu, handrit sem Örn.stofnun varðveitir.

[509] Örn.skrá.

[510] Örn.skrá.

[511] Sama heimild.

[512] Vigfús Ebenezersson. – Viðtal K.Ó. við hann 3.7.1993.

[513] Óskar Ein. 1951, 135-136. Örn.skrá.

[514] Örn.skrá. Guðm.St. Björgmundsson. – Viðtal K.Ó. við hann 5.7.1993.

[515] Óskar Ein. 1951, 135-136.

[516] Sami: Viðbætir við örnefnalýsingu, handrit sem Örn.stofnun varðveitir.

[517] Örn.skrá.

[518] Óskar Ein.: Viðbætir við örnefnalýsingu, handrit sem Örn.stofnun varðveitir.

[519] Lbs. 45824to, Dagbók J. Guðm. frá Grafargili 1895 og 1896.

[520] Óskar Ein.: Viðbætir við örnefnalýsingu, handrit sem Örn.stofnun varðveitir.

[521] Lbs. 45824to, Dagbók J. Guðm. frá Grafargili 2.6.1895.

[522] Lbs. 45824to, Dagbók J. Guðm. frá Grafargili 23.10.1895.

[523] Sama dagbók 25.11.1895.

[524] Sama dagbók, sama dag.

[525] Sama dagbók 29.6.1896.

[526] Sama dagbók 29.11.1895.

[527] Sama dagbók 7.1.1896.

[528] Sama dagbók 25.3.1896

[529] Sama dagbók 15.4.1896.

[530] Sama dagbók 10.7.1896.

[531] Sama dagbók 21.7.1896.

[532] Lbs. 45824to, Dagbók J. Guðm. frá Grafargili 27.7.1896.

[533] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Mosvallahreppur. 7. Úttektabók 1875-1905, bls. 135-136.

[534] Sama heimild.

[535] Sama heimild.

[536] Sama heimild.

[537] Sama heimild.

[538] Lbs. 22184to, Dagbók M. Hj. 13.3.1899.

[539] Guðm. St. Björgmundsson og Vigfús Ebenezersson. – Viðtöl K.Ó. við þá 3. og 5.7.1993.

[540] Eyjólfur Jónsson 1996, 82-87 (Ársrit S.Í.).

[541] Theódór Gunnlaugsson 1960, 187 (Nú brosir nóttin).

[542] Eyjólfur Jónsson. – Viðtal K.Ó. við hann 28.6.1993.

[543] Sama heimild.

[544] Manntal 1920, Ísafj.sýsla og Strandasýsla, bls. 64.

[545] Manntal 1920, Ísafj.sýsla og Strandasýsla, bls. 64.

[546] Sóknarm.töl Holtspr.kalls.

[547] Eyjólfur Jónsson. – Viðtal K.Ó. við hann 28.6.1993.

[548] Manntal 1920.

[549] Eyjólfur Jónsson. – Viðtal K.Ó. við hann 28.6.1993.

[550] Manntal 1.12.1920.

[551] Gjörðabók yfirfasteignamatsnefndar í Ísafj.sýslu, löggilt 9.3.1916.

[552] Gjörðabók yfirfasteignamatsnefndar í Ísafj.sýslu, löggilt 9.3.1916.

[553] Sama heimild.

[554] Sama heimild.

[555] Vigfús Ebenezersson. – Viðtal K.Ó. við hann 3.7.1993.

[556] Stjórnartíðindi 1920 A, bls. 38.

[557] Prestsþj.b. Holtspr.kalls.

[558] Manntal 1920.

[559] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Holtspr.kalls. Vestf. ættir II, 666. Eyjólfur Jónsson 1996, II, 199 (Vestf. slysadagar).

[560] Sóknarm.töl Holtspr.kalls.

[561] Eyjólfur Jónsson. – Viðtal K.Ó. við hann 28.6.1993.

[562] Sama heimild.

[563] Kristján Ebenezersson. – Viðtal K.Ó. við hann 3.7.1993.

[564] Kristján Ebenezersson. – Viðtal K.Ó. við hann 3.7.1993.

[565] Guðmundur Hallgrímsson. – Viðtal K.Ó. við hann 5.7.1993.

[566] Sama heimild.

[567] Guðm. Hallgrímsson. – Viðtal K.Ó. við  hann 5.7.1993.

[568] Sama heimild.

[569] Óskar Ein. 1951, 127.

[570] Örn.skrá.

[571] Lbs. 22174to, Dagbók M.Hj. 26.9.1898.

[572] Guðm. Bernharðsson 1985, 15-16.

[573] Sama heimild.

[574] Snorri Sigfússon 1969, 133.

[575] Sama heimild.

[576] Sama heimild.

[577] Snorri Sigfússon 1969, 133.

[578] Sama heimild.

[579] Óskar Ein.: Viðbætir við örnefnalýsingu, handrit sem Örn.stofnun varðveitir.

[580] Sama heimild.

[581] Sama heimild.

[582] Sama heimild.

[583] Sama heimild.

[584] Óskar Ein. 1951, 136.

[585] Sami: Viðbætir við örnefnalýsingu, handrit sem Örn.stofnun varðveitir.

[586] Guðm. St. Björgmundsson. – Viðtal K.Ó. við hann 5.7.1993.

[587] Örn.skrá.

[588] Guðm. St. Björgmundsson. – Viðtal K.Ó. við hann 5.7.1993.

[589] Örn.skrá.

[590] Sama heimild.

[591] Sama heimild.

[592] Sama heimild.

[593] Sama heimild.

[594] Vigfús Ebenezersson. – Viðtal K.Ó. við hann 3.7.1993. Óskar Ein. 1951, 133-134.

[595] Óskar Ein. 1951, 135.

[596] Sama heimild, 134 og sami: Viðbætir við örnefnalýsingu, handrit sem Örn.stofnun varðveitir.

[597] Sama heimild.

[598] Ólöf Bernharðsdóttir. – Viðtal K.Ó. við hana 5.7.1993.

[599] Vigfús Ebenezersson. – Viðtal K.Ó. við hann 3.7.1993.

[600] Örn.skrá.

[601] Óskar Ein. 1951, 135.

[602] Sama heimild og Örn.skrá.

[603] Örn.skrá.

[604] Sama heimild.

[605] Örn.skrá.

[606] Sama heimild.

[607] Ólöf Bernharðsdóttir. – Viðtal K.Ó. við hana 5.7.1993.

[608] Guðm. Hallgrímsson. – Viðtal K.Ó. við hann 5.7.1993.

[609] Örn.skrá.

[610] Ólöf Bernharðsdóttir. – Viðtal K.Ó. við hana 5.7.1993.

[611] Örn.skrá.

[612] Þorv. Thoroddsen 1959, 122-123 (Ferðabók II, 2. útg.).

[613] Sama heimild.

[614] Guðm. Bernharðsson 1979, 37 og sami 1985, 49.

[615] Guðm. Bernharðsson 1979, 37 (Ársrit Söguf. Ísf.).

[616] Óskar Ein.: Viðbætir við örnefnalýsingu, handrit sem Örn.stofnun varðveitir.

[617] Sama heimild.

[618] Örn.skrá.

[619] Guðm. Bernharðsson 1979, 37 og sami 1985, 149.

[620] Sami 1979, 37.

[621] Sami 1985, 19.

[622] Sama heimild.

[623] Lbs. 45824to, Dagbók J. Guðm. frá Grafargili 27.9.1888.

[624] Sama heimild.

[625] Sama dagbók 10.4.1890.

[626] Óskar Ein.: Viðbætir við örnefnalýsingu, handrit sem Örn.stofnun varðveitir.

[627] Þorv. Thoroddsen 1959, 122 (Ferðabók II, 2. útg.).

[628] Óskar Ein.: Viðbætir við örnefnalýsingu, handrit sem Örn.stofnun varðveitir.

[629] Óskar Ein.: Viðbætir við örnefnalýsingu, handrit sem Örn.stofnun varðveitir.

[630] Sóknalýs. Vestfj. II, 79.

[631] Safn til sögu Íslands II-2, 1955, 82.

1000-1900

Guðmundur Justsson

Á fyrri hluta 20. aldar var Guðmundur Justsson, sem fæddist á Gemlufalli haustið 1841,[1] einna kunnastur þeirra sem búið höfðu á Dröngum, a.m.k. utan Dýrafjarðar,

LESA MEIRA »
1000-1900

Krossadalur

Í Krossadal var löngum tvíbýli á fyrri tíð, Hærri- og Lægri- (eða Neðri-) Krossdalur, og voru þetta ystu bæir við Tálknafjörð. Stundum var reyndar þríbýli

LESA MEIRA »
1000-1900

Arnarstapi

Arnarstapi og Krossadalur voru tvær ystu jarðirnar á norðurströnd Tálknafjarðar og hafa nú báðar verið í eyði frá því um 1940.[1] Frá verbúðatóttunum í Arnarstapavík

LESA MEIRA »