Þingeyrarhreppur hinn forni

Þingeyrarhreppur hinn forni

Í fjarðaröðinni milli Látrabjargs og Stiga er Dýrafjörður lítið eitt norðan við miðju. Næsti fjörður fyrir vestan (sunnan) er Arnarfjörður en norðan Dýrafjarðar kemur Önundarfjörður næstur í röðinni. Eins og flestir nálægir firðir skerst Dýrafjörður inn í landið í stefnu frá vest-norðvestri til suð-suðausturs. Vestan (sunnan) við mynni fjarðarins er Sléttanes en það nafn er samheiti á ysta hluta hálendisskagans sem skilur að Dýrafjörð og Arnarfjörð. Norðan við fjarðarmynnið gnæfir Skagafjall og teygist mun lengra til hafs heldur en Sléttanes. Lengd fjarðarins telst vera 31 til 38 kílómetrar og fer eftir því hvort miðað er við ystu annes að vestan eða norðan. Yst er Dýrafjörður um sex kílómetrar á breidd en mjókkar þegar innar dregur. Frá Haukadal eru um það bil þrír og hálfur kílómetri yfir í Mýrafellið en frá Þingeyri yfir að Gemlufalli aðeins tæpir tveir kílómetrar. Innan við Þingeyri er fjörðurinn yfirleitt einn til tveir kílómetrar á breidd og mjókkar enn þegar kemur inn fyrir Ketilseyri og Lambadal.

Strönd fjarðarins er lítt vogskorin en gróðurlítil blágrýtisfjöll og grösugir dalir móta landslagið. Flest fjallanna eru 500 til 700 metrar á hæð og nokkur enn hærri. Fyrir botni fjarðarins er hæsti kollur Glámu í 920 metra hæð yfir sjávarmáli og í fjallaklasanum milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar gnæfir Kaldbakur fyrir botni Haukadals, 998 metra hár, hæstur allra fjalla á Vestfjörðum. Um miðbik fjarðarins setja tvö einstök fell sterkan svip á umhverfið, Mýrafell á norðurströndinni og Sandafell vestan fjarðarins upp frá kauptúninu Þingeyri. Bæði standa fell þessi stök á fjarðarströndinni og eru skilin frá meginfjalllendinu. Þeim svipar talsvert saman og eru álíka há, 300-400 metrar. Sé horft inn til fjarðarins utan af hafi sýnast þau loka honum, alveg eða nær alveg, enda er aðeins hálfur annar kílómetri frá Garðsenda undir Sandafelli yfir í Mýramel handan fjarðarins. Mælt á vestfirskan kvarða er gróið land öllu meira í Dýrafirði en almennt gerist, bæði inn til dala og sums staðar á fjarðarströndinni. Þar er því víða búsældarlegt um að litast og landslag almennt hlýlegra en víðast hvar í Arnarfirði svo gripið sé til nærtæks samanburðar.

Í Landmámabók er getið um Dýra landnámsmann er nam Dýrafjörð og bjó að Hálsum[1] og hefur löngum verið talið að nafn fjarðarins ætti til hans rætur að rekja. Að sögn Landnámabókar voru landnámsmenn í Dýrafirði fjórir, Eiríkur í Keldudal, Vésteinn Végeirsson í Haukadal, Dýri á Hálsum og Þórður Víkingsson í Alviðru.[2]

Landnám Eiríks náði yfir allan Keldudal og Sléttanes, – frá Stapa á norðurströnd Arnarfjarðar til Háls hins ytra í Dýrafirði.[3] Nær fullvíst má kalla að þessi ytri Háls sem þarna er nefndur sé á Sveinseyrarhlíð um það bil tveimur kílómetrum fyrir innan Keldudal. Þar heita nú Eyrarhálsar, innarlega á hlíðinni. Hálsar þessir eru þrír, Innsti-, Mið- og Ystiháls og ganga allir úr hlíðinni fram í fjöruna en gil á milli. Sé á þá horft ofan frá götunni eru þeir hver um sig ekki ólíkir háls á stórgrip að lögun en þá verður að gera ráð fyrir að höfuðið hafi verið höggvið af sjávarmegin. Fyrir hálsa þessa verður ekki komist nema á allra stærstu fjörum og urðu menn því yfirleitt að fara upp í snarbratta hlíðina til að komast leiðar sinnar fram hjá þeim.

Ekki er þess getið í Landnámabók hvar Eiríkur í Keldudal bjó en margur hefur talið Hraun í Keldudal líklegustu landnámsjörðina.[4] Þar var síðar höfuðból í margar aldir. Í Gísla sögu Súrssonar er Þorkell sonur Eiríks hins vegar sagður hafa búið á Saurum í Keldudal[5] og af þeim ástæðum hafa sumur látið sér detta í hug að Saurar væru landnámsjörðin.[6]

Um Véstein Végeirsson segir í Landnámabók að hann hafi numið land milli Hálsa í Dýrafirði og búið í Haukadal.[7] Með hliðsjón af því sem sagt er um aðra landnámsmenn í Dýrafirði munu flestir hallast að því að orðalagið milli Hálsa merki hér landssvæðið frá hálsi þeim á Sveinseyrarhlíð sem áður var nefndur og að Brekkuhálsi fyrir innan Þingeyri.[8]

Orð Sturlubókar Landnámu um Dýra landnámsmann eru þessi:

 

Dýri hét maður ágætur. Hann fór af Sunnmæri til Íslands að ráði Rögnvalds jarls en fyrir ofríki Haralds konungs hárfagra. Dýri nam Dýrafjörð og bjó að Hálsum. Hans son var Hrafn á Ketilseyri, faðir Þuríðar er átti Véstein Vésteinsson, þeirra synir Bergur og Helgi.[9]

 

Ekki ber gerðum Landnámabókar saman um það hversu stórt landnám Dýra hafi verið. Í Sturlubók Landnámu er sagt að Þórður Víkingsson hafi numið land milli Þúfu á Hjallanesi og Jarðfallsgils.[10] Árið 1840 var gilið mikla rétt utan við Hjarðardal á norðurströnd Dýrafjarðar enn nefnt Jarðfallsgil[11] en hefur á síðari tímum fengið nafnið Glórugil. Með tilliti til þess sem hér hefur verið sagt er ljóst að samkvæmt Sturlubók hefur landnám Dýra því náð yfir allan innri hluta Dýrafjarðar frá Brekkuhálsi að vestanverðu að Jarðfallsgili á norðurströndinni en þessir tveir staðir eru nær beint á móti hvor öðrum, gilið samt lítið eitt utar.

Í Hauksbók Landnámu er Dýri landnámsmaður hins vegar sagður hafa gefið Þórði Víkingssyni allt land milli Þúfu á Hjallanesi og Jarðfallsgils[12] og ætti upphaflegt landnám Dýra þá, auk innfjarðarins, að hafa náð yfir alla norðurströndina til ystu annesja. Þetta misræmi er reyndar lítilvægt því í báðum tilvikum er niðurstaðan sú að á dögum Dýra hafi Þórður Víkingsson eignast allt land á utanverðri norðurströnd fjarðarins frá Jarðfallsgili að Þúfu á Hjallanesi en Þúfa heitir enn yst á Skagafjalli – innan við Nesdal. Ótvírætt sýnist því að elsta nafnið á Skagafjalli sé Hjallanes, enda hæfir það nafn fjallinu prýðilega.

Gerðum Landnámabókar ber saman um að Dýri landnámsmaður hafi búið á Hálsum. Enginn bær með því nafni hefur verið til í Dýrafirði á síðari öldum og engar fornar heimildir, aðrar en Landnáma, geta þessarar jarðar. Sé svipast um í innanverðum Dýrafirði í leit að landnámsjörð sem kynni í fyrstu að hafa fengið nafnið Háls eða Hálsar koma vart fleiri en tveir staðir til greina. Er það annars vegar Hvammur, sem er skammt innan við Brekkuháls á vesturströnd fjarðarins, og hins vegar Höfði og Hjarðardalur sem liggja nær samtýnis á norðurströndinni í grennd við langan háls sem skilur Hjarðardal (dalinn) frá strönd fjarðarins. Um þessi efni hefur sitthvað verið ritað og menn ýmist hallast að Hvammi[13] eða Höfða[14] en enn aðrir talið báða staðina koma til greina.[15] Úr þessu álitaefni verður tæplega skorið með fullgildum hætti og hér verður engin tilraun gerð til þess. Á hitt skal bent að hálsarnir tveir sem hér hafa verið nefndir eru að heita má hvor andspænis öðrum og örstutt á milli yfir fjörðinn, aðeins einn kílómetri þar sem skemmst er. Vel má hugsa sér að þeir sem fyrstir tóku sér hér bólfestu hafi á einu og sama árinu reist tvö eða þrjú býli beggja vegna fjarðarins, – og einmitt undir hálsunum, þar sem nú eru Hvammur, Hjarðardalur og Höfði. Fyrir ættingja, fóstbræður og vini sem hingað komu í samfloti hlaut slíkt að henta einkar vel. Og meðan önnur nöfn á býlunum höfðu ekki fest sig í sessi gat verið ósköp eðlilegt að menn utar í Dýrafirði og í nálægum fjörðum segðu fólk þetta búa að Hálsum.

Hér hafa nú verið rakin nokkur höfuðatriði úr elstu frásögnum af landnámi í Dýrafirði en þess skal að lokum getið að Þórður Víkingsson, sem hér var áður nefndur, er í Landnámabók sagður hafa búið í Alviðru og verið af flestum talinn sonur Haralds konungs hárfagra.[16]

Frá alda öðli hafa hreppar í Dýrafirði verið tveir og áin í fjarðarbotni skilið á milli þeirra. Á norðurströnd fjarðarins er Mýrahreppur sem nær líka yfir Ingjaldssand, ystu byggð í vestanverður Önundarfirði. Gamli Þingeyrarhreppur, sem á fyrri tíð var stundum nefndur Dýrafjarðarhreppur vestan fram eða Meðaldalsþingsókn,[17] þegar þingstaður var í Meðaldal,[18] náði hins vegar yfir alla vesturströnd Dýrafjarðar og allra ysta hluta norðurstrandarinnar í Arnarfirði. Þar voru hreppamörk við Litlabarð á miðjum Hvammsgilsbökkum eins og hér hefur áður verið getið (sjá Auðkúluhreppur, inngangskafli), – tæplega tveimur kílómetrum fyrir utan Dalsdal. Fyrir allmörgum árum var Auðkúluhreppur í Arnarfirði sameinaður Þingeyrarhreppi en hið nýja sveitarfélag bar nafn Þingeyrarhrepps allt þar til allir hrepparnir í Vestur-Ísafjarðarsýslu og kaupstaðurinn Ísafjörður urðu að einu sveitarfélagi árið 1996.

Hér verður nú um sinn staldrað við í hinum forna Þingeyrarhreppi en heimsókn í Mýrahrepp bíður síðari tíma.

Forn lögbýli í Þingeyrarhreppi sem héldust í byggð fram á tuttugustu öld voru tuttugu og eitt. Á miðöldum munu býlin hafa verið nokkru fleiri, enda er getið sex fornbýla í Haukadal einum sem öll voru horfin úr sögunni fyrir siðaskipti (sjá hér Haukadalur). Auk búskapar á lögbýlum var líka búið í hjáleigukotum allvíða í hreppnum á fyrri tíð eins og hér verður nánar rakið síðar í ferð okkar bæ frá bæ um allan Þingeyrarhrepp.

Í gamalli vísu eru talin upp nöfn allra lögbýla í hreppnum og þeim raðað eins og boðleiðin lá utan frá Svalvogum inn að Dröngum. Vísan er svona:

 

Svalvogar, Höfn og síðan Hraun,

senn kemur Skálará.

Saurar Arnarnúp sýna raun.

Sveinseyri finna má.

Haukadalur er herleg jörð,

hópur manna þar býr.

Meðaldalur um miðjan fjörð

mér virðist ekki rýr.

Hólar, Kirkjuból, Hof þar með.

Frá Múla Sanda-stað fær séð.

Bakki, Grandi, Brekka við Hvamm

býr þar mannfjöldi stór.

Ketilseyri er klár við vamm;

til Kjaransstaða ég fór.

Drangar fá oft af skriðum skamm,

skemmist þar tún og mór.

 

Eitt prestakall var í Þingeyrarhreppi og prestssetur á Söndum, a.m.k. frá 14. öld. Kirkjusóknir voru hins vegar tvær, Sandasókn og Hraunssókn, kenndar við kirkjustaðina Sanda og Hraun. Allt fram til ársins 1802 lágu mörk sóknanna tveggja milli bæjanna Hóla og Meðaldals.[19] Óþægilegt hefur þetta verið fyrir fólk í Meðaldal og Haukadal því frá Meðaldal eru aðeins þrír kílómetrar að Söndum en átta kílómetrar að Hrauni og leiðin þangað einnig langtum verri yfirferðar árið um kring og einkum að vetrinum.

Þann 25. júní 1802 var gefin út konungleg tilskipun um breytingu á sóknamörkum í Þingeyrarhreppi og mælt svo fyrir að býlin í Meðaldal og Haukadal skyldu þaðan í frá teljast til Sandasóknar.[20] Í konungsbréfinu kemur fram að breytingin hafi verið ákveðin að ósk búenda á þessum jörðum.[21] Alllöngu síðar var Sveinseyri líka færð úr Hraunssókn yfir í Sandasókn og mun sú tilfærsla hafa átt sér stað árið 1864.[22]

Árið 1703 áttu 382 manneskjur heima í Þingeyrarhreppi.[23] Í þeim hópi voru 17 ómagar og þurfamenn og þrettán þeirra finnast ekki skráðir til heimilis á neinum ákveðnum bæ.[24] Í Hraunssókn voru íbúarnir 199 en 170 í Sandasókn og við þessar tölur bætast áðurnefndir þrettán ómagar.[25]

Tæpri öld síðar voru íbúarnir lítið eitt fleiri eða 393 þegar manntal var tekið árið 1801 og skiptust þannig milli sóknanna að 206 bjuggu í Hraunssókn en 187 í Sandasókn.[26] Á fyrri hluta 19. aldar fækkar fólki nokkuð í Þingeyrarhreppi því við manntal sem tekið var 2. nóvember 1845 reyndist íbúatalan vera komin niður í 328[27] og hafði lækkað um 16,5% frá árinu 1801. Íbúar Sandasóknar voru nú um það bil tvöfalt fleiri en fólkið í Hraunssókn, 218 á móti 110,[28] enda höfðu bæði Meðaldalur og Haukadalur þá verið færðir úr Hraunssókn yfir í Sandasókn eins og hér var áður nefnt. Án þeirrar breytingar hefði ytri sóknin enn verið fjölmennari en sú innri.

Hér var þess áður getið að lítið hefði verið um fólksflutninga til og frá norðurströnd Arnarfjarðar á fyrri tíð og þá nær eingöngu milli hennar og nálægra byggðarlaga (sjá hér Auðkúluhreppur, inngangskafli). Eins var þetta í Dýrafirði. Frá siðaskiptum um miðja 16. öld og fram til ársins 1884 sátu alls 19 prestar á Söndum. Aðeins einn úr þeim hópi fékk veitingu fyrir prestakalli utan Vestfjarðakjálkans og þá á Vesturlandi.[29] Allir hinir þjónuðu eingöngu í prestaköllum á Vestfjörðum nema þrír sem verið höfðu aðstoðarprestar á Vesturlandi skamman tíma á leið sinni til Vestfjarða.[30] Sýnir þetta vel hversu lítið var um mannflutninga milli fjarlægra byggðarlaga áður en fyrstu merki nútímans tóku að gera vart við sig með strandferðum, þilskipaútgerð og þéttbýlismyndun, – því helst voru það þó stöku prestar og sýslumenn sem færðu sig langar leiðir milli héraða en bændaalmúginn hélt kyrru fyrir á heimaslóðum. Alltaf var samt nokkuð um mannflutninga milli nálægra hreppa og fyrir kom að menn færðu sig í næstu sýslu. Af 328 íbúum Þingeyrarhrepps árið 1845 voru 231 fæddur í hreppnum og 39 í Mýrahreppi handan fjarðarins, þar af sjö á Ingjaldssandi.[31] Innfæddir Dýrfirðingar voru því yfir 80% af íbúum hreppsins. Þar til viðbótar voru 26 fæddir annars staðar í Vestur-Ísafjarðarsýslu svo alls voru 90,2% íbúanna fæddir innan sýslunnar.[32] Af þeim sem þá voru enn ótaldir voru 19 fæddir í Barðastrandarsýslu, 6 í Norður-Ísafjarðarsýslu, 1 í Strandasýslu, 3 á Snæfellsnesi og aðeins 3 í fjarlægari héruðum.[33] Tölurnar sýna að innan við 2% af íbúum Þingeyrarhrepps árið 1845 voru fæddir utan Vestfjarðakjálkans.

Þingeyri við Dýrafjörð er gamall verslunarstaður og þar var verslun starfrækt allt einokunartímabilið og síðan áfram til þessa dags. Aðeins fjórar manneskjur voru þó skráðar þar til heimilis árið 1703, ellefu árið 1801 og tólf árið 1845. Tvær fjölskyldur bjuggu þá á Þingeyri, verslunarstjórinn og einn húsmaður.[34] Árið 1870 voru enn aðeins fjórar fjölskyldur búsettar á Þingeyri og íbúatalan innan við tuttugu.[35] Um og upp úr 1880 tekur þorp hins vegar að myndast á þessum forna verslunarstað og annað í Haukadal, sjö kílómetrum utar á fjarðarströndinni. Árið 1880 var íbúatalan á Þingeyri komin upp í 35 og eru þá taldir með allir sem bjuggu á því landssvæði sem nú telst til Þingeyrar[36] en hluti þess lands var þá innan landamerkja Hvamms, næstu jarðar fyrir innan kauptúnið. Talið með sama hætti lætur nærri að íbúatala Þingeyrar hafi tvöfaldast á hverjum áratug næstu þrjátíu ár en fjöldi íbúa þar á árunum 1880-1910 var sem hér segir:

 

1880 ………………….. 35

1890 ………………….. 91

1901 ………………… 175

1910 …………………. 339.[37] *)

 

Þéttbýlismyndunin á Þingeyri og sú mannfjölgun sem henni fylgdi átti fyrst og fremst rætur að rekja til útgerðar þilskipa og síðar vélbáta. Um svipað leyti og þorp tók að myndast á Þingeyri fóru einstaka þurrabúðarmenn að setjast að í Haukadal. Á 18. öld og lengi fram eftir hinni 19. voru þar yfirleitt þrjú til fimm bændabýli og stundum eitthvað af húsfólki að auk. Árið 1870 bjuggu aðeins þrír bændur þar í dalnum og hjá þeim voru samtals 49 manneskjur í heimili.[38] Árið 1880 var tala bændabýlanna óbreytt en þá voru komnar tvær þurrabúðir niður við sjóinn þar sem heitir á Sæbóli.[39] Enn hafði íbúum Haukadals samt ekki fjölgað neitt verulega. Árið 1890 var bændatalan söm og áður en nú voru þurrabúðarheimilin orðin sjö og íbúafjöldi dalsins kominn upp í 76.[40] Þá ____________________________________________________________

*) Í Tölfræðihandbók sem út var gefin árið 1984 eru íbúar Þingeyrar sagðir nokkru færri árin 1890 og 1901 og mun meginskýringin vera sú að þar séu aðeins taldir þeir sem bjuggu innan þáverandi marka  kauptúnsins.

var risinn í Haukadal dálítill vísir að þorpi. Árið 1901 voru bændabýli í dalnum orðin fjögur og íbúatalan komin upp í 87.[41] Enn átti þó eftir að fjölga í Haukadal því að við manntal sem tekið var árið 1910 reyndust íbúarnir vera nákvæmlega 100.[42] Eins og á Þingeyri var það vaxandi útgerð sem einkum stuðlaði að mannfjölgun í Haukadal á árunum kringum aldamótin 1900 en nánar verður fjallað um þau efni á öðrum stað í þessu riti (sjá hér Haukadalur). Þess var hins vegar tæplega að vænta að tvö þorp næðu að blómgvast til frambúðar í næsta nágrenni við hvort annað á vesturströnd Dýrafjarðar og strax á öðrum áratug tuttugustu aldar fækkaði íbúum Haukadals um fjórðung úr 100 í 74.[43]

Á síðari hluta 19. aldar eða nánar til tekið frá 1845 til 1901 fjölgaði íbúum Þingeyrarhrepps úr 328 í 527.[44] Öll þessi mikla mannfjölgun tengdist þéttbýlismynduninni á Þingeyri og í Haukadal því annars staðar í hreppnum fækkaði fólki á þessum 56 árum úr 275 í 265.[45] Á flestum sveitabýlum í hreppnum varð þó meiri fólksfækkun á þessu skeiði en tölurnar hér að framan gefa til kynna. Skýringin á því er sú að veruleg fjölgun varð ekki aðeins á Þingeyri og í Haukadal heldur líka í Hvammi þar sem greina mátti um aldamótin 1900 vísi að myndun þriðja þorpsins á þessum sömu slóðum. Árið 1845 bjuggu aðeins tveir bændur í Hvammi með samtals 29 manneskjur í heimili.[46] Þar var þá ekkert  húsfólk og engar þurrabúðir.[47] Árið 1901 var íbúatalan í Hvammi hins vegar komin upp í 84 og hafði því nær þrefaldast frá árinu 1845.[48] Hér eru þó ekki taldir með þeir sem árið 1901 bjuggu yst í Hvammslandareign á því landssvæði sem nú hefur verið lagt undir Þingeyri. Í núverandi Hvammslandi voru tólf heimili árið 1901, sex bændur og sex þurrabúðarmenn eða húsmenn sem sumir höfðu þó einhverja grasnyt.[49] Að öllu því athuguðu sem hér hefur verið sagt um mannfjöldaþróun í Þingeyrarhreppi á árunum 1845-1901 verður ljóst að á þessu skeiði hefur íbúum verslunarstaðarins á Þingeyri og býlanna í Hvammi og Haukadal fjölgað úr 82 í 346 en íbúum annarra býla í hreppnum hins vegar fækkað úr 246 í 181 á sama tíma. Er þá mál að snúa sér að öðrum þáttum.

 

Að fornu mati var samanlagður dýrleiki allra jarða í Þingeyrarhreppi talinn vera 530 hundruð. Er þá byggt á upplýsingum úr Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá árinu 1710 nema hvað vitneskja um mat á kirkjustaðnum Söndum er sótt í Jarðatal Johnsens frá árinu 1847.[50]

Árið 1710 bjuggu í hreppnum 40 bændur að meðtöldum presti og fimm hjáleigubændum[51] og hefur meðalbóndinn í þeim hópi þá haft liðlega þrettán jarðarhundruð til ábúðar. Á tíu jörðum í hreppnum var þá aðeins einn ábúandi, tvíbýli var á fimm jörðum, þríbýli á öðrum fimm og í Hvammi bjuggu fimm bændur.[52]

Fróðlegt er að skoða hvernig eignarhaldi jarða var háttað í Þingeyrarhreppi í byrjun 18. aldar. Slík athugun leiðir í ljós að um 12% af öllu jarðnæði í hreppnum var þá í sjálfsábúð, um 11% þar til viðbótar var í eigu annars bændafólks í Dýrafirði, um 17% í eigu kirkjunnar, um 7% í eigu ýmissa landeigenda utan Vestfjarðakjálkans og 53% í eigu ýmissa bænda og embættismanna annars staðar á Vestfjörðum en í Dýrafirði.[53] Séra Sigurður Jónsson, prófastur í Holti í Önundarfirði, átti nákvæmlega 100 jarðarhundruð í Þingeyrarhreppi árið 1710 eða um 19% af öllu jarðnæði í hreppnum. Hann var stærsti jarðeigandinn.[54] Jarðeignir prófastsins í vestanverðum Dýrafirði voru þessar: Sveinseyri, Meðaldalur, Kirkjuból, sex hundruð í Höfn, tíu hundruð í Hólum og átta hundruð í Bakka.[55] Eins og fyrr var getið voru um 12% jarðnæðis í Þingeyrarhreppi í sjálfsábúð árið 1710. Engin jörð í hreppnum var þá öll í sjálfsábúð en sjálfseignarbændur bjuggu þá á 35 hundruðum úr Hvammi, 12 hundruðum úr Ketilseyri, 10 hundruðum úr Haukadal og 7½ hundraði úr Arnarnúpi. Úr hópi heimamanna áttu Jón Þorvaldsson í Hvammi og Jón Þorvaldsson á Ketilseyri mestar jarðeignir í hreppnum árið 1710, annar 28 jarðarhundruð en hinn 29.[56] Jónar þessir tveir munu reyndar hafa verið bræður.[57]

Landskuld af jörðum í Þingeryrarhreppi var nokkuð breytileg í byrjun átjándu aldar en nærri lætur að landskuldin hafi að jafnaði verið ein vætt á landsvísu fyrir hver fjögur hundruð í jörð.[58]

Í Jarðatali Johnsens frá árinu 1847 er dýrleiki jarða í Þingeyrarhreppi talinn lítið eitt minni en verið hafði árið 1710 eða alls 520 jarðarhundruð í stað 530.[59] Um miðja 19. öld voru fjórar jarðir í hreppnum, Saurar, Múli, Sandar og Grandi, í eigu kirkjunnar en hinar sautján voru þá allar flokkaðar sem bændaeign.[60] Árið 1847 voru bændur í Þingeyrarhreppi mun færri en verið hafði árið 1710 eða aðeins 29 í stað 40.[61] Hver bóndi hafði því að jafnaði um það bil 18 jarðarhundruð til ábúðar[62] í stað 13 hundraða árið 1710. Er þá sóknarpresturinn talinn með bændum í báðum tilvikum. Fjöldi sjálfseignarbænda í Þingeyrarhreppi var kominn upp í tíu árið 1847 og bjuggu þeir þá á sex jörðum eða jarðarpörtum.[63] Samtals höfðu þessir tíu sjálfseignarbændur þá til ábúðar um það bil 40% af öllu jarðnæði í hreppnum[64] og var það mikil breyting frá árinu 1710 þegar ekki voru í sjálfsábúð nema um 12% alls jarðnæðis í sveitarfélaginu.

Sumarið 1710 var bústofn bænda í Þingeyrarhreppi sagður vera þessi: 123 kýr og aðrir nautgripir, 666 ær, 658 sauðir, 598 lömb og 73 hross.[65] Talsverður hluti bústofnsins voru innstæðukúgildi sem fylgdu jörðunum er þær voru teknar á leigu. Alls voru innstæðukúgildin tæplega 87 eða sem svaraði 521 á með lambi.[66] Þessar tölur um heildarbústofn í hreppnum sumarið 1710 sýna, – ef marktækar eru, að meðalbóndinn hefur þá verið með 3 nautgripi, 17 ær, 16 sauði, 15 lömb og 2 hross.

Ólafur Olavius kannaði búskaparhætti og landkosti á norðanverðum Vestfjörðum sumarið 1775 á vegum danskra stjórnvalda. Í Ferðabók sinni sem út var gefin árið 1780 segir hann gott sauðland vera í Dýrafirði og tekur fram að þar sé meira lagt upp úr sauðfjárrækt en nautgriparækt.[67]

Í byrjun tuttugustu aldar var sauðfé allmiklu fleira í Þingeyrarhreppi en verið hafði 200 árum fyrr. Sumarið 1710 voru samtals 1324 sauðkindur í hreppnum, að sögn bænda, væru lömb ekki talin með. Árið 1904 var þessi tala um það bil tvöfalt hærri en þá voru 2683 sauðkindur á fóðrum í hreppnum.[68] Hins vegar hafði kúm og öðrum nautgripum fækkað á sama tímaskeiði úr 123 í 104.[69]

Í Þingeyrarhreppi var lítið um framfarir í búnaði fyrr en á árunum kringum aldamótin 1900 en Búnaðarfélag Þingeyrarhrepps var stofnað árið 1889 (sjá Firðir og fólk 1900-1999, 152). Fyrsti búfræðingurinn sem kom í hreppinn og leiðbeindi bændum var þó á ferð sumarið 1883 en það var Sæmundur Eyjólfsson og vann hann þá í sjö daga að jarðyrkju á Söndum[70] (sbr. hér Mosvallahreppur, inngangskafli).

Eins og annars staðar á Vestfjörðum var sjósókn mjög gildur þáttur í verkahring flestra bænda í Dýrafirði á fyrri tíð. Í byrjun átjándu aldar er getið verstöðva í landi þriggja ystu jarða í Þingeyrarhreppi, Hrauns, Hafnar og Svalvoga, en auk þess var þá róið meira eða minna til fiskjar úr heimavör frá öllum jörðum utan við Sandafell sem land áttu að sjó.[71] Úr verstöðvum í hreppnum gengu þá a.m.k. milli tíu og tuttugu bátar samtals á vorvertíð og jafnvel yfir tuttugu sum árin.[72]

Í Jarðabók Árna og Páls segir að á árunum 1670-1690 hafi allt upp í 15 bátar róið frá heimalendingunni í Svalvogum en ætla verður að þar sé átt við Svalvogahamar sem er um það bil 500 metrum sunnan við túnið í Svalvogum (sjá hér Svalvogar). Á árunum kringum 1690 hvarf útræði frá heimalendingunni í Svalvogum hins vegar að mestu úr sögunni en þess í stað risu upp verstöðvar á fjórum öðrum stöðum í grenndinni, ein í Hlaðsnesvík, sem er skammt fyrir utan hreppamörkin yst á norðurströnd Arnarfjarðar, önnur við heimavörina í Höfn, sú þriðja við Innri-Höfn í Hafnarlandi og hin fjórða rétt utan við Keldudal, í landi Hrauns.[73] Ætla má að síðast nefnda verstöðin hafi í byrjun 18. aldar verið við Skerið, sem þar er enn á sínum stað, en þaðan var róið á 19. öld (sjá hér Hraun). Árið 1775 fékk Ólafur Olavius þær upplýsingar í Dýrafirði að helstu verstöðvar við fjörðinn vestanverðan væru Hafnir og Sker.[74] Hann segir að vísu að verstöðvar þessar séu þá lítt sóttar en tekur fram að þar séu allgóðar lendingar og malir hentugar til saltfiskþurrkunar.[75] Það sem Olavius kallar Hafnir eru án vafa Innri- og Ytri-Höfn á Hafnarnesi í landi Hafnar (sjá hér Höfn).

Séra Bjarni Gíslason á Söndum sem ritaði Lýsingu Sanda- og Hraunssókna um 1840 getur þriggja verstöðva í sóknum sínum og segir þær vera á Hafnarnesi, við Selsker og við Svalvogahamar.[76]

Selsker er skammt frá landi rétt innan við túnið í Höfn og verður að ætla að séra Bjarni eigi við það sker, enda var heimalending Hafnarbænda í skjóli við það. Er séra Bjarni gerir grein fyrir lendingarstöðum nefnir hann líka Sker og segir að þar sé gott að lenda í vestanátt en verra í norðanátt. Þar á prestur augljóslega við Skerið utan við Keldudal en þann stað nefnir hann ekki meðal veiðistöðva.[77] Í öðrum heimildum má þó sjá að bændur úr Keldudal sóttu um miðja 19. öld sjó frá lendingunni í grennd við það (sjá hér Hraun). Um verstöðvarnar í landi Svalvoga, Hafnar og Hrauns er fjallað lítið eitt nánar aftar í þessu riti (sjá hér Svalvogar, Höfn og Hraun).

Við norðanverðan Dýrafjörð var löngum fjölsótt verstöð á Fjallaskaga (sjá hér Fjallaskagi). Ummæli Árna Magnússonar í Jarðabókinni frá 1710 benda til þess að margir bátar úr Þingeyrarhreppi hafi róið þaðan á fyrstu árum 18. aldar (sjá hér Fjallaskagi). Í sóknalýsingu séra Jóns Sigurðssonar á Gerðhömrum frá árinu 1840 er hins vegar komist svo að orði að á Skaga sé vorveiðistaða fyrir alla norðan fram Dýrafjarðar.[78] Orð séra Jóns verður að skilja á þann veg að er þau voru rituð hafi allir eða nær allir þeir bátar sem reru frá Skaga verið úr Mýrahreppi.

Um eða eftir miðja 19. öld fóru bátar úr Þingeyrarhreppi hins vegar aftur að róa frá Skaga og er kom fram um 1880 munu flestir bátar úr Dýrafirði hafa róið þaðan á vorin.[79] Bjarni Sæmundsson fiskifræðingur ferðaðist um Vestfirði árið 1901 og ræddi þá m.a. ýtarlega við Matthías Ólafsson, verslunarstjóra í Haukadal, um sjósókn Dýrfirðinga. Er Bjarni kom úr leiðangri þessum skrifaði hann merka ritgerð um sjávarútveg Vestfirðinga og kemst þar svo að orði um sjósókn Dýrfirðinga:

 

Áður lágu menn við á vorin úti á Skaga en nú er aðalvertíð haustið en á vorin er lítið róið. Bátaútvegi hefur farið aftur. Að vísu ganga nú á haustin um 20 fleytur, fjögramannaför og tveggja, en fyrir um 20 árum gengu 20 stærri og smærri bátar á vorin og gengu þá allir frá Skaga en inni í firðinum reru aðeins unglingar og gamalmenni á smábátum. Voru þá aðeins brúkuð haldfæri og haukalóðir. Á haustin reru menn oft út í Arnarfirði og brúkuðu þar lóðir.[80]

 

Hér hefur áður verið getið um haustróðra Dýrfirðinga frá verstöðvum á norðurströnd Arnarfjarðar á árunum í kringum aldamótin 1900 (sjá hér Auðkúluhreppur, inngangskafli). Á tveimur fyrstu áratugum tuttugustu aldar var líka eitthvað um það að bændur og lausamenn úr innri hluta Þingeyrarhrepps stunduðu vor- eða haustróðra frá bæjum í ytri hluta hreppsins.[81] Fjárhús voru þá stundum notuð sem verbúðir, t.d. á Arnarnúpi[82] og í Svalvogum.[83] Ottó Þorvaldsson, sem fæddur var árið 1903 og ólst upp í Svalvogum, segir að í bernsku sinni hafi haustróðrar á sexæringum verið stundaðir frá flestum eða öllum bæjum sem land áttu að sjó á strandlengjunni frá Sandafelli að Svalvogum en flestir reru þá úr sinni heimavör.[84] Um eða upp úr 1920 mun slíkum róðrum hins vegar hafa farið mjög fækkandi. Sumir bændur hættu þá allri sjósókn en aðrir fengu vélar í báta sína.

Ýmsar upplýsingar um bátafjölda í Þingeyrarhreppi á 18. og 19. öld liggja fyrir í opinberum heimildum. Um áreiðanleik þessara heimilda verður að hafa nokkurn fyrirvara en samt má ætla að þær gefi allgóða vísbendingu um bátafjöldann. Í Jarðabók Árna og Páls frá árinu 1710 má sjá að þá hefur sjór verið sóttur á a.m.k. 14 bátum úr Þingeyrarhreppi[85] en smáar hafa þær fleytur verið flestar eða allar því í Jarðabókinni segir að bátar sem rói frá stærstu verstöðinni, Hrauni, séu flestir þriggja og fjögra manna för.[86] Í Búnaðar- og manntalstöflum frá síðari hluta 18. aldar er stundum getið um fjölda báta í einstökum hreppum[87] en ekkert er sagt þar um stærð þeirra. Í prentuðum og óprentuðum búnaðarskýrslum frá 19. öld er hins vegar víða að finna greinargóðar upplýsingar um stærð bátanna og fjölda þeirra.[88]

Á Töflu 1 verður nú sýnt hver bátafjöldinn í Þingeyrarhreppi var á hverjum tíma samkvæmt þeim skjallegu gögnum sem fyrir liggja og þar er einnig getið um stærð bátanna þegar vitneskja um hana liggur fyrir. Taflan byggir á heimildum sem hér hafa verið nefndar og hafa fengið tilvísunarnúmerin 84-87.

Tafla 1

 

_______________________________

 

*) Ekki fær staðist að enginn áttæringur eða stærri bátur hafi verið til í hreppnum árið

  1. Í þeim efnum skal vísað á upplýsingar sem hér er að finna á bls. 16-17.

 

 

Tölur um bátafjöldann benda til þess að upp úr miðri 18. öld hafi útgerðin verið í lágmarki. Líklegt er að svo hafi verið í raun því á árunum 1752-1759 féll nær fimmti hver maður í landinu úr hungri og harðrétti[89] og munu Vestfirðingar hafa fengið að kenna á þeim hörmungum nokkurn veginn til jafns við aðra. Þess var áður getið að í byrjun 18. aldar hafi flestir bátanna í Þingeyrarhreppi verið þriggja og fjögra manna för en líklegt er að þegar síga tók á seinni hluta þeirrar aldar hafi bátarnir farið stækkandi. Vísbending í þá átt kemur fram hjá Olaviusi sem ferðaðist um Ísafjarðarsýslu sumarið 1775 og segir nýkominn úr þeirri för að þar vestra sé mest um fimm manna för, sexæringa og áttæringa.[90] Varla hefur þó verið mikið um áttæringa því Olavius greinir líka frá því að við sjóróðra úr verstöðvum í Ísafjarðarsýslu séu yfirleitt fjórir til sjö menn á hverjum báti.[91] Um stærð bátanna í Dýrafirði getur hann ekki sérstaklega og í þeim efnum verður því að nægja sú vísbending sem felst í upplýsingum um bátastærð í sýslunni almennt.

Í tíundarskýrslum úr Þingeyrarhreppi frá árunum 1835-1851 er getið um bátaeign manna en þar munu þó aðeins taldir hinir stærri bátar, – fimm manna för og þaðan af stærri.[92] Að svo sé kemur skýrt fram í tíundarskýrslum frá árinu 1843 og samanburður á tíundarskýrslu frá árinu 1838 og búnaðarskýrslu frá því ári (sjá hér Töflu 1) bendir eindregið til hins sama. Árið 1843 voru í hreppnum þrettán stórir bátar. Í tíundarskýrslunni frá því ári eru þeir flokkaðir í tvo flokka, annars vegar áttæringa og teinæringa og hins vegar í fimm manna för og sexæringa. Flestir þessara báta og máske allir hafa þó vafalítið verið annað hvort áttæringar eða sexæringar og verða til einföldunar nefndir svo á þeirri skrá sem hér fylgir yfir bátaeigendur í hreppnum árið 1843 en hún byggir annars að öllu leyti á tíundarskýrslunni.

 

Bátaeigendur í Þingeyrarhreppi árið 1843

 

Guðmundur Sveinsson, Svalvogum     –     sexæringur.

Páll Jónsson yngri, Hrauni                 –     sexæringur og hálfur áttæringur.

Jón Sigmundsson, Hrauni                  –     sexæringur.

Össur Magnússon, Sveinseyri             –     áttæringur.

Ólafur Ólafsson, Haukadal                 –     hálfur áttæringur.

Jón Ólafssson eldri, Haukadal             –      hálfur áttæringur.

Halldór Jónsson, Meðaldal                 –     sexæringur og hálfur áttæringur.

Guðmundur Guðbrandsson, Hólum     –     sexæringur.

Bjarni Ólafsson, Kirkjubóli                –     hálfur áttæringur.

Níels Steenbach faktor, Þingeyri         –     áttæringur.

Bjarni Þorvaldsson, Hvammi              –     sexæringur og hálfur áttæringur.

Sigurður Magnússon, Kjaransstöðum   –     sexæringur.

Gísli Jónsson, Dröngum                    –     sexæringur.

 

Eins og sjá má á skránni voru áttæringarnir fimm en sexæringarnir átta. Mest var bátaeignin hjá Páli Jónssyni í Hrauni, Halldóri Jónssyni í Meðaldal og Bjarna Þorvaldssyni í Hvammi en þeir áttu hver um sig bæði sexæring og hálfan áttæring.

Árið 1897 var heildarafli báta úr Þingeyrarhreppi 53.600 fiskar og skiptist þannig eftir tegundum: 9.300 þorskar, 17.500 þyrsklingar (þ.e. smáþorskur), og 26.800 ýsur.[93] Afli þessi fékkst á 16 báta. Af þeim voru 3 úr Keldudal, 8 frá Haukadal og Sveinseyri, 2 frá Meðaldal, einn frá Hofi og 2 frá Hvammi.[94] Aflahæstur á þessu ári varð Jón Jónsson í Haukadal sem gerði út fjögra manna far en ársafli hans var 7.800 fiskar.[95] Næstir komu Kristján Andrésson í Meðaldal með 5.700 fiska, Kristján Kristjánsson í Meðaldal með 5.300 fiska, Þorvaldur Kristjánsson í Hvammi (síðar í Svalvogum) með 5.000 fiska og Guðjón Þorgeirsson á Arnarnúpi með 4.300 fiska.[96] Hinir fjórir síðasttöldu gerðu allir út fjögra manna för nema Kristján Kristjánsson sem gerði út sexæring.[97] Algengast var að útgerðarmennirnir væru jafnframt formenn á bátunum en föst regla var það samt auðvitað ekki.

Ólafur Olavius segir í Ferðabók sinni að í Dýrafirði, Önundarfirði og Súgandafirði virðist menn sérlega vel fallnir til sjómennsku.[98] Hann telur báta Vestur-Ísfirðinga vera of litla og bendir á að frá verstöðvum í fjörðunum milli Sléttaness og Stiga henti vel að stunda þorsk- og hákarlaveiðar á stórum bátum er sótt geti á djúpmið.[99]

Á árunum 1771-1773, örfáum árum áður en Olavius ferðaðist um Vestfirði, hafði reyndar verið gerð sérstök tilraun með útgerð stórra báta frá Skutulsfjarðareyri og Patreksfirði.[100] Bátar þessir voru með norsku lagi og kenndir við Sunnmæri í Noregi. Hópur Norðmanna var sendur hingað til lands til að kenna Íslendingum að nota segl og þorskanet við veiðar á slíkum bátum.[101] Tilraun þessi mistókst hins vegar algerlega af ýmsum ástæðum, m.a. vegna þess að bátarnir reyndust þungir í róðri og erfiðir í setningu. Auk þess voru slíkir bátar nær sexfalt dýrari en þeir íslensku.[102] Sjálfur bendir Olavius á að íslensku bátana geti áhöfnin sett á land hvar og hvenær sem er en til að setja Sunnmærabát þurfi þrefalt fleiri menn. Hann vill samt ekki gefa upp vonina um útgerð stærri báta frá Vestfjörðum og segir eina ástæðuna fyrir því hversu illa tókst til með norsku bátana hafa verið þá að Norðmennirnir, sem kenna áttu notkun þeirra, hafi verið látnir setjast  að of nærri krambúðinni á Skutulsfjarðareyri.[103] Hugmyndir sínar um breytta útgerðarhætti á Vestfjörðum skýrir Olavius á þessa leið:

 

En þótt nú bátar þessir [þeir norsku] séu að ýmsu leyti óhentugir þá hafa þeir þó eitt fram yfir íslenska bátinn sem er harla mikilvægt, og það er stærðin og siglingin. Af þeim ástæðum þola þeir betur sjóinn og gætu orðið til þess að efla bæði þorsk- og hákarlaveiðina. Af þessum sökum tel ég þá næstum ómissanlega til fiskveiða ásamt duggum á Dýrafirði, Önundarfirði og Súgandafirði þar sem ýmis fiskimið og það sennilega hin bestu þeirra liggja fjær en svo að sjómenn geti sótt þangað á bátum sínum. Á mið þessi ætti að róa frá marslokum til septemberbyrjunar og veiða þar þorsk, lúðu og steinbít á handfæri en hákarl með stjóra eða á hákarlalóðir. Á þessum stöðum kæmu illar lendingar ekki að sök því að á Haukadals- og Eyrarbót og innan við Suðureyri gætu bátar greiðlega lagst við akkeri, eins og sumir telja nauðsyn, og möl til að þurrka á saltfisk er nægileg þar í grennd. En að liðnum þessum tíma, þegar verra yrði í sjóinn, ættu sjómennirnir að flytja sig með báta sína til Æðeyjar þar sem er hin tryggasta vetrarhöfn fyrir bátana. Þaðan mætti svo stunda þorskveiðar með netum og lóðum samtímis, ef mönnum sýndist meðan nótt er dimm, og veiða hákarl á hákarlalóðir … .

 

Tillögur Olaviusar um útgerð stórra áraskipa frá verstöðvum í Vestur-Ísafjarðarsýslu komust aldrei til framkvæmda en hugmyndir hans og ýmissa fleiri um þilskipaútgerð frá Dýrafirði og nálægum fjörðum náðu hins vegar að verða að veruleika nokkrum áratugum síðar.

Fyrir daga þilskipaútgerðarinnar stunduðu Dýrfirðingar bæði þorsk- og hákarlaveiðar á opnum áraskipum. Erfitt er þó að sjá hversu stór þáttur hákarlaveiðarnar voru í útgerðinni. Árið 1655 voru aðeins 5 tunnur af lýsi (allar tegundir lýsis) fluttar út frá Dýrafirði en 64 tunnur frá Ísafirði.[104] Þar eð hákarl var einkum veiddur vegna lýsisins bendir tunnutalan til þess að dauft hafi verið yfir hákarlaveiðum Vestur-Ísfirðinga á þeirri tíð. Þó þarf ekki að vera að slíkar tölur frá aðeins einu ári segi mikla sögu en aðrar upplýsingar frá 17. öld eru ekki í boði.

Eftir ferð sína um Vestfirði árið 1775 segir Olavius að Djúpmenn stundi hákarlaveiðar af kappi en í Dýrafirði, Önundarfirði og Súgandafirði sé minni stund á þær lögð en æskilegt væri.[105] Hann getur um þrjár aðferðir sem Vestfirðingar noti við að veiða hákarl. Oftast sé legið við stjóra og hákarlinn veiddur á vað sem hákarlasóknirnar séu festar við en einnig tíðkist að festa hákarlakróka, svokallaða hneifa, á fiskilóðir á 3 eða 4 stöðum eða við hvert dufl.[106] Þriðja veiðarfærið sem Olavius getur um var svo hákarlalóð en hana segir hann engan mann á öllu landinu nota svo sér sé kunnugt nema bónda einn í Dýrafirði, Jón Skúlason að nafni.[107]

Engu að síður mælti Olavius alveg sérstaklega með þessu veiðarfæri og það gerði líka Þorlákur Ísfjörð frá Bolungavík í tillögum sínum til danskra stjórnvalda frá árinu 1775[108] en hann varð ári síðar sýslumaður á Snæfellsnesi og gekkst þá brátt fyrir vel heppnuðum tilraunum með notkun þessa veiðarfæris undir Jökli.[109]

Nær fullvíst má telja að Jón Skúlason Dýrfirðingur sem einn manna stundaði hákarlaveiðar með þar til gerðum lóðum hafi verið hreppstjórinn í Meðaldal með því nafni. Að minnsta kosti hefur ekki tekist að finna annan Jón Skúlason í heimildum úr Dýrafirði frá þessu skeiði. Jón Skúlason, hreppstjóri í Meðaldal, er hins vegar m.a. nefndur í prestsþjónustubók Sandaprestakalls árið 1787 en þá varð honum það á að eignast hórgetinn son með einni af vinnukonum sínum.[110] Ætla má að Jón þessi hafi verið í meira lagi áræðinn og framtakssamur fyrst hann tók sig einn út úr hópnum og fór að veiða hákarl með allt öðru veiðarfæri en allir hinir. Um hákarlalóð Jóns Skúlasonar ritar Olavius svo:

 

Lóðin er með líkum hætti og fiskilóðir en á henni eru hafðir svo margir hákarlaönglar sem menn telja að hagkvæmt sé. Verður að hafa fjölda þeirra eftir dýpinu. … Það virðist ómótmælanlegt að hákarlalóðin gefur miklu betri raun en hin veiðarfærin vegna önglafjöldans og einnig að ekki er mikil hætta á að hún tapist ef hún er vel útbúin með legufærum og duflum. Þess vegna ætti að sjálfsögðu að taka hana hvarvetna til notkunar en það er einnig víst að hún er miklu dýrari en hin veiðarfærin og mun það tálma því að hún verði almennt notuð.[111]

 

Jón Eiríksson konferenzráð sem sá um útgáfu á Ferðabók Olaviusar í Kaupmannahöfn árið 1780 getur þess að í Ísafjarðarsýslu hafi hákarlalóðin og útbúnaður hennar hlotið almannalof.[112] En þrátt fyrir allt lofið munu hákarlalóðirnar aldrei hafa orðið mjög algengt veiðarfæri. Að vísu voru þær notaðar dálítið hér og þar um landið og þóttu sums staðar henta vel, einkum þegar veitt var á grunnu vatni.[113] Við hákarlaveiðar á þilskipum voru hins vegar nær eingöngu notaðir handvaðir[114] og svo var einnig á áraskipum Dýrfirðinga á síðari hluta 19. aldar.

Árið 1932 skrifaði Nathanael Mósesson, kaupmaður á Þingeyri, dálitla ritgerð um hákarlaútgerð í Dýrafirði á árunum 1865-1892 og hefur hún varðveist í handriti.[115] Sem heimildarmenn nefnir hann föður sinn, Móses Mósesson, sem fæddur var árið 1836, og ýmsa Dýrfirðinga sem fæddir voru um eða skömmu eftir miðja 19. öld, þar á meðal Markús Arnbjörnsson á Skálará og Kristján Andrésson í Meðaldal. Mun því óhætt að gera ráð fyrir að upplýsingar hans séu bærilega traustar. Allt sem hér er ritað um hákarlaútgerð á næstu blaðsíðum er byggt á ritgerð Nathanaels nema annarra heimilda sé getið.

Á árunum 1865-1892 voru hákarlaveiðar stundaðar á fimm áraskipum úr Þingeyrarhreppi. Þau voru teinæringurinn Angantýr frá Þingeyri, formaður Steindór Egilsson Brekku, áttæringurinn Sladdi frá Haukadal, formaður Jón Egilsson Bakka, áttæringurinn Hreggviður frá Haukadal, formaður Andrés Pétursson Haukadal, áttæringur frá Hólum, formenn Jóhannes Guðbrandsson og síðar Stefán Guðmundsson, og sexæringurinn Fákur frá Svalvogum, formaður Ólafur Bjarnason. Tekið skal fram að það er Kristján J. Guðmundsson, skipstjóri frá Arnarnúpi í Dýrafirði, fæddur 1877, sem nefnir bát Andrésar Péturssonar Hreggvið[116] en í ritgerð Nathanaels er nafnið illlæsilegt af því skriftin er máð.

Ekki kemur fram hjá Nathanael hvort þessi fimm skip voru öll gerð út samtímis um eitthvert árabil en heldur er ólíklegt að svo hafi verið og þá alls ekki nema fyrir 1868. Skýringin á því er sú að áttæringurinn sem Nathanael nefnir Sladda fórst með manni og mús í hákarlalegu í janúar 1867 (sjá hér Bakki í Þingeyrarhreppi og Meðaldalur). Fjórtán árum síðar fórst áttæringurinn frá Hólum líka í hákarlalegu í janúarmánuði eins og hér verður síðar frá sagt (sjá hér Hólar). Síðustu tíu árin sem Nathanael fjallar um hafa hákarlaskipin úr Þingeyrarhreppi því ekki verið nema þrjú og máske enn færri en frá árunum 1865-1892 getur hann líka um fimm hákarlaskip út Mýrahreppi (sjá hér Mýrahreppur inngangskafli). Öll voru skipin smíðuð af bátasmiðum í Dýrafirði og á umræddu tímaskeiði voru slíkar smíðar einkum stundaðar í Haukadal, í Hvammi og á Kjaransstöðum og svo í Hjarðardal handan fjarðarins. Til bátasmíðanna var bæði notað innflutt timbur og rekaviður norðan af Ströndum. Flest voru hákarlaskipin tvímöstruð með fokku og klýfi, – þóttu þau með afbrigðum falleg á sjó, segir Nathanael, og sum þeirra sigldu svo vel að þau fóru sömu vegalengd á styttri tíma en hraðskreiðustu gufuskip fara nú (1932). Öll voru skipin með sveifarstýrum og loggortu seglum.

Í opinberum fyrirmælum um verðlag, sem hér giltu um allt land á árunum 1702-1777, var nýr áttæringur metinn á 13 ríkisdali[117] en eitt jarðarhundrað (kýrverð) var þá talið 5 ríkisdala virði.[118] Í ritgerð sinni frá 1932 segir Nathanael að á síðari hluta 19. aldar hafi hákarlaskip Dýrfirðinga kostað, nýsmíðuð með rá og reiða, 800 til 1.000 krónur í okkar mynt núna. Orðalagið bendir til þess að Nathanael hafi framreiknað bátsverðið yfir á verðlag ársins 1932. Sé tekið mið af verðlagsbreytingum ætti það þá að hafa verið 200-250 krónur (100-125 ríkisdalir) á árunum 1865-1885.[119] Um 1865 var kýrverðið um 40 ríkisdalir[120] en það samsvaraði 80,- krónum svo nærri lætur að mælt í kýrverðum hafi verð á áttæringi verið hið sama í byrjun átjándu aldar og undir lok hinnar nítjándu, það er tæplega þrjú kýrverð. Sé litið á tölur Nathanaels frá árinu 1932 og þær framreiknaðar til núvirðis (ágúst 1991) í samræmi við hækkun á vísitölu byggingarkostnaðar verður útkoman sú að á verðlagi um mitt ár 1991 ætti áttæringurinn að kosta 160.000,- til 200.000,- krónur.[121] Við mat ríkisskattstjóra á búfé til eignar í árslok 1990 var mjólkurkýr talin vera 51.730,- króna virði og er merkilegt hvað þarna hefur orðið lítil breyting á hlutföllum milli bátsins og kýrinnar en nú er reyndar löngu hætt að smíða hákarlaskip.

Að sögn Nathanaels hófust hákarlaferðirnar venjulega eftir hátíðir en þó stundum á jólaföstu í góðri tíð. Oftast voru níu menn á hverju skipi, formaður og átta hásetar. Sjálfum veiðunum lýsir Nathanael svo:

 

Að kvöldi var venjulega komið á áfangastaðinn sem venjulega var frá Ármannsfelli og norður á Gerðhamrahorn, um 16 sjómílur frá landi. Þar var lagst við stjóra. Stjóri var ferálmaður dreki (anker), heimasmíðaður, en stjórafærið var útlent, trossa 120 faðma löng og tveggja tommu sver. Þegar skipið var búið að taka við sér, það er herða á strenginn, var farið að dorga fyrir hákarlinn. Formaður skar beituna sem venjulega var selakjöt eða hrossakjöt, súrsað í sterku rommi.*) Bitinn sem beitt var var eins og stærstu spaðbitar. – „Sóknin”, öngullinn var heimasmíðaður, stór og föngulegur. Taumurinn var keðja, vanalega útlend. Sakkan (lóðið) var steinn, ýmist með gati eða járnbaula yfir hann, þunginn um 10 pund. Eitt færi var á hvert borð. Við hvert færi voru tveir menn, kallaðir vaðmenn, einn hélt í en hinn dró með.

Þegar  hákarlinn var kominn að borðstokknum var hann festur með ífæru, síðan stunginn með lensu, svo skorinn á kviðinn og lifrin tekin úr honum og sett í lifrarrúmið sem var skutur og síðan í barka, stundum í poka í rúminu og net breidd yfir. Nú var farið að fá sér matarbita, hver úr sínum mal. Einn fór að hita kaffið, var það gert í miðrúmi. Lyng og mór sett í pott og kveikt í, ketill hengdur yfir á spýtu eða járni.  …

Þannig gekk nú þetta svo lengi sem þurfti til að hlaða bátinn, – 20-24 tunnur lifur og ef veður leyfði þá stóra hákarlsskrokka ofaná, miðstykkin úr honum. Enginn sofnaði allan þennan tíma sem venjulega var 2 dagar og 2-3 nætur, kom fyrir allt að 5-6 dagar en sjaldan mun það hafa verið nema þegar stórveður skullu á og alltaf var verið að berja og krussa á móti sjó og vindi.

Fæði höfðu menn með sér til fimm eða sex daga og var það hangikjöt, magáll, kaka, íslenskt smjör, harðfiskur, hákarl, bræðingur, kandísmoli og mjólk á 2-3 flöskum. Kaffi og hitunaráhöld lagði báturinn til en einnig voru teknir með þrír drykkjarkútar, einn með vatni og tveir með drukk.

Athöfnum manna þegar komið var að landi og verkun lifrarinnar lýsir Nathanael svo:

 

 

Þegar komið var að landi var strax byrjað að bera upp lifrina í trogbörum og var hún mæld um leið. Hún var látin í ________________________________

*) Á öðrum stað í ritgerð sinni orðar Nathanael þetta svo að hrossakjötið og líka selkjötið

hafi verið sett í tunnur, súrsað í sínu eigin blóði og bragðbætt með rommi.

kör sem tóku venjulega 5-10 tunnur. Þarna var lifrin látin vera þar til hún var brædd sem venjulega var eftir sumarmál, – þá hættu hákarlaferðirnar og menn fóru þá á færaskipin. Bræðslumaður var venjulega einhver trúverðugur maður af heimilinu þar sem bátarnir lögðu upp. Bræðslupotturinn var á hlóðum. Hann var úr einföldu járni, tók um eitt fat af lifur. Úr því náðist um ein tunna af lýsi. Tvær steypur voru úr hverjum potti. Þannig var það flokkað. Það fyrsta ofan af pottinum var númer eitt, svo var það næsta númer tvö. Einn pottur var bræddur á dag. Morguninn eftir var seinni steypan tekin, grúturinn tekinn úr og ný lifur sett í pottinn. Grúturinn var hafður til eldsneytis og áburðar. Lýsistunnurnar voru nýjar 120 potta tunnur og lagði verslunin þær til ókeypis. Þegar búið var að bræða allt, sem venjulega var um sláttarbyrjun, var lýsið látið bíða heimkomu sjómanna [af skútunum, – innsk. K.Ó.] í septemberbyrjun. Þá var það flutt í kaupstaðinn og lagt inn.

 

Um verðmæti aflans og hlutaskipti segir Nathanael:

 

Aflinn var venjulega 30-50 tunnur lýsi, einsdæmi 60 tunnur. Fyrir innihald hverrar tunnu fengust 65-80 krónur. Svo var skipt með sama. Fyrst framan af, til 1870 eða 1875, tók báturinn tvo hluti, einn bátshlut og veiðarfæra- og beituhlut, en síðar var þriðja hlutnum bætt við og hét hann góðgerðahlutur. Varði formaður honum til þess að gefa sjómönnum að borða þá er þeir komu að landi og einnig fyrir kaffi og brennivíni því ávallt var hafður með á sjóinn fjögra potta kútur og brennivínið brúkað í kaffi á sjónum. Var það talið ómissandi.

 

Tölur Nathanaels benda til þess að ekki hafi verið óalgengt að hásetar fengju um 250,- krónur hver í hlut eftir vertíðina sem oftast stóð í þrjá og hálfan mánuð eða því sem næst. Mánaðartekjurnar hafa þá verið um 70,- krónur en á árunum kringum 1880 voru yfirleitt greiddar um 2,60 krónur fyrir dagsverk um heyannir samkvæmt opinberri verðlagsskrá Ísafjarðarsýslu.[122] Sýnir þetta að tekjur manna af hákarlaveiðunum hafa verið drjúgar en bændur sem þær stunduðu nutu jafnframt tekna af búum sínum og ætla má að þeir hafi einnig fengið greiddan hlut þeirra vinnumanna sinna sem í legurnar voru sendir. Allt það erfiði sem fylgdi hákarlalegunum lögðu menn á sig vegna þess hve verðmæt hákarlslifrin var. Miklu af hákarlsbúkunum var hins vegar fleygt í hafið í hverri veiðiferð svo hægt væri að hlaða bátinn með lifur, enda lítið verðmæti í búkunum miðað við lifrina. Nokkuð af hákarli var þó flutt í land til matar. Verkun á honum og verðlagi í viðskiptum manna á milli lýsir Nathanael svo:

 

Hákarlinn sem hertur var var venjulega kasaður í steinkös þar til í apríl. Var hann þá tekinn úr kösinni, þveginn og hengdur á rár. Honum var skipt á sama tíma og lýsinu, í september, og var hann þá talinn ætur. En ekki þótti hann góður fyrr en eins til tveggja ára. Hákarl var þá seldur manna á milli fyrir eina króna til eina krónu og fimmtíu aura fjórðungurinn [þ.e. 5 kíló – innsk. K.Ó.].

 

Í ritgerð sinni kemst Nathanael Mósesson svo að orði að úr Dýrafirði hafi hákarlaveiðar verið mikið stundaðar á árunum 1860-1890 en tekur fram að síðastur manna hafi Kristján Oddsson, er þá bjó á Núpi, farið í slíka legu á þessum opnu skipum veturinn 1893. Kristján fluttist frá Núpi að Lokinhömrum í Arnarfirði árið 1896 og bjó þar til dauðadags árið 1900 (sjá hér Lokinhamrar). Að sögn Kristjáns J. Guðmundssonar, skipstjóra frá Arnarnúpi, sem fæddur var árið 1877, stundaði Kristján Oddsson enn hákarlaútgerð frá Lokinhömrum á þessum síðustu æviárum sínum.[123] Kristján J. Guðmundsson segir líka að bátur Kristjáns í Lokinhömrum hafi vafalítið verið síðasta opna skipið sem gert var út til hákarlaveiða á Vestfjörðum.[124] Mun þá átt við sókn á djúpmið en hákarlaveiðar á fjörðum inni voru eitthvað stundaðar eftir 1900, a.m.k. frá Lokinhömrum (sjá hér Lokinhamrar), og Þorvaldur Kristjánsson, bóndi í Svalvogum, fór yfirleitt í hákarlalegu á hverjum vetri allt fram undir 1920 en bátur hans var fjögra manna far.[125]

Þess skal að lokum getið að upplýsingar úr opinberum skýrslum benda til þess að Nathanael og Kristján J. Guðmundsson fari með rétt mál hvað varðar endalok hákarlaveiða Dýrfirðinga og Arnfirðinga á áraskipum úti á djúpmiðum. Í Þingeyrarhreppi voru öll hin stærri áraskip horfin úr sögunni árið 1897 og ekkert eftir nema sexæringar og þaðan af minni bátar ef marka má opinberar skýrslur um bátaeign.[126] Á því ári var aðeins einu hákarlaskipi haldið til veiða úr allri Vestur-Ísafjarðarsýslu, að sögn Stjórnartíðinda, og átti eigandi þess heima í Auðkúluhreppi.[127] Kemur það nákvæmlega heim við orð Kristjáns J. Guðmundssonar um útgerð Kristjáns Oddssonar í Lokinhömrum.

Hér hefur nú verið sagt lítið eitt frá árabátaútgerðinni í vestanverðum Dýrafirði og liggur þá næst fyrir að greina stuttlega frá þilskipaútgerð. Eins og hér hefur áður verið nefnt varð Ólafur Thorlacius á Bíldudal fyrstur til að hefja útgerð þilskipa frá Vestfjörðum en hann sendi slík skip fyrst til veiða sumarið 1806 er hann gerði út tvær skútur frá Patreksfirði.[128] Árið eftir hóf Guðmundur Scheving, sýslumaður í Haga, skútuútgerð frá Tálknafirði[129] en hann fluttist síðar til Flateyjar á Breiðafirði og hafði þar mikil umsvif. Árið 1815 hófst þilskipaútgerð frá Flateyri (sjá hér Flateyri) og árið 1831 frá Ísafirði.[130]

Í ritgerð sinni um þilskipaveiðar sem birtist árið 1832 segir Guðmundur Scheving í Flatey að árið 1829 hafi sér reiknast að nýtt fullbúið 10 lesta þilskip úr íslenskum rekavið myndi kosta með rá og reiða um 3.046 ríkisdali.[131] Þegar Guðmundur talar þarna um 10 lesta skip mun hann eiga við commerciallestir svo skútan í dæmi hans hefur verið 26 smálestir.[132] Guðmundur gerir ráð fyrir að efni í skipið muni kosta 923 ríkisdali en reiknar þó ekki með flutningskostnaði á rekaviðnum. Hann ætlar sex mönnum að smíða skipið á 100 dögum og fyrir það fái þeir greidda 600 ríkisdali samtals. Segl, togverk og annar útbúnaður mun kosta jafnt kroppnum, segir Scheving[133] og fær þannig út þá niðurstöðu að fullbúin til veiða muni skútan kosta þá upphæð sem áður var nefnd, 3.046 ríkisdali. Í útreikningum sínum gerir Guðmundur ráð fyrir að menn þeir sem vinni að smíði skipsins hafi að jafnaði einn ríkisdal hver í daglaun og hefur því greinilega talið að albúið til veiða kostaði slíkt þilskip álíka fjárhæð og næmi greiðslu fyrir 3.046 dagsverk. Á verðlagi ársins 1991 mætti ef til vill reikna slíkt dagsverk á 6.000,- krónur en sé framreikningur miðaður við þá upphæð hefur skútan sem Guðmundur Scheving var að tala um kostað um 18 milljónir króna á verðlagi ársins 1991. Sé mælt í kýrverðum verður útkoman hins vegar mun lægri eða aðeins um 8 milljónir króna á núvirði því að um 1830 var kýrverðið um það bil 20 ríkisdalir[134] en samkvæmt skattmati ríkisskattstjóra fyrir framtalsárið 1991 var mjólkurkýr metin til eignar á 51.730,- krónur.[135]

Skoðað frá sjónarhóli nútímans sýnist skipsverðið í útreikningum Guðmundar Scheving síst hærra en vænta mátti hvort sem mælt er í dagsverkum eða miðað við kýrverð. Hvað sem því líður er ljóst að venjulegir bændur gátu vart ráðist í kaup eða smíði á skipi sem kostaði yfir 150 kýrverð eða sem svaraði greiðslu fyrir meira en 3.000 dagsverk í smíðavinnu. Kaupsýslumenn höfðu rýmri fjárráð og svo var einnig um ýmsa embættismenn af grónum ættum sem sumar hverjar höfðu safnað jarðeignum mann fram af manni. Úr röðum þess fólks var því helst að vænta brautryðjenda um útgerð þilskipa og sú varð líka raunin á sé litið til Vestfjarða þar sem Ólafur Thorlacius á Bíldudal og Guðmundur Scheving í Haga hófust fyrstir handa á árunum 1806 og 1807. Næstur í röðinni til að hefja skútuútgerð frá Vestfjörðum varð Henrik Henkel,[136] danskur eða norskur kaupsýslumaður sem keypt hafði eignir konungsverslunarinnar á Þingeyri árið 1788 og hélt þar uppi verslunarrekstri þaðan í frá allt til dauðadags árið 1817 (sjá hér Þingeyri). Árið 1792 setti Henkel upp svolítið verslunarútibú á Flateyri (sjá hér Flateyri). Er Henrik kaupmaður Henkel hófst handa um útgerð þilskips árið 1815 lét hann gera skipið út frá Flateyri (sjá hér Flateyri) en ekki frá Þingeyri sem þó var miðstöð verslunarstarfsemi hans á Íslandi. Ekki verður farið hér út í neinar bollaleggingar um ástæðurnar fyrir því að Flateyri varð fyrir valinu. Þess skal hins vegar getið að sjálfur bjó Henkel jafnan í Kaupmannahöfn en verslunarstjórar hans á Íslandi voru bræður tveir, norskir að ætt, Andreas og Daniel Steenbach. Andreas stjórnaði lengi verslunarrekstrinum á Þingeyri en Daniel á Flateyri (sjá hér Þingeyri og Flateyri). Eins og áður sagði andaðist Henrik Henkel árið 1817 en þá voru aðeins tvö ár liðin frá því þilskipaútgerð hans frá Flateyri hófst. Skútur hans þar voru þá orðnar tvær og vel má vera að Henkel hefði brátt ráðist líka í útgerð þilskipa frá Þingeyri ef honum hefði orðið lengri lífdaga auðið. Næstu 50 árin eftir andlát Henriks Henkel voru ýmsir eigendur að versluninni á Þingeyri (sjá hér Þingeyri) en enginn þeirra sýndi það framtak að ráðast í skútuútgerð. Ekkert þilskip var því gert út frá Þingeyri, ef frá er talin konungsútgerðin á 18. öld (sjá hér Þingeyri), fyrr en Niels Christian Gram kom til sögu en hann keypti Þingeyrarverslun árið 1866. Þilskipaútgerð frá Þingeyri hófst því nokkru síðar en mátt hefði vænta og ekki fyrr en slík skip höfðu verið gerð út um áratugaskeið með góðum árangri frá ýmsum stöðum á Vestfjörðum.

Reyndar voru það ekki eigendur verslunarinnar á Þingeyri sem fyrstir hófu útgerð þilskipa frá Dýrafirði heldur framtakssamir bændur sem tóku áhættuna og réðust í það stórvirki að koma sér upp skútu. Í sínu mikla ritverki Skútuöldinni segir Gils Guðmundsson að þess verði naumast vart að þilskipaveiðar hafi verið stundaðar frá Dýrafirði fyrr en um 1840.[137]

Búnaðarskýrslur frá árunum 1837 til 1860 bera með sér að tveir bændur í Mýrahreppi urðu fyrstir Dýrfirðinga til að eignast þilskip, þeir Jón Gíslason, sem þá var að flytja að Lækjarósi, og Guðmundur Brynjólfsson á Mýrum sem komu sér upp skútu árið 1843.[138] Skip þetta sem hét Hákarlinn smíðaði Jón Gíslason sjálfur[139] en báðir áttu þeir Guðmundur á Mýrum jafn stóran hlut í því.[140]

Árið 1846 voru skútur í eigu bænda í Mýrahreppi orðnar þrjár (sjá hér Mýrahreppur, inngangskafli) en á því ári eignuðust bændur í Þingeyrarhreppi sitt fyrsta þilskip.[141] Fiskijakt þessi hét Hrappur en hinir nýju eigendur voru tveir bændur í Hvammi, Jón Sveinsson og Bjarni Þorvaldsson.[142] Hrappur mun hafa verið gerður út frá Hvammi í 10 ár, frá 1846-1855, en frá þilskipaútgerð Hvammsmanna er sagt hér nánar á öðrum stað (sjá hér Hvammur).

Árið 1847 fluttist Jón Einarsson, ásamt konu sinni, börnum og vinnuhjúum, frá Flateyri í Önundarfirði að Sveinseyri í Dýrafirði og er þá kallaður skipari.[143] Í búnaðarskýrslu næsta árs er þessi sami maður titlaður skipherra[144] og af því má ráða að hann hefur verið skipstjóri á þilskipi. Jón Einarsson var Strandamaður að uppruna, bróðir Magnúsar Einarssonar, bónda á Hvilft í Önundarfirði, og alþingismannanna Ásgeirs á Kollafjarðarnesi og Torfa á Kleifum. Árið 1844 var Jón búsettur hjá Magnúsi bróður sínum á Hvilft og áttu þeir bræður þá hálft þilskip hvor.[145] Sú eign hélst óbreytt næstu ár þó að Jón flyttist til Dýrafjarðar.[146] Við flutning hans að Sveinseyri fór skútueign manna í Þingeyrarhreppi því upp í eitt og hálft skip.

Búseta Jóns Einarssonar í Dýrafirði varð hins vegar ekki löng því hann andaðist 28. október 1848 – voveiflega á byssu ­eins og presturinn orðar það.[147] Hann mun þá hafa verið 35 ára gamall eða þar um bil því í desember 1816 er hann sagður tveggja ára hjá foreldrum á Kollafjarðarnesi og 32ja ára á Flateyri í nóvember 1845.[148] Í einni heimild norðan af Ströndum segir að Jón hafi alla ævi verið óhraustur á geðsmunum[149] en í annarri heimild þaðan er þess getið að hann hafi verið sagður gáfaðastur af þeim bræðrum og vel skáldmæltur.[150] Skútan sem Jón Einarsson stýrði til veiða hét Bogi og daginn sem Jón skaut sig var verið að koma henni fyrir í vetrarlægi í Höfðaodda norðan Dýrafjarðar.[151] Að Jóni látnum mun Torfi Halldórsson, sem þá var ungur maður á Arnarnesi, hafa tekið við skipstjórn á Boga (sjá hér Arnarnes og Flateyri) en Torfi var síðar lengi verslunarstjóri og útgerðarmaður á Flateyri.

Auk Hvammsmanna og Jóns Einarssonar eignuðust nokkrir bændur í Þingeyrarhreppi hlut í þilskipi um miðbik nítjándu aldar.[152] Ólafur Jónsson í Haukadal og Benóný Daðason í Meðaldal áttu einn sjötta hluta í skútu hvor á árunum 1853-1855 og árið 1854 áttu þrír aðrir bændur í Haukadal og á Sveinseyri einn sjötta úr þilskipi hver, þeir Eggert Magnússon, Ólafur Ólafsson og Jón Hákonarson.[153]

Frá og með árinu 1856 virðast bændurnir í Þingeyrarhreppi hins vegar hafa hætt allri þátttöku í útgerð þilskipa og ef marka má búnaðarskýrslur hóf enginn þeirra slíkar tilraunir á ný fyrr en komið var fram  yfir 1880.[154]

Árið 1866 festi Niels Christian Gram kaup á Þingeyrarverslun og var hún síðan í hans eigu uns hann andaðist árið 1898 (sjá hér Þingeyri). Gram kaupmaður átti jafnan heima úti í Kaupmannahöfn en verslunarstjórar hans sátu á Þingeyri, fyrst Hákon Bjarnason frá 1867 til 1870 og síðan Friedrich R. Wendel sem enn var verslunarstjóri er Gram andaðist árið 1898. Er Gram hafði keypt verslunina leið ekki á löngu uns hann fór að senda kúttera sína til handfæraveiða yfir sumarmánuðina Kútterar þessir hétu Dýrafjörður, Ísafjörður og Patreksfjörður og munu þeir hafa verið fyrstu þilskipin sem gerð voru út frá Þingeyri[155] allt frá dögum konungsútgerðarinnar um 1780. Þessa þrjá kúttera hafði Gram ásamt fleiri skipum í vöruflutningum milli landa og komu þeir venjulega til Þingeyrar á vorin, hlaðnir erlendum varningi, og sigldu utan á haustin með íslenskar afurðir.[156] Í millilandasiglingunum voru danskar áhafnir á skipum þessum en yfir sumartímann stýrðu íslenskir skipstjórar kútterum Grams til veiða og höfðu með sér íslenskar skipshafnir.[157] Ekki er vel ljóst hvort kútterar Gramsverslunar hafa verið sendir til sumarveiða strax á allra fyrstu árum Grams á Þingeyri. Í búnaðarskýrslum frá árunum 1860-1880 er þess jafnan getið ef þessi eða hinn búandi maður átti hlut í þilskipi.[158] Þar verður ekki séð að nokkur maður í Þingeyrarhreppi hafi átt eignarhlut í skútu á árunum 1856-1873. Engu að síður kynnu dönsku kútterarnir sem fluttu vörur og afurðir yfir hafið og voru skráðir með heimahöfn í Danmörku að hafa verið sendir til veiða að sumrinu alveg frá árinu 1867. Fiskijaktir með heimahöfn á Þingeyri munu hins vegar fyrst hafa komið til sögunnar árið 1874.[159] Á því ári er Friedrich R. Wendel, verslunarstjóri Gramsverslunar þar, talinn eigandi að tveimur og hálfu þilskipi og þremur árum síðar voru skipin sem hann sá um að gera út orðin fjögur.[160] Sú tala hélst síðan óbreytt a.m.k. fram til 1880.[161]

Á árunum 1880 til 1920 var fjöldi þilskipa gerður út frá Þingeyri. Flestar voru skúturnar gerðar út á vegum Gramsverslunar og þeirra sem tóku við þessu gamalgrónu verslunar- og útgerðarfyrirtæki að Gram látnum (sjá Firðir og fólk 1900-1999, 198). Þó voru einnig dæmi þess að dugmiklir sjósóknarar úr röðum bænda við vestanverðan Dýrafjörð eignuðust þilskip og gerðust skipstjórar á eigin skipi. Má þar nefna Ólaf Guðbjart Jónsson í Haukadal, Stefán Guðmundsson í Hólum og Jón Arason í Hvammi sem allir voru skipstjórar á eigin þilskipum.[162] Ýmsir aðrir eignuðust aldrei heila skútu en áttu stærri eða minni hlut í þilskipum sem þeir stýrðu til veiða.[163] Undir lok skútualdar eða nánar til tekið um miðjan annan áratug tuttugustu aldar hóf svo nýtt fyrirtæki þilskipaútgerð frá Þingeyri og stóð Nathanael Mósesson kaupmaður fyrir þeim rekstri í félagi við skipstjórana Ólaf Guðbjart og Stefán Guðmundsson sem hér voru áður nefndir.[164] Þetta félag hélt um skeið fjórum þilskipum til veiða og síðastir allra gerðu þeir félagar út tvær skútur frá Þingeyri – allt til ársins 1929, en þá voru reyndar komnar hjálparvélar í skipin.[165]

Á árunum 1870-1920 voru a.m.k. 28 þilskip gerð út til veiða frá Þingeyri eða einstökum bæjum í Þingeyrarhreppi og eru þá talin með fjögur skip Gramsverslunar sem einnig sinntu reglubundnum vöruflutningum milli landa vor og haust.[166] Vel gætu skipin hafa verið fleiri og ærinn fjölda sjómanna hefur þurft til að manna allan þennan flota því oft voru tíu til fimmtán menn í hverri áhöfn. Á skipum Gramsverslunar var talsvert um menn úr öðrum byggðarlögum, ekki síst Breiðfirðinga undan Jökli,[167] en mikill fjöldi Dýrfirðinga þyrptist líka á skúturnar, bændur og bændasynir, húsmenn og lausamenn. Í fyrstu komu allir þessir sjómenn frá sveitabýlunum sitt hvorum megin fjarðarins en með vaxandi þilskipaútgerð tók þéttbýli að myndast strax um og upp úr 1880 bæði á Þingeyri og í Haukadal (sjá hér bls. 6-7). Strax á fyrsta áratug tuttugustu aldar komst tala íbúa á Þingeyri yfir 300[168] og árið 1910 áttu 100 manneskjur heima í Haukadal (sjá hér bls. 6-7).

Á blómaskeiði skútuútgerðarinnar á árunum skömmu fyrir og rétt eftir aldamótin 1900 myndaðist í Dýrafirði eins og víða annars staðar sérstök stétt sjómanna og landverkafólks. Fólk þetta sagði skilið við forna búskaparhætti bændasamfélagsins en tók að framfleyta sér og sínum í þurrabúð á mölinni af þeim tekjum einum sem hægt var að afla með sjósókn og fiskvinnu að viðbættum lítilsháttar snöpum í kringum verslunarreksturinn. Slík bylting lífshátta gat þó sjaldan gerst á einni nóttu og margir sem í þorpin fluttu reyndu lengi vel að tryggja sér einhverja grasnyt svo þeir gætu alið nokkrar kindur og máske hálfa kú. Þó margir Dýrfirðingar settust að á Þingeyri á árunum 1880-1920 fór því samt fjarri að allir skútumennirnir þar í sveit yfirgæfu jarðir sínar og hópuðust í þéttbýlið. Fjölmargir voru árum saman á skútum og höfðu sumir sjómennsku að aðalstarfi en áttu þó áfram heima í sveitinni. Þetta sést vel ef litið er á skútuskipstjórana í Þingeyrarhreppi sem margir sátu áfram á býlum sínum um lengri eða skemmri tíma þó sumarstarf þeirra væri allt á sjónum. Sem dæmi um þetta nægir að nefna nokkur nöfn: Andrés Pétursson, Höll í Haukadal, Kristján Andrésson í Meðaldal, Benjamín Bjarnason í Múla, Steindór Egilsson á Brekku, Jón Arason í Hvammi, Ólaf Guðbjart Jónsson, Miðbæ í Haukadal, Stefán Guðmundsson í  Hólum, Eggert Andrésson á Skálará, Jón Hólmstein Guðmundsson á Granda og Guðmund Guðmundsson í Höfn.[169] Sumir þessara manna fluttust að vísu að lokum úr sveitinni og settust að í þéttbýli en öll tók sú þróun sinn tíma bæði hjá skipstjórnarmönnum og hásetum. Hin fornu lögbýli í Þingeyrarhreppi sem búið var á um aldamótin 1900 voru tuttugu og eitt og mun láta nærri að skútuskipstjórar hafi setið um lengri eða skemmri tíma á a.m.k. helmingi þessara jarða.

Hér verður ekki fjallað nánar að sinni um þá miklu breytingu á atvinnuháttum fólks í Þingeyrarhreppi sem varð á árunum kringum aldamótin 1900. Um verslun Dýrfirðinga og samskipti þeirra við erlendar þjóðir á fyrri tíð verður ritað síðar er við stöldrum við á Þingeyri, hinum forna verslunarstað, á ferð okkar um fjörðinn. Samgönguleiðum á landi úr vestanverðum Dýrafirði hefur áður verið lýst (sjá hér Auðkúluhreppur, inngangskafli) og annars staðar í þessu riti er gerð grein fyrir helstu leiðum úr Dýrafjarðarbotni yfir Glámu og hálendið þar í kring (sjá hér Botn í Dýrafirði). Mun því mál að hefja ferð okkar um Þingeyrarhrepp frá hreppamörkunum á Hvammsgilsbökkum, yst á norðurströnd Arnarfjarðar, fyrir Sléttanes og síðan bæ frá bæ í Dýrafjarðarbotn.

 

 

 

 

 

– – – – – – – – – – o o o o o – – – – – – – – – –

[1] Íslensk fornrit I, 180-181.

[2] Sama heimild, 178-182.

[3] Sama heimild.

[4] Ólafur Þ. Kristjánsson 1964, 17 (Ársrit S.Í.).

[5] Ísl. fornrit VI, 14.  Sbr. Ísl. fornrit I, 178.

[6] Ól. Ól. 1958, 72-73 (Ársrit S.Í.).

[7] Ísl. fornrit I, 180-181.

[8] Sama heimild.  Ól. Þ. Kr. 1964, 18.  Ól. Ól. 1958, 72-73.

[9] Ísl. fornrit I, 180.

[10] Sama heimild.

[11] Sóknalýsingar Vestfjarða II, 68.

[12] Ísl. fornrit I, 181.

[13] P. E. Kr. Kålund II, 1985, 175.  Ól. Ól. 1958, 73 (Ársrit S.Í.).

[14] Sigurður Vigfússon 1892, 132-133 (Árbók Hins ísl. fornleifafélags).

[15] Ól. Þ. Kr. 1964, 19-20 (Ársrit S.Í.).

[16] Ísl. fornrit I, 180-181.

[17] Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín VII, 28.

[18] Manntal 1703.

[19] Manntal 1801.

[20] Lovsamling for Island VI, 580-581.

[21] Lovsamling for Island VI, 580-581.

[22] Manntöl og sóknarmannatöl Sandaprestakalls.

[23] Manntal 1703.

[24] Sama heimild.

[25] Sama heimild.

[26] Manntal 1801.

[27] Manntal 1845.

[28] Sama heimild.

[29] Sveinn Níelsson 1950, II, 188-189.  Sbr. Íslenskar æviskrár.

[30] Sömu heimildir.

[31] Manntal 1845.

[32] Sama heimild.

[33] Manntal 1845.

[34] Sama heimild.

[35] Manntal 1870.

[36] Manntal 1880.

[37] Manntöl 1880, 1890, 1901 og 1910.

[38] Manntal 1870.

[39] Manntal 1880.

[40] Manntal 1890.

[41] Manntal 1901.

[42] Manntal 1910.

[43] Manntöl 1910 og 1920.

[44] Manntöl 1845 og 1901.

[45] Sömu manntöl.

[46] Manntal 1845.

[47] Sama heimild.

[48] Manntöl 1845 og 1901.

[49] Manntal 1901. Sbr. Firðir og fólk 1900-1999, 187-191

[50] Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín VII, 28-54.  J. Johnsen 1847, 191-193.

[51] Jarðab. Á. og P. VII, 28-54.

[52] Jarðab. Á. og P. VII, 28-54.

[53] Sama heimild.

[54] Sama heimild.

[55] Sama heimild.

[56] Sama heimild.

[57] Sama heimild, 50.

[58] Sama heimild, 28-54.

[59] J. Johnsen 1847, 191-193.

[60] Sama heimild.

[61] Sama heimild.

[62] Sama heimild.

[63] J. Johnsen 1847, 191-193.

[64] Sama heimild.

[65] Jarðab. Á. og P. VII, 28-54.

[66] Sama heimild.

[67] Ólafur Olavius 1964, I, 146.

[68] Guðjón Guðmundsson 1907, 45 (Freyr).

[69] Sama heimild. Jarðab. Á. og P. VII, 28-54.

[70] Hsk. á Ísaf. nr. 221. Skýrsla Sæmundar Eyjólfssonar um ferð hans um Ísafj.sýslu sumarið 1883.

[71] Jarðab. Á. og P. VII, 28-54.

[72] Sama heimild.

[73] Jarðab. Á. og P. VII, 28-54.

[74] Ól. Olavius 1964, I, 185.

[75] Sama heimild.

[76] Sóknalýsingar Vestfjarða II, 59.

[77] Sama heimild, 52 og 59.

[78] Sama heimild, 81.

[79] Bjarni Sæmundsson 1903, 102-103 (Andvari).

[80] Bjarni Sæmundsson 1903, 102-103 (Andvari).

[81] Ottó Þorvaldsson 1980, 82-84.

[82] Bjarni Guðmundsson. – Viðtal K.Ó. við hann 10.2.1992.

[83] Erlingur Davíðsson / Kristján Nói Kristjánsson 1978, 84-85.

[84] Ottó Þorvaldsson 1980, 81-82.

[85] Jarðab. Á. og P. VII, 28-54.

[86] Sama heimild, 33.

[87] Lbs. 79, fol.

[88] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1. bún.sk. 1805-1838. Skýrslur um landshagi III, Kph. 1866, 266 og

sama V, Kph. 1875, 486. Stjórnartíðindi 1882 C, 7 og 1898 C, 290.

[89] Þorkell Jóhannesson 1948, 508-509.

[90] Ól. Olavius 1964, I, 211-212.

[91] Sama heimild.

[92] Skj.s sýslum. og sv.stj. V. – Ís. Þingeyrarhreppur 2. Hreppsbók 1835-1851.

[93] Skj.s. landshöfðingja, séröskjur 6. Fiskaflaskýrslur 1897-1902.

[94] Sama heimild.

[95] Sama heimild.

[96] Sama heimild.

[97] Sama heimild.

[98] Ól. Olavius 1964, I, 202.

[99] Ól. Olavius 1964, I, 188, 212-213.

[100] Sama heimild, 210-213.

[101] Sama heimild.

[102] Sama heimild.

[103] Sama heimild.

[104] Jón J. Aðils 1971, 692-693.

[105] Ól. Olavius 1964, I, 202.

[106] Sama heimild, 200-202.

[107] Sama heimild.

[108] Sama heimild.

[109] Sama heimild.

[110] Prestsþj.b. Sandapr.kalls.

[111] Ól. Olavius 1964, I, 200-202.

[112] Sama heimild.

[113] Lúðvík Kristjánsson 1983, 333-334.

[114] Gils Guðmundsson / Skútuöldin IV, 80.

[115] Hákarlaskip í Dýrafirði 1865-1892, ritgerð eftir Nathanael Mósessonljósrit í eigu K.Ó.

[116] Kristján J. Guðmundsson / Skútuöldin V, 117-118.

[117] Ól. Olavius 1964, I, 212.

[118] Sigfús H. Andrésson 1988, I, 144-145.

[119] Skýrslur um landshagi IV, 1870, 498.  K.Ó. 1987, 389-390 (Verslunarsaga Vestur-Skaftfellinga I).  Tölfræðihandbók 1984, 166.

[120] Skýrslur um landshagi IV, 1870, 498.

[121] Tölfræðihandbók 1984, 166.  Hagtölur mánaðarins, júlí 1991, 32.

[122] Stjórnartíðindi, B-deild. Verðlagsskrár Ísafj.sýslu.

[123] Kristján J. Guðmundsson / Skútuöldin V, 118.

[124] Sama heimild.

[125] Ottó Þorvaldsson 1980, 46-49 og 63.

[126] Stjórnartíðindi 1898 C, bls. 290.

[127] Sama heimild, skýrsla um fiskafla á opnum bátum o.fl.

[128] Guðmundur Scheving 1832, 87 (Ármann á Alþingi IV).

[129] Guðmundur Scheving 1832, 88 (Ármann á Alþingi IV).

[130] Sama heimild, 89.  Jón Þ. Þór 1984, 158-159.

[131] Guðmundur Scheving 1832, 90-92.

[132] Jón Þ. Þór 1984, 158.

[133] Guðmundur Scheving 1832, 92.

[134] Skýrslur um landshagi I, Kaupm.höfn 1858, bls. 248.

[135] Ríkisskattstjóri: Leiðbeiningar og dæmi um útfyllingu skattframtals einstaklinga 1991.

[136] Guðmundur Scheving 1832, 87-89.

[137] Gils Guðmundsson / Skútuöldin I, 218-219.

[138] VA III, 407-420, búnaðarskýrslur.

[139] Skútuöldin I, 218-219.

[140] VA III, 407-420, búnaðarskýrslur.

[141] Sama heimild.  Sbr. H Sk á Sauðárkróki. 13704to, Bréf J. Gíslasonar á Lækjarósi 6.11.1846 til M. Einarssonar á Hvilft.

[142] VA III, 407-420, búnaðarskýrslur.  Sighvatur Grímsson Borgfirðingur / Þjóðviljinn 16.10.1902.

[143] Prestsþj.b. Sandapr.kalls.

[144] VA III, 407-420, búnaðarskýrslur.

[145] Sama heimild.

[146] VA III, 407-420, búnaðarskýrslur.

[147] Prestsþj.b. Sandapr.kalls.

[148] Manntöl 1816 og 1845.

[149] Guðbjörg Jónsdóttir frá Broddanesi 1943, 20.

[150] Finnur Jónsson á Kjörseyri 1945, 246-247.

[151] Lbs. 23328vo, Dagbók Guðmundar Guðmundssonar norðlenska 28. og 29.10.1848.

[152] VA III, 407-420, búnaðarskýrslur.

[153] Sömu heimildir.

[154] VA III, 415-424, búnaðarskýrslur.

[155] Gils Guðmundsson / Skútuöldin I, 231-232.

[156] Gils Guðmundsson / Skútuöldin I, 231-232.

[157] Sama heimild.

[158] VA III, 415-424, búnaðarskýrslur.

[159] Sama heimild.

[160] Sama heimild.

[161] Sama heimild.

[162] Gils Guðmundsson / Skútuöldin I, 238-240 og 247.

[163] Gils Guðmundsson / Skútuöldin I, 225, 242-246 og IV, 206.

[164] Gils Guðmundsson / Skútuöldin I, 238-239.

[165] Sama heimild.

[166] Sama heimild I, 225-247, III, 276 og V, 111-112.

[167] Gils Guðmundsson / Skútuöldin I, 231-233.

[168] Tölfræðihandbók 1984, 21.

[169] Gils Guðmundsson / Skútuöldin I, 238-246.  Kristján J. Guðmundsson / Skútuöldin V, 112-117.

1000-1900

Guðmundur Justsson

Á fyrri hluta 20. aldar var Guðmundur Justsson, sem fæddist á Gemlufalli haustið 1841,[1] einna kunnastur þeirra sem búið höfðu á Dröngum, a.m.k. utan Dýrafjarðar,

LESA MEIRA »
1000-1900

Krossadalur

Í Krossadal var löngum tvíbýli á fyrri tíð, Hærri- og Lægri- (eða Neðri-) Krossdalur, og voru þetta ystu bæir við Tálknafjörð. Stundum var reyndar þríbýli

LESA MEIRA »
1000-1900

Arnarstapi

Arnarstapi og Krossadalur voru tvær ystu jarðirnar á norðurströnd Tálknafjarðar og hafa nú báðar verið í eyði frá því um 1940.[1] Frá verbúðatóttunum í Arnarstapavík

LESA MEIRA »