Botn

Botn í Dýrafirði var að fornu 12 hundraða jörð[1] sem átti allt land í Dýrafjarðarabotni norðan við Botnsá sem fellur á hreppamörkum Þingeyrarhrepps og Mýrahrepps.[2] Út með firðinum nær landareign Botns að Langaskeri[3] sem er rösklega tveimur kílómetrum fyrir utan fjarðarbotninn (sjá hér bls. 15-16). Frá skerinu liggja merkin beinustu leið til fjalls að Strengbergi sem er þar í fjallsbrúninni.[4]

Bærinn í Botni stóð á sjávarbakka fyrir botni fjarðarins, rétt norðan við árósinn þar sem Botnsá fellur til sjávar. Jörðin féll í eyði árið 1925[5] en snemma í febrúar á því ári féll snjóflóð á bæjarhúsin og olli verulegum skaða þó að ekki yrðu slys á fólki[6]. Alllangt er nú liðið síðan bæjarrústirnar voru sléttaðar út en bæjarhóllinn er enn á sínum stað í miðju túni.

Rétt utan við fjarðarbotninn skerst þröngur fjalldalur inn í hálendið og heitir því merkilega nafni Hvallátradalur. Dalur þessi er allur í landi Botns. Áin sem um hann rennur heitir Hvallátradalsá og er stundum nefnd Hvallátursá.[7] Hún er vatnsmikil og fellur í gljúfrafossum niður bratta hlíð undir dalbrúninni. Munnmæli herma að seint á 17. öld hafi hvalbein fundist á grenjum uppi á dal þessum[8] og þar heitir Hvalhóll vestan ár.[9]  Að sögn kunnugra er hann ofarlega á dalnum.[10]

Við erum nú stödd á bæjarhólnum í Botni og munum síðar halda þaðan út með fjarðarströndinni en fyrst skulum við líta í austurátt og stefna fram dalinn sem liggur upp frá botni Dýrafjarðar. Sá dalur er bæði allbreiður og grösugur og nær gróðurlendið næstum fram að Girðisbrekku sem liggur þvert yfir dalbotninn[11] og er rösklega þremur kílómetrum framan við botn fjarðarins. Á breiddina er dalurinn 500-1000 metrar.

Í marktækum heimildum frá eldri tímum verður hvergi séð að dalurinn sem hér um ræðir hafi verið nefndur annað en Dýrafjarðarbotn. Í skrifum frá miðri 20. öld bregður hins vegar fyrir nafninu Botnsdalur[12] en þeir sem hér eru hnútum kunnugastir kannast ekki við að dalurinn hafi verið nefndur því nafni.[13]

Í Dýrafjarðarbotni er einn hinn stærsti birkiskógur á Vestfjörðum en líklega fer því þó fjarri að hann hafi náð sinni fyrri stærð. Þrjár kirkjur og tvær bújarðir áttu skógarreiti í Botnslandi eins og brátt mun verða nánar frá sagt og þrjár kirkjur og ein bújörð áttu slík ítök í landi Dranga, hér handan við ána (sjá Drangar). Í byrjun 18. aldar máttu ábúendur í Botni brúka skóginn svo sem þeir fá við komið en urðu þó að leggja sjálfir til allan húsavið.[14] Skýringin á því var sú að skógur til raftviðar var þá nærri eyddur en til kolgjörðar og eldiviðar var hann hins vegar nægur.[15] Að sögn Árna Magnússonar sem ræddi við Dýrfirðinga sumarið 1710 var selveiði að fornu gagnvæn í Botni en lítið hafði þá verið um sel síðustu árin.[16] Í ánni veiddist silungur, grasatekja var talin til hlunninda og hér mun vera eitt hið besta berjaland í öllum Dýrafirði.[17] Í Jarðabók  Árna og Páls frá árinu 1710 er þess getið að vatnsból þeirra sem hér bjuggu bregðist oft að vetrinum og þá sé vatnsvegurinn merkilega torsóttur í Botnsá fyrir ágangi árinnar.[18] Tekið er fram að af þessum sökum verði oft að þíða snjó til að fá þó einhverja lögg af vatni.[19]

Snjóþungt er í Botni en í byrjun 18. aldar höfðu þeir sem hér bjuggu tryggt sér vetrarbeit í landi nágrannajarðarinnar Dranga.[20] Fyrir hana guldu þeir árlega fimm álnir[21] eða sem svaraði fjórðung úr ærverði. Féð sem hér gekk í sumarhögum skorti aftur á móti fátt, enda varð það rígvænt.[22]

Fyrir botni Dýrafjarðar og Arnarfjarðar liggur Gláma, hið mikla hálendi sem tengir firði þessa við byggðirnar innantil í Ísafjarðardjúpi og við þverfirðina norðan Breiðafjarðar. Rétt og skylt sýnist vera að fjalla hér nokkuð um Glámu því enginn bær var nær hátigninni en Botn í Dýrafirði og hér guðaði margur ferðamaðurinn á glugga, kominn um langan veg yfir fjöll og firnindi. Nær beint í austur frá Dýrafjarðarbotni gnæfir efsti kollur Glámu við himin og ber með réttu nafnið Sjónfríð.[23] Hann er í 920 metra hæð yfir sjávarmáli og þaðan sér víðar um Vestfjarðakjálkann en frá nokkrum öðrum sjónarhól. Uppi á Sjónfríð eru rústir af gamalli vörðu og kynni að vera lautenantavarðan sem talið er að norski liðsforinginn Hans Frisak og landmælingamenn hans hafi reist árið 1806 eða 1809.[24] Aðeins vestar þar sem hæðin er 893 metrar stendur yngri varða, traustlega hlaðin.[25] Sjónfríð er á mörkum Vestur-Ísafjarðarsýslu og Norður-Ísafjarðarsýslu. Liðlega sjö kílómetrum sunnar og aðeins austar mætast fjórar sýslur í einum punkti, Vestur- og Norður-Ísafjarðarsýsla og Vestur- og Austur-Barðastrandarsýsla.

Á 18. og 19. öld var Gláma talin vera jökull[26] og má telja líklegt að svo hafi verið í raun.[27] Þorvaldur Thoroddsen náttúrufræðingur virti Glámu fyrir sér frá Vattarfelli ofan við Skálmarfjörð þann 25. júlí 1886 og hafði góðan kíki við höndina.[28] Hann taldi sig sjá allstóran hjarnskjöld eða jökulbungu á efsta kollinum og vissi líka að Vestfirðingar höfðu lengi talið Glámu til jökla.[29] Annar náttúrufræðingur, Stefán Stefánsson, síðar skólameistari á Akureyri, sem gekk úr Dýrafjarðarbotni á Sjónfríð 5. ágúst 1893, taldi sig hins vegar geta fullyrt að uppi á Glámu væri enginn jökull, aðeins sundurlausar fannir.[30] Um þetta deildu þessir merku vísindamenn í Skírni árið 1910.[31] Nú er Gláma ekki talin til jökla[32] en Jón Eyþórsson veðurfræðingur segir í ritgerð frá árinu 1961 að háhryggur Glámu sé jökulvana þótt jökulfannir liggi utan í kjömmum hans.[33] Sú lýsing á enn við þó deila megi um hvort rétt sé að nefna hjarnbreiðurnar þar uppi jökulfannir.

Sitthvað sem varðar Glámu er reyndar auðvelt að gera að deiluefni, meðal annars það hvað hún nái yfir stórt svæði. Sveinn Pálsson, læknir og náttúrufræðingur, sem fæddur var árið 1762, segir að frá austri til vesturs sé Gláma tvær mílur en þrjár mílur frá norðri til suðurs.[34] Ætla má að hann eigi þar við danskar mílur en hver slík míla er liðlega 7,5 kílómetrar. Sveinn taldi Glámu því ná yfir 340 ferkílómetra flæmi og má til sanns vegar færa, kjósi menn að skilgreina allt Glámuhálendið sem Glámu. Þorvaldur Thoroddsen, sem fæddur var árið 1855, taldi Glámu hins vegar vera liðlega fjórar fermílur[35] eða um 230 ferkílómetra og munu margir telja þá skilgreiningu betur við hæfi.

Á fyrri tíð var mikið um ferðir yfir Glámu, enda var sú leið hin skemmsta úr Dýrafirði og Arnarfirði til byggðanna í Austur-Barðastrandarsýslu og við innanvert Ísafjarðardjúp. Engum kom til hugar sú fjarstæða að þræða nes og firði eins og akvegurinn liggur nú, enda er bílvegurinn frá Botni í Mjóafirði við Djúp að Borg í Arnarfirði og Mjólkárvirkjun um það bil tífalt lengri en leiðin yfir Glámu. Menn sem riðu til Alþingis úr byggðunum í Vestur-Ísafjarðarsýslu eða lögðu upp í aðrar ferðir til héraða utan Vestfjarða munu oft hafa farið Glámu[36] en væri sá kostur ekki tekinn varð að fara suður á Barðaströnd og fá þar flutning yfir Breiðafjörð. Flestir þeirra sem lögðu leið sína yfir Glámu fóru þó aðeins á milli héraða á Vestfjörðum og þar uppi var um margar leiðir að velja. Danski fræðimaðurinn P. E. Kr. Kålund, sem ferðaðist um Vestfirði árið 1874, fékk að heyra að út frá Sjónfríð, hæsta kolli Glámu, hefðu legið 18 leiðir.[37] Með kort af Vestfjörðum fyrir framan sig getur hver og einn skemmt sér við að finna þær allar.

Í fornritum okkar er stöku sinnum minnst á ferðir manna yfir Glámuhálendið. Í Fóstbræðrasögu segir frá ferð Grímu í Ögri og Kolbaks, leysingja hennar, er hún fylgdi honum til skips en þau riðu Glámuheiði til Arnarfjarðar og svo hið efra út eftir fjöllum til Barðastrandar og komu um nótt í Vaðil,[38] þar sem nú er Hagavaðall. Kunnari er þó að líkindum Glámuför Þorvaldar Snorrasonar í Vatnsfirði við Djúp er hann á langaföstu árið 1213 lagði upp frá heimahlaði með 32ja manna flokk í sína þriðju aðför að Hrafni Sveinbjarnarsyni á Eyri og fóru Glámuheiði til Arnarfjarðar.[39] Í þeirri herför náði Þorvaldur Hrafni á sitt vald og lét höggva hann undir virkinu á Eyri.[40] Tuttugu árum síðar settist nýr höfðingi að í Vatnsfirði og átti fyrr en varði brýnt erindi út yfir Glámu. Sá var Órækja, frillusonur sjálfs Snorra Sturlusonar í Reykholti. Þórdís Snorradóttir, systir Órækju, hafði verið gift Þorvaldi Snorrasyni í Vatnsfirði, er hér var nefndur, en var orðin ekkja og hrakti Órækja hana frá Vatnsfirði.[41] Hún settist þá að á Mýrum í Dýrafirði.[42] Þórdís var í kærleikum við Odd Álason, er þá sat á Eyri í Arnarfirði, og með falsbréfi var Órækju talin trú um að þau brugguðu honum banaráð.[43] Hann brá við skjótt og lagði á Glámu síðla dags þann 12. janúar 1234.[44] Í þeirri för voru 45 vopnbúnir menn[45] til alls vísir og blikaði á bitrar eggjar í tunglsljósi er þeir nálguðust Arnarfjarðarskarð. Í hópnum sjáum við enn við hlið Órækju þá Maga-Björn, Guðmund kvíagimbil og Sighvat slappa en Grunnvíkingar, bandamenn Órækju, fóru Hestfjarðarheiði.[46] Þeir voru líka 45 og mættust flokkarnir í Arnarfirði. Að Eyri komu þeir fyrir dag að morgni geisladags og þar lét Órækja taka Odd Álason af lífi.[47]

Sumarið 1394 fór annar hópur vopnaðra manna úr Vatnsfirði yfir Glámu í Dýrafjörð.[48] Þeir voru nærri 90 og flestallir tígjaðir.[49] Fyrirliði þess hóps var Björn Einarsson Jórsalafari, sem bjó í Vatnsfirði, en hann átti þá í illdeilum við Þórð Sigmundsson á Núpi í Dýrafirði[50] og frá er sagt á öðrum stað (sjá hér Núpur). Til fundar við Þórð var flokknum stefnt en í Glámureið þessari voru með Birni ýmsir helstu fyrirmenn landsins, svo sem Þorsteinn Eyjólfsson lögmaður og hirðstjórinn Vigfús Ívarsson hólmur.[51] Vera má að aldrei hafi fjölmennari flokkur vopnaðra manna farið yfir Glámu og ef marka má Flateyjarannál voru margir þeirra klæddir panserum, járnhöttum og vopnhönskum.[52] Dag einn síðla vetrar árið 1616 lagði þó ærið fjölmenn sveit vopnaðra manna upp frá Ögri og stefndi á Patreksfjörð[53] svo ætla verður að leiðin hafi legið yfir Glámu. Fyrirliðinn að því sinni var Ari Magnússon, sýslumaður í Ögri, er látið hafði ganga herútboð um alla Ísafjarðarsýslu og hugðist, að konungsboði, taka af lífi 50 skipbrotsmenn frá Baskalandi á Spáni er sátu á Vatneyri við Patreksfjörð allan þann vetur.[54] Líklegt er að þetta hafi verið síðasta herförin sem farin var yfir Glámu. Heilir á húfi komust Ari og liðsmenn hans í Tálknafjörð og voru orðnir 95 er þeir þrömmuðu síðasta áfangann, alfaraveg yfir Lambeyrarháls.[55] Á hálsinum lentu þeir í ófærð og sortabyl og tókst ekki betur til en svo að þeir villtust og hröktust að lokum til baka ofan í Tálknafjörð.[56] Var þetta talið gjörningaveður.[57] Ekki reyndu frændur vorir að leggja á hálsinn í annað sinn en sneru við norður að Djúpi.[58] Líklegt er að þeim hafi í raun verið um og ó að hætta lífinu í bardaga og verið fegnir að sleppa en látið svo heita að gjörningum væri um að kenna. Með vorinu náðu Baskarnir á Vatneyri að hertaka enska fiskiduggu og létu í haf.[59]

Í Ferðabók Eggerts og Bjarna, sem Eggert Ólafsson, skáld og náttúrufræðingur, lauk við að rita árið 1766, segir að yfir Glámu hafi verið lagður langur og örðugur fjallvegur og liggi hann að nokkru leyti … yfir jökul.[60] Eggert er þar að tala um Glámuheiði, leiðina frá innanverðu Ísafjarðardjúpi í Arnarfjörð.[61] Þegar hann nefnir þarna lagðan veg er meiningin að líkindum sú að leiðin hafi verið vörðuð. Um fjallvegi á Vestfjörðum kemst Eggert svo að orði að helstir þeirra og færastir séu Glámuheiði, Þingmannaheiði í Barðastrandarsýslu og Þorskafjarðar-heiði.[62] Af þeim orðum má ráða að á dögum Eggerts hafi ein eða fleiri af leiðunum yfir Glámu mátt kallast alfaravegur.

Listaskáldið góða, Jónas Hallgrímsson, fór Glámu 19. ágúst 1840, frá Botni í Dýrafirði að Botni í Mjóafirði við Djúp[63] og ritar tólf dögum síðar í bréfi: Illur vegur á Vesturlandi og Gláma skást því þar fer maður á blessuðum jökli.[64] Um miðbik 19. aldar virðist þó hafa verið lítið um ferðir yfir Glámu. Þeirri kenningu til styrktar má nefna að á Kollabúðafundi sem haldinn var sumarið 1855 var rætt hvernig vegur yrði fundinn og lagður yfir Glámuheiði, frá Dýrafirði til Ísafjarðarbotns og líka til Vatnsfjarðar og Múlasveitar í Barðastrandarsýslu.[65] Orðalagið gefur til kynna að menn hafi ekki lengur verið alveg vissir um hvernig hinar fornu leiðir lágu. Til hins sama benda ummæli Danans P. E. Kr. Kålunds, sem ferðaðist um Vestfirði árið 1874, en hann segir að í Arnarfirði og Dýrafirði hafi þá aðeins fyrirfundist einn maður sem treysti sér til að vera leiðsögumaður yfir Glámu.[66] Vera má að sú staðhæfing sé ekki alveg hárrétt en fjarri lagi mun hún varla vera.

Á síðasta fjórðungi 19. aldar fjölgaði ferðum yfir Glámuhálendið á ný. Sighvatur Grímsson Borgfirðingur, sem átti heima á Höfða í Dýrafirði frá 1873, var þá oft fenginn til að fylgja innlendum og erlendum ferðamönnum yfir Glámu.[67] Hann fylgdi Stefáni Stefánssyni, síðar skólameistara, á Sjónfríð 5. ágúst 1893[68] og liðlega einum mánuði síðar fór hann með hraðbréf norður að Djúpi.[69] Hann gekk þá á átta klukkutímum frá Botni í Dýrafirði að Heydal í Mjóafirði.[70] Hópferð var farin yfir Glámu, úr Djúpi í Dýrafjörð, haustið 1891, er Djúpmenn fjölmenntu á hátíð sem haldin var á Þingeyri þann 12. september en um þær mundir var talið að 1000 ár væru liðin frá landnámi í Dýrafirði.[71] Lítið var um búferlaflutninga yfir Glámu en þó er kunnugt að hjónin Björn Jónsson og Petrína Pétursdóttir völdu þá leið er þau fluttust frá Kirkjubóli á Bæjarnesi í Múlasveit við Breiðafjörð að Hrauni í Keldudal í Dýrafirði árið 1895.[72] Féð var rekið yfir Glámu um sumarmál og snemma í júní lögðu hjónin á hinn langa fjallveg með dætur sínar tvær, aðra tíu ára en hina á fyrsta ári.[73] Með í för var vinnukona þeirra á sjötugsaldri og karlmaður frá Múla í Kollafirði sem fenginn var til fylgdar.[74] Kýrnar úr fjósinu höfðu þau með sér og voru þær fjórar, sú elsta 20 vetra.[75] Í leiðangrinum voru einnig níu hross, fimm þeirra undir reiðingi.[76] Um ungbarnið var búið í heymeis sem var annar bagginn á elsta hestinum.[77] Lagt var upp frá Skálmardal í Múlasveit klukkan sex að morgni og hvílst næstu nótt í grösugum dalbotni vestan við Mjóafjarðarbotn[78] og hafa þau að líkindum látið fyrirberast í botni Húsadals. Þaðan var farið klukkan fjögur að morgni næsta dags og stefnan tekin á lægðina norðan við Sjónfríð.[79] Að Botni í Dýrafirði náðu Björn og Petrína um óttubil[80] og höfðu þá verið á fjöllum með kýrnar og ungbarnið í nær tvo sólarhringa. Allt gekk það vel.

Sá maður sem oftast fór yfir Glámu á árunum 1895–1930 mun að öllum líkindum hafa verið Kristinn Guðlaugsson, óðalsbóndi á Núpi í Dýrafirði, en hann hafði þá með höndum margvísleg forystustörf í sameiginlegum félagsmálum Vestfirðinga og þurfti oft að sitja fundi eða hitta menn að máli.[81] Kristinn fór yfir Glámu í fyrsta sinn sumarið 1894 og ferðir hans norður að Djúpi urðu margar áður en lauk, oftast úr Dýrafirði í Mjóafjörð.[82] Hann hefur í ritgerð gert nokkra grein fyrir helstu leiðum yfir Glámuhálendið og minnist þar á einar fimm.[83] Er þá Hestfjarðarheiði talin með en hún liggur við jaðarinn á Glámu. Leiðina úr Dýrafjarðarbotni í Mjóafjörð nefnir Kristinn Glámuveg og liggur hún norðan við Sjónfríð en leiðina frá Borg í Arnarfirði í Mjóafjörð kallar hann Glámuheiði[84] og er það nafn gamalt.[85] Sú leið liggur um Arnarfjarðarskarð, fyrir sunnan Sjónfríð.[86] Menn sem fóru úr Dýrafirði eða Arnarfirði yfir Glámuhálendið norður að Djúpi gengu ýmist niður í Hestfjörð, Skötufjörð, Mjóafjörð eða Ísafjörð og kostirnir voru reyndar fleiri. Leiðin sem liggur um suðurjaðar Glámuhálendisins, úr Ísafjarðarbotni í Vatnsfjörð hjá Barðaströnd, var nefnd Fjallasýn. Það nafn þekkti Sveinn Pálsson, læknir og náttúrufræðingur, er fyrr var nefndur,[87] og Kristinn Guðlaugsson notar það líka.[88] Þessi leið var ein sú lengsta sem farin var milli fjarða á Vestfjörðum, um það bil 34 kílómetrar.

Fimmta leiðin yfir Glámuhálendið, sem Kristinn nefnir, er Hornatáavegur. Fróðleik sinn um þann veg hafði hann frá Bjarna Arngrímssyni sterka, sem fæddur var árið 1866 og lengi bjó í Trostansfirði í Suðurfjörðum Arnarfjarðar.[89] Taldi Bjarni að þessi vegur hefði legið úr Vatnsfirði hjá Barðaströnd til fjarðanna í Vestur-Ísafjarðarsýslu og við innanvert Djúp.[90] Hornatær er samheiti á fjallahnúkunum miklu sunnanvert við akveginn sem liggur úr Trostansfirði upp að vegamótunum við Helluskarð, þar sem komið er á þjóðleiðina úr Vatnsfirði í átt að Dynjandisheiði.[91] Þessar tígulegu klettaborgir blasa við augum utan af Breiðafirði og víða að úr Arnarfirði, hærri en flest nálæg fjöll, og má ætla að Hornatáavegur hafi verið kenndur við þær. Hornatær nefnir Árni Magnússon prófessor, sem fæddur var árið 1663, leiðina úr Vatnsfirði hjá Barðaströnd að Dynjanda í Arnarfirði.[92] Í sýslulýsingu frá árinu 1746 er leiðin frá hinum sama Vatnsfirði í Dýrafjarðarbotn nefnd Hornatær[93] og nafnið Hornatær setti séra Hjalti Þorsteinsson í Vatnsfirði við Djúp sem næst miðri þeirri löngu leið er hann gekk frá Vestfjarðakorti sínu árið 1743.[94] Í yngri sýslulýsingu, frá árinu 1839, er leiðin úr Vatnsfirði í Arnarfjarðarbotn enn nefnd þessu sama nafni.[95] Hvort tveggja er efalítið rétt og ætla má að þeir sem fóru af Barðaströnd norður að Djúpi hafi ýmist valið leiðina Fjallasýn, er fyrr var nefnd, eða byrjað á að fara Hornatær og síðan yfir Glámu, sem kemur heim við orð Bjarna sterka í Trostansfirði er fyrr var til vitnað. Á áratugunum kringum aldamótin 1900 voru ýmsir hins vegar farnir að nefna allt aðra leið Hornatær eða Hornatáaveg, það er að segja leiðina úr Arnarfirði eða Dýrafirði suður í Múlasveit við Breiðafjörð[96] og sýnist vera tilfærsla á fornu nafni. Pétur Jónsson fræðimaður, sem kenndur var við Stakka á Rauðasandi, fæddur 1864, segir leiðina úr Arnarfirði suður í Múlasveit hafa verið nefnda Hornatær eða Hornatáaveg.[97] Hann tekur fram að leiðin liggi um suðurhjalla Glámuhálendisins og ofan í Tröllatungur upp frá Vattarfirði.[98] Pétur segir að þessa leið hafi Arnfirðingar og Dýrfirðingar riðið til þings og lætur þess reyndar getið að á fyrstu áratugum tuttugustu aldar hafi enn sést móta fyrir veginum hér og þar.[99] Gísli Vagnsson, sem lengst bjó á Mýrum í Dýrafirði, fæddur 1901, segir að gamlir menn hafi nefnt það að fara Hornatær þegar farið var um fjöll úr Arnarfirði suður í Múlasveit[100] og eru þeir Pétur á einu máli um þetta. Báðir eru þeir prýðilega marktækir svo ætla verður að nafnið Hornatær hafi tekið að færast til fyrir aldamótin 1900. Sjálfur fór Gísli þessa leið á yngri árum, frá Borg í Arnarfirði suður í Múlasveit, og segir hann hana vera illfæra með hesta vegna urða og óteljandi smávatna.[101] Vorið 1915 fóru þeir Anton Proppé, kaupmaður á Þingeyri, og Pétur Pétursson, sem kenndur var við Granda í Dýrafirði, þó þennan langa og erfiða fjallveg á hestum, frá Dynjanda í Arnarfirði í Vattarfjörð, og voru 16 klukkustundir á leiðinni.[102]

Að lokum skal nefnd hér enn ein Glámuferð sem vert er að geymist í minni. Hana fór í marsmánuði árið 1915 Ólafur Guðmundsson sem átti heima á Firði í Múlasveit.[103] Hann lagði upp frá heimahlaði klukkan sjö að morgni og tók stefnuna á Glámu en ferðinni var heitið í kaupstaðinn á Ísafirði.[104] Gönguna þreytti hann í tólf klukkustundir, var þá kominn á brúnina ofan við fjarðarbotninn í Skutulsfirði[105] og hafði lagt að baki 54 kílómetra. Tvisvar áður hafði hann gengið þessa löngu leið og komist klakklaust í kaupstaðinn en nú blasti við nýr vandi því sökum harðfennis var alveg ófært af fjallinu niður í Engidalinn fyrir botni Skutulsfjarðar.[106] Ólafur dó þó ekki ráðalaus en fikraði sig áfram ofan í Álftafjörð og náði þar háttum á Svarthamri.[107] Hér verður nú látið staðar numið í umfjöllun um Glámu og Glámuferðir en þeim sem sólgnir eru í sögur af forynjum á þessu mikla hálendi eða vilja heyra um leyndan sæludal í jöklinum þar uppi skal bent á Vestfirskar þjóðsögur og ritið Þjóðsögur og þættir.[108]

Að þessu sinni leggjum við ekki á Glámu en látum nægja að rölta svolítið um þann hluta dalsins sem er norðan Botnsár en hún skilur að landareignir jarðanna Botns og Dranga og fellur á mörkum Mýrahrepps og Þingeyrarhrepps svo sem fyrr var nefnt. Allur dalurinn, beggja vegna árinnar, heitir Dýrafjarðarbotn (sjá hér bls. 1).

Upptök Botnsár eru í Þingmannavötnum sem einnig voru nefnd Efra- og Neðra-Þingvatn.[109] Hér er líka Þingmannarjóður[110] og má ætla að þessi örnefni tengist ferðum manna úr öðrum sveitum til þings í Dýrafirði ellegar ferðum Dýrfirðinga yfir Glámu er þeir sóttu Þorskafjarðarþing hið forna.

Drangaá fellur um vesturhlíð dalsins og sameinast Botnsá tæplega tveimur kílómetrum frá fjarðarbotninum. Þrír allstórir lækir falla í Botnsá úr norðurhlíðinni. Næst fjarðarbotninum er Hrossaskriðulækur en skriðan og lækurinn blasa við frá bæjarhólnum í Botni.[111] Fram að þessum læk er 500-1000 metrar úr túnfætinum. Í Hrossaskriðulæk var fyrrum, að sögn, nær óþrjótandi silungsveiði og lækurinn af þeim ástæðum virtur til jafns við heilt kúgildi.[112] Oft var líka góð silungsveiði í sjálfri ánni, þar sem heitir Svartabakkafljót, skammt fyrir framan Hrossaskriðu.[113] Nokkru framar en Hrossaskriðulækur  er Bjartlækur[114] og fremst Þverá sem fellur í Botnsá skammt fyrir heiman Girðisbrekku, nær beint á móti Sandfelli sem er hinum megin í dalnum.[115] Alla þessa læki þarf að hafa í huga til að átta sig á hinum ýmsu skógarreitum í Botnslandi sem fylgdu öðrum jörðum eða voru kirknaeign. Slíkir reitir voru fimm.[116] Ystur var skógarteigur Mýrakirkju og náði hann frá Hvallátradalsá, sem fellur til sjávar um það bil 300 metrum fyrir utan túnið og fram að Hrossaskriðu er fyrr var nefnd.[117] Hvammur utan við túnið í Botni heitir enn Mýrahvolf[118] og minnir nafnið á forn réttindi kirkjunnar. Í Vilkinsmáldaga frá árinu 1397 er þessa skógarítaks Mýrakirkju ekki getið[119] en í Gíslamáldaga frá árunum skömmu eftir 1570 er kirkjan á Mýrum sögð eiga skóg á Dýrafjarðarbotnum með ummerkjum.[120] Skýringin á því að þarna skuli vera talað um Dýrafjarðarbotna í fleirtölu er að líkindum sú að Mýrakirkja átti annan skógarteig í landi Dranga, hér handan við ána (sjá hér Drangar). Á svæðinu frá Hvallátradalsá að Hrossaskriðu mun kirkjan á Mýrum hafa átt allan skóg að hálfu.[121]

Næsta skógarteig fyrir framan Hrossaskriðu átti jörðin Brekka í Þingeyrarhreppi og náði hann fram að Svöðum.[122] Brekkuskógur er fyrir ofan götuna sem lá fram dalinn.[123] Um þennan reit er tekið fram í Jarðabókinni frá 1710 að hann brúkist til kolgjörðar og hingaðtil til raftviðar en þess jafnframt getið að raftviðurinn sé nú að mestu eyddur.[124]  Í skjali sem þinglýst var 6. júlí 1886 er tekið fram að Brekka eigi skógarítak í svonefndum Brekkuteig í Botnslandi.[125]

Brekkuskógur náði eins og fyrr var sagt fram að Svöðum en þar tók Meðaldalsskógur við.[126] Þann reit átti jörðin Meðaldalur í Þingeyrarhreppi og náði hann fram að Sandalágum.[127] Þarna var enn gert til kola í byrjun átjándu aldar.[128] Í Meðaldal var bænhús til forna og að líkindum einnig á Brekku.[129] Vera má að skógarteigarnir sem kenndir voru við þessar jarðir hafi fyrir siðaskipti verið í eigu bænhúsanna.

Framan við reitinn sem fylgdi Meðaldal var skógur Sandakirkju.[130] Í máldaga sem talinn er vera frá árinu 1397 er kirkjan á Söndum sögð eiga skóg í Dýrafirði milli Seljageila og Miðdæla … fyrir ofan Götu[131] og eins er þetta orðað í skjali frá árunum upp úr 1570.[132] Nú virðast þessi tvö örnefni vera týnd en ætla má að nöfnin Sandabalar og Heimri- og Fremri-Sandalágar gefi til kynna hvar skógur Sandakirkju muni hafa verið[133] og í Jarðabókinni frá 1710 er tekið fram að Meðaldalsskógur sé heiman til við Sandalágar.[134] Sandabalar eru neðan við Votukletta, er svo heita, og fyrir framan Breiðuskriðu[135] og á síðari tímum var heyjað þar á bölunum en Sandalágar eru aftur á móti skóglendi og ná að sögn kunnugra fram að Bjartlæk[136] sem fyrr var nefndur. Í byrjun 18. aldar var skógur Sandakirkju í Dýrafjarðarbotni mjög þrotinn og varla nýtur til kolgjörðar.[137]

Enn framar  er skógarteigurinn sem Holtskirkja í Önundarfirði átti.[138] Í máldögum frá 14. og 16. öld er hún sögð eiga skóg í Dýrafjarðarbotni á milli Gilja tveggja fyrir ofan Þingmannarjóður, á hina vinstri hönd er á Glámu ríður.[139] Sé litið til staðhátta virðist ljóst að gilin tvö, sem þarna er getið, hljóti að vera þau sem lækirnir, Bjartlækur og Þverá, falla um en nærri lætur að spölurinn á milli þeirra sé einn kílómetri. Orðin sem til var vitnað sýna að Holtsteigur, er svo var nefndur,[140] hefur verið ofan við reiðgötuna sem lá fram dalinn en Þingmannarjóður að líkindum fyrir neðan hana. Um þennan teig segir svo í Jarðabókinni frá 1710 að hann hafi góður verið en sé nú næsta því eyddur og urðu Holtsprestar af þeim sökum að taka önnur skógarpláss á leigu.[141]Á lausum miða sem fylgir Jarðabók Árna og Páls er sagt að teigur Holtskirkju nái frá Sandalágum og fram í Bjartlæk[142] en þar er greinilega einhver ruglandi á ferð því að sögn staðkunnugra manna eru það Sandalágarnar sem ná fram að Bjarnlæk.[143] Á þessum lausa miða eru fleiri staðhæfingar sem stangast á við það sem sagt er í sjálfri Jarðabókinni. Fjallið norðantil við Dýrafjarðarbotn er í örnefnaskrá sagt heita Botnafjall[144] sem kynni að vera misritun fyrir Botnsfjall. Nokkur hluti þess ber nafnið Votafjall og nær það frá Hrossaskriðugili fram að Bjartlæk.[145]

Framan við Bjartlæk þrengist dalurinn og brekkur verða brattari.[146] Þar komum við strax að klettagirðingu sem liggur nær hlíða á milli og heitir Kleifar.[147] Ofar er Kleifahjalli og í honum miðjum Kleifaskarð.[148] Þaðan er nokkur spölur fram að Girðisbrekku, er fyrr var getið, en hún er fyrir framan Þverá.[149] Mjög skammt fyrir ofan Kleifarnar rennur lítill lækur í ána og virðist koma úr hjalla í norðurhlíð dalsins. Þetta er Sellækurinn.[150] Nafnið á honum gefur til kynna hvar selið frá Botni muni hafa verið og framan við hann eru seltóttirnar enn á sínum stað. Þær eru alveg á lækjarbakkanum og mjög skammt frá ánni. Tóttirnar eru tvær, sú stærri liðlega fjórir metrar á lengd og rösklega einn metri á breidd en húsið kynni að hafa verið svolítið stærra því veggirnir hafa sigið saman. Frá seltóttunum blasir Dýrahaugur við augum á brún Dýrahvilftar sem er handan ár (sjá hér Drangar). Rétt fyrir framan selið og aðeins norðar standa tveir stakir steinar á holti og heitir sá stærri Grásteinn og stundum voru þeir nefndir Grásteinar.[151] Í þessum steinum var að sögn bústaður álfa og aldrei mátti fella gras í nánd við þá.[152]

Frá seltóttunum horfum við fram í dalbotninn til Girðisbrekku, sem blasir við augum, og Hestabrekku sem er enn ofar á leið þeirra sem fóru úr Dýrafirði á Hestfjarðarheiði.[153] Upp frá síðarnefndu brekkunni liggur dálítil hvilft til norðurs inn í fjalllendið og heitir Snjódalur.[154] Sagt var að þar hefðu áður búið tröll.

Hjá selinu snúum við til baka og hverfum aftur heim á bæjarhólinn í Botni. Um jörðina Botn í Dýrafirði er fyrst getið í heimildum frá 17. öld en líklegt má telja að hér hafi verið búið frá því á landnámstíð. Séra Sveinn Símonarson í Holti, faðir Brynjólfs biskups, keypti hálfan Botn vorið 1613 af Ólafi nokkrum Þórðarsyni og hina hálflenduna tíu árum síðar af sama manni.[155] Jörðin var síðan í eigu niðja séra Sveins fram á átjándu öld.[156] Um 1800 áttu jörðina þeir Jón Gunnarsson, hreppstjóri á Fjallaskaga, og Jón Bjarnason í Haukadal.[157] Oftast bjuggu hér leiguliðar en um miðja 19. öld var jörðin um skeið í sjálfsábúð því Sveinn Magnússon, sem bjó hér lengi á fyrri hluta þeirrar aldar, átti jörðina[158] og líka Björn Ásbjörnsson er bjó hér nokkrum árum síðar.[159] Á þessum árum var bærinn í Botni lágreistur en vandlega húsaður, að sögn viðkomandi sóknarprests,[160] og má vera að Botnsbændur hafi þá enn nýtt sér rafta úr skóginum til húsagerðar.

Þann 23. júlí 1855 seldi Björn ekkjunni Guðrúnu Ólafsdóttur á Gemlufalli jörðina Botn fyrir 192 spesíur.[161] Með fylgdu 2 ásauðarkúgildi,[162] það er 12 leiguær, og árleg landskuld var 2 vættir,[163] það er 2 ærgildi. Þegar Guðrún á Gemlufalli keypti Botn var hún nýlega orðin ekkja en hún hafði verið gift Gísla Jónssyni, skipstjóra á þilskipinu Hákarlinum sem fórst með allri áhöfn vorið 1854 (sjá hér Mýrahreppur, inngangskafli og Lækjarós). Guðrún giftist síðar í annað sinn Jens Guðmundssyni og bjuggu þau á Gemlufalli en seinna á Söndum í Dýrafirði og á Brekku í Þingeyrarhreppi.[164]

Á árunum 1873-1888 bjuggu í Botni hjónin Jón Sakaríasson og Ingibjörg Jóhanna Jónsdóttir[165] en þau áttu síðar lengi heima á Dröngum. Eitt barna þeirra var Kristín, fædd 1876, er síðar fékk ættarnafnið Dahlstedt, en frá henni hefur áður verið sagt á þessum blöðum (sjá hér Drangar). Á búskaparárum sínum í Botni átti Jón Sakaríasson bát sem Elliði hét, fjögra manna far, og á honum reri hann jafnan á vorin út á Fjallaskaga.[166] Í endurminningum sínur getur Kristín dóttir hans um silungsveiði í Botnsá, segir að veiðin hafi verið misjöfn en oftast fengist í soðið þegar farið var með net í ána.[167] Gott berjaland segir hún vera í Botni, eitt hið allra besta í Dýrafirði.[168] Krakkarnir tíndu berin en móðir þeirra fór með bónda sínum í berjasöluferð til Þingeyrar á hverju hausti og voru það hennar einu kaupstaðarferðir.[169] Fé var beitt í skóginn að vetrinum á búskaparárum Jóns Sakaríassonar í Botni og þar hélt það sig líka talsvert á sumrin.[170] Nægur eldiviður fékkst þá úr skóginum en þó var mór notaður með.[171] Eldað var á hlóðum og kveðst Kristín Dahlstedt fyrst hafa séð eldavél nokkru eftir að hún fluttist tólf ára gömul frá Botni.[172] Vorið 1888 gengu systurnar Kristín og Sigríður Jónsdætur í Botni til spurninga út að Núpi.[173] Þær voru þá tólf og þrettán ára. Frá Botni að Núpi eru um það bil 23 kílómetrar og oftast fóru þær fram og til baka sama daginn þó snjór væri mikill og kalt að vaða árnar.[174] Alls urðu ferðirnar til prestsins fjórar eða fimm þetta vor[175] og þótti víst engum mikið að leggja slíkt á ungviðið svo takast mætti að koma því í kristinna manna tölu.

Lengi vel munu þau álög hafa verið talin hvíla á Botni að þar mætti enginn búa lengur en í 19 ár. Sögur herma að eitt sinn hafi bóndi nokkur virt álögin að vettugi og haldið áfram búskap þó tuttugusta árið væri runnið upp. En þá um haustið tók hann sótt og andaðist eftir skamma legu.[176] Meðan heimafólk í Botni var að fylgja bónda til grafar kom upp eldur í bænum og brann hann til kaldra kola.[177] Eldurinn sást frá Lambadal og töldu sumir sig sjá í logunum tvo höfuðlausa menn og sköruðu þeir aftur inn í eldinn viðum þeim er út féllu.[178]

Árið 1896 fluttist Sigurlíni Kristjánsson að Botni frá Lambadal og bjó hér yfir tuttugu ár.[179] Hann virðist hafa látið sig trú manna á álögin engu varða. Að sögn Kristínar Dahlstedt var Sigurlíni góður hagyrðingur og af sumum talinn kraftaskáld.[180] Það skyldi þó aldrei vera að hann hafi beitt sinni óðarkynngi til að komast undan álögunum.

Eins og aðrir sem búið hafa í Botni fengu Sigurlíni og fjölskylda hans að kynnast hinum miklu snjóþyngslum sem stundum gerðu fólki lífið brogað á þessum bæ. Nói bátasmiður sem var að alast upp á Kjaransstöðum þegar Sigurlíni bjó í Botni lét síðar færa þessa sögu í letur:

 

Eitt snjóavorið voru bæjarhúsin í Botni komin í kaf og spurðist ekki af fólki á þeim bæ fyrr en seint og um síðir. Þegar bændur í nágrenninu fóru þangað til að fregna um líðan fólks og búsmala voru margar tröppur niður að fara að bæjardyrum, sumir sögðu átján. Og þá var reykrörið komið í kaf og þurfti að framlengja það svo það næði upp úr snjónum. En fólkinu í Botni leið bærilega og ekki var þar sultur í búi. Og það vissi ég að fénaðurinn á bænum gekk vel fram um vorið þótt hart væri í ári.[181]

 

Í Jarðabókinni frá 1710 er sagt að fyrir minni þálifandi manna hafi snjóflóð eitt sinn hlaupið á bæinn í Botni og tekið með sér baðstofuna.[182] Ekki er til þess vitað að snjóflóð hafi valdið þar meiriháttar skaða á 18. eða 19. öld en þann 8. febrúar 1925 féll mikið snjóflóð úr hlíðinni og laskaði það bæjarhúsin (sjá Firðir og fólk 1900-1999, 256). Flóðið braut niður fjárhús og drap 14 kindur.[183] Fólkið slapp lifandi en um vorið fór jörðin í eyði og hefur ekki verið búið hér síðan.

Leiðin frá Botni að Innri-Lambadal, sem er næsti bær við norðanverðan fjörðinn, er um það bil 6 kílómetrar og tími til kominn að hefja göngu í þá átt. Á þessari bæjarleið nemum við fyrst staðar við Hvallátradalsána sem áður var frá sagt (sjá hér bls 1). Varla mun þó ráðlegt að tölta hér upp á dalinn í leit að hvalbeinunum sem sagt er að þar hafi sést. Séra Jón Sigurðsson á Gerðhömrum getur þess reyndar í ritgerð sinni frá árinu 1840 að alþýða manna haldi því fram að bein þessi úr hinum miklu sjávarskepnum sjáist jafnvel enn nú á Hvallátradal en séu orðin mosavaxin.[184]

Við ána látum við hugann reika liðlega 100 ár aftur í tímann og reynum að sjá fyrir okkur tvær konur sem hér voru á ferð skömmu eftir rismál einn vordag árið 1892. Önnur þeirra er reyndar bara á sextánda ári en hin komin á sextugsaldur. Sú yngri er Kristín Jónsdóttir á Dröngum en hin er Sigga í Botni. Og hvert skyldu þær svo vera að fara? Sjálf hefur Kristín sagt snilldarvel frá ferð þeirra þennan dag út að Gerðhömrum og aftur heim.[185]

Að sögn Kristínar var gamla konan í Botni vön að fara einu sinni á ári með pokann sinn milli bæja að leita eftir smágjöfum til fæðis og fata hjá sveitungunum. Að þessu sinni hafði hún fengið ungu heimasætuna á Dröngum til að koma með og hjálpa sér að bera pokann. Hér við Hvallátradalsána námu þær staðar og gamla konan fór með ferðabæn sem hljóðaði svo:

 

Frelsari minn, legg þú lið

og gefðu byr og góðan afla. – Í Jesú nafni.  Amen.

 

Síðan hröðuðu þær för út fjarðarströndina með prjóna í höndum og taldi Sigga að hjálparmærin ætti að geta prjónað heilan vettling á leiðinni.[186] Hvergi var numið staðar fyrr en á Gerðhömrum en á heimleiðinni var komið víða við og á sumum bæjum varð þeirri gömlu vel ágengt. Þegar farið var frá Mýrum var pokinn sem Kristín bar orðinn þyngri en svo að hennar ungu herðar gætu með góðu móti þolað.[187] En Sigga í Botni gat verið hörð af sér þegar á þurfti að halda og rak nú burðarmeyna áfram án allrar miskunnar. Sjálf hafði hún borið margar þungar byrðar á langri æfi. Svona dragnastu nú á bífurnar, skepnan þín, sagði hún þegar Kristín ætlaði að gefast upp eftir bleytuvolk í jökulkaldri og straumharðri Lambadalsá.[188] Eftir miðnætti komu þær loks að Botni og þá var Kristín að þrotum komin. Þar losnaði hún við baggann og dróst áfram heim að Dröngum. Þangað kom hún undir morgun og hafði þá gengið 60 kílómetra og verið tæpan sólarhring í ferðinni. Næstu þrjá eða fjóra daga lá hún í rúminu.[189]

Við skulum nú þoka okkur áfram í fótspor þeirra Siggu í Botni og Kristínar á Dröngum, enda þótt meiningin sé að fara hægar yfir. Utan við Hvallátradalsá tekur strax við Lambadalshlíð þó að landamerkin milli jarðanna séu hálfum öðrum kílómetra utar. Sú staðreynd bendir til þess að landareign Lambadals hafi ef til vill verið stærri en nú í fyrstu og reyndar er vel hugsanlegt að Botn hafi ekki orðið sjálfstæð bújörð fyrr en talsvert löngu síðar en farið var að búa í Lambadal. Hlíðin sem leið okkar liggur um er enn kjarrivaxin beggja vegna við merkin. Rösklega hálfum kílómetra utan við Hvallátradalsá komið við að Ófærunni. Þar þurfti áður að sæta sjávarföllum til að komast fyrir klettanef en bílvegurinn sem lagður var um miðja tuttugustu öld liggur mun ofar. Utan við Ófæru eru tóttir af gömlum beitarhúsum rétt við veginn og heita Sveinshús.[190] Þaðan er skammt að Langaskeri en við skerið komum við í landareign Lambadals og höfum þá lagt að baki þriðjung af leiðinni frá Botni að Innri-Lambadal.

 

– – – – – – – – – – o o o o o – – – – – – – – – –

 

[1] Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín VII, 55.

[2] Örnefnaskrá.

[3] Sama heimild.

[4] Sama heimild.

[5] Sóknarmannatöl Dýrafjarðarþinga.

[6] Ólafur Jónsson 1957, II, 390. Eyjólfur Jónsson 1996, II, 268-269.

[7] Örn.skrá.

[8] Sama heimild.  Vestfirskar þjóðsögur II, 1, 164.

[9] Örn.skrá.

[10] Sama heimild.

[11] Sama heimild.

[12] Kristján G. Þorvaldsson 1951, 114-115 (Árbók F.Í.)

[13] Sigríður Jónsdóttir frá Botni, Guðm. Gíslason, Höfða, Valdimar Gíslason, Mýrum. – Viðtöl K.Ó. við þau í júlí 1992.

[14] Jarðab. Á. og P. VII, 55-56.  Eyjólfur Jónsson 1996 II, 268-269.

[15] Sama heimild.  Sbr. Kristín Dahlstedt / Hafliði Jónsson 1961, 10.

[16] Sama heimild.

[17] Jarðab. Á. og P. VII, 55-56.  Sóknalýsingar Vestfjarða II, 63-64.  Kr.Dahlstedt / H. Jónsson 1961, 5-12.

[18] Jarðabók Á og P. VII, 55-56.

[19] Sama heimild.

[20] Jarðab. Á. og P. VII, 55-56.

[21] Sama heimild.

[22] Jóhannes Davíðsson 1968, 41-42 (Ársrit S.Í.).

[23] Kristinn Guðlaugsson 1953, 85 og 94 (Hrakningar og heiðavegir III).  Stefán Stefánsson 1910, 37 (Skírnir).  Sbr. Sóknalýs. Vestfj. II, 20-21.  Sbr einnig Edda Arnholtz 1994 – Gláma og Drangajökull, óprentuð ritgerð frá námi í svæðisbundinni leiðsögn fyrir Vestfirði.

[24] Stefán Stefánsson 1910, 37.  Sbr. Þorvaldur Thoroddsen 1902 III, 257-290.

[25] Valdimar Gíslason, Mýrum. Viðtal K.Ó við hann 15.9. 2004.

[26] Eggert Ólafsson 1975 I, 222 og 236-237.  Þorv. Thoroddsen 1933 II, 16.

[27] Þorv. Thoroddsen 1923, 108-109.  Jónas Hallgrímsson, Ritverk 1989 II, 52.

[28] Þorv. Thoroddsen 1910, 138-140.  Sami 1923, 108-109.

[29] Þorv. Thoroddsen 1923, 108-109.

[30] Stefán Stefánsson 1910, 34-39 (Skirnir).

[31] Sama heimild.  Þorv. Thoroddsen 1910, 138-140 (Skírnir).

[32] Landið þitt Ísland 1984, I, 242.

[33] Jón Eyþórsson 1961, 156 (Náttúra Íslands).

[34] Sveinn Pálsson 1945, 525.

[35] Þorv. Thoroddsen 1933, II, 16.

[36] Sbr. Skj.s. próf. XIII. 1. B, 1.  Skjalabók frá Holti í Önundarf. 1333-1708, 191.

[37] P. E. Kr. Kålund 1985, II, 169.

[38] Íslensk fornrit VI, 167.

[39] Sturlunga I, 434-435.

[40] Sama heimild, 434-440.

[41] Sama heimild II, 226.

[42] Sama heimild.

[43] Sama heimild, 226-235.

[44] Sama heimild, 232-235.

[45] Sama heimild.

[46] Sama heimild.

[47] Sama heimild.

[48] Safn til sögu Íslands II, 627.

[49] Sama heimild.

[50] Sama heimild.

[51] Safn til sögu Íslands II, 627.

[52] Arnór Sigurjónsson 1975, 26-27.

[53] Alþ.bækur Íslands IV, 309-319.  Jónas Kristjánsson 1950, sjá þar Víkingarímur.

[54] Alþingisbækur Íslands IV, 309-319.  Jónas Kristjánsson 1950, sjá þar Víkingarímur.  Sbr. hér Fjallaskagi.

[55] Jónas Kristjánsson 1950, sjá þar Víkingarímur.

[56] Sama heimild.

[57] Sama heimild.

[58] Sama heimild.  Sbr. Alþ.b. Íslands IV, 319.

[59] Sama heimild.  Annálar IV, 248.

[60] Eggert Ólafsson 1975, I, 222.  Sbr. þar I, 236-237.

[61] Sama heimild.

[62] Sama heimild.  Sbr. Safn til sögu Íslands II. 1. 2. Á.M., 83.

[63] Jónas Hallgrímsson, Ritverk 1989, II, 358.

[64] Sama heimild II, 52.

[65] Þjóðólfur VII, 8.9.1855.

[66] P. E. Kr. Kålund 1985, II, 169.

[67] Kristinn Guðlaugsson 1953, 86 (Hrakningar og heiðavegir III).  Sbr. Lbs. 23754to, Dagb. Sighvats Grímssonar Borgf. 23. og 24.8.1892.

[68] Lbs. 23754to, Dagb. Sighv. Gr. Borgf. 4.8. – 6.8.1893.

[69] Sama dagbók 7.9. og 9.9.1893.

[70] Sama heimild.

[71] Sbr. Landið þitt Ísland 1984 I, 243 og Lbs. 23744to, Dagb. Sighv. Gr. Borgf. 12.9. og 13.9.1891.

[72] Kristinn Guðlaugsson (ásamt Guðrúnu Björnsdóttur) 1953, 95-102.

[73] Sama heimild.

[74] Sama heimild.

[75] Sama heimild.

[76] Sama heimild.

[77] Sama heimild.

[78] Sama heimild.

[79] Sama heimild.

[80] Sbr. Kristinn Guðlaugsson (ásamt Guðrúnu Björnsdóttur) 1953, 95-102 (Hrakningar og heiðavegir III).

[81] Sbr. Ísl. æviskrár V, 423.  Bún. Vest. 1907-1932 1933, 65.  Kristinn Guðlaugsson 1953, 88-92.

[82] Kristinn Guðlaugsson 1953, 88-94 (Hrakningar og heiðavegir III).

[83] Sama heimild, 86-87 og 102.

[84] Sama heimild.

[85] Sturl. I, 434-435.  Eggert Ólafsson 1975, I, 222.

[86] Kristinn Guðlaugsson 1953, 86-87 og 102.

[87] Sveinn Pálsson 1945, 525.

[88] Kristinn Guðlaugsson 1953, 87.

[89] Sama heimild, 102.  Sbr. Árbók Barð. 1952, 80-83.

[90] Sama heimild.

[91] Örn.skrá.

[92] Safn til sögu Íslands II. 1. 2. Á.M., 83.

[93] Ólafur Árnason 1957, 180 (Sýslulýsingar 1744-1749).

[94] Jón Helgason 1960, 148 (Íslenskt mannlíf III).

[95] ÍB 20 fol. e. Þorkell Gunnlaugsson.

[96] Pétur Jónsson 1942, 70 (Barðstrendingabók).  Gísli Vagnsson 1957, 162 (Hrakningar og heiðavegir IV).

[97] Pétur Jónsson 1942, 70.

[98] Sama heimild.

[99] Sama heimild.  Sbr. P. E. Kr. Kålund 1985, II, 156 og Þorv. Thoroddsen 1959, II, 43.

[100] Gísli Vagnsson 1957, 162.

[101] Sama heimild.

[102] Sama heimild, 163.

[103] Vestri XIV, 29.3.1915.

[104] Sama heimild.

[105] Sama heimild.

[106] Vestri XIV, 29.3.1915.

[107] Sama heimild.

[108] Vestfirskar þjóðsögur 1909, I, 19-21.  Þjóðsögur og þættir 1981, I, 21.

[109] Örn.skrá.  P. E. Kr. Kålund 1985, II, 175.

[110] D.I.IV, 141 og XV, 572.

[111] Örn.skrá.

[112] Sama heimild.

[113] Sama heimild.

[114] Sigríður Jónsdóttir frá Botni og Guðm. Gíslason á Höfða.  – Viðtal K.Ó. við þau 13.7.1992 og 3.7.1992.

[115] Sömu heimildir.

[116] Jarðab. Á. og P. VII, 40 og 56.

[117] Sama heimild, 56.

[118] Örn.skrá.

[119] D.I. IV, 143-144.

[120] D.I. XV, 576.

[121] Lbs. 23684to, S.Gr. B. Prestaæfir XI, 244-245.

[122] Jarðab. Á. og P. VII, 46 og 56.

[123] Örn.skrá.

[124] Jarðab. Á. og P. VII, 46 og 56.

[125] Landamerkjaskrá fyrir Brekku í Dýrafirði, þinglýst 6.7.1886 (ljósr. í eigu K.Ó.).

[126] Jarðab. Á. og P. VII, 46 og 56.

[127] Jarðab. Á. og P. VII, 40 og 46.

[128] Sama heimild.

[129] Sama heimild, 39 og 45.

[130] Sama heimild, 40 og 48.  Sbr. Örn.skrá.

[131] D.I. IV, 145.

[132] D.I. XV, 577.

[133] Sbr. Örn.skrá.

[134] Jarðab. Á. og P. VII, 40.

[135] Örn.skrá.

[136] Örn.skrá.

[137] Jarðab. Á. og P. VII, 48.

[138] Sbr. Jarðab. Á. og P. VII, 56.

[139] D.I. IV, 141 og XV,572.

[140] Jarðab. Á. og P. VII, 103.

[141] Jarðab. Á. og P. VII, 103.

[142] Sama heimild, 56.

[143] Örn.skrá.

[144] Sama heimild.

[145] Sama heimild.

[146] Sama heimild.

[147] Sama heimild.

[148] Sama heimild.

[149] Sama heimild.

[150] Sama heimild.

[151] Örn.skrá..

[152] Sama heimild.

[153] Sama heimild.

[154] Sama heimild.

[155] Jarðabréf frá 16. og 17. öld, Útdrættir, 159-160 (Kph. 1993).

[156] Jarðab. Á. og P. XIII, 275-276.  Alþ.b. Ísl. VI, 409.  Jarðabréf frá 16. og 17. öld. Útdr., 177.  Lbs. 7974to,

Jarðaskrár úr Ísafj.sýslu frá árunum 1658 og 1695.  Sbr. Ísl. æviskrár I, 257-258 og IV 374-375.  Jarðab.

Á. og P. VII, 55.

[157] Rtk. Jarðabækur V. 16, Ísafj.sýsla 1805.

[158] J. Johnsen 1847, 193.  Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1. búnaðarskýrslur 1821-1837.

[159] Hsk. á Ísaf. nr. 206, Kaupbréf fyrir Botni í Dýrafirði dags. 23.7.1855.  Manntal 1855.  Sbr. Vestf. ættir I,

207 og 402 og II, 452 og 686.

[160] Sóknalýs. Vestfj. II, 63-64.

[161] Hsk. á Ísaf. nr. 206, Kaupbréf fyrir Botni í Dýrafirði dags. 23.7.1855.

[162] Sama heimild.

[163] Sama heimild.

[164] Manntöl 1870 og 1880.

[165] Kristín Dahlstedt / Hafliði Jónsson 1961, 5-12.

[166] Sama heimild, 5-9.

[167] Sama heimild, 10.

[168] Sama heimild.

[169] Sama heimild.

[170] Sama heimild.

[171] Sama heimild.

[172] Sama heimild.

[173] Sama heimild.

[174] Kristín Dahlstedt / Hafliði Jónsson 1961, 10.

[175] Sama heimild.

[176] Vestfirskar sagnir III-2, 379-381.

[177] Sama heimild.

[178] Sama heimild.

[179] Sóknarm.töl Dýrafj.þinga.

[180] Kristín Dahlstedt / Hafliði Jónsson 1961, 25.

[181] Erlingur Davíðsson / Kristján Nói Kristjánsson 1978, 48.

[182] Jarðab. Á. og P. VII, 56.

[183] Ólafur Jónsson 1957 II, 390. Sbr. Eyjólfur Jónsson 1996, II, 268-269.

[184] Sóknalýs. Vestfj. II, 64.

[185] Kristín Dahlstedt / Hafliði Jónsson 1961, 32-39.

[186] Kristín Dahlstedt / Hafliði Jónsson 1961, 32-39..

[187] Sama heimild.

[188] Sama heimild.

[189] Sama heimild.

[190] Örn.skrá.

1000-1900

Guðmundur Justsson

Á fyrri hluta 20. aldar var Guðmundur Justsson, sem fæddist á Gemlufalli haustið 1841,[1] einna kunnastur þeirra sem búið höfðu á Dröngum, a.m.k. utan Dýrafjarðar,

LESA MEIRA »
1000-1900

Krossadalur

Í Krossadal var löngum tvíbýli á fyrri tíð, Hærri- og Lægri- (eða Neðri-) Krossdalur, og voru þetta ystu bæir við Tálknafjörð. Stundum var reyndar þríbýli

LESA MEIRA »
1000-1900

Arnarstapi

Arnarstapi og Krossadalur voru tvær ystu jarðirnar á norðurströnd Tálknafjarðar og hafa nú báðar verið í eyði frá því um 1940.[1] Frá verbúðatóttunum í Arnarstapavík

LESA MEIRA »