Fremri-Vatnadalur

Í opinberum heimildum frá 17. 18. og 19 öld eru bújarðirnar í Vatnadal jafnan taldar vera tvær, það er Fremri-Vatnadalur, sem einnig var nefndur Vatnadalur fremri, og Ytri-Vatnadalur, sem einnig var nefndur Neðri-Vatnadalur og stundum Vatnadalur neðri eða Vatnadalur ytri.[1] Þessari venju, að telja jarðirnar tvær, verður líka fylgt hér sem þó sýnist ekki vera alveg sjálfsagt mál þar eð allt beitiland þeirra beggja var sameiginlegt.[2] Til greina gat því komið að líta á Vatnadal sem eina jörð þó að býlin hafi löngum verið tvö.

Ýmislegt bendir reyndar til þess að fyrir 1600 hafi verið litið á Fremri-Vatnadal og Ytri-Vatnadal sem eina jörð því í fornum bréfum frá 14., 15. og 16. öld er alloft minnst á bújörðina Vatnadal og stundum talað um hálfan Vatnadal,[3] en aldrei minnst á Fremri-Vatnadal ellegar Neðri- eða Ytri-Vatnadal. Svo virðist sem breytingin í þessum efnum hafi átt sér stað á árunum 1570-1630. Til marks um það má nefna að í Gíslamáldaga frá árunum upp úr 1570 er þess getið að Staðarkirkja í Súgandafirði eigi hálfa jörð Vatnadal og tekið fram að sá jarðarpartur sé átta hundruð að dýrleika,[4] en árið 1631 sést nafnið Fremri-Vatnadalur fyrst í varðveittum heimildum.[5] Hundraðatalan sem upp er gefin í Gíslamáldaga og hér var nefnd tekur af öll tvímæli um að jarðeignin sem þar er kölluð hálfur Vatnadalur og var átta hundruð að dýrleika hlýtur að vera allur Ytri-Vatnadalur eða allur Fremri-Vatnadalur því dýrleiki beggja jarðanna til samans var 16 hundruð en hvor um sig voru þær 8 hundruð að dýrleika[6] (sbr. hér Staður).

Báðar jarðirnar í Vatnadal fóru í eyði á fyrri hluta tuttugustu aldar, Ytri-Vatnadalur árið 1920 og Fremri Vatnadalur árið 1948 (sjá Firðir og fólk 1900-1999, 439) en land þeirra er nytjað frá og á síðustu áratugum hefur gamla túnið í Vatnadal verið sléttað og nýtt land brotið til ræktunar. Við þessar framkvæmdir hurfu tóttir gömlu bæjanna en allmargar útihúsatóttir halda enn velli (1999).

Báðir gömlu bæirnir í Vatnadal stóðu í sama túninu, norðan ár og mjög neðarlega í dalnum. Spölurinn á milli þeirra var um það bil 120 metrar (sjá hér bls. 5). Ytri-Vatnadalur átti ysta hluta túnsins og þann fremsta en Fremri-Vatnadalur allan miðhlutann.[7] Slægjum var skipt milli jarðanna með ýmsum hætti[8] (sbr. hér bls. 48-49) en beitilandið var sem fyrr sagði sameiginlegt.

Stutt var á milli allra bæja í Staðardal, aðeins einn kílómetri frá Vatnadal að Bæ og einn og hálfur til tveir kílómetrar frá Vatnadal að Stað sé gengið beint af augum og vaðið yfir Langá og Þverá. Vegalengdin frá gömlu bæjunum í Vatnadal niður á sjávarströndina við Árós var lítið eitt lengri eða um það bil tveir og hálfur kílómetri.

Vatnadalur er afdalur sem gengur fram úr Staðardal og bæirnir tveir neðst í Vatnadal voru jafnan taldir vera í Staðardal, enda mun skilningur flestra hafa verið sá að báðir afdalirnir sem ganga fram úr Staðardal, Vatnadalur og Sunddalur, væru partur af sjálfum megindalnum og nafn hans, Staðardalur, gæti náð yfir allt þetta landssvæði. Séra Andrés Hjaltason á Stað segir reyndar í sóknarlýsingu sinni frá árinu 1839 að afdalurinn sem hér um ræðir sé ýmist kallaður Vatnadalur eða Staðardalur[9] sem byggist á því að landfræðilega séð má segja að Vatnadalur sé í Staðardal.

Mynni Vatnadals er í nánd við landamerki Bæjar og jarðanna sem við dalinn voru kenndar, spölkorn neðan við Vatnadalstúnið. Við dalsmynnið hefur orðið mikið framhlaup úr fjallinu svo þar prýðir landið ærið svipmikil þyrping grjóthóla sem að vesfirskri málvenju bera nafnið Hraun[10]. Í Hraununum hér í Vatnadal er þó nokkur lynggróður og mikið um mosa. Önnur hólaþyrping af sama toga rís heimantil við Stóravatn[11] sem stundum mun hafa verið nefnt Vatnadalsvatn[12] og nær hún þvert yfir dalinn. Vatn þetta er um það bil einum og hálfum kílómetra framan við gamla bæjarstæðið í Fremri-Vatnadal en annað vatn, langtum minna, er svolítið heimar í dalnum (sjá hér bls. 50) og má ætla að dalurinn dragi nafn af þessum tveimur vötnum.

Vatnadalur er liðlega fimm kílómetrar á lengd en hvergi meira en 500-1000 metrar milli hlíða. Hann gengur inn í landið frá norðvestri og stefnir í suðausturátt. Vatnadalstúnið liggur í um það bil 60 metra hæð yfir sjávarmáli en síðan hækkar dalurinn þegar gengið er frameftir. Stóravatn sem fyrr var nefnt, telst vera í 146 metra hæð og dalbotninn í um það bil 350 metra hæð yfir sjávarmáli. Brúnir fjallanna, sín hvorum megin dalsins, liggja víða í 500-650 metra hæð en hæstu hnúkar á hálendinu fyrir botni hans ná 700 metrum. Í fjallgarðinum suðvestan við Vatnadal er Sunddalshorn næst sjó en fjallið framan við Stóravatn sem mest ber á þegar horft er frá túninu fram dalinn heitir Hádegishorn.[13] Fjallgarðurinn norðaustan við dalinn skilur að Staðardal og allan innri hluta Súgandafjarðar. Í þessum fjallgarði eru ýms kennileiti sem hér verður vikið að síðar (sjá hér bls. 45).

Vatnadalur er grösugur og mikil slægjulönd fram á dalnum. Sumir bestu engjapartarnir eru fyrir framan Stóravatn en víða var slegið því heyið af engjunum mátti kallast fóturinn undir búskapnum (sjá hér bls. 11-12). Áin sem rennur um dalinn mun ýmist hafa verið nefnd Vatnadalsá eða Langá. Séra Andrés Hjaltason nefnir hana Vatnadalsá í sóknarlýsingu sinni frá árinu 1839[14] en Guðmundur Guðmundsson, sem fæddist í Vatnadal árið 1876 og ólst þar upp, kallar hana Langá.[15] Ljóst er að nafnið Langá hefur bæði verið notað þegar talað var um ána sem fellur í Stóravatn og líka þegar nefnd var áin sem rennur úr vatninu.[16]

Hlíðar Vatnadals eru brattar og fjöllin beggja vegna dalsins hömrum krýnd hið efra. Fyrir dalbotninum er minna um kletta og þar er auðvelt að komast á efstu brún. Vesturkiki, Miðkiki og Norðurkiki eru allir fyrir botni dalsins[17] og hægt að velja hvern þeirra sem er til uppgöngu. Frá brúninni ofan við Norðurkika er örstutt yfir í Kvíanesdal við innanverðan Súgandafjörð en til að komast niður í þann dal með góðu móti verður að krækja fyrir klettabrún hans og ganga um 1300 metra til suðurs uns komið er að dalbotninum en þar er klettalaust. Úr Miðkika fyrir botni Vatnadals lá leið sem farin var yfir í Hólsdal í Önundarfirði og mun séra Janus Jónsson í Holti oft hafa farið þá leið er hann þjónaði Staðarkirkju í Súgandafirði[18] á árunum 1884-1901. Á þessari leið, sem nefnd var Vatnadalsvegur,[19] er vegalengdin milli brúna liðlega tveir kílómetrar. Af brún vestasta kikans fyrir botni Vatnadals gátu menn svo lagt leið sína vestur á Klofningsheiði og þaðan niður í Klofningsdal í Önundarfirði, en ætla má að sú leið hafi sjaldan verið valin því fyrir fólkið í Vatnadal eða þá sem þangað stefndu úr Önundarfirði var hún ekkert styttri en þjóðleiðin úr Staðardal um Sunddal á Klofningsheiði. Þeir sem komu yfir Klofningsheiði og ætluðu í Vatnadal gátu farið út fjallið norðan við Sunddal og komið niður hjá Hraunafæti rétt neðan við landamerki Bæjar og Vatnadals.[20] Sú leið er klettalaus að kalla.[21]

Hér hefur nú verið getið þeirra fjallvega sem menn fóru úr Vatnadal til Önundarfjarðar og innstu bæjanna í Súgandafirði en á fyrri tíð fóru Vatnadalsmenn líka þegar henta þótti eins konar fjallabaksleið í kaupstaðinn á Ísafirði sem þá hét reyndar Skutulsfjarðareyri.[22] Sú leið lá upp úr dalbotninum í Vatnadal og síðan áfram að fjallabaki um hálendið milli Önundarfjarðar og Súgandafjarðar með stefnu á Botnsheiði.[23] Kristján G. Þorvaldsson sem hefur lýst þessari leið segir að farið hafi verið á bak við Kvíanesdal, Nautaskál, Hafradal og Botnshvilftar.[24] Nær fullvíst má því telja að sveigt hafi verið af háfjallinu niður í Folaldahvilft eða Rjúpnahvilft en svo heita fremstu hvilftarnar í landi Botns, báðar litlar, og er Rjúpnahvilft sú allra fremsta.[25]

Leiðin af fjallinu niður í Folaldahvilft eða Rjúpnahvilft er ekki alveg klettalaus en ágætlega fær öllum sæmilegum göngumönnum. Frá þessum hvilftum er aðeins einn kílómetri eða svo norður á gömlu alfaraleiðina yfir Botnsheiði sem lá rétt sunnan við fjallið Búrfell. Fjallvegurinn frá brúninni ofan við Miðkika fyrir botni Vatnadals og á brúnina ofan við Rjúpnahvilft, sem fyrr var nefnd, er um það bil átta kílómetrar. Vegalengdin á milli bæja frá Vatnadal að Tungu í Skutulsfirði er hins vegar 19 kílómetrar og síðan bætist við leiðin frá Tungu út í kaupstaðin sem er 3-4 kílómetrar. Öll leiðin frá Vatnadal í kaupstaðinn við Skutulsfjörð var því um það bil 23 kílómetrar væri ferðast með þessum hætti en efsti hnúkurinn sem þá var farið yfir liggur í 740 metra hæð yfir sjávarmáli.

Alfaraleiðin sem liggur fyrir Spilli og inn með ströndinni í Súgandafirði en síðan yfir Botnsheiði í Skutulsfjörð er að minnsta kosti fjórum kílómetrum lengri en fjallabaksleiðin, mælt frá hlaðinu í Vatnadal. Hæðarmunur er hins vegar liðlega 200 metrar, fjallaleiðinni í óhag, svo ætla má að menn hafi oft verið álíka lengi í ferðum hvora leiðina sem þeir völdu. Væri gangfæri gott hið efra mun leiðin að fjallabaki þó hafa verið fljótfarnari svo nokkru munaði[26] og því var hún farin þegar henta þótti. Ætla má að í góðri færð hafi röskir göngumenn komist úr Vatnadal um fjöll í kaupstaðinn við Skutulsfjörð á fimm klukkutímum væru þeir með létta byrði. Flestir hafa þó verið lengur og oft voru byrðarnar þungar í kaupstaðarferðum. Árið 1804 urðu tveir menn frá Vatnadal úti á fjallabaksleiðinni sem hér var lýst og segir hér nánar frá þeirri slysför á öðrum stað (sjá hér bls. 34-36).

Við sem enn erum á ferð og stöldrum við í Vatnadal höfum nú reikað hér um túnið nokkra stund og gefið gaum að útlínum í umhverfinu en verður reynt að gera sér grein fyrir hvar gömlu bæirnir í Fremri-Vatnadal og Ytri-Vatnadal stóðu. Af tóttum þessara bæja sést nú hvorki tangur né tetur en handan við Langá sem fellur hér neðan við túnið blasa við, skammt frá árbakkanum, tóttir kotbýlis sem fyrst var reist árið 1883 og fékk þá nafnið Hraunakot.[27] Í Hraunakoti sem seinna var nefnt Hraunprýði var búið frá 1883-1899,[28] frá 1903-1911[29] og frá 1923-1944.[30] Kotið er í landi Vatnadals og við munum síðar skyggnast þar um og rifja eitt og annað upp. Að sinni látum við hins vegar nægja að notfæra okkur tóttirnar í Hraunakoti til að átta okkur á gamla bæjarstæðinu í Fremri-Vatnadal.

Íbúðarhúsið í Fremri-Vatnadal sem reist var 1918[31] og búið var í allt þar til jörðin fór í eyði árið 1948, stóð á lágum hól sem nú er búið að slétta, svolítið framar en tóttirnar í Hraunakoti en þær blasa við augum handan ár.[32] Frá íbúðarhúsinu í Fremri-Vatnadal voru aðeins 30-40 metrar niður að ánni og það stóð aðeins framar en göngubrúin sem sett var á ána á árunum upp úr 1920[33] en ummerki um brúna sjást enn (1995) greinilega.

Valdimar Þorvaldsson, sem fæddur var árið 1878 og þekkti hér vel til, segir að íbúðarhúsið frá 1918 hafi verið reist neðan við gömlu bæjarstéttina[34] svo ætla má að bærinn hafi lengi staðið á sama hól og nýnefnt íbúðarhús. Um gamla torfbæinn í Fremri-Vatnadal sem búið var í um síðustu aldamót og allt til ársins 1918 kemst Valdimar svo að orði

 

Bærinn var í miðju túninu heiman við eyrarnar við ána. Bæjardyrnar sneru að ánni og göngin bein inn í baðstofu sem var á palli og tvö eða þrjú uppstig á hann. … Út úr göngunum, til hægri þá inn var farið, var eldhús en til vinstri var búr. Þetta var um 1890 en um 1899 var baðstofunni breytt og baðstofan byggð með lofti þar sem áður var búrið og sneri hún þvert við göngin, 10 x 18 fet að stærð [þ.e. um það bil 17,7 fermetrar – innsk. K.Ó.]. Hún var þiljuð uppi og niðri, allt lágt eða vel manngengt, skilrúmað niðri í herbergi, eldhús og gang. Þakið var úr timbri með pappa. Síðar var veggurinn er sneri fram á hlaðið tekinn og byggð timburskúr í staðinn.[35]

 

Valdimar telur líka upp útihúsin í Fremri-Vatnadal og segir þau hafa verið þessi á árunum kringum aldamótin 1900: Eldiviðarhús, fjós, hesthús, hjall, 2 hlöður og 3 fjárhús.[36]

Guðmundur Guðmundsson sem fæddist í Vatnadal árið 1876 og ólst þar upp segir að milli bæjanna í Fremri-Vatnadal og Ytri-Vatnadal hafi aðeins verið 400 skref.[37] Hann hlýtur að meina 400 fet og hefur þá talið þessa vegalengd vera 125 metrar sem er mjög nærri lagi. Um þann hluta túnsins sem lá á milli bæjanna tveggja ritar Guðmundur á þessa leið:

 

Merkin milli túnanna í Vatnadal eru rétt fyrir neðan fremri bæinn. Þar er einkennilegur steinn sem heitir Merkisteinn. Í neðra túninu er Gíslaflöt, þá Hvammur og niður af honum stillur yfir ána. Þar byrjar áin að renna gegnum hraunið með djúpum árdölum. Þá heita Hólar og þar efst stendur bærinn. Er þaðan víðsýnt niður eftir dalnum.[38]

 

Á milli Gíslaflatar og Hvamms, sem Guðmundur nefnir, voru bæði Rimi og Skriðustykki að sögn Ólafs Veturliðasonar sem fluttist tvítugur frá Vatnadal árið 1948.[39] Skriðustykkið var næst Hvamminum.[40]

Með ofanskráða lýsingu Guðmundar Guðmundssonar í huga er auðvelt að finna hvar bærinn í Ytri-Vatnadal stóð þó að tóttirnar séu horfnar og líka Merkisteinninn sem hann nefnir svo. Hafa þarf í huga að þegar Guðmundur segir fyrir neðan fremri bæinn merkir það neðar í dalnum, það er vestar, nær sjó.

Gamli bæjarhóllinn í Ytri-Vatnadal er mjög skammt fyrir framan girðinguna sem afmarkar túnið en stór og áberandi steinn er þó þar á milli. Valdimar Þorvaldsson segir að bærinn hafi staðið ofan til í miðju túni.[41] Hóllinn sem bærinn stóð á sýnir sig enn en mun þó hafa verið meira áberandi á fyrri tíð, áður en hann var sléttaður. Steinninn sem hér var nefndur er rétt fyrir neðan (utan) bæjarhólinn.

Jarðirnar tvær í Vatnadal áttu allt land í dalnum frá efstu brúnum frammi í dalbotninum og niður að landamerkjunum á móti Bæ. Þessi landamerki eru rétt fyrir neðan túnið í Vatnadal og liggja norðan ár um Helguhól og Þrautarhóla í Húsahvilftarbarð en vestan ár um Hraunakoll og Kýrskriðu í stein eða vörðu á fjallsbrúninni.[42] Varða þessi sem er nær beint upp af Hraunkolli heitir Miðmundavarða[43] og má ætla að hún hafi verið eyktamark frá Bæ (sbr. hér bls. 52).

Hólarnir sem segja til um landamerkin norðan ár eru auðþekktir. Helguhóll er ármegin við bílveginn sem liggur fram að túninu í Vatnadal og nær alveg við hann en Þrautarhólar eru tveir smáhólar í hlíðinni nær beint upp af Helguhól.[44] Mun ofar er Húsahvilftarbarð en framan við það er Húsahvilft í fjallinu ofan við gamla Vatnadalstúnið.[45]

Hraunakoll sem stendur á landamerkjunum fyrir vestan ána, er auðvelt að þekkja. Þetta er stór hraunhóll, rauðleitur að ofan, og heitir öðru nafni Rauðkollur.[46] Hann þekkist á rauða litnum en svolítið framar í Hraununum er annar hóll hár og sérkennilegur sem heitir Hraunhóll.[47] Kýrskriða sem landamerkin vestan ár liggja um, er í fjallshlíðinni beint upp af hinum rauðleita Hraunakolli[48] svo hér er ekki um að villast.

Í skjali frá árinu 1460 er getið um landamerkjagarð á merkjunum milli Vatnadals og Bæjar og garðurinn sagður vera báðum megin ár.[49] Í norðurhlíðinni mótar enn fyrir þessum forna landamerkjagarði og er hann reyndar alveg greinilegur sé horft frá Helguhól upp til hlíðarinnar. Hér höfum við því mannvirki sem árið 1995 var sannanlega orðið að minnsta kosti 535 ára gamalt en slíkt og þvílíkt er heldur fátítt á landi hér. Í hlíðinni handan ár hefur einnig, allt til þessa, sést móta fyrir fornum landamerkjagarði og þá einkum að vorlagi, áður en land fer að gróa.[50]

Auk jarðanna tveggja í Vatnadal voru aðeins tvær aðrar jarðir í öllum Staðardal, Staður og Bær, eins og hér hefur áður verið nefnt. Á fyrri öldum áttu báðar þessar jarðir ítak í landi Vatnadals. Í máldaga Staðarkirkju í Súgandafirði frá árinu 1324 eða því sem næst er þess getið að kirkjan eigi þriðjung afreitar í Vatnadal umfram stóðhrossabeit.[51] Orðið afreitar sem þarna stendur er án efa misritun fyrir afréttar svo gera verður ráð fyrir að Staðarkirkja hafi árið 1324 átt fullan þriðjung alls beitilands í Vatnadal umfram stóðhrossabeit. Merking orðanna umfram stóðhrossabeit er hins vegar svolítið óljós en hún gæti verið sú að auk hinna almennu beitarréttinda á dalnum sem fyrr voru nefnd hafi kirkjan átt ótakmarkaðan rétt til að beita þar stóðhrossum. Hitt er þó ef til vill hugsanlegt að í nefndum orðum felist sú merking að beitarréttindi kirkjunnar hafi miðast við einn þriðja þess afréttarlands sem í boði var en þó með þeirri takmörkun að ekki mætti beita þar stóðhrossum.

Eigi síðar en um miðbik 16. aldar náði kirkjan á Stað að styrkja stöðu sína í Vatnadal og verða eigandi hálfrar jarðarinnar (sjá hér Staður) en báðar Vatnadalsjarðirnar virðast þá enn hafa verið taldar ein jörð. Við þessa breytingu munu hin fornu beitarréttindi hafa haldið sér en orðið hluti af þeim rétti sem fylgdi fullum eignarráðum yfir hálfri jörðinni, enda er þeirra ekki getið sérstaklega í Gíslamáldaga frá árunum upp úr 1570.[52] Þar stendur hins vegar skýrum stöfum að Staðarkirkja eigi hálfan Vatnadal, átta jarðarhundruð.[53] Um 1600 tapaði kirkjan þessari eign sinni (sjá hér Staður) og þar með hinum gömlu beitarréttindum því þau eru alls ekki nefnd í Jarðabók Árna og Páls frá árinu 1710[54] og hvergi á þau minnst í yngri heimildum svo kunnugt sé.

Jörðin Bær í Staðardal eignaðist líka mjög snemma beitarréttindi í Vatnadal og í heimild frá árinu 1460 sést að Bæjarmenn áttu þá þriðjung beitar í Vatnadalsafrétt.[55] Ljóst er að hið góða beitiland í Vatnadal hefur því um alllangt skeið verið skipt í þrjá jafna parta og átti kirkjan á Stað einn þriðjunginn en jarðirnar Bær og Vatnadalur hina tvo. Á móti nýnefndum beitarréttindum Bæjarmanna áttu Vatnadalsmenn haustbeit og vorbeit krossmessna í millum ofan með Bæjarhlíð[56] svo þetta voru kaup kaups.

Á þessum gagnkvæmu réttindum urðu síðar miklar breytingar en í breyttri mynd héldu þau mjög lengi gildi sínu og að nokkru leyti fram á tuttugustu öld. Í byrjun átjándu aldar voru hin gagnkvæmu réttindi milli Vatnadals og Bæjar fólgin í því að Bæjarmenn áttu 6 vikna beit á Vatnadal en á móti kom réttur Vatnadalsmanna til skipsuppsáturs í Árós í landi Bæjar.[57] Tvímælalaust er að bændur í Bæ og Vatnadal nýttu sér þá þessi réttindi[58] en uppi var nokkur ágreiningur um hvort bændur í Vatnadal ættu aðeins rétt á uppsátri fyrir eitt skip í Árós eða hvort þeir sem bjuggu í Fremri-Vatnadal mættu hafa þar eitt skip og hinir sem bjuggu í Ytri-Vatnadal annað.[59]

Kristján G. Þorvaldsson sem greinir frá skipan mála í þessum efnum eins og hún var á síðari hluta nítjándu aldar og fyrstu áratugum hinnar tuttugustu, nefnir líka hin gagnkvæmu réttindi sem lengi höfðu fylgt Vatnadal og Bæ. Hann kemst þá svo að orði:

 

Allur dalurinn fyrir framan [þ.e. fyrir framan landamerkin – innsk. K.Ó.] var eign Vatnadals en samningur var við Bæ að bændur þar mættu reka kvíaær fram á dalinn á sumrum gegn því að Vatnadalsmenn mættu hafa fjárhús í Árós og beita fé þar á vetrum en þau réttindi voru aldrei notuð frá Vatnadal.[60]

 

Kristján nefnir þarna ekki hinn forna rétt Vatnadalsmanna til skipsuppsáturs í Árós. Skýringin á því kann að vera sú að eftir 1850 mun lítið hafa verið róið frá ósnum.[61] Á síðari hluta 19. aldar reru Bæjarmenn frá Stöð sem einnig er í landi Bæjar. Óljóst er hvort réttindi Vatnadalsmanna til skipsuppsáturs hafa færst þangað þegar róðrar frá Árós féllu niður. Orð Guðmundar Guðmundssonar frá Vatnadal, sem fæddist árið 1876, benda þó til þess að svo hafi verið en hann segir: Bær hafði fengið Vatnadal vestanverðan til sumarbeitar. Gjaldið fyrir beitina var beitarhús við sjóinn fyrir 60 fjár og uppsátur fyrir bát. Réttindi þessi munu vera frá 1790.[62]

Ætla má að Guðmundur sé þarna að greina frá skipan mála á uppvaxtarárum sínum á síðasta fjórðungi 19. aldar og að Vatnadalsmenn hafi þá átt rétt til uppsáturs í Stöðinni því svo mátti heita að róðrar frá Árós væru þá úr sögunni eins og hér hefur áður verið nefnt. Orðin sem hér var síðast vitnað til sýna að höfundur þeirra hefur talið að um nefnd ítök hafi fyrst verið samið um 1790 en eins og hér hefur verið sýnt fram á voru þau miklu eldri að stofni til. Þó er hugsanlegt að Vatnadalsmenn hafi ekki tryggt sér rétt til fjörubeitar og fjárhúsbyggingar við Árós fyrr en undir lok 18. aldar því að í eldri heimildum er þeirra sérstöku réttinda ekki getið (sjá hér bls. 7-8).

 

 

Að fornu mati voru jarðirnar tvær í Vatnadal taldar vera 16 hundruð að dýrleika, báðar til samans, og í flestum heimildum er Fremri-Vatnadalur talinn 8 hundraða jörð og dýrleiki Ytri-Vatnadals sá sami.[63] Frávik frá þessari reglu finnst þó í heimild frá árinu 1839 en þar er Fremri-Vatnadalur sagður vera 7 hundruð að dýrleika og Ytri-Vatnadalur 9 hundruð.[64] Sú skipting virðist einnig hafa verið lögð til grundvallar við fasteignamat á árunum kringum 1920.[65] Um ástæður fyrir þessu misræmi er ekki vitað.

Árið 1658 var árleg landskuld af Fremri-Vatnadal 10 aurar.[66] Í hverjum eyri voru 6 álnir svo landskuldin hefur numið 60 álnum, það er hálfu kýrverði. Árið 1695 var jarðarafgjaldið orðið nokkru hærra eða þrjár vættir, sjö fjórðungar og einn fiskur[67] sem gerir 78 álnir. Af þessari fjárhæð virðast 2 vættir og 3 fjórðungar, það er 47 og ½ alin, hafa gengið til séra Sigurðar Jónssonar, prófasts í Holti í Önundarfirði, sem átti hálfan Fremri-Vatnadal.[68] Um 1690 var létt af ábúandanum í Fremri-Vatnadal gamalli kvöð um skipsáróður en áður höfðu bændur sem þar bjuggu orðið að leggja til mann í skiprúm  hjá landeiganda á hverri vorvertíð.[69] Vera má að sú 30% hækkun landskuldarinnar, sem hér var nefnd, hafi verið hugsuð sem bætur til landeigenda fyrir þann missi sem þeir urðu fyrir þegar kvöðin um skipsáróður var gefinn eftir.

Á árunum 1695-1706 hélst landskuldin óbreytt að kalla[70] en við hörmungarnar sem fylgdu Stórubólu, er hér geisaði árið 1707, lækkaði þessi greiðsla niður í 70 álnir.[71] Í Jarðabók Árna og Páls frá árinu 1710 sjáum við að til greiðslu á landskuldinni var ábúendum í Fremri-Vatnadal gert að skila tveimur vættum fiska í kaupstað,[72] það er 80 kílóum af skreið, og standa landsdrottni að auk skil á 30 álnum í gildum landaurum.[73] Til skýringar skal tekið fram að í landaurareikningi svöruðu tvær vættir fiska til 40 álna[74] og því var landskuldin í heild 70 álnir árið 1710.

Árið 1753 var landskuldin af þessari sömu jörð þrjár vættir,[75] það er 60 álnir, og árið 1847 var hún líka 60 álnir.[76] Á árunum skömmu fyrir 1920 var landskuldin, sem greiða þurfti ár hvert, 68 krónur[77] en opinbert kýrverð í Ísafjarðarsýslu var um 313,- kr. árið 1918 og 453,21 kr. árið 1919.[78]

Fáein innstæðukúgildi fylgdu jafnan jörðinni Fremri-Vatnadal, að minnsta kosti á síðari öldum. Árin 1658 og 1695 voru þau þrjú[79] Árið 1710 hafði þeim fækkað um eitt og voru því aðeins tvö.[80] Lögleiga fyrir hvert kúgildi var öldum saman 10 kíló af smjöri (sjá hér Mosdalur). Árið 1710 hvíldi sú kvöð á ábúandanum hér í Fremri-Vatnadal að koma smjörinu heim til eigenda jarðarinnar sem þá voru séra Sigurður Jónsson í Holti í Önundarfirði, séra Gísli Hannesson á Snæfjöllum á Snæfjallaströnd og Benedikt Hannesson á Hóli í Bolungavík.[81] Árið 1753 voru tvö innstæðukúgildi í Fremri-Vatnadal[82] og árið 1847 voru þau líka tvö[83]. Í hverju kúgildi voru sex ær svo leiguærnar á þessum bæ hafa mjög lengi verið tólf. Um 1920 var breytingin er orðið hafði í þeim efnum enn óveruleg en þá voru leiguærnar sem jörðinni fylgdu tíu.[84]

Í Jarðabók Árna og Páls frá árinu 1710 er kostum og ókostum bújarðarinnar Fremri-Vatnadals lýst með þessum orðum:

 

Útigangur við lakari kost og er fé jafnaðarlega í burtu komið á vetur. Torfrista og stunga lök. Móskurður til eldiviðar lakur og lítt nýtandi. Lyngrif til eldiviðarstyrks eða tróðs brúkast lítt. Silungsveiði hefur verið í Vatnadalsvatni, brúkast nú ei. Grasatekja hefur verið lítil.

… Túninu grandar skriða til stórskaða og eyðileggingar og enginu í sama máta, svo fyrir því er mikill hluti slægnanna eyðilagður. Hætt er kvikfé fyrir grjóthruni. Hætt er bænum stórlega fyrir þessum skriðum og grjóthruni og hafa þær mjög að bænum gengið en þó ekkert hús ennþá tekið. Er hér þó mjög voveiflegt fyrir menn í bænum þegar vatnagangur er.[85]

 

Hér er allt málað í mjög dökkum litum eins og venja var hjá bændum og búaliði sem höfundar Jarðabókarinnar ræddu við í því skyni að viða að sér upplýsingum. Mun jákvæðari lýsingu á jarðargæðum í Fremri-Vatnadal er að finna í gjörðabók undirmatsnefndar sem á sínum tíma vann að fasteignamatinu sem tók gildi 1. apríl 1922. Þar er túnið sagt vera greiðfært og grasgefið, engjarnar sléttlendar og grasgefnar, sumarbeitin góð en snjóþungt að vetrinum.[86] Í sömu heimild er tekið fram að í landi jarðarinnar sé mótak (sbr. hér bls. 47-48) og einhver silungsveiði í Vatnadalsvatni[87] sem síðustu hálfa öldina og eitthvað lengur hefur yfirleitt gengið undir nafninu Stóravatn. Í sóknarlýsingu séra Andrésar Hjaltasonar frá árinu 1839 er getið um silungsveiði í Vatnadalsá[88] og frá því greint að innan Suðureyrarhrepps sé fjallagrös helst að finna á fjöllum fram frá Vatnadal.[89]

Í þessari sömu ritgerð frá árinu 1839 fræðir höfundur okkur hins vegar á því að grösin notist almenningi ekki til hlítar og helsta ástæðan fyrir því sé að þau komi ekki undan snjó fyrr en um heyannir og þá gefist enginn tími til grasaferða.[90] Árið 1805 var þó talið að árlegur arður af grasatekjunni í Vatnadal svaraði til tveggja kúgilda á ári og skiptist jafnt milli fólksins í Fremri-Vatnadal og Ytri-Vatnadal.[91] Hlunnindi af silungsveiði var þá virt á sem svaraði 1/8 úr þorskvætt á ári,[92] sem er reyndar nánast ekki neitt en við mat á hlunnindunum skiptist þetta lítilræði í tvo jafna hluta milli jarðanna tveggja í dalnum.

Um 1920 var talið að af túninu í Fremri-Vatnadal fengjust 70 hestar af töðu en af engjunum 150 hestar af útheyi.[93] Í Ytri-Vatnadal fékkst heldur minna af túninu eða 60 hestar en 200 hestar af engjunum.[94] Allur heyfengurinn af báðum jörðunum til samans var því 130 hestar af töðu og 350 hestar af útheyi. Í fasteignamatinu sem öðlaðist gildi árið 1932 var töðufengurinn talinn sá sami og hér var nefnt en útheyið 320 hestar í stað 350.[95] Um 1930 taldist allt Vatnadalstúnið vera 2,5 hektarar og hafði þá verið girt.[96] Fremri-Vatnadalur ásamt eyðijörðinni Ytri-Vatnadal var þá virtur á 2.800,- krónur en hús jarðarinnar á 3.700,- krónur.[97]

Tölurnar um heyfeng af engjunum í Vatnadal, sem hér voru síðast nefndar, eru fengnar úr fasteignamatsskjölum frá árunum kringum 1920 og úr fasteignabók sem út var gefin árið 1932. Í ritgerð sinni Örnefni í Vatnadal í Súgandafirði sem birtist í þriðja bindi af Vestfirskum sögnum árið 1946 segir Guðmundur Guðmundsson langtum meiri heyfeng vera í boði af engjunum í Vatnadal.[98] Hann nefnir 25 engjaparta með nafni og rekur hvað hver partur gat gefið af sér.[99] Séu tölur hans lagðar saman verður útkoman 2.245 hestar[100] sem er liðlega sex sinnum hærri tala en nefnd er í fasteignamatsskjölunum sem hér var vitnað í. Sá munur er furðulega mikill. Í sveitum landsins munu bændur víða hafa látið duga að slá suma engjaparta aðeins annað eða jafnvel þriðja hvert ár því lítið gras var í boði væru þeir slegnir á hverju ári. Vel gæti þetta hafa átt við um sum slægjulöndin í Vatnadal en nægir þó engan veginn til að skýra þann mikla mun sem hér um ræðir.

Líklegt verður að telja að í tölum fasteignamatsins komi fram sá fjöldi heyhesta sem Vatnadalsmenn voru vanir að hirða og nægði fyrir bústofn þeirra en í raun hefði verið mögulegt að afla mun meiri heyja, a.m.k. í góðum grasárum. Þar með er ekki sagt að hægt hefði verið að ná yfir 2000 hestum á einu sumri en líklega þó nokkuð á annað þúsund hesta ef hver blettur hefði verið nýttur til fulls.

Tölur Guðmundar Guðmundssonar, sem fæddist í Fremri-Vatnadal árið 1876, verður að telja marktækar því hann ólst hér upp og bjó síðan í allmörg ár í Hraunakoti, hjáleigu frá Vatnadal (sjá hér bls. 78-79). Að sögn Guðmundar fengust 590 hestar af engjalöndunum heiman við Stóravatn að norðanverðu, 820 hestar af fimm pörtum norðan við vatnið og framan við það að norðanverðu og svo 835 hestar af fjórum engjapörtum vestan við vatnið og framan við það að vestanverðu ásamt einum parti heimar á dalnum, undir vesturhlíðinni.[101] Að sögn Guðmundar var Mópartur það engjapláss í Vatnadal sem bauð upp á mestan heyfeng og fengust 450 hestar af þessum eina parti.[102] Mópartur er vestantil í dalnum, skammt fyrir framan Stóravatn (sjá hér bls. 47).

Árið 1710 var bústofninn í Fremri-Vatnadal 4 kýr, ein veturgömul kvíga, einn kálfur, 20 ær, 17 sauðir tvævetra og eldri, 13 veturgamlir sauðir, 20 lömb, 2 hestar og eitt folald.[103] Á fyrri hluta 19. aldar var bústofn þeirra sem hér bjuggu yfirleitt mun minni en verið hafði 1710. Þá voru hér oftast aðeins ein eða tvær kýr en finna má dæmi um að þær hafi verið þrjár.[104] Ærnar voru þá oftast 10 eða þar um bil og aðrar sauðkindur álíka margar að lömbum meðtöldum ef marka má búnaðarskýrslur.[105] Á síðari hluta 19. aldar voru kýrnar yfirleitt ein eða tvær eins og áður hafði verið en fénu virðist hafa fjölgað nokkuð um miðbik aldarinnar og líka síðar.[106] Árið 1850 voru 25 sauðkindur í Fremri-Vatnadal, árið 1860 voru þær 18, árið 1870 37 og árið 1880 39 en þá eru lömb aldrei talin með.[107] Hestar voru nær alltaf einn eða tveir eins og sjá má í þeim heimildum sem hér hefur verið vísað til varðandi annan búfénað. Á 19. öld áttu bændur í Fremri-Vatnadal líka stundum lítinn bát sem jafnan var minni en fjögra manna far, a.m.k. fyrir 1880.[108] Oft átti fólkið í Fremri-Vatnadal þó engan bát[109] og stundum var bóndinn sem hér bjó eigandi að hálfum sexæring eða hálfu fjögra manna fari á móti öðrum.[110]

Árið 1934 var Ytri-Vatnadalur kominn í eyði en bústofn bóndans í Fremri-Vatnadal var þá sem hér segir: 1 kýr, 1 griðungur, 30 ær, 18 gemlingar og 2 hestar.[111] Húsmaður eða kotbóndi sem þá hafðist við í Hraunprýði sem áður hét Hraunakot (sjá bls. xx) í landi Vatnadals var með 18 ær, 10 gemlinga og einn hest[112] svo alls voru sauðkindurnar í Vatnadal 76 það árið. Á árunum upp úr 1930 mun fólkið í Fremri-Vatnadal hafa nytjað hálfan Ytri-Vatnadal en hin hálflendan þar var nytjuð frá Suðureyri.[113]

 

Um jörðina Vatnadal er fyrst getið í máldaga Staðarkirkju í Súgandafirði frá árinu 1324 eða því sem næst.[114] Full ástæða er þó til að ætla að jörðin hafi byggst miklu fyrr, að öllum líkindum á tíundu öld. Í Jarðabók Árna og Páls frá árinu 1710 er getið munnmæla um bænhús í Vatnadal.[115] Í byrjun 18. aldar var einnig haft í munnmælum að báðar jarðirnar í Vatnadal hefðu áður verið ein jörð og kirkjustaður – en langvarandi eru þetta kallaðar lögbýlisjarðir, segir í Jarðabókinni sem fyrr var nefnd.[116]

Hér hefur áður verið sýnt fram á að fyrir 1600 muni báðar jarðirnar í Vatnadal hafa talist vera ein bújörð (sjá bls. xx (21-21b)) svo ótvírætt má kalla að í þeim efnum hafi munnmælin haft við rök að styðjast. Vafamál er hins vegar hvort taka megi mark á gömlu munnmælasögunni um að hér hafi verið bænhús eða hálfkirkja. Sé haft í huga hversu víða bænhús voru reist á dögum páfatrúarinnar er engan veginn fráleitt að hugsa sér eitt slíkt í Vatnadal þó skammt hafi verið að fara til kirkjunnar á Stað. Í varðveittum heimildum frá 14., 15. og 16. öld er þó hvergi minnst á þetta bænhús og ekki er kunnugt um nokkurt örnefni munnmælunum til styrktar. Munnmælin ein sér nægja hins vegar ekki til þess að nokkru verði slegið föstu um tilveru bænhússins sem á er minnst í Jarðabókinni.

Fyrstu eigendur Vatnadals sem um er kunnugt með nafni eru þeir Sveinn Þorgilsson og Sæmundur Þórðarson sem áttu hálfa jörðina hvor árið 1471.[117] Um Sæmund er allt ókunnugt en Sveinn sem átti Steinunni Jónsdóttur fyrir eiginkonu virðist hafa átt miklar jarðeignir í Súgandafirði og hefur að líkindum búið á Suðureyri (sjá bls. xx (Suðureyri)) og síðar í Vatnadal.

Þann 25. nóvember 1471 seldi nýnefndur Sveinn Þorgilsson Halldóri Hákonarsyni lögréttumanni á Kirkjubóli í Valþjófsdal hálfan Vatnadal[118] (sbr. XVIII, 64b-68b)) en svo virðist sem sú sala hafi verið bundin ákveðnum skilmálum og gengið til baka.[119] Fjórum árum síðar var Sveinn hins vegar orðinn eigandi að öllum Vatnadal og 4. desember 1475 fékk hann séra Jóni Gíslasyni alla jörðina til eignar.[120] Í kaupsamningnum sem dagsettur er þennan dag segir síðan: Hér í móti lofaði títnefndur séra Jón þráttgreindum Sveini að hjálpa honum til að gjalda sínar skuldir og byggja honum jörð og kúgildi.[121]

Ekki er beinlínis tekið fram í kaupsamningnum hvort jörðin sem séra Jón Gíslason lofaði að byggja Sveini Þorgilssyni hafi verið Vatnadalur en líklegast er þó að svo hafi verið. Séra Jón Gíslason sem keypti Vatnadal 4. desember 1475 mun hafa verið prestur í Ísafjarðarsýslu, líklega á Söndum í Dýrafirði,[122] en kaupsamningurinn sem hér var síðast vísað til var gerður í Holti í Önundarfirði.[123]

Enginn veit nú hversu lengi séra Jón Gíslason átti Vatnadal en ótvírætt er að Brandur Jónsson lögmaður, sem bjó á Mýrum í Dýrafirði á sínum síðustu æviárum, eignaðist að minnsta kosti hálfan Vatnadal fyrir 1494.[124] Brandur lögmaður er talinn hafa andast á því ári en í skjali frá 27. janúar 1495 er tekið fram að hann hafi gefið Sigmundi syni sínum jörðina Bæ í Súgandafirði og hálfan Vatnadal.[125] Sigmundur þessi sem talið er að hafi búið í Bæ (sjá bls. xx) var óskilgetinn sonur lögmannsins.[126] Páll Brandsson, sýslumaður á Möðruvöllum í Eyjafirði, var hins vegar skilgetin sonur lögmannsins.[127] Hann andaðist eins og faðir þeirra árið 1494 og í erfðaskrá hans frá því ári ánafnar hann Sigmundi bróður sínum þessar sömu jarðeignir í Súgandafirði.[128] Óumdeilt hlýtur því að teljast að Sigmundur Brandsson hafi eignast Bæ og hálfan Vatnadal eigi síðar en árið 1494 enda staðfest með dómi 4. febrúar 1495.[129]

Næsti eigandi jarðarinnar sem um er kunnugt er hinn voldugi héraðshöfðingi Björn Guðnason í Ögri við Ísafjarðardjúp en hann átti Vatnadal árið 1507.[130] Vatnadalur var ein þeirra jarða er hann lagði þá í bú með Guðrúnu eldri, dóttur sinni, er 18 vetra gömul gekk að eiga Bjarna Andrésson á Brjánslæk[131] sem var sonarsonur Guðmundar ríka Arasonar á Reykhólum.[132] Bjarni varð skammlífur og andaðist árið 1509[133] (sbr. bls. xx (XIV, 1)). Á því ári gekk Björn í Ögri frá skrá yfir eignirnar sem þessi tengdasonur hans lét eftir sig.[134] Þar er m.a. getið um Vatnadal og tekið fram að þetta sé 16 hundraða jörð[135] svo ljóst virðist að Bjarni hafi átt allan Vatnadal.

Á árunum 1514-1517 giftist Guðrún Björnsdóttir frá Ögri í annað sinn og að því sinni Hannesi Eggertssyni er þá var umboðsmaður hirðstjóra og seinna hirðstjóri yfir öllu Íslandi (sjá bls. xx (XIV, 1b-2, lausbl.)). Ætla má að eitthvað af jörðunum sem hún fékk í heimanmund er hún giftist Bjarna Andréssyni hafi fylgt henni áfram en óvíst er hvort svo hefur verið um Vatnadal. Eins líklegt er hitt að faðir hennar, Björn Guðnason í Ögri, hafi tekið jörð þessa til sín en hann andaðist á fyrri hluta ársins 1518 eftir miklar deilur við kirkjuyfirvöld.[136] Erfingjum hans var skömmu síðar gert að greiða mjög verulega fjármuni til kirkna og til Ögmundar Pálssonar, biskups í Skálholti,[137] og má vera að Vatnadalur hafi verið ein þeirra jarða sem þá skiptu um eigendur.

Hér hefur áður verið frá því greint að skömmu fyrir miðja 16. öld var hálfur Vatnadalur sannanlega orðinn eign kirkjunnar á Stað í Súgandafirði (sjá bls. xx (XXXIII, 59b-61, sbr. þar bls. 43)). Minnt skal á að Björn Guðnason í Ögri átti jörðina árið 1507 og hafði einnig full umráð yfir henni árið 1509. Augljóst sýnist því vera að kirkjan hafi eignast aðra hálflenduna í Vatnadal á árunum 1510-1540 og verður þá að telja líklegast að nefnd hálflenda hafi verið ein þeirra jarðeigna sem Skálholtsbiskupar náðu undir sig að Birni Guðnasyni látnum á árunum kringum 1520.

Í skjölum frá 17. öld sést að hálflendan sem Staðarkirkja átti var reyndar Ytri-Vatnadalur og að séra Ari Jónsson, sem var prestur á Stað árið 1539 og líka 1549, var með búsmala sinn í seli fram við Stóravatn í landi Vatnadals (sjá bls. xx (XXXIII, 59b-61, sbr. þar bls. 43)). Seltóttirnar þar eru enn á sínum stað og þær munum við skoða síðar á göngu okkar um dalinn (sjá bls. xx). Í Gíslamáldaga frá árunum upp úr 1570 er tekið fram að Staðarkirkja eigi hálfan Vatnadal og frá því greint að landskuldin af þessum átta hundruðum sé 40 álnir,[138] það er einn þriðji úr kýrverði.

Á síðasta þriðjungi sextándu aldar eða fyrstu árum hinnar sautjándu tapaði Staðarkirkja jarðarhundruðunum sem hún átti í Vatnadal og þegar séra Jón Torfason á Stað reyndi á árunum upp úr 1660 að ná þeim aftur undir kirkjuna bar sú veiðleitni hans engan árangur (sjá bls. xx (XXXIII, 59b-61)).

Af því sem hér hefur verið sagt má ráða að hálfur Vatnadalur muni hafa verið í eigu kirkjunnar á Stað í 50-80 ár á sextándu öld og ef til vill rétt aðeins framyfir lok þeirrar aldar. Áður en kirkjan eignaðist hálflenduna virðist allur Vatnadalur hafa verið talinn ein bújörð en seinna og eigi síðar en um 1600 var farið að líta á kirkjueignina sem sérstaka jörð og æ síðan voru bújarðirnar í Vatnadal taldar vera tvær (sjá bls. xx (21-21b)), allt þar til komið var fram á tuttugustu öld.

Á síðari hluta 16. aldar áttu Bæjarmenn í Súgandafirði einhver jarðarhundruð í Vatnadal um lengri eða skemmri tíma[139] og þá, að því er ætla má, í Fremri-Vatnadal því Ytri-Vatnadalur var í eigu Staðarkirkju, a.m.k. fram yfir 1570. Árið 1581 seldi Gunnsteinn Grímsson frá Bæ bróður sínum, Jóni eldra í Bæ, 2 og ½ hundrað úr Vatnadal og ýmsar fleiri jarðeignir í Súgandafirði fyrir 13 hundruð í jörðinni Dynjanda í Jökulfjörðum[140] en Gunnsteinn bjó síðar lengi á Dynjanda. Frá þeim bræðrum, Jóni Grímssyni og Gunnsteini Grímssyni segir hér nánar á öðrum stað (sjá bls. xx (Bær)) en þeir voru sonarsonarsonarsynir Brands lögmanns Jónssonar sem keypti Bæ í Súgandafirði árið 1467 og átti líka hálfan Vatnadal[141] (sjá einnig bls. xx (33)).

Um 1630 átti Bjarni Sveinsson, bóndi á Kirkjubóli í Skutulsfirði, jörðina Fremri-Vatnadal en hann var kvæntur Margréti Einarsdóttur frá Hvestu í Arnarfirði.[142] Þann 1. júlí 1631 var tilkynnt á Alþingi við Öxará að með samþykki Sturlu sonar síns hefði Bjarni þessi lofað að selja Steindóri Ormssyni, lögréttumanni í Fremri-Gufudal, jörð þessa í Súgandafirði fyrstum allra manna.[143]

Svo virðist sem Steindór hafi þó aldrei eignast Fremri-Vatnadal en kunnugt er að Sturla Bjarnason sem fyrr var nefndur og bjó eins og Bjarni faðir hans á Kirkjubóli í Skutulsfirði átti þessa jörð í Súgandafirði um nokkurt skeið.[144] Sturla var einn þriggja bænda á Kirkjubóli árið 1656 en þá voru feðgarnir Jón Jónsson eldri og Jón Jónsson yngri sem einnig bjuggu þar brenndir fyrir galdra að tilhlutan séra Jóns þumlungs Magnússonar á Eyri í Skutulsfirði. Í Píslarsögu séra Jóns þumlungs er Sturlu getið og þar sjáum við að hann var einn nefndarmannanna sem komu í veg fyrir að nýnefndir Kirkjubólsfeðgar fengju að hreinsa sig með eiði af áburði prestsins.[145]

Sturla á Kirkjubóli seldi mági sínum, Benedikt Tómassyni, hálfan Fremri-Vatnadal árið 1645 en Benedikt var bróðir Helgu Tómasdóttur, eiginkonu Sturlu.[146] Hugsanlegt er að Benedikt hafi búið í Vatnadal[147] en það er þó engan veginn víst. Hann var tengdasonur Gunnsteins Grímssonar á Dynjanda í Jökulfjörðum[148] sem fyrr var nefndur en Gunnsteinn var frá Bæ í Súgandafirði[149] og hafði löngu fyrr átt jarðarpart í Fremri-Vatnadal (sjá bls. xx (35, lausbl.)).

Árið 1658 var Benedikt Tómasson enn annar tveggja eigenda að Fremri-Vatnadal en hinn var Jón Brynjólfsson[150] og er óljóst hvar hann muni hafa búið. Svo virðist sem Jón hafi fengið sinn part úr jörðinni að erfðum og hefur sú tilgáta verið sett fram að hann hafi verið tengdasonur Sturlu Bjarnasonar á Kirkjubóli í Skutulsfirði sem átti Fremri-Vatnadal nokkrum árum fyrr.[151] Árið 1679 keypti séra Sigurður Jónsson í Holti í Önundarfirði hálfan Fremri-Vatnadal, fjögur hundruð, af Gunnari nokkrum Jónssyni[152] sem kynni að hafa verið sonur Jóns Brynjólfssonar er átti þennan sama jarðarpart tuttugu árum fyrr.

Jarðarhundruðin sem séra Sigurður í Holti keypti árið 1679 átti hann enn árið 1710[153] og hin fjögur hundruðin úr Fremri-Vatnadal sem Benedikt Tómasson keypti árið 1645 voru lengi í eigu sonar hans og sonarsona. Árið 1695 átti sonur Benedikts, séra Hannes Benediktsson á Snæfjöllum, þann jarðarpart[154] og árið 1710 voru þessi sömu jarðarhundruð í eigu tveggja sona séra Hannesar, séra Gísla Hannessonar á Snæfjöllum og Benedikts bróður hans sem átti heima á Hóli í Bolungavík.[155]

Árið 1753 var Fremri-Vatnadalur komin í sjálfsábúð en þá bjó hér Guðmundur Þorsteinsson er átti jörðina.[156] Guðmundur mun hafa verið sonur Þorsteins Jónssonar hreppstjóra er búið hafði í Vatnadal og í Staðarhúsum ytri á fyrstu árum 18. aldar en hann var af embættismönnum kominn og átti jarðeignir (sjá bls. xx (XXXV, 63-64)). Árið 1762 var jörðin í eigu manns sem hét Jón Guðmundsson og bóndinn sem bjó hér hét sama nafni.[157] Ætla má að eigandi og ábúandi hafi því verið einn og sami maðurinn og ekki ólíklegt að Jón þessi Guðmundsson hafi verið sonur Guðmundar Þorsteinssonar.

Svo virðist sem Fremri-Vatnadalur hafi haldist í eigu niðja Guðmundar Þorsteinssonar allan síðari hluta 18. aldar og allt til 1820 því Guðmundur Jónsson, sem var dóttursonur Guðmundar Þorsteinssonar, var hér sjálfseignarbóndi árið 1805 (sjá bls. xx (40b-41b)) en seldi jörðina árið 1820 eins og hér verður brátt greint nánar frá. Á árunum 1760-1820 virðist Fremri-Vatnadalur oftast hafa verið í sjálfsábúð og þá bjuggu hér jafnan niðjar Guðmundar Þorsteinssonar (sjá bls. xx (40b-41b)) sem var hér sjálfseignarbóndi árið 1753 eins og fyrr var nefnt.

Sá sem keypti Fremri-Vatnadal árið 1820 af Guðmundi Jónssyni sem þá bjó á jörðinni var Magnús Guðmundsson, bóndi í Bæ.[158] Jörðina keypti Magnús fyrir 98 spesíur,[159] það er 196 ríkisdali. Magnús Guðmundsson andaðist árið 1833 (sjá bls. xx (XXXVII, 78)) en ekkja hans, Bergljót Össurardóttir í Bæ, átti Fremri-Vatnadal enn þegar hún dó árið 1860.[160] Við skipti á dánarbúi Bergljótar kom jörðin í hlut sonardóttur hennar, Lovísu Rannveigar Jónsdóttur,[161] en eiginmaður Lovísu, Guðmundur Jónsson á Rafnseyrarhúsum í Arnarfirði,[162] seldi þessa sömu jörð 18. janúar 1866 Guðrúnu Sturludóttur sem þá var ekkja í Dalshúsum í Valþjófsdal.[163] Hún giftist síðar Jóni Ólafssyni í Ytri-Hjarðardal og fluttist með honum að Stað í Súgandafirði vorið 1883 (sjá bls. xx (XXXV, 31-32b)). Þau bjuggu síðan á Stað uns Jón andaðist árið 1892 og Guðrún áfram eftir hans dag og svo dóttir þeirra og hennar maður frá 1898 til 1903 (sjá bls. xx (XXXV, 34 og 45b-46)).

Við andlát Jóns Ólafssonar árið 1892 áttu þau hjónin enn nær allan Fremri-Vatnadal, það er að segja sex af sjö hundruðum (sjá bls. xx (XXXV, 34, lausbl.)). Þessi hundruð munu dætur Jóns og Guðrúnar konu hans hafa fengið í arf eftir föður sinn því Ólína Jónsdóttir á Stað og eiginmaður hennar, Steinn Kristjánsson, áttu hér fjögur jarðarhundruð í byrjun ársins 1898 (sjá bls. xx (XXXV, 44b, lausbl.)) og Guðbjörg Jónsdóttir frá Stað átti enn tvö hundruð í Fremri-Vatnadal árið 1916.[164] Hún mun þá hafa átt heima á Skjaldfönn í Nauteyrarhreppi við Djúp[165] en var árið 1920 komin að Ármúla í sama hreppi til Sigvalda Kaldalóns, læknis og tónskálds.[166]

Steinn Kristjánsson sem hér var nefndur drukknaði 28. febrúar 1898 (sjá bls. xx (36b) og bls. xx (44-44b)). Hann átti þá fjögur hundruð í Fremri-Vatnadal en dánarbú hans reyndist vera þrotabú vegna skulda (sjá bls. xx (44b, lausbl.)). Sá sem Steinn skuldaði mest var Skúli Thoroddsen, ritstjóri og alþingismaður, sem áður var sýslumaður en rak nú verslun á Ísafirði.[167] Jarðarhundruðin fjögur í Vatnadal voru virt á 392,- krónur en skuld Steins við Skúla nam 354,- krónum.[168] Allar líkur benda til þess að Skúli hafi fengið þennan jarðarpart í Fremri-Vatnadal upp í skuld fyrri eiganda en verið getur að hann hafi þurft að greiða nokkrar krónur til að jafna reikningana. Tvímælalaust er að Skúli var aðaleigandi jarðarinnar árið 1901[169] og hann átti hér enn fimm jarðarhundruð er hann andaðist árið 1916.[170] Meðeigandi hans þá var Guðbjörg Jónsdóttir frá Stað sem átti tvö hundruð[171] eins og hér var áður nefnt.

Árið 1918 keypti Friðbert Friðbertsson, síðar skólastjóri á Suðureyri, eignarhlut dánarbús Skúla. Hann bjó hér í tvö ár, frá 1918 til 1920, en þá um vorið seldi hann Suðureyrarhreppi þennan sama jarðarpart fyrir 5.000,- krónur.[172] Um svipað leyti náði hreppsnefnd Suðureyrarhrepps að festa kaup á partinum sem Guðbjörg Jónsdóttir hafði átt í Fremri-Vatnadal og einnig á 5 hundruðum í Ytri-Vatnadal.[173] Sumarið 1920 var hreppurinn því orðinn eigandi að öllum Fremri-Vatnadal og nokkru meira en hálfum Ytri-Vatnadal en sú jörð var þá að fara í eyði. Haustið 1920 seldi hreppurinn þau tólf hundruð sem hann átti í Vatnadal bræðrunum Veturliða H. Guðnasyni og Guðna A. Guðnasyni og mági þeirra, Ólafi Þ. Jónssyni.[174] Í þessum kaupum fylgdi með nær allur húsakostur á báðum jörðunum.[175]

Þeir Veturliði, Guðni og Ólafur höfðu hafið búskap í Vatnadal vorið 1920 (sjá bls. xx (Fr. Pét.)) og komu sér fyrir í íbúðarhúsi úr timbri sem Friðbert Friðbertsson hafði reist í Fremri-Vatnadal árið 1918.[176] Gamla baðstofan í Fremri-Vatnadal sem búið var í allt til ársins 1918 var 6 x 8 álnir að flatarmáli eða um það bil 19 fermetrar.[177] Önnur hús á jörðinni árið 1916 voru þrjár hlöður, tvö fjárhús, fjós, hesthús og hjallur.[178] Þegar Suðureyrarhreppur keypti Fremri-Vatnadal árið 1920 fylgdu með fjárhús fyrir 100 kindur, fjós fyrir 3 kýr, þrjár hlöður sem tóku samtals 180 hesta af heyi og hjallur.[179] Ein hlaðan var með járnþaki.[180]

Timburhúsið sem Friðbert Friðbertsson reisti árið 1918 var flutt hingað frá Suðureyri og hafði verið byggt sem fisksöltunarhús, verbúð og geymsla af eigendum vélbátsins Bernskunnar.[181] Grunnflötur þess var 6 x 14 álnir[182] eða 33 fermetrar. Í einni heimild er það reyndar sagt hafa verið aðeins stærra eða 6 x 16 álnir.[183] Húsið var portbyggt og góð hæð bæði uppi og niðri.[184] Húsið var pappaklætt og járn á þakinu.[185] Haustið 1919 var þetta íbúðarhús í Fremri-Vatnadal virt á 6.000,- krónur.[186]

Jarðarpartinum í Ytri-Vatnadal sem Veturliði og félagar keyptu með Fremri-Vatnadal árið 1920 fylgdi líka íbúðarhús úr timbri.[187] það hús rifu þeir og byggðu úr timbrinu skúr við efri hlið íbúðarhússins í Fremri-Vatnadal.[188] Þessi skúr var 5 x 16 álnir að flatarmáli eða 31,5 fermetrar og innréttaður sem íbúðarhúsnæði.[189] Allt íbúðarhúsnæðið í Vatnadal var því um 100 fermetrar á árunum upp úr 1920, hæðirnar tvær 33 fermetrar hvor (eða 38) og skúrinn 31,5 fermetrar, enda bjuggu hér þá þrjár fjölskyldur.

Seinna fækkaði fólkinu og þá var efri hæðin tekin af og allt sett undir eitt lágt þak.[190] Í þeirri mynd stóð húsið óbreytt allt þar til jörðin fór í eyði árið 1948. Úr svefnherbergisglugganum sást heim að Stað.[191]

Um 1930 var virðingarverð beggja gömlu bújarðanna í Vatnadal 2.800,- krónur en að húsum meðtöldum 6.500,- krónur.[192]

Á 18. og 19. öld var nær alltaf einbýli í Fremri-Vatnadal[193] en nefna má að hér var þó tvíbýli fardagaárin 1789-1790, 1831-1833 og 1835-1836.[194] Á fyrrihluta 18. aldar hafði einn bóndi báðar jarðirnar í Vatnadal til ábúðar um nokkurt skeið[195] en um önnur dæmi þess er ekki kunnugt.

Á árunum 1700-1880 var hér oft eitthvað af húsfólki sem yfirleitt hafðist við í þurrabúð. Sem dæmi má nefna Sigfús Þorvaldsson sem átti hér heima árið 1703.[196] Hann var þá 38 ára gamall, einhleypur húsmaður, sagður forsorgast af sjávarafla.[197] Um húsfólkið sem hafðist við í Fremri-Vatnadal á 19. öld ar fjallað hér litlu aftar (sjá bls. xx).

 

Fyrsti bóndinn sem bjó í Vatnadal og unnt er að nefna með nafni hét Jón og var hér við búskap á síðari hluta 16. aldar. Um föðurnafn hans er ekki vitað en marktækar heimildir greina hins vegar frá því að hann hafi verið drepinn af erlendum reyfurum árið 1579.[198]

Á Pétursmessu og Páls, þann 29. júní 1579, komu 60 fótgangandi menn sem sig fyrir eingelska út gáfu að Saurbæ á Rauðasandi þar sem Eggert Hannesson lögmaður átti heima.[199] Í Saurbæ rændu þeir stórfé, tóku lögmanninn til fanga og héldu honum nauðugum úti á skipi sínu í fjórar vikur, allt þar til lausnargjaldið sem krafist var hafði verið greitt.[200] Reyfarar þessir, sem sumir voru frá Flessingen í Hollandi, rændu allvíða á Vestfjörðum og um miðjan júlímánuð þetta sama sumar sigldu þeir skipi sínu inn á Skutulsfjörð.[201] Þaðan fóru þeir til Súgandafjarðar og í Eyrarannál sem ritaður var á Eyri í Seyðisfirði við Ísafjarðardjúp á síðari hluta 17. aldar segir svo frá athöfnum þessa ræningjaflokks:

 

Komu ránsmenn útlenskir á Vestfjörðu sem ræntu víða fé manna og fjárhlutum, skemmdu margt og höndluðu illa, bæði við karlmenn og kvenmenn í þrúgun og þvingun. Þeir tóku Eggert Hannesson til fanga og var hann leystur með miklu gjaldi og gerðu silfri af dóttur sinni Ragnheiði, í nær hálftunnu. Þeirra foringi hét Jón Falck, hafði verið áður vetur í Bæ [þ.e. Saurbæ á Rauðasandi – innsk. K.Ó.] og hafði Eggert nokkra fálka fyrir honum tekið. Þetta var orsök til þessarar ólukku. Þetta ransskip vildi sigla inn í Ögur en komst ei innfyrir. Þeir komu á Súgandafjörð og skutu Jón í Vatnadal en kona hans með annarri drápu tvo af þeim. Þessir strákar voru síðan hengdir í Hamborg.[202]

 

Þessi orð annálaritarans, Magnúsar Magnússonar, sýslumanns á Eyri, eru færð í letur þegar um það bil 90 ár voru liðin frá þeim atburðum sem frá er sagt[203] en í skýrslu Eggerts Hannessonar lögmanns sem rituð var sama ár og ránin voru framin er frá því greint að í Súgandafirði hafi ránsmennirnir myrt og drepið fjóra menn.[204] Fullvíst má telja að Eggert greini þar rétt frá en af þessum fjórum mönnum er Jón i Vatnadal sá eini sem nefndur er með nafni í heimildum sem varðveist hafa. Gaman hefði verið að vita meira um konurnar tvær í Vatnadal sem snerust til varnar og náðu að hefna Jóns bónda en slíkur fróðleikur er ekki lengur í boði. Fram kom að önnur þeirra var eiginkona Jóns og engir aukvisar hafa þær verið, þessar Vatnadalskonur sem náðu að fella tvo úr flokki þeirra sem orðið höfðu Jóni bónda að bana. Í allri Íslandssögunni munu varla finnast mörg dæmi um svo vasklega hefnd syrgjandi eiginkonu og á þeim öldum sem liðnar eru frá því ránið var framið í Vatnadal hefur engin kona gripið til vopna við áþekkar aðstæður með slíkum árangri svo kunnugt sé.

Jón bóndi sem myrtur var af enskum eða hollenskum reyfurum árið 1579 er eini sextándu aldar maðurinn í Vatnadal sem enn er þekktur með nafni. Nöfn fólksins sem hér bjó á sautjándu öld eru líka öll sokkin í gleymskunnar djúp nema ef vera kynni að eitthvað af fólkinu sem átti heima í Fremri-Vatnadal árið 1703 hafi tekið sér bólfestu hér fyrir lok þeirrar aldar, sem reyndar má telja líklegt.

Bóndinn sem bjó í Fremri-Vatnadal árið 1703 hét Jón Guðmundsson en kona hans Sesselja Bjarnadóttir.[205] Þau voru þá bæði um fimmtugt og hjá þeim voru fimm börn þeirra á aldrinum 10-24 ára.[206] Af þessum börnum átti Jón eitt en Sesselja fjögur en ekkert þeirra áttu þau bæði saman.[207] Börn húsfreyjunnar hafði hún átt með manni sem Ólafur hét[208] og er líklegt að hann hafi verið hennar fyrri eiginmaður. Árið 1703 var líka ein tvítug vinnustúlka hér í Fremri-Vatnadal, tvö tökubörn[209] og svo húsmaðurinn sem fyrr var nefndur (sjá bls. xx (38)). Árið 1710 bjó Jón Guðmundsson enn í Fremri-Vatnadal,[210] líklega sá hinn sami og hér var sjö árum fyrr.

Um 1735 bjó maður sem Gottskálk Jónsson hét á báðum jörðunum í Vatnadal,[211] líklega sá hinn sami og var vinnumaður á Norðureyri árið 1703, þá 29 ára gamall.[212] Enginn annar Gottskálk Jónsson var til í Ísafjarðarsýslu þegar manntalið var tekið árið 1703[213] svo að líkurnar á því að um sama mann sé að ræða verða að teljast miklar. Árið 1753 var Gottskálk horfinn af vettvangi en þá bjó hér Guðmundur Þorsteinsson sem var sjálfseignarbóndi og áður hefur verið nefndur (sjá bls. xx (36b)). Guðmundur Þorsteinsson í Fremri-Vatnadal átti son sem Jón hét[214] og mjög líklegt verður að telja að sá Jón Guðmundsson sem átti jörðina og bjó hér 28 ára gamall árið 1762[215] hafi verið þessi sonur Guðmundar Þorsteinssonar. Annað barn Guðmundar Þorsteinssonar var Helga sem giftist Jóni Þórðarsyni og bjuggu þau síðar í Fremri-Vatnadal.[216] Jón var að sögn Ólafs Snóksdalíns sonur Þórðar Hallssonar og Guðríðar, dóttur Páls Jónssonar sem bjó á Kvíanesi í Súgandafirði á fyrri hluta 18. aldar.

Hjónin Jón Þórðarson og Helga Guðmundsdóttir munu hafa byrjað sinn búskap í Fremri-Vatnadal um 1770 því Guðmundur sonur þeirra sem var 44 ára árið 1816 er í manntalinu frá því ári sagður vera fæddur í Vatnadal.[217]

Fardagaárið 1784-1785 var Jón Þórðarson eini bóndinn í Fremri-Vatnadal. Hann var þá 45 ára gamall en Helga kona hans sögð tveimur árum yngri.[218] Í janúarmánuði árið 1786 voru hér heima sex börn þeirra á aldrinum 2ja til 13 ára.[219] Þau Jón Þórðarson og Helga kona hans stóðu hér lengi fyrir búi og síðan niðjar þeirra allt til ársins 1853, að tveimur árum frátöldum.

Jón þessi Þórðarson mun hafa verið skýrleiksmaður því sóknarpresturinn á Stað segir hann vera vel að sér árið 1786 og kostulega að sér þremur árum síðar.[220] Helga eiginkona Jóns andaðist árið 1787 og sjálfur féll hann frá tíu árum síðar.[221]

Við andlát Jóns Þórðarsonar tóku Þórunn dóttir hans og eiginmaður hennar, Sigurður Sigurðsson, við búsforráðum. Þau eru talin fyrir búinu í aprílmánuði árið 1797 en Þórunn var þá aðeins 21 árs og Sigurður 24 ára.[222] Fjögur systkini Þórunnar voru þá enn hér og unnu að búskapnum.[223] Frá Þórunni Jónsdóttur og Sigurði bónda hennar hefur áður verið sagt í þessu riti en rétt fyrir aldamótin 1800 fóru þau að hokra á Vandræðakotinu sem svo var nefnt, hjáleigu frá Stað (sjá bls. xx (XXXV, 54-55)). Seinna voru þau lengi í húsmennsku hér í Fremri-Vatnadal og allt til 1840[224] en árið 1845 var Þórunn hjá syni sínum og tengdadóttur í Ytri-Vatnadal, komin á áttræðisaldur.[225] Þau Þórunn Jónsdóttir og Sigurður Sigurðsson eignuðust fjölda barna en flest þeirra dóu ung.[226]

Þegar Þórunn Jónsdóttir og eiginmaður hennar fluttust frá Fremri-Vatnadal að Fremri-Staðarhúsum, sem menn nefndu einnig Vandræðakot, var röðin komin að Guðmundi bróður hennar að taka hér við búsforráðum og það mun hann hafa gert eigi síðar en vorið 1800 og ef til vill einu ári fyrr.[227] Hann átti jörðina árið 1805[228] en seldi hana 1820 (sjá bls. xx (36b, lausbl.)).

Guðmundur Jónsson var fæddur í Vatnadal árið 1772 eða því sem næst[229] og er hann byrjaði búskap var hann nýlega kvæntur konu sem hét Sigríður Jónsdóttir.[230] Hún var fædd á Hanhóli í Bolungavík og var tveimur árum yngri en eiginmaðurinn. Búskaparár Guðmundar hér í Fremri-Vatnadal urðu 32 eða 33. Sextugur að aldri sleppti hann jörðinni vorið 1832 en dvaldist hér áfram í húsmennsku næstu 10 árin.[231] Guðmundur var tvíkvæntur.[232] Fyrri kona hans sem áður var nefnd andaðist um 1820 en skömmu síðar gekk hann að eiga Guðrúnu Oddsdóttur sem var lítið eitt eldri en hann sjálfur og komin yfir fimmtugt.[233] Líklega hefur Guðmundur verið góður búmaður því presturinn á Stað lætur þess getið árið 1802 að bóndi þessi í Vatnadal sé forstöndugur.[234]

Árið 1827 var Guðmundur bóndi í Fremri-Vatnadal hálfsextugur að aldri og bústofn hans var þá 2 kýr, einn kálfur, 8 ær, 10 lömb og einn hestur, ef marka má hinar opinberu tölur.[235] Árið 1821 og 1830 var stærð búsins þessu lík.[236] Árið 1827 átti Guðmundur engan bát en aftur á móti var hann þá búinn að koma sér upp litlum kálgarði.[237]

Elsta barn Guðmundar í Vatnadal og Sigríðar, fyrri konu hans, hét Sigurfljóð og var fædd rétt um 1800.[238] Sigurfljóð giftist Árna, syni Örnólfs Snæbjörnssonar og Elínar Illugadóttur sem bjuggu um alllangt skeið á Suðureyri (sjá bls. xx) og þegar Guðmundur hætti að búa árið 1832 tóku Sigurfljóð og Árni við búinu hér í Fremri-Vatnadal.[239] Árni Örnólfsson var fimm eða sex árum yngri en kona hans, sagður 11 ára í manntalinu frá 1816.[240] Þau Árni og Sigurfljóð stóðu hér fyrir búi í fjögur ár, frá 1832 til 1836,[241] og áttu þá hálfan sexæring eða fjögra manna far á móti öðrum manni.[242] Frá Vatnadal fóru þau að Suðureyri og síðan að Botni í Súgandafirði.[243]

Árni Örnólfsson varð skammlífur því hann andaðist haustið 1841, þá bóndi í Botni.[244] Ekkja hans, Sigurfljóð Guðmundsdóttir, giftist aftur og bjó árið 1845 í Botni með Agli Ólafssyni sem var seinni eiginmaður hennar.

Á árunum 1836-1838 stóðu hjónin Sigurður Bjarnason og Guðný Nikulásdóttir fyrir búi í Fremri-Vatnadal[245] en þau bjuggu síðar í allmörg ár á Norðureyri og verður frá þeim sagt þegar þangað kemur (sjá bls. xx). Á þessum árum var Guðmundur Jónsson, áður bóndi í Fremri-Vatnadal, hér í húsmennsku og einnig systir hans og mágur, þau Þórunn og Sigurður Sigurðsson.[246] Þráðurinn sem tengdi Guðmund og nánustu ættingja hans við jörðina slitnaði því ekki alveg og vorið 1838 fékk sonur Guðmundar sem Jón hét hana til ábúðar.[247]

Þegar Jón Guðmundsson hóf búskap í Fremri-Vatnadal var hann rétt um þrítugt en kona hans Ástríður Úlfsdóttir, sem fædd var í Bæ í Súgandafirði, var þrettán árum eldri.[248] Foreldrar hennar voru hjónin Úlfur Andrésson og Ástríður Guðmundsdóttir sem bjuggu yfir tuttugu ár í Botni (sjá bls. xx (XLII, 21b-22)). Þau Jón og Ástríður Úlfsdóttir bjuggu hér í 15 ár, frá 1838-1853, en síðasta árið voru þau reyndar í húsmennsku eða höfðu aðeins lítinn part úr jörðinni til ábúðar.[249] Árið 1845 voru aðeins fjórar manneskjur í heimili hjá Jóni og Ástríði hér í Fremri-Vatnadal, þau hjónin, Andrés Úlfsson sem var bróðir Ástríðar, og Margrét Eiríksdóttir sem var 10 ára gömul dóttir hennar.[250] Margrét giftist síðar Bergi Lárentíussyni og bjuggu þau í nokkur ár í Lækjarhúsum, hjáleigu frá Stað (sjá bls. xx (XXXV, 57b)).

Hjá Jóni Guðmundssyni virðist búið hafa verið nokkru stærra en verið hafði hjá föður hans, a.m.k. sum árin. Árið 1850 bjó hann með 2 kýr, 15 ær, 10 gemlinga, 15 lömb, hest og folald.[251]

Við brottför Jóns og Ástríðar frá Fremri-Vatnadal árið 1853 urðu merkileg tímamót því hér höfðu ættmenn hans ráðið ríkjum, óslitið að kalla, í a.m.k. hundrað ár eða allt frá því Guðmundur Þorsteinsson, langafi Jóns, byrjaði sinn búskap hér um miðbik 18. aldar (sjá hér bls. xx (40-42b)). Jörðin var lengi í eigu þessa fólks og árið 1805 var faðir Jóns Guðmundssonar enn sjálfseignarbóndi í Fremri-Vatnadal.[252] Aftur á móti var Jón leiguliði hér 40 árum síðar.[253] Jón Guðmundsson andaðist vorið 1855, þá húsmaður á Stað, en síðar á því ári var Ástríður komin til dóttur sinnar, Margrétar Eiríksdóttur húsfreyju í Bæ, sem gift var Bergi Lárentíussyni.[254]

Á árunum 1770-1852 var stöku sinnum tvíbýli í Fremri-Vatnadal en hér hafa enn nær eingöngu verið nefndir þeir bændur frá þessu skeiði sem voru úr niðjahópi Jóns Þórðarsonar og konu hans, Helgu Guðmundsdóttur, eða voru í fjölskyldutengslum við það fólk. Aðrir sem fengu hér jarðarafnot á þessu tímabili svo kunnugt sé voru fjórir.[255] Áður var minnst á Sigurð Bjarnason sem bjó í Fremri-Vatnadal frá 1836-1838 og hafði alla jörðina til ábúðar annað árið. Hinir þrír bjuggu hér allir í tvíbýli.

Þar er fyrst að nefna Ísleif Jósepsson sem bjó á móti Jóni Þórðarsyni fardagaárið 1789-1790.[256] Ísleifur var þá 28 ára gamall, kvæntur Guðrúnu Þórðardóttur sem var þremur árum eldri.[257] Aftur var tvíbýli á jörðinni fardagaárið 1831-1832 þegar hjónin Þórður Hákonarson og Þuríður Gísladóttir voru hér við búskap og bjuggu á móti Guðmundi Jónssyni og Guðrúnu kona hans sem áður voru nefnd.[258] Þórður Hákonarson sem þá var 24 ára gamall var dóttursonur Þórðar Þorsteinssonar grástakks [259] sem hér er sagt frá á öðrum stað (sjá hér bls. xx (XXXIV, 16b-18b)). Enn er þá ótalinn Oddur Jónsson sem bjó hér í tvíbýli á móti Árna Örnólfssyni frá 1832 til 1834.[260] Í marsmánuði árið 1833 var Oddur sagður vera 33ja ára gamall en kona hans, Guðfinna Jónsdóttir, 30 ára og bæði fædd á Marðareyri í Jökulfjörðum.[261]

 

Áður en lengra verður haldið mun rétt að geta líka um eitthvað af húsfólkinu sem hér átti heimili sitt á árunum 1785-1852. Einhleypt fólk sem damlaði ofan af fyrir sér í húsmennsku og dvaldist hér aðeins örfá ár eða bara í eitt ár kemst þó ekki á blað. Fyrsta fjölskyldan sem hér settist að í húsmennsku á þessu skeiði kom frá Hanhóli í Bolungavík árið 1801.[262] Þetta var ekkjan Gróa Jónsdóttir og börn hennar fjögur á aldrinum 10-20 ára.[263] Gróa hafði verið gift Jóni Guðmundssyni, bónda og hreppstjóra á Hanhóli, sem nú var látinn, og var hún þriðja eiginkona hans.[264]

Það voru Guðmundur Jónsson, bóndi í Fremri-Vatnadal, og kona hans, Sigríður Jónsdóttir, sem skutu skjólshúsi yfir ekkjuna frá Hanhóli og börn hennar. Verið getur að Sigríður, húsfreyja í Vatnadal, hafi verið stjúpdóttir Gróu því fyrir liggur að sú Sigríður var fædd á Hanhóli[265] og einnig er ljóst að Jón Guðmundsson, sem verið hafði eiginmaður Gróu, átti dóttur sem hét Sigríður.[266] Hún var hjá föður sínum og Gróu á Hanhóli í marsmánuði árið 1792, sögð 23ja ára.[267] Aldurinn passar reyndar ekki við aldur Sigríðar Jónsdóttur, húsfreyju í Fremri-Vatnadal, sem sögð er 25 ára árið 1801 og 42ja ára árið 1816[268] og munar þar ýmist fimm eða sjö árum. Engu að síður kynni þetta að vera ein og sama manneskjan því slíkur ruglingur varðandi aldur á fólki heyrði því miður ekki til undantekninga á árunum kringum 1800.

Vitað er að fyrsta kona Jóns Guðmundssonar á Hanhóli hét Helga og var dóttir Einars Jónssonar, bónda í Reykjarfirði í Grunnavíkurhreppi, og konu hans, Sigríðar Magnúsdóttur[269] (sjá einnig hér bls. xx (XXVI, 63)). Ekki er ólíklegt að Helga þessi Einarsdóttir hafi verið móðir Sigríðar Jónsdóttur, húsfreyju í Fremri-Vatnadal.

Hjá Guðmundi og Sigríði í Vatnadal voru Gróa og börn hennar aðeins fardagaárið 1801-1802 en börnin fjögur, þau Sigmundur Jónsson og systurnar Helga, Ingibjörg og Hippolithe Jónsdætur, ílentust öll í Súgandafirði og eiga sum þeirra enn fjölda niðja í þessu byggðarlagi.[270] Þess skal sérstaklega getið hér að Ingibjörg Jónsdóttir sem kom 13 ára gömul með Gróu móður sinni frá Hanhóli að Fremri-Vatnadal vorið 1801 giftist síðar og eignaðist soninn Friðbert Guðmundsson sem varð bóndi á þessari sömu jörð árið 1852 og dó í Hraunakoti árið 1899 (sjá hér bls. xx).

Fólkið sem lengst var í húsmennsku hér í Fremri Vatnadal á fyrri hluta 19. aldar voru hjónin Sigurður Sigurðsson og Þórunn Jónsdóttir sem höfðu búið á jörðinni skamma hríð rétt fyrir aldamótin.[271] Þau settust hér að í húsmennsku vorið 1821 og voru hér viðloðandi sem húsfólk fram undir 1840.[272] Guðmundur Jónsson, bróðir Þórunnar, sem hætti búskap á jörðinni árið 1832, var líka húsmaður hér næstu tíu árin eins og fyrr var getið.

 

Vorið 1852 fóru hjónin Friðbert Guðmundsson og Arnfríður Guðmundsdóttir að búa hér í Fremri-Vatnadal.[273] Bæði voru þau þá um þrítugsaldur, Friðbert fæddur 17. desember 1822 á Kaldá í Önundarfirði og Arnfríður 27. apríl 1819 á Höfða í Dýrafirði.[274] Þau Friðbert og Arnfríður höfðu bæði alist upp í Önundarfirði en fluttust til Súgandafjarðar á árunum upp úr 1840, hann 1841 en hún 1844, og áttu heima á Suðureyri er þau voru gefin saman í hjónaband haustið 1848.[275]

Foreldrar Friðberts voru hjónin Guðmundur Jónsson og Ingibjörg Jónsdóttir sem bjuggu á Kaldá í Önundarfirði frá 1821-1826 og á Görðum í Önundarfirði frá 1832-1843, síðustu tvö árin í húsmennsku (sjá hér bls. xx (XXVI, 61-65)), en fluttust til Súgandafjarðar árið 1843. Foreldrar Arnfríðar voru hjónin Guðmundur Pálsson og Halldóra Guðmundsdóttir sem bjuggu fyrst á Höfða í Dýrafirði en síðan á Hóli á Hvilftarströnd frá 1822-1841 (sjá hér bls. xx (XXVI, 48b-49b)). Þau Friðbert og Arnfríður höfðu því verið nágrannar á sínum unglingsárum, hann á Görðum en hún á Hóli, en svo má heita að túnin liggi saman á þessum tveimur bæjum þó að Hólsáin skilji á milli.

Hér í Fremri-Vatnadal stóðu þau Friðbert og Arnfríður fyrir búi í 23 ár, frá 1852-1875, og höfðu jafnan alla jörðina til ábúðar nema fyrsta árið og svo fardagaárið 1866-1867 en þá var hér tvíbýli.[276] Fyrsta búskaparár Friðberts voru fyrri ábúendur hér enn, þau Jón Guðmundsson og Ástríður Úlfsdóttir, og höfðu lítinn skika eða grasbýli til afnota fyrir sig en fardagaárið 1866-1867 bjuggu hjónin Þórður Þórðarson og Helga Sigurðardóttir hér á móti Friðbert og Arnfríði.[277]

Friðbert Guðmundsson var að sögn fróðleiksmaður og vel að sér um margt.[278] Hann var mjög lengi sáttanefndarmaður og hreppstjóri frá 1858-1866.[279] Af börnum Friðberts og Arnfríðar komust upp fjórar dætur sem allar ólust upp í Vatnadal.[280]

Þegar Friðbert sleppti ábúð á jörðinni í hendur Stefaníu dóttur sinnar og eiginmanns hennar vorið 1875 var hann aðeins 52ja ára að aldri og dvaldist áfram í Fremri-Vatnadal sem húsmaður.[281] Arnfríði konu sína missti hann árið 1878[282] en kvæntist í annað sinn sumarið 1883 og gekk þá að eiga unga frænku sína, Sigmundínu Sigmundsdóttur.[283] Sama ár reistu þau sér lítinn bæ hér handan við ána og nefndu Hraunakot. Þar höfðust þau við í húsmennsku á sextánda ár, allt þar til Friðbert andaðist vorið 1899.

Um Friðbert Guðmundsson hefur margt verið skrifað og segjum við nánar frá honum þegar staldrað verður við í Hraunakoti (sjá hér bls. xx).

Á því skeiði sem Friðbert stóð fyrir búi í Fremri-Vatnadal var stundum hjá honum húsfólk.[284] Frá 1860-1863 voru hjónin Jóhannes Guðbrandsson, fæddur 1826, og Helga Jónína Guðmundsdóttir hér í húsmennsku.[285] Jóhannes var hálfbróðir Magnúsar Guðbrandssonar sem var bóndi í Ytri-Vatnadal um 1860 (sjá hér bls. xx) og Kristínar Guðbrandsdóttur, húsfreyju í Bæ í Súgandafirði, konu Guðmundar Jóhannessonar, bónda þar (sjá hér bls. xx) en faðir þeirra var Barna-Brandur sem hér er getið um á öðrum stað (sjá bls. xx). Eitt barna Jóhannesar Guðbrandssonar og Helgu konu hans var Margrét Jóhannesdóttir, fædd 1857, sem varð eiginkona Steinþórs Jónssonar, bónda í Dalshúsum í Valþjófsdal í Önundarfirði.[286] Frá 1872-1874 voru önnur hjón í húsmennsku hjá Friðbert Guðmundssyni í Fremri-Vatnadal, þau Andrés Sakaríasson og Helga Guðmundsdóttir[287] sem síðar komu sér fyrir í Lækjarkoti, hjáleigu frá Stað (sjá hér bls. xx).

Áður var frá því greint að búskaparár Friðberts Guðmundssonar hér í Fremri-Vatnadal hefðu orðið 23 en dóttir hans Stefanía og Guðmundur Jónsson, eiginmaður hennar, stóðu hér fyrir búi í 39 ár, frá 1875 til 1914.[288] Allan þann tíma var Guðmundur eini bóndinn hér og með ábúðarrétt á allri jörðinni[289] og það var í skjóli Guðmundar sem Friðbert tengdafaðir hans fékk að hafast við í Hraunakoti og heyja þar fyrir nokkrum kindum sem hann átti og hafði sér og sínum til lífsframfæris.

Guðmundur bóndi í Vatnadal var fæddur 26. maí árið 1840 í Fremri-Breiðadal í Önundarfirði, sonur hjónanna Jóns Sveinssonar og Járngerðar Indriðadóttur sem þar bjuggu.[290] Foreldrar Guðmundar bjuggu í Fremri-Breiðadal í aldarfjórðung (sjá hér bls. xx (XXV, 51-54b)) en fluttust þaðan að Hvilft vorið 1861.[291] Þau Jón Sveinsson og Járngerður Indriðadóttir eignuðust 17 börn og átjánda barnið eignaðist Jón framhjá konu sinni (sjá hér bls. xx (XXV, 51-54b)). Af öllum þessum mörgu systkinum var Guðmundur sá fjórði í aldursröðinni.

Guðmundur kvæntist Stefaníu Friðbertsdóttur frá Vatnadal þann 1. október 1873 en hún var þá að verða 23ja ára gömul, fædd 6. október 1850 í Staðarhúsum ytri í Súgandafirði[292] (sbr. hér bls. xx (Hraunakot)). Sama dag og Guðmundur gekk að eiga Stefaníu gengu tvö önnur börn Járngerðar á Hvilft í hjónaband svo þetta varð þrefalt systkinabrúðkaup (sjá hér bls. xx (XXV, 54-54b)). Hjónavígslan fór fram í Holti en brúðkaupsveislan var haldin á Hvilft.[293]

Guðmundur bóndi og Stefanía kona hans eignuðust sextán lifandi fædd börn og eitt sem fæddist andvana.[294] Öll börnin, tíu stúlkur og sex drengir, fæddust hér í Fremri-Vatnadal, hið elsta árið 1875 og hið yngsta árið 1896.[295] Af þessum stóra systkinahópi dóu fimm á barnsaldri en ellefu komust upp.[296] Heimilið var því oft fjölmennt því um það leyti sem yngsta barnið fæddist voru öll eldri systkini þess enn hér heima í foreldrahúsum.[297] Elst barnanna sem komust á legg var Guðmundur Guðmundsson, fæddur 1876[298] sem margir nefndu Guðmund vatna.[299] Hann bjó lengi á Gelti í Súgandafirði, fékkst svolítið við ritstörf og samdi m.a. ritgerð um örnefni í Vatnadal sem birt var í 3. bindi af Vestfirskum sögnum árið 1946.[300] Eitt barnið mun þó hafa alist upp að einhverju leyti í Selárdal [301] hjá Sigríði Friðbertsdóttur, móðursystur sinni, en á móti kom að auk sinna eigin barna ólu Guðmundur og Stefanía í Fremri-Vatnadal upp a.m.k. eitt fósturbarn, sonarson sinn, Friðbert G. Guðmundsson, sem fæddist árið 1900.[302]

Árið 1880 var bústofn Guðmundar í Vatnadal ein kýr, ein kvíga, átján ær, tíu gemlingar og tveir hestar ef marka má búnaðarskýrslu frá því ári.[303] Á næstu árum virðist bústofn hans ekki hafa stækkað neitt að ráði því árið 1888 bjó bóndi þessi í Fremri-Vatnadal með tvær kýr, átta ær, fimm gemlinga, einn hest og eitt tryppi og árið 1895 með eina kú óleigufæra, eina kvígu, þrettán ær, tíu gemlinga og einn hest.[304] Fyrir nútímafólk er erfitt að skilja hvernig takast mátti að koma upp ellefu börnum með slíkum bústofni.

Á sínum fyrstu búskaparárum átti Guðmundur hálfan bát á móti Þórði Þórðarsyni, bónda í Ytri-Vatnadal, og var það sexæringur eða fjögra manna far.[305] Báturinn hét Svanur[306] og hafði sinn sérstaka reikning í verslun Hjálmars Jónssonar á Flateyri á árunum kringum 1880.[307] Árið 1877 lögðu þeir félagar í Vatnadal inn hjá Hjálmari sem svaraði einum hásetahlut af saltfiski og fengu 11,88 kr. fyrir hann.[308] Árið 1879 lögðu þeir inn 43 kíló af málfiski og fengu greiddar 16,12 kr. fyrir fiskinn.[309] Árið 1880 fóru þeir með svolítið meira af saltfiski til Flateyrar eða 55 kíló af málfiski og 8 kíló af smáfiski.[310] Fyrir kíló af málfiski greiddi verslunin liðlega 28 aura og liðlega 21 eyri fyrir kíló af smáfiski.[311] Fyrir fiskinn sem Vatnadalsbændur lögðu inn á Flateyri þetta ár fengust því 17,16 kr.[312] Allar tölur hér að framan segja aðeins til um hvað lagt var inn á reikning bátsins. Vera má að það innlegg á sama reikning sem í verslunarbókinni er kallað frá skiptum Guðmundar og Þórðar hafi líka verið fiskur en undir því nafni komu 50,- krónur inn á reikninginn árið 1878 og 40,- krónur árið 1879.[313] Fróðlegt er að sjá hvað þeir Vatnadalsmenn tóku út á Flateyri og létu skrifa hjá bátnum. Árið 1877 voru það m.a. fjögur fjögurra punda færi sem kostuðu fjórar krónur hvert og eitt tveggja punda færi sem kostaði tvær krónur.[314] Þetta sama ár fengu þeir sér 22½ alin af segldúk og einn tjörukút.[315] Segldúkurinn kostaði 10,80 kr. en tjaran 2,67 kr.[316] Næsta ár keyptu þeir kompás sem kostaði sex krónur, tunnu af salti sem kostaði fimm krónur og líka sitthvað fleira, m.a. fimm færi og þrjátíu hneifar[317] en það eru stórir önglar. Árið 1880 tóku þeir Guðmundur og Þórður m.a. út 600 krekjur á nafni bátsins og á árunum 1877-1880 keyptu þeir árlega einn kút af tjöru[318] sem notuð hefur verið til að bika Svaninn.

Guðmundur Jónsson var síðasti 19. aldar bóndinn í Fremri-Vatnadal og bjó hér allt til ársins 1914 eins og fyrr var nefnt. Að sögn Magnúsar Hjaltasonar var hann stefnuvottur í Suðureyrarhreppi um lengri eða skemmri tíma.[319] Á síðustu búskaparárum Guðmundar og Stefaníu konu hans hér í Fremri-Vatnadal bjuggu í Ytri-Vatnadal hjónin Guðmundur Júlíus Pálsson og Herdís Þórðardóttir (sjá hér bls. xx). Ef marka má frásögn Halldórs Guðmundssonar af komu hans í Vatnadal árið 1904 hafa samskipti milli fólksins á þessum tveimur bæjum verið dálítið þvinguð er þar var komið sögu. Halldór sem fæddur var árið 1872 og bjó mjög lengi á Suðureyri fór um allan Suðureyrarhrepp síðla árs 1904 til að sjá um böðun á sauðfé samkvæmt opinberri tilskipun en lög um sauðfjárbaðanir höfðu þá nýlega verið samþykkt.[320] Hann skrifaði síðar frásögn af þessu ferðalagi, greinir þar m.a. frá komu sinni í Vatnadal og kemst þá svo að orði:

 

Það var nú þarna í Vatnadölunum annar sá staður sem mér ætlaði að ganga erfiðast að fá samvinnu við böðunina en á þessum tveimur bæjum voru heimilisaðstæður allar svo gerólíkar sem framast mátti verða hvað mannafla snerti, þar sem þau Guðmundur Jónsson og Stefanía höfðu nægum mannafla á að skipa en þau Guðmudur Júlíus og Herdís höfðu aðeins sig sjálf en enga vinnandi manneskju að öðru leyti með þrjú kornung börn á framfæri sínu.

Áður til þess kæmi að böðun yrði framkvæmd á þessum tveimur bæjum þurfti að komast á samstarf þessara tveggja heimila við böðunina þar eð að öðrum kosti myndi það heimilið sem engum vinnukrafti hafði á að skipa ekki geta framkvæmt þessa böðun. Það var því hið fyrsta sem ég hlutaðist til um í þessu efni að leiða þetta samstarf í tal við hlutaðeigendur á báða bóga en fljótt kom í ljós að báðir málsaðilar töldu öll tormerki á því að nokkurt samstarf gæti átt sér stað.

Þau hjónin Guðmundur og Herdís töldu litla von til þess að hjónin í fremri dalnum*) fengjust til samstarfs um þetta þar sem þau myndu ekki geta gert sér neina von um að fá einhverja borgun fyrir þá vinnu sem þeirra menn kæmi til með að inna af hendi. … Ég átti því næst tal um þetta við þau hjónin Stefaníu og Guðmund og voru þau strax á því að láta syni sína hjálpa ytribæjarhjónunum, jafnvel þótt engar líkur væru fyrir fullri greiðslu, en þó því aðeins að þau Guðmundur og Herdís bæðu sig um aðstoð. En það ætlaði að verða næsta erfitt að fá þau Guðmund og Herdísi til að biðja um þessa hjálp og var auðheyrt á öllu að þau vildu helst vera laus við slíka bónbjörg. Það var ekki fyrr en eftir nokkrar fortölur af minni hálfu að Guðmundur gekkst inn á að leita aðstoðar nábýlisfólksins til þessara hluta. Eftir það féll allt í ljúfa löð og var fjárböðunin framkvæmd á þessum tveimur bæjum í fullri einingu og bróðerni að því er virtist.[321]

____________________________________________________________

*) Við þessi skrif hefur Halldóri orðið á að víxla fólki milli bæjanna tveggja í Vatnadal en

sú skekkja hefur verið leiðrétt hér.

 

Sagan geymir eitt dæmi af mörgum um þungar þrautir sem fylgja fátæktinni, ekki síst hjá þeim sem í lengstu lög reyna að verja sjálfsvirðingu sína.

Hjónin Guðmundur Jónsson og Stefanía Friðbertsdóttir fluttust frá Vatnadal árið 1914 og fóru þá að Gelti til Guðmundar sonar síns.[322] Þar andaðist Guðmundur Jónsson, síðasti 19. aldar bóndinn í Fremri-Vatnadal, þann 25. júní árið 1918[323] en ekkja hans dó á Suðureyri 19. nóvember 1935.[324]

Á árunum 1914-1920 hófu fimm bændur búskap hér í Fremri-Vatnadal, fyrst Guðmundur Jónsson póstur árið 1914 en hann fluttist til Ísafjarðar árið 1918,[325] þá Friðbert Friðbertsson, síðar skólastjóri á Suðureyri, sem bjó hér frá 1918 til 1920 og loks bræðurnir Veturliði H. Guðnason og Guðni A. Guðnason og Ólafur Þ. Jónsson mágur þeirra sem keyptu jörðina ásamt hálfum Ytri-Vatnadal og hófu hér búskap, allir þrír, vorið 1920 (sjá hér bls. xx (37-37b)). Ekki er ætlunin að segja hér frá þessum tuttugustu aldar bændum í Vatnadal nema lítið eitt frá Guðna Albert Guðnasyni, hinum frækna glímukappa sem nefndur var kóngabani og bjó hér í tíu ár, frá 1920 til 1930.[326]

Guðni Albert var fæddur á Kvíanesi 17. október 1895 en fluttist á fyrsta ári að Bæ með foreldrum sínum, þeim Guðna Egilssyni og Guðrúnu Sigurðardóttur, eiginkonu hans.[327] Faðir Guðna Alberts drukknaði með Sturlu Jónssyni 28. febrúar 1898 (sjá hér bls. xx). Á unglingsárum fór hann að æfa glímu og fleiri íþróttir hjá Íþróttafélaginu Stefni á Suðureyri og varð brátt frábær glímumaður.[328]

Árið 1920, sama ár og Guðni hóf búskap í Vatnadal, fór hann suður til Reykjavíkur og tók þátt í Íslandsglímunni. Hann lagði þá báða nafnkenndustu glímumenn landsins, þá Sigurjón Pétursson, fyrrverandi glímukóng, og Tryggva Gunnarsson, þáverandi glímukóng.[329] Fékk hann þá viðurnefnið kóngabani. Næsta ár vék hann aftur frá bústörfunum í Vatnadal og fór suður til að keppa í Íslandsglímunni. Að því sinni lagði hann m.a. Hermann Jónasson, síðar forsætisráðherra, sem þá varð glímukóngur Íslands.[330] Sigursælasta bragð Guðna var hægri fótar klofbragð og þar næst sniðglíma á lofti.[331] Að sögn Emils Tómassonar, höfundar bókarinnar Íslenska glíman, var Guðni óvenju mjúkur glímumaður, þótt stór væri og þrekinn.[332] Segir Emil hann hafa verið prúðan og hógværan í framkomu og engan keppanda honum drengilegri í glímu.[333] Ungi bóndinn í Vatnadal náði ekki að verða glímukóngur Íslands en orðstír hans flaug víða. Í blaði Íþróttafélagsins Stefnis á Suðureyri birtist árið 1921 frásögn Guðna af Íslandsglímunni 20. júní 1920 og segir hann þar að áhorfendur hafi verið 8 eða 9 þúsund.[334] Frá sjálfri keppninni greinir hann með þessum orðum:

 

Annar maður sem ég glímdi við í röðinni var Tryggvi Gunnarsson glímukóngur. Lauk svo viðureign okkar að Tryggvi lá. Var þá klappað mjög. Í næstu glímu vildi það óhapp til að ég datt á sama hnéð sem ég meiddist í á æfingunni og tók þá að blæða úr sárinu svo eftir það hafði ég mikla tilkenningu í fætinum og versnaði æ er ég rak hnéð í.

Næst glímdi ég við Sigurjón Pétursson og lauk þeirri glímu svo að Sigurjón féll. Var þá hrópað og klappað mikið eins og allt ætlaði af göflum að ganga. Klappinu ætlaði aldrei að linna og strákarnir hrópuðu: „Hafið þið heyrt að Sigurjón lá?” Eftir því sem á glímuna leið bólgnaði fóturinn meira og átti ég þar af leiðandi erfiðara með að glíma, enda fór svo að ég hafði aðeins 4 vinninga eftir þetta. Hafði 6 vinninga alls. Úrslit glímunnar urðu þau að Tryggvi Gunnarsson bar sigur af hólmi, vann Íslandsbeltið og þar með glímukonungs tignina í annað sinn.[335]

 

Í minningarorðum sem Sturla Jónsson, lengi oddviti og hreppstjóri í Súgandafirði, skrifaði um Guðna er honum lýst svo:

 

Guðni A. Guðnason var mikill maður vexti og þreklegur á velli, beinvaxinn, dökkhærður, kvikur í hreyfingum og hinn djarfmannlegasti í allri framkomu. Hann var kraftamaður og dugnaðarmeiri en almennt er, afkastamikill til allra verka …. Guðni stundaði sjómennsku hér framan af ævi sinni bæði sem háseti og formaður, þar til hann tók að búa á jörðinni Vatnadal ásamt Veturliða bróður sínum. … Hann stundaði sjómennsku á voru hverju til sláttar öll hin seinni ár.[336]

 

Sturla lætur þess einnig getið að Guðni hafi verið skýr maður og greindur … skapstilltur og léttlyndur.[337] Þessi ágæti glímumaður var um skeið formaður Íþróttafélagsins Stefnis og átti sæti í fyrstu stjórn Kaupfélags Súgfirðinga hins eldra en það félag var stofnað árið 1919.[338]

Fyrstu tvö árin í Vatnadal bjuggu þau saman, Guðni Albert og Guðrún móðir hans, en árið 1922 kvæntist hann ungri stúlku sem tók þá við húsmóðurstörfunum.[339] Hún hét Kristín Jósefsdóttir og hafði flust til Suðureyrar með foreldrum sínum frá Lambadal í Dýrafirði allmörgum árum fyrr.[340] Þau Guðni og Kristín bjuggu allan sinn búskap hér í Vatnadal en sambúðarár þeirra urðu ekki nema átta því hann andaðist eftir botnlangauppskurð 3. apríl 1930, aðeins 34 ára gamall, og lét eftir sig fjögur börn, hið yngsta í móðurkviði.[341] Að Guðna látnum bjó Veturliði bróðir hans áfram hér í Vatnadal í átján ár en við brottför hans árið 1948 fór jörðin í eyði (sjá hér bls. xx (37b)).

 

Hér hefur nú verið getið flestra bænda sem bjuggu í Fremri-Vatnadal eftir 1700 og innan skamms kominn tími til að hefja göngu um landareignina. Áður en lagt verður upp í þá för skulum við samt rifja upp fáeinar frásagnir af atburðum er tengjast lífi fólksins sem hér bjó á öldinni sem leið.

Í lok marsmánaðar árið 1804 urðu tveir ungir menn frá Vatnadal úti á heimleið frá Ísafirði.[342] Þeir hétu Jón Jónsson og Bjarni Bjarnason.[343] Jón mun hafa verið bróðir Guðmundar Jónssonar sem þá bjó í Fremri-Vatnadal en Bjarni var sonur Bjarna Jónssonar, bónda í Ytri-Vatnadal, og konu hans Guðrúnar Gísladóttur.[344] Bjarni Bjarnason var 22ja ára gamall þegar hann týndi lífi en Jón Jónsson var fáeinum árum eldri.[345] Árið 1795 er hann sagður 15 ára hjá föður sínum í Fremri-Vatnadal og virðist hafa verið vinnumaður í Bæ á árunum 1797-1802.

Þeir Jón og Bjarni voru að koma úr kaupstað á Ísafirði og fóru fjallabaksleiðina sem hér er lýst á bls. xx (24-25). Lík þeirra voru flutt til byggða í Önundarfirði og jörðuð í Holti þann 8. apríl.[346] Séra Jón Ásgeirsson, sem þá var prestur í Holti, segir að líkin hafi fundist á svokölluðum Langdal [347] og hlýtur þá að eiga við dalinn með því nafni sem gengur fram úr Breiðadal í Önundarfirði. Fullyrðingu prests um þetta er erfitt að draga í efa og má því ætla að þeir félagar hafi aldrei komist nema skamman spöl uppi á háfjallinu en snúið þar við og tekið stefnu á Breiðadal sem var stysta leið til byggða. Hugsanlegt er þó líka að þeir hafi villst í dimmviðri eða hrakist undan veðrinu niður í Langdal. Í yngri heimild segir reyndar að annar mannanna hafi fundist örendur upp af Hafradal [348] sem er fjalldalur beint upp af bænum Botni í Súgandafirði (sjá hér bls. xx) en staðhæfing prestsins, færð til bókar þegar hann jarðaði lík mannanna, verður að teljast trúverðugri.

Daginn sem ungu mennirnir frá Vatnadal voru jarðaðir í Holti ritaði presturinn þar þessi orð í sína embættisbók:

 

Grafnir Bjarni Bjarnason frá Vatnadal neðri og Jón Jónsson frá Vatnadal fremri í Staðarsókn í Súgandafirði. Þeir ætluðu heim til sín af Ísafirði þann næstliðna 28. dag Martii. Skildu á Botnsheiði við 2 er voru í ferðinni og til að stytta sér leið hugðu að ganga fjallasýn í Vatnadal. Urðu þá úti sama dag í versta landnyrðings kafaldsbyl og fundust í svokölluðum Langdal þann 4. apríl næstliðinn.[349]

 

Sagan um þessa feigðarför á fjöllum uppi lifði lengi á vörum fólks í Súgandafirði. Til marks um það er frásögn Kristjáns G. Þorvaldssonar er hann færði í letur árið 1949 en þar kemst hann svo að orði:

 

Tveir menn urðu eitt sinn úti á þessari leið [þ.e. á fjallaleiðinni frá Ísafirði að Vatnadal – innsk. K.Ó.], voru það bændur úr Vatnadal. Voru þeir að koma frá Ísafirði og skall á þá bylur þegar upp á fjallið kom. Merki sáust þess að annar þeirra hefði gefist upp og hinn borið hann um stund en haldið svo á einsamall. Fannst hann örendur upp af Hafradal. Hafði hann sest þar niður til að fá sér hressingu af víni sem hann hafði meðferðis. Var kúturinn milli fóta hans. Eftir þetta lagðist leiðin niður.[350]

 

Þegar Kristján G. Þorvaldsson ritaði þessa frásögn voru 145 ár liðin frá því mennirnir tveir urðu úti svo varla er við því að búast að allt sé nákvæmt sem þar er sagt. Kristján segir réttilega að báðir mennirnir hafi verið frá Vatnadal og á heimleið frá Ísafirði en sú fullyrðing hans að þeir hafi verið búandi menn reynist röng (sjá hér bls. xx (50b-51)). Saga Kristjáns um brennivínskútinn sem annar mannanna hafði á milli fóta sér þegar hann tók síðustu andvörpin kynni að vera síðari tíma skáldskapur en a.m.k. jafn líklegt er þó að hún sé sönn því myndina af helfrosnum manni með kútinn milli fóta er auðvelt að geyma í minni og flytja frá einni kynslóð til annarrar. Hér er vert að hafa í huga að móðir Kristjáns G. Þorvaldssonar, Sigríður Friðbertsdóttir, ólst upp í Vatnadal en hún var fædd árið 1852 og varð mjög gömul kona.[351] Líklegast er að vitneskja Kristjáns um feigðarför Bjarna og Jóns árið 1804 hafi verið frá henni komin en þegar Sigríður var að alast upp í Vatnadal var enn á lífi fólk sem mundi þá Jón og Bjarna.

Þegar 14 ár voru liðin frá andláti þessara ungu manna sem týndu lífi á fjöllum uppi dró enn til tíðinda í Vatnadal en þá féll hér snjóflóð sem olli miklum skaða.[352] Það var aðfaranótt 20. mars árið 1818 sem flóðið féll á fjárhús í Vatnadal og drap fjölda kinda en manni sem gekk frá húsunum í sama mund tókst að bjarga.[353] Var hann þá aðframkominn.[354] Óljóst er hvort fjárhúsið sem varð fyrir snjóflóðinu var í Fremri-Vatnadal eða Ytri-Vatnadal en Guðmundur Jónsson, bróðir Jóns Jónssonar sem úti varð, bjó þá í Fremri-Vatnadal (sjá hér bls. xx) og ekkjan Guðrún Finnbjörnsdóttir í Ytri-Vatnadal (sjá hér bls. xx).

Þessa sömu nótt féll snjóflóð á bæinn Augnavelli í Hnífsdal. Þar létust fjórar manneskjur og í Súgandafirði urðu skaðar af völdum snjóflóða á þremur bæjum.[355] Séra Jón Matthíasson, sem þá var prestur á Eyri í Skutulsfirði, greinir frá þessum atburðum í Klausturpóstinum og segir þar um snjóflóðin í Súgandafirði:

 

Sömu nótt [þ.e. aðfaranótt 20.3.1818 – innsk. K.Ó.] tók snjóflóð hjall að veggjum á Bæ í Súgandafirði, með miklu af matvælum í og flutti út í sjó og fjárhús á Gelti í sömu sveit með 20 fjár í sem allt fórst. Annað fjárhús á Vatnadal í sama firði fórst og með fé öllu. Varð fyrir snjóflóðinu maður er gekk frá húsinu heim til bæjar en hvörjum þó bjargað varð með litlu lífi.[356]

 

Enginn veit nú hver það var sem bjargaðist svo naumlega úr snjóflóðinu í Vatnadal.

Haustið 1897 komst sá orðasveimur á kreik að tveir útilegumenn væru sestir að í úthögum bændanna í Vatnadal og mun mörgum hafa orðið um og ó við þau tíðindi. Magnús Hjaltason, alþýðuskáld og dagbókaritari segir frá þessu í dagbók sinni við lok októbermánaðar á því ári.[357] Frásögn Magnúsar er á þessa leið:

 

Um allan þennan mánuð varð vart við tvo útilegumenn á Vatnadal í Súgandafirði. Þeir höfðu grímur og voru að öðru leyti einkennilega búnir. Friðbert, sonur Friðberts í Hraunakoti, sem var þá unglingur og var að smala kindum föður síns, hitti þá einu sinni. Hrekktust þeir við hann, tóku í brjóst honum og klof, brugðu honum aftur fyrir höfuð sér og skelltu honum niður. Meiddist hann talsvert á annarri kinninni og kom grátandi heim.

Seint í október tóku Suðureyringar sig saman um að liggja í leyni og vita hverjir garpar þetta væru. Komust þeir að þeirri niðurstöðu að það myndu vera Álfur Magnússon barnakennari er ýmsu var sleginn og Sigurður Jóhannsson „skurður”. Varð ekki síðan vart við þá.[358]

 

Líklega er það rétt hjá Magnúsi að þeir Álfur og Sigurður hafi hafst við undir berum himni hér fram á dalnum um eitthvert skeið haustið 1897 en varla hefur það nú verið heill mánuður. Drengurinn Friðbert Friðbertsson í Hraunakoti sem þeir brugðu aftur fyrir höfuð sér var aðeins 9 ára gamall þetta haust[359] svo eðlilegt að hann hafi orðið hræddur er þessir grímuklæddu útilegumenn fóru að þrífa til hans og bregða á leik. Ljóst virðist þó að um engar misþyrmingar hafi verið að ræða. Frá Álfi Magnússyni og Sigurði skurði hefur áður verið sagt á þessum blöðum (sjá hér bls. xx (XXII, 25b-33), bls. xx (XXXI, 65-80) og bls. xx (XXXII, 1-9). Sbr. einnig bls. xx (Gilsbrekka)). Álfur Magnússon hafði verið í Súgandafirði um nokkurra vikna skeið á hverjum vetri á árunum 1891-1895 og fengist við barnakennslu (sjá hér bls. xx (XXXIII, 29, lausbl. 1 og 2)). Báðir höfðu þeir Sigurður sjómennsku á skútum frá Ísafirði eða Flateyri að aðalstarfi árið 1897 en til sanns vegar má færa að þeir hafi þá verið eins konar útilegumenn því í sóknarmannatölum frá því ári finnast nöfn þeirra hvergi skráð (sjá hér bls. xx (XXII, 29 og XXXII, 9)) og má því ætla að þeir hafi verið heimilislausir. Álfur drukknaði 27 ára gamall í álnum vestur af Straumnesi sumarið 1898 (sjá hér bls. xx (XXII, 30-32)) en Sigurði, sem var níu árum eldri, varð lengri lífdaga auðið. Hann settist að á Gilsbrekku í Súgandafirði aldamótaárið 1900 og átti þaðan í frá heima í Suðureyrarhreppi, nær óslitið, til dauðadags árið 1925.

 

Hér hefur áður verið gerð grein fyrir hvar bæirnir sem síðast var búið í hér í Vatnadal stóðu og hvernig túnið skiptist milli Fremri-Vatnadals og Ytri-Vatnadals (sjá hér bls. xx (25b-26b)). Báðar bæjartóttirnar eru nú algerlega horfnar en ýmsar útihúsatóttir standa enn uppi. Sumar þeirra eru af húsum sem fólkið í Ytri-Vatnadal átti og verður þeirra getið hér síðar (sjá bls. xx) en fremst og efst í gamla túninu eru tóttir sem vert er að líta á áður en við leggjum upp í gönguna fram á dalinn.

Ofan við allmikinn skurð og girðingu sem þarna var sumarið 1995 er fornleg tótt og í henni heljarmikill steinn. Munnmæli herma að hér hafi verið fjós og steinninn sem kom úr hlíðinni orðið fjósakonunum að bana. Um þetta ritar Kristján G. Þorvaldsson svo:

 

Fremst og efst á túninu er steinn nefndur Stóristeinn. Sagt er að hann hafi komið niður úr hlíðinni og lent á fjósinu. Tvær konur voru að mjólka í fjósinu og lentu þær báðar ásamt kúnum undir steininum. Greinilega markar fyrir veggjum ofan við steininn og virðist hann hafa stöðvast í neðri vegg hússins.

Bær var þá skammt fyrir neðan fjósið en var fluttur skömmu eftir þennan atburð. Tóttir miklar eru þar og styðja þær nokkuð söguna.[360]

 

Guðmundur Guðmundsson frá Vatnadal rekur einnig þessa sögu og segir steininn vera um 2 metra á hæð og 7 metra að ummáli.[361]

Ljóst er að steinninn hefur fallið á einhverja byggingu sem vel gæti hafa verið fjós en um það hvort munnmælasagan byggi á staðreyndum eða skáldskap getur enginn dæmt.

Tóttirnar sem Kristján G. Þorvaldsson getur um og segir vera neðan við stóra steininn í fjóstóttinni eru hér enn. Að sögn þeirra Kristjáns og Guðmundar Guðmundssonar frá Vatnadal var talið að þetta væru fornar bæjartóttir[362] og kynni að vera rétt en engin vitneskja liggur þó fyrir um að svo hafi verið. Sé svo hafa útihús verið byggð upp úr þeim síðar. Tóttir þessar eru í tvennu lagi. Sú efri og fremri er af húsi sem hefur verið um það bil 3 x 6 metrar að flatarmáli og aftan við það önnur bygging áföst sem stendur þvert, um 6 x 1 metri að flatarmáli að því er virðist. Neðan við þessa tótt er önnur litlu minni og bendir flest til þess að þarna hafi síðast staðið gripahús.

Á síðustu áratugum 19. aldar var þessi fremsti partur af túninu, þar sem tóttirnar eru, alltaf nytjaður af Þorbirni Gissurarsyni, bónda á Suðureyri.[363] Þessi túnskák var kölluð Partur og taldist vera 2 hundruð,[364] það er einn áttundi hluti af öllu Vatnadalstúninu.

Ofan við túnið og skammt utan við Bæjarlækinn var kvíaból fólksins í Fremri-Vatnadal.[365] Kvíin sem ærnar voru mjólkaðar í stendur hér enn og er nær beint upp af hólnum lága sem bærinn stóð á, sá sem síðast var búið í hér í Vatnadal (sbr. hér bls. xx (25b-26)). Þessi gamla kví er um það bil 2 x 4,5 metrar að flatarmáli svo kvíaærnar hafa varla verið fleiri en 20 þegar hún var í notkun. Svolítið utar og beint upp af bæjarhólnum í Ytri-Vatnadal var svo kvíaból fólksins í ytri bænum.[366] Þar er kvíin líka enn uppistandandi, rétt ofan við túnið, og virðist hafa verið lítið eitt stærri en hin eða um það bil 12 fermetrar. Yst í túninu og nær beint niður af kvínni sem hér var síðast nefnd er myndarlegur steinn og við hann mun lengi hafa verið leikvöllur barna frá báðum bæjunum í Vatnadal.[367] Guðmundur Guðmundsson frá Fremri-Vatnadal, sem hér var áður nefndur og fæddist vorið 1876, segir frá því með þessum orðum:

 

Fyrir ofan bæinn [í Ytri-Vatnadal – innsk. K.Ó.] er kvíabólið. Þar er stór steinn sem var leikvöllur okkar barnanna. Hann er sem hefluð fjöl að ofan, allt að 10 metrum ummáls og um einn metri á hæð.[368]

 

Lýsing Guðmundar passar alveg við steininn sem enn stendur yst í Vatnadalstúninu rétt fyrir ofan hliðið á túngirðingunni. Þennan stein er auðvelt að finna og þar er gott að tylla sér niður og þenkja um liðna tíð. Frá honum hefjum við gönguna fram dalinn og höldum okkur ofan við túnið. Örstutt er milli kvíabólanna tveggja sem hér hefur nú verið lýst og við fremra bólið er grasteigur sem heitir Loðniteigur.[369] Var talið að hann bæri nafn með réttu.[370] Fyrir framan Loðnateig er klettahjalli uppi í hlíðinni og heitir Lækjarhilla en fram af henni rennur lítill lækur.[371] Hærra í fjallinu ofan við gamla túnið er Húsahvilft[372] en ofan við fremsta hluta túnsins sem nú hefur verið ræktað upp í Vatnadal eru Ufsir, hátt uppi í hlíðinni, og Lyngufsir þar fyrir ofan.[373]

Ofan við tóttirnar í fremsta hluta gamla Vatnadalstúnsins og ekki langt frá Stórasteini sem stendur þar í einni tóttinni eru Stórasteinshryggur og Stórasteinshvolf skammt fyrir ofan túnið.[374] Þetta sama hvolf virðist einnig hafa verið nefnt Litlahvolf[375] en framan við lækinn sem rennur fram af Lækjarhillu og áður var nefndur er aftur á móti Stórahvolf.[376] Dálítið framar er Þúfulækur sem kemur niður úr Nautalág en milli Stórahvolfs og Þúfulækjar er Bæli.[377] Þar lá oft fé.[378]

Framan við gamla túnið í Vatnadal voru allmargir engjapartar sem nú hafa veið ræktaðir upp og eru orðnir að túni. Heimsti parturinn hét Túnpartur og var alveg rétt framan við túnið.[379] Næst kom Tvísteinapartur og bar nafn af tveimur stórum steinum[380] sem eru hér reyndar enn og standa saman á sínum stað rétt ofan við nýja túnið.[381] Um Tvísteinapart rann Þúfulækur sem fyrr var nefndur[382] Niður af Tvísteinaparti gengur hátt nes fram í ána.[383] Það heitir Torfunef og þar hjá er Torfhylur í ánni.[384]

Framan við Tvísteinapart var Mjóipartur, þá var Bergljótarpartur og framan við hann tóku við slægjulönd í þessari röð: Mjóipartur (annar með því nafni) eða Mjóupartar, Grafarpartur, Breiðipartur, Gunnarslág, Hraunsteigur eða Hraunteigar og svo Hraunshöfuð sem var slægja beint upp af Hraununum en svo heitir hólapyrpingin mikla sem liggur þvert yfir dalinn heimantil við Stóravatn.[385] Túnin sem Bæjarmenn hafa ræktað upp í Vatnadal á síðustu áratugum ná fram að Gunnarslág.[386] Tóttir í Bergljótarparti vor nefndar Pálstótt eða Pálstóttir.[387] Lækur sem féll um Mjóapart var nefndur Djúpilækur.[388] Neðan við Breiðapart er Breiðapartseyri við ána.[389] Þar var líka slegið.[390] Í Grafarparti var mikið af mógröfum.[391] Neðan við Hraunsteig, Gunnarslág og Breiðapart er Holtasundalækur sem rennur samhliða ánni en beggja vegna við hann eru Holtasund.[392] Lækur þessi rennur í ána rétt fyrir framan Þúfuhyl sem er niður af Grafarparti.[393] Þar á næstu grösum var mikill þúfnastagggarður.[394] Í Holtasundum eru melholt og slægjublettir á milli.[395] Neðan við Holtasundin er langt holt við ána og heitir það Stórholt en svolítið framar er Stekkjarholt.[396] Þar hefur líklega verið stekkur og mótar enn fyrir tóttinni.[397] Bumbeyri heitir lítill hólmi í ánni niður af Holtasundum og á móts við Litlugröf (sjá hér bls. xx (68)) sem er hinum megin við ána.[398] Fremsti slægjuparturinn heiman við Stóravatn er sem áður sagði upp af Hraununum og heitir Hraunshöfuð en heiman við það gengur Hraunsgil niður úr fjallshlíðinni.[399]

Að sögn Guðmundar Guðmundssonar sem ólst upp í Fremri-Vatnadal á síðasta fjórðungi 19. aldar mátti fá nær 600 heyhesta af engjapörtunum hér norðan við ána og heiman við Stóravatn[400] og var það þó ekki nema liðlega fjórðungur af öllu því grasi sem í boði var á Vatnadalsengjum (sjá hér bls. xx (31, lausbl.)). Á þessu svæði, frá gamla túninu og fram að Vatni, voru það Breiðipartur og Hraunsteigur sem gáfu mest af sér, um 100 hesta hvor.[401]

Þrír fremstu engjapartarnir sem hér voru nefndir, Gunnarslág, Hraunsteigur og Hraunshöfuð, halda enn sínum gamla svip þó að hinum sem heimar eru hafi verið breytt í tún (sjá hér bls. xx (57)) en langt er nú síðan ljár hefur verið borinn hér í gras á óræktuðu landi.

Á leið okkar fram norðanverðan dalinn komum við að hringlaga tótt rétt heimantil við Hraunin. Ummál hennar er um það bil 15 metrar og má telja nær fullvíst að þetta sé gamalt sauðabyrgi. Nærri lætur að tótt þessi sé á mörkum Gunnarslágar og Hraunsteigs.[402] Aðeins ofar og enn nær Hraununum er svo önnur tótt með tveimur körmum og hefur máske verið beitarhús.

Vegalengdin frá gamla bæjarstæðinu í Fremri-Vatnadal og fram að Hraunum er aðeins liðlega einn kílómetri. Hin mikla þyrping grjóthóla sem nefnd er Hraun girðir sem áður sagði þvert yfir dalinn en alveg rétt framan við Hraunin komum við að Stóravatni. Segja má að vatnið eigi Hraununum tilveru sína að þakka. Það eru þau sem halda því í sínum skorðum. Stóravatn er um 700 metrar á lengd og breiddin víða um 400 metrar ef marka má Uppdrátt Íslands, blað 11, sem Landmælingar Íslands gáfu út árið 1977. Einhver veiði mun oftast hafa verið í vatninu. Nefna má að 14. ágúst 1911 fóru fjórir menn frá Suðureyri hingað með síldarvörpu og fengu í hana 460 silunga[403] og sumarið 1912 var norskur piltur, Ludvig Wollan er þá áttti heima á Suðureyri, að smíða bát sem nota átti til að veiða silung í Vatnadalsvatni.[404]

Í jaðri Hraunanna og alveg við norðurhorn vatnsins eru gamlar seltóttir sem eiga sér merkilega sögu því fullvíst má telja að það hafi einmitt verið hér sem síðasti kaþólski presturinn á Stað, séra Ari Jónsson, var með búsmala sinn í seli skömmu fyrir miðja sextándu öld. Önnur jörðin í Vatnadal var þá í eigu Staðarkirkju og í marktækum heimildum frá 17. öld er frá því greint að í tíð séra Ara hafi búsmali frá Stað verið hafður í seli fram á Vatnadal, hjá Vatninu þar sem enn sjáist augljós merki til þeirra seljatótta (sjá hér bls. xx (XXXIII, 60-60b)).

Hinar fornu seljatóttir eru hér enn mjög skammt frá vatnshorninu og slægjulandið hið næsta seljunum hefur nafn sitt frá þeim og heitir Seljakeldur.[405] Skammt frá tóttunum hefur líka verið stunginn mór og sést enn móta fyrir mógröfunum. Vettvangsskoðun leiðir í ljós að hér eru tvennar seltóttir. Þær sem stærri eru í sniðum og að því er virðist unglegri eru alveg við vatnsbakkann en hinar svolítið fjær, uppi í Hraunjaðrinum. Vegalengdin þarna á milli er þó ekki nema örfáir tugir metra. Við vatnsbakkann er tví- eða þrískipt tótt um 20 fermetrar að flatarmáli. Á litlum hól þar hjá hafa staðið tvö sambyggð hús og hefur grunnflötur þeirrar sambyggingar verið 4,5 x 4 metrar eða því sem næst. Þarna á hólnum virðist líka móta fyrir tótt af þriðja húsinu sem hefur verið mjög lítið og viss ummerki á vatnsbakkanum gætu bent til þess að þar hafi verið bátshróf.

Uppi í jaðri Hraunanna og aðeins fjær vatnsbakkanum eru svo aðrar seltóttir eins og fyrr var nefnt. Ein þeirra er 4,5 x 2 metrar og hjá henni kvíin þar sem selstúlkurnar mjólkuðu ærnar. Örskammt frá kvínni rennur lítill lækur og svolítið fjær eru tvær aðrar tóttir, hlið við hlið, önnur 4 x 2 metrar en hin 3 x 2 metrar. Enn fleiri leifar fornra mannvirkja eru sjáanlegar í Hraununum við norðurhorn Stóravatns svo hér er ekki um tæmandi upptalningu að ræða.

Um aldur seltóttanna verður fátt sagt með vissu. Enginn veit nú hvenær ær frá Vatnadal voru síðast mjaltaðar í seli. Á 19. öld var hér enginn seljabúskapur[406] en á 18. öld voru ær hafðar í seli á ýmsum bæjum í nálægum sveitum (sjá hér bls. xx) og má vera að sá háttur hafi þá einnig verið hafður á í Vatnadal. Enginn veit þó hvort svo hafi verið og það eina sem vitað er með vissu er að um miðbik 16. aldar voru ær séra Ara Jónssonar á Stað nytkaðar hér í þessu gamla seli hjá Vatninu. Að sú vitneskja skuli liggja fyrir er reyndar harla merkilegt því fáar seltóttir munu nú finnanlegar á landi hér sem tengjast með slíkum hætti nafngreindum kaþólskum presti. Dálítið merkilegt er líka að hvilftin hér uppi í fjallinu heitir Arahvilft[407] og má vel vera að hún sé kennd við Ara prest.. Hvilftin er heimantil við seltóttirnar[408] og blasir við frá þeim.

Hér var áður rakið með hvaða hætti seltóttirnar hjá vatnshorninu skiptast í tvennt en sú tvískipting bendir til þess að hér hafi verið sel frá báðum bæjunum í Vatnadal. Minnt skal á að séra Ari Jónsson á Stað sem hér var nefndur hafði á sínum tíma umráð yfir jörðinni Ytri-Vatnadal (sjá hér bls. xx (XXXIII, 60-60b)) sem einnig var nefnd Neðri-Vatnadalur og sú var skýringin á ítökum hans hér fram við Vatnið.

Seltóttirnar sem standa alveg við vatnsbakkann eru stærri og benda til meiri umsvifa en hinar sem fjær standa. Vera má að þær séu frá dögum séra Ara eða annarra Staðarpresta sem hér höfðu búsmala ís seli á sextándu öld. Hinar tóttirnar sem standa aðeins fjær vatnsbakkanum ættu þá að hafa fylgt Fremri-Vatnadal. Um þetta er þó ekkert hægt að fullyrða því til sanns vegar má færa að báðar séu hjá Vatninu og fræðilegur möguleiki að hinar miklu byggingar sem stóðu alveg á vatnsbakkanum hafi verið reistar á 17. eða 18. öld.

Áður en lengra verður haldið skal þess getið að í landi Vatnadals eru að minnsta kosti einar seltóttir auk þeirra sem hér hefur nú verið gerð grein fyrir. Þær tóttir nefnast Paurasel og eru vestantil í dalnum, í Hraununum við Litlavatn sem er nokkru heimar en Stóravatn (sjá hér bls. xx). Munnmæli herma að í Pauraseli hafi búsmali frá jörðinni Bæ í Staðardal verið nytkaður og er reyndar líklegt því Bæjarmenn áttu í margar aldir veruleg beitarréttindi í landi Vatnadals (sjá hér bls. xx (28-29)) og í einni heimild er tekið fram að þeir hafi haft Vatnadal vestanverðan til sumarbeitar.[409]

Auk seltóttanna við norðurhorn Stóravatns og þeirra í Pauraseli er vert að benda hér á einar tóttir enn sem kynnu að vera seltóttir. Þær eru norðan við vatnið og mun framar en hinar miklu tóttir við vatnshornið. Þessar síðast nefndu tóttir eru mjög skammt frá Vatninu, dálítið heimar en fremri vatnsendinn. Segja má að þær séu andspænis miðjum Vatnahjalla sem er í hlíðinni hinum megin við Stóravatn og vilji menn finna þessar tóttir er gott að hafa í huga að framan við þær verður norðurhlíð dalsins mun grýttari en verið hefur um sinn, séð með augum þeirra sem fram dalinn ganga. Tóttirnar sem þarna kúra eru fornlegar að sjá. Þær eru af þremur sambyggðum húsum. Tvö þeirra hafa staðið hlið við hlið en hið þriðja að baki þessara tveggja og þvert á þau. Svo virðist sem hvert þessara húsa hafi verið um fjórir metrar á lengd og breiddin varla meiri en tveir metrar. Við lauslega leit sumarið 1995 fannst engin kví hér í grennd og því er engan veginn víst að þetta hafi verið sel. Útilokað má heita að sel sextándu aldar prestanna á Stað hafi verið hér því allt er þetta svo smátt í sniðum en verið getur að einhver kotbóndinn í Vatnadal hafi forðum tíð komið sér upp seli eða beitarhúsi á þessum bletti.

Enn erum við stödd við norðurhorn Stóravatns hjá hinum merkilegu seljatóttum sem þar er að sjá og hér var áður lýst. Sé horft frá vatnshorninu til suðvesturs sjáum við að í 200 metra fjarlægð eða því sem næst stendur í Hraununum við vatnsendann grjóthlaðin bygging ærið stór að sjá og mun vera gamalt sauðabyrgi sem Guðmundur Guðmundsson frá Vatnadal lýsir með þessum orðum árið 1946:

 

Í hrauninu heiman við vatnið sér fyrir fjárbyrgi. Er það kringlótt, meðalmanni í öxl á hæð. Byrgið var óvíða hrunið til skamms tíma og þó svo mikið hlaðið yfir sig að nema mun þremur fetum lóðrétt. Byrgið tekur um 200 fjár.[410]

 

Í þessu mikla byrgi hefur fénaður Vatnadalsbænda getað leitað sér skjóls á fyrri tíð og hér hefur sauðum þeirra gefist kostur á að forða sér undan hríðum.

Byrgi þetta sem allt er grjóthlaðið mun reyndar aldrei hafa tekið þann fjölda fjár sem Guðmundur nefnir en er þó ærið stórt. Flatarmál þess mun vera 20-25 fermetrar og má ætla að þar hafi um það bil 70 kindur getað leitað skjóls. Byrgið er hólfað í tvennt með grjótvegg og er önnur króin liðlega þrefalt stærri en hin. Vera má að þetta mannvirki hafi um eitthvert skeið verið notað sem stekkur og minna rýmið hafi þá verið lambakró. Hið mikla grjótbyrgi er þó lengra frá bæjunum í Vatnadal en svo að slík notkun þess geti talist líkleg.

Skammt frá heimri enda Stóravatns og ekki langt frá nýnefndu grjótbyrgi er svolítill hólmi, sá eini í öllu vatninu, og heitir Lómshólmi.[411] Þar verpti stundum lómur.[412]

Frá vatnshorninu heima við Hraunin tökum við nú strikið fram dalinn og fylgjum norðurhlíðinni. Héðan eru um það bil þrír og hálfur kílómetri fram í dalbotn og er sú leið greiðfær. Á leið okkar frá Vatninu förum við enn um gömul engjalönd og hér er víða mikið gras. Slægjulandið upp frá vatnshorninu heitir Seljakeldur eins og fyrr var nefnt en síðan koma Rimar eða Rimi.[413] Framan við Rima taka við melholt og hér er Rauðaskriða uppi í hlíðinni.[414]

Framan við Rauðuskriðu tekur við slægjulandið Hagagarðar og nær að fremri enda Vatnsins eða því sem næst.[415] Upp af Hagagörðum eru Hagagarðshvolf í hlíðinni og Veturlönd hærra í fjallinu.[416] Þar þótti gott beitiland á vetrum.[417] Skarðið í fjallsbrúninni ofan við Hagagarða heitir Dyraskarð.[418] Svolítið framar en skarðið er Laugatindur og má heita að hann sé beint upp af bænum Laugum[419] sem er hér handan við fjallið. Séð frá Laugum bera þessi tvö kennileiti önnur nöfn (sjá hér bls. xx (XL, 62b, lausbl. 3-4)). Nokkru framar en Laugatindur er skarð í brúninni og heitir það Dagmálaskarð, eyktamark frá Vatnadal.[420] Tvö önnur kennileiti á fjallsbrúninni, Steinmaður og Haugadyr, eru svo alllangt fyrir framan Stóravatn (sjá hér bls. xx (62b)). Í munni heimafólks í Vatnadal var sjálft fjallið ofan við Stóravatn og hlíðina þar fyrir framan nefnt Laugafjall,[421] kennt við bæinn Lauga sem er hinum megin við það.

Í Hagagörðum, slægjulandinu norðan við Stóravatn, mun lengi hafa mótað fyrir gömlu bátshrófi[422] en þá tótt er nú ekki auðvelt að finna. Sagt er að fyrir ævalöngu hafi verið geymdur þarna bátur sem notaður var til veiða í Vatninu.[423] Við þann veiðiskap varð þó að fylgja settum reglum því ekki mátti styggja nykurinn sem hafðist við í þessu stóra vatni. Væri bannhelgin brotin gat farið illa og til marks um það höfðu menn þessa gömlu sögu:

 

Fyrir ævalöngu var bátur hafður þarna [í Hagagörðum] og notaður til veiða í vatninu en sá annmarki var á að ekki mátti bátur vera á því eftir miðjan aftan. Væri bátur þar lengur var talið að nykurinn myndi granda honum. Eitt sinn fórst bátur þarna og drukknaði þá bóndi úr Vatnadal og sonur hans. Ekki er vitað hvort þeir voru of seint á ferð en nykurnum var kennt um slysið. Sagt er að ekkjan, sem þarna missti í einu bæði mann og son, hafi mælt svo um að engum skyldi lánast að hafa bát við vatnið. Lagðist það því niður   … .[424]

 

Nykurinn í Stóravatni gekk líka stundum á land og birtist fólki sem grár hestur.[425]

Á flatlendinu framan við Stóravatn er engjapláss sem heitir Vatnseyrar[426] en engið í hlíðinni við vatnsendann og framan við hann heitir Fossengi.[427] Það nær frá Hagagörðum og fram að Leiti.[428] Fossengi dregur nafn af Stórafossi sem er myndarlegur foss í Langá neðan við fyrrnefnt Leiti.[429] Á fjallsbrúninni ofan við það er Steinmaðurinn,[430] mjór drangur sem dregur að sér athygli. Nokkru framar er skarð í fjallsbrúninni sem fólk í Vatnadal nefndi Haugadyr.[431] Skarð þetta er yfir Haugum en þeir eru á Kvíaneshlíð hér handan við fjallið (sjá bls. xx). Að öllum líkindum er þetta sama skarðið og fólkið sem bjó í Selárdal, norðan Súgandafjarðar, nefndi Miðmundaskarð.[432] Í munni fólksins sem bjó í Vatnadal á fyrrihluta þessarar aldar hét fjallið norðan við dalinn, ofan við Stóravatn og þar fyrir framan, Laugafjall,[433] kennt við bæinn Lauga sem stóð norðanundir þessu sama fjalli. (Sams konar setn.er á miðja bls. 44 EA)

Af öllum engjunum framan við Hraunin og norðan við Stóravatn og Langá, það er að segja Seljakeldum, Rima, Hagagörðum, Vatnseyrum og Fossengi, mátti að sögn Guðmundar Guðmundssonar frá Vatnadal fá samtals 820 hesta af heyi.[434] Allar Vatnseyrar, sem gáfu af sér 300 hesta, eru þá flokkaðar með þessum engjalöndum norðantil í dalnum en eyrarnar liggja beggja vegna árinnar.

Á eyrunum framan við vatnsendann og norðan árinnar er svolítill hóll í um það bil 100 metra fjarlægð frá vatnsbakkanum. Á þessum hól er mjög fornleg tótt um 7 metrar á lengd og 3 metrar eða svo á breiddina. Líklegast er að þetta sé gamalt heystæði en gera má ráð fyrir að Vatnadalsmenn hafi oft sett upp hey fram á dalnum síðla sumars og dregið heim að vetrinum yfir ísilagt vatnið (sbr. hér bls. xx (Gústi um Mópart í Vatnadal)). Á hólnum sem hér var síðast getið um og í næsta nágrenni hans kynnu að vera fleiri tóttaleifar sem þó er erfitt að greina við skyndiskoðun svo öruggt sé.

Frá hólnum framan við vatnsendann röltum við upp með Langá. Á þeirri leið komum við brátt að Stórafossi sem fyrr var nefndur en upp af honum er Leiti í norðurhlíð dalsins og ofar í hlíðinni lægð sem heitir Leitishvolf.[435] Næsti foss sem við komum að heitir Miðfoss og enn framar er Litlifoss, skammt neðan við ármót Fossár og Langár.[436] Grasteigar í norðurhlíð dalsins á móts við Litlafoss heita Lönguteigar.[437] Frá vatnsendanum fram að ármótum Fossár og Langár er um það bil einn og hálfur kílómetri. Fossá er lítil á sem kemur úr brekkunum neðan við Vesturkika en Langá á upptök sín í Norðurkika.[438]

Brekkan sem mest ber á fyrir dalbotninum heitir Girðisbrekka og nær hún að heita má þvert yfir dalbotninn.[439] Sá hluti Girðisbrekku sem er vestan við Fossá ber sérheitið Grasabrekka.[440] Neðan við Girðisbrekku eru Ártungur og ná yfir allt svæðið milli Fossár og Langár.[441] Þar er mikið um fjallagrös og víði.[442] Í Ártungunni mun stöku sinnum hafa verið heyjað og þá helst í hörðum árum, síðast 1918.[443]

Á göngu okkar fram dalinn, frá Stóravatni og fram í Ártungur, er gott að virða fyrir sér kikana þrjá í fjallsbrúninni fyrir dalbotninum, Norðurkika, Miðkika og Vesturkika. Um alla þessa kika er auðvelt að komast á efstu brún og um þá lágu gönguleiðir sem hér hefur áður verið gerð grein fyrir (sjá bls. xx (23b-25)). Upp í Norðurkika liggur leiðin af Girðisbrekku sem fyrr var nefnd upp á Háubrekku sem ber nafn með réttu og ofan við hana er Fornmannaleiðisbrekka.[444] Á Háubrekku fannst tófugreni í júlímánuði árið 1894[445] og ekki ólíklegt að lágfóta hafi oftar grenjað sig þar. Við Fornmannaleiðisbrekku eru upptök Langár.[446] Á brekku þessari eða rétt við hana eru sagðar vera mishæðir nokkrar er kallaðar hafi verið Fornmannaleiði[447] en allt er það tal mjög óljóst. Brekka þessi er sem fyrr var sagt neðan við Norðurkika og hefur einnig verið nefnd Norðurkikabrekka.[448] Þústirnar sem menn nefna Fornmannaleiði eru í norðurenda brekkunnar.[449]

Að þessu sinni reynum við ekki að leita þær uppi en látum nægja að komast á Girðisbrekku. Henni fylgjum við síðan vestur með fjallahlíðunum í botni dalsins og nemum ekki staðar fyrr en við Fossá þar sem Grasabrekka tekur við af Girðisbrekku eins og áður var nefnt. Á Grasabrekku er mikið um fjallagrös eins og nafnið bendir til. Ofan við hana er Vesturkikabrekka og þar liggur leiðin upp í Vesturkika.[450] Á þá bröttu braut leggjum við ekki en höldum þess í stað niður í móti og stefnum á engjalöndin sem fremst eru í dalnum hér að vestanverðu.

Neðan við Grasabrekku er Fossabrekka sem dregur nafn af svolitlum fossi í ánni Fossá.[451] Síðan kemur Steinabrekka[452] og neðan við hana er Mópartur eða Mópartar, fremsta engjaplássið í vestanverðum Vatnadal.[453] Að sögn Guðmundar Guðmundssonar sem hér hefur áður verið vitnað til mátti fá 450 hesta af heyi í Mópörtunum og var heyfengurinn sem þar fékkst meiri en af nokkru öðru slægjulandi í öllum Vatnadal.[454] Hér var líka gott mótak eins og nafnið á pörtunum bendir til. Óljóst er nú hvenær mór var fyrst tekinn upp í Mópörtum en minnt skal á að getið er um mótak í Vatnadal árið 1710 sem þá er reyndar sagt vera lélegt (sjá hér bls. xx (30)). Í búnaðarskýrslum frá árunum 1821-1834 er þess líka jafnan getið að fólkið í Vatnadal brenni mó.[455]

Á árunum 1920-1925 var mónum hlaðið upp í stóra hrauka hér framfrá á haustin og tyrft yfir.[456] Á veturna var hann svo dreginn heim til bæjar og þótti erfitt verk.[457] Á þeim árum var einnig heyjað hér í Mópörtum og var heyið flutt heim á hestum þegar það var orðið þurrt.[458] Hver ferð með baggahestana tók um það bil 2 tíma, fram og til baka, og þótti mjög gott ef tókst að fara fimm eða sex ferðir yfir daginn.[459]

Heiman við Móparta tekur við Fjósapartur sem var líka mikið slægjuland og talinn geta gefið af sér um það bil 250 hesta af heyi.[460] Að sögn tveggja heimildarmanna sem báðir þekktu vel til í Vatnadal voru tóttabrot eða jafnvel margar tóttir sjáanlegar í Fjósaparti á fyrrihluta þessarar aldar.[461] Hugmyndir voru þá uppi um að í Fjósapartinum hefði á fyrri tíð verið sel frá Vatnadal[462] eða jafnvel nokkur byggð.[463] Ýtarleg leit að þessum tóttum sumarið 1995 bar hins vegar engan árangur því enginn hinna fjölmörgu þúfnaklasa í partinum bar ótvíræð merki þess að þar hefði staðið hús eða annað mannvirki. Vera má að tóttir leynist hér engu að síður en fullyrðingum um það verður að taka með fyrirvara. Á hitt ber samt að líta að nafnið Fjósapartur bendir til þess að hér hafi um eitthvert skeið verið sumarfjós, það er að segja sel þar sem kýrnar voru hafðar á sumrin. Líklegt er að kvíaærnar hafi þá einnig verið mjaltaðar á sama stað.

Hið svartbrýnda fjall ofan við Móparta heitir Hádegishorn og var eyktamark frá Vatnadal.[464] Klettabrún þess er í liðlega 600 metra hæð yfir sjávarmáli. Neðan við klettana í háfjallinu tekur við skriðurunnin fjallshlíð og kallast Hornurðir.[465] Fjósaparturinn sem hér var áður nefndur er heimantil við þessar urðir og nær aðeins lengra en að fremri endanum á Stóravatni.[466] Slægjulöndin vestan við Stóravatn heita Keldur og Rimi og eru Keldur framar, næst Fjósaparti.[467] Þær taka við af Fjósaparti rétt heimantil við vatnshornið og ná alveg á móts við heimri endann á Vatnahjalla sem er áberandi hjalli hér uppi í hlíðinni.[468] Næst kemur svo Rimi sem er heimantil við Vatnahjalla.[469] Samanlagður heyfengur af slægjulöndunum vestantil í dalnum, það er að segja Mópörtum, Fjósaparti, Keldum og Rima gat að sögn Guðmundar Guðmundssonar orðið 815 hestar.[470] Sé 40 böggum úr Stórugröf, sem líka er vestantil í dalnum en mun heimar, bætt við hækkar talan upp í 835 hesta[471] og nær þá að vera um 39% af öllum þeim heyfeng sem hugsanlegt var talið að mætti skrapa saman af Vatnadalsengjum (sjá hér bls. xx (31, lausbl.)).

Öllum slægjulöndunum í Vatnadal var skipt á milli jarðanna tveggja í dalnum, Fremri-Vatnadals og Ytri-Vatnadals.[472] Í dagbók Einars Jónssonar sem var húsmaður í Ytri-Vatnadal sumairð 1893 sést að fólkið á þeim bæ heyjaði þá í Tvísteinaparti, Breiðaparti, Gunnarslág og Fjósaparti.[473] Þrír fyrst nefndu partarnir eru allir norðantil í dalnum og heiman við Stóravatn (sjá hér bls. xx (57-57b)) en Fjósapartur er vestantil í dalnum og framan við vatnið eins og hér hefur þegar verið nefnt.

Ólafur Veturliðason sem fæddist í Vatnadal árið 1928 og átti þar heima fram að tvítugsaldri minnist þess að nokkur engjapláss sem ekki eru nefnd í dagbók Einars fylgdu líka Ytri-Vatnadal og nefnir í því sambandi báða Mjóupartana, Hraunshöfuð, Seljakeldu og Rimann norðan við Stóravatn[474] (sbr. hér bls. xx (57 og 61)). Á árunum kringum síðustu aldamót átti Þorbjörn Gissurarson, bóndi á Suðureyri, part af Ytri-Vatnadal (sjá hér bls. xx (XXXVII, 24)) og í ágústmánuði árið 1893 var fólk frá honum að heyja í Hraunsteig[475] sem var næstfremsta slægjulandið heiman við Stóravatn og að norðanverðu í dalnum (sjá hér bls. xx (57)). Sýnist því líklegt að Hraunsteigur eða a.m.k. einhver hluti af því engjaplássi hafi fylgt Ytri-Vatnadal. Verið getur að sumum hinna fornu slægjulanda hafi verið skipt milli beggja jarðanna en vitneskja um það liggur þó ekki fyrir.

Hér að framan hafa verið nefnd nöfn tuttugu engjaparta og enn má bæta þremur við sem eru heiman við Stóravatrn og að vestanverðu í dalnum en það eru Stóragróf, Litlagróf og Krókur.[476] Af öllum þessum slægjulöndum virðast a.m.k. tíu hafa fylgt Ytri-Vatnadal eins og hér hefur þegar verið nefnt en fullvíst er að flest hinna fylgdu Fremri-Vatnadal.[477] Þau voru: Túnpartur, Bergljótarpartur, Grafarpartur, Holtasund (sjá hér bls. xx 57-57b)), Hagagarðar, Vatnseyrar, Fossengi (sjá hér bls. xx (61-62)), Mópartur, Keldur, Riminn vestan við Stóravatn (sjá hér bls. xx (64-65b)), Litlagróf, Stóragróf og Krókur (sjá hér bls. xx (68-69)). Fram skal tekið að sumir hinna liðlega tuttugu engjaparta í Vatnadal voru aldrei slegnir á búskaparárum síðasta bóndans sem þar bjó[478] og óljóst er hvorri Vatnadalsjörðinni Vatnseyrarnar fylgdu og líka Keldur.[479]

Við höfum nú haldið kyrru fyrir um sinn undir Vatnahjalla, sem er vestantil við Stóravatn, og gert hér tilraun til að rifja upp hvernig engjalöndin skiptust milli Ytri- og Fremri-Vatnadals þó að fullkomin lausn á þeirri gátu sé ekki í boði. Nú er mál að halda göngunni áfram og svipast um á nýjum slóðum. Á leið okkar til bæja komum við fyrr en varir að urðinni miklu við heimri enda vatnsins en hún heitir Stórurð[480] og hryggurinn þar í hlíðinni Stórurðarhryggur.[481] Á fyrrihluta tuttugustu aldar sáust hér enn leifar af merkjagarði.[482] Ætla má að slíkir garðar hafi verið hlaðnir snemma á öldum þegar allar jarðirnar í Staðardal áttu beitarréttindi á Vatnadal (sjá hér bls. xx (27-29b)).

Stórurð ber nafn með réttu og er hvergi greið yfirferðar. Neðan við Stóruurð og heimantil við Stóravatn, alveg við vatnsendann, liggja Hraunin, hin tilkomumikla grjóthólaþyrping sem nær yfir þveran dalinn og hér var áður sagt frá. Þegar komið er að Hraununum hér að vestanverðu á göngu heim dalinn er víða nokkuð torfært að komast fyrsta spölinn frá vatnsendanum en síðan verður greiðfærara. Í klungrunum við heimri enda Vatnsins rekumst við á lítinn grjóthlaðinn kofa sem gæti hafa verið smalakofi. Aðeins norðar, þar sem Vatnið mjókkar að mun klöngrumst við yfir urðarvegginn og komum eftir örfáar mínútur að Litlavatni sem lúrir hér í Hraununum, aðeins neðar í dalnum en stóra vatnið. Litlavatn mætti eins kalla tjörn vegna smæðar sinnar en vatn mun það þó hafa verið nefnt alla tíð því augljóst virðist að nafnið Vatnadalur skýrist af því að vötnin séu og hafi verið tvö. Án Litlavatns hefði nafnið orðið Vatnsdalur. Stærð þessa litla vatns mun reyndar vera svolítið breytileg því vatnsmagnið er ekki alltaf hið sama. Meginkvísl Langár sem fellur úr Stóravatni kemur undan Hraununum, en árspræna fellur úr Litlavatni til norðurs og sameinast meginkvísl Langár hér á næstu grösum. Árgljúfur heitir þar sem farvegur Langár liggur gegnum Hraunin[483] og áin komin úr sínum hulduheimum. Neðan við gljúfrin er Arnarhylur og enn neðar Djúpihylur.[484]

Spölkorn heimantil við Litlavatn og vestan árinnar er Paurasel.[485] Svo má heita að selið sé á brún grýttrar lyngbrekku sem liggur niður að vestustu kvísl árinnar. Í Pauraseli eru fornar en mjög greinilegar seltóttir. Stærstu tóttirnar eru þrjár, allar grjóthlaðnar. Tvær þeirra standa hlið við hlið og er önnur 7 x 2,5 metrar að flatarmáli en hin 4 x 2 metrar. Þriðja tóttin sem er 5 x 2 metrar eða því sem næst er alveg rétt hjá hinum tveimur. Þessi síðastnefnda tótt gæti hafa verið kví. Í Pauraseli hafa líka verið tveir eða fleiri smærri kofar sem enn sér móta fyrir. Á síðari hluta 19. aldar mun fólkið í Vatnadal hafa talið að það hafi verið Bæjarmenn sem á fyrri tíð höfðu búsmala sinn í þessu seli.[486] Þá var langt um liðið frá því ær voru síðast mjaltaðar í Pauraseli en líklegt má telja að slík munnmæli hafi lifað vegna þess að Bæjarmenn áttu beitarréttindi fyrir kvíaær á vestanverðum Vatnadal (sjá hér bls. xx (28-29)) og ef til vill eingöngu fyrir heiman Stórurðarhrygg því þar var að sögn merkjagarður eins og hér var áður nefnt (sjá hér bls. xx (65b)). Af þessum ástæðum má reyndar telja mjög líklegt að Bæjarmenn hafi ráðið ríkjum í Pauraseli á blómaskeiði þess.

Nafnið Paurasel kallar á skýringu en sem kunnugt er var paur eða pauri eitt margra nafna á sjálfum fjandanum. Tóttunum í Pauraseli hefur reyndar fylgt alllengi sú saga að það hafi verið kölski sem byggði þessa fornu veggi. Meginefni sögunnar er þetta:

 

Eitt sinn kom ókenndur maður að Vatnadal og dvaldi þar um skeið hjá guðhræddum bónda. Að beiðni bóndans tókst gesturinn á hendur að byggja fyrir hann sel fram við Hraunin og vestan við ána. Hinn óþekkti gestur setti þó eitt skilyrði sem var að hann fengi að launum hina fyrstu lifandi veru sem kæmi í þetta nýja sel. Bóndinn í Vatnadal féllst á það en áskildi á móti að verkið yrði vel af hendi leyst. Verkið gekk hraðar en vænta mátti og fór bónda að gruna að ekki væri hér allt með felldu. Eftir örfáa daga hafði gesturinn lokið við að koma selhúsunum upp og voru veggir þeirra hinir stæðilegustu. Bóndi fór nú að skoða þessi handaverk ókunna mannsins og hafði með sér hundgrey. Hann varaðist að ganga sjálfur beint inn í húsin en fleygði hundkvikindinu inn um dyrnar. Brá þá svo við að hundurinn féll dauður niður en hleðslumeistarinn sem var enginn annar en Kölski hafði vænst þess að bóndinn sjálfur gengi fyrstur inn. Það var sál hins guðhrædda bónda í Vatnadal sem paurinn úr neðra girntist en varð nú að láta sér hundinn nægja.

 

Efnisatriði þessarar sögu eru fengin úr ritgerð Kristjáns G. Þorvaldssonar Örnefni og sagnir úr Súgandafirði en þar er kölski sagður hafa byggt stekk og kví þar sem nú er Paurasel.[487] Vera má að selið hafi verið notað sem stekkur þegar seljabúskapur hafði lagst niður og til mun vera nafnið Skollastekkur á þessum sama stað.[488]

Í Pauraseli er gott að hlusta á árniðinn og njóta þess sem í boði er á mörkum draums og veruleika. Rétt fyrir neðan seltóttirnar er svolítill foss í ánni. Uppi í hlíðinni framantil við Paurasel eru miklir grjóthólar sem heita Tröllaborgir[489] en svolítið neðan og heimantil við selið er grösugur teigur í hlíðinni. Þennan teig nefndu menn Smjörkinn og þótti mjólkin úr kvíaánum sem þar gengu kostameiri en almennt var.[490] Enn neðar í hlíðinni og aðeins heimar á dalnum er grashvolfið Litlagröf en Stóragröf er annað og stærra grashvolf nær bæjartóttunum í Hraunakoti.[491] Í Stórugröf fengust 20 hestar af heyi (sjá hér bls. xx (65b)). Á milli Litlugrafar og Stórugrafar er Gildruhóll.[492] Ofan við Stórugröf er Borgahlíð.[493]

Hjallinn neðan við hana heitir Kúahjalli[494] og er hann fremst á Flötunum er svo heita.[495] Er þá komið í nánd við Kýrskriðu á landamerkjum Vatnadals og Bæjar en hér hefur áður verið gerð grein fyrir þeim (sjá hér bls. xx (26b-27)).

Ofan við Borgahlíð eru Borgir, grjóthólar upp undir háfjallinu.[496] Milli Borga og Tröllaborga sem fyrr voru nefndar er Borgahnúkur [497] en fjallið sjálft heitir Sunddalshorn,[498] kennt við afdalinn sem er hinum megin við það. Upp af Borgum er skarð í fjallsbrúninni og heitir Nónskarð.[499] Var það eyktamark frá Vatnadal.[500] Fyrir framan Nónskarð er svolítil gjá í fjallinu og heitir Miðmundagjá.[501] Um Hádegishorn var áður talað (sjá hér bls. xx (65)).

Frá Pauraseli er spölurinn stuttur heim í Hraunakot, hjáleiguna vestan ár, aðeins liðlega einn kílómetri. Gott er að ganga skammt frá ánni um Litlugróf sem fyrr var nefnd og hjá Gildruhól. Síðast liggur leiðin um gróið sléttlendi á vesturbakka Langár og heitir þar Krókur en upp af honum er Stóragróf sem fyrr var nefnd, undir hlíðinni.[502] Hér rennur áin á sléttum botni, lygn og tær. Þennan hluta árinnar nefndu menn Langafljót og nær það frá gamla Vatnadalstúninu og fram fyrir Krók þar sem lygnan endar.[503] Við göngum hægt í hlað og tyllum okkur niður á tóttarvegg í Hraunakoti.

 

Bærinn Hraunakot stóð vestan við ána, nær beint á móti bæjarhúsunum í Fremri-Vatnadal. Tóttirnar eru hér enn við fremri jaðar Hraunanna, hinna miklu grjóthóla sem fylla dalinn rétt neðan við túnið í Vatnadal. Segja má að Hraunin séu það auðkenni á landslaginu sem mest ber á hér í Vatnadal, alveg frá dalsmynninu og fram að Stóravatni. Mikilfenglegust eru þau á tveimur stöðum, heimantil við Stóravatn og svo hér neðan við Hraunakot og Vatnadalstúnið. Við fyrsta tillit sýnast þau ef til vill hrjóstrug en sé betur að gáð kemur í ljós að þau er full af kjarnmiklum gróðri.

Sá sem fyrstur byggði sér bæ hér vestan við ána var Friðbert Guðmundsson, áður bóndi og hreppstjóri í Fremri-Vatnadal. Bæ þennan, sem hann nefndi Hraunakot, mun Friðbert hafa reist árið 1883[504] en 2. september á því ári kvæntist hann að annað sinn og gekk þá að eiga unga frænku sína Sigmundínu Sigmundsdóttur.[505] Að sögn Guðmundar Guðmundssonar, dóttursonar Friðberts, sem var sjö ára drengur í Fremri-Vatnadal árið 1883, var hér áður fjárrétt og kvíaból.[506]

Guðmundur segir reyndar að afi sinn hafi reist bæinn í Hraunakoti 1884[507] en Magnús Hjaltason sem var góðkunningi Friðberts á hans síðustu árum segir það hafa verið 1883.[508] Sama ártal nefnir Valdimar Þorvaldsson, dóttursonur Friðberts.[509] Líklegra verður að telja að ártalið sé rétt hjá Magnúsi og Valdimar því Kristjana, dóttir Friðberts og Sigmundínu, fæddist í Hraunakoti í apríl vorið 1884.[510] Fullvíst er að Friðbert bjó í Hraunakoti frá 1883 eða 1884 og allt til dauðadags vorið 1899[511] en skortur á nákvæmni veldur því að í sóknarmannatölum prestsins er hann jafnan skráður í Vatnadal á þessum árum nema árið 1890 en þá er hann sagður búa í Hraunakoti.[512] Þessi ónákvæmni séra Janusar er vítaverð en orð hans má þó til sanns vegar færa því kotið stóð í landi Vatnadals.

Þegar Friðbert byggði Hraunakot og settist hér að var hann kominn á sjötugsaldur en Sigmundína kona hans var 40 árum yngri, fædd 5. ágúst 1862.[513]

Hér hefur áður verið gerð grein fyrir foreldrum Friðberts (sjá bls. xx (XXVI, 61-65 ásamt lausbl.)) en hann var fæddur á Kaldá í Önundarfirði þann 17. desember árið 1822.[514] Átján ára gamall fluttist hann frá Görðum í Önundarfirði til Súgandafjarðar og þrjú næstu ár var hann vinnumaður hjá ekkjunni Sigurfljóð Guðmundsdóttur sem bjó í Botni.[515]

Árið 1845 var Friðbert Guðmundsson vinnumaður hjá Þórarni Einarssyni, búandi ekkjumanni á Suðureyri.[516] Þar var þá tvíbýli og á hinum bænum bjó Þorleifur Þorkelsson hreppstjóri sem líka var ekkjumaður.[517] Þorleifur var þá liðlega fimmtugur en bústýra hans var ung stúlka frá Hóli á Hvilftarströnd í Önundarfirði, Arnfríður Guðmundsdóttir að nafni.[518] Þau Friðbert og Arnfríður höfðu verið nágrannar á unglingsárunum því bæði áttu þá heima á Hvilftarströndinni, hún á Hóli en hann í Görðum.[519] Vera má að þau hafi þá þegar bundist heitum en í hjónaband gengu þau 28. september árið 1848.[520] Friðbert var þá enn vinnumaður hjá Þórarni Einarssyni á Suðureyri og Arnfríður húskona þar.[521] Arnfríður var þremur árum og átta mánuðum eldri en Friðbert, fædd 27. apríl 1819 á Höfða í Dýrafirði (sjá hér bls. xx (44b-45)), en frá foreldrum hennar, þeim Guðmundi Pálssyni og Halldóru Guðmundsdóttur, hefur áður verði sagt í þessu riti (sjá hér bls. xx (XXVI, 48b-49b)).

Fyrsta hjónabandsveturinn 1848-1849 voru Friðbert og Arnfríður vinnuhjú á Stað í Súgandafirði hjá séra Andrési Hjaltasyni en það var síðasta ár hans í embætti sóknarprests á Stað.[522] Næsta fardagaár var Friðbert vinnumaður en Arnfríður húskona hjá Guðmundi Guðmundssyni sem þá var farinn að búa á Suðureyri.[523] Þaðan fóru þau að Staðarhúsum ytri vorið 1850 og voru þar vinnuhjú hjá Friðrik Benediktssyni í eitt ár.[524] Næsta ár voru þau svo í húsmennsku á Stað hjá séra Arngrími Bjarnasyni.[525]

Vorið 1852 fengu þau Friðbert og Arnfríður Fremri-Vatnadal til ábúðar og bjuggu þar allt til ársins 1875 eða í 23 ár.[526] Þegar Friðbert hóf búskap í Vatnadal var hann tæplega þrítugur að aldri en orðinn 52ja ára þegar hann hætti að búa. Með Arnfríði konu sinni eignaðist hann sex börn sem öll fæddust á árunum 1849-1858.[527] Fjórar dætur komust upp, Ingibjörg, Stefanía, Sigríður og Kristín en tvö börn misstu þau hjónin sumarið 1860, Guðmund nær 7 ára og Jórunni 4 ára.[528]

Flest árin sem Friðbert Guðmundsson bjó í Fremri-Vatnadal hafði hann alla þá jörð til ábúðar (sjá hér bls. xx (45)) en bú hans mun aldrei hafa verið stórt. Árið 1860 bjó hann með 2 kýr, 1 kvígu, 13 ær, 5 gemlinga og 2 hesta.[529] Tíu árum síðar var bústofninn 1 kýr, 21 ær og 16 gemlingar ef marka má búnaðarskýrslur.[530] Árið 1860 átti Friðbert lítinn bát sem var 2ja eða 3ja manna far[531] en árið 1870 var hann bátlaus.[532] Á heimili Friðberts í Fremri-Vatnadal voru oftast eitt eða tvö vinnuhjú og flest virðast þau hafa orðið fjögur.[533] Á árunum 1861-1863 var faðir Friðberts, Guðmundur Jónsson, hjá honum í Vatnadal, þá háaldraður maður, og dó þar 28. september 1863, talinn hálfníræður.[534]

Á yngri árum og á búskaparárum sínum í Fremri-Vatnadal mun Friðbert jafnan hafa verið við sjóróðra á vorin eins og almennt var og er sagt að hann hafi lengi verið formaður.[535] Valdimar Þorvaldsson staðhæfir að Friðbert hafi lengi átt fjögra manna far og yfirleitt haft með sér einn vanan mann í vorróðrum og fjóra drengi sem fyrst voru að fara til sjávar.[536]

Á manndómsárum sínum fór Friðbert líka oft í hákarlalegur að vetrinum með öðrum Dalmönnum[537] en mun aldrei hafa verið formaður í slíkum leguferðum.[538] Hákarlaskip Dalmanna á árunum kringum 1870 hét Norðri og mun hafa verið sexæringur frá Stað (sjá hér bls. xx (XXXV, 29, lausbl.)). Á því var Friðbert í skiprúmi[539] og til er saga um framgöngu hans á hafi úti þegar skipið fyllti. Er hún á þessa leið:

 

Friðbert var úrræðasnjall og kjarkmikill. Það var eitt sinn í leguför á Norðra að þeir fengu áfall svo mikið að skipið fyllti. Féllst þá nokkrum hásetanna hugur, töldu þýðingarlaust að vera við austur því að við ekkert yrði ráðið og fóru að biðja fyrir sér. Ætla má að Friðbert hafi ekki verið málstirður er hann fór að hvetja þá til að halda áfram að ausa. Hélt hann að þeir gætu jafnframt beðið bænir sínar og þess skyldu þeir gæta að í guðsorði væri manni boðið að bjarga lífi sínu eftir getu og ef það tækist ekki, þá myndu þeir hafa nógar syndir fyrir að svara þótt þeir bættu ekki við að brjóta það boðorð. Mennirnir tóku þá til starfa og varð skipið brátt þurrausið og náðu þeir heilir til lands. Sögðu skipverjar frá hvað dugnaður og óbilandi kjarkur, ásamt góðri stjórn, gat áorkað.[540]

 

Í embættisbókum prestanna á Stað og í Holti sést að Friðbert hefur verið talinn efnilegur unglingur og vel að sér um margt síðar á ævinni. Hann var fermdur í Holti vorið 1836 af séra Jóni Ásgeirssyni, síðar á Álftamýri, sem segir að piltur þessi sé vel gáfaður og siðsamur.[541] Ellefu börn fermdust í Holti þetta vor og lætur presturinn þess getið að þau hafi öll lært það sem prentað var með stóru letri í barnalærdómsbókinni en Friðbert og stúlkan Vilborg Markúsdóttir á Kroppstöðum, síðar húsfreyja á Grafargili (sjá hér bls. xx (XIX, 32b, lausbl.)), höfðu auk þess lært allt sem þar var skráð með smáu letri.[542] Síðar á ævinni fékk Friðbert oft loflegar umsagnir hjá prestunum. Má sem dæmi nefna að séra Stefán P. Stephensen í Holti, sem þjónaði Staðarprestakalli frá 1863 til 1884, segir árið 1865 að Friðbert bóndi í Vatnadal sé mæta vel að sér og tólf árum síðar orðar sami prestur umsögn sína um Friðbert svo að hann sé mæta vel uppfræddur.[543]

Hér hefur áður verið frá því greint að á búskaparárum sínum í Fremri-Vatnadal var Friðbert hreppstjóri í 8 ár (sjá hér bls. xx) og að sögn veitti hann tveimur öðrum hreppstjórum mikið liðsinni við skriftir.[544] Sáttanefndarmaður var Friðbert líka mjög lengi og gegndi sem slíkur starfi sáttasemjara í deilum er upp komu manna á milli í Suðureyrarhreppi. Sighvatur Grímsson Borgfirðingur á Höfða í Dýrafirði segir í minningarorðum að Friðbert hafi verið sáttanefndarmaður í nær 50 ár og ekkert mál hafi farið fyrir rétt frá hans sáttaumleitan.[545] Á Kollabúðafundi sem haldinn var árið 1856 voru tilnefndir þrír menn í hverjum hreppi á Vestfjörðum til að gangast fyrir fundarhöldum heima hjá sér og taka þar til umræðu þau mál sem mestu varða fyrir land og lýð eins og komist er að orði í samþykkt Kollabúðafundarins.[546] Friðbert í Vatnadal var einn þeirra þriggja manna í Súgandafirði sem fundarmenn á Kollabúðum fólu þetta verkefni en hinir tveir voru Guðmundur Guðmundsson, hreppstjóri á Suðureyri, og Lárentíus Hallgrímsson, bóndi á Gelti.

Allt sýnir þetta að Friðbert Guðmundsson hefur notið mikils trausts og gott orð af honum farið. Allmargar sögur af þessum bóndamanni eru til í handritum og einnig á prenti. Flestar þeirra eru skráðar af Magnúsi Hjaltasyni[547] en sumar af dóttursonum Friðberts, Kristjáni G. Þorvaldssyni[548] og Valdimar Þorvaldssyni.[549] Þeir Kristján og Valdimar voru 17 og 20 ára þegar afi þeirra andaðist og mundu vel eftir honum. Magnús Hjaltason var líka allvel kunnugur gamla sáttasemjaranum í Hraunakoti á efstu árum hans[550] en sögum sínum um hann safnaði Magnús hjá öðrum er þekkt höfðu Friðbert á hans fyrri árum. Magnús skráði sögurnar haustið 1900[551] en þá var aðeins liðið rösklega eitt ár frá því hinn fyrrverandi hreppstjóri safnaðist til feðra sinna.

Mörgum af þessum sögum Magnúsar er ætlað að sýna orðfimi Friðberts en í öðrum er greint frá ýmsum uppátækjum hans við skál á fyrri tíð. Allt eru það saklaus gamanmál, sönn eða login, en Magnús segir á einum stað að karlinn hafi verið allmikill drykkjumaður og þó helst á yngri árum.[552] Ýmsir niðjar Friðberts töldu sögur Magnúsar ekki gefa rétta mynd af honum[553] og kann það vel að vera rétt en þegar þær komu fyrst á prent voru liðin fimmtíu ár frá dauða gamla mannsins í Hraunakoti og enginn á lífi sem þekkti karlinn á hans yngri árum. Ein af títtnefndum sögum Magnúsar Hjaltasonar er svona:

 

Súgfirðingar voru einu sinni sem oftar í hákarlaelgu. Var Friðbert þar með svo og Guðmundur Jóhannesson [á Langhól – innsk. K.Ó.] en eigi vitum vér hver formaður var. Höfðu þeir sel í beitu sem rommi hafði verið hellt í („rommsel”). Þegar kom til hafs langaði Friðbert í vín. Náði hann þá rommi úr selnum og drakk en mælti síðan: „Ekki er það gott en engan drepur það. Smakka þú nú Guðmundur Jóhannesson.” Er síðan haft fyrir orðtak: Ekki er það gott en engan drepur það.[554]

 

Eitthvað mun Friðbert hafa sopið af brennivíni á yngri árum. Til marks um það er ekki aðeins hægt að vísa í sögur Magnúsar Hjaltasonar heldur líka í orð dóttursona Friðberts, þeirra Kristjáns og Valdimars Þorvaldssona.[555] Á elliárunum í Hraunakoti mun hann líka hafa hýrgað sig stöku sinnum sem sést á því að á árunum 1887-1890 keypti þessi fyrrverandi hreppstjóri ellefu brennivínsflöskur hjá útibúi Ásgeirsverslunar á Flateyri og að auk eina rommflösku og hálfa koníaksflösku.[556] Á þessum fjórum árum kaupir Friðbert þrjár flösku á ári að jafnaði og svo koníakstárið að auk. Brennivínsflaskan kostaði þá 65 aura.[557]

Hér var þess áður getið að Friðbert hætti að búa árið 1875 og sleppti þá öllum búsforráðum í hendur Stefaníu dóttur sinnar og eiginmanns hennar, Guðmundar Jónssonar (sjá hér bls. xx (45)). Friðbert og Arnfríður kona hans sátu þó um kyrrt í Fremri-Vatnadal og voru þar í húsmennsku næstu árin.[558]  Arnfríður Guðmundsdóttir, eiginkona Friðberts, andaðist 27. mars 1878[559] tæplega 59 ára að aldri (sjá hér bls. xx (44b)) en hann sat áfram í Vatnadal hjá Guðmundi og Stefaníu, kallaður húsmaður.[560]

Vorið 1879 varð sú breyting á hjúahaldi í Fremri-Vatnadal að þangað réðust tvær nýjar vinnukonur, Elín Sigmundsdóttir sem var liðlega sextug og sonardóttir hennar, Sigmundína Sigmundsdóttir, sem þá var að verða sautján ára.[561] Elín sem fæddist í Botni árið 1818[562] hafði alla tíð átt heima í Súgandafirði[563] en hún og Friðbert í Vatnadal voru náskyld því Ingibjörg, móðir Friðberts, og Sigmundur, faðir Elínar voru systkini og höfðu flust til Súgandafjarðar frá Hanhóli í Bolungavík á unglingsárum[564] (sbr. hér bls. xx (43b-44)). Elín hafði verið gift Jóni Torfasyni, bónda í Botni og áður í Klúku, sem andaðist árið 1866[565] og fimm árum fyrr höfðu þau misst einkabarn sitt, Sigmund Jónsson, föður Sigmundínu.[566]

Sigmundína Sigmundsdóttir, sem kom 16 ára gömul í Vatnadal með ömmu sinni vorið 1879, var fædd í Botni í Súgandafirði 5. ágúst 1862, dóttir nýnefnds Sigmundar, er hafði dáið við voveiflegt tilfelli réttum 9 mánuðum fyrr, og ekkju hans, Sigríðar Sigurðardóttur.[567] Sigmundína ólst upp í Botni hjá Sigríði móður sinni og seinni manni hennar, Kristjáni Þorgilssyni, en árið 1875 fylgdi hún Elínu ömmu sinni úr Botni að Laugum. Til Ingibjargar, elstu dóttur Friðberts Guðmundssonar í Vatnadal, og eiginmanns hennar, Guðmundar Guðmundssonar.[568] Hjá Ingibjörgu, frænku sinni á Laugum voru þær báðar í þrjú ár og þar átti Sigmundína heima þegar hún var fermd vorið 1877. Prestur segir þá að hún sé sæmilega uppfrædd og allsiðlát.[569]

Of sterkt væri til orða tekið að kalla Sigmundínu fórsturdóttur Ingibjargar Friðbertsdóttur á Laugum en undir hennar verndarvæng dvaldist hún þó í þrjú ár á viðkvæmu aldursskeiði, kom að Laugum til Ingibjargar á þrettánda ári og var komin á sextánda ár er hún fór þaðan vorið 1878.

Fardagaárið 1878-1879 voru Sigmundína og Elín amma hennar á Suðureyri hjá Kristjáni Albertssyni[570] en réðu sig til Stefaníu í Fremri-Vatnadal, systur Ingibjargar á Laugum vorið 1879 eins og hér var áður nefnt. Í Vatnadal sátu þær um kyrrt næstu árin.[571]

Þegar Elín og Sigmundína komu í Vatnadal var rösklega eitt ár liðið frá því Friðbert missti konu sína. Skoðað úr fjarlægð sýnist ýmislegt hafa mælt með því að hann tæki saman við Elínu frænku sína sem þá var enn í fullu fjöri og þau bæði á líkum aldri, nálægt sextugu. En hér fór á annan veg, honum leist betur á stelpuna, sonardóttur Elínar, og tók að gera hosur sínar grænar fyrir henni. Líklegt er að Friðbert hafi hitt Sigmundínu oftar en einu sinni þegar hún var að alast upp á heimili dóttur hans á Laugum á árunum 1875-1878. Svo snemma hefur samdráttur þeirra þó varla byrjað, enda var Arnfríður, kona Friðberts, þá enn á lífi. Hitt gæti verið að Friðbert hafi ráðið nokkru um vistráðningu Elínar og Sigmundínu að Vatnadal vorið 1879 þegar Sigmundína var að verða 17 ára og hann orðinn ekkjumaður. Til tíðinda dró þó ekki svo kunnugt sé fyrr en árið 1881, tveimur árum eftir komu Sigmundínu að Vatnadal. Þá um haustið varð sýnilegt að stúlkan var tekin að þykkna undir belti[572] og líklega hefur orðið uppistand á heimilinu því þegar presturinn húsvitjaði í nóvembermánuði voru Friðbert og Sigmundína bæði farin frá Fremri-Vatnadal og búin að koma sér fyrir hjá nágrönnunum í Ytri-Vatnadal, þeim Þórði bónda Þórðarsyni og Helgu Sigurðardóttur, sem reyndar var móðursystir Sigmundínu.[573] Í sóknarmannatalinu segir prestur Friðbert vera húsmann hjá Þórði en Sigmundínu vinnukonu.[574]

Á nýársdag árið 1882 ól Sigmundína dreng sem hún lýsti Friðbert föður að og hann gekkst fúslega við.[575] Átta dögum síðar skírði Friðbert þennan son þeirra skemmri skírn og gaf honum nafnið Friðbjörn.[576] Drengurinn dó 15. janúar, tveggja vikna gamall.[577]

Líklegt er að ýmsir hafi látið til sín taka er hér var komið sögu við að koma Sigmundínu burt úr Vatnadal og helst svo langt að karlin næði ekki til hennar. Svo fór að séra Stefán P. Stephensen prófastur í Holti sem þá þjónaði Staðarsókn í Súgandafirði réði hana til sín og þangað fór hún sem vinnukona vorið 1882.[578] Hundrað árum síðar var enn til í góðri vörslu eins af niðjum Friðberts og Sigmundínu gömul bók sem Friðbert gaf barnsmóður sinni við brottför hennar frá Vatnadal vorið 1882. Þetta er 31. útgáfa af Passíusálmum Hallgríms Péturssonar, prentuð árið 1876, og á bókina hefur gefandinn skrifað þessi orð: Hjartkærri frændstúlku sinni, Sigmundínu Sigmundsdóttur, gefur Friðbert Guðmundsson sálma þessa á skilnaðarstundinni 22. apríl 1882.[579]

Athygli vekur að Friðbert nefnir hana ekki unnustu sína, aðeins hjartkæra frændstúlku. Sumir vandamenn Friðberts og Sigmundínu munu hafa gert sér vonir um að upp úr sambandi þeirra slitnaði þegar langt var orðið á milli og stúlkan komin í annan fjörð. Hér fór þó á annan veg og svo virðist sem bæði hafi verið staðráðin í að ná saman á ný.

Ef marka má sögur Magnúsar Hjaltasonar fór Friðbert oft vestur að Holti að hitta Sigmundínu árið 1882 og dvaldist þar stundum í nokkra daga.[580] Einn heimilismanna í Holti var þá Þorkell Guðmundsson sem var ári eldri en Sigmundína og kemur hér við sögu á öðrum stað (sjá hér bls. xx (XXII, 51b-52b)). Þau voru þá bæði rétt um tvítugt en Friðbert að verða sextugur. Í einni af sögum Magnúsar Hjaltasonar um Friðbert er greint frá heimsókn hans að Holti sumarið 1882 og er hún á þessa leið:

 

Þorkell Guðmundsson hét uppeldissonur og ráðsmaður Stefáns prófasts í Holti, vandaður og allglaðlegur í hegðan. Var það þegar Friðbert kom að Holti að hitta Sigmundínu, unnustu sína, að prófastur mælti við hann: „Þú mátt passa stelpuna, Friðbert, strákarnir vilja fipla hana.” Friðbert svaraði: „Það veitti ekki af, Þorkell vífinn en stúlkan fríð, afbragðsfríð.” [581]

 

Vorið 1883 kom Sigmundína aftur í Súgandafjörð og fór til dvalar í Vatnadal.[582] Þann 5. ágúst þá um sumarið varð hún 21 árs og þann dag opinberuðu þau Friðbert trúlofun sína, ef svo má segja, létu prestinn vita að þau hygðust ganga í hjónaband við fyrsta tækifæri.[583] Friðbert var þá sextugur að aldri og hefði aldursins vegna vel getað verið afi sinnar ungu unnustu.

Hjónavígslan fór fram 2. september 1883.[584] Svaramaður Friðberts var Friðrik Verner Gíslason, roskinn bóndi á Kvíanesi, en Sigmundínu Þórður Þórðarson, bóndi í Ytri-Vatnadal.[585]

Árið sem Sigmundína Sigmundsdóttir var í Holti komst hún í reikning hjá Flateyrarverslun því húsbóndi hennar, séra Stefán, borgaði henni 15,- krónur haustið 1882 og lagði þær inn hjá versluninni.[586] Vorið 1883 átti hún enn inni nær átta krónur af þessum fimmtán og 7. júní þá um sumarið, þremur mánuðum fyrir brúðkaupið, tók hún út þessar vörur:

 

40 álnir af bómullarefni.                               2 lóð af silkitvinna.

220 grömm af sirsi, mislitu bómullarefni.    Eina spilkomu.

Einn kamb.                                                    Eina hárgreiðu

Eitt sjalklæði.                                                Eitt pund af kringlum.

Hálfa flösku af brennivíni.                            Eitt pund af hellulit,

og svo 8 aura í peningum.[587]

 

Við þessa úttekt komst hún í sex aura skuld við verslunina.[588] Þá skuld borgaði Friðbert[589] en nafn Sigmundínu hvarf út reikningum Flateyrarverslunar.

Hér var áður frá því greint að Friðbert og Sigmundína hefðu byrjað búskap sinn í Hraunakoti sumarið 1883 eða í allra síðasta lagi á fyrstu mánuðum ársins 1884 (sjá hér bls. xx (69b)). Líklegast er að Friðbert hafi lokið við að byggja bæinn áður en brúðkaupsdagurinn rann upp. Þetta var lítill bær, máske bara liðlega tíu fermetrar en er þó í einni heimild talinn hafa verið sextán fermetrar (sjá hér bls. xx (um Guðm. Andréss.)). Hér vestan árinnar hafði aldrei áður staðið mannabústaður svo um sé kunnugt en þau Friðbert og Sigmundína fluttu hingað sínar fátæklegu eigur og glöddust í sínu litla koti. Ekkert jarðnæði fylgdi kotinu og engin var kýrin en fáeinar kindur fengu þau að hafa eins og títt var um þurrabúðarfólk.

Að sögn Kristjönu Friðbertsdóttur sem ólst upp hjá foreldrum sínum í Hraunakoti var íveruherbergi fólksins aðeins liðlega tvær rúmlengdir[590] eða um 3,5 metrar á lengdina og sagði hún kindurnar hafa verið hafðar í stíu fyrir framan, allt undir sama þaki.[591] Í Hraunakoti var þó líka sérstakt fjárhús (sjá hér bls. xx (80b, lausbl. 1) og bls. xx (dánarbúið)) svo líklega hafa aðeins verið mjög fáar kindur í stíunni hjá fólkinu. Allt fyrirkomulag í þeim efnum kynni líka að hafa verið nokkuð breytilegt frá einu ári til annars.

Hjónin Friðbert og Sigmundína bjuggu hér í Hraunakoti á sextánda ár, frá haustinu 1883, að því er ætla má, og allt þar til Friðbert andaðist þann 28. apríl vorið 1899[592] (sbr. hér bls. xx (69b-70)). Hin börnin voru þessi: Kristjana fædd 1884, Halldóra fædd 1886, meybarn sem fæddist 1887 og dó óskírt, Friðbert fæddur 1888, Jóhannes fæddur 1891, Guðmundur fæddur 1893 og Guðmunda fædd 1895.[593] Halldóra og Guðmundur dóu fárra daga gömul.[594] Fjögur barnanna voru á lífi þegar faðir þeirra andaðist og þrjú náðu að verða fullorðin, þau Kristjana, Friðbert og Jóhannes.[595] Kristjana sem var elst þeirra varð reyndar 97 ára gömul[596] en hún var lengi húsfreyja á Laugum í Súgandafirði.

Vorið 1891 var bústofn hjónanna í Hraunakoti 6 ær með lömbum og 6 gemlingar ef marka má opinberar heimildir.[597] Kristjana dóttir þeirra sagði síðar að kindurnar hefðu oftast verið tólf og svo tveir eða þrír gemlingar.[598] Á búskaparárum sínum í Hraunakoti munu Friðbert og Sigmundína aldrei hafa verið með kú[599] enda voru þau jarðnæðislaust fólk. Einhvern rétt til slægna mun Friðbert þó hafa haft. Kunnugt er að sumarið 1893 heyjaði hann m.a. í Mjóaparti[600] sem var dálítið framan við gamla túnið í Vatnadal (sjá hér bls. xx (57)) og líklegt er að hann hafi haft einhver not af slægjublettunum næst kotinu, Krók, Litlugróf og Stórugróf. Fólkið sem síðar bjó í Hraunakoti hafði alla þessa þrjá bletti fyrir sig til slægna (sjá hér bls. xx (Guðm. Andréss.)).

Hjá Friðbert og Sigmundínu var jafnan fært frá ánum og á málnytunni úr þeim og fiski sem foreldrarnir veiddu lifðu börnin í Hraunakoti.[601] Á árunum um og upp úr 1890 voru tvær kindur jafnan látnar bera á haustin, önnur mórauð, hin grákinnótt.[602] Lömbunum var þá slátrað strax en kindurnar tvær mjólkaðar framundir jól.[603] Úr hvorri kind fengust tveir pottar á dag[604] og með því að láta þær bera á haustin styttist tíminn sem heimilið var mjólkurlaust.

Fært var frá hinum kindunum upp úr Jónsmessu.[605] Einni viku fyrir fráfærurnar hófst stekktíðin og eftir fráfærur voru lömbin setin í eina viku á Stekkjarbala fyrir neðan Helguhól.[606] Allt sumarið var fráfæruánum smalað til mjalta, bæði kvölds og morgna.[607] Kristjana var elsta barnið í Hraunakoti og var henni snemma falið að sjá um smalamennskuna. Hún fór þá á fætur klukkan hálf sex til sex á morgnana og oft þurfti að elta kvíaærnar framfyrir Stóravatn og fram á Brekkur sem þar eru í vestanverðum Vatnadal.[608] Unga smalastúlkan frá Hraunakoti varð oft að leggja leið sína framhjá Pauraselinu sem hér er sagt frá á öðrum stað (sjá bls. xx) en þar reyndi hún jafnan að flýta sér sem mest því talið var að í þessum gömlu seltóttum, kenndum við paurinn í neðra, væri ýmislegt óhreint á ferð.[609]

Síðdegis strekktu kvíaær fólksins í Hraunakoti oft fram á regin Sunddal og varð Kristjana stundum að sækja þær fram fyrir Hraunin sem svo heita þar á Sunddalnum. Sú vegalengd er liðlega þrír kílómetrar hvora leið og hæðarmunur um 200 metrar.

Skömmu áður en Friðbert Guðmundsson fór að búa í Hraunakoti skar hann sig illa á ljá og var vinstri hendin jafnan hálfvisin þaðan í frá.[610] Gat hann lítið notað hana.[611] Eftir slys þetta var hann aldrei formaður á vertíð en á árunum kringum 1885 mun hann stundum hafa verið í skiprúmi hjá öðrum á vorvertíðinni.[612] Allt fram undir 1890 var hann líka í skiprúmi að vetrarlagi eða fór a.m.k. í einn og einn róður.[613] Á árunum upp úr 1890 fékk hann stöku sinnum að fljóta með hjá formönnum sem reru úr Keravík og svaf þá þar í hlöðu uppi á Bökkunum.[614] Hjónin í Hraunkoti áttu þá lítinn bát, tveggja manna far sem hét Trausti.[615] Á honum reru þau Friðbert og Sigmundína til fiskjar á vorin og höfðu uppsátur í Stöðinni í landi Bæjar.[616] Á þessari litlu fleytu reru þau bara út undir Hólinn (Stórhól) og fiskuðu oft vel.[617] Fiskurinn var saltaður og hertur og mest af því sem ekki fór til heimilisins var selt í spekúlantaskip.[618] Hrognkelsi veiddu þau líka og oft varð Kristjana dóttir þeirra að bera þunga byrði í bak og fyrir úr Stöðinni fram að Hraunakoti, grásleppur á bakinu og rauðmagana fyrir.

Sumarið 1893 átti Sigmundína von á barni sem fæddist 18. ágúst. Friðbert var þá sjötugur að aldri og fór í nokkra róðra á Trausta en konan sat í landi, enda var hún komin á steypirinn. Hann hafði þá með sér á sjóinn 15 ára dreng, Kristján Hólm Þórðarson, sem var sonur Þórðar Jónssonar er bjó í Ytri-Vatnadal.[619] Einar Jónsson var þetta sumar húsmaður hjá Þórði og segir í dagbók sinni laugardaginn 22. júlí 1893: Friðbert gamli kom á gluggann klukkan 4 f.m. og fékk Kristján á sjó með sér.[620] Í þessum róðri fengu þeir 80 þorska, 5 skötur, 6 steinbíta og eitt lúðulok.[621]

Fáum vikum eftir barnsburðinn fór húsfreyjan í Hraunakoti að fara á sjó með manni sínum. Þau reru 26. september og með þeim var Steinn Kristjánsson, hálfbróðir Sigmundínu.[622] Steinn var þá tvítugur að aldri[623] og átti heima á Stað. Í þessum róðri fengu þau 110 fiska eða ellefu tíu eins og dagbókarskrifarinn í Ytri-Vatnadal orðar það.[624] Næsta dag fór Friðbert líka á sjó og fékk þá að sögn Einars hundrað af smáfiski [625] sem þarna merkir stórt hundrað, það er 120 fiska. Gera má ráð fyrir Sigmundína hafi einnig farið með bónda sínum í þann róður.

Frá sjósókn hjónanna í Hraunakoti segir Magnús Hjaltason þessa sögu:

 

Á elliárum sínum fór Friðbert eitt sinn á sjó með Sigmundínu konu sína til að leitast við að fá sér í soð. Gerði þá allmikið rok og komust þau með naumindum að landi. En gamli maðurinn var svo vesæll á sjónum að lítið lið gat hann veitt konu sinni. Þegar þau, á leið heim til sín, komu í Bæ mælti Friðbert: „Ekki veit ég hverju ég á að þakka að ég er kominn að landi, hvort ég á heldur að þakka það guði eða Sigmundínu, konu minni, þó er mér nær að þakka henni það. Sigmundína er kona í pilsi sínu. Og það er aldeilis víst að ég þakka henni að ég er kominn lífs á land.[626]

 

Orðin aldeilis víst sem þarna eru höfð eftir Friðbert voru honum, að sögn Magnúsar Hjaltasonar, mjög munntöm.[627]

Ótrúlegt kann að virðast að þau Friðbert og Sigmundína hafi getað framfleytt sér og sínum á tólf mjólkurám og tveggja manna fari. Einhverja matbjörg höfðu þau reyndar líka af garðávöxtum, næpum, rófum og bótverskum rófum.[628] Börnin fjögur sem komust á legg ólust öll upp hjá foreldrum sínum, meðan Friðbert lifði, nema Jóhannes sem fór á 1. eða 2. ári í fóstur að Ytri-Vatnadal.[629] Síðasta áratuginn sem Friðbert lifði var hann því jafnan með tvö eða þrjú börn á sínu framfæri (sjá hér bls. xx (77b-78)). Í skjölum Suðureyrarhrepps verður þess ekki vart að fólkið í Hraunakoti hafi þurft að þiggja af sveit ef frá er talið tíu króna lán er Friðbert fékk hjá hreppsnefndinni haustið 1894.[630] Uppgjör á dánarbúi hans sýnir að þá skuld var hann búinn að borga fyrir sitt endadægur (sjá hér bls. xx (XXXVII, 8)).

Sennilegt má reyndar telja að heimilið í Hraunakoti hafi notið einhvers stuðnings frá fólkini í Fremri- og Ytri-Vatnadal því hafa ber í huga að Stefanía, dóttir Friðberts af hans fyrra hjónabandi, var húsfreyja í Fremri-Vatnadal öll þau ár sem hér um ræðir og Sigríður Sigurðardóttir, móðir Sigmundínu í Hraunakoti, var bústýra hjá Þórði bónda Jónssyni í Ytri-Vatnadal frá 1886 til 1896 og þau bæði húsfólk þar næstu árin.[631]

Vera má að hjálpin sem fólkið í Hraunakoti fékk frá bændaheimilunum í Vatnadal hafi einkum falist í liðsinni við verk. Í dagbók Einars Jónssonar, sem var húsmaður í Ytri-Vatnadal fardagaárið 1893-1894, er stöku sinnum minnst á slíkt liðsinni við öldunginn í kotinu og hans fólk. Fimm dæmi um þetta er að finna í dagbók Einars frá síðari hluta ársins 1893.[632] Þann 21. ágúst var pilturinn Kristján Hólm Þórðarson í Ytri-Vatnadal að hjálpa Friðbert við að bera upp hey.[633] Hinn 1. september fór sami piltur að aðstoða Friðbert við að binda fjórar heysátur úr Mjóapartinum.[634] Daginn þann misstu þau Friðbert og Sigmundína fárra daga gamlan dreng, soninn Guðmund sem fæddist 18. ágúst 1893.[635] Á Matteusmessu, þann 21. september, skáru Þórður og Einar í Ytri-Vatnadal fimm lömb fyrir Friðbert og tveimur vikum síðar fjórar kindur.[636] Í síðustu vikunni fyrir jól þetta sama ár átti fólk í Vatnadal í miklu basli við að sækja daglegt neysluvatn í ána. Það ætlaði hvorki í gær né dag að verða náð vatni fyrir veðri og mold, segir Einar Jónsson í dagbók sinni 19. desember.[637] Þremur dögum síðar fór Marías, eldri sonur Þórðar Jónssonar í Ytri-Vatnadal, snöggvast yfrá kot og sótti fyrir það vatnið.[638]

Í dagbók Einars frá síðari hluta ársins 1893 verður þess aldrei vart að fólkið í Hraunakoti hafi fengið eitthvað af matvælum frá Ytri-Vatnadal en mjólk mun það stundum hafa fengið frá Fremri-Vatnadal. Því til sönnunar má nefna að dóttursonur Friðberts, Guðmundur Guðmundsson, sem fæddist í Fremri-Vatnadal árið 1876 og ólst þar upp, kveðst hafa fært afa sínum mjólk á hverjum degi að vetrinum um nokkurt skeið.[639] Guðmundur segir að áin hafi þá stundum verið ill yfirferðar en aldrei hafi komð fyrir að gamli maðurinn fengi ekki mjólkina.[640]

Líklegast er að Friðbert og Sigmundína hafi lengst af verið alveg sjálfbjarga eða því sem næst. Engu að síður mun sú greiðasemi er þau nutu hjá ættingjum og vinum hafa komið sér vel. Í ritgerð sinni frá árinu 1953 minnist Valdimar Þorvaldsson á slíkan stuðning við fólkið í Hraunakoti en hann segir þar meðal annars:

 

Friðbert var 61 árs er hann giftist í síðara sinn en kona hans var rétt við tvítugt. Mörgum fannst þetta óráð af honum, öldruðum manni og þar að auki fötluðum og eins og oft vill verða þegar svo stendur á voru þá mörg orð töluð sem ósögð hefðu mátt vera. Þetta fór þó öðruvísi en ætlað var.

Sigmundína reyndist hagsýn kona og afburða dugleg og jafnan gerði hún allt sem í hennar valdi stóð til að gera honum lífið léttara og ánægjulegra. Jafnframt naut hann nokkurs stuðnings annarra, skyldra og vandalausra, og naut hann þar mjög eigin verka. Mun mörgum hafa fundist sá greiði er þeir gerðu honum aðeins vera lítil viðurkenning á gamalli skuld.[641]

 

Orð Valdimars um dugnað Sigmundínu þarf víst ekki að draga í efa og á síðustu árum Friðberts mun hún að margra dómi hafa verið bæði bóndinn og húsfreyjan í þessu koti. Sjötta janúar 1894 skrifar Einar Jónsson, þá húsmaður í Ytri-Vatnadal, þessi orð í dagbók sína: Um kveldið fór ég  yfrá kot og hjálpaði Sigmundínu að byrgja göt á fjárhúsinu með skít því Friðbert gamli liggur í gigt sem hljóp í hann í fyrradag.[642]

Á þeim rösklega fimm árum sem Friðbert átti ólifuð þegar þetta var skrifað munu gigt og aðrir kvillar oft hafa gert hann lítt færan til stritvinnu. Samt hélt hann allgóðri heilsu býsna lengi.

Á árunum 1885 til 1890 átti Friðbert jafnan nokkur viðskipti við útibú Ásgeirsverslunar á Flateyri[643] og kynni auk þess að hafa verslað eitthvað við spekúlanta sem sigldu inn á Súgandafjörð og buðu upp á viðskipti. Meðalársúttekt Friðberts hjá versluninni á Flateyri var á þessum árum 67,36 krónur, minnst 11,00 krónur árið 1886 og mest 120,50 krónur árið 1889.[644] Til skýringar á verðgildi peninganna má hafa í huga að á þessu tímabili var opinbert kýrverð í Ísafjarðarsýslu jafnan lítið eitt yfir hundrað krónur, minnst 102,25 krónur og mest 110,00 krónur.[645] Ársúttektin nam því að jafnaði sem svaraði liðlega sex tíundu hlutum úr kýrverði og má hafa það til hliðsjónar vilji menn umreikna tölurnar yfir á núvirði. Afurðirnar sem Friðbert lagði inn hjá verslunarútibúinu á Flateyri á þessu sex ára tímabili voru álíka verðmætar og vörurnar sem hann tók út því skuld hans við verslunina var að kalla sú sama við upphaf og lok þessa sex ára tímabils.[646] Þann 1. janúar 1885 var skuldin 38,04 krónur en sex árum síðar 37,91 krónur.[647] Hæst varð hún 1. janúar 1887, 45,02 krónur.[648] Tölurnar sýna að húsbóndinn í Hraunakoti hefur verið varkár í fjármálum og varast að lifa um efni fram.

Innlegg Friðberts hjá versluninni á Flateyri var nær eingöngu fiskur.[649] Eitt árið lagði hann þó inn 6 og ½ pund af smjöri og annað ár 48 pund af kjöti.[650] Fyrir smjörpundið fékk hann 85 aura en 18 aura fyrir kjötpundið.[651] Á því sex ára tímabili sem hér um ræðir fékk verslunin aðeins einu sinni peninga frá Friðbert, 20,- krónur þann 7. desember 1885.[652] Að jafnaði lagði Friðbert inn 209 kíló af saltfiski eða því sem næst á hverju ári á árunum 1885-1890.[653] Í eitt skipti kom hann líka með 17 kíló af riklingi og í annað sinn með 30 steinbíta.[654] Fiskinnleggið var hins vegar mjög breytilegt, alls ekki neitt árið 1886 en fór hæst upp í 418 kíló árið 1888.[655]

Um vöruúttekt fólksins í Hraunakoti hjá Flateyrarverslun á árunum 1885-1890 mætti rita langt mál en hér verður látið nægja að draga fram hversu mikið það tók út af nokkrum algengustu vörutegundunum, annars vegar árið 1885 og hins vegar árið 1890.

Árið 1885 var úttektin sem hér segir á þessum vörum: Rúgur 75 pund, mjöl (líklega rúgmjöl) 100 pund, hrísgrjón 35 pund, kaffi 9 pund, kandís 12 pund, kaffibætir 4 pund, rjól (neftóbak) 2 pund.[656]

Árið 1890 var úttektin þessi á sömu vörum: Rúgur 150 pund, mjöl 100 pund, kaffi 2 pund, kandís 18 pund, kaffibætir ½ pund, rjól 3 pund.[657] Þetta ár keypti Friðbert engin hrísgrjón á Flateyri en aftur á móti 125 pund af bankabyggi.[658] Um kaup hans á áfengum drykkjum hefur áður verið getið (sjá hér bls. xx (73b)).

Árið 1885 keypti Friðbert 640 pund af kolum en næstu fimm árin keypti hann engin kol.[659] Notkun steinolíu hefur líka verið í lágmarki því á þessum sex árum keypti fólkið í Hraunakoti aðeins 16 potta af henni í búðinni á Flateyri, þar af 10 potta árið 1890.[660] Eldspýtur hefur fólkið í Hraunakoti líka þekkt því árið 1888 keypti Friðbert  fyrtöi fyrir 25 aura.[661] Af salti keypti Friðbert samtals hálfa aðra tunnu á þeim sex árum sem hér hafa verið til umfjöllunar, mest af því árið 1887.[662] Að lokum skal þess getið að verslunarreikningarnir sýna að það var skrifandi maður sem bjó í Hraunakoti og má hafa til marks að árið 1888 keypti hann blýant, blek, pappír og umslög.[663]

Ætla má að á fyrstu búskaparárum Friðberts hér í Hraunakoti hafi hann yfirleitt farið sjálfur í verslunarferð til Flateyrar, að minnsta kosti einu sinni á ári. Árið 1891 hófst verslunarrekstur á Suðureyri er Ásgeirsverslun setti þar upp útibú (sjá hér bls. xx). Á fyrstu árunum eftir 1890 voru umsvif verslunarinnar á Suðureyri þó mjög lítil. Ferðum Friðberts vestur yfir Klofningsheiði mun þó hafa farið að fækka er hér var komið sögu enda var hann orðinn nær sjötugur þegar farið var að versla á Suðureyri. Hann fór þó vetrarferð með þremur öðrum Súgfirðingum vestur á Flateyri í febrúar árið 1894.[664] Þeir fóru landveg og komu til baka fjórum dögum síðar.[665] Sumarið 1894 fóru þau Friðbert og Sigmundína líka til Flateyrar á bátnum að ná sér í timbur.[666] Í febrúarmánuði árið 1895 fór Friðbert gangandi á Ísafjörð, yfir Botnsheiði,[667] og sumarið 1897 fór hann enn á Ísafjörð þó orðinn væri nær hálfáttræður að aldri, gisti þar eina nótt og kom gangandi til baka næsta dag.[668]

Stundum fékk Friðbert þó aðra til að fara fyrir sig í kaupstað og má sem dæmi nefna að eitt sinn fékk hann ungan dótturson sinn, Guðmund Guðmundsson í Fremri-Vatnadal sem þá var 15 ára, til að skreppa fyrir sig yfir Klofningsheiði til Flateyrar. Í svoliltlum pistli sem Guðmundur ritaði löngu síðar kveðst hann hafa farið í þessa sendiför fyrir afa sinn þann 22. desember 1891, daginn eftir að Salómon Jónsson dó á Klofningsdal.[669] Guðmundur segir þarna lítið eitt frá afa sínum og farast honum orð á þessa leið:

 

Þegar ég var 14 ára [rétt 15 ára – innsk. K.Ó.] fór ég til Flateyrar og sótti fyrir hann eina brennivínsflösku og hálft kíló af melís. Það var daginn eftir að Salómon Jónsson dó á Klofningsdal í ekki góðu veðri. Afi hafði það fyrir vana, öll þau ár sem ég man, að koma yfir á bæina bæði á jólum og nýári, strax og búið var að lesa kvöldlestur, og vera hjá okkur alla nóttina. Hafði hann með sér ef hann átti einhvern dropa og fékk oft viðbót, einkanlega meðan Þórður Jónsson bjó í Vatnadal.

Aldrei man ég eftir að hann færi með kvæði eða vísur eftir sjálfan sig en ef það væri nú allt í einni bók, kvæði, sögur og annar fróðleikur sem hann las upp, myndi það vera lesið ekki síður en nútíma skáldsögur.[670]

 

Friðbert í Hraunakoti náði ekki að sjá vélar létta hinu daglega striti af mannfólkinu en vissi að sú öld var í nánd. Við Guðmund dótturson sinn í Fremri-Vatnadal sagði hann snemma að áður en langt um liði yrði allt unnið með vélum.[671] Þá sannfæringu mun hann hafa öðlast við að lesa fræðandi bækur en einu vélarnar sem öldungur þessi kynni að hafa átt kost á að gaumgæfa með eigin augum voru þær sem Norðmenn settu upp á Sólbakka innan við Flateyri, í hvalveiðistöðinni sem þar var reist árið 1889.

Á síðustu árum Friðberts í Hraunakoti voru oftast sex manneskjur í heimili hjá honum, þau hjónin, börn þeirra þrjú og svo Elín gamla Sigmundsdóttir sem hér var áður nefnd, amma Sigmundínu húsfreyju. Þær Elín og Sigmundína höfðu fylgst að um langt skeið og komu saman í Vatnadal vorið 1879 (sjá hér bls. xx (74-75)). Þegar Friðbert og Sigmundína færðu sig yfir ána árið 1883 og fóru að búa í Hraunakoti fylgdi Elín þeim þangað og var á heimili þeirra til dauðadags[672] en hún andaðist tíu vikum og tveimur dögum áður en Friðbert dó.[673] Í sóknarmannatölum frá árunum 1883-1893 er Elín jafnan sögð vera vinnukerling eða bara kerling hjá Friðbert en árið 1894 skráir prestur hana sem ómaga.[674] Ljóst er að Friðbert fór þó að fá greitt með henni úr sveitarsjóði mun fyrr því í skýrslu um ráðstöfun ómaga í Suðureyrarhreppi haustið 1888 sést að með henni voru greiddar 21,20 krónur á fardagaárinu sem þá var að líða.[675] Í nefndri skýrslu er Elín sögð vera örvasa og tekið fram að hún hírist árlangt hjá Friðbert.[676] Sjö árum síðar var meðlagið sem hreppurinn borgaði með Elínu komið upp í 34,- krónur[677] sem var þó ekki nema röskur helmingur þess sem greitt var að jafnaði með öðrum ómögum hreppsins það ár.[678]

Elín var langamma barnanna í Hraunakoti og Kristjana Friðbertsdóttir sem var 14 ára þegar gamla konan dó sagði síðar að hún hefði kunnað þessi lifandis ósköp af vísum og versum og þó einkum rímur.[679] Á sínum efstu árum átti Elín vanda til að falla í yfirlið.[680] Kom það stundum fyrir þegar hún var ein heima með börnunum en Friðbert og Sigmundína á sjó.[681] Börnin vöndust þessu, dreyptu þá á hana vatni eða lögðu kalda bakstra á höfuð gömlu konunnar.[682] Félli hún í gólfið reyndu börnin að lyfta henni upp í rúm.[683] Þar jafnaði hún sig en var svolítið máttlaus fyrst á eftir.[684] Sumarið 1894 var Elín orðin 76 ára. Hún var þá enn ferðafær því að í dagbók sína hefur Einar Jónsson á Suðureyri skrifað þessi orð á síðasta degi júlímánaðar það ár: Elín gamla kom hér og Kristján Þórðarson (frá Ytri-Hjarðardal) að sækja Jóns Þorbjörnssonar byssuna. Það hafði fundist greni á Háubrekku í Vatnadal.[685]

Í Hraunakoti var biblía, prentuð í London árið 1866, sem Elín gamla Sigmundsdóttir hafði gefið Sigmundínu, sonardóttur sinni, árið 1868. Óvíst er hvort gamla konan kunni sjálf að skrifa en á nýnefnda bók sem enn var til fyrir fáum árum höfðu verið skrifuð þessi orð: Jómfrú Ingisstúlkann Sygmundína Sygmundsdóttir. Á þessa byflíu. henni er hún gefin af ömu hennar Elínu Sygmundsdóttir 1868.[686] Síðustu árin sem Elín Sigmundsdóttir lifði var hún sveitarómagi í Hraunakoti eins og hér var áður nefnt. Þegar hún andaðist á þorranum árið 1899, 81 árs að aldri, kom því í hlut hreppsins að sjá um útförina. Líkkistan kostaði 20,- krónur, hjúpléreft 1,60 krónur og líkmennirnir sex tóku ýmist tvær eða þrjár krónur hver fyrir sína vinnu.[687] Fjórir þeirra fengu þrjár krónur hver í sinn hlut en tveir tengdasynir Friðberts í Hraunakoti, þeir Guðmundur Guðmundsson á Suðureyri og Guðmundur Jónsson í Fremri-Vatnadal, létu sér nægja tvær krónur á mann,[688] að líkindum vegna fjölskyldutengsla. Allur útfararkostnaðurinn varð því 37,60 krónur.[689]

Elín Sigmundsdóttir var eina vinnukonan í Hraunakoti á búskaparárum Friðberts og Sigmundínu og vinnumann höfðu þau aðeins eitt ár, fardagaárið 1894-1895.[690] Var það Steinn Kristjánsson, hálfbróðir Sigmundínu húsfreyju.[691] Hann drukknaði þremur árum síðar (sjá hér bls. xx (Staður)).

Talsvert var um gestakomur að Hraunakoti í tíð Friðberts. Margir báðu hann að skrifa fyrir sig bréf og komu í þeim erindum[692] en aðrir voru bara að létta sér upp. Séra Janus Jónsson í Holti sem þjónaði prestakallinu í Súgandafirði frá 1884-1901 staldraði stundum við í kotinu[693] á ferðum sínum til og frá Staðarkirkju. Dóttursonur Friðberts, Guðmundur Guðmundsson, sem fæddist í Fremri-Vatnadal árið 1876 og ólst þar upp segir frá á þessa leið:

 

Það þótti okkur krökkunum nýstárlegt þegar séra Janus kom ríðandi niður Vatnadal. Hann kom það nokkrum sinnum. Kom hann þá við hjá afa mínum í Hraunprýði [svo var Hraunakot nefnt síðar – innsk. K.Ó.] þó ekki væri húsið hátt en þar var nógur fróðleikur og sögur.[694]

 

Guðmundur getur þess að oft hafi Þórður Sigurðsson, síðar bóndi í Neðri-Breiðadal, verið með séra Janusi í þessum ferðum.[695]

Stundum rölti Friðbert með prestinum á næstu bæi. Dæmi um það nefnir Einar Jónsson í dagbók sinni frá árinu 1894 en hann var þá húsmaður í Ytri-Vatnadal. Þann 21. janúar 1894 skrifar Einar:

 

Prófasturinn [séra Janus] kom að vestan í fyrradag og hafði farið inn að Laugum og Norðureyri. … Í dag kom hann hér að húsvitja og Guðmundur Guðmundsson í Bæ með honum. Friðbert gamli kom með Kittu dóttur sína yfrum þegar prófasturinn var búinn að yfirheyra í báðum dölunum. [Það er á báðum býlunum í Vatnadal – innsk. K.Ó.] Fóru þeir ofan í Bæ.[696]

 

Magnús Hjaltason, alþýðuskáldið og dagbókaritarinn, heimsótti Friðbert nokkrum sinnum á síðustu árum gamla mannsins í Hraunakoti og segist hafa séð hann í fyrsta sinn 15. apríl 1896.[697] Faðir Magnúsar, Hjalti Magnússon, sem var barnakennari í Súgandafirði veturinn 1896-1897 (sjá hér bls. xx (XXXIII, 29, lausbl. 3)) var vanur að heimsækja Friðbert einu sinni á vetri.[698] Hann var þá jafnan við skál og stundum hrakinn af veðrum þegar hann náði í hlað.[699] Sigmundína, Elín gamla og stelpan Kristjana hjálpuðust þá að við að koma honum ofan í rúm, hituðu á hann flöskur sem þær lögðu við bak og brjóst og velgdu mjólk til að gefa honum að drekka.[700] Svo voru honum gefnir Hoffmannsdropar.[701] Það dugði hvorki við menn né skepnur að hita upp að utan ef ekki var líka hitað upp að innan,[702] sagði Kristjana löngu síðar og hafði lært þann vísdóm hjá foreldrum sínum í Hraunakoti.

Sagt er að Friðbert hafi verið bókamaður en í elli sinni hafði hann ekki ráð á að kaupa blöð eða bækur.[703] Þorvaldur Jónsson sem var starfandi læknir á Ísafirði frá 1863 til 1900 hafði bóksölu lengi að aukastarfi. Dóttursonur Friðberts, Valdimar Þorvaldsson, segir að afi sinn hafi keypt þó nokkuð af bókum hjá Þorvaldi lækni[704] en bætir við þessum orðum:

 

Þegar Þorvaldur varð þess var að Friðbert brast efni til bókakaupa, þá sendi hann honum bækur þær sem út komu og lét þau orð fylgja að hann væri búinn að kaupa þær svo lengi og leggja í þær svo mikla peninga að honum bæri að fá þær ókeypis. Víst má telja að Þorvaldur gaf honum bækurnar. Hann var kunnugur gamla manninum, hafði oft haft ánægju af að spjalla við hann og vissi hve mikils virði bækurnar voru honum.[705]

 

Þetta er falleg saga og vera má að á efri árum hafi Friðbert fengið eitthvert lesmál frá Þorvaldi lækni án þess að ætlast væri til greiðslu. Að læknirinn hafi gefið honum bækur þær sem út komu mun þó orðum aukið og ekki var pláss fyrir stórt bókasafn í Hraunakoti. Líklegast er að bækurnar sem Friðbert átti hafi aldrei verið margar en hann var hneigður fyrir fróðleik og hefur að því er virðist haft góð not af því sem hann las.

Það var jafnan hans mesta yndi að sækja fróðleik til lærðra manna en miðla þeim sem minna vissu, segir Valdimar Þorvaldsson um þennan afa sinn í Hraunakoti.[706] Eftir nákunnugum manni hefur hann líka þau ummæli að þegar Friðbert fékk sér staup hafi hann jafnan látið berast í heim bókanna og farið að ræða efni þeirra.[707] Sjálfur var Valdimar tvítugur að aldri þegar afi hans féll frá og hafði af honum þó nokkur kynni.[708] Í ritgerð sinni frá árinu 1953 leitast hann við að draga upp mynd af Friðbert og segir þá m.a.:

 

Friðbert var í lægra meðallagi á hæð en þreklega vaxinn. Hann var kvikur í hreyfingum og gangi og hélt hann því fram á elliár. Hárið var dökkt en skegg og augabrýr gulleitt, augun ljósgrá og ljós í andliti. Gáfumaður var hann mikill og mjög fróðleikselskur. Aflaði hann sér þekkingar með bóklestri eftir því sem föng voru á og varð hann mjög fjölfróður. Þá var hann orðlipur og vissi enginn til að hann yrði nokkru sinni undir í orðasennu eða kappræðum en hafði þó jafnframt lipurð til að halda umræðum í jafnvægi ef með þurfti. Hann skrifaði fallega hönd, hvort sem var fljótaskrift, snarhönd eða settletur og óspar var hann að gefa þeim forskrift sem leituðu til hans um það.

… Hann var raddmaður mikill og var oft forsöngvari í Staðarkirkju. Meðhjálpari var hann einnig og mun oft hafa verið í sóknarnefnd.[709]

 

Við þessa frásögu má bæta því að Friðbert var skírnarvottur við að minnsta kosti 72 barnsskírnir í Súgandafirði, síðast árið 1892 er dótturdóttir hans, Arnfríður Guðmundsdóttir í Vatnadal var borin til skírnar.[710]

Í ritgerð sinni frá árinu 1953 lýsir Valdimar Þorvaldsson Friðbert nánar og segir:

 

… Bækurnar voru aðalfróðleikslind Friðberts en hann fékk þær ekki eingöngu fyrir sig. Honum var áhugamál að útbreiða bóklega þekkingu og lánaði þær því takmarkalaust uns þær voru komnar í blöð eða hann gaf þær einhverjum sem hann taldi hafa þeirra not. Hann hafði mikið yndi af að spjalla við menn um bækur og fróðleiksleitandi manni voru þær viðræður mikils virði.[711]

 

Magnús Hjaltason minnist alloft á Friðbert í sínum margbreytilegu skrifum og lýsir honum þannig: Friðbert Guðmundsson í Hraunakoti í Súgandafirði var maður fluggáfaður, bráðfyndinn í svörum og skemmtilegur, afbragðssnar í öllum hreyfingum og knár.[712] Á öðrum stað segir Magnús:

 

Friðbert … var gáfumaður ágætur, bráðfjörugur og skemmtinn og uppáhald allra fræðimanna. … [Hann] var prýðisvel á fót kominn, „hjálmfallegur” með stór og skýr augu, ennið hátt og hvelft, munnfríður, nefið dálítið bogið og þó laglegt, manna orðheppnastur.[713]

 

Sighvatur Grímsson Borgfirðingur, fræðimaður á Höfða í Dýrafirði, segir að Friðbert hafi verið vel hagmæltur[714] en Magnús Hjaltason taldi hann hafa verið ágætan gáfumann en ekki skáld þó Sighvatur á Höfða segi það.[715] Magnús festi þó árið 1912 á blað eina vísu sem dóttursonur Friðberts, Guðmundur Guðmundsson, þá bóndi á Gelti, hafði kennt honum og sagt vera eftir afa sinn í Hraunakoti.[716] Vísu þessa sagði Guðmundur að Friðbert hefði ort á Suðureyrarmölum um feðga sem báður hétu Pétur Pétursson[717] en þeir áttu lengi heima í Súgandafirði, m.a. í Klúku (sjá hér bls. xx ). Vísan er svona:

 

Nærbuxna naggurinn

nýlega er útgenginn,

ketil í hendi hann hefur,

hann aldrei væran sefur.

Eld kveikir faðir hans fljótur,

furðanlega skjótur.

 

Ekki verður nú fullyrt neitt um það hvort Friðbert hafi sett þetta saman en vel gæti það verið. Þeir Pétur eldri og Pétur yngri fluttust til Súgandafjarðar norðan úr Aðalvík árið 1885 en þá var sá yngri aðeins 5 ára gamall.[718] Vísan ætti því að vera ort á árunum kringum 1890.

Magnús Hjaltason greinir einnig frá því að Friðbert hafi verið sagður höfundur að erfiljóði sem ort var til minningar um Magnús Helgason, bónda á Gemlufalli í Dýrafirði, en sjálfur hafi gamli maðurinn í Hraunakoti neitað því og tekið fram að sér þætti leiðinlegt að vera nafnbundinn við það sem hann ætti ekki orð í.[719]

Í desembermánuði árið 1897 varð Friðbert í Hraunakoti 75 ára. Hann var þá enn við þokkalega heilsu og þegar kom fram á útmánuði þann sama vetur fór hann gangandi úr Hraunakoti í Selárdal[720] að heimsækja Sigríði dóttur sína og börn hennar en það var hann vanur að gera einu sinni á vetri.[721] Öldungurinn gekk að þessu sinni á ís yfir fjörðinn, úr Markinu innan við Lauga.[722] Næsta dag sem var 15. mars kom hann aftur til baka.[723] Sumarið sem þá var að nálgast varð hið síðasta sem Friðbert lifði. Í byrjun næsta vetrar lagðist hann í rúmið og lá allan þann vetur.[724] Magnús Hjaltason var þá við barnakennslu á Ingjaldssandi en skrapp stundum til Súgandafjarðar og þann 11. mars sat hann við sjúkrabeð gamla mannsins í Hraunakoti.[725] Hálfum öðrum mánuði síðar, föstudaginn 28. apríl 1899 andaðist Friðbert.[726]

Einar Jónsson sem búsettur var á Suðureyri getur um andlát hans í dagbók sinni þann 28. apríl 1899 og segir þar:

 

Guðríður Geirmundsdóttir hafði komið hér og sagði að Friðbert Guðmundsson gamli hefði dáið í morgun. Hann hefur legið að kalla í allan vetur. Þorbjörn hérna fór úteftir að leggja hann til lags. Hann hafði beðið þess áður en hann dó.[727]

 

Þann 6. maí var Friðbert jarðaður í gamla kirkjugarðinum á Stað og einnig Friðrik Verner Gíslason, bóndi á Kvíanesi, sem andast hafði þá fyrir skömmu, liðlega sjötugur að aldri.[728]

Á útfarardaginn var að sögn dagbókarritara grófasti suðvestan rokstormur.[729] Séra Janus Jónsson í Holti jarðsöng og hafði daginn áður komið gangandi fyrir Sauðanes.[730] Í útfararræðunni gat hann þess meðal annars að Friðbert hefði verið sáttasemjari langa æfi og varla hefði verið völ á færari manni til þess starfa.[731] Um þekkingarleit Friðberts komst séra Janus svo að orði í ræðunni:

 

En sálarhæfileikar hans voru og sérlega góðir og þótt hann nyti lítillar menntunar í uppvextinum var hann þó maður mætavel að sér, enda var hann námfús og fróðleiksgjarn og hafði íhugandi athuga á öllu því er hann átti kost á að kynnast og hafði þess vegna not af því er hann nam fyrir anda sinn, enda var hann talinn meðal hinna fremstu manna hér … .[732]

 

Þann 3. júní 1899 birtust í Þjóðviljanum unga, blaði Skúla Thoroddsen á Ísafirði, minningargrein um Friðbert og merkir höfundurinn sér greinina með upphafsstöfum sínum, S.Gr.[733] Fullvíst má telja að höfundurinn sé Sighvatur Grímsson Borgfirðingur, hinn ágæti fræðimaður á Höfða í Dýrafirði, en hann skrifaði margar minningargreinar í Þjóðviljann á þessum árum.

Í minningarorðunum um Friðbert kemst Sighvatur m.a. svo að orði:

 

Friðbert var alla ævi sína í Súgandafirði og bjó þar á ýmsums stöðum og var lengi í Vatnadal. Hann var afbragðsgáfumaður og vel hagmæltur en átti allan aldur sinn við þröng kjör að búa eins og svo oft vill verða hlutfall margra manna á landi voru og bugaðist hann þó aldrei né möglaði. Hann var hreppstjóri í sveit sinni um 8 ár og lengi síðan við sveitarstjórn riðinn með skriftir og ráðagjörðir og það fram á örvasaaldur. Sáttanefndarmaður um 3 ár og er svo mælt að ekkert mál hafi fyrir rétt farið frá hans sáttaumleitan.

Í elli sinni byggði hann nýbýli er hann nefndi Hraunakot og bjó þar síðan mjög fatlaður, nær einhentur. Hafði hann þar nokkrar sauðkindur en enga kú og komst þó af án sveitarstyrks með ráðdeild sinni og sparsemi og með aðstoð ágætrar og ungrar konu er hann kvæntist 61 árs.

Lá hann að síðustu langa og þunga legu og andaðist að heimili sínu, Hraunakoti, sem að ofan segir, þreyttur og sárfeginn hvíld og lausn úr heimi þessum með virðingarverðu mannorði og minningu þeirra manna er kynni höfðu af honum haft.[734]

 

Þetta voru orð Sighvats Borgfirðings. Í Almanaki Þjóðvinafélagsins frá árinu 1901 er greint frá andláti Friðberts og hann sagður hafa verið fjölvitur gáfumaður.[735] Ætla má að þar sé líka byggt á ummælum Sighvats.

Magnús Hjaltason sem var kunningi Friðberts á síðustu æviárum gamla mannsins í Hraunakoti orti erfiljóð að honum látnum. Er það átta erindi[736] og hið fyrsta svona:

 

 

Förlast fegurð

firði Súganda,

vaxa þokuský

þrungin regni,

verður grátdöggvað

Vatnadalsfjall,

svífur sorgartár

á Sunddalshorni.[737]

 

Kvæðinu lýkur Magnús með orðunum Nú er annar í ekru grafinn vitur Stefán í Vallanesi [738] en mun sjálfur hafa fundið til þess að samlíkingin við séra Stefán Ólafsson, skáld í Vallanesi sem uppi var á 17. öld, væri ærið langsótt. Neðan við frumrit sitt af kvæðinu hefur hann því skrifað þessi orð:

 

Það mun þykja nokkuð langsótt að jafna Friðbert sáluga saman við Stefán í Vallanesi sem dáinn er fyrir mörgum tugum ára og sem allir bókfróðir menn kannast við en eigi hef ég þekkt líkari menn í anda.[739]

 

Fjörutíu dögum eftir andlát Friðberts voru allar eignir hans skrifaðar upp og virtar til peningaverðs.[740] Þær voru síðan seldar á opinberu uppboði sem fór fram 3. júlí 1899.[741] Alls voru eignirnar virtar á 184,42 kr. en seldust á 175,20 kr.[742] Skuldir námu 95,- kr. en þar við bættust 4,- kr. í uppskriftarlaun og svo útfararkostnaðurinn sem ætla má að hafi numið um 40,- krónum (sjá hér bls. xx (1b)). Svo virðist sem gamli maðurinn hafi því átt fyrir útförinni og örfáar krónur gengið af þegar allar skuldir höfðu verið borgaðar, máske sem svaraði þremur ærverðum.

Eignir Friðberts á dánardegi hans voru þessar: Þrjár ær með lömbum sem seldust allar til samans á 42,60 kr., fjórir gemlingar sem seldust á 32,80 kr., búsgögn,  húsgögn,  amboð og önnur verkfæri sem seldust á 31,80 kr., íveruhús fólksins ásamt eldhúskofa er seldist á 26,- kr., fatnaður sem seldist á 19,50 kr., kamína og fjögur rör sem seldust á 10,- kr. sléttar, hjallur og húskofi þar við seldur á 7,10 kr., fjárhús og húskofi þar við selt á 4,00 kr. og loks fjórar bækur sem menn keyptu á uppboðinu fyrir eina krónu og fjörutíu og fimm aura.[743]

Vert er að gera svolítið nánari grein fyrir þessum eignum. Meðal búsgagna sem Friðbert átti var forn pottur, kaffikanna og kaffikvörn, einn diskur, þrjár kistur, einn kistill, kvörn til að mala korn í, þrír dallar, þrjú trog og tvær fötur úr blikki.[744] Húsgögnin voru gamalt skrifpúlt, forn kommóða og fornt borð.[745] Amboðin voru orf með ljá og hrífa.[746] Þar fylgdu líka með þrjú reipi forn.[747] Verkfærin sem Friðbert átti voru þessi: Hverfisteinn, skófla, páll, flettisög, öxi, hefill, sporjárn, hnífur, naglbítur, þjöl og eitt borjárn fornt.[748]

Af fatnaði átti gamli sáttasemjarinn þetta: Nýlegar buxur úr vaðmáli, fornar vaðmálsbuxur, gamlar buxur úr taui, nýlegar nærbuxur, fornar nærbuxur, þrjár treyjur, þrjú vesti, tvær léreftsskyrtur, tvær nærskyrtur úr vaðmáli, hattur og húfa, brjósthlíf og ein hálstrefja mórauð, forn.[749]

Bækurnar sem Friðbert átti síðast voru sálmabók, sálmabókarviðbætir, Péturshugvekjur til kvöldlestra og Kvöldlestrabók um föstuna.[750] Minnt skal á að fleiri guðsorðabækur voru til í Hraunakoti en þær átti Sigmundína (sjá hér bls. xx (XXXVI, 75b-76 og XXXVII, 1-1b)).

Þrettán einstaklingar, allir úr Súgandafirði, náðu að kaupa eitthvað á uppboðinu sem haldið var í Vatnadal 3. júlí 1899.[751] Bæinn sem fólkið í Hraunakoti hafði búið í keypti Þórður Þórðarson[752] frá Ytri-Vatnadal sem þá var orðinn kvæntur maður á Suðureyri. Hjallinn keypti Jón Einarsson á Suðureyri og Þorbjörn Gissurarson á Suðureyri keypti fjárhúsið.[753] Flestar kindurnar fékk Kristján Albertsson á Suðureyri en Jóhann Þórðarson í Selárdal keypti kamínuna og Guðmundur Guðmundsson á Suðureyri kommóðuna.[754] Hann var tengdasonur Friðberts.

Ekkja Friðberts, Sigmundína Sigmundsdóttir, náði að kaupa nokkra muni á uppboðinu, eina skyrtu, kaffikönnuna og kaffikvörnina, eina diskinn sem til var í búinu, eina kistu, borð og tunnu.[755] Fyrir þetta greiddi hún samtals fjórar krónur og níutíuogsjö aura.[756] Rúmin sem fólkið hafði sofið í voru ekki boðin upp og í uppskriftargerðinni frá 3. júní segir: Ekkjan óskaði til að halda óvirtu rúmi sínu[757] og virðist það hafa verið látið gott heita.

Eins og áður sagði skuldaði Friðbert 95,- krónur er hann andaðist og mun það allt hafa verið greitt með peningunum sem inn komu á uppboðinu. Skuldirnar voru þessar: Kaupstaðarskuld á Flateyri 55,- kr., skuld við Ólaf Gissurarson á Ósi í Bolungavík 20,- kr. og skuld við Steinþór Jónsson í Dalshúsum í Önundarfirði 20,- kr.[758]

Torfi Halldórsson, verslunarstjóri og útgerðarmaður á Flateyri, mun hafa verið góðkunningi Friðberts um langt skeið og virðist hafa haft gaman af að segja af honum sögur.[759] Ein sagan sem komst á loft var sú að eitt sinn þegar Friðbert kom í kaupstaðarferð til Flateyrar hefði hann setið þar lengi að drykkju. Magnús Hjaltason segir söguna þannig að þegar nokkuð var liðið á annan sólarhring frá því tappinn var tekinn úr hafi Torfi komið að máli við Friðbert og spurt hvað hann ætlaði að gera í dag. Drekka, svaraði Friðbert.[760] En á morgun?, spyr Torfi. Iðrast ef ekki drekka var þá svarið, að sögn Magnúsar.[761]

Þessa sömu sögu mun Torfi hafa sagt Hannesi Hafstein skömmu eftir lát Friðberts ef marka má orð Valdimars Þorvaldssonar. Hannes varð sýslumaður í Ísafjarðarsýslu fáum árum áður en Friðbert dó en náði aldrei að hitta þennan fyrrverandi hreppstjóra í Hraunakoti. Frásögn Valdimars er á þessa leið:

 

Hannes Hafstein var sýslumaður á Ísafirði síðustu ár Friðberts. Aldrei hittust þeir þó en Hafstein mun hafa heyrt hans getið. Nokkru eftir lát Friðberts var Hafstein staddur á Flateyri hjá Torfa Halldórssyni. Meðal annars barst Friðbert í tal og mun Torfi hafa sagt Hafstein nokkuð frá honum. Varð Hafstein þá að orði: „Það var slæmt að geta ekki fengið að tala við karlinn.” Við það tækifæri varð til vísa Hafsteins sem hann kallar Lán:

Lífið er dýrt,

dauðinn þess borgun.

Drekkum í kvöld,

iðrumst á morgun.

 

Vísa þessi er öll byggð af orðum sem Torfi hafði eftir Friðbert og þá þeim sem Hafstein þóttu merkilegust. Hefur Torfi þá sem oftar gert sitt til að kynna ófalsaða mynd af þessum merka gáfumanni sem hann þekkti svo vel.[762]

 

Við andlát Friðberts Guðmundssonar vorið 1899 fór Hraunakot í eyði um sinn. Ekkja hans, Sigmundína, fluttist þaðan burt síðar á því ári.[763] Hún fór þó bara yfir ána og gerðist vinnukona hjá Herdísi Þórðardóttur, búandi ekkju í Ytri-Vatnadal.[764] Þar var hún fram yfir aldamót með tvö af börnum þeirra Friðberts, Friðbert Friðbertsson og Guðmundu, en Kristjana var farin að vinna fyrir sér á Flateyri og Jóhannes í fóstri hjá Sigríði ömmu sinni, móður Sigmundínu.[765]

Aftur settist fólk að í Hraunakoti árið 1903 og mun kotið þá eða síðar hafa verið nefnt Hraunprýði.[766] Hjónin sem þá fóru að bolloka hér í húsmennsku hétu Guðmundur Guðmundsson og Sigríður Magnúsdóttir Guðmundur var sonur hjónanna Guðmundar Jónssonar og Stefaníu Friðbertsdóttur sem þá bjuggu í Fremri-Vatnadal og því dóttursonur Friðberts Guðmundssonar er áður hafði búið í kotinu.[767] Sigríður kona Guðmundar var hins vegar úr Skutulsfirði.[768] Þau Guðmundur og Sigríður höfðu gengið í hjónaband á Ísafirði haustið 1900[769] en fluttust að Vatnadal, til foreldra Guðmundar, árið 1902.[770] Í sóknarmannatölum prestsins eru þau jafnan skráð sem húsfólk í Vatnadal frá 1902 til 1911 og Hraunakot eða Hraunprýði aldrei nefnt en Guðmundur segir sjálfur að þau hafi búið hér í kotinu frá 1903 til 1911[771] og fleiri heimildir vitna um búsetu þeirra hér.[772] Valdimar Þorvaldsson segir að Guðmundur Guðmundsson hafi reist sinn bæ í tóttinni af bæ Friðberts.[773]

Þegar Guðmundur og Sigríður kona hans byrjuðu búskap sinn í kotinu vorið 1903 voru þau bæði 27 ára gömul.[774] Þau höfðu þá þegar eignast saman tvö börn en á þeim átta árum sem þau voru búsett hér bættust þrjú við.[775] Ætla má að Guðmundur hafi haft sjómennsku að aðalstarfi á þessum árum því hann taldist ekki vera bóndi.[776] Um Guðmund Guðmundsson sem nefndur var Guðmundur vatni var sagt að hann kynni að lesa í vetrarbrautina og hefði lært þá list af Friðbert afa sínum.[777] Kunnáttumenn í slíkri stjörnuskoðun voru taldir geta séð að hausti hvernig tíðarfarið yrði á komandi vetri.[778]

Þau Guðmundur vatni og Sigríður kona hans fluttust frá Hraunakoti að Gelti í Súgandafirði vorið 1911.[779] Á Gelti stóðu þau fyrir búi í 25 ár og dvöldust þar áfram hjá syni sínum allt til ársins 1952 (sjá hér bls. xx (Fr.Pét.)).

Frá 1911 lá Hraunakot í eyði í allmörg ár en 1923 var byggður hér upp bær í þriðja sinn. Þá hófu hér búskap Guðmundur Andrésson og Guðrún Sigurðardóttir sem bæði voru þá alveg um sextugt.[780]

Guðmundur Andrésson var fæddur í Innri-Hjarðardal í Önundarfirði 7. eða 8. desember 1863, sonur Andrésar Jónssonar bónda þar og Ólafar Jónsdóttur vinnukonu hans.[781] Var þetta fyrsta hórdómsbrot Andrésar en annað lausaleiksbrot Ólafar.[782] Hún var fædd á Innri-Veðrará í Önundarfirði árið 1836,[783] dóttir hjónanna Dagbjartar Filippusdóttur og Jóns eldri Sveinssonar frá Hesti (sjá hér bls. xx (XXV, 22-22b)). Árið 1889 kvæntist Guðmundur ekkjunni Helgu Þórarinsdóttur sem var eitt margra barna Kristínar Þórarinsdóttur er bjó á Stað í Súgandafirði frá 1864-1883 (sjá hér bls. xx (XXXV, 20-31)). Helga hafði áður verið gift Hálfdáni Brynjólfssyni og bjó með honum á Gelti í örfá ár.[784] Guðmundur og Helga settust að á Flateyri og þar fæddist Andrea dóttir þeirra þann 29. september árið 1891.[785] Um skeið bjuggu þau á Selakirkjubóli í Önundarfirði[786] en síðan aftur á Flateyri og þar andaðist Helga á jóladag árið 1910.[787] Fáum árum síðar fluttust þau Guðmundur Andrésson og Andrea dóttir hans til Suðureyrar og þar giftist Andrea ungum manni, Veturliða Híram Guðnasyni, á gamlársdag árið 1914.[788]

Þau Veturliði og Andrea hófu búskap í Vatnadal vorið 1920 eins og hér hefur áður verið nefnt (sjá bls. xx (XXXVI, 37-37b og 49)) og tveimur árum síðar varð Guðmundur heimilismaður þar hjá dóttur sinni og tengdasyni.[789] Í Vatnadal var þá líka móðir Veturliða, ekkjan Guðrún Sigurðardóttir,[790] og svo fór að gömlu hjúin, Guðmundur og Guðrún, ákváðu að slá sér saman og hefja búskap í Hraunakoti. Þau höfðu áður verið samtíða á Suðureyrarmölum um nokkurt skeið á árunum milli 1910 og 1920[791] og má vera að þau hafi þá þegar verið farin að krunkast á.

Guðrún Sigurðardóttir var fædd á Tannanesi í Önundarfirði 30. júní 1863 og var hún lausaleiksbarn Guðnýjar Jónsdóttur á Tannanesi og Sigurðar Þórarinssonar sem þá átti heima í Botni í Súgandafirði.[792] Frá foreldrum Guðrúnar segir hér nánar á öðrum stað (sjá bls. xx (Staður) og bls. xx (Bær)) en að sögn móður hennar kom Guðrún undir í heyhlöðu á Suðureyri í Súgandafirði aðfaranótt 1. október 1862.[793] Um sex ára aldur fluttist hún til Súgandafjarðar með Guðnýju móður sinni[794] og var næstu átta ár á Kvíanesi og í Botni en síðan í nokkur ár í Önundarfirði m.a. í Neðri-Breiðadal.[795] Árið 1881 kom hún aftur til Súgandafjarðar og haustið 1885 giftist hún Guðna Egilssyni.[796] Bjuggu þau fyrst í Klúku, hjáleigu frá Botni, en síðan á Kvíanesi og loks í Bæ. Guðni drukknaði 28. febrúar 1898 eins og frá er greint á öðrum stað í þessu riti (sjá hér bls. xx (Bær/Staður)) og hafði Guðrún því verið ekkja í 25 ár er þau Guðmundur Andrésson fóru að búa saman og settust að í Hraunakoti. Með Guðna Egilssyni hafði Guðrún eignast fimm börn sem öll komust upp og voru orðin fullorðin þegar móðir þeirra gerðist húsfreyja í Hraunakoti.[797]

Þau Guðmundur Andrésson og Guðrún Sigurðardóttir gengu aldrei í hjónaband en bjuggu saman hér í Hraunakoti, sem þá var reyndar nefnt Hraunprýði, frá 1923 til 1944.[798] Þau voru síðasta fólkið sem eyddi hér sínum ævidögum. Ættartengsl milli Guðmundar og Guðrúnar sambýliskonu hans voru margþætt og merkileg þó að ekki væru þau náskyld. Fyrst er þess að geta að móðir Guðmundar og faðir Guðrúnar höfðu eignast saman barn. Var það Guðbjörg Sveinfríður Sigurðardóttir sem um skeið bjó með Sigurði Jóhannssyni skurð á Eyri í Önundarfirði.[799] Hún var því hálfsystir beggja. Önnur tengsl voru þau að Guðmundur hafði verið kvæntur föðursystur Guðrúnar, Helgu Þórarinsdóttur[800] og síðast en ekki síst er þess að geta að dóttir Guðmundar og sonur Guðrúnar voru hjón, þau Veturliði H. Guðnason og Andrea Guðmundsdóttir í Vatnadal, eins og hér hefur áður verið nefnt.

Þegar Guðmundur Andrésson hóf búskap í Hraunakoti var samið sérstakt byggingarbréf og það undirritað af honum og eigendum beggja jarðanna í Vatnadal.[801] Í bréfinu er kveðið á um réttindi hans og skyldur og segir þar meðal annars:

 

  1. Engjaslægjur þær er fylgja eru allir blettir þeir sem til eru vestan megin árinnar, allt frá landamerkjum Bæjar og Vatnadals og fram að svonefndum Hraunum.
  2. Beitiland er honum heimilt hvar sem er í landi jarðarinnar [Vatnadals] að undanskildu túni, mót því að ábúendum skal heimil beit í landi því er hann hefur til afnota samkvæmt fyrstu grein að sömuleiðis undanskildum bletti þeim er hann ræktar sérstaklega.
  3. Árlegt eftirgjald skal vera kr. 20,-, tuttugu krónur, er greiðist á Mikaelismessu og miðast við fardagaár og greiðist í fyrsta sinn haustið 1923.

  1. Hús þau er hann [Guðmundur] kann að byggja á jarðnæðinu skulu að öllu leyti vera hans eign og hefur hann leyfi til að flytja þau burt er hann vill, óátalið af eigendum jarðarinnar.[802]

 

Bygingarbréfið ber með sér að auk beitarréttinda hefur Guðmundi verið tryggður réttur til heyöflunar á skýrt afmörkuðum engjum og gert ráð fyrir að hann ræktaði upp túnblett í Hraunakoti. Allt gekk það eftir og þegar kotið fór í eyði var komið hér tún sem gaf af sér 30 hesta af heyi.[803] Slægjulöndin sem Guðmundur Andrésson fékk til nota er hann settist að í Hraunakoti voru Litlagröf, Stóragröf og Krókur (sbr. hér bls. xx (XXXVI, 68-69)) en hann fékk svo líka að slá í Holtasundum, handan við ána, og tók þar upp mó.[804]

Hjá Guðmundi og Guðrúnu var bústofninn nokkru meiri en áður hafði verið í Hraunakoti og má sem dæmi nefna að haustið 1934 voru þau með 18 ær, 10 gemlinga, eina hryssu og 8 hænsni.[805] Enga höfðu þau samt kúna[806] og munu aldrei hafa haft.[807]

Valdimar Þorvaldsson smiður sem ritað hefur um bæjarhús í Súgandafirði á árunum kringum síðustu aldamót segir að í Hraunakoti hafi Guðmundur Guðmundsson byggt í tótt bæjarins sem hætt var að búa í árið 1899 og síðan hafi Guðmundur Andrésson byggt upp þessa sömu tótt með þilgólfum að miklu.[808] Valdimar lætur þess getið að bær Guðmundar Andréssonar hafi þó verið um það bil einu feti styttri því hjá honum hafi ekki verið hlóð út í vegginn.[809] Að sögn Valdimars var húsið sem Guðmundur Andrésson og Guðrún, sambýliskona hans, bjuggu í 10 x 15 fet,[810] það er 3,14 x 4,71 metrar eða 14,8 fermetrar. Í húsinu var eitt íveruherbergi og lítill gangur.[811] Herbergið var þiljað að innan og málað.[812] Á sumrin var torfþakið á húsinu jafnan fagurgrænt enda var möluðu taði jafnan ausið yfir það á vorin.[813] Valdimar Þorvaldsson segir reyndar að hús þetta hafi verið með timbur og járnþaki[814] en í manntalinu frá 1940 er tekið fram að bárujárnið sé undir torfþaki og stendur þá allt heima.[815] Á gaflinum sem sneri fram í dalinn var lítill gluggi og undir honum torfstallur.[816] Útidyr voru á þeirri hlið hússins sem sneri að ánni og steinstétt með hliðinni vinstra megin við dyrnar.[817] Gangurinn innan við útidyrnar náði bara inn í mitt húsið.[818] Hann var þröngur og óþiljaður en í honum var timburgólf sem alltaf var hvítskúrað.[819] Þegar gengið var inn ganginn voru til hægri dyr inn í búrið sem einnig mætti kallast geymsla en til vinstri voru dyrnar inn í íveruherbergið.[820]

Helga Veturliðadóttir sem var dótturdóttir Guðmundar og sonardóttir Guðrúnar var fædd 1917 og ólst upp hjá foreldrum sínum í Vatnadal. Hún segir að þetta eina herbergi í kotinu hafi verið þokkaleg, lítil stofa.[821] Panelþilin voru máluð í ljósbláum lit og loftið hvítmálað[822]

Þegar gengið var inn í íveruherbergið var á hægri hönd dálítið skot eða krókur fyrir endanum á ganginum[823] en eins og fyrr var nefnt náði gangurinn aðeins inn í mitt húsið eða því sem næst. Á horninu við krókinn, hægra megin við dyrnar þegar inn var gengið, stóð einhólfa skipakabyssa og á henni var jafnan stór emaléraður kaffiketill, blár að lit.[824] Bak við hurðina, vinstra megin við dyrnar, stóð skápur með hengi fyrir, gerður úr tveimur kexkössum.[825] Á skápnum var hvítur dúkur og þar stóð þvottaskál og vatnskanna.[826] Ofan við skápinn hékk ofurlítill spegill.[827] Við norðurvegginn, nær ánni, stóð rúm Guðmundar en við suðurvegginn voru tvö rúm.[828] Í því innra svaf Guðrún en í fremra rúminu, nær dyrunum, sváfu drengirnir tveir sem ólust upp í Hraunakoti á árunum 1923-1940.[829] Annar þeirra var dóttursonur Guðrúnar en hinn sonarsonur hennar.

Í horninu inn í króknum stóð lítill rauðmálaður skápur með vængjahurð.[830] Hann nýttist Guðrúnu sem borð þegar hún var að matbúa.[831] Yfir þessum skáp hékk svört húsklukka og þarna í króknum var líka stór hilla sem á var raðað ýmsu dóti af smærra tagi.[832]

Á þilinu yfir rúmi Guðmundar hékk bókahilla, búin til úr tvinnakeflum og tveimur fjölum.[833] Öðrum megin við hilluna var blaðahengi en á gaflinum yfir höfðalagi Guðmundar hékk mynd af sálmaskáldinu Hallgrími Péturssyni.[834] Á veggnum yfir rúmi Guðrúnar héngu fjölskyldumyndir.[835] Undir glugganum á austurgafli var borð sem heimafólk mataðist við.[836] Borðið stóð milli rúma Guðmundar og Guðrúnar.[837]

Á borðshorninu við rúm Guðrúnar hafði hún ljóstýruna sína. Henni lýsir Helga Veturliðadóttir svo:

 

[Týran] var venjuleg sultukrukka, þvegin vel og pússuð og í hana sett steinolía og lokað með korktappa. Í gegnum miðju tappans var sett málmpípa og í gegnum hana dreginn kveikur, neðri endinn látinn hringa sig í olíuna.[838]

 

Ofan á málmpípuna var lóðuð látúnspjatla svo ekki kæmist eldur í korktappann.[839]

Við þessa litlu ljósatýru prjónaði Guðrún mikið og margt en týran var reyndar ekki eini ljósgjafinn í bænum því niður úr miðju loftinu hékk fallegur hengilampi.[840] Á lampanum var þó aldrei kveikt fyrr en eftir klukkan átta á kvöldin.[841]

Tóttirnar í Hraunakoti haggast lítt þó árin líði. Sjálfa bæjartóttina er auðvelt að greina því stéttin sem áður var minnst á er hér enn við norðurhliðina. Sunnan við þessa tótt og áföst henni er önnur allstór sem gæti hafa verið heystæði. Þar sést líka rústin af örlitlu húsi sem mun hafa verið hænsnakofi því Helga Veturliðadóttir segir að hann hafi verið í tóttarbroti á bak við bæinn.[842] Aðeins sunnar og vestar, nær sjó, eru svo tóttir þriggja húsa sem virðast öll hafa verið sambyggð. Nærri lætur að stærsta tóttin í þessari sambyggingu sé 3 x 5 metrar að flatarmáli og sú næststærsta 2,5 x 2,5 metrar. Fremsta húsið þarna var hlaða og sneru vindaugun fram í dalinn.[843] Í miðjunni var fjárhús og þriðja húsið var hrútakofi.[844] Valdimar Þorvaldsson getur þess að auk bæjarins eða íbúðarhússins hafi Guðmundur Andrésson byggt fjárhús og hlöðu og fleira í Hraunakoti.[845] Ekkert hesthús var í Hraunakoti en merin sem Guðmundur Andrésson átti (sjá hér bls. xx (12b)) höfð á húsi hjá Veturliða tengdasyni hans í Vatnadal.[846]

Næst ánni og skammt frá sjálfum bænum er mjög lítil tótt, aðeins 4-5 fermetrar, en það var mókofi.[847] Við þessa síðast nefndu tótt virðist hafa verið lítill garður, um 40 fermetrar að flatarmáli, en hér er grunnur jarðvegur svo garðstæðið hefur varla verið heppilegt til kál- eða kartöfluræktar. Frá tóttunum í Hraunakoti er örskammt að jaðri Hraunanna sem eru neðar í dalnum og þar inn á milli grjóthólanna, í um það bil 50 metra fjarlægð frá bænum, sjást ummerki um lítinn kálgarð, álíka stóran og þann sem fyrr var nefndur. Hlaðnir veggir standa þar enn. Á þessum stað mun Guðrún húsfreyja í Hraunakoti hafa ræktað kartöflur og rabarbara.[848] Niður með ánni og talsvert fjær bænum hefur svo augljóslega verið mun stærri garður af svipuðu tagi. Þessum kálgarði komu þau Guðmundur og Guðrún upp en þar spratt illa og var hann aðeins fá ár í notkun.[849]

Á búskaparárum Guðmundar Andréssonar og Guðrúnar Sigurðardóttur hér í Hraunakoti voru þau alllengi með fjögra manna heimili því dóttursonur Guðrúnar, fæddur 1914, var hjá þeim í fóstri í a.m.k. 7 ár og sonarsonur hennar, fæddur 1922, ólst að mestu leyti upp hjá ömmu sinni.[850]

Guðmundur Andrésson sem síðastur manna byggði upp í Hraunakoti og bjó hér í 21 ár í elli sinni var gamall sjómaður. Hann var lengi á þilskipum, ýmist sem háseti eða stýrimaður, og á árum áður formaður á sexæring frá Flateyri.[851] Reinald Kristjánsson póstur sem lengi bjó á Kaldá var á skútu með Guðmundi og þegar Guðmundur bjó á Selakirkjubóli á árunum kringum aldamótin voru þeir nágrannar.[852] Reinald segir að Guðmundur hafi verið einhver hinn röskasti sjómaður og stjórnari með afbrigðum í vondu veðri og líka hinn besti drengur og ágætur félagi.[853] Hann lætur þess einnig getið að í vetrarróðrum á árabát úr Önundarfirði hafi Guðmundur sótt á dýpstu mið og alveg norður á Ísafjarðardjúp.[854]

Í minningarorðum sem Halldór Guðmundsson á Suðureyri ritaði að Guðmundi Andréssyni látnum segir hann Guðmund hafa verið háseta á skútu hjá Jóni Sveinbjörnssyni frá Kirkjubóli í Valþjófsdal.[855] Sú skúta hlýtur að hafa verið Svanurinn sem hér er sagt frá á öðrum stað (sjá hér bls. xx (XVIII, 80b, lausbl.)) en þegar Jón Sveinbjörnsson dó sumarið 1882 var Guðmundur aðeins 18 ára gamall. Líklegt má því telja að sjómennsku sína á þilskipum hafi Guðmundur byrjað á Svaninum en það skip áttu þá nokkrir Önfirðingar og voru sumir þeirra búsettir í Valþjófsdal.

Árið 1883, 1884 og 1885 var Guðmundur Andrésson háseti hjá Kjartani Rósinkranzsyni á skútunni Hildu Maríu sem gerð var út frá Flateyri og næstu tvö árin var hann með Helga Andréssyni á skútunni Ísafold frá Flateyri[856] (sbr. hér bls. xx (XXIX, 59b og 62b-63)). Frá 1888 til 1890 var hann með Helga Andréssyni á Gretti og 1891 með Ebenezer Sturlusyni á Flateyrinni.[857] Allt voru þetta skútur frá Flateyri og stunduðu þær yfirleitt hákarlaveiðar.

Seinna var Guðmundur stýrimaður á ýmsum þilskipum, með Kjartani Rósinkranzsyni á Guðnýju frá Dýrafirði og Lovísu frá Ísafirði, með Helga Andréssyni á Sigríði frá Ísafirði, og með Ebenezer Sturlusyni á Flateyrinni.[858] Þau skip kunna að hafa verið fleiri.

Á árunum fyrir síðustu aldamót var Guðmundur Andrésson formaður á sexæring sem gerður var út frá Flateyri á haustin og átti þá sjálfur hálfan bátinn.[859] Halldór Guðmundsson sem seinna átti mjög lengi heima á Suðureyri var þá háseti hjá Guðmundi tvær haustvertíðir og segir þá hafa fiskað mest allra sem þá reru frá Flateyri.[860] Guðmundur fluttist í Súgandafjörð ári 1913 og var á bátum frá Suðureyri næstu árin.[861] Að sögn Halldórs Guðmundssonar var hann einn hinna bestu sjómanna Vestfjarða á tímum skútualdarinnar og jafnan eftirsóttur í skiprúm.[862]

Guðrún Sigurðardóttir sem bjó með Guðmundi Andréssyni í Hraunakoti var merkiskona sem margt hafði reynt. Í þessu riti er sagt nánar frá henni á öðrum stað en hjá alþýðuskáldinu Magnúsi Hjaltasyni fékk hún löngu fyrr nafnbótina heiðursekkja (sjá hér bls. xx). Guðrún var hávaxin kona og á efri árum var hún bein í baki grönn og spengileg.[863] Í Hraunakoti gekk hún daglega í síðu peysufatapilsi, svörtu að lit og þröngri dagtreyju.[864] Svo var hún jafnan með svuntu sem var rykkt undir streng í mittið.[865] Á helgum og hátíðum klæddist hún peysufötum og setti þá upp skotthúfu, slifsi og silkisvuntu.[866]

Ýmislegt bendir til þess að Guðrún hafi verið fastheldin á fornar venjur. Þegar börn hennar þrjú bjuggu í Vatnadal með sínar fjölskyldur og hún þar hjá þeim, roskin kona, var jafnan haldið upp á Gvendardag með tilbreytingu í mat (sjá hér bls. xx XXXV, 73-73b)) en þá er ártíð Guðmundar góða Hólabiskups sem andaðist árið 1237.

Þegar lokið var við að hreinsa túnið í Vatnadal á vorin kom Guðrún jafnan með hveitiköku og færði börnunum sem þátt höfðu tekið í því verki.[867] Þetta var vallarkakan er svo var nefnd.[868] Hana steikti gamla konan í feiti á pönnu og smurði með miklu smjöri.[869] Með vallarkökunni fengu börnin heitt kakó að drekka.[870]

Á árunum milli 1920 og 1930 var sú venja enn við lýði í Vatnadal að fólkið þar og í Hraunakoti hlyddi saman á húslestur á hverjum sunnudegi þegar ekki var farið til kirkju.[871] Yfirleitt var það Guðni Albert Guðnason, annar tveggja sona Guðrúnar sem bjuggu í Vatnadal, er las lesturinn.[872] Vorið 1930 varð Guðrún fyrir þeirri þungu sorg að þessi sonur hennar andaðist mjög skyndilega, aðeins 34 ára að aldri (sjá hér bls. xx (XXXVI, 49-50b)). Að Guðna látnum vissu börnin í Vatnadal ekki hver nú myndi lesa lesturinn næsta sunnudag en þegar stundin kom var það Guðrún, amma þeirra, sem tók bókina og las, fyrst ofurlítið skjálfrödduð en brátt með fullum styrk.[873] Börnunum sem á hlyddu fannst hún þá vera eins og óhagganlegur klettur.[874]

Árið 1943 urðu þau Guðmundur Andrésson og Guðrún Sigurðardóttir bæði áttræð og þá fór ellin að segja á þau sitt mark. Haustið 1944 hættu þau loks að bolloka í Hraunakoti og fluttust yfir ána, á heimili barna sinna, Veturliða og Andreu í Vatnadal.[875] Þar andaðist Guðmundur 17. febrúar 1948[876] en síðar á því ári fór Vatnadalur í eyði er fólkið sem þar átti heima fluttist inn á Suðureyri.[877] Þangað fylgdi Guðrún gamla Sigurðardóttir fólki sínu frá Vatnadal en þá voru dagar hennar brátt taldir því hún andaðist á Suðureyri 21. nóvember árið 1948.[878]

Við tóttirnar í Hraunakoti er gott að dvelja lengi dags en nú er sól í náttmálastað og brátt kominn tími til að vaða yfir ána. Við reikum samt fyrst litla stund um hið gróna land við jaðar Hraunanna. Rétt ofan við bæjartóttina, fjær ánni, er strýtumyndað holt og ofan á því grjótklettur. Fólkið sem bjó í Hraunakoti á fyrstu árum 20. aldar kallaði þessa strýtu Hrafnaklett[879] en síðar varð nafnið Hrafnaholt munntamara því fólki sem átti heima í Hraunakoti og Vatnadal.[880] Neðan við tóttirnar í Hraunakoti, það er að segja nær sjó, og örskammt frá jaðri Hraunanna er dálítill hryggur sem heitir Hreggnasi.[881] Hann nær alveg fram á árbakkann og endar í brattri brekku við ána.[882]

Spölurinn frá Hraunakoti að landamerkjum Vatnadals og Bæjar er mjög stuttur en þeim hefur áður verið lýst á þessum blöðum (sjá hér bls. xx (XXXVI, 26b-27)). Þar á merkjunum, sem liggja um Hraunin, er hóllinn Hraunakollur en annað nafn á honum er Rauðkollur. Hann er auðfundinn því rauði liturinn segir til. Ofan af Hraunakoll sér vel yfir umhverfið og litlu framar er í Hraununum annar hár grjóthóll sem heitir Hraunhóll.[883]

Frá Hraunakoti sér heim að Stað en til kirkjunnar þar gat fólkið sem hér bjó auðveldlega gengið á hálfri klukkustund. Bæði kotið og kirkjustaðurinn eru vestan Langár en yfir Þverá sem fellur rétt framan við túnið á Stað var göngubrú á fyrri hluta 20. aldar (sjá hér bls. xx XXXVI, 20, lausbl.)).

Allt neysluvatn fyrir menn og skepnur varð fólkið í Hraunakoti að sækja niður í Langá.[884] Sá spölur er ekki langur en erfitt hlýtur þó að hafa verið að ná vatninu og bera það til bæjar þegar svellalög huldu jörð og hríðar geisuðu.

Í tíð Guðmundar Andréssonar og Guðrúnar Sigurðardóttur var hér göngubrú og mun hún hafa verið sett á ána um svipað leyti og þau settust að í kotinu[885] (sjá hér bls. xx (XXXVI, 25b, lausbl.)). Framan við brúna var hestavað.[886] Oft fór brúin á kaf í snjó og varð að moka hana upp til að forða því að hún sligaðist undan snjófarginu.[887] Í miklu hvassviðri gat komið fyrir að brúin sviptist af ánni og sú hætta var einnig fyrir hendi þegar áin bólgnaði upp svo um munaði.[888]

Framan við tóttirnar í Hraunakoti er lygna í ánni og heitir þar Langafljót eins og hér hefur áður verið nefnt. Á bökkum þess drögum við sokka og skó af fótum, göngum berfætt í grasinu á árbakkanum og vöðum svo yfir því brúin sem hér var í tíð síðasta bóndans í Vatnadal er nú löngu fallin.

 

 

 

 

– – – – – – – – – – o o o o o – – – – – – – – – –

 

[1] Lbs. 7974to, Jarðaskrár úr Ísafj.sýslu frá 1658 og 1695.  Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns VII,

129-130.  Rtk. Jarðabækur V. 16. Ísafj.sýsla 1805.  J. Johnson 1847, 196.  Örnefnastofnun / Kristján G.

Þorvaldsson 1949, 70.

[2] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 70.

[3] D.I. II, 575.  D.I. V. 206-207, 649-650 og 806-807. D.I. VII, 232-234 og 247-249. D.I. VIII, 266-269 og

D.I. XV, 571.

[4] D.I. XV, 571.

[5] Alþingisbækur Íslands V, 220-221.

[6] Jarðab. Á. og P. VII, 129-131.

[7] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 70.

[8] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 70.

[9] Sóknalýsingar Vestfjarða II, 112.

[10] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 71.

[11] Sama heimild, 73.

[12] Sóknalýs. Vestfj. II, 117.

[13] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 73 og 81.

[14] Sóknalýs. Vestfj. II, 117.

[15] Guðmundur Guðmundsson 1946, 47 (Vestfirskar sagnir III, fyrri hluti).

[16] Sama heimild, 47 og 49.

[17] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 74.

[18] Guðm. Guðmundsson 1946, 46-47.

[19] Sóknalýs. Vestfj. II, 112.

[20] Ólafur Veturliðason. – Viðtal K.Ó. við hann 11.2.1996.

[21] Sama heimild.

[22] Kristján G. Þorvaldsson 1983, 123-124 (Ársrit S.Í.).

[23] Sama heimild.

[24] Kristján G. Þorvaldsson 1983, 123-124 (Ársrit S.Í.).

[25] Sbr. Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 114.

[26] Kristján G. Þorvaldsson 1963, 123-124.

[27] Valdimar Þorvaldsson 1953, 63 (Frá ystu nesjum VI).

[28] Sama heimild.

[29] Guðm. Guðmundsson 1946, 44 (Vestf. Sagnir III, fyrri hluti).

[30] Ólafur Veturliðason. – Viðtal K.Ó. við hann 11.2.1996.

[31] Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, 49-50.

[32] Ólafur Veturliðason. – Viðtal K.Ó. við hann 11.2.1996.

[33] Sama heimild.

[34] Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, 49-50.

[35] Sama heimild, 28-29.

[36] Sama heimild.

[37] Guðm. Guðmundsson 1946, 51 (Vestf. sagnir III, fyrri hluti).

[38] Guðm. Guðmundsson 1946, 51 (Vestf. Sagnir III, fyrri hluti).

[39] Ólafur Veturliðason. – Viðtal K.Ó. við hann 11.2.1996.

[40] Sama heimild.

[41] Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, 28.

[42] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 71.  Sbr. Guðm. Guðm. 1946, 44-45.

[43] Guðm. Guðmundsson 1946, 44-45.

[44] Sama heimild, 78.

[45] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 75.

[46] Sama heimild, 71.

[47] Sama heimild, 71-72.

[48] Sama heimild.

[49] D.I. V, 206-207.

[50] Ólafur Veturliðason. – Viðtal K.Ó. við hann 11.2.1996.

[51] D.I. II, 575.

[52] D.I. XV, 571.

[53] Sama heimild.

[54] Jarðab. Á. og P. VII, 128-131.

[55] D.I. V, 206-207.

[56] D.I. V, 206-207.

[57] Jarðab. Á. og P. VII, 129-131.

[58] Sama heimild.

[59] Sama heimild.

[60] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 71.

[61] Valdimar Þorvaldsson 1963, 57.

[62] Guðm. Guðmundsson 1946, 45.  Sbr. Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 11.

[63] Lbs. 7974to, Jarðaskrár úr Ísafj.sýslu frá árunum 1658 og 1695.  Jarðab. Á. og P. VII, 129-130.

Rtk. Jarðabækur V. 16, Ísafj.sýsla 1805.  J. Johnson 1847, 196.

[64] Sóknalýs. Vestfj. II, 112.

[65] Fasteignamatsskjöl. Gjörðabók undirmatsnefndar í V-Ísafj.sýslu, löggilt 26.3.1919.

[66] Lbs. 7974to, Jarðaskrá úr Ísafj.sýslu frá árinu 1658.

[67] Sama Jarðaskrá frá árinu 1695.

[68] Jarðab. Á. og P. XIII, 253.

[69] Sama jarðabók VII, 129-130.

[70] Sama heimild, 129.

[71] Sama heimild.

[72] Sama heimild.

[73] Sama heimild.

[74] Sbr. Jón J. Aðils 1971, 421.

[75] Jarða- og bændatöl 1752-1767, Ísafj.sýsla 1753.

[76] J. Johnson 1847, 196.

[77] Fasteignamatsskjöl. Gjörðabók undirmatsnefndar í V-Ísafj.sýslu, löggilt 26.3.1919.

[78] Stjórnartíðindi 1919 B, bls. 58 og 1920 B, bls. 56.

[79] Lbs. 7974to, Jarðaskrár úr Ísafj.sýslu frá árunum 1658 og 1695.

[80] Jarðab. Á. og P. VII, 129.

[81] Sama heimild, 129 og 254.

[82] Jarða- og bændatöl 1752-1767, Ísafj.sýsla 1753.

[83] J.Johnsen 1847,196.

[84] Fasteignamatsskjöl. Gjörðabók undirmatsnefndar í V-Ísafj.sýslu, löggilt 26.3.1919.

[85] Jarðab. Á. og P. VII, 130.

[86] Fasteignamatsskjöl. Gjörðabók undirmatsnefndar í V-Ísafj.sýslu, löggilt 26.3.1919.

[87] Sama heimild.

[88] Sóknalýs. Vestfj. II, 117.

[89] Sama heimild, 118.

[90] Sama heimild.

[91] Rtk. Jarðabækur V. 16, Ísafj.sýsla 1805.

[92] Sama heimild.

[93] Fasteignamatsskjöl. Gjörðabók undirmatsnefndar í V-Ísafj.sýslu, löggilt 26.3.1919.

[94] Sama heimild.

[95] Fasteignabók 1932.

[96] Sama heimild.

[97] Sama heimild.

[98] Guðm. Guðmundsson 1946, 46-49.

[99] Sama heimild.

[100] Guðm. Guðmundsson 1946, 46-49

[101].Sama heimild.

[102] Sama heimild.

[103] Jarðab. Á. og P. VII, 130.

[104] Rtk. Jarðabækur V. 16, Ísafj.sýsla 1805.  Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1, búnaðarskýrslur 1821, 1827,

1830, 1834 og 1837.  VA III, 408, búnaðarskýrsla 1840.

[105] Sömu heimildir.

[106] VA III, 412, 417, 421 og 424, búnaðarskýrslur 1850, 1860, 1870 og 1880.

[107] Sömu heimildir.

[108] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1, bún.sk. 1837.  VA III, 412 og 417, bún.sk. 1850 og 1860.

[109] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1, bún.sk. 1821, 1827 og 1830.  VA III, 408 og 421, bún.sk. 1840

og 1870.

[110] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1, bún.sk. 1834.  VA III, 424 bún.sk. 1880..

[111] Hsk. Ísaf. nr. 295. Skýrsla um fjölda búfjár í Suðureyrarhr. í fardögum árið 1934, undirrituð 28.11.1934

af Friðbert Guðmundssyni hreppstjóra.

[112] Sama heimild.

[113] Fasteignabók 1932.

[114] D.I. II, 575.

[115] Jarðab. Á. og P. VII, 129.

[116] Sama heimild.

[117] D.I. V, 649-650.

[118] D.I. V, 649-650.

[119] Sama heimild og 806-807.

[120] Sama heimild, 806-807.

[121] Sama heimild.

[122] Sbr. Sveinn Níelsson 1950, 188.

[123] D.I. V, 806-807.

[124] D.I. VII, 247-249.  Íslenskar æviskrár I, 267.

[125] D.I. VII, 247-249.

[126] Sama heimild.

[127] Ísl. æviskrár I, 267 og IV, 112-113.

[128] D.I. VII, 232-234.

[129] Sama heimild, 247-249.

[130] D.I. VIII, 165-166.

[131] Sama heimild.

[132] Ísl. æviskrár I, 155-156.

[133] D.I. VIII, 266-269.

[134] Sama heimild.

[135] Sama heimild.

[136] Páll E. Ólason 1944, 11-29.

[137] Sama heimild.

[138] D.I. XV, 571.

[139] Vestf. ættir IV, 374.

[140] Sama heimild.

[141] Sama heimild, 373-375.

[142] Alþ.bækur Íslands V, 220-221.  Vestf. ættir IV, 369 og 371.

[143] Alþ.bækur Íslands V, 220-221.

[144] Jarðabréf frá 16. og 17. öld. Útdrættir. Kph. 1993, 157.

[145] Jón Magnússon 1967, 102.  Sjá einnig þar bls. 49, 127, 132 og 162.

[146] Vestf. ættir IV, 371.  Jarðabréf frá 16. og 17. öld. Útdrættir. Kph. 1993, 157.

[147] Vestf. ættir IV, 371 og 506.

[148] Sama heimild, 371, 374-375.

[149] Vestf. ættir IV, 374.

[150] Lbs. 7974to, Jarðaskrá úr Ísafj.sýslu frá árinu 1658.

[151] Vestf. ættir IV, 371-372 (Theódór Árn.)).

[152] Jarðabréf frá 16. og 17. öld. Útdrættir. Kph. 1993, 171.

[153] Jarðab. Á. og P. VII, 129 og XIII, 253.

[154] Lbs. 7974to, Jarðaskrá úr Ísafj.sýslu frá árinu 1695.  Sbr. Ísl. æviskrár II, 304.

[155] Jarðab. Á. og P. VII, 129 og 254.

[156] Jarða- og bændatöl 1752-1767. Ísafj.sýsla 1753.

[157] Manntal 1762.

[158] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. IV. 6. Dóma- og þingbók 1817-1834, bls. 104.

[159] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. IV. 6. Dóma- og þingbók 1817-1834, bls. 104.

[160] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XII. 10. Skiptabók 1860-1864, bls. 56-62.

[161] Sama heimild.

[162] Sbr. Vestf. ættir I, 396-403.

[163] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XVI. 3. Veðmálabók 1868-1882 C, bls. 38.

[164] Fasteignamatsskjöl. Gjörðabók fasteignamatsnefndar í V-Ísafj.sýslu, löggilt 9.3.1916.

[165] Sama heimild.

[166] Manntal 1920.  Sbr. Vestf. ættir I, 228.

[167] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ísafj.sýsla. Suðureyrarhreppur 3. Uppskrifta- og gjörðabók 1881-1913.

[168] Sama heimild.

[169] Manntal 1901, fylgiskjöl.

[170] Fasteignamatsskjöl. Gjörðabók fasteignamatsnefndar í V-Ísafj.sýslu, löggilt 9.3.1916.

[171] Sama heimild.

[172] Sóknarmannatöl Staðar í Súgandafirði.  Skjöl Suðureyrarhrepps, varðveitt þar. Bréfabók nr. 1. Bréf

hreppsnefndar 6.4.1920 til sýslunefndarinnar í V-Ísafj.sýslu.  Sama bréfabók. Bréf hreppsnefndar

14.8.1920 til Veturliða H. Guðnasonar og Guðna A. Guðnasonar í Vatnadal.

[173] Sömu bréf.

[174] Sama bréfabók. Bréf hreppsnefndar Suðureyrarhr. 14.8.1920 til Veturliða H. Guðnasonar og Guðna A.

Guðnasonar í Vatnadal og bréf sömu hreppsnefndar 18.10.1920 til Guðna A. Guðnasonar, Veturliða H.

Guðnasonar og Ólafs Þ. Jónssonar, allra í Vatnadal.

[175] Sömu heimildir.

[176] Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 49-50.

[177] Fasteignamatsskjöl. Gjörðabók undirmatsnefndar í V-Ísafj.sýslu, löggilt 26.3.1919.

[178] Sama heimild.

[179] Skjöl Suðureyrarhr., varðv. þar. Bréfabók nr. 1. Bréf hreppsn. 6.4.1920 til sýslunefndarinnar í V-Ís.

[180] Sama heimild.

[181] Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 49-50.  Sbr. Gunnar M. Magnúss 1977, 276-277 og 294.

[182] Skjöl Suðureyrarhr., varðv. þar. Bréfabók nr. 1. Bréf hreppsn. 6.4.1920 til sýslunefndarinnar í V-Ís.

[183] Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 49-50.

[184] Sama heimild.

[185] Skjöl Suðureyrarhr., varðv. þar. Bréfabók nr. 1. Bréf hreppsn. 6.4.1920 til sýslunefndarinnar í V-Ís.

[186] Sama heimild.

[187] Sama heimild.

[188] Skjöl Suðureyrarhr., varðv. þar. Bréfabók nr. 1. Bréf hreppsn. 6.4.1920 til sýslunefndarinnar í V-Ís.

[189] Sama heimild.

[190] Sama heimild.

[191] Ólafur Veturliðason. – Viðtal K.Ó. við hann 11.2.1996.

[192] Fasteignabók 1932.

[193] Manntal 1703.  Jarðab. Á. og P. VII, 129-130.  Jarða- og bændatöl 1752-1767, Ísafj.sýsla 1753.

Manntöl 1762, 1801, 1816, 1835, 1840, 1845, 1850, 1855, 1860, 1870, 1880, 1890 og 1901.

Rtk. Jarðabækur V. 16, Ísafj.sýsla 1805.  Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[194] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[195] Bændatöl og skuldaskrár frá 1735 eða því sem næst, eftirrit.

[196] Manntal 1703.

[197] Sama heimild.

[198] Jón Þorkelsson 1895, 54-57 (Saga Magnúsar prúða).  Annálar III, 48 og 255-256.

[199] Jón Þorkelsson 1895, 54-55.

[200] Sama heimild, 54-58.

[201] Sama heimild.

[202] Annálar III, 255-256.

[203] Sama heimild, 237-239.

[204] Jón Þorkelsson 1895, 54-57.

[205] Manntal 1703.

[206] Sama heimild.

[207] Manntal 1703.

[208] Sama heimild.

[209] Sama heimild.

[210] Jarðab. Á. og P. VII, 129.

[211] Bændatöl og skuldaskrár frá árinu 1735 eða því sem næst, eftirrit.

[212] Sbr. Manntal 1703.

[213] Manntal 1703, nafnalykill.

[214] Ólafur Snóksdalín I, 220.

[215] Manntal 1762.

[216] Ól. Snóksdalín I, 220 og II, 418.  Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf. 1785-1790.

[217] Manntal 1816, vesturamt, bls. 697.

[218] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[219] Sama heimild.

[220] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[221] Prestsþjónustubækur Staðar í Súgandafirði.

[222] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[223] Sama heimild.

[224] Sama heimild.

[225] Manntal 1845.

[226] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[227] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[228] Rtk. Jarðabækur V. 16, Ísafj.sýsla 1805.

[229] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.  Manntal 1816, bls. 697.

[230] Sömu heimildir.

[231] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[232] Sama heimild.

[233] Sama heimild.

[234] Sama heimild.

[235] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1, búnaðarskýrslur 1827.

[236] Sama skj.s. Ís. XX. 1, búnaðarskýrslur 1821 og 1830.

[237] Sama askja, búnaðarskýrslur 1827.

[238] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.  Manntal 1816, bls. 697.

[239] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.  Manntal 1816, bls. 698 og Nafnalykill sem því fylgir.

[240] Manntal 1816, bls. 698.

[241] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[242] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1, búnaðarskýrslur 1834.

[243] Sóknarm.töl og prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[244] Sömu heimildir.

[245] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[246] Sama heimild.

[247] Sama heimild.

[248] Sama heimild.

[249] Sama heimild.

[250] Manntal 1845.

[251] VA III, 412, búnaðarskýrslur 1850.

[252] Rtk. Jarðabækur V. 16, Ísafj.sýsla 1805.

[253] J. Johnsen 1847, 196.

[254] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.  Manntal 1855.

[255] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[256] Sama heimild.

[257] Sama heimild.

[258] Sama heimild.

[259] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[260] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[261] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[262] Sama heimild og Manntal 1801, vesturamt, bls. 313.

[263] Sömu heimildir.

[264] Sighvatur Grímsson Borgfirðingur / Þjóðviljinn ungi 3.6.1899.  Sbr. Manntal 1801, vesturamt, bls. 313,

og manntal 1816, 699.  Valdimar Þorvaldsson 1982, 85.

[265] Manntal 1816, 697.

[266] Sóknarm.töl Eyrar í Skutulsfirði 1792, Hanhóll í Bolungavík.

[267] Sama heimild.

[268] Manntal 1801, vesturamt, bls. 304.  Manntal 1816, 697.

[269] Bogi Benediktsson / Sýslumannaæfir II, 618.  Sbr. Vestf. ættir I, 372 og Annála III, 132.

[270] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[271] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[272] Sömu heimildir.

[273] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[274] Ólafur Þ. Kristjánsson / Önfirðingar.

[275] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Holts í Önundarf. og Staðar í Súgandaf.

[276] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[277] Sama heimild.

[278] Þjóðviljinn ungi 3.6.1899.

[279] Sama heimild.  Gunnar M. Magnúss / Kristján G. Þorvaldsson 1971, 138 og 144.

[280] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[281] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[282] Ól. Þ. Kr. 1949, 106.

[283] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[284] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[285] Sama heimild.

[286] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[287] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[288] Sama heimild.

[289] Sama heimild.

[290] Eyjólfur Jónsson 1967, 65-67 og 73.

[291] Sama heimild, 65.

[292] Eyjólfur Jónsson 1967, 73.

[293] Sama heimild.

[294] Sama heimild.

[295] Sama heimild, 73-92.

[296] Sama heimild.

[297] Sóknarm.tal Staðar í Súgandaf. 31.12.1895.

[298] Eyjólfur Jónsson 1967, 73.

[299] Gunnar M. Magnúss 1977, 108-110.

[300] Guðmundur Guðmundsson 1946, 41-51.

[301] Lbs. 27364to, bls. 43-44.

[302] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.  Sbr. Eyjólfur Jónsson 1967, 74.

[303] VA III, 424, búnaðarskýrslur 1880.

[304] Skjöl Suðureyrarhrepps, varðveitt þar. Bók fyrir Suðureyrarhrepp 1888-1902. Skýrslur um framtal til

lausafjártíundar 1888 og 1895.

[305] VA III, 424, búnaðarskýrslur 1880.

[306] Hsk. Ísafirði nr. 089. Höfuðbók nr. 5 frá verslun Hjálmars Jónssonar á Flateyri, bls. 174.

[307] Sama heimild.

[308] Sama heimild.

[309] Sama heimild.

[310] Sama heimild.

[311] Sama heimild.

[312] Sama heimild.

[313] Sama heimild.

[314] Sama heimild.

[315] Sama heimild.

[316] Sama heimild.

[317] Sama heimild.

[318] Sama heimild.

[319] Lbs. 27364to, bls. 43-44.

[320] Lbs. 31524to / Halldór Guðmundsson, bls. 201.

[321] Sama heimild, 238-240.

[322] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[323] Eyjólfur Jónsson 1967, 73.

[324] Sama heimild.

[325] Guðmundur Guðmundsson 1946, 42 (Vestf. sagnir III).  Gunnar M. Magnúss 1977, 110.

[326] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[327] Guðni E. Guðnason / Guðni Albert Guðnason kóngabani, fjölrit frá 1992 í eigu K.Ó.

[328] Sama heimild.

[329] Emil Tómasson 1966, 53-54. (Íslenska glíman – gamlar minningar og nýjar. Höfundur gefur út.

Kópavogi 1966. Þetta er lítil bók.

[330] Sama heimild.

[331] Sama heimild.

[332] Sama heimild.

[333] Sama heimild.

[334] Guðni A. Guðnason / Röðull maí 1921, 2. árgangur, 3. blað. Ljósrit í eigu K.Ó.

[335] Sama heimild.

[336] Sturla Jónsson / Röðull, handskrifað blað Íþróttafélagsins Stefnis á Suðureyri ár 1930, ljósrit í eigu K.Ó.

[337] Sama heimild.

[338] Guðni E. Guðnason / Guðni Albert Guðnason kóngabani, fjölrit frá 1992 í eigu K.Ó.

[339] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[340] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[341] Sama heimild.

[342] Prestsþj.b. Holts í Önundarf., dánir 1804.

[343] Sama heimild.

[344] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.  Sbr. Prestsþj.b. Holts í Önundarf., dánir 1904.

[345] Sömu heimildir.

[346] Prestsþj.b. Holts í Önundarf.

[347] Sama heimild, dánir 1804.

[348] Kristján G. Þorvaldsson 1983, 124.

[349] Prestsþj.b. Holts í Önundarfirði, dánir 1804.

[350] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 18.  Sbr. Kristján G. Þorvaldsson 1983, 124.

[351] Gunnar M. Magnúss 1977, 113-114.  Sbr. þar bls. 68-71.

[352] Þorvaldur Thoroddsen / Ferðabók II 1959, bls. 120.

[353] Þorvaldur Thoroddsen / Ferðabók II 1959, bls. 120.

[354] Sama heimild.

[355] Klausturpósturinn nr. 7, júlí 1818, bls. 94-95.

[356] Sama heimild.

[357] Lbs. 22174to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 31. október 1897.

[358] Sama heimild.

[359] Vestf. ættir II, 465.

[360] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 77.

[361] Guðmundur Guðmundsson 1946, 49 (Vestf. sagnir III).

[362] Sama heimild og Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 77.

[363] Guðmundur Guðmundsson 1946, 49.

[364] Sama heimild.

[365] Sama heimild, 50.

[366] Sama heimild.

[367] Guðni Ólafsson og Ólafur Veturliðason. – Viðtal K.Ó. við þá 11.2.1996.

[368] Guðmundur Guðmundsson 1946, 50.

[369] Guðmundur Guðmundsson 1946, 50.

[370] Sama heimild.

[371] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 77.

[372] Sama heimild.  Ólafur Veturliðason. – Viðtal K.Ó. við hann 11.2.1996.

[373] Uppdráttur Suðureyrarhrepps eftir Jón Hróbjartsson, gefinn út 1983 sem eftirprentun af örnefnakorti frá

því um 1930.  Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 75.

[374] Guðmundur Guðmundsson 1946, 49.

[375] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 77.

[376] Sama heimild.

[377] Sama heimild, 76-77.

[378] Sama heimild.

[379] Sama heimild.

[380] Sama heimild.

[381] Karl Guðmundsson í Bæ. – Viðtal K.Ó. við hann 8.7.1995.

[382] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 76.

[383] Sama heimild, 76-77.

[384] Sama heimild.

[385] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 76.  Guðmundur Guðmundsson 1946, 48-49.  Ólafur

Veturliðason. – Viðtal K.Ó. við hann 11.2.1996.

[386] Ólafur Veturliðason. – Viðtal K.Ó. við hann 11.2.1996.

[387] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 76.  Guðmundur Guðmundsson 1946, 48-49.  Ólafur

Veturliðason. – Viðtal K.Ó. við hann 11.2.1996.

[388] Guðmundur Guðmundsson 1946, 48.

[389] Sama heimild.  Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 76.

[390] Sömu heimildir.

[391] Ólafur Veturliðason. – Viðtal K.Ó. við hann 11.2.1996.

[392] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 76.  Guðmundur Guðmundsson 1946, 48-49.  Ólafur

Veturliðason. – Viðtal K.Ó. við hann 11.2.1996.

[393] Ólafur Veturliðason. – Viðtal K.Ó. við hann 11.2.1996.

[394] Sama heimild.

[395] Sama heimild.

[396] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 76.

[397] Sama heimild.  Ólafur Veturliðason. – Viðtal K.Ó. við hann 11.2.1996.

[398] Uppdr. Suðureyrarhrepps eftir Jón Hróbjartsson, gefinn út 1983 sem eftirpr. af örnefnakorti frá því um

  1. Örn.stofnun / Kr. G. Þorvaldsson 1949, 76. Ól. Veturliðason. – Viðtal K.Ó. við hann 11.2.1996.

[399] Sömu heimildir.

[400] Guðmundur Guðmundsson 1946, 48-49.

[401] Sama heimild.

[402] Ólafur Veturliðason. – Viðtal K.Ó. við hann 11.2.1996.

[403] Lbs. 22284to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 15.8.1911.

[404] Lbs. 22294to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 16.6.1912.

[405] Guðmundur Guðmundsson 1946, 48.

[406] Sóknalýs. Vestfj. II, 117.

[407] Guðmundur Guðmundsson 1946, 48.  Ólafur Veturliðason. – Viðtal K.Ó. við hann 11.2.1996.

[408] Sömu heimildir.

[409] Guðmundur Guðmundsson 1946, 45.

[410] Guðmundur Guðmundsson 1946, 48.

[411] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 75-76.

[412] Sama heimild.

[413] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 75.  Guðmundur Guðmundsson 1946, 47-48.

[414] Sömu heimildir.

[415] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 75.

[416] Guðmundur Guðmundsson 1946, 47.

[417] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 74-75.

[418] Sama heimild, 75.  Sbr. Guðmundur Guðmundsson 1946, 47.

[419] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 75.

[420] Sama heimild, 71 og 75.

[421] Ólafur Veturliðason. – Viðtal K.Ó. við hann 11.2.1996.

[422] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 28.

[423] Sama heimild.

[424] Sama heimild.

[425] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 27-28.

[426] Sama heimild, 75.

[427] Sama heimild.

[428] Sama heimild.

[429] Guðmundur Guðmundsson 1946, 47.

[430] Sama heimild.

[431] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 78.

[432] Sama heimild.

[433] Ólafur Veturliðason. – Viðtal K.Ó. við hann 11.2.1996.

[434] Guðmundur Guðmundsson 1946, 47-48.

[435] Sama heimild, 47.  Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 74.

[436] Guðmundur Guðmundsson 1946, 47.

[437] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 74.

[438] Guðmundur Guðmundsson 1946, 47.

[439] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 74.

[440] Sama heimild.

[441] Guðmundur Guðmundsson 1946, 47.

[442] Sama heimild.

[443] Sama heimild.

[444] Sama heimild.  Uppdr. Suðureyrarhrepps eftir Jón Hróbjartsson, gefinn út 1983 sem eftirprentun af

örnefnakorti frá því um 1930.

[445] Lbs. 38594to, Dagbók Einars Jónssonar 31.7.1894.

[446] Guðmundur Guðmundsson 1946, 47.

[447] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 74.

[448] Ólafur Veturliðason. – Viðtal K.Ó. við hann 11.2.1996.

[449] Sama heimild.

[450] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 74.

[451] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 74.  Guðmundur Guðmundsson 1946, 46.

[452] Sömu heimildir.

[453] Sömu heimildir.

[454] Guðmundur Guðmundsson 1946, 46-49.

[455] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1, búnaðarskýrslur 1821, 1827, 1830 og 1834.

[456] Þórður Ágúst Ólafsson. Minnisblöð skrifuð af honum um 1980, ljósrit í eigu K.Ó.

[457] Sama heimild.

[458] Sama heimild.

[459] Sama heimild.

[460] Guðmundur Guðmundsson 1946, 46.

[461] Sama heimild.  Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 74.

[462] Guðmundur Guðmundsson 1946, 46.

[463] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 74.

[464] Sama heimild, 71.  Guðmundur Guðmundsson 1946, 46.

[465] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 71.  Guðmundur Guðmundsson 1946, 46.

[466] Ólafur Veturliðason. – Viðtal K.Ó. við hann 11.2.1996.

[467] Uppdr. Suðureyrarhr. eftir Jón Hróbjartsson, gefinn út 1983 sem eftirpr. af örnefnakorti frá því um 1930.

[468] Ólafur Veturliðason. – Viðtal K.Ó. við hann 11.2.1996.

[469] Sama heimild.

[470] Guðmundur Guðmundsson 1946, 46.

[471] Sama heimild.

[472] Ólafur Veturliðason. – Viðtal K.Ó. við hann 11.2.1996.

[473] Lbs. 38584to, Dagbók Einars Jónssonar frá sumrinu 1893, dagana 27.7., 31.7., 2.8., 8.8., 9.8., 11.8., 14.8.,

16.8., 17.8., 18.8., 21.8., 24.8., 28.8., 29.8., 31.8., 4.9. og 8.9.

[474] Ólafur Veturliðason. – Viðtal K.Ó. við hann 11.2.1996.

[475] Lbs. 38584to, Dagbók Einars Jónssonar 7.8.1893.

[476] Ólafur Veturliðason. – Viðtal K.Ó. við hann 11.2.1996.

[477] Ólafur Veturliðason. – Viðtal K.Ó. við hann 11.2.1996.

[478] Sama heimild.

[479] Sama heimild.

[480] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 73.  Uppdr. Suðureyrarhrepps eftir Jón Hróbjartsson, gefinn

út 1983 sem eftirprentun af örnefnakorti frá því um 1930.

[481] Guðmundur Guðmundsson 1946, 46.

[482] Sama heimild.

[483] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 77.

[484] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 77

[485] Sbr. sömu heimild, 72-73.

[486] Guðmundur Guðmundsson 1946, 46.

[487] Prn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 72-73.

[488] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 72.

[489] Sama heimild.

[490] Sama heimild.

[491] Sama heimild.

[492] Sama heimild.

[493] Sama heimild.  Uppdr. Suðureyrarhrepps eftir Jón Hróbjartsson, gefinn út 1983 sem eftirprentun af

örnefnakorti frá því um 1930.

[494] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 72.

[495] Guðmundur Guðmundsson 1946, 45.

[496] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 72. Uppdr. Suðureyrarhrepps eftir Jón Hróbjartsson, gefinn

út 1983 sem eftirprentun af örnefnakorti frá því um 1930.

[497] Sömu heimildir.

[498] Sömu heimildir.

[499] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 71-72.

[500] Sama heimild.

[501] Guðmundur Guðmundsson 1946, 45.

[502] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 72.

[503] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 77.

[504] Valdimar Þorvaldsson 1953, 63 (Frá ystu nesjum).  Lbs. 27364to, bls. 42.

[505] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[506] Guðmundur Guðmundsson 1946, 45.

[507] Sama heimild.

[508] Lbs. 27364to, bls. 42.

[509] Valdimar Þorvaldsson 1953, 63.

[510] Kristjana Friðbertsdóttir. – Viðtal K.Ó. við hana í júlí 1968.

[511] Lbs. 27364to / Magnús Hjaltason, bls. 42.  Kristjana Friðbertsdóttir. – Viðtal K.Ó. við hana í júlí 1968.

[512] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[513] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[514] Prestsþj.b. Holts í Önundarf.

[515] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[516] Manntal 1845.

[517] Sama heimild.

[518] Sama heimild.

[519] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[520] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[521] Sama heimild.

[522] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[523] Sama heimild.

[524] Sama heimild og prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[525] Sömu heimildir.

[526] Sömu heimildir.

[527] Sömu heimildir.

[528] Sömu heimildir.

[529] VA III, 417, búnaðarskýrslur 1860.

[530] VA III, 421, búnaðarskýrslur 1870.

[531] VA III, 417, búnaðarskýrslur 1860.

[532] VA III, 421, búnaðarskýrslur 1870.

[533] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[534] Sama heimild og prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[535] Magnús Hjaltason 1949, 122.

[536] Valdimar Þorvaldsson 1953, 64.

[537] Magnús Hjaltason 1949, 121-122.

[538] Valdimar Þorvaldsson 1953, 64.

[539] Sama heimild.

[540] Valdimar Þorvaldsson 1953, 64-65.

[541] Prestsþj.b. Holts í Önundarf.

[542] Sama heimild.

[543] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[544] Gunnar M. Magnúss / Kristján G. Þorvaldsson 1977, 138.  Valdimar Þorvaldsson 1953, 66.

[545] Þjóðviljinn ungi 3.6.1899 / Sighvatur Grímsson Borgfirðingur.

[546] Lúðvík Kristjánsson 1962, 114-122 (Ársrit Sögufél. Ísf.).

[547] Lbs. 2234to / Magnús Hjaltason, 161-170.  Magnús Hjaltason / Frá ystu nesjum V, 149, 119-125.

Gunnar M. Magnúss / Magnús Hjaltason 1973, 126-138.

[548] Gunnar M. Magnúss / Kristján G. Þorvaldsson 1977, 140-142.

[549] Valdimar Þorvaldsson / Frá ystu nesjum VI, 54-69.

[550] Magnús Hjaltason 1949, 119.

[551] Lbs. 22204to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 27.11.1901.

[552] Magnús Hjaltason 1949, 119.

[553] Valdimar Þorvaldsson 1953, 54-69.

[554] Magnús Hjaltason 1949, 121.

[555] Gunnar M. Magnúss / Kristján G. Þorvaldsson 1977, 142.  Valdimar Þorvaldsson 1953, 55.

[556] Hsk. Ísaf. nr. 0123. Höfuðbók frá útibúi Ásgeirsverslunar á Flateyri, bls. 106-107, 579 og 692.

[557] Sama heimild.

[558] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[559] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[560] Sama heimild.

[561] Sama heimild og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[562] Sömu heimildir.

[563] Sömu heimildir.

[564] Sömu heimildir.

[565] Sömu heimildir.

[566] Sömu heimildir.

[567] Sömu heimildir.

[568] Sömu heimildir.

[569] Sömu heimildir.

[570] Sömu heimildir.

[571] Sömu heimildir.

[572] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[573] Sóknarm.töl og prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[574] Sömu heimildir.

[575] Sömu heimildir.

[576] Sömu heimildir.

[577] Sömu heimildir.

[578] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf. og Holts í Önundarf.

[579] Áritað eintak af Passíusálmum Hallgríms Péturssonar, 31. útgáfa. Bókin var haustið 1984 í eigu

Harðar Friðbertssonar, Bogahlíð 20, Reykjavík.

[580] Magnús Hjaltason 1949, 124.

[581] Sama heimild.

[582] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[583] Sömu heimildir.

[584] Sömu heimildir.

[585] Sömu heimildir.

[586] Hsk. Ísaf. nr. 90. Höfuðbók frá Versl. Hjálmars Jónssonar á Flateyri og útibúi Ásgeirsverslunar þar, 117.

[587] Sama heimild.

[588] Hsk. Ísaf. nr. 90. Höfuðbók frá Versl. Hjálmars Jónssonar á Flateyri og útibúi Ásgeirsverslunar þar, 117.

[589] Sama heimild.

[590] Kristjana Friðbertsdóttir. – Viðtal K.Ó. við hana í júlí 1968.

[591] Sama heimild.

[592] Sóknarm.töl og prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[593] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[594] Sama heimild.

[595] Sama heimild og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[596] Hagstofa Íslands / Skrár yfir dána 1981.

[597] Skjöl Suðureyrarhrepps, varðveitt þar. Bók fyrir Suðureyrarhrepp 1888-1902. Tíundarskýrsla 1891.

[598] Kristjana Friðbertsdóttir. – Viðtal K.Ó. við hana í júlí 1968.

[599] Kristjana Friðbertsdóttir. – Viðtal K.Ó. við hana í júlí 1968.

[600] Lbs. 38584to, Dagbók Einars Jónssonar 1.9.1893.

[601] Kristjana Friðbertsdóttir. – Viðtal K.Ó. við hana í júlí 1968.

[602] Sama heimild.

[603] Sama heimild.

[604] Sama heimild.

[605] Sama heimild.

[606] Sama heimild.

[607] Sama heimild.

[608] Sama heimild.

[609] Sama heimild.

[610] Sama heimild.  Valdimar Þorvaldsson 1953, 65.

[611] Sömu heimildir.

[612] Valdimar Þorvaldsson 1953, 65.

[613] Lbs. 38584to, Dagbók Einars Jónssonar 3.4.1889.

[614] Kristjana Friðbertsdóttir. – Viðtal K.Ó. við hana í júlí 1968.

[615] Sama heimild.

[616] Sama heimild.

[617] Sama heimild.

[618] Sama heimild.

[619] Lbs. 38584to, Dagbók  Einars Jónssonar 22.7., 24.7., 8.9. og 9.9. 1893.  Sbr. Prestaþj.b. og sóknarm.töl

Staðar í Súgandaf.

[620] Lbs. 38584to, Dagbók  Einars Jónssonar 22.7.1893.

[621] Sama heimild.

[622] Sama dagbók 26.9.1893.

[623] Vestf. ættir I, 226.

[624] Lbs. 38584to, Dagbók  Einars Jónssonar 26.9.1893.

[625] Sama dagbók 27.9.1893.

[626] Magnús Hjaltason 1949, 125.

[627] Sama heimild, 120.

[628] Kristjana Friðbertsdóttir. – Viðtal K.Ó. við hann í júlí 1968.

[629] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[630] Skjöl Suðureyrarhr., varðveitt þar. Fundabók fyrir Suðureyrarhrepp 1889-1919, fundarg. 10.10.1894.

[631] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[632] Lbs. 38584to, Dagbók Einars Jónssonar 21.8., 1.9., 21.9., 5.10. og 22.12.1893.

[633] Sama heimild.

[634] Sama dagbók 1.9.1893.

[635] Lbs. 38584to, Dagbók Einars Jónssonar 18.8. og 1.9.1893.  Sbr. Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[636] Sama dagbók 21.9. og 5.10.1893.

[637] Sama dagbók 19.12.1893.

[638] Sama dagbók 22.12.1893.

[639] Ýmsar endurminningar Guðm. Guðmundssonar, bónda á Gelti í Súgandaf. (f. 1876), er hann hefur ritað í

gráa glósubók sem árið 1994 var í umsjá sonarsonar hans, Jóhannesar Aðalbjörnssonar á Suðureyri.

[640] Sama heimild.

[641] Valdimar Þorvaldsson 1953, 65.

[642] Lbs. 38594to, Dagbók Einars Jónssonar 6.1.1894.

[643] Hsk. Ísaf. nr. 0123. Höfuðbók frá útibúi Ásgeirsverslunar á Flateyri, bls. 106-107, 579 og 692.

[644] Sama heimild.

[645] Stj.tíðindi , B deild, 1886, 26-27, 1887, 14-15, 1888, 28-29, 1889, 21-25, 1890, 23-25 og 1891, 24-25.

[646] Hsk. Ísaf. nr. 0123. Höfuðbók frá útibúi Ásgeirsverslunar á Flateyri, bls. 106-107, 579 og 692.

[647] Sama heimild.

[648] Sama heimild.

[649] Sama heimild.

[650] Sama heimild.

[651] Sama heimild.

[652] Sama heimild.

[653] Sama heimild.

[654] Sama heimild.

[655] Sama heimild.

[656] Hsk. Ísaf. nr. 0123. Höfuðbók frá útibúi Ásgeirsverslunar á Flateyri, bls. 106-107, 579 og 692.

[657] Sama heimild.

[658] Sama heimild.

[659] Sama heimild.

[660] Sama heimild.

[661] Sama heimild.

[662] Sama heimild.

[663] Sama heimild.

[664] Lbs. 38594to, Dagbók Einars Jónssonar 22.2.1894.

[665] Sama dagbók 22. og 26.2.1894.

[666] Sama dagbók 4.7.1894.

[667] Sama dagbók 19.2. og 23.2.1895.

[668] Sama dagbók 18.8.1897

[669] Ýmsar endurminningar Guðm. Guðmundssonar, bónda á Gelti í Súgandaf. (f. 1876), er hann hefur ritað í

gráa glósubók sem árið 1994 var í umsjá sonarsonar hans, Jóhannesar Aðalbjörnssonar á Suðureyri.

[670] Sama heimild.

[671] Sama heimild.

[672] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[673] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[674] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[675] Skjöl Suðureyrarhrepps, varðveitt þar. Bók fyrir Suðureyrarhrepp 1888-1902. Uppteiknun yfir

      ómagaframfæri í Suðureyrarhreppi haustið 1888.

[676] Sama heimild.

[677] Sama hreppsbók. Uppteiknun yfir ómagaframfæri í Suðureyrarhreppi haustið 1895.

[678] Sama heimild.

[679] Kristjana Friðbertsdóttir. – Viðtal K.Ó. við hana í júlí 1968.

[680] Sama heimild.

[681] Sama heimild.

[682] Sama heimild.

[683] Sama heimild.

[684] Sama heimild.

[685] Lbs. 38594to, Dagbók Einars Jónssonar 31.7.1894.

[686] Íslensk biblía prentuð í London árið 1866, áritað eintak sem haustið 1984 var í eigu Harðar Friðberts-

sonar, Bogahlíð 20, Reykjavík.

[687] Skjöl Suðureyrarhrepps, varðveitt þar. Bók fyrir Suðureyrarhrepp 1898-1902, reikningar hreppsins   fardagaárið 1898-1899.

[688] Sama heimild.

[689] Sama heimild.

[690] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[691] Sama heimild.

[692] Kristjana Friðbertsdóttir. – Viðtal K.Ó. við hana í júlí 1968.

[693] Valdimar Þorvaldsson 1953, 68-69.

[694] Guðm. Guðmundsson / Minningar úr Staðarkirkju í Súgandafirði, ópr. ritg. frá 1949, ljósrit í eigu K.Ó.

[695] Sama heimild.

[696] Lbs. 38594to, Dagbók Einars Jónssonar 21.1.1894.

[697] Magnús Hjaltason 1949, 119.  Sbr. Lbs. 22174to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 15.4.1896.

[698] Kristjana Friðbertsdóttir. – Viðtal K.Ó. við hana í júlí 1968.

[699] Sama heimild.

[700] Kristjana Friðbertsdóttir. – Viðtal K.Ó. við hana í júlí 1968.

[701] Sama heimild.

[702] Sama heimild.

[703] Valdimar Þorvaldsson 1953, 67-68.

[704] Sama heimild.

[705] Sama heimild.

[706] Valdimar Þorvaldsson 1953, 66.

[707] Sama heimild.

[708] Sama heimild, 65-66.

[709] Sama heimild, 66-67.

[710] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[711] Valdimar Þorvaldsson 1953, 68.

[712] Magnús Hjaltason / Frá ystu nesjum 1949, 119.

[713] Lbs. 27364to / Magnús Hjaltason, bls. 42-43.

[714] Sighvatur Grímsson Borgfirðingur / Þjóðviljinn ungi 3.6.1899.

[715] Lbs. 22184to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 28.4.1899.

[716] Lbs. 22304to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 11.12.1912.

[717] Sama heimild.

[718] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[719] Lbs. 22184to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 24.8.1899.

[720] Lbs. 38604to, Dagbók Einars Jónssonar 15.3.1898.

[721] Lbs. 44094to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 4.

[722] Sama heimild.

[723] Sama heimild.

[724] Lbs. 22184to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 11.3.1899.

[725] Sama heimild.

[726] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[727] Lbs. 38604to, Dagbók Einars Jónssonar 28.4.1899.

[728] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[729] Lbs. 38604to, Dagbók Einars Jónssonar 6.5.1899.

[730] Sama heimild.

[731] Séra Janus Jónsson / Útfararræða 6.5.1899, ljósrit í eigu K.Ó.

[732] Séra Janus Jónsson / Útfararræða 6.5.1899, ljósrit í eigu K.Ó.

[733] Þjóðviljinn ungi 3.6.1899.

[734] Sama heimild.

[735] Almanak Þjóðvinafélagsins 1901, bls. ……….  (Árbók Íslands 1899).

[736] Lbs. 23118vo, bls. 5-9.

[737] Lbs. 23118vo, bls. 5-9.

[738] Sama heimild.

[739] Sama heimild.

[740] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Suðureyrarhr. 3. Uppskrifta- og uppboðsbók 1881-1913

[741] Sama heimild.

[742] Sama heimild.

[743] Sama heimild.

[744] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Suðureyrarhr. 3. Uppskrifta- og uppboðsbók 1881-1913

[745] Sama heimild.

[746] Sama heimild.

[747] Sama heimild.

[748] Sama heimild.

[749] Sama heimild.

[750] Sama heimild.

[751] Sama heimild.

[752] Sama heimild.

[753] Sama heimild.

[754] Sama heimild.

[755] Sama heimild.

[756] Sama heimild.

[757] Sama heimild.

[758] Sama heimild.

[759] Valdimar Þorvaldsson 1953, 57-59 og 68.

[760] Lbs. 22354to, bls. 170.

[761] Sama heimild.

[762] Valdimar Þorvaldsson 1953, 68.

[763] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[764] Sama heimild.

[765] Sama heimild og Sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[766] Guðmundur Guðmundsson 1946, 44-45 (Vestf. sagnir III).

[767] Sbr. Eyjólfur Jónsson 1967, 73-74.

[768] Eyjólfur Jónsson 1967, 73-74.

[769] Sama heimild.

[770] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[771] Guðmundur Guðmundsson 1946, 44.

[772] Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 50-51.

[773] Sama heimild.

[774] Eyjólfur Jónsson 1967, 73-74.

[775] Sama heimild, 73-81.

[776] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[777] Gunnar M. Magnúss 1977, 429

[778] Sama heimild.

[779] Guðmundur Guðmundsson 1946, 44.  Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[780] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 70.  Sóknarm.töl og prestsþj.b. Staðar í Súg. og Holts í Ön.

[781] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.  Eyjólfur Jónsson 1967, 50.

[782] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[783] Eyjólfur Jónsson 1967, 49.

[784] Sama heimild, 50.

[785] Sama heimild.

[786] Manntal 1901.

[787] Eyjólfur Jónsson 1967, 50.

[788] Sama heimild.  Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf. og Holts í Önundarf.

[789] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[790] Sama heimild.

[791] Sama heimild.

[792] Prestsþj.b. Holts í Önundarf.  Sbr. Vestf. ættir II, 531.

[793] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. IV. 13. Dóma- og þingbók 1858-1869, réttarhals 2.9.1863 í barnsfaðernismáli

Guðnýjar Jónsdóttur.

[794] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[795] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf. og Holts í Önundarf.

[796] Sömu heimildir.

[797] Vestf. ættir II, 530-535.

[798] Ólafur Veturliðason. – Viðtal K.Ó. við hann 11.2.1996.

[799] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Holts í Önundarf. og Staðar í Súgandaf.

[800] Sama heimild.

[801] Byggingarbréf til handa Guðmundi Andréssyni í Hraunakoti, ljósrit í eigu K.Ó. Bréfið er óársett en af

efni þess má ráða að það muni vera frá árinu 1923.

[802] Byggingarbréf til handa Guðmundi Andréssyni í Hraunakoti, ljósrit í eigu K.Ó. Bréfið er óársett en af

efni þess má ráða að það muni vera frá árinu 1923.

[803] Guðmundur Guðmundsson 1946, 44 (Vestf. sagnir III).

[804] Ólafur Veturliðason. – Viðtal K.Ó. við hann 11.2.1996.

[805] Hsk. Ísaf., nr. 295. Hreppstjóraskýrsla, dags. 28.11.1934, yfir gripi og fénað í Suðureyrarhreppi.

[806] Sama heimild.

[807] Ólafur Veturliðason. – Viðtal K.Ó. við hann 11.2.1996.

[808] Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 50-51.

[809] Sama heimild.

[810] Sama heimild.

[811] Sama heimild.

[812] Sama heimild.

[813] Helga Veturliðadóttir frá Vatnadal, fædd 1917. Erindi hennar flutt á samkomu niðja

Guðrúnar Sigurðardóttur og Guðna Egilssonar í júní 1983, ljósrit í eigu K.Ó.

[814] Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 50-51.

[815] Manntal 1940.

[816] Helga Veturliðadóttir frá Vatnadal, erindi flutt í júní 1983 (sjá tilv. 811).

[817] Ólafur Veturliðason. – Viðtal K.Ó. við hann 11.2.1996.

[818] Sama heimild.

[819] Helga Veturliðadóttir frá Vatnadal, erindi flutt í júní 1983 (sjá tilv. 811).

[820] Sama heimild.

[821] Sama heimild.

[822] Sama heimild.

[823] Ólafur Veturliðason. – Viðtal K.Ó. við hann 11.2.1996.

[824] Helga Veturliðadóttir frá Vatnadal, erindi flutt í júní 1983 (sjá tilv. 811).

[825] Sama heimild.

[826] Sama heimild.

[827] Sama heimild.

[828] Sama heimild.

[829] Sama heimild.

[830] Sama heimild.  Ólafur Veturliðason. – Viðtal K.Ó. við hann 11.2.1996.

[831] Helga Veturliðadóttir frá Vatnadal, erindi flutt í júní 1983 (sjá tilv. 811).

[832] Sama heimild.

[833] Sama heimild.

[834] Sama heimild.  Ólafur Veturliðason. – Viðtal K.Ó. við hann 11.2.1996.

[835] Helga Veturliðadóttir frá Vatnadal, erindi flutt í júní 1983 (sjá tilv. 811).

[836] Helga Veturliðadóttir frá Vatnadal, erindi flutt í júní 1983 (sjá tilv. 811).

[837] Sama heimild.

[838] Sama heimild.

[839] Ólafur Veturliðason. – Viðtal K.Ó. við hann 11.2.1996.

[840] Helga Veturliðadóttir frá Vatnadal, erindi flutt í júní 1983 (sjá tilv. 811).

[841] Sama heimild.

[842] Sama heimild.

[843] Ólafur Veturliðason. – Viðtal K.Ó. við hann 11.2.1996.

[844] Sama heimild.

[845] Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 50-51.

[846] Ólafur Veturliðason. – Viðtal K.Ó. við hann 11.2.1996.

[847] Sama heimild.

[848] Helga Veturliðadóttir frá Vatnadal, erindi flutt í júní 1983 (sjá tilv. 811).

[849] Ólafur Veturliðason. – Viðtal K.Ó. við hann 11.2.1996.

[850] Sóknarm.töl og prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[851] Halldór Guðmundsson / Sjómannablaðið Víkingur X. 5, maí 1948, 143-144.

[852] Reinald Kristjánsson / Ingivaldur Nikulásson 1936, 32 (Á sjó og landi II).

[853] Sama heimild.

[854] Sama heimild.

[855] Halldór Guðmundsson / Sjómannablaðið Víkingur X. 5, maí 1948, 143-144.

[856] Sama heimild.

[857] Halldór Guðmundsson / Sjómannablaðið Víkingur X. 5, maí 1948, 143-144.

[858] Sama heimild.

[859] Sama heimild.

[860] Sama heimild.

[861] Sama heimild.

[862] Sama heimild.

[863] Helga Veturliðadóttir frá Vatnadal, erindi flutt í júní 1983 (sjá tilv. 811).

[864] Sama heimild.

[865] Sama heimild.

[866] Sama heimild.

[867] Sama heimild.

[868] Sama heimild.

[869] Sama heimild.

[870] Sama heimild.

[871] Helga Veturliðadóttir frá Vatnadal, erindi flutt í júní 1983 (sjá tilv. 811).

[872] Sama heimild.

[873] Sama heimild.

[874] Sama heimild.

[875] Ólafur Veturliðason. – Viðtal K.Ó. við hann 11.2.1996.

[876] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[877] Ólafur Veturliðason. – Viðtal K.Ó. við hann 11.2.1996.

[878] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[879] Guðmundur Guðmundsson 1946, 45.

[880] Ólafur Veturliðason. – Viðtal K.Ó. við hann 11.2.1996.

[881] Sama heimild.

[882] Sama heimild.

[883] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 71-72.

[884] Helga Veturliðadóttir frá Vatnadal, erindi flutt í júní 1983 (sjá tilv. 811).

[885] Ólafur Veturliðason. – Viðtal K.Ó. við hann 11.2.1996.

[886] Sama heimild.

[887] Sama heimild.

[888] Sama heimild.

1000-1900

Guðmundur Justsson

Á fyrri hluta 20. aldar var Guðmundur Justsson, sem fæddist á Gemlufalli haustið 1841,[1] einna kunnastur þeirra sem búið höfðu á Dröngum, a.m.k. utan Dýrafjarðar,

LESA MEIRA »
1000-1900

Krossadalur

Í Krossadal var löngum tvíbýli á fyrri tíð, Hærri- og Lægri- (eða Neðri-) Krossdalur, og voru þetta ystu bæir við Tálknafjörð. Stundum var reyndar þríbýli

LESA MEIRA »
1000-1900

Arnarstapi

Arnarstapi og Krossadalur voru tvær ystu jarðirnar á norðurströnd Tálknafjarðar og hafa nú báðar verið í eyði frá því um 1940.[1] Frá verbúðatóttunum í Arnarstapavík

LESA MEIRA »