Hraun í Keldudal

Frá Hafnarófæru og inn að Keldudal liggur leið okkar um Hraunshlíð sem víðast hvar er ærið brött en taldist þó sæmilega greiðfær fyrir daga akvegarins. Yfir  hlíðinni gnæfa klettaveggir Helgafells sem þarna er líka nefnt Hjallafjall á kafla. Þar sem fjallið sveigir til suðurs opnast Keldudalur, stór og grösugur. Þar var að ýmsu leyti gott undir bú. Jarðirnar í dalnum voru frá fornu fari fjórar, Hraun, Skálará, Saurar og Arnarnúpur, en býlin voru oftast mun fleiri því margbýlt var löngum í Hrauni og oft tví- eða þríbýli á Arnarnúpi. Samanlagður dýrleiki jarðanna í dalnum var að fornu mati 110 hundruð. Árið 1703 áttu 80 manneskjur heima í Keldudal, árið 1801 var íbúatalan 90, árið 1870 50 og árið 1901 98[1] en úr því tók íbúum dalsins að fækka. Árið 1966 fór dalurinn í eyði er síðasta fjölskyldan fluttist frá Arnarnúpi inn að Sveinseyri.

Neðantil er Keldudalur einn til tveir kílómetrar á breidd en mun þrengri þegar fjær dregur frá sjó. Vegalengdin frá fjöruborði og fram í dalbotn er um það bil sex kílómetrar. Í Keldudal er fögur fjallasýn. Hæstu brúnir fjallanna eru flestar í yfir 500 metra hæð frá sjó og allra hæst er Þverfellið fyrir botni dalsins en brún þess er í 904 metra hæð yfir sjávarmáli. Helstu fjöll, fjallahvilftir og þverdalir í Keldudal eru þessi talið að utanverðu frá sjó og síðan áfram fyrir dalbotninn og til sjávar: Helgafell, Strengbergshvilft, Strengbergshorn, sem líka var nefnt Nónfjall,[2] Gjálpardalur, Hundshorn (líka nefnt Hraunshorn), sem teygist nokkuð frá meginfjallgarðinum í átt til sjávar, Skálarárhvilft, Saurhorn*), Álftaskál, Álftaskálarfjall en þar ber hæst Geldingadalshorn, Geldingadalur – og er þá komið í dalbotn. Fyrir botni dalsins er Þverfell en norðan og austan við það er Lambaskál. Upp úr henni má ganga yfir í Lambadal sem er þverdalur frá Haukadal. Næst kemur Seljafjall, þá Arnarnúpshvilft, síðan Skóghlíðarfjall, þá Skarðanúpur og loks Arnarnúpur sem ýmsir telja tignarlegasta fjallið í öllum Dýrafirði. Hvergi er hestfært upp úr Keldudal.[3]

Langá rennur um Keldudal og á efstu upptök sín hátt í hlíðum Geldingadals. Í hana falla allir lækir dalsins og tvær þverár, önnur frá Gjálpardal og hin úr Álftaskál. Á 19. öld mun Langáin ýmist hafa verið nefnd Langá eða Arnarnúpsá[4] og þveráin sem kemur af Gjálpardal og nú er nefnd Þverá hét þá ýmist Gjálpardalsá eða Hraunsá.[5] Í byrjun 18. aldar hét Langáin aftur á móti Hraunsá[6]

Neðst í Keldudal mun foksandur snemma hafa lagt undir sig allstórt landflæmi og stóðu bæirnir því alllangt frá sjó. Skemmst er til sjávar frá Hrauni, tæplega einn kílómetri. Litlu lengra var til sjávar frá Arnarnúpi og reyndar ekki nema hálfur kílómetri frá Móum, grasbýli í landi Arnarnúps þar sem fólk settist fyrst að seint á nítjándu öld. Frá Skálará og Saurum er lengra til sjávar, rösklega tveir kílómetrar. Allir stóðu bæirnir í Keldudal fyrir utan Langána nema Arnarnúpur og grasbýlið Móar.

Í mynni Keldudals eru víðast hvar allháir bakkar við sjóinn. Þar heita yst Landbakkar en upp frá þeim er mikið gróðurlendi sem kallast Land. Innan við Landbakka koma Bólubakkar sem ná inn að Bólunesi en síðan taka við Hraunsbakkar.[7] Kunnugir hafa látið sér detta í hug að ef til vill eigi Bólu-örnefnin hér rætur að rekja til þess að í Bóluvík undir Bólubökkum var mikið um sel en þess eru dæmi á Vestfjörðum að staðir við sjó fengju nafnið Selaból ef fjöldi sela gerði sig þar heimakominn. Í Bóluvík voru selir veiddir og sú aðferð notuð að reka járnfleina með agnhöldum niður í klappir og steina er selirnir lögðust á og festust þeir þá á agnhöldunum.[8]

Innst í mynni Keldudals og innantil við dalsmynnið heita aftur á móti Biskupsbakkar. Þar er Biskupslending undir bökkunum og segir sagan að þar hafi einn eða fleiri Skálholtsbiskupar tekið land er þeir komu að vísitera í Hrauni (sjá hér Arnarnúpur).

Stapavogur er önnur lending undir Biskupsbökkum. Við þann vog er lítill klettur í sjó og heitir Stapi. Í munnmælum hefur geymst sú saga að Stapi þessi og drangurinn Eyrarkerling í landi Sveinseyrar (sjá hér Sveinseyri) hafi bæði verið mennskar manneskjur og reyndar systkini. Þau heituðust hvort við annað og mæltu svo um bæði tvö að hitt skyldi verða að steini. Reyndar lét systirin þau áhrínsorð fylgja að allir fuglar skyldu þaðan í frá drita á hinn fordæmda bróður og sjást enn merki þess á Stapa undir Biskupsbökkum.

Fyrr á tíð sóttu Kelddælir lengi sjó frá verstöðinni Skeri út á Hraunshlíð og þar heita enn Lendingar (sjá hér bls. 6-7). Síðustu áratugina sem búið var í dalnum var helsti lendingarstaðurinn samt ekki þar heldur mun innar eða nánar til tekið rétt innan við árósinn, þar sem heitir Glefsa.[9] Ætla má að þar hafi löngum verið lent þegar komið var með lík til greftrunar í Hrauni og kistan borin upp úr árdalnum um Líklág sem er í Hraunslandi í átt til kirkjunnar. Frá árdalnum liggja þrjár lágar til vesturs og er skammt á milli þeirra en Líklág er sú í miðið.[10]

Landamerkjum í Keldudal er þannig háttað að Arnarnúpur á allt land sín megin ár fram í Hálfdánargjá í Þverfelli. Á þessu er þó sú undantekning að niður við sjó á Hraun svolitla landspildu innan við ána og er skýringin sú að útfall árinnar breyttist á nítjándu öld.[11] Utan við ána á Hraun allt land fremst í dalnum, frá Hálfdánargjá að Þverá sem fellur úr Álftaskál. Síðan tekur við land Saura með þeirri undantekningu þó að slægjuland á áreyrum, heimantil við Þverá, fylgir Hrauni og einnig svolítið engjapláss í mýrlendi upp frá þessum sömu eyrum en þær heita Staðareyrar og afmarkast af gömlum árfarvegi sem nú er uppþornaður að mestu.[12] Að Staðareyrum og engjaplássinu þar frátöldum eiga Saurar allt land uns kemur að landamerkjum þeirrar jarðar og Skálarár sem eru um það bil miðja vega milli þessara tveggja bæja. Á þeim landamerkjum voru árið 1876 þrír marksteinar hver upp af öðrum í beinni línu.[13] Land Skálarár er lítið en síðan tekur aftur við land Hrauns og nær til sjávar. Landamerki Hrauns og Skálarár fylgja í aðalatriðum línu sem mætti hugsa sér að væri dregin úr Hundshornsgjótu, stórri og áberandi gjá í fjallinu Hundshorni, og í Sporstein sem stendur á Nasa en svo heitir landtungan þar sem Langá og Þverá (Gjálpardalsá) mætast.[14] Í einni heimild frá árinu 1876 segir að landamerkin liggi eftir beinni línu úr Hundshornsgjótu enni ytri og í miðja Oddnýjartótt (sjá hér Skálará) og þaðan í beinni línu niður í á.[15] Þessi skipting lands utantil í dalnum bendir eindregið til þess að jarðirnar Saurar og Skálará hafi upphaflega byggst úr landi Hrauns.

Við höfum nú svipast um með skjótum hætti í Keldudal en brátt verður hugað nánar að ýmsu því sem tengist hverri einstakri bújörð í þessum svipmikla eyðidal. Fullvíst má telja að Keldudalur hafi byggst strax á landnámsöld og hafði byggð því staðið í dalnum í rösklega 1000 ár er hann féll í eyði. Í Landnámabók segir að einn fjögurra landnámsmanna Dýrafjarðar hafi numið dalinn (sjá hér Þingeyrarhreppur, inngangskafli) og hét sá Eiríkur en hvorki er getið föðurnafns hans né þess hvar í dalnum hann hafi búið.[16] Aftur á móti nefna höfundar Landnámu Þorkel, son Eiríks landnámsmanns, og rekja ætt frá honum til Gizurar jarls sem uppi var á 13. öld.[17] Þorkels Eiríkssonar er líka getið í Gísla sögu Súrssonar og þar er hann sagður hafa búið á Saurum í Keldudal.[18]

 

Hraun í Keldudal var frá fornu fari kirkjustaður og ein fjögurra stærstu jarðanna við vestanverðan Dýrafjörð. Hinar þrjár voru Haukadalur, Sandar og Hvammur. Allar töldust þessar jarðir vera 60 hundruð hver að dýrleika[19] og gátu því kallast höfuðból.

Bæirnir í Hrauni stóðu nokkuð hátt og frá gamla bæjarstæðinu sér vel yfir dalinn. Nokkru utar blasir við þyrping grjóthóla og mun vera framhlaup úr Helgafelli. Á Vestfjörðum eru slíkar hólaþyrpingar enn nefndar hraun og þarf ekki lengra að leita skýringar á nafni jarðarinnar. Á sléttri grund ofan við hraunið eru nokkur upphlaðin leiði franskra sjómanna.[20]

Margbýlt var löngum í Hrauni, enda er jörðin landmikil og þar gátu menn nýtt sér ýmis hlunnindi sem ekki voru alls staðar í boði. Ólafur Ólafsson skólastjóri, sem fæddur var 1886 og ól nær allan aldur sinn í Haukadal og á Þingeyri, segir að í Hrauni hafi verið ágætt beitiland, útræði, sellátur og silungsveiði. Mér er tjáð, bætir Ólafur við, að frá fornu fari hafi verið skammt frá kirkjunni pyttur einn er aldrei brást í silungsveiði; er nú horfinn. Þau hlunnindi voru metin á heilt kúgildi eða 6 ásauði.[21] Ólafur segir þarna að hinn ágæti silungapyttur, sem metinn var á heilt kýrverð, sé horfinn en þar mun vera um misskilning að ræða því kunnugir menn geta enn vísað á pyttinn sem er í Hraunstúni, dálítið neðan við kirkjugarðinn og heitir Kirkjuauga.[22] Yst við Dýrafjörð vestanverðan voru líka góðar sölvafjörur og þar mun hafa verið sölvað til matar fram um 1910 og sölvabrauð haft á borðum fram yfir aldamótin 1900 a.m.k. á einum bæ.[23]

Í Jarðabók Árna og Páls frá árinu 1710 er þó ekki gert mikið úr hlunnindum í Hrauni og þar er t.d. alls ekki minnst á silungapyttinn. Vel gæti hann þó hafa verið þarna samt. Um beitilandið í Hrauni segir í Jarðabókinni að það sé fordjarfað af skriðum bæði heimalandið og selhagarnir og tekið fram að þessi grasbrestur valdi alvarlegri nytþurrð á búsmalanum.[24] Orðalagið sýnir að í byrjun 18. aldar hefur búsmali frá Hrauni verið hafður í seli.

Í sóknarlýsingu er séra Bjarni Gíslason á Söndum ritaði um 1840 er sagt að selstaða frá Hrauni hafi verið á Gjálpar- eða Hraunsdal*) og Hraunsbændur haft þarna búsmala í seli allt til ársins 1820.[25] Ætla má að Hraunsdalur hafi verið annað nafn á Geldingadal en Gjálpardalur er beint upp af Hrauni og þar sést enn móta fyrir einni tótt, rétt hjá ánni og skammt frá stórum steini sem heitir Strýta. Tótt þessi er að sögn kunnugra í miðri urð nálægt efstu grösum. Hún er utan við Þverá og líkist fremur fylgsni sakamanns en seltóttum.[26] Heiman frá Hrauni er um það bil 15 mínútna gangur upp að tóttinni og þar í grennd heita reyndar Selárdalir og eru það smágeilar utan við Þverá sem fellur um Gjálpardal.[27] Fólk sem bjó í Keldudal á fyrri hluta tuttugustu aldar taldi sig vita að sel frá Hrauni hafi verið undir Geldingadalshorni, rétt fyrir framan Þverá sem fellur úr

________________________________________________

*) Í prentuðu útgáfunni hefur Hraunsdal verið breytt í Hvammsdal sem er rangt.[28]

 

Álftaskál.[29] Þar mótar enn fyrir tóttum sem vel gætu verið seltóttir, enda hét staðurinn Hraunssel í munni fólks sem átti heima í Hrauni um miðbik tuttugustu aldar.[30] Fullyrðingu séra Bjarna Gíslasonar um að sel hafi einnig verið á Gjálpardal á árunum skömmu fyrir 1820 er erfitt að rengja en ætla má að þar hafi þá aðeins verið sel frá einu hinna mörgu býla í Hrauni og ef til vill aðeins í skamman tíma.

Ein tóttin í Hraunsseli við mynni Geldingadals er greinilegust og mun það hús hafa verið 4-5 metrar á lengd. Í þúfnakarga þar rétt hjá sýnast vera tóttir af þremur eða fjórum öðrum húsum og nokkru ofar eru leifar af rétt. Graslendið hér í kring heitir Hraunsþúfur[31] en eins og áður sagði á Hraun allan dalinn fyrir framan Þverá í Álftaskál á móti Arnarnúpi en Langá skiptir hér löndum milli Hrauns og Arnarnúps.

Frá Hraunsseli eru liðlega fjórir kílómetrar til sjávar. Ekki er samt ólíklegt að hér fyndust skeljabrot ef grafið væri í rústunum. Í Keldudal höfðu smalar með sér stórar öðuskeljar í hjásetuna á árunum rétt fyrir aldamótin 1900 til að borða með þeim sinn daglega graut.[32] Ætla má að slíkar matvenjur hafi einnig tíðkast bæði í Keldudal og víðar meðan búsmali var enn hafður í seli, enda gamalt mál að skel hæfi kjafti.

Í sóknarlýsingu séra Bjarna Gíslasonar er getið um sel frá sex bæjum í Þingeyrarhreppi sem öll voru nýtt fram til ársins 1820 en lögðust af á árunum 1820-1833.[33] Séra Bjarni tekur fram að seljabúskapnum hafi verið hætt vegna illviðra en einnig vegna þess að selin hafi þótt fólksfrek og ábati af slíkum búskap verið talinn minni en svaraði allri fyrirhöfninni.[34]

Heiman frá Hrauni er um það bil þrír og hálfur kílómetri fram að Hraunsseli en leiðin er dálítið seinfarin því land er hér mishæðótt. Frá selinu er gott að ganga dálítið upp með Langá. Fagrir fossar eru hér í ánni þar sem landið fer að hækka og heitir sá efsti á þessum slóðum Landdísarfoss. Mjög skammt frá þeim fossi stendur Landdísarsteinn, nær alveg niður við ána og er í Hraunslandi.[35] Handan ár, nær beint á móti Landdísarsteini, stendur annar stakur steinn uppi á hjallabrún og er mjög áberandi. Sá heitir Dagvarður og er í Arnarnúpslandi.[36]

Frá Landdísarfossi og seltóttunum framan við Þverá snúum við nú aftur heim að Hrauni og förum hratt yfir því landareignir Saura og Skálarár, sem leið okkar liggur um, er ætlunin að skoða betur síðar. Á Staðareyrum sem eru góðum spöl heiman við Þverá leyfum við okkur þó að staldra við skamma stund og kasta mæðinni. Eyrar þessar eru vestan (utan) við Langá og afmarkast af henni og gömlum árfarvegi sem nú er að mestu þornaður upp.[37] Þær eru niður undan fjallinu Saurhorni en sé farið héðan yfir Langá er örskammt að Fornaseli er svo heitir í landi Arnarnúps (sjá hér Arnarnúpur). Staðareyrar eru kenndar við kirkjustaðinn í Hrauni og fylgdu honum enda þótt Saurar eigi land bæði fyrir heiman og framan eyrarnar (sjá hér bls. 3). Þarna á eyrunum og í mýrlendi rétt ofan við þær var lengi heyjað frá Hrauni. Á árunum upp úr 1930 var slegið þar stöku sinnum.[38] Strákar úr Hrauni fóru þá á milli með heybandslest og komust átta ferðir á dag sem þótti gott.[39]

Frá slægjulandinu á Staðareyrum skundum við heim að Hrauni og höldum þaðan áfram niður að sjó því mál er að kanna sjósókn Hraunsbænda á fyrri tíð og hinar fornu verstöðvar í landi þessa kirkjustaðar. Hraunsbændur munu löngum hafa róið úr heimavör árið um kring[40] og um 1690 tóku bátar frá öðrum bæjum að sækja sjó frá verstöð sem þá varð til í Hraunslandi.[41] Eins og fyrr var getið (sjá hér Þingeyrarhreppur, inngangskafli) mun verstöð þessi hafa verið við Skerið utan við Keldudal en þangað eru um það bil 500 metrar frá ystu sjávarbökkunum í mynni dalsins. Skerið sem þarna er nefnt og svo heitir er reyndar ekki sker í venjulegri merkingu orðsins heldur dálítill klettarani sem gengur úr fjörunni í sjó fram.[42] Svolítið innar með ströndinni heita Lendingar og má ætla að þar hafi sumir bátanna haft uppsátur þó að allt væri þetta talin ein og sama verstöðin. Verstöð þessi var mjög blómleg í fyrstu með ellefu verbúðum[43] og hefur þá vafalaust verið sú fjölmennasta í hreppnum. Á vorvertíð gengu héðan að minnsta kosti ellefu bátar þegar flest var en kynnu að hafa verið átján.[44] Allt voru þetta þriggja og fjögurra manna för.[45] Bátunum sem reru frá Skeri fækkaði hins vegar mjög verulega eftir örfá ár. Árið 1710 voru aðeins þrjár af ellefu verbúðum uppistandandi og í Jarðabókinni frá því ári segir að síðustu tvo áratugi hafi fjöldi aðkomubáta í verstöðinni sveiflast frá átján (eða ellefu – síðari tölustafurinn er illlæsilegur í handritinu) niður í tvo eða þrjá.

Enn eru finnanlegar tóttir af nær öllum þeim ellefu verbúðum sem Jarðabókin getur um. Ein þeirra er uppi á sjálfu Skerinu, sex a.m.k. fyrir innan það, í kringum Lendingar, og tvær fyrir utan Sker. Búðatóttin í Skeri var seinna notuð sem sauðahús og svo góð var fjörubeitin á þessum slóðum að vetur þótti harður ef gefa þurfti poka af heyi fyrir hvern sauð.[46] Upp af sjóbúð sem var dálítið utan við Skerið er grasgil sem á síðari tímum bar heitið Gemak.[47] Ætla má að þarna hafi nafnið á verbúðinni færst yfir á gilið því orðið Gemak, – þ.e. Gemach, er þýskt og merkir herbergi eða annað rými þar sem menn geta látið fara vel um sig. Reyndar var orð þetta líka notað í dönsku máli í þessari sömu merkingu.

Lending var talin sæmileg í Hrauni þó nokkuð væri hún brimasöm. Í byrjun 18. aldar var vertollurinn venjulegur fiskafjórðungur af hverjum manni sem á skipunum reri (þ.e. 5 fiskar, sjá hér Svalvogar og Höfn) en stundum þó aðeins hálfur fjórðungur fyrir liðlétting eða unga pilta.[48]

Ólafur Olavius nefnir Sker meðal helstu veiðistöðva í Dýrafirði árið 1775 (sjá hér Þingeyrarhreppur, inngangskafli) og aðrar heimildir benda til þess að héðan hafi enn verið stundað útræði um miðja 19. öld. Í Vestfirskum sögnum er þess getið að Páll Jónsson, sem fæddur var skömmu fyrir 1810 og lengi bjó í Hrauni á árunum milli 1840 og 1870 (sjá hér bls. 14), hafi róið frá veiðistöð þeirri er að Skeri var kölluð, milli Keldudals að innan og Hafnarófæru að utan.[49] Segir þar frá viðskiptum hans við drauginn Gunnhildi en heimsókna hennar að Skeri er víðar getið.[50]

Er sagan um viðskipti Páls í Hrauni við Gunnhildi komst á kreik hefur flestum Dýrfirðingum og fólki á norðurströnd Arnarfjarðar verið kunnugt um hvaðan hann reri svo ætla má að í þeim efnum sé rétt með farið. Í sögunni segir að veiðistöðin að Skeri hafi á dögum Páls einkum verið notuð af Kelddælingum. Getið er verbúðar hans þar og tekið fram að hann hafi haft þar uppsátur meðal annarra formanna.[51] Allt bendir þetta til þess að um og eftir miðja 19. öld hafi Kelddælingar stundað róðra frá Skeri og legið þar við meira eða minna á vorvertíð, enda alllangt til bæja. Við mat á veðurhorfum munu sjómenn í Skeri m.a. hafa hugað að flugi fugla eins og tíðkaðist í Keldudal á síðari hluta 19. aldar. Þar var þá talið að sæjust máfar og veiðibjöllur kútveltast í lofti væri von á illskuveðri þó enn væri logn.[52]

Á árunum 1930-1950 var enn farið stöku sinnum í fiskiróðra úr Keldudal og bátar mikið notaðir til flutninga. Flestir voru þá með báta sína í Glefsu sem er lending rétt innan við árósinn í landi Arnarnúps[53] og því alllangt frá gömlu verstöðinni. Magnús H. Guðmundsson, er þá bjó í Hrauni, var þó með sinn bát úti í Lendingum[54] en verbúðirnar voru þá fyrir löngu niður fallnar. Eins og áður sagði eru Lendingar þessar aðeins spölkorn fyrir innan Skerið og þar var talin besta lending í Keldudal um hálffallinn sjó.[55]

 

Jörðin Hraun mun löngum hafa verið í bændaeign.[56] Á fyrri tíð sátu hér oft gildir og grónir sjálfseignarbændur sem höfðu margvísleg mannaforráð á hendi. Í Hrafns sögu Sveinbjarnarsonar segir að Hraunsverjar hafi ráðið goðorð sitt undir Hrafn er hann tók við mannaforráðum í Arnarfirði og settist að búi á Eyri.[57] Þau orð verða vart skilin á annan veg en svo að goðorðsmenn hafi setið í Hrauni á 12. öld, áður en Hrafn gerðist héraðshöfðingi og tók að safna goðorðum í sínar hendur. Á fyrri hluta 15. aldar var Hraun um skeið í eigu Guðmundar ríka á Reykhólum Arasonar og var þá ein 33ja jarða hans sem lágu undir höfuðbólið á Núpi í Dýrafirði[58] en Núpur var þá eitt af sex höfuðbólum Guðmundar á Vestfjarðakjálkanum. Þá eins og síðar var Hraun talið 60 hundruð að dýrleika og jörðinni fylgdu 10 kúgildi.[59] Er Guðmundur ríki hafði verið hrakinn í útlegð náði mágur hans, Björn Þorleifsson hirðstjóri, sem líka var kallaður hinn ríki, brátt eignarhaldi á Hrauni. Við arfaskipti sem fram fóru að honum látnum haustið 1467 fékk ekkja hans, Ólöf ríka Loptsdóttir á Skarði á Skarðsströnd, 20 hundruð í Hrauni í sinn hlut og börn þeirra hjóna, Þorleifur og Solveig, sín 20 hundruðin hvort í þessari sömu jörð.[60] Þann 25. nóvember 1478 felldi Kristján I. Danakonungur þann úrskurð að þriðjungi allra eigna Guðmundar ríka Arasonar, sem á sínum tíma höfðu verið dæmdar undir konung, skyldi skilað aftur til erfingja Guðmundar.[61] Komst Hraun þá í eigu Bjarna Þórarinssonar á Brjánslæk, sem kallaður var góði maður, en hann var kvæntur Solveigu, dóttur Guðmundar ríka. Þau Bjarni og Solveig áttu Hraun þó aðeins í nokkra mánuði því haustið 1479 seldu þau jörðina séra Jóni Gíslasyni fyrir sextíu hundruð[62] en ekki er ljóst hvar sá prestur þjónaði.

Í byrjun 16. aldar er Brúnmann (eða Brúmann) Tómasson talinn hafa búið í Hrauni[63] en sonur hans var Sigfús Brúnmannsson lögréttumaður er hér bjó fyrir og um miðja 16. öld.[64] Brúnmann er talinn hafa alist upp á Rafnseyri hjá Jóni dan Björnssyni og konu hans Kristínu Sumarliðadóttur en þau voru um sína daga einhver ríkustu hjón á öllu Íslandi (sjá hér Rafnseyri). Árið 1499 var Brúnmann umboðsmaður þeirra á Alþingi[65] en Sigfús sonur hans kemur fyrst við skjöl árið 1536 og hans er getið á Alþingi árin 1539 og 1549.[66] Sigfús var kvæntur Ólöfu, dóttur hins volduga Vestfjarðahöfðingja Björns Guðnasonar í Ögri, og sýnir það eitt að lögréttumaðurinn í Hrauni hefur verið talinn til fyrirmanna og hefur án vafa átt talsverðar eignir. Miklar ættir eru komnar frá þeim hjónum. Sigfús Brúnmannsson í Hrauni kemur síðast við skjöl haustið 1553[67] en þá bar hann vitni í óbótamáli Gunnarssona í Lokinhömrum (sjá hér Lokinhamrar).[68]

Eitt barna Sigfúsar og Ólafar var Torfi sem bjó í Hrauni eftir föður sinn.[69] Árið 1551 var Torfi þessi dæmdur til að greiða konungi 40 hundruð í jarðeignum og lausafé fyrir víg séra Hálfdans Þórarinssonar, er hann eða sveinn hans höfðu vegið[70] (sjá hér Borg og Rauðsstaðir), og var það ærið gjald. Ekki er nú vitað með vissu hvar séra Hálfdan var prestur en vel kynni hann að hafa verið heimilisprestur í Hrauni meðan páfinn í Róm var enn helsti tengiliður Dýrfirðinga við almættið. Um séra Hálfdan er sagt að hann hafi þótt vandsetinn við drykkju.[71]

Jón Guðmundsson lærði, sem fæddur var árið 1574, heyrði ýmislegt um séra Hálfdan og segir frá á þessa leið:

 

Séra Hálfdan var upp á stráksskap að berja menn og skera og ræna því hann girnti. Það var fyrirboðið að láta hann koma á vökunætur eða mannamót. Hann kom samt óbeðinn.[72]

 

Eina vísu kunni Jón lærði er séra Hálfdan hafði ort um sjálfan sig við slíkt tækifæri og er hún svona:

 

Nú er hann kominn á mannamót,

maðurinn Hálfdan séra;

þekkið þér ei þennan þrjót,

það má þá svo vera.[73]

 

Engri furðu sætir þó slíkur drottins þjónn hafi espað ýmsa á móti sér, enda féll hann að lokum fyrir vopnum höfðingjasonarins í Hrauni og sveina hans eins og hér var áður getið.

Allar líkur benda til þess að þeir feðgar, Brúnmann, Sigfús og Torfi, hafi átt Hraun en árið 1710 bjuggu hér hins vegar eintómir leiguliðar.[74]

Á fyrri hluta 17. aldar var Hraun um skeið í eigu Hákonar Árnasonar, bónda og lögréttumanns á Hofgörðum í Staðarsveit á Snæfellsnesi,[75] en hann var sonarsonur Sæmundar Árnasonar, sýslumanns á Hóli í Bolungavík, og eiginkonu hans, Elínar Magnúsdóttur prúða Jónssonar.[76] Árið 1645 seldi Hákon frænda sínum, Sigurði Jónssyni í Rauðsdal á Barðaströnd, þessa 60 hundraða jörð sína í Keldudal og með fylgdu kotið Skálará hér í dalnum og jörðin Saurar sem var eign Hraunskirkju.[77]

Báðir voru þeir Hákon og Sigurður niðjar Vestfjarðahöfðingjans  Magnúsar prúða Jónssonar og var hann föðurafi Sigurðar.[78]

Sumarið 1677 skipti ekkja Sigurðar í Rauðsdal, Herdís Ásgeirsdóttir, arfi eftir hann milli barna þeirra og fóru þau skipti fram með ráði og samþykki bróður hins látna, Gísla Jónssonar, sýslumanns í Reykjarfirði í Suðurfjörðum Arnarfjarðar.[79] Við þessi skipti kom Hraun í hlut þriggja sona Sigurðar og Herdísar, þeirra Ásgeirs, bónda, smiðs, hreppstjóra og lögréttumanns á Ósi í Steingrímsfirði, Guðmundar, bónda á Hóli í Bíldudal, og Jóns, sem tók við búi af föður þeirra í Rauðsdal efra á Barðaströnd.[80] Einn þessara bræðra, Ásgeir Sigurðsson á Ósi, nam ungur trésmíði í Danmörku og ferðaðist síðan árum saman sem snikkarasveinn um Þýskaland, Pólland, Sviss, Austurríki og Ungverjaland. Frá því segir hann sjálfur í merkilegri ferðasögu er hann ritaði og birt var löngu síðar í tímaritinu Blöndu.[81]

Árið 1710 var Hraun enn í eigu nýnefndra bræðra, Ásgeirs og Guðmundar, og Ingveldar Jóhannsdóttur, ekkju Jóns bróður þeirra, en hún var þá búsett hjá Guðmundi mági sínum á Hóli í Bíldudal.[82] Landskuld af jörðinni var þá 12 vættir, það er 12 ærgildi, og henni fylgdu 12 leigukúgildi, það er 72 ær.[83] Landskuldina áttu leiguliðarnir í Hrauni þá að greiða með fiski í kaupstað eða með annarri gjaldgengri kaupmannsvöru.[84] Leigurnar af kúgildum Ingveldar voru yfirleitt greiddar með smjöri en af kúgildum þeirra Ásgeirs og Guðmundar jafnan með ríkisdölum og var þá hver ríkisdalur virtur á hálfan þriðja fjórðung smjörs,[85] það er á um 12,5 kíló af smjöri.

Hálfri öld síðar, árið 1762, hafði sú merkilega breyting átt sér stað að í stað leiguliðanna sem hér höfðu löngum erjað jörðina bjuggu nú eingöngu sjálfseignarbændur í Hrauni, þeir Eggert Jónsson, Níels Jónsson og Sæmundur Sigmundsson.[86] Um tengsl Eggerts Jónssonar við hina fyrri eigendur jarðarinnar, bræðurna frá Rauðsdal og þeirra niðja, liggur ekkert ljóst fyrir og má vel vera að þau hafi engin verið. Eggert var sonur hjónanna Jóns Pálssonar og Ingveldar Þorvaldsdóttur í Haukadal.[87] Eggerts verður getið hér síðar (sjá bls. 20) en hann var sonarsonarsonur séra Ólafs Jónssonar, skálds á Söndum.[88]

Hinir bændurnir tveir sem bjuggu hér árið 1762, þeir Níels Jónsson og Sæmundur Sigmundsson, virðast báðir hafa verið nátengdir fyrri eigendum jarðarinnar og hafa að líkindum fengið sína parta úr jörðinni að erfðum. Níels var sonur hjónanna Jóns Hannessonar, bónda í Reykjarfirði við Djúp, og Hallbjargar Ásgeirsdóttur[89] en faðir hennar var Ásgeir Sigurðsson, bóndi á Ósi í Steingrímsfirði,[90] einn þriggja eigenda Hrauns árið 1710. Árið 1740 var Hallbjörg einn af eigendum jarðarinnar, þá ekkja (sjá hér bls. 20-21). Nær fullvíst má telja Níels, sonur hennar, hafi erft sinn jarðarpart hér í Hrauni eftir móður sína og líklegt er að svo hafi einnig verið um Elínu, dóttur hennar, sem giftist Sigmundi Sæmundssyni og stóð hér með honum fyrir búi um eitthvert skeið.[91] Um tengsl Sæmundar Sigmundssonar, sem var 67 ára gamall sjálfseignarbóndi í Hrauni árið 1762,[92] við þetta fólk verður að láta tilgátu nægja. Hann var barn hjá foreldrum sínum í Hrísnesi á Barðaströnd árið 1703[93] en einn sex bænda hér í Hrauni árið 1735[94] og mun þá hafa verið leiguliði. Einn eigenda jarðarinnar árið 1749 var aftur á móti nýnefndur Sigmundur Sæmundsson[95] sem Jón Espólín segir hafa búið í Hrauni svo sem fyrr var nefnt. Við Sigmund verður hvergi vart í skjallegum heimildir eftir 1750 og árið 1753 er hann horfinn úr tölu bænda á Vestfjarðakjálkanum.[96] Tilgátan, sem hér verður látin flakka, er sú að Sigmundur hafi andast skömmu eftir 1750 en Sæmundur Sigmundsson verið faðir hans og hann eignast jarðarpart Sigmundar hér að syninum látnum. Hitt er, aldursins vegna, nær útilokað að Sæmundur, sem hér var 67 ára sjálfseignarbóndi árið 1762, hafi verið sonur þess Sigmundar sem hér bjó árið 1749. Manntalið frá 1703 tekur líka af öll tvímæli um þetta.[97] Líkurnar á því að Sæmundur Sigmundsson, sem hér bjó árið 1735 og sá með sama nafni sem hér var gamall sjálfseignarbóndi árið 1762 séu einn og sami maðurinn eru hins vegar yfirgnæfandi, því aðeins er einn maður með þessu nafni á öllum Vestfjarðakjálkanum í manntalinu frá 1703, þá 9 ára drengur hjá foreldrum sínum í Hrísnesi á Barðaströnd sem kemur heim við aldur Sæmundar í Hrauni árið 1762.[98]

Sitthvað bendir til þess að Sæmundur hafi á árunum skömmu fyrir 1750 lagt bú sitt hér í Hrauni í hendur Sigmundar sem fyrr var nefndur og Elínar, konu hans, en þau bjuggu hér árið 1749 og áttu þá hluta úr jörðinni eins og fyrr var nefnt. Að Sigmundi önduðum eða horfnum úr bændatölu hér af öðrum ástæðum fer Sæmundur fljótlega að búa í Hrauni á ný. Þó var hvorugur þessara manna hér við búskap árið 1753.[99] Árið 1762 bjó Sæmundur hins vegar hér með eiginkonu, sem þá var sögð 35 ára gömul, og því nær helmingi yngri en eiginmaðurinn. Hjá þeim voru þá fjögur börn þeirra, tveir drengir, 7 og 10 ára, og tvær telpur 1 og 2ja ára.[100] Verulegar líkur eru á því að þetta hafi ekki verið fyrsta hjónaband Sæmundar og kynni títtnefndur Sigmundur að hafa verið sonur hans úr fyrra hjónabandi.

Í manntalinu frá 1762 er Sæmundur sagður vera einn þriggja eigenda Hrauns eins og hér var áður nefnt. Hugsanlegt er þó að hann hafi aðeins verið fjárhaldsmaður ófjárráða eiganda. Árið 1775 var Eggert Ólafsson, bóndi í Sauðeyjum á Breiðafirði og síðar í Hergilsey, orðinn eigandi að þriðjungi úr Hrauni, 20 hundruðum,[101] en hann var kvæntur Guðrúnu, dóttur Sigmundar Sæmundssonar er hér bjó árið 1749, þá sjálfseignarbóndi eins og fyrr var nefnt. Nær fullvíst má telja að Eggert hafi eignast þessi 20 hundruð er hann gekk að eiga Guðrúnu frá Hrauni, sem fædd var 1746 eða því sem næst.[102] Guðrún er eina barn Sigmundar Sæmundssonar sem um er kunnugt með vissu (sjá þó hér Gemlufall). Sé sú tilgáta rétt að nefndur Sæmundur hafi verið faðir Sigmundar í Hrauni og því afi Guðrúnar verður þetta allt skiljanlegt. Hann hefur þá, sem fjárhaldsmaður hennar, farið með eignarráðin yfir þessum þriðjungi jarðarinnar árið 1762 því Guðrún var þá aðeins 16 ára eða því sem næst.[103] Sé hins vegar gert ráð fyrir að Guðrún og Sæmundur hafi verið hvort öðru óviðkomandi rekur sig hvað á annars horn því þá yrði að gera ráð fyrir að forráðamenn Guðrúnar hefðu selt honum þennan erfðahlut hennar fyrir 1762 en hún svo eignast þessi sömu jarðarhundruð á nýja leik fyrir 1775. Slík framvinda virðist í alla staði mun ólíklegri en sú sem gerir ráð fyrir skyldleikatengslunum. Styrkjast því enn rökin fyrir því að þeir Sigmundur og Sæmundur, bændur í Hrauni, hafi verið feðgar.

Í manntalinu frá 1762 verður ekki séð hvert var nafn þáverandi eiginkonu Sæmundar Sigmundssonar í Hrauni og nöfn barna þeirra eru ekki heldur nefnd þar. Óhætt mun þó að slá því föstu að Guðbjörg Sæmundsdóttir, sem árið 1816 var 54 ára húsfreyja á Auðkúlu í Arnarfirði, gift Guðmundi Arasyni, bónda þar, og er í manntalinu frá því ári sögð fædd í Hrauni í Keldudal[104] (sbr. hér Auðkúla), muni hafa verið dóttir títtnefnds Sæmundar Sigmundssonar. Aldurinn passar við yngri dóttur Sæmundar í Hrauni sem sögð er 1 árs í manntalinu frá 1762[105] en í gömlum manntölum eru börn á fyrsta ári oft sögð vera eins árs.[106]

Ljóst má einnig kalla að Sæunn Sæmundsdóttir, sem lengi var húsfreyja á Gemlufalli á árunum fyrir og eftir aldamótin 1800, gift Jóni Jónssyni, bónda þar,[107] muni hafa verið sú dóttir Sæmundar í Hrauni sem sögð er 2ja ára þar heima í manntalinu frá 1762[108] því í manntalinu frá 1801 er hún talin 41 árs.[109] Þar sjáum við líka nafnið á móður þessara systra, húsfreyjunni á býli Sæmundar í Hrauni árið 1762 en hún hét Margrét Guðmundsdóttir[110] og átti árið 1801 heima hjá Guðbjörgu á Auðkúlu, dóttur þeirra Sæmundar. Í manntalinu frá 1801 er tekið fram að Margrét sé móðir Guðbjargar en þar er hún að vísu sögð vera 80 ára, það er sex árum eldri en vera ætti miðað við aldurinn sem upp er gefinn á eiginkonu Sæmundar árið 1762.[111] Slíkur ruglingur á aldri gamalmenna er hins vegar býsna algengur í manntölum og sóknarmannatölum frá átjándu öld og fyrri hluta nítjándu aldar og hnikar ekki ættfærslunni sem hér liggur fyrir á þeim Sæmundsdætrum, Guðbjörgu á Auðkúlu og Sæunni á Gemlufalli. Árið 1785 var Margrét  hjá Sæunni dóttur sinni á Gemlufalli og þá sögð vera 61 árs,[112] sem er nær lagi en aldur hennar í manntalinu 1801.

Gísli Konráðsson segir Sæmund Sigmundsson, bónda í Hrauni, hafa verið frá Gemlufalli (sjá hér Gemlufall). Vel má vera að hann hafi ungur borist hingað og svo mikið er víst að bóndi þessi í Hrauni átti Gemlufall árið 1762.[113]

 

Á 18. öld var jafnan margbýli í Hrauni. Fjórir bændur og einn húsmaður bjuggu hér árið 1703[114] en í stórubólu árið 1707 fækkaði býlunum og árið 1710 voru þau þrjú.[115] Tóttarústir voru þá í túnshalanum austur frá bænum og munnmæli um að þar hefði hjáleiga verið í fyrndinni.[116] Sögunni fylgdi að þar hefði þó alls ekki verið búið síðustu 200 árin. Í byrjun 18. aldar kunnu menn líka að segja frá annarri fornri eyðihjáleigu í Hraunslandi og var hún ýmist kölluð Þorgerðarbær eða Skersbrekkur.[117] Hjáleiga þessi hafði verið skammt fyrir ofan lendinguna, uppi á bökkunum og þar sáust enn árið 1710 byggingaleifar, bæði af tóttum og túngarðsleifum en þá hafði ekki verið búið í Þorgerðarbæ svo lengi sem elstu menn mundu. Um miðja 20. öld gátu menn enn vísað á tóttir af bæ þessum þar sem við tekur hlíðin út á nesið [118] og þar eru þær enn. Þó skal tekið fram að lögun þessara tótta gefur ekki til kynna svo ótvírætt sé að þarna hafi staðið bær. Hér yst í Keldudal heitir Land,[119] fagurt graslendi sem vel hefur mátt nýta til slægna.

Óljósar sagnir eru á kreiki um fleiri hjáleigur í landi Hrauns og sjást nefndir bæði Vindheimar og Sólheimar.[120] Oddnýjarstaðir er örnefni fyrir framan túnið í Hrauni.[121] Á 20. öld var þar um skeið skilarétt fyrir allan Keldudal.[122] Enginn veit nú við hvaða Oddnýju staðurinn er kenndur en vel getur verið að kona með því nafni hafi forðum tíð búið þar í kofa.

Hér hefur áður verið greint frá íbúafjölda í Keldudal í byrjun 18., 19. og 20. aldar (sjá hér bls. 1). Fjölmennast var jafnan í Hrauni og á árunum 1850-1930 var heimafólkið yfirleitt nokkuð á fjórða tug. Árið 1890 voru sjö heimili í Hrauni með samtals 31 íbúa en 1901 hafði heimilunum fækkað niður í fjögur en íbúunum fjölgað upp í 37.[123]

Sumir Hraunsbænda á 19. öld sýnast hafa verið í góðum efnum. Einn þeirra var Páll Jónsson sem bjó hér árið 1845 á 20 hundruðum, einum þriðja af allri jörðinni, og átti sjálfur þann jarðarpart. Á því ári galt Páll 67 fiska í útsvar til sveitarsjóðs, meira en nokkur annar í hreppnum.[124] Hann var þá 36 ára gamall og á næstu árum var hann stundum með ábúð á 40 hundruðum hér í Hrauni.[125] Páll bjó lengi í Hrauni og var bóndi hér er hann andaðist 16. febrúar 1869[126] en hafði um skeið búið á Saurum.[127]

Ein elsta heimild um sérstakt nafn á einhverju býlanna í Hrauni er frá árinu 1788 en þá eru hjónin Jón Jónsson og Ólöf Níelsdóttir sögð hafa búið í Efri-Hraunsbæ (sjá hér bls. 23 ). Helstu býlin í Hrauni munu lengi hafa veirð þrjú og voru að sögn kunnugra nefnd Efribær, Fremribær og Ytribær. Efribær stóð næst fjallinu, Fremribær aðeins lengra frá því og Ytribær þar fyrir utan.[128] Ætla má að nöfn þessi séu gömul og gróin, enda bendir heimildin sem hér var áður nefnd frá árinu 1788 til þess, svo langt sem hún nær. Í aðalmanntali frá árinu 1880 eru býlin í Hrauni hins vegar kölluð Efstibær, Miðbær og Neðstibær[129] en við þau heiti kannast ekki þeir sem áttu heima í Keldudal hálfri öld síðar[130] og gæti verið rugl því presturinn sem skráir manntalið átti ekki heima í prestakallinu en þjónaði þar um stundarsakir meðan prestlaust var á Söndum.

Um 1920 voru nöfnin Fremribær og Ytribær enn við lýði en þá var fjórbýli í Hrauni og hin tvö býlin nefnd Hólar og Björnshús.[131] Nafnið Efribær mun hafa horfið endanlega úr sögunni á fyrsta áratug 20. aldar er byggt var timburhús á nýju bæjarstæði og kallað Hólar, – stundum líka nefnt Hóll.[132] Björnshús var hins vegar byggt árið 1895 eða þar um bil og kennt við Björn Jónsson sem húsið byggð og þar bjó en hann hafði til ábúðar nokkur hundruð í Hrauni. Í Björnshúsi var búið allt til ársins 1956 (sjá Firðir og fólk  1900-1999, 160-161) og var það oft nefnt Húsið.

Á árunum kringum aldamótin 1900 áttu oft einn eða fleiri tómthúsmenn heima í Hrauni og höfðu sumir þeirra einhver lítilsháttar jarðarafnot. Árið 1880 var í Hrauni þurrabúðin Beinhóll[133] en svo heitir enn hóll þar í túninu ofarlega og fram undir Þverá.[134] Tíu árum síðar voru í Hrauni bæði Skemma og Tröð, hvort tveggja þurrabúðir.[135] Manntalið frá 1890 nefnir líka Hól hér í Hrauni og mun átt við býlið Réttarhól en þar hófst búskapur árið 1888 (sjá Firðir og fólk 1900-1999, 160-161). Býli þetta stóð fyrir ofan tún og var kennt við samnefndan hól sem þar er í grennd við gamla fjárrétt. Kofi í Hrauni sem Gestarhlaða var kallaður mun líka hafa verið notaður sem mannabústaður í örfá ár, nálægt aldamótunum 1900,[136] og þurrabúðarkotin þar kynnu reyndar að hafa verið fleiri.

 

Kirkja hefur staðið í Hrauni frá því á 12. öld og ef til vill enn lengur. Hennar er fyrst getið í kirknatali Páls biskups Jónssonar frá því um 1200. Kirkja í Keldudal undir Hrauni, segir þar.[137] Um svipað leyti og Páll biskup lét rita kirknatal sitt var Guðmundur prestur Arason, sá er síðar varð biskup að Hólum, á ferð um Vestfirði og kom í Keldudal. Þar hitti hann fyrir Þórð Arason sem kvæntur var Höllu Sveinbjarnardóttur, systur Hrafns Sveinbjarnarsonar á Eyri í Arnarfirði,[138] og má ætla að þau hafi búið í Hrauni. Frá skiptum Guðmundar prests og Þórðar Arasonar í Keldudal sumarið 1200 segir á þessa leið:

 

Hann [Þórður Arason] hafði hönd visna og lá verkur í svo að hann mátti eigi skera mat fyrir sig. En um nóttina er hann þóttist eigi mega liggja gekk hann út. En er hann kom inn sá hann til rekkju Guðmundar prests ljós mikið sem skini geisli ofan. Hann rétti höndina þá hina vanmegnu í ljósið og var þá ljósið jafnbjart á hendinni sem áður. En eftir það var höndin heil og verklaus og leið þá af ljósið.[139]

 

Tvö örnefni í Keldudal minna á komu Guðmundar góða í dalinn. Annað þeirra er Gvendarbrunnur, sem er dálítil lind utan við kirkjugarðsvegginn í Hrauni, en hitt er Altarið í fjallinu Helgafelli[140] sem líka er í Hraunslandi. Sagnir herma að á fyrri tíð hafi skírnarvatn jafnan verið sótt í Gvendarbrunn þegar börn foru færð til skírnar í Hraunskirkju.[141] Altarið í Helgafelli var mosagróin steinhleðsla sem talið var að Guðmundur góði hefði hlaðið.[142] Þangað mátti enginn óþveginn líta.[143] Sé litið til fjallsins heiman frá Hrauni sjást fáeinir hnúkar uppi á brúninni. Altarið var á fremsta hnúknum, þeim sem næstur er brúninni, en gömul landmælingavarða á öðrum hnúk sem er aðeins fjær.[144] Í Gvendaraltari voru þrír veggir en fjórða hliðin alveg opin.[145] Við leit að altarinu sumarið 2000 tókst ekki að finna það og má vera að því hafi verið spillt skömmu fyrr.

Kirkjan í Hrauni var helguð Þorláki Þórhallssyni Skálholtsbiskupi sem hérlendis var kallaður helgur maður þó ekki hefði sú helgi verið viðurkennd af páfanum í Róm. Þorlákur biskup andaðist árið 1193 og bein hans voru tekin upp fimm árum síðar.

Elsti máldagi Hraunskirkju sem fundist hefur er frá árinu 1367 og er varðveittur í Hítardalsbók. Þar segir: Þorlákskirkja í Hrauni á land hálft að Saurum, skóg á Kleifum í Dýrafirði.[146] Í öðrum máldaga sem talið er að hafi verið settur af Oddgeiri biskupi Þorsteinssyni árið 1378 er greint nokkru nánar frá eignum Hraunskirkju og þá á þessa leið:

 

Þorláks kirkja í Hrauni á land hálft að Götum [líklega misritun fyrir Saurum – innsk. K.Ó.], skóg á Kleifum í Dýrafirði, hálfa reka í Keflavík, kýr níu og hundraðs hestur. Klukkur þrjár góðar og hin fjórða forn, refil einn, mundlaugar, tvö glóðarker, skírnarsár og fontklæði, líkakrókur, altaraklæði tvö, kertistikur þrjár með blý, líka ábreiðsla.[147]

 

Ekki hafa eignir Hraunskirkju verið miklar en Kleifar þær sem á er minnst í máldaganum eru í botni Dýrafjarðar í landi Dranga (sjá hér Drangar) og Keflavík hafa menn ætlað að væri sú fyrir norðan Súgandafjörð. Er Vilchinsmáldagi var skrásettur árið 1397 voru eignir kirkjunnar í aðalatriðum hinar sömu nema hvað Jón Loftsson sem virðist hafa verið umráðamaður Hraunskirkju hafði nú gefið henni þann helming af jörðinni Saurum sem kirkjan átti ekki árið 1378.[148] Saurar í Keldudal voru æ síðan í eigu kirkjunnar, a.m.k. langt fram á 19. öld.[149] Aðrar jarðeignir mun Hraunskirkja hins vegar aldrei hafa eignast.[150] Er efni var safnað í Jarðabók Árna og Páls árið 1710 átti Hraunskirkja enn rekaítakið í Keflavík en hafði þó ekki notið þess um langt skeið. Skógarítakið á Kleifum er líka nefnt í Jarðabókinni en tekið fram að takmörk þess séu mönnum ekki ljós.[151]

Í máldögum kirkjunnar frá árunum 1378 og 1397 er tekið fram að til Hraunskirkju skuli gjalda tíundir úr Meðaldal og úr Selvogum og af öllum bæjum þar í milli og samkvæmt máldögunum átti heimafólk á þessum sömu bæjum tryggt leg í Hraunskirkjugarði.[152] Sóknarmörkin hafa því verið hin sömu á 14. öld og síðar héldust óbreytt uns komið var fram á 19. öld (sjá hér Þingeyrarhreppur, inngangskafli). Í máldögunum tveimur frá 1378 og 1397 er kveðið skýrt á um að í Hrauni skuli vera heimilisprestur og honum beri að gjalda fjórar merkur í kaup.[153] Líklegt verður að telja að í kaþólsku hafi því sjaldan verið prestlaust í Hrauni, allt frá því kirkjan var byggð og fram til siðaskipta um miðja 16. öld. Heimilisprestarnir þar munu hins vegar yfirleitt ekki hafa haft umráð yfir jörðinni. Frá siðaskiptunum á 16. öld hefur kirkjan í Hrauni verið útkirkja sem prestarnir á Söndum þjónuðu mann fram af manni. Í greiðslu fyrir þjónustu prestanna urðu Hraunsbændur ætíð að hafa nokkrar ær frá þeim í eldi og gjalda árlega 60 pund af smjöru í leigur af þeim.[154] Kvöð þessi var við lýði fram á daga séra Sigurðar Z. Gíslasonar, sem prestur var í Sandaprestakalli á árunum 1929-1943, en hann lét fella hana niður.[155]

Einn prestanna sem þjónuðu í Hrauni var séra Markús Eyjólfsson er sat á Söndum á árunum 1797-1817 en hann missti sjónina og varð alblindur um 1810, liðlega sextugur að aldri. Sagnir herma að mold úr kirkjugarðinum í Hrauni hafi fokið í augu hans er hann var að kasta þar rekunum á Jón nokkurn sem áður hafði verið vinnumaður prests. Við þetta moldrok dapraðist séra Markúsi sýn og varð hann alblindur síðar á sama ári.[156] Sagt var að vinnumaður þessi hefði lagt ofurást á eina dætra séra Markúsar en prestur meinað honum allan samgang við hana. Nánar segir svo frá því í Vestfirskum sögnum:

 

Var stundum tekið til þess ráðs að loka Jón úti þegar hann var sem áleitnastur við prestsdóttur en þá lagðist hann á gluggann og mændi inn til hennar. Sá prestur að þetta mundi ekki einleikið og hefur nú svo sterkar gætur á dóttur sinni að Jón fær aldrei hjá henni að vera. En þá bregður svo við að þunglyndi mikið sækir á Jón. Verður hann mönnum lítt sinnandi og bítur gras sem skepna væri. Veslast hann síðan upp og deyr.[157]

 

Sighvatur Grímsson Borgfirðingur segir að Jón þessi vinnumaður hafi dáið í fjárhúsi úti á Bólubökkum í Keldudal.[158] Um Bólubakka var áður getið á þessum blöðum (sjá hér bls. 2) og þar á bökkunum eru enn gamlar tóttir sem á fyrri hluta tuttugustu aldar voru sagðar vera af sauðahúsi frá fyrri tíð.

Allt kemur þetta nokkuð vel heim við skjallegar heimildir því í prestsþjónustubók Sandaprestakalls er ritað að 8. desember 1811 hafi Jón Þorleifsson dáið, 32ja ára gamall, í Hraunsfjárhúsi og verið jarðaður sex dögum síðar.[159] Tekið er fram að Jón hafi að líkindum dáið úr kulda og þess getið að hann hafi verið afsinna.[160] Tíu árum fyrr var 22ja ára maður með sama nafni vinnumaður á Söndum hjá séra Markúsi[161] og þarf vart að draga í efa að sá sé hinn sami Jón Þorleifsson og síðar króknaði í fjárhúsinu á Bólubökkum. Aftur á móti benda sterkar líkur til þess að séra Markúsi hafi verið farin að daprast sýn fyrir dauða Jóns Þorleifssonar því hálfu öðru ári fyrr fékk hann aðstoðarprest og í Íslenskum æviskrám segir að hann hafi verið alblindur frá 1810.[162] Slíkri fullyrðingu ber þó að taka með fyrirvara og líklegast verður að telja að sjón séra Markúsar hafi að vísu verið orðin bágborin fyrir jarðarför Jóns Þorleifssonar en versnað enn er prestur fékk moldina úr Hraunskirkjugarði í augun.

Séra Markús átti þrjár dætur og má ætla að það hafi verið Margrét Markúsdóttir sem vinnumaðurinn lagði svo sterkan hug á. Elín systir hennar giftist mörgum árum áður en faðir þeirra missti sjónina og þriðja systirin, Elísabet, var svo ung að hún kemur vart til greina.[163] Er Torfi Magnússon aðstoðarprestur kom að Söndum sumarið 1810 var hann um 25 ára aldur en Margrét prestsdóttir þar var þá enn ógefin í föðurgarði þó orðin væri hálffertug. Þann 23. september 1811 voru séra Torfi og nýnefnd Margrét pússuð saman í hjónaband[164] en 76 dögum síðar fannst Jón Þorleifsson dauður í sauðahúsinu. Sagnir herma að séra Markús hafi færst undan að jarðsyngja hann[165] en trúlega hefur þó legið í augum uppi að enn varasamara væri að senda séra Torfa í þá raun.

Árið 1775 var í Hrauni torfkirkja með timburgaflöðum. Í vísitazíugerð frá því ári segir m.a. svo um búnað hennar: Sæti fyrir tvo menn eru fyrir framan predikunarstól með bríkum og bakslám og þar móts við tvö útskorin sæti með pílárum.[166] Í vísitazíugerð Hannesar biskups Finnssonar frá 15. ágúst 1790 nefnir hann meðal gripa Hraunskirkju laust skriftasæti og lausan þverbekk er brúkist fyrir hjónasæti.[167] Árið 1809 var enn vísiterað í Hrauni og í vísitazíugerðinni frá því ári segir: Til er þar ennú sami lausi skriftastóll og þarna er þess einnig getið að norðanvert í framkirkjunnu séu tvö þversæti sæmilega skorin og prýdd pílárum.[168]

Undir lok 19. aldar komst brúðhjónastóllinn úr Hraunskirkju í eigu forstjórahjóna við hvalveiðistöð Norðmanna á Höfðaodda í Dýrafirði, Mörthu og Lauritz Berg, og mjög líklegt er að þau hafi líka eignast skriftastólinn. Elías Arnbjörnsson kom. Hann er að gera við gamla stóla sem Berg hefur narrað út frá Hraunskirkju og víðar, ritar Sighvatur Grímsson á Höfða í dagbók sína 2. september 1894.[169] Fáum árum síðar fluttu þau hjónin ýmsa kirkjugripi úr Dýrafirði með sér til Noregs, þar á meðal brúðhjónastólinn frá Hrauni og fornan skriftastól. Dóttur ágæta áttu hjón þessi sem Martha Herdis hét, fædd í forstjórahúsinu á Höfða árið 1894 og fékk síðar við giftingu nafnið von Spreckelsen. Við andlát foreldra sinna erfði hún suma kirkjugripina úr Dýrafirði, er þau höfðu átt, meðal annars brúðhjónastólinn sem fyrr var nefndur. Martha Herdis fór ung frá Íslandi en bernskustöðvunum þar gleymdi hún ekki og ákvað nær áttræð að aldri, árið 1974, að ánafna Byggðasafni Vestfjarða brúðhjónastólinn úr Hraunskirkju og hinn forna skriftastól úr Dýrafirði. Jóhann Gunnar Ólafsson, sem lengi var sýslumaður og bæjarfógeti á Ísafirði, ritaði á sínum tíma skilmerkilega um feril Hraunsstólanna og hefur hér verið byggt á skrifum hans.[170] Niðurstaða hans var sú að brúðhjónastóllinn, sem Martha von Spreckelsen gaf Byggðasafninu, væri tvímælalaust kominn úr Hraunskirkju og að mjög líklegt mætti telja að skriftastóllinn væri líka þaðan kominn. Báðir mega stólar þessir kallast listaverk vegna útskurðarins sem á þeim er en óvíst er um aldur þeirra. Í doktorsritgerð sinni um jurtaskreytingar í íslenskum tréskurði setti dr. Ellen Marie Mageröy fram tilgátu um það hver stólana hefði skorið en sú tilgáta byggir ekki á nægum rökum eins og Jóhann Gunnar Ólafsson sýndi fram á með skýrum hætti.[171]

Árið 1809 var ný torfkirkja byggð í Hrauni[172] og er Lárus M. S. Johnsen prófastur vísiteraði þar árið 1852 lýsir hann henni svo:

 

Sjálf er hún í 6 stafgólfum, öll undir súð, með fjalagólfi og þiljuð umhverfis. Í kórnum eru alfóðraðir bekkir með bríkum við dyr; laust skriftasæti öðrum megin altaris. Altari læst með hurð á hjörum og skrá af messing, fyrir því er lítilfjörleg gráða og einn fjögra rúða gluggi hvorum megin. Milli kórs og kirkju er hálfþil með pílárum upp undir lista, dyr með öllum umbúningi og predikunarstóll málaður. Í framkirkjunni norðantil eru þrjú þversæti með bekkjum, bríkum, bakslám og eru þau tvö innri með pílárum að baka til. Sunnan til eru tvö ný sæti með bekkjum, bríkum og bakslám og þar að auk langbekkur með þverbekk og brík við dyr. Fyrir framan og aftan kirkjuna er slagþil [þ.e. timburgafl – innsk. K.Ó.] með vindskeiðum. Dyrnar eru með öllum siðvanalegum umbúningi, hurð á hjörum með skrá, lykli og koparhring. Framan á kirkjunni eru 2 gluggar með 4 rúðum hver. Yfir predikunarstól er nýr 4ra rúða gluggi. Húsið er í allsæmilegu standi nema hvað súð sums staðar á syðri hlið er farin að fúna og hún heldur tekin að hallast en einkum þarf bráðlega að gera við syðri vegg hennar. Kirkjugarðurinn er uppistandandi.[173]

 

Árið 1885 var kirkja síðast byggð í Hrauni. Var það timburkirkja 12 x 7 álnir á stærð[174] eða um það bil 33 fermetrar. Sú kirkja var byggð á nýjum stað, framan við sáluhliðið á hinum forna kirkjugarði og stendur hún þar enn. Allt til ársins 1894 var kirkjan í Hrauni bændakirkja og því jafnan eign þeirra sem áttu jörðina en haustið 1894 var hún afhent söfnuðinum.[175]

Árið 1971 var Hraunskirkja aflögð sem guðshús,[176] enda hafði sóknin þá legið í eyði í fimm ár. Hún fékk þó að halda ýmsum gripum, þar á meðal altaristöflu og predikunarstól, og einhver dæmi voru um að hjón væru gefin saman í þessu aldna húsi þó að það teldist ekki lengur vera kirkja að dómi kristilegra yfirvalda. Svo kom þar að Hraunskirkja var sett undir umsjón þjóðminjavarðar og skömmu síðar var ráðist í gagngerðar endurbætur á henni. Þeim lauk árið 2000.[177] Hér í fjalladýrð Keldudals er gamla kirkjan nú minningarmark um horfið mannlíf og sómir sér vel.

Á altaristöflunni stendur ártalið 1751 og nafn Eggerts Jónssonar, efalaust hins sama og orðinn var einn af eigendum kirkjunnar árið 1740 og enn var hér sjálfseignarbóndi árið 1762, sagður 71 árs á manntalinu frá því ári[178] (sbr. hér bls. 10). Hann var sonarsonarsonur séra Ólafs skálds Jónssonar á Söndum[179] og var ellefu ára drengur í foreldrahúsum í Haukadal þegar manntalið var tekið 1703.[180]

Merkasti kirkjugripurinn sem enn er varðveittur hér í Hraunskirkju er predikunarstóllinn og allar líkur benda til að sé smíðaður og málaður af séra Hjalta Þorsteinssyni í Vatnsfirði við Djúp,[181] helsta myndlistarmanni sinnar samtíðar á landi hér.

Þegar Jón Árnason biskup vísiteraði hér í Hrauni árið 1740 lætur hann þess getið að predikunarstóllinn sem þá var í kirkjunni sé lítill en tekur fram að einn af eigendum jarðarinnar, Ari Jónsson, eður réttara að segja hans ástkæra móðir, madame Hallbjörg Ásgeirsdóttir eigi að láta stækka hann svo að hann verði hagkvæmur handa prestinum.[182] Níu árum síðar kom Ólafur biskup Gíslason hingað í Keldudal á sinni yfirreið og af orðum hans má ráða að þá hafi nýr predikunarstóll verið kominn í kirkjuna. Um þann stól kemst Ólafur biskup svo að orði að hann sé með snikkaraverki, málaður, kostulegur.[183] Enginn vafi mun vera á því að predikunarstóllinn sem enn prýðir Hraunskirkju sé hinn sami og lýst var í vísitazíugerð Ólafs biskups frá árinu 1749[184] og hefur hann því komið í kirkjuna á árunum 1740-1749.

Þóra Kristjánsdóttir listfræðingur hefur leitt rök að því að séra Hjalti Þorsteinsson í Vatnsfirði hafi bæði smíðað stólinn og málað. Meðal annars bendir hún á hversu líkur hann sé predikunarstól sem lengi var í Vatnsfjarðarkirkju og nú er varðveittur í Þjóðminjasafni en vitað er með vissu að þann stól smíðaði og málaði séra Hjalti og hafði lokið því verki fyrir 1733.[185]

Séra Hjalti Þorsteinsson í Vatnsfirði var fæddur árið 1665[186] og hefur því verið hálfáttræður eða liðlega það þegar kallað var eftir nýjum predikunarstól fyrir Hraunskirkju. Þó að aldurinn væri orðinn þetta hár dregur það harla lítið úr líkunum á því að hann hafi smíðað stólinn og málað því prestsembættinu í Vatnsfirði gegndi hann til ársins 1742 og átti þá enn ellefu eða tólf ár ólifuð en andaðist í Vatnsfirði 17. janúar 1754, 88 ára gamall.[187]

Það var Hallbjörg Ásgeirsdóttir sem árið 1740 fékk, svo sem fyrr var nefnt, fyrirmæli frá Jóni Árnasyni biskupi um að bæta úr þörf Hraunskirkju fyrir góðan predikunarstól.[188] Má því ætla að það hafi verið hún sem lagði kirkjunni til stólinn sem hér um ræðir en einmitt það styrkir enn þá kenningu að á honum sjáum við handaverk séra Hjalta í Vatnsfirði. Hallbjörg þessi Ásgeirsdóttir var á árunum kringum 1740 búandi ekkja í Reykjarfirði við Djúp[189] í aðeins fjögurra kílómetra fjarlægð frá Vatnsfirði og aðeins yfir lágan háls að fara milli bæjanna. Fyrir Hallbjörgu voru því hæg heimatökin að semja við séra Hjalta um smíði stólsins.

Hér var áður frá því greint að Sigurður Jónsson í Rauðsdal á Barðaströnd hefði eignast Hraun í Keldudal árið 1645 og synir hans þrír síðan erft jörðina að honum látnum árið 1677 (sjá hér bls. 9-10). Einn þeirra var Ásgeir Sigurðsson á Ósi í Steingrímsfirði, er fyrr var frá sagt (sjá hér bls. 9-10), en annað tveggja barna hans var nýnefnd Hallbjörg sem var einn eigenda Hrauns árið 1740 eins og biskupsvísitazían frá því ári ber með sér. Eiginmaður Hallbjargar var Jón Hannesson, bóndi í Reykjarfirði,[190] en ætla má að hann hafi verið látinn árið 1740 því nafn hans er ekki nefnt í vísitazíugerðinni frá því ári og greinilegt að biskup lítur á Hallbjörgu sem einn eigenda kirkjunnar í Hrauni.[191]

Ari Jónsson, sem einnig er nefndur í vísitazíugerðinni frá 1740 eins og fyrr var getið, var sonur Hallbjargar og eiginmanns hennar, Jóns Hannessonar í Reykjarfirði.[192] Árið 1740 var Ari enn ungur maður, talinn fæddur á árunum 1710-1720.[193] Vera má að hann hafi þá verið um það bil að taka við búi af móður sinni í Reykjarfirði og fullvíst er að haustið 1739 gaf Hallbjörg þessum syni sínum 10 hundruð í jörðinni Reykjarfirði fyrir utan arfaskipti[194] og sýnir það að hún hefur þá verið orðin ekkja. Ari var annar tveggja bænda í Reykjarfirði árið 1753[195] og lögréttumaður á árunum 1748-1754.[196] Í vísitazíugerðinni frá 1740 sjáum við að sjóður Hraunskirkju var þá í hans vörslu og þar kemur fram að Ari hafði m.a. lagt kirkjunni til grallara, prentaðan í Skálholti árið 1691, og guðspjallabók, prentaða á Hólum árið 1670.[197]

Eitt barna Ara þessa Jónssonar var Guðmundur Arason er hóf búskap á Auðkúlu í Arnarfirði um 1780 (sjá hér Auðkúla). Hann bjó þar til dauðadags og niðjar hans nær óslitið æ síðan.

 

Við skulum nú um sinn hverfa skamma hríð tvær aldir aftur í tímann og skoða hvað finnst í skjallegum heimildum um atvik sem þá átti sér stað hér við Hraunskirkju og lengi var í minnum haft þó nú sé flestum gleymt.

Nær allt sem hér verður sagt um mál þetta er byggt á því sem fært var til bókar við réttarhöld á Þingeyri þann 8. og 26. september 1788 og 28. ágúst 1789 og skráð er í Dóma- og þingbók Ísafjarðarsýslu frá þeim tíma[198] eða þá á réttarskjölum frá Öxarárþingi sem prentuð eru í Alþingisbókunum.[199] Einnig er stuðst við prestsþjónustubók Sandaprestakalls frá árunum 1785-1817 en þar sem gripið er til annarra heimilda verður þess getið sérstaklega.

Þann áttunda sunnudag eftir trinitatis sumarið 1788 messaði prófasturinn á Söndum, séra Jón Ásgeirsson, í Hrauni. Einn kirkjugesta var liðlega þrítugur vinnumaður, Torfi Jónsson að nafni. Svo virðist sem hann hafi átt heima í Hrauni um þessar mundir og þar bjuggu þá bæði móðir hans og bróðir. Foreldrar Torfa voru hjónin Jón Þorleifsson og Þuríður Grímsdóttir sem áður bjuggu á Arnarnúpi í Keldudal ef marka má ættatölur Jóns Espólín.[200] Þennan sunnudagsmorgun kom Torfi róandi innan frá Þingeyri og gekk í kirkjuna nokkru eftir að prestur var stiginn í stólinn. Sýndist mönnum hann vera hreifur af víni. Ekki hafði Torfi setið lengi undir ræðu prófastsins er hann stóð á fætur og kvaðst ekki hlusta lengur á þvílíkt rugl. Að svo búnu gekk hann út úr kirkjunni. Eftir embætti var Torfi á slangri meðal kirkjugesta heima við bæ í Hrauni og hafði þá uppi margvísleg illyrði auk þess sem hann gerði einhverjar tilraunir til að berja fólk. Ef marka má ummæli þeirra sem síðar báru vitni í orðamáli þessu sagði Torfi að ræða prestsins hefði ekki verið annað en bölvað syndaslaður. Síðan bætti hann um betur og sagði: Því þó ég hefði farið upp á eitthvert hlandkeraldið þá hefði ég getað talað annað eins.

Er hér var komið sögu bað móðir Torfa hann að gæta að guði en henni svaraði hann svo: Ert þú komin líka upp á móti mér, djöfullinn þinn? Við fólkið í kring sagði hann: Hún er ekki mín móðir. Djöfullinn hefur uppvakið mína móður og hún er hans móðir. Mágkonu sína, Ólöfu Níelsdóttur, kallaði Torfi bölvaða hóru og við Jón Jónsson, bróður sinn, sem átti Ólöfu fyrir konu og bjó í Efra Hrauns-bæ, sagði hann: Þið eruð báðir prófasturinn og þú, andskotans bölvaðir falsarar. Að lokum lét hann þau orð dynja að allir í Keldudal væru helvítis hræsnarar og ekkert guðsbarn í Hrauni fyrir utan tvær manneskjur. Því væri best að andskotinn hirti sína í Hrauni og hefði þá fyrir pott til að sjóða í. Síðar um daginn braust Torfi inn í skemmu Jóns bróður síns og hefur þá líklega verið að leita að brennivíni.

Ýmsum kirkjugesta mun hafa ofboðið orðbragðið hjá Torfa og svo mikið er víst að fyrir það var hann kærður til sýslumanns. Fáum vikum eftir messuna í Hrauni eða nánar tiltekið 8. september 1788 setti Jón Arnórsson sýslumaður rétt á Þingeyri en þangað hafði hann stefnt bæði Torfa og nokkrum öðrum kirkjugestum er áttu að bera vitni um öll hans gífuryrði og formælingar. Vitnaleiðslur fóru fram þennan dag og má segja að framburður vitnanna hafi verið samhljóða í aðalatriðum en eitt þeirra var bróðir Torfa, Jón Jónsson í Hrauni. Sjálfur lét Torfi hins vegar ekki sjá sig á þessu þingi, enda þótt honum hefði verið stefnt þangað, en átján dögum síðar, 26. september, var þingað í málinu á ný á sama stað og þá var Torfi mættur, nú orðinn vinnumaður á Rafnseyri, 33ja ára.

Frammi fyrir sýslumanni kvaðst hann ekkert muna um orð sín í Hrauni þennan messudag, enda hafi hann verið mjög ölvaður. Til skýringar á ölæðinu gat hann þess að hann í mótvindi frá Þingeyrarkaupstað hafi á bát mátt berja út að Keldudal til kirkju og líka hafi hann fengið veikleika og ráðleysu og rugl fyrir sjö árum síðan þá á fiskiduggu var.

Ekki var mál Torfa tekið til dóms að þessu sinni en tæplega ári síðar, 28. ágúst 1789, var réttur enn settur á Þingeyri og orðasukk Torfa tekið til dóms. Sækjandi í málinu var Jón Skúlason, hreppstjóri í Meðaldal, en verjandi Þorvaldur Sveinsson, hreppstjóri í Hvammi. Að þessu sinni er sakborningurinn nefndur fyrrverandi vinnumaður á Rafnseyri.

Jón Skúlason hreppstjóri krafðist þess að fyrir sín ljótu orð yrði Torfi dæmdur til tíu ára tugthúsvistar, gerður arflaus eftir móður sína og látinn borga tvo kúrantdali í málskostnað. Þorvaldur í Hvammi bað um vægari dóm, enda hefði maðurinn verið ofurölvi af þreytu og lúa. Þingvitni sem nú voru mætt báru að Torfi væri að jafnaði enginn ofstopamaður og Grímur Guðmundsson, bóndi í Hrauni, – en hjá honum hafði Torfi verið vinnumaður, lýsti því yfir að hann hafi sér vel reynst og þægur verið öðrum fremur hjúa sinna.

Dómsniðurstaða Jóns Arnórssonar sýslumanns varð sú að Torfi skyldi missa arfsrétt eftir móður sína og erfiða í því íslenska tugthúsi í næstu fimm ár. Auk þess var honum gert að greiða Jóni Skúlasyni hreppstjóra kúrantdalina tvo sem hann hafði krafist og einnig að biðja móður sína, prófastinn og Hraunskirkjusöfnuð opinberlega afsökunar á orðbragði sínu. Nú kynnu menn að ætla að hér væri máli Torfa lokið og hann sendur beint í tugthúsið. Svo var þó ekki því næsta sumar komu gífuryrði stráks þessa úr Keldudal til kasta Alþingis við Öxará og þar var kveðinn upp lögmannsdómur í málinu.

Á Alþingi var sýslumaður Borgfirðinga, Sigurður Sigurðsson skuggi, skipaður sækjandi í máli Torfa en hann hafði áður verið sýslumaður í Ísafjarðarsýslu (sjá hér Mosvellir og Gljúfurá). Sigurður skuggi hafði lært sína lögfræði um miðbik aldarinnar áður en ný viðhorf tóku að grafa undan trú manna á gildi harðra refsinga fyrir hvers konar afbrot, smá og stór. Árið 1790 var hann kominn nokkuð á sjötugsaldur og virðist hafa haldið fast í hin eldri viðhorf en verið lítt snortinn af mannúðarsjónarmiðum skynsemisstefnunnar er tóku að breiðast út um Evrópu upp úr 1750. Krafa hans í orðamálinu úr Keldudal var sú að refsing Torfa yrði þyngd og það svo að í stað 5 ára fangelsisvistar kæmi ævilöng þrælkun. Verjandi í máli Torfa fyrir lögmannsréttinum við Öxará var Guðmundur Ketilsson, sýslumaður í Mýra- og Hnappadalssýslu. Hann lagði nú fram vottorð frá móður sakborningsins þar sem hún lýsti yfir að Torfi hafi ekki verið sér óhlýðinn ungur eður gamall framar en venjulegir barnabrestir séu nema í þessari óróa sök í ringli og ráðleysis svalli sem hún þó hafi hönum fyrirgefið. Ennfremur vakti verjandinn athygli dómarans á því að þann 30. ágúst 1789 hafi Torfi staðið opinbera aflausn í Hraunskirkju og beðið móður sína, prófastinn og söfnuðinn forláts á sínum illyrðum og lastmælum.

Sá sem dæma skyldi í máli Torfa á Alþingi var Magnús Stephensen lögmaður, sem þá var aðeins 27 ára gamall, síðar lengi dómsstjóri í landsyfirrétti og á því skeiði valdamesti maður landsins, að lokum konferenzráð í Viðey með fjölbreytileg umsvif á mörgum sviðum. Strax á ungum aldri mátti Magnús kallast brautryðjandi skynsemisstefnunnar hérlendis og þá ekki síst á sviði menningarmála og réttarfars. Borið saman við ýmsa hinna eldri embættismanna var Magnús um þetta leyti sannur talsmaður mildi og mannúðar í réttarfari. Engum sögum fer lengur af því hvernig lögmanninum unga leist á delinquentinn úr Keldudal sem fyrir hann var leiddur í hripleku lögréttuhúsinu við Öxará. Hitt er víst að þar var Torfi mættur og gaf enn á ný sömu skýringar og áður á framferði sínu við messuna í Hrauni en kvaðst ekkert muna af því sem þar var talað.

Þann 17. júlí 1790 kvað Magnús lögmaður upp sinn dóm í málinu. Þar hafnaði hann algerlega kröfu Sigurðar skugga um ævilanga þrælkun. Greinargerðin sem fylgir dómsorðinu sýnir að Magnús Stephensen hefur viljað gera sem minnst úr sök Torfa. Hann bendir á að hvorki móðir sakborningsins né Jón Ásgeirsson prófastur hafi borið fram kæru vegna illyrða hans í sinn garð og samkvæmt lögum sé dómurum ætlað að sjá í gegnum fingur við þann sem ekki af ásettu ráði verður í drykkjuskap breyskur í orðum, hvör hann ódrukkinn afturkallar. Í dómsforsendum sínum tók Magnús líka fram að fyrir lægi vitnisburður um meinhægt líferni Torfa nú að undanförnu. Þá taldi lögmaðurinn gögn málsins sýna

 

að Torfi hafi einungis til hressingar sér í sterku erfiði nóttina áður, en ei af ásetningi til að skeyta skapi sínu á nokkrum, of mikið inntekið af áfengum drykk og þess vegna svo breyskur orðið.

 

Með allt þetta í huga taldi Magnús Stephensen nægilegt að dæma Torfa til að erfiða í 2 ár í því íslenska tugthúsi sjálfum sér til siðbóta og öðrum gárungum til viðvörunar. Auk þess dæmdi hann Torfa til að greiða tvo kúrantdali til Hallbjarnareyrarhospitals. Úrskurð sýslumanns um að Torfi skyldi sviptur rétti til arfs eftir móður sína taldi Magnús lögmaður ómaklegan og veitti honum á ný óskertan rétt í þeim efnum.

Er lögmannsdómurinn hafði verið kveðinn upp var Torfi fluttur suður yfir Mosfellsheiði ásamt Jóni Snorrasyni smjörþjóf úr Bolungavík og er til Reykjavíkur kom var farið með báða í tugthúsið við Arnarhól, sem nú hefur lengi verið Stjórnarráðshús, en þar var þessum langt að komnu brotamönnum veitt viðtaka 19. júlí 1790.[201] Um þessar mundir var Arnes Pálsson útileguþjófur, sem um skeið fylgdi Eyvindi og Höllu á fjöllum, búinn að sitja í Reykjavíkurtugthúsi í nær aldarfjórðung og hafði síðustu árin verið þar eins konar aðstoðarmaður tugthúsráðsmannsins, kallaður púrtner í skýrslum hans og hefur því haft dyragæsluna á hendi.[202] Það hefur því að líkindum verið Arnes sem tók á móti Torfa og Jóni Snorrasyni er komið var með þá í tugthúsið.

Í skýrslum H. Scheel tugthúsráðsmanns til stiftamtmanns frá árunum 1790-1792 er sagt að Torfi hafi verið dæmdur þar fyrir Spottelig Ord, það er fyrir háð og spé, sem varla getur þó talist nákvæmlega rétt. Í skýrslum þessum er jafnan tekið fram að hegðun fangans úr Keldudal sé mjög skikkanleg og þar má sjá að Torfi og fleiri fangar voru látnir stunda fiskiróðra.

Sumir fanganna voru reyndar lánaðir til Ólafs Stefánssonar stiftamtmanns, sem þá bjó á Innrahólmi í grennd við Akranes, og í þeim hópi var Torfi. Í bréfum stiftamtmanns frá janúar og febrúar 1792 til ráðsmannsins í tugthúsinu minnist hann á fangann Torfa Jónsson og í öðru þessara bréfa tekur hann fram að með fylgi reikningur er sýni hver hlutur Torfa var á vetrarvertíðinni árið 1791 og hvað hann hafi unnið sér inn frá vertíðarlokum og fram í ágústmánuð.[203] Tekjur fangans frá því hann byrjaði róðra á vetrarvertíð og fram í ágústmánuð voru 9 ríkisdalir og 4 skildingar.[204] Þá upphæð kvaðst Ólafur vera fús til að greiða[205] en ætla má að þessi erfiðislaun hafi runnið í tugthússjóðinn.

Þau orð Ólafs stiftamtmanns sem hér var vitnað til sýna að í stað þess að vera geymdur í Reykjavíkurtugthúsi hefur fanginn úr Keldudal verið látinn starfa sem púlsmaður á landi og sjó uppi á Innrahólmi drjúgan hluta úr árinu 1791.

Um mitt sumar árið 1792 varð Torfi frjáls maður á ný og hefur þá verið 37 ára gamall eða þar um bil (sjá hér bls. 23). Svo virðist sem hann hafi alls ekki snúið til baka heim í Dýrafjörð er hann losnaði úr fangelsinu heldur komið sér fyrir í öðrum sóknum. Hér er á öðrum stað sagt dálítið frá bæklingi sem Henrik Henkel, kaupmaður á Þingeyri, lét á þrykk út ganga árið 1799 (sjá hér Þingeyri). Í bæklingi þessum birtir hann lögmannsdóminn yfir Torfa og líka bréf sitt til hreppstjóranna í Þingeyrarhreppi, dagsett 29. maí 1798, þar sem hann spyrst fyrir um hvort þeir hafi nokkra tryggingu fyrir því að Torfi verði ekki sveitarfélaginu til byrði á elliárum, – ef hann kynni að koma hingað aftur.[206] Orðalag Henkels sýnir að Torfi hefur verið talinn á lífi en ekki átt heima í Þingeyrarhreppi þegar bréfið var skrifað og þar er hann heldur ekki á manntali árið 1801.[207]

Í nýnefndu bréfi Henkels kaupmanns til hreppstjóranna kemur fram að Torfi hefur reyndar átt jarðeignir í Dýrafirði, það er að segja 6 hundruð í jörðinni Botni og önnur 6 hundruð í Arnarnúpi[208] sem máske hefur verið arfur eftir móður hans. Henkel greinir frá því að á árunum 1790-1795 hafi báðar þessar jarðeignir sakamannsins verið seldar fyrir samtals 108 ríkisdali.[209] Svo er að skilja á máli kaupmannsins að Torfi hafi alls ekki fengið þá peninga í hendur, enda þótt skýrt væri tekið fram í lögmannsdómnum frá 1790 að hann skyldi halda rétti til erfða eftir móður sína og aðeins greiða tvo kúrantdali í sekt.[210] Lætur Henkel að því liggja að með því að svipta Torfa jarðeignum sínum með ólögmætum hætti hafi yfirvöldin í heimabyggð hans skapað hættu á að þessi fyrrverandi tugthúslimur yrði þurfamaður í ellinni og byrði á Þingeyrarhreppi sem var hans fæðingarsveit.

Í bréfi sem Henkel, kaupmaður á Þingeyri, ritaði Magnúsi Stephensen lögmanni árið 1799 og birt er í áðurnefndum bæklingi kemur reyndar fram að skömmu eftir að Torfa var sleppt úr tugthúsinu hefur hann ráðið sig í þjónustu Magnúsar lögmanns[211] sem var sonur Ólafs stiftamtmanns á Innrahólmi þar sem Torfi hafði áður unnið sem fangi. Í bréfi sínu til Magnúsar kemst Henkel m.a. svo að orði: Denne Torfe Jonsen skal være kommen fra Tugthuset og allerede have tilbragt endeel Aar I Deres Tjeneste.[212] Skýrara getur það ekki verið því þarna er fullyrt að Torfi hafi verið árum saman í þjónustu lögmannsins.

Á árunum upp úr 1790 var Magnús Stephensen búsettur á Leirá í Borgarfjarðarsýslu og í sóknarmannatölum Mela- og Leirársókna er staðfest að þangað hefur Torfi farið er hann kom úr tugthúsinu. Við húsvitjun sem fram fór í nóvember árið 1792 er hann skráður til heimilis hjá lögmanninum á Leirá, sagður 39 ára vinnumaður, kominn úr Ísafirði.[213] Þá voru aðeins fáir mánuðir liðnir frá því honum var sleppt úr betrunarhúsinu við Arnarhól. Án orða Þingeyrarkaupmanns í bréfinu til Magnúsar, sem hér voru áður birt, gætu menn efast um að þetta væri réttur Torfi en þau orð sýna ótvírætt að svo er. Engan þarf að undra þótt maðurinn sé þarna talinn tveimur árum eldri en helst var að vænta því slíkt er alvanalegt í sóknarmannatölum frá þessum tíma og skeikar reyndar mjög oft meiru. Ekki er heldur neitt undarlegt við það að presturinn á Melum skuli segja Torfa kominn úr Ísafirði þegar hann meinar Ísafjarðarsýslu því Borgfirðingar voru menn taldir ef þeir áttu heima í Borgarfjarðarhéraði þó ekki væru þeir búsettir við sjálfan Borgarfjörð.

Sóknarmannatöl séra Arngríms Jónssonar á Melum bera með sér að Torfi hefur verið vinnumaður hjá Magnúsi Stephensen á Leirá í fjögur ár, frá 1792 til 1796.[214] Við nafn Torfa skráir prestur eitt og annað í bók sína og segir árið 1795 um þennan fyrrverandi tugthúslim úr Keldudal: Stríðir í guði, – ólatur.[215] Við slíka einkunn hefði margur ódæmdur mátt vel una.

Árið 1796 fer Torfi frá Leirá en næstu þrjú árin er hann þó áfram í sama prestakalli, fyrst á Neðra-Skarði í tvö ár og svo eitt ár á Melum, alltaf einhleypur vinnumaður.[216] Árið 1799 hverfur Dýrfirðingur þessi hins vegar á brott úr Leirár- og Melasveit og ekki alveg ljóst hvert hann hefur farið.[217] Ólíklegt er þó að hann hafi farið í gröfina því andláts hans er ekki getið í prestsþjónustubókinni.[218] Hafi Torfi verið á lífi þegar allsherjarmanntal var tekið tveimur árum síðar má telja nær fullvíst að hann hafi verið kominn aftur til síns gamla húsbónda, Ólafs stiftamtmanns, sem notið hafði krafta fangans úr Keldudal árið 1791 (sjá hér bls. 25-26).

Árið 1801 var Ólafur stiftamtmaður sestur að í Viðey og í manntalinu frá því ári sjáum við að þar er skráður til heimilis vinnumaðurinn Torfi Jónsson, sagður 41 árs gamall.[219] Samkvæmt dómabókinni frá árinu 1788 ætti okkar Torfi reyndar að hafa verið 45 ára gamall árið 1801 (sjá hér bls. 23). Slíkt aldursbrengl er hins vegar svo algengt í heimildum frá þessum tíma að enginn þarf að láta sér bregða við það.[220] Skrá yfir alla Torfa Jónssyni, sem nefndir eru í manntalinu frá 1801, sýnir að enginn þeirra er líklegri til að vera Torfi úr Keldudal heldur en einmitt sá í Viðey,[221] því Torfarnir þrír sem aldurinn gæti frekar passað við eru sannanlega aðrir menn. Í sóknarmannatölum Reykjavíkurprestakalls má sjá að Torfi vinnumaður í Viðey kemur þangað árið 1800, – einu ári eftir að Torfi úr Keldudal fór frá Melum, en fimm árum síðar hverfur hann á brott frá Viðey og óljóst er hvað þá hefur um hann orðið.[222]

Magnús Stephensen lögmaður lét á sínum tíma bóka að fangelsisdómurinn yfir Torfa ætti að vera öðrum gárungum til viðvörunar. Ekki vitum við hversu marga slíka var að finna í Keldudal á fyrri tíð – en nú liggja þeir hér í kirkjugarðinum í Hrauni, lausmálgir lastarar og gemsfullir gárungar en líka allir hinir sem kunnu að gæta tungu sinnar og aldrei máttu vamm sitt vita, – hvíla nú allir í hinum sama guðsbarnareit nema þeir sem drukknuðu í sjó og týndust í hafsins djúp.

Hér í Hrauni kveðjum við síðast strákinn Torfa og hans gömlu móður sem fyrirgaf honum allt hans orðasukk og skundum svo að Skálará. En vilji einhverjir staldra lengur við hér í garðinum forna og skoða legstað Gunnhildar Sumarliðadóttur sem lögð var í mold árið 1793 en gekk aftur þá vísum við á orðin sem um hana eru rituð annars staðar í þessu verki (sjá Sveinseyri.

 

 

 

 

– – – – – – – – – – o o o o o – – – – – – – – – –

*) Þannig í framburði, segir Guðm. Fr. Magnússon.

_____________________________

[1] Manntöl 1703, 1801, 1870 og 1901.

[2] Sóknalýsingar Vestfjarða II, 51.

[3] Guðmund Sören Magnússon.  – Viðtal K.Ó. við hann 11.7.1992. Guðm. Fr. Magnússon.  – Viðtal K.Ó. við hann 6.7.1993.

[4] Sóknalýs. Vestfj. II, 54.

[5] Sama heimild.

[6] Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín VII, 34.

[7] Örnefnaskrá.

[8] Guðm. Fr. Magnússon. – Viðtal K.Ó. við hann í júlí 1991.

[9] Sama heimild.

[10] Örn.skrá.

[11] Guðm. Fr. Magnússon. – Viðtal K.Ó. við hann í júlí 1991.

[12] Guðm. Fr. Magnússon. – Viðtal K.Ó. við hann í júlí 1991.

[13] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XVI. 3. Veðmálabók 1868-1882, 136.

[14] Örn.skrá.  Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XVI. 3. Veðmálabók 1868-1882, 159.

[15] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XVI. 3. Veðmálabók 1868-1882, 136.

[16] Íslensk fornrit I, 179.

[17] Sama heimild, 179-180.

[18] Ísl. fornrit VI, 14, 36, 51, 64 og 69.

[19] Jarðab. Á. og P. VII, 28-54. J. Johnsen 1847, 191-193.

[20] Kristján G. Þorvaldsson 1951, 131 (Árbók F.Í.).

[21] Ólafur Ólafsson 1958, 75 (Ársrit S.Í.).

[22] Guðm. Sören Magnússon. – Viðtal K.Ó. við hann í júlí 1992.

[23] Lúðvík Kristjánsson 1980, 70 og 83.

[24] Jarðab. Á. og P. VII, 32.

[25] ÍB 20, fol.

[26] Guðm. Fr. Magnússon. – Viðtal K.Ó. við hann í júlí 1991.

[27] Sama heimild.

[28] Sóknalýs. Vestfj. II, 58.

[29] Guðm. Fr. Magnússon. – Viðtal K.Ó. við hann í júlí 1991.

[30] Sama heimild.

[31] Guðm. Sören Magnússon. – Viðtal K.Ó. við hann 11.7. 1992.

[32] Lúðvík Kristjánsson 1980, 151.

[33] Sóknalýs. Vestfj. II, 58-59.

[34] Sama heimild.

[35] Guðm. Sören Magnússon. – Viðtal K.Ó. við hann 11.7.1992.

[36] Sama heimild.

[37] Guðm. Fr. Magnússon. – Viðtal K.Ó. við hann 11.7. 1992.

[38] Guðm. Sören Magnússon. – Viðtal K.Ó. við hann 11.7.1992.

[39] Sama heimild.

[40] Jarðab. Á. og P. VII, 32-33.

[41] Sama heimild.

[42] Guðmundur Sören Magnússon. – Viðtal K.Ó. við hann 11.7. 1992.

[43] Jarðab. Á. og P. VII, 32-33.

[44] Sama heimild.

[45] Sama heimild.

[46] Örn.skrá.

[47] Sama heimild.

[48] Jarðab. Á. og P. VII, 32-33.  Sbr. Jarðab. Á. og P. XIII, 309-310.

[49] Vestfirskar sagnir I, 229 og 300.  Manntal 1845.

[50] Vestfirskar þjóðsögur I, 17.

[51] Vestf. sagnir I, 300.

[52] Lúðvík Kristjánsson 1983, 148.

[53] Guðm. Fr. Magnússon. – Viðtal K.Ó. við hann í júlí 1991.

[54] Sama heimild.

[55] Sama heimild.

[56] Jarðab. Á. og P. VII, 31.  J. Johnsen 1847, 192.

[57] Sturl. I, 383.

[58] D.I. IV, 688.

[59] Sama heimild.

[60] D.I. V, 501-502.

[61] Arnór Sigurjónsson 1975, 202-203.

[62] D.I. VI, 230.  Sbr. Sama, 267-268.

[63] Vestfirskar ættir I, 33.

[64] Lögréttumannatal IV, 451.

[65] Vestf. ættir I, 33.  Arnór Sigurjónsson 1975, 300.

[66] Lögréttumannatal IV, 451.

[67] Sama heimild.

[68] D.I. XII, 540.

[69] Lögréttumannatal IV, 451.

[70] Sbr. Íslenskar æviskrár II, 240.

[71] Ísl. æviskrár II, 240.

[72] Safn til sögu Íslands III, 716.

[73] Sama heimild.

[74] Jarðab. Á. og P. VII, 31.

[75] Jarðabréf frá 16. og 17. öld. Útdrættir. (Kph. 1993), 77-78.  Ísl. æviskrár II, 230.

[76] Ísl. æviskrár I, 71 og IV, 379.

[77] Jarðabréf frá 16. og 17. öld. Útdrættir. (Kph. 1993), 77-78 og 170.  Sbr. Ísl. æviskrár I, 94 og III, 217.

[78] Ísl. æviskrár III, 217.  Sbr. Annálar III, 65, 119, 247 og 263.

[79] Jarðabréf frá 16. og 17. öld. Útdrættir. (Kph. 1993), 170.  Sbr. Lögréttumannatal, 158-159.

[80] Jarðabréf frá 16. og 17. öld. Útdrættir. (Kph. 1993), 170.  Jarðab. Á. og P. VII, 31 og XIII, 294 og

309-310.  Ísl. æviskrár I, 94 og III, 26.  Lögréttumannatal, 32.  Manntal 1703, 174, 188 og 239.

[81] Blanda V, 1-21.

[82] Jarðab. Á. og P. VII, 31.  Ísl. æviskrár III, 26.

[83] Jarðab. Á. og P. VII, 31-33.

[84] Sama heimild.

[85] Sama heimild.

[86] Manntal 1762.

[87] Vestf. ættir I, 48 og 92.  Manntal 1762 (Hraun). Manntal 1703, 196.  Annálar III, 423.

[88] Vestf. ættir I, 48 og 92.

[89] ÍB 94to – 164to. Ættatölubækur Jóns Espólín, dálkar 955-959.

[90] Ísl. æviskrár I, 94.

[91] ÍB 94to – 164to. Ættatölubækur Jóns Espólín, dálkar 955-959.

[92] Manntal 1762.

[93] Manntal 1703 og nafnalykill þess.

[94] Bændatöl og skuldaskrár 1720-1765, Ísafj.sýsla 1735, eftirrit.

[95] Bps. A II, 19, bls. 50. Vísitazíubók Ólafs biskups Gíslasonar, 2. hluti, Hraun 13.9.1749.

[96] Jarða- og bændatöl 1752-1767.  Sbr. Manntal 1762.

[97] Manntal 1703 og nafnalykill þess.

[98] Manntal 1703, 173 og nafnalykill þess.  Manntal 1762 (Hraun).  Sbr. Jarðab. Á. og P. VI, 283.

[99] Jarða- og bændatöl 1752-1767, Ísafj.sýsla 1753.

[100] Manntal 1762.

[101] Alþ.bækur Íslands XV, 572.

[102] Sbr. Ísl. æviskrár V, 304-305.

[103] Ísl. æviskrár V, 304-305.

[104] Manntal 1816, 683.

[105] Manntal 1762 (Hraun).

[106] Sbr. Manntal 1801, bls. XI.

[107] Sóknarm.töl Dýrafj.þinga 1785-1800.  Manntal 1801, Sbr. hér Gemlufall.

[108] Sbr. Manntal 1762 (Hraun).

[109] Manntal 1801 (Gemlufall).

[110] Sama manntal, bls. 258 (Auðkúla).

[111] Manntal 1801, bls. 258 (Auðkúla). Sbr. Manntal 1762 (Hraun).

[112] Sóknarm.töl Dýrafj.þinga.

[113] Manntal 1762 (Gemlufall).

[114] Manntal 1703.

[115] Jarðab. Á. og P. VII, 31.

[116] Sama heimild, 33.

[117] Sama heimild.

[118] Kristján G. Þorvaldsson 1951, 131 (Árbók F.Í.).

[119] Vestf. sagnir III, 121.

[120] Örn.skrá.

[121] Guðm. Fr. Magnússon. – Viðtal K.Ó. við hann 11.7.1992.

[122] Sama heimild.

[123] Manntöl 1890 og 1901.

[124] Manntal 1845.  Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Þingeyrarhr. 2. Hreppsbók 1835-1851.

[125] Sama hreppsbók.

[126] Prestsþj.b. Sandapr.kalls.

[127] Sóknarm.töl Sandapr.kalls.

[128] Guðm. Fr. Magnússon. – Viðtal K.Ó. við hann í júlí 1991.

[129] Manntal 1880.

[130] Guðm. Fr. Magnússon, júlí 1991 og Aðalbjörg Aðalsteinsdóttir, ágúst 1991. – Viðtal K.Ó. við þau.

[131] Manntal 1920.

[132] Guðm. Fr. Magnússon. – Viðtal K.Ó. við hann í júlí 1991.

[133] Manntal 1880.

[134] Örn.skrá.

[135] Manntal 1890.

[136] Guðm. Fr. Magnússon. – Viðtal K.Ó. við hann í júlí 1991.

[137] D.I. XII, 13.

[138] Sturl. I, 233 og 378.

[139] Sama heimild, 233.

[140] Bjarni Guðmundsson / Lesbók Mbl. 23.1.1993.

[141] Bjarni Guðmundsson / Lesbók Mbl. 23.1.1993.

[142] Sama heimild.

[143] Sama heimild.

[144] Guðmundur Sören Magnússon. – Viðtal K.Ó. við hann 5.4. 1998.

[145] Sama heimild.

[146] D.I. III, 228.

[147] Sama heimild, 330.

[148] D.I. IV, 144-145.

[149] D.I. XV, 577.  Jarðab. Á. og P. VII, 34.  J. Johnsen 1847, 192.

[150] Lýður Björnsson 1970, 14 (Ársrit Sögufél. Ísf. 1969-1970).

[151] Jarðab. Á. og P. VII, 32.

[152] D.I. III, 330 og D.I. IV, 144.

[153] Sömu heimildir.

[154] Ólafur Ólafsson 1958, 76 (Ársrit S.Í.).

[155] Guðm. Fr. Magnússon. – Viðtal K.Ó. við hann í júlí 1991.

[156] Vestf. sagnir I, 276-278.

[157] Sama heimild.

[158] Lbs. 23684to, Prestaæfir S.Gr.B. (Markús Eyjólfsson).

[159] Prestsþj.b. Sandapr.kalls.

[160] Sama heimild.

[161] Manntal 1801.

[162] Ísl. æviskrár III, 469.

[163] Ísl. æviskrár III, 469.  Manntal 1801. Sbr. Manntal 1816, 719.

[164] Ísl. æviskrár V, 29.

[165] Vestf. sagnir I, 277.

[166] Jóhann Gunnar Ólafsson 1974, 114 (Ársrit S.Í.).

[167] Sama heimild.

[168] Jóhann Gunnar Ólafsson 1974, 114 (Ársrit S.Í.).

[169] Lbs. 23754to, Dagbók Sighvats Grímssonar Borgfirðings 2.9.1894.

[170] Jóhann Gunnar Ólafsson 1974, 111-118 og 1978, 81-84 (Ársrit S.Í.).

[171] Sami 1974, 115-118.

[172] Lbs. 23684to, S.Gr.B./Prestaæfir.

[173] Skj.s. prófasta, V.-Ís. AA/5 Vísitazíubók 1847 – 1855, 106-109.

[174] Jóhann Gunnar Ólafsson 1974, 113.

[175] Skj.s. próf. XIII. 1. A. 8. vísitazíugerð prófasts 20.9.1894.

[176] Bjarni Guðmundsson / Lesbók Mbl. 23.1.1993.

[177] Guðrún Edda Gunnarsdóttir, sóknarpr. á Þingeyri. – Viðtal K.Ó. við hana 23.8.2006.

[178] Bps. A II, 16, bls. 258-262. Vísitazíubók Jóns bisk. Árnasonar 1723-1742.  Manntal 1762.

[179] Vestf. ættir I, 48 og 92.

[180] Manntal 1703.

[181] Þóra Kristjánsdóttir 2005, 92 (Mynd á þili).

[182] Bps. A II, 16, bls. 259. Vísitazíubók Jóns bisk. Árnasonar 1723-1742.

[183] Bps. A II, 19, bls. 50. Vísitazíubók Ólafs Gíslasonar bisk., 2. hluti, 1749.

[184] Þóra Kristjánsdóttir 2005, 92 (Mynd á þili).

[185] Sama heimild.

[186] Ísl. æviskrár II, 363.

[187] Ísl. æviskrár II, 363.

[188] Bps. A II, 16, bls. 259. Vísitazíubók Jóns bisk. Árnasonar 1723-1742.

[189] Lögréttumannatal 7.

[190] Ísl. æviskrár I, 94.

[191] Bps. A II, 16, bls. 259. Vísitazíubók Jóns bisk. Árnasonar 1723-1742.

[192] Lögréttumannatal, 7.

[193] Sama heimild.

[194] Alþ.bækur Íslands XIII, 177.

[195] Jarða- og bændatöl 1752-1767, Ísafj.sýsla 1753.

[196] Lögréttumannatal, 7.

[197] Bps. A II, 16, bls. 258-262. Vísitazíubók Jóns bisk. Árnasonar 1723-1742.

[198] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. IV. 3, Dóma- og þingbók 1779-1790.

[199] Alþ.bækur Íslands XVI, 550-551 og 555-557.

[200] Ættatölubækur Jóns Espólín VII, 5505.

[201] Skj.s. stiftamtm. III, 237. 9. (Skrár um fangahald 1785-1802).

[202] Sama heimild.

[203] Sama skj.s. III, nr. 234, bréf Ól. Stefánssonar stiftamtm. 23.1. og 24.2.1792 til H. Scheel tugthúsráðsm.

[204] Skj.s. stiftamtm.III, nr. 234, bréf Ól. Stefánssonar stiftamtm. 23.1. og 24.2.1792 til H. Scheel tugthúsráðsm.

[205] Sama heimild.

[206] H. Henkel 1799, 69-70, sjá einnig þar bls. 100-103.

[207] Manntal 1801.

[208] H. Henkel 1799, 69-70.

[209] Sama heimild.

[210] Sama heimild.

[211] Sami 1799, 24-25.

[212] H. Henkel 1799, 24-25.

[213] Sóknarm.töl Mela- og Leirársókna.

[214] Sóknarm.töl Mela- og Leirársókna.

[215] Sama heimild.

[216] Sama heimild.

[217] Sama heimild.

[218] Prestsþj.bækur Mela- og Leirársókna.

[219] Manntal 1801.

[220] Sama heimild.

[221] Manntal á Íslandi 1801 og nafnalykill þess.

[222] Sóknarm.töl Reykjavíkurpr.kalls.

1000-1900

Guðmundur Justsson

Á fyrri hluta 20. aldar var Guðmundur Justsson, sem fæddist á Gemlufalli haustið 1841,[1] einna kunnastur þeirra sem búið höfðu á Dröngum, a.m.k. utan Dýrafjarðar,

LESA MEIRA »
1000-1900

Krossadalur

Í Krossadal var löngum tvíbýli á fyrri tíð, Hærri- og Lægri- (eða Neðri-) Krossdalur, og voru þetta ystu bæir við Tálknafjörð. Stundum var reyndar þríbýli

LESA MEIRA »
1000-1900

Arnarstapi

Arnarstapi og Krossadalur voru tvær ystu jarðirnar á norðurströnd Tálknafjarðar og hafa nú báðar verið í eyði frá því um 1940.[1] Frá verbúðatóttunum í Arnarstapavík

LESA MEIRA »