Mýrahreppur

Mýrahreppur nær yfir alla norðurströnd Dýrafjarðar og Ingjaldssand sem er ysta byggð við vestanverðan Önundarfjörð. Botnsá í Dýrafjarðarbotni skilur að Mýrahrepp og Þingeyrarhrepp en hreppamörk Mýrahrepps og Mosvallahrepps í Önundarfirði eru við Reyðarsker[1] undir fjallinu Hrafnaskálarnúp, innan við Ingjaldssand. Hreppurinn er kenndur við höfuðbólið Mýrar þar sem lengi var þingstaður en á fyrri tíð var hann stundum nefndur Dýrafjarðarhreppur norðan fram.[2]

Innsti bærinn á norðurströnd Dýrafjarðar var Botn en ystur var Fjallaskagi ef aðeins eru talin hin fornu lögbýli. Vegalengdin milli þessara tveggja bæja er um það bil 37 kílómetrar. Frá Fjallaskaga að Steinbítshamri og læknum Drífu undir Barða eru síðan átta kílómetrar svo öll er norðurströnd Dýrafjarðar um það bil 45 kílómetrar á lengd.  Strandlengja þess hluta Mýrahrepps sem liggur í Önundarfirði er hins vegar aðeins um 6 kílómetrar.

Norðurströnd Dýrafjarðar er lítt vogskorin en þar er víða talsvert undirlendi allt frá Botni og út í Alviðru en þar á milli eru 25 kílómetrar. Fjöllin að byggðarbaki ná mörg um og yfir 700 metra hæð en brúnir þær er við augum blasa neðan úr byggðinni eru þó flestar nokkru lægri. Hæsta fjall í hreppnum er Lambadalsfjall, norður af fjarðarbotninum, en hæstu kollar þess eru í um það bil 950 metra hæð yfir sjávarmáli. Inn í hálendið norðan Dýrafjarðar skerast nokkrir dalir sem allir eru þröngir en sumir ágætlega grösugir. Helstu dalirnir, talið að innan, eru Lambadalur, Hjarðardalur, Gemlufallsdalur, Núpsdalur og Gerðhamradalur. Allir liggja þessir dalir til norðurs frá fjarðarströndinni nema Hjarðardalur sem lengi vel teygist nær beint í austur en sunnan hans er tæplega 300 metra hár háls sem skilur dalinn frá firðinum. Sjötti stóri dalurinn í Mýrahreppi er svo Ingjaldssandur sem er stærri og grösugri en nokkur hinna. Eina fjallið í hreppnum sem stendur stakt er Mýrafell 312 metra hátt og virðist strýtumyndað ef á það er horft innan úr firðinum. Ofan við Mýrafell er allbreið láglendisræma sem skilur það frá hinum mikla fjallgarði norðan fjarðarins.

Flestar jarðir á norðurströnd Dýrafjarðar liggja mjög skammt frá sjó. Lengst er til sjávar frá Klukkulandi í Núpsdal, tæpir þrír kílómetrar, en nokkru skemmra frá Fremri-Hjarðardal, liðlega tveir kílómetrar. Á Ingjaldssandi var sjávargatan lengri frá fremstu bæjum, þrír og hálfur kilómetri frá Hrauni og fjórir og hálfur frá Hálsi sem þar var fremsti bær í dalnum.

Eini landnámsmaðurinn sem höfundar Landnámabókar segja skýrum orðum að búið hafi á norðurströnd Dýrafjarðar er Þórður Víkingsson er nam land milli Þúfu á Hjallanesi og Jarðfallsgils.[3] Þúfa heitir enn yst á Skagafjalli[4] sem ætla má að til forna hafi borið nafnið Hjallanes. Þar eru enn landamerki milli Fjallaskaga, ysta bæjarins í Núpssókn, og Sæbóls á Ingjaldssandi.  Jarðfallsgil er rétt utan við Hjarðardal og var enn nefnt svo á fyrri hluta 19. aldar[5] en er nú af flestum kallað Glórugil. Í þeirri gerð Landnámabókar sem kennd er við Hauk Erlendsson lögmann segir reyndar að Dýri hafi gefið Þórði Víkingssyni land þetta en í Sturlubók er Þórður talinn hafa komið þar að ónumdu landi.[6] Að öðru leyti ber handritunum vel saman um meginatriði hvað varðar landnám við norðanverðan Dýrafjörð. Ótvírætt er að höfundar Landnámabókar telja Dýra hafa numið allan innfjörðinn og að norðanverðu hafi merkin milli landa þeirra Þórðar verið við Jarðfallsgil. Í Landnámabók er Dýri sagður hafa búið að Hálsum[7] en bær með því nafni hefur aldrei verið til í Dýrafirði svo kunnugt sé (sjá hér Þingeyrarhreppur, inngangskafli og Hvammur). Þórður Víkingsson í Alviðru var að sögn Landnámabókar einn hinn göfugasti landnámsmaður í Vestfirðingafjórðungi, enda af mörgum talinn vera sonur Haralds konungs hárfagra (sjá hér Alviðra).

Þriðji landnámsmaðurinn sem hér kemur við sögu er svo Ingjaldur Brúnason sem í fornum ritum er sagður hafa numið Ingjaldssand milli Hjallaness og Ófæru.[8] Landnám Ingjalds ætti því að hafa náð yfir allan Ingjaldssand og líka Nesdal sem liggur milli Skagafjalls (Hjallaness) og Barða yst á norðurströnd Dýrafjarðar. Sá dalur hefur löngum fylgt jörðinni Sæbóli á Ingjaldssandi[9] og svo er enn. Ekki er þess getið í Landnámabók hvar Ingjaldur bjó en líklegt má telja að það fólk sem fyrst allra settist að á Ingjaldssandi hafi reist sér bæ á Sæbóli.

Fornar bújarðir í Mýrahreppi sem lengi héldust í byggð eru 28 og eru þá jarðirnar Kotnúpur, Lækjarós og Minni-Garður flokkaðar þar með enda þótt gera megi ráð fyrir að þær hafi í fyrstu byggst úr landi annarra jarða.[10] Af bújörðum þessum eru tuttugu og tvær í Dýrafirði en sex á Ingjaldssandi. Á nokkrum hinna fornu bújarða í Mýrahreppi var oft margbýli á fyrri tíð og um skeið voru þar allmargar hjáleigur og húsmannskot í byggð eins og hér verður nánar að vikið þegar farið verður bæ frá bæ um allan hreppinn.

Til er vísa úr Mýrahreppi þar sem allir bæirnir á norðurströnd Dýrafjarðar eru taldir upp í sinni landfræðilegu röð, byrjað yst og endað innst. Vísa þessi mun vera ort á árunum milli 1860 og 1870 sem sjá má á því að Gil (Glóru), sem þá lá í eyði, vantar en Hólakot komið á sinn stað (sjá hér Neðri-Hjarðardalur og Hólakot).

 

 

 

Bæjavísan er svona:

 

Skagi og Birnistaðir strax,

stendur Arnarnes hjá,

Gerðhamra má til heilla hags,

hermist Alviðra frá.

Leiti, Ytrihús, Núpur nær,

nefnist Kotnúpur þá.

Klukkuland, Hólakot sem fær

kunnugum Læk að sjá.

Fell og tveir Garðar fylgjast að

frægasta Mýra kirkjustað.

Lækjarós Gemlufalli frá,

Fremstuhús og Bakki með.

Hjarðardalur og Höfði þá,

hér fær Næfranes séð.

Tvo Lambadali telja má,

tímgast í Botni féð. [11]

Í Mýrahreppi var meira um stórar jarðir en víðast annars staðar á Vestfjörðum. Sex jarðir í hreppnum voru 60 hundruð að fornu mati eða þaðan af stærri[12] en svo var löngum talið að 60 hundraða jarðir gætu kallast höfuðból og þó því aðeins að þær væru setnar með höfðingjabrag. Stærstu jarðirnar í hreppnum munu til forna hafa verið Mýrar og Alviðra. Áður en býli var reist á Lækjarósi voru Mýrar 80 hundruð en af því landi fékk Lækjarós 15 hundruð í sinn hlut.[13] Alviðra var 78 hundruð eða litlu minni en Mýrar.[14] Hinar jarðirnar fjórar sem dugað gátu í höfuðból voru 60 hundruð hver, Ytri-Lambadalur, Neðri-Hjarðardalur, Núpur (með Kotnúpi) og Sæból á Ingjaldssandi.[15] Tvær minnstu jarðirnar í hreppnum voru aftur á móti aðeins 6 hundruð að dýrleika, Birnustaðir og Minni Garður sem líka var oft nefndur Litligarður.[16] Samtals töldust jarðeignir í hreppnum vera 776 hundruð[17] sem skiptust á 28 jarðir svo meðalstærð jarða hefur verið nálægt 28 hundruðum. Sambærileg tala í allri Vestur-Ísafjarðarsýslu var talsvert lægri eða um 23 hundruð,[18] enda voru jarðir í Mýrahreppi stærri að meðaltali en í nokkrum öðrum hreppi sýslunnar.[19] Hrepparnir í Vestur-Ísafjarðarsýslu voru fimm en um 30% allra jarðeigna í sýslunni voru í Mýrahreppi.[20]

Fjöldi býla í Mýrahreppi var dálítið breytilegur frá einum tíma til annars. Árið 1703 voru 73 bændabýli í hreppnum og þar að auki fjögur heimili húsfólks.[21] Eru þá enn ótaldir níu einhleypir tómthúsmenn sem ekki voru í heimili hjá öðrum.[22] Árið 1762 voru býli í hreppnum 64, þar af 8 hjáleigur.[23] Ekki er þá getið um húsfólk í manntali.[24] Árið 1801 voru bændabýlin 70 og þá voru í hreppnum 5 heimili tómthúsfólks.[25] Árið 1845 hafði býlum fækkað verulega og voru þá aðeins 52 en alls voru heimilin 56 væri húsfólk talið með.[26] Árið 1901 hafði heimilum í Mýrahreppi fjölgað verulega á ný frá því sem verið hafði 1845 og voru nú orðin 76[27] eða álíka mörg og verið hafði réttum hundrað árum fyrr. Fram skal tekið að tómthúsmenn sem bjuggu einir sér, án konu og barna, eru ekki taldir með þegar hér er talað um fjölda heimila á árunum 1762, 1801, 1845 og 1901.

Á 18. og 19. öld var íbúafjöldi hreppsins oftast á bilinu 450 til 550. Árið 1703 voru íbúarnir 458, árið 1762 voru þeir 449, árið 1801 532, árið 1845 502 og árið 1901 519.[28]

Slysfarir við sjósókn, skæðir sjúkdómar og hallæri margvísleg fækkuðu oft fólkinu um sinn en aldrei mun hafa orðið löng bið á því að aftur fyllti í skörðin. Síðasta dæmið um mannfækkun í Mýrahreppi af völdum hallæris og hungurdauða fólks er frá árum Napóleonsstyrjaldanna snemma á nítjándu öld en taumlaus dýrtíð og nær alger skortur á innfluttum vörum þrengdi þá mjög að landsfólkinu. Verst var ástandið á árunum 1812 til 1814. Séra Jón Sigurðsson, sem bjó í Meira-Garði, var þá prestur í Dýrafjarðarþingum en aðstoðarprestur hans á þeim árum var séra Markús Þórðarson, síðar á Álftamýri. Í prestsþjónustubókinni geta þeir séra Jón og séra Markús tólf sinnum um fátækt eða megurð sem dánarorsök á þessum þremur árum.[29] Orðalagið er þó með dálítið breytilegum hætti hjá prestunum og segja þeir ýmist að fólkið deyi úr megurð og uppdrætti, af fátækt og ódöfnun eða úr rýrnunarsótt og megurð.[30] Tíu af þeim tólf hreppsbúum sem þannig dóu á árunum 1812 til 1814 áttu heima í Mýrasókn[31] en íbúar þar voru 248 árið 1801.[32] Lætur því nærri að á þeim þremur árum sem tekin voru til skoðunar hafi fjórir af hverjum hundrað íbúum sóknarinnar fallið úr hor.

Fátt er nú um heimildir er greina frá mannlífi í Mýrahreppi fyrir miðja nítjándu öld og er því fróðlegt að sjá hvað séra Jón Sigurðsson, er þá var prestur á Gerðhömrum, festi á blað er hann ritaði skýrslu sína frá landslagi og öðru ásigkomulagi í Mýraþingaprestakalli árið 1840. Hann kemst þar m.a. svo að orði:

 

Engar eru hér íþróttir hvorki meiri né minni nema ef telja skal kunnáttulausar glímur. … Hljóðfæri eru alls engin og enginn þekkir hér reglulegan nótnasöng en lagvísir menn eru á gamlan söng fáeinir. Enginn þekkir eða kann nokkur lystileg framandi lög eða tóna. … Fáeinir hafa nýlega lært tvo eða þrjá líflega tóna eða lög. Til dægrastyttingar hafa menn ekki annað en vinnu sína nema fáeinir sem hafa sögur og marklitlar rímur. Skrifandi eru hér um bil 60, þar af 10 kvenmenn. … Siðferði er ekki í lakasta máta en ekki heldur í betra lagi. Sjálfsagt er það að í sumu er því ábótavant svo sem lausmælgi eða kvisi og óhlýðni við yfirboðara. Orsakast það mest af drottnandi sjálfbirgingsskap sem Dýrfirðingar framar öðrum hafa haft orð fyrir en þó er meining mín að það síðast nefnda fari heldur batnandi. Ekki má heldur telja alla seka af því fyrrnefnda. Um upplýsingu er það að segja að hún er í minnstum framförum í Mýrasókn. Þar eftir fer trúrækni og þekking trúarbragðanna. Varla má finna, í þeirri sókn, að undanteknum tveimur bæjum, nokkrar nýjar bækur. Alls staðar eru þeir gömlu söngvar brúkaðir og gamlir lestrar og í kirkjunni fæst ekki annað sungið en Grallarasálmar. Í hinum sóknunum er með ánægju sungið altíð í nýju sálmabókinni og hún og nokkrir eldri sálmar í heimahúsum og víða í þeim sóknum eru brúkaðar Sturms hugvekjur. Þó má ekki annað segja en að í þessum sóknum finnist nokkrir sérlega vel að sér í sínum kristindómi, aðrir bera meiri umsorgun fyrir því jarðneska og þykir það meir áríðandi. Í Sæbólssókn er það kirkjuræknasta fólk og siðsamt á samfundum.

Enginn er hér læknir nema sá Districts chirurgus sem settur er af konungi og býr á Ísafirði. Yfirsetukonur, yfirheyrðar og eiðsvarnar, eru hér engar en þrjár eru sem brúkaðar eru til að hjálpa konum í barnsnauð. … Sjúkdómar eru hér fáir en holdsveiki, fyrir utan kvefsóttir, er hér algengust. Er það meining manna að það orsakist helst af illa verkuðu fiskifangi sem víða er brúkað mest matar, nefnilega fyrir annars máls mat og miðdags. Lækningar eru hér engar við þann sjúkdóm hafðar né aðra veiki en alltof margir hafa of mikla trú eða traust á blóðtökum.[33]

 

Séra Jón Sigurðsson hafði verið prestur í Dýrafjarðarþingum í átta ár er hann gaf þá skýrslu sem hér hefur verið vitnað til. Sjálfur var hann frægur tungumálagarpur (sjá hér Gerðhamrar og Sandar) og hafði á sínum tíma útskrifast úr Bessastaðaskóla með glæsilegum vitnisburði.[34] Ekki er vert að taka orð prestsins um menntunarástand almúgans alveg bókstaflega en greinilegt er að margir í prestakallinu hafa verið fastheldnir á forna hætti og illa hefur séra Jóni gengið að útrýma Grallarasöngnum úr Mýrakirkju.

Í Mýrahreppi eins og víðast hvar annars staðar á Vestfjörðum var á fyrri tíð lítil hreyfing á mannfólkinu og þeir sem fluttu sig um set fóru yfirleitt ekki lengra en á aðra bæi í Dýrafirði eða nálægum fjörðum. Til marks um þetta má nefna að 84,26% af þeim sem áttu heima í hreppnum 2. nóvember 1845 voru fæddir í Dýrafirði eða Önundarfirði.[35] Af 502 íbúum voru 479 fæddir í Ísafjarðarsýslu, og 17 í Barðastrandarsýslu. Aðeins sex manneskjur voru fæddar utan Vestfjarðakjálkans eða liðlega 1% íbúanna, þar af fjórir í Dalasýslu.[36] Einn var kominn sunnan úr Kjós og einn úr Skagafirði, Guðmundur norðlenski sem þá var nýbýlismaður í Nesdal.

Tölurnar sýna vel hve rækilega almúginn var bundinn við sína heimahaga og fyrst svona háttaði til undir miðja 19. öld sýnist fráleitt að gera ráð fyrir meiri hreyfingu á fólki á hinum fyrri öldum. Sumir prestanna sem þjónuðu Dýrafjarðarþingum voru þó þangað komnir um alllangan veg. Af 24 prestum og aðstoðarprestum sem hér þjónuðu á tímabilinu frá 1550-1880 komu sjö beint frá vígslu, átta frá öðrum prestaköllum á Vestfjörðum, þrír komu frá öðrum stöðum á Vesturlandi og aðrir þrír slepptu prestaköllum norðanlands er þeir fluttust í Dýrafjörð.[37] Um þrjá prestanna er ekki vitað hvaðan þá bar að en af hinum höfðu þeir lagt lengsta leið að baki sem komu úr Borgarfirði eða Skagafirði,[38] að frátöldum hinum nývígðu sem urðu að takast ferð á hendur til Skálholts og á síðari tímum til Reykjavíkur vegna vígslunnar. Sérstaka athygli vekur að á öllu þessu tímaskeiði, 1550-1880, er það aðeins einn prestanna í Dýrafjarðarþingum sem tekur sig upp og flytur í annan landsfjórðung,[39] Skagfirðingurinn séra Ólafur Ólafsson, sem vorið 1867 fór á ný norður í Skagafjörð og hafði þá þjónað Dýrfirðingum í þrjú ár.[40] Allir hinir sátu kyrrir í Dýrafirði eða færðu sig í önnur brauð á Vestfjörðum nema fjórir sem fluttust suður í Dali eða Borgarfjörð.[41]

Allt bendir þetta til þess að löngum hafi verið mjög lítið um að prestar flyttust milli fjarlægra landshorna.

Allur Mýrahreppur var eitt prestakall sem skiptist í þrjár kirkjusóknir, Mýrasókn, sem náði frá hreppamörkum í fjarðarbotninum og að Núpsá, Núpssókn sem náði frá Núpsá og út alla fjarðarströndina að Nesdal og svo Sæbólssókn á Ingjaldssandi sem náði yfir alla bæi þar á Sandinum og einnig Nesdal þegar þar var búið.[42] Kirkjur voru á Mýrum, Núpi og Sæbóli en prestakallið, sem nefndist Dýrafjarðarþing, var þingabrauð því þar var ekkert fast prestssetur. Prestarnir sátu á ýmsum jörðum í hreppnum og komu þar ekki færri en tólf jarðir við sögu á árunum 1550-1900.[43]  Á 18. öld sátu flestir prestanna á Mýrum en á 19. öld sátu margir þeirra á Gerðhömrum.[44] Mýrasókn var alltaf fjölmennust og stundum var meira en helmingur allra hreppsbúa búsettur innan sóknarmarka hennar.[45]

Á Töflu 1 verður nú sýnt hvernig íbúar hreppsins skiptust niður á sóknirnar þrjár árin 1703, 1762, 1801, 1845 og 1901 og þar kemur einnig fram hver var fjöldi jarða, býla og heimila í hverri sókn. Upplýsingar þær sem töflunni er ætlað að miðla eru allar sóttar í manntöl.[46]

Tafla 1

 

Skipting jarða, heimila og íbúa í Mýrahreppi milli sókna árin

1703, 1762, 1801, 1845 og 1901

 

Mýrasókn                       Núpssókn                     Sæbólssókn

 

Fjöldi     Fjöldi     Fjöldi     Fjöldi     Fjöldi     Fjöldi     Fjöldi     Fjöldi     Fjöldi     Fjöldi     Fjöldi     Fjöldi

jarða     bænda-   heimila      íbúa       jarða     bænda-   heimila      íbúa       jarða     bænda-   heimila      íbúa

býla                                                býla                                                býla

 

1703   15      34      34     198      7       20      23     159      6       19      20     101

1762   15      31      31     210      7       15      15     108      6       18      18     131

1801   15      33      36     248      7       18      19     141      6       19      20     143

1845   15      25      27     253      7       14      16     132      6       12      13     117

1901   15      26      40     280      7       14      23     127      6       8       13     112

Töluraðirnar á töflunni þarfnast nokkurra skýringa. Í fyrsta lagi skal tekið fram að með því að draga fjölda bændabýla frá fjölda heimila er yfirleitt unnt að sjá hversu mörg þurrabúðarheimili voru í viðkomandi sókn á hverjum tíma. Við talningu á heimilum er einsetufólki þó jafnan sleppt. Árið 1901 eru þurrabúðarheimilin í hreppnum orðin langtum fleiri en áður var og verður síðar rætt nánar um þá breytingu (sjá hér bls. 26-27). Fjöldi jarða er hér alltaf talinn vera hinn sami en þess skal getið að í manntalinu frá 1703 eru Mýrahús, sem voru afbýli frá Mýrum, talin sjálfstæð jörð en þannig talið yrðu jarðirnar í Mýrasókn sextán í stað fimmtán. Íbúafjöldinn sem taflan sýnir að verið hafi í hverri sókn árið 1703 er ekki alveg hárnákvæmur. Í manntalinu frá því ári eru 10 af 458 íbúum hreppsins flokkaðir sem sveitarómagar er ekki hafi fast heimilisfang. Við gerð töflunnar var þessum tíu ómögum skipt niður á sóknirnar í sömu hlutföllum og svaraði til íbúaskiptingarinnar þeirra á milli að öðru leyti. Af þessum ástæðum eru íbúatölurnar fyrir hverja sókn ekki alveg nákvæmar hvað varðar árið 1703 en skekkjan er þó svo óveruleg að gera má ráð fyrir álíka villum í sjálfum manntölunum, að minnsta kosti hinum eldri.

 

 

Tafla 2

 

Jarðir í ábúð í Mýrahreppi árið 1710

 

Mýrasókn        Núpssókn      Sæbólssókn        Allur Mýrahreppur

 

Fjöldi                        Fjöldi                        Fjöldi                              Fjöldi

jarðarh.      %            jarðarh.      %            jarðarh.        %                 jarðarh.        %

 

Í sjálfsábúð                     42½   10,9         0         0         30     16,1         72½       9,3

 

Í eigu einstakl. sem

ekki bjuggu á jörðunum          305½   77,9      172     86,9         78     41,9       555½     71,6

 

Kirkjujarðir                    44      11,2       20     10,1         12      6,5         76         9,8

 

Konungsjarðir                   0          0         6      3,0         66     35,5         72         9,3

 

392     100,0      198     100       186      100       776      100,0

 

Helstu höfðingjasetur í Mýrahreppi voru Núpur og Mýrar. Hannes Eggertsson, sem á fyrri hluta 16. aldar var um skeið hirðstjóri yfir öllu Íslandi, sat á Núpi og líka Eggert sonur hans, lögmaður og hirðstjóri um skeið, er síðar fluttist að Saurbæ á Rauðasandi. Á 16., 17. og 18. öld sátu allmargir sýslumenn á Núpi eins og síðar verður rakið (sjá hér Núpur) en meðal helstu höfðingja á Mýrum á liðnum öldum má nefna Þórð kakala Sighvatsson á 13. öld og Snæbjörn Pálsson á árunum kringum 1700 en hann var af flestum nefndur Mála-Snæbjörn og fluttist síðar að Sæbóli á Ingjaldssandi. Á Töflu 1 hér að framan má sjá að árið 1703 bjuggu 73 bændur í Mýrahreppi.  Sjö árum síðar voru þeir 55[47] og hafa margir fallið í stórubólu sem herjaði á landslýðinn á árunum 1707-1709. Af þessum 55 bændum sem bjuggu í Mýrahreppi árið 1710 voru 4 sjálfseignarbændur, einn þeirra þó aðeins að hluta til, en allir hinir voru leiguliðar.[48]

Á Töflu 2 hér að ofan er sýnt hvernig eignarhaldi og ábúð á jörðum var háttað í Mýrahreppi árið 1710. Byggt er á upplýsingum er fram koma í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín.[49]

Taflan sýnir að árið 1710 voru yfir 70% jarðeigna í Mýrahreppi í eigu ýmissa einstaklinga sem ekki bjuggu á jörðunum, tæplega 10% eignanna voru í sjálfsábúð en kóngur og kirkja áttu um 19% allra jarðeigna í hreppnum. Fimm stærstu jarðeigendurnir í hópi þeirra sem hér eru flokkaðir sem ýmsir voru þessir:

Eggert Sæmundsson á Sæbóli á Ingjaldssandi átti 71 hundrað og að auki þau 30 hundruð sem hann bjó sjálfur á.[50] Þrúður Þorsteinsdóttir, biskupsekkja á Hólum í Hjaltadal, átti 60 hundruð, séra Jón Torfason, prestur á Breiðabólsstað í Fljótshlíð, átti 52 hundruð, séra Sigurður Jónsson í Holti í Önundarfirði 42 hundruð og Páll Torfason, sýslumaður á Núpi í Dýrafirði átti 41½ hundruð.[51] Allt var þetta fólk eða makar þess niðjar Björns Guðnasonar í Ögri[52] sem var héraðshöfðingi á Vestfjörðum 200 árum áður en Jarðabókin var samin. Þrír úr hópi nefndra jarðeigenda voru niðjar tengdasonar Björns í Ögri, Hannesar Eggertssonar, hirðstjóra á Núpi, og úr þeim niðjahópi var líka Björn Þorleifsson Hólabiskup,[53] maður Þrúðar Þorsteinsdóttur. Allra skyldastir af jarðeigendunum fimm voru Björn biskup, séra Sigurður í Holti og Eggert, óðalsbóndi á Sæbóli, sem allir voru niðjar Magnúsar prúða Jónssonar í 3. og 4. lið og konu hans Ragnheiðar Eggertsdóttur, en hún var sonardóttir Hannesar Eggertssonar, hirðstjóra.[54] Allt bendir þetta mjög eindregið til þess að stór hluti jarðeigna í Mýrahreppi hafi haldist mjög lengi í eigu niðja Hannesar Eggertssonar, hirðstjórans á Núpi, og náinna ættingja þeirra.

Eins og áður var getið töldust jarðarhundruð í Mýrahreppi vera samtals 776. Sé jarðeignum þessum skipt eftir búsetu eigendanna árið 1710 verður niðurstaðan þessi:

%

  1. Í eign heimamanna í hreppnum voru …………………. 224½ hundr.        28,9
  2. Í eigu annarra Dýrfirðinga voru……………………….. 47      –              6,0
  3. Í eigu annarra manna búsettra í Ísafjarðarsýslum …… 73      –              9,4
  4. Í eigu fólks í Barðastrandarsýslu voru ……………….. 111½    –            14,4
  5. Í eigu íslenskra manna búsettra utan Vestfjarða voru . 172       –            22,2
  6. Í eigu konungs og kirkna voru ………………………… 148      –            19,1

 

Samtals…………………………………………………… 776   hundr.     100,0

 

Tæplega 59% jarðeigna í Mýrahreppi reynast því hafa verið í eigu Dýrfirðinga og annarra Vestfirðinga árið 1710 en liðlega 41% í eigu opinberra aðila og manna sem búsettir voru utan Vestfjarðakjálkans. Hér hefur áður komið fram að árið 1710 voru aðeins 9,3% jarðeigna í Mýrahreppi í sjálfsábúð (sjá Töflu 2). Um miðbik 19. aldar var mikil breyting á orðin í þessum efnum.  Jarðatal Johnsens frá árinu 1847 telur 47 bændur í hreppnum og er þá sóknarpresturinn sem bjó búi sínu á Gerðhömrum talinn með. Af þeim voru fimmtán sjálfseignarbændur en auk þess áttu þrír bændur í Alviðru meira eða minna í þeirri jörð.[55] Fullur þriðjungur bænda í Mýrahreppi var því kominn í tölu sjálfseignarbænda um miðja 19. öld og þessir bændur höfðu þá um og yfir 40% jarðeigna í hreppnum til ábúðar.[56] Tveir af hverjum þremur bændum í hreppnum voru þó enn leiguliðar og urðu sem fyrr að gjalda landsdrottnum sínum verulega fjármuni á hverju ári í landskuld og leigur af innstæðukúgildum er jörðunum fylgdu. Algengt var að tvö, þrjú eða fjögur innstæðukúgildi (12-24 ær) fylgdu hverjum 12 hundruðum í jörð og engin umtalsverð breyting sýnist hafa átt sér stað hvað þetta varðar frá fyrstu árum 18. aldar og fram til miðrar 19. aldar.[57] Leigurnar eftir kúgildin voru yfirleitt goldnar í smjöri.[58]  Algeng landskuld sem leiguliðar urðu að greiða var hálft kýrverð á ári, þrjár vættir, fyrir 12 hundraða jörð en landskuldin var þó talsvert breytileg frá einni jörð til annarrar.[59] Árið 1710 var flestum leiguliðum í Mýrahreppi gert að greiða landskuldina með fiski í kaupstað ellegar með fiski og lýsi eður annarri duktugri kaupmannsvöru, eins og það er orðað í Jarðabókinni frá því ári.[60]

Á fyrri hluta 19. aldar munu flestir leiguliðar í Vestur-Ísafjarðarsýslu hafa greitt landskuldina með prjónlesi, þriggja vætta landskuld með 30 pörum af eingirnissokkum.[61] Um miðja öldina voru ýmsir landeigendur þó orðnir óánægðir með þennan greiðslumáta og teknir að áskilja sér aðra gildari aura eða þá peninga í landskuldina.[62] Árið 1845 greindi þáverandi sýslumaður svo frá að í Ísafjarðarsýslu væri landskuldin að jafnaði því sem næst ein vætt (einn sjötti úr kýrverði) fyrir hver sex hundruð í jörð og að hans sögn fylgdi þá oftast eitt innstæðukúgildi (sex ær) hverjum sex jarðarhundruðum.[63] Í jarðatali Johnsens frá árinu 1847 segir að í Ísafjarðarsýslu séu samningar um byggingu jarða oftast munnlegir og sjaldan tekið fram hversu lengi samningurinn eigi að gilda.[64] Flestir leiguliðar munu þó hafa talið að þeir gætu búið áfram á sömu jörð svo lengi sem þeim auðnaðist að standa í skilum við landsdrottin sinn og uppfylla þá skilmála er þeir höfðu gengist undir við byggingu jarðarinnar.[65]

Í skýrslu þeirri um ástand mála í Mýrahreppi sem séra Jón Sigurðsson á Gerðhömrum sendi frá sér í ársbyrjun 1840 fer hann nokkrum orðum um búnaðarhætti hér í sveit og segir þá meðal annars:

 

Bjargræðisvegir eru helst kvikfjárrækt (nefnilega sauðfénaðar og kúa, þó minna) og fiskiveiði. Er það síðarnefnda miður stundað, nema á vorum, að undanteknu á Ingjaldssandi, hvar fiskirí er vel stundað, bæði vegna hægðar og meiri nálægðar. Hvergi eru hér færikvíar eða innilegu hús á sumrum fyrir kýrpening né borgir eða byrgi fyrir fjárpening á vetrum, að undanteknu stundum á Skaga.

Enginn er hér sauðfénaður af útlendu kyni né kýr. Þykir það ekki hafast eins vel við sem innlent fjárkyn. Kálgarðar eru hér engir nema einn lítill í Lambadal ytri, annar lítill í Alviðru og þriðji á Gerðhömrum. Jarðarrækt er hér ekki önnur en góð hirðing og ávinnsla á túnum. Engir hlaðnir túngarðar og engin þúfnasléttun, vatnsafleiðingar líka fáar. Það er og víða ómögulegt. Skriðugarður er einn á Núpi, gamall og stuttur. Sláttur er venjulega byrjaður í þrettándu viku sumars og endar í miðjum septembris. Innivinna er stunduð bæði af karlmönnum og konum með miklu kappi á vetrum en útivinna er þá ekki önnur en venjuleg peningshirðing. Haustull er af flestum unnin í duggarales, bæði til landskuldargjalds sem og tíundargjalds til allra stétta og annarra útgifta en vorull er unnin til fatnaðar til dags og nætur, bæði til vefnaðar og prjónavinnu. Danskir vefstólar eru í sóknum þessum alls 18 að tölu. Eru í þeim ofin vaðmál, einskeftur og brekön og á einum stað, nefnilega hjá presti, söðuláklæði og ábreiður.[66]

 

Um ísalög og nýtingu hlunninda af ýmsu tagi segir séra Jón á öðrum stað í sömu ritgerð:

 

Ísar liggja iðulega, nær því árlega, innst í firðinum og allt út að Höfðaeyri [nú oftast nefnd Höfðaoddi – innsk. K.Ó.]. Er hann þá gengur þar og stundum utar. Hafísar koma oft eftir langvinnar norðanáttir seint á vetrum en sjaldnar kemst hann lengra inn eftir Dýrafirði en að Mýrafelli. Þó hefur það við borið að hann fari lengra inn á fjörðinn. Á Ingjaldssandi leggst hann svo þétt að landi að ekki má á sjó komast. … Fyrir miðjan vetur verður hann mjög sjaldan landfastur hér vestra, enda er það gamalla trú að sá ís sem kemur fyrir miðjan vetur hverfi frá landi aftur.

… Selveiði er hér hvergi nema með byssu og eru þó fáir sem stunda hana. Þeir fáu sem refaveiði iðka brúka skothús eða þeir eru unnir á grenjum vordag. …Engin hlunnindi hefur Dýrafjörður nema ef telja skal, auk þess er ég áður hef greint við sérhverja jörð, grasatekju sem á flestum bæjum er notuð, helst á vorum, ýmist meira en oftast mjög lítið og sumsstaðar alls ekkert. Ber, nefnilega krækiber, vaxa hvarvetna. Eru unglingar notaðir á áliðnu sumri til að taka þau. Hvannir eru mjög litlar nema á Sæbóli einstöku sinnum í mjög hættulegum stað í fjalli og í fjallinu yfir Fremstu-Húsum fást nokkrar hvannir. Litunargrös eru hér engin, líklega vegna kunnáttuleysis, nema sortulyng sem brúkað er til sortulitar og til að dekkja bláan lit. …Viðarreki er lítill eða enginn, einstöku sinnum á Skagahlíðum og Sæbóli skolar upp smáum viðarkeflum og sjaldan stærri rekatrjám. Þess vegna hljóta innbyggjar hér að kaupa danskan við dýru verði til húsa. Enginn raftskógur vex hér heldur nema einungis til kolagjörðar og húsatróðs.[67]

 

Á Töflu 3 verða nú birtar opinberar upplýsingar um fjölda búfjár á hverri einstakri jörð í Mýrahreppi árin 1710 og 1850. Tölur frá árinu 1710 eru sóttar í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín[68] en tölur frá árinu 1850 í skýrslu hreppstjóra og prests um búnaðarástand á því ári.[69] Varla er skynsamlegt að taka hinar opinberu tölur alveg bókstaflega því einhverju kynnu menn að hafa skotið undan. Engu að síður gefa tölurnar marktæka vísbendingu um búfjárfjöldann.

Tölurnar á Töflu 3 benda til þess að um miðja 19. öld hafi búfé verið nokkru færra en verið hafði í byrjun 18. aldar.  Nautgripum virðist hafa fækkað um fjórðung og sauðfé um nær 20%.  Hrossum hafði aftur á móti fjölgað.  Búnaðarskýrslur úr Mýrahreppi frá fyrri hluta 19. aldar benda til þess að bæði sauðfé og nautgripir hafi þá verið talsvert miklu færri en þegar upplýsingum var safnað í Jarðabókina árið 1710.  Um miðja 19. öldina fjölgaði búpeningi hins vegar allnokkuð og undir lok aldarinnar fjölgaði sauðfénu enn dálítið svo heildarfjöldi þess var árið 1894 orðinn álíka og verið hafði 1710.  Allt sést þetta vel á Töflu 4 sem hér fylgir en efni hennar er sótt í búnaðarskýrslur.[70]

 

 

 

 

Tafla 3

 

 

Fjöldi búfjár í Mýrahreppi árin 1710 og 1850

 

Jarðir          Jarðarh.     Fj. ábúenda       Nautgripir               Ær              Sauð. hr. g.          Lömb            Hr. & fol.

1710     1850       1710    1850       1710     1850       1710    1850       1710     1850       1710    1850

 

Botn                  12              2          1            6          2          24        15          29        16            7        12            3          1

I-Lambad.          30              3          2            3          7          31        37          33        24          31        35            3          7

Y-Lambad.        60              1          4            7        11          47        58          62        26          45        58            3          9

Næfranes           18              1          3            6          6          36        21          37        17          36        20            2          2

Höfði                30              2          2            6          6          36        39          44        27          42        36            4          3

F-Hjarðard.        12              2          1            6          7          25        44          32        38          25        33            2          6

N-Hjarðard.       60              4          3          11          6          42        44          39        26          36        29            5          8

Gemlufall          24              2          1            6          6          27        24          31        24          23        24            2          2

Lækjarós           15              1          1            5          2          48        15          70        19          40        15            2          1

Mýrar  með

Mýrarhúsum      65              3          1          14          7          64        44          77        90          64        44            7          3

Meiri-Garður     12              1          1            3          8            6        40            9        45            7        34            1          5

Minni-Garður       6              1          0            4          0          15          0          19          0          15          0            1          0

Fell                   12              2          1            3          1          10        18          10          0          11        18            1          1

Lækur               12              1          1            3          3          18        23          22        24          18        20            1          4

Klukkuland        24              3          2            6          4          44        18          46          4          39        14            3          2

Kotnúpur*         10              0          1            0                       0                       0

Núpur               50              3          3          23        15          75        72         147        69            9        10          70        68

Alviðra              78              4          4          15        12          73        67          52      120          71        57            6        10

Gerðhamrar       24              2          2          10          6          45        26          55        36          43        26            4          6

Arnarnes           18              1          2            4          4          30        23          33        21          30        23            1          3

Birnustaðir           6              1          1            4          2          18        13          30        12          17        11            1          1

Fjallaskagi         12              1          2            6          6          30        32          27        36          27        32            1          3

Sæból                60              4          2          16        11          65        69         102        88          63        50            7        13

Álfadalur           36              3          2          10          6          48        38          42        20          40        38            5          3

Hraun                12              1          1            4          4          23        28          25        34          22        26            2          3

Háls                  12              1          2            5          3          18        27          25        10          19        27            2          4

Brekka              48              3          2          14          6          53        44          73        18          43        42            6          3

Villingadalur      18              2          1            6          3          34        18          44        18          31        18            2          2

Samtals            776             55        48         206      154        985      899       1215      862        915      810          86      115

* Búfénaður talinn með Núpi.

 

 

Tafla 4

 

 

Breytingar á fjölda búfjár í Mýrahreppi frá 1710-1915

 

Ár               Fjöldi býla          Nautgripir               Ær                  Sauð. hr. g.         Lömb             Hross

1710                    55                     206                   985                     1215                 915                   86

1821                      ?                     101                   703                       425                 305                   49

1838                    51                     134                   739                       602                 420                   80

1850                    55                     154                   899                       862                 810                 115

1866                    50                     145                   801                       793                     ?                 113

1876                      ?                     120                                 1784                                  ?                 104

1894                    48                     125                 1339                       921                     ?                 103

1915                    47                     137                                 1952                                  ?                   78

 

 

Árið 1710 var meðalbóndinn með um það bil 40 sauðkindur, auk lamba, og því sem næst 4 nautgripi. Árið 1821 voru sauðkindurnar orðnar nær helmingi færri ef mark er takandi á búnaðarskýrslunni frá því ári og nautgripum hafði þá fækkað um fullan helming. Árið 1850 var miðlungs bóndi í Mýrahreppi með 3 nautgripi í fjósi og um það bil 32 sauðkindur á fóðrum og eru lömbin þá ekki talin með. Árið 1904 hafði nautgripum fækkað svolítið frá því sem verið hafði 1850 og voru nú að meðaltali 2,6 á býli en sauðfé hafði fjölgað verulega svo miðlungsbóndi var kominn með því sem næst 66 sauðkindur, auk lambanna. Tölurnar á Töflu 4 sýna í höfuðdráttum hver bústofninn var á 18. og 19. öld en ætla má að árið 1821 hafi bændur enn ekki verið búnir að ná sér upp eftir margvísleg harðindi og þrengingar á síðari hluta átjándu aldar og fyrstu áratugum hinnar nítjándu.

Um stærð túna og heyfeng bænda á 18. og 19. öld eru fáar upplýsingar í boði en árið 1915 taldist ræktað land í Mýrahreppi vera 131 hektari.[71] Býlin voru þá 47 svo túnstærð á meðalbýli hefur verið um 2,8 hektarar. Allur heyfengur í hreppnum var þetta ár 3.688 hestar af töðu og 4.759 hestar af útheyi, ef marka má opinberar skýrslur,[72] eða liðlega 78 hestar af töðu og 101 hestur af útheyi á hvert býli.

Búnaðarfélag Mýrahrepps var stofnað árið 1888.[73] Frá starfsemi þess er sagt í ritinu Firðir og fólk 1900-1999 (sjá þar bls. 241-247) en þess er vert að geta að nokkru áður en félagið var stofnað komust Dýrfirðingar fyrst í kynni við lærðan búfræðing sem var Sæmundur Eyjólfsson er ferðaðist um stóran hluta Ísafjarðarsýslu sumarið 1883 að tilhlutan sýslunefndar[74] (sbr. hér Mosvallahreppur, inngangskafli). Í þessari ferð leitaðist Sæmundur við að vekja athygli bænda á ýmsum möguleikum til umbóta í búnaði og vann einnig sjálfur að jarðyrkju.[75] Í Mýrahreppi var Sæmundur við jarðyrkjustörf í 13 daga að því sinni, þrjá í Fremri-Hjarðardal, fimm á Mýrum, tvo á Gerðhömrum og þrjá á Sæbóli.[76] Ekki liggur ljóst fyrir hvaða jarðræktarstörf það voru sem hann innti af hendi á þessum bæjum en túnasléttun og vatnsveitingar koma þar helst til greina.

Undir lok 19. aldar tókst Dýrfirðingum að reka af höndum sér hungurvofuna sem á árum áður gerðist stundum nærgöngul við fátæka menn á landi hér. Svo virðist reyndar sem hin miklu harðindi á árunum 1881 og 1882 hafi gengið mjög nærri fjölda fólks, m.a. hér í Dýrafirði, og litlu mátt muna að einhverjir féll úr hungri. Til marks um ástandið má vísa í bréf sem tíu hreppsnefndarmenn í Þingeyrarhreppi og Mýrahreppi rituðu landshöfðingja þann 19. júní árið 1882 en þar segir:

 

Veturinn 1880-1881 var eins og kunnugt er harður svo allur heyforði búenda í þessum hreppum nægði naumast til að halda lífinu í skepnum þangað til þær gátu bjargast úti. Efnaðri bændur hjálpuðu hinum bágstöddu og gat því enginn fyrnt. Á síðasta sumri var hér almennur grasbrestur, bæði á túnum og engjum og voru menn því mjög illa undir þennan síðasta vetur búnir. Með kornkaupum handa skepnum héldu þeir samt flestallir lifandi þangað til á sumarmálum, vonandi að þá myndi batna tíðin en hvernig þessi von brást er oss óþarft frá að segja.

Síðan hefur sauðpeningur víðast fallið úr hor, kulda og þarafleiðandi veikindum, lömb hafa flestöll eða meira en helmingur drepist, kýr og hross aðeins með lífi og má telja það sem eftir lifir af skepnum hérumbil arðlaust mestanpart sumarsins. Ofan á þetta bættist óvenjulegt gæfta- og fiskleysi svo að fiskaflinn hefur hingað til næstum algjörlega brugðist, samt útlit fyrir ennþá verri grasbrest en í fyrrasumar. Loksins hefur fólk hér meira og minna veikst af þungri kvefsótt og er nú á síðustu dögum, í báðum hreppum, farið að leggjast í mislingum svo það lítur út fyrir að ómögulegt verði fyrir almenning að ná í þann litla afla sem ennþá kynni að bjóðast.

Það má því, framanskrifaðra ástæðna vegna, telja það víst að flestir íbúar þessara hreppa geti ekki á þessu ári borgað kaupstaðarskuldir sínar. Þar af flýtur að þeir geta ekki vænst eftir að fá lán upp á næsta vetur og sjá hreppsnefndirnar því ekki betur en að veruleg hungursneyð standi fyrir dyrum.

Í þessum vandræðum leyfa hreppsnefndir nefndra hreppa sér að snúa sér til yðar herra landshöfðingi með þeirri bón að vilja veita Þingeyrar- og Mýrahreppum sameiginlegt rentufrítt lán úr landsjóði til kornkaupa, alls 220 tunnur, helmingur rúg og helmingur bankabyggsgrjón, móti árlegri afborgun, þannig að hrepparnir borgi ekkert næstu tvö árin en síðan tíu af hundraði árlega þangað til skuldinni væri lokið. Ennfremur viljum vér leyfa oss að biðja yður um að vilja annast um innkaup á þessari matvöru og að útvega, ef mögulegt er, flutning þess með gufuskipinu hingað á Dýrafjörð, kauplaust nú í haust.[77]

 

Þeir sem sendu frá sér þetta neyðarkall voru oddvitarnir tveir F.R. Wendel, verslunarstjóri á Þingeyri, og Guðmundur Sigurðsson, bóndi og skipstjóri á Mýrum, og auk þeirra fjórir menn úr hvorum hreppi.[78] Úr Þingeyrarhreppi Guðmundur Eggertsson, Kristján Einarsson, Jens Guðmundsson og Aðalsteinn Pálsson en úr Mýrahreppi Sigmundur Sveinsson, Búi Jónsson, Bjarni Kristjánsson og Bergþór Jónsson.[79]

Gera má ráð fyrir að lýsing hreppsnefndarmannanna á ástandi og horfum í Dýrafirði um miðjan júní árið 1882 sé í öllum aðalatriðum rétt. Á næstu mánuðum svarf þó enn harðar að því sumarið 1882 var tíðarfarið verra en menn höfðu kynnst um langan tíma.[80] Hafís lá þá fyrir öllu Norðurlandi fram á haust og um norðanvert landið varð jörð tíu sinnum alhvít af snjó frá Jónsmessu til rétta.[81] Um haustið fór veðráttan loks að skána.[82]

Bréfið sem Dýrfirðingar sendu landshöfðingja í júnímánuði árið 1882 með beiðni um hallærislán úr landssjóði mun ekki hafa borið mikinn árangur. Á árunum 1882-1885 var þó lánað allmikið fé úr landssjóði til þeirra héraða sem verst urðu úti í hinum miklu harðindum[83] en slíkar lánveitingar voru háðar því skilyrði að það væri viðkomandi sýslunefnd sem tæki lánið og hefði til þess samþykki amtsráðs.[84]

Á þessum árum var safnað miklu af matvælum og verulegum fjármunum í Noregi, Englandi og Danmörku vegna yfirvofandi hungursneyðar á Íslandi.[85] Alls mun hafa safnast andvirði um það bil 460.000,- króna[86] eða sem svaraði milli 4000 og 5000 kúgildum.[87] Svo virðist sem Vestfirðingar hafi þó fengið lítið af þessum fjármunum því að í bréfi sýslunefndarinnar í Ísafjarðarsýslu, er hún ritaði landshöfðingja 5. ágúst 1884 með beiðni um 5.000,- króna styrk af gjafafénu, taka nefndarmenn fram að þeir séu nú að biðja um slíkan styrk í fyrsta sinn.[88] Í bréfi íbúa Sléttuhrepps til landshöfðingja, rituðu 5. desember 1885, er svo staðhæft að Ísafjarðarsýsla eða íbúar hennar hafi ekki fengið nema 1.000,- krónur í sinn hlut af öllu gjafafénu.[89]

Árin milli 1880 og 1890 urðu flestum bændum á Íslandi erfið og hjá mörgum tók langan tíma að rétta efnahaginn við eftir hin miklu harðindi á þeim áratug. Þegar loks fór að rofa til að marki á árunum kringum 1890 voru fjórir af fimm hreppsnefndarmönnum í Mýrahreppi sem skrifað höfðu undir hungurbréfið til landshöfðingja árið 1882 horfnir á braut. Guðmundur Sigurðsson, oddviti á Mýrum, dó í marsmánuði árið 1883 úr lungnabólgu (sjá hér Mýrar) en hinir þrír, þeir Búi Jónsson á Fjallaskaga, Bergþór Jónsson í Ytri-Lambadal og Bjarni Kristjánsson á Gerðhömrum fluttust allir til Ameríku árið 1887 (sjá Ytri-Lambadalur og Fjallaskagi).[90] Eftir stóð aðeins einn, Sigmundur Sveinsson í Hrauni á Ingjaldssandi (sjá hér Hraun).

Eins og annars staðar á Vestfjörðum voru sjóróðrar veigamikill þáttur í búskap flestra bænda í Mýrahreppi á fyrri tíð og heimildir frá 18. og 19. öld benda til þess að þar hafi oft verið dálítið um fólk sem hafði sjómennskuna að aðalstarfi. Á manntalinu frá 1703 er getið um sex húsmenn sem sagðir eru nærast af sjóbjörg og auk þess er tekið fram um fimm aðra húsmenn að þeir lifi af sjóróðrum og einhverju öðru bjargræði.[91] Einn þeirra síðarnefndu er sagður nærast af sjóróðrum og alþingisreiðum, annar af saumum og sjóróðrum, þriðji á flakki og við sjóbúð, fjórði af sjóbjörg og handbjörg annarra og sá fimmti, sem kominn var á áttræðisaldur, er sagður nærast af guðsþakkagjörðum og sjóarafla.[92] Flestir þessara ellefu húsmanna voru einhleypir og enginn þeirra átti heima mjög innarlega í Dýrafirði, sá innsti á Mýrum.[93]

Árið 1801 voru aðeins fimm húsmenn búsettir í Mýrahreppi ef marka má manntalið frá því ári[94] en ætla má að þeir hafi flestir eða allir haft sjómennsku að aðalstarfi. Á manntali frá árinu 1845 eru nær allir bændur í hreppnum sagðir lifa af landi og sjó eða af grasnyt og fiskiveiðum[95] sem ætla má að sé eitt og hið sama. Einn bændanna er þó sagður lifa eingöngu af fiskiveiðum en eini húsmaðurinn sem þá átti heima í hreppnum er sagður lifa af sínu.[96]

Eina verstöðin við norðanverðan Dýrafjörð var á Fjallaskaga og þaðan var jafnan róið á vorvertíð. Bændur í Mýrahreppi fóru þá flestir með báta sína út á Skaga nema Sandmenn en þeir reru frá Sæbóli.[97] Í Jarðabók Árna og Páls frá árinu 1710 segir að áður hafi allt upp í 27 bátar verið gerðir út frá Fjallaskaga og aldrei færri en 8 til 10 á hverri vorvertíð.[98] Yfir tuttugu verbúðir stóðu uppi á Skaga árið 1710 og þá um vorið gengu þaðan átján bátar en sérhver skipshöfn var með búð út af fyrir sig.[99] Flestir bátanna sem reru frá Skaga í byrjun 18. aldar voru sexæringar eða þaðan af smærri bátar.[100] Í Jarðabókinni frá 1710 segir að verstaðan á Skaga sé brúkuð af flestum úr Dýrafirði sem skip geri út um vertíð. Slíkri staðhæfingu verður reyndar að taka með talsverðum fyrirvara því við vestanverðan (sunnanverðan) fjörðinn og í kringum Sléttanes voru aðrar verstöðvar eins og hér hefur áður verið rakið (sjá hér Þingeyrarhreppur, inngangskafli, Svalvogar, Höfn og Hraun í Keldudal). Fullvíst má hins vegar telja að nær allir sæmilega sjófærir bátar frá bæjunum norðan fjarðarins hafi róið frá Skaga vorið 1710 eins og siðvenja var og líklega einhverjir bátar úr Þingeyrarhreppi þar til viðbótar. Árið 1840 reru tólf bátar frá Skaga á vorvertíð og sýnast allir hafa verið frá bæjunum á norðurströnd Dýrafjarðar.[101] Nokkrum árum síðar fóru bátar úr Þingeyrarhreppi hins vegar að stunda þaðan róðra á ný og um 1880 munu nær allir stærri bátar úr Dýrafirði hafa róið frá Skaga á vorin (sjá hér Þingeyrarhreppur, inngangskafli).

Á árunum 1820 til 1880 voru oftast um 30 bátar í Mýrahreppi, ef marka má opinberar skýrslur, en fóru þó upp í 50 um skeið á árunum kringum 1860.[102] Um helmingur þessa bátaflota voru tveggja og þriggja manna för en ætla má að fáir bátar af þeirri stærð hafi róið frá Skaga (sjá hér Þingeyrarhreppur, ingangskafli). Flestir hinna bátanna voru sexæringar eða fjögra og fimm manna för en oftast voru tveir til fjórir áttæringar líka í þessum flota og eru reyndar sagðir hafa verið tíu árið 1821.[103] Gera má ráð fyrir að fimmti hver bátur í hreppnum hafi verið í eigu bænda á Ingjaldssandi og sýnist þá líklegt að bátar úr Mýrahreppi sem reru frá Skaga hafi sjaldan verið færri en tólf á þessu skeiði en máske farið upp í tuttugu þegar þeir voru flestir. Þær tölur koma reyndar prýðilega vel heim við það sem sagt er um bátafjölda á Skaga í Jarðabókinni frá 1710 og sóknalýsingunni frá 1840 og fyrr var getið um. Bjarni Sæmundsson fiskifræðingur segir í ritgerð frá árinu 1903 að kringum 1880 hafi um tuttugu bátar róið frá Skaga á vorvertíð.[104] Ætla má að um helmingur bátanna sem þá reru frá Skaga hafi verið úr Þingeyrarhreppi því Bjarni segir að um þetta leyti hafi allir stærri bátar úr Dýrafirði róið frá Skaga á vorin.[105] Í skýrslum sýslumanns til landshöfðingja frá árunum 1880-1885 sést reyndar að þá hafa aðeins átta til ellefu stærri bátar verið til í Mýrahreppi og er þá sleppt smákænum sem ekki náðu því að geta talist fjögra manna far.[106]

Á tveimur síðustu áratugum 19. aldar varð mikil breyting á sjósókn Dýrfirðinga. Þilskipaútgerð fór þá mjög vaxandi en sjóróðrum á áraskipum tók að fækka. Árið 1890 hófst rekstur hvalveiðistöðvar á Höfðaodda við norðanverðan Dýrafjörð (sjá hér bls. 26-27 og Höfði) og þar fengu ýmsir sem búsettir voru í nágrenninu vinnu á vorin og allt sumarið ef þeir kærðu sig um. Vafalaust hefur sá rekstur átt nokkurn þátt í að draga úr sjósókn frá verstöðinni á Fjallaskaga. Samkvæmt opinberum skýrslum var bátafjöldinn í Mýrahreppi kominn niður í níu árið 1897 og skiptist nokkurn veginn jafnt í tveggja og fjögurra manna för.[107] Sjálfsagt er að taka þessum tölum með nokkrum fyrirvara en þær koma þó í rauninni alveg heim við ummæli Bjarna Sæmundssonar fiskifræðings sem ferðaðist um Vestfirði árið 1901. Hann segir að þá sé lítið róið úr Dýrafirði á vorin en úr öllum firðinum séu gerðar út tuttugu fleytur til haustróðra, allt tveggja og fjögra manna för.[108]

Árið 1915 var sjö árabátum úr Mýrahreppi haldið til veiða ef marka má opinberar skýrslur og afli þeirra allra til samans var á því ári 28.563 kíló af þorski og 1550 stykki af steinbít og öðrum tegundum.[109] Líklega hafa allir þessir bátar róið frá Skaga. Svo virðist sem mun fleiri bátar en þessir sjö hafi stundum róið frá Skaga á tveimur fyrstu áratugum tuttugustu aldar því í marktækum heimildum eru nefndar tölurnar fimmtán og sextán.[110] Einhverjir þeirra kynnu að hafa verið úr Þingeyrarhreppi. Síðast var róið frá Skaga á árunum 1930 til 1940 og þá á vélbátum (sjá hér Fjallaskagi).

Á fyrri tíð var dálítið um sjóróðra úr heimavör frá ýmsum bæjum á utanverðri norðurströnd Dýrafjarðar. Í Jarðabókinni frá 1710 er tekið fram að árið um kring sé róið úr heimavör frá Birnustöðum og Gerðhömrum en frá Arnarnesi og Alviðru var róið á sumrin og þaðan var líka farið í haustróðra.[111] Í Jarðabókinni er þess einnig getið að áður hafi verið róið til fiskjar að sumarlagi frá Núpi, Læk, Mýrum, Lækjarósi og Gemlufalli en slíkar sjóferðir hafi lagst af er fiskur hætti að ganga langt inn í fjörðinn.[112] Í byrjun 18. aldar voru hrognkelsaveiðar stundaðar frá mörgum bæjum í Mýrahreppi.[113]

Eggert Ólafsson getur um hákarlalegur frá Fjallaskaga á 18. öld.[114] Í sóknalýsingu séra Jóns Sigurðssonar á Gerðhömrum frá árinu 1840 minnist hann líka á hákarlaveiðar á bátum úr Mýrahreppi en segir þann veiðiskap hafa lagst af að mestu er þilskipum fór að fjölga.[115] Um þessi efni kemst prestur svo að orði: Hákallaveiði er því nær aflögð í Dýrafirði síðan þilskip fjölguðu og skáru alla hákallsskrokka í sjó, hvar við hákallinn fjarlægist mjög landi með frástraumnum.[116] En þótt nokkuð hafi dregið úr hákarlaveiði Dýrfirðinga á árunum fyrir 1840 fór því þó fjarri að sá veiðiskapur hyrfi þá þegar úr sögunni (sjá hér Þingeyrarhreppur, inngangskafli).

Í ritgerð sinni frá árinu 1932 getur Nathanael Mósesson um fimm hákarlaskip sem gerð voru út um lengri eða skemmri tíma frá ýmsum bæjum í Mýrahreppi á árunum 1865-1892.[117] Tvö þessara skipa voru teinæringar, annar frá Mýrum en hinn frá Núpi.[118] Frá Fremri-Hjarðardal var áttæringurinn Sjö systkin gerður út í hákarlalegur á þessu skeiði og frá Arnarnesi fór áttæringurinn Breiður í slíkar leguferðir og líka sexæringurinn Grænka.[119] Öll voru þessi skip smíðuð í Dýrafirði.[120] Hér hefur áður verið vitnað í lýsingar Nathanaels á hákarlaveiðum Dýrfirðinga og skal til þess vísað (sjá hér Þingeyrarhreppur, inngangskafli).

Séra Jón Sigurðsson á Gerðhömrum minnist sérstaklega á hákarlaútgerðina á Ingjaldssandi og segir að þaðan sé stundum farið í hákarlalegur á haust, vetur og framan af vori.[121] Í þessum leguferðum segir prestur Sandmenn fara allt að 17 til 20 mílur út og nefnir m.a. Kögurmið[122] en þangað er 15 til 16 sjómílna róður frá Sæbóli. Síðasti maður sem fór í hákarlalegur úr Dýrafirði út á djúpmið að vetrarlagi var Kristján Oddsson á Núpi[123] en hann bjó þar á árunum 1887-1896 (sjá hér Lokinhamrar).

Hér var þess áður getið að bændur í Mýrahreppi hefðu fyrstir Dýrfirðinga ráðist í útgerð á þilskipi, allmörgum árum áður en tekið var að senda slík skip til veiða frá verslunarstaðnum Þingeyri. Í Skútuöldinni, hinu mikla riti Gils Guðmundssonar, segir að þess verði naumast vart að þilskipaveiðar hafi verið stundaðar frá Dýrafirði fyrr en um 1840.[124] Gils nefnir fimm þilskip er voru í eigu bænda í Mýrahreppi á árunum um og upp úr 1850 og telur fyrst Hákarlinn sem þeir áttu saman Jón Gíslason á Lækjarósi og Guðmundur Brynjólfsson á Mýrum.[125] Hin skipin sem Gils getur um voru Þorskurinn, Jóhannes og Þorsteinn og svo Tréfótur sem bændur á Ingjaldssandi áttu.[126] Hákarlinn segir hann Jón Gíslason hafa smíðað skömmu fyrir 1850.[127] Í búnaðarskýrslum frá árunum 1837 til 1860 má sjá hvaða Dýrfirðingar það voru sem þá áttu hlut í þilskipum og með því að bera þær upplýsingar saman við frásagnir Gils Guðmundssonar, sem að mestu eru byggðar á munnlegum heimildum, fæst nokkuð skýr mynd af skipaútgerð bænda í Mýrahreppi um miðbik 19. aldar. Búnaðarskýrslur frá árunum 1837-1842 sýna að þá var ekkert þilskip til í Dýrafirði.[128] Í sams konar skýrslu frá árinu 1843 má aftur á móti sjá að þá eru þeir Guðmundur Brynjólfsson á Mýrum og Jón Gíslason, er þá bjó á Læk en fluttist næsta vor að Lækjarósi, orðnir eigendur að hálfri fiskijakt hvor.[129] Jakt þessi er fyrsta þilskipið sem Dýrfirðingar eignuðust en á næstu árum bættust fleiri við.

Skipið sem bændurnir tveir eignuðust árið 1843 er vafalaust Hákarlinn sem frá er sagt í Skútuöldinni. Þar er því reyndar haldið fram að Gísli, sonur Jóns á Lækjarósi, hafi líka átt hlut í skipinu en ef marka má búnaðarskýrslur frá árunum 1843-1850 voru eigendurnir bara tveir.[130] Gísli var reyndar ekki orðinn tvítugur þegar faðir hans smíðaði skipið[131] en hugsanlegt er að hann hafi eignast hlut í því síðar.

Ekki var nema eitt ár liðið frá því Jón Gíslason smíðaði Hákarlinn þegar bændurnir Jón og Guðmundur Bjarnasynir á Sæbóli á Ingjaldssandi komu sér upp þilskipi. Búnaðarskýrslan frá árinu 1844 sýnir að þeir eru þá þegar orðnir eigendur að hálfu skipi báðir til samans[132] en óljóst er hver eða hverjir hafa þá átt hinn helming þess. Næsta ár var eignarhlutur Sæbólsbænda óbreyttur en árið 1846 eiga þeir Jón og Guðmundur á Sæbóli einn þriðja úr skútu hvor og ætla má að meðeigandi þeirra hafi þá verið Jón Jónsson á Fjallaskaga sem í skýrslu frá því ári er líka sagður eiga þriðjung í þilskipi.[133] Á árunum 1847 til 1850 áttu bændurnir tveir á Sæbóli jafnan hálft þilskip hvor samkvæmt búnaðarskýrslum.[134] Í Skútuöldinni segir að skip þeirra hafi heitið Tréfótur og týnst í hafi.[135] Þann 21. ágúst 1849 kom Tréfótur inn á Súgandafjörð og þá var Guðmundur á Sæbóli, sem þar var um borð, beðinn fyrir bréf að Gerðhömrum.[136] Ætla má að sá sem beðinn var fyrir bréfið hafi verið Guðmundur Guðmundsson, sonur Guðmundar Bjarnasonar á Sæbóli. Í Skútuöldinni er þess getið að Kristján Jónsson og Pálmi Guðmundsson, synir bændanna á Sæbóli, hafi farist með skútu þessari.[137] Í prestsþjónustubók Dýrafjarðarþinga er staðfest að Kristján og Pálmi drukknuðu 29. júlí 1850 ásamt þremur mönnum öðrum sem allir áttu heima á Sæbóli.[138] Búnaðarskýrslur sýna líka að þilskipaútgerð bændanna á Sæbóli lýkur á því ári[139] svo hér er ekki um að villast. Þilskip Sæbólsmanna, Tréfótur, hefur því verið gerður út í sex ár, frá 1844 til 1850, og segir hér síðar nokkru nánar frá smíði skipsins og endalokum þess (sjá Sæból).

Haustið 1846 voru Guðmundur Þorvaldsson í Fremri-Hjarðardal og Oddur Gíslason í Meira-Garði orðnir eigendur að hálfu þilskipi hvor[140] og þar með hafði þriðja skútan bæst í flota bændanna í Mýrahreppi. Óhætt mun að fullyrða að þetta þriðja skip hafi verið Þorskurinn. Í skýrslum um afla tíu þilskipa úr Ísafjarðarsýslu á árunum 1850 og 1851 kemur fram að Jón Gíslason á Lækjarósi og Guðmundur Brynjólfsson á Mýrum eru þá enn eigendur að Hákarlinum en Þorskinn eiga þeir Guðmundur Þorvaldsson og Oddur Gíslason[141] sem hér voru áður nefndir og hófu þilskipaútgerð árið 1846. Á árunum 1846-1851 áttu þessir fjórir bændur jafnan hálft þilskip hver.[142] Í áðurnefndum aflaskýrslum frá árunum 1850 og 1851 kemur fram að Hákarlinn hefur verið átta stórlestir en Þorskurinn tíu.[143] Í hverri stórlest (commerciallest) munu vera 2,6 smálestir[144] og hefur önnur skútan því verið um það bil 21 smálest en hin nálægt 26 smálestum.

Árið 1850 var Gísli Jónsson skipstjóri á Hákarlinum.[145] Ekki er nefnt í aflaskýrslunni hvar hann bjó en telja má nær fullvíst að þetta sé sonur Jóns á Lækjarósi, sem Gísli hét og bjó á Gemlufalli, því að í búnaðarskýrslu frá vorinu 1852 er hann sagður vera skipherra.[146] Árið 1851 var maður að nafni H. Sölvason hins vegar skipstjóri á þessu sama skipi samkvæmt aflaskýrslunni[147] en enginn maður með slíku nafni var heimilisfastur í Vestur-Ísafjarðarsýslu haustið 1850.[148] Sé litast um í nálægum byggðum í leit að skipstjóranum sýnist helst til ráða að nema staðar við nafn Helga Sölvasonar sem þá var tæplega þrítugur bóndasonur á Kirkjubóli í Skutulsfirði.[149] Slíkt er þó aðeins tilgáta en margir Dýrfirðingar stjórnuðu síðar þilskipum sem gerð voru út frá Ísafirði án þess að flytjast þangað og eins gæti þetta hafa verið á hinn veginn.

Bæði árin 1850 og 1851 stýrði Guðmundur Guðmundsson Þorskinum til veiða[150] og er það án efa Guðmundur Guðmundsson í Fremri-Hjarðardal sem haustið 1850 kvæntist dóttur útgerðarmannsins þar og er nefndur skipari á manntali frá því sama hausti.[151]

Í skýrslunum sem hér er byggt á koma fram upplýsingar um afla skipanna tíu úr Ísafjarðarsýslu árin 1850 og 1851. Þar má sjá að þau stunduðu aðallega hákarlaveiðar en veiddu þó einnig lítilræði af þorski. Ein tunna af hákarlslýsi var þá talin jafn verðmæt og 100 þorskar.[152] Í skýrslunum sést ekkert um úthaldstíma einstakra skipa svo vel getur verið að minni afli hjá einum en öðrum eigi sér skýringu í styttri tíma við veiðarnar. Árið 1850 varð ársafli hjá Hákarlinum 105 lifrartunnur og 2400 hertir þorskar.[153] Á sama ári fékk Þorskurinn 50 lifrartunnur og 400 þorska.[154] Árið 1851 var munurinn á afla þessara tveggja skipa mun minni. Hákarlinn fékk þá 114 lifrartunnur og 2000 þorska en Þorskurinn 88 lifrartunnur og 1600 þorska.[155] Sé heildarafli vestfirsku skipanna tíu (þorskur + lifur) mældur í lifrartunnum út frá reglunni um 100 þorska á móti hverri tunnu, þá verður útkoman sú að meðalafli á skip reiknast 80 lifrartunnur árið 1850 en 143 tunnur árið 1851. Reiknað á sama hátt var Hákarlinn með 129 tunnur árið 1850 og 134 tunnur árið 1851 en Þorskurinn með 54 tunnur 1850 og 104 tunnur 1851.[156]

Eins og áður sagði týndist skipið Tréfótur frá Sæbóli í hafi sumarið 1850. Næsta sumar voru skúturnar úr Mýrahreppi því bara tvær en vorið 1852 hafði sú þriðja bæst í hópinn.[157] Guðmundur Guðmundsson, skipstjóri í Fremri-Hjarðardal, tók þá við búinu þar af tengdaföður sínum, Guðmundi Þorvaldssyni,[158] og verður um svipað leyti eigandi að þilskipi. Skip þetta átti hann einn ef marka má upplýsingar úr búnaðarskýrslu frá vorinu 1852 en eigendur hinna tveggja skipanna voru þá fjórir.[159] Guðmundur Brynjólfsson á Mýrum og Oddur Gíslason í Meira-Garði töldust þá eiga tvo þriðju úr skipi hvor en Jón Gíslason á Lækjarósi og Gísli sonur hans, sem farinn var að búa á Gemlufalli, áttu sinn þriðjunginn hvor.[160] Næsta vor var fjöldi skipanna hinn sami en þá hafði Bjarni Sigmundsson á Núpi eignast dálítinn hlut í einu þeirra.[161]

Skútan sem bættist í flota Dýrfirðinga á fardagaárinu 1851-1852 hét Jóhannes. Nær hundrað árum síðar töldu sumir þeirra er kunnu frá skipi þessu að segja að það hefði verið keypt frá Bíldudal en aðrir vildu meina að Guðmundur Þorvaldsson í Fremri-Hjarðardal hefði smíðað það.[162] Líklega hefur skipaeign bænda í Mýrahreppi sjaldan eða aldrei verið meiri en sumarið 1849 er þrjú þilskip í eigu heimamanna flutu þar fyrir landi og auk þess átti Bjarni Hákonarson á Arnarnesi þá einn fjórða part í þilskipi[163] að því er virðist með sameignarmönnum úr öðrum hreppi. Þetta sumar voru sex ár liðin frá því fyrsta þilskipið sem Dýrfirðingar eignuðust var smíðað á Lækjarósi og hingað til hafði allt gengið án stóráfalla með skútuútgerðina í þessum firði. Án efa hefur trú margra á batnandi hag risið hátt við að sjá öll þessi nýtískulegu skip sem voru svo miklu betur fallin til úthafsveiða en gömlu árabátarnir. En þegar allt virtist leika í lyndi voru stærri áföll skemmra fram undan en nokkurn hafði grunað.

Hér hefur áður verið getið örlaga fimm ungra manna af Ingjaldssandi sem drukknuðu er þilskipið Tréfótur frá Sæbóli fórst í hafi sumarið 1850. Þegar ein báran rís er önnur vís var stundum sagt og í áhlaupaveðri haustið 1853 fórst Jóhannes, skip unga bóndans í Fremri-Hjarðardal, með sex manna áhöfn.[164] Prestsþjónustubókin ber með sér að þrír mannanna voru úr Mýrahreppi, þeir Guðmundur Guðmundsson, bóndi og skipstjóri í Fremri-Hjarðardal, 28 ára, Jón Ebenesersson, vinnumaður í Hjarðardal, 29 ára, og Þórarinn Þórarinsson, vinnumaður í Lambadal, 23 ára.[165] Prestur segir þá hafa drukknað 22. september[166] og Gísli Konráðsson segir í Vestfirðingasögu sinni að ofviðrið sem færði þá til heljar hafi skollið á þann dag.[167] Sjö mánuðum síðar dundi enn eitt reiðarslag yfir. Þann 29. apríl 1854 fórst Hákarlinn og með honum níu menn sem áttu allir nema einn heima í Mýrahreppi.[168] Þeir voru: Gísli Jónsson, bóndi og skipstjóri á Gemlufalli, 30 ára, Andrés Bjarnason, Lækjarósi, 22ja ára, Bjarni Hákonarson, Mýrum, 23ja ára, Egill Jónsson, Gemlufalli, 50 ára, Friðrik Árnason, Haukadal, 21 árs, Guðmundur Bjarnason, Höfða, 36 ára, Guðmundur Guðmundsson, Mýrum, 42ja ára, Jón Teitsson, Brekku, 22ja ára, og Tryggvi Bjarnason, Lambadal, 27 ára.[169] Þess skal getið að í prestsþjónustubók Dýrafjarðarþinga er ekki tekið fram að Guðmundur og Gísli hafi verið skipstjórar er skipin fórust en í Skútuöldinni er frá því greint að svo hafi verið[170] og báðir eru þeir titlaðir skipherrar í búnaðarskýrslu frá vorinu 1852.[171]

Í prestsþjónustubók Dýrafjarðarþinga er Hákarlinn sagður hafa farist 29. apríl en í Annál nítjándu aldar segir að veðrið sem hann týndist í hafi gengið yfir landið degi síðar.[172] Í því sama veðri fórust líka með allri áhöfn tvö önnur þilskip úr Ísafjarðarsýslu og þrjú opin hákarlaskip sem gerð voru út frá Bolungavík (sjá hér Kaldá). Eitt þilskipanna sem fórust var Katrín litla sem gerð var út frá Kaldá í Önundarfirði en Holtsprestur segir að þeir sem þar voru um borð hafi týnt lífi í byrjun maímánaðar (sjá hér Kaldá). Helstu heimildum ber því ekki alveg saman hvað dagsetninguna snertir en reyndar munar þar mjög litlu.

Í Vestfirðingasögu sinni greinir Gísli Konráðsson frá þessum slysförum og segir þá m.a.:

 

Annað var þilbátur einn úr Dýrafirði er hét Hákarlinn. Var formaður á honum Gísli frá Gemlufalli, son Jóns smiðs á Lækjarósi Gíslasonar. Hafði Jón áður verið í Flatey með Guðmundi agent Scheving. … Áttu þeir feðgar saman skútu þessa.[173]

 

Gísli nefnir nokkra þeirra sem voru á Hákarlinum þegar hann týndist í hafi og segir Guðmund Guðmundsson úr Dýrafirði hafa verið stýrimann.[174] Einn þeirra sex sem Gísli nefnir var Friðrik son Árna Vídalíns Geirssonar biskups en drengur þessi var þá liðlega tvítugur og átti heima í Haukadal.[175]

Í þessu mannskaðaveðri vorið 1854 lá við að bæði þilskipin sem þá voru gerð út af bændum í Mýrahreppi færu á botninn. Hitt skipið, sem var Þorskurinn, slapp naumlega en frá hrakningi þess segir Gísli Konráðsson svo:

 

Þilskip það er Þorskurinn hét úr Dýrafirði hraktist fyrir Vestfirði í veðri þessu og inn á Breiðaflóa en náði landi í Rifsósi. Brotnaði það mjög svo liggja varð það fram í júnímánuð. Var á því formaður sá er Jón hét Bjarnason frá Rana í Dýrafirði. Var þetta fyrsta formannsför hans, átti fjórða hlut í skipinu. Var maður atall og sjómaður góður.[176]

 

Er Hákarlinn, elsta þilskip Dýrfirðinga, hvarf í hafið vorið 1854 höfðu bændurnir í Mýrahreppi tapað þremur skipum á aðeins fjórum árum. Með skipum þessum fórust 20 menn eins og hér hefur áður verið rakið, þar af 16 úr Mýrahreppi. Eftir slík áföll var þess tæplega að vænta að bændaútgerðin þar í hreppnum næði sér aftur á strik. Þorskurinn, sem Oddur Gíslason í Meira-Garði hafði átt að mestu hin síðustu ár,[177] var þó enn ofansjávar og í fardögum árið 1854, fáum vikum eftir að Hákarlinn fórst, eru bændur í Mýrahreppi reyndar sagðir eiga eitt og hálft þilskip. Oddur á þá þrjá fjórðu hluta í skipi, Jón Bjarnason á Læk einn fjórða part og Guðbrandur Jónsson á Fjallaskaga hálft skip.[178]

Jón Bjarnason á Læk mun vera skipstjórinn sem hér var nýlega nefndur en hann var frá Rana í Núpsþorpinu[179] og er nefndur skipherra í heimild frá þessu sama ári.[180] Oddur Gíslason fluttist frá Meira-Garði að Lokinhömrum í Arnarfirði árið 1858 (sjá hér Meiri-Garður) og mun þá enn hafa átt einn þriðja hluta í Þorskinum því skömmu síðar selur hann Ásgeiri Á. Johnsen, kaupmanni á Ísafirði, þennan þriðjung í skútunni fyrir 400 ríkisdali og er afsalsbréfið undirritað 13. mars 1860.[181] Allt skipið hefur þá verið talið 1200 ríkisdala virði en sú upphæð svaraði til um það bil 33ja kúgilda.[182] Í nýnefndu afsalsbréfi kemur fram að á árunum skömmu fyrir 1860 hefur Þorskurinn verið gerður út frá Ísafirði og svo kynni að hafa verið um fleiri skip bænda í Dýrafirði.

Hér hefur nú verið sagt nokkuð frá fjórum fyrstu þilskipum bænda í Mýrahreppi, Hákarlinum, Tréfæti, Þorskinum og Jóhannesi. Í Skútuöldinni getur Gils Guðmundsson um fimmta þilskipið er hann segir bændur í þessum sama hreppi hafa eignast um miðbik 19. aldar og hét Þorsteinn.[183] Skipstjóra á því skipi telur hann hafa verið Jón Bjarnason frá Rana sem hér var áður nefndur.[184] Þær upplýsingar úr opinberum skýrslum og gögnum sem hér hefur verið stuðst við benda eindregið til þess að bændur á norðurströnd Dýrafjarðar hafi ekki eignast Þorstein fyrr en 1854 en líklegt má kalla að skipið sem Guðbrandur á Skaga og Jón Bjarnason áttu þá hlut í hafi verið þessi skúta. Þeir Guðbrandur og Jón virðast hins vegar aðeins hafa átt hlut í skipi þetta eina ár því að í búnaðarskýrslum næstu ára eru þeir aldrei taldir eiga hlut að skútuútgerð.[185]

Á árunum 1855-1859 áttu aðeins þrír bændur í Mýrahreppi einhvern hlut í þilskipi. Oddur Gíslason átti þá ýmist einn fjórða eða einn þriðja úr skipi uns hann fluttist til Lokinhamra árið 1858[186] og seldi hlut sinn í Þorskinum eins og áður var getið. Sakarías Jensson í Alviðru átti hálft skip árið 1855. Næsta ár átti hann þriðjung og síðan fjórðung úr skipi á árunum 1857-1859.[187] Guðmundur Brynjólfsson á Mýrum, er verið hafði meðeigandi að Hákarlinum, hóf á ný þátttöku í þilskipaútgerð árið 1856.[188] Hann eignaðist þá sem svaraði þriðjung í skipi og hélt þeim hlut óbreyttum næstu 20 ár ef marka má búnaðarskýrslur.[189] Svo virðist sem Guðmundur hafi reyndar átt hlut í tveimur skipum á þessu skeiði og þá að líkindum einn sjötta í hvoru. Að minnsta kosti sýna heimildir að hann átti árið 1859 einn sjötta í jaktinni Hildu Maríu[190] sem á árunum kringum 1860 var gerð út frá Ísafirði (sbr. hér Flateyri).[191]

Á árunum 1860-1866 var Guðmundur Brynjólfsson á Mýrum eini maðurinn í hreppnum sem átti hlut í skútu[192] en árið 1867 eignast Guðmundur Björnsson á Núpi þriðjung í skipi og virðist hafa haldið þeim eignarhlut fram yfir 1880.[193] Næstur bættist í hóp skútuútgerðarmanna í Mýrahreppi Guðmundur Hagalín, sonur Guðmundar Brynjólfssonar á Mýrum. Hann eignaðist fyrst hlut í þilskipi árið 1872 eða 1873[194] en hér verður síðar sagt nánar frá þátttöku hans í slíkri útgerð (sjá hér Mýrar).

Fjöldi ungra manna úr Mýrahreppi fór á skúturnar og nokkrir urðu skipstjórar. Í opinberum skýrslum og manntölum frá árunum 1840-1880 hafa skipstjórar á þilskipum jafnan titilinn skipari eða skipherra. Auk þeirra sem hér hafa þegar verið nefndir má sjá slíkan titil við nöfn nokkurra annarra hreppsbúa á árunum 1850-1880. Þar má nefna Jón Halldórsson á Brekku sem nefndur er skipherra í tíundarskýrslu frá haustinu 1854[195] og Guðmund Gunnarsson í Alviðru sem jafnan er titlaður skipherra á árunum 1872-1877.[196] Haustið 1866 voru tveir skipherrar á Mýrum, Brynjólfur Guðmundsson og Guðmundur Sigurðsson,[197] en þeir voru sonur og tengdasonur Guðmundar Brynjólfssonar, bónda þar, sem ásamt Jóni Gíslasyni hafði fyrstur Dýrfirðinga hafið þilskipaútgerð tæpum aldarfjórðungi fyrr. Brynjólfur Guðmundsson varð skammlífur því hann dó á sóttarsæng liðlega þrítugur vorið 1869.[198] Guðmundur mágur hans lifði til 1883 en andaðist þá úr lungnabólgu nær 48 ára gamall.[199] Í gögnum frá árunum 1860 til 1883 er Guðmundur Sigurðsson mjög víða titlaður skipherra[200] en hann átti heima í Alviðru árið 1860 og á Mýrum frá 1864 til dánardægurs árið 1883. Guðmundur mun lengi hafa verið skipstjóri á skútum frá Ísafirði þó búsettur væri í Dýrafirði og líklega er hann sá Guðmundur Sigurðsson sem árið 1861 var skipstjóri á skútunni Elísabetu sem þá var gerð út frá Ísafirði.[201]

Á árunum kringum 1880 tók bændaútgerðin í Mýrahreppi nýjan fjörkipp en þá voru tvær skonnortur smíðaðar í Danmörku að tilhlutan Mýrafólks.[202] Þær hétu Guðný og Rósamunda og reyndust báðar með ágætum.[203] Á síðasta fjórðungu 19. aldar var skútuútgerðin á norðurströnd Dýrafjarðar að mestu bundin við Mýrar en Mýrafólk átti þá hlut í a.m.k. tveimur þilskipum, auk Guðnýjar og Rósamundu.[204] Frá allri þeirri útgerð verður sagt dálítið nánar síðar er við stöldrum við á Mýrum á ferð okkar um hreppinn (sjá hér Mýrar).

Undir lok 19. aldar bættist við nýr þáttur í atvinnulífi Dýrfirðinga er Norðmenn reistu hvalveiðistöð á Höfðaodda. Stöðin var reist árið 1890 og starfaði í þrettán ár en var þá flutt austur á Mjóafjörð. Frá starfrækslu hvalveiðistöðvarinnar verður sagt er við komum að Höfða á fyrirhuguðu ferðalagi okkar út norðurströnd Dýrafjarðar (sjá hér Höfði) en svo sem vænta mátti hafði koma Norðmannanna margvísleg áhrif á mannlífið í Mýrahreppi. Þilskipaútgerðin og rekstur hvalveiðistöðvarinnar opnuðu nýja möguleika til bjargræðis eins og glöggt kemur fram í starfsheitum sem skráð eru við nöfn manna í opinberum gögnum frá þessum árum.

Er tekið var manntal þann 1. nóvember 1901 voru 76 heimili í Mýrahreppi.[205] Einstaklingar sem bjuggu einir sér eru þá ekki flokkaðir sem sérstakt heimili. Atvinnuheitin við nöfn húsráðenda á þessum 76 heimilum benda til að 28 í þeirra hópi eða um 35% hafi ekki haft landbúnað að aðalstarfi á þessu fyrsta ári nýrrar aldar.[206] Fjöldi eiginlegra bænda sýnist því hafa verið 48 eða þar um bil (sjá hér bls. 6). Um þrjátíu þessara bænda er þó tekið fram í manntalinu að þeir gegni líka öðrum störfum, flestir sjómennsku, og verður því niðurstaðan sú að innan við fjórðungur þeirra sem höfðu fyrir heimili að sjá lifðu eingöngu eða nær eingöngu á landbúnaði. Þrír úr bændahópnum eru jafnframt sagðir stunda verkamannavinnu við hvalveiðistöðina.

Sé litið á atvinnuheiti þeirra 28 húsráðenda sem ekki voru í bændatölu haustið 1901 blasir þetta við: Sextán þeirra voru sjómenn, þrír eru flokkaðir sem húsmenn eða leigjendur, þrír fást við trésmíðar eða byggingavinnu, tveir kallast verkamenn, einn lifir á handvinnu og eru þá ekki aðrir ótaldir en presturinn á Gerðhömrum og ekkjan í Meira-Garði, sem sögð er lifa á saumaskap og styrk frá einstaka mönnum, og svo Norðmennirnir fjórir á Höfðaodda, sem höfðu þar vetursetu, allt karlmenn, og hér eru flokkaðir sem eitt heimili.[207] Þar voru líka sjö innlendir farandverkamenn þegar manntalið var tekið og má ætla að þeir hafi unnið þar að viðhaldi því að vertíð var löngu lokið þegar manntalið var tekið hinn 1. nóvember.

Á fyrstu árunum sem hvalveiðistöðin var starfrækt fjölgaði fólki verulega í næsta nágrenni við hana. Nokkrum mánuðum áður en stöðin tók til starfa áttu 225 manneskjur heima í Mýrasókn en sex árum síðar var tala sóknarfólks komin upp í 301.[208] Íbúunum hafði því fjölgað um fullan þriðjung.

Tölurnar á Töflu 5 sem hér fylgir gefa sæmilega skýra mynd af mannfjöldaþróuninni í öllum þremur sóknunum í Mýrahreppi á árum hvalveiðistöðvarinnar, 1890-1902, og fyrstu árunum þar á eftir. Íbúatölurnar eru fengnar úr sóknarmannatölum[209] og bera með sér að rekstur stöðvarinnar hefur greinilega haft áhrif á búsetuþróunina. Taflan sýnir fjölda íbúa í árslok.

 

 

 

 

 

Tafla 5

 

 

Mannfjöldaþróun í Mýrahreppi 1889-1905.

Fjöldi íbúa í árslok.

 

Ár            Mýrasókn           Núpssókn         Sæbólssókn       Mýrahreppur

1889             225                    143                  129                   497

1895             301                    158                  132                   591

1897             292                    146                  116                   554

1900             294                    125                  114                   533

1905             274                    132                    91                   497

 

 

 

Hér hefur nú verið sagt lítið eitt frá helstu bjargræðisvegum fólksins í Mýrahreppi á liðnum öldum og einnig verið drepið stuttlega á rekstur hvalveiðistöðvarinnar á Höfðaodda undir lok nítjándu aldar. Um verslun og samgöngur hreppsbúa fyrir daga vélknúinna farartækja er óþarft að fara mörgum orðum. Frá því á 16. öld hafa allir Dýrfirðingar sótt verslun til Þingeyrar og reyndar er líklegt að eyri þessi hafi orðið miðstöð verslunar í Dýrafirði talsvert fyrr (sjá hér Þingeyri), enda þótt heimildir skorti til að sýna fram á að svo hafi verið. Fram undir lok 18. aldar urðu bændur á Ingjaldssandi líka að sækja verslun til Þingeyrar en er farið var að versla á Flateyri um 1790 sneru þeir viðskiptum sínum þangað eins og sjá má í skránum sem prentaðar eru með bæklingi Henriks Henkel kaupmanns, Nødvendig replik … frá árinu 1799.[210] Hefur svo haldist síðan í aðalatriðum og í sóknarlýsingu séra Jóns Sigurðssonar á Gerðhömrum frá árinu 1840 er þess sérstaklega getið að Sandmenn versli á Flateyri.[211]

Á einokunartímanum hafa ýmsir bændur í Mýrahreppi vafalaust stundað þó nokkra launverslun við erlenda fiskimenn eins og algengt var á Vestfjörðum. Heimildir um þau viðskipti eru litlar af eðlilegum ástæðum en sem dæmi má nefna að árið 1700 voru þrír bændur á Læk og Klukkulandi dæmdir til að missa búslóð og sendast á Brimarhólm fyrir að hafa keypt lítilræði af fataefni hjá enskum fiskimönnum (sjá hér Lækur og Klukkuland).

Er verslunin var gefin frjáls við alla þegna Danakonungs árið 1787 fóru ýmsir kaupmenn fljótlega að senda vöruskip með ströndum fram og bjóða heimafólki á hverjum stað upp á viðskipti á skipum úti (sjá hér Þingeyri). Skip þessi voru kölluð spekúlantaskip og þeir sem þar stjórnuðu kaupum og sölum spekúlantar eða lausakaupmenn. Á síðari hluta 19. aldar mun slík verslun hafa náð hámarki og má ætla að þá hafi eitt eða fleiri spekúlantaskip komið á Dýrafjörð á hverju ári. Sem dæmi má nefna að í dagbók sinni frá árinu 1876 getur Sighvatur Borgfirðingur á Höfða komu tveggja slíkra skipa.[212] Verslun á öðru þessara skipa stýrðu þeir Pétur Hafliðason frá Flatey og Björn Pétursson frá Patreksfirði en hitt skipið var á vegum Hjálmars Jónssonar, sem þá verslaði á Flateyri, og var hann sjálfur þar um borð.[213] Bæði komu skipin í júlímánuði og virðast hafa lagst á Þingeyrarhöfn.[214] Kvenfólkið á Höfða dreif sig flest út í skipin til að versla[215] og ætla má að fólk á nálægum bæjum hafi haft sama háttinn á, bæði konur og karlar, og oft munu stálpuð börn hafa fengið að fljóta með til að skoða dýrðina.[216]

Erfitt mun vera að leiða rök að því hversu stór hluti af verslun Dýrfirðinga á 19. öld var við lausakaupmenn en flest sýnist benda til þess að þar hafi ekki aðeins verið um einhverja smámuni að ræða.

Kaupstaðarferðir frá bæjunum í Mýrahreppi voru yfirleitt farnar á sjó, enda munu bátkænur löngum hafa verið til á flestum býlum í hreppnum. Frá Lambadalsodda eru liðlega átta kílómetrar út og yfir fjörðinn að Þingeyri og álíka löng var kaupstaðarleiðin fyrir þá sem bjuggu í Núpsþorpinu eða í Alviðru, – liðlega klukkutíma róður. Frá bæjunum milli Núps og Lambadals var kaupstaðarleiðin enn styttri. Frá Botni var leiðin hins vegar dálítið lengri en reyndar má ætla að þeir sem þar bjuggu hafi mjög oft farið gangandi eða ríðandi út á Þingeyri. Lengst var kaupstaðarleiðin hjá fólkinu á Fjallaskaga, fullir 20 kílómetrar og hafa Skagabændur því verið um eða yfir þrjá klukkutíma að komast inn á Þingeyri í logni og ládauðum sjó. Frá Ingjaldssandi og yfir á Flateyri er leiðin mun styttri eða um níu kílómetrar. Sjóleiðin frá Ingjaldssandi til Þingeyrar er hins vegar yfir 30 kílómetrar og oft illt í sjó á leiðinni fyrir Barða. Meðan Sandmenn sóttu verslun til Þingeyrar hafa þeir því vafalaust farið mjög oft yfir Sandsheiði að Gerðhömrum og svo þaðan á bátum í sínum kaupstaðarferðum.

Þjóðleið úr Dýrafirði norður í Önundarfjörð hefur ætíð legið um Gemlufallsheiði og svo er enn. Heiðin er langtum lægri en aðrir fjallvegir á þessum slóðum, 283 metrar yfir sjávarmáli þar sem hæst er. Þetta er því einn hinn greiðasti fjallvegur á öllum Vestfjörðum og ekki nema 9 eða 10 kílómetrar milli bæja frá Gemlufalli að Kirkjubóli í Bjarnardal.

Aðrir fjallvegir sem farnir voru frá bæjunum á norðurströnd Dýrafjarðar til annarra byggðarlaga voru allir mun erfiðari yfirferðar. Frá Botni í Dýrafirði var farið yfir Glámu suður í Breiðafjarðarbyggðir eða norður að Djúpi þar sem oftast var komið niður í Mjóafjörð eða Skötufjörð. Um leiðirnar yfir Glámu er fjallað á öðrum stað í þessu riti (sjá hér Botn í Dýrafirði). Úr Botni var líka farin Hestfjarðarheiði, norðvestantil við sjálfa Glámu,  yfir í Hestfjörð við Ísafjarðardjúp. Sú leið liggur í um það bil 700 metra hæð og vegalengdin milli bæja um 15 kílómetrar frá Botni í Dýrafirði að Hestfjarðarkoti við botn Hestfjarðar. Þessa leið fór Sighvatur Borgfirðingur með konu og ung börn er hann fluttist í Dýrafjörð norðan úr Strandasýslu vorið 1873.[217] Seinna fór Sighvatur fleiri ferðir yfir þessa sömu heiði, m.a. aðfaranótt 5. ágúst 1892 en hann var þá að fylgja franska náttúrufræðingnum Gaston Buchet.[218] Uppi á heiðinni rannsakaði Buchet orma og pöddur í vötnunum þessa fögru sumarnótt fyrir hundrað árum.[219]

Enn ein leið úr Dýrafirði norður að Djúpi var um Lambadalsskarð sem liggur í 800 metra hæð eða því sem næst. Var þá farið frá Lambadal og komið niður hjá bænum Seljalandi í botni Álftafjarðar. Milli bæjanna eru að minnsta kosti 16 kílómetrar og ærið bratt. Séra Jón Sigurðsson á Gerðhömrum segir í sóknalýsingu sinni frá árinu 1840 að þessi leið sé aðeins fær gangandi mönnum en ófær fyrir hesta og því sjaldan farin.[220]

Fyrir utan Gemlufallsheiði var Sandsheiði eina alfaraleiðin milli Dýrafjarðar og Önundarfjarðar. Sú leið var þó aðeins farin af Sandmönnum og þeim sem áttu erindi á Ingjaldssand. Vegurinn yfir Sandsheiði liggur hæst í um það bil 530 metra hæð en vegalengdin milli bæja um 12 kílómetrar, frá Gerðhömrum að Hálsi sem var fremsti bær á Sandinum. Í sóknalýsingunni frá 1840 er þess getið að yfir Sandsheiði sé um 3ja klukkustunda gangur milli byggða og tekið fram að á heiði þessari séu margar vörður til leiðbeiningar fyrir vegfarendur.[221] Úr Dýrafirði var oftast farið á Sandsheiði frá Gerðhömrum en einnig var hægt að komast á heiðina upp úr botni Núpsdals.[222]

Þriðja leiðin milli Dýrafjarðar og Önundarfjarðar var Klúka eða Klúkuheiði. Væri farið úr Dýrafirði yfir Klúku varð fyrst að fara upp á miðja Sandsheiði og svo þaðan til norðurs eða norðausturs niður í Valþjófsdal. Yfir Klúku mun sjaldan hafa verið farið með hesta[223] en gangandi menn lögðu þar stundum leið sína ef þeir áttu erindi að reka í Valþjófsdal eða þurftu að komast þaðan í Dýrafjörð eða út á Ingjaldssand. Fjallvegurinn yfir Klúkuheiði liggur í um 600 metra hæð. Vegalengdin milli bæja er um það bil 10 kílómetrar, frá Gerðhömrum að Tungu í Valþjófsdal.

Hér hafa nú verið nefndir allir þeir fjallvegir sem fólk úr Mýrahreppi lagði leið sína um ef það þurfti að bregða sér í önnur byggðarlög og líka Sandsheiði sem reyndar mátti kallast innansveitarvegur því þeir sem bjuggu sinn hvorum megin hennar áttu allir heima í Mýrahreppi. Einstaka menn kynnu stöku sinnum að hafa valið sér aðrar leiðir og farið fjallasýn utan alfaravega en um slíkt er óþarft að ræða. Liggur því næst fyrir að hefja ferð okkar bæ frá bæ um allan Mýrahrepp og verður þá byrjað í Botni.

 

– – – – – – – – – – o o o o o – – – – – – – – – –

[1] Óskar Einarsson 1951, 144.

[2] Manntal 1703.

[3] Íslensk fornrit I, 180-181.

[4] Sóknalýsingar Vestfjarða II, 82.  Kristján G. Þorvaldsson 1951, 95.

[5] Sóknalýs. Vestfj. II, 68-69.

[6] Ísl. fornrit I, 180-181.

[7] Sama heimild.

[8] Sama heimild 182-183.

[9] Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín VII, 86.

[10] Sama heimild, 66, 70 og 74.

[11] Ársrit Sögufélags Ísfirðinga 1960, 111.

[12] Jarðab. Á. og P. VII, 55-93.  J. Johnsen 1847, 193-194.

[13] Sömu heimildir.

[14] Sömu heimildir.

[15] Sömu heimildir.

[16] Sömu heimildir.

[17] Sömu heimildir.

[18] Jarðab. Á. og P. VII, 3-139.  J. Johnsen 1847, 190-196.

[19] Sömu heimildir.

[20] Sömu heimildir.

[21] Manntal 1703.

[22] Sama heimild.

[23] Manntal 1762.

[24] Sama heimild.

[25] Manntal 1801.

[26] Manntal 1845.

[27] Manntal 1901.

[28] Manntöl 1701, 1762, 1801, 1845 og 1901.

[29] Prestsþj.b. Dýrafj.þinga.

[30] Sama heimild.

[31] Sama heimild.

[32] Manntal 1801.

[33] Sóknalýs. Vestfj. II, 91-93.

[34] Íslenskar æviskrár III, 265.

[35] Manntal 1845.

[36] Sama heimild.

[37] Sveinn Níelsson 1950, 190-191.

[38] Sama heimild.

[39] Sveinn Níelsson 1950, 190-191.

[40] Sama heimild.  Ísl. æviskrár IV, 69-70.

[41] Sveinn Níelsson 1950, 190-191.

[42] Sama heimild.  Manntal 1845.

[43] Sveinn Níelsson 1950, 190-191 og  Ísl. æviskrár.

[44] Sömu heimildir.

[45] Manntöl 1845 og 1901.

[46] Manntöl 1703, 1762, 1801, 1845 og 1901.

[47] Jarðab. Á. og P. VII, 55-93.

[48] Sama heimild..

[49] Sama heimild.

[50] Sama heimild.

[51] Jarðab. Á. og P. VII, 55-93.

[52] Ísl. æviskrár I-IV.

[53] Sömu heimildir.

[54] Sömu heimildir.

[55] J. Johnsen 1847, 193-194.

[56] Sama heimild.

[57] Jarðab. Á. og P. VII, 55-93.  J. Johnsen 1847, 193-194.

[58] Jarðab. Á. og P. VII, 55-93.

[59] Sama heimild. J. Johnson 1847, 193-194.

[60] Sama heimild.

[61] J. Johnsen 1847, 205.

[62] Sama heimild.

[63] Sama heimild.

[64] Sama heimild.

[65] J. Johnsen 1847, 205.

[66] Sóknalýs. Vestfj. II, 91.

[67] Sóknalýs. Vestfj. II, 88-91.

[68] Jarðab. Á. og P. VII, 55-93.

[69] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 2.

[70] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1. og 2.  Stjórnartíð. 1878 B, 95, 1895 C, 122.  Hagsk. Ísl., bún.sk. 1915.

[71] Hagsk. Ísl., bún.sk. 1915.

[72] Sama heimild.

[73] Lbs. 23744to, Dagbók S. Gr. B. 18.2. og 5.4. 1888.

[74] Hsk. á Ísaf. nr. 221.  Skýrsla Sæmundar Eyjólfssonar um ferð hans um Ísafj.sýslu sumarið 1883.

[75] Hsk. á Ísaf. nr. 221.  Skýrsla Sæmundar Eyjólfssonar um ferð hans um Ísafj.sýslu sumarið 1883.

[76] Sama heimild.

[77] Hsk. á Ísaf. nr. 222 (954).  Bréf hreppsn.m. í Þingeyrarhr. og Mýrahr. 19.6.1882 til landshöfðingja.

[78] Sama heimild.

[79] Sama heimild.

[80] Magnús Jónsson 1957, 230-232.

[81] Magnús Jónsson 1957, 230-232.

[82] Sama heimild.

[83] Sama heimild.

[84] Skj.s. landsh. Hallærismál 1882-1886. Askja nr. III, Ísafj.s. Br. l.h. 27.2.1886 til sýslum. Ísafj.s. (afrit).

[85] Magnús Jónsson 1957, 230-232.

[86] Fréttir frá Íslandi 1882, Rvk 1883, 29.  Fr. f. Ísl. 1886, Rvk 1887, 29-30.  Skj.s. landsh. Hallærismál1882-1886, Askja nr. VI.

[87] Stjórnartíð. 1882-1887, B deild. Verðlagsskrár.

[88] Skj.s. landsh. Hallærismál 1882-1886.  Askja nr. III. Ísafj.s.  Br. sýslum. Ísafj.s. 5.8.1884 til landsh.

[89] Sama askja.  Bréf nokkura bænda í Sléttuhr. til landsh. 5.12.1885.

[90] G.G. Hag. 1951, 30.

[91] Manntal 1703.

[92] Manntal 1703.

[93] Sama heimild.

[94] Manntal 1801.

[95] Manntal 1845.

[96] Manntal 1845.

[97] Jarðab. Á. og P. VII, 55-93.  Sóknalýs. Vestfj. II, 63-96.

[98] Jarðab. Á. og P. VII, 85.

[99] Sama heimild.

[100] Sama heimild.

[101] Sóknalýs. Vestfj. II, 81.

[102] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1 og 2.  Skýrsl. um landshagi III, 266 og V, 486.  Stjórnartíð. C 1882, 7.

[103] Sömu heimildir.

[104] Bjarni Sæmundsson 1903, 102-103 (Andvari).

[105] Sama heimild.

[106] Landhöfðingjasafn, séraskja nr. 24.

[107] Stjórnartíð. 1898 C, bls. 290.

[108] Bjarni Sæmundsson 1903, 102-103.

[109] Hagsk. Ísl., fiskiskýrslur 1915.

[110] Lúðvík Kristjánsson 1982, 58.  Vestf. fréttablaðið 8.6. 1990, viðtal Finnb. Herm. Við Valdimar Kristinsson.

[111] Jarðab. Á. og P. VII, 55-93.

[112] Sama heimild.

[113] Sama heimild.

[114] Eggert Ólafsson 1975, I, 268-269.

[115] Sóknalýs. Vestfj. II, 89.

[116] Sama heimild.

[117] Nathanael Mósesson: Hákarlaskip í Dýrafirði 1865-1892, óprentað handrit, ljósrit í eigu K.Ó..

[118] Sama heimild.

[119] Sama heimild.

[120] Sama heimild.

[121] Sóknalýs. Vestfj. II, 89.

[122] Sama heimild.

[123] Skútuöldin V, 118.

[124] Sama heimild I, 218.

[125] Sama heimild, I, 196, 218-219.

[126] Sama heimild, I, 196, 218-221.

[127] Skútuöldin I, 218-219.

[128] Skjöl vesturamtsins, VA III, 407-414, búnaðarskýrslur.

[129] Sama heimild.

[130] Sama heimild.

[131] Manntal 1845.

[132] VA III, 407-414, búnaðarskýrslur.

[133] VA III, 407-414, búnaðarskýrslur.

[134] Sömu heimildir.

[135] Skútuöldin I, 196.

[136] ÍB 8268vo, Dagbók séra Sigurðar Tómassonar 21. – 23.8.1849.

[137] Skútuöldin I, 196.

[138] Prestsþj.b. Dýrafj.þinga.

[139] VA III, 407-414, búnaðarskýrslur.

[140] VA III, 407-414, búnaðarskýrslur.

[141] Þjóðólfur III, 10.4.1851 og IV, 19.4.1852.

[142] VA III, 407-414, búnaðarskýrslur.

[143] Þjóðólfur III, 10.4.1851 og IV, 19.4.1852.

[144] Sigfús Haukur Andrésson 1983, 127 (Saga XXI).

[145] Þjóðólfur III, 10.4.1851 og IV, 19.4.1852.

[146] VA III, 407-414, búnaðarskýrslur.

[147] Þjóðólfur III, 10.4.1851 og IV, 19.4.1852.

[148] Manntal 1850.

[149] Sama heimild.

[150] Þjóðóflur III, 10.4.1851 og IV, 19.4.1852.

[151] Manntal 1850.  Prestsþj.b. Dýrafj.þinga.

[152] Arngrímur Fr. Bjarnason 1980, 17 (Inng.orð að Gullkistu Á.G.).

[153] Þjóðólfur III, 10.4.1851 og IV, 19.4.1852.

[154] Sama heimild.

[155] Sama heimild.

[156] Sama heimild.

[157] VA III, 407-414, búnaðarskýrslur.

[158] Sama heimild.

[159] Sama heimild.

[160] VA III, 407-414, búnaðarskýrslur.

[161] Sömu heimildir.

[162] Skútuöldin I, 220-221.

[163] VA III, 407-414, búnaðarskýrslur..

[164] Skútuöldin I, 221.

[165] Prestsþj.b. Dýrafj.þinga.

[166] Sama heimild.

[167] Lbs. 12884to, 421-422.

[168] Skútuöldin I, 219-220.  Prestsþj.b. Dýrafj.þinga.  Lbs. 12884to, 427-428.

[169] Prestsþj.b. Dýrfj.þinga.  Lbs. 12884to, 427-428.

[170] Skútuöldin I, 219-221.

[171] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 2, búnaðarsk. 1839-1858.

[172] Annáll nítjándu aldar II, 383.

[173] Lbs. 12884to, 428-429.

[174] Sama heimild.

[175] Sama heimild.  Sbr. Ísl. æviskrár I, 73.

[176] Lbs. 12884to, 429.

[177] VA III, 407-414, búnaðarskýrslur

[178] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 2, búnaðarskýrslur.

[179] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Dýrafj.þinga.

[180] Skj.s. sýslum. og sv.stj. V-Ís., Mýrahr. 4. hreppsb. 1850-1868.

[181] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís., XVII. 1. Þinglesin skjöl 1801-1875.

[182] Skýrslur um landshagi IV, Kph. 1870, 486.

[183] Skútuöldin I, 220.

[184] Sama heimild.

[185] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 2, búnaðarskýrslur.  VA III, 415-424, búnaðarskýrslur.

[186] VA III, 415-424, búnaðarskýrslur.

[187] VA III, 415-424, búnaðarskýrslur.

[188] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 2, bún.sk.  VA III, 415-424, bún.sk.

[189] Sömu heimildir.

[190] Sama heimildasafn Ís.  XVI. 2, Veðmálabók 1856-1869, 33.

[191] Arngrímur Fr. Bjarnason 1980, 24 (Inng.orð að bók Árna Gíslas. Gullkistunni).

[192] VA III, 415-424, búnaðarskýrslur.

[193] Sama heimild.

[194] VA III, 415-424, búnaðarskýrslur.

[195] Skj.s. sýslum og sv.stj. V-Ís., Mýrahr. 4., hreppsb. 1850-1868.

[196] Sóknarm.töl Dýrafj.þ.

[197] Skj.s. sýslum og sv.stj. V-Ís., Mýrahr. 4., hreppsb. 1850-1868.

[198] Guðm. G. Hagalín 1951, 27.

[199] Prestsþj.b. Dýrafj.þinga.  Lbs. 23744to , Dagb. S.Gr.B. 26.3. 1883.

[200] Manntöl 1860, 1870 og 1880.  Skj.s. sýslum og sv.stj. V-Ís., Mýrahr. 4., hreppsb. 1850-1868. Sóknarm.töl og prestsþj.bækur Dýrafj.þinga.

[201] Arngrímur Fr. Bjarnason 1980, 24 (Inng.orð að bók Á.G., Gullkistunni).

[202] Skútuöldin I, 225.

[203] Sama heimild.

[204] Sama heimild, 225-226.

[205] Manntal 1901.

[206] Sama heimild.

[207] Sama heimild.

[208] Sóknarm.töl Dýrafj.þinga 31.12.1889 og 31.12.1895.

[209] Sóknarm.töl Dýrafj.þinga.

[210] H. Henkel 1799, 72-73. Sbr. hér Flateyri.

[211] Sóknalýs. Vestfj. II, 91.

[212] Lbs. 23744to, Dagbók Sighvats Grímssonar Borgfirðings, 17.7. og 21.7.1876.

[213] Sama heimild.

[214] Sama heimild.

[215] Sama heimild.

[216] Sbr. Páll Kristjánsson 1977, 31-32.

[217] Lbs. 23744to , Dagbók S .Gr. B. 25.5. – 6.6. 1873

[218] Lbs. 23754to, Dagbók S. Gr. B. 4. og 5.8.1892.

[219] Sama heimild.

[220] Sóknalýs. Vestfj. II, 66.

[221] Sama heimild, 79.

[222] Sama heimild, 73.  Kristján G. Þorvaldsson 1951, 100 (Árbók F.Í.).

[223] Sóknalýs. Vestfj. II, 79.

1000-1900

Guðmundur Justsson

Á fyrri hluta 20. aldar var Guðmundur Justsson, sem fæddist á Gemlufalli haustið 1841,[1] einna kunnastur þeirra sem búið höfðu á Dröngum, a.m.k. utan Dýrafjarðar,

LESA MEIRA »
1000-1900

Krossadalur

Í Krossadal var löngum tvíbýli á fyrri tíð, Hærri- og Lægri- (eða Neðri-) Krossdalur, og voru þetta ystu bæir við Tálknafjörð. Stundum var reyndar þríbýli

LESA MEIRA »
1000-1900

Arnarstapi

Arnarstapi og Krossadalur voru tvær ystu jarðirnar á norðurströnd Tálknafjarðar og hafa nú báðar verið í eyði frá því um 1940.[1] Frá verbúðatóttunum í Arnarstapavík

LESA MEIRA »