Neðri-Breiðadalur

Neðri-Breiðadalur

Bærinn í Neðri-Breiðadal stendur í mynni Breiðadals, um 300 metrum ofan við fjarðarströndina og örskammt frá þjóðveginum sem liggur frá vegamótunum innan við Langá (Breiðadalsá) (sjá hér Fremri- Breiðadalur) og út á Flateyri. Hér hefur áður verði gerð grein fyrir landamerkjum jarðarinnar á móti Ytri-Veðrará (sjá Ytri-Veðrará) og Fremri-Breiðadal (sjá Fremri-Breiðadalur) en á móti Selakirkjubóli, sem var innsti bær á Hvilftarströnd, á Neðri-Breiðadalur land út í Urðina, sem er um það bil 1200 metrum fyrir utan bæinn, en hún var ýmist nefnd Breiðadalsurð[1] eða Selabólsurð[2] og í landamerkjaskrá er hún kölluð Stóraurð.[3] Land jarðarinnar er tvískipt því nokkur hluti þess er framan við landareign Fremri-Breiðadals (sjá hér Fremri-Breiðadalur). Um fjallið Skógarhorn, sem hér hefur áður verið nefnt, skiptist Breiðadalur í Langdal og Þverdal en mikið af beitilandi jarðarinnar í Neðri-Breiðadal liggur í þessum tveimur afdölum. Í rituðu máli er Langdalur sums staðar nefndur Langidalur en Halldór Mikkaelsson, sem er fæddur og alinn upp í Fremri-Breiðadal og býr nú (1994) í Neðri-Breiðadal, segir tvímælalaust að dalurinn heiti Langdalur.[4] Sama segir Ásta Þórðardóttir sem fæddist í Neðri-Breiðadal árið 1905 og ólst þar upp.[5]

Hér í mynni Breiðadals er þó nokkuð undirlendi sem teygist áfram út Hvilftarströndina en það nafn ber strandlengjan fyrir utan Breiðadal. Eitt svipmesta fjallið á þessum slóðum er Breiðadalsstigi sem ber við himin utantil við Breiðadal. Skýringu á nafni Stigans er ugglaust að finna í hinum fastmótuðu og fagursköpuðu klettabeltum hans sem líkja má við þrep í stiga. Brún fjallsins er í 739 metra hæð yfir sjávarmáli en Veðrarárhornið innan við dalsmynnið er lítið eitt lægra. Úr fjörunni neðan við túnið í Neðri-Breiðadal er varla nema einn kílómetri yfir í Holtsoddann og sjónlína frá Neðri-Breiðadal að Holti aðeins tveir kílómetrar eða þar um bil. Frá hlaðinu í Neðri-Breiðadal gefur sýn út Önundarfjörð. Yst á ströndinni handan fjarðar sjáum við fjallið Hrafnaskálarnúp, sem liggur milli Mosdals og Ingjaldssands, en hér að norðanverðu rís Eyrarfjall yfir þorpinu á Flateyri. Spölurinn þangað út eftir er sex kílómetrar.

Að fornu mati var Neðri-Breiðadalur talinn 24 hundruð að dýrleika.[6] Í Jarðabók Árna og Páls frá árinu 1710 er kostum og göllum jarðarinnar lýst með þessum orðum:

 

 

 

Útigangur er hér mjög lítill. Torfrista lök, stunga næg. Svörður brúkast til eldiviðar. Lyngrif lítið. Selveiði lítil, heppnast sjaldan til stórgagnsmuna. Hrognkelsaveiði hefur að fornu verið sem krækt voru af skipi. Hún hefur brugðist í margt ár. Túninu grandar aurfok, er fyrir því mjög illt að vinna völlinn. Engjar spillast stórlega af skriðum og eyðilagðar að vísu til helminga. Hagar skemmast og svo af skriðum. Hætt er kvikfé fyrir sjávarflæðum undir móðsköflum. Vatnsból bregðast um vetur og er þá erfiður vatnsvegur.[7]

 

Ætla má að heimildarmenn Árna Magnússonar geri hér að vanda of lítið úr kostum jarðarinnar en sem mest úr ókostunum. Út úr þessu má þó lesa að í byrjun 18. aldar hefur mótakið í Neðri-Breiðadal verið talið gott og bændur sem hér bjuggu notið hlunninda af rauðmaga í Holtsós og sel.

Í heimild frá því um 1920 er túnið í Neðri-Breiðadal sagt vera harðlent, snögglent, ógreiðfært og í slæmri rækt.[8] Útengi jarðarinnar var þá talið snögglent en greiðfært og engjavegurinn skammur, beitilandið víðlent og sumarbeitin góð en lítil vetrarbeit.[9] Á þeim árum var árlegur heyfengur um það bil 110 hestar af töðu og 250 hestar af útheyi.[10] Þá var talið að hér mætti framfleyta 3 kúm, 120 sauðkindum og 5 hrossum.[11] Gott mótak og rauðmagaveiði í ósnum voru þá helstu hlunnindin[12] og svo mun lengi hafa verið.

Neðri-Breiðadals er fyrst getið í skjali sem nefnt hefur verið Vestfirðingaskrá og er frá árinu 1501.[13] Þar er um að ræða samþykkt frá fundi sem hér var haldinn 3. júní 1501 en í skjalinu sem hana geymir er tekið fram að það sé ritað í stærra breiðadal í Önundarfirði þennan sama dag.[14]

Á fundi þessum í Neðri-Breiðadal sumarið 1501 mættu 24 forystumenn víðs vegar að af Vestfjörðum og skrifuðu allir undir samþykkt fundarins sem að efni til var áskorun til Finnboga lögmanns Jónssonar og krafa um að hann héldi sig við gömul lög og íslenskan rétt.[15] Helsti hvatamaður þessa fundar mun hafa verið Björn Guðnason í Ögri og sjálfur hefur hann skrifað það frumrit skrárinnar sem enn er varðveitt.[16] Tilefni fundarins mun einkum hafa verið hinar flóknu deilur um skipti á arfi eftir Þorleif Björnsson, hirðstjóra á Reykhólum, sem andaðist árið 1486, en hann var hálfbróðir Þóru, móður Björns í Ögri.[17] Krafa Björns Guðnasonar og hans liðsmanna var sú að börnin sem Þorleifur hirðstjóri hafði eignast með Ingveldi Helgadóttur, sambýliskonu sinni, yrðu dæmd arflaus þar eð þau væru getin í frillulífi[18] en flest eða öll þessi börn munu hafa verið fædd þegar Þorleifur fékk seint og um síðir heimild páfa til að kvænast Ingveldi.[19]

Í samþykktinni sem gerð var hér í Breiðadal 3. júní 1501 segir meðal annars svo:

 

Öllum mönnum þeim þetta bréf sjá eður heyra senda [hér koma nöfnin 24 – innsk. K.Ó.] kveðju guðs og sína, kunnugt gjörandi með þessu voru opnu bréfi að vér fyrrgreindir menn klögum og kærum vorra vegna og alls almúga á Vestfjörðum fyrir guði og sankti Ólaf konung og yður Finnbogi Jónsson, lögmann norðan og vestan á Íslandi, er af guði er til kjörinn oss að halda unga og gamla í yðru lögmannsdæmi með lög og landsins rétt, það lögmál er vort foreldri hefur sig og oss undir svarið og vér hyggjum að þér munuð með yðrum svardaga sem yður ber og lögmannseiði til heyrir oss yður á hendi falið hafa til allra réttra mála. Væntandi af yður umbóta um allt það oss þykir áfátt vera uppá laganna vegna og svo til að sjá að vér mættum fastlega á standa og njótandi verða vors gamla lögmáls sem sankti Ólafur og hans eftirkomendur hafa oss að öndverðu út gefið oss til réttinda, styrks og frelsis og náða. En oss þykir nú vort lögmál fast rjúfast og til baka ganga en inn leiðast í staðinn nýungar, lögleysur og lögvillur, hvað oss þykir háskalegt bæði fyrir guði og mönnum inn að leiða í vort land, undir að búa, samþykkir að verða fyrir oss og vort afsprengi, soddan laga rof og réttinda rán og fóttroða svo og niður brjóta vort gamla lögmál, lögbók og kristinn rétt, svo sem um 12 manna dóm sem upp á hlýðir arftak Bjarnar Þorleifssonar og systra hans eftir Þorleif Björnsson, föður sinn, og alla aðra sína frændur svo sem skilgetinnar eiginnar konu börn. En vér vitum allir að fyrrnefnd systkin, Björn og hans systur allar, eru getnar í frillulífi og frændsemisspellum.[20]

 

Síðar í þessari sömu Vestfirðingaskrá er komist svo að orði:

 

Þykir oss það auðsýnilegast að ef soddan nýungarlögmál skal hér við gangast og innleiðast í landið verði heldur til buldurs og ósamþykkis landinu til auðnar og niðurfalls en þeim dándimönnum sem landið byggja til margháttaðra vandræða og meingjörða og rangsnúa svo og umturna öllu voru gamla lögmáli að skafa út hina skilgetnu en leiða inn hina meingetnu, hvað vér viljum engaleiðis við láta gangast upp að gefa vora arfa, þá undir oss eða vort afsprengi kynnu að falla, fyrir þeim mönnum sem svo eru til komnir og innleiddir ólöglega í vort erfðatal … .[21]

 

Úr hópi þeirra sem undirrituðu skjalið með Birni Guðnasyni má nefna föður hans, Guðna Jónsson, sýslumann á Kirkjubóli í Langadal, Jón dan Björnsson á Rafnseyri sem var móðurbróðir Björns Guðnasonar, Orm Jónsson sýslumann frá Ögri sem var föðurbróðir Björns, Jón Erlingsson á Skálmarnesmúla, Ara Guðnason frá Ögri sem var bróðir Björns Guðnasonar, Þórólf Ögmundsson í Stóra-Laugardal í Tálknafirði, Þorleif Örnólfsson á Eyri í Seyðisfirði, Ólaf Guðmundsson í Þernuvík, síðar sýslumann, og Sigmund Brandsson í Bæ í Súgandafirði.[22]

Fyrsti eigandi Neðri-Breiðadals, sem um er kunnugt með fullri vissu, er Solveig Björnsdóttir sem síðast átti heima á Skarði á Skarðsströnd en áður um skeið á Hóli í Bolungavík.[23] Solveig var dóttir Björns hirðstjóra á Skarði Þorleifssonar og konu hans, Ólafar ríku Loftsdóttur, en hálfsystir Þóru Björnsdóttur sem var móðir Björns Guðnasonar í Ögri.[24]

Solveig var vellauðug en þegar hún andaðist árið 1495 hófust upp miklar deilur um skiptingu eignanna sem hún lét eftir sig. Sú þræta varð mjög langvinn og snerist ekki síst um það hvort börn Solveigar, sem getin voru í frillulífi, skyldu njóta einhvers af arfinum.[25] Börn þessi voru sex og faðir þeirra allra var Jón Þorláksson sem verið hafði ráðsmaður Solveigar á Hóli í Bolungavík.[26] Þessum börnum sínum hafði Solveig ánafnað ákveðnar eignir með erfðaskrá en ýmsir aðrir ættingjar hennar vefengdu lögmæti erfðaskrárinnar.[27] Sumarið 1511 tókst Stefán Jónsson, biskup í Skálholti, á hendur að skipta nefndum arfi í samræmi við erfðaskrána og komu þá Neðri-Breiðadalur og fleiri jarðir í hlut Björns og Einars Jónssona sem voru synir Solveigar.[28]

Einu ári síðar kom málið til kasta Ólafs Diðrikssonar hirðstjóra sem 29. júní 1512 kvað upp þann úrskurð suður á Bessastöðum að skilríki, sem Björn Guðnason í Ögri taldi sanna að hann væri réttur eigandi Neðri-Breiðadals og fleiri jarða sem um var deilt, skyldu teljast gild.[29] Í úrskurði sínum kemst Ólafur hirðstjóri m.a. svo að orði:

 

Sakir þess að ég vil gjarna gjöra eftir minni skyldu sem míns elskulega verðuga kóng Kristjáns náð hefur mig til skipað að ég skyldi halda hvern mann með lög og rétt. Því forbýður ég öllum, með hverju nafni sem helst er og sérlega þig til greindum, Jón Jónsson [Jón var einn sona Solveigar Björnsdóttur og Jóns Þorlákssonar – innsk. K.Ó.], og þínum fylgjurum og aðstoðarmönnum greindan Björn Guðnason hindra eða hindra láta hér eftir út af þessum oftgreindum jörðum undir fulla hegning laganna.[30]

 

Næstu árin mun Björn í Ögri hafa talið Neðri-Breiðadal vera sína eign og þar var hann staddur föstudaginn í sæluviku vorið 1515 þegar séra Grímur Þorsteinsson í Holti las yfir honum bréf Stefáns biskups í Skálholti þar sem biskup ákærði Björn fyrir að hafa tekið garðinn Vatnsfjörð og garðsins peninga undan sínu valdi og mót sínum vilja.[31]

Árið 1518 lauk ævi Björns Guðnasonar í Ögri og á næstu árum náði Ögmundur biskup Pálsson í Skálholti undir sig eða kirkjuna fjölmörgum jörðum sem Björn hafði átt. Líklegt er að Neðri-Breiðadalur hafi verið ein þeirra og svo mikið er víst að 40 árum eftir andlát Björns Guðnasonar taldist dómkirkjan í Skálholti eiga jörð þessa.[32] Haustið 1543 gekk Gizur Einarsson Skálholtsbiskup að eiga Katrínu Hannesdóttur frá Núpi í Dýrafirði[33] en hún var dótturdóttir Björns Guðnasonar í Ögri. Gizur andaðist fáum árum síðar en sumarið 1559 keypti Katrín ekkja hans Neðri-Breiðadal af Skálholtsdómkirkju ásamt 6 málnytukúgildum sem með fylgdu og lét í staðinn af hendi jörðina Vatnsleysu í Biskupstungum.[34]

Katrín biskupsekkja var systir Eggerts Hannessonar lögmanns í Saurbæ á Rauðasandi og fyrir andlát sitt ánafnaði hún Ragnheiði, dóttur Eggerts lögmanns, jörðina Neðri-Breiðadal.[35] Í vitnisburðarbréfi um þessa dánargjöf Katrínar, dagsettu 2. mars 1570, segir að hún hafi mælt svo fyrir að ef Ragnheiður ætti nafn sitt, þá skyldi þessi greind jörð því nafni fylgja.[36] Þegar Katrín Hannesdóttir andaðist skömmu fyrir 1570 eða á fyrstu mánuðum þess árs var Ragnheiður bróðurdóttir hennar nýlega gift Magnúsi Jónssyni lögsagnara og síðar sýslumanni sem nefndur var hinn prúði.[37] Eitt margra barna sem Ragnheiður Eggertsdóttir ól manni sínum var dóttirin Katrín sem í fyllingu tímans giftist Bjarna Hákonarsyni í Klofa í Landsveit syðra. Með hliðsjón af orðum Katrínar Hannesdóttur, sem fylgdu gjöf hennar til Ragnheiðar frænku sinnar og hér var áður vitnað til, hefði mátt ætla að Katrín þessi Magnúsdóttir hefði eignast Neðri-Breiðadal eftir móður sína en svo virðist sem málin hafi í raun farið á annan veg.

Árið 1570 komu fram á Alþingi vitnisburðir sem sýndu að Katrín Hannesdóttir hafði ruglast eitthvað í ríminu og ekki látið nægja að gefa Neðri-Breiðadal einu sinni heldur hafði hún gefið jörðina tvisvar, sitt hvorri manneskjunni.[38] Konurnar tvær sem fengið höfðu jörðina til eignar með þessum hætti voru Ragnheiður Eggertsdóttir, sem hér var áður nefnd, og Guðrún Hannesdóttir sem gift var Þorláki Einarssyni, sýslumanni á Núpi í Dýrafirði, en hún var systir Katrínar.[39] Úr þessari flækju var skorið með dómi, sem upp var kveðinn við Öxará sumarið 1570, og varð niðurstaðan sú að Guðrún skyldi fá í sinn hlut nítján hundruð úr jörðinni en Ragnheiður fimm hundruð.[40]

Áður en Alþingi kom saman árið 1570 hafði Eggert Hannesson lögmaður, faðir Ragnheiðar, tekið að sér að innheimta landskuldina af Neðri-Breiðadal eins og sjá má í reikningum hans frá því ári en þar stendur:

 

Item af Breiðadal í Önundarfirði hundrað í landskuld. Lukti Jón Snorrason í þessa landskuld 30 álna fóður og 3 ær með lömbum og þar til 5 aura í öðrum peningum sem var á með lambi og veturgamall sauður.[41]

 

Samtals gerir þetta 120 álnir, það er eitt hundrað, því hver ær með lömbum var metin á 20 álnir og hver eyrir á 6 álnir. Þarna er tvímælalaust um að ræða landskuld af allri jörðinni því ekki getur komið til greina að landskuldin hafi verið svona há af þeim litla jarðarparti sem Ragnheiður fékk í sinn hlut þegar dæmt hafði verið í málinu á Alþingi. Í reikningum Eggerts frá árinu 1571 sést hins vegar að þegar dómurinn hafði verið kveðinn upp hafa þau feðgin orðið að hlíta honum því þar stendur item af partinum í Meiri-Breiðadal.[42] Þarna er landskuldarupphæðin ekki nefnd en ætla má að af þessum fimm hundruðum hafi landskuldin verið 25 álnir eða því sem næst, liðlega fimmtungur alls jarðarafgjaldsins. Sex árum síðar seldi Eggert þessi fimm jarðarhundruð nýnefndum Þorláki sýsumanni sem var mágur hans.[43]

Árið 1658 átti Þorlákur Arason, lögréttumaður í Súðavík, bæði Fremri- og Neðri-Breiðadal[44] en hann var reyndar sonarsonur Ragnheiðar Eggertsdóttur og Magnúsar prúða Jónssonar.[45] Þorlákur er talinn hafa andast árið 1667 en árið 1695 átti Helga dóttir hans báðar þessar jarðir.[46] Hún var gift Jóni Vigfússyni, sýslumanni á Stórólfshvoli í Rangárvallasýslu.[47] Helga Þorláksdóttir andaðist árið 1701[48] en átta árum síðar seldi sonur hennar, Erlendur Jónsson, bóndi á Stórólfshvoli, bæði Fremri- og Neðri-Breiðadal. Jarðirnar tvær í Önundarfirði seldi hann á Alþingi 17. júlí 1709 fyrir þrjá jarðarparta í Rangárvallasýslu og sá sem keypti var Snæbjörn Pálsson á Mýrum í Dýrafirði[49] sem síðar var nefndur Mála-Snæbjörn. Jarðirnar tvær hér í Breiðadal mun Snæbjörn hafa keypt fyrir hönd föður síns, Páls Torfasonar, sýslumanns á Núpi í Dýrafirði, því árið 1710 var Páll talinn eiga báðar þessar jarðir.[50]

Árið 1718 seldi Páll Torfason tengdasyni sínum, séra Sigurði Sigurðarsyni í Holti í Önundarfirði, bæði Fremri- og Neðri-Breiðadal.[51] Í Alþingisbókinni er tekið fram að Páll selji þessar jarðeignir fyrir hönd konu sinnar og séra Sigurður kaupi þær fyrir hönd sinnar konu.[52] Fyrir Breiðadalina greiddi séra Sigurður 36 jarðarhundruð í þremur öðrum jörðum í Önundarfirði og Dýrafirði sem kvinnu hans [Ástu Pálsdóttur frá Núpi] taldar voru á giftingardegi.[53] Ásta Pálsdóttir, prestsfrú í Holti, andaðist árið 1737[54] og skömmu síðar kvæntist séra Sigurður Elínu, dóttur Markúsar Bergssonar, sýslumanns í Ögri, og konu hans, Elínar Hjaltadóttur.[55] Svo fór að tengdamóðir séra Sigurðar í Holti, frú Elín Hjaltadóttir, eignaðist Neðri-Breiðadal. Fullvíst er að Elín átti jörðina árið 1762[56] en hún hafði þá verið ekkja í 21 ár.[57] Líklegt er að frú Elín hafi líka átt Neðri-Breiðadal árið 1750 en þá um vorið veðsetti Björn Markússon, sonur hennar, Hörmangarafélaginu jörðina til tryggingar greiðslu á láni sem félagið veitti honum.[58] Hann var þá að taka við sýslumannsembætti í Skagafjarðarsýslu en varð seinna lögmaður sunnanlands og austan.[59] Elín móðir hans, sem átti Neðri-Breiðadal um nokkurt skeið, var dóttir séra Hjalta Þorsteinssonar í Vatnsfirði og Sigríðar Þorsteinsdóttur eiginkonu hans.[60]

Eitt barna Elínar Hjaltadóttur og Markúsar sýslumanns í Ögri var Hjalti sem um skeið var aðstoðarprestur í Holtsprestakalli og bjó á Mosvöllum (sjá hér Holt og Mosvellir). Kona hans hét Gróa og var hún dóttir séra Sigurðar Sigurðssonar í Holti, sem hér var nýlega nefndur, og fyrstu konu hans, Ástu Pálsdóttur frá Núpi.[61] Séra Hjalti og Gróa kona hans náðu aðeins að koma upp einu barni og var það dóttirin Elín, alnafna ömmu sinnar, Elínar Hjaltadóttur, sýslumannsfrúar í Ögri, sem átt hafði Neðri-Breiðadal. Árið 1805 var það Elín Hjaltadóttir yngri sem átti þessa sömu jörð eða eiginmaður hennar, Páll Þórðarson, sem þá var hér sjálfseignarbóndi.[62] Nær fullvíst má telja að Elín Hjaltadóttir yngri hafi fengið Neðri-Breiðadal að erfðum, máske beint frá ömmu sinni því séra Hjalti, faðir Elínar í Breiðadal, dó um eða innan við fertugt þegar dóttir hans var enn á barnsaldri.[63]

Páll Þórðarson, maður Elínar Hjaltadóttur, er fyrsti sjálfseignarbóndinn sem um er kunnugt að búið hafi hér í Neðri-Breiðadal. Páll drukknaði í hinu mikla mannskaðaveðri 6. maí 1812, þá 53ja ára að aldri, en frá honum er nánar sagt hér litlu aftar (sjá hér bls. 16-17). Árið 1816 stóð ekkjan Elín Hjaltadóttir enn fyrir búi í Neðri-Breiðadal, þá 66 ára gömul.[64] Fimm árum síðar var hún hætt búskap[65] en dó ekki fyrr en 1835.[66]

Að frátöldum Páli Þórðarsyni og Elínu konu hans munu flestir bændanna sem hér bjuggu á 19. öld hafa verið leiguliðar og má sem dæmi nefna að jörðin var í leiguábúð á árunum upp úr 1840 en þá var hér tvíbýli.[67]

Sumarið 1860 var önnur hálflendan í Neðri-Breiðadal, 12 hundruð, seld á uppboði sem haldið var á Skutulsfjarðareyri þann 30. ágúst.[68] Hæstbjóðandi varð Jens Guðmundsson, sem þá bjó á Gemlufalli í Dýrafirði, og galt hann 612 ríkisdali út í hönd fyrir þessa jarðeign.[69] Hálflendunni fylgdu þá 15 leiguær og í kaupbréfinu er tekið fram að landskuld af þessum 12 hundruðum sé 40 álnir.[70]

Þennan jarðarpart, allan eða nær allan, átti Jens bóndi Guðmundsson í nær fjóra áratugi eða allt til ársins 1899[71] en hann mun aldrei hafa búið í Breiðadal. Þann 21. mars 1899 seldi Jens níu af þessum tólf hundruðum fyrir 500,- krónur en kaupandinn var Þórður Sigurðsson í Neðri-Breiðadal[72] sem skömmu síðar hóf hér búskap á þessum jarðarparti (sjá hér bls. 33-35). Kaupsamningurinn var undirritaður á Söndum í Dýrafirði[73] en þar hafði seljandinn búið um langt skeið. Þegar Þórður keypti þessi jarðarhundruð fylgdi þeim eitt ásauðarkúgildi,[74] það er sex leiguær. Kaupverðið, 500,- krónur, lofaði Þórður að greiða fyrir lok septembermánaðar á sama ári og 4% ársvexti af því sem ógreitt yrði í fardögum.[75] Árið 1901 var jörðin í eigu Þórðar Sigurðssonar, sem þá var orðinn bóndi hér, Margrétar Jónsdóttur, sem einnig átt hér heima, og Torfa Halldórssonar á Flateyri.[76] Magnús Guðlaugsson, sem hér átti heima og lifði að sögn á fjárrækt, átti þá þurrabúðarkot sem stóð í Neðri-Breiðadal en engan part í jörðinni.[77]

Um 1920 voru eigendur jarðarinnar fjórir og eignarhlutir þeirra sem hér segir: Þórður Sigurðsson, sem bjó hér þá á 14 hundruðum, átti þau níu jarðarhundruð sem hann hafði keypt árið 1899, Margrét Jónsdóttir, sem bjó hér á 3 hundruðum, átti þau hundruð, Kristján Torfason á Flateyri átti einn þriðja part af jörðinni og Kristján Ásgeirsson á Flateyri einn áttunda part.[78]

Elsta vitneskja um árlega landskuld af Neðri-Breiðadal er frá 1570 en þá var hún 120 álnir (sjá hér bls. 6), það er eitt kýrverð. Seinna hækkaði landskuldin upp í 160 álnir og stóð svo fram að bólunni miklu sem hér geisaði árið 1707.[79] Í stórubólu féll landskuldin niður í það sem áður hafði verið og var 120 álnir bæði 1710 og 1753.[80] Um miðja 19. öld var landskuldin enn hin sama og verið hafði 1710 og 1753[81] en um 1920 taldist hún vera 6 gemlingar.[82] Hver gemlingur var þá virtur á 83% úr ærverði[83] eða 16,6 álnir. Samkvæmt landaurareikningi hefur landskuldin af Neðri-Breiðadal því verið alveg um 100 álnir á árunum kringum 1920 eða einum sjötta lægri en verið hafði 1847 og 1710.

Þegar Katrín Hannesdóttir, ekkja Gizurar Einarssonar Skálholtsbiskups, keypti Neðri-Breiðadal sumarið 1559 fylgdu jörðinni 6 innstæðukúgildi (sjá hér bls. 5). Svo virðist sem þessi kúgildafjöldi hafi síðan haldist óbreyttur í þrjár aldir og jafnvel nokkru lengur með þeirri einu undantekningu að í stórubólu árið 1707 fækkaði leigukúgildum úr sex í fimm en árið 1753 voru þau aftur orðin sex og svo var enn árið 1847.[84] Um 1920 voru innstæðukúgildin sem fylgdu Neðri-Breiðadal hins vegar ekki nema fjögur, það er 24 ær.[85]

Ætla má að Jón Snorrason sem greiddi Eggerti Hannessyni lögmanni 120 álnir í landskuld af Neðri-Breiðadal árið 1570 (sjá hér bls. 6) hafi búið hér og að líkindum haft alla jörðina til ábúðar. Er hann þá fyrsti bóndinn í Neðri-Breiðadal, sem hægt er að nefna með nafni.

Árið 1681 var þríbýli í Neðri-Breiðadal[86] Árið 1703 var hér fjórbýli og húskona að auk[87] en á 18. og 19. öld bjuggu hér yfirleitt tveir eða þrír bændur í senn.[88] Á árunum kringum 1890 var þó stundum bara einn bóndi í Neðri-Breiðadal,enda var meira en þriðjungur jarðarinnar nytjaður frá Flateyri á þeim árum (sjá hér Flateyri). Á síðustu áratugum 19. aldar voru hér oft fjögur eða fimm heimili því auk bændanna og þeirra fólks áttu hér heima fjölskyldur sem lifðu við þurrt hús. Tvenn þurrabúðarhjón voru hér 1870 og líka 1880 en 1890 áttu hér heima tveir húsmenn og þá voru bændurnir sem bjuggu á jörðinni þrír.[89] Árið 1901 voru fimm heimili í Neðri-Breiðadal[90] og hér voru þá fjórir húsráðendur sem í manntalinu frá því ári eru sagðir hafa landbúnað eða fjárrækt að atvinnu.[91] Ekkjan Margrét Jónsdóttir, sem árið 1901 var orðin 61 árs, er hins vegar sögð lifa á efnum sínum.[92] Í skjölum fasteignamatsins frá árinu 1921 sjáum við að fjórir bændur höfðu þá einhver jarðarafnot í Neðri-Breiðadal.[93] Einn þeirra hafði þá 14 hundruð til ábúðar en tveir hinna bjuggu á þremur hundruðum og einn á fjórum hundruðum.[94] Þessir þrír síðast töldu hafa því rétt hangið í því að geta kallast bændur og að líkindum hafa þeir haft verulegan hluta síns lífsframfæris af öðru en búskap á þessum fáu hundruðum.

Hér hefur áður verið minnst á Jón Snorrason sem telja má nær fullvíst að búið hafi í Neðri-Breiðadal árið 1570. Einni öld síðar bjó hér roskinn bóndi sem hét  Bjarni Bjarnason  en hann var brenndur á báli fyrir galdra 4. júlí 1677. Að galdramaður þessi hafi búið í Breiðadal er alveg víst  en hvort hann bjó í Fremri- eða Neðri-Breiðadal er ekki ljóst. Líklegra er þó að hann hafi búið í Neðri-Breiðadal því fullvíst er að Halldór sonur hans bjó hér árið 1703 (sjá hér bls. 13-14). Páll Bjarnason, sem var einn þriggja bænda í Neðri-Breiðadal árið 1681,[95] kynni líka að hafa verið sonur þessa Bjarna eða þá bróðir hans.

Í prentuðu Alþingisbókinni er sagt að Bjarni Bjarnason, sem dæmdur var til dauða á Mosvallaþingi fyrir galdra árið 1677, hafi átt heima í Berjadal[96] en enginn bær með því nafni er eða hefur verið til í Önundarfirði svo kunnugt sé og ekki heldur í nálægum sveitum. Þarna er því alveg tvímælalaust um lesvillu eða prentvillu að ræða og í mörgum gömlum uppskriftum af alþingisbók ársins 1677 stendur skýrum stöfum að Bjarni sá sem þá var brenndur við Öxará hafi átt heima í Breiðadal.[97]

Í Eyrarannál er Bjarni líka sagður hafa átt heima í Breiðadal en þar er greint frá aftöku hans árið 1677 með þessum orðum:

 

Brenndir á alþingi Bjarni Bjarnason (vel sextugur) frá Breiðadal í Önundarfirði úr Ísafjarðarsýslu, item Þorbjörn Sveinsson úr Grenjadal í Borgarfjarðarsýslu, fyrir vestan Hvítá, báðir fyrir galdra og gjörninga mönnum og fé.[98]

 

Um heimilisfang Bjarna þarf því ekki að efast og í Alþingisbókinni er hann nefndur Bjarni Bjarnason eldri[99] og mun hafa verið gert til aðgreiningar frá syni hans sem einnig hét Bjarni Bjarnason og átti líka heima í Breiðadal á sínum yngri árum.[100]

Það var Bjarni Jónsson, bóndi á Hesti í Önundarfirði, sem kærði Bjarna Bjarnason fyrir að hafa með göldrum valdið veikindum og dauða konu sinnar, Ingibjargar Pálsdóttur, húsfreyju á Hesti.[101] Merkilegt verður að teljast að sonur þessara hjóna á Hesti, Bjarni Bjarnason undan Hesti, var 13 árum áður en nafni hans var dæmdur rekinn úr Skálholtsskóla fyrir meðferð galdrablaða (sjá hér Hestur) og ef marka má þjóðsögur var Bjarni Jónsson á Hesti sjálfur talinn göldróttur.[102]

Í Alþingisbókinni frá árinu 1677 er sagt frá máli Bjarna í Breiðadal og greint frá endanlegri dómsniðurstöðu á Öxarárþingi. Þann 30. júní 1677 var fjallað um mál Bjarna í lögréttu og m.a. bókuð þessi orð:

 

Voru upplesnir í lögréttu af virðulegum valdsmanni í Ísafjarðarsýslu, Páli Torfasyni, tveir héraðsdómar gengnir á Mosvöllum við Önundarfjörð, sá eini þann 5. febrúar og hinn annar 23. apríl 1677, hverjir báðir að hljóða um þá galdraáburði sem Bjarni Jónsson undir Hesti og hans sáluga kvinna, Ingibjörg Pálsdóttir, höfðu borið þann auma mann, Bjarna Bjarnason eldra í Berjadal [á að vera í Breiðadal]. Og er hennar áburður með þeim hætti að hún lýsir nefndan Bjarna valdan að þeim galdraverks krankleika sem hún borið hefði í sjö ár, hvað hún segist ei betur vita en satt sé fyrir guði og sinni samvisku og enginn annar sé þar að valdur. Þennan áburð hafa svarið tveir heyrnarvottar að fram farið hafi. Ofan á þetta er inntak og atriðisorð í áburði Bjarna Jónssonar að hann segir það Bjarni Bjarnason eldri sé sekur í líftjóni sinnar sálugu kvinnu, Ingibjargar Pálsdóttur, en enginn annar maður og þetta líftjón hafi hann henni veitt með fullkomlegri galdrabrúkun og óleyfilegum djöfuls meðulum.[103]

 

Kæru sína á hendur Bjarna í Breiðadal staðfesti Bjarni á Hesti með svörnum eiði og áður en Páll Torfason sýslumaður kvað upp dóm sinn á Mosvöllum komu fyrir hann tvær konur, þær Bríet Arnþórsdóttir og Guðrún Guðmundsdóttir, og kváðust telja að Bjarni í Breiðadal væri einnig valdur að þeirra veikindum.[104] Í Alþingisbókinni segir síðan:

 

Hér að auk fram kemur í sama dómi [frá Mosvöllum] lýsing heimafólksins á Hesti í hverri það ber vitnisburð að Ingibjörgu sálugu Pálsdóttur hafi aukist og vaxið sú kvöl sem hún hafði þá undirbúningur þessa máls byrjaðist í vetur og ávallt síðan aukist meir og meir, helst og mest um þann tíma sem sýslumaðurinn, Páll Torfason, las áburð Bjarna Jónssonar yfir oftskrifuðum Bjarna Bjarnasyni. … Sömuleiðis merkist í þessum dómi að Bjarni Bjarnason eldri sé langryktaður af galdrameðferð, hvað hann sjálfur þá meðkenndi fyrir sín eyru komið hefði, sem og það hann um hönd haft hafi óleyfilega characteres eður stafi.[105]

 

Á Mosvallaþingi var Bjarna í Breiðadal dæmdur réttur til að hreinsa sig af galdraáburðinum með tylftareiði en á þeim eiði féll hann því öll vitnin töldu hann fremur vera sekan en saklausan.[106] Páll Torfason sýslumaður og dómsmenn hans skutu síðan málinu til Þorleifs Kortssonar lögmanns, hins versta óvinar galdramannanna en hann vísaði því til Öxarárþings.

Þegar Páll sýslumaður reið til Alþingis þetta sumar hafði hann gamla manninn í Breiðadal með sér og frammi fyrir lögmönnunum og lögréttunni var Bjarni spurður hvort hann hefði nokkuð fram að færa sér til varnar. Hann kvað svo ekki vera.[107]

Í Alþingisbókinni sjáum við loks hver varð dómsniðurstaða lögréttumannanna við Öxará en þar segir:

 

Er nú að svo prófuðu og í ýtrasta máta rannsökuðu … endileg dómsályktun lögmanna og lögréttumanna í herrans trausti og hans náðar nafni að fyrrnefndur Bjarni Bjarnason eldri straffist á lífinu sem svarinn og sannprófaður galdra og fjölkynngismaður.[108]

 

Í samræmi við lög og siðvenjur var viðkomandi sýslumanni falið að tryggja hinum dauðadæmda þjónustu prests áður en aftakan færi fram því illt verk skal hata en manninn elska af náttúrlegu eðli en sálina þó allra helst, eins og komist er að orði í bókun þeirri frá Alþingi sem fylgir dauðadómi Bjarna í Breiðadal.[109]

Þann 4. júlí 1677 var dauðadómnum fullnægt á Öxarárþingi í margra manna viðurvist[110] og má telja fullvíst að karlinn hafi verið brenndur. Borgfirðingurinn Þorbjörn Sveinsson var líka brenndur á Þingvöllum þennan sama dag en þetta voru næstsíðustu galdrabrennurnar sem þar fóru fram.[111] Síðastur allra var brenndur við Öxará Ari Pálsson úr Arnarfirði sem hér er frá sagt á öðrum stað (sjá hér Lokinhamrar).

Um gamla kuklarann, Bjarna Bjarnason eldri í Breiðadal, er fátt vitað umfram það sem skráð er í Alþingisbókinni. Þó er kunnugt að kona hans hét Valgerður Andrésdóttir en hún dó skömmu eftir barnsburð árið 1648,[112] nær 30 árum áður en eiginmaður hennar var færður á bálið. Synir Bjarna og Valgerðar voru ekki færri en fjórir.[113] Einn þeirra var Eyjólfur sem bjó árið 1703 á Seljalandi í Skutulsfirði en hinir þrír voru Halldór, Bjarni og Páll sem allir bjuggu um skeið í Breiðadal.[114] Árið 1703 var sá þessara bræðra sem bar nafn föður síns kominn að Selakirkjubóli.[115]

Árið 1681 voru liðin fjögur ár frá því Bjarni Bjarnason í Breiðadal var færður á bál við Öxará og brenndur fyrir galdra. Þá bjuggu hér í Neðri-Breiðadal þrír bændur, þeir Páll Bjarnason, Jón Lífgjarnsson og Skeggi Guðmundsson.[116] Allir voru þeir leiguliðar og í heimild frá þessu ári sést að á búi Páls Bjarnasonar var eitt og hálft innstæðukúgildi og eitt kúgildi sem hann átti sjálfur.[117] Þar hefur bústofninn því verið ein kýr og níu ær eða fimmtán ær og engin kýr. Af bændunum þremur sem bjuggu í Neðri-Breiðadal árið 1681 var Jón Lífgjarnsson sá eini sem stóð hér enn fyrir búi árið 1703.[118] Hann var þá orðinn 53ja ára gamall og í manntalinu frá 1703 sjáum við að kona hans, sem hét Guðrún Þorleifsdóttir, var á sama aldri.[119] Árið 1703 voru hér fjögur býli með nítján heimilismenn samtals.[120] Í þeim hópi var elst Hallný Sigmundsdóttir, 65 ára veislukerling hjá Halldóri bónda Bjarnasyni og Ragnhildi Sigmundsdóttur konu hans.[121] Líklegt er að veislukerlingin hafi verið mágkona Halldórs bónda því ekki var nema níu ára aldursmunur á þeim Sigmundsdætrum, Hallnýju og Ragnhildi.[122]

Halldór Bjarnason, sem bjó í Neðri-Breiðadal árið 1703, var sonur Bjarna Bjarnasonar í Breiðadal sem brenndur var á báli árið 1677.[123] Aðrir synir þessa sama galdramanns og bræður Halldórs voru Eyjólfur Bjarnason á Seljalandi í Skutulsfirði, Páll Bjarnason og Bjarni Bjarnason, nefndur Bjarni yngri til aðgreiningar frá föður sínum.[124] Þeir Páll og Bjarni, sem hér voru síðast nefndir, munu hafa búið um lengri eða skemmri tíma í Breiðadal[125] en árið 1703 bjó Bjarni yngri Bjarnason á Selakirkjubóli.[126]

Í handritasafni Hins íslenska bókmenntafélags er að finna fjöldann allan af gömlum sálmum, meðal annars tvo sem skrifarinn segir vera eftir Halldór B.s. í Breiðadal.[127] Sálmaskáld þetta hlýtur að hafa átt heima í Breiðadal í Önundarfirði því engir bæir á Íslandi hafa borið það nafn nema Fremri- og Neðri-Breiðadalur sem við þekkjum hér. Ljóst er einnig að föðurnafn Halldórs þess í Breiðadal sem sálmana orti hefur byrjað á bókstafnum B því í handritinu er hann nefndur Halldór B.s. og stendur s-ið fyrir son. Böndin berast því að Halldóri Bjarnasyni sem hér var nefndur en hann bjó eins og áður sagði í Neðri-Breiðadal árið 1703. Ekki er kunnugt um neinn annan Halldór sem til greina gæti komið og má telja nær fullvíst að það sé þessi Halldór sem ort hafi nýnefnda sálma.

Báðir sálmarnir eru kvöldsálmar og í nýnefndu handriti er bent á að annan þeirra megi syngja undir laginu Ó vér syndum setnir.[128] Í þessum sálmi Halldórs í Breiðadal eru sex vers[129] og hið fyrsta svona:

 

Herrann himins og landa,

hjartanlegt lof sé þér,

að eymd og alls kyns vanda

í dag vékstu frá mér.

Aldrei um ævi mína

orð þitt taktu frá mér.

Lát mig lifa og skína

í ljómandi dýrð frá þér.

Guð vaki yfir mér.

Guðs engill veri hér.

Guði lof syngjum vér.[130]

 

Í hinum kvöldsálminum sem Halldór í Breiðadal er sagður hafa ort eru 14 vers, öll stutt[131] og hið fyrsta á þessa leið:

 

Einn dagur vorrar ævi hér

einu sinni nú liðinn er.

Eilíf guðdómsins eining þrenn

ævinlega þig lofum enn.[132]

 

Halldór Bjarnason í Breiðadal fékkst sannanlega við skriftir því til er uppskrift hans af ættartölubók séra Sigurðar Jónssonar í Ögri og er hún varðveitt í Landsbókasafni.[133]

Halldór bjó enn í Neðri-Breiðadal árið 1710 og hefur þá verið orðinn sjötugur ef marka má aldur hans í manntalinu frá 1703.[134] Árið 1710 bjó hann með 2 kýr, 15 ær, 9 sauði tvævetra eða eldri 10 veturgamla sauði, 14 lömb og 1 hest.[135] Hinir bændurnir tveir, sem þá bjuggu hér, voru með álíka stór bú en þeir hétu Lífgjarn Jónsson og Guðmundur Arason.[136] Líklegt verður að telja að Lífgjarn hafi verið sonur Jóns Lífgjarnssonar sem áður var nefndur og bjó hér bæði 1681 og 1703.

Einn þriggja bænda, sem bjuggu í Neðri-Breiðadal árið 1735 eða þar um bil, var Þorleifur Hannesson.[137] Hann mun þá hafa verið kominn yfir sjötugt því talið er að þetta sé sami maður og bjó fertugur að aldri á Laugabóli í Mosdal árið 1703[138] (sjá hér Laugaból í Mosdal). Þorleifur var sonur Hannesar Einarssonar skálds á Kleifum í Gilsfirði en faðir Hannesar og afi Þorleifs var séra Einar Guðmundsson á Stað á Reykjanesi.[139] Móðir Þorleifs þessa Hannessonar í Breiðadal var Vigdís, dóttir Jóns Þorlákssonar, lögréttumanns á Firði í Múlasveit, en hann var sonur Þorláks Einarssonar, sýslumanns á Núpi í Dýrafirði.[140] Móðursystir Þorleifs í Breiðadal var Ingibjörg Jónsdóttir en eiginmaður hennar, Ari Pálsson úr Arnarfirði, var brenndur fyrir galdra á Alþingi árið 1681 (sjá hér Lokinhamrar). Tuttugu og tveimur árum síðar var ekkja galdramannsins til heimilis hjá þessum systursyni sínum, Þorleifi Hannessyni, sem þá átti heima á Laugabóli í Mosdal og seinna fluttist hingað að Breiðadal (sjá hér Lokinhamrar). Hugsanlegt er að Ketill Þorleifsson, sem bjó 33ja ára gamall á Ytri-Veðrará árið 1762 (sjá hér Ytri-Veðrará), hafi verið sonur Þorleifs Hannessonar í Neðri-Breiðadal en um það er þó ekkert hægt að fullyrða.

Árið 1753 var Þórður Hallsson einn þriggja bænda í Neðri-Breiðadal en árið 1762 bjó hann á Kirkjubóli í Bjarnardal og var þá 55 ára gamall.[141] Kona Þórðar Hallssonar var Guðríður Pálsdóttir frá Kvíanesi í Súgandafirði og munu þau hafa eignast sex börn.[142] Guðríður dó 16. apríl 1804 á Kirkjubóli í Bjarnardal[143] og mun þá hafa verið á tíræðisaldri því á manntalinu frá 1801 er hún sögð vera 91 árs ekkja á Kirkjubóli.[144] Þar dvaldist hún hjá syni sínum, Guðlaugu Þorðarsyni,[145] en hann bjó seinna á Mosvöllum og varð úti á Gemlufallsheiði árið 1812 (sjá hér Kirkjuból í Bjarnardal)

Annar tveggja sambýlismanna Þórðar Hallssonar í Neðri-Breiðadal árið 1753 hét Sighvatur Jónsson[146] en níu árum síðar var Jón Sighvatsson einn bændanna sem hér bjuggu.[147] Jón var þá 37 ára[148] en nær aldarfjórðungi síðar, þann 23. apríl 1788, varð hann bráðkvaddur milli bæja.[149]

Hér var þess áður getið að árið 1762 var Elín Hjaltadóttir, ekkja Markúsar Bergssonar sýslumanns, orðin eigandi allrar jarðarinnar í Neðri-Breiðadal (sjá hér bls. 7) en hún og hennar niðjar munu hafa átt jörðina í allmarga áratugi. Árið 1801 bjó hér sonardóttir Elínar og nafna, Elín Hjaltadóttir yngri, ásamt manni sínum, Páli Þórðarsyni, en þau voru þá eigendur jarðarinnar (sjá hér bls. 7-8). Páll og Elín voru gefin saman í hjónaband haustið 1786[150] og munu hafa hafið búskap í Neðri-Breiðadal um svipað leyti eða skömmu síðar. Elín fæddist um 1750 og var dóttir séra Hjalta Markússonar frá Ögri sem um skeið var aðstoðarprestur í Holtsprestakalli og dó árið 1761.[151] Kona séra Hjalta og móðir Elínar var Gróa, dóttir séra Sigurðar Sigurðssonar sem lengi var prestur í Holti.[152]

Páll Þórðarson, bóndi í Neðri-Breiðadal, var níu árum yngri en Elín kona hans ef marka má aldur þeirra í manntalinu frá 1801 en hann er þar sagður 43ja ára gamall en hún 52ja.[153] Foreldrar Páls voru Þórður Jónsson, sem bjó á Selakirkjubóli árið 1762, og kona hans, Anna Bjarnadóttir.[154] Þau Páll og Elín í Neðri-Breiðadal voru talsvert efnaðri en almennt var um slétta bændur (sjá hér Mosvallahreppur, inngangskafli) og mun sá auður ekki síst hafa komið frá Elínu því hún var af embættismannaættum eins og hér hefur verið rakið. Ekki verður nú séð með auðveldum hætti á hversu mörgum hundruðum Páll Þórðarson bjó hér í Neðri-Breiðadal en tvíbýli var á jörðinni 1801 og 1805 og á fyrstu mánuðum ársins 1812 bjuggu hér þrír bændur (sjá hér bls. 17).[155] Í jarðabókinni frá 1805 er tekið fram að Páll sé hreppstjóri og sjálfseignarbóndi.[156] Hann var líka formaður á áttæring og reri frá Kálfeyri á vorin. Í mannskaðanum mikla vorið 1812 fórust sjö bátar úr Önundarfirði með allri áhöfn og einn þeirra var bátur Páls í Breiðadal sem hann var formaður á (sjá hér Mosvallahreppur, inngangskafli). Með Páli drukknaði Hjalti sonur hans sem þá var um tvítugsaldur, eina lifandi fædda barnið er þau hjónin höfðu eignast.[157]

Við uppskrift á dánarbúum þeirra sem fórust í mannskaðanum mikla voru eignir Páls í Breiðadal, að frádregnum skuldum, virtar á 568 ríkisdali og 11 skildinga sem var þrefalt hærri fjárhæð en hjá nokkrum öðrum úr hópi þeirra 49 manna úr Mosvallahreppi og Mýrahreppi sem drukknuðu þennan sama dag, 6. maí 1812 (sjá hér Mosvallahreppur, inngangskafli). Á þessu sést að Páll hefur reyndar mátt kallast stórefnamaður sé miðað við þann kvarða sem almenningi var tamast að nota. Til glöggvunar skal þess getið að kýrverðið var á þessum tíma um það bil 15 ríkisdalir[158] svo skuldlausar eignir dánarbúsins í Neðri-Breiðadal hafa numið um það bil 38 kýrverðum.

Eina jörðin sem Páll átti var Neðri-Breiðadalur en við uppgjör á dánarbúinu var hún metin á 432 ríkisdali.[159] Hvert jarðarhundrað hefur því verið talið 18 ríkisdala virði. Aðrar eignir Páls í Breiðadal voru virtar á 185 ríkisdali og 27 skildinga en þar til frádráttar komu skuldir upp á liðlega 49 ríkisdali.[160] Við skipti á dánarbúinu kom andvirði 352ja ríkisdala og 22ja skildinga í hlut ekkjunnar, sem m.a. fékk 15½ hundrað í jörðinni, en aðrir erfingjar voru þrjár systur Páls, þær Guðlaug, Margrét og Ólöf Þórðardætur, og bróðurdóttir hans Margrét Friðriksdóttir á Mosvöllum.[161]

Þegar Elín Hjaltadóttir í Neðri-Breiðadal missti eiginmann sinn og einkason þeirra í sjóinn vorið 1812 var hún 62ja ára gömul eða því sem næst. Að syninum Hjalta, sem fórst með föður sínum, önduðum átti hún enga niðja á lífi og stóð því ein uppi að kalla. Hún hélt þó áfram búskap í Neðri-Breiðadal og var þar með tíu manns í heimili 1. desember 1816.[162] Í manntalinu sem þá var tekið er Guðrún Jónsdóttir, 38 ára gömul, skráð næst Elínu og sögð vera fósturdóttir hennar.[163] Guðrún var fædd á Brekku í Dýrafirði og þegar hún giftist árið 1805 færði presturinn líka til bókar að hún væri fósturdóttir Páls Þórðarsonar og Elínar konu hans í Neðri-Breiðadal.[164] Eiginmaður Guðrúnar var Greipur Oddsson en hann fórst líka í mannskaðanum mikla vorið 1812 með Páli fóstra hennar. Þrír bændur úr Neðri-Breiðadal drukknuðu þá allir sama daginn, þeir Páll Þórðarson, Greipur Oddsson og Jón Jónsson (sjá hér Mosvallahreppur, inngangskafli). Greipur var frá Kirkjubóli í Korpudal, sonur hjónanna Odds Jónssonar og Margrétar Bjarnadóttur (sjá hér Kirkjuból í Korpudal). Þegar hann fórst var hann 33ja ára gamall eða því sem næst.[165] Dóttir Greips Oddssonar og Guðrúnar konu hans var Gróa Greipsdóttir, sem giftist Guðna Jónssyni á Kirkjubóli í Valþjófsdal,[166] en árið 1816 var hún 8 ára gömul með móður sinni á heimili Elínar Hjaltadóttur í Neðri-Breiðadal.[167]

Guðrún móðir hennar, ekkja Greips Oddssonar, hafði þá eignast aðra dóttur sem einnig fylgdi móður sinni.[168] Sú hét Ingibjörg og fæddist 16. ágúst 1814.[169] Faðir að henni var norðlenskur maður, Sigurður Björnsson að nafni.[170] Þegar manntal var tekið 1. desember 1816 var ekkjan Guðrún Jónsdóttir í Neðri-Breiðadal hins vegar alveg nýlega gift ungum manni sem þar átti heima og hét Páll Guðmundsson[171] en hann var sonur Guðmundar Ólafssonar sem árið 1816 bjó í Neðri-Breiðadal í tvíbýli á móti Elínu Hjaltadóttur, fóstru Guðrúnar.[172] Talsverður aldursmunur var á Guðrúnu og seinni eiginmanni hennar því þegar þau giftust var Páll 22ja ára en hún 38 ára.[173] Með Páli manni sínum fluttist Guðrún frá Breiðadal til Súgandafjarðar árið 1823 og þar fórst hún í snjóflóðinu á Norðureyri í desembermánuði árið 1836.[174] Þuríðir dóttir hennar, sem hún hafði eignast með seinni eiginmanninum, bjargaðist hins vegar úr snjóflóðinu og lifði af (sjá hér Norðureyri).

Þess var áður getið að frá Neðri-Breiðadal hefðu farist þrír bændur í mannskaðanum mikla vorið 1812. Hér hefur þegar verið gerð nokkur grein fyrir tveimur þeirra, Páli Þórðarsyni og Greipi Oddssyni, en sá þriðji hét Jón Jónsson og var talinn 36 ára þegar hann drukknaði (sjá hér Mosvallahreppur, inngangskafli). Ólafur Þ. Kristjánsson telur líklegt að Jón hafi verið sonur Jóns Sigurðssonar og Rannveigar Jónsdóttur sem bjuggu á Hóli í Firði árið 1801[175] en sé það rétt hafa hjón þessi náð að Vestf. ættir II, 432koma upp a.m.k. þremur Jónum því tvo Jóna Jónssyni áttu þau heima á  Hóli árið 1801, báða milli tektar og tvítugs.[176]

Þegar Jón Jónsson í Neðri-Breiðadal drukknaði vorið 1812 hafði hann verið í hjónabandi í 12 ár.[177] Kona hans hét Guðrún Oddsdóttir og árið 1801 voru þau í húsmennsku á Efstabóli.[178] Börn Jóns Jónssonar og Guðrúnar Oddsdóttur sem náðu að lifa voru ekki mörg því að í skiptabókinni frá 1812 segir við nafn Jóns: Erfingjar eru ekkjan og hennar dóttir, Jóhanna Jónsdóttir, 10 vikna.[179] Jóhanna hefur því verið eina barn þeirra sem þá var á lífi. Hún fluttist með móður sinni frá Neðri-Breiðadal til Súgandafjarðar árið 1821.[180] Þar giftist hún Guðlaugi Þorsteinssyni haustið 1839 en skömmu eftir 1840 hófu þau búskap á Hóli á Hvilftarströnd (sjá hér Hóll á Hvilftarströnd).

Hér hefur áður verið fjallað um mannskaðann mikla vorið 1812 þegar 49 menn sem reru frá verstöðvum í Önundarfirði drukknuðu þann 6. maí. Ef marka má sögur sem lifðu á vörum fólks hundrað árum síðar munu einhverjir Önfirðingar hafa trúað því að flækingur einn, Jón Guðmundsson að nafni, sem kallaður var Jón rassband hafi valdið hinum mikla mannskaða með galdrakukli sínu (sjá hér Mosvallahreppur, inngangskafli). Einnig hefur komist á prent sú saga að Elín gamla Hjaltadóttir í Neðri-Breiðadal hafi fáum árum síðar orðið flækingi þessum að bana með því að láta hann drekka sjóblandaða sýru.[181] Sagan er á þess leið:

 

Allmörgum árum eftir mannskaðann var Jón á ferð yfir Breiðadalsheiði. Veður var heitt og gerðist hann móður og þyrstur af göngunni. Hann heldur heim að Breiðadal, ber þar að dyrum og biður að gefa sér að drekka. Í Breiðadal bjó þá ekkja eins af formönnum þeim sem drukknuðu í mannskaðaveðrinu. Hún heldur til dyra og ber strax kennsl á þann sem kominn var. Biður hún Jón að doka við meðan hún nái í drykkjarblöndu. Hraðar hún för sinni niður í flæðarmál sem er örskammt frá bænum, nær þar í lítið eitt af sjó, blandar hann með sýru og ber gesti sínum. Tók Jón við og slokaði stórum þvi að hann var þyrstur mjög. Er hann hafði teygað um hríð var sem úr honum drægi allan þrótt, hneig hann niður eins og magnlaust flykki og var þegar dauður. Var þess getið til að sjórinn hefði verið honum miður hollur      … .[182]

 

Ekkjan sem hér kemur við sögu hlýtur að vera Elín Hjaltadóttir, sem átt hafði Pál Þórðarson fyrir eiginmann, því engin önnur formannsekkja stóð fyrir búi í Neðri-Breiðadal á þessum árum og Fremri-Breiðadal er hægt að útiloka því flæðarmálið er sagt hafa verið örskammt frá bænum. Í prestsþjónustubókum frá Holti verður ekki séð að nefndur flækingur hafi dáið í Breiðadal eða annars staðar í prestakallinu[183] og því með öllu fráleitt að taka söguna trúanlega. Líklegt er að saga þessi hafi fyrst verið spunnin upp þegar flestir þeirra sem mundu vorið 1812 voru komnir undir græna torfu og þá í því skyni að fylla upp í frásagnir af hinum harmsögulega atburði og koma til móts við tilfinningar sem kölluðu á hefnd.

Árið 1816 bjó Guðmundur Ólafsson í Neðri-Breiðadal í tvíbýli á móti Elínu Hjaltadóttur[184] sem hér var áður frá sagt. Hann fæddist í Ytri-Hjarðardal um 1750, sonur Ólafs Sumarliðasonar er þar bjó en um nafnið á móður Guðmundar er ekki vitað.[185] Fyrri kona Guðmundar Ólafssonar var Þuríður Pálsdóttir frá Kvíanesi í Súgandafirði og þar bjuggu þau í allmörg ár undir lok 18. aldar.[186] Árið 1801 voru þau á Suðureyri í Súgandafirði[187] og árið 1805 var Guðmundur bóndi og hreppstjóri þar.[188] Ellefu árum siðar var hann kominn að Neðri-Breiðadal og orðinn ekkjumaður. Bústýra hans var þá Herdís Árnadóttir, dóttir Árna Bárðarsonar sem lengi bjó í Dalshúsum í Valþjófsdal[189] (sbr. hér Kirkjuból í Valþjófsdal (Dalshús)). Þann 1. nóvember 1817 voru þau Guðmundur og Herdís gefin saman í hjónaband.[190] Hann var þá 66 ára en hún 31 árs[191] svo að aldursmunurinn var 35 ár. Með fyrri konu sinni mun Guðmundur hafa eignast átta börn[192] og úr þeim hópi má nefna Ólaf, sem drukknaði 18 ára gamall sumarið 1800 með Jóni Bjarnasyni á Gelti, Steinvöru, sem giftist Magnúsi Ólafssyni á Eyri, Finn, sem varð bóndi á Hvilft, og Pál sem gerðist bóndi í Neðri-Breiðadal.[193] Dóttir Finns Guðmundssonar á Hvilft og konu hans, Karitasar Ívarsdóttur, var Ragnheiður sem giftist Magnúsi Einarssyni er lengi bjó á Hvilft og gerði þar garðinn frægan (sjá hér Hvilft).

Með sinni seinni konu eignaðist Guðmundur Ólafsson í Neðri-Breiðadal þrjá syni, Guðmund, sem varð bóndi á Suðureyri í Súgandafirði, og þá Ólaf og Jón sem báðir drukknuðu ókvæntir á þrítugsaldri með Guðna Jónssyni á Kirkjubóli í Valþjófsdal þann 10. janúar 1852[194] (sbr. hér Suðureyri og Kirkjuból í Valþj.d.). Guðmundur Ólafsson mun hafa verið bóndi í Neðri-Breiðadal til dauðadags en hann andaðist 17. mars 1829.[195] Herdís ekkja hans bjó áfram á parti úr jörðinni og stóð hér enn fyrir búi árið 1835.[196] Hún andaðist árið 1840 á Kirkjubóli í Valþjófsdal.[197]

Haustið 1816 gekk Páll, sonur Guðmundar Ólafssonar í Neðri-Breiðadal, að eiga Guðrúnu Jónsdóttur sem misst hafði eiginman sinn, Greip Oddsson, í sjóinn vorið 1812 eins og fyrr var getið.[198] Þau Páll og Guðrún hófu skömmu eftir giftinguna búskap í Neðri-Breiðadal og árið 1821 höfði þeir feðgar, Páll og Guðmundur faðir hans, alla jörðina til ábúðar.[199] Guðmundur var þá orðinn sjötugur og bjó með eina kú, tólf ær, tvö lömb og einn hest en Páll var 27 ára og bjó með þrjár kýr, einn kálf, fimmtán ær, fjóra gemlinga, átta lömb og einn hest.[200] Búskaparár Páls Guðmundssonar í Neðri-Breiðadal urðu hins vegar færi en búast mátti við því árið 1823 fluttist hann ásamt fjölskyldu sinni til Súgandafjarðar.[201] Þar átti hann heima næstu 14 árin[202] og var húsmaður á Suðureyri í febrúarmánuði árið 1835, nefndur vefari í manntali sem þá var tekið.[203] Guðrún kona hans fórst í snjóflóðinu á Norðureyri í desember 1836 eins og hér hefur áður verið nefnt og árið 1837 fluttist Páll úr Súgandafirði að Kirkjubóli í Valþjófsdal.[204] Hann var þá 43ja ára gamall og sumarið 1838 kvæntist hann í annað sinn og gekk þá að eiga Helgu Örnólfsdóttur sem var dóttir Örnólfs ríka á Suðureyri Snæbjörnssonar.[205] Sambúð þeirra varð stutt því Páll andaðist 5. febrúar 1839 á Kirkjubóli.[206] Með fyrri konunni, Guðrúnu Jónsdóttur, eignaðist hann dótturina Þuríði sem varð ein af mörgum barnsmæðrum Guðbrandar Jónssonar er nefndur var Barna-Brandur[207] (sjá hér Bær í Súgandafirði). Með seinni konunni, Helgu Örnólfsdóttur, eignaðist Páll Guðmundsson svo soninn Pál sem varð óðalsbóndi á Kleifum í Skötufirði.[208]

Árið 1830 var Vigfús Eiríksson orðinn bóndi í Neðri-Breiðadal og bjó hér fyrst á móti Herdísi Árnadóttur, ekkju Guðmundar Ólafssonar.[209] Vigfús fæddist á Stað á Snæfjallaströnd árið 1800 en foreldrar hans voru séra Eiríkur Vigfússon, prestur þar, og kona hans, Ragnheiður Halldórsdóttir.[210] Árið 1812 var séra Eiríki veittur Staður í Súgandafirði[211] og þangað mun Vigfús hafa flust með foreldrum sínum þá um vorið. Úr Súgandafirði fluttist Vigfús að Ytri-Hjarðardal í Önundarfirði árið 1824 og er þá nefndur verkstjóri.[212] Fjórum árum síðar, haustið 1828, gekk prestssonur þessi frá Stað að eiga Þorkötlu Ásgeirsdóttur en hún var dóttir séra Ásgeirs prófasts í Holti Jónssonar og konu hans, Rannveigar Matthíasdóttur.[213] Brúðurin var þá 25 ára en brúðguminn þremur árum eldri.[214]

Þau Vigfús og Þorkatla munu hafa byrjað búskap í Neðri-Breiðadal vorið 1829 eða 1830[215] og hér bjuggu þau æ síðan uns Vigfús andaðist árið 1855 en hann fórst í snjóflóði á Breiðadalsheiði 12. nóvember á því ári eins og hér hefur áður verið greint frá (sjá hér Fremri-Breiðadalur).

Vigfús Eiríksson var talinn forstandsmaður og ágætur smiður. Vann hann jafnan mikið að smíðum og við smíðar hafði hann verið í Skutulsfirði þegar hann fórst á heimleið þaðan haustið 1855 (sjá hér Fremri-Breiðadalur). Þegar Vigfús var rúmlega þrítugur var hann gerður að hreppstjóra í Mosvallahreppi og um skeið var hann bæði hreppstjóri og forlíkunarmaður[216] en svo voru þeir menn nefndir sem falið var á hendur að leita sátta í deilum sem upp komu manna á milli. Vegna anna við smíðarnar mun Vigfús stundum hafa átt erfitt með að sinna búi sínu sem skyldi og svo virðist sem Björn bróðir hans hafi verið eins konar ráðsmaður hjá honum um skeið. Til þess bendir a.m.k. titillinn sem Birni er valinn í manntalinu frá 1840 en þar er hann sagður vera umsjónarmaður hjá Vigfúsi bróður sínum.

Árið 1837 bjó Vigfús á 8 hundruðum í Neðri-Breiðadal en 1850 hafði hann hér 12 hundruð til ábúðar, helming jarðarinnar.[217] Baðstofan sem Vigfús smiður og fjölskylda hans bjuggu í var í meðallagi stór, 7 álnir á lengd og 4 álnir á breidd.[218] Hún hefur því verið um það bil 11 fermetrar. Hæðin frá gólfi og upp í mæni var aðeins 3,45 metrar.[219] Samt var loft í þessum bæ[220] og hafi hæðin verið hin sama bæði uppi og niðri hefur stórvaxið fólk orðið að beygja sig þegar gengið var um, bæði á baðstofuloftinu og niðri í húsinu. Fyrir baðstofudyrunum var hurð.[221] Gólfflötur í búrinu sem Þorkatla Ásgeirsdóttir, eiginkona Vigfúsar, hafði til umráða var 7 fermetrar og enn minna var eldhúsið, tæplega 6 fermetrar.[222] Bæjargöngin, sem lágu frá baðstofu til útidyra, voru sex metrar á lengd og breiddin liðlega einn metri.[223] Heyhlöður voru bæði við fjós og fjárhús.[224]

Bú Vigfúsar í Neðri-Breiðadal virðist ekki hafa verið öllu stærra en í meðallagi því árið 1837 bjó hann með tvær kýr og tólf ær.[225] Árið 1850 var ærtalan óbreytt en þá voru kýrnar orðnar þrjár og saman áttu þeir Vigfús og Magnús Einarsson á Hvilft eitt naut.[226] Á fyrstu búskaparárum Vigfúsar höfðu ærnar reyndar verið mun fleiri þvi árið 1830 voru þær 20 og náðu að verða 25 árið 1834.[227] Í byrjun búskapar síns í Neðri-Breiðadal átti Vigfús engan bát[228] en árið 1837 var hann kominn með bát sem var tveggja eða þriggja manna far.[229] Seinna eignaðist hann stærri bát sem var sexæringur eða fjögra manna far og átti 1850 báða þessa báta.[230]

Þau Vigfús smiður í Breiðadal og Þorkatla kona hans náðu að koma upp fjórum börnum.[231] Synir þeirra sem upp komust voru tveir, Guðni sem síðast bjó í Efrihúsum í Hestþorpinu (sjá hér Hestur) og Kristján sem byrjaði búskap í Neðri-Breiðadal skömmu áður en faðir hans andaðist.[232]

Á þeim árum sem Vigfús Eiríksson bjó í Neðri-Breiðadal var hér jafnan tvíbýli eða þríbýli.[233] Fyrstu árin bjó Vigfús á móti ekkjunni Herdísi Árnadóttur eins og hér hefur áður verið nefnt. Enginn sambýlismanna Vigfúsar náði að búa hér mjög lengi en úr þeirra hópi má nefna Guðmund Bernharðsson sem var hér við bú 1835 og 1840 og Helga Guðmundsson sem bjó hér 1840 og 1845.[234] Guðmundur, sem andaðist í Breiðadal sumarið 1843, var sonur Bernharðar Guðmundssonar er bjó á Kirkjubóli í Korpudal um skeið[235] (sbr. hér Kirkjuból í Korpudal). Kona Guðmundar hét Guðrún Jónssdóttir og var fædd á Borg í Reykhólasveit árið 1795.[236] Um Helga Guðmundsson, sem bjó hér í fáein ár um og upp úr 1840, skal þess getið að hann var sonur Guðmundar Ketilssonar frá Ytri-Veðrará sem gerðist verslunarþjónn á Skutulsfjarðareyri og konu hans, Sigríðar Helgadóttur[237] (sbr. hér Ytri-Veðrará). Árið 1850 bjó Jón Sveinsson á móti Vigfúsi smið hér í Neðri-Breiðadal,[238] sá eldri tveggja bræðra frá Hesti sem báðir hétu Jón en frá þeim báðum hefur áður verið sagt í þessu riti (sjá hér Innri-Veðrará og Fremri-Breiðadalur). Síðustu sambýlismenn Vigfúsar Eiríkssonar í Neðri-Breiðadal voru svo Jón Guðmundsson sem kom í Önundarfjörð norðan frá Djúpi og hér hefur áður verið nefndur (sjá hér Kirkjuból í Korpudal) og Kristján sonur Vigfúsar en þeir bjuggu hér báðir árið 1855, síðasta árið sem Vigfús lifði.[239]

Kristján Vigfússon fæddist í Neðri-Breiðadal 24. október 1831 og var eins og áður sagði sonur hjónanna Vigfúsar Eiríkssonar og Þorkötlu Ásgeirsdóttur sem hér bjuggu. Haustið 1852 kvæntist Kristján stúlkunni Marsibil Kjartansdóttur frá Tröð sem var lítið eitt eldri en hann, fædd 1829.[240] Um svipað leyti eða mjög skömmu síðar hófu þau búskap á jarðarparti í Neðri-Breiðadal og árið 1855, þegar Kristján var 24 ára gamall, var hann orðinn hreppstjóri.[241] Hann sinnti þá fleiru en búskapnum og gaf sig að smíðum eins og faðir hans. Báðir voru þeir við smíðar norður í Skutulsfirði haustið 1855 og á heimleið þaðan yfir Breiðadalsheiði þegar snjóflóð varð Vigfúsi að bana (sjá hér Fremri-Breiðadalur). Fáum árum síðar fluttist Kristján yfir í Valþjófsdal og þar var hann bóndi á Kirkjubóli árið 1860.[242] Ári síðar missti hann konuna[243] og varð því ekkjumaður rétt um þrítugt.

Með Marsibil konu sinni eignaðist Kristján 5 börn og tveimur árum eftir andlát hennar kvæntist hann í annað sinn og gekk þá að eiga Björgu Jónsdóttur en foreldrar hennar voru Jón Guðmundsson og Þuríður Kolbeinsdóttir á Hesti.[244] Með Björgu eignaðist Kristján aðeins eitt barn sem fæddist reyndar andvana haustið 1863 og mun Björg hafa andast af þeim barnsförum.[245] Ekki vildi Kristján þó hætta að sinna kvenfólkinu og trúlofaðist mjög skömmu síðar Guðrúnu Eiríksdóttur frá Hrauni á Ingjaldssandi.[246] Með henni eignaðist hann tvö börn á árunum 1864 og 1865 en af þeim fæddist bara annað lifandi.[247] Síðari barnsfæðingin varð Guðrúnu ofraun og dó hún eftir barnsburð 14. nóvember 1865, ógift vinnukona í Neðrihúsum.[248] Á árunum 1868-1872 bjó Kristján með ekkjunni Guðrúnu Mósesdóttur og voru þau á Innri-Veðrará árið 1870.[249] Með henni eignaðist hann þrjú börn (sjá hér Innri-Veðrará). Kristján Vigfússon náði ekki háum aldri því hann andaðist 42ja ára gamall 18. febrúar 1874.[250] Hann hafði þá eignast ellefu börn með fjórum konum.[251]

Árið 1860 var Björn Eiríksson, bróðir Vigfúsar smiðs, orðinn bóndi á jarðarparti í Neðri-Breiðadal[252] en 20 árum fyrr hafði hann verið hér umsjónarmaður á búi Vigfúsar bróður síns (sjá hér bls. 22). Björn fæddist á Stað á Snæfjallaströnd árið 1798 og kvæntist í desembermánuði árið 1825 Valgerði Benediktsdóttur frá Blámýrum í Ögursveit.[253] Þau hjónin voru systrabörn en mæður þeirra voru þó ekki nema hálfsystur.[254] Árið 1816 var Björn hjá foreldrum sínum á Stað í Súgandafirði[255] og þar munu þau Valgerður hafa búið á sínum fyrstu búskaparárum.[256] Seinna bjuggu þau á Gelti og á Meiri-Bakka í Skálavík.[257] Árið 1840 voru þau hjá Vigfúsi, bróður Björns, hér í Neðri-Breiðadal en 1845, 1850 og 1855 var Björn Eiríksson bóndi á Mosvöllum.[258] Frá Mosvöllum komu þau Björn og Valgerður að Neðri-Breiðadal á árunum milli 1855 og 1860 eða um svipað leyti og Kristján Vigfússon, bróðursonur Björns, fór þaðan.[259] Búskaparár Björns Eiríkssonar hér í Neðri-Breiðadal urðu ekki mörg því hann andaðist rúmlega hálfsjötugur 19. maí 1864.[260] Dóttir Björns Eiríkssonar og Valgerðar konu hans, sem Ólöf hét, og eiginmaður hennar, Jón Jónsson sem kallaður var Jón stóri, munu hins vegar hafa staðið lengur fyrir búi í Neðri-Breiðadal en nokkurt annað 19. aldar fólk eða eigi skemur en í 35 ár.

Jón Jónsson, sem menn nefndu Jón stóra, var fæddur á Selakirkjubóli 11. apríl 1825, sonur Jóns Jónssonar og Valgerðar Guðmundsdóttur.[261] Hann kvæntist Ólöfu Björnsdóttur haustið 1853[262] en foreldrar hennar bjuggu þá á Mosvöllum eins og hér hefur áður verið nefnt. Ólöf var fjórum árum yngri en Jón en fyrir hjónaband hafði hún eignast dótturina Ingibjörgu Guðmundsdóttur sem gerði Magnúsi Hjaltasyni lífið ljúft um sinn og hér var áður frá sagt (sjá hér Fremri-Breiðadalur). Þau Jón og Ólöf hófu búskap í Neðri-Breiðadal um svipað leyti og foreldrar Ólafar og eigi síðar en 1858.[263] Hér bjuggu þau síðan alla tíð uns Jón andaðist 68 ára gamall eða því sem næst árið 1893.[264] Ólöf Björnsdóttir var enn í Neðri-Breiðadal árið 1901, á heimili dóttur sinnar,[265] og hér mun hún hafa dáið 1902.[266] Þau Kristján Jónsson og Sólbjört kona hans bjuggu í Neðri-Breiðadal allt til ársins 1929 (sjá Firðir og fólk 1900-1999, 416).

Á búskaparárum Jóns stóra Jónssonar og Ólafar konu hans var oft þríbýli á jörðinni og stundum voru heimilin a.m.k. fjögur því hér var þá líka þurrabúðarfólk.[267] Þau Jón og Ólöf áttu nokkur börn en telja má víst að þessi fjölskylda hafi einkum lifað á sjósókn því búið var í minnsta lagi, ein kýr, ein kvíga og átta ær árið 1860[268] en ein kýr, sex ær og þrír gemlingar árið 1880.[269] Við þennan bústofn má svo bæta einum hesti[270] en í búnaðarskýrslum frá árunum 1860, 1870 og 1880 verður ekki séð að nokkur bátur hafi verið í eigu stóra Jóns í Breiðadal.[271]

Um það leyti sem Jón stóri Jónsson féll frá tóku dóttir hans og tengdasonur við búi. Þessi dóttir þeirra Ólafar hét Sólbjört en maður hennar var Kristján Jónsson sem fæddist í Otradalssókn haustið 1846.[272] Hann var 18 árum eldri en kona hans en þau gengu í hjónaband 11. mars 1891 þegar brúðurin var 26 ára.[273] Kristján hafði áður verið giftur annarri konu sem hét Ásta Guðmundsdóttir og bjuggu þau í Tungu í Valþjófsdal árið 1870 en á Hóli í Firði árið 1880.[274] Með fyrri konunni eignaðist hann níu börn sem flest dóu ung en börn þeirra Sólbjartar urðu átta.[275]

Á búskaparárum Kristjáns og Sólbjartar stóð Margrét Jónsdóttir lengst fyrir öðru heimili í Neðri-Breiðadal. Hún kom þangað með manni sínum, Jóni Andréssyni, árið 1881.[276] Þau höfðu þá verið búsett í Bolungavík í nokkur ár en þar áður í Innri-Hjarðardal.[277] Jón Andrésson fæddist á Flateyri árið 1849 en Margrét kona hans á Gilsbrekku í Súgandafirði árið 1843.[278] Í sóknarmannatölum frá árunum 1881-1883 eru þau sögð vera húsfólk í Neðri-Breiðadal en þegar Jón drukknaði norður í Bolungavík 6. maí 1884 segir prestur hann hafa verið bónda í Breiðadal.[279] Í úttektabók Mosvallahrepps er staðfest að Jón bjó síðast á 12 hundruðum í Neðri-Breiðadal[280] en að honum látnum treysti ekkja hans sér ekki til að búa á svo mörgum hundruðum og sleppti öllu þessu jarðnæði vorið 1884 nema þremur hundruðum.[281] Á þeim bjó hún áfram allt til ársins 1921 (sjá Firðir og fólk 1900-1999, 416) ef frá eru talin árin 1898-1904 en þá voru Jón Jónsson sonur hennar og Friðgerður Jóhannsdóttir kona hans talin fyrir búinu og Margrét í heimili hjá þeim.[282] Jón og Friðgerður fluttust að Selakirkjubóli árið 1916 (sjá Firðir og fólk 1900-1999, 416-417) en höfðu þá verið húsfólk á heimili Margrétar hér í Breiðadal í tólf ár ef marka má sóknarmannatöl prestanna.[283]

Þau Kristján Jónsson og Sólbjört kona hans, sem áður voru nefnd, bjuggu í Neðri-Breiðadal allt til ársins 1929 en á því ári miðju dó Kristján[284] og var þá orðinn 82ja ára gamall. Eitt barna Kristjáns Jónssonar og Sólbjartar konu hans var Mikkael sem gerðist bóndi í Fremri-Breiðadal.[285] Á árunum milli 1930 og 1940 var Sólbjört ráðskona þar hjá syni sínum en með konu sinni, Ingibjörgu Jónsdóttur, bjó Mikkael Kristjánsson í Fremri-Breiðadal frá 1941-1982 (sjá Firðir og fólk 1900-1999, 415).

Annað barn Kristjáns Jónssonar og Sólbjartar Jónsdóttur í Neðri-Breiðadal var Ásta Sóllilja sem fædd var árið 1892. Hún giftist Jens Jónssyni frá Fjallaskaga, syni Jóns Gabríelssonar sem þar bjó,[286] og bjuggu þau Jens um alllangt skeið í Minna-Garði í Dýrafirði (sjá Firðir og fólk 1900-1999, 281).

Nafnið Sóllilja mun engin stúlka hafa borið á undan þeirri sem fæddist hér í Breiðadal árið 1892. Faðir hennar, sem átt hafði Ástu fyrir eiginkonu og var nú kvæntur Sólbjörtu, vildi gefa dótturinni nöfn beggja þessara eiginkvenna sinna eða önnur lík.[287] Ákveðið var að fyrra nafnið yrði Ásta en sem seinna nafn komu meðal annarra til greina Sólrós, Sólfjóla og Sóllilja.[288] Sólbjört móðir telpunnar mun þá hafa lagt til að nafnið yrði Ásta Sóllilja og féllst Kristján bóndi á þá tillögu hennar.[289]

Þegar Sjálfstætt fólk, hin mikla og merkilega skáldsaga Halldórs Laxness, kom út á árunum 1934 og 1935 komst nafnið Ásta Sóllilja, á margra varir því í sögunni lætur Halldór dóttur Bjarts í Sumarhúsum, bera þetta nafn og þar er stúlkan sú í stóru og eftirminnilegu hlutverki. Hugsanlegt er að nafnið Ásta Sóllilja, sem Halldór gaf stúlkunni í Sumarhúsum, hafi verið hans eigin hugarsmíð en líklegra er þó hitt að hann hafi með einhverjum hætti heyrt eða séð þetta fagra en fágæta nafn sem engin kona hafði borið nema dóttir Sólbjartar í Breiðadal. Um tengsl skáldskapar og veruleika, sem þarna kynnu að leynast, veit að líkindum enginn nú en hugsunin um þau verður áleitnari þegar fleiri nöfn eru borin saman. Í Breiðadal voru mæðgurnar Sólbjört og Ásta Sóllilja og þegar stúlkan frá Sumarhúsum eignaðist dóttur kaus hún að nefna hana Björt. Með því nafni er auðvitað vísað til Bjartar en merkilegt er að í skáldsögu Halldórs bera mæðgurnar nær sömu nöfn og mæðgurnar í Breiðadal –  Ásta Sóllilja og Björt, Sólbjört og Ásta Sóllilja. Skrýtin og skemmtileg tilviljun er það að minnsta kosti ef ekki kemur fleira til.

Af því sem hér var áður ritað má sjá að niðjar Björns Eiríkssonar, sem hóf búskap í Neðri-Breiðadal ásamt dóttur sinni og tengdasyni skömmu fyrir 1860, hafa búið á jörðinni í býsna marga áratugi. Þegar Sólbjört dótturdóttir Björns fór héðan að Fremri-Breiðadal árið 1930 voru liðin meira en sjötíu ár frá því foreldrar hennar og afi hennar og amma hófu hér búskap á árunum milli 1855 og 1860 og heil öld frá því Vigfús Eiríksson afabróðir hennar reisti bú í Neðri-Breiðadal (sjá hér bls. 21-22). Allan þann tíma, frá 1830 til 1930, höfðu þessir sömu ættmenn búið hér, fyrst Vigfús svo Kristján sonur hans og síðan Björn Eiríksson, bróðir Vigfúsar og hans niðjar. Við hlið Sólbjartar og Kristjáns eiginmanns hennar höfðu dóttir Kristjáns frá fyrra hjónabandi hans, Kristín Ragnheiður að nafni, og eiginmaður hennar, Þórður Sigurðsson, búið í Neðri-Breiðadal allt frá árinu 1901.[290]  Þegar Kristján dó og Sólbjört ekkja hans fór að Fremri-Breiðadal héldu Þórður og Kristín áfram búskap í Neðri-Breiðadal og síðan niðjar þeirra allt til ársins 1974 (sjá Firðir og fólk 1900-1999, 416). Séu búskaparár þessarar stjúpdóttur Sólbjartar, Kristínar Kristjánsdóttur, og svo hennar niðja talin með lengist enn sá tími sem þetta náskylda og nátengda fólk hefur ráðið hér húsum og kemst upp í 144 ár. Við þá tölu má svo bæta þeim  árum sem nú (1999) eru liðin frá árinu 1974 en á öllu þessi síðasta skeiði hefur Halldór Mikkaelsson, sonarsonur Sólbjartar, verið bóndi á þessari sömu jörð.

Ýmsir bændur sem stóðu utan við niðjahóp séra Eiríks Vigfússonar bjuggu í Neðri-Breiðadal á síðari hluta 19. aldar en flestir aðeins skamma hríð. Einn þeirra stóð hér þó býsna lengi fyrir búi en það var Guðmundur Guðmundsson frá Hóli á Hvilftarströnd sem byrjaði búskap sinn í Neðri-Breiðadal vorið 1860 og bjó hér uns hann fluttist að Bæ í Súgandafirði árið 1881.[291] Guðmundur Guðmundsson í Neðri-Breiðadal var fæddur að Hóli á Hvilftarströnd 27. desember 1833, sonur hjónanna Guðmundar Pálssonar og Halldóru Guðmundsdóttur sem lengi bjuggu þar en áður á Höfða í Dýrafirði.[292] Árið 1858 gekk Guðmundur að eiga Þuríði Markúsdóttur frá Kroppstöðum[293] og þaðan fluttust þau að Neðri-Breiðadal 1860 (sjá hér Kroppstaðir og Bær). Hjónin Guðmundur og Þuríður voru systrabörn en afi og amma beggja voru hjónin Guðmundur Guðmundsson og Elísabet Bjarnadóttir á Hóli á Hvilftarströnd.[294]

Þegar Guðmundur Guðmundsson og Þuríður kona hans hófu búskap í Neðri-Breiðadal byrjuðu þau með 3 kýr, 17 ær, 6 gemlinga og 1 hest[295] sem mátti kallast allgóður bústofn á þeirrar tíðar vísu. Tuttugu árum síðar var bú þeirra hins vegar nokkru minna eða 2 kýr, 11 ær, 6 gemlingar, 1 hestur og eitt tryppi.[296] Guðmundur átti þá lítinn bát sem var tveggja eða þriggja manna far.[297] Á búskaparárum sínum í Neðri-Breiðadal náðu Guðmundur og Þuríður að koma á legg fjórum börnum sem öll voru orðin stálpuð eða uppkomin þegar þau fluttust til Súgandafjarðar. Eitt barna þeirra var Anna, kona Kristjáns Bjarna Guðmundssonar á Flateyri, en bræður hennar, Markús og Halldór, settust að í Súgandafirði[298] og áttu þar langa ævi.

Ástæða þess að þau Guðmundur Guðmundsson og Þuríður kona hans fluttust frá Breiðadal til Súgandafjarðar árið 1881 kynni að hafa verið sú að fáum árum áður urðu tún hans engi og hagar fyrir mjög miklum skemmdum af völdum skriðu sem féll haustið 1878.[299] Auk Guðmundar bjuggu þá í Neðri-Breiðadal tveir aðrir bændur, þeir Jón Jónsson, sem nefndur var Jón stóri (sjá hér bls. 25), og Jón Jónsson sem nefndur var Jón Gróuson og brátt verður frá sagt. Allir urðu þeir fyrir miklum skaða af völdum skriðuhlaupanna haustið 1878 en land Guðmundar fór þó verst. Vorið 1879 voru tilkvaddir matsmenn sendir á vettvang til að meta þennan mikla skaða og í álitsgerð þeirra segir meðal annars svo:

 

Guðmundur Guðmundsson, sem býr á 12 hundruðum að fornu mati, álítum við að hafi misst fullkomlega þrjá fjórðu parta af engi og sem svarar 9 hestum af töðu sökum skriðu og aurs er fallið hefur á túnið. Sakir þessara stórskemmda álítum við bæði rétt og sanngjarnt að leigurnar af hans parti verði settar niður um helming og sama er um landskuldina að segja. … Það er semsjé ekki nóg með það að slægjur á túni og engjum hafi svona rýrnað til stórbaga, heldur hefur einnig kúahagi – meðfram hesta- og fjárhagi – og torfrista eyðilagst að mestu leyti.

Jón Jónsson, sem býr á 8 hundruðum að fornu mati, álítum við hafi misst þrjá fjórðu parta af engi og sem svarar einum hesti af töðu.

Jón Gróuson, sem býr á 4 hundruðum að fornu mati, álítum við hafi misst helming af engi og sem svarar tveimur hestum af töðu.[300]

 

Eins og álitsgerð matsmannanna ber með sér hafa þetta verið geigvænleg skriðuföll og má ætla að engi og hagar hafi verið býsna mörg ár að ná fyrri gæðum.

Oft bar ferðamenn að garði í Neðri-Breiðadal á þeim árum sem hjónin Guðmundur Guðmundsson og Þuríður Markúsdóttir áttu hér heima og stundum komu flakkarar. Einn þeirra varð Guðmundi bónda minnisstæðari en flestir aðrir og var það Jóhann beri. Jóhann var Húnvetningur sem flakkaði víða um land, fór einförum og hafðist við í útihúsum um nætur.[301] Viðurnefni sitt fékk hann af því að klæði hans voru öll rifin og héngu við hann í flygsum svo víða skein í holdið bert.[302] Væri honum gefin heil rýja að kvöldi var hún jafnan sundurtætt að morgni og sagði Jóhann ásókn drauga valda þeim ósköpum.[303]

Um 1873 var Jóhann beri á flakki um Vestfirði. Fór hann þá meðal annars um Önundarfjörð.[304] Oftast gekk hann með fjallsrótum og fór svo stundum heim til bæja en dvaldist um nætur í útihúsum.[305] Aldrei þáði hann mat nema af bónda eða húsfreyju og var furðu naskur á að þekkja þau úr.[306] Í þessari ferð kom hann meðal annars að Neðri-Breiðadal til þeirra Guðmundar og Þuríðar. Frá komu hans hingað sagði Guðmundur síðar en Magnús Hjaltason sem hlýddi á frásögn hans færði söguna í þennan búning:

 

− Þá var það einu sinni um vorvertíðarlok er verið var að skera í gröfum [það er taka upp mó K.Ó.] að árla morguns, er Guðmundur bóndi kom út, gekk stór maður ókennilegur frá fjárhúsum í Neðri-Breiðadal heim til bæjar. Hann hitti Guðmund bónda á bæjarhlaði. Eigi heilsaði hann honum en fór á eftir honum til baðstofu er hann bauð honum. Gestur þessi var úrvinda af þreytu eða „eins og maður sem hafði verið í bardaga”.

Klæði hans voru öll rifin svo að þau héngu í tægjum um hann. Þetta var Jóhann beri. Húsfreyja gaf honum nú að borða og át hann úr sjö marka skál af skyri og graut auk harðætis. Fiskinn át hann sér í lagi og sömuleiðis smjörið en það sem hann leifði af því bar hann á fætur sér en þeir voru næstum alls berir, aðeins héngu um þá larfar af sokkum og skóm. Eftir að Jóhann beri hafði matast lagðist hann upp í rúm (eins og hann kom fyrir) og svaf til kvölds. Þegar fólkið kom heim úr gröfunum vaknaði hann. Var honum þá gefið að borða og át hann sem fyrr. Guðmundur bóndi bauð honum þá að gefa honum sokka af sér en eigi þáði hann þá í það skipti. Þegar farið var að hátta dró Jóhann sig ofan og út í fjárhús og var þar um nóttina. Um morguninn kom hann heim og var honum gefinn matur og þá þáði hann nýja mórauða sokka er Guðmundur bóndi gaf honum. Sagði Guðmundur svo síðar frá að sér hefði þótt vænt um að Jóhann þáði sokkana því að nakleiki hans hefði runnið sér til rifja.[307]

 

Við þessa sögu Guðmundar bætir Magnús nokkrum orðum um Jóhann og segir:

 

Eftir eirðarlaust flakk í 20 ár hætti Jóhann beri öllum ferðalögum, fór heim í sína sveit og gerðist rólegur í geði en nokkuð undarlegur og þungsinna. Jóhann beri hafði verið mesta svolamenni á vöxt, með ávalar herðar og stóð mörgum stuggur af honum. En meinlaus var hann svo að hann gerðist ekki upp á neinn, voldugan né vesalan. Hann var talinn skynsamur.[308]

 

Á síðasta þriðjungi 19. aldar var oftast eitthvað af húsfólki eða þurrabúðarmönnum búsett í Neðri-Breiðadal, stundum tvær fjölskyldur í senn.[309] Sumt af þessu fólki hafði reyndar eitt, tvö eða þrjú jarðarhundruð til ábúðar[310] og gat því alið nokkrar kindur. Á árunum 1885 til 1893 var Jón Jónsson, sem kallaður var Jón stóri, í rauninni eini bóndinn í Neðri-Breiðadal[311] nema síðasta árið á þessu skeiði en þá hafði Kristján tengdasonur hans, sem fyrr var nefndur, tekið þar við búskapnum.[312] Jón bjó þó aldrei nema á hálfri jörðinni[313] en hin hálflendan var nytjuð frá Flateyri og af húsfólki hér í Breiðadal.[314] Á árunum 1884-1894 hafði Jónas Th. Hall, verslunarstjóri Ásgeirsverslunar á Flateyri, umráð yfir meira en þriðjungi jarðarinnar[315] og mun sá partur hafa verið nytjaður frá Flateyri. Allt frá árinu 1893 var Jóhann Guðmundsson í Fremri-Breiðadal líka með umráð yfir liðlega einum sjötta parti úr Neðri-Breiðadal og heyjaði þar.[316] Mun sú skipan hafa haldist allt þar til Jóhann andaðist vorið 1901.[317]

Úr hópi þurrabúðarmanna í Neðri-Breiðadal á síðustu áratugum 19. aldar má nefna Jón Ólafsson sem átti hér heima árið 1870, þá 45 ára gamall, og Friðrik Tómas Hjalta Jónsson sem hér var árið 1880, þá 59 ára gamall.[318] Báðir voru þeir kvæntir.[319] Jón Ólafsson var fæddur í Tálknafirði um 1825 en fluttist úr Arnarfirði í Önundarfjörð árið 1858.[320] Friðrik T. H. Jónsson mun einnig hafa fæðst árið 1825 en hann var sonur Jóns Sveinssonar Vídalín, sem nefndur var gartner, og konu hans, Guðrúnar Tómasdóttur[321] frá Hrauni á Ingjaldssandi (sjá hér Horn í Mosdal og Flateyri). Bróðir Friðriks var Arngrímur Vídalín skipherra í Ytri-Hjarðardal.

Sá þurrabúðarmaður sem lengst allra hafðist við í Neðri-Breiðadal var Jón Jónsson, sem almennt var nefndur Jón Gróuson, en hann átti hér heima frá 1867 eða 1868 til 1894.[322] Á þessum 26 eða 27 árum mun hann þó stundum hafa haft hér einhver lítilfjörleg jarðarafnot og hafði til dæmis liðlega einn áttunda part úr jörðinni til ábúðar á árunum 1882-1884.[323] Í manntalinu frá 1870 er hann hins vegar sagður vera þurrabúðarmaður og síðustu 10 árin sem Jón var í Neðri-Breiðadal virðist hann ekki hafa haft neinn part úr jörðinni til ábúðar.[324]

Jón Gróuson fæddist á Kirkjubóli í Valþjófsdal 30. nóvember 1825 en foreldrar hans voru ógift vinnuhjú, Jón Jónsson og Gróa Jónsdóttir.[325] Við fæðingu piltsins skráir prestur að þetta sé 3. lausaleiksbrot föðurins en 2. brot móðurinnar.[326] Gróa Jónsdóttir fæddist á Mosvöllum árið 1790 og var dóttir hjónanna Jóns Magnússonar og Hallberu Guðmundsdóttur[327] en þau hafa áður verið nefnd á þessum blöðum (sjá hér Tannanes). Alls mun Gróa hafa eignast þrjú börn, sitt með hverjum, en þau fæddust 1814, 1825 og 1829.[328] Óvíst er nú af hvaða ástæðum Jón var kenndur við móður sína en vera má að með því hafi menn aðeins viljað greina hann frá öðrum Jónum Jónssonum. Þess var oft full þörf og má sem dæmi nefna að um 1890 voru þrír Jónar Jónssynir í Neðri-Breiðadal, allir á svipuðum aldri, en það voru Jón stóri sem áður var frá sagt (sjá hér bls. 25), Jón Gróuson og svo Kaldár-Jón sem hér er gerð grein fyrir á öðrum stað (sjá hér Kaldá).[329]

Jón Gróuson mun hafa alist upp í Valþjófsdal og þar var hann árið 1838 á Kirkjubóli.[330] Árið 1849 var Jón vinnumaður á Þorfinnsstöðum[331] en fjórum árum síðar, sumarið 1853, gekk hann að eiga Margréti Jónsdóttur frá Tungu í Valþjófsdal en brúðhjón þessi voru systkinabörn því Jón Jónsson, faðir brúðarinnar, var móðurbróðir brúðgumans.[332] Móðir Margrétar var Guðrún, dóttir Árna Bárðarsonar[333] sem bjó í Dalshúsum í Valþjófsdal um aldamótin 1800 (sjá hér Kirkjuból í Valþjófsdal (Dalshús)). Þegar Jón kvæntist Margréti frænku sinni var hann 27 ára en hún var þá 42ja, fædd 24. ágúst 1811.[334]

Þau Jón Gróuson og Margrét kona hans fóru skömmu eftir giftinguna að búa á jarðarparti á Tannanesi og þar voru þau 1855 og 1860.[335] Gróa móðir Jóns var þar hjá þeim en hún andaðist af ellilasburðum 28. apríl 1860.[336] Árið sem Gróa dó var bústofn Jóns sonar hennar þessi: Ein kýr, ein kvíga, tíu ær með lömbum og ein geld, sex gemlingar og eitt tryppi.[337] Ekki náði Jón Gróuson að eignast börn með konu sinni,[338] enda var hún orðin nokkuð roskin þegar þau voru pússuð saman. Fram hjá henni eignaðist hann hins vegar að minnsta kosti eitt barn, soninn Greip sem fæddist 1860 og dó 1861.[339] Barnsmóðirin var ung stúlka, Guðný Jónsdóttir, fædd 1837, dóttir hjónanna Jóns Björnssonar og Guðríðar Bjarnadóttur sem lengi bjuggu á Tannanesi[340] en fluttust þaðan að Kirkjubóli í Korpudal vorið 1860 (sjá hér Tannanes).

Árið 1870 var Jón Gróuson kominn að Neðri-Breiðadal og er nefndur þurrabúðarmaður í manntali frá því ári.[341] Þá voru hér tveir Jónar Jónssynir og bjó annar þeirra með eina kú, tvær ær og eitt tryppi en hinn með sjö ær, fjóra gemlinga, einn hest og eitt tryppi.[342] Líklega er Jón Gróuson sá kýrlausi en ekki er það samt alveg víst. Í búnaðarskýrslu frá árinu 1880 er Jón hins vegar nefndur Jón Gróuson svo þar fer ekkert á milli mála en þá var karlinn kýrlaus með fimm ær, fjóra gemlinga og einn hest.[343] Margrét kona Jóns var þá enn á lífi en hún andaðist 17. júní 1883 hér í Neðri-Breiðadal.[344]

Árið 1890 var Jón Gróuson húsmaður hjá nafna sínum Jóni stóra Jónssyni í Neðri-Breiðadal og var þá sagður lifa á landbúnaði.[345] Héðan fór hann loks að Hóli á Hvilftarströnd árið 1894 og var þá orðinn 68 ára gamall en frá Hóli fluttist hann í Súgandafjörð árið 1896.[346] Þar settist hann að í Bæ[347] og var þar 1. nóvember 1901 hjá Guðrúnu Sigurðardóttur, búandi ekkju, orðinn hálfáttræður.[348] Á sama heimili var þá líka móðir húsfreyjunnar, Guðný Jónsdóttir frá Tannanesi,[349] hin gamla barnsmóðir Jóns Gróusonar sem hafði alið honum son fyrir liðlega 40 árum. Síðustu ár ævinnar átti títtnefndur Gróusonur heima í Bæ og þar andaðist hann 12. febrúar 1903 (sjá hér Bær).

Um fólkið sem búið hefur í Neðri-Breiðadal á okkar öld verður ekki fjallað í þessu riti en með örfáum orðum skal þó minnt á hjónin Þórð Sigurðsson og Kristínu Ragnheiði Kristjánsdóttur sem fluttust hingað árið 1895 og stóðu hér fyrir búi frá 1901 til 1935[350] (sbr. Firðir og fólk 1900-1999, 416). Þórður var fæddur á Jörfa á Kjalarnesi 7. október 1868 og ólst upp í Borgarfirði við þröngan kost.[351] Til Önundarfjarðar fluttist hann á sextándi ári sumarið 1884 með séra Janusi Jónssyni sem þá tók við staðnum í Holti. Um þá búferlaflutninga og ýmislegt sem hann mundi gamall frá sínum fyrstu árum í Önundarfirði ritaði Þórður greinargóðan þátt sem prentaður er í 29. árgangi Ársrits Sögufélags Ísfirðinga.[352] Frá Hesti í Borgarfirði voru kýr séra Janusar reknar til Reykjavíkur og fluttar þaðan með skipi vestur í Önundarfjörð.[353]

Þórður Sigurðsson var vinnumaður í Holti 1884-1890 og fardagaárið 1891-1892 en veturinn 1890-1891 og veturna 1892-1893 og 1893-1894 var hann hjá Sveini Rósinkranzsyni á Hvilft.[354] Sumurin 1892 og 1893 vann hann við jarðabætur á vegum Búnaðarfélags Mosvallahrepps með Jens Guðmundssyni búfræðingi en sumarið 1894 fór Þórður fyrst í vegavinnu.[355] Á þeim vettvangi lét hann síðan mjög til sín taka og vann við vegagerð á hverju sumri í 52 ár, frá 1894-1946.[356] Um langan aldur var hann verkstjóri við vegalagningar í Önundarfirði og víðar.[357]

Haustið 1894 gekk Þórður að eiga Kristínu Ragnheiði Kristjánsdóttur, dóttur Kristjáns Jónssonar, sem þá bjó í Neðri-Breiðadal, og fyrri konu hans, Ástu Guðmundsdóttur.[358] Þegar Þórður kvæntist var hann 26 ára en brúðurin mun hafa verið fimm árum yngri.[359] Vorið 1895 fluttust ungu hjónin að Neðri-Breiðadal. Frá umsvifum sínum þar næstu tvo áratugina og skólahaldi í Breiðadal á árunum 1913-1922 sagði Þórður á þessa leið:

 

Haustið 1894, 27. október, giftum við okkur og vorum um veturinn á Hvilft. Hún var vinnukona en ég vetrarmaður. Vorið 1895 fluttum við að Breiðadal og vorum þar í húsmennsku til aldamóta. Ég var við vegagerð á sumrin en reri á haustin hjá Guðmundi Jónssyni á Görðum. Að vetrinum var ég heima, fór oft sendiferðir fyrir ýmsa á Ísafjörð og víðar, mest fyrir Hólm sem þá var verslunarstjóri á Flateyri. Líka fylgdi ég mönnum oft yfir Breiðadalsheiði sem þá var fjölfarin. Fyrstu tvö sumrin var kona mín í kaupavinnu í Holti en 4. desember 1896 fæddist fyrsta barn okkar, Sigríður. Eftir það fór Kristín ekki í kaupavinnu.

Haustið 1895 byggði ég mér lítinn bæ sem við bjuggum í fyrstu árin. Seinna stækkaði ég hann, byggði skúr við hann. Árið 1900 keypti ég part í jörðinni Neðri-Breiðadal, 9 hundruð að fornu mati, og byrjaði að búa vorið 1901.  …  Árið 1913 byggði ég nýtt hús úr steinsteypu. Mosvallahreppur lánaði mér þá 400,- krónur með þeim skilmálum að ég léði hreppnum stofu til skólahalds en þá var búið að samþykkja að hafa kennslu í Breiðadal fyrir svæðið frá Görðum inn að Tannanesi. Lánið skyldi greiðast með leigunni eftir stofuna og ákveðin fjárhæð dragast frá árlega. Var svo skóli í Breiðadal þar til hreppnum var skipt í tvö sveitarfélög og skólasvæðið slitið í sundur og skólahaldið í Breiðadal þar með úr sögunni um skeið.[360]

 

Þetta hús frá 1913 var rifið árið 1976.[361] Það var allstórt, tvær hæðir, portbyggt með kvisti.[362] Grunnflötur hússins var 12½ x 11½ alin[363] eða  56,7 fermetrar. Um 1920 voru íbúðarhús Þórðar og útihús hjá honum virt á 4.200,- krónur.[364] Bændabýli í hinum forna Mosvallahreppi voru þá milli 45 og 50 en aðeins á fjórum þeirra stóðu hús sem talin voru verðmeiri en þau sem Þórður átti.[365] Prestssetrið í Holti er þá ekki talið með. Á þessum árum hafði Þórður 14 hundruð til ábúðar hér í Neðri-Breiðadal, sjálfur átti hann 9 hundruð og hafði á leigu 5 hundruð sem Kristján Torfason á Flateyri átti.[366] Á þessum 14 hundruðum var talið að mætti framfleyta tveimur kúm, fimmtíu fjár og tveimur hrossum.[367] Úr 180 ferfaðma matjurtagarði Þórðar og Kristínar konu hans fengust þá að jafnaði 6 tunnur af garðávöxtum.[368]

Á fyrstu áratugum tuttugustu aldar voru alllengi fjögur heimili í Neðri-Breiðadal.[369] Hús Þórðar og Kristínar, sem jafnan var nefnt steinhúsið, stóð á hól alllangt fyrir neðan íbúðarhúsið sem nú er búið í (1994) og dálítið nær ánni.[370] Rétt fyrir utan steinhúsið stóð bær Margrétar Jónsdóttur (sjá hér bls. 26), sem hafði þrjú hundruð til ábúðar og átti sjálf þann jarðarpart, en spölkorn fyrir framan steinhúsið stóð bær Kristjáns Jónssonar, tengdaföður Þórðar.[371] Þessir tveir bæir voru þá jafnan nefndir ytri bær og fremri bær.[372] Margrét sem hér var nefnd var móðir Guðmundar Jónssonar á Görðum og var hún við búskap í Neðri-Breiðadal fram yfir 1920, þá komin undir áttrætt. Hún dó á Ytri-Veðrará sumarið 1925.[373]

Uppi á túninu, á svipuðum slóðum og húsið sem nú er búið í (1994), stóð svo á fyrsta fjórðungi 20. aldarinnar lítill bær sem oftast var nefndur kofinn hennar Gunnu.[374] Í kotinu því sem var aðeins eitt stafgólf áttu heima hjónin Magnús Guðlaugsson og Guðrún Guðmundsdóttir.[375] Þau bjuggu á tveimur jarðarhundruðum og sá Guðrún um búskapinn því Magnús var lengi heilsulaus[376] og dó liðlega sjötugur sumarið 1918.[377]

Um 1930 töldust túnin í Neðri-Breiðadal vera 9 hektarar og af þeim hafði Þórður 3,3 hektara.[378] Af þessum túnum fengust alls 175 hestar af töðu, þar af 65 hestar hjá Þórði.[379] Af engjunum sem fylgdu ábýli Þórðar fengust 100 hestar af útheyi en af öðrum engjum í Neðri-Breiðadal 170-180 hestar.[380] Hjá Þórði var bústofninn um þetta leyti 2 kýr, 30 sauðkindur og 2 hestar en hjá hinum tveimur bændunum, sem þá bjuggu hér, voru búin nokkru minni.[381]

Þau Þórður Sigurðsson og Kristín kona hans stóðu fyrir búi í Neðri-Breiðadal allt til ársins 1935 (sjá Firðir og fólk 1900-1999, 416) en þá tók sonur þeirra við. Kristín, kona Þórðar í Breiðadal, dó á Flateyri árið 1936[382] en Þórður ekki fyrr en 1956 og var þá kominn hátt á níræðisaldur.[383]

Við höldum nú úr hlaði og röltum fyrst svolítið um heimaland fólksins í Neðri-Breiðadal áður en stefnan verður tekin út að Selakirkjubóli. Landamerkjum jarðarinnar hefur áður verið lýst (sjá hér bls. 1 og Fremri-Breiðadalur) en fram að Þverá, sem skilur að heimalandið í Neðri-Breiðadal og landareign Fremri-Breiðadals, er aðeins 15-20 mínútna gangur. Framan við gamla túnið var kvíabólið og heitir þar Ból en þar fyrir framan er Stórholt.[384] Framan við það voru engjarnar og náðu frá Kúagötu neðst í hlíðinni og niður að Breiðadalsá.[385] Nöfn á engjapörtunum, talið frá Stórholti og fram dalinn, voru þessi: Stórholtspartur, Magnúsarpartar tveir er náðu aðeins upp að efri enda Stórholts, Grossapartur, sem Jón Gróuson (sjá hér bls. 31-33) hafði til slægna þegar hann átti heima í Breiðadal, Stóripartur og Seljaflatarpartur sem var framan við Grafarlæk.[386] Þrír síðast nefndu partarnir náðu allir upp að Kúagötu.[387] Fyrir ofan Stórholtspart og Magnúsarpartana voru Ennispartar.[388] Seljaflatarpartur liggur upp með Langholti og efst í honum, fyrir ofan Langholt, er Seljaflöt.[389]

Þessir engjapartar eru nú flestir eða allir orðnir að túni en Langholtið og Seljaflöt, sem hér voru nefnd, eru nú rétt fyrir framan túnið og liggja bæði holtið og flötin svolítið hærra en það.[390] Akvegurinn milli Neðri-Breiðadals og Fremri-Breiðadals er dálítið neðan við Langholt en holtið nær alveg fram að Þverá, sem skilur að lönd þessara tveggja jarða, og liggur það þvert á stefnu árinnar.[391] Framan við túngirðinguna er óræktað land en sundurskorið af skurðum sem skipta því í parta. Þar er Folaldadý neðan vegar og í partinum sem liggur næst þeim parti sem er rétt framan við túngirðinguna.[392] Í nánd við dýið voru áður mógrafir.[393] Lambhagar eru gamall og gróinn árfarvegur heiman við Þverá[394] og liggja upp með henni frá ármótum hennar og Langár.[395] Í Lambhögum var áður slægjuland.[396]

Í fjallshlíðinni ofan við bæinn er Bæjarhryggur en framan við hann Hjallar og Hjallagil.[397] Leiti er upp af Stórholti og Leitishryggur framan við það.[398] Ofan við Leitishrygg er Leitisgil en þá tekur við Litlaskriða og svo Stóraskriða og Nýjaskriða sem féll niður í Grossapart eftir 1920.[399] Framan við gilið sem Nýjaskriða kom úr eru Seljaklettar en framan við þá er fjallið klettalaust upp undir Hærrafjall sem svo er nefnt.[400] Nöfnin Seljaklettar og Seljaflöt benda til þess að hér hafi um eitthvert skeið verið sel. Seljaflöt er ofan við Langholt eins og hér var áður nefnt en holt þetta er svolítið ofan við akveginn og nær alveg fram að Þverá. Ekki er þó kunnugt um neinar seltóttir á þessum slóðum[401] en gamlar tóttir af slíku tagi voru áður í landi Neðri-Breiðadals framan við landareign Fremri-Breiðadals (sjá hér Fremri-Breiðadalur). Rétt neðan við Langholtið og lítið eitt heiman við Þverá er hringlaga tótt, 12-13 metrar að ummáli, og hlýtur að hafa verið einhvers konar fjárbyrgi. Önnur hringlaga tótt, um 14 metrar að ummáli, er þar beint fyrir neðan og aðeins rétt ofan við akveginn milli Neðri- og Fremri-Breiðadals. Báðar þessar tóttir eru alveg fremst í heimalandi Neðri-Breiðadals og má ætla að þarna hafi verið þaklaus sauðabyrgi, enda bendir lögun tóttanna til þess. Slík byrgi voru stundum byggð upp úr seltóttum (sjá hér Innri- og Ytri-Hjarðardalur) og ekki óhugsandi að svo hafi verið hér.

Rétt framan við Seljakletta er Urðarhjalli en neðan við hann eru tvö gil sem heita Heimara- og Fremra-Djúpagil.[402] Við gil þessi byrjar Þverdalur en um hann fellur Þverá og niður Árgil sem nær frá Sjónarhól eða Sjónarholti að Langholti sem áður var nefnt.[403] Upp í Þverdal er gott að ganga skammt frá ánni. Fjallið utan við dalinn heitir Þverdalsfjall[404] og endar í Breiðadalsstiga næst fjarðarströndinni. Handan árinnar og í landi Fremri-Breiðadals er svo fjallið Skógarhorn. Þegar komið er upp í Þverdal sjáum við brátt klettabelti í miðri hlíð Þverdalsfjalls og heitir það Svarthamrar.[405] Litlu framar er Heljarurð og upp af henni Heljarurðargil sem einnig er nefnt Illagil.[406] Fram undir dalbotninum er Stórholt og þar á holtinu sá Kristján Kristjánsson, stjúpsonur Sólbjartar Jónsdóttur í Neðri-Breiðadal, nokkrar hulduær þegar hann var unglingur að leita að kvíaám sem vantaði.[407] Mun það hafa verið nálægt aldamótunum 1900. Einu sinni heyrði hann svo glögglega óm af mannamáli í Stórholtinu en greindi ekki orðaskil.[408] Ekki lét Sólbjört sér bregða við þessar fréttir og sagði piltinum að sjálf hefði hún bæði séð fé og kýr huldufólks uppi í Þverdal og heyrt strokkhljóð í Stórholtinu þar.[409] Á slíku holti er gott að halla sér stutta stund og hver veit nema strokkhljóðið gamalkunna berist okkur til eyrna úr þöglu holtinu ef við náum að festa blund.

Ofan frá Þverdal hröðum við för okkar til baka og nemum ekki staðar fyrr en í fjörunni neðan við túnið í Neðri-Breiðadal þar sem heitir Bót.[410] Hér gengur Indriðatangi fram í Vöðin[411] en ekki fer mikið fyrir honum. Svolítið innar og rétt við ós Breiðadalsár (Langár) er annar smátangi og heitir sá Fremritangi.[412] Fram af árósnum eru steinar sem þóttu varasamir bátum er hér fóru um og heita þeir Háskasteinar.[413]Hér í Bótinni var lending þeirra sem bjuggu í Fremri- og Neðri-Breiðadal.

Yst á sjávargrundinni sem nær alveg inn að árósnum eru tóttir tveggja nausta[414] og í öðru þeirra var enn sumarið 1994 gamall bátur á hvolfi, orðinn ófær til sjóferða fyrir löngu. Hér við naustin voru líka tveir hjallar á fyrstu áratugum 20. aldar[415] og eru tóttir allra þessara bygginga enn mjög greinilegar. Ofan við grundina og nær alveg upp við bakkana virðist svo hafa verið að minnsta kosti eitt mun eldra naust. Tóttir yngri naustanna eru um það bil 6 x 2 metrar hvor að flatarmáli en hið forna naust er mun stærra, líklega 10 x 3 metrar eða því sem næst ef allt er hér sem sýnist.

Frá sjávargrundinni sem við stöndum nú á er tæplega einn kílómetri yfir í Holtsoddann. Hér fyrir utan fer sundið milli norðurstrandarinnar og sandoddans sem kenndur er við Holt mjókkandi allt þar til komið er út fyrir Oddann á móts við Selakirkjuból. Þetta mjóa sund heitir Holtsós en hann telst ná frá Breiðadalsá (Langá) og út undir Hreggnasa sem er rétt fyrir utan Selakirkjuból.[416] Um Ósinn streymir sjór inn í Vöðin á hverri flæði og út úr þeim á ný þegar fjarar.

Vegalengdin frá Neðri-Breiðadal að eyðibýlinu Selakirkjubóli, sem er næsta jörð hér fyrir utan, er um 1800 metrar. Á þeirri leið er gott að ganga fjöruna en rölta þó stundum upp á sjávarbakkana og skyggnast um. Á þessari leið er margt sem gleður augað, ekki síst fjallið Breiðadalsstigi sem við blasir á hægri hönd og hér hefur áður verið minnst á (sjá hér bls. 1).

Rétt utan við gamla heimatúnið í Neðri-Breiðadal er Bæjargil í fjallinu og neðan við það Bæjarhryggur en hvolfið sem er um miðja hlíð utan við hrygginn heitir Bæjarhvolf.[417] Klettarnir framan við Bæjargil heita Standar en hæsta fjallsnípan upp frá bænum heitir Stiganípa.[418] Skammt utan við bæjarhrygg er í fjallshlíðinni annar hryggur sem heitir Nautahryggur og ofan við hann er Nautahryggsgil sem nær niður fyrir miðja hlíð.[419] Þar skammt fyrir utan er Kúabali, uppi í fjallshlíðinni, grasgefinn teigur við innanvert Urðargil, en þangað var venja að reka kýrnar frá Neðri­-Breiðadal.[420]

Neðan við Nautahrygg er slétt og grasgefin landspilda sem heitir Traðarnes og fremst á því er Traðarnestangi sem gengur í sjó fram.[421] Á Traðarnesi stóð forðum býlið Tröð, hjáleiga frá Neðri-Breiðadal, en fór í eyði fyrir 1650. Um þetta forna eyðiból segir svo í Jarðabókinni frá 1710:

 

Tröð. Fornt eyðiból eður hjáleiga hér í landinu og sjást hér ljós byggingamerki af tóttarústum og girðingaleifum en ekki hefur hér búið verið í manna minni og er almennilega haldið að þetta býli hafi verið átta hundruð að dýrleika en þriðjungur allrar jarðarinnar og það hefur fundist skrifað á einu blaði sem til minnis hafði verið skrifað út úr einum máldaga eftir sem menn meina. Aftur mætti byggja en þó ekki fyrir utan stórskaða og eyðilegging heimajarðarinnar.[422]

 

Í jarðabók frá árinu 1805 er Traðar einnig getið og tekið fram að eyðihjáleiga þessi liggi undir Neðri-Breiðadal.[423]

Á Traðarnesi er nú ræktað tún og búið að slétta úr fornum tóttum sem líklegt er að hér hafi enn verið sjáanlegar á fyrstu áratugum tuttugustu aldar. Innantil á háhólnum hér á nesinu virðist reyndar mega greina tóttarmynd sem ekkert verður þó fullyrt um. Þessi tótt sýnist vera um tíu metrar á lengd og þrír á breidd svo ekki er ólíklegt að þarna hafi bæjarhús hins forna eyðibýlis staðið.

Utan við Traðarnes taka við Ytri-Engjar og neðst í þeim er Bakkahvolf.[424] Hér rétt fyrir utan komum við svo að Selabólsurðinni sem skiptir löndum milli Neðri-Breiðadals og Selakirkjubóls.[425] Á Urðinni, sem nú er allvel gróin, hefur fyrir nokkru verið komið upp snjóflóðavörnum ofan við veginn og standa þar í röðum allmargir keilulaga smáhaugar úr mold og öðrum jarðefnum. Selabólsurð á upptök sín í Urðarskál hér uppi í fjallinu en efst í sjálfri urðinni er Urðarhaus í svipaðri hæð og Kúabali sem hér var áður nefndur.[426] Fram undan innanverðri Urðinni gengur Urðarnes í sjó fram og á því eru Urðarbakkar.[427] Rétt utan við nesið eru landamerkin og þar var járnbolti rekinn í stein ofan við fjöruna til að sýna hvar þau liggja.[428] Við erum hér komin alveg út undir Holtsós. Einn steinninn sem við sjáum úti í ósnum er í lögun eins og hnakkur og heitir Ólafssteinn.[429] Á nafni steinsins gefa menn þá skýringu að á honum hafi farist bátur og maður sem Ólafur hét verið formaður.[430]

Frá landamerkjunum við Selabólsurð er auðvelt að ganga á tíu mínútum heim í tún á Selakirkjubóli.

 

 

 

 

 

 

– – – – – – – – – – o o o o o – – – – – – – – – –

[1] Örnefnaskrá.

[2] Óskar Einarsson 1951, 86.

[3] Örn.skrá.

[4] Halldór Mikkaelsson. – Viðtal K.Ó. við hann 30.8.1994.

[5] Ásta Þórðardóttir. – Viðtal K.Ó. við hana 15.9.1994.

[6] Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín VII, 120-121.  D.I. VIII, 359.

[7] Jarðab. Á. og P. VII, 120-121.

[8] Fasteignamatsskjöl: Gjörðabók undirmatsnefndar í V-Ís., löggilt 26.3.1919.

[9] Sama heimild.

[10] Sama heimild.

[11] Sama heimild.

[12] Sama heimild.

[13] D.I. VII, 561-566.

[14] Sama heimild, 566.

[15] Sama heimild, 561-566.

[16] Sama heimild.

[17] Íslenskar æviskrár I, 216 og V, 174.

[18] D.I. VII, 561-566.

[19] Arnór Sigurjónsson 1975, 194-198 og 273-276.

[20] D.I. VII, 562-563.

[21] D.I. VII, 562-563.

[22] Sama heimild, 562.

[23] D.I. VIII, 359. Arnór Sigurjónsson 1975, 240-256.

[24] Ísl. æviskrár I, 216 og 256-257.

[25] Arnór Sigurjónsson 1975, 240-256.

[26] Sama heimild.

[27] Sama heimild.

[28] D.I. VIII, 359.

[29] Sama heimild, 388-390.

[30] D.I. VIII, 388-390.

[31] Sama heimild, 562-563.

[32] D.I. XIII, 436-437.

[33] Ísl. æviskrár II, 86-87.

[34] D.I. XIII, 436-437.

[35] D.I. XV, 382-383.

[36] Sama heimild.

[37] Ísl. æviskrár III, 431 og V, 107.

[38] Alþ.bækur Íslands I, 24-26.

[39] Alþ.bækur Íslands I, 24-26.

[40] Sama heimild.

[41] D.I. XV, 473.

[42] Sama heimild, 522.

[43] Jarðabréf frá 16. og 17. öld. Útdrættir (Kph. 1993),bls. 104-105.

[44] Lbs. 7974to, Jarðaskrá úr Ísafj.sýslu frá árinu 1658.

[45] Lögréttumannatal, bls. 555.

[46] Lbs. 7974to, Jarðaskrá úr Ísafj.sýslu frá árinu 1695.  Sbr. Lögr.m.tal, bls. 555.

[47] Ísl. æviskrár III, 300.

[48] Sama heimild.

[49] Alþ.bækur Íslands IX, 547.

[50] Jarðab. Á. og P. VII, 120-121.

[51] Alþ.bækur Íslands X, 545-546.

[52] Sama heimild.

[53] Sama heimild.

[54] Ísl. æviskrár IV, 256.

[55] Sama heimild.

[56] Manntal 1762.

[57] Ísl. æviskrár III, 468.

[58] Alþ.bækur Íslands XIV, 83.

[59] Ísl. æviskrár I, 238-239.

[60] Sama heimild II, 363-364.

[61] Ísl. æviskrár II, 360 og IV, 256.

[62] Rtk. Jaðrabækur V. 16. – Ísafj.sýsla 1805.  Sbr. Ísl. æviskrár II, 360.

[63] Ísl. æviskrár II, 360.

[64] Manntal 1816.

[65] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1., búnaðarskýrslur 1821.

[66] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[67] J. Johnsen 1847, 195.

[68] Hsk. á Ísaf. nr. 218. Kaupbréf fyrir 12 hundruðum í jörðinni Neðri-Breiðadal, dags. 1.9.1860.

[69] Sama heimild.

[70] Sama heimild.

[71] Hsk. á Ísaf. nr. 218. Kaupbréf fyrir 9 hundruðum í jörðinni Neðri-Breiðadal, dags. 21.3.1899.

[72] Sama heimild.

[73] Sama heimild.

[74] Sama heimild.

[75] Hsk. á Ísaf. nr. 218. Kaupbréf fyrir 9 hundruðum í jörðinni Neðri-Breiðadal, dags. 21.3.1899.

[76] Manntal 1901, fylgiskjöl.

[77] Sama heimild.

[78] Fasteignamatsskjöl: Gjörðabók fasteignamatsnefndar í V-Ís., löggilt 9.3.1916.

[79] Lbs. 7974to, Jarðaskrár úr Ísafj.sýslu frá árunum 1658 og 1695.  Jarðab. Á. og P. VII, 120-121.

[80] Jarðab. Á. og P. VII, 120-121.  Jarða- og bændatöl 1752-1767, Ísafj.sýsla 1753.

[81] J. Johnsen 1847, 195.

[82] Fasteignamatsskjöl: Gjörðabók fasteignamatsnefndar í V-Ís., löggilt 9.3.1916.

[83] Sama heimild.

[84] Lbs. 7974to, Jarðaskrár úr Ísafj.sýslu frá árunum 1658 og 1695.  Jarðab. Á. og P. VII, 120-121.

Jarða- og bændatöl 1752-1767, Ísafj.sýsla 1753.  J. Johnsen 1847, 195.

[85] Fasteignamatsskjöl: Gjörðabók fasteignamatsnefndar í V-Ís., löggilt 9.3.1916.

[86] Rtk. 2. 1. Stríðshjálpin 1681.

[87] Manntal 1703.

[88] Jarðab. Á. og P. VII, 120-121. Bændatöl og skuldaskrár 1720-1765, eftirrit, Ísafj.sýsla um 1735.  Jarða- og bændatöl 1752-1767, Ísafj.sýsla 1753. Manntöl 1762, 1801, 1816, 1835, 1840, 1845, 1850, 1855, 1860, 1870 og 1880. Rtk.  Jarðabækur V. 16. – Ísafj.sýsla 1805. Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1., búnaðarskýrslur 1821 og 1830.

[89] Manntöl 1870, 1880 og 1890.

[90] Manntal 1901.

[91] Sama heimild.

[92] Sama heimild.

[93] Fasteignamatsskjöl: Gjörðabók fasteignamatsnefndar í V-Ís., löggilt 9.3.1916.

[94] Sama heimild.

[95] Rtk. 2. 1. Stríðshjálpin 1681.

[96] Alþ.bækur Íslands VII, 368-369.

[97] Skjalasafn Öxarárþings: (1) Alþingisbók 1671-1680, afrit. Mál nr. 6 frá árinu 1677.( 2) Alþingisbækur

1631-1679. Mál nr. 6 frá árinu 1677. (3) Alþingisbók 1676-1680. Mál nr. 6 frá árinu 1677.

(4) Lögmannsdómabók Þorleifs Kortssonar. Mál nr. 6 frá árinu 1677.

[98] Annálar III, 309.

[99] Alþ.bækur Íslands VII, 368-369.

[100] Theódór Árnason/Vestf. ættir IV 1968, 385.  Vestfirskar ættir I, 35-36.

[101] Alþ.bækur Íslands VII, 368-369.

[102] Þjóðsögur Jóns Árnasonar I, 528.

[103] Alþ.bækur Íslands VII 368-369.

[104] Alþ.bækur Íslands VII 368-369.

[105] Sama heimild.

[106] Sama heimild.

[107] Sama heimild.

[108] Sama heimild.

[109] Alþ.bækur Íslands VII 368-369.

[110] Sama heimild.

[111] Siglaugur Brynleifsson 1976, 194-208.

[112] Vestf. ættir I, 36.  Annálar III, 120.

[113] Theódór Árnason 1968, 385/Vestf. ættir IV.

[114] Sama heimild.

[115] Manntal 1703. Vestf. ættir I, 35-36.

[116] Rtk. 2. 1. Stríðshjálpin 1681.

[117] Sama heimild.

[118] Manntal 1703.

[119] Sama heimild.

[120] Sama heimild.

[121] Sama heimild.

[122] Sama heimild.

[123] Ættartölur Ólafs Snóksdalín, bls. 417. Theódór Árnason / Vestf. ættir IV, 385.

[124] Theódór Árnason / Vestf. ættir IV, 385.

[125] Sama heimild.

[126] Vestf. ættir I, 35-36. Manntal 1703.

[127] ÍB. 1278vo, bls. 720-724.

[128] Sama heimild. Sbr. Ein ný Psálmabók …., Hólar 1589.

[129] Sama heimild.

[130] Sama heimild.

[131] Sama heimild.

[132] ÍB. 1278vo, bls. 720-724.

[133] Lbs. 25778vo. Sbr. Theódór Árnason / Vestf. ættir IV, 363.

[134] Manntal 1703.  Jarðab. Á. og P. VII, 120-121.

[135] Jarðab. Á. og P. VII, 120-121.

[136] Sama heimild.

[137] Bændatöl og skuldaskrár 1720-1765, eftirrit, Ísafj.sýsla um 1735.

[138] Manntal 1703. Ísl. æviskrár II, 307.  Lögr.m.tal, bls. 344-345.

[139] Ísl. æviskrár I, 352-353 og II, 307.

[140] Sýslumannaæfir IV, 710.  Ísl. æviskrár II, 307.  Lögr.m.tal, bls. 344-345.

[141] Jarða- og bændatöl 1752-1767, Ísafj.sýsla 1753.  Manntal 1762.

[142] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[143] Sama heimild.

[144] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.  Manntal 1801.

[145] Manntal 1801.

[146] Jarða- og bændatöl 1752-1767, Ísafj.sýsla 1753.

[147] Manntal 1762.

[148] Manntal 1762.

[149] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[150] Sama heimild.

[151] Ísl. æviskrár II, 360.

[152] Sama heimild.

[153] Manntal 1801.

[154] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.  Sbr. Manntal 1762.

[155] Manntal 1801.  Rtk. Jarðabækur V. 16. – Ísafj.sýsla 1805.

[156] Rtk. Jarðabækur V. 16. – Ísafj.sýsla 1805.

[157] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[158] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XII. 2. Skiptabók 1811-1825.

[159] Sama heimild.

[160] Sama heimild.

[161] Sama heimild.

[162] Manntal 1816.

[163] Sama heimild.

[164] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[165] Vestf. ættir II, 432.

[166] Vestf. ættir II, 432.

[167] Manntal 1816.

[168] Sama heimild.

[169] Sama heimild.  Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[170] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[171] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[172] Manntal 1816.

[173] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[174] Sama heimild.

[175] Sama heimild. Sbr. Manntal 1801.

[176] Manntal 1801.

[177] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[178] Manntal 1801.

[179] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XII. 2. Skiptabók 1811-1825.

[180] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[181] Frá ystu nesjum II, 136.

[182] Sama heimild.

[183] Prestsþj.b. Holts í Önundarf.

[184] Manntal 1816.

[185] Ól. Þ Kr. / Önfirðingar.

[186] Sama heimild.

[187] Manntal 1801.

[188] Rtk. Jarðabækur V. 16. – Ísafj.sýsla 1805.

[189] Manntal 1816.  Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[190] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[191] Vestf. ættir II, 439 og 449.

[192] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[193] Sama heimild.

[194] Vestf. ættir II, 449 og 453.

[195] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[196] Manntal 1835.

[197] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[198] Sama heimild.

[199] Sama heimild.  Manntal 1816.  Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1., búnaðarskýrslur 1821.

[200] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1., búnaðarskýrslur 1821.

[201] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[202] Sama heimild.

[203] Sama heimild.  Manntal 1835.

[204] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[205] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[206] Sama heimild.

[207] Eyjólfur Jónsson 1980, 134-136 (Ársrit S.Í.).

[208] Ól. Þ. Kr. 1945, 147 og 159.

[209] Skj.s. sýslum. og sv.stj´Ís. XX. 1., búnaðarskýrslur 1830.

[210] Ól. Þ. Kr.  1945, 147 og 159 (Frá ystu nesjum III).

[211] Ísl. æviskrár I, 425-426.

[212] Ól. Þ. Kr. 1945, 159.

[213] Ísl. æviskrár I, 92-93.  Ól. Þ. Kr. 1945, 159.

[214] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[215] Sama heimild.  Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1., búnaðarskýrslur 1830.

[216] Manntöl 1835 og 1840.

[217] VA III, 407 og 412, búnaðarskýrslur 1837 og 1850.

[218] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Mosv.hr. 6. Úttektabók 1835-1874, bls. 89-91.

[219] Sama heimild.

[220] Sama heimild.

[221] Sama heimild.

[222] Sama heimild.

[223] Sama heimild.

[224] Sama heimild.

[225] VA III, 407, búnaðarskýrsla 1837.

[226] VA III, 412, búnaðarskýrsla 1850.

[227] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1., búnaðarskýrslur 1830 og 1834.

[228] Sama heimild.

[229] VA III, 407, búnaðarskýrslur 1837.

[230] VA III, 412, búnaðarskýrslur 1850.

[231] Ól. Þ. Kr. 1945, 159-160 (Frá ystu nesjum III).

[232] Ól. Þ. Kr. 1945, 159-160.  Manntal 1855.

[233] Manntöl 1835, 1840, 1845, 1850 og 1855.

[234] Manntöl 1835, 1840 og 1845.

[235] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[236] Sama heimild.

[237] Sama heimild.

[238] Manntal 1850.

[239] Manntal 1855.  Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[240] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[241] Manntal 1855.

[242] VA III, 417, búnaðarskýrslur 1860.

[243] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[244] Sama heimild.

[245] Sama heimild.

[246] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[247] Sama heimild.

[248] Sama heimild.

[249] Sama heimild.  Manntal 1870.

[250] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[251] Sama heimild.

[252] Manntal 1860.

[253] Ól. Þ. Kr. 1945, 156-157 (Frá Ystu nesjum III).

[254] Sama heimild, 150-154 og 156-157.

[255] Manntal 1816.

[256] Ól. Þ. Kr. 1945, 156-157.

[257] Sama heimild.

[258] Manntöl 1840, 1845, 1850 og 1855.

[259] Manntöl 1855 og 1860.

[260] Ól. Þ. Kr. 1945, 156-157.

[261] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[262] Sama heimild.

[263] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[264] Manntöl 1860, 1870, 1880 og 1890.  Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[265] Manntal 1901.

[266] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[267] Manntöl 1860, 1870, 1880 og 1890.

[268] VA III, 417, búnaðarskýrslur 1860.

[269] VA III, 424, búnaðarskýrslur 1880.

[270] Sama heimild.

[271] VA III, 417, 421 og 424, búnaðarskýrslur 1860, 1870 og 1880.

[272] Manntal 1901.  Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[273] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[274] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[275] Sama heimild.

[276] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Holts í Önundarf og Hóls í Bolungavík.

[277] Sömu heimildir.

[278] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[279] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[280] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Mosv.hr. 7. Úttektabók 1875-1905, bls. 41.

[281] Sama heimild.

[282] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[283] Sama heimild.

[284] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[285] Sama heimild.

[286] Ól. Þ. Kr. 1945, 157.

[287] Jenna Jensdóttir. – Viðtal K.Ó. við hana 15.6.1994.

[288] Sama heimild.

[289] Sama heimild.

[290] Þórður Sigurðsson 1986, 33 (Ársrit S.Í.).

[291] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[292] Ól. Þ. Kr. 1949, 105-109 (Frá ystu nesjum V).

[293] Sama heimild.

[294] Ól. Þ. Kr. 1949, 97-115 (Frá ystu nesjum V).

[295] VA III, 417, búnaðarskýrslur 1860.

[296] VA III, 424, búnaðarskýrslur 1880.

[297] Sama heimild.

[298] Ól. Þ. Kr. 1949, 109.

[299] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Mosv.hr. 7. Úttektabók 1875-1905, bls. 7-8.

[300] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Mosv.hr. 7. Úttektabók 1875-1905, bls. 7-8.

[301] Lbs. 27364to, bls. 78-83 (Magnús Hjaltason).

[302] Sama heimild.

[303] Sama heimild.

[304] Sama heimild.

[305] Sama heimild.

[306] Sama heimild.

[307] Lbs. 27364to, bls. 78-83 (M.Hj.).

[308] Sama heimild.

[309] Manntöl 1870, 1880 og 1890.

[310] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Mosv.hr. 5. Hreppsbók 1883-1912.

[311] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Mosv.hr. 5. Hreppsbók 1883-1912.

[312] Sama heimild.

[313] Sama heimild.

[314] Sama heimild.

[315] Sama heimild.

[316] Sama heimild.  Lbs. 22164to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 11.7.1893.

[317] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Mosv.hr. 5. Hreppsbók 1883-1912.

[318] Manntöl 1870 og 1880.

[319] Manntöl 1870 og 1880.

[320] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[321] Sama heimild.

[322] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[323] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Mosv.hr. 5. Hreppsbók 1883-1912.

[324] Sama hreppsbók.

[325] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[326] Sama heimild.

[327] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[328] Sama heimild.

[329] Manntal 1890. Sbr. Lbs. 22164to og 22174to, Dagbækur M. Hj. frá árunum 1892 og 1893.

[330] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[331] Sama heimild.

[332] Vestf. ættir II, 438-439.

[333] Vestf. ættir II, 438-439.

[334] Sama heimild.

[335] Manntöl 1855 og 1860.

[336] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[337] VA III, 417, búnaðarskýrslur 1860.

[338] Vestf. ættir II, 438-439.

[339] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[340] Sama heimild.

[341] Manntal 1870.

[342] VA III, 421, búnaðarskýrslur 1870.

[343] VA III, 424, búnaðarskýrslur 1880.

[344] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[345] Manntal 1890. Sbr. Halldór Kristjánsson 1994, 144 (Ársrit S.Í.).

[346] Sóknarm.töl og prestsþj.b. Holts í Önundarf.

[347] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[348] Manntal 1901.

[349] Sama heimild.

[350] Þórður Sigurðsson 1986, 33. (Ársrit Sögufél. Ísf.).

[351] Sama heimild, 13.

[352] Sama heimild, 13-35.

[353] Sama heimild, 14-19.

[354] Sama heimild, 13-32.

[355] Sama heimild, 31-33.

[356] Þórður Sigurðsson 1986, 33. (Ársrit Sögufél. Ísf.).

[357] Ársrit Sögufélags Ísfirðinga 1968, 149.

[358] Þórður Sigurðsson 1986, 32-33.  Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[359] Manntal 1901.

[360] Þórður Sigurðsson 1986, 33-34.

[361] Halldór Mikkaelsson – Viðtal K.Ó. við hann 30.8.1994.

[362] Fasteignamatsskjöl: Gjörðabók undirmatsnefndar í V-Ís., löggilt 26.3.1919.

[363] Sama heimild

[364] Fasteignabók 1921.

[365] Fasteignabók 1921.

[366] Fasteignamatsskjöl: Gjörðabók undirmatsnefndar í V-Ís., löggilt 26.3.1919.

[367] Sama heimild.

[368] Sama heimild.

[369] Ásta Þórðardóttir. – Viðtal K.Ó. við hana 15.9.1994.

[370] Sama heimild.

[371] Ásta Þórðardóttir. – Viðtal K.Ó. við hana 15.9.1994.

[372] Sama heimild.

[373] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[374] Ásta Þórðardóttir. – Viðtal K.Ó. við hana 15.9.1994.

[375] Sama heimild.

[376] Sama heimild.

[377] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[378] Fasteignabók 1932.

[379] Sama heimild.

[380] Sama heimild.

[381] Fasteignabók 1932.

[382] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[383] Ársrit Sögufélags Ísfirðinga 1986, 13.

[384] Óskar Ein. 1951, 87.

[385] Sama heimild.

[386] Örn.skrá.

[387] Óskar Ein. 1951, 87.

[388] Sama heimild.

[389] Örnefnaskrá.

[390] Halldór Mikkaelsson. – Viðtal K.Ó. við hann 30.8.1994.

[391] Sama heimild.

[392] Sama heimild.

[393] Örn.skrá.

[394] Sama heimild.

[395] Halldór Mikkaelsson. – Viðtal K.Ó. við hann 30.8.1994.

[396] Örn.skrá.

[397] Sama heimild.

[398] Sama heimild.

[399] Sama heimild.

[400] Sama heimild.

[401] Sama heimild.

[402] Örn.skrá.

[403] Sama heimild og Óskar Ein. 1951, 87-88. Sbr. Vestfirskar þjóðsögur III, 32.

[404] Óskar Ein. 1951, 88.

[405] Sama heimild.

[406] Sama heimild.

[407] Vestf. þjóðsögur III, 1, 31-33.

[408] Vestf. þjóðsögur III, 1, 31-33.

[409] Sama heimild.

[410] Óskar Ein. 1951, 87.

[411] Sama heimild.

[412] Sama heimild.

[413] Sama heimild.

[414] Örn.skrá.

[415] Sama heimild.

[416] Hjörleifur Guðmundsson 1973, 77 (Ársrit S.Í.).

[417] Örn.skrá.

[418] Örn.skrá.

[419] Sama heimild.

[420] Sama heimild og Óskar Ein. 1951, 87.

[421] Sömu heimildir.

[422] Jarðab. Á. og P. VII, 121.

[423] Rtk. Jarðabækur V. 16. – Ísafj.sýsla 1805.

[424] Óskar Ein. 1951, 86.

[425] Sama heimild.

[426] Sama heimild, 86-87.

[427] Óskar Ein. 1951, 86.

[428] Örn.skrá.

[429] Óskar Ein. 1951, 86.

[430] Sama heimild.

1000-1900

Guðmundur Justsson

Á fyrri hluta 20. aldar var Guðmundur Justsson, sem fæddist á Gemlufalli haustið 1841,[1] einna kunnastur þeirra sem búið höfðu á Dröngum, a.m.k. utan Dýrafjarðar,

LESA MEIRA »
1000-1900

Krossadalur

Í Krossadal var löngum tvíbýli á fyrri tíð, Hærri- og Lægri- (eða Neðri-) Krossdalur, og voru þetta ystu bæir við Tálknafjörð. Stundum var reyndar þríbýli

LESA MEIRA »
1000-1900

Arnarstapi

Arnarstapi og Krossadalur voru tvær ystu jarðirnar á norðurströnd Tálknafjarðar og hafa nú báðar verið í eyði frá því um 1940.[1] Frá verbúðatóttunum í Arnarstapavík

LESA MEIRA »