Sandar

Á hinum forna kirkjustað Söndum í Dýrafirði er nú allt í eyði og svo hefur verið frá 1932 (sjá Firðir og fólk 1900-1999, 183). Engar byggingar standa hér uppi frá eldri tíð en kirkjugarðurinn er á sínum stað með nokkrum gömlum legsteinum. Bæjarhóllinn er rétt neðan við (norðan við) kirkjugarðinn og kirkjan stóð framan við sáluhliðið.[1] Hún var rifin árið 1913[2] en skömmu áður hafði ný kirkja verið reist á Þingeyri (sjá hér bls. 12 og 33).

Munnmæli herma að Sandastaður hafi í fyrndinni staðið nær sjó en um það segir svo í Jarðabók Árna og Páls frá árinu 1710:

 

Staðartún heitir eitt örnefni hér í landinu fyrir neðan staðinn að sjónum á leiðina, sem munnmæli segja að staðurinn hafi í fyrndinni staðið, og sést þar nú deili til litra [svo í handriti] tóttarústa en ekki „so miklra” að hér hafi nokkurn tíma verið stórhýst og ætla því margir að þetta muni ei annað vera en munnmæli.[3]

 

Ekki verður nú auðveldlega skorið úr um hvort bærinn á Söndum kynni að hafa staðið nær sjó á fyrstu öldum Íslandsbyggðar en munnmælasagnir um það urðu býsna lífseigar. Í sóknarlýsingu séra Bjarna Gíslasonar, er hann ritaði um 1840, segir að ýmsir þykist hafa heyrt að staðurinn ásamt kirkjunni skuli í fyrndinni hafa staðið hér við sjó á svokölluðum sjóareyrum[4] og séra Jón Sigurðsson segir í bréfi frá 11. mars 1858 að á ströndinni fyrir neðan Fögrubrekku í landi Sanda, þar sem Guðmundarskáli var byggður síðar á því ári (sjá hér bls. 39), sjáist gömul tóttabrot frá fornöld.

Ljóst er að munnmælin um að kirkja og bæjarhús á Söndum hafi áður staðið nær sjó hafa vakið upp í hugum manna ýmsar sögur til skýringar. Tvær slíkar voru færðar í letur á árunum upp úr 1930 og prentaðar í Vestfirskum sögnum.[5]

Sameiginlegur kjarni þeirra er sá að bæjarhús og kirkja á Söndum hafi fyrrum staðið á sjávareyrum fyrir innan Sandaá en þar hafi sjór ætt á land og brotið kirkjuna. Síðan hafi staður og kirkja verið byggð upp uppi á Galtardal þar sem miklar rústir eru enn sjáanlegar (sjá hér Brekka í Brekkudal) en þar hafi prestssetrið þó aðeins verið í skamman tíma. Þá hafi kirkja og bæjarhús verið færð í annað sinn og byggð upp þar sem Sandastaður stóð æ síðan. Annar sögumanna bætir því við að frá Galtardal hafi staður og kirkja verið flutt vegna draugagangs.

Í annarri sögunni er á það bent að nafnið Sandar muni bærinn hafa fengið af söndunum við sjóinn en hins vegar séu engir sandar í næsta nágrenni við yngra bæjarstæðið. Ingivaldur Nikulásson, fræðimaður á Bíldudal, ritaði aðra sagnanna tveggja sem hér var síðast vitnað til. Hann heyrði gamla Dýrfirðinga segja frá því að til hefnda fyrir dráp nokkurra Spánverja á Fjallaskaga árið 1615 (sjá hér Fjallaskagi) hefði seiðkona suður á Spáni magnað upp öldurót á fiskimiðum Dýrfirðinga dag einn og náð að drekkja flestum er þá voru á sjó. Í því særóti tók af stað og kirkju á Söndum að sögn heimildarmanna Ingivaldar.

Ærinn skáldskaparblær er á þessum sögum. Samt sem áður er hreint ekki ólíklegt að fyrsti bærinn á Söndum hafi verið reistur nær sjó en bæjarhúsin stóðu síðar og enn vantar skýringu á hinum miklu húsarústum uppi á Galtardal (sjá hér Brekka í Brekkudal) en þar höfðu Sandaprestar búsmala sinn í seli á fyrri tíð (sjá hér Brekka).

Frá bæjarhólnum á Söndum er hálfur annar kílómetri til sjávar. Héðan frá bæjarstæðinu breiðir túnið úr sér og nær alveg niður að ármótunum þar sem Brekkudalsá og Kirkjubólsá mætast svo úr verður Sandaá. Sé gengið upp fyrir túnið er brátt komið að rótum Sandafells sem hér skýlir fyrir norðaustanáttinni. Fell þetta er 367 metra hátt með klettabelti í efstu brúnum. Það stendur eitt sér og nær því að hafa mótandi áhrif á umhverfið, hvort sem svipast er um frá Söndum eða fjarðarströndinni hinum megin við fellið þar sem nú er kauptúnið Þingeyri. Hátt og snarbratt klettabelti myndar vesturbrún fjallsins. Framan við klettabeltið er hár og mikill steindrangur sem frá Söndum séð líkist mest konu sem styður hönd á mjöðm.[6] Þetta er Sandakerlingin. Yfir Dýrafjörð kallast Sandafell á við Mýrafell á norðurströndinni, áþekkt fjall lítið eitt utar með firðinum. Saman mynda fellin tvö eins konar dyr þegar komið er af hafi og siglt inn Dýrafjörð. Ýmsir hafa því látið sér detta í hug að upphaflegt nafn fjarðarins kynni að hafa verið Dyrafjörður en ekki Dýrafjörður.

Fullvíst má telja að Sandar hafi snemma orðið stórbýli og á fyrri hluta 13. aldar sátu hér ríkir bændur sem stundum komu við sögu í þeim hatrömmu deilum er þá geisuðu. Sumra þeirra verður brátt getið en fyrst skulum við líta hér niður að árósnum.

Í Gísla sögu Súrssonar segir frá norskum kaupmönnum er komu á skipi sínu í Dýrafjörð og settu það upp í Sandaós.[7] Heimildir sýna að talsvert var um kaupskipasiglingar frá Noregi til Dýrafjarðar á 13. og 14. öld. Frásögn Gísla sögu, sem talin er rituð um 1250 af ágætlega staðkunnugum manni, bendir eindregið til þess að á ritunartíma sögunnar hafi Sandaós verið helsti lendingarstaður hafskipa við Dýrafjörð og reyndar líklegt að svo hafi einnig verið fyrr. Hér við ósinn gengur sjór langt upp um flóð[8] og hefur mátt nota flóðið til að ráða skipum til hlunns.

Í heimildum frá 13. öld er aðeins getið um skipakomur á 10 hafnir á öllu landinu og er Dýrafjörður ein þeirra og sú eina á Vestfjörðum.[9] Í Þorgils sögu skarða, sem talin er hafa verið rituð skömmu fyrir 1280,[10] er tvisvar minnst á komur hafskipa í Dýrafjörð.[11] Skip hafði staðið uppi í Dýrafirði um veturinn. Fóru þar utan Sigurður seli og Kolfinna Þorvaldsdóttir fyrir utan frændaráð, segir þar. Þarna er Sandaós að vísu ekki nefndur en líklegast er að þar hafi skip þetta staðið uppi. Kolfinna sem utan fór með Sigurði sela var dóttir Þorvaldar Snorrasonar Vatnsfirðings og sigldu þau úr Dýrafirði vorið 1253 og hafa líklega komið til skips yfir Glámu úr Vatnsfirði.

Í Flateyjarannál er sagt frá komu skips er Gullskórinn hét í Dýrafjörð árið 1300 en gæti þó átt að vera 1301 því í Gottskálksannál er nefnd skipakoma í Dýrafjörð á því ári.[12] Í fyrrnefnda annálnum eru nafngreindir þrír menn sem komu til landsins með Gullskónum að þessu sinni.[13] Í Gottskálksannál segir svo við árið 1314: Herra Ketill kom út í Dýrafirði með nýmælabréf er Hákon konungur hafði sett.[14] Þarna mun átt við Ketil Þorláksson er þá fór með sýsluvöld á Vestfjörðum en varð síðar hirðstjóri yfir öllu Íslandi.[15] Hann hafði verið herraður í þessari utanför og kom nú til landsins með nýmælabréf frá Hákoni hálegg Noregskonungi.[16] Bréfið sem herra Ketill flutti með sér er hann steig á land í Dýrafirði hafði að geyma ýmsar tilskipanir konungs um breytingar á einstökum lagagreinum í Jónsbók.[17] Í þessu nýmælabréfi Hákonar háleggs segir meðal annars svo:

 

Bjóðum vér að þér [þ.e. Íslendingar] haldið þessa alla articulos fyrir lög og látið skrifa í bók yðra [þ.e. Jónsbók], – en ef nokkurir hlutir eru þeir hér í er yður þykja of linir eða of harðir þá skrifið skilvíslega til vár og skulum vér þá skipan á gera sem vér sjáum með bestu manna ráði að yður megi hentast vera.

 

Svona blíðmálir gátu landsdrottnar verið á þeirri tíð en þó er ljóst að kóngur telur það vera sitt verkefni að hafa vit fyrir Íslendingum og skera úr um hvað þeim sé fyrir bestu.

Ekki verður nú sannað að öll þau skip sem hér hafa verið nefnd hafi siglt upp í Sandaós en varla hefur þó verið nema ein hafskipahöfn í Dýrafirði á þessu skeiði svo fáar sem þær sýnast hafa verið á öllu landinu. Frá náttúrunnar hendi hefur Sandaós verið hentugasti lendingarstaðurinn í Dýrafirði fyrir kaupskip þrettándu aldar en algengt var að slíkum skipum væri flotað upp í árósa þar sem þess var nokkur kostur. Minnt skal á að í Flóabardaga var stærsta skipið sem Þórður kakali hafði til umráða einmitt frá Söndum (sjá hér Svalvogar) og er það líklega engin tilviljun. Vel gæti líka verið að sigling hafskipa í Sandaós hafi átt nokkurn þátt í því að gera Sanda að eins konar miðstöð hér við vestanverðan Dýrafjörð þó segja megi að lega jarðarinnar og almennir landkostir hafi einnig skipt miklu máli.

Fyrsti bóndinn á Söndum sem unnt er að nafngreina er Oddur sem hér bjó á síðari hluta 12. aldar og nefndur er í Hrafns sögu Sveinbjarnarsonar.[18] Dóttir hans var Ingibjörg, kona Markúsar Gíslasonar í Bæ á Rauðasandi. Eftir andlát Ingibjargar var Markús óglaður löngum af hugtrega þeim er hann hafði af hennar andláti, segir í sögunni.[19] Ætla verður að Áli Oddsson hinn auðgi sem árið 1211 tók þátt í tilraunum til að sætta þá Hrafn Sveinbjarnarson á Eyri í Arnarfirði og Þorvald Vatnsfirðing[20] hafi verið sonur Odds þessa og búið á Söndum eftir föður sinn en fullvíst er að um 1220 var Oddur sonur Ála sestur að búi á Söndum.[21]

Sturla Þórðarson sagnaritari segir að árið 1232 hafi Oddur verið annar tveggja helstu bænda á öllum Vestfjörðum og orðar hann þetta svo:

 

Þá var enginn höfðingi í Vestfjörðum en þeir voru þá mestir af bændum Oddur Álason og Gísli á Sandi [þ.e. Gísli Markússon í Bæ á Rauðasandi, sonur Ingibjargar Oddsdóttur frá Söndum], og voru þeir hinir mestu vinir Sturlu.[22]

 

Tengsl Odds Álasonar á Söndum við ýmsa höfðingja 13. aldar sýna vel hver staða hans var og hvílíkur auður var í búi á Söndum. Oddur var kvæntur Steinunni, dóttur Hrafns Sveinbjarnarsonar, hins mikla héraðshöfðingja á Eyri.[23] Að hjákonu hafði hann um skeið Þórdísi, dóttur Snorra Sturlusonar sem áður hafði verið gift Þorvaldi Snorrasyni Vatnsfirðingi, og gat við henni barn.[24] Er Sturla Sighvatsson hóf för sína suður til Róms sumarið 1233 setti hann Odd yfir ríki sitt á Vestfjörðum.[25] Sonur Odds og konu hans var Hrafn Oddsson, einn allra valdamesti maður í landinu á síðari hluta 13. aldar og að lokum hirðstjóri konungs yfir öllu Íslandi. Hrafn var fæddur á Söndum árið 1226.

Á Söndum dvaldist Sturla Sighvatsson hjá Oddi áður en hann reið í Holt til fundar við Vatnsfirðinga árið eftir Sauðafellsför.[26] Er Sturla setti Odd til að geyma vina sinna á Vestfjörðum fluttist Oddur frá Söndum að Eyri í Arnarfirði. Hann fór frá Söndum vorið 1233 og hafði margt röskra manna með sér.[27] Á Eyri hafði Oddur mikið fé og rausnarbú. – Gekk þá skjótt við ráð hans og sæmd, segir Sturla sagnaritari – ­gerðist hann ofsamaður mikill og enginn jafnaðarmaður.[28] Dvöl Odds við auð og völd á Eyri varð hins vegar styttri en ætlað hafði verið því að í janúarmánuði árið 1234 reið Órækja Snorrason þar í hlað með fjölmennan herflokk, lagði eld í húsin og lét taka Odd af lífi (sjá hér Rafnseyri).

Haustið 1235 kom Sturla úr förinni til Rómar. Órækja sat þá í Vatnsfirði. Sumarið 1236 fundust þeir frændur Sturla og Órækja hér á Söndum. Órækja fór frá Alviðru yfir Dýrafjörð til þessa fundar og hafði með sér 70 menn, – en Sturla sat í brekkunni ofan frá Söndum með allt sitt lið og var það talsvert á annað hundrað.[29] Þeir Sturla og Órækja gengu síðan til fundar mitt á milli flokkanna og höfðu með sér jafnmarga menn hvor. Var þá talað um sættir og ákveðið að Órækja færi brott úr Vatnsfirði með allt sitt, gæfi upp veldi sitt á Vestfjörðum og tæki þeim kostum er Sturla bauð.[30] Sættin sem gerð var á Söndum dugði þó skammt til að tryggja varanlegan frið þeirra á milli og síðar um sumarið lét Sturla flytja Órækju upp í Surtshelli þar sem ætlunin sýnist hafa verið að blinda hann og gelda en úr þeirri raun slapp Órækja furðanlega heill þrátt fyrir ærnar pyntingar.[31]

Skömmu eftir að Oddur Álason fluttist frá Söndum tók Bárður Þorkelsson hér við búsforráðum. Hann bjó á Söndum á árunum kringum 1240 og var þá landseti Hrafns Oddssonar.[32] Bárðar er fyrst getið árið 1234 en þá var hann á Eyri með Oddi og kallaður Sanda-Bárður.[33] Var hann jafnan kenndur með þessum hætti við Sanda og því má ætla að hann hafi búið hér alllengi.

Er Þórður kakali Sighvatsson kom til landsins fjórum árum eftir fall föður síns og bræðra á Örlygsstöðum reið hann brátt vestur á firði. Á Söndum fékk hann strax góðar viðtökur hjá Bárði sem var einn fárra manna á Vestfjörðum er staðfastlega höfðu neitað að binda trúnað við Kolbein unga og sverja honum eiða.[34] Er Þórður kom að Eyri í Arnarfirði á sinni vesturferð haustið 1242 bjó þar Steinunn Hrafnsdóttir, ekkja Odds Álasonar frá Söndum. Með henni stóðu þar fyrir búi sonur hennar og tengdasonur, þeir Hrafn Oddsson og Svarthöfði Dufgusson. Hrafn var þá aðeins sextán vetra. Er Þórður kom að Eyri voru þeir Svarthöfði og Hrafn staddir í brúðkaupsveislu yfir í Hjarðardal, hér handan við fjörðinn, en Þórður stefndi þeim strax til fundar við sig á Söndum.[35] Þeir Bárður, Hrafn og Svarthöfðu gengu allir til liðs við Þórð og bauð Bárður honum að taka við búi á Söndum. Það boð þótti geysistórmannlegt,[36] enda átti Þórður þá ekki í mörg hús að venda en veldissól Kolbeins unga í hádegisstað. Veturinn 1242-1243 sat Þórður á Söndum.[37] Nokkur hópur manna fylgdi honum þá þegar og í þeim flokki var Hákon Bótólfsson sem verið hafði kertisveinn Skúla hertoga í Noregi.[38]

Margir Vestfirðingar gengu þá og á næstu mánuðum til liðs við Þórð og töldu vænlegt að efla hann til höfðingja. Um sólstöður árið 1244 sigldi hið fríða skipalið kakala og Vestfirðinga hans norður fyrir Horn í herför gegn Kolbeini unga er sex árum áður hafði staðið yfir höfuðsvörðum föður Þórðar og bræðra á Örlygsstöðum. Tólf voru skipin Vestfirðinga. Þeirra stærst var Sandaskipið. Bárður af Söndum hafði það skip er Rauðsíðan hét. Það var mest af öllum skipum Þórðar. Voru þar Arnfirðingar og Dýrfirðingar, segir í Þórðar sögu kakala.[39]

Tvöhundruðogtíu menn voru í liði Þórðar er lagt var á Húnaflóa en austan við Flóann miðjan mætti skipalið Vestfirðinga flota Kolbeins sem í voru tuttugu skip og á þeim nær fjögurhundruðogsjötíu menn.[40] Er sól var skammt farin að morgni 25. júní mættust skipin. Æptu þá hvárirtveggja heróp og þar með hófst sú orrusta sem Íslendingar hafa mesta háð á sjó frá því land byggðist og til þessa dags. Í liði Þórðar var Rauðsíðunni frá Söndum skipað austast í fylkingararm en Ógnarbrandurinn úr Ísafjarðardjúpi, sem líka var mikil skúta, hafður næstur Horni. Er bardaginn harðnaði og menn Kolbeins náðu valdi á einstaka skipi úr liði Þórðar hljóp meginþorri þeirra er þar höfðu varist á skip Sanda-Bárðar og börðust þaðan sem fyrr.[41] Í sögu Þórðar kakala segir svo:

 

Sanda-Bárður hafði skip borðmest og lagði vel fram. Sótti þangað flest mannanna er helst þótti hléið. Fundu þeir Bárður og hans félagar eigi fyrr en skipið var svo hlaðið að við því var búið að sökkva myndi undir þeim. Var í þessari svipan allri saman mest sú orrustan að kastað var handsöxum og bolöxum í milli skipanna. Þá var og skotið selskutlum og hvaljárnum og barið öllu því er til fékkst, bæði beitiásum og árahlummum.[42]

 

Þrátt fyrir ærinn liðsmun tókst Kolbeini og mönnum hans ekki að vinna sigur á Þórði í Flóabardaga en eftir margra klukkustunda orrustu lét kakali þó undan síga og stefndi flota sínum á ný í vesturátt. Þá höfðu áttatíu menn úr liði Kolbeins hlotið banasár og lið norðanmanna orðið fyrir þvílíkum áföllum að ekkert varð úr eftirför að sinni.[43]

Úr liði Þórðar gáfu þeir síðast upp bardagann Sanda-Bárður og Bjarni Brandsson á Mýrum í Dýrafirði og er vestur á Flóann kom óttaðist Þórður að Kolbeinn hefði náð Dýrfirðingunum og skipum þeirra á sitt vald. Um þetta segir svo í sögu Þórðar:

 

Var Þórður þá allhugsjúkur því að þeir söknuðu fyrir víst þá skipsins Sanda-Bárðar og svo Trékyllisins er Bjarni Brandsson stýrði. Hugðu menn að því myndi Kolbeinn ekki reka flóttann að þeir myndu hafa þessi skip í sínu valdi.

Þeir Bárður höfðu látið árarnar allar nema fjórar einar. Lagði þá Bjarni að þeim og tók af þeim nær þrjá tugi manna en fékk þeim árar svo að þeir voru vel færir. Reru þá undan allir samt.

… Og er Þórður kom í Víkina [Trékyllisvík] þá kenndi hann ferju Sanda-Bárðar og svo Trékyllinn að þeir reru þá utan að. Varð þar hinn mesti fagnafundur er þeir hittust. Rannsökuðu þeir þá liðið. Fundu þeir þá að þeir höfðu fáa eina menn látið en nálega var hver maður sár nokkuð, sá er með Þórði hafði verið. En öll alþýða var lítt sár.[44]

 

Ekki leynir sér að Sanda-Bárður hefur verið Þórði kær, enda átti hann honum ærna skuld að gjalda fyrir drengilegt liðsinni, allt frá haustinu 1242 er Bárður fékk honum bú sitt til umráða meðan allt var enn í óvissu um það hvort kakali næði að vekja upp menn svo mark væri að.

Frá Reykjanesi sunnan Trékyllisvíkur á Ströndum er fagurt að líta austur um víðáttur Húnaflóa á dýrðardögum við sumarsólhvörf. Ef enn kynni að bera þar fyrir augu borðhátt skip með fornu lagi, síðan rauðmáluð og tólf undir árum, þá má ætla að þar fari Sanda-Bárður, kominn heill úr orrustu og við hlið hans Dýrfirðingar og Arnfirðingar svo margir sem þetta stærsta skip Vestfirðinga gat borið.

Frá því Bárður steig á land í Trékyllisvík síðla dags þann 25. júní árið 1244 segir fátt af fólkinu á Söndum uns jörðin komst í eigu kirkjunnar og var gerð að föstu prestssetri.

Kirkju er fyrst getið á Söndum í kirknaskrá Páls biskups Jónssonar frá því um 1200.[45] Í kaþólskri tíð var Sandakirkja helguð heilögum Nikulási. Elsti máldagi kirkjunnar sem varðveist hefur er frá árinu 1346, settur af Jóni Sigurðssyni er þá var biskup í Skálholti. Þar segir:

 

Nikuláskirkja á Söndum á heimaland hálft og Galtardal hálfan, níu kýr og hest. Kirkja á innan sig kross og skrín Maríuskrift og Nikulásskrift [þ.e. myndir af Maríu guðsmóður og heilögum Nikulási], klukkur þrjár, bók, kantarakápu, hökul og glóðaker, refla þrjá. Þar skal vera prestur heimilisfastur og taka fjórar merkur. Þangað liggja tíu bæir að tíundum og lýsitollum. Hálfkirkja í Hvammi og syngja annan hvern dag helgan. Þar tekst heima tíund og lýsitollar.[46]

 

Árið 1358 hafði Sandakirkja eignast allt heimaland á Söndum og allan Galtardal.[47] Á því ári urðu Sandar staður, það er fast prestssetur er kirkjan veitti prestum að léni[48] og stóð sú skipan næstu 500 ár og reyndar vel það. Árið 1358 eða því sem næst setti Gyrðir biskup Ívarsson Sandakirkju nýjan máldaga og kemur þar m.a. fram að kirkjan átti þá skipshöfn á Skaga,[49] þ.e. rétt til verstöðu fyrir eitt skip á Fjallaskaga norðan Dýrafjarðar.

Fyrir lok 14. aldar hafði kirkjan eignast skóg í botni Dýrafjarðar, milli Seljageila og Miðdæla fyrir ofan götu (sjá hér Botn í Dýrafirði), og í Vilkinsmáldaga frá árinu 1397 er líka getið um sex vikna beit undir Bakkahlíð.[50] Ýmsa gripi og bækur átti kirkjan þá, sem ekki er getið um í máldaganum frá 1346, og má m.a. nefna: Tvö altarisklæði, annað með pell, Tómasarlíkneski og fjóra saltara.[51]

Ítökum þeim sem Sandakirkja hafði eignast á 14. öld eða fyrr hélt hún enn árið 1852 en engin ný ítök virðast hafa bæst við síðar.[52] Um beitina undir Bakkahlíð segir í Jarðabókinni frá 1710 að hún hafi brúkast lítt nokkra stund.[53] Árið 1710 var skógur kirkjunnar í Dýrafjarðarbotni sagður mjög þrotinn og varla nýtur til kolagerðar.[54] Í Jarðabók Árna og Páls er tekið fram að Sandar eigi skipstöðu fyrir sexæring tollfrí á Skaga og þau réttindi hafi staðarhaldari nýtt sér átölulaust. Er Hannes biskup Finnsson vísiteraði á Söndum 16. ágúst 1790 átti kirkjan sexærings skip til vergagna á Skaga.[55] Í vísitazíu biskups frá 15. júlí 1852 má hins vegar sjá að Sandakirkja er þá búin að tapa sexæring sínum á Fjallaskaga (sjá hér bls. 26) en vel má vera að kirkjan hafi komið þar upp öðrum báti síðar.

Árið 1397 átti kirkjan á Söndum ekki aðrar jarðeignir en heimalandið og Galtardal sem hér var áður getið um[56] en á 15. eða 16. öld, fyrir 1570, eignaðist hún tvær jarðir.[57] Í Gísla máldaga frá því um 1570 er ekki nefnt hvaða jarðir þetta voru en tekið fram að af annarri þeirra séu tíu aurar goldnir í landskuld en fimm aurar af hinni.[58] Nær fullvíst má telja að þetta séu jarðirnar Grandi og Múli í Sandasókn en það voru einu bújarðirnar sem kirkjan átti í byrjun 18. aldar, fyrir utan heimalandið, og svo var enn um miðja 19. öld.[59] Sú staðreynd að landskuld af annarri hinna tveggja kirkjujarða var um 1570 nákvæmlega tvöfalt hærri en landskuldin af hinni styrkir einnig mjög líkurnar á því að þessar ónefndu kirkjujarðir hafi verið Grandi og Múli því að fornu mati var Grandi talinn tólf hundruð að dýrleika en Múli sex hundruð.[60]

Um 1570 átti Sandakirkja þessa gripi: Brík yfir altari (þ.e. altaristöflu), nýjan kaleik, klukku, kórbjöllu, glóðarker, tvær koparpípur, járnkarl og skrúðakistu, einnig tvenn messuklæði og eitt altarisklæði.[61] Vera má að altarisbrúnin frá Söndum, sem nú er varðveitt í Þjóðminjasafni Íslands, hafi fylgt öðru þessara altarisklæða.[62] Í búsgögnum innanstokks átti kirkjan þá tvö stórkeröld og þrettán minni, tuttugu trog, fimm skálar, fjóra diska og fjóra spæni, gamlan fjórðungsketil, kistuskrifli og gamlan strokk.[63]

Snemma á 18. öld var timburkirkja byggð á Söndum[64] og í vísitazíugerð frá árinu 1749 segir að innan um kórinn sé hún máluð með olíufarfa en tjörguð að utan.[65] Haustið 1755 fauk kirkja þessi í ofviðri. Um þann atburð segir svo í Vatnsfjarðarannál yngsta: Þann 21. Novembris niður blés af stormi sú gamla timburkirkja á Söndum í Dýrafirði[66] en á öðrum stað segir að kirkjan hafi fokið 24. nóvember[67] og er sú dagsetning líklega hin rétta. Í Djáknaannálum er þess getið að séra Magnús Snæbjarnarson, er þá var prestur á Söndum, hafi geymt nokkuð af góssi sínu í kirkjunni og þessar eigur hans orðið fyrir verulegum skemmdum er kirkjan fauk.[68]

Skömmu eftir að kirkjan fauk ritaði séra Magnús kirkjustjórninni í Danmörku og fór þess á leit að þeim kirkjum í Skálholtsbiskupsdæmi sem teldust aflögufærar yrði gert að leggja fram nokkurt fé til byggingar nýrrar kirkju á Söndum en gert var ráð fyrir að ný timburkirkja myndi kosta um 400 ríkisdali.[69] Torfkirkja var hins vegar aðeins talin kosta 40 ríkisdali eða einn tíunda hluta af kostnaði við byggingu timburkirkju.[70] Vorið 1757 veitti konungur séra Magnúsi heimild til byggingar torfkirkju á Söndum og jafnframt var hverri aðalkirkju í Skálholtsbiskupsdæmi gert að leggja fram 16 fiska virði til þessarar kirkjubyggingar.[71] Prestaköll í biskupsdæminu voru 128 árið 1757[72] og má gera ráð fyrir að aðalkirkjur hafi verið jafn margar. Samtals hafa kirkjurnar því átt að greiða andvirði 2048 fiska til byggingar Sandakirkju en eins og áður sagði var áætlað að byggingarkostnaður yrði um 40 ríkisdalir sem svaraði til 2400 fiska því 60 fiskar voru yfirleitt lagðir á móti einum ríkisdal.[73] Af gjaldi því sem öðrum kirkjum var ætlað að greiða mun aðeins hafa tekist að innheimta liðlega 60% eða sem svaraði andvirði 1250 fiska.[74] Kirkjubyggingin varð líka dýrari en gert hafði verið ráð fyrir og mun séra Magnús hafa orðið að lána kirkjunni nokkra fjármuni svo hægt yrði að ljúka byggingunni.[75]

Bygging torfkirkju á Söndum á árunum kringum 1760 í stað timburkirkjunnar sem hér stóð áður er eitt af mörgum dæmum sem sýna versnandi kjör leikra og lærðra hérlendis á 18. öld. Um það leyti sem torfkirkjan var byggð mátti heita að hungurvofan ógnaði meginþorra landsmanna og margur maðurinn féll úr hor á þeim dimmu dögum. Hannes Finnsson Skálholtsbiskup, sem fæddur var árið 1739, komst reyndar að þeirri niðurstöðu á sínum tíma að milli 9 og 10 þúsund manns hefði fallið úr hungri og harðrétti á landi hér á átta ára tímabili, frá 1752 til 1759[76] eða nær fimmtungur allrar þjóðarinnar. Við slíkar aðstæður gat vart komið til greina að reisa önnur hús en þau sem minnst kostuðu og hið sama gilti um kirkjurnar. Frá því timburkirkjan á Söndum fauk árið 1755 leið 121 ár uns önnur timburkirkja var reist hér árið 1876.[77]

Torfkirkja var því enn á Söndum er Helgi G. Thordersen biskup vísiteraði hér sumarið 1852. Í vísitazíugerð hans er kirkjunni vandlega lýst og segir þar m.a. svo:

 

Húsið sjálft er í sex stafgólfum, allt undir súð með fjalagólfi og þiljum umhverfis. … Á kórnum eru útidyr sem ganga í gegnum vegginn með sperrum, syllum, súð og þiljum af nýlegum viði. Er kompa þessi liðugar 3 álnir á lengd með tveimur hurðum á járnum með skrá og lykli og álíst hún kirkjunni ónauðsynleg, hvers vegna biskupinn leyfir að hún megi seljast fyrir 8 ríkisbankadali. … Gamalt skápaltari með hurð á hjörum og læsingu, fyrir því er gráða [þrep] með grindverki yfir. Sinn gluggi hvoru megin altaris með 6 rúðum hvör. … Í framkirkjunni er framantil gamall, málaður predikunarstóll. … Fyrir framan og aftan kirkju er slagþil með tveimur vindskeiðum. … Sunnan megin kirkjudyra 4 rúðu gluggi og fyrir ofan kirkjudyr 9 rúða gluggi, lítill 4 rúða gluggi við predikunarstól.

Moldir kirkjunnar virðast í bærilegu standi. Húsið virðist stæðilegt að svo komnu en stórlega vottar til fúa hingað og þangað á allri suðurhliðinni og það er gott ef henni ekki snarar nokkuð til suðurs. Héraðauki er kirkjan álitin of lítil fyrir söfnuðinn, hvers vegna prestur og meðhjálpari álíta nauðsynlegt að loft komist í tvö fremstu stafgólf kirkjunnar og verður biskupinn að verða því samþykkur. Kirkjugarðurinn er allur uppistandandi með vænni grind í sáluhliði með hurð á hjörum.[78]

 

Árið 1852 hafði gripum kirkjunnar fjölgað mjög frá því sem verið hafði nær 300 árum fyrr (sjá hér bls. 9). Við skoðun Sandakirkju 15. júlí 1852 skráir Helgi biskup í bók sína öll messuklæði og alla gripi sem þá voru í eigu kirkjunnar og ritar meðal annars svo:

 

Máluð altarisbrík með snikkverki, máluð vængjabrík yfir kórdyrum að framanverðu, sem miklu fremur ætti að vera altarisbrík en sú fyrrtalda, og upp af henni ein mjög lítil dittó. Kóngs Kristjáns IV Portret sem með öllu er óþekkjanlegt og einskis nýtt útskrifast þess vegna og selst fyrir 2 mörk [þ.e. 32 skildinga sem var þriðjungur úr ríkisdal – innsk. K.Ó.] sem færast kirkjunni til inntektar. – Tvö smekklítil myndaspjöld hvoru megin kórdyra, sem hafa verið keypt til kirkjunnar, álítur biskupinn svo fánýt að hann útskrifar þau sem óhæfileg kirkjunni til prýðis og metast 2 mörk.[79]

 

Altarisklæðum Sandakirkju lýsir Helgi biskup svo:

 

Altarisklæði af hvítu og rauðu svartþrykktu kattúni fornfálegt, annað af mislitu, þrykktu lérefti, þriðja af rauðu plussi með bleikrauðu léreftsfóðri, rauðum og bláum silkifrunsum að neðan, – framan á því er gullvírsborði utanum stafina I. H. S. og þar fyrir neðan ísaumuð CH + AS með ártalinu 1718.[80]

 

Ljósakróna úr messing var í Sandakirkju árið 1852. Hún var með fimm örmum, pípum og skálum.[81] Tvær kirkjuklukkur misstórar voru á Söndum og léku þær á ramböldum inni í kirkjunni. Í máldaganum frá því um 1570 er getið um kórbjöllu (sjá hér bls. 9) og líklega er það sama bjallan sem Helgi biskup nefnir árið 1852 að kirkjan hafi átt en nú sé búið að selja.[82]

Meðal gripa í eigu kirkjunnar á Söndum nefnir Helgi hjónastól með útskornum pílárum og bríkum og einnig tvo gamla skriftastóla, útskorna með letri að bakatil og með bríkum. Skriftastólana taldi Helgi biskup til lítilla nota og mælti svo fyrir að þeir yrðu seldir fyrir 5 mörk kirkjunni til góða.[83] Hér hefur áður verið getið kirkjustóla úr Dýrafirði sem bárust til Noregs og svo aftur þaðan löngu síðar til Byggðasafns Vestfjarða á Ísafirði (sjá hér Hraun í Keldudal). Þá stóla hafa menn talið vera úr Hraunskirkju í Keldudal. Jóhann Gunnar Ólafsson sýslumaður leiddi einnig nokkur rök að því árið 1974 að brúðarbekkur sem þá var í eigu Henriettu Silfverling í Gautaborg og sannanlega upprunninn úr Dýrafirði væri úr Sandakirkju.[84] Sé svo má ætla að þar sé kominn hjónastóllinn sem Helgi biskup talar um í vísitazíugerðinni frá 1852.

Kirkjan sem Helgi biskup skoðaði á Söndum árið 1852 stóð inni í kirkjugarðinum og þar höfðu hinar eldri Sandakirkjur  einnig staðið. Nýju timburkirkjunni, sem reist var á Söndum árið 1876, var hins vegar valinn staður utan garðs.[85] Sú kirkja varð hin síðasta á Söndum og þjónaði þar sínu hlutverki uns ný sóknarkirkja sem byggð var úr steinsteypu á Þingeyri var vígð á pálmasunnudag árið 1911.[86] Þann 19. mars árið 1913 var messað í síðasta sinn í Sandakirkju og skömmu síðar var hún seld fyrir 450,- krónur.[87]

Árið 1737 voru árstekjur af Sandaprestakalli metnar á 36 ríkisdali en meðalárstekjur presta af brauðum í Ísafjarðarsýslu og Barðastrandarsýslu voru þá 31 ríkisdalur og 28 skildingar samkvæmt opinberu brauðamati.[88] Á vestfirskan mælikvarða máttu Sandar því kallast gott miðlungsbrauð er séra Magnús Snæbjarnarson tók hér við staðarforráðum af séra Jóni Þórðarsyni detti. Árið 1853 var hins vegar aðeins þriðjungur brauða í Ísafjarðar- og Barðastrandarsýslum talinn gefa minni tekjur en Sandar og árið 1884 voru prestaköllin tvö í Dýrafirði talin lökust allra brauða í Ísafjarðarsýslu[89] en þrjú tekjuminnstu brauðin í sýslunni, Álftamýri, Staður í Súgandafirði og Staður á Snæfjallaströnd, höfðu þá verið sameinuð nágrannaprestaköllum ýmist varanlega eða tímabundið.[90]

Árið 1710 átti Sandakirkja fimm innstæðukúgildi heima á staðnum og sjö á kirkjujörðunum.[91] Á síðari hluta 19. aldar voru kirkjukúgildin átta. Að sögn Sighvats Grímssonar Borgfirðings fengu Sandaprestar 160 pund af smjöri á ári í leigur af þeim.[92] Frá Hrauni í Keldudal átti að greiða Sandapresti 60 pund af smjöri árlega fyrir þjónustu á útkirkjunni en sú tala var með samkomulagi lækkuð niður í 40 pund vegna kostnaðar við hýsingu prestsins í messuferðum hans að Hrauni.[93] Samkvæmt þessu hefur smjörið, sem árlega var fært heim að Söndum til greiðslu á kúgildaleigum og þjónustugjaldi, vigtað 200 pund. Í Jarðatali Johnsens frá árinu 1847 segir reyndar að smjörgjaldið frá Hrauni sé 30 pund[94] á ári en ekki 40 pund. Landskuld af kirkjujörðunum Múla og Granda var á fyrri hluta 19. aldar 10 pör af sokkum fyrir Múla og 30 pör fyrir Granda.[95]

Á fyrri tíð voru Sandar taldir notagóð bújörð.[96] Hér er sæmilega víðlent og skilyrði til heyskapar mega kallast góð. Í Jarðabók Árna og Páls segir að óvissa ríki um dýrleika jarðarinnar en séra Bjarni Gíslason segir í sóknarlýsingu sinni frá því um 1840 að til nálægs tíma hafi Sandar talist vera 12 hundraða jörð.[97] Í Jarðatali Johnsens frá árinu 1847 eru Sandar hins vegar taldir 60 hundraða jörð[98] og ber þarna furðu mikið á milli. Hér verður engin tilraun gerð til að skýra þennan mun en líklegt sýnist að jörðin hafi ýmist verið vanmetin eða ofmetin þegar fyrrgreindar tölur voru festar á blað. Á Söndum var fjörubeit talin í betra lagi[99] og til hlunninda taldist lítilsháttar silungsveiði[100] í Sandaá.

Árið 1710 var búið á tveimur hjáleigum í landi Sanda og auk þess hafðist tómthúsfólk við á verslunarstaðnum Þingeyri sem var í Sandalandi og hér verður síðar frá sagt (sjá hér Þingeyri). Hjáleigurnar tvær hétu Stekkur og Sandahús.[101]

Á Stekk hófst búskapur fyrst árið 1703 og var hjáleigan byggð á fornu stekkjarstæði staðarins.[102] Sjö árum síðar var bústofninn þessi hjá hjáleigubóndanum á Stekk: Ein kýr, ein veturgömul kvíga, níu ær, fjórir veturgamlir sauðir, sex lömb og eitt hross.[103] Landskuldin af Stekknum var 20 álnir í landaurum.[104] Í hjáleigu þessari virðist aðeins hafa verið búið í nokkur ár eða ef til vill í nokkra áratugi en um aldamótin 1800 var þar engin byggð[105] og árið 1805 er Stekkur sagður vera eyðihjáleiga.[106]

Sandahús voru gömul hjáleiga efst í heimatúninu á Söndum.[107] Í Jarðabókinni frá 1710 er tekið fram að þar hafi byggð hafist fyrir manna minni.[108] Athygli vekur að hjáleigubóndinn í Sandahúsum átti í byrjun 18. aldar rétt á að nýta sér skóg Sandakirkju í Dýrafjarðarbotni[109] en skógur þessi var þá mjög á þrotum (sjá hér bls. 8). Sú skipan mála bendir eindregið til þess að hjáleigan sé forn því varla hefði hjáleigubóndanum verið fenginn réttur til skógarhöggs er kirkjuskógurinn var að þrotum kominn.

Landskuld af Sandahúsum voru 3 vættir í byrjun 18. aldar[110] eða 60 álnir og því þrefalt hærri en landskuldin af Stekknum. Bústofn bændanna í báðum kotunum var þó álíka stór en Sandahúsum fylgdu tvö leigukúgildi árið 1710 og höfðu þrettán árum fyrr verið fjögur.[111] Nýbýlingurinn á Stekknum þurfti hins vegar enga gripi að ala nema sínar eigin skepnur. Hann virðist einnig hafa komist hjá öllum skuldbindingum um að róa á skipi Sandaprests um vertíðina en aftur á móti hvíldi slík kvöð á þeim sem bjó í Sandahúsum.[112]

Á 19. öld virðist byggð í hjáleigunni Sandahúsum hafa verið nokkuð stopul. Þar mun hafa verið búið á fyrstu árum aldarinnar, a.m.k. var dýrleiki hjáleigunnar metinn sér árið 1805.[113]

Árið 1828 var ekki búið í Sandahúsum því að í úttekt frá því ári segir að í staðinn fyrir hjáleigunnar Sandahúsa baðstofu, búr og göng með bæjardyraumbúningi komi nú þrjú jafngild hús á Galtardal[114] en það voru selhús (sjá hér Brekka í Brekkudal).

Á árunum 1835-1850 virðist ekki hafa verið búið í Sandahúsum[115] en 1855 og 1860 býr þar Bjarni Jónsson og fjölskylda hans.[116] Árið 1863 var það fólk hins vegar farið burt[117] og ekki verður séð í manntölum eða sóknarmannatölum að nokkur maður hafi búið í þessari hjáleigu síðar.

Ólafur Olavius nefnir árið 1775 Staðartún er hann segir hafa verið hjáleigu frá Söndum og tekur fram að hún hafi fallið í eyði vegna vatnsskorts.[118] Árni Magnússon, handritasafnari og prófessor, sem staldraði hér við sumarið 1710, segir aftur á móti að Staðartún sé nafn á hrjóstrum umhverfis tóttabrot við leiðina frá Söndum til sjávar.[119] Hann fékk að heyra að þar hefði Sandabærinn staðið í fyrndinni[120] og er líklegt að Staðartún hafi verið þar sem Guðmundarskáli reis síðar og brátt verður frá sagt eða þar í grennd.

Hér hefur nú verið sagt nokkuð frá Sandastað og hjáleigum hans svo ekki er vert að draga lengur að minnast á nokkra presta er staðinn sátu. Kunnugt er um nöfn 22ja presta er fullvíst má telja að setið hafi á Söndum um lengri eða skemmri tíma og eru aðstoðarprestar þá ekki taldir með[121] og ekki heldur séra Helgi Árnason sem fékk veitingu fyrir Sandaprestakalli 7. september 1881 og sat á Þingeyri þann eina vetur sem hann var í Dýrafirði.[122] Úr kaþólsku þekkjum við nöfn a.m.k. fjögurra Sandapresta en reyndar aðeins nöfnin. Sá elsti þeirra gegndi hér prestsþjónustu um eða fyrir miðja 14. öld. Þá er ekki talinn með séra Hallur Ögmundsson skáld sem ýmsir hafa talið að verið hafi prestur á Söndum um skeið en er þó ekki alveg fullvíst.[123] Sighvatur Grímsson Borgfirðingur færði á sínum tíma býsna sterk rök að því að svo hefði verið[124] en Hallur var starfandi prestur á fyrri hluta 16. aldar og orðinn gamall um siðaskipti. Fullvíst er að Hallur skáld var prestur á Vestfjörðum. Nokkur helgikvæði eftir hann hafa varðveist, þar á meðal Nikulásdrápa sem ort er til dýrðar heilögum Nikulási en kirkjan á Söndum var einmitt helguð honum eins og hér hefur áður verið nefnt (sjá bls. 7). Það að Hallur yrkir drápu um verndardýrling Sandakirkju styrkir rökin fyrir því að hann hafi verið prestur á Söndum um lengri eða skemmri tíma. Nikuláskirkjur voru aðeins tvær á öllum Vestfjörðum, það er að segja á Söndum og í Haga á Barðaströnd en sú þriðja, kirkjan í Laugardal í Tálknafirði, var helguð Maríu mey og heilögum Nikulási.[125] Talsmenn kirkjunnar sögðu Nikulás helga hafa verið biskup í Lykiu á suðurströnd Litlu-Asíu snemma á 4. öld. Bein hans voru tekin upp árið 1087. Að trú kirkjunnar manna var hann verndari sæfarenda en einnig barna og bakara. Á myndum er hann sýndur með akkeri eða með þrjú brauð en stundum eru þrjú börn höfð með honum á mynd og látin lyfta höndum sínum upp til hans.[126] Um þennan verndardýrling Sandakirkju orti séra Hallur Nikulásdrápu sem er 86 erindi og birt í heild í I. bindi Kvæðasafns er Hið íslenska bókmenntafélag gaf út árið 1922.

Sem sýnishorn verða hér teknar upp tvær vísur úr þessari drápu séra Halls Ögmundssonar:

 

Blindir, haltir, brotnir, skeindir,

brunnir, hljóðir, kaldir, óðir,

líkþráir, veikir, limafallssjúkir,

lamdir, daufir, bjúgir, kramdir;

fátækir menn og flokkar ríkir,

fjarlægir, nánir, konur sem karlar,

krepptir, móðir, krjúpa og skríða

kveinandi að líkama hreinum.

– – – – –

Gullker ertu guðs, það er allir

gimsteinar prýða innan hreinir,

oleum skeinktir sjúkum sálum

og sæta mjólk, þá er heilsu bætir;

musteri guðs í múri föstum,

mætur turn er veggja gætir,

altari guðs er öndin stolta

inni standandi í tjaldbúð þinni.

 

Á tímum siðaskiptanna um miðja 16. öld var Gísli Örnólfsson prestur á Söndum. Talið er að hann hafi haldið staðinn í yfir sextíu ár.[127] Árið 1591 var séra Gísli enn prestur á Söndum en árið 1596 tók hér við stað og kirkju séra Ólafur Jónsson[128] sem líklega er kunnastur allra Sandapresta enn þann dag í dag. Ýmis kvæði séra Ólafs urðu snemma mörgum kær og það eru þau sem hafa haldið nafni hans á lofti því maðurinn var skáld gott.

Séra Ólafur á Söndum var fæddur í Stóra-Laugardal í Tálknafirði um 1560 eða litlu síðar. Jón Erlingsson, faðir hans, var af Mókollsætt en þeir ættmenn höfðu lengi verið héraðshöfðingjar í Barðastrandarsýslu og sátu tíðum í Haga á Barðaströnd. Móðir séra Ólafs var Kristín, dóttir Ólafs Narfasonar silfursmiðs og Solveigar Bjarnadóttur sem ungri var rænt úr móðurgarði á Núpi í Dýrafirði (sjá hér Núpur). Ungur að árum var Ólafur tekinn í fóstur af Eggerti Hannessyni, lögmanni í Bæ á Rauðasandi, sem var hálfbróðir Solveigar ömmu hans. Ragnheiði, dóttur Eggerts og konu Magnúsar Jónssonar prúða, kallar hann fóstru sína í kvæði.[129]

Árið 1588 er Ólafur orðinn heimilisprestur þar í Bæ hjá hinum ágætlega skáldmælta sýslumanni Magnúsi prúða. Ekki er ólíklegt að kynni Ólafs af Magnúsi hafi ýtt undir hans eigin skáldskapariðkanir. Árið 1596 voru séra Ólafi veittir Sandar og þar gegndi hann prestsstörfum til dauðadags árið 1627. Talið er að séra Ólafur á Söndum hafi verið tvíkvæntur og niðjahópur hans varð snemma fjölmennur á Vestfjörðum. Börn hans sem upp komust voru átta og var Guðrún Pálsdóttir, seinni eiginkona séra Ólafs, móðir þeirra allra.[130] Guðrún var dóttir Páls Sveinssonar á Sæbóli á Ingjaldssandi[131] en hann var ættaður frá Kirkjubóli í Skutulsfirði.[132]

Sighvatur Grímsson Borgfirðingur segir um séra Ólaf að hann hafi verið gáfumaður mikill, skáld gott og söngfróður en lætur þess einnig getið að hann hafi löngum verið heilsuveill og nokkuð sturlaður af þungum þönkum eina tíð.[133]

Meðal þess sem séra Ólafur á Söndum orti eru bæði sálmar og veraldleg kvæði en flest er það með guðrækilegum blæ. Svo er talið að iðrunarsálmar séra Ólafs hafi létt mörgum þunga þraut og þá lét Brynjólfur biskup Sveinsson lesa fyrir sig hvað eftir annað í banalegunni.[134] Þó séra Ólafur gleymdi sjaldan guði sínum virðist hann vel hafa kunnað að gleðjast með glöðum. Til þess bendir að minnsta kosti kvæði hans Drykkjuspil er byrjar svo:

 

 

Gleður mig enn sá góði bjór,

guði sé þökk og lof;

þó mín sé drykkjan megn og stór

og mjög við of,

mun þó ei reiðast drottinn vór.

 

Kvæðið er langt og viðlagið, sem jafnan var endurtekið með hverri vísu, svona:

 

Hýr gleður hug minn

hásumartíð.

Skæran lofi skaparann

öll skepnan blíð.

Skín yfir oss hans miskunnin.

Hýr gleður hug minn.[135]

 

Svo er reyndar að sjá sem séra Ólafur hafi ekki verið með öllu frábitinn dansleikjum því ort hefur hann rímur sem bera nafnið Eitt sinn á gólfi kveðið og fróðir menn telja að kveðnar hafi verið í dansi.[136] Þar eru tvö fyrstu erindin svona:

 

Þó ég gangi á gólfið fram og geri mér kátt,

hæversk þjóð í húsi þessu inni

bið ég það virði á besta hátt.

 

Gjarnan vildi ég góðum til vilja gera sem flest

og leiða svo fram lífsins ævi mína

sem guði og mönnum geðjast best.[137]

 

Af dæmum þeim sem hér hafa verið tekin úr kveðskap séra Ólafs er ljóst að guðrækni hans hefur verið af öðrum og blíðari toga en hin ströngu lögmál heittrúarstefnunnar er hér urðu síðar nær allsráðandi og drápu alla gleðileiki í dróma. Séra Ólafur á Söndum lifði mikla breytingatíma. Á æskuárum hans fóru innlendir höfðingjar enn með mikið vald, ekki síst á Vestfjörðum, og hjá þeim var auður í garði. Er þar skemmst að minnast þeirra manna sem ólu séra Ólaf upp, Eggerts Hannessonar lögmanns og Magnúsar prúða Jónssonar. Landsmenn áttu þá mikil viðskipti við aðrar þjóðir en Dani og þá einkum við Englendinga og Þjóðverja. Á efri árum skáldprestsins á Söndum fór innlent vald hins vegar þverrandi en þá var danska einokunarverslunin sem óðast að herða þá fjötra er hér höfðu verið hnýttir í því skyni að tryggja dönsku yfirstéttinni sem mestan hagnað af þessu eylandi úti í Atlantshafi. Séra Ólafur var viðkvæmur maður og vaxandi niðurlæging ættlandsins hefur vakið með honum sáran trega eins og fram kemur í kvæði er hann nefnir Um hrörnun Íslands. Þar er viðlagið þetta:

 

Fyrnist Ísland fríða,

fölnar jarðarblóm.

Á leið til himins langar mig,

því lifa þar guðsbörn fróm.

Fyrnist Ísland fríða.[138]

 

Um komu spænskra hvalveiðimanna í Dýrafjörð haustið 1615 og aðför Dýrfirðinga að þeim orti séra Ólafur langan kvæðabálk, alls 77 erindi, og dregur þar taum sveitunga sinna eins og við mátti búast (sjá hér Fjallaskagi). Að líkindum hefur Sandapresturinn sem hér er frá sagt verið sæmilega læs á þýska tungu því ýmislegt þýddi hann úr því máli á íslensku. Þar er helst að nefna kvæðið Til skemmtunar við öldrykkju, sem hér hefur verið sungið fram á þennan dag og byrjar svo:

 

Eitt sinn fór ég yfir Rín

á laufblaði einnar lilju (og lilju).

Lítil var ferjan mín.

 

En síðar segir:

 

Minnar unnustu hús ég fann.

Luktar dyr voru læstar þar (læstar þar).

Lokað fast þetta rann.[139]

 

Vel má vera að séra Ólafur hafi dvalist lengur eða skemur í Þýskalandi á sínum yngri árum en þar var Eggert fóstri hans jafnan með annan fótinn og fluttist loks alveg frá Bæ á Rauðasandi til Hamborgar árið 1580. Eitt af mörgum viðlögum séra Ólafs er á þessa leið:

 

Ég var mig í útlöndum lengi.

Mér gaf ekki byrinn á braut;

     þreyr mín lund,

það hlaut ég af henni.[140]

 

Kvæði séra Ólafs á Söndum eru til í ýmsum handritum. Eitt þeirra er kvæðabók rituð af séra Hjalta Þorsteinssyni í Vatnsfirði árið 1693. Í þessu handriti eru sum kvæðin með nótum.[141] Doktor Jón Þorkelsson forni, sem á sínum tíma var allra manna fróðastur um kveðskap Íslendinga á 14., 15. og 16. öld, hélt því fram að séra Ólafur hefði sjálfur samið lög við mörg kvæða sinna[142] og segir þau harla sérstæð og einkennileg.[143] Séra Bjarni Þorsteinsson þjóðlagasafnari taldi líka miklar líkur á að séra Ólafur hefði sjálfur samið þessi sönglög og segir þau vera sniðin eftir vanalegum reglum hins gamla söngs.[144] Séra Bjarni gerir ráð fyrir að handritið Melodia, sem varðveitt er í háskólabókasafninu í Kaupmannahöfn og hefur að geyma um 200 sönglög við íslensk kvæði, sé komið frá séra Ólafi á Söndum og Jóni syni hans.[145] Á fremstu blaðsíðu handritsins stendur skrifað: Nokkrir útlenskir tónar með íslenskum skáldskap en næst á eftir 93. laginu er ritað Allt hingað til Jóns Ólafssonar tónar nema það síðasta.[146] Kenning séra Bjarna er sú að þó mörg laganna í Melodiu séu erlend þá muni önnur vera hugarsmíð feðganna á Söndum, séra Ólafs og Jóns sonar hans. Fullgild rök hafa þó ekki verið færð að þessari kenningu og enginn veit með vissu hvaða Jón Ólafsson átti eða samdi þessa ágætu tóna.

Margt í skáldskap séra Ólafs ber vott um hug hans til einnar konu eða kvenna, þar á meðal þetta:

 

Harm hefur mér í hjartans leynum

hugraun bruggað stór.

Mig langar eftir lund einum

þar liljan grór.[147]

 

Er Ólafur prestur á Söndum tók að eldast reyndi hann að sætta sig við það sem ekki var unnt að breyta. Sá hefur löngum verið hygginna manna háttur. Í viðlagi við kvæðið Fræðaspil ég finna vil segir hann:

 

Hin góða elli að garði fer

og gista vill mér hjá,

æskan hefur upp sagt mér

ævin vill so gá.[148]

 

Séra Ólafur andaðist á Söndum árið 1627 og var jarðsettur hér fram undan kirkjudyrum, – rétt við ganginn að sunnanverðu út úr kirkjunni.[149]

Stefán Ólafsson, síðar prestur í Vallanesi, var um það bil átta ára gamall er séra Ólafur á Söndum andaðist. Hann gerðist brátt einn margra aðdáenda ljóðmælanna frá Söndum en þau bárust í afskriftum mann frá manni um land allt. Í kvæðabók séra Stefáns stendur þessi vísa:

 

Séra Ólafur á Söndum

          sálma og vísur kvað,

margt gott hefur í höndum

          hver sem iðkar það,

því var skáldi skipt

skýrleiks andagift;

          mig hafa ljóð þess listamanns

langseminni svipt;

          fáir fara nú lengra

          þó fýsi að yrkja þrengra.[150]

 

Um prestana sem sátu á Söndum fyrstu áttatíu árin eftir andlát séra Ólafs er fátt í frásögur færandi en þeir voru séra Þorleifur Bjarnason, er prestur var á Söndum frá 1628 til 1664, séra Ólafur Þorleifsson, er tók við af föður sínum og hélt staðinn til ársins 1697, og loks séra Jón Tómasson er prestur var á Söndum frá 1697 til 1707 og dó hér í stórubólu. Um séra Þorleif segir Sighvatur Borgfirðingur að hann hafi byggt staðinn vel upp og verið góður og fyrirhyggjumikill forstands- og búmaður.[151] Eitt sjö barna séra Þorleifs var Bjarni Þorleifsson á Söndum sem skikkaður var hreppstjóri gegn vilja sínum árið 1674.[152] Líklega er það þessi sami Bjarni Þorleifsson sem um er getið í viðauka við Vatnsfjarðarannál hinn elsta en þar segir við árið 1657: Málefni slæmt í Dýrafirði þar kona kenndi Bjarna Þorleifssyni barn en hann fyrir sór.[153] Á árunum upp úr 1680 var Bjarni um skeið settur sýslumaður í vesturhluta Ísafjarðarsýslu[154] og má ætla að hann hafi tekið vægt á þeim er létu sig hafa að sverja fyrir börn sem getin voru í leynum.

Svo virðist sem samkomulag milli barna séra Þorleifs á Söndum hafi ekki verið alveg upp á það besta því árið 1693 reið séra Ólafur Þorleifsson á Söndum til Alþingis og þar krafðist hann þess að arfleiðslugerningur er systir hans, Þórunn Þorleifsdóttir, hafði gert við sína fósturdóttur, Sezelíu Sæmundsdóttur, yrði dæmdur ógildur.[155] Þórunn var gift Árna Magnússyni á Hóli í Bolungavík en nýnefnd fósturdóttir hennar er að líkindum hin sama Sezelía og Magnús Jónsson digri í Vigur gekk að eiga um 1690 en hún var bróðurdóttir Árna Magnússonar á Hóli.[156] Á Þjóðminjasafni Íslands er varðveittur útskorinn stóll séra Ólafs Þorleifssonar á Söndum.[157]

Vorið 1708 tók séra Jón Þórðarson við stað og kirkju á Söndum en hann var þá liðlega þrítugur að aldri og hafði alist upp í Holti í Önundarfirði. Jón var bóndasonur frá Laxamýri í Þingeyjarsýslu, bróðir séra Sigurðar Þórðarsonar á Brjánslæk, ættföður allra Briema.[158] Séra Jón Þórðarson var prestur á Söndum í 27 ár. Vorið 1735 sagði hann af sér en var engu að síður dæmdur frá kjól og kalli skömmu síðar, enda hafði hann orðið ber að meiriháttar embættisafglöpum vegna drykkjuskapar. Hér hefur áður verið minnst stuttlega á fall séra Jóns í Sandakirkju haustið 1734 (sjá hér Hólar og Hokinsdalur). Sighvatur Grímsson Borgfirðingur segir svo frá atburðum að séra Jón hafi ætlað að messa á Allraheilagramessu og taka fólk til altaris en verið þá svo yfirfallinn af drykkjuskap að hann hafi dottið flatur á kórgólfið fyrir altarinu. Sighvatur lýsir þessu nánar og segir:

 

Tóku menn þá til hans, færðu hann úr skrúðanum og lögðu hann upp í bekk í kirkjunni. Þar lá hann í roti um hríð. Tók þá einn af sóknarmönnum prentaða postillu og las yfir söfnuðinum lestur þess dags út af guðspjallinu og lá prestur kyrr í bekknum á meðan. En er prestur raknaði úr rotinu útdeildi hann fólkinu brauði og víni óhelgað.[159]

 

Séra Jón hafði áður verið kærður fyrir embættisafglöp, fimmtán árum fyrr, en nú tók steininn úr.

Sagt er að séra Jón Þórðarson hafi verið gáfumaður en forn í skapi og gefinn fyrir kukl.[160] Eftir örlagaríkt fall hans fyrir altarinu í Sandakirkju var þessi fyrrverandi prestur af mörgum nefndur Jón dettir. Fjárhús er hann hafði reist í Sandatúni stóðu þar fram undir aldamótin 1900 og voru kölluð Dettirshús.[161] Í Örnefnaskrá segir að Dettistótt sé vestur af bæjarhólnum á Söndum en um lægðina milli hennar og hólsins hafi legið almenn þjóðleið frá Kirkjubóli og Múla til Þingeyrar.[162] Séra Jón fór nauðugur frá Söndum og fluttist að Hokinsdal. Þar andaðist hann árið 1755. Þessi hrösuli prestur var talinn vel að sér á marga grein. Hann orti sálma og þýddi úr grísku Testamenti þeirra tólf Jakobssona.[163] Ýmsar uppskriftir frá hans hendi eru varðveittar í söfnum.

Til er lýsing séra Jóns Þórðarsonar á kjörum sínum og aðstæðum árið 1710 og ritar hann þar á þessa leið:

 

Stórum er og örðugt að komast milli kirkna í þessari sveit, þar bæði hefur prestur að búast við og mæta, þegar svo viðrar, ófærum ám, brimi sjóar og grjótfalli en verður sjóarfjörum fótgangandi að sæta hvort sem yfirstendur nótt eða dagur, þá nauðsyn krefur ytra að vera.[164]

 

Séra Jón lætur þess einnig getið í sömu greinargerð að fyrir usla og átroðning í landareign Sanda meðan kauptíðin standi yfir á Þingeyri fái hann greiddar fimm vættir frá Þingeyrarverslun[165] eða sem svaraði fimm ærgildum.

Ýmsar þjóðsögur mynduðust um brottför séra Jóns frá Söndum. Ein var sú að hann hafi sagt að Sandakirkja myndi segja andlát sitt[166] og svo fór að kirkjan fauk (sjá hér bls. 9) um svipað leyti og Jón dettir andaðist haustið 1755. Einnig átti séra Jón að hafa sagt að best væri að prestur sá er kæmi að Söndum eftir sig gengi fyrstur inn í kirkjuna. Þessi orð bárust séra Magnúsi Snæbjarnarsyni til eyrna áður en hann kom að Söndum og tók þar við embætti haustið 1736. Tók hann það ráð að fleygja hundi á undan sér inn í kirkjuna og drapst hundurinn þegar en prest sakaði eigi.[167]

Séra Magnús Snæbjarnarson, er varð eftirmaður séra Jóns dettis á Söndum, þjónaði hér í nær hálfa öld frá 1736 til 1783. Hann var sonur Snæbjarnar Pálssonar lögréttumanns er lengst bjó á Ingjaldssandi en áður á Mýrum í Dýrafirði og kallaður var Mála-Snæbjörn. Þrír synir Mála-Snæbjarnar og fyrri konu hans, Kristínar Magnúsdóttur frá Vigur, urðu prestar á Vestfjörðum og var séra Magnús þeirra elstur, fæddur árið 1705.[168]

Séra Magnús fékk amtmannsveitingu fyrir Söndum vorið 1735 en Jón Árnason biskup neitaði þá að vígja hann vegna hluttöku hans í málum föður hans fyrrum.[169] Með konungsbréfi frá 14. október 1735 var lagt fyrir biskup að vígja þennan elsta son Mála-Snæbjarnar og fór vígslan fram 5. ágúst 1736.[170] Séra Magnús var prófastur í 42 ár og fær heldur góðan vitnisburð í skýrslu Ludvigs Harboe er sendur var árið 1741 af danska kirkjustjórnarráðinu til að rannsaka kristnihald á Íslandi.[171] Í Prestaæfum sínum kemst Sighvatur Borgfirðingur svo að orði að séra Magnús Snæbjarnarson hafi verið mikilhæfur maður, allvel að sér en drykkjugjarn í meira lagi.[172]

Séra Magnús var kvæntur Helgu, dóttur séra Jóns Tómassonar er áður var prestur á Söndum (sjá hér bls. 20). Af börnum þeirra komst aðeins upp ein dóttir, Þorkatla er varð eiginkona séra Jóns Ásgeirssonar en hann tók við Sandaprestakalli að séra Magnúsi látnum árið 1783 og þjónaði því í þrettán ár. Séra Jón Ásgeirsson og Þorkatla Magnúsdóttir voru afi og amma Jóns Sigurðssonar forseta en frá þeim verður nánar sagt er staldrað verður við í Holti í Önundarfirði þar sem séra Jón var prestur í fjórtán ár.

Hér á Söndum komu þau séra Jón Ásgeirsson og Þorkatla, kona hans, upp börnum sínum, Þórdísi, sem varð móðir Jóns forseta, Helgu og Ásgeiri sem varð prófastur í Holti. Vorið 1786 voru prestsdæturnar tvær fermdar hér á Söndum.[173] Þá var Helga 15 ára en Þórdís einu ári yngri.[174] Átta árum síðar voru þær systur enn hér í föðurgarði. Sú eldri lét þá fallerast og ól meybarn 4. desember 1794.[175] Barnsfaðir prestsdótturinnar hét Þorkell Bjarnason og var kvæntur annarri konu sem einnig hét Helga og var Þórólfsdóttir.[176] Þorkell var vinnumaður á Söndum og eignaðist sama árið börn með báðum, eiginkonunni og prestsdótturinni.[177]

Króginn sem Helga Jónsdóttir fæddi í heiminn í byrjun jólaföstu árið 1794 var fyrsta barnabarn foreldra hennar og hlaut í skírninni nafnið Karitas[178] sem merkir kærleikur. Svo virðist sem prestshjónin hafi tekið mildilega á hrösun dóttur sinnar því barnsfaðir hennar var ekki látinn víkja af heimilinu og litlu Karitas tóku afinn og amman, prestshjónin á Söndum, í fóstur.[179] Hún fór seinna til Þórdísar, móðursystur sinnar, að Rafnseyri, og átti þar lengi heima (sjá hér Rafnseyri). Vera má að hún hafi leitt frænda sinn, Jón Sigurðsson, fyrstu skrefin þar í baðstofunni.

Séra Markús Eyjólfsson var prestur á Söndum frá 1797 til 1817. Frá honum hefur áður verið sagt dálítið á þessum blöðum (sjá Rafnseyri og Hraun í Keldudal). Hann var bóndasonur úr Hvammssveit í Dalasýslu, fæddur 1748. Hann útskrifaðist úr Skálholtsskóla með geysimiklu lofi vorið 1771 en þó lá að sögn nærri að honum yrði vísað þar úr skóla fyrir að berja bombalda.[180]

Á prestskaparárum séra Markúsar voru enn í bæjarhúsunum hér á Söndum bæði skáli og stofa en baðstofan var þó þá þegar orðin rúmbesta vistarveran.[181] Nokkrum árum síðar var skálanum breytt í búr og stofunni í eldhús.[182]

Prestvígslu tók séra Markús haustið 1776 og gerðist þá aðstoðarprestur séra Einars Þórðarsonar í Hvammi í Dölum. Árið 1783 voru séra Markúsi veitt Dýrafjarðarþing og að Söndum kom hann frá Mýrum, handan fjarðarins, vorið 1797. Um séra Markús segir Sighvatur Borgfirðingur að hann hafi verið sæmilegur í prestverkum, dagfarsprúður forstandsmaður og góður skrifari.[183] Síðustu ár sín á Söndum var séra Markús alblindur en hafði þá aðstoðarprest sér til liðsinnis. Frá Söndum fór hann sem uppgjafarprestur að Hvítanesi við Djúp árið 1817, því næst að Hvammi í Dýrafirði en þaðan að Fremstuhúsum og loks að Rafnseyri árið 1824. Þar andaðist þessi blindi drottins þjónn í ársbyrjun 1830 kominn á níræðisaldur.

Er Ebenezer Henderson, erindreki breska Biblíufélagsins, kom í Dýrafjörð sumarið 1815 var séra Markús enn prestur á Söndum. Sunnudaginn 11. júní ætlaði Henderson að vera hér við messu en af einhverjum ástæðum var ekki messað þann dag.[184] Hann fór því aldrei að Söndum en ritaði samt í Ferðabók sína þessi ummæli um séra Markús:

 

En vænt þótti mér um að heyra það að enda þótt presturinn sé blindur af elli er honum samt ekki varnað andlegrar sjónar, heldur elskar hann guðlegan sannleik og er alvörugefinn fyrirmyndarmaður.[185]

 

Haustið 1827 var séra Daða Jónssyni veitt Sandaprestakall og fluttist hann að Söndum vorið 1828. Hann var fæddur árið 1780, sonur séra Jóns Ormssonar í Sauðlauksdal, sem var hálfbróðir séra Markúsar Eyjólfssonar er áður var á Söndum, og konu hans Ragnheiðar Eggertsdóttur. Séra Daði varð aðstoðarprestur föður síns í Sauðlauksdal árið 1815 en missti hempuna tveimur árum síðar vegna barneignar fram hjá konu sinni. Hér hefur áður verið sagt nokkuð frá því hórdómsbroti og ýmsum afleiðingum þess (sjá hér Álftamýri og Meðaldalur). Er séra Daði hafði verið sviptur hempunni fluttist hann að Geirseyri við Patreksfjörð og bjó þar í allmörg ár. Að sjö árum liðnum fékk hann uppreisn og gerðist haustið 1826 aðstoðarprestur séra Jóns Sigurðssonar í Dýrafjarðarþingum. Hann settist þá að í Minna-Garði og bjó þar í tæplega tvö ár uns hann tók við stað og kirkju á Söndum vorið 1828 en hér þjónaði hann til æviloka. Séra Daði andaðist 18. ágúst 1837.

Í Íslenskum æviskrám segir um prest þennan að hann hafi verið vel gefinn maður og vel þokkaður, góður kennimaður, stilltur og dagfarsprúður, heppinn blóðtökumaður en drykkjugjarn nokkuð og tekið fram að við það hafi efni hans þorrið.[186]

Nokkru fyllri er lýsing Sighvats Borgfirðings á séra Daða en hann segir:

 

Séra Daði var vel gáfaður maður en ófríður í andliti. Hann varð snemma sköllóttur ofan á höfði. Hann var sæmilegur í prestverkum, stilltur í skapi og gætinn í orðum. … ærið drykkjugjarn og kostaði allmiklu fé til að seðja þá girnd sína en var þó ætíð stilltur og spakur bæði drukkinn og ódrukkinn.[187]

 

Séra Daði var tvíkvæntur. Fyrri kona hans var Sigríður Þóroddsdóttir, föðursystir Jóns Thoroddsen, skálds og sýslumanns. Hún var um það bil þrettán árum eldri en séra Daði[188] og andaðist á Söndum vorið 1834, þá hátt á sjötugsaldri. Árið eftir kvæntist séra Daði Steinunni, dóttur Páls Hjálmarssonar er var síðasti rektor Hólaskóla en seinna prestur á Reykhólum. Báðar eiginkonur séra Daða höfðu áður verið giftar öðrum og áttu mörg börn en með honum eignuðust þær engin börn. Eina barn séra Daða var harmkvælasonurinn Benóný sem getinn var í meinum en fæðing hans kostaði föðurinn hempuna og embættismissi í sjö ár. Frá Benóný Daðasyni, sem varð bóndi í Meðaldal, var sagt hér nokkru framar (sjá hér Meðaldalur).

Sighvatur Borgfirðingur getur þess að mjög hafi gengið á efni séra Daða á hans síðari árum. Miklu verr fór þó fyrir eftirmanni hans í prestsembætti á Söndum sem missti, að sögn Sighvats, mál, vit og heilsu fáum árum eftir komu sína hingað.[189] Prestur sá hét Bjarni Gíslason og var upprunninn norður í Skagafirði, sonarsonur séra Odds Gíslasonar í Miklabæ sem hvarf með dularfullum hætti á leið milli bæja haustið 1786 og margir þekkja af kvæði Einars Benediktssonar.

Séra Bjarni kom aðstoðarprestur að Söndum fáum mánuðum fyrir andlát séra Daða og fékk veitingu fyrir Sandaprestakalli 1. desember 1837.[190] Hann var prestur á Söndum í níu ár en sleppti kallinu lausu árið 1846. Bjarni Gíslason var fæddur árið 1801. Skólanámi lauk nann 22ja ára gamall og fór ári síðar að búa á Ytri-Görðum í Staðarsveit. Árið 1833 fluttist Bjarni frá Gaul í Staðarsveit að Breiðabóli í Skálavík ytri við Ísafjarðardjúp og síðar á sama ári að Árbæ í Bolungavík.[191] Haustið 1836 var hann vígður aðstoðarprestur séra Daða á Söndum en gegndi þó næsta vetur störfum aðstoðarprests í Bolungavík.

Sighvatur Borgfirðingur segir um séra Bjarna að hann hafi verið gáfnatregur en þó hagorður, stilltur og siðferðisgóður meðan hann var með réttu ráði.[192] Séra Bjarni mun ekki hafa verið embættisfær á Söndum nema í fjögur ár, 1837-1841, en á þeim árum samdi hann Lýsingu Sanda- og Hraunssókna í Dýrafirði sem hér hefur stundum verið vitnað í. Ekki verður sagt að sá texti beri vott um neina gáfnatregðu þó dálítið sé hann stuttaralegur.[193]

Vorið 1841 mun séra Bjarni hafa fengið slag, þá fertugur að aldri, og náði sér aldrei þaðan í frá.[194] Hann hélt þó embættinu í fimm ár enn en á því skeiði munu nágrannaprestar hafa gegnt störfum fyrir hann. Árið 1845 var séra Bjarni í húsmennsku á Söndum með eiginkonu og þrjú börn á aldrinum 13-18 ára.[195] Einu ári síðar var hann knúinn til að sleppa prestakallinu en sóknarmenn vildu þá ekki hafa hann lengur að sögn Sighvats Grímssonar Borgfirðings.[196]

Er séra Bjarni hvarf frá Söndum árið 1846 var hann gjaldþrota og mun ekki hafa getað staðið skil á öllum lausafjármunum kirkjunnar er hann hafði veitt viðtöku átta og hálfu ári fyrr. Er biskup vísiteraði á Söndum í fyrsta sinn eftir brottför séra Bjarna skráði hann þessar upplýsingar í bók sína:

 

Sexærings skip til vergagna á Skaga, sem um getur í seinustu biskupsvísitazíu er nú ekki til og er þegjandi undan gengið svo að fyrir því finnst engin grein, – sömuleiðis þær 100 álnir í búsgagni og ein kista sem undan er gengið í tíð fyrrverandi Benificiarii [þ.e. séra Bjarna – innsk. K.Ó.] af hvers þrotabúi ekki var mögulegt að ná endurgjaldi. Fyrir þar sömuleiðis umgetinn eitt hundraðs hest hefur sá núverandi Benificiarius meðtekið 2 vættir [þ.e. þriðjung verðsins – innsk. K.Ó.].[197]

 

Í vísitazíugerðinni frá 1852 er líka tekið fram að með biskups leyfi sé búið að selja fjögur af tólf kúgildum Sandakirkju en hins vegar sjáist ekki í reikningum að andvirði þeirra hafi nokkru sinni verið greitt kirkjunni.[198] Fyrir tvö þessara seldu kúgilda höfðu fengist 12 spesíur sem ákveðið var að fylgja skyldu prestakallinu mann frá manni og tók fyrrverandi prestur [þ.e. séra Bjarni] móti þessum peningum en hefur eigi skilað þeim sínum eftirmanni, ritar Helgi biskup Thordersen.[199]

Ekki þarf fleiri orð til að lýsa hvernig komið var efnahag séra Bjarna Gíslasonar er hann hraktist frá Söndum. Páll Eggert Ólason segir í Íslenskum æviskrám að í veikindastríði sínu hafi séra Bjarni lagst í drykkjuskap[200] en Sighvatur Borgfirðingur orðar það svo að prestur þessi hafi orðið ráðvilltur flakkari skömmu eftir að hann fór frá Söndum en þó fyrst verið við búhokur á kirkjujörðinni Múla í Sandasókn.[201]

Séra Bjarni Gíslason kvæntist 24 ára gamall Helgu Árnadóttur frá Meirihlíð í Bolungavík en hún var tíu árum eldri en hann og hafði áður verið gift séra Hákoni Jónssyni, presti á Eyri í Skutulsfirði, sem fórst í snjóflóði á Óshlíð árið 1817. Hún fylgdi manni sínum allan tímann sem hann var á Söndum en síðar munu þau hafa slitið samvistir.[202] Elstur þriggja barna þeirra er upp komust var Hákon Bjarnason er síðar varð kaupmaður á Bíldudal og þótti hinn merkasti maður. Hákon var 18 ára hjá foreldrum sínum á Söndum árið 1845.[203]

Þess var áður getið að séra Bjarni hefði verið hagmæltur. Í Dýrafirði var haft fyrir satt að um Hákon son sinn hefði hann ort þessa vísu:

 

Af svo litlu ungmenni

er það skrítin saga,

þú ert efni í þrælmenni

– þjóf og bedragara.[204]

 

Er Hákon var orðinn kaupmaður á Bíldudal tók hann að ala önn fyrir föður sínum sem þá var gamall orðinn og kom honum loks fyrir í Flatey á Breiðafirði. Sagt er að þar hafi Hákon orðið að borga 100 ríkisdali á ári í meðlag með karli[205] eða sem svaraði andvirði tveggja til þriggja kúgilda.[206] Sighvatur Borgfirðingur var sjálfur í Flatey um svipað leyti og séra Bjarna var komið þar fyrir. Hann getur þess að þar hafi gamli uppgjafapresturinn frá Söndum verið sérlega þungur ómagi. Ástandi hans við ævilok lýsir Sighvatur svo: … var hann að síðustu karlægur og svo ráðvilltur og endemislegur að hann gerði allar þarfir sínar til baks og kviðar í rúm sitt er hann lá í og þótti þó enn verra lundarfar hans.[207]

Lýsing Sighvats bendir til þess að þeir sem hýstu gamla Sandaklerkinn á hans síðustu árum hafi talið þungan kross á sig lagðan við komu hans. Vonandi hafa þeir hinir sömu ekki gleymt því að sjálfur hafði þessi gamli prestur lengi borið þyngri kross en flestir aðrir, embættislaus og heilsulaus flækingur frá miðjum aldri.

Séra Bjarni Gíslason andaðist í Flatey haustið 1869. Hann var þá 68 ára gamall.

Séra Einar Vernharðsson var prestur á Söndum frá 1846 til 1853 og tók hér við af séra Bjarna. Hann var síðar lengi prestur á Stað í Grunnavík.

Eftirmaður séra Einars í prestsembætti á Söndum varð séra Jón Sigurðsson sem fæddur var í Vatnsfirði árið 1787. Hann þjónaði Sandaprestakalli frá 1853 til 1859 en hafði áður lengi verið prestur í Dýrafjarðarþingum (sjá hér Gerðhamrar) og þar áður í Otradal.[208] Enda þótt séra Jón gegndi prestsembætti á Söndum ekki nema í sex ár vill svo til að flestar heimildir um hann greina ýtarlegast frá veru hans hér. Af þeim ástæðum verður sagt hér nokkru nánar frá honum.

Séra Jón fæddist á heimili afa síns og ömmu, séra Guðlaugs Sveinssonar prófasts í Vatnsfirði og konu hans Rannveigar Sigurðardóttur. Um þann atburð kveður hann sjálfur svo:

 

Fjórtánda júní fékk ég litið

þann fyrsta dag sem ljós mér bar.

Átjándu aldar ártal ritið

áttatíu og sjö þá var,

mín fyrstu lífsspor gekk ég þar.[209]

 

Móðir drengsins var Guðrún Jónsdóttir frá Garðsstöðum, er þá var vinnukona hjá prófasti, en faðirinn Sigurður Guðlaugsson, sonur prófasts, er siglt hafði til laganáms í Kaupmannahöfn rétt eftir að barnið kom undir haustið 1786. Séra Jón ólst að mestu upp hjá afa sínum í Vatnsfirði en að hluta hjá móður sinni og stjúpa, Einari Magnússyni, á Hvítanesi í Ögursveit. Föður sinn sá hann hins vegar aldrei fyrstu ellefu ár ævinnar.[210]

Jón Sigurðsson lærði undir skóla hjá afa sínum í Vatnsfirði en útskrifaðist frá Bessastöðum árið 1809 með glæsilegum vitnisburði. Næstu árin var hann hjá móður sinni á Hvítanesi og tók nemendur til læringar á vetrum.[211] Frá 1814 til 1817 bjó Jón á Eyri í Seyðisfirði við Djúp en gerðist þá verslunarmaður hjá Neðstakaupstaðarverslun á Ísafirði og vann þar í sex ár en stundaði jafnframt kennslu.[212] Vorið 1824 fór hann fótgangandi suður til Reykjavíkur til að taka prestvígslu og gerðist þá aðstoðarprestur í Otradal.[213] Þann 10. janúar 1825 var honum veittur Otradalur. Þar var hann prestur í átta ár ef með eru taldir þeir mánuðir sem hann þjónaði þar sem aðstoðarprestur. Í Otradal gaf séra Jón foreldra sína saman í hjónaband þann 14. október 1828.[214] Hann var þá sjálfur 41 árs gamall, faðir hans 64 ára en brúðurin, móðir prestsins, 75 ára.[215] Má slíkt kallast einsdæmi en Guðrún, móðir séra Jóns, var þá ekkja og faðir hans ekkjumaður.

Árið 1832 voru séra Jóni Sigurðssyni veitt Dýrafjarðarþing og þar þjónaði hann í 21 ár. Frá 1832 til 1837 bjó hann á Núpi en síðan á Gerðhömrum í 16 ár. Þaðan fluttist hann að Söndum vorið 1853 og var þá nær 66 ára gamall. Jón prestur var dökkur á brún og brá og af mörgum kallaður Jón svarti.[216] Ingivaldur Nikulásson, fræðimaður á Bíldudal, var kunnugur fólki er vel mundi séra Jón[217] og lýsir honum svo:

 

Hann var í lægra lagi, snotur í vexti, rjóður í andliti, fremur fríður sýnum, hár og skegg svart. Var af því dregið auknefni hans. Tilfinningamaður var hann talinn, viðkvæmur, hjartagóður og hjálpsamur við þá sem bágt áttu.[218]

 

Séra Jón Sigurðsson var vel að sér í tungumálum, einkum frönsku sem hann gat bæði talað og ritað hvenær sem þörf var á.[219] Kom það sér oft vel því á hans dögum stundaði mikill floti af frönskum skútum veiðar úti fyrir Vestfjörðum ár hvert og hópuðust oft inn á Dýrafjörð þar sem skipalægi þótti betra en víðast annars staðar (sjá hér Haukadalur og Þingeyri). Séra Jón kenndi mörgum eitthvað í frönsku og til þess var tekið hversu vel María Eiríksdóttir, fósturdóttir hans, talaði það tungumál en hún var eiginkona Sigurðar Bachmann, kaupmanns á Vatneyri við Patreksfjörð.[220]

Ingivaldur Nikulásson kunni sögu af því er séra Jón bjargaði strokumanni af frönsku herskipi og segir að sig minni að nafn skipsins hafi verið Artemis.[221] Nafnið á skipinu er að líkindum hárrétt munað hjá Ingivaldi því á þeim árum sem séra Jón þjónaði á Söndum var franska herskipið Artemise stundum hér við land á sumrin til aðstoðar við skúturnar[222] og lá þá oft inni á Dýrafirði. Saga Ingivaldar er á þessa leið:

 

Einhverju sinni meðan séra Jón var á Söndum bar svo til er franskt herskip, sem mig minnir að héti Artemis, kom á Haukadalsbót að liðsforingi einn á skipinu, sem eitthvað hafði gert fyrir sér, komst í land og strauk. Hann var þó í handjárnum. Honum tókst að dyljast undir snjóskafli í gili einu uppi í Sandafelli. Hans var leitað af mönnum frá skipinu en sú leit bar engan árangur. Þeir leituðu mjög vandlega á Söndum og Sandahúsum. Fyrirliðinn kom upp á baðstofuloft, fletti ofan af rúmunum og gáði inn undir þau. Hann var þó hinn kurteisasti og bað fyrirgefningar á ónæðinu. Þegar þeir gáfu upp leitina beiddi foringinn Jón að taka á móti manninum, ef hann fyndist, taka hann úr járnunum og geyma hann. Prestur hét því.

Skömmu eftir brottför skipsins kom strokumaðurinn heim að Söndum illa til reika og nær dauða en lífi af hungri og vosbúð. Prestur tók vel við honum og lét hann dveljast þar á heimilinu uns hann fékk far handa honum til útlanda. Hann gaf honum bæði fatnað og aðrar nauðsynjar. Maður þessi var hinn prúðasti í allri umgengni. Mjög var hann þó kvíðafullur um framtíð sína þá er heim kæmi og kvaðst búast við að fyrir sér lægi annað hvort líftjón eða margra ára fangelsi. Prestur hughreysti hann og bað hann engu kvíða. Kvaðst hann svo mundu um búa að honum dygði. Hann sendi manninn síðan beint heim til Frakklands, frönsku stjórnarinnar, skrifaði með honum langt varnarskjal og bað honum náðunar.

Vorið eftir þegar franska herskipið kom fékk séra Jón tvö bréf frá Frakklandi. Annað þeirra var frá stjórninni og fylgdi því peningasending allrífleg. Var honum í bréfi þessu þakkað hve mannúðlega honum hefði farist við mann þenna og innt frá því að hann hefði verið náðaður aðeins vegna beiðni séra Jóns og hans drengilegu frammistöðu í því máli. Hitt var þakklætisbréf frá liðsforingjanum og hefði það verið mjög innilegt.[223]

 

Fleira er sagt frá samskiptum séra Jóns við Frakka á öðrum stað í þessu riti (sjá hér Gerðhamrar) og bendir flest til þess að hann hafi átt við þá margvísleg vinsamleg samskipti. Engu að síður virðist hann alls ekki hafa viljað greiða götu frönsku keisarastjórnarinnar er hún leitaði eftir heimild til að stofna franska nýlendu á Þingeyri (sjá hér Þingeyri). Þvert á móti má ætla að prestur hafi verið í hópi þeirra er beittu sér fyrir söfnun undirskrifta undir bænarskrá Dýrfirðinga gegn því að Frökkum yrði afhent land til nýlendustofnunar. Að minnsta kosti skrifar hann næst fyrstur undir skjalið.[224]

Ingivaldur Nikulásson segir það orð hafa legið á að séra Jón væri rammgöldróttur og því hafi sumir haft nokkurn beyg af presti.[225] Er hann var á Söndum bjó Bjarni Jónsson í hjáleigunni Sandahúsum hér í túninu.[226] Dóttir Bjarna, Jóhanna að nafni, sem fædd var um 1848 og dó árið 1941, greindi svo frá að eitt sinn hefði prestur laumað blaðsnepli með rúnastaf undir sperru í fjárhúsi föður hennar og þá haft í huga að vinna kindum hans grand.[227] Að sögn Jóhönnu var annars góð vinátta með hjáleigubóndanum og séra Jóni og Bjarni í Sandahúsum formaður á vertíðarskipi prestsins.[228] Aldrei vildi Bjarni þó ganga til altaris.

 

Kvaðst hann eitt sinn hafa verið fylgdarmaður séra Jóns yfir heiði eina. Hefði prestur þá verið ölvaður mjög og sagt sér of margar aðferðir við hin fornu fræði til þess að hann gæti þegið af honum sakramenti.[229]

 

Ýmis fleiri dæmi mætti nefna um trú manna á galdrakunnáttu séra Jóns Sigurðssonar. Á einum stað segir frá því að séra Jón á Söndum í Dýrafirði hafi sett niður draug á bæ einum hér í sókninni. Draugurinn var að snúa naut úr hálsliðnum er prestur kom í fjósið. Ekkja sem nautið átti heyrði drauginn mæla um leið og hann sökk:

 

Það er vandi að verjast hér

voða, grandi og tjóni;

það er fjandans afl sem er

í honum Sanda-Jóni.[230]

 

Líklegt er að þarna sé átt við séra Jón Sigurðsson þó eldri Jónar í prestsembætti á Söndum gætu líka komið til greina. Sögunni fylgir að prestur þessi hafi kunnað hvítagaldur.

Kona séra Jóns prests Sigurðssonar var Þórdís, dóttir séra Þórðar Þorsteinssonar er lengst var prestur í Ögurþingum. Í frásögur er fært að bæði hafi þau hjón verið drykkfelld og hafi prestur verið bráðlyndur við drykk og heitingagjarn ef út af bar.[231] Í sömu heimild er greint svo frá að ódrukkinn hafi séra Jón verið stilltur og umgengnisgóður og hafi margir talið að vandaður maður og góður mundi hann verið hafa ef kona hans hefði haft bætandi áhrif á hann fremur en hið gagnstæða.[232]

Til er bréf sem séra Jón Sigurðsson á Söndum ritaði biskupi 24. apríl 1856.[233] Hann leitar þar eftir leiðréttingu á úttekt sem fram hafði farið á stað og kirkju hér á Söndum er hann tók við þeim úr hendi forvera síns, séra Einars Vernharðssonar árið 1853. Í þessu bréfi kemst séra Jón, sem taldi sig hafa farið halloka við úttektina, m.a. svo að orði:

 

Eitt eða tvö dyraloft í frambænum, sem allir vita að hér fylgdu, og allar læsingar bæði frá utan- og innanbæjarhúsum var burtu tekið því prófasti [Lárusi M. Johnsen – innsk. K.Ó.], sem áður var, hafði gleymst að skrifa það. Ég hefi þegar byggt upp aftur tvö hús og þar að auki lagt til nokkurn við og mannhjálp til Sandhúsa [hjáleigunnar – innsk. K.Ó.] uppbyggingar og býst nú til að byggja fleiri í vor.

. . . .

En hvað kirkjuna snertir er mér óþolandi sem fátækum og gömlum manni að þegja um, hún átti hjá fráfarandi presti 162 rbd 50 sk og þar að auki 43 rbd  86 sk sem honum voru fyrir meðhaldserklæring prófastsins eptir gefnir fyrir byggingu Sandahúsa hjáleigu, hvörrar viðir, þegar hún hrundi niður að viðum og veggjum, voru virtir á 6 rbd.[234]

 

Um kirkjuna segir séra Jón að hún sé ekki messufær vegna fúa og leka, nema í góðu veðri, öll syðri súð hennar grautfúin,[235] Yfir aumlegu ástandi bæjarhúsanna, er hann tók við þeim, ber prestur sig líka illa og segir:

 

… en lakast af öllu var að stofuhús, sem þó áður til var og stendur mitt í baðstofunni, loft þar af fúnum fjölum, stigi, rúmstokkar brotnir, gluggar og stafgólf af útihúsi, margt fleira sem nam fram undir 60 rbd var mér þar upp í fengið en stafgólfslangt kamers var látið í stað fyrrverandi stofuhúss, hvörsu sem ég mótmælti og ef þetta væri rifið eða selt væru prestakallsins íveruhús gjörrúíneruð sem fádæmi er að sé í nokkru prestakalli og valla eða öldungis ekki á nokkru meðalbóndabýli hér.[236]

 

Þrátt fyrir allar þessar harmatölur náði séra Jón að byggja hér upp kirkjuna og nokkuð af staðnum ef marka má orð Sighvats Grímssonar Borgfirðings[237] en vorið 1859 varð hann að láta af embætti vegna sjónleysis. Hann fluttist þá, 72ja ára gamall, á kirkjujörðina Múla hér í Sandasókn og bjó þar í þrjú ár. Kona hans fylgdi honum þangað.[238] Sighvatur Borgfirðingur segir að séra Jón hafi komist skuldlaus frá Söndum en að mestu félaus. Í Múla beið hans köld aðkoma og segir Sighvatur að þar hafi prestur orðið að búa um rúm sitt á moldarbálki og torfþekja baðstofunnar verið svo lág að nálega hafi orðið að skríða inn á moldargólfið[239] (sjá hér Múli).

Enda þótt húsakynni væru bágborin á Múla virðist séra Jón hafa haldið sæmd sinni þau ár sem hann var þar. Til þess bendir m.a. mannfjöldinn á heimili hans en auk prestshjónanna og Sigurðar, sonar þeirra, sem var ráðskertur, voru þar þrjár vinnukonur, einn vinnupiltur, tvö fósturbörn á unglingsaldri og ein sveitarkerling gömul.[240]

Vorið 1862 fluttust þau séra Jón og Þórdís, kona hans, frá Múla til dóttur sinnar að Hafnarhólmi í Steingrímsfirði. Þar andaðist þessi merkisklerkur, sem átt hafði heima í Dýrafirði í þrjátíu ár, á annan dag jóla árið 1870. – Hið síðasta haust sem hann lifði lét hann Sighvat Grímsson Borgfirðing, sem þá bjó á Klúku í Bjarnarfirði, rita eftir sinni frásögn ævisögu sína og sendi hana Jóni riddara Sigurðssyni í Kaupmannahöfn. – Þannig greinir Sighvatur Borgfirðingur sjálfur frá í Prestaæfum sínum[241] en hann var að ósk gamla prestsins einn sex líkmanna við útför hans.

Á árunum 1865 til 1872 og 1875 til 1881 þjónuðu nágrannaprestar Sandaprestakalli þeir séra Arngrímur Bjarnason á Álftamýri og séra Jón Jónsson á Gerðhömrum.[242]

Haustið 1884 var Sandabrauð veitt ungum guðfræðingi er Kristinn Daníelsson hét og sat hann á Söndum í nær tvo áratugi eða allt til ársins 1903. Séra Kristinn var prestssonur úr Eyjafirði. Á sínum búskaparárum á Söndum ávann hann sér traust og tiltrú Dýrfirðinga og var árið 1897 kjörinn fulltrúi Þingeyrarhrepps í sýslunefnd og fulltrúi Vestur-Ísfirðinga í amtsráði vesturamtsins.[243] Árið 1903 var séra Kristni veitt Útskálaprestakall í Kjalarnesprófastsdæmi og fluttist hann þá að Útskálum. Við alþingiskosningarnar sem fram fóru árið 1908 réðst séra Kristinn í framboð í Vestur-Ísafjarðarsýslu, enda þótt fimm ár væru þá liðin frá því hann fluttist suður. Í þessum kosningum var kosið um Uppkastið, sem svo var kallað, það er uppkast að lögum um ríkisréttarsamband Íslands og Danmerkur. Séra Kristinn var eindreginn andstæðingur Uppkastsins en hann og hans pólitísku samherjar töldu ákvæði þess ganga of skammt í átt til sjálfstæðis. Í kosningunum sem fram fóru 10. september 1908 náði séra Kristinn að fella Jóhannes Ólafsson, hreppstjóra á Þingeyri, sem var heimastjórnarmaður og hafði setið á Alþingi sem þingmaður Vestur-Ísfirðinga í fimm ár. Séra Kristinn fékk nú 154 atkvæði en Jóhannes 94.[244] Kristinn Daníelsson var þingmaður Vestur-Ísfirðinga í þrjú ár en féll í kosningunum sem fram fóru árið 1911 fyrir Matthíasi Ólafssyni í Haukadal, bróður Jóhannesar hreppstjóra á Þingeyri. Þá munaði aðeins tveimur atkvæðum og var úrskurður kjörstjórnar um ógilda atkvæðaseðla kærður en ekki var sú kæra tekin til greina.[245] Síðar varð séra Kristinn þingmaður fyrir Gullbringu- og Kjósarsýslu í nokkur ár, 1913-1919. Hann andaðist 92ja ára gamall sumarið 1953 og hafði þá verið búsettur í Reykjavík frá árinu 1916.[246]

Er séra Kristinn fór frá Söndum árið 1903 tók séra Þórður Ólafsson á Gerðhömrum við þjónustu í prestakallinu og ári síðar voru honum veittir Sandar. Hann fluttist þá yfir fjörðinn og settist að á Söndum. Séra Þórður var frá Hlíðarhúsum í Reykjavík, fæddur árið 1863. Hann hafði verið prestur í Dýrafjarðarþingum í 17 ár er hann tók við Sandaprestakalli og verður nánar frá honum sagt er við komum að Gerðhömrum (sjá hér Gerðhamrar).

Séra Þórður var síðasti presturinn er sat árum saman á Söndum. Vorið 1915 flutti hann búslóð sína héðan til Þingeyrar[247] og bjó þar uns hann lét af embætti árið 1929 og fluttist til Reykjavíkur. Vorið 1911 hafði kirkjan sem enn stendur á Þingeyri verið vígð[248] og þann 4. ágúst á sama ári var jarðað þar í fyrsta sinn.[249]

Frá 1915 til 1930 bjó bændafólk á Söndum en fardagaárið 1931-1932 átti hér heima séra Sigurður Z. Gíslason (sjá hér Firðir og fólk 1900-1999, 183) Með stjórnarráðsbréfi frá 18. ágúst 1932 var slegið föstu að prestssetrið yrði framvegis á Þingeyri. Síðan hafa Sandar verið í eyði.

Dvöl okkar á hinum forna kirkjustað, þar sem prestar sátu öld fram af öld, er orðin ærið löng. Nú höldum við úr hlaði, röltum fyrst niður með ánni og skoðum ósinn þar sem til forna var lægi hafskipa (sjá hér bls. 2-6). Brátt verður stefnan tekin sem leið liggur eftir þjóðveginum til Þingeyrar en fyrst er þó vert að líta á gömul tóttabrot rétt innantil við ána og neðan við þjóðveginn.

Þennan stað kalla menn nú Fögrubrekku. Árið 1858 fékk Guðmundur Guðmundsson, sem jafnan var nefndur Guðmundur norðlenski, leyfi séra Jóns Sigurðssonar á Söndum til að byggja sér hús þarna niður við sjóinn.[250] Sighvatur Borgfirðingur segir að Guðmundur hafi byggt skála sinn undir Fögrutröð í Sandalandi[251] en sjálfur nefndi Guðmundur hús sitt Guðmundarskála eins og m.a. má sjá í bréfi er hann ritaði 1. október 1859.[252] Í aðalmanntalinu frá 1860 og sóknarmannatölum næstu ára er þessi bústaður hans hins vegar alltaf nefndur Skáli[253] og sýnist eðlilegt að halda því nafni. Hér á Skála átti Guðmundur heima í 10 ár, frá 1858 til 1868,[254] en ekki er kunnugt um að aðrir hafi búið á þessum stað.

Guðmundur norðlenski átti heima í Dýrafirði og þar í grennd í meira en hálfa öld, kom 1834 og dó 1885. Um skeið munu fáir eða engir hafa vakið meira umtal en hann í því byggðarlagi, enda fór þessi Norðlendingur ekki alltaf alfaraleiðir og sýnist lengi hafa borið höfuðið hærra en títt var um múgamenn.

Í þessu riti er á öðrum stað sagt allrækilega frá Guðmundi norðlenska, uppruna hans í Skagafirði, búskapnum í Nesdal vestan undir Barða, lækningunum sem hann stundaði og ferðinni til Hollands árið 1854 (sjá hér Nesdalur).

Árið 1851 fluttist Guðmundur yfir Dýrafjörð, úr Mýrahreppi í Þingeyrarhrepp, og var næstu tvö árin búsettur á Sveinseyri (sjá hér Nesdalur).

Er séra Jón Sigurðsson fluttist frá Gerðhömrum að Söndum vorið 1853 réðst Guðmundur norðlenski til hans sem eins konar skrifari en hafði þó lækningar áfram að aðalstarfi eins og lengi hafði verið.[255] Svo var um samið milli Guðmundar og séra Jóns að sá fyrrnefndi mætti hafa kú á heyjum, 7 ær og einn hest.[256] Er Guðmundur kom að Söndum voru sex ár liðin frá því hann skildi að borði og sæng við Vigdísi Guðmundsdóttur er hann hafði verið kvæntur í tíu ár. Nokkru eftir skilnaðinn hafði hann ráðið til sín unga stúlku úr Önundarfirði sem hét Ingibjörg Jónsdóttir og fylgdi hún honum enn er hann kom að Söndum.[257] Með Ingibjörgu hafði hann þá eignast þrjú börn og lifðu tvö þeirra (sjá hér Nesdalur). Aldursmunur þessa sambýlisfólks var þó ærinn því Guðmundur var 53ja ára gamall er hann settist að á Söndum vorið 1853 en fylgikonan um það bil 30 árum yngri.[258] Á Söndum slitnaði endanlega upp úr trúlofun þeirra og í skrifum sínum heldur læknirinn því óspart fram að Ingibjörg hafi átt alla sök á því tryggðarofi. Í lífssögu sinni kemst hann m.a. svo að orði um ástandið á Söndum á síðustu mánuðum ársins 1853:

 

… en hið mikla lúxuslíf sem á gjafatímanum þar til bauðst tók sitt aðsetur hjá barnsmóður minni eins og verr en hjá öðrum þar í söngvum, spilum, drykkjum o.s.frv.[259]

 

Í dagbók Guðmundar norðlenska, sem enn er varðveitt, má líka lesa eitt og annað um aðdraganda skilnaðarins og lífið á Söndum árið 1853. Fáeinar glefsur úr dagbókinni nægja til að veita innsýn í málin en Guðmundur ritar þar á þessa leið:

 

27.8.      Séra Lárus [í Holti] að Hrauni, ljæ honum hestinn þangað og séra Jón Sigurðsson með honum en séra Jón Ásgeirsson [á Álftamýri] drekkur hér. Komu þeir aftur og er drukkið og sungið fram á nótt.

 

8.9.        Dytta að skemmu þeirri er ég hér fékk og vil nú láta fyrirberast í henni með stúlkuna og barnið þar hún er útrekin úr því léða húsi inni … henni borinn þjófnaður! grófyrði og lygi!

 

22.11.    Að Krossadal [í Tálknafirði] í mestu ófærð.

 

22.12.    Komst heim um nóttina [eftir mánaðardvöl við lækningar í Tálknafirði] í sjáanleg falskheit barnsmóður minnar og fortæring elsku hennar sem síðar mun reynast.[260]

 

Í lífssögu sinni, sem Guðmundur norðlenski ritaði um sjötugt, segir hann mun nánar frá tryggðarofi Ingibjargar. Þar kveðst hann hafa fengið þær fréttir hjá séra Oddi Sveinssyni á Rafnseyri, seint í október árið 1853, að barnsmóðir sín og unnusta væri farin að brúka aðstoðarmann í sinni fjarveru.[261] Fréttir þessar segist hann hafa fengið hjá séra Oddi á heimferð sinni úr sjúkravitjun á Bíldudal. Heimkomunni að Söndum og því sem á eftir fór lýsir Guðmundur læknir svo í lífssögunni:

 

Fór ég frá Rafnseyri í stórkafaldi öllum nauðugt og var þá komin kviðsnjór og þar yfir í giljum og lágum. … Klukkan 4 e.m. kom ég að Söndum. Tóku prestur, kona hans og tveir vinnumenn og konur samt Amilín minn [þ.e. sonur Guðmundar og Ingibjargar – innsk. K.Ó.] mikið vel við mér og fóru þau hjón að tilbúa láta Caffe og mat fyrir mig, vinnumenn að spretta af hestinum, gefa honum og láta inn, og vinnukonur að taka af mér vosklæði og hjónin láta mig fara í sitt rúm uppi í húsi á lofti hjá sér, þar Ingibjörg og Jón nokkur (kallaður „Gudduson!”), vinnumaður þar, höfðu sem oftar farið til Þingeyrar til, sagði flest fólkið, að fá Caffe, sykur, brennivín, romm, brauð o.s.frv.

… Nú kom matur til okkar prests, þá bið ég maddömuna að kalla á Ingibjörgu, hvað hún gjörir, – og hin kemur og vill kyssa mig en ég færði mig frá en prestur segir heldur styggur: „Þú tekur fljótt og vel á móti barnsföður, húsbónda og lækni þínum og annarra. Nú er hann kominn en fyrr en þið svikarar hans, Jón og þú, vilduð. Já, þú uppspretta allra þessara svika gegn Guðmundi. Hann ætti að krefja aukaþing og stefnu yfir ykkur af sýslumanni svo þið dæmdust að hýða hvort annað.” *) … Ég spyr hana nú um allt áður heyrt á meðan Gudduson sinnti fjósverkum og játaði hún allt og fleira og enda hvar þau Jón hefðu sofið: hvort í mínu eða hennar rúmi, þá saman hefðu sofið eða hvort ekki alltaf utan þegar Jón hefði farið í róðurinn. „Jú”, svarar hún en prestur spurði þessa síðasta spursmáls.[262]

 

Næstu vikur gekk á ýmsu í sambúð þeirra Guðmundar og Ingibjargar. Um skeið tók hann hana í sátt en brátt sótti á  ný í sama farið.[263] Þann 22. desember 1853 kom skottulæknirinn heim eftir mánaðardvöl í Tálknafirði við lækningar (sjá hér bls. 35) en 15. janúar 1854 fór Ingibjörg alfarin burt frá Söndum. Í lífssögunni segir Guðmundur frá atburðum á þessa leið:

 

Þann 22. [desember] komst ég heim og kort sagt – komið í sama og verra horf fyrir Ingibjörgu og Guddusyni! og ætlaði prestur eftir jólin – hefði ég ekki komið, að sjálfs hans sögn – að láta skilja þau og angefa

 

*)

Í brag sem ortur var um hákarlsstuld á Flugumýri árið 1814 var komist svo að orði að þeir sem þar voru viðriðnir hefðu verið dæmdir til að „hýða hvor annan”[264] en einn hinna dæmdu var einmitt sá sami Guðmundur og hér er frá sagt, – þá 14 ára gamall (sjá hér Nesdalur).

fyrir sýslumanni. Þó Ingibjörg nú meðgengi nokkuð um þetta var hún stálhörð um nokkrar bætur, – því þegar ég væri aldrei við heimili væri sér – heldur en áður – engin ánægja í mér. Og fyrst við værum ógift kynni enginn að klaga sig fyrir hór. Prestur svarar henni hinu rétta en hjá Jóni Guddusyni fékk ég sem svaraði helming skaðabóta eftir tveggja óvilhallra manna mati. [Skaðabæturnar munu hafa verið fyrir það sem Jón var talinn hafa étið eða stolið af matarbirgðum Guðmundar í fjarveru hans – innsk. K.Ó.].

Og nú rak ég þau burt og tók barn mitt þó nærri bjargarlaus af þessum eftirskilinn. Nú verður Ingibjörgu illt! og liggur í 3 vikur !!? áður hún hefur fengið aðsetur það sem Jón hennar sagði henni að hann fyrir hana ætti víst og fyrir sig í sama stað og var hún þann tíma matheil hjá mér og mátti ég nú koma niður barni mínu af bjargarleysi.[265]

 

Í dagbók sinni lýsir Guðmundur síðasta samverudegi þeirra Ingibjargar en það var 15. janúar 1854. Þann dag skrifar hann í dagbókina:

 

Sunnudagur … Tólf drukku kaffi hjá mér (messudagur) … en um kveldið gerir Ingibjörg sér úlfbúðartal, brigsl og stórsamt ærumeiðandi orð til mín þá ég var kenndur orðinn og við séra Jón sitjum rólegir og tölum um lærdómssakir. Fór ég þá af köllun Ingibjargar í hús mitt til að fara að sofa. Eykst þá stríðlyndi hennar, hrindir mér og stjakar, þá ég vil blíðka hana, og í ógnarreiði manar mig að berja sig – og því ver! Ég í reiði gjöri það og hún æðir og fleygir hálfri spesíu út í loftið sem síðan hefur ekki sést og strýkur að Meðaldal.[266]

 

Tveimur dögum síðar kom Benóný Daðason, hreppstjóri í Meðaldal, að Söndum og sótti fatnað og rúm Ingibjargar.[267]

Í febrúar og mars árið 1854 var Guðmundur löngum við lækningar í Auðkúluhreppi[268] en næstu mánuði hér og þar, helst þó á Söndum ellegar í Hvammi eða Meira-Garði.[269] Enn voru þeir Jón Gudduson ekki fyllilega skildir að skiptum því 28. júlí 1854 ritar Guðmundur þessi orð í dagbók sína: Kom í nótt að Söndum og lá við sjálft að Jón Gudduson dræpi mig með kirkjulyklinum því blóðið bunaði úr höfði mér.[270] Síðar á þessu sama sumri brá hinn kokkálaði hómópati á það ráð að sigla til Rotterdam með hollenskri fiskiduggu. Þar í heimsborginni átti hann vetrardvöl og notaði tímann vel til að kynna sér ýmsar nýjungar í verklegum efnum. Frá Hollandsferðinni og ýmsu sem henni tengdist er sagt á öðrum stað í þessu riti (sjá hér Nesdalur).

Manninn sem barnsmóðir Guðmundar norðlenska lagði lag sitt við á Söndum nefnir hann ætíð Jón Gudduson með lítilli virðingu. Könnun leiðir í ljós að um er að ræða Jón Jónsson, sem fæddur var árið 1831 og ólst upp á heimili séra Jóns Sigurðssonar og Þórdísar konu hans, en móðir Jóns þessa Jónssonar hét Guðríður Sæmundsdóttir og hefur að líkindum verið kölluð Gudda.

Jón fæddist á Neðra-Fossi í Otradalssókn í Arnarfirði 7. júlí 1831, sonur áðurnefndrar Guðríðar og eiginmanns hennar sem líka hét Jón Jónsson.[271] Séra Jón Sigurðsson, sem síðar varð prestur á Söndum, var þá prestur í Otradal en fékk Dýrafjarðarþing árið 1832 og fluttist þá að Núpi en síðan að Gerðhömrum.[272] Þegar séra Jón og fjölskylda hans fluttust úr Arnarfirði í Dýrafjörð fylgdi hinn ungi sonur Guðríðar á Fossi prestshjónunum þangað sem tökubarn.[273]

Næstu 20 árin var drengurinn jafnan á heimili prestshjónanna eins og sjá má í manntölum[274] og hefur því alist upp hjá þeim. Í manntölunum er stundum tekið fram að hann sé fæddur í Otradalssókn[275] svo að hér er ekki um að villast. Í fyrstu er drengur þessi á heimili prestshjónanna nefndur tökubarn eða tökupiltur en síðar uppalningspiltur og vinnupiltur og loks vinnumaður.[276] Árið 1845 var Guðríður, móðir Jóns, komin norður á Ísafjörð og var þar síðan búsett til dauðadags.[277] Líklegt er að Guðmundur norðlenski hafi verið henni eitthvað kunnugur og honum verið tamt að kalla hana Guddu.

Þegar Jón Gudduson og Ingibjörg Jónsdóttir fóru að draga sig saman á Söndum árið 1853 voru þau 22ja og 25 ára en Guðmundur norðlenski, sem verið hafði sambýlismaður Ingibjargar, var þá á sextugsaldri. Engan þurfti því að undra þó svona færi. Ingibjörg giftist síðar Jóni Guðmundssyni úr Valþjófsdal og bjó þar um skeið í Tungu (sjá hér Nesdalur) en óljóst er hvar Jón Jónsson, sem nefndur var Gudduson, endaði ævina. Árið 1855 var hann enn vinnumaður á Söndum[278] en fimm árum síðar var hann orðinn stýrimaður á Bíldudal, þá 29 ára gamall og enn ókvæntur.[279] Í manntalinu frá 1860 er hinn 29 ára gamli stýrimaður á Bíldudal sagður fæddur í Otradalssókn sem stendur heima. Á árunum kringum 1830 fæddust þar aðeins tveir Jónar Jónssynir sem náðu að vaxa úr grasi, annar 1829 og svo sonur Guðríðar árið 1831.[280] Árið 1860 var sá Jón Jónsson sem fæddist í Otradalssókn árið 1829 búsettur á Tjaldanesi í Arnarfirði[281] svo óhætt mun að slá því föstu að stýrimaðurinn á Bíldudal sé Jón Gudduson. Hann hefur þá verið kominn á skútu og stýrimannstitillinn sýnir að þessi eljari Guðmundar norðlenska hefur enginn aukvisi verið. Á árunum upp úr 1860 virðist hann hafa flust frá Bíldudal en ekki er vitað hvert.

Vorið 1855 kom Guðmundur norðlenski heim frá Hollandi og næstu þrjú til fjögur árin mun hann oftast hafa verið heimilisfastur í Hvammi en einnig stuttan tíma á Dröngum.[282] Líklega hefur búseta Guðmundar á þessum bæjum þó verið nánast til málamynda og geta má þess að í aðalmanntalinu frá 1. október 1855 er nafn Guðmundar hvergi að finna í allri Vestur-Ísafjarðarsýslu.[283] Sjálfur kemst hann svo að orði að á þessum árum hafi hann verið í sífelldum sjúkraaðköllum[284] og má ætla að hann hafi bæði oft og lengi dvalist hjá sjúklingum sínum á hinum ýmsu bæjum.

Þann 11. mars 1858 veitti séra Jón Sigurðsson á Söndum Guðmundi skriflegt leyfi til að byggja sér íveruhús undir Fögrubrekku í landareign Sanda og er bréfið enn til, undirritað af presti. Það hljóðar svo:

 

Hér með leyfi ég undirskrifaður herra Guðmundi Guðmundssyni lækni að forma og byggja sér nauðsynlegt íveruhús á þeim stað fyrir neðan eða norðan svokallaða Fögrubrekku í Sandakirkjulandareign, hvar gömul tóttabrot eru að sjá frá fornöld, samt byggja þar kál- eða kartöflugarða og rækta þarverandi móa- og mosaþúfur ef getur til slægjulands og yrkingar. Þessu til staðfestu er mitt nafn og signet.

 1. Sigurðsson, prestur.[285]

 

Ætla má að bæ sinn undir Fögrubrekku, þann sem hann nefndi Guðmundarskála, hafi sá norðlenski reist strax á árinu 1858 og hér á sjávarströndinni rétt innan við Sandaá átti hann heima næstu tíu árin.

Við stöndum nú (1991) í bæjartóttinni, sem enn er greinileg, og reynum að nálgast hið liðna. Sjálfur skrifaði Guðmundur norðlenski lýsingu á þessum hýbýlum sínum. Þar kemur m.a. fram að húsið var 9,5 álnir á lengd og 5,75 álnir á breidd[286] eða 21,5 fermetrar. Það var þiljað innan að nokkru og stúkað sundur í þrennt.[287] Á húsinu var gluggi með sex rúðum og sterkri gluggakistu.[288] Guðmundur segir að glugginn hafi verið tvöfaldur[289] sem máske þýðir að gluggarnir hafi verið tveir. Útidyrahurðin á húsi þessu var sterk með sverum járnum.[290] Telja má víst að Guðmundarskáli hafi verið byggður úr torfi og grjóti, enda þótt eigandi hans láti þess ekki getið. Í plöggum hans má hins vegar sjá að timbrið sem hann notaði í hús sitt kostaði nær 40 ríkisdali.[291]

Á orðum Guðmundar norðlenska má skilja að auk sjálfs íveruhússins hafi hann einnig byggt sér hlöðu og brunnhús á þessum sama bletti sem hann fékk til afnota hjá séra Jóni.[292]

Þegar Guðmundur settist að í skála sínum á síðari hluta ársins 1858 skorti hann eitt ár í sextugt. Hann virðist þá hafa verið kominn í tygi við stúlku sem Guðrún Bjarnadóttir hét og var frá Felli í Dýrafirði. Í bréfi rituðu 8. mars 1858, í sömu viku og Guðmundur fékk byggingarleyfið hjá séra Jóni, mátti sjá að þá þegar var komið í orð að hún gerðist bústýra á Skála þegar húsið hefði verið reist.[293] Guðrún var þá vinnukona hjá Andrési Hákonarsyni[294] á Hóli í Önundarfirði (sjá hér Hóll í Firði).

Í sóknarmannatali frá árinu 1860 eru þau bæði sögð eiga heima á Skála[295] og hér fæddist Oddmundur sonur þeirra þann 27. júlí á því ári.[296] Í þessu sama sóknarmannatali er Guðrún sögð vera síðari eiginkona Guðmundar en í aðalmanntali frá árinu 1860 er hún nefnd bústýra hans[297] og mun það vera réttara því þau voru aldrei gefin saman í hjónaband.[298] Árið 1860 er Guðrún á Skála sögð vera 25 ára gömul en Guðmundur, sambýlismaður hennar, talinn 53ja ára.[299] Í raun var hann 61 árs (sjá hér Nesdalur) og var því aldursmunurinn ærinn. Sighvatur Borgfirðingur segir Guðrúnu þessa Bjarnadóttur hafa verið frá Felli í Dýrafirði og að sumir hafi kallað hana Skerja-Gunnu.[300] Haustið 1861 var Guðrún enn á Skála með barn þeirra Guðmundar því þá var þar þrennt í heimili.[301] Þá hefur líklega verið orðið þröngt í búi því samkvæmt tíundarskýrslu frá því hausti áttu þau þá enga skepnu og þeir 10 fiskar sem Guðmundi hafði verið gert að greiða til samfélagsþarfa voru gefnir eftir.[302]

Sambúð Guðmundar og Guðrúnar Bjarnadóttur mun hafa staðið í um það bil þrjú ár, frá haustinu 1858 eða vorinu 1859 og til loka ársins 1861. Í bréfi frá janúar 1862 sést að á gamlárskvöld árið 1861 hefur Guðrún komið að Hóli í Önundarfirði[303] og svo virðist sem hún hafi þá farið alfarin frá Skála.

Eins og áður var getið eignaðist Guðmundur norðlenski eitt barn með þessari bústýru sinni, drenginn Oddmund en hann ólst upp á Hóli í Önundarfirði hjá Andrési Hákonarsyni, vini Guðmundar.[304] Drengur þessi var síðasta barnið sem Guðmundur eignaðist. Þau Oddmundur og Guðrún móðir hans drukknuðu bæði 8. september 1892 með séra Pétri Maack sem þá var prestur á Stað í Grunnavík.[305]

Fyrstu tvö til þrjú árin eftir brottför Guðrúnar Bjarnadóttur mun Guðmundur hafa búið einn í Skála sínum en um Jónsmessuleytið árið 1864 kom enn til hans kvenmaður sem átti eftir að reynast honum betri en engin. Frá komu hennar og fyrstu dögunum sem þau voru undir sama þaki segir Guðmundur svo í dagbók sinni frá árinu 1864:

 

26.6.     Kom Jóhanna Beta Kristjana, dóttir séra Gísla sáluga í Sauðlauksdal til mín, sem um næstliðin sumarmál kom til veru á Skaga, – yfir óaccorderað tímabil, og bað mig ráða bót á sínum sjúkdómsbágindum í langvinnri tíðateppu og fleiru. Og þó ég réði henni til að leita læknis, herra Þorvaldar [þ.e. Þorvaldar Jónssonar, læknis á Ísafirði, – innsk. K.Ó.], úrræða í því þóttist hún ekki þar til efni hafa og gat ég þá ekki neitað henni um það í mínu valdi stæði en langan tíma útheimti umsjón sú er hún í sínum margbreytta sjúkdómi svo vel í andlegu sem líkamlegu lífi þyrfti. Hún felur það á vald forsjónarinnar og ástæðum minna kringumstæðna.

 

 1. – 30.6. Fram fara klæðaföll hennar.

 

1.7.       Að nokkru í þrjá hina næstu daga leitast ég við að uppleysa hið svartagalls sjúkdómsefni frá henni sem vel lukkast.

 

5.-8.7.   Gef ég henni styrkjandi lyf og jurtate, samt styrtebað daglega og er hún nú heilbrigð og þá hún angrast af efnaleysi að borga vill hún þjóna mér, eftir spurningu minni, sem [er] lúinn af þriggja ára einsetu.[306]

 

Jóhanna Beta bjó með Guðmundi norðlenska í Skála í um það bil þrjú ár, frá 1864 til 1867.[307] Í sóknarmannatali frá árinu 1866 er hún sögð vera 33ja ára og er þar kölluð matselja.[308] Í bréfum sem Jóhanna Beta ritaði og enn eru varðveitt sést að umhyggja sem hún bar fyrir hinum aldna lækni á Skála hefur verið sönn og fölskvalaus.[309] Síðustu eitt til tvö árin sem Guðmundur átti heima á Skála bjó hann einn.[310]

Hér er á öðrum stað gerð nokkur grein fyrir lækningum Guðmundar norðlenska (sjá hér Nesdalur) en segja má að hann hafi um mjög langt skeið haft lækningar að aðalstarfi þó ekki væri hann skólagenginn. Á þeim árum sem vísdómsmaður þessi bjó á Skála fékkst hann enn mikið við slík störf eins og sjá má í lífssögu hans og dagbókum sem hér er víða til vitnað. Umsagnir fjölda manna sýna líka að margir hafa haft tröllatrú á kunnáttu hans við að lækna margvíslega sjúkdóma (sjá hér Nesdalur). Í aðalmanntali frá árinu 1860 er húsbóndinn á Skála nefndur skottulæknir[311] og fjórum árum síðar fær hann þá einkunn hjá presti að hann sé greindur læknir og prýðilega að sér.[312]

Fyrir marga nútímamenn mun vera örðugt að gera sér grein fyrir hvernig fólk mætti hinum ýmsu sjúkdómum eða brást við slysum á fyrri tíð þegar enginn kostur var á að leita til lærðra lækna. Sannleikurinn er þó sá að í þessum efnum eins og fleirum geymdi alþýðan margan vísdóm og hér og þar um landið mátti löngum finna menn er reynt höfðu að afla sér nokkurrar þekkingar á læknislistinni, bæði með bóklestri og á annan hátt. Eins og nærri má geta hljóta slíkir skottulæknar að hafa verið ærið misjafnir, sumir lítið annað en hreinir loddarar en aðrir snillingar á sína vísu. Alloft tókst þeim að lina sárar þjáningar og stundum að bjarga mannslífum þegar í óefni var komið. Dómar nútímafólks um skottulækningar fyrri tíðar verða þó að líkindum ærið misjafnir en um þörfina fyrir hjálp í nauðum frá þeim sem eitthvað kunnu fyrir sér þarf ekki að fara mörgum orðum.

Nær allan þann tíma sem Guðmundur norðlenski fékkst við lækningar var enginn skólagenginn læknir búsettur á öllum Vestfjörðum nema danskir menn sem sátu á Ísafirði[313] en þóttu ýmist ónýtir til ferðalaga eða svo dýrseldir að almenningur hafði af þeim lítil not.[314] Hér verður ekki reynt að leggja mat á árangurinn af lækningatilraunum Guðmundar norðlenska en hvernig svo sem þekkingu hans á hinum ýmsu meinsemdum mannslíkamans hefur í raun verið háttað þá er tvímælalaust að býsna margir töldu hann bjargvætt sinn.

Tómthúsinu Skála undir Fögrubrekku fylgdu hvorki tún né engjar og bústofn skottulæknisins sem hér bjó mun ekki hafa verið nema örfáar kindur. Sighvatur Borgfirðingur segir þær hafa verið tvær eða þrjár.[315] Á búskaparárum sínum á Skála hlýtur Guðmundur norðlenski fyrst og fremst að hafa lifað á því sem að honum var rétt í launaskyni fyrir lækningastörf hans. Þann 1. janúar 1864 skuldaði hann 10 ríkisdali og 2 skildinga hjá Þingeyrarverslun.[316] Á því ári tók hann út vörur hjá versluninni fyrir 13 ríkisdali og 9 skildinga en borgaði 16 ríkisdali og 77 skildinga inn á reikninginn svo verslunarskuldin lækkaði um 3 ríkisdali og 68 skildinga á árinu.[317] Þarna er ekki talin með viðgerð á úri sem kostaði einn og hálfan ríkisdal og Guðmundur borgaði út í hönd.[318]

Vörurnar sem skottulæknirinn á Skála tók út hjá Þingeyrarverslun árið 1864 voru þessar:

 

 

 1. Rúgur          50 pund        fyrir    2  ríkisdali og 24 skildinga
 2. Grjón           50    –               –     2        –         48       –
 3. Brauð           2    –               –     0        –         24       –
 4. Kaffi             2    –               –     0        –         84       –
 5. Kandís       1 ½    –               –     0        –         44       –
 6. Melis           ½    –               –     0        –         14       –
 7. Rulla             2    –               –     1        –         88       –
 8. Rjól              ?    –               –     0        –         72       –
 9. Snúss           ½    –               –     0        –         18       –
 10. Brennivín     4 ¾ pottar          –     1        –         18       –
 11. Romm 3 pelar            –     0        –         36       –
 12. Ýmislegt –     2        –         19       –           

Samtals                                    13 ríkisdalir og  9  skildingar[319]

 

 

Sé litið nánar á vöruúttekt Guðmundar sjáum við að 38,19% af eyðslunni hefur farið í kornmat, 21,80% í tóbak, 11,93% í áfengi, 11,30% í kaffi og sykur en 16,78% í ýmsar aðrar vörur.

Við athugun á því sem lagt var inn í reikning Guðmundar á þessu sama ári, 1864, kemur reyndar í ljós að hann virðist hafa skilað helming af grjónunum til baka.[320] Einu afurðirnar sem læknirinn á Skála lagði inn hjá versluninni þetta ár voru 5¾ pund af hvítri ull og 2 pund af mislitri.[321] Fyrir pund af hvítri ull voru greiddir 52 skildingar en 36 skildingar fyrir hvert pund af mislitu ullinni.[322] Beinar peningagreiðslur inn á verslunarreikning Guðmundar á þessu sama ári námu 11 ríkisdölum og 66 skildingum.[323] Af þeirri upphæð greiddi Guðmundur Brynjólfsson á Mýrum fjóra ríkisdali og Guðmundur Þorvaldsson í Fremri-Hjarðardal einn og hálfan ríkisdal.[324] Hér skal ósagt látið hvort greiðslur þessara heiðursmanna inn á reikning Guðmundar á Skála hafa verið þóknun fyrir læknisverk eða beinir styrkir til hins aldraða læknis sem nú var farinn að fella fjaðrirnar.

Í lífssögu sinni hefur Guðmundur norðlenski á orði að á búskaparárum sínum á Næfranesi í kringum 1850 hafi hann sopið heldur meira af brennivíni en góðu hófi gegndi (sjá hér Nesdalur). Áfengisúttekt hans árið 1864 bendir til þess að hann hafi þá enn getað drukkið sig fullan í flestum mánuðum ársins en auk þess kynnu góðviljaðir menn að hafa séð ástæðu til að hýrga svo skemmtilegan mann þegar vel stóð á.

Í skrifum Guðmundar sem varðveist hafa minnist hann aldrei á sína eigin brennivínsdrykkju á þeim árum sem hann bjó á Skála. Einhver mun hún þó hafa verið eins og verslunarreikningurinn frá 1864 sýnir og varla hefur hann verið ódrukkinn er hann braut annan tveggja spegla í stofunni hjá Þorsteini Thorsteinsson, verslunarstjóra á Þingeyri.[325] Fyrir þann skaða vildi Þorsteinn fá 16 ríkisdali í bætur[326] en það var hærri fjárhæð en nam allri verslunarúttekt Guðmundar árið 1864 (sjá hér bls. 43).

Vafamál er hins vegar hvort gamli Norðlendingurinn hefur verið við skál þegar hann lenti í öðrum og verri átökum við annan verslunarstjóra á Þingeyri haustið 1866 en Guðmundur var þá orðinn 67 ára gamall og kominn mjög að fótum fram. Verslunarstjórinn sem þar átti í hlut var H. E. Thomsen yngri, sonur eiganda Þingeyrarverslunar með sama nafni og konu hans Kristjönu Knudsen (sjá hér Þingeyri). Frá viðureign þeirra Thomsens verslunarstjóra segir Guðmundur sjálfur svo í bréfi til sáttanefndar dagsettu 26. nóvember 1866:

 

Þann 31. fyrra mánaðar er ég sóttur frá Innri-Lambadal til að taka sársjúkum manni blóð … en þann 2. þessa mánaðar var ég fluttur á Þingeyri (sjóleiðis) og frusu nú hin votu föt á mér, hvar af mér varð svo kalt að það dofnuðu á mér höndur og fætur, svo þegar ég á land kom skjögraði ég á fótunum og var ekki einfær að ganga upp í kaupstaðinn. Þetta hafði faktor Thomsen séð, talið það „drykkjuslangur á mér” og fyrirboðið því höndlandi fólki sem þar var að opna krambúðina fyrir mér. Þarna hímdi ég skjálfandi og reikaði með handlás við vegginn uns einhver lauk upp og ég dróst þá inn í krambúðina. Af því bæði mér var svo kalt og illt orðið fyrir mínu veika brjósti og í höfði og því að ég þurfti – annarra vegna – að tala við Thomsen fá orð heimuglega, bað hann því að lofa mér að tala við sig fá orð fyrir innan borð, – hverju hans stolt neitaði og sagði að ég gæti talað það við sig fyrir framan í allra áheyrn. En af því ég var beðinn að enginn vissi erindið utan við báðir þá vildi ég ekki gjöra það og skjögraðist frá borðinu … og sagði: „Fjandi eruð þér stoltur að tala ekki við fólk.” Hann eins og kólfi væri skotið kom fram fyrir, greip fyrir kverkar mér í klæði mín og hrakti mig, dró og puffaði út úr búðinni með hrakyrðum.[327]

 

Síðar í sama bréfi lýsir Guðmundur því hvernig hann dróst með veggjum utan við búðina, ósjálfbjarga að kalla og segir:

 

… og þá ég kom að glugganum vildi ég reyna að staulast án stuðnings framhjá honum en þar til hafði ég engan styrk og reikaði því með vinstri handlegg á fyrstu rúðu hans, hver mér sýndist áður að nokkru brotin, – og nú sem að öllu brotnaði. Ég hugsaði að komast inn í húsið, biðja gott fyrir mitt óviljaverk og bæta eftir eigandans velþóknun. En sem elding er Thomsen þar kominn. Tekur mig bölvandi. Ber mig fyrst tvö höfuðhögg, svo eitt ofurlegt brjósthögg og í fjórða sinn eitt auga–rafelds–glossandi–glumpahögg við hvert ég féll og heyrði Thomsen í því segja: „Ja, nu er du falden!” Og nú missti ég allt ráð um stund en veit ekki hvað lengi ég í sjálfsagt öngviti lá. Þannig lét Thomsen mig hálfdauðan liggja. Ég raknaði við af því þjónustustúlka þar, Kristín, talaði eitthvað við mig.[328]

 

Guðmundur lætur þess síðan getið að vinnufólk Thomsens hafi hjálpað sér til að komast inn í faktorshúsið og þar hafi maddaman og þernur hennar hlúð að sér en hann síðan verið settur upp á hest og komist að Skála um kvöldið.[329] Í bréfinu til sáttanefndar tekur hann fram að þó 24 dagar séu liðnir frá atburði þessum sjái hann enn ekki hálfa sjón með sínu hægra auga.[330]

Eins og áður sagði var Guðmundur á Skála 67 ára gamall er hann varð fyrir þessum misþyrmingum en þess skal getið að faktorinn sem barði hann var 24 ára (sjá hér Þingeyri). Þann 5. febrúar 1867 ritaði Guðmundur bréf til sýslumanns og kærði þessar meiðingar. Hann segist þar hafa legið lengi rúmfastur og haft litla von um bata vegna óþolandi verkja í þremur höfuðsárum er hann hlaut af barsmíðum faktorsins.[331] Bréfi sínu til sýslumanns lýkur Guðmundur norðlenski með þessum orðum:

 

Ég yfir 60 ár kominn bið í guðs og konungsins réttar nafni um rétt minn! – sem sárfátækur, blóðuppgöngubrjóst-veikur, handar- og fótlama og gróf kviðslitinn, samt með sárum menjum, enn í dag, sem eru eftirstöðvar af slögum og jarðvarpi af Thomsen! – af hverjum ég efast um þessa lífs blíða bót.[332]

 

Verslunarstjóranum unga sem hafði barið hann sendi Guðmundur norðlenski líka stutta orðsendingu og segir þar meðal annars:

 

Já, Thomsen, mitt af yður úthellta saklaust blóð sem af mér streymdi á Þingeyrarplássi og manneskjur hafa þar séð í snjónum, fimm dögum eftir yðar verknað á mér, hrópar yfir yður, – ásamt mínu veika brjósti og heita hjarta nú, og komi yfir yður en ekki yfir konu yðar né börn því saklaus eru hún og þau við mig.[333]

 

Ekki er til þess vitað að Guðmundur hafi fengið nokkrar miskabætur greiddar frá faktornum fyrir barsmíðarnar og má telja ólíklegt að svo hafi verið. Er Thomsen verslunarstjóri rotaði gamla hómópatann var brottför þessa þokkapilts frá Þingeyri ekki langt undan. Faðir verslunarstjórans, H. E..Thomsen eldri, átti þá þegar í samningum við Niels Chr. Gram um sölu Þingeyrarverslunar og var kaupsamningurinn undirritaður 11. desember 1866 (sjá hér Þingeyri). Kærubréf sitt til sýslumanns ritaði Guðmundur norðlenski ekki fyrr en 5. febrúar 1867 eins og hér var áður getið en fáum mánuðum síðar fluttist Thomsen faktor frá Þingeyri til Kaupmannahafnar þar sem hann gerðist bakarameistari (sjá hér Þingeyri).

Er Guðmundur norðlenski settist að á Skála árið 1858 var það fyrir náð séra Jóns Sigurðssonar sem þá var prestur á Söndum. Byggingarleyfið sem hann fékk hjá séra Jóni tryggði honum þó engin framtíðarréttindi þar gagnvart nýjum húsbændum á Söndum. Vorið 1859 varð séra Jón Sigurðsson að láta af embætti vegna sjóndepru og kom þá nýr prestur að Söndum sem Jón Benediktsson hét.[334] Þá voru aðeins fáir mánuðir liðnir frá því Guðmundur norðlenski byggði Skála og settist þar að. Séra Jón Sigurðsson hafði ætíð verið Guðmundi vinveittur og í skjóli hans reisti hann skála sinn. Með komu nýja prestsins breyttust viðhorf.

Séra Jón Benediktsson kom að Söndum vorið 1859 og áður en vetur gekk í garð hafði hann ákveðið að reka Guðmund lækni burt frá Skála. Þann 29. september 1859 komu stefnuvottar með útbyggingarbréfið frá séra Jóni niður að Skála eins og sjá má í bréfi sem gamli læknirinn ritar presti þessum tveimur dögum síðar.[335] Bréf Guðmundar ber með sér að útbyggingin hefur komið honum á óvart. Hann leitast þó við að stilla gremju sinni í hóf og sendir guðsmanninum stígvél.[336] Sú sending virðist reyndar hafa tvíræða merkingu. Annars vegar má skilja hana svo að með gjöfinni hafi Guðmundur viljað blíðka sóknarprestinn og undirbúa samninga um lengri dvöl á Skála. Á hitt er þó að líta að Guðmundur hafði áður gefið séra Oddi Sveinssyni á Rafnseyri þessi sömu stígvél eins og hann greinir frá í bréfinu til séra Jóns.[337] Er Guðmundur skrifaði nýnefnt bréf voru aðeins liðnir 52 dagar frá því séra Oddur drekkti sér en að honum látnum hafði læknirinn fengið stígvélin til baka. Vel má vera að séra Oddur hafi verið í þessum stígvélum er hann gekk sín síðustu spor í sjóinn og ekki er fjarri lagi að láta sér detta í hug að Guðmundur hafi ætlað séra Jóni Benediktssyni að skilja stígvélasendinguna sem illspá eða dulbúna hótun um hrakfarir og jafnvel bráðan dauða ef sendandinn yrði rekinn frá Skála. Niðurstaðan málsins varð sú að útbyggingarbréfið var tekið til baka og Guðmundur fékk að vera óáreittur í kofa sínum næstu ár.

Er reynt var að reka Guðmund burt úr kofanum haustið 1859 voru um það bil átta ár liðin frá því hann fluttist úr Mýrahreppi í Þingeyrarhrepp. Ætla má að stjórnendur fátækramála vestan Dýrafjarðar hafi þá þegar verið farnir að óttast að Guðmundur yrði sveitfastur í Þingeyrarhreppi en svo hlaut að fara ef hann næði að framfleyta sér þar af eigin rammleik í tíu ár og þar með félli á sveitarsjóð hreppsins sú kvöð að sjá fyrir karli þessum í ellinni yrði hann ófær um að bjarga sér. Ummæli Stefáns Bjarnarsonar, sýslumanns á Ísafirði, í bréfi rituðu haustið 1867 benda reyndar eindregið til þess að svona hafi þetta verið. Sýslumaður segir þar að um 1860 hafi Jón Hákonarson, hreppstjóri á Sveinseyri, fyrir hvern mun viljað koma Guðmundi burt úr hreppnum og muni því því hafa beðið prest sinn, Jón Benediktsson á Söndum, árið 1860 um að reka Guðmund burt úr skála sínum en Guðmundur hafi þá hvergi getað fengið annað húsnæði.[338] Í sama bréfi skýrir Stefán sýslumaður svo frá að Guðmundur Brynjólfsson, hreppstjóri í Mýrahreppi, þar sem Guðmundur læknir var enn sveitfastur, hafi beðið séra Jón Benediktsson að leyfa lækninum að vera áfram á Skála en jafnframt boðist til að sjá fyrir honum kæmi eitthvað bágt upp á.[339] Er gengið var frá samningum þessum var Guðmundur læknir látinn hafa einn ríkisdal að láni úr fátækrasjóði Mýrahrepps[340] en það töldu stjórnendur fátækramála í Þingeyrarhreppi nægja til að fyrirbyggja að hann yrði sveitfastur hjá þeim. Þennan ríkisdal mun Guðmundur hins vegar hafa borgað til baka skömmu síðar[341] og hafði sú lánveiting því engin áhrif er endanlegur úrskurður um sveitfesti Guðmundar var kveðinn upp nokkrum árum síðar.

Allt til ársins 1864 mun Guðmundur norðlenski hafa verið við allgóða heilsu en á því ári slasaðist hann á fæti á ferðalagi og mun aldrei hafa náð sér eftir þau meiðsli.[342] Fleira fylgdi í kjölfarið. Í bréfi rituðu 8. mars 1866 segir Jón Ólafsson, hreppstjóri í Haukadal, að Guðmundur hafi lengi verið heilsulaus og þjáðst af blóðuppgangi.[343] Sjálfur segist Guðmundur hafa legið í 33 vikur og 4 daga á árunum 1866-1867 og síðan dregist um á hækjum allt sumarið 1867.[344] Um heilsufar Guðmundar á Skála á fyrstu mánuðum ársins 1867 má annars vísa til hans eigin orða sem hér hafa áður verið birt (sjá bls. 45).

Á útmánuðum ársins 1866 mun Guðmundur norðlenski fyrst hafa orðið að þiggja sveitarstyrk ef frá er talið það sem Akrahreppur greiddi með honum á uppvaxtarárum fyrir norðan (sjá hér Nesdalur). Í bréfi því sem Jón Ólafsson, hreppstjóri í Haukadal, ritaði öðrum hreppstjóranum í Mýrahreppi 8. mars 1866 vegna aðstæðna Guðmundar segir m.a. svo:

 

Þar eð Guðmundur Guðmundsson á Skála hefur sent mér bréf með vottum upp á það að hann væri aldeilis bjargarlaus og hefði ekkert sér til lífsuppheldis og krefur mig í bréfi sínu að skrifa til þín ásamt sveitarstjórninni í Mýrahreppi á bjargræði til að færa fram líf sitt … því tilsegi ég nefndan Guðmund [þ.e. Guðmund Brynjólfsson á Mýrum] til forsorgunar og ábyrgðar að hann [þ.e. Guðmundur norðlenski] geti framfleytt lífi sínu, að hann þurfi ekki að deyja út af í bjargarleysi.[345]

 

Guðmundur Brynjólfsson á Mýrum, sem sex árum fyrr hafði viðurkennt að læknirinn á Skála væri sveitfastur í Mýrahreppi, hafði nú látið af hreppstjórastarfinu.[346] Engu að síður gekkst hann fyrir því vorið 1866 að Guðmundi norðlenska yrði gefinn dráttur af öllum skipum á Skagamölum en fáir munu þó í reynd hafa orðið við þeim tilmælum höfðingjans á Mýrum.[347]

Tilmæli Jóns Ólafssonar í Haukadal til stjórnenda fátækramála í Mýrahreppi um framlög til að halda lífi í Guðmundi norðlenska munu lítinn árangur hafa borið í fyrstu, enda töldu þeir að hann væri nú orðinn sveitfastur í Þingeyrarhreppi.[348] Það kom því í hlut stjórnenda Þingeyrarhrepps að styrkja Guðmund í veikindum hans á útmánuðum ársins 1866 svo að hann ekki dæi útaf í hor og vesöld eins og Stefán Bjarnarson sýslumaður kemst að orði.[349]

Þann 14. september 1866 kvað Stefán Bjarnarson sýslumaður upp þann úrskurð að Guðmundur norðlenski skyldi teljast sveitfastur í Mýrahreppi,[350] enda þótt hann hafi tvímælalaust verið heimilisfastur í Þingeyrarhreppi í 11 ár og reyndar í nær 15 ár ef dvalarár hans þar fyrir Hollandsferðina væru talin með. Úrskurð sinn í þessum efnum byggði Stefán á því að ríkisdalurinn sem Guðmundur fékk að láni úr sveitarsjóði Mýrahrepps árið 1860 hefði verið fátækrastyrkur og því hefði læknirinn ekki náð að bjarga sér á eigin spýtur innan Þingeyrarhrepps í 10 ár samfellt, enda hefði dvöl hans þar rofnað við Hollandsferðina 1854.[351]

Í úrskurði sýslumanns var tekið fram að Guðmund bæri að flytja sveitarflutningi norður yfir Dýrafjörð nema um annað yrði samið. Þessum úrskurði vildu hreppstjórar Mýrahrepps ekki una og skutu málinu til amtmanns með bréfi rituðu 29. desember 1866.[352]

Meðan beðið var úrskurðar hans hafðist Guðmundur við í kofa sínum við þröngan kost. Úr sveitarsjóði Mýrahrepps voru þá greiddar honum til styrktar 4 vættir og 14 fiskar eða sem svaraði 21 ríkisdal og 69 skildingum.[353] Jón Ólafsson, hreppstjóri í Haukadal, mun þó hafa unað því illa að ráðamenn Mýrahrepps skyldu neita að taka við karlinum þrátt fyrir úrskurð sýslumanns og einhverja tilburði hafði hann uppi til að koma Guðmundi burt úr hreppnum.[354] Vorið 1867 tók Jens Guðmundsson við búi á Söndum[355] en þá var þar prestlaust um skeið og segir Guðmundur norðlenski að þá um haustið hafi Jón Ólafsson skipað Jens að reks sig burt frá Skála og jafnframt reynt að koma í veg fyrir að hann fengi nokkurs staðar húsaskjól í Þingeyrarhreppi.[356]

Deilan um sveitfesti Guðmundar norðlenska virðist hafa hleypt þó nokkru kappi í hreppstjórana beggja vegna Dýrafjarðar og fyrir það hlaut hinn aldraði læknir á Skála að líða. Stefán Bjarnarson, sýslumaður á Ísafirði, sýnist líka hafa verið mjög óvinveittur Guðmundi og fer um hann hinum verstu orðum í bréfi er hann ritaði amtmanni til skýringar á úrskurði sínum um sveitfesti Guðmundar. Í þessu bréfi kemst sýslumaður m.a. svo að orði:

 

Í tíð séra Jóns Sigurðssonar hafði Guðmundur þessi fengið leyfi hjá presti til að byggja sér kofa nálægt sjó í Sandalandi í þeim tilgangi að hafast þar við því bæði var og er maðurinn of latur og of stórmennskufullur til að vilja vera vinnuhjú nokkurs, þess utan enginn viljað hafa hann bæði af nýnefndum ástæðum og svo vegna drykkjuskapar. Í allan þennan árafjölda hefur hann ekki tekið hendi til nokkurrar vinnu, því þó hann hafi átt 5 og 6 kindur hefur hann látið stúlku sem hann gat narrað til að vera hjá sér slá og heyja fyrir þeim. Sjálfur hefur hann verið á sífelldu flakki um hreppa vestursýslunnar í því yfirskyni að lækna fólk og hefur þá stöku sinnum verið sóttur til að taka blóð því það kvað hann hafa getað. Með þessu móti hefur hann heyjað ofan af fyrir sér um langan tíma en vitaskuld var það að undir eins og hann annað hvort hefði orðið talsvert veikur eða svo veikburða að hann ekki gat flöktað neitt var hann sem næstum öreigi strax kominn á sveit.[357]

 

Þann 17. janúar 1868 felldi Bergur Thorberg amtmaður þann úrskurð að Guðmundur norðlenski skyldi teljast sveitfastur í Þingeyrarhreppi[358] og felldi þar með úr gildi úrskurð sýslumanns frá 14. september 1866 um framfærslurétt Guðmundar í Mýrahreppi. Er amtmaður hjó á hnútinn var Guðmundur enn á Skála enda þótt Jens bóndi á Söndum hefði tveimur mánuðum fyrr skipað honum að hafa sig á brott.[359] Næstu mánuði dvaldist Guðmundur norðlenski áfram í kofa sínum en fyrir lok ársins 1868 var hann enn á ný orðinn algerlega bjargarlaus og var þá fluttur heim til Guðmundar Guðbrandssonar, bónda í Hólum, sem orðin var hreppstjóri í Þingeyrarhreppi. Að Hólum kom Guðmundur 26. nóvember 1868 til að fríast frá að lifa í einsetu lengur í köldu og aðhjúkrunarlausu húsi, eins og hann sjálfur kemst að orði.[360]

Skömmu eftir að Guðmundur kom að Hólum tók hann að rita lífssögu sína í fjórum pörtum. Hér hefur víða verið til hennar vitnað en handrit þetta sendi hann Bergi Thorberg, amtmanni í vesturamti, sumarið 1869 ásamt beiðni um fjárhagsstyrk sem gæti dugað til að forða honum frá hlutskipti sveitarómagans.[361] Slíkan styrk frá því opinbera hefur Guðmundur vafalaust talið sig eiga skilinn sem viðurkenningu fyrir öll sín læknisstörf á liðnum árum. Í bréfinu til amtmanns sækir hann um að sér verði árlega veittur styrkur úr Búnaðarsjóði vesturamtsins og fer þess jafnframt á leit að amtmaður biðji um náðargjöf úr fjárhirslu konungs sér til handa.[362]

Þetta fyrst sumar sem Guðmundur dvaldist í Hólum ritaði hann einnig Jóni Sigurðssyni forseta og fór þess á leit að Jón sækti fyrir sig um náðargjöf frá kóngi er gæti með sparsemi nægt til heiðarlegs eða neyðarlauss lífsframdráttar.[363] Þessi bænaráköll Guðmundar sýna að hann hefur viljað leita allra hugsanlegra úrræða til að komast hjá því að lenda varanlega á sveitarframfæri eins og skiljanlegt er með svo stoltan mann sem verið hafði niðursetningur á sínum uppvaxtarárum.

Svo virðist sem áköll Guðmundar til amtmanns og Jóns forseta hafi engan árangur borið og árin þrjú sem hann dvaldist í Hólum, frá haustinu 1868 til haustsins 1871, var jafnan greitt með honum úr sveitarsjóði.[364] Þessi greiðsla var þó ekki nema hálf önnur vætt á ári í fyrstu[365] svo ljóst er að Guðmundur hefur þá verið talinn vinna fyrir sér að verulegu leyti því frá og með haustinu 1871 fór meðgjöfin með honum upp í fjórar vættir. Í öðru tveggja bréfa sem Guðmundur norðlenski ritaði Jóni forseta, sem hann kallar þessarar aldar oddvita, sumarið 1869 segist hann sjá um allar skriftir fyrir Guðmund Guðbrandsson hreppstjóra en verða að skrifa allt á hné sér í skarkalafullri þröngri baðstofu.[366] Ætla má að þessi ritarastörf læknisins hafi verið metin til fjár og þeirra vegna hafi hreppstjórinn í Hólum fengið minna greitt með ómaganum en ella hefði verið.

Störf Guðmundar norðlenska við skriftirnar á heimili hreppstjórans sýna að kraftar hans hafa þá ekki verið alveg þrotnir. Hið sama má einnig merkja á því að seint í nóvember árið 1869 gaf séra Arngrímur Bjarnason á Álftamýri, er þá þjónaði Sandaprestakalli, út hátíðlegt bréf þar sem  hann kallar Guðmund lækni til að gegna starfi meðhjálpara í Sandakirkju.[367]

Í þessu erindisbréfi kveðst séra Arngrímur kjósa Guðmund lækni til starfans sem þekktan, heiðvirðan meðlim safnaðarins

 

gæddan góðri greind, nægum vitsmunum og hæfilegleikum til þess stöðuglega upp frá þessum degi, innan sem utan kirkju, að gegna með sæmd og heiðri svo veglegri heiðursköllum.[368]

 

Vegna elli og vanheilsu mun Guðmundur þó ekki hafa treyst sér til að taka við meðhjálparastarfinu.[369]

Í lífssögu sinni sem Guðmundur norðlenski samdi á fyrri hluta ársins 1869 lætur hann heldur illa af vistinni í Hólum og segir að þar hafi sér verið vísað í enn aumkunarlegra hús en það sem hann átti á Skála.[370] Húsi því eða herbergi sem læknirinn fékk til umráða í Hólum og komunni þangað lýsir hann á þessa leið:

 

Þar var allt með götum og rifum, moldarveggjum umhverfis hnöllungsgrjóti og vatnsfyllir á milli hvers steins, með stóropum fyrir ofan og neðan svokallaða hurð – og fram við bæjardyr eins um búnar. Og af því ég hafði nokkur þiljuráð gat ég þiljað þar af rúmstæði og lagðist þar í í þungum þönkum og ekki þeim til bóta þá hann [hreppstjórinn] sagði mér fyrir alvöru að enga björg gæti hann mér veitt aðra en svokallaða hér „málavætu”. Hún hefur mér reynst meir mergeyðandi en aukandi. Sjaldan kaffi nema á helgum. … Nú kom til að fara að sitja við skriftir undir gluggamynd á móti rúminu við steinmoldarblautan vegg og standa ýmist á þessum böllóttu steinum eða stappast ofan í vatnið á milli þeirra. Töfluborð kom ég með og reyndi ég til að skjóta því þar á sína einu hækju til að geta skrifað á því, á hverju ég átti ekki kost nema þegar enginn gat átt þar neina ferð um sem sjaldan var því þar þóttust margir þurfa umgöngu og hafa þar kaffiskenkingar o.s.frv. … [371]

 

Margt fleira skrifar Guðmundur um veru sína í Hólum og segir að veturinn 1868-1869 hafi hann staðið 2½ tíma á dag við skriftir í skammdeginu og hafi þá verið bornar til hans glæður í potti svo hann nyti einhverrar velgju.[372] Þessi umhyggja fyrir skrifaranum leiddi þó að lokum til bölvunar því 8. febrúar þennan sama vetur komst neisti úr glæðunum í þurrt lyng undir rúmi Guðmundar og fyrr en varði læstist eldurinn um rúmið svo allt stóð í björtu báli.[373] Í þessum eldsvoða tapaði skrifarinn í Hólum ýmsu af plöggum sínum og pappírum og flestu því sem hann átti fatakyns.[374]

Sumarið 1869 var Guðmundur norðlenski enn ferðafær og fór þá tvær ferðir í Arnarfjörð að safna vottorðum um lækningar sínar á fyrri tíð.[375] Þau vottorð sendi hann ýmist Bergi Thorberg amtmanni eða Jóni forseta Sigurðssyni (sjá hér Nesdalur).

Við lok ársins 1869 var Guðmundur norðlenski enn í Hólum[376] og í hreppsbók Þingeyrarhrepps má sjá að haustið 1870 ákváðu hreppstjórarnir að þar ætti hann líka að forsorgast næsta ár.[377] Þetta virðist þó ekki hafa gengið eftir því þegar prestur húsvitjar um veturinn er Guðmundur kominn að Kirkjubóli,[378] næsta bæ við Hóla, og talinn eiga þar heima. – Greindur og lesinn maður, vel að sér, siðsamur – eru einkunnirnar sem prestur gefur þá öldungi þessum á Kirkjubóli.[379] Líklega hefur Guðmundur verið heimilisfastur á Kirkjubóli til haustsins 1871.

Er hér var komið sögu hafði kofi hans, Guðmundarskáli undir Fögrubrekku, staðið auður í nær þrjú ár og mun ráðamönnum Þingeyrarhrepps hafa þótt kominn tími til að reyna að selja hreysið og fá þannig eitthvað af peningum upp í allt það sem sveitarsjóðurinn hafði þurft að borga á síðustu fimm árum vegna framfærslu eigandans. Í septembermánuði á þessu hausti barst Guðmundi til eyrna að til stæði að bjóða kofa hans upp. Hann greip þá stílvopn sitt og ritaði mótmælabréf er hann sendi Samsoni Samsonarsyni á Brekku sem þá var orðinn hreppstjóri í Þingeyrarhreppi.[380] Í bréfinu setur Guðmundur fram þá kröfu að fyrirhuguðu uppboði verði frestað uns sonur sinn, Sigurður Amlín, sem orðinn var 22ja ára gamall, geti gengið til samninga um skuldamálin fyrir sína hönd.[381]

Þrátt fyrir andmæli eigandans var Skáli seldur á uppboði sem fram fór 17. október 1871.[382] Fámennt var á uppboðsþinginu, fimm karlmenn og ein kona, og var kofinn sleginn hæstbjóðanda fyrir fimm og hálfan ríkisdal.[383] Gamli læknirinn sem þarna missti hús sitt segir hins vegar að tveimur árum fyrr hafi sér verið boðnir 30-34 ríkisdalir fyrir kofann.[384] Af skrifum hans má einnig ráða að húsið hafi verið selt með öllu sem í því var en dót það virti Guðmundur á 16 ríkisdali og 38 skildinga.[385] Meðal þess sem karlinn átti enn í kofa sínum, þegar hann var boðinn upp, var dálítið af járni og timbri ásamt smíðaverkfærum, tveimur fiskilóðum og einum renndum, rauðum, ferniseruðum fjögra ljósa lampa.[386]

Andmæli Guðmundar norðlenska gegn sölunni á Skála eru síðustu sjáanleg merki þess að hann hafi reynt að bera hönd fyrir höfuð sér í samskiptum við forráðamenn samfélagsins. Vel má þó vera að hann hafi enn um sinn haldið uppi andófi og leitað réttar sins, enda þótt þess sjái nú hvergi stað í varðveittum heimildum. Um svipað leyti og Skáli var boðinn upp ákváðu hreppstjórar Þingeyrarhrepps að setja Guðmund norðlenska niður í Svalvogum hjá Gísla Jónssyni og Marin Oddsdóttur[387] sem þá um vorið höfðu flust þangað frá Minna-Garði í Mýrahreppi. Jafnframt var ákveðið að borga með honum 4 vættir á ári[388] og mun láta nærri að sú upphæð, sem á landsvísu svaraði til fjögurra ærgilda, hafi talist full meðgjöf með rólfærum karlmanni.

Er Guðmundur norðlenski kom sem niðursetningur að Svalvogum haustið 1871 voru 18 ár liðin frá því hann orti brúðkaupsljóð til hjónanna Gísla og Marinar, sem nú áttu að verða húsbændur hans, og sat hina fögru veislu sem haldin var í Meira-Garði á brúðkaupsdegi þeirra (sjá hér Meiri-Garður). Í Svalvogum var Guðmundur niðursetningur í þrjú ár[389] og hefur að líkindum verið þar allvel haldinn. Með hliðsjón af lýsingum á heilsufari Guðmundar á síðustu árum hans á Skála (sjá hér bls. 45-46) er reyndar merkilegt að hann skuli allmörgum árum síðar hafa haft þrek til að leggja í erfiða ferð sem hann fór að eigin frumkvæði vorið 1873. Í ferð þessari sem farin var frá Svalvogum í maímánuði komst Guðmundur bæði á Ingjaldssand og í Valþjófsdal í Önundarfirði eins og sjá má í dagbók hans frá vorinu 1873[390] en þau dagbókarskrif eru hin síðustu sem varðveist hafa frá hans hendi.

Frá Svalvogum lagði Guðmundur upp í ferð sína 2. maí og komst þann dag að Höfn en daginn eftir að Meðaldal.[391] Þann 5. maí var hann kominn á Fjallaskaga og var þar um kyrrt vel haldinn.[392] Næsta dag skrifar hann í dagbók sína: Fór yfir þau lítt farandi klungurskörð með máttvana líkama og sorgarfullri sál. Komst að þeim viðkvæmu vinahúsum, Hrauni á Ingjaldssandi, stundu eftir miðaftan.[393] Þarna hefur karlinn klöngrast yfir mjög brattan og erfiðan fjallveg, Skörðin, sem stundum voru farin frá Fjallaskaga eða Birnustöðum við norðanverðan Dýrafjörð og yfir á Ingjaldssand (sjá hér Birnustaðir, Fjallaskagi og Hraun á Ingjaldssandi).

Dagana 7. – 9. maí var ferðalangurinn um kyrrt í Hrauni en 10. maí fór hann þaðan að Kirkjubóli í Valþjófsdal og þaðan næsta dag að Tungu í Valþjófsdal að hitta dóttur sína, Rósamundu Jóhönnu,[394] sem þá var 21 árs gömul (sjá hér Nesdalur). Þann 13. maí fór Guðmundur úr Valþjófsdal yfir Klúku, sem er erfiður fjallvegur, og komst að Arnarnesi í Dýrafirði en tveimur dögum seinna var hann kominn að Núpi.[395] Þaðan fór hann sjóleiðis yfir á Þingeyri 17. maí og segist þá vera mikið lasinn í fótum eftir ferðina yfir Klúku.[396] Er Guðmundur kom á Þingeyri lagði hann af stað gangandi út með firðinum en þennan dag, 17. maí, gerði ofsaveður og komst hann með litlu lífi í sauðahús við Sandasjó.[397] Þar í sauðahúsinu lét hann fyrirberast um nóttina en skreið daginn eftir heim svokölluð Sjóarskörð og náði að Söndum.[398]Varð mér þá varla komið upp í rúm vegna kvala minna, kulda og hungurs á hverju nákvæmlega var ráðin bót eftir megni, – párar gamli læknirinn í kompu sína þennan dag, 18. maí 1873.[399] Hann var þá 73ja ára gamall.

Enn átti Guðmundur norðlenski eftir að lifa í tólf og hálft ár er hann kom úr þessu ferðalagi en varla hefur hann farið margar lystireisur á því skeiði. Öll þau ár var hann á framfæri sveitarinnar, fyrst í Svalvogum til haustsins 1874, þá á Bakka í nokkra mánuði eða máske eitt ár og síðan hjá Jóni Hákonarsyni á Sveinseyri frá 1875 til 1878.[400] Undir lok ársins 1878 var hinn aldraði niðursetningur fluttur að Skálará í Keldudal til hjónanna Bjarna Bjarnasonar og Margrétar Björnsdóttur er þar bjuggu.[401] Á Skálará átti hann síðan heima í um það bil sjö ár, fyrst hjá Bjarna en síðar hjá Elíasi Arnbjörnssyni.[402] Í húsvitjanabók prestsins frá þessum árum er Guðmundur ýmist kallaður ómagi eða doctor[403] sem sýnir að menn hafa enn minnst afreka þessa sveitarómaga við lækningar á fyrri tíð. Síðustu þrjú árin sem Guðmundur dvaldist á Skálará voru greiddar með honum um það bil 100,- kr. á ári úr sveitarsjóði[404] en opinbert kýrverð í Ísafjarðarsýslu var þá á bilinu frá 98–110 krónur.[405] Í elli sinni varð Guðmundur norðlenski einn dýrasti ómagi Þingeyrarhrepps. Þrjú síðustu árin á Skála, 1866-1868, varð hann að þiggja af sveit og lifði síðan sem niðursetningur í nær sautján ár, frá 1868 til 1885. Það voru grimm örlög fyrir svo stórlátan og uppreisnargjarnan múgamann og máske sárari en orð fá lýst. Ýmsir hafa þó sýnt honum hlýlegt viðmót og 82ja ára gamall gat hann enn krotað orð á blað því Sighvatur Borgfirðingur getur þess í dagbók sinni að 3. nóvember 1881 hafi hann fengið bréf frá gamla Guðmundi lækni.[406] Þann 30. janúar 1883 var Sighvatur staddur í Keldudal og fékk þar greiddar tvær krónur fyrir að taka konu blóð.[407] Aðra krónuna gaf hann Guðmundi gamla lækni,[408] forvera sínum í starfi alþýðulæknis og blóðtökumanns.

Árið 1885 urðu húsbændur gamla doctorsins, þau Elías Arnbjörnsson og Margrét Pétursdóttir á Skálará, að bregða búi og réðu sig í vinnumennsku til Guðmundar Jónssonar, bónda í Hólum.[409] Öldungurinn, Guðmundur norðlenski, var látinn fylgja þeim og 7. október var hann fluttur frá Skálará inn að Hólum.[410] Þar andaðist hann sex dögum síðar, 13. október 1885,[411] og var þá orðinn nær 86 ára gamall.

Á þessum síðustu ævidögum hefur gamla hómópatanum ef til vill auðnast að líta einu sinni enn til brekkunnar fögru við Sandaá þar sem hann áður hafði reist sér skála við þjóðbraut og verið sinn eigin herra um sinn. Um slíkt er þó ekki unnt að fullyrða því við vitum ekki hvernig heilsu hans var háttað eftir erfiðan flutning á sjó eða landi utan úr Keldudal og komið haust. Ekki er heldur kunnugt hvort staldrað var við í rústunum af Skála þegar lík þessa norðanmanns var hafið út og flutt spölinn stutta frá Hólum yfir í kirkjuna á Söndum en vel gæti svo hafa verið því krókurinn er ekki stór. Yfir kostnaðinn við útför hins gamla Norðlendings, er svo lengi hafði þolað súrt og sætt með Dýrfirðingum, liggja hins vegar allir reikningar fyrir. Útfararkostnaðurinn var liðlega 24,- krónur og skiptist þannig:

 

1…. Reikningur frá Guðmundi Jónssyni í Hólum …………………  kr. 10,50

2…. Greiðsla til fjögurra líkmanna ………………………………….  kr.   8,00

3…. Reikningur frá Þingeyrarverslun fyrir léreft og borðvið ……  kr.   5,66[412]

 

Það kom í hlut Sighvats Borgfirðings að skrifa upp dánarbú síns gamla vinar og 1. apríl 1886 voru þær lítilfjörlegu eigur sem Guðmundur norðlenski lét eftir sig seldar á opinberu uppboði.[413]

Úr fjörunni við ós Sandaár er hálftíma gangur inn að Þingeyri og liggur leiðin með fjarðarströndinni fyrir endann á Sandafelli. Áður á árum var líka stundum farin efri leið sem lá þar sem skriðurnar enda og brekkurnar byrja.[414] Sú leið þótti styttri.[415] Eins og fyrr var getið er Sandafellið 367 metrar á hæð og auðvelt uppgöngu einkum frá Brekkuhálsi (sjá hér Þingeyri og Brekkka) en þaðan liggur reyndar akvegur upp á fellið. Ýmsir sem hér ferðuðust um á fyrri tíð glöddust yfir fágætum steinum er þeir fundi í Sandafelli. Ólafur Olavius heyrði árið 1775 talað um agat[416] og Ebenezer Henderson er hingað kom árið 1815 nefnir geislasteina og jaspis.[417]

Á leiðinni frá Söndum að Þingeyri gefst okkur kostur á að virða fyrir okkur Sandasker, er svo heita, fjörukletta sem aðeins fara í kaf á háflæði. Frá árósnum er varla kílómetri að skerjunum. Þar voru áður sjávarhús frá Söndum, nefnd Skerhús, enda var þarna lendingarstaður.[418] Árið 1672 voru feðgar að nafni Þórður Jónsson og Jón Þórðarson dæmdir á Alþingi fyrir að hafa valdið veikindum stúlku nokkurrar með galdrakukli. Til marks um sekt Þórðar voru einkum höfð orð er fullyrt var að hann hefði látið falla í Sandaskerjum er hann deildi þar við Jón Jónsson, þann sem kærði Þórð og Jón son hans fyrir galdra. Ákærandinn hefur að líkindum verið faðir áðurnefndrar stúlku. Orðin sem Þórður átti að hafa látið sér um munn fara í Sandaskerjum voru þessi: Hafðu skömm fyrir það. Hún [stúlkan] hefur það sem hún hefur fengið. Þér og þínum mun ekki fram fara úr þessu.[419] Sandaskerin sem þarna er talað um eru vafalaust þessi hér því tekið er fram í Alþingisbókinni að feðgarnir sem dæmdir voru hafi verið af Vestfjörðum og það var Páll Torfason, sýslumaður í Ísafjarðarsýslu, sem kynnti héraðsdóminn yfir þeim í lögréttu.[420] *) Við Öxará sýndist mönnum að hinn meinti galdramaður væri næsta forherslulegur[421] og hefur það ekki

__________________________

 

*) Páll Torfason var þá að vísu eingöngu sýslumaður í norðurhluta Ísafjarðarsýslu en Magnús Magnússon, sem fór með sýsluvöld í vesturhlutanum, mætti ekki til þings þetta ár og þar var Páll með öll hans mál.[422]

 

 

orðið til að mýkja hug dómenda í hans garð. Jón Þórðarson var ungur að árum er hann var tekinn til fanga og fluttur með föður sínum til Alþingis. Hann játaði fyrir dómi að hafa sagt er rætt var um veikleika stúlkunnar: Ég skal flóa henni betur heitt.[423] Við Öxará voru tólf sýslumenn settir til að rannsaka mál feðganna að vestan. Niðurstaða þeirra varð sú að þrátt fyrir þessa hótun Jóns Þórðarsonar hefði umrædd stúlka, sem aldrei er nefnd með nafni, ekki beðið verulegt heilsutjón. Í Alþingisbókinni segir að hvorki hafi tekist að sanna að henni hafi veikleiki vaxið síðan Jón Þórðarson hótaði að flóa henni betur heitt né annað merkilegt að skaða orðið, – en orðin þó fyrir fjórum árum töluð á ófulltíða aldri.[424]

Endirinn á þessu málastappi varð sá að feðgarnir, Þórður og Jón, sluppu við bálið þar eð veikindin, er þeir áttu að hafa valdið, höfðu reynst tiltölulega meinlaus. Að heilags anda náð tilkallaðri komust lögmenn og lögréttumenn hins vegar að þeirri niðurstöðu að nefndum Jóni Þórðarsyni líða beri húðlátsrefsing, hart á lagða eftir yfirvaldsins tilhlutan.[425] Föður hans, Þórð, dæmdu hinir sömu dómendur til að líða hæsta húðlátsrefsing hér á Öxarárþingi og aðra í héraði undir forsvaranlegu mati sýslumanns.[426] Báðir voru feðgarnir hýddir á Alþingi 5. júlí 1672[427] og ætla má að síðari hýðinguna hafi Þórður tekið út heima í héraði. Páll Torfason sýslumaður fékk hins vegar leyfi til að flytja hann vestur járnalausan því hann lofar að um hlaupast ekki, segir þar.[428]

Við Sandasker skulum við gæta tungu okkar vel, minnug þess að fyrir orð sem hér voru töluð urðu nýnefndir Dýrfirðingar að þola, annar einfalda og hinn tvöfalda húðlátsrefsingu.

Frá Sandaskerjum er skammur spölur inn á Þingeyri, rétt liðlega einn kílómetri, og liggur leiðin með ströndinni undir Sandafelli.

 

 

 

– – – – – – – – – – o o o o o – – – – – – – – – –

[1] Knútur Bjarnason. – Viðtal K.Ó. við hann í júlí 1991.

[2] Lbs. 23684to , S.Gr.B. Prestaæfir XI, 150.

[3] Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín VII, 49.

[4] Sóknalýsingar Vestfjarða II, 60.

[5] Vestfirskar sagnir I, 361-366.

[6] Örnefnaskrá.

[7] Íslensk fornrit VI, 25.

[8] Sama heimild VI, XXX.

[9] Sigurður Líndal 1974, 209 (Saga Íslands I).

[10] Sturlunga III, XI.

[11] Sama heimild, 208 og 259.

[12] Jón Jóh. 1958, 241-242 (Ísl.s. II).

[13] Sama heimild.

[14] Sama heimild, 286.

[15] Sama heimild, 278.  Íslenskar æviskrár, 358-359.

[16] Jón Jóh. 1958, 287-289 (Ísl.s. II).

[17] Sama heimild.

[18] Sturl. I, 387.

[19] Sama heimild, 388.

[20] Sama heimild, 365.

[21] Sturl.  II, 113.

[22] Sama heimild, 224.

[23] Sturl. I, 443.

[24] Sturl. II, 229.

[25] Sama heimild, 224-225.

[26] Sama heimild, 192.

[27] Sturl. II, 224-225.

[28] Sama heimild, 225.

[29] Sturl. II, 279-280.

[30] Sama heimild.

[31] Sama heimild, 280-284.

[32] Sturl. III, 14 og 78.

[33] Sturl. II, 233-234.

[34] Sturl. III, 4, 14 og 17.

[35] Sama heimild, 13-15.

[36] Sturl. III, 17.

[37] Sama heimild, 17 og 38.

[38] Sturl. III, 39-40.

[39] Sama heimild, 78.

[40] Sama heimild, 79-82.

[41] Sama heimild, 90.

[42] Sama heimild, 92.

[43] Sama heimild, 93-100.

[44] Sturl. III, 95-97.

[45] D.I. XII, 13.

[46] D.I. II, 832.

[47] D.I. III, 126.

[48] Sama heimild.  Sbr. Magnús Stefánsson 1978, 165 (Saga Íslands III).

[49] D.I. III, 126.

[50] D.I. IV, 145.

[51] Sama heimild.

[52] D.I. XV, 577.  Jarðab. Á. og P. VII, 48.  Bps. C. I, 2, vísitazía Helga G. Thordersen biskups, Sandar 15.7.1852.

[53] Jarðabók Á. og P. VII, 48.

[54] Sama heimild.

[55] Bps. A. II, 24, vísitazía Hannesar  biskups Finnssonar, Sandar 16.8. 1790.

[56] D.I. IV, 145.

[57] D.I. XV, 577.

[58] Sama heimild.

[59] Jarðab. Á. og P. VII, 28-93.  Bps. C. I, 2,  vísitazía Helga G. Thordersen biskups, Sandar 15.7.1852.

[60] Jarðab. Á. og P. VII, 43 og 46.

[61] D.I. XV, 577.

[62] Sbr. Kristján Eldjárn 1962, 94, sjá Firðir og fólk 900-1900, mynd bls. 133.

[63] Sama heimild.

[64] Ársrit Sögufél. Ísfirðinga 1981, 138-140.

[65] Sama heimild.

[66] Annálar 1400-1800 V, 327.

[67] Ársrit Sögufél. Ísfirðinga 1981, 139.

[68] Annálar 1400-1800, VI, 98.

[69] Ársrit Sögufél. Ísfirðinga 1981, 138-140.

[70] Sama heimild.

[71] Sama heimild.

[72] Prestatal og prófasta I-III.

[73] Gísli Gunnarsson 1987, 258.

[74] Ársrit Sögufél. Ísfirðinga 1981, 138-140.

[75] Sama heimild.

[76] Hannes Finnsson 1970, 85.

[77] Lbs. 23684to, Prestaæfir S.Gr.B. XI, bls. 52.

[78] Bps. C. I, 2,  vísitazía Helga G. Thordersen biskups, Sandar 15.7.1852 .

[79] Sama heimild.

[80] Sama heimild.

[81] Sama heimild.

[82] Sama heimild.

[83] Bps. C. I, 2,  vísitazía Helga G. Thordersen biskups, Sandar 15.7.1852.

[84] Jóhann Gunnar Ólafsson 1974, 111-118 (Ársrit S.Í.).

[85] Lbs. 23684to, Prestaæfir S.Gr.B. XI, bls. 150.

[86] Sama heimild.

[87] Sama heimild.

[88] Prestatal og prófasta II, 171-204.

[89] Sama heimild.

[90] Sama heimild.

[91] Jarðab. Á. og P. VII, 47.

[92] Lbs. 23684to, Prestaæfir S.Gr.B. XI, bls. 149.

[93] Sama heimild.

[94] Jarðatal Johnsens 1847, bls. 207

[95] Sama heimild.

[96] Lbs. 23684to, Prestaæfir S.Gr.B. XI, bls. 149.

[97] Sóknalýs. Vestfj. II, 56.

[98] J. Johnsen 1847, 192.

[99] Jarðab. Á. og P. VII, 47.

[100] Jarðatal Johnsens 1847, 207.

[101] Jarðab. Á. og P. VII, 48-49.

[102] Sama heimild.

[103] Sama heimild.

[104] Sama heimild.

[105] Manntal 1801.

[106] Rtk. Jarðabækur V. 16, Ísafj.sýsla 1805.

[107] Örn.skrá.  Jarðab. Á. og P. VII, 48.

[108] Jarðab. Á. og P. VII, 48.

[109] Jarðab. Á. og P. VII, 48.

[110] Jarðab. Á. og P. VII, 48.

[111] Sama heimild.

[112] Sama heimild, 48-49.

[113] J. Johnsen 1847, 192.

[114] Skj.s. prófasta XIII. 1. A. 3, úttektargerð frá Söndum í Dýrafirði 28.5.1828.

[115] Manntöl 1835, 1840, 1845 og 1850.

[116] Manntöl 1855 og 1860.

[117] Sóknarm.töl Sandapr.kalls.

[118] Ólafur Olavius 1964, I, 177.

[119] Jarðab. Á. og P. VII, 47-49.

[120] Sama heimild.

[121] Prestatal og prófasta, 1950, bls. 188-189.

[122] Lbs. 23684to, Prestaæfir S.Gr.B. XI, 1, Sandar.

[123] Kvæðasafn I, 1, bls. 295-297 (Kv.s. eftir ísl. menn frá miðöldum og síðari öldum. Rvík 1922. Hið ísl.

bókmenntafélag gaf út).

[124] Lbs. 23684to, Prestaæfir S.Gr.B. XI, 1, Sandar.

[125] Prestatal og prófasta, 1950, bls. 171-213.

[126] Salmonsens Konv. Leksikon XVII, 958 (Kph. 1924).

[127] Prestatal og prófasta, 1950, bls. 189.

[128] Sama heimild.

[129] Lbs. 23684to, Prestaæfir S.Gr.B. XI, 1, Sandar.

[130] Sigurjón Einarsson 1960, 99-101 (Skírnir).

[131] Íslenskar æviskrár IV, 58.

[132] Theódór Árnason / Vestfirskar ættir IV, 366-373.

[133] Lbs. 23684to, Prestaæfir S.Gr.B. XI, 1, Sandar.

[134] Finnur Jónsson 1772-1778/Hist. Ecc. III, 199.

[135] Íslands þúsund  ár, 1300-1600, 228.

[136] Jón M. Samsonarson 1964, I, XXVI og II, 52.

[137] Sama heimild.

[138] Íslands þúsund ár, 1300-1600, 231.

[139] Sama heimild, 229-230.

[140] Bjarni Þorsteinsson 1906-1909, 317 (Íslensk þjóðlög).

[141] Bjarni Þorsteinsson 1906-1909, 315-316 (Íslensk þjóðlög).

[142] Jón Þorkelsson 1888, 456 (Om Digtningen paa Island.).

[143] Sama heimild.

[144] Bjarni Þorsteinsson 1906-1909, 316-317 og 206-209.

[145] Sama heimild, 206-209.

[146] Sama heimild.

[147] Jón M. Samsonarson 1964, II, 163.

[148] Sama heimild, 238.

[149] Lbs. 23684to, Prestaæfir S.Gr.B. XI, 1, Sandar.

[150] Jón Þorkelsson 1888, 455 (Om diktningen paa Island.

[151] Lbs. 23684to, Prestaæfir S.Gr.B. XI, 1, Sandar.

[152] Alþingisbækur Íslands VII, 300.

[153] Annálar 1400-1800 III, 84.

[154] Ísl. æviskrár I, 198.

[155] Alþ.b. Íslands VIII, 420-421.

[156] Ísl. æviskrár III, 433-434 og 460-461. Sama IV, 385.

[157] Gersemar og þarfaþing 1994, 62-63.

[158] Ísl. æviskrár II, 210-211, III, 307 og IV, 275.

[159] Lbs. 23684to, Prestaæfir S.Gr.B. XI, 1, Sandar.

[160] Sama heimild.  Þjóðsögur Jóns Árnasonar III, 599-600.

[161] Lbs. 23684to, Prestaæfir S.Gr.B. XI, 1, Sandar.

[162] Örn.skrá.

[163] Lbs. 23684to, XI, 1, Sandar.

[164] Skj.s. prófasta XIII. 1. B. 2. Skjalabók Holts í Önundarf. 1484-1731, bls. 277-282.

[165] Skj.s. próf. XIII. 1. B. 2. Skjalabók Holts í Ön.f. 1484-1731, bls. 277-282. Sbr. Jarðab. Á. og P. VII, 49.

[166] Þjóðsögur Jóns Árnasonar III, 599-600.

[167] Sama heimild.

[168] Ísl. æviskrár III, 455-456 og IV, 310.

[169] Ísl. æviskrár III, 455-456.

[170] Sama heimild.

[171] Skjalasafn kirkjustjórnarráðsins. K I – 4. Innkomin bréf og önnur skjöl 1744-1745.

[172] Lbs. 23684to, Prestaæfir S.Gr.B. XI, 1, Sandar.

[173] Prestsþj.b. Sandapr.kalls.

[174] Sama heimild.  Sbr. Manntal 1801, vesturamt, 297 og 325.  Sbr. einnig Manntal 1816, 682 og 702.

[175] Prestsþj.b. Sandapr.kalls.

[176] Sama heimild.

[177] Sama heimild.

[178] Sama heimild.

[179] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Sanda í Dýraf. og Holts í Ön.f.  Manntal 1801, vesturamt, 297. Sbr. þar bls.

291 og 235.

[180] Ísl. æviskrár III, 469.

[181] Skj.s. prófasta XIII. 1. A. 3. Úttektargerð frá Söndum 13.6.1817.

[182] Sama skj.s. XIII. 1. A. 3. Úttektargerðir frá Söndum 13.6.1817 og 28.5.1828.

[183] Lbs. 23684to, Prstaæfir S.Gr.B. XI, 1, Sandar.

[184] Ebenezer Henderson 1957, 296.

[185] Sama heimild.

[186] Ísl. æviskrár I, 302.

[187] Lbs. 23684to, Prestaæfir S.Gr.B. XI, 1, Sandar.

[188] Manntal 1816, 665.

[189] Lbs. 23684to, Prestaæfir S.Gr.B. XI, 1, Sandar.

[190] Ísl. æviskrár I, 166-167.

[191] Lbs. 23684to, Prestaæfir S.Gr.B. XI, 1, Sandar.

[192] Sama heimild.

[193] Sóknalýs. Vestfj. II, bls. 48-62.

[194] Ísl. æviskrár I, 166-167.

[195] Manntal 1845.

[196] Lbs. 23684to, Prestaæfir S.Gr.B. XI, 1, Sandar.

[197] Bps. C. I, 2, Vísitazía Helga G. Thordersen biskups, Sandar 15.7. 1852.

[198] Sama heimild.

[199] Sama heimild.

[200] Ísl. æviskrár I, 166-167.

[201] Lbs. 23684to, Prestaæfir S.Gr.B. XI, 1, Sandar.

[202] Sama heimild.

[203] Manntal 1845.

[204] Lbs. 23684to, Prestaæfir S.Gr.B. XI, 1, Sandar.

[205] Sama heimild.

[206] Skýrslur um landshagi (Kph. 1870) IV, 498.

[207] Lbs. 23684to, Prestaæfir S.Gr.B. XI, 1, Sandar.

[208] Ísl. æviskrár III, 265.

[209] Lbs. 23684to, Prestaæfir S.Gr.B. XI, 1, Sandar.

[210] Sama heimild.

[211] Ísl. æviskrár III, 265.

[212] Lbs. 23684to, Prestaæfir S.Gr.B. XI, 1, Sandar.

[213] Sama heimild.

[214] Sama heimild.

[215] Sama heimild.

[216] Vestfirskar þjóðsögur III, 131.

[217] Þjóðsögur og þættir II, 107.

[218] Sama heimild, 110. Sbr. hér Múli.

[219] Þjóðsögur og þættir II, 104.

[220] Þjóðsögur og þættir II, 110.

[221] Sama heimild, 108-109.

[222] K.Ó. 1986, 182 og 184 (Saga, tímarit).

[223] Þjóðsögur og þættir II, 108-109.

[224] K.Ó. 1987, 135 (Saga, tímarit).

[225] Þjóðsögur og þættir II, 104.

[226] Manntal 1855.

[227] Þjóðsögur og þættir II, 106-108.

[228] Sama heimild.

[229] Sama heimild.

[230] Gríma hin nýja III, 291-292.

[231] Þjóðsögur og þættir II, 104.

[232] Sama heimild.

[233] Bps. C. V, 137 B, bréf séra Jóns til biskups, fylgir bréfi séra Odds Sveinssonar, prófasts á Rafnseyri, 31.5.1856 til  Helga G. Thordersen biskups.

[234] Sama heimild.

[235] Sama heimild.

[236] Bps. C. V, 137 B,  bréf séra Jóns Sigurðssonar, fylgir bréfi séra Odds Sveinssonar prófasts á Rafnseyri 31.5. 1856 til Helga G. Thordersen biskups.

[237] Lbs. 23684to, Prestaæfir S.Gr.B. XI, 1, Sandar.

[238] Sama heimild.

[239] Sama heimild.

[240] Manntal 1860.

[241] Lbs. 23684to, Prestaæfir S.Gr.B. XI, 1, Sandar.

[242] Prestatal og prófasta, 1950, bls. 189.

[243] Lbs. 23684to, Prestaæfir S.Gr.B. XI.1, Sandar. Íslenskar æviskrár VI, 322-323.

[244] Halldór Kristjánsson 1967, 96-97 (Ársrit Sögufél. Ísfirðinga).

[245] Sama heimild.

[246] Ísl. Æviskrár VI, 322-323.

[247] Lbs. 23684to, Prestaæfir S.Gr.B. XI, 1, Sandar.

[248] Sjá Firðir og fólk 1900-1999, 212.

[249] Lbs. 23764to, Dagbók Sighvats Grímssonar Borgfirðings 4.8.1911.

[250] VA III, 243 – 1847 I, Lífssaga  Guðm. Guðm., 3. partur.

[251] Blanda III, 150-157.

[252] Sama heimild, 159.

[253] Aðalmanntal 1.10.1860.  Sóknarm.töl úr Sandapr.kalli 1860-1868.

[254] VA III, 243 – 1847 I, Lífssaga  Guðm. Guðm., 3. partur.

[255] Sama heimild.  Lbs. 23328vo, Dagbækur Guðm. Guðm. ágúst – desember 1853 og janúar – júlí 1854.

[256] Sömu heimildir.

[257] Sömu heimildir.

[258] Blanda III, 120 og 144-145.

[259] VA III, 243 – 1847 I, Lífssaga Guðm. Guðm., 3. partur.

[260] Lbs. 23328vo, Dagbók Guðm. Guðm. ágúst – desember 1853.

[261] VA III, 243 – 1847 I, Lífssaga Guðm. Guðm., 3. partur.

[262] VA III, 243 – 1847 I, Lífssaga Guðm. Guðm., 3. partur.

[263] VA III, 243 – 1847 I, Lífssaga Guðm. Guðm., 3. partur.

[264] Stefán Jónsson 1985, 211 (Ritsafn II Sagnaþættir).

[265] VA III, 243 – 1847 I, Lífssaga Guðm. Guðm., 3. partur.

[266] Lbs. 23328vo, Dagbók Guðm. Guðm. janúar – júlí 1854.

[267] Sama heimild.

[268] Sama heimild.

[269] Sama heimild.  VA III, 243 – 1847 I, Lífssaga. Guðm. Guðm., 3. partur.

[270] Lbs. 23328vo, Dagbók Guðm. Guðm. 28.7.1854.

[271] Prestsþj.b. Otradals.

[272] Ísl. æviskrár III, 265.

[273] Prestsþj.b. Dýrafj.þinga.

[274] Manntöl 1835, 1840, 1845, 1850 og 1855.

[275] Sömu manntöl.

[276] Sömu manntöl.

[277] Manntöl 1845, 1855 og 1860.  Prestsþj.b. Eyrar í Skutulsf.  Sbr. Manntal 1835 úr Otradalssókn.

[278] Manntal 1855.

[279] Manntal 1860.

[280] Prestsþj.bækur Otradals.

[281] Manntal 1860.  Prestsþj.b. Otradals og Rafnseyrar.

[282] VA III, 243 – 1847 I. Úrskurður Stefáns Bjarnarsonar sýslum., dags. 14.9.1866, um sveitfesti

Guðm. Guðmundssonar, afrit. – Sighv. Gr. Borgf. 1924-1927, 155 (Blanda III).

[283] Manntal 1855.

[284] VA III, 243 – 1847 I, Lífssaga Guðm. Guðm., 3. partur.

[285] VA III, 243 – 1847 II. – Bréf séra Jóns Sigurðssonar á Söndum 11.3.1858 þar sem hann veitir Guðm.

Guðm. heimild til að byggja íveruhús í landi Sanda.

[286] Lbs. 23338vo. Tvær greinargerðir frá árinu 1871 með lýsingum á húsinu Skála eða Guðmundarskála í

landareign Sanda í Dýrafirði.

[287] Sama heimild.

[288] Lbs. 23338vo. Tvær greinargerðir frá árinu 1871 með lýsingum á húsinu Skála eða Guðmundarskála í

landareign Sanda í Dýrafirði.

[289] Sama heimild.

[290] Sama heimild.

[291] Sama heimild.

[292] VA III, 243 – 1847 II. – Minnisgr. Guðm. Guðm. sem fylgja leyfisbréfi sr. J. Sigurðss. frá 11.3.1858.

[293] Sighv. Gr. Borgf. 1924-1927, 156 (Blanda III).

[294] Sama heimild.

[295] Sóknarm.töl Sandapr.kalls.

[296] Prestsþj.b. Sandapr.kalls.

[297] Sóknarm.töl Sandapr.kalls.  Manntal 1860.

[298] Sighv. Gr. Borgf. 1924-1927, 150-157.

[299] Sóknarm.töl Sandapr.kalls.

[300] Sighv. Gr. Borgf. 1924-1927, 157.

[301] Skj.s. sýslum. og sv.stj. V-Ís. 3. Þingeyrarhreppur, hreppsbók 1851-1873.

[302] Sama heimild.

[303] Lbs. 23338vo, Bréf Andrésar Hákonarsonar 1.1.1862 til Guðm. Guðm.

[304] Sighv. Gr. Borgf. 1924-1927, 157. (Blanda III).

[305] Ólafur Þ. Kristjánsson / Önfirðingar.

[306] Lbs. 23328vo, Dagbók Guðm. Guðm. 1864.

[307] Sóknam.töl Sandapr.k.  Lbs. 23338vo, Ódags. bréf Jóhönnu B. Gíslad. til Guðm. Guðm., ritað á Þingeyri.

[308] Sóknarm.töl Sandapr.kalls.

[309] Lbs. 23338vo, Bréf Jóhönnu Betu Gísladóttur, ódags. en skrifað á Þingeyri til Guðm. Guðm.  VA III, 243 -1847 I, Bréf eða vitnisburður J. B. G. frá 16.1.1869 um Guðm. Guðm.

[310] Sóknarm.töl Sandapr.kalls.

[311] Manntal 1860.

[312] Sóknarm.töl Sandapr.kalls.

[313] L. H. Blöndal og Vilmundur Jónsson 1970 II, 70-71.

[314] Jón Þ. Þór 1984, 204 og 209.

[315] Sighv. Gr. Borgf. 1924-1927, 160-161 (Blanda III).

[316] Lbs. 23328vo, Reikningur sem sýnir viðskipti Guðm. Guðm. við Þingeyrarverslun á árinu 1864 og

skuldastöðu hans við lok þess árs.

[317] Sama heimild.

[318] Sama heimild.

[319] Lbs. 23328vo, Sami reikningur Guðm. Guðm. við Þingeyrarverslun frá árinu 1864.

[320] Sama heimild.

[321] Sama heimild.

[322] Sama heimild.

[323] Lbs. 23328vo, Reikningur sem sýnir viðskipti Guðm. Guðm. við Þingeyrarverslun á árinu 1864 og skuldastöðu hans við lok þess árs.

[324] Sama heimild.

[325] Lbs. 23338vo, Bréf Þorsteins Thorsteinsson 16.10.1859 til Guðm. Guðm.

[326] Sama heimild.

[327] Lbs. 23338vo, Bréf Guðm. Guðm. 26.11.1866 til sáttanefndarinnar í Þingeyrarhreppi, afrit.

[328] Lbs. 23338vo, Bréf Guðm. Guðm. 26.11.1866 til sáttanefndarinnar í Þingeyrarhreppi, afrit.

[329] Sama heimild.

[330] Sama heimild.

[331] Lbs. 23338vo, Bréf Guðm. Guðm. 5.2.1867 til Stefáns Bjarnarsonar, sýslumanns á Ísafirði, afrit.

[332] Lbs. 23338vo, Bréf Guðm. Guðm. 5.2.1867 til Stefáns Bjarnarsonar, sýslumanns á Ísafirði, afrit.

[333] Lbs. 23338vo, Orðsending Guðm. Guðm. 26.11.1866 til H. E. Thomsens, verslunarstjóra.

[334] Ísl. æviskrár III, 60-61 og 265.

[335] Lbs. 23338vo, Bréf Guðm. Guðm. 1.10.1859 til séra Jóns Benediktssonar, afrit.

[336] Lbs. 23338vo, Bréf Guðm. Guðm. 1.10.1859 til séra Jóns Benediktssonar, afrit.

[337] Sama heimild.

[338] VA III, 243 – 1847 I. Bréf Stefáns Bjarnarsonar sýslum. 18.11.1867 til vesturamtsins.

[339] Sama heimild.

[340] Sama heimild.

[341] VA III, 243 – 1847 I. Bréf Gísla Jónssonar og Benedikts Oddssonar, hreppstjóra í Mýrahreppi,

29.12.1866 til Bergs Thorberg amtmanns í vesturamti.

[342] Sighv. Gr. Borgf. 1924-1927, 162 (Blanda III).

[343] Lbs. 23338vo, Bréf Jóns Ólafssonar 8.3.1866 til hreppstjóra Mýrahrepps, afrit.

[344] E. 10. 4. Bréf Guðm. Guðm. 25.8.1869 til Jóns Sigurðssonar forseta.

[345] Lbs. 23338vo, Bréf Jóns Ólafssonar 8.3. 1866 til ónefnds hreppstjóra í Mýrahreppi, afrit.

[346] Sunnanfari 1913, XII, 95.

[347] Lbs. 23338vo, Bréf Guðm. Guðm. ritað á árinu 1866 til óþekkts viðtakanda, afrit.

[348] VA III, 243 – 1847 I. Bréf hreppstjóranna í Mýrahr., þeirra Gísla Jónssonar og Benedikts Oddssonar,

29.12.1866 til Bergs Thorberg, amtmanns í vesturamti.

[349] VA III, 243 – 1847 I. Yfirlýsing eða úrskurður Stefáns Bjarnarsonar sýslum. 14.9.1866 um að Guðm.

Guðm., kallaður læknir, eigi framfærslurétt í Mýrahreppi.

[350] VA III, 243 – 1847 I. Yfirlýsing eða úrskurður Stefáns Bjarnarsonar sýslum. 14.9.1866 um að Guðm.

Guðm., kallaður læknir, eigi framfærslurétt í Mýrahreppi.

[351] Sama heimild.

[352] VA III, 243 – 1847 I. Áðurnefnt bréf hreppstjóranna í Mýrahreppi 29.12.1866 til amtmanns.

[353] E. 10. 4. Bréf Guðm. Guðm. 25.8.1869 til Jóns Sigurðssonar forseta.

[354] Lbs. 23338vo, Bréf Guðm. Guðm. 22.11.1867 til Stefáns Bjarnarsonar sýslumanns, afrit.

[355] Sighv. Gr. Borgf. 1924-1927, 161 (Blanda III).

[356] Lbs. 23338vo, Bréf Guðm. Guðm. 22.11.1867 til Stefáns Bjarnarsonar sýslumanns, afrit.

[357] VA III, 243 – 1847 I, Bréf Stefáns Bjarnarsonar sýslum. 18.11.1867 til vesturamtsins.

[358] VA III, 243 – 1847 II. Bréf amtmanns 17.1.1868 til Stefáns Bjarnarsonar, sýslum. á Ísafirði, uppkast.

[359] VA III, 243 – 1847 I og II, Lífssaga Guðm. Guðm., 3. og 4. partur. Lbs. 23338vo, Bréf Guðm. Guðm.

22.11.1867 til Stefáns Bjarnarsonar sýslumanns, afrit.

[360] VA III, 243 – 1847 II, Lífssaga Guðm. Guðm., 4. partur.

[361] VA III, 243 – 1847 II, Bænaskjal er fylgir 4. parti lífssögu Guðm. Guðm.

[362] Sama heimild.

[363] E. 10. 4. Bréf Guðm. Guðm. 25.8.1869 til Jóns Sigurðssonar forseta.

[364] Skj.s. sýslum. og sv.stj. V-Ís. 3. Þingeyrarhreppur, hreppsbók 1851-1873.

[365] Sama heimild.

[366] E. 10. 4. Bréf Guðm. Guðm. 26.8.1869 til Jóns Sigurðssonar forseta.

[367] Lbs. 23338vo, Erindisbréf fyrir herra Guðm. Guðm. læknir á Hólum til þess framvegis að vera virkilegur

     og staðfastur meðhjálpari í Sandasókn, dags. 28.11.1869 og undirritað af séra Arngrími Bjarnasyni.

[368] Sama heimild.

[369] Sighv. Gr. Borgf. 1924-1927, 164 (Blanda III).

[370] VA III, 243 – 1847 II, Lífssaga Guðm. Guðm., 4. partur.

[371] VA III, 243 – 1847 II, Lífssaga Guðm. Guðm., 4. partur.

[372] Sama heimild.

[373] Sama heimild.

[374] Sama heimild.  E. 10. 4. Bréf Guðm. Guðm. 25.8.1869 til Jóns Sigurðssonar forseta.

[375] Lbs. 23328vo, Dagbók Guðm. Guðm. apríl – júlí 1869.

[376] Sóknarm.tal Sandapr.kalls 1869.

[377] Skj.s. sýslum. og sv.stj. V-Ís. 3. Þingeyrarhreppur, hreppsbók 1851-1873.

[378] Sóknarm.tal Sandapr.kalls 1870.

[379] Sama heimild.

[380] Lbs. 23338vo, Bréf Guðm. Guðm. 27.9.1871 til Samsonar Samsonarsonar, afrit.

[381] Sama heimild.

[382] Lbs. 23338vo, Skrif Guðm. Guðm., ódagsett frá haustinu 1871, um sölu Guðmundarskála, tvær gerðir.

[383] Sama heimild.

[384] Sama heimild.

[385] Sama heimild.

[386] Sama heimild.

[387] Skj.s. sýslum. og sv.stj. V-Ís. 3. Þingeyrarhreppur, hreppsbók 1851-1873.

[388] Sama heimild.

[389] Sóknarm.töl Sandapr.kalls.

[390] Lbs. 23328vo, Dagbók Guðm. Guðm., maí 1873.

[391] Sama heimild.

[392] Lbs. 23328vo, Dagbók Guðm. Guðm., maí 1873.

[393] Sama heimild.

[394] Sama heimild.

[395] Sama heimild.

[396] Sama heimild.

[397] Sama heimild.

[398] Sama heimild.

[399] Sama heimild.

[400] Sóknarm.töl Sandapr.kalls.  Hreppsbók Þingeyrarhrepps 1874-1937 (varðveitt 1993 í bókasafninu á Þingeyri).

[401] Sömu heimildir.  Sighv. Gr. Borgf. 1924-1927, 165 (Blanda III).

[402] Sóknarm.töl Sandapr.kalls.  Hreppsbók Þingeyrarhrepps 1874-1937 (varðveitt 1993 í bókasafninu á Þingeyri).

[403] Sóknarm.töl Sandapr.kalls.

[404] Hreppsbók Þingeyrarhrepps 1874-1937, sjá hér tilvísun 402.

[405] Stjórnartíðindi 1883 B, 21, 1884 B, 19, 1885 B, 38 og 1886 B, 26.

[406] Lbs. 23744to, Dagbók Sighv. Gr. Borgf. 3.11.1881.

[407] Sama dagbók 30.1.1883.

[408] Sama heimild.

[409] Sóknarm.töl Sandapr.kalls 1884 og 1885.

[410] Hreppsbók Þingeyrarhrepps 1874-1937, sjá tilvísun 402.

[411] Prestsþj.b. Sandapr.kalls.

[412] Hreppsbók Þingeyrarhrepps 1874-1937, sjá hér tilvísun 402.

[413] Lbs. 23744to, Dagbók Sighv. Gr. Borgf. 2.1. og 1.4. 1886.

[414] Örn.skrá.

[415] Sama heimild.

[416] Ólafur Olavius 1965,  II, 323.

[417] Ebenezer Henderson 1957, 296.

[418] Örn.skrá.

[419] Alþ.b. Íslands VII, 235-236.

[420] Sama heimild.

[421] Sama heimild.

[422] Alþ.b. Íslands VII, 235-236.

[423] Alþ.b. Íslands VII, 235-236.

[424] Sama heimild.

[425] Sama heimild.

[426] Sama heimild.

[427] Sama heimild.

[428] Sama heimild.

1000-1900

Guðmundur Justsson

Á fyrri hluta 20. aldar var Guðmundur Justsson, sem fæddist á Gemlufalli haustið 1841,[1] einna kunnastur þeirra sem búið höfðu á Dröngum, a.m.k. utan Dýrafjarðar,

LESA MEIRA »
1000-1900

Krossadalur

Í Krossadal var löngum tvíbýli á fyrri tíð, Hærri- og Lægri- (eða Neðri-) Krossdalur, og voru þetta ystu bæir við Tálknafjörð. Stundum var reyndar þríbýli

LESA MEIRA »
1000-1900

Arnarstapi

Arnarstapi og Krossadalur voru tvær ystu jarðirnar á norðurströnd Tálknafjarðar og hafa nú báðar verið í eyði frá því um 1940.[1] Frá verbúðatóttunum í Arnarstapavík

LESA MEIRA »