Í landareign Kvíaness, sem er næsta jörð fyrir innan Lauga, komum við á landamerkjunum sem skilja að þessar tvær jarðir og stöndum þá á þjóðveginum neðan við innri röndina á Markskletti sem fyrr var frá sagt. Spölurinn héðan inn að túninu á Kvíanesi er um það bil þrír kílómetrar og liggur leiðin um Kvíaneshlíð en svo heitir öll fjallshlíðin frá landamerkjunum og inn að Kvíanesi.[1] Í máli heimafólks á þessum slóðum náði nafnið Kvíaneshlíð einnig yfir graslendið neðan við sjálfa fjallshlíðina en þar voru víða allgóð slægjulönd.[2]
Sé litið héðan frá þjóðveginum inn með fjallsbrúninni blasir við óslitin röð klettabelta sem tengja saman Laugafjall og Kvíanesnúp en núpurinn, sem svo heitir, er skammt fyrir utan Kvíanes.[3] Hann skagar dálítið fram og er heldur hærri en fjallsbrúnin þar fyrir utan. Efsti kollurinn á Núpnum mun vera í liðlega 630 metra hæð yfir sjávarmáli. Ekki er kunnugt um nafn á fjallinu utan við Kvíanesnúp en það tengir hann við Laugafjall.
Ysta engjaplássið á Kvíaneshlíð heitir Ystaengi og nær alveg út að landamerkjunum.[4] Réttara væri þó máske að skrifa Ystengi því að í máli fólks, sem hér var kunnugt, var a-ið fallið brott fyrir löngu.[5]
Á Ystenginu því sem næst miðju er Hlaðshryggur[6] og nær frá klettabelti sem er neðarlega í hlíðinni og alveg ofan í fjöru.[7] Hryggur þessi, sem nú er allvel gróin, mun vera kenndur við sauðahlað sem hér var á fyrri tíð. Tótt þessa gamla fjárbyrgis er um það bil 17 metrar að ummáli og stendur enn uppi á nýnefndum hrygg, skammt fyrir ofan rafmagnslínu sem nú (1996) liggur hér inn alla hlíðina.
Innan við Ystengi er mikið af skriðugrjóti og heitir þar Urð.[8] Niður af Urðinni stendur myndarlegur steinn upp úr sjó, skammt frá landi, og heitir Urðarkollur. Hann fer á kaf um flæði[9] en að honum þornar ekki nema í stærstu fjörum.[10]
Hátt uppi í fjallshlíðinni, ofan við Ystengi og Urðina, eru gróðurlausir hnjótar sem heita Haugar.[11] Þeir eru inn og upp af Markskletti.[12] Frá klettunum uppi við fjallsbrún hefur fyrir langa löngu fallið geysimikil skriða niður á miðja Haugana og má vera að skýringu á nafni þeirra sé að finna í þessu hrúgaldi. Neðan við Hauga og þó nokkru neðar í hlíðinni er klettabelti sem í munni fólksins á Laugum var kallað Lægri-Haugar.[13] Það nafn var notað af Laugafólki á fyrri hluta tuttugustu aldar[14] en vera má að það sé ekki gamalt.
Innan við Urðina, sem fyrr var nefnd, kemur Steinsengi, kennt við stóran stein sem enn stendur þar framan í bökkunum.[15] Innan við Steinsengi er svo Miðengi.[16] Steinninn, sem Steinsengi dregur nafn sitt af, stendur stakur. Hann er auðvelt að finna og hjá honum er gott að staldra við og líta upp í fjallshlíðina. Litla gilið innan við Hauga, sem fyrr voru nefndir, heitir Haugagil og lækurinn sem um það fellur Haugalækur.[17] Hann er vatnslítill og þornar stundum upp. Grasteigurinn innan við Haugagil heitir Langiteigur og nær hann alveg niður á Steinsengi.[18] Innan við hann er Beltagil uppi í hlíðinni, kennt við Beltin[19] en svo heitir dálítil klettaröð þar fyrir innan.[20] Ofan við Haugagil, Langateig og Beltagil eru litlir grasigrónir klettar og heita þeir Grasklettar.[21] Fyrir innan Beltin og í álíka hæð sjáum við grunnar kvosir uppi í hlíðinni og eru það Ytri-Trog.[22] Sé litið enn lengra inn með hlíðinni koma næst Bungurnar tvær sem hér verður síðar gerð grein fyrir.
Frá steininum góða á Steinsenginu röltum við nú áfram sem leið liggur um Steinsengi og Miðengi en næsta slægjuland þar fyrir innan heitir Kvöl.[23] Þetta er blautt og slétt mýrlendi uppi á bökkunum[24] en skýring á nafninu mun vera sú að hér þótti illt að standa við slátt.[25] Lítill lækur innan við Kvölina heitir Kvalarlækur en parturinn innan við hann Hlíðarhúsapartur og nær inn að Hlíðarhúsalæk[26] sem oft er mjög vatnslítill. Hlíðarhúsapartur dregur nafn af beitarhúsum sem hér voru áður og nefnd voru Hlíðarhús. Svo heita nú tóttir þessara beitarhúsa en þær blasa við augum rétt ofan við fjöruna, neðst í miðjum Hlíðarhúsaparti.[27] Í Jarðabók Árna og Páls frá árinu 1710 segir svo um þennan stað:
Hlíðarhús heitir örnefni hér í landinu. Þar sjást deili til tóttarústa og eru munnmæli að þar hafi að fornu byggð verið. Enginn veit það með sanni að segja, má og ekki byggð setja fyrir túnstæðis- og heyskaparleysi.[28]
Ekkert svar er í boði við spurningunni um það hvort hér kynni að hafa verið mannabústaður um skamman tíma að fornu en munnmæli í þá veru hafa orðið lífseig því að í jarðabók frá árinu 1805 eru Hlíðarhús sögð vera eyðihjáleiga[29] (sbr. hér bls. 10).
Beitarhúsin sem hér stóðu á nítjándu öld voru tekin niður á árunum 1896-1899.[30] Tóttirnar sem kúra hér enn eru þrjár, tvær sambyggðar en sú innsta laus frá hinum þó að mjög skammt sé á milli. Ysta tóttin er stærst og er grunnflötur hennar um það bil 2 x 4 metrar. Bugurinn með fjarðarströndinni, utan við Hlíðarhús, heitir Hlíðarbugur og nær alla leið út undir Þorleifsvík[31] sem er í landi Lauga (sjá hér Laugar).
Magnús Hjaltason segir að á árunum kringum aldamótin 1900 hafi stöku sinnum fiskast stútungsþorskur hér inn við Hlíðarhús[32] og stór steinn í fjörunni, skammt fyrir utan tóttirnar, heitir Rauðmagasteinn.[33] Hann er forn að sjá með rauðgulum skófum og prýðir flæðarmálið. Alveg rétt utan við steininn fellur vatn til sjávar úr ræsi sem lagt hefur verið undir akbrautina hér uppi á bökkunum.
Frá Hlíðarhúsum er mjög skammur spölur inn að lækjarsytru sem kennd er við þau og heitir Hlíðarhúsalækur.[34] Uppi á bökkunum innan við nýnefndan læk er graslendi með mörgum stórum steinum og er nefnt Merarsteinar.[35] Lítill lækur, sem oft þornar, skilur Merarsteina frá engjaplássi sem áður bar nafnið Lénharðarmóur[36] en hefur á síðari tímum verið kallað Flatir.[37] Þetta er gróðursælt flatlendi og þótti gott slægjuland.[38] Lénharðarmóur munu hafa verið kenndar við Englendinginn Lénharð (Lienardt) sem var bóndi á Kvíanesi á 17. öld (sjá hér bls. 16-19). Til nánari skýringar á nafninu var sögð þessi saga:
Eitt sumar var hann [Lénharður enski] við heyskap úti á hlíð og var kona hans með honum en aðrir ekki. Hún var kona ekki einsömul og bar svo til að hún kenndi sín þarna í slægjunni. Lénharður tók hana þá á handlegg sér og bar hana til bæjar. Ól hún þar barnið og fór allt vel. Leiðin sem hann bar konuna er upp undir tveir kílómetrar. Þetta þótti afburða þrekvirki og var slægjan, sem þau voru að vinna í, kennd við hann og kölluð Lénharðarmóur til minningar um atburðinn.[39]
Ætla má að Lénharðarmóur, er seinna voru nefndar Flatir, séu hér neðan við akveginn því þar er grasgefið flatlendi, beint á móti Innra-Áreiðargili sem er hér handan við fjörðinn (sbr. hér Gilsbrekka). Frá Lénharðarmóum blasa við í miðri fjallshlíðinni Bungurnar tvær sem áður voru nefndar og er sú innri miklu stærri en ytri bungan. Á milli þeirra, beint upp af Lénharðarmóum og Merarsteinum, er í hlíðinni kvos sem heitir Innri-Trog[40] en Ytri-Trog eru utan við ytri bunguna eins og hér hefur áður verið nefnt. Trogin liggja í sömu hæð og Bungurnar.
Í háfjallinu upp af Innri-Trogum er mikið gil sem nær alveg upp á brún og sker í sundur klettavegginn utantil í sjálfum Kvíanesnúp.[41] Þetta gil heitir Trogagjá.[42] Í gjánni er lítið um kletta en mikið af lausu grjóti.[43] Klettanef innan við gjána heita Hrafnanef.[44]
Á Kvíanesi munu Bungurnar tvær, sem áður var minnst á, hafa verið nefndar Ytri-Trogabunga og Innri-Trogabunga[45] en á Laugum voru þær kallaðar Litlabunga og Stórabunga.[46] Klettarnir framan í Stórubungu (Innri-Trogabungu) heita Hrafnaklettar.[47] Um þessa kletta fellur Grænilækur, er svo heitir, en hann þornar oft nær alveg í þurrkatíð á sumrin.[48] Hrafnaklettar eru ófærir gangandi mönnum, alls staðar nema á einum stað, rétt fyrir utan Grænalæk.[49] Heitir þar Sniðgil.[50]
Graslendið innan við Lénharðarmóur heitir Háubakkar og um þá miðja fellur Grænilækur á leið sinni til sjávar.[51] Þessir bakkar eru talsvert hærri en landið fyrir innan þá og utan en munu þó hafa verið lækkaðir af vegagerðarmönnum.[52]
Frá Háubökkum er skammur spölur inn í Sanda (Kvíanessanda), Ytri-Sand og síðan Innri-Sand sem einnig var nefndur Sandeyri.[53] Í Söndunum var áður mikið af fíngerðri sjávarmöl í fjörunni en hún er nú að mestu horfin og hefur verið tekin í ofaníburð við vegaframkvæmdir.[54] Milli Ytri-Sands og Innri-Sands eru tveir smálækir og er mjög stutt á milli þeirra.[55] Þeir heita Sandeyrarlækir[56] og koma báðir ofan úr Seljahvammi[57] sem er utan og neðan við Kvíanesdal en innan og ofan við Innri-Trogabungu sem líka er nefnd Stórabunga (sjá hér bls. 59).
Fyrsti bílvegurinn sem lagður var frá landamerkjunum á móti Laugum og inn að Kvíanesi lá efst í fjörunni eða alveg rétt ofan við hana. Sums staðar sést enn móta fyrir þessum gamla akvegi og honum fylgjum við úr Innri-Sandinum heim í tún á Kvíanesi. Spölinn þar á milli er auðvelt að ganga á 10-15 mínútum og á þeirri leið verður brátt á vegi okkar gamall stekkur.[58] Þessi stekkjartótt er rétt fyrir ofan akveginn sem fyrr var nefndur og lagður var á fjórða áratug tuttugustu aldar. Hún er 5 x 2 metrar að flatarmáli eða því sem næst og svo virðist sem lambakró hafi verið hér neðan við stekkinn. Þessi gamla tótt er nú tekin að síga í jörð. Lágar í graslendinu ofan við stekkinn heita Stekklágar[59] en svolítið innar er Löngulágarholt.[60] Innan við það er Langalág[61] og nær frá þjóðveginum, sem nú er ekið um, og ofan í fjöru.[62] Lækurinn sem fellur um Löngulág dregur nafn af henni og heitir Löngulágarlækur.[63]
Næsti lækur fyrir innan heitir Bóllækur[64] en stundum er ekkert vatn í honum. Ofan við fjöruna og rétt utan við Bóllæk er gömul kví, um það bil 3 x 4 metrar að flatarmáli. Í þessari kví munu ær fólksins á Kvíanesi hafa verið mjólkaðar allt þar til jörðin fór í eyði[65] árið 1927 (sbr. hér bls. 54). Ofan við þessa kví og aðeins innar er Bóllág, sem svo heitir, og ofan við lágina var annað tveggja kvíabóla fólksins á Kvíanesi, nefnt Ból lægra í marktækri heimild.[66] Hærra kvíabólið var talsvert ofar og fyrir innan Bóllækinn.[67] Gamla kvíin, sem því fylgdi, er enn á sínum stað og er um það bil 3 x 7 metrar að flatarmáli, mun stærri en neðri kvíin. Hún er rétt fyrir neðan þjóðveginn, sem nú er ekið um, og örskammt fyrir utan Túnlæk sem fellur niður með utanverðu Kvíanestúninu. Oft var tvíbýli á Kvíanesi og því eðlilegt að kvíarnar væru tvær. Holtið hér fyrir ofan var nefnt Bólholt hærra en alllangt fyrir ofan neðra bólið var Bólholt lægra.[68] Ofan við Bólholt hærra eru önnur holt og heitir það sem mest ber á út við Bóllækinn Háholt.[69]
Frá gömlu kvínni, neðan við hærra kvíabólið, göngum við í tún á Kvíanesi og tökum stefnu á gamla bæjarhólinn. Allt túnið á þessari eyðijörð hefur á síðustu áratugum verið ræktað með nútímalegum hætti og er nytjað frá Birkihlíð og Botni. Efri bærinn á Kvíanesi og sá sem síðast var búið í stóð á myndarlegum hól innarlega og nokkuð ofarlega í túninu en þó dálítið neðan við akveg nútímans. Kristján G. Þorvaldsson segir að Smiðjutótt, sem enn (1996) er á sínum stað, innan við Kvíanesá, sé inn af Bæjarhól[70] og nægir sú vitneskja til að vísa á hólinn. Neðri bærinn, sem fór fyrr í eyði og um skeið var nefndur Lénharðarstaðir, mun hins vegar hafa staðið utarlega og alveg neðst í túninu, þar sem enn stóð sumarið 1996 sumarbústaður, byggður um 1930.[71]
Á Bæjarhólnum, þar sem efri bærinn stóð, hafa allar tóttir verið sléttaðar út en þar er gott að liggja í grasinu og rifja upp ýmislegt frá horfinni tíð.
Fyrst er það nafn jarðarinnar. Á tuttugustu öld mun hún jafnan hafa verið nefnd Kvíanes af heimafólki í Súgandafirði[72] og þannig er nafnið ritað í sóknarlýsingu frá árinu 1839 og manntölunum frá 1845 og 1901.[73] Verður þeim rithætti haldið hér. Þess er hins vegar skylt að geta að í heimildum frá því fyrir 1800 og frá fyrstu árum 19. aldar nefna menn þessa sömu jörð ætíð Kvíarnes.[74] Bókstafurinn – r – hefur síðan fallið brott, að líkindum fyrst í talmáli og svo einnig í ritmáli og Kvíarnes orðið Kvíanes. Hinum eldri rithætti bregður þó fyrir í heimildum frá 20. öld og má þar nefna Fasteignabók frá árinu 1932.[75]
Um það hvort rita skal Kvíanes eða Kvíarnes mætti deila en yrði þó varla harður bardagi. Annað mál er svo það hvers vegna jörðin er kennd við nes og eina eða fleiri kvíar. Nesið virðist reyndar blasa við þar sem nú heitir Oddi eða Kvíanesoddi og skagar fram í fjöruna innst í túninu, utantil við árósinn þar sem Kvíanesá fellur til sjávar.[76] Hvar kvíin eða kvíarnar muni hafa verið er snúnara mál. Óhætt mun þó að setja fram þá tilgátu að Kvíanesdalurinn, sem nú heitir svo, sé kvíin sem bærinn dregur nafn af. Sé horft upp í dalsmynnið neðan frá ströndinni eða frá bæjarhólnum á Kvíanesi sýnist hreint ekki fráleitt að líkja þessum þrönga dal við kví. Alkunnugt er að annars staðar á Vestfjörðum finnast dæmi þess að hömrum girtar skálar eða dalkvosir í fjalllendi hafi borið nafnið Kví allt frá fyrstu öldum byggðar í landinu. Má þar nefna Kvína sem jörðin Kvíar og Kvíarfjall milli Veiðileysufjarðar og Lónafjarðar í Jökulfjörðum draga nafn af.[77] Enn nærtækara er að minna á Kvína í Straumnesfjalli, norðan Aðalvíkur, en við hana er kennt Kvíarmið[78] sem frá er sagt í Landnámabók.[79]
Þá tilgátu að Kvíanesdalur hafi í fyrstu verið nefndur Kví og þaðan komi nafnið á jörðinni er auðvitað ekki unnt að sanna en hún virðist mun álitlegri en sú gamla hugdetta að Hallvarður Súgandi, sem talinn er landnámsmaður í Súgandafirði, hafi verið hér með ær sínar í kvíum en búið í Botni.[80] Þó að ekki sé langt frá Kvíanesi inn í Botn er spölurinn þar á milli lengri en nokkur kvíavegur. Hugmyndin um dalinn eða Mjósundin í dalbotninum sem kví í augum landnámsmanna fjarðarins verður enn áleitnari sé til hans horft frá strönd og hlíð í landi Gilsbrekku.
Að fornu mati var Kvíanes talið vera 8 hundraða jörð.[81] Það mat stóð enn óbreytt um miðbik 19. aldar[82] en um aldamótin 1900 var dýrleiki jarðarinnar talinn 10 hundruð.[83] Því má ætla að jörðin hafi verið hækkuð úr átta hundruðum í tíu við fasteignamatið sem fram fór árið 1861 en flestar aðrar jarðir í Suðureyrarhreppi voru þá metnar heldur lægra en áður hafði verið.[84]
Hér hefur áður verið lýst landamerkjum Kvíaness á móti Laugum (sjá hér Laugar) en á móti Botni eru merkin rétt fyrir innan túnið á Kvíanesi, það er að segja: Túngirðing Kvíaness á bökkunum og lína þaðan í Nautaskálarhorn.[85] Fjallið sem svo heitir er innan við Kvíanesdal en innan við það er Nautaskál og fyrir innan hana Nónhorn.[86] Nautaskálarhorn er lítið fjall og mun lægra en Kvíanesnúpur og Nónhorn sem eru næstu fjöll fyrir innan það og utan.
Af landamerkjalýsingunni má ráða að mest af beitilandi jarðarinnar er á Kvíaneshlíð, sem við höfum nú þegar gengið um, og þar voru líka þau slægjulönd sem mest stoð var að í búskapnum á fyrri tíð.
Kvíanes á þó líka allan Kvíanesdal en það er hálendisdalur sem gengur til suð-suðvesturs ofan við túnið og liggur dalbrúnin, sem sést frá þjóðveginum, í um það bil 160 metra hæð yfir sjávarmáli. Í dalsmynninu og utan við það eru engjalönd, sem við munum skoða síðar, og talsvert haglendi er á dalnum og í hlíðinni neðan við hann. Um Kvíanesdal lá leiðin yfir Grímsdalsheiði til Önundarfjarðar en um dalinn og heiðina er fjallað nánar á öðrum stað í þessu riti (sjá hér bls. 58-61).
Frá Kvíanesi eru aðeins um 1200 metrar inn í botn Súgandafjarðar og hér er fjörðurinn aðeins 500 metrar á breidd. Yfir norðurströndinni, beint á móti Kvíanesi er Grensfjall og utan við það er Gilsbrekkudalur. Á ströndinni neðan við mynni hans er eyðibýlið Gilsbrekka. Þar er nú (1996) sumarbústaður.
Í Jarðabók Árna og Páls frá árinu 1710 segir m.a. svo um Kvíanes:
Fóðrast kann á allri jörðinni þrjár kýr og útigangur í betra lagi. Torfrista og stunga lök. Móskurður til eldiviðar bjarglegur. Skógarítak til kolgjörðar er sagt að jörðin eigi í Gilsbrekkuland og hefur brúkast átölulaust. Gilsbrekka á þar á mót torfristu í þetta land, hún hefur brúkast þetta ár þó lök þyki.
Enginu granda til stórskaða skriður úr brattlendi sem hafa eyðilagt það meir en til helminga. Kirkjuvegur langur. Hreppamannaflutningur að Suðureyri langur. Hætt er húsum við stórviðrum.[87]
Í jarðabók frá árinu 1805 er tekið fram að í landi Kvíaness sé nokkuð um fjallagrös og fáist um það bil hálf tunna af þeim á hverju sumri.[88] Fjallagrösin eru á Kvíanesdal og þangað var enn farið til grasa á árunum kringum 1920.[89] Nefna má að Kristjana Friðbertsdóttir, húsfreyja á Laugum, fór þá jafnan í grasaferð á dalinn einu sinni á sumri en góð vinátta var milli fólksins á Laugum og þess sem bjó á Kvíanesi.[90]
Þeir sem reru til fiskjar frá Kvíanesi á fyrstu árum 19. aldar fengu þá að jafnaði sem svaraði andvirði 17-18 álna eftir landaurareikningi í hlut[91] en 120 álnir voru í kýrverðinu. Líklegt er að þarna sé aðeins miðað við róðra úr heimavör á Kvíanesi því hjá þeim sem reru frá Suðureyri var andvirði hásetahlutarins um það bil 100 álnir á ári hverju.[92] Ætla má að í byrjun 19. aldar hafi bændur á Kvíanesi og/eða vinnumenn þeirra róið frá Suðureyrarmölum á vorin eins og venja var bæði fyrr og síðar (sjá hér bls. 36 og 42 og Suðureyrarhreppur, inngangskafli) en frá heimavörinni kynnu þeir að hafa skotist á sjó að sumarlagi og e.t.v. á haustin.
Í jarðamati frá árinu 1849 er túnið á Kvíanesi sagt vera aðfangagott og tekið fram að hér sé kostagóð og ágæt vetrarbeit.[93] Á árunum skömmu fyrir 1920 var talið að Kvíanestúnið gæfi af sér 70 hesta af töðu í meðalári og að af engjunum mætti fá 140 hesta af útheyi.[94] Í fasteignamatsskjölum frá þeim árum er túnið sagt vera snögglent og harðlent, útengi grasgefið en grýtt, sumarbeit góð en vetrarbeit léleg.[95] Þá var talið að jörðin gæti framfleytt 3 kúm, 80 sauðkindum og 2 hestum.[96]
Árið 1658 var landskuld af Kvíanesi 80 álnir[97] eða tveir þriðju hlutar úr kýrverði. Árið 1695 hafði hún lækkað og var þá ein og hálf vætt, það er 30 álnir af hálfri jörðinni.[98] Fimmtán árum síðar er landskuld af hálfu Kvíanesi sögð vera einn ríkisdalur[99] sem löngum var talinn ígildi 30 álna í landaurareikningi.[100] Í Jarðabókinni frá 1710 sjáum við að um 1700 var leiguliðum á Kvíanesi skylt að greiða landskuldina í fiski og leggja hann inn í kaupstaðnum á Skutulsfjarðareyri.[101]
Árið 1753 var landskuldin, sem leiguliðar þurftu að borga fyrir eins árs ábúð á Kvíanesi, komin niður í 40 álnir[102] og orðin helmingi lægri en verið hafði 100 árum fyrr. Um miðbik 19. aldar var landskuldin líka 40 álnir,[103] þriðjungur úr kýrverði. Á árunum skömmu fyrir 1920 var hún orðin mun lægri eða 30,- krónur[104] sem þá töldust vera um það bil einn tíundi hluti úr kýrverði.[105]
Árið 1658 bjó sjálfseignarbóndi á annarri hálflendunni á Kvíanesi en leiguliði á hinni.[106] Þeirri hálflendu fylgdi þá eitt og hálft innstæðukúgildi[107] og hafa það líklega verið níu leiguær því sex ær voru í kúgildinu. Seinna fylgdu jörðinni yfirleitt tvö kúgildi.[108] Á árunum skömmu fyrir 1920 fylgdu jörðinni enn tíu leiguær.[109] Leigurnar af innstæðukúgildunum munu lengi hafa verið greiddar í smjöri eins og almennt var, tíu kíló fyrir hvert leigukúgildi samkvæmt Jónsbókarlögum.[110] Víða á Vestfjörðum urðu bændur að fara með smjörið yfir fjöll og firði til að koma því í hendur landeigenda[111] en um leiguliðann á Kvíanesi er tekið fram í Jarðabókinni frá 1710 að smjörinu upp í leigurnar eigi hann að skila innan hrepps, þangað sem tilsagt verður.[112] Skýringin á þessu er sú að eigendur þeirrar hálflendu á Kvíanesi sem ekki var í sjálfsábúð voru búsettir í Súgandafirði.
Elsta varðveitta heimild um jörðina Kvíanes er máldagi Hólskirkju í Bolungavík frá árinu 1327 eða því sem næst en í honum er tekið fram að kirkjan á Hóli eigi 60 sauða beit á Kvíaneshlíð[113] og hlýtur þar að vera átt við Kvíaneshlíð í Súgandafirði. Óljóst er hversu lengi Hólskirkja hefur haldið þessum réttindum en þeirra er ekki getið í Gíslamáldaga frá árunum upp úr 1570 og ekki heldur í Jarðabók Árna og Páls frá árinu 1710.[114] Í Jarðabókinni frá 1710 er þó tekið fram að munnmæli hermi að jörðin Gilsbrekka í Súgandafirði, sem var eign Hólskirkju, eigi beit fyrir 30 sauði um vetur … í Kvíarness land en þessi réttindi hafi ekki brúkast í manna minni.[115]
Sú staðreynd að munnmælin um beitarréttindi Hólskirkju á Kvíaneshlíð lifðu enn á vörum fólks í byrjun 18. aldar bendir reyndar eindregið til þess að réttindunum hafi verið haldið við langt fram á 16. öld. Vel gæti því verið að hinar gömlu rústir á Hlíðarhúsum í landi Kvíaness, sem um er getið í Jarðabókinni frá 1710 (sjá hér bls. 2-3), hafi verið af sauðabyrgjum stórbændanna á Hóli í Bolungavík.
Í máldaganum frá árunum kringum 1327 er aðeins nefnd Kvíaneshlíð og má því segja að þar sé jarðarinnar aðeins getið með óbeinum hætti. Með beinum hætti er hennar fyrst getið í skjali sem dagsett er á Hóli í Bolungavík 11. október 1471.[116] Skjalið er vitnisburðarbréf þriggja manna og þar lýsa þeir yfir því að 31. ágúst á sama ári hafi Sveinn Þorgilsson fengið Halldóri Hákonarsyni sitt fullt og lögligt eignarumboð yfir öllum peningum barna sinna og þá verið tilgreind jörðin Kvíarnes og hálf Norðureyri og þar til níu hundruð í lausagóssi.[117] Umboðið fékk Halldór til þriggja ára.[118]
Sá Halldór Hákonarson, sem árið 1471 fékk umráð yfir Kvíanesi, er tvímælalaust hinn ríki bóndi með því nafni er þá bjó á Kirkjubóli í Valþjófsdal í Önundarfirði og nokkrar líkur benda til þess að Sveinn Þorgilsson, sem afhenti honum jörðina, hafi átt heima á Suðureyri hér í Súgandafirði (sjá hér Suðureyri).
Merkilegt er að sjá með hvaða hætti jörðin Kvíanes er nefnd í skjali sem dagsett er í Vatnsfirði við Djúp 14. janúar 1563 en þar er Torfi Jónsson, lögsagnari á Kirkjubóli í Langadal, sagður vera kóngsumboðsmaður milli Arnaness og Kvíjarness.[119] Vart kemur annað til greina en Arnanes, sem þarna er nefnt sé Arnarnes sem skilur að Skutulsfjörð og Álftafjörð og Kvíjarnes sé Kvíanes í Súgandafirði. Árið 1563 hefur Torfi því verið valdsmaður konungs yfir Eyrarhreppi, Hólshreppi og hálfum Suðureyrarhreppi, það er að segja norðurströnd Súgandafjarðar og jörðunum Botni og Kvíanesi. Óljóst er reyndar hvorum megin markanna Kvíanes hefur lent við þessa skiptingu sem aðeins mun hafa haldist við í skamman tíma.
Af vitnisburðarbréfinu frá 1471, sem hér var áður gerð grein fyrir, má ráða að um 1470 hafi börn Sveins Þorgilssonar átt Kvíanes og eru þau fyrstu eigendur jarðarinnar sem um er kunnugt. Hvort Halldór Hákonarson, sem sumarið 1471 fékk eignarumboð yfir jörðinni, hefur eignast hana síðar er hins vegar ekki alveg víst.
Á árunum upp úr 1600 átti Ari Magnússon, sýslumaður í Ögri, Kvíanes[120] en hann var um langt skeið einn auðugasti maður landsins, sonur Magnúsar sýslumanns prúða Jónssonar og tengdasonur Guðbrands biskups Þorlákssonar.[121] Þann 12. apríl 1616 seldi Ari jörð þessa í Súgandafirði Sveini Andréssyni fyrir 12 hundruð þótt hún væri ei tíunduð utan 8 hundruð eins og fram er tekið í kaupbréfinu.[122] Við þessi kaup lét Sveinn á móti 5 hundruð í jörðinni Gljúfrá í Arnarfirði og 3 hundruð í Seljalandi í Skutulsfirði og hafði þá goldið 8 hundruð.[123] Í útdrætti úr kaupbréfinu segir svo um greiðslu á þeim þriðjungi kaupverðsins er þá stóð eftir:
Hér að auki skyldi Ari eiga þá tiltölu og lofan sem Sveinn þóttist eiga í 3 hundruðum í Seljalandi …. Auk þess skyldi Sveinn gjalda Ara 30 vættir fiska í kaupstað því að Kvíarnes væri betra en partar Sveins og einnig vegna spjalla á þessum parti Gljúfurár.[124]
Skemmst er frá því að segja að allt frá því þessi kaup voru gerð vorið 1616 héldu Sveinn Andrésson og niðjar hans eignarráðum yfir Kvíanesi, stundum hálfu en oftast öllu, allt fram á miðja 19. öld og líklega fram yfir 1860 eins og hér verður brátt gerð grein fyrir. Jörðin var því í eigu sömu ættar í um það bil 250 ár og allan þann tíma bjuggu hér Sveinn Andrésson og síðan niðjar hans eða mjög nánir tengdamenn þeirra. Ekki er kunnugt um að nokkur önnur jörð í Súgandafirði hafi verið svo lengi í eigu sömu ættar eða setin svo lengi af einum og sama ættbálknum.
Hér verður nú tekinn sá kostur að geta fyrst stuttlega nokkurra eigenda Kvíaness á árunum 1616-1916 en segja síðan dálítið nánar frá ýmsum þeirra sem bjuggu á jörðinni á þessu tímabili.
Sveinn Andrésson, sem keypti Kvíanes árið 1616 og bjó hér, var sannanlega enn á lífi árið 1628[125] og kynni að hafa lifað talsvert lengur. Í jarðaskrá frá árinu 1658 eru eigendur Kvíaness sagðir vera tveir en aðeins annar þeirra er nefndur með nafni.[126] Sá er sagður heita Fúsi og tekið fram að hann búi á jörðinni. Synir Sveins Andréssonar á Kvíanesi og konu hans, Ólafar Sigfúsdóttur, munu hafa verið þrír, Jón, Sigfús og Egill,[127] og má telja nær fullvíst að nýnefndur Fúsi sé Sigfús Sveinsson, sonur Sveins Andréssonar, og staðfest er að árið 1695 var Kvíanes í eigu bræðranna, Sigfúsar og Egils Sveinssona.[128] Í jarðaskrá úr Ísafjarðarsýslu frá því ári er tekið fram að annar þeirra hafi langvarandi búið á hálfri jörðinni. Í hinum gömlu alþingisbókum frá Öxarárþingi sést að Sigfús Sveinsson, er þá var búsettur í Suðureyrarhreppi, átti á árunum 1677-1680 í málarekstri sem hér er sagt frá á öðrum stað (sjá hér bls. 17-19). Ætla má að það sé Fúsi á Kvíanesi sem þar kemur við sögu þó að bæjarnafnið sé ekki nefnt.[129]
Um Jón Sveinsson, bróður Egils og Sigfúsar Sveinssona, er kunnugt að hann gerðist bóndi á Suðureyri í Súgandafirði og seldi hálft Kvíanesið árið 1646 (sjá hér Suðureyri). Sú hálflenda var síðan um tíma í eigu fólks utan Kvíanesættarinnar og mun þá hafa komist í hendur Þorláks Arasonar, lögréttumanns í Súðavík,[130] en hann var sonur Ara sýslumanns í Ögri[131] sem seldi Sveini Andréssyni Kvíanes árið 1616. Þessa hálflendu keypti Sigfús Sveinsson Andréssonar aftur af Þorláki[132] áður en langir tímar liðu og eigi síðar en 1667 því talið er að á því ári hafi Þorlákur andast.[133]
Bræðurnir Sigfús og Egill Sveinssynir, sem áttu Kvíanes árið 1696, munu þá hafa verið orðnir nokkuð aldraðir og voru báðir gengnir fyrir ætternisstapa árið 1703.[134] Þá bjuggu á Kvíanesi bændurnir Jón Egilsson, 44 ára, og Þorkell Jónsson, 36 ára,[135] en Jón þessi Egilsson var sonur Egils Sveinssonar sem fyrr var nefndur.[136]
Jón átti hálfa jörðina árið 1703[137] en hina hálflenduna átti þá Erlingur Sigfússon, bóndi á Suðureyri.[138] Í bréfi dagsettu 7. júní 1703 gerir Erlingur grein fyrir eignarheimild sinni að hálfu Kvíanesi með þessum orðum:
Þetta hálft Kvíarnes sem fyrir ofan skrifað stendur hef ég erft eftir minn sáluga föður, Sigfús Sveinsson, er hann fyrrum aftur keypti af Þorláki Arasyni fyrir sex hundruð í Hattardal minni, liggjandi í Eyrarkirkjusókn í Seyðisfirði, hvör 6 hundruð í Hattardal að hann erfði eftir sinn sæla og sáluga föður, Svein Andrésson.
Þessa (jarðar)parts ágóði fimm aurar eða hálf önnur vætt í því sem leiguliðar geta goldið og hálf vætt smjörs eftir tvö kúgildi og ekkert annað.[139]
Orðin sem hér hafa verið fest á blað sýna að þeir Jón Egilsson og Erlingur Sigfússon, sem áttu Kvíanes árið 1703, hafa verið bræðrasynir og báðir sonarsynir Sveins Andréssonar er keypti jörðina árið 1616. Þess var áður getið að Erlingur dó í bólunni árið 1707 (sjá hér Suðureyri) og líklegt er að Jón hafi andast um svipað leyti því árið 1710 var Páll sonur hans, sem þá var aðeins rétt liðlega tvítugur, tekinn við búinu.[140] Hann taldist þá eiga hálft Kvíanes en hin hálflendan var í eigu erfingja Erlings Sigfússonar.[141] Páll Jónsson bjó enn á Kvíanesi árið 1753 og þá á móti syni nýnefnds Erlings, Sigfúsi, sem hóf hér búskap eigi síðar en um 1735.[142]
Skömmu eftir 1753 tók Páll Pálsson við búi af föður sínum og árið 1762 voru þeir yngri Páll og Sigfús Erlingsson sjálfseignarbændur hér á Kvíanesi.[143] Sigfús mun hafa verið fæddur árið 1704 eða því sem næst en Páll Pálsson var um það bil tuttugu árum yngri.[144] Páll andaðist árið 1790 (sjá hér bls. 21) en fimm árum áður dó Jón Sigfússon, bóndi á Kvíanesi,[145] og má ætla að sá hafi verið sonur Sigfúsar Erlingssonar, enda segir Jón Espólín að sonur Sigfúsar, Jón að nafni, hafi búið á Kvíanesi.[146]
Nokkru fyrir andlát Páls Pálssonar, sem dó árið 1790, tók tengdasonur hans, Guðmundur Ólafsson, við búi á Kvíanesi[147] og bjó einn á allri jörðinni árið 1791.[148] Búskaparár Guðmundar hér urðu ekki mjög mörg (sjá hér Suðureyri og Neðri-Breiðadalur) en við brottför hans tók við annar tengdasonur Páls Pálssonar, Ari Þorkelsson að nafni,[149] og bjó einn á allri jörðinni árið 1801 og líka 1816.[150] Ekki er alveg ljóst hvort þeir Guðmundur Ólafsson og Ari Þorkelsson eignuðust, annar hvor eða báðir, einhvern part úr hálflendunni sem tengdafaðir þeirra hafði átt hér á Kvíanesi. Í jarðabók frá árinu 1805 er Bjarni Jónsson, bóndi á Marðareyri í Jökulfjörðum, talinn eigandi Kvíaness[151] en hann var tengdasonur Sigfúsar Erlingssonar sem hér bjó á síðari hluta 18. aldar og átt hafði hálfa jörðina.[152] Sú dóttir Sigfúsar á Kvíanesi sem giftist Bjarna hét Guðrún og var áttræð ekkja á Marðareyri árið 1816.[153]
Í jarðabókinni frá 1805 verður ekki annað séð en þau Bjarni og Guðrún á Marðareyri hafi átt alla jörðina hér á Kvíanesi, bæði hálflenduna sem Sigfús, faðir Guðrúnar, hafði átt og líka þann partinn sem verið hafði í eigu Páls Pálssonar. Ef til vill er þó hugsanlegt að hjónin á Marðareyri hafi ekki átt alveg allt Kvíanes en stærstan hlut og Bjarni verið í forsvari af hálfu eigenda.
Kona Bjarna Jónssonar á Marðareyri var sem áður sagði bóndadóttir frá Kvíanesi og fjórði ættliður frá Sveini Andréssyni sem keypti Kvíanes árið 1616. Jörðin hélst því í ættinni þó að eigendurnir væru búsettir norður á Marðareyri sem er í Veiðileysufirði í Grunnavíkurhreppi. Ekki hefur verið kannað hversu lengi Bjarni taldist eiga Kvíanes en fyrir liggur að um 1845 var Guðmundur Arason, sem hér bjó, orðinn eigandi jarðarinnar.[154] Hann var dóttursonur Páls Pálssonar, bónda á Kvíanesi, sem átt hafði hálfa jörðina og hér var áður nefndur. Guðmundur var sjötti ættliður frá Sveini Andréssyni eins og sjá má á því sem hér hefur þegar verið ritað. Hann var einkasonur foreldra sinna, hjónanna Ara Þorkelssonar og Guðnýjar Pálsdóttur á Kvíanesi, en óljóst er hvort hann fékk hluta jarðarinnar að erfðum frá þeim eða þurfti að kaupa hana.
Guðmundur Arason stóð fyrir búi á Kvíanesi í um það bil tvo áratugi en árið 1856 tók Páll sonur hans við (sjá hér bls. 29). Líklegt er að Guðmundur, sem var sjálfseignarbóndi um 1845, hafi verið það öll eða nær öll sín búskaparár en þegar hann hætti að búa voru liðin 240 ár frá því Sveinn Andrésson keypti Kvíanes. Páll Guðmundsson, sonur Guðmundar Arasonar, virðist hins vegar vera sá sem tapar jörðinni. Hann bjó hér aðeins í sjö ár,[155] var síðan leiguliði á hálfri Suðureyri í fjögur ár (sjá hér Suðureyri) en féll úr bændatölu vorið 1867, aðeins liðlega fertugur að aldri.[156] Páll lifði þó enn í tuttugu ár en var á því skeiði ýmist húsmaður eða vinnumaður.[157]
Vorið 1862 var Guðrún Sigurðardóttir frá Seljalandi í Skutulsfirði orðin eigandi eða umráðamaður þessarar gömlu bújarðar en hún og eiginmaður hennar, Friðrik Verner Gíslason, hófu þá búskap á Kvíanesi, fyrst á hálfri jörðinni en tóku hana alla til ábúðar í næstu fardögum (sjá hér bls. 31 og 34-35). Friðrik bjó lengi hér á Kvíanesi og verður síðar frá honum sagt (sjá hér bls. 34-40) en árið 1901 var hann dáinn og þá var stjúpsonur hans, Jóhannes Hannesson, hreppstjóri í Botni, aðaleigandi jarðarinnar.[158] Vera má að Jóhannes hafi þó aldrei átt alla jörðina.
Heimildir sýna að Guðni Egilsson, sem bjó á Kvíanesi frá 1887 til 1896, keypti fjórðung úr jörðinni árið 1891 (sjá hér Bær). Þau hundruð seldi ekkja Guðna, Guðrún Sigurðardóttir, Kristjáni Albertssyni á Suðureyri árið 1906 (sjá hér Bær) en þennan jarðarpart mun Kristján hafa nytjað næstu árin þar á undan.[159] Árið 1916 átti Guðrún Þórðardóttir á Suðureyri, ekkja Kristjáns Albertssonar, hálft Kvíanes, fjögur hundruð að fornu mati, og nytjaði hún þann jarðarpart[160] en hina hálflenduna átti þá Jóhannes Guðmundsson, bóndi á Kvíanesi.[161] Síðar eignaðist jörðina Örnólfur Valdimarsson, sem þá var kaupmaður og útgerðarmaður á Suðureyri, og lét hann reisa hér sumarbústað sem enn (1996) stendur.[162]
Hér hefur nú verið getið flestra eigenda Kvíaness á árunum 1616-1916 en margir þeirra bjuggu á þessari jörð sinni, sumir stutt en aðrir lengi, og verður nú sagt dálítið nánar frá bændunum á Kvíanesi og þeirra fólki.
Fyrsti bóndinn sem hér bjó og enn er vitað um nafn á var Sveinn Andrésson sem keypti Kvíanes árið 1616 eins og áður var frá greint (sjá hér bls. 11). Ekki er fyllilega ljóst hverra manna Sveinn muni hafa verið. Í riti Ara Gíslasonar og Valdimars B. Valdimarssonar Vestfirskum ættum er Sveinn sagður vera sonarsonur séra Sveins Þorbjarnarsonar sem var prestur í Hvammi í Norðurárdal og síðar í Selárdal og Otradal í Arnarfirði.[163] Í sama riti er Andrés Sveinsson, faðir Sveins á Kvíanesi, sagður hafa verið handgenginn Ara sýslumanni Magnússyni í Ögri og koma við skjöl á árunum 1570-1604.[164] Í Íslenskum æviskrám er Andrés hins vegar ekki nefndur þar sem upp eru talin börn séra Sveins Þorbjarnarsonar[165] og Theódór Árnason verkfræðingur, sem mun vera kunnugri ættum Vestfirðinga á 16. öld en aðrir menn sem nú eru á dögum, telur líklegast að faðir Sveins á Kvíanesi hafi verið sonur Sveins Jónssonar er bjó á Breiðabóli í Skálavík og á Sæbóli á Ingjaldssandi.[166] Sonur þess Sveins var Páll Sveinsson, tengdafaðir skáldsins séra Ólafs Jónssonar á Söndum í Dýrafirði[167] og meining Theódórs er sú að Andrés, faðir Sveins á Kvíanesi, og séra Ólafur Sveinsson á Stað í Súgandafirði (sjá hér Staður) hafi báðir verið synir þessa sama Sveins Jónssonar.[168] Vera má að nýnefndur Andrés Sveinsson hafi búið á Kvíanesi því hann kemur við bréf úr Súgandafirði á árunum fyrir og eftir 1600.[169]
Tvímælalaust er að kona Sveins Andréssonar á Kvíanesi hét Ólöf og er hún ýmist sögð hafa verið Sigfúsdóttir[170] eða Vigfúsdóttir.[171] Ólöf var frá Súðavík, komin af höfðingjaættum, en föðurmóður hennar var Jórunn Sigfúsdóttir í Súðavík, dóttir Sigfúsar lögréttumanns Brúnmannssonar í Hrauni í Keldudal í Dýrafirði.[172] Þau Sveinn og Ólöf eignuðust þrjá syni sem komust upp og hafa þeir áður verið nefndir í þessu riti (sjá hér bls. 11-12). Í ritgerð frá árinu 1961 kemst Ólafur Þ. Kristjánsson svo að orði að Sveinn Andrésson á Kvíanesi virðist hafa verið í fremstu bænda röð, enda er hann víða nefndur í skjölum og þá oftast með Ara sýslumanni í Ögri Magnússyni.[173]
Í ættartölukveri, rituðu í Önundarfirði á síðustu árum 17. aldar, er Ólöf Vigfúsdóttir úr Súðavík sögð hafa verið fyrri kvinna Sveins Andréssonar[174] (sbr. hér Neðri-Breiðadalur). Hann ætti þá að hafa kvænst annarri konu síðar en engin staðfesting á því liggur fyrir. Skjalfest er að Sveinn var á lífi árið 1628 því hann var þá dæmdur fyrir fjölmæli.[175] Um það leyti mun hann hafa andast eða þau Ólöf slitið samvistum því fardagaárið 1628-1629 varð hún sek um barneignarbrot með öðrum manni sem síðar varð eiginmaður hennar.[176] Í skjallegum heimildum mun hvergi finnast staðfest að Sveinn á Kvíanesi hafi lifað fram yfir 1628[177] og því er hugsanlegt að hann hafi verið lagstur banaleguna eða dáinn þegar Ólöf kona hans varð þunguð af völdum síns nýja elskhuga. Eins líklegt má þó telja að hjónin Sveinn og Ólöf á Kvíanesi hafi skilið og sú var meining Jóns Espólín, hins ættfróða sýslumanns Skagfirðinga.[178]
Herrann sem frúin á Kvíanesi féll fyrir hét Lienardt Jonson og ritaði nafn sitt svo með eigin hendi.[179] Hinir gömlu fræðimenn, Ólafur Snóksdalín og Jón Espólín, sem báðir fæddust á árunum 1760-1770, segja að hann hafi verið enskur skipstjóri[180] og má ætla að það sé rétt.
Enginn veit nú hvaða atvik ollu því að þessi enski skipstjóri settist að í Súgandafirði en líklegast verður að telja að um það hafi mestu ráðið löngun hans til samvista við Ólöfu á Kvíanesi. Er Lienardt og Ólöf eignuðust sitt fyrsta barn var hann um það bil 35 ára gamall ef marka má það sem Magnús sýslumaður Magnússon á Eyri í Seyðisfirði við Djúp segir um aldur hans árið 1673.[181] Barnið fæddist 1628 eða 1629 eins og hér var áður nefnt og áður en langir tímar liðu gengu foreldrar þess í hjónaband.[182] Lienardt hinn enski gerðist þá bóndi á Kvíanesi og var af sýslungum sínum nefndur Lénarður eða Lénharður.[183]
Mjög sterkar líkur benda til þess að Lénharður enski hafi með tíð og tíma orðið forystumaður í málum Súgfirðinga því þegar 13 Súgfirðingar fóru norður að Hóli í Bolungavík í júnímánuði árið 1649 til að hylla Friðrik konung III var það hann sem fyrstur þeirra ritaði undir hyllingarskjalið (sjá hér Suðureyrarhreppur, inngangskafli).
Þau Lénharður og Ólöf kona hans eignuðust að minnsta kosti tvö börn sem komust upp, Svein, sem dó barnlaus[184] árið 1673 eða mjög skömmu fyrr,[185] og Guðrúnu, sem giftist Nikulási Brandssyni en þeirra dóttir var Guðrún, eiginkona Ásmundar Ketilssonar sem bjó á Fjallaskaga í Dýrafirði árið 1703 og síðar í Hnífsdal.[186] Frá Guðrúnu Lénharðsdóttur og Nikulási, hennar manni, mun nú vera kominn mikill fjöldi niðja.[187] Nikulás Brandsson kemur við skjal frá sumrinu 1664, er varðar strandmenn frá Baskalandi á Spáni, og var þá búsettur í Dýrafirði (sjá hér Þingeyri). Líklegt er að sá maður sé þessi Nikulás, tengdasonur Lénharðar.
Lénharður var enn á lífi árið 1673, sagður áttræður,[188] en mun hafa andast mjög skömmu síðar.[189] Allar líkur benda til þess að Lénharður enski hafi búið á Kvíanesi í liðlega 40 ár, frá því um 1630 og til dauðadags og skjallegar heimildir sýna að á sínum síðustu æviárum átti hann í málarekstri gegn nágranna sínum, Guðmundi Þórðarsyni í Botni, eins og hér verður brátt gerð nánari grein fyrir.
Lénharður mun löngum hafa búið í tvíbýli á Kvíanesi, á móti stjúpsyni sínum, Sigfúsi Sveinssyni, sem átti hálfa jörðina árið 1658, og svo virðist sem Englendingurinn hafi verið leiguliði (sjá hér bls. 11-12, sbr. hér Suðureyri, skrif um eigendur þeirrar jarðar). Árið 1658 átti Lénharður hins vegar jörðina Norðureyri í Súgandafirði svo hann var ekki eignalaus.[190]
Á nítjándu öld var nafnið Lénharðarstaðir stundum notað um annan tveggja bæja, sem þá var búið í hér á Kvíanesi, og stóð sá bær yst og neðst í túninu, þar sem nú (1996) stendur gamall sumarbústaður.[191] Ætla má að þetta býli hafi verið kennt við Lénharð enska og vera kann að hann hafi fyrstur manna valið sér bæjarstæði þar. Engjapláss á Kvíaneshlíð var líka kallað Lénharðarmóur eins og hér er greint frá á öðrum stað en sagt var að úr slægjunni þar hefði Lénharður borið konu sína á handleggnum heim til bæjar er hún tók jóðsótt á miðjum engjaslætti (sjá hér bls. 3-4).
Á árunum 1654-1683 voru 14 Vestfirðingar brenndir fyrir galdra og auk þess voru tvær manneskjur úr Norðurlandi brenndar í Barðastrandarsýslu.[192] Í öðrum pörtum landsins náði galdrafárið aldrei slíkum tökum og sést það best á því að utan Vestfjarða voru aðeins brenndir 6 kuklarar ef frá eru taldir þeir Vestfirðingar sem færðir voru í logana á Þingvöllum við Öxará.[193]
Lénharður Jónsson, hinn enski, á Kvíanesi var einn þeirra mörgu sem galdratrúin ærði en þó ekki svo séð verði fyrr en undir lok ævinnar. Þegar Lénharður var kominn undir áttrætt veiktist Sveinn sonur hans og lá máttlaus og mjög veikur í heilt ár.[194] Þeir feðgar létu sér þá koma til hugar að nágranni þeirra, Guðmundur Þórðarson í Botni, væri valdur að þessum veikindum en hann var áður ryktaður af þess háttar verknaði.[195] Feðgarnir á Kvíanesi lögðu fram kæru og var dæmt í málinu á héraðsþingi vorið 1673.[196] Galdramál þetta var síðan tekið fyrir á Alþingi sumarið 1673 en þá var Sveinn Lénharðsson andaður[197] og svo virðist sem faðir hans hafi andast mjög skömmu síðar.[198] Kærumálið á hendur Guðmundi Þórðarsyni dró hins vegar langan slóða eins og hér verður rakið nánar þegar við komum í Botn.
Hér var áður frá því greint að Sigfús Sveinsson, sem var einn þriggja stjúpsona Lénharðar enska, hafi búið hér á Kvíanesi um langt skeið og átt hálfa jörðina (sjá hér bls. 11-12). Munu þeir Lénharður hafa verið sambýlismenn. Sigfús bjó enn á Kvíanesi árið 1695 (sjá hér bls. 11-12) og var á lífi árið 1702[199] en látinn þegar allsherjarmanntal var tekið einu ári síðar.[200]
Í Íslenskum æviskrám nefnir Páll Eggert Ólason bóndamanninn Sigfús Steinsson í Kvíarnesi og segir hann hafa átt fyrir konu Þórunni, dóttur séra Tómasar Þórðarsonar er varð prestur á Stað á Snæfjallaströnd árið 1628 og var enn á lífi árið 1681.[201] Þessi Sigfús í Kvíarnesi, sem þarna er sagður vera Steinsson, getur vart nokkur annar verið en Sigfús Sveinsson á Kvíanesi í Súgandafirði því enginn annar bær á Íslandi hefur borið nafnið Kvíanes eða Kvíarnes svo kunnugt sé. Ólafur Snóksdalín ættfræðingur, sem fæddur var árið 1761, getur þess reyndar að Sigfús, sonur Sveins Andréssonar á Kvíanesi, hafi kvænst Þórunni Tómasdóttur[202] svo líkurnar á því að Sigfús á Kvíanesi og nýnefnd prestsdóttir frá Snæfjöllum hafi orðið hjón verða að teljast þó nokkrar. Hér má líka hafa í huga að önnur dóttir séra Tómasar Þórðarsonar á Snæfjöllum, Ásta, giftist Þorgils Jónssyni er bjó í Botni í Súgandafirði[203] og var hún enn á lífi hjá syni sínum í Botni árið 1703.[204]
Í Íslenskum æviskrám er tekið fram að Sigfús í Kvíarnesi hafi verið fyrri maður Þórunnar Tómasdóttur.[205] Sé þar rétt með farið verður að telja býsna líklegt að þau hafi skilið því ætla má að bæði hafi verið orðin öldruð þegar Sigfús andaðist árið 1702 eða 1703. Árið 1703 var sonur Sigfúsar Sveinssonar á Kvíanesi bóndi á Suðureyri (sjá hér bls. 12). Hann hét Erlingur og var þá 37 ára gamall.[206] Í manntalinu frá 1703 sjáum við að þá voru tvær Sigfúsdætur líka búsettar í Suðureyrarhreppi, Sigríður, sem var 32ja ára, gift Jóni Þorgilssyni, bónda í Botni, og Ingibjörg, 36 ára, gift Nikulási Bárðarsyni, bónda í Bæ.[207] Fullvíst er að Sigríður í Botni var dóttir Sigfúsar á Kvíanesi og erfði eitt hundrað í jörðinni Norðureyri eftir föður sinn.[208] Mjög líklegt verður að telja að Ingibjörg í Bæ hafi einnig verið dóttir Sigfúsar Sveinssonar því að hún eða eiginmaður hennar áttu líka eitt hundrað í Norðureyri árið 1710.[209] Ingibjörg var þó ekki dóttir Þórunnar Tómasdóttur frá Snæfjöllum því móðir hennar hét Guðrún Guðmundsdóttir og var hún hjá þessari dóttur sinni í Bæ árið 1703, þá liðlega sjötug að aldri.[210] Hafi Sigfús bóndi Sveinsson á Kvíanesi verið kvæntur Þórunni Tómasdóttur má telja harla líklegt að nýnefnd Guðrún Guðmundsdóttir hafi verið seinni kona hans og móðir allra barnanna sem hér voru nefnd Erlings, Ingibjargar og Sigríðar. Í ritgerð sinni um Jón Jónsson, lögréttumann í Hnífsdal, staðhæfir Theódór Árnason að Guðrún þessi Guðmundsdóttir hafi verið gift Sigfúsi á Kvíanesi[211] og þarf vart um það að efast. Þá tilgátu hans að hún hafi verið systir Guðmundar Guðmundssonar á Baulhúsum í Arnarfirði[212] sem hér er sagt frá á öðrum stað (sjá hér Baulhús) er hins vegar ekki hægt að styðja með gildum rökum. Samt má vera að það sé líka rétt.
Hér var áður minnst á kæruna sem Lénharður enski og Sveinn sonur hans lögðu fram gegn Guðmundi Þórðarsyni í Botni á árunum upp úr 1670. Þeir feðgar ákærðu Guðmund fyrir galdra en dóu báðir áður en málið var leitt til lykta. Kom þá til kasta Sigfúsar Sveinssonar að halda uppi merkinu og virðist ljóst að hann hafi gert allt sem mögulegt var til að koma í veg fyrir að Guðmundur nágranni hans næði að hreinsa sig af áburðinum með tylftareiði svo sem hér er nánar rakið á öðrum stað (sjá Botn).
Ekkert barna Sigfúsar Sveinssonar tók við búi á Kvíanesi að föður þeirra látnum. Erlingur sonur hans, sem erfði þann part úr jörðinni er Sigfús hafði átt (sjá hér bls. 12-13), kaus að búa áfram á Suðureyri[213] en þar mun hann að líkindum hafa hafið búskap alllöngu áður en faðir hans andaðist. Hálflendu sína á Kvíanesi leigði hann fyrst hjónunum Þorkeli Jónssyni og Guðrúnu Bjarnadóttur, sem bjuggu hér árið 1703,[214] en árið 1710 bjó maður að nafni Sigurður Þorleifsson á þeim jarðarparti.[215]
Undir lok 17. aldar var Egill Sveinsson meðeigandi Sigfúsar bróður síns að jörðinni Kvíanesi (sjá hér bls. 11-12) og er talinn hafa búið hér um skeið[216] á annarri hálflendunni. Árið 1695 mun sonur hans, Jón Egilsson, þó að líkindum hafa verið tekinn við búi á þeirri hálflendu sem faðir hans átti. Þeir Jón Egilsson og Sigfús Sveinsson voru báðir í hópi sjö Súgfirðinga sem vottuðu árið 1695 að rétt væri farið með staðreyndir í skýrslu sem þá hafði verið tekin saman um jarðirnar í hreppnum.[217] Jón skrifar þar undir með eigin hendi en nafn Sigfúsar er handsalað[218] svo hann hefur líklega ekki verið skrifandi.
Tvímælalaust er að nýnefndur Jón Egilsson var annar tveggja bænda á Kvíanesi árið 1703.[219] Hann var þá 44 ára gamall en Geirlaug Pálsdóttir, kona hans, var fimm árum eldri.[220] Þau hjónin voru þremenningar að frændsemi en ekki liggur alveg ljóst fyrir hvernig þeim ættartengslum var háttað.[221] Vegna skyldleikans máttu þau Jón og Geirlaug ekki ganga í hjónaband án sérstaks leyfis frá kóngi en slíkt leyfi fengu þau árið 1686.[222] Tvö börn þessara hjóna voru á heimili þeirra hér á Kvíanesi árið 1703, Elín, sem þá var tvítug að aldri, og Páll sem var 14 ára.[223] Elín giftist síðar Bjarna Eyjólfssyni á Seljalandi í Skutulsfirði[224] en Páll gekk að eiga Þuríði Bjarnadóttur og tók við búi af föður sínum.[225]
Árið 1710 var Páll Jónsson orðinn bóndi á Kvíanesi, þá ungur að arum,[226] og hann bjó hér enn árið 1753,[227] þá á sjötugsaldri. Á búskaparárum Páls Jónssonar mun oftast og máske alltaf hafa verið tvíbýli á jörðinni.[228]
Árið 1710 var bústofn Páls á Kvíanesi 2 kýr, 1 vetrungur, 14 ær, 10 veturgamlir sauðir og 12 eldri sauðir, 12 lömb og 1 hross.[229] Hjá Sigurði Þorleifssyni, sem þá var sambýlismaður hans, var búið álíka stórt en þó heldur minna.[230] Árið 1753 tíundaði Páll 7 hundruð lausafjár[231] sem gefur til kynna að bú hans hafi þá verið af svipaðri stærð og það var 1710.
Kona Páls Jónssonar á Kvíanesi, Þuríður Bjarnadóttir, var frá Selakirkjubóli á Hvilftarströnd í Önundarfirði, dóttir Bjarna Bjarnasonar, sem þar bjó, og konu hans, Hallveigar Björnsdóttur.[232] Um Þuríði, húsfreyju á Kvíanesi, er fátt að finna í varðveittum heimildum en merkilegt má kalla að afi hennar, Bjarni Bjarnason, bóndi í Neðri-Breiðadal í Önundarfirði, var dæmdur fyrir galdra og brenndur á Alþingi við Öxará sumarið 1677.[233] Um mál hans er fjallað hér á öðrum stað (sjá Neðri-Breiðadalur).
Sonur Páls Jónssonar og Þuríðar Bjarnadóttur var Páll Pálsson sem tók við búi af föður sínum hér á Kvíanesi[234] um 1760 eða skömmu fyrr. Tvímælalaust er að þessi sonur Páls Jónssonar var orðinn bóndi á Kvíanesi árið 1762[235] og bjó hér í tvíbýli á móti Sigfúsi Erlingssyni, frænda sínum, sem lengi hafi verið sambýlismaður föður hans og hér verður brátt gerð nánari grein fyrir. Báðir voru þessir bændur niðjar Sveins Andréssonar, sem keypti Kvíanes árið 1616, og var Sigfús þriðji ættliður frá honum en Páll Pálsson einum lið neðar.[236] Þeir Páll og Sigfús á Kvíanesi áttu árið 1762 sinn bátinn hvor og á vorvertíðinni það ár varð Páll aflakóngur Súgfirðinga (sjá hér Suðureyrarhreppur, inngangskafli).
Páll Pálsson, bóndi á Kvíanesi, mun hafa fæðst árið 1723 eða 1724.[237] Kona hans hét Herdís Guðmundsdóttir og var um það bil fjórum árum yngri en eiginmaðurinn.[238] Árið 1762 áttu þau tvær dætur og var sú eldri þriggja ára.[239] Tvær bættust við síðar[240] og urðu allar þessar systur húsfreyjur í Súgandafirði, þær Þuríður (sjá hér bls. 23), Sigríður (sjá hér Laugar), Guðrún (sjá hér Selárdalur) og Guðný (sjá hér bls. 24).
Árið 1786 voru Páll og Herdís hætt að búa og komin í húsmennsku hjá dóttur sinni og tengdasyni hér á Kvíanesi. Sóknarprestur Súgfirðinga taldi þá að Páll á Kvíanesi væri ráðvandur og vel fróður og Herdís, eiginkona Páls starfsöm og fróm.[241] Líklega hefur Páll verið orðinn holdsveikur þegar hér var komið sögu því hann dó úr holdsveiki 6. október 1790, talinn 67 ára.[242] Herdís, kona hans, andaðist hastarlega liðlega einum mánuði síðar.[243]
Sigfús Erlingsson, sem lengi var sambýlismaður feðganna Páls Jónssonar og Páls Pálssonar á Kvíanesi, mun hafa fæðst árið 1704 eða því sem næst[244] en hann var sonur hjónanna Erlings Sigfússonar og Margrétar Þorgilsdóttur sem bjuggu á Suðureyri í Súgandafirði árið 1703.[245] Erlingur átti þá hálft Kvíanes (sjá hér bls. 12-13) og í fyllingu tímans varð Sigfús sonur hans sjálfseignarbóndi á þessari hálflendu.[246]
Um þrítugsaldur var Sigfús Erlingsson orðinn bóndi á Kvíanesi[247] og bjó hér enn árið 1762, þá kominn undir sextugt.[248] Hann var kvæntur maður[249] en nafnið á konu hans er ekki auðvelt að finna. Óljóst er líka hvenær Sigfús hætti að búa og hvenær hann dó en fjögur börn hans er hægt að nefna, Guðrúnu, sem giftist Bjarna Jónssyni á Marðareyri í Jökulfjörðum (sjá hér bls. 13-14), Erling, sem varð bóndi í Botni[250] (sbr. hér Botn), Margréti, sem varð húsfreyja á Seljalandi í Skutulsfirði,[251] og Jón sem varð bóndi hér á Kvíanesi.[252]
Jón Sigfússon, sem hér var síðast nefndur, mun vera bóndamaðurinn með því nafni sem andaðist á Kvíanesi í móðuharðindunum árið 1785 af uppdrætti og rýrðarsótt eins og presturinn orðar það.[253] Sú lýsing á dánarorsökinni getur varla merkt annað en að maðurinn hafi orðið hungurmorða eins og svo margir fleiri á þeirri tíð.
Elsta sóknarmannatalið úr Súgandafirði er frá janúar 1786. Nær fullvíst má telja að Guðrún Bjarnadóttir, sem þá var 44 ára gömul og bjó á öðru býlinu hér á Kvíanesi,[254] hafi verið ekkja Jóns bónda Sigfússonar er þá hafði aðeins legið í nokkra mánuði í gröf sinni. Börn hennar fjögur voru öll Jónsbörn og dvöldust hér hjá móður sinni að föðurnum látnum.[255] Eitt þeirra var Brynjólfur[256] er síðar varð bóndi í Botni[257] (sbr. hér Botn). Á heimili Guðrúnar hér á Kvíanesi var líka árið 1786 móðir hennar, Sigríður Nikulásdóttir, talin 64 ára.[258] Allt þetta fólk lifði móðuharðindin af en líklega með naumindum.
Ein af systrum Jóns Sigfússonar, dætrum Sigfúsar Erlingssonar á Kvíanesi sem hér voru áður nefndar, var Margrét. Hún giftist Halldóri Pálssyni en hann var einnig frá Kvíanesi, sonur Páls bónda Jónssonar og konu hans, Þuríðar Bjarnadóttur.[259] Ætla má að hjónin Halldór Pálsson og Margrét Sigfúsdóttir hafi bæði alist upp hjá foreldrum sínum hér á Kvíanesi. Hann fæddist 1724 en hún 1727 eða því sem næst. Svo fór að þau fluttust burt úr Súgandafirði og fóru að búa á Seljalandi í Skutulsfirði.[260] Eitt barna þessara hjóna var Páll Halldórsson er varð bóndi og hreppstjóri í Neðri-Arnardal.[261] Árið 1801 var Margrét Sigfúsdóttir frá Kvíanesi hjá þessum syni sínum í Arnardal, þá ekkja á áttræðisaldri og hafði misst tvo eiginmenn.[262] Þar voru þá líka sex börn sem Páll sonur hennar hafði eignast með konu sinni, Margréti Guðmundsdóttur.[263] Elst þessara barna var María Pálsdóttir, sögð 14 ára árið 1801.[264] Hún giftist Ásgeiri Ásgeirssyni á Rauðamýri í Nauteyrarhreppi og árið 1817 eignuðust þau soninn Ásgeir, sem seinna varð skipherra og setti á stofn Ásgeirsverslun á Ísafirði[265] en hún var lengi eitt allra stærsta útgerðar- og verslunarfyrirtæki á landi hér og máske það umsvifamesta um nokkurt skeið. Er Ásgeir skipherra og kaupmaður fæddist voru liðin 12 ár frá því langamma hans, Margrét Sigfúsdóttir frá Kvíanesi, dó[266] en tuttugu árum þar á undan hafði bróðir hennar, Jón Sigfússon, dáið hér úr hungri eins og fyrr var nefnt.
Þegar Jón Sigfússon, bóndi á Kvíanesi, andaðist árið 1785 hafði verið tvíbýli á jörðinni svo lengi sem elstu menn mundu og líklega allt frá því á fyrri hluta 17. aldar eins og rakið hefur verið hér að framan. Nú varð hins vegar breyting á búskaparháttum hvað þetta snerti. Páll Pálsson, sem verið hafði sambýlismaður Jóns Sigfússonar, hefur að líkindum hætt að búa um svipað leyti og Jón andaðist og eigi síðar en vorið 1785[267] (sbr. hér bls. 21). Í janúarmánuði árið 1786 var Guðmundur Ólafsson orðinn eini bóndinn á Kvíanesi[268] en hann var tengdasonur Páls Pálssonar sem lengi hafði búið hér á annarri hálflendunni.[269] Kona Guðmundar hét Þuríður og mun hafa borið nafn ömmu sinnar, Þuríðar Bjarnadóttur, húsfreyju á Kvíanesi (sjá hér bls. 20). Þuríður Pálsdóttir var elsta barn foreldra sinna, fædd árið 1759 eða því sem næst.[270] Eiginmaður hennar, Guðmundur Ólafsson, var um það bil tíu árum eldri, fæddur í Ytri-Hjarðardal í Önundarfirði um 1750 (sjá hér Neðri-Breiðadalur). Faðir hans, Ólafur Sumarliðason, dó hjá syni sínum hér á Kvíanesi 24. júlí 1785.[271] Guðmundur og Þuríður bjuggu hér í 14 eða 15 ár, frá 1785 til 1799 eða 1800, og höfðu flest þau ár alla jörðina til ábúðar.[272] Árið 1791 voru þau með níu manna heimili[273] og bústofninn þá sem hér segir: 2 kýr, 1 kvíga, 18 ær, 10 lömb, 8 sauðir og hrútar og 2 hestar.[274] Guðmundur átti þá annan tveggja áttæringa sem til voru í Súgandafirði en hitt skipið af þeirri stærð átti Jón Bjarnason á Gelti.[275] Þetta voru stærstu bátarnir í hreppnum[276] og má því telja líklegt að Guðmundur bóndi á Kvíanesi hafi verið kappsamur sjósóknari. Árið 1794 var hann orðinn hreppstjóri.[277]
Þau Guðmundur Ólafsson og Þuríður kona hans eignuðust nokkur börn sem flest eða öll fæddust hér.[278] Eitt þessara barna var Finnur, fæddur á Kvíanesi árið 1790, en hann varð er tímar liðu bóndi á Hvilft í Önundarfirði (sjá hér Hvilft) og þar hafa niðjar hans búið nær óslitið allt til þessa dags.
Í þessu riti hefur áður verið sagt nokkuð frá Guðmundi Ólafssyni en þau hjónin, Guðmundur og Þuríður kona hans, fluttust frá Kvíanesi að Suðureyri vorið 1799 eða máske einu ári síðar og frá Suðureyri til Önundarfjarðar vorið 1809 (sjá hér Suðureyri og Neðri-Breiðadalur).
Þegar Guðmundur Ólafsson fór frá Kvíanesi tók svili hans, Ari Þorkelsson, við jörðinni og bjó hér í meira en aldarþriðjung.[279] Kona Ara var Guðný Pálsdóttir frá Kvíanesi, dóttir hjónanna Páls Pálssonar og Herdísar Guðmundsdóttur sem bjuggu hér lengi á síðari hluta 18. aldar og áður var frá sagt. Af fjórum dætrum Páls og Herdísar mun Guðný hafa verið yngst. – Kann bænir og kann að lesa á bók segir prestur um Guðnýju þegar hún var fermd vorið 1784.[280]
Ari Þorkelsson fæddist á Stað á Reykjanesi í Reykhólasveit árið 1764.[281] Foreldrar hans voru hjónin Þorkell Bjarnason og Sigríður Guðmundsdóttir sem þá munu hafa átt heima á Stað[282] en bjuggu um tíma á Hjöllum í Gufudalssveit.[283] Þorkell, sem líklega hefur verið fæddur árið 1731,[284] var sonur Bjarna Jónssonar á Kollabúðum í Þorskafirði[285] og bróðir séra Jóns Bjarnasonar á Rafnseyri[286] sem hér er sagt frá á öðrum stað (sjá Rafnseyri). Síðari eiginkona Þorkels og móðir Ara var Sigríður, dóttir Guðmundar Lýðssonar, stúdents og lögréttumanns, á Hvoli í Saurbæ og Stóra-Holti þar í sveit.[287] Guðmundur Lýðsson andaðist á Stað á Reykjanesi, 64 ára gamall, árið 1759,[288] fimm árum áður en Ari, dóttursonur hans, leit fyrst dagsins ljós á því sama prestssetri.
Árið 1785 voru þeir feðgar, Ari Þorkelsson og Þorkell faðir hans, komnir norður að Ármúla í Nauteyrarhreppi við Djúp og voru þar báðir vinnumenn.[289] Líklegt er að þá hafi móðir Ara verið dáin. Hann var þá rétt liðlega tvítugur en Þorkell 54 ára.[290] Ari var vinnumaður á Ármúla í sex ár, frá 1785 til 1791, og nær allan þann tíma var faðir hans þar líka, alltaf vinnumaður.[291] Á þessum árum stóð ekkjan Sigríður Gunnlaugsdóttir fyrir búi á Ármúla[292] en hún hafði verið gift Hafliða Jónssyni, bónda þar.[293] Sumarið 1789 giftist hún Jóni Einarssyni lækni er settist þá að á Ármúla.[294] Hann var þá eini læknirinn á Vestfjörðum og öllu Vesturlandi.[295]
Síðasta ár sitt á Ármúla var Ari Þorkelsson hjú þessa merka læknis.[296] Frá Ármúla fór hinn ungi vinnumaður að Nauteyri og þaðan að Laugalandi í sama hreppi[297] en mjög sterkar líkur benda til að hann hafi á árunum upp úr 1790 verið við sjóróðra í Súgandafirði.
Í embættisbókum prestanna á Stað í Súgandafirði verður fyrst vart við Ara vorið 1794 er hann gekk að eiga stúlkuna Guðnýju Pálsdóttur á Kvíanesi[298] sem hann hefði varla náð að kynnast án þess að dveljast eitthvað hér í þessu byggðarlagi og þá að líkindum við vorróðra (sbr. hér Suðureyrarhreppur, inngangskafli og Suðureyri). Svaramaður Ara við hjónavígsluna var sveitungi hans af Langadalsströnd, Ásgeir Þorsteinsson, hreppstjóri á Rauðamýri.[299] Að Kvíanesi fluttist Ari frá Laugalandi í Nauteyrarhreppi vorið sem þau Guðný gengu í hjónaband.[300]
Á sínum fyrstu hjúskaparárum bjuggu þau Ari og Guðný hér á Kvíanesi í örfá ár og þá í tvíbýli á móti hjónunum Guðmundi Ólafssyni og Þuríði systur Guðnýjar.[301] Vorið 1796 virðast þau hins vegar hafa farið héðan og flust burt úr Súgandafirði.[302] Óljóst er hvar þau áttu heima næstu ár en vorið 1799 eða einu ári síðar komu þau hingað aftur og fengu þá ábúð á allri jörðinni.[303]
Á fyrstu árum 19. aldar var oft eitthvað af húsfólki hjá Ara og Guðnýju hér á Kvíanesi[304] og má sem dæmi nefna að árið 1801 var Ari með sjö manna heimili en auk þess voru hér fjórar fullorðnar manneskjur í húsmennsku og í þeim hópi holdsveikur maður á fimmtugsaldri með eiginkonu og tíu ára son.[305]
Í marsmánuði árið 1804 gaf sóknarpresturinn Ara bónda á Kvíanesi þá einkunn að hann væri ráðvandur og skikkanlegur en Guðnýju húsfreyju segir prestur vera drífandi.[306] Seinna komst prestur að þeirri niðurstöðu að kristindómsþekking Ara væri í ringara lagi en hins vegar væri Guðný, kona hans, ekki illa að sér.[307] Árið 1827 segir prestur að Ari sé spaklátur en Guðný húsfreyja skorinorð og vel að sér í andlegu.[308]
Á árunum 1804-1810 fluttist faðir Ara, Þorkell Bjarnason, til sonar síns hingað að Kvíanesi.[309] Í sóknarmannatali frá árinu 1811 er hann sagður vera áttræður að aldri en átti þó eftir að lifa í fullan áratug og dvaldist þá jafnan hér.[310] Árið 1801 var Þorkell á Melgraseyri í Nauteyrarhreppi, hjá syni sínum sem þar bjó en hann hét Jóab,[311] og hefur gamli maðurinn að líkindum flust þaðan í Súgandafjörð. Um Þorkel gamla segir prestur árið 1812 að hann sé vel skýr í andlegu.[312] Öldungur þessi dó á Kvíanesi 17. júlí 1822.[313]
Ari Þorkelsson á Kvíanesi var á árunum upp úr 1820 sæmilega stöndugur. Haustið 1821 bjó hann með 3 kýr, 1 kvígu, 1 kálf, 20 ær, 6 sauði og hrúta, 16 lömb og 2 hesta.[314] Auk þess átti hann bát sem var sexæringur eða fjögra manna far.[315] Af 20 bændum, sem þá bjuggu í Suðureyrarhreppi, voru aðeins 2 með fleiri kýr en Ari og 4 með jafnmargar.[316] Sé litið á tölu sauðfjár hjá þessum tuttugu bændum og lömbin ekki talin með kemur í ljós að aðeins fimm voru með fleira fé en bóndinn á Kvíanesi haustið 1821.[317] Þessir fimm, að prestinum, séra Eiríki Vigfússyni á Stað, meðtöldum, voru hins vegar allir með mun fleira fé heldur en Ari[318] og skipuðu efsta lag samfélagsins í þessu litla byggðarlagi. Árið 1830 var bú Ara enn álíka stórt og verið hafði 1821 en þá var hann bátlaus.[319] Seinna fékk hann sér lítinn bát, tveggja eða þriggja manna far.[320]
Þess var áður getið að árið 1805 var Ari leiguliði hér á Kvíanesi en eigandi jarðarinnar var þá Bjarni Jónsson, bóndi á Marðareyri í Jökulfjörðum, sem var kvæntur dóttur Sigfúsar Erlingssonar er hér hafði búið um langt skeið á annarri hálflendunni (sjá hér bls. 13-14). Óljóst er hvort Ari náði síðar að eignast jörðina en fyrir liggur að sonur hans, sem tók hér við búi að föður sínum látnum, átti hana.[321]
Nær allan tímann sem Ari Þorkelsson bjó á Kvíanesi hafði hann alla jörðina til ábúðar[322] en Ebenezer Guðmundsson frá Neðri-Arnardal við Skutulsfjörð og Margrét, kona hans, sem var dóttir Bjarna Jónssonar á Marðareyri, munu þó hafa búið hér á jarðarparti á árunum 1806-1808.[323] Þau fluttust svo að Innri-Hjarðardal í Önundarfirði (sjá hér Innri-Hjarðardalur). Tvíbýli var líka á jörðinni fardagaárið 1811-1812 en þá höfðu hér einhver jarðarafnot hjónin Jón Jónsson og Helga Jónsdóttir[324] sem bjuggu síðar í Botni og á Laugum (sjá hér Laugar).
Hjá hjónunum Ara og Guðnýju á Kvíanesi voru oftast um það bil 10 manneskjur í heimili.[325] Þau eignuðust 3 börn sem náðu að vaxa úr grasi, Sigríði, Agnesi og Guðmund[326] og ólu líka upp að mestu leyti Herdísi Bjarnadóttur[327] er mun hafa verið dóttir Bjarna Bjarnasonar, er bjó um skeið á Laugum (sjá hér Laugar), og konu hans, Sigríðar Pálsdóttur, systur Guðnýjar á Kvíanesi.[328] Ari Þorkelsson bjó á Kvíanesi til dauðadags en hann andaðist 26. janúar 1836[329] og var þá kominn á áttræðisaldur. Í marsmánuði á því ári var ekkjan, Guðný Pálsdóttir, talin fyrir búinu en um vorið tók Guðmundur sonur þeirra við.[330] Hann var einkasonur Ara og Guðnýjar.[331] Dætur þeirra, Sigríður og Agnes, urðu báðar húsfreyjur hér í Súgandafirði, Sigríður á Norðureyri og fórst þar í snjóflóðinu mikla 15. desember 1836 en Agnes var lengi í húsmennsku hér á Kvíanesi og svo í Klúku með eiginmanni sínum, Pétri Borgarssyni.[332] Guðný Pálsdóttir, móðir þessara systkina, náði háum aldri en andaðist hjá Guðmundi syni sínum hér á Kvíanesi, 86 ára gömul, þann 9. maí 1854.[333]
Guðmundur Arason, sem tók við búi foreldra sinna vorið 1836, var þá 33ja ára gamall. Hann fæddist hér 23. september árið 1803[334] og hafði alla ævi átt heima á Kvíanesi.[335] Við fermingu vorið 1817 var hann sagður vera siðferðisgóður og hafa gáfur í meðallagi.[336] Búskaparár Guðmundar hér á Kvíanesi urðu nákvæmlega tuttugu því vorið 1856 tók Páll sonur hans við af föður sínum.[337]
Kona Guðmundar var Þorgerður Jónsdóttir frá Kjaransstöðum í Dýrafirði, fædd þar árið 1801 eða því sem næst og var þar enn hjá föður sínum árið 1816.[338] Vorið 1824 réð hún sig sem vinnukonu að Kvíanesi og þá um haustið varð hún barnshafandi af völdum Guðmundar Arasonar, einkasonar húsbændanna á bænum.[339] Barnið fæddist hér 22. júlí 1825 og var það drengur.[340] Honum var gefið nafnið Páll[341] og hefur þá líklega verið haft í huga nafn langafa hans, Páls Pálssonar, sem bjó lengi hér á Kvíanesi á síðari hluta 18. aldar og áður var frá sagt. Þorgerður frá Kjaransstöðum ílentist á Kvíanesi. Í marsmánuði árið 1826 voru þau Guðmundur þó enn ógift en séra Eiríkur Vigfússon á Stað skráir þá í bók sína að þessi vinnukona og barnsmóðir bóndasonarins á Kvíanesi sé dagfarsgóð.[342] Þann 19. ágúst 1827 voru þau pússuð saman af presti.[343] Skömmu fyrr hafði brúðurin fengið þá einkunn hjá prestinum að hún væri fáskiptin en vel að sér.[344]
Á árunum 1825-1836 voru þau Guðmundur og Þorgerður löngum vinnuhjú hjá foreldrum hans hér á Kvíanesi.[345] Þau eignuðust aldrei nema þetta eina barn, sem fæddist áður en þau gengu í hjónaband, og svo annan dreng sem fæddist í janúarmánuði 1827 og dó fárra daga gamall.[346] Á búskaparárum sínum, 1836-1856, var Guðmundur Arason jafnan eini bóndinn hér á Kvíanesi[347] en í upphafi þess tímaskeiðs mun Þorleifur Þorkelsson, er þá bjó á Suðureyri, hafa nytjað part úr jörðinni, eitt og hálft hundrað.[348] Óljóst er hvort Guðmundur var þá þegar orðinn eigandi að öllu Kvíanesi en ef marka má Jarðatal Johnsens frá árinu 1847 átti hann þá alla jörðina.[349]
Búið hjá Guðmundi Arasyni mun löngum hafa verið álíka stórt og verið hafði hjá Ara föður hans[350] (sbr. hér bls. 26). Árið 1840 bjó hann með 3 kýr og sú tala var óbreytt tíu árum síðar.[351] Á árunum milli 1840 og 1850 fór fénu hins vegar fjölgandi hér á Kvíanesi því haustið 1850 var Guðmundur kominn með 44 sauðkindur, að frátöldum lömbum, en tíu árum fyrr höfðu þær verið 28.[352] Á þessum árum fékk bóndinn á Kvíanesi sér líka stærri bát en hann átti áður. Á sínum fyrstu búskaparárum átti Guðmundur aðeins lítinn bát sem var 2ja eða 3ja manna far[353] en árið 1850 var hann í stað þess gamla kominn með annan bát sem var sexæringur eða fjögra manna far.[354] Í öllum Súgandafirði voru þá aðeins til fimm bátar sem náðu þeirri stærð.[355] Fjölgun fjárins og hinn nýi bátur bendir hvort tveggja til þess að á sínum bestu árum hafi Guðmundur Arason verið uppgangsbóndi. Hann reyndi líka eitthvað fyrir sér við jarðrækt því búnaðarskýrsla frá árinu 1840 sýnir að á því ári gróf hann 30 faðma langan áveituskurð.[356]
Þó að hjónin, Guðmundur og Þorgerður á Kvíanesi, ættu bara einn dreng sem náði að komast upp þá var heimili þeirra oftast nokkuð fjölmennt.[357] Árið 1841 voru heimilismennirnir til dæmis að taka 14 og næsta ár voru þeir 16.[358] Skömmu síðar fækkaði heimilisfólkinu hjá Guðmundi en þá fjölgaði heimilunum á Kvíanesi úr einu í tvö því Agnes Aradóttir, systir Guðmundar, og eiginmaður hennar, Pétur Borgarsson, fóru að bolloka hér í húsmennsku.[359] Þau voru húsfólk á Kvíanesi frá 1845 til 1854 og hlóðu niður börnum í fátækt sinni.[360] Héðan fóru þau í Klúku, hjáleigukot sem var rétt innan við landamerki Kvíaness á móti Botni, og verður síðar sagt lítið eitt nánar frá þessari fjölskyldu (sjá hér Botn, Klúka þar).
Á árunum kringum 1850 var oftast mikið um börn og unglinga hér á Kvíanesi þó að eina barn Guðmundar bónda og Þorgerðar konu hans væri þá komið upp.[361] Í þeim hópi voru sex börn Péturs og Agnesar og svo fósturbörn þeirra Guðmundar og Þorgerðar.[362] Börnin sem síðarnefndu hjónin ólu upp, að meira eða minna leyti, voru sex þó að sjálf ættu þau aðeins eitt sem náði að komast á ról.[363] Í þeim hópi voru reyndar tvö af börnum Agnesar Aradóttur og Péturs Borgarssonar, þau Sigríður og Ari.[364] Hjá Guðmundi bónda Arasyni og Þorgerði konu hans á Kvíanesi ólst líka upp Sigurður Jónsson, síðar bóndi á Gilsbrekku (sjá hér Gilsbrekka). Síðasta árið sem Guðmundur og Þorgerður stóðu hér fyrir búi, fardagaárið 1855-1856, voru þau enn með fimm fósturbörn eða tökubörn.[365] Í þeim hópi var nýnefndur Sigurður Jónsson elstur, orðinn 21 árs, en yngst var þriggja ára stúlkubarn.[366]
Vorið 1856 tók Páll Guðmundsson við búi af foreldrum sínum hér á Kvíanesi. Hann var þá orðinn liðlega þrítugur (sjá hér bls. 27) og kominn með konu og barn.[367] Eiginkona hans var Rósinkranza Guðmundsdóttir, fædd 16. ágúst 1830 í Botni hér í sveit.[368] Foreldrar hennar voru Guðmundur Guðmundsson úr Önundarfirði og Þóra, dóttir Brynjólfs Jónssonar, bónda í Botni hér í sveit.[369] Rósinkranza var lausaleiksbarn og ólst upp á sveit.[370] Tíu ára gömul var hún sveitarómagi í Bæ og var þá talin vera efnilegt barn.[371] Árið 1845 var hún orðin vinnukona hjá Þórarni Einarssyni á Suðureyri[372] og var síðar vinnukona í Botni en vorið 1853 mun hún hafa farið að Kvíanesi.[373] Í sóknarmannatali frá því í marsmánuði árið 1854 er Rósinkranza sögð vera á Kvíanesi, Páli Guðmundssyni við hönd.[374] Þá hafa þau verið trúlofuð og hún komin langt á leið því 4. maí um vorið fæddist elsta barn þeirra, sonurinn Sveinbjörn[375] (sbr. hér Laugar). Um svipað leyti og drengurinn fæddist stofnuðu foreldrar hans sitt eigið heimili hér á Kvíanesi[376] og hafa þá að líkindum flutt inn í kofann sem Pétur Borgarsson og Agnes Aradóttir yfirgáfu þetta sama vor. Páll og Rósinkranza voru þá enn ógift en gengu í hjónaband 15. júlí 1855.[377]
Fardagaárin 1854-1855 og 1855-1856 voru þessar ungu manneskjur húsfólk hér á Kvíanesi[378] en vorið 1856 tók Páll við búi af föður sínum eins og hér var áður nefnt. Foreldrar hans, þau Guðmundur Arason og Þorgerður Jónsdóttir, voru þá á sextugsaldri og sátu um kyrrt hjá syni sínum og tengdadóttur.[379] Hjá Páli og Rósinkrönzu dvaldist líka flest búskaparár þeirra á Kvíanesi Þóra Brynjólfsdóttir, móðir húsfreyjunnar.[380]
Tvennt bendir til þess að Páll Guðmundsson á Kvíanesi hafi á yngri árum haft hug á að verða dugandi sjósóknari eins og Páll Pálsson, langafi hans sem hér bjó áður, hafði verið (sbr. hér bls. 20-21). Annað er það að um svipað leyti og Páll náði aldri til að taka við formennsku skipti faðir hans um bát og fékk sér sexæring eða fjögra manna far í stað minni fleytu sem hann átti áður (sjá hér bls. 28). Í sömu átt bendir líka sú staðreynd að Páll virðist hafa orðið fyrri til en aðrir Súgfirðingar að reyna fyrir sér með lóðafiskirí[381] en samkvæmt tíundarskýrslu frá árinu 1858 átti hann þá 10 lóðir.[382] Næsta ár á undan átti reyndar einn maður í Súgandafirði dálítið af lóðum, Guðmundur Sturluson í Botni,[383] en hann fluttist þá um vorið í Súgandafjörð frá Innri-Hjarðardal í Önundarfirði (sjá hér Botn).
Óljóst er hvernig lóðaveiðarnar hafa gengið hjá Páli en hætt er við að minna hafi orðið úr sjósókninni en til stóð því árið 1860 var stóri báturinn, sem hér var tíu árum fyrr, horfinn og enginn bátur til á Kvíanesi nema lítið tveggja manna far.[384] Fyrstu árin virðist Páll, hvað sem öðru líður, hafa haldið nokkurn veginn í horfi í búskapnum.[385] Kýrnar á búi hans voru þó bara tvær árið 1860 en höfðu verið þrjár hjá föður hans bæði 1840 og 1850.[386]
Þess var áður getið að árið 1847 var Guðmundur Arason, faðir Páls Guðmundssonar, talinn sjálfseignarbóndi á Kvíanesi (sjá hér bls. 28) en um 1860 voru þeir feðgar búnir að tapa jörðinni. Ljóst er að í febrúarmánuði árið 1862 var það ekkjan Málfríður Jónsdóttir á Seljalandi í Skutulsfirði sem átti Kvíanes en hún var frá Gelti í Súgandafirði.[387] Hún hafði verið gift Sigurði Hinrikssyni, bónda á Seljalandi,[388] en hann andaðist 30. janúar 1860.[389] Líklegt verður að telja að þau hjónin, Sigurður og Málfríður, hafi eignast Kvíanes áður en hann dó en nú verður tæplega grafið upp hvað því olli að þeir Kvíanesfeðgar, Guðmundur og Páll, létu jörðina af hendi. Flest bendir samt til að hún hafi verið seld vegna fjárhagsörðugleika því þess verður hvergi vart að Páll eða Guðmundur faðir hans hafi keypt aðra jarðeign í staðinn.
Öll vitneskja sem fyrir liggur bendir til þess að Guðmundur Arason hafi lengst af verið farsæll í sínum búskap og sæmilega bjargálna (sjá hér bls. 28). Meðan hann bjó á jörðinni hafa því tæplega komið upp gildar ástæður fyrir því að láta hana af hendi. Marktækar skýringar á því hvers vegna jörðin tapaðist liggja reyndar ekki fyrir og lítil stoð í getgátum. Tvímælalaust er hins vegar að sá missir þrengdi til frambúðar allan hag Páls Guðmundssonar og fjölskyldu hans.
Vorið 1862 hófu hinir nýju eigendur, dóttir og tengdasonur Málfríðar á Seljalandi, búskap á hálfu Kvíanesi (sjá hér bls. 34) og einu ári síðar varð Páll að víkja frá þessu óðali feðra sinna og frænda því fólkið sem hér hóf búskap á annarri hálflendunni vorið 1862 kaus sem vænta mátti að búa á allri jörðinni.[390] Páll Guðmundsson, sem yfirgaf Kvíanes vorið 1863, var eins og hér hefur verið rakið 7. ættliður frá Sveini Andréssyni sem keypti þessa jörð árið 1616. Sjálfur hafði Sveinn búið á Kvíanesi og síðan allir þessir ættliðir, mann fram af manni, Egill Sveinsson, Jón Egilsson, Páll Jónsson, Páll Pálsson, Guðný Pálsdóttir með manni sínum Ara Þorkelssyni, Guðmundur Arason og Páll Guðmundsson síðastur en hér hefur áður verið sagt frá öllu þessu fólki. Við brottför Páls vorið 1863 var settur punktur aftan við langa sögu því áar hans og ömmur höfðu búið hér nær óslitið frá því um 1616 og hugsanlega lengur.
Þegar Páll Guðmundsson og Rósinkranza kona hans fóru frá Kvíanesi fengu þau ábúð á hálfri Suðureyri og bjuggu þar sem leiguliðar í fjögur ár (sjá hér Suðureyri) en vorið 1867, þegar Páll var á 42. aldursári og kona hans enn innan við fertugt, urðu þau jarðnæðislaus og voru þaðan í frá vinnuhjú á ýmsum bæjum í Súgandafirði, m.a. á Kvíanesi, en þó stöku sinnum sjálfra sín í húsmennskubasli.[391] Þorgerður á Kvíanesi, móðir Páls Guðmundssonar, andaðist úr vatnssýki sama vor og þau fóru frá Kvíanesi en Guðmundur faðir hans fluttist með syni sínum að Suðureyri.[392] Þegar Páll féll úr bændatölu vorið 1867 skildu leiðir þeirra feðga og má ætla að Guðmundur gamli Arason hefði farið á sveitina ef hann hefði ekki átt sér hauk í horni þar sem var fóstusonur hans, Sigurður Jónsson, bóndi á Gilsbrekku. Til hans fór gamli maðurinn þegar Páll varð að hætta búskap og á Gilsbrekku átti hann skjól allt til æviloka.[393] Frá bæjarhlaðinu þar gat hann horft yfir að Kvíanesi og virt fyrir sér alla Kvíaneshlíðina hafi sjónin ekki verið farin að daprast. Guðmundur Arason dó á Gilsbrekku 12. júlí 1876.[394]
Páll Guðmundsson og Rósinkranza kona hans eignuðust sjö börn sem fæddust flest á Kvíanesi.[395] Fjögur þessara barna dóu innan við þriggja ára aldur og Ari sonur þeirra, sem ólst upp sem ómagi á Stað, dó 16 ára gamall árið 1884, þá ómagi á Kvíanesi.[396] Aðeins tvö af þessum systkinum náðu að komast upp, Sveinbjörn, sem varð bóndi í Súgandafirði og bjó síðast á Laugum (sjá hér Laugar), og Guðbjörg sem hér verður minnst á síðar.
Á nítjándu öld var mannfélagsstiginn nokkuð brattur, ekki síður en nú þegar tuttugustu öldinni er að ljúka. Niður þann stiga valt Páll Guðmundsson og komast fáir ómeiddir frá slíkri byltu. Ef marka má umsagnir viðkomandi presta um Pál á hans yngri árum hefur hann þá verið sæmilega á sig kominn til höfuðsins en þó eitthvað tæpur í skilningi. Við fermingu vorið 1839 er hann sagður vera allvel kunnandi og skikkanlegur[397] en einu ári síðar orðar séra Andrés Hjaltason umsögn sína um pilt þennan svo: Kann allvel, skilur miður.[398] Á jólaföstu árið 1849 var Páll enn á réttu róli í foreldrahúsum, orðinn 24 ára gamall, og þá er kristindómsþekking hans sögð vera góð. Tuttugu árum síðar hafði hann hins vegar hrapað niður mannfélagsstigann og þeir sem í slíku lenda njóta sjaldan virðingar. Árið 1869 var Páll fallinn úr tölu bænda og orðinn vinnumaður í Vatnadal. Þá segir prestur hann vera fáfróðan en tekur fram að Rósinkranza, kona Páls, sé vel að sér.[399]
Páll Guðmundsson náði ekki að vinna sig upp í bændastétt á ný, enda fóru dómar sóknarprests Súgfirðinga, séra Stefáns P. Stephensen í Holti, yfir honum harðnandi. Árið 1874 segir prestur að Páll sé heimskur og þremur árum síðar fékk hann hjá sama presti einkunnina fáfróður auli.[400] Slíkar slettur hrokafulls embættismanns má að sjálfsögði ekki taka bókstaflega en sé litið yfir feril Páls og umsagnir prestanna sýnist margt benda til að hann hafi skort búhyggindi og fjármálavit. Gáfnaskort af því tagi gat séra Stefán ekki fyrirgefið nokkrum manni ef marka má þær sögur sem kunnugir sögðu af honum. (sjá hér Holt).
Á árunum 1867-1878 fylgdust hjónin Páll og Rósinkransa oftast að en fyrir kom þó að þau væru vistráðin á sitt hvorum bænum.[401] Vorið 1879 gerðust þau þurrabúðarfólk í Klúku, hjáleigu frá Botni, og voru þar húsum ráðandi í tvö ár uns Sveinbjörn sonur þeirra fluttist með sína fjölskyldu að Klúku vorið 1881 (sjá hér Laugar) en hann tók þá foreldrana á sitt heimili.[402] Síðustu æviárin áttu þau Páll og Rósinkranza jafnan athvarf hjá Sveinbirni og konu hans, Guðmundínu Jónsdóttur, fyrst í Klúku, þar sem Páll taldist vera vinnumaður hjá syni sínum, síðan á Kvíanesi og í Botni.[403] Rósinkranza dó á Kvíanesi 7. júlí 1883 en hér hafði Sveinbjörn hafið búskap þá um vorið.[404] Páll fluttist með Sveinbirni syni sínum þremur árum síðar frá Kvíanesi í Botn og dó þar 28. maí 1887 á 62. aldursári.[405]
Sveinbjörn var sem áður sagði annað tveggja barna Páls og Rósinkrönzu sem náðu að komast upp. Hitt barnið var Guðbjörg, fædd 22. október 1863.[406] Hún fylgdi oftast foreldrum sínum á uppvaxtarárunum og var frá 1881 til 1891 á heimili Sveinbjörns bróður síns, í Klúku, á Kvíanesi og í Botni frá 1886.[407] Á almennum hreppsfundi, sem haldinn var á Suðureyri 13. febrúar 1891, var rætt sérstaklega um Guðbjörgu og unnusta hennar, sem þá var vinnumaður í Botni, og þetta bókað:
Svo var rætt um Ásgeir Guðbjartarson og Guðbjörgu Pálsdóttur og var það álit allra fundarmanna að Guðbjörg færi ekki héðan úr hreppnum fyrr en hún væri gift Ásgeiri Guðbjartarsyni.[408]
Líklegt er að þessi samþykkt um farbann á Guðbjörgu komi nú ýmsum spánskt fyrir sjónir en skýringin er augljós. Þegar samþykktin var gerð gekk Guðbjörg með sitt fyrsta barn, drenginn Guðmund Júni Ásgeirsson, síðar kunnan skipstjóra, sem fæddist 6. júní 1891.[409] Menn hafa óttast að færi hún laus og liðug í aðrar sóknir kynni börnunum að fjölga og síðan yrði Suðureyrarhreppur að taka við allri þessari yfirvofandi ómegð. Þegar á reyndi neitaði Guðbjörg hins vegar að láta kyrrsetja sig og fór ógift norður í Bolungavík um vorið.[410] Þar voru þau Ásgeir gefin saman í hjónaband 17. október 1891 og voru þá bæði vinnuhjú á Geirastöðum.[411]
Frá sjónarhóli okkar sem nú lifum er fundarsamþykktin frá 1891 um farbann á Guðbjörgu reyndar dálítið spaugileg, ekki síst í ljósi þess að synirnir þrír, sem hún eignaðist með Ásgeiri, urðu allir sérstakir dugnaðarmenn og kunnir aflaskipstjórar.
Bátar og togarar með nafni þessarar fátæku stúlku hafa nú (1996) lengi verið gerðir út frá Ísafirði og hafa stundum flutt að landi meiri afla en önnur skip í eigu Vestfirðinga. Guðbjörg sú Pálsdóttir sem hér um ræðir var amma Ásgeirs Guðbjartssonar er lengst var skipstjóri á togaranum Guðbjörgu sem bar hennar nafn.
Þann 10. febrúar 1862 ráðstafaði Málfríður Jónsdóttir, ekkja á Seljalandi í Skutulsfirði, eignum sínum með erfðaskrá.[412] Hún var þá á sjötugsaldri og öll börn hennar komin upp.[413] Málfríður var frá Gelti í Súgandafirði og er sagt hér frá foreldrum hennar á öðrum stað (sjá Göltur). Ekkja þessi á Seljalandi átti ýmsar jarðeignir og skipti þeim nú milli barnanna sem hún hafði eignast með manni sínum, Sigurði Hinrikssyni, bónda á Seljalandi[414] (sbr. hér bls. 31). Ein þeirra jarða sem Málfríður átti var eins og hér hefur áður verið nefnt Kvíanes sem nú kom í hlut Guðrúnar Sigurðardóttur, elstu dóttur þeirra Málfríðar og Sigurðar á Seljalandi.[415] Í erfðaskránni er tekið fram að Guðrún fái þessa 8 hundraða jörð með 12 leiguám og öllum húsum sem henni fylgi.[416]
Guðrún Sigurðardóttir, sem fékk umráð yfir Kvíanesi í febrúarmánuði árið 1862, var þá að verða fertug, fædd 30. apríl 1822.[417] Sautján árum fyrr hafði hún gengið að eiga séra Hannes Arnórsson á Stað í Grunnavík, sem þá var ekkjumaður, en hann drukknaði sex árum síðar á heimleið úr kaupstað.[418] Af börnum hennar og séra Hannesar komust upp tveir synir, Jóhannes og Sigurður.[419] Þegar Guðrún frá Seljalandi missti mann sinn í sjóinn var hún innan við þrítugt og giftist nokkru síðar í annað sinn. Hennar seinni maður var Friðrik Verner Gíslason.[420] Þau bjuggu í nokkur ár í Grunnavík, þar sem Friðrik var hreppstjóri um skeið, en voru þegar frá erfðaskránni var gengið komin að Tungu í Skutulsfirði.[421]
Frá Tungu fluttust þau hingað að Kvíanesi vorið 1862 og hófu búskap á hálfri jörðinni en tóku við henni allri í fardögum árið 1863, þegar Páll Guðmundsson vék frá.[422] Er prestur skráir komu þessara hjóna í Súgandafjörð lætur hann þess getið að Friðrik sé sjálfseignarmaður.[423]
Friðrik Verner Gíslason var fæddur á Fossi í Suðurfjörðum Arnarfjarðar 17. júní 1828,[424] sonur hjónanna Gísla Gíslasonar garðyrkjumanns og Guðbjargar Einarsdóttur.[425] Vorið 1829 hófu foreldrar Friðriks búskap í Neðri-Hvestu í Arnarfirði og bjuggu þar í a.m.k. tíu ár.[426] Árið 1835 var Friðrik hjá foreldrum sínum í Hvestu, þá sjö ára gamall.[427] Tíu árum síðar var hann léttadrengur í Ytri-Hjarðardal í Önundarfirði, hjá sýslumannsekkjunni Guðrúnu Þórðardóttur Thorsteinsen en hjá henni voru foreldrar hans þá vinnuhjú.[428] Gísli Gíslason, faðir Friðriks, var fæddur á Firði í Múlasveit við norðanverðan Breiðafjörð og mun hafa lært eitthvað í garðyrkju (sjá hér Ytri-Hjarðardalur). Þegar prestur skráir fæðingu Friðriks árið 1828 tekur hann fram að faðirinn sé gartner[429] og í manntalinu frá 1845 er Gísli sagður vera gartner og vinnumaður í Ytri-Hjarðardal.[430]
Móðir Friðriks Verners, Guðbjörg Einarsdóttir, var dóttir séra Einars Thorlacius í Otradal og konu hans Helgu Egilsdóttur en fædd áður en þau gengu í hjónaband og var í fyrstu kennd öðrum.[431] Séra Einar í Otradal var frá Hlíðarhúsum við Reykjavík og bróðir Ólafs Thorlacius, hins umsvifamikla kaupmanns og skútuútgerðarmanns á Bíldudal.[432]
Haustið 1855 var Friðrik Verner kominn norður í Grunnavík og var þá vinnumaður hjá séra Einari Vernharðssyni á Stað.[433] Í Grunnavík komst hann í kynni við prestsekkjuna Guðrúnu Sigurðardóttur, sem hér var áður nefnd, og náði að gera henni barn sem fæddist 28. ágúst 1856.[434] Tveimur mánuðum síðar gengu þau í hjónaband og er Friðrik þá sagður vera búandi á Stað og Guðrún bústýra hans.[435] Haustið 1860 voru þau komin að Tungu í Skutulsfirði[436] og fluttust þaðan að Kvíanesi vorið 1862 eins og áður var frá greint. Með þeim komu frá Tungu tvær dætur þeirra hjóna, Petrína og Málfríður, og líka sonur Guðrúnar af hennar fyrra hjónabandi, Jóhannes Hannesson, sem orðinn var 15 ára.[437] Móðir Friðriks, Guðbjörg Einarsdóttir, fluttist líka til sonar síns hingað að Kvíanesi þetta sama vor og kom hún frá Vöðlum í Önundarfirði.[438] Hún átti þá skammt eftir ólifað og dó á Kvíanesi 5. júlí 1862.[439] Á sínu fyrsta ári hér í Súgandafirði misstu þau Friðrik og Guðrún kona hans líka yngri dóttur sína, Málfríði, sem þá var eins eða tveggja ára.[440]
Friðrik Verner Gíslason átti heima á Kvíanesi í 37 ár, frá 1862 til 1899.[441] Hann bjó einn á allri jörðinni í tuttugu ár, frá 1863 til 1883, en við missi eiginkonunnar árið 1883 hætti hann um sinn að búa og fór í húsmennsku.[442] Bóndamaður þessi kvæntist aftur síðar (sjá hér bls. 37) og á síðustu sextán æviárunum, 1883-1899, var hann hér ýmist við búskap á parti úr jörðinni eða í húsmennsku.[443]
Árið 1870 var bú Friðriks eitt hið minnsta í Suðureyrarhreppi ef marka má búnaðarskýrslu frá því ári.[444] Samkvæmt skýrslunni bjó hann þá með eina kú, eina veturgamla kvígu, átta ær, tólf gemlinga og einn hest.[445] Báturinn sem hann átti var líka í minnsta lagi, tveggja eða þriggja manna far,[446] en þá voru reyndar ekki til í Súgandafirði nema þrír stærri bátar.[447] Á Friðriki virðist hafa verið þó nokkur völlur hin næstu ár því fardagaárið 1873-1874 var hann með 13 manna heimili.[448] Um það leyti segir prestur hann vera vel að sér.[449]
Árið 1880 var bú þessa bónda á Kvíanesi orðið talsvert stærra en verið hafði tíu árum fyrr og bjó hann nú með eina kú, eina veturgamla kvígu, tuttugu ær, tólf gemlinga og tvö tryppi.[450] Friðrik átti reyndar líka hálfan hest og voru þeir saman um hrossið, hann og Þorbjörn Gissurarson á Suðureyri.[451] Vorið 1880 voru bátarnir á Kvíanesi orðnir tveir. Annar þessara báta var sexæringur eða fjögra manna far en hinn minni og átti Friðrik þá báða.[452] Á árunum kringum 1880 átti hann líka verbúð á Suðureyrarmölum (sjá hér Suðureyri) og er líklegt að hann hafi sjálfur verið formaður á vorvertíð. Verbúð bóndans á Kvíanesi var enn með þaki og hurð árið 1887 en löngu seinna var henni breytt í fjós og stóð það enn uppi um miðbik tuttugustu aldar (sjá hér Suðureyri). Líklega veit nú enginn hvenær Friðrik bóndi fór síðast á sjó en bát átti hann enn árið 1889 og fóru fjórir menn á honum norður í aprílmánuði á því ári.[453] Eigandi bátsins var þó ekki með í þeirri för.[454] Á búskaparárum sínum kynni Friðrik Verner að hafa haft einhverjar tekjur af smíðum því hann var að sögn kunnugra góður smiður á tré og járn.[455]
Með fyrri eiginkonu sinni, Guðrúnu Sigurðardóttur, eignaðist Friðrik a.m.k. fjögur börn en tvö þeirra dóu á barnsaldri.[456] Upp komust Petrína, er fluttist 26 ára gömul frá Kvíanesi að Holti í Önundarfirði árið 1883, og Guðbjartur, sem fórst með þilskipinu Skarphéðni vorið 1887, þá 24 ára gamall og búsettur hjá föður sínum á Kvíanesi[457] (sbr. hér Flateyri).
Guðrún Sigurðardóttir, húsfreyja á Kvíanesi, andaðist 31. júlí 1883 og var þá 61 árs að aldri.[458] Friðrik, eiginmaður hennar, sem var sex árum yngri, sat áfram á Kvíanesi en fór í húsmennsku. Við jörðinni tóku sumarið 1883 Sveinbjörn Pálsson, sem hér er sagt frá á öðrum stað (sjá Laugar), og Jóhannes Hannesson, stjúpsonur Friðriks, er þá var 36 ára gamall og orðinn hreppstjóri.[459] Búskaparár Sveinbjörns og Jóhannesar hér á Kvíanesi urðu bara þrjú og færðu þeir sig báðir inn í Botn vorið 1886.[460] Þar bjó Jóhannes lengi og verður sagt hér frá honum síðar (sjá hér Botn).
Friðrik Verner hóf að nýju búskap á Kvíanesi vorið 1885 og þá í þríbýli því Sveinbjörn Pálsson og Jóhannes Hannesson bjuggu hér líka fardagaárið 1885-1886.[461] Er Friðrik fór aftur að búa var hann orðinn 57 ára gamall en búinn að fá sér unga ráðskonu sem fæddi honum son þann 29. september 1885.[462] Hún hét Guðrún Einarsdóttir og var frá Selakirkjubóli í Önundarfirði.[463] Þegar drengurinn fæddist var Guðrún 26 ára[464] svo aldursmunurinn á henni og barnsföðurnum var 31 ár.
Guðrún ílentist á Kvíanesi og í aprílmánuði árið 1888 voru þau Friðrik gefin saman í hjónaband.[465] Með seinni konunni eignaðist Friðrik fjögur börn, þrjá syni og eina dóttur, sem fæddust á árunum 1885-1896.[466] Á þessum árum átti Friðrik jafnan heima á Kvíanesi og bjó þá alllengi á litlum skika sem að fornu mati var aðeins eitt hundrað.[467] Á þessum árum telur sóknarpresturinn hann oftast vera bónda en kallar hann þó stöku sinnum húsmann án þess að breyting yrði á ábúðinni[468] Fardagaárið 1885-1886 og á árunum 1887-1896 taldist nær alltaf vera þríbýli hér á Kvíanesi væri Friðrik talinn til bænda og tvíbýli frá 1896-1899.[469] Á árunum 1887-1894 bjuggu hér auk Friðriks bændurnir Bjarni Ólafsson og Guðni Egilsson en Bjarni bjó hér frá 1886-1894 og Guðni frá 1887-1896.[470] Á sínum síðustu æviárum bjó Friðrik svo í tvíbýli á móti Jóhannesi Guðmundssyni er hóf sinn langa búskap á Kvíanesi vorið 1895 (sjá hér bls. 51-54).[471]
Að fornu mati var Kvíanes átta hundraða jörð eins og hér hefur áður verið nefnt og fardagaárið 1888-1889 bjó Guðni á fjórum hundruðum, Bjarni á þremur og Friðrik Vernar á einu.[472] Sjö árum síðar var þessi skipting nánast óbreytt en þá var Jóhannes kominn í stað Bjarna og við jarðnæði Friðriks hafði bæst tæplega hálft hundrað og skerðing sem því svaraði orðið hjá Guðna.[473]
Ljóst er að á þessu skeiði hafa Friðrik og hin unga kona hans verið nánast búlaus þó að hann væri nær alltaf talinn vera einn bændanna í hreppnum. Haustið 1888 var Friðrik kýrlaus og allur bústofninn 2 ær og 4 gemlingar.[474] Ekki var það lífvænlegt. Haustið 1891 hafði sauðfénu fjölgað lítið eitt því þá var hann með 5 ær og 8 gemlinga.[475] Svipaður þessu var bústofn Friðriks haustið 1895, 6 ær og 6 gemlingar.[476] Synir Friðriks og seinni konu hans voru hins vegar orðnir þrír haustið 1895, sá elsti 10 ára, og haustið 1896 bættist fjórða barnið við.[477] Þá fór hreppsnefndin að ókyrrast sem ekki var nema von.
Einar Jónsson, dagbókarritari á Suðureyri, greinir frá því að á fundi sem haldinn var 6. maí 1898 hafi verið rætt um þennan gamla bónda á Kvíanesi, hvort ætti að taka hann upp,[478] það er hvort hreppsnefndin ætti að leysa þetta bjargarlitla heimili upp og ráðstafa fólkinu með valdboði. Niðurstaðan varð sú að láta Friðrik lafa áfram við bú[479] en á þessu ári var tveimur af börnunum, Ólafi, sem var elstur, og Málfríði Guðbjörgu, sem var yngst, komið fyrir í Önundarfirði,[480] líklega á vegum móður þeirra sem átti þar marga ættingja.
Árið 1898 var 17. júní ekki enn orðinn þjóðhátíðardagur Íslendinga en þann dag á því ári varð Friðrik Verner sjötugur. Eins og málum hans var komið má telja ólíklegt að efnt hafi verið til veislu af því tilefni. Hinn gamli bóndi átti þá skammt eftir ólifað því hann andaðist hér á Kvíanesi 3. apríl 1899, á 71. aldursári.[481] Enginn prestur var þá í Súgandafirði og var Friðrik ekki jarðsettur fyrr en 6. maí.[482] Þá voru þeir báðir jarðaðir sama daginn, hann og Friðbert Guðmundsson í Hraunakoti í Vatnadal (sjá hér Fremri-Vatnadalur, Hraunakot þar), en þeir áttu fleira sameiginlegt því báðir festu ráð sitt í annað sinn um sextugsaldur og gengu þá að eiga liðlega tvítugar stúlkur (sbr. hér Fremri-Vatnadalur, Hraunakot þar). Líklega hafa þeir verið vinir því Friðrik var svaramaður Friðberts er sá síðarnefndi gekk í hjónaband haustið 1883.[483] Útför þeirra 6. maí 1899 var dálítið söguleg því þeir voru síðustu fullorðnu heimamennirnir sem fengu leg í gamla kirkjugarðinum á Stað (sjá hér Staður).
Guðrún Einarsdóttir, ekkja Friðriks Verners, var áfram á Kvíanesi í tvö ár að manni sínum látnum og hafði hjá sér Guðmund son þeirra sem var sex ára þegar faðir hans andaðist.[484] Árið 1901 fór hún að Gilsbrekku til systur sinnar, Guðbjargar Einarsdóttur, sem þar bjó með Sigurði Jóhannssyni[485] (sbr. hér Eyri og Gilsbrekka), er menn nefndu Sigurð skurð. Frá Gilsbrekku fór Guðrún að Tungu í Skutulsfirði vorið 1902[486] en sex árum síðar fluttist hún úr Ísafjarðarkaupstað á Suðureyrarmalir.[487] Með henni komu þá í Súgandafjörð tveir elstu synir þeirra Friðriks, Ólafur, 23ja ára, og Sigurður, 19 ára.[488] Næstu ár héldu þau saman heimili í þorpinu á Suðureyri[489] (sbr. hér Suðureyri) og munu bræðurnir hafa stundað sjóróðra.
Haustið 1911 var Ólafur Friðriksson frá Kvíanesi orðinn formaður á mótorbátnum Hlín og var Sigurður bróðir hans í skiprúmi hjá honum.[490] Þann 11. september á því ári fórst þessi bátur og með honum fimm menn.[491] Guðrún Einarsdóttir missti þar þessa tvo syni sína.[492] Báðir voru þeir ókvæntir en Ólafur lét eftir sig son sem fæddist reyndar ekki fyrr en tæpur mánuður var liðinn frá því faðirinn týndi lífi.[493]
Þriðji sonur Guðrúnar Einarsdóttur og Friðriks Verners var Guðmundur, sem fæddist hér á Kvíanesi á aðfangadag jóla árið 1892.[494] Hann fór 8 ára gamall í Önundarfjörð[495] og mun hafa alist þar upp að miklu leyti. Á árunum kringum 1920 var hann alllengi hjá móður sinni á Suðureyri[496] en varð síðar bóndi á Efstabóli í Önundarfirði.[497] Hjá þessum syni á Efstabóli andaðist Guðrún Einarsdóttir, fyrrum húsfreyja á Kvíanesi, á aðfangadag jóla árið 1935[498] og var þá orðin 76 ára.
Frá vinnufólki Friðriks Verners Gíslasonar hér á Kvíanesi verður fátt sagt á þessum blöðum. Þó skal minnt á að með honum kom frá Tungu í Skutulsfirði vorið 1862 Guðríður Eiríksdóttir, þá 32ja ára gömul vinnukona sem hafði fengið að reyna sitt af hverju. Frá henni er sagt hér á öðrum stað (sjá Bær) og þar gerð grein fyrir hversu erfitt henni reyndist að feðra sitt fjórða barn, soninn Kristján, sem fæddist hér 20. mars 1863 (sjá hér Bær). Hann ólst að mestu upp í Skutulsfirði og átti heima í Ísafjarðarkaupstað er hann andaðist, liðlega tvítugur að aldri, 14. júlí 1884.[499] Guðríður var í þessari lotu vinnukona hjá Friðriki Verner á Kvíanesi í þrjú ár, frá 1862 til 1865, og var þá með einn sona sinna, Guðna Egilsson, er seinna bjó hér á hálfri jörðinni í níu ár.[500] Vorið 1871 kom Guðríður aftur að Kvíanesi með karl sinn, Guðbrand Jónsson, og voru þau hér í húsmennsku næsta fardagaár en frá 1872 til 1880 var hún ýmist vinnukona hjá Friðriki eða húskona hér á Kvíanesi.[501] Á árunum 1863 til 1883 var annars lítið um húsfólk á þessum bæ en Jóhannes Hannesson og kona hans, Guðrún Ólafsdóttir, sem fóru að búa á parti úr jörðinni vorið 1883, voru þó hér í húsmennsku næsta fardagaár á undan.[502]
Hér var áður frá því greint að á árunum 1885-1895 var oft þríbýli á Kvíanesi (sjá hér bls. 37-38). Auk Friðriks Verners bjuggu hér lengst á því skeiði þeir Guðni Egilsson og Bjarni Ólafsson. Um Guðna og konu hans, Guðrúnu Sigurðardóttur, hefur verið fjallað á öðrum stað í þessu riti (sjá hér Bær og Fremri-Vatnadalur, Hraunakot þar) en þau voru hér við búskap frá 1887 til 1896.[503] Bæði höfðu þau verið alllengi á Kvíanesi á sínum uppvaxtarárum, Guðni í 3 ár á barnsaldri og kom aftur vorið 1876, þá 18 ára hjú, og var síðan vinnumaður hér hjá Friðriki Vernar í fimm ár, frá 1876-1881.[504] Í manntalinu frá 1. október 1880 er hann þó talinn eiga heima hjá móður sinni í Klúku.[505] Guðrún Sigurðardóttir, er síðar varð eiginkona Guðna Egilssonar, var hér með móður sinni, vinnukonunni Guðnýju Jónsdóttur, frá 1869 til 1871, en Guðrún var að verða sex ára gömul er hún kom að Kvíanesi vorið 1869.[506] Um tvítugsaldur var hún svo vinnukona hér í tvö ár, frá 1882-1884.[507]
Árin sem Guðni Egilsson bjó á Kvíanesi mun hann yfirleitt hafa haft hálfa jörðina eða því sem næst til ábúðar og var það meira jarðnæði en sambýlismenn hans, þeir Bjarni Ólafsson og Friðrik Verner Gíslason, höfðu þá til umráða (sjá hér bls. 37-38). Guðni keypti einn fjórða part úr jörðinni, tvö hundruð að fornu mati, árið 1891 eins og hér hefur áður verið greint frá (sjá bls. 14). Þann jarðarpart átti hann til dauðadags og síðan ekkja hans, Guðrún Sigurðardóttir, allt til ársins 1906 (sjá hér bls. 14). Er hún veðsetti þessa jarðeign sína árið 1899 fylgdi henni hús sem var 6 x 6 álnir að flatarmáli eða um það bil 14 fermetrar með porti og hálfgöflum úr timbri, alþiljað innan.[508] Í skuldabréfinu frá 1899 er tekið fram að hús þetta standi ekki á þeim parti úr túninu sem Guðrún átti heldur á sérstakri lóð sem sé 12 álnir, um 7,5 metrar, á hvorn veg.[509]
Valdimar Þorvaldsson frá Selárdal, sem orðinn var 22ja ára árið 1890, segir að á því ári hafi Guðni Egilsson byggt timburhús á gamla bæjarhlaðinu á Kvíanesi og það verið 6 x 6 álnir með lofti og porti, geymsla uppi en hjallur og geymsla niðri.[510] Stærðin á þessu húsi passar reyndar alveg við húsið sem ekkja Guðna veðsetti árið 1899 en samt er hæpið að þar hafi verið um sama hús að ræða. Húsið sem Guðrún veðsetti hefur varla mátt kallast timburhús þó það væri með hálfgöflum úr timbri eins og komist er að orði í skuldabréfinu. Þvert á móti bendir slíkt orðalag til þess að hliðarveggirnir hafi verið úr torfi. Húsið sem Guðrún veðsetti var líka alþiljað innan sem passar varla við timburhús þar sem neðri hæðin er að hluta til notuð sem hjallur.
Valdimar greinir reyndar líka frá því að árið 1892 hafi nokkur hluti baðstofu efri bæjarins á Kvíanesi verið byggður upp, frálaus í annarri stærð en með sama inngangi.[511] Þessi bygging var líka 6 x 6 álnir[512] með litlu herbergi undir loftinu sem haft var fyrir búr.[513] Í þessari baðstofu var hæðin frá gólfi og upp í mæni um það bil 4,5 metrar, að sögn Valdimars.[514] Hann nefnir ekki hver af bændunum þremur byggði hina frálausu baðstofu árið 1892 en líklegast er að það hafi verið Guðni því Bjarni Ólafsson mun hafa búið í neðri bænum (sjá hér bls. 45) og Friðrik Verner var bæði orðinn gamall og á nástrái að heita mátti (sjá hér bls. 37-38).
Ætla verður að það hafi verið þetta hús sem Guðrún Sigurðardóttir veðsetti árið 1899 því fyrst það var frálaust við gamla bæinn eins og Valdimar tekur fram gæti lóð þess vel hafa verið afmörkuð með þeim hætti sem áður var nefnt og það þótt inngangur í báðar baðstofurnar, þá gömlu og hina nýju, væri sameiginlegur.
Í frásögn Þórðar Sigurðssonar, bónda í Neðri-Breiðadal í Önundarfirði, af veru sinni í Súgandafirði vorið 1887 sést að hjónin Guðni og Guðrún bjuggu þá í efri bænum á Kvíanesi.[515] Þórður var á Suðureyrarmölum við sjóróðra þetta vor og greinir frá ferð sinni norður á Ísafjörð til að sækja beitusíld. Hann kom gangandi til baka yfir Botnsheiði og bar síldina í kassa á bakinu eins og þá tíðkaðist.[516] Með honum var Rósinkranz Rósinkranzson frá Tröð í Önundarfirði. Þórður fór svangur af stað frá Ísafirði og segir frá komu þeirra að Kvíanesi með þessum orðum:
Svo var haldið áfram þar til við komum að Kvíanesi. Þá bjuggu í efri bænum Guðni Egilsson og Guðrún Sigurðardóttir, foreldrar Veturliða í Vatnadal og þeirra systkina. Við Rósi fórum inn þangað og fengum þar mjólkurgraut og mjólk út á og man ég ekki að ég hafi nokkurn tíma orðið jafn feginn að fá mat.[517]
Þegar Guðni Egilsson hóf búskap á Kvíanesi, 28 ára gamall, vorið 1886 var hann félítill og tveimur árum síðar var bústofn hans aðeins sjö ær, fjórir gemlingar og einn hestur.[518] Vorið 1891 var hann hins vegar kominn með leigufæra kú og einnig kvígu.[519] Þá voru fullorðnar sauðkindur á búi hans orðnar 14 og svo átti hann 13 gemlinga og hest.[520] Ljóst er að á fyrstu fimm árunum sem Guðni bjó á Kvíanesi hefur hann náð að koma undir sig fótunum og var árið 1891 orðinn sæmilega bjargálna. Af 22 bændum, sem þá bjuggu í Suðureyrarhreppi, voru 8 ríkari að lausafé en hann en 13 fátækari.[521]
Á búskaparárum sínum á Kvíanesi var Guðni stundum við sjóróðra í Bolungavík (sjá hér Bær) en mun annars hafa róið frá Suðureyri. Vera má að hann hafi stundum verið í skiprúmi norður í Bolungavík á vetrarvertíðinni en róið frá Suðureyri á vorin. Með því móti gat hann helst náð að styrkja efnahaginn því lítið var um sjóróðra innsveitarmanna frá Suðureyri að vetrinum á þessum árum (sjá hér Suðureyri).
Á Suðureyri hófst vorvertíðin um páska og á árunum 1894 og 1895 mun Guðni oft hafa verið formaður á sexæring Jóhannesar Hannessonar, bónda og hreppstjóra í Botni, en sá bátur bar nafn eigandans og hét Jóhannes.[522] Að svo hafi verið sést í dagbók Einars Jónssonar á Suðureyri en hann skrifar meðal annars þetta
6.4.1894: Jóhannes Hannesson færði sig í verið eða Guðni á Kvíanesi, hvor sem talinn er fyrir.
26.4.1894: Við Jón minn [Einarsson] fórum á sjó með Guðna og Jóhannesi.
11.3.1895: Guðni á Kvíanesi og þeir innsveitungar komu og fóru á sjó.[523]
Tveimur dögum síðar, 13. mars 1895, segir Einar svo að Jóhannes Hannesson hafi farið á sjó með Guðna sem sjöundi maður.[524]
Fróðlegt er að skoða úttekt Guðna bónda á Kvíanesi hjá Ásgeirsverslun árið 1894 en hún nam á því ári liðlega 200,- krónum.[525]
Skrá yfir úttekt Guðna á matvælum og munaðarvöru þetta ár lítur svona út:
Bankabygg ……………….. 500 pund ……………. kr. 57,50
Rúgmjöl ……………………. 350 pund ……………. kr. 32,00
Hrísgrjón ………………….. 205 pund ……………. kr. 22,55
Kandís ……………………….. 54 pund ……………. kr. 19,44
Rjól (neftóbak) ……………… 9 pund ……………. kr. 13,50
Kaffi ………………………….. 11 pund ……………. kr. 13,20
Rúgur ……………………….. 150 pund ……………. kr. 11,75
Steinolía …………………….. 47 pund ……………. kr. 7,52
Kaffirót ………………………… 8 pund ……………. kr. 4,00
Rulla (munntóbak) ….. 125 grömm ……………. kr. 0,50
Skonrok …………………….. 2½ pund ……………. kr. 0,50
Kex ……………………………… 2 pund ……………. kr. 0,40
Samtals …………………………………………………… kr. 182,86[526]
Auk þessa tók Guðni út lítilræði af timbri, nöglum og álnavöru[527] en athygli vekur að hann sleppir brennivíninu.[528] Eina flösku af því hafði hann þó fengið sér tveimur árum fyrr og kostaði hún 75 aura.[529]
Á móti úttekt Guðna árið 1894 kom, eins og vænta mátti, einkum fiskur og kjöt. Á þessu ári lagði hann inn hjá versluninni 374 pund af kjöti og fékk fyrir það 74,80 kr. eða 20 aura fyrir hvert pund.[530] Af fiski lagði hann inn einn og hálfan hásetahlut og fékk fyrir hann 55,22 kr. og svo 11,00 kr. fyrir 44 pund riklingi.[531] Sú staðreynd að Guðni leggur inn í reikning sinn einn og hálfan hásetahlut af fiski bendir til þess að hann hafi verið formaður vorið 1894 sem kemur heim við það sem hér var áður sagt (sbr. Suðureyrarhreppur, inngangskafli). Hvort fiskinnleggið var mælt í pundum er svolítið óljóst en vísbendingu gefur að árið 1893 greiddi Ásgeirsverslun 7 aura fyrir pund af saltfiski[532] og 1894 4 aura fyrir pund af fiski sem líklega hefur verið blautfiskur.[533] Árið 1894 lagði Guðni bóndi á Kvíanesi líka inn lítilræði af ull og er þá allt talið sem verslunin fékk frá honum.[534] Í byrjun ársins skuldaði hann versluninni 26,37 kr. en við lok þess 79,10 kr.[535] Skuldin hafði því hækkað um 52,73 kr. en almennt kýrverð í Ísafjarðarsýslu var árið 1894 um það bil 110,- krónur.[536]
Pistli þessum um búskap Guðna Egilssonar hér á Kvíanesi ljúkum við með með frásögn af því er hann mætti skrímsli sem talið var að ætti sér bústað í Nautaskál (sjá hér bls. 7). Óvættinni mætti hann fremst á Kvíanesdal er hann var einu sinni sem oftar að koma úr Önundarfirði yfir Grímsdalsheiði[537] og segir Kristján G. Þorvaldsson frá á þessa leið:
Kringum 1890 bjó sá maður á Kvíanesi sem Guðni hét Egilsson. Hann var eitt sinn að koma vestan úr Önundarfirði og þegar hann beygði af heiðinni niður í Mjósund sá hann stórt dýr koma frá Nautaskál og stefna í veg fyrir sig. Virtist honum það á lengd við tvo hesta.
Hann hraðaði sér sem mest hann mátti til að reyna að komast fram hjá því. Þegar hann sá að ekki varð undankomu auðið nam hann staðar og hugði að búast til varnar. Poka hafði hann bundinn á bak sér og var í honum lítill kútur með brennivíni. Dró hann pokann svo að hann gat skorið fyrir divika kútsins og náð sér í hressingu undir bardagann en gaf þó dýrinu jafnframt auga. Sá hann að það nam staðar um leið og hann en sneri svo til baka sömu leið og það kom. Talið var að þetta hefði verið skrímslið úr Nautaskál.
Guðni var maður afrendur að afli og fullhugi hinn mesti, þéttur á velli og þéttur í lund. Hann flutti frá Kvíanesi að Bæ og drukknaði með Sturlu Jónssyni á Stað 28. febrúar 1898.[538]
Þriðji bóndinn á Kvíanesi á árunum kringum 1890 hét Bjarni Ólafsson og var hann sambýlismaður Friðriks Verners Gíslasonar og Guðna Egilssonar. Bjarni fæddist á Hvilft í Önundarfirði 26. ágúst 1850 og var lausaleiksbarn Ólafs Árnasonar og Kristínar Sveinsdóttur sem þá voru vinnuhjú á Hvilft.[539] Foreldrar Bjarna gengu í hjónaband haustið 1853 og bjuggu um skeið á Görðum í Önundarfirði (sjá hér Garðar). Þar var Bjarni hjá móður sinni, búandi ekkju, árið 1870 en faðir hans hafði andast haustið 1858.[540]
Haustið 1880 var Bjarni þrítugur vinnumaður hjá Friðriki Verner hér á Kvíanesi[541] en Jóhannes Hannesson, stjúpsonur Friðriks, var þá nýlega kvæntur systur Bjarna, Guðrúnu Ólafsdóttur[542] (sbr. hér Botn). Þann 30. október 1881 gekk Bjarni að eiga unnustu sína, Helgu Jónínu Jónsdóttur, sem var þremur árum yngri en hann,[543] og á jóladag það sama ár fæddist hér fyrsta barnið sem þau eignuðust.[544] Helga var dóttir hjónanna Jóns Sveinssonar og Járngerðar Indriðadóttur sem bjuggu lengi í Fremri-Breiðadal og síðan á Hvilft í Önundarfirði frá 1861[545] (sbr. hér Fremri-Breiðadalur og Hvilft). Hún mun hafa alist upp hjá foreldrum sínum í Fremri-Breiðadal og á Hvilft.[546]
Um það leyti sem Bjarni gekk í hjónaband virðist hann hafa haft svolítil auraráð því að 16. júní 1881 keypti hann sér föt sem kostuðu tíu krónur[547] eða sem svaraði kaupi fyrir fjögur dagsverk um heyannir.[548] Á fyrri hluta ársins 1881 leyfði hann sér líka ýmsan annan munað og keypti þá m.a. fimm flöskur af brennivíni og eina rommflösku.[549] Á sama misseri fékk hann sér líka fína peysu, sem kostaði tíu krónur, pund af súkkulaði, spegil, reykjarpípu og þó nokkuð af reyktóbaki.[550]
Fardagaárið 1880-1881 voru þau Bjarni og Helga bæði vinnuhjú hér á Kvíanesi og einnig næst ár en vorið 1882 færðu þau sig í Önundarfjörð og urðu vinnuhjú á Görðum.[551]
Seinna voru þau eitt ár í húsmennsku á Eyri í Önundarfirði[552] og þaðan komu þau aftur hingað að Kvíanesi vorið 1886 og hófu búskap.[553] Mágur Bjarna, Jóhannes Hannesson, fluttist sama vor frá Kvíanesi að Botni[554] og mun Bjarni hafa fengið til ábúðar jarðarpartinn sem Jóhannes hafði áður. Nær fullvíst má einnig telja að þau Bjarni og Helga hafi flust inn í bæinn sem Jóhannes fór úr en það var neðri bærinn[555] því Guðni Egilsson var sannanlega í efri bænum (sjá hér bls. 41-42) og Friðrik gamli Verner hefur varla farið að flytja sig hingað niður eftir. Þennan bæ hafði Jóhannes reist um 1880 og stóð hann yst og neðst í túninu, þar sem Lénharðarstaðir voru áður (sjá hér bls. 17) og nú (1996) er gamall sumarbústaður.[556]
Bænum sem Jóhannes byggði upp á árunum kringum 1880 lýsir Valdimar Þorvaldsson svo:
Hann sneri upp og ofan, dyrnar út við neðri gaflinn. Göngin voru aðeins í gegnum vegginn. Stærðin var 9 x 14 fet [um 12,4 fermetrar] með lofti. Alþiljað með skarsúð uppi. Undir loftinu var lítið herbergi, þiljað, til hægri þá inn var komið.[557]
Að sögn Valdimars voru önnur hús að bæjarbaki og fjárhús á dreif um túnið. Þetta var neðri bærinn á Kvíanesi og mun lengi hafa staðið auður er Jóhannes hófst handa við að byggja hann upp því Friðrik Verner bjó einn á allri jörðinni frá 1863-1883 og á því skeiði var hér sjaldan húsfólk uns nýnefndur Jóhannes fór að bolloka í húsmennsku með konu sinni árið 1882.[558] Líklegt er hins vegar að Pétur Borgarsson, sem var húsmaður á Kvíanesi í um það bil tíu ár um miðbik 19. aldar (sjá hér bls. 27 og 29-30), hafi hafst við í neðri bænum ásamt konu sinni og börnum.
Þegar hjónin Bjarni Ólafsson og Helga Jónsdóttir hófu búskap á Kvíanesi vorið 1886 náði Bjarni að komast í bændatölu en áður voru þau jafnan vinnuhjú eða í húsmennsku.[559] Með Bjarna og konu hans fluttust hingað að Kvíanesi þrír synir þeirra, sá elsti fjögra ára, en á þrettán árum, árunum 1881-1894, náði Helga að ala manni sínum ellefu börn.[560] Þrjú þeirra fæddust andvana en átta náðu að líta dagsins ljós.[561]
Fardagaárið 1888-1889 hafði Bjarni rösklega þriðjung úr jörðinni til ábúðar, það er þrjú hundruð að fornu mati.[562] Þremur árum síðar var jarðnæði hans hið sama[563] og má telja líklegt að hann hafi búið á þessum þremur hundruðum öll búskaparár sín á Kvíanesi.
Ef marka má tíunarskýrslu frá árinu 1888 bjó Bjarni þá með eina kú, sem ekki var leigufær, þrjár ær og tvo gemlinga.[564] Þetta var allt hans búfé og tvær af ánum voru reyndar leiguær sem fylgdu jarðarpartinum er hann hafði til ábúðar.[565] Vorið 1891 var kýr þessa fátæka bónda enn óleigufær en kindunum hafði fjölgað úr fimm í tólf því nú voru ærnar sex og gemlingarnir líka.[566] Engan bát átti Bjarni, hvorki 1888 né 1891,[567] en líklegt má telja að hann hafi verið í skiprúmi hjá mági sínum, Jóhannesi Hannessyni, hreppstjóra í Botni.
Í byrjun þorra árið 1894 var bóndi þessi á Kvíanesi búinn að missa heilsuna og var þá einlægt við rúm vegna brjóstveiki.[568] Þau Bjarni og Helga, kona hans, voru þá á sínu áttunda búskaparári hér á Kvíanesi en voru enn sveitföst í Mosvallahreppi. Á útmánuðum þessa vetrar munu líkurnar á því að Bjarni kæmist aftur til heilsu hafa farið minnkandi og um miðjan mars sendi hreppsnefnd Suðureyrarhrepps hreppsnefndinni í Mosvallahreppi bréf sem hljóðar svo:
Hér með kunngjörist yður að bóndinn Bjarni Ólafsson á Kvíanesi hér í hreppi hefur verið veikur í vetur og hefur honum verið rétt hjálparhönd af mörgum, þó án endurgjalds. Efnahagur hans var mjög bágur og er það enn og lítill bati á veikleika hans. Sem yður er kunnugt á hann sveit í Mosvallahreppi og er því vinsamleg bón okkar að þér hjálpið honum um lífsbjörg úr ukkar sveitarsjóði eða að öðrum kosti að taka hann til ukkar ásamt konu hans og þremur börnum og svo er hún ólétt og eru ástæður hans yfir höfuð mjög bágstaddar og óskum vér undirskrifaðir að fá svar það fyrsta að hægt er.[569]
Er þetta bréf var skrifað var Helga, húsfreyja á Kvíanesi, komin á steypirinn því yngsta barn hennar og Bjarna fæddist fjórum dögum síðar.[570]
Þann 9. júní 1894 hafði enn ekkert svar borist við bréfinu sem hér var kynnt og ritaði hreppsnefnd Suðureyrarhrepps þá annað bréf til sama viðtakanda og ítrekaði þar hina fyrri málaleitan. Í því bréfi segir meðal annars:
Mjólk úr 6 ám hefur hann sér og sínum til framfæris og annað ekki nú sem stendur. Ekki myndum við þverlega neita því að hann fái að dvelja hér fyrst um sinn en þó með þeim skilmála að frá 1894 verði Bjarni Ólafsson á Kvíanesi ásamt konu sinni og börnum talinn tilheyra Mosvallahreppi hvað sveitfesti snertir en frá skilinn sveit Suðureyrarhrepps í því efni.[571]
Skömmu eftir viðtöku þessa bréfs svaraði hreppsnefnd Mosvallahrepps erindinu og mæltist til þess að Bjarni og hans nánustu fengju að vera um kyrrt á Kvíanesi, fyrst um sinn að minnsta kosti.[572] Hún greiddi þá líka þær liðlega 20,- krónur sem Bjarna höfðu verið lagðar til úr sveitarsjóði Suðureyrarhrepps.[573] Jafnframt óskaði hreppsnefndin í Mosvallahreppi eftir því að hún yrði fyrirfram látin vita ef þörf yrði talin á að greiða einhverja stóra upphæð vegna hins bjargarlitla heimilis á Kvíanesi.[574]
Vegna þessara tilmæla sendi hreppsnefnd Suðureyrarhrepps nefndinni í Mosvallahreppi strax áætlun um væntanleg útgjöld á tímabilinu frá 1. júlí til 8. september. Þarfir Bjarna og fjölskyldu hans í þessar 10 vikur töldust vera:
- 3 pund kaffi, 2 pund rót, 20 pund kandís.
- 200 pund mjöl, 100 pund bankabygg, 100 pund hálfgrjón.
- Skóleður 3 pund.
- 3 flöskur af kínalífseleksír.[575]
Til skýringar með þessari áætlun lét nefndin fylgja svohljóðandi athugasemd:
Athuga að sykrið er að sönnu í fljótu áliti nokkuð mikið en af því er brúkað saman við vatnsblandið fyrir barnið. Ósk þeirra hjóna er að mjölið væri minna en þau fengju heldur eina vætt af fiskætum. Óvíst hvort það er hér fáanlegt þó að væru peningar boðnir. Þar að auki gjörum vér fyrirspurn til hinnar heiðruðu hreppsnefndar hvort hún ætli að láta kosta upp á eldiviðarskurð fyrir Bjarna Ólafsson. Svo virðist okkur að börnin og konan þurfi með að fá léreftsbót og fleira.[576]
Nú var þess skammt að bíða að hinn brjóstveiki bóndi á Kvíanesi, sem orðinn var þurfamaður, tæki síðustu andvörpin því hann andaðist 30. júlí þetta sama sumar.[577]
Árið 1894 var Jóhannes Hannesson í Botni, mágur Bjarna, oddviti hreppsnefndarinnar í Suðureyrarhreppi og 3. ágúst á því ári ritaði hann hreppsnefnd Mosvallahrepps bréf er hann orðaði svo:
Hér með tilkynnist hinni heiðruðu hreppsnefnd Mosvallahrepps að bóndinn Bjarni Ólafsson á Kvíanesi andaðist á heimili sínu þann 30. júní [misritun fyrir 30. júlí – innsk. K.Ó.]. Ég undirskrifaður fór út að Suðureyri að fá líkkistu utan um hann. Þegar ég kom þangað var herra Kristjáni [Albertssyni] ómögulegt að hjálpa um kistuna vegna heimilisástæðna hans … en hann ráðlagði mér að fara út að Gelti og fá líkkistu sem var eign Sigurborgar Bergsdóttur en var geymd hjá Kristjáni. Ég fór þangað og fékk kistuna með þeim skilmála að Kristján smíðaði hana í sama formi það allra fyrsta og ætlar Kristján að gjöra það. Kistan kostaði 21,- krónu sem hin heiðraða hreppsnefnd verður að borga Kristjáni Albertssyni á Suðureyri í peningum eða jafn góða kistu að öllu leyti og færa hana að Gelti eða að Suðureyri í haust því með því móti var hún fáanleg.[578]
Að Bjarna látnum blasti við að flytja yrði ekkjuna og börnin sveitarflutningi á fæðingarhrepp hennar í Önundarfirði þar sem hún var sveitföst. Ekkjan, Helga Jónsdóttir, varð 41 árs gömul haustið 1894 og átti þá fimm börn á lífi.[579] Eitt þessara barna, Guðjón, sem var 9 ára, ólst alveg upp hjá föðursystur sinni, Guðrúnu Ólafsdóttur, og eiginmanni hennar, Jóhannesi Hannessyni, bónda og hreppstjóra í Botni.[580] Hin fjögur voru öll heima hjá foreldrum sínum er faðir þeirra andaðist en þau voru Kristján Helgi, 12 ára, Veturliði, 8 ára, Guðbjörg, 2ja ára, og Bjarni Benedikt sem var aðeins fjögurra mánaða gamall er hann missti föður sinn.[581]
Allan ágústmánuð sat ekkjan um kyrrt á Kvíanesi með börn sín og líka út september en um það leyti sem vetur gekk í garð var heimili þeirra hér á Kvíanesi leyst upp og þau flutt sveitarflutningi vestur í Önundarfjörð.[582] Sú ferð var farin 23. október 1894[583] og má telja fullvíst að leið fólksins hafi legið um Kvíanesdal og yfir Grímsdalsheiði. Til þess að bera yngstu börnin og fátæklegar eigur ekkjunnar réð hreppsnefnd Suðureyrarhrepps fimm karlmenn og eina konu.[584] Í þeim hópi var sjálfur oddvitinn, Jóhannes Hannesson í Botni, en líka þau Sveinbjörn Pálsson í Botni, Pétur Pétursson í Klúku, Friðrik Verner Gíslason á Kvíanesi, Guðni Egilsson á Kvíanesi og eiginkona hans, Guðrún Sigurðardóttir.[585] Í kaup fyrir ferðina fengu karlmennirnir greiddar þrjár krónur hver en Guðrún bara tvær krónur.[586]
Elsti sonur ekkjunnar, Kristján Helgi Bjarnason, mun ekki hafa farið vestur þennan sama dag, hvað sem valdið hefur, því að Pétur Pétursson í Klúku fékk auk fyrrnefndrar greiðslu borgaðar tvær krónur fyrir að fara með hann.[587] Heildarkostnaður við þessa þurfamannaflutninga varð því 19,- krónur og mun hreppsnefnd Mosvallahrepps hafa orðið að borga brúsann.
Í Önundarfirði var Helgu og börnum hennar ráðstafað á ýmsa bæi. Sjálf fór hún sem vinnukona að Kirkjubóli í Valþjófsdal, til Eyjólfs bónda Jónssonar, og fékk að hafa Guðbjörgu dóttur sína hjá sér.[588] Elsti sonurinn, Kristján Helgi, fór í Holt til séra Janusar Jónssonar, Veturliði til Finns Eiríkssonar á Kirkjubóli í Valþjófsdal og yngsta barnið, Bjarni Benedikt, sem var á 1. ári, fór til Guðmundar bónda Jóhannessonar í Mosdal.[589]
Börnin fimm, sem Helga Jónsdóttir og Bjarni Ólafsson á Kvíanesi áttu á lífi árið 1894, náðu öll að komast upp.[590] Sjálf varð Helga gömul kona. Árið 1901 var hún á Flateyri með Guðbjörgu dóttur sína en fluttist þaðan sjö árum síðar í Súgandafjörð.[591] Þessi fyrrum húsfreyja á Kvíanesi andaðist á Akranesi 10. desember 1935[592] og hafði þá verið ekkja í meira en fjörutíu ár.
Hér verður ekki gerð grein fyrir æviferli barnanna frá Kvíanesi sem flutt voru sveitarflutningi yfir Grímsdalsheiði um veturnætur árið 1894. Öll munu þau hafa orðið nýtar manneskjur sem sómi var að. Alþýðuskáldið Magnús Hjaltason, sem átti heima á Suðureyri í Súgandafirði á árunum 1911-1916, ritaði þá um tvo af sonum Bjarna Ólafssonar og Helgu Jónsdóttur, þá Bjarna og Veturliða. Umsagnir hans um þá eru dálítið ólíkar sem kynni að skýrast af því að um Bjarna ritaði Magnús aðeins í dagbók sína en um Veturliða skrifaði hann minningargrein sem birtist í blaðinu Vestra á Ísafirði.
Um Bjarna Benedikt Bjarnason, sem var yngsta barn foreldra sinna, ritar Magnús í dagbók sína 23. maí 1914 og kemst þá svo að orði:
Bjarni Bjarnason hét maður á Suðureyri í Súgandafirði um 21 árs gamall, Önfirðingur og uppalinn þar (í Önundarfirði) á hálfgerðum hrakningi og lítt var hann meiri á vöxt en drengir, 10-12 ára gamlir. Hafði og slasað sig á ljá um 9 ára aldur, voðalega á hendi. Mun það hafa dregið úr vexti hans og þreki, enda ákaflega máttlaus en kjark hafði hann nokkurn og „hroðalegan munn” … . Bjarni hafði komið úr Önundarfirði til Súgandafjarðar um vorið (1914). Hvorki var hann hygginn né heimskur og mátti í þeirri grein kalla hann „á milli húsgangs og bjargálna”.[593]
Veturliði Bjarnason átti líka heima á Suðureyri um skeið og var búsettur þar er hann andaðist úr blóðspýju 23. mars 1915, aðeins 28 ára gamall.[594] Um Veturliða, sem var kvæntur maður og átti þrjú börn er hann dó,[595] segir Magnús Hjaltason að hann hafi verið snyrtimaður um margt, skynbær vel sem systkin hans öll, hreinn í lund og umtalsfrómur.[596] Við þessa lýsingu á Veturliða bætir Magnús örfáum orðum og segir að orðtækið Skemmtinn maður er vagn á vegi hafi átt heima hjá honum.[597]
Vorið 1895 fékk ungur bóndasonur frá Bæ í Súgandafirði til ábúðar þann jarðarpart sem Bjarni Ólafsson hafði búið á hér á Kvíanesi.[598] Hann hét Jóhannes Guðmundsson og var fæddur í Bæ 27. júní 1862, sonur hjónanna Guðmundar Jóhannessonar, bónda þar, og konu hans, Kristínar Guðbrandsdóttur.[599] Frá foreldrum hans er sagt hér á öðrum stað (sjá Bær). Jóhannes kvæntist 12. nóvember 1893 og gekk þá að eiga unnustu sína, Guðrúnu Jónsdóttur (sjá hér Ytri-Vatnadalur og Bær), sem fæddist á Núpi í Dýrafirði 11. september 1866.[600] Foreldrar Guðrúnar voru Jón Jónsson og Sigríður Jónsdóttir sem þá voru bæði einhleyp vinnuhjú á Núpi.[601] Móðir Guðrúnar, Sigríður Jónsdóttir, var frá Tannanesi í Önundarfirði og giftist hún síðar Jóhannesi Albertssyni, bónda á Norðureyri (sjá hér Norðureyri).
Þau Jóhannes Guðmundsson og Guðrún, kona hans, komu hingað að Kvíanesi frá Bæ vorið 1895 en þar höfðu þau verið í húsmennsku næsta fardagaár á undan.[602] Á sínu fyrsta búskaparári bjó Jóhannes hér í þríbýli á móti Guðna Egilssyni og Friðriki Verner Gíslasyni en næstu þrjú ár, 1896 til 1899, bjuggu þeir Friðrik hér í tvíbýli.[603]
Frá 1899 var Jóhannes eini bóndinn á Kvíanesi og stóð svo allt til ársins 1918.[604] Lítið var um húsfólk á þessu skeiði en þó voru hér í húsmennsku á árunum 1900-1905 hjónin Pétur Pétursson og Guðfinna Pétursdóttir, sem áður voru í Klúku (sjá hér Botn, Klúka þar) og fylgdi þeim Pétur sonur þeirra sem fæddur var um 1880.[605] Magnús Hjaltason greinir frá því að á þessum árum hafi Pétur og Guðfinna hafst við á Bökkunum á Kvíanesi[606] og mun þá tvímælalaust eiga við neðri bæinn. Þau voru síðasta fólkið sem bjó í þeim bæ[607] (sbr. hér bls. 45 og 55).
Jóhannes Guðmundsson var í um það bil tvo áratugi eini bóndinn á Kvíanesi en mun þó sjaldan eða aldrei hafa haft alla jörðina til ábúðar. Árið 1902 nytjaði Kristján Albertsson á Suðureyri tvö jarðarhundruð hér á Kvíanesi[608] og mun það hafa verið sá partur úr jörðinni sem Guðni Egilsson keypti árið 1891 og ekkja hans seldi Kristjáni árið 1906 (sjá hér bls. 40 og Bær). Fasteignamatsskjöl frá árinu 1916 sýna hins vegar að þá átti Guðrún Þórðardóttir á Suðureyri, ekkja Kristjáns Albertssonar, hálft Kvíanes og nytjaði sjálf þann jarðarpart.[609] Jóhannes bjó þá á hinni hálflendunni, fjórum hundruðum að fornu mati, og átti þau hundruð.[610]
Bú Jóhannesar var í fyrstu smátt en stækkaði nokkuð síðar. Búskap sinn byrjaði hann með eina kvígu, fimm ær og þrjá gemlinga[611] en vorið 1901 var bústofn hans sem hér segir: Ein kýr, ein kvíga, ellefu ær, einn hrútur, sjö gemlingar og einn hestur.[612] Enginn bátur var þá til á Kvíanesi.[613]
Halldór Guðmundsson á Suðureyri, sem sá um fjárböðun í Súgandafirði haustið 1904, skrifaði mörgum áratugum síðar frásögn af því ferðalagi.[614] Hann segir þar að Jóhannes á Kvíanesi hafi átt um 60 sauðkindur árið 1904[615] en líklegt verður að telja að sú tala Halldórs sé til muna of há þó að vera kunni að ekki sé allt gefið upp í tíundarskýrslunni frá 1901 sem hér var áður vitnað til.
Halldóri var minnisstætt hversu allt var vel um gengið hjá Jóhannesi og Guðrúnu á Kvíanesi[616] og segir að þau hafi átt fallegt bú þó lítið væri, enda hafi Jóhannes verið hinn mesti hirðu- og þrifamaður og alltaf komist vel af með sína fjölskyldu.[617]
Þessi orð Halldórs koma prýðilega heim við lýsingu Gunnars M. Magnúss á þessum sömu hjónum. Hann segir að Guðrún Jónsdóttir, húsfreyja á Kvíanesi, hafi verið dugleg og framtakssöm, rösk og ákveðin í framgöngu[618] en bónda hennar lýsir hann svo:
Jóhannes var hægur í fasi, notinvirkur og snyrtimenni hið mesta. Þegar hann kom til Suðureyrar, gangandi í kaupstaðarferð, var því líkast sem þar kæmi hirðmaður og væri að sýna hefðarmennsku herra síns.[619]
Foreldrar Jóhannesar, þau Guðmundur Jóhannesson og Kristín Guðbrandsdóttir, fluttust til hans frá Bæ hingað að Kvíanesi árið 1896 og áttu hér síðan heima til dauðadags en Guðmundur andaðist árið 1912 og Kristín tveimur árum síðar.[620] Jón Jónsson, faðir Guðrúnar húsfreyju, var líka á Kvíanesi árið 1913, sagður 77 ára gamall, en fór héðan 1914 að Selárdal til annarrar dóttur sinnar sem líka hét Guðrún og var hálfsystir Guðrúnar á Kvíanesi.[621] Þessi gamli maður dó í Selárdal 4. júní 1919.[622]
Þau Jóhannes og Guðrún á Kvíanesi komu upp fimm börnum.[623] Elst þeirra var Albertína, fædd 19. september 1893 (sjá hér Ytri-Vatnadalur). Á gamals aldri svaraði hún mörgum spurningum þjóðháttadeildar Þjóðminjasafns Íslands um lífshætti fólks á Kvíanesi og annars staðar í Súgandafirði á uppvaxtarárum hennar. Er þar margan fróðleik að finna en hér verða aðeins nefnd örfá sýnishorn. Hún var beðin að lýsa rúmbotni í baðstofurúmi og svaraði: Neðst voru fjalir og í mínu ungdæmi var haft lyng á fjölunum og ofan á því heydýna. Torf kannast ég ekki við til þeirra nota. … Ofan á dýnuna var breidd voð úr vaðmáli, rekkjuvoð.[624]
Eftir ferminguna kvaðst Albertína hafa keypt sér fiðursæng og andvirði hennar verið ein dilkær.[625] Töfl og spil þekkti hún ekki í bernsku en kynntist slíku um fermingaraldur.[626] Í barndómi hennar var hins vegar iðkað að geta gátur og kveðast á.[627] Árið um kring var farið á fætur klukkan 6 að morgni en farið að hátta um klukkan 10 að kvöldi nema á vorin og sumrin, þá var vakað lengur.[628] Hver maður las morgunbæn fyrir sig og er fólk kom út á morgnana signdi það sig mót austri.[629] Á jólanótt fengu börnin að sofa í jólafötunum.[630]
Á sínum uppvaxtarárum heyrði Albertína minnst á dæmi þess að tólg eða rauðmagalifur hefði verið sett í strokkinn til að drýgja rjómann er strokkað var smjör.[631] Hún var beðin að lýsa smjörumbúðum og svaraði að bragði: Sköturoð verkað til þeirra nota.[632] Skyr sem hleypt var í súrri mjólk sagði hún hafa verið kallað graðhestaskyr en skyrmysa jafnan verið nefnd drukkur.[633] Bein sem lögð voru í sýru og ætluð til matar kölluðust beinastrjúgur hér á Kvíanesi.[634]
Á Albertínu Jóhannesdóttur leist Magnúsi Hjaltasyni vel. Vorið 1913 var hún tæplega tvítug heimasæta á Kvíanesi en hann nær fertugur verkamaður á Suðureyri, sveitarskáld og dagbókarskrifari. Þann 22. maí á því ári ritar ljóðasmiðurinn í dagbók sína:
Skrifaði ég Albertínu Jóhannesdóttur, ungfrú á Kvíanesi, og gaf henni þar með mynd af mér frá því ég var 23ja ára. Albertína var um tvítugt, sjáleg mjög, viðfelldin og tillagagóð, allhyggin og styrk að afli.[635]
Um hana orti Magnús líka þessa vísu:
Albertína er eins og ljós,
eykur dyggða gróða,
mæta blómgvar menntarós
meyjan hjartagóða.[636]
Albertína giftist árið 1914 Guðna J. Þorleifssyni frá Norðureyri[637] og vorið 1918 fóru þau að búa hér á Kvíanesi í tvíbýli á móti foreldrum hennar.[638] Að því sinni voru þau á Kvíanesi í tvö ár.[639] Fardagaárið 1920-1921 voru Jóhannes og Guðrún, kona hans, einu ábúendurnir á þessari jörð en það varð þeirra síðasta búskaparár því vorið 1921 fluttust þau frá Kvíanesi að Suðureyri og höfðu þá búið hér í 26 ár.[640] Líklega hefur Jóhannes bóndi Guðmundsson verið orðinn heilsulítill er hann fór frá Kvíanesi því hann andaðist á Suðureyri 21. desember 1921 úr langvinnu lungnakvefi.[641] Guðrún Jónsdóttir, eiginkona Jóhannesar, lifði talsvert lengur.[642]
Við brottför Jóhannesar og Guðrúnar vorið 1921 fór Kvíanes í eyði en einu ári síðar hófu þau Albertína, dóttir nýnefndra hjóna, og eiginmaður hennar, Guðni J. Þorleifsson, búskap hér á ný og bjuggu á jörðinni allt til ársins 1927.[643] Við brottför Guðna og Albertínu frá Kvíanesi vorið 1927 fór jörðin í eyði og hér hefur enginn búið síðan þá.
Síðustu ábúendurnir á Kvíanesi fluttust að Botni og bjuggu þar lengi í efri bænum (sjá Firðir og fólk 1900-1999, 446-447). Gunnar M. Magnúss segir að Guðni hafi verið góð skytta og mikill ferðamaður, enda muni hann hafa þekkt fjöllin við Súgandafjörð betur en nokkur annar.[644] Um Albertínu segir Gunnar að hún hafi verið létt og kát, mælsk og haft gaman af ljóðum en vinnusöm og aldrei slegið slöku við.[645]
Þó að Kvíanes færi í eyði árið 1927 hefur jörðin löngum verið nytjuð að meira eða minna leyti. Á fjórða og fimmta áratug þessarar aldar fengu ýmsir fjáreigendur, sem búsettir voru í þorpinu á Suðureyri, að heyja á Kvíaneshlíð[646] og á síðari árum hefur jörðin verið nytjuð frá nýbýlinu Birkihlíð og Botni (sjá hér Firðir og fólk 1900-1999, 446-447).
Allt gamla Kvíanestúnið er nú búið að slétta og rækta upp á nútímavísu. Hér er því lítið eftir af tóttum frá fyrri tíð. Við stöldrum samt enn við á hólnum þar sem bærinn stóð, sá sem síðast var búið í (sjá hér bls. 6), en ætla má að það bæjarstæði sé mjög gamalt.
Um bæinn sem hér stóð á árunum kringum 1890 segir Valdimar Þorvaldsson að hann hafi verið aðalbærinn á Kvíanesi og staðið innantil í miðju túninu.[647] Að sögn Valdimars sneru bæjardyrnar niður að sjónum og frá þeim lágu göngin beint inn.[648] Baðstofan sneri út og inn og var grunnflötur hennar um það bil 2,5 x 5.65 metrar[649] eða því sem næst 14 fermetrar. Hún var lág og þröng en með lofti sem var vel þiljað og með skarsúð.[650] Undir baðstofuloftinu var eldhús til hægri þegar gengið var inn göngin en til vinstri var lítið þiljað herbergi.[651] Hér hefur áður verið lýst baðstofunni sem byggð var upp úr hluta af þessu gamla húsi árið 1892 (sjá hér bls. 40-41) og nýjum bæ sem Jóhannes Hannesson reisti á gömlu bæjarstæði yst og neðst í túninu á árunum kringum 1880 (sjá hér bls. 45-46).
Árið 1916 virðast jarðarhús hér á Kvíanesi hafa verið með líku sniði og áður. Á hálflendunni sem Jóhannes Guðmundsson átti og bjó á stóðu þá þessar byggingar: Baðstofa, fjós, eldiviðarskúr, tvær hlöður, tvö fjárhús og svo hesthús.[652] Þessi hús voru þá virt á 300,- kr. en auk þess stóðu hér önnur hús, sem Jóhannes átti, og voru þau virt á 100,- kr.[653] Fasteignamatsnefndin getur líka um hús er Guðni J. Þorleifsson, tengdasonur Jóhannesar, átti hér á Kvíanesi og var það virt á 45,- kr.[654] Óljóst er hvaða hús þetta hefur verið. Á hinni hálflendunni, sem Guðrún Þórðardóttir á Suðureyri átti 1916, stóðu þá hús sem voru virt á 200,- kr.[655] og má ætla að það hafi verið gamli neðri bærinn og útihús sem honum fylgdu. Jörðin Kvíanes var árið 1916 virt á 1.200,- kr. en hús sem hér stóðu á 645,- kr.[656] Ljóst er að um þetta leyti hafa húsakynni fólksins á Kvíanesi verið heldur bágborin því að á engu byggðu bóli í Súgandafirði var samanlagt virðingarverð bæjarhúsa og húsa í eigu ábúanda lægra en á Kvíaneshálflendunni sem Jóhannes og Guðrún bjuggu á.[657] Vera má að þau hjónin hafi haft einhver afnot af húsum sem fylgdu hinni hálflendunni og enn voru virt á 200,- kr. en árið 1916 voru þó liðin a.m.k. ellefu ár frá því búið hafði verið í neðri bænum (sjá hér bls. 51).
Engin ummerki um gömlu bæina eru nú sjáanleg á Kvíanesi en örfáar útihúsatóttir eru hér enn og kvíarnar sem áður var gerð grein fyrir (sjá hér bls. 5). Ofan við akveginn sem nú (1996) er farið um blasir við allstór tótt af húsi sem staðið hefur efst í gamla túninu og mun hafa verið hrútakofi.[658] Handan við Kvíanesána, sem fellur hér rétt innan við túnið, er svo gömul smiðjutótt, beint inn af Bæjarhólnum[659] og er hún býsna heilleg. Nærri lætur að tótt þessi sé 3,3 x 2,5 metrar að flatarmáli. Að sögn Kristjáns G. Þorvaldssonar var hér smiðja Friðriks Verners Gíslasonar[660] en hann bjó á Kvíanesi frá 1862-1899 (sjá hér bls. 34-39). Fólkið sem síðast bjó á Kvíanesi hafði þar hjall.[661]
Hinn gamli bæjarlækur, sem rann skammt frá efri bænum, sést nú ekki lengur hér í túninu því farvegi hans var lokað fyrir mörgum áratugum.[662] Lækur þessi var í raun lítil kvísl úr Kvíanesánni og rann út með Bæjarhól … og niður með honum.[663] Túnlækur sem var önnur kvísl úr meginánni fellur hins vegar enn í sínum gamla farvegi við ytri jaðar túnsins[664] (sbr. hér bls. 58).
Efsti skikinn á gamla túninu lá á fyrri tíð milli Bæjarlækjar og Túnlækjar og var nefndur Aukatún.[665] Neðan við það voru áður fjárhús, yst í túninu og neðan við þau Fjárhúsflöt.[666] Brekkan niður af henni bar nafnið Halli en síðan komu í þessari röð, talið að ofan og niðureftir, Lambhúshóll, Lambhúsflöt og svo Leiguhúsbrekka ofan við neðri bæinn sem stóð yst og neðst í túninu og var stundum nefndur Lénharðarstaðir[667] (sbr. hér bls. 16-18). Inn og niður af Lambhúshól var Lambhúshalli og innan og neðan við hann Smiðjuhóll sem var lítill.[668] Þar mun hafa staðið smiðja[669] sem líklegt er að hafi fylgt neðri bænum.
Túnskikinn sem náði frá Lénharðarstöðum, þar sem nú (1996) er gamall sumarbústaður, og inn að Bæjarlæknum, sem horfinn er, var nefndur Bakkapartur[670] og niður af honum var vör, grafin upp í sjávarbakkana.[671]
Neðan við Aukatún, sem fyrr var nefnt, og við Bæjarlækinn, sem hér rann áður, var Hesthúshóll en utan við hann Langhóll og var lægð á milli þeirra.[672] Önnur lægð skildi Langhól frá Halla þeim sem hér var áður getið um.[673] Mörg þessarar gömlu örnefna gefa vísbendingu um hvar hin ýmsu útihús hafi staðið og innan við Bæjarhólinn var Fjóstunga sem lá upp með Hesthúshól og náði inn að á.[674] Lækjarspræna rann úr Bæjarlæk í ána og skildi tunguna frá Árdalsbarði sem er hér aðeins neðar og utan við árdalinn.[675]
Framan við gamla bæinn hér á Bæjarhólnum var Hlaðvarpinn en túnskikinn sem nær frá honum og niður að sjó heitir Bæjarpartur.[676] Innan við neðanverðan Bæjarpart er í túninu annar skiki sem heitir Oddi og liggur hann upp með árbakkanum.[677] Í Bæjarparti var áður steinn er menn nefndu Peningastein og var því trúað að undir honum væru peningar fólgnir í jörð.[678] Einhverju sinni fóru heimamenn hér á Kvíanesi að grafa holu inn undir steininn og hugðust ná í fjársjóðinn en þá brá svo við að þeim virtist bærinn á Gilsbrekku, hér handan við fjörðinn, standa í ljósum logum.[679] Viku þeir þá frá en sáu brátt að þetta var skynvilla og þegar þeir komu aftur að steininum var þar allt með sömu ummerkjum og það hafði verið áður en þeir hófu verkið.[680] Ekki er kunnugt um að reynt hafi verið síðar að grafa upp þennan fjársjóð.
Um miðbik tuttugustu aldar var Peningasteini lýst á þann veg að hann væri klofinn og nokkuð bil milli partanna.[681] Máske er það hann sem liggur nú (1996) í tvennu lagi á skurðbakka út og niður af Bæjarhól en innan við fyrsta skurðinn sem komið er að sé gengið frá sumarbústaðnum inn túnið.
Viðdvöl okkar í túninu á Kvíanesi lýkur senn. Við lítum til sólar frá gamla bæjarhólnum og sjáum hvað tímanum líður en eyktamörk hér á bæ eru sögð hafa verið þessi:
Dagmál: Svarthamrahorn.
Hádegi: Hádegishorn.
Nón: Nónhorn.
Miðaftann: Núpur.
Náttmál: Kleif.[682]
Öll eru þessi eyktamörk í landi Botns nema Kvíanesnúpurinn, sem gnæfir við himin hér rétt fyrir utan, og Kleif sem er í landi Suðureyrar.
Hér niðri á láglendinu eru landamerki jarðanna Kvíaness og Botns aðeins rétt innan við Kvíanestúnið en þau fylgja línu úr fjallinu Nautaskálarhorni, sem er innan við Kvíanesdal, og í þúfu á sjávarbökkunum innantil við Kvíanesána.[683] Neðst voru landamerkin um það bil 20 metrum fyrir utan ytri Klúkulækinn[684] sem féll til sjávar rétt utan við túnið í Klúku, gömlu hjáleigunni frá Botni, en þangað er skammur spölur frá Kvíanesánni. Yfir landamerkin förum við ekki að sinni því ætlunin er að líta næst á Kvíanesdalinn sem liggur hér beint upp af túninu og fer að opnast þegar komð er í liðlega 160 metra hæð yfir sjávarmáli.
Frá Bæjarhólnum röltum við samt fyrst inn að Kvíanesánni sem fellur með innri túnjaðrinum. Hún er oftast vatnslítil og því auðvelt að komast yfir hana. Upptök sín á hún fram undir dalbotninum og kemur fram af dalbrúninni nær beint upp af Bæjarhól en sveigir síðan lítið eitt inn á við. Við stiklum yfir ána og stöldrum við hjá gömlu smiðjutóttinni sem hér var áður getið (sjá bls. 55). Flötin neðan við tóttina heitir Smiðjuflöt en steinn, sem stendur skammt fyrir innan hana, Kirkjusteinn.[685] Sú var trú nokkurra að þar væri álfakirkja.[686] Upp af Kirkjusteini er Stórholt og fyrir ofan það Kjóamýri en í brekkunni inn og upp af henni er Langholt.[687]
Frá Kirkjusteini og smiðjutóttinni snúum við aftur að ánni. Lægðin sem hún fellur um hér innan við túnið heitir Árdalur og utan við hann er Árdalsbarð sem nær upp að Árklofa en sá staður var einnig nefndur Afhleypur.[688] Nafnið Árklofi á sér skýringu í því að þar klofnaði áin og út úr henni rann Bæjarlækurinn sem dálítið utar og neðar skiptist svo í Bæjarlæk og Túnlæk[689] (sbr. hér bls. 56).
Frá Bæjarhólnum á Kvíanesi og úr fjörunni neðan við túnið sjáum við brún Húsabrekku í dalsmynninu hér beint upp af túninu.[690] Skýring á nafninu mun vera sú að þegar komið var ofan af Kvíanesdal sáu menn fyrst til húsa á Kvíanesi af þessari brekkubrún. Vera má að nafnið Húsabrekka hafi áður verið notað um hlíðarbrekkuna ofan við túnið og neðan við fyrrnefnda brún[691] en á fyrri hluta tuttugustu aldar var það brúnin sjálf og landsvæðið ofantil við hana sem menn kölluðu Húsabrekku.[692]
Um hlíðina ofan við Kvíanestúnið lágu nokkrir götuslóðar og gátu menn valið þann sem best hentaði hverju sinni. Sumum þessara troðninga er enn hægt að fylgja, a.m.k. spöl og spöl, þegar gengið er upp hlíðina. Innan við ána var Hjallasneiðingur og lá frá Árklofa og upp á Hjalla (sjá hér bls. 59) en þeir eru innan við slægjulöndin ofan við brún Húsabrekku.[693] Miðsneiðingur lá upp á Miðsneiðingsbungu,[694] sem er innan við Seljahvamm, en bunga þessi og hvammurinn eru bæði ofan við brún Húsabrekku (sjá hér bls. 59). Sá lengsti þessara fornu götuslóða mun hafa verið Langisneiðingur en hann lá út og upp í Seljahvamm.[695] Ætla má að sumir þessara slóða hafi verið heybandsvegir því neðst á Kvíanesdal er dálítið slægjuland. Um Langasneiðing var mórinn úr gröfunum í Seljahvammi líka reiddur á hestum niður á tún.[696]
Skammt fyrir ofan brún Húsabrekku eru allmiklar slægjur og hér mun jafnan hafa verið heyjað á fyrri tíð. Þessi slægjulönd eru öll utan við ána en innsti parturinn, sem heitir Brekkupartur, nær alveg inn að henni.[697] Í Brekkuparti eða í nánd við hann eru a.m.k. tvær hringlaga tóttir og má ætla að þarna hafi verið sauðabyrgi en rústir þeirra kynnu síðar að hafa verið notaðar sem heystæði. Önnur þessara tótta er rétt utan við ána en hin 200 metrum utar eða þar um bil. Nærri lætur að ummál ytri tóttarinnar sé 7 metrar en mikið stórþýfi er umhverfis báðar þessar tóttir.
Utan við Brekkupart tekur við Grafarpartur og utan við hann Þorleifspartur.[698] Í þessum slægjulöndum heyjuðu fjáreigendur úr þorpinu á Suðureyri á árunum milli 1930 og 1940.[699] Heyið var þá sett í netaballa og því velt alla leið niður að sjó.[700] Það var síðan flutt á bátum út á Suðureyri.[701]
Fyrir utan Þorleifspart, er fyrr var nefndur, kemur slægjuland sem heitir Sund og liggja þau niður með innanverðri Miðsneiðingsbungu[702] sem er svolítil bungulaga hæð hér í gróðurlendinu. Ofan við hana er slægjublettur sem heitir Mosi.[703]
Fyrir utan Miðsneiðingsbungu er Seljahvammur[704] undir fjallinu Kvíanesnúp og liggur hvammurinn rétt fyrir utan sjálfan Kvíanesdalinn. Yst í Seljahvammi er gömul tótt sem eins og sjálft nafnið gefur til kynna að hér hafi heimafólk á Kvíanesi haft búsmala sinn í seli fyrir margt löngu. Þetta selhús virðist reyndar hafa verið í allra minnsta lagi, aðeins 1 x 2 metrar, en þó hefur maður getað legið þar inni. Grunnflötur kvíarinnar, sem er rétt hjá seltóttinni, er talsvert stærri, um það bil 2 x 3,5 metrar, svo í henni hefur verið hægt að mjólka um það bil 20 ær. Þessar tóttir eru nær beint á móti húsunum á Gilsbrekku, eyðibýlinu handan fjarðarins, en þó aðeins innar. Bletturinn umhverfis rústirnar heitir Seltún[705] og hér er land vel gróið. Skriðan, sem runnið hefur úr Núpnum niður í Hvamminn, heitir Seljahvammsskriða.[706] Utan við Seljahvamm er lítil hæð og heitir Seljahvammsbunga en þar fyrir utan er Djúpalaut ofan við Innri-Trogabungu,[707] sem einnig er nefnd Stórabunga og um er getið á öðrum stað í þessu riti (sjá hér bls. 4).
Frá hæðinni utan við Seljahvamm göngum við til baka, yfir hin fornu engjalönd, og upp á Litlubrekku sem er næsta brekka fyrir ofan Húsabrekku er fyrr var nefnd.[708] Frá brún Litlubrekku er gott að líta til fjalla.
Innan við dalinn er fjallið Nautaskálarhorn sem skilur að Kvíanesdal og Nautaskál.[709] Neðantil í því, innan og ofan við Brekkupart sem fyrr var nefndur, eru Hjallar. Utan við dalinn rís hið tignarlega fjall Kvíanesnúpur[710] og er brún hans í 632ja metra hæð yfir sjávarmáli. Efst í Núpnum eru svipmikil klettabelti en talsvert neðar er klettarönd sem einnig setur svip á þá hlið fjallsins er snýr til sjávar. Hillan ofan við þessa kletta heitir Breiðhilla og nær alveg út undir Trogagjá[711] sem hér hefur áður verið nefnd (sjá hér bls. 4). Héðan frá Litlubrekku sjáum við grasteiga neðan við Breiðhillu og heita þeir Breiðhilluteigar.[712] Hjallinn neðan við þá heitir Núpshjalli.[713] Framar í dalnum og á móts við Litlubrekku eru í Núpnum aðrir grasteigar sem heita Veturlönd og hefur grjótskriða skipt þeim í tvennt.[714] Gróin klettanef, hér dalmegin í Núpnum, heita Nef.[715]
Hér uppi á Litlubrekku er landið gróið en þegar kemur framar á dalinn minnkar gróðurinn. Við göngum nú upp með ánni og komum næst að Steinbrekku.[716] Uppi á henni er stór steinn er nefndur var Grettistak.[717] Ofan við Steinbrekku eru á leið okkar fram dalinn tvær litlar brekkur en síðan kemur stór brekka sem nær yfir hann þveran og heitir Girðisbrekka.[718] Enn framar er svo Mjósundabrekka, sem einnig nær yfir þveran dalinn, en framan við hana eru Mjósund.[719] Svo heitir fremsti hluti dalsins[720] en þar sveigir hann til suðausturs og mjókkar verulega.
Úr Mjósundum lá í fyrri daga alfaravegur upp á Grímsdalsheiði. Heiðin sjálf er örstutt milli brúna en hinum megin er dalur sem líklegt er að borið hafi nafnið Grímsdalur á fyrri öldum en heitir nú Garðadalur fyrir utan Hólsá, sem um hann fellur, en Hólsdalur innan við ána og er kenndur við jarðirnar Garða og Hól á Hvilftarströnd í Önundarfirði (sjá hér Hóll á Hvilftarströnd og Garðar ).
Í sóknarlýsingu sinni frá árinu 1839 nefnir séra Andrés Hjaltason á Stað Kvíanesdal reyndar Grímsdal og heiðina Grímsheiði[721] en líklegt verður að telja að þar sé um villu að ræða því þessi nöfn sjást hvergi í öðrum heimildum og séra Andrés var alveg nýkominn að Stað er hann samdi sóknarlýsinguna (sjá hér Staður). Rökin fyrir því að það sé fremur dalurinn vestan heiðar sem borið hafi nafnið Grímsdalur eru m.a. þau að þar er Grímshjalli rétt við dalsmynnið (sjá hér Garðar). Auk þess má benda á að sá dalur hlýtur, á öldum áður, að hafa verið nefndur einhverju nafni, sem nú er týnt, en ekki bara tvínefninu Hólsdalur og Garðadalur. Liggur þá beinast við að álykta að það nafn hafi verið Grímsdalur úr því að heiðin heitir Grímsdalsheiði. Kristján G. Þorvaldsson segir reyndar í örnefnalýsingu sinni að heiðin hafi ýmist verið nefnd Grímsdalsheiði eða Kvíanesheiði,[722] sem sjálfsagt er rétt, og má reyndar merkilegt kalla að nafnið Grímsdalsheiði skuli hafa varðveist, enda þótt heitið á dalnum, sem hún var kennd við, hafi tapast. Í rituðum heimildum sem varðveist hafa frá síðasta fjórðungi 19. aldar er fjallvegur þessi alltaf eða nær alltaf nefndur Grímsdalsheiði[723] svo ljóst er að nafnið hefur þá lifað góðu lífi á vörum fólks.
Árið 1782 hófust póstferðir um byggðir landsins og frá 1786 áttu bréfberarnir að vera fjórir, einn í hverjum landsfjórðungi.[724] Þann 15. desember 1796 lagði Ari Magnússon Vesturlandspóstur upp í póstferð frá Bessastöðum og kom tæpum mánuði síðar að Kirkjubóli í Langadal við Djúp.[725] Úr Vatnsfirði var hann fluttur á bát út í Arnardal og 19. janúar 1797 var honum fylgt frá Kvíanesi yfir Grímsdalsheiði í Önundarfjörð en viku síðar var hann kominn að Haga á Barðaströnd.[726]
Þann 1. mars 1890 ákvað hreppsnefnd Suðureyrarhrepps að leita eftir fjárveitingu úr sýslusjóði til vegabóta innan hreppsins og á nokkrum helstu alfaraleiðum úr Súgandafirði til næstu byggðarlaga. Í samþykktinni, sem þá var bókuð, er bent á nauðsyn þess að varða vel leiðina yfir Grímsdalsheiði og tekið fram að yfir þá heiði þyrfti að vera svo góður vegur … að farið yrði með hesta (sjá hér Suðureyrarhreppur, inngangskafli). Þegar þessi samþykkt var gerð var Kristján G. Þorvaldsson frá Selárdal í Súgandafirði á níunda ári en 59 árum síðar greindi hann svo frá að fjallvegurinn yfir Grímsdalsheiði hafi aldrei verið reiðfær en menn hafi þó getað farið þessa leið með lausan grip.[727] Að sögn Kristjáns voru smá vörður uppi á heiðinni og nokkuð niður í dalina.[728]
Þeir sem bjuggu á bæjunum innantil í Súgandafirði þurftu oft að fara yfir Grímsdalsheiði, ekki síst á nítjándu öldinni, þegar verslun var sótt til Flateyrar. Ferðamenn í ýmsum erindum áttu hér líka leið um og má sem dæmi nefna að Magnús Hjaltason fór Grímsdalsheiði 5. febrúar 1898 og var þá að koma úr Dýrafirði.[729] Einu ári seinna var hann hér aftur á ferð og þá frá Langhól í Bæ hér í Súgandafirði og stefndi að Brekku á Ingjaldssandi.[730]Er Magnús kom af heiðinni 5. febrúar 1898 ritaði hann í bók sína þessi orð: Var hart ofan Kvíanesdal og illt að komast niður af Húsabrekku.[731]
Í vetrarferðum gat gangfærið verið misjafnt en við erum hér á sumardegi og stöndum aftur á brún Húsabrekku þar sem ferðamenn af heiðinni sáu fyrst til bæjar á Kvíanesi. Við röltum niður hlíðina og tökum síðan strikið alla leið inn í Botn. Spölurinn frá Kvíanesi að Botni er liðlega einn kílómetri.
– – – – – – – – – – o o o o o – – – – – – – – – –
[1] Örnefnastofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 106.
[2] Þórður Pétursson frá Laugum, f. 1913. Skrif hans um örnefni í landi Kvíaness, Lauga og Suðureyrar,
handrit í eigu K.Ó.
[3] Sama heimild.
[4] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 103-104.
[5] Þórður Pétursson frá Laugum, f. 1913. Skrif hans um örnefni í landi Kvíaness, Lauga og Suðureyrar… , handrit í eigu K.Ó.
[6] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 104.
[7] Þórður Pétursson frá Laugum, f. 1913. Skrif hans um örnefni í landi Kvíaness, Lauga og Suðureyrar … , handrit í eigu K.Ó.
[8] Sama heimild.
[9] Sama heimild.
[10] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 103.
[11] Sama heimild.
[12] Sama heimild.
[13] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 103. Þ. Pétursson frá Laugum, f. 1913. Skrif hans um örnefni í landi Kvíaness, Lauga og Suðureyrar, handrit í eigu K.Ó.
[14] Sama heimild.
[15] Sama heimild.
[16] Sama heimild.
[17] Sama heimild.
[18] Sama heimild. Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 104.
[19] Sama heimild. Þ. Pétursson frá Laugum, f. 1913. Skrif hans um örnefni í landi Kvíaness, Lauga og Suðureyrar, handrit í eigu K.Ó.
[20] Sama heimild.
[21] Sama heimild.
[22] Sama heimild.
[23] Sama heimild.
[24] Sama heimild.
[25] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 103.
[26] Sama heimild.
[27] Sama heimild. Þ. Pétursson frá Laugum, f. 1913. Skrif hans um örnefni í landi Kvíaness, Lauga og Suðureyrar, handrit í eigu K.Ó.
[28] Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns VII, 134.
[29] Rtk. Jarðabækur V. 16, Ísafj.sýsla 1805.
[30] Lbs. 22184to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 7.5.1899. Lbs. 27364to, Magnús Hjaltason, bls. 37.
[31] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 106.
[32] Lbs. 27364to, Magnús Hjaltason, bls. 37.
[33] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 103.
[34] Sama heimild.
[35] Sama heimild.
[36] Sama heimild.
[37] Sama heimild.
[38] Sama heimild. Þ. Pétursson frá Laugum, f. 1913. Skrif hans um örnefni í landi Kvíaness … , handrit í eigu K.Ó.
[39] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 101.
[40] Sama heimild, 104.
[41] Þórður Pétursson frá Laugum, f. 1913. Skrif hans um örnefni í landi Kvíaness … , handrit í eigu K.Ó.
[42] Sömu heimildir.
[43] Þórður Pétursson frá Laugum, f. 1913. Skrif hans um örnefni í landi Kvíaness … , handrit í eigu K.Ó.
[44] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 104.
[45] Sama heimild.
[46] Þórður Pétursson frá Laugum, f. 1913. Skrif hans um örnefni í landi Kvíaness … , handrit í eigu K.Ó.
[47] Sama heimild. Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 105.
[48] Sömu heimildir.
[49] Þórður Pétursson frá Laugum, f. 1913. Skrif hans um örnefni í landi Kvíaness … , handrit í eigu K.Ó.
[50] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 105.
[51] Sama heimild.
[52] Þórður Pétursson frá Laugum, f. 1913. Skrif hans um örnefni í landi Kvíaness … , handrit í eigu K.Ó.
[53] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 103.
[54] Þórður Pétursson frá Laugum, f. 1913. Skrif hans um örnefni í landi Kvíaness … , handrit í eigu K.Ó.
[55] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 103.
[56] Sama heimild.
[57] Þórður Pétursson frá Laugum, f. 1913. Skrif hans um örnefni í landi Kvíaness … , handrit í eigu K.Ó.
[58] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 102-103.
[59] Sama heimild.
[60] Sama heimild.
[61] Sama heimild.
[62] Þórður Pétursson frá Laugum, f. 1913. Skrif hans um örnefni í landi Kvíaness … , handrit í eigu K.Ó.
[63] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 102.
[64] Sama heimild.
[65] Þórður Pétursson frá Laugum, f. 1913. Skrif hans um örnefni í landi Kvíaness … , handrit í eigu K.Ó.
[66] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 102.
[67] Sama heimild.
[68] Sama heimild.
[69] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 102.
[70] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 106.
[71] Sama heimild, 101.
[72] Sigríður Pétursdóttir. – Viðtal K.Ó. við hana 16.12.1992.
[73] Sóknalýsingar Vestfjarða II, 113. Manntöl 1845 og 1901.
[74] D.I. V, 645 og 649. D.I. XIV, 40. Lbs. 7974to, Jarðaskrár úr Ísafj.sýslu frá árunum 1658 og 1695.
Manntal 1703. Jarðabók Á. og P. VII, 134. Manntöl 1801 og 1816.
[75] Fasteignabók 1932, 52.
[76] Sbr. Örn.stofnun / Kr. G. Þorv. 1949, 102. Þórður Pét. frá Laugum. Skrif hans um örn. Í landi Kvíaness… , handrit í eigu K.Ó.
[77] Guðrún Ása Grímsdóttir 1989, 225.
[78] Jóhann Hjaltason 1949, 152 (Árbók Ferðafél. Ísl.).
[79] Ísl. fornrit I, 186.
[80] Sbr. Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 5 og 99.
[81] Jarðabók Á. og P. VII, 134.
[82] J. Johnsen 1847, 196.
[83] Hsk. á Ísaf. nr. 227. Skýrsla um ábúðarhundruð bænda í Suðureyrarhreppi árið 1902.
[84] Sama heimild. Sbr. Jarðabók Á. og P. VII, 128-139.
[85] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 99-100 og 110.
[86] Sama heimild, 107.
[87] Jarðab. Á. og P. VII, 134.
[88] Rtk. Jarðabækur V. 16, Ísafj.sýsla 1805.
[89] Sigríður Pétursdóttir. – Viðtal K.Ó. við hana 16.12.1992.
[90] Sama heimild.
[91] Rtk. Jarðabækur V. 16, Ísafj.sýsla 1805.
[92] Sama heimild.
[93] Jarðamat 1849-1850 – Ísafj.sýsla (Þjóðskj.safn).
[94] Fasteignamatsskjöl. Gjörðabók undirmatsnefndar í V-Ís., löggilt 26.3.1919, bls. 205-206.
[95] Fasteignamatsskjöl. Gjörðabók undirmatsnefndar í V-Ís., löggilt 26.3.1919, bls. 205-206.
[96] Sama heimild.
[97] Lbs. 7974to, Jarðaskrá úr Ísafj.sýslu frá árinu 1658.
[98] Lbs. 7974to, Jarðaskrá úr Ísafj.sýslu frá árinu 1695.
[99] Jarðab. Á. og P. VII, 134.
[100] Jón J. Aðils 1971, 418.
[101] Jarðab. Á. og p. VII, 134.
[102] Jarða- og bændatöl 1752-1767, Ísafj.sýsla 1753.
[103] J. Johnsen 1847, 196.
[104] Fasteignamatsskjöl. Gjörðabók undirmatsnefndar í V-Ís., löggilt 26.3.1919, bls. 205-206.
[105] Stjórnartíðindi 1919 B, bls. 58.
[106] Lbs. 7974to, Jarðaskrá úr Ísafj.sýslu frá árinu 1658.
[107] Sama heimild.
[108] Lbs. 7974to, Jarðaskrá úr Ísafj.sýslu frá árinu 1695. Jarðab. Á. og P. VII, 134. Jarða- og bændatöl
1752-1767, Ísafj.sýsla 1753. J. Johnsen 1847, 196.
[109] Fasteignamatsskjöl. Gjörðabók undirmatsnefndar í V-Ís., löggilt 26.3.1919, bls. 205-206.
[110] Þorvaldur Thoroddsen / Lýsing Íslands III, 45.
[111] Sbr. Jarðabók Á. og P. VII, 131 og 134-135.
[112] Jarðab. Á. og P. VII, 134.
[113] D.I. II, 616-617.
[114] D.I. XV, 571. Jarðabók Á. og P. VII, 134 og 148-151.
[115] Jarðabók Á. og P. VII, 135-136.
[116] D.I. V, 645. Sbr. D.I. V, 648-649.
[117] Sama heimild.
[118] Sama heimild.
[119] D.I. XIV, 40. Íslenskar æviskrár V, 27.
[120] Jarðabréf frá 16. og 17. öld. Útdrættir. Kph. 1993, 159.
[121] Ísl. æviskár I, 18-19.
[122] Jarðabréf frá 16. og 17. öld. Útdrættir. Kph. 1993, 159.
[123] Sama heimild.
[124] Sama heimild.
[125] Theódór Árnason 1968, 378 (Vestf. ættir IV).
[126] Lbs. 7974to, Jarðaskrá úr Ísafj.sýslu frá árinu 1658.
[127] Theódór Árnason 1968, 378.
[128] Lbs. 7974to, Jarðaskrá úr Ísafj.sýslu frá árinu 1695. Vestf. ættir I, 33 og 36.
[129] Sbr. Alþingisbækur Íslands VII, 390, 427-428, 454, 512 og 513.
[130] Jarðab. Á. og P. XIII, 259.
[131] Lögréttumannatal, bls. 555.
[132] Jarðab. Á. og P. XIII, 259.
[133] Lögréttumannatal, bls. 555.
[134] Manntal 1703 og nafnalykill þess.
[135] Manntal 1703.
[136] Vestf. ættir I, 33.
[137] Jarðab. Á. og P. XIII, 259.
[138] Sama heimild. Sbr. Manntal 1703, bls. 210.
[139] Jarðab. Á. og P. XIII, 259.
[140] Jarðab. Á. og P. VII, 134. Vestf. ættir I, 33. Sbr. Manntal 1703, 210.
[141] Jarðab. Á. og P. VII, 134.
[142] Vestf. ættir I, 33 og 36. Jarða- og bændatöl 1752-1767, Ísafj.sýsla 1753. Bændatöl og skuldaskrár 1720-1765, Ísafjarðarsýsla um 1735, eftirrit.
[143] Manntal 1762.
[144] Sama heimild.
[145] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.
[146] ÍB. 164to, Ættartölubækur Jóns Espólín, dálkar 986-987.
[147] Sóknarm.töl og prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.
[148] Rtk. Isl. Journal 9, nr. 34, búnaðarskýrslur 1791.
[149] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.
[150] Manntöl 1801 og 1816.
[151] Rtk. Jarðabækur V. 16, Ísafj.sýsla 1805.
[152] ÍB. 164to, Ættartölub. Jóns Espólín, dálkar 986-987. Sbr. Lýður Björnsson 1992, 235. Manntal 1801,
vesturamt, 346. Manntal 1816, 724.
[153] Sömu heimildir.
[154] J. Johnsen 1847, 196.
[155] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.
[156] Sama heimild og prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.
[157] Sömu heimildir.
[158] Manntal 1901, fylgiskjöl.
[159] Hsk. á Ísaf. nr. 227. Skýrsla um ábúðarhundruð bænda í Suðureyrarhreppi árið 1902.
[160] Fasteignamatsskjöl. Gjörðabók undirmatsnefndar í V.-Ís., löggilt 26.3.1919, bls. 206.
[161] Fasteignamatsskjöl. Gjörðabók undirmatsnefndar í V.-Ís., löggilt 26.3.1919, bls. 205.
[162] Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 19-21.
[163] Vestf. ættir I, 33.
[164] Sama heimild.
[165] Ísl. æviskrár IV, 378.
[166] Theódór Árnason 1968, 367-370 og 373 (Vestf. ættir IV).
[167] Sama heimild.
[168] Sama heimild.
[169] Sbr. Theódór Árnason 1968, 378.
[170] Theódór Árnason 1968, 378.
[171] Vestf. ættir I, 33.
[172] Sama heimild, 33-34. Sbr. Lögréttumannatal, bls. 451.
[173] Ólafur Þ. Kristjánsson 1961, 41 (Ársrit S.Í.).
[174] Sama heimild. Lbs. 25778vo
[175] Theódór Árnason 1968, 378 (Vestf. ættir IV).
[176] Sama heimild. Ól. Þ. Kr. 1961, 40-42 (Ársrit S.Í.).
[177] Sbr. Alþ.b. Íslands V og VI, registur.
[178] Ól. Þ. Kr. 1961, 41. Sbr. Theódór Árnason 1968, 378.
[179] Rigsarkiv, Kph. Island, Færöer og Grönland, nr. 42, hylling Friðriks konungs III árið 1649. Ól. Þ. Kr.
1961, 40-42.
[180] Ól. Þ. Kr. 1961, 40-42. Sbr. Ísl. æviskrár III, 106-107 og IV, 80.
[181] Annálar III, 300.
[182] Ól. Þ. Kr. 1961, 40-42.
[183] Sama heimild, 40-43. Annálar III, 300. Alþ.b. Íslands VII, 261 og 300.
[184] Theódór Árnason 1968, 378 (Vestf. ættir IV).
[185] Alþ.b. Íslands VII, 261.
[186] Theódór Árnason 1968, 378-380 (Vestf. ættir IV). Manntal 1703. Sbr. Vestf. ættir III, 13.
[187] Vestf. ættir I, 30. Ól. Þ. Kr. 1961, 50-52 (Ársrit S.Í.).
[188] Annálar III, 300.
[189] Theódór Árnason 1968, 378-380.
[190] Lbs. 7974to, Jarðaskrá úr Ísafj.sýslu frá árinu 1658.
[191] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 101.
[192] Siglaugur Brynleifsson 1976, 117-208.
[193] Sama heimild.
[194] Annálar III, 300.
[195] Annálar III, 300.
[196] Alþ.b. Íslands VII, 261.
[197] Alþ.b. Íslands VII, 261.
[198] Theódór Árnason 1968, 379 (Vestf. ættir IV).
[199] Sama heimild.
[200] Sama heimild. Manntal 1703.
[201] Ísl. æviskrár V, 19-20.
[202] Ólafur Snóksdalín: Ættartölur, bls. 613.
[203] Vestfj. ættir I, 36.
[204] Manntal 1703.
[205] Ísl. æviskrár V, 19-20.
[206] Manntal 1703.
[207] Manntal 1703.
[208] Jarðab. Á. og P. XIII, 304.
[209] Jarðab. Á. og P. VII, 137.
[210] Manntal 1703.
[211] Theódór Árnason 1968, 379-380 (Vestf. ættir IV).
[212] Sama heimild.
[213] Manntal 1703. Jarðab. Á. og P. VII, 134.
[214] Manntal 1703.
[215] Jarðab. Á. og P. VII, 134.
[216] Sýslumannaæfir II, 572.
[217] Lbs. 7974to, Jarðaskrá úr Ísafj.sýslu frá árinu 1695.
[218] Lbs. 7974to, Jarðaskrá úr Ísafj.sýslu frá árinu 1695.
[219] Manntal 1703. Vestf. ættir I, 33.
[220] Manntal 1703.
[221] Theódór Árnason 1968, 377-378 (Vestf. ættir IV).
[222] Sama heimild.
[223] Manntal 1703.
[224] Theódór Árnason 1968, 377. Vestf. ættir II, 730.
[225] Vestf. ættir I, 33 og 35-36. Jarðab. Á. og P. VII, 134.
[226] Jarðab. Á. og P. VII, 134.
[227] Jarða- og bændatöl 1752-1767, Ísafj.sýsla 1753.
[228] Sama heimild. Jarðab. Á. og P. VII, 134. Bændatöl og skuldaskrár 1720-1765, Ísafj.s. um 1735, eftirrit.
[229] Jarðab. Á. og P. VII, 134.
[230] Sama heimild.
[231] Jarða- og bændatöl 1752-1767, Ísafj.sýsla 1753.
[232] Vestf. ættir I, 33 og 35-36.
[233] Sama heimild.
[234] ÍB. 104to, Ættartölubækur Jóns Espólín, dálkar 1781-1782.
[235] Manntal 1762.
[236] Vestf. ættir I, 33 og 36. Sýslumannaæfir II, 577.
[237] Manntal 1762. Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf., dauðir 1790.
[238] Sóknarm.tal Staðar í Súgandaf. janúar 1786, Kvíanes.
[239] Manntal 1762.
[240] Sýslumannaæfir II, 577.
[241] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.
[242] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.
[243] Sama heimild.
[244] Manntal 1762.
[245] Vestf. ættir I, 36. Manntal 1703.
[246] Manntal 1762.
[247] Vestf. ættir I, 36.
[248] Manntal 1762.
[249] Sama heimild.
[250] Vestf. ættir I, 153.
[251] Sama heimild, 36.
[252] Sama heimild, 162.
[253] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.
[254] Sóknarm.tal Staðar í Súgandaf. 1786.
[255] Sama heimild.
[256] Sama heimild.
[257] Vestf. ættir I, 162.
[258] Sóknarm.tal Staðar í Súgandaf. 1786.
[259] Vestf. ættir I, 32 og 35-36.
[260] Sama heimild.
[261] Sama heimild. Sýslumannaæfir II, 577.
[262] Manntal 1801, vesturamt, bls. 306. Sbr. Theódór Árnason 1968, 376 /Vestf. ættir IV).
[263] Sama heimild.
[264] Sama heimild.
[265] Vestf. ættir I, 98-123.
[266] Sama heimild, 36.
[267] Sóknarm.töl og prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.
[268] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.
[269] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar. Sbr. Manntal 1762, Kvíanes í Suðureyrarhreppi.
[270] Manntal 1762, Kvíanes. Sbr. Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf. og Manntal 1801, vesturamt, bls. 302-303.
[271] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.
[272] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf. Sbr. Manntal 1801, vesturamt, bls. 303.
[273] Rtk. Isl. Journal 9, nr. 34, búnaðarskýrslur 1791.
[274] Sama heimild.
[275] Sama hemild.
[276] Sama heimild.
[277] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf., hjónavígslur 1794.
[278] Sóknarm.töl og prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.
[279] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.
[280] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.
[281] Sóknarm.tal Staðar í Súgandaf. 1832. Prestsþj.b. Staðar á Reykjanesi.
[282] Prestsþj.b. Staðar á Reykjanesi.
[283] Ísl. æviskrár II, 169.
[284] Vestf. ættir II, 464.
[285] Sama heimild.
[286] ÍB. 144to, Ættartölub. Jóns Espólín, dálkar 4882-4884.
[287] Sama heimild. Ísl. æviskrár II, 169. Sbr. Lögréttumannatal, bls. 190.
[288] Ísl. æviskrár II, 169.
[289] Sóknarm.töl Kirkjubólsþinga.
[290] Sama heimild.
[291] Sama heimild.
[292] Sama heimild.
[293] Ísl. æviskrár III, 98-99.
[294] Ísl. æviskrár III, 98-99.
[295] Sama heimild.
[296] Sóknarm.töl Kirkjubólsþinga.
[297] Sama heimild.
[298] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.
[299] Sömu heimildir.
[300] Sömu heimildir. Sóknarm.töl Kirkjubólsþinga.
[301] Sóknarm.tal Staðar í Súgandaf. 1795.
[302] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.
[303] Sama heimild.
[304] Sama heimild.
[305] Manntal 1801.
[306] Sóknarm.tal Staðar í Súgandaf., mars 1804.
[307] Sóknarm.tal Staðar í Súgandaf., mars 1811.
[308] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.
[309] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.
[310] Sama heimild.
[311] Manntal 1801 og nafnalykill þess.
[312] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.
[313] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.
[314] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1, búnaðarskýrslur 1821.
[315] Sama heimild.
[316] Sama heimild.
[317] Sama heimild.
[318] Sama heimild.
[319] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1, búnaðarskýrslur 1830.
[320] Sama askja, búnaðarskýrslur 1834.
[321] J. Johnsen 1847, 196.
[322] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.
[323] Vestf. ættir I, 211-212. Sbr. Manntal 1816, 694.
[324] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.
[325] Manntal 1816. Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1, búnaðarskýrslur 1821, 1827, 1830 og 1834.
[326] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.
[327] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.
[328] ÍB. 94to, Ættartölubækur Jóns Espólín, dálkar 967-968.
[329] Vestf. ættir II, 464.
[330] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.
[331] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.
[332] Sömu heimildir.
[333] Sömu heimildir.
[334] Sömu heimildir.
[335] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.
[336] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.
[337] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.
[338] Sama heimild árið 1833, Kvíanes. Sbr. Manntal 1816, 686 og Manntal 1801, vesturamt, bls. 265.
[339] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.
[340] Sömu heimildir.
[341] Sömu heimildir.
[342] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.
[343] Sömu heimildir.
[344] Sömu heimildir.
[345] Sömu heimildir.
[346] Sömu heimildir.
[347] Sömu heimildir.
[348] Hsk. á Ísaf. nr. 190. Kristján G. Þorvaldsson: Saga Suðureyrar og Suðureyrarkauptúns, bls. 41.
[349] J. Johnsen 1847, 196.
[350] VA III, 408 og 412, búnaðarskýrslur 1840 og 1850.
[351] Sömu heimildir.
[352] Sömu heimildir.
[353] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1, búnaðarskýrslur 1837. VA III, 408, búnaðarskýrslur 1840.
[354] VA III, 412, búnaðarskýrslur 1850.
[355] Sama heimild.
[356] VA III, 408, búnaðarskýrslur 1840.
[357] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.
[358] Sama heimild.
[359] Sama heimild. Manntal 1845.
[360] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.
[361] Sömu heimildir.
[362] Sömu heimildir.
[363] Sömu heimildir.
[364] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf. 1849-1856.
[365] Sömu heimildir.
[366] Sömu heimildir.
[367] Sömu heimildir.
[368] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.
[369] Hsk. á Ísaf. nr. 190. Kristján G. Þorvaldsson: Saga Suðureyrar og … , bls. 65-66.
[370] Sama heimild.
[371] Sama heimild. Manntal 1840. Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.
[372] Manntal 1845, vesturamt, bls. 291.
[373] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.
[374] Sama heimild.
[375] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.
[376] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.
[377] Hsk. á Ísaf. nr. 190. Kristján G. Þorvaldsson: Saga Suðureyrar og … , bls. 66-67.
[378] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.
[379] Sama heimild.
[380] Sama heimild.
[381] Hsk. á Ísaf. nr. 190. Kr. G. Þorv.: Saga Suðureyrar og … , 68-69. Sbr. Sóknalýs. Vestfj. II, 118-119.
[382] Hsk. á Ísaf. nr. 190. Kristján G. Þorvaldsson: Saga Suðureyrar og … , bls. 68-69.
[383] Sama heimild.
[384] VA III, 417, búnaðarskýrslur 1860.
[385] VA III, 417, búnaðarskýrslur 1860. Sbr. VA III, 412, búnaðarskýrslur 1850.
[386] VA III, 408, 412 og 417, búnaðarskýrslur 1840,1850 og 1860.
[387] Frá ystu nesjum II, 190 og IV, 73. Sbr. Manntal 1801, vesturamt, bls. 301, Manntal 1816, bls. 700 og
Manntal 1845, vesturamt, bls. 304. Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XVI. 2. Veðmálabók 1856-1869, 89-90.
[388] Manntöl 1855 og 1860.
[389] Prestsþj.b. Eyrar í Skutulsf.
[390] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.
[391] Sama heimild.
[392] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.
[393] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.
[394] Sömu heimildir.
[395] Sömu heimildir.
[396] Sömu heimildir.
[397] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.
[398] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.
[399] Sama heimild.
[400] Sama heimild.
[401] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.
[402] Sama heimild.
[403] Sama heimild.
[404] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.
[405] Sömu heimildir.
[406] Sömu heimildir.
[407] Sömu heimildir.
[408] Skjöl Suðureyrarhr., varðv. þar: Fundabók fyrir Suðureyrarhrepp 1889-1919, fundargerð hreppsfundar
13.2.1891. Sbr. Sóknarm.tal Staðar í Súgandaf. 1890.
[409] Vestf. ættir II, 710.
[410] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf. og Eyrar í Skutulsfirði.
[411] Prestsþj.b. Eyrarprestakalls, Hólssókn.
[412] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XVI. 2. Veðmálabók 1856-1869, bls. 89-90.
[413] Manntal 1845, vesturamt, bls. 304. Sbr. Manntal 1801, vesturamt, bls. 301.
[414] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XVI. 2. Veðmálabók 1856-1869, bls. 89-90.
[415] Sama heimild.
[416] Sama heimild.
[417] Ísl. æviskrár II, 303-304.
[418] Sama heimild.
[419] Sama heimild.
[420] Eyjólfur Jónsson 1980, 127 (Ársrit S.Í.).
[421] Sama heimild.
[422] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.
[423] Sömu heimildir.
[424] Prestsþj.b. Otradals. Sbr. Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf., innfluttir 1862.
[425] Prestsþj.b. Otradals. Sbr. Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf., innfluttir 1862.
[426] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar I, 96.
[427] Manntal 1835.
[428] Manntal 1845, vesturamt, bls. 289.
[429] Prestsþj.b. Otradals.
[430] Manntal 1845, vesturamt, bls. 289.
[431] Ísl. æviskrár I, 387-388. Sbr. Manntal 1816, bls. 679.
[432] Sama heimild.
[433] Manntal 1855.
[434] Prestsþj.b. Staðar í Grunnavík. Sbr. Ísl. æviskrár II, 303-304.
[435] Sama heimild.
[436] Manntal 1860.
[437] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf. Sbr. Vestf. ættir I, 308-309.
[438] Sama heimild. Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.
[439] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.
[440] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.
[441] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.
[442] Sama heimild.
[443] Sama heimild.
[444] VA III, 421, búnaðarskýrslur 1870.
[445] Sama heimild.
[446] Sama heimild.
[447] Sama heimild.
[448] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.
[449] Sama heimild.
[450] VA III, 424, búnaðarskýrslur 1880.
[451] Sama heimild.
[452] Sama heimild.
[453] Lbs. 38584to, Dagbók Einars Jónssonar á Suðureyri 19.4.1889.
[454] Sama heimild.
[455] Lbs. 44094to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 97.
[456] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.
[457] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.
[458] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.
[459] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.
[460] Sama heimild.
[461] Sama heimild.
[462] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.
[463] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.
[464] Sama heimild.
[465] Sama heimild.
[466] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.
[467] Skj. Suðureyrarhr., varðv. þar: Bók fyrir Suðureyrarhrepp 1888-1902, tíundarskýrslur 1888 og 1891.
Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.
[468] Sömu heimildir.
[469] Sömu heimildir.
[470] Sömu heimildir.
[471] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.
[472] Skj. Suðureyrarhr., varðv. þar: Bók fyrir Suðureyrarhrepp, 1888-1902, tíundarskýrsla frá haustinu 1888.
[473] Sama hreppsbók, tíundarskýrsla frá haustinu 1895.
[474] Sama hreppsbók, tíundarskýrsla frá haustinu 1888.
[475] Sama hreppsbók, tíundarskýrsla frá haustinu 1891.
[476] Sama hreppsbók, tíundarskýrslur 1888, 1891 og 1895.
[477] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.
[478] Lbs. 38604to, Dagbók Einars Jónssonar 6.5.1898.
[479] Sama heimild.
[480] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf. Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.
[481] Sömu heimildir.
[482] Sömu heimildir.
[483] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.
[484] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.
[485] Sömu heimildir. Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar I, 107 og 179.
[486] Lbs. 22204to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 8.4.1902.
[487] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.
[488] Sömu heimildir.
[489] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.
[490] Gunnar M. Magnuss 1977, 294-295.
[491] Sama heimild.
[492] Sama heimild.
[493] Sama heimild.
[494] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.
[495] Sömu heimildir.
[496] Sömu heimildir.
[497] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.
[498] Sama heimild.
[499] Eyjólfur Jónsson 1980, 131-138 (Ársrit S.Í.).
[500] Sóknarm.töl og prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.
[501] Sömu heimildir.
[502] Sömu heimildir.
[503] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.
[504] Sama heimild.
[505] Manntal 1880.
[506] Sóknarm.töl og prestsþj.b. Staðar í Súgandaf. og Holts í Önundarf.
[507] Sömu heimildir.
[508] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XVI. 9. Veðmálabók 1898-1907, bls. 180-181.
[509] Sama heimild.
[510] Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 19-21.
[511] Sama heimild.
[512] Sama heimild.
[513] Sama heimild.
[514] Sama heimild.
[515] Þórður Sigurðsson 1986, 27-28 (Ársrit Sögufél Ísf.).
[516] Sama heimild.
[517] Þórður Sigurðsson 1986, 27-28.
[518] Skj. Suðureyrarhr., varðv. þar: Bók fyrir Suðeyrarhrepp, 1888-1902, tíundarskýrsla dags. 23.6.1888.
[519] Sama hreppsbók, tíundarskýrsla dags. 23.6.1891.
[520] Sama heimild.
[521] Sama hreppsbók. Niðurjöfnunarskrá, dags. 18.11.1891.
[522] Lbs. 38594to, Dagbók Einars Jónssonar, apríl – júní 1894 og mars – júní 1895.
[523] Sama dagbók.
[524] Sama dagbók 13.3.1895.
[525] Hsk. á Ísaf. nr. 0124. Höfuðbók frá útibúi Ásgeirsverslunar á Flateyri, bls. 100-101.
[526] Hsk. á Ísaf. nr. 0124. Höfuðbók frá útibúi Ásgeirsverslunar á Flateyri, bls. 100-101.
[527] Sama heimild.
[528] Sama heimild.
[529] Sama heimild.
[530] Sama heimild.
[531] Sama heimild.
[532] Sama heimild.
[533] Sama heimild.
[534] Sama heimild.
[535] Sama heimild.
[536] Stjórnartíðindi 1895 B, bls. 29-30.
[537] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 33.
[538] Sama heimild.
[539] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.
[540] Sama heimild.
[541] Sama heimild.
[542] Sama heimild.
[543] Sama heimild.
[544] Eyjólfur Jónsson 1967, 120-121 (Niðjatal Sveins á Hesti).
[545] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.
[546] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.
[547] Hsk. á Ísaf. nr. 089. Höfuðbók númer 5 frá verslun Hjálmars Jónssonar á Flateyri.
[548] Stjórnartíðindi 1882 B, bls. 32-33.
[549] Hsk. á Ísaf. nr. 089. Höfuðbók númer 5 frá verslun Hjálmars Jónssonar á Flateyri.
[550] Sama heimild.
[551] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.
[552] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.
[553] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar. Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.
[554] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.
[555] Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 19-21.
[556] Sama heimild.
[557] Sama heimild.
[558] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.
[559] Sama heimild og sóknarm.töl Holts í Önundarf.
[560] Eyjólfur Jónsson 1967, 120-132 (Niðjatal Sveins á Hesti).
[561] Sama heimild.
[562] Skjöl Suðureyrarhr., varðv. þar. Bók fyrir Suðureyrarhr., 1888-1902, tíundarskýrsla frá árinu 1888.
[563] Sama hreppsbók, tíundarskýrsla frá árinu 1891.
[564] Sama hreppsbók, tíundarskýrsla frá árinu 1888.
[565] Sama heimild.
[566] Sama hreppsbók, tíundarskýrsla frá árinu 1891.
[567] Sama hreppsbók, tíundarskýrslur 1888 og 1891.
[568] Lbs. 38594to, Dagbók Einars Jónssonar 23.1.1894.
[569] Skjöl Suðureyrarhr., varðv. þar. Fundabók fyrir Suðureyrarhrepp, 1889-1919, bréf hreppsnefndar
Suðureyrarhrepps 17.3.1894 til hreppsnefndar Mosvallahrepps.
[570] Eyjólfur Jónsson 1967, 131 (Niðjatal Sveins á Hesti).
[571] Skjöl Suðureyrarhr., varðv. þar. Fundabók fyrir Suðureyrarhrepp, 1889-1919, bréf hreppsnefndar
Suðureyrarhrepps 9.6.1894 til hreppsnefndar Mosvallahrepps.
[572] Sama Fundabók, bréf hreppsnefndar Mosvallahrepps 23.6.1894 til hreppsnefndar Suðureyrarhrepps.
[573] Sama heimild.
[574] Sama heimild.
[575] Skjöl Suðureyrarhr., varðv. þar. Fundabók …, 1889-1919, bréf hreppsn. Suðureyrarhrepps 28.6.1894 til hreppsn. Mosvallahrepps.
[576] Sama heimild.
[577] Lbs. 38594to, Dagbók Einars Jónssonar 31.7.1894.
[578] Sama Fundabók …, 1889-1919, bréf Jóh. Hannessonar, oddv. Suðureyrarhr. 3.8.1894 til hr.n. Mosv.hr.
[579] Eyjólfur Jónsson 1967, 120-132 (Niðjatal Sveins á Hesti).
[580] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf. og Holts í Önundarf. Sbr. Manntöl 1890 og 1901.
[581] Eyjólfur Jónsson 1967, 120-132. Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf. og Holts í Önundarf.
[582] Skjöl Suðureyrarhr., varðv. þar: Bók fyrir Suðureyrarhrepp, 1888-1902, reikningar hreppsins 1894.
[583] Sama heimild.
[584] Sama heimild.
[585] Sama heimild.
[586] Sama heimild.
[587] Sama heimild.
[588] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.
[589] Sama heimild.
[590] Eyjólfur Jónsson 1967, 120-132.
[591] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar. Manntal 1901.
[592] Eyjólfur Jónsson 1967, 120 (Niðjatal Sveins á Hesti).
[593] Lbs. 22324to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 23.5.1914.
[594] Magnús Hjaltason / Vestri 14.4.1915.
[595] Eyjólfur Jónsson 1967, 124.
[596] Magnús Hjaltason / Vestri 14.4.1915.
[597] Sama heimild.
[598] Sóknarm.töl og prestsþj.b. Staðar í Súgandaf. Skjöl Suðureyrarhr., varðv. þar: Bók f. Suðureyrarhrepp,
1888-1902, tíundarskýrslur og niðurjöfnunarskrár frá árunum 1891 og 1895.
[599] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.
[600] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Dýrafj.þinga og Staðar í Súgandaf. Manntal 1901, Kvíanes.
[601] Sömu heimildir.
[602] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.
[603] Sama heimild.
[604] Sama heimild.
[605] Sama heimild.
[606] Lbs. 27364to, Magnús Hjaltason, bls. 56.
[607] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.
[608] Hsk. á Ísaf. nr. 227. Skýrsla um ábúðarhundruð bænda í Suðureyrarhreppi, dags. 29.10.1902.
[609] Fasteignamatsskjöl. Gjörðabók undirmatsnefndar í V-Ís., löggilt 26.3.1919.
[610] Sama heimild.
[611] Skjöl Suðureyrarhr., varðv. þar: Bók fyrir Suðureyrarhrepp, 1888-1902, tíundarskýrsla dags. 22.6.1895.
[612] Skjöl Suðureyrarhr., varðv. þar: Bók fyrir Suðureyrarhrepp, 1888-1902, tíundarskýrsla dags. 21.10.1901.
[613] Sama heimild.
[614] Lbs. 31524to, Halldór Guðmundsson, bls. 201-246.
[615] Sama heimild, 213.
[616] Sama heimild.
[617] Sama heimild.
[618] Gunnar M. Magnúss 1977, 92.
[619] Sama heimild.
[620] Sóknarm.töl og prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.
[621] Sömu heimildir.
[622] Sömu heimildir.
[623] Gunnar M. Magnúss 1977, 92-94.
[624] Þ.Þ. 36. spurningaskrá, nóv. 1997. Svör Albertínu Jóhannesdóttur.
[625] Þ.Þ. 36. spurningaskrá, nóv. 1977. Svör Albertínu Jóhannesdóttur.
[626] Sama heimild.
[627] Sama heimild.
[628] Þ.Þ. 37. spurningaskrá, maí – júní 1978. Svör Albertínu Jóhannesdóttur.
[629] Sama heimild.
[630] Sama heimild.
[631] Þ.Þ. Spurningaskrá um ílát og áhöld. Svör Albertínu Jóhannesdóttur.
[632] Sama heimild.
[633] Sama heimild.
[634] Sama heimild.
[635] Lbs. 22304to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 22.5.1913.
[636] Vísuna skrifaði ég upp eftir einu af mörgum handritum Magnúsar í Landsbókasafni árið 1956 en hef ekki handritsnúmerið við hendina. K.Ó.
[637] Gunnar M. Magnúss 1977, 92.
[638] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.
[639] Sama heimild.
[640] Sama heimild.
[641] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.
[642] Sömu heimildir.
[643] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.
[644] Gunnar M. Magnús 1977, 92.
[645] Sama heimild.
[646] Sigríður Pétursdóttir. – Viðtal K.Ó. við hana 16.12.1992.
[647] Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 19-21.
[648] Sama heimild.
[649] Sama heimild.
[650] Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 19-21.
[651] Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 19-21.
[652] Fasteignamatsskjöl. Gjörðabók undirmatsnefndar í V-Ís., löggilt 26.3.1919.
[653] Sama heimild. Fasteignabók 1921.
[654] Sama skjalasafn. Gjörðabók fasteignamatsnefndar í V-Ís., löggilt 9.3.1916, bls. 3.
[655] Fasteignabók 1921.
[656] Sama heimild.
[657] Sama heimild.
[658] Sveinn Guðnason. – Viðtal K.Ó. við hann 27.8.1997.
[659] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 106.
[660] Sama heimild.
[661] Sveinn Guðnason. – Viðtal K.Ó. við hann 27.8.1997.
[662] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 100-102.
[663] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 100-102.
[664] Sama heimild.
[665] Sama heimild.
[666] Sama heimild.
[667] Sama heimild.
[668] Sama heimild.
[669] Sama heimild.
[670] Sama heimild.
[671] Sama heimild.
[672] Sama heimild.
[673] Sama heimild.
[674] Sama heimild.
[675] Sama heimild.
[676] Sama heimild.
[677] Sama heimild.
[678] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 100-102.
[679] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 100-102.
[680] Sama heimild.
[681] Sama heimild.
[682] Sama hemild.
[683] Sama heimild.
[684] Birkir Friðbertsson. – Viðtal K.Ó. við hann 8.8.1995.
[685] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 106.
[686] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 106.
[687] Sama heimild.
[688] Sama heimild, 100.
[689] Sama heimild.
[690] Sama heimild, 105.
[691] Sbr. Lbs. 22174to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 5.2.1898.
[692] Þórður Pétursson frá Laugum, f. 1913. Skrif hans um örnefni í landi Kvíaness, Lauga og Suðureyrar, handrit í eigu K.Ó.
[693] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 105-106.
[694] Sama heimild.
[695] Sama heimild.
[696] Þórður Pétursson frá Laugum, f. 1913. Skrif hans um örnefni í landi Kvíaness, Lauga og Suðureyrar, handrit í eigu K.Ó.
[697] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 104-105.
[698] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 104-105.
[699] Þórður Pétursson frá Laugum, f. 1913. Skrif hans um örnefni í landi Kvíaness … , handrit í eigu K.Ó.
[700] Sama heimild.
[701] Sama heimild.
[702] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 104-105.
[703] Sama heimild.
[704] Sama heimild.
[705] Sama heimild.
[706] Sama heimild.
[707] Sama heimild.
[708] Sama heimild.
[709] Sama heimild, 105 og 107.
[710] Sama heimild, 104.
[711] Þórður Pétursson frá Laugum, f. 1913. Skrif hans um örnefni í landi Kvíaness … , handrit í eigu K.Ó.
[712] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 104.
[713] Sama heimild.
[714] Þórður Pétursson frá Laugum, f. 1913. Skrif hans um örnefni í landi Kvíaness … , handrit í eigu K.Ó.
[715] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 104.
[716] Sama heimild.
[717] Sama heimild.
[718] Þórður Pétursson frá Laugum, f. 1913. Skrif hans um örnefni í landi Kvíaness … , handrit í eigu K.Ó.
[719] Sama heimild.
[720] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 105.
[721] Sóknalýs. Vestfj. II, 113.
[722] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 100.
[723] Skjöl Suðureyrarhr., varðv. þar: Fundabók fyrir Suðureyrarhrepp 1889-1919, fundargerð 1.3.1890.
Lbs. 22184to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 4.2.1899.
[724] Heimir Þorleifsson 1996, 33 og 52.
[725] Sama heimild, 132-139.
[726] Sama heimild.
[727] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 17.
[728] Sama heimild.
[729] Lbs. 22174to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 5.2.1898.
[730] Lbs. 22184to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 4.2. – 6.2. 1899.
[731] Sama dagbók 5.2.1898.