Núpur

Núpur í Dýrafirði er forn kirkjustaður og þar sátu lengi voldugir höfðingjar á fyrri tíð. Enn (1990) er þar skólasetur og hefur svo verið nær alla tuttugustu öld eða allt frá árinu 1907 er unglingaskóli var settur þar í fyrsta sinn, þann 4. janúar.[1]

Öldum saman var Núpur eitt helsta stórbýlið á Vestfjörðum, en að meðtöldum öllum hjáleigum var jörðin talin 60 hundruð að dýrleika eftir fornu mati.[2] Í sóknarlýsingu frá árinu 1840 er landkostum og náttúrufari á Núpi lýst með þessum orðum:

 

Slægjuland er ekki mikið á þessum bæjum nema á Núpsdal sem einungis heyrir til heimajörðinni. Mjög er vetrarþungt í þessu þorpi vegna snjóþyngsla á vetrum. Beitarland er lítið eða ekkert heima nema á Núpsdal og er hann notaður þar til. Þar er kostasamt land á dalnum og allur peningur þar hafður oftast í seli. Á vetrum er sauðfé haft flest við sjó, á fjörubeit, ásamt nokkru heyi. Móskurður er góður í Innrihúsalandi [Innrihús voru ein af hjáleigunum á Núpi – innsk. K.Ó.] en skógur enginn. … Langur spölur er til sjávar úr þessu þorpi því undirlendi er mikið en víðast mjög votlent. … Núpur hefur oftar en einu sinni fengið skemmdir af skriðuföllum. Þar er hlaðið fyrir ofan túnið lítið garðpetti til varnar skriðufalli.[3]

 

Um síðustu aldamót stóð Núpsbærinn lítið eitt fyrir utan og neðan kirkjuna sem þá stóð á sama stað og kirkjan frá 1939 stendur nú.[4] Ætla má að bær og kirkja hafi staðið þarna á sama stað í margar aldir en elsta skólahúsið á Núpi og skólabyggingin frá fjórða áratug þessarar aldar standa rétt fyrir ofan gamla bæjarstæðið. Frá Núpsbænum er örskammt til fjalls en liðlega einn kílómetri til sjávar, því undirlendi er hér talsvert eins og tekið var fram í sóknarlýsingunni frá 1840.

Fjallshlíðin ofan við Núp er nokkuð brött en klettalaus að kalla uns komið er upp undir brún. Neðst í fjallshlíðinni, upp frá ystu túnunum, er mikið um grjót og heita þar Urðir en fyrir ofan þær, hærra í hlíðinni, taka við Skógarbrekkur.[5] Vegghamrar heitir neðsta klettabeltið fyrir ofan skriður í fjallinu utan við Núp.[6] Ofan við Vegghamra er strýta sem heitir Hyrna,[7] en fjallið sjálft mun heita Skógarbrekkufjall.[8] Fjall þetta nær inn að Krossgili sem er skammt innan við bæinn á Núpi. Ofan við megingilið taka við nokkur smágil sem ná alveg upp í klettabrúnina og heitir þar í Krossgiljum.[9] Innan við Krossgil fær klettabrúnin efst í fjallinu sterkari svip og þar sem hún beygir inn í Núpsdalinn rís við himin þvergnýptur klettur, mjög hár, hvar af bærinn, Núpur eða Gnúpur, sem finnst í gömlum skrifum, nafn tekur, – svo notað sé orðalag séra Jóns Sigurðssonar á Gerðhömrum frá árinu 1840.[10]

Frá Núpi er ekki nema rúmlega einn kílómetri út að næsta bæ sem er Alviðra, þar sem landnámsmaðurinn Þórður Víkingsson er sagður hafa búið. Mest af beitilandi Núps er því á Núpsdal og þar fékkst líka mikið af heyi meðan slegið var á engjum. Dalurinn er sjö til átta kílómetrar á lengd og á Núpur hann allan sín megin ár og allt land beggja vegna Núpsár þegar kemur fram fyrir Geldingadal, þverdal sem hér hefur áður verið nefndur þegar fjallað var um jörðina  Klukkuland. Núpsáin rennur síðan á innri landamerkjum jarðarinnar allt til sjávar en á móti Alviðru eru landamerkin um Kaldalæk, sem fellur til sjávar utan við Sjóarholtin er svo heita, og síðan um annan minni læk sem kemur ofan úr Urðum neðst í fjallinu.[11]

Til er gömul lýsing á landamerkjum Núps frá árinu 1368 og sýnast þau lítið hafa breyst á þeim 625 árum sem síðan eru liðin. Í þessari gömlu landamerkjalýsingu segir meðal annars svo:

 

Garðurinn Gnúpur á land allt til fjalls og fjöru í læk þann er heitir Kaldilækur upp í uppsprettuna og svo rétt upp að leiti og beint á fjall upp og inn í Gnúpsá. Alviðra á móskurð í Gnúpslandi í Lambhaga en Gnúpsmenn beit í Alviðrubakka vor og haust. Gnúpur á dal allan og í á þá er gengur ofan úr Geldingadal og rennur í Gnúpsá. Gnúpur á hestabeit á Klukkulandshjalla.[12]

 

Þarna kemur fram að Lambhagi er talinn vera í Núpslandi en í fornum bréfum má sjá að eigendur Alviðru hafa lengi viljað meina að svo væri ekki því merkin milli jarðanna væru að réttu lagi fyrir innan hann. Lambhagar heitir nú allstórt gróðurlendi í árdalnum utan við Núpsá og nær frá árósnum upp að Ranalæk.[13] Augljóst virðist að átt sé við þetta svæði þegar Lambhagi er nefndur í heimildum frá 14. og 16. öld. Í bréfi sem dagsett er 18. febrúar 1390 og fræðimenn hafa talið vera falsbréf er fullyrt að landamerkin séu innan við Lambhaga,[14] og sömu kenningu er einnig haldið fram í vitnisburðarbréfi frá 26. júní 1545 en þar segir m.a.:

 

Svofelldan vitnisburð berum við Erlingur Gíslason og Brúnmaður Tómasson að við höfum heyrt af hinum elstu mönnum haldin landamerki og ítök á millum Gnúps og Alviðru í Dýrafirði í þann sama tíma sem Jón bóndi Björnsson er kallaður var danur átti Gnúp og Alviðru [þ.e. í kringum aldamótin 1500 – innsk. K.Ó.] og þar fyrir. In primis að Alviðra ætti land að garði þeim sem gengur ofan úr fjalli og ofan í Gnúpsá fyrir innan Lambhaga. … Bjó Jörundur heitinn Böðvarsson 20 vetur í Alviðru eða lengur og hélt og hafði þetta átölulaust og aldrei kom hér misgreining á svo við vissum fyrr en Þorgautur heitinn Ólafsson var ráðsmaður undir Gnúpi.[15]

 

Er þessi vitnisburður var tekinn mun Gizur Einarsson, biskup í Skálholti, hafa átt Alviðru (sjá hér Alviðra).

Árið 1570 var gerð sátt um landamerki þessara tveggja jarða eftir langvarandi þrætu og ágreining.[16] Þeir sem að sáttargerðinni stóðu voru Þorlákur Einarsson, sýslumaður á Núpi, og mágur hans Eggert Hannesson, lögmaður í Bæ á Rauðasandi,[17] er áður hafði búið á Núpi og mun á þessum tíma hafa haft umráð yfir Alviðru.

Með sáttargerðinni var komist að þeirri niðurstöðu að Núpur ætti þrætulandið milli Kaldalækjar og garðsins sem lá ofan úr fjalli fyrir innan Lambhaga en á móti voru þeim sem bjuggu í Alviðru tryggð ýms réttindi. Um þetta segir meðal annars svo í sáttargerðinni:

 

Þá í fyrstu var svo til skilið að Gnúpur skyldi eiga allt land með allri jarðarhöfn og fé því öllu sem þar kynni að finnast í jörðu og á og ekki fyndist eigandi að frá garði þeim sem gengur ofan úr fjalli og ofan í Gnúpsá fyrir innan Lambhaga og út í læk þann sem heitir Kaldalækur svo sem sagður lækur heldur nú frá sinni uppsprettu og til sjávar ofan hjá Fögrutröð. En í annan máta frá sinni uppsprettu rétta sjónhending upp eftir leitinu og svo rétt upp eftir hlíðinni á fjall upp svo hvorki skyldi stekkja út á né inn á hvörkis land fyrrgreindra jarða.

En Alviðra skyldi eiga land allt utan að fyrrgreindum læk og fyrrskrifuðum takmörkum, bæði til fjalls og fjöru. Svo og skyldi Alviðra eiga fyrir alla þá sem þar kynnu að búa, hvort þeir eru fleiri eða færri, á hverju ári frjálsa beit fyrir allan þeirra pening, vetur og sumar, haust og vor, hátt og lágt í fyrrskrifaðan part sem er á milli greinds Kaldalækjar og fyrrskrifaðs garðs þess sem gengur úr fjalli og ofan í Gnúpsá sem fyrr segir.

Hér með skyldu og allir þeir sem í Alviðru byggja á hverju ári hafa frjálsan torfskurð til eldiviðartaks í fyrrskrifuðum parti svo sem þeim þætti sér vel þarfnast til síns bus á hverju ári og þar með frelsi þann eldivið hirða og þurrka og síðan heim til sín flytja. Hér með skyldi Alviðra eiga allan reka viðar og hvala og allt annað hvað á land kynni að bera frá greindum Kaldalæk og inn í miðja Gnúpsá. Þar með skyldu Alviðrumenn eiga með frelsi veiði í Gnúpsá að jafnfrjálsu sem Gnúpsmenn þá þeir vildu veiða sem í Alviðru eru, neðan frá sjó og upp að fyrrgreindum garði þeim megin sem Gnúpsland er en víst ei lengra fram eftir ánni.[18]

 

Í þessari sömu sáttargerð var einnig kveðið á um ákveðin réttindi Alviðrumanna á Núpsdal eins og hér er frá greint á öðrum stað (sjá bls. 100-101), og einnig var Núpsmönnum tryggður réttur til að mega hafa skipauppsátur í fulla nauðsyn í Alviðrulandi þar hjá Kaldalæk.[19] Ekki máttu Núpsmenn þó láta báta sína standa lengur uppi utan við Kaldalæk en brýna nauðsyn bæri til nema Alviðrubændur hefðu veitt til þess sérstakt leyfi.[20]

Um fyrstu byggð á Núpi er ekkert vitað og þögn heimilda gæti bent til þess að valdamiklir höfðingjar hafi ekki setið þar að staðaldri fyrr en á 14. öld. Ekki er þó unnt að fullyrða neitt um þetta því þarna gætu aðrar skýringar komið til greina. Í Hrafns sögu Sveinbjarnarsonar sem talin er hafa verið rituð um miðbik 13. aldar (sjá hér Rafnseyri) er minnst á Sigríði Þórðardóttur sem bjó at Gnúpi í Dýrafirði og höfundur sögunnar segir að hafi verið góð húsfreyja og fengsöm.[21] Þarna er í fyrsta sinn minnst á Núp í varðveittum heimildum en sagan segir frá atburðum er gerst höfðu seint á tólftu öld og í byrjun þrettándu aldar. Frásögn Hrafns sögu bendir til þess að Sigríður hafi búið á Núpi á síðasti þriðjungi 12. aldar og þar hjá henni faldi Magnús prestur Þórðarson á Mýrum frillu sína, Jórunni Snorradóttur úr Vatnsfirði, meðan sendimaður Vatnsfirðinga leitaði hennar á Mýrum (sjá hér Mýrar).

Næsti ráðamaður á Núpi, á eftir Sigríði, sem um er kunnugt með nafni hét Klemet en föðurnafn hans er óþekkt. Klemet bjó á Núpi á síðari hluta 13. aldar,[22] en margir veraldlegir höfðingjar sem bjuggu á kirkjustöðum lentu þá í hörðum deilum við Árna biskup Þorláksson í Skálholti sem vildi ná öllum slíkum jörðum undir kirkjuna. Í sögu Árna biskups segir frá ferð sem hann fór um Vestfirði haustið 1286 í því skyni að tryggja kirkjunni full umráð yfir kirkjustöðunum þar.[23] Klemet bjó þá á Núpi og var einn þeirra sem stóðu upp í hárinu á kirkjuvaldinu eins og frá er greint í Árna sögu biskups, en þar segir:

 

Þennan tíma bjó sá maður undir Gnúpi sem tekið hafði kirkju á þeim sama bæ og þar með hennar eign, er Klemet hét, eftir því sem fyrr er sagt. Honum hafði og biskup gert áminningar til betrunar og fengið ekki að unnið og því bannsetti hann þennan mann á sama degi og nefndan Eirík [þ.e. Eirík Marðarson á Rafnseyri – innsk. K.Ó.] með hringdum klukkum og steyptum kertum. Þessi Klemet hafði og rekið í burt prest þann er biskup skipaði þá sömu kirkju og hélt kaupi hans. Hann rauf og dóma Árna biskups þá er hann festi undir hans sjálfræði.[24]

 

Af þessari frásögn er ljóst að Klemet á Núpi hefur talið sig eiga talsvert undir sér fyrst hann dirfðist að ganga svo þvert gegn vilja biskups. Án efa hefur bóndi þessi á Núpi notið stuðnings Hrafns Oddssonar hirðstjóra, sem enn átti sterk ítök á Vestfjörðum þó fluttur væri norður í Skagafjörð, en hann var öflugasti andstæðingur Árna biskups í deilunum um yfirráð yfir kirkjustöðunum.

Deilunum um kirkjustaðina lauk ekki fyrr en vorið 1297 er Eiríkur konungur Magnússon, sem kallaður var prestahatari, og Árni Þorláksson biskup komust að samkomulagi um þetta erfiða og langvinna þrætumál. Niðurstaðan varð sú að biskup skyldi hafa forræði þeirra staða sem kirkjur áttu alla, en leikmenn forræði hinna sem þeir áttu hálfa eða meira en hálfa.[25]

Við þessa ákvörðun kom Núpur í hlut leikmanna enda sýna máldagar frá 14. öld að þar átti kirkjan ekki nema þriðjung í heimalandi (sjá hér bls. 20).

Um bóndann Klemet sem bannfærður var haustið 1286 er ekkert vitað nema það sem hér hefur nú þegar verið rakið. Vel má vera að Hrafn Oddsson hirðstjóri, sem var dóttursonur Hrafns Sveinbjarnarsonar á Eyri við Arnarfjörð, hafi átt Núp og Klemet aðeins verið landseti hans þar.

Vitað er að á fyrri hluta 14. aldar var Núpur í eigu Þórðar Sturlusonar og Birgittu móður hans sem þá áttu margar jarðir í Dýrafirði. Heimildina fyrir þessu er að finna í vitnisburðarbréfi um landamerki Núps, Alviðru og Gerðhamra sem dagsett er 18. febrúar 1390. Þar lýsa fjórir nafngreindir menn, sem allir segjast vera orðnir sjötugir og sumir áttræðir nærri, landamerkjum milli þessara þriggja jarða og taka fram að þau landamerki hafi þeir vitað Þórð bónda Stullason og svo móður hans Birgittu … halda, þá þau áttu þessar allar eigur og aðrar meiri um Dýrafjörð.[26] Bréf þetta hefur að vísu verið úrskurðað falsbréf en engu að síður er með öllu fráleitt að ætla að persónurnar sem þarna eru nefndar hafi verið búnar til af höfundum bréfsins. Þeir sem kynnu að hafa viljað bera ljúgvitni um landamerki hljóta einmitt að hafa gætt þess að vitna í alþekkta og trúverðuga einstaklinga sem andast höfðu fyrir ekki ýkja löngu. Þórður Sturluson og Birgitta móðir hans hafa því tvímælalaust átt Núp og líklegt er að þau hafi búið þar.

Um ætt Þórðar Sturlusonar á Núpi hefur fræðimenn greint nokkuð á sem eðlilegt er, því þar er í raun á engu að byggja nema tilgátum. Mjög líklegt verður þó að telja að Þórður hafi verið af hinni fornu höfðingjaætt sem á 12. og 13. öld var oft kennd við Selárdal í Arnarfirði, en allir voru þeir Seldælir komnir af Bárði svarta, afa Hrafns Sveinbjarnarsonar á Eyri.[27] Helstu tilgátur um nánari ættfærslu er að finna hjá Jóni Péturssyni háyfirdómara og Hannesi Þorsteinssyni þjóðskjalaverði, sem á sínum tíma önnuðust útgáfu á ritinu Sýslumannaæfir eftir Boga Benediktsson, og létu þá fylgja margvíslegar skýringar frá eigin brjósti.[28]

Undir lok 14. aldar bjó annar Þórður á Núpi. Hann var Sigmundsson og af heimildum má ráða að hann hefur verið einn auðugasti og valdamesti maður landsins á þeim tíma. Um skyldleika hans við Þórð Sturluson, sem hér var áður nefndur, liggja engar óyggjandi upplýsingar fyrir, en almennt mun talið að faðir Þórðar Sigmundssonar hafi verið Sigmundur Hrafnsson á Eyri við Arnarfjörð.[29] Ætla má að Þórður Sigmundsson á Núpi hafi verið fæddur um 1350 eða máske nokkru fyrr, því einkadóttir hans var orðin gjafvaxta árið 1394 og sjálfur andaðist hann árið 1403.[30]

Í fornum annálum er þess getið að árið 1391 hafi Þórður Sigmundsson komið út til Íslands úr Rómarferð sem hann hafði farið ásamt Birni Einarsysni Jórsalafara í Vatnsfirði og tveimur mönnum öðrum.[31] Gera verður ráð fyrir að á suðurgöngunni hafi þessir tveir Vestfjarðahöfðingjar haldið sæmilegan frið hvor við annan en skömmu eftir heimkomuna tóku úfar að rísa og brátt sló í bardaga milli liðsmanna þeirra. Í Flateyjarannál sem ritaður var á síðustu árum 14. aldar segir svo:

 

1393 … Varð samkoma undir Gnúpi í Dýrafirði milli Bjarnar Einarsson og Þórðar Sigmundarsonar og sveina þeirra. Voru þar í hel slegnir tveir menn af Birni, Hrómundur Ímason og Oddur Jónsson en flestir allir menn hans lamdir og svo hann sjálfur. Lýsti Guðmundur Jónsson á sig vígi Hrómundar en Halldór Kristófórusson fóthöggi Hrómundar. Stakka-Grímur lýsti handarhöggi Hrómundar og vígi Odds en Brandur Sigurðarson að hann hefði slegið Jón bláber, Jón Þórólfsson hefði slegið Þorstein purku en Árni Úfason hefði lagið til Ljóts Jónssonar gríss ….

Hafði Hrómundur sjö sár en Oddur eitt á fætinum vinstra um knéliðinn en Ljótur mikið sár á bakinu fyrir ofan mjöðm. … Inni í stofunni fékk Kraki sár í höfuð af Þorsteini purku með sleddu en Árni Úfason skeindist á knífi er Björn átti.

Var Þórður bóndi inni meðan samkoman varð úti og kom ei fyrr út en Björn var í kirkju kominn og hans menn. Bauð Þórður þá Birni út en Björn vildi ekki til. Var Björn og hans menn í kirkjunni um nóttina og nokkuð fram á föstudaginn. Tók Sigurður bóndi Kollsson milli þeirra mánaðardag og fór Björn þá inn til Mýra með sína menn og eftir það heim til Vatnsfjarðar. Hrómundur dó þá þegar um nóttina en Oddur lifði fram á jól og lýsti því áður að hann dæi af sótt og þótti mönnum sú lýsing ekki afl hafa.[32]

 

Ekki verður séð á frásögninni hverra erinda Björn Jórsalafari hefur komið að Núpi með flokk sinn að þessu sinni, en ljóst er að vopnaviðskipti hafa hafist inni í stofunni og bardaginn síðan haldið áfram úti á hlaði uns Björn og menn hans flýðu í kirkju. Sjálfur virðist Þórður ekki hafa tekið þátt í bardaganum en engu að síður látið gott heita að barið væri á Birni og mönnum hans.

Á þessum tíma hefur veldi Þórðar Sigmundssonar á Núpi að líkindum verið í hámarki en þó má að ætla að héraðshöfðinginn í Vatnsfirði, sem var sonur Grundar-Helgu og faðir Vatnsfjarðar-Kristínar, hafi verið honum öflugri. Björn var líka tengdasonur Þorsteins Eyjólfssonar lögmanns á Urðum í Svarfaðardal, sem talinn hefur verið mestur valdamaður á Íslandi á 14. öld.[33] Hér var því ekki ráðist á garðinn þar sem hann var lægstur en vera má að Björn eða hans menn hafi átt upptökin enda þótt þeir færu halloka er á bardagann leið og yrðu að flýja í kirkju. Enginn mun hafa vænst þess að Björn í Vatnsfirði léti við svo búið sitja er hann sneri heim á leið úr þessari ferð til Dýrafjarðar. Flateyjarannáll segir okkur líka frá tíðindum næsta árs og þar er þetta ritað:

 

1394 … Reið Björn Einarsson vestur yfir Glámu miðvikudaginn eftir Þorláksmessu og með honum Vigfús Ívarsson hirðstjóri, Þorsteinn Eyjólfsson lögmaður … og nær níu tugum manna og flestir allir tygjaðir panserum, járnhöttum og vopnhönskum. Stefndi hirðstjóri Þórði Sigmundarsyni og öllum hans piltum um vígamál Hrómundar og Odds fyrir sig og lögmenn til Mosvalla fimmtudag og föstudag næsta.[34]

 

Flokkur Björns Jórsalafara og Vigfúsar Ívarssonar hirðstjóra mun hafa riðið yfir Glámu seint í júlí því hér mun átt við Þorláksmessu á sumri. Ætla má að Dýrfirðingar hafi litið upp frá heyönnum er þessi fjölmenna sveit sást koma af Glámu og þeysa sem leið lá út með fjarðarströndinni í átt að Núpi. Reyndar er ekki líklegt að svo hermannlegur flokkur og jafn fjölmennur hafi nokkru sinni farið þessa sömu leið á þeim 600 árum sem nú eru liðin frá því Vigfús hirðstjóri, Þorsteinn lögmaður og Björn Jórsalafari sýndu mátt sinn með þessum hætti.

Í Flateyjarannál er frá því greint að Þórður á Núpi hafi mætt á tilsettum tíma að Mosvöllum og þangað hafi riðið með honum nær fimmtíu menn, þar af vel tuttugu tygjaðir.[35] Tölurnar sýna að Björn og hans menn hafa verið nær helmingi fjölmennari en Þórður á þessum fundi.

Sú krafa var gerð á Mosvallaþingi að Þórður og nokkrir manna hans yrðu dæmdir útlægir úr landinu og í Gottskálksannál segir að sú hafi orðið niðurstaðan.[36] Í þessum efnum verður Flateyjarannáll, sem er mun eldri,[37] þó að teljast langtum betri heimild en þar er greint á allt annan veg frá málalyktum og gerð grein fyrir samkomulagi sem sagt er að tekist hafi áður en þingi lauk á Mosvöllum. Sáttargerðinni lýsir höfundur Flateyjarannáls með þessum orðum:

 

Sættust þeir síðan Björn og Þórður með aðgangi hinna bestu manna. Skyldi Björn einn gera þeirra á milli sem hann vildi og honum yrði mestur heiður í Þórði forsmánarlaust í alla staði, nema hann vildi heldur nefna menn til sem Björn gerði.[38]

 

Í gerðardóminn tilnefndi Björn bæði Vigfús hirðstjóra og Þorstein lögmann ásamt tólf öðrum mönnum og varð niðurstaða þeirra sú að Þórður á Núpi skyldi bjóða Birni og Solveigu hústrú hans og öllum þeirra sveinum sæmilega veislu og gefa Birni til fimm tugi hundraða í gripum og sæmilegum þingum.[39]

Ekki verður annað sagt en Þórður hafi sloppið forsmánarlaust í alla staði frá þessum átökum og gerðardómsákvæðið um heimboð Vatnsfirðinga að Núpi bendir til þess að menn hafi gert sér vonir um fullar sættir milli veraldarhöfðingjanna við Djúp og Dýrafjörð.

Frásögn sinni af þessum merkisatburðum lýkur annálsritarinn svo: Gifti Þórður Sigmundarson Ólöfu, dóttur sína, Ara Guðmundssyni.[40] Ekki kemur fram með beinum hætti að ákvörðun um hjónabandið hafi tengst sáttargerð þeirra Björns og Þórðar en merkileg tilviljun má það kallast ef tilkynningunni um giftingu Ólafar og Ara hefur verið hnýtt þarna við án þess hún tengdist sættargerðinni á Mosvöllum á einn eða neinn veg. Enginn veit nú hvort nokkur tengsl hafa verið þarna á milli en vel má hugsa sér að brúðguminn Ari hafi verið handgenginn Þorsteini lögmanni á Urðum, sem þátt tók í Glámureiðinni þó kominn væri á sjötugsaldur og var tengdafaðir Björns Jórsalafara. Slíkri tilgátu til stuðnings má benda á að Ari var Norðlendingur og dóttursonur Bótólfs Andréssonar hirðstjóra, en ein af dætrum Þorsteins lögmanns hafði verið gift syni Bótólfs svo þarna voru tengsl á milli.[41] Best er þó samt að hafa hóf á vangaveltum um þetta.

Átök Björns Jórsalafara Einarssonar og Þórðar Sigmundssonar á Núpi urðu í reynd aðeins forleikur að langtum harðvítugri sviptingum niðja þeirra nokkrum áratugum síðar. Á Mosvallaþingi sumarið 1394 var bara ymprað á því að dæma Þórð á Núpi útlægan en þar féll síðan allt í ljúfa löð. Hálfri öld síðar stóðu dóttursynir Björns Jórsalafara hins vegar fyrir því að dæma dótturson Þórðar á Núpi útlægan úr landi og gerðu upptækar allar hans miklu eignir. Sá sem þá fór halloka og varð að hrekjast félaus úr landi var Guðmundur ríki Arason á Reykhólum, sonur Ólafar Þórðardóttur frá Núpi og Ara Guðmundssonar sem hér voru áður nefnd.

Þórður Sigmundsson á Núpi andaðist í svartadauða árið 1403,[42] og þá hafa Ólöf dóttir hans og Ari maður hennar erft Núp og aðrar eignir Þórðar því Ólöf var einkabarn.[43]

Kona Þórðar á Núpi og móðir Ólafar var Solveig Svartsdóttir frá Reykhólum,[44] og þar munu ungu hjónin, Ari og Ólöf, hafa tekið við búsforráðum ekki löngu eftir brúðkaupið. Talið er að þau hafi búið á Reykhólum meðan bæði lifðu,[45] og ekki verður betur séð en Ólöf hafi fært bæði þessi höfuðból, Núp og Reykhóla, í jarðasafn þeirra hjóna. Hún varð hins vegar skammlíf og áttu þau Ari aðeins eitt barn sem komst til vits og ára, Guðmund er síðar var nefndur hinn ríki.

Ari Guðmundsson á Reykhólum átti Núp í 20 ár eða frá árinu 1403, þegar Þórður tengdafaðir hans andaðist, og til dauðadags, en Ari drukknaði árið 1423.[46] Óvíst er hvort hann hefur nokkru sinni búið á Núpi en vissar líkur gætu þó bent til þess að hann hafi átt þar heima á sínum síðustu æviárum, er Guðmundur sonur hans hafði tekið við búi á Reykhólum. Bréf frá árunum 1418 og 1420 gefa veika vísbendingu um að svo hafi verið og þá einkum vitnisburðarbréf frá árinu 1418 sem sýnir að Þorgerður Ólafsdóttir, seinni kona Ara, hefur þá verið á Núpi og Guðmundur Arason gengur þar frá ákveðnum eignaskiptum þeirra á milli.[47]

Ari Guðmundsson var í hópi auðugustu bænda á landinu og átti 90 jarðir á Vestfjörðum með 400-500 kúgildum.[48] Auk Núps og Reykhóla átti hann svo dæmi séu nefnd bæði Brjánslæk og Rafnseyri.[49]

Þegar Ari drukknaði árið 1423 átti hann aðeins tvö skilgetin börn á lífi, Guðmund sem hann eignaðist með fyrri konunni, Ólöfu frá Núpi, og Ólöfu sem hann átti með sinni seinni konu, Þorgerði Ólafsdóttur.[50] Laundóttur sinni Oddfríði hafði Ari gefið hálfan Valþjófsdal fáum árum fyrir dauða sinn,[51] en Guðmundur og Ólöf voru hans einu lögerfingjar.

Guðmundur Arason mun hafa verið kominn hátt á þrítugsaldur þegar faðir hans féll frá árið 1423, og á því ári kvæntist hann Helgu Þorleifsdóttur frá Vatnsfirði, sem var dóttir Þorleifs Árnasonar og Kristínar, dóttur Björns Einarssonar Jórsalafara. Við þetta kvonfang jókst ríkidæmi Guðmundar enn því með Helgu fékk hann margar jarðir, m.a. höfuðbólið Saurbæ á Rauðasandi.[52]

Frá því Guðmundur kvæntist Helgu sat hann að búi sínu á Reykhólum í 23 ár uns bræður Helgu, Einar, sem þá var hirðstjóri, og Björn, síðar hirðstjóri, hröktu hann í útlegð árið 1446 og létu dæma flestar eignir hans undir konung. Er eignir Guðmundar Arasonar voru gerðar upptækar átti hann 178 jarðir sem samtals voru metnar á 3516 hundruð,[53] en hvert hundrað samsvaraði einu kýrverði. Sjö þessara jarðeigna, sem samtals voru metnar á 115 hundruð, töldust að vísu vera kirkjueignir en Guðmundur hefur haft umráð yfir þeim.[54] Auk þess átti bóndi þessi á Reykhólum miklar aðrar eignir og vitni báru síðar að skömmu áður en eignirnar voru gerðar upptækar hefði Guðmundur sagst tíunda 50 hundruð hundraða eða sem svaraði 6000 kýrverðum.[55] Lengi var því haldið fram af mörgum að Guðmundur Arason hefði verið ríkastur allra Íslendinga, bæði fyrr og síðar, og ekki mun fjarri lagi að sú fullyrðing standist enn árið 1990. Auður hans var af þrennum toga. Í fyrsta lagi arfur eftir Ara föður hans, í öðru lagi eignir sem voru heimanfylgja Helgu, eiginkonu Guðmundar, og í þriðja lagi hans eigið aflafé sem var geysimikið.

Um eignir Ara, föður Guðmundar ríka, hefur áður verið rætt en því er við að bæta að heimildir frá 15. öld benda eindregið til þess að Guðmundur hafi haldið öllum eignum föður síns og aldrei greitt hálfsystur sinni hennar erfðahlut né heldur afhent Þorbjörgu, stjúpmóður sinni, þær jarðir sem töldust vera hennar séreign.[56]

Um eigin auðsöfnun Guðmundar er það að segja að hann mun einkum hafa hagnast á viðskiptum við Englendinga, en fiskveiðar þeirra hér við land og verslun sem fylgdi í kjölfarið hófust einmitt þegar Guðmundur á Reykhólum var á unglingsaldri.[57] Skreiðarsala til Englendinga mun hafa orðið Guðmundi drýgsta tekjulindin og þar hefur munað vel um aflann sem menn drógu á land í verstöðinni á Fjallaskaga. Á fyrri hluta 15. aldar hækkaði skreiðarverð í innanlandsviðskiptum um 130% á fáum áratugum,[58] og hefur að líkindum hækkað enn meira í viðskiptum við Englendinga.

Allar jarðeignir Guðmundar Arasonar nema tvær voru á Vestfjarðakjálkanum svo þar átti hann 176 jarðir sem voru samtals 3366 hundruð að dýrleika. Höfuðból hans voru sex, Reykhólar, Brjánslækur á Barðaströnd, Saurbær á Rauðasandi, Núpur í Dýrafirði, Kaldrananes við Bjarnarfjörð í Strandasýslu og Fell í Kollafirði, einnig í Strandasýslu.[59] Athygli vekur að ekkert höfuðbólanna er í Norður-Ísafjarðarsýslu en þar átti Guðmundur reyndar ekki eina einustu jörð.[60] Þar var ríki Vatnsfirðinga, mága hans. Sjálfur sat Guðmundur á Reykhólum en hefur haft bústjóra á hinum höfuðbólunum Flestar jarðeignir hans lágu undir eitthvert höfuðbólanna og hefur bústjórunum verið ætlað að sjá um innheimtu á landskuld og kúgildaleigum. Þrjátíu og fjórum jörðum sem Guðmundur átti í Arnarfirði, Tálknafirði, Flateyjarhreppi, Múlasveit og Gufudalssveit var samt ekki raðað í flokk með neinu af höfuðbólunum.

Flest jarðarhundruð heyrðu undir Núp eða 836,[61] svo segja má að Núpur hafi verið stærsta höfuðból Guðmundar Arasonar með fjórðung af öllum jarðeignum hans á Vestfjörðum. Næst komu Reykhólar með 596 jarðarhundruð og er þá meðtalinn sá helmingur í Reykhólum sem kirkjan átti.[62] Mikill fjöldi innstæðukúgilda fylgdi jarðeignum Guðmundar ríka á Vestfjörðum. Á höfuðbólunum sex átti hann 192 kýr og liðlega 800 sauðkindur en nær 4000 sauðkindur fylgdu öðrum bújörðum hans vestra.[63]

Jarðirnar sem fylgdu Núpi voru 32 og þá er höfuðbólið sjálft ekki talið með.[64] Af þessum jörðum voru 12 í Þingeyrarhreppi, samtals 254 hundruð, 8 í Mýrahreppi, samtals 208 hundruð, og 12 í Önundarfirði, samtals 314 hundruð.[65] Sjálft var höfuðbólið Núpur 60 hundruð svo alls eru þetta 836 jarðarhundruð. Til skýringar er skylt að taka fram að hér er út frá því gengið að Hjarðardalirnir tveir sem Guðmundur átti séu Ytri- og Innri-Hjarðardalur i Önundarfirði sem í byrjun átjándu aldar voru taldir 96 hundruð að dýrleika, báðir til samans.[66] Neðri- og Fremri-Hjarðardalur í Dýrafirði voru þá metnir á 72 hundruð, báðir til samans,[67] en Hjarðardalirnir tveir sem Guðmundur ríki átti voru árið 1446 virtir á 60 og 30 hundruð.[68] Ekki er því alveg víst hvaða Hjarðardalir þetta voru. Einnig er þess að geta að enda þótt jarðir Guðmundar ríka í Dýrafirði og Önundarfirði hafi hér verið sagðar 33 að tölu, með Núpi, þá væri í rauninni réttara að segja þær hafa verið 35 því í eignaskránni sem hér er farið eftir er Fjallaskagi talinn sem hluti af Alviðru og Birnustaðir sem hluti af Arnarnesi.[69]

Kúgildin sem fylgdu jörðum Guðmundar Arasonar í Dýrafirði og Önundarfirði, öðrum en höfuðbólinu, voru 135 og skiptust þannig að 47 voru í Þingeyrarhreppi, 31 í Mýrahreppi og 57 í Önundarfirði.[70] Sex mylkar ær voru í hverju kúgildi, svo gera má ráð fyrir að Guðmundur ríki hafi átt 468 sauðkindur í Dýrafirði og 342 í Önundarfirði auk bústofnsins á Núpi. Af þessum kúgildum hefur hann fengið 1350 kíló af smjöri í lögleigu á ári samkvæmt Jónsbók,[71] en alls voru kúgildin sem hann átti á leigustöðum utan höfuðbólanna 646,[72] og ættu smjörleigur Reykhólabóndans því að hafa komist í 6460 kíló ef allt er talið með.

Í skránni frá haustinu 1446 yfir eignir Guðmundar Arasonar er bústofn hans á Núpi sagður hafa verið 42 kýr, 152 mylkar ær, 90 sauðir tvævetra og eldri en 67 veturgamlir, 18 naut veturgömul og átta tvævetur með kvígum, 13 uxar tveggja vetra og eldri, 100 lömb, 14 hross og að auk 5 unghryssur og 4 veturgömul folöld, 10 svín gömul og 12 vetrarkálfar (líklega ung svín) og að auk 2 gyltur með 7 grísum hvor.[73] Í þessari upptalningu hljóta svínin að vekja mesta athygli.

Þrjú skip átti Guðmundir ríki á Núpi með rá og öllum reiðskap, teinæring, áttæring og sexæring.[74] Búnaði innanstokks á höfuðbólinu Núpi árið 1446 er í sömu skrá lýst með þessum orðum:

 

Fjórar sængur og tuttugu, alfærar að öllu. Tjöld um alla stofu og þar tveir línlaukar. Sextán eldsgögn og voru í tveir tunnukatlar, báðir nýir. Stórkeröld og smákeröld og önnur bús þarfindi þau sem þar þurfa. Dúkar og diskar og allt það sem til borðs þurfti að hafa. Tvær stórar mundlaugar og fjórar smáar.[75]

 

Margt er hér greinilega vantalið.

Gaman hefði verið að fá einhverjar fréttir af fólkinu á Núpi á dögum Guðmundar Arasonar en slíkt er því miður ekki í boði. Óhætt mun hins vegar að gera ráð fyrir að fjöldi heimilisfólks hafi verið um eða yfir fjörutíu. Líklegt er að heimilisprestur hafi verið í þess hópi, en kunnugt er um nöfn fimm kaþólskra presta sem virðast hafa átt heima á Núpi um lengri eða skemmri tíma á 15. og 16. öld.[76]

Árið 1446 dæmdi Einar Þorleifsson hirðstjóri Guðmund sekan óbótamann fyrir rán norður í Húnaþingi,[77] en þar mun Guðmundur hafa farið með sýsluvöld,[78] enda þótt hann byggi á Reykhólum og ætti nær allar eignir sínar á Vestfjörðum. Óljóst mun vera hvort dómur Einars hafði við fullgild lagarök að styðjast en sé litið á eftirleikinn getur vart hjá því farið að sá grunur vakni að þeir Einar hirðstjóri og Björn bróðir hans hafi fyrst og fremst haft hug á að ná undir sig eignum Guðmundar. Þeir Einar og Björn voru Vatnsfirðingar, bræður Helgu, konu Guðmundar Arasonar, en kaldar munu mágaástirnar hafa verið þar á milli..

Útlegðardómur Einars hirðstjóra yfir Guðmundi Arasyni var kveðinn upp á Sveinsstöðum í Húnaþingi 9. maí 1446. Í því skjali segir m.a. svo:

 

Nú sakir þess að mér líst þetta fullt útlegðarverk og lýsi ég Guðmund Arason útlægan og óheilagan hvar hann kann takast utan griðastaða og því fyrirbýð ég hverjum manni héðan í frá hann að hýsa eða heima halda eða haf á styðja eða styrkja eða nokkra björg veita í móti kóngsins rétti og landsins lögum undir slíka sekt sem lögbók vottar … .

Item í annarri grein fyrirbýð ég hverjum manni í þeim góssum sitja eða nokkurn kostnað hafa sem fyrrnefndur Guðmundur hefur áður haft og haldið og sér eignað eftir því sem ég má fremst að lögum.[79]

 

Dóm þennan dæmdi Einar sem umboðsmaður konungs. Orðalagið sýnir að allar hinar miklu eignir Guðmundar hafa verið gerðar upptækar og svo mun hafa verið litið á að þær eignir sem Guðmundur átti með réttu væru fallnar undir konung en hinum, sem Guðmundur hefði náð með órétti, bæri að skila réttum eigendum.

Til Guðmundar Arasonar er það síðast vitað að hann náði fundi Kristófers konungs af Bayern, skömmu eftir að útlegðardómurinn var kveðinn upp,[80] en Kristófer þessi var þá konungur yfir öllum Norðurlöndum. Á konungsfundi hefur Guðmundur gert tilraun til að rétta hlut sinn og bréf sem eftirmaður Kristófers á konungsstóli ritaði árið 1462 bendir eindregið til þess að Guðmundur hafi náð þeim samningum við konung að hann skyldi fá eignir sínar afhentar á ný ef hann greiddi 400 enska nobila í sekt til fjárhirslu krúnunnar.[81] Ef mark má taka á konungsbréfum frá þessu skeiði hefur Guðmundur aldrei greitt þessa fjármuni í konungssjóð[82] og enginn veit hvað um hann varð. Hingað til lands mun hann þó aldrei hafa komið úr siglingunni á konungsfund, því ætla má að þess sæist einhvers staðar getið í varðveittum heimildum ef svo hefði verið. Vel má vera að Guðmundur hafi farið á fund vina sinna í Englandi og sest þar að en hitt er ekki síður líklegt að hann hafi andast utanlands skömmu eftir útlegðardóminn. Um endalok hans skortir alla vitneskju.

Er Guðmundur hafði verið hrakinn úr landi lögðu Einar hirðstjóri og Björn bróðir hans allar eignir hans undir sig með samþykki konungs og var í fyrstu kallað að sú skipan væri til bráðabirgða.[83] Einar hirðstjóri dó af slysförum árið 1452 en tíu árum síðar samdi Björn bróðir hans, sem þá var hirðstjóri yfir öllu Íslandi, við konung um kaup á eignum Guðmundar Arasonar og greiddi fyrir þær þá 400 nobila sem Guðmundi hafði á sínum tíma verið boðið upp á að greiða ef hann vildi fá eignir sínar til baka.[84] Sú fjárhæð var síðar talin eðlileg greiðsla fyrir einn þriðja af eignum Guðmundar.[85]

Um hinar miklu eignir Guðmundar Arasonar var deilt í marga áratugi. Þær deilur verða ekki raktar hér en aðeins minnst á fáein atriði sem varða Núp sérstaklega og þær jarðir sem honum fylgdu.

Er Björn Þorleifsson hirðstjóri keypti eignir Guðmundar Arasonar árið 1462 eignaðist hann meðal annars Núp en hafði áður haft forræði yfir staðnum, a.m.k. allt frá árinu 1452 er Einar bróðir hans andaðist. Sjálfur bjó Björn á Skarði á Skarðsströnd og þar gerðu þau garðinn frægan hann og kona hans Ólöf ríka Loftsdóttir. Loftur Ormsson, bróðursonur Ólafar á Skarði, bjó þá á Staðarhóli í Saurbæ.[86] Til hans leitaði Solveig Guðmundsdóttir um liðsinni en hún var eina hjónabandsbarn Guðmundar Arasonar sem náði fullorðinsaldri.[87] Þessa systurdóttur sína höfðu þeir hirðstjórarnir Einar og Björn Þorleifssynir dæmt arflausa eftir foreldra hennar þar sem hún væri getin í útlegð enda þótt stúlkan væri 15 ára gömul þegar faðir hennar var dæmdur útlægur.[88] Er Solveig leitaði liðsinnis hjá Lofti Ormssyni á Staðarhóli var hún orðin 34 ára gömul. Milli þeirra tókust á annan dag páska árið 1465 samningar um að Loftur tæki hana til fósturs og ævinlegs framfæris en fengi á móti helming af öllum þeim arfi er hún kynni að eiga rétt á eftir föður sinn og móður.[89]

Með þetta umboð Solveigar í höndum tók Loftur á Staðarhóli að kalla til arfs fyrir hennar hönd en mun hafa orðið lítið ágengt. Vorið 1467 fór hann vestur að Núpi og lagði þar undir sig staðinn eins og sjá má í bréfi sem Björn Þorleifsson hirðstjóri ritaði Brandi lögmanni Jónssyni snemma sumars á því ári. Björn segir þar m.a.:

 

… kunngjöri ég yður mér er sagt að Loftur frændi sé kominn undir Núp og vilji sitja þar sinn búskap sem það má vel vera. En þó líst þetta mörgum skjót aðferð og þér munið þó næst geta ef þér viljið svo sem þér vitið. En eigi þarf Loftur að hafa svoddan atburði því eigi má vita hvar óvænum gefur happ þar ég á hlut að. Er mér hermt svo frá þeim að þeir segi svo þeir viti fyrir víst að þér munið ekki gera mér stóran rétt.[90]

 

Í bréfinu býður Björn  lögmanninum þjónustulaun ef hann dæmi sér í vil í þessu máli en hótar honum hörðu ef dæmt verði gegn bréfi konungs.[91]

Þetta sama ár, 1467, drápu Englendingar Björn hirðstjóri í Rifi á Snæfellsnesi svo sem alkunnugt er. Við skipti sem fram fóru á eignum Björns hirðstjóra 23. október 1467 komu Núpur og sjö aðrar jarðir í Mýrahreppi í hlut Árna sonar hans.[92] Hann var þá hermaður utanlands í þjónustu Kristjáns konungs I og féll með öðru kóngsins fólki í Svíaríki á Brunkabergi hjá Stokkholmi árið 1471.[93] Árni Björnsson kom aldrei til landsins eftir 1467.[94] Þess var áður getið að Loftur Ormsson, sem fór með umboð Solveigar, dóttur Guðmundar ríka, náði Núpi á sitt vald vorið 1467 í blóra við frændur sína á Skarði. Svo virðist sem Loftur hafi haldið jörðinni í þrjú ár uns hann gekk til samkomulags við Þorleif frænda sinn, son Björns hirðstjóra, árið 1470, og féllst þá m.a. á að láta Núp af hendi.[95] Næstu árin mun Þorleifur Björnsson hafa haft öll umráð yfir Núpi en sjálfur bjó hann á Reykhólum og var hirðstjóri í nokkur ár.

Er Loftur Ormsson brást Solveigu Guðmundsdóttur og gekk til samkomulags við Þorleif Björnsson, frænda þeirra beggja, tók hún að leita nýrra úrræða til að fá erfðarétt sinn viðurkenndan og ná að minnsta kosti einhverjum hluta af eignum föður síns, Guðmundar ríka. Sama ár og Loftur samdi við Þorleif gekk hún að eiga Bjarna Þórarinsson, ríkisbónda á Brjánslæk, sem kallaður var góði maður, ef til vill í háði.[96] Haustið áður höfðu þau verið saman í Noregi,[97] og árið 1472 lögðu þau upp í nýja utanför og munu þá hafa dvalist lengi erlendis.[98] Sú ferð bar mikinn árangur því síðla árs 1478 fengu þau gefið út nýtt konungsbréf um Guðmundareignir þar sem kóngur mælti svo fyrir að Solveig og Bjarni skyldu fá þriðjung eignanna í sinn hlut.[99] Með þetta konungsbréf í höndum fóru þau nú að bjóða einstakar jarðir sem Guðmundur hafði átt til kaups, þar á meðal jarðir sem lágu undir höfuðbólið á Núpi, og virðast hafa talið sér þær vísar.[100]

Allt snerist þetta þó á verri veg fyrir þeim Solveigu og Bjarna. Á Öxarárþingi sumarið 1480 stóðu þau með pálmann í höndunum en um haustið sigldi Þorleifur Björnsson utan og tæpu ári síðar fékk hann norska ríkisráðið, sem þá fór með konungsvald yfir Noregi og Íslandi, til að ómerkja konungsbréfið sem Solveig og Bjarni höfðu fengið í hendur þremur árum fyrr.[101] Auk þess var Þorleifur gerður að hirðstjóra yfir öllu Íslandi í þessari sömu utanför.[102] Er Þorleifur kom heim sumarið 1482 hafði Einar bróðir hans látið taka Bjarna Þórarinsson, eiginmann Solveigar Guðmundsdóttur, af lífi,[103] og fór nú að þrengjast um kosti hennar.

Er Þorleifur Björnsson kom út með hirðstjóratign sumarið 1482 átti hann aðeins fjögur ár eftir ólifuð. Má ætla að hann hafi haft Núp á sinni hendi til æviloka, en hvað þá tók við er dálítið óljóst. Tvímælalaust er að árið 1495, níu árum eftir andlát Þorleifs, var Jón danur Björnsson, hálfbróðir hans, orðinn eigandi að bæði Núpi, Alviðru og Sæbóli, því hann átti þá að standa Skálholtsbiskupi skil á reikningum kirknanna á öllum þessum stöðum.[104] Jón danur var launsonur Björns Þorleifssonar hirðstjóra, máske getinn fyrir hjónaband, og var kvæntur Kristínu Sumarliðadóttur, sem var dóttir Ólafar Aradóttur hálfsystur Guðmundar ríka. Þau bjuggu á Eyri við Arnarfjörð (sjá hér Rafnseyri). Í vitnisburði 12 manna frá árinu 1510 eða þar um bil segir að Núpur hafi verið dæmdur Jóni dan:

 

… vegna kvinnu hans Kristínar Sumarliðadóttur í sektir og sakferli með álögum og peningum Ólafar Aradóttur, móður áðurnefndrar Kristínar, hver er voru 5 hundruð hundraða er greindur Guðmundur [þ.e. Guðmundur Arason K.Ó.] ranglega greip og hélt langan tíma svo greind Ólöf fékk þá aldrei aftur.[105]

 

Sé þarna rétt með farið hefur Kristínu, sem var einkabarn Ólafar, seint og um síðir verið úthlutað þeim arfi er Ólöfu bar eftir föður sinn, en Guðmundur ríki er sagður hafa haldið fyrir þessari hálfsystur sinni. Ýmis fleiri rök hníga að því að hjónin Kristín og Jón danur hafi eignast Núp og fleiri jarðir með þessum hætti á árunum kringum 1490.[106] Arfur Ólafar eftir Ara föður sinn hefur þá loks komist í réttar hendur þegar 60 til 70 ár voru liðin frá dauða hans. Erfðagóss þetta hafði í fyrstu verið í umsjá Guðmundar Arasonar og talið með eignum hans en síðan í 40 ár eða þar um bil í höndum Björns Þorleifssonar hirðstjóra og skilgetinna sona hans.

Í fornum bréfum má sjá að ýmsir hafa orðið til þess að vefengja eignarráð Kristínar Sumarliðadóttur og Jóns dans yfir Núpi. Skýrasta dæmið um þetta er samningur sem Björn jungkæri Þorleifsson, sonarsonur Björns hirðstjóra og Ólafar ríku á Skarði, gerði haustið 1498 við Andrés Guðmundsson, sem var launsonur Guðmundar ríka. Frá þessum samningi var gengið á Hallsteinsnesi í Gufudalssveit 16. september 1498 og þar lýsir Björn því yfir að hann gefi og aftur leggi Andrési Guðmundssyni og sonum hans höfuðbólin Núp í Dýrafirði, Saurbæ á Rauðasandi og Kallaðarnes í Bjarnarfirði (nú Kaldrananes) ásamt öllum þeim jörðum sem þessum þremur höfuðbólum fylgdu en sjálfur fékk Björn aðrar jarðeignir í staðinn.[107] Synir Andrésar Guðmundssonar sem að þessu samkomulagi stóðu með föður sínum voru Guðmundur, Ari og Bjarni[108] en sá síðast nefndi var reyndar fóstursonur Jóns dans og Kristínar konu hans,[109] sem haldið höfðu Núp í nokkur ár þegar hér var komið sögu.

Er gengið hafði verið frá samkomulaginu sem gert var á Hallsteinsnesi ætlaði Ari Andrésson, sem þar átti hlut að máli, að taka Núp og þær jarðeignir sem honum fylgdu í sínar hendur en eins og vænta mátti var Jón danur ekki fús til að láta þær lausar. Í deilumáli hans og Ara um Núpseignir var dæmt á Mýrum í Dýrafirði þann 11. maí árið 1500 og féll dómurinn Jóni dan í vil.[110] Þessum dómi varð Ari að hlíta en átti þó síðar eftir að gera tilraun til að ná Núpi undir sig.

Þau Jón danur og Kristín kona hans héldu Núp í a.m.k. 13 ár frá 1495-1508. Þau voru talin ein hin auðugustu hjón á öllu landinu og bjuggu við mikla rausn á Eyri við Arnarfjörð. Kirkjunni á Núpi, sem Björn Jórsalafari, langafi Jóns dans, hafði náð að flýja í árið 1393, virðast þau hins vegar ekki hafa hirt um að halda við. Til marks um það er bréf Stefáns Jónssonar Skálholtsbiskups frá árunum upp úr 1500 þar sem hann felur Birni Guðnasyni í Ögri umsjón staðar og kirkju á Núpi með þessum orðum:

 

Núpur í Dýrafirði er biskup Stefán hafði taksett fyrir niðurfall kirkjunnar þar og fordjörfun ornamentorum. Bífalaði greindur biskup Stefán garðinn þar Birni Guðnasyni með þeim skilmála að fyrrnefndur Björn skal gjöra upp kirkjuna í góðan máta, veggina báða og gaflaðið með stein og torf, traustlega hlaðið og leggja þar til 10 kýr, 60 ásauðar, messuklæði sæmileg og allar bækur nauðsynlegar svo kirkjan sé vel birg vetur og sumar og allt það sem guðs embætti tilheyrir.[111]

 

Ártal vantar á þetta bréf en mjög líklegt er að það sé skrifað skömmu eftir andlát Jóns dans sem féll frá árið 1508.

Björn Guðnason í Ögri var systursonur Jóns dans, sonur Þóru Björnsdóttur, sem eins og Jón danur var launbarn Björns Þorleifssonar, hirðstjóra á Skarði. Þóra giftist Guðna Jónssyni sýslumanni er lengi bjó á Kirkjubóli í Langadal við Djúp og var Björn sonur þeirra. Hann þótti snemma álitlegt höfðingjaefni og fékk ungur sýsluvöld í Dalasýslu en varð sýslumaður í Ísafjarðarsýslu árið 1503.[112] Er Jón danur andaðist árið 1508 var hann barnlaus, enda var Björn Guðnason fljótur að kalla til arfs eftir þennan auðuga frænda sinn.

Í júnímánuði árið 1508 var gengið frá skiptum á eignum Jóns dans milli Kristínar ekkju hans og Björns í Ögri. Við þau skipti fékk Björn margar jarðir í Mýrahreppi en ákveðið var að Núpur og Alviðra skyldu standa óskipt þar til biskup væri um riðinn þá um sumarið.[113]

Ástæðan fyrir því að ekki var strax gengið frá málum varðandi Núp hefur líklega verið sú að jörðin var taksett af biskupi eins og fram kemur í bréfi því um niðurfall og endurbyggingu Núpskirkju sem hér var áður vitnað í. Flest bendir reyndar til að með því bréfi hafi Stefán biskup hlutast til um að Björn Guðnason fengi Núp í sinn hlut við lokafrágang á skiptingu arfsins eftir Jón dan eða hann hafi að minnsta kosti lagt blessun sína yfir þá niðurstöðu. Aðrar heimildir sýna svo ekki verður um villst að Björn eignaðist Núp við þessi erfðaskipti. Því til sönnunar má m.a. nefna vitnisburð tólf manna, sem helst er talinn vera frá árinu 1510, þar sem gerð er grein fyrir hvernig Björn eignaðist Núp og þær jarðir aðrar er þar til liggja. Í þessum vitnisburði er komist að orði á þessa leið:

 

En eftir Jón Björnsson [dan] frá fallinn þá settist Björn Guðnason í peninga og öndvegi og lýsti sig lögarfa eftir oftgreindan Jón Björnsson til allra þeirra peninga er hann hafði átt. … Eftir það gengu þau til helmingaskiftis á öllum peningum, greind Kristín Sumarliðadóttir og Björn Guðnason. Reiknuðust og skrifuðust þá svo peningar í sundur að í annan helminginn voru þær jarðir lagðar sem lágu út fyrir Sléttanesi og kringum Arnarfjörð, þrjár jarðir í Arnarfjarðardölum og ein norður á Ströndum, en í annan helminginn töldust þær jarðir sem lágu í Dýrafirði, á Ingjaldssandi, í Önundarfirði og Arnarfjarðardölum. Bauð þá títtnefndur Björn Guðnason hústrú Kristínu kjósa hvorn helminginn sem hún vildi heldur hafa. En hún köri í kringum Arnarfjörð og Sléttanes en Björn skyldi hafa hinn nyrðra.[114]

 

Af öllu þessu má ljóst vera að Björn Guðnason eignaðist Núp árið 1508 og mun hafa átt jörðina til dauðadags en hann andaðist tíu árum síðar. Sjálfur bjó Björn þó aldrei á Núpi en sat jafnan í Ögri. Guðrún dóttir hans, sú eldri með því nafni, og maður hennar, Hannes Eggertsson hirðstjóri, settust hins vegar að á Núpi á árunum 1513-1517.[115]

Er Björn í Ögri náði eignarhaldi á Núpi og Hannes tengdasonur hans settist þar að urðu tvenns konar þáttaskil í sögu staðarins. Önnur breytingin var sú að nú varð Núpur höfðingjasetur á ný eins og verið hafði á dögum Þórðar Sigmundssonar, sem andaðist í svartadauða árið 1403 (sjá hér bls. 6-9), en næstu hundrað árin eftir dauða Þórðar höfðu auðmennirnir sem áttu jörðina yfirleitt setið annars staðar og látið bústjóra sjá um reksturinn á Núpi. Hin breytingin fólst í því að allt frá dögum Björns Guðnasonar hélst sú regla í um það bil þrjár aldir að sonur eða dóttir tæki jafnan við Núpi að erfðum eða gjöf frá sínum foreldrum. Slík festa í erfðum var nýjung enda þótt allir eigendur Núps frá dögum Guðmundar Arasonar og fram á 19. öld hafi reyndar verið einnar og sömu ættar, það er niðjar Vatnsfjarðar-Kristínar sem var tengdamóðir hans.

Keðjan sem hófst með Birni Guðnasyni slitnaði ekki fyrr en kom fram á 19. öld og þá voru ættliðirnir í röð eigenda Núps orðnir tíu. Allir bjuggu þessir eigendur á ættaróðalinu nema þrír. Fyrstur í röðinni er Björn Guðnason. Önnur Guðrún dóttir hans og hennar maður, Hannes Eggertsson hirðstjóri. Þriðju í röðinni koma systkinin Eggert Hannesson lögmaður og Guðrún systir hans, sem gift var Þorláki Einarssyni sýslumanni. Sá fjórði er Gizur Þorláksson sýslumaður og hinn fimmti Jón Gizurarson, lögréttumaður og fræðimaður, sem dó árið 1648. Allt bjó þetta fólk á Núpi nema sjálfur ættfaðirinn Björn Guðnason. Við andlát Jóns Gizurarsonar varð hins vegar breyting á í þeim efnum því Torfi sonur hans, sem eignaðist Núp eftir föður sinn, settist að á Suðurlandi og varð prófastur í Gaulverjabæ. Sonur hans, séra Jón Torfason, sem var sjöundi liðurinn í þessari röð, eyddi líka sínum ævidögum sunnanlands og var í 30 ár prestur í Fljótshlíðinni. Áttundi hlekkurinn í þessari keðju var svo Björn Jónsson sem fluttist vestur í Dýrafjörð og gerðist bóndi á óðali feðra sinna, Núpi. Þar bjuggu líka sonur hans og sonarsonur, Magnús Björnsson og Magnús Magnússon, en sá síðarnefndi andaðist árið 1829,[116] og skömmu síðar slitnaði keðjan. Að öllu þessu fólki verður vikið lítið eitt nánar síðar (sjá hér bls. 24-55 og 65-72) en fyrst mun vert að gera dálitla grein fyrir kirkjunni á Núpi og eignum hennar.

 

Núpskirkja

 

Í kirknatali Páls biskups Jónssonar frá því um aldamótin 1200 er getið um þrjár kirkjur í Mýrahreppi og ein þeirra sögð vera at Gnúpi.[117] Elsti máldagi Núpskirkju sem varðveist hefur mun vera frá árinu 1363 og er kenndur við Þórarin biskup Sigurðarson. Þar má sjá að kirkjan var helguð Jóhannesi skírara og að þangað lágu tíundir af fimm bæjum.[118] Gera má ráð fyrir að þessi bæir hafi verið Núpur, Gerðhamrar, Arnarnes, Birnustaðir og Fjallaskagi, sem alla tíð hafa verið í Núpssókn, en í Alviðru hafa tíundir verið teknar heima því þar var hálfkirkja (sjá hér Alviðra).

Árið 1363 átti Núpskirkja þriðjung í heimalandi en engar aðrar jarðeignir.[119] Ítök sem kirkjan hafði þá eignast voru þessi: Skógarreitur á Kleifum, vestantil í Dýrafjarðarbotni, tíundi hluti í öllum hvalreka fyrir landi Sæbóls og Brekku á Ingjaldssandi og Breiðabóls í Skálavík, einnig tíunda hver vætt í hvalreka á fjöruparti í Ketildölum í Arnarfirði, fjórðungur í öllum reka á strandlengjunni frá HaukslækHvarfi og selveiði að vild á því svæði, fimm kúgilda beit í Nesdal og skipshöfn á Skaga tolllaust.[120]

Í síðustu orðunum felst að Núpskirkja hefur átt rétt á að gera út eitt skip frá Fjallaskaga án þess að greiða vertoll, og í máldaganum er reyndar tekið fram að Núpsmenn eigi þar innsta reitinn og skálagjörð á Brekku sem gefur til kynna hvar verbúðin hefur staðið.[121] Haukslækur sem þarna er nefndur ber enn sama nafn og er rétt utan við túnið í Alviðru en Hvarf er að líkindum sá staður undir ysta enda Skagafjalls þar sem menn á leiðinni inn eftir hurfu sjónum þeirra sem stóðu í skáladyrum í Nesdal.

Helstu gripir Núpskirkju árið 1363 voru þessir: Tvö altarisklæði, tveir dúkar, silfurkaleikur, tvær kertastikur, fjórir reflar með dúkum, þrjár klukkur lestar (þ.e. laskaðar), tveir krossar og annar þeirra smeltur, silfurskrín, mundlaug og bók með heilagra manna sögum.[122] Þessari upptalningu á gripum fylgir líka sérstök skrá yfir gripi og bækur sem tekið er fram að Brigitt hafi lagt kirkjunni til. Hennar gjafir voru: Messuklæði sæmileg, glóðaker, kantarakápa, altarisklæði með mislitu ívafi, glergluggi, steind brík (það er máluð altaristafla), kross með líkneski, friðarspjald sem fólk kyssti við messugerðir og loks þrjár latneskar bækur til notkunar við tíðasöng bæði sumar og vetur.[123]

Gera verður ráð fyrir að Brigitt sú sem allt þetta gaf sé sama kona og á öðrum stað er nefnd Birgitta en hún og Þórður Sturluson sonur hennar áttu Núp á fyrri hluta 14. aldar og hafa sennilega búið þar (sjá hér bls. 6).

Hér hafa nú verið taldar nær allar eignir Núpskirkju sem getið er um í máldaganum frá árinu 1363 en þó eru enn ótaldar fjórar kýr, eitt hundrað í fríðum peningi (þ.e. lifandi fé) og annað í ófríðu.[124] Í máldaganum er tekið fram að á Núpi skuli vera heimilisprestur og þar er líka kveðið á um að hann eigi að fá fjórar merkur í kaup.[125]

Í Oddgeirsmáldaga frá árinu 1378 kemur fátt nýtt fram um eignir Núpskirkju. Þar er þó skírnarfonti bætt við gjafir Brigitar,[126] sem bendir til þess að hún hafi lifað fram yfir 1363 en auðvitað gæti þó hafa gleymst að geta um fontinn í eldri máldaganum. Í Oddgeirsmáldaga sést líka að verbúð Núpsmanna á Fjallaskaga hefur verið inn á Brekku.[127]

Árið 1378 virðast kirkjuklukkurnar þrjár á Núpi, sem sagðar voru lestar fimmtán árum fyrr, hafa verið orðnar alveg ónýtar því þeirra er ekki getið í Oddgeirsmáldaga. Þar segir hins vegar að kirkjan eigi klukkumálm fimm pund er Jón Ketilsson skyldi senda til Noregs.[128] Pundin sem þyngd klukkumálmsins er mæld í hafa líklega verið líspund, en sextán nútímapund eru í hverju líspundi, svo alls hefur málmurinn vigtað 40 kíló. Oddgeir biskup hefur greinilega ætlað að láta steypa gömlu klukkurnar upp í Noregi  en Jón þann Ketilsson, sem átti að sjá um sendinguna, þekkjum við ekki.

Næsti máldagi Núpskirkju sem varðveist hefur er Vilkinsmáldagi frá árinu 1397. Þar sést að kirkjueignirnar eru í meginatriðum hinar sömu og áður en tekið er fram að Þórður Sigmundsson er þá bjó á Núpi (sjá hér bls. 6-9) hafi gefið kirkjunni eitt kúgildi og eitt hundrað í bókum til minningar um konu sína Solveigu (Svartsdóttur).[129] Ekki getur þetta talist stórmannleg gjöf hjá Þórði sem var afi Guðmundar Arasonar ríka.

Er Vilkin biskup kom að Núpi árið 1397 var klukkumálmurinn þar enn, – þessi 5 pund (líspund), sem Jón Ketilsson hafði lofað að senda utan fyrir meira en tveimur áratugum.[130]

Vilkinsmáldagi er yngsti máldagi kirkjunnar á Núpi úr kaþólskum sið þar sem rækileg grein er gerð fyrir eignum hennar og ítökum. Næsti máldagi af því tagi sem varðveist hefur er frá árunum upp úr 1570, kenndur við Gísla biskup Jónsson.[131] Er Gíslamáldagi var ritaður voru um það bil 175 ár liðin frá því gengið var frá Vilkinsmáldaga. Á þessu skeiði urðu ýmsar breytingar á eignum Núpskirkju en þó furðu litlar.

Eins og áður átti kirkjan þriðjung í heimalandi en í Gíslamáldaga er tekið sérstaklega fram að kirkjan eigi Kotnúp sem virðist þá ekki vera talinn með heimalandinu.[132] Óvíst er hvort svo hafi verið áður. Kotnúpur var yfirleitt metinn á 10 hundruð en án hans var heimalandið á Núpi 50 hundruð. Jarðeignir kirkjunnar hafa því ekki náð 30 hundruðum og verið aðeins 20 hundruð ef kirkjueignin er talin þriðjungur úr öllu Núpslandi, að Kotnúpi meðtöldum, eins og gert er í Jarðabókinni frá 1710.[133]

Ítök kirkjunnar voru á árunum upp úr 1570 flest hin sömu og áður. Tíundi hluti úr hvalreka fyrir landi Breiðabóls í Skálavík hefur þó breyst í tíundahluta úr landi jarðarinnar Breiðabóls,[134] en þar er sennilega um misritun að ræða. Tvö ný ítök höfðu bæst við á árunum 1397-1570. Þau voru 60 sauða beit á Skagahliðum og reitisöl á Skaga (Fjallaskaga).[135] Er Gíslamáldagi var ritaður átti Núpskirkja 10 kýr, 60 sauðkindur og einn hest.[136] Gripir kirkjunnar voru þá þessir: Tvenn messuklæði, einn lítill silfurkaleikur, tvær klukkur, tvær bjöllur, þrír koparhjálmar, eitt altarisklæði og brík yfir altarinu (þ.e. altaristafla), eitt bakstursjárn, eitt glóðarker, ein koparpípa og ein skrúðakista.[137] Auk þess átti kirkjan 12 gamlar bækur er máldaginn var ritaður,[138] en athugun leiðir í ljós að fastagóss sem sem svo er nefnt í máldögum eru þær jarðeignir í sókninni sem tíund var goldin af til kirkjunnar.

Árið 1710 hafði Núpskirkja ekki bætt við sig neinum jarðeignum frá því sem verið hafði um 1570 en átti sem fyrr þriðjung í heimalandi.[139] Um rekaréttindi Núpskirkju á Ingjaldssandi, í Arnarfjarðardölum og í Skálavík er ekki getið í Jarðabókinni frá 1710 né heldur um reitisöl á Skaga sem Gísli biskup taldi kirkjuna eiga.[140] Í Jarðabókinni segir hins vegar að Núpsmenn hafi stundað sölvatekju í árósnum milli Gerðhamra og Arnarness,[141] og hlýtur þar að vera átt við Arnarnesá. Er Árni Magnússon kom í Dýrafjörð árið 1710 voru skógarítök Núpskirkju í Dýrafjarðarbotni orðin tvö, annað á Kleifum en hitt í Kollamýri, bæði í landi Dranga (sjá hér Drangar).[142] Í gömlu máldögunum er hins vegar aldrei nefndur nema einn skógarreitur í eigu Núpskirkju, sá á Kleifum, svo líklegt er að hún hafi öðlast rétt til skógarhöggs í Kollamýri eftir 1570.

Í vísitazíu Helga biskups Thordersen frá árinu 1852 eru nær öll þau ítök sem Núpskirkja hafði áður átt enn talin vera hennar eign.[143] Aðeins skógarítakið í Kollamýri vantar þar í skrána og tekið er fram að skógarreiturinn á Kleifum sé að mestu upprættur.[144] Jarðeignir kirkjunnar árið 1852 voru líka hinar sömu og áður, þriðjungur í heimalandi og Kotnúpur.[145] Kotnúp mun Núpskirkja hafa átt alveg þangað til hún var afhent söfnuðinum um 1930.[146] Árið 1852 átti kirkjan aðeins sex kúgildi en fjögur höfðu verið seld og tíu fallið í harðindum.[147] Fyrir hvert kúgildi fékk presturinn árlega 2 fjórðunga af smjöri,[148] það er 10 kíló.

Er Helgi biskup kom að Núpi stóð þar torfkirkja í sex stafgólfum, öll undir súð með fjalagólfi og þiljuð innan.[149] Altarið var gamalt með slitnum lit en sitt hvoru megin við það var gluggi með fjórum stórum rúðum.[150] Sunnanmegin dyra var líka gluggi með 12 litlum rúðum, sumum brotnum, og gluggi með fjórum rúðum fyrir ofan kirkjudyr.[151] Kirkjuviðirnir voru víða orðnir fúnir og allt var guðshús þetta tekið að snarast svo biskup taldi brýna nauðsyn bera til að það yrði endurbyggt hið fyrsta.[152] Veggir umhverfis kirkjugarðinn voru allir uppistandandi og með tilhlýðilegri grind í sáluhliði en annað hlið í góðu standi sneri í átt að bæjarhúsum.[153]

Helgi biskup telur upp helstu gripi og skrúðklæði sem kirkjan átti árið 1852 og segir þá m.a.:

 

Altaristafla máluð og lagleg, máluð tafla á þilinu milli kórs og kirkju með Krists mynd og Ólafs kóngs helga. Yfir kórdyrum er Lútersmynd í gylltum ramma en utan kórdyra kóngs Friðriks IV fangamark af messing, annað gyllt með krónu af blýi. Danmerkur merki (Vaaben) af messing … . Kaleikur stór af silfri, gylltur innan og á stéttinni með patínu ágylltri … . Ljósakróna af kopar með 12 örmum, pípum og skálum, önnur lítil með 4 örmum … . Tvennar samhringjur misstórar, fimm saman á ramböldum og sjötta inni í kór á rambalda, allar heilar og hljóðgóðar.[154]

 

Meðal annarra kirkjumuna sem þarna eru taldir upp má nefna bakstursjárn og bakstursdósir málaðar úr tré, fjögur altarisklæði, fjóra altarisdúka, þrjá hökla og tvö rykkilín.[155]

Timburkirkja var fyrst byggð á Núpi árið 1876, en þetta nýja guðshús fauk og gjöreyðilagðist í ofsaveðri nóttina fyrir 31. janúar árið 1881.[156] Sighvatur Borgfirðingur, sem þá bjó á Höfða í Dýrafirði, getur um þennan atburð í dagbók sinni 30. janúar og segir:

 

Norðan afspyrnuveður og moldhríð allan daginn. Einn með verstu dögum sem hér koma. 14 stiga frost [líklega mælt á Réaumur og hefur frostið þá verið 17,5 stig á Celsius – innsk. K.Ó.]. … Þá um kveldið fauk kirkjan á Núpi í Dýrafirði, nýbyggð úr timbri, svo ekkert sá eftir af og sumt fór á sjó.[157]

 

Kirkjulaust var á Núpi næstu þrjú ár en árið 1884 var reist þar ný kirkja[158] úr timbri en með grjót í veggjum (sjá Firðir og fólk 1900-1999. 239).. Kirkjusmiður að því sinni var Bergþór Jónsson í Lambadal[159] sem seinna fór til Ameríku (sjá hér Lambadalur). Kirkjan sem byggð var 1884 gegndi sínu hlutverki í rösklega hálfa öld, allt þar til sú sem nú er á Núpi var vígð haustið 1939.

Núpskirkja var bændakirkja til 1930 eða því sem næst (sést ekki nánar í kirkjubókinni), en þá var hún afhent söfnuðinum.[160]

 

————————-

 

Frá því var áður greint að Björn Guðnason í Ögri og niðjar hans hefðu átt höfuðbólið Núp í liðlega 300 ár og sonur eða dóttir jafnan tekið við af foreldrum (sjá hér bls. 19-20).

Flestir þessara manna áttu heima á Núpi og hinir elstu voru vellauðugir og gegndu valdamestu embættum landsins. Hér er þess enginn kostur að gera öllum þessum Núpverjum þau skil sem verðugt væri en örfá orð um hvern þeirra eru sjálfsögð.

Björn Guðnason í Ögri sem eignaðist Núp árið 1508 (sjá hér bls. 18-20) bjó aldrei hér en fáum árum síðar settist Guðrún dóttir hans að á Núpi ásamt eiginmanni sínum, Hannesi Eggertssyni. Guðrún fæddist árið 1489 og var sú eldri tveggja dætra Björns í Ögri sem báru Guðrúnarnafn.[161] Hún gekk 18 ára gömul að eiga Bjarna Andrésson, sem var sonarsonur Guðmundar ríka Arasonar en fóstursonur Jóns dans Björnssonar og konu hans Kristínar Sumarliðadóttur á Eyri við Arnarfjörð.[162] Skömmu eftir að stofnað var til hjúskapar milli Guðrúnar og Bjarna Andréssonar afhenti Jón danur þessum fóstursyni sínum Brjánslæk á Barðaströnd til eignar og umráða ásamt öllum þeim jörðum sem því höfuðbóli fylgdu.[163] Sú ráðstöfun var gerð með gjafabréfi sem dagsett er 26. mars 1508 og segist gefandinn þá vera heill að viti en krankur á líkama, enda andaðist hann tveimur mánuðum síðar.[164]

Þau Guðrún eldri Björnsdóttir frá Ögri og Bjarni Andrésson settu bú á Brjánslæk vorið 1508 og bjuggu þar í eitt ár við ærinn auð en þá andaðist Bjarni svo Guðrún varð ekkja aðeins tvítug að aldri.

Ekki er nú vitað hversu margir urðu til að biðja þessarar ungu og vellauðugu ekkju sem án efa hefur þótt eitthvert hið álitlegasta gjaforð á landi hér. Sá sem hreppti hnossið var Hannes Eggertsson en hann var þá fullmektugur umboðsmaður hirðstjórans yfir Íslandi eða hafði máske látið af því embætti fyrir skömmu.[165] Hirðstjórinn, Söffrin Norby aðmiráll, sat sjálfur jafnan erlendis og kom aðeins einu sinni hingað til lands, snögga ferð, til að herja á enska sjóreifara sem hér stunduðu veiðar og verslun og höfðu á þeim árum stóran skaða gjört.[166]

Ekki er vitað með vissu hvaða ár Hannes gekk að eiga Guðrúnu en þó nær fullvíst að það hefur verið á árunum 1514-1517 og skömmu eftir brúðkaupið settust þau að á Núpi og tóku þar við búsforráðum.[167]

Hannes Eggertsson var norskur maður, sonur Eggerts Eggertssonar lögmanns í Víkinni þar sem nú er Osló. Páll Eggert Ólason segir að kenningarnafn þeirra feðga hafi verið Nordbagge en þeir yfirleitt látið nægja að kenna sig við föður sinn.[168] Eggert lögmaður, faðir Hannesar, var aðlaður af Hans konungi árið 1488 fyrir óvenjulega framgöngu móti svenskum.[169] Hann fékk þá eins og venja var sérstakt fríheitabréf fyrir sig og sína erfingja og skjaldarmerki er síðan fylgdi ætt hans.[170] Merkið var hálfur hvítur einhyrningur á bláum feldi og gert var ráð fyrir öðru sams konar merki í hjálmi.[171]

Hannes Eggertsson kemur fyrst við skjöl hérlendis árið 1513 og á árunum 1514 og 1515 var hann umboðsmaður hirðstjóra.[172]

Árið 1515 fór Kristján II Danakonungur þess á leit að sérhver bóndi á Íslandi greiddi 20 fiska í svokallað gingjald en gjaldi þessu var ætlað að standa undir kostnaði við herför gegn Englendingum hér við land.[173] Sama ár lagði sjálfur hirðstjórinn, Söffrin Norby, upp í slíka för út hingað en ætla má að Hannes hafi þurft að standa fyrir innheimtu á herkostnaðinum. Sama ár fór Hannes vestur á firði og hefur þá e.t.v. séð konuefni sitt í fyrsta sinn. Hann kom í Vatnsfjörð við Djúp og útnefndi þar 12 menn í dóm þann 28. ágúst vegna deilumála Stefáns biskups í Skálholti og Björns Guðnasonar í Ögri.[174] Sá dómur féll Birni í vil svo ekki er ólíklegt að í sömu ferð hafi tekist góð kynni með þessum norska valdsmanni og höfðingja Djúpmanna en þó má vera að þeir hafi áður verið orðnir kunnugir. Svo mikið er víst að úr þessu fór að styttast í brúðkaup þeirra Hannesar og Guðrúnar Björnsdóttur frá Ögri.

Árið 1516 mun Hannes hafa látið af embætti sem umboðsmaður hirðstjóra[175] en vera má að hann hafi orðið umboðsmaður á ný 1517 eins og segir í Vatnsfjarðarannál hinum elsta.[176] Varla hefur hann látið sér nægja að vera bóndi á Núpi. Árið 1521 var þessi aðalsmaður sem sest hafði að á Núpi skipaður hirðstjóri yfir öllu Íslandi[177] og varð þá valdamesti maður landsins á veraldlegu sviði. Sumarið áður var hann á Alþingi[178] en hefur að líkindum siglt á konungsfund að þingi loknu. Fullvíst er að hann var ekki heima þegar flokkur vopnaðra manna braut upp bæinn á Núpi aðfaranótt 30. júní 1520 og réðst til inngöngu. Þar var kominn Ari Andrésson, sonarsonur Guðmundar ríka Arasonar, og hugðist ná á sitt vald þessu fríða höfuðbóli sem afi hans hafði tapað 74 árum fyrr.

Með samkomulaginu sem gert var á Hallsteinsnesi haustið 1498 hafði Björn Þorleifsson, sonarsonur og alnafni Björns hirðstjóra, fallist á að Andrés, faðir Ara og launsonur Guðmundar Arasonar, fengi Núp. Í dómi sem felldur var á Mýrum í Dýrafirði vorið 1500 var hins vegar komist að þeirri niðurstöðu að Björn hefði ekkert umboð haft til þessarar ráðstöfunar en Jón danur, föðurbróðir hans, væri réttur eigandi að Núpi (sjá hér bls. 17-18). Frá Jóni dan fór Núpur í hendur Björns í Ögri eins og hér hefur áður verið gerð grein fyrir og síðan frá Birni til Hannesar.

Andrés Guðmundsson, sem bjó á Felli í Kollafirði í Strandasýslu, átti þrjá syni. Einn þeirra var Bjarni sem eins og áður sagði varð fyrri eiginmaður Guðrúnar Björnsdóttur er síðar gekk að eiga Hannes Eggertsson. Annar sonur Andrésar var svo Ari sem hér var nú nefndur til sögu. Við samningana sem gengið var frá á Hallsteinsnesi haustið 1498 var Andrési og sonum hans líka afhentur Saurbær á Rauðasandi (sjá hér bls. 17). Það höfuðból fékk Ari Andrésson í sinn hlut eftir nokkrar sviptingar[179] og bjó þar lengi en hann virðist hafa átt erfitt með að gleyma Núpi. Í tuttugu ár beið hann lags en ákvað nú að láta til skarar skríða. Um herför Ara frá Saurbæ norður að Núpi í júnílok sumarið 1520 segir svo í vitnisburði frá árinu 1521:

 

Það gjöri ég Tristram Búason góðum mönnum kunnugt með þessu mínu opnu bréfi að ég var heimilisfastur hjá Hannesi Eggertssyni undir Núpi í Dýrafirði í þann sama tíma sem Ari Andrésson kom undir Núp um vorið næstu nótt eftir Pétursmessu og Páls [þ.e. aðfaranótt 30. júní – innskot K.Ó.] um sumarið með flokk manna, nær tuttugu eður meir, allir með tygjum og vopnum það ég kunni að merkja. Vissi ég ekki þeirra framferði eður gjörninga fyrr en þeir komu inn í skálann þar ég lá sofandi og vakinn í sænginni og sex menn aðrir sem þar heyrðu til.

Voru þeir allir með brugðnum vopnum og verjum sem í skálann gengu. Kenndi ég þar fyrstan Ara Andrésson að hann kom þar að sem ég lá með vopnum, sló á sængina og bað mig vaka og sagði að ég hefði lengi þjónað þeim sem sér hefðu í mót verið. … Sá ég þá að þeir menn aðrir sem í skálanum voru af mínum selskap voru slegnir og höggnir með vopnum af mönnum greinds Ara Andréssonar. Komst ég þá út úr garðinum og aðrir mínir fylgjarar. Var þá skemman upp brotin sem þar stóð úti og kosturinn út borinn, sá þar var þá inni. Sá ég og út úr kirkjunni var borið 10 hundruð skreiðar af mönnum Ara og í burt, hverja Hannes Eggertsson hafði þar áður inn sett og hann hafði í kóngsins sakferli tekið og undir hans lás lýst. Var þar fljótandi tíæringur fyrir landi og þar með tvær voðir vaðmáls, fjórar vættir skreiðar og sexæringur er greindur Ari í burtu hafði og hans menn, – sex vopn, eina byssu stóra er gilti vel 20 gyllini, einn vagn.[180]

 

Hér koma reyndar fram merkilegar upplýsingar, annars vegar það að skreiðin sem kóngi var ætluð skuli hafa verið geymd í kirkjunni, sem reyndar sýnist hafa verið algengt á þessum tíma (sjá hér bls. 33), og svo hitt að á Núpi hefur verið vagn. Ætla verður að það sem nefnt er vagn hafi verið ökutæki á hjólum og þá að líkindum hestvagn af einhverju tagi. Ekki mun kunnugt um að fleiri slík tæki hafi þá verið til á Íslandi og almennt hefur verið talið að farartæki á hjólum hafi nánast ekkert verið notuð hér við flutninga fyrstu þúsund árin sem landið var í byggð.

Í íslenskum fornritum er nær aldrei minnst á notkun vagna hérlendis.[181] Í Víga-Glúms sögu, sem talin er hafa verið rituð á fyrri hluta 13. aldar og segir frá atburðum á 10. öld,[182] er þó á einum stað frá því greint að Helga Eyjólfsdóttir, systir Víga-Glúms, lét flytja son sinn, Þorvald tasalda, sem þá var nær dauða en lífi, á vagni frá Munkaþverá í Eyjafirði að Laugalandi.[183] Sú vegalengd er um það bil þrír kílómetrar.

Í Íslendingasögum mun hvergi finnast annað dæmi um notkun vagna hérlendis því lík Höskuldar Njálssonar var að sögn höfundar Njálu lagt í vögur en ekki vagn.[184]

Dæmið úr Víga-Glúms sögu bendir reyndar til þess að notkun vagna hafi ekki verið með öllu óþekkt á landi hér þegar sagan var skrifuð. Sú staðreynd að í öllum rituðum heimildum frá því fyrir 1500 finnst þó aðeins þetta eina dæmi um farartæki á hjólum í eigu íslenskra manna bendir hins vegar mjög eindregið til þess að vagnar hafi nær ekkert verið notaðir hérlendis á miðöldum.

Á einum stað í Grágás, hinni fornu lögbók frá þjóðveldistímanum, er að vísu kveðið á um að hverjum þeim sem ferðast um annars manns skóg á vagni eða sleða skuli heimilt að nýta sér timbur skógarins til viðgerða ef farartækið bilar.[185] Líklegt er hins vegar að þetta ákvæði sé komið inn í Grágás úr norskum lögum og valt að byggja á því kenningu um vagnferðir í íslenskum skógum. Hitt segir sig reyndar líka sjálft að vagninn í Víga-Glúms sögu kynni að vera hugsmíð söguhöfundarins.

Í öllu Fornbréfasafninu, sem er sextán þykk bindi, finnst ekkert dæmi um vagn á Íslandi, nema þetta eina um vagninn sem var á Núpi árið 1520.[186] Sá vagn er því sá næsti við vagninn úr Víga-Glúms sögu sem um er kunnugt á landi hér og er því harla merkilegur gripur. Hjá Orðabók Háskóla Íslands hafa flest íslensk rit sem út voru gefin á árunum 1540-1850 verið orðtekin. Í öllu því safni finnst aðeins eitt dæmi um vagn sem ætlaður var til notkunar hér innanlands á því skeiði.[187] Þetta eina dæmi er að finna í sjálfsævisögu Jóns Thorchilliusar skólameistara þar sem sagt er frá undirbúningi að byggingu dómkirkjunnar á Hólum, sem reist var á árunum 1759 til 1763. Þar er þess getið að vegna hinnar fyrirhuguðu kirkjubyggingar hafi ýms verkfæri verið flutt til landsins erlendis frá, meðal annars einn vagn.[188]

Frásögn Jóns af þessum verkfæraflutningi yfir hafið styður þá kenningu að hér á landi hafi engir eða nær engir vagnar verið til um miðbik 18. aldar því hvergi var þeirra frekar að vænta en á biskupsstólunum. Árið 1754 hafði reyndar verið kynnt á Alþingi sérstök orðsending frá kóngi þar sem m.a. er hvatt til þess að sem flestir þegnar hans komi sér upp vögnum[189] en þar með er ekki sagt að nokkur maður á Íslandi hafi farið eftir þeim tilmælum.

Allt hefur þetta verið rakið hér til að sýna hversu merkilegt er að rekast á vagn á hjólum á Núpi í Dýrafirði árið 1520.

Heimildir benda til þess að hér hafi alls engir vagnar verið notaðir um mjög langt skeið. Haustið 1828 var á borgarafundi sem haldinn var í Reykjavík rætt um að leggja akveg frá mógröfunum suður í Vatnsmýri og inn í bæinn.[190] Í tengslum við þessar ráðagerðir samþykkti fundurinn að senda rentukammerinu í Kaupmannahöfn beiðni um tvær kerrur á sterkum hjólum ásamt aktýgjum við hæfi íslenskra hesta.[191] Samþykktin bendir eindregið til þess að engin kerra hafi þá verið til í Reykjavík. Fjármálastjórarnir í rentukammeri munu hins vegar hafa tekið erindi borgarafundarins vel og veitt einhvern styrk til kaupa á kerru.[192] Tvímælalaust er að haustið 1836 höfðu bæjaryfirvöld í Reykjavík umráð yfir kerru því á borgarafundi sem þá var haldinn 15. september var samþykkt hver leigan fyrir kerruna skyldi vera væri hún lánuð til einkanota.[193]

Enda þótt fyrsta kerran komi til Reykjavíkur um eða upp úr 1830 virðast áformin sem þá voru uppi um lagningu vegar til móflutninga sunnan úr Vatnsmýri ekki hafa komist í framkvæmd fyrr en alllöngu síðar. Í virtum sagnfræðiritum er að minnsta kosti fullyrt að vegur þessi hafi ekki verið lagður fyrr en árið 1858 og þá hafi það verið Daniel Bernhöft bakari sem fyrir verkinu stóð.[194] Í riti sínu Aldarminning brauðgerðariðnaðar á Íslandi fullyrðir Guðbrandur Jónsson að kerran sem Bernhöft bakari notaði til móflutninga þegar búið var að leggja nýnefndan veg hafi í fyrstu verið einasti vagn í bænum[195] en óljóst er hvort þar er um sömu kerruna að ræða og hingað var send á árunum kringum 1830.

Í sveitum landsins verður fyrst vart við kerrur á árunum kringum 1860 og þá eingöngu hjá örfáum mönnum.[196] Árið 1858 veitti Búnaðarfélag Suðuramtsins Snjólfi bónda Þórðarsyni á Vífilsstöðum lán til þess að eignast vagn[197] en eldra dæmi um að einstakir bændur fengju sér kerru mun vart finnanlegt. Guðmundur Ólafsson sem fæddur var árið 1825 og bjó lengst á Fitjum í Skorradal var einn helsti búnaðarfrömuður landsins á sínum tíma. Á árunum 1847-1851 stundaði hann búnaðarnám í Danmörku og vann síðan lengi að jarðyrkju af miklu kappi.[198] Í bréfi er Guðmundur ritaði Jóni Sigurðssyni forseta í febrúarmánuði árið 1856 kveðst hann hafa sent danska innanríkisráðgjafanum beiðni um að láta sig fá haganlegan og léttan vagn með fjórum hjólum.[199] Vagninn hugðist Guðmundur nota til að draga að sér efni í túngarða[200] en slík hugmynd hefur að líkindum verið algert nýmæli á landi hér um miðbik 19. aldar. Bréf Guðmundar til Jóns forseta benda reyndar eindregið til þess að hann hafi engan vagn fengið fyrr en sumarið 1864 en þá um haustið þakkar hann Jóni fyrir liðsinni við útvegun vagnsins.[201]

Á árunum kringum 1860 var Guðmundur Ólafsson í fremstu röð íslenskra jarðyrkjumanna og mjög áhugasamur um allt sem laut að framförum í íslenskum landbúnaði.[202] Með hliðsjón af því er full ástæða til að ætla að hann hafi orðið fyrri til en nær allir aðrir landsmenn að koma sér upp kerru.

Á vegum íslenskra stjórnvalda var ekki hafist handa um lagningu einstakra vegaspotta fyrir hestvagna fyrr en árið 1886[203] og fram að þeim tíma mun notkun slíkra tækja hafa verið sáralítil um land allt.

Niðurstaðan er því sú að frá fyrstu 950 árunum sem landið var í byggð sé aðeins vitað með vissu um tvo vagna á hjólum er hér hafi verið, – vagninn á Núpi árið 1520 og vagninn á Hólum í Hjaltadal árið 1759. Þeim þriðja úr Víga-Glúms sögu má svo bæta við, með þeim fyrirvara þó að þar kynni að vera um skáldskap einan að ræða. Eitthvað fleiri hafa kerrurnar máske verið á þessum 950 árum en þó tvímælalaust mjög fáar. Allt bendir því til þess að vagninn sem Hannes Eggertsson átti á Núpi hafi verið býsna sérstætt fyrirbæri þar um slóðiðr árið 1520 en ætla má að norskir aðalsmenn hafi líka kunnað betur að færa sér kosti hjólsins í nyt en almennt var um Íslendinga.

Í vitnisburði Tristrams Búasonar um ránsferð Ara Andréssonar að Núpi í júnílok árið 1520 segir ekkert um það hvort húsbændurnir, Hannes og Guðrún, hafi verið heima er flokkur Ara í Saurbæ reið að garði. Augljóst virðist þó á lýsingunni að svo hefur ekki verið. Síðar um sumarið hélt Ari á ný með flokk vopnaðra manna norður í Dýrafjörð í því skyni að hertaka Núp.[204] Guðmundur bróðir hans var þá í för með honum.[205] Tristram Búason, sem var heimilismaður á Núpi, skýrði líka frá atburðum er þá áttu sér stað og var sá vitnisburður hans festur á blað haustið 1521.[206] Sá vitnisburður ber með sér að Guðrún húsfreyja á Núpi var þá heima en Hannes maður hennar hefur greinilega verið fjarverandi þó ekki sé þess getið beinum orðum. Komið var fram í síðari hluta ágúst er þessi herför var farin og fékk Guðrún fyrst fréttir af liðsafnaðinum er flokkurinn var kominn að Álftamýri. Sendi hún þá bréf til þeirra bræðra, Ara og Guðmundar, þar sem hún bauð lög og dóm fyrir sig og alla sína menn.[207] Í vitnisburði sínum greinir Tristram Búason nánar frá og segir:

 

En eftir fáa daga liðna komu tilgreindir bræður, Guðmundur og Ari, heim undir Núp með flokk manna og flestir með tygjum og vopnum. Flúði þá Guðrún í kirkju og svo ég, áður skrifaður Tristram Búason því ég kunni hvorki flýja fyrir míns krankleika sakir en allt annað hennar fólk flúði garðinn og vogaði öngva þjónustu að veita á garðinum fyrir heitan og umsögn greindra bræðra, Ara og Guðmundur. Var þá kirkjan afturlátin er þessi selskapur kom heim á garðinn. Stóð Guðrún þá fyrir kirkjuhurðinni er Ari kom að og bað hana upp láta en hún sagði nei fyrir. Hlupu þá á hurðina nokkrir af þeirra selskap svo hún gekk nær upp. Höfðust þau þá orð við, Ari og Guðrún. Lýstu þá þeir bræður, Ari og Guðmundur, að þeir skyldu greindan garð að sér taka, Núp, og allar aðrar eignir er þar til liggja. Bauð greind Guðrún Björnsdóttir þá enn sömu boð fyrir sig og sína menn sem fyrr segir sér til friðar og frelsis og öllum sínum mönnum en fyrirbauð allar ólöglegar aðtektir og aðgjörðir.[208]

 

Guðrún Björnsdóttir á Núpi hefur efalaust verið skörungskona mikil eins og hún átti kyn til, enda þótt hér kunni eitthvað að vera fært í stílinn. Hún var liðlega þrítug að aldri er hún varð fyrir þessari heimreið og stóð ein uppi í kirkjunni á Núpi með Tristram Búason veikan og vesælan sér við hlið. Faðir hennar, Björn Guðnason í Ögri, var þá látinn fyrir tveimur árum og bóndi hennar, Hannes Eggertsson, víðsfjarri. Ekki var heldur lið að syninum unga, Eggert Hannessyni, er síðar komst til mikilla mannvirðinga, því hann mun ekki hafa verið nema tveggja ára eða máske enn yngri þegar Ari hrakti hann og móður hans frá Núpi. Tristram Búason segir að eftir förina að Núpi í ágúst 1520 hafi Ari og hans menn tekið leigur af 20 kúgildum sem Guðrún átti vestur í fjörðum og á næsta ári  allar leigur og landskuldir.[209] Þetta sýnir að Ari hefur náð öllum yfirráðum á Núpi og jörðunum sem honum fylgdu. Enn skýrar kemur þetta þó fram í öðrum heimildum er brátt verða kynntar hér.

Árið 1521 var Hannes Eggertsson á Núpi skipaður hirðstjóri yfir öllu Íslandi eins og hér var áður getið og tók þá við af Týla Péturssyni.[210] Dómur um heimreiðir Ara að Núpi sumarið 1520 var þó ekki kveðinn upp á Alþingi fyrr en 1522 og vera má að Hannes hafi þá fyrst mætt til þings sem hirðstjóri. Í dómi þessum frá Öxarárþingi segir að Hannes Eggertsson hirðstjóri hafi kært Ara Andrésson fyrir að hafa gripið og tekið sína peninga og Guðrúnar Björnsdóttur, kvinnu sinnar, bæði fasta og lausa, kvika og dauða og fyrir aðrar gripdeildir með höggum og slögum er hann hefði veitt mörgum saklausum mönnum.[211] Niðurstaða dómsmannanna tólf varð sú að Ari yrði að skila öllum jörðum og búpeningi er hann hefði tekið ófrjálsri hendi og öllum öðrum peningum er hann hefði rænt.[212] Fyrir afnot jarðanna og kúgilda er þeim fylgdu var honum gert að greiða tvöfaldar leigur og landskuldir og allt þetta átti hann að borga Hannesi Eggertssyni eigi síðar en á Mikjálsmessu (29. september) þá um haustið.[213]

Tíu dögum fyrir Mikjálsmessu haustið 1522 reið Hannes í hlað í Saurbæ á Rauðasandi og þangað fylgdi honum fjölmenn sveit sem í voru ýmsir fyrirmenn, þar á meðal Teitur Þorleifsson, sem þá var lögmaður norðan og vestan.[214] Ari bóndi var heima er flokkur þessi reið í hlað og sá hann að hér var við ofurefli að etja. Á þessum fundi varð hann að skuldbinda sig til að skila hirðstjóranum bæði Núpi og Brjánslæk ásamt og öllum jörðunum er fylgdu þessum höfuðbólum og enn fleiri jarðeignum sem hann hafði lagt hald á.[215]

Sumarið 1523 kom Ari í Saurbæ á Öxarárþing og þar náði Ögmundur biskup að sætta þá Ara og Hannes. Ari féllst þá á að greiða hirðstjóranum á Núpi 240 kýrverð í skaðabætur og tók Ögmundur biskup sjálfur ábyrgð á greiðslunni.[216] Bætur þessar átti að greiða á tveimur til þremur árum og mun biskup hafa orðið að leggja út mjög verulegan hluta af fjárhæðinni.[217] Að lokum mun Ari þó hafa borgað nær alla þá peninga en engu að síður eignaðist biskup Saurbæ að Ara látnum.[218] Dálítið merkilegt má það kalla að yngri systir Guðrúnar Björnsdóttur á Núpi, – sú sem líka hét Guðrún og var kölluð runka, gekk að eiga Andrés Arason sem var launsonar Ara í Saurbæ og hans eina barn.[219] Ókunnugt er hvenær brúðkaup þeirra fór fram en vera má að hjónaband þetta hafi verið liður í samningunum sem Ögmundur biskup gekkst fyrir á Alþingi sumarið 1523.

Hannes Eggertsson á Núpi mun aðeins hafa verið hér hirðstjóri í þrjú ár, frá 1521-1524.[220] Forveri hans í því háa embætti var Týli Pétursson sem fór með hirðstjóravöld frá 1517-1520.[221] Eitthvað mun Týla hafa verið sárt um að tapa hirðstjóratigninni og er sagt að hann hafi lagst í víking er hann varð að sjá á bak embættinu.[222]

Sumarið 1523 kom Týli til Íslands í ránsferð. Hann braut þá upp kirkjuna á Bessastöðum og rændi þar miklu fé en handtók Hannes Eggertsson, eftirmann sinn í hirðstjórasætinu. Í annálnum sem hér er einkum stuðst við segir að hann hafi flutt Hannes út í Hólm, það er Örfirisey við Reykjavík, og haldið honum þar í hálfan mánuð.[223] Á sérstöku þingi sem haldið var í Kópavogi síðar á árinu 1523 var Týli Pétursson, hinn fyrrverandi hirðstjóri, dæmdur réttdræpur hvar sem til hans næðist á landi hér.[224] Týli sýndi hins vegar þá dirfsku að koma hingað aftur næsta sumar og bárust fréttir af komu hans austur að Þingvöllum er Alþingi sat þar að störfum.[225] Hafði Týli komið á skipi sínu til Hafnarfjarðar og brotið upp Bessastaðakirkju í annað sinn.[226] Í kirkjunni tók hann kóngsins skatta,[227] sem ætla má að einkum hafi verið vaðmál og skreið, og flutti út í skip sitt.

Að þessu sinni varð Hannes Eggertsson á Núpi þó sigurvegarinn í þeirra viðskiptum. Hann fékk þá með sér bæði þýska og íslenska, slóst við Týla, tók hann og lét drepa, segir í Hirðstjóraannál.[228] Frá þessu frægðarverki Hannesar langafa síns segir Jón Gizurarson, fræðimaður á Núpi svo: Tóku þeir Týl þá og son hans og leiddu þeir þá báða austur yfir Bessastaði og hjuggu þar af þeim höfuðin, – kallast Týlshóll síðan.[229]

Árið 1525 fluttist Hannes Eggertsson frá Núpi til Altona sem nú er útborg Hamborgar og þangað fóru líka kona hans og börn ásamt þjónustufólki.[230] Vera má að Hannes hafi sjálfur farið haustið áður en konan og börnin komið á eftir og þannig verður að skilja orð niðja þeirra, Jóns Gizurarsonar sem hér var áður nefndur, en hann segir um Guðrúnu langömmu sína á Núpi: Guðrún lét ei allt fyrir brjósti brenna og sigldi eftir Hannesi er henni þótti honum frestast. Þau bjugg margt ár til Altona fyrir utan Hamborg.[231]

Talið er að Hannes og Guðrún hafi búið í Altona í þrjú til fimm ár og verið komin aftur að Núpi eigi síðar en 1530.[232] Um það leyti eða skömmu fyrr tók Hannes að krefjast þess að kirkjan skilaði Vatnsfirði við Djúp og fleiri jörðum sem Stefán Jónsson biskup í Skálholti hafði á sínum tíma tekið af Birni Guðnasyni í Ögri, tengdaföður Hannesar.[233] Með þetta erindi sneri Hannes sér til konungs og mun Ögmundur Skálholtsbiskup hafa talið að bæði Hannes og fleiri erfingjar Björns í Ögri flyttu konungi rógburð um sig.[234]

Með dómi sem upp var kveðinn á Alþingi sumarið 1530 var kröfum á hendur Ögmundi biskupi og kirkjunni hafnað og sá úrskurður felldur að allt það jarðagóss sem málið snerist um væri lögmæt eign kirkjunnar.[235]

Er Hannes Eggertsson fluttist hingað til lands í annað sinn um 1530 voru endalokin skammt undan hjá honum því sannanlegt er talið að hann hafi látist eigi síðar en 1533 eða 1534.[236] Yfir síðustu æviárum hans hvílir reyndar eins konar hula og sagnir um endalok hans ganga mjög á misvíxl. Jón Gizurarson á Núpi segir í ritgerð sinni um siðaskiptatímann að Hannes langafi sinn hafi dáið á Hamborgarelfi[237] úti í Þýskalandi og samkvæmt því mætti ætla að dauða hans hafi borið að á skipsfjöl. Séra Jón Egilsson í Hrepphólum, sem fæddur var árið 1548, segir hins vegar í Biskupaannálum sínum að Hannes hafi andast snögglega á Bessastöðum. Frásögn séra Jóns er með nokkrum þjóðsagnablæ en hann greinir svo frá að Hannes hafi gengið til náðhúss og fundist þar dauður skömmu síðar.[238] Séra Þórður Ólafsson var þá prestur í Görðum á Álftanesi og dreymdi hann að maður kæmi til sín og segði þær fréttir að Týli Pétursson, sem Hannes lét taka af lífi, hefði gengið aftur og drepið Hannes á kamrinum.[239] Hannes drap Týl en Týl drap aftur Hannes, segir þar.

Guðrún Björnsdóttir, ekkja Hannesar hirðstjóra, bjó lengi á Núpi að manni sínum látnum og var þar enn á lífi árið 1563 en er talin hafa andast á því ári.[240]

Elsta barn Guðrúnar Björnsdóttur var Solveig sem hún átti með fyrri manni sínum, Bjarna Andréssyni á Brjánslæk, og hlýtur að hafa verið fædd á árunum 1508 til 1510. Hana nam á brott séra Filippus Jónsson, sem var prestur í Rauðasandsþingum, og fylgdi hún honum um skeið. Bogi Benediktsson segir í Sýslumannaæfum að meyjarrán þetta hafi verið framið árið 1528[241]  en orðalag í sættargerð vegna málsins bendir til þess að séra Filippus hafi verið seinna á ferð og ekki rænt Solveigu fyrr en Hannes Eggertsson á Núpi var látinn en hann andaðist á árunum 1530-1534. Í nýnefndri sættargerð er komist svo að orði að Solveigu hafi verið rænt úr móðurgarði og bróður[242] sem bendir eindregið til þess að Hannes stjúpi hennar hafi verið andaður þegar séra Filippus lét til skarar skríða en Guðrún móðir hennar hafi þá staðið fyrir búinu á Núpi ásamt Eggerti syni sínum sem hafi verið kominn á unglingsár.

Séra Filippus var sonur Jóns Jónssonar, bónda í Sauðlauksdal, sem kallaður var Jón Íslendingur.[243] Ljóst er að séra Filippus hefur dvalist á Núpi og átt þar vingott við Solveigu áður en hann féll í þá freistni að ræna henni. Elsta heimildin um það er sættargerð sú frá árinu 1568 sem hér var áður vitnað til. Meyjarrán séra Filippusar dró á eftir sér langan slóða og frá sættargerðinni var ekki gengið fyrr en þriðjungur aldar eða þar um bil var liðinn frá atburðum. Með sættargerðinni kúgaði Eggert Hannesson, bróðir Solveigar, bróðursyni séra Filippusar til að gjalda sér tvær jarðir í Rauðasandshreppi, Hvallátur og Keflavík, í miskabætur fyrir brottnám Solveigar en séra Filippus var þá ekki lengur á lífi.[244] Þessa sömu frændur hins hugdjarfa klerks lét Eggert einnig undirrita yfirlýsingu sem sýnir í grófum dráttum hvernig hann hefur sjálfur tjáð sig um athæfi séra Filippusar. Þar segir m.a.:

 

Í fimmtu grein ákærði Eggert okkur fyrrgreinda bræður, Björn og Jón (Konráðssyni) um það að okkar faðir og föðurfaðir hefðu upp á nokkur ár hýst, haldið og heimilað fyrrgreindum séra Filippusi Jónssyni með Solveigu Bjarnadóttur eftir það að fyrrskrifaður séra Filippus hafði haft hana með vélum og svikum á næturþeli úr móðurgarði og bróður og síðan hana í burtu flutt á skipuðu skipi með leynd og lymskupörum til síns föður Jóns Íslendings og fleiri og meiri ákærur og sakargiftir er þráttnefndur Eggert lögmann okkur gaf á vegna séra Filippusar um það svívirðilegt framferði sem hann hafði í frammi haft við Solveigu Bjarnadóttur áður en hann hafði hana úr móðurgarði og bróður hvað þó eigi er hæfilegt svo ljóslega fyrir allra manna augu að bréfsetja.[245]

 

Við lestur þessara orða verður ljóst að hinn vífni guðsmaður hefur komið á næturþeli að Núpi og stúlkan verið horfin er fólk vaknaði að morgni. Hann kemur á skipi og hefur hraðan á, lætur róa lífróður út Dýrafjörð með sinn dýrmæta feng og áfram fyrir Sléttanes og Kóp, heim í Sauðlauksdal. Líklegast er að mærin Solveig hafi verið fús til fararinnar og vera má að þau hafi fengið óskabyr. Af elstu gögnum málsins má ráða að engin eftirför hefur verið veitt og Solveig býr með presti sínum upp á nokkur ár eins og komist er að orði í yfirlýsingunni sem hér var birt. Fráleitt verður að telja að Guðrún Björnsdóttir á Núpi með allan sinn frændastyrk hefði látið slíkt líðast ef Solveigu dóttur hennar hefði verið rænt nauðugri úr móðurgarði. Þegar Ögmundur biskup greiddi Guðrúnu bætur fyrir tiltæki prestsins þá er féð goldið fyrir hugmóð og forþrot sem séra Filippus hafði gjört henni, það er Guðrúnu, þá hann var í hennar garði[246] en ekki er látið að því liggja að séra Filippus hafi gert Solveigu eitt eða neitt sem henni kynni að hafa verið á móti skapi. Allt styrkir þetta þá skoðun að stúlkunni hafi verið rænt með hennar vilja en móðirin hafi áður bannað henni samfundi við hinn prestlærða son Jóns Íslendings. Bæturnar sem Guðrún húsfreyja á Núpi fékk frá biskupi voru hálf Alviðra.[247]

Ei vildi Guðrún síðar sjá hana þó í sátt tæki, segir Bogi Benediktsson um samskipti þeirra mæðgna, Guðrúnar á Núpi og hinnar burtnumdu eða öllu frekar brotthlaupnu dóttur hennar.[248] Hann bætir því við að Solveig hafi komist til hálfsystur sinnar, Katrínar Hannesdóttur, konu Gizurar biskups Einarssonar í Skálholti, og þaðan hafi hún gifst Ólafi Narfasyni sem bjó að Hvammi í Kjós.[249] Þá mun séra Filippus hafa verið látinn. Gamli Bogi segir líka í Sýslumannaæfum að Solveig hafi verið flutt frá Núpi að Látrum í Rauðasandshreppi en í yfirlýsingunni frá 1568 segir beinum orðum að séra Filippus hafi flutt hana til síns föður, Jóns Íslendings (sjá hér bls. 35). Í öllum kunnum heimildum um Jón Íslending er hann sagður hafa búið í Sauðlauksdal[250] svo ætla verður að þangað hafi Solveig verið flutt. Hins vegar átti Jón þessi Hvallátra [251] og fullvíst er að séra Filippus sonur hans taldi sig síðar hafa ráð á þeirri jörð.[252] Alllíklegt má því telja að séra Filippus og Solveig fylgikona hans hafi búið á Látrum um eitthvert skeið.

Þau Solveig Bjarnadóttir og prestur hennar munu hafa eignast a.m.k. eitt barn því til er bréf sem Ögmundur biskup Pálsson hefur ritað þar sem hann veitir Solveigu aflausn fyrir brot hennar, sem hann segir vera barneign með séra Filippusi í fjórmenningsmeinum.[253] Presturinn í Rauðasandsþingum og fylgikonan sem hann rændi frá Núpi hafa því verið fjórmenningar að skyldleika. Um séra Filippus er annars fátt vitað nema hvað séra Jón Egilsson í Hrepphólum, sem fæddur var árið 1548, segir í Biskupaannálum sínum að hann hafi verið allra manna hagastur á skurð og gröft og smíðað annan tveggja lúðra sem Ögmundur biskup Pálsson hafði með sér á konungsfund er hann fór í vígsluferð sína til Danmerkur árið 1520.[254] Lúðrar þessir voru gerðir úr rostungstönnum og þóttu hin mesta gersemi.[255] Um börn Solveigar frá Núpi og hins geistlega lúðrasmiðs er ekkert vitað en með Ólafi silfursmið Narfasyni, er hún giftist síðar, eignaðist Solveig dótturina Kristínu.[256] Sonur Kristínar var séra Ólafur Jónsson, prestur og skáld á Söndum í Dýrafirði.[257] Ekki er ólíklegt að sú heimslyst sem auðkennir sum kvæði séra Ólafs hafi verið runnin honum í merg og blóð frá ömmunni sem á ungum aldri rataði í ævintýri með skurðhögum presti.

Með seinni manni sínum, Hannesi Eggertssyni, átti Guðrún Björnsdóttir a.m.k. fimm börn sem upp komust en þó líklega frekar sjö.[258] Frægastur þeirra varð Eggert Hannesson sem var lögmaður í 15 ár og um skeið æðsti embættismaður konungs á Íslandi. Eggert mun hafa fæðst á árunum 1515-1520[259] og ólst upp á Núpi en var þó með foreldrum sínum í Þýskalandi á árunum 1525-1530. Er faðir hans andaðist var Eggert á unglingsaldri en mun þó hafa verið elstur sinna alsystkina. Á sínum síðustu æviárum hafði faðir þeirra átt í nokkrum erjum við Ögmund biskup í Skálholti (sjá hér bls. 33-34) en engu að síður komst Eggert í raðir smásveina Ögmundar mjög skömmu eftir andlát föður síns.[260]

Í Skálholti kynntist hann ýmsum hinna ungu manna er síðar urðu forkólfar siðaskiptanna og þá ekki síst Gizuri Einarssyni, sem var lítið eitt eldri en Eggert. Árið 1538 sigldi Eggert til náms í Hamborg en þar var hann áður vel kunnugur eins og hér hefur komið fram. Hann mun hafa komið aftur til landsins, snögga ferð, vorið 1539[261] en sigldi aftur um sumarið og hefur þá að líkindum orðið samskipa Gizuri Einarssyni er Ögmundur biskup hafði nú ákveðið að gera að eftirmanni sínum.[262] Í Hamborg var Eggert að einhverju leyti á vegum mektarmanns sem hét Meynent van Eyssmijn en við hann hafði Ögmundur biskup átt talsvert saman að sælda.[263] Á árunum 1539 til 1540 voru þeir Eggert og Gizur Einarsson saman í Hamborg um lengri eða skemmri tíma. Frá Hamborg lagði Gizur af stað ríðandi til Kaupmannahafnar 6. nóvember 1539 í því skyni að fá staðfestingu konungs á útnefningu sinni til biskupsembættis í Skálholti[264] en Eggert fór frá Hamborg norður til Björgvinjar í Noregi með fégjald er Ögmundur Skálholtsbiskup sendi Björgvinjarbiskupi upp í skuldir.[265] Sýnir það vel hvílíks trausts Eggert hefur notið þó ekki væri hann nema rétt liðlega tvítugur. Í ferð sinni frá Hamborg til Kaupmannahafnar veturinn 1539-1540 fékk Gizur Einarsson staðfestingu konungs á útnefningu sinni til biskups en biskupsvígslu hlaut hann þó ekki fyrr en 3. október 1542. Árið áður hafði Ögmundur biskup verið handtekinn og fluttur úr landi en kirkjuskipun í anda Lúthers tekin upp í Skálholtsbiskupsdæmi.

Sumarið 1542 lagði Gizur Einarsson upp í vígsluferð sína til Kaupmannahafnar og kaus þá enn að hafa Eggert Hannesson sér við hlið.[266] Skömmu eftir biskupsvígsluna héldu þeir með skipi frá Kaupmannahöfn til Warnemünde áleiðis til Hamborgar.[267] Nokkru fyrir jól þetta sama ár, 1542, voru ferðalangar þessir á leiðinni frá Rostock til Hamborgar og fóru um þorp sem Bukow heitir. Þar slasaðist Eggert nokkuð við byltu mikla og komst ekki á leiðarenda fyrr en nokkru síðar.[268] Þennan vetur dvöldust þeir Gizur og Eggert svo í Hamborg en héldu heim til Íslands vorið 1543.[269]

Hin nánu tengsl Eggerts við Gizur Einarsson benda eindregið til þess að hann hafi verið hliðhollur hinum nýja sið sem Gizur barðist fyrir og ætla má að báðir hafi þeir orðið fyrir trúarlegum áhrifum í Hamborg. Eggert var þó fyrst og fremst veraldarmaður og engar ótvíræðar heimildir fyrir hendi um trúarleg viðhorf hans eða beina þátttöku í átökum fulltrúa hins gamla og nýja siðar.

Er Gizur biskup kom heim til Íslands vorið 1543, úr sinni vígsluför, mætti honum það andstreymi að festarmey hans var orðin barnshafandi af völdum séra Eysteins Þórðarsonar er seinna varð prestur á Álftamýri (sjá hér Álftamýri). Við þessi ótíðindi slitnuðu tengsl Gizurar við hana og sýnist þá hafa komið til kasta Eggerts félaga hans Hannessonar að tryggja hinum unga biskupi annað kvonfang er fullur sómi væri að. Sumarið 1543 fór Gizur í yfirreið um Vestfirði og festi sér þá strax systur Eggerts, Katrínu Hannesdóttur á Núpi.[270] Eins og nærri má geta var Eggert viðstaddur á Núpi er frá þessum málum var gengið og seinna um sumarið héldu þær mæðgur, Guðrún móðir Eggerts og Katrín systir hans, suður í Skálholt.[271] Brúðkaup Gizurar biskups og Katrínar Hannesdóttur frá Núpi var haldið í Skálholti 7. október 1543.[272] Ári síðar gekk Þorlákur Einarsson, bróðir Gizurar, að eiga Guðrúnu Hannesdóttur, systur Katrínar og Eggerts, og um svipað leyti eða litlu síðar gekk Halldór Einarsson, bróðir Gizurar biskups og Þorláks, að eiga þriðju systurina frá Núpi, Margréti að nafni.[273] Traustar en þetta gátu þeir Eggert og Gizur varla bundið sitt fóstbræðralag.

Í kaupmála sem gerður var milli Gizurar biskups og Katrínar Hannesdóttur skömmu fyrir brúðkaup þeirra kemur fram að frá móður sinni á Núpi hefur Katrín fengið 100 kýrverð í heimanfylgju.[274] Var það jörðin Alviðra í Dýrafirði sem þá var metin á 80 hundruð, tvö málnytukúgildi sem henni fylgdu og 18 hundruð í lausafé.[275] Í minnisgreinum Gizurar sést að skömmu síðar hafði Guðrún húsfreyja á Núpi goldið nær allt þetta lausafé og þá með þessum hætti: Kross fyrir 7 hundruð … fern stórspennsl fyrir 6 hundruð … Item húfusilfur og aðrar spennur að tölu átta fyrir 2 hundruð.[276] Allt sýnist þetta vera kvennaskart en þrjú hundruð voru enn ógoldin þegar Gizur ritar minnisgreinina eins og hann tekur sjálfur fram í henni.[277]

Eggert Hannesson kom eins og áður var getið frá Hamborg vorið 1543 og tók þá eða skömmu síðar við búsforráðum á Núpi. Hann var þá um 25 ára aldur og hafði dvalist langdvölum í Þýskalandi síðustu fimm árin en þó komið heim á milli.

Tveimur árum eftir heimkomuna var hann orðinn umboðsmaður konungs í öllu Þorskafjarðarþingi[278] eða með öðrum orðum sagt sýslumaður í umdæmi sem náði yfir alla Vestfirði. Þessu starfi gegndi hann næstu fimm árin og virðist þá hafa búið ókvæntur á Núpi þar sem móðir hans hefur að líkindum farið með stjórn mála innanstokks með sama hætti og áður.

Til er lýsing á Eggerti eftir Boga Benediktsson, fræðimann á Staðarfelli, sem fæddur var árið 1771. Hann byggir þar á eldri heimildum en orðum hans verður þó að taka með fullum fyrirvara. Lýsing hans er svona:

 

Eggert skal annars hafa verið skarpur maður og í ungdæmi uppvöðslumikill, vitur, sérdrægur og forsjáll í fjársökum, annars höfðingi þá því var að skifta. Lífhræddur og ekkert mikilmenni að kröftum eða hugdirfsku, ekki fríður ásýndum, kvenhollur og vinur vina sinna, ættrækinn og fastlyndur um það hann tók sér fyrir, góður lagamaður á sinni tíð, lærdómsmaður á öll þáverandi lifandi Norðurlandatungumál, einkum dönsku og þjóðversku sem honum var jafntöm og íslenska.[279]

 

Haustið 1550 mun Eggert hafa siglt utan og þá að líkindum í því skyni að leita eftir meiri frama hjá konungi. Veturinn 1550-1551 dvaldist hann í Danmörku og fékk 9. apríl þá um vorið endurnýjað fríheitabréf afa síns, Eggerts lögmanns í Víkinni í Noregi,[280] sem Hans konungur hafði gefið út árið 1488 (sjá hér bls. 25). Með endurnýjun þessa gamla bréfs staðfesti Kristján konungur III að þessi umboðsmaður sinn, Eggert Hannesson, væri sannur aðalsmaður og ætti að hjóta allra réttinda sem slíku tignarfólki bar að lögum. Jón Gizurarson, fræðimaður á Núpi, sem var dóttursonur einnar systur Eggerts, átti afrit af þessu konungsbréfi frá 9. apríl 1551 og birtir það í ritgerð sinni um siðaskiptatímann á Íslandi.[281]

Þennan vetur sem Eggert dvaldist í Danmörku var róstusamt á Íslandi. Þann 7. nóvember voru Jón Arason biskup á Hólum og synir hans teknir af lífi í Skálholti að tilhlutan Kristjáns skrifara sem var danskur embættismaður er þá fór með fógetavald á Íslandi. Í janúarmánuði þann sama vetur náðu norðanmenn að drepa Kristján skrifara suður á Miðnesi til hefnda eftir þá Hólafeðga. Um þessa atburði var þó allt ókunnugt úti í Danmörku veturinn 1550-1551 og fréttirnar sem kóngur fékk frá Íslandi haustið 1550 voru þær að gamli biskupinn á Hólum hefði þá um sumarið farið mikla sigurför um byggðir landsins og hygðist jafnvel ráða það undan konungi í samráði við páfa. Vera má að Eggert á Núpi hafi ekki talað lægst um þetta í konungsgarði svo nákominn sem hann hafði verið Gizuri biskupi Einarssyni er nú var látinn en lík Gizurar hafði Jón Arason látið grafa upp úr kirkjugarðinum í Skálholti þá um sumarið og hola því niður utangarðs.[282]

Er leið að vori árið 1551 tók konungur að búa skipalið til Íslandsfarar og var ákveðið að senda hingað 400 hermenn á fjórum skipum.[283] Tilgangur fararinnar var m.a. sá að handtaka Jón biskup Arason því ekkert hafði frést til Danmerkur um aftöku hans en einnig var meiningin að knýja sem flesta áhrifamenn á Íslandi til að sverja konungi hollustueiða og treysta hina nýju kirkjuskipan í sessi.[284]

Hæstráðandi á einu þessara skipa var gamall sjóræningi, Otti Stígsson að nafni, sem hér hafði farið með hirðstjóravald á árunum 1542-1547[285] og með honum í för var Eggert Hannesson.[286] Áður en lagt var upp frá Kaupmannahöfn hafði konungur fengið Otta Stígssyni hirðstjóravald yfir Íslandi til bráðabirgða og jafnframt veitt honum heimild til að fela yfirstjórn mála hérlendis hverjum þeim manni er honum sýndist best til þess fallinn að takast þetta erfiða verkefni á hendur.[287]

Þeir Otti og Eggert tóku land í Straumi fyrir sunnan Hafnarfjörð seint í júnímánuði og þaðan reið sá fyrrnefndi með vopnaða sveit upp á Alþing í því skyni að láta alla þá er þar voru saman komnir sverja konungi hollustueiða og samþykkja ákveðnar skuldbindingar með illu eða góðu.[288] Ætla má að Eggert hafi riðið á þingið með Otta og tekið þátt í að knýja menn til svardaga. Nokkrum dögum fyrr höfðu Norðlendingar verið kúgaðir til að játast undir alla skilmála Kristjáns konungs III á þingi sem haldið var á Oddeyri við Eyjafjörð að viðstöddum 300 dönskum hermönnum.[289] Þar voru Jón Arason og synir hans tveir, Ari og Björn, dæmdir landráðamenn og eignir þeirra fallnar undir konung.[290] Þá voru reyndar sjö mánuðir liðnir frá því þeir voru teknir af lífi suður í Skálholti.

Er flotaforingjar konungs, þeir Axel Juul, Kristófer Trondsson og Otti Stígsson, höfðu lokið sínum erindum hérlendis sumarið 1551 létu þeir í haf en áður en þeir hurfu af landi brott fól Otti Núpverjanum Eggerti Hannessyni að fara með æðstu stjórn landsins samkvæmt umboði frá konungi.[291] Þann 12. mars 1552 var hann svo skipaður í þetta embætti með formlegum hætti og er þá kallaður „fógeti” en þannig hafði Otti Stígsson líka verið titlaður í ýmsum bréfum er hann var hér hirðstjóri.[292] Tvímælalaust er að Eggert fór hér með æðsta vald sem umboðsmaður konungs í tvö ár, frá 1551 til 1553, og gegndi því í raun starfi hirðstjóra eða höfuðsmanns eins og nú var farið að kalla þá sem skipuðu þennan háa sess. Hann var síðasti Íslendingurinn sem konungur skipaði í slíkt embætti á fyrri tíð og þaðan í frá var æðsta stjórn Íslandsmála jafnan í höndum danskra embættismanna uns Ólafur Stefánsson varð stiftamtmaður árið 1790.[293]

Er Eggert sigldi á konungsfund haustið 1550 átti hann enn heima á Núpi en úr því mun hann sjaldan hafa dvalist þar langdvölum. Eins og áður sagði var Eggert skipaður í embætti fógeta eða höfuðsmanns sumarið 1551 og mun hann þá hafa sest að á Bessastöðum eða í Nesi við Seltjörn. Jón Gizurarson, fræðimaður á Núpi, segir að Eggert hafi setið í nokkur ár á Bessastöðum[294] en í Grímsstaðaannál er staðhæft að hann hafi búið í Nesi en jafnframt haft ráð yfir Bessastöðum.[295] Í Hirðstjóraannál séra Jóns Halldórssonar í Hítardal og í Sýslumannaæfum er líka tekið fram að Eggert hafi setið í Nesi á árunum upp úr 1550[296] og verður að telja það líklegra þó vera kunni að hann hafi oft dvalist á Bessastöðum á þessum árum því þar var hann hæstráðandi sem umboðsmaður konungs.

Áður en Eggert tók við starfi æðsta umboðsmanns konungs á Íslandi hafði hann farið með sýsluvöld í Þorskafjarðarþingi (sjá hér bls. 39) og er hann tók við nýju embætti var ákveðið að hann héldi Ísafjarðarsýslu áfram og hefði tekjurnar af henni í fógetalaun.[297] Er hann fluttist suður gerði hann Björn bróður sinn að umboðsmanni sínum fyrir vestan[298] en slíka fulltrúa sýslumanna var þá farið að kalla lögsagnara. Ætla má að Björn Hannesson hafi búið á Núpi þessi ár en hann var kvæntur Þórunni, dóttur Daða í Snóksdal.

Er Eggert Hannesson var skipaður æðsti fulltrúi konungsvaldsins á landi hér sumarið 1551 var hann enn ókvæntur þó kominn væri á fertugsaldur. Hann kvæntist ekki fyrr en þá um haustið er hann gekk að eiga Sigríði, dóttur Þorleifs Grímssonar, sýslumanns á Möðruvöllum í Eyjafirði, en Halldóra systir hennar hafði verið gift Ara Jónssyni lögmanni, sem höggvinn var í Skálholti með föður sínum, gamla Hólabiskupnum, einu ári fyrr.[299]

Kaupmálabréf Eggerts og Sigríðar er dagsett á Möðruvöllum 27. september 1551.[300] Þar má sjá að Eggert taldi sér til kaups og konumundar þrjú hundruð hundraða og 27 hundruðum betur[301] og hefur því lagt sem svaraði 387 kúgildum í sameiginlegt bú þeirra Sigríðar. Þar af var röskur þriðjungur í jarðeignum og var Núpur ein þeirra en eitt hundrað í öðrum góðum peningum og enn eitt hundrað í gulli og silfri.[302] Af öllum þessum fjármunum áttu 60 hundruð að verða séreign Sigríðar því í kaupmálabréfinu stendur:

En úr þessum peningum gaf oftnefndur Eggert Hannesson skrifaðri Sigríði Þorleifsdóttur 60 hundruð í tilgjöf, 40 hundruð í jörðum og 20 málnytu kúgildi, – og þar til kjörgrip úr hans eigu … .

 

Ekki mun nú kunnugt hver sá kjörgripur hefur verið.

Sigríður kona Eggerts varð skammlíf og andaðist af barnsförum suður á Seltjarnarnesi[303] árið 1554.[304] Ef heimildir greina rétt frá dánarstað og dánarári Sigríðar má ætla að Eggert hafi ekki flust frá Nesi fyrr en 1554. Önnur vísbending gefur líka hið sama til kynna því Björn bróðir Eggerts er sagður hafa drukknað árið 1554 á leið frá Bæ á Rauðasandi að Nesi við Seltjörn.[305]

Í Grímsstaðaannál eru færðar í letur svolitlar fréttir af kvennamálum Eggerts og segir þar svo:

 

Þá [1551-1554] var Sesselja ráðakona í Viðey. Við hana hélt hann eftir lát Sigríðar, sumir segja að henni lifandi, og átti við henni Jón murta, Björn og Ragnheiði. Svo gerði hann henni bú vestur á Vestfjörðum með þeim börnum er þau áttu saman. Síðar giftist Eggert þessari Sesselju og bjó með henni að Bæ á Rauðasandi.[306]

 

Hannes Þorsteinsson, þjóðskjalavörður, sem sá um útgáfu annálsins tekur fram að tvö börn Eggerts með Sesselju muni vera fædd áður en hann giftist Sigríði og nefnir ártölin 1548 og 1549.[307] Hann lætur þess einnig getið að Eggert hafi ekki gengið að eiga þessa barnsmóður sína fyrr en í banalegu hennar haustið 1559 og færir rök að því að svo hafi verið.[308]

Enginn vafi mun leika á því að Eggert hafi lagt lag sitt við Sesselju meðan hann bjó enn á Núpi og í Sýslumannaæfum Boga Benediktssonar er hún sögð hafa verið dóttir Jóns Þorbjarnarsonar, bónda á Sæbóli.[309] Sú ættfærsla mun þó vera á misskilningi byggð því í ættartölubókum sem ritaðar voru á Vestfjörðum á 17. og 18. öld er Sesselja talin dóttir Jóns murta Narfasonar sem bjó á Kirkjubóli í Skutulsfirði.[310] Mun líklegra er að þar sé rétt með farið því Bogi Benediktsson á Staðarfelli sem ritar Sýslumannaæfir sínar á fyrri hluta 19. aldar færir engin gild rök fyrir því að Sesselja hafi verið frá Sæbóli. Um Jón þann Þorbjörnsson sem Bogi segir hafa verið föður Sesselju vísar hann til Jóns Guðmundssonar „lærða”[311] sem fæddur var árið 1574 en í skrifi sínu um Jón Þorbjörnsson segir Jón „lærði” hvergi að hann hafi verið faðir Sesselju og nefnir reyndar ekki heldur að maður þessi hafi búið á Sæbóli.[312]

Á 16. öld var harla fátítt að helstu fyrirmenn landsins gengu að eiga dætur sléttra bænda og gat því vart hjá því farið að ýmsar þjóðsögur færu á kreik um tildrög hjúskapar Sesselju og Eggerts. Í riti sínu, Frá ystu nesjum, birtir Gils Guðmundsson ágæta sögu af því tagi sem reyndar getur vel verið að eigi sér rætur í veruleikanum.[313] Þar er faðir Sesselju að vísu sagður hafa búið á einhverju hinna fjögurra Kirkjubóla í Önundarfirði en eins og áður sagði var bóndadóttirin sem Eggert lögmaður gekk að eiga frá Kirkjubóli í Skutulsfirði svo þarna munar litlu. Hér verður annars engin tilraun gerð til að leggja dóm á sannleiksgildi sögunnar en meginefni hennar er þetta:

Jón bóndi á Kirkjubóli átti þrjár dætur og voru tvær þeirra augasteinar foreldra sinna en sú þriðja olnbogabarn. Eitt sinn er Eggert Hannesson var á ferð tjaldaði hann í úthögum skammt frá Kirkjubóli og lá þar vakandi í tjaldi sínu að morgni dags en sveinar hans farnir að sækja hestana. Þá verður hann þess var að skuggi fellur á tjaldið. Hann sprettir upp tjaldskörinni og sér að þar stendur smalastúlka heldur tötralega klædd en væn yfirlitum. Eggerti leist vel á meyna, bauð henni inn í tjaldið og féll svo vel á með þeim að lokum að þau sænguðu saman í tjaldinu.

Að skilnaði tók Eggert fram gullhring og dró á fingur smalastúlkunnar. Bað hann hana að skilja hringinn aldrei við sig framar. Sama dag fer Eggert heim að Kirkjubóli og spjallar þar um ýmislegt við Jón bónda og segist gjarnan vilja ráða eina dætra hans til sín fyrir þjónustustúlku. Bóndi kvaðst eiga tvær dætur sem væru vel til þess fallnar að þjóna höfðingjum. Lætur hann síðan leiða fram þær tvær dætur sem hann hafði dálæti á en Eggert vildi hvoruga kjósa og spyr hvort hann eigi ekki þriðju dótturina. Bóndi var seinn til svars, jánkar því þó að lokum en segir að þessi þriðja dóttir sín sé hálfgerður aumingi. Stúlkan var nú leidd fyrir Eggert, klædd í hversdagsföt systra sinna og með sjóvettlinga á höndum. Hinn ungi tignarmaður spyr hana að heiti og kveðst hún heita Sesselja Jónsdóttir. Eggert dró nú af henni vettlingana og glampar þá á gullhringinn góða sem hann hafði gefið henni um morguninn. Reka þá foreldrarnir upp stór augu. Eggert spyr hver hafi gefið henni hringinn en hún þorði ekki með nokkru móti að stynja því upp. Segir hann þá allt eins og var og kvaðst vilja fá Sesselju í sína þjónustu og enga aðra.

Sá botn fylgir sögunni að Guðrún, móðir Eggerts, hafi verið mjög mótfallin barneignum hans með Sesselju og oft boðið henni fé til að koma henni burt frá Núpi. Betri er hann Eggert en allt þetta, á stúlkan fátæka þá að hafa svarað.[314]

Líklega hefði Eggert látið sér nægja að búa í hórdómi með Sesselju bóndadóttur ef hann hefði ekki verið gerður að æðsta veraldarhöfðingja landsins. Þá var það ekki lengur hægt. En skemmtilegt er til þess að vita að hann skuli ekki hafa skilið hana eftir í heimahögum er hann fluttist suður á Seltjarnarnes en þess í stað komið henni fyrir sem ráðakonu í Viðey. Þar var konungsbú sem Eggert hafði yfirumsjón með og stutt að fara yfir sundið. Eitt barna Eggerts með Sesselju var Ragnheiður sem giftist Magnúsi prúða Jónssyni, sem bæði var sýslumaður og skáld, og er hún ættmóðir nær allra núlifandi Vestfirðinga.

Þann 10. mars 1553 var Páll Huitfeldt skipaður í embætti æðsta umboðsmanns konungs á Íslandi í stað Eggerts og hafa menn látið sér detta í hug að ráðamönnum við hirðina hafi ef til vill þótt Eggert vera of vægur við banamenn Kristjáns skrifara.[315] Sama ár var Eggert kjörinn lögmaður sunnan og austan og gegndi því embætti í þrjú ár en var síðan lögmaður norðan og vestan frá 1556 til 1568.[316]

Árið 1554 festi Eggert kaup á stórbýlinu Saurbæ á Rauðasandi[317] og mun hafa flust þangað á því ári eða mjög skömmu síðar frá Nesi við Seltjörn.

Um lífshlaup Eggerts lögmanns á árum hans í Saurbæ verður ekki ritað hér að sinni. Slíkar frásagnir bíða komu okkar á Rauðasand. Þess skal þó getið að ár hans í Bæ urðu 25 eða 26 en árið 1580 fluttist þessi margreyndi Núpverji til Hamborgar og dó þar skömmu síðar.

Enda þótt Eggert dveldist lítið á Núpi eftir 1550 sleppti hann ekki eignarráðum þar fyrr en sex árum síðar er hann seldi þetta höfuðból sitt í Dýrafirði í hendur Þorláki Einarssyni mági sínum, sem kvæntur var Guðrúnu Hannesdóttur. Þá voru tvö ár liðin frá því Björn Hannesson, bróðir Eggerts, drukknaði (sjá hér bls. 42) og Bjarna bróður þeirra er hvergi getið eftir 1543.[318] Þorlákur og Guðrún Hannesdóttir sýnast því hafa staðið næst því að fá umráð yfir Núpi út frá heildarsjónarmiði ættarinnar því Katrín Hannesdóttir, sem átt hafði Gizur biskup, var orðin ekkja en Margrét Hannesdóttir og séra Halldór Einarsson munu hafa verið yngra fólk en Guðrún og Þorlákur.

Eggert seldi Þorláki Núp sumarið 1556 og með í kaupunum fylgdu þrjár jarðir í næsta nágrenni, Klukkuland, Hólar (síðar nefndir Hólakot) og Litli-Garður (Minni-Garður).[319] Fjórum árum síðar kom Eggert á heimaslóðir sínar í Dýrafirði og gekk þá frá samningum við systur sínar, Guðrúnu og Katrínu, um erfðarétt barnanna sem hann hafði eignast með Sesselju Jónsdóttur og öll voru óskilgetin við fæðingu. Með samningum þessum, sem gerðir voru 1. september 1560, afsöluðu systurnar sér öllum rétti til arfs eftir Eggert bróður sinn en fengu á móti ýmsar jarðeignir.[320] Er Eggert kom að Núpi í þetta sinn var um það bil eitt ár liðið frá því Sesselja fylgikona hans og síðast eiginkona andaðist[321] en börn þeirra fjögur tók hann með sér í þessa ferð. Öll voru þau þá ung og smá, hið elsta líklega um 12 ára aldur.[322] Strax og Eggert hafði gengið frá samningum við systur sínar um þann arf er hann sjálfur kynni að skilja eftir sig hófst athöfn sem frá er sagt í sama skjali. Upphaf þeirrar lýsingar hljóðar svo:

 

Og nú eftir allan þennan gjörning fram farinn þá gengu þessir menn allir samt fyrir kirkjudyr undir Núpi, herra Eggert Hannesson, Guðrún Hannesdóttir, Katrín Hannesdóttir, Jón Eggertsson, Björn Eggertsson, Þorleifur Eggertsson og Ragnheiður Eggertsdóttir og héldu þar þá öll á einni bók. Og mælti þá herra Eggert þessum orðum: „Ég Eggert Hannesson ættleiði þig Jón Eggertsson, Björn Eggertsson, Þorleifur Eggertsson og Ragnheiður Eggertsdóttir til alls arfs eftir minn dag … .[323]

 

Með ættleiðingunni fyrir kirkjudyrum á Núpi náði Eggert að tryggja erfðarétt barnanna sem Sesselja Jónsdóttir hafði alið honum og öll voru getin í frillulífi. Hann var þá kominn á fimmtugsaldur og mun engin önnur börn hafa átt á lífi því Sesselja, laundóttir hans með annarri konu, hefur að öllum líkindum verið fædd síðar. Með þriðju eiginkou sinni, Steinunni Jónsdóttur frá Svalbarði í Eyjafirði, átti Eggert engin börn.[324]

Þorlákur Einarsson, sem keypti Núp af Eggerti Hannessyni árið 1556, mun hafa fæðst í Vestur-Skaftafellssýslu á árunum kringum 1520 en foreldrar hans voru Einar Sigvaldason og kona hans Gunnhildur Jónsdóttir sem bjuggu að sögn bæði í Holti á Síðu og í Hrauni í Landbroti.[325] Í föðurætt var Þorlákur þó kominn af stórhöfðingjum á Vestfjörðum því amma hans, móðir Einars Sigvaldasonar, var Þuríður, dóttir Einars Þorleifssonar hirðstjóra frá Vatnsfirði. Í æsku mun Þuríður hafa dvalist á Skarði á Skarðsströnd hjá föðurbróður sínum, Birni hirðstjóra, og konu hans Ólöfu ríku Loftsdóttur.[326] Jón Gizurarson, fræðimaður á Núpi, sem var sonarsonur Þorláks Einarssonar, færði á sínum tíma í letur frásögn af brotthlaupi Þuríðar frá frændfólkinu á Skarði og þá með þessum orðum:

 

Hún (Þuríður) var upp fóstruð með miklu tilhaldi en einn af þeirra sveinum (þ.e. sveinum Björns og Ólafar á Skarði) hét Sigvaldi, var kallaður langalíf, einhver manna mestur og sterkastur í þann tíð. Hann fíflaði þessa Þuríði. Ólöf lét betala blóði minna klækiskap en þenna. Því tók hann sig upp með þessa Þuríði að ókvaddri Ólöfu á laun og í Austfjörðu. Sigvaldi var ofurhuga og afburðamikill. Hann efldist þar og gjörði eiginorð til hennar.[327]

 

Þorlákur Einarsson á Núpi var sonarsonur Sigvalda langalífs og Þuríðar en einn bræðra Þorláks var Gizur Einarsson, fyrsti lúterski biskupinn í Skálholti. Þorláks er fyrst getið við hlið þessa bróður síns í Skálholti en Gizur fékk þar biskupsráð árið 1540 og tók vígslu haustið 1542 (sjá hér bls. 37-39). Á fyrstu biskupsárum Gizurar virðast þrír bræður hans hafa dvalist hjá honum í Skálholti, Þorlákur, Halldór og Jón. Að minnsta kosti ber heimildum saman um að þeir hafi allir þrír verið í Skálholti vorið 1543 og tekið þátt í árásinni á séra Eystein Þórðarson sem barnað hafði festarkonu Gizurar biskups meðan hann var utanlands í sinni vígsluferð (sjá hér Álftamýri). Í einni frásögn af bardaga þeirra bræðra við Eystein prest þar í Skálholti er þess getið að Þorlákur hafi verið tveggja manna maki en þó hafi Eysteinn náð að keyra hann undir sig. Setti séra Eysteinn þá sledduna fyrir brjóst Þorláki, segir þar og hljóp síðan ofan á af öllu afli en sleddan bognaði í keng því að Þorlákur var í pansara. … Voru þeir þá skildir.[328]

Eins og áður var getið gekk Gizur Einarsson biskup að eiga Katrínu Hannesdóttur frá Núpi haustið 1543 og ári síðar kvæntist Þorlákur Guðrúnu systur hennar (sjá hér bls. 38). Þeir bræður voru reyndar talsvert skyldir systrunum á Núpi sem urðu eiginkonur þeirra því Guðrún Björnsdóttir, móðir systranna, og þeir Einarssynir voru fjórmenningar. Vatnsfjarðar-Kristín, dóttir Björns Einarssonar Jórsalafara, var langalangamma þeirra allra.[329]

Bréf sem Gizur biskup skrifar tengdamóður sinni á Núpi haustið 1544 sýnir að brúðkaup Þorláks og Guðrúnar Hannesdóttur hefur þá verið ákveðið og kaupmálinn legið fyrir. Þegar bréfið er skrifað er Þorlákur að leggja af stað vestur að Núpi en ætla má að þar hafi brúðkaupið farið fram. Bréf Gizurar biskups er á þessa leið:

 

Sendibréf vestur skrifað með Þorláki.

− Vinsamleg og kærleg heilsan sé yður alla tíð af mér til send. Þakka ég yður mikillega fyrir allt hið góða sem þér hafið mér sýnt með orði og verki. Kunngeri ég yður, kæra vinkona, að ég sendi nú vestur til yðar, Þorlák Einarsson, frænda minn, eftir því sem að kaupmáli hefur í milli hans og dóttur yðar gjörður verið og þér hafið mér til skrifað. Vona ég þar til með guðs vilja að hann muni í tilsettan tíma þangað komast með þeim fáu fylgdarmönnum sem til eru ætlaðir, hverjir ég vildi að þar væru til heiðurs og æru eftir sinni kunnustu. Skyldi ég sjálfur persónulega þessa ferð farið hafa eftir yðvarri bón og beiðslu, hefði ég því getað við komið hvar fyrir ég bið yður og yðra móður kærlega að taka það ekki til óvilja þó ekki hafi svo orðið. Vil ég það allt halda sem ég hefi vegna Þorláks bróður míns frekast um lofað sem honum og henni má til heiðurs og æru verða. Sæi ég gjarnan að þeir menn sem vestur fara með honum kæmust aftur það snarasta sem þeir mega og yður þykir heyrilegt vera. Biðjandi yður að þér verðið þeim hjálplegar ef þeir kunna nokkurs með að þurfa. Hvað ég má með æru yður og yðrum varnaði til góða vera, skuluð þér mig altíð velviljaðan til finna. Hér með er ég yður guði bífalandi nú og að eilífu.[330]

 

Bréfið ber með sér að Gizur gerir ráð fyrir að Þorlákur verði eftir fyrir vestan er fylgdarmennirnir snúi til baka. Líklegast er að Þorlákur hafi strax eftir brúðkaupið sest að á Núpi eða þar í grenndinni því aldrei verður þess síðar vart að hann sé búsettur annars staðar en á Vestfjörðum. Athygli vekur að Gizur minnist á ömmu brúðarinnar, móður Guðrúnar húsfreyju að Núpi, en það var Ragnhildur Bjarnadóttir, ekkja Björns Guðnasonar, héraðshöfðingja í Ögri sem látinn var fyrir 26 árum.[331] Orð Gizurar í þessu bréfi frá haustinu 1544 sýna að Ragnhildur hefur þá enn verið á lífi og líklega dvalist hjá dóttur sinni á Núpi.

Vera má að Guðrún Hannesdóttir á Núpi hafi fylgt Katrínu systur sinni og Guðrúnu móður þeirra suður í Skálholt að áliðnu sumri 1543 og setið þar brúðkaup Katrínar og Gizurar biskups þann 7. október þá um haustið (sjá hér bls. 38). Hitt er þó eins líklegt að hún hafi setið heima og vel má vera að Þorlákur hafi aldrei litið þessa brúði sína augum er hann lagði upp í hina löngu ferð frá Skálholti vestur að Núpi. Teningum hans hafði hins vegar verið kastað svo ekki varð aftur snúið.

Í bréfi sínu til Guðrúnar Björnsdóttur á Núpi kveðst Gizur biskup munu efna allt er hann hafi lofað vegna Þorláks bróður síns en talsverða fjármuni hlýtur að hafa þurft að leggja í bú með Þorláki svo honum gæfist kostur á jafn góðu kvonfangi og því sem um hafði verið samið. Í peningasökum þurfti jafnan að vera nokkurt jafnræði milli brúðhjóna.

Ekki er alveg ljóst hvar Þorlákur hefur búið á sínum fyrstu árum fyrir vestan. Vel má vera að hann hafi strax sest að á Núpi en ef til vill hefur hann búið fáein ár á Rafnseyri sem hann fékk að léni skömmu eftir komu sína vestur.[332] Fullum umráðum yfir Rafnseyri mun Þorlákur hafa haldið allt til ársins 1560 og hafði þar prest á sínum vegum.[333]

Svo virðist sem oftast hafi farið vel á með þeim mágum, Eggert Hannessyni lögmanni og Þorláki Einarssyni. Til marks um það má nefna samkomulagið sem þeir gerðu árið 1570 um landamerki Núps og Alviðru (sjá hér bls.3-4). Þegar Eggert fór með hirðstjóravald á árunum 1551-1553 tókst honum að gera Þorlák að sýslumanni í Barðastrandarsýslu en því embætti mun hann aðeins hafa haldið í örfá ár.[334] Síðar var hann oft lögsagnari í Ísafjarðarsýslu og fékk sýsluvöld í vesturhluta hennar eftir 1573 að því er segir í Íslenskum æviskrám. Þeim völdum virðist hann þó ekki hafa haldið til dauðadags því árið 1594 fór Staðarhóls-Páll með sýsluvöld í Vestur-Ísafjarðarsýslu (sjá hér Mosvallahreppur, inngangskafli). Eins og áður var getið keypti Þorlákur Núp af Eggerti Hannessyni árið 1556 og ljóst virðist að eigi síðar en þá hafi hann tekið þar við öllum búsforráðum. Á Núpi bjó Þorlákur síðan til dauðadags en hann andaðist árið 1596.

Bogi Benediktsson á Staðarfelli segir um Þorlák að hann hafi verið mikilmenni að hraustleik og kallaður spekingur að viti[335] enda var hann í lögmannskjöri á Alþingi árið 1570.[336] Þrír menn voru þá helst taldir koma til greina er velja átti nýjan lögmann sunnan og austan og var Þorlákur einn þeirra. Sá kostur var tekinn að láta hlutkesti ráða valinu og kom upp hlutur Þórðar Guðmundssonar, sýslumanns í Borgarfjarðarsýslu,[337] er síðan var lögmaður í 36 ár.

Guðrún Hannesdóttir, kona Þorláks, varð ekki langlíf og áttu þau aðeins eitt barn svo kunnugt sé, Gizur sem tók við búi á Núpi af föður sínum.[338] Að Guðrúnu látinni kvæntist Þorlákur Vigdísi Þórólfsdóttur Eyjólfssonar en faðir hennar var systursonur Ögmundar biskups Pálssonar og er talinn hafa búið á Suður-Reykjum í Mosfellssveit.[339] Ekki er vitað hvenær Þorlákur kvæntist Vigdísi en með henni átti hann sex dætur og einn son.[340] Jón sonur þeirra var lögréttumaður og bjó á Firði í Múlasveit við norðanverðan Breiðafjörð. Hann er talinn fæddur á árunum milli 1580 og 1590[341] en þá hefur faðir hans verið kominn á sextugsaldur. Einn tengdasonur Jóns Þorlákssonar var brenndur fyrir galdra (sjá hér Lokinhamrar).

Saga ein sem margt bendir til að eigi upphaf sitt að rekja til daga Þorláks sýslumanns á Núpi lifði lengi á vörum fólks í Dýrafirði og þar í grennd. Á fyrri hluta 20. aldar skráði Vilmundur Jónsson landlæknir hana á blað eftir Jóhannesi Davíðssyni í Neðri-Hjarðardal, sem fæddur var árið 1893.[342] Þá var sagan í þessum búningi:

 

Bóndadóttir undir Núpi í Dýrafirði varð þunguð af völdum smalamanns. Er bóndi komst að þeim ráðspjöllum dóttur sinnar vildi hann taka barnsföður hennar af lífi. Heimafólk barg smalamanni með því að fela hann milli þúfna í túninu fyrir neðan bæinn og bera hey yfir. Nóttina eftir strauk smalamaður á reiðhesti bónda. Sást til hans er hann reið úr botni Dýrafjarðar upp á Glámu. Bóndi reið til þings og er hann kom að Hvítá í Borgarfirði bar fyrir hann mann á skjóttum hesti. Kenndi bóndi þar reiðhest sinn og segir við förunauta sína: „Þarna er Skjóni minn, takið hann.” Sá er hestinn sat ríður þá að bónda, reiðir upp svipuna og segir: „Hann Skjóni hefur skift með okkur leikunum fyrri, Þorlákur bóndi.” Að svo mæltu skellti hann undir nára, þeysti frá Dýrfirðingunum og bar skjótt undan.

Nokkrum árum síðar kom hollensk dugga út í Dýrafirði og lá svo að dögum skifti á Alviðrubót undan Núpi. Voru skipverjar tíðir gestir heima á staðnum. Einn dag er heimafólk svaf hádegislúrinn hvarf dóttir bónda ásamt barni sínu og smalamannsins en er fólkið vaknaði var duggan horfin af bótinni og sigldi hraðbyri út fjörðinn.

Löngu síðar kom dótturdóttir Núpsbónda aftur til landsins og reisti bú að Arnarnúpi í Dýrafirði.[343]

 

Í sögulok er svo sagt frá því að húsfreyja þessi á Arnarnúpi, er alist hafði upp í Hollandi, hafi látið meitla skál í stóran stein á hlaðinu svo mjaltakonur gætu þvegið þar mjölt af höndum sér.[344] Steinn með slíkri skál stendur enn á hlaðinu á Arnarnúpi þó bærinn sé kominn í eyði (sjá hér  Arnarnúpur).

Í ættartölum Ólafs Snóksdalíns, sem fæddur var árið 1761, segir að Guðrún, dóttir Þorláks Einarssonar á Núpi, sú yngri tveggja dætra hans með því nafni, hafi átt laungetna dóttur, sem líka hét Guðrún, með Eiríki er strauk austur og í Sýslumannaæfum er Guðrún þessi Eiríksdóttir sögð hafa gifst manni sem Össur hét og var Jónsson.[345] Vilmundur landlæknir lét sér detta í hug að þarna væri komin húsfreyjan á Arnarnúpi, sú sem ólst upp í Hollandi.[346] Sú tilgáta er góð og gild sem slík og aðrar betri varla í boði. Þess skal þó getið að þessa sömu sögu, lítt breytta, er einnig að finna í skrá yfir örnefni á Arnarnúpi[347] en þar er nafn Þorláks bónda reyndar ekki nefnt. Í þeirri útgáfu af sögunni er stúlkan sem fæddist á Núpi og ólst upp í Hollandi hins vegar sögð hafa borið nafnið Ólöf og verið kölluð Ólöf ríka er hún var húsfreyja á Arnarnúpi.[348] Hér skal á það bent að önnur kona sem Ólöf hét bjó á næsta bæ við Arnarnúp á 16. öld og var vel efnum búin, – Ólöf sem bjó í Hrauni og var dóttir Björns Guðnasonar í Ögri en átti Sigfús Brúnmannsson fyrir eiginmann (sjá hér Hraun og Arnarnúpur). Mjög er líklegt að ýmsir hafi nefnt hana Ólöfu ríku og vel gæti verið að tvær frægðarkonur í Keldudal hefðu runnið saman í eina þegar tímar liðu og saga þeirra hafði oft verið sögð nýjum kynslóðum.

Nú getur enginn um það sagt hvort sannleikskjarni leynist í þeirri ágætu sögu sem Jóhannes Davíðsson sagði Vilmundi landlækni en Þorláksnafnið bendir til þess að svo sé. Enginn ríkisbóndi með því nafni hefur búið á Núpi eftir 1500 nema Þorlákur Einarsson og því hljótum við að tengja söguna við hann.

Þorlákur bóndi og sýslumaður á Núpi andaðist þar heima vorið 1596 og var grafinn fyrir framan kirkjudyr.[349]

Eina barn Þorláks Einarssonar með fyrri konu sinni, Guðrúnu Hannesdóttur, var Gizur. Um fæðingarár hans er ekki vitað en líklegt er að hann hafi fæðst nokkru fyrir 1550 því foreldrar hans gengu í hjónaband árið 1544. Um Gizur Þorláksson er þess getið í gömlum heimildum að hann hafi farið utan á æskuárum og mannast vel erlendis í tiginna manna þjónustu.[350] Árið 1584 voru 40 ár liðin frá því Þorlákur Einarsson fluttist frá Skálholti vestur á firði og gekk að eiga Guðrúnu Hannesdóttur á Núpi. Á því ári eða máske ári síðar reið hann með Gizuri syni sínum til kvonbæna suður að Reykhólum þar sem Páll Jónsson sýslumaður, er flestir nefndu Staðarhóls-Pál, og kona hans Helga Aradóttir bjuggu.[351]

Í einni af mörgum afskriftum af Skarðsárannál hefur séra Jón Ólafsson á Lambavatni skotið inn klausu á þessa leið:

 

Þorlákur Einarsson reið anno 1585 frá Núpi í Dýrafirði og suður til Reykhóla til giftumála með son sinn Gizur, hvern hann átti með sinni fyrri kvinnu, Guðrúnu Hannesdóttur, til Páls Jónssonar og Helgu Aradóttur og var brúðkaup Gizurar og Ragnheiðar Pálsdóttur þar þann 14. septembris.[352]

 

Talið er að Gizur hafi tekið við búi af föður sínum á Núpi sama ár og hann kvæntist Ragnheiði[353] en ekkert er þó vitað með vissu um þetta og vera kann að þeir feðgar hafi báðir séð um stjórn á búinu um lengri eða skemmri tíma. Gizur Þorláksson mun hafa mannast utanlanda á yngri árum og varð er tímar liðu lögsagnari, það er fulltrúi og umboðsmaður sýslumanns í Vestur-Ísafjarðarsýslu.[354] Það átti hins vegar ekki fyrir honum að liggja að endast lengi í embætti sýslumanns því á þorranum árið 1597 fórst hann í snjóflóði á ferð yfir Rafnseyrarheiði (sjá hér Rafnseyri). Lík Gizurar og samferðamanna hans fundust og var hann greftraður hjá föður sínum fyrir framan kirkjudyr á Núpi.[355] Jón Sigurðsson forseti færði þá sögu í letur að séra Sveinn Símonarson í Holti hefði verið fenginn til að greina sýslumannsfrúnni á Núpi frá slysinu er bóndi hennar fórst.[356]Fyrst þú hrelldir mig, séra Sveinn, er þér skyldast að gleðja mig aftur, voru orð Ragnheiðar á Núpi við prestinn, sé rétt með farið.[357] Presturinn og ekkjan urðu síðar hjón en þó ekki fyrr en þremur árum eftir andlát Gizurar. Eitt barna þeirra var Brynjólfur Sveinsson, biskup í Skálholti.

Ætla má að Ragnheiður Pálsdóttir hafi staðið fyrir búi á Núpi fyrstu árin eftir að maður hennar fórst í Manntapagili og allt þar til hún giftist séra Sveini Símonarsyni haustið 1600 og fluttist til hans að Holti í Önundarfirði. Börn Gizurar Þorlákssonar og Ragnheiðar sem upp komust voru fá, aðeins tveir synir, Magnús, sem varð bartskeri og lögréttumaður í Lokinhömrum (sjá hér Lokinhamrar), og Jón, sem í fyllingu tímans tók við búsforráðum á Núpi og hér verður brátt nánar frá sagt. Bræður þessir voru báðir ungir er faðir þeirra andaðist og ætla má að þeir hafi flust með móður sinni að Holti. Báðir voru þeir síðar við nám í Þýskalandi og lagði Magnús stund á lækningar en Jón nam gull- og silfursmíði í Hamborg.[358] Þar mun hann að líkindum hafa notið fyrirgreiðslu frænda sinna, niðja Eggerts Hannessonar lögmanns, en Jón sonur Eggerts settist að í þessari þýsku stórborg um 1570 og börn hans voru búsett þar.[359]

Frá námi sínu í Þýskalandi mun Jón Gizurarson hafa komið á árunum 1610-1614 og tók þá við búsforráðum á Núpi[360] en ætla má að Ragnheiður móðir hans hafi haft þar ráðsmann frá því hún fluttist að Holti og þangað til Jón gat tekið við stjórn á óðali feðra sinna.

Jón Gizurarson bjó á Núpi til dauðadags en hann andaðist haustið 1648. Hann gegndi oft störfum lögsagnara fyrir frænda sinn Ara Magnússon, sýslumann í Ögri, og var einnig lengi lögréttumaður.[361] Kunnastur er hann þó nú fyrir fræðastörf sín og þá einkum fyrir ritgerð sína um siðaskiptatímann sem Jón Sigurðsson forseti lét prenta í 1. bindi af Safni til sögu Íslands og íslenskra bókmennta.[362] Í þessari ritsmíð sinni mun Jón hafa stuðst mjög við aðra ritgerð um sama efni sem Oddur biskup Einarsson samdi eða lét semja árið 1593.[363] Jón Gizurarson samdi sína ritgerð hálfri öld síðar en samt er hún í raun frumheimild um ýmislegt sem varðar menn og málefni hins mikla umbrotaskeiðs um miðbik sextándu aldar. Sjálfur var Jón býsna nákominn mörgum þeirra er þá settu mestan svip á þjóðlífið í landinu og má sem dæmi nefna að Eggert Hannesson lögmaður var ömmubróðir hans en Gizur biskup Einarsson afabróðir hans eins og hér hefur áður komið fram. Gizuri biskupi, frænda sínum, lýsir fræðimaðurinn á Núpi svo: Herra Gizur var mjög hár maður vexti og bjartur, nokkuð ljósleitur, lítt lotinn í herðum, grannvaxinn. Ekki voru þeir líkir hann og Þorlákur.[364] Þorlákur sá sem þarna er nefndur er augljóslega Þorlákur Einarsson á Núpi, bróðir Gizurar en afi höfundarins.

Árið 1616 gekk Jón Gizurarson að eiga Þóru Ólafsdóttur frá Neðri-Hjarðardal í Dýrafirði[365] en hún hafði áður verið gift Birni Þorvaldssyni í Haukadal (sjá hér Haukadalur og Hvammur). Er gengið var frá kaupmála taldi Jón sig leggja í bú þeirra eitt hundrað hundraða og tuttugu hundruðum betur[366] eða sem svaraði 140 kúgildum svo ekki hefur hann verið á flæðiskeri staddur. Þau Jón Gizurarson og Þóra kona hans komu aðeins upp einu barni, syninum Torfa er varð prestur í Gaulverjabæ í Flóa og hægri hönd Brynjólfs Sveinssonar, biskups í Skálholti, en Brynjólfur biskup og Jón Gizurarson á Núpi voru hálfbræður eins og hér hefur áður verið nefnt.

Elsta frásögn af Jóni Gizurarsyni á Núpi og störfum hans, sem varðveist hefur, er talin rituð af séra Torfa syni hans og er á þessa leið:

 

Af fyrrgreindum Jóni Gizurarsyni mætti margt gott og merkilegt skrifa og hér innsetja. Hafði hann í sínu ungdæmi siglt utanlands og þar vel forframast í þýsku tungumáli sem og einnig í hagleik, sérdeilis upp á gullsmíði, hvar af enn nú til eru margar menjar og eftirleifar. Hann var og einnig svo mikill bókritari að fáir hér á landi sem samtíðis voru, eður um þessa daga, hafa svo mikið starfað í ritverki og bókaskrifi. Hann skrifaði ei aðeins heilar postillur og margar heilagar bækur og bæklinga, heldur og einnig þar að auki margar fornar fræðibækur af allra handa landa og þjóða fornsögum og söguþáttum, landnámum og annálum, rímnaflokkum og ýmsum kveðlingum, drápum og ljóðum og öðru þess háttar, af hverju hann hefur eftir sig látið margar, bæði innbundnar og óinnbundnar, bækur og jafnvel heila og stóra folianta, svo til þessara hans menja er að leita svo sem í annan fjölhæfan handraða um allt það, eður flest, sem maður girnist að heyra eður skynja og merkja um allra landa fyrri manna háttalag, fornsiði, framkvæmdir og íþróttir.[367]

 

Á þessari lýsingu má sjá að Jón Gizurarson hefur verið mikilvirkur í ritstörfum þó ekki liggi mjög mikið eftir hann af frumsömdum verkum en þeim mun meira af afritum og innskotum af ýmsu tagi.[368] Séra Torfi í Gaulverjabæ erfði þá bræður báða, Jón föður sinn á Núpi og Brynjólf biskup í Skálholti, og frá séra Torfa mun Árni Magnússon, handritasafnari og prófessor, hafa fengið meira af rituðum bókum en frá flestum eða öllum öðrum.

Jón Gizurarson, fræðimaður á Núpi, var friðsamur maður eins og fram kemur hjá Páli Eggerti Ólasyni sem lýsir honum svo:

 

Jón Gizurarson hafði það af ætterni að hann var fróðleiksgjarn, námfús og minnugur, en ekki kennir þess að hann hafi haft úr ættum sínum ofstopa þann og yfirgang sem einkenndi marga þá ættmenn.[369]

 

Enda þótt silfursmiðnum á Núpi hafi ugglaust látið best að sýsla við fræði sín lenti hann þó stöku sinnum í málaferlum, m.a. strax eftir heimkomuna frá Þýskalandi er hann átti í erfðaþrætu við hálfbróður föður síns, Jón Þorláksson, lögréttumann á Firði í Múlasveit.[370]

Síðustu tuttugu árin sem Jón Gizurarson lifði reið hann mjög oft til Alþingis enda var hann þá lögréttumaður.[371] Sumarið 1639 var hann viðstaddur í Skálholti þegar Brynjólfur bróðir hans tók þar við stað og kirkju sem nýkjörinn biskup.[372] Ekki verður annað séð en vel hafi farið á með þeim bræðrum að öllum jafnaði en samt gekk þeim dálítið illa að koma sér saman um uppgjör á dánarbúi móður þeirra, sem andaðist í nóvember 1636, og var að lokum dæmt í því máli á Alþingi níu árum síðar.[373]

Ritgerð Jóns Gizurarsonar um siðaskiptatímann lætur Jón forseti fylgja mynd af innsiglum þessa merka fræðimanns á Núpi. Um þau kemst Jón forseti svo að orði:

 

Í báðum innsiglunum er einkunn hans, þrjú hjörtu og einhyrningur. Í síðara innsiglinu eru hjörtun sett ofan á skjöld með bundnu fangamarki (J.G.) innan í, en einhyrningurinn er látinn stökkva upp úr miðhjartanu. Það sem stendur upp úr hjörtunum til beggja hliða á að merkja loga. Á fyrra innsiglinu eru þau ekki brennandi. Það er auðsætt að einhyrningurinn er tekinn úr merki Hannesar Eggertssonar hirðstjóra, langafa Jóns Gizurarsonar[sjá hér bls. 25] en hjörtun eru tekin eftir innsigli afa hans, Þorláks Einarssonar, sem hafði tvístungið hjarta í innsigli sínu.[374]

 

Árið 1648 var Jón Gizurarson um sextugsaldur. Í Vatnsfjarðarannál hinum elsta er ritað svo um atburði þess árs:

 

Drepsótt kom upp í Dýrafirði og gekk í Ísafjarðarsýslu þetta sumar og veturinn eftir. … Í Dýrafirði einum sáluðust meir en 40 menn þetta ár og meðal þeirra sá frómi silfursmiður Jón Gizurarson á Núpi, lögréttumaður, 5. novembris.[375]

 

Legsteinn Jóns Gizurarsonar í kirkjugarðinum á Núpi var grafinn úr jörð fyrir allmörgum áratugum og honum lyft fyrir forgöngu þjóðminjavarðar.[376] Steinninn sem er rauðleit hella er nú hulinn þunnri moldarskán.[377] Hann liggur í dæld beint upp af kirkjugarðshliðinu og í nær beina stefnu út frá legstað Guðrúnar M. Gilsdóttur, sem fædd var árið 1878 og dó árið 1919, en þó aðeins neðar.[378] Dældina sem legsteinn Jóns Gizurarsonar er í má líka þekkja á því að alveg rétt hjá henni er allstór steinn sem ekki er legsteinn.

Er Jón Gizurarson andaðist var einkasonur hans, séra Torfi, liðlega þrítugur að aldri. Hann hafði þá stundað nám við Kaupmannahafnarháskóla í fjögur ár og um hríð verið dómkirkjuprestur í Skálholti.[379] Séra Torfi var þá þegar orðinn nánasti samverkamaður Brynjólfs Sveinssonar biskups sem jafnan virðist hafa metið þennan bróðurson sinn mjög mikils. Heldur ólíklegt verður því að telja að Torfi hafi í alvöru hugleitt þann möguleika að setjast að á ættaróðali sínu vestur í Dýrafirði og svo mikið er víst að sú varð ekki raunin. Hans beið mikið starf á Suðurlandi þar sem hann var lengst prestur í Gaulverjabæ í Flóa.

Er Jón Gizurarson burtkallaðist voru um það bil 130 ár liðin frá því langafi hans, Hannes Eggertsson hirðstjóri, settist að á Núpi og allan þann tíma höfðu þeir frændur setið þetta höfuðból, óðal ættar sinnar. Nú var enginn til að taka við. Það hefur komið í hlut séra Torfa að ráðstafa jörðinni og hann tók þann kost að leigja hana en selja ekki. Varla hefur hann þó séð fyrir að sonarsonur hans ætti síðar eftir að setjast að á Núpi og niðjar hans að búa þar síðan í önnur  hundrað ár (sjá hér bls. 65-72). Ekki liggur fyrir hverjir bjuggu á Núpi fyrstu árin eftir lát Jóns Gizurarsonar en upp úr 1660 kom hins vegar fram á sjónarsviðið sá maður sem brátt tók við búsforráðum á Núpi og bjó þar síðan í hálfa öld en það var Páll Torfason sýslumaður.

Páll, sem fæddur var árið 1637 eða því sem næst, var prestssonur frá Kirkjubóli í Langadal við Djúp og reyndar dálítið skyldur séra Torfa í Gaulverjabæ sem leigði honum jörðina. Faðir Páls sýslumanns var séra Torfi Snæbjörnsson á Kirkjubóli en hann og séra Torfi Jónsson í Gaulverjabæ voru þremenningar, – áttu báðir Jón Ólafsson, sýslumann í Hjarðardal í Dýrafirði fyrir langafa.[380] Báðir voru þeir líka niðjar Björns Guðnasonar í Ögri sem eignaðist Núp árið 1508 (sjá hér bls. 18-19).[381]

Páll Torfason varð sýslumaður í vesturhluta Ísafjarðarsýslu árið 1668.[382] Þar var hann sýslumaður næstu tólf árin og aftur frá 1689-1710 eða samtals í 33 ár (sjá hér bls. 60-64). Páll kvæntist árið 1672 Gróu, dóttur Markúsar sýslumanns að Ási í Holtum Snæbjarnarsonar,[383] og sterkar líkur benda til þess að hann hafi þá þegar verið farinn að búa á Núpi. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá árinu 1710 er sagt að frá því skömmu fyrir 1670 hafi ekki legið ljóst fyrir hver væri landskuld af heimajörðinni á Núpi því monsjör Páll Torfason hafi haft umboð landsdrottins yfir hjáleigunum og öðrum eignum sama landsdrottins og bítalað svo eina vissa summu peninga fyrir allt þetta.[384] Þessi orð Árna Magnússonar benda mjög eindregið til þess að Páll hafi fengið Núp til ábúðar þegar hann tók við sýslumannsembættinu árið 1668 eða alveg um það leyti. Fullvíst er að hann bjó á Núpi árið 1681[385] og þar var hann enn 1703 og 1710.[386] Árið 1710 sagði hann reyndar af sér sýslumannsembættinu (sjá hér bls. 63) en átti þá eftir að lifa í tíu ár. Líklegt er að Páll hafi búið á Núpi alveg til dauðadags eða því sem næst en skipti á dánarbúi hans fóru fram á þingstað Mýrahrepps síðla sumars árið 1720.[387]

Áður en Páll Torfason tók við búsforráðum á Núpi hafði heimajörðin þar, sem taldist vera 20 hundruð því hitt voru hjáleigur, verið leigð fyrir fjóra spesíudali á ári.[388] Þessir fjórir dalir jafngiltu þá einu jarðarhundraði[389] svo ljóst er að landskuldin hefur numið sem svaraði 5% vöxtum af jarðarverðinu. Þegar Páll sýslumaður settist að á Núpi fylgdu heimajörðinni þar sex innstæðukúgildi og svo var enn árið 1710.[390]

Er Páll gekk að eiga Gróu konu sína var hann hálffertugur að aldri og átti þá þegar talsverðar eignir því á giftingardegi taldi hann sig leggja sem svaraði andvirði 240 kúa í sameiginlegt bú þeirra, þar af var annar helmingurinn í jarðeignum en hitt í lausafé.[391] Að sögn Boga á Staðarfelli var Páll fjárgæslumaður mikill og auðmaður, óeirinn, stórfengur í skapi og höfðinglyndur.[392] Á sinni löngu ævi átti sýslumaður þessi oft í þrætum og málastappi og komst stundum í hann krappan. Eins og áður sagði var Páll Torfason gerður að sýslumanni árið 1668 og á því ári komst hann í deilu við séra Árna Loftsson prest í Dýrafjarðarþingum[393] sem þá bjó á Leiti í Alviðru (sjá hér Alviðra), næsta bæ við Núp. Í Eyrarannál er getið um kærumál með stefnum þeirra í milli en ekki sagt um hvað deilan snerist.[394] Sú staðreynd að Páll sýslumaður lendir strax á sínu fyrsta embættisári í málaþvargi við séra Árna á Leiti bendir hins vegar til þess að sá fyrrnefndi hafi þá þegar verið tekinn við búi á Núpi.

Árið 1669 reið Páll til Alþingis og stóð þar ásamt Einari bróður sínum fyrir kærumáli á hendur séra Snorra Jónssyni um legorð þeirra sálugu systur Ragnhildar Torfadóttur.[395] Séra Snorri var sonur séra Jóns þumlungs Magnússonar á Eyri við Skutulsfjörð og var aðstoðarprestur föður síns er hann féll með Ragnhildi sem andaðist af barnsförum níu mánuðum síðar.[396] Fyrir ráðspjöll Ragnhildar er síðar leiddi til dauða hennar fengu þeir bræður knúið séra Snorra til að greiða sér 20 hundruð í lausafé, 10 hundruð í jarðeignum og tvö og hálft kúgildi að auk.[397] Frá þessari sáttargerð var gengið í lögréttu 30. júní 1669 fyrir tillögur lögmanna.[398]

Á fyrstu sýslumannsárum Páls Torfasonar var galdrafárið í algleymingi. Er sýslumennirnir í Ísafjarðarsýslu, þeir Magnús Magnússon á Eyri í Seyðisfirði og Páll Torfason, komu á Alþing sumarið 1671 höfðu þeir með sér galdramann að vestan. Sá hét Sigurður Jónsson og mun hafa verið úr Ögursveit við Ísafjarðardjúp en hafði reynt að komast í skip í Dýrafirði til að sleppa undan bálinu.[399] Við dómsrannsókn játaði Sigurður á sig að hafa farið með særingar og einnig notkun töfragrasa og galdrastafa.[400] Kukli og töfrabrögðum þessa galdramanns er ýtarlega lýst í Alþingisbókinni og um þau segir þar m.a. svo:

 

Síðan segist hann annað gras, mellefolium [.þ.e. vallhumall – innskot K.Ó.] með kvikasilfri úr fjöðurstaf brúkað hafa með sínu eigin sæði, að til lögðum nokkrum staf þar með, á eik ristnum, meðfylgjandi nokkurs konar versi eður vísuorðum er hann sjálfur segist diktað hafa.[401]

 

Vart þarf að taka fram að galdramaður þessi var dæmdur til dauða og brenndur við Öxará fyrir þinglok, þann 5. júlí þetta sama sumar.[402] Ekki verður nú um það sagt hvort Páll Torfason, sýslumaður á Núpi, hafi í raun verið sannfærður um að slíkar og þvílíkar kúnstir gætu fært galdramönnum ráð yfir lífi og limum annarra manna. Hitt er víst að margir trúðu þessu í einlægni en aðrir létu gott heita að dansa með eftir pípu tíðarandans þó sannfæringuna skorti.

Árið 1677 hafði Páll Torfason annan galdramann með sér til þings, Bjarna Bjarnason eldri í Breiðadal, sem með djöfullegri meðferð galdrastafa var talinn hafa valdið kvölum og dauða Ingibjargar Pálsdóttur á Hesti í Önundarfirði.[403] Frá því máli er sagt nánar á öðrum stað í þessu riti (sjá hér Neðri-Breiðadalur).

Í sinni sýslumannstíð þurfti Páll Torfason að fást við margt fleira en galdramál. Stundum gat reynst erfiðara en skyldi að feðra börn fátækra kvenna, einkum þegar lýstur faðir lét sig hafa að sverja fyrir krógann. Var þá stundum gripið til þess að beita móðurina líkamlegri refsingu í því skyni að knýja fram nýja barnsfaðernislýsingu. Átakanlegt dæmi um þetta, þar sem Páll Torfason kemur við sögu, er að finna í Alþingisbókum frá árunum 1674-1677.[404] Þar segir frá basli Valgerðar nokkurrar Bjarnadóttur við að feðra barn sitt, sem hún kenndi Bjarna Jónssyni á Tannanesi í Önundarfirði.[405]

Þann 5. júlí 1674 auglýsti Páll Torfason í lögréttu héraðsdóm genginn á Mosvöllum 25. apríl þá um vorið um barnsfaðernislýsingu Valgerðar upp á Bjarna þennan á Tannanesi sem í fyrstu meðgengið hafði barnið en síðar á móti sinni meðkenningu gengið.[406] Á þessu stigi málsins komust lögmenn og lögréttumenn við Öxará að þeirri niðurstöðu að rétt væri að láta þá sem vottað höfðu upphaflega meðkenningu Bjarna staðfesta vitnisburði sína með eiði.[407] Barnsfaðernismál þetta úr Önundarfirði var síðan jafnan tekið fyrir á Alþingi næstu þrjú árin. Þegar þrjú ár voru liðin frá því það kom fyrst til kasta þingsins lá hins vegar fyrir að þeir sem í fyrstu höfðu verið vottar að meðkenningu Bjarna á Tannanesi voru nú ekki lengur reiðubúnir til að standa við sinn fyrri framburð.[408] Lögréttumennirnir sáu því ástæðu til að dæma fyrrnefnda votta öldungis frá þessu máli sökum fávisku og minnisleysis.[409]

Er hér var komið sögu óskaði Páll Torfason eftir úrskurði Öxarárþings um hvernig hagast skuli um málefni téðrar Valgerðar að ófeðruðu barninu.[410] Svör lögréttunnar við þessum tilmælum sýslumannsins sýna að nú stefndi í óefni fyrir móðurinni sem jafnan hafði staðið við sína upphaflegu barnsfaðernislýsingu. Svörin voru þessi:

 

Nú þar lögmönnum og lögréttumönnum virðist vel til fallið, sem og viðgengist hefur, að nefnd Valgerður hafi nokkra líkamlega refsing eftir mati sýslumanna, Páls Torfasonar og Magnúsar Magnússonar, ef ske mætti að sannleikur þessa máls kynni heldur þar fyrir í ljós að leiðast, þá er þó hið vinsamlegasta óskað af lögmönnum og lögréttunni að æruverðugur herra biskupinn, mag. Þórður Þorláksson, með heiðarlegum kennimönnum vildi sína herradóms tilhlutan leggja að þessari kvensnift, ef hans herradóm svo sýndist, væru áminningar af kennivaldinu settar fyrr en hún skyldi líkamlegt straff móttaka, – en greindir valdsmenn séu skyldugir síns embættis vegna hið frekasta eftir ganga sannleika þessa máls í héraði eftir forsvaranlegum hætti.[411]

 

Um lyktir þessa einstaka máls er ókunnugt en þær heimildir sem hér hefur verið vitnað til sýna að stundum fengu bæði versleg og geistleg yfirvöld ærið að starfa við að feðra óskilgetin börn og þá ýmist með réttu eða röngu.

Frá heimili sínu á Núpi reið Páll Torfason a.m.k. átján sinnum til Alþingis suður að Öxará[412] og hefur að líkindum verið átta til tíu daga að komast alla leið. Síðast verður hans vart á Þingvöllum árið 1705[413] en þá var hann kominn undir sjötugt. Er Páll kom á Alþing í fyrsta sinn voru hinar fornu búðir allar fallnar fyrir langa löngu og þar bjuggu menn í tjöldum yfir þingtímann en nokkru seinna var farið að reisa þar búðir á nýjan leik.[414] Stundum hefur líklega verið glatt á hjalla í tjaldi Páls sýslumanns þar við Öxará og svo mikið er víst að þar varð ölmusumaðurinn Jón Nikulásson svo drukkinn af brennivíni 1. júlí 1678 að hann tók að fleipra um frillulifnað síns arfaherra Kristjáns konungs V. Fyrir orðbragð sitt í tjaldi Páls á Núpi varð Jón að þola harða refsing fáum dögum síðar þar á þinginu en um mál hans segir svo í Alþingisbókinni:

 

Fram bar velaktaður landfógetans fullmektugur, Óluf Jónsson Klou fjögra manna vitnisburð í lögréttu, hljóðandi sem hér segir: Kennustum vér undirskrifaðir að vér heyrðum Jón Nikulásson svofelldum orðum tala í tjaldi Páls Torfasonar þann 1. júlí við Öxará að kongurinn vor, Kristján fimmti hefði átt tvö börn framhjá … .

Var nú þessi Jón Nikulásson hér í lögréttu að forlagi velnefnds Óluf Jónssonar Klou, eftir því hann var honum áður af valdsmanninum Páli Torfasyni með vottum færður, og meðkennir að hann í tjaldi Páls Torfasonar verið hefði þann 1. júlí og þar gert sig drukkinn af brennivíni, hvers vegna hann kunni ekki síns orðs svo gerla að minnast, vilji ei heldur neita að hann hafi mátt með drykkjuskap og brjáluðu viti svoddan segja. Biður nú auðmjúklega bæði guð og háyfirvaldið fyrirgefningar og náðar á þessari sinni ávirðing. Þar með játar Jón Nikulásson að hann engan sannleik og engin rök til viti þessarar sinnar mælgi, heldur af óforhugsuðu munnfleipri fram sagt. Nú er bevísanlegt af þeim sem téðan Jón þekkja að hann er bæði fátækur og fáráður ölmusumaður, langvaranlega krossþjáður af sinnar kvinnu veikleika og nefnilega tveggja barnanna sem í spíttelsku krankdæmi hafa haldin verið. Þar með er téður Jón Nikulásson mörgum kenndur að ráðlausri mælgi öðrum til skaðlegrar hneykslunar. Þar fyrir er nú samþykkileg ályktun lögmanna og lögréttunnar með ráði og vitund landfógetans fullmektugs Óluf Jónssonar Klou að margnefndur Jón Nikulásson skuli kagstrýkjast hér á Öxarárþingi eftir tempran og tilsögn lögmanna og landfógetans fullmektugs, og slái sig sjálfur tvisvar á munninn. Og þetta straff er honum sett fyrir sína ófrægilegu mælgi, honum og hans líka óorðvörum drengjum til viðvörunar eftirdæmis svo ei í venju leiði óvirðingar eður hneykslanlega nokkrum manni tiltala, allrasíst háloflegu yfirvaldi. Hér að auk sé Jón Nikulásson skyldugur að standa til rétta, ef háyfirvaldið vill framar hér um talað hafa.

Straffið á lagt 5. júlí.[415]

 

Við lestur þessa skjals frá Öxarárþingi munu ýmsir minnast frægra orða sem Halldór Laxness lagði í munn Jóni Hreggviðssyni á Rein: … og nú ku minn allranáðugasti arfaherra vera búinn að taka sér þriðju frilluna.[416] Þau orð voru líka töluð á Þingvöllum, þó ekki í tjaldi Páls Torfasonar heldur ofan af þaki lögréttuhússins þar sem snærisþjófurinn af Akranesi sat og hafði lokið við að höggva niður hina fornu klukku landsins. Svo vill reyndar til að báðir voru þeir af Akranesi, Jón Nikulásson sem sagði kónginn hafa átt tvö börn fram hjá[417] og Jón Hreggviðsson sem í skáldsögunni segir þennan sama kóng vera búinn að taka sér þriðju frilluna. Athyglisvert er líka að báðir voru þessir Jónar af Skipaskaga dæmdir til að slá sig sjálfir upp á munninn, annar tvisvar en hinn þrisvar, fyrir ógætileg orð um vort æðsta yfirvald á jörðinni en svo er Danakonungur nefndur í dómnum sem upp var kveðinn á Alþingi árið 1693 yfir Jóni Hreggviðssyni,[418] liðlega 250 árum áður en hann varð persóna í skáldverki. Enginn veit nú hver smánaryrði Jóns Hreggviðssonar um kónginn voru því þau eru ekki birt í dómnum sem varðveittur er. Ummæli Jóns Nikulássonar um frillulifnað hátignarinnar eru hins vegar vel geymd eins og hér hefur verið rakið.

Með allt þetta í huga sýnist harla líklegt að hinn krossþjáði ölmusumaður af Akranesi sem drakk sig fullan í tjaldi Páls Torfasonar frá Núpi einn sumardag á Þingvöllum og fleipraði þar um framhjáhald kóngsins hafi um síðir komist í hóp þeirra gæfumanna sem lögðu til orð í nýja Íslandsklukku er við nú eigum kost á að njóta.

Skömmu áður en Páll sýslumaður á Núpi reið til þings vorið 1678 gerðist hann svo djarfur að kaupa eitt eða tvö færi af enskum fiskimönnum fyrir prjónles en öll viðskipti við þegna annarra ríkja voru þá stranglega bönnuð eins og alkunnugt er. Tveimur árum síðar höfðu fréttir af þessari launverslun sýslumanns borist til eyrna landfógetans og var málið tekið fyrir á Alþingi. Þar hélt Páll því fram að án þessa snæris frá Englendingunum hefði skip hans ekki komist á sjó um besta gagnsemdartíma og lagði fram vottorð því til sönnunnar.[419] Engu að síður var hann dæmdur til að missa alla sína búslóð fyrir þessar sakir en dómsniðurstöðunni þó skotið til endanlegs úrskurðar konungs.[420]

Í bókum frá Öxarárþingi um mál þetta segir meðal annars svo:

 

Páll Torfason meðkennir sig engelskum fiskara nokkur vettlinga- og sokkapör fengið hafa fyrir eitt eður tvö færi fyrir kauptíð þar ár 1678. … Er nú hér upp á endilegur dómur lögmanna og lögréttunnar að sú höndlan sem sýslumaðurinn Páll Torfason meðkennir sig haft hafa við engelska ófríhöndlara sé undir þeirri sekt og straffi sem fyrr hánefndrar kongl. majestats bréf um hljóðar, að hann straffist á sinni búslóð undir konglega majestat.[421]

 

Jafnframt var hann sviftur sýslumannsembættinu eins og sjá má í konungsbréfi frá 22. júní 1681[422] þó ekki sé það tekið fram í sjálfum dómnum.

Magnús Magnússon á Eyri í Seyðisfirði var á þessum árum sýslumaður í norðurhluta Ísafjarðarsýslu. Í annál sínum, Eyrarannál, segir hann frá atburðum á þessa leið:

 

Páll Torfason dæmdur frá sinni búslóð og missti hálfa Ísafjarðarsýslu fyrir meðkenndan kaupskap við engelskan skipherra á tveimur snærum í sinni nauðsyn og eftir herra landsfóvetans skikkun var allt hans góss uppskrifað og það registur með norðanskipum fram sent.[423]

 

Bjarni Þorleifsson, hreppstjóri frá Söndum, var settur í stað sýslumanns yfir vesturhluta Ísafjarðarsýslu árið 1680 eða 1681 meðan beðið var eftir konungsúrskurði í máli Páls Torfasonar.[424] Bjarni dæmir m.a. tvo dóma á fyrri hluta árs 1682, annan á Mosvöllum og hinn á Rafnseyri og er þá kallaður lögsagnari.[425]

Úrskurður Kristjáns konungs fimmta í máli Páls Torfasonar var felldur 22. júní 1681[426] en hefur þó máske ekki borist hingað til lands fyrr en vorið 1682. Fyrir náð konungs fékk Páll að halda búslóðinni en í bréfi sínu gaf kóngur þau fyrirmæli að honum yrði gert að greiða verulega fjárhæð til uppbyggingar kirkjunnar á Bessastöðum á Álftanesi.[427] Var amtmanni falið að ákveða upphæð sektargjaldsins.[428]

Í Eyrarannál segir að Páll hafi orðið að greiða 100 ríkisdali til Bessastaðakirkju og auk þess 150 ríkisdali fyrir bréfsins útvegun og enn 60 ríkisdali til fógetans, – eða samtals 310 ríkisdali.[429] Nærri lætur að sú upphæð hafi numið 93 kúgildum á þáverandi verðlagi og er þá gert ráð fyrir 36 álnum í hverjum ríkisdal svo sem venja var í öllum sakaurareikningi.[430] Þrátt fyrir ærna sekt hefur Páll að líkindum unað bærilega við þessa niðurstöðu enda fór hér betur en á horfðist um skeið. Í Eyrarannál segir að Páll Torfason hafi árið 1682 fengið uppreisningarbréf frá kóngi og er þá átt við bréf það frá 22.6.1681 sem hér hefur nú þegar verið gerð grein fyrir.[431] Svo virðist sem Páll hafi þó ekki tekið aftur við sýslumannsembættinu fyrr en nokkru síðar. Á árunum 1682-1689 er hans aldrei getið þegar sýslumenn eru taldir upp í Alþingisbókunum, bæði þeir sem mættu til þings og líka hinir sem ekki mættu.[432] Í Alþingisbókunum verður heldur ekki séð að hann hafi nokkru sinni kveðið upp dóma á þeim árum.[433] Aðeins einu sinni verður hans vart á Alþingi á þessu skeiði og er það árið 1687 en enginn titill fylgir þá nafni hans[434] sem sýnir að hann hefur þá verið embættislaus. Bogi á Staðarfelli segir að Páll hafi fengið veitingu fyrir vesturparti Ísafjarðarsýslu árið 1689[435] og mun það rétt vera því árið 1690 er hann tvímælalaust orðinn þar sýslumaður á ný eins og sjá má í Alþingisbókinni frá því ári.[436] Sýslumannsembættinu hélt hann síðan næstu tuttugu árin og var á þeim árum stundum sýslumaður í allri Ísafjarðarsýslu.[437] Að öllu því athuguðu sem hér hefur verið sagt um kaupskap þessa sýslumanns á Núpi við breska fiskimenn og þann dilk er sú launverslun dró á eftir sér má ljóst vera að fyrir kaup á tveimur færum, sem greidd voru með nokkrum sokkum og vettlingum, varð Páll að gjalda yfir 90 kýrverð í sektir og málskostnað og að auk kostuðu þessi lítilfjörlegu viðskipti hann missi embættis síns í átta eða níu ár.

Á sínum síðari sýslumannsárum reið Páll alloft til Alþingis og átti þar í ýmsu stríði eins og áður. Þyngst varð honum í skauti að glíma við kröfu sem landfógeti beindi til hans árið 1704 um uppgjör fyrir góss úr frönsku eða spönsku skipi sem strandað hafði einhvers staðar í vesturhluta Ísafjarðarsýslu árið 1702.[438] Í sinni upphaflegu greinargerð hafði sýslumaður metið strandgóssið á 28 ríkisdali en bauðst síðar til að hækka þá tölu upp í 100 spesíudali.[439] Páll Beyer landfógeti vildi á hvoruga töluna fallast og taldi ástæðu til að ætla að góss þetta hefði verið mun meira virði og sýslumaður væri að stinga undan fjármunum sem ættu að renna í fjárhirslu konungs.[440] Um þetta var þráttað á þremur þingum, 1704, 1705 og 1708[441] og að lokum varð Páll sýslumaður að fallast á samkomulag þar sem honum og sonum hans var gert að greiða samtals 250 ríkisdali fyrir umrætt strandgóss[442] Jón Espólín segir að Oddur Sigurðsson lögmaður hafi dæmt Pál til að greiða 200 dali fyrir meðferð á strandgóssinu, Snæbjörn son Páls til að greiða 50 dali og Eggert Sæmundsson á Sæbóli á Ingjaldssandi í 50 dala sekt vegna sama máls[443] sem bendir til þess að skipið hafi strandað á Ingjaldssandi eða þar í grennd.

Árið 1708 var hinn gamli sýslumaður á Núpi, sem þá var kominn á áttræðisaldur, dæmdur frá embætti af hinum sérstöku erindrekum konungs, Árna Magnússyni og Páli Vídalín.[444] Var honum gefin að sök röng málsmeðferð í svonefndu Geirnýjarmáli er snerist um meint sifjaspell norður í Sléttuhreppi.[445] Þessi síðari brottvikning Páls Torfasonar úr embætti mun þó hafa staðið mjög stutt eða aldrei komið til framkvæmda því Alþingisbækur áranna 1709 og 1710 bera með sér að hann hefur á þeim árum verið starfandi sýslumaður alveg þangað til hann sagði af sér embætti 30. júní 1710.[446] Líklegast sýnist að sú ákvörðun Árna Magnússonar og Páls Vídalíns að víkja Páli Torfasyni úr embætti hafi alls ekki komið til framkvæmda meðan beðið var úrskurðar yfirdóms en niðurstöður hans urðu að lokum mjög andstæðar dómum erindrekanna í flestum málum.[447]

Hér verður nú brátt skilist við Pál Torfason, síðasta sýslumanninn sem setið hefur á Núpi. Enn hefur þó ekki verið vitnað í eitt né neitt sem hann ritaði sjálfur en einboðið sýnist að láta eitt dæmi af því tagi fljóta með til að sýna málfarið. Verður þá fyrir valinu lýsing á sakamanni sem Páll birti á Alþingi árið 1695. Maður þessi sem átti heima einhvers staðar í Ísafjarðarsýslu hét Bjarni Jónsson og hafði ratað í þá ógæfu að gera dóttur sinni barn.[448] Stúlkuna, sem Þuríður hét, hafði Páll haft með sér til Alþingis þetta sumar og þar var henni drekkt þann 6. júlí að undangengnum líflátsdómi.[449] Sýslumanni hafði hins vegar ekki tekist að hafa hendur í hári Bjarna sem hlaupist hafði á brott frá sínu heimili fyrir lok ársins 1694.[450] Þessum flóttamanni sem beðið var um að yrði fangaður hvar sem til hans næðist lýsti Páll Torfason svo:

 

Hár maður að vexti, liðlegur í andliti, meðalmáta dökkur á hár, stutt skegg og klippt um hökuna, lítið bor á herðum, bjartari á skegg en hár, til fótanna í meðallagi, karlmannlegur maður, nokkuð stór og grannhentur.[451]

 

Börn Páls Torfasonar og Gróu konu hans sem upp komust voru fjögur, Teitur, sem varð prestur á Eyri í Skutulsfirði, Snæbjörn, sem kallaður var Mála-Snæbjörn og hér er frá sagt á öðrum stað (sjá Mýrar og Sæból), Þorsteinn, sem varð lögréttumaður í Búðardal á Skarðsströnd, og Ásta, sem giftist séra Sigurði Sigurðssyni, presti í Holti í Önundarfirði.

Gömlu sýslumannshjónin á Núpi, Páll og Gróa, munu bæði hafa andast um svipað leyti og skipti eftir þau fóru fram á Mýrum 28. ágúst 1720.[452] Bogi Benediktsson segir í sínu mikla riti um sýslumenn á landi hér að við þessi skipti eftir foreldra sína hafi Snæbjörn Pálsson fengið upp á áttatíu níu og hálft hundrað í jörðum í sinn hlut auk lausafjár og muni hann þó áður hafa verið búinn að taka við einhverjum fyrirframgreiðslum.[453] Þessi orð Boga gefa vísbendingu um efni Páls á hans efstu dögum því ætla má að hinir synirnir hafi hver um sig fengið annað eins og dóttirin varla minna en helming af arfi hvers sonar.

Um heimilishagi á Núpi á dögum Páls Torfasonar er fátt kunnugt en í álfariti Ólafs Sveinssonar í Purkey er skráð lítil saga höfð eftir Þorsteini í Búðardal, syni Páls og Gróu á Núpi. Ólafur ritar þar svo:

 

Þorsteinn sálugi Pálsson er var í Búðardal, frændi föður míns, sagði frá því að þá hann var unglingur hjá foreldrum sínum þá hafi faðir sinn, herra Páll, sent sig og bróður sinn Teit, er síðar var prestur og faðir herra Jóns Teitssonar biskups á Hólum, og hafi hann þá verið unglingur líka, eftir hestum upp á eina heiði er ég man ei hvað heitir. Þeir fóru þangað ……. og hafi þá komið stúlka, ungleg að sjá, og verið skammt frá þeim á mosalituðu pilsi og hafi verið að prjóna mórauðan sokk, hafandi dálitla tágakörfu á handleggnum, í hvörri að hún hafi haft hnykilinn er hún var að prjóna af, – hún hafi sagt: “Heilir piltar.” Þá hafði Teitur hlaupið af ótta er hann í sig fengið hefði en hann sagðist hafa kyrr verið og spurt hana að heiti en hún hafi sagt: „Ég heiti Landdís.” Þá sagðist hann hafa farið burt þaðan með hestana en hún hefði þá og líka horfið sér. Hann sagði að hún hefði verið mjög losaleg að sjá í augunum. Þetta sagði hann að huldustúlka hefði verið.[454]

 

Þorsteinn Pálsson sem söguna sagði er talinn hafa fæðst á Núpi um 1683[455] en Teitur bróðir hans um 1680[456] svo líklegt verður að telja að þeir hafi verið sendir í þessa hestaleit fyrir 1700. Heiðin sem kemur við sögu er líklega Sandsheiði en Gemlufallsheiði gæti þó líka komið til greina. Sérstaka athygli vekur að huldustúlkan í sögunni segist heita Landdís en í utanverðum Mýrahreppi má einmitt finna a.m.k. þrjá steina sem kenndir eru við landdísir.[457] Einn slíkur er á Kotnúpsholtunum neðst í Núpsdal (sjá hér Kotnúpur) og annar skammt frá bænum Álfadal á Ingjaldssandi (sjá hér Álfadalur).

Ólafur Sveinsson í Purkey, sem færði söguna í letur, var fæddur árið 1762[458] en faðir hans var Sveinn Magnússon sem ólst upp í Búðardal hjá Þorsteini Pálssyni og konu hans, Karitas Bjarnadóttur.[459] Vegna þeirra tengsla má ætla að meginatriði sögunnar séu rétt eftir Þorsteini höfð.

Séra Friðrik Eggerz, prestur í Skarðsþingum, tók þessa sömu sögu upp í ævisagnarit sitt en þar er hún í dálítið öðrum búningi.[460] Séra Friðrik var 40 árum yngri en Ólafur í Purkey og stendur tvímælalaust fjær sjálfum sögumanninum en hann. Ástæðulaust sýnist því að taka mark á þeim orðum séra Friðriks að í hestaleitina sem Þorsteinn í Búðardal sagði frá hafi bræðurnir tveir farið frá Kirkjubóli í Langadal við Djúp. Miklu líklegra er hitt að þeir hafi lagt upp frá Núpi því þar ólust þeir upp hjá foreldrum sínum sem bjuggu á Núpi á uppvaxtarárum þeirra og allt til ársins 1720. Afi þessara bræðra, séra Torfi Snæbjörnsson, bjó hins vegar á Kirkjubóli í Langadal[461] en hann dó árið 1688. Þess skal að lokum getið að lýsingu Þorsteins Pálssonar á heiðarstúlkunni sem kvaðst heita Landdís orðar séra Friðrik Eggerz svo: Þorsteinn sagði að mjög hefði hún verið hvimeygð og ólík öðrum kvenmönnum og gerla hafi mátt af ýmsu sjá að hún væri ekki mennsk.[462]

Eins og fyrr var getið var það séra Torfi Jónsson, síðar prestur í Gaulverjabæ, sem eignaðist Núp við andlát föður síns, Jóns Gizurarsonar, árið 1648. Torfi var einkabarn og hafði alist upp hjá foreldrum sínum á Núpi en fór til mennta og settist að á Suðurlandi. Það var hann sem leigði Páli Torfasyni, frænda sínum, jörðina (sjá hér bls. 55-56). Séra Torfi andaðist árið 1689 og er eignum hans var skipt milli barna hans mun Núpur hafa komið í hlut séra Jóns Torfasonar, sem þá var aðstoðarprestur en síðar sóknarprestur á Breiðabólsstað í Fljótshlíð. Staðfest er að séra Jón Torfason átti jörðina árið 1710 en ábúandi var þá enn Páll Torfason sýslumaður.[463] Báðir önduðust þeir um svipað leyti, séra Jón árið 1716 og Páll 1720.[464] Ekki er alveg ljóst hvort Páll sýslumaður hefur búið á Núpi fram á síðasta æviár en líklegt er þó að svo hafi verið. Skömmu eftir andlát Páls Torfasonar komst Núpur aftur í sjálfsábúð er Björn Jónsson, sonur séra Jóns Torfasonar á Breiðabólsstað í Fljótshlíð, fluttist vestur og fór að búa á Núpi sem hann hafði erft eftir föður sinn.

Björn Jónsson var fæddur árið 1688 eða 1689[465] og hefur að líkindum farið að búa á Núpi skömmu eftir 1720. Fullvíst er að hann tekur þar við búsforráðum einhvern tíma á árunum 1710 til 1730. Jarðabókin frá árinu 1710 sýnir að Páll Torfason býr þá enn á Núpi en 1730 er Björn alveg örugglega kominn vestur því Jón sonur hans, sem hann átti með bóndadóttur úr Haukadal í Dýrafirði, fæddist árið 1731.[466] Í bændatali frá því um 1735 er Björns getið og hann sagður búa á Núpi.[467] Líklegast er að hann hafi tekið við Núpi strax að Páli Torfasyni látnum en þó má vera að einhver hafi búið þar örfá ár á milli þeirra. Vitað er að séra Andrés Gíslason, sem var prestur í Dýrafjarðarþingum frá 1715-1722, átti heima á Núpi síðustu ár sín í prestakallinu[468] en hann var þá ungur og ókvæntur og alls ekki víst að hann hafi fengið jörðina til ábúðar.

Koma Björns Jónssonar í Dýrafjörð hlýtur að hafa sætt allmiklum tíðindum á sínum tíma því þá voru sjö eða átta áratugir liðnir frá því Jón Gizurarson, langafi hans á Núpi, andaðist og allan þann tíma höfðu eigendur jarðarinnar, faðir Björns og afi, verið búsettir sunnanlands. Á árunum 1518-1648 höfðu áar Björns hins vegar búið á Núpi mann fram af manni (sjá hér bls. 24-55) og með komu hans vestur var á ný tekinn upp sami þráður sem reyndar hafði aldrei slitnað að fullu þar sem faðir hans og afi slepptu aldrei eignarráðum yfir ættaróðalinu þó búsettir væru sunnanlands. Björn Jónsson og niðjar hans bjuggu lengi á Núpi eða í liðlega hundrað ár eins og nánar verður vikið að síðar og tók þá jafnan sonur við af föður. Sá munur var þó á að hinir eldri Núpverjar, frá Hannesi Eggertssyni til Jóns Gizurarsonar, voru allir í höfðingjatölu eins og hér hefur áður verið rakið en Björn og hans niðjar voru sléttir bændur og höfðu engum titlum að flagga nema hreppstjóratign. Samt voru þeir bærilega loðnir um lófana og héldu vel sínum hlut meðan óðalið hélst í ættinni.

Tilgangslaust er að leita skýringa á flutningi Björns Jónssonar úr Fljótshlíðinni vestur í Dýrafjörð en því fór fjarri að slíkir flutningar milli fjarlægra landshluta væru algengir á þessum tíma og síst hjá þeim sem engu embætti gegndu. Forfeður Björns í ættleggnum frá Hannesi Eggertssyni, hirðstjóra á Núpi, höfðu allir fimm verið prestar eða sýslumenn nema reyndar Jón Gizurarson sem var bóndi á Núpi og auk þess lögréttumaður, fræðimaður og lærður gull- og silfursmiður. Björn sem vestur fluttist virðist hins vegar aldrei hafa farið í skóla og má því segja að hann hafi tekið tvöfalt heljarstökk, annars vegar úr embættismannastétt yfir í bændastétt og hins vegar úr Fljótshlíðinni til Dýrafjarðar. Einhverjar ókunnar orsakir liggja þarna að baki. Sighvatur Grímsson Borgfirðingur segir í Prestaæfum sínum að séra Jón Torfason á Breiðabólsstað hafi sýkst af óþekkjanlegum sjúkdómi og verið karlægur síðustu tíu æviárin.[469] Sighvatur tekur fram að á þessum sínum síðustu árum hafi séra Jón þó verið matheill en geðsturlaður.[470] Við andlát eiginkonunnar snemma á árinu 1716 bráði þó eitthvað af presti. Fór hann þá á stjá og var á ferli þar til hann dó snögglega í karldyrum á Breiðabólsstað skömmu fyrir jól á sama ári.[471]

Ef þarna er rétt með farið hefur séra Jón misst heilsuna þegar Björn sonur hans var innan við tvítugt og vel má vera að þar sé komin skýring á því að Björn fór aldrei í skóla. Í íslenskum æviskrám segir Páll Eggert Ólason að Björn Jónsson hafi lengi verið geðbilaður eins og faðir hans[472] en á það minnist Sighvatur ekkert er hann segir frá Birni í Prestaæfum sínum.[473] Mjög líklegt má því telja að fullyrðing Páls Eggerts um þetta sé á misskilningi byggð því ólíklegt er að Sighvatur hefði látið slíkt fram hjá sér fara en frá andláti Björns voru aðeins liðin 106 ár þegar Sighvatur settist að í Dýrafirði.

Er Björn Jónsson kom vestur í Dýrafjörð var hann ókvæntur.[474] Skömmu síðar gekk hann að eiga Guðrúnu dóttur Magnúsar Níelssonar, bónda í Haukadal,[475] og fylgdust þau síðan að meðan bæði lifðu. Björn á Núpi og Guðrún kona hans voru náskyld því Herdís Björnsdóttir, móðir Guðrúnar, var reyndar hálfsystir séra Torfa í Gaulverjabæ, afa Björns.[476]

Björn Jónsson bjó á Núpi til dauðadags en hann andaðist þar árið 1767.[477]

Með konu sinni, Guðrúnu Magnúsdóttur, átti Björn á Núpi a.m.k. fjögur börn sem upp komust.[478] Hér hefur áður verið sagt nokkuð frá einu þeirra, Jóni Björnssyni, bónda og hreppstjóra í Fremri-Hjarðardal (sjá hér Fremri-Hjarðardalur). Annar sonur Björns var Magnús sem tók við búi af föður sínum. Hann var tvíkvæntur, átti fyrst Guðnýju Ólafsdóttur frá Sæbóli en síðar Sigríði, dóttur séra Þorleifs Þorlákssonar sem prestur var í Kirkjubólsþingum og átti lengst heima á Laugabóli í Ísafirði.[479] Á búskaparárum Magnúsar Björnssonar varð sá atburður að snjóflóð tók smalamanninn frá Núpi og 50 fjár[480] en ekki er þess getið hvar snjóflóð þetta féll. Ýmislegt bendir til þess að á Magnús hafi verið litið sem fyrirmann í bændastétt. Til marks um það má nefna að Jón Arnórsson, sýslumaður í Reykjarfirði við Djúp, gekk að eiga stjúpdóttur hans, Kristínu Jónsdóttur, og fór brúðkaup þeirra fram í krambúðinni á Þingeyri vorið 1777 (sjá hér Þingeyri). Frá brúðguma sínum fékk Kristín 120 ríkisdali í morgungjöf (sjá hér Þingeyri) en nærri lætur að sú upphæð hafi jafngilt 30 kúgildum.[481] Sjálfur drukknaði Magnús á heimleið frá verslunarstaðnum á Skutulsfjarðareyri nokkrum vikum fyrir nýnefnt brúðkaup en frá drukknun hans er greint í Djáknaannálum og þá á þessa leið:

 

Um veturinn [1777] fór Magnús Bjarnason [á að vera Björnsson – innskot K.Ó.]  frá Núpi í Dýrafirði að sækja salt fyrir kaupmann á Þingeyri til Skutulsfjarðar en á heimferðinni datt hann útbyrðis þá hann vildi setjast að stjórn og var örendur er hann náðist upp í skipið.[482]

 

Í Vatnsfjarðarannál hinum yngsta er líka getið um andlát Magnúsar á Núpi árið 1777. Þar segir að hann hafi fallið útbyrðis af flutningaskipi, náðst með lífi en andast skömmu síðar.[483] Vel má vera að sú frásögn sé nákvæmari en þessi yngsti Vatnsfjarðarannáll er ritaður af séra Guðlaugi Sveinssyni sem prestur var á Kirkjubóli í Langadal við Djúp frá 1766-1780 og síðan í Vatnsfirði.[484] Í annál sínum nefnir séra Guðlaugur bóndann á Núpi ættgöfugan heiðursmann[485] sem sýnir að menn hafa gert sér ljósa grein fyrir skyldleika hans við þá stórhöfðingja sem sátu á Núpi á sextándu öld og fyrri hluta sautjándu aldar.

Um Magnús Björnsson á Núpi segir Sighvatur Borgfirðingur að hann hafi verið kostulegur og iðinn bókaritari og ritað ágætt settletur.[486] Í þessum efnum hefur Magnúsi líklega svipað eitthvað til Jóns Gizurarsonar, langalangafa síns, hins kunna fræðimanns sem bjó á Núpi á fyrri hluta 17. aldar (sjá hér bls. 52-55). Á einum stað er greint frá sams konar ummælum um son Magnúsar Björnssonar, er líka hét Magnús,[487] en þar er að líkindum um misskilning að ræða er byggist á því að feðgunum hefur verið ruglað saman.

Meðal barna Magnúsar Björnssonar á Núpi voru Ólafur Magnússon og Magnús Magnússon sem báðir bjuggu á Núpi um nokkurt skeið að föður sínum látnum.[488] Ólafur fluttist frá Núpi að Eyri í Önundarfirði árið 1791 og er fjölmenn ætt frá honum komin.[489] Magnús Magnússon bróðir hans bjó hins vegar áfram á Núpi allt til dauðadags en hann andaðist 9. desember 1829.[490] Á manntalinu frá 1. febrúar 1801 er Magnús sagður 48 ára gamall og er hann lést segir prestur hann hafa verið 75 ára.[491] Hann hefur því verið fæddur á árunum 1752-1754 eða því sem næst.

Magnús Magnússon á Núpi gekk um þrítugsaldur að eiga Jósabet, dóttur séra Jóns Bjarnasonar á Rafnseyri, og eru börn þeirra fædd á Núpi á árunum 1786-1792.[492] Magnús var lengi hreppstjóri í Mýrahreppi og hér hefur áður verið sagt frá erfiðu stríði hans við Henrik Henkel, kaupmann á Þingeyri (sjá hér Þingeyri). Í deilunni við kaupmanninn fór Magnús halloka og var dæmdur til að greiða sekt. Vera má að veraldarvit hans hafi ekki jafnast á við það sem best gerist í þeim efnum hjá útsmognum kaupsýslumönnum.

Börn Magnúsar Magnússonar og Jósabetar konu hans, sem upp komust, voru aðeins tvö, Guðrún, fædd 1786 og Jón, fæddur 1792.[493] Guðrún giftist ung Jens Jónssyni sem árið 1812 varð aðstoðarprestur í Kirkjubólsþingum við Djúp en hann andaðist árið 1813.[494] Þann 18. október árið 1822 var aftur haldið brúðkaup á Núpi en þá gengu bæði börn Magnúsar óðalsbónda Magnússonar í hjónaband. Jón Magnússon gekk þá að eiga Ástríði, dóttur Gísla Oddssonar bónda í Meira-Garði,[495] en ekkjan Guðrún giftist bróður Ástríðar, Guðmundi Gíslasyni, sem þá átti heima á Núpi en var síðar lengi bóndi í Alviðru.[496] Í prestsþjónustubókinni er Guðmundur brúðgumi að vísu sagður Jónsson en þar er um misritun að ræða því manntöl taka af öll tvímæli um þetta.[497]

Er prestur greinir frá hinu tvöfalda systkinabrúðkaupi í bók sinni segir hann báða brúðgumana vera húsbændur á Núpi.[498] Sú bókun bendir eindregið til þess að Magnús Magnússon hafi um þetta leyti afhent syni sínum og tengdasyni búsforráð á óðalinu enda var hann þá kominn fast að sjötugu.

Þennan brúðkaupsdag haustið 1822 mun fáa hafa grunað að skammt væri í það að Núpur gengi úr ætt sinna gömlu eigenda. Þvert á móti mun ýmsum hafa virst að nú hefði gamli óðalsbóndinn búið svo um hnútana að lengi mundi standa. Er hér var komið sögu voru fjögur ár liðin frá því Jósabet, kona hans, andaðist[499] en sjálfur átti Magnús eftir að lifa í sjö ár og er hann andaðist á jólaföstu árið 1829 var Jón sonur hans enn búandi á Núpi. Vegna skorts á heimildum er hins vegar ekki unnt að sjá hvort Guðrún dóttir Magnúsar og hennar maður voru þá þegar komin út í Alviðru. Við andlát Magnúsar Magnússonar tekur presturinn fram að hinn látni hafi verið proprietær, það er eigandi jarðarinnar sem hann bjó á.[500] Er þar komin sönnun fyrir því að eignarráð yfir Núpi héldust þá enn í ættinni eins og verið hafði í 321 ár eða allt frá því Björn Guðnason í Ögri eignaðist Núp árið 1508 (sjá hér bls. 18-20 og 24). Allan þann tíma hafði jörðin aldrei gengið kaupum og sölum nema milli systkina en nú voru breytingar í vændum.

Aðeins tveimur árum eftir andlát föður síns tók Jón Magnússon sig upp og fluttist ásamt fjölskyldu sinni frá Núpi að Hóli í Bakkadal í Ketildölum vestan Arnarfjarðar.[501] Þessir flutningar fóru fram árið 1831. Eins og áður sagði er ekki alveg ljóst hvenær Guðrún systir hans og Guðmundur, maður hennar, fóru frá Núpi en líklega hefur það verið um svipað leyti og fullvíst er að þau voru komin í Alviðru árið 1835.[502]

Af hvaða ástæðum Jón Magnússon tók sig upp frá Núpi og fluttist vestur í Ketildali árið 1831 veit líklega enginn. Hann var þá tæplega fertugur að aldri og ekki verður séð að nein veruleg áföll hafi mætt honum á lífsleiðinni. Fram undan átti hann langa lífdaga á Hóli í Bakkadal. Hann er þar 1845 með Ástríði konu sína og fimm börn þeirra á aldrinum 12-23ja ára, einn vinnumann, þrjár vinnukonur og eitt tökubarn.[503] Fimmtán árum síðar er hann enn á Hóli kominn undir sjötugt.[504] Í manntölum er Jón stöku sinnum kallaður smiður[505] en ólíklegt er að smiðsnáttúran hafi stuðlað að brottför hans frá Núpi.

Guðrún Magnúsdóttir, systir Jóns, átti líka marga ævidaga fram undan er hún fluttist frá Núpi út í Alviðru. Sonur hennar Sakkarías Jensson var síðar lengi bóndi í Alviðru og þar andaðist Guðrún árið 1862,[506] enn í næsta nágrenni við óðal feðra sinna.

Við brottför barna Magnúsar Magnússonar frá Núpi á árunum kringum 1830 slitnaði gamall þráður og þess var þá skammt að bíða að þau seldu jörðina nýjum eiganda. Þau systkin, Jón og Guðrún, voru ellefti ættliðurinn sem átti Núp og aldrei hafði sú röð slitnað fyrr en þau seldu jörðina. Af þessum ellefu ættliðum bjuggu átta á Núpi, allir nema sá fyrsti og prestarnir tveir, séra Torfi í Gaulverjabæ og séra Jón sonur hans á Breiðabólsstað. Er hin forna keðja slitnaði við brottför barna Magnúsar Magnússonar og sölu jarðarinnar tóku við nýir tímar. Þess má hins vegar geta að nú á okkar öld hefur a.m.k. ein manneskja úr hópi niðja Magnúsar óðalsbónda á Núpi skipað þar húsmóðursæti bæði lengi og vel en það er Kristín Jónsdóttir frá Gemlufalli sem átti Guðrúnu Magnúsdóttur, hér nýlega nefnda, fyrir langalangömmu.[507] Kristín giftist árið 1938 séra Eiríki J. Eiríkssyni, sóknarpresti á Núpi, sem einnig var þar kennari og síðar skólastjóri. Þau bjuggu á Núpi nokkuð á þriðja tug ára.

Í veðmálabók Ísafjarðarsýslu frá árunum 1804-1844 er því miður fátt að finna um með hvaða hætti Núpur komst í hendur nýrra eigenda. Eina skjalið sem þetta varðar er frá árinu 1837 en þá seldi Jón Magnússon Brynjólfi Brynjólfssyni sinn erfðahlut í jörðinni.[508] Í afsalinu er tekið fram að hinn seldi erfðahluti sé tvö og hálft jarðarhundrað en kaupandi taki einnig að sér fjórða part af kirkjueigninni sem séu fimm hundruð í jörðu.[509]

Skjalið sýnir að faðir seljandans hefur haft umráð yfir kirkjueigninni á Núpi sem var 20 hundruð en athygli vekur hversu smár hinn seldi erfðahlutur Jóns Magnússonar er þar sem ætla má að hann hafi erft helming af eignum föður síns því börnin voru bara tvö og móðir þeirra dáin. Á orðalagi afsalsins verður ekki annað séð en hin selda eign sé allur erfðahluti Jóns í Núpsjörðinni og ætti þá að hafa verið sjö og hálft hundrað að kirkjueigninni meðtalinni. Einfaldasta skýringin á þessu væri sú að segja að þarna sé samt alls ekki átt við allan erfðahluta hans og ef til vill er það rétt. Slík tilgáta virkar þó ekki sannfærandi. Hér er þess að minnast að við andlát Magnúsar Björnssonar á Núpi árið 1777 hafa synir hans, Magnús og Ólafur, að líkindum erft hálfa jörðina hvor, enda bjuggu þeir saman á Núpi til ársins 1791 er Ólafur fluttist að Eyri í Önundarfirði. Líklegt er að skipti milli þeirra bræðra hafi þá orðið með þeim hætti að Magnús hafi fengið heimajörðina sem var 20 hundruð í sinn hlut og svo Kotnúp sem var 10 hundruð en Ólafur hin 30 hundruðin, það er að segja hjáleigurnar Ytrihús, Innrihús og Rana, sem frá er sagt á öðrum stað á þessum blöðum (sjá hér bls. 79-96). Rökin eru þau að kirkjueignin, sem var 10 hundruð í heimajörðinni og Kotnúpur, sýnist hafa komið í hlut Magnúsar því Jón sonur hans eignaðist síðar hlut í henni eins og hér hefur komið fram. Hafi Magnús átt eða haft umráð yfir heimajörðinni og Kotnúpi þá er það líka nákvæmlega sama eign og Brynjólfur Brynjólfsson, sem keypti af Jóni Magnússyni árið 1837, náði að eignast (sjá hér bls. 72-73). Allt bendir þetta til þess að skiptin milli bræðranna, Magnúsar og Ólafs Magnússona, hafi verið með þeim hætti sem hér var nefnt. Miðað við þá skiptingu hefði erfðahluti Jóns Magnússonar hins vegar átt að verða nákvæmlega helmingi meiri en fram kemur í afsalinu frá 1837. Tvær skýringar koma hér til greina. Önnur er sú að Jón hafi í raun erft fimmtán hundruð, að kirkjueigninni meðtalinni, en ekki bara sjö og hálft hundrað eins og skjalið í veðmálabókinni bendir til. Hitt er þó líka hugsanlegt að Magnús faðir hans hafi verið búinn að tapa helming eignarinnar úr höndum sér áður en hann lést og þess vegna hafi arfurinn orðið minni.

Þegar Jón Magnússon seldi það sem hann átti í Núpi vorið 1837 voru sex ár liðin frá því hann fluttist þaðan að Hóli í Bakkadal. Nær allan þann tíma hafði séra Jón Sigurðsson búið á Núpi en honum voru veitt Dýrafjarðarþing 15. mars 1832 og fluttist hann að Núpi frá Otradal þá um vorið.[510] Er nýr eigandi tók við búsforráðum á Núpi vorið 1837 fluttist séra Jón að Gerðhömrum (sjá hér Gerðhamrar) en seinna var hann prestur á Söndum (sjá hér Sandar).

Sá sem keypti part Jóns Magnússonar í Núpi vorið 1837 var Brynjólfur Brynjólfsson en hann var elsti sonur Brynjólfs Hákonarsonar óðalsbónda á Mýrum (sjá hér Mýrar) Gengið var frá afsali þann 15. maí og galt Brynjólfur 25 spesíur, – það er 50 ríkisdali, fyrir þau sjö jarðarhundruð og hálfu betur sem hann fékk í hendur.[511] Verðið fyrir hvert hundrað hefur því verið 6 dalir og 64 skildingar eða nákvæmlega sama verð og Guðmundur, bróðir Brynjólfs, þurfti að greiða er hann keypti 30 hundruð í Mýrum ári síðar (sjá hér Mýrar). Með fylgdu í kaupunum fjögur kúgildi sem kirkjan átti og hálft kúgildi sem Brynjólfur keypti af Jóni.[512]

Brynjólfur fór strax að búa á Núpi vorið 1837[513] og bjó þar til 1858.[514] Kona hans var Guðrún, dóttir Jóns Steinhólm, hreppstjóra í Stapadal í Arnarfirði, en frá þeim hjónum, Brynjólfi og Guðrúnu, er dálítið sagt á öðrum stað í þessu riti (sjá hér Hof).

Um svipað leyti og Brynjólfur Brynjólfsson festi kaup á erfðahlut Jóns Magnússonar í Núpi keypti hann líka 22 ½  hundrað í sömu jörð og var þar með orðinn eigandi eða réttar sagt umráðamaður yfir helming jarðarinnar því kirkjan taldist enn eiga sín 20 hundruð. Um þessi kaup Brynjólfs finnst að vísu ekkert í veðmálabókum enda eru þær gloppóttar og árin 1845-1855 vantar alveg. Í Jarðatali Johnsens frá árinu 1847 er þess hins vegar getið að sjálfseignarbóndi búi á hálfum Núpi[515] og þegar Brynjólfur selur eignarhlut sinn í jörðinni haustið 1857 er tekið skýrt fram að hin selda eign sé 30 hundruð að kirkjuhlutunum meðtöldum,[516] það er helmingur af allri jörðinni. Í veðmálabókinni má sjá að Brynjólfur hefur haft umráð yfir kirkjueigninni, sem var 20 hundruð, en sjálfur talist eiga 10 hundruð.[517] Kirkjan átti Kotnúp sem var metinn á 10 hundruð og svo önnur 10 hundruð í heimajörðinni og við eigendaskiptin árið 1857 er fært til bókar að kirkjan og kirkjueignin, þar á meðal Kotnúpur, fylgi með í kaupunum.[518] Hér var áður sýnt fram á að Magnús Magnússon, sem andaðist árið 1829, hefði haft umráð yfir eignarhlut kirkjunnar á Núpi (sjá hér bls. 70-71) og mun því óhætt að gera ráð fyrir að þau 30 hundruð sem Brynjólfur Brynjólfsson eignaðist eða fékk umráð yfir hafi öll verið keypt af erfingjum Magnúsar eða honum sjálfum enda þótt skjallegar heimildir vitni aðeins um kaup hans á erfðahluta Jóns Magnússonar.

Á sínu fyrsta búskaparári á Núpi hafði Brynjólfur 25 hundruð til ábúðar.[519] Hann hefur þá búið á heimajörðinni, sem var 20 hundruð og nytjað að auk 5 hundruð úr landi einnar hjáleigunnar. Á þessu má sjá að Brynjólfur hefur hafið sinn búskap á Núpi á miklu fleiri hundruðum en þeim sem hann keypti af Jóni Magnússyni. Sú staðreynd bendir til þess að hann hafi fest kaup á allri hálflendunni, 30 hundruðum, strax í byrjun þó auðvitað sé hugsanlegt að kaupin hafi átt sér stað í áföngum.

Vorið 1850 bjó Brynjólfur á 20 hundruðum[520] og hefur þá aðeins haft heimajörðina undir. Hjá honum voru þá 12 manneskjur í heimili[521] en þau hjónin voru barnlaus. Bústofn Brynjólfs vorið 1850 var 4 kýr og ein kvíga, 26 ær, 22 sauðir og hrútar eldri en eins árs, 10 gemlingar, 24 lömb og 5 hross.[522] Hann átti þá tvo báta. Annar þeirra var sexæringur eða fjögra manna far en hinn minni.[523] Tvær garðholur átti þau Brynjólfur og Guðrún þetta vor og voru þær samtals 34 ferfaðmar að flatarmáli.[524] Í tíundarskýrslu frá sama vori er bústofn Brynjólfs sagður nokkru minni en hér kemur fram.[525] Árið 1850 var Brynjólfi gert að greiða eina vætt og tuttugu fiska, það er 30 álnir (einn fjórða hluta úr kýrverði) í útsvör til sveitarsjóðs.[526] Bændur í Mýrahreppi voru þá 50 en aðeins einum þeirra, Guðmundi Þorvaldssyni í Fremri-Hjarðardal, var gert að greiða hærri fjárhæð í opinber gjöld þetta ár.[527]

Er Brynjólfur Brynjólfsson hafði búið 20 ár á Núpi og var orðinn 63ja ára gamall seldi hann eignarhlut sinn í jörðinni ásamt með kirkjunni og kirkjunnar eign og kirkjujörðinni Kotnúpi, samtals 30 hundruð að dýrleika.[528] Sá sem keypti af Brynjólfi var Guðmundur Björnsson er þá hafði búið í Lokinhömrum í Arnarfirði um nokkurt skeið[529] en kona hans, Þuríður Gísladóttir, var systurdóttir Brynjólfs á Núpi og bróðurdóttir Guðrúnar, konu Brynjólfs.[530] Sex kúgildi fylgdu með í kaupunum, fjögur á Núpi og tvö á Kotnúpi.[531] Kaupverðið var 400 ríkisdalir, allt greitt út í hönd,[532] en 20 árum fyrr hafði Brynjólfur keypt fjórðung þessarar sömu eignar fyrir 50 ríkisdali (sjá hér bls. 72) svo jarðarverðið hafði tvöfaldast. Mælt í kýrverðum hafði verðgildi peninga þó aðeins lækkað um fjórðung eða þar um bil á þessum 20 árum[533] svo Brynjólfur sýnist hafa hagnast vel á sölunni. Kaupsamningur Brynjólfs og Guðmundar Björnssonar var undirritaður 29. september 1857 og þar var tekið fram að jörðin yrði afhent hinum nýja eiganda í næstu fardögum.[534]

Guðmundur Björnsson og Þuríður kona hans fluttust að Núpi vorið 1858 og bjuggu þar síðan í 29 ár. Einn heimamanna Guðmundar, sem fluttust með honum frá Lokinhömrum að Núpi, hét Jón Einarsson og var skipstjóri á þilskipi. Hann drukknaði á Súgandafirði 27. júní 1858, sagður 33ja ára gamall skipherra frá Núpi í Dýrafirði.[535] Óljóst er hvaða þilskip það var sem Jón stýrði til veiða en hann hafði verið skráður vinnumaður í Lokinhömrum í allmörg ár áður en hann fluttist með Guðmundi norður í Dýrafjörð.[536] Jón var kvæntur Kristínu Bjarnadóttur[537] og haustið 1860 var þessi unga ekkja vinnukona hjá Guðmundi Björnssyni hér á Núpi.[538]

Guðmundur var hálffertugur eða þar um bil er hann kom að Núpi.[539] Árið 1860 var hann með 18 manns í heimili en 32 manneskjur áttu þá heima í hjáleigunum, að Kotnúpi meðtöldum, svo alls voru 50 manns í Núpsþorpinu.

Skömmu eftir að Guðmundur tók við búi á Núpi gerði hann alvarlega tilraun til að verja landareign sína fyrir ágangi búfjár úr nágrenninu. Á manntalsþingi sem haldið var á Mýrum 28. júní 1861 lét hann þinglýsa svohljóðandi tilkynningu:

 

Þar eð flestum hér mun kunnugt vera að meirihluti útheyjaslægna heimajarðarinnar Núps liggja fram í svonefndum Núpsdal, þá legg ég hér með bann fyrir að nokkur framvegis megi hafa leyfislausa beit á fyrrnefndum dal, hvort heldur vera skyldi fyrir hross, sauðfé eða nautpening nema hann sýni fullkomna heimild fyrir. Sömuleiðis banna ég hér með alla beit á heimaengjum jarðarinnar eða í svonefndum Nesjum. Þó ég treysti því að engum muni þykja ósanngjarnt, að hver sé leyfisverður fyrir sínu, þá læt ég menn þó vita að skyldi nokkur sýna skeytingarleysi sitt í því að láta pening sinn ganga í fyrrtéðri landareign tálmunarlaust og óumtalað, þá megi þeir búast við því að með þær skepnur þeirra verði farið hér eftir eins og lögum er samkvæmt að farið sé með skepnur þær sem öðrum gera skaða og eigendur ekki um hirða þó geri. Og loks banna ég hérmeð einum sérhverjum alla grasatekju á Núpsdal án þess leyfi sé til fengið.[540]

 

Eigi er kunnugt um hvaða árangur þessi tilkynning bóndans á Núpi kann að hafa borið en orðalagið bendir til þess að hann hafi ekki verið líklegur til að láta troða sér um tær. Eins og aðrir bændur í Dýrafirði mun Guðmundur á Núpi hafa stundað sjómennsku og má ætla að hann hafi róið frá Fjallaskaga. Guðmundur fór líka í hákarlalegur eins og sjá má í ritgerð Nathanaels Mósessonar um hákarlaútgerð Dýrfirðinga á síðari hluta 19. aldar. Hann segir þar að Guðmundur hafi verið formaður á Núpsskipinu í leguferðum en skip þetta var einn af þremur teinæringum sem stunduðu hákarlaveiðar frá Dýrafirði um lengri eða skemmri tíma á árunum 1865-1892.[541] Er Guðmundur tók að eldast varð Bjarni Kristjánsson formaður á teinæring þessum í hákarlalegum[542] en Bjarni var stjúpsonur Guðmundar og bjó síðar á Gerðhömrum.[543]

Árið 1869 voru tveir menn ákærðir fyrir að hafa brotist inn í sjóhús Guðmundar Björnssonar á Núpi og stolið þar lítilræði af mat og drykk. Menn þessir hétu Guðmundur Jónsson og Magnús Jónsson. Guðmundur Jónsson var þá vinnumaður hjá Guðmundi Björnssyni[544] en Magnús sem hér kemur við sögu kynni að vera sá Magnús Jónsson sem í desember 1870 var 35 ára gamall vinnumaður á Fjallaskaga.[545]

Þann 5. nóvember um haustið var dæmt í málinu í aukarétti Ísafjarðarsýslu og var Guðmundur sýknaður en Magnús dæmdur í 20 ríkisdala sekt til fátækrasjóðs og til að greiða 4 ríkisdali í iðgjald.[546] Málið kom síðar fyrir landsyfirrétt og þar voru báðir mennirnir sýknaðir með dómi sem upp var kveðinn 13. febrúar 1871.[547] Í forsendum dóms landsyfirréttar kemur ýmislegt fram um málsatvik og er sumt af því bæði fróðlegt og skemmtilegt. Í greinargerð sinni fyrir dómsniðurstöðunni kemst Þórður Jónasson dómstjóri m.a. svo að orði:

 

Um hinn ákærða Magnús Jónsson er það sannað með játningu hans að hann hafi fjórum sinnum farið í geymsluhús Guðmundar bónda Björnssonar á Núpi, er stendur niður við sjó í Alviðrulandi, borðað þar rikling, brauð og smjör, og drukkið þar brennivín og tekið lítið eitt af sykri með því en í ekkert skiptið borið neitt í burtu með sér þaðan. Í húsið fór hann, að sinni sögusögn, inn um gat fyrir ofan dyrnar á öðrum enda þess á þann hátt að hann veik til hliðar tunnustaf er negldur var á öðrum enda fyrir gatið.[548]

 

Um afbrot Guðmundar Jónssonar segir hins vegar svo í dómsforsendum landsyfirréttar:

 

Ákærði Guðmundur Jónsson … hefir játað að hann eitt sinn, er hann kom úr kaupstað og hafði með sér pottflösku af brennivíni sem hann og samferðamaður hans höfðu drukkið hér um bil þriðjunginn úr á leiðinni, hafi fyllt flöskuna aftur úr tunnu af brennivíni sem húsbóndi hans átti og stóð í áður umgetnu geymsluhúsu hans, að hverju ákærði hafði lykilinn, en hafi síðan iðrast eftir að hafa tekið þetta brennivín án leyfis húsbóndans, hafi því keypt sér 5 pela af brennivíni og hellt aftur í tunnuna.[549]

 

Eins og áður sagði voru bæði Magnús og Guðmundur Jónsson sýknaðir í landsyfirrétti með þeim rökum að ekki lægi fyrir að sá sem frá var stolið, Guðmundur Björnsson á Núpi, hefði krafist opinberrar málssóknar.

Er Guðmundur Björnsson hafði búið á Núpi í nær þrjá áratugi tók hann sig upp og fluttist ásamt konu sinni og skylduliði til Ameríku sumarið 1887.[550] Hann var þá 65 ára gamall. Á þessu sama sumri fóru a.m.k. fjórir bændur úr Mýrahreppi til Ameríku. Auk Guðmundar voru það Búi Jónsson, sem búið hafði skamman tíma á parti úr heimajörðinni á Núpi en var áður á Fjallaskaga, Bjarni Kristjánsson á Gerðhömrum og Bergþór Jónsson í Meira-Garði, áður í Lambadal.[551] Talsverður hópur fólks fylgdi bændum þessum vestur um haf en Guðmundur á Núpi og flestir vesturfararnir úr Dýrafirði fóru frá Þingeyri 8. júlí með gufuskipinu Camoens.[552]

Er Guðmundur Björnsson hafði afráðið að flytjast til Ameríku seldi hann heimajörðina á Núpi Kristjáni Oddssyni, er þá hafði búið á Sellátrum í Tálknafirði í nokkur ár en áður í Lokinhömrum í Arnarfirði.[553] Kristján var Dýrfirðingur að uppruna, dóttursonur Brynjólfs Hákonarsonar á Mýrum, en hafði flust liðlega tvítugur með foreldrum sínum frá Meira-Garði í Dýrafirði að Lokinhömrum árið 1858. Kristján Oddsson bjó á Núpi í níu ár, frá 1887-1896 en fluttist þá aftur að Lokinhömrum. Frá honum hefur áður verið sagt á þessum blöðum og skal vísað til þess hér (sjá hér Lokinhamrar). Kristján var ekki aðeins gildur bóndi heldur líka skútuskipstjóri og hákarlaformaður. Hann naut jafnan mikils trausts hjá sveitungum sínum og á þeim árum sem hann bjó á Núpi var hann fenginn til að gegna oddvitastörfum og kosinn í sýslunefnd fyrir Mýrahrepp.[554] Heimili Kristjáns og Sigríðar Ólafsdóttur konu hans var jafnan fjölmennt og má sem dæmi nefna að í lok árs 1892 voru 25 heimilismenn hjá þeim á Núpi.[555] Á þeim níu árum sem Kristján átti heima á Núpi varð mikil vakning í félagsmálum í Mýrahreppi (sjá hér Mýrahreppur, inngangskafli) og mun hann hafa átt þar nokkurn hlut að máli.[556]      Menningarfundur á Núpi, ritar Sighvatur Borgfirðingur í dagbók sína 12. febrúar 1890[557] en þar er margt að sjá um fyrstu tilraunir íbúa Mýrahrepps til að koma á fótum frjálsum félagasamtökum.

Í ritgerð sinni um hákarlaútgerð Dýrfirðinga segir Nathanael Mósesson að Kristján Oddsson hafi verið formaður í síðustu hákarlalegunni sem farin var úr Dýrafirði á áraskipi út á djúpmið. Í þessa síðustu leguferð segir hann Kristján á Núpi hafa farið veturinn 1893 (sjá hér Þingeyrarhreppur,  inngangskafli. Sbr. einnig Auðkúluhreppur, inngangskafli). Ætla má að Nathanael, sem var fæddur árið 1878, fari nærri um þetta því hann átti heima í Mýrahreppi frá 1881-1895, fyrst í Meira-Garði en síðan á Bakka.[558] Sighvatur Borgfirðingur nefnir stundum hákarlalegur Kristjáns í dagbók sinni, t.d. 15. desember 1888 er hann ritar: Kristján á Núpi kom í fyrradag úr legu og fékk 13 ¼ tunnu.[559] Árið 1890 nefnir hann a.m.k. tvær slíkar leguferðir sem Kristján fór í, aðra seint í febrúar en hina í lok mars.[560] Í dagbókum Sighvats verður ekki séð að aðrir formenn en Kristján á Núpi hafi farið í hákarlalegur á árunum kringum 1890 en árið 1876 sinntu fleiri þessum veiðiskap því miðvikudaginn 16. febrúar á því ári ritar Sighvatur: Skipin eru að koma úr legu sem fóru á sunnudaginn.[561] Þeir sem þá komu að höfðu verið þrjá daga í legunni.

Er Kristján Oddsson fluttist að Lokinhömrum árið 1896 hóf sá maður búskap á Núpi sem þar átti eftir að gera garðinn frægan í meira en hálfa öld en það var Kristinn Guðlaugsson. Hann var oddviti hreppsnefndar í um 40 ár, formaður Búnaðarsambands Vestfjarða í aldarfjórðung og sýslunefndarmaður í tvo áratugi auk fjölda margra annarra trúnaðarstarfa á opinberum vettvangi og fyrir samtök bænda. Á engan mun hallað þó sagt sé að Kristinn hafi verið einn allra merkasti félagsmálamaður á Vestfjörðum á sinni tíð. Snorri Sigfússon, sem var skólastjóri á Flateyri í 18 ár á fyrsta þriðjungi 20. aldar og kom sjálfur víða við á löngum ferli, sagði á gamals aldri að hann hefði varla kynnst hæfari félagsmálaleiðtoga en Kristni á Núpi.[562] Saga Kristins er hins vegar 20. aldar saga og verður því ekki rakin hér. Þó mun vera við hæfi að rifja upp með hvaða hætti Kristinn náði að gerast bóndi á hinu forna höfuðbóli árið 1896. Kristinn var Eyfirðingur að uppruna, fæddur árið 1868, og varð búfræðingur frá Hólum vorið 1892.[563] Hann réðst þá þegar til starfa hjá Búnaðarfélagi Mýrahrepps og var kominn vestur í júníbyrjun[564] Kristinn var ráðinn sem ársmaður og um það samið að hann ynni jarðabótastörf að sumrinu en kenndi börnum að vetrinum.[565] Sú skipan mála mun hafa haldist óbreytt í aðalatriðum næstu fjögur árin.[566]

Vorið 1895 var Kristinn 26 ára gamall og algerlega eignalaus. Engu að síður tókst honum þá um vorið að festa kaup á Núpi og þar hóf hann síðan búskap á næsta ári. Fyrsta haustið sem Kristinn bjó á Núpi kom hann út á Ingjaldssand að sækja gamalt hross er hann keypti þar og ætlaði að hafa til áts.[567] Magnús Hjaltason sem þá var barnakennari á Sandinum segir að Kristinn hafi verið sá fyrsti á seinni tímum í Mýrahreppi er brúkaði fullorðið hross til borðunar.[568] Sagan af því hvernig Kristinn náði að festa kaup á Núpi er máske best sögð hjá Guðmundi G. Hagalín rithöfundi, sem var sonarsonur Kristjáns Oddssonar, bónda á Núpi, er seldi Kristni jörðina. Frásögn Hagalíns er á þessa leið:

 

Kristinn Guðlaugsson sem um áratugi var forystumaður í búnaðarmálum vestfirskra bænda og í félagsmálum öllum í sveit sinni var fyrst ráðinn vestur til jarðabóta hjá Búnaðarfélagi Mýrahrepps. Hann var heitbundinn þegar hann kom vestur og kvæntist Rakel Jónasdóttur, heitkonu sinni, meðan hann var í þjónustu búnaðarfélagsins en hugði á að flytja norður, enda átti hann ekki kost á jarðnæði sem honum líkaði. Vorið 1896 keypti Gísli Oddsson í Lokinhömrum Akureyjar á Breiðafirði og fluttist þangað. Þá keypti Kristján bróðir hans Lokinhamra og reisti þar bú á ný. Þegar hann hafði ráðið þeim ráðum gerði hann boð Kristni Guðlaugssyni. Kristinn kom þegar og spurði þá Kristján hvort hann mundi ekki vilja hætta við að flytja norður ef hann fengi jarðnæði sem væri að hans skapi. Kristinn kvað það geta komið til mála en slíks jarðnæðis ætti hann engan kost. Kristján spurði hvort hann vildi kaupa Núp. Kristinn rak upp stór augu og sagði að ekki væri nóg að vilja, menn yrðu líka að geta. Kristján kvað sér leika hug á að greiða þannig fyrir honum að hann gæti keypt jörðina. Útvegaði hann Kristni lán fyrir Núpi og var sjálfur ábyrgðarmaður. Kristinn reisti síðan bú á þessari miklu jörð og þar dvaldi hann svo til æviloka.[569]

 

Hér er því aðeins við að bæta að tvö fyrstu ár sín í Dýrafirði hafði Kristinn verið heimilismaður hjá Kristjáni Oddssyni á Núpi[570] svo ætla má að þeir hafi verið orðnir vel kunnugir.

Frá kaupsamningnum var gengið 10. apríl 1895 og var kaupverðið 2.920,- krónur.[571] Með í kaupunum fylgdu þrjár hjáleigur, Kotnúpur, Rani og Innrihús.[572] Sú ákvörðun Kristjáns Oddssonar að útvelja Kristin Guðlaugsson sem næsta bónda á Núpi ber vott um góða dómgreind og skilning á framtíðarhagsmunum byggðarlagsins. Skrefið sem þá var stigið varð Vestfirðingum til heilla. Í fótspor Kristins fluttist séra Sigtryggur Guðlaugsson, bróðir hans, að Núpi árið 1905. Saman hófust þeir handa um stofnun Núpsskóla og gerðu hið forna höfuðból undir Gnúpi að héraðsmiðstöð á sviði mennta og framfara í búnaði.

Hér hefur nú verið fjallað nokkuð um bændur sem bjuggu á Núpi á 18. og 19. öld en enn hefur ekkert verið minnst á hjáleigurnar sem jörðinni fylgdu og fólkið sem þar bjó. Gamlar hjáleigur á Núpi sem lengi héldust í byggð voru Innrihús, Ytrihús og Rani.[573] Fjórða hjáleigan sem lengi hélst í byggð var svo Kotnúpur sem áður hefur verið frá sagt (sjá hér Kotnúpur) og var á síðari tímum oft talinn sjálfstæð bújörð enda þótt beitiland væri allt sameiginlegt með Núpi. Auk þessara hjáleigna voru tvö býli í byggð á Núpi um stuttan tíma er Páll Torfason sýslumaður réði þar ríkjum á árunum kringum 1700. Hjáleigukot þessi hétu Háinúpur (líka nefndur Hærrinúpur) og Nesjakot (líka nefnt Nesin eða Nesjabær).[574]

Þrjár fyrst nefndu hjáleigurnar töldust yfirleitt hafa afnot af 10 jarðarhundruðum hver og sömu sögu er að segja um Kotnúp.[575] Sjálf heimajörðin var því ekki nema 20 hundruð[576] og í hennar landi byggðust bæði Háinúpur og Nesjakot seint á 17. öld.[577] Í Jarðabókinni frá 1710 er tekið fram að bæði á Hærranúpi og í Nesjakoti hafi mátt fóðra kú[578] og sýnir það að skákirnar sem kotungarnir þar höfðu til afnota hafa varla verið öllu minni en sem svaraði 4 jarðarhundruðum hjá hvorum. Undarlegt kann að þykja að Páll sýslumaður hefur þá ekki haft nema 10 eða 12 jarðarhundruð til ábúðar þegar hjáleigurnar voru flestar. Engu að síður verður að ætla að þarna sé rétt með farið í Jarðabókinni og í skrá yfir jarðir og búendur sem samin var árið 1681 sést reyndar að Páll hafði þá aðeins 10 hundruð úr Núpsjörðinni til ábúðar.[579] Mest af sínum tekjum hefur sýslumaðurinn vafalaust haft fyrir embættisstörf og umboðsstörf fyrir þá sem áttu Núp og fleiri jarðeignir í grenndinni en hann hafði þær allar á leigu og leigði svo aftur út til ábúenda (sjá hér bls. 56). Skip sín hefur sýslumaður svo látið róa á Fjallaskaga og aukið með því tekjurnar.

Elstu hjáleigurnar á Núpi, að Kotnúpi frátöldum, hafa vafalaust verið Innrihús og Ytrihús því Rani byggðist ekki fyrr en um 1630.[580] Árið 1710 var búið í tveimur fyrrnefndu hjáleigunum en Rani var þá í eyði um sinn.[581] Um upphaf byggðar í Innrihúsum og Ytrihúsum er allt ókunnugt en vel gæti verið að hér hafi fólk fyrst farið að hokra á 14. öld.[582] Í sóknarlýsingu sinni frá árinu 1840 segir séra Jón Sigurðsson að Innrihús hafi farið í eyði fyrir nokkrum árum er snjóskriða féll á túnið[583] og þar mun byggð aldrei hafa risið á ný. Ytrihús og Rani héldust mun lengur í byggð. Rani fór í eyði árið 1933 og Ytrihús árið 1949 en nýbýlið Haukaberg sem á árunum 1936-1937 var byggt upp á hálfum Ytrihúsum og parti úr heimajörðinni hélst í byggð allt til ársins 1957 (sjá Firðir og fólk 1900-1999, bls. 290-291). Í Ytrihúsum var stundum tvíbýli á 18. og 19. öld[584] og svo var einnig  um skeið á fyrri hluta 20. aldar. Svo virðist sem ætíð hafi verið búið í Ytrihúsum á 18. og 19. öld en á Rana var búseta fólks eitthvað stopulli og hjáleigan þá stundum í eyði í nokkur ár.[585] Í manntali frá árinu 1890 er Rani sagður vera þurrabúð.[586]

Um Nesjakot eða Nesin segir í Jarðabókinni frá 1710 að þar hafi fólk fyrst byrjað búskap hér um fyrir 28 árum en kotið farið í eyði í bólunni.[587] Þarna hefur því verið búið frá 1682 eða þar um bil og til 1707. Háinúpur byggðist aðeins fyrr eða á milli 1670 og 1680[588] en fór líka fyrr í eyði því í Jarðabókinni frá 1710 segir að þetta býli sé fyrir mörgum árum eyðilagt og túnstæðið komið í grjót.[589] Á þessum tveimur síðast nefndu kotum mun aðeins hafa verið búið þessi fáu ár í kringum 1700. Í Ferðabók Olaviusar, sem fyrst var gefin út árið 1780, eru þau bæði sögð hafa farið í eyði árið 1707[590] og manntöl frá 19. öld og síðustu tveimur áratugum 18. aldar sýna að þá var aldrei búið á Háanúpi eða í Nesjakoti.[591]

Áður en lengra er haldið er vert að skoða hvar öll þessi hjáleigukot á Núpi stóðu á fyrri tíð. Um Kotnúp hefur áður verið fjallað (sjá hér Kotnúpur) og skal ekki endurtekið en fyrir liggur að leita uppi hinar hjáleigurnar fimm.

Ytrihús og Rana, sem héldust í byggð langt fram á 20. öld, er auðvelt að finna. Um Ytrihús segir í sóknarlýsingunni frá 1840 að þau séu utanvert við túnið[592] og er þá að sjálfsögðu átt við gamla Núpstúnið.

Nýlegt einnar hæðar íbúðarhús utan og neðan við skólahúsin á Núpi vísar nú á staðinn þar sem Ytrihúsabærinn stóð á fyrri hluta þessarar aldar en hann var rétt innan við þetta nýja hús.[593] Lítið eitt utar og ofar stendur tveggja hæða timburhús frá fyrstu áratugum 20. aldar og heitir Hlíð. Í því húsi bjó lengi séra Sigtryggur Guðlaugsson. Rétt ofan við Hlíð var svo íbúðarhúsið á Haukabergi, byggt úr steinsteypu árið 1937.[594] Bæði Hlíð og Haukaberg voru reist í landi Ytrihúsa. Ofan götunnar áttu Ytrihús land inn að Ytrihúsalæk sem átti sér farveg dálítið innan við Hlíð og Haukaberg en utan við Ytrihúsabæinn.[595] Neðan götunnar voru merkin milli heimajarðarinnar á Núpi og Ytrihúsa nokkru innar.

Í Jarðabókinni frá 1710 er Rani sagður vera við túnið á Núpi[596] en í sóknarlýsingunni frá 1840 er staðsetningin nákvæmari og þar segir að býli þetta sé niðurundan og í suðvestur frá túninu.[597] Í örnefnalýsingu sem rituð var fyrir nokkrum áratugum segir að Rani hafi verið fyrir neðan Ytrihús.[598] Íþróttavöllurinn sem nú er á Núpi stendur efst í Ranatúni þar sem áður hét Kóngamýri.[599] Bærinn á Rana stóð hins vegar neðst á Ranatúni uppi á brekkubrún rétt við árdalinn sem Núpsá fellur um.[600]

Í Jarðabókinni frá 1710 segir að hjáleigan Innrihús standi í túninu á Núpi[601] en í sóknarlýsingunni frá 1840 er komist svo að orði að kot þetta hafi verið sunnan fram við túnið.[602] Valdimar Kristinsson sem fæddur er árið 1904 og átt hefur heima á Núpi alla ævi segir að bærinn í Innrihúsum hafi staðið 100-150 metrum fyrir innan og neðan húsið sem hann býr sjálfur í og stendur rétt innan við kirkjuna.[603] Að sögn Valdimars stóð Innrihúsabærinn þar ofantil við skurð sem bæjarlækurinn á Núpi rennur í.

Séra Jón Sigurðsson, sem bjó á Núpi frá 1832 til 1837, fræðir okkur á því að kotið Háinúpur hafi staðið á brekku lítilli ofanvert við bæinn[604] en gamli Núpsbærinn stóð lítið eitt fyrir utan og neðan kirkjuna sem jafnan hefur staðið á sama stað og stendur enn (sjá hér bls. 1). Ofan við skólahúsið sem byggt var á fjórða áratug 20. aldar, þar alveg uppi við hlíðina, sést enn móta fyrir tóttum og túngarði og er talið að þar hafi Háinúpur verið.[605] Séra Jón Sigurðsson tekur fram árið 1840 að þar sem áður var Háinúpur sé óbyggilegt vegna landspjalla er skriður hafi valdið.[606]

Sami höfundur greinir frá því að hjáleigan Nesjakot hafi staðið á holti inn í Núpsnesjum, skammt frá ánni.[607] Núpsnesin eru mikið engjapláss á bökkum Núpsár[608] og hefur á síðari tímum verið talað um Neðrines fyrir neðan þjóðveginn og Efrines fyrir ofan hann.[609] Neðan við þjóðveginn (2005 ofan við hann eftir að vegi var breytt) eru þarna holt og hæðir sem heita Hólar og eru lítið eitt fjær ánni en Nesin.[610] Þarna innst í Hólunum og rétt við þjóðveginn er hóll sem heitir Sjónarhóll og á honum stóð samnefnt býli um alllangt skeið á fyrri hluta 20. aldar.[611] Annað nafn á því var Vindhóll. Kunnugir hafa látið sér detta í hug að þar hafi Nesjakot líka verið fyrir 300 árum.[612]

Hér hefur nú verið gerð nokkur grein fyrir hvar gömlu hjáleigurnar á Núpi voru og einnig verið minnst á Vindhól (Sjónarhól) þar sem búið var um skeið á fyrstu áratugum þessarar aldar. Árið 1901 var öðru nýbýli komið á fót skammt frá Sjónarhól og fékk það nafnið Slétta. Býli þetta stóð rétt fyrir utan og ofan Hólana og lá þjóðvegurinn, sem fyrir skömmu var hætt að aka, yfir bæjarstæðið.[613] Þar heitir nú Sléttutún.[614] Á Sléttu mun hafa verið búið í átta ár eða svo (sjá Firðir og fólk 1900-1999, 290).

Um einstök íbúðarhús sem reist hafa verið heima á Núpi á síðustu hundrað árum verður ekki fjallað hér en geta má þess að Helgi Bjarnason sjómaður bjó þar löngum einn í húsi á árunum 1901-1921[615] og í Stúkuhúsinu sem reist var 1906 var líka búið.[616] Í því sama húsi tók Núpsskóli fyrst til starfa 4. janúar 1907.

Í Jarðabókinni frá 1710 má sjá með hvaða skilmálum hjáleigurnar á Núpi voru byggðar. Fyrir Stórubólu sem hér geisaði á árunum 1707-1709 var árleg landskuld af Innrihúsum, Ytrihúsum og Rana 3 vættir, það er hálft kýrverð, af hverri hjáleigu.[617] Eftir bóluna fór landskuldin niður í 2 vættir og lækkaði því um þriðjung.[618] Jarðarafgjaldið af Háanúpi og Nesjakoti var hins vegar þriðjungi lægra[619] enda fylgdi þeim minna gras. Bændurnir í þessum tveimur síðastnefndu kotum voru taldir geta fóðrað eina kú hvor en í hinum þremur hjáleigunum mátti að sögn fóðra tvær kýr á hverju býli.[620]

Öllum hjáleigunum fylgdu nokkur innstæðukúgildi sem landsetarnir tóku á leigu með jarðnæðinu. Fyrir bóluna voru þau ýmist þrjú eða fjögur í Innrihúsum, Ytrihúsum og á Rana en tvö á Háanúpi og jafnmörg í Nesjakoti.[621] Í hverju kúgildi voru sex ær og lögleiga fyrir þær 10 kíló af smjöri á ári samkvæmt Jónsbók.[622]

Kúgildaleigurnar og landskuldina varð sérhver kotungur jafnan að greiða ef hann vildi halda jarðnæðinu og lafa í stétt bænda en að auki þurftu flestir eða allir hjáleigubændurnir á Núpi lengi vel að leggja landsdrottni sínum til mann í skiprúm á vertíðinni. Svo var enn á dögum Páls Torfasonar sýslumanns um aldamótin 1700.[623] Í lok 18. aldar var öllum eða nær öllum slíkum kvöðum létt af hérlendum bændum[624] og má ætla að þá hafi hjáleigubændurnir á Núpi fengið frelsi til að ráða sig sjálfir í skiprúm. Um miðja 19. öld hafði hins vegar lítil breyting orðið á landskuld og kúgildaleigum frá því sem verið hafði um 1700. Landskuld af Rana var þá 3 vættir og leigukúgildin þrjú en í Ytrihúsum var landskuldin 2 vættir og þar voru þá tvö leigukúgildi.[625]

Árið 1703 bjuggu 5 hjáleigubændur á Núpi og þá er Kotnúpur ekki talinn með.[626] Í manntalinu frá því ári eru nöfnin á hjáleigunum ekki nefnd en fjöldi hjáleigubændanna passar alveg við það sem fram kemur í öðrum heimildum og hér hefur áður verið rakið um hjáleigufjöldann á þessum tíma. Óhætt mun því að gera ráð fyrir að þrír hjáleigubændanna á Núpi, sem nefndir eru í manntalinu frá 1703, hafi búið í Ytrihúsum, Innrihúsum og Nesjakoti en hinir tveir á Rana og Háanúpi. Þó er hugsanlegt að Háinúpur hafi verið fallinn í eyði (sjá hér bls. 79-80) en þá hefur að líkindum verið tvíbýli í Ytrihúsum. Allir voru þessir fimm hjáleigubændur fjölskyldumenn og samtals áttu 27 manneskjur heima í hjáleigunum á Núpi árið 1703.[627] Einn þeirra var 26 ára lausamaður, Halldór Hallsson, sem sagður er nærast af saumum og sjóróðrum.[628] Til samanburðar skal þess getið að sama ár var 21 heimilismaður hjá Páli Torfasyni, sýslumanni á Núpi,[629] svo alls áttu 48 manneskjur heima í Núpsþorpinu þegar fyrsta allsherjarmanntal á Íslandi var tekið og svo mætti bæta fólkinu á Kotnúpi við. Hjá Páli sýslumanni voru fimm vinnumenn og sjö vinnukonur árið 1703 en hjá hjáleigubændunum á Núpi var þá enginn vinnumaður og aðeins tvær vinnukonur samtals hjá þeim öllum fimm.[630] Ekki er laust við að þessi skipting vinnuhjúanna milli höfuðbólsins og hjáleignanna varpi ljósi á hina ólíku þjóðfélagsstöðu sýslumannsins og kotbændanna í kringum hann.

Líklegt er að mjög margir úr hjáleigubyggðinni á Núpi hafi dáið í Stórubólu á árunum 1707-1709. Árið 1710 bjuggu bara tveir hjáleigubændur í Núpsþorpinu[631] en höfðu sjö árum áður verið fimm. Enginn hjáleigubændanna sem búið höfðu á Núpi árið 1703 stóðu þar enn fyrir búi þegar Árni Magnússon kom í Dýrafjörð sumarið 1710.[632] Forvitnilegt er að líta á bústofninn sem þá var á Núpi og athuga hvernig hann skiptist milli Páls sýslumanns og hjáleigubændanna tveggja sem áttu heima í Innrihúsum og Ytrihúsum. Hjá Páli voru tíu kýr en tvær í Ytrihúsum og þrjár í Innrihúsum.[633] Aðrir nautgripir voru sex á höfuðbólinu en tveir í annarri hjáleigunni og engir í hinni.[634] Sýslumaður var með 45 ær en 18 ær voru í annarri hjáleigunni og 12 í hinni.[635] Sauðir sýslumanns voru 121 en 12 sauðir voru í annarri hjáleigunni og 14 í hinni.[636] Loks er að geta hestanna á Núpi árið 1710 en þeir voru níu, sex á höfuðbólinu og þrír í hjáleigunum.[637]

Eins og áður sagði áttu 48 manneskjur heima í Núpsþorpinu árið 1703, þar af 27 í hjáleigunum. Í byrjun 19. aldar hafði fólkinu fækkað að mun en þá áttu 12 manneskjur heima á höfuðbólinu og 22 í hjáleigunum.[638] Árið 1845 var íbúatalan á Núpi komin niður í 30 og af þessum þrjátú áttu sextán heima í hjáleigunum sem þá voru bara tvær, Ytrihús og Rani. [639]

Haustið 1901 áttu 35 manneskjur heima í Núpsþorpinu.[640] Kristinn Guðlaugsson bjó þá á heimajörðinni en þar voru líka tvö sjómannsheimili.[641] Á þessum þremur heimilum öllum til samans voru átján heimilismenn en sautján í gömlu hjáleigunum, Ytrihúsum og Rana.[642] Tvíbýli var þá í Ytrihúsum og þar áttu heima fjórtán manneskjur en aðeins þrjár á Rana.[643] Í þessum mannfjöldatölum frá 1703, 1801, 1845 og 1901 er fólkið á Kotnúpi aldrei talið með.

Flestir þeirra sem áttu heima í hjáleigunum á Núpi á liðnum öldum lifðu sínu lífi í friði og spekt svo af þeim fara fáar sögur. Einstaka maður úr þessum hópi komst þó í kast við yfirvöldin eins og sjá má í dómabókum. Þeirra minning lifir en um líf allra hinna vammlausu sem aldrei skrikaði fótur sveipar gleymskan þagnarhjúpi.

Haustið 1797 stóð ung stúlka í bæjardyrunum á Rana hér í Núpsþorpinu og var að leggja upp í langa ferð um torleiði út á Fjallaskaga, ysta bæ við norðanverðan Dýrafjörð. Stúlka þessi sem var barnshafandi og komin marga mánuði á leið var um tvítugt. Hún hét Kristín Aradóttir. Um kveðjur við brottför hennar frá Rana er allt ókunnugt og eins líklegt að þær hafi engar verið. Hér á Rana hafði hún alist upp frá tíu ára aldri,[644] hjá móðurbróður sínum, Ólafi Jónssyni. Nú bar hún barn hans undir belti. Ólafur bóndi á Rana var kvæntur maður og átti fjölda barna. Haustið 1797 var hann kominn nokkuð á sextugsaldur og hefði því jafnvel getað verið afi hinnar tilvonandi barnsmóður sinnar. Í sóknarmannatölum frá árunum 1785-1798 er Ólafur bóndi á Rana sagður vara forstandsmaður og þegar Kristín Aradóttir kom fyrst á Rana árið 1786 er hún sögð vera efnileg.[645] Seinna gefur prestur henni þær einkunnir að hún sé dygg og hlýðin og árið sem hún varð þunguð af völdum frænda síns og fóstra lætur nýr sóknarprestur þess getið að hún sé ekki ósettleg.[646]

Enginn kann nú frá því að segja hvaða dag Kristín Aradóttir kom að Fjallaskaga en þar ól hún sveinbarn 28. nóvember þetta sama haust.[647] Drengnum gaf hún nafn föður síns og nefndi Ara. Séra Jón Sigurðsson í Meira-Garði skráir fæðingu og skírn Ara Ólafssonar í bók sína og tekur fram að barnið sé hjágetinn sonur Ólafs Jónssonar á Rana, eigingifts manns, og Kristínar Aradóttur, systurdóttur hans, ógiftrar á Skaga.[648] Að sögn séra Jóns var þetta fyrsta barneignarbrot þeirra beggja.[649]

Jóni Gunnarssyni, bónda á Fjallaskaga, sem tekið hafði Kristínu í sín hús mun hafa verið ljóst að ærin refsing lægi við barneignarbroti svo náskyldra persóna og það vissi líka presturinn sem skírði barnið. Einhver dráttur mun þó hafa orðið á því að sýslumaður væri látinn vita, enda ekki hægt um vik að ná til yfirvaldsins. Hálfu ári áður en hið hórgetna barn fæddist á Skaga hafði Jón Jónsson, sem nefndi sig Johnson eða Johnsoníus verið skipaður sýslumaður í Ísafjarðarsýslu og mun hafa dvalist í Bolungavík fyrsta árið sem hann gegndi embættinu.[650] Réttarhöld í þessu barneignarmáli hófust reyndar ekki fyrr en vorið 1799 en þá voru sautján mánuðir liðnir frá því stúlkan varð léttari. Á þessum langa drætti gefur sýslumaður m.a. þá skýringu að ófærð og illviðri hafi hamlað ferðum en nefnir einnig langvarandi veikindi sjálfs síns.[651]

Þann 25. apríl 1799 setti Johnsoníus sýslumaður loks rétt á Mýrum í þessu barneignarmáli Ólafs á Rana og Kristínar frænku hans að þeim báðum viðstöddum.[652] Sem meðdómsmenn skikkaði hann bændurna Gils Jónsson á Sæbóli, Jón Halldórsson á Sæbóli (síðar í Meðaldal), Jón Vestmann Jónsson á Mýrum og Jón Gunnarsson á Fjallaskaga.[653] Í dómabókinni er þess ekki getið hvar meðdómsmennirnir áttu heima en athugun á sóknarmannatölum og manntalinu frá 1801 leiðir það í ljós. Í máli Ólafs á Rana var Brynjólfur Hákonarson, hreppstjóri á Brekku (síðar á Mýrum) skipaður sækjandi en Magnús Magnússon, hreppstjóri á Núpi, verjandi.[654] Í máli Kristínar var Sigmundur Bjarnason í Ytrihúsum í Núpsþorpinu skipaður sækjandi en sem verjanda hennar tilnefndi Johnsoníus Þórð Þorsteinsson, hreppstjóra úr Súgandafirði,[655] sem á þessum árum virðist hafa fylgt sýslumanni á þingaferðum hans og verið eins konar fulltrúi yfirvaldsins (sjá hér Þingeyri), enda kallaður lögsagnari í æviskrám.[656] Val sýslumanns á þessum trúnaðarmanni sínum í hlutverk verjanda Kristínar bendir til þess að hann hafi haft fullan hug á að dómurinn yfir henni gæti orðið sem vægastur.

Fyrir réttinum hélt Kristín því fram að Ólafur bóndi hefði þröngvað sér til holdlegs samræðis með hótunum um að drepa hana ef hún neitaði að láta að vilja hans.[657] Að sögn Kristínar hafði Ólafur líka uppi við hana hótanir þegar hún var orðin barnshafandi og kvaðst eiga auðvelt með að deyða hana með refaeitri eða mjóu morðjárni, prjón eða nál svo ekkert á bæri og allt væri hulið.[658]

Vel má vera að Kristín hafi hvað þetta varðar greint satt og rétt frá en hitt er þó líka hugsanlegt að hún hafi í samráði við verjanda sagt það eitt sem líklegast var til að tryggja henni sem vægastan dóm. Fyrir réttinun lagði Þórður Þorsteinsson, verjandi stúlkunnar, fram vottorð frá Jóni Gunnarssyni á Skaga um frómleik og ráðvendni Kristínar til orðs og æðis og komst Jón þar svo að orði að frá því stúlkan kom á Skaga hafi hún verið frábitin illum selskap og öllu losaæði.[659] Frá séra Markúsi Eyjólfssyni, fyrrverandi sóknarpresti í Dýrafjarðarþingum, lagði Þórður fram annað vottorð Kristínu til styrktar en þar sagði presturinn að hún hefði jafnan verið fróm, hlýðin og fáskiptin og aldrei fyrir nokkuð óráðvant kærð verið til þess hún féll í þessa barneign.[660]

Við réttarhaldið á Mýrum virðast hins vegar engin skrifleg vottorð hafa verið lögð fram um hegðun Ólafs bónda á Rana en í dómabókinni er frá því greint að flestir viðstaddir hafi látið uppi að hann hafi jafnan verið misjafnlega kynntur til orða og verka, ekki síst í kvennafari.[661]

Svo fór að Ólafur á Rana játaði að hafa þröngvað frænku sinni og fósturdóttur til samræðis en þó ekki nema með orðunum að sig minni, nefnilega með hótunarorðum, en samt ekki þeim sömu orðum og Kristín hafði á hann borið.[662]

Í dómsforsendum sínum tekur sýslumaður fram að Ólafur hafi verið um sextugt en Kristín nítján vetra er þau féllu í þetta barneignarbrot.[663] Líklega hefur Ólafur þó ekki verið nema hálfsextugur og Kristín 21 eða 22ja ára þegar barnið fæddist.[664] Við lok réttarhaldsins á Mýrum þann 25. apríl 1799 kvað sýslumaðurinn upp sinn dóm en í dómsorði hans segir svo:

 

Þessu máli er svo varið að Ólafur Jónsson á Rana, eigingiftur, og systurdóttir hans, Kristín Aradóttir, hafa eftir þeirra eigin óneyddri meðkenningu, bæði hér fyrir rétti og áður, fallið í það barneignarbrot hvar við Stóridómur leggur lífsstraff. … Ólafur hefur og viljuglega meðgengið fyrir þessum rétti að hann hafi með hótunarorðum neytt eða þrengt Kristínu þessari til fylgilags við sig, hvörrar fósturfaðir og formyndari [þ.e. forsjármaður] hann þá var, – hvar af auðséð er að hún hefur mest af hræðslu fyrir hans hótunum svosem hans fávís og auðsveipur barnveslingur fallið undir hans ódæðisfullu tilleitan til holdlegs samræðis með henni.

Dæmist því rétt vera að oftnefndur Ólafur Jónsson skal missa lífið með því að hálshöggvast að lögum en Kristín Aradóttir skal erfiða í því íslenska tugthúsi í 5 ár.[665]

 

Þessum dómi áfrýjuðu verjendur beggja til æðri réttar áður en þingi lauk.[666]

Sumarið 1798 kom hið forna Alþingi saman á Þingvöllum við Öxará í síðasta sinn. Það hafði þá um langt skeið aðeins starfað sem dómstóll og var oft nefnt lögmannsréttur.[667] Sumarið 1799 kom Alþingi enn saman en að því sinni í húsi Hólavallaskóla í Reykjavík. Þegar hér var komið sögu var sú regla orðin föst í sessi að öll mál sem sýslumenn kváðu upp dauðadóm í skyldu koma undir dóm lögmanna á Alþingi og engin aftaka mátti fara fram nema hæstiréttur í Kaupmannahöfn hefði síðan staðfest dauðadóminn. Að öllu eðlilegu hefði sýslumaðurinn í Ísafjarðarsýslu því átt að láta flytja Ólaf á Rana til Reykjavíkur sumarið 1799 svo hægt væri að dæma í máli hans á Hólavallaþingi. Af þessu varð þó ekki eins og sjá má af bréfi sem Johnsoníus ritaði Ólafi Stefánssyni stiftamtmanni 2. júlí á því sumri.[668] Í bréfi þessu sem ritað er á Eyri í Seyðisfirði greinir sýslumaður frá máli Ólafs bónda og Kristínar og segir hinn dauðadæmda sakamann vera við svo lélega heilsu að útilokað sé að flytja hann suður.[669] Af þessum ástæðum kveðst Johnsoníus hafa neyðst til að fara þess á leit við amtið að efnt verði til sérstaks aukalögþings vestra til að dæma í blóðskammarmáli Ólafs á Rana og frænku hans[670] en fyrir slíkri málsmeðferð voru fordæmi og stundum til hennar gripið þegar sérstaklega stóð á. Dómur slíks aukalögþings kom þá í stað lögmannsdóms.

Neðan við bréf Johnsoníusar sýslumanns frá 2. júlí 1799 hefur Ólafur stiftamtmaður skrifað að Guðmundur Ketilsson, sem þá var sýslumaður í Mýrasýslu, hafi verið skipaður verjandi beggja sakborninganna og mál þeirra verði tekið fyrir á aukalögþingi 4. september 1799.[671] Þessu réttarhaldi mun þó hafa seinkað um eina viku því að skjalfest er að aukalögþingið var haldið þann 11. september,[672]

Dómari í máli Ólafs og Kristínar á nýnefndu aukalögþingi var Stefán Stephensen varalögmaður norðan og vestan sem þá átti heima á Hvanneyri í Borgarfirði.[673] Árið 1799 var Stefán aðeins liðlega þrítugur. Hann var sonur Ólafs Stefánssonar stiftamtmanns, varð síðar amtmaður í Vesturamti og bjó lengst á Hvítárvöllum. Dómur Stefáns yfir sakborningunum frá Rana var langtum mildari en sýslumannsdómur Johnsoníusar. Í stað þess að missa höfuðið var Ólafur nú látinn sleppa með tveggja ára tugthúsvist.[674] Auk þess var kveðið á um að eignir karlsins frá Rana skyldu gerðar upptækar, ef einhverjar væru, og þeim skipt jafnt á milli Danakonungs og Kristínar frænku hans sem talið var í dómnum að hann hefði þröngvað til samræðis.[675] Tugthúsvist þá sem Kristín hafði verið dæmd til að þola stytti Stefán varalögmaður úr 5 árum í 2 mánuði.[676] Hinn mikli munur á dómsniðurstöðum Johnsoníusar sýslumanns og Stefáns varalögmanns í Ranamálinu sýnir vel hvílíkar breytingar á sviði réttarfars og refsidóma voru að ganga yfir á þessum árum. Í því sambandi er vert að minna á að áður en ár var liðið frá því Stefán Stephensen dæmdi í máli Ólafs og Kristínar var eldri bróðir hans, Magnús Stephensen, skipaður dómsstjóri í hinum nýja landsyfirrétti. Viðhorf Magnúsar í þessum efnum eru alkunn en hann var skeleggur talsmaður þess að dregið yrði verulega úr hinum hörðu refsingum í sakamálum sem sett höfðu svip sinn á réttarfar aldarinnar sem þá var að kveðja (sjá hér Hraun í Keldudal). Dómur Stefáns í Ranamálinu sýnir að í þessum efnum hefur hann verið sammála bróður sínum.

Þann 14. september 1799 var komið með hinn gamla syndasel frá Rana í tugthúsið í Reykjavík[677] en sú bygging hýsir nú Stjórnarráð Íslands. Þegar Ólafur gekk inn í Múrinn en svo var fangelsi þetta stundum nefnt voru því aðeins liðnir þrír dagar frá því dómur varalögmannsins var kveðinn upp. Það sýnir að áður en dæmt var í málinu í annað sinn hefur verið búið að flytja sakborningana frá Rana til dómarans sem átti heima suður í Borgarfirði. Bréfið sem Stefán varalögmaður skrifaði amtmanni daginn eftir að dómurinn í máli Ólafs og Kristínar var kveðinn upp er ritað á Hvanneyri[678] og bendir sú staðreynd líka eindregið til þess að dómurinn hafi verið kveðinn upp á heimili varalögmannsins eða þar í grennd.

Ólafur Jónsson frá Rana sat í Reykjavíkurtugthúsi þau tvö ár sem kveðið var á um í dómi Stafáns Stephensen. Í skýrslum tugthúsráðsmannsins fer tvennum sögum af líðan og heilsufari þessa roskna fanga. Í fangaskrám sem ráðsmaðurinn sendi stiftamtmanni við hver áramót segir hann að Ólafur sé í góðu ástandi. Forhold godt, stendur þar við nafn Ranabóndans og tekið fram að hann hafi ekki verið dæmdur til nokkurrar líkamlegrar refsingar.[679] Í öðrum skrám þar sem gerð er grein fyrir hvar hinir ýmsu fangar voru látnir vinna í hverjum mánuði er hins vegar jafnan tekið fram að Ólafur frá Rana sé veikur og hafi því ekkert unnið.[680] Líklegasta skýringin á þessum misvísandi ummælum er sú að Ólafur hafi verið orðinn ófær til erfiðisvinnu vegna einhvers heilsubrests en engu að síður við bærilega líðan á þann mælikvarða sem þarna gilti.

Í lok desember árið 1801 var Ólafur frá Rana enn í tugthúsinu við Arnarhól[681] þó árin tvö sem hann átti að dveljast þar samkvæmt dómi væru liðin og komnir þrír mánuðir fram yfir. Líklega hafa fangelsisyfirvöld séð aumur á karli og hikað við að reka hann út í allsleysið utan tugthúsdyranna. Þar hefur Ólafur varla haft að mörgu að hverfa og leiðin löng vestur í Dýrafjörð fyrir gamlan mann.

Við þessi sömu áramót segir ráðsmaður tugthússins að Ólafur sé 64 ára gamall, hafi verið kvæntur en fallið í blóðskömm og tekur fram að hann eigi 20 börn, 12 syni og 8 dætur.[682] Í sóknarmannatölum og prestsþjónustubók Dýrafjarðarþinga frá árunum 1785-1799 er auðvelt að finna 16 börn Ólafs á Rana sem öll nema eitt virðast hafa verið á lífi þegar farið var með karlinn í tugthúsið.[683] Móðir flestra þessara barna var eiginkona Ólafs, Kristín Jónsdóttir á Rana, en hún fæddi Ólafi 13 börn á 16 árum.[684] Hið elsta þessara hjónabandsbarna var fætt árið 1783 eða því sem næst en hið yngsta 25. janúar 1799, aðeins þremur mánuðum áður en faðirinn var dæmdur til að hálshöggvast.[685] Næstyngsta hjónabandsbarnið fæddist hins vegar í sama mánuði og hórbarnið sem uppnáminu olli, það er í nóvember árið 1797.[686] Kristín húsfreyja á Rana var dóttir Jóns Björnssonar, hreppstjóra í Fremri-Hjarðardal,[687] en hann var frá Núpi í Dýrafirði af hinni fornu höfðingjaætt sem þar réði ríkjum í 300 ár (sjá hér bls. 24-55 og 65-71). Áður en Ólafur á Rana gekk að eiga Kristínu Jónsdóttur hafði hann eignast eitthvað af börnum, máske í fyrra hjónabandi, og voru tvö þeirra hjá honum á Rana þegar presturinn húsvitjaði árið 1785, sögð 8 og 10 ára.

Allt bendir þetta til þess að Ólafur hafi farið rétt með þegar hann sagðist eiga 20 börn þó að fjögur þeirra hafi ekki fundist við skyndileit. Öll þau 16 börn sem auðvelt er að sýna fram á að Ólafur hafi eignast fæddust þegar hann var kominn yfir þrítugt[688] og er því líklegast að hin fjögur hafi verið eldri og máske farin að vinna fyrir sér þegar fyrsta sóknarmannatalið úr Dýrafjarðarþingum var skráð á bók.

Við réttarhaldið á Mýrum 25. apríl 1799 var bókað að hreppstjórarnir í Mýrahreppi hefðu þá þegar snúið sér til amtmanns með beiðni um vægð Ólafi til handa vegna hans mörgu barna.[689] Þar voru börnin sögð vera tólf[690] en gera má ráð fyrir að þau sem orðin voru fullorðin og sáu fyrir sér sjálf hafi þá ekki verið talin með. Hér verður ekki gerð tilraun til að rekja feril barnanna frá Rana en auðvelt er að ímynda sér skelfingu hreppstjóranna við þá tilhugsun að fá alla þessa ómegð á sveitina ef fyrirvinnan yrði hálshöggvin eða látin dúsa lengi í tugthúsi.

Við lok ársins 1802 var Ólafur Jónsson horfinn úr Reykjavíkurtugthúsi við Arnarhól,[691] enda var þá fyrir alllöngu runninn út sá tími sem honum var ætlað að dveljast þar samkvæmt dómi. Hvað um hann varð þegar tugthúsvistinni lauk veit víst enginn en könnun á því gæti verið sérstakt rannsóknarverkefni og ekki væri síður fróðlegt að sjá niðjatal þessa dauðadæmda barnamanns.

Í manntalinu frá 1. febrúar 1801 sjáum við að þá var búið að sundra barnahópnum á Rana[692] og má ætla að heimilið hafi verið leyst upp haustið 1799 þegar fyrirvinnan fór í tugthúsið. Kristín Jónsdóttir, eiginkona Ólafs, fór til bróður síns, Torfa Jónssonar, bónda í Fremri-Hjarðardal, og þar var hún 1. febrúar 1801.[693] Hún er þá talin 42ja ára gömul og sögð vera í sínu fyrsta hjónabandi[694] þó að eiginmanninn vanti. Ástæðulaust mun vera að efast um að Kristín þessi í Fremri-Hjarðardal, systir húsbóndans, sé sú hin sama og áður bjó á Rana því að aldurinn passar nákvæmlega við það sem upp er gefið í sóknarmannatölum frá árum hennar á Rana og engin önnur Kristín Jónsdóttir sem finnanleg er í manntalinu frá 1801 getur komið til greina. Eitt barna Kristínar og Ólafs á Rana var líka í Fremri-Hjarðardal árið 1801, drengurinn Björn Ólafsson, og hafði þá verið þar í allmörg ár hjá Jóni Björnssyni afa sínum, stundum nefndur dóttursonur húsbænda.[695] Árið 1805 var Kristín Jónsdóttir, áður húsfreyja á Rana, orðin vinnukona á Gemlufalli og þar var þá líka eitt barna hennar, Daníel Ólafsson sem þá var 15 ára.[696] Í sóknarmannatali frá því ári tekur presturinn fram að piltur þessi sé sonur vinnukonunnar[697] og aldurinn passar nákvæmlega því að Daníel sonur hjónanna á Rana fæddist 1. febrúar 1790.[698]

Hér að framan var þess getið að barnsmóðir Ólafs, Kristín Aradóttir, sem einnig var fósturdóttir hans og náfrænka, hefði verið dæmd af Stefáni varalögmanni Stephensen til tveggja mánaða dvalar í Reykjavíkurtugthúsi. Í fangaskrám tugthússins verður hins vegar ekki séð að hún hafi nokkru sinni komið þar innfyrir dyr og nafn hennar er heldur ekki að finna í skýrslum tugthúsráðsmannsins um vinnu fanganna.[699] Svo virðist sem dómarinn, Stefán varalögmaður á Hvanneyri, hafi sent stúlkuna beina leið til föður síns Ólafs Stefánssonar, stiftamtmanns í Viðey, og þangað var hún komin í janúarmánuði árið 1800.[700] Þá voru að vísu liðnir fjórir mánuðir frá því dómurinn var kveðinn upp svo að hugsanlegt er að Kristín hafi staldrað við í tugthúsinu í nokkra daga eða vikur. Mjög óvíst verður þó að telja hvort svo hafi verið því sannanlegt er að á síðasta áratug 18. aldar dvöldust fangar úr tugthúsinu stundum um lengri eða skemmri tíma sem púlsmenn á búi Ólafs stiftamtmanns (sjá hér Hraun í Keldudal).

Í sóknarmannatali Reykjavíkurprestakalls frá janúarmánuði árið 1800 sést að stúlka sem Kristín Aradóttir hét dvaldist þá í Viðey.[701] Auðvelt er að færa gild rök að því að þarna sé komin Kristín Aradóttir frá Rana. Helstu rökin eru þessi. Kristín sem var í Viðey kom þangað árið 1799,[702] sama ár og Kristín frá Rana fór úr Dýrafirði og hlaut sinn dóm. Á öllu landinu voru aðeins til þrjár Kristínar Aradætur á aldrinum 15-35 ára þegar allsherjarmanntal var tekið snemma á árinu 1801[703] Upplýsingar sem fram koma í manntölunum frá 1801 og 1816 sýna að aðeins ein þessara þriggja Kristína getur verið stúlkan frá Rana og er það sú í Viðey.[704] Kristín Aradóttir í Viðey var líka sannanlega af vestfirsku bergi brotin, fædd í Vatnsfjarðarsókn við Djúp eins og hér verður brátt sýnt fram á, en þaðan er bara ein dagleið í Dýrafjörð – yfir Glámu. Hér þarf því ekki neinna frekari vitna við.

Í Viðey mun Kristín hafa dvalist í þó nokkur ár. Í manntalinu frá 1. febrúar 1801 er hún sögð vera ein af mörgum þjónustustúlkum þar, hjá Ólafi stiftamtmanni.[705] Einn fjölmargra vinnumanna sem þá voru í Viðey hét Loftur Guðmundsson[706] og fjórum árum síðar, þann 4. júní 1805, voru Kristín og Loftur gefin saman í hjónaband.[707] Hjónavígslan fór fram í Viðey[708] en árið 1816 voru hjón þessi búsett á Krossi í Garðasókn á Akranesi og í manntalinu frá því ári stendur skýrum stöfum að Kristín sé fædd í Vatnsfjarðarsókn.[709]

Í átthagana vestra mun Kristín aldrei hafa komið eftir brottför sína úr Dýrafirði haustið 1799. Í Viðey átti hún hins vegar alllanga dvöl og þó enn lengri á Akranesi þar sem hún andaðist í Miðbýli sumarið 1846.[710] Um niðja Kristínar Aradóttur skal vísað í Borgfirskar æviskrár en taka verður fram að sonur hennar Ari Ólafsson, sem hún eignaðist með frænda sínum og fóstra og fæddist á Fjallaskaga haustið 1797, mun hafa orðið skammlífur. Sennilega er það hann sem nefndur er í manntalinu frá 1801, þá barnkind í Æðey, en í manntalinu frá 1816 er hann alls ekki finnanlegur og hefur því að líkindum andast innan við tvítugt. Með þeim orðum ljúkum við þessari löngu frásögn af sifjaspellum á Rana í lok 18. aldar. Um fólkið sem síðar bjó þar eða í öðrum hjáleigum í Núpsþorpinu verður hins vegar fátt eitt sagt á þessum blöðum en látið nægja að minnast á örfáa einstaklinga sem uppi voru á árunum kringum aldamótin 1900.

Guðmundur Eggertsson sem fæddur var árið 1838 eða þar um bil átti um skeið heima á Rana[711] en fluttist þaðan árið 1907 að Lokinhömrum í Arnarfirði ásamt Ingibjarti syni sínum. Í manntalinu frá 1. nóvember 1901 er Guðmundur á Rana sagður vera daglaunamaður við húsbyggingar.[712] Er feðgar þessir komu að Lokinhömrum var ungur sveinn að vaxa þar úr grasi, Guðmundur Hagalín Gíslason er seinna varð þjóðkunnur rithöfundur. Hann ritaði seinna ýmislegt um þessa ágætu feðga frá Rana og segir þar um Guðmund Eggertsson:

 

Guðmundur var nærfellt sjötugur (árið 1907). Hann var alblindur. Hann var maður ekki málskrafsmikill en langminnugur á gott og illt. Hann sat alla daga og prjónaði sjóvettlinga. Honum þótti kæst skata best allra mata og kallaði hana himnamat. Brennivín þótti honum gott en ekki hafði hann þó verið drykkjumaður. Hann nefndi brennivínið himnadrykk.[713]

 

Guðmundur Hagalín hafði líka frá ýmsu að segja um kaupamanninn sem gekk að slætti í Ytrihúsum hér í Núpsþorpinu sumarið 1916 en sá hét Þórbergur Þórðarson og var frá Hala í Suðursveit. Þessi rauðhærði sláttumaður þótti heldur linur við orfið, enda taldi hann erindi sitt hingað vera annað og merkilegra en að berja þúfnakollana í Ytrihúsamýri. Hann var kominn til að safna orðum úr alþýðumáli. Þórbergur var þá 28 ára gamall og hafði gefið út tvær bækur. Þær hétu Hálfir skósólar og Spaks manns spjarir. Þetta voru kvæðabækur en mörgum þóttu kvæðin víst dálítið skringileg.

Það voru reyndar foreldrar Guðmundar Hagalíns, þau Gísli Kristjánsson og Guðný Guðmundsdóttir, sem réðu þennan langt að komna kaupamann til sín í nokkrar vikur en þau höfðu byrjað búskap á hálfum Ytrihúsum vorið 1916 og flust þangað frá Haukadal.[714]

Þetta sumar var Hagalín á skútunni Geysi frá Bíldudal og kom ekki að Ytrihúsum fyrr en undir haust.[715] Þá sat Þórbergur þar enn í góðu yfirlæti. Hagalín lýsir honum svo:

 

Hann var rúmlega hálfþrítugur, meðalmaður á hæð, grannvaxinn og liðlegur og mjög hvatlegur í spori. Hreinlátur var hann og snyrtilegur, prúður og kurteis og svo sem feiminn. Hann var ljósrauður á hár, hárið þykkt og mikið. Hann greiddi það upp og aftur enda virtist í því sveipur yfir enninu. Oft setti hann hnykk á höfuðið til þess að hárið félli ekki niður yfir augun. Hann var langleitur og þunnleitur, hörundið fölrautt og smágert, ennið hátt og gáfulegt, brúnirnar miklar og nefið stórt og mjög hátt að framan. Augun voru blágrá, yfirleitt dul og kyrrlát en þó eins og dálítið hvimgjörn. Þá er á hann var yrt eða athygli hans vakin á annan hátt brá fyrir í augunum skæru bliki og er hann hló urðu þau sérlega björt og hýr. Kringum munn og augu voru fíngervar hrukkur sem vipruðust til þegar hann sat hugsi eða talaði um eitthvað sem reyndi mjög á hugsun og rökvísi og hvort sem hann virtist annars hugar eða beindi athygli sinni að því sem fram fór í kringum hann var alltaf eitthvað í svipnum sem vitnaði um vökula, viðkvæma og jafnvel lítið eitt hvumpna skynjun. Hann var fáorður og fáskiptinn að fyrrabragði og umtalsfrómur með afbirgðum.[716]

 

Að þessu sinni dvaldist Guðmundur Hagalín aðeins fjóra daga í foreldrahúsum því hann var ráðinn í skiprúm hjá einum formannanna sem stunduðu haustróðra frá Hlaðsbót í landi Álftamýrar við Arnarfjörð.[717] Þann 10. september var hann fluttur yfir Dýrafjörð frá Ytrihúsum að Haukadal á leið í verið.[718] Tvo fylgdarmenn þurfti til fararinnar svo unnt væri að koma bátnum til baka með góðu móti og þótti Guðnýju húsfreyju við hæfi að senda orðasafnarann frá Hala. Á Svani gamla reru þeir inn með landi, Hagalín á annað borðið og Þórbergur á hitt, en Ólafur, bróður Hagalíns, sat aftur á stafnloki.[719] Þegar komið var inn undir Mýrafell var seglið dregið upp og siglt yfir fjörðinn. Þórbergur sat í hálsi og tók brátt að róa sér og raula svo bræðurnir lögðu við eyru:

 

Þar sé ég þig sitja og spinna

á svartan forlagarokk

gullna giftingarstrengi.

Af gleði ég bregð á skokk …

 

… Nei aldrigi kemst ég yfir

og upp á loft til þín.

Í freðinni fjárhúsjötu

falin er ástin mín.

 

Frá Haukadal riðu þeir Hagalín og Þórbergur yfir Álftamýrarheiði, – og þá er við riðum heim Fossdalinn, segir Hagalín, í dökkum skugga brattra fjalla, fannst mér sem í kringum okkur væru á kreiki allar þær furður sem íslensk þjóðtrú hefur kunnað frá að greina.[720]

Nokkrum áratugum áður en foreldrar Guðmundar Hagalíns fluttust að Ytrihúsum bjuggu þar hjónin Ólafur Sakaríasson og Veronika Jónsdóttir, foreldrar Rögnvaldar Á. Ólafssonar sem oft er nefndur fyrsti íslenski arkitektinn enda þótt honum auðnaðist reyndar ekki að ljúka háskólanámi sínu í húsagerðarlist. Rögnvaldur fæddist í Ytrihúsum 5. desember 1874 en fluttist með foreldrum sínum til Ísafjarðar árið 1880.[721] Undir skóla lærði hann hjá séra Þorvaldi Jónssyni á Ísafirði og settist í lærða skólann í Reykjavík árið 1894.[722] Þar var hann í fjóra vetur við nám en lauk stúdentsprófi utanskóla árið 1900 með ágætiseinkunn og varð hæstur allra á prófinu.[723] Veturinn eftir stúdentspróf sat Rögnvaldur í prestaskólanum en sigldi haustið 1901 til Kaupmannahafnar og hóf þar nám í húsagerðarlist.[724] Sú ákvörðun er harla merkileg því enginn Íslendingur mun áður hafa lagt út á slíka braut og hérlenda verkfræðinga mátti þá telja á fingrum annarrar handar. Thorvald Krabbe verkfræðingur segir í minningarorðum að Rögnvaldur hafi frá æsku verið hneigður fyrir byggingafræði og lætur þess getið að í farareyri hafi hann haft dálítinn styrk frá landssjóði og lán úr Landsbankanum.[725]

Á þriðja námsári sínu í Kaupmannahöfn veiktist Rögnvaldur og varð að fara á heilsuhæli í Boserup.[726] Hann var þá kominn vel á veg með námið en heilsubrestur gerði honum erfitt fyrir svo hann kom heim án þess að hafa lokið því.[727] Árið 1906 samþykkti Alþingi vissa fjárveitingu handa byggingarfróðum manni til leiðbeiningar við byggingar og var Rögnvaldur ráðinn til þeirra starfa.[728] Embætti húsameistara ríkisins var ekki sett á stofn fyrr en síðar en Rögnvaldur gegndi í raun sams konar starfi í tíu ár, frá 1906-1916. Hann teiknaði flestar opinberar byggingar sem þá risu af grunni og var ráðunautur stjórnvalda um allt sem að útliti þeirra laut. Meðal opinberra bygginga sem Rögnvaldur teiknaði má nefna Heilsuhælið á Vífilsstöðum og kirkjurnar á Húsavík, á Þingeyri og í Keflavík.[729] Hann andaðist á Vífilsstöðum 14. febrúar, aðeins 42ja ára að aldri.[730]

Ferill Rögnvaldar Ólafssonar sýnir að hann hafi verið frábær námsmaður og auk þess gæddur sérstökum hæfileikum á sviði byggingalistar. Allir sem velta manninum fyrir sér munu væntanlega spyrja hvaðan pilti þessum úr hjáleigukotinu Ytrihúsum hafi komið allar þessar góðu gáfur. Svarið við þeirri spurningu er sjálfsagt ekki einfalt en freistandi er að benda á fáeina einstaklinga úr því ættanna kynlega blandi sem að honum stóð. Kemur þá fyrst í hugann afi hans, Sacharías Jónsson sem hér hefur áður verið nefndur en hann var við fermingu sagður merkilega vel að sér (sjá hér Neðri-Hjarðardalur (Glóra) og Kotnúpur). Sacharías ólst upp í Glóru en varð síðar bóndi á Kotnúpi. Hinn afi Rögnvaldar arkitekts var séra Jón Eyjólfsson, sem lengst var prestur á Stað í Aðalvík, dóttursonur séra Jóns Þorlákssonar, skáldprests á Bægisá.[731] Ætla má að úr þeirri uppsprettu hafi Rögnvaldur líka fengið drjúgan skerf hug og hönd til farsældar. Síðast en ekki síst er svo að nefna þann orðlagða askasmið, Odd Jónsson á Atlastöðum í Fljóti þar norður í Sléttuhreppi, sem var langafi Rögnvaldar því Sigríður dóttir Odds var móðir Veroniku Jónsdóttur í Ytrihúsum.[732] Oddur þótti á sínum tíma oddhagur svo af bar og smíðaði bæði aska og sái, koppa og kirnur og enn aðra búsmuni úr rekavið.[733] Ýmsir smíðisgripir hans fóru víða og voru keyptir í fjarlægum héruðum, enda segir á einum stað að hann hafi smíðað mest af hinum svonefndu „Strandasáum” og öðru þvílíku búsgagni.[734] Skyldleiki askasmiðsins og arkitektsins leynist ekki þó úr fjarlægð sé skoðað.

Hér verður nú staðar numið og haldið á brott frá Ytrihúsum. Við göngum enn um hlaðið á Núpi, þar sem gamli bærinn stóð öld fram af öld, og tökum síðan stefnuna til baka að Kotnúpi en þaðan er ætlunin að ganga fram í botn á Núpsdalnum. Eyðibýlin þrjú neðst í dalnum, Kotnúp, Klukkuland og Hólakot, höfum við heimsótt áður en nú er ætlunin að skoða seltóttirnar sem liggja framar og líta svolítið á landslagið.

Frá vegamótunum innan við Núp eru a.m.k. sjö kílómetrar fram í botninn á Núpsdal og má því gera ráð fyrir að ferðin fram og til baka taki fjóra klukkutíma ef hægt er farið og dálítill tími ætlaður til skoðunar á því sem fyrir augu ber. Þjóðvegurinn liggur rétt neðan við mynni dalsins og frá veginum er skammur spölur fram að Kotnúpi, tíu mínútna gangur eða þar um bil. Lítið eitt framan við Kotnúp er Kotnúpsleitið og þaðan er skammt fram í Mjósund en er þangað kemur opnast sýn alllangt fram í dalinn. Enda þótt Núpsdalurinn sé fremur þröngur þá er hér mikið haglendi í fjallahlíðum og á bökkum Núpsár sem fellur um dalinn. Allur dalurinn vestan ár er í Núpslandareign og handan árinnar á Núpur líka allt land fyrir framan Geldingadalsá (sjá hér Klukkuland) en hún fellur í Núpsá rösklega tveimur kílómetrum fyrir framan Kotnúp. Sumarbeitin á dalnum mátti kallast fóturinn undir búskap bændanna á Núpi.

Meginstefna dalsins er frá suðri til norðurs en liðlega þremur kílómetrum fyrir framan Kotnúp tekur hann nýja stefnu og liggur úr því frá suðaustri til norðvesturs alla leið fram í dalbotn. Klettóttar fjallsbrúnirnar sem gnæfa yfir hlíðum Núpsdals eru flestar í um það bil 700 metra hæð yfir sjávarmáli og setja sterkan svip á allt umhverfið.

Á Kotnúpsleitinu stöndum við beint undir sjálfum Núpnum, þverhníptum klettavegg sem nær að efstu brún, en sé litið yfir ána draga hamraveggir Klukkulandsfjalls, sem er hér beint á móti, til sín athygli vegfarenda. Þar heitir fremst Heiðnahorn en framan við það skerst Geldingadalur inn í háfjallið.[735] Framan við hann er Hrútaskálarrönd og síðan Hrútaskál sem liggur hátt eins og Geldingadalur en er mun minni. Dálítið framan við Hrútaskál er svo Grjótdalur sem líkist Geldingadal og liggur hömrum girtur hátt í fjallinu. Allt þetta sjáum við vel frá hvíldarstað okkar í Mjósundum. Úr austurhlíðum dalsins falla nokkrar smáár og lækir í Núpsá og er þar helst að nefna Geldingadalsá, Hrútaskálarlæk og Grjótdalsá.

Á bökkum Núpsár, um það bil 200 metrum fyrir framan Hrútaskálarlækinn, kúra tóttir af hinu forna Núpsseli. Þangað hröðum við nú för okkar og vöðum yfir ána þar sem henta þykir. Í sóknarlýsingu séra Jóns Sigurðssonar frá árinu 1840 má sjá að þá var búsmali enn hafður hér í seli. Þar er kostasamt land á dalnum og allur peningur hafður þar oftast í seli, segir séra Jón[736] og mátti trútt um tala því er hann festi orðin á blað voru aðeins tvö til þrjú ár liðin frá því hann fluttist sjálfur frá Núpi að Gerðhömrum.

Á árunum kringum 1870 var búsmali enn nytkaður hér í selinu með sama lagi og lengi hafði verið. Jóhannes Jónsson, sem kallaður var lambi og dó í Ytrihúsum hjá Núpi 25. júní 1944, var þá smali í Núpsseli.[737] Gamall maður sagði hann svo frá að auk sín hefðu þá verið þar tvær vinnukonur.[738] Jóhannes lét þess einnig getið að stundum hefði hann skroppið yfir ána að hjálpa stúlkunum í Alviðruseli[739] og tók fram að smalamennskan hefði verið auðveld því kvíaærnar hefðu jafnan haldið sig á Smjörhlíðinni.[740]

Ekki er alveg ljóst á hvaða árum Jóhannes var smali í Núpsseli en hann var fæddur 6. nóvember 1855 og kallaður tökudrengur á Núpi í sóknarmannatali frá 31.12.1870.[741] Jóhannes átti sannanlega heima á Núpi frá 1870 til 1879 og kynni að hafa komið þangað nokkru fyrr.[742] Með hliðsjón af aldri hans má slá því föstu að hann hafi ekki orðið selsmali fyrr en 1866 eða því sem næst og vorið 1879 flyst hann frá Núpi út á Fjallaskaga.[743] Á árunum 1879-1894 átti Jóhannes jafnan heima á Skaga eða Birnustöðum svo óhætt mun að fullyrða að það hafi verið einhvern tíma á árunum 1866-1878 sem hann var að eltast við kvíaærnar í Núpsseli. Guðmundur Björnsson var þá bóndi á Núpi (sjá hér bls. 74-77) og hjá honum var Jóhannes heimilismaður í a.m.k. 9 ár.[744]

Óvíst er hvort Jóhannes lambi var síðasti smalinn í Núpsseli en frásagnir hans sem menn geyma enn í minni bera vitni um að þar var rekinn seljabúskapur á árunum kringum 1870. Vel má vera að Guðmundur, bóndi á Núpi, hafi haft sama lag á í þessum efnum allt til loka búskapar síns á Núpi en hann fluttist þaðan til Ameríku árið 1887 (sjá hér bls. 76-77). Ekki er kunnugt um að Kristján Oddsson sem bjó á Núpi 1887 til 1896 hafi verið þar með búsmala í seli og fullvíst er að Kristinn Guðlaugsson er hóf sinn búskap á Núpi vorið 1896 nýtti selhúsin með öðrum hætti. Á sínum fyrri búskaparárum var Kristinn með fé hér í selinu bæði snemma á vorin og seint á haustin[745] og notaði því selhúsin sem beitarhús. Um eða upp úr síðustu aldamótum brann selið en Kristinn lét byggja það upp aftur.[746] Á fyrstu áratugum 20. aldar var enn setið hjá fráfæruám hér fram á dalnum. Börn og unglingar sem sátu yfir ánum frá Núpi höfðust þá við í selinu en til mjalta ráku þau ærnar heim að Núpi.[747] Sumarið 1913 voru kvíaærnar 47 en þrír synir Kristins á Núpi, Haukur, Haraldur og Valdimar, skiftust þá á um hjásetuna og sátu hjá ánum sinn daginn hver.[748] Árið 1920 var enn fært frá á Núpi en 1921 eða 1922 var því hætt.[749]

Tóttirnar sem enn má sjá í Núpsseli bera með sér að hér hafa áður fyrr verið mikil umsvif. Stærsta tóttin er um það bil 12 x 3,5 metrar að flatarmáli. Hún er ungleg og má telja fullvíst að þar hafi staðið húsið sem Kristinn Guðlaugsson byggði upp á árunum kringum aldamótin 1900. Allmargar smærri og eldri tóttir eru hér rétt hjá og lítið eitt heimar og neðar er svolítil rétt eða kví þar sem ærnar hafa að líkindum verið mjólkaðar meðan seljabúskapur stóð hér með blóma.

Frá rústum selsins lítum við yfir dalinn. Enn blasir Núpurinn við þó svipur hans sé dálítið annar frá þessu sjónarhorni en þegar til hans er horft frá Núpi eða Kotnúpi. Hamrafjallið sem tekur við framan við Núpinn og nær fram undir Seljahvilft hér handan við ána er nú almennt nefnt Breiðhilla.[750] Tvær hillur eru í fjallinu sem áður voru farnar í smalamennskum og eru nefndar efri og neðri hilla.[751] Mjög líklegt verður að telja að önnur hillan hafi áður borið nafnið Breiðhilla og fjallið hafi síðar fengið nafn af henni. Lítið eitt framan við Núpinn sjáum við stórt gil sem rýfur klettavegginn. Gil þetta heitir Nóngil[752] og þar hefur verið nón héðan frá selinu. Neðan við Nóngilið eru Nóngilsflatir og framan við þær hlaðinn stekkur sem heitir Hlað.[753] Gróinn skriðuhryggur er nær beint á móti selinu hér handan við ána og heitir Stórihryggur[754] en í Breiðhilluklettunum þar fyrir ofan sjáum við Strengberg, berggang sem virðist ná í gegnum fjallið og yfir í Gerðhamradal.[755] Við efstu hamrabrún blasir hér líka við Kirkjuklettur sem er andspænis selinu og gnæfir við himin.[756] Héðan frá Núpsseli sjáum við líka allvel fram eftir dalnum. Skarðshóllinn sem er fram undir dalbotninum blasir við og líka Núpsskarð sem fyrri tíðar menn lögðu oft leið sína um þegar farið var úr Dýrafirði á Ingjaldssand.

Í kringum selið er fagurt land og vel gróið. Nokkru heimar á dalnum, heiman við Hrútaskálarlæk, er allgott slægjuland og ber heimsti parturinn nafnið Oddssonaengi.[757] Þaðan er stutt að landamerkjunum á móti Klukkulandi en þau eru við Geldingadalsá.

Hér austan við ána er annar engjafláki fyrir framan selið. Í því plássi voru líka mógrafir en í hlíðinni ofan við slægjulönd þessi eru lyngivaxnar brekkur. Sé gengið frá Núpsseli upp með ánni komum við brátt að Tjaldhólslæk en heimantil við hann er hóll sem lækurinn dregur nafn af.[758] Framan við Tjaldhólslæk tekur síðan við Grjótdalsengi sem nær fram undir Grjótdalsá.

Við Grjótdalsána gerum við stuttan stans. Á þessi fellur á kafla í djúpu gili sem sker í sundur hlíðina en neðst í henni er foss sem heitir Úði. Framan við Grjótdalsá hækkar dalurinn og þrengist en enn er drjúgur spölur fram í dalbotn. Við fylgjum áfram Núpsánni og höldum okkur við eystri bakkann en reyndar kemur áin nú úr norðvesturátt og fellur til suðausturs því hún verður að fylgja legu dalsins. Lítið eitt fyrir framan ármót Grjótdalsár og Núpsár komum við að Grjótdalsfossi sem sagður er hafa verið aðalveiðifoss Núpsbænda.[759] Í Jarðabók Árna og Páls frá árinu 1710 er þó gert lítið úr silungsveiði í Núpsá en þar segir að hún sé svo að segja engin en hafi verið nokkur  til forna.[760]

Brátt komum við að Illagilslæk sem kemur úr Illagili en framan við það tekur við Smjörhlíð sem nær fram að Skjóðuhvilftarlæk.[761] Nafnið Smjörhlíð bendir til þess að hér hafi gróður verið talinn sérdeilis kjarngóður og vafalaust hefur búsmala frá seljunum í dalnum verið haldið hér til beitar. Uppi í Skjóðuhvilft hér rétt framan við Smjörhlíð var reyndar líka talsvert um gras og þar mun lengi vel hafa verið heyjað.[762] Skjóðuhvilft er fremsta hvilftin hérna megin ár og stöku sinnum var farið úr henni á fjall upp og yfir í Valþjófsdal í Önundarfirði. Var það kallað  að fara Skörð.[763] Leið þessi sem má heita klettalaus lá austan við Þverfell sem er 676 metra hátt fjall fyrir botni dalsins.

Framan við Skjóðuhvilftarlæk blasir við augum hæð sem heitir Stöpull og þaðan er örstutt í Ranghala sem er dálítil gróin flatneskja fram undir dalbotninum þar sem bugða verður á ánni.[764]

Í dalbotninum er gott að hvíla lúin bein á Skarðshól, sem er vel gróinn, en hingað var einmitt farið til grasa á fyrri tíð.[765] Úr dalbotninum var farið á fjall um Núpsskarð, sem hóllinn er kenndur við, og áfram yfir Sandsheiði á Ingjaldssand. Í dagbókum Sighvats Grímssonar Borgfirðings frá síðustu þremur áratugum 19. aldar má sjá að þessi leið var þá oft farin af gangandi mönnum.[766] Að sögn annars dagbókarritara var hins vegar heldur sjaldgæft að menn færu þessa leið á hestum.[767] Sjö manneskjur af Ingjaldssandi fóru þó ríðandi um Núpsskarð til kirkjuvígslunnar á Mýrum 18. júlí 1897[768] en þann dag var Mýrakirkja sem enn stendur vígð.

Hjá Skarðshól vöðum við yfir ána og þokum okkur heim á leið. Fremsta hvilftin hér vestan ár heitir Nálarhvilft og svo má heita að hún sé beint á móti Skjóðuhvilft sem áður var nefnd.[769] Næst er Miðhvilft sem er miklu stærri en á milli þeirra fjallið Miðhvilftarnúpur.[770] Undir hlíðum þess er stórt og mikið holt sem Langholt heitir en framan við það er Náttmálateigur í hlíðinni.[771]

Eins og hér hefur komið fram var ekki aðeins láglendið í Núpsdal nýtt til heyskapar heldur var farið með orf og ljá upp í flestar helstu hvilftarnar og slegið allt það gras sem nýtilegt var, m.a. í Miðhvilft sem hér var síðast nefnd.[772] Slægjulandið þar uppi heitir Miðhvilftarengi.[773] Úr hvilft þessari fellur svolítill lækur, sem Þverá heitir, niður í Núpsá.[774]

Heiman við Miðhvilft kemur Seljahvilft en á milli þeirra er Seljahvilftarnúpur.[775] Af öllum hvilftunum í Núpsdal hefur Seljahvilft þá sérstöðu að stefna hennar er að heita má frá norðri til suðurs. Er við nálgumst þessa einstöku hvilft á ferð okkar um dalinn skulum við hægja á göngunni og svipast um. Nafnið á hvilftinni segir sína sögu og beint niður af henni finnum við á árbakkanum rústir af Alviðruselinu[776] sem hér stóð forðum tíð. Í samkomulagi um landamerki Núps og Alviðru sem gert var árið 1570 (sjá hér bls. 3-4) var m.a. kveðið skýrt á um rétt Alviðrubænda til þess að hafa frjálsa selför á Núpsdal. Í sáttargerðinni kemur fram að Alviðrumenn höfðu þá haft búpening sinn í seli á Núpsdal um langan aldur því talað er um að selstaða þeirra á dalnum skyldi vera þar sem að fornu hafði verið.[777] Vel má vera að elsti samningurinn um þessi réttindi Alviðrubænda hafi verið gerður á fyrstu öldum byggðar í landinu.

Um rétt Alviðrubænda til selfarar á Núpsdal segir svo í áðurnefndu samkomulagi frá árinu 1570:

 

Í annarri grein skyldu og allir þeir sem í Alviðru byggju, hvort þeir væru margir eða fáir, á hverju ári hafa frjálsa selför með allan sinn pening á Gnúpsdal, hvert ár frá vordögum og svo langt fram á haust sem þeir vildu. Skyldu og Alviðrumenn mega láta reka og renna sína peninga um sumar hvert á fyrrsögðum tíma, hátt og lágt, neðarlega og framarlega á fyrrsögðum Gnúpsdal, utan láta varða sínum peningi þeim engjum sem Gnúpsmenn létu sjálfir varða sér til slægna. Hér með skyldu Alviðrumenn hafa frjálsa þjóðgötu á Gnúpsdal til sinna þarfinda hvort heldur þeir færu hið efra eður neðra um dalinn á meðan þeir hefðu í selinu en beita þó hvorki engjar né töður þeirra sem undir Gnúpi væru. Svo og skyldu Alviðrumenn hafa selstöðu á Gnúpsdal þar sem að fornu hafði verið og þar mega gera hús eftir þörfum sínum og hafa þar til frjálsa stungu og ristu þar á dalnum, lyngrif og hrísrif á fyrrsögð hús til tróðs eftir þörfum, hér með torfskurð til eldiviðartaks svo sem þeim þætti þarfna hvert ár á meðan væri verið í selinu. Skyldu Alviðrumenn mega láta sín selhús að frjálsu standa þar á dalnum hvert ár.[778]

 

Ekki leynir sér að hér er vel og tryggilega frá öllu gengið enda var það ekki minni maður en Eggert Hannesson lögmaður sem gætti hagsmuna Alviðrumanna við þessa sáttargerð en viðsemjandi hans var Þorlákur Einarsson, sýslumaður á Núpi.[779] Selstaðan á Núpsdal var Alviðrubændum dýrmæt því í heimalandi þeirra var stór hagabrestur fyrir kvikfé eins og komist er að orði í Jarðabókinni frá 1710.[780] Selstöðu á jörðin á Núpsdal, sem brúkast átölulaust, stendur þar[781] og í sóknarlýsingunni frá 1840 segir að búpeningur Alviðrufólks sé hafður í seli á Núpsdal frá fullum 12 vikum af sumri og til höfuðdags eða svo sem sex vikna tíma[782], það er frá miðjum júlí og fram undir lok ágústmánaðar.

Allt sýnir þetta að Alviðruselið hér á bökkum Núpsár á sér mjög langa sögu. Á björtum sumardögum mátti víða um dalinn heyra bergmál frá hói smalans er ærnar voru reknar til mjalta heim að selinu og fríður væri hópurinn ef allar selstúlkurnar sem hér áttu sína sumargleði væru saman komnar á einum stað.

Á árunum kringum 1870 munu selstúlkur frá Alviðru enn hafa dvalist hér í sex vikur á hverju sumri og sinnt mjólkurverkum (sjá hér bls. 97) en á síðustu áratugum nítjándu aldar var seljabúskapnum hætt. Nú kúra tóttirnar af Alviðruseli í einni þyrping á árbakkanum niður undan Seljahvilft. Þær eru auðfundnar en láta þó ekki fara mikið fyrir sér. Selhúsin hafa ekki verið færri en átta en greinilegt er að öll hafa þau verið smá, hin stærstu líklega um átta fermetrar. Hér gefur einnig að líta leifar af svolítilli rétt eða kví og má ætla að þangað hafi ærnar verið reknar til mjalta.

Á fyrstu áratugum tuttugustu aldar voru sagnir á kreiki um forna reimleika í Alviðruseli og festi Arngrímur Fr. Bjarnason eina slíka sögu á blað árið 1930. Þar segir að Alviðrusel hafi í fyrstu verið uppi í Seljahvilft en eitt sinn hafi smalinn misst flestar ærnar úr gæslunni og honum þá orðið svo mikið um skammirnar sem hann fékk fyrir vangæslu fjárins að hann hafi stytt sér aldur.[783] Hófust þá miklir reimleikar í selinu og var húsum riðið um nætur svo brakaði í hverju tré, mjólkinni spillt, ýmist hellt niður eða mold borin í trogin.[784] Í sögunni hefur Arngrímur það eftir gömlum mönnum að vegna þessara reimleika hafi selið verið flutt niður úr hvilftinni, niður á svonefndar Hæðir[785] en þær eru framantil við seltóttirnar hér á árbakkanum.[786] En þótt selið væri flutt héldu áfram sömu býsn og áður og glettur gerðar selstúlkunum og þeim sem önnuðust heimflutning úr selinu.[787] Var þá það ráð tekið að færa selið í annað sinn og að því sinni alveg niður að Núpsánni. Tók þá af reimleikana að mestu en oft sást þó í nánd við selið unglingspiltur í mórauðri peysu sem villti um fólk og gerði því ymsar glettigar.[788]

Sagan sem hér var rakin gæti gefið tilefni til þess að svipast um eftir eldri seltóttum í nánd við Alviðrusel því nokkuð var um það í Dýrafirði að sel væru flutt til frá einum stað á annan (sjá hér t.d. Arnarnúpur og Hraun í Keldudal). Líklegast er þó að sagan um reimleikana eigi sér enga stoð af því tagi og selið hafi í öndverðu verið reist hér á árbakkanum. Í þessu sambandi skal minnt á að í sáttargerð eigenda Núps og Alviðru frá árinu 1570 er tekið fram að Alviðrusel skuli vera þar á dalnum sem að fornu hafði verið.

Milli seljanna tveggja í Núpsdal, Alviðrusels og Núpssels, er aðeins liðlega einn kílómetri svo ætla má að þarna hafi verið talsverður samgangur á milli. Alviðrusel er framar og stendur vestan ár en Núpssel neðar og stendur austan ár.

Alviðruselið er einn þeirra staða sem erfitt er að slíta sig frá. Það geymir margt í þögn sinni. En við getum komið hingað aftur þó síðar verði. Þess vegna höldum við nú áfram sem leið liggur heim dalinn um fjárgötur sem troðnar hafa verið í þúsund ár. Gangan frá Alviðruseli í hlað á Kotnúpi tekur eina klukkustund ef hægt er farið.

Ætlun okkar er að staldra næst við í Alviðru sem er næsti bær utan við Núp og örskammt þar á milli. Frá Kotnúpi mætti ganga þangað á 40 mínútum ef farin væri skemmsta leið sem liggur um hlað á Núpi en þar sem sól er enn hátt á lofti tökum við annan kost og ákveðum að rölta frá Kotnúpi niður að Núpsá og fylgja henni alla leið til sjávar.

Í dalsmynninu, skammt frá Kotnúpi, breytir áin um stefnu. Áður féll hún til suðurs en hér tekur hún stefnu í suðvestur eða réttar sagt lítið eitt sunnan við vestur, fyrir neðan túnin á Núpi, og til sjávar skammt innan við Kaldalæk þar sem eru landamerki Núps og Alviðru. Sé farið með ánni er liðlega einn kílómetri frá Kotnúpi niður að brúnni á þjóðveginum og hálfur annar kílómetri þaðan að árósnum. Leiðin sem við höfum valið liggur um Núpsnesin þar sem áður voru fagrar engjar en nú eru ræktuð tún og síðan áfram um Ranamýrar en frá árbakkanum, um það bil miðja vega milli þjóðvegarins og fjörunnar, er örskammt upp á brekkuna þar sem Ranabærinn stóð. Tvær stíflur eru nú í Núpsá og rétt ofan við þá efri komum við að Ranalæk sem lýkur hér sinni stuttu för og sameinast ánni.[789] Ranalækur og Ytrihúsalækur, sem hér var áður nefndur (sjá bls. 82), eru reyndar einn og sami lækurinn[790] sem mönnum hefur þótt henta að skipta um nafn á eftir því um hvaða hluta lækjarins var rætt. Hér í árdalnum neðan við Ranalækinn heita Lambhagar og ná alveg niður að árósnum.[791] Innan við allstórt holt sem hér verður á vegi okkar er hylur í ánni og heitir Berghylur. Þar var áður fyrr mikil veiði.[792] Uppi á þessu sama holti er nú rafstöðvarstíflan, sú neðri af tveimur stíflum í ánni.[793]

Frá árósnum eru nú aðeins tvö til þrjú hundruð metrar út að Kaldalæk þar sem eru landamerkin milli Núps og Alviðru. Hér hefur áður verið greint frá landamerkjaþrætum sem eigendur þessara tveggja jarða áttu í á 16. öld og samkomulaginu sem gert var árið 1570 (sjá hér bls. 2-4). Þá var m.a. um það samið að þrætulandið Lambhagar hér neðst í árdalnum skyldi vera eign Núpsmanna (sjá hér bls. 3-4). Með samkomulaginu frá 1570 var líka ákveðið að Alviðrumenn skyldu engu að síður eiga beitarrétt í Lambhögum árið um kring, einnig rétt til móskurðar, og það sem undarlegast er allan reka viðar og hvala … frá greindum Kaldalæk inn í miðja Núpsá. Í þessum sama samningi var Alviðrumönnum líka tryggður réttur til veiða í ósi Núpsár og upp að fornum hleðslugarði sem virðist hafa legið að ánni á svipuðum slóðum og Ranalækur, það er að segja fyrir innan Lambhaga.[794]

Á móti þessu fengu Núpsmenn viðurkennt að Lambhagar væru í þeirra landi og einnig var þeim tryggður réttur til að setja upp skip í Alviðrulandi þar hjá Kaldalæk ef nauðsyn krefði.[795] Ekki máttu þeir þó láta báta sína standa lengur uppi utan við lækinn en brýna nauðsyn bæri til.[796]

Í Jarðabókinni frá 1710 er getið um ýms þau réttindi Alviðrumanna í Núpslandi sem um var samið árið 1570 og ekki annað að sjá en þau hafi þá verið í fullu gildi. Er þar fyrst að nefna selstöðuna á Núpsdal sem áður var frá sagt en líka rekaréttindin milli Núpsár og Kaldalækjar, rétt til móskurðar og veiðirétt í Núpsá upp í Berghyl.[797]

Á því sem hér hefur verið ritað má sjá að strandlengjan sem tilheyrir Núpi er örstutt, aðeins spölurinn frá ósi Núpsár og út að Kaldalæk. Þar út við lækinn munu Núpsmenn löngum hafa haft uppsátur fyrir báta sína[798] og þar var þeirra heimavör við Núpssjó eins og það var stundum orðað.[799]

Þessi staður heitir Tröð[800] og honum má ekki rugla saman við Fögrutröð sem er rétt utan við Kaldalæk og því í landi Alviðru (sjá hér Alviðra). Í Tröð hér innan við Kaldalæk voru Núpsbændur alltaf með báta sína á árunum kringum aldamótin 1900 og allt þar til Valdimar Kristinsson á Núpi fór að gera út vélbát árið 1927.[801] Hann samdi þá við Alviðrumenn um uppsátur í þeirra landi, rétt fyrir utan Kaldalæk, og tókst um leið á hendur að annast þar ruðning varar.[802] Seinna var byggð þar bryggja og sumarið 1992 stóð bátur Valdimars á Núpi enn uppi þarna við Alviðrusjóinn og átti þá að baki ærið margar farsælar sjóferðir. Um róðra frá Alviðrusjó á fyrri hluta þessarar aldar er lítillega rætt á öðrum stað í þessu riti (sjá hér Alviðra) en nú verður horfið frá ströndinni og haldið til bæjar í Alviðru.

 

 

 

 

 

 

 

– – – – – – – – – – o o o o o – – – – – – – – – –

[1] Halldór Kr.1964, 84-86. (Sigtryggur Guðl. Aldarminning).

[2] Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín VII, 75.

[3] Sóknalýs. Vestfjarða II, 76.

[4] Örnefnaskrá.

[5] Örn.skrá.

[6] Sama heimild.

[7] Örn.skrá.

[8] Sama heimild – Alviðra.

[9] Örn.skrá.

[10] Sóknalýs. Vestfj. II, 75.

[11] Örn.skrá.

[12] D.I. VIII, 9.

[13] Örn.skrá.

[14] D.I. III, 447-448.

[15] D.I. XI, 417-418.

[16] D.I. XV, 433-436.

[17] Sama heimild.

[18] D.I. XV, 433-436.

[19] Sama heimild.

[20] Sama heimild.

[21] Sturl. I, 400.

[22] Bisk. I, 391 og 432.

[23] Sama heimild, 431-435.

[24] Sama heimild, 432-433.

[25] Jón Jóh. 1958, 106-109.

[26] D.I. III, 447-448.

[27] Sturl. I, 84-85.

[28] Sýslumannaæfir II, 3, 263, 528 og 529 og III, 6.

[29] Íslenskar æviskrár V, 111; sbr. Sýslum.æfir II, 3 og 263.

[30] Ísl. æviskrár V, 111; Arnór Sigurjónsson 1975, 24-27.

[31] Isl. Annaler, bls. 367 og 418.

[32] Isl. Annaler, bls. XXXIV og 421-422.

[33] Ísl. æviskrár V, 201.

[34] Isl. Annaler, bls. 424-425.

[35] Sama heimild.

[36] Isl. Annaler, bls. 368.

[37] Sama heimild, bls. XXVI og XXXIV.

[38] Sama heimild, bls. 425.

[39] Isl. Annaler, bls. 425.

[40] Isl. Annaler, bls. 425.

[41] Ísl. æviskrár I, 15 og II, 371.

[42] Annálar, bls. 138-139 (Lögmannsannáll).

[43] Ísl. æviskrár V, 111.

[44] Sama heimild.

[45] Ísl. æviskrár V, III.

[46] Ísl. æviskrár I, 15.

[47] D.I. IV, 264-265; sbr. Arnór Sigurjónsson 1975, 39 og D.I. IV, 339.

[48] Arnór Sigurjónsson 1975, 38.

[49] Sama heimild, 37-38.

[50] Ísl. æviskrár I, 15.

[51] D.I. IV, 339.

[52] Arnór Sigurjónsson 1975, 62.

[53] D.I. IV, 683-694; sbr. Arnór Sigurjónsson 1975, 67-68.

[54] D.I. IV, 685-694.

[55] Arnór Sigurjónsson 1975, 67-68.

[56] Arnór Sigurjónsson 1975, 175-185; D.I. VI, 146-147; sbr. D.I. IV, 264-265.

[57] Bj. Þorst. 1970, 23-38.

[58] Arnór Sigurjónsson 1975, 74.

[59] D.I. IV, 683-694.

[60] Sama heimild.

[61] Sama heimild.

[62] Sama heimild.

[63] D.I. IV, 683-694.

[64] Sama heimild.

[65] D.I. IV, 683-694.

[66] Jarðb. Á. og P. VII, 100-101.

[67] Sama heimild., 62-63.

[68] D.I. IV, 683-694.

[69] Sama heimild, 688.

[70] Sama heimild, 683-694.

[71] Þorvaldur Thoroddsen (Lýsing Ísl. III, 46).

[72] D.I. IV, 683-694.

[73] Sama heimild.

[74] D.I. IV, 683-694.

[75] D.I. IV, 683-694.

[76] Sveinn Níelsson 1950, 190.

[77] Arnór Sigurjónsson 1975, 107-113.

[78] Ísl. æviskrár II, 123-124.

[79] Arnór Sigurjónsson 1975, 107-113.

[80] Arnór Sigurjónsson 1975, 111-113.

[81] Sama heimild.

[82] Sama heimild.

[83] Sama heimild.

[84] Sama heimild.

[85] Sama heimild, 202-203.

[86] Bj. Þorst. 1970, 205-206.

[87] Arnór Sigurjónsson 1975, 185-187.

[88] Arnór Sigurjónsson 1975, 185-187.

[89] D.I. V, 443-444.

[90] Sama heimild, 484-486.

[91] Sama heimild.

[92] Sama heimild, 502.

[93] Safn til sögu Ísl. II, bls. 654 (hirðstj.annáll).

[94] Arnór Sigurjónsson 1975, 241.

[95] Arnór Sigurjónsson 1975, 156.

[96] Arnór Sigurjónsson 1975, 199-200; Ísl. æviskrár I, 196.

[97] Arnór Sigurjónsson 1975, 189.

[98] Sama heimild, 200-204.

[99] Sama heimild.

[100] Sama heimild.

[101] Sama heimild, 210-213.

[102] Sama heimild.

[103] Sama heimild, 215-220.

[104] D.I. VII, 285-286.

[105] Arnór Sigurjónsson 1975, 299.

[106] Sama heimild, 178-184 og 295-308.

[107] D.I. VII, 401-402.

[108] Sama heimild.

[109] Arnór Sigurjónsson 1975, 305 og Ísl. æviskrár I, 155.

[110] Arnór Sigurjónsson 1975, 300-301.

[111] D.I. VII, 460.

[112] Ísl. æviskrár I, 216.

[113] D.I. VIII, 217-218 og 262-263.

[114] D.I. IX, 57-58.

[115] Ísl. æviskrár II, 307 og Arnór Sigurjónsson 1975, 402.

[116] Prestsþj.b. Dýrafj.þinga.

[117] D.I. XII, 13-14.

[118] D.I. III, 197.

[119] Sama heimild.

[120] Sama heimild.

[121] Sama heimild.

[122] D.I. III, 197.

[123] D.I. III, 197.

[124] Sama heimild.

[125] Sama heimild.

[126] Sama heimild, 330-331.

[127] Sama heimild.

[128] Sama heimild.

[129] D.I. IV, 142-143.

[130] Sama heimild.

[131] D.I. XV, 575-576.

[132] Sama heimild.

[133] Jarðab. Á. og P. VII, 74-75.

[134] D.I. XV, 575-576.

[135] Sama heimild.

[136] Sama heimild.

[137] Sama heimild.

[138] Sama heimild.

[139] Jarðab. Á. og P. VII, 75-78.

[140] Jarðab. Á. og P. VII, 75-78.

[141] Sama heimild.

[142] Sama heimild.

[143] Bps. C, I, 2. Vísitazía Helga biskups Thordersen 1852.

[144] Sama heimild.

[145] Sama heimild.

[146] Valdimar Kristinsson – Viðtal K.Ó. við hann 29.6.1993.

[147] Bps. C, I, 2. Vísitazía Helga biskups Thordersen 1852.

[148] Sama heimild.

[149] Sama heimild. Lbs. 23684to XI, 334-338, Prestaæfir S.Gr.B.

[150] Bps. C, I, 2. Vísitazía Helga biskups Thordersen 1852.

[151] Sama heimild.

[152] Sama heimild.

[153] Sama heimild.

[154] Sama heimild.

[155] Bps. C, I, 2. Vísitazía Helga biskups Thordersen 1852.

[156] Lbs. 23684to XI, 338 (Prestaæfir S.Gr.B.).

[157] Lbs. 23744to, Dagb. S.Gr.B. 30.1.1881.

[158] Lbs. 23684to XI, 338.

[159] Lbs. 23744to, Dagb. S.Gr.B. 11.11.1884.

[160] Kirkjubók fyrir Núpskirkju við Dýrafjörð árin 1856-1955. Bókin er varðveitt í Alviðru.

[161] Ísl. æviskrár I, 216 og II, 307.

[162] Arnór Sigurjónsson 1975, 348-349.

[163] Sama heimild, 305 og 310.

[164] Sama heimild.

[165] Safn til sögu Íslands II, 668 (Hirðstjóraannáll)).

[166] Sama heimild, 667-668.

[167] Sama heimild, 668-670. (Hirðstjóraannáll).

[168] Páll Eggert Ólason, Menn og menntir III, 314-315.

[169] Sýslum.æfir IV, 97.

[170] Sama heimild.

[171] Sýslum.æfir IV, 97.  D.I. VI, 635-637.  Safn til sögu Íslands II, 668.

[172] Safn til sögu Íslands II, 668-670.

[173] Safn til sögu Íslands II, 668-670 og Annálar I, 79-80.

[174] D.I. VIII, 566-569.

[175] Safn til sögu Íslands II, 668 (Hirðstjóraannáll)).

[176] Annálar III, 36.

[177] Safn til sögu Íslands II, 669 (Hirðstjóraannáll).

[178] Ól. Lár. 1948, 20-21 (Árbók Barð.).

[179] Ól. Lár. 1948, 12-14 (Árbók Barð.).

[180] D.I. VIII, 833-835.

[181] Páll Vídalín / Th. S. Liliendal 1782, VI, 42-43.

[182] Ísl. fornrit IX, bls. XLVII og LIII.

[183] Sama heimild, 79-80.

[184] Ísl. fornrit XII, 251, – Sbr. Páll Vídalín / Th. S. Liliendal 1782, VI, 42-43.

[185] Kulturhistorisk Leksikon for nordisk Middelalder XIX, 436.

[186] D.I. I-XVI. Registur.

[187] Gunnlaugur Ingólfsson hjá Orðabók Háskóla Íslands – viðtal K.Ó. við Gunnlaug 20.5.1992.

[188] Jón Þorkelsson 1910, I, 204.

[189] Alþ.bækur Íslands XIV, 150.

[190] Kaupstaður í hálfa öld 1786-1836, Rvík 1968, bls. 261-263.

[191] Sama heimild.

[192] Þorkell Jóhannesson 1937, 138-139 (Bún. Ísl. I).

[193] Kaupstaðir í hálfa öld 1786-1836, Rvík 1968, 324-325.

[194] Þórunn Valdimarsdóttir 1986, 226.

[195] Guðbrandur Jónsson 1934, 85.

[196] Þorkell Jóhannesson 1937, 143 – sbr. þar bls. 138-142.

[197] Sama heimild.

[198] Bréf til Jóns Sigurðssonar III, Rvík 1991, bls. 199.

[199] Bréf til Jóns Sigurðssonar III, Rvík 1991, bls. 8-9. Bréf Guðm. Ól. 25.2.1856 til Jóns Sigurðssonar forseta.

[200] Sama bréf.

[201] Sama heimild. Bréf Guðm. Ól. 9.9.1864 til sama. Sbr. Bréf sama 1.4. 1864 til sama.

[202] Sama heimild, bls. 199-200 og bls. 1-36, bréf Guðm. Ól. frá árunum 1853-1864 til Jóns Sig. forseta.

[203] Sig. Thoroddsen 1900, 184-190 (Andvari XXV) og Hovdenak, Niels 1885, 155 (Andvari XI).

[204] D.I. VIII, 834-836.

[205] Sama heimild.

[206] Sama heimild.

[207] D.I. VIII, 834-836.

[208] Sama heimild.

[209] Sama heimild.

[210] Safn til sögu Íslands II (Hirðstjóraannáll).

[211] D.I. IX, 99-101.

[212] Sama heimild.

[213] Sama heimild.

[214] D.I. IX, 111-112 og Ól. Lár. 1948, 21-22 (Árbók Barð.).

[215] Sömu heimildir.

[216] Páll E. Ól. M. og m. II, 170 og Ól. Lár 1948, 21-22.

[217] Ól. Lár. 1948, 22-23.

[218] Sama heimild.

[219] Ísl. æviskrár I, 12 og 216.

[220] Safn til sögu Íslands II, 669 (Hirðstjóraannáll).

[221] Sama heimild.

[222] Sama heimild, bls. 672.

[223] Safn til sögu Íslands II, 672 (Hirðstjóraannáll)..

[224] Sama heimild.

[225] Sama heimild, bls. 669.

[226] Sama heimild.

[227] Sama heimild.

[228] Sama heimild.

[229] Safn til sögu Íslands I, 660.

[230] Safn til sögu Íslands II, 669-670 (Hirðstjóraannáll).

[231] Safn til sögu Íslands I, 698.

[232] Páll E. Ól. M. og m. II, 171-172 og Ísl. æviskrár II, 307.

[233] Safn til sögu Íslands II, 670.

[234] Páll E. Ól. Menn og menntir. II, 166-167.

[235] Safn til sögu Íslands II, 670 (Hirðstj. annáll).

[236] Sama heimild, Sýslum.æfir II, 573 og Ísl. æviskrár II, 307.

[237] Safn til sögu Íslands I, 698.

[238] Safn til sögu Íslands I, 55 (Biskupaannálar).

[239] Sama heimild.

[240] Sýslum.æfir II, 573, Safn til sögu Íslands II, 671 og Ísl. æviskrár II, 307.

[241] Sýslum.æfir II, 569.

[242] D.I. XV, 65-70.

[243] Sýslum.æfir II, 569 og Ísl. æviskrár II, 5-6.

[244] D.I. XV, 65-70, sbr. D.I. XIV, 568-573, D.I. XI, 248-249 og 492-493.

[245] D.I. XV, 65-70.

[246] D.I. IX, 125.

[247] Sama heimild.

[248] Sýslum.æfir II, 569.

[249] Sama heimild.

[250] Safn til sögu Íslands I, 124 og Ól. Lár. 1928, 59-63 (Blanda IV) og Ísl. æviskrár III, 167.

[251] Ól. Lár. 1928, 59-63 (Blanda IV).

[252] D.I. XI, 248-249, sbr. D.I. V, 70, D.I. XIV, 568-573 og D.I. XV, 65-70.

[253] D.I. IX, 559-560.

[254] Safn til sögu Íslands I, 62-63.

[255] Sama heimild.

[256] Sýslum.æfir II, 21 og Ísl. æviskrár IV, 58.

[257] Sýslum.æfir II, 21 og Ísl. æviskrár IV, 58.

[258] Ísl. æviskrár II, 307 og Páll E. Ól. Menn og menntir II, 314-315 og D.I. XI, 257.

[259] P.E. Ól. M. og m. III, 256 og Ísl. æviskrár I, 319-321.

[260] P.E. Ól. M. og m. II, 174.

[261] Tryggvi  Þórh. 1989, 65.

[262] Sama heimild, bls. 80.

[263] P.E. Ól. M. og m. II, 314-315.

[264] Tr. Þórh. 1989, 80.

[265] Páll E. Ól. M. og m. II, 314-315.

[266] Ísl. æviskrár I, 319-320.

[267] P.E. Ól. Menn og menntir II, 366-367.

[268] Sama heimild.

[269] Sama heimild og Tryggvi Þórh. 1989, 196 og P.E. Ól. M. og m. III, 258.

[270] P.E. Ól. M. og m. II, 450.

[271] Sama heimild II, 450 og III, 258.

[272] Sama heimild II, 429.

[273] Ísl. æviskrár II, 250 og V, 155.

[274] D.I. XI, 257.

[275] D.I. XI, 257.

[276] Sama heimild, bls. 361.

[277] Sama heimild.

[278] P.E. Ól. Menn og menntir III, 259.

[279] Sýslum.æfir IV, 106.

[280] P.E. Ól. M. og m. III, 261.

[281] Safn til sögu Íslands I, 697-698.

[282] Páll E. Ól. 1944, 151.

[283] Sama heimild, bls. 157.

[284] Sama heimild, bls. 157-161.

[285] Sama heimild, bls. 157 og 180.

[286] P.E. Ól. Menn og menntir III, 263.

[287] P.E. Ól. 1944, 180.

[288] Sama heimild, bls. 158 og Öldin sextánda, bls. 18.

[289] P.E. Ól. 1944, 157-159.

[290] Sama heimild.

[291] Sama heimild, bls. 180 og P.E. Ól. Menn og mentir III, 263-264.

[292] P.E. Ól. M. og m. III, 263-264.

[293] Sama heimild og Einar Lax. 1987, 37.

[294] Safn til sögu Íslands I, 667.

[295] Annálar III, 457.

[296] Safn til sögu Íslands II, 670, sbr. Sýslum.æfir IV, 100.

[297] P.E. Ól. M. og m. III, 176.

[298] Sama heimild, bls. 261.

[299] Annálar III, 457 og Ísl. æviskrár I, 319-320 og V, 176-177.

[300] D.I. XII, 313-314.

[301] Sama heimild.

[302] Sama heimild.

[303] Annálar III, 457.

[304] Ísl. æviskrár I, 319-320.

[305] Ísl. æviskrár I, 221.

[306] Annálar III, 457-458.

[307] Annálar III, 457-458.

[308] Sama heimild.

[309] Sýslum.æfir IV, 98 – sbr. Ísl. æviskrár I, 319-320.

[310] Theódór Árnason 1968, 368 og 386. (Vestf. ættir IV).

[311] Sýslum.æfir II, 366.

[312] Safn til sögu Íslands III, 707-709.

[313] Frá ystu nesjum I, (1958) 144-146.

[314] Frá ystu nesjum I, 144-146. – Sbr. Ísl. sagnaþættir I, 45-51 og Sýslum.æfir IV, 98.

[315] Páll E. Ól. Menn og menntir III, 265.

[316] Ísl. æviskrár I, 319-320.

[317] Ól. Lár. 1948, 26 (Árbók Barð.).

[318] D.I. XI, 257.

[319] D.I. XIII, 152.

[320] D.I. XIII, 517-519.

[321] Annálar III, 458.

[322] Annálar III, 457-458.

[323] D.I. XIII, 517-519.

[324] Ísl. æviskrár I, 319-320.

[325] Safn til sögu Íslands I, 675. Tryggvi Þórhallsson 1989, 43. Björn Magnússon 1960, 17. Ísl. æviskrár II,

86 og V, 155.

[326] Safn til sögu Íslands I, 674.

[327] Safn til sögu Íslands I, 674.

[328] P.E. Ól. Menn og menntir II, 448-449.

[329] Ísl. æviskrár.

[330] D.I. XI, 364-365.

[331] Ísl. æviskrár I, 216.

[332] Sýslum.æfir IV, 188.

[333] Sama heimild.

[334] P.E. Ól. Menn og menntir III, 259.

[335] Sýslum.æfir II, 188.

[336] Alþ.bækur Íslands I, 21.

[337] P.E. Ól. M. og m. III 350.

[338] Ísl. æviskrár V, 155.

[339] Sama heimild og Lögréttum.tal IV, 568-569.

[340] Ísl. æviskrár V, 155.

[341] Lögréttum.tal III, 344.

[342] Blanda VIII, 366-369.

[343] Blanda VIII, 366-369.

[344] Blanda VIII, 366-369.

[345] Sama heimild og Sýslum.æfir II, 186.

[346] Blanda VIII, 366-369.

[347] Örn.skrá.

[348] Sama heimild.

[349] Annálar I, 179.

[350] Sýslum.æfir II, 188-189.

[351] Ísl. æviskrár II, 90 og Annálar I, 179.

[352] Annálar I, 179.

[353] Ísl. æviskrár II, 90.

[354] Ísl. æviskrár II, 90.

[355] Annálar I, 179.

[356] Safn til sögu Íslands I, 645.

[357] Sama heimild.

[358] Ísl. æviskrár III, 118-119 og 423.

[359] Ísl. æviskrár I, 319-320.

[360] P.E. Ól. Menn og menntir IV, 73 og Ísl. æviskrár III, 118-119.

[361] Sýslum.æfir II, 220, Ísl. æviskrár III, 118-119 og Lögréttum.tal III, 278-279.

[362] Safn til sögu Íslands I, 640-701.

[363] P.E. Ól. M. og m. IV, 76.

[364] Safn til sögu Íslands I, 688.

[365] Sama heimild, 645.

[366] Sama heimild.

[367] Annálar I, 179-180.

[368] P.E. Ól. Menn og menntir IV, 75.

[369] Sama heimild, 74.

[370] Safn til sögu Íslands I, 645.

[371] Lögréttum.tal III, 278-279.

[372] Safn til sögu Íslands I, 646.

[373] Sama heimild.

[374] Sama heimild, 647.

[375] Annálar III, 67.

[376] Ársrit S. Í. 1957, 100.

[377] Valdimar Kristinsson. – Viðtal K.Ó. við hann 3.7.1992.

[378] Sama heimild.

[379] Ísl. æviskrár V, 27-28.

[380] Ísl. æviskrár.

[381] Sama heimild.

[382] Annálar III, 229 og 279, sbr. Lögréttum.tal II, 158-159.

[383] Ísl. æviskrár IV, 144.

[384] Jarðabók Á. og P. VII, 75.

[385] Rtk. 2.1. Stríðshjálpin 1681 – Jarðaskrá og búenda í Skálholtsbiskupsdæmi.

[386] Manntal 1703 og Jarðabók Á. og P. VII, 75.

[387] Sýslum.æfir II, 232.

[388] Jarðabók Á. og P. VII, 75.

[389] Sama heimild.

[390] Sama heimild.

[391] Sýslum.æfir II, 232.

[392] Sama heimild.

[393] Annálar III, 279.

[394] Sama heimild.

[395] Alþ.bækur Íslands VII, 154-155.

[396] Ísl. æviskrár IV, 303.

[397] Alþ.bækur Íslands VII, 154-155.

[398] Alþ.bækur Íslands VII, 154-155.

[399] Sama heimild, 216-218.

[400] Sama heimild.

[401] Alþ.bækur Íslands VII, 154-155.

[402] Sama heimild.

[403] Sama heimild, 368-370.

[404] Sama heimild, 300, 319, 338 og 370.

[405] Alþ.bækur Íslands VII, 300, 319, 338 og 370.

[406] Sama heimild.

[407] Sama heimild.

[408] Sama heimild.

[409] Sama heimild.

[410] Sama heimild.

[411] Sama heimild.

[412] Alþ.bækur Íslands VII, VIII og IX.

[413] Alþ.bækur Íslands IX.

[414] Björn. Þorst. 1986, 32-33.

[415] Alþ.bækur Íslands VII, 419-420.

[416] Halldór Kiljan Laxness 1957, 10. (Íslandsklukkan 2. útg.).

[417] Annálar III, 310.

[418] Alþ.bækur Íslands VIII, 429-430.

[419] Alþ.bækur Íslands VII, 503-504.

[420] Sama heimild.

[421] Sama heimild.

[422] Magnús Ket. 1787, 190 (Félagsrit Lærdómslistafélags).

[423] Annálar III, 313.

[424] Ísl. æviskrár I, 198.

[425] Alþ.bækur Íslands VII, 565-566 og 569.

[426] Magnús. Ket. 1787, 190.

[427] Magnús. Ket. 1787, 190.

[428] Sama heimild.

[429] Annálar III, 321-322.

[430] Gísli Gunnarsson 1987, 258.

[431] Annálar III, 321-322.

[432] Alþ.bækur Íslands VII og VIII.

[433] Sömu heimildir.

[434] Alþ.bækur Íslands VII, 170.

[435] Sýslum.æfir II, 232.

[436] Alþ.bækur Íslands VII, 275 og 290.

[437] Ísl. æviskrár IV, 144.

[438] Alþ.bækur Íslands IX, 260-262, 265-266, 348-349, 351-352, 361 og 481-482.

[439] Alþ.bækur Íslands IX, 260-262, 265-266, 348-349, 351-352, 361 og 481-482.

[440] Sömu heimildir.

[441] Sömu heimildir.

[442] P.E. Ól. 1943, 97-98.

[443] Árbækur Espólíns VIII, 116.

[444] Alþ.bækur Íslands IX, 507.

[445] Sama heimild og Páll E. Ól. 1943, 79-80, – sbr. Annálar III, 397 og Alþ.bækur Íslands IX, 51-52.

[446] Alþ.bækur Íslands IX, 511, 534, 542, 546, 557, 565, 566, 575 og 592.

[447] P.E. Ól. 1943, 79-80, – sbr. Páll E. Ól. 1942, 171-175 og Ísl. æviskrár IV 212.

[448] Alþ.bækur Íslands VIII, 500-501 og 503.

[449] Sama heimild.

[450] Alþ.bækur Íslands VIII, 500-501 og 503.

[451] Sama heimild, 503.

[452] Sýslum.æfir II, 232.

[453] Sama heimild.

[454] Þjóðsögur Jóns Árnasonar VI, 10.

[455] Lögréttum.tal IV, 579.

[456] Ísl. æviskrár V, 8.

[457] Lýður Björnsson 1974, 34-35 (Ársrit S.Í.).

[458] Ísl. æviskrár IV, 84.

[459] Þjóðsögur J.Á. VI, 19; Lögr.mannatal IV, 579.

[460] Friðrik Eggerz 1950, 27-28.

[461] Ísl. æviskrár V, 30-31.

[462] Sama heimild.

[463] Jarðabók Á. og P. VII, 75.

[464] Ísl. æviskrár III, 294 og IV, 144.

[465] Manntal 1703, bls. 484.

[466] Manntal 1801 – Vesturamt, bls. 278; Ól.Þ.Kr. 1948, 62 (Frá ystu nesjum IV). Ól.Ól. 1957, 26 (Ársrit S.Í.).

[467] Bændatöl og skuldaskrár 1720-1765, Ísafj.sýsla um 1735, eftirrit.

[468] Ísl. æviskrár I, 8-9.

[469] Lbs. 23604to, bls. 166-168.

[470] Sama heimild.

[471] Sama heimild.

[472] Ísl. æviskrár III, 294.

[473] Lbs. 23604to, bls. 166-168.

[474] Ól. Ól. 1957, 26 – sbr. Ól.Þ.Kr. 1948, 62.

[475] Ól.Þ.Kr. 1948, 62 og Ól. Ól. 1957, 26.

[476] Ól. Ól. 1957, 25- 26.

[477] Ól.Þ.Kr. 1948, 62.

[478] Sama heimild, 62-63.

[479] Ól.Þ.Kr. 1948, 62-63 (Frá ystu nesjum IV) og Ísl. æviskrár V, 188.

[480] Annálar VI, 190.

[481] Sigfús H. Andrésson I, 144-145.

[482] Annálar VI, 202-203.

[483] Annálar V, 387.

[484] Annálar V, 298.

[485] Annálar V, 387.

[486] Lbs. 23604to, bls. 166-168.

[487] Ól.Þ.Kr. 1948, 64 (Frá ystu nesjum IV).

[488] Sóknarm.töl Dýrafj.þinga og Ól.Þ.Kr. 1948, 63-65 (Frá ystu nesjum IV).

[489] Ól.Þ.Kr. 1948, 65-78.

[490] Prestsþj.b. Dýrafj.þinga.

[491] Manntal 1801 og Prestsþj.b. Dýrafj.þinga.

[492] Prestsþj.b. Dýrafj.þinga og Ísl. æviskrár III, 69-70.

[493] Prestsþj.b. Dýrafj.þinga.

[494] Sama heimild og Ísl. æviskrár III, 15.

[495] Prestsþj.b. Dýrafj.þinga – sbr. Manntal 1801, Vesturamt, bls. 295. Sjá einnig hér Meiri-Garður

[496] Prestsþj.b. Dýrafj.þinga.

[497] Prestsþj.b. Dýrafj.þinga og Manntöl 1835 og 1845 (Alviðra).

[498] Prestsþj.b. Dýrafj.þinga.

[499] Prestsþj.b. Dýrafj.þinga.

[500] Sama heimild.

[501] Prestsþj.b. Dýrafj.þinga og Manntal 1835.

[502] Manntal 1835.

[503] Manntal 1845.

[504] Manntal 1860.

[505] Manntal 1835.

[506] Prestsþj.b. Dýrafj.þinga.

[507] Ól.Þ.Kr. 1948, 64-65 (Frá ystu nesjum IV).

[508] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XVI. 1. – Veðmálabók 1804-1844, bls. 142.

[509] Sama heimild.

[510] Ísl. æviskrár III, 265.

[511] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XVI. 1. – Veðmálabók 1804-1844, bls. 142. Sbr. Einar Laxness 1977, 104.

[512] Sama heimild.

[513] VA III, 407, búnaðarskýrslur.

[514] Manntöl 1845, 1850 og 1855 og Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XVI. 2.– Veðmálab. 1856-1869.

[515] J. Johnsen 1847, 193.

[516] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XVI. 2. – Veðmálabók 1856-1869.

[517] Sama heimild.

[518] Sama heimild.

[519] VA III, 407, búnaðarskýrslur.

[520] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 2. – búnaðarskýrsla.

[521] Sama heimild.

[522] Sama heimild.

[523] Sama heimild.

[524] Sama heimild.

[525] Sama heimildarsafn V.-Ís. 4. (Hreppsbók Mýrahrepps).

[526] Sama heimild.

[527] Sama heimild.

[528] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XVI. 2. – Veðmálabók 1856-1869.

[529] Sama heimild.

[530] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Dýrafj.þinga og Rafnseyrarpr.kalls, – sbr. G.G.Hag. 1951, 22.

[531] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XVI. 2. – Veðmálabók 1856-1869.

[532] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XVI. 2. – Veðmálabók 1856-1869.

[533] Skýrslur um landshagi I, 262 og IV, 486.

[534] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XVI. 2. – Veðmálabók 1856-1869.

[535] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf., – dánir árið 1858.

[536] Manntöl 1850 og 1855.

[537] Manntal 1855, Lokinhamrar í Álftamýrarsókn.

[538] Manntal 1860.

[539] Sama heimild.

[540] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XVI. 2. – Veðmálabók 1856-1869.

[541] Nath.Mós.: Óprentuð ritgerð um hákarlaútgerð Dýrfirðinga 1865-1892, ljósrit í vörslu K.Ó.

[542] Sama heimild.

[543] Sóknarm.töl og prestsþj.b. Dýrafj.þinga og Álftamýrarprestakalls.

[544] Landsyfirréttar- og hæstaréttardómar í íslenskum málum 1802-1874 XI, 7-9.

[545] Sóknarm.töl Dýrafj.þinga.

[546] Landsyfirréttar- og hæstaréttardómar XI, 7-9.

[547] Sama heimild.

[548] Landsyfirréttar- og hæstaréttardómar XI, 7-9.

[549] Sama heimild.

[550] Prestsþj.b. Dýrafj.þinga.

[551] Prestsþj.b. og sóknarm.töl  Dýrafj.þinga; Lbs. 23744to, Dagbók S.G.B. 8.7.1887.

[552] Lbs. 23744to, Dagbók S.G.B. 8.7.1887.

[553] G.G. Hag. 1951, 52.

[554] G.G. Hag. 1951, 52.

[555] Sóknarm.töl Dýrafj.þinga.

[556] G.G.Hag. 1951, 52.

[557] Lbs. 23744to, Dagbók S.G.B. 12.2.1890.

[558] Prestsþj.b og sóknarm.töl Dýrafj.þinga og Sandapr.kalls.

[559] Lbs. 23744to, Dagbók S.G.B. 15.12.1888.

[560] Sama dagbók 22.2.1890 og 30.3.1890.

[561] Sama dagbók 16.2.1876.

[562] Snorri Sigfússon 1969, 141-142.

[563] Ísl. æviskrár V, 423.

[564] Lbs. 23744to, Dagbók S.G.B. 5.6.1892.

[565] Hulda Sigmundsdóttir 1985, 89 (Ársrit S.Í.).

[566] Sama heimild.

[567] Lbs. 22174to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 3.11.1896.

[568] Sama heimild.

[569] G.G. Hag. 1951, 52-53.

[570] Sóknarm.töl Dýrafj.þinga.

[571] Valdimar Kristinsson. – Viðtal K.Ó. við hann 24.6.1988.

[572] Sama heimild.

[573] Jarðabók Á. og P. VII, 76-78 og Sóknalýs. Vestfjarða II, 75-76.

[574] Sömu heimildir.

[575] Sömu heimildir.

[576] Sömu heimildir.

[577] Sömu heimildir.

[578] Jarðabók Á. og P. VII, 77.

[579] Rtk. 2.1. Stríðshjálpin 1681, jarðaskrá og búenda í Skálholtsbiskupsdæmi.

[580] Jarðabók Á. og P. VII, 76-77.

[581] Sama heimild.

[582] Sbr. Ól.Lár. 1944, 40 og 49-50.

[583] Sóknalýs. Vestfj. II, 75.

[584] Bændatal úr Ísafj.sýslu frá því um 1735; Manntöl 1845 og 1890.

[585] VA III, 418-421 – búnaðarskýrslur 1866, sbr. búnaðarskýrslur 1862-1865 og 1867-1873.

[586] Manntal 1890.

[587] Jarðabók Á. og P. VII, 77.

[588] Sama heimild.

[589] Sama heimild

[590] Ferðabók Olaviusar I, 177-178.

[591] Manntöl frá 19. öld og Sóknarm.töl Dýrafj.þ. – sbr. J.Johnsen 1847, 193 og Sóknalýs. Vestfj. II, 75-76.

[592] Sóknalýs. Vestfj. II, 75.

[593] Valdimar Kristinsson. – Viðtal K.Ó. við hann 3.7.1992.

[594] Örn.skrá.

[595] Valdimar Kristinsson. – Viðtal K.Ó. við hann 3.7.1992.

[596] Jarðabók Á. og P. VII, 76.

[597] Sóknalýs. Vestfj. II, 75.

[598] Örn.skrá.

[599] Sama heimild.

[600] Örn.skrá og Valdimar Kristinsson. – Viðtal K.Ó. við hann 3.7.1992.

[601] Jarðabók Á. og P. VII, 76.

[602] Sóknalýs. Vestfj. II, 75.

[603] Valdimar Kristinsson. – Viðtal K.Ó. við hann 3.7.1992.

[604] Sóknalýs. Vestfj. II, 76.

[605] Örn.skrá og Valdimar Kristinsson. – Viðtal K.Ó. við hann 3.7.1992.

[606] Sóknalýs. Vestfj. II, 76.

[607] Sama heimild.

[608] Sama heimild og Örn.skrá.

[609] Örn.skrá.

[610] Örn.skrá.

[611] Valdimar Kristinsson. – Viðtal K.Ó. við hann 3.7.1992.

[612] Örn.skrá.

[613] Valdimar Kristinsson. – Viðtal K.Ó. við hann 3.7.1992.

[614] Sama heimild.

[615] Manntöl, Sóknarm.töl Dýrafj.þinga og G.G.Hag. 1952, 208-209.

[616] Sóknarm.tal Dýrafj.þinga 31.12.1906 og H.Kr. 1964, 76.

[617] Jarðabók Á. og P. VII, 77.

[618] Sama heimild.

[619] Jarðabók Á. og P. VII, 77.

[620] Jarðabók Á. og P. VII, 77.

[621] Sama heimild.

[622] Þorv.Thor. Lýsing Íslands III, 44-45.

[623] Jarðabók Á. Og P. VII, 77.

[624] E.Lax. 1987, 274-276.

[625] J.Johnsen 1847, 193.

[626] Manntal 1703.

[627] Sama heimild.

[628] Sama heimild.

[629] Sama heimild.

[630] Manntal 1703.

[631] Jarðabók Á. og P. VII 75-78.

[632] Sama heimild og Manntal 1703.

[633] Jarðabók Á. og P. VII, 75-78.

[634] Sama heimild.

[635] Sama heimild.

[636] Sama heimild.

[637] Sama heimild.

[638] Manntal 1801.

[639] Manntal 1845.

[640] Manntal 1901.

[641] Sama heimild.

[642] Sama heimild.

[643] Sama heimild.

[644] Sóknarm.töl Dýrafj.þinga.

[645] Sama heimild.

[646] Sama heimild.

[647] Prestsþj.b. Dýrafj.þinga.

[648] Sama heimild.

[649] Sama heimild.

[650] Ísl. æviskrár III, 165; Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. IV. 4. Dóma- og þingbók 1790-1805, réttarhald á

Mýrum 25.4.1799.

[651] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. IV. 4. Dóma- og þingbók 1790-1805, réttarhald á Mýrum 25.4.1799.

[652] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. IV. 4. Dóma- og þingbók 1790-1805, réttarhald á Mýrum 25.4.1799.

[653] Sama heimild.

[654] Sama heimild.

[655] Sama heimild.

[656] Ísl. æviskrár V, 234.

[657] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. IV. 4. Dóma- og þingbók 1790-1805, réttarhald á Mýrum 25.4.1799.

[658] Sama heimild.

[659] Sama heimild.

[660] Sama heimild.

[661] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. IV. 4. Dóma- og þingbók 1790-1805, réttarhald á Mýrum 25.4.1799.

[662] Sama heimild.

[663] Sama heimild.

[664] Sóknarm.töl Dýrafj.þinga 1785-1798.

[665] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. IV. 4. Dóma- og þingbók 1790-1805, réttarhald á Mýrum 25.4.1799.

[666] Sama heimild.

[667] E.Lax. 1987, 12.

[668] Skj.s. stiftamtm. III, nr. 177, bréf J.Johnsons sýslum. 2.7.1799 til Ólafs Stefánssonar stiftamtmanns.

[669] Sama heimild.

[670] Sama heimild.

[671] Sama heimild.

[672] VA III, 35, nr. 832, bréf Stefáns Stephensen varalögm. 12.9.1799 til J.Chr.Vibes amtm. í Vesturamti.

[673] Sama heimild, – sbr. Ísl. æviskrár IV, 335-336.

[674] VA III, 35, nr. 832, bréf Stefáns Stephensen varalögm. 12.9.1799 til J.Chr.Vibes amtm. í Vesturamti.

[675] Sama heimild.

[676] Sama heimild.

[677] Skj.s. stiftamtm. III, nr. 237. Skrár um fangahald 1785-1802.

[678] VA III, 35, nr. 832, bréf Stefáns Stephensen varalögm. 12.9.1799 til J.Chr.Vibes, amtm. í Vesturamti.

[679] Skj.s. stiftamtm. III, nr. 237. Skrár um fangahald 1785-1802.

[680] Sama heimildasafn nr. 238. Vinnuskrár fanga 1785-1807.

[681] Sama heimildasafn nr 237.Skrár um fangahald 1785-1802.

[682] Sama heimild.

[683] Sóknarm.töl og prestsþj.b. Dýrafj.þinga.

[684] Sömu heimildir.

[685] Sóknarm.töl og prestsþj.b. Dýrafj.þinga.

[686] Sömu heimildir.

[687] Manntal 1801 – Vesturamt, bls. 277-278 (sbr. hér bls. xx (XII, 7-10)).

[688] Sóknarm.töl og prestsþj.b. Dýrafj.þinga.

[689] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. IV. 4. Dóma- og þingbók 1790-1805, réttarhald á Mýrum 25.4.1799.

[690] Sama heimild.

[691] Skj.s. stiftamtm. III nr. 237. Skrár um fangahald 1785-1802.

[692] Manntal 1801.

[693] Sama heimild.

[694] Manntal 1801.

[695] Manntal 1801 og Sóknarm.töl Dýrafj.þinga 1785-1805.

[696] Sóknarm.tal Dýrafj.þinga 1805.

[697] Sama heimild.

[698] Prestsþj.b. Dýrafj.þinga.

[699] Skj.s. stiftamtm. III, nr. 237, skrár um fangahald 1785-1802, og nr. 238, vinnuskrár fanga 1785-1807.

[700] Sóknarm.töl Reykjavíkurprestakalls janúar 1799 og janúar 1800.

[701] Sama heimild.

[702] Sama heimild.

[703] Manntal 1801 ásamt nafnalykli sem því fylgir.

[704] Manntal 1801 ásamt nafnalykli sem því fylgir og Manntal 1816.

[705] Manntal 1801.

[706] Sama heimild.

[707] Borgfirskar æviskrár VII, 275.

[708] Sama heimild.

[709] Sama heimild og Manntal 1816.

[710] Borgf. æviskrár VII, 275.

[711] Sóknarm.töl Dýrafj.þinga. Manntöl 1890 og 1901.

[712] Manntal 1901.

[713] G.G. Hag. 1951, 191.

[714] G.G. Hag. 1953, 222 og 228.

[715] Sama heimild, 197-228.

[716] G.G. Hag. 1953, 228-229.

[717] G.G. Hag. 1953, 220-222 og 230-234.

[718] Sama heimild.

[719] Sama heimild.

[720] Sama heimild, – sbr. Þórbergur Þórðarson 1975, 32-35 ( Edda).

[721] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Dýrafj.þinga.

[722] Óðinn XII, mars 1917, bls. 89-90.

[723] Sama heimild og Skýrsla Hins lærða skóla …. 1899-1900,33.

[724] Thorvald Krabbe / Tímarit Verkfr.félags Íslands II, 1-2.

[725] Thorvald Krabbe / Tímarit Verkfr.félags Íslands II, 1-2.

[726] Sama heimild.

[727] Óðinn XII, mars 1917, bls. 89-90.

[728] Sama heimild.

[729] Thorvald Krabbe / Tímarit Verkfr.félags Íslands II, 1-2; Landið þitt Ísland …

[730] Óðinn XII, mars 1917, bls. 89-90.

[731] Ísl. æviskrár IV, 184 og III, 109-110.

[732] Kristinn Kristmundsson og Þórleifur Bjarnason 1971, 109.

[733] Sama heimild og Óðinn XII, mars 1917, bls. 89-90.

[734] Óðinn XII, mars 1917, bls. 89-90.

[735] Valdimar Kristinsson – Viðtal K.Ó. við hann 3.7.1992.

[736] Sóknalýs. Vestfj. II, 76.

[737] Valdimar Kristinsson – Viðtal K.Ó. við hann 3.7.1992. Sbr. Prestsþj.b. og sóknarm.töl Dýrafj.þinga.

[738] Sama heimild.

[739] Sama heimild.

[740] Arnór Árnason, Vöðlum – Viðtal K.Ó. við hann 3.8.1993.

[741] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Dýrafj.þinga.

[742] Sömu heimildir.

[743] Sömu heimildir.

[744] Sóknarm.töl Dýrafj.þinga.

[745] Valdimar Kristinsson – Viðtal K.Ó. við hann 3.7.1992.

[746] Sama heimild.

[747] Valdimar Kristinsson – Viðtal K.Ó. við hann 3.7.1992.

[748] Sama heimild.

[749] Sama heimild.

[750] Sama heimild.

[751] Sama heimild.

[752] Örn.skrá.

[753] Sama heimild.

[754] Sama heimild.

[755] Valdimar Kristinsson – Viðtal K.Ó. við hann 3.7.1992.

[756] Örn.skrá.

[757] Örn.skrá.

[758] Örn.skrá.

[759] Sama heimild.

[760] Jarðabók Á. og P. VII, 76.

[761] Örn.skrá.

[762] Sama heimild.

[763] Sama heimild.

[764] Sama heimild.

[765] Sama heimild.

[766] Lbs. 23744to og 23754to, Dagbækur S.G.B. 1873-1900.

[767] Lbs. 22174to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 18.7.1897.

[768] Lbs. 22174to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 18.7.1897.

[769] Örn.skrá.

[770] Sama heimild.

[771] Sama heimild.

[772] Sama heimild.

[773] Sama heimild.

[774] Sama heimild.

[775] Sama heimild.

[776] Sama heimild.

[777] D.I. XV, 435.

[778] D.I. XV, 435.

[779] Sama heimild, bls. 433-435.

[780] Jarðabók Á. og P. VII, 80.

[781] Sama heimild.

[782] Sama heimild.

[783] Vestf. sagnir II, 391-392.

[784] Sama heimild.

[785] Sama heimild.

[786] Örn.skrá.

[787] Vestf. sagnir II, 391-392.

[788] Sama heimild.

[789] Örn.skrá.

[790] Sama heimild.

[791] Sama heimild.

[792] Sama heimild.

[793] Sama heimild.

[794] D.I. XV, 434.

[795] Sama heimild, bls. 435.

[796] Sama heimild.

[797] Jarðabók Á. og P. VII, 76 og 80.

[798] Örn.skrá.

[799] G.G. Hag. 1973, 80.

[800] Örn.skrá.

[801] Valdimar Kristinsson – Viðtal K.Ó. við hann 3.7.1992.

[802] Sama heimild.

1000-1900

Guðmundur Justsson

Á fyrri hluta 20. aldar var Guðmundur Justsson, sem fæddist á Gemlufalli haustið 1841,[1] einna kunnastur þeirra sem búið höfðu á Dröngum, a.m.k. utan Dýrafjarðar,

LESA MEIRA »
1000-1900

Krossadalur

Í Krossadal var löngum tvíbýli á fyrri tíð, Hærri- og Lægri- (eða Neðri-) Krossdalur, og voru þetta ystu bæir við Tálknafjörð. Stundum var reyndar þríbýli

LESA MEIRA »
1000-1900

Arnarstapi

Arnarstapi og Krossadalur voru tvær ystu jarðirnar á norðurströnd Tálknafjarðar og hafa nú báðar verið í eyði frá því um 1940.[1] Frá verbúðatóttunum í Arnarstapavík

LESA MEIRA »