Ytri-Hjarðardalur

Ytri-Hjarðardalur

Frá Dalsófæru innan við Valþjófsdal er um það bil hálftíma gangur inn að Hjarðardalssjó og liggur leiðin um Ófæruhlíð undir fjallinu Þorfinni.

Neðan við fjallsbrúnina er mikill klettaveggur. Í honum er Breiðhilla, lítið eitt ofan við neðstu klettana en nálægt miðju fjalli ef mælt er frá fjöru á brún.[1] Hilla þessi er talin vel fær en annan þræðing, sem er ofar í fjallinu og heitir Gangur, fara aðeins vanir klettamenn.[2] Tvær erfiðar hindranir urðu á vegi þeirra sem gengu fjallið. Önnur þeirra er Strengbergið sem nær ofan frá fjallsbrún og niður úr klettunum.[3] Fyrir það má heita ófært í efri þræðingnum.[4] Hin meginhindrunin er Grundarendagjá, klettaskora innarlega í fjallinu.[5] Þar er mikið um snjóflóð.[6]

Þrjár skálar eru hér í háfjallinu. Ytriskál, síðan Litlaskál og loks Innriskál.[7] Niður úr Ytriskál gengur Hrafnagil og nær niður fyrir kletta.[8] Innriskál er beint upp af bænum í Ytri-Hjarðardal en milli hennar og Ytriskálar er standklettur sem heitir Skeggi.[9] Við Innriskál beygir fjallsbrúnin frá ströndinni til suðurs, við dalsmynnið þar sem Hjarðardalur opnast.

Göngu okkar inn Ófæruhlíð lýkur þegar komið er á Hjarðardalsgrundir en við þær er kennd Grundarendagjáin sem er aðeins utar og hér var áður nefnd. Fornahlað er kringlótt tóttarbrot utan við Grundarenda[10] en Gunnarstóttir, er svo hétu, á Hjarðardalsgrundum munu vera horfnar.[11] Yst á Hjarðardalsgrundum eru Hjarðardalsnaust en þaðan var róið til fiskjar á fyrri tíð. Hér við Hjarðardalssjóinn hefur á síðari árum verið komið upp vísi að minjasafni sem vert er að skoða. Eigandi safnsins er nú Búnaðarfélag Önundarfjarðar.[12] Stærsti gripurinn í safnhúsinu við Hjarðardalssjó er plógbáturinn, sem bræðurnir Guðmundur Eiríksson á Þorfinnsstöðum og Vigfús Eiríksson í Tungu í Valþjófsdal smíðuðu árið 1909.[13] Bátur þessi var notaður við kúfiskplægingu frá Hjarðardal í liðlega 30 ár eða frá 1909 til 1940 eða 1941, síðustu árin þó eingöngu til beituöflunar fyrir heimamenn.[14] Mikið var um kúfisk fram undan Hjarðardal og á árunum 1909-1926 seldu Hjarðardalsbændur útgerðarmönnum við Ísafjarðardjúp verulegt magn af þessari ágætu beitu.[15] Upp úr 1926 dró verulega úr kúfiskveiðum frá Hjarðardal en Daníel Benediktsson á Kirkjubóli í Valþjófsdal hóf þá kúfiskveiðar og stundaði þær lengi.[16] Á árum kúfiskveiðanna frá Hjarðardalssjó komu bátar frá Ísafirði, Hnífsdal og Bolungavík vestur í Önundarfjörð til að sækja kúfiskinn sem þeir keyptu í Hjarðardal.[17] Kristján Jóhannesson, bóndi í Ytri-Hjarðardal, sá jafnan um útgerð plógbátsins og var oftast formaður við kúfiskveiðarnar.[18] Fjórir menn voru þá í áhöfninni. Seinna var þessi sami bátur notaður til að flytja mjólk frá Hjarðardalssjó fram í Djúpbátinn sem lengi annaðist mjólkurflutninga til Ísafjarðar.[19] Við þessa flutninga var plógbáturinn notaður áður en bryggju var komið upp við Holtssjó[20] en hún mun hafa verið byggð árið 1958 (sjá Firðir og fólk 1900-1999, 332). Í minjasafninu er líka gangspil og plógur frá tíma kúfiskveiðanna. Fjöldi annarra gripa er í safninu og tengjast flestir landbúnaði eða sjósókn Önfirðinga en einnig ferðalögum og nefna má smíðasafn Jóns Hagalínssonar í Innri-Hjarðardal en í skápnum hans eru meðal annars 23 heflar.

Safnhúsið í Hjarðardal stendur þar sem áður var verbúð.[21] Innan við það eru þrjú gömul hróf og þar rétt fyrir ofan og innan tótt af gamalli verbúð sem kennd er við bæinn Vaðla í Bjarnardal.[22] Búð þessi stóð uppi nokkuð fram yfir aldamótin 1900 en Vaðlamenn stunduðu haustróðra frá Hjarðardalssjó á síðustu árum 19. aldar og lágu þá við í búðinni.[23]

Á liðnum öldum reru bændur úr Hjarðardal og frá bæjunum í Bjarnardal yfirleitt frá Kálfeyri handan við fjörðinn á vorvertíð (sjá hér Mosvallahreppur, inngangskafli) en á haustin munu Hjarðardalsbændur hafa róið úr heimavör og eitthvað var um að menn frá nálægum bæjum væru hér við róðra að haustlagi. – Heimræði hefur hér stundum brúkast á sumar og haust, segir um Ytri-Hjarðardal í Jarðabókinni frá 1710 og þar er tekið fram að lending sé hér góð og skipsuppsátur gott.[24] Guðmundur Eiríksson á Þorfinnsstöðum, sem fæddur var 1853, segir í ritgerð að á árunum kringum 1860 hafi oft verið róið á haustin frá bæjum utantil í Önundarfirði[25] og má ætla að hann vísi þar meðal annars til róðra frá Hjarðardalssjó.

Á vorin reru bændur í Hjarðardal frá Kálfeyri fram yfir 1920 en árið 1924 keypti Guðmundur Gilsson í Innri-Hjarðardal vélbát og stundaði línuróðra á honum héðan frá Hjarðardalssjó á vorin frá 1924 til 1941.[26] Þessi bátur hét Maja, smíðaður af Guðmundi Péturssyni á Flateyri árið 1922.[27] Árið 1930 keypti Kristján Jóhannesson í Ytri-Hjarðardal vélbát frá Súgandafirði sem hét Svanur og var hann líka gerður út frá Hjarðardalssjó á næstu árum.[28] Bæði Svanur og Maja voru þriggja tonna bátar[29] og var þeim einkum haldið til veiða á vorin en eitthvað var líka um haustróðra.[30]

Á þessum árum átti Kristján í Ytri-Hjarðardal verbúð hér við Hjarðardalssjó og stóð hún þar sem safnhúsið er nú.[31] Í verbúðinni voru a.m.k. þrjú rúm og lágu menn frá Ytri-Hjarðardal þar við á vorin.[32] Eitthvað var líka um það að menn frá öðrum bæjum, sem voru í skiprúmi hjá Kristjáni eða Jóhannesi syni hans á Svaninum, héldu til í verbúðinni.[33] Frá Innri-Hjarðardal var hins vegar jafnan gengið til sjávar fyrir hvern róður á þeim árum sem Guðmundur Gilsson reri héðan á Maju.[34] Er sú vegalengd um það bil einn og hálfur kílómetri.

Árið 1941 seldi Kristján Jóhannesson Svaninn og þá var línuróðrum hætt frá Hjarðardalssjó.[35] Kristján lét þá setja vél í árabát og næstu árin voru kolaveiðar í net stundaðar frá báðum bæjunum í Hjarðardal.[36] Um eða upp úr 1945 var hætt nær alveg við kolaveiðarnar og þaðan í frá hefur sjaldan verið róið til fiskjar frá Hjarðardalssjó. Allt fram um 1960 var þó farið stöku sinnum á sjó á árabátum til að fá sér í soðið, þorsk á færi eða kola í net.[37] Nú (1993) er liðinn um það bil aldarþriðjungur frá því síðast var farið í slíkan róður frá hinni fornu lendingu við Hjarðardalssjó.

Ýmsum koma líklega á óvart þau tíðindi að hér skuli hafa verið löggilt verslunarhöfn en sú er þó reyndin því árið 1936 birtist í Stjórnartíðindum opinber tilkynning um löggildingu verslunarstaðar í Hjarðardal við Önundarfjörð.[38] Sextán árum fyrr var verslunarstaður löggiltur í Valþjófsdal (sjá hér Kirkjuból í Valþjófsdal) en ráðagerðir um verslunarrekstur við Dalssjó og í Hjarðardal komust þó aldrei til framkvæmda. Innan Kaupfélags Önfirðinga voru um skeið uppi áform um að tryggja kaupskipasiglingar að Hjarðardalssjó og að vörum yrði skipað þar á land og Kristján Jóhannesson, sem bjó í Ytri-Hjarðardal frá 1909 til 1959, var með verslunarleyfi.[39]

Það voru bændurnir í Hjarðardal, þeir Kristján Jóhannesson og Guðmundur Gilsson, sem beittu sér fyrir því að fá höfn löggilta við Hjarðardalssjó.[40] Að sögn kunnugra var tilgangurinn fyrst og fremst sá að fá allt þetta hafnarsvæði friðað fyrir sumarveiðum báta úr fjarlægum byggðarlögum sem voru að skarka þarna með snurvoð,[41] veiðarfæri sem Önfirðingar voru þá ekki enn farnir að nota.[42] Löggildingu hafnarinnar fylgdi sjálfkrafa bann við veiðum utanaðkomandi báta inn á hafnarsvæðinu.[43] Í þessum efnum náðist fullur árangur en úr ráðagerðum um uppskipun á varningi úr kaupskipum varð hins vegar aldrei neitt.[44]

Frá bátaeign Hjarðardalsmanna á árunum 1850-1880 og þátttöku þeirra í þilskipaútgerð á 19. öld segir hér á öðrum stað (sjá hér bls. 31-36)

Héðan frá Hjarðardalssjó var stundum gengið á ís yfir á Flateyri á fyrri tíð.[45] Þann 27. febrúar 1892 drukknaði ungur piltur hér frammi á firðinum þegar ísinn brast undir fótum hans.[46] Hann hét Kristján Jóhannesson og var frá Álfadal á Ingjaldssandi.[47] Kristján mun hafa lagt af stað frá Sólbakka og ætlað að ganga á ísnum yfir í Holtsodda.[48] Magnús Hjaltason segir að bóndasonur þessi frá Áfladal hafi verið 15 eða 16 ára þegar dauðinn beið hans í vökinni en tekur fram að hinn skammlífi unglingur hafi verið fræðimannsefni.[49]

Vegalengdin frá sjónum heim að Ytri-Hjarðardal er rétt liðlega einn kílómetri. Ofan við Hjarðardalsnaust er Naustaskriða uppi í fjallinu en innar og neðar er gamall stekkur.[50]

Innan við fjallið Þorfinn tekur við talsvert undirlendi meðfram fjarðarströndinni og nær frá Hjarðardalssjó og inn fyrir mynni Bjarnardals en þar á milli eru fimm til sex kílómetrar. Á þessu svæði eru víða einn til tveir kílómetrar milli fjöru og fjalls og upp frá flatlendi þessu ganga tveir dalir til suðurs, Hjarðardalur og Bjarnardalur. Milli þeirra er Holtsfjall og nærri miðju gróðurlendisins við fjarðarströndina stendur hinn forni kirkjustaður og prestssetur, Holt í Önundarfirði. Innan við Holt opnast Bjarnardalur en Hjarðardalur er lítið eitt utar en prestssetrið. Neðan við dalsmynnið og rétt utantil við það standa þrír bæir: Ytri-Hjarðardalur, Innri-Hjarðardalur og Þórustaðir sem er gömul hjáleiga frá Holti. Örskammt er á milli þessara þriggja bæja og liggja tún þeirra saman. Í daglegu tali Önfirðinga munu þessar þrjár samliggjandi jarðir oft hafa verið nefndar Bæirnir.[51] Við göngum nú í hlað í Ytri-Hjarðardal og stöldrum þar við um stund.

Ytri-Hjarðardalur var að fornu mati talinn allt að 68 hundruð að dýrleika[52] og taldist vera stærsta jörðin í Mosvallahreppi ef sú hundraðatala var tekin gild. Þá er Holt undanskilið en sú jörð var kirkjulén og þar var jarðardýrleiki óviss.[53] Um dýrleika Ytri-Hjarðardals voru menn reyndar ekki á eitt sáttir í byrjun 18. aldar og í Jarðabókinni frá 1710 hefur Árni Magnússon þetta um málið að segja:

 

Jarðardýrleiki er næsta óviss. Menn kalla almennilega jörðina fern 17 hundruð hvað eð til samans gerir 68 hundruð og svo tíundast jörðin en ef menn bera dýrleikann saman við afgiftina eftir þeim hætti sem í sveitinni er, þá vildi hún verða miklu ódýrari.[54]

 

Árið 1710 var Ytri-Hjarðardalur konungsjörð og landskuldin var þá 9 vættir á ári[55] eða sem svaraði 180 álnum. Meðallandskuld af jörðum í Mosvallahreppi var þá liðlega 5 álnir fyrir hvert hundrað (sjá hér Mosvallahreppur, inngangskafli) og út frá þeirri viðmiðun mætti ætla að í raun hafi Ytri-Hjarðardalur aðeins verið virtur á 34 eða 36 hundruð á þeim tíma. Hjá gömlum Önfirðingum fékk Árni Magnússon hins vegar þær upplýsingar að um 1630 hefði landskuldin af Ytri-Hjarðardal verið 2 hundruð í fríðu,[56] það er 240 álnir, og út frá sams konar viðmiðun og áður gæti það talist vísbending um raunvirði upp á 48 hundruð. Reyndar fór því fjarri að jarðardýrleiki og jarðarafgjald væru í einhverjum föstum innbyrðis hlutföllum og hvað sem líður vangaveltum Árna Magnússonar eða annarra verður þeirri staðreynd ekki hnekkt að til tíundar var jörðin virt á 68 hundruð. Almennt var Ytri-Hjarðardalur líka kallaður 68 hundraða jörð eins og Árni Magnússon tekur sjálfur fram. Í Jarðabókinni gefur hann skýringu á lækkun landskuldarinnar um fjórðung á tímabilinu frá 1630 til 1710 og segir: Eftir þann tíma [þ.e. eftir 1630] hljóp stór skriða á túnið, hverrar merki enn nú sér ljóslega. Eru sagnir að þá hafi landskuldin verið aftur færð.[57] Skriðu þessa segir Árni hafa eyðilagt þriðjung af túninu.[58]

Árið 1858 var Ytri-Hjarðardalur seldur fyrir 1.600 ríkisdali[59] svo að hvert hundrað í jörðinni hefur þá verið virt á 23 ríkisdali og 48 skildinga. Fardagaárið 1858-1859 var opinbert kýrverð hins vegar 35 ríkisdalir og 64 skildingar[60] svo greinilegt er að í raun hefur dýrleiki jarðarinnar verið talinn um það bil þriðjungi minni en hin opinbera hundraðatala sagði til um.

Í Jarðabók Árna og Páls er fátt sagt um kosti og galla þessarar ágætu bújarðar. Tekið er fram að hagarnir spillist árlega af skriðum og engjarnar liggi undir skemmdum vegna skriðufalla og ágangs árinnar[61] sem fellur um dalinn og skiptir löndum milli Ytri-Hjarðardals og Innri-Hjarðardals. Vetrarbeit er sögð betri en almennt gerist og þess getið að sú litla hrognkelsaveiði sem hér hafi áður verið heyri nú sögunni til.[62] Í lok lýsingar sinnar á Ytri-Hjarðardal greinir Árni Magnússon frá því að bændur þar rói stundum til fiskjar úr heimavör á sumrin og haustin en ekki á vorvertíð því að þá sé of langt á miðin.[63]

Í Jarðabókinni frá 1710 er látinn í ljós uggur um að sandur úr Holtsmelum muni fyrr eða síðar valda miklum skaða í Ytri-Hjarðardal.[64] Sandurinn hafði þá þegar skemmt túnin í Innri-Hjarðardal og á Þórustöðum[65] en enn sem komið var hafði Ytri-Hjarðardalur sloppið að mestu við sandfokið. Þegar Ólafur Olavius ferðaðist um Ísafjarðarsýslu 65 árum síðar, árið 1775, virðist ástandið hafa verið orðið mun verra því hann segir að báðir Hjarðardalirnir og Þórustaðir séu næstum komnir í eyði vegna sandfoks (sjá hér Mosvallahreppur, inngangskafli). Aldrei fór þó svo illa að byggð á þessum jörðum legðist af og varla hefði umboðsmaður konungsjarða í Ísafjarðarsýslu, Ólafur Erlendsson, kosið að búa í Ytri-Hjarðardal ef jörðin hefði verið jafn illa farin og Olavius lætur liggja að. Frá búsetu hans á jörðinni er sagt hér á öðrum stað (sjá hér bls. 11-13) en umboðsmaður þessi dó í Ytri-Hjarðardal árið 1790 og hafði þá búið hér í allmörg ár.

Ekki þarf þó að efast um að jörðin hafi spillst verulega af völdum sandfoks og skriðufalla og séra Tómas Sigurðsson í Holti segir árið 1840 að bújörðin Ytri-Hjarðardalur sé skaða undirköstuð, bæði tún og engi fordérfað af skriðum úr fjallinu, ánni og flugsandi.[66] Dómur séra Tómasar um jörðina er sá að hún sé heyskaparlítil og orðin beitarlítil vegna skriðufalla.[67]

Alltaf mun samt hafa þótt gott undir bú í Ytri-Hjarðardal því þar bjuggu löngum efnamenn á nítjándu öldinni, lengst Ebenezer Þorsteinsson sýslumaður og síðan ekkja hans, Guðrún Þórðardóttir, en búskaparár þeirra hér urðu nær fimmtíu.

Nú hefur fyrir löngu verið ráðin bót á sandfokini úr Holtsmelum. Ekki er ólíklegt að áveituframkvæmdir séra Stefáns P. Stephensen í Holti á árunum kringum 1880 hafi orðið þar til nokkurra bóta (sjá hér Holt) því sagt er að vegna áveitunnar hafi Hvítisandur í Holti tekið að gróa upp.[68] Árið 1945 var norðurhluti melanna girtur af með sandgræðslugirðingu[69] og mun sú framkvæmd hafa orðið til mikilla bóta. Áður en girðingin var reist bar oft mikið á sandfokinu þegar horft var í norðurátt frá Kirkjubóli í Bjarnardal.[70]

Í matsgerð frá því um 1920 er jörðin Ytri-Hjarðardalur virt á 5.000,- krónur og er þá eingöngu átt við landverð.[71] Aðeins tvær jarðir í hinum forna Mosvallahreppi voru þá taldar verðmeiri, Holt og Kirkjuból í Valþjófsdal.[72] Af túninu í Ytri-Hjarðardal fengust þá um það bil 175 hestar af töðu en á engjum 355 hestar af útheyi.[73] Í þessari sömu matsgerð er túnið sagt vera grýtt en í meðallagi grasgefið.[74] Tekið er fram að stutt sé að fara á engjarnar og þær sagðar vera sendið valllendi.[75] Slægjulönd þessi lágu þó enn undir skemmdum af sandfoki og þó útheyið væri að jafnaði gott gat komið fyrir að það spilltist af leirburði úr ánni.[76]

Um 1920 var sauðfjárbeit talin vera í meðallagi hér í Ytri-Hjarðardal en kýrbeit léleg.[77] Helstu hús sem þá stóðu hér voru þessi:

 

  1. Íbúðarhús 21 x 9 álnir (það er um 75 fermetrar), portbyggt með kjallara og skúr við.
  2. Fjós, hlaða og steinsteypt haughús.
  3. Tvö fjárhús og tvær hlöður.
  4. Hesthús
  5. Hjallur með skúr.
  6. Súrheystótt með járnþaki.
  7. Skúr niður við sjó.[78]

 

Samtals voru húsin virt á 5.100,- krónur.[79] Lengd girðinga, sem upp voru komnar í Ytri-Hjarðardal árið 1920, var 2.122 metrar og stærð matjurtagarðsins taldist vera 532 fermetrar.[80] Engin hlunnindi fylgdu þá jörðinni nema beitutekja en fyrir kúfiskinn sem seldur var í beitu fengu bændurnir sem hér bjuggu um 150,- krónur á ári í tekjur.[81] Fyrir þá fjárhæð mátti þá kaupa sex eða sjö lambær.[82] Um kúfisktekjuna vísast til þess sem hér var áður ritað á öðrum stað (sjá bls. 1-2)

Í varðveittum heimildum mun Hjarðardals hins ytra fyrst vera getið í máldaga Holtskirkju frá árinu 1377 eða þar um bil[83] því kirkjustaðurinn Hjarðardalur sem nefndur er í skjali frá árinu 1286 mun að öllum líkindum vera Neðri-Hjarðardalur í Dýrafirði (sjá hér Neðri-Hjarðardalur). Á síðari hluta 14. aldar átti Holtskirkja beitarítak í landi Ytri-Hjarðardals eins og sjá má í nýnefndum máldaga hennar frá árinu 1377.[84] Um 1570 átti kirkjan enn þetta ítak[85] en það er ekki nefnt í Jarðabókinni frá 1710.

Um 1400 var Ytri-Hjarðardalur í eigu Ara Guðmundssonar á Reykhólum, föður Guðmundar ríka, en Ari seldi jörðina Magnúsi nokkrum Hallssyni árið 1416 eða skömmu fyrr.[86]

Í skrá yfir jarðeignir Guðmundar Arasonar á Reykhólum, sem upptækar voru gerðar árið 1446, eru m.a. taldar upp 33 jarðir sem Guðmundur átti í Dýrafirði og Önundarfirði.[87] Tvær þessara jarða báru nafnið Hjarðardalur og í skránni er önnur þeirra virt á 60 hundruð en hin á 30 hundruð.[88] Á 15. öld báru tvær jarðir í Dýrafirði nafnið Hjarðardalur og aðrar tvær í Önundarfirði hétu þessu sama nafni. Hefur svo verið æ síðan og að líkindum einnig fyrr. Sá Hjarðardalur sem virtur er á 60 hundruð í skránni yfir jarðeignir Guðmundar Arasonar gæti verið hvort heldur sem er Ytri-Hjarðardalur í Önundarfirði eða Neðri-Hjarðardalur í Dýrafirði. Síðarnefnda jörðin var jafnan metin á 60 hundruð (sjá hér Neðri-Hjarðardalur) en matið á fyrrnefndu jörðinni var nokkuð á reiki þó að oftast muni hún hafa verið virt á 68 hundruð eins og fyrr var nefnt. Hundraðatalan ein sér dugar því ekki til úrskurðar.

Í vitnisburðarbréfi frá árinu 1474 er hins vegar að finna ummæli sem benda eindregið til þess að Guðmundur ríki hafi slegið eign sinni á Ytri-Hjarðardal þegar auður og völd tóku að safnast að honum.[89] Hér var áður frá því greint að snemma á 15. öld hefði Magnús Hallsson keypt Ytri-Hjarðardal af Ara Guðmundssyni, föður Guðmundar ríka. Í tveimur vitnisburðarbréfum frá árunum 1473 og 1474 er vottað að Magnús Hallsson hafi átt Hjarðardal hinn meiri í Önundarfirði og búið þar en síðan hafi sonur hans tekið þar við búi, Hallur Magnússon, sem fékk um það bil þrjá fjórðu hluta jarðarinnar í arf eftir foreldra sína.[90]

Í öðru þessara bréfa segir síðan að Guðmundur Arason hafi hrakið Hall bónda af jörðinni.[91] Kolbeinn Sigurðsson sem setur innsigli sitt undir bréfið kveðst hafa verið nærstaddur er þetta gerðist og orðar frásögn sína svo:

 

Svo vissi ég og að fyrrnefndur Hallur rýmdi af þráttnefndri jörðu fyrir Guðmundi Arasyni. Kom hann þá til Vífilsmýra. Bjó minn faðir þar, Sigurður Þórðarson, og skipaði mér að reiða hann upp á Álftafjarðarheiði.[92]

 

Sé vitnisburður þessi ófalsaður hefur Guðmundur ríki slegið eign sinni á Ytri-Hjarðardal eins og svo margar aðrar jarðir og með hliðsjón af því má telja líklegt að þessi jörð sé annar Hjarðardalanna tveggja sem féllu undir konung þegar Guðmundareignir voru gerðar upptækar árið 1446. Hins er þó skylt að geta að samkvæmt vitnisburðarbréfunum frá 1473 og 1474, sem hér koma við sögu, virðist þessi sama jörð hafa verið virt á 72 hundruð þegar dánarbú fyrrnefnds Magnúsar Hallssonar var gert upp.[93]

Þeir feðgar Magnús Hallsson og Hallur Magnússon virðast hafa verið sléttir bændur en á 15. öld var heldur fátítt að slíkir múgamenn ættu sjálfir jörðina sem þeir bjuggu á, enda stóð sú dýrð ekki lengi hjá Halli í Hjarðardal ef taka má mark á vitnisburði Kolbeins frá Vífilsmýrum.

Næsti eigandi Ytri-Hjarðardals, sem vitneskja liggur fyrir um, er Björn Guðnason, héraðshöfðingi í Ögri við Ísafjarðardjúp. Er Guðrún eldri, dóttir hans, gekk að eiga Bjarna Andrésson þann 7. nóvember árið 1507 voru Hjarðardalirnir báðir er liggja í Önundarfirði meðal eigna sem hún fékk í heimanfylgju.[94]

Brúðguminn sem þarna gekk að eiga höfðingjadótturina frá Ögri var sonarsonur Guðmundar Arasonar ríka og allvel loðinn um lófana en hann varð skammlífur. Í skrá yfir eignir Bjarna Andréssonar og Guðrúnar konu hans sem samin var að Bjarna önduðum árið 1509 er Ytri-Hjarðardalur talinn 70 hundruð að dýrleika en Innri-Hjarðardalur 20 hundruð.[95]

Jarðir þessar tvær í Önundarfirði virðast hafa lent aftur hjá Birni Guðnasyni þegar Bjarni tengdasonur hans andaðist því við uppgjör á dánarbúi Björns árið 1524 komu þær til skipta og voru þá enn virtar á 90 hundruð, báðar til samans.[96]

Eitt barna Björns Guðnasonar var Ólöf sem átti Sigfús Brúnmannsson í Hrauni í Keldudal. Um 1530 eignaðist Ögmundur biskup Pálsson part í Hjarðardal sem Sigfús og Ólöf kona hans höfðu átt[97] og árið 1538 náði Ögmundur 20 hundruðum úr jörðinni af Sigfúsi í viðskiptum þeirra.[98] Þegar Ögmundur var hnepptur í varðhald og fluttur úr landi árið 1541 féllu eignir hans undir konung. Ein þeirra var Stóri-Hjarðardalur í Önundarfirði,[99] sem er annað nafn á Ytri-Hjarðardal, og fylgdu með 5 kýr.[100] Landskuld af jörðinni var þá eitt hundrað,[101] það er 6 vættir á ári.

Ytri-Hjarðardalur var síðan konungseign allt til ársins 1838[102] eða í nær 300 ár. Er kóngur seldi jörðina með 6 kúgildum sumarið 1838 fékk hann fyrir hana 1.307 ríkisdali og 48 skildinga[103] en meðalkýrverð vestanlands var þá um það bil 29 ríkisdalir.[104] Að andvirði kúgildanna frátöldu virðist kóngur því hafa fengið sem svaraði 39 hundruðum (kýrverðum) fyrir þessa eign sína. Það söluverð var langt fyrir neðan hið opinbera mat á jörðinni sem enn taldist vera 68 hundruð.[105] Sá sem keypti Ytri-Hjarðardal af kóngi var Ebenezer Þorsteinsson sýslumaður[106] en frá búskap hans á jörðinni er sagt hér nokkru aftar.

Í varðveittum heimildum má sjá eitt og annað um kjör leiguliða konungs hér í Ytri-Hjarðardal. Um 1570 var árleg landskuld af jörðinni 2 hundruð og þá fylgdu henni 6 kúgildi.[107] Allt til ársins 1630 mun landskuldin hafa haldist óbreytt og verið 2 hundruð[108] en í gamla landaurareikningnum voru 6 vættir í hverju hundraði (kýrverði). Upp úr 1630 var landskuldin lækkuð úr 12 vættum í 9 vættir en þá hafði skriðan mikla sem áður var nefnd fallið á túnið.[109] Árið 1710 var landskuldin óbreytt, 9 vættir, og þá upphæð áttu landsetarnir að greiða inn á reikning umboðsmanns konungs í kaupstað,[110] það er hjá einokunarversluninni á Þingeyri. Þegar kóngur seldi jörðina árið 1838 mun landskuldin enn hafa verið 9 vættir,[111] það er 180 álnir eða 9 ær með lömbum. Kúgildin sem þá fylgdu jörðinni voru sex,[112] alveg eins og verið hafði árið 1570, og leigurnar eftir þau voru greiddar með smjöri.[113]

Á árunum kringum 1700 var Ari Þorkelsson, sýslumaður í Haga á Barðaströnd, umboðsmaður konungsjarða í Ísafjarðarsýslu. Hann lét sér ekki nægja að fá landskuldina og smjörleigurnar frá Hjarðardal en heimtaði auk þess sem svaraði einum hásetahlut á vorvertíð af fiski og lagði á bændurna kvöð um skipsáróður. Í Jarðabók Árna og Páls segir svo um þessa kvöð:

 

Kvaðir eru engar síðan 1706 að kóngsbréfið auglýstist, þar fyrir í 8 ár lagði Ari Þorkelsson haldfæri til skips þess er einn af leiguliðunum [í Ytri-Hjarðardal] átti og tók svo einn hlut þar eftir en léði þeim sama leiguliða hina ábúendurna til háseta og skildi á þennan skipsáróður. Hlutinn verkaði skipeigandi og færði hann í kaupstað svo mikið sem kaupstaðarvara var og þetta ókeypis en það sem ekki var kaupstaðarvara fluttu hinir ábúendur í Dýrafjörð, lögðu þar til hesta og þetta sömuleiðis án betalnings.[114]

 

Fjórbýli var í Ytri-Hjarðardal á velmektardögum Ara sýslumanns í Haga.[115]

Fyrstu bændur sem um er kunnugt að búið hafi í Ytri-Hjarðardal eru feðgarnir Magnús Hallsson og Hallur Magnússon sem uppi voru á 15. öld og áttu jörðina eins og hér var áður gerð grein fyrir (sjá bls. 8-9). Um 1570 bjuggu hér Jónar tveir í tvíbýli, annar Geirlaugarson en hinn Eyjólfsson, og voru báðir landsetar konungs.[116]

Árið 1703 voru leiguliðarnir í Ytri-Hjarðardal orðnir fjórir og hét einn þeirra Lífgjarn.[117] Sjö árum síðar var fjöldi ábúenda óbreyttur og bjuggu þeir á einum fjórða parti úr jörðinni hver.[118] Árið 1710 var bústofninn í Ytri-Hjarðardal þessi: 9 kýr, 5 aðrir nautgripir, 67 ær, 42 sauðir eldri en veturgamlir, 41 veturgamall sauður, 65 lömb og 8 hross.[119] Búpeningur þessi skiptist mjög jafnt á bændurna fjóra en einn þeirra var kona og hét Jórunn Jónsdóttir.[120]

Á 18. öld var oft fjórbýli í Ytri-Hjarðardal[121] en stundum þríbýli.[122] Ábúendur á jörðinni hafa þó líklega verið færri á árunum 1780-1790 en þá átti hér heima Ólafur Erlendsson sem um skeið var lögsagnari og umboðsmaður konungs yfir jarðeignum krúnunnar í Ísafjarðarsýslu.[123]

Ekki er alveg ljóst hvaða ár Ólafur settist að í Ytri-Hjarðardal. Í bréfum frá árinu 1777 sést að hann er þá enn á Hóli í Bolungavík[124] en árið 1781 var hann sannanlega kominn að Ytri-Hjarðardal[125] og bjó þar síðan til æviloka. Vel má vera að hann hafi búið einn á allri jörðinni.

Ólafur Erlendsson var sonur Erlends Ólafssonar, sýslumanns í Ísafjarðarsýslu, og hinnar dönsku konu hans, Birgittu Maríu Andressen Kvist.[126] Ólafur fæddist árið 1746 eða því sem næst[127] og mun hafa alist upp hjá foreldrum sínum en þau bjuggu fyrst í Súðavík frá 1742-1748 en svo í Ögri í nokkur ár og lengst á Hóli í Bolungavík.[128] Faðir Ólafs, Erlendur sýslumaður, var bróðir hins kunna fræðimanns Jóns Ólafssonar frá Grunnavík sem ól nær allan aldur sinn í Kaupmannahöfn við rannsóknir á íslenskum handritum og aðrar fræðaiðkanir. Á yngri árum hafði Erlendur sýslumaður líka verið styrkþegi í Árnasafni í Kaupmannahöfn en á sínum 30 ára langa sýslumannsferli stóð hann jafnan í ströngu í lagaþrætum, var fjórum sinnum vikið frá embætti en náði því jafnan á ný.[129]

Á ungum aldri fór Ólafur Erlendsson að aðstoða föður sinn við embættisverk og með héraðsdómi sem upp var kveðinn árið 1767 í vertollamáli úr Bolungavík voru þeir feðgar báðir dæmdir til að missa æruna.[130] Með sama dómi var Erlendi vikið frá embætti í fjórða sinn og þeir feðgar báðir dæmdir í fjársektir.[131] Settur héraðsdómari í þessu máli var Jón Jónsson, bóndi á Gróustöðum í Geiradalshreppi,[132] en dómi hans var hnekkt á Alþingi árið eftir. Þar sýknaði Sveinn Sölvason lögmaður Erlend sýslumann og Ólaf son hans af öllum ákærum og felldi þann úrskurð að Jón á Gróustöðum yrði ekki léttilega tekinn öðru sinni til settidómara.[133] Í þessum málaferlum verður fyrst vart við Ólaf Erlendsson við hlið föður síns í málaþrasi hans og þar fóru þeir báðir með sigur af hólmi.

Í ágústmánuði árið 1768 var Ólafur Erlendsson settur til að liðsinna föður sínum við embættisverk, önnur en dómarastörf, og árið 1769 fór hann utan og sótti um að verða eftirmaður föður síns.[134] Þegar Erlendur sýslumaður andaðist árið 1772 var Ólafur settur yfir sýsluna til bráðabirgða og fór með sýsluvöld sem lögsagnari frá 1772-1774.[135] Embættið varð hann þó að láta af hendi er Jón Arnórsson var skipaður sýslumaður í Ísafjarðarsýslu árið 1774 og var það að vonum því Ólafur mun hvorki hafa verið löglærður né haft nokkra aðra háskólamenntun. Full ástæða er hins vegar til að ætla að hann hafi verið betur að sér í lögum en almennt var um óskólagengna.

Sumarið 1773 reið Ólafur til Alþingis en hann var þá starfandi sem settur sýslumaður í Ísafjarðarsýslu. Við Öxará var honum fengið það verkefni að vera sækjandi í máli sem höfðað var gegn Margréti Guðbrandsdóttur úr Vestmannaeyjum sem játað hafði að hafa skorið nýfætt barn sitt á háls.[136] Í Alþingisbókinni verður ekki séð hvernig Ólafur hagaði málflutningi sínum í þessu óhugnanlega sakamáli en dómsniðurstaðan varð sú að Margrét skyldi hálshöggvast og höfuðið upp á stjaka setjast.[137] Í dómsorðunum var þó tekið fram að aftökunni skyldi fresta uns dæmt hefði verið í málinu af æðra rétti.[138]

Árið 1771 varð Ólafur Erlendsson umboðsmaður konungsjarða í Ísafjarðarsýslu[139] og mun hafa haft jarðir þessar að léni allt til dauðadags. Líklega hefur hann verið dálítið aðsjáll í peningamálum og lét sér sannanlega annt um hlutabréf sem faðir hans hafði átt í Innréttingunum í Reykjavík. Hlutabréfið sem var númer 20 glataðist og lét Ólafur lýsa eftir því á Alþingi sumarið 1781.[140] Undir tilkynninguna um hið glataða hlutabréf skrifar Ólafur í Hjarðardal stærri í Önundarfirði 16. júní 1781 og nefnir sig þá fordum constitueret Laugsagner udi Isefiords Syssel.[141]

Sumarið 1787 var ákveðið með konunglegri tilskipun að öllu fyrirkomulagi verslunarreksturs á landi hér yrði breytt og í stað einokunar kæmi fríhöndlun. Frá 1. janúar 1788 var öllum þegnum Danakonungs frjálst að reka hér verslun á sína eigin ábyrgð. Einn þeirra Íslendinga sem hugðust notfæra sér þessi nýju réttindi var Ólafur Erlendsson í Hjarðardal sem á árinu 1787 leitaði eftir kaupum á þilskipi og nokkrum hluta eigna konungsverslunarinnar á Þingeyri (sjá hér Þingeyri). Þessi málaleitan umboðsmannsins í Hjarðardal fékk þó ekki jákvæðar undirtektir, enda mun fjármagnið sem hann hafði í höndum ekki hafa verið mikið.

Um Ólaf Erlendsson í Hjarðardal segir Bogi Benediktsson í Sýslumannaæfum að hann hafi verið skýr og góður maður en að sögn nokkuð gefinn fyrir vínföng.[142] Kona Ólafs var Ástríður Magnúsdóttir, dóttir séra Magnúsar Teitssonar í Vatnsfirði sem var bróðursonur Mála-Snæbjörns.[143] Þau hjónin munu hafa eignast 17 börn og náðu 8 að verða fullorðin.[144] Eitt þessara barna frá Hjarðardal var Ólafur Ólafsson sem sigldi og varð stríðsmaður.[145] Önnur börn Ólafs og Ástríðar konu hans fluttust líka burt úr Önundarfirði og koma hér ekki við sögu en geta má þess að Charlotta Ísfjörð, kona Hinriks Henckel, Þingeyrarkaupmanns, og Friðrik Svendsen, kaupmaður og útgerðarmaður á Flateyri, voru bæði systurbörn Ólafs Erlendssonar. Móðir þeirra var Soffía Erlendsdóttir.[146]

Ólafur kóngsumboðsmaður í Ytri-Hjarðardal andaðist 12. mars 1790,[147] tæplega hálffimmtugur að aldri. Í Vatnsfjarðarannál hinum yngsta eru taldir upp þeir af meiriháttar fólki sem burtkölluðust á því ári og þar fær Ólafur í Hjarðardal nafn sitt skráð. Séra Guðlaugur Sveinsson í Vatnsfirði sem ritar annálinn kynnir hinn látna með þessum orðum: Signor Ólafur Erlendsson, fyrrum constitueraður sýslumaður í Ísafjarðarsýslu og Kóngsjarða forpagtari í sömu sýslu.[148] Í Alþingisbókunum sjáum við að kóngsjarðirnar hefur Ólafur haft á leigu til hinstu stundar.[149]

Við andlát þessa lénsmanns konungs í Hjarðardal komst jörðin á ný í hendur sléttra bænda[150] en aðeins skamma hríð því að á árunum 1793-1797 bjó hér um skeið séra Jón Sigurðsson frá Ögri[151] og upp frá því sátu embættismenn eða ekkjur þeirra nær samfellt í Ytri-Hjarðardal allt til ársins 1859.

Séra Jón Sigurðsson frá Ögri var sonarsonur Ólafs Jónssonar, lögsagnara á Eyri í Seyðisfirði við Djúp, fæddur árið 1759.[152] Hann tók prestvígslu 1792 og gerðist þá aðstoðarprestur nafna síns, séra Jóns Sigurðssonar í Holti í Önundarfirði, sem var kvæntur föðursystur hans. Aðstoðarprestur þessi fékk skömmu síðar Ytri-Hjarðardal eða part úr honum til ábúðar og mun hafa búið hér til vorsins 1797 er hann varð prestur í Dýrafjarðarþingum (sjá hér Meiri-Garður).

Á árunum 1797-1804 átti séra Guðmundur Þorvaldsson heima í Ytri-Hjarðardal.[153] Hann var þá aðstoðarprestur séra Jóns Ásgeirssonar sem tók við Holtsprestakalli vorið 1797. Um þennan aðstoðarprest sinn kemst séra Jón svo að orði á einum stað að hann sé ærlega lundaður og spakur og sæmilega lærður maður.[154] Séra Guðmundur var Skagfirðingur að uppruna, fæddur 1751 eða þar um bil. Hann útskrifaðist úr Hólaskóla vorið 1773 og fluttist nokkrum árum síðar vestur að Ísafjarðardjúpi. Þar kvæntist hann Þórunni Erlendsdóttur, systur Ólafs Erlendssonar sem hér var nýlega frá sagt, og bjuggu þau m.a. á Eyri í Seyðisfirði og á Hóli í Bolungavík.[155] Í Bolungavík sótti Guðmundur sjó og þótti ágætur formaður.[156] Konu sína missti hann árið 1785 en kvæntist aftur tveimur árum síðar, Guðrúnu Sigurðardóttur frá Kirkjubóli í Skutulsfirði.[157] Árið 1794 tók sjósóknari þessi prestvígslu og gerðist aðstoðarprestur séra Þorsteins Þórðarsonar á Stað í Súgandafirði.[158] Þaðan fluttist hann til Önundarfjarðar árið 1797 og settist að í Ytri-Hjarðardal eins og áður var nefnt. Hér bjó hann í sjö ár en fluttist þá aftur til Bolungavíkur og þjónaði þar til æviloka sem aðstoðarprestur séra Helga Einarssonar á Eyri í Skutulsfirði.[159] Séra Guðmundur andaðist árið 1810. Honum var aldrei veitt prestakall en þjónaði í 16 ár sem kapellán í Súgandafirði, Önundarfirði og Bolungavík. Að sögn Sighvats Borgfirðings var hann lítill maður vexti, vel gáfaður og vel látinn og stundaði vel sitt embætti.[160]

Þegar manntal var tekið árið 1801 bjó séra Guðmundur Þorvaldsson í Ytri-Hjarðardal í tvíbýli á móti Solveigu Ólafsdóttur[161] en hún hafði verið gift séra Jóni Sigurðssyni sem varð prestur í Holti árið 1783. Séra Jón drukknaði sumarið 1796 þar sem heitir Ystavað eða Prestavað, skammt innan við Holtsodda en um Vöðin sem þar eru var farið ríðandi yfir Önundarfjörð. Frá drukknun hans segir hér nánar á öðrum stað (sjá hér Holt) en ekkjan Solveig mun hafa flust að Ytri-Hjarðardal skömmu eftir lát eiginmanns síns.

Á manntölum frá 1. febrúar 1801 er Solveig, prestsekkja í Hjarðardal, sögð vera 62ja ára gömul[162] og hefur því verið fædd skömmu fyrir 1740. Hún var dóttir Ólafs Jónssonar, lögsagnara á Eyri í Seyðisfirði við Djúp, og konu hans, Guðrúnar Árnadóttur.[163] Börn Ólafs lögsagnara og konu hans voru mörg og úr þeim hópi má auk Solveigar til dæmis nefna Ingibjörgu sem giftist séra Jóni Sigurðssyni, er síðast var prestur á Rafnseyri, en þau hjónin voru afi og amma Jóns Sigurðssonar forseta. Einn fjögurra albræðra þessara systra var Ólafur kammersekreteri er nefndi sig Olavius. Hann ferðaðist um Ísland á vegum konungs á árunum 1775-1777 í því skyni að kanna hvað helst mætti verða til úrbóta í atvinnu- og efnahagsmálum á landi hér. Um þessar ferðir sínar skrifaði Olavius mikið og merkilegt ritverk er hann nefndi Ökönomisk Rejse en það fékk í íslenskri þýðingu nafnið Ferðabók.

Niðjar Ólafs lögsagnara á Eyri urðu snemma fjölmennir og úr þeirra röðum hafa komið margir áhrifamenn, bæði á 19. og 20. öld. Solveig dóttir hans, sem hér var áður nefnd og átti heima í Ytri-Hjarðardal þegar 19. öldin gekk í garð, náði þó ekki að koma upp nema einu barni, Jarþrúði Jónsdóttur sem giftist Boga Benediktssyni frá Staðarfelli á Fellsströnd og þar bjuggu þau á sínum síðari árum. Bogi mun þá hafa verið einn efnaðasti bóndi í landinu en hann var líka merkur fræðimaður og ritaði m.a. Sýslumannasögur sem fengu nafnið Sýslumannaæfir þegar þær voru gefnar út. Ekki er kunnugt um að Bogi ætti börn með öðrum konum en Jarþrúði svo allir hinir fjölmörgu niðjar hans eru jafnframt afkomendur Solveigar Ólafsdóttur sem síðast bjó hér í Ytri-Hjarðardal er hún var orðin ekkja. Úr hópi dótturbarna Solveigar má nefna Brynjólf kaupmann í Flatey og Jens kaupmann, síðast á Ísafirði, sem báðir nefndu sig Benedictsen og systurnar Hildi, Sigríði og Jóhönnu Bogadætur.[164] Hildur giftist Bjarna Thorarensen, skáldi og amtmanni, Sigríður Pétri Péturssyni biskupi og Jóhanna Jóni Péturssyni dómstjóra. Á þessari mjög svo takmörkuðu lýsingu á ættartengslum prestsekkjunnar í Ytri-Hjarðardal sjáum við vel hversu víðsfjarri allri koðnun kona þessi hefur verið, séð í sögulegu samhengi. Í kringum hana er hátt til lofts og vítt til veggja. Um þessa ekkju forvera síns kemst séra Jón Ásgeirsson í Holti svo að orði að hún sé merkilega vel að sér.[165]

Svo virðist sem Solveig Ólafsdóttir hafi ekki haft mikið umleikis í búskap þau ár sem hún bjó í Ytri-Hjarðardal. Árið 1801 var hún þó með tvo vinnumenn og þrjár vinnukonur og svo ráðsmann[166] sem ætla má að stjórnað hafi daglegum búverkum úti við í samráði við húsmóðurina. Ráðsmaður sá sem í sóknarmannatali frá árinu 1802 er nefndur umsjónarmaður á búi Solveigar[167] var Ólafur Jónsson en hann bjó síðar í Mosdal og drukknaði í mannskaðanum mikla vorið 1812, þá hreppstjóri í Mosvallahreppi[168] (sjá hér Mosdalur). – Tiener som forgangsmand, segir við nafn Ólafs í manntalinu frá 1801[169] svo ekki fer milli mála að hann hefur verið ráðsmaður eða einhvers konar forverksmaður hjá Solveigu. Með Ólafi var í Ytri-Hjarðardal kona hans, Guðrún Sumarliðadóttir[170] frá Sveinseyri í Dýrafirði, en hún var systir Gunnhildar sem drukknaði í Sveinseyrarlendingu árið 1793 og var talin ganga aftur.[171] Gunnhildur var að margra dómi mögnuðust allra drauga í Ísafjarðarsýslu á 19. öld og fyrstu áratugum 20. aldar og gerði að sögn mörgum ættingjum sínum lífið brogað (sjá hér Sveinseyri).

Solveig Ólafsdóttir prestsekkja sat enn að búi sínu hér í Ytri-Hjarðardal í marsmánuði árið 1803 en var farin úr Önundarfirði í febrúar 1805.[172] Hún andaðist 24. október á því ári[173] og mun þá hafa verið komin til Jarþrúðar dóttur sinnar sem átti heima á Bíldudal[174] en hún var svo sem fyrr var nefnt einkabarn móður sinnar.[175]

Í febrúarmánuði árið 1805 bjuggu hjónin Gísli Oddsson og Maren Guðmundsdóttir í tvíbýli í Ytri-Hjarðardal á móti bónda sem hét Þorsteinn Bjarnason.[176] Gísli og Maren bjuggu síðar á Sæbóli á Ingjaldssandi og í Meira-Garði í Dýrafirði (sjá hér Sæból og Meiri-Garður). Vorið 1807 fékk Brynjólfur Hákonarson, sem þá bjó á Eyri í Önundarfirði, jörðina leigða og fluttist hann að Ytri-Hjarðardal ári síðar.[177] Vorið 1811 bjó Brynjólfur einn á allri jörðinni. Í bréfi er hann skrifaði 20. janúar 1812 kemst hann svo að orði að jörð þessi hafi verið sérlega lasin að húsakynnum er hann fékk hana til ábúðar.[178] Líklegt er að Brynjólfur hafi ætlað sér að búa lengi í Hjarðardal en það fór á annan veg. Í desembermánuði árið 1810 knúði þar dyra herramaður sem fjórum mánuðum fyrr hafði verið settur til að gegna embætti sýslumanns í Ísafjarðarsýslu.[179] Sá hét Ebenezer Þorsteinsson og var þá að sögn Brynjólfs aldeilis húsvilltur.[180] Hinn nýi sýslumaður hafði hug á að setjast að í Hjarðardal og leitaði fast eftir því að Brynjólfur stæði upp af jörðinni og léti sér hana eftir.[181] Svo fór að Brynjólfur féllst á þetta og fluttist að Mýrum í Dýrafirði vorið 1811 þar sem hann bjó rausnarbúi fram á elliár og svo niðjar hans allt fram undir 1930 (sjá hér Mýrar).

Ebenezer Þorsteinsson var sýslumaður í Ísafjarðarsýslu í tæpan aldarfjórðung, frá 1810 til 1834.[182] Hann sótti þó aldrei um skipun í embættið en var settur sýslumaður öll þessi ár.[183] Hann hóf búskap í Ytri-Hjarðardal vorið 1811 og bjó þar allt til dauðadags haustið 1843. Búskaparár Ebenezers í Hjarðardal urðu því 32 og fimm árum fyrir andlát sitt keypti hann jörðina af konungi eins og hér var áður frá greint (sjá hér bls. 9-10).

Ebenezer Þorsteinsson var prestssonur, fæddur á Eyjadalsá í Bárðardal árið 1769[184] og þar mun hann hafa alist upp. Átján ára gamall kom hann í Hólaskóla og útskrifaðist þaðan átta árum síðar með allgóðum vitnisburði.[185] Þrítugur að aldri sigldi hann til háskólanáms í Kaupmannahöfn, haustið 1799, og lauk hinu minna prófi í dönskum lögum sumarið 1801.[186] Fyrst eftir heimkomuna var hann aðstoðarmaður hjá sýslumanni Eyfirðinga en frá 1802 til 1804 skrifari á Bessastöðum hjá Ludvig Erichsen amtmanni sem var sonur Jóns Eiríkssonar konferenzráðs.[187] Haustið 1804 var Ebenezer settur sýslumaður í Snæfellsnessýslu og gegndi því embætti í liðlega eitt ár en þá gerðist hann bóndi í Fremri-Langey í Skarðsstrandarhreppi og bjó þar uns hann var settur sýslumaður í Ísafjarðarsýslu.[188]

Haustið 1806 kvæntist lagajúristi þessi Guðrúnu Þórðardóttur en hún var dóttir Þórðar Ólafssonar, sem verið hafði aðstoðarprestur í Skarðsþingum, og konu hans, Kristínar Bogadóttur frá Hrappsey. Séra Þórður var þá látinn fyrir allmörgum árum og Kristín ekkja hans orðin eiginkona Skúla Magnússonar, sýslumanns Dalamanna, er bjó á Skarði á Skarðsströnd.[189] Guðrún dóttir hennar var fædd árið 1789[190] og hefur því aðeins verið 17 ára þegar þau Ebenezer gengu í hjónaband en brúðguminn var 20 árum eldri. Fjóru og hálfu ári síðar fluttust þau vestur með allt sitt og settust að í Ytri-Hjarðardal.

Svo virðist sem flest hafi verið í niðurníðslu í Ytri-Hjarðardal þegar Ebenezer sýslumaður settist þar að. Í úttekt frá 21. ágúst 1811 segir að efri bærinnaldeilis óuppbyggjandi þar sem hann nú sé vegna ellefu gamalla tóttarústa en hin húsin sem uppi hanga í jörð grafin svo ei sér nema fyrir risinu til hálfs að nokkur húsmynd sé á.[191] Hin baðstofan var í þremur stafgólfum og fimm álnir á breidd.[192] Hún var fallin að veggjum og mænitréð fúið og brotið.[193] Áreftið var líka farið að fúna og fjórir af átta stöfum sem héldu þekjunni uppi.[194] Í úttektinni er tekið fram að göng frá baðstofu með tilheyrandi útidyramynd séu svo gjörfallin að varla verði inn í baðstofuna komist.[195]

Ebenezer sýslumaður gerði þá kröfu að Brynjólfur Hákonarson, sem var næsti ábúandi á undan, borgaði álag til að kosta uppbyggingu húsanna.[196] Til þessa var Brynjólfur tregur, enda hafði hann aðeins búið á jörðinni í mjög skamman tíma og sjálfur ekkert álag fengið þegar hann tók við henni með flestum húsum álíka lélegum og þau voru þegar hann fór.[197] Af þessum ágreiningi spannst allhörð deila milli Brynjólfs bónda og hins setta sýslumanns og taldi Brynjólfur yfirvaldið beita sig ofríki í þeirri deilu en um hana hefur Halldór Kristjánsson frá Kirkjubóli ritað í Ársrit Sögufélags Ísfirðinga.[198]

Árið 1710 hafði árleg landskuld af Ytri-Hjarðardal verið 9 vættir (sjá hér bls. 5), það er hálft annað kýrverð. Þegar Ebenezer sýslumaður fékk jörðina til ábúðar árið 1811 var honum hins vegar aðeins gert að greiða 6 vættir, að hans eigin sögn, og þetta afgjald mátti hann borga með 30 pörum af sokkum.[199] Séra Böðvar Þorvaldsson, sem þá var aðstoðarprestur í Holti, var umboðsmaður konungsjarða í Ísafjarðarsýslu er sá samningur var gerður en er nýr umboðsmaður tók við, tólf árum síðar, var landskuldin hækkuð upp í 9 vættir eins og verið hafði.[200] Í byggingarbréfinu frá 1823 er talað um 1 hundrað 60 álnir[201] en sex vættir voru í hundraðinu og 20 álnir í hverri vætt svo þetta eru 9 vættir.

Vorið 1812 drukknuðu nær 50 menn af sjö bátum úr Önundarfirði sem allir fórust sama daginn, þann 6. maí. Þá var aðeins liðið hálft annað ár frá því Ebenezer tók við embætti sýslumanns í Ísafjarðarsýslu en nú kom í hans hlut að skipta öllum þessum dánarbúum. Hér hefur áður verið sagt frá mannskaðanum mikla í Önundarfirði vorið 1812 og minnst á skipti dánarbúanna (sjá hér Mosvallahreppur, inngangskafli). Við þau skipti þótti sýslumaður ganga hart fram og sögur um fjárdrátt hans af ekkjunum í Önundarfirði komust á kreik. Þær sögur urðu langlífar en tölulegar upplýsingar sem fyrir liggja í embættisbókum sýslunnar benda ekki til þess að dánarbúin frá 1812 hafi orðið Ebenezer sú auðsuppspretta sem ýmsir vildu meina. Ebenezer sýslumaður í Hjarðardal mun þó snemma hafa komist í allgóð efni, enda var maðurinn forsjáll og mun að líkindum hafa hugsað vel um eigin hag. Með Guðrúnu konu hans hafa vafalaust þó nokkrir fjármunir verið lagðir í búið því Skarðverjar, sem að henni stóðu, voru loðnir um lófana. Bogi á Staðarfelli lætur þess einnig getið í Sýslumannaæfum sínum að þau Ebenezer í Hjarðardal og Guðrún kona hans séu bæði sögð mestu forstandsmenn og búhöldar.[202]

Árið 1818 voru 18 manns í heimili hjá sýslumannshjónunum í Ytri-Hjarðardal.[203] Auk hjónanna, dóttur þeirra og vinnufólks, var á heimilinu afi húsfreyjunnar, séra Ólafur Einarsson prófastur sem kominn var um áttrætt og hafði síðast verið prestur á Álftamýri.[204] Þar var einnig dóttir séra Ólafs, sem Ástríður hét,[205] en hún var föðursystir sýslumannsfrúarinnar. Eitt barn var í fóstri hjá sýslumannshjónunum árið 1818 og annað barn áttu vinnuhjú á bænum en ellefu af átján heimilismönnum voru vinnufólk.[206] Í þessum ellefu manna hópi voru sjö karlmenn og fjórar konur.[207] Af karlmönnunum sjö töldust fjórir vera vinnumenn, einn var smali, annar léttadrengur, þó orðinn væri 22ja ára, og síðast er nefndur 18 ára gamall sveitardrengur.[208] Ein kvennanna fjögurra sem voru vistráðnar í Ytri-Hjarðardal þetta ár er kölluð þjónustustúlka[209] og hefur líklega eingöngu sinnt innanhúsverkum. Ætla má að hinar þrjár hafi starfað sem venjulegar vinnukonur enda þótt aðeins ein þeirra beri það atvinnuheiti í manntalinu.[210]

Árið 1818 hafði Ebenezer sýslumaður allan Ytri-Hjarðardal til ábúðar[211] og svo mun hafa verið nær alla hans búskapartíð[212] en tvö síðustu árin var hann þó með leiguliða á parti úr jörðinni.[213] Búnaðarskýrslur frá árunum 1821, 1830, 1834 og 1837 sýna að sýslumaðurinn var þá ætíð með ábúð á öllum Ytri-Hjarðardal.[214]

Á sýslumannssetrinu í Hjarðardal var jafnan fjölmennt. Sýsluvöldunum sleppti Ebenezer árið 1834 en þá átti hann 9 ár eftir ólifuð og sat áfram að búi sínu í Hjarðardal. Hér hefur áður verið greint frá heimilisfólki sýslumanns árið 1818 en þess má geta að árið eftir að Ebenezer lét af sýslumannsembættinu var hann með 6 vinnumenn og 7 vinnukonur.[215] Í Ytri-Hjarðardal var þá líka Abigael Þórðardóttir þjónustustúlka, 24 ára, og Rósinkranz Kjartansson námspiltur, 10 ára.[216] Abigael giftist þremur árum síðar séra Sigurði Tómassyni, sem þá var aðstoðarprestur í Holti (sjá hér Holt), en Rósinkranz varð merkisbóndi í Tröð (sjá hér Tröð). Af öðru heimilisfólki hjá Ebenezer og Guðrúnu konu hans í Ytri-Hjarðardal árið 1835 er skylt að nefna uppgjafaprestinn, séra Jón Sigurðsson, sem áður hafði þjónað í Dýrafjarðarþingum (sjá hér Meiri-Garður), og Hólmfríði Þórðardóttur, konu hans, og ekki má gleyma Páli Benediktssyni lögsagnara[217] sem þá var settur yfir sýsluna til bráðabirgða. Séra Jón og Hólmfríður kona hans voru bæði sonarbörn Ólafs Jónssonar lögsagnara á Eyri í Seyðisfirði. Er hér var komið sögu voru þau komin að fótum fram, holdsveik bæði á áttræðisaldri.[218] Páll Benediktsson var aftur á móti í fullu fjöri, tæplega fimmtugur að aldri, og sagður listamaður til munns og handa.[219] Hann var Eyfirðingur að uppruna og aldarfjórðungi fyrr hafði Jörundur hundadagakóngur gert hann að sýslumanni Eyfirðinga.[220] Sú upphefð varð þó skammvinn því fimm nóttum síðar varð hann að láta sýsluvöldin af hendi.[221] Þá var afl Jörundar þrotið.

Fyrir allt þetta fólk hefur Ebenezer þurft stór og rúmgóð húsakynni, enda var vel byggt í Ytri-Hjarðardal á hans dögum. Þar gjörði hann reisugar byggingar og hefur þó vel auðgast, segir Bogi Benediktsson er hann greinir frá æviferli hins auðsæla sýslumanns og búskap hans í Hjarðardal.[222] Um húsakynni Ebenezers Þorsteinssonar hér í Hjarðardal segir annar samtímamaður hans, séra Tómas Sigurðsson í Holti, að þau hafi verið framúrskarandi.[223]

Ekki er nú auðvelt að sjá hversu stór húsakynnin í Hjarðardal voru á dögum Ebenezers sýslumanns. Ekkja hans stóð hér fyrir búi allt til ársins 1859 og má telja líklegt að á hinum síðari búskaparárum hennar hafi hún enn búið með sínu fólki í baðstofunni sem eiginmaður hennar hafði byggt. Árið 1868 voru níu ár liðin frá því ekkjan hætti að búa. Á þeim árum hafði Jón Gíslason verið annar tveggja ábúenda í Ytri-Hjarðardal en var nú að hætta búskap. Baðstofa hans var þá 15,5 x 4,5 álnir,[224] það er 27,4 fermetrar, og hæðin frá gólfi og upp í rjáfur um það bil 3,7 metrar.[225] Verið getur að þarna sé kominn annar helmingurinn af hinni gömlu baðstofu Ebenezers sýslumanns og henni hafi verið skipt í tvennt þegar ekkja hans fluttist burt árið 1859 og tveir sléttir bændur tóku við búsforráðum á þessu fyrrverandi sýslumannssetri.

Sjálfur minnist Ebenezer á byggingar sínar í bréfi er hann ritaði Bjarna amtmanni á Stapa haustið 1821 og segir þar: Byggingar og viðhressing á þessari jörð, sem ég tók við í kaldakoli, hefur kostað mig mikið. Þó hefi ég, guði sé lof, nóg til daglegs brauðs með góðri árvekni og sparsemi.[226]

Í öðru bréfi sýslumannsins í Hjarðardal til Bjarna amtmanns, rituðu vorið 1823, sjáum við að sá fyrrnefndi hefur ekki alltaf verið lukkulegur með tilveruna þrátt fyrir góð húsakynni og sæmileg auraráð. Í nýnefndu bréfi, skrifuðu í Hjarðardal, kemst Ebenezer m.a. svo að orði að hann sé hér sem útlagi frá öllum vitrum og góðum mönnum og verði að berjast einn saman við skríl og ríl.[227] Líklegt er að Þingeyingur þessi hafi þó stundum unað sér betur meðal Vestfirðinga en slík orð gefa til kynna því annars hefði hann væntanlega farið úr Hjarðardal áður en yfir lauk.

Búnaðarskýrslur sýna að í Ytri-Hjarðardal var Ebenezer Þorsteinsson sýslumaður jafnan með stærsta búið í Mosvallahreppi.[228] Sem dæmi má nefna að árið 1821 var hann með sex kýr en næsti maður fjórar.[229] Sýslumaður var þá með 68 ær og 37 sauði og hrúta, eldri en eins árs, en sá sem næstur kom átti 37 ær og á öðrum býlum í hreppnum voru sauðir þá hvergi fleiri en 12.[230] Á árunum 1821, 1830, 1834 og 1837 var Ebenezer alltaf með 5 eða 6 kýr, aðrir nautgripir á búi hans voru þá 2-5, mjólkandi ær 68-84, sauðir og hrútar, eldri en eins árs, 18-33 og hrossin 2-8.[231] Tiltækar heimildir benda til þess að Ebenezer hafi orðið fyrstur manna í Önundarfirði til þess að hefja túnasléttun því að í sóknalýsingu frá árinu 1840 segir að hvergi í Holtsprestakalli hafi verið reynt að slétta túnbletti nema lítið eitt í Ytri-Hjarðardal.[232]

Á búskaparárum sínum þar fékk Ebenezer sýslumaður sér erlent Merino-fé af spænskum uppruna í því skyni að kynbæta sauðfjárstofninn. Um það leyti sem Ebenezer fór að búa í Hjarðardal var Magnús Stephensen, dómstjóri á Innra-Hólmi, síðar í Viðey, að hefja slíkar tilraunir[233] og nokkru síðar hófust þrír menn á Vesturlandi handa um sams konar viðleitni. Einn þeirra var Ebenezer sýslumaður í Hjarðardal. Í tímaritinu Gesti Vestfirðingi er getið um þessar sauðfjárkynbætur og sagt frá á þessa leið:

 

Að hið ullargóða fé frá útlöndum fluttist hingað á Vestfirði er að þakka, það ég til veit, fyrrum sýslumanni Ebenezer sáluga Þorsteinssyni, Guðmundi sáluga Scheving kaupstjóra og umboðsmanni Þorvaldi Sívertsen í Hrappsey. Hefir það breiðst út frá mönnum þessum er með góðvild og fúsleika hafa stuðlað að því að það æxlaðist.[234]

 

Í sömu tímaritsgrein er þess getið að hjá nokkrum vestra hafi ullargæði batnað að mun við slíka kynblöndun[235] en ullin af Merinó-fénu mun hafa verið mýkri en sú íslenska og þvínær toglaus.[236] Í Gesti Vestfirðingi er árangur af kynbótastarfinu sagður vera góður og þar er kostum afkvæma hinna spænsku hrúta lýst með þessum orðum:

 

Má ýkjulaust segja að ull af fénaði þessum verður hálfu betri en almenn ull og þriðjungi þyngri af hverri sauðkind. Gengur fé þetta eins vel úti á vetrum og er öngvu lakara til niðurlags en sauðfé það sem íslenskt er í báðar ættir.[237]

 

Ekki munu þó allir hafa verið sammála þessum dómi um árangur kynbótatilraunanna í Hjarðardal og nágranni sýslumanns, séra Tómas Sigurðsson í Holti, staðhæfði árið 1840 að hið hálfútlenda fé í Ytri-Hjarðardal væri ekkert arðsamara en alinnlent sauðfé.[238] Hér verður látið liggja milli hluta hver árangurinn af kynbótatilraunum sýslumannsins hafi orðið en viðleitni hans í þessum efnum er ein út af fyrir sig merkileg og sýnir framfarahug. Sýslumannshjónin í Ytri-Hjarðardal munu bæði hafa verið opin fyrir nýjungum og ekki er ólíklegt að Guðrún húsfreyja hafi staðið fyrir garðræktinni sem sagt er að hafi verið sérlega vel stunduð í Ytri-Hjarðardal á árunum skömmu fyrir 1840.[239] Árið 1837 voru átta kál- og kartöflugarðar í Ytri-Hjarðardal, samtals 159 ferfaðmar að stærð.[240] Garðrækt var þá aðeins stunduð á tveimur öðrum heimilum í Mosvallahreppi, hjá prestinum í Holti þar sem stærð garðanna var 60 ferfaðmar og hjá faktornum á Flateyri þar sem garðholurnar tvær voru enn minni.[241]

Fróðlegt er að skoða bátaeign sýslumannsins í Hjarðardal. Á árunum milli 1830 og 1840 átti hann yfirleitt þrjá báta. Einn þeirra var áttæringur (eða teinæringur), annar sexæringur eða fjögra manna far og sá þriðji var tvíróin skekta.[242] Ætla má að á áttæringnum hafi verið farið í hákarlalegur frá Hjarðardalssjó en árið 1837 voru aðeins til fjórir svo stórir bátar í öllum hreppnum ef marka má það sem fram kemur í búnaðarskýrslum.[243] Allan þann aldarþriðjung sem Ebenezer Þorsteinsson bjó búi sínu í Ytri-Hjarðardal munu einn eða fleiri bátar þaðan hafa róið frá Kálfeyri á vorin ef að líkum lætur en þátttaka Hjarðardalsfólks í þilskipaútgerð hófst ekki fyrr en að Ebenezer látnum eins og hér er frá sagt á öðrum stað (sjá bls. 31-36).

Um Ebenezer Þorsteinsson sýslumann hefur ýmislegt verið ritað. Með því elsta af því tagi eru skrif Boga Benediktssonar í riti hans Sýslumannaæfum en sumt af því sem þar er skráð var fært í letur meðan Ebenezer var enn á lífi. Þeir Bogi og Ebenezer voru á líkum aldri og útskrifuðust báðir frá Hólaskóla vorið 1795[244] sex árum áður en skólinn var lagður niður. Þeir hafa því verið vel kunnugir í æsku og einnig tengdir fjölskylduböndum því Guðrún, eiginkona Ebenezers, og Bogi voru systkynabörn. Bogi var líka í góðri aðstöðu með alla fréttaöflun úr Önundarfirði því Jarþrúður kona hans var prestsdóttir frá Holti eins og hér hefur áður verið rakið (sjá bls. 15).

Um sinn gamla skólabróður, Ebenezer sýslumann í Hjarðardal, skrifar Bogi m.a. þetta:

 

Þau Ebenezer sýslumaður og kona hans eru sögð mestu rausnar- og góðgjörðahjón. Ebenezer er maður grannvaxinn, í lægra meðallagi, hvítleitur, grannleitur og eigi andlitsfríður, snotur og nettur á fæti og í vexti. Var ungur mjúkur glímumaður og nettur í mörgu, vel talandi, bráðlyndur en ekki langrækinn. Hann hafði gott næmi.[245]

 

Mannlýsingu þessa skrifaði Bogi árið 1832[246] en að Ebenezer látnum bætti hann nokkrum orðum við – segir hann hafa sagt af sér sýslumannsembætti árið 1833 og fengið lausn næsta ár en andast 1843.[247] Í þessum sama pistli greinir Bogi frá því að Ebenezer hafi keypt ábýlisjörð sína (sjá hér bls. 9-10) og fleiri jarðir, enda hafi hann á yngri árum verið mikill fjárgæslumaður og séður í fjárskiptum.[248]

Lokaorð Boga um fornkunningja sinn, sýslumanninn í Hjarðardal eru þessi:

 

Ekki var hann [Ebenezer] kallaður mjög lærður en fórust þó embættisverk ekki illa. … Fjöllyndan héldu sumir Ebenezer en eigi var full vissa fyrir því. Nokkrir tjáðu að hann um tíma hefði gjört ofmikið af ölföngum sem hefðu skaðað heilsu hans, þar hann var brjóstveikur.[249]

 

Á orðum Boga má skilja að dómar manna um þennan norðlenska sýslumann í Hjarðardal hafi verið nokkuð misjafnir. Í Íslenskum æviskrám er hann sagður hafa verið fjáraflamaður mikill og kallaður nokkuð brellinn, lítt vinsæll, ekki talinn mikill lagamaður, gestrisinn heimafyrir og greiðasamur, drykkjumaður allmikill.[250]

Einn þeirra sem fengu að njóta gestrisni og greiðasemi Ebenezers sýslumanns var nafni hans Ebenezer Henderson sem ferðaðist um  Vestfirði sumarið 1815 á vegum breska Biblíufélagsins og var þá að koma Heilagri ritningu á framfæri við Vestfirðinga. Þessi breski erindreki Biblíufélagsins fór víða. Þann 12. júní 1815 lét hann ferja sig frá Þingeyri yfir Dýrajförð og reið samdægurs yfir Gemlufallsheiði að Holti.[251] Í Holti fékk Henderson góðar móttökur hjá séra Þorvaldi Böðvarssyni (sjá hér Holt) en þar fékk hann þær fréttir að ófært væri með öllu yfir Breiðadalsheiði vegna fannalaga.[252] Ætlun Hendersons hafði verið sú að ná fundi prófastsins á Eyri í Skutulsfirði og gera með honum ráðstafanir til dreifingar Ritningarinnar.[253] Er þessi von brást vegna ófærðar á heiðinni varð biblíumaðurinn að finna önnur úrræði og leist honum það ráð vænlegast að fá sýslumanninn í Hjarðardal til að sjá um útbreiðslu hinnar helgu bókar.[254] Sjálfur segir Ebenezer Henderson frá dvöl sinni í Önundarfirði og ritar meðal annars á þessa leið:

 

Til þess að sjá héraðsmönnum fyrir því er þeir þyrftu á að halda stóð mér því ekki önnur leið opin en að semja við sýslumann sem heima á í Hjarðardal, skammt vestur frá Holti. Reið ég því þangað um kvöldið og séra Þorvaldur með mér og var það mér ánægja að sýslumaðurinn, Ebenezer Þorsteinsson, reyndist einlæglega fús til að gera sitt ýtrasta til þess að greiða fyrir málinu [það er útbreiðslu Biblíunnar – innsk. K.Ó.]. Hann veitti okkur af gestrisni og fórum við síðan aftur að Holti.[255]

 

Í Hjarðardal ræddu þeir nafnar m.a. um surtarbrand sem fundist hafði í fjallinu Þorfinni og daginn eftir fylgdu prestur og sýslumaður hinum breska langferðamanni alla leið til Þingeyrar.[256] Ekki ber á öðru en Ebenezer Henderson hafi litist vel á nafna sinn í Hjarðardal.

Séra Ásgeir Jónsson, prófastur í Holti, var lengi nágranni Ebenezers og virðist hafa kunnað vel við hann því í sóknarmannatali frá árinu 1829 fær sýslumaður þá umsögn hjá prófasti að hann sé mikið umgengilegur og prýðisvel gáfaður.[257] Einhver kynni mun Ebenezer hafa haft af Guðrúnu Jónsdóttur, sem átti heima í Stapadal í Arnarfirði á árunum 1825-1849, því hún orti fyrir hann fimm rímur af Snæ konungi.[258] Guðrún var á þeim árum vinsælt rímnaskáld (sjá hér Borg og Stapadalur) og ekki er ólíklegt að yfirvaldið í Hjarðardal hafi verið rímnamaður. Í rímunum af Snæ konungi nefnir skáldkonan Ebenezer sýslumann og mærir hann í tveimur vísum:

 

Ebenezer eðla, vís,

öðlings Dana vinur,

þennan lesa kveðling kýs

klyfja Grana hlynur.

 

Þorsteins arfa talinn tel,

tignarfrægur, vitur,

Hjarðar-djarfur-dalinn vel

dáða nægur situr.[259]

 

Ekki er því að neita að varasamt getur verið að taka mark á lofi af þessu tagi en þó má ætla að skáldkonan hafi verið sæmilega sátt við sýslumann, að minnsta kosti á þeirri stundu sem hún var að hnoða saman þessum bögum.

Í ýmsum sögum, sem lengi lifðu á vörum fólks, er dregin upp allt önnur mynd af sýslumanninum í Hjarðardal heldur en sú sem fram kemur hjá breska biblíumanninum, prófastinum í Holti og skáldkonunni í Stapadal. Sumar þessara sagna komust seint og um síðir á prent en enginn getur nú um það dæmt hvað satt kann að vera í þeim og hverju hefur verið logið.

Ein saga er lifði í munnmælum um mútuþægni yfirvaldsins í Hjarðardal (sjá hér Birnustaðir) getur þó engan veginn staðist því annar mannanna sem sagt var að sýslumaður hefði þegið peninga fyrir að hlífa dó þremur árum áður en Ebenezer kom vestur.

Á öðrum stað er frá því greint að Ebenezer hafi fyrirlitið allt vinnufólk og fátæklinga og látið nægja að rétta fram einn, tvo eða í mesta lagi þrjá fingur þegar hann heilsaði slíkum lýð. Fór þá fjöldi fingranna eftir mannvirðingum.[260] Sveitarómögum er sagt að hann hafi heilsað með því að rétta litla fingur aftur fyrir bak en á þessu hafi honum orðið hált því kerling nokkur sveitlæg hafi þakkað fyrir sig með því að bíta í fingurinn sem henni var réttur.[261]

Ein af mörgum sögum um viðskipti Ebenezers við ekkjurnar í Önundarfirði vorið og sumarið 1812 er skráð af alþýðuskáldinu Magnúsi Hjaltasyni.[262] Sem heimildarmenn að því sem hann ritar um Ebenezer sýslumann nefnir Magnús helst Sighvat Grímsson Borgfirðing og Gísla Gíslason, sem á síðasta áratug 19. aldar átti heima á Lægri-Saurum í Álftafirði, en einnig ónafngreinda Önfirðinga.[263] Gísli þessi var fæddur um 1834 og átti að sögn Magnúsar heima í Ytri-Hjarðardal á yngri árum, hjá maddömunni, ekkju Ebenezers sýslumanns.[264] Í manntölum má sjá að svo hefur verið,[265] enda var Gísli á Saurum sonur Gísla Gíslasonar gartners sem var vinnumaður eða húsmaður í Ytri-Hjarðardal á árunum 1843-1859[266] (sjá ennfremur hér á bls. 31).

Saga Magnúsar Hjaltasonar um Ebenezer og ekkjurnar er prentuð í safnritinu Þjóðsögur og þættir og er á þessa leið:

 

Eftir mannskaðann 1812 fór sýslumaður til og frá um Önundarfjörð og út á Ingjaldssand til þess að skrifa upp bú þeirra manna er drukknuðu. Hann kom þá að Brekku því að þar var ein ekkjan. Var hann þá ríðandi og menn hans nokkrir í fylgd með honum og ráku reiðingshesta. Skyldu þeir hirða uppskriftarlaunin en þau skapaði sýslumaður sér sjálfur. Þegar sýslumaðurinn stóð við á Brekku kom hann auga á ketil stóran í bæjardyrum, fullan af mannaþvagi er nota átti til þvotta sem þá var siður og lengi síðan, allt fram um 1890. Var ketill sá úr eir og þótti sýslumanni hann alleigulegur og skipaði hann sveinum sínum að taka hann og hengja á klakk ofan í milli, − væri betra að eiga hann en ekki. En þar eð ketillinn var fullur skírrðust sveinarnir við að taka hann. Sýslumaður kvað þá vera ragmenni og hljóp inn í dyrin, tók ketilinn í fang sér og hellti út úr honum svo að keytulækur rann um hlaðið og hengdi ketilinn svo ofan í milli. Sveinar sýslumanns þögðu. Er og mælt að þeim hafi þótt embættismaðurinn gera sig nokkuð þrælslegan.

Ekkjan á Brekku átti eina kú snemmbæra. Hana tók sýslumaður í uppskriftarlaun.[267]

 

Fyrir þá sem taka vilja allar slíkar sögur trúanlegar skal bent á það sem hér var áður ritað um uppskriftarlaun sýslumanns árið 1812 (sjá hér Mosvallahreppur, inngangskafli).

Af öðru tagi er sagan af samskiptum Ebenezers við Kristínu Björnsdóttur, prestsfrú í Holti, konu séra Þorvaldar Böðvarssonar. Á ytra borði mun hafa verið gott vinfengi með prestsfrúnni og sýslumanninum og var hann að sögn stimamjúkur við hana en dró óspart dár að henni á bak.[268] Gamlir Önfirðingar sögðu svo frá að Ebenezer hefði haft gaman af að ýta undir drambsemi prestsfrúarinnar gagnvart vinnufólki og fá hana til að hella úr skálum reiði sinnar yfir heimsku og þekkingarleysi almúgans.[269] Frá brellum sýslumanns við frúna í Holti var m.a. sögð sú saga að eitt sinn hafi hann fengið vinnumann sinn til að láta maddömuna falla í sjóinn þegar verið var að bera hana í land úr litlum báti og skemmt sér síðan við að hlusta á öll skammaryrðin sem hún lét dynja á vinnumanninum.[270]

Ebenezer í Hjarðardal og Guðrún kona hans náðu aðeins að koma upp tveimur börnum, dætrunum Önnu Kristínu, sem fædd var 1809 eða því sem næst,[271] og Ingibjörgu sem fædd var 1812.[272] Eldri dóttirin mun hafa verið hagmælt og sagt er að hún hafi ort vísur um alla bændur í Önundarfirði á árunum kringum 1830.[273] Um sýslumannsdæturnar í Hjarðardal sagði prestur þeirra árið 1829 að báðar væru skarpar og skýrar, sú eldri blíðlynd og góðhjörtuð en hin þýðlynd og vel örtuð.[274] Anna Kristín giftist Kristjáni Guðmundssyni, efnuðum bónda og dannebrogsmanni í Vigur árið 1832.[275] Hann var þá 55 ára gamall ekkjumaður[276] en hún 23ja ára eða því sem næst. Fyrri kona Kristjáns í Vigur hafði andast sumarið 1831 og sá Ebenezer sýslumaður um skipti á dánarbúi hennar þá um haustið. Þau skipti voru síðar dæmd ógild í landsyfirrétti og sýslumanni gert að greiða háa fjárhæð í sekt og bætur (sjá hér Mosvallahreppur, inngangskafli).

Ingibjörg, sem var yngri sýslumannsdóttirin í Hjarðardal, var gefin Kristjáni Skúlasyni Magnússen árið 1830 en hann var hálfbróðir móður hennar[277] (sjá ennfremur hér bls. 17). Aldursmunur þeirra var þó ekki nema ellefu ár. Er Kristján gekk að eiga Ingibjörgu frænku sína var hann orðinn sýslumaður í Snæfellsnessýslu.[278] Brúðkaup þeirra fór fram í Hjarðardal með mikilli virðingu, að sögn Boga Benediktssonar á Staðarfelli.[279] Þau Kristján og Ingibjörg bjuggu á Skarði á Skarðsströnd.[280] Hann var lengi sýslumaður í Dalasýslu, kammerráð að nafnbót, og þrisvar settur amtmaður í forföllum annarra.[281]

Séra Friðrik Eggerz í Akureyjum átti löngum í útistöðum við Kristján kammerráð á Skarði en þeir voru systkinasynir. Í æviminningum sínum ber séra Friðrik þeim Skarðsfeðgum, Kristjáni og Skúla föður hans, illa söguna. Ebenezer Þorsteinsson fær þar líka sinn skammt en eins og hér hefur áður verið rakið var hann kvæntur stjúpdóttur Skúla á Skarði og tengdist Skarðverjum enn frekar er þau Ingibjörg dóttir hans og Kristján Skúlason frá Skarði gengu í hjónaband. Frásagnir séra Friðriks eru skemmtileg lesning en ólíklegt má kalla að þær gefi rétta mynd af fólki sem honum var í nöp við.

Í skrifum sínum ber séra Friðrik Eggerz þær sakir á Ebenezer að hann hafi árið 1809 borið út óhróður um Guðrúnu Magnúsdóttur prestsfrú á Ballará, konu séra Eggerts Jónssonar, en þau voru foreldrar séra Friðriks.[282] Kenning hans er sú að Skúli Magnússon, sýslumaður á Skarði, hafi skáldað upp sögur um lauslæti systur sinnar, prestsfrúarinnar á Ballará, og látið Ebenezer, sem þá bjó í Fremri-Langey, hlaupa með þær um byggðir Breiðafjarðar.[283] Séra Friðrik greinir nánar frá þessum slúðursögum um móður sína og segir þá Skúla á Skarði og Ebenezer hafa haldið því fram að hún hefði tvo eða þrjá menn fram hjá eiginmanni sínum og þar hafi verið nefndir til sögu Sigurður Líndal hattamakari, Þorlákur Einarsson í Frakkanesi og lautenant Smith.[284]

Þegar sögusagnir þessar fóru á kreik var Friðrik Eggerz aðeins 7 eða 8 ára gamall. Þrettán árum síðar var hann við nám hjá séra Arnóri Jónssyni í Vatnsfirði, þá piltur um tvítugt, og bar enn í brjósti heiftarhug til Ebenezers Þorsteinssonar sem hann taldi hafa farið með rógburð um Guðrúnu móður sína á Ballará. Ebenezer hafði þá búið í Ytri-Hjarðardal á annan tug ára og gegnt embætti sýslumanns í Ísafjarðarsýslu. Haustið 1822 voru þeir báðir staddir í kaupstað á Skutulsfjarðareyri, námssveinninn í Vatnsfirði og sýslumaður.[285] Pilturinn varð þá gripinn sterkri löngun til að hefna sín á Ebenezer fyrir hinn þrettán ára gamla róg og sat fyrir honum í tunglslýsinu á grandanum við sjóinn, hvar gengið er úr Efsta- niður í Neðstakaupstaðinn.[286] Sjálfur skrifar Friðrik að þetta hafi þó verið óráð, enda hafi sýslumaður verið við annan mann er hann loksins birtist og þess vegna ekki verið gerlegt að ráðast til atlögu.[287] Þarna á Tanganum tóku þeir þó tal saman um hið gamla Skarðsstrandarslúður og segir séra Friðrik að Ebenezer hafi þá verið hinn vinsamlegasti við sig. Frá ummælum sýslumanns á þessum fundi greinir séra Friðrik með þessum orðum:

 

Sór hann þá og sárt við lagði að það hefði ekki verið sér að kenna, heldur hefði Skúli [á Skarði] verið pottur og panna til þess og viljað koma með því tvenningu á milli séra Eggerts og konu hans. Sagðist hann hafa sæst heilum sáttum við séra Eggert og sagt honum um leið alla undirrót þess máls frá Skúla.[288]

 

Áður en samtalinu lauk bauð Ebenezer drengnum að koma í heimsókn til sín í Hjarðardal en þangað fór hann þó aldrei.[289] Er séra Friðrik greinir frá þessum atburðum löngu síðar kveðst hann hafa vitað hvað bjó að baki heimboðinu þar eð dætur Ebenezers voru þá báðar heimasætur.[290] Með þessum orðum lætur hann að því liggja að Ebenezer hefði vel getað hugsað sér að gefa honum aðra hvora dótturina en haustið 1822 voru þær þó enn á barnsaldri, önnur tíu en hin þrettán ára. Við þessa frásögn bætir séra Friðrik fáeinum orðum og segir:

 

Aldrei þáði Friðrik heimboðið því bæði var að hann hafði ekki tækifæri til þess og svo fóru jafnan ljótar sögur frá Hjarðardal. … Var og ekki kallaður góður kostur í þeim systrum, A. og I. [það er Önnu og Ingibjörgu – innsk. K.Ó.] og andstyggð höfðu margir á Ebenezers húsi.[291]

 

Um sýslumanninn í Hjarðardal segir séra Friðrik á öðrum stað að hann hafi verið fljótfær og skrafinn[292] en lýsir honum annars með þessum orðum:

 

Ebenezer var ljósleitur, grannleitur, bereygður, tann- og fastmæltur, grannvaxinn, baraxlaður, nokkuð baul­hryggjaður, bráðlyndur, harðlyndur en ekki langrækinn, blótvargur í meira lagi. Þótti hræsismaður.[293]

 

Ebenezer Þorsteinsson, sýslumaður í Ytri-Hjarðardal, andaðist haustið 1843 og var þá orðinn 74 ára gamall. Dánarbú hans var virt á 6.848 ríkisdali og 50 skildinga[294] en það samsvaraði um 270 kýrverðum samkvæmt opinberri verðlagsskrá.[295] Á þeirrar tíðar mælikvarða hefur karlinn því verið býsna vel efnaður er hann gaf upp öndina. Nokkurt þref varð um skipti búsins, sem fóru fram árið 1844, og mun ekkjan hafa talið að við frágang þeirra hefðu tengdasynirnir gengið á hennar hlut.[296] Með bréfi rituðu 16. apríl 1845 til Eggerts Briem, sem þá var orðinn sýslumaður í Ísafjarðarsýslu, bar hún fram þá kröfu að jarðeignum búsins yrði skipt að nýju og krafðist viðurkenningar á gjafabréfi frá árinu 1825.[297] Með því bréfi hafði Ebenezer gefið henni jörðina Kirkjuból í Korpudal, 30 hundruð, í morgungjafarnafni eins og það er orðað í bókun Eggerts Briem.[298]

Kröfu sinni um Kirkjuból fékk hún framgengt og Ytri-Hjarðardalur kom líka í hennar hlut[299] svo ekki hefur hún verið á flæðiskeri stödd. Guðrún Þórðardóttir bjó 15 ár sem ekkja í Ytri-Hjarðardal, frá 1843 til 1858.[300] Þegar Ebenezer maður hennar dó var hún 54 ára en komin undir sjötugt er hún seldi jörðina og fluttist inn í Vigur til Önnu dóttur sinnar.[301]

Nágranni Guðrúnar, Ásgeir Jónsson prófastur í Holti, gaf henni árið 1829 þá einkunn að hún væri sérlega góðlátleg og vel kunnandi.[302] Í annarri heimild er hún sögð hafa verið fríð kona og mikilhæf og þess getið að hún hafi stundað lækningar.[303] Þau ummæli munu byggð á frásögn Gísla Gíslasonar sem á yngri árum var heimilismaður hjá maddömunni í Ytri-Hjarðardal (sjá hér bls. 25).

Nær öll árin sem Ebenezer bjó í Ytri-Hjarðardal var hann með alla jörðina til ábúðar (sjá hér bls. 19) en Guðrún ekkja hans hafði annan hátt á. Tveimur árum eftir andlát Ebenezers voru þrír bændur farnir að búa á jörðinni auk Guðrúnar svo þar var þá fjórbýli.[304] Fjölskyldurnar sem áttu heima í Ytri-Hjarðardal í nóvember árið 1845 voru þó ekki bara fjórar heldur sex því Eggert Briem sýslumaður sat þar þann vetur með sína ungu konu og sjötta fjölskyldan var húsfólk.[305] Í annan tíma munu svo margar fjölskyldur sjaldan hafa átt hér heima. Á árunum 1843 til 1858 mun þó yfirleitt hafa verið þrí- eða fjórbýli á jörðinni[306] en sýslumannsekkjan nýtti þó jafnan meginhluta hennar. Má sem dæmi nefna að vorið 1850 taldist hún búa á 48 hundruðum en leiguliðarnir, sem þá voru tveir, bjuggu á 12 og 8 hundruðum.[307] Síðasta ár Guðrúnar í Hjarðardal hafði hún minnkað við sig en bjó þó á 38 hundruðum.[308] Leiguliðarnir voru þá þrír og bjuggu á átta, tíu og tólf hundruðum.[309]

Sum býlin sem reist voru í Ytri-Hjarðardal á búskaparárum Guðrúnar, 1843-1859, fengu sérstök nöfn. Árið 1844 hafði eitt þessara býla fengið nafnið Lukkustaðir og fjórum árum síðar voru líka komnir Blómsturvellir.[310] Á Lukkustöðum bjuggu Guðmundur Þórðarson og Margrét Jónsdóttir kona hans en á Blómsturvöllum hjónin Egill Jónsson og Jóhanna Nikulásdóttir[311] er seinna fluttust að Mosvöllum. Ekki er alveg ljóst hvað býlin með þessum nöfnum stóðu lengi í Ytri-Hjarðardal. Í sóknarmannatölum og hreppstjórabókum eru nöfn hinna einstöku býla í Hjarðardal alls ekki nefnd nema stöku sinnum og af þeim ástæðum verður ekki séð í slíkum heimildum hvenær hætt var að búa á Lukkukstöðum og Blómsturvöllum. Annað þessara býla mun þó hafa fallið úr byggð fyrir 1860. – Tók skriða Blómsturvelli um kvöldið seint, segir séra Sigurður Tómasson í dagbók sinni 11. febrúar 1849 en hann dvaldist þá á Þórustöðum[312] í næsta nágrenni við bæina í Hjarðardal. Líklegt er að það hafi verið kotbýlið Blómsturvellir í landi Ytri-Hjarðardals sem skriðan tók en samt er það ekki alveg víst. Öruggt má hins vegar kallast að bæði kotin, Lukkustaðir og Blómsturvellir, hafi verið fallin úr byggð fyrir 1860 því þaðan í frá var yfirleitt bara tvíbýli í Ytri-Hjarðardal, allt þar til Arngrímur Vídalín Jónsson fór að búa einn á allri jörðinni á árunum milli 1880-1890 (sjá hér bls. 35).

Óljóst er hvar í landi Ytri-Hjarðardals Lukkustaðir og Blómsturvellir muni hafa staðið. Fyrir nokkrum áratugum sáust einhverjar tóttir skammt utan við minjasafnshúsið sem nú stendur við Hjarðardalsnaust og er sagt að Kristján Jóhannesson, sem bjó í Ytri-Hjarðardal á fyrri hluta tuttugustu aldar, hafi talið að þarna muni áður hafa verið kot.[313] Um þetta er þó ekkert vitað með vissu og nú eru þessi gömlu tóttabrot komin undir þjóðveginn.[314]

Þegar Guðrún Þórðardóttir í Hjarðardal missti eiginmann sinn, Ebenezer sýslumann, þurfti hún á forverksmanni að halda til aðstoðar við verkstjórn á búinu. Því hlutverki mun Gísli Gíslason, sem nefndur var gartner líklega hafa gegnt fyrstu árin því í manntalinu frá 1845 er hann talinn næstur á eftir Guðrúnu.[315] Þar er hann þó aðeins nefndur gartner og vinnumaður. Gísli var fæddur á Firði í Múlasveit árið 1795.[316] Hann var kvæntur Guðbjörgu Einarsdóttur og átti heima í Ytri-Hjarðardal öll búskaparár Guðrúnar, frá 1843-1858.[317] Í heimildum frá þeim árum er Gísli oftast sagður vera húsmaður.[318]

Hér var áður frá því greint að árið 1849 hefði sýslumannsekkjan í Ytri-Hjarðardal hafið þátttöku í skútuútgerð með Magnúsi Einarssyni, bónda á Hvilft, séra Lárusi M. Johnsen, presti í Holti, og Torfa Halldórssyni frá Arnarnesi sem þá var ungur skipstjóri (sjá hér Mosvallahreppur, inngangskafli) en gerðist síðar umsvifamikill útgerðarmaður á Flateyri. Magnús á Hvilft hafði þá fengist við þilskipaútgerð um nokkurt skeið (sjá hér Hvilft) en hin þrjú voru öll byrjendur í slíkum rekstri. Skipið sem þau gerðu út hét Bogi og í honum átti Guðrún í Hjarðardal einn fjórða part (sjá hér Mosvallahreppur, inngangskafli). Þátttöku í skútuútgerðinni hélt Guðrún áfram allt þar til hún hætti búskap árið 1858[319] eða í níu ár. Óhætt mun að fullyrða að mjög fáar íslenskar konur hafi gerst þátttakendur í útgerð þilskipa fyrir 1850 ef frá eru taldar þær sem kunna að hafa erft hlut í skipum eftir eiginmenn sína. Þessi framganga Guðrúnar verður því að teljast býsna merkileg því Ebenezer maður hennar hafði legið sex ár í gröfinni þegar hún sló til og keypti fjórða part í skútu. Hugsanlegt er að Kristján Guðmundsson í Vigur, tengdasonur ekkjunnar í Hjarðardal, hafi átt þarna einhvern hlut að máli en sjálfur byrjaði hann að gera út skútu eigi síðar en árið 1837.[320] Óvíst er þó með öllu hvort hann hefur ráðið nokkru um ákvörðun tengdamóður sinnar.

Árið 1829 var ný 10 stórlesta skúta með öllum útbúnaði talin kosta 3.046 ríkisdali.[321] Opinbert kýrverð vestanlands var þá 21 ríkisdalur og 20 skildingar.[322] Tuttugu árum síðar var kýrverðið komið upp í 27 ríkisdali og 25 skildinga.[323] Sé nú gert ráð fyrir að skútan hafi hækkað álíka mikið og kýrin á þessum 20 árum ætti kaupverð á 10 stórlesta skipi með öllum búnaði að hafa verið nær 4.000 ríkisdalir árið 1849. Líklegt má því telja að Guðrún hafi lagt um það bil 1.000 dali í kaupin á Boga. Til samanburðar má nefna að árið 1851 fékk hún fjórða part úr höfuðbólinu Skarði á Skarðsströnd í arf eftir móður sína og seldi þá jarðeign fyrir 400 spesíur,[324] það er 800 ríkisdali en fyrir Ytri-Hjarðardal og sex kúgildi sem honum fylgdu fékk hún 1.600 ríkisdali árið 1858.[325]

Um það hvort húsfreyjan í Ytri-Hjarðardal hafi grætt eða tapað á skútuútgerðinni er best að segja sem minnst því heimildir skortir til að skera úr um það.

Guðrún Þórðardóttir, sem oft mun hafa verið nefnd maddama Thorsteinsen,[326] kom 22ja ára gömul til Önundarfjarðar og settist að hér í Ytri-Hjarðardal. Héðan fór hún nær hálfri öld síðar, sjötug að aldri árið 1859, og fluttist þá í Vigur til Önnu dóttur sinnar[327] sem þá var gift í annað sinn. Þar andaðist gamla sýslumannsekkjan 11. október 1865.[328]

Sá sem keypti Ytri-Hjarðardal af Guðrúnu Þórðardóttur haustið 1858 og borgaði 1.600 ríkisdali fyrir jörðina og kúgildin var Jón Gíslason skipherra[329] sem áður bjó á Lækjarósi í Dýrafirði og um skeið á Gemlufalli. Hér hefur áður verið sagt allnokkuð frá Jóni en hann hóf skútuútgerð fyrstur Dýrfirðinga árið 1843, ásamt Guðmundi Brynjólfssyni á Mýrum, og smíðaði sjálfur skipið (sjá hér Mýrahreppur, inngangskafli og Lækjarós). Hann tók við búsforráðum í Ytri-Hjarðardal vorið 1859 og bjó hér í 9 ár (sjá hér Lækjarós).

Jón Gíslason var sextugur að aldri er hann kom að Ytri-Hjarðardal og mun þá hafa verið hættur þátttöku í útgerð þilskipa. Á yngri árum hafði hann verið skipstjóri á skútum og var því nefndur skipherra eins og þá tíðkaðist. Smiður var hann líka og blóðtökumaður.[330] Jón Gíslason var efnaðri en flestir bændur í Önundarfirði á þeirri tíð. Á sínu fyrsta búskaparári í Ytri-Hjarðardal var honum gert að greiða 2 vættir í tíund og aukaútsvar, sömu upphæð og Torfa Halldórssyni á Flateyri.[331] Eini gjaldandinn í hreppnum sem greiddi meira var séra Stefán P. Stephensen í Holti, 2 vættir og 10 fiska.[332] Á þeim árum sem Jón bjó í Ytri-Hjarðardal lét hann grafa þar 100 faðma langan áveituskurð en slíkar framkvæmdir voru þá nýmæli í Önundarfirði ef marka má búnaðarskýrslur (sjá hér Mosvallahreppur, inngangskafli). Í Hjarðardal kom hann sér líka upp færikvíum árið 1862, sama ár og Torfi Halldórsson á Eyri en þeir tveir urðu fyrstir manna í Önundarfirði til að taka upp þessa nýjung (sjá hér Mosvallahreppur, inngangskafli). Á búskaparárum sínum í Hjarðardal var Jón ætíð með leiguliða á hálfri jörðinni en bjó sjálfur á 34 hundruðum.[333]

Þegar Jón Gíslason keypti Ytri-Hjarðardal af Guðrúnu Þórðardóttur árið 1858 stóð þar auk annarra bygginga timburhús sem maddaman átti.[334] Hús þetta mun hafa verið ein hæð og ris og þar var stofuherbergi sem Jón Gíslason kallar daglegu stofuna í bréfi.[335] Við jarðarsöluna árið 1858 fylgdi timburhúsið ekki með og átti Guðrún það allt til ársins 1861 er það var selt á uppboði.[336] Hæstbjóðandi var skipherrann Arngrímur Vídalín Jónsson sem þá var ókvæntur og átti heima í Ytri-Hjarðardal.[337] Fyrir húsið borgaði hann 216 ríkisdali[338] en kýrverðið var þá tæplega 38 ríkisdalir.[339] Í uppboðsbókinni er húsinu lýst með þesssum orðum: Timbur- og múrhús með einu lofti, hurðum, skrám, lyklum, gluggum og öllu tilheyrandi naglföstu, standandi í Ytri-Hjarðardal.[340]

Athygli vekur að húsið er sagt vera timbur- og múrhús og hefur þá líklega verið múrað í binding eins og tíðkaðist í Danmörku og nokkuð var um hjá dönskum kaupmönnum hérlendis (sjá hér Þingeyri).

Á þessu sama uppboði, sem haldið var 1. júlí 1861, var selt ýmislegt fleira sem Guðrún Þórðardóttir hafði skilið eftir í Hjarðardal.[341] Allt var það mun minna virði heldur en timburhúsið en nefna má nautahlöðu sem fór á 12 ríkisdali og 64 skildinga og skemmu með lofti sem fór á 11 ríkisdali.[342]

Arngrímur Vídalín, sem keypti timburhúsið í Ytri-Hjarðardal árið 1861, var fæddur á Horni í Mosdal í Arnarfirði sumarið 1829 en foreldrar hans, Jón Sveinsson Vídalín, sem nefndur var gartner (sjá hér Flateyri) og kona hans, Guðrún Tómasdóttir frá Hrauni á Ingjaldssandi, bjuggu þá á Horni.[343] Faðir Arngríms hafði lagt stund á garðyrkju í Danmörku og þar mun hann hafa tekið upp Vídalínsnafnið (sjá hér Horn í Mosdal). Jón gartner dó árið 1837 og skömmu síðar mun Arngrímur sonur hans hafa flust með móður sinni á Ingjaldssand.[344] Þar var hann í Hrauni árið 1845, þá 17 ára vinnumaður.[345] Árið 1858 fluttist Arngrímur úr Núpssókn í Dýrafirði að Kirkjubóli í Valþjófsdal[346] og hefur þá verið orðinn skipstjóri á þilskipi því í skránni yfir innflutta í prestakallið er hann nefndur skipherra.[347] Árið 1860 var Arngrímur sestur að í Hjarðardal hjá Jóni Gíslasyni[348] og hefur þá máske fengið leigt timburhúsið sem hann keypti á næsta ári.

Fyrstu árin sem Arngrímur átti heima í Ytri-Hjarðardal var hann ókvæntur. Hann var þá jafnan til sjós frá því snemma á vorin og fram á haust. Heima í Hjarðardal geymdi Jón Gíslason þá lykilinn að húsi skipstjórans og þar í stofunni hékk á vegg gamalt barómeter, rautt, pólerað að lit með látúnsplötu að ofan sem veðurbreytingarnar voru grafnar á, að sögn Jóns Gíslasonar sem átti sjálfur þessa loftvog.[349] Jón lýsir barómetrinu nánar og segir: Hægra megin á látúnsplötunni, út við röndina, var fest lítil glerpípa í mynd af hita- og kuldamæli með kúlu á endanum sem er fyllt með rauðum vínspíritus og var helmingur af kúlunni greyptur ofan í plötunni.[350]

Líklegt er að þetta barómeter hafi Jón Gíslason átt á þeim árum sem hann var skútuskipstjóri (sjá hér Lækjarós). Sumarið 1862 seldi hann það Sumarliða Sumarliðasyni gullsmið er þá var á ferðalagi í Önundarfirði.[351] Verðið átti að vera 7 ríkisdalir en illa mun hafa gengið að fá þá greidda.[352]

Þegar Jón Gíslason fór frá Hjarðardal vorið 1868 voru bæjarhúsin tekin út. Í úttektargerðinni sést að baðstofan sem Jón bjó í var 15,5 x 4,5 álnir,[353] það er 27,4 fermetrar, sem á þeim tíma þótti býsna rúmgott húsnæði. Hæð baðstofuhússins var um það bil 3,7 metrar.[354] Í baðstofu þessari voru tvö stafgólf undir súð en fjögur byggð með langböndum og voru sjö langbönd á hvorri síðu.[355]

Búrið sem Jón Gíslason skilaði vorið 1868 í hendur næsta ábúanda var tæplega 15 fermetrar að flatarmáli og þar voru liðlega 3 metrar undir loft.[356] Eldhúsið var álíka stórt, 14 fermetrar að flatarmáli og hæðin 3,77 metrar.[357] Tvenn göng voru í bæjarhúsum Jóns Gíslasonar hér í Ytri-Hjarðardal. Önnur þeirra lágu frá eldhúsi til baðstofu og voru um það bil 5,6 metrar á lengd, 125 sentimetrar á breidd og 2,35 metrar á hæð.[358] Hin göngin lágu frá baðstofu til útidyra.[359] Þau voru mun styttri, aðeins 2,5 metrar en álíka breið.[360] Bæjarþilið var úr plægðum viði með góðri hurð á járnum og fyrir innan göngin var önnur hurð.[361]

Öll voru þessi bæjarhús í svipuðu standi þegar Arngrímur Vídalín skipstjóri tók hér við búsforráðum á hálfri jörðinni árið 1871 og fékk til umráða baðstofuna sem Jón Gíslason hafði búið í.[362]

Í riti sínu Skútuöldinni segir Gils Guðmundsson að Arngrímur hafi lengi verið skipstjóri á Maríu, lítilli skonnortu, og átt hlut í henni á móti Torfa Halldórssyni og Hjálmari Jónssyni[363] sem var eigandi Flateyrarverslunar um skeið. Á sínum langa skipstjóraferli mun Arngrímur hafa stýrt fleiri skipum til veiða. Titilinn skipherra var hann kominn með árið 1858 eins og hér var áður getið en hlut í þilskipi eignaðist hann ekki fyrr en 1870 eða 1871 (sjá hér Mosvallahreppur, inngangskafli).

Arngrímur Vídalín Jónsson settist að í Hjarðardal um eða rétt fyrir 1860 og átti hér síðan heima til dauðadags. Hann kvæntist haustið 1870 Láru Vilhjálmsdóttur,[364] sem hét fullu nafn Laura Williamine Margrethe (sjá hér Grandi) og var dóttir Williams Thomsen er um skeið var kaupmaður á Patreksfirði. Móðir Láru var kona hans, Ane Margrethe, fædd Knudsen, sem bjó í ekkjustandi á Granda í Þingeyrarhreppi um nokkurra ára skeið (sjá hér Grandi). Um 1860 var Lára Vilhjálmsdóttir ung heimasæta hjá móður sinni á Granda en giftist 1864 Brynjólfi Guðmundssyni skipherra frá Mýrum í Dýrafirði sem hún missti vorið 1869 (sjá hér Mýrar). Lára hafði því verið ekkja í liðlega eitt ár er hún gekk í hjónaband á ný og giftist öðrum skipherra sem var Arngrímur Vídalín í Hjarðardal.

Arngrímur og Lára voru gefin saman á Mýrum í Dýrafirði 7. október 1870.[365] Hún var þá 26 ára en brúðguminn fimmtán árum eldri. Svaramaður Láru var tengdafaðir hennar frá fyrra hjónabandi, Guðmundur Brynjólfsson, sjálfseignarbóndi á Mýrum, en svaramaður Arngríms var Torfi Halldórsson, verslunarstjóri á Flateyri.[366] Í manntali frá haustinu 1870 eru nýgiftu hjónin sögð vera þurrabúðarfólk í Ytri-Hjarðardal[367] en ári síðar voru þau farin að búa á hálfri jörðinni.[368] Þau Arngrímur Vídalín og Lára kona hans bjuggu síðan í Ytri-Hjarðardal meðan bæði lifðu.[369] Arngrímur dó sumarið 1900, liðlega sjötugur að aldri, en kona hans lifði nokkru lengur.[370] Fyrstu árin í búskap Arngríms var tvíbýli á jörðinni og svo var enn árið 1880[371] en frá árinu 1883 mun Arngrímur hafa búið einn á allri jörðinni[372] og mun hafa eignast hana.[373]

Um það leyti sem Arngrímur gekk í hjónaband keypti hann einn fjórða part í skútu (sjá hér Mosvallahreppur, inngangskafli) og vel má vera að hann hafi enn um sinn haldið áfram sínu fyrra skipstjórastarfi þó að hann færi að búa í Hjarðardal. Varðveittar heimildir sýna að Arngrímur hefur verið einn efnaðasti bóndinn í Mosvallahreppi á síðustu áratugum 19. aldar. Ef marka má tíundarskýrslu frá árinu 1880 áttu þá aðeins fjórir gjaldendur í Mosvallahreppi meira lausafé en hann en það voru séra Stefán P. Stephensen í Holti, Torfi Halldórsson á Flateyri, Guðmundur Sturluson í Dalshúsum og Jens Jónsson á Kroppstöðum.[374] Þann 1. janúar 1885 átti hann kr. 1.276,81 inni hjá Árgeirsverslun á Flateyri[375] en sú upphæð svaraði þá til rösklega 12 kýrverða.[376] Á hreppaskilum árið 1892 taldi Arngrímur fram 12 hundruð og 50 álnir í lausafé.[377] Þeir Arngrímur og Sveinn Rósinkranzson á Hvilft voru þá jafnir en hærri voru Torfi Halldórsson á Flateyri með 35 hundruð og 54 álnir, séra Janus Jónsson í Holti með 23 hundruð og 60 álnir, Jens Jónsson á Innri-Veðrará með 14 hundruð og 105 álnir og Hans Ellefsen, hvalveiðiforstjóri á Sólbakka með 13 hundruð.[378] Allir aðrir gjaldendur í hreppnum töldu árið 1892 fram minna lausafé en þeir sem hér hafa verið nefndir.

Hér var áður minnst á kaup Arngríms á einum fjórða parti úr þilskipi árið 1870 eða 1871. Þennan hlut í skipi átti hann allt til ársins 1896[379] og kynni að hafa hagnast nokkuð á þeirri eign.

Þórður Sigurðsson, sem var vinnumaður í Holti á árunum 1884-1890 en seinna bóndi í Breiðadal, segir að árið 1884 hafi Arngrímur verið hættur sjómennsku.[380] Hann getur þess að Arngrímur hafi verið duglegur sjómaður og góður stjórnari en drykkfelldur fram á efri ár.[381] Í Skútuöldinni er Arngrími lýst með þessum orðum: Arngrímur Jónsson var kjarkmaður hinn mesti, dugandi sjósóknari, kappsfullur og tilheldinn mjög. Drykkfelldur gerðist hann á seinni árum en hætti skipstjórn um svipað leyti.[382]

Með hliðsjón af því sem hér var áður sagt um þátttöku Guðrúnar Þórðardóttur í útgerð þilskipa (sjá hér bls. 31) mun því óhætt að fullyrða að á árunum 1849-1895 hafi fólk úr Ytri-Hjarðardal verið meðeigendur í þilskipum í um það bil 35 ár og á árunum 1859-1900 bjuggu hér nær alltaf skipherrar eða fyrrverandi skipherrar. Á þessu skeiði voru líka oftast tveir til þrír bátar í Ytri-Hjarðardal, oft sexæringur eða fjögra manna far og annar minni bátur.[383] Stærri báturinn hefur þá ugglaust verið hafður til róðra á vorvertíð og sá minni máske líka en auk þess hafa menn skotist á sjó á sumrin og að haustlagi þegar henta þótti. Á fyrri hluta 20. aldar voru svo vélbátar gerðir út frá Hjarðardal um nokkurt skeið (sjá hér bls. 2-3).

Haustið 1901 var nokkuð á annað ár liðið frá andláti Arngríms bónda í Ytri-Hjarðardal. Ekkja hans, Lára Vilhjálmsdóttir, bjó þá enn á einhverjum parti úr jörðinni[384] á móti dóttur sinni og tengdasyni, þeim Guðnýju Arngrímsdóttur og Guðmundi Bjarnasyni.[385] Eigendur jarðarinnar voru þá Árni Sveinsson, kaupmaður á Ísafirði, og dánarbú Steindórs Egilssonar á Brekku í Þingeyrarhreppi.[386]

Árið 1909 munu bræðurnir Kristján og Sæmundur Jóhannessynir frá Hesti hafa keypt Ytri-Hjarðardal með öllum húsum sem hér voru þá og sex innstæðukúgildum.[387] Kaupverðið var kr. 8.500.-.

Kristján Jóhannesson bjó hér síðan í 50 ár, frá 1909-1959, um tíma í sambýli við Sæmund bróður sinn. Kristján var um skeið bæði oddviti og hreppstjóri í Mosvallahreppi og frá því hann hætti búskap hafa niðjar hans búið í Ytri-Hjarðardal, mann fram af manni, allt til þessa dags (sjá hér Firðir og fólk, 1900-1999, 348).

Hér hefur nú verið sagt nokkuð frá ýmsum góðbændum og fyrirmönnum sem bjuggu í Ytri-Hjarðardal á árum áður en að lokum skal nefndur til sögu einn úr hópi þeirra sem hér áttu dvöl og minna máttu sín. Vorið 1842 réðst tvítugur piltur, Pálmi Einarsson að nafni, í vinnumennsku að Hjarðardal til Ebenezers Þorsteinssonar, fyrrverandi sýslumanns,[388] sem þá stóð enn fyrir búi á þessari eignarjörð sinni þó kominn væri á áttræðisaldur. Pálmi var fæddur í Reykhólasveit og þar um slóðir mun hann hafa alist upp en kom að Hjarðardal frá Söndum í Dýrafirði.[389] Þegar Pálmi kom að Hjarðardal var búið að byggja timburhúsið sem hér var áður nefnt (sjá bls. 33). Stóð það eitt sér, spölkorn frá öðrum húsum, og var nefnt útistofa.[390] Á loftinu í þessu stofuhúsi geymdi maddama Guðrún, kona Ebenezers, bæði matvæli og kistil með peningum.[391] Þegar nótt var orðin dimm haustið 1842 féll Pálmi í þá freistni að skríða inn um glugga á stofuloftinu og stal þar bæði brauði og brennivíni, sýrópi og sykri og fleiru matarkyns.[392] Úr peningakistlinum tók hann líka fáeinar spesíur.[393] Áður en uppvíst varð um þjófnaðinn náði Pálmi að strjúka úr vistinni og komst á flakki alla leið norður í Skagafjörð.[394] Á þessu ferðalagi um fimm sýslur stal hann ýmsu hér og þar til að komast af en var hvergi gripinn af yfirvöldum fyrr en hreppstjórinn í Seyluhreppi þar nyrðra hafði hendur í hári hans.[395] Sá hreppstjóri var reyndar enginn annar en Gísli Konráðsson, hinn þjóðkunni fræðimaður[396] sem tíu árum síðar fluttist að norðan og settist að í Flatey á Breiðafirði.

Þegar Pálmi hafði verið handtekinn í Skagafirði var hann sendur til baka, frá einum hreppstjóra til annars, alla hina löngu leið uns komið var í Reykjarfjörð við Ísafjarðardjúp en þar bjó þá Þorkell Gunnlaugsson, sem var sýslumaður í Ísafjarðarsýslu.[397] Til Reykjarfjarðar var komið með Pálma 13. febrúar 1843 og tveimur dögum síðar var byrjað að yfirheyra hann.[398] Enn liðu þó nær tíu mánuðir uns dómur var kveðinn upp og á því tímabili var hann lengst í varðhaldi hjá séra Sigurði Tómassyni í Holti í Önundarfirði en einnig um tíma hjá Magnúsi Einarssyni, hreppstjóra á Hvilft.[399] Í varðhaldinu var Pálmi hafður í járnum, að minnsta kosti annað veifið. Kom sýslumaður Gunnlögsen í Pálmasökina, skrifar séra Sigurður Tómasson í Holti í dagbók sína 12. apríl 1843 og bætir við: Lét ég smíða fyrir sýslumann háls- og handjárn, fékk ég tjöru og steinkol upp í fangajárnin.[400] Í reikningum, sem séra Sigurður fékk greidda fyrir fangavörsluna, sést að járnin hefur hann fengið smíðuð úti í Valþjófsdal, hjá Guðna Jónssyni á Kirkjubóli er hann nefnir klénsmið.[401] Í þessum sömu reikningum er þess líka getið að járnin sem fanginn lá í um nætur hafi verið meður helsi um hálsinn og vigtað 2,5 pund en dagjárnin 1,5 pund.[402] Samtals kostuðu fangajárnin 4 ríkisdali og 48 skildinga.[403]

Um sumarmál vorið 1843 sendi séra Sigurður fangann í ver á Kálfeyri.[404] Ólíklegt verður þó að telja að hann hafi verið látinn róa í hlekkjum en vera má að járninu hafi verið brugðið um háls hans þegar lagst var til hvíldar í verbúðinni. Heima í Holti mun Pálmi líka stundum hafa gengið laus því kvöld eitt komst hann þar í skemmu prestsins og náði að stela þaðan fjórum riklingsflökum, tveimur rafabeltum vænum, lítils háttar af rauðmaga og brennivíni og tvennum duggarasokkum.[405]

Í fyrri hluta desembermánaðar árið 1843 var Pálmi kominn norður í Reykjarfjörð til Þorkels sýslumanns. Við réttarhöld sem þar fóru fram þann 9. desember var Pálmi spurður ýmissa spurninga um matarvistina í Ytri-Hjarðardal sumarið 1842. Spurningar þessar og svör fangans við þeim eru færð inn í dómabókina. Þar stendur þetta skrifað:

 

Hve mikið feitmeti hafðir þú um mánuðinn?

− Ég fékk smjörfjórðung í túnsláttarbyrjun og átti það að duga til Mikaelsmessu.

Hvernig voru þér fengin fiskæti?

− Einn og hálfur steinbítur með höfðum til viku.

Hver var málamatur?

− Hálfgrjón í vatnsblandi af mjólk kvöld og morguns.[406]

 

Sé þarna rétt með farið hafa fimm kíló af smjöri átt að endast vinnumanninum í 12 vikur.

Þorkell Gunnlaugsson sýslumaður kvað upp dóm í máli Pálma þann 14. desember 1843 og var fanginn dæmdur fyrir þjófnað, strok og lygi til að þola 27 vandarhögg á bert bak.[407] Þessari dómsniðurstöðu skaut amtmaður til landsyfirréttar sem vísaði málinu aftur heim í hérað og þar var Pálmi dæmdur í annað sinn fyrir sömu sakir 2. nóvember 1844.[408] Niðurstaða dómsins varð hin sama og áður að öðru leyti en því að nú var auk hýðingarinnar kveðið á um að hinn seki skyldi vera undir sérstakri tilsjón lögregluyfirvalda í átta mánuði.[409]

Í landsyfirrétti var mál Pálma loks tekið til dóms þann 10. mars 1845[410] en þá var liðið hálft þriðja ár frá því hann krækti sér í brauð og brennivín á lofti útistofunnar í Hjarðardal. Dómarar landsyfirréttar töldu dóm sýslumanns í máli Pálma vera alltof vægan og þyngdu refsinguna úr 27 vandarhöggum í 3 x 27 vandarhögg.[411] Auk þess var tilsjónartíminn lengdur úr átta mánuðum í tvö ár og sakamanninum gert að greiða málskostnað[412] sem hann hefur þó engan veginn verið fær um. Í forsendum dómsins sést að það sem Pálmi náði að stela í Hjarðardal var virt á 11 ríkisdali og 43 skildinga en í ferðinni þaðan norður í Skagafjörð var hann talinn hafa hnuplað hér og þar fatnaði og öðrum munum sem virða mætti á 13 ríkisdali og 4 skildinga.[413] Við þetta bættist það sem hann hafði stolið frá prestinum í Holti en það þýfi var virt á 88 álnir.[414] Fardagaárið 1842-1843 var opinbert kýrverð vestanlands 28 ríkisdalir og 25 skildingar[415] og er því ljóst að heildarandvirði alls þýfisins hefur numið liðlega einu og hálfu kýrverði.

Landsyfirréttardómurinn í máli Pálma Einarssonar var staðfestur af hæstarétti í Kaupmannahöfn 6. janúar 1846[416] og 18. júní á því ári mun Pálmi hafa tekið út sína refsingu 3 x 27 vandarhögg.[417] Engum sögum fer af því hvort hann þoldi hýðinguna vel eða illa og um feril hans næstu 20 ár er fátt vitað. Hann mun þá einkum hafa haldið sig á ýmsum stöðum við Ísafjarðardjúp.[418] Frá því um veturnætur árið 1867 og nokkuð fram á veturinn 1868-1869 var Pálmi að eigin sögn á flakki milli Ísafjarðarsýslu og Reykhólahrepps uns hann var færður Gunnlaugi Blöndal sem þá var sýslumaður í Barðastrandarsýslu og bjó á Litlu-Eyri í Suðurfjarðahreppi.[419] Við yfirheyrslur hjá Gunnlaugi sýslumanni játaði Pálmi á sig margvíslegan smáþjófnað en við síðara réttarhald hjá sýslumanninum í Ísafjarðarsýslu tók hann flestar þessar játningar til baka og hélt því fram að Gunnlaugur sýslumaður á Litlu-Eyri hefði beitt sig misþyrmingum.[420] Fullyrti Pálmi að sýslumaður Barðstrendinga hefði lamið sig á hálsinn með göngustaf svo blóð hafi gengið fram úr nefinu á sér, blætt úr öðru eyranu og hálsinn á sér bólgnað.[421]

Ekki mun nú vera unnt að skera úr um hvort þessar ásakanir Pálma kunni að hafa haft við einhver rök að styðjast. Sjálfur tók hann þær síðar til baka[422] en þess má geta að mjög skömmu eftir að Pálmi var tekinn til bæna á Litlu-Eyri fékk Gunnlaugur sýslumaður frí frá störfum vegna veikinda og nokkrum árum síðar var hann leystur frá embætti vegna geðbilunar.[423]

Frá Litlu-Eyri var Pálmi fluttur norður á Ísafjörð til Stefáns Bjarnarsonar sem þá var sýslumaður í Ísafjarðarsýslu. Haustið 1869 tók Stefán fangann með sér inn í Djúp og tók að kanna hverju Pálmi hefði hugsanlega stolið þar.[424] Við þá rannsókn sannaðist fátt en engu að síður lét Stefán sýslumaður sig hafa að dæma flakkarann á ný í 3 x 27 vandarhagga refsingu fyrir þjófnað en auk þessa var í dómi hans kveðið á um að hinn seki skyldi sæta sérstakri gæslu í tvö ár og greiða málskostnað.[425]

Í dómsforsendum Stefáns Bjarnarsonar segir svo um Pálma og aðstæður hans árið 1868:

 

Hinn ákærði hafði þetta sumar og haust enga vist og hafði hvergi höfði sínu að halla, harðæri meðal manna, og leið oft neyð af sulti og klæðleysi. Þess utan er hann lingerður af náttúru og kveifarlegur svo hann ekki fær inni sem hjú hjá öðrum en þeim sem ekki eiga annars úrkosti, það stolna geymt hirðuleysislega, − er fáfróður og víða fengið góða vitnisburði fyrir hegðun.[426]

 

Dómi Stefáns sýslumanns leyfði Pálmi sér að áfrýja til landsyfirréttar[427] og nú var það hinn æðri réttur sem sá ástæðu til að milda dóminn. Niðurstaða landsyfirréttarins varð sú að ekki teldist sannað að Pálmi hefði stolið nema einu sauðarkrofi og einni ýsu sem hann borðaði þegar í stað og því bæri að fækka vandarhöggunum úr 3 x 27 í 40, enda hafi verknaðurinn verið framinn undir áhrifum af neyð og sulti.[428]

Þessi síðari hýðing var lögð á Pálma að Staðarfelli í Dölum þann 28. júlí 1870.[429] Hann átti þá nær 30 ár eftir ólifuð en piltur þessi sem tvítugur stal brauði og brennivíni af stofuloftinu í Ytri-Hjarðardal dó nær áttræður 30. mars 1901, þá niðursetningur á Hríshóli í Reykhólasveit.[430]

Söguna af viðskiptum Pálma Einarssonar við réttvísina höfum við rifjað upp hér í Ytri-Hjarðardal þar sem hann hrasaði í fyrsta sinn svo kunnugt sé á vegi dyggðarinnar. Nú stöndum við upp og kveðjum því mál er að þoka sér héðan brott. Næsti bær sem við heimsækjum er Innri-Hjarðardalur og hér er örskammt á milli bæja því að túnin liggja saman. Hér er á öðrum stað gerð grein fyrir landamerkjum Ytri- og Innri-Hjarðardals (sjá hér Innri-Hjarðardalur). Milli bæjanna er auðvelt að ganga á fimm mínútum en að þessu sinni munum við hins vegar leggja lykkju á leið okkar og rölta fram á dalinn sem bæirnir taka nafn af.

Hjarðardalur er þröngur en allgrösugur dalur sem gengur til suð-suðvesturs inn í fjallgarðinn milli Önundarfjarðar og Dýrafjarðar. Á dalnum skiptir Hjarðardalsá löndum milli jarðanna Ytri- og Innri-Hjarðardals[431] en hún myndast úr tveimur kvíslum sem koma af fjöllum ofan. Frá bænum í Ytri-Hjarðardal fram að ármótunum, þar sem kvíslarnar tvær mætast, eru um það bil tveir og hálfur kílómetri. Þar fyrir framan taka við gróðurlitlir kikar eða afdalir, sitt hvoru megin við Ártungur sem svo heita en þær eru hér fremst í dalbotninum[432] og voru taldar sameiginlegt land Ytri- og Innri-Hjarðardals.[433]

Heiman frá Ytri-Hjarðardal er aðeins 5-10 mínútna gangur upp í dalsmynnið þar sem hægt er að virða fyrir sér allan meginhluta Hjarðardals. Yfir ytri hlíðinni blasa við Rauðubjörg, hátt í fjallinu heiman við miðjan dal, en gilið heiman við þau heitir Nónhæðagil.[434] Skriðan sem komið hefur úr Nónhæðagili og nær upp að klettaslitrum neðan við það heitir Stóraskriða.[435] Framan við hana er Hvolf en þar fyrir framan Langhóll sem er hér grasivaxinn hryggur.[436] Skammt fyrir framan Langhól eru grasivaxnir hólar sem heita Selhólar.[437] Við Selhóla mun búsmali bænda í Ytri-Hjarðardal hafa verið hafður í seli á fyrri tíð. Nú er hér stór hringlaga tótt, um það bil 28 metrar í ummál, og ekki ólíklegt að hér hafi síðast staðið sauðabyrgi sem kynni að hafa verið byggt upp úr seltóttunum. Lækur rennur hjá tóttinni og rétt framan við hann er greinileg kví sem eins og nafnið Selhólar bendir eindregið til þess að hér hafi verið sel. Enginn veit nú hvenær seljabúskap var hætt hér í Hjarðardal en í sóknalýsingu séra Tómasar Sigurðssonar í Holti, sem hann skrifaði árið 1840, segir hann beinum orðum að hvergi í prestakallinu sé búsmali hafður í seli nema frá Holti.[438] Við yfirlýsingu sína um þetta bætir séra Tómas þeim orðum að víða í dölum Önundarfjarðar sjáist hins vegar seljatóttir en enginn minnist þess lengur að selstöður þessar hafi verið brúkaðar.[439] Með hliðsjón af orðum prestsins verður því að gera ráð fyrir að hér í sveit hafi seljabúskapur lagst af fyrir 1770, alls staðar nema í Holti. Við tóttina hjá Selhólum var síðar setið yfir fráfæruám en í Ytri-Hjarðardal var fært frá allt til ársins 1934 og í Innri-Hjarðardal til 1941.[440]

Frá seltóttunum er gott að virða fyrir sér fjallahringinn en efstu klettabrúnir hans liggja víðast hvar í um og yfir 700 metra hæð yfir sjávarmáli. Framantil í Rauðubjörgum, sem áður voru nefnd, mun vera surtarbrandur[441] og í sóknalýsingunni frá 1840 segir séra Tómas að Friðrik Svendsen, kaupmaður á Flateyri, hafi fundið surtarbrand í fjallshlíð fram á nefndum Hjarðardal ytri, undir kletti einum … óhræranlegum.[442] Prestur tekur reyndar fram að ekkert sjáist nú eftir af brandinum[443] sem bendir til þess að eitthvað af honum hafi verið hirt.

Neðan við Rauðubjörg er klettabelti hátt í hlíð sem nær lengra fram eftir dalnum og heitir Hjallar en framan við þá er í háfjallinu breitt gil, sem heitir Sveltistallsgil og í hömrunum framan við það er Sveltistallur.[444]

Á móts við ármót kvíslanna tveggja sem mynda Hjarðardalsá er mjög áberandi skarð í háfjallinu vestan eða norðvestan við dalinn. Skarð þetta heitir Manntapaskarð og eru sagnir um að þar hafi farist 18 menn á leið frá jólagleði úr Hjarðardal í Valþjófsdal.[445] Neðan úr dalnum sýnist ekki vera árennilegt að leggja í klettavegginn neðan við skarðið en hér mun þó vera fært milli dala fyrir þá sem vanir eru í klettum.[446] Hið mikla fjall Þorfinnur, sem snýr framhliðinni að firðinum, er talið ná fram að Manntapaskarði[447] en framan við skarðið tekur við Kambafjall.[448] Upp á því er Stóraborg, gróðri vaxin klettahæð, en fram í botni Hjarðardals er klettahyrna sem ber nafnið Torfhorn.[449] Heimri-Brekkur ná þvert yfir dalinn í miðjum Ártungum en framar eru Kikabrekkur sem ná þvert yfir dalbotninn.[450] Í síðarnefndu brekkunum eru tvö vötn, annað vestantil í þeim en hitt austantil.[451] Eystra vatnið er stærra og þar eru aðalupptök Hjarðardalsár.[452] Við Vötnin en svo eru þau nefnd er mýrlendi og þar var stöku sinnum slegið.[453]

Hlíðin handan ár er öll í landi Innri-Hjarðardals og við hinar fornu seltóttir förum við úr skóm og sokkum og vöðum yfir Hjarðardalsá sem eins og áður sagði rennur á merkjum jarðanna.

 

 

 

 

 

 

 

– – – – – – – – – – o o o o o – – – – – – – – – –

 

[1] Hagalín Guðmundsson. – Viðtal K.Ó. við hann 2.8.1993.

[2] Sama heimild.

[3] Óskar Einarsson 1951, 119.

[4] Sama heimild.

[5] Sama heimild.

[6] Hag. Guðm. – Viðtal K.Ó. við hann 2.8.1993.

[7] Óskar Ein. 1951, 119-120.

[8] Sama heimild.

[9] Sama heimild.

[10] Sama heimild, 120.

[11] Hag. Guðm. – Viðtal K.Ó. við hann 2.8.1993.

[12] Sama heimild.

[13] Sama heimild.

[14] Sama heimild.

[15] Hag. Guðm. – Viðtal K.Ó. við hann 2.8.1993.

[16] Sama heimild.

[17] Sama heimild.

[18] Sama heimild.

[19] Sama heimild.

[20] Sama heimild.

[21] Sama heimild.

[22] Sama heimild.

[23] Sama heimild.

[24] Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns VII, 100-101.

[25] Guðmundur Eiríksson 1957, 66.

[26] Hag. Guðm. – Viðtal K.Ó. við hann 2.8.1993.

[27] Hag. Guðm. – Viðtal K.Ó. við hann 2.8.1993.

[28] Sama heimild.

[29] Sama heimild.

[30] Sama heimild.

[31] Sama heimild.

[32] Sama heimild.

[33] Sama heimild.

[34] Sama heimild.

[35] Sama heimild.

[36] Sama heimild.

[37] Sama heimild.

[38] Stjórnartíðindi 1936 A, bls. 154.

[39] Guðm. I. Kr. – Viðtal K.Ó. við hann 30.6.1993.

[40] Hag. Guðm. – Viðtal K.Ó. við hann 2.8.1993.

[41] Hag. Guðm. – Viðtal K.Ó. við hann 2.8.1993.

[42] Sama heimild.

[43] Sama heimild.

[44] Sama heimild.

[45] Lbs. 45824to, Dagb. Jóns Guðmundssonar frá Grafargili 18.1.1881, 25.3.1881, sbr. 21.3.1882 og 8.3.1892.

[46] Lbs. 23754to, Dagbók Sighvats Grímssonar Borgfirðings 2.3.1892.

[47] Sama heimild.

[48] Sama heimild.

[49] Lbs. 22174to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 12.9.1898.

[50] Óskar Ein. 1951, 120.

[51] Óskar Ein. 1951, 115.

[52] Jarðab. Á. og P. VII, 100. J. Johnsen 1847, 195.

[53] Jarðab. Á. og P. VII, 103.

[54] Sama heimild, 100.

[55] Sama heimild.

[56] Sama heimild.

[57] Sama heimild.

[58] Sama heimild, 101.

[59] Halldór Kristjánsson 1987, 97.

[60] Skýrslur um landshagi IV, 486.

[61] Jarðab. Á. og P. VII, 101.

[62] Sama heimild.

[63] Sama heimild.

[64] Sama heimild.

[65] Sama heimild, 101-103.

[66] Sóknalýsingar Vestfjarða II, 103.

[67] Sama heimild.

[68] Óskar Ein. 1951, 113.

[69] Sama heimild, 116.

[70] Guðm. I. Kr. – Viðtal K.Ó. við hann 30.6.1993.

[71] Fasteignabók 1921, 79.

[72] Sama heimild, 79-81.

[73] Fasteignamatsskjöl. Gjörðabók undirmatsnefndar í V-Ís., löggilt 26.3.1919, bls. 148.

[74] Sama heimild.

[75] Sama heimild.

[76] Fasteignamatsskjöl. Gjörðabók fasteignamatsnefndar í V-Ís., löggilt 9.3 1916, bls. 68.

[77] Fasteignamatsskjöl. Gjörðabók undirmatsnefndar í V-Ís., löggilt 26.3.1919, bls. 148.

[78] Sömu gjörðabækur undirmatsnefndar og fasteignamatsnefndar.

[79] Fasteignabók 1921, 79.

[80] Sömu gjörðabækur undirmatsnefndar og fasteignanefndar.

[81] Sömu heimildir.

[82] Sömu heimildir.

[83] D.I. III, 324.

[84] D.I. III, 324.

[85] D.I. XV, 572-574.

[86] D.I. IV, 288-289.

[87] Sama heimild, 688.

[88] Sama heimild.

[89] D.I. V, 730, sbr. V, 727-728.

[90] Sömu heimildir.

[91] D.I. V, 730.

[92] Sama heimild.

[93] D.I. V, 727-728 og 730.

[94] D.I. VIII, 165-166.

[95] Sama heimild, 266-269.

[96] D.I. IX, 234-235.

[97] Sama heimild, 561-562.

[98] D.I. X, 347-348.

[99] Sama heimild, 679-681.

[100] Sama heimild.

[101] Sama heimild.

[102] Jarðab. Á. og P. VII, 100. J. Johnsen 1847, 195. Halldór Kristjánsson 1987, 91 (Ársrit S.Í.).

[103] Sömu heimildir.

[104] Skýrslur um landshagi I, 262 (Kph. 1858).

[105] J. Johnsen 1847, 195.

[106] Bogi Benediktsson: Sýslumannaæfir II, 245.

[107] D.I. XV, 508 og 521.

[108] Jarðab. Á. og P. VII, 100.

[109] Sama heimild.

[110] Sama heimild.

[111] J. Johnsen 1847, 195.

[112] Sama heimild.

[113] Sama heimild.

[114] Jarðab. Á. og P. VII, 100.

[115] Manntal 1703. Jarðab. Á. og P. VII, 100.

[116] D.I. XV, 521.

[117] Manntal 1703.

[118] Jarðab. Á. og P. VII, 100-101.

[119] Sama heimild.

[120] Sama heimild.

[121] Manntal 1703. Jarðab. Á. og P. VII, 100. Jarða- og bændatal úr Ísafj.sýslu 1753, eftirrit. Manntal 1762.

[122] Bænda- og skuldaskrár úr Ísafj.sýslu frá því um 1735, eftirrit. Sóknarm.tal Holtsprestakalls 1793.

[123] Ísl. æviskrár IV, 41.

[124] Skj.s. stiftamtm. III, nr. 176, bréf Jóns Arnórssonar sýslumanns 14.9.1777 til stiftamtm. og bréf Ólafs

Erlendssonar 8.4.1777 sem fylgir þar með.

[125] Alþ.b. Íslands XVI, 36.

[126] Ísl. æviskrár I, 443-444 og IV, 41.

[127] Sama heimild.

[128] Sama heimild.

[129] Ísl. æviskrár I, 443-444 og IV, 41

[130] Alþ.b. Íslands XV, 102-103.

[131] Sama heimild. Ísl. æviskrár I, 443-444.

[132] Alþ.b. Íslands XV, 88, 102-103.

[133] Sama heimild og Bogi Benediktsson: Sýslum.æfir II, 238.

[134] Ísl. æviskrár IV, 41.

[135] Sama heimild.

[136] Alþ.b. Íslands XV, 340-342.

[137] Sama heimild.

[138] Sama heimild.

[139] Sama heimild, 270 og 313.

[140] Alþ.b. Íslands XVI, 36, sbr.  þar bls. 89.

[141] Sama heimild.

[142] Bogi Ben.: Sýslum.æfir II, 239-240.

[143] Ísl. æviskrár III, 461.

[144] Bogi Ben.: Sýslum.æfir II, 239-240.

[145] Sama heimild.

[146] Ísl. æviskrár III, 284 og V, 160.

[147] Alþ.b. Íslands XVI, 576-577.

[148] Annálar V, 437.

[149] Alþ.b. Íslands XVI, 576-577 og 586.

[150] Sóknarm.tal Holtspr.kalls frá janúarmánuði 1793.

[151] Ísl. æviskrár III, 265.

[152] Ísl. æviskrár III, 265.

[153] Sama heimild II, 192-193.

[154] Sóknarm.tal Holtspr.kalls 1803.

[155] Lbs. 23684to S.Gr.B. Prestaæfir. Ísl. æviskrár III, 192-193.

[156] Ísl. æviskrár III, 192-193.

[157] Sama heimild.

[158] Sama heimild.

[159] Sama heimild.

[160] Lbs. 23684to S.Gr.B. Prestaæfir.

[161] Manntal 1801.

[162] Manntal 1801.

[163] Ísl. æviskrár IV, 61.

[164] Sama heimild I, 262-263.

[165] Sóknarm.tal Holtspr.kalls 1802.

[166] Manntal 1801.

[167] Sóknarm.tal Holtspr.kalls 1802.

[168] Manntal 1801. Sóknarm.töl og prestsþj.b. Holtspr.kalls.

[169] Manntal 1801.

[170] Sama heimild.

[171] Vestfirskar sagnir I, 289-291.

[172] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[173] Ísl. æviskrár III, 264.

[174] Sbr. Jón Pétursson / Hannes Þorsteinsson 1966, 80 (Staðarfellsætt).

[175] Ísl. æviskrár III, 264.

[176] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[177] Halldór Kristjánsson 1987, 78 (Ársrit S.Í.).

[178] Sama heimild, 78-79.

[179] Sama heimild.

[180] Sama heimild.

[181] Sama heimild.

[182] Ísl. æviskrár I, 311-312.

[183] Bogi Ben.: Sýslum.æfir II, 243-245.

[184] Ísl. æviskrár I, 311-312 og V, 215.

[185] Sama heimild.

[186] Sama heimild og Ársrit S.Í. 1970, 122.

[187] Sama heimild og Magnús Ketilsson 1948, 136 og 143.

[188] Ísl. æviskrár I, 311-312.

[189] Sama heimild og sama IV, 292-293.

[190] Sama heimild.

[191] Halldór Kristjánsson 1987, 84 (Ársrit S.Í.)

[192] Sama heimild.

[193] Sama heimild.

[194] Halldór Kristjánsson 1987, 84 (Ársrit S.Í).

[195] Sama heimild.

[196] Sama heimild, 77-87.

[197] Sama heimild.

[198] Sama heimild.

[199] Sama heimild, 90-91.

[200] Sama heimild.

[201] Sama heimild.

[202] Bogi Ben.: Sýslum.æfir II, 243-245.

[203] Manntal 1816.

[204] Sama heimild.

[205] Sama heimild.

[206] Sama heimild.

[207] Sama heimild.

[208] Sama heimild.

[209] Sama heimild.

[210] Sama heimild.

[211] Sama heimild.

[212] Sóknarm.töl Holtspr.kalls 1829, 1839, 1840 og mars 1841. Manntöl 1835 og 1840.

[213] Sóknarm.töl Holtspr.kalls mars 1842.

[214] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1, bún.skýrslur 1821, 1830 og 1834. VA III, 407, bún.skýrsla 1837.

[215] Manntal 1835.

[216] Sama heimild.

[217] Manntal 1835.

[218] Ísl. æviskrár III, 265.

[219] Sama heimild IV, 109.

[220] Sama heimild.

[221] Sama heimild.

[222] Bogi Ben.: Sýslum.æfir II, 244.

[223] Sóknalýs. Vestfj. II, 108.

[224] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Mosv.hr. 6. Úttektabók 1835-1874, bls. 156-157. Sbr. þar bls. 169 og sama

skjalasafn 7. Úttektabók Mosv.hr. 1875-1905, bls. 21.

[225] Sama heimild.

[226] Ársrit S.Í. 1970, 123, bréf Ebenezers Þorsteinssonar 22.10.1821 til Bjarna Þorsteinssonar amtmanns.

[227] Ársrit S.Í. 1970, 123-126, bréf sama 3.5.1823 til sama.

[228] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1., bún.skýrslur 1821, 1830 og 1834. VA III, 407, bún.skýrsla 1837.

[229] Sömu heimildir.

[230] Sömu heimildir.

[231] Sömu heimildir.

[232] Sóknalýs. Vestfj. II, 108-109.

[233] Þorvaldur Thoroddsen / Lýsing Íslands III, 314-316.

[234] Gestur Vestfirðingur 1847, I, 14.

[235] Sama heimild.

[236] Gestur Vestfirðingur 1847, I, 14.

[237] Sama heimild.

[238] Sóknalýs. Vestfj. II, 109.

[239] Sama heimild.

[240] VA III, 407, búnaðarskýrsla 1837.

[241] Sama heimild.

[242] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1., bún.skýrslur 1830 og 1834. VA III, 407, bún.skýrsla 1837.

[243] Sömu heimildir.

[244] Ísl. æviskrár I, 262-263 og 311-312.

[245] Bogi Ben.: Sýslum.æfir II, 243-245.

[246] Sama heimild.

[247] Sama heimild.

[248] Sama heimild.

[249] Sama heimild.

[250] Ísl. æviskrár I, 311-312.

[251] Ebenezer Henderson 1957, 296-297.

[252] E. Henderson 1957, 296-297.

[253] Sama heimild.

[254] Sama heimild.

[255] Sama heimild, 297-298.

[256] Sama heimild.

[257] Sóknarm.töl Holtspr.kalls.

[258] Lbs. 27364to, bls. 157-160.

[259] Lbs. 27364to, bls. 157-160.

[260] Frá ystu nesjum II, 188.

[261] Sama heimild.

[262] Lbs. 27364to, bls. 157-160.

[263] Sama heimild.

[264] Sama heimild.

[265] Manntal 1845.

[266] Manntal 1845 / Ytri-Hjarðardalur. Manntal 1901 / Lægri-Saurar í Súðavíkurhreppi.

[267] Þjóðsögur og þættir II, 219-221.

[268] Frá ystu nesjum II, 81-82.

[269] Sama heimild.

[270] Sama heimild.

[271] Manntal 1845 – vesturamt, bls. 320.

[272] Ísl. æviskrár III, 379-380.

[273] Óskar Ein. 1951, 119.

[274] Sóknarm.töl Holtspr.kalls.

[275] Ísl. æviskrár III, 375.

[276] Sama heimild.

[277] Sama heimild, III. 379-380 og IV, 292-293.

[278] Sama heimild.

[279] Bogi Ben.: Sýslum.æfir II, 243-244.

[280] Ísl. æviskrár III, 379-380.

[281] Sama heimild.

[282] Friðrik Eggerz 1950, 155-159.

[283] Friðrik Eggerz 1950, 155-159.

[284] Sama heimild.

[285] Sami 1952, 27-28.

[286] Sama heimild.

[287] Sama heimild.

[288] Sama heimild.

[289] Sama heimild.

[290] Sama heimild.

[291] Friðrik Eggerz 1952, 27-28.

[292] Sami 1950, 158-159.

[293] Sama heimild, 188.

[294] H. Kr. 1987, 97.

[295] Skýrslur um landshagi I, 262 (Kph. 1858).

[296] H. Kr. 1987, 93-97.

[297] Sama heimild.

[298] Sama heimild.

[299] Sama heimild.

[300] Sama heimild.

[301] Sama heimild.

[302] Sóknarm.töl Holtspr.kalls.

[303] Lbs. 27364to, Magnús Hjaltason, bls. 157-160.

[304] Manntal 1845.

[305] Sama heimild.

[306] Manntöl 1850 og 1855.

[307] VA III, 412, búnaðarskýrsla 1850.

[308] Skj.s. sýslum. og sv.stj. V-Ís. Mosvallahr. 4. Hreppsbók 1849-1883.

[309] Sama heimild.

[310] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[311] Sama heimild.

[312] ÍB 8268vo, Dagbók séra Sigurðar Tómassonar í febrúar 1849.

[313] Hagalín. Guðm. – Viðtal K.Ó. við hann 18.5.1994.

[314] Sama heimild.

[315] Manntal 1845.

[316] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[317] Sóknarm.töl Holtspr.kalls.

[318] Sama heimild.

[319] VA III, 411, 412, 413, 414, 415 og 416, búnaðarskýrslur 1846-1859.

[320] VA III, 407, búnaðarskýrsla 1837.

[321] Guðmundur Scheving / Ármann á Alþingi 1832, IV, 92.

[322] Skýrslur um landshagi 1858, I, 262.

[323] Sama heimild.

[324] Friðrik Egggerz 1952, 267.

[325] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XVI. 2., Veðmálabók 1856-1869, bls. 43-44.

[326] Ársrit S.Í. 1961, 77.

[327] H. Kr. 1987, 97 (Ársrit S.Í.).

[328] Sama heimild.

[329] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XVI. 2., Veðmálabók 1856-1869, bls. 43-44.

[330] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[331] Skj.s. sýslum. og sv.stj. V-Ís., Mosvallahreppur 4. Hreppsbók 1849-1883.

[332] Sama heimild.

[333] Skj.s. sýslum. og sv.stj. V-Ís. Mosvallahr. 4. Hreppsbók 1849-1883.

[334] Ársrit S.Í. 1961, 77-80, bréf Jóns Gíslasonar 6.4.1873 til sýslumanns.

[335] Sama heimild.

[336] Sama heimild.

[337] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. X. 3., Uppboðsbók 1861-1873. Manntal 1860.

[338] Sama heimild.

[339] Skýrslur um landshagi IV, 486 og 498 (Kph. 1870).

[340] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. X. 3., Uppboðsbók 1861-1873.

[341] Sama heimild.

[342] Sama heimild.

[343] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[344] Sama heimild.

[345] Manntal 1845.

[346] Prestsþj.b. Holtspr.kalls.

[347] Prestsþj.b. Holtspr.kalls.

[348] Manntal 1860.

[349] Hsk. Ísaf. nr. 206. Bréf Jóns Gíslasonar, líklega til sýslumanns, dagsett á Söndum 6.4.1873. Sbr. Ársrit

S.Í. 1961, 77-80.

[350] Sama heimild.

[351] Sama heimild.

[352] Sama heimild.

[353] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Mosvallahr. 6. Úttektabók 1835-1874, bls. 156-157. Sbr. þar bls. 169.

[354] Sama heimild.

[355] Sama heimild.

[356] Sama heimild.

[357] Sama heimild.

[358] Sama heimild.

[359] Sama heimild.

[360] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Mosvallahr. 6. Úttektabók 1835-1874, bls. 156-157. Sbr. þar bls. 169.

[361] Sama heimild.

[362] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Mosvallahr. 6. Úttektabók 1835-1874, bls. 169.

[363] Gils Guðmundsson 1977, I, 202-204.

[364] Prestsþj.b. Dýrafjarðarþinga.

[365] Sama heimild.

[366] Sama heimild.

[367] Manntal 1870.

[368] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Mosvallahreppur 4. Hreppsbók 1849-1883.

[369] Sóknarm.töl Holtspr.kalls.

[370] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[371] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Mosvallahreppur 4. Hreppsbók 1849-1883.

[372] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Mosv.hr. 7. Úttektabók 1875-1905, bls. 21. Manntal 1890.

[373] Halldór Kristjánsson 1987, 90 (Ársrit S.Í.).

[374] Skj.s. sýslum. og sv.stj. V-Ís. Mosvallahreppur 4. Hreppsbók 1849-1883.

[375] Hsk. á Ísaf. nr. 0123. Höfuðbók frá útibúi Ásgeirsverslunar á Flateyri.

[376] Stjórnartíðindi 1887 B, bls. 14-15.

[377] Skj.s. sýslum. og sv.stj. V-Ís. Mosvallahreppur 5. Hreppsbók 1883-1912.

[378] Sama heimild.

[379] VA III, 420-424, bún.skýrslur 1867-1880. Skj.s. sýslum. og sv.stj. V-Ís. Mosv.hr. 4. og 5. Hreppsbækur

1849-1883 og 1883-1912.

[380] Þórður Sigurðsson 1986, 20.

[381] Sama heimild.

[382] Gils Guðmundsson 1977, I, 202-204.

[383] VA III, 412, 417, 421 og 424, búnaðarskýrslur 1850, 1860, 1870 og 1880.

[384] Manntal 1901.

[385] Sama heimild og Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[386] Manntal 1901, fylgiskjöl.

[387] Fasteignamatsskjöl. Gjörðabók fasteignamatsnefndar í V-Ís., löggilt 9.3.1916, bls. 68.

[388] Halldór Kristjánsson 1977, 109 (Ársrit S.Í.).

[389] Sama heimild.

[390] Landsyfirréttar- og hæstaréttardómar V, 443-448.

[391] H. Kr. 1977, 109-110.

[392] Sama heimild.

[393] Sama heimild.

[394] Sama heimild og Landsyfiréttar- og hæstaréttardómar V, 443-448.

[395] Sömu heimildir.

[396] Halldór Kristjánsson 1977, 110. (Ársrit S.Í.). Ísl. æviskrár II, 66.

[397] H. Kr. 1977, 110-111.

[398] Sama heimild.

[399] Sama heimild, 111-113.

[400] Sama heimild.

[401] H. Kr. 1980, 151.

[402] Sama heimild.

[403] Sama heimild.

[404] H. Kr. 1977, 112-113.

[405] Sama heimild.

[406] H. Kr. 1977, 113 (Ársrit S.Í.).

[407] Landsyfirréttar- og hæstaréttardómar V, 443-448. H. Kr. 1977, 114-115.

[408] Sömu heimildir.

[409] Sömu heimildir.

[410] Sömu heimildir.

[411] Sömu heimildir.

[412] Sömu heimildir.

[413] Landsyfirréttar- og hæstaréttardómar V, 443-448.

[414] Sama heimild.

[415] Skýrslur um landshagi I, 262 (Kph. 1858).

[416] Landsyfirréttar- og hæstaréttardómar VI, 399.

[417] Halldór Kristjánsson 1980, 143 (Ársrit S.Í.).

[418] Sama heimild, 143-144.

[419] Halldór Kristjánsson 1980, 143-146 (Ársrit S.Í.).

[420] Landsyfirréttar- og hæstaréttardómar X, 248-251.

[421] Sama heimild.

[422] Halldór Kristjánsson 1980, 149-150.

[423] Ísl. æviskrár II, 209-210.

[424] Halldór Kristjánsson 1980, 145-147.

[425] Landsyfirréttar- og hæstaréttardómar X, 248-251.

[426] Halldór Kristjánsson 1980, 147.

[427] Landsyfirréttar- og hæstaréttardómar X, 248-251.

[428] Landsyfirréttar- og hæstaréttardómar X, 248-251.

[429] Halldór Kristjánsson 1980, 149 (Ársrit S.Í.).

[430] Sama heimild, 149-152.

[431] Óskar Ein. 1951, 120.

[432] Sama heimild 120-121.

[433] Hagalín Guðmundsson. – Viðtal K.Ó. við hann 2.8.1993.

[434] Óskar Ein. 1951, 120.

[435] Sama heimild, 121.

[436] Sama heimild.

[437] Óskar Ein. 1951, 121.

[438] Sóknalýs. Vestfj. II, 104.

[439] Sama heimild.

[440] Hagalín Guðmundson. – Viðtal K.Ó. við hann 2.8.1993.

[441] Óskar Ein. 1951, 120.

[442] Sóknalýs. Vestfj. II 98.

[443] Sama heimild.

[444] Óskar Ein. 1951, 120.

[445] Sama heimild, bls. 131.

[446] Hagalín Guðmundsson. – Viðtal K.Ó. við hann 2.8.1993.

[447] Sama heimild.

[448] Sama heimild.

[449] Óskar Ein. 1951, 120.

[450] Sama heimild, 121.

[451] Óskar Ein. 1951, 120.

[452] Óskar Ein. 1951, 121.

[453] Sama heimild.

1000-1900

Guðmundur Justsson

Á fyrri hluta 20. aldar var Guðmundur Justsson, sem fæddist á Gemlufalli haustið 1841,[1] einna kunnastur þeirra sem búið höfðu á Dröngum, a.m.k. utan Dýrafjarðar,

LESA MEIRA »
1000-1900

Krossadalur

Í Krossadal var löngum tvíbýli á fyrri tíð, Hærri- og Lægri- (eða Neðri-) Krossdalur, og voru þetta ystu bæir við Tálknafjörð. Stundum var reyndar þríbýli

LESA MEIRA »
1000-1900

Arnarstapi

Arnarstapi og Krossadalur voru tvær ystu jarðirnar á norðurströnd Tálknafjarðar og hafa nú báðar verið í eyði frá því um 1940.[1] Frá verbúðatóttunum í Arnarstapavík

LESA MEIRA »