Göltur

Bæjarleiðin frá Norðureyri út að Gelti er ekki löng, aðeins tveir og hálfur kílómetri, svo auðvelt hefur verið að komast milli bæja á 30 mínútum. Við förum hins vegar hægar og lítum svolítið í kringum okkur á leiðinni. Öll hlíðin frá Norðureyrargili út að bænum á Gelti heitir Galtarhlíð.[1] Fjallsbrúnin ofan við hana liggur í 450-500 metra hæð yfir sjávarmáli. Henni fylgir hamrabelti sem ófært eða nær ófært er upp að ganga nema á einum stað. Talsvert neðar í fjallinu er annar klettaveggur neðan við ufsirnar en þær heita Grjótufsir innantil og síðan bara Ufsir[2] eða Galtarufsir.[3] Skilin milli Grjótufsa og Ufsa eða Galtarufsa eru við hrygginn sem gengur niður frá Stórhorni en það er horn sem nokkuð ber á í fjallsbrúninni.[4]

Vilji menn komast upp á brún og út á fjallið Gölt liggur besta leiðin um Hestaskarð, sem svo heitir, en það rýfur klettavegginn neðan við Ufsirnar.[5] Skarð þetta er nær beint fyrir ofan Fornabæjarhrygg sem hér verður síðar gerð grein fyrir (sjá hér bls. 3-4) en hann er skammt fyrir innan túnið á Gelti. Ofan við Hestaskarð er stefnan síðan tekin á annað skarð sem er í klettunum neðan við sjálfa fjallsbrúnina. Það heitir Galtarskarð[6] og er beint upp af túninu á Gelti.[7] Þessi leið er klettalaus og hana má fara með stórgrip.[8] Okkar ætlun er þó ekki að leggja á brattann heldur aðeins að ganga milli bæja, frá Norðureyri að Gelti. Engu að síður skotrum við augunum til fjalls en ofan við Ufsirnar og í sjálfri brúninni er lítið um þekkt örnefni. Þó má nefna Skollanef innra og ytra sem eru hér rétt utan við Norðureyrargilið en skarð er á milli þessara tveggja klettanefja.[9] Á Stórhorn, sem er talsvert utar, var áður minnst.

Leiðin frá Norðureyri að Gelti liggur um sjávarbakkana, sem eru víða bæði brattir og háir, en einnig er hægt að ganga fjöruna. Skammt utan við landamerkin, sem liggja um Norðureyrargil, komum við að Stórulaut en neðan við hana eru Hrafnabásar, standmyndaðir klettar i fjörunni.[10] Hryggirnir utan við Stórulaut heita Mjóuhryggir og fyrir utan þá er Hlaðshvolf en síðan kemur Hlaðið sem svo heitir.[11] Þar stendur gömul tótt rétt ofan við brún lítils höfða sem skagar hér fram í fjöruna. Nafnið gefur mjög eindregið til kynna að hér hafi staðið sauðahlað í fyrri daga og tóttin styrkir þá hugmynd. Húsið sem hér stóð hefur verið um það bil sex metrar á lengd og tveir til þrír metrar á breidd. Við byggingu þess hefur stór jarðfastur steinn verið notaður sem hluti af efri vegg. Hin gömlu sauðahlöð voru þaklaus fjárbyrgi þar sem útigangsfé gat leitað skjóls undan veðrum. Á flestum jörðum í Vestur-Ísafjarðarsýslu standa enn einar eða fleiri tóttir af þess konar byggingum hér og þar út um hagann. Svo virðist sem hér hafi nafnið Hlað einnig verið notað um höfðann sem hlaðtóttin stendur á.[12]

Hjá hinu forna sauðahlaði gerum við stuttan stans, lítum yfir fjörðinn og sjáum að enn erum við ekki komin á móts við brimbrjótinn, sem þar blasir við augum, en þó lítið eitt út fyrir ystu húsin í þorpinu á Suðureyri.

Í klettunum ofan við Hlað en neðan við Grjótufsir, sem fyrr voru nefndar, eru Hlaðshillur og innan við þær Mjóuhryggjahillur.[13] Utan við Hlaðshillur taka við Bröttugötuhillur og þá Sniðgilshillur, sem ná út að Sniðgili innra,[14] en gil þetta myndar skarð í klettavegginn neðan við Ufsirnar.

Nær 500 metrum utan við Hlað gengur dálítið barð fram úr sjávarbökkunum og segir Kristján G. Þorvaldsson það hafa verið nefnt Gjalbrunes.[15] Heimildarmaður hans er Jón H. Guðmundsson sem fæddist á Gelti[16] árið 1881 og átti þar heima fram á fullorðinsár.[17] Á örnefnakorti frá árunum kringum 1930 er nafnið ritað Gjaldbrúnes.[18] Augljóst sýnist að bæði þessi nöfn muni vera afbakanir en erfitt er að gera sér grein fyrir hvert hið upphaflega nafn muni hafa verið. Hugsanlegt er að nesið hafi verið kennt við gjálfur sjávaröldunnar en nafnið gengist í munni. Fleiri skýringar gætu þó komið til greina og best að segja sem minnst.

Utan við barðið sem hér var síðast fjallað um komum við að Bröttugötu, tæpri götu í snarbröttum sjávarbökkunum innan við Stekk.[19] Henni fylgjum við nú niður á Stekkinn sem er undir bökkunum, ofan til við fjöruna, og svolítið utar en neðsti hluti götunnar.[20] Að hér hafi verið stekkur þarf ekki að efa því örnefnið eitt nægir til að vísa á hann en hér var reyndar líka lending og uppsátur fyrir báta  sína höfðu Galtarbændur ýmist hér eða út í Galtarlandinu sem svo heitir[21] en sá lendingarstaður er nær einum kílómetra fyrir utan bæinn á Gelti (sjá hér bls. 73-83).

Um miðbik nítjándu aldar munu Galtarbændur hafa verið hér á Stekknum með báta sína en bæði áður og síðar í Galtarlandinu.[22] Um einn bónda sem bjó á Gelti er reyndar kunnugt að á vorin setti hann bát sinn oft upp í fjöruna innan til við Stalla en svo heita klettastallar við sjó rétt innan við bæinn.[23] Þar mun þó ekki hættandi á að vera með bát nema þegar blíðast er á vorin.[24]

Bændurnir sem bjuggu á Gelti eftir aldamótin 1900 munu oft hafa lent á Stekknum og enn (1995) stendur hér uppi gangspil sem notað var til að taka bátana á land. Vörin er líka á sínum stað og mun enn henta vel til lendingar. Hjá spilinu er gamalt bátshróf, um sjö metrar á lengd, og neðan við það tótt sem gæti hafa verið stekkur. Nokkur önnur tóttarbrot eru enn sjáanleg á þessum stað og ofan til við fjöruna er nær fimmtán metra löng laut. Þar kynni um skeið að hafa verið vetrarlægi fyrir sexæring eða áttæring. Gallinn við þetta uppsátur var sá að bátar sem hér stóðu uppi voru jafnan í nokkurri hættu vegna snjóflóða og skriðufalla[25] en snjóflóðahætta er talin veruleg á öllu svæðinu frá Norðureyrargili og út að Stekk.[26] Líklegt er að sú ógn hafi valdið því að notkun þessa uppsáturs lagðist af á síðari hluta 19. aldar og aftur var farið að setja bátana á land út í Galtarlandi.

Stekkurinn, sem hér var frá sagt, er um það bil miðja vega milli Norðureyrar og Galtar og nær beint á móti brimbrjótnum sem er handan við fjörðinn. Það mannvirki er þó aðeins innar. Frá Stekknum röltum við út fjöruna og komum brátt að tveim veggmynduðum klettum sem standa stakir. Við þá mun fé hafa leitað skjóls enda heita þeir Skjól innra og Skjól ytra.[27] Skammt fyrir utan Skjólin liggur gamall, skýrt markaður götuslóði frá fjörunni út og upp sjávarbakkana en þeir eru hér nokkuð háir og allbrattir. Þessi slóði heitir Sniðgötur og liggur upp á bakkabrúnina.[28] Þegar brúninni er náð erum við stödd mjög skammt frá Fornustekkjum, sem svo heita. Þar eru tóttabrot enn sjáanleg.[29] Gilið sem við blasir í klettunum neðan við Ufsirnar og er nær beint upp af Fornustekkjum heitir Sniðgil innra[30] (sbr. hér bls. 2). Hillur í klettunum utan við það heita Stekkjarhillur.[31]

Frá Fornustekkjum göngum við sem leið liggur út brún sjávarbakkanna og komum brátt að Stórulág sem liggur niður Bakka og er breið og djúp í brún þeirra.[32] Utan við hana er Stórulágarholt.[33] Frá því er skammur spölur út á Fornabæjarhrygg[34] en rétt fyrir utan hann er stór og allstæðileg tótt sem menn hafa talið að væri bæjartótt frá fyrri öldum.[35] Líkur á því að svo sé eru allmiklar en ekki er þó minnst á þessar byggingarleifar í Jarðabókinni frá 1710.[36] Húsið sem hér stóð hefur verið langhús og er innanmál tóttarinnar um það bil 3 x 15 metrar. Þverveggur skiptir henni í tvennt en sá veggur sýnist vera yngri en útveggirnir. Hvað varðar lengd og breidd er tótt þessi mjög áþekk annarri tveggja samliggjandi tótta í Stekkjarparti innan við Norðureyri en í byrjun 18. aldar var talið að þar hefði i fyrndinni staðið bær (sjá hér Norðureyri).

Sé tóttin við Fornabæjarhrygg gömul bæjarrúst má telja nær fullvíst að sá bær hafi eyðst af völdum skriðufalla, enda herma munnmæli að svo hafi verið.[37] Skriðan í hlíðinni hér fyrir ofan heitir Rauðaskriða.[38] Hún stefnir beint á tóttina og stakir steinar úr henni ná alveg að þessu forna mannvirki.

Hestaskarð, sem fyrr var nefnt, er hér beint fyrir ofan[39] en það er gil í klettunum neðan við Ufsir. Skarðið er auðvelt uppgöngu og fært með hesta. Um það lá leið flestra sem gengu upp á Gölt, fjallið sem bærinn dregur nafn af (sjá hér bls. 1). Í klettunum utan við skarðið eru Hestaskarðshillur og ná út að Svörtuklettum sem svo heita.[40] Utan og ofan við Hestaskarð er Hestaskarðshnúkur.[41] Frá tóttinni utan við Fornabæjarhrygg er mjög skammur spölur að túninu á Gelti og göngum við nú í hlað á þessu forna býli sem staðið hefur í eyði í nær hálfa öld. Hér stendur þó enn (1995) lítið íbúðarhús sem mun hafa verið byggt árið 1941.[42] Rétt fyrir innan það og ofan stóð áður gamli torfbærinn[43] sem búið var í allt þar til hús þetta var reist.

Jörðin Göltur í Súgandafirði er forn bújörð, 12 hundruð að dýrleika samkvæmt fornu mati.[44] Hún tekur nafn af fjallinu Gelti sem snýr sinni tignarlegu ásjónu til hafs norðan til við mynni Súgandafjarðar. Ætla má að þeir sem gáfu Geltinum nafn hafi komið af hafi því hið yfirbragðsmikla fjall minnir ekki á svínshöfuð nema horft sé á það utan frá sjó, úr vesturátt. Sú hlið fjallsins sem snýr að fjarðarströndinni hefur mildari svip þó að hamraveggirnir ofan við gróðurlendið séu þar ærið þykkir og sterklegir til að sjá.

Göltur er ysta jörðin á norðurströnd Súgandafjarðar og héðan frá bæjarhlaðinu eru aðeins einn og hálfur til tveir kílómetrar út að Galtartöngum við fjarðarmynnið, þar sem fjallið sveigir til norðurs. Bærinn stendur á hól utarlega í túninu og er nokkurt bil frá honum að klettahlíðinni fyrir ofan og einnig niður á bakkana.[45] Landamerkjum Galtar á móti Norðureyri, sem er næsti bær fyrir innan, hefur áður verið lýst en þau eru við Norðureyrargil (sjá hér Norðureyri). Á hinn veginn liggja saman lönd Galtar og Keflavíkur sem var eina bújörðin í Suðureyrarhreppi norðan Galtar. Hún er því ekki í Súgandafirði. Landamerki Galtar á móti Keflavík segir Kristján G. Þorvaldsson vera í Bustarurð en það er urð mikil undir Gelti, þar sem hann gengur lengst fram í átt til hafs og myndar stórt nes á báða vegu.[46] Einhverjir munu þó hafa talið að merkin væru aðeins norðar, það er að segja við Rauðstein sem stendur í sjávarbökkunum norðan til við nýnefnda urð.[47]

Staðháttum á Gelti lýsir Kristján G. Þorvaldsson svo:

 

Bærinn stendur undir brattri klettahlíð og stutt er frá honum fram á háa bakka. Eru þeir með klettum og aðeins á fám stöðum hægt að fara upp og niður þá. Nokkuð undirlendi er á bökkunum, nær það töluvert inn fyrir bæinn og líkt út fyrir hann en breiðast er það rétt fyrir utan túnið.

Fjallshlíðin veitir landinu mikið skjól í norðanátt og er þar gróðursælt, jafnvel þar sem grýtt er sem er mjög víða. Styður mjög að því að sólar nýtur þar betur á vorin en á flestum bæjum öðrum [í Suðureyrarhreppi]. Þannig er landslagi hagað að meðan sól er lágt á lofti skín hún lengur á Gelti en nokkrum öðrum bæ sveitarinnar en um sumarsólstöður er sól skemur á lofti en á öðrum bæjum.[48]

 

Líklegt er að hinn mikli sólargangur að vetrinum valdi mestu um það að hér var jafnan allfljótt til jarðar á vorum eins og komist er að orði í heimild frá árinu 1839.[49]

Fagurt er að líta til hafs frá bæjarhlaðinu á Gelti. Héðan sést líka vel til þorpsins á Suðureyri og til fjallanna innst í Súgandafirði. Sé litið í hásuður blasa við augum bæjarhúsin á Stað í Súgandafirði og kirkjan sem þar stendur enn.

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín er landkostum og ágöllum þessarar fornu bújarðar, yst á norðurströnd Súgandafjarðar, lýst og komist svo að orði:

 

Útigangur svipull á landi en í betra lagi í fjörunni. Torfrista og stunga engin nýtandi, brúkast. Rekavon lítil og varla teljandi. Skógarítak, mjög lítið, hefur jörðinni eignað verið í Selárdals land, þar sem Galtarrípur heitir. Það er nú gjöreytt fyrir löngu.

Túninu hafa grandað skriður og tekið af því hér um þriðjung. Engjar eru að mestu leyti fyrir skriðum eyðilagðar. Hætt er kvikfé fyrir snjóflóðum og sjávarflæðum, sem oft verður mein að. Vatnsból bregðast um vetur og er þá vatnsvegur örðugur. Kirkjuvegur torsóttur yfir Súgandafjörð. Hreppamannaflutningur ófær til Keflavíkur nema á skipi. Hætt er bænum fyrir snjóflóðum og skriðum, og hefur oftlega á bæinn hlaupið og ekki annað sýnilegra en hann mundi taka. Þó hefur það ei skeð hingað til.

Heimræði er hér og lending sæmileg, og ganga hér skip ábúenda svo mörg sem þeir fá við komið.[50]

 

Eins og víðar í Jarðabókinni virðist þarna vera gert nokkuð mikið úr ókostum og þá einkum landspjöllum af völdum skriðufalla. Hér skal því strax tekið fram að enginn maður hefur látist í skriðum eða snjóflóðum á Gelti svo kunnugt sé en síðustu 200 árin sem búið var á jörðinni urðu þar stöku sinnum skaðar af völdum slíkra náttúruhamfara og þá einkum árin 1818 og 1910 (sjá hér bls. 74 og bls. 76-77). Árið 1696 mun skriða hafa valdið miklum skemmdum á túninu[51] og hefur sá atburður verið heimafólki í fersku minni fjórtán árum síðar þegar Árni Magnússon kom í Súgandafjörð í jarðabókarerindum.

Orð Jarðabókarinnar frá 1710 um skógarítak Galtar í landi Selárdals eru athygli verð. Örnefnið Galtarrípur í Selárdalsskógi mun nú vera týnt en gaman hefði verið að geta bent á þann stað.

Í jarðabók frá árinu 1805 er minnst á sjóróðra frá Gelti og tekið fram að hér megi vænta álíka hásetahlutar og hjá þeim sem reru frá Stað í Súgandafirði og frá Suðureyri eða Norðureyri.[52] Hér hefur áður verið nefnt hver sá hásetahlutur var (sjá hér Staður). Í byrjun nítjándu aldar voru hrognkelsaveiðar frá Gelti taldar gefa af sér verðmæti sem svaraði til hálfrar annarrar vættar af þorski[53] og mun þá vera átt við hálfa aðra skreiðarvætt. Í jarðabókinni frá 1805 er aðeins getið um hrognkelsaveiðar frá tveimur jörðum í Súgandafirði, Gelti og Suðureyri, og ef marka má bókina fékkst minna af hrognkelsum á Suðureyri en á Gelti.[54]

Það sem skrifað stendur í jarðabókinni frá 1805 bendir eindregið til þess að í byrjun nítjándu aldar hafi sjór aðeins verið sóttur frá Gelti á bátum heimamanna.[55] Í Súgandafirði voru bændurnir á Suðureyri og Norðureyri eða eigendur nefndra jarða þeir einu sem höfðu tekjur af vertollum árið 1805 ef marka má bókina.[56]

Í umsögn frá árinu 1849 komast matsmenn svo að orði um jörðina Gölt að hún liggi mjög undir áföllum[57] og eru þá án efa að vísa til skemmda af völdum skriðufalla og snjóflóða. Landkostina sáu þeir þó líka og segja: Vetrarbeit góð og ganga á sumrum fyrir geldfé bæta ærið jörð þessa.[58]

Í fasteignamatsskjölum frá árinu 1916 er dregin upp mun bjartari mynd af landkostum á Gelti en sú sem fram kemur í Jarðabókinni frá 1710 og hér var áður vitnað til. Í nefndum gögnum frá 1916 er túnið sagt vera sléttlent og grasgefið, engjarnar grasgefnar og engjavegurinn skammur, beitilandið snjólétt og skjólgott en þröngt og einnig er tekið fram að hér sé góð fjörubeit.[59] Eitthvert mótak var þá á Gelti en lítið[60] og Magnús Hjaltason segir ekkert mótak hafa verið hér um aldamótin 1900.[61] Í búnaðarskýrslum frá árunum 1791, 1821, 1827, 1830 og 1834 er spurningunni um það hvort mór sé notaður til eldiviðar á bænum jafnan svarað neitandi.[62] Eins er þetta hvað varðar aðra bæi á norðurströnd Súgandafjarðar en um 1835 hættu þeir sem útbjuggu eyðublöð fyrir búnaðarskýrslurnar að spyrja þessarar spurningar.[63]

Á árunum skömmu fyrir 1917 fengust að jafnaði 90 hestar af töðu af Galtartúninu og árlegur heyfengur af engjunum var um 50 hestar.[64] Hér var árið 1916 matjurtagarður sem gaf af sér eina tunnu af jarðarávöxtum.[65] Þá var talið að hér mætti fleyta fram 2 kúm, 70 sauðkindum og 1 hesti.[66]

Við fasteignamatið sem unnið var að árið 1916 var jörðin Göltur metin á 2.900,- krónur, án húsa.[67] Þetta er hærra verð en á nokkurri annarri bújörð í Suðureyrarhreppi, að frátalinni Suðureyri[68] sem hafði margfaldast í verði á skömmum tíma vegna þéttbýlismyndunar. Svona hátt mat á Gelti sætir nokkurri furðu því að fornu mati var dýrleiki jarðarinnar aðeins 12 hundruð en tvær aðrar jarðir í hreppnum, Botn og Bær, höfðu frá fornu fari verið metnar á 24 hundruð, svo og Suðureyri, og Staður á 16 hundruð.[69] Skýringin á því hversu hátt Göltur var metinn í fasteignamatinu sem að var unnið á árunum 1916-1920 mun vera sú að afgjaldið sem greitt var af jörðinni var þá óeðlilega hátt, borið saman við það sem almennt var[70] (sbr. hér bls. 65-66).

Í nýju fasteignamati, sem út var gefið árið 1932, er niðurstaðan allt önnur. Þar er land Galtar virt á 1.700,- krónur[71] og hvert hinna fornu hundraða, sem voru tólf, á 141,70 krónur, sem nær ekki meðaltalinu í hreppnum.[72] Það meðaltal var 169,20 krónur fyrir hvert hinna fornu hundraða sé Suðureyri sleppt[73] sem sjálfsagt er í slíkum samanburði af ástæðum er fyrr hafa verið nefndar. Í fasteignamatinu sem unnið var að um miðbik nítjándu aldar var matsverði Galtar ekki breytt svo neinu nam. Þá var matið á jörðinni aðeins lækkað úr 12 hundruðum í 11,9 hundruð.[74] Tölurnar, sem hér var vitnað til, frá árinu 1932, benda hins vegar til þess að matsmennirnir sem voru að störfum á árunum kringum 1930 hafi talið forna matið of hátt og tíu hundruð forn vera nær lagi en tólf. Engu að síður var Göltur talinn góð bújörð á fyrri hluta 20. aldar og kostajörð, að sögn Kristjáns G. Þorvaldssonar sem lætur þess getið í ritgerð frá árinu 1951 að hér hafi löngum búið gildir bændur.[75] Í Fasteignabókinni frá 1932 er líka getið um þrenns konar hlunnindi á Gelti, reka, hrognkelsaveiði (sbr. hér bls. 6) og útræði.[76] Með orðinu útræði munu matsmennirnir þó eingöngu eiga við það að héðan hafi Galtarbændur getað róið til fiskjar úr heimavör á árabátum og vélbátum af minnstu gerð.

Á liðnum öldum var ýmist einbýli eða tvíbýli á Gelti en ekkert dæmi þekkist um að fleiri en tveir bændur hafi búið samtímis á jörðinni. Hér var tvíbýli árið 1703 og líka 1710[77] en um 1735 var hér einbýli og svo var einnig 1753 og 1762.[78] Talið frá 1785 var tvíbýli á Gelti 1785-1790, 1824-1831, 1833-1834, 1841-1843, 1862-1866 og 1906-1909 en annars jafnan einbýli.[79]

Bústofn bændanna tveggja sem bjuggu á Gelti árið 1710 var 5 kýr, 1 kvíga, um 30 ær, 35 sauðir, tvævetra og eldri, 17 veturgamlir sauðir, 30 lömb og 1 hestur.[80] Ærtalan er svolítið óviss vegna þess að í viðræðum sínum við Súgfirðinga hefur Árna Magnússyni, að því er virðist, láðst að skrá tölu ánna hjá öðrum Galtarbóndanum.[81] Hinn bóndinn sem hér bjó árið 1710 var með 15 ær[82] og má telja líklegt að heildartala ánna hafi verið um það bil 30. Þessir tveir bændur höfðu báðir jafn mörg hundruð til ábúðar[83] og sé gert ráð fyrir að þeir hafi hvor um sig verið með 15 ær voru bú beggja álíka stór.[84]

Til samanburðar við fjölda búfjár árið 1710 verða nú dregnar fram nokkrar tölur um búfjárfjölda á Gelti undir lok átjándu aldar og á nítjándu öld. Allt er það fengið úr opinberum skýrslum og er sjálfsagt að hafa svolítinn fyrirvara á um nákvæmnina, einkum hvað varðar sauðféð sem kynni stundum að hafa verið nokkru fleira en fram kemur í skýrslunum. Hinar opinberu tölur um fjölda búfjár eru sýndar hér á Töflu 1 en fram skal tekið að lömb, kálfar og folöld eru ekki talin með.

 

 

Tafla 1[85]

 

Fjöldi búfjár á Gelti

 

 

*) Þarna eru fáeinar geldar ær taldar með sem ættu að færast í næsta dálk fyrir framan sem þó er ekki hægt vegna þess að í tíundarskýrslunni sem á er byggt eru þær settar í einn flokk með tvævetra sauðum.

 

 

Taflan sýnir að árið 1710 voru meira en tvöfalt fleiri nautgripir á Gelti en almennt var á þessum sama bæ á nítjándu öldinni. Minni breyting varð á fjölda ánna. Árið 1710 voru hér 35 sauðir, tveggja ára eða eldri.[86] Á árunum kringum 1800 og á nítjándu öld voru sauðirnir yfirleitt mun færri ef marka má skýrslurnar sem taflan byggir á. Á árunum 1850, 1860, 1870 og 1880 voru tvævetra sauðir og eldri í eigu Galtarbænda aldrei fleiri en tíu.[87] Árið 1891 voru þeir 18, að geldánum meðtöldum, þar af tveir þriggja vetra eða eldri.[88] Engir sauðir fyrirfundust á Gelti aldamótaárið 1900, bara ær og gemlingar, sé tíundarskýrslan frá því ári marktæk.[89]

Bátaeign fólksins sem bjó á Gelti tók líka miklum breytingum í tímans rás. Árið 1762 átti bóndinn sem þá bjó hér fjögra manna far (sjá hér Suðureyrarhreppur, inngangskafli). Þremur áratugum síðar, haustið 1791, átti Galtarbóndi þrjá báta, áttæring, sexæring eða fjögra manna far og lítinn bát sem var tveggja eða þriggja manna far.[90] Bóndi sem bjó skamman tíma á Gelti á árunum upp úr 1820 átti tvo áttæringa og lítinn bát að auk.[91] Að honum gengnum munu Galtarmenn aldrei hafa eignast áttæring og líklega ekki heilan sexæring fyrr en eftir 1880.[92] Á árunum 1830-1870 átti fólkið á Gelti yfirleitt bara einn lítinn bát, tveggja eða þriggja manna far, og stöku sinnum tvo slíka báta.[93] Árið 1880 átti þáverandi bóndi á Gelti stærri bát að hálfu á móti bóndanum á Norðureyri.[94] Sá bátur var sexæringur eða fjögra manna far[95] (sbr. hér bls. 51-52).

Upp úr 1880 kom nýr bóndi að Gelti (sjá hér bls. 53-64). Hann átti árið 1891 sexæring og kynni líka að hafa átt annan minni bát því að um tveggja og þriggja manna för er hvergi getið í tíundarskýrslunni frá því ári.[96] Tvímælalaust er að vorið 1899 voru bátar bóndans á Gelti tveir, annar sexæringur en hinn þriggja manna far.[97] Frá útvegi bændanna á Gelti segjum við svolítið nánar þegar staldrað verður við í Galtarlandinu hér út með ströndinni en þar var uppsátrið á síðustu árum nítjándu aldar og líka um aldamótin 1800 (sjá hér bls. 73-83).

Árið 1658 var landskuldin af Gelti 100 álnir,[98] það er fimm sjöttu hlutar úr kýrverði, og stóð sú fjárhæð enn óbreytt árið 1695.[99] Á því ári eða hinu næsta féll skriða á túnið og olli hún verulegum landspjöllum.[100] Af þeim ástæðum var landskuldin lækkuð niður í 3 vættir, það er 60 álnir, árið 1697 og hélst óbreytt næstu ár, að minnsta kosti til 1710.[101]

Um eða fyrir 1750 hækkaði jarðarafgjaldið þó á ný og var 80 álnir árið 1753.[102] Nær 100 árum síðar hafði landskuldin, sem leiguliðinn á Gelti varð að greiða landsdrottni sínum, lækkað á ný og var 60 álnir skömmu fyrir miðja nítjándu öld.[103]

Staðreyndirnar sem hér hafa verið raktar benda eindregið til þess að á 17., 18. og 19. öld hafi árleg landskuld af Gelti jafnan verið á bilinu frá 60 til 100 álnir og aldrei náð heilu kýrverði en í því voru 120 álnir. Árið 1916 var landskuldin hins vegar 180,- krónur[104] en þá var hið opinbera kýrverð 162,- krónur.[105] Á þessum tíma var landskuldin, sem ábúandinn á Gelti þurfti að greiða, því furðulega há og sú langhæsta í Súgandafirði.[106] Landskuldin af Botni kom næst en hún var 96,- krónur og þar var tvíbýli.[107] Að fornu mati var Botn 24 hundraða jörð en Göltur 12 hundruð.[108] Hér er á öðrum stað reynt að skýra hvers vegna landskuldin af Gelti var svona himinhá á árum fyrri heimsstyrjaldarinnar (sjá hér bls. 65-66).

Hér á Gelti fylgdu þrjú kúgildi jörðinni árið 1658 en 1695 voru innstæðukúgildin bara tvö.[109] Árið 1710 átti landsdrottinn aðeins eitt leigukúgildi á Gelti.[110] Í Jarðabókinni frá því ári er tekið fram að þeim hafi fækkað úr þremur í eitt vegna hinnar miklu skriðu sem féll á túnið um 1695.[111] Um miðbik átjándu aldar átti eigandi jarðarinnar ekkert leigukúgildi hér á Gelti og ekki heldur um miðja nítjándu öld.[112] Árið 1916 voru hins vegar komnar hingað að nýju 12 ær frá landsdrottni,[113] það er tvö kúgildi.

Í byrjun átjándu aldar áttu Galtarbændur að greiða landskuldina og einnig leigur af innstæðukúgildinu í peningum eftir dönskum taxta.[114] Þetta var óvenjulegt, einkum hvað varðar leigurnar, því þær voru yfirleitt greiddar í smjöri eða þá í öðrum landaurum,[115] það er gjaldgengum innlendum afurðum.

Um jörðina Gölt í Súgandafirði er fyrst getið í testamentisbréfi Solveigar Björnsdóttur á Skarði frá 17. janúar 1495.[116] Solveig var dóttir Björns hirðstjóra Þorleifssonar á Skarði á Skarðsströnd og konu hans, Ólafar ríku Loftsdóttur.[117] Foreldrar Solveigar voru auðugasta fólk landsins á sínum tíma[118] og áttu mikinn fjölda jarða, meðal annars á Vestfjörðum. Ekki mun fjarri lagi að eignir þeirra hafi numið sem svaraði 8.400 kúgildum er Björn hirðstjóri var veginn í Rifi af Englendingum árið 1467.[119] Af þessu góssi erfði Solveig um það bil fimm hundruð hundraða við andlát föður síns[120] eða sem svaraði 600 kúgildum. Í hennar erfðahlut kom meðal annars höfuðbólið Hóll í Bolungavík og fjöldi annarra jarða þar um slóðir og í Önundarfirði.[121] Líklegt má telja að Göltur hafi verið ein jarðanna sem Solveig fékk í arf eftir föður sinn og tvímælalaust er að hún átti bæði Gölt og Keflavík í Suðureyrarhreppi er hún andaðist árið 1495.[122]

Solveig Björnsdóttir var elsta barn Björns hirðstjóra og Ólafar ríku, fædd í Vatnsfirði um 1435.[123] Solveig giftist ekki fyrr en 1480 eða skömmu síðar en á árunum 1467-1479 sat hún lengi á Hóli í Bolungavík og hafði sér við hlið ráðsmann er Jón hét og var Þorláksson[124] (sbr. hér Staður). Með honum eignaðist hún á þeim árum sex börn sem öll voru óskilgetin og af þeim ástæðum var henni meinað að njóta arfs eftir Árna bróður sinn, sem féll í orrustu árið 1471, og Ólöfu móður sína sem andaðist 1479 eða 1480.[125] Síðar náði Solveig að rétta hlut sinn. Þann 5. apríl 1479 fékk hún hjá móður sinni leyfi til að giftast Páli Jónssyni í Ögri er þá mun hafa þótt mjög álitlegur karlkostur vegna auðs og valda. Hann var föðurbróðir Björns Guðnasonar í Ögri[126] er kallast mátti héraðshöfðingi Vestfirðinga á árunum upp úr 1500.

Páll Jónsson í Ögri og Solveig Björnsdóttir voru fjórmenningar að frændsemi og máttu því ekki ganga í hjúskap nema með sérstöku leyfi frá páfanum í Róm.[127] Það leyfi fékkst en engu að síður mun Solveig hafa verið uggandi um að synir hennar tveir, er hún eignaðist með Páli, kynnu að verða dæmdir arflausir.[128] Þess vegna gekk hún í banalegu sinni frá testamentisbréfi því sem hér var áður nefnt og dagsett er 17. janúar 1495.[129] Í bréfinu tekur Solveig fram að hún gefi sonum þeirra Páls, Þorleifi og Jóni, meginhluta eigna sinna og nefnir 70-80 jarðir er allar skuli teljast þeirra lögmæt eign að sér látinni.[130] Síðustu árin sem Solveig lifði sátu þau Páll á Skarði á Skarðsströnd,[131] sem áður var setur foreldra hennar, og var Skarð eitt höfuðbólanna sem hún gaf sonum þeirra Páls með testamentisbréfinu en þeir fengu líka Hól í Bolungavík og fjölda jarða á Vestfjörðum, þar á meðal Gölt og Keflavík[132] norðan Galtar.

Í varðveittum skjölum er jörðin Göltur í Súgandafirði fyrst nefnd í þessu gjafabréfi eins og fyrr var getið. Synir Solveigar og Páls voru báðir á barnsaldri er móðir þeirra andaðist og annar þeirra, Jón Pálsson, dó mjög skömmu síðar en Þorleifur komst til manns.[133] Páll Jónsson á Skarði, eiginmaður Solveigar Björnsdóttur, var veginn haustið 1496[134] og lifði því aðeins hálfu öðru ári lengur en hún. Þorleifur Pálsson var enn barn eða unglingur þegar faðir hans var sviptur lífi og þá munu feðgarnir Guðni sýslumaður Jónsson á Kirkjubóli í Langadal við Djúp, sem var föðurbróðir Þorleifs, og Björn Guðnason í Ögri hafa tekið erfðafé Solveigar Björnsdóttur í sína umsjá.[135]

Um þetta arfagóss urðu síðan langar og illvígar deilur sem ekki verða raktar hér. Þess skal þó getið að sumarið 1511 var mörgum jörðum, sem Solveig hafði átt á Vestfjörðum, skipt á milli fimm af sex óskilgetnum börnum hennar, er hún hafði eignast með ráðsmanni sínum á Hóli, Jóni Þorlákssyni sem fyrr var nefndur.[136] Fyrir þessari eignaskiptingu stóð Stefán Jónsson, þáverandi Skálholtsbiskup, og fengu bræðurnir, Björn og Einar Jónssynir Hól í Bolungavík og ellefu aðrar jarðir þar í grennd í sinn hlut, þar á meðal Gölt í Súgandafirði og Keflavík[137] norðan Galtar. Í testamentisbréfi sínu frá árinu 1495 hafði Solveig Björnsdóttir reyndar mælt svo fyrir að hin óskilgetnu börn, er hún hafði eignast með Jóni Þorlákssyni, skyldu fá í sinn hlut sex hundruð hundraða, er jarðeignum hennar yrði skipt,[138] en allt fór það á rugling síðar. Með úrskurði sínum frá árinu 1511 mun Stefán biskup hafa ætlað sér að rétta nokkuð hlut þessara barna Solveigar.

Bræðrunum Birni og Einari Jónssonum mun ekki hafa auðnast að halda til lengdar þeim jörðum sem Stefán biskup ætlaði þeim árið 1511. Ljóst er hins vegar að Þorleifur lögmaður Pálsson, hálfbróðir þeirra, átti Hól í Bolungavík er hann andaðist árið 1557 eða 1558 og líka margar jarðir sem fylgt höfðu Hóli um skeið, þar á meðal Gölt og Keflavík í Suðureyrarhreppi.[139] Við erfðaskipti sem gengið var frá á Skarði 10. maí 1558 fékk Guðrún, dóttir Þorleifs Pálssonar, Hól í Bolungavík í sinn hlut og einnig Gölt og Keflavík.[140] Hún var þá gift Agli Jónssyni, lögréttumanni á Geitaskarði í Húnaþingi.[141]

Skjalfestur vitnisburður frá árinu 1563 bendir reyndar til þess að svo seint hafi einhverjir enn reynt að véfengja rétt Þorleifs Pálssonar og dóttur hans til þessara jarðeigna því ella hefði tæplega þurft á nefndum vitnisburði að halda. Þennan vitnisburð lét í té maður að nafni Sigurður Þormóðsson og kveðst þar oftlega hafa séð og yfirlesið Testamentumbréf er Solveig heitin Björnsdóttir hafði gjöra látið í sinni dauðstíð.[142] Í vitnisburðinum tekur Sigurður fram að testamentisbréfið sem hann sá og las hafi verið með heilum og ósködduðum hangandi innsiglum og þar mátt sjá að fyrst allra sinna gjafa hafi Solveig gefið sínum syni, Þorleifi Pálssyni, Hól í Bolungavík með öllum þeim jörðum sem þar undir liggja … að tilskilinni jörðinni Gelti í Súgandafirði.[143]

Ástæðan fyrir því að menn voru árið 1563 að rifja upp hina 68 ára gömlu erfðaskrá Solveigar Björnsdóttur og minna á þetta ákvæði hennar getur varla hafa verið önnur en sú ein að erfingjar sonar hennar, Þorleifs Pálssonar, hafi viljað leitast við að sanna að hann hafi átt þessar jarðir í Bolungavík og Súgandafirði með réttu.

Skemmtileg er sagan sem Bogi Benediktsson, hinn fróði, á Staðarfelli, rekur í riti sínu, Sýslumannaæfum, en hann segir þar að Guðrún, dóttir Þorleifs Pálssonar á Skarði, hafi fengið Árna Gíslasyni, sýslumanni á Hlíðarenda í Fljótshlíð, Hól í Bolungavík í jarðaskiptum og lætur þess getið að Hól hafi hún látið falan við Árna gegn því að hann tryggði henni kóngsnáðarbréf sem hún þurfti á að halda vegna barneignar í meinum.[144]

Sé eitthvað að marka gamlar munnmælasögur og kveðskap tengdan þessum jarðakaupum má ætla að Árni Gíslason og Sæmundur sonur hans hafi lagt ærið kapp á að ná Hóli undir sig en Sæmundur var þá í kvonbænahugleiðingum og hafði beðið Elínar, dóttur Magnúsar prúða Jónssonar, sýslumanns, og konu hans Ragnheiðar Eggertsdóttur.[145] Segir sagan að Magnús hafi svarað bónorðinu með vísu sem alkunn varð:

 

Fæst ei skjól hjá faldasól,

fyrðar honum það segi,

nema eigi hann Hól fyrir höfuðból

hana fær hann eigi.[146]

 

Hvort Magnús prúði hefur ort vísuna eða hún verið lögð honum í munn veit líklega enginn en hitt er fullvíst að Sæmundur Árnason frá Hlíðarenda fékk að lokum Elínar og var kaupmáli þeirra gerður haustið 1588.[147] Þá var Sæmundur orðinn eigandi að Hóli í Bolungavík en þar bjuggu þau Elín Magnúsdóttir lengi og síðan niðjar þeirra.[148]

Hvaðan Bogi á Staðarfelli hefur söguna um viðskipti Árna Gíslasonar á Hlíðarenda og Guðrúnar Þorleifsdóttur frá Skarði er ekki ljóst. Vera má að stoðir hennar séu ekki traustar því í annarri heimild segir að Magnús prúði Jónsson, sem hér var nefndur, hafi keypt Hól árið 1582,[149] sex árum áður en gengið var frá kaupmála Sæmundar og Elínar. Ljóst er samt sem áður að niðjar þessara hjóna hafa haldið til haga vitnisburðinum frá 1563 sem ætlaður var til að sýna fram á að Þorleifur Pálsson á Skarði hefði átt Hól með réttu. Á fyrsta þriðjungi 17. aldar var frumritið af þeim vitnisburði í höndum Sæmundar Magnússonar, lögsagnara á Hóli,[150] sonarsonar Sæmundar Árnasonar og Elínar Magnúsdóttur.[151] Fullvíst má því í rauninni telja að Árni Gíslason eða Magnús prúði Jónsson hafi keypt Hól af Guðrúnu Þorleifsdóttur en báðir voru þeir forfeður ættarinnar sem lengst bjó á Hóli á síðari öldum.

Fróðlegt væri að vita hvort Göltur í Súgandafirði fylgdi enn Hóli þegar Sæmundur Árnason og Elín kona hans eignuðust höfuðból þetta í Bolungavík á árunum skömmu fyrir 1590. Nokkrar líkur benda til þess að svo hafi verið því á árunum kringum 1500 var jörðin Göltur tvímælalaust ein af Hólsjörðunum og svo var enn 1511 (sjá hér bls. 11-13). Fullvíst er að Guðrún Jónsdóttir, bróðurdóttir Elínar Magnúsdóttur á Hóli og sonardóttir Magnúsar prúða Jónssonar, átti Gölt árið 1658.[152] Í jarðaskrá úr Ísafjarðarsýslu frá því ári er kvinna Guðmundar Ásmundssonar sögð vera eigandi Galtar en aðeins einn maður með því nafni kemur við skjöl um miðbik sautjándu aldar og átti hann heima í Stóra-Holti í Saurbæ í Dalasýslu.[153] Kona hans var Guðrún Jónsdóttir, dóttir Jóns dan Magnússonar á Eyri í Seyðisfirði við Djúp, annars tveggja sona Magnúsar prúða sem báru Jóns nafn.[154]

Guðrún þessi Jónsdóttir í Stóra-Holti andaðist árið 1660[155] en jörðin Göltur var alllengi í eigu niðja hennar. Eitt barna Guðrúnar og Guðmundar Ásmundssonar í Stóra-Holti var Ólöf sem giftist árið 1653 Magnúsi Magnússyni, sýslumanni á Eyri í Seyðisfirði við Djúp.[156] Þeirra dóttir var Ingibjörg Magnúsdóttir sem giftist árið 1684 séra Halldóri Pálssyni, aðstoðarpresti og síðar sóknarpresti í Selárdal.[157] Þessari dótturdóttur sinni, þá barnungri, gaf Guðrún í Stóra-Holti Gölt skömmu fyrir andlát sitt.[158] Ólöf Guðmundsdóttir, dóttir Guðrúnar og móðir Ingibjargar, samþykkti þennan gjörning móður sinnar að því tilskildu

 

… að hún [Ólöf] og maður hennar, Magnús Magnússon, megi hafa byggingarráð á jörðinni þar til þau afleggja hana fúslega og að Ingibjörg framgangi í hlýðni og guðs ótta og styrki yngri systkini sín.[159]

 

Í jarðaskrá frá árinu 1695 er séra Halldór í Selárdal, eiginmaður nýnefndrar Ingibjargar Magnúsdóttur, sagður eiga Gölt.[160] Prestur þessi var sonur séra Páls Björnssonar í Selárdal[161] sem á sínum tíma var talinn öðrum betur menntaður en mun nú kunnastur fyrir harðleikni sína við meinta galdramenn, enda kom hann mörgum á bálið.

Séra Halldór Pálsson tók við embætti sóknarprests í Selárdal við andlát föður síns haustið 1706.[162] Ári síðar missti hann konuna í stórubólu en sjálfur lifði séra Halldór til ársins 1733 og hélt embætti sínu til æviloka.[163] Í Jarðabókinni frá 1710 sést að Halldór prófastur í Selárdal var þá enn eigandi Galtar.[164] Hann mun hafa átt jörðina til dauðadags en sonur séra Halldórs, Björn Halldórsson, stúdent og bóndi í Stóra-Laugardal í Tálknafirði, seldi Gölt fyrir 36 ríkisdali í spesíumynt skömmu eftir andlát föður síns.[165] Sá sem keypti var frændi hans, séra Sigurður Sigurðsson, prestur í Holti í Önundarfirði, en þeir Björn voru systkinasynir og var séra Páll Björnsson í Selárdal afi beggja.[166] Gengið var frá kaupunum þann 11. nóvember 1734.[167] Séra Sigurður virðist hafa fengið þessa tólf hundraða jörð á góðu verði því að í innanlandsviðskiptum var hver ríkisdalur aðeins talinn 30 álna virði[168] svo almenna viðmiðunin hefur verið sú að gefa 36 ríkisdali fyrir níu hundruð.

Séra Sigurður Sigurðsson var prestur í Holti í liðlega 50 ár, frá 1709 til 1760, fyrst aðstoðarprestur og síðan sóknarprestur (sjá hér Holt). Hann andaðist 22. desember 1760[169] og tveimur árum síðar er annar Sivert Sivertsen talinn eigandi Galtar.[170] Sá Sigurður Sigurðsson var tengdasonur séra Sigurðar Sigurðssonar í Holti.[171] Hann var sýslumaður í Ísafjarðarsýslu og sat á Mosvöllum í Önundarfirði, nefndur Sigurður skuggi (sjá hér Mosvellir).

Í alþingisbókinni frá 1766 er sagt að vorið 1765 hafi Sigurður sýslumaður sett 6 hundruð í Holti við Súgandafjörð og aðra jarðeign að veði til tryggingar skilvísri greiðslu á árlegri afgift af Ísafjarðarsýslu samt Barðastrandar- og Álftafjarðarjörðum til konungs.[172] Þarna er greinilega um misritun eða prentvillu að ræða og þar sem stendur í Holti hefur átt að standa í Gelti því jörðin Holt við Súgandafjörð  er ekki til og hefur aldrei verið.

Árið 1765 vék Sigurður sýslumaður skuggi brott frá Vestfjörðum (sjá hér Holt) og 6. janúar 1767 seldi hann Gölt Jóni Jónssyni, lögréttumanni í Hnífsdal.[173] Kaupverðið var nú 48 ríkisdalir[174] eða þriðjungi hærra en þegar tengdafaðir Sigurðar sýslumanns keypti jörðina árið 1734. Hinn nýi eigandi, Jón Jónsson, lögréttumaður í Hnífsdal, var fæddur um 1709 og var enn á lífi árið 1774.[175] Um hann og ætt hans hefur Theódór Árnason skrifað í ritinu Vestfirskar ættir og skal til þess vísað.[176]

Vorið 1790 fóru hjónin Jón Bjarnason og Margrét Guðnadóttir að búa á Gelti[177] og má telja mjög líklegt að þau hafi eignast jörðina um svipað leyti. Með fullri vissu er vitað að Margrét átti Gölt árið 1805 en hún var þá orðin ekkja og bjó á þessari eignarjörð sinni.[178] Þau Jón og Margrét voru fyrstu sjálfseignarbændurnir á Gelti sem um er kunnugt. Hér segir nánar frá þeim síðar og frá seinni eiginmanni húsfreyju þessarar á Gelti en hann hét líka Jón Bjarnason (sjá hér bls. 23-34). Margrét Guðnadóttir á Gelti og eiginmenn hennar voru mjög vel efnum búin. Þegar hún andaðist árið 1814 var bú hennar og seinni eiginmannsins, að frádregnum skuldum, virt á 3.262 ríkisdali.[179] Tæpur helmingur þessara fjármuna voru jarðeignir, ásamt meðfylgjandi leiguám, en þau áttu þá fimm jarðir og parta úr öðrum fimm (sjá hér bls. 27). Að fornu mati var dýrleiki þessara jarðeigna, allra til samans, 103 hundruð[180] en minnt skal á að heimajörðin, Göltur, var aðeins 12 hundruð að dýrleika.

Erfingjar Margrétar á Gelti voru fjórir, þrjú börn hennar af fyrra hjónabandi og eftirlifandi eiginmaður, Jón Bjarnason.[181] Kom Göltur í hans hlut og bjó Jón hér áfram allt til vorsins 1821 er hann fluttist að Sæbóli á Ingjaldssandi (sjá hér bls. 26-34). Hann dó á Sæbóli 27. júlí 1854.[182] Óvíst er hversu lengi Jón átti Gölt en skýrsla sýslumanns um skipti á dánarbúi hans sýnir að hann átti jörðina ekki til æviloka.[183]

Árið 1840 hóf Hallgrímur Lárentíusson búskap á Gelti en hann var þá orðinn roskinn og átti skammt eftir ólifað (sjá hér bls. 37-41). Þegar ekkja hans vék frá vorið 1845 tók Lárentíus, sonur Hallgríms, við búsforráðum og þaðan í frá bjuggu hann og niðjar hans nær óslitið hér á Gelti allt til ársins 1909.[184] Valdimar Þorvaldsson staðhæfir að á Gelti muni sjálfseignarbændur hafa búið mikinn hluta af nítjándu öld.[185] Þessi orð Valdimars benda eindregið til þess að Lárentíus Hallgrímsson, sem bjó hér frá 1845 til 1862 (sjá hér bls. 45-47), hafi átt jörðina eða a.m.k. einhvern part úr henni og síðan niðjar hans sem hér bjuggu að honum látnum. Búskap sinn á Gelti virðist Lárentíus þó hafa byrjað sem leiguliði því að í Jarðatali Johnsens frá árinu 1847 er jörðin sögð vera í leiguábúð.[186] Þær upplýsingar kynnu reyndar að hafa verið orðnar nokkurra ára gamlar þegar bókin kom út. Hvað sem öðru líður er full ástæða til að taka mark á orðum Valdimars Þorvaldssonar, sem hér var áður vitnað til, og þá einkum hvað varðar síðari hluta nítjándu aldar. Sjálfur var Valdimar fæddur í Selárdal árið 1878 og ólst þar upp eins og hér hefur áður verið nefnt. Á uppvaxtarárunum og fram á fullorðinsár var hann samtíða greinargóðum konum sem fæddust í Selárdal á árunum upp úr 1830 og ólu þar allan sinn aldur svo ætla má að hann hafi vitað hvort bændurnir sem bjuggu á Gelti eftir 1860 voru leiguliðar eða sjálfseignarbændur.

Sterkar vísbendingar úr skjallegum heimildum benda reyndar til hins sama og orð Valdimars hvað varðar Lárentíus Hallgrímsson sem hér bjó um miðbik nítjándu aldar. Þar er þá fyrst að nefna að ekkja hans, Sigurborg Bergsdóttir, var enn aðaleigandi Galtar árið 1901[187] og í annan stað að sonur Lárentíusar og Sigurborgar átti sannanlega hálft annað hundrað í Gelti árið 1883 (sjá hér Botn) sem líklegt má telja að hafi verið erfðahlutur. Allt bendir þetta til þess að Lárentíus hafi verið hér sjálfseignarbóndi og ekkja hans átti hálfa jörðina, 6 hundruð, allt til ársins 1904 en þá gaf hún Guðmundi Ásgrímssyni, sem bjó á Gelti og kvæntur var sonardóttur hennar, þessi jarðarhundruð í próventu sína.[188]

Í fylgiskjölum með manntali frá árinu 1901 eru Sigurborg Bergsdóttir og fleiri sögð vera eigendur þessarar jarðar.[189] Hún var þá 93ja ára gömul og átti heima á Gelti hjá sonardóttur sinni, Guðrúnu Ólafsdóttur húsfreyju, og eiginmanni hennar, Guðmundi bónda Ásgrímssyni.[190] Árið 1904 átti Sigurborg gamla enn 6 hundruð í Gelti, það er hálfa jörðina[191] en þá um sumarið ráðstafaði hún þessum 6 hundruðum til Guðmundar Ásgrímssonar gegn því að hann veitti sér sömu hjálp til lífsframfæris til dauðadags og hann hafi gjört að undanförnu.[192] Sigurborg andaðist 30. júní 1905 og við uppgjör á dánarbúi hennar, hálfum mánuði síðar, var tekið fullt tillit til þessarar ákvörðunar hinnar látnu.[193] Guðmundur og Guðrún, kona hans, urðu þá með formlegum hætti eigendur þessara sex jarðarhundraða en hina hálflenduna mun Guðrún hafa fengið að erfðum við andlát föður síns, Ólafs Lárentíussonar, áður bónda á Gelti,[194] sem dó vorið 1894.[195] Guðmundur Ásgrímsson og kona hans, Guðrún Ólafsdóttir, stóðu  hér fyrir búi frá 1881-1909[196] en þau og nánustu ættingjar Guðrúnar áttu jörðina á því skeiði eins og sjá má á því sem hér hefur verið ritað.

Vorið 1911 fóru hjónin Guðmundur Guðmundsson frá Vatnadal og kona hans, Sigríður Magnúsdóttir, að búa hér á Gelti[197] og munu þau hafa keypt jörðina um svipað leyti.[198] Þau lentu í skuldabasli og töpuðu jörðinni í hendur Ásgeirsverslunar árið 1915.[199] Næstu árin voru þau leiguliðar á Gelti (sjá hér bls. 65-66) en náðu að rétta úr kútnum og um eða fyrir 1930 höfðu þau eignast jörðina á ný ef marka má Fasteignabók frá árinu 1932.[200] Sonur Guðmundar og Sigríðar var síðasti bóndinn á Gelti (sjá hér Firðir og fólk 1900-1999, 456) og niðjar þeirra eiga jörðina enn (1996).[201]

 

Hér hefur nú verið getið nokkurra eigenda hinnar fornu bújarðar Galtar í Súgandafirði, allt frá dögum Solveigar Björnsdóttur sem átti jörðina á síðari hluta fimmtándu aldar. Sé hins vegar spurt um bændurna sem bjuggu hér fyrir 1700 og þeirra fólk finnst ekkert nafn í rituðum heimildum fyrr en kemur að því góða og merkilega manntali sem tekið var árið 1703. Nöfn allra sem hér háðu sitt lífsstríð og komnir voru undir græna torfu árið 1703 eru týnd í tímans haf og munu varla finnast úr þessu.

Fyrsta manneskjan, sem átti dvöl á Gelti og frá er greint í varðveittum heimildum, er reyndar ekki nefnd með nafni og vera má að hún hafi aðeins verið hér gestkomandi. Þetta var fátæk stúlka sem árið 1661 lagði af stað frá Gelti áleiðis til Keflavíkur. Frá ferð hennar segir svo í Eyrarannál:

 

Gekk fátæk stúlka frá Gelti í Súgandafirði til Keflavíkur og fannst síðan sama dag á fjörunum milli nefndra bæja, nær dauð. Voru hennar föt brunnin upp að mitti, hempa og pils með götum en líkaminn óskaddaður.[202]

 

Þetta er undarleg saga og að því er virðist brengluð en höfundur annálsins, Magnús Magnússon, sýslumaður á Eyri í Seyðisfirði, reynir ekki að skýra hvað valdið hafi hinum furðulega bruna. Einhver hefur fært yfirvaldinu þessa frétt en Magnús hafði verið sýslumaður í Ísafjarðarsýslu í átta ár þegar atburðurinn skeði[203] og því ekki um langan veg tíðinda að spyrja.

Bændurnir tveir sem bjuggu á Gelti árið 1703 hétu Jón Sigmundsson og Árni Sigmundsson.[204] Jón var tæplega sextugur að aldri og bjó með þremur uppkomnum börnum sínum.[205] Líklegt er að hann hafi verið ekkjumaður en dóttir hans, sem Ingibjörg hét, var bústýra hjá föður sínum.[206] Hinn bóndinn, Árni Sigmundsson, var nokkru yngri en Jón, sagður 48 ára í manntalinu frá 1703.[207] Kona hans, Steinvör Þorláksdóttir, var sex árum yngri en eiginmaðurinn.[208] Í manntalinu verður ekki séð að þau hafi átt börn.[209]

Mjög líklegt verður að telja að bændurnir tveir sem bjuggu hér á Gelti í byrjun átjándu aldar, þeir Jón og Árni Sigmundssynir, hafi verið bræður. Til þess bendir, auk sameiginlegs föðurnafns, einkum sú staðreynd að þeir bjuggu saman í félagi eins og sjá má í nýnefndu manntali en þar segir: Beggja þeirra er borð eitt og undir einu forsvari allt.[210] Tilvitnuð orð sýna að árið 1703 mataðist allt heimafólk á Gelti við sama borð þó að býlin teldust vera tvö. Bæði búrekstur og heimilishald hafa því verið sameiginleg þó hvor um sig ætti sínar skepnur. Auk bændanna, Jóns og Árna, voru tveir aðrir Sigmundssynir á Gelti árið 1703, Björn, sem var 51 árs, og Bjarni, sem var 42ja ára.[211] Vera kann að allir þessir fjórir Sigmundssynir hafi verið bræður. Björn Sigmundsson var vinnumaður hjá Árna bónda en Bjarni Sigmundsson var karlægur af spítelsku[212] sem merkir að hann hafi verið holdsveikur. Fimmtán manneskjur áttu heima á Gelti árið 1703.[213] Í þeim hópi voru tvö tökubörn og tvær fullorðnar manneskjur sem ekki gátu unnið fyrir sér, þau Bjarni Sigmundsson og Steinvör Snjólfsdóttir sem var 68 ára gömul.[214] Um Bjarna og Steinvöru er tekið fram í manntalinu að þau nærist á handbjörg beggja búenda.[215]

Enginn veit nú hvort eitthvað af heimilisfólkinu á Gelti hefur fallið í stórubólu árið 1707 en ljóst er að bændurnir tveir lifðu báðir af.[216] Þeir Jón og Árni Sigmundssynir bjuggu hér enn árið 1710 og töldust þá hafa sína hálflenduna hvor til ábúðar.[217] Tölur um fjölda búfjár á því ári hafa áður verið raktar í þessu riti (sjá hér bls. 9).

Um 1735 var maður að nafni Jón Jónsson eini bóndinn á Gelti.[218] Hugsanlegt er að hann hafi verið sonur Jóns Sigmundssonar sem hér bjó áður og fyrr var nefndur. Manntalið frá 1703 sýnir að Jón Sigmundsson á Gelti átti son sem hét Jón, fæddan um 1675.[219] Sá Jón Jónsson gæti því sem best hafa búið hér árið 1735 en um það hvort svo hafi verið í raun veit þó enginn.

Árið 1753 var Hákon Björnsson farinn að búa á Gelti og bjó þá einn á allri jörðinni.[220] Hann var líka eini bóndinn á Gelti árið 1762, sagður 54 ára í manntali frá því ári.[221] Í því manntali sjáum við að Hákon átti konu, sem var á líkum aldri og hann, en nafn hennar er ekki nefnt.[222] Hjá þessum hjónum voru árið 1762 fimm börn þeirra, á aldrinum 10-20 ára, tveir synir og þrjár dætur.[223] Á heimili þeirra voru líka þetta sama ár einn vinnumaður og ein vinnustúlka og hér var þá einhleypur húsmaður, Þorvaldur Bjarnason, liðlega fimmtugur að aldri.[224]

Í Ættatölubókum Jóns Espólín er Hákon Björnsson, bóndi á Gelti, sagður hafa verið launsonur Björns Þorsteinssonar, bónda á Meiri-Bakka í Skálavík.[225] Espólín greinir líka frá því að Hákon hafi verið kvæntur konu sem Kristín hét og var Jónsdóttir.[226] Árið 1762 átti hann bát, sem var fjögra manna far, og reri á honum til fiskjar.[227] Hásetahlutur hjá bóndanum á Gelti var 160 fiskar það ár, frá áramótum til vorvertíðarloka, og er þá átt við verðeininguna sem nefndist fiskur (sjá hér Suðureyrarhreppur, inngangskafli) og var hálf alin. Í einu kýrverði voru 240 slíkir fiskar.

Ekki er nú auðvelt að sjá hversu lengi Hákon Björnsson kann að hafa búið á Gelti en niðjar hans og þeirra fólk voru hér allt til ársins 1790. Eins og fyrr var nefnt áttu Hákon og kona hans tvo syni og voru þeir 13 og 19 ára árið 1762.[228] Annar þessara tveggja sona var Jón Hákonarson sem kvæntist Kristínu Bergsdóttur er seinna var lengi búandi ekkja á Norðureyri[229] (sbr. hér Norðureyri). Líklegt er að Jón hafi tekið við búi á Gelti af Hákoni, föður sínum, en það er þó ekki alveg víst. Hitt má fullyrða að hann og Kristín, kona hans, voru heimafólk á Gelti á árunum 1775-1781 því synir þeirra þrír, Bergur, Hákon og Jón, fæddust hér á þeim árum.[230]

Jón Hákonarson á Gelti varð ekki gamall maður því hann andaðist á árunum 1781-1784 og hefur þá verið um eða innan við fertugt. Hann var tvímælalaust á lífi árið 1780 því yngsti sonur hans fæddist ekki fyrr en 1781 eða jafnvel einu ári síðar (sjá hér Norðureyri). Hins vegar má telja víst að þessi fyrri eiginmaður Kristínar Bergsdóttur hafi verið látinn vorið 1784 því 25. júlí á því ári giftist hún í annað sinn eins og hér hefur áður verið nefnt (sjá Norðureyri).

Um Kristínu Bergsdóttur og seinni eiginmann hennar, Þorkel Jónsson, hefur áður verið fjallað í þessu riti en þau bjuggu í tvíbýli hér á Gelti frá 1784-1790 og síðan á Norðureyri (sjá hér Norðureyri). Sambýlisfólk Þorkels og Kristínar á árunum 1785-1790 voru hjónin Kristófer Kolbeinsson og Ásdís Hákonardóttir.[231] Í janúarmánuði árið 1786 var Kristófer talinn 39 ára gamall en Ásdís 45 ára.[232] Sterkar líkur benda til þess að Ásdís hafi verið dóttir Hákonar Björnssonar á Gelti, sem fyrr var nefndur, og systir Jóns Hákonarsonar, fyrri eiginmanns Kristínar Bergsdóttur. Í manntalinu frá 1762 er elsta dóttir Hákonar sögð vera tvítug[233] og ætti þá að hafa verið fædd árið 1741 eða 1742 en það passar að heita má við aldur Ásdísar sem upp er gefinn í sóknarmannatalinu frá 1786 og í manntalinu frá 1801[234] Í manntalinu frá 1762 eru dætur Hákonar Björnssonar á Gelti sagðar vera 20, 11 og 10 ára en þar eru nöfn þeirra hins vegar ekki nefnd.[235] Mjög líklegt má samt telja að yngri systurnar tvær hafi verið Margrét, sem var húsfreyja á Stað árið 1801, sögð þá 51 árs gömul, og Svanborg sem þá var vinnukona á Stað, talin 49 ára[236] (sbr. hér Staður og Selárdalur).

Svo virðist sem sóknarpresturinn, séra Þorsteinn Þórðarson á Stað, hafi haft eitthvað við hegðun Ásdísar Hákonardóttur, húsfreyju á Gelti, að athuga því hann segir árið 1787 að hún hegði sér sæmilega þegar flestar aðrar konur í sókninni fá þá einkunn að þær hagi sér vel.[237] Séra Þorsteinn tekur hins vegar fram að Ásdís sé skýr í betra lagi.[238] Um Kristófer Kolbeinsson, eiginmann Ásdísar Hákonardóttur, segir prestur þetta sama ár, 1787, að hann hagi sér skikkanlega en sé lítt fróður.[239] Kristófer hafði þá átt í nokkru stríði við yfirvöldin og haustið 1785 greindi séra Þorsteinn Þórðarson á Stað prófasti frá því að hann hefði hvorki með blíðu né stríðu getað fengið kotkarl þennan á Gelti til að greiða lögboðna tíund.[240] Vera má að prestur hafi talið Ásdísi konu hans eiga sök á þeirri þvermóðsku. Þau Kristófer Kolbeinsson og Ásdís Hákonardóttir fóru frá Gelti vorið 1790 og settust að í Keflavík[241] en bjuggu síðar lengi í Staðarhúsum ytri, hjáleigu frá Stað í Súgandafirði, og hefur áður verið frá þeim sagt í þessu riti (sjá hér Staður, Staðarhús ytri þar).

Á árunum 1785-1790 voru jafnan þrjár fjölskyldur á Gelti því auk bændanna tveggja og þeirra fólks átti hér heima á þeim árum húsmaðurinn Ari Guðmundsson, ekkjumaður með tvö börn, sem í byrjun ársins 1786 voru 12 og 18 ára.[242] Sjálfur var Ari þá á sextugsaldir, iðinn og frómur, að sögn prestsins, en fáfróður.[243] Börn Ara hétu Sigmundur og Þuríður og var Sigmundur eldri.[244] Hann dó á Suðureyri 22. mars 1793.[245] Þuríður lifði miklu lengur og hún eignaðist árið 1797 drenginn Sigurð Þuríðarson (sjá hér Staður, Staðarhús fremri þar) sem hér er sagt frá á öðrum stað (sjá hér Botn). Hann fæddist á Gelti en ólst að mestu leyti upp í Staðarhúsum ytri, hjá Kristófer Kolbeinssyni og Ásdísi Hákonardóttur sem áttu hér heima á uppvaxtarárum Þuríðar Aradóttur.[246] Feðginin Ari Guðmundsson og Þuríður Aradóttir voru lengi viðloðandi hér á Gelti, fóru stundum burt en komu svo aftur.[247] Á árunum 1786-1806 var Ari ýmist húsmaður eða vinnumaður.[248] Þessi feðgin, Ari og Þuríður, voru bæði tvö enn á Gelti árið 1806.[249] Presturinn segir þá um Þuríði að hún sé ekki ófróð í andlegu.[250]

Vorið 1790 urðu mikil umskipti hér á Gelti en báðir bændurnir sem hér höfðu búið næstu árin á undan, þeir Þorkell Jónsson og Kristófer Kolbeinsson, urðu þá að víkja brott með allt sitt en nýtt fólk, sem kom norðan úr Jökulfjörðum, tók við jörðinni og hóf hér búskap.[251] Það voru hjónin Jón Bjarnason og Margrét Guðnadóttir sem þá voru bæði um fertugsaldur, Jón sagður 43ja ára í febrúar 1791 en Margrét 40 ára.[252] Þau komu frá Sléttu í Jökulfjörðum en þar höfðu þau búið í um það bil tíu ár og hafði Jón verið hreppstjóri í Sléttuhreppi á árunum 1786-1790.[253]

Vitneskja um ætterni og uppruna Jóns þessa Bjarnasonar liggur ekki fyrir en systur átti hann sem Kristín hét Bjarnadóttir og fluttist hún með honum að Gelti, fædd um 1740.[254]

Margrét Guðnadóttir, kona Jóns Bjarnasonar, var dóttir hjónanna Guðna Árnasonar og Rannveigar Jónsdóttur sem bjuggu á Tyrðilmýri á Snæfjallaströnd.[255] Guðni, faðir Margrétar, var að sögn Jóns Espólín sonarsonur séra Halldórs Magnússonar í Árnesi á Ströndum[256] en Rannveig, móðir hennar, var dóttir Jóns Einarssonar, lögréttumanns í Æðey, sem nefndur var Jón hrekkur, og konu hans, Guðrúnar Jónsdóttur frá Breiðavík í Rauðasandshreppi.[257] Margrét, húsfreyja á Gelti, hefur því verið systurdóttir Halldóru Jónsdóttur, konu Bjarna Brynjólfssonar, bónda á Suðureyri í Súgandafirði (sjá hér Suðureyri).

Líklegt er að Jón Bjarnason hafi keypt jörðina Gölt um svipað leyti og hann fluttist hingað. Sannanlegt er að kona hans, Margrét Guðnadóttir, átti hana árið 1805 en hún var þá orðin ekkja.[258] Næsti eigandi á undan, sem um er vitað með fullri vissu, var Jón Jónsson, lögréttumaður í Hnífsdal, en hann keypti Gölt árið 1767 (sjá hér bls. 16) og má vera að Jón Bjarnason hafi keypt af erfingjum hans.

Við komu sína að Gelti hófu Jón og Margrét, kona hans, strax búskap á allri jörðinni[259] en áður hafði verið hér tvíbýli um nokkurt skeið (sjá hér bls. 8). Jón Bjarnason, bóndi á Gelti, drukknaði sumarið 1800 (sjá hér bls. 25-26) en ekkja hans, Margrét Guðnadóttir, hélt búskapnum áfram og giftist í annað sinn á árunum 1808-1810.[260] Hún andaðist í marsmánuði árið 1814 og hafði þá verið húsfreyja á Gelti í nær 24 ár. Að Margréti látinni bjó seinni eiginmaður hennar hér í sjö ár (sjá hér bls. 26-27 og 32-34 ) svo að samtals urðu búskaparár Margrétar og eiginmanna hennar hér á Gelti 31.[261] Á öllu því skeiði var hér einbýli (sjá hér bls. 8) og þetta fólk var tvímælalaust mun efnaðra en meginþorri almennings og verður hér brátt vikið nánar að efnahag þess. Jörðin bar reyndar ekki stórt bú en Jón á Gelti bjó þó árið 1791 með fleiri sauðkindur en nokkur annar bóndi í Súgandafirði.[262] Þær voru 42, að lömbum frátöldum.[263] Kýr hjónanna á Gelti voru hins vegar bara tvær þetta sama ár en fimm bændur í Súgandafirði, að prestinum meðtöldum, voru þá með þrjár kýr.[264] Tveir áttæringar voru til í Súgandafirði árið 1791 og átti Jón Bjarnason á Gelti annan þeirra en hinn átti Guðmundur Ólafsson á Kvíanesi.[265] Jón átti þá þrjá báta, áttæring, sexæring eða fjögra mana far og einn minni bát.[266] Enginn annar Súgfirðingur átti þá fleiri en tvo báta ef marka má búnaðarskýrslu sem fjórir hreppstjórar í Suðureyrarhreppi skrifuðu undir 21. desember 1791.[267] Jón Bjarnason var sjálfur einn þessara hreppstjóra, þó aðeins væri liðið hálft annað ár frá því hann fluttist í hreppinn, en hinir þrír voru Erlingur Þorgilsson í Bæ, Bjarni Jónsson í Ytri-Vatnadal og Guðmundur Ólafsson á Kvíanesi.[268]

Allt sýnir þetta að Jón Bjarnason frá Sléttu var allvel efnaður á bændavísu er hann fluttist til Súgandafjarðar og jarðakaup hans fáum árum síðar staðfesta með enn skýrari hætti að svo muni hafa verið. Þann 9. mars 1797 keypti Jón bóndi á Gelti 15 hundruð í jörðinni Sæbóli á Ingjaldssandi af Jóni Jónssyni, sýslumanni í Strandasýslu, og galt fyrir þá jarðeign 180 ríkisdali í kúrantmynt.[269] Þessum jarðarparti, sem var fjórðungur úr öllu Sæbóli, fylgdi eitt og hálft kúgildi og var andvirði þess innifalið í kaupverðinu.[270] Í makaskiptum, sem fram fóru næsta ár, festi bóndinn á Gelti svo kaup á 12 hundruðum úr jörðinni Furufirði í Grunnavíkurhreppi með einu kúgildi en lét í staðinn af hendi 6 hundruð úr jörðinni Dvergasteini í Álftafirði við Djúp.[271] Frá þessum makaskiptasamningi var gengið 28. apríl 1798.[272] Hundruðin tólf sem Jón Bjarnason eignaðist þá í Furufirði voru hálf jörðin.[273] Vera kann að Jón bóndi á Gelti hafi átt fleiri jarðeignir en þær sem hér hafa verið nefndar og fullvíst að ekkja hans átti árið 1805, auk hálflendunnar í Furufirði og 15 hundraðanna úr Sæbóli, þrjár jarðeignir í Súgandafirði, það er að segja heimajörðina Gölt, hálfa Suðureyri og Lauga, og einnig tvær jarðir við Djúp, Bjarnastaði í Ísafirði og Birnustaði í Ögursveit[274] (sjá hér bls. 27).

Þegar Jón Bjarnason og Margrét, kona hans, komu að Gelti vorið 1790 virðast þau aðeins hafa átt tvö börn á lífi, dæturnar Rannveigu sem sögð er 8 ára í sóknarmannatali frá 1791, og Guðrúnu sem þá var á fyrsta ári.[275] Fimm börn bættust við á næstu árum, öll fædd hér á Gelti á árunum 1792-1799.[276] Á þessum árum voru yfirleitt um það bil tíu manneskjur í heimili hjá þeim Jóni og Margréti.

Um Jón Bjarnason frá Sléttu segir sóknarprestur Súgfirðinga árið 1791 að hann sé atorkusamur og ei óskýr en kona hans, Margrét húsfreyja á Gelti, fær þá einkunn við sama tækifæri að hún sé vinnusöm og kunnáttan nokkurn veginn.[277] Fardagaárið 1798-1799 voru þrjú vinnuhjú hér á Gelti, Margrét Ögmundsdóttir, 30 ára, Bjarni Þorláksson, 27 ára, og Eiríkur Jónsson, 54 ára.[278] Presturinn tekur fram að öll séu þau dyggðug.[279] Annar þessara tveggja vinnumanna, sá eldri, fylgdi húsbónda sínum í hans hinstu för en upp í hana var lagt í júlílok árið 1800. Séra Þorsteinn Þórðarson á Stað greinir frá atburðum og orðar frásögn sína svo:

 

  1. júlí lögðu þessir uppskrifaðir 6 menn til hafs upp á hákarlafeng. Nú strax þar eftir féll upp á ógnarveður og stórsjór sem varaði í marga daga svo ekkert hefur síðan til þeirra eða skipsins spurst.[280]

 

Séra Þorsteinn skráir nöfn mannanna sex sem fórust í þessari hákarlalegu og gerir grein fyrir þeim á þennan hátt:

 

Jón Bjarnason frá Gelti, ríkur bóndi eigingiftur, 54 ára.

Þorkell Jónsson, eigingiftur bóndi frá Norðureyri, 40 ára.

Hákon Jónsson, hans stjúpsonur 20 ára.

Eiríkur Jónsson, vinnumaður frá Gelti, 54 ára.

Ólafur Guðmundsson, bóndasonur frá Suðureyri, 18 ára.

Einar Jónsson, vinnumaður frá Kvíanesi, 30 ára.[281]

 

Jón Espólín greinir líka frá drukknun Jóns á Gelti og skipverja hans í Árbókum sínum og ritar þar á þessa leið:

 

Það bar enn til seint í Julio [1800] að Jón bóndi Bjarnason frá Gelti við Súgandafjörð, auðugur maður, fór í hákarlalegu við sjöunda mann og er þeir höfðu úti legið rúm tvö dægur fóru önnur skip í land en sáu það til að þeir lögðu dýpra. Kom þá veður með brimi um nokkur dægur og spurðist ei til þeirra síðan.[282]

 

Hér hefur áður verið greint frá undarlegri tilviljun sem varð þess valdandi að Þorkell bóndi á Norðureyri, sem áður hafði búið á Gelti, fór í þessa leguferð í stað Bergs Jónssonar, stjúpsonar síns (sjá hér Norðureyri), er átti langt líf fyrir höndum. Bróðir Bergs, Hákon Jónsson, drukknaði hins vegar er hákarlaskipið frá Gelti týndist í hafi. Hann var þá rétt um tvítugt og átti heima á Norðureyri hjá móður sinni og stjúpföður.[283]

Um mannskaðann sem varð þegar hákarlaskipið frá Gelti fórst spunnust síðar ýmsar sögur eins og algengt var á fyrri tíð. Ein slík kynjasaga hefur varðveist og er á þessa leið:

 

Sagt er að einn maður í Súgandafirði hafi átt lífstein. Varð það Jón Bjarnason sem bjó á Gelti 1790-1800 … . Sögnin hermir að hann hafi flegið upp hársvörðinn aftan á hnakka sér og smeygt steininum þar undir svo hann gæti ekki týnst. Jón fór í hákarlalegu 30. júlí 1800 og kom aldrei að landi. Sagan segir að smalamaður frá Gelti hafi fundið höfuð hans rekið úti í Galtarlandi en greinir ekki hve löngu það var eftir drukknun hans.

Höfuðið var óskaddað og að öllu leyti sem lifandi að útliti. Það gat talað og bað það piltinn að losa sig við steininn. Gerði hann það þó nokkur geigur væri í honum að koma nærri þessu. Þegar hann  hafði náð steininum hurfu öll lífsmerki af höfðinu. Kastaði hann honum í sjóinn en í þeirri svipan kom mikið ólag svo hann varð að forða sér undan því en báran tók höfuðið fram og sást það aldrei framar.[284]

 

Þegar Margrét Guðnadóttir á Gelti missti eiginmann sinn í sjóinn var hún fimmtug að aldri og átti fimm börn á lífi, fjórar dætur og einn son.[285] Elsta barnið var 18 ára en það yngsta 1 árs.[286] Nú kom sér vel að efnin voru góð. Ekkjan gat því haldið áfram búskap og haft börnin hjá sér. Í fyrstu hafði hún stuðning af vinnumanninum, Bjarna Þorlákssyni, sem verið hafði á Gelti í nokkur ár[287] en er allmörg ár voru liðin frá drukknun Jóns bónda Bjarnasonar kom til hennar annar Jón Bjarnason.[288] Hann var frá Sandeyri á Snæfjallaströnd,[289] fæddur þar um 1778 en foreldrar hans voru Bjarni Jónsson, bóndi á Sandeyri, og kona hans, Guðrún Gísladóttir.[290] Föðurafi Bjarna þessa á Sandeyri mun hafa verið Þorkell Jósson, bóndi í Arnardal við Skutulsfjörð, sem nefndur var Galdra-Keli.[291]

Ekki verður nú sagt með vissu hvaða ár Jón Bjarnason frá Sandeyri kom að Gelti en fullvíst að það var á árunum 1806-1810 og í marsmánuði árið 1811 var hann orðinn eiginmaður Margrétar húsfreyju.[292] Ljóst er að þau hafa gengið í hjónaband á árunum 1808-1810 en skrár yfir hjónavígslur á þeim árum vantar í prestsþjónustubækurnar frá Stað.[293] Er Jón frá Sandeyri gekk að eiga Margréti húsfreyju á Gelti var hann um þrítugt en brúðurin að verða sextug.

Ljóst er að prestinum á Stað hefur litist vel á þennan nýja eiginmann Margrétar á Gelti því hann segir í marsmánuði árið 1811 að Jón sé driftarmaður mikill … skynsamur og vel að sér.[294]

Þau Jón Bjarnason frá Sandeyri og Margrét kona hans bjuggu saman hér á Gelti allt þar til hún andaðist 15. mars árið 1814.[295]

Skipti á dánarbúi Margrétar Guðnadóttur á Gelti fóru fram 22. apríl 1814 og var Ebenezer Þorsteinsson, sýslumaður í Ytri-Hjarðardal, skiptastjóri. Eignirnar sem Margrét og eiginmaður hennar áttu þegar hún dó eru allar skráðar í skiptabók sýslumanns og þar gefur heldur betur á að líta. Eignir búsins voru virtar á 3.362 ríkisdali og 30 skildinga og það var algerlega skuldlaust.[296] Vegna reikningsvillu, sem einn erfinginn naut góðs af, verður heildarupphæðin reyndar 100 ríkisdölum lægri í bókun sýslumanns[297] en þar er um augljósan feil að ræða eins og hér verður brátt vikið nánar að (sjá bls. 32-33). Árið 1814 voru 3.362 ríkisdalir ærið fé því fyrir slíka upphæð var hægt að kaupa 186 kýr í góðu standi.[298]

Af heildareignum hjónanna á Gelti var nær helmingur jarðeignir en þau áttu er Margrét dó 10 jarðir eða jarðarparta.[299] Allar til samans voru jarðeignir þessar, ásamt meðfylgjandi kúgildum, virtar á 1.664 ríkisdali[300] en þær voru: Göltur 12 hundruð, hálf Suðureyri í Súgandafirði 10 hundruð, Laugar í Súgandafirði 4 hundruð, fjórðungur úr Bæ í Súgandafirði 6 hundruð, þriðjungur úr Þorfinnsstöðum í Valþjófsdal í Önundarfirði 8 hundruð, Tunga í Önundarfirði 18 hundruð, fjórðungur úr Sæbóli á Ingjaldssandi 15 hundruð, hálfir Birnustaðir í Ögursveit 6 hundruð, Bjarnastaðir í Ísafirði við Djúp 12 hundruð, og hálfur Furufjörður á Austurströndum 12 hundruð.[301] Samtals voru þetta 103 jarðarhundruð, að fornu mati, en til samanburðar má nefna að samanlagður dýrleiki allra jarðanna í Suðureyrarhreppi var 153 hundruð (sjá hér Suðureyrarhreppur, ingangskafli).

Jarðeignum hjónanna á Gelti fylgdu árið 1814 92 leiguær[302] eða liðlega 15 kúgildi en hvert kúgildi var virt á 18 ríkisdali.[303] Meðalverð á hverju jarðarhundraði, án leigukúgilda, hefur þá verið 13 og hálfur ríkisdalur.

Í skiptagerðinni frá 1814 er landskuld af jarðeignum hjónanna á Gelti ýmist gefin upp í landaurum eða ríkisdölum. Af jörðum sínum, öðrum en heimajörðinni, fengu þau greidda á ári hverju 8 ríkisdali og 64 skildinga og svo 8 vættir í landaurum[304] en hafa ber í huga að 6 vættir voru í hverju kýrverði.

Helstu eignir búsins, aðrar en jarðir, voru búfénaður, bátar og peningar.[305] Búpeningurinn var 3 kýr, 24 ær, 19 sauðir, þriggja vetra og eldri, 7 tveggja vetra sauðir, 29 gemlingar og einn hestur, eldgamall og haltur.[306] Kýrnar voru virtar á 18, 14 og 10 ríkisdali, ærnar á 3 ríkisdali hver, fullorðnu sauðirnir á 4 ríkisdali og 48 skildinga hver, tvævetra sauðirnir á 2 ríkisdali og 48 skildinga hver, gemlingarnir á 1 ríkisdal og 80 skildinga hver og gamli hesturinn á 3 ríkisdali.[307] Samanlagt verðmæti búfjárins reyndist því vera 273 ríkisdalir og 16 skildingar en þá tölu hefur Ebenezer sýslumaður af einhverjum ástæðum lækkað um 87 skildinga[308] en 96 skildingar voru í hverjum ríkisdal.

Í skiptagerðinni sést því miður ekki hvað bátarnir á Gelti voru margir árið 1814 og ekki heldur hversu stórir þeir voru. Ljóst er þó að þeir hafa ekki verið færri en þrír því að í skiptagerðinni tekur sýslumaður svo til orða: Öll skip og veiðarfæri með tilheyrandi 146 ríkisdalir og 20 skildingar.[309]

Í peningum átti fókið á Gelti verulega fjármuni, þegar Margrét húsfreyja andaðist árið 1814, eða um 800 ríkisdali.[310] Nákvæma tölu er ekki unnt að nefna vegna þess að svolítill ruglingur hefur orðið í uppgjörinu hjá sýslumanni. Þetta er reyndar furðulega mikil peningaeign því fyrir 800 ríkisdali var unnt að kaupa 44 kýr í góðu standi eða 59 hundruð í jörð eins og sjá má í skiptagerðinni sem hér er til skoðunar. Ljóst er því að hjónin á Gelti hafa ekki náð að ráðstafa seðlum og mynt í arðvænlegar fjárfestingar áður en verðhrun peninganna skall á árið 1811.[311]

Aðrar eignir hjónanna á Gelti en þær sem hér hafa verið nefndar voru við uppgjör dánarbúsins virtar á um það bil 400 ríkisdali og kennir þar margra grasa[312] en upp á nákvæma greinargerð um þær verður ekki boðið hér. Rétt mun þó vera að nefna húsin sem hér stóðu vorið 1814 og getið er um í skiptagerðinni frá uppgjöri dánarbúsins. Þar er þá fyrst að nefna baðstofuhúsið sem var með þiljuðu lofti, hurð og skrá. Loftið í baðstofunni með rúmstæðum, þiljum, hurð og stiga var reyndar aðeins virt á 10 ríkisdali[313] svo húsakynnin hafa, að því er ætla má, ekki verið mjög frábrugðin því sem almennt var. Önnur hús sem á er minnst voru þessi: Eldhús, þrjú eða fleiri fjárhús, tvær hlöður, innri skemma og ytri skemma, kofi innan við bæinn, smiðja, bátsnaust og búð fyrir skipshöfn.[314] Verbúð þessi var gömul og næstum fallin[315] svo ætla má að árið 1814 hafi verið nokkuð langt um liðið frá því bátur í eigu annarra en heimafólks var gerður út héðan frá Gelti.

Forvitnilegt er að skoða bókakost fólksins sem hér bjó árið 1814 en prentaðar bækur í eigu þess voru fimmtán, allt guðsorðabækur nema tvær.[316] Guðsorðabækurnar voru þessar: Vídalínspostilla, grallari, Gerhardi hugvekjur, Gíslabók hálf, sálmabók séra Sigurðar í Presthólum, partur úr ritinu kristindómur eftir Johan Arndt, dómarasálmar, krossins sálmar, stutta postilla, eintalið og þrjú eintök af Hallgrímskveri.[317] Sjálfsagt er að gera stutta grein fyrir sumum þessara bóka. Um Vídalínspostillu og grallarann þarf vart að tala því flestir munu enn kannast við þær bækur. Aðeins skal þess getið að Vídalínspostilla, sem var í bærilegu standi, var virt til mun hærra verðs en aðrar bækur hjónanna á Gelti og talin tveggja ríkisdala virði.[318] Gerhardi hugvekjur, sem hér koma við sögu, eru án vafa hugvekjur þýska guðfræðingsins Johanns Gerhard en þær þýddi Þorlákur biskup Skúlason á íslensku og var þýðing hans fyrst gefin út árið 1630 (sjá hér Staður). Gíslabók, sem hjónin á Gelti áttu annan helminginn af, mun vera Húspostilla Gísla biskups Þorlákssonar, prentuð í fyrsta sinn á Hólum á árunum 1665-1670.[319] Sálmabókin, sem kennd er við séra Sigurð í Presthólum, kynni að hafa verið Sálmar af daglegri iðkun guðrækninnar eftir séra Sigurð Jónsson í Presthólum sem fæddur var árið 1590.[320] Sú bók var fyrst prentuð árið 1743 en reyndar voru fleiri sálmabækur eftir sama höfund gefnar út á 17. og 18. öld.[321]

Ritið eftir Johan Arndt, sem Ebenezer sýslumaður nefnir kristindóm, mun tvímælalaust vera það sem hét fullu nafni Sannur kristindómur og gefið var út í íslenskri þýðingu séra Þorleifs Árnasonar á Kálfafelli á árunum 1731-1732 (sjá hér Mýrar). Eintalið, sem svo er nefnt í skiptagerðinni, mun vafalítið vera önnur tveggja bóka sem báðar hétu Eintal sálarinnar og prentaðar voru á Hólum 1599 og 1661 (sjá hér Mýrar). Eina bókin sem fólkið á Gelti átti í fleiri eintökum en einu var eins og fyrr hefur verið nefnt Hallgrímskver, það er bókin Sálmar og kvæði eftir séra Hallgrím Pétursson en hún var fyrst prentuð árið 1755 og síðan oft og mörgum sinnum.[322]

Af bókunum á Gelti er þá aðeins eftir að nefna þær veraldlegu. Þær voru tvær, Heimskringla og íslensk þýðing á Norsku lögum.[323] Heimskringla Snorra Sturlusonar var fyrst gefin út á frummálinu, íslensku, í Stokkhólmi árið 1697 með sænskri og latneskri þýðingu en síðan í Kaupmannahöfn á árunum 1777-1783 með danskri og latneskri þýðingu.[324] Nær fullvíst má þó telja að eintakið sem til var á Gelti árið 1814 hafi verið útgáfan frá 1804 en þá voru nokkrar konungasögur úr Heimskringlu prentaðar hérlendis í fyrsta sinn, á Leirárgörðum við Leirá í Borgarfirði.[325] Um þessa útgáfu sá Magnús Stephensen dómstjóri[326] en af henni kom aldrei nema fyrsta bindið.[327] Í bindinu sem Magnús gaf út eru allar hinar sömu sögur og í fyrsta bindi Heimskringlu sem út kom á vegum Hins íslenska fornritafélags árið 1941 og líka Prologus, það er formálinn.[328] Fremst er Ynglingasaga en aftast Ólafs saga Tryggvasonar.[329]

Í þessari útgáfu sinni lét Magnús Stephensen fylgja með ágrip af ævisögu Snorra Sturlusonar og Tímatal til upplýsingar Noregskonunga-sögum.[330] Þar fræðir hann okkur meðal annars á því að Óðinn hafi fæðst 105 árum fyrir Kristsburð[331] og er líklegt að þær upplýsingar hafi fyrst borist hingað að Gelti með bókinni frá Leirárgörðum.

Burtséð frá aldri valföður er reyndar harla gott að mega gera ráð fyrir að Noregskonungasögur Snorra hafi verið lesnar á kvöldvökum hér á Gelti á dögum Napóleons Bonaparte og Jörundar hundadagakonungs.

Norsku lög í íslenskri þýðingu voru gefin út í Hrappsey árið 1779.[332] Bogi Benediktsson í Hrappsey sá um þá útgáfu en þýðendur voru ýmsir.[333] Á átjándu öld og fyrri hluta hinnar nítjándu var oft vísað til Norsku laga þegar dæmt var í málum hérlendis. Löggilt þýðing á lögum þessum kom þó aldrei út á íslensku[334] en ætla má að margir hafi stuðst við bókina frá Hrappsey. Líklega hefur komið sér vel fyrir Jón bónda Bjarnason á Gelti að hafa hana við hendina því hann var hreppstjóri eins og sjá má í títtnefndri skiptagerð.[335]

Fráleitt væri að telja hér upp alla þá margvíslegu hluti af breytilegu tagi sem komu til skipta við uppgjör dánarbúsins á Gelti vorið 1814 en að frátöldum skipum og jarðeignum var gyllt silfurfesti með nisti verðmætasta eign búsins.[336] Hana virti Ebenezer sýslumaður á 32 ríkisdali,[337] andvirði tveggja kúa, enda segir hann að festin sé þing mesta.[338] Aðrir gull- og silfurmunir í eigu hjónanna á Gelti voru virtir á 20-30 ríkisdali, samtals, og er þá ekki talið með silfurskraut á fatnaði.[339] Hér er einnig við hæfi að nefna danskan vefstól með tilheyrandi sem var einn dýrasti munurinn í innbúi Jóns og Margrétar, virtur á 14 ríkisdali.[340]

Merkilegt er að sjá í skiptagerðinni frá 1814 að þá var til kaffiketill á Gelti, virtur á 64 skildinga, og fólkið sem hér bjó átti líka fáeina tebolla með undirskálum.[341] Kaffiketillinn vekur athygli vegna þess að í riti sínu, Íslenskum þjóðháttum, segir séra Jónas Jónasson frá Hrafnagili að hérlendis hafi kaffibrúkun ekki orðið almenn fyrr en eftir 1850 og jafnvel síðar, nema helst í kaupstöðum og við sjóinn.[342] Kaffi fór fyrst að flytjast hingað til lands um 1760[343] en vera má að fyrsti kaffisopinn hafi verið drukkinn nokkuð snemma á Gelti vegna góðrar aðstöðu til launverslunar við framandi þjóðir.

Til nýjunga mátti líka flokka hverfisteininn sem til var hér á Gelti árið 1814 og var þá virtur á 32 skildinga.[344] Í tíunda árgangi Rita þess konunglega íslenska Lærdóms-lista félags, sem út kom árið 1790, birtist ritgerð um ljáadengslu eftir Ólaf Ólafsson[345] sem þá var lektor í Noregi.[346] Þar hvetur Ólafur til þess að sem flestir íslenskir bændur fari að nota hverfistein en hætti að dengja ljáina[347] eins og tíðkast hafði frá aldaöðli. Í nefndri ritgerð lýsir höfundur hverfisteininum og gerir grein fyrir hvílíkt þarfaþing tæki þetta sé.[348] Fáir íslenskir bændur munu þó hafa eignast hverfistein á næstu áratugum og flestir ekki fyrr en um 1870[349] svo tíðindum sætir að slíkt brýnslutæki skuli hafa verið til hér á Gelti árið 1814.

Erfingjar Margrétar Guðnadóttur á Gelti voru fjórir.[350] Er þar fyrst að nefna bónda hennar, Jón Bjarnason hreppstjóra, en hinir erfingjarnir þrír voru börn Margrétar af hennar fyrra hjónabandi, Guðfinna, fædd 1794, Bjarni, fæddur 1795, og Málfríður, fædd 1799.[351] Eins og fyrr var getið báru báðir eiginmenn Margrétar nafnið Jón Bjarnason og með sínum fyrra Jóni hafði hún eignast að minnsta kosti sjö börn[352] en aðeins þrjú voru á lífi þegar móðir þeirra andaðist svo sem sjá má í skiptagerðinni. Með seinni manninum eignaðist Margrét hins vegar ekkert barn, enda var hún komin hátt á sextugsaldur þegar þau tóku saman.

Hér var áður frá því greint að bú hjónanna á Gelti, sem tekið var til skipta við andlát Margrétar húsfreyju árið 1814, hefði verið virt á 3.362 ríkisdali og 30 skildinga en sú tala hefði lækkað um 100 ríkisdali áður en skiptin hófust vegna skekkju í meðferð skiptastjórans á tölum (sjá hér bls. 27). Af fjárhæðinni sem þá var eftir fóru liðlega 2%, það er 70 ríkisdalir og 73 skildingar, í laun skiptastjóra og lögboðna greiðslu til kóngsins kassa.[353] Til greiðslu á kostnaði fóru 40 ríkisdalir og 80 skildingar[354] og að þessum tveimur liðum frádregnum stóðu eftir 3.150 ríkisdalir og 69 skildingar. Þá upphæð lækkar Ebenezer sýslumaður enn um 9 ríkisdali, að því er virðist vegna reikningsvillu, svo til skipta komu 3.141 ríkisdalur og 69 skildingar.[355] Til greiðslu á föðurarfi systkinanna þriggja, sem staðið hafði inni hjá búinu, gengu 342 ríkisdalir og 24 skildingar.[356] Af fjárhæðinni sem þá var eftir, 2.799 ríkisdölum og 45 skildingum, fékk ekkjumaðurinn, Jón bóndi Bjarnason, réttan helming eða 1.399 ríkisdali og 70 skildinga.[357] Hinn helmingurinn var móðurarfur stjúpbarna hans en þau fengu nú í hendur bæði móðurarf sinn og föðurarf. Erfðahlutur þeirra, allra til samans, var því 1.741 ríkisdalur og 94 skildingar.[358] Sú upphæð skiptist eins og lögboðið var á þann veg að sonurinn, sem var einn, fékk jafn mikið og báðar dæturnar. Í sitt bróðurlóð fékk Bjarni því 870 ríkisdali og 77 skildinga en Guðfinna og Málfríður fengu 435 ríkisdali og 56 og ½ skilding hvor í systurlóð.[359]

Af jarðeignunum fékk Jón bóndi heimajörðina Gölt, 15 hundruðin í Sæbóli, 8 hundruðin í Þorfinnsstöðum og þau 6 hundruð sem hjónin höfðu átt í Birnustöðum.[360] Bjarni Jónsson fékk Tungu í Firði og hundruðin 12 í Furufirði.[361] Guðfinna systir hans fékk Lauga, 10 hundruð í Suðureyri og 2 hundruð í Bæ en Málfríður fékk 4 hundruð í Bæ og Bjarnastaði.[362] Það var Málfríður sem fékk líka 100 ríkisdali í eins konar forgjöf vegna skekkju í útreikningum sýslumanns (sjá hér bls. 27). Bjarnastaðir voru eins og fyrr var nefnt 12 hundraða jörð og þeim fylgdu 12 leiguær. Hvert hundrað í þeirri jörð, ásamt leiguánni er fylgdi með, virti sýslumaður á 18 ríkisdali.[363] Verð þessarar jarðar og leiguánna sem henni fylgdu var því 216 ríkisdalir en sýslumaður gerði þann feil að skrifa 116 í stað 216 í samlagningardálkinn og þannig fékk Málfríður 100 ríkisdali í forgjöf.

Hér verður engin grein gerð fyrir skiptingu annarra eigna en jarðeignanna. Þó skal tekið fram að ekkjumaðurinn, Jón Bjarnason hreppstjóri, hélt öllum húsum á Gelti nema annarri skemmunni en hana fékk Bjarni.[364] Kýrnar þrjár, bátarnir og veiðarfærin komu líka í hlut ekkjumannsins.[365]

Systkinin þrjú frá Gelti, Guðfinna, Bjarni og Málfríður Jóns börn, voru öll á aldrinum 14-20 ára þegar móðir þeirra andaðist í marsmánuði árið 1814. Þau fluttust á næstu árum burt úr Súgandafirði. Guðfinna, sem var elst, giftist haustið 1815 Kjartani Ólafssyni sem  hér er sagt frá á öðrum stað.[366] Þau bjuggu fyrst á Eyri í Önundarfirði en svo í Tröð í sama firði (sjá hér Tröð). Þar tók sonur þeirra við búi af foreldrunum og niðjar þeirra bjuggu í Tröð allt til ársins 1929 (sjá hér Tröð).

Bjarni Jónsson var enn á Gelti er hann kvæntist Herdísi Narfadóttur haustið 1821[367] en þremur árum síðar fluttust þau að Tungu í Önundarfirði og hófu þar búskap[368] (sbr. hér Tunga í Firði). Þá jörð hafði Bjarni erft eftir móður sína og bjó hann lengi í Tungu. Eitt af börnum Bjarna og Herdísar, konu hans, var Margrét Bjarnadóttir[369] sem varð húsfreyja í Efrihúsum í Hestþorpinu í Önundarfirði, fóstra Magnúsar Hjaltasonar (sjá hér Tunga í Firði og Hestur, Efrihús þar). Hún fæddist hér á Gelti 23. mars 1822[370] og má ætla að hún hafi borið nafn ömmu sinnar, Margrétar Guðnadóttur.

Málfríður Jónsdóttir var yngst systkinanna frá Gelti, barna Margrétar Guðnadóttur. Hún giftist í fyllingu tímans Sigurði Hinrikssyni og varð húsfreyja á Seljalandi í Skutulsfirði[371] (sbr. hér Kvíanes).

Jón Bjarnason, síðari eiginmaður Margrétar Guðnadóttur á Gelti, bjó hér áfram að henni látinni.[372] Hann kvæntist í annað sinn haustið 1817 og gekk þá að eiga stúlkuna Margréti Bjarnadóttur sem verið hafði ráðskona hans um skeið.[373] Elsta barn þeirra, dóttirin Sigríður, var þá komin nokkuð á annað ár, fædd 16. ágúst 1816.[374]

Margrét Bjarnadóttir, sem nú varð húsfreyja á Gelti, var bóndadóttir frá Sandeyri á Snæfjallaströnd, fædd um 1790, og munu þau Jón hafa verið gamalkunnug því hann var líka frá Sandeyri.[375] Foreldrar Margrétar voru hjónin Bjarni Guðmundsson og Sigríður Bjarnadóttir sem bjuggu á Sandeyri árið 1801.[376] Í sóknarmannatali frá árinu 1817 lætur prestur þess getið að Margrét Bjarnadóttir á Gelti sé hægferðug og vel að sér.[377] Bróðir hennar var þá vinnumaður á Gelti.[378] Hann hét Jón Bjarnason og bar því sama nafn og húsbóndinn.[379] Jón Bjarnason frá Sandeyri, sem hér stýrði búi um skeið, var umsvifamaður og mun hafa gert nokkuð af því að kaupa og selja jarðir. Sumarið 1820 seldi hann Magnúsi Guðmundssyni í Bæ 9 hundruð í jörðinni Hóli í Önundarfirði og sama ár seldi hann Örnólfi Snæbjörnssyni á Suðureyri 8 hundruð í Tannanesi í Önundarfirði.[380] Skrá yfir jarðeignir þessa bóndamanns við ævilok hans er að finna annars staðar í þessu riti (sjá hér Sæból).

Þau Jón bóndi Bjarnason og Margrét, seinni kona hans, bjuggu hér á Gelti til vorsins 1821 en fluttust þá að Sæbóli á Ingjaldssandi.[381] Er þau fóru héðan höfðu þau eignast að minnsta kosti þrjú börn.[382]Á Sæbóli stóðu þau fyrir búi í fullan þriðjung aldar en um búskap þeirra þar og stríð Jóns við Guðmund Guðmundsson norðlenska hefur áður verið rætt í þessu riti (sjá hér Nesdalur og Sæból).

Þegar Jón Bjarnason fór frá Gelti vorið 1821 lauk tímaskeiði sem hófst vorið 1790 er fyrri eiginkona hans og fyrri eiginmaður hennar, sem líka hét Jón Bjarnason, hófu hér búskap. Nýtt fólk tók nú við jörðinni en Bjarni Jónsson, stjúpsonur fráfarandi bónda, og kona hans voru þó hér í húsmennsku þrjú næstu ár.[383] Í sóknarmannatölum frá þeim árum eru þau að vísu aldrei nefnd á nafn en prestsþjónustubókin sýnir að tvö börn þeirra fæddust hér á þessu skeiði, annað 1822 og hitt 1823.[384]

Hjónin sem tóku við búsforráðum á Gelti vorið 1821 hétu Jakob Guðmundsson og Hildur Kolbeinsdóttir.[385] Þau komu frá Breiðabóli í Skálavík.[386] Þar bjuggu þau árið 1816 með börn sín fjögur, Kolbein, sem þá var 9 ára og fæddist á Hvítanesi í Ögursveit, Valgerði, sem var 8 ára og fæddist á Ósi í Bolungavík, Jón sem var 6 ára og fæddist líka á Ósi, og Jóhönnu, sem var 2ja ára og fæddist á Breiðabóli.[387] Fæðingarstaðir barnanna sýna feril foreldranna.

Jakob Guðmundsson fæddist á Strandseljum í Ögursveit árið 1783 eða því sem næst en Hildur kona hans, sem var tveimur árum yngri en hann, er í manntalinu frá 1816 sögð hafa fæðst í Tungu.[388] Óljóst er hvaða Tunga það muni vera en m.a. koma til greina Þjóðólfstunga í Bolungavík og Tunga í Skutulsfirði. Faðir Jakobs var Guðmundur Bjarnason sem árið 1801 var húsmaður í Vigur en þá var Jakob þar vinnumaður hjá Kára bónda Bjarnasyni.[389] Líklegt er að eiginkona Guðmundar, Valgerður Helgadóttir, hafi verið móðir Jakobs.[390] Hildur Kolbeinsdóttir, sem seinna varð eiginkona Jakobs Guðmundssonar, var árið 1801 hjá foreldrum sínum, Kolbeini Bjarnasyni og Guðrúnu Jónsdóttur, á einu býlanna í Folafæti í Súðavíkurhreppi.[391] Hún var þá 17 ára.[392]

Auk barnanna sem hér hafa þegar verið nefnd áttu Jakob Guðmundsson og Hildur, kona hans, a.m.k. tvær dætur.[393] Önnur þeirra var Guðrún, sem fæddist á Ósi í Bolungavík 21. október 1812.[394] Hún mun ekki hafa alist upp hjá foreldrunum og var fósturbarn á Ósi árið 1816.[395] Hin dóttirin, sem virðist ekki hafa verið hjá foreldrunum árið 1816, var Ragnhildur, sögð 12 ára í marsmánuði árið 1823.[396] Aðeins fjögur þessara systkina fluttust með foreldrunum að Gelti, Kolbeinn, Jón, Jóhanna og Ragnhildur.[397] Með þeim kom líka frá Breiðabóli faðir Jakobs, Guðmundur Bjarnason.[398] Hann var þá kominn um áttrætt[399] og var fæddur í Litlu-Ávík í Árneshreppi á Ströndum.[400]

Fjórtán manneskjur voru í heimili hjá Jakobi og Hildi hér á Gelti haustið 1821[401] og bendir fjölmennið til þó nokkurra umsvifa í búskap. Bú þeirra var líka hið fjórða stærsta í hreppnum, 3 kýr, 53 sauðkindur, auk lamba, og 1 hestur.[402] Með stærri bú voru aðeins þeir séra Eiríkur Vigfússon á Stað, Magnús Guðmundsson í Bæ og Örnólfur Snæbjörnsson á Suðureyri.[403] Við skoðun búnaðarskýrslunnar frá 1821 vekur þó einkum athygli að Jakob bóndi á Gelti átti þá tvo áttæringa.[404] Aðeins þrír aðrir bændur í Súgandafirði áttu þá áttæring og Jakob var sá eini sem átti tvo.[405] Auk þess átti hann svo lítinn bát sem var tveggja eða þriggja manna far.[406]

Hér hefur áður verið fest á blað sagan um illdeilu Jakobs við Lárentíus Hallgrímsson er var hjá honum í skiprúmi vorið 1821, þá ungur vinnumaður á Norðureyri (sjá hér Norðureyri). Sú saga er augljóslega byggð á orðum Lárentíusar en af henni má ráða að Jakob hafi verið maður einbeittur og ekki gefinn fyrir að láta aðra taka af sér ráðin.

Þessi merki bóndi varð ekki langlífur hér á Gelti því hann andaðist 6. febrúar 1822 úr ókenndum sjúkdómi [407] og voru þá aðeins liðnir átta mánuðir frá því hann tók við jörðinni. Þegar Jakob bóndi dó var faðir hans, Guðmundur gamli Bjarnason, enn á lífi.[408] Í sóknarmannatali frá marsmánuði árið 1822 segir presturinn að hegðun þessa öldungs á Gelti sé guðrækileg og tekur fram að hann sé skýr og vel að sér í andlegu.[409] Er presturinn bókaði þessa umsögn sína var tengdafaðir ekkjunnar á Gelti þó kominn alveg á grafarbakkann því hann dó 22. mars 1822, 44 dögum síðar en sonur hans.[410]

Ekkja Jakobs Guðmundssonar, Hildur Kolbeinsdóttir, bjó áfram á Gelti þó að bónda hennar missti við. Hún stóð hér enn fyrir búi haustið 1827 en þá var tvíbýli á jörðinni og bú hennar mun minna en bú þeirra hjóna hafði verið fyrir sex árum.[411] Árið 1827 var ekkjan á Gelti þó með 2 kýr, 16 ær og hest og annan áttæringinn átti hún enn en í stað hins var kominn sexæringur.[412] Er hér var komið sögu mun elsti sonurinn, Kolbeinn Jakobsson, hafa verið stoð hennar og stytta við búskapinn Hann var þá kominn um tvítugt og átti enn heima hér á Gelti.[413] Hundrað árum síðar kunnu niðjar þessa pilts frá því að segja að er hann var ungur maður á Gelti hafi Kolbeinn stundað hákarlaveiðar á áttæringi frá Suðureyrarmölum og verið formaður á skipinu.[414]

Vorið 1828 hætti Hildur Kolbeinsdóttir búskapnum á Gelti og fluttist ásamt börnunum fjórum, sem hér höfðu verið í sjö ár, að Unaðsdal á Snæfjallaströnd.[415] Svo virðist sem sóknarpresturinn, séra Eiríkur Vigfússon á Stað, hafi ekki verið alveg sáttur við hegðun Hildar, húsfreyju á Gelti, síðustu árin sem hún var í Súgandafirði því hann segir árið 1825 að hegðun hennar sé í meðallagi.[416] Prestur gleymir þó ekki að taka fram að Hildur sé ei óskýr í andlegu.[417]

Árið 1835 sat Hildur Kolbeinsdóttir, áður húsfreyja á Gelti, um kyrrt í Unaðsdal.[418] Þá bjuggu þar búi sínu tveir synir hennar, Kolbeinn og Jón, og var hún á heimili Kolbeins.[419] Fimm árum síðar var hún hjá dóttur sinni, Jóhönnu Jakobsdóttur, sem þá var orðin húsfreyja í Unaðsdal[420] en árið 1845 var Hildur hjá Ragnhildi, dóttur sinni, er þá bjó með fyrri manni sínum í Bæjum á Snæfjallaströnd.[421] Ragnhildur Jakobsdóttir giftist síðar Rósinkar Árnasyni í Æðey og var lengi húsfreyja þar.[422] Hann var seinni eiginmaður hennar.[423]

Kolbeinn Jakobsson, sem fluttist liðlega tvítugur með móður sinni frá Gelti að Unaðsdal vorið 1828, átti þar enn heima árið 1840.[424] Hann var þá kvæntur húsmaður og í manntali frá því ári er tekið fram að hann sé skutlari.[425] Kolbeinn hefur því fengist við að skutla hvali sem bendir eindregið til þess að hann hafi verið vaskur maður og fær í flestan sjó. Seinna átti hann lengi heima á Stað á Snæfjallaströnd[426] en sonarsonur Kolbeins þessa Jakobssonar og alnafni hans var Kolbeinn Jakobsson, sem fæddist 27. ágúst 1862 og var lengi bóndi og hreppstjóri í Unaðsdal,[427] kunnur maður á sinni tíð og almennt nefndur Kolbeinn í Dal.

Síðustu árin sem Hildur Kolbeinsdóttir, langamma Kolbeins í Dal, bjó á Gelti var hér tvíbýli, allt frá vorinu 1824 er Hallgrímur Lárentíusson fékk part úr jörðinni til ábúðar.[428] Hér hefur áður verið minnst stuttlega á Hallgrím en hann var sonarsonur Erlendar Ólafssonar, sýslumanns á Hóli í Bolungavík (sjá hér Ytri-Vatnadalur), fæddur um 1770 í Þjóðólfstungu í Bolungavík.[429] Foreldrar Hallgríms voru hjónin Lárentíus Erlendsson og Steinunn Hallgrímsdóttir.[430] Árið 1801 voru þeir feðgar, Hallgrímur og Lárentíus faðir hans, báðir búandi menn á Hóli,[431] þar sem afi Hallgríms hafði áður búið á sínum sýslumannsárum.[432] Eiginkona Hallgríms hét Þórdís Pálmadóttir og í desembermánuði árið 1816 bjuggu þau á Ósi í Bolungavík.[433] Tveimur árum síðar dó hjá þeim niðursetningur og var talið að hungur og ill meðferð hefðu dregið hann til dauða (sjá hér Ytri-Vatnadalur). Vegna þessa var mál höfðað gegn Hallgrími og Þórdísi konu hans[434] og þrengdist nú hagur þeirra.

Dómsniðurstöðunnar varð Hallgrímur að bíða á fjórða ár.[435] Á því skeiði fór hann frá Ósi en fékk til ábúðar kotbýlið Keflavík norðan Galtar.[436] Þangað komu Hallgrímur og Þórdís, kona hans, vorið 1820 og með þeim sex börn þeirra á aldrinum 4-24 ára.[437] Þórdís andaðist voveiflega í Keflavík 21. janúar 1821 (sjá hér Keflavík) og var þá 43ja ára gömul eða því sem næst.[438]

Vorið 1821 fór ekkjumaðurinn, Hallgrímur Lárentíusson, burt frá Keflavík og settist aftur að á Ósi.[439] Tvö af börnum hans fylgdu honum þangað og þar mun hann hafa verið næsta fardagaár.[440] Dómur í máli Hallgríms var loks kveðinn upp í landsyfirrétti 15. apríl 1822 og var hann dæmdur til að þola 15 vandarhögg.[441] Vorið 1822 fluttist hinn dæmdi frá Ósi hingað að Gelti[442] svo óvíst er hvort hann hefur verið hýddur norðan eða vestan Grárófu.

Er Hallgrímur kom frá Ósi að Gelti vorið 1822 var hann liðlega fimmtugur en honum fylgdi þá vinnukona hans, Guðný Guðmundsdóttir að nafni, sem var 20 árum yngri.[443] Ekkert barna hans kom hingað með föður sínum.[444] Fyrstu árin á Gelti var Hallgrímur húsmaður[445] og mun hafa hafst hér við í skjóli ekkjunnar, Hildar Kolbeinsdóttur, sem stóð fyrir búi og hafði umráð yfir jörðinni. Jón Kolbeinsson, sem var sambýlismaður Hallgríms á Ósi árið 1816, var bróðir Hildar[446] og kynnu þau tengsl að hafa greitt fyrir hrakningsmanninum Hallgrími í samningum um verustað hjá húsfreyjunni á Gelti. Um þetta er þó ekkert hægt að fullyrða.

Ætla má að þröngt hafi verið í búi hjá Hallgrími þegar niðursetningurinn sem hjá honum var féll úr hor en eignalaus virðist hann þó aldrei hafa verið og hefur vafalítið fengið eitthvað af jarðeignum í arf. Við undirbúning þessa rits hefur engin úttekt verið gerð á efnahag Hallgríms en örfá dæmi nægja til að sýna að hann átti löngum nokkur hundruð í jörð. Árið 1805 átti hann Botn í Mjóafirði á móti öðrum manni[447] og árið 1823 átti hann 24 hundruð í jarðeignum.[448] Næsta ár seldi hann 4 hundruð úr jörðinni Þjóðólfstungu í Bolungavík fyrir 180 ríkisdali[449] og árið 1839 lét hann af hendi í makaskiptum 6 hundruð úr jörðinni Hóli í Bolungavík en fékk í staðinn Lónseyri í Snæfjallahreppi.[450] Hallgrímur átti líka um skeið a.m.k. 6 hundruð í jörðinni Grafargili í Valþjófsdal (sjá hér bls. 40) og vel getur verið að jarðeignir hans hafi verið nokkru fleiri en þær sem hér hafa verið nefndar. Engin heimild hefur fundist fyrir því að hann hafi átt eitthvað í Gelti en hugsanlegt er þó að svo hafi verið (sbr. hér bls. 17-18).

Vorið 1824 hafði Hallgrímur verið hér í húsmennsku í tvö ár en fékk þá einhvern part úr jörðinni til ábúðar og komst þar með í bændatölu á ný.[451] Næstu þrjú árin taldist hann vera bóndi og bjó hér í tvíbýli á móti Hildi Kolbeinsdóttur.[452] Í marsmánuði árið 1825 er Guðný Guðmundsdóttir, sem kom með Hallgrími frá Ósi árið 1822, sögð vera bústýra hans en einu ári síðar var hann kominn með aðra bústýru.[453] Sú hét Guðrún Hákonardóttir og var liðlega fertug að aldri.[454] Hún var ekkja og fluttist hingað frá Dýrafirði.[455] Henni fylgdu tveir drengir sem hún átti, sex og fjórtán ára.[456] Um þessa bústýru Hallgríms segir séra Eiríkur á Stað að hún sé siðsöm[457] en þegar presturinn reynir að lýsa hegðun og háttsemi Hallgríms Lárentíussonar er eins og honum verði orða vant og lætur duga að skrifa: Þannig svo.[458] Líklega eru það dauði sveitarómagans og hin 15 vandarhögg sem hafa vafist fyrir sálusorgaranum en hann tekur fram að Hallgrímur sé ei ógreindur í andlegu.[459]

Ekki hélst Hallgrími vel á bústýrunum því vorið 1826 fór Guðrún Hákonardóttir frá honum og fór sjálf að bolloka í húsmennsku með drengi sína á hinu býlinu á Gelti, hjá Hildi Kolbeinsdóttur.[460] Fardagaárið 1826-1827 lafði Hallgrímur enn við bú hér á Gelti, ráðskonulaus með tvö vinnuhjú, og hjá honum var þá líka sextugur húsmaður, Ísleifur Jósepsson.[461] Á þessum árum, 1824-1827, var bústofn Hallgríms yfirleitt ein kýr og um það bil tíu sauðkindur.[462] Árið 1824 átti hann hvorki hest né bát en tveimur árum síðar var hann kominn með litla fleytu sem líklega hefur verið tveggja manna far.[463]

Vorið 1827 gafst Hallgrímur upp á búskapnum en næstu árin var hann hér í húsmennsku, oftast kvenmannslaus.[464] Það átti þó fyrir karlinum að liggja að kvænast í annað sinn því 2. september 1838 gekk hann að eiga ekkjuna Kristjönu Jónsdóttur[465] sem var liðlega 20 árum yngri en hann.[466] Hún var fædd í Hrauni í Hnífsdal en bjó lengi í Búð í sömu sveit með fyrri eiginmanni sínum, Jóni Guðmundssyni.[467]

Árið 1835 var Kristjana ekkja í Búð með fjögur börn.[468] Hallgrímur var þá enn á Gelti[469] en fluttist síðar norður til hennar og bæði áttu heima í Búð er þau gengu í hjónaband haustið 1838.[470] Um svipað leyti og Hallgrímur kvæntist Kristjönu gaf hann henni 6 hundruð í jörðinni Grafargili í Valþjófsdal.[471] Þeirri ráðstöfun andmælti Lárentíus, sonur Hallgríms, á manntalsþingi sem haldið var á Suðureyri 24. júní 1840 og lét bóka að hann teldi slíka gjöf ólögmæta án samþykkis myndugra erfingja föður síns.[472]

Vorið 1840 kom Hallgrímur aftur hingað að Gelti og Kristjana með honum.[473] Þau hófu þá búskap á einhverjum parti úr jörðinni og bjuggu hér næstu ár.[474]

Árið 1840 eða mjög skömmu síðar mun Hallgrímur hafa keypt sér kúna er hann fékk flutta úr Valþjófsdal yfir Önundarfjörð og leiddi síðan eða rak yfir Klofningsheiði (sjá hér Eyri). Haustið 1840 bjó Hallgrímur í tvíbýli á Gelti og var með eina belju, tíu ær og eitt lamb.[475] Hann átti þá líka lítinn bát, tveggja eða þriggja manna far.[476]

Þegar prestur kom að húsvitja í marsmánuði árið 1842 voru Hallgrímur og Kristjana kona hans enn við búskap hér á Gelti.[477] Hjá þeim voru þá þrjú af börnum Kristjönu frá hennar fyrra hjónabandi.[478] Þau voru á aldrinum 13-23ja ára, öll fædd í Búð í Hnífsdal.[479] Einu ári síðar kom prestur aftur í húsvitjunarferð og þá var Hallgrímur bóndi enn á lifi en farið að styttast í endalokin því hann andaðist 20. nóvember 1843 og var þá kominn á áttræðisaldur.[480]

Með fyrri konu sinni, Þórdísi Pálmadóttur, hafði Hallgrímur eignast tíu börn eða jafnvel enn fleiri (sjá hér Keflavík) og komust flest þeirra upp. Sumarið 1844 voru sjö þessara systkina á lífi, fimm bræður og tvær systur.[481] Tveir af sonum Hallgríms, þeir Pálmi og Kári, voru þá búsettir erlendis,[482] líklega í Danmörku. Pálmi var fæddur 1799 en Kári 1808.[483]

Ekkja Hallgríms, Kristjana Jónsdóttir, og börn hennar frá fyrra hjónabandi fóru frá Gelti vorið 1845 og fluttust þá að Grafargili í Valþjófsdal[484] en aðra hálflenduna þar, 6 hundruð, hafði Hallgrímur gefið henni eins og fyrr var nefnt. Á Grafargili stóð Kristjana fyrir búi í eitt ár en sonur hennar, Guðmundur Jónsson, tók þá við og bjó lengi á þeirri jörð og síðan niðjar hans (sjá hér Grafargil). Á þeim árum sem þessi stjúpsonur Hallgríms Lárentíussonar var á Gelti kom upp sá kvittur að hann hefði orðið manni að bana á Galtarfjörum (sjá hér Keflavík) en ekkert sannaðist í því máli.

Um Hallgrím Lárentíusson verður tæplega sagt að hann hafi náð sér á strik í búskapnum á Gelti því hann lafði hér aðeins við bú í fáein ár, 1824-1827 og 1840-1843 og jafnan í tvíbýli. Annað mál er hitt að eftir hans dag bjuggu niðjar hans hér góðu búi um langt skeið eins og brátt verður rakið á þessum blöðum. Næst liggur þó fyrir að segja stuttlega frá fólkinu sem hér var samtíða Hallgrími og enn hefur ekki verið getið um.

Þegar Hallgrímur hætti að búa og fór í húsmennsku vorið 1827 tóku hjónin Borgar Jónsson og Júdith Brynjólfsdóttir við jarðarpartinum sem Hallgrímur hafði búið á.[485] Þau bjuggu hér í fjögur ár[486] og fyrsta árið á móti Hildi Kolbeinsdóttur en það var síðasta ár hennar á Gelti (sjá hér bls. 36). Frá Borgari og Júdith, konu hans, hefur áður verið sagt í riti þessu (sjá hér Botn, Klúka þar). Sambýlismaður Borgars hér á Gelti á árunum 1828-1831 var Björn Eiríksson, sonur séra Eiríks Vigfússonar á Stað í Súgandafirði og konu hans, Ragnheiðar Halldórsdóttur.[487] Kona Björns var Valgerður Benediktsdóttir frá Blámýrum í Ögursveit.[488] Þau hjónin voru systrabörn og móðir Valgerðar, Solveig Halldórdóttir, var seinni kona séra Eiríks Vigfússonar, föður Björns, eiginmanns Valgerðar.[489]

Er Björn og Valgerður komu hingað að Gelti vorið 1828 voru þau bæði um þrítugsaldur og höfðu áður búið í örfá ár á Stað á móti séra Eiríki.[490] Hér stöldruðu þau aðeins við í þrjú ár[491] en bjuggu síðan um skeið á Meiri-Bakka í Skálavík og svo á Mosvöllum í Önundarfirði.[492] Síðast stóðu þau fyrir búi í Neðri-Breiðadal í Önundarfirði og hefur áður verið frá þeim sagt í þessu riti (sjá hér Neðri Breiðadalur).

Búin hjá sambýlismönnunum Birni Eiríkssyni og Borgari Jónssyni, sem bjuggu hér á Gelti árið 1830, voru þá álíka stór.[493] Þeir áttu þá sína kúna hvor og þá þriðju báðir saman.[494] Að auk átti Björn kelfda kvígu.[495] Haustið 1830 var Björn með 16 ær, 4 lömb og 9 aðrar sauðkindur en Borgar með 12 ær, 6 lömb og 10 aðrar sauðkindur.[496] Að Björn væri betur settur en Borgar mátti helst merkja á því að hann átti lítinn bát og einnig folald en Borgar átti hvorki bát né hest.[497]

Björn Eiríksson frá Stað, sem bjó hér á Gelti frá 1828 til 1831, andaðist í Neðri-Breiðadal vorið 1864[498] og þar bjuggu niðjar hans lengi (sjá hér Neðri-Breiðadalur).

Á árunum 1824-1831 var hér jafnan tvíbýli en auk bændanna og þeirra skylduliðs voru hér oftast ein eða tvær manneskjur í húsmennsku á þeim árum.[499] Um Hallgrím Lárentíusson, sem var alllengi húsmaður á Gelti, hefur áður verið rætt en auk hans má nefna Ísleif Jósepsson, sem hafðist hér við fardagaárið 1826-1827, þá sagður sextugur, Guðrúnu Guðlaugsdóttur, sem var hér í húsmennsku fardagaárið 1827-1828, þá um fertugt, Bjarna Bjarnason, sem var húsmaður á Gelti í nokkur ár um 1830, þá liðlega sjötugur, og Guðnýju Oddsdóttur, sem var hér í húsmennsku fardagaárið 1829-1830, sögð 53ja ára.[500]

Vorið 1831 fóru hjónin Níels Jónsson og Kristín Þorkelsdóttir að búa á Gelti en Borgar Jónsson og Björn Eiríksson viku báðir frá.[501] Þau Níels og Kristín komu hingað frá Norðureyri og fengu strax alla jörðina til ábúðar.[502] Þau bjuggu hér búi sínu í tólf ár, frá 1831 til 1843, síðustu þrjú árin í tvíbýli á móti Hallgrími Lárentíussyni.[503]

Níels var fæddur í Hrauni í Keldudal í Dýrafirði 29. mars 1791, sonur hjónanna Jóns Jónssonar og Ólafar Níelsdóttur sem þar bjuggu.[504] Hann kom þrítugur að aldri til ekkjunnar Kristínar Þorkelsdóttur sem þá bjó á Norðureyri í tvíbýli á móti móður sinni, Kristínu Bergsdóttur (sjá hér Norðureyri). Haustið 1822 gekk Níels að eiga Kristínu Þorkelsdóttur, húsmóður sína á Norðureyri, sem var sex árum eldri en hann.[505] Þau bjuggu á Norðureyri allt til vorsins 1831 er þau fluttust hingað að Gelti.[506] Tvö af börnum Kristínar Þorkelsdóttur og fyrri eiginmanns hennar, Sigfúsar Erlingssonar, fylgdu móður sinni og stjúpa í þeim búferlaflutningum.[507] Þau hétu Kristján og Ástríður og voru bæði um fermingaraldur.[508] Eitt barn áttu þau Níels og Kristín á lífi er þau komu að Gelti, drenginn Níels Níelsson sem þá var 4 ára.[509] Börnum þeirra fjölgaði ekki síðar, enda var Kristín orðin 46 ára er hún fór frá Norðureyri.[510]

Um Níels Jónsson, bónda á Gelti, segir prestur vorið 1832 að hann sé skikkanlegur og í meðallagi að sér en Kristín húsfreyja fær við sama tækifæri þá einkunn hjá sálusorgaranum að hún sé líka skikkanleg í hegðun, vel að sér og skýr í andlegu.[511] Eitthvað mun Níels hafa fengist við að banga saman vísur og hann var rímmaður, það er fékkst við að skrifa almanök[512] (sbr. hér Selárdalur).

Til að geta búið til almanök þurftu menn að kunna dálítið fyrir sér í reikningi og á því sviði mun Níels hafa verið mörgum fremri. Um 1840 var hann annar tveggja úttektarmanna í Suðureyrarhreppi en hinn var Þorleifur Þorkelsson, mágur hans, sem þá var bóndi og hreppstjóri á Suðureyri.[513] Níels, bóndi á Gelti, mun líka hafa verið gefinn fyrir framkvæmdir því megi taka mark á búnaðarskýrslu frá árinu 1840 var hann þá einn þeirra fimm bænda í Súgandafirði sem reynt höfðu að auka heyfeng sinn með því að grafa áveituskurði.[514] Skurðurinn sem Níels hafði þá grafið á Gelti var 40 faðmar á lengd.[515]

Bústofn Níelsar vorið 1834 var 3 kýr, 24 ær, 7 sauðir tvævetra og eldri, 9 gemlingar og 15 lömb.[516] Hann átti þá engan hest og aðeins lítinn bát sem var tveggja eða þriggja manna far.[517] Svo virðist sem Níels hafi orðið fyrir áföllum í búskapnum á árunum kringum 1835 því árið 1837 var bú hans mun minna en verið hafði þremur árum fyrr, aðeins 1 kýr, 10 ær og 6 aðrar sauðkindur, auk lamba.[518]

Um verklag Níelsar við að halda fé sínu til beitar að vetrarlagi heyrði Kristján G. Þorvaldsson merkilega sögu, líklega á árunum kringum aldamótin 1900, og færði hana í letur. Sú saga er á þessa leið:

 

Á bökkunum fyrir utan Land er stór steinn sem kallast Níelsarsteinn. Nafnið er sagt þannig til orðið. Níels Jónsson hét maður sem bjó á Gelti frá 1831 til 1848 [rétt til 1843 – innsk. K.Ó.]. Hann þótti frekar linur að afla heyja en afburðamaður í að halda fé til beitar. Síðari hluta vetra rak hann fé sitt upp Búðargil, upp á Skakkarból. Mun enginn annar hafa gert það. En hann gætti þess jafnan að ná því niður áður en sólbráðin frysi. Sauði sína rak hann ekki til húsa en gaf þeim hey við stein þennan og þá jafnan í skjóli hans, eftir vindstöðu. Steinninn var síðan kenndur við hann.[519]

 

Landið sem Kristján G. Þorvaldsson nefnir í þessari frásögn er Galtarlandið, sem svo heitir, en það er 500-700 metrum fyrir utan túnið á Gelti. Þaðan reru Galtarbændur til fiskjar á síðari hluta 19. aldar og höfðu þar uppsátur fyrir báta sína (sjá hér bls. 74-75). Á sjávarbökkunum rétt fyrir utan Land eru margir allstórir steinar en einn þeirra er stærstur og sker sig úr. Þarf vart að efa að sá sé Níelsarsteinn, enda er lögunin með þeim hætti að við hann getur fé fundið sér skjól í flestum áttum. Ofantil við stein þennan er reyndar tótt og er hún um það bil tveir metrar á lengd og hálfur annar metri á breidd. Líklegast er að þar hafi á fyrri tíð verið byrgi sauðamanns og kynni Níels að hafa reist sér það til skjóls er hann gætti sauða í vetrarhríðum.

Á árunum 1831-1840 var Níels Jónsson nær alltaf eini bóndinn á Gelti.[520] Fardagaárið 1833-1834 taldist frænka hans, Þuríður Gísladóttir, þó búa hér á móti honum.[521] Hún var systurdóttir Níelsar, fædd árið 1800 eða því sem næst, og var nýlega orðin ekkja.[522] Þuríður hafði verið gift Þórði Hákonarsyni og voru þau í Vatnadal haustið 1831[523] en hann sagður vera búandi í Botni þegar hann dó, 24 ára gamall, 12. ágúst 1832.[524] Foreldrar Þórðar voru Hákon Þórðarson, sem drukknaði ungur árið 1814, og kona hans, Arnfríður Þórðardóttir, er fluttist með tengdadóttur sinni hingað að Gelti[525] (sbr. hér Bær og Suðureyri). Með Þuríði komu líka tvær kornungar dætur þeirra Þórðar, Ragnhildur og Guðrún.[526] Búskapur Þuríðar Gísladóttur hér stóð aðeins í eitt ár en prestur hitti hana að máli í marsmánuði á því ári og segir að hún sé sköruleg.[527] Vorið 1834 gafst Þuríður upp á búskapnum og gerðist vinnukona hjá Guðmundi Úlfssyni á Laugum.[528]

Næstu ár og allt til 1840 bjó Níels Jónsson jafnan einn á allri jörðinni en á því skeiði var hér stundum húsfólk.[529] Hjónin Jón Hallsson og Vilborg Þorsteinsdóttir voru hér í húsmennsku fardagaárið 1836-1837[530] en hófu búskap í Keflavík vorið 1837 (sjá hér Keflavík).

Níels og Kristín kona hans fóru frá Gelti vorið 1843 og fluttust þá út í Keflavík.[531] Þar stóðu þau fyrir búi í sjö ár en Níels Jónsson dó í Keflavík 5. júní 1850 og tók þá sonur þeirra, Níels Níelsson, við búsforráðum.[532] Síðustu þrjú árin sem Níels Jónsson bjó hér á Gelti hafði hann aðeins hálfa jörðina til ábúðar en á hinni hálflendunni bjó þá Hallgrímur Lárentíusson[533] sem áður var frá sagt. Hallgrímur dó haustið 1843 (sjá hér bls. 40), sama ár og Níels fór frá Gelti, en ekkja Hallgríms, Kristjana Jónsdóttir, bjó hér áfram til vorsins 1845 og hafði alla jörðina til ábúðar.[534] Frá Kristjönu, sem var seinni kona Hallgríms, hefur áður verið sagt (sjá hér bls. 39-41 og Grafargil) en þau höfðu aðeins verið gift í fimm ár þegar Hallgrímur andaðist.

Vorið 1845 fóru hjónin Lárentíus Hallgrímsson og Sigurborg Bergsdóttir að búa á Gelti og tók Lárentíus við af Kristjönu, stjúpmóður sinni.[535] Hjón þessi komu hingað frá Ytri-Vatnadal en þar höfðu þau verið við búskap í 20 ár og hefur áður verið frá þeim sagt á þessum blöðum (sjá hér Ytri-Vatnadalur og Norðureyri).

Lárentíus var elsti sonur Hallgríms Lárentíussonar og fyrri konu hans, Þórdísar Pálmadóttur, fæddur 23. ágúst 1796.[536] Árið 1801 var Lárentíus fósturbarn hjá afa sínum og ömmu, Lárentíusi Erlendssyni og Steinunni Hallgrímsdóttur, konu hans, á Hóli í Bolungavík[537] (sbr. hér bls. 37). Er Lárentíus Hallgrímsson hóf búskap hér á Gelti vorið 1845 var hann kominn undir fimmtugt en Sigurborg, eiginkona hans, var tólf árum yngri. Þau stýrðu hér búi í 17 ár, frá 1845 til 1862, og bjuggu jafnan ein á allri jörðinni.[538]

Með Lárentíusi og Sigurborgu komu hingað frá Ytri-Vatnadal synir þeirra þrír, Ólafur, fæddur 1827, Sigurður, fæddur 1833, og Pálmi, fæddur 1835.[539] Allir urðu þeir síðar bændur í Suðureyrarhreppi, Ólafur á Gelti (sjá hér 48-51), Sigurður í Botni en áður á Gelti og á Norðureyri (sjá hér Botn) og Pálmi í Keflavík en síðar í Botni (sjá hér Keflavík og Botn). Elsti sonur þessara sömu hjóna, Bergur Lárentíusson, kom hins vegar ekki hingað með foreldrum sínum.[540] Hann var haustið 1845 vinnumaður hjá prestinum á Stað[541] og hafði alist upp hjá móðurafa sínum, Bergi Jónssyni, bónda í Staðarhúsum (sjá hér Staður, Staðarhús ytri þar).

Í hópnum sem fluttist búferlum frá Ytri-Vatnadal að Gelti vorið 1845 var líka amma Sigurborgar húsfreyju, Kristín Bergsdóttir, sem komin var á tíræðisaldur.[542] Síðustu 20 árin hafði hún dvalist hjá sonardóttur sinni og eiginmanni hennar í Ytri-Vatnadal en áður hafði hún verið húsfreyja á Norðureyri í 35 ár (sjá hér Norðureyri). Þangað fluttist hún á sínum tíma héðan frá Gelti vorið 1790 og kom nú aftur hingað eftir 55 ár.[543] Kristín var fædd á Sæbóli á Ingjaldssandi skömmu eftir 1750 en kom hingað ung að árum og giftist syni bóndans sem þá bjó á Gelti (sjá hér Norðureyri). Þann mann, Jón Hákonarson, missti hún snemma en hafði þó eignast með honum þrjá syni sem allir náðu að verða tvítugir. Einn þeirra var faðir Sigurborgar.

Er Kristín gamla Bergsdóttir staulaðist hér upp sjávargötuna vorið 1845 voru liðin 70 ár frá því hún fæddi sitt fyrsta barn hér á Gelti og yfir 60 ár frá því hún giftist hér í annað sinn (sjá hér Norðureyri). Á þessari jörð, hinni ystu við norðanverðan Súgandafjörð, hafði hún verið húsfreyja í tíu eða tólf ár í fyrri daga og búið hér með þeim tveimur mönnum sem hún játaðist í blóma lífisins, fyrst Jóni Hákonarsyni og síðan Þorkeli Jónssyni. Báðir féllu þeir frá áður en átjándu öldinni lauk. Nú var hún komin hingað aftur undir lok langrar ævi, sátt við að bíða hér sinnar hinstu stundar. Í huga sér geymdi hún minningu um dýrð morgunsólarinnar á Sæbóli og frá Gelti er fagurt að líta til hafs við sólarlag. Hér náði Kristín að lifa enn eitt ár en 7. október árið 1846 kvaddi hún lífið[544] því þá var stundaglas hennar runnið út.

Bú Lárentíusar Hallgrímssonar og Sigurborgar, konu hans, var á búskaparárum þeirra hér nokkuð stórt sé tekið mið af því sem þá var almennt í Súgandafirði.[545] Árið 1850 var kýrin þó aðeins ein en hjónin á Gelti áttu þá líka kálf og 59 sauðkindur, auk lamba.[546] Fleira fé var þá aðeins á tveimur býlum í Súgandafirði. Tíu árum síðar voru hér tvær kýr og einnig kvíga eða naut en tala sauðfjár var þá nær óbreytt frá því sem verið hafði 1850.[547] Aðeins einn bóndi í Súgandafirði var með fleira fé en Lárentíus árið 1860, ekkjan Guðrún Ólafsdóttir sem þá bjó með börnum sínum í Selárdal.[548] Bæði 1850 og 1860 átti Lárentíus hest og lítinn bát sem var tveggja eða þriggja manna far.[549]

Ýmsar vísbendingar gefa til kynna að Lárentíus Hallgrímsson hafi náð að eignast þessa ábýlisjörð sína og hefur áður verið gerð grein fyrir þeim (sjá hér bls. 17-18). Fullar sannanir fyrir því að svo hafi verið liggja þó ekki á lausu. Aftur á móti liggur ljóst fyrir að á árunum upp úr 1860 keypti Lárentíus 6 hundruð í jörðinni Bæ í Súgandafirði og hálfa Norðureyri[550] sem var talin sex hundraða jörð.

Hjónin Lárentíus og Sigurborg fóru frá Gelti vorið 1862 og hófu þá búskap á jarðarparti í Bæ.[551] Búskaparár Lárentíusar þar urðu aðeins fjögur því hann andaðist vorið 1866 (sjá hér Bær). Að bónda sínum önduðum bjó Sigurborg Bergsdóttir áfram í Bæ en aðeins í tvö ár.[552] Sextug að aldri hætti hún að búa, vorið 1868, og fluttist þá til Ólafs, sonar síns, sem bjó hér á Gelti.[553] Hún átti þá 37 ár ólifuð og var orðin 97 ára gömul er hún andaðist hér 30. júní 1905,[554] enn eldri en amma hennar, Kristín Bergsdóttir, sem fyrr var frá sagt. Frá árinu 1868 og allt til dauðadags var Sigurborg nær alltaf á Gelti, fyrst hjá Ólafi syni sínum og konu hans, Guðrúnu Þórðardóttur, en seinna hjá sonardóttur sinni, Guðrúnu Ólafsdóttur, og eiginmanni hennar, Guðmundi bónda Ásgrímssyni.[555]

Löngu áður en Sigurborg andaðist hafði hún látið smíða sér líkkistu og kistur hennar urðu reyndar fleiri en ein og fleiri en tvær áður en yfir lauk því bæri nauðsyn til gaf hún kost á að önnur lík færu í kistu sem hún hafði þó ætlað sjálfri sér en lét þá jafnan smíða aðra nýja í staðinn. Fyrst lánaði hún kistu, svo kunnugt sé, í nóvembermánuði árið 1889 við andlát Þuríðar Markúsdóttur, húsfreyju í Bæ.[556] Aftur var gripið til líkkistu í eigu Sigurborgar vorið 1894 og enn um mitt sumar á því ári (sjá hér bls. 51).

Þegar Sigurborg gamla dó voru þrír af fjórum sonum hennar andaðir.[557] Aðeins sá yngsti, Pálmi Lárentíusson, var á lífi, nær sjötugur að aldri.[558] Allir synir hennar áttu hins vegar niðja[559] og munu barnabörnin, sem á lífi voru þegar gamla konan andaðist, hafa verið tíu.[560]

Svo virðist sem Sigurborg Bergsdóttir hafi alltaf verið bjargálna í sínu langvarandi ekkjustandi. Þegar hún dó átti hún enn 9 hundruð í jörðinni Bæ í Súgandafirði og allt til 96 ára aldurs taldist hún eiga hálfa jörðina hér á Gelti.[561] Þessa hálflendu sína, sex hundruð, lét hún af hendi við Guðmund Ásgrímsson sumarið 1904 með því skilyrði að hann veitti sér sömu hjálp til lífsframfæris til dauðadags og hann hafi gjört að undanförnu.[562]

Jarðarhundruðin sem Sigurborg átti í Bæ voru við uppgjör á dánarbúi hennar virt á 765,- kr. en aðrar eignir á 121,15 kr.[563] Við mat á þessum fjárhæðum má hafa til hliðsjónar að árið 1905 var tímakaup karlmanna í fiskvinnu hjá útibúi Ásgeirsverslunar á Suðureyri 25 aurar en 12 og ½ eyrir hjá kvenfólkinu (sjá hér Suðureyri). Sonardóttir Sigurborgar hefði því þurft að strita í liðlega 7000 klukkustundir til að vinna sér inn andvirði þeirra eigna sem gamla konan lét eftir sig. Ef frá eru talin jarðarhundruðin í Bæ voru þessar eignir þó sáralitlar. Þær voru 48,60 kr. í peningum, fatnaður sem var virtur á 34,05 kr., rúmfatnaður virtur á 26,25 kr., ýmsir lausamunir virtir á 10,75 kr. og eitt pund af neftóbaki sem metið var á 1,50 kr.[564] Líklega hefur gamla konan tekið í nefið fram á síðustu stund og viljað eiga tóbakið á vísum stað eins og líkkistuna.

Svo virðist sem Sigurborg Bergsdóttir hafi oftast verið bláklædd undir lok sinnar löngu ævi því hún átti þrjú pils sem öll voru blá og einnig bláa treyju, bláan bol og bláa sokka. Um aðra liti á flíkum hennar er ekki getið en ein af fjórum svuntum sem hún átti var röndótt.[565] Tvær skrálæstar kistur átti þessi gamla kona við lok ævinnar og koffortið hennar var líka skrálæst.[566] Aðrar hirslur átti hún ekki nema kistil sem í voru halasnælda og einn diskur.[567] Annars staðar lá askurinn hennar og skaftpottur sem hún átti líka.[568] Að flíkum og rúmfatnaði frátöldum voru þetta hennar einu lausamunir.[569]

Hér var áður frá því greint að Sigurborg Bergsdóttir og eiginmaður hennar, Lárentíus Hallgrímsson, hefðu búið á Gelti frá 1845 til 1862. Við brottför þeirra vorið 1862 tóku tveir synir þessara hjóna við jörðinni, Ólafur og Sigurður, og bjuggu hér í tvíbýli næstu þrjú ár.[570] Þeir voru þá báðir kvæntir menn og var Ólafur orðinn 36 ára er hann komst í bændatölu en Sigurður var sjö árum yngri.[571] Frá Sigurði Lárentíussyni og konu hans, Sigríði Árnadóttur, er sagt hér á öðrum stað (sjá Botn), enda stóðu þau aðeins í skamman tíma fyrir búi hér á Gelti.

Ólafur Lárentíusson, bróðir Sigurðar, var aftur á móti bóndi á Gelti í 17 ár, frá 1862 til 1879,[572] og verður því sagt hér nokkru nánar frá honum. Ólafur fæddist í Ytri-Vatnadal 15. janúar 1826.[573] Þar ólst hann upp hjá foreldrum sínum og fluttist með þeim hingað að Gelti vorið 1845.[574] Næstu 17 ár vann hann að búi foreldra sinna en tók eins og fyrr var nefnt sjálfur við búsforráðum vorið 1862.[575] Haustið 1859 hafði hann gengið að eiga stúlkuna Guðrúnu Þórðardóttur sem þá hafði verið vinnukona á Gelti í níu ár.[576] Guðrún var dóttir hjónanna Þórðar Hákonarsonar og Þuríðar Gísladóttur og fæddist í Fremri-Vatnadal 24. nóvember 1831.[577] Hún missti föður sinn er hún var á fyrsta ári (sjá hér bls. 44) og ólst frá 1834 upp í Staðarhúsum hjá Bergi Jónssyni bónda þar.[578] Er tökustúlka þessi í Staðarhúsum náði 13 ára aldri fór hún að vinna fyrir sér og var haustið 1845 vinnukona á Hvilft í Önundarfirði, hjá Magnúsi Einarssyni og Ragnheiði Finnsdóttur.[579]

Guðrún Þórðardóttir kom aftur í Súgandafjörð vorið 1849 og var vinnukona í Ytri-Vatnadal næsta fardagaár en fór 1850 að Gelti.[580] Næstu tólf ár var hún vinnukona á Gelti og síðan húsfreyja hér í sautján ár.[581] Undir lok ævinnar var hún svo hér í horninu hjá dóttur sinni í þrettán ár.[582] Í sóknarmannatali frá árinu 1849 er tekið fram að Guðrún Þórðardóttir, sem þá var 18 ára vinnukona í Ytri-Vatnadal, sé fædd í Fremri-Vatnadal.[583] Að það hafi verið hún sem fór að Gelti árið 1850 og ílentist þar má heita öldungis víst því engin önnur Guðrún Þórðardóttir var þá í Suðureyrarhreppi á líkum aldri og engin með því nafni fluttist inn í hreppinn það ár ef marka má skrá sóknarprestsins á Stað yfir innkomna.[584] Hér verður samt að taka fram að í manntölunum frá 1855 og 1860 er Guðrún Þórðardóttir á Gelti sögð vera fædd í Hólssókn í Bolungavík.[585] Ætla má að þar sé um skort á réttum upplýsingum eða misritun að ræða, enda er þessi sama kona jafnan sögð fædd í Súgandafirði í manntölunum frá 1870, 1880 og 1890.[586]

Fyrstu fjögur árin sem Ólafur Lárentíusson stýrði búi hér á Gelti hafði hann aðeins hálfa jörðina til ábúðar.[587] Á hinni hálflendunni bjó Sigurður bróðir hans frá 1862 til 1865 en fardagaárið 1865-1866 voru hjónin Sigurður Guðmundsson og Salbjörg Sigurðardóttir sambýlisfólk Ólafs og Guðrúnar hér á Gelti.[588] Sigurður var sonur Guðmundar Úlfssonar, sem lengi bjó á Laugum (sjá hér Laugar), en Salbjörg var dóttir Sigurðar Bjarnasonar sem búið hafði á Norðureyri á árunum 1838-1854 (sjá hér Norðureyri).

Við brottför Sigurðar og Salbjargar vorið 1866 fengu Ólafur Lárentíusson og Guðrún kona hans ábúð á allri jörðinni og bjuggu hér ein þaðan í frá.[589] Bústofn Ólafs árið 1870 var 2 kýr, 26 ær, 4 sauðir og hrútar, 20 gemlingar og 1 hestur.[590] Báturinn sem hann átti þá var lítill, aðeins tveggja eða þriggja manna far.[591] Ólafur mun jafnan hafa komist sæmilega af þó að bú hans væri ekki mjög stórt.[592] Frá nýtni Ólafs segir Gunnar M. Magnúss með þessum orðum:

 

Ólafur Lárentíusson var dugnaðar bóndi og ákaflega nýtinn maður. Hann var vel í efnum. Sagt var að hann hefði ekki mátt sjá neitt fara forgörðum. Hann tók upp af götu sinni smáhluti og stakk þeim á sig. Þótti mörgum þessi hirðusemi hans ganga fulllangt. En orðtak hans var: „Taktu hlutinn upp og hirtu hann en ef þú getur ekki notað hann í 20 ár, þá skaltu fleygja honum.” [593]

 

Frá villunni sem Ólafur lenti í á Grárófu er sagt hér á öðrum stað (sjá Selárdalur). Þau Ólafur Lárentíusson og Guðrún, kona hans, náðu að koma upp tveimur börnum, Helga og Guðrúnu.[594] Helgi, sonur þeirra, drukknaði af bát frá Bolungavík í febrúarmánuði árið 1888 og var þá rétt liðlega tvítugur.[595] Þó skammlífur yrði lét hann samt eftir sig son, drenginn Magnús, sem fæddist á Gelti 6. september 1887 og ólst hér upp.[596] Barnsmóðir Helga var Guðrún Sigurlína Guðmundsdóttir sem árið 1887 var vinnukona á Gelti en seinna húsfreyja á Góustöðum í Skutulsfirði.[597] Frá Guðrúnu Ólafsdóttur, systur Helga, segir hér síðar.

Vorið 1879 fluttust Ólafur Lárentíusson og fjölskylda hans frá Gelti í Bæ[598] og fetaði hann þá sömu slóð og faðir hans hafði farið 17 árum fyrr (sjá hér bls. 47) en stutt varð í búskap beggja þessara feðga í Bæ.[599] Ólafur bjó þar aðeins í tvö ár og þá í tvíbýli á móti Magnúsi Jónssyni[600] sem drukknaði með Sturlu Jónssyni á Stað árið 1898.

Þegar Ólafur fór frá Gelti vorið 1879 hafði hann jarðaskipti við Hálfdán Brynjólfsson sem búið hafði í Bæ næstu ár á undan en fluttist nú að Gelti.[601] Á Hálfdán hefur áður verið minnst í þessu riti (sjá hér Bær) og um hann verður fjallað hér litlu aftar (sjá bls, 51-53).

Vorið 1881 fóru Ólafur Lárentíusson og kona hans, Guðrún Þórðardóttir, aftur að Gelti og dvöldust hér þaðan í frá til æviloka í skjóli dóttur sinnar og tengdasonar sem hófu hér búskap þetta sama vor.[602] Guðrún dó 19. apríl 1894 og Ólafur þremur eða fjórum dögum síðar.[603] Bæði voru þau jörðuð sama daginn, 29. apríl.[604] Einar Jónsson á Suðureyri getur um andlát Ólafs Lárentíussonar í dagbók sinni og segir hann hafa dáið 22. apríl[605] en prestur segir hann hafa látist einum degi síðar.[606]

Þann 24. apríl þetta sama vor hafði Einar fréttir að færa og kemst svo að orði í dagbókinni: Sturli, Eiríkur Egilsson og Jens komu hér eftir líkkistu sem Sigurborg á Gelti átti hér. Þeir fóru með hana út að Gelti og „ötluðu” hana um Ólaf sáluga.[607]

Þessi frásögn Einars sýnir að Sigurborg Bergsdóttir, móðir Ólafs Lárentíussonar, átti geymda líkkistu á Suðureyri vorið 1894 en gamla konan var þá 86 ára. Kistuna hafði hún ætlað sjálfri sér en nú var hún notuð sem grafarbúnaður sonar hennar. Þau mæðginin höfðu löngum fylgst að og svo fór að Ólafur kvaddi á undan móður sinni.

Á efri árum mun Sigurborg Bergsdóttir jafnan viljað hafa vaðið fyrir neðan sig og hún var fljót að koma sér upp annarri líkkistu. Þá kistu geymdi hún líka á Suðureyri en þegar þrír mánuðir voru liðnir frá útför Ólafs, sonar hennar, kom annað kall og lét hún þessa kistu líka góðfúslega af hendi.[608] Í hana fór lík Bjarna Ólafssonar, bónda á Kvíanesi, sem dó 30. júlí 1894 (sjá hér Kvíanes). Hvort Sigurborg fékk að halda þriðju kistunni fyrir sig er ekki vitað en þessi háaldraða kona á Gelti sofnaði ekki svefninum langa fyrr en sumarið 1905 eins og hér hefur áður verið frá greint.

Frá 1840 til 1909 bjuggu Hallgrímur Lárentíusson og hans niðjar jafnan á Gelti ef frá eru talin fardagaárin 1879-1880 og 1880-1881.[609] Þetta tveggja ára frávik er erfitt að skýra en svo virðist sem Ólafur Lárentíusson eða yngra fólkið í fjölskyldu hans hafi fengið þá hugmynd að betri framtíð biði þeirra í Bæ.

Hér var áður sagt nokkuð frá Hálfdáni Brynjólfssyni, sem hóf búskap á Gelti vorið 1879, og konu hans, Helgu Þórarinsdóttur (sjá hér Bær) en búskapartími þeirra hér varð aðeins tvö ár og reyndar skemmri hjá Hálfdáni því hann dó, 32ja ára að aldri, 22. janúar 1881.[610] Hann var sonur Brynjólfs Jónssonar, hreppstjóra í Bæ, sem drukknaði 18. desember 1873, og fyrri konu hans, Sigríðar Guðmundsdóttur (sjá hér Bær) en Helga, eiginkona Hálfdánar, var dóttir Kristínar Þórarinsdóttur, sem lengi bjó á Stað í Súgandafirði, og eiginmannsins sem hún skildi við, Þórarins Sigurðssonar, bónda á Látrum í Mjóafirði við Djúp (sjá hér Staður, Botn og Innri-Hjarðardalur).

Vorið 1880 virðist allt hafa verið í eðlilegu horfi hjá Hálfdáni og Helgu á Gelti. Þau bjuggu þá með 1 kú, 20 ær, 12 gemlinga og 1 hest.[611] Hálfdán átti þá líka hálfan bát en meðeigandi hans að bátnum var Jón Jónsson á Norðureyri.[612] Þetta var allstór bátur, sexæringur eða fjögra manna far.[613]

Óljóst er nú hvernig dauða Hálfdánar bónda bar að en hann andaðist í vetrarhörkunum miklu í janúarmánuði árið 1881.[614] Pétur Guðmundsson, sem þá var prestur í Grímsey, lýsir tíðarfarinu í þessum mánuði svo:

 

Níunda janúar, að kveldi, skall á ofsaleg norðanhríð um allt Norðurland og Vestfirði. Næstu daga fyllti hafís hverja vík, fönn hlóð niður norðanlands en um Suðurland geisuðu stormar og gaddviðri. Frosthart var um allt land, 18-24°R nyrðra en 12-18° syðra [þ.e. 22,5-30 gráður á Celsíus nyrðra en 15-22,5 gráður syðra – innsk. K.Ó.]. Þar sem hafís rak að landi fraus allt í eina hellu. Um miðjan janúar var Reykjavíkurhöfn frosin langt út fyrir eyjar. Í lok janúar … var riðið yfir Hvalfjörð, gengið úr Reykjavík upp á Kjalarnes og þaðan upp á Akranes.[615]

 

Í þessum gaddhörkum dó Hálfdán Brynjólfsson, 22. janúar 1881.[616] Ekkja hans stóð hér uppi með sex börn, hið elsta 6 ára en það yngsta tæplega hálfs árs.[617] Þann 15. mars komu hreppstjórinn og annar virðingarmaður í þeim erindagerðum að skrifa upp eignir búsins og meta þær til verðs.[618] Búið var virt á 619,45 krónur en talið þrotabú því skuldir þess námu 709,85 krónum.[619] Hér verður ekki gerð grein fyrir eignum búsins en skuldirnar voru þessar:

 

1… Við Tómas Eiríksson fyrir búsáhöld …………………..  kr.   146,70

2… Við Halldór Guðmundsson ……………………………….  kr.     32,00

3… Við Sigurð Lárentíusson fyrir grjón og rúg …………  kr.     27,00

4… Við versl. Ásg. Ásgeirssonar á Ísafirði ……………….  kr.     47,86

5… Við versl. Hjálmars Jónssonar á Flateyri …………….  kr.   139,79

6… Við Geir Gíslason, vinnumann á Gelti ………………..  kr.     40,00

7… Við Guðmund Sveinsson fyrir kú ………………………  kr.   100,00

8… Við Suðureyrarhrepp fyrir grjón og rúg ………………  kr.     14,50

9… Við Ólaf Lárentíusson ………………………………………  kr.     64,00

10… Við Albert Brynjólfsson, bróður Hálfdánar,

……. óborgað af ómyndugra arfi ………………………………..  kr.     36,00

11… Útfararkostnaður sem ekkjan hafði greitt …………….  kr.     62,00[620]

 

Við uppskriftina 15. mars 1881 voru skuldir búsins umfram eignir taldar nema 90 krónum og 40 aurum[621] en þetta réttist af á uppboðinu sem haldið var hér á Gelti 13. júní sama ár. Þar fengust 738,42 kr. fyrir það sem selt var af eignunum en hið selda hafði verið virt á 545,33 kr.[622] Mismunurinn á söluverði og virðingarverði nam því 193,09 kr. svo ætla má að allir lánardrottnar búsins á Gelti hafi fengið sitt. Það sem ekkjan átti eftir, þegar allar skuldir höfðu verið greiddar, var hins vegar nánast ekki neitt nema þessi sex börn sem öll þurftu bæði fæði og klæði til að geta lifað. Allt um kring þrengdu harðindin að mannfólkinu og ekki sjáanleg nokkur úrræði til að halda barnahópnum saman.

Helga Þórarinsdóttir og öll börn hennar fóru frá Gelti vorið 1881.[623] Sjálf fór hún til móður sinnar, Kristínar Þórarinsdóttur, sem enn stóð fyrir búi á Stað í Súgandafirði þó að komin væri á áttræðisaldur (sjá hér Staður) og þangað fylgdu ekkjunni ungu dætur hennar þrjár, Ingibjörg, Soffía og Kristín.[624] Sonunum, Guðmundi, Brynjólfi og Hannibal, varð hún hins vegar að sleppa úr höndum sér.[625] Guðmundur fór að Kvíanesi, Brynjólfur í Önundarfjörð og Hannibal í Ytri-Vatnadal.[626] Dætra sinna naut Helga ekki lengi. Þær dóu allar hjá ömmu sinni á Stað í mislingunum sumarið 1882, tvær sama daginn, 26. ágúst, og sú þriðja 23. september.[627] Synirnir komust hins vegar allir upp.[628] Yngstur þeirra var Hannibal Hálfdánarson, síðar bóndi á Kotum í Önundarfirði, fæddur á Gelti 2. ágúst 1880.[629] Helga Þórarinsdóttir, sem missti eiginmann sinn hér á Gelti 22. janúar 1881, fluttist fáum árum síðar burt úr Súgandafirði, fyrst til Skutulsfjarðar og síðar í Önundarfjörð.[630] Hún giftist í annað sinn 20. desember 1889 en seinni eiginmaður hennar var Guðmundur Andrésson[631] sem á árunum 1923-1944 átti heima í Hraunakoti í Vatnadal (sjá hér Fremri-Vatnadalur, Hraunakot þar).

Þegar Helga Þórarinsdóttir fór frá Gelti vorið 1881 tóku hjónin Guðmundur Ásgrímsson og Guðrún Ólafsdóttir við jörðinni.[632] Guðrún var dóttir Ólafs Lárentíussonar og konu hans, Guðrúnar Þórðardóttur, sem búið höfðu á Gelti frá 1862 til 1879 en þau komu nú hingað aftur með dóttur sinni og tengdasyni[633] (sbr. hér bls. 49-51).

Guðmundur Ásgrímsson, sem gerðist bóndi á Gelti vorið 1881, var fæddur í verslunarstaðnum á Skutulsfjarðareyri 24. febrúar árið 1850.[634] Foreldrar hans voru hjónin Ásgrímur Guðmundsson skútuskipstjóri og Guðrún Einarsdóttir.[635] Þau voru bræðrabörn og var Ásgrímur Bárðarson í Fremri-Arnardal afi beggja.[636] Ásgrímur Guðmundsson, faðir Guðmundar Ásgrímssonar á Gelti, var frá Meirihlíð í Bolungavík en átti lengi heima í verslunarstaðnum við Skutulsfjörð þar sem nú er Ísafjarðarkaupstaður.[637] Árið sem Guðmundur fæddist var Ásgrímur skipstjóri á þilskipinu Ingólfi sem hann átti í félagi við Össur Magnússon frá Bæ í Súgandafirði.[638]

Við fæðingu Guðmundar segir séra Hálfdan Einarsson foreldra hans eiga heima á Tanganum[639] en byggðin neðantil á Skutulsfjarðareyri gekk lengi undir því nafni í máli manna. Tíu árum síðar bjuggu Ásgrímur og Guðrún, kona hans, þar sem nú er Skipagata 7 á Ísafirði og stóð hús þeirra þar allt til ársins 1966.[640] Guðmundur Ásgrímsson ólst ekki upp hjá foreldrum sínum.[641] Haustið 1855 var hann fósturbarn hjá hjónunum Árna Árnasyni og Elínu Jónsdóttur í Meirihlíð í Bolungavík[642] og fimm árum síðar var hann fósturbarn hjá hjónunum Friðfinni Kærnested snikkara og Rannveigu Magnúsdóttur, konu hans, sem þá réðu húsum í Meirihlíð.[643] Systir Rannveigar var Sesselja Magnúsdóttir sem giftist Þorbirni Gissurarsyni í Selárdal haustið 1861[644] (sbr. hér Selárdalur og Suðureyri). Til Þorbjörns og Sesselju í Selárdal kom Guðmundur Ásgrímsson 1862 eða 1863, þegar hann var 12 eða 13 ára gamall, og átti þar heima uns hann fluttist með þessum sömu hjónum yfir að Suðureyri vorið 1868.[645] Frá 1868 til 1875 var Guðmundur vinnumaður hjá Þorbirni Gissurarsyni á Suðureyri en fór þá til Ólafs Lárentíussonar á Gelti.[646]

Er Guðmundur kom að Gelti var hann 25 ára gamall. Svo fór að hann ílentist hér og haustið 1877 gekk hann að eiga Guðrúnu Ólafsdóttur, sem þá var rétt liðlega tvítug að aldri, en hún var einkadóttir Ólafs bónda Lárentíussonar og konu hans, Guðrúnar Þórðardóttur, húsbænda á Gelti.[647] Líklega hefur brúðkaupsveislan verið vegleg því fáum vikum fyrir hjónavígsluna fór Guðmundur til Flateyrar og keypti þar 10 potta af brennivíni og 12 potta af rommi.[648] Brennivínspotturinn kostaði þá 75 aura hjá Hjálmari kaupmanni Jónssyni á Flateyri en pottur af rommi 1,33 kr.[649] Til veislunnar keypti Guðmundur sitthvað fleira í þessari sömu ferð og má þar nefna tvö snapsglös, vindlakassa, kaffi og sykur, kanil, skonrok og rúsínur.[650] Veisluföngin sýna að brúðhjónin og nánustu vandamenn þeirra voru bjargálna fólk sem tekist hafði að koma sér upp nokkrum eignum.

Við lok ársins 1875 segir prestur hinn unga vinnumann á Gelti, Guðmund Ásgrímsson, vera vel að sér.[651] Tilvonandi eiginkona hans og foreldrar hennar fá þá líka þessa sömu einkunn hjá prestinum.[652] Guðmundur Ásgrímsson var vinnumaður á Gelti í fjögur ár, frá 1875 til 1879, en fluttist þá með tengdaforeldrum sínum yfir í Bæ og vann á búi þeirra þar næstu tvö árin.[653] Sinn eigin búskap hóf hann svo hér á Gelti vorið 1881 eins og fyrr var nefnt og stóð hér fyrir búi í 28 ár eða allt til ársins 1909.[654] Nær allan þann tíma hafði hann alla jörðina til ábúðar en bjó þó þrjú síðustu árin í tvíbýli á móti syni sínum.[655] Fardagaárið 1902-1903 var Guðmundur Ásgrímsson líka með ábúð á þremur hundruðum úr jörðinni Norðureyri og nýtti þá hálflendu frá Gelti.[656] Líklegt er að svo hafi aðeins verið þetta eina ár (sbr. hér Norðureyri) en þó má vera að hann hafi oftar haft þar einhver jarðarafnot. Síðustu árin sem Guðmundur stóð fyrir búi á Gelti heyjaði hann líka í Keflavík og þeir feðgar báðir, hann og Jón sonur hans, sem þá bjó hér á móti föður sínum.[657] Á þeim árum var Keflavík í eyði (sjá hér Keflavík) en heyið var flutt heim að Gelti.[658] Á búskaparárum Guðmundar Ásgrímssonar voru heimilismenn á Gelti sjaldan færri en tíu þó að börn þeirra hjóna, Guðmundar og Guðrúnar, konu hans, væru aðeins tvö.[659]

Guðmundur Ásgrímsson var umsvifamaður í búskap og ekki síður við sjósókn eins og hér verður síðar vikið nánar að. Sumarið 1888 bjó Guðmundur með 1 kú, 1 kvígu, 22 lambær, 3 geldær eða sauði, 20 gemlinga og 1 hest.[660] Hið framtalda lausafé hans var þá 7 hundruð og 70 álnir á landsvísu en aðeins þrír bændur í hreppnum töldu þá fram meira lausafé.[661] Það voru Jón Ólafsson á Stað, Jóhannes Hannesson í Botni og Kristján Albertsson á Suðureyri.[662]

Árið 1891 hafði Guðmundur Ásgrímsson búið í 10 ár á Gelti. Framtalið lausafé hans var þá 10 hundruð og 69 álnir.[663] Aðeins einn bóndi í Suðureyrarhreppi taldi þá fram meira lausafé og var það Jón Ólafsson á Stað sem átti hlut í þilskipi.[664] Við slíka röðun framteljenda í Suðureyrarhreppi mun Guðmundur oftast hafa verið í öðru eða þriðja sæti á næstu árum.[665] Sumarið 1895 bjó hann með 1 kú, 1 kvígu og 92 sauðkindur, auk lamba, en sumarið 1900 með 2 kýr, 56 sauðkindur, að lömbum frátöldum, 1 hest og tryppi.[666] Þessar tölur um fjölda búfjár eru allar fengnar úr hinum opinberu tíundarskýrslum og gefa ef til vill ekki alveg hárrétta mynd af bústofninum.

Tvær aðrar heimildir eru til um fjölda búfjár á Gelti í tíð Guðmundar Ásgrímssonar. Magnús Hjaltason, sem var um skeið heimiliskennari þar veturinn 1898-1899, segir að þar hafi vanalega verið alið um 100 sauðfjár, 2 kýr og 2 hestar[667] en Halldór Guðmundsson, sem baðaði sauðfé á Gelti í desembermánuði árið 1904, greinir svo frá að bústofninn þar hafi þá verið nálægt 100 kindum, 2 kýr og tarfar, ásamt 2 hestum.[668]

Bæði Magnús og Halldór virðast telja að á árunum kringum aldamótin 1900 hafi búið á Gelti verið nokkru stærra en fram kemur í tíundarskýrslunum sem hér var áður vitnað til. Tölur þeirra má samt alls ekki taka bókstaflega því Magnús gætti ekki alltaf fyllstu nákvæmni í slíkum sökum og Halldór skrifaði frásögnina af böðunarferð sinni ekki fyrr en 45 ár voru liðin frá því ferðin var farin (sjá hér Gilsbrekka).

Að hluta til gæti mismunurinn líka legið í því að Magnús og Halldór eru báðir að tala um heildarfjölda fjár á viðkomandi býli en Guðmundur bóndi telur aðeins fram sitt eigið fé. Á þessu tvennu gat verið nokkur munur eins og sjá má í skýrslu frá árinu 1897 um fjárfjölda í Suðureyrarhreppi. Skýrslan sýnir að í marsmánuði á því ári átti Guðmundur sjálfur 90 sauðkindur, að leiguánum sem jörðinni fylgdu meðtöldum en þær munu hafa verið 12.[669] Veturinn 1896-1897 ól Guðmundur þar að auki 12 kindur sem aðrir áttu svo alls reyndust sauðkindurnar á Gelti vera 102.[670] Ætla má að þessar tólf tökukindur hafi flestar verið í eigu annars heimilisfólks á Gelti. Eitthvað af þess konar tökufé var þá á nær hverju býli í Suðureyrarhreppi[671] en því má ekki rugla saman við leiguærnar, sem enn fylgdu sumum jörðum, en þær voru eign landeigandans. Skýrslan frá 1897 sýnir að Guðmundur á Gelti var þá fjárflesti bóndinn í Súgandafirði, hvort sem aðeins var litið á hans eigin kindur eða heildartölu fjárins sem hann ól.[672]

Á árunum 1888-1901 átti Guðmundur Ásgrímsson á Gelti oftast bát sem var sexæringur eða fjögra manna far eins og sjá má í tíundarskýrslum.[673] Í hinum opinberu skýrslum frá 1888, 1891, 1895 og 1901 er hann jafnan sagður eiga aðeins einn bát en Halldór Guðmundsson, sem reri frá Gelti vorið 1899, fullyrðir að bátar Guðmundar hafi þá verið tveir.[674] Kristján G. Þorvaldsson segir líka að Guðmundur hafi átt tvo báta, mismunandi að stærð, og verða orð hans ekki skilin á annan veg en svo að bátar bóndans á Gelti hafi lengi verið tveir.[675] Hér verður að taka mark á orðum þeirra Halldórs og Kristjáns en vera má að bátunum á Gelti hafi ekki fjölgað úr einum í tvo fyrr en komið var alveg undir aldamót. Hitt er svo líka hugsanlegt að Guðmundur hafi löngum haft umráð yfir tveimur bátum en annar þeirra þó verið í eigu tengdaforeldra hans eða annarra venslamanna á Gelti.

Tvímælalaust er að Guðmundur Ásgrímsson var kappsamur sjósóknari og í Galtarlandinu, hér út með sjónum, byggði hann naust fyrir tvo báta.[676] Þau mannvirki þóttu merkileg á sínum tíma og mun nánar verða frá þeim greint er við stöldrum þar við og skoðum hinn forna lendingarstað (sjá hér bls. 73-76). Líklega hefur Guðmundur róið þaðan vorið 1881 en hann var þá að hefja búskap á Gelti. Þann 30. júlí 1881 lagði hann inn hjá verslun Hjálmars Jónssonar á Flateyri 381 pund af málfiski.[677] Allt mun þetta hafa verið saltaður fiskur. Skiptaverð fyrir þennan afla var 210,47 kr. og skiptist í sex staði.[678] Hásetahluturinn var því 35,07 kr.[679] Sjálfur fékk Guðmundur tvo og hálfan hlut[680] sem sýnir að hann hefur verið formaður og átt bátinn að hálfu. Hásetar hans vorið 1881 voru Ólafur Lárentíusson, sem var tengdafaðir formannsins, Friðbert Guðmundsson í Fremri-Vatnadal og Sveinn Jónsson á Vífilsmýrum í Önundarfirði[681] (sbr. hér Vífilsmýrar). Ólafur fékk einn og hálfan hlut[682] og mun því hafa átt bátinn að hálfu á móti tengdasyni sínum. Þessir þrír hásetar Guðmundar vorið 1881 voru allir rosknir menn. Elstur var Friðbert, fyrrverandi hreppstjóri í Vatnadal, sem orðinn var 58 ára (sjá hér Fremri-Vatnadalur), en yngstur Sveinn á Vífilsmýrum sem var 47 ára.[683] Hann var tengdasonur Kristínar Þórarinsdóttur á Stað í Súgandafirði (sjá hér Vífilsmýrar).

Í verslunarbókum Hjálmars kaupmanns á Flateyri sést líka að Guðmundur Ásgrímsson hefur farið í hákarlaróðra á fyrstu búskaparárum sínum á Gelti því 8. ágúst 1882 lagði hann inn 181 pund af hákarlalýsi og fékk fyrir það 37,00 kr.[684] Aðeins einn formaður í Ísafjarðarsýslu fór enn í hákarlalegur að vetrarlagi á opnu skipi á árunum kringum 1890 (sjá hér Lokinhamrar) en vera má að Guðmundur bóndi á Gelti hafi verið einn í hópi þeirra sem síðastir stunduðu slíkan veiðiskap á opnum bátum úti á djúpmiðum.

Guðmundur sótti sjó frá Gelti bæði að vetrinum og á vorvertíð.[685] Þann 1. maí 1897 fór hann í fiskiróður, einu sinni sem oftar, og lenti þá í hrakningi.[686] Að því sinni náði hann landi í verstöð Önfirðinga á Kálfeyri.[687] Hún er skammt fyrir utan Flateyri en bóndinn á Gelti og menn hans voru í 5 klukkustundir að berja til lands inn með Sauðanesinu.[688] Magnús Hjaltason var einn vermannanna á Kálfeyri vorið 1897 og segir í dagbók sinni að þennan dag hafi verið sviðrandi sortabylur.[689]

Líklegt er að Guðmundur Ásgrímsson hafi oft komist í hann krappan á sjó. Hann var einn fjögurra formanna sem fóru í róður frá Súgandafirði 28. febrúar 1898. Þrír bátanna náðu landi með naumindum en sá fjórði fórst með allri áhöfn (sjá hér Staður). Af formönnunum sem reru frá Súgandafirði þann góudag var Guðmundur Ásgrímsson fyrstur í land en þegar hann og menn hans höfðu rétt lokið við að setja bátinn hér út í Galtarlandinu skall fárviðrið á.[690] Sturla Jónsson á Stað og skipverjar hans lögðu síðastir af stað í land og drukknuðu allir sex er bátur þeirra fórst í því mikla hafróti fram undan fjallinu Öskubak, sem rís snarbratt úr sjó milli Keflavíkur og Skálavíkur (sjá hér Staður). Hásetar Guðmundar Ásgrímssonar þennan fárviðrisdag, er hurð skall svo nærri hælum, voru að sögn frá Norðureyri og Keflavík og gengu þeir heim um kvöldið.[691]

Á fyrstu vikum ársins 1899 var alþýðuskáldið Magnús Hjaltason við barnakennslu hér á Gelti en hann hafði þá kennt í Keflavík fyrir áramótin.[692] Á Gelti kenndi Magnús aðeins í þrjár vikur, frá 3. janúar til 24. janúar og nemendurnir voru bara þrír.[693] Elstur þeirra var Magnús Helgason, 11 ára gamall,[694] en hann var fóstursonur húsbændanna á Gelti (sjá hér bls. 50). Hinir tveir nemendurnir voru María Helga Guðmundsdóttir, 10 ára, og Guðrún Oddný Guðnadóttir, 6 ára.[695] María Helga var dóttir Guðmundar Ásgrímssonar, bónda á Gelti, og Guðrúnar, konu hans, en Guðrún Oddný var dóttir Helgu Pétursdóttur, vinnukonu á Gelti, og fyrrverandi eiginmanns hennar, Guðna Jónassonar á Ísafirði.[696]

Hjónunum Guðmundi Ásgrímssyni á Gelti og konu hans, Guðrúnu Ólafsdóttur, lýsti Magnús síðar með þessum orðum:

 

Guðmundur var mikill maður vexti, hár og gildur og breiðvaxinn, fríður sýnum og stillingarmaður með afbrigðum, sjósóknarmaður einhver sá mesti og hraustmenni mikið, skýr vel, gætinn og tillagagóður og trúmaður mikill. Kona hans var skapstærðarkona mikil en þó drengur góður.[697]

 

Annar heimildarmaður, sem líka var kunnugur á Gelti í tíð Guðmundar, lýsir honum svo:

 

Guðmundur Ásgrímsson var mikill atorku- og dugnaðarmaður. Hann bjó jafnan góðu búi á Gelti. … Hann átti alltaf skip fyrir landi og reri sjálfur og var formaður á því, jafnt vetur, vor og haust. Enda var hann talinn einn með allra gildustu bændum sveitarinnar þegar ég kom hér fyrst í fjörðinn.[698]

 

Um bústofn Guðmundar og báta hefur áður verið fjallað (sjá hér bls. 55-57) en hann átti líka jarðeignir. Einhvern part úr Gelti mun hann hafa fengið með konu sinni[699] eða við andlát foreldra hennar árið 1894 og sex hundruð, það er hálfa jörðina, fékk hann með próventusamningi við Sigurborgu Bergsdóttur sem andaðist hér á Gelti árið 1905 (sjá hér bls. 47). Bæði Valdimar Þorvaldsson og Halldór Guðmundsson staðhæfa að síðustu árin sem Guðmundur bjó á Gelti hafi hann átt þessa ábýlisjörð sína einn[700] og má ætla að þeir fari þar rétt með. Í heimild frá árinu 1901 eru Guðmundur Ásgrímsson og fleiri sagðir eiga jörðina Bæ í Súgandafirði og árið 1916 áttu börn Guðmundar og makar þeirra 6 hundruð úr þeirri jörð (sjá hér Bær). Bóndinn á Gelti átti líka Norðureyri á árunum kringum aldamótin 1900 en þá jörð seldi hann árið 1911 (sjá hér Norðureyri). Með vísun til þess sem hér hefur verið sagt má slá því föstu að síðustu árin sem Guðmundur Ásgrímsson bjó á Gelti hafi hann átt a.m.k. 24 jarðarhundruð en vera kann að þau hundruð hafi verið fleiri.

Valdimar Þorvaldsson hefur lýst torfbænum sem Guðmundur Ásgrímsson og Guðrún, kona hans, bjuggu í hér á Gelti. Bæjardyrnar sneru fram á fjörðinn og fyrir þeim var timburþil svo sem venja var.[701] Innan við dyrnar tóku við mjó göng og í þeim voru sperrur undir risinu.[702] Eldhús var inn af göngunum en úr þeim var gengið inn í baðstofuna um dyr sem voru til hægri handar þegar gengið var inn göngin.[703] Gólfflötur baðstofunnar var 11 x 22 fet,[704] það er tæplega 24 fermetrar. Loft var í baðstofunni. Niðri var hæðin 6,5 fet eða rétt liðlega 2 metrar en á baðstofuloftinu var hæðin, frá gólfi og upp í mæni, 8 fet eða um það bil 2,5 metrar.[705] Baðstofan var með torfgöflum upp úr, í báða enda.[706] Loftið í henni var þiljað innan en niðri voru torfveggirnir óþiljaðir.[707] Engin skilrúm voru í baðstofunni, hvorki uppi né niðri.[708]

Úr göngunum var líka gengið inn í búrið og voru búrdyrnar beint á móti baðstofudyrunum.[709] Samhliða búrinu var fjósið og eldhúsið, sem fyrr var nefnt, á aðra hlið. Það hafði verið byggt yfir bæjarlækinn og rann hann þar í farvegi sínum[710] svo ekki þurfti að fara langt til að sækja vatn.

Sömu megin og búrdyrnar voru aðrar dyr í bæjargöngunum, nær sjálfum bæjardyrunum.[711] Um þær dyr var gengið inn í timburhús sem stóð utan við torfbæinn og var áfast honum.[712] Grunnflötur timburhússins var 12 x 24 fet[713] eða 28,4 fermetrar og vegghæðin 8 fet,[714] 2,5 metrar. Í þessari byggingu var loft[715] svo hún hlýtur að hafa verið með risi og þar uppi var þiljað herbergi.[716] Timburhús þetta var reyndar alls ekki allt úr timbri því að á hliðinni sem sneri að búrinu var torf og grjót upp að lofti.[717] Gaflinn sem sneri frá bænum var líka úr torfi og grjóti en framhliðin var sem framhald af bæjarþili.[718]

Valdimar gerir líka grein fyrir útihúsunum, sem stóðu hér á Gelti í tíð Guðmundar Ásgrímssonar, og nefnir fjögur fjárhús, þrjár hlöður, hesthús, hjall og smiðju.[719] Í veiðistöðinni út í Galtarlandi voru svo verbúð og hjallur uppi á sjávarbökkunum en undir bökkunum voru tvö bátanaust og kró til að salta fisk í.[720] Valdimar nefnir reyndar einnig verbúð undir bökkunum[721] en líklegt er að þar sé um misritun að ræða.

Ætla má að á búskaparárum Guðmundar Ásgrímssonar hafi húsum verið haldið vel við hér á Gelti. Halldór Guðmundsson á Suðureyri, sem var hér við róðra árið 1899 (sjá hér bls. 75-83) og kom hingað í opinberum erindagerðum á jólaföstu árið 1904 (sjá hér bls. 56), segir í ritgerð frá árinu 1949 að Guðmundur Ásgrímsson hafi lagt allan sinn metnað í að byggja upp, bæði bæjarhús og peningshús, eftir því sem þá gerðist.[722]

Allt bendir til þess að Guðmundur Ásgrímsson á Gelti hafi verið fyrirhyggjumaður og lítið gefinn fyrir að rasa um ráð fram. Hann virti fordæmi Sigurborgar gömlu Bergsdóttur, ömmu konu sinnar, og lét eins og hún smíða sér líkkistu á miðjum aldri eða smíðaði hana sjálfur.[723] Fullvíst er að Guðmundur á Gelti var búinn að koma sér upp kistu vorið 1898[724] en hann var þá 48 ára gamall. Þessi líkkista hans var þá geymd í nausti bændanna á Suðureyri.[725] Hana lét Guðmundur góðfúslega af hendi þegar lík Sturlu Jónssonar á Stað fannst rekið í Illubót undir Öskubak í aprílbyrjun[726] en Sturla drukknaði 28. febrúar þetta sama ár eins og hér var áður nefnt. Var hann jarðaður í kistu Guðmundar.[727]

Vart þarf að efa að bóndinn á Gelti hafi fljótlega komið sér upp annarri kistu en þjóðsagnablær er á frásögn sem Gunnar M. Magnúss birti árið 1977 um sama efni. Hann ritaði þá á þessa leið: Guðmundur Ásgrímsson smíðaði líkkistu sína og átti hann að sitja uppi í kistunni. Hann geymdi hana í tótt úti í Landi. En kistan hvarf þaðan á einhvern dularfullan hátt.[728]

Tala heimilisfólks á Gelti á búskaparárum Guðmundar var oftast á bilinu frá tíu og upp í fjórtán.[729] Þau hjónin, Guðmundur og Guðrún Ólafsdóttir, eignuðust átta börn en úr þeim hópi náðu aðeins þrjú að vaxa úr grasi.[730] Þau voru Jón Hálfdan, fæddur 1880, María Helga, fædd 1889 og Ólöf Guðrún, fædd 1894.[731] Dæturnar giftust ungum mönnum í þorpinu á Suðureyri og fluttust burt með þeim en Jón Hálfdan átti alla ævi heima í Súgandafirði.[732] Hann kvæntist Arnfríði Guðmundsdóttur frá Laugum árið 1901[733] og voru þau fyrstu hjúskaparárin í húsmennsku hér á Gelti.[734] Vorið 1906 fékk Jón part úr jörðinni til ábúðar og bjó hann hér í tvíbýli á móti föður sínum frá 1906 til 1909 en á því ári fór allt þetta fólk frá Gelti og settist að í þorpinu á Suðureyri, handan fjarðarins.[735] Jón Hálfdan Guðmundsson frá Gelti dó á Suðureyri 4. nóvember 1954.[736]

Guðmundur Ásgrímsson og Guðrún, kona hans, ólu líka upp, að meira eða minna leyti, nokkur tökubörn.[737] Við tveimur slíkum tóku þau úr höndum foreldra Guðrúnar við upphaf búskapar síns en önnur komu síðar til sögunnar. Segja má að á árunum 1875-1905 hafi þrjú tökubörn alist hér upp að nær öllu leyti.[738] Elst þeirra var Gróa Sigurðardóttir, fædd á Laugum árið 1872[739] (sbr. hér Laugar). Næstur í aldursröðinni var Kristján Sigurðsson, fæddur 1875, en han var bróðursonur Ólafs Lárentíussonar, bónda á Gelti.[740] Yngstur tökubarnanna, sem ólust að mestu eða öllu leyti upp á Gelti í tíð Guðmundar Ásgrímssonar, var svo Magnús Helgason, fæddur 1887, en hann var bróðursonur Guðrúnar Ólafsdóttur, eiginkonu Guðmundar bónda.[741] (sbr. hér bls. 50 og 58).

Hér hefur áður verið sagt frá barneigninni sem tökubörnin hér á Gelti, þau Gróa og Kristján, efndu til í æsku en dóttirin sem þau eignuðust fæddist hér sumarið 1893 (sjá hér Norðureyri). Það barn varð skammlíft en 8. júní 1895 eignaðist Gróa aðra dóttur sem einnig fæddist hér. Sú stúlka var skírð Konkordía Vegmey[742] og kölluð Eiríksdóttir að sögn Magnúsar Hjaltasonar.[743]

Presturinn sem bókaði fæðingu þessa stúlkubarns segir Eirík Björnsson, 53ja ára vinnumann í Bæ, hafi verið föður þess[744] en Magnús gefur í skyn að barnið hafi ekki verið rétt feðrað. Nafnið Konkordía, sem merkir samlyndi, mun komið úr Felsenborgarsögunum[745] en þær þýddi langafi Magnúsar Hjaltasonar, séra Þórður Þorsteinsson, prestur í Ögurþingum, úr dönsku á árunum kringum 1800.[746] Systir Gróu Sigurðardóttur á Gelti hét Konkordía en hún dó tæplega 24 ára gömul á Eyri í Önundarfirði haustið 1891 (sjá hér Eyri). Ætla má að Gróa hafi haft þessa systur sína í huga er hún valdi dóttur sinni nöfn en hvaðan hún hafði nafnið Vegmey er óljóst og kynni að hafa verið hennar eigin hugarsmíð.

Um Konkordíu Vegmey segir Magnús Hjaltason að hún hafi verið gott barn og efnilegt.[747] Þetta góða barn var hér á Gelti með móður sinni til fimm ára aldurs[748] en andaðist á sjöunda aldursári á Hafrafelli í Skutulsfirði.[749] Eftir Konkordíu Vegmey orti Magnús eitt af sínum mörgu erfiljóðum[750] og þess má minnast að bæði nöfnin, Konkordía og Vegmey, rötuðu inn í Ljós heimsins og Höll sumarlandsins hjá Halldóri Laxness.[751] Þar er reyndar líka Gróa sem sungið var um á kirkjugarðsballinu í Sviðinsvík – Haldið ún Gróa hafi skó … , en lag og ljóð kenndi Vegmey Hansdóttir ástvini sínum, Ólafi Kárasyni Ljósvíkingi.[752]

Konkordía Vegmey, sem fæddist hér á Gelti árið 1895 og var í fyrstu kölluð Eiríksdóttir, var síðar nefnd Hansdóttir. Þannig er nafn hennar skráð í manntalinu frá 1901 og Hansdóttur segir prestur hana hafa verið er hún burtkallaðist á Hafrafelli 8. mars 1902.[753] Hér á Gelti fæddist því og ól nær allan aldur sinn sú eina Vegmey Hansdóttir sem lífsanda dró fyrir daga nöfnu hennar í Höll sumarlandsins.

Gróa Sigurðardóttir frá Gelti, móðir Konkordíu Vegmeyjar, giftist síðar manni sem hét Jón Kristjánsson og áttu þau árið 1910 heima í húsinu númer 24 við Tangagötu á Ísafirði[754] en Gróa andaðist í Hafnarfirði árið 1936.[755]

Um annað heimilisfólk á Gelti í tíð Guðmundar Ásgrímssonar verður ekki rætt hér en minnt skal á að útilegumaðurinn Steindór Sigurðsson frá Botni var hér oft til lengri eða skemmri dvalar á árunum 1901-1909 (sjá hér Botn).

Þau Guðmundur Ásgrímsson og Guðrún Ólafsdóttir, kona hans, fóru frá Gelti vorið 1909 og lauk þá langri búskaparsögu Hallgríms Lárentíussonar og niðja hans er setið höfðu jörðina nær óslitið frá 1840 en Hallgrímur var langafi Guðrúnar.[756] Er Guðmundur Ásgrímsson fór frá Gelti var hann 59 ára gamall (sjá hér bls. 54) og hafði staðið hér fyrir búi í 28 ár.[757] Hann settist nú að í þorpinu á Suðureyrarmölum.[758] Þar tóku þau hjónin herbergi á leigu, vorið 1909, uppi á lofti í húsi Jóns Pálmasonar[759] þar sem nú er Aðalgata 36.[760] Þetta herbergi var aðeins hálf önnur rúmlengd og 2,5 metrar á breidd[761] svo húsplássið mátti vart minna vera. Í þessari kytru munu gömlu hjónin frá Gelti aðeins hafa hírst í nokkrar vikur eða örfáa mánuði því sumarið 1909 lét Guðmundur reisa nýtt íbúðarhús, sem enn stendur, við Rómarstíg á Suðureyri og er númer eitt við þá götu.[762]

Öll árin sem Guðmundur Ásgrímsson bjó á Gelti var sjór sóttur héðan á árabátum. Árið 1908 lagði hann hins vegar fé í kaup á mótorbát sem smíðaður var á Ísafirði á því ári.[763] Þann bát keypti Guðmundur í félagi við Helga Sigurðsson, ungan mann á Suðureyri, og varð Helgi formaður á honum.[764] Bátnum gáfu þeir nafnið Hallvarður súgandi og var hann frá því fyrsta gerður út frá Suðureyri.[765] Hann var með 4 hestafla Alphavél.[766] Árið 1913 áttu þeir félagar Hallvarð súganda enn.[767] Árið 1912 keypti Guðmundur annan mótorbát og þá í félagi við Sigurð E. Hallbjarnarson sem kvæntist nokkrum mánuðum siðar dóttur hjónanna frá Gelti.[768] Þessi bátur hét Aldan og var smíðaður í Önundarfirði.[769] Sigurður varð formaður á Öldunni.[770]

Síðustu árin sem Guðmundur Ásgrímsson lifði var hann lamaður.[771] Hann andaðist 68 ára gamall í spönsku veikinni 4. desember 1918.[772] Guðrún Ólafsdóttir, eiginkona Guðmundar, lifði lengur og fluttist með Ólöfu, dóttur þeirra, og eiginmanni hennar, Sigurði E. Hallbjarnarsyni, suður á Akranes árið 1927.[773]

Við brottför Guðmundar Ásgrímssonar og hans fólks frá Gelti vorið 1909 tóku hér við búsforráðum hjónin Guðmundur Brynjólfur Guðmundsson og María Júlía Gísladóttir en þau bjuggu hér aðeins í tvö ár.[774] Guðmundur Brynjólfur var frá Mýrum í Dýrafirði, sonur hjónanna Guðmundar Hagalíns Guðmundssonar og Rósamundu Oddsdóttur[775] sem hér er sagt frá á öðrum stað (sjá hér Mýrar). Hann kom að Gelti frá Haukadal í Dýrafirði og var þá liðlega þrítugur að aldri, fæddur 1876.[776]

María Júlía, eiginkona Guðmundar Brynjólfs, var fimm árum eldri en hann[777] en hún var dóttir Gísla ríka Oddssonar í Lokinhömrum í Arnarfirði og konu hans, Guðrúnar Guðmundsdóttur frá Mýrum[778] (sjá hér Lokinhamrar). Hjón þessi, sem hófu búskap á Gelti vorið 1909, áttu því bæði rætur á Mýrum, enda voru þau systkinabörn í báðar ættir.[779] Guðmundur Gíslason Hagalín rithöfundur, sem var systursonur Guðmundar Brynjólfs, segir að hann hafi numið verslunarfræði erlendis og stundað verslunarstörf og kaupmennsku lengst ævi sinnar.[780] Guðmundur Brynjólfur og María Júlía bjuggu þó í fáein ár á Hrafnabjörgum í Arnarfirði, á sínum yngri árum, og svo hér á Gelti.[781] Héðan fluttust þau til Bolungavíkur vorið 1911.[782] Þar var Guðmundur Brynjólfur kaupmaður um skeið og rak síðan verslun á Ísafirði til æviloka.[783] Þau hjónin gáfu að lokum mest af eignum sínum til smíði björgunarskútu fyrir Vestfirði.[784]

Vorið 1911 fór Guðmundur Guðmundsson frá Vatnadal að búa hér á Gelti og mun hafa keypt jörðina um svipað leyti.[785] Er Guðmundur hóf búskap á Gelti var hann 35 ára gamall og kona hans, Sigríður Magnúsdóttir frá Naustum í Skutulsfirði, var á sama aldri.[786] Frá Guðmundi og Sigríði hefur áður verið sagt lítið eitt í þessu riti en þau komu að Gelti frá Hraunakoti í Vatnadal og höfðu verið þar í húsmennsku um skeið (sjá hér Fremri-Vatnadalur, Hraunakot þar).

Guðmundur Guðmundsson og Sigríður Magnúsdóttir stóðu hér fyrir búi í 25 ár, frá 1911 til 1936 er sonur þeirra tók við forstöðu búsins (sjá Firðir og fólk 1900-1999, 456). Þau dvöldust áfram hér á Gelti allt til ársins 1952 en þá fór jörðin í eyði (sjá Firðir og fólk 1900-1999,456). Er Guðmundur og Sigríður hættu að búa voru öll börn þeirra komin upp en þau voru átta, fædd á árunum 1901-1919.[787] Búskaparsaga þessara hjóna verður ekki rakin hér því komið var fram á tuttugustu öld er þau tóku við jörðinni. Engu að síður skal þess getið að vorið 1915 varð Guðmundur að láta jörðina af hendi við Ásgeirsverslun upp í skuldir[788] og var því leiguliði næstu ár. Fyrir jörðina með húsum og 12 leiguám greiddi Ásgeirsverslun 1.800,- krónur[789] en Guðmundi var gert að greiða 180,- krónur á ári í jarðarafgjald.[790] Árleg landskuld var því einn tíundi hluti jarðarverðsins og sýnast það hafa verið afarkostir (sbr. hér bls. 18).

Skýringin á hinu háa afgjaldi liggur, að ætla má, í því að árið 1915 var allt verðlag að fara úr böndunum af styrjaldarástæðum en mælt á kvarða vísitölu vöru og þjónustu var almennt verðlag hérlendis nær þrefalt hærra 1918 en verið hafði 1915.[791] Vera má að útibússtjóri Ásgeirsverslunar á Suðureyri hafi búist við slíkum verðlagsbreytingum og hin háa krónutala í leigusamningnum skýrist fyrst og fremst af því. Upphæðin mun ekki hafa verið verðtryggð og fyrir Guðmund var samningurinn því orðinn viðunandi árið 1918.

Með útsjónarsemi og dugnaði tókst Guðmundi bónda Guðmundssyni að eignast ábýlisjörð sína á ný. Ekki hefur verið kannað hvenær frá þeim kaupum var gengið en í opinberri heimild frá árinu 1932 er hann sagður vera sjálfseignarbóndi.[792]

Valdimar Þorvaldsson segir fólkið á Gelti hafa búið í torfbænum, sem hér var áður lýst (sjá hér bls. 59-60), allt til ársins 1941 en tekur fram að húsið sem stóð utan við hann og var að hálfu úr timbri hafi verið tekið burt.[793] Valdimar nefnir ekki hvenær sú bygging var fjarlægð en líklegast er að Guðmundur Ásgrímsson hafi rifið húsið og farið með timbrið er hann fluttist burt héðan árið 1909 því hann var réttur eigandi þess.

Húsin sem stóðu hér árið 1916 voru baðstofa, geymsluhús með hjalli, fjós og tvö fjárhús.[794] Að sögn opinberra matsmanna, sem þá voru að störfum, var baðstofan á Gelti 12 x 5 álnir[795] eða tæplega 24 fermetrar. Svo má heita að þau mál komi heim við lýsingu Valdimars Þorvaldssonar á baðstofu Guðmundar Ásgrímssonar (sjá hér bls. 60). Matsmennirnir frá 1916 nefna hvorki eldhús né búr á Gelti[796] en líklegt er að þau hús hafi þó verið uppistandandi, að minnsta kosti eldhúsið frá dögum Guðmundar Ásgrímssonar.

Í manntali frá árinu 1940 er tekið fram að á Gelti búi fólkið í torfbæ og hann sagður vera 40-50 ára gamall.[797] Áður var þess getið að húsið sem hér stendur nú (1996) var byggt árið 1941. Það er ein hæð, byggt úr steinsteypu, og láta mun nærri að grunnflöturinn sé 6 x 8 metrar. Í þessu húsi var aðeins búið árið um kring í ellefu ár því jörðin fór í eyði árið 1952. Seinna mun fólk þó oft hafa dvalist hér um okkurt skeið að sumarlagi.

Gamli torfbærinn á Gelti stóð alveg rétt fyrir innan og ofan nýnefnt íbúðarhús (sjá hér bls. 4). Rústir hans sjást nú ekki lengur en allmargar útihúsatóttir standa enn hér og þar í túninu.

Aðalbjörn Guðmundsson, síðasti bóndinn á Gelti, fæddur 1912, teiknaði á sínum efri árum mynd sem sýnir hvar í túninu hin ýmsu útihús stóðu þegar hann var að alast upp.[798] Eldhúsið var þá áfast við baðstofuna og stóð fyrir utan hana eins og fyrrum hafði verið. Bæði húsin náðu jafn langt í átt til fjalls en baðstofan náði lengra í átt til sjávar og fram úr henni lágu göng að bæjardyrum.[799]

Skammt neðan við ytra hornið á eldhúsinu, á móts við bæjardyrnar, var lítið geymsluhús og þar beint fyrir neðan, spölkorn frá var hjallur.[800] Nokkru utar og að heita má beint út af bænum stóðu fjós, hlaða og lambhús í einni sambyggingu.[801] Fjósið var fyrir utan lambhúsið en hlaðan ofan við hinar byggingarnar tvær.[802] Ofan við ytra hornið á þessari hlöðu var smiðja, örskammt frá.[803] Öll þessi hús voru fyrir neðan bæjarlækinn en fyrir ofan hann og beint upp af bænum voru fjárhús og hlaða.[804] Svolítið innar og álíka langt frá læknum var annað fjárhús og fylgdi því líka hlaða.[805] Þar fyrir innan og neðan var fjárrétt en enn innar og nokkru ofar var sumarfjós.[806]

Yst í túninu er Hesthúshóll[807] og þar mun hesthús hafa staðið um lengri eða skemmri tíma. Innan við þann hól er Lambhúshóll, út og upp af bænum en bæjarlækurinn rennur inn og niður ofan við báða þessa hóla.[808] Hóllinn fram af bænum, nær sjávarbökkunum, heitir Hjallhóll en  hólarnir innan og ofan við bæinn, þar sem fjárhúsin stóðu, voru aðeins nefndir Hólar.[809] Þar nærri var stór þúfa með steini í og var um aldamótin 1900 nefnd Karlsþúfa.[810] Flatlendi í túninu innan við bæinn heitir Skriða og nær hún alveg niður á sjávarbakkana.[811] Líklegt má telja að örnefnið eigi rætur að rekja til hinnar miklu skriðu sem féll hér á túnið árið 1695 eða 1696 (sjá hér bls. 6 og 10). Innan við Skriðu og ofarlega í túninu eru tveir litlir hólar og heita þeir Stífinshólar.[812] Upp af þeim er Kvíarhóll.[813] Þar fyrir innan er Innsthúshóll og niður af honum Móur sem einnig voru nefndar Innstipartur.[814] Þar fyrir innan er Ból og síðan Bólmýrar.[815] Gamla Galtartúnið mun hafa náð inn undir kvíabólið sem í daglegu tali var nefnt Ból. Fyrir innan Bólmýrar og nokkuð ofarlega var stekkur og heitir þar Stekkjarkví.[816] Lítið eitt innar eru svo Rauðaskriða og Fornabæjarhryggur sem hér hefur áður verið sagt frá (sjá hér bls. 3-4).

Við höfum nú rölt um túnið á Gelti, skoðað tóttirnar og gömlu kvína. Skamma stund dokum við enn heima hjá bænum og lítum til fjalls. Bærinn tekur nafn af fjallinu Gelti sem rís úr hafi við ystu voga norðan Súgandafjarðar. Skjól sitt í norðanveðrum átti fólkið á Gelti fjallinu að þakka. Fjallsbrúnin ofan við bæinn liggur í um það bil 460 metra hæð yfir sjávarmáli en hún lækkar lítið eitt þegar utar dregur og allra yst er hæðin 445 metrar. Þar heitir Galtarnípa.[817] Frá brúninni beint upp af bænum eru aðeins um 1300 metrar út á Nípuna. Uppi á fjallinu er allmikið flatlendi sem breikkar þó til muna þegar komið er inn undir Norðureyrargil og fyrir botn Sunndals í Keflavík. Uppi á fjallinu, rétt innan við sjálfa Galtarnípu er flöt sem heitir Leikvöllur[818] eða Leikmannavöllur.[819] Á nafninu var gefin sú skýring að þarna hefðu fornmenn átt leika[820] en líklegast er að sú hugmynd hafi kviknað í kolli einhvers góðs sögumanns á síðari öldum og þá hafi nafnið orðið til. Kristján G. Þorvaldsson segir að Leikvöllur nái inn að Búðargili að vestanverðu og inn að Stúfsgili að norðanverðu.[821] Þessi afmörkun vallarins virðist þó vafasöm því gilin tvö eru alls ekki hvort á móti öðru[822] (sbr. hér Keflavík). Líklegast er að fyrir Stúfsgil hafi átt að standa Uppgöngugil því það er beint á móti Búðargili.[823]

Út að gilinu sem hér var síðast nefnt er aðeins hálfur kílómetri eða svo frá bænum á Gelti. Gilið klýfur hamravegginn sem mest ber á í fjallshlíðinni og er fært gangandi manni alveg upp á brún. Ætla má að hið mikla Búðargil sé kennt við fyrstu verbúðina sem reist var í Galtarlandinu en sú forna veiðistöð er mjög skammt fyrir utan gilið.

Hin sterklegu hamrabelti utan við Búðargil fanga hug allra sem hingað koma. Þau heita Bjarg[824] og er það réttnefni. Ofan við Bjarg er Breiðhilla.[825] Hún er allbrött og nær upp undir klettana sem liggja með brún fjallsins.[826] Breiðhilla nær fyrir allan Gölt.[827] Út við fjarðarmynnið er í Breiðhillu lóðréttur hryggur sem nær upp að brúnarklettunum og heitir hann Rönd.[828] Bjarg, sem fyrr var nefnt, nær frá Búðargili og út að Rönd.[829] Nokkuð fyrir innan Rönd er á Breiðhillu allstór bunga. Hún heitir Skakkarból.[830] Engin skýring á nafninu liggur fyrir. Upp á Skakkarból rak Níels Jónsson á Gelti fé sitt til beitar margan vetrardag á árunum 1831-1843 (sjá hér bls. 43-44). Þetta var þá nýjung og ekki er til þess vitað að aðrir hafi iðkað slíkt síðar.

Ofan við bæinn á Gelti er brött hlíð með klettum og grasgeirum en ofan við hana eru Ufsir.[831] Þær eru í álíka hæð og Breiðhilla, sem fyrr var nefnd, og ná út að Búðargili.[832] Grasteigurinn beint upp af bænum heitir Bæjarteigur.[833] Utar í hlíðinni er Fjósteigur og enn utar Músarteigur.[834] Uppi á Ufsunum og beint upp af Bæjarteig er hnúkur sem heitir Bæjarhnúkur en ofan við Fjósteig er Fjóshnúkur.[835] Innan við Bæjarhnúk er Bæjarlág en fyrir innan hana Svörtuklettar[836] sem hér hafa áður verið nefndir (sjá hér bls. 4). Bæjarlækurinn rennur niður innri jaðar Fjósteigs en Langhilla, sem er neðarlega í hlíðarklettunum, nær frá bæjarlæknum og inn fyrir Bæjarteig.[837]

Rétt neðan vð meginkletta hlíðarinnar og utantil við Fjósteig er stakur klettur sem heitir Karl [838] en fólkið sem síðast bjó á Gelti mun hafa kallað hann Hrútamæni.[839] Klettur þessi, sem blasir við frá bæjarhlaðinu, er augnayndi. Hann er hulinn jörð og grasi gróinn nema að neðan og myndar lítinn bala.[840] Utan við þennan klett er Músarteigur, sem fyrr var nefndur, og nær út að Sniðgili ytri.[841] Gil þetta í hlíðarklettunum, liggur eins og nafnið bendir til á ská og er nokkru innar en Búðargil. Milli þessara tveggja gilja liggur Lambhúshilla, neðst í klettabeltinu undir Ufsum.[842]

Við höfum nú rifjað upp helstu kennileiti í hlíð og fjalli utan og ofan við túnið á Gelti. Flest þeirra blasa við augum frá gamla bæjarhlaðinu. Senn er mál að tygja sig til brottferðar og kveðja tún og tóttir. Ferð okkar er heitið til Keflavíkur og ætlunin sú að fara fjörurnar. Þeir sem leggja leið sína milli þessara tveggja eyðibýla, Galtar og Keflavíkur, geta reyndar valið um þrjár leiðir og allar voru þær farnar á fyrri tíð.[843]

Ein þessara leiða lá yfir fjall og var þá farið um Galtarskarð sem er að heita má beint upp af bænum á Gelti.[844] Skarð þetta í fjallsbrúninni ofan við bæinn er klettalaust og leiðin talin fær með stórgrip[845] en harðsótt hlýtur slíkt ferðalag að hafa verið vegna brattans. Þeir sem fóru yfir fjallið með hest, naut eða kú hafa, að því er ætla má, sneitt hjá klettunum í hlíðinni upp af bænum og farið Hestaskarð sem er hér svolítið innar og hefur áður verið nefnt (sjá hér bls. 1 og 4). Úr Hestaskarði er leiðin greið upp í Galtarskarð og þaðan beint í norður. Spölurinn milli brúna er um það bil 400 metrar og sæmilega greiðfært niður í Keflavík fyrir lausgangandi fólk sé farið á réttum stað. Á vetrum var leiðin yfir fjall þó oft ófær vegna harðfennis og hálku.[846]

Önnur leið, sem stundum var farin frá Gelti út í Keflavík, lá um Breiðhillu.[847] Hillan liggur allhátt í fjallinu eins og fyrr var nefnt (sjá hér bls. 68) og um hana ætti enginn að fara nema vanir fjallamenn sem ekki láta sér bregða við hengiflug í klettum. Sagt er að bræður tveir úr Keflavík hafi eitt sinn farið með kálf norður Breiðhillu og þótti glæfraför (sjá hér Keflavík). Grenjaskyttur munu líka hafa lagt leið sína um þær slóðir, þegar nauðsyn bar til, en lágfóta á þar heimkynni og heitir Ytra-Gren.[848] Það er skammt fyrir utan Röndina sem hér hefur áður verið minnst á (sjá bls. 68).

Þriðja leiðin frá Gelti út í Keflavík og sú sem oftast var farin lá um fjörurnar norðan við mynni Súgandafjarðar en þær voru ýmist nefndar Galtarfjörur eða Keflavíkurfjörur.[849] Sú leið er þó ófær með hesta[850] og fremur ill yfirferðar gangandi fólki vegna stórgrýtis, einkum að vetrarlagi. Undir Geltinum er líka ein Ófæra, skammt fyrir norðan Galtartanga en þeir eru við fjarðarmynnið.[851] Við Ófæruna þarf að sæta sjávarföllum eða sneiða hjá henni og fara sem leið liggur neðst í hlíðinni fyrir ofan hana. Að sumarlagi er þar jafnan þokkalega fært vönu og vel skóuðu göngufólki en í vetrarhörkum, þegar landið er í klakaböndum, getur leiðin ofan við Ófæru orðið gjörsamlega ófær. Á fjörunni er hins vegar jafnan fært fyrir klettinn og oft um hálffallinn sjó en hér er brimasamt og í miklu hafróti þurfa menn að hafa vara á sér af þeim ástæðum. Skriður og grjótkast úr fjallinu geta líka orðið þeim sem Fjörurnar ganga til baga. Samt leggjum við nú af stað fyrr en varir en hyggjum þó fyrst að hinum fornu eyktamörkum fólksins á Gelti. Þau voru þessi: Dagmál – Ásfjall í landi Selárdals. Hádegi – Kleif í landi Suðureyrar. Nón – Jaðar innan við Kleifarskál í landi Staðar en á Gelti var Jaðar þessi nefndur Kleifarskálarhorn. Miðaftann – Slotsker (Slorsker), skammt norðan við Nestá á Sauðanesi. Náttmál – Breiðhilla í Geltinum.[852]

Leiðin frá Gelti og út að Galtartöngum, sem eru við mynni Súgandafjarðar, er um það bil einn og hálfur kílómetri en nærri lætur að spölurinn frá Töngunum að eyðibýlinu Keflavík sé þrír kílómetrar.

Gönguna til Keflavíkur hefjum við frá sjávarbökkunum neðan við bæinn en förum hægt yfir og gefum gaum að ýmsu sem á vegi okkar verður. Klettabakkarnir neðan við túnið eru víða um 20 metrar á hæð[853] og ófærir mönnum og skepnum nema á stöku stað. Skammt innan við bæinn er þó fært niður í fjöruna og þar leggjum við örlitla lykkju á leið okkar til að líta á Básana, er svo heita, en þeir eru í fjörunni niður af Fornabæjarhrygg[854] sem hér hefur áður verið nefndur (sjá hér bls. 3-4). Básarnir eru þrír. Yst er Stóribás, þá kemur Litlibás en innstur er Standabás[855] og dregur nafn af lögun klettanna sem marka honum svið.

Skammt fyrir utan Bása er Kerlingarbali[856] í bakkabrúninni eða við hana en utan við hann er í bökkunum sérkennilegt mannvirki, grafnir stallar með hleðslu fyrir ofan.[857] Kristján G. Þorvaldsson segir að um tíma hafi menn lent hér neðan við bakkana og þá hafi fiskifang verið þurrkað á þessum manngerðu stöllum.[858] Aðeins utar eru svo náttúrlegir klettastallar í sjávarbökkunum og heita þeir Stallar.[859] Mjög neðarlega í klettabökkunum undir túninu á Gelti er svolítil hilla er jafnan var nefnd Sjóarhilla.[860] Hillan nær út undir gamla lækjarfarveginn, þar sem bæjarlækurinn féll áður fram af bökkunum.[861] Þar rétt fyrir utan og að heita má beint niður af bænum er gjá í bakkana, grasi vaxin efst, og heitir hún Bæjargangur.[862] Niður af ytri túnjaðrinum er svo önnur gjá sem heitir Hundagjá.[863] Úr fjörunni geta menn gengið upp báðar þessar gjár en fyrir óvana eru þær torfærar og Hundagjá verri en Bæjargangur.[864]

Skammt utan við túnið lækka bakkarnir. Áður var frá því greint að hóllinn yst í Galtartúninu heiti Hesthúshóll en rétt utan við túnjaðarinn eru Tröllhólar.[865] Nafnið gefur til kynna að hér ættu að vera tveir eða fleiri hólar en svo virðist sem hóllinn sé bara einn. Mjög skammt fyrir utan Tröllhóla og innan við klettinn Karl (Hrútamæni), sem hér var áður nefndur (sjá bls. 69), er hryggur sem ber hið undarlega heiti Gyltungshryggur.[866] Bæði Tröllhólar og Gyltungshryggur voru taldir álagablettir og þar var algerlega bannað að bera ljá í gras.[867] Að sögn Kristjáns G. Þorvaldssonar var talið að þarna byggju álfar[868] en heimildarmaður hans um þetta var Jón H. Guðmundsson sem fluttist fárra mánaða gamall að Gelti með foreldrum sínum vorið 1881 og átti þar heima til 1909.[869]

Ein álfasaga frá Gelti komst í hendur Jóns Árnasonar og er prentuð í hinu mikla þjóðsagnasafni hans. Sú saga hljóðar svo:

 

Sami piltur [þ.e. Guðmundur nokkur sem árið 1819 var unglingur á Stóru-Ökrum í Blönduhlíð í Skagafirði] þá hann var smali á Gölti í Súgandafirði sofnaði hann á einum hól þá hann var hjá kindunum. Þá hann var sofnaður þótti hönum að sagt vera inn í hólnum: „Farðu í burtu af glugganum so ég sjái til; þú getur annars staðar verið so þú skyggir ekki á mig.” Hann þóttist segja: „Ei veit ég til að ég skyggi á þig né aðra.” Í þessu bili þótti hönum að stúlka ungleg kæmi út úr hólnum til sín og segja: „Stríddu ekki hönum föður mínum; þú hefur ekki gott af því að fara ekki í burt af glugganum”.

Hann sagðist þá hafa viljað velta sér í svefninum burtu úr þeim stað er hann á lá en þá hefði hún sagt: „Ei skaltu gjöra það strax; ég skal kenna þér eitt vers áður en þú ferð í burtu.” Hann þóttist segja að hann gæti ei lært það. Hún sagði: „Jú, þú getur víst lært það.” Hún mælir þá fram versið sem eftir fylgir:

 

Himneski friðarfurstinn hæsti,

frelsarinn sálna útvaldra,

gef ég þig lofi í göfgun stærstri

greitt meðan lifi um aldirnar;

en þegar lífið endist mitt,

ó, guð, tak mig í ríkið þitt.

 

En í því hún endaði versið vaknaði hann og sá hana ganga frá sér inn í hólinn; en hann stóð upp og kunni versið, gekk so þaðan og svaf ei oftar á þeim hól.[870]

 

Sögu þessa fékk Jón Árnason úr safni Ólafs Sveinssonar í Purkey á Breiðafirði en þar er ekki getið um föðurnafn sögumannsins, Guðmundar smala á Gelti.[871] Í handriti Ólafs sést þó að sami Guðmundur var árið 1819 smali á Stóru-Ökrum í Blönduhlíð í Skagafirði, þá kominn undir tvítugt.[872] Á fyrstu áratugum nítjándu aldar var harla lítið um Skagfirðinga í Súgandafirði eða Súgfirðinga í Skagafirði svo ljóst er að smali þessi hefur verið á einhverju sérkennilegu róli ef rétt er greint frá bústaðaskiptum hans í álfariti Ólafs í Purkey.

Hafi nafn Guðmundar smala á Gelti, sem ungur var árið 1819, komist inn í sóknarmannatöl prestanna á Stað í Súgandafirði kemur vart nokkur annar til greina en Guðmundur Ólafsson, sem fardagaárið 1821-1822 var hér vinnumaður hjá Hildi Kolbeinsdóttur, þá sagður 24 ára gamall.[873] Sá maður virðist aðeins hafa staldrað við í Súgandafirði það eina ár[874] og gæti því sem best hafa verið hlaupamaður norðan úr landi. Hafi nýnefndur Guðmundur Ólafsson verið búsettur í Skagafirði í desembermánuði árið 1816 kemur vart nokkur annar til greina en Guðmundur sá Ólafsson sem þá var vinnupiltur á Skúfsstöðum í Hólasókn, sagður 19 ára og fæddur á Fjalli í Kolbeinsdal í sömu sókn.[875] Árið 1845 mun þessi sami Guðmundur Ólafsson hafa verið kvæntur húsmaður á Miðsitju í Blönduhlíð í Skagafirði, sagður 48 ára og fæddur í  Hólasókn.[876] Ólafur í Purkey segir reyndar að Guðmundur smali, sem var á Gelti, hafi verið kominn undir tvítugt árið 1819 en í raun virðist hann þá hafa verið rétt liðlega tvítugur. Slík ónákvæmni með aldur fólks var á fyrri hluta nítjándu aldar svo alvanaleg að þvílíkt misræmi breytir nánast engu um líkurnar á því að það hafi verið Guðmundur Ólafsson frá Skúfsstöðum sem var smali á Gelti fardagaárið 1821-1822. Samt vitum við ekki með fullri vissu hvort það var hann sem smalaði hér og sofnaði þá á álfhól.

Við höfum nú setið um stund á Gyltungshrygg án þess að verða vör við neitt úr álfabyggðum en héðan er gott að horfa yfir fjörðinn og virða fyrir sér kirkjuna á Stað og allt land hins forna kirkjustaðar þar sem prestar Súgfirðinga sátu um aldir. Nærri lætur að fjörðurinn sé hér tveir og hálfur kílómetri á breidd, tæplega þó, og um 800 metrar frá lendingunni í Keravík heim að kirkjudyrum. Í blíðviðri hefur fólkið á Gelti því komist til kirkjunnar á einni klukkustund þó fara yrði á báti.

Skammt fyrir utan Gyltungshrygg er Búðargil, sem hér var áður nefnt (sjá bls. 68), og neðan við það Búðargilshryggur.[877] Graslendið milli þessara tveggja hryggja heitir Hvammur.[878]

Við röltum nú sem leið liggur út sjávarbakkana og komum brátt að litlu sjávarnesi sem ber nafnið Stöð.[879] Nærri lætur að Stöðin sé beint niður af hinu mikla Búðargili sem í hrikaleik sínum freistar til uppgöngu á efstu brún. Sú fjallganga bíður þó annars tækifæris. Klettabakkarnir ofan við fjöruna ná út undir Stöð en sandfjaran utan við hana heitir Skollasandur.[880] Framan við Stöðina eru sker sem munu ýmist hafa verið nefnd Staðarsker[881] eða Stöðvarsker.[882]

Frá Stöðinni er aðeins skammur spölur út í Galtarland sem heimafólk á Gelti nefndi jafnan bara Land eða Landið.[883] Þar sem Skollasand þrýtur tekur Landið við en nafnið á bæði við landið uppi á bökkunum og vörina undir þeim.[884] Í Galtarlandinu var löngum veiðistöð bændanna á Gelti en hér erum við stödd um það bil miðja vega milli bæjarins og Galtartanga sem eru alveg út við fjarðarmynnið. Spölurinn heiman frá bænum út í Land er um það bil 800 metrar og hingað var því auðvelt að ganga á 10 mínútum. Í Landinu eru sjávarbakkarnir mun lægri en neðan við túnið.

Á síðari hluta 18. aldar og fyrstu árum 19. aldarinnar voru Galtarmenn með báta sína hér í Landinu, reru héðan og lentu hér er þeir komu úr fiskiróðrum.[885] Allt breyttist þetta nokkru eftir 1800 og mun enginn bátur hafa róið frá þessari veiðistöð í allmarga áratugi. Á því skeiði var uppsátur Galtarmanna á Stekknum, sem hér hefur áður verið nefndur, en hann er um það bil miðja vega milli Galtar og Norðureyrar (sjá hér bls. 2-3). Í tiltækum heimildum verður ekki séð hvað olli þessari breytingu en alllíklegt má telja að menn hafi hrakist úr Landinu vegna hættu á snjóflóðum.

Fullvíst er að aðfaranótt 20. mars árið 1818 tók snjóflóð fjárhús á Gelti sem í voru 20 kindur og drápust þær allar.[886] Fjárhúsið sem snjóflóðið tók kynni að hafa staðið hér því fólk sem þekkti til á Gelti um aldamótin 1900 taldi sig vita að snemma á nítjándu öld hefði sá sem þá bjó á jörðinni átt beitarhús út í Landi.[887] Um snjóflóðahættu hér í Galtarlandinu þarf ekki að efast því þess konar flóð olli hér miklum spjöllum árið 1910 eins og brátt verður sagt nánar frá (sjá hér bls. 76-77).

Er komið var eitthvað fram yfir miðja nítjándu öld hófust róðrar að nýju frá þessum gamla lendingarstað og færðist þá útgerð Galtarbænda frá Stekknum og hingað út eftir.[888] Líklegt er að Ólafur Lárentíusson, sem bjó á Gelti frá 1863 til 1879, hafi haft hér uppsátur og fullvíst að tengdasonur hans, Guðmundur Ásgrímsson, sem hóf búskap á Gelti vorið 1881, byggði hér upp mikil mannvirki.[889] Um byggingar sem hér stóð á árunum kringum aldamótin 1900 ritar Valdimar Þorvaldsson svo: Þar [í Galtarlandinu] var á bökkunum verbúð og hjallur en undir bökkunum … söltunarhús (kró) og tvö naust, fyrir sexræðing og minna skip[890] (sbr. hér bls. 60-61)).

Naust Guðmundar Ásgrímssonar voru merkileg mannvirki og orð Kristjáns G. Þorvaldssonar benda til þess að þau hafi verið yfirbyggð.[891] Kristján greinir frá því að í Súgandafirði hafi bátum ávallt verið hvolft að kvöldi væri snjókoma og einnig ef ekki gaf á sjó.[892] Um aldamótin 1900  var Guðmundur Ásgrímsson eini maðurinn í Suðureyrarhreppi sem hafði annan hátt á en hann lét setja báta sína í naust og þurfti ekki að hvolfa þeim.[893] Kristján G. Þorvaldsson skýrir þetta nánar og ritar svo:

 

Hann [Guðmundur] átti tvo báta, mismunandi að stærð og hafði hann naust fyrir báða bátana. Var stærra naustið beint fyrir vörinni og var báturinn dreginn með spili beint inn í það en minni bátinn varð, þegar upp kom, að draga lítið eitt til hliðar inn í naustið. Var það gert með hjóltaug. Á vetrum var róðrarbáturinn ávallt dreginn í naust nema gott væri veður og von um að á sjó gæfi daginn eftir. Minni báturinn stóð í nausti allan veturinn og á sumrum voru þeir báðir í naustum, þann tíma sem ekki var róið. Þar urðu þeir ekki fyrir skemmdum af vindi eða sól. Ekki þekkja menn annað dæmi til þessa í Súgandafirði og fátítt mun það hafa verið víðar.[894]

 

Bræðurnir Kristján G. Þorvaldsson, sem þetta ritaði, og Valdimar Þorvaldsson voru báðir kunnugir á Gelti á árunum kringum aldamótin 1900 en í lýsingum sínum á mannvirkjum og tæknibúnaði hér í Galtarlandinu ber þeim ekki alveg nákvæmlega saman hvað varðar eitt atriði. Kristján segir að naustið fyrir stærri bátinn hafi verið beint fyrir vörinni og hann dreginn beint inn í það með spili.[895] Valdimar segir aftur á móti að á vetrum hafi skipið verið dregið með spili upp að bökkum og síðan með sama spili og hliðarblokkum tekið inn í naust til hliðar við vörina.[896] Illt er nú að skera úr um það hvort réttara muni vera og ber hér reyndar ekki ýkja mikið á milli. Hvort sem stærra naustið hefur nú verið beint fyrir vörinni eða til hliðar við hana kom það að góðum notum og Valdimar Þorvaldsson tekur fram að er komið var að landi úr vetrarróðrum hafi skipið strax verið sett í naust með öllum afla og veiðarfærum.[897] Ljóst er að hjá Valdimar, sem seinna gerðist bátasmiður, hafa hús og búnaður í Galtarlandinu vakið aðdáun er hann kom hér á unglingsárum. – Þannig var allt lagað til þæginda, ritar hann síðar, hús, hjallar, vatn og vegurinn heim.[898]

Í Jarðabókinni frá 1710 er lending sögð vera sæmileg á Gelti[899] en hér mun vera brimasamt í vestanátt.[900] Í Jarðabókinni segir að frá Gelti gangi skip ábúenda, svo mörg sem þeir fá við komið[901] en líklegt er að þau hafi mjög sjaldan verið fleiri en tvö.

Einar Jónsson, bóndi á Görðum í Önundarfirði, og skipverjar hans voru hér við róðra vorin 1884 og 1885[902] (sbr. hér Garðar). Sú staðreynd kynni að benda til þess að einn og einn aðkomubátur hafi stundum verið hér við vorróðra á síðustu áratugum nítjándu aldar. Að svo hafi verið er þó ekki alveg víst því Guðmundur Ásgrímsson á Gelti átti þá tvo báta og hugsanlegt er að Einar hafi verið formaður hjá honum á öðrum bátnum. Vorið 1899 var Markús Guðmundsson formaður á stærri bátnum sem Guðmundur á Gelti átti og reri héðan úr Landinu.[903] Markús átti þá heima á Læk, afbýli frá jörðinni Tungu í Valþjófsdal í Önundarfirði (sjá hér Tunga í Valþjófsdal) en hafði áður verið búsettur í Bæ í Súgandafirði (sbr. hér Bær).

Einn háseta Markúsar þetta vor var bróðir hans, Halldór Guðmundsson, sem þá var vinnumaður hjá ekkjunni Guðrúnu Sigurðardóttur í Bæ.[904] Í bréfi sem Halldór ritaði 50 árum síðar segir hann frá á þessa leið:

 

Það atvikaðist þannig þetta umrædda vor að Markús Guðmundsson, bróðir minn, hafði tekið að sér formennsku á öðrum báti Guðmundar en þá átti hann tvo bátana. Var annar þeirra sexróinn en hinn þriggja manna far. Var það hinn sexróni báturinn sem ákveðið var að Markús tæki að sér formennsku á. Vorum við feðgar, faðir minn og ég, ráðnir hásetar hjá Markúsi.

Það var á þriðja í páskum sem við feðgar fórum í verið. Þar á Gelti var gamall uppsátursstaður, nokkru fyrir innan Galtartanga. Hafði Guðmundur hlaðið þar skans, sem hann gat sett bátana upp á þegar brimaði. Þar átti Guðmundur einnig verbúð sem ætluð var þeim mönnum er komu til róðra á bátum Guðmundar.

Þennan dag, er við komum í verið, hafði Guðmundur, ásamt vinnumönnum sínum, farið á sjó og fiskað í soðið. Var það fyrsta verk okkar, er við komum þangað, annað en búa okkur aðsetur í búðinni, að matreiða handa okkur nýjan fisk. Það var hálfkaldleg aðkoma að setjast að í þessari vistarveru. Allir veggir voru óþiljaðir og aðeins raftur undir þakinu en enginn súð. Engin eldavél var í búðinni en í gafli hennar, sem sneri upp að háum bökkum fyrir ofan, var dálítið skot með hlóðum og þar var soðinn fiskur og hitað kaffi. Önnur eldtæki voru ekki til notkunar.[905]

 

Hér mun rétt að taka fram að í verbúðinni, sem Halldór segir frá, höfðust menn aðeins við á vorin en aldrei að vetrinum.[906]

Hásetar Markúsar formanns vorið 1899 voru, auk Halldórs bróður hans og Guðmundar Guðmundssonar, föður þeirra bræðra, Einar Hákonarson á Norðureyri, Jóhannes Guðmundsson, bóndi á Kvíanesi, og unglingspiltur sem hét Einar en föðurnafn hans nefnir Halldór ekki.[907]

Guðmundur bóndi Ásgrímsson, sem reist hafði flest eða öll mannvirkin er hér stóðu árið 1899, fluttist burt frá Gelti vorið 1909 og settist að í þorpinu á Suðureyrarmölum (sjá hér bls. 63). Hann hafði þá verið bóndi á Gelti í 28 ár. Þann 16. janúar 1906 hafði Guðmundur misst tvo hesta í snjóflóði[908] en í hans búskapartíð munu aldrei hafa orðið verulegar skemmdir á sjávarhúsunum sem stóðu hér út í Landinu. Þess var þó ekki langt að bíða að byggingar þessar féllu í rúst því snjóaveturinn mikla, 1910, kom snjóflóð sem hreinsaði þær allar í sjóinn.[909] Flóðið mun hafa fallið í febrúar eða fyrstu dagana í mars og í blaðinu Vestra, sem þá var gefið út á Ísafirði, er frá því sagt 5. mars með þessum orðum:

 

Á Gelti í Súgandafirði kom snjóflóð nýlega og tók tvö sjávarhús ásamt fiski sem geymdur var í þeim. Sömuleiðis er talið víst að það hafi brotið tvo báta er voru þar undir bökkunum en snjódyngjan var svo mikil að ómögulegt var að gæta að þeim.[910]

 

Guðmundur Guðmundsson, sem hóf búskap á Gelti árið 1911, mun hafa verið með bát sinn hér í Landinu og róið héðan til fiskjar allt til 1930. Það sagði Aðalbjörn, sonur Guðmundar, Jóhannesi syni sínum.[911] Rústirnar sem enn standa sýna að hér voru þó nokkur umsvif á fyrri tíð. Uppi á bökkunum eru nýlegar tóttir tveggja samliggjandi húsa og má telja fullvíst að þar hafi á dögum Guðmundar Ásgrímssonar staðið verbúðin sem áður var frá sagt og hjallur sá sem fyrr hefur verið nefndur (sjá hér bls. 74). Grunnflötur þessara húsa, beggja til samans, er um það bil 3 x 12 metrar. Fast við þessar byggingar hefur svo staðið lítill kofi. Við ytri enda rústanna sem nú var frá sagt eru svo tvær eldri tóttir frá hinu fyrra blómaskeiði í þessari veiðistöð. Ætla má að þar hafi staðið tvær verbúðir eða verbúð og hjallur. Með hliðsjón af því sem hér hefur áður verið sagt (sjá bls. 74) virðist liggja í augum uppi að hinar eldri tóttir séu leifar bygginga sem féllu úr notkun á fyrstu áratugum nítjándu aldar.

Undir sjávarbökkunum standa enn rústir beggja naustanna sem fyrr var frá sagt og eru þær beint fyrir neðan verbúðartóttina. Gamla vörin blasir líka við augum þeirra sem hingað koma, prýdd gulleitum sandi einn sumardag. Í miklu brimi barst stundum grjót í vörina frá skerjum sem liggja hér fyrir utan. Frá einum slíkum atburði segir Magnús Hjaltason í dagbók sinni 7. janúar 1899. Hann var þá barnakennari á Gelti og ritar á þessa leið:

 

Gott veður en mjög hart frost. Í einu af stórbrimunum í vetur bar afarstóran stein af skerjum utan í lendingarvörina hér á Gelti, í svokölluðu Landi, og stóð hann svo bagalega að engu skipi varð fram komið. Var því verið í dag að voga steininn burt svo vörin yrði skipgeng og tókst það með allmiklum erfiðismunum. Þessir voru við að koma steininum á burt: Guðmundur Ásgrímsson, bóndi á Gelti. Jón Hálfdán Guðmundsson (Ásgrímsson), Einar Hákonarson, húsmaður á Norðureyri, Kristján Sigurðsson, vinnumaður á Norðureyri, og Magnús Hj. Magnússon.[912]

 

Sjálfan sig nefnir Magnús þarna síðast en nafn sitt ritaði hann oft með þessum hætti, Magnús Hj. Magnússon, og vísar þá til þess að Hjalti, faðir hans, var sonur séra Magnúsar Þórðarsonar er lengst var prestur í Ögurþingum.

Um fjöruna í þessari fornu veiðistöð er gott að vafra og minnast þeirra sem hér komu glaðir að landi með góðan aflafeng og líka hinna sem lögðu héðan upp í sína hinstu för. Reyndar er aðeins vitað um einn bát sem héðan reri og týndist í hafi, hákarlaskip Jóns bónda Bjarnasonar á Gelti sem fórst sumarið 1800 og hér var áður frá sagt. Þar var hann sjálfur formaður en sex voru í áhöfninni og hlutu allir vota gröf (sjá hér bls. 25-26). Hundrað árum síðar töldu ýmsir sig enn sjá svipi þeirra reika hér um hús og hleinar og voru kallaðir Spöndumenn.[913] Vera má að nafn hákarlaskipsins sem sökk á löngu liðnu aldamótasumri í saltan mar hafi einmitt verið Spanda.

Ekki sá Jón Bjarnason sín eigin forlög fyrir er hann stóð hér í fjörunni, ríkismaður á fimmtugsaldri, einn þorradag árið 1796 og hugðist koma af sér sveitarómaga. Þá tókst verr til en skyldi. Niðursetningur þessi hét Jón Torfason og var orðinn aldinn að árum.[914] Árið 1789 er hann sagður sjötugur að aldri og var þá sveitarmaður hjá Kristófer Kolbeinssyni á Gelti.[915] Í sóknarmannatali frá því ári tekur séra Þorsteinn Þórðarson fram að vesalingur þessi sé rænulítill.[916] Næsta ár var Jón gamli Torfason á Vandræðastöðum, hjáleigu frá prestssetrinu Stað, og fékk þá hjá prestinum þessa einkunn: góðlátlegur – fáráður nú, þó fyrri vel að sér.[917] Vorið 1795 var sami hreppsómagi á Gilsbrekku, ei með fullu ráði en var áður vel að sér, skrifar prestur.[918] Frá Gilsbrekku mun öldungur þessi hafa verið sendur að Gelti og svo fór að hann burtkallaðist hér í Galtarlandinu 13. febrúar 1796, þá hann skyldi færast frá Gelti … yfir fjörðinn eins og prestur orðar það.[919] Sálnahirðirinn tekur fram að á sínu banadægri hafi hreppsómaginn Jón Torfason verið 78 ára og áður lengi veikur af sóttarfari og elliburðum.[920]

Þennan sjúkling átti að flytja héðan burt árið 1796 en annar fársjúkur maður var lagður hér í land vorið 1899. Báðum var þeim stefnt í eina og sömu vörina, þá sem enn gefst kostur á að skoða hér í Galtarlandi. Sá sem hér var fluttur í land 9. maí 1899 var háseti af þilskipinu Gunnari, er Ásgeirsverslun á Ísafirði gerði út, og bað skipstjórinn húsráðendur á Gelti að ala önn fyrir honum uns úr rættist.[921] Sjómaður þessi bar nafnið Jón Jónsson og reyndist vera með lungnabólgu.[922] Talið var að hann væri Sunnlendingur[923] og má ætla að hann hafi sjálfur gefið það til kynna.

Halldór Guðmundsson, sem hér var nýlega nefndur, var við róðra úr Galtarlandinu þetta vor og hélt til í verbúð Guðmundar Ásgrímssonar. Um líðan sjúklingsins og framvindu mála ritaði Halldór síðar á þessa leið:

 

Hann var mjög þungt haldinn og virtist taka út miklar þjáningar. Guðmundur [Ásgrímsson] sá að nauðsyn bæri til að leita læknishjálpar handa honum. Nú var lítið um skrifandi fólk á Gelti þá en þar sem enginn læknir var nema á Ísafirði þurfti að senda sjúkdómslýsingu til hans. Ég var beðinn að skrifa lýsingu af sjúkdómi mannsins og varð ég fúslega við þeirri bón. Sá ég þá að maðurinn var stórþjáður og það svo að hann varð að tala með hvíldum. …

Skömmu eftir að hann hafði fengið meðulin var ég eftir ósk mannsins beðinn að koma heim að Gelti og skrifa bréf fyrir sjúklinginn Hann bað mig að skrifa tvö bréf, annað til eiginkonu hans, hitt til sóknarprestsins í prestakalli því sem hann tilheyrði. Það leyndi sér varla að maðurinn átti skammt ólifað. Svo mjög var af honum dregið að hann varð að taka sér miklar hvíldir frá að segja mér efni bréfanna.

Þegar kom til þess að skrifa nafn hans undir bréfin brá mér heldur en ekki í brún er hann lét mig vita að það væri ekki hans rétta nafn sem hann gengi undir. Með öðrum orðum, hann héti ekki Jón Jónsson eins og hann þóttist heita heldur væri sitt rétta nafn Stefán Valdason og það nafn skyldi ég skrifa undir bréfin. Ég varð sem steini lostinn að heyra þessa játningu mannsins. Og nú spurði maðurinn mig, hvort ég vildi lofa sér því að segja engum nafn sitt ef hann lifði. … Ég spurði hann á hvern hátt hann byggist við að geta leynt hinu rétta nafni sínu þar sem nú væri búið að skrifa það undir tvö bréf. Hann svaraði því til að ef sér batnaði og hann héldi lífi, þá væri það ásetningur sinn að ónýta þessi bréf og skrifa önnur í þeirra stað, með öðrum orðum þessi bréf yrðu aðeins send að honum látnum.

Eftir allmikla íhugun tók ég þann kostinn að lofa honum að þegja. Varð hann sýnilega ánægður og bað guð innilega að blessa mig og launa mér fyrir þessa góðvild mína við sig. Að þessu loknu lokaði ég bréfunum og skrifaði utan á þau eftir hans fyrirsögn. En það er af manninum að segja að eftir tæpan sólarhring frá því ég skrifaði fyrir hann bréfin var hann liðið lík.[924]

 

Bréfin mun Halldór hafa skrifað 18. maí því síðustu andvörpin tók Stefán Valdason 19. maí.[925] Tveimur dögum síðar ritaði Hannes Hafstein, sýslumaður á Ísafirði, Jóhannesi Hannessyni, hreppstjóra Súgfirðinga bréf og segir þar meðal annars.

 

Með því að grunur leikur á því að veikur sjómaður frá skipinu Gunnari, sem fyrir nokkru síðan var lagður upp á Gelti undir nafninu Jón Jónsson og sem nú kvað vera dáinn, hafi að réttu lagi heitið Stefán Valdason og verið sá sami er í síðast liðnum febrúarmánuði var dæmdur í betrunarhúsvinnu fyrir skjalafals gagnvart Landsbankanum en strauk frá Straumfirði, þá skal ég hér með skora á yður, herra hreppstjóri, fyrir mína hönd að skoða líkið og senda föt hans hingað.

Eftir lýsingu sýslumannsins í Borgarfjarðarsýslu var Stefán Valdason 35 ára, meðalmaður á hæð eða tæplega það, grannur, með skoljarpt hár, fremur dapur eða raunalegur á svip, stilltur og hæglátur í viðmóti, hafði áður skegg um munn og vanga, ljósleitt eða gulleitt en hafði líklega rakað það af sér um miðjan fyrra mánuð.

Þegar hann fór um Dalasýslu á vesturleið hingað var hann í móleitum (köflóttum) buxum og vesti og í dökkum jakka en hafði í fórum sínum annan jakka, samlitan buxunum og vestinu. Oturskinnshúfu hafði hann á höfði.[926]

 

Jóhannes Hannesson, hreppstjóri í Botni, fékk bréf sýslumanns í hendur að morgni þriðjudagsins 23. maí.[927] Hann bjó sig þá hið skjótasta til ferðar út að Gelti og með honum fór Magnús Hjaltason, skáldyrðingur og dagbókarritari, sem þá var að hálfu vinnumaður hjá hreppstjóranum[928] (sbr. hér Botn). Þeir fóru á bát út að Norðureyri en gengu þaðan að Gelti.[929] Jóhannes skoðaði líkið og föt hins látna að viðstöddum tveimur vottum, þeim Magnúsi Hjaltasyni og Guðmundi Ásgrímssyni, bónda á Gelti.[930] Eins og vænta mátti passaði lýsing sýslumanns á sakamanninum og fatnaði hans alveg nákvæmlega og ekki um að villast þegar bréfin tvö höfðu verið rifin upp og sjá mátti að undir þau bæði hafði verið ritað nafnið Stefán Valdason.[931]

Fáum dögum síðar var strokumaðurinn jarðsettur í gamla kirkjugarðinum á Stað og er hann síðasti maður sem þar fékk leg að tveimur kornabörnum frátöldum (sjá hér Staður). Fyrir útförinni stóð Guðmundur Ásgrímsson á Gelti á hinn heiðarlegasta og prýðilegasta hátt [932] en séra Janus Jónsson í Holti jarðsöng. Í prestsþjónustubókinni tekur hann fram að Stefán Valdason hafi dáið 19. maí og bætir við:

 

… strokumaður sá er falsaði út lán úr Landsbankanum. Var lagður á land á Gelti, af fiskiskipi, „Gunnari” frá Ísafirði, veikur og dó þar. Nefndist Jón Jónsson en sannaðist hver maðurinn var. Lét skrifa tvö bréf fyrir andlátið með réttu nafni sínu.[933]

 

Í blaðinu Þjóðviljanum má sjá að Stefán Valdason hafði verið dæmdur í héraði í eins árs betrunarhúsvinnu og til að greiða bankanum 850,- krónur.[934] Einnig var honum gert að greiða málskostnað. Í þessari frétt blaðsins, sem birtist 11. mars 1899, er Stefán sagður vera frá Kóranesi á Mýrum.[935] Sú staðhæfing gefur reyndar svolítið villandi mynd af uppruna hans en verri er þó bókun séra Janusar Jónssonar í Holti sem segir hinn látna strokumann hafa verið úr Hnappadalssýslu.[936]

Við fljótlega athugun kemur þetta í ljós. Stefán Valdason var fæddur 22. ágúst 1863 í Litlabæ í Álftanessókn á Mýrum en foreldrar hans, hjónin Valdi Halldórsson og Guðrún Bjarnadóttir, voru þar um skeið við búskap.[937] Haustið 1870 var Stefán sjö ára gamall hjá foreldrum sínum á bænum Vogalæk í fæðingarsókn sinni en faðir hans var þá daglaunamaður.[938] Ólíklegt má kalla að daglaunin hafi nægt til að sjá fyrir konu og börnum og svo mikið er víst að þegar Stefán var fermdur vorið 1878 hafði hann dvalist um alllangt skeið hjá hjónunum Oddi Sigurðssyni og Höllu Jónsdóttur, er þá bjuggu á kirkjustaðnum Álftanesi, því presturinn segir þau vera fósturforeldrar hans.[939] Við ferminguna fékk drengurinn þessa umsögn hjá presti: Kann allvel og skilur, siðlegur.[940]

Á sínum unglingsárum og fram undir þrítugt var Stefán Valdason löngum vinnumaður á þessum sama bæ, Álftanesi á Mýrum,[941] en vorið 1895 var hann orðinn vinnumaður í Kóranesi á Mýrum og kvæntist þá Guðrúnu Guðmundsdóttur sem var vinnukona þar.[942] Annar tveggja svaramanna við þessa hjónavígslu var Ásgeir Eyþórsson, er þá rak verslun í Kóranesi, en hann var síðar verslunarstjóri í Straumfirði á Mýrum sem er skammt frá Kóranesi.[943] Ásgeir þessi var faðir Ásgeirs Ásgeirssonar, síðar forseta Íslands,[944] sem fæddist í Kóranesi 13. maí 1894.

Er Stefán Valdason gekk í hjónaband var hann 31 árs að aldri en brúðurin var sjö árum yngri.[945] Fardagaárið 1895-1896 bösluðu Stefán og Guðrún, kona hans, við búskap í Álftártungu á Mýrum og þar fæddist eldri sonur þeirra 5. apríl 1896.[946] Honum var gefið nafnið Valdimar.[947] Yngri sonur Stefáns og Guðrúnar, er skírður var Guðmundur, fæddist á Grímsstöðum í Álftártungusókn á Mýrum 15. janúar 1898.[948] Stefán var þá vinnumaður á Grímsstöðum en eiginkonan taldist vera húskona þar.[949] Svo virðist sem þau hafi flosnað upp frá búskap í Álftártungu og líklega verið komin að Grímsstöðum þegar Stefán fékk þá flugu í höfuðið að reynandi væri að leika á stjórnendur Landsbankans. Sú freisting leiddi hann á feigðarbraut eins og hér hefur áður verið rakið. Ekkja Stefáns Valdasonar, sem hét fullu nafni Guðrún María Guðmundsdóttir, var haustið 1901 leigjandi og lausakona á Langárfossi á Mýrum og hafði hjá sér annan drengjanna tveggja en hinn var þá niðursetningur á Álftanesi þar sem faðir hans hafði alist upp.

Þegar ellefu dagar voru liðnir frá andláti Stefáns Valdasonar voru hinar fátæklegu eigur sem fylgdu honum í land á Gelti skrifaðar upp og metnar til verðs.[950] Uppskrift dánarbúsins, sem enn er varðveitt, sýnir að sýslumaður hefur haft réttar upplýsingar um höfuðbúnað strokumannsins því meðal fataplagganna, sem hann lét eftir sig, var oturskinnhúfa, talin 50 aura virði.[951] Hann reyndist líka hafa átt tvo jakka, báða forna, þrennar buxur, einar þeirra nýlegar, og tvö vesti sem bæði voru forn.[952] Önnur fataplögg voru fimm skyrtur, einar nærbuxur, fimm pör af sokkum, sex pör af vettlingum, þrír hálsklútar, tveir vasaklútar, mórauð peysa og tvennir leppar.[953] Eina skó með fjöðrum reyndist strokumaður þessi líka hafa átt og klossa, ærið forna.[954]

Úr fórum hans kom líka vasabudda, virt á 25 aura, vasahnífur forn, leðuról, sem einnig var forn, og sálmabók forn.[955] Bókin var virt á eina krónu.[956] Svolítið af skonroki og bakarabrauði átti hann líka að bíta í til hinstu stundar og nær þrjú kíló af smjörlíki.[957] Upp úr skjóðu hins látna kom líka eitt kíló af sykri, hálft kíló af kaffi og 250 grömm af kaffibæti. Allt var þetta skrifað upp og virt, að sjóhatti Stefáns meðtöldum, á tæplega 20,- krónur.[958] Allar þessar eigur hins látna sakamanns voru boðnar upp á Suðureyri þann 4. júní sama ár.[959]

Svo virðist sem Stefán hafi tekið hlífðarföt út í reikning hjá Ásgeirsverslun á Ísafirði er hann réð sig í skiprúm á Gunnari því að honum látnum var Árna Jónssyni, verslunarstjóra Ásgeirsverslunar, send olíutreyja þessa sjómanns, svo og olíubuxur, olíuermar og skæðaskinn sem með fylgdi. Ekkert af þessu var metið til verðs við uppskrift dánarbúsins og ekki heldur vasaúr með festi sem sent var beint til sýslumanns.[960]

Á tuttugustu öldinni var enginn framandi maður lagður hér dauðvona í land, hvorki undir réttu nafni né röngu, og til þess mun varla koma á næstunni. Þess er hins vegar vert að minnast að hér við ystu strendur voru ærið oft skip framandi þjóða á fyrri tíð og vera má að á 17. og 18. öld hafi einn helsti kosturinn við að búa á Gelti verið sá hversu auðvelt var að stunda launverslun á slíkum stað.

Við göngum nú upp úr fjörunni, leggjumst í grasið hjá búðartóttinni og horfum til hafs en sjáum ekki lengur seglin hvít. Klettaveggurinn hér uppi í hlíðinni, Bjargið sem svo heitir og er utan til við Búðargil, breytist hins vegar lítt þó aldir renni. Það er gamalt og mun standa hér lengi enn. Til þess er gott að vita. Fram undan bíður okkar örðug ganga fyrir Gölt og meiningin er að ná til Keflavíkur fyrir sólsetur. Við stöndum því á fætur, lítum enn einu sinni til hamranna í Bjarginu mikla en höldum svo af stað. Neðan við Bjarg er hlíðin grasi gróin, enda var brekkan upp af Galtarlandinu nefnd Breiður[961] og mun merkingin vera grasbreiður. Eitthvert reik mun þó hafa komist á þetta nafn í munni fólks á síðari tímum því stundum var það gert að karlkynsorði og á Uppdrætti Suðureyrarhrepps stendur Breiðar.[962] Úr Galtarlandinu er örskammt út að Níelsarsteini en hann er sá stærsti af öllum hinum mörgu steinum á sjávarbökkunum utantil við Landið. Hjá steini þessum, sem áður var frá sagt (sjá hér bls. 43-44), gerum við stuttan stans en skundum síðan út bakkana og nemum ekki staðar fyrr en við Galtartanga þar sem ströndin sveigir til norðurs við mynni Súgandafjarðar. Hér fikrum við okkur ofan í fjöruna því um hana liggur eina færa leiðin hér neðra frá Töngunum að Stekkjargili í landi Keflavíkur (sjá hér Keflavík).

Neðarlega í fjallshlíðinni upp af Galtartöngum er Rauðivöllur sem ber nafn af lit sínum.[963] Norðan við Tangana tekur við Galtarvík og nær hún alla leið að Bustarurð en svo heitir urðin mikla undir Gelti þar sem fjallið gengur lengst fram í vesturátt.[964]

Skammt fyrir norðan Galtartanga komum við að Jaðri en það er röndin sem sér á þegar horft er frá Bustarurð í átt að Töngunum.[965] Rönd þessi liggur á ská upp klettahlíðina hér fyrir ofan og er efri endinn á Jaðri mun norðar en sá lægri.[966] Fyrsti básinn sem við komum að á göngu okkar norður fjörurnar undir Gelti heitir Grútarbás og sá næsti Ófærubás.[967]          Norðan við hann er Ófæra,[968] klettur sem skagar fram í fjöruna. Þegar lágsjávað er og um hálffallinn sjó er leiðin greið framan við Ófæruna en á flæðinni fellur hér sjór í berg og verða menn þá að klöngrast upp í hlíð vilji þeir komast leiðar sinnar. Þar er reyndar bærilega fært á sumardegi fyrir þá sem vanir eru göngum í brattlendi en í vetrarhríðum, hálku og snjó kárnaði stundum gamanið.

Magnús Hjaltason fór hér um í fyrsta sinn þann 17. apríl 1896 og segir hann svo frá því ferðalagi:

 

Ég kom við á Gelti hjá Guðmundi bónda Ásgrímssyni. Lánaði hann mér fylgd norður fyrir Ófæru undir Geltinum en síðan fór ég einn til Keflavíkur. Var það hinn skelfilegasti vegur er ég hafði farið. Brimið fossaði upp að hliðinni á mér á annan veginn en ofanfallið (ís og grjót) dundi niður með öxlinni á mér hægra megin. Urðirnar voru fullar af snjó og botnlaus ófærð í þeim. Ég orti vers á leiðinni sem er tapað. Ég kom í Keflavík klukkan að ganga til fjögur eftir hádegi. Undraði fólk þar að ég skyldi komast heill undan Geltinum í því ofanfalli sem þá var og var talið á Guðmund á Gelti fyrir að hann skylda sleppa mér ókunnugum þá á fjörurnar, slíka glæfraför.[969]

 

Tæplega tveimur árum síðar, 7. febrúar 1898, fór Magnús aftur þessa sömu fjöruleið.[970] Guðmundur Ásgrímsson, bóndi á Gelti, fylgdi honum þá sjálfur nokkuð á leið en um þetta ferðalag og viðtökurnar í Keflavík kemst Magnús svo að orði í dagbók sinni:

 

Bærilegt veður. Fór ég frá Gelti til Keflavíkur. Guðmundur Ásgrímsson, bóndinn á Gelti, fylgdi mér norður á Ófæru og seig ég þar niður í snæri er Guðmundur hafði með því eigi var hægt að ganga fyrir framan sökum brims og svo af því að flóð var. Ég fann föður minn í Keflavík og gisti ég þar að Pálma bónda um nóttina við besta beina. Kvað ég Hálfdánarrímur mínar um vökuna og þótti skemmtun góð.[971]

 

Þann 16. desember 1899 fór Magnús frá Norðureyri út í Keflavík við annan mann.[972] Með honum var að því sinni Einar Hákonarson er þá átti heima á Norðureyri.[973] Magnús greinir frá ferðinni í dagbók sinni og segir: Var Ófæran vond. Höfðum við með okkur færi og sigum.[974]

Við höfum nú fylgt í fótspor Magnúsar en sluppum með góðu móti fyrir Ófæruna því nú er ládauður sjór og varla hálffallið að. Skammt norðan við Ófæru komum við að Kletti, sem svo heitir, og stendur hann við sjóinn.[975] Norðan við Klett er allmikið gil í fjallshlíðinni og heitir Jaðargil, kennt við Jaðarinn sem fyrr var nefndur.[976]

Hér við gilkjaftinn erum við enn í Galtarvík en á henni miðri er umflotinn klettur sem aldrei fer í kaf og heitir Strýta.[977] Vestar er Flaga, grynning sem kemur sjaldan upp úr sjó, en norðan við Strýtu er Straumsker sem kemur upp á hverri fjöru.[978]

Nú styttist óðum spölurinn að Bustarurð, sem sýnir sig hér fram undan, en öll leiðin frá Galtartöngum að Urðinni er tæplega einn kílómetri. Vestan við Bustarurð komum við að litlum klettabás er tekur nafn af henni og heitir Bustarurðarbás.[979] Í honum var Magnús Hjaltason hætt kominn í einni af sínum mörgu ferðum um fjörurnar undir Gelti. Það var 4. mars aldamótaárið 1900 en hann var þá á leið til Keflavíkur ásamt þremur öðrum manneskjum.[980] Unnusta Magnúsar, Guðrún Anna Magnúsdóttir, var í för með honum að þessu sinni og einnig þau Guðný Sigríður Magnúsdóttir, vinnukona í Keflavík, og Guðmundur Pálmason, sem þá var á tólfta ári, sonur Pálma Lárentíussonar, bónda í Keflavík.[981] Sjálfur segir Magnús frá ferðinni og ritar á þessa leið:

 

Var hiti mikill um daginn og því ofanfall úr Geltinum og þegar við komum í svonefndan Bustarurðarbás datt allmikið af grjóti og kom steinn einn allstór á hægri fótinn á mér og slasaðist ég svo að bágt var um að komast norður en þetta var á miðri leið. Þó var tekið af mér sem ég bar. Var guðsmildi að við öll biðum ekki stórslys eða bana af tilfelli þessu. Unnusta mín varð ákaflega hrædd sem von var til. Hún gisti í Keflavík.[982]

 

Meiðsli Magnúsar voru reyndar ekki alvarleg því næsta dag fylgdi hann unnustu sinni til baka vestur að Gelti[983] en ætla má að þau hafi verið hætt komin.

Þessi alfaraleið milli bæjanna Galtar og Keflavíkur var jafnan talin einhver hinn torsóttasti vegur yfirferðar sem og mjög hættusamur[984] því á aðra hönd var brimið en á hina skriður eða grjótkast úr fjallinu.[985] Kristján G. Þorvaldsson segir árið 1949 að kunnugt sé um tvo menn er slasast hafi á ferð um fjörur þessar (sjá hér Keflavík) sem ýmist voru nefndar Keflavíkurfjörur[986] eða Galtarfjörur.[987]

Við leggjum nú í Bustarurð sem er ærið stórgrýtt og tefur fyrir þeim sem hraða vilja för sinni. Margir töldu að landamerki Galtar og Keflavíkur lægju um urðina en aðrir sögðu þau vera við Rauðstein, sem stendur í bökkunum rétt norðan við hana,[988] Hjá honum nemum við staðar og köstum mæðinni því göngu okkar um land fólksins sem bjó á Gelti lýkur hér. Næst liggur fyrir að skoða Keflavík.

 

 

 

 

 

 

– – – – – – – – – – o o o o o – – – – – – – – – –

[1] Örnefnastofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 152.

[2] Sama heimild, 150.

[3] Uppdr. Suðureyrarhrepps eftir Jón Hróbjartsson. Eftirpr. af örn.korti frá því um 1930, gefin út 1983.

[4] Örn.st. / Kr. G. Þorv. 1949, 150.

[5] Sama heimild, 151.

[6] Sama heimild, 150.

[7] Uppdr. Suðureyrarhrepps eftir Jón Hróbjartsson. Eftirpr. af örn.korti frá því um 1930, gefin út 1983.

[8] Örn.st. / Kr. G. Þorv. 1949, 150.

[9] Sama heimild, 151.

[10] Sama heimild, 149.

[11] Sama heimild.

[12] Örn.st. / Kr. G. Þorv. 1949, 149.

[13] Sama heimild, 151.

[14] Sama heimild.

[15] Sama heimild, 149.

[16] Sama heimild, 152.

[17] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[18] Uppdr. Suðureyrarhrepps eftir Jón Hróbjartsson. Eftirpr. af örn.korti frá því um 1930, gefin út 1983.

[19] Örn.st. / Kr. G. Þorv. 1949, 149.

[20] Sama heimild.

[21] Sama heimild, 11.

[22] Sama heimild, 147-148.

[23] Örn.st. / Kr. G. Þorv. 1949, 11 og 148-149.

[24] Sama heimild.

[25] Sama heimild, 149.

[26] Sama heimild.

[27] Sama heimild, 151.

[28] Sama heimild, 152.

[29] Sama heimild.

[30] Uppdr. Suðureyrarhrepps eftir Jón Hróbjartsson. Eftirpr. af örn.korti frá því um 1930, gefin út 1983.

[31] Örn.st. / Kr. G. Þorv. 1949, 151.

[32] Sama heimild, 152.

[33] Sama heimild.

[34] Sama heimild.

[35] Sama heimild.

[36] Sbr. Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns VII, 138.

[37] Örn.st. / Kr. G. Þorv. 1949, 152.

[38] Sama heimild.

[39] Uppdr. Suðureyrarhrepps eftir Jón Hróbjartsson. Eftirpr. af örn.korti frá því um 1930, gefin út 1983.

[40] Örn.st. / Kr. G. Þorv. 1949, 151.

[41] Sama heimild.

[42] Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 52.

[43] Jóhannes Aðalbjörnsson. – Viðtal K.Ó. við hann 16.8.1995.

[44] Jarðab. Á. og P. VII, 138.

[45] Kristján G. Þorvaldsson 1951, 44 (Árbók F.Í.).

[46] Örn.st. / Kr. G. Þorv. 1949, 146.

[47] Sama heimild, 146 og 158.

[48] Sama heimild, 145.

[49] Sóknalýsingar Vestfjarða II, 116.

[50] Jarðab. Á. og P. VII, 138.

[51] Sama heimild.

[52] Rtk. Jarðabækur V. 16, Ísafj.sýsla 1805.

[53] Sama heimild.

[54] Sama heimild.

[55] Sama heimild.

[56] Sama heimild.

[57] Jarðamat 1849-1850, Ísafj.sýsla.

[58] Sama heimild.

[59] Fasteignamatsskjöl. Gjörðabók undirmatsnefndar í V-Ís., löggilt 26.3.1919.

[60] Sama heimild.

[61] Lbs. 27364to, Magnús Hjaltason, bls. 62.

[62] Rtk. Isl. Journ. 9, nr.34, bún.sk. 1791. Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1, bún.sk. 1821, 1827, 1830, 1834.

[63] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1, bún.sk. 1834 og 1837.  VA III, 408, bún.sk. 1840.

[64] Fasteignamatsskjöl. Gjörðabók undirmatsnefndar í V-Ís., löggilt 26.3.1919.

[65] Sama heimild.

[66] Sama heimild.

[67] Fasteignabók 1921.

[68] Sama heimild.

[69] Jarðab. Á. og P. VII, 128-139.

[70] Fasteignamatsskjöl. Gjörðabók fasteignamatsnefndar í V-Ís., löggilt 9.3.1916, bls. 1-8 og 256.

[71] Fasteignabók 1932.

[72] Sama heimild.  Jarðab. Á. og P. VII, 138.

[73] Fasteignabók 1932.  Jarðab. Á. og P. VII, 128-139.

[74] Ný jarðabók fyrir Ísland, 1861.

[75] Kristján G. Þorvaldsson 1951, 44. (Árbók F.Í.).

[76] Fasteignabók 1932.

[77] Manntal 1703.  Jarðab. Á. og P. VII, 138.

[78] Bændatöl og skuldaskrár 1720-1765, Ísafj.sýsla um 1735, eftirrit.  Jarða- og bændatöl 1752-1767,

Ísafj.sýsla 1753.  Manntal 1762.

[79] Sóknarmannatöl Staðar í Súgandafirði.

[80] Jarðab. Á. og P. VII, 138.

[81] Sbr. sömu heimild.

[82] Sama heimild.

[83] Sama heimild.

[84] Sama heimild.

[85] Jarðab. Á. og P. VII, 138.  Rtk. Isl. Journal 9, nr. 34, bún.sk. 1791.  Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1,

bún.sk. 1821 og 1830.  VA III, 408, 412, 417, 421 og 424, bún.sk. 1840, 1850, 1860, 1870 og 1880.

Skjöl Suðureyrarhr. varðv. þar. Bók fyrir Suðureyrarhrepp 1888-1902, tíundarskýrslur 1891 og 1900.

[86] Jarðab. Á. og P. VII, 138.

[87] VA III, 412, 417, 421 og 424, búnaðarskýrslur 1850, 1860, 1870 og 1880.

[88] Skjöl Suðureyrarhr. varðv. þar. Bók fyrir Suðureyrarhrepp 1888-1902, tíundarskýrsla 1891.

[89] Sama Bók fyrir Suðureyrarhrepp, tíundarskýrsla 1900.

[90] Rtk. Isl. Journal 9, nr. 34, búnaðarskýrslur 1791.

[91] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1, bún.sk. 1821.  Sbr. Sóknarm.töl og prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[92] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1, bún.sk. 1821 og 1830.  VA III, 408, 412, 417, 421 og 424, bún.sk.

1840, 1850, 1860, 1870 og 1880.  Skjöl Suðureyrarhr. varðv. þar. Bók fyrir Suðureyrarhrepp 1888-1902,

tíundarskýrslur 1891 og 1900.

[93] Sömu heimildir.

[94] Sömu heimildir.

[95] Sömu heimildir.

[96] Sömu heimildir.

[97] Gunnar M. Magnúss / Halldór Guðmundsson 1977, 54.  Sbr. Skjöl Suðureyrarhr. varðv. þar. Bók fyrir

    Suðureyrarhrepp 1888-1902, tíundarskýrsla dags. 21.10.1901.

[98] Lbs. 7974to, Jarðaskrá úr Ísafj.sýslu frá árinu 1658.

[99] Lbs. 7974to, Jarðaskrá úr Ísafj.sýslu frá árinu 1695.

[100] Jarðab. Á. og P. VII, 138.

[101] Sama heimild.

[102] Jarða- og bændatöl 1752-1765, Ísafj.sýsla 1753.

[103] J. Johnsen 1847, 196.

[104] Fasteignamatsskjöl. Gjörðabók undirmatsnefndar í V-Ís., löggilt 26.3.1919.

[105] Stjórnartíðindi 1917 B, bls. 114.

[106] Fasteignamatsskjöl. Gjörðabók undirmatsnefndar í V-Ís., löggilt 26.3.1919.

[107] Sama heimild.

[108] Jarðab. Á. og P. VII, 134 og 138.

[109] Lbs. 7974to, Jarðaskrár úr Ísafj.sýslu frá árunum 1658 og 1695.

[110] Jarðab. Á. og P. VII, 138.

[111] Sama heimild.

[112] Jarða- og bændatöl 1752-1767, Ísafj.sýsla 1753.  J. Johnsen 1847, 196.

[113] Fasteignamatsskjöl. Gjörðabók undirmatsnefndar í V-Ís., löggilt 26.3.1919.

[114] Jarðab. Á. og P. VII, 138.

[115] Sama heimild, 128-139.  Sbr. Þorvaldur Thoroddsen / Lýsing Íslands III, 45-46.

[116] D.I. VII, 244.

[117] Íslenskar æviskrár I, 256-257 og IV, 123.

[118] Arnór Sigurjónsson 1975, 134.

[119] Sama heimild, 134, 193 og 241.

[120] Sama heimild, 241.

[121] Sama heimild.

[122] D.I. VII, 244.

[123] Arnór Sigurjónsson 1975, 56 og 240-241.

[124] Arnór Sigurjónsson 1975, 244-247.

[125] Sama heimild, 140, 237 og 244-248.

[126] Ísl. æviskrár I, 216, II, 195 og IV, 123.

[127] Arnór Sigurjónsson 1975, 248-249.

[128] Sama heimild, 252-255.

[129] Sama heimild.

[130] Sama heimild.

[131] Sama heimild, 249-250.

[132] Sama heimild, 252-255.

[133] Ísl. æviskrár IV, 123 og V, 184.  Arnór Sigurjónsson 1975, 398-399.

[134] Arnór Sigurjónsson 1975, 277.

[135] Sama heimild, 302.

[136] Arnór Sigurjónsson 1975, 462.  D.I. VIII, 358-360.

[137] Sömu heimildir.

[138] Arnór Sigurjónsson 1975, 462.

[139] D.I. XIII, 305-307.

[140] Sama heimild.

[141] Ísl. æviskrár I, 331 og V, 184.

[142] D.I. XIV, 46.

[143] Sama heimild.

[144] Bogi Benediktsson / Sýslumannaæfir II, 630.  Sbr. Ísl. æviskrár V, 184.

[145] Jón Þorkelsson 1895, 93-94.

[146] Sama heimild.

[147] Sama heimild.

[148] Sama heimild.  Ísl. æviskrár IV, 379.

[149] Jón Þorkelsson 1895, 93-94.

[150] D.I. XIV, 46.

[151] Ísl. æviskrár IV, 379 og 385 og III, 460-461.

[152] Lbs. 7974to, Jarðaskrá úr Ísafj.sýslu frá árinu 1658.  Bogi Benediktsson / Sýslumannaæfir II, 220-221.

Ísl. æviskrár VI, 285, 1, 105-106 og III, 443.

[153] Alþingisbækur Íslands V. VI. og VII. bindi, registur. Sbr. Bogi Benediktsson / Sýslum.æfir, nafnaskrá.

Ísl. æviskrár I, 105-106, III, 443 og VI, 285. Sbr. Annálar VII, Lykilbók I, 90.

[154] Ísl. æviskrár III, 431 og VI, 285.

[155] Bogi Benediktsson / Sýslumannaæfir II, 220-221.

[156] Sama heimild.  Ísl. æviskrár III, 443.

[157] Ísl. æviskrár II, 268 og III, 443.

[158] Jarðabréf frá 16. og 17. öld. Útdrættir. Kph. 1993, 165-166.

[159] Sama heimild, 180.

[160] Lbs. 7974to, Jarðaskrá úr Ísafj.sýslu frá árinu 1695.

[161] Ísl. æviskrár II, 268 og IV, 111-112.

[162] Sama heimild.

[163] Sama heimild.

[164] Jarðab. Á. og P. VII, 138.

[165] Alþ.b. Íslands XII, 306.

[166] Ísl. æviskrár IV, 256.

[167] Alþ.bl Íslands XII, 306.

[168] Jón J. Aðils 1971, 418-420.

[169] Ísl. æviskrár IV, 256.

[170] Manntal 1762.

[171] Ísl. æviskrár IV, 256 og 258.

[172] Alþ.b. Íslanda XV, 21.

[173] Sama heimild, 63.

[174] Sama heimild.

[175] Theódór Árnason / Vestfirskar ættir IV, 361.

[176] Sama heimild, 361-385.  Sbr. Lögréttumannatal III, 307-308.

[177] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[178] Rtk. Jarðabækur V. 16, Ísafj.sýsla 1805.

[179] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XII. 2. Skiptabók 1811-1825, án bls.tals.

[180] Sama heimild.

[181] Sama heimild.

[182] Vestf. ættir I, 238.

[183] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XII. 8. Skiptabók 1848-1855. Skipti á dánarb. Jóns Bj.s. á Sæbóli28.4.1855.

[184] Sóknarm.töl og prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[185] Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 9.

[186] J. Johnsen 1847, 196.

[187] Manntal 1901, fylgiskjöl.

[188] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Suðureyrarhreppur 3. Uppskrifta- og uppboðsbók, löggilt 28.7.1881. Uppskrift á dánarbúi Sigurborgar Bergsdóttur 14.7.1905.

[189] Manntal 1901, fylgiskjöl.

[190] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[191] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Suðureyrarhreppur 3. Uppskrifta- og uppboðsbók, löggilt 28.7.1881. Uppskrift á dánarbúi Sigurborgar Bergsdóttur 14.7.1905.

[192] Sama heimild.

[193] Sama heimild.

[194] Gunnar M. Magnúss /Halldór Guðmundsson 1977, 54.

[195] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[196] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[197] Sama heimild og prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[198] Lbs. 22334to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 8.4.1915.

[199] Sama heimild.

[200] Fasteignabók 1932, bls. 52.  Sbr. Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[201] Jóhannes Aðalbjörnsson. – Viðtal K.Ó. við hann 16.8.1995.

[202] Annálar III, 271.

[203] Ísl. æviskrár III, 443.

[204] Manntal 1703.

[205] Sama heimild.

[206] Sama heimild.

[207] Sama heimild.

[208] Sama heimild.

[209] Sama heimild.

[210] Sama heimild.

[211] Manntal 1703.

[212] Sama heimild.

[213] Sama heimild.

[214] Sama heimild.

[215] Sama heimild.

[216] Sama heimild.  Sbr. Jarðab. Á. og P. VII, 138.

[217] Jarðab. Á. og P. VII, 138.

[218] Bændatöl og skuldaskrár 1720-1765, eftirrit. Ísafj.sýsla um 1735.

[219] Manntal 1703.

[220] Jarða- og bændatöl 1752-1767, Ísafj.sýsla 1753.

[221] Manntal 1762.

[222] Sama heimild.

[223] Sama heimild.

[224] Sama heimild.

[225] ÍB. 104to, Ættatölubækur Jóns Espólín, dálkur 1794.

[226] ÍB. 104to, Ættatölubækur Jóns Espólín, dálkur 1794.

[227] Rtk. IV. 1. Skýrslur um sjávarútveg 1762.

[228] Manntal 1762.

[229] ÍB. 104to, Ættatölubækur Jóns Espólín, dálkar 1782-1786 og 1794.

[230] Manntal 1816, 697 og 700.  Sóknarm.tal Staðar í Súgandaf. 1793, Norðureyri.

[231] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[232] Sama heimild.

[233] Manntal 1762.

[234] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.  Manntal 1801, vesturamt, 304.

[235] Manntal 1762.

[236] Manntal 1801, vesturamt, 305.

[237] Sóknarm.tal Staðar í Súgandaf. 1787.

[238] Sama heimild.

[239] Sama heimild.

[240] Skj.s. prófasta XIII. 1. A. 1. Vísitazíubók 1782-1789, Staður í Súgandaf. 13.9.1785.

[241] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[242] Sama heimild.

[243] Sama heimild, 1786 og 1787.

[244] Sama heimild.

[245] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[246] Sömu heimildir.

[247] Sömu heimildir.

[248] Sömu heimildir.

[249] Sóknarm.tal Staðar í Súgandaf. 1806.

[250] Sama heimild.

[251] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.  Kristinn Kristmundsson og Þórleifur Bjarnason 1971, 345.

[252] Sömu heimildir.

[253] Kristinn Kristmundsson og Þórleifur Bjarnason 1971, 345.

[254] Sóknarm.tal Staðar í Súgandaf. 1791.

[255] ÍB. 94to, Ættatölubækur Jóns Espólín, dálkar 959-968 og 3190-3193.

[256] Sama heimild.  Sbr. Ísl. æviskrár II, 265.

[257] Sama heimild.  Lögréttumannatal, 272.

[258] Rtk. Jarðabækur V. 16, Ísafj.sýsla 1805.

[259] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[260] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[261] Sömu heimildir.

[262] Rtk. Isl. Journal 9, nr. 34, búnaðarskýrslur 1791.

[263] Sama heimild.

[264] Sama heimild.

[265] Sama heimild.

[266] Sama heimild.

[267] Sama heimild.

[268] Sama heimild.

[269] Alþ.b. Íslands XVII, 333.

[270] Sama heimild.

[271] Sama heimild, 467.

[272] Sama heimild.

[273] Jarðab. Á. og P. VII, 312.  Sóknalýs. Vestfj. II, 160.

[274] Rtk. Jarðabækur V. 16, Ísafj.sýsla 1805.

[275] Sóknarm.töl og prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[276] Sömu heimildir.

[277] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[278] Sama heimild.

[279] Sama heimild.

[280] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[281] Sama heimild.

[282] Jón Espólín / Árbækur Espólíns XI. deild, bls. 107.

[283] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[284] Örn.st. / Kr. G. Þorv. 1949, 37.

[285] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.  Manntal 1801, vesturamt, 301.

[286] Sömu heimildir.

[287] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[288] Sama heimild.

[289] Manntal 1816, 700. Séra Jón Ólafsson 1961, 122-123 (Ársrit Sögufél. Ísf.).

[290] Séra Jón Ólafsson 1961, 122.  Sbr. Vestf. ættir I, 238 og Manntal 1801, vesturamt, 343.

[291] Theódór Árnason / Vestf. ættir IV, 364.

[292] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf. 1802, 1804, 1806 og 1811.

[293] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[294] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[295] Sama heimild.  Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XII. 2. Skiptabók 1811-1825, án bls.tals. Skipti á dánarbúi

Margrétar Guðnadóttur á Gelti 22.4.1814.

[296] Sama skiptabók, skipti á dánarbúi Margrétar Guðnadóttur á Gelti 22.4.1814.

[297] Sama heimild.

[298] Sama heimild.

[299] Sama heimild.

[300] Sama heimild.

[301] Sama heimild.

[302] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XII. 2. Skiptabók 1811-1825, án bls.tals. Skipti á dánarbúi Margrétar

Guðnadóttur á Gelti 22.4.1814.

[303] Sama heimild.

[304] Sama heimild.

[305] Sama heimild.

[306] Sama heimild.

[307] Sama heimild.

[308] Sama heimild.

[309] Sama heimild.

[310] Sama heimild.

[311] Sbr. Þorkell Jóhannesson 1950, 388-391.

[312] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XII. 2. Skiptabók 1811-1825, án bls.tals. Skipti á dánarbúi Margrétar

Guðnadóttur á Gelti 22.4.1814.

[313] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XII. 2. Skiptabók 1811-1825, án bls.tals. Skipti á dánarbúi Margrétar

Guðnadóttur á Gelti 22.4.1814.

[314] Sama heimild.

[315] Sama heimild.

[316] Sama heimild.

[317] Sama heimild.

[318] Sama heimild.

[319] Sbr. Ísl. æviskrár II, 83-84.

[320] Sbr. Ísl. æviskrár IV, 232.

[321] Ísl. æviskrár IV, 232.

[322] Sbr. Ísl. æviskrár II, 287-288.

[323] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XII. 2. Skiptabók 1811-1825, án bls.tals. Skipti á dánarbúi Margrétar

Guðnadóttur á Gelti 22.4.1814.

[324] Kulturhistorisk Leksikon for nordisk Middelalder VI, dálkar 299-302.

[325] Heimskringla eður Noregskonungasögur, 1. bindi. Leirárgörðum við Leirá 1804.

[326] Sama heimild.

[327] Þorkell Jóhannesson 1950, 547.

[328] Heimskringla eður Noregskonungasögur, 1. bindi, Leirárgörðum við Leirá 1804.  Sbr. Ísl. fornrit XXVI.

[329] Sama heimild.

[330] Sama heimild.

[331] Sama heimild.

[332] Kongs Christians þess fimmta Norsku lög á íslensku útlögð. Hrappsey 1779.

[333] Sama heimild.

[334] Einar Arnórsson 1937, 310.

[335] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XII. 2. Skiptabók 1811-1825, án bls.tals. Skipti á dánarbúi Margrétar Guðnadóttur á Gelti 22.4.1814.

[336] Sama heimild.

[337] Sama heimild.

[338] Sama heimild.

[339] Sama heimild.

[340] Sama heimild.

[341] Sama heimild.

[342] Jónas Jónasson 1961, 54.

[343] Sama heimild.

[344] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XII. 2. Skiptabók 1811-1825, án bls.tals. Skipti á dánarbúi Margrétar

Guðnadóttur á Gelti 22.4.1814.

[345] Ólafur Ólafsson 1790, 149-160.

[346] Ísl. æviskrár IV, 69.

[347] Ólafur Ólafsson 1790, 149-160.

[348] Sama heimild.

[349] Sigurður Sigurðsson 1937, 219-220.

[350] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XII. 2. Skiptabók 1811-1825, án bls.tals. Skipti á dánarbúi Margrétar

Guðnadóttur á Gelti 22.4.1814.

[351] Sama heimild.  Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[352] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[353] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XII. 2. Skiptabók 1811-1825, án bls.tals. Skipti á dánarbúi Margrétar

Guðnadóttur á Gelti 22.4.1814.

[354] Sama heimild.

[355] Sama heimild.

[356] Sama heimild.

[357] Sama heimild.

[358] Sama heimild.

[359] Sama heimild.

[360] Sama heimild.

[361] Sama heimild.

[362] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XII. 2. Skiptabók 1811-1825, án bls.tals. Skipti á dánarbúi Margrétar

Guðnadóttur á Gelti 22.4.1814.

[363] Sama heimild.

[364] Sama heimild.

[365] Sama heimild.

[366] Ól. Þ. Kr. 1948, 73 (Frá ystu nesjum IV).

[367] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[368] Sama heimild.

[369] Ól. Þ. Kr. 1948, 73.

[370] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf..  Sbr. Manntal 1845, vesturamt, 286.

[371] Ól. Þ. Kr. 1948, 73.

[372] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[373] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[374] Sömu heimildir.

[375] Séra Jón Ólafsson 1961, 122 (Ársrit S.Í.).  Manntal 1801, vesturamt, 343.  Manntal 1816, 700.

[376] Sömu heimildir.

[377] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[378] Sama heimild.

[379] Sama heimild.

[380] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. IV. 6. Dóma- og þingbók 1817-1834. Manntalsþing á Suðureyri 13.8.1821.

[381] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[382] Sömu heimildir.

[383] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[384] Sama heimild.

[385] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[386] Sömu heimildir.

[387] Manntal 1816, 705.

[388] Sama heimild.

[389] Manntal 1801, vesturamt, 324 og nafnalykill þess.  Sbr. Vestf. ættir I, 165.

[390] Manntal 1801, vesturamt, 324.

[391] Sama heimild, 325 og nafnalykill sama manntals.

[392] Sama heimild.

[393] Vestf. ættir I, 165. Sbr. þar IV, 684.

[394] Sama heimild.

[395] Manntal 1816, 701.

[396] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.  Sbr. Manntal 1816, 705.

[397] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[398] Sömu heimildir.

[399] Sömu heimildir.

[400] Manntal 1816, 705.

[401] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1, búnaðarskýrslur 1821.

[402] Sama heimild.

[403] Sama heimild.

[404] Sama heimild.

[405] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1, búnaðarskýrslur 1821.

[406] Sama heimild.

[407] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[408] Sóknarm.töl og prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[409] Sömu heimildir.

[410] Sömu heimildir.

[411] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1, búnaðarskýrslur 1827.

[412] Sama heimild.

[413] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[414] Kolbeinn Jakobsson, bóndi í Unaðsdal, fæddur 27.8.1862. Skrif hans um bændur á Snæfjallaströnd frá

1800 til 1874. Handrit í eigu Hjalta Jóhannssonar, komið úr fórum föður hans, Jóhanns Hjaltasonar, er

um skeið var skólastjóri í Súðavík.

[415] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[416] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[417] Sama heimild.

[418] Manntal 1835.

[419] Sama heimild.

[420] Manntal 1840.

[421] Manntal 1845.

[422] Vestf. ættir I, 389.

[423] Sama heimild, I, 329.

[424] Manntal 1840.  Sbr. Vestf. ættir I, 263.

[425] Manntal 1840.

[426] Manntöl 1855 og 1870.

[427] Vestf. ættir I, 263 og 372-375. Kolb. Jakobsson, bóndi Unaðsdal, sjá tilv. nr. 414. Sbr. Kr. Jónsson frá Garðsst. 1962, 59-61 (Ársr. S.Í.).

[428] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[429] Vestf. ættir I, 134.  Manntal 1801, vesturamt, 315.  Manntal 1816, 701.

[430] Sömu heimildir.

[431] Manntal 1801, vesturamt, 314-315.

[432] Ísl. æviskrár I, 443-444.

[433] Manntal 1816, 701.

[434] Landsyfirréttar- og hæstaréttardómar í íslenskum málum 1802-1873, II, 315-322.

[435] Sama heimild.

[436] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[437] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.  Sbr. Manntal 1816, 701 og Manntal 1845, vesturamt, 287.

[438] Sömu heimildir.

[439] Sömu heimildir.

[440] Sömu heimildir.

[441] Landsyfirréttar- og hæstaréttardómar í íslenskum málum 1802-1873, II, 315-322.

[442] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[443] Sama heimild.

[444] Sama heimild.

[445] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[446] Manntal 1801, vesturamt, 325, og nafnalykill sem því fylgir.  Manntal 1816, 701 og 705.

[447] Rtk. Jarðabækur V. 16, Ísafj.sýsla 1805.

[448] Ársrit Sögufél. Ís.f., 14. árg. 1970, 124.

[449] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. IV. 6. Dóma- og þingbók 1817-1834, bls. 153.

[450] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XVI. 1. Veðmálabók 1804-1844, bls. 144-145.

[451] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[452] Sama heimild.

[453] Sama heimild.

[454] Sama heimild.

[455] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[456] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[457] Sama heimild.

[458] Sama heimild.

[459] Sama heimild.

[460] Sama heimild.

[461] Sama heimild.

[462] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1, búnaðarskýrslur 1824 og 1826.

[463] Sama heimild.

[464] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[465] Prestsþj.b. Eyrar í Skutulsf.

[466] Sóknarm.tal Staðar í Súgandaf. mars 1843.  Manntal 1816, 712.  Manntal 1835, Búð í Hnífsdal.

[467] Sömu heimildir.  Sbr. Manntal 1801, vesturamt, 311.

[468] Manntal 1835.

[469] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[470] Prestsþj.b. Eyrar í Skutulsf.

[471] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. IV. 8. Dóma- og þingbók 1835-1841.  Manntalsþing á Suðureyri 24.6.1840.

[472] Sama heimild.

[473] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.  VA III, 408, búnaðarskýrslur 1840.

[474] Sömu heimildir.

[475] Sömu heimildir.

[476] VA III, 408, búnaðarskýrslur 1840.

[477] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[478] Sama heimild.

[479] Sama heimild.

[480] Sama heimild.  Vestf. ættir I, 134.

[481] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. IV. 9. Dóma- og þingbók 1841-1847, bls. 197-198.

[482] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. IV. 9. Dóma- og þingbók 1841-1847, bls. 197-198.

[483] Prestsþj.b. Eyrar í Skutulsf.

[484] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[485] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[486] Sama heimild.

[487] Sama heimild.  Ól. Þ. Kr. 1945, 156-157 (Frá ystu nesjum III).

[488] Ól. Þ. Kr. 1945, 156-157.

[489] Sama heimild, 148 og 156-157.

[490] Sama heimild.

[491] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[492] Ól. Þ. Kr. 1945, 156-157.

[493] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1, búnaðarskýrslur 1830.

[494] Sama heimild.

[495] Sama heimild.

[496] Sama heimild.

[497] Sama heimild.

[498] Ól. Þ. Kr. 1945, 156-157 (Frá ystu nesjum III).

[499] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[500] Sama heimild.

[501] Sama heimild.

[502] Sama heimild.

[503] Sama heimild.  Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1, búnaðarskýrslur 1840.

[504] Vestf. ættir I, 378.  Manntal 1801, vesturamt, 274.  Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[505] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[506] Sömu heimildir.

[507] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[508] Sömu heimildir.

[509] Sömu heimildir.  Vestf. ættir I, 378.

[510] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[511] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[512] Lbs. 44074to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 31.

[513] Skj.s. próf. XIII. 1. A. 4. Vísitazíubók 1836-1846, úttekt á Stað í Súgandaf. 7.6.1839.

[514] VA III, 408, búnaðarskýrslur 1840.

[515] Sama heimild.

[516] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1, búnaðarskýrslur 1834.

[517] Sama heimild.

[518] Sama askja, búnaðarskýrslur 1837.

[519] Örn.st. / Kr. G. Þorv. 1949, 148.

[520] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[521] Sama heimild.

[522] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súg.f.  Manntal 1801, vesturamt, 273-274.  Sbr. Manntal 1816, 693.

[523] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[524] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[525] Manntal 1816, 698.  Sóknarm.töl og prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[526] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[527] Sama heimild.

[528] Sama heimild.

[529] Sama heimild.

[530] Sama heimild.

[531] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[532] Sama heimild.  Vestf. ættir I, 378.

[533] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.  VA III, 408, búnaðarskýrslur 1840.

[534] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[535] Sama heimild.

[536] Sama heimild 1821, Keflav. Vestf. ættir II, 497. Manntal 1801, vesturamt, 314-315. Manntal 1816, 701.

[537] Manntal 1801, vesturamt, 314-315.

[538] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[539] Manntal 1845, vesturamt, 294.  Prstsþj.b. Staðar í Súgandaf.  Vestf. ættir I, 134 og II, 497.

[540] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[541] Manntal 1845, vesturamt, 290.

[542] Manntal 1845, vesturamt, 294.  Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[543] Sóknarm.töl og prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[544] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[545] VA III, 412 og 417, búnaðarskýrslur 1850 og 1860.

[546] Sömu heimildir.

[547] Sömu heimildir.

[548] Sömu heimildir.  Sbr. Manntal 1860.

[549] Sömu heimildir.

[550] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XVI. 2. Veðmálabók 1856-1869, bls. 147.

[551] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[552] Sama heimild.

[553] Sama heimild og prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[554] Sömu heimildir.

[555] Sömu heimildir.

[556] Lbs. 38584to, Dagbók Einars Jónssonar á Suðureyri 6.11.1889.

[557] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Suðureyrarhreppur 3. Uppskrifta- og uppboðsbók, löggilt 28.7.1881.

Uppskrift frá 14.7.1905 á dánarbúi Sigurborgar Bergsdóttur á Gelti.

[558] Sama heimild.

[559] Sama heimild.

[560] Sama heimild.  Sbr. Sóknarm.töl og prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[561] Sama heimild.

[562] Sama heimild.

[563] Sama heimild.

[564] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Suðureyrarhreppur 3. Uppskrifta- og uppboðsbók, löggilt 28.7.1881.

Uppskrift frá 14.7.1905 á dánarbúi Sigurborgar Bergsdóttur á Gelti.

[565] Sama heimild.

[566] Sama heimild.

[567] Sama heimild.

[568] Sama heimild.

[569] Sama heimild.

[570] Sóknarm.töl og prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[571] Sömu heimildir.

[572] Sömu heimildir.

[573] Prestsþj.b.Staðar í Súgandaf.

[574] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[575] Sama heimild.

[576] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[577] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.  Sbr. Manntal 1845, vesturamt, 282 og nafnalykill þess.

[578] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.  Sbr. Manntal 1845, vesturamt, 282 og nafnalykill þess.

[579] Manntal 1845, vesturamt, 282, og nafnalykill þess. Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[580] Sóknarm.töl og prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[581] Sömu heimildir.

[582] Sömu heimildir.

[583] Sömu heimildir.

[584] Sömu heimildir.

[585] Manntöl 1855 og 1860.

[586] Manntöl 1870, 1880 og 1890, Göltur og Bær í Súgandaf.

[587] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[588] Sama heimild.

[589] Sama heimild.

[590] VA III, 421, búnaðarskýrslur 1870.

[591] VA III, 421, búnaðarskýrslur 1870.

[592] Gunnar M. Magnúss 1977, 53.

[593] Sama heimild.

[594] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[595] Sömu heimildir.

[596] Sömu heimildir.

[597] Sömu heimildir. Lbs. 22174to, Dagbók  M. Hjaltas. 28.10.1898.  Vestf. ættir II, 622 og 669 og III, 296.

[598] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[599] Sama heimild.

[600] Sama heimild.

[601] Sama heimild.

[602] Sóknarm.töl og prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[603] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[604] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[605] Lbs. 38594to, Dagbók Einars Jónssonar á Suðureyri 23.4.1894.

[606] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[607] Lbs. 38594to, Dagbók Einars Jónssonar á Suðureyri 24.4.1894.

[608] Sama dagbók 31.7.1894.

[609] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[610] Vestf. ættir II, 416.

[611] VA III, 424, búnaðarskýrslur 1880.

[612] VA III, 424, búnaðarskýrslur 1880.

[613] Sama heimild.

[614] Vestf. ættir II, 416.

[615] Pétur Guðmundsson / Annáll nítjándu aldar IV, 344.

[616] Vestf. ættir II, 416.

[617] Sóknarm.tal Staðar í Súg., nóv. 1880.  Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Suðureyrarhr. 3. Uppskrifta- og

      uppboðsbók, löggilt 28.7.1881, bls. 2.  Vestf. ættir II, 416.

[618] Sama Uppskrifta- og uppboðsbók, bls. 2-11.

[619] Sama heimild.

[620] Sama heimild.

[621] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Suðureyrarhr. 3. Uppskrifta- og  uppboðsbók, löggilt 28.7.1881, bls. 2-11.

[622] Sama heimild.

[623] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[624] Sama heimild.

[625] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[626] Sömu heimildir.

[627] Sömu heimildir.

[628] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar I, 56 og 145.  Vestf. ættir II, 416.

[629] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.  Vestf. ættir II, 416.

[630] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.  Eyjólfur Jónsson 1967, 50 (Niðjatal Sveins á Hesti).

[631] Eyjólfur Jónsson 1967, 30 og 50.

[632] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[633] Sama heimild.

[634] Vestf. ættir II, 496-497.

[635] Sama heimild.

[636] Sama heimild, 453 og 496-497.

[637] Sama heimild, 496-497.

[638] Jón Þ. Þór 1984, 165.

[639] Prestsþj.b. Eyrar í Skutulsf.

[640] Jón Þ. Þór 1984, 229.

[641] Sbr. Manntal 1.10.1850, Ísafjarðarverslunarstaður.

[642] Manntal 1.10.1855.

[643] Manntal 1.10.1860.

[644] Vestf. ættir I, 318-327.

[645] Sóknarm.töl og prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[646] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[647] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[648] Hsk. á Ísaf. nr. 089. Höfuðbók nr. 5 frá Verslun Hjálmars Jónssonar á Flateyri, bls. 7.

[649] Hsk. á Ísaf. nr. 089. Höfuðbók nr. 5 frá Verslun Hjálmars Jónssonar á Flateyri, bls. 7.

[650] Sama heimild.

[651] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[652] Sama heimild.

[653] Sama heimild.

[654] Sama heimild.

[655] Sama heimild.

[656] Hsk. á Ísaf. nr. 227. Skýrsla um ábúðarhundruð bænda í Suðureyrarhreppi, dags. 29.10.1902.

[657] Lbs. 31524to, Halldór Guðmundsson, bls. 233.

[658] Sama heimild.

[659] Sóknarm.töl og prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[660] Skjöl Suðureyrarhr., varðv. þar. Bók fyrir Suðureyrarhrepp 1888-1902, skýrsla um framtal til

lausafjártíundar, dags. 23.6.1888.

[661] Sama heimild.

[662] Sama heimild.

[663] Skjöl Suðureyrarhr., varðv. þar. Bók fyrir Suðureyrarhrepp 1888-1902, skýrsla um framtal til lausafjártíundar, dags. 23.6.1891.

[664] Sama heimild.

[665] Sama hreppsbók, skýrslur um framtal til lausafjártíundar, dags. 22.6.1895, 23.6.1900 og 22.6.1901.

[666] Sömu heimildir.

[667] Lbs. 27364to, Magnús Hjaltason, bls. 62.

[668] Lbs. 31524to, Halldór Guðmundsson, bls. 233.

[669] Skjöl Suðureyrarhr. varðv. þar. Fundabók fyrir Suðureyrarhrepp 1889-1919, skýrsla um fjárfjölda í

Suðureyrarhreppi 29.3.1897. Sbr. Fasteignamatsskj. Gjörðab. undirmatsnefndar í V-Ís., lögg. 26.3.1919.

[670] Sama heimild.

[671] Sama heimild.

[672] Skjöl Suðureyrarhr. varðv. þar. Fundabók fyrir Suðureyrarhrepp 1889-1919, skýrsla um fjárfjölda í

Suðureyrarhreppi 29.3.1897. Sbr. Fasteignamatsskj. Gjörðab. undirmatsnefndar í V-Ís., lögg. 26.3.1919.

[673] Skjöl Suðureyrarhr. varðv. þar. Fundabók fyrir Suðureyrarhrepp 1888-1902, skýrslur um framtal til

lausafjártíundar 1888, 1891, 1895 og 1901.

[674] Gunnar M. Magnúss / Halldór Guðmundsson 1977, 54.

[675] Hsk. á Ísaf. nr. 190. Kr. G. Þorv.: Saga Suðureyrar og Suðureyrarkauptúns, bls. 299.

[676] Sama heimild.

[677] Hsk. á Ísaf. nr. 240. Verslun Hjálmars Jónssonar á Flateyri, skiptabók 1881-1886.

[678] Sama heimild.

[679] Sama heimild.

[680] Sama heimild.

[681] Sama heimild.

[682] Sama heimild.

[683] Eyjólfur Jónsson 1967, 16 (Niðjatal Sveins á Hesti).

[684] Hsk. á Ísaf. nr. 240. Verslun Hjálmars Jónssonar á Flateyri, skiptabók 1881-1886.

[685] Gunnar M. Magnúss 1977, 286.

[686] Lbs. 22174to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 1.5.1897.

[687] Sama heimild.

[688] Sama heimild.

[689] Sama heimild.

[690] Valdimar Þorvaldsson 1963, 65 (Ársrit S.Í.).

[691] Sama heimild, 65-66.

[692] Lbs. 22174to, Dagbók M. Hjaltasonar 28.10. – 31.12.1898.  Lbs. 22184to, Sama dagbók 2.1. – 24.1.1899.

[693] Lbs. 22184to, Sama dagbók 2.1. – 24.1.1899.

[694] Sama dagbók 3.1.1899.

[695] Lbs. 22184to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 3.1.1899.

[696] Lbs. 22184to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 3.1.1899.

[697] Lbs. 27364to, Magnús Hjaltason, bls. 60-61.

[698] Lbs. 31524to, Halldór Guðmundsson, bls. 106.

[699] Gunnar M. Magnúss / Halldór Guðmundsson 1977, 54.

[700] Sama heimild.  Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 10.

[701] Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 9-10.

[702] Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 9-10.

[703] Sama heimild.

[704] Sama heimild.

[705] Sama heimild.

[706] Sama heimild.

[707] Sama heimild.

[708] Sama heimild.

[709] Sama heimild.

[710] Sama heimild.

[711] Sama heimild.

[712] Sama heimild.

[713] Sama heimild.

[714] Sama heimild.

[715] Sama heimild.

[716] Sama heimild.

[717] Sama heimild.

[718] Sama heimild.

[719] Sama heimild.

[720] Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 9-10.

[721] Sama heimild.

[722] Lbs. 31524to, Halldór Guðmundsson, bls. 233.

[723] Lbs. 38604to, Dagbók Einars Jónssonar á Suðureyri 3.4.1898.  Gunnar M. Magnúss 1977, 58.

[724] Lbs. 38604to, Dagbók Einars Jónssonar á Suðureyri 3.4.1898.

[725] Sama heimild.

[726] Sama heimild.

[727] Sama heimild.

[728] Gunnar M. Magnúss 1977, 58.

[729] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[730] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[731] Vestf. ættir II, 497-502.

[732] Sama heimild.

[733] Sama heimild.

[734] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[735] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[736] Vestf. ættir II, 497.

[737] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[738] Sóknarm.töl og prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[739] Sömu heimildir.

[740] Sömu heimildir.

[741] Sömu heimildir.

[742] Sömu heimildir.

[743] Lbs. 27364to, Magnús Hjaltason, bls. 62.

[744] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[745] Sbr. Halldór Kiljan Laxness 1937, 124-142.

[746] Ísl. æviskrár V, 125-126.

[747] Lbs. 27364to, Magnús Hjaltason, bls. 62.

[748] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[749] Lbs. 27364to, Magnús Hjaltason, bls. 62.  Lbs. 22204to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 9.3.1902.

[750] Lbs. 22204to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 11.4.1902.

[751] Halldór Kiljan Laxness 1937, 175.  Sami 1938, 52-75.

[752] Halldór Kiljan Laxness 1938, 18-23, 48-52 og 331-332.

[753] Manntal 1901, Hafrafell í Skutulsf.  Prestsþj.b. Eyrar í Skutulsf.  Sbr. Lbs. 27364to, M. Hjaltason bls. 62.

[754] Manntal 1910.

[755] Morgunblaðið 25.7. 1997 (minningargrein um Guðmund Jónsson).

[756] Sóknarm.töl og prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[757] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[758] Sama heimild.

[759] Lbs. 31524to, Halldór Guðmundsson, bls. 281.

[760] Skrá yfir húseignir á Suðureyri, rituð á árunum upp úr 1940 af Kristjáni Albert Kristjánssyni, bls. 60.

Skráin er í eigu Sparisjóðsins á Suðureyri.

[761] Lbs. 31524to, Halldór Guðmundsson, bls. 281.

[762] Nýnefnd skrá yfir húseignir á Suðureyri … , bls. 112. Skráin er í eigu Sparisjóðsins á Suðureyri.

[763] Gunnar M. Magnúss 1977, 276.

[764] Sama heimild.

[765] Sama heimild.

[766] Sama heimild.

[767] Sama heimild, 276-277.

[768] Sama heimild, 277 og 300.  Vestf. ættir II, 497-502.

[769] Sama heimild, 277 og 300.

[770] Sama heimild.

[771] Sama heimild, 392.

[772] Sama heimild.  Vestf. ættir II, 497.

[773] Gunnar M. Magnúss 1977, 58 og 302.  Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[774] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[775] Guðm. G. Hagalín 1951, 44.

[776] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf. og Dýrafj.þinga.

[777] Manntal 1910, Göltur.  Sóknarm.töl Álftamýrar.

[778] Guðm. G. Hagalín 1951, 44.

[779] Sama heimild, 27-30 og 44.

[780] Sama heimild, 44.

[781] Guðm. G. Hagalín 1951, 44.

[782] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[783] Guðm. G. Hagalín 1951, 44.

[784] Sama heimild.

[785] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.  Lbs. 22334to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 8.4.1915.

[786] Eyjólfur Jónsson 1967, 73-74 (Niðjatal Sveins á Hesti).

[787] Sama heimild, 73-84.

[788] Lbs. 22334to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 8.4.1915.  Sbr. Fasteignamatsskjöl. Gjörðabók

fasteignamatsnefndar í V-Ís., löggilt 9.3.1916, bls. 2 og 256-257.

[789] Fasteignamatsskjöl. Gjörðabók fasteignamatsnefndar í V-Ís., löggilt 9.3.1916, bls. 2.

[790] Fasteignamatsskjöl. Gjörðabók undirmatsnefndar í V-Ís. löggilt 26.3.1919, bls. 212.  Sbr. Lbs. 22334to,

Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 8.4.1915.

[791] Tölfræðihandbók 1984, 165.

[792] Fasteignabók 1932, 52.  Sbr. Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[793] Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 52.

[794] Fasteignamatsskjöl. Gjörðabók undirmatsnefndar í V-Ís., löggilt 26.3.1919.

[795] Sama heimild.

[796] Sama heimild.

[797] Manntal 1940.

[798] Teikning Aðalbjörns Guðmundssonar af grunnfleti baðstofunnar á Gelti og hinna helstu útihúsa þar.

Eigandi Jóhannes Aðalbjörnsson á Suðureyri.

[799] Sama heimild.

[800] Teikning Aðalbjörns Guðmundssonar … . Eig. Jóhannes Aðalbjörnsson, Suðureyri.

[801] Sama heimild.

[802] Teikning Aðalbjörns Guðmundssonar (sjá tilvísun 798) Eig. Jóhannes Aðalbjörnsson, Suðureyri.

[803] Sama heimild.

[804] Sama heimild.

[805] Sama heimild.

[806] Sama heimild.

[807] Örn.st. / Kr. G. Þorv. 1949, 151-152.

[808] Sama heimild.

[809] Sama heimild.

[810] Sama heimild.

[811] Sama heimild.

[812] Sama heimild.

[813] Sama heimild.

[814] Sama heimild.

[815] Sama heimild.

[816] Sama heimild.

[817] Örn.st. / Kr. G. Þorv. 1949, 149.

[818] Uppdr. Suðureyrarhrepps eftir Jón Hróbjartsson. Eftirpr. af örn.korti frá því um 1930, gefin út 1983.

[819] Örn.st. / Kr. G. Þorv. 1949, 150.

[820] Sama heimild.

[821] Sama heimild.

[822] Uppdr. Suðureyrarhrepps eftir Jón Hróbjartsson. Eftirpr. af örn.korti frá því um 1930, gefin út 1983.

[823] Birkir Friðbertsson. – Viðtal K.Ó. við hann 23.9. 1998.

[824] Örn.st. Kr. G. Þorv. 1949, 150.

[825] Sama heimild,149-150.

[826] Sama heimild.

[827] Sama heimild.

[828] Sama heimild.

[829] Sama heimild.

[830] Sama heimild.

[831] Sama heimild, 150-151.

[832] Sama heimild.  Sbr. Uppdr. Suðureyrarhr. eftir J. Hróbjartsson. Eftirpr. af örn.korti frá því um 1930, gefin út 1983.

[833] Örn.st. / Kr. G. Þorv. 1949, 150-151.

[834] Sama heimild.

[835] Örn.st. / Kr. G. Þorv. 1949, 150-151.

[836] Sama heimild.

[837] Sama heimild.

[838] Sama heimild. Uppdr. Suðureyrarhr. eftir Jón Hróbjartsson. Eftirpr. af örn.korti frá því um 1930.

[839] Jóhannes Aðalbjörnsson. – Viðtal K.Ó. við hann 16.8.1995.

[840] Örn.st. / Kr. G. Þorv. 1949, 151.

[841] Sama heimild.

[842] Sama heimild.

[843] Sama heimild, 14-16.

[844] Sama heimild, 16.  Uppdr. Suðureyrarhr. eftir Jón Hróbjartsson. Eftirpr. af örn.korti frá því um 1930.

[845] Örn.st. / Kr. G. Þorv. 1949, 150.

[846] Sama heimild, 16.

[847] Örn.st. / Kr. G. Þorv. 1949, 14-15.

[848] Örn.st. / Kr. G. Þorv. 1949, 149-150.

[849] Sama heimild, 14 og 158.  Sóknalýs. Vestfj. II, 116.

[850] Sóknalýs. Vestfj. II, 116.

[851] Kristján G. Þorvaldsson 1949, 146-147.

[852] Örn.st. / Kr. G. Þorv. 1949, 146.

[853] Gunnar M. Magnúss 1977, 50.

[854] Uppdr. Suðureyrarhr. eftir Jón Hróbjartsson. Eftirpr. af örn.korti frá því um 1930, gefin út 1983.

[855] Örn.st. / Kr. G. Þorv. 1949, 148-149.

[856] Sama heimild.

[857] Sama heimild.

[858] Örn.st. / Kr. G. Þorv. 1949, 148-149.

[859] Sama heimild.

[860] Sama heimild.

[861] Sama heimild.

[862] Sama heimild.

[863] Sama heimild.

[864] Sama heimild.

[865] Sama heimild, 151.

[866] Sama heimild.

[867] Sama heimild, 47.

[868] Sama heimild.

[869] Sbr. Sömu heimild, 151-152.  Vestf. ættir II, 497.

[870] Þjóðsögur Jóns Árnasonar I, 36.  Sbr. þar bls. 120.

[871] Lbs. 5414to, Álfa-Sögur, samanteknar og ritaðar af Ólafi bónda Sveinssyni í Purkey, bls. 57-61.

[872] Sama heimild.

[873] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[874] Sama heimild 1821, 1822 og 1823.

[875] Manntal 1816.  Sbr. Manntal 1801, norður- og austuramt, bls. 144 og 147.

[876] Manntal 1845, 149.

[877] Örn.st. / Kr. G. Þorv. 1949 150-151.

[878] Sama heimild.

[879] Sama heimild, 148.

[880] Sama heimild.

[881] Sama heimild.

[882] Uppdr. Suðureyrarhr. eftir Jón Hróbjartsson. Eftirpr. af örn.korti frá því um 1930, gefin út 1983.

[883] Örn.st. / Kr. G. Þorv. 1949, 147-148.

[884] Sama heimild.

[885] Örn.st. / Kr. G. Þorv. 1949, 147-148.

[886] Klausturpósturinn I, no. 7, júlí 1818, bls. 95.  Þorvaldur Thoroddsen / Ferðabók II, 1959, 120.

[887] Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 10.

[888] Örn.st. / Kr. G. Þorv. 1949, 147-148.

[889] Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 10.

[890] Sama heimild.

[891] Hsk. á Ísaf. nr. 190. Kr. G. Þorv.: Saga Suðureyrar og Suðureyrarkauptúns, bls. 299.

[892] Sama heimild.

[893] Sama heimild.

[894] Hsk. á Ísaf. nr. 190. Kr. G. Þorv.: Saga Suðureyrar og Suðureyrarkauptúns, bls. 299.

[895] Hsk. á Ísaf. nr. 190. Kr. G. Þorv.: Saga Suðureyrar og Suðureyrarkauptúns, bls. 299.

[896] Valdimar Þorvaldsson 1963, 56-57 (Ársrit S.Í.).

[897] Sama heimild.

[898] Sama heimild.

[899] Jarðab. Á. og P. VII, 138.

[900] Lbs. 27364to, Magnús Hjaltason, bls. 62.

[901] Jarðab. Á. og P. VII, 138.

[902] Þórður Sigurðsson 1986, 24-25 (Ársr. Sögufél. Ísf.).

[903] Lbs. 31524to, Halldór Guðmundsson, bls. 106-110.

[904] Lbs. 31524to, Halldór Guðmundsson, bls. 106-110.

[905] Gunnar M. Magnúss / Halldór Guðmundsson 1977, 54-55.

[906] Örn.st. / Kr. G. Þorv. 1949, 47.

[907] Lbs. 31524to, Halldór Guðmundsson, bls. 108-110.

[908] Ólafur Jónsson 1957 II, 339 (Skriðuföll og snjóflóð).

[909] Hsk. á Ísaf. nr. 190. Kr. G. Þorv.: Saga Suðureyrar … , bls. 299.  Örn.st. / Kr. G. Þorv. 1949, 145-146.

[910] Vestri 5.3.1910. IX. árg., 18. tbl., bls. 71.

[911] Jóhannes Aðalbjörnsson. – Viðtal K.Ó. við hann 16.8.1995.

[912] Lbs. 22184to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 7.1.1899.

[913] Örn.st. / Kr. G. Þorv. 1949, 47-48.

[914] Sóknarm.töl og prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[915] Sömu heimildir.

[916] Sömu heimildir.

[917] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[918] Sama heimild.

[919] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[920] Sömu heimildir.

[921] Gunnar M. Magnúss 1973, 113.  Sami 1977, 55.

[922] Sömu heimildir.

[923] Gunnar M. Magnúss 1977, 55.

[924] Lbs. 31524to, Halldór Guðmundsson, bls. 111-118.

[925] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[926] Lbs. 22184to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 23.5.1899.  Gunnar M. Magnúss 1973, 114-117.

[927] Sömu heimildir.

[928] Sömu heimildir.

[929] Sömu heimildir.

[930] Sömu heimildir.

[931] Sömu heimildir.

[932] Lbs. 31524to, Halldór Guðmundsson, bls. 117-118.

[933] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[934] Þjóðviljinn 11.3.1899.  Gunnar M. Magnúss 1973, 114.

[935] Sömu heimildir.

[936] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[937] Prestsþj.b. Borgar á Mýrum.  Manntal 1860, Litlibær í Álftanessókn á Mýrum.

[938] Manntal 1870.

[939] Prestsþj.b. Borgar á Mýrum.

[940] Sama heimild.

[941] Manntöl 1880 og 1890.

[942] Prestsþj.b. Borgar á Mýrum.

[943] Prestsþj.b. Borgar á Mýrum.  Sbr. Þorsteinn Þorsteinsson 1953, 86-87 (Árbók F.Í.).

[944] Ísl. æviskrár VI, 34-35.

[945] Prestsþj.b. Borgar á Mýrum.

[946] Prestsþj.b. Borgar á Mýrum.

[947] Sama heimild.

[948] Sama heimild.

[949] Sama heimild.

[950] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Suðureyrarhr. 3. Uppskrifta- og uppboðsbók 1881-1913. Uppskrift og

virðing á fjármunum Stefáns Valdasonar, dags. 30.5.1899.

[951] Sama heimild.

[952] Sama heimild.

[953] Sama heimild.

[954] Sama heimild.

[955] Sama heimild.

[956] Sama heimild.

[957] Sama Uppskr.- og uppboðsbók. Uppskrift og virðing á fjármunum Stefáns Valdasonar, dags. 30.5.1899.

[958] Sama heimild.

[959] Sama Uppskr.- og uppboðsbók. Uppboðsgerð 4.6.1899.

[960] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Suðureyrarhr. 3. Uppskr.- og uppboðsbók. Uppskrift á dánarbúi Stefáns Valdasonar 30.5.1899.

[961] Örn.st. / Kr. G. Þorv. 1949, 150.

[962] Uppdr. Suðureyrarhr. eftir Jón Hróbjartsson. Eftirpr. af örn.korti frá því um 1930, gefin út 1983.

[963] Örn.st. / Kr. G. Þorv. 1949, 147.

[964] Örn.st. / Kr. G. Þorv. 1949, 146.

[965] Sama heimild, 147.

[966] Örn.st. / Kr. G. Þorv. 1949, 147.

[967] Örn.st. / Kr. G. Þorv. 1949, 147.

[968] Sama heimild.

[969] Lbs. 22174to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 17.4.1896.

[970] Sama dagbók 7.2.1898.

[971] Lbs. 22174to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 7.2.1898.

[972] Lbs. 22184to, Sama dagbók 16.12.1899.

[973] Lbs. 22184to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 16.12.1899.

[974] Sama heimild.

[975] Örn.st. / Kr. G. Þorv. 1949, 147.

[976] Sama heimild.

[977] Sama heimild.

[978] Sama heimild.

[979] Sama heimild.

[980] Lbs. 22184to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 3.3. og 4.3.1900

[981] Sama heimild.

[982] Lbs. 22184to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 4.3.1900.

[983] Sama dagbók 5.3.1900.

[984] Sóknalýs. Vestfj. II, 114.

[985] Örn.st. / Kr. G. Þorv. 1949, 14.

[986] Sama heimild, 158.

[987] Sóknalýs. Vestfj. II, 116.

[988] Örn.st. / Kr. G. Þorv. 1949, 146, 153 og 158.

1000-1900

Guðmundur Justsson

Á fyrri hluta 20. aldar var Guðmundur Justsson, sem fæddist á Gemlufalli haustið 1841,[1] einna kunnastur þeirra sem búið höfðu á Dröngum, a.m.k. utan Dýrafjarðar,

LESA MEIRA »
1000-1900

Krossadalur

Í Krossadal var löngum tvíbýli á fyrri tíð, Hærri- og Lægri- (eða Neðri-) Krossdalur, og voru þetta ystu bæir við Tálknafjörð. Stundum var reyndar þríbýli

LESA MEIRA »
1000-1900

Arnarstapi

Arnarstapi og Krossadalur voru tvær ystu jarðirnar á norðurströnd Tálknafjarðar og hafa nú báðar verið í eyði frá því um 1940.[1] Frá verbúðatóttunum í Arnarstapavík

LESA MEIRA »