Selárdalur

Nærri lætur að vegalengdin frá landamerkjum Gilsbrekku og Selárdals út í túnfótinn á síðarnefnda eyðibýlinu sé tveir kílómetrar en öll leiðin, milli bæjanna tveggja, var liðlega þrír og hálfur kílómetri. Á leiðinni frá merkjunum og út í Selárdal förum við fjöruna en gefum gaum að hlíð og fjalli.

Fjallið utan við landamerkin heitir Lásvíkurfjall og tekur nafn af lítilli vík við fjarðarströndina.[1] Utar er Ásfjall sem nær að Selárdal.[2] Fjöllin tvö, sem hér voru nefnd, standa hlið við hlið en allstór gjóta skilur þau að.[3] Á leiðinni frá Gilsbrekku út í Selárdal er fjallsbrúnin hérna megin fjarðar hvarvetna í 550-600 metra hæð yfir sjávarmáli.

Skógurinn setur hér mikinn svip á umhverfið og heitir Selárdalsskógur þegar kemur út fyrir merkin.[4] Í Selárdal var hlíðin neðan við Lásvíkurfjall og Ásfjall nefnd Innrihlíð og skiptist um Hjalla, sem hér eru áberandi, í Lægrihlíð og Hærrihlíð.[5] Mest af skóginum er á Lægrihlíð og einna þéttastur er hann á svæði sem nær frá landamerkjunum út að Grísalæk[6] sem við komum að síðar. Fram skal tekið að skógarkjarr er líka fyrir utan Selárdal og nær út undir lækinn Míganda sem skiptir löndum milli Selárdals og Norðureyrar.[7]

Guðmundur Hjaltason alþýðufræðari kom í Súgandafjörð í nóvembermánuði árið 1914 og gekk út með firðinum að vestanverðu.[8] Hann veitti skóginum athygli og ritar á þessa leið:

 

Skógur er talsverður norðanvert í Súgandafirði. Er hann eiginlega á þremur stöðum, í botninum og svo lengra út með firðinum og dálítill ennþá utar. Mestur er miðskógurinn. Ég held ég hefði þurft um tvo tíma til að ganga langs í gegnum hann. Ekki veit ég nú glöggt um hvað skógurinn er hár því ég kom ekki í hann. En ég sá hann svo glöggt upp úr snjófölinu að ég held mér sé óhætt að segja að hann sé efnilegur.[9]

 

Kristján G. Þorvaldsson, sem hér hefur oft verið vitnað til, fæddist í Selárdal 1881 og ólst þar upp. Um skóginn í norðurhlíðum Súgandafjarðar kemst hann svo að orði í ritgerð frá árinu 1949:

 

Skógur er nokkur norðanvert fjarðarins, frá Míganda og langt fram á Botnsdal. Aðallega er þetta birki en víðir og reynir er þó allvíða. Sökum brattlendis og snjóþyngsla er skógurinn víða skriðull og liggur með jörðinni og er því lægri í lofti en efni standa til. Fjárbeit hefur einnig gert honum mikið tjón, sömuleiðis snjóskriður sem hlaupa fram yfir skóglendið þar sem það er mest og slíta þær hvern anga sem upp úr snjónum stendur.[10]

 

Hrís úr skóginum var líka aðaleldsneytið bæði í Selárdal og á öðrum bæjum.[11] Í harðindum rifu menn trjágróður úr skóginum og notuðu í skepnufóður[12] og ætla má að mörg hríslan hafi farið fyrir lítið við kolagerð. Á sérhverju býli varð að afla viðarkola ár hvert svo hægt yrði að dengja ljáina og stóð svo allt fram yfir 1870 er ljáblöð Torfa Bjarnasonar, síðar skólastjóra í Ólafsdal, komu til sögu og skosku ljáirnir skömmu síðar.[13] Í Selárdalsskógi sáust víða kolagrafir á árunum kringum aldamótin 1900[14] og ekki er ólíklegt að ummerki þeirra séu þar enn sýnileg á ýmsum stöðum.

Þrátt fyrir allt þetta verður ekki annað séð en Selárdalsskógur standi nú með blóma og er hann að líkindum betur á sig kominn en um miðbik nítjándu aldar en þá fullyrtu sóknarpresturinn á Stað að allur skógur í Súgandafirði mætti heita gjöreyddur (sjá hér Botn, Klúka þar). Til marks um hæð trjánna í þessum skógi á síðari tímum má nefna að um 1950 greindi Valdimar Þorvaldsson svo frá að hún væri óvíða meiri en tveir metrar.[15]

Tvær jarðir í Súgandafirði áttu á fyrri tíð ítök í Selárdalsskógi.[16] Þessar jarðir voru Göltur og Suðureyri.[17] Um ítök beggja jarðanna er getið í Jarðabókinni frá 1710 og bar skóglendið sem fylgdi Gelti nafnið Galtarrípur.[18] Það örnefni mun nú vera týnt en ætla má að ítakið sem fylgdi Suðureyri hafi verið þar sem enn heita Suðureyrarrjóður í Selárdalsskógi. Þau er mjög skammt fyrir utan landamerkin á móti Gilsbrekku, innan við Rauðuskriðu sem einnig er nefnd Fletta.[19] Ætla má að í þeim rjóðrum hafi Suðureyrarbændur og þeirra fólk gert til kola og rifið hrís á fyrri öldum (sbr. hér Suðureyri). Þessi rjóður er auðvelt að finna því landamerkjalækurinn er enn á sínum stað og líka skriðan Fletta sem fólk í Selárdal nefndi Rauðuskriðu. Skriðan er áberandi. Upptök hennar eru hátt í hlíðinni.[20] Hún er mjó efst en breikkar smátt og smátt og neðst er hún allbreið.[21] Í rjóðrunum eru litlir grasblettir innan um skóginn en á hjallabrún í hlíðinni ofan við þau er stór steinn sem heitir Latur.[22]

Við stöldrum nú við í Suðureyrarrjóðrum og rifjum upp sumt af því sem Einar Jónsson ritaði í dagbók sína á árunum kringum 1890 um hrísrif Suðureyrarfólks í Selárdalsskógi. Vorið 1889 var Einar heimilismaður hjá Þorbirni bónda Gissurarsyni á Suðureyri og skrifar 25. maí: Það fór fernt í skóg hinum megin.[23] Orðin hinum megin merkja þarna frá hinu heimilinu á Suðureyri, það er segja frá Kristjáni Albertssyni. Þann 13. september 1889 var farið á bát frá Suðureyri að sækja hrís og daginn eftir var dagbókarritarinn að velta hrísbyrðunum heim úr fjörusandinum.[24]

Þann 8. nóvember sama ár fór Einar svo með hjónunum Maríasi Þorgilssyni og Ástríði Halldórsdóttur inn í skóg að sækja hrís.[25] Nokkru fyrr á þessu sama hausti höfðu Marías og Ástríður sest að í þurrabúð á Suðureyrarmölum en við þau bústaðaskipti urðu hjón þessi fyrstu íbúar þorpsins sem brátt tók að rísa þar á Mölunum (sjá hér Suðureyri).

Sumarið 1894 og þá um haustið var Einar hjá Kristjáni Albertssyni á Suðureyri (sjá hér Suðureyri). Stúlkurnar fóru í skóg, skrifar hann þá 5. júlí[26] og þarf vart að efa að þær hafi farið í Selárdalsskóg að rífa hrís. Að kvöldi þess 28. sama mánaðar fór Einar svo sjálfur inn í skóg, ásamt Sigríði dóttur sinni og Kristínu Kristjánsdóttur, að sækja hrísbyrðar.

Um haustið fóru tíu manneskjur frá Suðureyri í einum hóp inn í skóg að rífa hrís[27] og einn daginn í október kom Sigurður Jónsson á Laugum, áður bóndi á Gilsbrekku, út á Suðureyri að höggva niður hrís fyrir húsmóðurina, Guðrúnu Þórðardóttur,[28] eiginkonu Kristjáns Albertssonar.

Þessi fáu dæmi sýna svo ekki verður um villst að Suðureyrarfólk reif hrís í Selárdalsskógi alveg fram undir aldamótin 1900. Á síðustu áratugum 19. aldar mun vitneskja um hin fornu réttindi þó hafa verið fallin í gleymsku og orðið venja að biðja um leyfi hjá Selárdalsfólki þegar farið var í skóg.[29] Þess er svo einnig vert að geta að samkvæmt gamalli siðvenju fengu sjómenn í verstöðinni á Suðureyrarmölum að rífa hrís í Selárdalsskógi til sinna nota[30] en þeir munu löngum hafa soðið mat sinn við hlóðaeld svo sem venja var.

Kristján G. Þorvaldsson segir að við byrjun þessarar aldar (þ.e. tuttugustu aldar) hafi menn hætt að rífa hrís í skóginum.[31] Þá staðhæfingu hans er varla hægt að rengja en minnt skal á að þegar við blasti hætta á kolaskorti í byrjun heimsstyrjaldarinnar fyrri komu strax upp hjá hreppsnefnd Suðureyrarhrepps ráðagerðir um hrísrif (sjá hér Botn).

Frá Suðureyrarrjóðrum þokum við okkur út á skriðuna sem hér var áður nefnd með nafni. Í Selárdal var hún jafnan kölluð Rauðaskriða en á öðrum bæjum hét hún Fletta og heyrðist líka nefnd Svunta.[32] Öll nöfnin eru við hæfi og gefa hvert um sig og öll saman dágóða lýsingu á henni. Þessi mikla skriða er sögð vera yfir 20 faðmar á breidd[33] og mun hafa fallið í miklum rigningum að vorlagi á árunum milli 1830 og 1840.[34] Skriðan er enn mjög áberandi en byrjuð að gróa upp.

Á þessum slóðum hefur löngum verið mikið um snjóflóð og mörg þeirra hafa fallið í sjó fram.[35] Snjóflóðahætta er veruleg beggja vegna við landamerki Gilsbrekku og Selárdals og alveg út að Grísalæk[36] en hann er liðlega einum kílómetra utan við landamerkin. Á svæðinu frá Grísalæk og út að bænum í Selárdal var hætta á snjóflóðum talin langtum minni.[37]

Ofan við skriðuna Flettu (Rauðuskriðu) er stórt hvolf hátt í fjallshlíðinni. Það er girt að ofan með háum börðum og heitir Lásvíkurhvolf.[38] Þar fyrir ofan eru tveir klettahjallar, Lásvíkurhjalli neðri og efri[39] en fjallið sjálft heitir Lásvíkurfjall eins og fyrr var nefnt. Nokkru utar en Lásvíkurhvolf og í álíka hæð er stórt holt sem skagar fram úr fjallshlíðinni. Það heitir Guludýjaholt og ber nafn af litfögrum dýjum sem þar sjást, framan í holtinu.[40]

Við fikrum okkur nú í átt til sjávar en rétt fyrir utan Rauðuskriðu liggur vegarslóðinn ofan í fjöruna. Þessi vegarslóði er (1997) aðeins fær vel búnum bílum. Mjög skammt fyrir utan skriðuna er lítil vík við sjóinn og heitir hún Graskollsvík.[41] Steinn sem Graskollur heitir er þar fram í fjörunni og var áður með grastopp í kollinum.[42] Rétt utan við þessa vík er Lásvíkurnes innra og fyrir utan það Lásvík.[43] Sé horft þaðan yfir fjörðinn blasir við, aðeins utar, sá stóri Marksklettur (sjá hér Laugar) sem setur svip á hlíðina hinum megin.

Í Lásvík er jarðhiti.[44] Í klettabökkum innantil í henni sitrar volgt vatn fram á nokkrum stöðum og í aur uppi á bökkunum vottar líka fyrir jarðhita.[45] Hitastig vatnsins er sagt vera 20-25 gráður.[46] Tveir lækir falla til

sjávar í Lásvík og heita þeir Lásvíkurgil innra og ytra.[47]

Utan við Lásvík er Lásvíkurnes ytra og spölkorn þar fyrir utan djúpt gil og skriðuhryggur sem myndar svolitla eyri við sjóinn.[48] Gilið heitir Hlaðsvíkurgil  og utan við það komum við í Hlaðsvík.[49] Ofan við hana eru smáklettar í hærri hlíðinni og heita þeir Svarthamrar.[50] Neðan við þá er grasblettur.

Utantil við Hlaðsvík gengur lítið og flatt nes í sjó fram og uppi á bakkanum þar fyrir ofan, ofantil við akveginn, er gamalt hringlaga sauðahlað. Nesið tekur nafn af þessu mannvirki og heitir Hlað[51] en það er um það bil miðja vega milli innri landamerkja jarðarinnar og Ássins sem er innantil við túnið í Selárdal.[52] Tóttin er um það bil 14 metrar í ummál, vallgróin og farin að síga í jörð. Í landi flestra jarða í Vestur-Ísafjarðarsýslu má finna slíkar tóttir af gömlum fjárborgum sem oftast voru hringlaga. Þessi sauðahlöð voru reist svo fé gæti leitað þar skjóls í hríðarveðrum. Þau munu oftast hafa verið með háum veggjum en þaklaus.[53]

Frá Hlaðinu er skammur spölur út að Grísalæk sem svo heitir.[54] Nafnið bendir til þess að á fyrri öldum hafi svín verið alin í Selárdal. Grísalækur er nokkuð vatnsmikill og á upptök sín í Tóugrenstjörn sem liggur í Tóugrensurð hátt í fjallshlíðinni, fyrir ofan Hjalla.[55]

Þessir Hjallar, er svo heita, eru reyndar aðeins einn breiður hjalli sem myndar skörp skil í hlíðinni og skiptir henni í Lægrihlíð og Hærrihlíð.[56] Þeir ná frá Ásnum við dalsmynnið og inn fyrir Guludýjaholt[57] sem hér var áður nefnt (sjá bls. 4). Yst og innst eru Hjallarnir öldóttir en á þeim miðjum eru rennsléttar mýrar og nokkur aurholt.[58] Yst á Hjöllum er óslétt slægjuland sem heitir Ásteigur[59] og þar uppi voru líka mógrafir rétt hjá Grísalæk, innan við urðina sem hann kemur úr.[60]

Á árunum milli 1880 og 1890 voru mógrafir víðar á Hjöllunum og þá voru grafirnar uppi við hlíðina, fyrir ofan Grísalæk, nefndar innri grafir.[61] Á árunum 1821, 1827, 1830 og 1834 var mór hins vegar ekki notaður til upphitunar í Selárdal ef marka má búnaðarskýrslur.[62] Fólkið sem hér bjó hefur þá látið sér nægja hrís úr skóginum og kynni einnig að hafa notað sauðatað í eldinn eins og algengt var.

Grísalækjarmýri er uppi á Hjöllunum, beggja vegna við lækinn, og þrjú holt þar uppi heita Grísalækjarholt.[63] Eitt þeirra er á hjallabrúninni innan við lækinn.[64] Ein mýrin á Selárdalshjöllum heitir Rauðkembingsmýri og er hún rétt fyrir innan Grísalæk[65] Nafnið vekur athygli en rauðkembingur er gamalt heiti á dularfullri hvalategund sem aðeins er þekkt í þjóðsögum. Ekki er líklegt að mýrin sé kennd við hval og má vera að hún dragi nafn af gróðurlit. Svolítið innar á þessum sömu Hjöllum eru tvær starartjarnir sem heita Álar.[66] Utan við þær er leirpyttur sem heitir Sortuauga.[67] Undir yfirborði hans, á eins til eins og hálfs metra dýpi, er leirtegund eða leðja með sérkennilegum dökkgrænum litblæ og kallast sorta.[68] Hún var á fyrri tíð notuð til litunar ásamt sortulyngi.[69] Um 1890 var þó fyrir löngu hætt að nota sortuna með þessum hætti.[70]

Við höfum nú staldrað við um sinn í fjörunni hjá Grísalæk og rennt augum í átt til fjalls. Hér var áður minnst á slægjulandið uppi á Hjöllum en á hlíðinni, skammt innan við Grísalæk, var líka heyjað. Þrjár graslágar sem þar liggja hátt í hlíð heita Grísalækjarlágar.[71] Slægjuland var einkum í ystu og innstu láginni.[72]

Úr fjörunni við Grísalæk er skammur spölur út á Grísalækjarleiti en það er hryggur sem gengur langt fram og myndar nes við fjarðarströndina.[73] Leiti þetta byrgir sýn að utan.[74] Í munnmælum er haft að eitt sinn hafi snjóflóð hlaupið niður Grísalækjarleiti og gengið upp í sjávarbakkana vestan við fjörðinn.[75] Kristján G. Þorvaldsson segir árið 1949 að utar á hlíðinni innan við Selárdal hafi snjóflóð hins vegar aldrei fallið svo kunnugt sé.[76] Hér utan við Grísalæk er skógurinn nokkru gisnari en fyrir innan lækinn.[77] Við fylgjum áfram fjörunni og stöndum fyrr en varir á Götunesi sem er að kalla beint á móti túninu á Laugum, handan fjarðarins. Á þessu litla nesi við sjóinn lá gamla þjóðgatan ofan í fjöruna þegar komið var innan að.[78]

Skammt fyrir utan Götunes er Háaleiti.[79] Skýring á nafninu er sú að frá Ás, sem er rétt innan við túnið í Selárdal, byrgir leiti þetta sýn hið efra en lengra sést inn fyrir framan það.[80] Í hlíðinni upp af Háaleiti eru þrjár graslágar sem heita Giljalágar neðri og enn ofar aðrar þrjár er menn nefndu Giljalágar efri.[81] Sniðgötur liggja frá nýnefndum Ás og ná brún Hjallanna skammt fyrir utan Grísalæk.[82] Þær voru heybandsvegur.[83] Neðri Giljalágarnar ná upp að Sniðgötum.[84] Tvær þær ytri af þremur Giljalágum efri ná hins vegar alla leið upp í Ásteig, slægjulandið á Hjöllunum.[85] Sú innsta þessara þriggja lága ber sérstakt nafn og heitir Hauglág.[86] Hún liggur utanvert við ávalan hrygg sem gengur fram úr Hjöllunum og endar hann í hnúk, snarbröttum að framan, sem heitir Haugur.[87] Lítið hvolf neðan við Haug heitir Bolli.[88] Það er grösugt en grýtt.

Haugurinn, sem hér var nefndur, er nær beint upp af Götunesi en frá því er svolítill spölur út í Stekkjarvík.[89] Utan við hana er Stekkjartún,[90] rétt ofan við fjöruna. Þar var áður stekkur en nú er þar allstór rétt,[91] um 18 metrar á lengd og 4-5 metrar á breidd. Gamli stekkurinn, sem hér stóð áður, var að sögn í notkun þar til á árunum kringum 1830.[92] Réttin, sem nú stendur hér á sama stað, var hins vegar ekki byggð fyrr en 1898 en tvo næstu vetur þar á undan hafði grjót verið dregið að til þeirrar byggingar.[93] Áður var engin rétt í Selárdal en fé rekið saman í fjörunni undir öskuhaugnum, beint fyrir neðan bæinn.[94]

Ofan við gamla stekkjartúnið er Þrætubali og þar fyrir ofan Aurbrekka.[95] Þrætan sem balinn er kenndur við mun nú vera löngu gleymd en um hann liggja Sniðgötur,[96] heybandsvegurinn sem fyrr var nefndur.

Á Stekkjartúninu er gott að hvíla lúin bein en héðan er skammur spölur að bæjarrústunum í Selárdal. Við göngum nú frá réttinni upp á ásinn sem er fáeinum metrum utar.  Hann heitir Innri-Ás en síðan kemur Ytri-Ás og eru þetta í raun tveir hryggir á sama ásnum og aðeins lítil lægð á milli þeirra.[97] Við sjóinn er ásinn breiðastur og lítið nes sem gengur fram úr honum heitir Mið-Ás.[98] Talsvert ofar og utan við ásinn er gamla kvíabólið.[99] Á móts við það mjókkar hann og í hlíðinni þar fyrir ofan heitir hann bara Ás því nöfnin Innri-Ás og Ytri-Ás ná aðeins yfir neðsta hlutann.[100] Ásinn teygist í átt til fjalls á mörkum hlíðar og dals og ber nafnið Ás uns komið er upp á móts við Bjarnasonarbrekku sem er utan við hann (sjá hér bls. 74). Þar taka við Ásar og ná upp að Tagli en þarna er hryggurinn eða ásinn sums staðar tvískiptur.[101] Taglið, sem hér var nefnt, er mjór klettahryggur sem nær frá efstu brún Ásfjalls og niður að neðstu klettum,[102] beint upp af Ásnum, á mörkum hlíðar og dals.

Ásfjall innan við Selárdal stendur styrkum fótum og er mikil náttúruprýði með sínum fögru brúnaklettum er snúa bæði að strönd og dal. Fjallsbrúnin ofan við Tagl liggur í 579 metra hæð. Frá Taglinu neðanverðu ganga Ásaklettar inn efri hlíðina.[103] Þeir eru alllangt fyrir ofan Hjalla en þó mun neðar en klettaveggirnir í háfjallinu.[104] Klettar þessir, kenndir við Ása, ná inn fyrir gjótuna sem skilur að Ásfjall og Lásvíkurfjall.[105]

Um Ásfjall ritar Kristján G. Þorvaldsson svo:

 

Fjallið er hátt og mjög þverhnípt og var af mörgum talið ófært mönnum. Svo mun þó ekki því vissa er að í því eru hillur en sökum gróðurleysis fer fé lítið í fjallið og hefur því ekki þörf krafið að ganga í það.[106]

 

Við víkjum nú ofan frá Ásnum og skundum heim á bæjarhlaðið í Selárdal. Tún og dal munum við skoða síðar.

 

Selárdalur er forn bújörð, 12 hundruð að dýrleika samkvæmt fornu mati.[107] Landamerkjum jarðarinnar á móti Gilsbrekku hefur þegar verið lýst (sjá hér Gilsbrekka) en ytri landamerkin, á móti Norðureyri, eru við lækinn Míganda.[108] Frá bæjarhlaðinu í Selárdal eru rétt tæplega tveir kílómetrar út að merkjunum. Bærinn í Selárdal stóð mjög skammt frá sjó en ofan við túnið og brekkurnar sem taka við ofan þess skerst allmikill dalur inn í fjalllendið og heitir Selárdalur eins og jörðin. Innan við dalinn er Ásfjall en fjallið utan við hann heitir Hafnarhorn.[109] Það er hömrum prýtt hið efra en svolítið lægra en Ásfjall, brúnin í 534 metra hæð. Dalurinn liggur frá suðvestri til norðausturs. Nærri lætur að hann sé einn og hálfur kílómetri á lengd. Í ytri hlíð dalsins er þó nokkur gróður og einnig meðfram ánni sem um hann fellur.[110] Önnur tveggja alfaraleiða úr Súgandafirði til Bolungavíkur lá fram Selárdal og um heiðina Grárófu yfir í Tungudal í Bolungavík (sjá hér bls. 73-81 sbr. Gilsbrekka).

Áin sem fellur um Selárdal til sjávar rétt utan við túnið heitir nú Selárdalsá[111] en ætla má að eldra nafn hennar sé Selá því að bæði dalurinn og jörðin eru kennd við á með því nafni. Sú tilgáta hefur verið orðuð að hér kunni í fyrstu að hafa verið sel frá Botni og hafi áin verið kennd við selið en dalurinn við ána.[112] Slík hugmynd er ekki með öllu fráleit og mætti reyndar eins hugsa sér sel frá Gelti sem er ysti bærinn á norðurströnd Súgandafjarðar. Vegalengdin frá Selárdal inn í Botn er liðlega sex kílómetrar og álíka langt héðan út að Gelti en þó heldur styttra sé miðið við hið forna bæjarstæði þar (sjá hér Göltur). Sel frá jörðunum Gilsbrekku og/eða Norðureyri koma varla til greina því Selárdalur er landmeiri jörð en þær báðar og því ólíklegt að þær hafi byggst á undan.

Til skýringar á nafninu þarf reyndar ekki að gera ráð fyrir neinu seli og má kalla mun líklegra að áin hafi í fyrstu verið nefnd Selá vegna selafjölda við ós hennar, dalurinn síðan Selárdalur og bænum, sem reistur var undir dalsmynninu, gefið sama nafn er fólk settist hér að. Engu verður þó slegið föstu um þetta því fullgildar heimildir skortir.

Í Jarðabók Árna og Páls frá árinu 1710 er bújörðinni Selárdal lýst með þessum orðum:

 

Útigangur er við lakari kost og bregst oftlega. Skógur til kolgjörðar og eldiviðar nægur. Torfrista og stunga lök og lítt nýtandi. Selveiði lítil, hefur áður betri verið, brúkast nú lítt.

Skipsuppsátur og búðarstöðu á jörðin tollfrí á Suðureyri mót skógarítaki. Það hefur brúkast átölulaust allt til þessa [sjá hér bls. 2-3 og Gilsbrekka – innsk. K.Ó.].

Engjar eru mestan part eyðilagðar fyrir skriðum og snjóflóðum. Hætt er kvikfé fyrir snjóflóðum og sjávarflæðum undir móðsköflum. Kirkjuvegur langur og torsóttur yfir Súgandafjörð. Hreppamannaflutningur langur og torsóttur.[113]

 

Fram skal tekið að í Jarðabókinni stendur undir mósköflum sem er augljós misritun eða prentvilla og hefur hér verið leiðrétt. Fyrir þá sem ekki þekkja orðið móður í merkingunni fjörumóður skal tekið fram að átt er við snjóskafla sem hlaðast upp í fjörum og sjórinn nær ekki að eyða frá degi til dags. Í örnefnaritgerð sinni frá árinu 1949 getur Kristján G. Þorvaldsson um fjörumóðinn sem oft myndast í Selárdal eins og víðar á norðanverðum Vestfjörðum og segir:

 

Í norðanátt dregur mikinn snjó af bökkunum [neðan við túnið – innsk. K.Ó.]  fram á fjöruna, kallast það móður. Sem dæmi má nefna að um hvítasunnu 1910 var mannhæðarhár móður inn og niður af bænum fram á fjöru þar sem talinn var hálffallinn sjór.

Móðurinn gat oft orðið hættulegur skepnum, gat fé flætt í víkum þar sem snjórinn hamlaði því að komast upp. Einnig gróf sjórinn oft inn undir hann og fyllti þar af þara og sölum, sem fé sótti mjög í. Var þá hætta á að stykki féllu niður á það og dræpi. Það kostaði mikla árvekni og erfiði að verja fé þessum hættum.[114]

 

Í jarðabók frá árinu 1805 er gerð nokkur grein fyrir búskaparskilyrðum í Selárdal og getið um hlunnindi. Þá var talið að í landi jarðarinnar mætti fá eina tunnu af fjallagrösum á ári hverju og fimmtung úr tunnu af sellýsi,[115] það er 24 potta (sjá hér Gilsbrekka). Í þessari sömu jarðabók er líka getið um nytjar af skóginum með líkum hætti og í Jarðabókinni frá 1710 og skilyrði til fiskveiða sögð vera álíka og á Laugum.[116] Hlunnindi af fjallagrösunum voru virt á 10 álnir, skógurinn og það sem hann hafði að bjóða á 20 álnir, aðstaðan til selveiða á 16 álnir og sá kostur að geta róið til fiskjar úr heimavör að sumarlagi á 13 og 1/3 úr alin.[117] Jarðamatið frá 1805 var aldrei lögleitt en eins og hér má sjá töldu þeir sem þá virtu jarðirnar að vegna nýnefndra landkosta ætti Selárdalur að hækka í mati um nær 60 álnir, hálft hundrað, frá því sem ella hefði orðið niðurstaðan. Í öðrum heimildum má sjá að í Selárdal var sölvafjara talin óbrigðul[118] og héðan var gott að stunda hrognkelsaveiði.[119]

Árið 1849 var unnið að nýju jarðamati sem að lokum var lögfest árið 1861. Í matsgerðinni frá 1849 segir um Selárdal að skógur og beit hæg og sérlega góð hækki landverð jarðarinnar.[120] Við þetta mat var jörðin engu að síður lækkuð úr 12 hundruðum í 11,9 hundruð.[121]

Við nýtt fasteignamat sem gekk í gildi árið 1922 var Selárdalsland virt á 1.300,- krónur og hús sem hér stóðu þá á 1.700,- krónur.[122] Að þessu mati var unnið árið 1916 og þá var talið að hér mætti fleyta fram 2 kúm, 80 sauðkindum og 2 hrossum.[123] Af túninu fengust þá 90 hestar af töðu en engjarnar gáfu af sér 100 hesta af útheyi.[124] Matsmennirnir frá 1916 segja túnið í Selárdal vera grasgefið en óslétt og slægjulönd ógreiðfær á dreif um bithaga.[125] Beitilandið segja þeir vera gott en taka fram að hér sé snjóþungt.[126] Matjurtagarður var í Selárdal árið 1916.[127] Hann gaf af sér 2 tunnur af rótarávöxtum en var að sögn í slæmri rækt.[128]

Túnið í Selárdal liggur vel við sól en norðannæðingur frá dalnum dregur úr gróðri.[129] Selárdalsá fellur til sjávar rétt utan við túnið en neðan við það eru allháir klettabakkar. Brekkur ofan við túnið byrgja sýn til dalsins og héðan sést ekki heldur inn með norðurhlíð fjarðarins því Ásinn, sem fyrr var nefndur, stendur þar í vegi. Frá bæjarhlaðinu blasir Suðureyri hins vegar við og héðan er fagurt að líta til hafs út með Geltinum.

Síðasti bærinn í Selárdal var timburhús, byggt árið 1902.[130] Það var portbyggt[131] og því talið vera ein og hálf hæð.[132] Grunnflötur þess var 4,4 x 6,3 metrar[133] svo það hefur verið um það bil 28 fermetrar. Við hlið þessa íbúðarhúss stóð árið 1916 skúrbygging 4,4 x 2,2 metrar að flatarmáli.[134] Í heimild frá árinu 1940 sést að utan um nokkurn hluta íbúðarhússins voru þá komnir hlífðarveggir úr steinsteypu.[135]

Bæjarstæðið er auðfundið, skammt fyrir ofan sjávarbakkann. Leifar af tröppum sem stóðu við útidyrnar eru hér enn (1996) og skorsteinn úr steinsteypu liggur í brotum. Járnpípa stendur upp úr rústunum og má ætla að þar hafi vatnskraninn verið. Rétt utan við rústirnar niðar bæjarlækurinn og yfir hann hefur fyrir margt löngu verið lögð falleg hella. Hún er enn (1996) á sínum stað. Frá því á síðari hluta 18. aldar stóð jafnan bær á þessum stað[136] og má telja mjög líklegt að þetta sé fornt bæjarstæði. Á fyrstu áratugum 20. aldar sáust þó enn ummerki um annað bæjarstæði þar sem heitir Áarhundrað efra, skammt fyrir innan Selárdalsá,[137] en hafa ber í huga að á 18. öld var oft tvíbýli í Selárdal (sjá hér bls. 14-17) og líklegt má telja að svo hafi einnig verið fyrr.

Kargaþýfi á efra Áarhundraðinu var nefnt Hesthúsþúfur og efst í þeim voru fimm tóttir í sambyggingu og virtist líklegt að þarna hefði staðið bær.[138] Fjórar þessara tótta stóðu í beinni röð en sú fimmta var á bak við ystu tóttina.[139] Útidyr voru aðeins sjáanlegar á ystu og innstu tóttinni og sneru báðar þessar dyr til sjávar.[140] Miðtóttirnar tvær voru stærstar.[141] Við ræktunarframkvæmdir á fyrri hluta tuttugustu aldar voru þessar fornu tóttir sléttaðar út en haft var í munnmælum að bæinn sem þarna stóð hefði snjóflóð brotið niður.[142]

Selárdalur fór í eyði árið 1947 (sjá hér bls. 71) og síðustu 150 árin sem búið var á jörðinni var hér nær alltaf einbýli en þó tvíbýli fardagaárið 1828-1829 og frá 1863 til 1868[143] (sbr. hér bls. 23 og 33). Árið 1703 var tvíbýli í Selárdal og svo var einnig 1710, um 1735 og á árunum 1785-1793.[144] Einn bóndi bjó hins vegar á allri jörðinni um skeið á árunum milli 1753 og 1785 og ef til vill nokkuð lengi[145] (sbr. hér bls. 15-16). Á árunum 1790-1792 voru heimilin í Selárdal þrjú því að auk bændanna tveggja og þeirra fólks var hér húsmaður með konu og börn.[146]

Eyrarkirkja í Skutulsfirði eignaðist Selárdal eigi síðar en um 1570. Jarðarinnar er fyrst getið í máldaga Eyrarkirkju frá þeim árum[147] en vel má vera að kirkjan hafi eignast hana þó nokkru fyrr. Sama kirkja átti Selárdal enn árið 1916[148] en um 1930 bjó hér sjálfseignarbóndi.[149] Seinna eignaðist ríkissjóður jörðina.[150]

Um 1570 átti Eyrarkirkja aðeins tvær jarðir, Selárdal og svo Hafrafell í Skutulsfirði.[151] Landskuld af annarri þessara jarða var þá 10 aurar en 5 ærgildi af hinni,[152] það er 60 og 100 álnir. Líklegt er að hærri fjárhæðin, 100 álnir (5 ærgildi), hafi verið goldin af Selárdal sem að fornu mati var 12 hundruð að dýrleika en Hafrafell ekki nema 8 hundruð.[153] Árið 1658 urðu þeir sem hér bjuggu að greiða Eyrarkirkju 80 álnir (4 ærgildi) á ári fyrir ábúðina og hélst sú landskuld óbreytt mjög lengi.[154] Um miðbik nítjándu aldar var landskuldarupphæðin enn óbreytt[155] en í landaurareikningi svöruðu 80 álnir til tveggja þriðjunga úr kýrverði. Árið 1916 var þetta jarðarafgjald allmiklu lægra eða 68,- krónur en sú fjárhæð nam þá liðlega fjórum tíundu hlutum úr kýrverði.[156]

Um miðbik sautjándu aldar fylgdu jörðinni þrjú innstæðukúgildi og svo mun jafnan hafa verið á átjándu öld.[157] Byggingarbréf frá árunum 1814, 1828 og 1849 sýna að þá voru leigukúgildin, sem jörðinni fylgdu, hins vegar bara tvö (sjá hér bls. 19-21). Í Jarðatali sínu frá árinu 1847 segir Jón Johnsen þau vera þrjú[158] en það hlýtur að vera rangt. Árið 1916 fylgdu jörðinni 12 leiguær,[159] það er tvö kúgildi, og svo mun jafnan hafa verið frá 1814.[160]

Í byrjun 18. aldar var leiguliðunum sem bjuggu í Selárdal gert að greiða landskuldina í fiski, er þeir áttu að leggja inn í kaupstaðnum við Skutulsfjörð, en smjörleigurnar fyrir kúgildin bar þeim að færa klerkinum á Eyri[161] og svo mun lengi hafa verið.

Lausleg athugun á fjölda búfjár í Selárdal á fyrri tíð leiðir í ljós að í byrjun 18. aldar voru hér talsvert fleiri kýr en dæmi finnast um frá 19. öld og tala sauðfjár var þá einnig hærri en almennt var á 19. öld. Í töflu 1 sem hér fylgir má sjá hver búfjártalan var á ýmsum tímum samkvæmt opinberum skýrslum en lömb, kálfar og folöld ekki talin með. Vera má að sauðfé hafi stundum verið eitthvað fleira en fram kemur í skýrslunum.

 

Tafla 1[162]

 

Fjöldi búfjár í Selárdal 1710-1900

 

 

 

 

Í skýrslunum sem taflan er byggð á er líka unnt að sjá hvað Selárdalsfólk átti af bátum. Árin 1791 og 1821 var hér aðeins til lítill bátur, tveggja eða þriggja manna far.[163] Árið 1830 voru hér tveir bátar, annar sexæringur eða fjögra manna far en hinn minni.[164] Næstu áratugi virðist bátaeign fólksins í Selárdal hafa haldist óbreytt en 1870 átti það engan bát.[165] Árið 1880 var hins vegar kominn sexæringur eða fjögra manna far.[166]

Ef marka má tíundarskýrslur frá árunum 1891, 1895 og 1900 átti ekkjan sem þá bjó í Selárdal engan bát.[167] Hvað þetta varðar gefa skýrslurnar reyndar villandi mynd því fólkið í Selárdal mun jafnan hafa átt bát á þessum árum og lengi tvo.[168] Vorið 1907 eignaðist það svo vélbát en frá því er sagt hér á öðrum stað (sjá bls. 55-58).

 

Nöfn bænda sem bjuggu í Selárdal fyrir 1700 er hvergi að finna en árið 1703 var hér tvíbýli og hétu bændurnir Jón Jónsson og Bjarni Jónsson.[169] Jón þessi Jónsson var reyndar orðinn 90 ára gamall þegar manntal var tekið árið 1703[170] svo vel má vera að hann hafi þá verið búinn að búa hér í 60 ár eða lengur. Í manntalinu frá 1703 er reyndar tekið fram að annar Jón Jónsson, sonur hins háaldraða bónda, fari hér með búsforráð.[171] Sá Jón var 66 ára gamall og hér voru líka árið 1703 fjórar systur hans, allar á fimmtugsaldri.[172] Tíu manneskjur voru búsettar á heimili Jóns gamla Jónssonar í Selárdal árið 1703 en fimm á hinu býlinu þar sem hjónin Bjarni Jónsson og Helga Pétursdóttir réðu húsum.[173] Bjarni var þá 56 ára en Helga 33ja ára.[174]

Nöfn bændanna tveggja sem bjuggu í Selárdal árið 1710 voru hin sömu og verið hafði 1703, Jón Jónsson og Bjarni Jónsson.[175] Líklega eru þetta Jón yngri, sem fyrr var nefndur, og Bjarni sem hér bjó sjö árum fyrr. Þetta ár, 1710, bjó Jón á 9 hundruðum en Bjarni hafði aðeins 3 hundruð til ábúðar.[176] Munurinn á stærð búanna tveggja var þó minni en skipting jarðnæðisins gaf ástæðu til að ætla. Jón bjó með 3 kýr, 18 ær, 10 sauði, tvævetra og eldri, 10 veturgamla sauði, 18 lömb og 1 hest en Bjarni með 2 kýr, 12 ær, 3 sauði, tvævetra og eldri, 6 veturgamla sauði og 12 lömb.[177]

Um 1735 var hér enn tvíbýli. Maður að nafni Jón Nikulásson bjó þá á öðru býlinu en á hinu Sesselja Jónsdóttir.[178] Geta má þess að 21 árs stúlka með sama nafni var vinnukona hér í Selárdal árið 1703[179] og gæti verið sú hin sama og hér stóð fyrir búi aldarþriðjungi síðar.

Árið 1753 var Árni Sigmundsson farinn að búa í Selárdal og hafði alla jörðina til ábúðar.[180] Svo virðist sem Árni hafi verið vel bjargálna því þetta ár tíundaði hann 6 lausafjárhundruð en aðeins tveir bændur í Suðureyrarhreppi tíunduðu þá meira lausafé og svo presturinn á Stað.[181] Fjórir aðrir bændur í hreppnum stóðu svo jafnfætis Árna að þessu leyti.[182]

Árni Sigmundsson mun hafa búið lengi í Selárdal. Hann stóð hér fyrir búi 1753, 1762 og á árunum 1785-1788.[183] Líklegt má því telja að hann hafi búið hér óslitið í 35 ár og reyndar kynnu búskaparár hans að hafa verið enn fleiri. Í manntalinu frá 1762 er Árni Sagður vera 41 árs gamall[184] og ætti því að hafa fæðst um 1720. Í sömu heimild er eiginkona hans sögð vera sjö árum yngri en hún er ekki nefnd með nafni.[185] Árið 1762 voru í Selárdal þrjú börn þeirra hjóna, 14 ára drengur og tvær stúlkur, önnur 7 en hin 6 ára.[186] Hér voru þá líka tvær vinnustúlkur og einn vinnumaður.[187]. Líklegt er að Arngerður Árnadóttir, sem var 46 ára húsfreyja á Laugum árið 1801[188] (sbr. hér Laugar), hafi verið dóttir Árna í Selárdal og önnur systranna tveggja sem hér voru á ungum aldri hjá foreldrum sínum árið 1762.

Í janúarmánuði árið 1786 var Árni orðinn ekkjumaður.[189] Hann var þá enn við bú en hafði minnkað við sig því annar bóndi var farinn að búa hér á parti úr jörðinni.[190] Fardagaárið 1785-1786 voru þrjú af börnum Árna hjá honum og elst þeirra Þórdís, sögð 30 ára í janúar 1786.[191] Ætla má að hún sé önnur dætranna tveggja sem getið er um í manntalinu frá 1762 því aldurinn passar. Hin tvö börnin sem enn voru heima í Selárdal veturinn 1785-1786 voru allmiklu yngri, Eiríkur 22ja ára og Sesselja (Cecilia) 16 ára.[192] Séra Þorsteinn Þórðarson, sem var sóknarprestur Súgfirðinga á þessum árum, segir um Árna bónda í Selárdal að hann sé frómur og ráðvandur og sæmilega skýr.[193]

Vorið 1788 mun Árni Sigmundsson hafa hætt að búa og næsta vetur var hann kararmaður hjá Þórði bónda Jónssyni í Selárdal.[194] Árni dó hér 16. júní 1791.[195]

Síðustu árin sem Árni var við bú bjó hann hér í tvíbýli á móti nýnefndum Þórði Jónssyni.[196] Óljóst er hvenær Þórður hóf búskap í Selárdal en það mun eigi hafa verið síðar en vorið 1785.[197] Í janúar árið 1786 segir prestur Þórð bónda vera 37 ára og konu hans, Margréti Hákonardóttur, einu ári yngri.[198] Hjá þeim voru þá tvö börn þeirra Guðrún, 8 ára, og Hákon, 7 ára.[199] Tveimur árum síðar lætur prestur þess getið að Þórður sé dagfarsgóður en daufur í andlegu.[200]

Þau Þórður Jónsson og Margrét Hákonardóttir fóru frá Selárdal vorið 1792 og fluttust þá að Bakkakoti[201] sem var hjáleiga á Keravíkurbökkum í landi Staðar í Súgandafirði. Frá Bakkakoti fóru þau skömmu síðar að Fremri-Staðarhúsum, sem voru önnur hjáleiga frá Stað, og í örfá ár bjuggu þau á Stað en seinna í Keflavík (sjá hér Staður, Staðarhús fremri og Bakkakot þar). Hákon, sonur þessara hjóna, var formaður á öðrum bátanna tveggja sem reru frá Stekkjarnesbúðunum utan við Suðureyri árið 1815 en þeir fórust þá báðir með allri áhöfn (sjá hér Bær og Suðureyri).

Vorið 1788 fóru hjónin Nathanael Þorsteinsson og Svanborg Hákonardóttir að búa á jarðarparti hér í Selárdal og tóku þá við af Árna Sigmundssyni sem fyrr var nefndur.[202] Þau komu hingað frá nýnefndri hjáleigu, Fremri-Staðarhúsum (sjá hér Staður, Staðarhús fremri þar), sem einnig var nefnd Vandræðakot, og hér bjuggu þau í tvíbýli í fimm ár.[203] Er Nathanael og Svanborg byrjuðu búhokur sitt í Selárdal voru þau bæði um 35 ára aldur.[204] Bændurnir Þórður Jónsson og Nathanael Þorsteinsson, sem bjuggu hér saman um skeið, voru svilar því eiginkonur þeirra, Margrét og Svanborg Hákonardætur, voru systur.[205] Vera má að Þorleifur Hákonarson, sem ýmist var húsmaður eða vinnumaður í Selárdal á árunum 1786-1792, hafi verið bróðir þeirra en hann var talsvert eldri en þær, sagður fimmtugur í janúar árið 1787.[206] Í húsvitjanabókinni lætur prestur þess getið árið 1789 að hegðun þessa roskna einhleypings í Selárdal sé ábótavant.

Í búnaðarskýrslu frá desembermánuði árið 1791 sést að bú svilanna í Selárdal voru misstór. Þórður bjó þá með tvær kýr, níu ær, tíu lömb, einn hrút og einn hest en Nathanael með eina kú, fimm ær, þrjú lömb og engan hest, ef marka má skýrsluna.[207]

Eins og fyrr var nefnt fór Þórður frá Selárdal vorið 1792 en Nathanael fór héðan einu ári síðar.[208] Hann fluttist þá að Norðureyri og átti þar heima er hann andaðist snögglega 21. febrúar 1794 (sjá hér Staður, Staðarhús fremri þar).

Fardagaárin 1790-1791 og 1791-1792 voru heimilin í Selárdal þrjú því auk Þórðar og Nathanaels og þeirra fólks átti hér heima kvæntur húsmaður sem hét Guðmundur Snjólfsson.[209] Eiginkona hans hét Guðrún Jónsdóttir.[210] Þau voru bæði fædd um 1760 og er þau fóru héðan vorið 1792 áttu þau tvö ung börn, Jón á öðru eða þriðja ári og Borghildi á fyrsta ári.[211] Um Guðmund Snjólfsson segir prestur að hann sé ekki óskýr en misjafnt þokkaður.[212]

Vorið 1792 hófu hjónin Einar Magnússon og Guðrún Pálsdóttir búskap í Selárdal[213] og urðu þá tímamót því þau og síðan niðjar þeirra stóðu hér jafnan fyrir búi næstu 120 árin.[214] Fyrsta árið bjó Einar hér í tvíbýli á móti Nathanael Þorsteinssyni en vorið 1793 fékk hann alla jörðina til ábúðar og hélst sú skipan óbreytt þaðan í frá um hans daga.[215] Einar bjó í Selárdal til æviloka en hann andaðist 21. desember 1820 og Guðrún Pálsdóttir, ekkja hans, stóð hér fyrir búi allt til ársins 1828.[216] Hún var því húsfreyja í Selárdal í 36 ár.

Guðrún var fædd árið 1764 eða því sem næst,[217] dóttir hjónanna Páls Pálssonar og Herdísar Guðmundsdóttur á Kvíanesi[218] (sbr. hér Kvíanes). Guðrún húsfreyja í Selárdal var af gróinni ætt sjálfseignarbænda sem búið höfðu á Kvíanesi allt frá árinu 1616 og systur hennar þrjár urðu allar húsfreyjur í Súgandafirði (sjá hér Kvíanes).

Einar Magnússon, bóndi í Selárdal og eiginmaður Guðrúnar Pálsdóttur, var lengra að kominn. Í manntalinu frá 1816 er hann sagður vera fæddur í Kollsvík í Strandasýslu[219] en enginn bær með því nafni var til í þeirri sýslu á 18. öld[220] og hefur aldrei verið svo kunnugt sé. Niðjar Einars sem fæddust í Selárdal um 1880 töldu sig vita að þessi langafi þeirra hefði fæðst á Kollsá í Bæjarhreppi í Strandasýslu[221] og má telja líklegt að það sé hárrétt því fólkið í Selárdal geymdi vel gamlan fróðleik. Jörðin Kollsá er við vestanverðan Hrútafjörð.

Einar mun hafa fæðst árið 1756 eða því sem næst[222] og á síðari hluta nítjándu aldar kunnu niðjar hans í Selárdal frá því að segja að hann hefði verið sonur Magnúsar Björnssonar, klæðavefara við Innréttingarnar í Reykjavík og Þuríðar Magnúsdóttur, sonardóttur séra Torfa Bjarnasonar, sem prestur var í Kirkjubólsþingum við Djúp og á Stað á Snæfjallaströnd.[223] Magnús Björnsson vefari, meintur faðir Einars í Selárdal, átti heima í Skálholtskoti í Reykjavík og var sonur Björns Magnússonar, bónda í Miðhlíð á Barðaströnd, sem var skólagenginn og stundum kvaddur til setudómarastarfa.[224]

Foreldrar Einars munu ekki hafa verið gift og í skjallegum heimildum verður ekki séð hvar hann var á sínum uppvaxtarárum. Niðjar hans sem bjuggu í Selárdal á árunum kringum aldamótin 1900 töldu hann hafa alist upp í Strandasýslu og verið vel kunnugan þar, allt norður á Strandir.[225] Haft var í munnmælum að Einar hefði á yngri árum farið norður að Horni í Hornvík í Sléttuhreppi og átt þar tal við Hallvarð Hallsson,[226] hinn mikla kraftamann og ferðagarp sem banaði draugum og orti sitt hvað sem víða flaug. Hallvarður mun hafa andast árið 1781 eða því sem næst[227] svo vel getur verið að Einar Magnússon, sem þá var um 25 ára aldur, hafi náð að hitta hann að máli. Hallvarður var frá Horni en átti mörg síðustu árin heima í Skjaldabjarnarvík[228] og hafi Einar Magnússon komið á heimili hans má ætla að það hafi verið þar[229] en Skjaldabjarnarvík var nyrsti bær í Strandasýslu.

Í janúarmánuði árið 1786 var Einar kominn í Súgandafjörð og var þá þrítugur húsmaður hjá Ástríði Jónsdóttur, búandi ekkju í Botni.[230] Verið getur að hann hafi komið í Súgandafjörð nokkrum árum fyrr en sóknarmannatölin ná ekki lengra aftur í tímann. Þann 29. júlí 1787 kvæntist Einar Guðrúnu Pálsdóttur frá Kvíanesi, sem hér var áður nefnd,[231] en þá um vorið höfðu þau hafið búskap á Laugum og bjuggu þar í fimm ár.[232] Frá Laugum fluttust þau síðan að Selárdal vorið 1792 eins og hér var áður nefnt.

Merkilegt er að sjá breytilegar umsagnir prestanna á Stað um Einar Magnússon í Selárdal. Í janúarmánuði árið 1793 segir séra Þorsteinn Þórðarson að Einar sé skikkanlegur en ei rétt vel að sér.[233] Átján árum síðar fær þessi sami bóndi hins vegar þá einkunn hjá séra Þorláki Jónssyni að hann sé valinkunnur, vel skýr og  fróður.[234] Ummæli séra Þorláks sýna að Einar hefur verið farsæll maður og notið vaxandi virðingar hjá sínum samferðamönnum. Um Guðrúnu Pálsdóttur, eiginkonu Einars, segir séra Þorlákur árið 1811 að hún sé stillt og siðsöm og vel upp frædd.[235]

Kristján G. Þorvaldsson, sem var sonarsonarsonur Einars og Guðrúnar í Selárdal, ritar svo um þennan langafa sinn:

 

Þau Einar og Guðrún voru bæði vel metin, dugleg og stjórnsöm og búnaðist þeim vel. Einar var maður djarfur og ákveðinn og hikaði ekki við að brjóta í bága við annarra skoðanir eða venjur. Á yngri árum hans tók hann eitt sinn gröf með fleiri mönnum. Þegar gröfin var búin stóð lærleggur af manni inn í hana svo kistan komst ekki niður. Sáu mennirnir ekki ráð til að ná leggnum nema með nokkurri fyrirhöfn. Einar tók þá til sinna ráða, sparkaði í legginn svo hann hrökk sundur og var ekki framar til fyrirstöðu. Samverkamönnunum þótti nóg um slíkar aðfarir en engu varð umbreytt. Sögð var stutt saga um eftirköstin sem þó sökuðu Einar ekkert.

Einar rakti ætt sína til náinna skyldmenna Gissurar Einarssonar, biskups í Skálholti, en ekki er kunnugt um þann skyldleika. Margir hallmæltu þá Gissuri biskupi en Einar var á öndverðri skoðun og kunni því illa. Af mótþróa við aðra og til að votta virðingu sína fyrir þessum nafnkunna manni lét hann yngsta son sinn heita Gissur. Var þar kominn nýr Gissur Einarsson sem hann ætlaði að halda uppi minningu fyrsta lúterska biskupsins á Íslandi.[236]

 

Enn er varðveitt byggingarbréf sem séra Hákon Jónsson á Eyri lét Einari Magnússyni í té vorið 1814.[237] Í því er kveðið á um að tvö leigukúgildi skuli fylgja jörðinni[238] en áður höfðu þau verið þrjú (sjá hér bls. 12-13).

Byggingarbréfið frá 1814 er merkilegt skjal og verður því tekið hér upp til birtingar. Það hljóðar svo:

 

Ég Hákon Jónsson, prófastur í Norður-Ísafjarðarsýslu og sóknarprestur til Eyrar við Skutulsfjörð og Hóls í Bolungavík kirkjusafnaða gjöri vitanlegt: Að ég hefi byggt og hér með byggi og heimila Eyrarkirkjujörðina Selárdal í Súgandafirði, 12 hundruð að dýrleika, frá fardögum 1814 þar nú búandi landseta, Einari Magnússyni, með eftirfylgjandi skilmálum:

 

  1. Skal landseti halda húsum jarðarinnar á sinn kostnað við leigufærða hefð án alls álags eða uppbótar af landsdrottni; sömuleiðis túni, engjum og sérhverju, ásamt innstæðu og svari út í forsvaranlegu standi þá við skilur en annars með fullgildu álagi.
  2. Skal hann rækta tún og slægjuland jarðarinnar sem best hann má og verja þar til öllum áburði og má hann alls ekkert af jörðinni eða skógi hennar byggja né ljá framar en húsbóndi hans leyfi kann til að veita og ekkert húsfólk án þessa inn taka.
  3. Hann hafi nákvæmt vakandi auga með að ekkert gangi undan jörðinni með hefð af landi hennar, skógi og öðrum ítökum og hlunnindum og tilkynni húsbónda sínum ef nokkur áseilist á nokkurn hátt hans leiguland eða spillir í nokkru; standi húsbónda sínum og að lögum skil á reka öllum sem upp bera kynni á hans lóð.
  4. Hann svari lögboðinni tíund af jörðinni, haldi uppi öllum lögskilum, samt girðingum, vegabótum og nauðsynlegum greftri til vatnsveitingar og sérhverjum öðrum opinberum þyngslum sem jörðu þessari nú á liggja eða í hans ábúðartíð kynnu löglega á lögð verða.
  5. Hann svari eftir jörðina árlega afgjaldi, nefnilega einni á, loðinni og lembdri að vorlagi og 20 pörum sölusokka eða þeirra ígildi í landskuld árlega og eftir jörðinni fylgjandi 2 ásauðarkúgildi, sem hann ábyrgist án uppbótar, 4 fjórðunga af hreinu og vel verkuðu smjöri; hvörjar skuldir eiga goldnar að vera á lögtilteknum tíma.
  6. Hann sýni í öllu öðru húsbónda sínum löglega hlýðni, hollustu og velvild, hvar á mót húsbóndi hans verndi honum óumbreytta þessa ábúðarskilmála og allan þann rétt sem af henni löglega fljóta má til hans sem landseta.
  7. Ábýli sínu skal hann hafa sagt lausu innan veturnátta haustið áður hann að komanda vori vill frá jörðinni víkja.

 

Með framan- og ofanskrifuðum byggingarskilmálum byggist og heimilist framangreind jörð, Selárdalur í Súgandafirði, mönsjör Einari Magnússyni, sem þar nú býr til allra löglegra leiguliðanota framvegis og svo lengi hann girnist og ekkju hans ef vill eftir hans dag en má búast við, séu þeir rofnir, að verða sviptur ábúð og lögsóttur til skaðabóta og um skilmálarof. Til staðfestu er mín hönd og hjáþrykkt signet.

 

                   Eyri við Skutulsfjörð þann 30. maí 1814.

  1. Jónsson.

 

Einar Magnússon, bóndi í Selárdal, dó 21. desember árið 1820 eins og hér hefur áður verið nefnt en ekkja hans, Guðrún Pálsdóttir, bjó áfram á jörðinni allt til vorsins 1828.[239] Þann 4. janúar 1823 fékk hún byggingarskilmálana frá 1814 staðfesta hjá séra Eyjólfi Kolbeinssyni sem þá var prestur á Eyri.[240]

Þann 4. janúar 1828 gaf séra Eyjólfur Kolbeinsson út nýtt byggingarbréf til handa Gissuri, syni Einars og Guðrúnar, sem þá var að hefja búskap í Selárdal.[241] Skilmálarnir sem séra Eyjólfur og Gissur Einarsson sömdu um voru nánast hinir sömu og fram koma í bréfinu frá 1814 en þó tekið fram að í stað ærinnar, sem greiða bar í landskuld, megi koma tveggja vetra sauður.[242] Í bréfinu frá 1828 er tekið fram að bæði landskuldina og smjörleigurnar beri ábúanda að greiða á áru hverju og færa prestinum á Eyri á lögtíð.[243] Um Selárdalsskóg segir þar að sómagæddum yngismanni, monsjör Gissuri Einarssyni, sé líka falið að annast hann sem best, – að sem minnst til þurrðar gangi en brúka megi hann skóginn til búsnauðsynja sinna.[244]

Þann 29. júní 1849 voru byggingarskilmálarnir frá 1828 staðfestir án nokkurra breytinga af séra Hálfdani Einarsyni, þáverandi presti á Eyri.[245] Þessir skilmálar héldust óbreyttir allt til ársins 1912 að öðru leyti en því að í stað 20 para af sokkum voru þá komnar 20,- krónur og geld ær í staðinn fyrir á loðna og lembda.[246] Valdimar Þorvaldsson, sem átti heima í Selárdal frá 1878 til 1912, segir að kjötið af sauðnum eða ánni sem Eyrarprestur fékk héðan hafi ekki mátt vigta minna en 40 pund og mörinn ekki minna en 8 pund.[247] Hann getur þess líka að með tveimur kúm hafi aðeins verið hægt að ala 30 ær í Selárdal og ærnar tólf, sem Eyrarkirkja átti hér, hafi því verið stór hluti af fjárstofninum.[248] Sex ær voru í hverju kúgildi og í leigur af því bar samkvæmt Jónsbókarlögum að greiða tvo fjórðunga af smjöri. Fimm kíló voru í hverjum fjórðungi svo Selárdalsfólk varð á ári hverju að greiða 20 kíló af smjöri í leigur af þessum tólf kirkjuám sem hér stóðu inni.[249]

Hjónin Einar Magnússon og Guðrún Pálsdóttir eignuðust sex börn, fjóra syni og tvær dætur, sem öll voru á lífi þegar faðir þeirra andaðist árið 1820.[250] Þau voru þá á aldrinum 22ja til 32ja ára og ekkert þeirra hafði þá enn farið frá Selárdal eða gengið í hjónaband.[251] Þetta var reyndar dálítið sérstakt því að á þessum árum sluppu fáir foreldrar við að missa eitt eða fleiri börn væri hópurinn svona stór. Valdimar Þorvaldsson, sem var sonarsonur yngsta bróðurins, segir að þessi systkini frá Selárdal hafi verið tilnefnd sem fólk mjög ráðvant og ábyggilegt til orða og verka, með prúða framgöngu.[252]

Eins og fyrr var getið hélt Guðrún Pálsdóttir áfram búskap í Selárdal að manni sínum látnum og stóð hér fyrir búi, sem ekkja, á áttunda ár. Elsti sonur Einars og Guðrúnar var Jón, fæddur 1788.[253] Hann kvæntist á árunum upp úr 1820 og fluttist þá að Kvíanesi en bjó síðar í örfá ár á Norðureyri (sjá hér Norðureyri). Sveinbjörn Einarsson í Selárdal, sem fæddur var árið 1795, andaðist 1. apríl 1822[254] en fjögur af systkinunum voru hér enn þegar móðir þeirra hætti að búa vorið 1828, Ingibjörg, Þórunn, Þórarinn og Gissur.[255] Þórunn Einarsdóttir, sem fædd var árið 1792, giftist vorið 1825 Halldóri Eiríkssyni en hann var sonur séra Eiríks Vigfússonar, prests á Stað í Súgandafirði, og konu hans, Ragnheiðar Halldórsdóttur.[256] Halldór fluttist þá að Selárdal og voru þau Þórunn þar í húsmennsku næstu árin.[257]

Í búnaðarskýrslu frá haustinu 1827 er Guðrún Pálsdóttir enn talin standa fyrir búinu í Selárdal[258] en í sóknarmannatali frá marsmánuði árið 1828 eru þeir Gissur Einarsson, yngsti sonur Guðrúnar, og Halldór Eiríksson, tengdasonur hennar, sagðir búa hér í tvíbýli. Búnaðarskýrslan, sem hér var nefnd, sýnir að þeir hafa ekki tekið við að fullu og með formlegum hætti fyrr en vorið 1828, enda segir í byggingarbréfinu, sem Gissur fékk í hendur 4. janúar 1828 (sjá hér bls. 21), að honum séu veitt umráð yfir jörðinni frá næstkomandi fardögum.[259]

Guðrún Pálsdóttir telst því hafa farið með búsforráð í Selárdal allt til vorsins 1828 þó að stjórntaumarnir væru að meira eða minna leyti komnir í hendur Gissurar og Halldórs síðasta árið sem hún bjó.

Halldór Eiríksson átti heima í Selárdal í fjögur ár en í bændatölu var hann hér aðeins fardagaárið 1828-1829.[260] Hann fluttist héðan vorið 1829, ásamt Þórunni konu sinni og börnum þeirra, að Grafargili í Valþjófsdal í Önundarfirði[261] og þar bjuggu þau lengi (sjá hér Grafargil). Til Þórunnar dóttur sinnar og Halldórs fór Guðrún gamla Pálsdóttir frá Selárdal árið 1834[262] og á Grafargili var hún enn ellefu árum síðar.[263] Hún fluttist frá Grafargili til Þórarins sonar síns á Suðureyri árið 1848 og dó þar 17. nóvember á því ári.[264]

Þess hefur áður verið getið að á 120 ára tímabili, árunum 1792-1912, var jafnan einbýli í Selárdal nema það eina ár sem Halldór Eiríksson bjó hér á móti Gissuri mági sínum og svo á árunum 1864-1868 (sjá hér bls. 33). Nú kynni einhver að láta sér koma til hugar að Halldór hafi í raun verið húsmaður fardagaárið 1828-1829 og aðeins talinn til bænda fyrir misskilning eða vegna þess að sóknarpresturinn, sem var faðir hans, hafi viljað hækka þennan son sinn í sessi. Slík hugdetta á sér þó varla nokkra stoð. Vísa sem Níels Jónsson á Gelti skrifaði í almanak sitt bendir að minnsta kosti til þess að á árum sínum í Selárdal hafi Halldór komist í tölu bænda en hún er svona:

 

Selárdalnum sitja á

sómarekkar glaðir.

Halldór og Gissur heita má,

hvorugur léttsinnaðir.[265]

 

Meiningin er líklega sú að þeir mágar hafi verið glaðværir en þó ekki léttúðugir og er þá vel.

Gissur Einarsson, sem tók við búsforráðum í Selárdal vorið 1828, var fæddur hér 17. september 1798[266] og var því að verða þrítugur er hann byrjaði búskap. Með byggingarbréfinu, sem áður var frá sagt og út var gefið 4. janúar 1828, fékk Gissur full umráð yfir allri jörðinni frá næstu fardögum[267] svo ljóst er að Halldór mágur hans hefur verið hér í skjóli Gissurar það eina fardagaár sem þeir bjuggu saman í tvíbýli.

Þórarinn Einarsson, bróðir Gissurar sem var liðlega einu ári eldri en hann, fór ekki frá Selárdal fyrr en vorið 1828,[268] sama vor og Gissur fór að búa. Báðir höfðu þeir unnið heimilinu í Selárdal alla tíð og voru þá enn ókvæntir þó komnir væru um og yfir þrítugt.[269] Líklega hefur verið erfitt að ákveða hvor þeirra ætti að taka við jörðinni og vera má að teygst hafi úr búskap gömlu konunnar, móður þeirra, af þeim sökum. Lykillinn að lausn á þessum vanda fannst haustið 1827 en þá mun hafa verið afráðið að Þórarinn gerðist á komandi vori ráðsmaður hjá ekkjunni Elínu Illugadóttur sem bjó á Suðureyri og átt hafði Örnólf ríka Snæbjörnsson fyrir eiginmann (sjá hér Suðureyri). Allt gekk það eftir og þar með varð Gissuri leiðin greið í húsbóndasætið í Selárdal.

Þegar Gissur fór að búa fékk hann sér ráðskonu sem var nokkrum árum yngri en hann og hét Guðrún Ólafsdóttir.[270] Þann 7. september 1829 var svo haldið tvöfalt brúðkaup á Suðureyri en þann dag gekk Þórarinn Einarsson frá Selárdal að eiga ekkjuna Elínu Illugadóttur og Gissur, bróðir hans, ráðskonu sína, Guðrúnu Ólafsdóttur.[271] Báðir höfðu þeir bræður þá búið með konuefnum sínum nokkuð á annað ár. Morgungjöf Þórarins til Elínar var 40 spesíur, það er 80 ríkisdalir, en Gissur gaf Guðrúnu 30 spesíur í morgungjöf.[272] Hið opinbera kýrverð var þá um það bil 21 ríkisdalur[273] eða liðlega 10 spesíur svo andvirði morgungjafa bræðranna nam samtals liðlega sex og hálfu kýrverði.

Elín Illugadóttir á Suðureyri var orðin fimmtug þegar hún giftist Þórarni Einarssyni frá Selárdal. Þau voru því barnlaus og svo fór að aðeins tvö af sex börnum Einars Magnússonar og Guðrúnar Pálsdóttur náðu að eignast börn sem niðjar eru komnir frá.[274] Þessi tvö voru Þórunn húsfreyja á Grafargili[275] og Gissur bóndi í Selárdal.

Guðrún Ólafsdóttir, sem varð bústýra í Selárdal vorið 1828 og giftist Gissuri Einarssyni haustið 1829, var fædd í Ytri-Hjarðardal í Önundarfirði 21. ágúst 1801 og var dóttir hjónanna Ólafs Jónssonar og Guðrúnar Sumarliðadóttur er síðast bjuggu í Mosdal í Önundarfirði.[276] Síðustu árin sem Ólafur Jónsson lifði var hann hreppstjóri en hann var einn hinna mörgu sem týndu lífi í mannskaðanum mikla vorið 1812, þegar átta bátar úr Önundarfirði fórust á hafi úti þann 6. maí, þar af sjö með allri áhöfn (sjá hér Mosvallahreppur, inngangskafli og Mosdalur).

Að föður sínum látnum mun Guðrún hafa alist upp, að mestu eða öllu leyti, hjá Þorvaldi Sveinssyni í Hvammi í Dýrafirði.[277] Einn sona Þorvaldar í Hvammi hét Þorbjörn.[278] Hann drukknaði ungur að árum og er sagt að þau Guðrún hafi þá verið heitbundin.[279]

Guðrún Ólafsdóttir fluttist til Súgandafjarðar árið 1828, er hún gerðist bústýra í Selárdal,[280] og hér átti hún síðan heima til æviloka. Á fyrsta hjúskaparári Guðrúnar og Gissurar, bónda í Selárdal, tók hún til sín móður sína, Guðrúnu Sumarliðadóttur, en gamla konan fór brátt aftur til Dýrafjarðar.[281] Hún var dóttir Sumarliða Þorvaldssonar, hreppstjóra á Sveinseyri í Dýrafirði, og konu hans Guðrúnar Illugadóttur[282] og systir Gunnhildar Sumarliðadóttur sem drukknaði í Sveinseyrarlendingu 24. ágúst 1793 (sjá hér Sveinseyri). Almennt var talið að Gunnhildur hefði strax gengið aftur og í hugum ærið margra var hún mögnuðust allra drauga í Vestur-Ísafjarðarsýslu í 150 ár. Sú var trú manna að Gunnhildur fylgdi einkum systkinum sínum og þeirra niðjum,[283] m.a. fólkinu í Selárdal, en að sögn Kristjáns G. Þorvaldssonar, sem átti Guðrúnu Sumarliðadóttur fyrir langömmu, varð Selárdalsfólk aldrei vart við þessa systur hennar og lagði engan trúnað á sögurnar um Gunnhildi.[284]

Þau Gissur Einarsson og Guðrún Ólafsdóttir stýrðu búi í Selárdal í 26 ár, frá 1828 til 1854, og svo Guðrún í 12 ár enn að Gissuri látnum. Hún var því húsfreyja í Selárdal í 38 ár, tveimur árum lengur en tengdamóðir hennar, Guðrún Pálsdóttir, sem fyrr var frá sagt (sjá hér bls. 17). Ekkert af barnabörnum Gissurar Einarssonar náði að sjá þennan afa sinn en þau heyrðu margt um hann talað af kunnugum á sínum uppvaxtarárum og einn sonarsonur Gissurar lýsti honum svo síðar:

 

Hann var meðalmaður á hæð, þéttur á velli og kvikur í gangi og hreyfingum, skrifaði vel, prúður og gamansamur, gerði stökur við tækifæri. Svo virðist sem hann hafi verið mikill verkmaður. Hann var smiður á tré og járn og enn (um 1950) eru til kistur úr rekavið með sterklegum skrám og lömum, að öllu smíðaðar eftir hann.[285]

 

Sóknarprestur Gissurar, séra Eiríkur Vigfússon, segir árið 1834 að bóndi þessi sé skikkanlegur og vel að sér í kristindómsþekkingu.[286]

Að sögn kunnugra fékkst Gissur allmikið við skriftir, skrifaði sæmilega snarhönd og prýðilegt settletur en með því afritaði hann margar bækur sem voru engu ólæsilegri en þó prentaðar væru.[287] Í Súgandafirði var lítið um búnaðarframfarir á dögum Gissurar Einarssonar. Á nokkrum bæjum, þar á meðal í Selárdal, voru þó grafnir áveituskurðir í því skyni að auka grasvöxtinn.[288] Í búnaðarskýrslu frá árinu 1840 sést að þá var kominn hér tíu faðma langur skurður til vatnsveitinga.[289]

Árið 1830 bjó Gissur með 2 kýr, 1 kvígu, 20 ær, 12 gemlinga, hrúta og sauði, 10 lömb og 1 hest.[290] Hann átti þá tvo báta og var annar þeirra sexæringur eða fjögra manna far en hinn var minni.[291] Árið 1840 var bú Gissurar álíka stórt og verið hafði tíu árum fyrr og bjó hann þá um haustið með 3 kýr, 16 ær, 8 gemlinga, hrúta og sauði, 12 lömb og 1 hest.[292] Auk Gissurar var aðeins einn annar bóndi í Súgandafirði með þrjár kýr haustið 1840 og var það Guðmundur Arason á Kvíanesi.[293] Hjá öllum hinum voru kýrnar færri. Árið 1850 voru hins vegar bara tvær kýr í Selárdal en þá voru sauðkindurnar orðnar fleiri en áður, 24 ær, 19 gemlingar, hrútar og sauðir og 24 lömb.[294]

Árin 1840 og 1850 var bátaeign Gissurar óbreytt frá því sem verið hafði 1830, einn sexæringur eða fjögra manna far og svo annar minni bátur.[295] Hann átti verbúð á Suðureyrarmölum[296] (sbr. hér Suðureyri) og mun sjálfur jafnan hafa verið formaður á vorvertíðinni.[297] Valdimar Þorvaldsson segir að menn úr innstu hreppunum við Ísafjarðardjúp hafi ætíð verið í skiprúmi hjá Gissuri og nafngreinir Jón Helgason á Látrum í Mjóafirði sem hann segir hafa verið háseta hjá Gissuri að vorinu í fjölda ára[298] (sbr. hér Suðureyri).

Gissur Einarsson, bóndi í Selárdal, mun tvisvar hafa misst bát af völdum náttúruhamfara og stóðu báðir þessir bátar á þurru landi er þeir töpuðust.[299] Hið fyrra sinn missti hann sexæring í hinu mannskæða snjóflóði sem féll á Norðureyri 15. desember 1836.[300] Í Sunnanpóstinum frá árinu 1838 er sagt frá nýnefndu snjóflóði og þess meðal annars getið að það hafi tekið sexæring er stóð við sjóinn með öllu tilheyrandi og eyðilagt hann gjörsamlega.[301] Á frásögninni sem hér var vísað til er svo að skilja að sexæringurinn hafi staðið við sjóinn á Norðureyri en verið getur að hann hafi staðið á Suðureyrarmölum því að þar hljóp sjór á land af völdum þessa sama snjóflóðs.[302] Fullvíst er að snjóflóð sem féllu löngu síðar á Norðureyri ollu skemmdum á Suðureyrarmölum, m.a. á bátum.[303] Í Sunnanpóstinum er ekki nefnt hver átti bátinn, sem snjóflóðið eyðilagði, en Valdimar Þorvaldsson, sem var sonarsonur Gissurar, staðhæfir að afi sinn hafi átt hann.[304] Þá staðhæfingu er varla ástæða til að rengja því búnaðarskýrsla frá haustinu 1837 sýnir að Gissur átti þá aðeins lítinn bát, sem var tveggja eða þriggja manna far,[305] en annars átti hann oftast tvo báta og var sá stærri fjögra manna far eða sexæringur eins og fyrr var getið.

Að sögn Valdimars Þorvaldssonar missti Gissur bát öðru sinni vegna veðurs.[306] Sá bátur hafði verið settur upp á Ytri-Ásinn í Selárdal vegna fyrirhugaðra viðgerða eða endurbóta og þaðan fauk hann.[307] Gissur var bátasmiður[308] og mun hafa smíðað sér nýjan bát er hann missti þennan.[309]

Á fyrstu búskaparárum Gissurar Einarssonar og Guðrúnar konu hans var stundum hjá þeim húsfólk.[310] Má þar nefna Bjarna Jónsson, sem var húsmaður í Selárdal frá 1831 til 1833, þá liðlega sextugur að aldri,[311] og fardagaárið 1833-1834 voru Ingibjörg Einarsdóttir, systir Gissurar, og eiginmaður hennar hér í húsmennsku.[312] Eiginmaður Ingibjargar hét Gísli Jónsson og í sóknarmannatali frá marsmánuði árið 1834 er hún sögð vera 44 ára en hann 27 ára.[313] Þau fluttust að Grafargili í Valþjófsdal vorið 1834, til Þórunnar systur Ingibjargar.[314]

Gissur Einarsson og Guðrún Ólafsdóttir eignuðust fimm börn, sem öll komust upp, og var heimili þeirra oft nokkuð fjölmennt.[315] Á árunum 1839 til 1849 voru jafnan 10-15 manneskjur í Selárdal.[316] Árið 1839 voru hér 2 vinnumenn og 3 vinnukonur en flest var fólkið við húsvitjun í marsmánuði árið 1843.[317]

Börnin, sem Gissur bóndi eignaðist með Guðrúnu konu sinni, fæddust öll á árunum 1830-1839 og voru þessi talin í aldursröð: Þorbjörn, Guðrún Jóhanna, Ólafur og Þorvaldur.[318] Eina dóttur eignaðist Gissur svo fram hjá konu sinni og var það Signý sem fæddist 10. október 1833.[319] Móðir hennar var Guðlaug Sigmundsdóttir sem þá var liðlega tvítug vinnukona í Selárdal[320] (sbr. hér Botn). Signý var 7 mánuðum yngri en Jóhanna, hálfsystir hennar, og 5 mánuðum eldri en Ólafur, hálfbróðir hennar.[321] Ekki verður nú séð að neinn verulegur ófriður hafi fylgt fæðingu þessa hórbarns. Móðir þess var að vísu látin fara burt og var um tíma á Suðureyri en Signý ólst upp með hálfsystkinum sínum í Selárdal og náði að vaxa úr grasi.[322] Þegar hún var á fimmta ári kom móðir hennar aftur í Selárdal og giftist um það leyti Einari Brynjólfssyni.[323] Þau Einar og Guðlaug voru pússuð saman haustið 1839 og næstu níu ár voru þau bæði vinnuhjú hjá Gissuri í Selárdal, barnsföður Guðlaugar.[324] Seinna bjuggu þau skamman tíma í Botni og hefur áður verið frá þeim sagt í þessu riti (sjá hér Botn). Löngu seinna settist Guðlaug Sigmundsdóttir að í Selárdal í þriðja sinn, hjá niðjum Gissurar Einarssonar, mannsins sem hún féll með á ungum aldri, og var hér sveitarómagi þegar hún dó 13. desember 1899.[325] Signý, dóttir Guðlaugar og Gissurar, fluttist burt úr Súgandafirði á árunum milli 1860 og 1870 og var haustið 1880 gift kona á Ytri-Búðum í Bolungavík.[326]

Árið 1842 settust hjón sem farin voru að reskjast að í Selárdal. Þau hétu Guðmundur Jónsson og Ingibjörg Jónsdóttir og komu frá Görðum í Önundarfirði.[327] Í sóknarmannatali frá marsmánuði árið 1843 er Guðmundur sagður vera húsmaður í Selárdal[328] en Valdimar Þorvaldsson staðhæfir að hann hafi verið hér heimiliskennari[329] (sbr. hér Suðureyrarhreppur, inngangskafli). Kristján G. Þorvaldsson, bróðir Valdimars, segir líka að Gissur afi þeirra hafi verið hér með heimiliskennara í einn eða tvo vetur á árunum kringum 1850.[330] Líklegt er að einhver fótur sé fyrir þessu því þegar þeir bræður voru um tvítugt hér í Selárdal á síðustu árum nítjándu aldar gafst þeim kostur á að ræða daglega og árum saman við tvær gamlar konur sem hér voru samtíða Guðmundi Jónssyni veturinn 1842-1843, þær Guðlaugu Sigmundsdóttur, sem fyrr var nefnd, og Guðrúnu Gissurardóttur, sem var föðursystir þeirra.[331] Ætla má að nýnefnd Guðrún, sem fædd var 15. febrúar 1832,[332] hafi verið eitt af börnunum sem Guðmundur kenndi. Fróðleik um kennsluna í Selárdal um miðbik 19. aldar gátu þeir Kristján og Valdimar Þorvaldssynir líka sótt til föðurbræðra sinna, Þorbjörns Gissurarsonar á Suðureyri, sem lifði til 1905, og Ólafs Gissurarsonar á Ósi í Bolungavík sem dó 1910.[333]

Hafi Guðmundur Jónsson fengist við barnakennslu í Selárdal er líklegast að það hafi verið veturinn 1842-1843 því hér var hann aðeins búsettur þennan eina vetur. Hitt gæti þó líka verið að hann hafi kennt hér í einhverjar vikur síðar.[334] Frásögn Valdimars gefur til kynna að úr röðum Súgfirðinga hafi Gissur Einarsson í Selárdal orðið fyrstur manna til þess að ráða til sín heimiliskennara (sjá hér Suðureyrarhreppur, inngangskafli). Líklegt er að það sé rétt en þó er hugsanlegt að enn eldri dæmi um slíkt framtak hafi fallið í gleymsku. Frá Guðmundi Jónssyni, sem talinn hefur verið fyrsti barnakennarinn í Súgandafirði, er sagt hér á öðrum stað (sjá hér Garðar).

Gissur bóndi í Selárdal varð bráðkvaddur á ferð út í Staðardal 17. desember 1854.[335] Hann var þá 56 ára gamall.[336] Gissur varð stefnuvottur árið 1843[337] og líklega hefur hann gegnt því embætti til æviloka því sagt er að hann hafi verið í opinberum erindum þegar hann andaðist á leiðinni frá Suðureyri út í Staðardal.[338] Frá ævilokum Gissurar segir sonarsonur hans svo:

 

Hinn 17. desember 1854 var Gissur að fara út í Staðardal í einhverjum opinberum erindum. Hann var greiðgengur eins og vandi hans var til. Þegar samferðamennirnir voru komnir út í Stöðina, þá var hann kominn á miðjan Skollasand. Þar datt hann niður og var sem næst dáinn er þeir komu til hans.[339]

 

Sú tilgáta hefur verið sett fram að Gissur hafi nýlega verið orðinn hreppstjóri þegar hann andaðist[340] en fyrir henni finnast engin rök og fullvíst er að Guðmundur Guðmundsson á Suðureyri var hreppstjóri 20. október 1854.[341]

Þegar Gissur andaðist tók ekkja hans, Guðrún Ólafsdóttir, við öllum búsforráðum og bjó hér áfram með styrk barna sinna.[342] Þau voru þá á aldrinum 15-24 ára og studdu öll móður sína við búskapinn næstu ár.[343] Elstur barnanna var Þorbjörn, fæddur 7. apríl 1830, og varð hann ráðsmaður á búi móður sinnar og tók við formennsku á bátnum sem faðir hans hafði átt.[344]

Veturinn 1858-1859 var Þorbjörn um tíma við smíðar á Ísafirði og kynntist þá Höllu Guðmundsdóttur, þrítugri stúlku úr Helgafellssveit á Snæfellsnesi.[345] Halla hafði átt heima í Barðastrandarsýslu um nokkurra ára skeið en var nýlega flutt til Ísafjarðar.[346] Sumarið 1854 hafði hún eignast dreng með kvæntum manni, Þorsteini Thorsteinsson sem þá var kaupmaður á Patreksfirði en síðar verslunarstjóri á Þingeyri og að lokum bóndi í Æðey.[347] Sonur Höllu og Þorsteins fæddist í Otradal 4. júní 1854 og var skírður Pétur Jens.[348] Þorsteinn játaði faðerninu alllöngu síðar og þaðan í frá bar pilturinn nafnið Pétur J. Thorsteinsson. Hann varð þjóðkunnur athafnamaður og rak lengi mikla skútuútgerð og verslun á Bíldudal. Þegar Halla kom til Ísafjarðar sumarið 1858 var þessi sonur hennar 4 ára gamall en honum var snemma komið í fóstur að Hallsteinsnesi í Gufudalssveit og ólst hann þar upp að mestu eða öllu leyti.[349]

Sjálf var Halla fædd 23. október 1828 á bænum Efrihlíð í Helgafellssveit en þar stóðu foreldrar hennar þá fyrir búi.[350] Þau hétu Guðmundur Sumarliðason og Solveig Sveinsdóttir.[351] Halla mun ekki hafa alist upp hjá foreldrum sínum því presturinn sem fermdi hana vorið 1842 segir að ýmsir húsbændur hafi uppfrætt þessa stúlku.[352] Hún átti þá heima í Stykkishólmi og þegar prestur færir nöfn fermingarbarnanna til bókar lætur hann þess getið að Halla sé vel uppfrædd og skikkanleg.[353] Haustið 1845 var hún 17 ára vinnukona í Bjarnarhöfn á Snæfellsnesi.[354]

Kynni Höllu og Þorbjörns Gissurarsonar á Ísafirði veturinn 1858-1859 leiddu til þess að hann réð hana sem vinnukonu til sín og móður sinnar og kom hún í Selárdal vorið 1859.[355] Sagt er að á Ísafirði hafi þau Halla og Þorbjörn fellt hugi saman og um kynni þeirra ritar bróðursonur Þorbjörns á þessa leið:

 

… Hún var fríð stúlka, kát og létt í lund, vel verki farin og vel menntuð eftir því sem þá gerðist. Þau Þorbjörn og Halla felldu brátt hugi saman og varð það að hún réðist að Selárdal sem vinnukona þá um vorið. Þar var hún svo það ár og réðst til næsta árs, einnig sem vinnukona. Þegar kom fram á sumarið 1860 kom í ljós að Halla var kona ekki einsömul. Móðir Þorbjarnar komst að því að það var af hans völdum og fékk einnig vitneskju um hvernig málum þeirra var háttað. Hún [Guðrún húsfreyja í Selárdal] var mæt og mikil kona en eins og fleiri konur þeirra tíma vildi hún ráða kvonfangi og gjaforði barna sinna og henni líkaði ekki þessi ráðahagur.

Ekki verður þó annað séð en Halla hafi verið mjög myndarleg stúlka og systur Þorbjarnar minntust hennar alla tíð sem afburða konu á verklegu sviði, enda höfðu þær lært mikið af henni í hannyrðum og handavinnu. Ekki var heldur annað á þeim að heyra en samvera þeirra með Höllu hefði verið hin ánægjulegasta. Þrátt fyrir það munu þær hafa verið í anda með móður sinni í giftingarmálunum.

Hugsast getur að gömlu konunni hafi þótt Halla helst til glaðvær en þó kannske ráðið mestu að Halla hafði áður átt barn, dreng sem þá var 5 ára og var til fósturs suður í Gufudalssveit. Drengurinn hét Pétur og bar ekki nafn síns rétta föður en hafi hin siðavanda kona heyrt orðróm um hver hinn rétti faðir var, sem var giftur maður, mun það ekki hafa gert Höllu álitlegri tengdadóttur í hennar augum.

Niðurstaðan varð sú að Þorbjörn varð að beygja sig fyrir vilja móður sinnar. Halla var látin fara af heimilinu. Fór hún í Botn og þar ól hún barnið 18. nóvember 1860. Var það drengur sem hlaut nafnið Kristján. Vorið eftir fór Halla úr sveitinni en drengurinn fór í Selárdal til ömmu sinnar.

Ævintýri þessu var þar með lokið en ekki er vitað hver merki það lét eftir hjá hlutaðeigendum. Þorbjörn var maður dulur og fáorður og mun enginn hafa heyrt hann minnast á þetta mál. Víst er að Halla var sem særð hind er hún fór úr Súgandafirði en vera má að tíminn hafi grætt það sár eins og svo mörg önnur. En aldrei giftist hún og aldrei var hún við karlmann kennd eftir þetta.[356]

 

Þessi frásögn Kristjáns G. Þorvaldssonar er allrar athygli verð og fullvíst má telja að rétt sé frá greint í aðalatriðum. Í prestsþjónustubókinni frá Stað í Súgandafirði er staðfest að Kristján Þorbjarnarson fæddist í Botni 18. nóvember 1860 og er móðirin þá sögð vera þar húskona.[357] Í Botni hefur Halla komist í skjól Kristínar Þórarinsdóttur, sem þar var húsum ráðandi haustið 1860, en Kristín var ljósmóðir.[358] Hún tók á móti barninu og var einn þriggja votta þegar það var skírt á heimili hennar í Botni.[359]

Sagan sem hér hefur nú verið rifjuð upp bendir til þess að Guðrún Ólafsdóttir í Selárdal, móður Þorbjörns, hafi verið stjórnsöm í meira lagi og líklega hefur Þorbirni verið annað betur gefið en einbeitni fyrst hann lét kúga sig með þessum hætti, þrítugur maðurinn.

Er Höllu Guðmundsdóttur hafði verið komið burt frá Selárdal mun Guðrún húsfreyja hafa lagt kapp á að tryggja Þorbirni sem fyrst verðugt kvonfang. Valdimar Þorvaldsson, sonarsonur hennar, segir hana hafa verið að hugsa um Guðrúnu E. Sturludóttur sem þá var ung stúlka í Dalshúsum í Valþjófsdal[360] en varð síðar húsfreyja á Stað í Súgandafirði (sjá hér Staður). Að sögn Valdimars hvarf amma hans þó frá þeirri hugmynd er hún minntist þess að afi stúlkunnar í Dalshúsum hefði ekki séð sér fært að bjarga afa Þorbjörns, Ólafi hreppstjóra í Mosdal, í mannskaðaveðrinu mikla 1812 þegar hann fór þar framhjá og sá til hans.[361]

Sá afi Guðrúnar E. Sturludóttur í Dalshúsum sem þarna er átt við hlýtur að vera föðurafi hennar, Jón Guðmundsson, bóndi á Kirkjubóli í Valþjófsdal, fæddur 1775,[362] en hann var einn fjögurra formanna úr Önundarfirði sem náðu landi í hinu mikla mannskaðaveðri 6. maí 1812 þegar átta bátar þaðan fórust og sjö þeirra með allri áhöfn (sjá hér Mosvallahreppur, inngangskafli).

Líklegt er að hugur Guðrúnar Ólafsdóttur, húsfreyju í Selárdal, hafi sveimað víða í leit að verðugu konuefni fyrir Þorbjörn son sinn eins og komið var. Lausnin fannst vorið 1861 og lagði Þorbjörn þá upp í bónorðsferð norður yfir Grárófu á fund Magnúsar Árnasonar í Þjóðólfstungu, sem var næsti bær norðan við heiðina, og bað sér til handa Sesselju dóttur hans sem þá var 24 ára gömul.[363] Magnús tók Þorbirni vel en sagði: Þú hefðir heldur átt að biðja um hana Rannveigu, [364] en hún var systir Sesselju, fjórum árum eldri, og gift öðrum manni þegar Þorbjörn bar upp bónorð sitt.[365] Var þetta talið bera vott um hreinskilni Magnúsar og það álit hans að Þorbirni hæfði aðeins úrvals kona.[366]

Að sögn þeirra sem kunnugastir voru í Selárdal vildi Guðrún Ólafsdóttir helst ráða makavali allra barna sinna (sjá hér bls. 30) og svo fór að dætur hennar, Guðrún og Jóhanna Gissurardætur, pipruðu báðar og lifðu einlífi í Selárdal til æviloka.[367] Jóhanna dó, 61 árs að aldri, 28. apríl 1894 en Guðrún systir hennar varð 73ja ára og andaðist 14. ágúst 1905.[368] Að sögn Magnúsar Hjaltasonar var Guðrún góð kona og gjörvileg en aldrei við karlmann kennd.[369]

Valdimar Þorvaldsson, bróðursonur þessara systra, lætur þess reyndar getið að Ólafur Lárentíusson, síðar bóndi á Gelti, hafi beðið Guðrúnar Gissurardóttur og hún viljað taka honum en Guðrún, móðir hennar, hafi óttast geðbilun sem á hafði borið í ætt hans og honum því verið hafnað.[370] Um biðil þennan, Ólaf Lárentíusson, kemst Valdimar svo að orði: Hann hafði orð á sér fyrir barlóm, æðrur og nöldur, keypti óþarfa ef það var fallegt, karlmenni og hraustmenni ef því var að skipta.[371]

Sami höfundur segir þær Gissurardætur í Selárdal, Guðrúnu og Jóhönnu, hafa verið taldar best að sér í handavinnu í Súgandafirði á þeim tíma.[372] Þorbjörn bróðir þeirra hafði kennt þeim að vefa og svo höfðu þær lært af Höllu.[373] Guðrún Gissurardóttir var líka um eitthvert skeið hjá sýslumannsfrúnni í Ytri-Hjarðardal, að sögn Valdimars sem reyndar hefur eftir þessari frænku sinni að ekkert hefði hana eins langað til að gera eins og að smíða.[374]

Af börnum Guðrúnar Ólafsdóttur hefur Ólafur Gissurarson líklega verið mestur fyrir sér. Hann var sá eini sem yfirgaf Selárdal áður en móðir þeirra dó en hann fluttist 26 ára gamall norður í Bolungavík árið 1860.[375] Hann fékk þá fríheita- og siðferðisvottorð hjá séra Arngrími Bjarnasyni á Stað og segir þar meðal annars:

 

Hann er mætavel að sér í kristindómi … og öðrum fögrum fræðum, að hegðun … allri og viðkynningu sérlega vandaður maður … hefir áunnið sér góðan orðstír og hylli allra, fjær og nær, sem hann þekktu.[376]

 

Ólafur kvæntist 27. september 1861 Kristínu Pálsdóttur, dóttur Páls Halldórssonar, bónda á Ósi í Bolungavík, og konu hans Sigríðar Bjarnadóttur.[377] Sama dag gekk Þorbjörn Gissurarson, bróðir Ólafs, að eiga Sesselju Magnúsdóttur frá Þjóðólfstungu sem fyrr var nefnd.[378] Brúðir þeirra bræðra, þær Kristín og Sesselja, voru hálfsystradætur.[379] Brúðkaupsveislan var haldin á Ósi, hjá foreldrum Kristínar, og voru boðsgestir 100.[380] Af þeim voru 80 á vegum Ólafs og Kristínar en 20 frá Þorbirni og Sesselju.[381] Var sagt að Þorbjörn hefði viljað hafa þá fleiri.[382]

Ólafur Gissurarson gerðist bóndi á Ósi og hafði þar búsforráð frá 1864 til 1901.[383] Hann var lengi hreppstjóri Bolvíkinga, talinn atorkumaður og bjargvættur til lands og sjávar.[384]

Þorbjörn bróðir hans sneri heim í Selárdal með Sesselju. Fyrstu hjúskaparárin var hann ráðsmaður á búi móður sinnar svo sem verið hafði allt frá árinu 1855 en tók árið 1863 við hálfri jörðinni[385] (sjá einnig hér Suðureyri). Þorbjörn Gissurarson var bóndi í Selárdal í fimm ár og bjó fyrstu þrjú árin í tvíbýli á móti móður sinni en er hún andaðist, sumarið 1866, tók yngsti sonur hennar, Þorvaldur Gissurarson, við jarðarpartinum sem hún hafði búið á.[386]

Er Þorbjörn eignaðist eigið heimili tók hann drenginn sem hann hafði eignast með Höllu Guðmundsdóttur til sín og annaðist Sesselja hann sem sín eigin börn.[387] Þegar Þorbjörn fluttist burt frá Selárdal vorið 1868 varð Kristján samt eftir hjá föðursystkinum sínum.[388] Hann var þá sjö ára gamall og ólst að öllu leyti upp í Selárdal.[389] Sagt er að Kristján Þorbjarnarson hafi verið efnispiltur og átt kost á að gerast verslunarmaður hjá Pétri, hálfbróður sínum, sem árið 1880 var að hefja verslunarrekstur á Bíldudal.[390] Hér fór þó á annan veg því Kristján fórst í snjóflóði innarlega á Óshlíð, milli Bolungavíkur og Hnífsdals, þann 8. mars 1880.[391] Hann var jarðsettur að Hóli í Bolungavík og næsta vor kom Halla móðir hans þangað til að ganga að legstað sonar síns.[392] Hún kom þá við í Selárdal.[393]

Í ritum Valdimars Þorvaldssonar frá Selárdal er að finna ágæta lýsingu á Þorbirni Gissurarsyni, föðurbróður hans, og segir þar meðal annars svo:

 

Hann [Þorbjörn] var óvenju skýr maður og skildi margt sem aðrir höfðu ekki not af. Hann leiðbeindi systrum sínum með spjaldvefnað og kenndi þeim að vefa „salon”. Hann rakti upp pjötlu af fornu teppi og sagði svo fyrir hvernig átti að draga í höföld og stíga. Hann lærði tilsagnarlaust reikning af reikningsbókum Eiríks Briem með þeim leiðbeiningum sem þar voru, bæði fyrri og síðari part að mestu. …

Hann var á yngri árum lipurmenni, hár og beinvaxinn og áhlaupamaur mikill og þá jafnsterkur mönnum sem kraftamenn voru taldir. [Sbr. hér Suðureyri]. … Með aldrinum gerðist hann mjög varfærinn og vildi forðast allar svaðilfarir, sem hann virtist þekkja mjög vel. Hann var talinn alla tíð vitsmunamaður og öryggi fylgdi verkum hans. Í hreppsnefnd var hann eftir sextugt og þó að mjög færir menn hefðu hreppstjórn á hendi þá báru þeir ráð sín undir hann til síðustu stundar.[394]

 

Þorbjörn varð hreppstjóri árið 1866 og gegndi því embætti í fjögur ár.[395] Vorið 1868 fluttust þau Sesselja frá Selárdal og hófu búskap á annarri hálflendunni á Suðureyri.[396] Þar bjuggu þau bæði til dauðadags og er nánar frá þeim sagt á öðrum stað í þessu riti (sjá hér Suðureyri). Þorbjörn Gissurarson andaðist á Suðureyri 15. mars 1905, 75 ára að aldri.[397]

Þegar Guðrún Ólafsdóttir í Selárdal féll frá 14. júní 1866 tók yngsti sonur hennar, Þorvaldur Gissurarson, við hálflendunni sem hún hafði búið á síðustu árin.[398] Þessi yngsti sonur Gissurar og Guðrúnar í Selárdal var í æsku talinn greindarpiltur og við ferminguna fékk hann þessa umsögn hjá presti: Kann og skilur í besta máta sinn kristindóm og les rétt. Er Þorvaldur tók við búi af móður sinni var hann að verða 27 ára gamall, fæddur 19. júlí 1839, og hafði verið ráðsmaður hennar í þrjú ár.[399] Næstu tvö árin bjó hann hér á móti Þorbirni bróður sínum en síðan einn á allri jörðinni frá 1868 til 1888.[400]

Er Þorvaldur hóf búskap í Selárdal var hann ókvæntur og virðist hafa farið sér hægt við leit að maka eins og venja var hjá því Selárdalsfólki. Á fyrstu búskaparárum Þorvaldar voru systur hans, Guðrún og Jóhanna, fyrir framan hjá honum og í sóknarmannatali frá 1867 er Guðrún sögð vera ráðskona á búi hans.[401] Vorið 1868 kom hingað liðlega tvítug bóndadóttir frá Fremri-Vatnadal, Ingibjörg Friðbertsdóttir að nafni, og var hún vinnukona hjá Þorvaldi í eitt ár[402] án þess að drægi til tíðinda. Vorið 1870 kom svo systir hennar, sem Sigríður hét, og var þá að verða 18 ára.[403] Hún ílentist en ekki gerði Þorvaldur henni barn fyrr en hún hafði þjónað honum sem vinnukona í hálft fjórða ár og í hjónaband gengu þau ekki fyrr en haustið 1876[404] svo ljóst er að hinn forsjáli bóndi hefur ekki viljað rasa um ráð fram.

Sigríður var dóttir Friðberts Guðmundssonar, bónda og hreppstjóra í Fremri-Vatnadal, og fyrri konu hans, Arnfríðar Guðmundsdóttur.[405] Þau Sigríður og Þorvaldur eignuðust sex börn.[406] Eitt þeirra var Valdimar sem margt hefur skrifað um foreldra sína og föðurfólk sitt í Selárdal. Frá fyrstu árum móður sinnar hér segir hann svo:

 

Hún smalaði þegar smala vantaði, leitaði þegar vantaði af ánum, sótti þær í kletta ef þær voru þar og hún fylgdist með við alla þá vinnu sem var unnin, óf, spann, saumaði og fleira sem þar var venja að vinna heima.[407]

 

Með vasklegri framgöngu sinni við bústörfin í sex ár náði Sigríður að ávinna sér traust og tiltrú hins varfærna húsbónda sem að lokum ákvað að biðja hennar. Haustið 1876 gaf Kristján IX Danakonungur út sérstakt leyfisbréf og gerði með því kunnugt að Þorvaldi Gissurarsyni, sem þá var orðinn hreppstjóri, og jómfrú Sigríði Friðbertsdóttur í Selárdal væri heimilt að ganga í hjónaband án undangenginna lýsinga af predikunarstól.[408] Í bréfinu, sem enn er varðveitt, er tekið fram að til hjónavígslunnar geti þau valið sér hvaða sóknarprest sem þeim henti og vígslan megi fara fram í heimahúsum.[409] Fyrir hið konunglega leyfisbréf varð Þorvaldur að greiða 16 ríkisdali og 80 skildinga.[410] Bréfið var undirritað í Kaupmannahöfn af forstöðumanni íslensku stjórnardeildarinnar, fyrir hönd konungs, þann 18. október 1876[411] og hefur verið fljótt í förum yfir Atlantshafið því nákvæmlega einum mánuði síðar voru Þorvaldur og Sigríður gefin saman og fór hjónavígslan fram heima í Selárdal.[412] Sigríður dóttir þeirra, sem fæddist haustið 1874, var þá að verða tveggja ára og þrír mánuðir liðnir frá því annað barn kom undir, dóttirin Guðrún, sem fæddist 18. apríl 1877.[413] Ætla má að þessi barnsgetnaður sumarið 1876 hafi valdið því að Þorvaldur hreppstjóri í Selárdal leitaði eftir leyfi frá kóngi til að mega ganga í hjónaband án undangenginna lýsinga. Almenna reglan var sú að hjónaefni urðu að láta viðkomandi prest lýsa með sér, þrisvar sinnum, áður en kom að sjálfri hjónavígslunni. Þessar opinberu tilkynningar um fyrirhugað hjónaband viðkomandi persóna bar presti að flytja við guðsþjónustur í sóknarkirkju brúðarinnar og til að ljúka þeim af þurfti þrjár messur og allar utan stórhátíða.[414] Á árunum 1863-1901 var Staðarkirkju í Súgandafirði þjónað frá Holti í Önundarfirði og mun þá oft hafa verið lítið um messur, einkum að vetrinum (sjá hér Staður). Án bréfsins frá kóngi hefði biðin eftir hjónavígslunni því getað orðið nokkuð löng en ætla má að hinum sómakæru hjónaefnum í Selárdal hafi verið nokkurt kappsmál að fá kirkjulega blessun áður en brúðurin yrði komin alveg á steypirinn í annað sinn. Annarra skýringa á undanþágubeiðninni sem send var frá Selárdal til Kaupmannahafnar þarf vart að leita.

Elsti sonur Þorvaldar og Sigríðar í Selárdal var Valdimar sem fæddist 18. ágúst 1878.[415] Þorvaldi föður sínum lýsir Valdimar svo:

 

Hann var með hærri mönnum eða um 184 sentimetrar, herðamikill og gildur að því skapi, kraftamaður og þótti gjörfulegur að vallarsýn. Við Djúp eða í Bolungavík stundaði hann sjó að vorinu og vetri þar til hann giftist en eftir það frá Suðureyrarmölum á bát sem hann átti. Á þessum árum mun hann hafa verið besta skytta í Súgandafirði. Hann vann að smíði búsáhalda en til stærri smíða fékk hann aðra.

Sex eða sjö síðustu veturna og áður hirti hann útbeitarféð og fórst það mjög vel því hann var maður laginn og hafði fjárhund og forystusauð sem voru afburðaskepnur. Með þeim gat hann rekið féð til beitar eða heim, sem hefði verið ótækt annars eða aðeins fært með mörgum mönnum. Hann bar venjulega byssu eða skóflu við fjármennskuna. Vinnumenn hafði hann venjulega tvo eða þrjá og var það úrval að mönnum, sem voru þar oftast mörg ár í einu. Í Bolungavík hafði hann einn eða tvo þeirra, vetur og vor, og á þann hátt kom hann afurðum búsins í verð, – að gera menn út.

Hann var ávallt glaður og kátur við menn sína og enginn vissi til að hann hefði reiðst og áhrif víns hafði hann aldrei orðið var við. … Hann var unglingur mjög bráðþroska og fullfarið fram 18 ára og vó þá 90 kíló. Hann var allatíð mjög ósérhlífinn og brúkaði venjulega alla sína miklu krafta.[416]

 

Fróðleik um bústofn Þorvaldar Gissurarsonar í Selárdal er helst að finna í búnaðarskýrslum. Árið 1870 var hann enn ókvæntur en kominn með alla jörðina til ábúðar. Ef marka má hina opinberu skýrslu var bústofninn þá sem hér segir: 1 kýr, 18 ær, 4 sauðir og hrútar, 12 gemlingar og 1 hestur.[417] Vorið 1870 átti Þorvaldur engan bát.[418] Tíu árum síðar var bú Þorvaldar orðið miklu stærra. Hann bjó þá með 2 kýr, 1 veturgamalt naut eða kvígu, 35 ær, 8 sauði og hrúta, 24 gemlinga, 2 hesta og 1 tryppi.[419] Bú Þorvaldar var árið 1880 hið fjórða stærsta í Suðureyrarhreppi.[420] Stærri bústofn var aðeins hjá Ólafi Lárentíussyni í , Kristínu Þórarinsdóttur á Stað og Þórði Jónssyni í Botni.[421]

Árið 1880 átti Þorvaldur líka bát sem mun hafa verið fjögra manna far.[422] Síðasta árið sem Þorvaldur lifði var bú hans nokkru minna en verið hafði 1880 eða 2 kýr, 37 sauðkindur, að lömbum frátöldum, og 2 hestar.[423]

Þorvaldur Gissurarson í Selárdal var hreppstjóri frá 1873 til 1879.[424] Sýslunefndarmaður mun hann einnig hafa verið um nokkurt skeið[425] og var að sögn kjörinn oddviti hreppsnefndar árið sem hann dó.[426]

Í skrifum Valdimars Þorvaldssonar um föður sinn getur hann þess að Þorvaldur hafi verið góð skytta og betri skotmaður en aðrir Súgfirðingar á þeirri tíð. Hann átti þýska byssu, forhlaðning sem notaður hafði verið í stríðinu milli Frakka og Þjóðverja árið 1870.[427] Þorvaldur skaut bæði fugl og sel.[428] Oft náði hann að skjóta sjö eða átta seli yfir veturinn og eitt sinn urðu þeir fjórtán.[429] Að þessu var mikil búbót. Flestir selirnir sem Þorvaldur skaut voru kópar, 30-40 kíló að þyngd, en stundum náði hann að skjóta fullorðna seli og mun sá stærsti hafa verið um 240 kíló að þyngd.[430] Þennan stóra stóra gransel skaut hann á miðjum firði, fyrir innan Lauga.[431] Spik og skinn af þessari einu skepnu vigtaði um 70 kíló.

Á yngri árum og allt þar til hann kvæntist var Þorvaldur Gissurarson jafnan í skiprúmi hjá Ólafi bróður sínum á Ósi í Bolungavík, bæði á vetrar- og vorvertíð.[432] Frá Ósi mun Þorvaldur hafa róið í 20-30 vertíðir á árunum 1862-1876[433] (sbr. hér bls. 33). Um svipað leyti og Þorvaldur kvæntist eignaðist hann fjögra manna far.[434] Þann bát hafði Kristján Vigfússon frá Neðri-Breiðadal í Önundarfirði smíðað um 1865 fyrir Friðbert Guðmundsson í Fremri-Vatnadal, tengdaföður Þorvaldar.[435]

Frá 1877 mun Þorvaldur jafnan hafa verið formaður á þessum bát sínum.[436] Hann hætti þá að stunda sjó að vetrinum en reri frá Suðureyrarmölum á vorin.[437] Sem verbúð fyrir sig og menn sína notaði Þorvaldur oftast Naustið sem Þorbjörn bróðir hans átti á Suðureyrarmölum[438] (sbr. hér Suðureyri) en eina vertíð voru þeir í Oddhúsinu,[439] fjárhúsi á Suðureyrarodda. Að sögn Valdimars Þorvaldssonar fór faðir hans jafnan í verið á annan dag páska og kom heim úr verinu laugardaginn í 12. viku sumars.[440] Á árunum kringum 1885 átti Þorvaldur í Selárdal tvo báta, fjögra manna farið, sem hér var áður nefnt, og svo minni bát sem hann hafði til ferða innan um  fjörðinn til sela- og fuglaskota og til fiskiróðra á haustin.[441]

Eins og fyrr var nefnt kom Þorvaldur jafnan heim úr veri laugardaginn í 12. viku sumars en þá varð hann að vera búinn að skila hásetunum þremur til síns heima en sumir þeirra voru búsettir utan Súgandafjarðar og má þar nefna Jakob Jensson frá Tungu í Önundarfirði.[442] Á búskaparárum Þorvaldar var jafnan farið í mógrafir mánudaginn í 13. viku sumars[443] (sbr. hér bls. 5). Á þessum árum var Selárdalsfólk aðeins í einn dag við móskurðinn en seinna í tvo eða þrjá daga.[444]

Næsta dag var steinbítur og annar harðfiskur borinn heim frá sjónum og áður en sláttur byrjaði var oft farið í skóg í einn eða tvo daga til að rífa hrís.[445] Nokkuð af hrísinu var reitt heim á hesti en talsvert af því báru menn á bakinu.[446] Túnaslættinum tókst oftast að ljúka á 15-18 dögum.[447] Engar hlöður voru í Selárdal í tíð Þorvaldar en hann átti hverfistein.[448] Allt heyið var sett í galta og tyrft yfir.[449]

Við engjaheyskap hélt Þorvaldur fólki sínu fram á laugardaginn í 21. viku sumars[450] en að kvöldi næsta dags komu gangnamennirnir norðan úr Bolungavík og á mánudaginn var farið í göngur.[451] Nóttina fyrir gangnamánudaginn gistu oft 10 eða 12 gangnamenn í Selárdal á dögum Þorvaldar.[452] Kom þá skemmuloftið að góðum notum. Engin rétt var til í Selárdal á búskaparárum Þorvaldar og varð því að bæla féð að kvöldi gangnadagsins.[453]

Á haustin var unnið að endurbótum á húsum.[454] Þá þurfti líka að koma heim mó og hrísi, gera upp með heyjum og ganga frá þeim fyrir veturinn.[455] Á árunum um og upp úr 1880 fóru venjulega einn eða tveir vinnumenn frá Þorvaldi í ver norður í Bolungavík strax í október.[456] Á Þorláksmessu eða aðfangadag jóla komu þeir heim og á jólunum fengu allir heimilismenn sem það vildu eitt eða tvö staup af brennivíni hjá húsbóndanum.[457]

Að vetrinum komu menn yfirleitt inn frá útiverkum um og fyrir dagsetrið.[458] Þá var farið að borða miðdagsmatinn eða nónmatinn sem var aðalmáltíð dagsins.[459] Síðan hófst kvöldvakan.[460] Fjórir rokkar voru þá stundum í gangi í einu og þá var líka kembt, táin ull, undið af snældu, gerð viða, prjónað, þæfðir sokkar og vettlingar, elt skinn, saumuð skinnklæði og fleira.[461] Á kvöldvökunni las Þorvaldur oft sögu fyrir heimilisfólkið eða eitthvað úr blöðunum.[462] Sigríður, kona hans, skemmti þá líka oft með sögum og frásögnum og hafði jafnan nóg til að halda uppi skemmtun á vökunni í sex til átta vikur.[463] Hún bauð upp á þjóðsögur, sögur úr Þúsund og einni nótt, fornaldarsögur Norðurlanda, riddarasögur og ýmsar aðrar fornsögur en líka smásögur sem Pétur biskup Pétursson hafði þýtt.[464]

Sigríður húsfreyja þuldi líka rímur og ljóð á vökunni og kynni hún ekki alveg allt utanbókar sagði hún frá efni kveðskaparins.[465] Hún sleppti þó öllu sem henni þótti ófagurt til frásagnar, þar á meðal draugasögum.[466]

Væri gestur í Selárdal að vetrarlagi og í honum einhver döngun var hann látinn segja frá á vökunni eða kveða rímur.[467] Húsfreyja kvað þá oft með.

Í búskapartíð Þorvaldar og Sigríðar var húslestur lesinn um hádegið á hverjum sunnudegi og einnig á öðrum helgidögum.[468] Postillurnar sem lesið var úr voru þrjár og höfundar þeirra þessir: Jón biskup Vídalín, Helgi G. Thordersen biskup og Pétur Pétursson biskup.[469] Postillurnar þrjár voru alltaf lesnar í sömu röð, ein á ári.[470] Vídalínspostilla var því lesin þriðja hvert ár og eins var það með hinar tvær.

Auk húslestranna á sunnudögum var svo lesið guðsorð á hverju kvöldi að vetrinum, alveg frá vetrarbyrjun og fram á uppstigningardag.[471] Frá vetrarbyrjun og fram að jólum voru þá lesnar Hugvekjur Péturs biskups, síðan fæðingarhugvekjur frá jólum og fram að föstunni en þá tóku við föstuhugvekjur.[472] Kvöldlestrinum fylgdi sálmasöngur.[473] Ekki var þetta látið nægja því að á föstunni var svo líka miðvikudagslestur snemma morguns áður en fólkið fór á fætur.[474]

Að loknum kvöldlestrinum var farið að búa um rúmin, fara í fjósið til að mjólka og þá var fólki skammtaður kvöldmaturinn.[475]

Í Selárdal var jafnan fært frá ánum á Jónsmessu á þessum árum og smalað var til mjalta kvölds og morgna.[476] Í sláttarbyrjun, um eða upp úr miðjum júlí, fóru Þorvaldur og Sigríður jafnan ríðandi í kaupstaðarferð á Ísafjörð en börn þeirra fóru aldrei í kaupstað meðan Þorvaldur lifði.[477] Á fyrstu hjúskaparárum sínum gistu Þorvaldur og Sigríður jafnan hjá séra Árna Böðvarssyni á Eyri í þessum kaupstaðarferðum því presturinn taldi að sér væri gerð óvirðing ef landsetar Eyrarkirkju gistu hjá öðrum þegar þeir komu í kaupstað.[478]

Þau Þorvaldur Gissurarson og Sigríður Friðbertsdóttir eignuðust tvær dætur og fjóra syni.[479] Fimm þessara barna komust upp en eina dóttur misstu þau um fjögra ára aldur árið 1881.[480] Á árunum kringum 1885 var fjöldi heimilismanna í Selárdal yfirleitt á bilinu frá tólf til fimmtán[481] og þröngt setinn bekkurinn í baðstofunni.

Gamli torfbærinn í Selárdal stóð á sama stað og íbúðarhúsið sem reist var árið 1902[482] en í því var búið allt þar til jörðin fór í eyði.[483] Hér hefur áður verið rætt um bæjarstæðið (sjá bls. 11).

Gissur Einarsson, sem bjó í Selárdal frá 1828 til 1854, reisti hér baðstofu sem var 11 álnir á lengd og liðlega 3,5 álnir á breidd.[484] Baðstofa Gissurar, sem líklega hefur verið byggð nokkuð snemma á búskaparárum hans, var með skarsúð, sem þá var nýjung, og kom skarsúðin í stað raftanna sem áður var notast við.[485] Þessi baðstofa sneri upp og ofan.[486] Samhliða henni að utan voru göng og svo eldhús og búr.[487] Eldhúsið var ofar og við lækinn.[488]

Þessa baðstofa rifu synir Gissurar um eða fyrir 1860 og byggðu nýja sem sneri út og inn, upp úr eldhúsinu og efri enda baðstofunnar.[489] Með því að snúa baðstofunni við töldu þeir Gissurarsynir að hún þyldi betur veður því innanveðrin voru talin skæðust.[490] Baðstofan sem bræðurnir byggðu var svolítið breiðari en sú gamla en lengdin var sú sama og grunnflöturinn 5 x 11 álnir sé miðað við utanmál á viðum.[491] Breidd baðstofuloftsins innan þilja var hins vegar 4,5 álnir[492] og lengdin þá að líkindum 10,5 álnir svo gólfflöturinn hefur verið um það bil 19 fermetrar. Stafgólfin á baðstofuloftinu munu hafa verið fimm því bilið milli sperra og bita var 2 álnir.[493] Vegghæð baðstofunnar var 4 álnir, 2,5 metrar, og risið 2,5 álnir, það er 1,57 metrar.[494] Hún var portbyggð og vegghæð frá gólfi að súð á baðstofuloftinu um það bil 70 sentimetrar.[495] Um 1875 byggði Þorvaldur Gissurarson þessa baðstofu upp í sömu stærð og í sama formi en fullkomnari að gluggum og öllum frágangi, með stofuherbergi undir loftinu.[496] Smiðurinn að því sinni var Ebenezer Arnórsson sem þá var vinnumaður í Selárdal.[497] Í þessum húsakynnum bjó fólkið allt til ársins 1902 en dálitlar endurbætur voru þó gerðar á baðstofunni árið 1890.[498]

Það sem  hér hefur verið sagt um stærð baðstofunnar í Selárdal og fjölda heimilisfólks sýnir að oft hefur plássið á baðstofuloftinu verið minna en tveir fermetrar á mann og allt niður í 1,3 fermetra. Í trúverðugri heimild er fullyrt að við byggingu verbúða í Bolungavík hafi á síðustu áratugum nítjándu aldar þótt eðlilegt að gera ráð fyrir þremur til fjórum fermetrum á mann.[499] Gagnlegt er að hafa þá tölu til samanburðar en þó skylt að minna á að í verbúðum höfðust eingöngu við fullorðnir karlmenn en í Selárdal og á öðrum sveitabýlum var oft mikið um börn sem þurftu minna pláss en fullorðið fólk.

Allt sem hér hefur verið ritað um baðstofuna í Selárdal er byggt á skrifum Valdimars Þorvaldssonar sem ólst upp í henni og var kominn yfir tvítugt þegar hún var rifin. Ætla má að tölur Valdimars séu mjög nálægt réttu lagi því hann var snemma gefinn fyrir mælingar og varð smiður þegar hann fór að standa á eigin fótum.

Um 1880 voru rúmin í baðstofunni fimm, fjögur í innri enda og eitt í ytri enda en um 1884 var sjötta rúminu bætt við og var það þverrúm við ytri gafl.[500] Í þetta rúm fóru feðgarnir Sigurður Jónsson og Guðmundur Sigurðsson[501] er þeir fluttust frá Gilsbrekku í Selárdal vorið 1885 (sjá hér Gilsbrekka). Líklegt er að þverrúminu hafi verið bætt við vegna þeirrar fjölgunar. Sé litið á fjölda rúmanna og fjölda heimilisfólks blasir við að flestir hinna fullorðnu hafi sofið tveir og tveir saman í rúmi og stundum munu hausarnir í hverju rúmi hafa verið þrír, tveir fullorðnir og eitt barn.[502] Breidd rúmanna var 75-80 sentimetrar, auk stokksins, en bilið á milli þeirra, í innri enda baðstofunnar, liðlega einn metri.[503] Þetta þótti gott því áður hafði verið þrengra og nú gátu rokkarnir verið tveir, hvor á móti öðrum.[504]  Þyrfti einhver að ganga um varð samt að stöðva rokkana svo hægt væri að komast fram hjá þeim.[505]

Í innsta rúminu, við efri hlið, sváfu húsbændurnir, þau Þorvaldur og Sigríður.[506] Í rúminu á móti þeim svaf Jóhanna Gissurardóttir, systir Þorvaldar, með höfuðið að gafli.[507] Í rúminu framan við Jóhönnu svaf Guðrún, systir hennar, með höfuðið fram og í rúminu þar á móti var Guðlaug gamla Sigmundsdóttir.[508] Í ytri enda baðstofunnar sváfu vinnumennirnir og börnin hjá fullorðna fólkinu í ýmsum rúmum.[509]

Við endann á hverju rúmi var hilla, áföst við rúmstólpa og gekk út í súðina.[510] Á hverri hillu var pláss fyrir tvo aska, ef ekki var fyrir þil eða sperra, og þar voru þeir geymdir.[511] Á hillum inn við gaflinn voru húslestrabækur og fleira.[512] Í ytri enda baðstofunnar var auk þverrúmsins eitt rúm við efri hlið en loftsgatið var þar við neðri hlið.[513] Frá þverrúminu að loftsgatinu voru 90-100 sentimetrar.[514] Frá rúminu sem stóð við efri hlið í ytri enda baðstofunnar var svolítið bil að næsta rúmi í innri endanum og var það pláss kallað skot.[515] Höftin í stiganum, sem lá upp á baðstofuloftið, voru sjö.[516] Árið 1884 var gamli stiginn orðinn mjög slitinn og var þá smíðaður nýr stigi.[517]

Á baðstofuloftinu var gluggi með sex rúðum á innri gafli.[518] Tveir þakgluggar voru líka á súðinni og sneru til sjávar.[519] Þeir voru með tveimur rúðum, hvorri yfir annarri.[520]

Á torfbænum, sem stóð hér í Selárdal á síðustu áratugum 19. aldar, sneru bæjardyrnar fram að sjónum.[521] Um bæjarhúsin sem þá stóðu hér ritar Valdimar Þorvaldsson svo á einum stað:

 

Bæjarhúsin voru baðstofa sem sneri út og inn og eldhús sem sneri eins og átti líka að verða búr en sá endi varð aldrei fullgerður, nema yfir göngin sem sneru hornrétt við baðstofuna og var þar þilgafl með glugga í risinu. Búrið var frá eldra formi á bænum og sneri eins og göngin.[522]

 

Bæjargöngin voru nær 8 metrar á lengd og liðlega einn og hálfur metri á breidd.[523] Þegar gengið var inn göngin var búrið til vinstri handar en baðstofuhúsið og eldhúsið á hægri hönd.[524] Búrið var 7 x 3 álnir að flatarmáli[525] eða liðlega 8 fermetrar en eldhúsið 5 x 5 álnir[526] eða tæplega 10 fermetrar. Í búrinu var skarsúð.[527]

Undir baðstofuloftinu var alþiljað herbergi með fjalagólfi og var það jafnan nefnt hús.[528] Þetta herbergi var 4,5 x 4,5 álnir að innanmáli[529] eða um það bil 8 fermetrar. Í dyrum þess var spjaldahurð með litlum koparsnerlum.[530] Lofthæð í húsinu mun hafa verið um 180 sentimetrar (sjá hér bls. 41)[531] og á því var stór gluggi.[532] Á neðri hæð baðstofunnar voru gluggarnir reyndar tveir og 6 rúður í hvorum.[533]

Allir veggir í þessum bæjarhúsum voru mjög þykkir, flestir 2-3 metrar á þykkt.[534] Um 1890 var látinn þilgafl í innri enda baðstofunnar og náði hann niður að syllubita,[535] það er að segja niður á móts við bitann sem þaksperrurnar hvíldu á. Aðrir útveggir þessara húsa voru úr torfi og hnaus[536] allt til loka, nema þilgaflinn á bæjargöngunum sem fyrr var nefndur.

Til húsbygginga þurfti á fyrri tíð mikið af torfi og þegar engar voru hlöðurnar var torf líka notað til að gera upp með heyjum og tyrfa yfir þau. Baðstofuþök voru að sögn Valdimars Þorvaldssonar oftast höfð fjórföld eða fimmföld en á útihúsum var tvöfalt þak látið duga.[537] Á baðstofum voru torfþökin víða býsna þykk, allt að 30 sentimetrum.[538] Í Selárdal var léleg torfrista en þörfin mikil.[539] Fyrir hús og hey þurfti oft að rista 500-700 torfur á ári en lengd hverrar torfu var venjulega 4-7 fet.[540] Reynt var að nýta allt torf sem í boði var í túnjöðrunum og í nánd við túnið en að síðustu var farið að rista uppi á Hjöllum, í mýrunum, á eitt hey á ári.[541] Torfið var þá þurrkað þar upp frá, bundið í bagga og reitt heim.[542] Mýrartorfið af Hjöllunum var endingarbetra en það torf sem kostur gafst á að rista í nánd við túnið.[543]

Í torfbæjunum var húsleki víða mikið vandamál og svo var einnig hér í Selárdal, ekki síst vegna þess hversu lélegt torfið var og með því líka að sólin brenndi þau [þökin] í sundur að sumrinu.[544] Um húslekann á þessum bæ ritar Valdimar Þorvaldsson svo:

 

Þegar stórrigningar voru láku öll þessi hús, nema súðin yfir baðstofunni, en þess meira rann niður með veggjunum og í stór-aftökuúrkomu lak súðin líka ef skemmdir voru í borðunum af fúa eða öðru. Væri það yfir rúmi var sett mjólkurtrog undir dropann og man ég eftir tveimur og fleiri í einu. Svo var hellt úr þeim í fötu ef of mikið kom í þau. Þegar birti eða þornaði upp hafði kvenfólkið næsta dag mikið að gera við að þrífa upp bæinn, ausa upp pollana og þerra hellurnar. En svo voru uppsprettur eða neðangangur í þessum húsum [545]

 

og var því haft ræsi undir gólfhellunum.[546]

Um útihús í Selárdal verður ekki fjallað hér að sinni nema skemmuna sem hér stóð á búskaparárum Þorvaldar Gissurarsonar. Hana reisti Þorbjörn, bróðir Þorvaldar, á árunum kringum 1860.[547] Skemman var mikið hús og stóð utan til við bæinn.[548] Valdimar Þorvaldsson lýsir henni svo:

 

Hún var alla tíð myndarlegasta húsið í Selárdal. Hún var 5 x 8 álnir [tæplega 16 fermetrar], portbyggð með lofti. Timburgaflar voru og skarsúð. Var hún vel mannhæð uppi og niðri. Grindin í henni var með skástoðum og fótstykkjum, sem þá var óvenjulegt, enda hreyfðust ekki grind eða gaflar til síðustu stundar.[549]

 

Hæð skemmunnar frá jörð að mæni var liðlega hálf sjöunda alin.[550] Skemmugaflinn, sem sneri til sjávar, var allur úr timbri en í efri gaflinum náði timbrið frá mæni niður að syllubita.[551]

Uppi á skemmuloftinu voru margar fatakistur en líka smærri hirslur.[552] Þær Guðrún og Jóhanna Gissurardætur, systur Þorvaldar bónda, áttu þrjár kistur hvor.[553] Allar kistur Guðrúnar voru íslenskar en Jóhanna átti tvær íslenskar og eina útlenda sem var fallega máluð.[554] Valdimar Þorvaldsson kom oft á skemmuloftið og ritar á þessa leið:

 

Foreldrar mínir áttu þrjár kistur útlendar, tvær aðallega fyrir betri föt, og eina íslenska. Enginn af vinnufólkinu átti nema eina kistu sem það hafði í sparifötin og ef eitthvað var meira. Kisturnar voru meðfram veggjum , hringinn í kring en smærri ílátin innar. … Þarna var tekið til og gerðar flatsængur til að sofa í ef fólkið á bænum varð of margt … eða að vorinu þegar var verið að þvo og viðra baðstofuna.[555]

 

Á neðri hæð skemmunnar var geymd kornvara og einnig kjöt.[556] Þar var líka gert við amboð og unnið að ýmsum smíðum.[557] Um 1894 var loftið tekið úr skemmunni og henni breytt í hlöðu.[558] Loks var hún rifin árið 1905.[559]

Búskaparár Þorvalds Gissurarsonar í Selárdal urðu 22. Hann tók við búsforráðum við andlát móður sinnar sumarið 1866 (sjá hér bls. 33) og bjó hér til æviloka en andlát hans bar að þann 8. desember 1888.[560] Er Þorvaldur andaðist var hann 49 ára gamall. Hann hafði löngum verið heilsuhraustur en meinsemd í lifrinni dró hann til dauða.[561]

Eiginkona Þorvaldar, Sigríður Friðbertsdóttir, var aðeins 36 ára gömul er hún missti hann og börn þeirra voru þá enn á ungum aldri.[562] Eina dóttirin sem þau áttu á lífi var 14 ára en synirnir fjórir á aldrinum 1-10 ára.[563] Hér horfði ekki vænlega en svo fór að hún hélt búskapnum áfram og bjó á jörðinni, ásamt börnum sínum, allt til ársins 1912.[564] Á árunum 1890-1902 var hún með ráðsmann en frá vorinu 1902 stóðu tveir elstu synir hennar, þeir Valdimar og Kristján Þorvaldssynir, fyrir búinu við hlið móður sinnar.[565]

Hér hefur áður verið sagt nokkuð frá Sigríði Friðbertsdóttur, húsfreyju í Selárdal (sjá bls. 35-36 og 39-40), en fáeinum orðum verður nú bætt við.

Sigríður fæddist í Fremri-Vatnadal 24. júní 1852,[566] á fyrsta búskaparári foreldra sinna þar en þau voru Friðbert Guðmundsson og Arnfríður Guðmundsdóttir eins og hér hefur áður verið nefnt (sjá hér bls. 35 og Fremri-Vatnadalur). Hún ólst upp hjá foreldrum sínum í Vatnadal en mun hafa dvalist í eitt ár eða því sem næst hjá föðursystur sinni, Sigríði Guðmundsdóttur, húsfreyju í Botni, og eiginmanni hennar, Brynjólfi Jónssyni, er seinna bjuggu í Bæ.[567] Hjá þeim var hún í fóstri á fimmta aldursári þegar prestur húsvitjaði í Botni í marsmánuði árið 1857 en var ári síðar komin aftur til foreldra sinna.[568] Átta ára gömul byrjaði hún að smala[569] og mun hafa hjálpað foreldrum sínum við búskapinn uns hún fór að heiman í fyllingu tímans og var þá að verða 18 ára.[570]

Hingað í Selárdal kom Sigríður frá Vatnadal vorið 1870 eins og fyrr var frá greint og átti hér heima í 42 ár. Fyrst var hún vinnukona en síðan húsfreyja í 36 ár, frá 1876 til 1912.[571] Margar konur voru guðræknar á 19. öldinni og frásögn sonar Sigríðar af öllum guðsorðalestrinum í Selárdal bendir til að í þeim efnum hafi móðir hans skipað sér í fremstu röð en engu að síður kunni hún að skemmta sínu heimafólki (sjá hér bls. 39-40). Guðsótti Sigríðar kom meðal annars fram í því að henni var mjög illa um að spilað væri á spil í hennar húsum.[572] Margt hefur Sigríður lesið eða lært af frásögnum annarra ef marka má orð Valdimars, sonar hennar. Eitthvað þekkti hún til Sturlungu og var illa við Gissur jarl Þorvaldsson eins og fleirum. Þegar elsti sonur hennar og Þorvaldar í Selárdal fæddist sumarið 1878 vildi faðirinn láta drenginn heita Gissur en það gat hún ekki hugsað sér því hann hefði þá orðið alnafni Gissurar jarls.[573] Að þessu sinni hafði Sigríður sitt fram og pilturinn var skírður Valdimar en þegar þriðji sonur þeirra hjóna fæddist, nokkrum árum síðar, varð hún að gefa eftir og var hann skírður Gissur.[574] Sá piltur andaðist úr lungnabólgu, liðlega tvítugur að aldri, 17. apríl 1907.[575]

Á því skeiði sem Sigríður var ein mestu ráðandi í Selárdal var lítið um nýjungar í búskap. Hún fór þó á árunum upp úr 1890 að ala kálfa sem hún seldi tveggja eða þriggja vetra gamla.[576] Sá sem keypti kálfana frá Selárdal var Hans Ellefsen, forstjóri hvalveiðistöðvarinnar á Sólbakka í Önundarfirði, og borgaði hann 80-100 krónur fyrir hvern kálf.[577] Farið var með kálfana vestur að Sólbakka og fór Sigríður stundum sjálf í þær ferðir.[578] Segir hér nánar frá viðskiptum hennar við Ellefsen á öðrum stað (sjá bls. 58-59). Halldór Guðmundsson, verkamaður á Suðureyri, sem þekkti Sigríði allvel, lýsir henni svo:

 

Sigríður Friðbertsdóttir var djúphyggin og göfug kona og góðkvendi hið mesta. Hún var trúuð og guðelskandi manneskja í þess orðs bestu merkingu, enda bar bragur heimilis hennar órækt vitni þess.[579]

 

Ekkja þessi í Selárdal hefur líklega verið hjartagóð. Til þess bendir einkum sú staðreynd að á árunum um og eftir aldamótin tók hún að sér sex börn frá heimilum sem áttu í erfiðleikum og gaf þeim öllum kost á að dveljast árum saman hjá sér í Selárdal.[580] Flest þessara barna komu til hennar á aldrinum 6-12 ára og fóru ekki frá henni fyrr en þau voru farin að geta bjargað sér.[581]

Sigríður Friðbertsdóttir fluttist með börnum sínum frá Selárdal í þorpið á Suðureyrarmölum árið 1912.[582] Hún var þá sextug að aldri en lifði enn í nær þriðjung aldar. Kúna sína mjólkaði hún fram yfir nírætt og var orðinn 92ja ára er hún andaðist 16. janúar 1945.[583]

Þegar Þorvaldur bóndi Gissurarson andaðist, snemma á jólaföstu árið 1888, voru þrír vinnumenn í Selárdal og studdist ekkjan við þá í sínum búskap næstu mánuði og misseri, allt til vorsins 1890.[584] Einn þessara manna var Sigurður Sigurðsson, sem fæddist 22. september 1858 í Bæ í Súgandafirði.[585] Á síðustu ævidögum Þorvaldar fékk hann Sigurð til að sinna þeim daglegu verkum við hirðingu búfjár sem hann hafði sjálfur annast meðan heilsan leyfði.[586] Um Sigurð þennan kemst sonur Þorvaldar svo að orði að hann hafi verið sérlega hjartagóður og dyggðahjú.[587] Sigurður Sigurðsson og hinir tveir vinnumennirnir voru áfram í Selárdal fardagaárið 1889-1890[588] en bersýnilegt var að búið þurfti á ráðsmanni að halda. Forgöngu um að útvega ekkjunni í Selárdal einn slíkan höfðu þeir Þorbjörn Gissurarson á Suðureyri, sem var mágur hennar, og Jóhannes Hannesson, hreppstjóri í Botni.[589] Haustið 1889 eða næsta vetur náðu þeir að semja við Jóhann Þórðarson, sem þá átti heima í Bæ, um að gerast ráðsmaður hjá Sigríði Friðbertsdóttur í Selárdal.[590]

Jóhann var fæddur á Ytri-Veðrará í Önundarfirði 8. maí 1851, sonur hjónanna Þórðar Andréssonar og Jóhönnu Guðmundsdóttur sem þar bjuggu um skeið.[591] Hann ólst upp í Önundarfirði en mun hafa flust til Súgandafjarðar frá Ósi í Bolungavík árið 1883.[592] Foreldrar hans voru þá við búskap í Bæ í Súgandafirði og þar átti Jóhann heima næstu árin (sjá hér Bær), allt þar til hann gerðist ráðsmaður í Selárdal. Vera má að leitað hafi verið til Jóhanns vegna skyldleika hans við ekkjuna í Selárdal en þau Sigríður voru systrabörn.[593]

Jóhann var ráðinn upp á vinnumannskaup, sem var 60,- krónur á ári, auk fæðis og fata, og vegna stjórnunarstarfa sem honum var ætlað að sinna við búreksturinn var átta kinda eldi bætt ofan á vinnumannskaupið.[594] Hann kom í Selárdal á föstudaginn langa eða laugardaginn fyrir páska vorið 1890 og tók þá þegar til starfa.[595] Búi Sigríðar Friðbertsdóttur veitti hann forstöðu, sem ráðsmaður, næstu 11 eða 12 árin og átti heima í Selárdal allt til ársins 1907.[596]

Valdimar Þorvaldsson, sem var á tólfta ári þegar Jóhann kom í Selárdal, minnist víða á ráðsmanninn í skrifum sínum og lýsir honum svo á einum stað:

 

Jóhann var frekar í minna lagi meðalmaður að stærð, sívalur á vöxt, með dökkt hár og gulbrúnt yfirvararskegg. Meðalmaður talinn til flestra verka, ekki talinn afburðamaður í neinu, hafði löngun til nautna sem hann vandist á, til dæmis tóbak, vín og kaffi, en hann var svo sjálfstæður að hann gat brúkað vín í hófi og sást það víðar. Frekar var hann virðingargjarn og þótti vænt um lofið.[597]

 

Þegar Jóhann kom í Selárdal var hann að verða 39 ára en sagðist vera tíu árum yngri.[598] Skýringuna á þessari tilraun til yngingar taldi Valdimar Þorvaldsson vera þá að ráðsmaðurinn hefði haft hug á að fá ungu heimasætuna í Selárdal, Sigríði Þorvaldsdóttur, systur Valdimars, fyrir konu[599] en hún var á sextánda ári þegar Jóhann gerðist forverksmaður hjá móður þeirra. Hafi Jóhann alið með sér slíkar óskir náðu þær aldrei að rætast og lifðu þau bæði einhleyp til æviloka, hann og Sigríður Þorvaldsdóttir.[600]

Jóhann Þórðarson var talinn vel efnum búinn er hann fluttist í Selárdal.[601] Hann átti þá nokkrar kindur, hálfan bát og verbúð á Stöðinni í landi Bæjar[602] en líka peninga sem hann var með í útlánum.[603] Fólkinu í Selárdal sagði Jóhann að hann ætti 1.000,- krónur og allir þessir fjármunir væru í útlánum hjá gildum bændum sem hann nafngreindi.[604] Fyrir slíka fjárhæð var á þeim tíma hægt að kaupa níu eða tíu kýr í góðu standi[605] svo að þetta voru engir smámunir. Hvort þarna muni rétt með farið er best að láta liggja milli hluta.

Bátinn, sem líklega hefur verið fjögra manna far, átti Jóhann á móti Markúsi Guðmundssyni í Bæ[606] en þeir voru systkinasynir.[607] Jóhann var formaður og reri frá Stöðinni, heimavör Bæjarmanna, vorið 1890 en þá um haustið seldu þeir Markús bátinn.[608] Næstu fimm ár var Jóhann í skiprúmi hjá Þorbirni Gissurarsyni á Suðureyri á hverju vori en á haustin reri hann þá ýmist hjá Guðmundi Sigurðssyni á Laugum eða að heiman.[609]

Vorið 1896 hófust vorróðrar frá Selárdal á bát sem Þorvaldur Gissurarson hafði átt og segir hér nánar frá þeim síðar (sjá bls. 53).

Vinnumennirnir þrír, sem verið höfðu í Selárdal á síðustu árum Þorvalds Gissurarsonar, fóru allir burt þegar Jóhann kom, vorið 1890, en einu ári síðar var bróðir Jóhanns, Bjarni Þórðarson, ráðinn vinnumaður að Selárdal og var hann hér í sex ár, lengst af vinnumaður en síðast húsmaður.[610] Fyrstu árin sem Bjarni var í Selárdal reri hann frá Ósi í Bolungavík að vetrinum en var í skiprúmi hjá Guðmundi Sigurðssyni á Laugum á vorvertíðinni.[611]

Að sögn Valdimars Þorvaldssonar vann Jóhann Þórðarson heimilinu í Selárdal af fyllstu trúmennsku öll árin sem hann var hér ráðsmaður.[612] Stundum lánaði ráðsmaðurinn húsfreyjunni í Selárdal peninga, þegar mikils þurfti með, og gekk fyrir öllu að endurgreiða slík lán.[613] Í Selárdal var á þessum árum mikil vöntun á vinnukrafti og gekk Jóhann hart eftir því að börnin legðu fram alla sína krafta.[614] Um sláttinn var gengið til verka klukkan 4 árdegis eða því sem næst og oft verið að til miðnættis eða jafnvel lengur en menn fengu sér þá dúr að deginum.[615] Á fyrstu árum Jóhanns í Selárdal var elsti sonur húsfreyjunnar smali.[616] Kvíaánum varð að smala til mjalta tvisvar á dag og fór drengurinn, að eigin sögn, jafnan af stað klukkan 6, bæði kvölds og morgna.[617] Á þessum árum munu tómstundir til leikja hafa verið af skornum skammti hjá börnunum sem farin voru að stálpast og Valdimar Þorvaldsson getur þess að á heimilinu í Selárdal hafi hvorki verið til sleði né skíði á árunum kringum 1890.[618]

Á sínum fyrstu árum í Selárdal var Jóhann ráðsmaður í skiprúmi hjá öðrum eins og hér hefur áður verið nefnt en vorið 1896 hóf hann róðra úr heimavör í Selárdal á fjögra manna fari sem Þorvaldur bóndi Gissurarson hafði átt.[619] Sami háttur var hafður á 1897 og 1898[620] en þetta virðist hafa verið nýbreytni því Þorvaldur Gissurarson hafði róið frá Suðureyrarmölum á vorin á sínum formannsárum (sjá hér bls. 38) og sagt er að faðir Þorvaldar, Gissur Einarsson í Selárdal, hafi átt verbúð á sömu Mölum (sjá hér Suðureyri) svo ætla má að hann hafi einnig róið þaðan.

Á vorvertíðinni árið 1898 var alþýðuskáldið Magnús Hjaltason háseti hjá Jóhanni Þórðarsyni hér í Selárdal.[621] Hann kom í Selárdal 15. apríl frá Ingjaldssandi og var hér um kyrrt í 12 vikur.[622] Fyrstu vikuna sem Magnús var í Selárdal voru aðeins stundaðar hrognkelsaveiðar en aldrei farið í róður.[623] Þann 23. apríl var róið til hafs í fyrsta sinn en í þeim róðri fengust aðeins 25 fiskar á skip.[624] Næstu daga voru góðar gæftir og stundum þokkalegur steinbítsafli.[625] Í síðasta róðurinn á þessari vertíð var farið 6. júlí og þá var aflinn 120 fiskar.[626]

Næsta dag fór Magnús norður á Ísafjörð með 10 steinbíta.[627] Sjö þeirra gaf hann móður sinni, Friðriku Kristjánsdóttur, saumakonu á Ísafirði, en hina þrjá annarri konu þar í kaupstaðnum.[628] Í þessari ferð fór Magnús gangandi yfir Botnsheiði og til baka sama dag.[629]

Í Selárdal var þorskurinn saltaður og lagður inn í verslun eins og venja var en steinbíturinn hertur. Í hlut Magnúsar komu 140 steinbítar[630] og þeim gat hann ráðstafað að vild. Þann 8. júlí var Magnús fluttur úr verinu í Selárdal á Ingjaldssand.[631] Lagt var af stað klukkan hálf fjögur árdegis og lent þremur og hálfri klukkustund síðar í Sæbólslendingu á Ingjaldssandi.[632] Lætur þá nærri að bátnum hafi miðað álíka hratt og gangandi manni á sléttum vegi.

Vorið sem Magnús reri í Selárdal var hann 24 ára gamall og hafði aldrei áður dvalist í Súgandafirði nema í nokkra daga.[633] Í dagbók sinni kemst Magnús svo að orði um veruna í Selárdal:

 

Ég hafði í Selárdal kunnað allvel við mig, enda var fólk þar gott, greint mjög og alúðlegt. Þó voru börn Sigríðar sérvitur mjög sem þau áttu föðurætt til. Í landlegum vann ég hvað sem fyrir kom, reiddi á völl, reif skóg, gætti fjár, stakk garð, malaði og þjónaði byggingum.[634]

 

Þetta ritaði Magnús daginn sem honum var skilað á Ingjaldssand en allmörgum árum síðar lét hann þau orð falla um Jóhann Þórðarson, sem verið hafði formaður hans á vertíðinni í Selárdal, að hann væri þýður í lund og drengur hinn besti.[635]

Í sóknarmannatölum frá árunum 1890-1900, að báðum þeim árum meðtöldum, er Jóhann Þórðarson jafnan sagður vera ráðsmaður í Selárdal en kallaður vinnumaður í sóknarmannatalinu frá 31. desember 1901.[636] Þá munu elstu synir húsfreyjunnar, þeir Valdimar og Kristján Þorvaldssynir, hafa verið að taka við stjórntaumunum úr höndum Jóhanns. Valdimar segir að þeir bræður eða þau systkinin hafi tekið til fulls við stjórn og fyrirvinnu heimilisins með móður þeirra vorið 1902.[637] Valdimar var þá að verða 24 ára en Kristján var þremur árum yngri.[638]

Er Jóhann hætti störfum sem bústjóri í Selárdal vorið 1902 var hann orðinn fimmtugur og hafði verið hér forverksmaður í 12 ár. Kaupið sem hann átti að fá samkvæmt upphaflegum samningi var átta kinda eldi og 60,- krónur á ári í peningum, auk fæðis og fata (sjá hér bls. 48). Þessar átta kindur hans voru jafnan á fóðrum í Selárdal eins og um hafði verið samið en illa gekk að standa í skilum með peningagreiðsluna.[639] Fyrir 12 ár átti peningagreiðslan að vera 720,- krónur en upp í þá skuld hafði lítið sem ekkert verið greitt þegar Jóhann lét af störfum.[640] Hann fékk þá skriflega viðurkenningu fyrir skuldinni en þegar Sigríður Friðbertsdóttir og börn hennar fóru frá Selárdal tíu árum síðar hafði þessi gamla skuld við Jóhann aðeins verið greidd að nokkrum hluta.[641] Þeir reikningar munu hafa verið  jafnaðir síðar.[642]

Jóhann Þórðarson var búsettur í Selárdal til ársins 1907 og var síðustu fimm árin ýmist talinn lausamaður eða húsmaður.[643] Úr Selárdal fluttist hann í þorpið á Suðureyrarmölum og andaðist þar árið 1928.[644]

Ekki er ætlunin að gera hér almenna grein fyrir búskap bræðranna, Valdimars og Kristjáns Þorvaldssona, sem stýrðu hér búi með móður sinni á árunum 1902-1912. Engu að síður virðist eðlilegt að greina hér frá byggingu íbúðarhússins, sem þeir bræður komu upp árið 1902, og frá kaupum þeirra á tveimur vélbátum örfáum árum síðar. Verður þá fyrst litið á bátaeign og útgerð fólksins í Selárdal á árunum kringum aldamótin 1900 og skoðað með hvaða hætti mál þróuðust þegar farið var að ráðgera kaup á mótorbát.

Á sínum síðustu búskaparárum átti Þorvaldur Gissurarson, bóndi í Selárdal, tvo báta, fjögra manna far, sem hann reri á frá Suðureyrarmölum á hverri vorvertíð, og svo minni bát er hann notaði til ferða innan um fjörðinn (sjá hér bls. 38). Þorvaldur andaðist í desember árið 1888 og vertíðarbátur hans var ekki gerður út frá Selárdal næstu árin. Báturinn var þó ekki seldur því hann var enn í eigu fólksins í Selárdal árið 1902 eins og hér verður brátt vikið nánar að (sjá bls. 54).

Vorið 1889 var enginn bátur gerður út frá Selárdal en vinnumennirnir þrír, sem ekkjan Sigríður Friðbertsdóttir hafði þá í sinni þjónustu, voru í skiprúmi ýmist í Bolungavík eða á Suðureyrarmölum.[645] Næsta vor var Jóhann Þórðarson orðinn ráðsmaður hjá Sigríði. Hann var þá formaður á bát sem hann átti sjálfur að hálfu og reri frá Stöðinni, verstöð utan við fjallið Spilli (sjá hér bls. 49-50). Á árunum 1891-1895 var Jóhann, ráðsmaður í Selárdal, jafnan í skiprúmi hjá Þorbirni Gissurarsyni á Suðureyri á vorvertíð og hjá Þorbirni var elsti sonur Sigríðar húsfreyju í Selárdal háseti á sinni fyrstu vertíð, vorið 1894.[646] Á þessum árum virðist Selárdalsbáturinn ekki hafa verið gerður út á vertíð, ef til vill vegna skorts á mannafla.

Vorið 1896 hóf Jóhann Þórðarson hins vegar róðra á þessu fjögra manna fari, sem Þorvaldur hafði átt, og reri Jóhann það vor og hin næstu úr heimavör í Selárdal eins og hér hefur áður verið nefnt. Hásetar Jóhanns vorið 1896 voru Bjarni bróðir hans, þá vinnumaður í Selárdal, Valdimar Þorvaldsson, sonur húsfreyjunnar í Selárdal, þá á átjánda ári, og Sigurður Sigurðsson, bóndi á Gilsbrekku.[647]

Að sögn Valdimars var langtum erfiðara að stunda sjóróðra á árabát frá Selárdal heldur en frá Suðureyrarmölum. Skýringuna á þeim mun er að finna í orðum Valdimars þar sem hann greinir frá róðrunum vorið 1896. Hann segir þar:

 

Þetta var mjög erfitt því að leiðin út að Eyrum [Suðureyri og Norðureyri – innsk. K.Ó.] gat orðið oft mjög erfið vegna straums sem eins oft var á móti … svo var öll aðstaða við að lenda og gera að fiski tvöfalt erfiðari en á Mölunum.[648]

 

Ekki er alveg ljóst hversu margar vertíðir var róið frá Selárdal undir lok nítjándu aldar en fullvíst þó að héðan var róið úr heimavör vorin 1896 og 1898 (sjá hér bls. 51) og Valdimar Þorvaldsson nefnir einnig 1897.[649] Á árunum 1894-1902 var sjór líka jafnan sóttur á haustin frá Selárdal og róið úr heimavör.[650] Í þeim róðrum var jafnan komið við á Suðureyri á landleið og kaffi drukkið hjá einhverjum heimamanna þar.[651] Að sögn Valdimars Þorvaldssonar var fiskinum úr hverjum róðri ætíð landað í Selárdal í sex eða sjö haust á þessu skeiði.[652] Hér var hann gerður til, saltaður og þurrkaður og að lokum fluttur sem kaupeyrir í spekúlantskip Markúsar Snæbjörnssonar, kaupmanns á Geirseyri við Patreksfjörð,[653] en skip hans kom jafnan tvisvar á sumri til Súgandafjarðar á þessum árum (sjá hér Suðureyrarhreppur, inngangskafli). Á þessu skeiði var einnig farið stöku sinnum á sjó frá Selárdal að vetrarlagi, a.m.k. einn veturinn, og urðu róðrarnir þá ekki færri en fjórir.[654]

Aðallendingin í Selárdal var niður af Litlhól, sem er innsti hluti gamla túnsins, en þar fyrir innan er Ástún sem er útrækt.[655] Utan við Litlhól er Stórhóll og skammt fyrir utan hann stóð bærinn.[656] Um lendinguna í Selárdal ritar Kristján G. Þorvaldsson svo árið 1949:

 

Fyrir neðan Litlhól eru bakkarnir orðnir lágir og klettalausir. Svo langt sem menn muna hafa Selárdalsmenn sett þar báta sína. Hefur verið gert hróf upp í bakkana og jafnframt lagað svo til að hægt væri að bjarga bát upp á bakkana. Spöl innar var einnig hafður bátur og búið út á líkan hátt. Þetta var kallað Lending eða Vör og þá oft aðgreint í Ytri- og Innri-Vör.[657]

 

Hrófið sem Kristján nefnir sást enn sumarið 1995 og steinaraðir frá flæðarmáli upp að bökkum, beggja vegna við lendinguna.

Um 1860 var fiskikró við lendinguna. Það hús reif Þorbjörn Gissurarson er hann fluttist frá Selárdal árið 1868[658] og hlýtur hann því að hafa verið eigandi þess. Tóttin ein stóð eftir en yfir hana var byggt að nýju árið 1895.[659] Það hús var kallað Kró og var 4 x 5 álnir að innanmáli[660] eða um það bil 8 fermetrar. Króin frá 1895 var með risi og timburgafli.[661] Á honum var einn gluggi, uppi í risinu.[662] Í þessu húsi var fiskurinn saltaður og lóðir beittar.[663] Þar var líka saltgeymsla og í húsinu var geymdur sá fiskur sem ætlaður var til matar á heimilinu.[664] Króartóttin er (1995) enn á sínum stað á sjávarbakkanum rétt utan við hrófið sem fyrr var nefnt. Gangspil til að taka upp báta var líka sett upp hér ofan við lendinguna á árunum 1902-1912[665] en er nú horfið.

Bræðurnir Valdimar og Kristján Þorvaldssynir hófu báðir sjóróðra sem hásetar á vertíð um 16 ára aldur, Valdimar vorið 1894 og Kristján eigi síðar en vorið 1897.[666] Þeir voru því orðnir vanir sjó er þeir tóki að fullu við stjórn búsins vorið 1902. Heimilið í Selárdal átti þá enn fjögra manna farið sem verið hafði í eigu Þorvaldar, föður þeirra, og líka annan minni bát[667] sem einnig kynni að hafa verið frá dögum Þorvaldar. Haustið 1902 misstu þeir minni bátinn í fárviðri en hann rak upp í fjöru á Gelti og var þá illa brotinn.[668] Valdimar tókst þó að gera við hann[669] og árið 1903 réðst hann í að stækka hinn bátinn og breyta honum úr fjögra manna fari í sexæring.[670] Við það verk naut hann aðstoðar Pálma Lárentíussonar, bónda í Botni.[671] Var þetta upphaf bátasmíða Valdimars[672] en hann varð síðar smiður að atvinnu og þá einkum bátasmiður.

Stækkunin lánaðist vel en svo virðist sem Valdimar hafi ekki lagt í að gerast þá þegar formaður á sexæringnum. Hann leitaði þess í stað samstarfs við nýnefndan Pálma Lárentíusson og seldi honum hálfan bátinn.[673] Á móti kom að sonur Pálma, Jón Pálmason, sem var jafnaldri Valdimars, fæddur 1878, gerðist formaður á gamla Selárdalsbátnum sem nú var búið að breyta í sexæring.[674] Bátur þessi hét Baldur[675] en vera má að hann hafi ekki fengið það nafn fyrr en við stækkunina.

Veturinn 1904 reru þeir frá Bolungavík á Baldri og var Jón Pálmason formaður.[676] Valdimar Þorvaldsson, sem á þessum árum var forverksmaður móður sinnar, ekkjunnar í Selárdal, var sex eða sjö vertíðir á Baldri, oftast með Jóni Pálmasyni en sjálfur formaður eina vertíð.[677]

Vélvæðing íslenska bátaflotans hófst sem kunnugt er árið 1902 og árið 1903 voru fyrstu íslensku vélbátarnir gerðir út á vertíð frá Ísafirði og frá Flateyri (sjá hér Flateyri og Suðureyri). Vorið 1904 voru tveir vélbátar frá Ísafirði gerðir út frá Suðureyrarmölum en fyrstu vélbátarnir sem Súgfirðingar eignuðust komu 1906 (sjá hér Suðureyri).

Svo virðist sem Kristján G. Þorvaldsson, næstelsti bróðirinn í Selárdal, hafi verið býsna fljótur að tileinka sér kunnáttu í meðferð véla því veturinn 1905-1906 var hann vélamaður hjá Elíasi Magnússyni, kunnum formanni í Bolungavík.[678] Kristján var þá 24 ára gamall, fæddur 1881. Í nóvembermánuði árið 1905 pantaði Kristján, fyrir hönd þeirra Selárdalsbræðra, vélbát frá norskri skipasmíðastöð.[679] Báturinn átti að vera úr eik, alopinn, 30 feta langur með 4 hestafla Danvél.[680] Þetta var fyrsti vélbáturinn sem menn úr Súgandafirði pöntuðu og var gengið frá kaupsamningi með formlegum hætti hjá umboðsmanni norsku skipasmíðastöðvarinnar[681] (sbr. Suðureyri). Báturinn átti að koma í marsmánuði árið 1906 en hér fór á annan veg því forstjóri norsku skipasmíðastöðvarinnar dó skyndilega.[682] Í stað bátsins fengu bræðurnir í Selárdal endurgreidda þá fjármuni sem þeir höfðu borgað upp í kaupverðið og að auk 40,- krónur fyrir samningsrof.[683]

Vegna óvæntra endaloka á viðskiptunum við hinn norska skipasmið seinkaði bátakaupum Selárdalsbræðra um eitt ár. Veturinn 1906-1907 festu þeir kaup á vélbát frá Patreksfirði og kom hann til Ísafjarðar í marsmánuði árið 1907 og skömmu síðar til Súgandafjarðar.[684] Þessi bátur var keyptur óséður og samið um kaupin í símtali, að sögn Valdimars Þorvaldssonar. [685] Sú staðhæfing Valdimars að samið hafi verið um kaupin í símtali er tortryggileg því að símasamband milli Ísafjarðar og Patreksfjarðar komst ekki á fyrr en 1908 (sjá Jón Þ.Þór 1988, 158-161). Báturinn hafði upphaflega verið 17 fet en búið var að lengja hann um 6 fet og einnig hafði hann verið hækkaður um tvö borð.[686] Í honum var þriggja hestafla Danvél og yfir henni kappi með lóðsettum hliðum.[687] Miðskips var hann opinn en þegar bátnum var breytt höfðu þiljur verið settar í barka og skut[688] (sbr. hér Suðureyri).

Bátnum frá Patreksfirði gáfu hinir nýju eigendur nafnið Víkingur en á því sem Valdimar Þorvaldsson skrifaði síðar má sjá að þeir urðu strax fyrir nokkrum vonbrigðum með þessa fleytu því hún virtist ekki vera eins traust og seljandinn hafði að sögn látið í veðri vaka í símtali.[689]Þegar hann var í fyrsta sinn settur á land á Suðureyri … fór … neðri hluti kjalarins undan, segir Valdimar.[690] Honum tókst þó að lappa upp á bátinn og gerðu þeir bræður hann út í tvö ár.

Til að kaupa hann og hefja vélbátaútgerð urðu þeir Selárdalsbræður að taka 3.500,- króna lán.[691] Ekki er alveg ljóst hvað báturinn kostaði einn og sér en bátsverðið hefur varla verið nema um það bil helmingur af þessari fjárhæð (sbr. hér Suðureyri). Bræðurnir urðu hins vegar líka að koma sér upp verbúð og hana byggðu þeir úr timbri á Suðureyrarmölum árið 1907, sama ár og þeir festu kaup á Víkingi.[692] Búð þessi, sem nefnd var Selárdalsbúðin, var stækkuð síðar en í sinni upprunalegu mynd var hún 80 rúmmetrar.[693]

Í febrúarmánuði árið 1909 hafði þeim Kristjáni og Valdimar í Selárdal tekist að greiða 1.400,- krónur af láninu sem þeir tóku 1907 en 2.100,- krónur voru enn ógreiddar.[694] Valdimar var þá að læra bátasmíði hjá Ásmundi Ásmundssyni í Hnífsdal[695] og í nýnefndum mánuði sömdu þeir bræður við Ásmund um að smíða fyrir þá nýjan bát.[696] Valdimar vann sjálfur að smíði bátsins hjá Ásmundi en þessi nýi bátur þeirra Selárdalsbræðra var 27 fet á lengd og 9 fet á breidd.[697] Hann var því talsvert stærri en sá eldri. Vélarlaus kostaði hann 1.000,- krónur en vélin úr Víkingi var sett í nýja bátinn og heildarkostnaðurinn við að skipta um bát varð um það bil 1.500,- krónur.[698] Eldri bátinn seldu bræðurnir vélarlausan en fyrir hann fengu þeir aðeins 200,- krónur.[699] Þeir urðu því að taka lán til að kaupa nýja bátinn og fengu 750,- krónur hjá útibúi Landsbankans á Ísafirði.[700] Á efri árum greindi Valdimar Þorvaldsson svo frá að daginn sem samið var um lánið hefðu þeir bræður litið í almanakið, séð að dagurinn hét Cæsar og ákveðið að gefa bátnum það nafn.[701] Þetta er reyndar svolítið skrýtin staðhæfing því ekki er kunnugt um að nokkur dagur í endilöngu almanakinu hafi borið nafnið Cæsar.[702] Líklegasta skýringin er sú að samið hafi verið um lánið 15. mars, á dánardegi Cæsars, hins mikla rómverska keisara, en Valdimar verið farinn að ryðga í dagaheitum almanaksins og Rómverjasögunni er hann sat við skriftir í elli sinni og rifjaði upp eitt og annað sem snerti kaupin á Cæsari.

Hvað sem öðru líður liggur fyrir að þessum nýja báti var gefið nafn keisarans og einkennisstafina ÍS-47 fékk hann frá árabátnum Baldri sem fyrr var nefndur[703] og lengi hafði verið í eigu fólksins í Selárdal.

Til Súgandafjarðar kom Cæsar í fyrsta sinn laugardaginn fyrir hvítasunnu vorið 1909, það er 29. maí.[704] Hann var hvítur að sjó með brúnum lista, skrifar Valdimar.[705] Þessi bátur reyndist eftir fyllstu vonum og var jafnan talinn gott skip.[706]

Víkingur, hinn fyrri vélbátur bræðranna í Selárdal, var fimmti vélknúni báturinn sem keyptur var til Súgandafjarðar og sá fyrsti sem var að öllu leyti í eigu Súgfirðinga sem ekki áttu heima á Suðureyri (sjá hér Suðureyri). Cæsar var svo áttundi mótorbáturinn sem Súgfirðingar eignuðust.[707] Þann bát áttu bræðurnir frá Selárdal lengi eða allt til ársins 1926.[708] Þriðji maður var reyndar meðeigandi þeirra um tíma.[709]

Kristján G. Þorvaldsson í Selárdal var formaður á Cæsari árið 1911 en varð þá að hætta vegna heilsubrests.[710] Valdimar bróðir hans var þá orðinn lærður smiður og hættur sjómennsku en þeir héldu áfram að gera bátinn út og fengu ýmsa dugandi menn, hverja á fætur öðrum, til að taka að sér formennsku. Á árunum 1911-1917 voru skipti á formönnum býsna ör því þeir urðu tólf á þessum sjö árum.[711] Einn þessara formanna á Cæsari var Sigurður E. Hallbjarnarson, síðar kunnur skipstjóri, og tók hann við af Kristjáni G. Þorvaldssyni árið 1911.[712] Var Cæsar einn allra fyrsti báturinn sem hann stýrði til veiða.[713]

Árið 1917 varð Guðni Albert Guðnason formaður á Cæsari.[714] Hann var þá liðlega tvítugur, fæddur 17. október 1895.[715] Guðni var með bátinn í þrjú ár eða allt þar til hann fór að búa í Vatnadal árið 1920.[716] Hann keypti eignarhlut í Cæsari og varð þá meðeigandi bræðranna frá Selárdal.[717] Frá Guðna er sagt á öðrum stað í þessu riti en hann varð kunnur glímumaður og nefndur kóngabani (sjá hér Bær og Fremri-Vatnadalur). Árið 1919 hafði Cæsar verið gerður út í tíu ár. Öll lán sem á honum hvíldu höfðu þá verið greidd og er hér var komið sögu átti báturinn um 1.000,- krónur til góða.[718]

Á árunum upp úr 1920 var Sturla Agnar Guðmundsson formaður á Cæsari um nokkurt skeið[719] en hann varð síðar skipstjóri á stærri bátum og var í áratugi búsettur á Ísafirði. Bátinn Cæsar seldu bræðurnir frá Selárdal Örnólfi Valdimarssyni á Suðureyri haustið 1926.[720] Gekk hann áfram til veiða næstu ár og var um skeið gerður út frá Flateyri.[721]

Hér hefur áður verið sagt frá gamla torfbænum í Selárdal, sem búið var í allt til ársins 1902, og skemmunni góðu sem stóð utantil við hann (sjá hér bls. 41-46). Þegar leið að aldamótum var bærinn orðinn lélegur. Sigríður Friðbertsdóttir og þau af börnum hennar sem uppkomin voru fóru þá að láta sér detta í hug að reisa  hér íbúðarhús úr timbri. Ekkert slíkt hús var þá til í Súgandafirði nema húsið sem Kristján Albertsson reisti á Suðureyri árið 1892. Timbrið í sitt hús hafði Kristján fengið frá Noregi (sjá hér Suðureyri)[722] og nú ákvað fjölskyldan í Selárdal að hafa sama háttinn á ef kostur gæfist á því. Sumarið 1898 tók Sigríður í Selárdal sér ferð á hendur vestur í Önundarfjörð og samdi þar við Hans Ellefsen, forstjóra hvalveiðistöðvarinnar á Sólbakka, um að hann keypti fyrir hana húsavið í Noregi á komandi vetri.[723] Allt gekk það eftir og kom Ellefsen með timbrið að Sólbakka í marsmánuði árið 1899.[724] Úti í Noregi kostaði timbrið 81,- krónu, að sögn Valdimars Þorvaldssonar, en flutningskostnaður þaðan að Sólbakka var 20,- krónur.[725] Valdimar segir líka að fyrir hinn norska húsavið og flutning yfir hafið hafi móðir sín borgað hvalveiðiforstjóranum einn kálf og sjö krónur í peningum.[726] Sá kálfur hefur þá verið hátt metinn því árið 1899 var opinbert kýrverð innan Ísafjarðarsýslu 106,93 krónur.[727] Frá Sólbakka til Súgandafjarðar var timbrið flutt með strandferðaskipinu Skálholti og kostaði sá flutningur 10,- krónur.[728]

Af ýmsum ástæðum varð bið á því að fólkið í Selárdal hæfist handa við að koma húsinu upp þó að timbrið væri komið í hlað. Guðmundur Þorbjarnarson frá Suðureyri var þá starfandi smiður á Ísafirði.[729] Hann var nátengdur fólkinu í Selárdal því Þorvaldur Gissurarson, eiginmaður Sigríðar sem nú var látinn, hafði verið föðurbróðir hans og var Guðmundur fæddur í Selárdal.[730] Þennan frænda sinn fengu synir Sigríðar og Þorvaldar til að teikna húsið og standa fyrir byggingu þess.[731] Ákveðið var að húsið yrði reist á grunni gamla bæjarins og að efri hliðin á hinu nýja timburhúsi yrði úr torfi og grjóti.[732] Þessum vegg var ætlað að veita skjól fyrir kuldaáttinni[733] en hann sneri mót norðaustri.

Haustið 1901 var hafist handa við að koma upp þessum skjólvegg sem verða átti efri hlið hússins. Byrjað var á að hlaða vegg úr hellugrjóti og var þykkt hans 3-4 fet að neðan en 1½ – 2 fet að ofan.[734] Lengd þessa veggjar var 28 fet og hæðin um það bil 5 fet.[735] Utan yfir þennan grjótvegg og ofan á hann var síðan byggður veggur úr torfi og grjóti.[736] Þykkt hans var að venju 8 fet neðst og var ákveðið að hæðin yrði 9 fet.[737] Ofan á þennan vegg kom svo lag af torfhnausum en full hæð frá jörð og upp undir fyrirhugað þak var 11 fet.[738]

Vorið 1902 var gamli bærinn rifinn til grunna og moldir hans notaðar til að slétta í kringum bæjarstæðið.[739] Allt heimilisfólkið færði sig í Grjóthúshlöðuna og hafðist þar við meðan verið var að byggja nýja húsið.[740] Þann 12. júní komu smiðirnir.[741] Þeir voru þrír og áttu allir heima á Ísafirði.[742] Einn þeirra var Guðmundur Þorbjarnarson, sem fyrr var nefndur, en með honum voru í verki þeir Jón Ólafsson og Jón Sigmundsson.[743] Þeir héldu til í gömlu skemmunni sem nokkrum árum fyrr hafði verið breytt í hlöðu og komu húsinu upp á hálfum mánuði.[744] Er smiðirnir þrír fóru brott, þann 27. júní, var húsið komið upp, fullbúið að utan.[745] Þá var einnig búið að leggja í það gólf og loft.[746] Að endanlegum frágangi vann svo heimafólk í Selárdal og tókst því að ljúka öllum innréttingum fyrir lok ársins 1903.[747]

Valdimar Þorvaldsson vann með smiðunum frá Ísafirði að byggingu timburhússins í Selárdal sumarið 1902.[748] Hann var þá að verða 24 ára gamall og í ritum sínum hefur hann víða lýst þessu góða húsi sem hann bjó í, með móður sinni og systkinum, næstu tíu ár. Á þeim lýsingum er byggt í þessu riti.

Húsið var ein hæð, port og ris.[749] Grunnflötur þess var 28 x 14 fet[750] eða tæplega 39 fermetrar. Efri hæðin var 8 fetum styttri en sú neðri svo flatarmál hennar var 20 x 14 fet að utanmáli[751] en innanmál á loftinu var 19 x 13 fet[752] eða liðlega 24 fermetrar. Sá hluti hússins sem aðeins var ein hæð stóð yst og mátti kallast skúr.[753] Endinn á skúrnum var úr torfi og grjóti eins og öll efri hliðin en að þessu tvennu frátöldu var húsið allt úr timbri.[754] Undir því var lítill kjallari, 6 x 6 fet að flatarmáli og hæðin 5 fet,[755] 1,57 metrar. Undir framhliðinni, sem sneri til sjávar, var grjóthlaðinn grunnur, 3½ fet á hæð í ytri enda en 1½ fet innantil.[756] Slík grjóthleðsla var líka undir innri gaflinum.[757]

Nýja húsið var 15 og ½ fet á hæð[758] eða tæplega 5 metrar, frá jörð og upp í mæni. Neðri hæðin var 7 fet, portveggurinn 4 fet og risið 4 og ½ fet.[759] Mjög vel var vandað til þaksins á þessari nýbyggingu en í gamla Selárdalsbænum hafði húsleki verið hin versta plága.[760] Bárujárn var sett á þakið og var það fyrsta járnþakið í Súgandafirði.[761] Síðar á sama ári var þakjárn sett á tvö önnur hús í sama byggðarlagi.[762] Undir bárujárnið í Selárdal var sett þurrt mýrartorf en undir torfinu var timburklæðning úr óunnum borðum og hvíldi hún á sperrunum.[763] Sjálf súðin var svo úr panel.[764] Þakið var stoppað með fjallamosa framan af Stórholti og veggirnir líka.[765]

Útidyr voru á framhliðinni sem sneri til sjávar.[766] Á henni voru líka tveir gluggar og einn hálfur gluggi.[767] Á innri gaflinum voru tveir gluggar niðri og einn uppi.[768] Á skúrnum var líka gluggi sem sneri út á við.[769]

Þegar gengið var inn um útidyrnar var komið inn í gang eða dyrapláss sem var 7 x 7 fet að flatarmáli.[770] Aðrar vistarverur á neðri hæðinni voru millirúm, sem einnig var nefnt baðstofugólf, og var 14 x 9 fet, eldhús 7 x 7 fet, búr 5 x 11 fet og stofa 9 x 11 fet.[771] Úr dyraplássinu var gengið ofan í kjallarann en frá baðstofugólfinu lá stigi upp á loft.[772] Á baðstofugólfinu, er svo var nefnt, voru fjórar dyr, allar með spjaldahurðum.[773] Um einar þessara dyra var gengið inn í stofuna, um aðrar í eldhúsið og þær þriðju í búrið.[774] Fjórðu dyrnar lágu fram í ysta útgang.[775]

Uppi á loftinu var allt í baðstofustíl og engin skilrúm.[776] Þar var svefn- og vinnupláss eins og venja var í baðstofum, segir Valdimar.[777] Gólfið á efri hæðinni var marg áborið með fernis og þiljur málaðar þar uppi.[778] Á neðri hæð voru þiljur einnig málaðar í stofunni, á baðstofugólfinu og í dyraplássinu.

Við útidyr voru tröppur, vel hlaðnar úr góðu grjóti, með palli og sléttað yfir með sementi.[779] Frá tröppunum var lagður gangstígur úr grjóti, 6 feta breiður og 8-12 þumlungar á hæð.[780] Þessi gangstígur var 15-18 faðmar á lengd en framan við hann var lagður annar mjórri sem náði alveg fram á öskuhauginn.[781] Ofan á grjótið í þessum stígum var settur mulningur og möl en þeir héldust alltaf snjólausir, hvernig sem vindar blésu.[782]

Árið 1903 var eldavél sett í nýja húsið í Selárdal og hafði hún verið pöntuð frá Kaupmannahöfn.[783] Í gömlu baðstofunni hafði verið kamína en þá eldstó mun Selárdalsfólk hafa eignast árið 1883 eða 1884.[784] Valdimar Þorvaldsson segir að eftir hinn mikla frostavetur 1881-1882 hafi margir fengið sér kamínu en þær voru, með hans orðum sagt: Eldstæði úr járni … ferköntuð með fjórum fótum, með einu eldholi 12 tomma, og járnrörum út úr þakinu.[785] Í nýja húsið, sem byggt var 1902, kom ekki aðeins eldavél heldur líka ofnar, einn á loftið og annar í stofuna.[786] Valdimar segir á einum stað að húsið hafi kostað 1.880,- krónur[787] en á öðrum stað kemst hann svo að orði að með ofnum og öllu hafi það kostað rúmar 2.000,- kr.[788]

Fyrir fólkið í Selárdal hafa það verið mikil umskipti að fara úr gamla torfbænum í nýja timburhúsið. Líðanin þar varð stórum mun betri, segir Valdimar, og heilsufar batnaði stórmikið og þegar útihúsin voru líka komin í fullt lag gátu tveir menn unnið eins mikið, sumar og vetur, eins og þrír áður.[789]

Í íbúðarhúsinu frá 1902 var búið allt þar til Selárdalur fór í eyði.[790] Engar verulegar breytingar voru gerðar á húsinu en Kristján Halldórsson, sem bjó hér á árunum 1912-1922, lét setja járn á innri gaflinn og Sigurður Samsonarson, sem var bóndi í Selárdal frá 1922 til 1947, steypti vegg utan yfir þennan sama gafl.[791] Í stað torf- og grjótveggjarins við endann á skúrnum steypti hann líka nýjan vegg.[792]

 

Við höfum nú dvalið um sinn við rústir íbúðarhússins sem hér var frá sagt, þar sem gamli torfbærinn stóð áður og kynni að hafa staðið í nær 1000 ár. Liggur því næst fyrir að rölta um túnið og líta á útihúsin.

Gamla túnið í Selárdal náði frá ánni og svolítið inn fyrir bæinn.[793] Innan við bæjarstæðið er Stórhóll og þar fyrir innan Litlhóll, innst í gamla túninu og skammt frá sjávarbakkanum,[794] en túnið var talið vera 140 faðmar á lengd og 56 faðmar á breidd.[795] Innan við gamla túnið er útrækt sem menn nefndu Ástún.[796]

Hinn gamli farvegur bæjarlækjarins var alveg rétt utan við bæinn, meðfram baðstofugaflinum.[797] Lækurinn er hér enn og rétt ofan við bæjartóttina hefur verið lögð yfir hann falleg hella. Neysluvatn var jafnan sótt í bæjarlækinn og í þeim efnum varð engin breyting fyrr en eftir 1920 er vatn var leitt í bæinn.[798] Frostaveturinn mikla 1881-1882 þornaði bæjarlækurinn upp og einnig þornaði Stórilækur, sem er hér svolítið utar í túninu, að mestu.[799] Misjafnlega gekk þá að ná vatni úr Selárdalsá, sem fellur rétt utan við túnið, og um tíma varð að sækja vatn í læk hér út á Leitinu sem er skammt fyrir utan ána og byrgir sýn frá bænum út með hlíðinni.[800] Vatnið í þeim læk þrýtur aldrei og er alltaf álíka mikið.[801] Ætla má að það sé lindarvatn.

Stóralæk, sem er innan túns en spölkorn utan við bæinn,[802] er auðvelt að finna því hér er enginn annar lækur sem getur kallast stór, nema sjálf áin en hún er utan við túnið. Gamla Selárdalstúninu var skipt í tólf reiti, einn fyrir hvert jarðarhundrað.[803] Yst voru Efra- og Neðra-Áarhundrað og náðu þau alveg út að Selárdalsánni.[804] Þjóðgatan sem lá um túnið skildi þau að.[805] Innan við Áarhundruðin komu önnur tvö hundruð og náðu þau inn að Stóralæk.[806] Næstu tvö hundruð náðu frá Stóralæk að lænu innan við Klett en svo heitir klettabrík sem gengur fram úr sjávarbökkunum neðan við túnið.[807] Þar fyrir innan kemur svo Fjóshaughundrað og er það neðan til í túninu en ofan við það var annað hundrað sem nafnið vantar á.[808] Eru þá talin átta af hundruðunum tólf. Innan við Fjóshaughundrað er Grallaratunga og nær inn að bæjarlæknum en innan við hann er Hlaðbrekka ytri sem nær frá bakkabrúninni og upp að bæjarrústunum.[809] Bæði Grallaratunga og Hlaðbrekka ytri heyrðu til einu og sama hundraðinu og í því var líka Tunga sem er efst í túninu og rétt innan við bæjarlækinn.[810] Innan við Tungu er Fjóströð og var læna á milli þeirra en með Fjóströð í hundraði var Hlaðbrekka innri.[811] Öskuhaugurinn á bakkabrúninni neðan við bæinn skildi að Hlaðbrekku ytri og Hlaðbrekku innri.[812] Innan við Fjóströð er Lambhúströð og niður af henni Stórhóll.[813] Hann og síðarnefnda tröðin mynduðu saman ellefta hundraðið, talið að utan, en innsta hundraðið í gamla túninu var Litlhóll og nánasta umhverfi hans.[814]

Hér hefur áður verið sagt frá skemmunni sem Þorbjörn Gissurarson byggði um 1860 en hún var lengi myndarlegasta húsið í Selárdal (sjá hér bls. 45-46). Margvíslegar upplýsingar liggja fyrir um önnur útihús en aðeins sumt af því verður tínt til hér. Valdimar Þorvaldsson gerir skýra grein fyrir útihúsunum í Selárdal á búskaparárum afa síns, Gissurar Einarssonar, sem stóð hér fyrir búi frá 1828 til 1854. Fróðleik sinn um þau má ætla að hann hafi haft frá dætrum Gissurar, þeim Guðrúnu og Jóhönnu, sem fæddar voru 1832 og 1833. Þær voru báðar í Selárdal á uppvaxtarárum Valdimars hér og var hann um 27 ára aldur þegar Guðrún föðursystir hans andaðist sumarið 1905 en hún átti heima í Selárdal til æviloka.[815] Valdimar ritar:

 

Samhliða [baðstofunni] að utan voru göng og svo eldhús og búr. Eldhúsið var ofar. Þar var lækurinn. Þar fyrir utan, á bili frá, var kindahús og kofi, líklega fjós. Að nokkru samhliða baðstofunni, að innan til var kúahlaðan og sneri eins. Á hólnum fyrir innan bæinn voru tvö fjárhús, annað sneri upp og ofan en hitt út og inn. Það var kallað Mjóhús. Fyrir neðan bæinn var smiðja sem sneri út og inn. Ofan til við nautahlöðuna [kúahlöðuna sem áður var nefnd – innsk. K.Ó.] var kofi sem húshjón áttu, síðar fjós. Þar fyrir utan og ofan bæjarlækinn var hjallur. Í túnjaðrinum inn af bænum var kvíin, grafin inn í hólröndina, og hesthúsið á hólnum fyrir utan. Nokkru neðar á Ásnum var fjárhús kallað Áshús, og á bökkunum utan við lendinguna var kofi, kallaður Kró                                                                                                 [sjá hér bls. 54]. Þessi hús munu öll hafa staðið um 1840. Það er ekki auðið að segja hvað er verk Gissurar og hvað er eldra.[816]

 

Ljóst er að þó nokkur hreyfing hefur verið á fjósinu í Selárdal síðustu 100 árin sem búið var á jörðinni. Valdimar segir hér að líklega hafi kofi sem stóð utan við bæinn verið fjós um eitthvert skeið. Það verður þó að teljast óvíst því á öðrum stað segir hann að í tíð afa sins hafi kýrnar verið hafðar undir baðstofuloftinu.[817] Þar virðist hann vera alveg viss og segir svo frá að þegar baðstofa Gissurar var rifin um 1860 hafi fundist undir bássteinunum þrír hlutir sem ekki áttu að vera til í Súgandafirði eða nágrenni hans.[818] Þetta voru hrafntinna og vikurkol en eitt er gleymt, hvað var, skrifar Valdimar.[819] Það fylgir sögunni að þetta hafi verið eignað Jóni nokkrum Brandssyni og talið að hann hafi komið þessum furðuhlutum undir bássteinana í þeim tilgangi að spilla láni á kúnum.[820] Sjálfur lét Valdimar sér hins vegar detta í hug að ef til vill hefði aðskotahlutum þessum verið komið fyrir hjá kúnum löngu fyrr.[821] Jón Brandsson var vinnumaður hjá Gissuri Einarssyni í Selárdal á árunum 1844-1846.[822] Hann kom í Selárdal frá Hafnardal á Langadalsströnd við Djúp árið 1844 og var þá um þrítugt, fæddur á Illugastöðum í Múlasveit við norðanverðan Breiðafjörð.[823] Að sögn Valdimars Þorvaldssonar hafði vinnumaður þessi verið sakaður um morð sem ekki varð fullsannað[824] en engin nánari skýring fylgir þessari alvarlegu staðhæfingu hans.

Jón Brandsson átti heima í Súgandafirði frá 1844 til 1856 og var þá jafnan vinnumaður eða húsmaður nema fardagaárið 1846-1847 en þá bjó hann á jarðarparti í Botni ásamt bústýru sinni, Steinunni Benjamínsdóttur, er hann kvæntist haustið 1851.[825] Á dvalarárum sínum í Súgandafirði var Jón lengst á Gilsbrekku en þar átti hann heima í fimm ár, frá 1848 til 1853.[826]

Líklega hefur fjósið í Selárdal verið undir baðstofupallinum allt þar til synir Gissurar Einarssonar rifu gömlu baðstofuna og byggðu nýja um 1860 eða skömmu fyrr (sbr. hér bls. 41). Þá eða um svipað leyti hafa kýrnar verið færðar í kofann sem Valdimar segir hafa staðið innan við bæinn og aðeins ofar, ofan við kúahlöðuna. Þennan kofa segir hann hafa verið gerðan að fjósi en áður hafi búið í honum húshjón (sjá hér bls. 64). Óvíst er hvaða hjón það voru en þar koma helst til greina hjónin Einar Brynjólfsson og Guðlaug Sigmundsdóttir sem bæði voru vinnuhjú hjá Gissuri í Selárdal frá 1839 til 1848.[827] Áður hafði Gissur bóndi eignast dóttur með nýnefndri Guðlaugu (sjá hér bls. 27-28) svo ekki er ólíklegt að makar beggja hafi síður viljað hafa þau undir sama þaki að nóttunni. Önnur hjón sem til greina koma eru Guðmundur Jónsson, sem sagður er hafa fengist við barnakennslu í Selárdal, og kona hans Ingibjörg Jónsdóttir en þau voru hér aðeins í eitt ár, fardagaárið 1842-1843 (sjá hér bls. 28), svo Einar og Guðlaug verða að teljast mun líklegri. Túnskikinn innan við bæinn og ofan við Hlaðbrekkuna heitir Fjóströð (sjá hér bls. 63) sem gæti bent til þess að fjósið hafi lengi verið á þessum stað eða þar í grennd. Óvíst er þó hversu gamalt örnefnið muni vera. Fjósið var fært héðan árið 1886 eða 1887 en þá byggði Þorvaldur Gissurarson nýtt fjós utantil við skemmuna sem stóð fyrir utan bæinn.[828] Seinna var kúnum komið fyrir í mikilli sambyggingu sem reist var á nýjum grunni utan við bæinn, á 12 faðma bili frá honum, á árunum 1904-1906[829] og hér segir nánar frá síðar.

Síðasti bóndinn í Selárdal, Sigurður Samsonarson, sem bjó hér frá 1922 til 1947, færði fjósið svo enn, því hann byggði, að sögn Valdimars, nýtt fjós úr torfi og grjóti niðri á sléttunni fyrir neðan hlöðuna.[830] Mun þar átt við hlöðuna í hinni miklu sambyggingu sem hér var nýlega nefnd.

Hér var áður gerð almenn grein fyrir skipan útihúsa í Selárdal um 1850 (sjá hér bls. 64). Á árunum 1855-1868 stóðu synir Gissurar Einarssonar fyrir ýmsum byggingarframkvæmdum en elstur þeirra var Þorbjörn og má ætla að hann hafi látið þar mest til sín taka. Þeir reistu þá m.a. skemmuna sem áður var frá sagt.

Út og upp af kvínni og fyrir ofan hesthúsið (sjá hér bls. 64) byggðu þeir mikið fjárhús úr eintómu grjóti og var það nefnt Grjóthúsið.[831] Langan tíma tók að vekja upp nægilegt grjót og draga á byggingarstað.[832] Húsið var ætlað fyrir 32 fullorðnar sauðkindur.[833] Það var breiðara og rýmra en hin eldri fjárhús í Selárdal.[834] Grunnflöturinn var 10 x 16 fet[835] eða tæplega 16 fermetrar. Það var með jötubálk úr grjóti, á því voru tvennar dyr og armarnir voru tveir.[836] Húsið reyndist illa í fyrstu því jafnan fennti inn um grjótveggina.[837] Seinna voru þeir byggðir upp að nýju, í áföngum, og þá með torfi og mold[838] ásamt grjótinu.

Við Áshúsið, annað fjárhús sem fyrr var nefnt (sjá hér bls. 64), byggðu Gissurarsynir hlöðu sem var 3 og ½ x 8 álnir að flatarmáli[839] eða um 11 fermetrar. Þessi hlaða tók um 50 hesta af heyi þegar búið var að hækka hana upp í 9 og ½ fet[840] en þá var hæðin orðin rétt tæplega 3 metrar. Gamla fjárhúsið hér inn á Ásnum var 5 x 6 álnir[841] eða tæplega 12 fermetrar. Á því voru tvennar dyr, tveir mæniásar og jata í miðju.[842] Það tók 20-22 kindur.[843]

Þorbjörn Gissurarson bjó sjálfstæðu búi á annarri hálflendunni í Selárdal á árunum 1863-1868 (sjá hér bls. 33) og taldist þá eiga mikið af útihúsunum sem hér voru. Er hann fór brott vorið 1868 gat Þorvaldur bróðir hans, sem þá tók við allri jörðinni, ekki leyst þessi hús til sín svo Þorbjörn reif úr þeim allt timbur eins og venja var[844] og mun hafa farið með það út á Suðureyri en þar hóf hann búskap þetta sama vor. Húsin sem Þorbjörn reif voru kúahlaðan, rétt innan við bæinn, fjárhúshlaðan við Áshúsið, Króin, sem svo var nefnd, en hún stóð á sjávarbakkanum utan við lendinguna og svo var það gamalt fjárhús sem nefnt var Mjóhús og hér var áður getið.[845] Þorvaldur Gissurarson reisti þessar byggingar ekki við og á þeim árum sem hann bjó einn á allri jörðinni, árunum 1869-1888, voru því engar hlöður hér í Selárdal (sjá hér bls. 38-39).

Á árunum 1890-1899 voru ýmsar byggingar reistar í Selárdal. Árið 1890 var byggð ný kví upp úr gamalli hjalltótt fyrir utan Selárdalsána.[846] Kvíabólið færðist nú þangað en það hafði áður verið rétt innan við túnið.[847] Gamla kvíin var grafin inn í grasbala hjá Bóllænu, er svo heitir, en læna þessi sytraði leið sína alveg rétt innan við Litlhól sem er innsti hluti gamla túnsins.[848] Grjótið úr þessari kví var rifið og notað í hlöðubyggingu árið 1899.[849] Utan við gömlu kvína en þó á sama balanum var áður hesthús sem virðist hafa fallið úr brúki um 1850.[850]

Að byggingu nýju kvíarinnar, sem enn stendur (1995), skammt fyrir utan Selárdalsá, unnu konur og börn.[851] Hún er svolítið ofan við sjávarbakkana og er enn hin stæðilegasta, 6-7 metrar á lengd og 2-3 metrar á breidd. Ofan við kvína er gömul tótt, svipuð að lögun. Vera má að hjallurinn, sem kvíin var byggð upp úr, hafi staðið þar en sagt er að hann hafi farið í snjóflóði.[852]

Árið 1890 hafði ekkert brunnhús verið í Selárdal um langt skeið en 1892 eða skömmu síðar var lítið lækjarhús byggt yfir bæjarlækinn og stóð það rétt neðan við götuna sem lá út í sambyggingu þá[853] er hér var reist fáum árum síðar og brátt verður frá sagt. Lækjarhúsið var úr torfi og grjóti og með hurð á hjörum.[854]

Árið 1895 var Króin við lendinguna byggð upp (sjá hér bls. 54) og einu ári síðar, sumarið 1896 var þaki komið á hlöðutóttina inn á Ásnum[855] (sbr. hér bls. 66). Hér var áður sagt frá gömlum bæjarrústum í Selárdalstúni, sem stóðu í Hesthúsþúfum á Efra-Áarhundraði, yst í túninu og skammt fyrir innan Selárdalsá (sjá hér bls. 11-12). Þarna í Hesthúsþúfum var byggt nýtt hesthús árið 1897[856] en svo virðist sem ekkert hesthús hafi verið í Selárdal næstu áratugina þar á undan.[857] Hesthúsið frá 1897 var 4 x 5 álnir[858] Á árunum kringum aldamótin 1900 var þetta nýja hesthús einnig notað sem sumarfjós.[859]

Árið 1898 var byggð rétt á Stekkjartúninu innan við Ásinn (sjá hér bls. 7) en 1899 var byggð hlaða við Grjóthúsið sem hér var áður nefnt.[860] Grjóts var aflað veturinn áður, bæði úr gömlu kvínni og víðar að.[861] Þessi hlaða var upphaflega 11 x 18 fet en var lengd í 24 fet árið 1903.[862] Hæð í mæni var 12 fet.[863] Hlaðan tók 120-150 hesta af heyi.[864] Í hlöðugrindinni var mikið af rauðum harðviði úr skipi sem strandaði við Sauðanes sumarið 1898.[865] Hlöðugólfið var allt upp púkkað til að losna við vatn með torfi yfir grjótinu og ræsi fram úr.[866] Í hlöðunni var gerður brunnur sem aldrei þraut vatn í og var að honum mikið hagræði við fjárhirðingu.[867]

Árið 1902 var íbúðarhúsið byggt, sem fyrr var frá sagt, og á því ári var gamla lambhúsið, sem stóð skammt fyrir innan bæinn, rifið og annað stærra byggt í þess stað ofan við Grjóthúsið.[868] Nýja lambhúsið var 5 x 8 álnir[869] eða tæplega 16 fermetrar og í því mátti hafa 30-36 lömb.[870]

Árið 1904 var byggt hús á nýjum grunni, yst í Grallaratungu, í þúfunum út og niður af hjallinum[871] sem stóð fyrir utan og ofan bæinn (sjá  hér bls. 64). Þetta hús var brúkað sem útieldhús, smiðja og geymsla[872] Það var 4 x 7 álnir, með veggjum og þaki úr torfi en þil framan fyrir.[873] Á næsta ári risu þarna fleiri hús svo úr varð mikil sambygging á 12 faðma bili frá bænum.[874] Í þessari stóru byggingu var auk þess sem fyrr var nefnt komið fyrir fjósi, mjólkurhúsi og hlöðu og þar var líka gangur, hjallur og geymsluloft.[875] Á sambyggingunni voru 6 dyr og 4 gluggar.[876] Kostnaðurinn við að koma henni upp varð 700,- krónur.[877] Á árunum 1904 og 1905 voru mörg eldri hús rifin því þeirra var ekki lengur þörf er nýju húsin í sambyggingunni höfðu verið tekin í notkun.[878]

Í nýja fjósinu þarna voru 3 básar og auk þess pláss fyrir kálf.[879] Í mjólkurhúsinu var mór geymdur að vetrinum og þar var komið fyrir kvörninni sem malað hafði verið í um langan aldur.[880] Eitt húsanna í sambyggingunni var útieldhús. Þar voru hlóðir og í því var ullin þvegin, svið sviðin og slátur soðið.[881]

Á dögum Gissurar Einarssonar, bónda í Selárdal, um og fyrir miðja nítjándu öld, var smiðjukofi fyrir neðan bæinn (sjá hér bls. 64). Hann var seinna notaður sem mógeymsla um nokkurt skeið og árið 1896 fór Valdimar Þorvaldsson, sem þá var 18 ára, að koma sér upp smiðju utan til í Ásnum[882] sem er fyrir innan túnið. Sá kofi var upphaflega 6 x 7 eða 8 fet[883] en var lengdur síðar og þegar búið var að koma smiðjunni fyrir í sambyggingunni var hann notaður sem hrútakofi eða fyrir aðrar kindur.

Hér hefur nú verið gerð grein fyrir flestum byggingum sem um er kunnugt og reistar voru í Selárdal á árunum 1792-1912 en á því 120 ára skeiði bjó hér ein og sama ættin og tóku sonur eða synir jafnan við búi af sínum foreldrum. Tóttir sumra þessara húsa gefst enn kostur á að skoða hér í túninu eða rétt fyrir utan það og innan en ýmsar tóttir hafa verið sléttaðar út og eru horfnar af yfirborði jarðar. Með þá lýsingu í höndum sem hér hefur verið saman sett ætti hverjum og einum sem staldrar við í Selárdal að reynast auðvelt að glöggva sig á tóttunum og gera sér grein fyrir hvar hin ýmsu hús stóðu. Nauðsynlegt er þó að hafa í huga að hér eru einnig nokkrar aðrar tóttir, bæði frá yngri og eldri tíma. Þar er fyrst að nefna fjósið, sem Sigurður Samsonarson byggði á árunum 1922-1947 og áður var minnst á (sjá hér bls. 65), og hesthús er hann reisti á túnbrekkunni utantil við Stóralæk.[884] Það hesthús var einnig notað sem sumarfjós.[885] Sigurður girti líka túnið og sléttaði stóran hluta þess. Hann gekk frá átta sléttum og var samanlagt flatarmál þeirra 3.850 fermetrar.[886] Sigurður leiddi líka vatn í bæinn, fjós og fjárhús.[887]

Af tóttum í Selárdalstúni, sem ætla má að séu frá átjándu öld eða máske eldri og tvímælalaust frá því fyrir 1840, er helst að nefna tvær tóttir sem standa saman upp við brekkuna innantil við Stóralæk.[888] Að sögn Valdimars Þorvaldssonar var eitt sinn rist þarna torf, neðan við ytri tóttina, og kom þá í ljós að undir grassverðinum voru brennd viðarkol og aska.[889] Líklegt má því telja að þarna hafi verið smiðja um eitthvert skeið. Á Neðra-Áarhundraði, skammt innan við Selárdalsá, eru líka tvær fornar tóttir sem virðast vera af fjárhúsi og heygarði.[890] Fólk fætt á árunum 1830-1840 hafði ekki heyrt nær þessar byggingar höfðu síðast verið í brúki, segir Valdimar.[891]

Vorið 1910 hafði Sigríður Friðbertsdóttir verið húsfreyja í Selárdal í þriðjung aldar og búandi ekkja í 21 ár. Börn hennar fjögur, sem þá lifðu, voru öll orðin fullorðin og tvö þau elstu komin yfir þrítugt. Ekkert þeirra hafði samt flust að heiman og öll voru þau ógift.[892] Er hér var komið sögu var Valdimar, elsti sonurinn, orðinn lærður smiður og saman áttu tveir elstu synirnir, Valdimar og Kristján, mótorbát sem þeir gerðu út frá Suðureyrarmölum svo sem fyrr var nefnt.

Ekki er alveg ljóst hvort hugmyndin um að fara burt af jörðinni kom fyrst upp hjá Sigríði eða einhverju barna hennar. Líklegt virðist þó að bræðurnir, Valdimar og Kristján Þorvaldssynir, hafi séð að smíðavinnu, útgerð og sjósókn væri mun auðveldara að stunda frá hinu vaxandi þorpi á Suðureyrarmölum en héðan úr Selárdal.

Hjá móður þeirra kynni snjóaveturinn mikli árið 1910 hins vegar að hafa ýtt undir hugmyndir um brottflutning og svo mikið er víst að næsta haust sagði fólkið í Selárdal jörðinni lausri.[893] Þennan vetur, 1909-1910, tók aldrei upp snjó en stöðugt bættist við, allt frá vetrarbyrjun og fram til 10. maí eða í 32 vikur.[894] Þann 18. febrúar 1910 féll hið mannskæða snjóflóð í Hnífsdal og varð það 20 manneskjum að bana. Sama dag hljóp öll hlíðin sem hlaupið gat norðan við Súgandafjörð og fram á Botnsdal.[895] Þetta mikla snjóflóð braut niður ísinn sem var á firðinum og að sögn Valdimars Þorvaldssonar var það snjómagn svo mikið að það gat ekki hreinsast út fyrr en eftir tvær vikur.[896] Þennan snjóavetur var fénu í Selárdal beitt á marhálm og þang í fjörunni alla daga en í lok marsmánaðar var fjörumóðurinn, snjófargið á mörkum lands og sjávar, orðinn 5 metrar á hæð þar sem hann var lægstur, í Stekkjarvíkinni hér rétt innan við Ásinn.[897] Féð var því í stöðugri hættu og þeir sem því sinntu (sjá hér bls. 9-10).

Snjóflóðahætta er líka ærin víðast hvar í landi Selárdals þó að sjálfur bærinn væri ekki á hættusvæði. Á innri hlíðinni var talin veruleg hætta á snjóflóðum alveg frá landamerkjunum á móti Gilsbrekku og út að Grísalæk (sjá hér bls. 4 og Gilsbrekka). Á ytri hlíðinni var hættan ekki minni en þar nær snjóflóðasvæðið alveg frá landamerkjunum á móti Norðureyri og inn að Stóralæk sem er hér utantil við mitt túnið.[898] Um miðbik tuttugustu aldar kunnu menn að segja frá því að eitt sinn hefði snjóflóð hlaupið niður farveg Míganda, lækjarins á landamerkjum Selárdals og Norðureyrar, og náð upp í götu á Kleif, handan fjarðarins (sjá hér bls. 84-85). Á hlíðinni utan við Selárdal mátti alls staðar búast við snjóflóðum nema á Leitinu hér rétt utan við Selárdalsá og á litlum bletti þar fyrir utan, það er að segja á svæðinu út að Löngulág sem er mjög skammt fyrir utan Leitið.[899]

Eins og fyrr var nefnt sagði fólkið í Selárdal jörðinni lausri haustið 1910 og hugðist þá flytjast búferlum vorið 1911.[900] Mál skipuðust þó svo að brottförin frestaðist um eitt ár en vorið 1912 yfirgáfu Sigríður Friðbertsdóttir og börn hennar jörðina og settust að í verbúð sem þeir Valdimar og Kristján, synir Sigríðar, áttu á Suðureyrarmölum.[901] Það hús var nefnt Selárdalsbúðin og stendur enn, í breyttri mynd, á sínum gamla stað (sjá hér Suðureyri). Verbúðin var byggð árið 1907 (sjá hér bls. 56) og var í fyrstu 80 rúmmetrar en vorið 1913 var hún stækkuð upp í 106 rúmmetra og bættist þá íbúðarhúsnæði við.[902]

Er bræðurnir, Valdimar og Kristján Þorvaldssynir, fóru frá Selárdal, ásamt móður sinni og systkinum, vorið 1912 lauk langri sögu því þá voru liðin 120 ár frá því Einar Magnússon, langafi þeirra, hóf hér búskap og allan þann tíma hafði þráðurinn haldist óslitinn. Ýmsar breytingar gengu yfir en heimilið í Selárdal var í raun eitt og hið sama í þessi 120 ár.

Frá tveimur síðustu ábúendum í Selárdal, þeim Kristjáni Halldórssyni og Sigurði Samsonarsyni, verður ekkert sagt á þessum blöðum, enda eru þeir báðir menn tuttugustu aldar. Þess skal aðeins getið að Kristján bjó hér með konu sinni, Guðrúnu S. Jónsdóttur, frá 1912 til 1922 en Sigurður og eiginkona hans, Rósinkransa Sveinbjörnsdóttir, voru hér við búskap frá 1922 til 1947.[903] Sigurður Samsonarson, síðasti bóndinn í Selárdal, var langt að kominn en hann fæddist á bænum Barmi á Skarðsströnd við Breiðafjörð 27. mars 1882 og ólst upp á Skarðsströndinni.[904] Um búskaparhætti í Selárdal á dögum Sigurðar er nokkurn fróðleik að finna í Súgfirðingabók er út var gefin árið 1977 og skal hér vísað til þess sem þar er ritað[905] og einnig í ritgerð Guðbjarts Gunnarssonar um sama efni í 8. hefti Mannlífs og sögu fyrir vestan en Guðbjartur, sem fæddur er árið 1928, ólst upp í Selárdal.

Foreldrar Sigurðar Samsonarsonar, bónda í Selárdal, hétu Sigurlín Sigurðardóttir og Samson Jakobsson en faðir Samsonar og afi Sigurðar var Jakob Aþanasíusson sem lengi bjó á Barðaströnd en var árið 1901 kominn að Ytri-Fagradal á Skarðsströnd til Samsonar sonar síns er hér var nefndur.[906] Jakob, afi Sigurðar í Selárdal, var mikill sögumaður og færði Þorsteinn Erlingsson skáld ýmsar frásagnir hans í letur. Að Þorsteini látnum voru þessar sögur gefnar út á bók sem prentuð var árið 1933 og heitir Sagnir Jakobs gamla.[907]

Við höfum nú reikað um túnið í Selárdal og skoðað tóttirnar. Brátt leggjum við á dalinn en fyrst skulum við rölta svolítið um fjöruna neðan við túnið og bakkana ofan við hana, neðst í túninu. Við stöldrum við hjá lendingunni sem áður var frá sagt (sjá hér bls. 54-55) en hún er beint fyrir neðan innsta hluta gamla túnsins. Steinaraðirnar beggja vegna við hana sýna enn hvar lent var en bátshrófið og fiskikróin, ofan við fjöruna, minna líka á horfna tíð. Oft var erfitt að bjarga bátum upp á móðinn í fönn að vetrarlagi.[908] Við slíkar aðstæður kom gangspilið, sem upp var sett á fyrstu árum tuttugustu aldar, að góðum notum.[909]

Neðan við túnið eru víðast hvar allháir klettabakkar en hér inn við lendinguna eru engir klettar og bakkarnir mun lægri en neðan við bæinn. Tveir steinar sem standa skammt frá hvor öðrum, hér svolítið utar í fjörunni og beint niður af Stórhól, heita Tvísteinar.[910] Oft er mikið þang á þessum steinum. Um hálffallinn sjó eru steinar þessir í flæðarmáli.[911] Beint fyrir neðan bæjarrústina er gamli öskuhaugurinn.[912] Fram af honum var fleygt ösku og úrgangi[913] en hér eru bakkarnir snarbrattir. Ofan við þá og rétt innan við öskuhauginn er lítil steinsteypt tótt og mun vera súrheysgryfja frá dögum síðasta bóndans sem hér bjó. Skammt fyrir utan öskuhauginn gengur klettabrík fram úr bökkunum og heitir hún Klettur.[914] Fram af Kletti er Langasker[915] og kemur upp á fjörunni. Frá Kletti og út að Stóralæk er svolítil vík við ströndina og heitir Túnhöfn eða Litlahöfn.[916] Hér er þó alls ekki hægt að taka upp báta því ofan við víkina eru brattir klettabakkar.

Frá Stóralæk eru tæplega 100 skref út að árósnum þar sem Selárdalsá fellur til sjávar. Á gróinni flöt beggja vegna við ósinn sést enn móta fyrir tóttum gamalla skipshrófa en sagnir herma að snjóflóð hafi lagt þau í rúst fyrir margt löngu.[917] Þrjú vöð voru á ánni hér utan við túnið: Neðstavað, út af miðju túni, Hærravað út af ofanverðu túninu, og Efstavað undir brekkunni þar fyrir ofan.[918]

Utan frá ánni göngum við heim að bæjarrústunum til að kveðja. Við stöldrum við á hinu forna bæjarhlaði og horfum fram á fjörðinn. Hér er hann aðeins um 700 metrar á breidd og segja má að í Selárdal hafi verið ferjustaður. Oft voru ferðamenn fluttir á bát úr Selárdal yfir fjörðinn en ekki tíðkaðist að taka borgun fyrir slíkan greiða.[919] Væru menn staddir vestan fjarðarins og þyrftu að komast yfir var hóað á Selinu hér beint á móti. Kom þá jafnan bátur frá Selárdal til að flytja þann eða þá sem gert höfðu vart við sig með þessum hætti og var sú venja enn við lýði um 1940.[920] Býsna oft var ferðamönnum á leið til Bolungavíkur líka fylgt upp á heiði frá Selárdal og þótti sjálfsögð greiðvikni.[921]

Við lítum nú til fjalla. Innan við dalinn, sem liggur að bæjarbaki, er hið fagra Ásfjall sem áður var frá sagt (sjá hér bls. 1 og 8). Fjallið utan við dalinn heitir Hafnarhorn[922] og dregur nafn af Höfninni sem er hamravík við sjó, skammt fyrir utan Selárdal. Hafnarhorn er svipmikið fjall með sterklegri klettabrún. Það er svolítið lægra en Ásfjall og liggur fjallsbrúnin í 534 metra hæð yfir sjávarmáli.

Hin fornu eyktamörk í Selárdal segir Kristján G. Þorvaldsson hafa verið þessi: Dagmál – innst á Ásfjalli. Hádegi – Kvíanesnúpur. Miðmundi – skarð yfir Haugum á Kvíaneshlíð (líklega sama skarðið og fólk í Vatnadal nefndi Haugadyr, sjá hér Fremri-Vatnadalur, – innsk. K.Ó.). Nón – Laugatindur, beint fyrir ofan bæinn á Laugum, en hann var stundum nefndur Nóntindur í Selárdal. Miðaftann – Háakleif, um það bil tveimur kílómetrum fyrir innan Suðureyri. Náttmál – Galtartangar.[923]

Yfir heiðina Grárófu, milli Selárdals í Súgandafirði og Tungudals í Bolungavík, lagði margur maðurinn leið sína á fyrri tíð því þetta var alfaravegur. Hann er þó ófær ríðandi mönnum og ekki er heldur unnt að komast yfir heiðina með lausan hest í taumi.[924] Þessu veldur ekki síst allt stórgrýtið sem gerir hestum erfiðara fyrir en mönnum. Mælt á korti er leiðin frá Selárdal að Þjóðólfstungu í Bolungavík, sem er fyrsti bær norðan heiðar, aðeins um tíu kílómetrar en það segir litla sögu því brattinn er ærinn beggja vegna heiðarinnar sem liggur í nær 600 metra hæð. Heiðin sjálf er mjög stutt, aðeins nokkur hundruð metrar, en vilji nútímafólk ganga þessa leið þarf það að gefa sér góðan tíma því grjótið tefur fyrir. Sæmilega frískir göngumenn komast þó alla leið frá Selárdal að Þjóðólfstungu á fimm klukkustundum ef vel viðrar og ungt fólk í góðri þjálfun á skemmri tíma (sbr. hér bls. 80).

Nafnið Grárófa er skemmtilegt og má ætla að mönnum hafi dottið eitt og annað í hug til skýringar á því. Enginn veit með vissu hvenær heiðin fékk þetta nafn né heldur hvað sá eða sú hafði í huga sem nafnið gaf. Elsta skýringartilgátan sem fyrir liggur er frá Guðrúnu Þórðardóttur, húsfreyju á Suðureyri, en hún sagði Magnúsi Hjaltasyni að heiðin væri nefnd Grárófa af því að grá þokurófa lægi þar oftast á fjallinu fyrir Selárdalnum.[925] Guðrún var fædd árið 1860 og ólst upp í Vatnadal í Súgandafirði (sjá hér Suðureyri). Þessa skýringu á nafni heiðarinnar kvaðst hún strax hafa heyrt á sínum uppvaxtarárum.[926]

 

Við kveðjum nú tóttirnar í Selárdal og stefnum í átt til heiðarinnar. Ætlunin er þó ekki að ganga norður í Bolungavík heldur aðeins sú að litast um á dalnum sem ber sama nafn og jörðin Selárdalur. Þjóðgatan lá frá bænum út túnið í Selárdal[927] og sér enn móta fyrir henni, enda var hún kvíavegur heimafólks frá 1890 (sjá hér bls. 67). Þeir sem stefndu á Grárófu fóru síðan upp með ánni uns komið var nær alveg að Kerlingunni, fimm metra háum steindrang sem við augum blasir þegar brekkurnar ofan við túnið hafa verið lagðar að baki.[928] Rétt hjá kerlu var farið yfir ána og síðan fram dalinn að utanverðu og um bratta aurhlíð sem heitir Kinn. Heiðarvegurinn lá á snið fram Kinnina, utantil við klettagirðinguna sem setur svip sinn á dalbotninn.[929]

Brekkan ofan við túnið í Selárdal heitir Túnbrekka og upp af henni er Hærribrekka en fyrir ofan þá brekku Hvarf, þar sem bærinn hverfur þegar upp er farið.[930] Inn af Hærribrekku er Bjarnasonarbrekka og nær hún inn undir Ás[931] (sbr. hér bls. 5 og 8). Yst á Hærribrekku, sem fyrr var nefnd, er Lyngholt.[932] Út með ofanverðu holtinu rennur áin í djúpum farvegi og síðan niður utantil við það.[933] Heitir þar Árgil en ofan við það er Stórifoss sem fellur fram af hárri klettabrún.[934] Dalurinn sjálfur er flatlendur en með bröttum brekkum og bröttum hlíðum á báða vegu.[935]

Utan við ána, út af Stórafossi en ofan við Árgil, er graslendi sem heitir Fossengi og upp af því eru Fossabrekkur.[936] Utan og ofan við þær er hár bungumyndaður hjalli sem heitir Fossakinn.[937] Hjalli þessi nær út að Háateig (sjá hér bls. 81) og fram undir nýnefndar Fossabrekkur.[938] Neðan við brún hjallans er mjög brött brekka, sem er kjarri vaxin, og brattir aurar sem vísa fram til dalsins, niður á Fossabrekkur.[939] Ofan við Fossakinn og framantil við hana er Tjaldstaður, hringmyndaður smáhjalli er hér verður brátt sagt nánar frá, en ofan við hann er Grjótufsagjóta sem skilur fjallið Hafnarhorn frá fjallinu sem tekur við framan við gjótuna.[940] Neðan úr dalnum sjáum við líka breiða aurhillu í klettum Hafnarhorns. Hún heitir Breiðhilla og nær frá Hafnardal, sem er lítil hvilft utan við mynni Selárdals, og alveg fram að Grjótufsagjótu.[941]

Nafnið Tjaldstaður vekur athygli en eins og fyrr var nefnt er þetta hringmyndaður smáhjalli í snarbrattri hlíðinni ofan við Fossakinn en neðan við Grjótufsagjótu. Brúnir hans eru háar en hvolf í miðjunni.[942] Munnmæli herma að eitt sinn hafi allt fólk úr Selárdal flúið bæinn fyrir ræningjum og hafi það tjaldað í kvosinni á þessum hjalla.[943] Vera má að saga þessi sé sönn því kunnugt er að erlendir ránsmenn létu greipar sópa á ýmsum bæjum í Súgandafirði árið 1579 og urðu fjórum mönnum að bana í þessu fámenna byggðarlagi (sjá hér Fremri-Vatnadalur og Botn). Einnig gæti verið að fólkið í Selárdal hafi flúið til fjalls af ótta við Spánverjana sem rændu í Súgandafirði og víðar á Vestfjörðum haustið 1615 (sjá hér Fjallaskagi). Í kvosinni uppi á Tjaldstað mun vera auðvelt að koma fyrir litlu tjaldi án þess það sjáist neðan af láglendi.[944] Þaðan er hins vegar gott útsýni yfir dalinn og heim að bænum.[945] Sé litið til Tjaldstaðar neðan frá dalnum skagar þessi litli hjalli eins og horn út úr brattri hlíðinni.[946]

Hér var áður rætt um brekkurnar ofan við túnið í Selárdal en þar er Túnbrekka neðst, þá Hærribrekka og síðan Hvarf (sjá hér bls. 74). Innantil í dalnum er svo Fremstabrekka, nokkuð fyrir ofan Hvarf, og er hún á móts við Fossabrekkur, handan árinnar.[947] Frá innanverðri brún Fremstubrekku liggur mjótt graslendi sem endar í sléttri flöt, svolítið framar í dalnum, og heitir hún Seljabreið.[948] Kerlingarurðin liggur utar en til að sjá ber hana hærra.[949] Urðin nær heim fyrir Seljabreið, fram fyrir Stórholt og út að á[950] en Stórholt er heljarmikið grjótholt í innri hlíð dalsins sem markar þar ásýnd hans. Utan við það og neðan við hlíðarrætur blasa við Kerlingarurðin og Seljabreið.[951]

Seljabreið er innantil í dalnum og þaðan sem Ásinn, er fyrr var nefndur (sjá hér bls. 7-8), mætir fjallinu er örskammt að henni. Örnefnið bendir eindregið til þess að hér hafi verið sel en seltóttirnar eru nú horfnar. Valdimar Þorvaldsson segir að þær hafi tekið af í aurflóði og getur þess að fólk sem var í Selárdal um 1850 hafi munað eftir tóttunum.[952] Að hans sögn voru þær heiman til á Seljabreið, undir Seljabreiðarhryggnum.[953] Vatnsbólið í selinu segir Valdimar hafa verið í læk er kom undan urðinni, heiman til við breiðuna og muni sá lækjarfarvegur hafa verið um 40 faðmar.[954] Lækurinn var þarna enn árið 1997.

Á mörkum dalsins og hlíðarinnar innan við hann liggur Ásinn og innan við hann Hjallarnir (sjá hér bls. 1 og 5-6) en yst á Hjöllunum er slægjulandið Ásteigur (sjá hér bls. 5). Frá Seljabreið má ganga upp í Ásteig á 10 mínútum en þar er merkileg tótt sem Valdimar Þorvaldsson greinir frá með þessum orðum:

 

Á Hjöllunum innan við Ásinn heitir Ásteigur (af slægjulandi). Það er láglendara en fyrir utan og innan og veðursæld eins og líka er á Seljabreið. Þar er tótt mikil, öll grasigróin. Sagt er að það hafi verið fjós fyrir 30 geldneyti sem beitt hafi verið þar að vetrinum meðan fært var en það er sjáanlegt eins og skrifað að þetta hefur verið í sambandi við selið, að vetrinum, og þar [í selinu – innsk. K.Ó.] hefur nautamaðurinn haldið til og sofið. Það er 5-10 mínútna leið á milli og þar geta hafa verið líka einhverjar skepnur honum til gamans að hirða.[955]

 

Tvímælalaust er að sú bygging sem hér stóð hefur verið ætluð til skjóls fyrir búpening en saga Valdimars um 30 geldneyti eða uxa[956] kynni þó að vera síðari tíma skáldskapur. Tóttin er enn á sínum stað, rétt innantil við efsta hluta Ássins og stærðin um það bil 3,5×6 metrar.

Frá tóttinni í Ásteig snúum við sömu leið til baka og stöldrum við á Seljabreið skamma stund. Á árunum kringum aldamótin 1900 voru seltóttirnar komnar undir aur fyrir alllöngu en þá voru kýrnar í Selárdal oft reknar hingað að sumrinu.[957] Í grasteigunum ofan við Seljabreið og heiman við Stórholt er líka allgóð beit. Þeir heita Seljabreiðarteigar.[958]

Frá Seljabreið er gott að fylgja götunni yfir Kerlingarurð á leið fram dalinn. Á einum stað í urðinni er svolítill hellir og er hann á hægri hönd þegar gengið er fram eftir.[959] Fremst í Kerlingarurð eða rétt framan við hana stendur klettastrýtan Kerling, sem fyrr var nefnd, á holti einu og mun hún vera um það bil 5 metrar á hæð.[960] Sigurður Samsonarson, er var síðasti bóndinn í Selárdal, taldi að huldufólk byggi í grennd við Kerlinguna[961] Svolítið heimar á dalnum er Litlugjarðavað, undir hrygg út af Kerlingarurð.[962] Þar er gott að komast yfir ána.

Framan við nýnefnt vað eru Litlugjarðateigar í ytri hlíðinni en heiman við þá, framan við Grjótufsagjótu, sem hér var áður nefnd (sjá bls. 74), eru þar Grjótufsir fremri og skriðurnar neðan við þær nefndu menn Urð.[963] Framan við Litlugjarðateiga og á móts við Kerlingu eða því sem næst eru klettabelti í ytri hlíðinni.[964] Þar er Breiðhilla fremri,  en neðri beltin heita Litlugjarðir.[965] Niður þær fellur Litlugjarðagil og þar í lækjargilinu er surtarbrandur á neðsta beltinu.[966] Árið 1901 var sýnishorn af brandinum á Litlugjörðum sent í rannsókn til Englands að frumkvæði Páls Torfasonar á Flateyri[967] en þeir Torfasynir, Páll og Kristján bróðir hans, voru á árunum upp úr aldamótunum 1900 með margvíslegar ráðagerðir um málmleit, vinnslu jarðefna og námagröft í Ísafjarðarsýslu (sjá hér Flateyri og Botn).

Stykkið frá Litlugjörðum, sem sent var utan, var 25 eða 30 kíló að þyngd en frá Páli Torfasyni fengu bræðurnir í Selárdal síðar það svar að þetta hefðu ekki reynst vera kol en asfalt og fleiri verðmæt efni … fullt eins verðmæt og kol.[968] Valdimar Þorvaldsson, sem hér var um skeið manna kunnugastur, segir að í lækjargilinu á Litlugjörðum sé hella af fjallbrandi og surtarbrandsmylsna þar til hliðar á báða vegu á um 250 metra svæði í hlíðinni.[969]

Miðbrekkuhryggur er í ytri hlíð dalsins, framan til við Litlugjarðir og nær hann niður að á.[970] Framan við hrygg þennan er Miðbrekkugil og þar fyrir framan Miðbrekka sem nær þvert yfir dalinn.[971] Frá henni miðri og að innri hlíð dalsins, þegar framar kemur, er Miðbrekkuurð en í ytri hlíðinni eru Miðbrekkuteigar.[972]

Framan við Miðbrekkuurð er Garðshryggur og nær hann þvert yfir dalinn.[973] Munnmæli herma að þar hafi áður verið hlaðinn garður og fyrir framan hann hafi geldneyti verið höfð á beit.[974] Engar leifar þessa mannvirkis eru nú sjáanlegar en vera kann að garðurinn hafi hulist skriðum.[975] Nær allt beitilandið sem menn töldu að þarna hefði verið á fyrri tíð, framan við Garðshrygg, er líka komið undir urð og grjót.[976] Garðshryggsgjóta er í fjallinu innan við dalinn og liggja skriður frá henni niður á hrygginn.[977] Upp af Miðbrekku og Garðshrygg eru þrjár grösugar hillur neðarlega í fjallinu utan við dalinn og heita Neðstigangur, Miðgangur og Hæstigangur eða Efstigangur.[978]

Framan við Garðshrygg er brött aurhlíð utan til í dalnum og nær fram í dalbotn.[979] Um þessa aurhlíð, sem heitir Kinn, lá heiðarvegurinn.[980] Klettagirðing fyrir dalbotninum heitir Dalbotn og er hún áföst við klettana fremst í innri hlíðinni.[981] Fært er upp miðjan þennan klettavegg og einnig innan til en hinn gamli alfaravegur lá á snið fram Kinnina, sem fyrr var nefnd, og á Dalbotn.[982] Kræðuhjalli liggur enn hærra í dalbotninum og tekur nafn af kræðu sem þar vex en hún er sérstök tegund af fjallagrösum.[983] Gömlu þjóðleiðinni upp úr dalbotninum lýsir Kristján G. Þorvaldsson svo:

 

Leiðin liggur fram Kinn og fram fyrir klettana að utanverðu, er þar beygt til vinstri og gengið uns komið er á hjalla undir dálitlum slakka í fjallshrygginn, þá beygt til hægri upp bratta og nokkuð háa brekku upp á fjallið.[984]

 

Sjálfur heiðarvegurinn, milli brúna, er mjög stuttur. Kristján G. Þorvaldsson nefnir 100 metra[985] en ef marka má uppdrátt frá Landmælingum Íslands eru 300 metrar nær lagi.[986] Á Grárófu voru þrjár vörður um aldamótin 1900 og sá frá þeirri nyrstu niður á Bolungavíkurmalir.[987] Hryggurinn uppi á heiðinni heitir Grárófuhryggur.[988] Hann liggur í boga út fjallið og nær út á Mígandisdalsbrún[989] (sbr. hér bls. 84-85).

Af Grárófuvegi lágu tvær leiðir til Skálavíkur, önnur um Meira-Hraunskika að bænum Meira-Hrauni en hin um Gönguskörð og Minna-Hraunsdal að bænum Minna-Hrauni.[990] Væri stefnan tekin á Meira-Hraunskika á ferð frá Selárdal var vikið til vinstri af alfaraleiðinni yfir Grárófu nokkru áður en komið er undir sjálfa heiðina.[991] Þeir sem kusu að fara um Gönguskörð og niður á Minna-Hraunsdal viku hins vegar ekki út af Grárófuveginum fyrr en farið var að halla svolítið norður af.[992]

Leiðin um Meira-Hraunskika er styttri en hin sem liggur um Gönguskörð. Vegna brattlendis í kikanum er hún samt erfiðari. Á leiðinni sem liggur um nefndan kika er líka mun lengra á milli brúna, nær hálfur annar kílómetri, og þótti hún vandfarin í dimmviðri [993] því að fjallið er marflatt. Hin leiðin, sú sem liggur af Grárófuvegi um Gönguskörð og Minna-Hraunsdal, er því bæði öruggari og greiðfærari en svolítið lengri eins og fyrr var nefnt. Úr Gönguskörðum liggur leiðin niður í Skálavík norðan við Svartafjall. Hún er klettalaus og hallinn þægilegur gangandi manni.

Enginn veit nú hversu margir hafa orðið úti á Grárófu á liðnum öldum eða í dölunum sem að heiðinni liggja. Síðastur bar hér beinin Sigurður Kristjánsson er varð úti 4. febrúar 1923 í áhlaupsveðri á leið frá Bolungavík til heimilis síns í Selárdal.[994] Sigurður var tæplega fertugur að aldri er hann týndi lífi í þorrabylnum harða.[995] Prestur segir hann þá hafa verið á sveit í Selárdal[996] en áður var hann í allmörg ár kvæntur fjölskyldufaðir á Suðureyrarmölum og átti Elísabetu Jónsdóttur fyrir konu[997] (sbr. hér Bær og Suðureyri). Lík Sigurðar mun ekki hafa fundist fyrr en í marslok eða aprílbyrjun því það var jarðsett á Stað hinn 9. apríl.[998] Um Sigurð Kristjánsson sem varð úti á Grárófuvegi ritar Gunnar M. Magnúss svo:

 

Sigurður var grannvaxinn og veikbyggður en vann þó svo sem honum var unnt, hverjum manni liðugri til vika og talsverður ferðamaður yfir heiðar. Hann hafði fengið höfuðhögg í bernsku og af þeim sökum gekk hann aldrei heill til skógar. Hann var ljúfur í framkomu, barnalegur, en lagði aldrei styggðaryrði til neins manns.[999]

 

Er ferðamaður þessi fann að hann komst ekki lengra lagðist hann á bakið og lagði hendurnar í kross yfir brjóstið.[1000] Beið svo dauða síns og í þessum stellingum fannst líkið.[1001]

Yfir Grárófu fóru bæði ríkir og snauðir á fyrri tíð og allir gangandi. Förukonur og beiningamenn lögðu hér stundum á brattann, norðan eða vestan heiðar, og ekki er ólíklegt að Hjálmar Þorsteinsson goggur, alkunnur Vestfjarðaflakkari á sinni tíð, hafi komið yfir Grárófu er hann gisti í Selárdal á dögum Gissurar bónda Einarssonar, um eða skömmu fyrir miðja nítjándu öld, og Valdimar Þorvaldsson segir frá.[1002] Svo virðist sem fyrsta koma Hjálmars í Selárdal hafi orðið fólkinu þar minnisstæð. Dætur Gissurar, þær Guðrún og Jóhanna, voru ungar er Hjálmar bar að garði en allmörgum áratugum síðar kunnu þær enn að segja frá þessum undarlega gesti því frá þeim hlýtur Valdimar Þorvaldsson að hafa fróðleik sinn um hann (sbr. hér bls. 32). Einstök orðtök og setningar úr munni Hjálmars taldi fólkið í Selárdal sig muna. Að áliðnu kvöldi, þegar búið var að slökkva ljósið í baðstofunni, tók Hjálmar til sín askinn, sem húsfreyjan í Selárdal hafði skammtað honum í, og sagði stundarhátt: Gallalausar góðgerðir er gott að þiggja.[1003] Síðan fór hann að eta og slumsaði nú í honum stórum.[1004] Er Hjálmar kom í Selárdal í fyrsta sinn voru börnin hrædd við hann en seinna varð hann gestur sem þau höfðu gaman af.[1005] Hann sagði þeim sögur og las kvæði sem sum voru skrifuð upp.[1006]

Einar Jónsson, síðar bóndi á Meiri-Bakka í Skálavík, er andaðist á Suðureyri sumarið 1908, þá heimamaður þar, átti lengi heima í Selárdal á yngri árum, kom 14 ára vorið 1855 og fór vorið 1867 (sjá hér Suðureyri). Hann átti á því skeiði margar ferðir yfir Grárófu og þekkti að sögn hvern stein á heiðinni (sjá hér Suðureyri). Í Selárdal var lengi haft fyrir satt að eitt sinn hefði Einar fundið gullhring uppi á Grárófu.[1007] Þá undarlegu sögu færði Kristján G. Þorvaldsson í letur og segir frá á þessa leið:

 

Piltur sá var nokkur ár í Selárdal sem hét Einar Jónsson, vandaður maður til orða og verka. Eitt sinn er hann átti leið um Grárófu fann hann þar kræklingsskel og var í henni gullhringur. Einar tók hringinn og hafði hann með sér. Sýndi hann fólkinu á bænum hringinn en lét hann síðan í læstan kistil. Nokkru síðar kom maður á bæinn og sagði Einar honum frá þessu, fór í kistilinn og ætlaði manninum hringinn en hann var þá ekki í kistlinum og sást ekki eftir það.[1008]

 

Um þennan Grárófuhring er líklega best að hugsa sem minnst en nýnefndur Einar Jónsson var hér enn á ferð aðfaranótt 25. júní 1893.[1009] Hann var þá orðinn 52ja ára gamall og var að koma frá Hnífsdal þar sem hann hafði verið í skiprúmi á vertíðinni.[1010] Einar lagði af stað frá Hnífsdal klukkan tólf á miðnætti, gekk þaðan út í Bolungavík og áfram yfir Grárófu, að Selárdal, og svo út að Norðureyri, sem er næsti bær hér fyrir utan.[1011] Þangað kom hann klukkan sjö að morgni.[1012] Allt ferðalagið, frá Hnífsdal að Norðureyri, tók sjö klukkustundir og má því ætla að í þessari ferð hafi Einar gengið á fjórum tímum yfir Grárófu, það er að segja leiðina bæja á milli, frá Þjóðólfstungu að Selárdal.

Oft er þoka á Grárófu og stöku sinnum villtust menn sem hér voru á ferð af réttri leið. Kristján G. Þorvaldsson segir frá því að eitt sinn hafi Ólafur Lárentíusson, sem var bóndi á Gelti frá 1862 til 1879, tapað áttum á heiðinni. Ólafur var þá að koma norðan úr Bolungavík að vetrarlagi og lenti í dimmum byl svo hann sá ekkert frá sér.[1013] Gekk hann of mikið til vinstri handar og villtist fram á Ásfjall.[1014]Vissi hann ekki fyrr en stafurinn rann niður úr hendi hans en skildi þá þegar að hann var staddur á fjallsbrún.[1015] Ólafur var þarna í bráðri hættu en komst að lokum við illan leik niður í Áreiðardal, á landamerkjum Selárdals og Gilsbrekku, og til bæja.[1016] Stafurinn fannst um vorið á Ásaklettum en upp af þeim er fjallið snarbratt frá efstu brún.[1017]

Ýmsar aðrar sögur voru sagðar af mönnum sem villst höfðu á Grárófu, jafnvel í björtu veðri. Einn fór sem leið liggur frá Bolungavíkurmölum fram Tungudal en tók skakka stefnu er hann kom á heiðina, ætlaði að Selárdal en kom til byggða í Syðridal í Bolungavík.[1018] Annar var sagður hafa villst af Grárófu út fjall í sól og blíðu og ekki náð að átta sig fyrr en hann var kominn út á Öskubak[1019] en þangað eru liðlega tíu kílómetrar frá heiðarveginum. Á fjallinu utan við Grárófu er lítið um mishæðir eða önnur kennileiti. Þarna uppi er landið nær marflatt en háslétta þessi, sem nær frá Grárófu út á Öskubak, liggur öll í 500-600 metra hæð yfir sjávarmáli. Um hana liggja hin fornu hreppamörk milli Suðureyrarhrepps og Hólshrepps en í síðarnefnda hreppnum var Skálavík ysta byggð.

Oft var færðin þung á leiðinni yfir Grárófu að vetrarlagi. Magnús Hjaltason fór þessa leið frá Selárdal norður í Bolungavík 11. febrúar 1898 og segir í dagbók sinni þann dag: Af heiðinni niður til Bolungavíkur var mesta ófærð, lausamjöll í buxnalinda og meira, barinn snjór í hné og mitt læri.[1020]

Frá heiðarveginum yfir Grárófu hverfum við nú til baka og nemum ekki staðar fyrr en á sjávarbökkunum utantil við Selárdalsá. Þar stendur enn kvíin sem konur og börn byggðu úr grjóti árið 1890 og áður var frá sagt (sjá hér bls. 67). Við kvíarvegginn er gott að hvíla lúin bein en til langrar setu er ekki boðið því ætlunin er að ganga í kvöld út að Norðureyri. Spölurinn þangað er um það bil fjórir kílómetrar.

Kvíabólið sem við kveðjum nú náði frá Selárdalsá og út undir Leiti en svo heitir hryggurinn hér fyrir utan, sem byrgir sýn þegar horft er út á við frá gamla bæjarhlaðinu í Selárdal.[1021] Upp af Leiti og utan við það er Lágiteigur og upp úr honum liggur Háateigsbrekka sem er neðri hluti Háateigs en efstu geirar hans ná upp undir Breiðhillu[1022] sem hér var áður getið um (sjá bls. 74 og 76). Lækurinn sem rennur niður Leitið heitir Leitislækur.[1023] Hann þornar aldrei og í hann varð fólkið í Selárdal stundum að sækja vatn til daglegrar neyslu frostaveturinn mikla 1881-1882 (sjá hér bls. 62-63).

Á Leitinu sjást enn þrjár gamlar tóttir og fólk sem átti heima í Selárdal um aldamótin 1900 lét sér koma til hugar að ef til vill hefði verið hér stekkur á fyrri tíð eða máske hús einbúa.[1024] Sagt er að aldrei falli snjóflóð hér á Leitinu og ekki heldur á svæðinu frá Leiti og út að Löngulág sem er hér mjög skammt fyrir utan.[1025] Veruleg hætta mun hins vegar vera á snjóflóðum hvarvetna annars staðar á hlíðinni utan við Selárdal.[1026] Langalág sem hér var nefnd ber nafn með réttu og nær hún alveg niður á bakka og upp í Lágateig.[1027] Skerið framan við Leiti og Löngulág heitir Leitissker.[1028] Djúpt sund en mjótt skilur það frá Hafnarskeri sem er aðeins utar.[1029]

Á hlíðinni utan við Selárdal eru enn svolitlar leifar af skógarkjarri á stöku stað og ná þær alveg út undir landamerkin við Míganda.[1030] Gamlir slægjublettir utan við Löngulág og Lágateig, sem fyrr var nefndur, heita Rjóður.[1031] Þetta graslendi er fyrir innan Lágabala, sem svo heitir, og fyrir neðan hann nær það alveg út að Hafnargili.[1032] Lágibali er dálítill hjalli innanvert við Hafnargil og á hæð við Efstugötu er svo var nefnd.[1033] Upp frá innri enda Lágabala gengur Sveinslág upp í hlíðina en fyrir utan og ofan hann er Háibali, undir innri enda Hagakletts og rétt innan við Hafnargil.[1034]

Víkin hér niður við sjóinn heitir Höfn.[1035] Hún er hömrum girt og svipmikil. Fjallið utan við Selárdal er kennt við þessa vík og heitir Hafnarhorn (sjá hér bls. 72). Utan við það skerst svolítil hvilft inn í fjallsbrúnina og er nefnd Hafnardalur.[1036] Alfaravegur út hlíðina lá um sjávarbakkana rétt ofan við Höfn.[1037] Götuslóðinn þar var nefndur Lággötur en fjárgötur ofar í hlíðinni Miðgata og Efstagata.[1038] Þessar götur má enn rekja langt út eftir hlíðinni. Ofan við Efstugötu og alveg upp undir Hagaklettum, sem liggja um miðja hlíð, er svo enn ein fjárgata en hún mun vera nafnlaus.[1039] Klettar þessir í hlíðinni ná inn á móts við Höfnina og nær alla leið út að landamerkjunum við Míganda.[1040]

Innan við Höfnina er Hafnarklettur og myndar hann innri hlið hennar.[1041] Í Höfninni, sem er um það bil 70 metrar á breidd,[1042] virðist vera mikið dýpi. Víðast hvar er ófært upp úr henni vegna kletta en á einum stað er þó fært upp snarbrattan aur og einnig má klifra upp Tök en svo heitir klettabrík sem myndar ytri vegg Hafnarinnar.[1043] Sú var trú ýmissa í fyrri daga að hér í Höfninni utan við Selárdal væri álfakaupstaður.[1044] Ein kona á Suðureyri taldi sig sjá hafskip fara hingað á hverju vori og lygnar rákir á sjónum voru taldar vera för álfabátanna.[1045]

Skerið framan við Höfn heitir Hafnarsker.[1046] Það kemur upp um fjörur og er skilið frá landi af djúpu sundi.[1047] Klettabríkin sem myndar ytri vegg Hafnar heitir sem áður sagði Tök. Þau ganga í sjó fram og loka fjöruleiðinni á hverri flæði en fyrir þau er fært um hálffallinn sjó.[1048]

Gilið utan við Höfn heitir Hafnargil og á upptök sín upp undir fjallsbrún, í hvilftinni sem nefnd er Hafnardalur.[1049] Hryggurinn utan við gilið heitir Hafnargilsbarð og hallar frá því út í Hvamminn sem svo heitir en það er graslendi sem nær frá Hagaklettum og niður að sjó og skiptist í Efri- og Neðri-Hvamm.[1050] Í Neðri-Hvammi er gömul tótt, neðantil við mjög stóran stein og ljóst að steinninn hefur verið notaður sem efri gafl hússins. Tótt þessi er skammt frá alfaravegi og lætur nærri að innanmál hennar sé 3 x 4,5 metrar. Sagnir herma að menn af erlendu fiskiskipi hafi reist kofann sem hér stóð og búið í honum heilan vetur en geymt skip sitt í Höfninni hér rétt fyrir innan.[1051] Hvergi mun nú vera unnt að sjá hvort þessi gamla munnmælasaga eigi við rök að styðjast en vel gæti það verið. Utan við tóttina rennur lítill lækur.[1052]

Hagaklettarnir, sem fyrr voru nefndir, eru hæstir hér upp af Hvamminum en þeir ná alllangt út eftir hlíðinni. Ofan við þá eru Grjótufsir ytri sem ná inn að Hafnardal.[1053] Utan við Hvamm komum við í Urðina sem nær alveg niður á bakka.[1054] Þetta er gömul skriða, allbreið og stórgrýtt að neðan en mjórri og sléttari hið efra. Efsti hluti hennar heitir Urðarhaus og er neðantil við Hagakletta.[1055] Hann er nú að mestu hulinn gróðri. Upp af Urð og alllangt fyrir ofan Hagakletta er stór grjóthnúkur sem heitir Hnjótur.[1056] Ofan við hnúk þennan er stór lægð en frá honum innanverðum gengur hryggur sem nær upp að Grjótufsum ytri.[1057] Skammt utan við Urðina og fyrir neðan Hagakletta er Grænibali, teigur sem grænkar snemma á vorin.[1058] Litlu utar er Hvítibali, hryggur sem myndar bala neðanvert við Hagakletta.[1059] Uppi í hlíðinni er djúp kvos utantil við hann og skilur hún balann frá Hríshjalla, er svo heitir, en það er breiður og vel gróinn hjalli, neðanvert við Hagakletta.[1060]

Út og niður af Hvítabala er Götunes en þar lá þjóðgatan niður í fjöru þegar komið var innan að.[1061] Hún er enn (1996) mjög greinileg. Við höldum okkur nú við fjöruna en gefum gaum að hlíð og fjalli. Fjallið sjálft, frá Hafnardal að Mígandisdal heitir Klettafjall og er að mestu gróðurlaust.[1062]

Frá Götunesi er skammur spölur út á Tollshrygg en það er skriðuhryggur sem gengur í sjó fram.[1063] Sagt er að nafnið eigi rætur að rekja til þess að þar hafi verið leyft hrísrif til greiðslu á einhverjum tolli.[1064] Niður hrygginn liggur Tollshryggsgil sem er alldjúpt, einkum að neðan.[1065] Utan við nýnefndan hrygg er Lambeyraurð, sem nú er vel gróin, en sjávarnesið utan við hana heitir Lambeyrar.[1066] Skriðuhryggurinn ofan við þær heitir Lambeyrahryggur en inn og upp af honum er ytri endinn á Hagaklettum[1067] sem hér voru áður nefndir. Heita þar Klettendar.[1068] Hríshjalli, sem er neðan við Hagakletta, nær frá Lambeyrahrygg og inn fyrir Tollshrygg.[1069]

Mjög skammt fyrir utan Lambeyrar komum við að Mígandisbjörgum en það eru háir sjávarklettar beggja vegna við lækinn Míganda sem fellur í fossi fram af björgunum.[1070] Lækur þessi, sem er nokkuð vatnsmikill, á upptök sín uppi á fjalli[1071] og fellur um Mígandisdal sem er lítil hvilft neðan við fjallsbrúnina.[1072] Rétt innan við Míganda var slægjuland sem náði allhátt upp í hlíðina og alveg niður að sjávarklettunum.[1073] Það heitir Mígandisrjóður.[1074] Ofar eru Mígandislágar, inn og niður af Mígandisdal.[1075] Þar var sjaldan slegið.[1076]

Nafnið Mígandi skýrir sig sjálft en það mun einkum hafa verið notað um fossinn[1077] sem fellur fram af háum klettum ofan í fjöruna og setur svip á umhverfið. Sést hann víða að. Lækinn nefndu menn þó einnig Míganda en stundum Mígandisá.[1078] Snjóflóð falla alloft í nánd við Míganda. Skemmst er að minnast hins geysimikla snjóflóðs er féll 26. október 1995 en af völdum þess gekk sjór á land upp handan fjarðarins á þriggja til fjögurra kílómetra löngu svæði innan við Suðureyri (sjá hér Suðureyri, sundlaug við Lauga). Kristján G. Þorvaldsson, sem fæddist árið 1881 og ólst upp í Selárdal, heyrði líka talað um að eitt sinn hefði hlaupið snjóskriða niður Míganda og verið svo mikil að hún náði upp í götu á Kleif sem er handan fjarðarins.[1079] Sagt var að þá hefði snjóbingur, jafnhár Mígandisbjörgum, staðið fram í sjó langt fram á vor.[1080]

Frá Selárdal eru tæplega tveir kílómetrar út að Míganda en spölurinn héðan út að Norðureyri er liðlega tveir kílómetrar. Mígandi fellur á landamerkjum jarðanna.[1081] Við kveðjum því Selárdalsland einmitt nú er við stiklum yfir lækinn en höldum göngunni áfram alla leið að Norðureyri.

 

 

 

 

 

– – – – – – – – – – o o o o o – – – – – – – – – –

 

[1] Örnefnastofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 135-137.

[2] Sama heimild, 134-135.

[3] Sbr. Sömu heimild, 135.

[4] Sama heimild, 138.

[5] Sama heimild.

[6] Sama heimild.

[7] Sama heimild.

[8] Guðmundur Hjaltason / Lögrétta 10.2.1915.

[9] Sama heimild.

[10] Örn.st. / Kr. G. Þorv. 1949, 4.

[11] Lbs. 34304to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 2.

[12] Sama heimild.

[13] Sigurður Sigurðsson 1937, 218-220 (Búnaðarfélag Íslands – Aldarminning II).

[14] Lbs. 34304to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 2.

[15] Sama heimild.

[16] Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín VII, 128-139.

[17] Sama heimild.

[18] Sama heimild, 132-133 og 138.

[19] Örn.st. / Kr. G. Þorv. 1949, 137-138.

[20] Örn.st. / Kr. G. Þorv. 1949, 137-138.

[21] Sama heimild.

[22] Sama heimld.

[23] Lbs. 38584to, Dagbók Einars Jónssonar 25.5.1889.

[24] Sama dagbók, 13.9. og 14.9.1889.

[25] Sama dagbók, 8.11.1889.

[26] Lbs. 38594to, Dagbók Einars Jónssonar 5.7.1894.

[27] Sama dagbók 1.10.1894.

[28] Sama dagbók 16.10.1894.

[29] Gunnar M. Magnúss / Kr. G. Þorv. 1977, 126-127.

[30] Lbs. 34304to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 2.

[31] Gunnar M. Magnúss / Kr. G. Þorv. 1977, 126-127.

[32] Örn.st. / Kr. G. Þorv. 1949, 137.

[33] Lbs. 34304to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 11.

[34] Örn.st. / Kr. G. Þorv. 1949, 137.

[35] Sama heimild, 124.

[36] Sama heimild, 119 og 124.

[37] Sama heimild, 124.

[38] Sama heimild, 135.

[39] Sama heimild.

[40] Sama heimild.  Kr. G. Þorv. 1946, 140-141 (Vestfirskar sagnir III. 1).

[41] Örn.st. / Kr. G. Þorv. 1949, 137.

[42] Sama heimild.

[43] Sama heimild.

[44] Örn.st. / Kr. G. Þorv. 1949, 137.

[45] Sama heimild.

[46] Gunnar M. Magnúss 1977, 66.

[47] Örn.st. / Kr. G. Þorv. 1949, 137.

[48] Sama heimild, 136-137.  Kr. G. Þorv. 1946, 142 (Vestf. sagnir III. 1).

[49] Sömu heimildir.

[50] Sömu heimildir.

[51] Sömu heimildir.

[52] Lbs. 34304to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 8.

[53] Kr. G. Þorv. 1946, 142 (Vestf. sagnir III. 1).

[54] Örn.st. / Kr. G. Þorv. 1949, 136.

[55] Sama heimild, 134-135.

[56] Sama heimild og sama 138.

[57] Kr. G. Þorv. 1946, 139 (Vestf. sagnir III. 1).

[58] Örn.st. / Kr. G. Þorv. 1949, 134.

[59] Sama heimild, 134-135.

[60] Kr. G. Þorv. 1946, 139 (Vestf. sagnir III. 1).

[61] Lbs. 44074to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 89.

[62] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1, búnaðarskýrslur 1821, 1827, 1830 og 1834.

[63] Örn.st. / Kr. G. Þorv. 1949, 135.

[64] Sama heimild.

[65] Sama heimild.

[66] Sama heimild.

[67] Sama heimild.

[68] Kr. G. Þorv. 1946, 140 (Vestf. sagnir III. 1).

[69] Sama heimild.

[70] Lbs. 34304to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 3.

[71] Örn.st. / Kr. G. Þorv. 1949, 136.

[72] Sama heimild.

[73] Sama heimild.

[74] Sama heimild.

[75] Sama heimild, 124.

[76] Sama heimild.

[77] Sama heimild, 138.

[78] Örn.st. / Kr. G. Þorv. 1949, 136

[79] Sama heimild.

[80] Örn.st. / Kr. G. Þorv. 1949, 136.

[81] Sama heimild.

[82] Sama heimild.

[83] Sama heimild.

[84] Sama heimild.

[85] Sama heimild.

[86] Sama heimild.

[87] Sama heimild.

[88] Sama heimild.

[89] Sama heimild.

[90] Sama heimild.

[91] Sama heimild.

[92] Lbs. 44074to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 227.

[93] Lbs. 34304to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 23.  Lbs. 44074to, Sami, bls. 227.

[94] Lbs. 44074to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 226.

[95] Örn.st. / Kr. G. Þorv. 1949, 136.

[96] Sama heimild.

[97] Kr. G. Þorv. 1946, 138-139 (Vestf. sagnir III. 1).

[98] Örn.st. / Kr. G. Þorv. 1949, 134.

[99] Örn.st. / Kr. G. Þorv. 1949, 134.

[100] Sama heimild.

[101] Sama heimild.

[102] Sama heimild.

[103] Sama heimild.

[104] Sama heimild.

[105] Sama heimild.

[106] Kr. G. Þorv. 1946, 138.

[107] Jarðab. Á. og P. VII, 136.

[108] Örn.st. / Kr. G. Þorv. 1949, 125.

[109] Örn.st. / Kr. G. Þorv. 1949, 127.

[110] Kr. G. Þorv. 1951, 46-47 (Árbók F.Í.).

[111] Örn.st. / Kr. G. Þorv. 1949, 128.

[112] Sama heimild, 123-124.

[113] Jarðab. Á. og P. VII, 136.

[114] Örn.st. / Kr. G. Þorv. 1949, 125.

[115] Rtk. Jarðabækur V. 16. Ísafj.sýsla 1805.

[116] Sama heimild.

[117] Sama heimild.

[118] Friðbert Pétursson 1966, 44 (Ársrit Sögufél. Ísf.).

[119] Lbs. 27364to, Magnús Hjaltason, bls. 57-59 (Frá heiðum til hafs).

[120] Jarðamat 1849-1850 – Ísafj.sýsla (handrit í Þjóðskjalasafni).

[121] Ný jarðabók fyrir Ísland, 1861.

[122] Fasteignabók 1921.

[123] Fasteignamatsskjöl. Gjörðabók undirmatsnefndar í V-Ís., löggilt 26.3.1919.

[124] Sama heimild.

[125] Fasteignamatsskjöl. Gjörðabók undirmatsnefndar í V-Ís., löggilt 26.3.1919.

[126] Sama heimild.

[127] Sama heimild.

[128] Sama heimild.

[129] Örn.st. / Kr. G. Þorv. 1949, 124.

[130] Lbs. 38604to, Dagbók Einars Jónssonar 15.6.1902.  Manntal 1940.

[131] Fasteignamatsskjöl. Gjörðabók undirmatsnefndar í V-Ís., löggilt 26.3.1919.

[132] Manntal 1940.

[133] Fasteignamatsskjöl. Gjörðabók undirmatsnefndar í V-Ís., löggilt 26.3.1919.

[134] Sama heimild.

[135] Manntal 1940.

[136] Kr. G. Þorv. 1946, 131-132 (Vestf. sagnir III. 1).

[137] Örn.st. / Kr. G. Þorv. 1949, 128-130.

[138] Lbs. 34304to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 6.

[139] Sama heimild.

[140] Sama heimild.

[141] Sama heimild.

[142] Örn.st. / Kr. G. Þorv. 1949, 130.  Lbs. 34304to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 6.

[143] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[144] Manntal 1703.  Jarðab. Á. og P. VII, 136.  Bændatöl og skuldaskrár 1720-1765, Ísafj.s. um 1735, eftirrit.

Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[145] Jarða- og bændatöl 1752-1767, Ísafj.sýsla 1753.  Manntal 1762.

[146] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[147] D.I. XV, 570.

[148] Fasteignamatsskjöl. Gjörðabók undirmatsnefndar í V-Ís., löggilt 26.3.1919.

[149] Fasteignabók 1932.

[150] Lbs. 34304to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 39.

[151] D.I. XV, 570.

[152] Sama heimild.

[153] Jarðab. Á. og P. VII, 136 og 162.

[154] Lbs. 7974to, Jarðaskrár úr Ísafj.sýslu frá árunum 1658 og 1695.  Jarðab. Á. og P. VII, 136.  Jarða- og

bændatöl 1752-1767, Ísafj.sýsla 1753.

[155] J. Johnsen 1847, 196.

[156] Fasteignamatsskjöl. Gjörðabók undirmatsnefndar í V-Ís., löggilt 26.3.1919.  Stjórnartíðindi 1917 B, 114.

[157] Lbs. 7974to, Jarðaskrár úr Ísafj.sýslu frá árunum 1658 og 1695.  Jarðabók Á. og P. VII, 136.  Jarða- og

bændatöl 1752-1767, Ísafj.sýsla 1753.

[158] J. Johnsen 1847, 196.

[159] Fasteignamatsskjöl. Gjörðabók undirmatsnefndar í V-Ís., löggilt 26.3.1919.

[160] Sbr. Lbs. 34304to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 20-21.

[161] Jarðab. Á. og P. VII, 136.

[162] Sama heimild.  Rtk. Isl. Journal 9, nr. 34, bún.sk. 1791.  Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1, bún.sk. 1821

og 1830.  VA III, 408, 412, 417, 421 og 424, bún.sk. 1840, 1850, 1860, 1870 og 1880.  Skjöl Suður-

eyrarhrepps varðv. þar. Bók fyrir Suðureyrarhrepp 1888-1902, tíundarskýrslur 1891 og 1900.

[163] Rtk. Isl. Journ. 9, nr. 34, bún.sk. 1791.  Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1, bún.sk. 1821.

[164] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1, búnaðarskýrslur 1830.

[165] VA III, 408, 412, 417 og 421, búnaðarskýrslur 1840, 1850, 1860 og 1870.

[166] VA III, 424, búnaðarskýrslur 1880.

[167] Skjöl Suðureyrarhrepps, varðveitt þar. Bók fyrir Suðureyrarhrepp 1888-1902, tíundarskýrslur 1891, 1895 og 1900.

[168] Lbs. 44074to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 11-15.  Lbs. 44084to, Sami, bls. 2-3, 13, 16, 18, 55-62.  Lbs.

22174to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 15.4. – 8.7.1898.

[169] Manntal 1703.

[170] Sama heimild.

[171] Sama heimild.

[172] Sama heimild.

[173] Sama heimild.

[174] Sama heimild.

[175] Jarðab. Á. og P. VII, 136.

[176] Sama heimild.

[177] Sama heimild.

[178] Bændatöl og skuldaskrár 1720-1765, Ísafj.sýsla um 1735, eftirrit.

[179] Manntal 1703.

[180] Jarða- og bændatöl 1752-1767, Ísafj.sýsla 1753.

[181] Sama heimild.

[182] Sama heimild.

[183] Sama heimild.  Manntal 1762.  Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[184] Manntal 1762.

[185] Sama heimild.

[186] Sama heimild.

[187] Sama heimild.

[188] Manntal 1801.

[189] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[190] Sama heimild.

[191] Sama heimild.

[192] Sama heimild.

[193] Sama heimild, 1786-1788.

[194] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[195] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[196] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[197] Sama heimild.

[198] Sama heimild.

[199] Sama heimild.

[200] Sama heimild.

[201] Sama heimild.

[202] Sama heimild.

[203] Sama heimild.

[204] Sama heimild.

[205] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.  Manntal 1801, vesturamt, bls. 305.

[206] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[207] Rtk. Isl. Journ. 9, nr. 34, búnaðarskýrslur 1791.

[208] Sóknam.töl og prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[209] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[210] Sama heimild.

[211] Sama heimild.

[212] Sama heimild, 1792.

[213] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[214] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.  Lbs. 44074to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 233.

[215] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[216] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.  Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1, búnaðarskýrslur 1827.

[217] Manntal 1801, vesturamt, bls. 302.

[218] Hsk. á Ísaf. nr. 190. Kr. G. Þorv.: Saga Suðureyrar og Suðureyrarkauptúns, bls. 48.  Manntal 1816,700.

[219] Manntal 1816, 700.

[220] Manntal 1703.  Jarðab. Á. og P.  Manntal 1762.

[221] Hsk. á Ísaf. nr. 190. Kr. G. Þorv.: Saga Suðureyrar … , bls. 47-49.

[222] Manntal 1801, vesturamt, bls. 302.  Manntal 1816, 700.

[223] Hsk. á Ísaf. nr. 190. Kr. G. Þorv.: Saga Suðureyrar … , bls. 47-49.  Lbs. 34304to, Valdimar Þorvaldsson,

bls. 13.  Sbr. Íslenskar æviskrár V, 22-23.

[224] Ísl. æviskrár I, 237.  Sbr. Lbs. 34304to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 13.

[225] Hsk. á Ísaf. nr. 190. Kr. G. Þorv.: Saga Suðureyrar … , bls. 47-48.

[226] Sama heimild.

[227] Þjóðsögur Ólafs Davíðssonar III, 53.  Vestf. sagnir II, 145.

[228] Sömu heimildir.

[229] Sbr. Lbs. 34304to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 21.

[230] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[231] Hsk. á Ísaf. nr. 190. Kr. G. Þorv.: Saga Suðureyrar … , bls. 48.

[232] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[233] Sama heimild.

[234] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[235] Sama heimild.

[236] Hsk. á Ísaf. nr. 190. Kr. G. Þorv.: Saga Suðureyrar … , bls. 48-49.

[237] Lbs. 34304to, Byggingarbréf til mönsjörs Einars Magnússonar fyrir kirkjujörðinni Selárdal í

      Súgandafirði, dagsett 30.5.1814 og undirritað af séra Hákoni Jónssyni.

[238] Sama heimild.

[239] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[240] Lbs. 34304to, Byggingarbréf til monsjörs Einars Magnússonar fyrir kirkjujörðinni Selárdal í Súganda-

      firði, dagsett 30.5.1814 og undirritað af séra Hákoni Jónssyni og síðari staðfestingar á skilmálum þess.

[241] Lbs. 34304to, Byggingarbréf mönsjörs Gissurar Einarssonar fyrir kirkjujörðinni Selárdal 1828, dagsett

4.1.1828 og undirritað af séra Eyjólfi Kolbeinssyni og Gissuri Einarssyni.

[242] Sama heimild.

[243] Sama heimild.

[244] Sama heimild.

[245] Sama heimild ásamt meðfylgjandi staðfestingu séra Hálfdans Einarssonar, dagsettri 29.6.1849.

[246] Lbs. 34304to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 20-21.  Lbs. 44074to, Sami, bls. 230.

[247] Lbs. 44074to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 230.

[248] Sama heimild, 24.

[249] Sbr. Sama heimild, 230.

[250] Lbs. 44074to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 28.

[251] Sama heimild. Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[252] Lbs. 34304to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 14.

[253] Lbs. 44074to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 28.

[254] Sama heimild.

[255] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[256] Ólafur Þ. Kristjánsson 1945, 154-155 (Frá ystu nesjum III).

[257] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[258] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1, búnaðarskýrslur 1827.

[259] Lbs. 34304to, Byggingarbréf mönsjörs Gissurar Einarssonar fyrir kirkjujörðinni Selárdal 1828,

undirritað 4.1.1828 af séra Eyjólfi Kolbeinssyni á Eyri og Gissuri Einarssyni.

[260] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.  Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1, búnaðarskýrslur 1827.

[261] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.  Ól. Þ. Kr. 1945, 155 (Frá ystu nesjum III).

[262] Sóknarm.töl og pr.þj.b. Staðar í Súg.  Hsk. á Ísaf. nr. 190. Kr. G. Þorv.: Saga Suðureyrar … , bls. 48.

[263] Manntal 1845.

[264] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[265] Lbs. 44074to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 31.

[266] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[267] Lbs. 34304to, Byggingarbréf mönsjörs Gissurar Einarssonar fyrir kirkjujörðinni Selárdal 1828,

undirritað 4.1.1828 af séra Eyjólfi Kolbeinssyni á Eyri og Gissuri Einarssyni.

[268] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[269] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[270] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[271] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.  Lbs. 44074to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 31.

[272] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[273] Skýrslur um landshagi 1858, I, 262.

[274] Lbs. 44074to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 30.

[275] Ól. Þ. Kr. 1945, 155-156 (Frá ystu nesjum III).

[276] Prestsþj.b. Holts í Önundarf.  Hsk. á Ísaf. nr. 190. Kr. G. Þorv.: Saga Suðureyrar … , bls. 69.

[277] Hsk. á Ísaf. nr. 190. Kr. G. Þorv.: Saga Suðureyrar … , bls. 71-72.

[278] Manntal 1801, vesturamt, bls. 266-267.

[279] Hsk. á Ísaf. nr. 190. Kr. G. Þorv.: Saga Suðureyrar … , bls. 71-72.

[280] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[281] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[282] Hsk. á Ísaf. nr. 190. Kr. G. Þorv.: Saga Suðureyrar … , bls. 69.

[283] Sama heimild, 70-71.

[284] Sama heimild.

[285] Lbs. 34304to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 15.

[286] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[287] Hsk. á Ísaf. nr. 190. Kr. G. Þorv.: Saga Suðureyrar … , bls. 72.

[288] VA III, 408, búnaðarskýrslur 1840.

[289] Sama heimild.

[290] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1, búnaðarskýrslur 1830.

[291] Sama heimild.

[292] VA III, 408, búnaðarskýrslur 1840.

[293] Sama heimild.

[294] VA III, 412, búnaðarskýrslur 1850.

[295] VA III, 408 og 412, búnaðarskýrslur 1840 og 1850.

[296] Lbs. 34304to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 15.

[297] Hsk. á Ísaf. nr. 190. Kr. G. Þorv.: Saga Suðureyrar … , bls. 74.  Lbs. 44074to, Valdimar Þorvaldsson, 34.

[298] Lbs. 44074to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 100.

[299] Sama heimild, 32.

[300] Sama heimild.

[301] Sunnanpósturinn III, bls. 61, apríl 1838.

[302] Sama heimild.

[303] Ólafur Jónsson 1957, II, 290-294 og 340 (Skriðuföll og snjóflóð).

[304] Lbs. 44074to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 32.

[305] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1, búnaðarskýrslur 1837.

[306] Lbs. 44074to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 32.

[307] Lbs. 34304to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 16.

[308] Hsk. á Ísaf. nr. 190. Kr. G. Þorv.: Saga Suðureyrar … , bls. 72.

[309] Lbs. 34304to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 16-17.

[310] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[311] Sama heimild.

[312] Sama heimild.  Sbr. 44074to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 28.

[313] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[314] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[315] Hsk. á Ísaf. nr. 190. Kr. G. Þorv.: Saga Suðureyrar … , bls. 72.  Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[316] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[317] Sama heimild.

[318] Sama heimild.

[319] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[320] Sama heimild.

[321] Sama heimild.

[322] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[323] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[324] Sömu heimildir.

[325] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[326] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf. og Eyrar í Skutulsf.  Manntöl 1860, 1870 og 1880.

[327] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf. og Holts í Önundarf.

[328] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[329] Valdimar Þorvaldsson 1982, 86 (Ársrit S.Í.).

[330] Hsk. á Ísaf. nr. 190. Kr. G. Þorv.: Saga Suðureyrar … , bls. 72.

[331] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[332] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[333] Vestfirskar ættir I, 131 og 326.

[334] Sbr. Hsk. á Ísafirði nr. 190. Kr.G.Þorv.: Saga Suðureyrar og  ….. , bls. 72

[335] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.  Hsk. á Ísaf. nr. 190. Kr. G. Þorv.: Saga Suðureyrar … , bls. 60.

[336] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[337] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. IV. 9. Dóma- og þingbók 1841-1847.

[338] Lbs. 34304to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 17.

[339] Sama heimild.  Sbr. Hsk. á Ísaf. nr. 190. Kr. G. Þorv.: Saga Suðureyrar … , bls. 60.

[340] Hsk. á Ísaf. nr. 190. Kr. G. Þorv.: Saga Suðureyrar … , bls. 60.

[341] VA III, 414, búnaðarskýrslur 1854.

[342] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[343] Sama heimild.

[344] Hsk. á Ísaf. nr. 190. Kr. G. Þorv.: Saga Suðureyrar … , bls. 74.

[345] Sama heimild.

[346] Sama heimild.

[347] Hsk. á Ísaf. nr. 190. Kr. G. Þorv.: Saga Suðureyrar … , bls. 74. Ísl. æviskrár VI, 509-510.

[348] Ísl. æviskrár IV, 171.  Óðinn II, 25.

[349] Lúðvík Kristjánsson 1953, 121.

[350] Prestsþj.b. Helgafellsprestakalls.

[351] Sama heimild.

[352] Sama heimild.

[353] Sama heimild.

[354] Manntal 1845 og nafnalykill þess.

[355] Hsk. á Ísaf. nr. 190. Kr. G. Þorv.: Saga Suðureyrar … , bls. 74-75.  Sbr. Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[356] Hsk. á Ísaf. nr. 190. Kr. G. Þorv.: Saga Suðureyrar … , bls. 75-76.

[357] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[358] Sama heimild og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[359] Sömu heimildir.

[360] Lbs. 44074to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 36.

[361] Lbs. 44074to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 36.

[362] Vestf. ættir I, 236-238.

[363] Lbs. 34304to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 35.  Vestf. ættir I, 307-327.

[364] Lbs. 34304to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 35.

[365] Vestf. ættir I, 318.

[366] Lbs. 34304to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 35.

[367] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[368] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[369] Lbs. 27364to, Magnús Hjaltason, bls. 57-59.

[370] Lbs. 44074to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 40.

[371] Sama heimild.

[372] Sama heimild, 41.

[373] Lbs. 44074to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 41.

[374] Sama heimild.

[375] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[376] Lbs. 34304to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 15.

[377] Vestf. ættir I, 131.  Sbr. þar I, 332.

[378] Hsk. á Ísaf. nr. 190. Kr. G. Þorv.: Saga Suðureyrar … , bls. 76.

[379] Vestf. ættir I, 262-332.  Sbr. þar bls. 131.

[380] Hsk. á Ísaf. nr. 190. Kr. G. Þorv.: Saga Suðureyrar … , bls. 76.

[381] Sama heimild.

[382] Sama heimild.

[383] Vestf. ættir I, 131.

[384] Sama heimild.

[385] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.  Sbr. Lbs. 34304to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 17, og Hsk. á Ísaf. nr. 190.

Kr. G. Þorv.: Saga Suðureyrar … , bls. 77.

[386] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[387] Hsk. á Ísaf. nr. 190. Kr. G. Þorv.: Saga Suðureyrar … , bls. 77.

[388] Sama heimild.  Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[389] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[390] Hsk. á Ísaf. nr. 190. Kr. G. Þorv.: Saga Suðureyrar … , bls. 78.

[391] Sama heimild.  Lbs. 44074to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 56-58.

[392] Hsk. á Ísaf. nr. 190. Kr. G. Þorv.: Saga Suðureyrar … , bls. 78-79.

[393] Sama heimild.

[394] Lbs. 34304to, Valdimar Þorvaldsson, 34-35.

[395] Hsk. á Ísaf. nr. 190. Kr. G. Þorv.: Saga Suðureyrar … , bls. 77.

[396] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[397] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[398] Sóknarm.töl og prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[399] Sóknarm.töl og prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[400] Sömu heimildir.

[401] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[402] Sama heimild.

[403] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[404] Sömu heimildir.

[405] Sömu heimildir.

[406] Sömu heimildir.

[407] Lbs. 44074to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 49-50.

[408] Hsk. á Ísaf. nr. 206. Hjónavígsluleyfi til handa Þorvaldi Gissurarsyni, hreppstjóra í Selárdal, og jómfrú

Sigríði Friðbertsdóttur, gefið út af Kristjáni IX Danakonungi þann 18.10.1876.

[409] Sama heimild.

[410] Hsk. á Ísaf. nr. 206. Hjónavígsluleyfi til handa Þorvaldi Gissurarsyni, hreppstjóra í Selárdal, og jómfrú

Sigríði Friðbertsdóttur, gefið út af Kristjáni IX Danakonungi þann 18.10.1876

[411] Sama heimild.

[412] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[413] Sama heimild.

[414] Jón Pétursson 1890, 112-114 (Kirkjuréttur).

[415] Lbs. 44074to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 118.

[416] Lbs. 34304to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 18.

[417] VA III, 421, búnaðarskýrslur 1870.

[418] Sama heimild.

[419] VA III, 424, búnaðarskýrslur 1880.

[420] Sama heimild.

[421] Sama heimild.

[422] Sama heimild.  Sbr. Lbs. 44074to, V. Þorv., bls. 68 og 76.  Lbs. 44084to, Sami, bls. 13, 16, 18 og 55-62.

[423] Skjöl Suðureyrarhr. varðv. þar, tíundarskýrsla, dags. 23.6.1888.

[424] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[425] Kr. G. Þorv. 1962, 19. (Ársrit S.Í.)  Lbs. 34304to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 18.

[426] Lbs. 34304to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 18.

[427] Lbs. 44074to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 87.

[428] Sama heimild, 50-51.

[429] Sama heimild.

[430] Sama heimild, 70 og 85.

[431] Lbs. 44074to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 70.

[432] Sama heimild, 54, 63 og 67.

[433] Sama heimild, 63.

[434] Sama heimild, 54 og 67-68.

[435] Sama heimild, 68.  Lbs. 44084to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 62.

[436] Lbs. 44074to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 54, 67-68 og 76.

[437] Sama heimild.

[438] Sama heimild, 76.

[439] Sama heimild.

[440] Sama heimild, 89 og 101.

[441] Sama heimild, 68.

[442] Lbs. 44074to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 89.  Lbs. 44094to, Sami, bls. 2-3.

[443] Lbs. 44074to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 89.

[444] Sama heimild, 89-91.

[445] Sama heimild.

[446] Sama heimild.

[447] Sama heimild, 92.

[448] Lbs. 44074to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 91-92.

[449] Sama heimild.

[450] Sama heimild, 93.

[451] Sama heimild.

[452] Sama heimild.

[453] Sama heimild, 94.

[454] Sama heimild.

[455] Sama heimild.

[456] Sama heimild.

[457] Sama heimild, 98-100.

[458] Sama heimild, 95.

[459] Sama heimild.

[460] Sama heimild.

[461] Lbs. 44074to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 95.  Lbs. 34304to, Sami, bls. 41.

[462] Lbs. 44074to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 95.

[463] Sama heimild, 51.

[464] Sama heimild.  Sbr. Ísl. æviskrár IV, 167-168.

[465] Sama heimild.

[466] Sama heimild.

[467] Lbs. 44074to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 95.

[468] Sama heimild, 96.  Lbs. 44094to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 177.

[469] Lbs. 44074to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 96.

[470] Sama heimild.

[471] Sama heimild.

[472] Lbs. 44094to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 177.

[473] Sama heimild.

[474] Sama heimild.

[475] Sama heimild.

[476] Sama heimild, 102.

[477] Sama heimild., 146.  Lbs. 44094to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 6.

[478] Lbs. 44074to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 149.

[479] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[480] Sömu heimildir.

[481] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[482] Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 40.

[483] Manntal 1940.

[484] Lbs. 34304to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 21.

[485] Sama heimild.

[486] Sama heimild.

[487] Sama heimild.

[488] Sama heimild.

[489] Sama heimild.

[490] Sama heimild.

[491] Sama heimild.  Lbs. 44074to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 72-74.  Lbs. 44104to, Sami, bls. 14 og 15.

[492] Sömu heimildir.

[493] Lbs. 34304to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 40.

[494] Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 15.

[495] Lbs. 44074to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 74.

[496] Lbs. 34304to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 22.

[497] Sama heimild.

[498] Sama heimild.  Lbs. 44074to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 160.

[499] Lbs. 44074to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 174.

[500] Sama heimild, 72-76.

[501] Sama heimild.

[502] Sbr. Sama heimild, 75-76.

[503] Sama heimild, 72-76.

[504] Lbs. 34304to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 41.

[505] Sama heimild.

[506] Lbs. 44074to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 72-76.

[507] Lbs. 44074to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 72-76.

[508] Sama heimild.

[509] Sama heimild.

[510] Sama heimild.

[511] Sama heimild.

[512] Sama heimild.

[513] Lbs. 44074to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 72-76.

[514] Sama heimild.

[515] Sama heimild.

[516] Sama heimild.

[517] Sama heimild.

[518] Sama heimild.

[519] Sama heimild.

[520] Sama heimild.

[521] Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 14.

[522] Lbs. 34304to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 40.

[523] Sama heimild.

[524] Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 14.

[525] Lbs. 34304to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 40.

[526] Sama heimild.

[527] Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 14.

[528] Lbs. 44074to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 72.

[529] Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 14.

[530] Lbs. 44074to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 72.

[531] Sbr. einnig Lbs. 34304to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 40.

[532] Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 14.

[533] Lbs. 34304to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 41.

[534] Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 14.

[535] Sama heimild, 14-15.

[536] Sama heimild.

[537] Lbs. 34304to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 40.

[538] Sama heimild.

[539] Sama heimild, 22.

[540] Sama heimild.

[541] Sama heimild.

[542] Sama heimild.

[543] Sama heimild.

[544] Lbs. 34304to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 42.

[545] Sama heimild.

[546] Lbs. 34304to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 42.

[547] Lbs. 44074to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 216 og 66.

[548] Lbs. 34304to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 21.

[549] Sama heimild.

[550] Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 15.

[551] Sama heimild.

[552] Lbs. 44074to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 64-66.

[553] Sama heimild.

[554] Sama heimild.

[555] Lbs. 44074to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 64-66.

[556] Sama heimild.

[557] Sama heimild.

[558] Lbs. 44074to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 64-66.

[559] Sama heimild.

[560] Lbs. 34304to, Valdimar Þorvaldsson, bls. bls. 18.

[561] Sama heimild.

[562] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[563] Sömu heimildir.

[564] Sömu heimildir.

[565] Lbs. 34304to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 18-19.

[566] Lbs. 44074to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 44-45.

[567] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[568] Sama heimild.

[569] Lbs. 44094to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 167.

[570] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[571] Sama heimild.

[572] Lbs. 44074to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 106.

[573] Sama heimild, 119.

[574] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[575] Sama heimild.  Lbs. 27364to, Magnús Hjaltason, bls. 57-59.

[576] Lbs. 44084to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 47.

[577] Sama heimild.

[578] Lbs. 44074to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 162-167.

[579] Lbs. 31524to, Halldór Guðmundsson, bls. 227-232.

[580] Lbs. 44094to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 183-185.  Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[581] Sömu heimildir.

[582] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[583] Lbs. 44094to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 176.

[584] Lbs. 44074to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 8-11 og 150-151.

[585] Sama heimild.  Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[586] Lbs. 44074to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 1-12.

[587] Sama heimild, 150-151.

[588] Lbs. 34304to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 19.

[589] Lbs. 44074to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 11.

[590] Sama heimild.

[591] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar II, 73.

[592] Lbs. 44074to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 11.

[593] Ól. Þ. Kr. 1949, 105-108 (Frá ystu nesjum V).

[594] Lbs. 44074to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 13.  Lbs. 44084to, Sami, bls. 36.  Sbr. Þorvaldur Thoroddsen /

Lýsing Íslands IV, 351-359.

[595] Lbs. 44074to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 13.

[596] Sóknarm.töl Staðar í Súg.  Lbs. 44084to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 44-45. Lbs. 44074to, Sami bls. 13-14.

[597] Lbs. 44074to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 12-13.

[598] Lbs. 44084to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 36-37.

[599] Sama heimild.

[600] Sóknarm.töl og prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.  Gunnar M. Magnúss 1977, 68-70.

[601] Lbs. 34304to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 19.

[602] Sama heimild.  Lbs. 44074to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 11.

[603] Lbs. 44084to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 36.

[604] Sama heimild.

[605] Stjórnartíðindi 1891 B, bls. 24-25.

[606] Lbs. 44074to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 11.

[607] Ól. Þ. Kr. 1949, 105-109 (Frá ystu nesjum V).

[608] Lbs. 44074to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 14-15.

[609] Sama heimild.

[610] Lbs. 44084to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 8.

[611] Sama heimild.

[612] Lbs. 44074to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 14.

[613] Lbs. 34304to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 19.

[614] Sama heimild.

[615] Lbs. 44084to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 5.

[616] Sama heimild, 4.

[617] Sama heimild.

[618] Lbs. 44074to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 106.

[619] Lbs. 44084to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 13-16.

[620] Sama heimild.  Lbs. 22174to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 15.4. – 8.7.1898.

[621] Lbs. 22174to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 7.2. og 15.4. – 8.7.1898.

[622] Sama heimild.

[623] Lbs. 22174to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 7.2. og 15.4. – 8.7.1898.

[624] Sama dagbók 23.4.1898.

[625] Sama dagbók 24.4. – 30.4.1898.

[626] Sama dagbók 6.7. og 7.7.1898.

[627] Sama heimild.

[628] Sama heimild.

[629] Sama heimild.

[630] Sama heimild.

[631] Sama heimild 8.7.1898.

[632] Sama heimild.

[633] Gunnar M. Magnúss 1956, 11-127 og 160-201.

[634] Lbs. 22174to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 8.7.1898.

[635] Lbs. 27364to, Magnús Hjaltason, bls. 57-59.

[636] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[637] Lbs. 34304to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 19.  Lbs. 44074to, Sami, bls. 178.

[638] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[639] Lbs. 44084to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 44-46.  Lbs. 34304to, Sami, bls. 19.

[640] Sömu heimildir.

[641] Sömu heimildir.

[642] Sömu heimildir.

[643] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.  Sbr. Lbs. 44084to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 46.

[644] Lbs. 44094to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 172.

[645] Lbs. 44094to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 170-171.

[646] Lbs. 44084to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 8.

[647] Sama heimild, 13.

[648] Sama heimild.

[649] Sama heimild, 16.

[650] Lbs. 44084to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 16.

[651] Sama heimild.

[652] Sama heimild.

[653] Sama heimild.

[654] Sama heimild, 18.

[655] Örn.st. / Kr. G. Þorv. 1949, 129.

[656] Sama heimild.

[657] Sama heimild, 129-130.

[658] Lbs. 44084to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 32.

[659] Sama heimild.

[660] Sama heimild.

[661] Sama heimild.

[662] Sama heimild.

[663] Sama heimild.

[664] Sama heimild.

[665] Lbs. 44074to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 247.

[666] Lbs. 44084to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 8 og 16.

[667] Sama heimild, 55-62.

[668] Sama heimild.

[669] Lbs. 44084to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 55-62.

[670] Sama heimild.  Lbs. 44094to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 21.

[671] Lbs. 44094to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 99.

[672] Sbr. Sama heimild, 22.

[673] Lbs. 44084to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 57-61.

[674] Sama heimild.

[675] Sama heimild.

[676] Sama heimild.

[677] Lbs. 44094to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 21.

[678] Lbs. 44094to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 34.

[679] Sama heimild, 35.

[680] Sama heimild.

[681] Sama heimild.

[682] Sama heimild.

[683] Lbs. 44094to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 35.

[684] Sama heimild, 36-37.

[685] Sama heimild.

[686] Sama heimild.

[687] Sama heimild.

[688] Sama heimild.

[689] Sama heimild.

[690] Sama heimild.

[691] Sama heimild, 37.

[692] Sama heimild, 185.

[693] Lbs. 44094to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 11.

[694] Sama heimild, 41-45.

[695] Sama heimild, 30 og 99-100.

[696] Lbs. 44094to, Valdimar Þorvaldsson, 41-45.

[697] Sama heimild.

[698] Sama heimild.

[699] Sama heimild.

[700] Sama heimild.

[701] Sama heimild.

[702] Sbr. Almanak Hins íslenska þjóðvinafélags 1909 og Árni Björnsson 1993 / Saga daganna.

[703] Lbs. 44094to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 41-45.

[704] Sama heimild.

[705] Sama heimild.

[706] Sama heimild.

[707] Lbs. 44094to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 52.

[708] Sama heimild, 59.

[709] Sama heimild, 55-57.

[710] Sama heimild.

[711] Lbs. 44094to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 55-57.

[712] Sama heimild.  Gunnar M. Magnúss 1977, 276, 300 og 302.

[713] Sömu heimildir.

[714] Lbs. 44094to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 55-57.

[715] Vestf. ættir II, 534.

[716] Lbs. 44094to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 55-57.

[717] Sama heimild.

[718] Sama heimild.

[719] Sama heimild, 59.

[720] Sama heimild.

[721] Sama heimild, 59-61.

[722] Sbr. Lbs. 44084to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 25-26.

[723] Lbs. 44074to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 162-167.

[724] Sama heimild.

[725] Lbs. 44074to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 167-171.

[726] Sama heimild, 162-167.

[727] Stjórnartíðindi 1900 B, bls. 38-39.

[728] Lbs. 44074to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 167-171.

[729] Sama heimild, 174.

[730] Gunnar M. Magnúss 1977, 66 og 143-145.

[731] Lbs. 44074to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 174-175.  Lbs. 44094to, Sami, bls. 98-99.

[732] Lbs. 44074to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 175.  Lbs. 34304to, Sami, bls. 23.  Lbs. 44104to, Sami, bls. 54.

[733] Lbs. 34304to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 23.

[734] Sama heimild.  Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 54.

[735] Sömu heimildir.

[736] Sömu heimildir.

[737] Sömu heimildir.

[738] Lbs. 44084to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 49.

[739] Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 40.

[740] Lbs. 44074to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 192-194.

[741] Sama heimild.

[742] Sama heimild. Lbs. 44094to, V. Þorv., bls. 98-99.  Sbr. Lbs. 38604to, Dagbók Einars Jónssonar 15.6.1902.

[743] Lbs. 44094to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 98-99.

[744] Lbs. 44074to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 192-194.

[745] Sama heimild.  Lbs. 34304to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 23.

[746] Sömu heimildir.

[747] Sömu heimildir.

[748] Lbs. 34104to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 23.

[749] Lbs. 44074to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 174-175.

[750] Sama heimild.

[751] Sama heimild.

[752] Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 57.

[753] Sama heimild, 54.  Lbs. 34304to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 23.

[754] Sömu heimildir.

[755] Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 56.

[756] Sama heimild, 40 og 54.

[757] Sama heimild.

[758] Sama heimild, 40.

[759] Sama heimild.

[760] Lbs. 34304to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 41-42.

[761] Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 41 og 55.

[762] Sama heimild.

[763] Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 41 og 55.

[764] Sama heimild.

[765] Sama heimild.

[766] Sama heimild, 54.

[767] Sama heimild.

[768] Sama heimild.

[769] Sama heimild.

[770] Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 56.

[771] Sama heimild.

[772] Sama heimild.

[773] Sama heimild.

[774] Sama heimild.

[775] Sama heimild.

[776] Sama heimild, 57.  Lbs. 44084to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 49.

[777] Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 57.

[778] Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 57.

[779] Sama heimild.

[780] Sama heimild.

[781] Sama heimild.

[782] Sama heimild.

[783] Lbs. 44074to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 212-213.

[784] Lbs. 44074to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 212-213.

[785] Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 3.

[786] Sama heimild, 56-57.

[787] Lbs. 44074to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 214.

[788] Lbs. 34304to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 29.

[789] Sama heimild, 38.

[790] Sama heimild, 26.

[791] Sama heimild, 25.

[792] Sama heimild.

[793] Lbs. 34304to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 5.

[794] Örn.st. / Kr. G. Þorv. 1949, 129.

[795] Lbs. 34304to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 5.

[796] Örn.st. / Kr. G. Þorv. 1949, 129.

[797] Lbs. 34304to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 7.

[798] Sama heimild, 26. Sbr. þar bls. 23.

[799] Lbs. 34304to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 8.

[800] Sama heimild.

[801] Sama heimild.

[802] Örn.st. / Kr. G. Þorv. 1949, 129.

[803] Lbs. 34304to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 7.

[804] Örn.st. / Kr. G. Þorv. 1949, 128-129.

[805] Sama heimild.

[806] Sama heimild, 130.

[807] Sama heimild, 129-131.

[808] Sama heimild.

[809] Örn.st. / Kr. G. Þorv. 1949, 129-131.

[810] Sama heimild.

[811] Sama heimild.

[812] Sama heimild.

[813] Sama heimild.

[814] Sama heimild.

[815] Sóknarm.töl og prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[816] Lbs. 34304to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 21.

[817] Lbs. 34304to, Valdimar Þorvaldsson, bls.  36.

[818] Sama heimild.

[819] Sama heimild.

[820] Sama heimild.

[821] Sama heimild.

[822] Manntal 1845.  Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[823] Manntal 1845.  Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[824] Lbs. 34304to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 36.

[825] Sóknarm.töl og prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[826] Sömu heimildir.

[827] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[828] Lbs. 34304to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 22.  Lbs. 44084to, sami, bls. 64.

[829] Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 59-60.  Lbs. 34304to, sami, bls. 24.

[830] Lbs. 34304to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 25.

[831] Lbs. 34304to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 21.  Lbs. 44104to, Sami, bls. 61.

[832] Sömu heimildir.

[833] Lbs. 34304to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 21.

[834] Sama heimild.

[835] Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 61.

[836] Sama heimild.

[837] Sama heimild.

[838] Sama heimild.

[839] Lbs. 34304to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 21.

[840] Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 63.

[841] Sama heimild.

[842] Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 63.

[843] Sama heimild.

[844] Lbs. 34304to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 22.

[845] Sama heimild.

[846] Lbs. 34304to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 5 og 7.

[847] Sama heimild.

[848] Sama heimild.

[849] Sama heimild 5 og 7 og 22-23.

[850] Sama heimild, 7.

[851] Sama heimild, 22.

[852] Sama heimild, 5.  Örn.st. / Kr. G. Þorv. 1949, 130.

[853] Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 63.  Lbs. 34304to, sami, bls. 24 og 30.

[854] Sömu heimildir.

[855] Lbs. 34304to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 22.

[856] Sama heimild.

[857] Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 15.  Sbr. Lbs. 34304to, sami, bls. 7.

[858] Lbs. 34304to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 30.  Lbs. 44104to, sami, bls. 64.

[859] Sömu heimildir.

[860] Lbs. 34304to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 23.

[861] Sama heimild.

[862] Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 61.

[863] Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 62.

[864] Sama heimild.

[865] Sama heimild.

[866] Sama heimild.

[867] Sama heimild.

[868] Lbs. 44074to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 224.

[869] Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 61.

[870] Sama heimild, 62.

[871] Lbs. 34304to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 24.  Lbs. 44074to, sami, bls. 215-216.

[872] Lbs. 34304to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 24,

[873] Sama heimild.

[874] Sama heimild.  Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 58-60.

[875] Sömu heimildir.

[876] Lbs. 34304to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 24.

[877] Lbs. 34304to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 24.

[878] Sama heimild.

[879] Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 59-60.

[880] Sama heimild.  Lbs. 44074to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 217,

[881] Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 60.

[882] Lbs. 44084to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 33.

[883] Sama heimild. Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 64.

[884] Lbs. 34304to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 25.

[885] Sama heimild.

[886] Sama heimild, 26.

[887] Sama heimild.

[888] Örn.st. / Kr. G. Þorv. 1949, 130.  Lbs. 34304to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 6.

[889] Lbs. 34304to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 6.

[890] Örn.st. / Kr. G. Þorv. 1949, 130.  Lbs. 34304to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 6.

[891] Lbs. 34304to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 6.

[892] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[893] Lbs. 34304to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 38.

[894] Lbs. 44094to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 186-187.

[895] Sama heimild.

[896] Sama heimild.

[897] Sama heimild.

[898] Örn.st. Kr. G. Þorv. 1949, 124.

[899] Lbs. 34304to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 8.  Sbr. Örn.st. / Kr. G. Þorv. 1949, 128.

[900] Lbs. 34304to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 38.

[901] Sama heimild.  Lbs. 44094to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 10.

[902] Lbs. 44094to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 10-11.

[903] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.  Skattframtöl Sigurðar Samsonarsonar 1947 og 1948 (á Þj.skj.safni).

[904] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Skarðsþinga.  Manntal 1930, Selárdalur.

[905] Gunnar M. Magnúss 1977, 67. Sbr. þar bls. 59, 302 og 379. Sbr. einnig sami 1978, 170-179.

[906] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Skarðsþinga.  Ísl. æviskrár III, 6.

[907] Ísl. æviskrár III, 6 og V, 200-201.

[908] Lbs. 34304to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 31.

[909] Sama heimild.

[910] Örn.st. / Kr. G. Þorv. 1949, 129.

[911] Sama heimild.

[912] Sama heimild.

[913] Sama heimild.

[914] Sama heimild.

[915] Sama heimild.

[916] Sama heimild.

[917] Sama heimild, 130.  Lbs. 34304to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 5.

[918] Örn.st. / Kr. G. Þorv. 1949, 128.

[919] Lbs. 44094to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 179.

[920] Sigríður Pétursdóttir frá Laugum. – Viðtal K.Ó. við hana 16.12.1992.

[921] Lbs. 44094to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 179.

[922] Örn.st. / Kr. G. Þorv. 1949, 127.

[923] Örn.st. / Kr. G. Þorv. 1949, 126.

[924] Sóknalýsingar Vestfjarða II, 116.  Kristján G. Þorvaldsson 1983, 122.

[925] Lbs. 22324to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 30.1.1914.

[926] Lbs. 22324to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 30.1.1914.

[927] Kristján G. Þorvaldsson 1946, 132 (Vestf. sagnir III. 1).

[928] Sama heimild, bls. 132-138. Guðbjartur Gunnarsson. – Viðtal K.Ó við hann 19.3. 1998.

[929] Kristján G. Þorvaldsson 1946, bls. 132-138. (Vestf. sagnir III. 1).Guðbjartur Gunnarsson. – Viðtal K.Ó við hann 19.3. 1998

[930] Örn.st. / Kr. G. Þorv. 1949, 131.

[931] Sama heimild.  Kristján G. Þorvaldsson 1946, 133 (Vestf. sagnir III. 1).

[932] Örn.st. / Kr. G. Þorv. 1949, 131.

[933] Sama heimild.

[934] Sama heimild.

[935] Lbs. 34304to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 4.

[936] Örn.st. / Kr. G. Þorv. 1949, 132.

[937] Sama heimild.  Kristján G. Þorvaldsson 1946, 134 (Vestf. sagnir III. 1).

[938] Sömu heimildir.

[939] Kristján G. Þorvaldsson 1946, 134 (Vestf. sagnir III. 1).

[940] Örn.st. / Kr. G. Þorv. 1949, 132.  Lbs. 34304to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 11.

[941] Kristján G. Þorvaldsson 1946, 130 (Vestf. sagnir III. 1).  Sbr. Örn.st. / Kr. G. Þorv. 1949, 132.

[942] Örn.st.  Kr. G. Þorv. 1949, 132.

[943] Örn.st. / Kr. G. Þorv. 1949, 132.

[944] Örn.st. / Kr. G. Þorv. 1949, 132.

[945] Lbs. 34304to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 11.  Kristján G. Þorvaldsson 1946, 134-135 (Vestf. sagnir).

[946] Lbs. 34304to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 11.

[947] Örn.st. / Kr. G. Þorv. 1949,131. Kristján G. Þorvaldsson 1946, 135 (Vestf. sagnir III. 1).

[948] Sömu heimildir.

[949] Lbs. 34304to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 9.

[950] Kristján G. Þorvaldsson 1946, 135 (Vestf. sagnir III. 1).

[951] Sbr. sömu heimild og Örn.st./Kr.G.Þorv. 1949, 131.

[952] Lbs. 34304to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 9-10.

[953] Lbs. 34304to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 9-10.

[954] Sama heimild.

[955] Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 100-101.

[956] Sbr. Lbs. 34304to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 10.

[957] Lbs. 44074to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 153.

[958] Örn.st. / Kr. G. Þorv. 1949, 131.

[959] Sama heimild.

[960] Kristján G. Þorvaldsson 1946, 135. (Vestf. sagnir III. 1).

[961] Vestfirskar þjóðsögur II. 2, 69-70.

[962] Örn.st. / Kr. G. Þorv. 1949, 132.

[963] Sama heimild.

[964] Sama heimild.

[965] Sama heimild, 132-133.

[966] Sama heimild.

[967] Lbs. 34304to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 36-37.

[968] Lbs. 34304to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 36-37.

[969] Sama heimild, 3.

[970] Örn.st. / Kr. G. Þorv. 1949, 133.  Kristján G. Þorvaldsson 1946, 136 (Vestf. sagnir III. 1).

[971] Sömu heimildir.

[972] Sömu heimildir.

[973] Sömu heimildir.

[974] Sömu heimildir.

[975] Sömu heimildir.

[976] Sömu heimildir.

[977] Örn.st. / Kr. G. Þorv. 1949, 133.  Kristján G. Þorvaldsson 1946, 136 (Vestf. sagnir III. 1).

[978] Sömu heimildir.

[979] Sömu heimildir 1949, 133-134 og 1946, 137-138.

[980] Sömu heimildir.

[981] Sömu heimildir.

[982] Sömu heimildir.

[983] Sömu heimildir.

[984] Kristján G. Þorvaldsson 1946, 137 (Vestf. sagnir III. 1).

[985] Sama heimild.

[986] Uppdráttur Íslands, blað 11, gefið út af Landmælingum Íslands árið 1977.

[987] Kristján G. Þorvaldsson 1946, 137 (Vestf. sagnir III. 1).

[988] Örn.st. / Kr. G. Þorv. 1949, 134.

[989] Sama heimild.

[990] Kristján G. Þorvaldsson 1946, 137-138.  Örn.st. / Kr. G. Þorv. 1949, 16.

[991] Kristján G. Þorvaldsson 1946, 137-138.

[992] Örn.st. / Kr. G. Þorv. 1949, 16.

[993] Kristján G. Þorvaldsson 1946, 138 (Vestf.sagnir III.1).

[994] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[995] Sama heimild.

[996] Sama heimild.

[997] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[998] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[999] G. M. M. 1977, 448-449.

[1000] Sama heimild.

[1001] Sama heimild.

[1002] Lbs. 34304to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 15-16.  Sbr. Landsyfirréttardóma og hæstaréttardóma 1802-1873, VI, 188-189.  Sbr. einnig Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. IV. 8, Dóma- og þingbók 1835-1841. Réttarhald í Reykjarfirði í Vatnsfjarðarsveit 22.2.1840.

[1003] Lbs. 34304to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 15-16.

[1004] Sama heimild.

[1005] Sama heimild.

[1006] Sama heimild.

[1007] Örn.st. / Kr. G. Þorv. 1949, 41.

[1008] Sama heimild.

[1009] Lbs. 38584to, Dagbók Einars Jónssonar 24.6. og 25.6.1893.

[1010] Sama dagbók maí og júní 1893.

[1011] Lbs. 38584to, Dagbók Einars Jónssonar 24.6. og 25.6.1893.

[1012] Sama heimild.

[1013] Örn.st. / Kr. G. Þorv. 1949, 19.

[1014] Sama heimild.

[1015] Sama heimild.

[1016] Örn.st. / Kr. G. Þorv. 1949, 19.

[1017] Sama heimild.

[1018] Sama heimild.

[1019] Sama heimild.

[1020] Lbs. 22174to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 11.2.1898.

[1021] Kristján G. Þorvaldsson 1946, 129-130 (Vestf. sagnir III. 1).

[1022] Örn.st. / Kr. G. Þorv. 1949, 128.

[1023] Sama heimild.

[1024] Lbs. 34304to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 8.

[1025] Lbs. 34304to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 8.

[1026] Örn.st. / Kr. G. Þorv. 1949, 124.

[1027] Örn.st. / Kr. G. Þorv. 1949, 128.  Kristján G. Þorvaldsson 1946, 129 (Vestf. sagnir III. 1).

[1028] Örn.st. / Kr. G. Þorv. 1949, 128.

[1029] Kristján G. Þorvaldsson 1946, 129 (Vestf. sagnir III. 1).

[1030] Örn.st. / Kr. G. Þorv. 1949, 4.

[1031] Sama heimild, 127-128.  Kristján G. Þorvaldsson 1946, 128-129 (Vestf. sagnir III. 1).

[1032] Sömu heimildir.

[1033] Sömu heimildir.

[1034] Sömu heimildir.

[1035] Sömu heimildir.

[1036] Sömu heimildir.

[1037] Örn.st. / Kr. G. Þorv. 1949, 127-128.  Kristján G. Þorvaldsson 1946, 128-129 (Vestf. sagnir III. 1).

[1038] Sömu heimildir.

[1039] Sömu heimildir.

[1040] Kristján G. Þorvaldsson 1946, 126-127 (Vestf. sagnir III. 1).

[1041] Sama heimild, 128.

[1042] Lbs. 34304to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 9.

[1043] Kristján G. Þorvaldsson 1946, 128 (Vestf. sagnir III. 1).

[1044] Örn.st. / Kr. G. Þorv. 1949, 40.

[1045] Sama heimild.

[1046] Örn.st. / Kr. G. Þorv. 1949, 127-128.  Kristján G. Þorvaldsson 1946, 128-129 (Vestf. sagnir III. 1).

[1047] Sömu heimildir.

[1048] Sömu heimildir.

[1049] Sömu heimildir.

[1050] Sömu heimildir.

[1051] Lbs. 34304to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 9.  Sbr. Kristján G. Þorvaldsson 1946, 128. (Vf. sagnir III. 1).

[1052] Sama heimild.

[1053] Örn.st. / Kr. G. Þorv. 1949, 127.

[1054] Sama heimild.

[1055] Kristján G. Þorvaldsson 1946, 127 (Vestf. sagnir III. 1).

[1056] Sama heimild.  Örn.st. / Kr. G. Þorv. 1949, 126-127.

[1057] Sömu heimildir.

[1058] Sömu heimildir.

[1059] Sömu heimildir.

[1060] Kristján G. Þorvaldsson 1946, 127 (Vestf. sagnir III. 1). Örn.st. / Kr. G. Þorv. 1949, 126-127.

[1061] Sömu heimildir.

[1062] Sömu heimildir.

[1063] Sama heimild, 126-127.

[1064] Sama heimild.

[1065] Sama heimild.

[1066] Sama heimild.

[1067] Sama heimild.

[1068] Sama heimild.

[1069] Sama heimild.

[1070] Örn.st. / Kr. G. Þorv. 1949, 126.  Kristján G. Þorvaldsson 1946, 126 (Vestf. sagnir III. 1).

[1071] Örn.st. / Kr. G. Þorv. 1949, 126.  Kristján G. Þorvaldsson 1946, 126 (Vestf. sagnir III. 1).

[1072] Sömu heimildir.

[1073] Sömu heimildir.

[1074] Sömu heimildir.

[1075] Sömu heimildir.

[1076] Sömu heimildir.

[1077] Sömu heimildir.

[1078] Kristján G. Þorvaldsson 1946, 126 (Vestf. sagnir III. 1).

[1079] Örn.st. / Kr. G. Þorv. 1949, 125.

[1080] Sama heimild.

[1081] Sama heimild.

1000-1900

Guðmundur Justsson

Á fyrri hluta 20. aldar var Guðmundur Justsson, sem fæddist á Gemlufalli haustið 1841,[1] einna kunnastur þeirra sem búið höfðu á Dröngum, a.m.k. utan Dýrafjarðar,

LESA MEIRA »
1000-1900

Krossadalur

Í Krossadal var löngum tvíbýli á fyrri tíð, Hærri- og Lægri- (eða Neðri-) Krossdalur, og voru þetta ystu bæir við Tálknafjörð. Stundum var reyndar þríbýli

LESA MEIRA »
1000-1900

Arnarstapi

Arnarstapi og Krossadalur voru tvær ystu jarðirnar á norðurströnd Tálknafjarðar og hafa nú báðar verið í eyði frá því um 1940.[1] Frá verbúðatóttunum í Arnarstapavík

LESA MEIRA »