Þingeyri

Þingeyri er gamall verslunarstaður á fjarðarströndinni norðan undir Sandafelli. Árið 1880 voru íbúar Þingeyrar aðeins 22, verslunarstjórinn og beykir með fjölskyldur sínar.[1] Í þurrabúðunum Dýrhól og Nýjabæ, sem stóðu á landi er nú tilheyrir Þingeyri, bjuggu þá aðrar tvær fjölskyldur, alls 14 manneskjur. Um þetta leyti stóð skútuútgerð Þingeyrarverslunar með blóma og á árunum 1880-1900 reis hér dálítið sjávarþorp sem síðar náði að vaxa og dafna. Í þessu riti verður þó eingöngu fjallað um sögu Þingeyrar og Þingeyrarverslunar frá fyrstu tíð og fram til ársins 1866 er Niels Chr. Gram festi kaup á verslunarstaðnum við Dýrafjörð.

Í Hauksbók Landnámu segir að Vébjörn Sygnakappi, er skip sitt braut við Sygnahlein norðan Kögurs, hafi verið veginn á Þingeyrarþingi í Dýrafirði og þrír menn aðrir.[2] Að sögn Landnámu nam Vébjörn land milli Skötufjarðar og Hestfjarðar svo vítt sem hann gengur um á dag og því meir sem kallaður er Folafótur.[3] Úr botni Hestfjarðar við Djúp var stutt að fara til þings í Dýrafirði yfir Hestfjarðarheiði.

Í Sturlubók Landnámu er Þingeyrarþing ekki nefnt en þar segir að Vébjörn hafi verið veginn á Þórsnesþingi á norðanverðu Snæfellsnesi.[4] Ekki er óhugsandi að einhvers konar héraðsþing hafi verið háð á Þingeyri á landnámstíð, a.m.k. hafa staðhættir hér verið hentugir til slíkra fundarhalda. Hitt er þó líklegra að frásögnin um víg Vébjarnar á Þingeyrarþingi sé síðari tíma tilbúningur en hefði varla komist inn í handrit Landnámu nema af því menn höfðu spurnir af þinghaldi hér á eyrinni. Nafn staðarins bendir líka eindregið til þess að hér hafi til forna verið þingstaður um lengri eða skemmri tíma þó engar ótvíræðar heimildir hafi varðveist um það.

Í Gísla sögu Súrssonar er getið um þinghald á Valseyri (Hvolseyri) við norðanverðan Dýrafjörð (sjá hér Innri-Lambadalur) og þar taldi Sigurður Vigfússon fornfræðingur sig finna margar fornar búðarústir árið 1882.[5] Árið 962 eða skömmu síðar var landinu skipt í fjórðunga og var þá jafnframt ákveðið að þrjú þing yrðu í hverjum fjórðungi en þó fjögur í Norðlendingafjórðungi.[6] Í Vestfirðingafjórðungi var þá gert ráð fyrir þremur þingstöðum, einum í Borgarfirði, öðrum í Þórsnesi á norðanverðu Snæfellsnesi og hinum þriðja við botn Þorskafjarðar. Öllum Vestfirðingum var þá ætlað að sækja þing í Þorskafjörð og heimildir greina frá þinghaldi þar bæði á 10. og 13. öld.[7] Engu að síður virðist ljóst að einhvers konar þinghald hefur enn verið við lýði í Dýrafirði á 12. öld og í byrjun 13. aldar. Til marks um það má nefna að í Hrafns sögu Sveinbjarnarsonar, sem talin er rituð um miðja 13. öld og greinir frá atburðum er skeðu á árunum kringum 1200, er talað um Dýrafjarðarþing og þar lét Hrafn dæma Þorvald Vatnsfirðing sekan skógarmann fyrir hvaltöku norður á Ströndum.[8] Á öðrum stað í sögunni er þess getið að rosmhvalur hafi komið á land á vorþingi í Dýrafirði á dögum Hrafns[9] og má heita ógerlegt að hugsa sér að höfundur sögunnar hefði spunnið allt þetta upp ef alls ekkert þing hefði verið háð í Dýrafirði á 12. eða 13. öld.

Annað mál er hitt að erfitt mun vera að skera úr um hvort Dýrafjarðarþing sem um er talað í sögu Hrafns hafi verið haldið á Valseyri eða Þingeyri. Þó er Þingeyri mun líklegri og þá einkum vegna þess að Valseyrar (Hválseyrar) er hvergi getið í fornum ritum nema í Gísla sögu er greinir frá atburðum á 10. öld. Eftir víg Hrafns Sveinbjarnarsonar árið 1213 var sáttafundur hins vegar lagður á Þingeyri[10] og styrkir það heldur þá skoðun að þar hafi Dýrafjarðarþing verið háð á dögum Hrafns. Hvað sem öðru líður er engin ástæða til að ætla að Dýrafjarðarþing hið forna hafi ætíð verið háð á sama stað því kunn eru dæmi þess úr öðrum héruðum að nýr þingstaður kæmi í stað annars eldri.[11] Mjög er líklegt að svo hafi verið í Dýrafirði og þar hafi Þingeyri tekið við af Valseyri. Ekki verður nú um það sagt hversu víða að af Vestfjörðum mönnum var ætlað að sækja þing til Dýrafjarðar, enda mjög ólíklegt að þau mörk hafi ætíð verið hin sömu og reyndar ljóst að þingið sem háð var í Dýrafirði á dögum Hrafns Sveinbjarnarsonar féll engan veginn að stjórnskipaninni frá síðari hluta 10. aldar. Fullvíst má þó telja að Hrafn hafi stefnt öllum sínum þingmönnum til Dýrafjarðarþings en þeir munu flestir hafa verið búsettir innan núverandi marka Vestur-Ísafjarðarsýslu og Vestur-Barðastrandarsýslu, enda komust dómsmenn að þeirri niðurstöðu eftir víg Hrafns að banamaður hans, Þorvaldur Vatnsfirðingur, skyldi óheilagur vera milli Vatnsfjarðarár í Breiðafirði og Stiga í Ísafirði.[12] Forn örnefni í Dýrafjarðarbotni og næsta nágrenni hans benda enn til ferða manna á héraðsþing í Dýrafirði. Efra- og Neðra-Þingvatn heita tvö smávötn í nánd við Glámu (sjá hér Botn í Dýrafirði) og skammt frá fjarðarbotninum.[13] Þingmannarjóður í Dýrafjarðarbotni er líka nefnt oftar en einu sinni í fornum máldögum en þar segir m.a. að Holtskirkja í Önundarfirði eigi skóg milli gilja tveggja fyrir ofan Þingmannarjóður á hina vinstri hönd er á Glámu ríður.[14]

Er Árni Magnússon, prófessor og handritasafnari, kom í Dýrafjörð árið 1710 skoðaði hann fornar tóttir á Þingeyri og segir í bréfi rituðu 17 árum síðar að þar séu afar margar búðatóttir og hafi hann talið um fjörutíu.[15] Árni hélt því hiklaust fram að margar þeirra væru áreiðanlega rústir fornra þingbúða.[16] Enn blasa sumar þessara tótta við augum á Þingeyri en munu aldrei hafa verið rannsakaðar til hlítar og því ekki hægt að fullyrða neitt um aldur þeirra. Hafi tóttirnar verið jafn margar og Árni nefnir er reyndar erfitt að tengja þær við verslunarstarfsemina á Þingeyri og því varla önnur tilgáta líklegri en sú að sumar þeirra að minnsta kosti séu eða hafi verið frá því skeiði er menn riðu hingað til þings og tjölduðu búðir sínar.

Um búsetu á Þingeyri á fyrstu öldum Íslandsbyggðar er lítið sem ekkert vitað. Í Gísla sögu Súrssonar er þó nefndur Þorvaldur gneisti og hann sagður hafa búið á Þingeyri. Í sögunni er frá því greint að í hinni örlagaríku ferð sinni til Haukadals hafi Vésteinn Vésteinsson verið fluttur yfir Dýrafjörð til Þingeyrar og segir þar svo:

 

Hann er fluttur til Þingeyrar. Þar bjó þá maður er Þorvaldur gneisti hét. Vésteinn gengur þar til húss og lét Þorvaldur honum heimilan hest sinn. Ríður hann nú við hrynjandi og hefur sitt söðulreiði. Hann fylgir honum til Sandaóss og bauð að fylgja honum allt til Gísla.[17]

 

Vel er hugsanlegt og reyndar líklegt að Þorvaldur gneisti á Þingeyri sé aðeins hugarsmíð höfundar Gísla sögu. Hitt er aftur á móti ólíklegt að hinn staðkunnugi höfundur hefði látið manninn búa á Þingeyri ef þar hefði aldrei byggð verið áður en sagan var rituð um miðja 13. öld. Orð Gísla sögu um Þorvald gneista benda því eindregið til þess að á Þingeyri hafi staðið bær á fyrri hluta 13. aldar eða skömmu fyrr og hér kynni líka að hafa verið búið á 10. öld.

Mjög er óljóst hvenær verslun hefst á Þingeyri. Í marktækum heimildum er allvíða getið um komur hafskipa í Dýrafjörð á 13. og 14. öld (sjá hér Sandar) og má ætla að þau hafi flutt með sér nokkuð af söluvarningi. Vissar líkur benda til þess að Sandaós hafi verið helsta hafskipahöfnin í Dýrafirði á 13. öld og fyrr (sjá hér Sandar) en vera kann að kaupmenn hafi þá þegar verið teknir að falbjóða varning sinn á Þingeyri. Í Gottskálksannál er getið um komu hafskips sem Krafsinn hét í Dýrafjörð árið 1337 og brottför þess þaðan næsta ár.[18] Í sama annál er líka greint frá bardaga sem háður var á Þingeyri á dýradag (næsta fimmtudag eftir trinitatis) vorið 1338 en þar urðu margir menn sárir.[19] Einn þeirra sem þarna særðust var séra Þorsteinn Pálsson sem þá var prestur í Holti í Önundarfirði (sjá hér Holt).

Fullvíst er að á síðari hluta 16. aldar var Þingeyri orðin aðalhöfnin í Dýrafirði og miðstöð verslunarviðskipta. Kaupmennirnir sem þá sigldu skipum sínum á Dýrafjörð og dvöldust á Þingeyri meðan kauptíðin stóð voru flestir frá borginni Lübeck í Þýskalandi en einnig komu Hamborgarar þar við sögu.[20]

Á árunum upp úr 1560 var það borgarstjórinn í Lübeck, Bartolomeus Thinappell að nafni, sem rak verslun í Dýrafirði og á Ísafirði og hafði Danakonungur veitt honum sérstakt einkaleyfi til þess.[21] Þann 29. janúar árið 1567 varð hins vegar breyting á því þann dag veitti Friðrik II Danakóngur manni sem hét Christoffer Voegler einkaleyfi til verslunar á þessum sömu höfnum.[22] Í skjölum frá árinu 1567 er Voegler þessi ýmist nefndur hallarskrifari eða amtsskrifari í Segeberg.[23] Staður þessi er í Holstein og var árið 1926 sagður vera 28 kílómetrum fyrir vest-norðvestan Lübeck.[24] Höllin eða kastalinn í Segeberg var reistur árið 1134.[25]

Í leyfisbréfinu sem Voegler fékk í hendur frá kóngi er tekið fram að hann eigi að sjá íbúum nefndra kaupsvæða fyrir öllum nauðþurftum og hafa í boði góðar og ósviknar vörur á hóflegu verði.[26]

Allan brennistein og saltpétur sem bjóðast kynni á Íslandi ætlaði kóngur sjálfum sér og því var hallarskrifaranum bannað að kaupa slíkan varning af Vestfirðingum.[27] Allar aðrar íslenskar vörur mátti Voegler hins vegar kaupa og flytja úr landi en af útflutningsvörunum varð hann að greiða ákveðinn toll í fjárhirslu konungs.[28]

Hið konunglega einkaleyfi til verslunarreksturs á Vestfjarðahöfnum framseldi Christoffer Voegler til þriggja manna sem búsettir voru í Hamborg og hétu Jürgen Wegener, Hans Elers og Hieronimus Voegler[29] og má vera að sá síðastnefndi hafi verið bróðir, sonur eða frændi hallarskrifarans. Í bréfi sem þessir þrír herramenn sendu borgarstjóranum í Hamborg kvarta þeir yfir því að kaupmenn frá Lübeck séu að frakta skip til siglingar á Dýrafjörð og Ísafjörð þó að Danakonungur hafi veitt öðrum einkaleyfi til verslunar á þessum höfnum.[30] Í bréfinu, sem er ódagsett og óársett, fara þremenningarnir fram á að borgaryfirvöld í Hamborg veiti þeim liðsinni og reyni að stöðva fyrirhugaða siglingu kaupskipa frá Lübeck á nefndar hafnir.[31] Ókunnugt er um málalyktir en líklegt má telja að nýnefnt bréf hafi verið skrifað árið 1567.

Árið 1570 kærðu tveir þýskir kaupmenn, Hanes Reck og Hannes Elmenhorst, viðskiptamenn sína í Dýrafirði og grennd fyrir vanskil á greiðslum.[32] Málið var tekið fyrir á þingi í Meðaldal og þar tilnefndi Torfi Sigfússon, umboðsmaður konungs milli Botnsár og Langaness, sex menn í dóm til að fjalla um kæruna og kveða upp úrskurð.[33] Sá umboðsmaður konungs sem þarna er nefndur er að líkindum Torfi Sigfússon (Brúnmannssonar) í Hrauni í Keldudal og hefur hann þá farið með sýsluvöld í núverandi (1991) Þingeyrarhreppi, það er aðeins á vesturströnd Dýrafjarðar og norðurströnd Arnarfjarðar.

Úrskurður dómsmanna varð sá, með vísun til landslaga, að hver sem ekki greiddi sínar verslunarskuldir fyrir Ólafsmessu fyrri, það er fyrir 29. júlí, skyldi sekur hálfri mörk fyrir hundrað hvert og ætti hálf sektarfjárhæðin að renna til konungs en hinn helmingurinn til viðkomandi kaupmanns.[34] Í dómsorðinu frá Meðaldal segir síðan:

 

En ef íslenskir hafa hvorki fisk né lýsi né vaðmál en bjóða þó annan skileyri þann sem í lagi stendur og vilji útlenskir fornemast að taka, þá leggjum vér þar enga sök við – því oss virtist sem hver peningur verði annan að leysa svo um þeirra skuldir sem annarra manna hér í landi.[35]

 

Dómurinn sýnir að þýsku kaupmennirnir hafa helst viljað fá fisk, lýsi eða vaðmál upp í skuldirnar en verið tregir að taka við hvaða innlendum afurðum sem var þó gjaldgengar væru í innanlandsviðskiptum. Í þessum efnum vildu dómsmennirnir í Meðaldal hins vegar ekki veita hinum erlendu kaupmönnum nein sérréttindi og benda á að í viðskiptum við þá eins og aðra verði hver peningur annan að leysa eða með öðrum orðum að kaupmönnum leyfist ekki að neita að taka við prjónlesi upp í verslunarskuld en heimta lýsi svo eitt dæmi sé tekið.

Á fyrri hluta 16. aldar voru Þjóðverjar og Englendingar nær einráðir í verslun á Íslandi en um miðja öldina hófu Danakonungar markvissa viðleitni til að hamla gegn veldi þeirra og tryggja dönskum kaupsýslumönnum hlut í Íslandsversluninni. Á árunum milli 1560 og 1570 fór konungur að veita tímabundin einkaleyfi til verslunar á vissum höfnum og nutu ýmsir danskir kaupsýslumenn góðs af því.[36] Fáeinir Íslendingar fengu líka slík einkaleyfi frá konungi. Einn þeirra var Eggert Hannesson, lögmaður í Bæ á Rauðasandi, sem árið 1579 fékk konungsleyfi til verslunarreksturs í Dýrafirði og Skutulsfirði.[37] Verslunarreksturinn mun Eggert hafa stundað í samvinnu við Hamborgara[38] og reyndar fluttist hann til Hamborgar ári eftir leyfisveitinguna og andaðist þar árið 1583.

Árið 1602 var einokunarverslun Dana innleidd á landi hér og þar með var þegnum annarra ríkja bannað að stunda hér verslunarviðskipti. Launverslun við útlendar þjóðir var þó oft veruleg og strax á fyrsta ári einokunarinnar voru Hamborgarar kærðir fyrir passalausa verslun í Bolungavík og í Dýrafirði.[39]

Tæplega hundrað árum síðar voru þrír bændur á norðurströnd Dýrafjarðar dæmdir til búslóðarmissis og Brimarhólmsvistar fyrir viðskipti við enska fiskimenn sem hleypt höfðu inn á Dýrafjörð undan hafís. Frá máli þeirra er nánar sagt á öðrum stað í þessu riti (sjá hér Lækur og Klukkuland) en sá sem kærði bændurna þrjá var Jörgen Sörinsson er þá stjórnaði verslunarrekstrinum á Þingeyri.[40] Ætla má að á einokunartímanum hafi drjúgur hluti af þeim erlenda varningi sem Vestfirðingar keyptu verið fenginn á laun hjá duggurum en heimildir skortir til að skýra þá mynd. Svo mikið er víst að þegar stiftamtmaður bað einokunarkaupmennina árið 1722 að greina frá hvar á landinu hinir bresku og hollensku duggarar sem launverslun stunduðu héldu sig, – þá töldu  kaupmennirnir m.a. upp alla firðina milli Bjargtanga og Stiga.[41]

Í upphafi einokunartímabilsins voru opinberar verslunarhafnir á Íslandi um það bil tuttugu og var þeim skipt milli kaupmanna í þremur dönskum borgum, Kaupmannahöfn, Málmey og Helsingjaeyri. Níu góðborgarar í Kaupmannahöfn mynduðu þá með sér félag um verslunarreksturinn á Þingeyri og á Skutulsfjarðareyri og var þessi rekstur í þeirra höndum næstu 17 árin.[42] Strax á fyrstu árum einokunarinnar var til þess ætlast að ákveðnar sveitir fylgdu hverri höfn eða ættu þangað verslunarsókn. Nokkurt frjálsræði ríkti þó í þessum efnum uns tekið var að framfylgja hinum ströngu reglum um umdæmi hverrar verslunar á árunum upp úr 1684.[43]

Kaupsvið Þingeyrarverslunar náði þá yfir fjóra hreppa, Auðkúluhrepp, Þingeyrarhrepp, Mýrahrepp og Mosvallahrepp.[44] Í Lýsingu Íslands sem Skúli Magnússon landfógeti ritaði árið 1785 segir hann reyndar að verslunarsvæði Þingeyrar nái yfir sex þingsóknir[45] en sú fullyrðing fær varla staðist því fyrir Súgfirðinga og Bolvíkinga var miklu styttra að sækja verslun til Skutulsfjarðar þar sem nú er Ísafjarðarkaupstaður. Í Eyrarannál er þess getið sérstaklega að árið 1690 hafi maður að nafni Jurin tekið við forstöðu verslunarrekstursins á Þingeyri og þá hafi öll Arnarfjarðarströnd norðan fram verið lögð undir Þingeyrarkaupstað til kauphöndlunar[46] og má því ætla að fyrir þann tíma hafi íbúar Auðkúluhrepps getað ráðið nokkru um hvort þeir sóttu verslun til Bíldudals eða Þingeyrar. Harðast var reglunum um skiptingu landsins í verslunarumdæmi framfylgt á síðustu árum sautjándu aldar og fyrsta þriðjungi hinnar átjándu[47] en þá var hverjum og einum refsað grimmilega ef upp komst að hann hefði átt nokkur minnstu viðskipti á öðrum verslunarstað en þeim sem honum bar samkvæmt reglugerð um umdæmaskiptinguna. Eftir 1733 fór að slakna nokkuð á í þessum efnum hvað framkvæmdina varðaði[48] en skiptingu landsins í ákveðin kaupsvið var þó haldið allt til ársins 1788 er hin svokallaða fríhöndlun hófst.

Ekki er nú kunnugt hvort hinir þýsku kaupmenn er ráku verslun á Þingeyri á 16. öld reistu hér einhverjar byggingar en líklegt má þó telja að svo hafi verið. Að vísu stöldruðu þeir eða þeirra sendimenn hér aðeins við í nokkrar vikur á ári hverju, að því er ætla má í júní og júlímánuði. Hafi fulltrúar þýskra kaupmanna einhverju sinni haft vetrardvöl á Þingeyri hefur það verið í banni konungs því á 15. og 16. öld var útlendum mönnum hvað eftir annað bönnuð veturseta á Íslandi.[49]

Er einokunarverslun Dana hófst var kaupmönnum hins vegar leyft að hafa hér einn til tvo menn á hverri höfn yfir veturinn en þó stranglega bannað að hér dveldist fleira fólk á þeirra vegum árið um kring.[50] Tilgangurinn með þessu banni mun hafa verið sá að vernda landsmenn gegn öllum hættum er fylgdu eyðslusemi og drykkjuskap. Þrátt fyrir heimildina mun alls ekki hafa tíðkast að danskir verslunarmenn dveldust vetrarlangt á hinum ýmsu verslunarstöðum hérlendis á 17. öld nema í Vestmannaeyjum og ef til vill á einhverjum öðrum höfnum sunnanlands og árið 1684 var algjört bann lagt við slíkum vetursetum.[51] Frá 17. öld er þó vitað um a.m.k. eitt dæmi þess að verslunarstjóri Þingeyrarverslunar hafi dvalist hérlendis vetrarlangt en þá aðeins vegna þess að kaupskipið strandaði fyrir Alviðrulandi í Dýrafirði er það var á útleið haustið 1679.[52]

Elstu heimildir um verslunarhús á Þingeyri eru frá árinu 1615. Þá komu í Dýrafjörð nokkrir hvalveiðimannanna frá Baskalandi á Spáni sem skipreika urðu norður á Ströndum (sjá hér Fjallaskagi) en marga þeirra tóku Vestfirðingar af lífi sem kunnugt er og eru það síðustu fjöldaaftökur hér um slóðir sem sögur fara af. Hið kunna skáld, séra Ólafur Jónsson, var þá prestur á Söndum og orti hann langt kvæði um þessa atburði. Hann minnist þar á komu Spánverjanna að Þingeyri og segir beinum orðum í 32. vísu: Dárarnir brutu upp danskra sal og bætir síðan við að þar hafi þeir stolið salti og skreið.[53] Orð séra Ólafs sýna með ótvíræðum hætti að dönsk verslunarhús, eitt eða fleiri, hafa staðið á Þingeyri er spænsku skipbrotsmennirnir komu hingað haustið 1615.

Jón lærði, sem var í kunningsskap við suma þessa spönsku hvalveiðimenn, ritaði einnig langt mál um örlög þeirra og segir þar að fjórtán úr hópnum hafi farið með hnuplun og gripli til Þingeyrar.[54] Frá falli þrettán Spánverja á Fjallaskaga í Dýrafirði segir hér á öðrum stað í þessu riti (sjá Fjallaskagi).

Haustið 1663, þegar nær hálf öld var liðin frá Spánverjavígunum á Fjallaskaga og í Æðey, strandaði skip frá Baskalandi á Spáni norður í Bolungavík á Ströndum.[55] Ekki er ólíklegt að einhverjir skipbrotsmanna hafi farist en fullvíst að sumir þeirra höfðu vetursetu í Ísafjarðarsýslu veturinn 1663-1664, m.a. hjá Magnúsi Magnússyni, sýslumanni á Eyri í Seyðisfirði.[56] Þann 24. júlí 1664 voru fimm þessara skipbrotsmanna staddir hér á Þingeyri ásamt Magnúsi sýslumanni en stúlkan Þórunn Jónsdóttir hafði þá kært einn þessara Baska fyrir nauðgun.[57] Við yfirheyrslurnar á Þingeyri nefndan dag lýsti hann sig reiðubúinn til að sverja fyrir nauðgunina og hélt því fram að Þórunn hefði samrekkt honum af fúsum og frjálsum vilja.[58] Líklegt er að þessir fimm skipbrotsmenn hafi flestir eða allir átt vetrardvöl í Dýrafirði eða allra næstu fjörðum.

Undir bréfið um þetta, sem frá var gengið á Þingeyri 24. júlí 1664, skrifa sem vottar þeir Brynjólfur Bjarnason og Nikulás Brandsson.[59] Sá fyrrnefndi er efalasut Brynjólfur, bóndi í Neðri-Hjarðardal, sem hér er sagt frá á öðrum stað (sjá Neðri-Hjarðardalur) og ætla má að sá síðarnefndi sé Nikulás Brandsson sem var tengdasonur Lénharðar enska Jónssonar, bónda á Kvíanesi í Súgandafirði.[60] Nokkrar líkur benda til þess að hann hafi búið í Haukadal og nær fullvíst að hann var búsettur í Dýrafirði.[61] Dóttir Nikulásar Brandssonar var Guðrún, kona Ásmundar Ketilssonar, og bjuggu þau á Fjallaskaga árið 1703.[62]

Sama ár og Spánverjavígin voru unnin, árið 1615, sendu 12 hreppstjórar og skattbændur í Ísafjarðarsýslu Ara Magnússyni, sýslumanni í Ögri, mjög alvarlega kæru vegna framferðis danskra kaupmanna á báðum verslunarstöðunum í sýslunni, Þingeyri og Skutulsfjarðareyri.[63]

Í bréfi sínu halda hreppstjórarnir því fram að í viðskiptum við kaupmenn fái íslenskur almúgi ekki að njóta landslaga en gömul fríheit og kónganna mildileg bréf séu rofin með margvíslegum hætti.[64] Lýsingu sína á okri og afarkostum kaupmanna orða bréfritarar svo:

 

Kaupmenn selja ekki alleinasta sína misjafna vöru dýrara og dýrara ár frá ári heldur blanda þeir, byrla og brugga sitt öl oftlega sem þeir vilja. Í sama máta hafa þeir haft mjöl formengað en látið það þó sínu verði halda sem væri það ómengað.[65]

 

Innlendar afurðir, svo sem blautan fisk, naut og sauði, eru kaupmenn hins vegar sagðir hafa fellt í verði að eigin vild. Kvartað er yfir vöruskorti því í sýsluna komi aðeins eitt lítið skip á ári en bændur séu yfir fjögur hundruð og auk þess komi fólk úr annarri sýslu sína nauðsyn að sækja til þessa skips.[66]

Síðan segir í kærubréfinu:

 

Við engelska mega menn ekki kaupa án fésekta og ekki vogar almúginn þeim að selja er kaupmenn vilja ekki hafa utan með stórum ugg og ótta vegna fésekta og rógburðar. … Auk þessarar neyðar þá er vigt og mælir ekki í lagi … þeir [dönsku kaupmennirnir] flytja ekki almúgans nauðþurft sem er járn og katlar og fleira annað eftir þörfum. Item þeir vilja ekki annað hafa í sínar skuldir en fisk og lýsi og fær almúginn þess vegna ekki sína nauðsyn. En hið sérlegasta eitt með öðru er viðgengst er þetta að blindur fáfróður almúgi einu sinni með verði yfirkaupir af sinni neyð og heimsku, – það vilja kaupmenn alminnilega öllum selja með sama verði og jafnvel þeim sem vit og skyn hafa á kaupskap. Þeir þarfnast þess er þeir kaupa vilja oft og tíðum því heimskur almúgi geipar og gefur við mun meira og situr svo kaupmaður við þann eldinn er betur brennur. Þannig fordjarfar einn annan ár frá ári og úr öllum máta svo að til sérlegrar neyðar horfir.[67]

 

Hér hefur aðeins verið birt lítið sýnishorn úr löngu kærubréfi vegna framferðis danskra kaupmanna á Þingeyri og Skutulsfjarðareyri á fyrstu árum einokunarverslunarinnar.

Ari sýslumaður í Ögri, sem fékk bréfið í hendur, bað strax um álit hinna geistlegu í sýslunni á efni þess. Þann 6. júní 1615 mættu sex prestar til fundar í Holti í Önundarfirði til að ræða verslunarmálin. Þeir voru séra Sveinn Símonarson, prófastur í Holti (faðir Brynjólfs biskups), séra Sigmundur Egilsson á Eyri í Skutulsfirði, séra Jón Erlendsson á Rafnseyri, séra Jón Styrkárson á Álftamýri, séra Ólafur Jónsson á Söndum og séra Gils Ólafsson sem þá mun hafa verið prestur í Dýrafjarðarþingum en talinn er hafa tekið við Stað í Súgandafirði á þessu sama ári. Skemmst er frá því að segja að í samþykkt sem prestarnir gengu frá á þessum fundi er í einu og öllu tekið undir ákærur hreppstjóranna á hendur kaupmönnum. Í bréfi prestanna er þess getið að allir hafi þeir þjónað í sínu embætti, hver í sinni kirkjusókn, í að minnsta kosti um 20 ár og sumir í 30 ár eða jafnvel 40.[68] Allt passar það vel við aðrar heimildir. Prestarnir sex taka fram að á sínum fyrstu starfsárum vestra hafi Hamborgarmenn haldið uppi siglingum á hafnirnar í Ísafjarðarsýslu en danskir kaupmenn síðan tekið við.[69]

 

Og vitum vér fyrir full sannindi, – segja prestarnir sex, – að flest allt góss og vara, svo vel þýskra sem danskra kaupmanna í þessarar sýslu höfnum hefur að sínum dýrleika mjög framfærð og hækkuð verið en kostir og gæði greindrar kaupvöru hefur mjög minnkað.[70]

 

Prestarnir fullyrða að sumar erlendar vörur hafi reyndar hækkað um fjórðung og aðrar um þriðjung en verð á innlendum afurðum svo sem skreið, lýsi og vaðmáli hins vegar staðið í stað.[71] Síðan hnykkja þeir enn á og segja að fríðir peningar svo sem naut og sauðir hafi beinlínis verið lækkaðir í verði svo kaupmenn taki ekki lengur við þeim nema með afarkostum. Einkum segja þeir ástandið slæmt í þessum efnum hér í vorri nálægri höfn Dýrafirði og framar en skeði þau fyrstu árin er danskir hér sigldu.[72] Án verulegrar lagfæringar á verslunarkjörunum sáu prestarnir ekki annað fram undan en sýslunnar og landsins útörmun og innbyggjaranna svo með.[73]

Í bréfi sínu leggja Vestfjarðaprestarnir áherslu á að kaupmönnum verði meinað að verðleggja vöru sína að eigin vild heldur skuli þeir selja hana eftir því sem að fornu hefur verið eftir landsins gömlu lagi og ekki hafa aðra alin, vigt eður mæli en íslenskan.[74]

Fróðlegt er að sjá hvaða varning þeir gera kröfu um að kaupmenn flytji til landsins, óskemmdan og á hóflegu verði. Þeir nefna sérstaklega tólf vörutegundir og í þessari röð: Mjöl, malt, öl, vín, mjöð, brennivín, klæði, léreft, kopar, katla, járn og gagnlegt timbur til kirkna, húsa, báta og ára.[75]

Allt þetta og einnig aðrar nauðsynjar gera prestarnir kröfu um að almúginn fái fyrir billegt kristilegt verð.[76]

Ari Magnússon, sýslumaður í Ögri, var mikill skörungur og lét sér fátt fyrir brjósti brenna. Strax í maímánuði árið 1615, áður en prestarnir héldu fund sinn í Holti, nefndi hann tólf menn í dóm að Hóli í Bolungavík og komust þeir skjótt að þeirri niðurstöðu að öll atriðin í kæru hreppstjóranna væru á rökum byggð og þyrftu leiðréttingar við.[77] Með þann dóm í höndum tók Ari sig til þetta sama vor og setti nýtt verð á flestar eða allar erlendar vörutegundir og einnig á innlendar afurðir.[78] Með kaupsetningu eða verðskrá Ara í Ögri var reynt að bæta verslunarkjör Íslendinga og mun það hafa tekist að einhverju marki þó fljótlega sigi á ógæfuhliðina á ný. Sem dæmi um verðlagningu Ara má nefna að tunna af dönskum bjór átti að kosta eina vætt eða sem svaraði tíu kílóum af smjöri en vinnumannshattur fjórðung eða sem svaraði þrennum vettlingum.[79]

Í kaupsetningu Ara er að finna margvísleg boðorð og leiðbeiningar varðandi verslunina. Eigendum Dýrafjarðarverslunar fyrirbýður hann sérstaklega að selja annarrar sýslu innbyggjurum sína vöru utan með því einu móti að íbúar Ísafjarðarsýslu séu áður forsorgaðir.[80] Í þessari tilskipun yfirvaldsins í Ögri um verðlag og verslunarhætti segir líka:

 

Varist allir að selja eður kaupa blandað öl, vín eður brennivín eður formengað mjöl, annars lýsi ég þar á kóngsbréfabrot, 8 merkur, og það upptækt er þeir keypt hafa.[81]

 

Slíkan mann var gott að eiga í fremstu víglínu í því verðstríði er geisaði á Þingeyri og Skutulsfjarðareyri á fyrstu árum dönsku einokunarverslunarinnar.

Árið 1620 mynduðu Íslandskaupmenn í Danmörku sameiginlegan félagsskap (Det islandske, færøiske og nordlandske Kompagni) er sá um alla verslun hérlendis á árunum 1620-1662.[82] Árið 1655 voru verslunarstaðirnir hérlendis tuttugu og einn. Á því ári voru samtals fluttar til landsins vörur fyrir 204.992 ríkisdali en út voru fluttar afurðir fyrir 203.703 ríkisdali.[83] Á þessu sama ári nam vöruinnflutningur til Þingeyrar 6.341 ríkisdal eða 3,1% af heildarvöruinnflutningi til landsins en frá Þingeyri voru fluttar út afurðir fyrir 3.468 ríkisdali og nam sú fjárhæð aðeins um 1,7% af heildarútflutningnum.[84]

Fjórar hafnir, Patreksfjörður, Bíldudalur, Vopnafjörður og Berufjörður voru með minni innflutning en Þingeyri árið 1655 en hins vegar var útflutningur hvergi minni en héðan á því ári.[85] Ætla má að inn- og útflutningur til og frá einstökum höfnum hafi verið nokkuð misjafn frá ári til árs svo ekki er víst að þessar tölur gefi rétta heildarmynd af viðskiptum á Þingeyri um miðja 17. öld. Samkvæmt bókhaldi félagsins sem sá um verslunarreksturinn hér á árunum 1620-1662 varð tæplega 1.300 ríkisdala tap á Íslandsversluninni árið 1655.[86] Á ellefu verslunarstöðum taldi félagið sig hafa nokkurn hagnað af rekstrinum á því ári en aftur á móti sýndi bókhaldið taprekstur á hinum tíu stöðunum.[87] Einn þeirra var Þingeyri en þar taldist tapið vera 2.873 ríkisdalir og 22 skildingar. Bíldudalur einn var með meira tap.[88]

Svo virðist sem kaupmenn hafi oftar talið sig bera skaða af verslunarrekstrinum á Þingeyri um þetta leyti. Sem dæmi má nefna að árið 1636 varð bókfærður hagnaður á Íslandsversluninni í heild um 10.417 ríkisdalir en verslunarreksturinn á Þingeyri kom þá út með 449 ríkisdali í halla og voru aðeins fjórar hafnir með lakari útkomu, allar á Norður- og Austurlandi.[89]

Fyrir þá sem nú lifa getur verið fróðlegt að virða fyrir sér skrá yfir vörur sem fluttar voru til Þingeyrar árið 1655. Slík skrá lítur þannig út:

 

Mjöl 120 tunnur, skonrok 12 tunnur, skipsbrauð 16 tunnur, kökur 97 stykki, stangajárn 495 kíló, eirkatlar 326 kíló, föt eða skálar úr látúni 10 kíló, naglar, skeifur og axir fyrir liðlega 26 dali, sjö til tólf álna löng tré 140 stykki, tréspírur 300 stykki, greniborð 192 stykki, kistur 4 stykki, skrín 8 stykki, lóðir 360 stykki, netagarn í selanætur 55 kíló, sextíu faðma línur 12 stykki, öngultaumar 8.000 stykki, önglar 10.000 stykki, brýni ein tunna, flyðrugarn 8 stykki, klæði af ýmsum gerðum 299 álnir og tvö stykki að auk, léreft 8 rúllur, strigi 5 hundruð, 9 búnt og 5 álnir, ullargarn 10 bæt (?), hattar af ýmsum gerðum 36 stykki, spænskt salt 1 tonn, franskt salt ½ tonn, sápa 1 fjórðungur (þ.e. 5 kíló eða máske fjórðungur úr tunnu), spönsk vín 20 pottar, frönsk vín 240 pottar, franskt brennivín 40 pottar, kornbrennivín 6 tunnur, mjöður 6 tunnur, þýskt öl frá Lübeck 6 föt og 6 tunnur, tjara ein tunna og loks peningar í reiðu fé 325 dalir, og er þá allt talið.[90]

 

Í hverri mjöltunnu áttu að vera 100 kíló[91] svo alls hefur verið skipað upp 12 tonnum af mjöli á Þingeyri árið 1655 og var þetta einkum rúgmjöl. Hafi fjöldi heimila og íbúa á kaupsvæðinu verið svipaður og hálfri öld síðar (sbr. hér bls. 6 og Manntal 1703) þá hafa 35 kíló komið að jafnaði á hvert heimili eða 5 til 6 kíló yfir árið á hvert mannsbarn. Þær tölur sýna vel hversu lítið var um kornmat því fáeinar tunnur af skonroki og skipsbrauði bæta hér litlu við. Kaffi og sykur var ekki enn farið að flytja til landsins um miðja 17. öld og reyndar hófst innflutningur á þeim vörutegundum ekki fyrr en á síðari hluta 18. aldar.[92] Tóbak er heldur ekki nefnt í skránni hér að framan, enda fóru einokunarkaupmenn ekki að flytja það til landsins að neinu marki fyrr en á síðari hluta 17. aldar. Tóbaksnotkun munu Íslendingar fyrst hafa lært af erlendum duggurum hér við land, Hollendingum og Englendingum, á 17. öld. Hjá duggurunum keyptu þá margir tóbak á laun og var það fyrst reykt í brenndum leirpípum.[93]

Skráin hér að framan sýnir að um miðja 17. öld var flutt til Þingeyrar dálítið af brennivíni, víni og öli. Árið 1702 var boðið að 136 pottar skyldu vera í hverri lagartunnu en Skúli fógeti segir það hafa orðið venju hjá kaupmönnum að ekki væru nema 120 pottar í tunnunni.[94] Sé ráð fyrir því gert að 120 pottar hafi verið í hverri brennivínstunnu sem flutt var til Þingeyrar árið 1655 og fjöldi heimila á kaupsvæðinu áætlaður hinn sami og hálfri öld síðar (sbr. hér bls. 6 og 12) þá hafa að jafnaði komið 2,2 pottar af sterku áfengi á hvert heimili það árið og þætti lítið nú til dags. Innflutningur á suðrænum vínum var þó enn minni eða sem svaraði einni þriggja pela flösku á hvert heimili og má ætla að drjúgur hluti af því magni hafi verið messuvín. Af öli og miði bárust 6 föt og 12 tunnur til Þingeyrar árið 1655 en 136 pottar munu hafa verið í hverri öltunnu og tvöfalt meira í hverju fati,[95] svo alls hafa þetta verið um það bil 3.264 pottar af öli og miði eða níu til tíu pottar á hvert heimili. Í heild ættu þessar tölur að gefa sæmilega skýra mynd af áfengisdrykku Vestfirðinga um miðja 17. öld og sýnast bændur varla hafa átt þess kost að drekka frá sér ráð og rænu nema einu sinni til tvisvar á ári og þá auðvitað helst í kaupstaðarferðum og vinnufólk hefur varla fengið dropa af brennivíni en máske ölkrús á jólum.

Eins og fyrr var getið nam verðmæti útfluttra afurða frá Þingeyri aðeins um 55% af verðmæti innfluttra vara árið 1655. Afurðirnar sem héðan voru fluttar út á því ári voru líka harla fábreyttar. Í verslunarbókum er aðeins þetta talið:

 

Skreið (grófur fiskur) 465 vættir eða um 18,5 tonn, saltaðar sauðagærur 110 stykki, sauðakjöt 19 tunnur, nautakjör 3 tunnur, lýsi 5 tunnur, smjör ½ tunna, tólg 156 kíló.[96]

 

Í heild sýnist útflutningur frá Þingeyri hafa verið minni en vænta mátti á þessu ári og má því til stuðnings nefna að frá Patreksfirði var þá flutt út nær tvöfalt meira af skreið. Á Bíldudal fengu kaupmenn þrefalt meira af skreið en á Þingeyri og á Skutulsfjarðareyri var skreiðin litlu minni en á Bíldudal.[97]

Ekki er ætlunin að kynna hér hina ýmsu kaupmenn er sáu um verslunarreksturinn á Þingeyri á einokunartímanum, 1602-1787, en allir áttu þeir heima úti í Danmörku og flestir þeirra sendu aðeins fulltrúa sína hingað til að annast kaup og sölur. Flestir voru kaupmenn þessir vellauðugir. Til marks um það má nefna tvö dæmi.

Á fyrri hluta 17. aldar rak maður að nafni Hans Holst verslunina á Þingeyri og Skutulsfjarðareyri um nokkurt skeið. Hann gaf dóttur sinni 30.000 ríkisdali í heimanmund er hún gekk í hjónaband.[98] Í innanlandsviðskiptum á Íslandi var hver dalur þá og lengi síðan metinn á 30 álnir[99] svo venjulegt kýrverð hefur þá verið 4 dalir (120 álnir). Heimanmundur dönsku kaupmannsdótturinnar hefur því numið 7500 kúgildum eða því sem næst.

Í Eyrarannál segir að árið 1695 hafi borist hingað fréttir af andláti þeirrar víðfrægu höfðingskvinnu Marinar Hansdóttur, ekkju Eiríks Munk er lengi hafði rekið verslun á Þingeyri, Skutulsfjarðareyri og Reyðarfirði. Hún lét eftir sig 35.000 ríkisdali[100] eða sem svaraði 8750 kúgildum.

Dæmin tvö sýna glöggt hvílíkt himindjúp var á milli kotunganna í Dýrafirði annars vegar og hins vegar góðborgaranna dönsku sem hér mökuðu krókinn á verslunarstarfsemi í skjóli einokunar. Á árunum 1662-1683 voru það reyndar tveir borgarstjórar í Kaupmannahöfn sem ráku verslunina á Þingeyri fyrir eigin reikning og hétu þeir Kristófer Hansen og Peder Pedersen.[101]

Fáar heimildir greina frá samskiptum nafngreindra einstaklinga við fulltrúa dönsku einokunarkaupmannanna á Þingeyri á 17. og 18. öld en stöku sinnum urðu dómstólar þó að fjalla um kærumál vegna þeirra samskipta eins og sjá má í Alþingisbókunum.

Árið 1679 var á Öxarárþingi staðfestur héraðsdómur yfir Jóni nokkrum Pálssyni fyrir fémunatöku … úr dönsku húsum á Þingeyri[102] og níu árum síðar lá sami maður aftur undir grun um að vera valdur að vindauga – og húsbroti krambúðarinnar að Þingeyri.[103] Að því sinni komust lögréttumennirnir á Þingvöllum að þeirri niðurstöðu að málið þyrfti frekari rannsóknar við. Hins vegar hikuðu þeir ekki við að úrskurða að þar eð Jón Pálsson væri áður að óskilum kenndur, þá sé hann af valdsmanni rétt til járna tækur, enda sýndist þeim húsbrotið á Þingeyri með þjóflegri aðferð gert verið hafa.[104] Í tiltækum heimildum verður ekki séð hvar Jón Pálsson, sem þarna kom við sögu, átti heima né heldur á hvern veg máli hans lyktaði. Líklega hefur hann verið minni fyrir sér en Snæbjörn Pálsson, bóndi og lögréttumaður á Mýrum í Dýrafirði, sem vorið 1722 lenti í orðasennu við Pétur Arfvidsson Þingeyrarkaupmann og var dæmdur í háar fjársektir fyrir illmæli um kaupmanninn.[105] Frá því máli segir hér nánar á öðrum stað (sjá hér Mýrar) og einnig frá máli bændanna á Gerðhömrum og Fjallaskaga sem árið 1762 voru dæmdir fyrir að plata kaupmanninn á Þingeyri með fölsuðum blautfiskseðlum (sjá hér Gerðhamrar og Fjallaskagi).

Á einokunartímanum mun sjaldan hafa komið nema eitt vöruskip á ári til Þingeyrar.[106] Þeir sem ferðast þurftu milli Íslands og Danmerkur á því skeiði tóku sér þá jafnan far með einhverju þeirra um það bil tuttugu kaupskipa er árlega voru í förum yfir hafið á vegum einokunarkaupmanna. Slíkir farþegar voru þó jafnan aðeins örfáir og flestir úr röðum æðstu embættismanna landsins ellegar námsmenn við Kaupmannahafnarháskóla.

Sumarið 1632 kom Gísli Oddsson út á Þingeyri[107] úr sinni vígsluför og hafði þá um vorið verið vígður Skálholtsbiskup úti í Kaupmannahöfn. Í vígsluferð sinni til Kaupmannahafnar hafði Gísli með sér bænarskrá til konungs frá Alþingi Íslendinga þar sem farið var fram á umbætur á verslunarkjörum landsmanna. Segir sagan að biskupsefni gengi sjálfur með bænarskrána á fund Kristjáns konungs fjórða og lýsti fyrir honum bágum kjörum landsmanna svo kóngur hrærðist við og afturkallaði þær tilskipanir í þágu einokunarkaupmanna er út höfðu verið gefnar ári fyrr.[108] Gísli Skálholtsbiskup gat því borið höfuðið nokkuð hátt er hann steig á land á Þingeyri, kominn úr þessari sinni utanför, og vonandi hefur hann getað glatt prestana í Dýrafirði, þá séra Þorleif Bjarnason á Söndum og séra Bjarna Arnórsson í Alviðru, áður en hann lagði upp í hina löngu reið frá Þingeyri í Skálholt. Um Gísla biskup Oddsson segir í æviskrám að hann hafi verið þokkasæll og lítillátur, kraftamaður einn hinn mesti, talinn drykkfelldur en þó farið vel með áfenga drykki.[109] Á öðrum stað er þess getið að Gísli biskup hafi þótt breyskur til öls [110] en hann varð skammlífur og andaðist 45 ára gamall í kór Þingvallakirkju á Alþingi sumarið 1638.[111] Sex ár voru þá liðin frá því hann steig á land á Þingeyri, kominn af konungsfundi og nývígður til Skálholts.

Á síðari hluta 17. aldar var farið að dæma íslenska menn til þrælkunar á Brimarhólmi í Kaupmannahöfn og slíkir sakamenn voru þá og lengi síðan sendir utan með kaupskipunum. Einn úr þeim hópi var Dýrfirðingurinn Guðmundur Pantaleonsson, sem hér er frá sagt á öðrum stað (sjá Grandi), en er hann var færður til skips haustið 1755 hafði Stokkhúsið við Austurvegg í Kaupmannahöfn tekið við af Brimarhólmi sem helsti dvalarstaður íslenskra fanga við Eyrarsund.

Auk kaupskipanna sigldi til Íslands á 17. og 18. öld talsverður fjöldi fiskiskipa, einkum frá Bretlandi, Hollandi og Frakklandi. Mörg þessara skipa stunduðu veiðar úti fyrir Vestfjörðum og áttu sjómennirnir þar um borð margvísleg samskipti við landsmenn þó að ströngum refsingum væri beitt til að hamla gegn viðskiptum við þá. Stundum kom fyrir að Íslendingar tækju sér far með einhverju þessara skipa og sigldu með þeim til landa utan Danaveldis eins og saga Jóns Ólafssonar Indíafara minnir okkur á en hann hélt af landi brott með bresku fiskiskipi árið 1615. Út í skip þetta reri Jón frá Seljadal á Óshlíð við utanvert Ísafjarðardjúp þar sem hann var í veri.[112]

Einn var sá hópur manna sem öðrum fremur tók sér far yfir hafið með erlendum fiskiskipum en það voru strokumenn á flótta undan armi laganna. Einn slíkra var Jón Oddsson, bóndi í Fagurey á Breiðafirði, sem árið 1610 komst í breskt fiskiskip á Dýrafirði og með því til Englands.[113] Hann var kvæntur maður en eignaðist barn með Sigríði Halldórsdóttur, systur konu sinnar. Var talið að þau hefðu fyrirfarið barninu nýfæddu.[114] Áður en samvistum lauk náðu þau Jón og Sigríður að leggja drög að öðru barni en er svo var komið hljópst Jón á brott frá konu sinni og sjö ungum börnum en hafði með sér frilluna.[115] Frá síðustu samverustundum þeirra, endalokum Sigríðar og brottsiglingu Jóns Oddssonar segir svo í Grímsstaðaannál:

 

Þá var drekkt Sigríði Halldórsdóttur í Dalasýslu. Hún var dæmd á Ballarárþingi og drekkt þar í Gerðalæknum. En Jón Oddsson sigldi með engelskum. Þetta bar svo til að hún hvarf frá Leysingjastöðum í Hvammssveit á kveldtíma með Jóni Oddssyni. Gengu þau svo bæði yfir Svínadal og norður í Kollafjörð [í Strandasýslu – innsk. K.Ó.] og héldu sig þar í einum helli nærri Felli til þess þau leituðust við að komast af landinu og komst hann í skip með Engelskum í Dýrafirði en hún var sett á land sakir hennar veikleika því hún var að falli komin og var með öngvitum og örvæntingarorðum. Hún var svo flutt til sýslumannsins, Jóns Magnússonar, og fæddi hún barn, hét Þorleifur. Var síðan drekkt á Ballarárþingi sem fyrr segir. Sagt er Jón hafi gifst í Englandi.[116]

 

Sagan um Jón Oddsson og Sigríði barnsmóður hans sýnir vel hversu miklu torsóttara var fyrir konurnar en karlana að sleppa undan grimmilegum ákvæðum Stóradóms um refsingar fyrir holdleg afbrot. Þrautaganga vanfærrar og vesællar konu frá hellinum hjá Felli í Kollafirði yfir þveran Vestfjarðakjálkann til skips í Dýrafirði kom fyrir lítið. Við skipshlið var hún hrakin frá borði en ástmaður hennar sigldi á braut. Hans beið nýtt líf, hennar drekking í köldum lækjarhyl.

Eins og hér hefur verið minnt á voru það bæði prúðbúnir höfðingjar og tötrafólk úr ýmsum áttum sem sást ganga um garða á Þingeyri og víðar í Dýrafirði á 17. öld þegar skip var nýlega komið af hafi eða í þann veginn að sigla á brott.

Hér verður ekki gerð tilraun til að kynna alla þá dönsku kaupsýslumenn sem um lengri eða skemmri tíma áttu hlut að rekstri Þingeyrarverslunar á einokunartímanum. Nokkrir úr þeim hópi hafa þó þegar verið nefndir (sjá hér bls. 6 og 13-14). Margir þessara manna komu reyndar aldrei til Íslands en létu nægja að senda hingað þjóna sína til að mergsjúga almúgann og hirtu sjálfir allan gróðann af verslunarrekstrinum.

Í byrjun 18. aldar stóðu verslunarhúsin á Þingeyri enn auð yfir veturinn eins og m.a. má sjá í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín en þar segir:

 

Þingeyri heitir hér í landinu [þ.e. í landi Sanda – innsk. K.Ó.] við Dýrafjörð, þar sem kaupstaðurinn stendur. Þar hefur nálægt kaupmannsbúðunum fyrir vel 20 árum lítið bæjarkorn verið uppbyggt af kaupmannsins forlagi, til þess að sá sem byggi vaktaði búðirnar og fylgdi þá hér engin grasnautn og lítil enn nú, og má þetta heldur heita tómthús en hjáleiga. Landskuld eður húsaleiga er engin ákveðin, heldur kvittar kaupmaðurinn þessa húsleigu við staðarhaldarann ásamt öðrum átroðningi sem staðurinn líður af kaupstaðnum og kaupstaðarfólkinu. Kvikfé er ekkert nema nokkrar ær og fáeinir sauðir sem vogað er á útigang að mestu leyti og húsmaðurinn hefur frí í staðarlandinu vetur og sumar. En heyskapurinn er hér valla eður ekki teljandi.[117]

 

Lýsing Jarðabókarinnar, sem rituð er árið 1710, ber með sér að búseta hefur hafist á Þingeyri skömmu fyrir 1690 og þá eftir hlé sem ætla má að staðið hafi í nokkrar aldir. Mjög líklegt verður að telja að með því að fá tómthúsmann til að setjast að á verslunarstaðnum hafi Þingeyrarkaupmaður ætlað að koma í veg fyrir innbrot og þjófnað úr búðinni en árið 1688 hafði einmitt verið brotist þar inn eins og hér var áður nefnt (sjá bls. 14). Ekki er alveg víst hvort Andrés Steinólfsson hefur verið fyrsti íbúinn á Þingeyri á síðari tímum en svo mikið er víst að hann var hér búsettur árið 1703, þá 53ja ára gamall með fjögurra manna heimili.[118]

Eins og fram kemur í Jarðabókinni var Andrési ætlað að líta eftir kaupmannshúsunum en fyrir það starf voru síðar á öldinni (1741) greiddar fjórar vættir á ári[119] eða sem svaraði tveimur þriðju hlutum úr kýrverði. Er manntal var tekið árið 1762 virðist enginn maður vera búsettur á Þingeyri[120] og vel má vera að búseta hér hafi verið stopul á árunum 1703-1765. Tvær fjölskyldur hjáleigufólks voru reyndar búsettar í landi Sanda þegar manntalið frá 1762 var tekið[121] og kynni önnur þeirra að hafa hafst við hér á Þingeyri. Líkur á því eru samt ekki verulegar því að hjáleigurnar Stekkur og Sandahús voru báðar alllengi í byggð á átjándu öldinni (sjá hér Sandar) og tæplega með því að reikna að þeir sem gengu frá manntalinu létu nafn verslunarstaðarins ónefnt ef önnur hjáleigufjölskyldan í landi Sanda hefði búið á Þingeyri.[122]

Þegar Árni Magnússon kom í Dýrafjörð ári 1710 til að safna efni í Jarðabókina var Niels Birch kaupmaður á Þingeyri. Hann verslaði hér frá 1706 til 1714[123] en færði sig þá norður á Skutulsfjarðareyri. Þar lenti hann í deilum út af vigt á fiski og ýmsu fleiru en hélt því fram að Markús Bergsson, sýslumaður í Ögri, hefði sýnt verslunarþjónum sínum hið mesta ofstæki og spanað almúgann upp á móti þeim.[124] Skömmu eftir að Niels Birch færði sig til Ísafjarðar tók Peder Arvidsen við stjórn verslunarinnar á Þingeyri. Hann ríkti hér á árunum upp úr 1720 og kallar bústað sinn Dyrefiors Kramboed.[125]

Á árunum 1743-1758 var Hörmangarafélagið danska með alla Íslandsverslun í sínum höndum en flestir landsmenn undu illa hinni mjög svo bágbornu þjónustu þess og afleitum verslunarkjörum sem áttu sinn stóra þátt í því að árið 1757 dóu hér á annað þúsund manns úr hungri og harðrétti.[126] Einmitt á því ári setti Skúli Magnússon landfógeti fram tillögur um nýskipun verslunarmálanna þar sem hann gerði m.a. ráð fyrir að Íslendingar fengju sjálfir verulega hlutdeild í verslunarrekstrinum. Í tillögum hans var ráð fyrir því gert að aðalhafnir á landinu yrðu aðeins fimm og átti Þingeyri að verða ein þeirra en hinar voru Reykjavík, Grundarfjörður, Akureyri og Reyðarfjörður.[127] Hugmynd Skúla var sú að kaupskipin sem fluttu vörur yfir hafið hættu að sigla árlega á 23 eða 24 hafnir víðs vegar um landið en kæmu aðeins á þær fimm hafnir sem hér voru nefndar. Vöruflutninga þaðan á hinar ýmsu úthafnir áttu svo minni skip að annast og með þessu fyrirkomulagi hugðist Skúli spara stórfé. Hann gerði ráð fyrir að föst verslun yrði aðeins rekin á áðurnefndum fimm stöðum og áttu Patreksfjörður, Bíldudalur og Skutulsfjarðareyri að verða úthafnir frá Þingeyri.[128] Af þessu er ljóst að Skúli fógeti vildi gera Þingeyri að verslunarmiðstöð fyrir alla Vestfirði og þar með að eins konar höfuðstað Vestfjarða. Í tillögum hans var gert ráð fyrir að kaupmaður yrði búsettur á Þingeyri árið um kring og þar yrðu jafnan nægar birgðir af matvöru og öðrum nauðsynjum.[129] Á aðalhöfnunum, þar á meðal á Þingeyri, vildi Skúli að sérstakar ráðstafanir yrðu gerðar til að efla fiskveiðar og fiskverkun og jafnframt lagði hann til að erlendir iðnaðarmenn yrðu fengnir til að setjast að á þessum stöðum til að kenna Íslendingum verklag og vinnubrögð.[130]

Óhætt mun að fullyrða að á Þingeyri hefði þéttbýlismyndun hafist mun fyrr en raun varð á ef tillögur Skúla hefðu náð fram að ganga og ef til vill hefði plássið sem hann vildi byggja þar upp náð að festast í sessi sem höfuðstaður Vestfjarða. Hér fór þó á annan veg, enda komu tillögur Skúla hvað þetta varðaði aldrei til framkvæmda. Árið 1759 tók Friðrik konungur fimmti Íslandsverslunina í sínar eigin hendur og var hún rekin á nafni konungs í fimm ár að því sinni og svo aftur í fjórtán ár frá 1774 til 1787. Á árunum 1764 til 1773 var það aftur á móti Almenna verslunarfélagið í Kaupmannahöfn sem annaðist verslunarreksturinn á Íslandi og á aðalfundi þess vorið 1765 var ákveðið að hafa framvegis vetursetumenn eða búfasta kaupmenn á öllum Vestfjarðahöfnunum og víðar um land.[131] Í framhaldi af þeirri samþykkt tóku danskir verslunarstjórar að dveljast á Þingeyri árið um kring en áður var þar ekkert fólk að vetrinum nema stundum einn tómthúsmaður sem ætlað var að líta eftir verslunarhúsunum (sjá hér bls. 17). Til marks um vetursetu danskra verslunarstjóra á Þingeyri á næstu árum má m.a. nefna að í annálum er tekið fram að veturinn 1776 til 1777 hafi verslunarstjórinn hér sent bát norður á Ísafjörð eftir salti (sjá hér bls. 22).

Á árum Almenna verslunarfélagsins (1764-1773) og konungs-verslunarinnar síðari (1774-1787) mun Þingeyrarverslun lengst af hafa verið rekin sem eins konar útibú frá versluninni á Ísafirði og var bókhald beggja þessara verslana þá sameiginlegt allt til ársins 1783.[132] Verslunarstjórinn á Þingeyri var þá oft nefndur undirkaupmaður.

Fyrsti verslunarstjóri konungsverslunarinnar síðari á Þingeyri var Jens Lassen Busch sem árið 1776 fékk hinn stærri silfurpening frá Hinu konunglega danska landbúnaðarfélagi í verðlaun fyrir garðrækt.[133] Árið áður steig Ólafur Olavius í land á Þingeyri og lagði þaðan upp í sína miklu könnunarferð um Vestfirði, sendur af konungi til að kynna sér ástand mála og taka saman greinargerð um hugsanlegar úrbætur í atvinnu- og efnahagsmálum. Olavius kom til Þingeyrar frá Kaupmannahöfn með freigátunni Jægersborg þann 16. júlí 1775 og fór héðan aftur með sama skipi 12. september þá um haustið.[134] Hann segir í Ferðabók sinni að á öllum norðanverðum Vestfjörðum, frá Þingeyri að Geirólfsgnúpi, hafi sumarið 1775 aðeins verið finnanlegir þrír kálgarðar og einn þeirra hjá J. L. Busch, undirkaupmanni á Þingeyri, en hér taldi hann sig líka hafa fundið leifar fornra akra.[135] Um garðræktina á Þingeyri segir Olavius að hér hafi sprottið vel salat, garðablóðberg, mirian, hvítrófur, endivia og neðanjarðar kálrabi (sem munu vera gulrófur – innsk. K.Ó.) en lakar rauðrófur, pétursselja og gulrætur.[136] Hann tekur fram að í garði undirkaupmannsins á Þingeyri hafi kartöflur ekki náð að þroskast og verið örsmáar, enda vanti hæfilegan sand í jarðveginn.[137]

Garðrækt Jens Lassen Busch á Þingeyri bendir til þess að hann hafi verið framfarasinnaður og kom það fram á fleiri sviðum. Ekki er alveg ljóst hversu lengi Busch stjórnaði verslunarrekstrinum á Þingeyri en hann mun hafa hafið störf sem nemi hjá Íslandsverslun Almenna verslunarfélagsins árið 1764 eða því sem næst.[138] Árið 1778 var J. L. Busch enn verslunarstjóri á Þingeyri og á því ári sendi Landbúnaðarfélagið danska honum tvo plóga og eina tunnu af kartöfluútsæði.[139] Sending plóganna bendir til þess að Busch hafi ætlað sér að hefja akuryrkjutilraunir á Þingeyri, enda vitað að slíkar tilraunir voru þá stundaðar bæði í Haga á Barðaströnd og Krossavík í Ketildölum í Arnarfirði.[140]

Árið 1780 fluttist J. L. Busch brott frá Þingeyri en á því ári tók hann við stjórn konungsverslunarinnar á Ísafirði[141] og settist þar að í Neðstakaupstaðarhúsunum sem enn standa. Versluninni á Ísafirði stýrði Busch til ársins 1788 er konungsverslunin var seld og fríhöndlun tók við af einokun.[142] Sex árum síðar festi hann, ásamt félaga sínum, kaup á Neðstakaupstaðarversluninni á Ísafirði, hinni gömlu konungsverslun þar, og ráku þeir hana saman allt til ársins 1818 er Busch seldi sinn hlut í versluninni.[143] Á þeim árum sem Busch var annar aðaleigandi verslunarinnar í Neðstakaupstað var hann jafnan búsettur úti í Kaupmannahöfn[144] en þá hefur komið sér vel sú þekking á aðstæðum hérlendis er hann áður hafði aflað sér. Sigfús Haukur Andrésson skjalavörður, sem manna best hefur kannað alla verslunarstarfsemi hérlendis á árunum 1774-1807, segir um J. L. Busch að hann hafi verið mjög duglegur og slyngur kaupmaður og fjölhæfur að ýmsu öðru leyti.[145]

Á þeim árum sem Busch stýrði verslunarrekstrinum á Þingeyri var farið að flytja til landsins handkvarnir til kornmölunar. Í Djáknaannálum segir svo við árið 1777: Handkvarnir til kornmölunar komu nú í kaupstaði, gaf konungur eitt par til hvörs hrepps af þeim því rúgur og bygg tók nú almennt að flytjast til landsins.[146]

Eins og vænta mátti reyndust kvarnir þessar ekki vera fullkomnar frekar en önnur mannanna verk og fljótlega fór undirkaupmaðurinn á Þingeyri að velta fyrir sér hvernig þær mætti bæta. Um þau efni ritaði Busch í félagsrit Lærdómslistafélagsins en ritgerð hans sem þar birtist heitir: Undirvísan um betri Handquarnar Tilbúning.[147]

Er konungur tók á ný við öllum verslunarrekstri á Íslandi árið 1774 var brátt farið að undirbúa þilskipaútgerð frá nokkrum höfnum á Íslandi á vegum konungsverslunarinnar. Tvær skútur höfðu verið gerðar út stuttan tíma á vegum Innréttinganna í Reykjavík á árunum upp úr 1750 og var það fyrsta tilraunin í slíkum efnum á landi hér ef frá eru taldar skútuveiðar séra Páls Björnssonar í Selárdal um miðja 17. öld. Hjá Innréttingunum hafði skútuútgerðin ekki gengið nægilega vel og tilraun þeirra Ólafs Stefánssonar amtmanns og Thodals stiftamtmanns, sem hófu í félagi útgerð á einu þilskipi árið 1773, rann líka út í sandinn.[148] Með konungsútgerðinni sem hér var rekin á árunum 1776-1786 tókst því í fyrsta sinn að halda þilskipum til veiða frá íslenskum höfnum um alllangt árabil og með marktækum árangri að ýmsu leyti. Fyrsta árið, 1776, voru skipin eingöngu gerð út frá höfnum við Faxaflóa, þar sem Hafnarfjörður var miðstöðin, en á árunum 1777 og 1778 var farið að gera skipin út frá fleiri höfnum, m.a. frá Þingeyri. [149]

Alls voru liðlega 50 þilskip send á Íslandsmið á vegum konungsverslunarinnar á árunum 1776-1780, eða nánar til tekið 36 húkkortur, 13 duggur og 2 litlar snekkjur.[150] Flest munu 42 skip hafa verið send til veiða á einu ári á vegum konungsútgerðarinnar en aflinn mun hafa orðið mestur árið 1778 er nær 100 þúsund fiskar veiddust á 16 skip.[151] Húkkorturnar sem konungsverslunin sendi á Íslandsmið voru 32-47 stórlestir[152] eða 83-122 smálestir en duggurnar voru langtum minni eða 20-50 smálestir.

Ekki liggur nú á lausu vitneskja um hversu mörg þessara skipa voru gerð út frá Þingeyri eða hversu lengi en eitt eða tvö hafa þau að minnsta kosti verið og má ætla að það hafi komið í hlut J. L. Busch verslunarstjóra, sem áður var nefndur, að hafa umsjón með þessari fyrstu tilraun til þilskipaútgerðar frá Þingeyri. Óvíst er hvort nokkrir Dýrfirðingar muni hafa ráðið sig á þilskip konungs á árunum kringum 1780 en Jón Eiríksson konferenzráð segir í ritgerð frá því ári að konungsútgerðin gefi Íslendingum sem ráðnir séu á skipin æfingu í sjómennsku.[153]

Er móðuharðindin dundu yfir árið 1783 lauk blómaskeiði konungsverslunarinnar á Íslandi og er hún hætti störfum fáum árum síðar hurfu síðustu skip hennar af Íslandsmiðum. Þess var þá hins vegar ekki langt að bíða að Bjarni Sívertsen í Hafnarfirði, Ólafur Thorlacius á Bíldudal og fleiri stórhuga Íslendingar hæfu þilskipaútgerð á eigin vegum.

Hér hefur nú verið drepið á ýmsar nýjungar sem allar tengjast veru Jens L. Busch verslunarstjóra á Þingeyri á árunum 1774 til 1780, – garðyrkju, kornmölun og skútuútgerð. Fullvíst má telja að öll þessi nýmæli hafi þótt miklum tíðindum sæta í Dýrafirði þar sem kyrrstaða í atvinnumálum hafði lengi verið ríkjandi eins og víðast hvar annars staðar á landinu. Engar beinar upplýsingar liggja nú á lausu um tengsl Jens Lassen Busch við bændur og búalið á kaupsvæði Þingeyrarverslunar eða það orðspor sem af honum fór. Ljóst virðist þó að undirkaupmaður þessi hafi verið í góðu vinfengi við fólkið á Núpi í Dýrafirði því vorið 1777 léði hann krambúð Danakonungs á Þingeyri undir brúðkaupsveislu er Kristín Jónsdóttir frá Núpi gekk að eiga Jón Arnórsson sýslumann og forstöðumann saltverksins í Reykjanesi við Djúp. Um brúðkaup þetta segir svo í Djáknaannálum:

 

Um vorið [1777] giftist sýslumaður í Ísafjarðarsýslu, Jón Arnórsson, stjúpdóttur Magnúsar Bjarnarsonar á Núpi (þess er útbyrðis datt), Kristínu Jónsdóttur. … Vígsla þeirra og veisla fram fóru í búð Þingeyrarkaupmanns. Morgungjöf 120 ríkisdalir.[154]

 

Orð annálaritarans sýna að reyndar var það ekki bara brúðkaupsveislan sem haldin var í krambúðinni heldur fór þar líka fram sjálf hjónavígslan en ætla má að slíkt hafi verið harla fátítt. Ekki er ólíklegt að hjálpsemi J. L. Busch við brúðhjónin megi að einhverju leyti skýra með vinfengi við Magnús Björnsson á Núpi, stjúpföður brúðarinnar, en hann féll útbyrðis og drukknaði um veturinn fáum vikum eða mánuðum fyrir brúðkaupið.[155] Magnús var þá á heimleið frá Ísafirði en þangað hafði hann farið til að sækja salt fyrir Busch.[156] Engan þarf því að undra þó að undirkaupmaðurinn á Þingeyri hafi viljað gera vel við dóttur ekkjunnar á Núpi. Þess er líka vert að geta að Magnús Björnsson, sem útbyrðis datt, var af gróinni höfðingjaætt sem búið hafði á Núpi nær samfellt allt frá miðri 16. öld er Þorlákur Einarsson, bróðir Gizurar biskups í Skálholti, settist þar að. Kunnastur úr þeirri röð Núpsbænda er að líkindum Jón Gizurarson, lögréttumaður og fræðimaður góður, sem uppi var á fyrri hluta 17. aldar, en hann var hálfbróðir Brynjólfs Sveinssonar, biskups í Skálholti, og langalangafi Magnúsar þess er útbyrðis datt.[157]

Kristín Jónsdóttir frá Núpi var 25 ára gömul er hún gekk að eiga Jón Arnórsson sýslumann í krambúðinni á Þingeyri vorið 1777 en hann var 12 árum eldri. Fjögur ár voru þá liðin frá því brúðguminn Jón steig fyrst í land á Þingeyri en hingað hafði hann komið frá Kaupmannahöfn á hafskipinu Frederichshåb í júnímánuði árið 1773 ásamt Conrad Walther konstmeistara og fríðu föruneyti norskra saltkarla.[158] Jón Arnórsson og flokkur hans voru þá á leið í Reykjanes við Djúp, sendir af konungi til að setja þar upp saltvinnslu. Skip þeirra leitaði inn á Þingeyri undan hafís og vel má vera að Jón hafi þá þegar tengst J. L. Busch undirkaupmanni vináttuböndum er síðar stuðluðu að brúðkaupinu í krambúðinni. Hvað sem öðru líður virðist Jón Arnórsson sýslumaður hafa kunnað vel við sig í kaupmannshúsunum á Þingeyri því þar hélt hann jafnan manntalsþing á árunum upp úr 1780,[159] enda þótt hinn formlegi þingstaður væri í Meðaldal. Um miðja 18. öld var enn þingað í Meðaldal (sjá hér bls. Grandi) og flest bendir til þess að Jón Arnórsson hafi fyrstur sýslumanna fært þinghaldið inn á Þingeyri. Sú tilfærsla varð þó ekki varanleg að því sinni og hálfri öld síðar var enn þingað í Meðaldal (sjá hér bls. 45).

Er Jens Lassen Busch hvarf frá Þingeyri til Ísafjarðar árið 1780 tók Nicolai Steenholm við undirkaupmannsstarfinu hér. Hann hafði áður verið undirkaupmaður á Búðum á Snæfellsnesi en á Þingeyri varð saga hans stutt því árið 1783 var honum vikið frá starfi.[160] Á því ári var Þingeyrarverslun gerð að bókhaldslega sjálfstæðri rekstrareiningu en hafði áður verið tengd versluninni á Ísafirði um nokkurt skeið (sjá hér bls. 19).

Síðasti verslunarstjóri konungsverslunarinnar á Þingeyri var Henrik Henkel sem tók við því starfi árið 1783 og gegndi til 31. desember 1787.[161] Á þeim árum var unnið að strandmælingum í Dýrafirði og undirbúin gerð sjókorta. Árið 1786 var Poul Löwenörn sjóliðsforingi sendur í Íslandsleiðangur og var Chr. Th. Egede einn leiðangursmanna.[162] Hann hafði hér vetursetu og rannsakaði ásamt Rothe lautinant bæði Dýrafjörð og Skutulsfjörð.[163] Poul Löwenörn sjóliðsforingi ritaði síðan bók um vesturströnd Íslands til leiðbeiningar fyrir sæfarendur og fylgir þar með í viðbæti lýsing einstakra hafna.[164]

Árið 1742 voru hér á verslunarstað Dýrfirðinga fjögur hús, krambúð, beykishús, pakkhús og torfkofinn sem hinn íslenski vaktmaður bjó í.[165] Af þessum húsum var pakkhúsið stærst og verðmætast.[166] Nærri lætur að grunnflötur þess hafi verið 11,5 x 6,3 metrar.[167] Í norðurenda þess var sérstakt afþiljað herbergi sem verslunarstjórinn bjó í á kauptíðinni.[168] Pakkhúsið var byggt árið 1735 og sjö árum síðar var það virt á 285 ríkisdali.[169] Beykishúsið var 7,5 x 5,2 metrar og virt á 84 ríkisdali árið 1742 en krambúðin var 11.3 x 4,2 metrar og komin til ára sinna því hún var aðeins virt á 50 ríkisdali.[170] Í því húsi var þó bæði kjallari og loft.[171] Torfbæinn, sem íslenski vaktmaðurinn bjó í, átti verslunin aðeins að hálfu og var sá eignarhluti virtur á 1 ríkisdal og 64 skildinga árið 1742.[172]

Árið 1757 byggðu Hörmangarar nýja krambúð hér á Þingeyri[173] og

hvarf hún ekki af sjónarsviðinu fyrr en 1940 en þá var hún rifin.[174] Hús þetta var múrað í binding, 12,5 x 6,3 metrar að flatarmáli eða því sem næst.[175] Árið 1787 voru geymslur í norður- og suðurenda en sölubúðin í miðju húsinu.[176]

Á árum konungsverslunarinnar síðari, 1774-1787, voru átta ný hús reist í grennd við krambúðina[177] en við lok þess tímabils voru aðeins tvö af gömlu húsunum enn í notkun, pakkhúsið frá 1735 og krambúðin frá 1757.[178] Húsin sem konungsverslunin byggði á Þingeyri voru þessi:

 

 1. Íbúðarhús fyrir verslunarstjóra (faktorshús), byggt 1775, múrað í binding, grunnflötur 12,5 x 6,3 metrar. Í því voru árið 1787 tvær stofur, lítið herbergi, eldhús og borðstofa en liðlega einn þriðji partur af húsinu var þá notaður sem geymsla.
 2. Lítið geymslu hús 2,4 x 1,9 metrar að grunnfleti, byggt 1776.
 3. Hús byggt úr torfi árið 1777, ætlað til öl- og brauðgerðar. Stærð 5 x 3,7 metrar.
 4. Bjálkabyggt pakkhús reist 1778, 12 x 7,5 metrar að stærð. Í húsinu voru árið 1787 tvær saltgeymslur. Við austurenda þess var eldiviðarskúr og annar lítil skúr við hinn endann.
 5. Verkamannahús byggt árið 1782. Veggir úr torfi en þiljað innan. Stærð 6,9 x 4,4 metrar. Í suðurenda var árið 1787 stofa beykis með lokrekkju og þéttu fjalagólfi. Annað herbergi var í norðurenda og á loftinu tvær vistarverur fyrir verkamenn. Á þessu húsi voru fimm litlir gluggar, fimm dyr og við einn innganginn var forstofa.
 6. Fisksöltunarhús byggt 1784.
 7. Íbúðarhús fyrir verslunarþjóna, byggt 1785. Stærð 11,3 x 8,5 metrar. Þetta var torfbær með timburgöflum og þiljaður innan að talsverðu leyti. Ein stofa var í suðurenda, önnur í norðurenda og gangur á milli þeirra.
 8. Bjálkabyggt pakkhús reist 1786. Grunnflötur 12,5 x 6,3 metrar. Undir nokkrum hluta þess var kjallari og hann þiljaður innan.

 

Allt sem hér hefur verið sagt um þessi átta hús er byggt á skýrslu frá árinu 1787 en hún fylgir bréfi Ólafs Erlendssonar, fyrrum lögsagnara, til stiftamtmanns, dagsettu 15. október á því ári og hér var áður vísað til.

Af átjándu aldar húsunum á Þingeyri stóðu þrjú lengst, krambúðin frá 1757, sem var rifin 1940, faktorshúsið frá 1775, sem var rifið 1946,[179] og salthúsið frá 1778 sem tekið var niður fyrir nokkrum árum og er nú í vörslu Þjóðminjasafns Íslands en fyrirhugað er að reisa það að nýju. Í gamla faktorshúsinu bjuggu verslunarstjórarnir allt til ársins 1895 en þá var reist nýtt faktorshús.[180]

Þann 1. janúar 1788 gekk í gildi tilskipun um afnám verslunar­einokunar á Íslandi og frelsi allra þegna Danakonungs til að reka hér verslunarstarfsemi að eigin vild. Jafnframt var landsmönnum veitt frelsi til að skipta við hvaða kaupmann sem vera skyldi ef hann aðeins væri þegn Danakonungs. Tók þá við tímaskeið sem oft hefur verið kennt við fríhöndlun og stóð til ársins 1855 er verslunin var gefin algerlega frjáls og landsmönnum þar með veitt heimild til að eiga viðskipti við þegna annarra ríkja.

Er fríhöndlunin tók við af gömlu einokuninni árið 1788 hætti konungsverslunin allri starfsemi á Íslandi og eignir hennar víðs vegar um landið voru seldar hinum ýmsu sjálfstæðu kaupmönnum er tóku við verslunarrekstrinum. Margir þeirra komu úr hópi fyrrverandi verslunarstjóra konungs. Hús og innanstokksmuni fengu kaupendur yfirleitt fyrir þriðjung nafnverðs og fyrirliggjandi innfluttar vörur með 20% afslætti.[181]

Þegar eignir konungsverslunarinnar á Þingeyri voru auglýstar til sölu var Ólafur Erlendsson umboðsmaður konungsjarða í Ísafjarðarsýslu og bjó hann í Ytri-Hjarðardal í Önundarfirði (sjá hér Ytri-Hjarðardalur). Í bréfum frá Ólafi sést að hann hafði fullan hug á að kaupa sumt af því góssi sem konungsverslunin á Þingeyri átti er hún hætti störfum og svo virðist sem hann hafi ætlað sér að hefjast handa um fiskverkun og svolítinn verslunarrekstur.

Í bréfi sem Ólafur ritaði stiftamtmanni vorið 1787 leitar hann eftir kaupum á fiskijakt og í öðru bréfi hans til sama embættismanns, dagsettu 15. október 1787, biður hann um að fá ýmsar eignir Þingeyrarverslunar keyptar.[182] Hann nefnir þar elsta pakkhúsið á Þingeyri, það sem byggt var 1735, vörubirgðir, það er kornvörur, timbur og salt, fyrir 100-200 ríkisdali og síðast en ekki síst fiskverkunarplássið sem Þingeyrarverslun hafði komið upp á Flateyri.[183] Allt þetta vildi Ólafur kaupa og einnig tvö hús sem verslunin átti á Flateyri, byggð á íslenskan máta árið 1783, og aðrar eigur hennar þar svo sem járnvigt og nokkrar tunnur af salti.[184] Jaktin sem Ólafur hugðist kaupa var 17-18,5 lestir (þ.e. stórlestir) og hefur því verið 44-48 smálestir (tonn). Í bréfi sínu til stiftamtmanns kveðst Ólafur hafa hug á að nota skip þetta til hákarlaveiða og til að sækja rekavið á Norðurstrandir.[185]

Þeir sem ráðstöfuðu eignum konungsverslunarinnar á Þingeyri munu ekki hafa séð sér fært að fallast á tilmæli Ólafs Erlendssonar og niðurstaða þeirra varð sú að selja Henrik Henkel, sem verið hafði verslunarstjóri á Þingeyri, allar eignir Þingeyrarverslunar.[186] Frá þeim samningum var gengið vorið 1788.[187]

Til að koma undir sig fótunum sem sjálfstæður kaupmaður fékk Henkel 2.500 ríkisdala peningalán hjá sölunefnd konungsverslunarinnar. Haustið 1788 taldist hann skulda sölunefndinni alla þá upphæð og að auk 4.895 ríkisdali fyrir eignirnar sem hann tók við á Þingeyri.[188] Í þeirri upphæð voru stærstu liðirnir innfluttar vörubirgðir fyrir 2.802 ríkisdali og 54 skildinga og húseignir fyrir samtals 1.159 ríkisdali og 25 skildinga.[189] Dugguna Tykkebay, sem fylgdi með í kaupunum, borgaði Henkel hins vegar út í hönd en skip þetta var 47 stórlestir[190] eða um það bil 122 smálestir. Dugguna hefur hann haft í vöruflutningum milli landa.

Henrik Henkel mun hafa verið fæddur árið 1759 eða því sem næst[191] og var af þýskum ættum en þó danskur ríkisborgari.[192] Í prestsþjónustubók frá Holti í Önundarfirði er skráð árið 1800 að systir Henriks Henkel, Anna Magdalene (einnig nefnd Anne Maline) hafi verið frá Kóngsbergi í Noregi (sjá hér Flateyri) og gefur sú staðhæfing vísbendingu um að Henkel kaupmaður hafi líka verið þaðan. Hann kom fyrst til Íslands vorið 1778 og þá sem lærlingur til konungsverslunarinnar á Útstekk við Reyðarfjörð.[193] Þar varð vistin honum erfið og vorið 1780 strauk hann frá Útstekk og flúði á náðir Þorláks Magnússonar Ísfjörð sem þá var sýslumaður á Eskifirði.[194] Þetta brotthlaup virðist þó alls ekki hafa rýrt traust yfirstjórnenda konungsverslunarinnar á hinum unga lærlingi því brátt var hann ráðinn til starfa hjá versluninni á Eyrarbakka[195] og þremur árum eftir strokið gerður að verslunarstjóra á Þingeyri, aðeins 24 ára gamall.

Hér hefur þegar verið greint frá kaupum Henkels á eignum Þingeyrarverslunar árið 1788 en hér rak hann síðan eigin verslun til dauðadags árið 1817 og var frá 1792 með útibú á Flateyri við Önundarfjörð.[196]

Á fyrstu kaupmannsárum Henkels á Þingeyri munu Vestfirðingar enn sem fyrr hafa átt talsverð viðskipti við duggara, enda þótt öll verslun við þegna annarra ríkja væri stranglega bönnuð samkvæmt tilskipun konungs um fríhöndlunina. Í bréfi sem Jón Arnórsson, sýslumaður Ísfirðinga, ritaði Ólafi Stefánssyni stiftamtmanni 6. desember 1790 segir hann að hjá hinum erlendu fiskimönnum kaupi bændur brennivín, síróp, tóbak, fiskilínur og jafnvel grjón í skiptum fyrir vettlinga, sokka, lömb eða veturgamlar kindur.[197]

Eitthvað var líka um verslun lausakaupmanna hér við land á þessum árum en á árunum upp úr 1790 gerðu stjórnvöld ákveðnar ráðstafanir til að hamla gegn verslun þeirra með það í huga að treysta fastakaupmennina í sessi.[198] Árið 1795 var á Alþingi gengið frá bænarskrá til konungs þar sem þess var eindregið farið á leit að veitt yrði frelsi til verslunar við allar þjóðir.[199] Bænarskrá þessi var mjög harðorð í garð kaupmanna og þeir sakaðir um vanhæfni, kúgun og rangsleitni í viðskiptum við landsmenn.[200] Talið var að verslunarkjör færu versnandi og margir fastakaupmenn, sem ekki þyrftu að óttast samkeppni í nálægum byggðum, færðu sér einokunaraðstöðuna í nyt. Undir bænarskrána frá 1795 rituðu nöfn sín flestir sýslumenn landsins og prófastar.[201] Bænarskráin var prentuð í Kaupmannahöfn í ársbyrjun 1797 en ýmsir hinna dönsku kaupmanna, er ráku verslun á Íslandi, brugðust mjög hart við þeim ásökunum er þar voru fram bornar. Í þeirri orrustu sem í hönd fór lét Henrik Henkel Þingeyrarkaupmaður einna mest til sín taka eins og brátt verður frá sagt.

Haustið áður en bænarskráin var prentuð ritaði Henkel sölunefnd gömlu konungsverslunarinnar og kvartaði mjög yfir verslun bænda við hollenska duggara. Í bréfinu hélt hann því fram að á árunum 1795 og 1796 hefði slík launverslun verið hvað mest á sínu kaupsvæði, enda hafi Hollendingar nú gengið svo langt að hafa uppi danskan fána og sýna Íslendingum fölsuð skjöl á dönsku máli þar sem fram hafi verið tekið að verslun væri þeim heimil.[202] Henkel segir þarna að bændur í Vestur-Ísafjarðarsýslu taki mark á þessum skjölum Hollendinganna eða látist taka mark á þeim og fari þess vegna ekki einu sinni í launkofa með viðskiptin við duggarana en geri jafnvel við þá samninga um áframhaldandi viðskipti næsta ár.[203] Athygli vekur að í þessari umkvörtun heldur Henkel því fram að Vestfirðingar greiði Hollendingum ekki aðeins með prjónlesi fyrir varninginn heldur líka með fiski og lýsi.[204]

Sama ár og bænarskrá Íslendinga um fullt verslunarfrelsi var prentuð sendi Henrik Henkel frá sér prentaðan bækling þar sem hann svarar ásökunum Íslendinga á hendur kaupmönnum fullum hálsi. Bæklingur þessi ber nafnið: Aftvunget Svar paa Islændernes almindelige Ansøgning til Kongen om udvidede Handels-Friheder. Í bæklingnum setur Henkel m.a. fram þá kröfu að Jón Ásgeirsson, prófastur í Holti í Önundarfirði, sem skrifað hafði undir bænaskrána, færi sönnur á þær ásakanir í garð kaupmanna er þar voru fram bornar.[205] Henkel minnist á bréf er hann hafi ritað séra Jóni vorið 1796 og hótar að birta það á prenti ef prófasturinn geti ekki lagt fram sannanir fyrir því sem í bænarskránni standi.[206] Úr hópi sýslumanna og prófasta var séra Jón í Holti sá eini sem búsettur var á viðskiptasvæði Henkels og því sá eini af viðskiptamönnum hans sem skrifað hafði undir bænarskrána. Um efni bréfsins sem Henkel hótaði að birta er ekki kunnugt en í bæklingnum gefur kaupmaðurinn á Þingeyri í skyn að þar sé ýmislegt að finna sem varpi ljósi á persónuleika forsvarsmanns kirkjunnar í Holti.[207]

Henkel kaupmaður sýnist hafa verið mjög þokkalega ritfær og prýðilega vígfimur í orðasennum. Í bæklingnum frá 1797 kveðst hann ekki kannast við að hafa neitað nokkrum manni um greiðslu í peningum fyrir afurðir og segir menn jafnvel hafa fengið hjá sér dali og skildinga til að kaupa rit Landsuppfræðingarfélagsins[208] en framkvæmdastjóri þess félags var Magnús Stephensen lögmaður, sem kaupmenn töldu vera sjálfan höfuðpaurinn á bak við bænarskrána um fullt verslunarfrelsi.

Í þessum sama bæklingi Henriks Henkel kemur fram að á árunum 1788-1797 hefur hann aðeins haft eitt 122 smálesta skip (47 commerce lestir) í förum milli landa.[209] Á Þingeyri og Flateyri fengust sum árin ekki afurðir nema í hálft skipið, að hans sögn, og á þessu skeiði fór árleg útflutningsframleiðsla á kaupsvæðinu aldrei fram úr því sem skipið gat borið.[210]

Auk Henkels sendu a.m.k. tveir aðrir Íslandskaupmenn frá sér rit eða bækling árið 1797 til varnar gegn þeim ásökunum er fram voru bornar í bænarskrá Íslendinga um fullt verslunarfrelsi og var annar þeirra Jens Lassen Busch sem áður hafði verið verslunarstjóri á Þingeyri en var nú annar tveggja eigenda Neðstakaupstaðarverslunarinnar á Ísafirði.[211]

Skemmst er frá því að segja að danska stjórnin neitaði algerlega að verða við þeim óskum er fram voru bornar í bænarskránni en sendi embættismönnunum er undir hana höfðu ritað þess í stað þungorða áminningu fyrir tiltækið.[212] Vel má vera að skrif þeirra Henkels og Busch hafi átt nokkurn þátt í að móta hina hörðu afstöðu ráðamanna í danska rentukammerinu en þeim herrum mun hafa þótt lítill auðmýktarbragur á íslensku bænarskránni og var álitið að sumir þeirra hefðu jafnvel talið að þar gætti áhrifa frá frönsku stjórnarbyltingunni.[213]

Árið 1798 sendi Magnús Stephensen, lögmaður og síðar dómstjóri, frá sér nær 300 blaðsíðna rit til varnar íslensku embættismönnunum sem stjórnvöld í Danmörku höfðu vítt fyrir að rita nöfn sín undir bænarskrána. Bók þessi ber nafnið Forsvar for Islands fornærmede Øvrighed, samt for dets almindelige Ansøgning om udvidede Handels-Friheder. Magnús beinir þarna spjótum sínum að kaupmönnum með svipuðum hætti og gert hafði verið í bænarskránni og birtir fjölda bréfa úr ýmsum héruðum landsins þar sem fram eru bornar kvartanir um bág verslunarkjör og margvíslegt ólag í verslunarmálum. Bókin er rituð á dönsku og öll bréfin á því tungumáli í þýðingu Magnúsar eða hjálparmanna hans. Ein vísa sem Eggert Ólafsson, skáld og náttúrufræðingur, orti nokkrum áratugum fyrr er þó birt á íslensku og prýðir hún titilsíðuna. Vísan er svona:

 

Þó að margur upp og aptur

Ísland níði Búða-raptur,

Meira má en qvikinds kjaptur

Kraptur Guðs og Sannleikans.

 

Eitt kvörtunarbréfið sem Magnús lögmaður birtir í þessu riti sínu er til sýslumannsins í Ísafjarðarsýslu, dagsett 24. apríl 1797, og undirritað af fimm hreppstjórum í Mýrahreppi í Dýrafirði.[214] Í íslenskri þýðingu hljóðar bréfið svo:

 

Enda þótt verslunin á Dýrafirði eigi að heita frjáls þá hefur kaupmaðurinn þar, herra Henkel, ráðið einn öllu um verðlag þar, bæði á innfluttum vörum og íslenskum afurðum. Frá ársbyrjun 1794 hefur hann líka tekið vexti af öllum verslunarskuldum sem ekki hafa verið borgaðar upp fyrir áramót. Við vaxtatökuna hefur hann ekkert tillit viljað taka til þess að sumir okkar hafa neyðst til að stofna til skulda hjá versluninni, eingöngu vegna þess að ekki var lengur hægt að fresta endurbyggingu kirkju sem við erum ábyrgir fyrir og var að falli komin en átti ekkert í sjóði. Slíka verslunarhætti er að okkar dómi ekki unnt að líða og þess vegna snúum við okkur í auðmýkt til yðar, veleðla herra sýslumaður, með bón um að þér gerist okkar talsmaður og sjáið um að koma réttum upplýsingum á framfæri við hans hávelborinheit stiftamtmanninn ellegar við amtmann vorn. Við gerum þá kröfu að verða leystir undan þessum verslunarfjötrum, enda erum við sannfærðir um að hans hátign konungurinn sé mótfallinn slíkri framkomu við fátæka þegna hans á Íslandi en meinið er að landsfaðirinn hefur sjálfur ekkert fengið um þetta að vita.

 

Vaxtagreiðslur af verslunarskuldum munu ekki hafa tíðkast á dögum konungsverslunarinnar en á fyrstu árum fríhöndlunarinnar tóku ýmsir kaupmenn að leggja vexti á skuldir viðskiptamanna.[215] Hjá Henkel á Þingeyri munu vextirnir hafa verið liðlega 2% og kvaðst hann hafa tilkynnt um þessa vaxtatöku á manntalsþingi árið 1794.[216]

Svo virðist sem hálfgerður vígamóður hafi runnið á Henrik Henkel er rit Magnúsar Stephensen barst honum í hendur, enda vissi hann sig eiga góðan bakstuðning hjá æðstu stjórnvöldum í Kaupmannahöfn. Hann tók nú að rita nýjan bækling sem kallast mátti andsvar við varnarriti Magnúsar og hóf auk þess málsókn gegn séra Jóni Ásgeirssyni, prófasti í Holti í Önundarfirði, sem undirritað hafði bænarskrána um fullt verslunarfrelsi, og Magnúsi Magnússyni, hreppstjóra á Núpi, sem fyrstur skrifaði undir kvörtunarbréfið frá 24. apríl 1797.[217]

Í stefnu sinni gegn séra Jóni Ásgeirssyni í Holti krafðist Henkel kaupmaður þess að prófasturinn legði fram skilríki fyrir því að hann hefði haft eitthvert umboð til að skrifa undir bænarskrána um fullt verslunarfrelsi sem fulltrúi íbúanna á kaupsvæði Þingeyrarverslunar. Önnur krafa Henkels í þessari stefnu var sú að séra Jóni yrði refsað fyrir meiðyrði nema hann færði sönnur á að ásakanir er fram kæmu í bænarskránni um ólag á verslunarmálunum gætu átt við verslunina á Þingeyri.[218]

Kæra Henkels á hendur prófastinum var tekin fyrir á sérstöku réttarþingi á Mosvöllum 20. júlí 1798. Þar lagði Henkel fram vottorð frá báðum prestunum í Dýrafirði, þeim séra Markúsi Eyjólfssyni á Söndum og séra Jóni Sigurðssyni í Meira-Garði, um að þeir hefðu ekki veitt prófastinum í Holti neitt umboð til að skrifa undir bænarskrána.[219]

Fyrir réttinum hélt séra Jón Ásgeirsson því fram að leikmannadómstóll væri ekki bær um að taka kæruna til meðferðar og yrði klerkaréttur að fella úrskurð um sekt sína eða sakleysi í þessu máli.[220] Annars kvaðst prófasturinn í Holti líta svo á að þeir sem rituðu undir bænarskrána hefðu gert það með tilliti til ástands verslunarinnar á öllu landinu og ættu þeir því allir sem einn að svara sameiginlega til saka.[221] Hann benti og á að þar sem hér væri bæði um geistlega og verslega embættismenn að ræða yrði konungur að setja sérstakan dómstól í málið.[222] Jón Johnsoníus sýslumaður stýrði réttarhaldinu. Niðurstaðan varð sú að taka rök séra Jóns Ásgeirssonar gild og vísa kærunni gegn honum frá en Henkel lét þá í það skína að hann myndi leita réttar síns hjá konungi.[223] Þess skal getið að séra Jón Ásgeirsson í Holti, sem hér kemur við sögu, var faðir Þórdísar á Rafnseyri, móður Jóns Sigurðssonar forseta, og var hún 26 ára heimasæta í Holti þegar Henkel stefndi föður hennar fyrir rétt á Mosvöllum.

Átta dögum eftir réttarhaldið á Mosvöllum var kæra Henkels gegn Magnúsi Magnússyni, hreppstjóra á Núpi, tekin fyrir á réttarþingi að Mýrum í Dýrafirði. Magnús var kærður fyrir að hafa ritað kvörtunarbréf hreppstjóranna í Mýrahreppi sem dagsett var 24. apríl 1797 en bréfið var birt í riti Magnúsar Stephensen er út kom árið 1798 og hér hefur áður verið frá sagt.

Bréf hreppstjóranna var birt hér að framan í íslenskri þýðingu (sjá bls. 29) en undir það voru rituð nöfn allra hreppstjóranna í Mýrahreppi sem  voru Magnús Magnússon á Núpi, Jón Björnsson í Fremri-Hjarðardal, Guðmundur Jónsson í Innri-Lambadal, Gils Jónsson á Sæbóli [224] og Jón Halldórsson á Sæbóli, síðar lengi hreppstjóri í Meðaldal í Þingeyrarhreppi.[225]

Í stefnu sinni á hendur Magnúsi hreppstjóra á Núpi krafðist Henkel í fyrsta lagi þess að Magnús sýndi fram á að hann hefði haft umboð til að setja nöfn allra hreppstjóranna undir kvörtunarbréfið og í öðru lagi að hann færði sönnur á að þær ásakanir er þar væru fram bornar ættu við rök að styðjast.[226]

Við réttarhaldið á Mýrum kom í ljós að Magnús hafði samið bréfið og sett undir það nöfn hinna hreppstjóranna ásamt sínu eigin. Gils Jónsson og Jón Halldórsson könnuðust við að hafa veitt honum heimild til þess en Jón Björnsson og Guðmundur Jónsson kváðust enga slíka heimild hafa gefið.[227]

Magnús á Núpi sagði fyrir réttinum að hann stæði við allt sem sagt væri um verslunarhætti Henkels í kvörtunarbréfinu en þegar ljóst var orðið að hann hafði sett nöfn tveggja hreppstjóra undir bréfið án umboðs frá þeim þóttist Henkel hafa náð á honum taki og tók undir lok réttarhaldsins upp mildari tón en áður.[228] Hann kvaðst nú geta unað því að Magnús yrði aðeins dæmdur í lítilfjörlega sekt til aðvörunar, enda muni einfeldni fremur en mannvonska hafa leitt hann til þess að setja nöfn hreppstjóranna tveggja undir bréfið án þeirra leyfis.[229] Á þetta féllst Jón Johnsoníus sýslumaður, sem 13 árum fyrr hafði gefið út reikningsbók er bar heitið Vasakver fyrir bændur og einfaldlinga, og dæmdi hann Magnús í tveggja kúrantdala sekt til fátækra í Mýrahreppi og til að greiða eitt mark í málskostnað.[230] Athygli vekur að í dómsorðinu tekur sýslumaður reyndar undir orð Henkels kaupmanns um einfeldni Magnúsar á Núpi[231] en ástæðulaust mun vera að taka nokkurt minnsta mark á slíkum ummælum. Magnús Magnússon, sem Jón Johnsoníus dæmdi að kröfu Henkels, var sonur Magnúsar Björnssonar á Núpi sem datt útbyrðis og drukknaði árið 1777 (sjá hér bls. 22). Jón Björnsson, hreppstjóri í Fremri-Hjarðardal, sem hér kom líka við sögu, var hins vegar bróðir hans og því föðurbróðir Magnúsar Magnússonar.[232] Frá Jóni segir hér nánar á öðrum stað (sjá Fremri-Hjarðardalur) en hann var orðinn 67 ára gamall er hann neitaði að hafa veitt Magnúsi frænda sínum leyfi til að setja naft sitt undir kvörtunarbréfið.[233]

Málaferlin gegn séra Jóni Ásgeirssyni í Holti og Magnúsi á Núpi sýna vel að Henkel kaupmaður gat verið harður í horn að taka og manna síst líklegur til undanhalds ef hann taldi að heiðri sínum eða hagsmunum vegið.

Hið sama kemur fram í síðari bæklingnum sem hann skrifaði í þessari lotu og út kom í Kaupmannahöfn árið 1799. Sá bæklingur ber heitið Nødvendig Replik paa endeel af Indholdet i Skriftet kaldet Forsvar for Islands fornærmede Øvrighed m.v. Eins og nafnið ber með sér átti bæklingur þessi að vera svar við riti Magnúsar Stephensen lögmanns sem hér var áður frá sagt og út var gefið ári fyrr til varnar íslensku embættismönnunum er undirritað höfðu bænarskrána um fullt verslunarfrelsi.

Ekki er unnt að rekja hér efni þessara deilurita Magnúsar Stephensen og Henkels kaupmanns á Þingeyri en þess má geta að í bæklingnum frá 1799 birtir Henkel ýmis skjöl og vottorð og leitast með þeim hætti við að færa rök fyrir máli sínu. Eitt vottorðið er frá manntalsþingi á Þingeyri 26. júní 1798 undirritað af fulltrúa sýslumanns og fjórum vottum. Þar er tekið fram að allir sem mættu á því þingi hafi aðspurðir sagt allar ásakanir um vöruskort og okur hjá versluninni á Þingeyri vera tilhæfulausar.[234] Undir vottorð þetta ritar Þórður Þorsteinsson, hreppstjóri á Suðureyri í Súgandafirði, sem var fulltrúi sýslumanns á manntalsþinginu[235] og með honum fjórir hreppstjórar úr Þingeyrarhreppi, þeir Þorvaldur Sveinsson í Hvammi, Ólafur Bjarnason í Haukadal, Eggert Andrésson á Arnarnúpi og Jón Jónsson í Hrauni.[236]

Í greinargerð sem Henkel lagði fram á manntalsþinginu á Þingeyri vorið 1798 heldur hann því fram að hvergi á landinu þurfi fastakaupmenn að sæta annarri eins samkeppni og hann búi við vegna verslunar annarra og á hann þar sjálfsagt bæði við lausakaupmenn og duggara.[237] Allar ásakanir um einokun segir Henkel því vera fjarri lagi.[238] Fullyrðingu hans um að fjöldi lausakaupmanna og duggara með söluvarning hafi verið meiri á Dýrafirði og Önundarfirði en annars staðar á landinu er erfitt að meta. Orð Henkels benda þó eindregið til þess að slík viðskipti hafi verið veruleg þar í fjörðunum því góð skynsemi kaupmannsins hefði aftrað honum frá því að taka svo sterkt til orða á almennum hreppsfundi ef aðeins hefði verið um sáralitla þess konar verslun að ræða.

Eitt hið merkilegasta í bæklingi Henkels frá árinu 1799 eru nokkrar töflur sem þar eru prentaðar og hafa að geyma tölulegar upplýsingar úr verslunarbókum hans. Allar tölur sem þarna eru birtar hefur Henkel látið Jón Johnsoníus sýslumann staðfesta að væru réttar eftir verslunarbókunum.

Ein taflan sýnir heildarupphæð árlegra viðskipta tuttugu nafngreindra manna á árunum 1788-1797 og hversu háar peningagreiðslur sérhver þeirra fékk árlega á þessu tímaskeiði.[239] Í þeim hópi er séra Jón Ásgeirsson með mest viðskipti en heildarúttekt hans var tæplega 124 ríkisdalir að jafnaði á ári.[240] Séra Jón var prestur á Söndum nær allt þetta tímabil en fluttist að Holti í Önundarfirði vorið 1797. Taflan sýnir að séra Jón hefur líka fengið mun meira greitt í peningum hjá versluninni en nokkur hinna eða tæplega 74 ríkisdali á ári að jafnaði en næsti maður innan við 40 ríkisdali.

Eins og hér hefur áður komið fram taldi Henkel kaupmaður sig eiga í stríði við séra Jón er hann gekk frá töflunni til birtingar og þarf vart að draga í efa að með birtingu hennar hefur hann viljað sýna fram á hversu vel hafi verið gert við þennan vanþakkláta prófast. Máske hefur hann líka vel getað hugsað sér að vekja dálitla öfund í garð prófastsins hjá almúganum.

Með mesta árlega úttekt einstakra bænda er koma við sögu á töflunni voru þeir Grímur Guðmundsson í Hrauni og Bjarni Ásbjörnsson í Svalvogum. Heildarúttekt Gríms var liðlega 117 ríkisdalir á ári en heildarúttekt Bjarna um 109 ríkisdalir á ári. Viðskipti Gríms ná að vísu aðeins yfir átta ár því árið 1796 er hann sagður dáinn. Báðir fengu þeir Grímur og Bjarni 30-40 ríkisdali greidda í peningum að jafnaði á ári hverju hjá versluninni eða sem svaraði um það bil þriðjungi af árlegri heildarúttekt þeirra.[241] Er það merkilega hátt hlutfall því yfirleitt var lítið um peninga á þessum árum. Minnt skal á að 4 ríkisdalir voru þá taldir í kýrverðinu[242] og má því segja að árleg verslunarúttekt þeirra bænda sem hvað mest versluðu við Henkel á þessu skeiði hafi numið sem svaraði 25-30 kúgildum.

Í öðrum töflum í sama bæklingi rekur Henkel hvað 91 nafngreindur Dýrfirðingur og 62 nafngreindir Önfirðingar skulduðu verslun hans í lok áranna 1794, 1795, 1796 og 1797. Með fylgja upplýsingar um vaxtagreiðslur af þessum skuldum.[243] Svo virðist sem hér séu allir eða nær allir viðskiptamennirnir teknir með og er býsna fróðlegt að virða fyrir sér skuldaskrárnar. Um skuldalistann úr Önundarfirði verður fjallað hér á öðrum stað en ekki má minna vera en örfá orð fylgi hér um skuldaskrá Dýrfirðinga. Það sem slær í augun er hversu skuldugur séra Jón Ásgeirsson á Söndum og síðar í Holti hefur oftast verið. Að jafnaði skuldaði hann um 95 ríkisdali um hver áramót en ársúttekt hans nam að jafnaði rúmlega 103 ríkisdölum á þessum fjórum árum.[244] Athygli vekur líka að sá maður í Dýrafirði sem alltaf skuldar næst mest við hver áramót er Magnús Magnússon, hreppstjóri á Núpi, sem jafnan var í 50-60 ríkisdala skuld við verslunina á þessum árum. Gegn þessum tveimur mönnum, séra Jóni Ásgeirssyni og Magnúsi á Núpi, hóf Henkel kaupmaður málsókn á árinu 1798 eins og hér hefur áður verið sagt frá, – ekki þó vegna verslunarskulda heldur vegna þátttöku þeirra í opinberri gagnrýni á verslunarhættina. Hins vegar má ætla að þegar komið var í hart hafi Henkel ekki verið óljúft að draga fram í dagsljósið hversu skuldugir þessir tveir herramenn voru við verslun hans. Skuldaskráin sem Henkel lét prenta ber reyndar með sér að séra Jóni hefur auk þess verið sleppt við vaxtagreiðslur þó allir aðrir sem einhver umtalsverð viðskipti höfðu hafi orðið að greiða vexti af skuldum sínum.[245] Til skýringar er nauðsynlegt að taka fram að fyrr á tíð var ekki óalgengt að stórbændur og fyrirmenn af ýmsu tagi nytu betri kjara hjá kaupmönnum en almúginn. Líklegt má svo telja að prófasturinn í Holti og hreppstjórinn á Núpi hafi fengið að skulda meira en aðrir vegna þess að þeir hafi með tilliti til eigna sinna og tekna verið taldir geta staðið undir hærri lánum.

Á árunum 1795-1797 hækkuðu heildarskuldir Dýrfirðinga við verslunina á Þingeyri úr 836 ríkisdölum í 1.147[246] eða um 37% og hefur sú hækkun vafalaust valdið Henkel kaupmanni nokkrum áhyggjum. Í árslok 1797 skulduðu viðskiptamenn verslunarinnar úr Dýrafirði um 14 ríkisdali að meðaltali[247] eða sem svaraði þremur til fjórum kúgildum. Á töflu Henkels má sjá að vextir af þessum skuldum hafa yfirleitt verið um 2%.[248]

Á síðari hluta 18. aldar jókst saltfiskverkun mjög verulega á landi hér. Til glöggvunar í þeim efnum má nefna að árið 1655 var útflutningur á skreið 27 falt meiri en útflutningur á saltfiski og á árunum 1733-1742 var útflutningur á hertum fiski enn tífalt meiri en útflutningur á saltfiski.[249] Á árunum kringum 1780 var saltfiskútflutningur frá Íslandi hins vegar orðinn álíka mikill og útflutningur á hertum fiski.[250] Líklegt er að saltfiskverkun hafi aukist mjög í Dýrafirði og grennd á þeim árum er Jens Lassen Busch var verslunarstjóri á Þingeyri og má í því sambandi minna á að hann sendi bát um hávetur norður á Ísafjörð til að sækja salt (sjá hér bls. 22). Henrik Henkel lagði á sínum kaupmannsárum mikið kapp á að efla saltfiskverkun og sést það best á því að strax á fyrstu árum fríhöndlunarinnar, eða nánar til tekið árið 1790, fór hann þess eindregið á leið að fá að flytja fisk frá Íslandi beint til Miðjarðarhafslanda.[251] Í tilskipun konungs frá 13. júní 1787 um verslunarmálin var kaupmönnum sem búsettir voru á Íslandi bannað að nota eigin skip til beinna flutninga á vörum eða afurðum milli Íslands og landa utan Danaveldis. Fyrirtækjum í Danmörku eða Noregi var ætlað að annast alla slíka flutninga og var Henkel neitað um undanþágu frá þeirri reglu.[252] Taldi hann sig verða fyrir miklu tjóni af þeim sökum.[253] Á árunum kringum 1800 hófust loks beinar siglingar frá Íslandi með saltfisk til Spánar. Ólafur Thorlacius, kaupmaður á Bíldudal, mun hafa orðið einna fyrstur til í þeim efnum en Henkel á Þingeyri hóf slíkar siglingar um svipað leyti.[254] Vegna ákvæða tilskipunarinnar frá 1787 urðu kaupmenn á Íslandi sem stunduðu Spánarviðskipti að tengjast verslunarfyrirtækjum í Danmörku eða Noregi og stóð svo til ársins 1816 en þá fyrst var hérlendum kaupmönnum veitt heimild til að eiga bein og milliliðalaus viðskipti við fyrirtæki og einstaklinga utan Danaveldis.[255]

Meðan Henkel var verslunarstjóri konungsverslunarinnar á Þingeyri á árunum 1783-1787 má ætla að hann hafi verið búsettur á Þingeyri árið um kring (sjá hér bls. 19). Árið 1798 virðist hann líka hafa talist vera búsettur á Þingeyri því í bréfi sem hann ritar þar 29. maí á því ári segist hann vera borgari og búsettur kaupmaður hér í Dýrafirði og einn af íbúum þessarar sveitar.[256] Áður en allsherjarmanntal var tekið þann 1. febrúar 1801 varð hins vegar breyting á í þessum efnum því þá er það Andreas Steenbach verslunarstjóri sem býr á Þingeyri en ekki Henkel sjálfur.[257] Þaðan í frá mun Henkel kaupmaður jafnan hafa verið búsettur úti í Kaupmannahöfn, enda þótt hann ræki verslun sína á Þingeyri ásamt útibúi á Flateyri til dauðadags árið 1817.[258]

Þó að Henkel væri búsettur á Þingeyri alveg fram undir aldamótin 1800 er ekki þar með sagt að hann hafi oft haft vetursetu hér eftir að hann var orðinn eigandi verslunarinnar. Líklegra er að svo hafi ekki verið. Í prestsþjónustubókum Sandaprestakalls má sjá að Daniel Steenbach, sem Henkel gerði skömmu síðar að verslunarstjóra, er kominn til Þingeyrar árið 1789 því að í apríl á því ári er hann vottur við barnsskírn.[259] Ekki er ólíklegt að Daniel og síðar Andreas bróðir hans hafi oft annast verslunarreksturinn á Þingeyri yfir vertrarmánuðina á árunum 1790 til 1800 og síðar sáu þeir lengi um verslunarrekstur Henkels á Þingeyri og Flateyri eins og brátt verður nánar frá sagt.

Haustið 1793 var Henkel kaupmaður sannanlega staddur á Þingeyri í síðari hluta októbermánaðar sem reyndar gæti bent til dvalar hans hér veturinn 1793-1794. Þann 21. október þá um haustið var hann skírnarvottur á Söndum[260] en hafa ber í huga að síðustu skip sem sigldu frá Íslandi lögðu stundum ekki í haf fyrr en mjög langt var liðið á októbermánuð.[261]

Henrik Henkel rak eigin verslun á Þingeyri í nær þrjá áratugi og bendir flest til þess að hagnaður hans af rekstrinum hafi verið verulegur. Kaupverð verslunarinnar og meðfylgjandi vörubirgða fékk hann allt að láni eins og áður var frá sagt er kaupin fóru fram árið 1788. Tólf árum síðar hafði hann greitt lánin upp[262] og segir það ekki litla sögu. Kona Henkels var Charlotta Ísfjörð, dóttir Þorláks Magnússonar sýslumanns á Eskifirði, sem tók upp ættarnafnið Ísfjörð, og Soffíu Erlendsdóttur konu hans.[263] Charlotta var alíslensk en báðir foreldrar hennar voru úr Bolungavík og var hún dótturdóttir Erlendar Ólafssonar, sýslumanns á Hóli. Charlotta var fædd árið 1777 eða því sem næst[264] og mun hafa verið nær tuttugu árum yngri en maður hennar (sjá hér bls. 26). Hún var því enn lítið barn er Henkel flúði tvítugur að aldri á náðir föður hennar á Eskifirði og hér var áður frá sagt (sjá bls. 26). Bróðir Charlottu var Kjartan Ísfjörð er lengi rak verslun á Eskifirði. Þessum mági sínum lánaði Henkel 8.000 ríkisdali árið 1802 og aftur 8.000 ríkisdali árið 1805 [265] en sjálfur hafði hann keypt Þingeyrarverslun fyrir um það bil 5.000 ríkisdali árið 1788 (sjá hér bls. 26). Lánveitingarnar til Kjartans Ísfjörð sýna vel hversu stöndugur Henkel var orðinn eftir nokkurra ára verslunarrekstur á Þingeyri. Svo miklar lánveitingar hljóta reyndar að hafa tryggt Henkel veruleg ítök í versluninni á Eskifirði.

Árið 1792 setti Henkel upp verslunarútibú á Flateyri við Önundarfjörð (sjá hér Flateyri).[266] Útibússtjóri á Flateyri varð þá þegar Daniel Steenbach[267] en hann hafði þá starfað um nokkurt skeið hjá Henkel á Þingeyri (sjá hér bls. 35). Daniel kvæntist 10. október 1793 Önnu Magdalenu, systur Henkels kaupmanns, sem var svaramaður hennar við hjónavígsluna.[268] Við giftinguna er brúðguminn kallaður assistent og faktor.[269] Um verslunarreksturinn á Flateyri er fjallað hér á öðrum stað en þess skal getið að þar hóf Henkel þilskipaútgerð á sínum síðustu árum (sjá hér Flateyri).

Andreas Steenbach Michelsen, sem var faktor á Þingeyri árið 1801, er sagður 26 ára gamall á allsherjarmanntalinu frá því ári.[270] Hann kom fyrst til Þingeyrar nokkru fyrir aldamót, þá um tvítugsaldur. Andreas var yngri bróðir Daniels Steenbach,[271] sem hér var áður nefndur, og munu þeir bræður hafa komið hingað frá Noregi. Daniel var fæddur á Kóngsbergi í Noregi[272] en ættarnafnið Steenbach gæti bent til þýsks uppruna.

Andreas Steenbach kom hingað til lands eigi síðar en sumarið 1796 því á sóknarmannatali úr Önundarfirði frá janúarmánuði 1797 sést að þá er það hann en ekki Daniel bróðir hans sem stýrir verslunarútibúinu á Flateyri.[273] Á þessu manntali er Andreas kallaður faktor, sagður vera 21 árs gamall forstöndugur og vel að sér.[274] Þann 15. júní á sama ári er hann skírnarvottur á Þingeyri þegar Jóhönnu Maríu, dóttur Daniels bróður hans, var gefið nafn.[275] Þessi föðurbróðir barnsins er þá titlaður assistent en þegar Abraham Olsen beykir á Þingeyri gengur í hjónaband haustið 1799 þá er Andreas aftur orðinn faktor eins og sjá má í prestsþjónustubókinni[276] og þá að líkindum á Þingeyri en þar stýrði hann verslunarrekstrinum mörg næstu ár. Þann 1. febrúar 1801 var Andreas Steenbach enn ókvæntur en Lisebet Hansdóttir var þá ráðskona hjá honum.[277] Skömmu síðar gekk hann að eiga Elene Kristine sem þar með fékk ættarnafnið Steenbach og bjuggu þau lengi á Þingeyri. Á árunum 1803-1816 eignuðust þessi faktorshjón 9 börn sem öll fæddust á Þingeyri.[278] Ebenezer Þorsteinsson sem var sýslumaður í Ísafjarðarsýslu frá 1810-1834 og bjó í Ytri-Hjarðardal í Önundarfirði, segir í bréfi frá árinu 1824 Andreas Steenbach hafa verið einn þann besta mann í allri sýslunni.[279]

Svo virðist sem nokkur gleðskapur hafi fylgt þeim Steenbachbræðrum á þeirra fyrstu árum á Þingeyri, a.m.k. ef taka má mark á ritgerð einni sem varðveist hefur í safni Jóns Árnasonar þjóðsagnasafnara. Þar er sú saga höfð eftir Þórdísi Jónsdóttur, móður Jóns Sigurðssonar forseta, að hún hafi milli fermingar og tvítugs verið viðstödd Hoffinnsleik hjá Andreas Steenbach á Þingeyri.[280] Þórdís var fædd árið 1772 og átti heima á Söndum í Dýrafirði frá árinu 1783 og þar til hún fluttist með foreldrum sínum að Holti í Önundarfirði árið 1796 eða 1797. Saga Þórdísar bendir eindregið til þess að á árunum kringum 1790 hafi ungviði á bæjunum í grennd við Þingeyri verið boðið til jólagleði í krambúðinni og Steenbach hinn norski staðið þar fyrir Hoffinnsleik að fornum íslenskum sið en vel má vera að slíkir leikir hafi einnig tíðkast í Noregi. Hér verður hins vegar að gera þá athugasemd að ef til vill hefur það verið Daniel Steenbach en ekki Andreas bróðir hans sem bauð til jólagleði á Þingeyri á unglingsárum Þórdísar því samkvæmt manntalinu frá 1801 var Andreas þremur árum yngri en Þórdís.[281] Daniel Steenbach var hins vegar nokkrum árum eldri en hún og sannanlega kominn til Þingeyrar árið 1789 (sjá hér bls. 35), þá liðlega tvítugur að aldri.[282] Skemmtilegt er til þess að vita að enn skuli hafa verið efnt til vikivakagleði í Dýrafirði um 1790 og það í krambúðinni á Þingeyri, húsi sem stóð á sínum stað allt til 1940. Er Þórdís prestsdóttir á Söndum hélt til gleðinnar á Þingeyri voru reyndar liðin meira en áttatíu ár síðan gripið var til þess ráðs að banna Jörfagleðina í Dalasýslu en sagt var að nítján börn hefðu komið undir í síðasta mannfagnaðinum af þessu tagi sem þar var haldinn. Alla 18. öldina höfðu ýmsir kirkjunnar þjónar barist við að útrýma gleðileikjunum og undir lok aldarinnar var árangurinn orðinn slíkur að víðast hvar máttu hinar fornu danssamkomur heita liðnar undir lok. Einna lengst lifðu þær í Arnarfirði og Dýrafirði og nálægum byggðum. Á árunum milli 1740 og 1750 greindu prestarnir á Rafnseyri í Arnarfirði og Mýrum í Dýrafirði svo frá að enn væri efnt til jólaleikja þar um slóðir þrátt fyrir forboð kirkjunnar[283] og hér er á öðrum stað sagt lítillega frá slíkum vikivökum sem um þær mundir voru haldnir á Sæbóli á Ingjaldssandi (sjá Sæból).

Hoffinnsleiknum sem fram fór í krambúðinni á Þingeyri með þátttöku prestsdótturinnar á Söndum er lýst á þessa leið í áðurnefndri ritgerð úr safni Jóns Árnasonar:

 

Þessi Hoffinnsleikur var þannig lagaður að menn komu saman í stóru herbergi. Voru tveir flokkarnir, karlar í öðrum konur í öðrum. Gengu báðir flokkarnir fram á gólfið og hét sá sem fyrir köllunum réð Hoffinn. Hann segir:

 

Hér ríður Hoffinn,

hér ríður Alfinn,

hér ríða allir Hoffinns sveinar.

 

Þá svarar sú er fyrir meyjunum ræður:

 

Hvað vill Hoffinn?

Hvað vill Alfinn?

Hvað vilja allir Hoffinns sveinar?

 

Mey vill Hoffinn,

mey vill Alfinn,

mey vilja allir Hoffins sveinar.

…………

Og svona er haldið áfram með eitthvað ómerkilegt þar til Hoffinn segir:

 

Gull býður Hoffinn,

gull býður Alfinn,

gull bjóða allir Hoffinns sveinar.

 

Tekur þá hver sína mey og kyssir hana og með því byrjar dansleikurinn.[284]

 

Líklega hafa Dýrfirðingar verið hættir að fara í Hoffinnsleik í krambúðinni á Þingeyri árið 1815 er Ebenezer Henderson, erindreka breska Biblíufélagsins, bar þar að garði á Barnabasmessu, 11. júní. Hann gisti þá eina nótt hjá Andreas Steenbach og Elene konu hans. Um Þingeyri og dvöl sína þar ritar Henderson á þessa leið:

 

Verslunarhúsin eru vel á sig komin og að baki þeim er fallegur umgirtur blettur sem mjög prýðir staðinn og stingur ánægjulega í stúf við skuggaleg fjöllin í kring. Mér var boðið að búa hjá Steenbach, norskum manni, verslunarstjóra fyrir Henkel í Kaupmannahöfn. Hjá honum naut ég hinnar bestu umönnunar og sá hjá honum mikið safn úrvalsbóka er flestar lutu að ýmsum greinum náttúrufræðinnar.[285]

 

Ummæli Hendersons sýna að Andreas Steenbach hefur verið bókamaður og hvað náttúrufræðina varðar má e.t.v. skipa honum á bekk með Jens Lassen Busch, fyrrum factor hér á Þingeyri, sem á sínum tíma var verðlaunaður fyrir að hlúa hér að gróðri (sjá hér bls. 19).

Engin sóknarmannatöl eru til úr Sandaprestakalli frá fyrsta fjórðungi 19. aldar og Þingeyri ásamt flestum bæjum í vestanverðum Dýrafirði vantar í allsherjarmanntalið frá árinu 1816. Í öðrum heimildum er þó unnt að sjá að um aldamótin 1800 og á fyrstu árum 19. aldar hafa oftast verið þrír fastir starfsmenn við verslunina á Þingeyri, það er verslunarstjóri, verslunarþjónn og beykir. Þannig er þetta t.d. á manntalinu frá 1. febrúar 1801 en þá var Andreas Soelberg verslunarþjónn og Abraham Olsen beykir.[286] Báðir voru þeir ungir menn, annar kvæntur en hinn ókvæntur, og bjuggu á heimili Steenbachs verslunarstjóra.[287] Engin önnur heimili voru þá á Þingeyri. Báðir höfðu þeir Steenbachbræður, Andreas og Daniel, verið verslunarþjónar á Þingeyri á fyrstu árum sínum hérlendis og á undan þeim gegndi Jochum Amorsson því starfi[288] en hann var á Þingeyri 1787 og 1789.[289] Jochum var kvæntur íslenskri konu er Steinunn Álfsdóttir hét[290] (sjá hér Flateyri).

Á árunum 1808-1812 var Friðrik Svendsen a.m.k. þrisvar sinnum vottur við barnsskírn eða hjónavígslu á Þingeyri eða Söndum og er þá nefndur assistent.[291] Hann var hálfbróðir Charlottu, eiginkonu Henkels kaupmanns, og má heita fullvíst að Friðrik, sem síðar varð umsvifamikill kaupmaður á Flateyri, hafi á þessum árum verið verslunarþjónn á Þingeyri, þá liðlega tvítugur að aldri. Hugsanlegt væri að vísu að hann hefði komið frá Flateyri til að vera viðstaddur brúðkaup og barnsskírnir í Dýrafirði en svo mun þó ekki hafa verið. Á þessum sömu árum var Jón Jónsson assistent við verslunarútibú Henkels á Flateyri[292] og harla ólíklegt að þar hafi auk verslunarstjórans verið tveir assistentar, enda er nafn Friðriks ekki að finna á því eina sóknarmannatali sem varðveitt er úr Önundarfirði frá þessum árum.

Abraham Olsen, sem var beykir á Þingeyri árið 1801, dó þremur árum síðar, tæplega fertugur að aldri, en við starfi hans tók Peder Nielssen Terslew sem var beykir á Þingeyri á árunum 1805-1814 og máske lengur.[293]

Sagnir herma að þeir Steenbachbræður, Andreas á Þingeyri og Daniel á Flateyri, hafi verið prúðmenni og notið mikilla vinsælda hjá Dýrfirðingum og Önfirðingum.[294] Hér hefur áður komið fram að húsbóndi þeirra, Henrik Henkel kaupmaður, gat verið harður í horn að taka við þá sem leyfðu sér að gagnrýna verslunarhætti hans. Vel má vera að bræðurnir tveir, sem stýrðu verslunum hans vestra um langt skeið, hafi náð að ávinna sér traust margra viðskiptamanna og sætta þá við verslunarkjörin. Til þess gætu bent ummæli séra Þorvaldar Böðvarssonar sálmaskálds, sem prestur var í  Holti í Önundarfirði 1810-1821, en hann mátti á þeim árum ekki heyra það nefnt að sveitungum hans eða öðrum landsmönnum yrði leyft að versla við aðra en þegna Danakonungs. Um þau efni ritaði séra Þorvaldur svo í bréfi til Rasmusar Kristians Rask árið 1816:

 

Mjög þykja oss ískyggilegar þær fréttir sem sumir höndlunarmenn okkar hafa látið út berast í sumar, þ.e. að jöfur ætli að leyfa öllum þjóðum ótakmarkaða höndlun við Ísland. … Þá vildi ég vera burtu héðan. Einasta bótin er að ég vona að þetta sé heldur skakkt hermt og ekki nema á aðra hliðina. Mig langar ekki eftir meiri höndlunarfríheitum en við höfum notið bæði í sumar og í fyrra og hefi þá trú að ásigkomulag vort að svo stöddu leyfi þau ekki stærri.[295]

 

Það hefði glatt eiganda Dýrafjarðarverslunar að heyra þennan tón frá Holti en óvíst er hvort honum hafa borist fréttir af viðhorfum séra Þorvaldar. Reyndar andaðist Henkel kaupmaður árið 1817,[296] nokkrum mánuðum eftir að séra Þorvaldur festi á blað þau orð sem hér var síðast til vitnað.

Er Henrik Henkel andaðist var hann hátt á sextugsaldri en kona hans, Charlotte Amalie, fædd Ísfjörð, nær tuttugu árum yngri (sjá hér bls. 36) og því enn í blóma lífsins. Fyrsta árið eftir dauða Henkels voru verslanir hans á Þingeyri og Flateyri reknar á hennar nafni eða dánarbúsins en 1. júní 1819 seldi hún allar eignir eiginmanns síns í Dýrafirði og Önundarfirði.[297] Kaupendur eignanna voru fjórir. Er þar fyrst að nefna Andreas Steenbach, sem lengi hafði verið verslunarstjóri á Þingeyri, og Daniel Steenbach bróður hans, verslunarstjóra á Flateyri, en hinir tveir voru Friðrik J. Svendsen og Christian Michael Steenbach á Flateyri.[298] Allir voru þessir menn í fjölskyldutengslum innbyrðis og/eða við ekkjuna sem seldi þeim eignirnar. Friðrik var hálfbróðir hennar, Daniel hafði verið kvæntur mágkonu hennar, Andreas var bróðir Daniels en Christian Michael var sonur Daniels.

Það sem fjórmenningarnir keyptu voru verslunarhúsin á Þingeyri og Flateyri ásamt verslunaráhöldum, vörubirgðum og útistandandi skuldum. Einnig fylgdu með í kaupunum nokkrir jarðapartar, hafskipið Tykkebay, sem Henkel hafði keypt af konungsversluninni rösklega 30 árum fyrr (sjá hér bls. 26), og skonnorturnar Charlotte og Henriette ásamt veiðarfærum og búnaði.[299] Hafskipið Tykkebay, sem notað var til vöru- og afurðaflutninga milli landa, var 122 smálestir (47 stórlestir) en skonnorturnar tvær 36 og 39 smálestir (14 og 15 stórlestir).[300] Þær hafði Henkel kaupmaður látið gera út frá Flateyri á sínum síðustu árum (sjá hér Flateyri). Vera má að á sínum síðustu æviárum hafi Henkel einnig átt verslunina á Patreksfirði og að sú verslun hafi fylgt með í umræddum viðskiptum árið 1819.[301]

Vegna kaupanna á öllum þessum eignum gáfu fjórmenningarnir út skuldabréf þann 24. júní 1820 þar sem þeir viðurkenna að skulda ekkjunni 31.000 ríkisdali í reiðu silfri sem séu eftirstöðvar af kaupverðinu.[302] Ekki er ljóst hvert kaupverðið hefur verið en gera má ráð fyrir að auk skuldabréfsins hafi ekkjan fengið einhverja greiðslu út í hönd sem þó kynni að hafa verið óveruleg. Árið 1820 voru um það bil 32 ríkisdalir í kýrverðinu[303] svo greinilegt er að kaupverðið hefur a.m.k. svarað til um það bil 1000 kúgilda sem þá var býsna há tala. Af skuld sinni við kaupmannsekkjuna lofuðu fjórmenningarnir að greiða 4% vexti á ári en afborgunarskilmálar voru rýmilegir.[304]

Þann 29. mars árið 1838 gaf Charlotte Amalie, ekkja Henkels, sem þá var orðin herforingjafrú í Kaupmannahöfn, út yfirlýsingu sem færð var inn í veðmálabók sýslumannsins í Ísafjarðarsýslu. Þar kemur fram að henni hafa þá verið greiddir nær 15.000 ríkisdalir eða tæpur helmingur af skuldinni sem til var stofnað við kaup á verslununum á Þingeyri og Flateyri 19 árum fyrr.[305]

Félagsskapur fjórmenninganna sem keyptu eignir Henkels á Þingeyri og Flateyri árið 1819 stóð ekki lengi. Árið 1823 var Flateyri löggilt sem verslunarstaður og um það leyti mun Friðrik J. Svendsen hafa orðið einkaeigandi verslunarinnar þar[306] (sjá hér Flateyri) en Daniel Steenbach, sem lengi hafði verið faktor á Flateyri, andaðist þar 1. desember 1823.[307] Tæplega hálfu ári síðar, vorið 1824, dó bróðir hans, Andreas Steenbach, tæplega fimmtugur að aldri, en hann hafði þá stýrt verslunarrekstrinum á Þingeyri í aldarfjórðung.[308]

Er Andreas Steenbach andaðist var Niels M. Steenbach sonur hans 21 árs að aldri, fæddur 27. apríl 1803.[309] Hann var fæddur á Þingeyri og hafði alist hér upp hjá foreldrum sínum, fermdur í Sandakirkju vorið 1817.[310] Um tvítugsaldur mun Niels hafa dvalist í Danmörku um skeið því 1825 eða máske 1826 kemur hann til Þingeyrar frá Svendborg á Fjóni.[311] Hann tekur þá við stjórn verslunarrekstursins á Þingeyri að föður sínum látnum og situr þar við stjórnvölinn æ síðan næstu þrjá áratugi ef frá eru talin árin 1835-1840 en þá var hann á Flateyri (sjá hér Flateyri).

Er Niels Steenbach kom heim til Þingeyrar um 1825 er hann kallaður kaupmaður[312] og svo er hann einnig nefndur í sóknarmannatali frá árinu 1829 eða 1830.[313] Ætla má að Niels hafi tekið við eignarhlut föður síns í Þingeyrarverslun að honum látnum. Hugsanlegt er að Friðrik Svendsen hafi sleppt sínum hlut í versluninni á Þingeyri á árunum 1823/1824, er hann varð einkaeigandi Flateyrarverslunar, og hið sama kynni að hafa verið uppi á teningnum hvað varðar Christian M. Steenbach, sem árið 1824 gerðist kaupmaður á Patreksfirði.[314] Full vitneskja liggur þó ekki fyrir í þessum efnum og því óljóst hvort Niels Steenbach hefur aðeins átt hlut í versluninni á Þingeyri eða verið þar einkaeigandi um skeið. Hvað sem því líður er ljóst að Niels hefur ekki verið eigandi verslunarinnar nema nokkur fyrstu árin sem hann stýrði rekstrinum á Þingeyri. Á manntali frá 2. febrúar 1835 má sjá að hann er þá ekki lengur kaupmaður heldur bara faktor[315] sem bendir eindregið til þess að eignarhlutur hans hafi þá enginn verið eða  mjög óverulegur.

Skömmu síðar var Þingeyrarverslun seld eins og hér verður brátt nánar frá sagt og þá var Niels Steenbach ekki seljandinn heldur herforingjafrúin Charlotta Michaelsen sem reyndar var mágkona hans og áður hafði verið gift Henrik Henkel, eiganda Þingeyrarverslunar.[316] Eins og áður var frá greint var það Charlotta sem árið 1819 seldi föður Nielsar Steenbach og þremur öðrum verslanirnar á Þingeyri og Flateyri og tók þá að sjálfsögðu veð í eignunum. Vel má vera að hún hafi á árunum upp úr 1830 hirt Þingeyrarverslun á ný upp í skuldir og er það reyndar líklegasta skýringin á því að hún skuli selja þessa sömu verslun tvívegis, fyrst 1819 og svo aftur 1838.

Niels Steenbach lét af verslunarstjórastarfi á Þingeyri vorið 1835 eða máske þá um haustið. Svo mikið er víst að í lok október það ár var hann fluttur til Flateyrar og orðinn verslunarstjóri þar.[317] Á Flateyri var Niels verslunarstjóri í fimm ár en tók þá aftur við sínu fyrra starfi á Þingeyri og stjórnaði verslunarrekstrinum hér fyrir nýjan eiganda frá haustinu 1840 til ársins 1855.[318] Alls var Niels Steenbach kaupmaður og síðan  verslunarstjóri á Þingeyri í 25 ár eða því sem næst frá 1825 til 1835 og svo aftur frá 1840 til 1855. Hann var kvæntur Málfríði Jónsdóttur (stundum nefnd Málmfríður) sem var 16 eða 18 árum eldri en eiginmaðurinn[319] og voru þau gefin saman í Holtskirkju í Önundarfirði vorið 1827.[320] Málfríður var þá ekkja, sögð 42ja ára gömul.[321] Hún var dóttir Jóns Sveinssonar, sýslumanns á Eskifirði, og konu hans, Soffíu Erlendsdóttur frá Hóli í Bolungavík, og því alsystir Friðriks J. Svendsen, kaupmanns á Flateyri, en  hálfsystir Charlottu Ísfjörð sem átt hafði Henrik Henkel Þingeyrarkaupmann og varð síðar herforingjafrú.[322]

Þau Málfríður og Niels Steenbach virðast hafa verið barnlaus en ólu upp dótturson Málfríðar, Guðmund Lambertsen, sem fæddur var árið 1834 eða því sem næst.[323]

Á þeim árum sem Niels Steenbach stýrði versluninni á Þingeyri var hann yfirleitt eini fasti starfsmaður hennar.[324] Þetta var ólíkt því sem verið hafði á árunum kringum aldamótin 1800 þegar bæði verslunarþjónn og beykir voru jafnan búsettir á Þingeyri auk verslunarstjórans (sjá hér bls. 39). Alltaf var eitthvað um vinnufólk hjá Niels Steenbach en heimili hans var löngum það eina á Þingeyri.[325] Stundum voru hér þó líka húshjón með grasnyt og þegar manntal var tekið 2. nóvember 1845 býr hér einhleypur daglaunamaður, Ólafur Bjarnason að nafni.[326]

Er Niels Steenbach lét af störfum verslunarstjóra á Þingeyri árið 1855 var hann 52ja ára gamall. Hann fór þá fyrst að Söndum til séra Jóns Sigurðssonar og er kallaður húsmaður þar á manntali frá 1. október á því ári.[327] Skömmu síðar mun hann hafa flust til Reykjavíkur ásamt Málfríði konu sinni og þar eru þau haustið 1860 í Austurstræti 4 hjá fóstursyni sínum, Guðmundi Lambertsen, sem þá er á manntali sagður vera kaupmaður og ölbruggari,[328] en Guðmundur rak lengi verslun í Reykjavík.[329]

Hér var þess áður getið að upp úr 1835 hefði Þingeyrarverslun skipt um eigendur er herforingjafrúin Charlotta Amalia Michaelsen, fædd Ísfjörð, seldi hana öðru sinni (sjá bls. 42). Sá sem keypti verslunina af Charlottu var P. C. Knudtzon, stórkaupmaður í Kaupmannahöfn,[330] sem rak verslun í Reykjavík frá 1814-1864. Hann var líka um skeið með verslunarrekstur í Hafnarfirði, Keflavík og Vestmannaeyjum og umsvifamestur allra danskra Íslandskaupmanna á fyrri hluta 19. aldar.[331] Í Reykjavík lét P. C. Knudtzon m.a. byggja gömlu bakarahúsin[332] sem enn standa þar en við þau var kennd Bakarabrekkan sem nú heitir Bankastræti.

Kaupsamningur Charlottu og P. C. Knudtzons gróssera var undirritaður 7. mars 1836 og 28. febrúar 1838 afsalaði hún öllum eignum sínum í Dýrafirði í hans hendur.[333] Er þrír mánuðir voru liðnir frá undirritun afsalsins seldi P. C. Knudtzon hins vegar þessar sömu eignir ungum og upprennandi verslunarmanni er hét fullu nafni Hand Edvard Thomsen og hafði nokkrum árum fyrr verið verslunarstjóri fyrir Knudtzon í Vestmannaeyjum.[334]

Ætla má að P. C. Knudtzon hafi aldrei hugsað sér að reka verslun á Þingeyri en tekið að sér að kaupa fyrirtækið fyrir unga manninn sem verið hafði starfsmaður hans. Allar líkur benda til að H. E. Thomsen hafi reyndar verið náinn ættingi fyrri konu P. C. Knudtzons en hún var dóttir Jess Thomsen, kaupmanns í Nordborg á eynni Als við austurströnd Suður-Jótlands. Sá Thomsen hóf fyrstur allra Thomsena verslunarrekstur á Íslandi og fékk árið 1792 útmælda lóð við núverandi Hafnarstræti í Reykjavík þar sem P. C. Knudtzon tók síðar við verslunarrekstrinum af tengdaföður sínum.[335] Eins og Marie Thomsen er varð eiginkona P. C. Knudtzons, var H. E. Thomsen fæddur í þorpinu Nordborg á Als[336] svo þau voru úr sama byggðarlagi og með sama ættarnafn.

Þau vensl verða ekki könnuð nánar að sinni en svo mikið er víst að árið 1836 kemur Edvard Thomsen strax vestur á Þingeyri og tekur hér við verslunarrekstrinum (sjá hér bls. 48-49) og hér er hann nefndur kaupmaður haustið 1837[337] þó að ekki væri gengið með formlegum hætti frá kaupum hans á Þingeyrarverslun fyrr en 31. maí árið 1838 er P. C. Knudtzon gaf út afsal fyrir eigninni.[338] Kaupverðið, sem var 2.625 ríkisdalir í reiðu fé og samsvaraði nær 100 kúgildum, hafði þá verið greitt að fullu og var afsalinu sem P. C. Knudtzon undirritaði þinglýst í Meðaldal 1. júní 1839.[339]

Húseignir Þingeyrarverslunar sem H. E. Thomsen keypti árið 1838 voru þessar: 1. íbúðarhús, 2. krambúð, 3. beykishús, 4. þrjú pakkhús, 5. nokkur smærri hús,[340] líklega torfkofar. Krambúðin gamla var rifin árið 1940 og íbúðarhús faktorsins 1946 svo sem fyrr var getið.[341] Hér var áður gerð grein fyrir húsum Þingeyrarverslunar árið 1787 (sjá bls. 23-24). Íbúðarhúsið, krambúðin, beykishúsið og a.m.k.  eitt pakkhúsanna sem Thomsen keypti 1838 voru hin sömu og hér stóðu 50 árum fyrr.

Er H. E. Thomsen, sem reyndar var jafnan nefndur Edvard Thomsen, keypti Þingeyrarverslun fylgdu auk húsanna með í kaupunum vörulager og verslunaráhöld svo og inneignir hjá viðskiptamönnum og ellefu hundruð í jörðinni Hvammi í nágrenni versunarstaðarins.[342] Í tíundarskýrslu frá haustinu 1836 er hann reyndar strax talinn eigandi að þessum ellefu hundruðum í Hvammi[343] og styrkir sú staðreynd þá tilgátu að P. C. Knudtzon hafi aldrei átt verslunareignirnar í Dýrafirði nema að nafninu til.

Edvard Thomsen sem keypti Þingeyrarverslun á árunum 1836-1838 átti hana lengi eða allt til ársins 1866 er hann seldi hana Niels Christian Gram (sjá hér bls. 77-78). Thomsen var um þrítugt er hann eignaðist verslunina en nær sextugur er hann lét hana af hendi. Hann var fæddur 6. júlí 1807,[344] sonur Nicolajs Henrichs Thomsen sem var skipstjóri og kaupmaður, fyrst í Haderslev en síðan í Nordborg.[345] Edvard Thomsen hóf mjög ungur verslunarstörf á Íslandi. Liðlega tvítugur var hann um skeið verslunarmaður í Hafnarfirði[346] en sýnist þó hafa verið með annan fótinn í Reykjavík.

Á árunum kringum 1830 bjó frú Margrét Knudsen með börnum sínum í Landakoti í Reykjavík en hún var þá ekkja eftir Lauritz Michael Knudsen kaupmann. Dætur hennar fimm voru þá að vaxa úr grasi og þóttu einhverjar fegurstu ungmeyjar í Reykjavík. Ein þeirra var Christiane Dorothea, fædd 9. október 1814. Margir æskumenn lögðu leið sína í Landakot. Einn þeirra var Edvard Thomsen en annar Jónas Hallgrímsson sem á árunum 1829-1832 var skrifari hjá Ulstrup land- og bæjarfógeta, þá ósigldur stúdent. Í bréfum frá þessum árum má sjá að Jónas bar ástarhug til Kristjönu Knudsen í Landakoti og vandi þangað komur sínar. Hann gekk þá á bláum kjól með gylltum hnöppum og þótti hinn glæsilegasti[347] en náði þó ekki að sigra meyjarhjartað. Á þessi fornu ástamál listaskáldsins góða er minnst hér og þar í samtímabréfum en nákomnasta heimildin er bréf sem einkavinur Jónasar, Lárus Sigurðsson frá Geitareyjum, ritaði honum 11. maí 1831. Lárus, sem líka hafði verið heimagangur í Landakoti, var nú kominn til Kaupmannahafnar og er augljóslega að svara því sem Jónas hefur skrifað honum um hug sinn til Kristjönu. Lárus ritar:

 

Ég veit ekki hvört ég má nokkuð tala við þig um hana Chjönu þína, því ef ég lasta hana þá stopparðu á mér munninn eins og hinum durgnum sem þú náðir til en ef ég heldur hæli henni, þá mætti þér sýnast sem ég vildi tæla þig í það net sem ég svo bolal [ega] flækti mig í. … Ég þekkti litlu Chjönu og man enn hvað góð aumingja stúlkan var mér þegar hún vissi hvað systirin hafði gjört mér og á fleiru þekkti ég hjartað hennar.

… Kærðu þig bölvaður, láttu engan Skrupel halda þér frá að festa þér unnustu þíns hjarta þegar þú elskar hana, góði besti Jónas. Óvíst er að hún fái annan sem ríkari er um lán og lukku, aumingja stúlkan litla, þitt góða barn.[348]

 

Jóhann Halldórsson frá Mel í Miðfirði, sem kallaður var de Spredrevento og síðar drukknaði í síkjum Kaupmannahafnar, var skrifari stiftamtmanns í Reykjavík á árunum 1831-1834. Hann ritar Magnúsi Eiríkssyni frater til Kaupmannahafnar 25. febrúar 1832 og segir þar að Jónas og Morno (þ.e. Mauritz Biering verslunarmaður) bítist nú um Kristjönu í Landakoti en í vor ætli hún að gerast ráðskona hjá Edvard Thomsen í Vestmannaeyjum.[349] Síðla sumars 1832, fáum dögum áður en Jónas Hallgrímsson sigldi til Hafnar í fyrsta sinn, ritar Jóhann annað bréf til Magnúsar fraters, dagsett 12. ágúst. Hann segir þar beinum orðum að Jónas hafi beðið Kristjönu og fengið neitun en hún liggi nú undir Edvard Thomsen úti í Vestmannaeyjum.[350] Sjálfsagt er að taka orðum Jóhanns Halldórssonar um bónorð Jónasar með nokkrum fyrirvara en hvað sem því líður virðist ljóst að með orðum sínum og gerðum hafi Kristjana í Landakoti vísað skáldinu frá.

Stúlkan sem hafnaði Jónasi Hallgrímssyni gekk skömmu síðar að eiga Edvard Thomsen sem þá var nýlega orðinn verslunarstjóri við Godthaabsverslun í Vestmannaeyjum en gerðist brátt kaupmaður á Þingeyri. Enginn skilur nú hvers vegna Kristjönu í Landakoti leist betur á faktorinn en skáldið og forvitni okkar um þau efni verður tæplega svalað úr þessu. Sem betur fer eru þeir leyniþræðir órannsakanlegir sem liggja dýpst í hjörtum kvenna.

Edvard Thomsen tók við starfi verslunarstjóra við Godthaabsverslun í Vestmannaeyjum árið 1831 en aðaleigandi hennar var P. C. Knudtzon, grósseri í Kaupmannahöfn,[351] er síðar seldi honum Þingeyrarverslun. Sumarið 1832 náði hinn ungi faktor að laða Kristjönu Knudsen í Landakoti til sín út í Eyjar þar sem hún gerðist bústýra hans.[352] Líklega hefur hún þá þegar verið orðin þunguð af hans völdum því fyrsta barn þeirra fæddist 27. mars 1833.[353]

Þann 29. október 1832 voru þau Edvard Thomsen og Kristjana Knudsen pússuð saman í hjónaband á heimili sínu í Vestmannaeyjum.[354] Hún var þá rétt nýlega orðin 18 ára. Við nöfn brúðhjónanna hefur sóknarprestur þeirra, séra Jón Austmann á Ofanleiti, ritað þessi orð í kirkjubókina:

 

Þessi seinastnefndu hjón eru mér sem viðkomandi presti óvitandi saman gefin í heimahúsi þeirra af séra Páli Jónssyni frá Kirkjubæ, án lýsinga af predikunarstóli og án kóngsleyfis.[355]

 

Svaramenn brúðhjónanna vor þeir J. N. Abel sýslumaður og N. N. Bryde verslunarstjóri.[356] Talsverð rekistefna varð út af hjónavígslunni,[357] enda ljóst af orðum séra Jóns Austmann að við framkvæmd hennar hefur alls ekki verið farið eftir settum reglum. Svaramennirnir, þeir Abel og Bryde, munu hafa afsakað sig með því að nauðsynlegt hafi verið að hraða giftingunni þar eð brúðurin hefði verið vanfær en brúðguminn sjúkur.[358] Prestar voru tveir í Eyjum á þessum árum, séra Jón Austmann á Ofanleiti og séra Páll Jónsson, sem kallaður var skáldi, í Kirkjubæ. Thomsen faktor var búsettur í Ofanleitisprestakalli en leitaði engu að síður til Páls skálda með giftinguna. Þar hefur fyrirstaðan verið minni, enda segir í æviskrám að Páll hafi verið heldur hirðulítill um embættisverk, reikull í ráði og drykkfelldur.[359]

Í ritinu Knudsensætt, sem út var gefið árið 1986, segir frá ættargrip sem enn mun vera til. Er það hálsmen sem faðir þeirra Knudsensystra í Landakoti gaf móður þeirra er þau gengu í hjónaband.[360] Tilmæli gefandans voru þau að menið fengi síðar sú dætra þeirra hjónanna sem fyrst giftist af fúsum og frjálsum vilja og að gripurinn erfðist síðan þannig eftir sömu reglu.[361] Nú fór svo að af systrunum fimm í Landakoti var það Kristjana sem fyrst gekk í hjónaband. Engu að síður lét móðir þeirra hálsmenið ganga til Önnu Margrétar[362] sem giftist sex árum síðar, – önnur systranna, en Anna bjó alllengi á Granda í Dýrafirði (sjá hér Gandi). Út frá þessu mætti álykta að frú Margrét Knudsen í Landakoti hafi talið að eitthvað hafi skort á fúsan og frjálsan vilja hjá Kristjönu dóttur sinni er sú síðarnefnda gekk að eiga Thomsen faktor. Vera má að barnið sem brúðurin bar þá undir belti hafi valdið slíkum þönkum.

Eftir hjónavígsluna bjuggu þau Edvard Thomsen og Kristjana aðeins einn vetur í Vestmannaeyjum en fluttust til Reykjavíkur vorið 1833 þar sem hann tók við stjórn annars verslunarfyrirtækis.[363] Veturinn sem Edvard og Kristjana áttu heima í Eyjum var eldri systir Kristjönu, Kirsten Catrine, þar hjá þeim um lengri eða skemmri tíma.[364] Eitthvert slúður var þá í gangi um að Thomsen faktor léti konu sína ekki einhlíta en sængaði hjá systur hennar þegar henta þætti.[365] Engar sannanir voru þó fyrir hendi hvað þetta varðaði er þau komu frá Vestmannaeyjum, öll þrjú, vorið 1833. Er leið á næsta vetur tók Kirsten hins vegar að þykkna undir belti og í ágústlok árið 1834 fæddi hún son sem Edvard Thomsen, mágur hennar, játaði að vera faðir að.[366] Drengur þessi var skírður Lauritz Edvard en fékk síðar nafnið Lárus E. Sveinbjörnsson er móðir hans gekk að eiga Þórð Sveinbjörnsson dómstjóra. Pilturinn komst síðar í röð fyrirmanna og varð bæði dómstjóri í landsyfirrétti og fyrsti bankastjóri Landsbanka Íslands.[367] Annar sonur Kirsten, elstu Knudsensysturinnar úr Landakoti, var Sveinbjörn Sveinbjörnsson tónskáld, er samdi m.a. lagið við þjóðsöng okkar Íslendinga.

Fáum eða engum mun nú kunnugt hvernig Kristjana Knudsen brást við rekkjuleikjum eiginmanns síns og systur eða barnsfæðingunni sem í kjölfarið fylgdi en sagt er að um skeið hafi hún farið að heiman og leitað athvarfs hjá móður sinni í Landakoti.[368] Hjónaband Kristjönu og Edvards Thomsen slitnaði þó ekki og í febrúarbyrjun árið 1835 bjuggu þau ásamt barni sínu í Knudtzonshúsi í Reykjavík[369] en það mun hafa staðið á lóðunum númer 10 og 12 við Hafnarstræti þar sem hluti af stórhýsi Landsbankans stendur nú.[370] Sumarið 1835 voru þau enn í Reykjavík og þá fæddist þar annað barn þeirra daginn eftir höfuðdag.[371] En nú tók að styttast í flutning þessarar fjölskyldu vestur á Þingeyri.

Eins og áður sagði gekk P. C. Knudtzon stórkaupmaður frá samningi um kaup á Þingeyrarverslun í marsmánuði árið 1836 (sjá hér bls. 44-45) og þá um vorið eða sumarið hefur Edvard Thomsen farið vestur því 6. ágúst á sama ári sér hann um vörutalningu á Þingeyri.[372] Er gengið var frá tíundarskýrslu fyrir Þingeyrarhrepp þann 8. október 1836 er hinn verðandi kaupmaður þó ekki talinn meðal kvikfjáreigenda í hreppnum en tekið fram að herra Thomsen eigi ellefu hundruð í Hvammi.[373] Vafalaust má þó telja að síðar á því hausti hafi Edvard Thomsen flust vestur á Þingeyri ásamt konu sinni og dætrum. Sonur þeirra, Hans að nafni, fæðist hér vestra 1. apríl 1837[374] en óhugsandi má heita að barnshafandi kaupmannsfrú með tvö börn um og innan við þriggja ára aldur hafi lagt upp í vetrarferð frá Reykjavík vestur í Dýrafjörð. Þau hljóta því að hafa farið vestur sumarið eða haustið 1836, varla síðar en í október. Er sóknarpresturinn á Söndum skráir fæðingu Hans Thomsen í kirkjubókina í aprílmánuði árið 1837 nefnir hann foreldrana og bætir við gift hjón, drífa höndlun á Dýrafirði.[375] Þessi sonur kaupmannshjónanna sem fæddist á Þingeyri vorið 1837 náði aðeins að lifa í sex vikur[376] en í byrjun nóvember árið 1838 lagðist kaupmannsfrúin á Þingeyri enn á sæng og fæddi dóttur sem skírð var Julie.[377] Sú dóttir náði fullorðinsaldri og eignaðist niðja.[378]

Þau Edvard Thomsen og Kristjana kona hans bjuggu á Þingeyri í fjögur ár, frá 1836 til 1840.[379] Í nóvemberbyrjun árið 1840 eru þau farin frá Þingeyri[380] og að líkindum komin út til Kaupmannahafnar en þar áttu þau heima æ síðan, allt til dauðadags, og þar fæddust fjögur yngstu börn þeirra á árunum 1842-1852.[381]

Á þeim árum sem Edvard Thomsen bjó á Þingeyri stjórnaði hann sjálfur verslunarrekstri sínum hér og virðist ekki hafa verið með aðra fasta starfsmenn[382] nema William, yngri bróður sinn, í eitt ár eða svo en hann fluttist til Þingeyrar árið 1837, kallaður assistent.[383] Vafalaust hafa þau Edvard og Kristjana búið í faktorshúsinu á Þingeyri, því sem rifið var árið 1946 (sjá hér bls. 24-25) og almennt var kallað gamla faktorshús á fyrri hluta 20. aldar. Þar voru þau haustið 1837 með níu manns í heimili og tvær kýr í fjósi.[384]

Hér var áður minnst á þann ástarhug er skáldið Jónas Hallgrímsson bar til Kristjönu, kaupmannsfrúar á Þingeyri, er hún var ung og ógefin stúlka í Landakoti í Reykjavík (sjá hér bls. 45-46). Indriði Einarsson, skáld og skrifstofustjóri í stjórnarráðinu, sem fæddur var árið 1851, var vel kunnugur mörgum samtímamanna Jónasar Hallgrímssonar og átti systurdóttur Kristjönu fyrir konu. – Ástin gaf honum sorgina og hún gerði hann að skáldi, ritar Indriði og leyfir sér að fullyrða að eftir 1830 hafi Jónas engri konu unnað nema Kristjönu.[385] Frá Þórði Guðmundssyni sýslumanni, sem árið 1841 gekk að eiga systur Kristjönu, hefur Indriði þá sögu að eitt sinn hafi þeir Þórður og Jónas Hallgrímsson verið á gangi um stræti Kaupmannahafnar. Þórður taldi sig þá sjá Kristjönu tilsýndar, hnippir í Jónas og segir: Þarna er hún Kristjana! Við þau orð bliknaði Jónas í framan, varð allur annar maður langa stund og fataðist samtalið.[386]

Um hug Jónasar til Kristjönu á árunum kringum 1830 þarf ekki að efast því taka verður mark á orðum einkavinar hans í samtímabréfum (sjá hér bls. 45-46) og vel má vera að skáldið hafi tregað hana lengi. Um fundi þeirra eftir að Kristjana giftist Edvard Thomsen er ekkert vitað og máske hafa þau aldrei talast við eftir skilnaðinn í Landakoti árið 1832.

En hvernig skyldi Jónasi hafa verið innanbrjósts átta árum síðar er hann stendur á Brekkuhálsi í Dýrafirði og virðir fyrir sér kaupmannshúsin á Þingeyri þar örskammt frá? Það var 18. ágúst 1840 sem þeir Jónas og félagi hans, Japetus Steenstrup, komu ríðandi yfir Rafnseyrarheiði í Dýrafjörð á rannsóknarferð sinni um Vestfirði.[387] Ætla má að Edvard Thomsen og Kristjana hafi þá enn verið á Þingeyri en þau sigldu til Hafnar þá um haustið eða síðla sumars. Gera má ráð fyrir að flestir framandi langferðamenn sem komu í Dýrafjörð yfir Rafnseyrarheiði á 19. öld hafi staldrað við á Þingeyri og heilsað þar upp á fólk í kaupmannshúsinu eða krambúðinni. Skyldi Jónas hafa litið þar við þennan síðsumardag fyrir hálfri annarri öld? Svarið við þeirri spurningu þekkjum við ekki en hitt er vitað að um kvöldið slógu þeir félagar tjöldum í botni Dýrafjarðar og lögðu morguninn eftir á Glámu.[388] Ýmsa hefur lengi grunað að kvæði nokkurt, sem Jónas er talinn höfundur að,[389] muni hafa verið ort í Dýrafjarðarbotni þetta kvöld en þar í eru þessar tvær vísur:

 

Ég verð að bera á báru

það besta sem mér er veitt

og seinast sofna ég frá því,

og svo fær enginn neitt.

 

Og það er þér að kenna

sem þrái ég alla stund,

þú áttir ekki að eiga

þennan úlfgráa hund.

 

Sá grunur er þó aðeins byggður á tilgátu. Um samskipti Jónasar Hallgrímssonar og Edvards Thomsen er ekkert vitað en líklegt verður að telja að leiðir þeirra hafi legið saman einu sinni eða oftar eftir 1832, ef ekki á Þingeyri þá í Kaupmannahöfn. Thomsen Þingeyrarkaupmaður var auðugur maður sem gat boðið konu sinni upp á veraldargæði er félausir menn gátu með engu móti veitt sér og sínum. Með eigin hendi Jónasar eru varðveittar fjórar stökur sem hann orti skemmsta dag ársins 1844 og lengi hafa verið sungnar á Íslandi. Þar eru þessar tvær:

 

Mér er þetta mátulegt,

mátti vel til haga,

hefði eg betur hana þekkt

sem harma eg alla daga.

 

Lifðu sæl við glaum og glys,

gangi þér allt í haginn;

í öngum mínum erlendis

yrki ég skemmsta daginn.

 

Enda þótt Edvard Thomsen og fjölskylda hans flyttust til Kaupmannahafnar haustið 1840 var hann áfram eigandi verslunarinnar á Þingeyri allt til ársins 1866[390] eða samtals í nær þrjátíu ár. Allt til 1856 og máske lengur kom hann yfirleitt til Íslands á hverju ári og mun þá hafa dvalist á Þingeyri að sumrinu um lengri eða skemmri tíma. Í þessum ferðum fylgdi Kristjana kona hans stundum manni sínum og svo mikið er víst að bæði voru þau stödd á Þingeyri 14. júlí 1856 er Jerome Napóleon prins steig hér á land með fríðu föruneyti. Dagbókarritari Napóleons hefur það reyndar beint eftir Thomsen kaupmanni á Þingeyri að ferðir hans yfir hafið séu þá orðnar þrjátíu og þrjár.[391]

Þann 1. apríl 1855 varð mikil breyting á verslunarmálum hérlendis en þann dag tóku gildi ný lög sem veittu Íslendingum heimild til að versla við allar þjóðir. Þá hafði verslunin verið bundin við þegna Danakonungs í 253 ár. Fáum mánuðum eftir að lögin um verslunarfrelsi tóku gildi sneru útgerðarmenn í Dunkerque í Frakklandi sér til Alþingis Íslendinga og spurðust fyrir um hvort hugsanlegt væri að þeir fengju að koma upp fiskverkunarstöð á Dýrafirði.[392] Fyrirspurn þessari vísaði Alþingi þá frá sér án nokkurrar verulegrar umræðu.[393] Í bréfum sem Trampe stiftamtmaður og Páll Melsted amtmaður, er var konungsfulltrúi á Alþingi 1855, rituðu danska innanríkisráðherranum í ágústmánuði á því ári má sjá að þeir voru báðir mjög andvígir því að Frakkar fengju aðstöðu til fiskverkunar hérlendis.[394] Rökin sem Páll Melsted teflir fram í bréfi sínu frá 11. ágúst 1855 áttu oft eftir að heyrast í umræðum um málið en þau voru meðal annars þessi:

 

 1. Trygging fyrir því að Frakkar fengjust til að halda sig við landslög og að landsmenn næðu að halda rétti sínum gagnvart þeim væri engin.

 

 1. Ef Frakkar fengju aðstöðu til að verka hér fisk í stórum stíl, þá myndi slíkur rekstur lama og eyðileggja fiskmarkað Íslendinga á Spáni og saltfisksalan þangað smátt og smátt komast algerlega í hendur Frakka.

 

 1. Mikil fjölgun franskra fiskiskipa hér við land gæti hæglega orðið til þess að spilla mjög fyrir veiðum Íslendinga á grunnmiðum við landið og kynni jafnvel að eyðileggja þær gjörsamlega.

 

Í janúarmánuði árið 1856 sneri keisarastjórnin í París sér formlega til danskra stjórnvalda með beiðni um heimild til að stofna franska nýlendu á Þingeyri og hefja þar fiskverkun í stórum stíl.[395] Af hálfu Frakka var málið sótt af miklu kappi á árunum 1856 og 1857 en danska stjórnin sló lengi vel úr og í og tók vorið 1857 þá ákvörðun að óska eftir áliti frá Alþingi Íslendinga.[396] Fljótlega kom í ljós að í áætlun Frakkanna var ráð fyrir því gert að á Þingeyri yrðu byggð íbúðarhús fyrir 400-500 starfsmenn og þar yrði tekið á móti fiski af öllum franska flotanum á Íslandsmiðum.[397] Frönsku skúturnar hér við land voru þá um 150 en yfirforinginn á franska herskipinu sem hér var til eftirlits tjáði Jörgen D. Trampe stiftamtmanni að ætlunin væri að þrefalda þá tölu ef aðstaða til fiskverkunar fengist á Þingeyri.[398] Á hverri skútu voru yfirleitt átta til tólf sjómenn[399] og alls hefðu þeir ásamt landverkafólkinu því orðið um 5000 ef ráðagerðin hefði náð fram að ganga. Allt átt þetta lið að hafa sína bækistöð á Þingeyri og lögð var áhersla á að þar ættu frönsk lög að gilda en ekki dönsk.[400] Með þessu móti hefði hin franska Þingeyri orðið langfjölmennasti kaupstaður landsins frá því snemma á vorin og þar til seint á haustin en til samanburðar skal þess getið að 1. október 1855 bjuggu 1353 manneskjur í Reykjavík[401] en þar var íbúatalan þó miklu hærri en í öðrum kaupstöðum á landi hér. Hjá frönskum stjórnvöldum voru jafnvel uppi hugmyndir um að fá land beggja vegna Dýrafjarðar og helst vildi keisarastjórnin í París  áskilja sér rétt til að setja á stofn aðra fiskverkunarstöð sunnar á landinu.[402]

Eins og nærri má geta ollu tilmæli Frakka miklum deilum í röðum Íslendinga. Margir voru málinu algerlega andvígir en aðrir sáu glitta í gull og töldu að ef til vill mætti semja um málið og fá í staðinn tollalækkanir fyrir íslenskan fisk í Frakklandi. Um Dýrafjarðarmálið er svo var kallað hefur sá sem hér krotar á blað ritað tvær alllangar ritgerðir í tímaritið Sögu og hina þriðju um sama efni birti ég í bókinni Vestanglæðum sem út var gefin árið 2004 til heiðurs Jóni Páli Halldórssyni á Ísafirði.[403] Fátt af því sem sagt var í þessum þremur ritgerðum verður endurtekið hér. Óhjákvæmilegt er þó að taka fram að ýmsir þeir sem harðast börðust gegn nýlendustofnun Frakka á Þingeyri voru sannfærðir um að fyrir frönsku keisarastjórninni vekti annað og meira en að tryggja frönskum útgerðarmönnum rétt til fiskverkunar í Dýrafirði. Í sínu fyrsta bréfi um málið tekur franski sendiherrann í Kaupmannahöfn fram að tilgangur stjórnarinnar í París með nýlendustofnun á Þingeyri sé m.a. sá að fjölga þjálfuðum sjómönnum er franski herinn geti síðan gripið til þegar á þurfi að halda.[404] Sú var líka skoðun margra að frönsk stjórnvöld hygðust ná öruggri fótfestu í Dýrafirði í því skyni að koma hér síðar upp flotastöð og herskipalægi[405] og ætlun þeirra væri jafnvel að leggja landið undir sig þegar til þess gæfist hentugt tækifæri.[406] Aðrir töldu hins vegar fráleitt að láta sér detta þvílíkt og annað eins í hug.[407]

Í Dýrafjarðarmálinu voru Danir milli steins og sleggju því þeim var mikið í mun að halda góðri vináttu bæði við Frakka og Breta en augljóst var að Bretar, sem mestu réðu á Norður-Atlantshafi, gætu illa sætt sig við að Frakkar næðu undirtökum á Íslandi og fengju aðstöðu til að stórefla flotaveldi sitt. Svo virðist sem breska ríkisstjórnin hafi þó litla vitneskju haft um kröfu Frakka á hendur Dönum varðandi Dýrafjörð fyrr en haustið 1856 er Þorleifur Repp, – íslenskur fjölfræðingur sem lengi hafði verið búsettur í Kaupmannahöfn, kom greinargerð um málið á framfæri við breska sendiráðið þar í borg.[408] Í bréfum breska sendiherrans til utanríkisráðherrans í London er nafnið á höfundi greinargerðarinnar að vísu aldrei nefnt en enginn vafi er samt á því að hún er komin frá Þorleifi Repp. Bæði er stíll hans og orðafar auðþekkt fyrir kunnuga og auk þess greindi hann sjálfur svo frá í bréfi til dóttur sinnar, rituðu 29. september 1856, að hann hefði þá fyrir skömmu komið upplýsingum um Dýrafjarðarmálið á framfæri við bresku stjórnina.[409]

Við móttöku greinargerðarinnar frá Þorleifi Repp tók breska heimsveldið heldur betur við sér og hóf öfluga gagnsókn gegn áformum Frakka um nýlendustofnun á Þingeyri. Á næstu vikum og mánuðum fór fjöldi bréfa og skeyta er málið vörðuðu á milli utanríkisráðuneytisins í London og bresku sendiráðanna í Kaupmannahöfn og París. Allt var það safn vel varðveitt á Public Record Office í Richmond í Englandi árið 1983 en er nú í The National Archives í sömu borg. Svo hart var tekist á að í lok september 1856 tilkynnti breski sendiherrann í Kaupmannahöfn danska utanríkisráðherranum það álit ríkisstjórnar sinnar að létu Danir Þingeyri af hendi við Frakka gæti slíkt skapað hættu á Evrópustyrjöld.[410] Minna mátti það ekki heita.

Ástæðan fyrir þessum ákafa bresku stjórnarinnar var sú að hún taldi augljóst að franska keisarastjórnin væri ekki bara að hugsa um svolitla fiskverkun á Íslandi heldur miklu meira, flotastöð fyrir sjóherinn og aðstöðu til að leggja landið undir sig ef henta þætti.

Reyndar fól breski utanríkisráðherrann sendiherra sínum í París að kanna hvort franska stjórnin gæti fallist á þá málamiðlun að hún fengi heimild til fiskverkunar í Dýrafirði en dönsk lög yrðu hér áfram í gildi og því ekki um neina nýlendustofnun að ræða.[411] Í þessum efnum vísaði utanríkisráðherrann í samning Breta og Frakka frá 1783 um aðstöðu Frakka á Nýfundnalandi sem hugsanlega fyrirmynd.[412] Líklega segir það ærna sögu að franska stjórnin skyldi ekki grípa í spottann sem henni var réttur með þessu skeyti frá London því allir málsaðilar vissu að það sem Bretar gætu samþykkt í málinu myndu Danir fallast á. En því fór reyndar fjarri að keisarastjórnin í París gæti hugsað sér neitt minna en nýlendu með frönskum lögum og franskri stjórn. Það sjónarmið kom skýrt fram í bréfi A. J. C. Walewskis, utanríkisráðherra Frakka, er hann ritaði danska sendiherranum í París 12. febrúar 1857.[413] Walewski þessi var reyndar sonur Napóleons mikla (Napóleons Bonaparte) sem margir Íslendingar dýrkuðu lengi.

Er Clarendon lávarður fékk í hendur afrit af þessu bréfi hins franska starfsbróður síns taldi hann sig ekki þurfa frekari vitna við um það hver áform Frakka væru varðandi Ísland. Í bréfi rituðu 12. maí 1857 kemst breski utanríkisráðherrann svo að orði að bréf Walewskis sé ekki hægt að skilja öðruvísi en sem illa dulbúna hótun af hálfu Frakka um að þeir muni slá eign sinni á Ísland. Á enskri tungu orðar hann þetta svo – that it (bréfið) contains a hardly disguised proposal to take possession of Iceland.[414]

Ætla má að utanríkisráðherra breska heimsveldisins og hans nánustu aðstoðarmenn hafi fremur en margir íslenskir alþingismenn verið í færum um að lesa rétt úr orðum franskra starfsbræðra sinna og skilja hvað á spýtunni hékk. Segja má að á árunum 1856 og 1857 hafi danska stjórnin verið undir strangri vakt frá London um margra mánaða skeið vegna Dýrafjarðarmálsins og breski utanríkisráðherrann lét heldur ekki hjá líða að tilkynna Dönum að ef þeir létu Frakka hafa Þingeyri til nýlendustofnunar yrðu þeir þegar í stað krafðir um hliðstæð réttindi öðrum ríkjum til handa úti á Íslandi.[415]

Hér var þess áður getið að Jerome Napóleon prins kom til Þingeyrar í júlímánuði árið 1856 og ræddi hér við kaupmanninn á staðnum, Edvard Thomsen (sjá hér bls. 51). Er Jerome Napóleon lagði upp í ferð sína til Íslands og norðurhafa sumarið 1856 voru fjögur ár liðin frá því frændi hans Lúðvík Napóleon, sem verið hafði forseti franska lýðveldisins frá árinu 1848, gerðist keisari og var þá nefndur Napóleon III. Báðir voru þeir frændur synir bræðra Napóleons mikla, Korsíkumannsins sem á árunum eftir frönsku stjórnarbyltinguna braust til valda í París og tók sér að lokum keisaranafn árið 1804.

Á fyrstu keisaraárum Napóleons III var Jerome frændi hans ríkisarfi franska keisaradæmisins því sjálfur átti keisarinn þá engan son. Jerome Napóleon keisarafrændi kom til Reykjavíkur með fríðu föruneyti 30. júní 1856 á skipi sínu Reine Hortense en því fylgdu nokkur smærri herskip. Frá dvöl hans í Reykjavík verður ekki greint hér en þar ræddi prinsinn við fjölda áhrifamanna og þótti óspar á gjafir. Meðan Napóleon staldraði við í Reykjavík var öllum helstu fyrirmönnum í höfuðstaðnum boðið að sitja með honum dýrlegar veislur, bæði í stiftamtmannshúsinu við Lækjartorg og á skipum úti.[416] Þar gátu menn baðað sig í ljómanum frá hans hátign en mælt á kvarða auðs og valda var Napóleon prins án efa sá allra tignasti gestur sem hingað hafði komið. Í blaðinu Þjóðólfi var útliti prinsins lýst á þessa leið:

 

Prins Napóleon er hár maður vexti og þrekinn vel að því skapi og hinn karlmannlegasti og höfðinglegasti maður, ljósleitur í andliti en dökkur á hár og dökkeygður og snareygður og mjög fagureygður, ennið mikið og frítt, þykkleitur nokkuð hið neðra um andlitið og mikill um kjálka sem keisarinn mikli var, föðurbróðir hans. Enda er hann að ásjónu og  andlitslagi mjög líkur Napóleon hinum I. eftir því sem meistarinn Davíð hefur málað mynd hans, þá bestu sem til er af honum.[417]

 

Steingrímur skáld Thorsteinsson er sá Jerome Napóleon prins í Kaupmannahöfn haustið 1856 segir hins vegar í bréfi að eiginlega hafi sér ekki litist á hann, – hann er raunar feitur og líkur gamla Napóleon í því, segir Steingrímur, en sviplaus og hefur það sem dónar heima kalla koppagljáa.[418]

Þann 13. júlí 1856 sigldi farkostur Napóleons inn Dýrafjörð þar sem akkerum var varpað fram undan Þingeyri þá um kvöldið.[419] Morguninn eftir, á sjálfan bastilludaginn sem var og er þjóðhátíðardagur Frakka, stigu prinsinn og föruneyti hans upp í fjöruna á Þingeyri og svipuðust um í þessu fyrirheitna landi sem ætlunin var að gera að franskri nýlendu. Fyrsta verk Napóleons var að skjóta æðarkollu en síðan fór hann að hitta Thomsen kaupmann.

Gaman hefði verið að eiga viðræður þeirra á segulbandi en um slíkt er ekki að tala. Í dagbók leiðangursins er frá því greint að prinsinn hafi boðið Thomsen kaupmanni á Þingeyri og frú hans út í skip sitt til morgunverðar.[420] Um Kristjönu Knudsen, kaupmannsfrú á Þingeyri, sem áður var augnayndi Jónasar Hallgrímssonar, segir þar að hún hafi verið mjög bjarthærð (cheveux blonds pales).[421] Napóleon gaf henni armband og lét ljósmyndara leiðangursins taka af henni mynd.[422] Sú ljósmynd er að líkindum hin fyrsta sem tekin var hérlendis af nafngreindum einstaklingi og unnt er að tímasetja með óyggjandi hætti.[423] Að mynd Napóleons af Kristjönu hefur víða verið leitað, m.a. á sjö söfnum í París, en enn er hún ófundin.

Í nokkrum samtímaheimildum er frá því greint að meðan Napóleon prins dvaldist á Þingeyri hafi hann beðið Edvard Thomsen að selja sér eignina, – það er að segja Þingeyrarverslun og allt sem henni fylgdi og verður nú gerð grein fyrir frásögnum þriggja samtímamanna af viðræðum Napóleons við Thomsen kaupmann.

Jens Sigurðsson, kennari við lærða skólann í Reykjavík, fór sumarið 1856 vestur í Arnarfjörð, m.a. vegna skipta á búi föður síns, séra Sigurðar Jónssonar frá Rafnseyri, sem andast hafði á Steinanesi haustið 1855.[424] Jens skrifar bróður sínum, Jóni forseta, þann 13. ágúst og er þá kominn úr vesturferðinni. Í bréfinu segir hann frá komu Napóleons á Dýrafjörð og kemst þá svo að orði:

 

Þeir halda hér að ferð hans hafi pólitíska þýðingu og hann hafi í hyggju að fá Ísland. Þá verðum við lausir við danska þrældóminn en þá trúi ég að taki við annar ekki betri. Napóleon hafði verið inná Þingeyri í Dýrafirði og falað hana af Edv. Thomsen og hann gefið hana fala en þó viljað tala fyrst um það við stjórnina. En Napóleon kvað þá hafa svarað að stjórnina hefði hann ekkert við að sýsla í því efni.[425]

 

Jens Sigurðsson var ekki sá eini sem minntist á Dýrafjarðarmálið í bréfum sem Jóni forseta voru send síðla sumars árið 1856. Það gerði líka Hjálmar Jónsson, timburmaður á Ísafirði, sem seinna gerðist kaupmaður á Flateyri. Í bréfi sínu, dagsettu 12. ágúst 1856, segir Hjálmar meðal annars:

 

Það væri mér ánægja að fá línu frá yður við tækifæri og þá að heyra hverninn líður málefni því að Frakkar vilja fá aðsetur í Dýrafirði því mér líst ekki vel á það. Svo framt tollur á fiski verður ekki aftekinn á Frakklandi verður okkur Vestfirðingum óhagur að selstöðu þeirra á Dýrafirði. Prins Jerome Napoleon kom á Þingeyri í sumar og hitti þar kaupmann Thomsen. Dvaldi hann þar 3 stundir en kom ekki í land. Kaupmaður fór á fund hans og fékk silfurmedalíu og tóbaksdósir að gjöf. Hann vill nú endilega selja Frökkum kaupstað sinn þar en ekki fyrir lítið verð og vildi ég óska að ekki yrði af þeim kaupum að sinni.[426]

 

Þá kenningu að til greina kæmi að láta Frökkum í té aðstöðu á Þingeyri ef tollur á íslenskum fiski yrði afnuminn í Frakklandi hafði Jón forseti boðað í 16. árgangi Nýrra félagsrita[427] sem barst til kaupenda á Íslandi vorið 1856.

Bréfið sem Hjálmar skrifaði Jóni 12. ágúst á því ári ber með sér að Hjálmar var þá búinn að fá þennan árgang félagsritanna í hendur og var sjálfur að safna áskrifendum að þeim.[428] Þegar Hjálmar skrifaði bréfið var honum því vel kunnugt um það viðhorf forseta að til greina kæmi að láta Frakka hafa Þingeyri ef þeir féllust á tollfrelsi fyrir íslenskan fisk í Frakklandi. Orð timburmannsins úr bréfinu sem til var vitnað hér að framan sýna að í orðaskiptum við Jón hefur hann ekki viljað þvertaka með öllu fyrir slík kaup. Í frásögn Hjálmars af komu Napóleons keisarafrænda til Þingeyrar hefur slæðst sú villa að prinsinn hafi aðeins staldrað við á Þingeyrarhöfn í þrjár klukkustundir og ekki farið í land en í dagbók hins franska leiðangurs má sjá að herskipið sem prinsinn var á lá á Þingeyrarhöfn í um það bil 12 klukkustundir og sjálfur fór prinsinn í land snemma morguns þann 14. júlí eins og hér var áður sagt frá (sjá bls. 55).

Þriðji Íslendingurinn sem ritar að áliðnu sumri árið 1856 um komu Napóleons keisarafrænda til Þingeyrar í júlímánuði á því ári er Þorleifur Repp sem hér var áður nefndur. Í greinargerð sinni til breska sendiráðsins í Kaupmannahöfn, dagsettri 17. september, segir hann meðal annars frá tilraun Napóleons til þess að fá Edvard Thomsen til að selja sér Þingeyri. Upplýsingar sínar um málið kveðst hann hafa frá mönnum sem nýlega væru komnir til Kaupmannahafnar frá Vestfjörðum.[429]

Repp greinir svo frá að Edvard Thomsen hafi tekið vel í að selja prinsinum eignir sínar á Þingeyri en bent á að til þess að slík kaup gætu farið fram þyrfti leyfi danskra stjórnvalda sem óvíst væri hvort fengist. Napóleon hafi þá svarað að eignir sínar hlyti Thomsen að mega selja hverjum sem væri og sjálfur skyldi hann taka á sig ábyrgðina gagnvart dönsku stjórninni.[430] Í greinargerð Repps kemur fram að Napóleon hafi bæði viljað kaupa öll hús og allt land á Þingeyri en þegar honum hafi verið sagt að reyndar væri það kirkjan sem ætti landið þá hafi hann svarað því til að um landakaupin myndi hann semja við vin sinn Friðrik VII Danakonung.[431] Að sögn Repps bauð Napóleon kaupmanninum á Þingeyri 23.000 ríkisdali fyrir verslunarstaðinn[432] en sú upphæð samsvaraði árið 1856 um það bil 820 kúgildum[433] en það var nær níföld sú upphæð er Edvard Thomsen hafði greitt fyrir Þingeyrarverslun átján árum fyrr (sjá hér bls. 44-45). Kýrverðið, mælt í ríkisdölum, hafði hins vegar tekið litlum breytingum frá upphafi til loka þessa átján ára tímabils.[434]

Árið 1856 átti Sandakirkja enn allt land á Þingeyri (sjá hér bls. 78) en veturinn 1856-1857 var Edvard Thomsen kaupmaður að reyna að fá það keypt og bauð 350 ríkisdali.[435] Mjög líklegt verður að telja að áform Thomsens um kaup á verslunarlóðinni hafi tengst ráðagerðunum um stofnun franskrar nýlendu á Þingeyri. Forráðamönnum kirkjunnar leist hins vegar ekki nógu vel á þetta tilboð og létu landið ekki af hendi fyrr en sextán árum síðar og þá fyrir hærri upphæð (sjá hér bls. 78).

Líklegt er að koma Napóleons hafi ýtt mjög undir umræður Vestfirðinga um Dýrafjarðarmálið og bænarskrár sem lagðar voru fyrir Alþingi árið 1857 sýna að mjög margir þeirra hafa verið algerlega andvígir stofnun franskrar nýlendu á Þingeyri.[436] Á Ísafirði var efnt til almenns fundar um málið 2. desember 1856 og þar var ákveðið að kjósa fimm manna nefnd til að semja bænarskrá gegn því að Frakkar fengju Þingeyri. Tvær bænarskrár voru samdar í framhaldi af fundinum og var önnur til Alþingis en hin til konungs. Í báðum kemur fram mjög afdráttarlaus afstaða gegn tilmælum Frakka og ýtarlegur rökstuðningur fyrir sjónarmiðum þeirra sem andvígir voru nýlendustofnuninni.[437] Undir bænarskrá Ísfirðinga til Alþingis rituðu 392 einstaklingar[438] sem verður að teljast býsna há tala sé haft í huga að aðeins um 180 sálir áttu þá heima á sjálfum verslunarstaðnum við Skutulsfjörð.[439]

Nöfn þeirra nær 400 manna sem rituðu undir bænarskrá Ísfirðinga til Alþingis hafa ekki komið í leitirnar en bænarskrána til konungs undirrituðu miklu færri menn, ekki nema fjörutíu, og þeirra undirskriftir hafa varðveist.[440] Af þessum fjörutíu manna hópi er liðlega helmingur frá verslunarstaðnum við Skutulsfjörð en hinir úr öðrum byggðum við Ísafjarðardjúp og úr Vestur-Ísafjarðarsýslu, – enginn þó úr Þingeyrarhreppi og fáir úr Mýrahreppi.[441] Skýringin á því er sú að Dýrfirðingar voru sjálfir á sama tíma að safna undirskriftum undir sína eigin bænarskrá gegn komu Frakka.[442] Frá þeirri bænarskrá verður brátt sagt hér lítið eitt nánar en fyrst er vert að taka fram að þeir sem undirbjuggu fundinn á Ísafirði og stóðu fyrir hinni almennu undirskriftasöfnun munu um svipað leyti hafa farið þess á leit við nokkra valda menn í Ísafjarðarsýslu að þeir sendu skrifleg svör við nokkrum ákveðnum spurningum varðandi Dýrafjarðarmálið. Sum þessara svara hafa varðveist og kemur þar fram mjög harðskeytt andstaða við fyrirhugaða nýlendustofnun.[443] Þar finnast jafnvel dæmi þess að menn létu sér detta í hug að setja á stofn vestfirskan her til að hafa gætur á Frökkum.[444] Erfitt er að sjá hverjir verið hafa höfundar hinna ýmsu svara því flest eru þau aðeins undirrituð með upphafsstöfum. Sem dæmi um viðhorf er fram koma í svörum þessum er einfalt að vitna í eitt sem er undirritað með upphafsstöfunum G. J. en þar segir meðal annars:

 

Þegar Ólafur konungur hinn helgi falaði af Íslendingum forðum Grímsey lagði Einar Þveræingur það til ráðs á Alþingi að neita konunginum um eyjuna og sagði að vel mætti konungur hafa þar flota sinn, – og mætti nú Einar þessi rísa af gröf sinni og mæla við menn mundi hann þannig tala til Vestfirðinga: – „Þér Vestfirðingar, brúkið nú dugnað og skynsamleg samtök að gjöra allt hvað í ykkar valdi stendur, meðan tími er til, að verja Frökkum að ná bólfestu á Dýrafirði, því vel mega Frakkar hafa þar flota sinn og með honum færist ykkur siðferðisspilling og tjón, dýrtíð og eyðilegging. Verjist því af alefli svo framt þér viljið ekki verða nýlendumenn Frakka.” [445]

 

Bænarskrá Dýrfirðinga, sem send var Alþingi sumarið 1857, gegn komu Frakka til fiskverkunarstofnunar á Dýrafirði, er talsvert mildilegar orðuð en sú frá Ísafirði og til vara nefndu Dýrfirðingar þau skilyrði sem þeir töldu óhjákvæmilegt að fá uppfyllt ef samið yrði við Frakka um Þingeyri.[446] Enda þótt Dýrfirðingar fari hóflega í sakirnar kemur skýrt fram að þeir afbiðja komu Frakka til aðseturs hér við land og ekki leynir sér að í næsta nágrenni við Þingeyri hafa menn verið mjög uggandi um afleiðingarnar af þeirri nýlendustofnun sem á döfinni var.[447] Í bænarskrá Dýrfirðinga segir meðal annars:

 

Því bæri svo undir að ágreiningur kæmi upp milli hinnar dönsku stjórnar og hverrar helst þjóðar sem búin væri að fá hér slíka bólfestu, þá þykjumst vér fullkomlega sjá fram á að þeir í því tilfelli notuðu sér framar en skyldi þá hagsmuni er aðsetur þeirra þá veitti þeim, – og yrði sú afleiðing að þeir héldu landið undir sig sem öllum landsbúum hlyti að vera hið ógeðfelldasta sem fyrir gæti komið.[448]

 

Eins og áður sagði var varatillaga Dýrfirðinga sú að Frakkar fengju Þingeyri gegn nokkrum mjög ströngum skilyrðum og þá aðeins til reynslu í fáein ár. Helstu skilyrðin sem nefnd eru í bænarskrá þeirra voru þessi:

 

 1. Að tollar á íslenskum fiski yrðu með öllu afnumdir í Frakklandi.

 

 1. Að Frakkar borgi hálfan til heilan ríkisdal í útflutningsgjald fyrir hvert skippund af eiginverkuðum fiski er þeir flytji út.

 

 1. Að föst árleg leiga verði greidd fyrir allt land sem Frakkar kynnu að fá til afnota.

 

 1. Að Frakkar sem hér dvelji verði algerlega háðir íslenskum lögum.

 

 1. Að bann yrði lagt við allri óþarfa umferð Frakka og þeim meinað að stunda nokkurn veiðiskap í eða fyrir landi annarra.

 

 1. Að hverjum helst þessara skilmála rofnum skal vera þeirra hér upphafin.[449]

 

Af þessum sex skilyrðum er númer tvö ekki síst athyglisvert en þar er gerð krafa um hálfan til heilan ríkisdal í útflutningagjald af hverju skippundi. Líklegt má telja að sá floti af frönskum skútum sem stunda átti veiðar á Íslandsmiðum hefði árlega getað landað afla sem nægði í um það bil 150.000 skippund af verkuðum saltfiski.[450] Af öllum þessum fiski hefði þá átt að greiða um 75.000 til 150.000 ríkisdali á ári í útflutningsgjald eða sem svaraði frá 2700 – 5400 kúgildum.[451]

Bænarskrá Dýrfirðinga er dagsett á Þingeyri 17. febrúar 1857 og í texta hennar kemur fram að þar hafi fundur um málaleitan Frakka verið haldinn þann 27. desember sama vetur.[452] Ekki er vitað með vissu hver eða hverjir sömdu bænarskrá Dýrfirðinga og söfnuðu undirskriftum undir hana en sá sem sendi hana til Alþingis var Þorsteinn Thorsteinsson[453] sem þá var orðinn verslunarstjóri á Þingeyri (sjá hér bls. 71-73). Hann skrifar líka fyrstur undir en í efstu línuna rita einnig nöfn sín séra Jón Sigurðsson á Söndum, Benóný Daðason í Meðaldal og Guðmundur Brynjólfsson á Mýrum.[454] Bænarskráin sem verslunarstjórinn á Þingeyri sendi Alþingi og hér hefur verið frá sagt er undirrituð af 78 Dýrfirðingum og 21 Önfirðingi. Flestir í þeim hópi voru bændur og þarna er m.a. að finna nöfn 28 bænda í Þingeyrarhreppi, allra sem þar höfðu búsforráð árið 1857 nema þriggja.[455]

Vorið 1857 sendi danska ríkisstjórnin erindi Frakka varðandi Þingeyri til Alþingis Íslendinga og fór þess á leit að þar yrði málið tekið til umræðu og komist að niðurstöðu um vilja þingsins. Dagana 24. og 28. júlí var Dýrafjarðarmálið rætt á Alþingi og fluttar um það 32 ræður.[456] Mikill hiti var í umræðunum og mæltu margir þingmenn eindregið gegn því að Þingeyri yrði látin í hendur Frakka. Áhrifin frá hugsanlegri nýlendustofnun þar á fiskveiðar okkar Íslendinga og fisksölumöguleika okkar erlendis voru mönnum ofarlega í huga og Guðmundur Brandsson í Landakoti á Vatnsleysuströnd lét þau orð fall að fengju Frakkar Þingeyri mætti búast við að það yrði aðeins fyrsta skrefið og yrðum við þá á endanum lítið annað en púlsmenn Frakka.[457]

Niðurstaða Alþingis varð sú að það sæi sér ekki fært að fallast á beiðni frönsku stjórnarinnar eins og hún nú liggur fyrir en í greinargerð með ályktun þingsins kemur fram að fáist keisarastjórnin í París til að fella niður tolla á íslenskum fiski í Frakklandi geti samningur um málið komið til greina.[458] Ályktun Alþingis og greinargerðin sem henni fylgdi bera með sér að um þær hefur tekist samkomulag flestra þingmanna, bæði margra úr hópi þeirra sem voru algerlega andvígir franskri nýlendustofnun í Dýrafirði og hinna sem gátu hugsað sér að fara út í samninga um málið að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Í síðarnefnda hópnum var Jón Sigurðsson forseti og á öðrum stað hafa rök verið leidd að því að hann hafi ráðið mestu um afgreiðslu þingsins á málinu enda þótt hann tæki aldrei til máls við umræðurnar.[459] Segja má að niðurstaða Alþingis í Dýrafjarðarmálinu væri dálítið tvíbent. Svarið sem það sendi dönsku stjórninni fól ekki í sér nei, nei heldur miklu frekar nei, en … .

Danska stjórnin tók þann kost að gera afstöðu Alþingis að sinni.[460] Ætla má að ýmsir þeirra sem beittu sér fyrir því að boðið yrði upp á samninga um Þingeyri, ef Frakkar féllust á að leyfa tollfrjálsan innflutning á fiski, hafi gert sér vonir um að unnt yrði að semja á þeim grundvelli. Vitað var að innan frönsku ríkisstjórnarinnar áttu fríverslunarsinnar harðskeytta fulltrúa sem kröfðust afnáms verndartolla og vildu taka upp nýja siði í utanríkisviðskiptum.[461] Tollverndarsinnum innan frönsku keisarastjórnarinnar tókst þó enn um sinn að halda undirtökum og tryggja óbreytta stefnu en að þeirra mati gat ekki komið til greina að opna fyrir tollfrjálsan innflutning á fiski frá öðrum ríkjum. Á því skeri strönduðu hugmyndir þeirra sem í raun gátu hugsað sér að semja við Frakka um Þingeyri ef tollfrelsi kæmi á móti. Hitt er svo annað mál að þótt tollfrelsið hefði fengist má með hliðsjón af því sem hér hefur áður verið sagt ætla að Bretar hefðu lagt ærið kapp á að stöðva ráðagerðir Frakka um nýlendustofnun í Dýrafirði. Hótun um Evrópustyrjöld var meira en búast mátti við að Danir þyldu.

Hér hefur nú verið stiklað á stóru um Dýrafjarðarmálið og sagt frá fundi þeirra Napóleons prins og Edvards Thomsen kaupmanns á Þingeyri. Er Thomsen ræddi við Napóleon sumarið 1856 var hann 49 ára gamall og átti þá enn eftir að standa fyrir verslunarrekstri á Þingeyri í tíu ár. Í spjalli sínu við Napóleon greindi hann svo frá að hér væri ársveltan milli 16 og 17 þúsund ríkisdalir en tók fram að hann ætti líka aðra verslun á Suðurlandi og þar væri veltan fjórfelt meiri eða um 70 þúsund ríkisdalir.[462] Við undirbúning þessa rits hefur ekki verið kannað til hlítar hvaða verslun Edvard Thomsen átti sunnanlands árið 1856. Vitað er að hann keypti Godthaabsverslun í Vestmannaeyjum árið 1858 fyrir 9.000 ríkisdali[463] en við þá verslun hafði hann einmitt verið verslunarstjóri aldarfjórðungi fyrr. Reyndar er hugsanlegt að Thomsen hafi verið búinn að semja um kaup á Godthaabsverslun í Eyjum sumarið 1856, enda þótt hann fengi ekki afsal fyrir henni fyrr en tveimur árum síðar. Verslun sína í Vestmannaeyjum rak Edvard Thomsen til dauðadags árið 1881 en við takmarkaðar vinsældir að sögn Jóhanns Gunnars Ólafssonar sýslumanns sem margt hefur ritað um sögu Eyjanna. Hann segir beinum orðum að þessi danski kaupmaður hafi verið ákaflega uppstökkur og bráðlundaður og ruddafenginn í orðum er hann reiddist.[464] Jóhann Gunnar greinir reyndar ekki frá því hvaðan hann hafi þvílíkar umsagnir en ætla má að þær séu komnar frá gömlum Eyjamönnum sem viðskipti áttu við Thomsen í Godthaab.

Úr Dýrafirði liggur fátt á lausu um samskipti heimamanna við Edvard Thomsen, enda þótt hann ræki verslun á Þingeyri í nær 30 ár. Skjalleg gögn sýna þó að hann hefur, a.m.k. stundum, verið harðskeyttur við múgamenn hér vestra og fljótur að sýna vald sitt væri honum gert á móti skapi. Besta heimild um þetta er dómabók Ísafjarðarsýslu frá árunum 1854-1859[465] og þaðan er komin sagan er nú skal sögð.

Þann 19. júní 1857 kom Benóný Daðason, hreppstjóri í Meðaldal, í krambúðina á Þingeyri og með honum þrír menn úr Meðaldal og Haukadal. Einn þeirra var Jón Egilsson, vinnumaður í Haukadal. Hann var þá í skinnbrók og með sjóskó á fótum. Er Jón kom inn fyrir búðardyrnar skipaði Thomsen kaupmaður honum strax út úr búðinni því enginn mætti koma þangað í sjóklæðum. Ýmsir menn voru þar fyrir í búðinni og var einn þeirra, Sveinn Ásbjörnsson í Hjarðardal, í skinnklæðum upp fyrir mið læri. Jóni vinnumanni þótti hart að vera rekinn út úr búðinni fyrir að hans dómi engar sakir og segir því við kaupmanninn að varla muni sjá mikið á búðinni eða búðargólfinu þó hann fái að ljúka þar erindum sínum. Thomsen kaupmaður skipaði Jóni þá í annað sinn að hverfa þegar í stað úr búðinni en Jón svaraði þá og sagði að vandséð kynni að vera hvor þeirra færi fyrr út fyrir dyrnar ef hér ætti að fara í hart. – Tæpum sex vikum síðar játaði Jón fyrir rétti að hafa verið þess albúinn að taka á móti kaupmanninum ef sá síðarnefndi hefði reynt að leggja á sig hendur. Til þess kom þó ekki því eftir nokkrar orðahnippingar lét vinnumaðurinn úr Haukadal undan og yfirgaf krambúðina. Atvik þetta væri nú öllum gleymt fyrir löngu ef Thomsen hefði talið nóg að gert er honum hafði tekist að koma þessum sjóklædda púlsmanni út úr krambúðinni. Hann kaus hins vegar að láta málið ganga lengra og kærði Jón Egilsson fyrir mótþróa og óviðurkvæmileg orð við sig þar í búðinni. Þess vegna vitum við nú svolítið meira en ella um persónuleika kaupmannsins og hvernig hann brást við mótþróa úr röðum almúgans.

Kærumál Edvards Thomsen gegn Jóni Egilssyni var tekið fyrir á réttarþingi í Meðaldal 30. júlí 1857. Þar játaði Jón að hafa tregðast við að fara út úr búðinni en neitaði að hafa notað nokkur blótsyrði í orðaskaki sínu við Thomsen nema hvað hann hefði sagt að kaupmaðurinn ræki sig út vegna bölvaðrar stórmennsku. Fyrir réttinum kvaðst Jón líka muna að hann hefði látið þau orð falla að sín vegna mætti kaupmaðurinn stinga krambúðinni í rassinn á sér ef hann vildi.

Á þinginu í Meðaldal tókst Erlendi Þórarinssyni sýslumanni að koma á sættum í máli þessu en í því samkomulagi fólst að vinnumaðurinn í Haukadal skyldi biðja Thomsen kaupmann fyrirgefningar á framkomu sinni og auk þess varð hann að greiða kaupmanninum 11 ríkisdali og 46 skildinga upp í málskostnað. Sú upphæð svaraði þá til um það bil þriðjungs úr kýrverði.[466]

Hér skal að lokum tekið fram að Jón Egilsson, vinnumaður í Haukadal, sem með þessum hætti varð fyrir barðinu á Edvard Thomsen árið 1857, er að líkindum sami Jón Egilsson og var vinnumaður hjá Ólafi Ólafssyni í Haukadal 1. október 1855, þá sagður 25 ára gamall[467] (sbr. hér Bakki).

Á árunum upp úr 1850 var árleg velta Þingeyrarverslunar um 16.000 ríkisdalir á ári ef marka má þau orð Edvards Thomsen sem eftir honum eru höfð í dagbók Napóleonsleiðangursins frá árinu 1856 (sjá hér bls. 62). Verslunarskýrslur sem varðveist hafa benda til þess að sú upphæð sé ekki fjarri lagi en reyndar sýnist veltan hafa verið býsna misjöfn frá einu ári til annars. Í verslunarskýrslum úr skjalasafni sýslumanns Ísfirðinga er margvíslegan fróðleik að finna um inn- og útflutning frá Þingeyri á þeim árum sem Edvard Thomsen var eigandi verslunarinnar hér. Eins og nærri má geta voru afurðirnar sem bændur lögðu inn hjá kaupmanninum harla fábreyttar og ekki var heldur margt á boðstólum af innfluttum varningi. Hér verður nú sýnt yfirlit yfir allan útflutning frá Þingeyri árið 1858 og hvert var vægi hinna ýmsu afurða í heildarútflutningnum. Allar upplýsingar sem hér koma fram eru fengnar úr skýrslu sem verslunarstjóri Thomsens á Þingeyri undirritaði 7. nóvember 1858 og sendi sýslumanni.[468]

 

Tafla 1

 

Heildarútflutningur frá Þingeyri árið 1858

 

 

Ætla má að allar þessar afurður séu innlegg frá bændum því Edvard Thomsen fór aldrei út í skútuútgerð á Þingeyri (sjá hér Þingeyrarhreppur, inngangskafli). Eins og taflan ber með sér hafa bændur fengið rétt um 13.000 ríkisdali fyrir allar útflutningsvörur sem inn voru lagðar á Þingeyri árið 1858. Sú upphæð svarar til um það bil 366 kúgilda á þáverandi verðlagi.[469] Á töflunni má sjá að saltfiskur og lýsi voru helstu útflutningsvörurnar en samtals var verðmæti sjávarafurða um 80% af heildarverðmæti útflutningsins þetta ár. Af landbúnaðarvörum er ullin eina útflutningsvaran sem eitthvað munar um og svo var löngum á 19. öld.

Sama dag og verslunarstjórinn á Þingeyri skrifaði undir skýrslu sína um útfluttar vörur á árinu 1858 gekk hann líka frá skrá yfir innflutinginn. Hún er varðveitt á sama stað og þar er allt talið upp sem flutt var til Þingeyrar frá útlöndum á því ári. Skráin sem hér birtist er að öllu leyti byggð á þessari heimild.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Tafla 2

 

Skrá yfir erlendar vörur sem fluttar voru til verslunar

 1. E. Thomsen á Þingeyri árið 1858

 

Á þessari skrá yfir vörur sem inn voru fluttar til Þingeyrar árið 1858 kennir ýmissa grasa. Rétt er að taka fram að í hverri korntunnu áttu að vera 100 kíló[470] svo alls hefur Dýrafjarðarverslunin fengið um 19.300 kíló af kornmat á þessu ári.

Við skoðun talna yfir út- og innflutning til og frá Þingeyri er vert að hafa í huga að haustið 1860 voru 83 heimili í Dýrafirði frá (Sléttanesi að Barða) og heildarfólksfjöldi í öllum firðinum 786 manneskjur eða milli níu og tíu að jafnaði á hverju heimili.[471]

Líklega er tilgangslaust að reyna að glöggva sig á meðalneyslu Dýrfirðinga út frá þeim tölum um innflutning sem hér hafa verið birtar. Fyrir því eru einkum þær ástæður að svo virðist sem aðeins helmingur Dýrfirðinga eða þar um bil hafi átt sín meginviðskipti við verslunina á Þingeyri á þessum árum og sést það best ef saman eru bornar innflutningstölur frá þeirri verslun og tölur um innflutning á allar þrjár verslunarhafnirnar í Ísafjarðarsýslu (sjá hér töflu 4 á bls. 70) og hliðsjón höfð af íbúafjölda.

Aftur á móti er greinilegt að Thomsen á Þingeyri hefur átt veruleg viðskipti við menn á öðrum fjörðum og þá fyrst og fremst með því að senda þangað skip í söluferðir (sjá hér bls. 67-69).

Í plöggum þeim sem verslunarstjórinn á Þingeyri sendi sýslumanni haustið 1858 er m.a. að finna upplýsingar um verðlag á allmörgum vörutegundum.[472] Á þrettán algengum vörutegundum var verðið þá sem hér segir:

 

1… Ein tunna af rúgi ………………………………..  8 ríkisdalir

2… Ein tunna af bankabyggi ……………………..  11 ríkisdalir

3… Eitt kíló af skonroki ……………………………  24 skildingar

4… Ein tunna af salti ………………………………..  2 rd og 48 sk

5… Eitt kíló af járni …………………………………  22 skildingar

6… Eitt kíló af stáli ………………………………….  64 skildingar

7… Ein tunna af kolum …………………………….  2 rd og 64 sk

8… Ein tunna af tjöru ……………………………….  10 ríkisdalir

9… Ein alin af lérefti ………………………………..  14 skildingar

10… Einn pottur af dönsku brennivíni ………….  18 skildingar

11… Eitt kíló af skroi (munntóbak) ……………..  1 rd og 48 sk

12… Eitt kíló af kaffi (baunir) …………………….  52 skildingar

13… Eitt kíló af kandíssykri ……………………….  52 skildingar

 

Í hverjum ríkisdal voru 96 skildingar. Fróðlegt er að sjá hvert var söluverðið út úr búð á öllu því magni sem Þingeyrarverslun flutti inn árið 1858 af þessum þrettán vörutegundum. Hér höfum við bæði magntölur (sjá töflu 2 á bls. 65) og söluverð á hverja einingu svo auðvelt er að finna þetta út. Í ljós kemur að söluverð alls sem inn var flutt af þessum þrettán vörutegundum hefur verið þetta:

 

1… Rúgur ………………………………………………….  728 ríkisdalir

2… Bankabygg ………………………………………….  544 rd og 48 sk

3… Skonrok ………………………………………………  256 ríkisdalir

4… Salt …………………………………………………….  1.710 ríkisdalir

5… Járn …………………………………………………….  82 rd og 48 sk

6… Stál …………………………………………………….  8 rd og 32 sk

7… Steinkol ………………………………………………  176 ríkisdalir

8… Tjara …………………………………………………..  40 ríkisdalir

9… Léreft ………………………………………………….  47 rd og 64 sk

10… Danskt brennivín …………………………………. 675 ríkisdalir

11… Skrotóbak ……………………………………………  179 rd og 24 sk

12… Kaffi …………………………………………………..  790 rd og 82 sk

13… Kandíssykur ………………………………………..  660 rd og 28 sk

..

.. Samtals …………………………………………….  5.898 rd og 38 sk

 

Athygli vekur að verðmæti saltsins sem inn var flutt var langtum meira en verðmæti nokkurrar annarrar vöru sem hér kemur við sögu. Frá árinu 1858 liggur aðeins fyrir verð á þessum þrettán vörutegundum en með hliðsjón af upplýsingum úr öðrum verslunarskýrslum frá árunum kringum 1850 má áætla verð annarra vörutegunda. Slík lausleg áætlun bendir til þess að samtals hafi söluverðmæti alls erlends varnings sem verslun Edvards Thomsen flutti til Þingeyrar árið 1858 numið um 9.000 ríkisdölum eða talsvert lægri upphæð en svarar til andvirðis vöruútflutningsins héðan sama ár (sjá hér Töflu I á bls. 64). Mismunurinn er um 4.000 dalir.

Í aðalatriðum sýnist verðmæti heildarinnflutningsins hafa skipst þannig árið 1858 að kornvaran, að skonroki meðtöldu, hefur numið um 22%, salt um 19% (líklega margra ára birgðir), brennivín og aðrir áfengir drykkir um 9%, tóbak um 10%, sykur og síróp um 11%, kaffi um 9% og ýmsar aðrar vörur um 20%.

Á hinum síðari árum Thomsensverslunar á Þingeyri komu hingað yfirleitt tvö vöruskip á ári á hennar vegum frá Danmörku en auk þess komu þá árlega til Þingeyrar tvö til átta skip frá öðrum höfnum á Íslandi.[473] Árið 1858 komu frá Danmörku skipin Aurora Nicoline, 38 stórlestir (um 99 smálestir), og Christiane, 31½ stórlest (um 82 smálestir).[474] Síðarnefnda skipið kom við í Liverpool á leið sinni frá Kaupmannahöfn til Þingeyrar[475] og hefur ugglaust sótt þangað salt. Eins og sjá má hefur skip þetta borið nafn eiginkonu Edvards Thomsen en það kom oft með vörur til verslunar hans á Þingeyri á árunum 1840-1865.[476]

Á því 30 ára tímabili sem Edvard Thomsen rak verslun á Þingeyri lét hann sjaldan nægja að versla eingöngu hér í Dýrafirði. Áður var minnst á kaup hans á Godthaabsverslun í Vestmannaeyjum sem gengið var frá árið 1858 (sjá bls. 62) en frá Þingeyri sendi hann líka mjög oft vöruskip í spekúlanttúra á nálæga firði, a.m.k. bæði Önundarfjörð og Skutulsfjörð. Í verslunarskýrslum kemur fram að þar átti hann sum árin veruleg viðskipti[477] en þess verður einnig að geta að verslanir á nálægum fjörðum sendu líka spekúlantskip á Dýrafjörð og versluðu þar.[478] Af þessum ástæðum er erfitt að gera sér grein fyrir hversu mikið af vörum og afurðum úr einstökum byggðarlögum fór um hendur kaupmanna. Ætla má að þegar Edvard Thomsen gaf upp hver hefði verið ársvelta fyrirtækis síns á Þingeyri á árunum kringum 1855 og nefndi 16.000-17000 ríkisdali (sjá hér bls. 62) þá hafi hann átt við heildarveltuna, að þeim fjármunum meðtöldum sem við bættust í sölutúrum á nálæga firði. Í verslunarskýrslum frá árinu 1858 kemur fram að verslunarstjórinn á Þingeyri hefur þá farið með skip í sölutúr á Önundarfjörð. Í sérstakri skýrslu um þá ferð er talið upp allt sem selt var í ferðinni og líka tekið fram með hvaða afurðum var greitt.[479] Ljóst er að hjá Önfirðingum hefur Þingeyrarverslun fengið afurðir fyrir a.m.k. 1.200 ríkisdali sem bætist við afurðakaup fyrir um það bil 13.000 ríkisdali á Þingeyri. Þar með er ársveltan komin nokkuð á 15. þúsund ríkisdali og vel gæti verið að skýrsla um annan sölutúr þetta sama sumar hafi tapast.

Sé litið á skýrslur frá árinu 1845 og borið saman hversu mikið verslunin á Þingeyri seldi á því ári af helstu vörutegundum á Þingeyri, Önundarfirði og Skutulsfirði kemur í ljós sú niðurstaða sem sýnd er á næstu töflu.

 

Tafla 3

 

Sala Þingeyrarverslunar á sex vörutegundum árið 1845

 

 • Skipting á milli staða

 

 

Tölurnar benda til þess að árið 1845 hafi aðeins um 60% af vörusölu Edvards Thomsen á Vestfjörðum verið á Þingeyri en um 40% viðskiptanna farið fram á skipum úti í öðrum fjörðum. Tekið skal fram að taflan gefur aðeins vísbendingu í þessum efnum en varðveitt gögn benda flest til þess að yfirleitt hafi hlutdeild fastaverslunarinnar á Þingeyri verið hærri en þessar tölur gefa til kynna.[480] Gögnin nægja að vísu ekki til þess að unnt sé að fá alveg skýra mynd af þessari skiptingu en tvímælalaust er að spekúlanttúrarnir hafa verið veigamikill þáttur í verslunarrekstri Edvards Thomsen.

Eins og áður sagði nægja tölur frá Þingeyrarverslun ekki til að gera sér grein fyrir hversu mikið Dýrfirðingar keyptu árlega af erlendum varningi um miðja 19. öld. Þessu veldur öðru fremur óvissa um viðskipti þeirra við spekúlanta sem buðu upp á viðskipti á skipum úti.

Besta leiðin til að átta sig á neyslunni er því að líkindum sú að skoða hversu mikið var flutt inn af vörum samtals til verslunar­staðanna í Ísafjarðarsýslu, Þingeyrar og Skutulsfjarðareyrar (Ísafjarðar). Engin verslun var rekin á Flateyri á árunum 1840-1865 (sjá hér Flateyri). Gera má ráð fyrir að neysla á kornvörum, kaffi og sykri hafi verið álíka mikil á hvern íbúa í hinum ýmsu hreppum sýslunnar en með því að skoða tölur fyrir sýsluna alla er hægt að eyða ýmsum ruglingi sem annars væri erfitt að ráða við.

Frá kaupmannsárum Edvards Thomsen á Þingeyri verða nú valin tvö tímabil, það er að segja árin 1840-1843 og árin 1856-1857, og skoðað hver árlegur heildarinnflutningur þá var til allra hafna í Ísafjarðarsýslu af nokkrum helstu vöruflokkunum. Þessi ár eru fyrst og fremst valin vegna þess að viðkomandi skýrslur sýslumanns hafa varðveist óskertar en hið sama verður því miður ekki sagt um mörg önnur ár sem þarna liggja nærri í tímanum. Við val á árum var einnig haft í huga að fram kæmi samanburður á innflutningi fyrir og eftir þá miklu breytingu sem varð í verslunarmálum Íslendinga 1. apríl 1855 er verslunin var gefin frjáls við allar þjóðir.

Allar tölur um vöruinnflutning sem hér verða nefndar eru fengnar úr skýrslum sem sýslumaður gekk frá undir lok hvers árs[481] eins og honum bar skylda til. Í þriðja bindi af Skýrslum um landshagi, sem út kom árið 1866, er líka að finna skrá yfir heildarinnflutning til hafnanna í Ísafjarðarsýslu á hinum ýmsu vörutegundum og má heita að þeirri skrá beri saman við skýrslur sýslumanns.[482] Nauðsynlegt er að taka fram að tölur þessar gefa aðeins vísbendingu um hver neyslan var en alls ekki nákvæmt svar við þeirri spurningu. Til að svo mætti verða hefðu árin þurft að vera fleiri því oft er mikill munur á innflutningi milli ára. Þess verður reyndar líka að geta að meðferð talna í opinberum skýrslum var um miðja 19. öld oft á tíðum ótraustari en síðar varð. Fleiri fyrirvara mætti tína til en þrátt fyrir þá alla má ætla að tölurnar sem nú verða birtar á Töflu 4 gefi marktæka vísbendingu um neysluna og þá breytingu sem á henni varð um miðbik 19. aldar. Mannfjöldatölur sem á er byggt eru úr aðalmanntölum áranna 1840, 1850 og 1860.[483]  Meðalíbúafjöldi áranna 1840-1843 og

 

 

Tafla 4

Árlegur heildarinnflutningur nokkurra vörutegunda til hafna í Ísafjarðarsýslu 1840-1843 og 1856-1857

 

 

 

1856-1857 hefur síðan verið áætlaður út frá þeim grunni og telst vera 4.020 á fyrra skeiðinu en 4.631 á hinu síðara.

Tölurnar á Töflu 4 benda eindregið til þess að á árunum kringum 1850 hafi neysla Vestfirðinga á innfluttum kornmat aukist verulega og á sama tíma hafi neysla kaffis, sykurs og brennivíns margfaldast. Á hálfum öðrum áratug sem taflan nær yfir sýnist innflutningur á kornmat hafa aukist um 60-70%, brennivínsdrykkjan virðist hafa þrefaldast og kaup manna á kaffi og sykri tífaldast sé miðað við innflutning á hvern íbúa. Nú má vera að taflan gefi dálítið ýkta mynd af breytingunum en geysimiklar hljóta þær engu að síður að hafa verið. Aðrar heimildir staðfesta reyndar að víðast hvar á Íslandi hafi almúgafólk ekki farið að drekka kaffi svo nokkru næmi fyrr en einmitt á þessum árum[484] og þá hefur sykurinn fylgt með. Í Skýrslum um landshagi sést að árið 1840 hefur kaffiinnflutningur til alls landsins aðeins numið 0,8 kílóum á mann en var árið 1855 kominn upp í 3,3 kg.[485] Mælt á sama hátt jókst sykurinnflutningur úr 0,9 kílóum í 3,5 kíló á þessum sömu 15 árum.[486] Um miðja 19. öld og lengi síðar var kaffið flutt inn og selt ómalað (kaffibaunir) og á þeim árum sem hér um ræðir var kandíssykur langalgengasta tegundin af sykri eða um 90% af öllum þeim sætindum sem kaupmenn í Ísafjarðarsýslu höfðu á boðstólum.[487]

Ýmsir kunna að hrökkva við er þeir sjá hvílík býsn voru flutt inn af brennivíni á árunum 1856 og 1857 en minna hefur þetta tæplega verið því varla hefði sýslumaður, sem byggir á skýrslum kaupmanna, farið að hækka tölurnar. Frekar mætti hugsa sér að eitthvað vanti upp á fulla tölu. Gera verður ráð fyrir að í hverjum brennivínspotti hafi verið um 40 sentilítrar af hreinum vínanda og síst minna í öðrum sterkum drykkjum sem inn voru fluttir. Hafi kaupmönnum tekist að fá menn til að drekka allt þetta brennivín og engar birgðir safnast fyrir þá hefur árleg áfengisneysla numið sem svarar fjórum til fimm lítrum af hreinum vínanda á hvert mannsbarn í landinu. Það þýðir með öðrum orðum að á hverju 7 manna heimili hafa að jafnaði verið drukknar tvær þriggja pela flöskur af brennivíni eða öðru sterku áfengi á viku hverri og vel það. Þetta er mun meiri áfengisneysla en almenn var í landinu á þessum tíma því árið 1855 voru alls fluttir til landsins um það bil 7 pottar af áfengi á hvern íbúa[488] í stað 11 eða 12 potta á ári sé eingöngu litið á Ísafjarðarsýslu og mark tekið á töflunni. Vel má vera að Vestfirðingar hafi sopið eitthvað meira en sumir aðrir landsmenn en varla þó sem þessu nemur. Máske hafa menn verið að safna birgðum.

Um miðja 19. öld var sjálfsþurftarbúskapur enn uppistaðan í atvinnulífi Vestfirðinga eins og annarra landsmanna. Maturinn sem fólk nærðist á var nær allur framleiddur heima á hverju býli og sömu sögu var að segja um fatnaðinn. Í þeim efnum varð ekki veruleg breyting fyrr en alllöngu síðar. Engu að síður sýna tölurnar hér að framan að um og upp úr miðri 19. öld fara múgamenn á Vestfjörðum að leyfa sér vissan munað sem óhugsandi var nokkrum áratugum fyrr. Kaffi, sykur og brennivín voru munaðarvörur þess tíma hjá almúgafólki og svo tóbakið í munn og nef en neysla þess jókst líka þó nokkuð á árunum kringum 1850 eins og hér má sjá á Töflu 4 á bls. 69. Opinberar upplýsingar sem hér hafa verið kynntar sýna að vöruinnflutningur margfaldaðist til verslunarstaðanna í Ísafjarðarsýslu á þeim árum sem Edvard Thomsen rak verslun á Þingeyri. Skipakomum fjölgaði þá líka mjög verulega eins og sjá má í verslunarskýrslunum sem hér er byggt á. Á árunum 1840-1843 komu samtals 5 til 7 vöruskip á ári til Þingeyrar, Flateyrar og Ísafjarðar en á árunum 1856 og 1857 komu 22 skip á ári, ef marka má skýrslurnar.[489] Auknar siglingar héldust í hendur við vaxandi neyslu.

 

Hér hefur nú verið fjallað nokkuð um sögu Þingeyrarverslunar frá því einokun lauk árið 1788 og fram til ársins 1866. Í ritinu Firðir og fólk 1900-1999 er gerð grein fyrir verslunarrekstri Niels Christians Gram á Þingeyri (sjá þar bls. 196-200) en hann keypti Þingeyrarverslun af Edvard Thomsen árið 1866 og átti hana til dauðadags árið 1898. Svo merkilega vill til að þrír hinna dönsku kaupmanna sem freistuðu gæfunnar á Þingeyri á 19. öld héldu þar allir uppi rekstri í álíka langan tíma, 30 ár hver eða því sem næst. Fyrst Henrik Henkel frá 1788-1817, þá Edvard Thomsen frá 1836-1866 og loks Niels Chr. Gram frá 1866-1898. Um hagnað þeirra af viðskiptunum við Dýrfirðinga er fátt kunnugt en taprekstur hefur þetta varla verið fyrst menn héldu svo lengi út.

Er Edvard Thomsen seldi Þingeyrarverslun árið 1866 hafa fjárráð manna í Dýrafirði að líkindum verið orðin svolítið rýmri en verið hafði er hann tók við rekstri verslunarinnar þrjátíu árum fyrr. Aukin kaup á munaðarvörum benda a.m.k. til þess að svo hafi verið. Flest var þó óbreytt á Þingeyri, engin útgerð þaðan og ekkert þorp farið að myndast. Krambúðin og faktorshúsið stóðu þar eins og áður, gamlar og virðulegar byggingar. Sjálfur hafði Thomsen kaupmaður búið í faktorshúsinu árið um kring fyrstu árin, frá 1836 til 1840, eins og hér var áður rakið. Síðan bjuggu faktorarnir þar hver af öðrum. Fyrst Niels M. Steenbach sem hér hefur áður verið sagt frá (sjá bls. 42-44) en árið 1855 tók Þorsteinn Thorsteinsson við af honum. Við manntal 1. október á því ári er Þorsteinn kominn til Þingeyrar og sestur að í faktorshúsinu.[490] Hann var verslunarstjóri á Þingeyri í sex ár.

Þorsteinn var fæddur í Tröð í Álftafirði 14. júlí 1817,[491] sonur hjónanna Þorsteins Þórðarsonar, er síðar varð prestur á Snæfjöllum við Djúp og í Gufudal, og konu hans, Rannveigar Sveinsdóttur frá Kirkjubóli í Skutulsfirði. Þorsteinn verslunarstjóri mun hafa alist upp í Skutulsfirði[492] og fermdur var hann í Eyrarkirkju í Skutulsfirði vorið 1834, sagður skarpur og vel að sér.[493] Tæpum áratug síðar er hann við verslunarstörf í Stykkishólmi og kallaður borgari og kaupmaður þar árið 1843 er hann kvænist Hildi, dóttur Guðmundar Schevings,[494] hins mikla athafnamanns í Flatey á Breiðafirði sem þá var látinn fyrir nokkrum árum. Á brúðkaupsdaginn gaf Þorsteinn konu sinni 200 ríkisdali í morgungjöf[495] er þá svaraði til sjö eða átta kúgilda.[496] Slík gjöf bendir til þess að hann hafi þá þegar verið orðinn allvel efnaður, enda ólíklegt að kaupmannsdóttirin í Flatey hefði gengið að eiga félausan mann. Hins vegar má telja víst að þeir fjármunir sem Þorsteinn átti er hann gekk í hjónaband hafi verið hans eigið aflafé því ekkert hefur hann erft eftir foreldra sína, fátæk prestshjón sem áttu þrettán börn er upp komust. Hugsanlegt er að Þorsteinn hafi strax á æskuárum náð að efnast á kaupmennsku en hitt er þó líklegra að hann hafi á ungum aldri orðið hákarlaformaður við Djúp eða Breiðafjörð og þannig náð að koma undir sig fótunum. Til þess bendir það frægðarorð er af honum fór síðar sem sjósóknara.[497] Með kvonfangi sínu tengdist Þorsteinn fólki í góðum efnum sem ef til vill hefur stutt nokkuð við bakið á honum síðar.

Haustið 1843, tveimur mánuðum eftir hjónavígsluna, kaupir Þorsteinn krambúðarplássið í Flatey með öllu inventari af tengdamóður sinni, Halldóru Benediktsdóttur, og galt fyrir það 900 ríkisdali.[498] Þar af voru 300 ríkisdalir greiddir út í hönd.[499] Ekki náði Þorsteinn að festa sig í sessi í Flatey, enda sátu þar fyrir öflugir héraðshöfðingjar en þeirra fremstur á sviði útgerðar og verslunar var Brynjólfur Benedictsen sem kvæntur var annarri dóttur Guðmundar Scheving. Árið 1844 yfirgaf Þorsteinn Thorsteinsson Flatey og gerðist verslunarstjóri í Ólafsvík.[500] Krambúðarpláss sitt í Flatey virðist hann þó hafa átt dálítið lengur. Það var Sigurður Jónsson sem keypti verslun Þorsteins í Flatey fyrir 1.600 ríkisdali en afsalið var ekki undirritað fyrr en 14. júlí 1847.[501]

Haustið 1846 festi Þorsteinn kaup á Vatneyrarverslun við Patreksfjörð og gaf fyrir hana 4.900 ríkisdali og 48 skildinga sem var ærið fé.[502] Seljandinn var William Thomsen, bróðir Edvards Thomsen, kaupmanns á Þingeyri (sjá hér Grandi). Vorið 1847 fluttist Þorsteinn til Vatneyrar ásamt fjölskyldu sinni og tók þar við verslunarrekstrinum.[503] Á Vatneyri hélt Þorsteinn úti a.m.k. einni fiskijakt sem hann keypti vorið 1848 frá Búðum á Snæfellsnesi í félagi við Jón Þórðarson, hreppstjóra á Kvígindisfelli í Tálknafirði.[504] Svo virðist sem verslunarrekstur Þorsteins á Vatneyri hafi gengið illa því sumarið 1850 er Jón Jónsson frá Kvígindisfelli í Táknafirði orðinn eigandi Vatnseyrar og verslunarhúsanna þar en leigir Þorsteini eignirnar fyrir 200 ríkisdali á ári.[505]

Í veðmálabókinni sést reyndar ekki hvaða Jón Jónsson það er sem leigir Þorsteini eignirnar á Vatneyri en þar kemur fram að á árunum 1847 og 1848 hafa þeir feðgar, Jón Þórðarson á Kvígindisfelli og Jón sonur hans, sá eldri með því nafni, er þá bjó á Hvallátrum í Rauðasandshreppi, lánað Þorsteini um 1.900 ríkisdali gegn veði í Vatneyrareignum.[506] Með hliðsjón af þeirri staðreynd má telja víst að það sé Jón Jónsson frá Kvígindisfelli sem talist hafi eigandi Vatneyrarverslunar árið 1850 en Jón Þórðarson, faðir hans, og Jón yngri, bróðir hans, dóu báðir sumarið 1849.[507] Næstu tvö til þrjú árin rak Þorsteinn verslun sína á Vatneyri með þessum hætti en sumarið 1852 keypti William Thomsen Vatneyrareignir á ný af Jóni Jónssyni[508] sem um það leyti fór að búa á Lambeyri í Tálknafirði.

Þorsteinn Thorsteinsson vildi þó ekki játa sig sigraðan og sótti nú um leyfi til að hefja verslunarrekstur á Geirseyri en milli Vatneyrar og Geirseyrar er sem kunnugt er aðeins skammur spölur, liðlega hálfur kílómetri. Á Geirseyri hafði aldrei verið rekin verslun en í danska innanríkisráðuneytinu var umsókn Þorsteins þó vel tekið og með bréfi sem út var gefið 15. desember 1852 var honum veitt umbeðið leyfi.[509] Hann var þá þegar farinn að búa á Geirseyri og vorið 1853 hóf hann þar rekstur verslunar.[510] Á Geirseyri byggði Þorsteinn lítið verslunarhús með hlöðnum steinveggjum niður við sjó.[511] Líklega hefur þessi tilraun til verslunarreksturs á Geirseyri gengið eitthvað lakar en vonir stóðu til því tveimur árum síðar eða því sem næst ákvað Þorsteinn að hætta eigin rekstri og taka við starfi verslunarstjóra hjá Edvard Thomsen á Þingeyri.

Haustið 1855 er Þorsteinn kominn til Þingeyrar ásamt fjölskyldu sinni og hefur tekið þar við starfi verslunarstjóra af Niels Steenbach. Þetta fyrsta haust sitt á Þingeyri var Þorsteinn með 14 manns í heimili er manntal var tekið þann 1. október.[512] Börn þeirra hjóna voru þó aðeins tvö og vinnuhjú ekki nema fjögur en á heimili faktorsins var líka ekkja með fimm börn, kölluð ráðskona.[513] Ekkja þessi var reyndar engin önnur en Anna Margrét Thomsen sem skömmu síðar fór að búa á Granda og hér er frá sagt á öðrum stað (sjá Grandi) en hún var tvöföld mágkona Edvards Thomsen, eiganda Þingeyrarverslunar, og hafði verið samtíða Þorsteini og Hildi konu hans á Patreksfirði, þá kaupmannsfrú (sjá hér Grandi). Auk heimilisfólks Þorsteins var ekkert fólk á Þingeyri haustið 1855 nema Andrés Bjarnason, þurrabúðarmaður sem lifði á eignum sínum, og Dagbjört Matthíasdóttir kona hans.[514]

Í búnaðarskýrslu frá vorinu 1856 má sjá að Þorsteinn hefur þá verið með tvær kýr í fjósi og athygli vekur að bátar hans tveir eru aðeins smákænur, tveggja eða þriggja manna för.[515] Ekki hefur hann farið í hákarlalegur á þeim. Kálgarðinn virðist Þorsteinn hins vegar hafa stækkað strax og hann kom til Þingeyrar því vorið 1855 er garður sá sagður vera átta ferfaðmar en orðinn tólf slíkir vorið 1856.[516]

Þorsteinn Thorsteinsson var verslunarstjóri á Þingeyri í sex ár, 1855-1861. Um stjórn hans á verslunarrekstrinum og öll viðskipti við Dýrfirðinga er flest gleymt. Greinilegt er þó að í Dýrafirði hefur Þorsteini verið treyst til forystu í ýmsum þýðingarmiklum málum. Á Kollabúðafundi árið 1856 var Þorsteinn kvaddur til að undirbúa mál í Þingeyrarhreppi fyrir næsta Kollabúðafund en til slíkra verka voru þá valdir þrír menn í hverjum hreppi á Vestfjörðum og þá helst þeir sem líklegastir þóttu til forystu.[517] Ótvírætt virðist líka að Þorsteinn hafi haft forystu um söfnun undirskrifta í Dýrafirði undir bænarskrá þá sem áður var frá sagt gegn fyrirhugaðri stofnun franskrar nýlendu á Þingeyri (sjá hér bls. 59-61) því bæði ritar hann fyrstur undir skjalið og sér síðar um að senda það Jóni forseta Sigurðssyni.[518] Engum sögum fer af því hvort Napóleon prins hafi sýnt það lítillæti að heilsa upp á faktorinn við Dýrafjarðarhöndlun er hann skoðaði sig um á Þingeyri sumarið 1856 (sjá hér bls. 55-56). Vel gæti það hafa verið en í dagbók Napóleonsleiðangursins er ekki á Þorstein minnst og svo virðist sem Edvard Thomsen kaupmanni og Kristjönu konu hans hafi einum verið boðið að ganga um borð í franska herskipið sem prinsinn hafði til umráða (sjá hér bls. 55-56).

Sitthvað bendir til þess að Þorsteinn Thorsteinsson hafi mjög gjarnan viljað standa á eigin fótum og því unað sér heldur illa í annarra þjónustu. Til marks um þetta má nefna tvær tilraunir hans til eigin verslunarreksturs á Patreksfirði, sem hér hefur áður verið frá sagt, og ekki síður hitt að árið 1861 sleppti hann faktorsstöðunni á Þingeyri og gerðist sjálfstæður útvegsbóndi í Æðey. Þar var hann sinn eigin herra og fáar jarðir buðu upp á meiri möguleika til fjölbreyttra umsvifa á sjó og landi en þessi víðlenda eyja með allan sinn æðarfugl og Djúpið fullt af fiski allt um kring. Í Æðey gerðist Þorsteinn hákarlaformaður og sótti sjó af miklu kappi.[519] Allar líkur benda til þess að hann hafi verið vanur slíkri sjósókn frá fyrri tíð því tæplega er hægt að gera ráð fyrir að hálffimmtugur verslunarstjóri breytist skyndilega í hákarlaformann nema því aðeins að sá hinn sami hafi áður aflað sér verulegrar reynslu í sjómennsku. Hin miklu umsvif í útgerð sem Þorsteinn hafði forgöngu um í Æðey benda eindregið til þess að hann hafi unað illa við aðgerðaleysi húsbónda síns á Þingeyri í þeim efnum. Eins og hér hefur áður verið minnst á var Edvard Thomsen aldrei með neina útgerð á Þingeyri, enda þótt fleiri eða færri þilskipum væri á kaupmannsárum hans hér haldið til veiða frá flestum öðrum verslunarstöðum á Vestfjörðum.

Búskaparár Þorsteins í Æðey urðu aðeins þrjú því í desembermánuði árið 1864 týndist skip hans í hákarlalegu og var hann þar sjálfur formaður.[520] Er Þorsteinn Thorsteinsson drukknaði var hann 47 ára gamall og börn hans þá öll á ungum aldri. Með konu sinni, Hildi Guðmundsdóttur Scheving, átti Þorsteinn fjögur börn sem upp komust og voru tvö þeirra fædd á Þingeyri. Margir niðjar Þorsteins og Hildar bera nú ættarnafnið Scheving Thorsteinsson.

Utan hjónabands eignaðist Þorsteinn a.m.k. tvö börn.[521] Annað þeirra var hinn síðar víðkunni athafnamaður Pétur J. Thorsteinsson á Bíldudal, sem fæddur var 4. júní 1854, en móðir hans var Halla Guðmundsdóttir er verið hafði vinnukona hjá Þorsteini og Hildi á Geirseyri. Pétur var í fyrstu kenndur Ólafi Halldórssyni frá Kollsvík[522] og jafnan ritaður Ólafsson á uppvaxtarárum en árið 1879 skrifuðu hálfbræður hans, allir þrír, undir yfirlýsingu um að faðir þeirra hefði nokkru fyrir dauða sinn skýrt svo frá að sjálfur væri hann Péturs rétti faðir.[523] Á árunum 1871-1880 var Pétur við verslunarstörf hjá Gramsverslun á Þingeyri, bæði í spekúlantsferðum um Vestfirði og Breiðafjörð og við bókhald í Kaupmannahöfn að talið er.[524] Sama árið og þessi ungi verslunarmaður fékk sitt rétta faðerni viðurkennt festi hann kaup á Bíldudalsverslun og hóf verslunarrekstur sinn þar næsta vor.[525]

Eins og áður var frá greint lét Þorsteinn Thorsteinsson af störfum verslunarstjóra á Þingeyri árið 1861 er hann fluttist til Æðeyjar. Edvard Thomsen var þá enn eigandi Þingeyrarverslunar og lét nú son sinn, H. E. Thomsen yngri, taka við verslunarstjórastöðunni. Yngri Thomson mun hafa tekið við stjórn verslunarrekstursins á Þingeyri vorið 1862,[526] tæplega tvítugur að aldri, en hann var fæddur í Kaupmannahöfn 24. september 1842.[527] Á unglingsárum hafði H. E. Thomson yngri komið einu sinni eða oftar með föður sínum til Íslands og mun þá að líkindum hafa starfað eitthvað við verslunina á Þingeyri í kauptíðinni eða verið sendur í spekúlantstúra. Fullvíst er að hann var staddur í Dýrafirði sumarið 1860 því þá náði hann að barna vinnukonu hjá móðursystur sinni, maddömu Thomsen á Granda. Vinnukona þessi hét Ólöf og var dóttir Bjarna murru sem áður bjó á Granda (sjá hér Grandi). Vorið 1861 varð Ólöf Bjarnadóttir léttari og ól stúlkubarn er hún kenndi kaupmannssyninum og mun hann hafa gengist við faðerninu.[528] Stúlkan var skírð Sigríður Andrea og bar ættarnafn föður síns.[529] Hún fluttist liðlega þrítug til Ameríku en á hér niðja.[530]

Er H. E. Thomsen yngri tók við verslunarstjórastarfinu var hann enn ókvæntur en gekk haustið 1863 að eiga Ragnheiði Mettu, dóttur Péturs Guðmundssonar, er verið hafði verslunarstjóri á Ísafirði, og Sigríðar konu hans Sandholt.[531] Í lok ársins 1863 bjuggu ungu hjónin í faktorshúsinu á Þingeyri og voru þá með einn vinnumann, eina vinnukonu og eina stofujómfrú.[532] Annað fólk átti þá ekki heima á Þingeyri en stofujómfrúin var reyndar Nicolína Thomsen sem þá var sextán ára, dóttir maddömu Thomsen á Granda.[533] Árin 1862-1865 virðist H. E. Thomsen yngri hafa haldið sig að mestu á Þingeyri[534] en haustið 1865 siglir hann til Kaupmannahafnar ásamt konu sinni og dóttur þeirra og dvelur þar næsta vetur. Maddama Thomsen, frænka hans á Granda, bjó þennan vetur í faktorshúsinu á Þingeyri og er í sóknarmannatali frá 31.12.1865 sögð vera þar húsráðandi gáfuð vel og greind, sérdeilis siðprúð.[535] Þennan vetur bjuggu fjögur börn maddömunnar með henni á Þingeyri, þrjár dætur á unglingsaldri og sonurinn Jess Nicolai sem orðinn var 25 ára gamall.[536] Í sóknarmannatalinu er hann nefndur verslunarfulltrúi og hefur átt að sjá um reksturinn uns frændi hans kæmi til landsins á ný með vorskipum. Allt gekk það eftir og má ætla að H. E. Thomsen yngri hafi verið kominn aftur til Þingeyrar fyrir upphaf kauptíðar sumarið 1866 og hér er hann enn með fjölskyldu sína um næstu áramót, titlaður faktor sem áður[537] en nú í síðasta sinn.

Haustið 1866 voru 30 ár liðin frá því H. E. Thomsen eldri tók við verslunarrekstrinum á Þingeyri (sjá hér bls. 44-45). Allan þann tíma hafði hann verið eini kaupmaðurinn á Þingeyri og setið að mestu einn að allri verslun við Dýrfirðinga ef frá eru talin viðskipti þeirra við lausakaupmenn á skipum úti. Nú var friðurinn hins vegar úti. Árið 1865 hafði þess orðið vart að ungur maður úr röðum danskra kaupsýslumanna hefði hug á að setja upp aðra verslun á Þingeyri og taka þar upp samkeppni við hina gamalgrónu Thomsensverslun. Maður þessi var Niels Christian Gram, þá 27 ára gamall, og hafði lengi fylgt föður sínum, Lehman Gram, á hans mörgu spekúlantsferðum um Vestfirði og Breiðafjörð.[538]

Þann 7. nóvember 1865 fékk N. Chr. Gram mælda út 3.249 ferfaðma verslunarlóð fyrir sig á Þingeyri og náði hún frá stakkstæðum Edvards Thomsen og alveg út í Þingeyrarodda.[539] Útmælingarskjalið er undirritað af Stefáni Bjarnarsyni sýslumanni og þar er tekið fram að á umræddri lóð sé herra Gram heimilt að byggja kaupstaðarhús og koma þar upp kálgörðum og fiskreitum en þó því aðeins að nánar hafi verið samið um málið við landeiganda[540] sem var Sandakirkja. Skjal þetta var þinglesið í Meðaldal 11. september 1866.[541]

Vel má nú vera að vitneskja um ráðagerðir Grams hafi ýtt undir utanför H. E. Thomsens yngri haustið 1865 því ekki er ólíklegt að hann hafi viljað ráðgast við föður sinn í Kaupmannahöfn um hvað til bragðs skyldi taka. Ætla má að þeir Thomsenfeðgar hafi talið harla ólíklegt að tvær verslanir gætu þrifist hlið við hlið á Þingeyri og reyndar má líka láta sér detta í hug að hótun Grams um að setja upp aðra verslun hafi verið sett fram í því skyni að knýja Edvard Thomsen til að selja sér hina gömlu Þingeyrarverslun á hóflegu verði. Niðurstaðan varð sú að Thomsen féllst á að selja Gram verslun sína á Þingeyri og hætta þar öllum rekstri. Frá kaupsamningnum var gengið 11. desember 1866 og var kaupverðið 10.900 ríkisdalir.[542] Út í hönd voru greiddir 4.500 ríkisdalir en eftirstöðvarnar áttu að greiðast í tvennu lagi með 5% vöxtum í desember 1867 og 1868.[543] Verðið sem Edvard Thomsen fékk fyrir verslunina sýnist reyndar hafa verið býsna hátt og samsvaraði á sínum tíma um það bil 270 kúgildum[544] en nær þremur áratugum fyrr hafði hann gefið tæplega 100 kúgildi fyrir þessa sömu verslun (sjá hér bls. 44-45). Í veðmálabók sýslumanns má sjá að afsali Þingeyrarverslunar í hendur N. Chr. Gram hefur verið þinglýst í Meðaldal 8. júní 1867 og þar er líka frá því greint að 16. desember 1868 hafi Gram lokið við að borga að fullu umsamið kaupverð.[545]

Frá kaupum Grams á Þingeyrarverslun var gengið úti í Kaupmannahöfn og má því ætla að hann hafi ekki tekið við eignum sínum á Þingeyri fyrr en vorið 1867, enda er H. E. Thomsen yngri enn talinn verslunarstjóri hér á sóknarmannatali frá 31.12.1866 (sjá hér bls. 77).

Er Edvard Thomsen seldi Þingeyrarverslun var hann 59 ára gamall og hafði verið ekkjumaður í sjö ár en kona hans, Kristjana fædd Knudsen, sem hér var áður frá sagt, andaðist í Kaupmannahöfn 31. júlí 1859.[546] Verslun þá í Vestmannaeyjum sem Edvard Thomsen keypti árið 1858 (sjá hér bls. 62) rak hann til dauðadags vorið 1881[547] en var jafnan búsettur í Kaupmannahöfn hin síðari ár. H. E. Thomsen yngri, sem var verslunarstjóri á Þingeyri frá 1862 til 1867, fluttist sumarið 1867 til Kaupmannahafnar þar sem hann gerðist bakarameistari.[548]

Þegar Gram keypti verslunina á Þingeyri árið 1866 var kirkjan á Söndum enn eigandi landsins sem verslunarstaðurinn stóð á en vorið 1873 keypti Gram allt það landsvæði sem tilheyrði verslunarstaðnum og borgaði fyrir það 600 ríkisdali.[549] Nær fjórum árum fyrr, þann 5. júlí 1869, hafði Gram látið þinglýsa landamerkjum Þingeyrar[550] Ytri merkin voru þá Bjartilækur á Garðsendamýrum og þau innri Ásgarðsnes.[551] Bjartilækur er nú horfinn en farvegur hans sést enn (1998) í bökkunum fyrir ofan akveginn á móts við Sandakerlinguna (sjá hér Sandar, bls. 2 þar) en þó aðeins utar. Þarna er nú (1998) steypt plata neðan við veginn og þar mótar enn fyrir merkjagarðinum. Spölurinn frá ytri merkjunum inn að Ásgarðsnesi (sjá Hvammur) er 2,2 kílómetrar[552].

Niels Chr. Gram, sem festi kaup á Þingeyrarverslun á jólaföstu árið 1866, átti þá ærið starf fram undan og stóð fyrir miklum umsvifum í verslun og þilskipaútgerð á Þingeyri næstu áratugi, allt til dauðadags árið 1898.

Í gögnum sem snerta uppgjör á dánarbúi eiginkonu Grams vorið 1878 sést að verslunin sem Gram hafði keypt 12 árum fyrr á 10.900 ríkisdali var nú virt á 30.000,- krónur,[553] það er 15.000 ríkisdali. Vorið 1878 voru þilskipin sem Gram átti hlut í orðin sjö[554] og matsverð heildareigna þeirra hjóna á Þingeyri komið upp í 71.175,77 krónur.[555] Á móti þessum miklu eignum komu skuldir að upphæð 56.587,13 krónur.[556]

Á síðasta þriðjungi nítjándu aldar var Niels Christian Gram löngum alls ráðandi á Þingeyri og í tengslum við hin miklu umsvif hans á því skeiði hófst þorpsmyndun á þessum forna verslunarstað. Þó að Gram ræki hér útgerð og verslun í nær þriðjung aldar var hann jafnan búsettur úti í Kaupmannahöfn. Hann kom þó oft til Þingeyrar á sumrin og hafði hér alla þræði í sínum höndum. Fyrsti verslunarstjóri hans á Þingeyri var Hákon Bjarnason, en faðir hans, séra Bjarni Gíslason, hafði um skeið verið prestur á Söndum (sjá hér Sandar) og Hákon átt þar heima á unglingsárum.[557] Nú kom hann aftur í Dýrafjörð frá Flatey á Breiðafirði, orðinn nær fertugur að aldri.

Strax í byrjun virðist Gram hafa ætlað sér meiri umsvif á Þingeyri en þar höfðu tíðkast um skeið. Meðan Edvard Thomsen rak Þingeyrarverslun var hann yfirleitt ekki með neitt starfsfólk hér á veturna nema verslunarstjórann.[558] Hinn fyrsta vetur Gramsverslunar, 1867-1868, voru hins vegar á Þingeyri auk verslunarstjórans, bæði assistent og beykir[559] eins og verið hafði á dögum Henriks Henkel á árunum kringum aldamótin 1800 (sjá hér bls. 39-40). Þennan fyrsta vetur sinn á Þingeyri var Hákon Bjarnason verslunarstjóri með fjórtán manns í heimili og í þeim hópi voru J. M. Falck, tvítugur assistent, og Helgi Pétursson, beykir á fertugsaldri.[560] Segja má að þessi fjölgun verslunarstarfsmanna á Þingeyri hafi strax gefið vísbendingu um það sem fram undan var.

Hákon Bjarnason var verslunarstjóri á Þingeyri í þrjú ár, 1867-1870,[561] en gerðist svo kaupmaður á Bíldudal. Er Hákon lét af störfum hjá Gram tók Friedrich R. Wendel, sem var af þýskum ættum, við verslunarstjórastarfinu á Þingeyri og gegndi því lengur en nokkur annar maður eða í nær 35 ár, frá 1870 til 1904.

Haustið 1870 er Wendel kominn til Þingeyrar og orðinn þar verslunarstjóri en Hákon er þá ekki enn farinn til Bíldudals.[562] Þá voru heimilin á Þingeyri fjögur, beykir og húskona auk Hákonar og Wendels. Húsbónda sínum, Gram kaupmanni, reyndist Friedrich R. Wendel þarfur maður og svo virðist sem samstarf þeirra hafi yfirleitt gengið vel. Um þá félaga, Gram og Wendel, er nánar fjallað í ritinu Firðir og fólk 1900-1999 (sjá þar bls. 196-200).

Þar sem áður voru höfuðstöðvar Gramsverslunar á Þingeyri  erum við enn í hinni fornu landareign kirkjustaðarins á Söndum. Nú röltum við til baka þangað heim, gerum þar stuttan stans en höldum svo ferðinni áfram og fylgjum gömlu boðleiðinni eins og hún lá bæja á milli um allan hreppinn. Þá er Bakki næstur í röðinni[563] en þangað er liðlega hálftíma gangur frá Söndum, sé farið beint af augum og stefnan í suðaustur.

 

 

 

– – – – – – – – – – o o o o o – – – – – – – – – –

[1] Manntal 1880.

[2] Íslensk fornrit I, 191.

[3] Sama heimild, 189-191.

[4] Sama heimild, 190.

[5] Sigurður Vigfússon 1883, 10-15 (Árbók Hins ísl.  fornleifafélags).  Sbr. P. E. Kr. Kålund 1985, 176-177.

[6] Jón Jóhannesson1956, 68 og 94-98.

[7] Sama heimild.

[8] Sturlunga I, 362 og 424.

[9] Sama heimild, 380.

[10] Sturl. I, 372.

[11] Jón Jóhannesson 1956, 97.

[12] Sturl. I, 373.

[13] P. E. Kr. Kålund 1985, 175.

[14] D.I. III, 324 og IV, 141.

[15] P. E. Kr. Kålund 1985, 175.

[16] P. E. Kr. Kålund 1985, 175.

[17] Ísl. fornrit VI, 40.

[18] Gustav Storm / Isl. Annaler, 350.

[19] Sama heimild.

[20] Jón J. Aðils 1971, 52, 55 og 285.

[21] D.I. XIV, 576-578 og XV, 47-49.

[22] Sama heimild.

[23] Sama heimild.

[24] Salmonsens Konversations Leksikon 1926 XXI, 166.

[25] Sama heimild.

[26] D.I. XIV, 576-578.

[27] Sama heimild.

[28] Sama heimild.

[29] D.I. XV, 47-49.

[30] Sama heimild.

[31] Sama heimild.

[32] Sama heimild, 465.

[33] D.I. XV, 465.

[34] Sama heimild.

[35] Sama heimild.

[36] Jón J. Aðils 1971, 50 og 54-57.

[37] Sama heimild, 55.

[38] Sama heimild.

[39] Jón J. Aðils 1971, 74-75.  Alþingisbækur Íslands III, 294.

[40] Alþ.b. Íslands IX, 146-148.

[41] Jón J. Aðils 1971, 610.

[42] Sama heimild, 68, 88 og 718.  Alþ.b. Íslands III, 254 og IV, 232-233.

[43] Jón J. Aðils 1971, 260.

[44] Sama heimild, 285.

[45] JS. 33, fol. bls. 125.

[46] Annálar 1400-1800 III, 361-362.

[47] Jón J. Aðils 1971, 260-261.

[48] Jón J. Aðils 1971, 260-261.

[49] Sama heimild, 318.

[50] Sama heimild.

[51] Sama heimild, 318 og 319.

[52] Annálar III, 311.

[53] Tímarit Hins íslenska bókmenntafélags 16. árg. 1895, 88-163.

[54] Fjallkonan IX. árg., 1892, bls. 135.

[55] Helgi Guðmundsson 2002, 1-5 (Land úr landi).

[56] Sama heimild.

[57] Sama heimild.

[58] Sama heimild.

[59] Sama heimild.

[60] Vestfirskar ættir IV, 378-380.

[61] Ólafur Þ. Kristjánsson 1961, 50-52 (Ársrit Sögufél. Ísfirðinga).

[62] Sama heimild.  Vestf. ættir IV, 378-380.  Manntal 1703.

[63] Alþ.b. Íslands IV, 274-277.

[64] Sama heimild.

[65] Sama heimild.

[66] Alþ.b. Íslands IV, 274-277.

[67] Sama heimild.

[68] Sama heimild, 277-281.

[69] Alþ.b. Íslands IV, 277-281.

[70] Sama heimild.

[71] Sama heimild.

[72] Sama heimild.

[73] Sama heimild.

[74] Sama heimild.

[75] Sama heimild.

[76] Sama heimild.

[77] Jón J. Aðils 1971, 363.

[78] Sama heimild, 363-370.

[79] Jón J. Aðils 1971, 363-370.

[80] Alþ.b. Íslands IV, 269-273.

[81] Sama heimild.

[82] Jón J. Aðils 1971, 92-113.

[83] Sama heimild, 679-680.

[84] Sama heimild.

[85] Sama heimild.

[86] Sama heimild.

[87] Sama heimild.

[88] Jón J. Aðils 1971, 679-680.

[89] Jón J. Aðils, 1971, 673.

[90] Sama heimild, 682-692, sbr. þar bls. 406-436.

[91] Sama heimild, 423.

[92] Sama heimild, 469-471.

[93] Jón J. Aðils, 1971, 466-469.

[94] Jón J. Aðils, 1971, 425-426.

[95] Salmonsens Konversations Leksikon  1918 VII, 666.

[96] Jón J. Aðils 1971, 692-694, sbr. þar 473-513.

[97] Sama heimild.

[98] Jón J. Aðils 1971, 90-91.

[99] Jón J. Aðils, 1971, 419.

[100] Annálar 1400-1800 III, 384.

[101] Jón J. Aðils 1971, 119-120.

[102] Alþingisbækur Íslands VII, 456.

[103] Sama heimild VIII, 197-198.

[104] Sama heimild.

[105] Sama heimild XI, 210-212.

[106] Gísli Gunnarsson 1987, 84-85.

[107] Annálar I, 237.

[108] Jón J. Aðils 1971, 100-101.

[109] Ísl. æviskrár II, 71.

[110] Þorvaldur Thoroddsen / Landfr.saga Íslands II, 109.

[111] Sama heimild.

[112] Jón Ólafsson 1992, 12-16 (Reisubók J. Ól. Indíafara)

[113] Annálar IV, 77-79.

[114] Sama heimild.

[115] Sama heimild.

[116] Annálar III, 466.

[117] Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín VII, 49.

[118] Manntal 1703.

[119] Jón J. Aðils, 1971, 318.

[120] Manntal 1762.

[121] Sama heimild.

[122] Sbr. Manntöl 1703 og 1801.

[123] Jón J. Aðils, 1971, 180.

[124] Sama heimild.

[125] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. IV. 2. Dómabók Markúsar sýslum. Bergssonar 1720-1729.

[126] Jón J. Aðils, 1971, 206.

[127] Sama heimild, 212.

[128] Sama heimild.

[129] Sama heimild, 212-213.

[130] Sama heimild.

[131] Jón J. Aðils 1971, 237.

[132] Sigfús H. Andrésson 1988 II, 526.

[133] Jón Eiríksson / Ólafur Olavius 1964, I, 29.

[134] Ól. Olavius 1964, I, 139.

[135] Sama heimild, 146 og 174-175.

[136] Sama heimild.

[137] Sama heimild.

[138] Sigfús H. Andrésson 1983, 107 (Saga, tímarit).

[139] Jón Eiríksson / Ól. Olavius 1964, I, 26 og 33.

[140] Sama heimild, 35-36.

[141] Sigfús H. Andrésson 1983, 107.

[142] Jón Þ. Þór 1984, 84.

[143] Sama heimild, 91.

[144] Sigfús H. Andrésson 1983, 111.

[145] Sama heimild, 107.

[146] Annálar VI, 205.

[147] Rit Lærdómslistafélagsins IV, 283-288, Kph. 1784.

[148] Þorkell Jóhannesson 1950, 268 (Saga Ísl. VII).

[149] Jón Eiríksson / Ól. Olavius 1964, I, 63.  Þorkell Jóhannesson 1950, 268-272.

[150] Sömu heimildir.

[151] Sömu heimildir.

[152] Sömu heimildir.

[153] Jón Eiríksson / Ól. Olavius 1964, I, 63.

[154] Annálar VI, 204.

[155] Sama heimil, 202.

[156] Sama heimild.

[157] Ólafur Ólafsson 1957, 24-27 (Ársrit S.Í.).  Ól. Þ. Kr. 1948, 60-65 (Frá ystu nesjum IV).

[158] Lýður Björnsson 1977, 32-36 (Ársrit S.Í.).

[159] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. IV. 3. Dómabók Ísafj.sýslu 1779-1790.

[160] Sigfús H. Andrésson 1988 II, 526.

[161] Sama heimild.

[162] Þorvaldur Thoroddsen / Landfr.saga Íslands III, 105.

[163] Sama heimild.

[164] Sama heimild.

[165] Skýrsla Ólafs Jónssonar á Eyri í Seyðisfirði, setts sýslumanns í Ísafj.sýslu, frá árinu 1742 um mat á húseignum verslunarinnar á Þingeyri, ljósrit í eigu K.Ó. Skýrslan er varðveitt í rentukammerskjölum í Rigsarkivi í Kaupm.höfn, safnnúmer vantar. Sbr. Jóhann Gunnar Ólafsson 1963, 89-91 (Ársrit S.Í.).

[166] Sama heimild.

[167] Sama heimild.

[168] Sama heimild.

[169] Sama heimild.

[170] Sama heimild.

[171] Sama heimild.

[172] Sama heimild.

[173] Skj.s. stiftamtm. III, 177.  Bréf Ól. Erl. 15.10.1787 og húsaskrá sem því fylgir.

[174] Gunnar Hvammdal. – Viðtal K.Ó. við hann 27.8.1993.

[175] Nýnefnd húsaskrá (sjá tilv. 173).

[176] Sama heimild.

[177] Sama heimild.

[178] Sama heimild.

[179] Gunnar Hvammdal. – Viðtal K.Ó. við hann 27.8.1993.

[180] Gunnar Hvammdal. – Viðtal K.Ó. við hann 27.8.1993.

[181] Sigfús H. Andrésson 1988 I, 345-355.

[182] Skj.s. stiftamtm. III, nr. 177, bréf Ólafs Erlendssonar 30.4.1787 og 15.10.1787 til stiftamtmanns.

[183] Sama heimild.

[184] Sama heimild.

[185] Sama heimild. Bréf 30.4.1787.

[186] Sigfús H. Andrésson 1988 II, 526.

[187] Sama heimild.

[188] Sigfús H. Andrésson 1988 II, 526.

[189] Sama heimild.

[190] Sama heimild.

[191] Einar Bragi 1977, 176 (Eskja II).

[192] Skútuöldin I, 105.

[193] Einar Bragi 1977, 172 og 176.

[194] Sama heimild, 196.

[195] Sigfús H. Andrésson 1988 II, 526.

[196] Skútuöldin I, 106.  Sigfús H. Andrésson 1988 II, 527.

[197] Sigfús H. Andrésson 1988 II, 659-660.

[198] Þorkell Jóhannesson 1950, 231 og 234.

[199] Sama heimild, 231.

[200] Sama heimild.

[201] Sama heimild, 232.

[202] Sigfús H. Andrésson 1988 II, 659-660.

[203] Sama heimild.

[204] Sama heimild.

[205] H. Henkel 1797, 6-7.

[206] H. Henkel 1797, 6-7.

[207] Sama heimild.

[208] Sama heimild.

[209] Sama heimild, 17.

[210] Sama heimild.

[211] Sigfús H. Andrésson 1988 II, 731.

[212] Þorkell Jóhannesson 1950, 232.

[213] Sama heimild.

[214] Magnús Stephensen 1798, bls. 276-277.

[215] Sigfús H. Andrésson 1988 II, 299-300.

[216] Sigfús H. Andrésson 1988 II, 299-300.

[217] Sigfús H. Andrésson 1988 II, 731 og 792-795.

[218] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. IV. 4. Dómabók Ísafj.sýslu 1790-1805, 141-143.

[219] Sama heimild.

[220] Sama heimild.

[221] Sama heimild.

[222] Sama heimild.

[223] Sama heimild.

[224] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. IV. 4. Dómabók Ísafj.sýslu 1790-1805, 148-150.

[225] Sama heimild.  Ólafur Ólafsson 1957, 20-23 (Ársrit S.Í.).  H. Henkel 1799, 73, tafla þar.  Prestsþj.b. og sóknarm.töl úr Dýrafjarðarþingum.

[226] Sama dómabók, réttarhald á Mýrum 28.7.1798.

[227] Sama heimild.

[228] Sama heimild.

[229] Sama heimild.

[230] Sama heimild.

[231] Sama heimild.

[232] Ól. Þ. Kr. 1948, 62-64 (Frá ystu nesjum IV).

[233] Manntal 1801.

[234] H. Henkel 1799, 65-68.

[235] Sama heimild, 68 og tafla þar.  Manntal 1801.  Ísl. æviskrár V, 234.

[236] H. Henkel 1799, 68-70.

[237] Sama heimild, 65-66.

[238] Sama heimild.

[239] H. Henkel 1799, 68 (tafla).

[240] H. Henkel 1799, 68 (tafla).

[241] Sama heimild.

[242] Gísli Gunnarsson 1987, 258.

[243] H. Henkel 1799, 72-73 (töflur).

[244] Sama heimild.

[245] H. Henkel 1799, 72-73 (töflur).

[246] Sama heimild.

[247] Sama heimild.

[248] Sama heimild.

[249] Jón J. Aðils 1971, 488.

[250] Sama heimild.

[251] H. Henkel 1797, 10-12.

[252] H. Henkel 1797, 10-12.  Sigfús H. Andrésson 1988 II, 663-666 og 672.

[253] Sömu heimildir.

[254] Einar Laxness 1977, 134.  Sigfús H. Andrésson 1988 II, 526-527.

[255] Þorkell Jóhannesson 1950, 401.

[256] H. Henkel 1799, 69.

[257] Manntal 1801.

[258] Skútuöldin I, 105.  Sigfús H. Andrésson 1988 II, 527.

[259] Prestsþj.b. Sandapr.kalls 1785.

[260] Sama heimild 1793.

[261] Sbr. Ritverk Jónasar Hallgrímssonar 1989, IV, 517 (Bréf og dagbækur).

[262] Sigfús H. Andrésson 1988 II, 526.

[263] Ísl. æviskrár V, 160.

[264] Einar Bragi 1977, 89-99 og 101-103 (Eskja II).

[265] Sigfús H. Andrésson 1988 II, 595.

[266] Sbr. Skútuöldin I, 106.  Sigfús H. Andrésson 1988 II, 527.

[267] Skútuöldin I, 106.

[268] Prestsþj.b. Sandapr.kalls.

[269] Sama heimild.

[270] Manntal 1801.

[271] Skútuöldin I, 105.

[272] Manntal 1816.

[273] Sóknarm.töl Holtspr.kalls.

[274] Sama heimild.

[275] Prestsþj.b. Sandapr.kalls.

[276] Sama heimild.

[277] Manntal 1801.

[278] Prestsþj.b. Sandapr.kalls 1785-1816.

[279] Ársrit Sögufél. Ísfirðinga 1970, 127.

[280] Jón M. Samsonarson 1964, I, XC-XCI.

[281] Manntal 1801, Holt í Önundarf. og Þingeyri.

[282] Prestsþj.b. Sandapr.kalls.  Manntal 1801.

[283] Jón M. Samsonarson 1964, I, LXXXIX.

[284] Jón M. Samsonarson 1964, I, XCII-XCIV.

[285] Ebenezer Henderson 1957 bls. 296.

[286] Manntal 1801.

[287] Sama heimild.

[288] Sigfús H. Andrésson 1988 II, 527.

[289] Prestsþj.b. Sandapr.kalls 1785-1816.

[290] Sama heimild.

[291] Prestsþj.b. Sandapr.kalls 1785-1816.

[292] Sóknarm.tal Holts í Önundarf. febr. 1811 og prestaþj.b. sama prestakalls frá árunum 1808-1812.

[293] Prestsþj.b. Sandapr.kalls 1785-1816.

[294] Skútuöldin I, 105-106.

[295] Þorkell Jóhannesson 1950, 399.

[296] Sigfús H. Andrésson 1988, II, 527.

[297] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XVI. 1. Veðmálabók Ísafj.sýslu 1801-1844, bls. 127-132.

[298] Sama heimild.

[299] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XVI. 1. Veðmálabók Ísafj.sýslu 1801-1844, bls. 127-132.

[300] Sama heimild.

[301] Sama heimild.  Sbr. Gils Guðmundsson 1977, I, 110 (Skútuöldin).

[302] Sama heimild.

[303] Skýrslur um landshagi I, 262 (Kph. 1858).

[304] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XVI. 1. Veðmálabók Ísafj.sýslu 1801-1844, bls. 127-132.

[305] Sama heimild.

[306] Skútuöldin I, 110.

[307] Prestsþj.b. Holtspr.kalls.

[308] Prestsþj.b. Sandapr.kalls.

[309] Prestsþj.b. Sandapr.kalls.

[310] Sama heimild.

[311] Sama heimild.

[312] Sama heimild.

[313] Sóknarm.töl Sandapr.kalls.

[314] Sóknarm.töl Sauðlauksdalspr.kalls 1820-1860.

[315] Manntal 1835.

[316] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XVI. 1. Veðmálabók Ísafj.sýslu 1801-1844, bls. 136-137.

[317] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1. Búnaðarskýrslur 1805-1838.

[318] Sóknarm.töl Sanda- og Holtspr.kalla. Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1 og 2. Bún.sk. 1805-1838. Sama

heimildasafn Ís. Þingeyrarhr. 2., hreppsbók 1835-1851.

[319] Manntöl 1835, 1840, 1845 og 1850.

[320] Prestsþj.b. Holtspr.kalls.

[321] Sama heimild.

[322] Ísl. æviskrár III, 284 og V, 160.

[323] Manntöl 1835, 1840, 1845 og 1850.

[324] Sömu heimildir.  Sóknarm.tal Sandapr.kalls 1830.

[325] Sömu heimildir.

[326] Manntal 1845.

[327] Manntal 1855.

[328] Manntal 1860.

[329] Safn til sögu Reykjavíkur: Bæjarstjórn í mótun 1836-1872, Rvík 1971, 266, 270, 287, 305, 314, 324, 343-345, 357, 360, 368, 372, 385, 396, 400, 411 og 458 .  Klemens Jónsson 1944 I, 271, 276 og 278 og II, 95 og 187.

[330] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XVI. 1. Veðmálabók Ísafj.sýslu 1801-1844, 136-137.

[331] Dansk Biografisk Leksikon 1981, VIII, 96.  Þjóðólfur XVII., 28.10.1864.

[332] Klemens Jónsson 1944 I, 273 og II, 94.

[333] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XVI. 1. Veðmálabók Ísafj.sýslu 1801-1844, 136-137.

[334] Jóhann Gunnar Ólafsson 1949, 67-69 og 1950, 70 (Gamalt og nýtt).

[335] Dansk Biografisk Leksikon 1981, VIII, 96.  Klemens Jónsson 1944 I, 138.

[336] Sömu heimildir.  Knudsensætt I, 128.

[337] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1. Búnaðarskýrslur 1805-1838.

[338] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XVI. 1. Veðmálabók Ísafj.sýslu 1801-1844, 136-137.

[339] Sama heimild.  Skýrslur um landshagi I, 262 (Kph. 1858).

[340] Sama heimild.

[341] Gunnar Hvammdal. – Viðtal K.Ó. við hann 27.8. 1993.

[342] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XVI. 1. Veðmálabók Ísafj.sýslu 1801-1844, 136-137.

[343] Sama heimildasafn. Ís. Þingeyrarhreppur 2. Hreppsbók 1835-1851.

[344] Knudsensætt I, 128.

[345] Sama heimild.

[346] Jón Helgason ritstjóri1958, 13 (Íslenskt mannlíf I).

[347] Indriði Einarsson 1928, 280 (Iðunn, tímarit).

[348] Studia Islandica 28, Reykjavík 1969, 55-56, bréfið birt í ritgerð Páls Bjarnasonar þar.

[349] Sama heimild, 57.

[350] Sama heimild, 58.

[351] Sigfús Johnsen 1946 II, 218.

[352] Jón Helgason ritstjóri 1958, 24 (Íslenskt mannlíf I).

[353] Knudsensætt I, 128.

[354] Jóhann Gunnar Ólafsson 1950, 70 (Gamalt og nýtt).

[355] Jón Helgason ritstjóri 1958, 25.

[356] Sama heimild.

[357] Jóhann Gunnar Ólafsson 1950, 70.

[358] Jón Helgason ritstjóri 1958, 25.

[359] Ísl. æviskrár IV, 126-127.

[360] Knudsensætt I, 20-21.

[361] Sama heimild.

[362] Knudsensætt I, 20-21.

[363] Jóhann Gunnar Ólafsson 1950, 70.  Safn til sögu Rvíkur: Kaupst. í hálfa öld 1786-1836, Rvík 1968, 67.

[364] Jón Helgason ritstjóri 1958, 28 (Íslenskt mannlíf I).

[365] Sama heimild.

[366] Ísl. æviskrár III, 391 og V, 113-114.

[367] Sömu heimildir.

[368] Jón Helgason ritstjóri1958, 33.

[369] Manntal 1835.

[370] Reykjavík – Sögustaðir við Sund 1987 II, 12-13.

[371] Knudsensætt I, 128.

[372] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. B. 1. Verslunarskýrslur.

[373] Sama heimildasafn. Ís. Þingeyrarhreppur , 2. Hreppsbók 1835-1851.

[374] Prestsþj.b. Sandapr.kalls.

[375] Prestsþj.b. Sandapr.kalls.

[376] Sama heimild.

[377] Sama heimild.

[378] Knudsensætt I, 128 og áfram.

[379] Sóknarm.töl Sandapr.kalls janúar 1839 og febrúar 1840.

[380] Manntal 2. nóv. 1840.

[381] Knudsensætt I, 128 og áfram.

[382] Sóknarm.töl Sandapr.kalls janúar 1839 og febrúar 1840.

[383] Prestsþj.b. Sandapr.kalls.

[384] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Þingeyrarhreppur, 2. Hreppsbók 1835-1851.

[385] Indriði Einarsson 1928, 283 (Iðunn, tímarit).

[386] Indriði Einarsson 1928, 283.

[387] Ritverk Jónasar Hallgrímsson 1989 II, 357-358.

[388] Sama heimild.

[389] Sama heimild I, 276-277 og IV, 235.

[390] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XVI. 2. Veðmálabók Ísafj.sýslu 1856-1869, 222-223.

[391] Archives Nationales í París – 400 A.P. mic 164 2, dagbók úr leiðangri J. Napóleons prins árið 1856.

[392] K.Ó. 1986, 147-150 (Saga, tímarit).

[393] Sama heimild, 154-155.

[394] Sama heimild, 160-162.

[395] K.Ó. 1986, 162-165 og 186 og sami 1987, 137-140 (Saga, tímarit).

[396] K.Ó. 1986, 147-202 og sami 1987, 89-164.

[397] Sami 1986, 151-152.

[398] Sama heimild.

[399] Sama heimild.

[400] Sami 1987, 137-140 (Saga, tímarit).

[401] Sami 1986, 152.

[402] Sami 1987, 137-140.

[403] K.Ó. 1986, 147-202. Sami 1987, 89-164. Sami 2004, 111-129.

[404] K.Ó. 1986, 162-163 (Saga, tímarit).

[405] Sami 1987, 98-99, 104-106, 111, 126 og 143-144 (Saga, tímarit).

[406] Sama heimild.

[407] Sami 1987, 97-98.

[408] K.Ó 2004, 111-120 (Vestanglæður).

[409] K.Ó. 1987, 100-103.

[410] K.Ó. 2004, 111-120 (Vestanglæður).

[411] Sama heimild, bls. 122-125.

[412] Sama heimild. Sbr. K.Ó 1986, 155-159 (Saga, tímarit).

[413] K.Ó. 1987, 137-140 (Saga, tímarit).

[414] The National Archives, Richmond, Englandi. F.O. 22, 250 – bréf Clarendons lávarðar, utanríkisráðherra Breta, 12. maí 1857 til F. Orme, sendifulltrúa bresku stjórnarinnar í Kaupmannahöfn.

[415] Sama heimildasafn. F.O. 22, 250, bréf sama 15.4.1857 til sama.

[416] K.Ó. 1986, 184-185 og 191-194.

[417] Þjóðólfur 14. júlí 1856, síða 118.

[418] Lbs. 21684to, Bréf Steingríms Thorsteinssonar 30.9.1856 til Árna Thorsteinsson.

[419] K.Ó. 1986, 186 (Saga, tímarit).

[420] Archives Nationales í París. – 400 A.P. mic 164 2, dagbók úr leiðangri J. Napóleons prins árið 1856.

[421] Sama heimild.

[422] Sama heimild.

[423] K.Ó. 1986, 190 (Saga, tímarit).

[424] Lbs. 25904to, Bréf Jens Sigurðssonar 13.8.1856 til Jóns Sigurðssonar forseta.

[425] Sama heimild.

[426] E.10. Bréf Hjálmars Jónssonar 12.8.1856 til Jóns Sigurðssonar forseta.

[427] Ný félagsrit 1856, XVI, 121-123.

[428] E.10. Bréf Hjálmars Jónssonar 12.8.1856 til Jóns Sigurðssonar forseta.

[429] The National Archives, Richmond Englandi, F.O. 22, 237. Greinargerð send með bréfi sir Andrews

Buchanan, sendiherra Breta í Kaupm.höfn 17.9.1856 til Clarendons lávarðar, utanríkisráðherra Breta.

[430] Sama heimild.

[431] The National Archives, Richmond Englandi, F.O. 22, 237. Greinargerð send með bréfi sir Andrews

Buchanan, sendiherra Breta í Kaupm.höfn 17.9.1856 til Clarendons lávarðar, utanríkisráðherra Breta.

[432] K.Ó. 2004, 113-116 (Vestanglæður)..

[433] Skýrslur um landshagi IV, 1870, bls. 486.

[434] Sama heimild, sbr. Skýrslur um landshagi I, 1858, bls. 262.

[435] Bps. C.V, 137 B. Bréf sr. Odds Sveinssonar, prófasts á Rafnseyri 25.3.1857 til Helga G.Thordersen bisk.

[436] K.Ó. 1987, 112-137 (Saga, tímarit).

[437] Sama heimild.

[438] Sama heimild.

[439] Sama heimild.

[440] Sama heimild.

[441] Sama heimild.

[442] K.Ó. 1987, 112-137 (Saga, tímarit).

[443] Sama heimild.

[444] Sama heimild.

[445] Sama heimild.

[446] Sama heimild.

[447] Sama heimild.

[448] K.Ó. 1987, 112-137.

[449] Sama heimild.

[450] Sama heimild.

[451] Sama heimild.

[452] Sama heimild.

[453] Sama heimild.

[454] K.Ó. 1987, 112-137.

[455] Sama heimild.

[456] Sama heimild, 146-164.

[457] Sama heimild.

[458] Sama heimild.

[459] Sama heimild.

[460] Sama heimild.

[461] Sama heimild, 158-161.

[462] K.Ó. 1986, 188.

[463] Sigfús M. Johnsen 1946 II, 221.

[464] Jóhann Gunnar Ólafsson 1949, 69 (Gamalt og nýtt I).

[465] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. IV. 12. Dóma- og þingbók 1854-1859, 141-142.

[466] Skýrslur um landshagi IV, 1870, bls. 486.

[467] Manntal 1855.

[468] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. B. 2. Verslunarskýrslur 1850-1878.

[469] Skýrslur um landshagi IV, 1870, bls. 486.

[470] Íslensk orðabók 1963, 737 (Menningarsjóður). K.Ó. 1987, 26 (Verslunarsaga Vestur-Skaftfellinga I).

[471] Manntal 1860.

[472] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. B. 2. Verslunarskýrslur.

[473] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. B. 1 og B. 2. Verslunarskýrslur 1838-1849 og 1850-1878.

Skýrslur um landshagi III, Kph. 1866, 574-581.

[474] Sömu heimildir.

[475] Sömu heimildir.

[476] Sömu heimildir.

[477] Sömu heimildir.

[478] Sömu heimildir.

[479] Sömu heimildir.

[480] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. B. 1 og B. 2. Verslunarskýrslur 1838-1849 og 1850-1878.

Skýrslur um landshagi III, Kph. 1866, 574-581.

[481] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. B. 1. og B. 2. Verslunarskýrslur.

[482] Skýrslur um landshagi III, Kph. 1866, 480-515.

[483] Tölfræðihandbók 1984, 14.

[484] Jónas Jónasson frá Hrafnagili 1961, 54 (Ísl. þjóðhættir).

[485] Skýrslur um landshagi I, Kph. 1858, 81 og 578.

[486] Sama heimild.

[487] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. B. 1. og B. 2. Verslunarskýrslur.

[488] Skýrslur um landshagi I, Kph. 1858, 578.

[489] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. B. 1. og B. 2. Verslunarskýrslur.

[490] Manntal 1855.

[491] Ásgeir Jakobsson 1990, 42. Ísl. æviskrár VI, 509-510.

[492] Ásgeir Jakobsson 1990, 42. Ísl. æviskrár VI, 509-510.

[493] Ásgeir Jakobsson 1990, 42.

[494] Ásgeir Jakobsson 1990, 43-44. Sbr. Ísl. æviskrár VI, 509-510.

[495] Sama heimild.

[496] Skýrslur um landshagi I, 262 (Kph. 1858).

[497] Ásgeir Jakobsson 1990, 40-47.

[498] Sama heimild, 50.

[499] Sama heimild.

[500] Sama heimild, 50-51.

[501] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Barð. XIII. 2. Afsals- og veðmálabók Barðastr.sýslu 1843-1860.

[502] Sama heimild.

[503] Sóknarm.töl og prestsþj.b. Sauðlauksdalspr.kalls.

[504] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Barð. XIII. 2. Afsals- og veðmálabók Barðastr.sýslu 1843-1860.

[505] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Barð. XIII. 2. Afsals- og veðmálabók Barðastr.sýslu 1843-1860.

[506] Sama heimild.  Manntöl 1835-1855.  Sóknarm.töl og prestsþj.b. Sauðlauksdals og Selárdals.

[507] Sömu heimildir.

[508] Ásgeir Jakobsson 1990, 54.

[509] Guðjón Friðriksson 1973, 105-106 (Ársrit S.Í.).

[510] Guðjón Friðriksson 1973, 105-106 (Ársrit S.Í.).

[511] Sama heimild.

[512] Manntal 1855.

[513] Sama heimild.

[514] Manntal 1855.

[515] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 2. Búnaðarskýrslur 1839-1858.

[516] Sama heimild.

[517] Lúðvík Kristjánsson 1962, 106-120 (Ársrit S.Í.).

[518] K.Ó. 1987, 134-135 (Saga , tímarit).

[519] Ásgeir Jakobsson 1990, 59-70.

[520] Ásgeir Jakobsson 1990, 59-70.

[521] Sama heimild, 71-72.

[522] Sama heimild, 13.

[523] Sama heimild, 96-101.

[524] Sama heimild, 88-97.

[525] Sama heimild, 109-121.

[526] Knudsensætt I, 132.

[527] Sama heimild.

[528] Knudsensætt I, 132-134.

[529] Sama heimild.

[530] Sama heimild.

[531] Sama heimild.

[532] Sóknarm.töl Sandapr.kalls.

[533] Sama heimild.

[534] Sama heimild.

[535] Sama heimild.

[536] Sama heimild.

[537] Sama heimild.

[538] Skútuöldin I, 226-228.

[539] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XVI. 2. Veðmálabók Ísafj.sýslu 1856-1869, 203-204.

[540] Sama heimild.

[541] Sama heimild.

[542] Sama heimild.

[543] Sama heimild.

[544] Skýrslur um landshagi IV, 498 (Kph. 1870).

[545] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XVI. 2. Veðmálabók Ísafj.sýslu 1856-1869.

[546] Knudsensætt I, 128.

[547] Sigfús M. Johnsen 1946 II, 221.

[548] Knudsensætt I, 132.

[549] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XVI. 3. Veðmálabók Ísafj.sýslu 1868-1882, 69.

[550] Sama skj.s. Ís. XVI. 2. Veðmálabók Ísafj.sýslu 1856-1869, 275.

[551] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XVI. 2. Veðmálabók Ísafj.sýslu 1856-1869, 275.

[552] Davíð H. Kristjánsson. – Viðtal K.Ó. við hann 5.4. 1998.

[553] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XVI. 3. Veðmálabók Ísafj.sýslu 1868-1882, 202-205.

[554] Sama heimild.

[555] Sama heimild.

[556] Sama heimild.

[557] Manntal 1845.

[558] Sóknarm.töl Sandapr.kalls.

[559] Sama heimild.

[560] Sama heimild.

[561] Sóknarm.töl Sandapr.kalls.  Manntal 1870.

[562] Manntal 1.10.1870.

[563] Ólafur Ólafsson 1958, 76-77  (Ársrit S.Í.)

1000-1900

Guðmundur Justsson

Á fyrri hluta 20. aldar var Guðmundur Justsson, sem fæddist á Gemlufalli haustið 1841,[1] einna kunnastur þeirra sem búið höfðu á Dröngum, a.m.k. utan Dýrafjarðar,

LESA MEIRA »
1000-1900

Krossadalur

Í Krossadal var löngum tvíbýli á fyrri tíð, Hærri- og Lægri- (eða Neðri-) Krossdalur, og voru þetta ystu bæir við Tálknafjörð. Stundum var reyndar þríbýli

LESA MEIRA »
1000-1900

Arnarstapi

Arnarstapi og Krossadalur voru tvær ystu jarðirnar á norðurströnd Tálknafjarðar og hafa nú báðar verið í eyði frá því um 1940.[1] Frá verbúðatóttunum í Arnarstapavík

LESA MEIRA »