Rafnseyri

Frá landamerkjunum hjá Sandeyri göngum við nú sem leið liggur út með ströndinni neðan við Rafnseyrarhlíð og komum fyrr en varir að Illuskriðu sem féll í júnímánuði árið 1908.1 Utantil við skriðuna er Hlaðseyri og þar voru á fyrri tíð beitarhús og skilarétt.2 Neðan við túnið á Rafnseyri liggur akvegurinn upp bratta sjávarbakka og göngum við nú í hlað á hinu forna höfðingjasetri, fæðingarstað Jóns Sigurðssonar forseta.

Á Rafnseyri er enn staðarlegt um að litast. Gamla timburkirkjan, sem vígð var árið 1886, gleður augað og á gamla bæjarstæðinu hefur á allra síðustu árum verið reistur torfbær, líkur þeim sem Jón Sigurðsson fæddist í 17. júní árið 1811. Í margar aldir var hér annað tveggja prestssetra á norðurströnd Arnarfjarðar en síðasti presturinn hvarf á braut um 1960. Í stórhýsinu sem hér var komið upp fyrir nokkrum áratugum situr nú staðarhaldari og þar er líka kapella og fjölbreytt safn minja um Jón forseta.

Frá Bælisbrekku, sem liggur að bæjarbaki, er víðsýnt. Rétt norðan við austur rís klettafjallið Ánarmúli en fyrir utan Rafnseyrardal, sem hér teygist inn í landið til norðurs, eru fjöll annarrar gerðar, Auðkúlufjall og Tjaldanesfell, sem bæði eru brattar en nær klettalausar strýtur, og
utar Grenjahyrna ofan við Baulhúsaskriður.
3 Fyrir fótum okkar liggur Arnarfjörður, blár og breiður. Handan hans sjáum við fossinn Dynjanda fyrir botni Dynjandisvogs, Urðarhlíðina, Mosdalinn, Skarðanúp og Langanestána en fram undan henni ystu húsin í þorpinu á Bíldudal. Enn utar, á vesturströnd fjarðarins, taka við svartbrýndir núpar sem greina í sundur dalina í landnámi Ketils ilbreiðs. Ystur þeirra sem við sjáum héðan er Austmannsdalur en nærri lætur að fjarlægðin hér á milli sé 20 kílómetrar.

Fyrr á öldum var Eyri við Arnarfjörð, sem nú heitir Rafnseyri, eitt helsta höfðingjasetur á Vestfjörðum og síðar jafnan talin mesta bújörðin á norðurströnd fjarðarins.4 Á 15. öld var jörðin virt á eitt hundrað hundraða5 en síðar á 60 hundruð, með öllum hjáleigum.6 Árið 1710 voru fimm hjáleigur í byggð hér á Rafnseyri.7 Elstar þeirra voru Efrihús, er þá voru sögð byggð „fyrir manna minni í heimatúninu“, og að líkindum Neðrihús sem voru „út og niður frá heimatúninu“.8 Hinar þrjár voru: Bæli sem byggðist um miðja 17. öld, Rani sem byggðist skömmu fyrir 1670 og Sjávarhús sem reist voru um 1700.9 Séra Böðvar Bjarnason, er hér var prestur á árunum 1901–1941, hefur gert grein fyrir hvar hjáleigurnar stóðu.10 Fjórar af þessum hjáleigum voru enn í byggð árið 175311 en eftir 1760 virðast þær aldrei hafa verið fleiri en tvær, Bæli og Rafnseyrarhús sem áður hétu Neðrihús.12 Árið 1805 bjuggu tveir bændur í Bæli13 en sú hjáleiga féll í eyði fyrir 1816.14 Á Rafnseyrarhúsum, sem töldust vera 12 hundruð að dýrleika, var hins vegar búið allt til ársins 1903 og síðan átti þar heima húsfólk í nokkur ár.15

Undir kirkjugarðsveggnum á Rafnseyri er gott að hvíla lúin bein og rifja upp horfna tíð. Hér þótti Grélöðu, jarlsdótturinni írsku, vera „hunangsilmur úr grasi“16en hún var kona Ánar rauðfelds og fyrsta húsfreyjan hér á Eyri. Í Landnámabók segir að Ánn hafi verið sonur Gríms loðinkinna úr Hrafnistu í Noregi og fyrsta vetur sinn á Íslandi hafi þau Grélöð setið í Dufansdal.17 Síðan keyptu þau, að sögn hinna fornu höfunda, „lönd öll milli Langaness og Stapa“ og gerðu bú á Eyri.18 Stapinn sem þarna er nefndur stendur enn, klettadrangur í fjörunni utan við túnið í Stapadal (sjá Stapadalur), en að honum náði, norðan að, landnám Eiríks þess er nam Keldudal í Dýrafirði.19

Víðfrægastur allra heimamanna á Eyri, fyrir daga Jóns Sigurðssonar, er án efa Hrafn Sveinbjarnarson sem bjó hér á síðari hluta tólftu aldar og í byrjun hinnar þrettándu. Hann var þá mestur höfðingi á Vestfjörðum og lækningar hans rómaðar víða. Hrafn var goðorðsmaður og munu flestir bændur á svæðinu frá Stigahlíð að Vatnsfirði hjá Barðaströnd hafa verið í þingi með honum.20 Bæ sinn hér á Eyri húsaði hann stórmannlega og reisti um hann virki.21 Hrafn er fyrsti íslenski bartskerinn, sem um er kunnugt, en læknislist er hann talinn hafa numið í Salerno á Ítalíu, ellegar hjá mönnum sem þar voru menntaðir.22 Margar sögur voru sagðar af lækningum goðans á Eyri og er ein á þessa leið:23

Kona sú kom á fund Hrafns er mikið hugarválað hafði. Hún grét löngum og var svo brjóstþungt að nær hélt henni til örvinglunar. Hrafn tók henni æðablóð í hendi, í æð þeirri er hann kallaði þjótanda. En þegar eftir það varð hún heil.

Til marks um veldi Hrafns og höfðingsskap má nefna að hann hafði ferjur til fólksflutninga, bæði á Arnarfirði og Breiðafirði24 en slík þjónusta var ekki tekin upp að nýju á þessum slóðum fyrr en sjö öldum síðar. Hrafn á Eyri var vinur Guðmundar Arasonar biskups og fylgdi honum utan er Guðmundur fór til vígslu árið 1202.25 Í annarri utanlandsför vitjaði Hrafn grafar Tómasar Becket, erkibiskups í Kantaraborg á Englandi, og fór í pílagrímsferð til St-Gilles í Suður-Frakklandi og Santiago de Compostela í Galisíu á Spáni.26 Í sömu ferð gekk hann einnig suður til Rómar.27

Hér verður engin grein gerð fyrir deilum Hrafns og Þorvaldar Snorrasonar í Vatnsfirði við Djúp en í þriðju aðför sinni að Hrafni náði Þorvaldur að taka hann af lífi.28 Það var á langaföstu árið 1213 og kom hann í hríðarveðri yfir Glámu með fjölmennan flokk vígamanna (sjá Rauðsstaðir). Er þeir komu að virkinu settu þeir mann þann er Bárður hét á skjöld „og lyftu skildinum upp á spjótsoddum svo að hann mátti klífa af skildinum í virkið“.29 Náði Bárður að draga lokur frá hurðum og var hinn voldugi héraðshöfðingi á Eyri leiddur út og höggvinn undir virkisveggnum.30

Frá dauða Hrafns munu aðeins hafa liðið fáir áratugir uns saga hans, sem enn er varðveitt, var rituð.31 Mjög líklegt má því telja að þar sé í aðalatriðum greint rétt frá ytri atburðum á lífsferli söguhetjunnar. Annað mál er hitt að sú mynd af Hrafni sem þar er dregin upp kynni að vera allmjög fegruð svo sem títt er í eftirmælum og ekki fjarri lagi að söguritarinn hafi viljað gera helgan mann úr þessum mæta vini Guðmundar biskups góða.

Á 13. og 14. öld höfðu niðjar Hrafns Sveinbjarnarsonar eða nánir frændur hans oftast staðarforráð hér á Eyri.* Ein dætra hans var Steinunn sem giftist Oddi Álasyni og sátu þau hér á Eyri veturinn 1233–1234.32 Órækja Snorrason réð þá fyrir búi í Vatnsfirði og fékk þar í hendur falsbréf er hann taldi sýna að Oddur sæti á svikráðum við sig.33 Á geisladagsmorgun kom hinn lánlausi sonur Snorra hingað að Eyri með flokk sinn.34 Voru þeir 90 saman og höfðu sumir farið Glámu en aðrir Hestfjarðarheiði.35 Hér lögðu þeir eld að húsum en er Oddur hljóp út úr eldinum mætti hann ofurefli liðs og lét Órækja taka hann af lífi.36

Sonur Odds og Steinunnar var Hrafn Oddsson, fæddur 1226, og óx hann hér úr grasi. Er Þórður kakali kom í Arnarfjörð daginn fyrir Mikjálsmessu haustið 1242 var Hrafn 16 vetra og átti heima hjá móður sinni á Eyri.37 Hér sat þá einnig að búi Svarthöfði Dufgusson er kvæntur var Herdísi, systur Hrafns Oddssonar.38 Vorið 1244 tók Kakali við staðarforráðum í boði Hrafns, og héðan lagði hann upp um sólstöður á því ári, og hélt með sitt fríða skipalið norður á Húnaflóa.39 Tólf voru skipin í flota Þórðar og stýrðu þeir mágar, Hrafn og Svarthöfði, einu


—————

*Um 1400 var höfuðból þetta á norðurströnd Arnarfjarðar enn nefnt Eyri (D.I. III, 198 og IV, 145-146) en á 15. öld virðist nafnið Hrafnseyri hafa unnið sér fastan sess (D.I. IV, 692, VI, 41-43, 392 og VIII, 217). Á árunum kringum 1700 var ýmist ritað Hrafnseyri (Jb. Á. og P. VII, 15) eða Rafnseyri (Bps. A. II, 14. Vísit. Jóns biskups Vídalín 1.9.1700. Manntal 1703) og ætíð Rafnseyri á 19. öld (Smt. og prþjb. Rafnseyrar; Sóknalýs. Vestfj. II, 22-24. Manntöl frá 19. öld). Séra Böðvar Bjarnason er varð hér prestur árið 1901 ritaði líka jafnan Rafnseyri í 18 ár en breytti til árið 1919 og fór þá að skrifa Hrafnseyri (Prþjb. og smt. Rafnseyrar). Fyrir 1950 náði sá ritháttur þó ekki að breiðast út (sbr. Reykjavíkurdagblöð frá júnímánuði 1944 og blöð gefin út á Ísafirði sumarið 1944) en hefur orðið ríkjandi nú á síðari hluta aldarinnar. Í slíkum efnum eiga menn frjálst val en höfundur þessara orða segir enn og skrifar Rafnseyri eins og almennt var fyrir fáeinum áratugum og hafði þá verið ríkjandi í 200 ár. Þeir Rafnseyrarfeðgar, séra Jón Sigurðsson og séra Sigurður Jónsson, sem þjónuðu hér í 65 ár, frá 1786 til 1851, rituðu ætíð Rafnseyri og það gerði líka Jón Sigurðsson forseti, sonur nýnefnds Sigurðar. Undir þeirra merkjum er allgott að una og máske ekki fjarri lagi að hinir hreyki sér hærra en góðu hófi gegnir sem finna sig kallaða til að leiðrétta orðafar þessara langfeðga og rita nafnið á heimili þeirra með öðrum hætti en þeim var tamt.

þeirra „og Arnfirðingar með þeim“.40 Bardaginn við Kolbein unga og
menn hans á Húnaflóa 25. júní 1244 varð frægasta sjóorrusta Íslandssögunnar og allir komu þeir lífs úr þeirri hríð, Þórður, Svarthöfði og Hrafn.
41

Hrafn Oddsson átti lengi bú á óðali feðra sinna hér í Arnarfirði en sat þó oftar á Sauðafelli í Dölum er líða tók á ævina.42 Hann var einn þeirra fimm höfðingja af Vestfjörðum og Vesturlandi sem árið 1262 sóru Noregskonungi „land og þegna og ævinlegan skatt“43og sautján árum síðar varð hann hirðstjóri konungs yfir öllu Íslandi.44 Svo virðist sem Hrafn Oddsson hafi verið konungsvaldinu trúr en hann átti hins vegar, undir lok ævinnar, í illvígum deilum við kirkjuvaldið45 sem afi hans og nafni, Hrafn Sveinbjarnarson á Eyri, hafði viljað efla.

Kirkja var fyrst byggð á Eyri á 11. eða 12. öld og er hennar getið í kirknatali frá því um 1200.46 Hún var helguð Maríu mey og Pétri postula47 og var bændakirkja allt til ársins 1508.48 Á síðasta fjórðungi 13. aldar urðu miklar deilur milli forráðamanna margra slíkra kirkna og biskupsins í Skálholti. Hingað kom Árni biskup Þorláksson árið 1286 og bannfærði þá Eirík Marðarson sem hér stýrði búi.49 Sök Eiríks, að dómi biskups, var meðal annars sú að hann hefði borið
„um Vestfjörðu … þau bréf Hrafns Oddssonar … sem opinberlega skylduðu menn til að brjóta niður biskuplegt vald.“
50

Á síðari hluta 15. aldar bjuggu lengi hér á Rafnseyri hjónin Jón Björnsson, er nefndur var Jón „danur“, og Kristín Sumarliðadóttir.51 Hann var launsonur Björns hirðstjóra Þorleifssonar en hún var sonardóttir Lofts ríka Guttormssonar og systurdóttir Guðmundar ríka Arasonar.52 Þau Jón og Kristín voru ein allra auðugustu hjón á Íslandi um sína daga og eru við upphaf búskapar síns hér á Rafnseyri talin hafa átt sem svaraði 960 kúgildum.53 Í þeirra tíð „hrapaði“, að sögn, Rafnseyrarkirkja og dundu þau ósköp yfir í Ólafarbyl sem skall á við andlát Ólafar ríku Loftsdóttur árið 147954 en hún var stjúpmóðir Jóns „dans“ og föðursystir Kristínar, konu hans. Jón andaðist árið 1508 og hafði „í sinni dauðstíð“ gefið Rafnseyrarkirkju jörðina Rafnseyri með búfénaði og tveimur skipum.55 Þaðan í frá var staðurinn kirkjueign undir fullu forræði Skálholtsbiskupa sem veittu hann prestum að léni.

Árið 1363 átti Rafnseyrarkirkja þrjár jarðir, Karlsstaði, byggða úr heimalandi staðarins, Horn á Hornströndum og Botn í Geirþjófsfirði.56 Í fornum máldögum er jörðin Horn nefnd Hornströnd.57 Fyrir lok 14. aldar eignaðist kirkjan líka hálfa Sperðlahlíð í Geirþjófsfirði og hina hálflenduna þar á árunum 1397–1570, svo og jarðirnar Barðsvík og Bolungavík á Austurströndum.58 Allar þessar jarðir átti hún enn á árunum kringum 184559 en sumar þeirra voru seldar fyrir síðustu aldamót.60 Rekaviðarferðir frá Rafnseyri á Strandir tóku að sögn séra Sigurðar Hallssonar þrjár vikur61 en hann fæddist hér um 1652 og var prestur á Rafnseyri frá 1676 til 1724.62

Verstöðu átti Rafnseyrarkirkja frá því á 14. öld eða fyrr í tvennum Urðum, sem ekki er fyllilega ljóst hvar verið hafi, og í Látravík í landi Hvallátra í Rauðasandshreppi63 en þaðan reru ýmsir Arnfirðingar og Dýrfirðingar á fyrri öldum, frá verstöðinni á Arnfirðingar og Dýrfirðingar.64 Skógarreiti og rétt til hrísrifs átti kirkjan frá 14. öld í landi jarðanna Skóga og Kirkjubóls í Mosdal hér í Arnarfirði (sjá Skógar og Kirkjuból) og í Þverárdal í landi jarðarinnar Þverár65 í Vatnsfirði hjá Barðaströnd. Ótakmarkaðan rétt til móskurðar átti Rafnseyrarkirkja í Breiðamýri í landi jarðarinnar Horns í Mosdal66 og beitarréttindi fyrir kálfa og svín í botni Sviðningsdals í landi Dynjanda en var skylt að halda þar uppi hagagarði.67 Í máldaga frá árinu 1397 er gerð grein fyrir rekaréttindum sem kirkjan á Rafnseyri átti og þá á þessa leið: Allan hvalreka á Sléttanesi, milli Svaðhóls og Tóargils (sjá Svalvogar), og á Hornströndum þessi réttindi: tólftung hvalreka „á Hornströnd“, sjöttung í Fljóti, sjöttung í Hlöðuvík en fyrir norðan Fljót þriðjung hvalreka á svæðinu frá Kögurtá að Sygnakleif og einn sextánda hlut að auk.68 Undarlegt kann að virðast að kirkjan skuli aðeins hafa átt tólftung hvalreka á „Hornströnd“ sem var þó eign hennar. Líklegasta skýringin á því er sú að þarna hafi allur annar reki verið talinn almenningseign.69 Rekaréttindin á Hornströndum lagði kirkjunni til Tómas Snartarson,70 að líkindum sá hinn sami og Arnfirðingurinn með því nafni sem kemur við sögu Árna biskups Þorlákssonar á síðasta fjórðungi 13. aldar.71

Hér hafa nú verið talin upp öll helstu ítök Rafnseyrarkirkju sem um er kunnugt og má ætla að þau hafi öll komið umráðamönnum hennar að nokkru gagni á hinum fyrri öldum en árið 1710 var langt um liðið frá því kirkjan naut síðast góðs af hvalreka á Hornströndum og minntist þess enginn sem þá var á lífi.72 Réttindi sín í Hlöðuvík fékk hún þó staðfest árið 1765.73 Árið 1710 var beitilandið fremst í Sviðningsdal komið í hrjóstur og mótak þrotið í Breiðamýri.74 Hrísið í Mosdal entist lengst og kom kirkjunni enn að góðum notum um miðja nítjándu öld.75

Árið 1363 átti Rafnseyrarkirkja þrenn messuklæði og tvær kantarakápur.76 Hún var þá öll tjölduð innan og meðal kirkjugripa voru tvær Maríumyndir, mynd af Pétri postula, fjórar klukkur, glóðarker og líkakrákur.77 Einn glergluggi var kominn í kirkjuna árið 1397.78 Við siðaskiptin um miðbik 16. aldar voru ýmsir munir kirkjunnar fjarlægðir, svo sem helgimyndirnar af Maríu mey og Pétri postula,79 og þegar séra Halldór Einarsson, bróðir Gissurar biskups, tók við staðnum vorið 1565 voru báðar klukkurnar í framkirkjunni kólflausar.80

Árið 1397 lágu til kirkjunnar á Rafnseyri tíundir af öllum bæjum milli Langaness og Kúluár, sem er rétt utan við Auðkúlu, og svo var enn á árunum upp úr 1570.81 Við siðaskiptin féll hins vegar niður Rómarskattur sem áður var goldinn Rafnseyrarkirkju af jörðinni Tjaldanesi.82

Timburkirkjan sem nú stendur hér var byggð árið 188583 en áður voru hér torfkirkjur, hver fram af annarri.84 Rétt fyrir neðan kirkjugarðinn mótar mjög greinilega fyrir öðrum garði, ævafornum, og er kirkjutótt í honum miðjum. Ætla má að garður og kirkja hafi verið flutt fyrir 1500 þar eð í vitnisburðarbréfi frá árinu 1508 segjast vottarnir hafa hlýtt á samtal „fyrir ofan forna kirkjugarðinn“ hér á Rafnseyri.85 Til skýringar á flutningi kirkjunnar þennan skamma spöl var höfð í munnmælum sú saga að á gamla kirkjustæðinu hefði örvadrífa frá bogmanni í vígahug orðið presti nokkrum að bana er hann stóð alskrýddur fyrir altari og kirkjan verið flutt vegna þeirrar saurgunar.86 Sagt var að vegandinn hefði staðið á Gvendarholtinu87 hér rétt fyrir utan túnið.

Enginn veit nú hversu margir prestar sátu hér á tímaskeiðinu frá upphafi kristni og fram til loka síðustu aldar en vitneskja liggur fyrir um nöfn tuttugu og tveggja.88 Örfárra úr þeim hópi verður getið hér og skal þá fyrst nefndur til sögu sá elsti, Markús Sveinbjarnarson sem uppi var á 12. öld, en hann var bróðir Hrafns Sveinbjarnarsonar sem fyrr var frá sagt.89 Í Hrafns sögu er frá því greint að Markús prestur hafi verið mikill vexti og rammur að afli og handleggur hans, milli axlar og olnboga, „sem lær manns væri“.90 Markús sterki hrapaði til bana eða kafnaði í snjóflóði er „einn hengiskafl“ brast undir fótum hans og var hann þá
á ferð úr Feitsdal í Arnarfirði vestur í Tálknafjörð.
91

Á 18. öld voru húsakynni á Rafnseyri með lakasta móti um nokkurt skeið. Séra Jón Bjarnason, er hér var prestur frá 1768 til 1785,92 lýsir þeim svo í bréfi: „Staðurinn er mikið forn og flest hús komin undir fall, hús öll í jörðu grafin og veggirnir ekki nema gilding að innan.“93 Ekki auðnaðist presti þessum að byggja staðinn upp og er hann andaðist í móðuharðindunum árið 1785 kom í ljós að eignir hans dugðu ekki til að borga skuldirnar.94

Við andlát séra Jóns Bjarnasonar var séra Jóni Sigurðssyni á Snæfjöllum veitt Rafnseyrarprestakall og tók hann hér við stað og kirkju vorið 1786.95 Þessi nýi prestur var bóndasonur frá Ásgarði í Grímsnesi, fæddur haustið 1740.96 Liðlega tvítugur varð hann skrifari hjá Jóni varalögmanni Ólafssyni í Miðhúsum í Reykhólasveit en tók árið 1769 við prestsembætti á Stað á Snæfjallaströnd og þjónaði þar í 17 ár.97Hann kvæntist árið 1771 Ingibjörgu, dóttur Ólafs lögsagnara Jónssonar á Eyri í Seyðisfirði og konu hans, Guðrúnar Árnadóttur, og fluttist hún með manni sínum hingað að Rafnseyri.98 Séra Jón Sigurðsson þjónaði Rafnseyrarprestakalli í 35 ár, frá 1786 til 1821.99 Hann byggði hér upp öll staðarhús en þau voru árið 1822 þessi: Baðstofa, eldhús, búr, stofa, skáli, bæjargöng og dyraport, auk útihúsa.100

Baðstofan var í sex stafgólfum (sbr. Holt), sex álnir á breidd, „innan veggja“ og allt baðstofuloftið undir súð nema í miðjunni.101 Í norður- og suðurenda þess voru alþiljuð herbergi, annað tvö en hitt eitt stafgólf.102 Á stærra herberginu, sem var í norðurenda, voru tveir glergluggar, með fjórum rúðum hvor.103 Næst baðstofunni var eldhúsið og var það tvö stafgólf en búrið þrjú.104 Skálinn var tvö stafgólf og stofan hálft þriðja.105 Timburgafl var á skálanum og annar á stofunni en hún var alþiljuð, „með lofti og súð“.106 Á stofuhúsinu var glergluggi með sex rúðum.107 Bæjargöngin lágu frá baðstofunni að dyraporti og voru þau um það bil 7,5 metrar á lengd.108 Dyraportið var í þremur stafgólfum og á því timburþil en ekkert loft í því húsi.109 Yfir bæjardyrum stóð sumarið 1815 þessi latneska áletrun: „INTRANTIBUS SIT HAEC DOMUS PAX ET QUIES, AT EXEUNTIBUS SALUS“ sem merkir: Innkomnum frið og hvíldir hér, heill sé með þeim á brott er fer.110 Stofan og skálinn á Rafnseyri stóðu enn árið 1883 en níu árum síðar voru þau bæði fallin.111

Árið 1816 voru tvö heimili á Rafnseyri.112 Hjá gamla prestinum, séra Jóni Sigurðssyni, sem orðinn var 76 ára, og þriðju eiginkonu hans, Guðrúnu Torfadóttur, voru tíu heimilismenn en ellefu hjá aðstoðarprestinum, syni gamla prestsins.113

Séra Eggert Jónsson, sem prestur var á Álftamýri á árunum 1797–1800,114 sagði svo frá síðar að stundum hefði séra Jón á Rafnseyri komið út á Álftamýri um helgar og drukkið þá tvo potta af brennivíni á laugardagskvöldi, aðra tvo á sunnudagsmorgni, fyrir messu, og enn tvo potta sama dag, eftir embætti.115 Vera má að séra Jón hafi verið nokkuð ölkær og hraustur við drykk en gera verður ráð fyrir að þetta séu engu að síður ýkjur. Hann var að sögn kallaður Orri og þótti harðsnúinn í orðasennum og orrahríðum manna á milli.116

Séra Jón Sigurðsson á Rafnseyri og séra Jón Ásgeirsson, sem síðast var prestur í Holti í Önundarfirði, voru jafnaldrar og höfðu verið samtíða í Skálholtsskóla í fjóra vetur.117 Séra Eggert Jónsson, sem fyrr var nefndur, sagði syni sínum frá vináttu þessara tveggja presta en sonurinn færði söguna í stílinn og ritaði á þessa leið:118

Þeir séra Jón á Rafnseyri og séra Jón í Holti voru vinir góðir og hittust þeir árlega og endurnýjuðu þá vináttu sína. Eitt sinn var það að þeir fóru slíkar kynnisfarir og vissu ekki hvor til annars fyrr en þeir mættust á Gemlufallsheiði. Kysstust þeir í bróðerni og leystu svo til kúta sinna er báðir reiddu við hnakkólarnar. Settust síðan og drukku saman og þess á milli, ef einhverjar greinar komu milli þeirra, þá stukku þeir upp og flugust á. En er þeir urðu í hvert skipti þreyttir á því hvíldu þeir sig, föðmuðust og drukku þar til tæmdir voru kútarnir. Skildust þeir þá í kærleika og reið hvor heim til sín.

Séra Jón Sigurðsson var þríkvæntur en öll sín skilgetnu börn sem upp komust, dóttur og þrjá syni, eignaðist hann með fyrstu konunni, Ingibjörgu Ólafsdóttur er andaðist árið 1799.119 Sjálfur dó hann haustið 1821 „eftir 18 vikna stranga legu“ en kolbrandur út frá fótarmeini varð honum að aldurtila.120 Yngsta barn þessara prestshjóna var Sigurður sem varð aðstoðarprestur föður síns árið 1802.121 Hann var þá 25 ára gamall, fæddur á Snæfjöllum 2. janúar 1777.122 Fárra daga var hann að eigin sögn tekinn í fóstur af „frómum og ráðvöndum hjónum“ í Bæjum á Snæfjallaströnd, þeim Jóni Guðmundssyni og Ingveldi Erlendsdóttur.123 Hjá þeim ólst hann upp uns kominn var á tólfta ár en fluttist frá Skarði á Snæfjallaströnd að Rafnseyri, til foreldra sinna, vorið 1788.124 Er séra Sigurður hafði þjónað sem aðstoðarprestur föður síns í um það bil eitt ár gekk hann að eiga Þórdísi Jónsdóttur og voru þau gefin saman í Holti í Önundarfirði 28. september 1803125 en Þórdís, sem fædd var árið 1772, var dóttir séra Jóns Ásgeirssonar í Holti og konu hans, Þorkötlu Magnúsdóttur.126 Svaramenn við hjónavígsluna voru feður brúðarinnar og brúðgumans, hinir gömlu vinir og skólabræður, sem áður var frá sagt, séra Jón Ásgeirsson í Holti og séra Jón Sigurðsson á Rafnseyri.127

Á sínum fyrstu hjúskaparárum varð ungu hjónunum á Rafnseyri, séra Sigurði og Þórdísi konu hans, ekki barna auðið en laugardaginn 17. júní 1811 fæddist loks sonur sem gefið var nafnið Jón.128 Hann varð síðar helsti forystumaður okkar Íslendinga í sjálfstæðisbaráttunni við Dani og er enn nefndur Jón forseti. Munnmælasaga úr Arnarfirði hermir að í bernsku hafi þessi frumburður foreldra sinna eitt sinn orðið mjög veikur. Faðir hans hafi þá setið með hann í fanginu og mælt fyrir munni sér þessa vísu:129

Guð hefur þig til gamans mér

gefið, það má segja.

Hann sem öllu lífið lér

láti þig ekki deyja.

Séra Sigurður Jónsson fékk þriðjung staðarins hér á Rafnseyri til ábúðar árið 1803 og hálfan staðinn frá vorinu 1812.130 Er faðir hans andaðist árið 1821 var séra Sigurði veitt Rafnseyrarprestakall en hann hafði þá verið hér aðstoðarprestur í 19 ár.131 Á því skeiði var hann oft, að eigin sögn, formaður á skipi föður síns á vorin132 og mun hafa róið frá

Svalvogahamri,133 veiðistöð norðan við mynni Arnarfjarðar.134 Sagt er að þar hafi séra Sigurður verið í veri er Jón sonur hans fæddist, 17. júní 1811.135 Séra Sigurður Jónsson var prestur á Rafnseyri í nær hálfa öld, frá 1802 til 1851, og prófastur frá 1836.136 Séra Oddur Sveinsson, sem varð eftirmaður hans í prestsembætti hér á Rafnseyri, lýsti honum svo árið 1856:137

Sigurður prófastur var hár maður vexti, þrekinn vel og að öllu útliti hinn karlmannlegasti. Í framgöngu var hann hversdagslega mikið stilltur og alvarlegur en þó hinn viðfelldnasti og viðræðubesti við alla sem hann átti tal við. Hann var einhver hinn mesti reglu- og hófsmaður um alla sína daga og tók því hart á öllum ósiðum og óreglu. Ávallt sýndi hann sig sem hetju og mesta þrekmenni, bæði andlega og líkamlega. Hann var hinn mesti eljumaður og hataði því ekkert meir en iðjuleysi og leti, enda sást hann aldrei svo að hann væri ekki eitthvað að starfa … Hann var að vísu ekki sérlega fljótgáfaður eða bráðskarpur, sem menn svo kalla, en hafði einkar gott minni og greindargáfu og kunni yfirhöfuð vel að brúka gáfur sínar.

Í annarri heimild er séra Sigurður sagður hafa verið „bjarteygur og vel hærður“.138 Gísli Ásgeirsson, sem fæddist árið 1862 og ólst upp á Rafnseyri, síðar bóndi á Álftamýri, heyrði frá því sagt að faðir Jóns forseta hefði verið „mikill erfiðismaður“139 og Sighvatur Borgfirðingur, sem hitti marga samtíðarmenn séra Sigurðar að máli, taldi að hann hefði ekki verið „viðfelldinn við alþýðu eða glaðvær hversdagslega, heldur þurr á manninn og stundum önugur“ en gáfumaður og lærður vel.140

Séra Sigurður fékkst nokkuð við kennslu.141 Jóni syni sínum og tveimur eða fleiri öðrum piltum kenndi hann allt til stúdentsprófs en öðrum undir skóla.142

Gísli Ásgeirsson, er hér var nefndur, heyrði á sínum uppvaxtarárum á Rafnseyri sagt frá móður Jóns forseta en frásögn sína af henni byggir Þorleifur Bjarnason á orðum Gísla og ritar á þessa leið:143

Þórdís, móðir Jóns, var meðalkvenmaður á hæð, vel vaxin, andlitið frítt og gáfulegt. Einkum er til þess tekið hversu hún var forkunnarvel eygð, augun smá og móleit en fjörmikil. Var hún af öllum sem þekktu hana talin mesta skýrleiks- og gáfukona og valkvendi. Hún var kona hæglát og geðgóð en stjórnsöm á heimili. Að jafnaði var hún fáorð en hafði til að vera hnittin og jafnvel meinleg í orði ef henni þótti miður. Því sagði Hrólfur karl, er var allan sinn aldur fyrirvinna hjá þeim hjónum, að hann vildi heldur fá tíu ónotayrði úr prófasti en eitt úr maddömunni.

Að sögn séra Odds Sveinssonar á Rafnseyri var eiginkona forvera hans kunn að dugnaði og ráðdeild og „orðlögð fyrir framúrskarandi gáfur“.144 Á Rafnseyri var lengi haft í munnmælum að stundum hefði Sigurður prófastur látið konu sína um að kenna piltum skólalærdóminn en setið sjálfur í vefstólnum.145

Séra Sigurði Jónssyni og Þórdísi, konu hans, varð auðið þriggja barna. Elstur var Jón en hin tvö voru Jens, er varð skólakennari og rektor latínuskólans í Reykjavík, og Margrét, sem giftist Jóni „skipherra“ Jónssyni og bjuggu þau lengi á Steinanesi hér í Arnarfirði.146 Er séra Sigurður lét af embætti árið 1851 fluttust hann og kona hans að Steinanesi.147 Þar andaðist Sigurður prestur árið 1855 og Þórdís, kona hans, dó þar, níræð að aldri, árið 1862.148

Úr röðum heimafólks á Rafnseyri á uppvaxtarárum Jóns forseta er vert að minna sérstaklega á séra Markús Eyjólfsson og hjónin Hrólf Hrólfsson og Karitas Þorkelsdóttur. Séra Markús, sem lengi hafði verið prestur í Dýrafjarðarþingum og á Söndum í Dýrafirði, fluttist að Rafnseyri árið 1824.149 Hann var þá orðinn hálfáttræður og hafði verið blindur í nokkur ár en fékk hér skjól hjá foreldrum Jóns og átti heima á Rafnseyri uns hann andaðist árið 1830. Þessi gamli prestur var fræðimaður á forna vísu og má vera að kynni af honum hafi átt þátt í að vekja áhuga Jóns Sigurðssonar á íslenskum fræðum.150

Þau Hrólfur Hrólfsson og Karitas Þorkelsdóttir, sem gefin voru saman í hjónaband haustið 1820,151 voru bæði komin að Rafnseyri árið 1816152 og voru vinnuhjú hjá foreldrum Jóns forseta í hálfan fjórða áratug eða lengur.153 Þau voru barnlaus154 en tengdust börnum prestshjónanna vináttuböndum sem entust lengi. Hér hefur áður verið sagt nokkuð frá Hrólfi (sjá Karlsstaðir) og brátt verður gerð nánari grein fyrir Karitas. Hún og Jón forseti voru reyndar systrabörn (sjá Sandar) og er líklegt að hún hafi flust hingað að Rafnseyri með ömmu þeirra beggja, Þorkötlu Magnúsdóttur, árið sem Jón fæddist.155 Karitas var þá 16 ára. Hún kynni því að hafa verið barnfóstra hjá frænku sinni, prestsfrúnni á Rafnseyri, á fyrstu æviárum Jóns Sigurðssonar. Hrólfur og Karitas fluttust árið 1851 héðan frá Rafnseyri að Steinanesi með Margréti, systur Jóns forseta, og eiginmanni hennar.156 Árið 1865 hafði Jón Sigurðsson verið búsettur í Kaupmannahöfn í nær þriðjung aldar en á því ári fékk Karitas senda gjöf frá honum og nær áttræð sendi hún honum eina kveðju enn frá Steinanesi, „orðin aumingi og steinblind“, að sögn húsfreyjunnar þar.157

Á efstu árum Jóns forseta kunnu gamlir Arnfirðingar að segja frá því að hann hefði á unglingsárum verið í skiprúmi hjá Hrólfi vinnumanni, er var formaður á Rafnseyrarbátnum, og farið fyrst í verið innan við fermingu.158 Hrólfur reri þá frá Bás í Ystadal í Verdölum (sjá Karlsstaðir) og fylgdi sögunni að Jóni hefði í fyrstu verið ætlaður hálfur hlutur en sveinninn ungi brátt gert kröfu um heilan hlut og haft sitt fram.159 Í munnmælum var einnig haft að forseti hefði á sinni fyrstu vertíð borið titilinn Dalasýslumaður160 en sýslumenn voru þeir nefndir, í verstöðvum vestanlands, sem féllu í glímu fyrir öllum hinum við upphaf vertíðar.161 Var slíkum nýliðum ætlað að sýsla um eitt og annað smálegt heima við búðirnar og losnuðu ekki undan þeirri kvöð fyrr en þeim hafði tekist að glíma af sér „sýsluna“ en sá tók jafnan við sem minnstan hafði þróttinn og lakast varð úti er menn reyndu með sér á glímuvellinum.162 Hafi prestssonurinn frá Rafnseyri farið um eða innan við fermingu í verið er hreint ekki ólíklegt að hann hafi farið þar halloka í fyrstu eins og Snæbjörn í Hergilsey163 er síðar varð ein mesta sjóhetja Breiðfirðinga.

Flestar sagnir úr uppvexti Jóns forseta á Rafnseyri eru nú týndar í tímans haf en hermt er að hann hafi á unglingsárum sínum skrifað sitt af hverju fyrir almúgafólk í nágrenninu, einkum almanök.164 Kom þá fyrir að hann léti stöku fylgja með og hefur ein slík, ort til Jóns Ásgeirssonar, bónda á Auðkúlu 1828-1830, síðar prests á Álftamýri og Rafnseyri, náð að komast á prent:165

Almanaksins skrifuð skrá

skal árstímann vísa

sómamanni seggjum hjá,

signor Jóni, Kúlu á. *

Margir urðu síðar til þess að mæra Jón Sigurðsson í ljóðum en hvergi er sjáanlegt að hann hafi fengist við yrkingar ef frá er talin þessi eina staka sem menn töldu hann hafa bangað saman á unglingsárum heima í Arnarfirði.

Allan skólalærdóm nam Jón forseti hjá föður sínum hér á Rafnseyri en fór að heiman vorið 1829 og lauk þá stúdentsprófi í Reykjavík hinn 1. júní,166 nær átján ára að aldri. Næstu sextán ár kom hann aldrei í Arnarfjörð en vitjaði æskustöðvanna í fyrri hluta júnímánaðar árið 1845167 og hafði þá verið kjörinn fulltrúi heimabyggðar sinnar á hið endurreista Alþingi Íslendinga er fáum vikum síðar kom saman til síns fyrsta fundar.

Saga Jóns Sigurðssonar verður ekki rakin hér en að honum látnum þótti við hæfi að tengja við nafn hans þessi orð: „Óskabarn Íslands, sómi þess, sverð og skjöldur.“168 Bautasteinn hans stendur hér, reistur 1911, og

* Í grein Þorleifs H. Bjarnasonar yfirkennara um Jón Sigurðsson forseta í Skírni 1911 er sagt að vísan sé ort til Jóns Guðmundssonar, sem lengi var bóndi á Auðkúlu, og var staðhæfing hans tekin gild þegar vísa þessi var birt í bókinni Firðir og fólk 900-1900. Nánari athugun hefur leitt í ljós að þetta er rangt því Jón Guðmundsson fór ekki að búa á Auðkúlu fyrr en 1830 (sjá Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Auðkúluhr. 1a Hreppsbók 1791-1834) en Jón Sigurðsson, höfundur vísunnar, fór alfarinn úr Arnarfirði 1829. Vísan er því án vafa ort til Jóns Ásgeirssonar sem var eini bóndinn á Auðkúlu frá 1828-1830 og eini Jóninn sem þar bjó þegar Jón forseti var unglingur í foreldrahúsum. Vísan er ort veturinn 1828-1829 þegar okkar verðandi forseti var 17 ára.

hér er Safn Jóns Sigurðssonar, sem opnað var árið 1980. Á Eyri við Arnarfjörð er vatnið tært og djúpt í fornum lindum.

Skammt fyrir utan túnið fellur Rafnseyrará til sjávar og innan við árósinn eru Grelutóttir, kenndar við Grélöðu Bjartmarsdóttir hina írsku, fyrstu húsfreyjuna á Rafnseyri. Fyrir um það bil tuttugu árum leiddu fornleifarannsóknir í ljós að þar hafði fólk tekið sér bólfestu á landnámsöld169 en tóttirnar höfðu þá lengi verið kenndar við Grélöðu.170 Aðeins innar eru Hrafnsnaust við sjóinn, kennd við hinn víðförla héraðshöfðingja sem hér bjó á árunum kringum 1200.171 Naustin eru tvö og í liðlega 100 ára gamalli heimild er hið stærra sagt vera 28 metrar á lengd og breidd þess 7,5 metrar.172

Ofan við túnið á Rafnseyri opnast Rafnseyrardalur sem er nær fjórir kílómetrar á lengd og breiðari en aðrir dalir á norðurströnd Arnarfjarðar. Um dalinn og Rafnseyrarheiði lá frá upphafi byggðar í landinu alfaravegur norður í Dýrafjörð og er hin forna slóð víðast hvar skammt frá akveginum sem nú er þjóðbraut. Vegurinn liggur efst í liðlega 550 metra hæð. Fjallið innan við Rafnseyri heitir Ánarmúli og er kennt við landnámsmanninn en hvilftin framan við það heitir Djúpidalur.173 Þar fyrir framan er Seljahlíðarfjall en enn framar Hauksdalur sem gengur til austurs úr botni megindalsins.174 Fjallið fyrir botni Rafnseyrardals heitir Heiðarennafjall og engjalöndin við rætur þess Heiðarenni.175

Dalskoran sem gengur beint til norðurs fyrir vestan Heiðarennafjall er nefnd Heiðardalur og þar er Manntapagil fremst.176 Dalurinn sem gengur vest-norðvestur úr Rafnseyrardal heitir Geldingadalur og er hann í landi Auðkúlu.177 Norðan hans er Skipadalur við heiðarbrún, gróðurlaus að kalla. Akvegurinn liggur um Skipadal og síðan í sneiðingi fyrir Heiðarhornið og nær brúninni ofan við Manntapagil.178 Um Skipadal fluttu Dýrfirðingar, að sögn, vöðubáta sína á fyrri tíð er þeir fóru til selveiða í Arnarfirði.179 (Sbr. Auðkúluhreppur).

Í byrjun okkar aldar var haft fyrir satt í Arnarfirði að frá því land byggðist hefðu 18 menn farist í Manntapagili hér við heiðarbrúnina.180 Einn þeirra var Gissur Þorláksson, sýslumaður á Núpi í Dýrafirði, en hann var kvæntur Ragnheiði Pálsdóttur er seinna giftist séra Sveini Símonarsyni í Holti og varð móðir Brynjólfs biskups Sveinssonar.181 Gissur fórst hér í snjóflóði og tveir menn aðrir með honum á þorra árið 1597 en þeir voru á norðurleið frá Rafnseyri.182 Við Manntapagil var breski biblíumaðurinn Ebenezer Henderson líka hætt kominn í júnímánuði árið 1815 er reiðskjóti hans hrasaði á svellbunka við þessa heljarbrún.183 Ölsteini, sem enn stendur keikur við alfaraveg í heiðarbrekkunum framan við Geldingadal,184 tengjast bjartari minningar. Hjá honum fékk margur góða hressing úr sínum nestispela. Sé ekið norður er steinninn á vinstri hönd185 og villir ekki á sér heimildir.

Úr Manntapagili og Heiðardal kemur lækurinn Heiðará sem skilur að Heiðarennin, er fyrr voru nefnd, og Seljalágar.186 Heiðará fellur í Hauksdalsá en hún, Djúpadalsá og Geldingadalsá mætast allar á einum stað í um það bil þriggja kílómetra fjarlægð frá ströndinni og þar tekur við Rafnseyrará sem flytur vatn allra hinna til sjávar.187

Um miðbik 19. aldar var deilt af nokkurri hörku um landamerki Rafnseyrar og Auðkúlu á dalnum.188 Áttust þar við Ólafur Jónsson, bóndi á Kúlu, og prestarnir á Rafnseyri, séra Sigurður Jónsson og eftirmaður hans, séra Oddur Sveinsson. Friður var saminn 12. mars 1857 og var þá ákveðið að frá heiðarbrún skyldu merkin fylgja þjóðveginum niður að vaðinu yfir Geldingadalsá en síðan skipti hún löndum niður að ármótum og svo Rafnseyrará allt til sjávar.189

Í Seljalágum, skammt fyrir neðan ármót Heiðarár og Hauksdalsár eru miklar tóttarústir og blasa þær við augum frá bílveginum. Þetta er Rafnseyrarsel eins og sjá má í bréfi frá árinu 1856.190 Tóttirnar sýna að selhúsin hafa ekki verið færri en níu og sex þeirra á einum og sama hólnum. Svolítið heimar á dalnum en þó mjög skammt frá eru líka rústir tveggja allstórra húsa og má vera að þau hafi einnig tengst seljabúskapnum. Örskammt frá Heiðará, í tungunni milli hennar og Hauksdalsár, eru svo tvennar aðrar seljarústir, smærri í sniðum en þær sem áður voru nefndar. Ekki er ólíklegt að þar hafi fólkið sem bjó í hjáleigunum á Rafnseyri haft búsmala sinn í seli. Tóttirnar í Rafnseyrarseli sýna með ótvíræðum hætti að hér hefur verið rekinn seljabúskapur í stærri stíl en almennt var á Vestfjörðum og kemur reyndar ekki á óvart því á Eyri við Arnarfjörð sátu á fyrri öldum ríkir héraðshöfðingjar. Vorið 1649 voru selhúsin sögð sterk „að viðum“191 og má telja mjög líklegt að þá hafi þau enn verið í notkun. Árið 1768 voru þau hins vegar fallin192 og seljabúskapur lagður af.193 Frá hinum fornu seljarústum prestanna á Rafnseyri tökum við stefnuna á Kúlusel, sem er hinum megin við Geldingadalsá.

 

1 BBj 1961 bls.12.

2 Sama heimild. ÞN 1951, 155.

3 ÞN 1951, 145 (Árbók F.Í.). ÖÖ.

4 Sbr. GuðjGuðm Freyr IV, 44.

5 D.I. IV, 264–265 og VI, 41–43.

6 Sóknalýs. Vestfj. II, 34.

7 Jb. Á. og P. VII, 15–18.

8 Jb. Á. og P. VII, 15–18.

9 Sama heimild.

10 BBj 1961, 76.

11 Jarða- og bændatöl 1752–1767, Ísafjs. 1753.

12 Manntal 1762. Smt. Rafnseyrar 1763–1772. Manntal 1801.

13 Rtk. Jarðab. V. 16, Ísafjs. 1805.

14 Manntal 1816.

15 Sóknalýs. Vestfj. II, 34. BBj 1961, 18.

16 Ísl. fornrit I, 176.

17 Sama heimild.

18 Sama heimild. Sbr. Tjaldanes.

19 Sama heimild, bls. 178.

20 Sturl. I, 373 og 383–384.

21 Sama heimild I, 364, 386 og 436.

22 GPH 1987, xciv–cvii.

23 Sturl. I, 385.

24 Sama heimild, bls. 280.

25 Bisk. I, 418.

26 Sturl. I, 381–382.

27 Sama heimild, bls. 383.

28 Sama heimild, bls. 368–372.

29 Sama heimild.

30 Sama heimild.

31 GPH 1987, lxxxvi.

32 Sturl. II, 224–229.

33 Sama heimild, bls. 232–235.

34 Sama heimild.

35 Sama heimild.

36 Sama heimild.

37 Sturl. III, 13–17.

38 Sama heimild.

39 Sama heimild, bls. 77–85.

40 Sturl. III, bls. 77–85.

41 Sama heimild, bls. 85–97 og 108.

42 Sama heimild bls.403. Ísl. æviskrár II, 372–373.

43 JJóh 1956 I, 328–329.

44 Ísl. æviskrár II, 372–373.

45 Bisk. I, 315–478.

46 D.I. XII, 13.

47 D.I. III, 198 og IV, 145–146.

48 D.I. VIII, 300.

49 Bisk. I, 432.

50 Bisk. I, 432.

51 Ísl.æviskrár III, 72–73.

52 AS 1975, 175–177.

53 Sama heimild, bls. 296.

54 Ann. II, 25.

55 D.I. VIII, 300.

56 D.I. III, 198. Sbr. ÖÖ. Sbr. einnig D.I. XV, 578–579 og registur þar, svo og Jb. Á. og P. VI, 386 og VII, 305.

57 D.I. III, 198, IV, 145 og XV, 578–579. Sóknalýs. Vestfj. II, 35.

58 Sömu heimildir.

59 JJ 1847, 187, 191, 203 og 204.

60 Manntal 1901 og fylgiskjöl.

61 Skjs. próf. XIII. 1. B, 2. Skjalabók frá Holti í Önf. 1484–1731, 279–280, skýrsla séra SH 22.2.1710.

62 Ísl. æviskrár II, 296 og IV, 225.

63 D.I. III, 198 og XV, 578–579.

64 Jb. Á. og P. VI, 311–312.

65 D.I. III, 198, IV, 145–146 og XV, 578–579.

66 Sömu heimildir.

67 Sömu heimildir. Sbr. Horn og Dynjandi.

68 D.I. IV, 145–146. Sbr. D.I. XV, 578–579. Sbr. einnig Jb. Á. og P. VII, 290 og Sóknalýs. Vestfj. II, 174.

69 Sbr. Jb. Á. og P. VII, 305–306.

70 D.I. IV, 145–146.

71 Bisk. I, 390, 434 og 466. Sbr. Sturl. I, 84, II, 470, 479, 487 og III, 38 og 205.

72 Jb. Á. og P. VII, 15–16.

73 Sóknalýs. Vestfj. II, 35–36.

74 Jb. Á. og P. VII, 15–16.

75 Sóknalýs. Vestfj. II, 18 og 35–36.

76 D.I. III, 198.

77 Sama heimild. Sbr. Rit Þess ísl. Lærdómslistafélags 1787 VII, 248–250, og 1788 VIII, 71–76.

78 D.I. IV, 145–146.

79 Sama heimild. Sbr. D.I. XV, 578–580.

80 D.I. XIV, 392–393.

81 D.I. IV, 146 og XV, 579.

82 Sömu heimildir.

83 BBj 1961, 15–16.

84 Kst. Rafnseyrar 1749–1885.

85 D.I. VIII, 217.

86 BBj 1961, 15. ÞN 1951, 153.

87 Sömu heimildir. Sbr. PEÓ 1945–1946, 31.

88 SN 1950, 186–187.

89 Sama heimild. Sturl. I, 84 og 378–379.

90 Sturl. I, 378–379.

91 Sturl. I, 378–379.

92 Ísl. æviskrár III, 69–70.

93 BBj 1961, 86.

94 Sama heimild, bls. 87.

95 Prþjb. Rafnseyrar 1816–1851, bls. 5.

96 Ísl. æviskrár III, 263.

97 Sama heimild.

98 Sama heimild III, 263 og IV, 61.

99 Sama heimild.

100 PEÓ 1945–1946, 31–32.

101 Sama heimild.

102 Sama heimild.

103 Sama heimild.

104 Sama heimild.

105 Sama heimild.

106 Sama heimild.

107 Sama heimild.

108 Sama heimild.

109 Sama heimild.

110 EbH 1957, 294–295 og 298–300.

111 Skjs. próf. XIII. 1. A, 8. Úttektargerðir frá Rafnseyri 9.4.1883 og 20.6.1892.

112 Manntal 1816.

113 Manntal 1816.

114 Ísl. æviskrár I, 322–323.

115 FrEgg 1950, 111.

116 Sama heimild, bls. 109–110.

117 Ísl. æviskrár III, 54 og 263.

118 FrEgg 1950, 110–111.

119 Ísl. æviskrár III, 263.

120 Prþjb. Rafnseyrar 1816–1851, bls. 5–6.

121 Ísl. æviskrár I, 369, III, 263 og IV, 63 og 239. Manntal 1801, vesturamt, bls. 259

122 Ísl. æviskrár IV, 239.

123 Prþjb. Rafnseyrar 1816–1851, bls. 6

124 Sama heimild.

125 Prþjb. Holts í Önf.

126 Ísl. æviskrár III, 54 og IV, 239. Manntal 1801, vesturamt, bls. 297. Sbr. þar bls. xi.

127 Prþjb. Holts í Önf.

128 PEÓ 1945–1946, 32.

129 Frá ystu nesjum 1953 VI, 6.

130 Prþjb. Rafnseyrar 1816–1851, bls. 6–7.

131 Prþjb. Rafnseyrar 1816–1851, bls. 6–7.

132 Sama heimild.

133 ÞBj 1911, 102–103.

134 Lbs. 1288 4to. GKon, bls. 57–61.

135 BBj 1961, 104.

136 Ísl. æviskrár IV, 239.

137 Lbs. 2590 4to. Lýsing séra OSv á séra SJ fylgir bréfi séra OSv 9.12.1856 til JensS.

138 ÞBj 1911, 102–103.

139 Frá ystu nesjum 1953 VI, 6.

140 Lbs. 2368 4to. SGB Prestaæfir XI, 53.

141 Prþjb. Rafnseyrar 1816–1851, bls. 6–7.

142 Sama heimild. Ísl. æviskrár III, 54 og 60.

143 ÞBj 1911, 102–103.

144 Lbs. 2590 4to. Bréf séra OSv 9.12.1856 til JensS og meðfylgjandi skrif.

145 Frá ystu nesjum 1953 VI, 6.

146 Ísl. æviskrár III, 16–17, 266–268 og IV, 239–240. Prþjb. og smt. Rafnseyrar og Otradals. Sbr. Hokinsdalur.

147 Sömu heimildir.

148 Ísl. æviskrár III, 239.

149 Ísl. æviskrár III, 469.

150 Sbr. PEÓ 1945–1946, 32–33.

151 Prþjb. Rafnseyrar.

152 Manntal 1816.

153 Smt. og prþjb. Rafnseyrar.

154 Sömu heimildir.

155 Sbr. Manntal 1801, vesturamt, bls. 297. Prþjb. og smt. Holts í Önf. og Ísl. æviskrár III, 54.

156 Prþjb. og smt. Rafnseyrar og Otradals.

157 Ársrit S.Í. 1964, 113–114. Lbs. 2590 4to. Bréf MS 27.7.1873 til JSig. forseta.

158 ÞBj 1911, 102–103.

159 Sama heimild.

160 PEÓ 1945–1946, 34–35.

161 LKr 1985, 211. SnKr 1958, 48.

162 Sömu heimildir.

163 Sbr. SnKr 1958, 48.

164 ÞBj 1911, 103.

165 Sama heimild.

166 PEÓ 1945–1946, 39.

167 LKr 1960, 70–72. Sbr. ÍB 826 8vo. Dagb. séra SigTóm 14.6.1845.

168 EL 1979, 178.

169 GÓl 1979, 67.

170 ÞN 1951, 153.

171 Sama heimild. Sóknalýs. Vestfj. II, 32.

172 SV 1892, 136–137 (Árbók Hins ísl. fornleifafélags).

173 ÖÖ.

174 Sóknalýs. Vestfj. II, 22. Sbr. ÖÖ.

175 ÖÖ.

176 Sama heimild.

177 Sama heimild.

178 Sama heimild.

179 Vestf. sagnir II, 288. Sbr. VSV 1953, 74–75. Sbr. einnig Sunnudbl. Tímans 1962, I. árg. bls. 101–102 og Sturl. III, 372.

180 Vestf. sagnir II, 288.

181 Ísl. æviskrár II, 90. Ann. III, 98.

182 Bisks. JónsHalld I, 222–223. Ann. III, 98.

183 EbH 1957, 299.

184 ÖÖ.

185 HrÞ KÓ 5.7.1991.

186 Bps. C. V, 137 B. Bréf séra OSv á Rafnseyri 24.7.1856 til biskups.

187 Sama heimild.

188 Sama askja. Bréf séra OSv 24.7.1856 til stiftsyfirvalda.

189 Sama askja. Samningur um landamerki, dags. á Rafnseyri 12.3.1857 og staðfesting hans er stiftamtmaður og biskup skrifuðu undir 27.5. sama ár.

190 Sama askja. Bréf séra OSv 24.7.1856 til biskups.

191 Skjs. próf. XIII. 1. B, 1. Skjalabók frá Holti í Önf. 1333–1708. Úttekt Rafnseyrar 24.5.1649.

192 Kst. Rafnseyrar 1749–1824. Úttekt 27.6.1768

193 Sbr. Sóknalýs. Vestfj. II, 26 og 45.

1000-1900

Guðmundur Justsson

Á fyrri hluta 20. aldar var Guðmundur Justsson, sem fæddist á Gemlufalli haustið 1841,[1] einna kunnastur þeirra sem búið höfðu á Dröngum, a.m.k. utan Dýrafjarðar,

LESA MEIRA »
1000-1900

Krossadalur

Í Krossadal var löngum tvíbýli á fyrri tíð, Hærri- og Lægri- (eða Neðri-) Krossdalur, og voru þetta ystu bæir við Tálknafjörð. Stundum var reyndar þríbýli

LESA MEIRA »
1000-1900

Arnarstapi

Arnarstapi og Krossadalur voru tvær ystu jarðirnar á norðurströnd Tálknafjarðar og hafa nú báðar verið í eyði frá því um 1940.[1] Frá verbúðatóttunum í Arnarstapavík

LESA MEIRA »