Bær

Jörðin Bær í Súgandafirði var frá fornu fari ein þriggja stærstu jarðanna í Suðureyrarhreppi, 24 hundruð að dýrleika.[1] Hinar tvær voru Suðureyri og Botn sem líka voru 24 hundruð hvor að fornu mati.[2] Landamerkjunum á móti Vatnadal hefur áður verið lýst (sjá hér Fremri-Vatnadalur) en þau liggja hlíða á milli neðst í Hraununum, tæplega einum kílómetra framan við gamla bæjarhólinn í Bæ. Frá þessum landamerkjum á Bær allt land norðan Langár (Staðarár) alveg til sjávar og vestan Langár allt land fyrir framan Þverá að Vatnadalsmerkjum.[3] Á Sunddal á Bær allt land norðan Þverár en landamerkin á móti Suðureyri eru klettur fyrir innan Kýrnes[4] undir fjallinu Spilli. Að þessum síðastnefndu merkjum er tæplega hálfur kílómetri með sjó fram frá árósnum þar sem Langá (Staðará) fellur til sjávar.

Túnið og bærinn eru norðan við Langá, rétt framan við ármót hennar og Þverár. Bær er miðsvæðis í Staðardal og hér er stutt á milli bæja, varla hálfur kílómetri yfir að Stað og um einn kílómetri fram í Vatnadal. Aðeins lengri er spölurinn frá Bæ og niður að sjó, liðlega einn kílómetri, en inn að Suðureyri tveir og hálfur til þrír kílómetrar. Sú leið liggur um Spillisfjörur (sjá hér bls. 128 og Suðureyri) og var oft erfið yfirferðar að vetrarlagi.

Frá hlaðinu í Bæ sést upp í mynni Sunddals sem er afdalur og gengur til suðausturs upp frá vestanverðum Staðardal. Um Sunddal lá gamla þjóðleiðin úr Staðardal á Klofningsheiði en yfir hana lá alfaravegur til Önundarfjarðar. Fjallið Sunddalshorn skilur að Sunddal og Vatnadal og skoðað frá Bæ setur það mikinn svip á umhverfið. Í hlíðinni undir Sunddalshorni, handan Langár og rétt framan við Þverá, sér enn (1996) móta fyrir gömlu reiðgötunni sem farin var frá Bæ upp á dalinn í átt til heiðarinnar. Fjærst byggðinni liggur brún Sunddalshorns í um 600 metra hæð yfir sjávarmáli en fer síðan lækkandi og næst dalsmynninu, andspænis hlaðinu í Bæ, er hæðin aðeins um 250 metrar. Hlíðin neðan við Bæ, norðantil í Staðardal, heitir Bæjarhlíð og nær alveg niður að sjó. Hún er vel gróin og utantil við túnið í Bæ er hún klettalaus að kalla upp á efstu brún sem liggur í um það bil 400 metra hæð. Þar heitir Háls[5] og yfir hann geta menn komist frá Bæ til Suðureyrar án baga af klettum. Sú leið er hins vegar ærið brött upp að ganga og niður að fara og hefur því aldrei verið farin nema til gamans.

Í Jarðabók Árna og Páls frá árinu 1710 er kostum og göllum þessarar fornu bújarðar í Staðardal lýst svo:

Fóðrast kann á allri jörðinni níu kýr en útigangur er hér við lakari kost, bæði á landi og í fjörunni. Torfrista og stunga bjargleg. Móskurður til eldiviðar bjarglegur. Silungsveiði lítil og valla teljandi. Reki hefur ekki heppnast í manna minni. Engjarnar hafa spillst stórlega af skriðum úr brattlendi sem að áeykst árlega. Hætt er kvikfé frir sjávarflæðum. Heimræði er hér þó að lending sé bæði brimsöm og hætt og fyrir því fara ábúendur stundum héðan og láta skip sitt ganga á öðrum jörðum, nefnilega á Suðureyri.[6]

Eins og sjá má eru það einkum dökku hliðarnar sem hér eru dregnar fram en í yngri lýsingum fær jörðin betri dóma.

Við lok ársins 1791 var lengd túngarða hér í Bæ 160 faðmar ef marka má búnaðarskýrslu frá því ári og var það röskur fjórðungur allra túngarða í hreppnum.[7] Áveituskurðir til vatnsveitinga, sem bændurnir í Bæ höfðu grafið, voru þá 145 faðmar á lengd en samanlögð lengd slíkra skurða í öllum hreppnum var þá 458 faðmar.[8] Tölurnar sýna að sumir úr hópi bændanna sem bjuggu í Bæ á síðari hluta 18. aldar hafa verið framtakssamari við jarðabætur en almennt var á þessum slóðum.

Árið 1805 voru hlunnindi af fiskveiðum frá Bæ virt á nær 100 álnir eða sem svaraði fimm sjöttu hlutum úr kýrverði.[9] Hlunnindi af hákarlaveiðum voru þá metin á við hálft kýrverð og af silungsveiði á 10 álnir, einn tólfta úr kýrverði.[10] Í byrjun 19. aldar var meðalhásetahlutur hjá þeim sem reru frá Árós eða Stöð í landi Bæjar talinn vera álíka mikill og hjá Staðarmönnum sem reru frá Keravík[11] en frá þeirra hlut hefur áður verið greint í þessu riti (sjá hér Staður). Um sjósókn Bæjarmanna og annarra frá Árós og úr Stöðinni er hins vegar fjallað nokkru aftar (sjá bls. 120-128 sbr. hér bls. 15-16).

Á árunum kringum aldamótin 1900 þekkti Magnús Hjaltason, hið kunna alþýðuskáld, vel til hér í Bæ. Gæðum jarðarinnar lýsti hann svo:

 

Bær var góð jörð, nægar slægjur og mór óþrjótandi, beit til lands og sjávar og voru höfð fjárhús með hlöðu í Árósnum. Var svo til 1905. Þá voru þau rifin. Hefir síðan ekki verið byggt fjárhús þar til þessa [1913]. Þótti erfitt að ganga til sjávar í hvaða veðri sem var og lögðust svo búgæði þessi niður.[12]

 

Um 1920 var jarðargæðum í Bæ lýst með þessum orðum: Túnið í góðri rækt, grasgefið, sléttlent … . Útengi mýrlent, snögglent, samfellt út frá túni. Beitiland allgott. Fjörubeit nokkur.[13] Þá var talið að jörðin gæti framfleytt 5 kúm, 77 sauðkindum og 3 hestum en meðalheyfengur talinn 152 hestar af töðu og 287 hestar af útheyi.[14]

Árleg landskuld sem ábúendur í Bæ þurftu að greiða sínum landsdrottni var tvö hundruð árið 1658[15] eða sem svaraði tveimur kúgildum. Árið 1695 er þetta jarðarafgjald sagt vera átta ríxdalir[16] sem reyndar er sama upphæð því 120 álnir voru í hverju hundraði og 30 álnir í hverjum ríkisdal.[17]

Í Jarðabókinni frá 1710 segir að landskuld af jörðinni Bæ hafi að fornu verið 9 vættir,[18] það er 180 álnir eða hálft annað kýrverð, en sé nú 2 hundruð og hafi lengi verið greidd með 8 ríkisdölum spesíumyntar heim til landsdrottins.[19] Langa leið var að fara með þessa 8 dali því eigandi jarðarinnar átti árið 1710 heima í Haga á Barðaströnd (sjá hér bls. 11).

Á fyrri hluta átjándu aldar lækkaði landskuldin af Bæ um fullan helming, fór úr tveimur hundruðum niður í sex vættir[20] sem í landaurareikningi taldist vera sama fjárhæð og eitt hundrað. Sú upphæð stóð lengi óbreytt og svo var enn árið 1847.[21] Um 1920 var landskuldin mun lægri. Ábúandinn bjó þá á 17 hundruðum og landskuldin af þeim jarðarparti var tvær ær,[22] einn þriðji hluti úr kýrverði. Hin sjö hundruðin voru þá nytjuð af eigendum sem áttu heima á Suðureyri.[23]

Á 17. öld fylgdu 8 leigukúgildi (48 ær) þessari bújörð.[24] Árið 1710 hafði þeim fækkað niður í 6 og 1/3 (38 ær) og árið 1753 voru það 6 kúgildi sem fylgdu jörðinni.[25] Þaðan í frá virðist sú kúgildatala hafa haldist óbreytt allt fram á 20. öld.[26] Lögleiga fyrir hvert kúgildi var frá fornu fari tveir fjórðungar af smjöri (sjá hér Mosdalur), það er 10 kíló, og svo var enn á 19. öld. Í Jarðabókinni frá 1710 er tekið fram að leigur af innstæðukúgildunum hér í Bæ eigi að borga í smjöri heim til landsdrottins.[27] Eigendur jarðarinnar á árunum 1687-1729 voru Ari sýslumaður Þorkelsson í Haga á Barðaströnd og kona hans, Ástríður Þorleifsdóttir (sjá hér bls. 11). Um alllangt skeið urðu bændurnir hér í Bæ því að fara árlega með 80 kíló af smjöri vestur að Haga auk landskuldarinnar sem var 8 ríkisdalir eins og hér hefur áður verið nefnt. Þetta var mikið ferðalag yfir þrjá firði og fjórar heiðar. Þegar innstæðukúgildunum fækkaði úr 8 í 6 og 1/3 léttist byrðin sem bera þurfti vestur í Haga um nær 17 kíló.

Í Jarðabók Árna og Páls frá 1710 er getið um fjórar eyðihjáleigur í landi Bæjar.[28] Allar höfðu þær fallið í eyði fyrir 1650 og nöfn tveggja voru gleymd.[29] Hinar tvær hétu Garðshorn og Leifshús.[30] Á 19. öld voru reist tvö þurrabúðarkot í Bæjarlandi en um þau og hinar gömlu hjáleigur er fjallað hér nánar á öðrum stað (sjá bls. 100-113). Nýbýlið Sólstaðir var svo reist skammt frá sjó árið 1942[31] og var búið þar í fjörutíu ár. Guðmundur Pálmason  dó 10.3.1982, þá enn bóndi á Sólstöðum (sjá hér bls. 119-120).

Sú tilgáta hefur verið viðruð að Hallvarður súgandi hafi búið í Bæ[32] en hann er í Landnámabók talinn eini landnámsmaðurinn í Súgandafirði (sjá hér Suðureyrarhreppur, inngangskafli). Um það hvar fólkið sem fyrst settist að í Súgandafirði reisti sér bæ veit reyndar enginn neitt og lítil stoð að tilgátum um þau efni. Þó má segja að nafnið Bær feli í sér vísbendingu um að fyrsti bærinn í Staðardal hafi risið hér.

Í varðveittum heimildum er Bæjar fyrst getið í máldaga Maríukirkjunnar á Stað í Súgandafirði en það skjal er talið vera frá árinu 1324 eða því sem næst.[33] Í máldaganum segir að kirkjan eigi naustgjörð við árós í Bæjarlandi.[34] Af þeim orðum má ráða að Langá, sem einnig er nefnd Staðará, hafi þá eins og jafnan síðar skipt löndum milli Staðar og Bæjar.

Fyrsti eigandi Bæjar, sem kunnur er með nafni, hét Grímur Þorleifsson og var uppi á 15. öld.[35] Þann 22. febrúar árið 1460 seldi hann Birni hirðstjóra Þorleifssyni jörðina[36] en í vitnisburðarbréfi um þau viðskipti segir meðal annars svo:

 

Það gjörum vér Ari Sumarliðason, Þorsteinn Sigurðsson, Einar Pálsson, Jón Jónsson, Vincentíus Nikulásson góðum mönnum kunnugt með þessu voru opnu bréfi að vér vorum í hjá í Breiðustofunni í stofunni [hér virðist sjálft húsið vera nefnt stofa, – innskot K.Ó.] í Vatnsfirði þá liðið var frá hingaðburð vors herra Jesu Christi 1460 á Pétursmessudag um veturinn. Sáum og heyrðum á orð og handaband Björns bónda Þorleifssonar og Gríms Þorleifssonar og skildist það undir þeirra handabandi að nefndur Grímur seldi Birni Þorleifssyni jörð þá er Bær heitir í Súgandafirði og liggur í Staðarkirkjusókn með öllum þeim gögnum og gæðum sem greindri jörð á að fylgja og fylgt hefur að fornu og nýju og fyrrgreindur Grímur varð framast eigandi að.

Hér í mót gaf áðurnefndur Björn Þorleifsson þrjá tugi hundraða með svofelldum fríðleik: 12 kúgildi búlæg og 8 hundruð í geldfé, 10 hundruð í þarflegum peningum þeim sem þeim vel saman kæmi og skyldu lúkast á þrem árum, hinum næstu.[37]

 

Í þessu sama bréfi frá árinu 1460 er líka gerð grein fyrir landamerkjum jarðarinnar[38] eins og hér hefur áður verið skýrt frá og ítökum sem Bær átti í landi Vatnadals og Vatnadalur í landi Bæjar (sjá hér Fremri-Vatnadalur). Einnig er tekið fram að Bær eigi 30 sauða beit á Sauðanesi [í landi Staðar] frá krossmessu á haust og til krossmessu á vor en á móti eigi Staðarkirkja naustgjörð og skipstöðu við árós í Bæjarlandi.[39]

Við lestur þessa skjals vekur athygli að Björn hirðstjóri greiðir 30 hundruð fyrir jörðina en í heimildum frá 17., 18. og 19. öld er dýrleiki hennar jafnan sagður vera 24 hundruð.[40] Hugsanlegt er að jörð þessi í Staðardal hafi verið hærra metin á 15. öld en líka getur verið að hirðstjórinn, Björn ríki, hafi keypt hana á yfirverði.

Þegar Björn Þorleifsson keypti Bæ í Súgandafirði var hann voldugasti maður landsins og fór sem hirðstjóri með umboð konungs.[41] Ætla má að hann hafi þá einnig verið betur efnum búinn en nokkur annar Íslendingur og var oft nefndur Björn ríki. Á síðari hluta ársins 1467 var Björn hirðstjóri veginn af Englendingum í Rifi á Snæfellsnesi, sennilega um mánaðamótin ágúst – september.[42] Ekki skal gráta Björn heldur safna liði, sagði ekkja Björns, Ólöf ríka á Skarði, er hún frétti lát bónda síns, ef marka má það sem skráð var á bók um það bil 180 árum síðar.[43] Þau orð þekkja margir enn. Í dönskum annál frá sextándu öld er staðfest að víg Björns hirðstjóra hafi átt nokkurn þátt í að magna stríð og óvild milli Dana og Englendinga en í þeim átökum voru þýsku Hansakaupmennirnir bandamenn Dana.[44] Á vörum fólks lifðu lengi sagnir um hefnd Ólafar ríku og í Hirðstjóraannál, sem færður var í letur snemma á 18. öld, segir að hún hafi látið drepa marga Englendinga sem hingað sigldu og um skeið verið með 50 enska fanga heima á Skarði.[45]

Þegar Björn hirðstjóri var veginn í Rifi voru aðeins liðnir örfáir mánuðir frá því hann ráðstafaði Bæ í Súgandafirði í hendur nýs eiganda. Sá var Brandur Jónsson lögmaður og fékk hann jörðina upp í lögmannskaup er hann átti inni hjá hirðstjóranum.[46] Frá þeim samningi var gengið 26. júní 1467 og fylgdu með sex kúgildi.[47]

Brandur lögmaður bjó lengi á Hofi á Höfðaströnd í Skagafirði en síðustu árin sem hann lifði á Mýrum í Dýrafirði.[48] Hann andaðist árið 1494. Svo virðist sem Brandur hafi skömmu fyrir andlát sitt gefið Sigmundi syni sínum jörðina Bæ og með dómi, sem upp var kveðinn 4. febrúar 1495, var staðfest að Sigmundur ætti jörðina.[49]

Brandur lögmaður og niðjar hans áttu Bæ í 152 ár.[50] Sá fyrsti þessara ættmenna sem virðist hafa búið í Bæ er Sigmundur Brandsson, launsonur Brands lögmanns.[51] Sigmundur eignaðist jörðina árið 1494 eða skömmu fyrr eins og hér var áður nefnt og átti hana til dauðadags. Líklegast er að hann hafi andast árið 1525 og á banasænginni lýsti hann því yfir að sonarsynir sínir, Sturli og Grímur Jónssynir, væru sínir löglegu erfingjar að nefndri jörð, Bæ í Súgandafirði.[52] Vitni að þessari yfirlýsingu var séra Tómas Ólafsson[53] en hann var alllengi prestur og prófastur á Eyri í Skutulsfirði og ef til vill um skeið á Stað í Súgandafirði.[54]

Sigmundur Brandsson átti a.m.k. svo syni, Jón og Halldór sem var laungetinn.[55] Jón Sigmundsson dó á undan föður þeirra en skilgetnir synir hans voru þeir Sturli og Grímur Jónssynir sem hér voru nefndir.[56]

Vitnisburðarbréf séra Tómasar Ólafssonar um orð Sigmundar Brandssonar á deyjandi degi er dagsett 29. ágúst 1525 og segir þar meðal annars svo:

 

Svofelldan vitnisburð ber ég, síra Tómas Ólafsson, að ég var hjá Sigmundi heitnum Brandssyni í sinni dauðstíð og veitti honum allt kristilegt embætti það sem kristnum manni ber að hafa áður en hann fór af heiminum. Lýsti hann því fyrir mér og fleirum öðrum að synir Jóns heitins Sigmundssonar, Sturli og Grímur, væru sínir löglegir erfingjar og eignarmenn eftir sinn dag að jörðinni Bæ er liggur í Súgandafirði í Staðarkirkju sókn. Svo og lýsti fyrrnefndur Sigmundur því fyrir mér að hann hefði aldrei gefið jörðina Bæ Halldóri syni sínum framar en hann fengi þá konu er hann sagðist þá biðja skyldu. Svo og ætti Halldór öngva peninga í sinn garð. Svo og sagðist þráttnefndur Sigmundur hafa goldið 2 kúgildi til Álftamýrar vegna Halldórs sonar síns og eitt kúgildi galt hann Jóni Björnssyni dan með móður hans og að auki hafði hann haft hana 12 mánuði til framfæris. Svo og sagðist títtnefndur Sigmundur hafa fengið þráttnefndum Halldóri hest og lögbók góða og sæmilegan dúk.[57]

 

Af þessari yfirlýsingu Sigmundar má ráða að til tals hefur komið með þeim feðgum, Sigmundi og Halldóri, að Halldór erfði Bæ en þó því aðeins að hann fengi þá konu er hann sagðist þá biðja skyldu eins og það er orðað í vitnisburðarbréfinu. Hver sú kona var veit nú enginn en ljóst er að hún hefur ekki játast Halldóri. Líkur benda til að þessi frillusonur Sigmundar bónda hafi alist upp á Álftamýri að meira eða minna leyti því þangað hafði Sigmundur goldið tvö kúgildi vegna Halldórs. Merkilegt er að samkvæmt vitnisburðarbréfinu hafði Sigmundur líka ráðstafað barnsmóður sinni, móður Halldórs, til Jóns dan Björnssonar, hins auðuga bónda á Rafnseyri, sem hér er sagt frá á öðrum stað (sjá hér Rafnseyri) og borgað eitt kúgildi með henni.

Allt sýnir þetta að Halldór var frillusonur en óljóst er hvort Jón bróðir hans muni líka hafa verið laungetinn. Annað vitnisburðarbréf séra Tómasar Ólafssonar sýnir hins vegar að synir Jóns Sigmundssonar, þeir Sturli og Grímur, voru skilgetnir. Bæði þessi bréf séra Tómasar eru skrifuð í Bæ sama dag, 29. ágúst 1525.[58] Í bréfinu sem hér var síðar nefnt segir séra Tómas að hann hafi sjálfur verið í kirkjunni á Stað í Súgandafirði þegar Jón Sigmundsson festi sér Sigríði Þórisdóttur fyrir eiginkonu og hafi hjónaband þeirra staðið í fimm ár.[59] Þegar Jón gekk að eiga Sigríði var séra Ólafur Teitsson prestur á Stað og leiddi hann brúðina með ljósi í kirkju.[60]

Óhætt virðist að slá því föstu að synir Jóns Sigmundssonar, þeir Sturli og Grímur, hafi átt nýnefnda Sigríði fyrir móður því vitnisburðarbréfið er gefið út til að sýna að þeir séu fæddir í hjónabandi og því lögmætir erfingjar afa síns.

Engin vitneskja er í boði um lífshlaup Sturla Jónssonar en Grímur bróðir hans kvæntist eigi síðar en 1539 Geirlaugu, dóttur Jóns murta Narfasonar á Kirkjubóli í Skutulsfirði.[61] Geirlaug var systir Sesselju Jónsdóttur sem gerðist fylgikona Eggerts lögmanns Hannessonar[62] og varð að lokum eiginkona hans (sjá hér Núpur). Þann 21. maí árið 1539 gekk séra Ari Jónsson, prestur á Stað í Súgandafirði, frá vitnisburðarbréfi um kaupmála Gríms og Geirlaugar:

 

Það gjöri ég, Ari prestur Jónsson, góðum mönnum kunnugt með þessu mínu opnu bréfi að ég var nær staddur á Kirkjubóli í Skutulsfirði í Eyrarkirkju sókn þá er Grímur Jónsson gekk til kaups og festingar við Geirlaugu Jónsdóttur með jáyrði og samþykki móður hennar, Sigríðar Tómasdóttur, og Jóns murta Narfasonar og bræðra hennar með svofelldri peningahæð að fyrrgreindur Grímur Jónsson taldi sér til kvonarmundar við áðurgreinda Geirlaugu Jónsdóttur jörðina Bæ, fjögur hundruð og tuttugu, er liggur í Staðarkirkju sókn í Súgandafirði og þar til tíu hundruð í fríðum peningum og ófríðum. En hér í móti átti áðurgreind Geirlaug sjö hundruð, fimm fríð og tvö ófríð. En oftnefndur Grímur gaf oftnefndri Geirlaugu fimm hundruð fríð úr þessum sínum peningum og skyldi reiknast í fjórðungsgjöf hans … .[63]

 

Í þessu sama bréfi er síðan gerð nánari grein fyrir ákvæðum kaupmálans.

Bréfið sýnir meðal annars að Grímur Jónsson átti einn allan Bæ þegar hann gekk í hjónaband og má vera að Sturli bróðir hans, sem fyrr var nefndur, hafi þá verið andaður. Orðalag bréfsins bendir eindregið til þess að Geirlaug hafi ekki verið hjónabandsbarn því nafn móður hennar er nefnt á undan nafni föðurins.[64] Sú staðreynd að það er Ari prestur á Stað í Súgandafirði sem gefur út vottorðið um kaupmála Gríms og Geirlaugar bendir eindregið til þess að Grímur hafi búið hér í Bæ eins og Sigmundur afi hans en frá honum fékk hann hálfan Bæ að erfðum.

Hjónin Grímur og Geirlaug eignuðust allmörg börn og var eitt þeirra Jón Grímsson sem bjó hér í Bæ á síðari hluta sextándu aldar.[65] Hann var nefndur Jón eldri til aðgreiningar frá bróður sínum sem líka hét Jón. Þriðji sonur Gríms og Geirlaugar í Bæ var Gunnsteinn Grímsson er varð bóndi á Dynjanda í Jökulfjörðum[66] og átti skútuna stóru sem spænsku skipbrotsmennirnir rændu árið 1615 (sjá hér Fjallaskagi). Á henni komust margir þeirra til Patreksfjarðar og náði að forða sér undan refsivendi Ara sýslumanns í Ögri. Ein systir þessara bræðra frá Bæ var Sigríður Grímsdóttir sem varð frilla séra Jóns Loftssonar, prófasts í Vatnsfirði.[67]

Jón Grímsson eldri, síðar bóndi í Bæ, var á yngri árum sveinn Eggerts lögmanns Hannessonar sem kvæntist Sesselju, móðursystur Jóns.[68] Á þeim árum voru strákur þessi frá Bæ og Eggert lögmaður báðir orðaðir við sömu konuna.[69] Hún hét Herdís Þorleifsdóttir og voru þau Jón Grímsson systrabörn en mæður beggja mágkonur lögmannsins.[70] Þegar Herdís eignaðist dóttur sór hún fyrir þá báða, Jón Grímsson og Eggert lögmann, en við giftingu var þessi dóttir Herdísar engu að síður skráð sem dóttir lögmannsins.[71]

Árið 1567 keypti Jón Grímsson hálfa jörðina Dynjanda í Jökulfjörðum, sem var 16 hundraða jörð, af Brigit Jónsdóttur á Kirkjubóli í Skutulsfirði, sem kynni að hafa verið móðursystir hans, og eiginmanni hennar, Jóni Jónssyni.[72] Á sama ári var að Stað í Súgandafirði gefið út vitnisburðarbréf um að Eggert lögmaður Hannesson hefði greitt Jóni Grímssyni eldra 20 hundruð í sín þjónustulaun.[73]

Um þetta leyti hefur þessi sonur Gríms og Geirlaugar í Bæ verið farinn að búa sig undir að ganga í hjúskap og haustið 1568 kvæntist hann stúlku sem hét Hildur Magnúsdóttir[74] og hefur líklega verið frá Melgraseyri við Djúp.[75] Kaupmáli þeirra var staðfestur í borðstofunni á Melgraseyri 9. september 1568 og þar er tekið fram að Grímur Jónsson gefi nú Jóni syni sínum hálfan Bæ í Súgandafirði.[76] Með fylgdi hálfur sá skógarpartur, er Grímur sagðist hafa keyptan til sömu jarðar, og að auk 5 hundruð í góðum og þarflegum peningum.[77] Í kaupmálanum frá 1568 er tekið fram að hálflendan í Bæ sé virt á 15 hundruð[78] og er það í samræmi við verð jarðarinnar þegar hún var seld árið 1460 (sjá hér bls. 4).

Eins og áður sagði keypti Jón Grímsson eldri 8 hundruð í jörðinni Dynjanda í Jökulfjörðum árið 1567. Tólf árum síðar keypti hann nokkur hundruð í viðbót úr sömu jörð en 7. febrúar 1581 seldi hann Gunnsteini bróður sínum 13 hundruð í Dynjanda en fékk í staðinn frá Gunnsteini 6 hundruð í Bæ, 2 hundruð í Norðureyri, 2½ hundrað í Vatnadal og að auk 3 hundruð í fríðum peningum.[79]

Síðustu fréttir af Jóni Grímssyni í Bæ eru þær að árið 1591 bað hann séra Ólaf Sveinsson, sem þá var prestur á Stað, að skrifa séra Jóni Loftssyni, prófasti í Vatnsfirði, um það frillulífi er hann hefði haft við systur hans, Sigríði Grímsdóttur.[80] Vera má að þessi málafylgja bóndans í Bæ hafi stuðlað að því að séra Jón Loftsson gaf tveimur árum síðar út opinbera yfirlýsingu um að börn þeirra Sigríðar skyldu teljast skilgetin og hljóta arf í samræmi við það.[81]

Um börn Jóns Grímssonar í Bæ er fátt kunnugt með vissu. Í gamalli ættartölubók finnst ritað að fyrri kona Þorleifs Þórðarsonar, sem kunnur er undir nafninu Galdra-Leifi, hafi verið dóttir Jóns Grímssonar í Bæ[82] en galdramaður þessi, sem andaðist árið 1647, bjó m.a. á Garðsstöðum í Ögursveit[83] og líka á Fæti í Seyðisfirði.[84] Á Fæti bjó líka alllengi sonardóttir Jóns Grímssonar, Sigríður Pálsdóttir, sem átti að seinni manni Árna Jónsson hvalamann á Fæti.[85]

Á árunum 1617-1619 seldu nýnefnd Sigríður Pálsdóttir og systir hennar, Hallbjörg Pálsdóttir, Steinþóri Ormssyni, lögréttumanni í Fremri-Gufudal í Gufudalssveit, 16 hundruð í Bæ.[86] Þau 8 hundruð í Bæ, sem þessar Pálsdætur áttu ekki, seldu aðrar systur um svipað leyti, þær Ólöf og Sesselja Þórðardætur sem talið er að hafi verið dótturdætur Jóns bónda Grímssonar í Bæ.[87] Af Ólöfu keypti Ormur Jónsson 6 hundruð í Bæ árið 1617 en Sesselja seldi séra Jóni Ormssyni 2 hundruð í þessari sömu jörð um svipað leyti.[88] Líklegt er að frá þeim kaupum hafi einnig verið gengið á árunum 1617-1619 þó að endanleg kvittun fyrir greiðslunni hafi ekki verið gefin út fyrr en árið 1631.[89]

Ljóst er að Brandur Jónsson lögmaður, sem eignaðist Bæ árið 1467 (sjá hér bls.5-6), og niðjar hans hafa átt jörðina í 150 ár, frá 1467 til 1617, en létu hana alla eða nær alla af hendi á árunum 1617-1619. Konurnar sem þá seldu þessa eign feðra sinna og mæðra áttu Brand lögmann fyrir langa-langa-langa-langafa eins og ráða má af því sem hér hefur verið ritað. Sjö ætttliðir komu því við sögu á þeim liðlega 150 árum sem Brandur lögmaður og niðjar hans áttu þessa fornu bújörð í Staðardal.

Ormur Jónsson, sem keypti 6 hundruð í Bæ árið 1617, hefur án efa verið lögréttumaðurinn með því nafni sem átti heima í Fremri-Gufudal, faðir Steinþórs Ormssonar lögréttumanns sem um svipað leyti keypti 16 hundruð í Bæ.[90] Séra Jón Ormsson, sem keypti þau 2 hundruð er þá voru enn óseld og hér var áður nefndur, var sonur Orms lögréttumanns í Fremri-Gufudal og hálfbróðir Steinþórs.[91] Séra Jón var prestur á Kvennabrekku í Dölum en sonarsonur hans var Árni Magnússon, prófessor og handritasafnari í Kaupmannahöfn.

Svo fór að séra Jón Ormsson, sem í fyrstu keypti aðeins tvö hundruð í Bæ, eignaðist jörðina alla og 18. september 1629 seldi hann hana í jarðaskiptum við Eggert Sæmundsson og fékk í staðinn Snældubeinsstaði, 30 hundraða jörð í Borgarfirði.[92] Eggert var tengdasonur Steinþórs Ormssonar lögréttumanns[93] en þeir Steinþór og séra Jón Ormsson voru hálfbræður eins og áður ver getið um.

Eggert Sæmundsson, sem keypti Bæ í Súgandafirði árið 1629, var af ætt Hólsmanna í Bolungavík og bjó um skeið á Hóli en fluttist þaðan að Sæbóli á Ingjaldssandi. Hann drukknaði árið 1636 (sjá hér Sæból á Ingjaldssandi).

Í jarðaskrá frá árinu 1658 er kvinna Þorleifs Magnússonar sögð eiga Bæ í Súgandafirði.[94] Kvinna þessi er án vafa Sigríður, dóttir Eggerts Sæmundssonar á Sæbóli, en hún var gift Þorleifi bónda Magnússyni í Haga á Barðaströnd.[95] Dóttir Þorleifs og Sigríðar var Ástríður sem giftist Ara Þorkelssyni er síðar varð sýslumaður í Barðastrandarsýslu og bjó í Haga allt til dauðadags árið 1730.[96] Ástríður eignaðist Bæ árið 1687[97] og síðan var jörðin í eigu þeirra hjóna, hennar og Ara sýslumanns, allt til ársins 1729.[98] Þegar Ari Þorkelsson seldi Bæ árið 1729 voru liðin rétt 100 ár frá því afi eiginkonu hans, Eggert Sæmundsson á Sæbóli, festi kaup á þessari sömu jörð. Allan þann tíma hafði hún verið í eigu Eggerts og niðja hans. Um landskuld og kúgildaleigur sem bændurnir í Bæ þurftu að greiða til Ara sýslumanns í Haga hefur áður verið fjallað á þessum blöðum og skal til þess vísað (sjá hér bls. 3).

Sá sem keypti Bæ af Ara Þorkelssyni í Haga sumarið 1729 var Markús Bergsson, sýslumaður í Ögri, og borgaði hann 8 ríkisdali fyrir hvert jarðarhundrað.[99] Heildarverðið hefur því verið 192 ríkisdalir. Markús sýslumaður dó árið 1741[100] en tuttugu árum síðar átti tengdasonur hans, séra Magnús Teitsson í Vatnsfirði, a.m.k. 16 hundruð í Bæ, það er tvo þriðju hluta af allri jörðinni.[101] Haustið 1762 seldi hann þessi 16 hundruð séra Þorsteini Þórðarsyni sem þá var prestur á Stað í Súgandafirði.[102] Fyrir hvert jarðarhundrað gaf séra Þorsteinn tæplega sex ríkisdali sem var mun lægra verð en Markús Bergsson hafði greitt er hann keypti Bæ aldarþriðjungi fyrr.

Í manntalinu frá 1762 er séra Magnús Teitsson sagður eiga Bæ,[103] enda var ekki gengið frá sölunni á þessum 16 hundruðum fyrr en 13. október um haustið.[104] Líklegt er að séra Magnús eða börn hans hafi átt jarðarþriðjunginn sem séra Þorsteinn keypti ekki eitthvað lengur. Til þess bendir sú staðreynd að árið 1776 veðsetti Ólafur Erlendsson, lögsagnari í Ytri-Hjarðardal í Önundarfirði, 3 hundruð í Bæ[105] en hann var tengdasonur séra Magnúsar Teitssonar í Vatnsfirði.[106] Óljóst er nú hversu lengi séra Þorsteinn Þórðarson átti sín 16 hundruð í Bæ en hann hrökklaðist blásnauður frá Stað vorið 1801 og dó árið 1809 (sjá hér Staður).

Árið 1805 var ekkjan Bergljót Jónsdóttir annar tveggja ábúenda í Bæ og átti þá alla jörðina.[107] Eiginmaður hennar, Össur Guðmundsson, var þá dáinn en í marsmánuði árið 1804 var hann enn á lífi.[108] Þau hjónin höfðu hafið búskap í Bæ vorið 1789[109] en ekki er alveg víst hvort þau keyptu jörðina þá þegar. Össur Guðmundsson og Bergljót kona hans voru að öllum líkindum fyrstu sjálfseignarbændurnir sem bjuggu í Bæ síðan á árunum kringum 1600 eins og sjá má á því sem hér hefur verið skrifað. Um þau hjónin er fjallað nánar á öðrum stað í þessu riti (sjá hér bls. 22-26). Ekkja Össurar bjó áfram í Bæ að honum látnum og síðan niðjar þeirra, óslitið, allt til ársins 1857.[110] Á árunum upp úr 1830 höfðu dóttir Össurar og eiginmaður hennar alla jörðina til ábúðar,[111] þau Bergljót Össurardóttir og Magnús Guðmundsson, en slíkt mátti kallast einsdæmi.

Magnús Guðmundsson, bóndi í Bæ, andaðist sumarið 1833 (sjá hér bls. 28-29) en Bergljót, kona hans, ekki fyrr en haustið 1860 og hafði hún þá alið allan aldur sinn hér í Bæ. Einu börn þessara hjóna sem upp komust voru tveir synir, Össur og Jón, en þeir voru báðir látnir þegar móðir þeirra andaðist.[112] Dóttir, sem Bergljót hafði eignast fyrir hjónaband, Sigurborg Bergsdóttir, var hins vegar á lífi og gift Lárentíusi Hallgrímssyni er þá var bóndi á Gelti[113] (sbr. hér bls. 24-25 og 30-31 og Göltur).

Þegar dánarbú Bergljótar var tekið til skipta í desembermánuði árið 1860 voru eignir hennar, að frádregnum skuldum, virtar á 1.738 ríkisdali og 60 skildinga.[114] Sú fjárhæð svaraði þá til um það bil 46 kúgilda.[115] Jarðeignir Bergljótar við lok ævinnar voru 18 hundruð í Bæ, það er þrír fjórðu partar úr allri jörðinni, 11 og ½ hundrað úr jörðinni Hóli í Önundarfirði og allur Fremri-Vatnadalur, 7 hundruð.[116] Við uppgjör dánarbúsins fékk dóttir Bergljótar, Sigurborg Bergsdóttir, sem hér var áður nefnd, þriðjung allra eignanna í sinn hlut, öðrum þriðjungi var skipt milli þriggja barna Össurar Magnússonar og enn einum þriðjungi milli tveggja barna Jóns Magnússonar.[117] Átján hundruðin sem Bergljót átti hér í Bæ skiptust þannig að Sigurborg Bergsdóttir fékk 10 hundruð, Magnús Jónsson 6 hundruð og María Össurardóttir 2 hundruð[118] en þau Magnús og María voru sonabörn Bergljótar. Í skiptagerðinni er getið nafna á túnblettunum sem hvert þeirra fékk. Sigurborg fékk Fótarvöll og Harðavöll, Magnús Langhól og María Hjallhóla[119] (sbr hér bls. 99).

Haustið 1861 keypti Lárentíus Hallgrímsson, er fyrr var nefndur, þau tvö hundruð sem María Össurardóttir hafði fengið í arf og árið 1864 náði hann að kaupa 4 hundruð sem Friðrik Verner Gíslason, bóndi á Kvíanesi, átti hér í Bæ.[120] Hjá hjónunum Lárentíusi og Sigurborgu Bergsdóttur bættust þessi 6 hundruð við þann jarðarpart sem Sigurborg fékk í arf eftir móður sína í desember 1860 svo þau áttu frá 1864 16 hundruð eða tvö af hverjum þremur hundruðum jarðarinnar. Lárentíus og Sigurborg fluttust hingað frá Gelti vorið 1862 og hófu búskap á parti úr jörðinni en bóndi þessi var þá orðinn nokkuð aldraður og dó árið 1866 (sjá hér bls. 48) svo búskaparár hans hér urðu fá. Sigurborg kona hans lifði hins vegar miklu lengur og varð allra kerlinga elst í þessum hreppi (sjá hér Göltur). Dánarbú hennar var skrifað upp árið 1905 og í þeirri uppskrift sést að við ævilok átti hún enn 9 hundruð í Bæ.[121]

Á síðari hluta nítjándu aldar og fyrstu áratugum hinnar tuttugustu munu niðjar Bergljótar Össurardóttur jafnan hafa átt nær allan Bæ eða að minnsta kosti mjög stóran hluta úr jörðinni. Í heimild frá árinu 1901 eru Guðmundur Ásgrímsson á Gelti og fleiri sagðir eiga Bæ[122] en Guðmundur var kvæntur Guðrúnu Ólafsdóttur, sonardóttur Sigurborgar Bergsdóttur og Lárentíusar Hallgrímssonar.[123] Árið 1916 áttu niðjar Lárentíusar og Sigurborgar eða makar viðkomandi niðja enn 15 hundruð úr þessari fornu bújörð[124] sem þá hafði verið í eigu ættarinnar þó nokkuð á aðra öld. Sonur og tveir tengdasynir Guðmundar Ásgrímssonar á Gelti, sem fyrr var nefndur, áttu þá 6 hundruð i Bæ, allir til samans, en sonarsynir Lárentíusar og Sigurborgar, þeir Kristján Sigurðsson á Norðureyri og Guðmundur Pálmason í Botni, áttu fjögur og hálft hundrað hvor.[125]

Magnús Jónsson, sem var sonarsonur Bergljótar Össurardóttur og fékk árið 1860 í arf þau 6 hundruð úr jörðinni er þá fylgdu býlinu Langhól, mun hafa átt þann jarðarpart, lítt skertan eða óskertan, til æviloka en hann andaðist árið 1898.[126] Hann fór að búa á Langhól, sem var eitt býlanna í Bæ, árið 1878 og bjó þar í 20 ár.[127] Magnús Hjaltason segir að ekkja Magnúsar Jónssonar, Vigdís Kristjánsdóttir, hafi um aldamótin 1900 átt 5 hundruð í Bæ en gefið syni þeirra hjónanna, Jóni Magnússyni, sem var húsmaður á Suðureyrarmölum og andaðist 1. september 1913.[128] Ætla má að Magnús Hjaltason fari þarna nokkurn veginn rétt með því sambýliskona hans var dóttir þessara hjóna, Magnúsar Jónssonar og Vigdísar Kristjánsdóttur.[129] Þess verður þó að geta að Kristján G. Maríasson, sem var tengdasonur nýnefndra hjóna, átti eitt hundrað í Bæ árið 1916[130] og er þar líklega komið sjötta hundraðið úr erfðahlut Magnúsar Jónssonar frá árinu 1860.

Hér var áður sýnt fram á að niðjar Sigurborgar Bergsdóttur áttu enn 15 hundruð í Bæ árið 1916 og að meðtöldu þessu eina hundraði, sem hjónin Kristján G. Maríasson og Guðbjörg Lovísa Magnúsdóttir áttu, verður niðurstaðan sú að niðjar Bergljótar Össurardóttir, móður Sigurborgar og ömmu Magnúsar Jónssonar, hafi enn átt hér 16 hundruð í jörðinni árið 1916. Sá þriðjungur jarðarinnar sem þetta fólk átti ekki var þá kominn í eigu Guðmundar Sigurðssonar, bónda í Bæ.[131] Það voru 8 hundruð og má ætla að fimm þeirra hafi hann keypt af Jóni Magnússyni frá Langhól, húsmanni á Suðureyri sem dó 1913, eða af erfingjum hans.

Árið 1916 var hvert jarðarhundrað hér í Bæ virt á 132,66 kr. svo að matsverð jarðarinnar var 3.183,88 kr.[132] Virðingarverð húsa, sem fylgdu jörðinni, er innifalið í verðinu en það var 748,24 kr.[133] Hús sem bóndinn, Guðmundur Sigurðsson, átti einn og sér voru hins vegar ekki talin til jarðarhúsa og verðmæti þeirra ekki innifalið í tölunni sem hér var nefnd.[134] Þau hús voru metin á 1.329,36 kr. þetta sama ár, 1916.[135]

Á 18. og 19. öld var oftast tví- eða þríbýli í Bæ.[136] Þó var hér fjórbýli um 1735, árin 1785-1787 og árin 1862-1868.[137] Á árunum 1831-1835 hafði einn bóndi alla jörðina til ábúðar en slíkt var einsdæmi.[138] Auk bændanna og þeirra heimilisfólks var hér stundum húsfólk, bæði stakir einhleypingar og fjölskyldur.[139] Sum árin voru heimilin því fleiri en bændabýlin. Húsmannsheimilin voru þó sjaldan fleiri en eitt í senn og oft var hér ekkert fjölskyldufólk í húsmennsku.[140] Árið 1897 var reist þurrabúðarkot í landi Bæjar og nefnt Þverá. Þar hafðist fólk við í húsmennsku í 14 ár, frá 1897 til 1911 (sjá hér bls. 100-109).

Fjöldi búfjár hér í Bæ var nokkuð breytilegur frá einu tímabili til annars en hann er einfaldast að sýna á sérstakri töflu eins og hér verður gert. Tölur um fjölda búfjár eru yfirleitt teknar úr búnaðarskýrslum en gera má ráð fyrir að þær séu ekki alveg nákvæmar og að sauðfé sé stundum vantalið.

Við skoðun töluraðanna á þessari töflu vekur athygli hversu margir nautgripirnir voru á 18. öld og tölurnar sýna líka mjög greinilega hvenær sauðaeldi hættir að vera umtalsverður þáttur í búskapnum. Árið 1834 voru í Bæ 42 sauðir og hrútar, eldri en veturgamlir, eins og taflan sýnir en árið 1840 voru þeir ekki nema 13[141] og tíu árum síðar hafði þeim enn fækkað um tvo eins og sjá má á töflunni. Sauðabúskapurinn hverfur því að mestu úr sögunni á árunum 1835-1840 en sams konar breyting á búskaparháttum varð á Stað örfáum árum fyrr (sjá hér Staður).

 

Tafla 1[142]

 

Fjöldi búfjár í Bæ miðað við búnaðarskýrslur 1710-1934

 

 

Í Jarðabókinni frá 1710 er ekki getið um bátaeign manna en árið 1762 virðist útgerð Bæjarmanna hafa verið lítil (sjá hér Suðureyrarhreppur, inngangskafli). Einn þriggja bænda sem þá bjuggu í Bæ mun hafa verið formaður á skipi prestsins en af níu bátum, sem þá voru gerðir út frá Súgandafirði, gæti einn hafa verið frá Bæ og var hann fjögra manna far (sjá hér Suðureyrarhreppur, inngangskafli). Árið 1791 var einn bátur til í Bæ, sexæringur eða fjögra manna far[143] en þrjátíu árum síðar, árið 1821, voru hér þrír bátar, áttæringur, sexæringur eða fjögra manna far, og einn minni bátur.[144] Alla þessa báta átti Magnús Guðmundsson sem þá var mektarbóndi í Bæ.[145] Árið 1834 var tala og stærð bátanna óbreytt.[146] Árið 1840 áttu Bæjarmenn enn áttæring en líka tvo báta sem voru sexæringar eða fjögra manna för og tvo minni báta.[147] Alls voru bátarnir því fimm.

Á árunum milli 1840 og 1850 urðu miklar breytingar á ábúð í Bæ sem hér er sagt frá á öðrum stað (sjá hér bls. 29-40) og ef marka má búnaðarskýrslu frá árinu 1850 átti fólkið sem þá bjó í Bæ engan bát.[148] Árið 1860 átti einn þriggja bænda í Bæ hálfan áttæring en hinn helminginn átti búandi ekkja í Selárdal.[149] Hér var þá einnig lítill bátur, tveggja eða þriggja manna far.[150] Árið 1870 áttu Bæjarmenn fjóra báta.[151] Einn þeirra var sexæringur eða fjögra manna far en hinir þrír voru minni.[152] Árið 1880 átti fólkið í Bæ hins vegar bara einn bát og var hann tveggja eða þriggja manna far.[153]

 

Fyrsti bóndinn, sem kunnur er með nafni og telja má nær fullvíst að búið hafi í Bæ, er Sigmundur Brandsson sem hér var áður sagt frá, launsonur Brands Jónssonar lögmanns. Sigmundur eignaðist jörðina eigi síðar en árið 1494 en hann andaðist um það bil 30 árum síðar (sjá hér bls. 5-7). Í fimmta bindi fornbréfasafnsins er Grímur Þorleifsson, sem seldi Birni hirðstjóra Þorleifssyni jörð þessa árið 1460, reyndar talinn hafa búið hér[154] og ætti þá að hafa verið bóndi í Bæ fyrir 1460 en í hinum fornu skjölum kemur hvergi fram með ótvíræðum hætti að hann hafi setið þessa eignarjörð sína.

Sterkar líkur benda hins vegar til þess að Sigmundur Brandsson, sem hér var nefndur, hafi búið í Bæ og má þar nefna að vitnisburður um orð hans á banasæng er ritaður í Bæ og að Jón sonur hans festi sér konu í kirkjunni á Stað í Súgandafirði (sjá hér bls. 6-7). Að Sigmundi látnum bjuggu niðjar hans í Bæ þar til á árunum kringum 1600, fyrst sonarsonur hans, Grímur Jónsson, og síðan sonur Gríms, Jón Grímsson eldri, eins og hér hefur áður verið rakið (sjá hér bls. 6-9). Jón þessi Grímsson kemur síðast við skjöl árið 1591 (sjá hér bls. 9) en kynni að hafa lifað nokkru lengur. Þessir langfeðgar, Sigmundur, Grímur og Jón voru allir sjálfseignarbændur í Bæ á 16. öld en óvíst er hvort Páll Jónsson, sonur Jóns Grímssonar, muni hafa búið hér. Dætur Páls og frænkur þeirra, sem einnig áttu Jón Grímsson fyrir afa, seldu Bæ á árunum 1617-1619 (sjá hér bls. 9-10). Allt frá þeim árum og fram undir 1790 mun jörðin hafa verið í leiguábúð.

Varð bráðdauð kona Þórðar í Bæ í Súgandafirði, segir höfundur Eyrarannáls er hann greinir frá helstu atburðum ársins 1690.[155] Nafn konunnar er ekki nefnt og óvíst er hvort Þórður sá sem missti konuna svo skyndilega árið 1690 muni vera sami maður og Þórður Bjarnason sem bjó 51 árs gamall með börnum sínum í Bæ árið 1703.[156] Nokkrar líkur benda til þess að svo sé því Þórður bóndi sem bjó í Bæ árið 1703 var ekkjumaður og átti heima tvær dætur fæddar milli 1680 og 1690.[157] Sonur Þórðar, sem Sigmundur hét, var hins vegar aðeins sjö ára gamall árið 1703[158] og ætti þá að hafa fæðst eftir að Þórður sá sem hér bjó 1690 missti konuna.

Hinir bændurnir tveir, sem einnig bjuggu í Bæ árið 1703, hétu Jón Bjarnason og Nikulás Bárðarson.[159] Jón var 27 ára og átti Guðrúnu Guðmundsdóttur fyrir konu.[160] Nikulás var 33ja ára og átti Ingibjörgu Sigfúsdóttur fyrir konu.[161] Nikulás mun hafa verið bróðursonur séra Jóns Torfasonar sem þá var prestur á Stað í Súgandafirði[162] og í Jarðabók Árna og Páls sést að eiginkona Nikulásar átti einhver hundruð í jörð.[163] Hjá Þórði bónda í Bæ, sem hér var áður nefndur, var árið 1703 63ja ára gamall húsmaður, Þorleifur Björnsson, sagður forsorgast af sjóróðrum, og hjá Nikulási var blind kvenpersóna sem nærðist á guðsþakkagjörðum hjónanna.[164] Hún hét Brynhildur Guðmundsdóttir og var 43ja ára gömul.[165]

Svo virðist sem Þórður Bjarnason í Bæ hafi lifað af stórubólu árið 1707 því maður með þessu nafni var annar tveggja ábúenda á jörðinni árið 1710 og þá á átta hundruðum og var hreppstjóri.[166] Hinn bóndinn sem þá bjó á jörðinni hét Eiríkur Þórðarson[167] Hann bjó á sextán hundruðum og hafði fleiri hundruð til ábúðar en nokkur annar bóndi í Suðureyrarhreppi á þeim tíma.[168] Mjög ólíklegt verður að telja að Eiríkur þessi hafi verið sonur nýnefnds Þórðar því á Vestfjörðum var árið 1703 aðeins búsettur einn Eiríkur Þórðarson sem á næstu árum gæti hafa farið að búa í Bæ en sá var þá 42ja ára gamall og bjó þá á Sandeyri á Snæfjallaströnd.[169] Hann var því aðeins 9 árum yngri en Þórður Bjarnason. Líklegast er að það hafi verið Eiríkur á Sandeyri sem gerðist bóndi í Bæ en þó ekki alveg útilokað að sá Eiríkur Þórðarson sem hingað fluttist hafi komið frá einhverju byggðarlagi utan Vestfjarðakjálkans.

Um bændurna fjóra sem bjuggu allir í senn hér í Bæ árið 1735 eða því sem næst er allt ókunnugt nema nöfnin. Þeir hétu Bjarni Andrésson, Guðmundur Þórðarson, Jón Jónsson og Koðrán Jónsson.[170] Enginn þessara manna var hér enn við búskap árið 1753 en þá bjuggu hér í tvíbýli þeir Jón Bjarnason og Þorvaldur Narfason.[171] Árið 1762 voru bændurnir í Bæ einum fleiri og hétu Ingibjörg Eiríksdóttir, Jón Bjarnason og Jón Jónsson.[172] Um þetta fólk liggur fyrir svolítil meiri vitneskja en um þá sem hér réðu húsum 1735 og 1753.

Ingibjörg Eiríksdóttir var árið 1762 um sextugt og hjá henni áttu heima þrjú börn hennar, sautján ára dóttir og tveir synir á þrítugsaldri.[173] Jón Bjarnason var um fimmtugt þetta sama ár og átti konu sem var lítið eitt eldri og börn þeirra tvö, sonur og dóttir, voru um tvítugt.[174] Jón Jónsson var yngsti bóndinn í Bæ árið 1762, sagður 34 ára og kona hans fjórum árum yngri.[175] Þau áttu þá fjögra ára dóttur og tveggja ára son.[176]

Fullvíst má telja að sumt af þessu fólki hafi búið í Bæ þegar bræður tveir, langt að komnir, lentu fari sínu í Árós eða Stöð á árunum kringum 1760.[177] Annar þeirra gekk til bæjar. Kona stóð úti á hlaðinu í Bæ þegar manninn bar að og virtist henni hann furðulega mikill og tröllslegur.[178] Konan spurði ferðalanginn að heiti og hann svaraði:

 

Fyrr í þessum firði var

frægur landnámsmaður;

nú ég sama nafnið bar,

næsta myrklundaður.[179]

 

Greint er frá þessari gestakomu í Vestfirskum sögnum og segir þar svo:

 

Konan nam vísuna, gekk til bæjar og sagði hana Þorsteini presti Þórðarsyni er þá var þar í húsvitjan og þá hélt Stað í Súgandafirði en síðar Stað í Grunnavík. Gat hann þá til að vera myndi Hallvarður Hallsson því að Hallvarður súgandi hafði numið fjörðinn er einn hafði verið í móti Haraldi konungi hárfagra í Hafursfirði.[180]

 

Þetta var rétt til getið hjá presti en Hallvarður var sonur Halls bónda er bjó á Horni á Hornströndum. Hallvarður Hallsson var mikill ferðagarpur og oft í ferðum, bæði á sjó og landi. Um þá feðga, Hall og Hallvarð, hefur margt verið ritað.[181]

Á árunum 1785-1800 bjuggu alls sjö bændur í Bæ, um lengri eða skemmri tíma hver. Elstur þeirra var Jósep Torfason, fæddur um 1720.[182] Jósep var sonur séra Torfa Ísleifssonar, prests á Stað í Súgandafirði (sjá hér Staður). Óvíst er hvenær prestssonur þessi byrjaði búskap sinn i Bæ en fullvíst að á árunum 1785-1789 bjó hann hér á jarðarparti ásamt konu sinni, Halldóru Guðmundsdóttur.[183] Héðan fóru þau að Vandræðastöðum, hjáleigu frá Stað, vorið 1789 en Jósep dó 29. desember 1794 (sjá hér Staður).

Einn fjögurra bænda í Bæ á árunum 1785-1787 var Erlingur Þorgilsson sem sagður er 52ja ára í sóknarmannatali frá janúar 1786.[184] Kona hans hét Ragnhildur Pálsdóttir og bjuggu þau hér í Bæ frá 1785 til 1803.[185] Sumarið 1784 átti hann heima í Keflavík norðan Galtar og var þá hreppstjóri (sjá hér Keflavík). Erlingur í Bæ andaðist 7. janúar 1804.[186] Hjá séra Þorsteini Þórðarsyni á Stað fékk hann árið 1789 þá einkunn að hann væri forsjáll og erfiðissamur og rétt vel skýr.[187] Dóttir Erlings í Bæ og sonur séra Þorsteins, þau Guðrún Erlingsdóttir og Þórður eldri Þorsteinsson, voru þá orðin hjón. Frá Þórði þessum, sem nefndur var Þórður grástakkur, er sagt hér á öðrum stað (sjá hér Staður) en hann bjó með Guðrúnu konu sinni í Bæ frá 1785 til 1790 og höfðu þau part úr jörðinni til ábúðar.[188] Árið 1790 fóru þau frá Bæ og skömmu síðar slitnaði upp úr sambúðinni. Árið 1793 eða því sem næst kom Guðrún Erlingsdóttir aftur til foreldra sinna í Bæ og settist hér að.[189] Henni fylgdi þá dóttir þeirra Þórðar og hét hún Arnfríður, fædd um 1782.[190] Um Guðrúnu segir séra Þorsteinn á Stað árið 1789 að hún sé fróm og fáskiptin og fimmtán árum síðar var hún af öðrum presti talin siðsöm og vel skýr.[191] Þær mæðgur, Guðrún Erlingsdóttir og Arnfríður Þórðardóttir, áttu jafnan heima í Bæ á árunum 1795-1830 og stóð Arnfríður hér alllengi fyrir búi, fyrst með manni sínum, Hákoni Þórðarsyni, og síðan ein að honum látnum (sjá hér bls. 36). Bræður Guðrúnar Erlingsdóttur voru Sigmundur Erlingsson, sem bjó alllengi á Kroppstöðum í Önundarfirði,[192] og Þorgils sem varð bóndi í Bæ og stóð hér fyrir búi frá 1796 til 1821.[193] Sigmundur var fæddur í Botni í Súgandafirði um 1765[194] og er líklegt að foreldrar þessara systkina hafi byrjað þar sinn búskap. Staðfest er að Erlingur Þorgilsson var 26 ára gamall bóndi í Botni árið 1762.[195]

Þorgils Erlingsson var fæddur um 1764 og kvæntist fyrri konu sinni, Margréti Jónsdóttur, árið 1787 eða því sem næst.[196] Hún var dóttir séra Jóns Sigurðssonar, prests í Ögurþingum, og konu hans, Ólafar Þórðardóttur.[197] Faðir Margrétar, séra Jón Sigurðsson, var frá Vatnadal í Súgandafirði og móðir hennar var systir séra Þorsteins Þórðarsonar á Stað.[198] Að séra Jóni látnum fluttust þær mæðgur til Súgandafjarðar og settust að í Staðarhúsum ytri í skjóli bróður Ólafar, séra Þorsteins Þórðarsonar á Stað (sjá hér Staður). Þaðan fóru þær að Bæ árið 1787 er Margrét og Þorgils tóku saman. Ungu hjónin voru fyrst í húsmennsku hjá foreldrum Þorgils, þeim Erlingi Þorgilssyni og Ragnhildi Pálsdóttur í Bæ, og í bændatölu virðist Þorgils ekki hafa komist fyrr en 1796.[199]

Í marsmánuði árið 1797 húsvitjaði séra Þorsteinn á Stað hér í Bæ og segir þá að Þorgils bóndi sé skikkanlegur og vel að sér.[200] Um eiginkonu hans, Margréti frænku sína, kemst prestur svo að orði að hún sé guðhrædd og þolinmóð og sæmilega skýr.[201]

Þann 10. desember árið 1800 andaðist Ólöf Þórðardóttir, gamla prestsekkjan í Bæ,[202] og fáum árum síðar dó Margrét dóttir hennar.[203] Þorgils kvæntist á ný 14. desember 1805 og gekk þá að eiga Solveigu Gísladóttur.[204] Þau bjuggu áfram í Bæ uns Solveig dó 3. febrúar 1821.[205] Er Þorgils varð ekkjumaður í annað sinn hætti hann búskap og gerðist húsmaður hjá systurdóttur sinni, Arnfríði Þórðardóttur, sem þá stóð fyrir búi í Bæ og hér hefur áður verið nefnd.[206]

Þeir Þorgils Erlingsson og Erlingur faðir hans, sem einnig bjó í Bæ, voru báðir hreppstjórar um lengri eða skemmri tíma. Erlingur var einn fjögurra hreppstjóra í Suðureyrarhreppi árið 1791[207] en Þorgils var sannanlega hreppstjóri árið 1805.[208]

Með fyrri konu sinni, Margréti Jónsdóttur, eignaðist Þorgils Erlingsson a.m.k. eina dóttur[209] og a.m.k. tvö börn með seinni konunni.[210] Dóttir Þorgils og Margrétar hét Karitas og var hún 13 ára gömul á heimili foreldra sinna í Bæ árið 1801.[211] Hún giftist síðar manni sem hét Teitur Ólafsson. Þau gengu í hjónaband árið 1806 og voru þá bæði vinnuhjú í Bæ.[212] Þeirra sonur var Ólafur Teitsson, bóndi í Sviðnum í Vestureyjum á Breiðafirði,[213] víðfrægur smiður og hugvitsmaður[214] sem á nú mikinn fjölda niðja.

Hér hefur nú verið sagt lítið eitt frá fjórum þeirra sjö bænda sem bjuggu um lengri eða skemmri tíma í Bæ á árunum 1785-1800 en það voru Jósep Torfason, Erlingur Þorgilsson, Þórður Þorsteinsson og Þorgils Erlingsson. Hinir þrír voru Illugi Jónsson, Ísleifur Jósepsson og Össur Guðmundsson.[215] Um Illuga, sem fluttist frá Bæ að Staðarhúsum ytri árið 1787, hefur áður verið fjallað (sjá hér Staður, Staðarhús ytri þar) en hér sýnist við hæfi að rita nokkur orð um þá Ísleif og Össur. Þessir tveir bændur, sem voru sambýlismenn í Bæ á árunum kringum 1790, áttu þá ólíka framtíð fyrir höndum og hafa máske verið ólíkir að upplagi.

Ísleifur Jósepsson og kona hans, Guðrún Þórðardóttir, munu aðeins hafa staðið fyrir búi hér í Bæ í þrjú ár, 1790-1793.[216] Ísleifur var sonur Jóseps Torfasonar og Halldóru Guðmundsdóttur sem bjuggu í Bæ á árunum um og upp úr 1785 en seinna í Staðarhúsum og hér hafa áður verið nefnd.[217] Í janúarmánuði árið 1786 átti Ísleifur heima hjá foreldrum sínum í Bæ og var þá 24 ára gamall að sögn prestsins.[218] Ári síðar var hann enn í föðurhúsum, sagður hegða sér skikkanlega og vera í meðallagi skýr.[219]

Árið 1791 bjuggu Ísleifur og Guðrún kona hans hér í Bæ með 1 kú, 1 kálf, 8 mylkar ær, 4 lömb, 5 hrúta eða sauði og 1 hest.[220] Engan áttu þau bátinn.[221] Tveimur árum síðar fóru þau héðan og fluttust búferlum til Önundarfjarðar.[222] Þar fengu þau part úr jörðinni Mosvöllum til ábúðar og bjuggu þar í allmörg ár (sjá hér Tannanes). Þann 1. desember 1801 voru þau á Mosvöllum og hjá þeim voru þá fjögur börn þeirra á aldrinum 2ja – 14 ára, Þorsteinn, Guðlaugur, Torfi og Guðríður.[223] Að þetta sé sama fólkið og áður var í Bæ sjáum við m.a. á því að Þorsteinn Ísleifsson, sonur þeirra, sem var elsta barnið og talin 14 ára árið 1801 en 28 ára árið 1816, var fæddur í Bæ.[224]

Frá Mosvöllum fluttust þau Ísleifur og Guðrún að Tannanesi í Önundarfirði á árunum 1805-1811.[225] Vorið 1816 bjuggu hjón þessi enn á Tannanesi en urðu þá bjargarlaus og svo fór að Guðrún húsfreyja varð hungurmorða í júnímánuði á því ári eins og frá var greint þegar við stöldruðum við á Tannanesi (sjá hér Tannanes). Um dánarmein Guðrúnar Þórðardóttur, áður húsfreyju í Bæ, liggja fyrir orð séra Þorvaldar Böðvarssonar, sem var sóknarprestur í Holti þegar hún gaf upp öndina, en líklega er kona þessi síðasta manneskjan úr Súgandafirði sem um er vitað að hafi dáið úr hungri. Ísleif bónda hennar virðist jörðin hafa gleypt um svipað leyti því að liðnu sumrinu 1816 er hans hvergi getið í nærtækum heimildum. Líklega er það samt hann sem var húsmaður á Gelti fardagaárið 1826-1827 (sjá hér Göltur) og börn þessara hjóna voru öll á lífi 1. desember 1816, eitt í Súgandafirði en þrjú á Tannanesi og Innri-Veðrará í Önundarfirði (sjá hér Tannanes).

Össur Guðmundsson, sem var sambýlismaður Ísleifs Jósepssonar hér í Bæ á árunum kringum 1790, hefur líklega verið gerður úr harðara efni en Ísleifur. Að minnsta kosti verður ekki annað séð en hann hafi jafnan haldið velli og að lokum skilaði hann af sér góðu búi. Þau Össur Guðmundsson og kona hans, Bergljót Jónsdóttir, fluttust til Súgandafjarðar árið 1789 og hófu þá búskap í Bæ.[226] Óljóst er hvaðan þau komu í Súgandafjörð en Össur var sonur Guðmundar Sigurðssonar, bónda á Guðnýjarstöðum í Helgafellssveit á Snæfellsnesi,[227] og Bergljót var fædd á Uppsölum í Seyðisfirði við Djúp.[228]

Faðir Össurar, afi hans og langafi í beinan karllegg bjuggu allir á býlum í næsta nágrenni vð Bjarnarhöfn í Helgafellssveit.[229] Þau eru nú öll komin í eyði fyrir löngu. Guðmundur Sigurðsson, faðir Össurar, bjó sem áður sagði á Guðnýjarstöðum en sá bær stóð norðan undir Bjarnarhafnarfjalli liðlega einum kílómetra norðvestur af Bjarnarhöfn,[230] og fór í eyði á 18. eða 19. öld.[231] Sigurður Guðmundsson, afi Össurar, var fæddur árið 1681 eða því sem næst og bjó á Kothrauni,[232] bæ sem stóð austan undir Bjarnarhafnarfjalli, um það bil tveimur og hálfum kílómetra fyrir sunnan Bjarnarhöfn. Kothraun féll í eyði árið 1921.[233] Guðmundur Jónsson, langafi Össurar Guðmundssonar í Bæ, bjó hins vegar í Hafnareyjum í Helgafellssveit[234] en út í eyjar þessar er um það bil tveggja kílómetra spölur frá Bjarnarhöfn og stefnan svolítið norðan við norðaustur. Hafnareyjar fóru í eyði á 18. öld.[235] Guðmundur Jónsson, sem hér var nefndur, bjó þar árið 1703 ásamt konu sinni, Margréti Einarsdóttur.[236] Hjá þeim voru þá tveir synir, sá eldri 22ja ára gamall.[237] Var það Sigurður, afi Össurar í Bæ.[238]

Guðmundur bóndi í Hafnareyjum var nefndur Hafnareyja-Gvendur og bjó árið 1702 með þrjár kýr en fyrir eina þeirra þurfti að kaupa hey úr landi.[239] Hann var talinn fjölkunnugur og átti í glettingum við Þormóð Eiríksson, skáld og galdramann í Gvendareyjum. Er greint nokkuð frá viðskiptum þeirra í Þjóðsögum Jóns Árnasonar[240] og þar er sagt að Guðmundur í Hafnareyjum hafi verið Sigurðsson en er rangt eins og þeir sem luku við að gefa þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar út árið 1961 hafa bent á.[241] Nafni þessa langafa Össurar Guðmundssonar í Bæ mun lengst halda á lofti vísa Þormóðar í Gvendareyjum:

 

Þótt lagður sértu á logandi bál,

líka að ösku brenndur,

hugsa ég til þín hvert eitt mál,

Hafnareyja-Gvendur.

 

Þegar Breiðfirðingurinn Össur Guðmundsson og Bergljót Jónsdóttir kona hans fluttust til Súgandafjarðar árið 1789 voru þau um fertugsaldur. Í sóknarmannatali frá marsmánuði árið 1790 er Össur sagður vera 41 árs en Bergljót 40 ára.[242] Engin börn fylgdu þeim til Súgandafjarðar[243] og í Bæ náðu þau aðeins að koma upp einu barni, dóttur sem fæddist 2. janúar 1791 og var skírð nafni móður sinnar.[244]

Svo virðist sem Össur hafi tekið við þeim jarðarparti í Bæ sem Jósep Torfason bjó á áður því það var Jósep sem vék burt þegar Össur kom[245] (sbr. hér bls. 18-19). Á meðan Össur lifði virðist heimili þeirra Bergljótar hér í Bæ aldrei hafa verið fjölmennt. Árið 1790 voru heimilismennirnir fimm, árið 1793 voru þeir átta[246] og árið 1801 voru þeir níu.[247] Ljóst er þó að hinn aðflutti bóndi, sem hóf búskap í Bæ vorið 1789, var enginn kotungur. Búnaðarskýrsla frá árinu 1791 sýnir að þau Össur og Bergljót í Bæ voru þá þegar sæmilega efnuð og með stærsta eða annað stærsta búið í Suðureyrarhreppi.[248] Þetta ár bjuggu þau með 3 kýr, 1 naut, 30 ær, 10 sauði og hrúta, 10 lömb og 1 hest.[249] Ef marka má skýrsluna átti Össur hins vegar engan bát þegar hún var samin.[250] Búnaðarskýrslan sýnir líka að árið 1791 voru bændurnir í Bæ, þeir Össur Guðmundsson og Erlingur Þorgilsson, hinir einu í Súgandafirði sem hlóðu eða létu hlaða túngarð og voru hlaðnir 16 faðmar hjá Össuri en 8 hjá Erlingi.[251]

Árið 1797 var Össur kominn um fimmtugt og er þá sagður vera forstöndugur en Bergljót kona hans iðjusöm og vel að sér.[252] Í marsmánuði árið 1804 var Össur bóndi í Bæ enn á lífi[253] en hann andaðist á því ári eða hinu næsta.[254]

Í opinberri skýrslu frá árinu 1805 er ekkja Össurar, Bergljót Jónsdóttir, sögð eiga Bæ og hún var þá annar tveggja ábúenda á jörðinni.[255] Mjög líklegt verður því að telja að þau hjónin hafi keypt jörðina meðan Össur lifði en óvíst hvort frá kaupunum var gengið um svipað leyti og þau byrjuðu búskap sinn hér eða síðar.

Þegar Bergljót Jónsdóttir í Bæ varð ekkja var hún komin nokkuð á sextugsaldur. Hún hélt búskapnum áfram[256] og mun að líkindum hafa staðið hér fyrir búi uns dóttir hennar og tengdasonur tóku við árið 1810 eða því sem næst. Árið 1805 var bústofn Bergljótar 4 kýr og 30 kindur.[257] Hér hefur áður verið á það minnst að húsfreyja þessi í Bæ fæddist á Uppsölum í Seyðisfirði við Djúp (sjá hér bls. 22) á árunum kringum 1750. Um nafn móður hennar er ekki kunnugt en faðir hennar hét Jón Árnason.[258] Líklega er hann sá Jón Árnason sem bjó á Hvítanesi í Ögursveit árið 1753 því enginn annar með því nafni var þá í bændatölu við Djúp.[259] Jón, faðir Bergljótar, fluttist hingað til dóttur sinnar eigi síðar en aldamótaárið 1800[260] og dó í Bæ 1816, talinn 94 ára gamall.[261] Um Jón Árnason liggja fáar upplýsingar á lausu aðrar en þær að hann er í manntalinu frá 1801 sagður hafa verið þríkvæntur.[262] Í embættisbókum séra Þorláks Jónssonar, sem var prestur Súgfirðinga frá 1802 til 1812, fær öldungur þessi í Bæ reyndar lofleg ummæli því presturinn lætur þess getið að hann sé frómriktugur og vel að sér.[263] Karlinn var hins vegar ófermdur eins og sjá má í sóknarmannatali frá árinu 1811[264] en skýringin á því er sú að hérlendis var ferming ungmenna ekki tekin upp sem almenn regla fyrr en hann var kominn um eða yfir tvítugt.[265]

Hér var þess áður getið að hjónin Össur Guðmundsson og Bergljót Jónsdóttir náðu aðeins að koma upp einu barni, dótturinni Bergljótu sem fæddist 2. janúar 1791 (sjá hér bls. 23). Þessi einkadóttir hjónanna í Bæ var um fermingaraldur er hún missti föður sinn og er í sóknarmannatali frá árinu 1804 sögð vera hlýðin og siðprúð og vel upp frædd.[266] Svo fór þó að sextán ára gömul féll hún með Bergi Jónssyni, kvæntum hjáleigubónda í Staðarhúsum ytri, sem þá var liðlega þrítugur að aldri (sjá hér Staður – Staðarhús ytri þar). Af falli því varð barnsgetnaður og um sumarmál vorið 1808 tók unga heimasætan í Bæ léttasótt og fæddi dóttur sem gefið var nafnið Sigurborg.[267] Ekki verður annað séð en Bergur í Staðarhúsum hafi gengist fúslega við faðerninu en sitthvað bendir hins vegar til þess að Bergljótu, húsfreyju í Bæ, móður Bergljótar Össurardóttur, hafi fallið þungt þessi hrösun dóttur sinnar, sem enn var tæplega orðin gjafvaxta. Svo mikið er víst að hún fékk ekki að hafa barnið hjá sér. Kristján G. Þorvaldsson, sem fæddist í Selárdal í Súgandafirði árið 1881 og ólst þar upp, heyrði rætt um þessa barnsfæðingu á sínum uppvaxtarárum og greindi löngu síðar frá á þessa leið:

 

Auk þessa átti Bergur [Jónsson í Staðarhúsum] eina dóttur sem Sigurborg hét. Hún fæddist í apríl 1808. Móðir hennar var Bergljót Össurardóttir í Bæ, mesta myndarstúlka, 18 ára að aldri [rétt 17 ára – innsk. K.Ó.] af góðum ættum. Ættingjum hennar mun hafa komið þetta illa og var litla stúlkan þeim því miður kærkominn gestur. Það virðist benda nokkuð til þess að 18 ára piltur var annar guðfaðir stúlkunnar og mun það fátítt þá. Er vafalítið að annar myndi hafa verið valinn til þess hefði öðru vísi staðið á. Telja má víst að pilturinn hafi gert þetta fyrir orð móðurinnar sem var jafnaldra hans og ef til vill leiksystir.[268]

 

Hinn ungi piltur, sem var guðfaðir Sigurborgar, hét Jón Þorláksson[269] og líklega er það rétt að hann hafi verið 18 ára þegar hún var skírð vorið 1808 því þremur árum síðar var í Bæ vinnumaður með þessu nafni, þá sagður 21 árs gamall.[270] Þess má svo geta að aðrir vottar við þessa barnsskírn voru reyndar tveir, þau Þorgils Erlingsson, bóndi í Bæ, og Sigríður Snjólfsdóttir[271] sem þá hefur líklega verið vinnukona í Bæ (sjá hér Staður – Staðarhús fremri þar).

Frá Sigurborgu Bergsdóttur, sem fæddist i Bæ vorið 1808, er það helst í frásögur færandi að hún eignaðist sitt fyrsta barn þegar hún var á sextánda ári og náði áður en lauk að verða 97 ára gömul. Frá æviferli Sigurborgar er nánar greint á öðrum stað í þessu riti (sjá hér Göltur).

Bergljót Össurardóttir í Bæ mun hafa þótt hin álitlegasti kvenkostur og þó hún hrasaði ung á vegi dyggðarinnar varð biðin eftir fyrsta sómasamlega biðlinum ekki löng. Innan við tvítugt gekk hún að eiga Magnús Guðmundsson sem var yngsti sonur Guðmundar Bárðarsonar er verið hafði bóndi og hreppstjóri í Neðri-Arnardal við Skutulsfjörð en andaðist fáum árum áður en sonur hans kvæntist Bergljótu.[272] Magnús var fæddur árið 1781.[273] Bræður hans voru þrír og kunnastur þeirra varð Kristján, fæddur 1778, sem lengi var bóndi og hreppstjóri í Vigur, dannebrogsmaður með meiru.[274]

Ekki er alveg ljóst hvort þau Magnús og Bergljót voru gefin saman árið 1809 eða 1810 því skrá yfir hjónavígslur vantar í prestsþjónustubókina frá þessum árum. Fullvíst er að þau voru orðin hjón þegar Össur sonur þeirra fæddist 12. febrúar 1811 og þá var Magnús tekinn við búsforráðum í Bæ.[275] Í sóknarmannatali frá marsmánuði á sama ári er þessi ungi bóndi í Bæ, sem reyndar var kominn fast að þrítugu, sagður vera drífandi og forstöndugur.[276]

Þau Bergljót Össurardóttir og Magnús Guðmundsson stóðu saman fyrir búi í Bæ nokkuð á þriðja tug ára eða allt þar til Magnús andaðist í júnímánuði árið 1833.[277] Bergljót Jónsdóttir, móðir Bergljótar Össurardóttur, dvaldist áfram í Bæ hjá dóttur sinni og tengdasyni og hér mun hún hafa dáið árið 1824 eða 1825.[278]

Þegar Bergljót yngri og Magnús hófu sinn búskap munu þau að öllum líkindum hafa verið talsvert efnaðri en almennt var um slétta bændur. Bergljót var einkaerfingi foreldra sinna en þau áttu Bæ sem var 24 hundraða jörð (sjá hér bls. 24). Nær fullvíst má telja að Magnús hafi líka átt dálitlar eignir. Föðurafi hans, Bárður Illugason, ættfaðir Arnardalsættar, átti á sínum tíma allmiklar jarðeignir og var nefndur hinn ríki [279] en föður Magnúsar, Guðmund Bárðarson í Arnardal, kallar sóknarpresturinn þar góðfrægan hefðarmann.[280] Einhver efni hlýtur Guðmundur líka að hafa fengið með konu sinni, Sigríði Björnsdóttur, sem var móðir Magnúsar í Bæ, því hún var dóttir Björns Jónssonar, óðalsbónda á Núpi í Dýrafirði,[281] en Björn og hans forfeður í beinan karlleg höfðu átt Núp allt frá því á 16. öld (sjá hér Núpur). Báðir foreldrar Magnúsar voru dánir þegar hann kvæntist og fór að búa í Bæ[282] svo arfurinn frá þeim var þá þegar kominn í hans hendur.

Lausleg könnun á jarðakaupum Magnúsar á árunum 1820-1830 leiðir í ljós að á þessum árum keypti hann a.m.k. fimm jarðeignir í Súgandafirði og Önundarfirði. Árið 1820 festi hann kaup á hálfri jörðinni Hóli í Önundarfirði og voru það 9 jarðarhundruð.[283] Fyrir þá hálflendu gaf hann 115 spesíur,[284] það er 230 ríkisdali. Sama ár keypti hann Fremri-Vatnadal, 7 hundruð (sjá hér Fremri-Vatnadalur) og líka 6 hundruð í Bæ.[285] Þessi 6 hundruð úr Bæ, ábýlisjörð Magnúsar, keypti hann af systkinunum Þorgils Erlingssyni og Guðrúnu Erlingsdóttur[286] sem bæði áttu þá heima í Bæ (sjá hér bls. 19-20). Óvíst er hversu lengi þau höfðu átt þennan part úr jörðinni en árið 1805 var þessi sami Þorgils bóndi í Bæ og var þá leiguliði.[287]

Árið 1821 réðst Magnús bóndi í Bæ enn í jarðakaup og keypti þá 18 hundruð í jörðinni Álfadal á Ingjaldssandi,[288] það er hálfa jörðina. Seljandinn var Páll Hákonarson í Dufansdal í Arnarfirði.[289] Á árunum 1825-1830 keypti Magnús svo 4 hundruð í jörðinni Suðureyri í Súgandafirði en seldi þann jarðarpart árið 1830 (sjá hér Suðureyri). Hugsanlegt er að Magnús hafi á þessu skeiði keypt stærri part úr Suðureyri en hundruðin sem hann seldi Þórarni Einarssyni árið 1830 voru bara fjögur.

Árið 1821 hafði Magnús Guðmundsson búið í Bæ í rétt liðlega áratug. Þá var tvíbýli á jörðinni[290] en ætla má að Magnús hafi haft hana nær alla til ábúðar því bústofn ekkjunnar, sem bjó á móti honum, var bara ein kýr, ein kvíga og sex kindur.[291] Aftur á móti bjó Magnús þetta ár með 4 kýr, 1 kvígu, 46 ær, 18 sauði og hrúta eldri en eins árs, 13 gemlinga, 12 lömb og 2 hesta.[292] Hann var þá með annað stærsta búið í Suðureyrarhreppi en bú séra Eiríks Vigfússonar á Stað var heldur stærra vegna sauðafjöldans hjá presti.[293] Árið 1827 var Magnús hins vegar með mun stærra bú en nokkur annar Súgfirðingur, 5 kýr, 1 kálf, 58 ær, 30 sauði og hrúta eldri en eins árs, 16 gemlinga, 8 lömb og 2 hesta.[294] Eins var þetta árið 1830 en þá voru fullorðnir sauðir og hrútar Magnúsar orðnir 42.[295] Á þessum árum átti Magnús jafnan þrjá báta og var einn þeirra áttæringur, annar sexæringur eða fjögra manna far og sá þriðji tveggja eða þriggja manna far.[296] Enginn bóndi í Súgandafirði átti þá fleiri báta en á þessu skeiði var bátaeign stundum álíka mikil hjá prestinum á Stað og einum eða tveimur bændum.[297]

Á fyrstu búskaparárum Magnúsar Guðmundssonar í Bæ var þríbýli á jörðinni en á árunum 1821-1831 var hér jafnan tvíbýli.[298] Frá vorinu 1831 bjó Magnús svo einn á allri jörðinni.[299] Heimili hans og Bergljótar konu hans var jafnan fjölmennt. Árið 1816 voru heimilismennirnir 12, árið 1821 voru þeir 17, árið 1827 18, árið 1830 23 og í marsmánuði árið 1833 voru

þeir nítján.[300] Á þessum árum var heimili Magnúsar jafnan það fjölmennasta eða næstfjölmennasta í Suðureyrarhreppi.[301] Ekki var það samt barnafjöldi sem þessu olli því hjónin Magnús og Bergljót í Bæ eignuðust aðeins tvo syni og enga dóttur.[302] Hjá þeim voru hins vegar ætíð mörg vinnuhjú. Til marks um það má nefna að árið 1816 voru þrír vinnumenn og þrjár vinnukonur á heimilinu og á árunum 1821-1830 voru þar yfirleitt fimm til sjö vinnufærir karlmenn.[303]

Við andlát tengdamóður Magnúsar haustið 1825 munu hann og kona hans hafa eignast allan Bæ því Bergljót, eiginkona Magnúsar, var einkaerfingi foreldra sinna sem fullvíst er að áttu jörðina (sjá hér bls. 24). Allar líkur benda til þess að Magnús hafi þaðan í frá verið eigandi jarðarinnar til dauðadags og í skrifi sem gamall Súgfirðingur festi á blað um miðbik 20. aldar er fullyrt að svo hafi verið.[304]

Magnús Guðmundsson í Bæ var efnaður bóndi á mælikvarða sinnar tíðar en þó er ekki alveg víst að hann hafi verið sá ríkasti í Súgandafirði á þeim árum því honum samtíma bjó á Suðureyri Örnólfur Snæbjörnsson, sem menn nefndu Örnólf ríka, og hér er sagt frá á öðrum stað (sjá hér Suðureyri). Hann dó reyndar átta árum á undan Magnúsi.[305]

Árið 1791 voru fjórir hreppstjórar í Suðureyrarhreppi[306] en með tilskipun sem út var gefin árið 1809 var þeim sem gegndu störfum hreppstjóra um land allt fækkað verulega svo þaðan í frá voru aðeins einn til tveir hreppstjórar í hverjum hreppi.[307] Í Suðureyrarhreppi mun jafnan hafa verið aðeins einn hreppstjóri eftir 1809. Magnús í Bæ tók við hreppstjóraembættinu eigi síðar en 1821 og mun hafa gegnt því æ síðan allt til dauðadags árið 1833.[308]

Árið 1831 varð Magnús hreppstjóri í Bæ fimmtugur. Hann var þá eini bóndinn í Bæ og mun hafa talið tímabært að reisa sjálfum sér minnisvarða af einhverju tagi. Á stórri steinhellu, framan við hinar fornu bæjardyr í Bæ, stendur letrað ártalið 1831 og er það höggvið í steininn. Fullvíst má telja að þessa stafi hafi Magnús bóndi meitlað sjálfur í grjótið eða látið meitla[309] og hafa þeir átt að minna síðari tíma menn á hann, hinn auðsæla sveitarhöfðingja sem bjó hér búi sínu, fær í flestan sjó og engum háður nema náttúruöflunum sem hann glímdi við til sigurs á sjó og landi. Hugsanlegt er að bæjarhellan hafi verið flutt á sinn stað fyrir daga Magnúsar og staðið hér án nokkurs leturs um alllangt skeið. Líklegra er þó hitt að það hafi verið hann sem lét flytja bjarg þetta heim að dyrum, máske um langan veg, og þá einmitt í því skyni að það yrði minningarmark. Bæjarhellan er stór, um 1,72 metrar á annan veginn og 1,42 á hinn. Ártalið, sem í hana er höggvið, snýr rétt sé til hennar horft úr bæjardyrum en spölurinn frá dyrunum að hellunni er um það bil 6,40 metrar. Árið 1912 var talið að hellan hefði legið hér óhreyfð um fleiri tugi ára.[310]

Tóttirnar af gamla nítjándu aldar bænum standa enn (1996) óhaggaðar svo hér er allt á sínum stað. Þó má vera að bæjarhellan hafi færst eitthvað svolítið til síðustu hundrað árin því líklega hefur þurft að forða henni oftar en einu sinni frá því að sökkva í jörð og vitað er með vissu að til slíkra björgunaraðgerða var gripið um miðbik tuttugustu aldar.[311] Sú þjóðtrú tengdist hellunni á síðari tímum að aldrei yrði þurrð í búi þar sem hún stæði fyrir dyrum úti.[312] Vel má reyndar vera að Magnús bóndi hafi ætlað henni að minna eftirkomendur sína hér í Bæ á þann dug sem hver og einn varð á fyrri tíð að efla í eigin brjósti til að forða bjargarþroti. Sögusagnir um að hellan hafi verið flutt frá einu býli til annars hér í túninu eiga hins vegar tæplega við rök að styðjast,[313] enda stendur hún nú hið næsta dyrum gamla bæjarins þar sem Magnús Guðmundsson bjó, eini bóndinn í Bæ árið 1831. Bæjartóttirnar standa enn og sýna þetta en líklegt má telja að bæjardyrnar hafi jafnan verið á sama stað, allt frá dögum Magnúsar Guðmundssonar og þar til síðustu íbúarnir fóru úr þessum gamla torfbæ árið 1914. Í lýsingu Staðarsóknar frá árinu 1839 lætur séra Andrés Hjaltason þess getið að í Súgandafirði séu flestir bæir lítt húsaðir og aðeins í Bæ megi heita vel hýst og reisulega.[314]

Þegar Magnús bóndi meitlaði eða lét meitla afmælisár sitt i bæjarhelluna var hann við fulla heilsu, að því er best er vitað, en tveimur árum síðar, þann 24. júní 1833, dó þessi sveitarstólpi úr ókenndum sjúkdómi, aðeins 52ja ára gamall.[315] Að Magnúsi bónda önduðum bjó ekkja hans, Bergljót Össurardóttir, áfram í Bæ.[316] Synir þeirra Magnúsar studdu hana við búskapinn en þeir voru Össur, fæddur 1811, og Jón, fæddur 1816.[317] Báðir urðu þeir síðar bændur á föðurleifð sinni um nokkurt skeið og bjó Össur á parti úr jörðinni frá 1835 til 1843 en Jón frá 1839 til 1847.[318]

Bergljót móðir þeirra stóð hins vegar sjálf fyrir búi hér í Bæ allt frá því hún missti mann sinn árið 1833 og til ársins 1857 ef frá eru talin fardagaárin 1845-1846 og 1846-1847 en þá var hún í húsmennsku hjá Jóni syni sínum.[319] Á árunum 1833-1835 bjó hún ein á allri jörðinni en síðan á móti sonum sínum, öðrum eða báðum, frá 1835 til 1845.[320] Allt frá árinu 1843 var partur úr jörðinni reyndar byggður óvandabundnum leiguliðum og á hinum síðari búskaparárum Bergljótar var oftast þríbýli hér í Bæ.[321]

Árið 1835 var þessi búandi ekkja í Bæ enn með 13 manna heimili[322] en seinna fækkaði fólkinu hjá henni. Í marsmánuði árið 1840 voru heimilismenn gömlu húsfreyjunnar ekki nema fimm.[323] Hún bjó þá á fjórum hundruðum en synir hennar, þeir Össur og Jón, höfðu þá sín tíu hundruðin hvor til ábúðar.[324] Þetta ár bjó Bergljót með eina kú og þrjátíu og tvær sauðkindur, auk lamba.[325] Hún átti þá líka einn hest, hálfan áttæring og hálfan sexæring eða fjögra manna far.[326] Meðeigendur hennar að bátunum voru synirnir tveir sem fyrr voru nefndir. Árið 1840 var Bergljót líka komin með garðholu sem mældist um það bil 6 ferfaðmar.[327] Ef marka má búnaðarskýrslu frá þessu ári voru þá aðeins fjórir kálgarðar í Súgandafirði, einn hjá Bergljótu í Bæ, tveir hjá Össuri syni hennar í Bæ og einn hjá séra Andrési Hjaltasyni á Stað.[328]

Á árunum 1840-1845 voru umsvif Bergljótar í búskap ekki veruleg, enda bjó hún þá bara á fjórum hundruðum. Engu að síður mun hún hafa haft þó nokkur auraráð á þessum árum og lét sig ekki muna um að lána séra Sigurði Tómassyni, aðstoðarpresti í Holti i Önundarfirði, 20 spesíur þegar hann leitaði á hennar fund sumarið 1843.[329] Í hverri spesíu voru tveir ríkisdalir.[330] Í vesturamtinu var opinbert kýrverð um 27 ríkisdalir sumarið 1843[331] svo fyrir þessar 20 spesíur sem Bergljót lánaði presti hefur mátt kaupa hálfa aðra kú. Séra Sigurður kom í Bæ þann 30. júní, fékk sér þar í staupinu og fór burt næsta dag með spesíurnar sem Bergljót lánaði honum.[332]

Allar líkur benda til þess að Bergljót Össurardóttir hafi verið sköruleg kona sem kunni vel að standa á eigin fótum. Til þess að svo hafi verið bendir ekki síst sú staðreynd að hún fór sjálf að búa í Bæ á nýjan leik árið 1847 þegar Jón sonur hennar, sem hún hafði dvalist hjá, fluttist burt úr Súgandafirði.[333] Össur, eldri sonurinn, var farinn áður en hún kaus að sitja um kyrrt. Frá bráðri barneign hennar í æsku var áður sagt á þessum blöðum (sjá hér bls. 24-25) en faðir stúlkunnar, sem hún eignaðist 17 ára gömul, var kvæntur bóndi í Staðarhúsum, hjáleigu frá prestssetrinu á Stað. Þessi barnsfaðir hennar hét Bergur Jónsson og hér hefur áður verið frá honum sagt og þess getið að þegar bæði höfðu misst maka sína leið ekki á löngu uns hann færði sig yfir ána og settist að hjá þessari fornvinu sinni hér í Bæ (sjá hér Staður – Staðarhús ytri þar). Munnmæli hermdu síðar að hún hefði tekið Berg til sín.[334]

Það var árið 1845 sem Bergur settist að í Bæ.[335] Hann var þá sjötugur að aldri en Bergljót 54 ára. Árið sem Bergur kom hætti hún að búa og gerðist húskona en stóð þó áfram fyrir sínu eigin heimili.[336] Vera má að með þessu móti hafi hún viljað fá meiri tíma til samvista við Berg sem í manntalinu frá 1845 er sagður lifa í kosti húsmóður [337] og hefur því verið brauðbítur barnsmóður sinnar. Að Bergur hafi verið lagstur í kör sýnist hins vegar fráleitt því þegar Bergljót fór að búa á ný, tveimur árum síðar, gerðist hann forverksmaður á búi hennar og er í sóknarmannatölum frá árunum þar á eftir sagður vera fyrirvinna húsmóðurinnar.[338] Þau höfðu þá sex hundruð úr jörðinni til ábúðar og bjuggu með 2 kýr og 25-30 kindur, að lömbum frátöldum, en áttu engan bát.[339] Að sjálfsögðu var það Bergljót sem var skrifuð fyrir búinu en Bergur var hennar fyrirvinna svo fullvíst má telja að þau hafi í raun mátt kallast sambýlisfólk. Vorið 1855 gátu þau glaðst við að sjá dótturson sinn, Berg Lárentíusson, sem þá var orðinn liðlega þrítugur, hefja búskap á jarðarparti í Bæ (sjá hér Staður – Lækjarhús þar). Úr því fór að styttast í endalokin því haustið 1857 andaðist Bergur Jónsson, orðinn liðlega áttræður (sjá hér Staður – Staðarhús ytri þar). Við andlát hans hætti Bergljót öllum búskap en kom sér fyrir í húsmennsku hjá Brynjólfi Jónssyni og konu hans, Sigríði Guðmundsdóttur, sem þá voru að hefja búskap í Bæ.[340] Hún var þó áfram með sjálfstætt heimilishald og hafði hjá sér tvær vinnukonur.[341] Þannig beið hún endalokanna í þrjú ár uns kallið kom 6. nóvember 1860 en þann dag tók þessi heiðurskona síðustu andvörpin og segir prestur hana hafa dáið úr brjóstkrampa.[342]

Þegar Bergljót Össurardóttir andaðist var hún á sjötugasta aldursári og hafði alið allan sinn aldur hér í Bæ. Minning hennar lifði lengi í Súgandafirði og þegar liðin voru 89 ár frá því hún dó ritaði gamall Súgfirðingur um hana nokkur orð og sagði meðal annars:

 

Bergljót var mest metin allra kvenna í Súgandafirði á þeim tíma. Það þótti að vísu blettur á henni að hún neytti áfengis í nokkuð miklum mæli, sem þá var sjaldgæft um konur, en mannkostir hennar breiddu yfir það.[343]

 

Það var Kristján G. Þorvaldsson sem festi þessi orð á blað en móðir hans, Sigríður Friðbertsdóttir, sem náði mjög háum aldri, var átta ára telpukorn í Vatnadal þegar Bergljót andaðist og hefur án efa heyrt margt frá henni sagt af kunnugum. Að Bergljót hafi sopið oftar á sterkum drykkjum en hinar fátækari og úrræðaminni konur þarf engum að koma á óvart. Skýringin er að líkindum sú að hún hafði meiri auraráð og fallegt er að sjá hana með sinn gamla barnsföður, Berg meðhjálpara, sér við hönd og lætur nú pelann ganga á milli til að lífga lúið hold.

Eins og fyrr var getið bjuggu synir Bergljótar Össurardóttur, þeir Össur og Jón Magnússynir, um nokkurt skeið hér í Bæ á móti móður sinni. Össur var sá eldri þeirra bræðra, fæddur 12. febrúar 1811.[344] Hann hefur líklega verið ódæll í æsku því í marsmánuði árið 1833 gefur presturinn á Stað til kynna með ótvíræðum hætti að hegðun þessa unga manns hafi ekki verið sem skyldi. Stendur til bóta er einkunnin sem Össur fékk hjá presti það árið og var sú umsögn veitt fyrir hegðun en ekki fyrir kunnáttu.[345] Á því sama ári missti Össur föður sinn og var þá 22ja ára gamall.[346] Rösklega einu ári síðar, þann 22. águst 1834, kvæntist hann ungri stúlku, Salóme Jónsdóttur frá Hvítanesi í Ögursveit, en hún var fædd árið 1812 og var því einu ári yngri en brúðguminn.[347] Vorið 1835 hófu ungu hjónin svo búskap í Bæ[348] og bjuggu tveimur árum síðar á átta hundruðum eða einum þriðja parti úr jörðinni.[349] Bergljót, móðir Össurar, bjó þá enn á 16 hundruðum en árið 1839 minnkaði hún við sig og næstu árin bjuggu synir hennar, Össur og Jón, á 10 hundruðum hvor en móðir þeirra á 4 hundruðum.[350]

Eitt býlanna í Bæ var nefnt Langhóll og kennt við hólinn sem bær þessi stóð á. Sjálfur heimabærinn í Bæ stóð á 19. öld yst á Hjallhólum sem svo heita[351] og þar eru tóttirnar enn (1996) en Langhóll er fyrir neðan Hjallhóla, nær ánni, og er svolítil lægð á milli. Engar tóttir eru nú sjáanlegar á Langhól því þær hafa verið sléttaðar út. Hann er talsvert lægri en Hjallhólarnir, sem fyrr voru nefndir, en langur eins og nafnið bendir til. Bæjartóttin sem nú er horfin stóð því sem næst á miðjum hólnum.[352]

Óljóst er nú hvenær fyrst var reistur bær á Langhól en Össur Magnússon mun hafa búið þar frá 1835[353] og er hann fyrsti bóndinn sem kunnugt er um að þar hafi búið. Í skjallegum heimildum frá 19. öld er nafnið Langhóll sjaldan nefnt en fólkið sem þar bjó sagt búa á 2., 3. eða 4. býli í Bæ. Það er Valdimar Þorvaldsson, fæddur 1878, sem fullyrðir að Össur og Salóme hafi byrjað sinn búskap á Langhól og þá staðhæfingu sýnist ástæðulaust að draga í efa því á uppvaxtarárum sínum í Súgandafirði átti Valdimar kost á að ræða við ýmsa sem mundu eftir Össuri Magnússyni og búskap hans hér. Einnig er vitað með fullri vissu að ýmsir Bæjarbænda á síðari hluta 19. aldar bjuggu á Langhól eins og hér er gerð grein fyrir á öðrum stað.

Auk Langhóls voru hér í Bæ a.m.k. tveir aðrir bæir á fyrri hluta 19. aldar. Ætla má að þeir hafi báðir staðið á Hjallhólunum sem fyrr voru nefndir. Í sóknarmannatali frá árinu 1824 er getið um neðri bæ og fram kemur að foreldrar Össurar, hjónin Magnús Guðmundsson og Bergljót Össurardóttir, bjuggu í honum.[354] Líklegast virðist að hinn bærinn hafi þá verið nefndur fremri bær eða efri bær og í sóknarmannatali frá árinu 1823 bregður fyrir nafninu efri bær.[355] Kona nokkur, sem átti heima í Bæ bæði 1822 og 1824, er þá skráð næst á eftir heimilisfólkinu í Fremri-Vatnadal og lætur prestur þess getið að gleymst hafi að nefna hana er hann ritaði nöfn fólksins í efri bæ í embættisbók sína.[356] Mjög sterkar líkur benda til þss að sá efri bær sem séra Eiríkur Vigfússon nefnir þarna hafi verið hér í Bæ.

Árið 1837 bjó Össur Magnússon með 2 kýr, 26 ær, 8 fullorðna sauði eða hrúta, 3 gemlinga og 12 lömb og átti líka einn hest.[357] Þremur árum síðar var búið álíka stórt.[358] Árið 1837 átti Össur hálfan áttæring á móti móður sinni og einn lítinn bát.[359] Árið 1840 áttu þau mæðgin áttæringinn enn en Össur þá líka tvo aðra báta, sexæring eða fjögra manna far og lítinn bát sem var tveggja eða þriggja manna far.[360] Bátaeignin sýnir að á þessum árum hefur Bæjarfólk lagt mikið kapp á sjósókn en samtals áttu mæðginin í Bæ, Bergljót, Össur og Jón, fimm báta árið 1840, það er einn áttæring, tvo sexæringa eða fjögra manna för og tvo minni báta.[361]

Hér var áður á það minnst að snemma á árinu 1833 hafði séra Eiríkur Vigfússon á Stað látið orðin stendur til bóta nægja sem dóm um hegðun Össurar Magnússonar í Bæ og þar með gefið í skyn að framganga þessa unga bóndasonar hefði áður farið nokkuð á svig við það sem til var ætlast af prestinum. Enginn veit nú hvaða misfellur í hegðun það voru sem presturinn taldi Össur þurfa að lagafæra en nýnefnd orð sálusorgarans, er hann festi á blað í marsmánuði árið 1833, verða dálítið spaugileg sé haft í huga að nokkrum mánuðum síðar var Össur gerður að hreppstjóra þó hann væri aðeins 22ja ára gamall. Búnaðarskýrslur sýna að Össur tók við hreppstjóraembættinu eigi síðar en haustið 1833[362] en Magnús faðir hans, sem var hreppstjóri til dauðadags, andaðist í júnímánuði á því ári (sjá hér bls. 29). Sú staðreynd að Össur var gerður að hreppstjóra svo kornungur og ekki kominn í bændatölu sýnir að hann hefur þá þegar verið mikils metinn. Össur var hreppstjóri í sex ár, frá 1833 til 1839, en þá tók við Þorleifur Þorkelsson á Suðureyri.[363]

Svo fór að búskaparár Össurar og Salóme konu hans í Bæ urðu færri en ýmsir munu hafa vænst því vorið 1843 fluttust þau héðan að Hvítanesi í Ögursveit og voru tveimur árum síðar orðin búsett í Súðavík.[364] Össur var bóndi í Súðavík árið 1845[365] en þegar hann fór þaðan og settist að á Ísafirði árið 1852 er hann kallaður smiður[366] svo ætla má að á Ísafirði hafi hann haft atvinnu af smíðum.

Á árunum kringum 1850 hóf Össur þátttöku í þilskipaútgerð og átti árið 1851 tvo þriðju hluta í lítilli skútu sem hét Ingólfur.[367] Sameignarmaður hans var þá Ásgrímur Guðmundsson á Ísafirði og var hann skipstjóri á Ingólfi.[368] Ásgrímur var faðir Guðmundar Ásgrímssonar sem síðar bjó lengi á Gelti[369] en þeir Ásgrímur og Össur voru þremenningar, báðir komnir af Bárði Illugasyni í Arnardal, ættföður Arnardalsættar[370] (sbr. hér bls. 25-26). Árið 1853 var Össur enn annar tveggja eigenda Ingólfs og átti þá hálft skipið á móti manni sem hét Bárður Jónsson[371] og er það líklega sá sem fæddist árið 1813 og bjó lengst í Kálfavík í Ögursveit.[372] Skipstjóri á Ingólfi var þá Jón Ebenezersson.[373] Líklegt er að Össur hafi tapað á skútuútgerðinni því Kristján G. Þorvaldsson segir að hann hafi orðið félaus maður.[374] Þessi fyrrverandi bóndi og hreppstjóri í Bæ andaðist á Ísafirði 16. apríl 1858[375] og var þá aðeins 47 ára gamall. Hann var þá orðinn ekkjumaður því Salóme kona hans dó fimm mánuðum fyrr, þann 13. nóvember 1857.[376] Hún var atorkukona og formaður í fiskiróðrum að sögn. Hér er á öðrum stað sagt nokkru nánar frá Salóme (sjá hér Flateyri) og sitthvað ritað um börn þeirra Össurar, þau Magnús Össurarson skútuskipstjóra (sjá hér Flateyri) og Maríu Össurardóttur, sem giftist Torfa Halldórssyni, útgerðarmanni og verslunarstjóra á Flateyri (sjá hér Flateyri), en hún fæddist í Bæ 25. júlí 1840.[377]

Jón Magnússon í Bæ, sem hér hefur áður verið nefndur, var yngri sonur hjónanna Magnúsar Guðmundssonar og Bergljótar Össurardóttur. Jón fæddist 14. apríl 1816 og var því fimm árum yngri en Össur bróðir hans.[378] Þegar Magnús faðir þeirra dó sumarið 1833 var Jón 17 ára gamall og næstu sex árin vann hann á búi móður sinnar í Bæ.[379] Sumarið 1839 gekk hann að eiga unga stúlku sem hét Guðrún Guðmundsdóttir og var dóttir Guðmundar skutlara í Vigur Guðmundssonar, bónda á Auðkúlu í Arnarfirði Arasonar.[380] Sama ár fóru ungu hjónin að búa á 10 hundruðum í Bæ en móðir Jóns dró þá saman seglin í búskapnum.[381] Árið 1840 var búið hjá Jóni heldur minna en hjá Össuri bróður hans (sjá hér bls. 33) en þar munaði litlu.[382]

Jón Magnússon og Guðrún kona hans bjuggu í Bæ í átta ár, frá 1839 til 1847, en fluttust þá norður á Sandeyri á Snæfjallaströnd og þar andaðist Jón síðar á sama ári,[383] rétt liðlega þrítugur. Bergljót Össurardóttir í Bæ hafði því misst báða syni sína, þá Össur og Jón, þegar hún safnaðist sjálf til feðra sinna og mæðra haustið 1860 (sbr. hér bls. 31 og 34). Þegar Jón Magnússon dó voru tvö börn þeirra hjóna á lífi, Magnús, sem síðar varð bóndi á Langhól, einu býlanna hér í Bæ (sjá hér bls. 56-59), og Lovísa Rannveig sem giftist Guðmundi Jónssyni, syni séra Jóns Ásgeirssonar, prests á Álftamýri og á Rafnseyri.[384] Þau Lovísa Rannveig og Guðmundur bjuggu á Rafnseyrarhúsum, hjáleigu frá Rafnseyri.[385]

Guðrún Guðmundsdóttir, ekkja Jóns Magnússonar, giftist aftur árið 1849 og bjó áfram á Sandeyri en seinni eiginmaður hennar, sem hét Helgi Guðmundsson, drukknaði 18. desember 1851.[386]

Við brottför Jóns Magnússonar úr Súgandafirði vorið 1847 hóf Bergljót móðir hans búskap á jarðarparti hér í Bæ á nýjan leik eins og áður var frá sagt og bjó þá í tíu ár. Sextíu og sex ára að aldri hætti hún búskaparbaslinu árið 1857 og sama ár hvarf dóttursonur hennar, Bergur Lárentíusson, frá Bæ og fór að hokra í Lækjarhúsum, hjáleigu frá Stað.[387] Við þessi umskipti slitnaði þráður sem spunninn hafði verið í 68 ár, allt frá því foreldrar Bergljótar Össurardóttur, þau Össur Guðmundsson og Bergljót Jónsdóttir, fluttust til Súgandafjarðar og hófu búskap í Bæ vorið 1789. Allan þann tíma hafði þetta sama fólk búið á jörðinni, ýmist eitt sér eða á móti öðrum. Aðrir ættstofnar, sem við sögu komu hér í Bæ á 18. og 19. öld, höfðu allir skemmri viðdvöl.

Hér verður nú sagt stuttlega frá þeim nítjándu aldar bændum í Bæ sem ekki voru nátengdir Össuri Guðmundssyni og Bergljótu Jónsdóttur eða svo ungir að þeir komust fyrst í bændatölu eftir 1860. Er þá fyrst að nefna Arnfríði Þórðardóttur sem hér stóð lengi fyrir búi á fyrsta þriðjungi 19. aldar, lengst sem búandi ekkja. Arnfríður var fædd árið 1782 eða því sem næst,[388] dóttir hjónanna Guðrúnar Erlingsdóttur og Þórðar Þorsteinssonar sem nefndur var Þórður grástakkur. Foreldrar hennar bjuggu í Bæ á árunum 1785-1790 en upp úr sambúð þeirra slitnaði eins og hér hefur áður verið nefnt (sjá hér bls. 19). Faðir Arnfríðar, Þórður grástakkur, var prestssonur frá Stað í Súgandafirði. Hann fór sínar eigin leiðir og endaði ævina í Færeyjum (sjá hér bls. 19 og Staður).

Arnfríður Þórðardóttir ólst að mestu upp í Bæ hjá móður sinni og foreldrum hennar sem hér bjuggu (sjá hér bls. 19-20). Um tvítugsaldur giftist hún Hákoni Þórðarsyni, sem var lítið eitt eldri, en hann var sonur Þórðar Jónssonar og Margrétar Hákonardóttur sem bjuggu á Stað og í hjáleigunum þar á árunum kringum 1800[389] (sjá hér Staður). Skömmu áður en Hákon kvæntist Arnfríði hafði hann eignast son með Sigríði, dóttur séra Þorsteins Þórðarsonar á Stað.[390] Sá piltur var skírður Þorsteinn og fæddist árið 1800.[391]

Á árunum 1806-1810 byrjuðu Arnfríður og Hákon búskap á jarðarparti í Bæ[392] og bjuggu hér næstu árin[393] en Hákon drukknaði vorið 1815.[394] Hann var þá formaður á bát sem reri frá Suðureyri og var með skipshöfn sína í verbúð á Stekkjarnesi,[395] utantil við Suðureyrarmalir. Tveimur bátum var þá haldið til róðra frá verbúðum þar á nesinu og fórust þeir báðir þetta sama vor (sjá hér Suðureyri).

Arnfríður bjó áfram í Bæ allt til ársins 1830 en þá tók við Þórður, sonur þeirra Hákonar, og bjó í eitt ár.[396] Fá af börnum Arnfríðar og Hákonar munu hafa komist á legg og í marsmánuði árið 1817 var hún aðeins með þriggja manna heimili.[397] Þar var sonurinn Þórður, þá 9 ára gamall, og móðir húsfreyjunnar, Guðrún Erlingsdóttir.[398] Eins og nærri má geta var bú ekkjunnar ekki stórt og má sem dæmi nefna að árið 1821 bjó hún með eina kú, eina kvígu og sex ær.[399]

Sonur Arnfríðar, Þórður Hákonarson, sem tók við búi af móður sinni bjó hér aðeins í eitt ár eins og fyrr var getið, fardagaárið 1830-1831. Hann var þá 22ja ára, kvæntur Þuríði Gísladóttir sem var átta eða níu árum eldri en hann.[400]

Frá vorinu 1831 bjó Magnús Guðmundsson, sem áður var frá sagt, einn á allri jörðinni hér i Bæ og síðan ekkja hans og synir þeirra allt til ársins 1843 er Össur Magnússon fluttist burt.[401] Sá sem þá fékk hér jarðarpart til ábúðar hét Þorkell Sigfússon en kona hans Sigríður Hafliðadóttir.[402] Þorkell fæddist 28. maí árið 1818 og var sonur hjónanna Sigfúsar Erlingssonar og Kristínar Þorkelsdóttur er þá bjuggu á Norðureyri.[403]

Haustið 1840 gekk hann að eiga Sigríði Hafliðadóttur sem flust hafði til Súgandafjarðar árið 1836 frá Borg í Skötufirði.[404] Sigríður var lítið eitt eldri en Þorkell, fædd í Ögursveit við Ísafjarðardjúp árið 1815 eða því sem næst.[405] Hún var dóttir hjónanna Hafliða Guðmundssonar og Ingibjargar Káradóttur (eða Kársdóttur) sem árið 1820 bjuggu á Skarði í Skötufirði í Ögursveit en árið 1835 á Borg í sama firði.[406]

Þorkell og Sigríður bjuggu í Bæ frá 1843 til 1864.[407] Árið 1850 höfðu þau einn þriðja úr jörðinni til ábúðar, átta hundruð,[408] og má telja líklegt að svo hafi verið allan tímann. Eins og áður var nefnt hóf Þorkell búskap í Bæ þegar Össur Magnússon fluttist burt. Össur hafði búið á Langhól, sem var eitt býlið í Bæ (sjá hér bls. 32-33), og má telja nær fullvíst að Þorkell hafi líka búið þar. Til marks um það má nefna að þegar Hagalín, sonur Þorkels, fluttist 17 ára gamall úr Súgandafirði í Önundarfjörð árið 1864 er hann sagður koma frá Langhól.[409] Í riti sínu Önfirðingum segir Ólafur Þ. Kristjánsson líka að Hagalín hafi fæðst á Langhól.[410] Prestarnir sem þjónuðu í Súgandafirði nefna hins vegar mjög sjaldan Langhól í sínum embættisbókum en tala alloft um 1., 2. og 3. býli í Bæ.[411] Af þeim ástæðum er býsna erfitt að rekja svo óyggjandi sé hverjir bjuggu á Langhól.

Er Þorkell hætti búskap hér í Bæ var hann enn innan við fimmtugt. Næstu ár dvöldust þau hjónin áfram í Súgandafirði en 1871 fluttust þau frá Gelti norður í Skálavík í Hólshreppi[412] til Kristínar dóttur sinnar og eiginmanns hennar, Einars Jónssonar, sem bjuggu þá á Meiri-Bakka í Skálavík.[413] Þrettán árum síðar fluttist Þorkell úr Skálavík að Vöðlum í Önundarfirði til Hagalíns sonar síns sem þar bjó.[414] Þorkell dó á Vöðlum 24. apríl 1894.[415] Hagalín Þorkelsson, sem hér var nefndur, bjó á ýmsum bæjum í Önundarfirði en eitt barna hans var Sigríður sem giftist Guðmundi Gilssyni er lengi bjó í Innri-Hjarðardal og þar hafa niðjar þeirra búið æ síðan, allt til þessa dags (1996).[416]

Þegar Jón Magnússon, yngri sonur Bergljótar Össurardóttur, fluttist héðan vorið 1847 fór móðir hans, sem verið hafði húskona síðustu árin, aftur að búa. Frá vorinu 1848 lét hún sér þó nægja að búa á sex hundruðum en byggði tíu hundruð Guðbrandi Jónssyni[417] sem þá hafði búið í nokkur ár í Botni í Súgandafirði.[418]

Guðbrandur fæddist í Sauðlauksdal 13. nóvemer 1803[419] og var hann lausaleiksbarn. Móðir hans hét Guðrún Þórðardóttir og var fædd í Tungu í Örlygshöfn[420] en faðirinn var Jón Guðbrandsson frá Kvígindisdal.[421] Fyrstu árin ólst Guðbrandur upp í fæðingarsveit sinni, Rauðasandshreppi, og var í marsmánuði árið 1808 í Tungu í Örlygshöfn, sagður 4 ára gamall.[422] Móðir hans var þá líka í Tungu[423] en sumarið 1815 bárust þau norður í Grunnavík með séra Eyjólfi Kolbeinssyni sem þjónað hafði í Saurbæ á Rauðasandi sem aðstoðarprestur í nokkur ár.[424] Árið 1816 voru Guðbrandur og Guðrún móðir hans bæði hjá séra Eyjólfi á Stað í Grunnavík, hann tökupiltur en hún vinnukona.[425]

Tveimur árum síðar var Guðbrandur fermdur þar norður frá og af því tilefni færði séra Eyjólfur til bókar að faðir drengsins, Jón Guðbrandsson, væri í Hollandi.[426] Ætla má að prestur fari þar rétt með því hann þekkti vel til á heimaslóðum þeirra feðga í Rauðasandshreppi og hafði verið þar aðstoðarprestur í 15 ár.[427] Í Þjóðsögum Jóns Árnasonar er reyndar að finna furðulega sögu þar sem frá því er greint að Guðbrandur Jónsson í Kvígindisdal, afi Guðbrands sem seinna bjó í Bæ, hafi selt Hollendingum son sinn til slátrunar svo þeir gætu notað blóðið úr honum til lækninga.[428] Að slíku rugli er vart orðum eyðandi en líklega á sagan rætur að rekja til Hollandsferðar Jóns Guðbrandssonar og dvalar hans þar sem séra Eyjólfur getur um.

Óvíst er hvort Jón Guðbrandsson frá Kvígindisdal náði að komast til baka úr sinni miklu reisu til Hollands en augljóst virðist að hann muni ekki hafa haft mikil afskipti af syni sínum, Guðbrandi þeim sem fæddist í Sauðlauksdal árið 1803 og var fermdur á Stað í Grunnavík árið 1818. Umsögnin sem þessi tökupiltur fékk hjá séra Eyjólfi Kolbeinssyni við ferminguna var svona: Kann ei illa – brösóttur.[429] Orðin benda til þess að presti hafi þótt strákurinn vera skýr en nokkuð ódæll.

Þegar Guðbrandur var milli fermingar og tvítugs fluttist hann norðan úr Grunnavík að Stakkanesi við Skutulsfjörð með Hilaríusi, syni séra Eyjólfs Kolbeinssonar.[430] Úr Skutulsfirði barst Guðbrandur að Botni í Súgandafirði og þar var hann vinnumaður fardagaárið 1825-1826, sagður skikkanlegur og vel uppfræddur.[431] Þann 31. janúar 1826 eignaðist hann með Þóru Brynjólfsdóttur sitt fyrsta barn, soninn Jóhannes.[432] Þóra var þá ógift vinnukona í Botni, systir Jóns Brynjólfssonar sem hóf þar búskap vorið 1826.[433] Næstu árin var Guðbrandur ýmist í Súgandafirði eða inni í Djúpi.[434] Árið 1830 var hann vinnumaður á Ármúla í Nauteyrarhreppi og seinna m.a. á Garðsstöðum og Hvítanesi í Ögursveit.[435] Svo virðist sem Guðbrandi hafi jafnan orðið vel til kvenna og börnum sem honum voru kennd fjölgaði ört á árunum 1826-1838. Fyrsta barnið var Jóhannes sem fæddist 1826 og hér var áður nefndur. Næst kom Ólöf, fædd 20. september 1830 í Botni í Mjóafirði.[436] Móðir hennar hét Sesselja Jónsdóttir.[437] Þriðja barn Guðbrands var Kristín sem fæddist á Garðsstöðum í Ögursveit 11. október 1832.[438] Móðir hennar var Ástríður Magnúsdóttir, þá ógift vinnukona á Garðsstöðum[439] og segir hér frá henni síðar. Fjórða barnið var Guðmundur sem fæddist hér í Bæ haustið 1833.[440] Móðir hans var Þuríður Pálsdóttir, 16 ára gömul vinnukona hjá Bergljótu Össurardóttur.[441] Frá foreldrum Þuríðar, þeim Páli Guðmundssyni og Guðrúnu Jónsdóttur, er sagt hér á öðrum stað (sjá hér Neðri-Breiðadalur og Norðureyri). Fimmta barn Guðbrandar Jónssonar var svo Magnús sem fæddist 15. apríl 1835 á Hvítanesi í Ögursveit.[442] Móðir hans var sú hin sama Ástríður Magnúsdóttir og áður hafði alið Guðbrandi dótturina Kristínu sem fyrr var nefnd.[443]

Þegar Magnús Guðbrandsson fæddist var faðir hans á þrítugasta og öðru aldursári og hafði eignast fimm börn með fjórum konum. Enn var hann laus og liðugur en menn fóru að kalla hann Barna-Brand og mun það nafn hafa fylgt honum lengi.[444]

Ástríður, sem ein kvenna náði að eignast tvö börn með Barna-Brandi áður en hann kvæntist, var dóttir hjónanna Magnúsar Kolbeinssonar og Friðlaugar Ingimundardóttur sem árið 1801 voru húsfólk á Garðsstöðum í Ögursveit.[445] Hún var þá þar hjá foreldrum sínum, sögð 3ja ára gömul.[446] Sumarið 1838 var Guðbrandur vinnumaður á Hóli í Bolungavík en Ástríður vinnukona á Langhól hér í Bæ.[447] Í júlímánuði á því sumri voru þau gefin saman i hjónaband af prestinum á Stað og árið 1839 fóru þau að búa á jarðarparti í Botni hér í Súgandafirði.[448] Tveimur vikum fyrir hjónavígsluna höfðu þau eignast sitt þriðja barn, dótturina Guðrúnu sem fæddist hér þann 8. júlí 1838. Þau Guðbrandur og Ástríður bjuggu í Botni frá 1839 til 1848 en hér í Bæ frá 1848 til 1855 og taldist hann því vera bóndi í 16 ár.[449]

Á þeim árum sem Guðbrandur bjó hér í Bæ var hann með allstórt bú. Nefna má að árið 1850 bjó hann með eina kú, eina kvígu, 30 ær, 4 fullorðna hrúta eða sauði, 27 gemlinga, 30 lömb og 2 hesta.[450] Guðbrandur var þá einn þriggja bænda í Súgandafirði sem bjuggu með 30 ær en á öllum hinum býlunum voru ærnar færri ef marka má búnaðarskýrsluna.[451] Hann átti hins vegar engan bát.[452]

Börnin sem Guðbrandur eignaðist með Ástríði konu sinni og náðu að lifa urðu þrjú og hafa öll verið nefnd en fjórða barn þeirra fæddist andvana árið 1843.[453] Á búskaparárum Guðbrandar í Súgandafirði var móðir hans lengi hjá honum.[454] Hún var á heimili þeirra Ástríðar í Botni árið 1845[455] og hér í Bæ árið 1853, sögð 84 ára,[456] sem kemur heim við aldur hennar í sóknarmannatali úr Sauðlauksdalsprestakalli frá árinu 1808 en þá var hún í Tungu í Örlygshöfn, sögð þægðarhjú.[457]

Árið 1855 gáfust Guðbrandur og Ástríður upp á búskapnum hér í Bæ og gerðust vinnuhjú á Suðureyri.[458] Næstu ár voru þau í vinnumennsku ýmist á Suðureyri, í Vatnadal eða í Bæ og í marsmánuði árið 1860 taldist Ástríður vera húskona hjá Kristínu dóttur þeirra í Bæ og hennar manni.[459] Guðbrandur var þá ekki í Súgandafirði en tveimur árum síðar var hann vinnumaður á Suðureyri.[460] Sumarið 1862 missti Guðbrandur Ástríði konu sína sem andaðist hér í Bæ þann 15. júlí úr heiftugri landfarsótt.[461] Einum mánuði fyrr drukknaði Magnús sonur þeirra, aðeins 27 ára gamall, en hann var þá bóndi í Ytri-Vatnadal (sjá hér Ytri-Vatnadalur). Við þessi áföll mun Barna-Brandur hafa bognað nokkuð og 1864 eða 1865 fluttist hann burt úr Súgandafirði.

Sumarið 1866 var þessi gamli kvennaljómi vinnumaður hjá Jóni Vedholm sem rak veitinga- og gistihús á Ísafirði.[462] Líklegt er að hann hafi verið einhvers konar aðstoðarmaður við að þjóna gestunum. Hann var nú kominn á sjötugsaldur en ekki dauður úr öllum æðum því þetta sumar var honum kennt enn eitt barnið[463] sem hann gekkst fúslega við. Móðirin var Guðríður Eiríksdóttir, tæplega 37 ára gömul vinnukona hjá séra Árna Böðvarssyni, sóknarpresti á Eyri í Skutulsfirði.[464] Þetta var fimmta barn Guðríðar og áttu þau öll sinn föðurinn hvert.[465] Guðbrandur var því fimmti barnsfaðir hennar og á því sem hér hefur verið ritað má sjá að hún var líka fimmta barnsmóðir hans en slík dæmi finnast varla mörg.

Barnið sem Guðríður og Guðbrandur eignuðust sumarið 1866 var stúlka sem þau gáfu nafnið Jóna.[466] Í byrjun jólaföstu þetta sama ár voru þau Guðbrandur og Guðríður gefin saman í hjónaband[467] og ári síðar eignaðist Guðríður tvíbura, dreng sem fæddist andvana og stúlku sem dó sama dag og hún fæddist.[468]

Fyrstu hjónabandsár sín voru þau Guðbrandur og Guðríður á Ísafirði en munu hafa flust norður að Dynjanda í Jökulfjörðum árið 1869.[469] Árið 1870 voru þau vinnuhjú hjá Vagni Ebenezerssyni, bónda á Dynjanda[470] en hann var einn af fimm barnsfeðrum Guðríðar.[471]

Árið 1871 komu þau Guðríður og Guðbrandur til Súgandafjarðar norðan úr Grunnavíkurhreppi og var Jóna dóttir þeirra með þeim.[472] Svo virðist sem Guðríður hafi þá verið talin fyrir þeim hjónum því prestur skráir hana fyrst og nefnir Guðbrand karl hennar við komu þeirra til Súgandafjarðar.[473] Líklega hefur Brandur gamli verið orðinn óvinnufær þegar hér var komið sögu og brátt voru dagar hans taldir því hann andaðist sveitarkarl á Kvíanesi þann 8. febrúar 1872.[474] Guðríður lifði miklu lengur eða til ársins 1904 og átti á sínum síðustu árum heima hér í Bæ. Frá henni er sagt hér nokkru aftar (sjá hér bls. 83-92).

Þess var áður getið að títtnefndur Guðbrandur Jónsson og fyrri kona hans, Ástríður Magnúsdóttir, bjuggu á jarðarparti hér í Bæ á árunum 1848-1855. Börn þeirra voru þá að vaxa úr grasi og haustið 1852 varð Kristín dóttir þeirra tvítug (sjá hér bls. 39). Næsta vor kom á heimilið ungur maður, Guðmundur Jóhannesson, sem hafði að nokkru leyti alist upp á Stað í Súgandafirði.[475] Hann var nú orðinn 23ja ára gamall og fyrsta árið sitt í Bæ var hann að hálfu vinnumaður hjá Guðbrandi en sjálfs sín að hálfu.[476] Þann 27. október árið 1854 voru þau Guðmundur Jóhannesson og Kristín Guðbrandsdóttir í Bæ gefin saman í hjónaband í Staðarkirkju.[477] Næstu árin voru þau hér í húsmennsku en fengu part úr jörðinni til ábúðar vorið 1857[478] þegar Bergur Lárentíusson, sem hér hafði búið í tvö ár, fór að Lækjarhúsum í landi Staðar.[479] Guðmundur og Kristín voru hér við búskap frá 1857 til 1878 og svo aftur frá 1889 til 1891 en árin þar á milli voru þau húsfólk hér í Bæ og í húsmennsku voru þau líka fimm síðustu árin sem þau áttu hér heima, það er frá 1891 til 1896.[480]

Á árunum 1857-1878 bjuggu þau Guðmundur Jóhannesson og Kristín kona hans lengi á Langhól[481] er stóð svolítið nær ánni en hin býlin hér í Bæ sem oftast voru tvö á þessum árum. Valdimar Þorvaldsson segir reyndar að skömmu eftir 1873 hafi Guðmundur fært sig frá Langhól á annað býli í Bæ, þar sem Bergur Lárentíusson hafði búið,[482] og af sóknarmannatölum má ráða að sá tilflutningur hafi átt sér stað árið 1875.[483]

Guðmundur Jóhannesson var fæddur í Ytrihúsum í Arnardal í Skutulsfirði[484] 13. október 1829, sonur Jóhannesar Guðmundssonar og Ingibjargar Jónsdóttur sem þar voru vinnuhjú.[485] Að Ingibjörg móðir hans hafi verið Jónsdóttir er þó máske ekki alveg öruggt því nafnið er illlæsilegt í prestsþjónustubókinni þar sem fæðing Guðmundar er skráð. Til Súgandafjarðar kom hann á tólfta aldursári árið 1841 og varð þá smali hjá séra Andrési Hjaltasyni á Stað.[486] Hann var á Stað í átta ár, fyrst smali og síðan vinnumaður, en fluttist með séra Andrési að Gufudal við norðanverðan Breiðafjörð sumarið 1849.[487] Ári síðar kom hann aftur til Súgandafjarðar og settist þá fyrst að í Ytri-Vatnadal.[488] Í janúarmánuði árið 1851 segir séra Arngrímur Bjarnason að þessi ungi maður sé meinhægur og frómlundaður og tilbærilega uppfræddur.[489] Vorið 1851 fór Guðmundur í vinnumennsku til Friðriks Benediktssonar er þá bjó í Staðarhúsum, hjáleigu frá Stað í Súgandafirði.[490] Þar var honum samtíða ung stúlka sem hét Ólöf Björnsdóttir[491] og var hún sonardóttir séra Eiríks Vigfússonar er hafði verið prestur á Stað allmörgum árum fyrr.[492] Svo fór að Guðmundur gerði Ólöfu barn veturinn sem þau voru samtíða í Staðarhúsum og fæddist það á Mosvöllum í Önundarfirði 10. október 1852.[493] Þar bjuggu foreldrar Ólafar (sjá hér Mosvellir). Þetta fyrsta barn sem Guðmundur Jóhannesson eignaðist var stúlka er fékk nafnið Ingibjörg.[494] Hún mun að mestu leyti hafa alist upp í Önundarfirði en var þó hjá föður sínum á Langhól er prestur húsvitjaði þar í marsmánuði árið 1861.[495] Röskum aldarþriðjungi síðar varð þessi sama Ingibjörg fylgikona alþýðuskáldsins Magnúsar Hjaltasonar en sú sambúð stóð aðeins skamma hríð (sjá hér Drangar, Brekka á Ingjaldssandi og Fremri-Breiðadalur, sbr. einnig Neðri-Breiðadalur).

Í Staðarhúsum var Guðmundur Jóhannesson í tvö ár[496] en vorið 1853 færði hann sig yfir í Bæ eins og hér var áður nefnt og kvæntist þar Kristínu Guðbrandsdóttur haustið 1854.

Sagt er að á æskuskeiði hafi Guðmundur verið í skiprúmi hjá Ásgeiri Ásgeirssyni, skipherra á Ísafirði og stofnanda Ásgeirsverslunar.[497] Mun það hafa verið á árunum kringum 1850 þegar Ásgeir var skipherra á skútunni Lovísu sem hann átti sjálfur[498] en tæplega þarf að efa að þar hafi verið valinn maður í hverju rúmi. Ásgeir hóf verslunarrekstur sinn á Ísafirði árið 1852.[499] Flest bendir til þess að hann hafi þá þegar hætt skipstjórastörfum og fullvíst er að annar maður var skipstjóri á Lovísu sumarið 1852.[500] Vel má hins vegar vera að Guðmundur Jóhannesson hafi verið eitthvað lengur á þilskipum sem Ásgeir gerði út en ekki var hann samt á Lovísu þegar hún fórst með allri áhöfn vorið 1854.[501]

Valdimar Þorvaldsson, sem fæddist í Selárdal í Súgandafirði árið 1878 og  átti nær alla ævi heima í Suðureyrarhreppi, var kominn yfir þrítugt þegar Guðmundur Jóhannesson dó á Kvíanesi árið 1912. Þeir hljóta því að hafa verið svolítið kunnugir. Valdimar kveðst hafa heyrt að á skútuárum sínum hjá Ásgeiri skipherra hafi Guðmundur safnað nokkru fé og komið því á banka í Kaupmannahöfn.[502]

Bú þeirra Guðmundar og Kristínar konu hans hér í Bæ mun aldrei hafa verið mjög stórt. Árið 1860 bjuggu þau með 2 kýr, 20 ær, 10 gemlinga og 1  hest en 1870 með 1 kú, 28 ær, 16 gemlinga og 1 hest ef marka má búnaðarskýrslur.[503] Búnaðarskýrslurnar sýna að árið 1860 átti Guðmundur hálfan áttæring á móti ekkjunni Guðrúnu Ólafsdóttur í Selárdal en 1870 átti hann bara einn lítinn bát sem var 2ja eða 3ja manna far.[504]

Valdimar Þorvaldsson, sem hér var nýlega nefndur, hefur ritað nokkur orð um Guðmund Jóhannesson og segir þar meðal annars:

 

Guðmundur var vel metinn og jafnan talinn spakvitur hæglætismaður. Hann var hagsýnn og sparsamur og komst ótrúlega vel af með hinn stóra barnahóp [upp komust 7 synir og 2 dætur – innsk. K.Ó.]. Hann mun hafa verið meðeigandi í leguferðaskipi Dalmanna og þegar Súgfirðingar, 1884, lögðu í að kaupa þilskip þá var hann þar með og sýnir það hug hans í framfaramálum að styðja slíkar umbætur því ekki var um mikla peningaeign að ræða [sbr. hér Suðureyrarhreppur, inngangskafli, – innsk. K.Ó.].

Meðan Guðmundur bjó á Langhól reri hann venjulega á litlum bát á vorin. Mun það hafa orðið honum drjúgt því hann var hinn mesti þrifa- og hirðumaður. Fylgdi það börnum hans og báru þau af samferðamönnum sínum um snyrtimennsku og prúða framkomu. … Vín þótti Guðmundi gott en notkun þess mun jafnan hafa verið bundin ákveðnum takmörkum.[505]

 

Valdimar gerir þarna lítið úr áfengisneyslu Guðmundar á Langhól en Magnús Hjaltason sem einnig náði að hitta Guðmund að máli segir að hann hafi verið drykkjumaður mikill en greindur allvel.[506] Að sögn Magnúsar brölluði þeir ýmislegt saman, Guðmundur Jóhannesson á Langhól og Friðbert Guðmundsson í Fremri-Vatnadal, meðan báðir voru enn á góðum aldri. Þessar sögur Magnúsar af þeim félögum eru birtar í ritinu Frá ystu nesjum[507] og hér hefur áður verið greint frá sumu af því sem þar er ritað (sjá hér Fremri-Vatnadalur). Eina sögu enn úr safni Magnúsar er vert að láta fylgja þessari frásögn af Guðmundi Jóhannessyni og er sú á þessa leið:

 

Það var jóladagsmorgun einn snemmindis að Friðbert kom niður að Langhól. Þegar hann kom í stigann heyrir hann að Guðmundur bóndi er að lesa húslesturinn. Sest Friðbert þá á slána við uppganginn en lætur fætur hanga niður í stigann. Þegir hann nú stund en segir síðan: „Hættu að lesa, hættu að lesa, Guðmundur Jóhannesson! Það er fyrir löngu kominn tími til að fara að drekka ef á annað borð á að drekka.[508]

 

Þessari sögu andmælti Valdimar Þorvaldsson, dóttursonur Friðberts, þegar hún birtist fyrst á prenti og sagði að hún hlyti að vera staðleysa þar sem Friðbert hefði verið einlægur trúmaður sem bar fyllstu virðingu fyrir helgihaldi og helgum siðum.[509]

Á hitt er að líta að Magnús hefur söguna að öllum líkindum frá Guðmundi Jóhannessyni sjálfum eða Kristínu konu hans því bæði urðu þau gömul og voru enn á lífi í Súgandafirði þegar Magnús fór að dveljast þar langdvölum á árunum kringum aldamótin 1900.[510] Um satt og logið í slíkum sögum mun flestum hins vegar reynast erfitt að dæma þegar liðið er hátt á aðra öld frá atburðum.

Árið 1891 hætti Guðmundur Jóhannesson að búa eins og hér hefur áður verið nefnt en næstu fimm árin sat hann um kyrrt hér í Bæ og var þá húsmaður hjá Jóni syni sínum. Á þeim árum hafði hann umráð yfir bát og reri á honum til fiskjar þegar henta þótti.[511]

Þau Guðmundur á Langhól og Kristín Guðbrandsdóttir kona hans eignuðust að minnsta kosti ellefu börn sem fæddust á árunum 1853-1871.[512] Auk þess eignaðist Guðmundur eins og fyrr var frá sagt dótturina Ingibjörgu með annarri konu áður en hann kvæntist Kristínu (sjá hér bls. 43). Sjö synir hjónanna og ein dóttir náðu að komast upp og líka stúlkan sem Guðmundur eignaðist fyrir hjónaband.[513]

Elstur hjónabandsbarnanna var Magnús Mindelberg, sagður 3ja ára við húsvitjun prestsins í marsmánuði árið 1857.[514] Halldór Guðmundsson, sem fæddur var árið 1872, átti um skeið heima í Bæ á síðustu áratugum 19. aldar en síðar mjög lengi á Suðureyri. Í ævisögubroti er hann ritaði á efri árum greinir Halldór stuttlega frá átta börnum Guðmundar Jóhannessonar[515] en nefnir ekki elsta drenginn Magnús Mindelberg sem drukknaði tvítugur að aldri 18. desember 1873 (sjá hér bls. 51-52). Börnin sem Halldór gerir grein fyrir voru Guðrún, sem giftist Markúsi Guðmundssyni, bróður nýnefnds Halldórs, og bjó með manni sínum í Bæ og víðar í Súgandafirði, Ingibjörg, sem dó ógift, Marías, sem varð kaupmaður á Ísafirði, Jón, sem varð bóndi í Bæ og drukknaði 28. febrúar 1898, Guðmundur, sem árið 1887 var húsmaður á Laugum í Súgandafirði en fór til Ameríku fyrir aldamót, Jóhannes, sem varð bóndi á Kvíanesi, Kristján, sem dó ógiftur og barnlaus og Halldór, sem fór til Ameríku árið 1901 ásamt mágkonu sinni, Guðríði Kristjánsdóttur, er hafði verið gift Jóni bróður hans sem drukknaði 1898.[516] Fram skal tekið að hér munu börnin ekki vera talin í aldursröð.

Skráin sýnir að tveir synir Guðmundar og Kristínar í Bæ fluttust búferlum til Vesturheims. Guðmundur Guðmundsson fór til Ameríku frá Ísafirði árið 1892 en hann var þá nýlega kvæntur seinni konu sinni, Kristínu Rósinkarsdóttur, sem fylgdi honum vestur um haf og með þeim fóru líka tveir synir hans (sjá hér Laugar). Halldór Guðmundsson, sem var yngri en Guðmundur bróðir hans, tók sig upp níu árum síðar og fluttist ásamt mágkonu þeirra bræðra og þremur börnum héðan úr Bæ til Ameríku (sjá hér bls 72-73). Fimm af barnabörnum Guðmundar Jóhannessonar og Kristínar Guðbrandsdóttur í Bæ fluttust vestur um haf á ungum aldri, tvö með Guðmundi, syni þeirra, árið 1892 og þrjú með Halldóri, bróður hans, árið 1901 (sjá hér bls. 72-73).

Eitt þessara fimm barna var Guðni Helgi Guðmundsson sem fæddist á Ísafirði í febrúarmánuði árið 1891 og fór með foreldrum sínum vestur um haf er hann var á öðru ári (sjá hér Laugar). Í Minningarbók íslenskra hermanna 1914-1918, sem út var gefin í Winnipeg árið 1923, er sagt að foreldrar hans, þau Guðmundur Guðmundsson og Kristín Rósinkarsdóttir, hafi fyrst sest að í Argyle í Manitoba í Kanada en flust þaðan til Vancouver og svo árið 1904 til Markerville í Alberta[517] (sbr. hér Laugar) en minnt skal á að einmitt þar við Klettafjöllin bjó líka helsta skáld Íslendinga í Vesturheimi, Stephan G. Stephansson.

Í Markerville mun Guðmundur Guðmundsson frá Bæ hafa dáið eða skilið við Kristínu konu sína því hún giftist öðrum manni á árunum 1904-1917.[518] Í ritaðri heimild úr Súgandafirði frá árunum skömmu fyrir 1950 er Guðmundur Guðmundsson, sem hér var frá sagt, sagður hafa sest að á Gimli í Manitoba.[519] Vera má að þau Kristín hafi slitið sambúðinni og hann lokið ævinni á íslenska gamalmennahælinu sem lengi var starfrækt á Gimli. Hvort svo hafi verið hefur þó ekki verið kannað.

Um örlög Guðna Helga Guðmundssonar, eins þriggja sona nýnefnds Guðmundar Guðmundssonar sem vestur fóru (sjá hér bls. 72-73 og Laugar), er hins vegar vitað með fullri vissu. Frá Markerville fluttist Guðni Helgi til Calgary í Alberta og starfaði þar við ölgerð.[520] Á síðustu mánuðum ársins 1917 var hann kvaddur til herþjónustu af stjórnvöldum í Kanada og sendur til vígstöðvanna í Frakklandi að áliðnu sumri árið 1918.[521] Þar féll þessi ungi maður, 27 ára að aldri, 2. september 1918,[522] sjötíu dögum áður en hinum mikla hildarleik, er við nefnum fyrri heimsstyrjöldina, lauk.

Í Vesturheimi var þessi sonarsonur hjónanna Guðmundar Jóhannessonar og Kristínar Guðbrandsdóttur, sem lengst bjuggu á býlinu Langhól hér í Bæ, nefndur Helgi Goodman.[523] Hann var, að sögn kunnugra, staðfastur í ráði og stilltur, reglusamur og æðru- og umtölulaus.[524]

Í Minningarbók íslenskra hermanna, sem hér var áður vitnað til og út kom 1923, segir að bræður Helga Goodman séu dánir eða horfnir.[525] Þau ummæli eru nokkuð óljós og gefa tilefni til rannsóknar sem þó verður að bíða betri tíma. Í ritaðri heimild úr Súgandafirði frá árinu 1953 er fullyrt að niðjar tveggja sona Guðmundar Jóhannessonar í Bæ séu þá á lífi í Ameríku[526] en engin grein gerð fyrir því fólki (sbr. hér bls. 72-73).

Synir Guðmundar Jóhannessonar og Kristínar konu hans á Langhól sem upp komust voru sjö (sjá hér bls. 45). Á efstu árum þeirra hjóna voru fimm horfnir á braut, tveir höfðu drukknað, tveir farið til Ameríku og einn dáið á sóttarsæng.[527] Eftir stóðu tveir, Marías kaupmaður á Ísafirði,[528] faðir Jóns G. Maríassonar, sem varð bankastjóri í Landsbanka Íslands og síðast í Seðlabanka Íslands[529] og Jóhannes, bóndi á Kvíanesi.

Hjá Jóhannesi og konu hans, Guðrúnu Jónsdóttur, fengu foreldrar Jóhannesar skjól í elli sinni eins og hér var áður nefnt. Fardagaárið 1893-1894 voru Jóhannes og Guðrún húsfólk í Ytri-Vatnadal og þar fæddist elsta barn þeirra, dóttirin Albertína, 19. september 1893.[530] Þau voru þá enn ógift en voru gefin saman í Staðarkirkju þann 12. nóvember þetta sama haust.[531] Einar Jónsson dagbókarritari var þá líka í húsmennsku í Ytri-Vatnadal og segir brúðkaupsveisluna hafa verið haldna í Bæ.[532] Þau höfðu ungbarnið sitt með sér ofan í Bæ, ritar hann í dagbók sína á brúðkaupsdegi Jóhannesar og Guðrúnar og tekur fram næsta dag að í veislunni í Bæ hafi verið vel veitt og vel drukkið.[533]

Seint í mars árið 1894 fluttust ungu hjónin búferlum frá Vatnadal ofan í Bæ.[534] Hér voru þau í húsmennsku í eitt ár en hófu búskap á Kvíanesi vorið 1895.[535] Ári síðar tóku gömlu hjónin sig upp, þau Guðmundur og Kristín, og fóru frá Bæ en settust að hjá syni sínum á Kvíanesi.[536] Guðmundur var þá orðinn 67 ára gamall og hafði átt heima hér í Bæ í 43 ár en Kristín kona hans var 64 ára gömul og hafði átt hér heima í 48 ár (sjá hér bls. 38- 43).

Hér hefur nú um sinn verið sagt nokkuð frá Guðmundi Jóhannessyni sem á síðari hluta 19. aldar var heimilisfaðir í Bæ lengur en nokkur annar, ýmist sem bóndi eða húsmaður. Hann andaðist á Kvíanesi 16. nóvember 1912 og þar dó líka Kristín kona hans tveimur árum síðar, þann 19. nóvember 1914.[537] Um hana segir Magnús Hjaltason í dagbók sinni sama dag að hún hafi verið væn kona og vinnusöm og vel látin.[538]

Auk Guðmundar Jóhannessonar hófu þrír aðrir bændur búskap í Bæ á árunum 1850-1870 en það voru Brynjólfur Jónsson, Lárentíus Hallgrímsson og Bergur Lárentíusson. Frá Bergi hefur áður verið sagt (sjá hér bls. 24-25, 30-31 og Staður, Lækjarhús þar) en hann hóf búskap í Bæ vorið 1855 og bjó þá hér í tvö ár en reisti síðan bú í Lækjarhúsum, hjáleigu frá Stað, og bjó þar í nokkur ár. Hann kom aftur hingað í Bæ árið 1864 eða 1865 og var hér við búskap næstu árin.[539] Í sóknarmannatali frá 31.12.1865 er bústaður Bergs og fjölskyldu hans hér í Bæ nefndur Holtið og má því telja líklegt að hann hafi á árunum frá 1864 til 1866 eða 1868 átt  heima á Mönguholti, afbýli frá Bæ (sjá hér bls. 109-113). Á þessum árum var fjórbýli í Bæ svo jörðin mátti kallast ofsetin.

Í búnaðarskýrslu frá árinu 1865 er Bergur reyndar ekki talinn vera bóndi en flokkaður með húsmönnum.[540] Skýrslan sýnir þó að hann var þá með 1 kú, 9 ær og 6 gemlinga[541] og hefur verið á mörkum þess að geta talist bóndi. Smæð bústofnsins styður þá hugmynd að Bergur hafi hokrað á Mönguholtinu. Vorið 1867 var hann enn í Bæ og bústofninn orðinn örlítið stærri, það er 1 kú, 1 kvíga, 10 ær og 8 gemlingar.[542] Skýrslan frá því ári sýnir að þá var hann kominn í tölu bænda[543] og hefur máske verið búinn að færa sig af Holtinu heim í tún.

Lárentíus Hallgrímsson og kona hans, Sigurborg Bergsdóttir, fóru að búa á jarðarparti í Bæ vorið 1862 og bjuggu hér allt þar til Lárentíus andaðist vorið 1866 og ekkja hans var hér reyndar við búskap tvö ár í viðbót.[544] Frá hjónum þessum, sem voru foreldrar Bergs Lárentíussonar, er sagt hér á öðrum stað (sjá hér bls. 12-13 og Ytri-Vatnadalur og Göltur). Á búskaparárum Lárentíusar og Sigurborgar hér í Bæ, 1862-1867, var jafnan fjórbýli á jörðinni og við húsvitjun í marsmánuði árið 1863 áttu hér heima 25 manneskjur.[545] Við andlát Lárentíusar og brottför Sigurborgar nokkru síðar rýmkaðist um því þá fækkaði býlunum svo þau urðu aftur þrjú.  Telja má víst að Bergur Lárentíusson hafi þá fært sig af Holtinu og í baðstofuna sem foreldrar hans höfðu búið í því vitað er að árið 1873 bjó hann í öðrum heimabæjanna[546] og að því er ætla má þeim fremri.

Brynjólfur Jónsson hóf búskap í Bæ vorið 1857, sama ár og Guðmundur Jóhannesson.[547]   Við lok þess árs er Brynjólfur sagður búa á 1. býli í Bæ en Bergljót Össurardóttir, sem staðið hafði fyrir búi í Bæ allt til vorsins 1857 og var ekkja Magnúsar Guðmundssonar, var nú orðin húskona hjá Brynjólfi.[548] Nær fullvíst má því telja að Brynjólfur hafi sest að í bænum sem Bergljót hafði búið í og áður þau hjónin, hún og Magnús Guðmundsson. Sá bær var nefndur neðri bær árið 1824 (sjá hér bls. 33).

Brynjólfur Jónsson var fæddur í Botni í Súgandafirði 23. september 1825[549] og ólst þar upp.[550] Foreldrar hans voru hjónin Jón Brynjólfsson, bóndi í Botni, og kona hans, Margrét Guðmundsdóttir.[551] Ungur að árum tók hann við búi í Botni en þar og/eða á Kvíanesi, sem er næsti bær við Botn, höfðu forfeður hans í beinan karllegg búið frá því snemma á 17. öld.[552]

Liðlega tvítugur að aldri kvæntist Brynjólfur Sigríði Guðmundsdóttur sem var systir Friðberts Guðmundssonar er lengi bjó í Fremri-Vatnadal en átti síðast heima í Hraunakoti í Vatnadal.[553] Sigríður var einu ári eldri en Brynjólfur, fædd 1824 (sjá hér Garðar). Frá foreldrum hennar, Guðmundi Jónssyni og Ingibjörgu Jónsdóttur, sem bjuggu um skeið á Görðum í Önundarfirði en fluttust til Súgandafjarðar árið 1843, er sagt hér á öðrum stað (sjá hér Garðar). Í elli sinni dvöldust þau Guðmundur og Ingibjörg lengi á heimili dóttur sinnar og Brynjólfs, fyrst í Botni frá 1849 til 1857 og síðan í Bæ frá 1857 til 1859 en Ingibjörg, tengdamóðir Brynjólfs, dó hjá honum hér í Bæ þann 10. nóvember á því ári.[554] Guðmundur tengdafaðir hans fór tveimur árum síðar úr Bæ að Fremri-Vatnadal til Friðberts sonar síns og dó þar 1863.[555]

Þegar Brynjólfur Jónsson fluttist búferlum úr Botni og hingað í Bæ vorið 1857 var hann að verða 32ja ára gamall. Óljóst er nú hvað olli þessum búferlaflutningum. Árið 1850 bjó Brynjólfur í Botni með 2 kýr, 1 kvígu, 24 ær, 20 gemlinga, 24 lömb og 1 hest.[556] Tíu árum síðar var bú hans hér í Bæ nokkru stærra, 4 kýr, 27 ær, 6 fullorðnir sauðir eða hrútar, 9 gemlingar og 3 hestar.[557] Árið 1870 hafði kúm Brynjólfs fækkað aftur niður í tvær en sauðféð var þá nokkru fleira en verið hafði 1850 og 1860.[558] Að gemlingum meðtöldum en lömbum ekki töldust kindurnar á búi Brynjólfs vera 61 árið 1870 og var hann þá annar fjárflesti bóndinn í Súgandafirði.[559] Hjá Kristínu Þórarinsdóttur á Stað voru hausarnir heldur fleiri. Enginn bóndi í Suðureyrarhreppi var þá með fleiri en tvær kýr.[560] Brynjólfur bóndi í Bæ var talinn mikill sjósóknari og aflasæll. Hann var formaður í hákarlalegum og er sagt að einn vetur hafi tekjur hans af hákarlaveiðunum verið svo miklar að hann gat keypt fyrir þær hálfa jörðina Botn í Súgandafirði[561] (sbr. hér Botn). Slík uppgrip þóttu sæta tíðindum.

Búnaðarskýrslur bera með sér að Brynjólfur átti yfirleitt einn eða fleiri báta. Árið 1850 átti hann einn sexæring eða fjögra manna far og annan minni bát, árið 1860 átti hann bara einn lítinn bát, sem var tveggja eða þriggja manna far, en 1870 átti hann tvo slíka báta og líka stærri bát sem var sexæringur eða fjögra manna far.[562] Sagt er að Brynjólfur hafi alla tíð verið dugnaðar- og forstandsbóndi[563] og frá 1870 til 1873 var hann hreppstjóri í Suðureyrarhreppi.[564]

Konu sína, Sigríði Guðmundsdóttur, missti Brynjólfur vorið 1863 en kvæntist aftur 26. október 1865 og gekk þá að eiga Málfríði Guðmundsdóttur[565] sem var dóttir hjónanna Guðmundar Úlfssonar og Guðfinnu Þorgilsdóttur er bjuggu alllengi á Laugum í Súgandafirði.[566] Brynjólfur eignaðist börn með báðum konunum og komust sum þeirra upp (sjá hér bls. 54-55).

Við húsvitjun í marsmánuði árið 1863 var Málfríður komin á heimili Brynjólfs og Sigríðar konu hans í Bæ.[567] Prestur segir þá að hún sé ráðskona[568] sem bendir til þess að Sigríður hafi verið orðin heilsulaus, enda dó hún þá um vorið, þann 5. júní.[569]

Elsta barn Brynjólfs og Málfríðar, sonurinn Albert, fæddist 5. desember 1863[570] svo ljóst er að Brynjólfur bóndi hefur farið að halla sér að ráðskonunni nokkru áður en eiginkonan gaf upp öndina. Annan son eignuðust þau vorið 1865[571] en voru hins vegar ekki pússuð saman af presti fyrr en um veturnætur á því ári eins og fyrr var  nefnt.

Þegar Brynjólfur gekk að eiga Málfríði var hann 40 ára að aldri en hún 29 ára.[572] Svo virðist sem mikið hafi verið um dýrðir í brúðkaupi þeirra því báðir svaramennirnir við hjónavígsluna voru sóttir í önnur byggðarlög.[573] Svaramaður Brynjólfs var Jón Vedholm, vert á Ísafirði, en Málfríðar, Torfi Halldórsson, útgerðarmaður og síðar verslunarstjóri á Flateyri.[574]

Svo virðist sem Brynjólfur og Málfríður hafi lifað í lukkunnar velstandi næstu ár en sú sæla varð þó skammvinn.

Þriðjudaginn 17. desember 1873 fóru fimm menn úr Staðardal yfir Klofningsheiði að sækja bát sem verið hafði í viðgerð á Flateyri.[575] Einn þeirra var Brynjólfur Jónsson, bóndi í Bæ,[576] og má telja nær fullvíst að hann hafi átt bátinn.

Næsta dag héldu þeir heimleiðis á bátnum en lentu á skeri rétt við lendingu Bæjarmanna í Stöðinni og fórust þar allir.[577] Frá þessu átakanlega slysi segir Valdimar Þorvaldsson í ritgerð sinni Slys og mannskaðar úr Staðardal á síðasta hluta 19. aldar og kemst þá m.a. svo að orði:

 

Brynjólfur var formaður í þessari ferð en Guðmundur var þar mest hraustmenni og á besta aldri.

Meðan þeir voru í þessari ferð sinntu tveir unglingar fénu við sjóinn í árósnum. Það voru Albert, sonur Brynjólfs, 10 ára, og Jón Egilsson, 13 ára (úr Bolungavík).

Þegar þeir koma til sjávarins næsta kvöld (18. desember) þá sjá þeir bát koma fyrir Stórhólinn, sem er yst á Sauðanesi sem sér á úr Árós. Það greip þá sú hugsun að hraða sem mest verkum sínum til að geta látið fólkið vita að þeir væru að koma úr kaupstaðnum. Að loknum verkum sínum lögðu þeir strax af stað fram í Bæ. Bátnum hafði óðum munað inn meðan þeir voru að sinna kindunum og er þeir komu á Brunnshrygg, sem er á miðri leið heim, þá sjá þeir bátinn fara fyrir Árósinn. Fjórir reru en fimmti sat aftur á. Var talið að það myndi hafa verið Brynjólfur. Drengirnir héldu á og sögðu frá hvað ferðamönnunum liði. Sá tími leið sem von var á þeim heim en þeir komu ekki og þannig leið kvöldið. Var þá drengjunum borið að hafa farið með ósannindi og ætlað að gabba fólkið. En þeir héldu fast við það sem þeir höfðu sagt. En fólkið mun ekki hafa viljað trúa öðru en að þeir væru kyrrir á Flateyri og ekki viljað þurfa að trúa öðru.[578]

 

Valdimar greinir frá því að fimmtudaginn 19. desember hafi maður frá Bæ verið sendur inn að Suðureyri til að kanna hvort báturinn hefði komið þangað.[579] Svo var ekki. Þann dag og hinn næsta var norðaustan bylur en laugardaginn 21. desember birti upp og að morgni þess dags lagði Friðbert Guðmundsson, bóndi í Vatnadal, af stað vestur á Flateyri til að spyrjast fyrir um bátinn og mennina fimm.[580] Fór hann gangandi yfir Klofningsheiði.[581] Sama dag fór Þorbjörn Gissurarson, bóndi á Suðureyri, á bát út í Stöð þar sem Bæjarmenn voru vanir að lenda og var þar staddur á fjörunni.[582] Einhverjir fleiri fóru með Þorbirni og er þeir voru að athuga meðfram skerjunum sáu þeir móta fyrir einhverju hvítu við botninn í vogmynninu.[583] Reyndist það vera lík Brynjólfs bónda Jónssonar[584] og þar með varð ljóst hvað hér hafði gerst. Lík hinna fundust aldrei.[585] Þeir sem hér voru kunnugastir töldu fullvíst að þeir sem á bátnum voru hefðu beygt of fljótt upp og báturinn tekið niðri á horni ytra skersins við voginn en um leið hefði Brynjólfur hrokkið út og sokkið fyrr en varði því ekkert var við hendina til að fleyta sér á.[586] Ætla má að gat hafi komið á bátinn eða honum hvolft og allt borið frá landi nema lík Brynjólfs því þarna við skerin er oft þungur súgur.[587]

Fjórir mannanna sem drukknuðu 18. desember 1873 áttu heima í Bæ og í þeim hópi voru tveir af bændunum þremur sem hér bjuggu. Sá eini sem eftir lifði var Guðmundur Jóhannesson á Langhól en hann missti elsta son sinn í þessu slysi.

Brynjólfur Jónsson, hreppstjóri í Bæ, var 48 ára gamall þegar hann drukknaði (sjá hér bls. 49) rétt við heimavör Bæjarmanna í Stöð, undir fjallinu Spilli. Hann lét eftir sig eiginkonu, fjögur börn þeirra og hið fimmta á leiðinni.[588] Auk þess átti Brynjólfur tvö uppkomin börn af sínu fyrra hjónabandi.[589]

Með Brynjólfi fórust þessir menn: Bergur Lárentíusson, bóndi í Bæ, 49 ára (sjá hér Staður, Lækjarhús þar), lét eftir sig eiginkonu og þrjár dætur innan við tvítugt,[590] Magnús Mindelberg Guðmundsson, 20 ára bóndasonur frá Langhól í Bæ,[591] Jón Hákon Jónsson, 24 ára vetrarmaður hjá Brynjólfi hreppstjóra í Bæ,[592] og Guðmundur Þórarinsson, 31 árs, ráðsmaður hjá móður sinni á Stað, lét eftir sig eiginkonu og þrjú ung börn (sjá hér Staður). Þeir Brynjólfur, hreppstjóri í Bæ, og Guðmundur Þórarinsson á Stað voru svilar, kvæntir systrunum Málfríði og Guðbjörgu Guðmundsdætrum[593] en þær voru dætur hjónanna Guðmundar Úlfssonar og Guðfinnu Þorgilsdóttur sem bjuggu alllengi á Laugum í Súgandafirði (sjá hér Laugar). Frá Málfríði segir hér nánar síðar (sjá Botn).

Á því sem hér hefur verið ritað má sjá að börnin sem urðu föðurlaus í síðustu viku jólaföstu árið 1873 voru ellefu, átta í Bæ og þrjú á Stað. Er þá talið með hið ófædda barn Brynjólfs hreppstjóra, sem Málfríður kona hans bar undir belti, en ekki þau börn hans sem komin voru yfir tvítugt.

Eins og gengur fóru á kreik ýmsar sögur er tengdust þessu hörmulega slysi. Sagt var að Brynjólfur hefði tekið út talsvert mikið af peningum hjá versluninni á Flateyri í þessari ferð en engir fjármunir fundust á líkinu.[594] Á því var sú skýring gefin að hann myndi hafa fengið svila sínum, Guðmundi Þórarinssyni, peningana til varðveislu.[595] Bróðir Guðmundar taldi sig vita að það hefði Brynjólfur jafnan gert í kaupstaðarferðum þeirra, væri hann sjálfur með víni.[596] Við þessa frásögn spannst 20 árum síðar sú saga að ókenndan bát með einu líki innanborðs hefði rekið einhvers staðar við Breiðafjörð og sá látni haft á sér peninga sem dugðu fyrir útför hans.[597] Þessa furðusögu tengdu þá ýmsir við hvarf bátsins frá Bæ og trúðu því að Guðmundur Þórarinsson á Stað hefði hlotið leg í byggðum Breiðafjarðar.[598]

Þegar mannskaðinn varð í Staðardal árið 1873 bjó Þórður Þórðarson í Ytri-Vatnadal en hann og Guðmundur Þórarinsson voru fósturbræður og systrasynir (sjá hér Staður og Ytri-Vatnadalur). Þórður var hagmæltur og batt í rím frásögn af hinu átakanlega slysi. Í kvæði því eru 38 vísur.[599] Segir þar m.a. svo:

 

 

Dag seytjánda desember,

dylst ei brjótum sverða,

bjuggust fimm menn burtu hér

frá Bæ til heimanferða.

 

Brynjólfur og Bergur var,

sem bjuggu sig með hraða,

báðir þessir bragnar þar

bændur sama staðar.

 

Ég má telja Jón Hákon,

jafnt með hlynum spanga,

Magnús líka í mennta von

með frá hóli Langa.

 

Görpum fylgdi Guðmundur

greitt frá Stað, hinn djarfi,

þundur stála þreklyndur,

Þórarins var arfi.

 

Hann var ástvin mesti minn,

mætur þórinn spanga.

Hans ég sakna sorgbitinn

sífellt ævi langa.


Yfir háan heiðarbekk

hentugt fengu leiði.

Allvel ferðin áfram gekk,

yfir Klofningsheiði.

 

Fram til stefndu Flateyrar

firðar dags við skímu.

Önnum kafnir ýtar þar

eina dvöldu grímu.

 

Strax að morgni hugðu hratt

heimför sína rækja.

Bátinn tóku geð með glatt

sem garpar voru að sækja.

 

– – – – –

 

Ekki get ég ending máls

óðar – fært í kverið

en líklegt er að lundum stáls

lenst hafi upp á skerið.

 

– – – – –

 

Látum dæmi þetta þá

þjóna oss til vara,

að vér hljótum allir frá

eitt sinn héðan fara.

 

Að Brynjólfi Jónssyni látnum bjó ekkja hans, Málfríður Guðmundsdóttir, áfram í Bæ allt til vorsins 1877 er hún fluttist vestur á Ingjaldssand en þá tók við stjúpsonur hennar, Hálfdán Brynjólfsson.[600] Tvö börn sem Brynjólfur eignaðist með fyrri konu sinni náðu að komast upp og voru það nýnefndur Hálfdán sem bjó síðar á Gelti, fæddur 1848, og María, fædd 1850, sem giftist Magnúsi Benónýssyni, bónda á Brekku á Ingjaldssandi.[601] Af börnum Brynjólfs með seinni konunni er helst að nefna þá Albert og Jón sem báðir urðu skipstjórar á Ísafirði, fæddir 1863 og 1865.[602]

Margrét Eiríksdóttir, sem átt hafði Berg Lárentíusson fyrir eiginmann, bjó áfram búi sínu til vorsins 1875 en fór þá í húsmennsku.[603]

Á árunum 1877-1896 hófu níu bændur búskap í Bæ og á því skeiði var hér oftast þríbýli.[604] Fimm þessara bænda bjuggu á þeim jarðarparti sem í sóknarmannatölum er oft nefndur 1. býli[605] en bærinn sem því fylgdi var fyrr á 19. öldinni nefndur neðri bær (sjá hér bls. 33) og má vera að svo hafi einnig verið við lok aldarinnar. Tóttir hans standa enn (sjá hér bls. 97-98).

Hálfdán Brynjólfsson bjó á þessu býli í tvö ár, 1877-1879, en fluttist þá að Gelti (sjá hér Göltur) og andaðist þar 32ja ára gamall, 22. janúar 1881.[606] Hálfdán var sonur Brynjólfs Jónssonar, bónda og hreppstjóra í Bæ, og fyrri konu hans, Sigríðar Guðmundsdóttur, eins og hér hefur áður verið nefnt. Kona Hálfdánar var Helga Þórarinsdóttir, dóttir Kristínar Þórarinsdóttur á Stað.[607] Helga giftist seinna Guðmundi Andréssyni[608] sem á efri árum átti heima í Hraunakoti í Vatnadal (sjá hér Fremri-Vatnadalur, Hraunakot þar).

Á þeim árum sem Hálfdán bjó í Bæ átti hann með Málfríði, stjúpmóður sinni, bát sem hét Haukur.[609] Báturinn hafði sérstakan reikning hjá verslun Hjálmars Jónssonar á Flateyri og árið 1877 voru greiddar kr. 115,50 fyrir saltfisk sem lagður var inn hjá versluninni á hans nafni og kr. 8,88 fyrir þorskalýsi.[610]

Þegar Hálfdán Brynjólfsson fór úr Bæ að Gelti vorið 1879 færði Ólafur Lárentíusson sig hingað og bjó hér í 2 ár. Hann var mun lengur bóndi á Gelti og segir frá honum á öðrum stað í þessu riti (sjá hér Göltur). Guðmundur Guðmundsson settist á þennan jarðarpart vorið 1882 og bjó hér til 1893 en síðan Markús sonur hans frá 1893 til 1896. Guðmundur fluttist að Bæ frá Neðri-Breiðadal í Önundarfirði og hefur áður verið dálítið um hann fjallað (sjá hér Neðri-Breiðadalur) en frá honum og hans fólki verður nánar sagt þegar við stöldrum við á Þverá, þurrabúðarkoti sem reist var í landi Bæjar árið 1897 (sjá hér bls. 100-109). Frá Guðna Egilssyni, sem hóf búskap á þessum sama jarðarparti í Bæ vorið 1896 og bjó hér til 1898 en síðan ekkja hans til 1906, er líka sagt hér litlu aftar (sjá bls. 59-65, sbr. hér bls. 73-92).

Á 2. býli í Bæ, fremri bænum, sem áður var nefndur svo, bjó Bergur Lárentíusson en hann drukknaði á jólaföstu árið 1873. Þangað mun Guðmundur Jóhannesson hafa fært sig frá Langhól þegar ekkja Bergs hætti að búa vorið 1875 (sjá hér bls. 42). Vorið 1878 hætti Guðmundur búskap um sinn og fór í húsmennsku.[611] Guðmundur og Kristín kona hans áttu heima í Bæ mörg næstu ár og hafa að líkindum setið um kyrrt í sama bænum þó að hætt væru við búskapinn.

Bændurnir sem hófu búskap á 2. býli í Bæ á árunum 1877-1896 voru fjórir að meðtöldum Guðmundi Jóhannessyni er áður hafði lengi verið bóndi í Bæ en síðan húsmaður um nokkurt skeið. Þórður Andrésson, sem hafði hafst hér við sem húsmaður í fáein ár, gerðist bóndi á þessum jarðarparti árið 1881 og bjó hér til 1888.[612] Þá tók við Jóhann sonur hans, einhleypur maður, og bjó í eitt ár.[613] Vorið 1889 byrjaði Guðmundur Jóhannesson, sem kominn var um sextugt, búskap á nýjan leik og bjó á þessum jarðarparti í tvö ár en síðan Jón sonur hans frá 1891-1898.[614] Þórður Andrésson, sem hér var nefndur, var Önfirðingur en fluttist til Súgandafjarðar árið 1876 ásamt konu sinni, Jóhönnu Guðmundsdóttur.[615] Jóhanna var systir Arnfríðar Guðmundsdóttur, fyrri konu Friðberts Guðmundssonar, bónda í Fremri-Vatnadal.[616] Þórður og Jóhanna höfðu áður búið á ýmsum jörðum í Önundarfirði, m.a. á Ytri-Veðrará og er frá þeim sagt á öðrum stað í þessu riti (sjá hér Ytri-Veðrará). Þegar Þórður gafst upp á búskapnum hér í Bæ vorið 1888 tók Jóhann sonur þeirra hjóna við og bjó í eitt eða tvö ár.[617] Hann var síðar lengi ráðsmaður í Selárdal í Súgandafirði, hjá ekkjunni Sigríði Friðbertsdóttur (sjá hér Selárdalur) en þau voru systrabörn. Annað barn Þórðar og Jóhönnu var Halldóra sem um skeið var húsfreyja á Gilsbrekku (sjá hér Gilsbrekka), móðir Helga Sigurðssonar er lengi var formaður á Suðureyri og síðar á Flateyri.

Þriðja býlið í Bæ var Langhóll. Þar hófu búskap vorið 1878 hjónin Magnús Jónsson og Vigdís Kristjánsdóttir.[618] Þau fluttust þá í Súgandafjörð vestan úr Arnarfirði[619] en Magnús var sonur Jóns Magnússonar, áður bónda í Bæ, og sonarsonur Magnúsar Guðmundssonar er á sínum tíma bjó hér einn á allri jörðinni og átti hana[620] (sjá hér bls. 34-35). Skylt er að nefna að í riti sínu Vestfirskum ættum segir Valdimar B. Valdimarsson frá Hnífsdal að Magnús Jónsson hafi búið í Bæ frá 1878 til 1884 og síðan á Langhól frá 1884 til 1898.[621] Valdimar Þorvaldsson, sem fæddist í Súgandafirði árið 1878 og ól hér nær allan aldur sinn, segir hins vegar að Magnús hafi búið á Langhól alveg frá því hann kom í Súgandafjörð[622] og má ætla að hann hafi þar rétt fyrir sér svo nálægt vettvangi sem hann var. Samt er það ekki alveg víst og sóknarmannatölin skera ekki úr um þetta svo óyggjandi sé því þar er nafnið Langhóll sjaldan eða aldrei nefnt.

Bændurnir þrír sem bjuggu í Bæ við upphaf ársins 1898, þeir Guðni Egilsson, Jón Guðmundsson og Magnús Jónsson, drukknuðu allir með Sturlu Jónssyni á Stað þann 28. febrúar á því ári. Sturla og menn hans fórust í fárviðri undan fjallinu Öskubak, sem er milli Skálavíkur og Keflavíkur norðan Súgandafjarðar, og voru þá á landleið úr fiskiróðri. Hér hefur áður verið greint frá þessu hörmulega slysi en á bátnum frá Stað voru sex menn og týndu allir lífi (sjá hér Staður). Þeir áttu allir heima í Staðardal. Sama dag fórust tveir Súgfirðingar með bát úr Bolungavík og var annar þeirra líka héðan úr dalnum (sjá hér Staður). Þegar Sturla á Stað og menn hans fórust voru aðeins liðin 24 ár og 2 mánuðir síðan fjórir menn frá Bæ og einn frá Stað drukknuðu fáum dögum fyrir jól árið 1873 eins og frá er sagt hér litlu framar. Var því skammt stórra högga á milli.

Hér verður nú sagt lítið eitt nánar frá bændunum þremur sem bjuggu samtímis hér í Bæ undir lok 19. aldar og fórust allir í einu þann dimma dag, 28. febrúar 1898.

Elstur þeirra og sá sem lengst hafði staðið hér fyrir búi var Magnús Jónsson á Langhól sem orðinn var 57 ára gamall.[623] Hann fæddist hér í Bæ 30. júní árið 1840 og var sem áður sagði sonur Jóns Magnússonar er þá hafði nýlega tekið við búsforráðum af móður sinni, Bergljótu Össurardóttur, ekkju Magnúsar Guðmundssonar. Eiginkona Jóns Magnússonar og móðir Magnúsar Jónssonar var Guðrún Guðmundsdóttir, fædd 1815, dóttir Guðmundar skutlara Guðmundssonar í Vigur og konu hans, Guðbjargar Þorláksdóttur,[624] sem reyndar var dóttir séra Þorláks Jónssonar er prestur var á Stað í Súgandafirði frá 1802 til 1812.[625] Þegar Magnús var um sjö ára aldur fluttust foreldrar hans burt héðan norður að Sandeyri á Snæfjallaströnd og þar andaðist faðir hans fáum mánuðum síðar (sjá hér bls. 34-35). Móðir Magnúsar hélt áfram búskap á Sandeyri og giftist í annað sinn sumarið 1849.[626] Sá eiginmaður hennar hét Helgi Guðmundsson en hann varð skammlífur og drukknaði 27 ára gamall 18. desember 1851.[627]

Magnús Jónsson, síðar bóndi á Langhól hér í Bæ, ólst upp hjá móður sinni á Sandeyri frá 7 ára aldri. Hann var þar hjá henni haustið 1850[628] og líka haustið 1855, þá 15 ára gamall, en móðir hans var þá gift Kristjáni Bjarnasyni er var hennar þriðji eiginmaður.[629] Magnús barst síðar vestur í Auðkúluhrepp[630] en þar var frændfólk hans á annarri hverri þúfu því Guðmundur skutlari í Vigur, móðurafi Magnúsar, var sonur Guðmundar Arasonar, bónda á Auðkúlu í Arnarfirði.[631] Sonur Guðmundar skutlara, sem Kristján hét, ólst upp hjá afa sínum á Auðkúlu og varð seinna bóndi á Borg í Auðkúluhreppi (sjá hér Borg). Þessi móðurbróðir Magnúsar Jónssonar eignaðist mikinn fjölda barna, þar á meðal nokkrar dætur. Tveimur þeirra kvæntist Magnús, fyrst Guðbjörgu og síðan Vigdísi, að Guðbjörgu látinni.[632] Með fyrri konunni eignaðist hann ekkert barn sem náði að lifa en þrjú af börnum þeirra Vigdísar komust upp[633] og verður þeirra síðar getið.

Haustið 1870 voru Magnús og fyrri kona hans vinnuhjú í Lokinhömrum.[634] Þremur árum síðar var hann kominn að Auðkúlu og var þar vinnumaður i tvö ár en í desembermánuði árið 1875 voru þau bæði orðin vinnuhjú á Horni í Mosdal, Magnús og seinni eiginkonan, Vigdís Kristjánsdóttir.[635] Þar eignuðust þau sitt fyrsta barn, Guðrúnu Önnu, sem fæddist 15. ágúst 1876.[636] Segir hér nánar frá henni síðar (sjá hér bls. 65-71 og Suðureyri).

Við lok ársins 1877 voru Magnús og Vigdís kona hans enn á Horni en vorið 1878 fluttust þau búferlum hingað í Bæ og fóru að búa á Langhól.[637] Valdimar Þorvaldsson segir að Magnús hafi fengið í arf þann part úr Bæjarjörðinni sem hann hóf búskap á þetta vor.[638] Vel gæti það verið rétt því afi hans og amma, sem hér bjuggu, þau Magnús Guðmundsson og Bergljót Össurardóttir, áttu alla jörðina (sjá hér bls. 24-32). Þau eignuðust bara tvo syni og enga dóttur svo ætla má að synirnir tveir hafi erft sína hálflenduna hvor. Annar þeirra var Jón, faðir Magnúsar þess er nú settist á sína föðurleifð.

Frá vorinu 1878 til síns endadægurs bjó Magnús Jónsson búi sínu hér á Langhól eða í nær 20 ár. Árið 1880 var bústofn hans 2 kýr, 12 ær, 10 gemlingar og einn hestur.[639]

Í minningarorðum um Sturlu Jónsson og skipverja hans er týndu lífi 28. febrúar 1898 segir að Magnús á Langhól hafi verið mannskapsmaður mikill, vingjarnlegur og góðsamur.[640] Valdimar Þorvaldsson, sem átti nær alla ævi heima í Súgandafirði, var kominn um tvítugt þegar mannskaðinn varð í lok febrúar árið 1898. Hann mundi því vel eftir Dalmönnunum sem þá gengu fyrir ætternisstapa og ritar um Magnús á þessa leið:

 

… Hann var stór og lítið minni en Sturla [þ.e. Sturla Jónsson á Stað sem Valdimar segir hafa verið „með stærstu mönnum” og 90 kíló að þyngd – innsk. K.Ó.] og að sama skapi lipur ef með þurfti. Um 50 ára aldur var hann foringi í bændaglímu í Staðardal. Það voru menn af 5 bátum og þegar allir hans menn voru fallnir, þá lagði hann alla sem eftir voru af hinum. Hann var talinn hafa verið fríðleiksmaður.[641]

 

Með seinni konu sinni, Vigdísi Kristjánsdóttur, sem lifði mann sinn, eignaðist Magnús þrjú börn og var hið yngsta 13 ára en hið elsta 21 árs þegar faðir þeirra andaðist.[642]

Magnús á Langhól var 57 ára gamall er hann drukknaði[643] og elstur allra skipverja Sturlu Jónssonar.[644] Þeir Jón Guðmundsson og Guðni Egilsson voru mun yngri, Jón 36 ára[645] en Guðni rétt tæplega fertugur.

Jón fæddist á Langhól hér í Bæ 1. júní 1861 og þegar hann týndi lífi 28. febrúar 1898 voru liðin nær sjö ár frá því hann hóf hér búskap.[646] Hann var sonur hjónanna Guðmundar Jóhannessonar og Kristínar Guðbrandsdóttur eins og hér hefur áður verið nefnt og ólst upp á heimili þeirra, fyrst á Langhól en síðan á því býlinu hér í Bæ sem hann fór sjálfur að búa á vorið 1891.[647]

Jón Guðmundsson er sagður hafa verið meðalmaður á hæð, beinvaxinn og prúðmenni mikið í allri framgöngu og snyrtimenni svo af bar.[648] Áður en hann fór að búa var Jón lengi vinnumaður hjá séra Stefáni P. Stephensen, fyrst í Holti í Önundarfirði og síðan í Vatnsfirði.[649] Á þeim árum var hann oft við sjóróðra frá verstöðvum við Ísafjarðardjúp.[650] Kona Jóns Guðmundssonar var Guðríður Kristjánsdóttir frá Barmi í Gufudalssveit.[651] Þau eignuðust tvö börn sem bæði voru á ungum aldri þegar faðir þeirra týndi lífi.[652] Í minningarorðum um þá sem fórust með Sturlu á Stað er Jóni bónda í Bæ lýst með þessum orðum: [Hann] var ráðdeildar- og dugnaðarmaður, nettmenni og prúðmenni, stilltur og sérlega dagfarsgóður og mátti heita hugljúfi allra.[653]

Guðni Egilsson var eins og áður sagði þriðji bóndinn í Bæ sem týndi lífi þegar báturinn frá Stað fórst 28. febrúar 1898. Hann hafði búið hér mun skemur en þeir Jón og Magnús, aðeins í tæp tvö ár.[654]

Guðni fæddist í Hraundal í Nauteyrarhreppi við Djúp 18. mars árið 1858.[655] Móðir hans var Guðríður Eiríksdóttir, þá 28 ára gömul vinnukona hjá Agli Guðmundssyni, bónda í Hraundal, og kenndi hún barnið vinnumanni á bænum sem Sveinbjörn hét og var Sveinbjörnsson.[656] Guðni var þriðja barn Guðríðar en fyrsta barn sitt eignaðist hún árið 1849 með stjúpföður sínum, Þorsteini Snæbjarnarsyn. Fyrir þá barneign voru þau bæði dæmd til dauða en náðuð síðar af kóngi (sjá hér bls. 83-92).

Þegar presturinn í Kirkjubólsþingum, séra Torfi Magnússon á Brekku, skráir fæðingu Guðna segir hann Sveinbjörn Sveinbjörnsson vera föður drengsins[657] en seinna neitaði Sveinbjörn faðerninu.[658]Við yfirheyrslur hjá sýslumanni sumarið 1859 játaði Guðríður að Egill Guðmundsson, sem verið hafði húsbóndi hennar fardagaárið 1857-1858, væri faðir Guðna.[659] Sumarið 1859 var Guðríður komin að Bæjum á Snæfjallaströnd og þar fóru yfirheyrslur í barnsfaðernismálinu fram þann 1. júlí á því ári.[660] Var þá m.a. þetta fært til bókar:

 

Hún [Guðríður] segist sumarið fyrr [1857] hafa haft samræði við tvo karlmenn, með Sveinbirni Sveinbjörnssyni snemma á túnaslætti inni í baðstofurúmi um dagtíma og seinna á útengjaslætti í tjaldi, sömuleiðis um dagtíma. Hún játar sömuleiðis að hafa haft samræði við Egil húsbónda sinn Guðmundsson útá víðavangi við smalamennsku á geldkindum, seint um dag, eftir því sem maður kemst næst af hennar sögusögn kringum þann 11. júní árið fyrr og segir hann vera föður að barninu. Ekki segist hún af nokkrum fyrr hafa verið spurð um faðerni og heldur engum sagt fyrr en nú en hún hafi heyrt að Sveinbjörn hafi játast undir það og að hún hafi látið það svo gott heita. Ekki hafi Egill eða nokkur annar beðið sig að útleggja nokkurn sem barnsföður því það hafi aldrei verið orðað af nokkrum og presturinn hefði heldur ekki spurt að því.[661]

 

Egill bóndi Guðmundsson var um fertugt þegar Guðríður kenndi honum barnið, kvæntur og margra barna faðir.[662] Kona hans hét Þorbjörg Jónsdóttir[663] og vorið 1858 höfðu þau flust búferlum frá Hraundal í Nauteyrarhreppi að Laugabóli í Ögursveit.[664] Þann 15. ágúst 1859 setti Stefán Bjarnarson sýslumaður pólitírétt í Ögri og hafði Egill verið kallaður þangað til yfirheyrslu í barnsfaðernismáli Guðríðar. Hún var þar líka, komin norðan frá Bæjum,  og í dómabókinni er þetta skráð:

 

Hann [Egill] segist hafa haft samræði við Guðríði en vill ekki segja hvenær eða hvar. Upp á margar spurningar af dómarans hálfu svaraði hann ekki nema með undanbrögðum. Ekki heldur vildi hann sverja fyrir barnið þá honum var eiðurinn boðinn. Var þá Guðríður að spurð hvort  hún vildi sverja barnið upp á Egil Guðmundsson og var hún þess fús. Var þá áminnt um að segja sannleikann og áminningarræðan upplesin fyrir henni og aflagði hún eið sinn örugg að viðlögðum eiðstafnum: „Svo sannarlega hjálpi mér guð og hans heilaga orð, amen.” [665] Varð þá Guðni Egilsson. Að svo búnu var rétturinn hafinn.[666]

 

Merkilegt er að Agli skyldi vera boðið að sverja fyrir barnið, enda þótt hann hefði játað að hafa átt samfarir við Guðríði. Sýnir þetta vel hvílíkra forréttinda karlmenn nutu á þessum tíma umfram kvenfólkið. Egill hafnaði þó boðinu svo ljóst er að hann hefur ekki viljað sverja rangan eið, máske af ótta við að brenna þá í helvíti um síðir. Engu að síður neitaði hann að skrifa undir það sem bókað hafði verið í réttinum[667] og viðurkenndi því ekki faðernið að svo stöddu.

Á fyrstu árum ævinnar fylgdi Guðni móður sinni og kom með henni frá Tungu í Skutulsfirði að Kvíanesi í Súgandafirði vorið 1862.[668] Á Kvíanesi voru þau mæðgin í þrjú ár og var Guðríður allan þann tíma vinnukona hjá Friðrik Verner Gíslasyni og konu hans Guðrúnu Sigurðardóttur.[669] Árið 1865 fluttist Guðríður til Ísafjarðar[670] og um svipað leyti fór Guðni sonur hennar inn að Laugabóli til föður síns.[671] Er Guðni kom að Laugabóli var hann um sjö ára aldur og þar átti hann heima næstu ellefu árin eða því sem næst.[672] Í sóknarmannatölum Ögurþinga frá árunum 1870 og 1872 er þessi launsonur Egils bónda á Laugabóli sagður vera smali á búi föður síns.[673]

Átján ára gamall kvaddi Guðni föður sinn og allt hans fólk á Laugabóli og fluttist til móður sinnar sem þá hafði verið búsett í Súgandafirði síðustu fimm árin.[674] Frá móður Guðna, Guðríði Eiríksdóttur, er sagt hér nánar á öðrum stað (sjá bls. 83-92).

Guðni Egilsson kom í Súgandafjörð árið 1876 og var næstu fimm árin vinnumaður á Kvíanesi en síðan fjögur ár í Selárdal.[675] Árið sem Guðni náði tvítugsaldri lætur prestur þess getið að þessi ungi vinnumaður sé vel uppfræddur.[676] Í Selárdal var Þorvaldur Gissurarson húsbóndi Guðna. Valdimar, sonur Þorvaldar, var á þeim árum barn að aldri en síðar sagði hann svo frá framgöngu Guðna og áliti föður síns á honum:

 

Það fór fljótt mikið orð af þessum unga manni. Hann leysti þær aflraunir og þrautir sem við hafði verið átt, tók upp stein, 180 kíló, og fleira. Hann var laglegur maður, meðalmaður að stærð og samsvaraði sér vel, verkmaður laginn og góður og eftirsóttur til vinnu á landi og sjó. Hann var hverjum manni liprari að ná yfirráðum og stjórn yfir félagsmönnum sínum ef með þurfti. Meðan hann var hjá móður sinni var hann vinnumaður hjá Þorvaldi Gissurarsyni í Selárdal sem venjulega hafði marga menn. Hann var þar að nokkru eða öllu í 5 ár. Hann var þar mikils metinn. Þorvaldur sagði að hann hefði verið sá maður sem fljótast hefði haft góð ráð á reiðum höndum ef með þurfti af öllum sem hann hefði haft.[677]

 

Á öðrum stað getur Valdimar þess að Guðni hafi verið geðlipur og glaðlyndur en átt til að vera stríðinn.[678]

Er Guðni kom í Selárdal vorið 1881 var hann 23ja ára gamall. Valdimar staðhæfir að á fyrstu árum Guðna þar hafi þessi ungi vinnumaður átt bát og verið formaður á honum við róðra frá Bolungavík.[679] Að sögn lánaðist formennskan hins vegar ekki vel hjá Guðna því um hana ritar Valdimar svo: Hann fiskaði illa og fékk ótrú á sjálfum sér með að fiska og reyndi ekki oftar að vera formaður.[680]

Á vinnumannsárum Guðna í Selárdal var hann hins vegar jafnan í skiprúmi í Bolungavík, bæði á vetrarvertíðinni og að vorinu.[681] Á þeim árum varð maður nokkur í Bolungavík fyrir því slysi að skjóta af sér aðra hendina.[682] Guðni og þrír aðrir hrundu þá fram báti og reru með hinn slasaða inn á Ísafjörð, til læknis, á 45 mínútum.[683] Sagt var að aldrei hefðu menn róið úr Víkinni inn á Ísafjörð á skemmri tíma[684] en vegalengdin er tæplega sjö sjómílur.

Báturinn sem Guðni Egilsson átti þegar hann var í Selárdal hét Langa og var að sögn gamall vöðuselsbátur.[685] Þennan bát seldi hann Þorbirni Gissurarsyni á Suðureyri og var báturinn til fram yfir 1920.[686]

Þann 27. september 1885 kvæntist Guðni ungri stúlku sem var óskilgetin eins og hann.[687] Hún hét Guðrún Sigurðardóttir og átti þá heima í Klúku, hjá móður sinni og stjúpföður, Guðnýju Jónsdóttur og Jóni Kristjánssyni sem þar höfðust við í húsmennsku.[688] Frá Guðrúnu segir hér nánar á öðrum stað (sjá bls. 73-83 og Fremri-Vatnadalur, Hraunakot þar).

Fyrstu tvö hjúskaparárin var Guðni bóndi í Klúku[689] en kot þetta var í landi jarðarinnar Botns í Súgandafirði (sjá hér Botn). Vorið 1887 fengu þau Guðni og Guðrún kona hans part úr jörðinni Kvíanesi til ábúðar og bjuggu þar í 9 ár eða allt til vorsins 1896 er þau hófu búskap hér í Bæ.[690] Kvíanes er átta hundraða jörð að fornu mati en á þessu skeiði var þar þríbýli í sex ár og tvíbýli hin þrjú árin[691] svo ekki hefur jarðnæðið verið mikið sem hver bóndi hafði til afnota. Lífsbjörgina varð því að sækja í sjó hvenær sem færi gafst.

Á búskaparárum sínum á Kvíanesi var Guðni einu sinni eða oftar í skiprúmi norður í Bolungavík á vetrarvertíðinni. Að svo hafi verið á árunum 1890-1895 sést í bókinni Dagur er liðinn, ævisögu Guðlaugs Kristjánssonar frá Rauðbarðaholti, en hún er rituð af Indriða Indriðasyni og kom út árið 1947. Guðlaugur var öðru hverju við róðra í Bolungavík á þessum árum[692] og getur stuttlega um Guðna á einum stað í bókinni.[693] Hann er þar að segja kraftasögu af vini sínum, Sóloni Guðmundssyni, er síðar átti lengi heima á Ísafirði og var nefndur Sólon í Slunkaríki, en að sögn Guðlaugs fór Guðni eitt sinn halloka fyrir Sóloni við aflraunir.[694] Sjálfur var Guðlaugur viðstaddur þann atburð og hóf frásögn sína af honum með þessum orðum:

 

Á Bolungavíkurmölum, miðja vegu milli Drimlulækjar og Búðaness var steinn einn mikill er sérstaklega þótti til þess fallinn að reyna á honum afl sitt. Var í hann fest járnhalda … en það var aðeins á færi hinna afrendustu manna að lyfta honum.

Einu sinni sem oftar voru þeir nokkrir að fikta við steininn. Þar á meðal var maður að nafni Guðni Egilsson úr Ögursveit. Hann var vel að manni og vissi líka af því. Áleit hann sig vera einn mesta kraftajötunn við Ísafjarðardjúp. Hann reri þá hjá Jóni Ebba, alkunnum sægarpi í Bolungavík, … enda fór það svo að enginn gat lyft honum [þ.e. aflraunasteininum – innsk. K.Ó.] nema Guðni. Hann tók steininn upp og veittist það þó allerfitt.[695]

 

Guðlaugur greinir síðan frá því að er sýnt þótti að enginn viðstaddra gæti lyft steininum, annar en Guðni, hafi nokkrir strákar farið að sækja Sólon.[696] Hafi þeir gefið honum svolítið í staupinu og hann síðan tekið steininn upp með annarri hendi og borið hann tvær þrjár lengdir sínar.[697] Að sögn Guðlaugs varð Guðni þá að játa sig sigraðan því hann gæti ekki jafnað þessa aflraun.[698]

Sagan sýnir að í hópi vermanna á Bolungavíkurmölum, þar sem margir voru vel að manni, hefur Guðni Egilsson verið talinn flestum öðrum sterkari en fór þó halloka fyrir heljarmenninu Sóloni Guðmundssyni er seinna var kenndur við Slunkaríki.

Að það sé Guðni bóndi á Kvíanesi og síðar í Bæ sem þarna kemur við sögu er fullvíst því enginn annar Guðni Egilsson úr Ögursveit var á þeim aldri að hér geti komið til greina.[699] Það eitt að Guðlaugur kennir Guðna við uppvaxtarhreppinn, Ögursveit, sem bóndinn á Kvíanesi hafði yfirgefið fyrir hálfum öðrum áratug er þeir Sólon voru samtíða í Bolungavík, bendir hins vegar til þess að sögumaðurinn hafi verið lítt kunnugur Guðna. Vera má að Guðlaugur hafi jafnvel ekki vitað hvar Guðni átti heima en aðeins heyrt á skotspónum að hann væri sonur Egils Guðmundssonar á Laugabóli í Ögursveit sem ýmsir nefndu Egil sterka.[700]

Hér var áður vitnað í mjög lofsamleg ummæli Valdimars Þorvaldssonar um Guðna Egilsson. Vera má að eitthvað sé þar ofsagt en ljóst virðist að Guðni hafi verið dugmikill bóndi og vel liðinn af flestum sem honum kynntust. Valdimar mundi vel eftir Guðna og segir hann hafa verið bæði verkséðan og framtakssaman og lætur þess getið að hann hafi byggt upp baðstofu bæði á Kvíanesi og í Bæ.[701] Magnús Hjaltason ber einnig lof á Guðna og segir hann hafa verið hið mesta mikilmenni en einnig ljúfmenni og drenglyndur.[702]

Allra sem fórust með Staðarskipinu 28. febrúar 1898 var minnst í Þjóðviljanum unga, blaði Skúla Thoroddsen sem út var gefið á Ísafirði. Flest sem þar er sagt mun vafalítið byggt á orðum kunnugra manna í Súgandafirði. Um Guðna Egilsson segir þar:

 

Guðni heitinn var framúrskarandi dugnaðarmaður, þrekmikill til sálar og líkama, hreinn og djarfur, vinsamlegur og viðmótsgóður. Efnahagur hans var þröngur en hæfileika hafði Guðni sálugi til þess að teljast meðal fremstu sveitunga sinna.[703]

 

Í Þjóðviljanum er einnig látið í ljósi það álit að Sturlu á Stað og tvo af bændunum í Bæ sem með honum fórust, þá Guðna Egilsson og Jón Guðmundsson, hafi mátt telja merkismenn í sinni stétt og sagt að þeir þrír hafi verið meðal helstu manna í Súgandafirði.[704]

Þegar Guðni Egilsson drukknaði lét hann eftir sig ekkju og fimm börn, hið elsta að verða tólf ára.[705] Ekkja hans, Guðrún Sigurðardóttir, bjó áfram hér í Bæ allt til ársins 1906 og náði að halda börnunum hjá sér að mestu leyti allt þar til þau komust á unglingsár (sjá hér bls. 73-83).

 

Eitt er það lögmál sem lengi virtist óhagganlegt í hverri byggð á landi hér, að lífið héldi þar áfram þrátt fyrir alla mannskaða sem yfir dundu. Svo fór einnig árið 1898 þegar býlin þrjú í Bæ, full af glaðværu fólki, breyttust öll í sorgarhús á einum og sama deginum. Með góðra manna hjálp tókst ekkjunum að baslast áfram næstu mánuðina og allar bjuggu þær hér búi sínu fardagaárið 1898-1899.[706] Áður en lengra verður haldið er vert að rifja upp sitthvað smálegt um mannlífið hér í Bæ það ár og hin allra næstu og skoða hvað varð um ekkjurnar þrjár og þeirra fólk. Lítum þá fyrst við á Langhól hjá Vigdísi Kristjánsdóttur, ekkju Magnúsar Jónssonar.

Vigdís var 47 ára gömul þegar eiginmaður hennar drukknaði.[707] Öll börn þeirra voru þá heima hjá móður sinni, Guðrún Anna, 21 árs, Jón Guðmundur, um það bil 19 ára, og Guðbjörg Lovísa, 13 ára.[708] Efalaust má kalla að Jón Guðmundur hafi verið höfuðstoð móður sinnar við öll þau verk sem karlmenn voru vanir að sinna allt frá því faðir hans drukknaði og þar til móðir hans hætti að búa vorið 1899. Lausamaður á sextugsaldri, sem hét Eiríkur Björnsson, var reyndar líka skráður heimilismaður á Langhól fardagaárið 1898-1899 og kynni að hafa sinnt búverkum að einhverju marki.

Frá lífi fólksins á Langhól í búskapartíð ekkjunnar höfum við fáar fréttir aðrar en þær sem tengjast Guðrúnu Önnu, eldri dótturinni á bænum, en hún trúlofaðist haustið 1898 frænda sínum, alþýðuskáldinu og dagbókarritaranum Magnúsi Hjaltasyni. Magnús andaðist á Suðureyri í Súgandafirði árið 1916 en varð síðar þjóðkunnur vegna hins frábæra skáldverks Halldórs Laxness um Ólaf Kárason Ljósvíking sem kom út í fjórum bindum á árunum 1937-1940 og fékk í annarri útgáfu síðar nafnið Heimsljós. Við sköpun þessa sígilda snilldarverks studdist Halldór eins og alkunnugt er við dagbækur Magnúsar Hjaltasonar og léði sínu alþýðuskáldi, Ljósvíkingnum Ólafi Kárasyni, ýmsa drætti úr fari Magnúsar. Ólafur Kárason er Magnús Hjaltason endurborinn, segir Peter Hallberg í sínu merka riti um skáldverk Halldórs[709] og má til sanns vegar færa.

Báðir áttu þeir Magnús og Ólafur heitkonu en var meinað að ganga í hjónaband vegna gamallar sveitarskuldar. Fylgikona Magnúsar var Guðrún Anna frá Langhól en Ólafur Kárason hreifst af Guðrúnu á Grænhól þó að önnur yrði síðar fylgikona hans. Ýmislegt í lýsingum Halldórs á sambúð Ólafs og fylgikonu hans, Jarþrúðar Jónsdóttur, minnir á skrif Magnúsar um heimilisstríð hans sjálfs en taka verður fram að þær Guðrún Anna og Jarþrúður virðast þó eiga mun færra sameiginlegt en Magnús og Ljósvíkingurinn. Ræður þar nokkru um að í skáldverki Halldórs fær Jarþrúður vissa drætti frá hinni slagaveiku Ingibjörgu í Breiðadal sem fylgdi Magnúsi Hjaltasyni um skeið áður en hann tók saman við frænku sína á Langhól. Frá samskiptum Magnúsar og Ingibjargar er sagt annars staðar í þessu riti en faðir Ingibjargar bjó reyndar líka alllengi hér í Bæ (sjá hér bls. 42-45, Drangar. Brekka á Ingjaldssandi, og Fremri-Breiðadalur).

Þau Magnús Hjaltason og Guðrún Anna Magnúsdóttir voru systrabörn. Móðir Magnúsar var Friðrikka Kristjánsdóttir frá Borg í Arnarfirði,[710] systir Vigdísar Kristjánsdóttur á Langhól, en báðar voru þær dætur Kristjáns sterka Guðmundssonar á Borg í Auðkúluhreppi[711] (sbr. hér bls. 57-58).

Að Langhól mun Magnús hafa komið í fyrsta sinn þann 15. apríl árið 1896.[712] Hann var þá 22ja ára gamall og hafði þennan vetur verið við barnakennslu í Lambadal í Dýrafirði.[713] Er Magnús heimsótti frændfólk sitt á Langhól að því sinni var Guðrún Anna 19 ára og í dagbók sinni kemst hann þá svo að orði að hún sé gullfögur sýnum en heimsk.[714]

Þegar faðir Guðrúnar Önnu, Magnús Jónsson, bóndi á Langhól, drukknaði, 28. febrúar 1898, var Magnús Hjaltason við barnakennslu á Ingjaldssandi. Tíu dögum síðar orti hann erfiljóð til að færa ekkjunni á Langhól, Vigdísi móðursystur sinni og börnum hennar.[715] Í því eru níu vísur, sú fyrsta og síðasta svona:

 

Syrtir i hjarta því sæla burt flýr,

sálu manns gegnstingur atburður nýr.

Hníga bændur unnvörpum sollin í sjá

sínum ungu börnum og konunum frá.

 

– – – – –

 

 

Ég fel ykkur systkin í frelsarans mund.

Faðmi ykkur hamingja í vöku og blund.

Blómkrýni leið ykkar blessun og náð.

Bölið þá sigrast af kærleikans dáð.[716]

 

Örfáum dögum síðar var Magnús kominn á Flateyri og þaðan hélt hann sem leið liggur  yfir Klofningsheiði 13. mars til fundar við fólkið á Langhól.[717] Magnús greinir frá komu sinni að Langhól í dagbókinni og segir: Afhenti ég Vigdísi, móðursystur minni, erfiljóðin er ég kvað eftir mann hennar. Gisti að hennar um nóttina.[718]

Um þetta leyti var Magnús enn með Ingibjörgu frá Breiðadal á sínum vegum á Brekku á Ingjaldssandi en losaði sig við hana þegar kom fram í aprílmánuð[719] (sbr. hér Drangar). Á árunum 1896 til 1898 var Magnús líka í tygjum við Kristínu Jónsdóttur, unga stúlku á Dröngum í Dýrafirði, svo sem frá er sagt á öðrum stað í þessu riti (sjá hér Drangar) Þann 6. janúar 1898 fékk hann reyndar uppsagnarbréf frá henni[720] en Kristín hafði þá mjög nýlega fengið fréttir af sambúð hans og áðurnefndrar Ingibjargar út á Ingjaldssandi (sjá hér Drangar). Í marsmánuði þetta sama ár sendi Kristín honum þó enn eitt bréf og bað hann kveða eitthvað til minningar um ástir þeirra.[721] Til þess var Magnús fús og ljóðabréf hans héldu áfram að berast heimasætunni á Dröngum langt fram eftir árinu 1898 (sjá hér Drangar). Síðasta bréfið frá Magnúsi fékk Kristín í hendur 6. september á því ári en þann dag steig hún um borð í skip og sigldi af landi burt (sjá hér Drangar). Mansönginn sem Magnús orti til hennar að morgni þess 1. okbóter sama ár[722] mun hún hins vegar aldrei hafa séð.

Við brottför Kristínar á Dröngum eða mjög skömmu síðar mun hugur hins unga draumamanns hafa tekið að hvarfla að Langhól til hinnar gullfögru frænku hans sem vera má að hafi áður sent þessum frænda sínum hýrlegt augnatillit er hann var við róðra í Súgandafirði vorið 1898.

Sumarið 1898 var Magnús lengi á Ingjaldssandi en í vetrarbyrjun fór hann þaðan áleiðis til Keflavíkur norðan Súgandafjarðar en þar hafði hann ráðið sig til barnakennslu.[723] Þann 26. október kom hann að Langhól, á leið sinni úr Önundarfirði í Keflavík, og gisti þar næstu nótt.[724] Næsta dag skrifar hann í dagbók sína: Um morguninn beiddi ég munnlega mér til eiginkonu frænku minnar, Guðrúnar Önnu Magnúsdóttur á Langhól. Hún var rúmlega tvítug að aldri, ágætlega fríð, ljúfleg í viðmóti og hjartagóð. Síðan hélt ég frá Langhól.[725]

Að þremur vikum liðnum fékk Magnús svar við bónorðinu í bréfi frá Guðrúnu Önnu þar sem hún hét honum eiginorði.[726] Um jólin 1898 var hann hjá unnustu sinni á Langhól og fannst honum þá að sæludagar þessir væru hin yndislegustu jól er hann hefði lifað.[727] Svo virðist sem Magnús hafi þó með engu móti getað unnað hinni gullfögru frænku sinni á Langhól af heilum hug því á fjórða degi þessara trúlofunarjóla ritar hann þetta í bók sína:

 

… var ánægja sú fólgin í samverunni við unnustu mína. Enda þótt hún heimsk væri og ekki hirðin að sjá, þá var hún fögur sýnum og gengur það í augu margra. Og víst var það girnd en ekki einlæg ást er réði þar hlutfalli mínu. Mæltu flestir að ég tæki niður fyrir mig.[728]

 

Hugsanlegt er reyndar að Magnús hafi ekki fest þessi orð á blað á hinum fyrstu sæludögum samvista þeirra Guðrúnar Önnu heldur nokkru síðar er hann hreinritaði dagbókina.

Á æviferli einnar manneskju er hálf öld langur tími og þegar Guðgeir Magnússon blaðamaður ræddi við Guðrúnu Önnu Magnúsdóttur í janúarmánuði árið 1956 voru liðin meira en 57 ár frá því hún trúlofaðist Magnúsi Hjaltasyni. Viðtalið við hana birtist í tímaritinu Birtingi árið 1956.[729] Margt gleymist á skemmri tíma en 57 árum en einstakar myndir ná að rísa og öðlast fastan sess í fylgsnum hugans. Þegar viðtalið var tekið var þessi stúlka frá Langhól orðin 79 ára gömul og átti heima í Hafnarfirði. Blaðamaðurinn tók samtalið upp á stálþráð og reyndi við skráningu þess að fylgja orðfæri gömlu konunnar en ber sjálfur ábyrgð á stafsetningunni. Meðal þess sem í hinu prentaða viðtali er haft eftir Guðrúnu Önnu um fyrstu kynni þeirra Magnúsar er þetta:

 

Það var áður en pabbi dó. Hann var að koma í heimsóknir. … Uss, ég var dauðfeimin við hann, aumingja kerlingin. Einu sinni var ég að koma inn. Þá mæti ég mömmu. Hvur er upp á loftinu, seiég. – Það er hann frændi þinn. – Er Magnús kominn? seiég. Jæja, veit ann ekki að ég er niðri? Hann er víst að skálda uppi, hann er alltaf að ganga um gólf. – Hann spurði nú eftir þér, seijrún. – Ég fór þrisvar upp í stigann og sneri við aftur – svona var ég feimin. Þá stendur hann allt í einu á pallskörinni: Kondu bara upp frænka, seijrann. – Æi, ég er svo feimin – og hrædd. – Ætli maður geri þér nokkuð, seijrann, faðmaði mig og kyssti eins og venja var að heilsast þá.[730]

 

Í viðtalinu gefur Guðrún Anna til kynna að samdráttur þeirra Magnúsar Hjaltasonar hafi hafist áður en faðir hennar dó og segir meðal annars:

 

Pabba sáluga var ekki neitt um þetta, nei. Þá segi ég við ann: Þú mátt alveg vera viss um það, pabbi minn, þó þú deyir og ég lifi, þá skal hann verða minn. – Þau eru auðnuleysingjar skáldin, seijrann. Mér er alveg sama hvað sagt er, segi ég … (en) þau eru það mörg, sko, eiga erfitt með að bjarga sér. Þau geta það bara ekki.

… Rétt eftir slysið [28.2.1898] kom Magnús sálugi í heimsókn. Nú hefur margt komið fyrir, segir hann. – Slysið, segi ég. Nú er hann dáinn, já. Þá halla ég mér að onum og segi: Nú hef ég þig. …

Einu sinni veturinn eftir var ég að sækja vatn í fötu út að lækjarsytrunni, varð að vaða snjóinn. Þá var hann að koma. Ég átti ekkert von á onum. Þá segir Magnús sálugi:

 

Komdu sæl og síblessuð

á sönnum gæfuvegi.

Meðan sjálfur guð er guð

gleymi ég þér eigi.

 

Þannig heilsaði hann mér.[731]

 

Í janúarmánuði árið 1899 kom Magnús að Langhól með trúlofunarhringana. Þess minntist Guðrún Anna á gamalsaldri og sagði frá á þessa leið:

 

Það var um kvöld í janúar 99. Þá segi ég við mömmu: Þú gefur okkur ekki kaffi. Við erum trúlofuð – sérðu ekki hringinn? – Ég á ekkert með kaffinu, segir hún. – Það gerir fjandann ekkert til, segi ég – farðu ekki að baka, ég vil ekki hafa það, þið bakið allt á hellum, kladda eða hvað það er. Þá var ekki mikið um kaffi eða heitar pönnukökur, ni-i, ekki aldeilis.[732]

 

Þegar Guðgeir Magnússon ræddi við Guðrúnu Önnu voru liðin nær fjörutíu ár frá andláti Magnúsar Hjaltasonar. Í lok viðtalsins spurði blaðamaðurinn gömlu konuna hvernig henni hefði nú liðið þennan langa tíma og hún svaraði:

 

Æi svona – en mig hefur dreymt margt síðan – eins og ég væri komin heim á Langhól, væri að ganga um hlaðið, kringum bæinn, ofan brekkuna, út á túnið, niðrá stekkinn. Þar sátum við í sólinni og hann bjó til fíflafesti. – Ætlarðu að hengja ana um hálsinn á mér? sagði ég – hún dettur strax í sundur. Hann gerði það nú samt. Svo var þarna lítill foss í læknum. Hann gerði fallega vísu um fossinn og sólina:

 

Sólin fríð mót fossinum,

friðinn rækir háva,

kærleiksblíða kossinum,

kyssir lækinn smáa.

 

Hafið þið lesið hana, vinir mínir – er hún bókuð?[733]

 

Lækurinn, sem Guðrún Anna minnist á, er nú horfinn en að sögn kunnugra kom hann ofan úr fjallshlíðinni, rann á milli heimabæjarins og Langhóls, sveigði út fyrir Langhól og rann síðan áfram niður í mógrafir nær ánni.[734] Enn má sjá (1995) hvar gengið var yfir lækinn vestan við Langhól. Tvær hellur sem stigið var á eru þar enn.[735]

Vorið 1899 fylgdi Guðrún Anna unnusta sínum burt frá Langhól og þaðan í frá fylgdust þau nær alltaf að allt þar til hann andaðist 30. desember 1916. Í skrifum Magnúsar frá síðari hluta ársins 1899 má sjá að hann hefur talið heitkonu sína vera illa að heiman búna og kennir móður hennar um eins og vel sést á þessum orðum:

 

Vigdís [móðir Guðrúnar Önnu] hefur breytt ódrengilega mjög við dóttur sína, Guðrúnu unnustu mína … . Mátti og kalla að Guðrúnu minni væri skilað nöturlega af móður þegar hún fluttist að Botni eða kom til mín þar sem hún átti ekki til eina nál, skeið eða hníf eða önnur nauðsynlegustu áhöld.[736]

 

Þrátt fyrir langa sambúð fengu þau Magnús og Guðrún Anna aldrei að ganga í hjónaband. Því olli hin gamla sveitarskuld Magnúsar við sinn fæðingarhrepp.[737] Sú skuld nam 349,- krónum.[738] Fyrstu 12 samvistarárin voru hjónaleysin á hrakningi og áttu víða skamma dvöl en frá því snemma á árinu 1911 nutu þau sæmilega öruggs skjóls á Suðureyri í Súgandafirði[739] (sjá hér Suðureyri). Sagan af basli þeirra í sárri fátækt á hrakningsárunum verður ekki rakin hér en um hana má fræðast í bókinni Skáldið á Þröm eftir Gunnar M. Magnúss, sem er ævisaga Magnúsar Hjaltasonar, og í dagbókum Magnúsar sem varðveittar eru í Landsbókasafni.

Börn Magnúsar og Guðrúnar Önnu urðu sex en fjögur þeirra dóu á fyrsta ári, flest fárra vikna gömul.[740] Lífsstríð þessarar fjölskyldu var háð í sárustu örbirgð og ósjaldan varð ljóðasmiðurinn að þola bitur orð af vörum heitkonunnar. Í dagbókarskrifunum fær Guðrún Anna líka kaldar kveðjur frá Magnúsi á stundum og þarf enginn að vera hissa á því. – Ekki þekkir unnusta mín á klukku og þykir mér leiðinlegt, skrifar hann í maímánuði árið 1900[741] og tæpu ári síðar hrjóta þessi orð úr penna hins sískrifandi draumamanns:

 

… sárt þykir mér hversu fávís hún er þar sem hún þekkir ekki á klukku, því síður annað meira, en ég er fyrir löngu hættur að áminna hana um að lesa í bók sér til fróðleiks … en það gjörir hún aldrei.[742]

 

Í febrúarmánuði árið 1902 var sambúð þeirra með stirðasta móti. Þá skrifar Magnús: Unnusta mín talar ekki við mig og ég get ekkert við hana talað mér til hugarléttis. Þar sem ég fer til fjalls fer hún til fjöru.[743]

Ellefu árum síðar tjáir Magnús sig á þessa leið: Fylgikona mín hataði bókmenntir allar … gerði hún jafnan tilraun að skaða og eyðileggja frið minn við þau störf og hafði svo lengi verið.[744]

Vart þarf að taka fram að einstök ummæli af þessu tagi segja jafnan mjög takmarkaða sögu og oft gekk sambúðin vel. Best reyndist Guðrún Anna heitmanni sínum þegar mest á reyndi og hann var dæmdur til eins árs fangelsisvistar.[745] Á hverju sem gekk sýndi hún Magnúsi óbilandi tryggð.

Árið 1896 virtist ljóðasmiðnum unga þessi frændkona sín á Langhól vera gullfögur. Sextíu árum síðar var hún orðin hvíthærð en var enn: … grönn og keik og unglingslega nett, fínleg í andlitsdráttum með merkilega tindrandi augu sem horfa á okkur í spurn … .[746]

Guðrún Anna Magnúsdóttir fylgdi unnusta sínum burt frá Langhól vorið 1899 og sama vor gafst móðir hennar, ekkjan Vigdís Kristjánsdóttir, upp á búskapnum.[747] Guðmundur Sigurðsson, er búið hafði á Laugum í Súgandafirði í nokkur ár, fór þá að búa á Langhól og var Vigdís í húsmennsku hjá honum fardagaárið 1899-1900.[748] Árið 1900 fluttist hún vestur í Stapadal í Arnarfirði[749] til Kristjáns bróður síns, sem þar bjó, en haustið 1901 var hún komin aftur hingað á Langhól og var þá leigjandi hjá Guðmundi Sigurðssyni.[750] Seinna var Vigdís búsett á Suðureyrarmölum um nokkurt skeið og þaðan fluttist hún ásamt Guðbjörgu dóttur sinni og eiginmanni hennar, Kristjáni Maríassyni, að Þjóðólfstungi í Bolungavík árið 1920.[751]

Húsfreyjurnar í Bæ, sem allar urðu ekkjur í lok febrúar árið 1898, voru þrjár eins og hér hefur áður verið nefnt. Vigdís Kristjánsdóttir, sem  hér var nú sagt frá, var ein þeirra en hinar tvær voru Guðríður Kristjánsdóttir og Guðrún Sigurðardóttir (sjá hér bls. 59 og 63).

Guðríður hafði verið gift Jóni Guðmundssyni og áttu þau tvö börn sem bæði voru innan við sjö ára aldur er faðir þeirra fórst.[752] Sjálf var hún þá orðin liðlega fertug, fædd 9. október 1856 að sögn prestsins sem fermdi hana í Gufudal vorið 1871.[753] Búskapnum gat hún varla haldið áfram ein og óstudd en skömmu eftir slysið fékk hún mág sinn, Halldór Guðmundsson, til liðs við sig. Halldór var yngsti bróðir Jóns Guðmundssonar, eiginmannsins sem Guðríður hafði misst.[754] Hann var þennan vetur vinnumaður á Kvíanesi, hjá Jóhannesi bróður sínum,[755] og svo vill til að fyrir liggur hvaða dag hann færði sig þaðan til ekkjunnar í Bæ. – Halldór Guðmundsson á Kvíanesi fór hér út hjá. Hann fer til Guðríðar í Bæ, skrifar Einar Jónsson í dagbók sína 8. apríl 1898[756] en Einar átti þá heima á Suðureyri. Aðrar heimildir sýna með ótvíræðum hætti að það var Halldór mágur Guðríðar sem til hennar réðist en ekki annar maður með sama nafni.[757] Þegar Halldór settist að í Bæ voru liðnir 39 dagar frá því Jón bróðir hans týndi lífi.

Halldór þessi Guðmundsson var fæddur í Bæ 4. mars 1871[758] og var því 27 ára gamall er hann fór til Guðríðar. Hann ólst upp hjá foreldrum sínum í Bæ en hafði á árunum 1887-1897 verið vinnumaður á ýmsum bæjum í Súgandafirði og Önundarfirði og einnig dvalist bæði á Ísafirði og Flateyri.[759]

Halldór var forverksmaður hjá Guðríði mágkonu sinni hér í Bæ í liðlega þrjú ár, frá 1898 til 1901, og segir prestur hann fyrst vera vinnumann hennar en við lok aldamótaársins 1900 er hann talinn ráðsmaður á búinu.[760] Árið 1901, tóku þau sig upp, Halldór og Guðríður, og fluttust búferlum til Ameríku.[761] Með þeim fóru bæði börnin sem Guðríður hafði eignast með Jóni Guðmundssyni, þau Anna og Kristján Pétur.[762] Alls voru fimm í hópnum sem lagði upp í hina löngu för á fyrsta ári nýrrar aldar því með þeim fór líka 14 ára piltur, Þórður Helgi Guðmundsson, bróðursonur Halldórs.[763] Hann var sonur Guðmundar Guðmundssonar frá Langhól og Guðnýjar Þórðardóttur frá Ytri-Vatnadal en þau voru nýgift í húsmennsku á Laugum þegar Guðný andaðist af slysförum haustið 1887 (sjá hér Laugar).  Þá var Þórður sonur þeirra aðeins fjögra mánaða gamall.[764] Hann var tekinn í fóstur að Stað og átti þar heima æ síðan uns hann fylgdi Halldóri frænda sínum til Ameríku.

Guðmundur Guðmundsson, faðir Þórðar og bróðir Halldórs, hafði farið til Vesturheims níu árum fyrr (sjá hér bls. 45-47 og Laugar).

Lítil vitneskja liggur nú á lausu um ævi og örlög þessara vesturfara. Anna Jónsdóttir, sem fluttist á níunda ári með móður sinni, Guðríði Kristjánsdóttur, til Ameríku, mun þó um skeið hafa skrifast á við leikfélaga sinn, Guðna Albert Guðnason í Bæ,[765] en feður þeirra beggja fórust með Sturlu Jónssyni á Stað 28. febrúar 1898. Dóttir Guðna Alberts, Guðný Guðnadóttir á Suðureyri, geymdi enn sumarið 1996 fjórar ljósmyndir og tvö póstkort sem faðir hennar hafði fengið send frá Ameríku á fyrstu áratugum aldarinnar.  Á öðru póstkortinu sést að sendandinn nefnir sig     A. Goodmunson og passar það við Önnu því ætla má að vestra hafi fólkið frá Bæ tekið upp ameríska útgáfu af nafninu Guðmundsson. Á þessu póstkorti er mynd af járnbrautarstöðinni í Swan River í Manitoba sem bendir til að á þeim slóðum hafi fjölskyldan frá Bæ tekið sér bólfestu. Á ljósmyndunum, sem Anna sendi til Súgandafjarðar á fyrsta fjórðungi tuttugustu aldar, má sjá bæði bíl og dráttarvél og unga bráðlaglega stúlku, sem líklega er hún sjálf.

Bræðurnir Halldór og Guðmundur Guðmundssynir ásamt Guðríði Kristjánsdóttur í Bæ og börnum þessa fólks voru nær einu manneskjurnar úr Súgandafirði sem tóku sig upp og fluttust héðan til Ameríku á árunum 1873-1903[766] en á því þrjátíu ára skeiði var mun meira um búferlaflutninga fólks frá Íslandi til Vesturheims en bæði fyrr og síðar. Á þessu tímabili fór reyndar líka vestur um haf maður að nafni Jón Helgason, er var vinnumaður í Ytri-Vatnadal fardagaárið 1883-1884 og tók þaðan stefnuna á Texas með skipi frá Reykjavík sumarið 1884.[767] Vinnumaður þessi, sem árið 1884 var um fertugsaldur, hafði hins vegar ekki átt heima í Súgandafirði nema í eitt ár en var fæddur á Barðaströnd og hafði á árunum 1880-1883 verið í Dýrafirði og líka í Önundarfirði.[768]

Pétur Jónsson, sem fæddur var um 1870 og ólst upp á Norðureyri í Súgandafirði, fluttist líka búferlum til Vesturheims en síðustu árin á Íslandi var hann ekki búsettur hér í sveit (sjá hér Norðureyri).

Ein af ekkjunum þremur í Bæ, sem hér bösluðu við búskap árið 1898, var Guðrún Sigurðardóttir er átt hafði Guðna Egilsson fyrir eiginmann og hélt hún lengur út en hinar tvær.[769] Hér hefur áður verið gerð grein fyrir uppruna Guðrúnar og dálítið sagt frá lífi hennar á síðari hluta ævinnar (sjá hér bls. 63 og Fremri-Vatnadalur, Hraunakot þar) en á Kvíanesi og hér í Bæ lifði hún sitt blómaskeið.

Auk þess sem fyrr var frá sagt um uppvöxt Guðrúnar skal þess getið hér að hún fermdist í Holti í Önundarfirði vorið 1878 og fær þá þessa umsögn hjá presti: Kann vel og skilur, hegðan góð.[770] Við ferminguna átti Guðrún heima í Neðri-Breiðadal, hjá hjónunum Jóni Jónssyni og Margréti Jónsdóttur er þar bjuggu.[771] Jón þessi Jónsson var oft nefndur Jón Gróuson (sjá hér Neðri-Breiðadalur) og hafði átján árum fyrr eignast barn með móður Guðrúnar, Guðnýju Jónsdóttur frá Tannanesi. Barnið dó en einhver vinátta virðist hafa haldist milli Jóns og Guðnýjar því ætla má að það hafi verið hún sem kom Guðrúnu fyrir hjá Jóni Gróusyni þegar telpan var enn innan við fermingu. Dvölina hjá Jóni á unglingsárum launaði Guðrún síðar með því að gefa honum kost á að dveljast hjá sér hér í Bæ er ellin tók að sækja að karli (sjá hér bls. 82-83).

Þegar eiginmaður Guðrúnar drukknaði í lok febrúar árið 1898 var hún 34 ára gömul og stóð uppi með börn þeirra fimm, þrjá syni og tvær dætur.[772] Elsta barnið var á tólfta árinu en það yngsta tveggja mánaða gamalt.[773] Efnin voru lítil[774] og við blasti sú hætta að leysa þyrfti heimilið upp. Með góðra manna hjálp og fyrir sérstakan dugnað Guðrúnar tókst henni að koma í veg fyrir það og svo fór að hún náði að ala börn sín upp sjálf að langmestu leyti.[775] Einn drenginn, Guðna Albert, sem síðar varð kunnur glímumaður og nefndur kóngabani (sjá hér Fremri-Vatnadalur), varð hún þó að senda frá sér um tíma og var hann á Ísafirði í tvö ár, fór sjö  ára gamall árið 1902 en kom aftur til móður sinnar tveimur árum síðar.[776]

Valdimar Þorvaldsson, sem átti heima í Súgandafirði og var um tvítugt árið 1898, staðhæfir að við fráfall Guðna Egilssonar hafi efni þeirra hjóna verið lítil.[777] Hann fer þar efalaust með rétt mál en algerir öreigar voru þau samt ekki. Í veðmálabók sést að Guðrún átti árið 1899 einn fjórða part úr jörðinni Kvíanesi, tvö hundruð að fornu mati, og alþiljað 14 fermetra hús sem þar stóð.[778] Þennan litla jarðarskika höfðu þau hjónin, Guðrún og Guðni Egilsson, eignast árið 1891[779] er þau bjuggu á Kvíanesi.

Undir lok ársins 1899 skuldaði Guðrún kr. 419,79 hjá útibúi Ásgeirsverslunar á Flateyri[780] en sú fjárhæð svaraði þá til tæplega fjögurra kúgilda.[781] Um þessa skuld þurfti að semja og á jólaföstunni brá ekkjan sér vestur á Flateyri. Þar var hún stödd 16. desember 1899 og gekk þann dag frá samningi um að greiða skuldina upp á 10 árum.[782] Til tryggingar veðsetti hún Ásgeirsverslun hundruðin tvö sem hún átti í Kvíanesi ásamt nýnefndu húsi er þar stóð og ennfremur eina kú og hest í góðu og gildu standi, allt á 1. veðrétti.[783] Samningurinn, sem Guðrún gerði við Ásgeirsverslun, sýnir að hún stóð enn á eigin fótum þó að fjárhagurinn væri þröngur. Jarðarskika sinn á Kvíanesi seldi hún ekki fyrr en árið sem hún hætti að búa, það er 1906.[784] Kristján Albertsson á Suðureyri keypti þá af henni þessi tvö hundruð og borgaði fyrir þau 450,- krónur.[785]

Á sínu fyrsta búskaparári í ekkjustandi fékk Guðrún vinnumann sér til aðstoðar við búskapinn og var það Halldór Guðmundsson, sonur Guðmundar Guðmundssonar er áður hafði búið í Bæ um nokkurra ára skeið en var nú kominn að Þverá, hjáleigu í landi Bæjar (sjá hér bls. 100-107). Halldór var fæddur í Neðri-Breiðadal í Önundarfirði 23. desember 1872[786] og var því 25 ára gamall er hann kom til Guðrúnar. Undarlega tilviljun má kalla að tvær ekknanna í Bæ réðu til sín sinn vinnumanninn  hvor árið 1898 og báðir hétu Halldór Guðmundsson (sbr. hér bls. 72-73). Þeir voru reyndar einnig á líkum aldri, annar fæddur 1871 en hinn 1872. Nýnefndur vinnumaður Guðrúnar var hjá henni í tvö ár, 1898-1900.[787] Hann átti síðar mjög lengi heima á Suðureyri í Súgandafirði og var þar enn búsettur er hann andaðist 19. desember 1951.[788]

Halldór sá sem Guðrún fékk fyrir vinnumann var fróðleiksmaður á marga grein og hneigður til skrifta, a.m.k. síðar á ævinni. Á efri árum festi hann meðal annars á blað ýmsar endurminningar og brot úr sinni eigin ævisögu. Þar segist hann hafa farið til Guðrúnar um páskaleytið árið 1898 fyrir beiðni föður síns og eftir samráði hans við hreppsnefndina.[789] Um húsmóður sína, Guðrúnu Sigurðardóttur í Bæ, kemst hann svo að orði: Hún [Guðrún] var mér í hvívetna sem besta móðir. … Guðrún var fullkomið karlmannsígildi við hvaða verk sem hún kom að, hvort heldur sem var innan eða utan húss.[790]

Halldór greinir líka frá því að er líða tók á veturinn 1898-1899 hafi Guðrún hjálpað mörgum sem illa voru staddir um hey[791] sem bendir til þess að hún hafi kunnað betur að búa en margur annar. Á vegum Guðrúnar var Halldór sendur til sjóróðra að Gelti vorið 1899 og hjá henni vann hann að almennum bústörfum árið um kring.[792] Halldór kenndi líka börnum Guðrúnar og greinir í ævisögunni frá á þessa leið: Auk þess hafði ég þann starfa sérstaklega á kvöldin að segja til krökkum innanvið fermingaraldur í lestri, skrift og reikningi og var krökkum af öðrum bæjum komið til kennslu að Bæ í þessu skyni.[793]

Mjög skömmu eftir komu Guðrúnar frá Flateyri um jólaleytið árið 1899 gaf hún vinnumanninum til kynna að nú yrði hún að segja honum upp vistinni frá næstu fardögum vegna fjárskorts og komast af án vinnumanns.[794] Að sögn Halldórs orðaði Guðrún þetta svo að hún hefði ekki efni á að borga honum það kaup sem hann að réttu lagi ætti skilið að fá.[795] Halldór hafði kunnað vel við sig á heimili Guðrúnar svo uppsögnin olli honum nokkru hugarangri. Er hann færði endurminningar sínar í letur löngu síðar greindi hann frá á þessa leið:

 

Hins vegar grunaði mig að verið gæti að húsmóðir mín væri ekki alls kostar ánægð með mig sem vinnumann. Vissi þó ekki í hverju það gæti legið. En svo stór var ég þó að ekki gat komið til mála að ég færi að troða mér í vist hjá þeim sem ef til vill kærðu sig ekkert um mig.[796]

 

Ekki er alveg ljóst hvað olli því að Guðrún sagði Halldóri upp vistinni. Ætla má að þröngur efnahagur hafi ráðið þar mestu og svo það að nú var Veturliði Híram, sonur hennar, að verða fullgildur til verka en hann komst vorið 1900 á fimmtánda ár. Þess má svo geta að árskaup Halldórs hjá Guðrúnu var 40,- krónur[797] eða sama upphæð og Guðrún hafði lofað að greiða Ásgeirsverslun á ári hverju vegna verslunarskuldarinnar (sjá hér bls. 74-75).

Búskapnum í Bæ hélt Guðrún Sigurðardóttir áfram allt til ársins 1906 er hún fluttist í þorpið á Suðureyri og hafði þá verið búandi ekkja í átta ár.[798] Árið 1902 var þríbýli í Bæ en Guðrún bjó þá á hálfri jörðinni.[799] Ábýli hennar var því 12 hundruð að fornu mati því dýrleiki allrar jarðarinnar var 24 hundruð. Hún bjó þá með eina kú, eina kvígu, fimmtán ær og einn hest.[800]

Hér verður síðar minnst stuttlega á gamla fólkið sem dvaldist á heimili Guðrúnar Sigurðardóttur hér í Bæ en auk þess og barnanna hafði hún oftast einn karlmann á góðum aldri við hendina. Fardagaárið 1901-1902 var hjá henni Lúðvík Emil Jónsson, síðar kennari, sem þá var 16 ára, en þau Guðrún voru hálfsystkini, áttu bæði sömu móðurina.[801] Árið 1901 settist svo að hjá Guðrúnu lausamaður sem hét Kristján Guðmundsson.[802] Hann var þá 42ja ára, fjórum árum eldri en hún.[803] Kristján var fæddur á Langhól hér í Bæ árið 1859 og var einn margra sona hjónanna Guðmundar Jóhannessonar og Kristínar Guðbrandsdóttur er þar bjuggu.[804] Hann dvaldist hjá Guðrúnu frá 1901 og allt þar til hann lést 30. janúar 1906.[805] Kristján er jafnan titlaður lausamaður í sóknarmannatölum frá þessum árum[806] og er því óljóst hver þáttur hans kann að hafa verið í búrekstri Guðrúnar.

Ýmsir sem kunnugir voru í Súgandafirði á árunum um og upp úr aldamótunum 1900 minnast á Guðrúnu Sigurðardóttur í Bæ í ritum sínum. Um framgöngu hennar, er hún missti mann sinn í sjóinn, kemst Gunnar M. Magnúss svo að orði:

 

Þá reis Guðrún Sigurðardóttir, hin unga ekkja, upp og vann meira en sögur fara af. Með ráðsnilld og dugnaði kom hún til þroska barnahópnum. … Þau systkini [börn Guðrúnar] voru öll vel vaxin úr grasi, þróttmikil og hæfileikum búin til manndáða.[807]

 

Hjá Magnúsi Hjaltasyni, hinu blásnauða alþýðuskáldi, virðist Guðrún Sigurðardóttir hafa verið í miklum metum því að í dagbók sinni frá árinu 1901 kallar hann hana vinkonu sína og velgerðarmann og nefnir hana á öðrum stað kvenskörung.[808] Haustið 1899 voru Magnús og unnusta hans, Guðrún Anna Magnúsdóttir, húsnæðislaus og á hrakningi.[809] Vegna sveitarskuldar var þeim meinað að ganga í hjónaband og af því þau voru ógift gátu þau hvorki fengið jarðnæði til ábúðar né leyfi til að stofna heimili í kaupstaðnum á Ísafirði og setjast þar að.[810] Unnusta Magnúsar gekk þá með fyrsta barn þeirra og í þessum þrengingum varð það úrræði hans að koma henni fyrir hjá ekkjunni, Guðrúnu Sigurðardóttur í Bæ.[811] Hér fæddist barnið þann 5. janúar árið 1900, dóttir sem skírð var Magdalena Símonía og lifði í 36 daga.[812] Ljósmóðir að barninu var Guðríður Eiríksdóttir, tengdamóðir Guðrúnar Sigurðardóttur, en hún hafði þá dvalist lengi á heimili Guðna sonar síns og Guðrúnar konu hans sem nú var orðin ekkja. Frá Guðríði sem komin var á áttræðisaldur segir hér nánar síðar (sjá hér bls. 83-92) en unga konan, sem hér var að ala sitt fyrsta barn, komst 56 árum síðar svo að orði um þann atburð:

 

Við fórum í Bæ, sko … gekk með hana Magdalenu, fyrsta barnið okkar. Þá sat yfir mér ljósmóðir, blessunin ún Guðríður mín, sem hjálpaði álfkonu í barnsnauð og álfkonan sagði við ana: – Það skal aldrei misheppnast hjá þér af því þú hjálpaðir mér. –

Hún sat til fóta minna, var alltaf að blessa eitthvað yfir mig. Gekk allt voðalega vel.[813]

 

Þetta fyrsta barn Magnúsar og Guðrúnar Önnu var skírt skemmri skírn daginn áður en það dó og kom þar enginn prestur nærri.[814] Prestinum, séra Janusi Jónssyni í Holti, hefur hins vegar orðið á að færa rangt nafn inn í embættisbók sína því hann nefnir þetta skammlífa stúlkubarn Mikkaelínu Símoníu.[815] Að rétt nafnið hafi verið Magdalena Símonía þarf hins vegar ekki að draga í efa því um það liggja fyrir vitnisburðir beggja foreldranna.[816]

Barnið fékk aðeins að lifa í fimm vikur en móðir þess hélt kyrru fyrir hjá Guðrúnu í Bæ nær allan veturinn 1899-1900.[817] Magnús var þá um tíma við kennslu á Norðureyri en á útmánuðum fór hann að leitast við að útvega sér 13,- krónur að láni til að tryggja sér og unnustunni ákveðið húsnæði á Ísafirði.[818] Víða gekk hann bónleiður til búðar.[819] Í þessu, að því er virtist vonlausa basli, kom yfir ljóðasmiðinn sú hugsun að best væri að stytta sér aldur.[820] Hann tók því inn vænan skammt af svefnlyfi og lagðist fyrir neðan við Dokkuna á Ísafirði.[821] Það var 29. mars og þarna lá hann í tvær klukkustundir en reis skjálfandi upp þegar öldur sjávarins tóku að leika um fætur hans.[822]

Næsta dag tókst Magnúsi að útvega sér þessar þrettán krónur og hraðaði hann þá för sinni vestur yfir heiði til fundar við heitkonu sína sem beið hans hér í Bæ.[823] Þann 2. apríl kvöddu þau Guðrúnu húsfreyju og hennar fólk hér á hlaðinu og héldu á vit óvissrar framtíðar.[824] Guðrún Sigurðardóttir var hetjuleg sýnum og hið mesta göfugmenni, ritaði Magnús 13 árum síðar er hann rifjaði upp minningar sínar um fólkið sem búið hafði í Staðardal við lok gömlu aldarinnar og upphaf nýrrar.[825]

Fróðlegt væri að vita hvers vegna Guðrún hætti að búa vorið 1906. Hún var þá enn á besta aldri, tæplega 43ja ára, og sum barnanna orðin fullgild til flestra verka. Í leit að skýringum á þessari ákvörðun Guðrúnar koma upp tvær tilgátur. Önnur er sú að Kristján Guðmundsson, sem var heimilisfastur hjá henni á árunum 1901-1906 (sjá hér bls. 77), hafi í raun verið henni mikilvæg hjálparhella og samband þeirra máske nánara en séð verður í skráðum heimildum. Kristján dó eins og fyrr var nefnt 30. janúar 1906, alveg um svipað leyti og Guðrún ákveður að hætta búskap. Vel má þó vera að þarna séu alls engin tengsl á milli og Kristján, sem jafnan er titlaður lausamaður í sóknarmannatölum, hafi aðeins verið leigjandi hjá ekkjunni og henni óviðkomandi að kalla. Hugmyndin um nánari tengsl þeirra Guðrúnar er gripin úr lausu lofti og með öllu órökstudd.

Hin tilgátan er að ráðagerðir elsta sonar Guðrúnar, Veturliða Hírams, um að kaupa mótorbát og fara að róa á honum hafi orðið til þess að þau mæðginin brugðu búi vorið 1906 og fluttust til Suðureyrar. Bátinn keypti Veturliði þá um sumarið ásamt tveimur öðrum Súgfirðingum og kom með hann frá Ísafirði þann 19. ágúst.[826] Slíkan farkost var ekki hægt að gera út frá lendingu Bæjarmanna í Stöðinni en á Suðureyrarmölum var góð aðstaða til vélbátaútgerðar fyrir hendi. Veturliði og félagar hans nefndu bát sinn Sigurvon og var Veturliði oftast formaður á honum á árunum 1906-1914.[827] Augljóst virðist að Veturliði hafi farið frá Bæ og sest að á Suðureyri vegna betri skilyrða þar til sjósóknar og ekki ólíklegt að sú ákvörðun hans hafi orðið þess valdandi að Guðrún móðir hans hætti að búa og tók þann kost að fylgja syninum á mölina. Á Suðureyri var Guðrún Sigurðardóttir í 14 ár en vorið 1920 fóru þrjú börn hennar, Veturliði, Jóna og Guðni, að búa í Vatnadal og með þeim fluttist hún þangað búferlum eins og hér hefur áður verið nefnt (sjá Fremri-Vatnadalur og Hraunakot þar).

Á þeim árum sem Guðrún Sigurðardóttir bjó í Bæ áttu þrjár aldraðar manneskjur langa dvöl á hennar heimili, Guðný Jónsdóttir, sem var móðir hennar, Guðríður Eiríksdóttir, sem var tengdamóðir hennar, og Jón Jónsson[828] sem áður bjó í Neðri-Breiðadal og nefndur var Jón Gróuson (sjá hér Neðri-Breiðadalur).

Guðný Jónsdóttir, móðir Guðrúnar í Bæ, var fædd á Tannanesi í Önundarfirði 2. apríl 1837, dóttir hjónanna Jóns Björnssonar og Guðríðar Bjarnadóttur[829] sem bjuggu á Tannanesi frá 1835 til 1860 (sjá hér Tannanes). Mörg af börnum þessara hjóna fluttust síðar til Súgandafjarðar og má þar auk Guðnýjar nefna, Sigríði, sem giftist Jóhannesi Albertssyni og bjó á Norðureyri, Þórð, sem bjó á Laugum, í Botni og í Ytri-Vatnadal, og Geirmund sem átti um skeið heima á Gilsbrekku og líka í Botni.[830]

Á árunum milli tvítugs og þrítugs var Guðný vinnukona á ýmsum bæjum í Önundarfirði.[831] Árið 1860 var hún vinnukona á Tannanesi og eignaðist þá sitt fyrsta barn, dreng sem skírður var Greipur.[832] Faðir hans var Jón Jónsson, er nefndur var Jón Gróuson, hinn sami og síðar var samtíða Guðnýju hér í Bæ á efri árum beggja.[833] Er Jón og Guðný efndu til þessarar barneignar var hann kvæntur maður og bjó á Tannanesi með konu sinni, Margréti Jónsdóttur (sjá hér Neðri-Breiðadalur). Drengurinn Greipur Jónsson, sem fæddist á Tannanesi árið 1860, dó á fyrsta ári.[834]

Annað barn Guðnýjar Jónsdóttur var Guðrún Sigurðardóttir, er síðar varð húsfreyja hér í Bæ, en hún fæddist á Tannanesi 30. júní 1863 eins og hér hefur áður verið nefnt. Faðir Guðrúnar, Sigurður Þórarinsson, var þá ráðsmaður á búi móður sinnar í Botni í Súgandafirði en frá honum er sagt hér á öðrum stað (sjá Staður).

Á bernskuárum Guðrúnar fylgdi hún oftast móður sinni sem þá var jafnan annarra hjú.[835] Þær voru fyrst á ýmsum bæjum í Önundarfirði, 1867 á Vífilsmýrum og 1868 í Efrihúsum en fluttust 1869 til Súgandafjarðar.[836] Fyrstu árin í Súgandafirði var Guðný vinnukona hjá Friðriki Verner Gíslasyni, bónda á Kvíanesi, en frá 1872 hjá Þórði bróður sínum í Botni.[837]

Árið 1876 var Guðný komin undir fertugt og þá gekk hún loks í hjónaband.[838] Brúðguminn hét Jón Kristjánsson og var fjórtán árum yngri en hún. Hann var sonur hjónanna Kristjáns Þórarinssonar og Sigríðar Guðmundsdóttur, fæddur 8. júlí 1851 í Minnihlíð í Bolungavík og fermdur frá fósturforeldrum er bjuggu á Geirastöðum í Bolungavík vorið 1866.[839] Jón fluttist frá Bolungavík að Botni í Súgandafirði árið 1869 og var þar vinnumaður næstu árin.[840]

Fyrstu hjónabandsárin voru Guðný og Jón vinnuhjú en seinna í húsmennsku og áttu heima á ýmsum bæjum í Súgandafirði, það er að segja í Botni, á Gelti, á Laugum og í Klúku.[841] Þau eignuðust tvo syni og komst annar þeirra upp, Lúðvík Emil Jónsson er fæddist í Klúku 4. október 1884.[842] Hann varð síðar kennari og bóksali og var búsettur á Suðureyri í Súgandafirði er hann andaðist í spönsku veikinni árið 1918.[843]

Árið 1885 voru Guðný og Jón Kristjánsson húsfólk í Klúku og þar var þá einnig Guðrún Sigurðardóttir, dóttir Guðnýjar.[844] Guðrún giftist á því ári Guðna Egilssyni er í sama mund gerðist bóndi í Klúku eins og hér hefur áður verð nefnt (sjá hér bls. 63). Guðný og Jón dvöldust áfram í Klúku með sinn unga son og nú í skjóli Guðrúnar og Guðna.[845] Stóð svo í tvö ár en vorið 1887 drukknaði Jón Kristjánsson er þilskipið Jeanette frá Flateyri fórst í hafi[846] (sbr. hér Flateyri).

Þegar Guðný Jónsdóttir missti eiginmanninn var hún fimmtug að aldri og sonur þeirra, Lúðvík Emil, aðeins tveggja ára. Næstu árin var hún ýmist í Klúku eða hjá dóttur sinni og tengdasyni, Guðrúnu og Guðna, sem þá voru farin að búa á Kvíanesi.[847]

Í lok ársins 1890 var Guðný komin að Eyri í Önundarfirði og næsta ár var hún húskona hjá Torfa Halldórssyni á Flateyri.[848] Árið 1892 fluttist hún norður í Bolungavík[849] og var þar í fimm ár, á Geirastöðum, í Árbæ, í Tröð og á Bolungavíkurmölum.[850] Veturinn 1897-1898 var hún á Laugum í Súgandafirði en færði sig þaðan inn í Klúku um vorið.[851] Vorið 1899 fluttist Guðný búferlum frá Botni í Súgandafirði að Kaldá í Önundarfirði.[852] Þar var hún í eitt ár en fór svo að Hóli í Firði og kom þaðan í Súgandafjörð árið 1901.[853]

Á þessum árum, 1890-1901, var Guðný oft í húsmennsku en stundum vinnukona.[854] Son sinn, Lúðvík Emil Jónsson, hafði hún oftast hjá sér en þó kom hann að Kaldá í Önundarfirði tveimur árum á undan móður sinni og kom þá beint frá Bolungavík.[855] Veturinn 1897-1898 var Guðný á Laugum í Súgandafirði og þar átti hún heima er Guðni, tengdasonur hennar í Bæ, drukknaði 28. febrúar 1898. Örfáum dögum síðar gekk hún hin þungu spor á fund Guðrúnar dóttur sinnar sem nú var orðin ekkja með fimm ung börn. Guðný Jónsdóttir á Laugum fór hér inn hjá. Hún hafði farið út í Bæ á sunnudaginn að var að finna Guðrúnu dóttur sína, ekkju Guðna heitins Egilssonar. Með þessum orðum greinir Einar Jónsson á Suðureyri frá ferðum Guðnýjar í dagbók sinni þann 8. mars 1898.[856]

Enn liðu nokkur ár uns Guðný settist að fullu að hjá Guðrúnu dóttur sinni í Bæ. Vorið 1898 færði hún sig frá Laugum og inn í Klúku[857] en þar hafði hún eins og fyrr var getið verið búsett um nokkurt skeið með eiginmanni sínum, Jóni Kristjánssyni, sem drukknaði vorið 1887. Einar Jónsson, dagbókarritari á Suðureyri, minnist aftur á Guðnýju 18. apríl 1898 og segir: Svo kom Guðný í Klúku að utan. Hún hva vera búin að færa sig þangað frá Laugum. Hún fór inneftir. Hún hafði farið að finna Guðrúnu dóttur sína á laugardaginn.[858]

Árið 1901 varð Guðný Jónsdóttir 64 ára gömul. Á því ári fór hún loks að fullu til Guðrúnar dóttur sinnar og fylgdi henni þaðan í frá.[859] Árin hennar hér í Bæ urðu fimm því árið 1906 fluttist hún með Guðrúnu og öllu hennar fólki á Suðureyrarmalir og andaðist þar 30. maí 1908.[860] Sextíu árum síðar voru flestir dánir sem mundu eftir Guðnýju en nokkrir voru þó enn á lífi. Kristjana Friðbertsdóttir, sem fæddist í Hraunakoti í Vatnadal árið 1884, sagði um hana sumarið 1968: Þetta var harðneskjumanneskja mikil og vinnumanneskja fjarska mikil.[861] Við þau ævikjör sem Guðnýju Jónsdóttur frá Tannanesi voru búin mun hún oft hafa þurft að grípa til harðneskjunnar.

Hér var áður á það minnst að eitt gamalmennanna hjá Guðrúnu Sigurðardóttur í Bæ á árunum kringum aldamótin 1900 hefði verið Jón Jónsson, fyrrum bóndi og húsmaður í Breiðadal, almennt nefndur Jón Gróuson. Jón varð heimilisfastur hjá Guðrúnu árið 1896, sama ár og þau hjónin, hún og Guðni Egilsson, hófu búskap hér í Bæ.[862] Karlinn var þá sjötugur að aldri, fæddur 30. nóvember 1825 (sjá hér Neðri-Breiðadalur), og þaðan í frá sat hann um kyrrt á heimili Guðrúnar uns dagarnir voru að fullu taldir.[863] Hann andaðist hér í Bæ 12. febrúar 1903.[864] Um Jón Gróuson og ævi hans fram að sjötugu hefur áður verið fjallað á þessum blöðum (sjá hér Neðri-Breiðadalur) og verður ekki endurtekið en minnt skal á að árið 1860 hafði hann eignast barn fram hjá konu sinni með Guðnýju Jónsdóttur, móður Guðrúnar Sigurðardóttur í Bæ. Það barn dó ungt en í elli sinni voru þau Guðný og Jón Gróuson aftur saman í horninu hjá dóttur Guðnýjar hér í Bæ og hafa þá getað ornað sér við gamlar minningar. Tengslin á milli þeirra virðast reyndar aldrei hafa slitnað til fulls því á uppvaxtarárum Guðrúnar Sigurðardóttur dvaldist þessi dóttir Guðnýjar árum saman hjá Jóni Gróusyni og Margréti konu hans í Neðri-Breiðadal í Önundarfirði (sjá hér bls. 74). Svo virðist sem Guðrún hafi litið á Jón Gróuson sem fóstra sinn því bæði tók hún við honum gömlum til varanlegrar dvalar og hafði nokkru fyrr látið skíra eldri dóttur sína Jónu Margréti, að sögn í höfuðið á þeim hjónum, Jóni Gróusyni og konu hans, Margréti Jónsdóttur.[865]

Að sögn Magnúsar Hjaltasonar var Jón hygginn vel og drengur góður.[866] Kristjana Friðbertsdóttir, sem hér var nýlega nefnd og fór 14 ára gömul úr foreldrahúsum í Hraunakoti í Vatnadal vorið 1898, mundi vel eftir Jóni Gróusyni og sagði svo frá löngu síðar að þessi gamli maður í Bæ hefði verið fremur lágur vexti en gildvaxinn, þreytulegur á efri árum og ekki fríður, – mjög fastmæltur og kvað mikið upp á errið.[867]

Líklegt er að Jón Gróuson hafi aldrei lært mikið í skrift og á árunum milli 1890 og 1898 kom hann stundum að Hraunakoti í Vatnadal hér í Súgandafirði til Friðberts Guðmundssonar sem þar átti heima og var þá að fá hann til að skrifa fyrir sig bréf. Kristjana, dóttir Friðberts, minntist þess á sínum efri árum að eitt sinn sat hún barn hjá föður sínum þegar hann var að skrifa bréf fyrir þennan gamla mann sem sjálfur var einnig þar.[868] Er Friðbert hafði lokið við að skrifa bréfið spyr hann hvaða nafn eigi að rita undir það. Bara Jón Jónsson, svarar hinn, en dóttir skrifarans, sem þá var ung að árum og hafði enn ekki lært að gæta orða sinna, mótmælti og sagði: Nei, þú heitir Jón Gróuson.[869] Þetta mundi Kristjana alla ævi vegna þess að hún skildi strax að orðunum slepptum að þarna hefði hún sagt það sem ekki átti að segja.[870] Minningin sem hún geymdi enn um þetta atvik sjötíu árum síðar færir okkur vísbendingu um að Jóni hafi verið illa við að vera kallaður Gróuson og viljað láta kenna sig við föður sinn eins og títt var um aðra Jóna.

Þriðja gamalmennið sem átti lengi heima hjá Guðrúnu Sigurðardóttur í Bæ á árunum kringum aldamótin 1900 var tengdamóðir hennar, Guðríður Eiríksdóttir.[871] Hér hefur áður verið minnst stuttlega á Guðríði en hún var á árunum 1866-1872 eiginkona Guðbrands Jónssonar er var bóndi hér í Bæ á árunum 1848-1855 (sjá hér bls. 38-42 og 59-61). Er Guðríður settist um kyrrt hjá syni sínum og tengdadóttur, þeim Guðrúnu og Guðna, var hún orðin roskin kona sem margt hafði reynt. Heimildir um æviferil hennar eru reyndar af skornum skammti en geyma þó mikla sögu sem vert væri að rekja í lengra máli en hér verður gert. Ýmsir þættir úr ævi Guðríðar gætu líka hentað býsna vel sem efni í skáldskap.

Tæplega tvítug að aldri var hún dæmd til dauða norður á Sléttu í Jökulfjörðum, haustið 1849, fyrir að eignast barn með stjúpföður sínum, Þorsteini bónda Snæbjörnssyni.[872] Móðir hennar, Kristín Bjarnadóttir, sem verið hafði eiginkona Þorsteins, dó þegar Guðríður var 16 ára[873] og mun hún þá hafa tekið við stjórn mála innan stokks á búi stjúpföður síns en þau áttu þá heima í Hraundal í Nauteyrarhreppi við Ísafjarðardjúp. Síðla sumars árið 1848 hófust samfarir Þorsteins og Guðríðar og varð hún brátt þunguð af hans völdum.[874] Hún var þá að verða 19 ára og hátt á þriðja ár liðið frá því móðir hennar andaðist. Samkvæmt ákvæðum gildandi laga var barneign Þorsteins og Guðríðar engu að síður talin sifjaspell því gamla blóðskammarþulan frá dögum stóradóms var enn í nokkurn veginn fullu gildi þó komið væri fram á miðja nítjándu öld.

Vorið 1848 höfðu Þorsteinn og Guðríður flust búferlum frá Hraundal norður að Atlastöðum í Fljóti (Fljótavík) í Sléttuhreppi og þar fæddist barn þeirra 8. júní 1849.[875] Þetta var stúlkubarn, sem gefið var nafnið Helga, en telpan dó, liðlega þriggja mánaða gömul, þann 16. september 1849,[876] daginn áður en dauðadómurinn yfir foreldrunum var kveðinn upp.[877]

Réttarhöld í máli Guðríðar og Þorsteins stjúpa hennar hófust á Stað í Aðalvík 27. ágúst 1849 og þann 17. september var dæmt í málinu á þingstað réttum, Sléttu í Jökulfjörðum.[878] Sá sem kvað upp dóminn var Magnús Gíslason er þá var settur sýslumaður í Ísafjarðarsýslu en dómsorð hans hljóðaði á þessa leið:

 

Hinn sakaði Þorsteinn Snæbjörnsson á Atlastöðum, eftir prestavitnisburðum sæmilega að sér og áður óátalinn að lögum og með mannorði góðu, kominn langt yfir lögaldur sakamanna, hefir frjáls og fúslega viðgengið faðernislýsingu að barni því er Guðríður stjúpdóttir hans Eiríksdóttir fæddi á vori er var, 8. júní. Eru og fullar sannanir fram komnar með fleiri prests vitnisburðum (Litr. a. f. og g.) um tengdir þeirra Þorsteins og Guðríðar, að játning hans sé sönn.

Hin sakaða Guðríður Eiríksdóttir á Látrum [þ.e. Látrum í Aðalvík – innsk. K.Ó.], á 20. aldursári, í góðu lagi að sér í kristindómsþekkingu og ekki óskikkanleg að siðferði að undanförnu, hefir einnnig frjáls og fúslega borið stjúpa sinn, Þorstein Snæbjörnsson, faðerni að barni því sem áður er um rætt og hann hefir við gengið.

Þau hin sökuðu hljóta því eftir tilskipun 23. maí 1800, paragraf 1 og Dl 6-13-14, samanber tilskipun 24. janúar 1838, paragraf 1, að láta líf sitt, svo og að borga allan þann kostnað er af máli þessu leiðir löglega. Meðferð málsins hefur verið lögmæt.

Því dæmist rétt vera:

Þorsteinn Snæbjörnsson og Guðríður Eiríksdóttir eigu líf sitt að láta. Þau eigu og sameiginlega að greiða allan þann kostnað er af máli þessu löglega leiðir. Dóminum á að fullnægja undir aðför að lögum.[879]

 

Dauðadómurinn yfir Guðríði og Þorsteini var staðfestur í landsyfirrétti þann 18. febrúar 1850[880] og í hæstarétti í Kaupmannahöfn 14. nóvember sama ár.[881]

Árið 1849 voru liðin 86 ár frá því dauðadómi vegna sifjaspella var síðast fullnægt á landi hér[882] og þess vegna gátu allir sem þekktu dálítið til laga og réttarfars leyft sér að gera ráð fyrir að Guðríður og Þorsteinn yrðu náðuð af kóngi og í stað lífláts kæmi vægari refsing. Hvort almúgastúlkan Guðríður, sem aðeins var 19 ára gömul þegar dauðadómurinn var lesinn yfir henni, hefur vitað nokkuð um þetta er svo annað mál. Líklegt er þó að svo hafi verið því að við réttarhaldið á Stað í Aðalvík þann 27. ágúst 1849 kvaðst hún vilja leita konunglegrar náðar og miskunnar ef dómur félli harður.[883]

Það var Friðrik sjöundi Danakonungur sem náðaði Guðríði Eiríksdóttur og Þorstein stjúpföður hennar og er náðunarbréfið dagsett 19. desember 1850.[884] Í bréfi konungs er mælt fyrir um að Guðríður haldi lífi en henni skuli refsað með 27 vandarhöggum.[885]  – 27 slag riis, segir þar svo ekki fer milli mála að viðkomandi yfirvaldi var gert að láta hýða hana með hrísvendi. Í konungsbréfinu frá 19. desember 1850 var einnig tilkynnt að í stað lífláts skyldi Þorsteinn, stjúpfaðir Guðríðar, sendur til Kaupmannahafnar og látinn erfiða þar upp á konungsnáð.[886] Kóngur lét hins vegar alveg vera að taka fram hversu langa vist hann ætlaði Þorsteini í Stokkhúsinu við Austurvegg sem þá var helsta fangelsi Kaupmannahafnar fyrir refsifanga.[887] Þorsteinn var sendur utan með skipi, sem fór frá Ísafirði 30. ágúst 1852, og sat inni í hálft annað ár eða því sem næst.[888]

Á Guðríði var refsingin lögð 18. júní 1852 og tók hún þá út á sínum kroppi þau 27 vandarhögg sem mælt var fyrir um í kóngsbréfinu. Að hýðingin hafi farið fram þennan dag vottar Magnús sýslumaður Gíslason með þessum orðum er hann ritaði á afrit af hæstaréttardómnum í máli Þorsteins og Guðríðar:

 

Ofanskrifaður hæstaréttardómur er birtur hinum sakfelldu persónum eftir stefnuvottanna umvitnun í hreppum þeim sem þau dvelja nú í að löglegum hætti. Síðan var straffið á hina seku, Guðríði Eiríksdóttur, álagt í námsvotta viðurvist þann 18. júní 1852 með lögskipuðum hætti. Þetta vitnast  hérmeð  í  embættisnafni.  Ísafjarðarsýsluskrifstofu 30. desember 1852.

  1. Gíslason.[889]

 

Sumarið 1852 var Guðríður vinnukona í Eyrardal í Álftafirði[890] svo ætla má að hún hafi verið hýdd í Súðavík sem var þingstaðurinn í Súðavíkurhreppi. Hver böðullinn var vitum við ekki en vona má að hann hafi sparað kraftana við þetta níðingsverk sem unnið var í nafni réttvísinnar.

Guðríður Eiríksdóttir var fædd í Arnardal í Skutulsfirði 18. nóvember 1829.[891] Foreldrar hennar, þau Eiríkur Ólafsson og Kristín Bjarnadóttir, voru þá ógift vinnuhjú en gengu í hjónaband 3. október 1831.[892] Þá áttu þau heima á Hafrafelli í Skutulsfirði.[893] Eiríkur drukknaði 3. maí 1832 en þann dag voru liðnir nákvæmlega sjö mánuðir frá því hann kvæntist Kristínu. Er faðir Guðríðar drukknaði bar móðir hennar barn undir belti og 5. ágúst þá um sumarið eignaðist hún dóttur sem gefið var nafnið Ríkey.[894] Sú stúlka fæddist á Augnavöllum í Hnífsdal.[895] Hún var eina alsystir Guðríðar og þær áttu engan bróður.[896] Á fyrstu árum ævinnar fylgdi Guðríður foreldrum sínum og síðan móður sinni sem giftist Þorsteini Snæbjörnssyni þegar Guðríður var um sjö ára aldur.[897] Þær mæðgur áttu jafnan heima í Skutulsfirði uns þær fluttust með Þorsteini að Hraundal í Nauteyrarhreppi vorið 1838.[898] Þaðan í frá ólst Guðríður upp í Hraundal[899] og þar andaðist móðir hennar, Kristín Bjarnadóttir, þann 10. janúar árið 1846.[900] Þau Þorsteinn og Kristín áttu þá tvær dætur á lífi sem báðar komust upp.[901]

Vorið 1848 fluttist Guðríður Eiríksdóttir með stjúpföður sínum frá Hraundal norður að Atlastöðum í Fljóti (Fljótavík) í Sléttuhreppi eins og hér hefur áður verið rakið en þaðan fór hún árið 1849 að Sæbóli í Aðalvík og tveimur árum síðar að Eyrardal í Álftafirði.[902] Í Eyrardal var Guðríður í tvö ár en fór þaðan norður í Grunnavíkurhrepp vorið 1853[903] og var þar eitt ár á Stað í Grunnavík og annað á bænum Dynjanda.[904] Vorið 1855 varð Guðríður vinnukona í Hraundal[905] þar sem hún hafði alist upp frá 8 ára aldri. Þaðan hafði hún farið 18 ára gömul vorið 1848 en kom nú aftur sjö árum síðar til nýrra húsbænda. Árin sem hún dvaldist í Hraundal að þessu sinni urðu þrjú en síðan var hún eitt ár á Laugalandi í sama hreppi og annað í Bæjum á Snæfjallaströnd.[906] Þaðan fór hún að Tungu í Skutulsfirði og var þar í tvö ár hjá Friðriki Verner Gíslasyni og konu hans, Guðrúnu Sigurðardóttur.[907] Með Friðriki og Guðrúnu fluttist Guðríður til Súgandafjarðar sumarið 1862 en þau fóru þá að búa á Kvíanesi.[908] Um vorið hafði hún verið fanggæsla hjá Guðmundi Þorleifssyni í Bolungavík.[909] Guðríður kom frá Bolungavík til Súgandafjarðar aðfaranótt 27. júní 1862[910] og var þá að koma hingað til dvalar í fyrsta sinn. Hún hafði þá lifað í 32 ár en árin sem hún átti fram undan í þessu byggðarlagi urðu áður en lauk nær 36.[911] Frá 1862 til 1865 var hún á Kvíanesi, fór þá til Ísafjarðar en kom aftur í Súgandafjörð árið 1871 og settist um kyrrt.[912] Á árunum 1865-1871 var Guðríður fyrst í fjögur ár í Skutulsfirði, m.a. hjá prestinum á Eyri, og síðan í tvö ár á Dynjanda í Jökulfjörðum (sjá hér bls. 40-41).

Guðríður Eiríksdóttir eignaðist sex börn með fimm karlmönnum. Fyrsta barn hennar var Helga sem fæddist á Atlastöðum í Fljóti 8. júní 1849. Faðir hennar var Þorsteinn Snæbjörnsson, stjúpi Guðríðar, og fyrir þá barneign voru þau dæmd til dauða eins og hér hefur þegar verið rakið. Annað barn Guðríðar var Veturliði, fæddur á Dynjanda í Jökulfjörðum 18. apríl 1855.[913] Faðir hans var Vagn Ebenezersson, kvæntur bóndi á Dynjanda[914] og húsbóndi Guðríðar við getnað og fæðingu drengsins. Þriðja barnið var Guðni, sem fæddist í Hraundal 18. mars 1858 og hér hefur áður verið sagt frá, en faðir hans var Egill Guðmundsson, kvæntur bóndi í Hraundal og þáverandi húsbóndi Guðríðar (sjá hér bls. 59-61). Fjórða barn Guðríðar Eiríksdóttur var Kristján sem fæddist 20. mars 1863 á Kvíanesi í Súgandafirði.[915] Þann son kenndi hún Sigurði Þórarinssyni, er var ráðsmaður á búi móður sinnar í Botni, en hann sór að lokum fyrir faðernið svo drengurinn varð föðurlaus.[916] Fimmta barnið sem Guðríður eignaðist var Jóna (stundum nefnd Jónína í sóknarmannatölum), sem fæddist á Eyri í Skutulsfirði 14. ágúst 1866,[917] en faðir hennar var Guðbrandur Jónsson og honum giftist Guðríður fáum mánuðum eftir þessa barnsfæðingu[918] (sbr. hér bls. 40-41). Síðasta lifandi barnið sem Guðríður færði heiminum var Bjargey, fædd á Ísafirði 6. desember 1867, en hún var tvíburi á móti andvana fæddum dreng.[919] Þessir tvíburar voru hin einu af börnum Guðríðar sem voru getin í hjónabandi.

Tvö af börnum Guðríðar dóu mjög skömmu eftir fæðingu, Helga sem var elst og Bjargey sem var yngst.[920] Hin fjögur náðu öll að komast á legg en Jóna Guðbrandsdóttir dó, 17 ára að aldri, í Klúku í Súgandafirði 5. ágúst 1883[921] og Kristján Guðríðarson dó 21 árs gamall á Ísafirði 14. júlí 1884.[922] Ekkert af börnunum ólst upp hjá Guðríði nema Jóna, sem fylgdi yfirleitt móður sinni, og svo Guðni sem var oftast nær hjá henni til sjö ára aldurs.[923]

Af sex börnum Guðríðar náðu aðeins tveir synir að eignast börn þeir Veturliði Vagnsson og Guðni Egilsson.[924] Veturliði kvæntist Margréti Magnúsdóttur og varð bóndi á Dynjanda í Jökulfjörðum.[925] Hann andaðist 27 ára gamall 16. febrúar 1883.[926] Frá Guðna hefur áður verið sagt í þessu riti (sjá hér bls. 59-65). Hann kvæntist Guðrúnu Sigurðardóttur og bjó síðast hér í Bæ en drukknaði tæplega fertugur að aldri 28. febrúar 1898. Sjálf lifði Guðríður öll sín börn og frá sonum hennar, þeim Veturliða og Guðna, er nú kominn fjölmennur hópur fólks.[927]

Vegna þess hve barnsfeður Guðríðar urðu margir áður en lauk kynni ýmsum að detta í hug að hún muni hafa verið lausari á kostum en góðu hófi gegndi. Ef til vill hefur þessi dauðadæmda kona átt til að gefa karlmönnum undir fótinn en svo þarf þó alls ekki að hafa verið því á hennar tíð voru möguleikar réttindalausra vinnukvenna til að verjast líkamslosta stórbokka í bændastétt sem yfir þær voru settir nánast engir.

Við réttarhald í barnsfaðernismáli Guðríðar sumarið 1859 (sbr. hér bls. 59-61) hafði verjandi hennar, Arnór Hannesson, hreppstjóri á Sandeyri á Snæfjallaströnd, þetta helst til málanna að leggja:

 

… að Guðríður væri einföld og fáfróð, kæmi sér vel alls staðar hjá húsbændum sínum, bæði húsmæðrum og húsfeðrum, –  væri heilsulin svo hún ekki þyldi neina hegningu og bláfátæk svo hún engan skilding eða skildingsvirði ætti … og þar með að hún hefði verið tæld af bæði þessum og hinum mönnum.[928]

 

Orðum Arnórs um einfeldni Guðríðar og heilsuleysi mun hyggilegast að taka með fyrirvara því hann hefur fyrst og fremst hug á að sýna fram á að það séu karlmennirnir sem tæli hana en ekki öfugt og forða henni þannig frá því að verða hýdd í annað sinn.

Fyrir þetta lausaleiksbrot sitt, sem var hið þriðja, fékk Guðríður 12 ríkisdala sekt og auk þess var henni gert að greiða allan sakarkostnað en til annarrar refsingar var hún ekki dæmd að því sinni.[929] Eins og nærri má geta átti Guðríður hins vegar enga möguleika á að greiða sektina og málskostnaðinn. Bogi Thorarensen, sem var amtmaður í vesturamtinu, gaf því snemma á árinu 1863 út fyrirmæli um að hún skyldi hýdd í annað sinn og nú var henni gert að þola 6 vandarhögg.[930] Þá refsingu mun Guðríður hafa tekið út árið 1865,[931] árið sem hún fluttist frá Kvíanesi að Eyri í Skutulsfirði. Á því sama ári varð hún þunguð af völdum Guðbrands Jónssonar, gamla Barna-Brands, er svo var nefndur, og honum giftist hún einu ári síðar (sjá hér bls. 40-41 og 88).

Ekki mun Guðríður hafa verið síðasta konan á Íslandi sem réttvísin dæmdi til að taka út refsingu á sínum kroppi því lagaákvæðin um hýðingar voru ekki felld úr gildi fyrr en með tilskipun sem út var gefin 11. febrúar 1876 en þar var byggt á nýjum hegningalögum frá árinu 1869.[932]

Hér var þess áður getið að Guðríður Eiríksdóttir kom fyrst til Súgandafjarðar sumarið 1862 og var hún vinnukona á Kvíanesi næstu þrjú árin en fór þá að Eyri í Skutulsfirði. Árið 1871 fluttist Guðríður aftur til Súgandafjarðar ásamt eiginmanni sínum, Guðbrandi Jónssyni, er hún hafði gifst á Ísafirði árið 1866 (sjá hér bls. 41). Þau Guðríður og Guðbrandur komu þá norðan úr Grunnavíkurhreppi og höfðu með sér Jónu dóttur sína sem þá var um 5 ára aldur.[933] Við komuna til Súgandafjarðar árið 1871 settust þau að í húsmennsku á Kvíanesi og þar andaðist Guðbrandur árið 1872.[934] Þá var Guðríður 42ja ára gömul. Næstu ár var hún vinnukona á Kvíanesi og hafði dóttur sína hjá sér en frá árinu 1875 segir prestur hana vera húskonu eða húsmannskerlingu[935] og má því ætla að hún hafi verið með a.m.k. einhvern vísi að sjálfstæðu heimilishaldi fyrir sig og dótturina sem fylgdi móður sinni fram á unglingsár.

Frá Kvíanesi fór Guðríður ekki fyrr en árið 1879 en þá færði hún sig inn í Klúku[936] sem var hjáleiga frá Botni, mjög skammt fyrir innan Kvíanes. Þar var hún næstu átta ár, oftast húskona á árunum 1879-1885 en þó vinnukona um skeið.[937] Vorið 1885 fór Guðni Egilsson, sonur Guðríðar, að búa í Klúku (sjá hér bls. 59-63) og þaðan í frá fylgdi hún jafnan þessum syni sínum og eiginkonu hans, Guðrúnu Sigurðardóttur. Þau voru fyrst tvö ár í Klúku, síðan níu ár á Kvíanesi og loks hér í Bæ frá vorinu 1896.[938] Guðni bóndi Egilsson var það barn Guðríðar sem lengst lifði og er hans missti við í lok febrúar árið 1898 var hún orðin 68 ára gömul. Nú var það bara tengdadóttirin, Guðrún Sigurðardóttir, og börn hennar ung sem þessi gamla kona átti að á nálægum slóðum. Í skjóli tengdadóttur sinnar fékk hún að dveljast áfram í Bæ og hér andaðist gamla Guðríður þann 4. janúar árið 1904.[939]

Áður en lengra verður haldið mun rétt að rifja upp að það var faðir Guðrúnar Sigurðardóttur, Sigurður Þórarinsson, þá í Botni, er Guðríður kenndi barnið sem hún fæddi í heiminn árið 1863, drenginn Kristján Guðríðarson (sjá hér bls. 87-88), sbr. hér Staður og Fremri-Vatnadalur). Sigurður neitaði þá faðerninu og á manntalsþingi sem haldið var á Suðureyri 8. ágúst 1864 sór hann fyrir að hafa átt nokkur líkamleg mök við Guðríði.[940] Enginn veit nú hvort sá eiður var rangur en hafi svo verið má segja að Guðrún, dóttir Sigurðar og tengdadóttir Guðríðar, hafi löngu síðar bætt fyrir brot föður síns gagnvart Guðríði. Að sögn Guðríðar átti drengurinn, Kristján Guðríðarson, að hafa komið undir í verbúð á Suðureyrarmölum aðfaranótt 27. júní árið 1862[941] en það var fyrsta nóttin sem Guðríður dvaldist í Súgandafirði. Hún var þá að koma norðan úr Bolungavík og hafði fengið far með Sigurði sem þar var vertíðarformaður.[942] Bæði lögðust þau til hvíldar í verbúð á Suðureyrarmölum þessa nótt[943] og frá atburðum hennar greindi Guðríður svo við réttarhald í Botni í Súgandafirði 15. júlí 1863, að sögn sýslumanns:

 

Þegar Sigurður og Guðríður voru einsömul stödd í búðinni biður hann hana að koma yfirum til sín. Hún var þá háttuð í öðru rúmi í þessari búð en þá hún ekki kom, kom hann yfirum til hennar og framdi þar vilja sinn með henni.[944]

 

Kristján Guðríðarson fæddist 20. mars 1863 eins og nefnt var hér litlu framar en Guðrún Sigurðardóttir 30. júní það sama ár (sjá hér bls. 74 og Fremri-Vatnadalur – Hraunakot þar). Hafi Sigurður Þórarinsson verið faðir Kristjáns eignaðist hann því tvö börn á sama misserinu, sitt með hvorri konunni. Ljóst er að títtnefndur Kristján Guðríðarson var hálfbróðir Guðna Egilssonar því báðir voru synir Guðríðar og hafi staðhæfing hennar um faðernið verið rétt var hann líka hálfbróðir Guðrúnar Sigurðardóttur, eiginkonu Guðna, svo allt er þetta dálítið merkileg flétta.

Í öðru bindi af ritinu Vestfirskum ættum, sem út var gefið árið 1959, segir að Guðríður hafi, að sögn gamalla kvenna í Súgandafirði, verið ljósmóðir af guðs náð.[945]

Margvíslegar heimildir sýna að þessi dauðadæmda og tvíhýdda almúgakona, sem engrar menntunar hafði notið, hefur af samtíðarfólki sínu verið talin frábær yfirsetukona. Sjálf mun Guðríður hafa sagt svo frá að hún hafi á unglingsárum sínum í Hraundal náð að bjarga álfkonu í barnsnauð og æ síðan notið blessunaróska hennar við ljósmóðurstörf. Hún sagði Magnúsi Hjaltasyni þessa sögu er hún var komin um sjötugt og kvaðst þá hafa verið á sextánda árinu er hún bjargaði álfkonunni.[946] Magnús skráði söguna eftir gömlu konunni og þá útgáfu hennar birtir Gunnar M. Magnúss í Súgfirðingabók árið 1977.[947] Önnur gerð þessarar sömu álfasögu hefur varðveist hjá niðjum Guðríðar og mun hafa verið skráð eftir frásögn tengdadóttur hennar, Guðrúnar Sigurðardóttur.[948] Í því handriti er sagan á þessa leið:

 

Þegar hún [Guðríður] var ung stúlka í Hraundal í Kirkjubólssókn fór hún eitt sinn ásamt fleira fólki á grasafjall svo sem venja var. Hún hafði keppst við að tína grösin og er hún loks leit upp varð hún þess vör að samferðafólkið var hvergi nærri. Sest hún þá niður til að hvíla sig eftir bogrið. Finnst henni þá að til sín komi maður sem hún ekki þekkir. Biður hann hana að koma með sér og aðstoða konu sína sem sé í barnsnauð. Kveður hann þau ekki þurfa langt að fara. Guðríður segist ekki kunna neitt til slíkra verka en komumaður segir að ekki skuli hún kvíða því, það muni allt ganga vel, og segir það eitt geta bjargað konu sinni að hún komi með sér. Verður það úr að hún fer með honum. Koma þau nú brátt þar að sem kona liggur á gólfi. Fer Guðríður höndum um konuna og hjálpar eftir megni. Virðist henni nú sem hún viti hvað gera skuli og gengur allt vel.

Konan þakkar henni hjálpina og segir að sakir fátæktar geti hún ekki launað henni sem skyldi en þó geti hún lofað henni því að vel muni henni lánast slík störf í framtíðinni. Ókunni maðurinn fylgir nú Guðríði þangað sem hún hafði skilið eftir grasapokann og var fólkið þá farið að svipast um eftir henni og heyrir hún köll þess. Hverfur þá maðurinn en hún fer til fólksins.[949]

 

Í handritinu sem hér er byggt á er tekið fram að sögu þessa hafi Guðríður sagt Guðrúnu tengdadóttur sinni og Guðrún sínum börnum og fleira fólki.[950] Sá sem skráði þessa gerð sögunnar lætur þess einnig getið að Guðríður hafi sjaldan eða aldrei minnst á ferð sína í álfheima nema hún væri sérstaklega um það spurð.[951]

Gunnar M. Magnúss segir að Guðríður hafi verið orðin þekkt yfirsetukona er hún fluttist til Súgandafjarðar og bætir við: Hafði orðrómur borist af komu hennar og var henni tekið með opnum örmum.[952]

Magdalena Símonía, fyrsta barn alþýðuskáldsins Magnúsar Hjaltasonar og heitkonu hans, Guðrúnar Önnu Magnúsdóttur, fæddist hér í Bæ 5. janúar árið 1900 og var Guðríður ljósmóðir að því barni (sjá hér bls. 77-79). Hún var þá sjötug að aldri og átti fjögur ár ólifuð en vera má að þetta hafi verið síðasta barnið sem hún tók á móti.

Magnús Hjaltason segir að aldrei hafi þurft að sækja lækni til konu sem Guðríður sat yfir og bætir við: Að meðtaldri unnustu minni er hún nú búin að vera hjá 85 konum í barnsnauð, hefur þó aldrei til þessa starfs lært utan af sjálfsdáðum.[953]

Magnús kynntist Guðríði hér í Bæ á hennar síðustu árum og segir að hún hafi verið hinn mesti kvenskörungur.[954]

Svo virðist sem Guðríður hafi notið virðingar og vinsælda hjá Súgfirðingum. Valdimar Þorvaldsson frá Selárdal, sem orðinn var 25 ára þegar hún andaðist, mundi vel eftir Guðríði. Hann lætur þess geti í ritgerð að hún hafi verið: … mjög lagin ljósmóðir og mesta röskleika- og myndarkona og mikils metin af öllum sem hún hafði kynni af.[955] Sumarið 1897 virðist hún enn hafa verið við bærilega heilsu því þá var hún dagstund í fiskvinnu á Suðureyri.[956]

Guðríður Eiríksdóttir andaðist hér, 74 ára að aldri, þann 4. janúar árið 1904 og var jörðuð í kirkjugarðinum á Stað ellefu dögum síðar.[957]

Um fólkið sem hóf búskap í Bæ 1899 og 1901 verður fátt sagt á þessum blöðum því lífsstríð þess hér heyrir tuttugustu öldinni til.

Annar bændanna tveggja, sem fóru að búa í Bæ rétt um aldamótin 1900, var Guðmundur Sigurðsson sem fluttist ásamt fjölskyldu sinni frá Laugum að Langhól, einu býlanna í Bæ, vorið 1899.[958] Hann fæddist á Gilsbrekku 14. júlí 1865[959] en fyrir uppruna hans verður nánari grein gerð þegar staldrað verður við á Laugum þar sem hann bjó í átta ár, frá 1891 til 1899. Kona Guðmundar var Arína Þórðardóttir, fædd 31. maí 1867, ein margra barna hjónanna Þórðar Þórðarsonar og Helgu Sigurðardóttur sem bjuggu í Ytri-Vatnadal frá 1866 til 1885.[960]

Þegar Guðmundur bjó á Laugum sótti hann sjó af kappi frá Suðureyri.[961] Hann átti þá sexæring og var sjálfur formaður bæði að vetrinum og á vorvertíð.[962] Verbúð hans á Suðureyri var nefnd Babýlon[963] (sjá hér Suðureyri). Gunnar M. Magnúss segir að engin breyting hafi orðið á útgerðarháttum og sjósókn Guðmundar er hann fluttist frá Laugum að Langhól.[964] Sexæringurinn sem Guðmundur átti vorið 1903 hét Áslaug og var hann sjálfur formaður.[965] Róið var frá Suðureyri.[966] Vorvertíðin hófst um páska og stóð fram í 11. eða 12. viku sumars.[967] Hásetar Guðmundar vorið 1903 voru: Guðmundur Guðmundsson í Róm á Suðureyri, áður bóndi á Laugum, Jón Þorbjörnsson á Suðureyri, Halldór Guðmundsson á Þverá, Jóhannes Guðmundsson á Kvíanesi og Jón Magnússon í Bæ.[968] Þeir hásetanna sem ekki voru búsettir á Suðureyri lágu við í verbúð formannsins þegar henta þótti.[969] Að sögn Halldórs Guðmundssonar, eins háseta Guðmundar Sigurðssonar vorið 1903, var Babýlon þá vistlegasta verbúðin á Suðureyrarmölum.[970] Hásetahluturinn á Áslaugu varð 200,- krónur á þessari vorvertíð, sá hæsti í Súgandafirði á þeirri vertíð.[971]

Árið 1906 var Guðmundur Sigurðsson einn þriggja Súgfirðinga sem festu kaup á nýjum mótorbát er smíðaður hafði verið í Danmörku.[972] Átti Guðmundur hálfan bátinn en meðeigendur hans voru Halldór Guðmundsson, er þá átti heima á Þverá í landi Bæjar en síðar á Suðureyri (sjá hér bls. 102-106), og Veturliði H. Guðnason sem fluttist frá Bæ að Suðureyri sama ár og þeir keyptu bátinn[973] (sbr. hér bls. 79). Bát sinn nefndu þeir félagar Sigurvon[974] og varð það bátsnafn langlíft í Súgandafirði. Er Guðmundur réðst í að kaupa nýnefndan mótorbát var hann liðlega fertugur að aldri og fyrir löngu orðinn þrautreyndur formaður á áraskipi. Hann mun þó ekki hafa kært sig um að gerast formaður á Sigurvoninni og var Veturliða falin formennskan[975] þó ekki væri hann nema tvítugur að aldri. Líklegt er að Guðmundur hafi talið illgerlegt að sinna starfi formanns á hinum nýja mótorbát með búskapnum í Bæ og ekki viljað hætta að búa.

Í dagbók Magnúsar Hjaltasonar sjáum við að það var 1. júní 1899 sem þau Guðmundur og Arína kona hans fluttust búferlum frá Laugum að býlinu Langhól hér í Bæ. – Flutti Guðmundur Sigurðsson búslóð sína frá Laugum að Langhól og lenti hann í Stöðinni, skrifar Magnús í dagbók sína daginn þann.

Fyrstu árin sem Guðmundur og Arína bjuggu í Bæ höfðu þau aðeins einn fjórða part úr jörðinni til ábúðar, það er sex hundruð að fornu mati.[976] Ætla má að í þessum efnum hafi engin breyting orðið fyrr en vorið 1906, þegar Guðrún Sigurðardóttir, ekkja Guðna Egilssonar, hætti að búa. Þá fækkaði bændum í Bæ úr þremur í tvo.[977] Guðrún hafði búið á hálfri jörðinni (sjá hér bls. 76-77) og heimildir sýna að fardagaárið 1908-1909 var Guðmundur Sigurðsson kominn með ábúð á fullum helmingi af allri jörðinni.[978]

Árið 1909 byggði Guðmundur íbúðarhús úr timbri á nýju bæjarstæði í Bæjartúninu þar sem heitir Sjónarhóll.[979] Á því ári eða hinu næsta færði hann sig frá Langhól í þetta nýja íbúðarhús. Timburhúsið sem Guðmundur Sigurðsson reisti árið 1909 stendur enn (1996) og í því var búið til haustsins 1973.[980] Engar mjög stórvægilegar breytingar hafa verið gerðar á því en skúrinn sem nú er framan við húsið var byggður seinna.[981]

Á árunum 1901-1914 bjuggu hjónin Kristján Guðmundsson og Guðrún Daðadóttir á jarðarparti í Bæ[982] og höfðu fjórðung úr jörðinni til ábúðar árið 1902.[983] Þeirra verður getið hér stuttlega síðar. Þegar Kristján hætti búskap árið 1914 tóku þrír menn á Suðureyri jarðarpartinn sem hann hafði búið á til slægna[984] en Guðmundur Sigurðsson varð eini bóndinn í Bæ. Þá voru 79 ár liðin frá því síðast var búið hér í einbýli (sjá hér bls. 27-32). Frá 1914 til 1926 bjó Guðmundur hér einn (sjá Firðir og fólk 1900-1999, 441) en á þeim árum mun einhver partur af jörðinni jafnan hafa verið nytjaður af eigendum sem áttu heima á Suðureyri. Árið 1916 átti Guðmundur Sigurðsson þriðjung jarðarinnar, átta hundruð að fornu mati (sjá hér bls. 14). Eigendur búsettir á Suðureyri áttu þá sjö hundruð og bændur í Botni og á Norðureyri níu hundruð (sjá hér bls. 13-14).

Svo fór að búskaparár Guðmundar Sigurðssonar og Arínu Þórðardóttur, konu hans, hér í Bæ urðu 43 eða 44 ef með er talið árið sem Arína bjó ein með dætrum sínum að Guðmundi látnum (sjá Firðir og fólk 1900-1999, 441). Þau komu upp átta börnum[985] sem fæddust á árunum 1892-1912, hin eldri á Laugum en þau yngri hér.[986] Sumarið 1913 voru þau Guðmundur og Arína í Bæ með stærsta kálgarðinn í Súgandafirði[987] og í janúarmánuði árið 1915 áttu þau eina griðunginn sem til var í Suðureyrarhreppi.[988] Þarfanaut þetta varð því oft að leiða um langan veg. Guðmundur Sigurðsson var jafnan vel metinn af sveitungum sínum og átti um nokkurt skeið sæti í hreppsnefnd.[989] Um konu hans, Arínu húsfreyju í Bæ, segir Gunnar M. Magnúss að hún hafi kunnað að lesa í vetrarbrautina þegar hún beltaði sig yfir sjóndeildarhringinn á heiðskírum haustkvöldum og þannig getað sagt fyrir um ýmsa þætti tíðarfarsins á komandi vetri.[990]

Þau Guðmundur og Arína voru síðasta fólkið sem bjó árum saman á Langhól en býli þetta stóð eins og hér hefur áður verið nefnt á löngum hól, svolítið nær ánni en bæirnir á hinu forna bæjarstæði (sjá hér bls. 32-33). Á Langhól bjuggu þau frá 1899 til 1909 eða 1910 (sjá hér bls. 94) en fardagaárið 1910-1911 voru þar hjónin Kristján Maríasson og Guðbjörg Lovísa Magnúsdóttir og höfðu að sögn bara eitt jarðarhundrað til ábúðar.[991] Guðbjörg Lovísa var dóttir Magnúsar Jónssonar og Vigdísar Kristjánsdóttur er bjuggu á Langhól næst á undan Guðmundi Sigurðssyni.[992] Þau Kristján Maríasson og Guðbjörg Lovísa voru aðeins í eitt ár á Langhól[993] og við brottför þeirra vorið 1911 mun bærinn hafa farið í eyði. Á Langhól hafði þá verið búið samfellt í 76 ár, allt frá því Össur Magnússon reisti þar byggð árið 1835 (sjá hér bls. 32).

Þau Guðmundur Sigurðsson og Arína kona hans færðu sig frá Langhól í timburhús er þau reistu á nýju bæjarstæði eins og hér var áður nefnt en síðasta fólkið sem bjó í torfbænum, er stóð á hinu forna bæjarstæði hinna fyrri bænda hér í Bæ, voru hjónin Kristján Guðmundsson og Guðrún Daðadóttir. Þau fluttust hingað í Bæ frá Eyri í Önundarfirði árið 1901 og tóki við af ekkjunni Guðríði Kristjánsdóttur sem fór til Ameríku á því ári.[994] Hér bjuggu þau í 13 ár, allt til vorsins 1914[995] en þaðan í frá var aldrei búið í torfbænum þó að tóttir hans standi hér enn.

Kristján bóndi var fæddur í Tungusveit í Steingrímsfirði og talinn 53ja ára gamall árið 1901.[996] Í manntalinu frá því ári er Guðrún kona hans sögð vera einu ári eldri[997] en Magnús Hjaltason segir hana fædda á Hólum í Hvammssveit í Dalasýslu 10. júní 1848.[998] Hún ætti því að hafa verið 62ja ára sumarið 1910 en var þá að sögn ósköp gömul og bogin og gekk í svörtu pilsi með skýluklút á höfði.[999] Áður en Kristján og Guðrún fluttust í Súgandafjörð höfðu þau verið þurrabúðarfólk á Eyri í Önundarfirði í átta ár (sjá hér Eyri) en þar áður munu þau hafa átt heima í Ísafjarðarkaupstað eða annars staðar í Skutulsfirði um alllangt skeið því börnin tvö sem þau áttu og fluttust hingað með foreldrunum voru fædd í Eyrarsókn á árunum milli 1880 og 1890.[1000]

Fyrsta veturinn sem hjón þessi höfðust við á Eyri í Önundarfirði var Kristján kærður fyrir tilraun til sauðaþjófnaðar en amtmaður lét málið niður falla því málsatvik voru óljós (sjá hér Eyri).

Magnús Hjaltason segir að Kristján hafi verið allgreindur og Guðrún Daðadóttir góð kona og skynsöm.[1001] Hún fékkst lítið eitt við lækningar. Við magapest eða öðrum kvillum fyrir neðan þind notaði hún andanefjulýsi sem hún bar á kvið sjúklingsins en lét þann veika einnig taka inn laukdropa.[1002]

Sonur Kristjáns og Guðrúnar hét Sigurður og var 18 ára eða því sem næst þegar fjölskyldan fluttist til Súgandafjarðar og hóf búskap í Bæ árið 1901.[1003] Sagt er að hann hafi fengið höfuðhögg í bernsku og aldrei gengið heill til skógar þaðan í frá, verið ljúfur í framkomu og liðugur til vika en barnalegur.[1004] Árið 1912 var Sigurður kominn um þrítugt og mun hafa haft fullan hug á að fara að ná sér í konu því 30. nóvember á því ári sat Magnús Hjaltason við að skrifa fyrir hann bónorðsbréf.[1005] Það bréf virðist engan árangur hafa borið en síðla sumars árið 1913 tóku einhverjir strákar sig til og skrifuðu fyrir hann stúlku sem hét Elísabet Jónsdóttir og átti heima á Þingeyri.[1006] Þau höfðu aldrei sést en skömmu síðar fór Sigurður vestur með trúlofunarhringana og kom aftur með konuefnið sér við hlið.[1007] Þau héldu saman þaðan í frá, fyrst í óvígðri sambúð en frá 16. janúar 1916 í hjónabandi[1008] og höfðust jafnan við í Súgandafirði meðan bæði lifðu.[1009] Sigurður varð úti á heiðinni Grárófu 4. febrúar 1923 en Elísabet týndi lífi í eldsvoða á Suðureyri 21. janúar 1957.[1010]

 

Við höfum nú um sinn dvalið við hinar fornu bæjartóttir, sem enn (1996) standa óhaggaðar á miðju gamla túninu í Bæ, og rifjað upp eitt og annað um líf fólksins sem hér ól aldur sinn í blíðu og stríðu á fyrri tíð. Tóttirnar standa yst á Hjallhólunum er svo heita[1011] og sýna að hér hafa verið mikil húsakynni. Lausleg mæling gefur til kynna að grunnflötur bæjarhúsanna hafi verið um það bil 12,3 x 12,6 metrar, eða því sem næst 155 fermetrar.

Um 1820 voru hér tveir bæir og var annar þeirra nefndur neðri bær (sjá hér bls. 33) en hinn að því er virðist efri bær. Engin ummerki eru nú sjáanleg um þann bæ og vel má vera að í honum hafi fólk aldrei búið eftir 1831 en þá fór Magnús Guðmundsson, sem átti heima í neðri bænum, að búa einn á allri jörðinni (sjá hér bls. 27). Vallgrónar tóttir, sem gætu hafa verið af fremri bænum, sáust enn fremst í gamla Bæjartúninu um miðbik tuttugustu aldar, beint fram af bæjartóttunum sem enn standa[1012] en þar er nú búið að slétta.

Frá árinu 1835 og til loka 19. aldar var oftast þríbýli í Bæ eins og hér hefur áður verið rakið og bjó þá einn bændanna jafnan á Langhól sem er hér aðeins neðar í túninu, nær ánni. Vera má að allan þann tíma hafi hinir tveir búið í einum og sama bænum, þeim sem áður var neðri bær og stóð þar sem tóttirnar eru nú. Vitað er með vissu að á síðustu árum 19. aldar var baðstofan tvískipt og þiljuð sundur uppi[1013] sem þýðir að tvær fjölskyldur bjuggu þá hér í sama bænum eins og algengt var. Fullvíst má telja að Bergljót Össurardóttir, ekkja Magnúsar Guðmundssonar, og Jón sonur þeirra hafi bæði búið í þessum bæ á árunum 1833-1847 (sjá hér bls. 29-35) en þegar Jón fór og móðir hans byggði Guðbrandi Jónssyni 10 hundruð úr jörðinni (sjá hér bls. 38-42) kynni Guðbrandur að hafa reist nýjan bæ. Miklu líklegra er þó hitt að hann og hans fólk hafi sest að í gamla bænum, sem var stór og rúmgóður, og komið sér fyrir í öðrum enda baðstofunnar hjá Bergljótu. Sé tilgátan rétt hefur þá verið tekin upp sú skipan er síðan hélst allt fram yfir aldamótin 1900. Hér er reyndar aðeins um tilgátu að ræða en rökin fyrir henni eru þau að í heimildum frá síðari hluta 19. aldar verður hvergi vart við að hér í túninu hafi staðið fleiri en tveir bæir, annar á Hjallhólunum og hinn á Langhól, þó að bændurnir væru oftast þrír og stundum jafnvel fjórir.

Hér var áður sagt frá bæjarhellunni sem enn liggur hér skammt frá bæjardyrum og í er höggvið ártalið 1831 (sjá hér bls. 28-29) en ártal þetta sýnir að hún hefur staðið fyrir dyrum úti við bæ Magnúsar Guðmundssonar því þetta ár bjó hann einn á allri jörðinni. Með vísun til þess mun óhætt að slá því föstu að hinar miklu bæjartóttir, sem hér gefst enn kostur á að skoða, séu af neðri bænum er svo var nefndur á fyrsta þriðjungi nítjándu aldar en það var sá bær sem Magnús og kona hans, Bergljót Össurardóttir, bjuggu í eins og hér hefur áður verið nefnt. Bergljót dó hér árið 1860 (sjá bls. 30-31) en ætla má að eftir hennar dag hafi bæjarhúsin verið byggð upp oftar en einu sinni, enda þótt húsaskipanin kunni að hafa haldist lítt breytt. Sá sem síðastur byggði hér upp baðstofuna svo kunnugt sé var Guðni Egilsson er hóf búskap í Bæ árið 1896 en drukknaði tveimur árum síðar (sjá hér bls. 64).

Valdimar Þorvaldsson, smiður frá Selárdal í Súgandafirði, hefur ritað lýsingu á húsaskipaninni hér í Bæ á árunum 1890-1910.[1014] Hann byggir þar á því sem hann sá með eigin augum, enda orðinn hálffertugur þegar hætt var að búa í þessum gamla torfbæ árið 1914 og átti jafnan heima í Súgandafirði. Valdimar getur þess að dyr bæjarins hafi snúið í átt til sjávar og bæjarhellan, sem fyrr var nefnd, verið í um það bil 3ja metra fjarlægð frá dyrunum[1015] (sbr. hér bls. 28-29). Bæjargöngin voru, að sögn Valdimars, þau lengstu í Súgandafirði.[1016] Þegar gengið var inn í þau voru dyr á vinstri hönd inn í eldhúsið en aðrar á hægri hönd inn í búrið.[1017] Fullvíst má telja að hin tvískipta baðstofa hafi verið innst, fjærst bæjardyrum, þó að Valdimar nefni það ekki með beinum orðum en baðstofunni lýsir hann svo:

 

Baðstofan var tvískipt, þiljuð sundur uppi en ekki niðri. Til vinstri þá komið var inn var baðstofan 11 x 16 fet en til hægri var hún 11 x 12 fet. Þiljuð herbergi voru í báða enda er síðast voru höfð sem búr og geymsla.[1018]

 

Tóttirnar sem enn standa hér sýna að allt er þetta mjög nærri lagi hjá Valdimar. Sumarið 1996 mældist sjálf baðstofutóttin þó heldur stærri en hann gefur upp eða 3,8 x 9,4 metrar, það er um 36 fermetrar.

Orð Valdimars sýna að það var reyndar aðeins baðstofuloftið sem var þiljað sundur í tvennt. Ætla má að þar hafi allt fólkið sofið og unnið flest sín inniverk. Rýmið undir loftinu mun hins vegar fyrst og fremst hafa verið notað sem geymsla eins og algengt var. Tölur Valdimars gefa til kynna að á baðstofuloftinu hafi önnur fjölskyldan sem hér bjó haft liðlega 17 fermetra til umráða en hin 13 fermetra.

Um ytra útlit bæjarins er Valdimar fáorður en tekur þó fram að þilgaflar úr timbri hafi verið á báðum endum baðstofunnar og náð niður jafnt neðri gluggum.[1019] Skemmur tvær, sem sneru eins og baðstofan, voru að hans sögn framan og neðan við bæinn og sneru skemmuþilin niður að ánni.[1020] Í nánd við bæinn voru fjós, hesthús, lítið fjárhús, sem einkum var notað fyrir lömb, og hlöður fyrir töðu eða kýrhey.[1021] Mun stærri fjárhús voru svo niður við sjó, rétt hjá árósnum (sjá hér bls. 121).

Valdimar Þorvaldsson lýsir einnig bænum á Langhól, sem fór í eyði árið 1911 (sjá hér bls. 95), en þar sjást nú engar rústir. Hann fullyrðir að bærinn sem þar stóð um 1910 hafi verið sá sami og byggður var þegar Össur Magnússon hóf búskap árið 1835 og segir veggina hafa verið hlaðna úr hnaus og torfi.[1022]

Um bæinn á Langhól farast Valdimar orð á þessa leið:

 

Dyrnar á bænum sneru upp að fjallinu eða hinum bænum [þ.e. í átt að bænum sem lýst var hér næst á undan en hann stóð aðeins ofar í túninu – innsk. K.Ó.]. Göngin voru bein inn í hlið baðstofunnar við gaflinn sem sneri fram í dalinn. Göngin voru mjó en sæmilega há og veggir vel sléttir og fastir frá fyrstu byggingu baðstofunnar. Hún var 8 x 14 (fet, þ.e. 11 fermetrar), með lofti, skarsúð og vel innanþiljuð, með litlu herbergi í endann sem sneri niður til sjávarins. Eldhús var út úr göngunum, til vinstri þá inn var farið en um búr og önnur hús man ég ekki. … Torfgaflar voru á baðstofunni í báða enda.[1023]

 

Hér hefur nú verið lýst báðum síðustu torfbæjunum hér í Bæ og áður en lengra verður haldið sýnist rétt að líta yfir gamla túnið sem nú er að vísu nokkuð umbreytt frá því sem áður var vegna ræktunarframkvæmda. Eins og fyrr var nefnt standa hinar fornu bæjartóttir yst á Hjallhólum er svo heita. Framan við þá og nokkru ofar er Þorleifstún sem var efst og fremst í gamla Bæjartúninu.[1024] Neðan við Þorleifstún og nær beint fyrir framan Hjallhóla eru Fremrihólar sem einnig voru nefndir Hali og mun Halinn hafa náð svolítið lengra fram eftir en Þorleifstún.[1025]

Neðan við Hjallhóla er Langhóll, þar sem áður stóð samnefndur bær,[1026] og spölurinn á milli varla nema 20-30 metrar.[1027] Fremst á Langhól mun hafa staðið hesthús því þar heitir Hesthúshóll.[1028] Ofan við Hjallhóla er Stórhóll, sagður myndaður úr mold og ösku.[1029] Utan og ofanvert við Hjallhóla var áður þýfð slétta er menn nefndu Eiríksvöll og fyrir utan hann er Harðivöllur.[1030] Neðan við Eiríksvöll og Harðavöll er svo Fótarvöllur og yst á honum Sjónarhóll.[1031] Þar, á Sjónarhól, valdi Guðmundur Sigurðsson sér nýtt bæjarstæði og byggði um 1910 íbúðarhús úr timbri  (sjá hér bls. 94). Þar stendur nú íbúðarhús sem ekki er þó búið í því fólkið sem hér á heima (1996) hefur reist annað nýtt svolítið framar í túninu.

Um miðbik 19. aldar var eitt húsanna hér í Bæ nefnt Halldórstóttahús[1032] og hefur líklega verið fjárhús. Þar þótti reimt og var sagt að maður hefði fyrirfarið sér í húsi sem áður stóð á sama stað.[1033] Ekki er nú vitað með vissu hvar í túninu þessar Halldórstóttir voru.

Í Jarðabók Árna og Páls frá árinu 1710 er getið um fjórar eyðihjáleigur í landi Bæjar og þá var enn kunnugt um nöfn tveggja, hét önnur Garðshorn en hin Leifshús.[1034] Báðar þessar hjáleigur munu hafa fallið í eyði fyrir 1650.[1035] Um hinar tvær, sem nafnlausar voru árið 1710,  vissu heimamenn í Staðardal enn minna þegar Árni Magnússon hitti þá að máli á því ári og ef til vill hafa þær aldrei verið til nema í munnmælum.[1036] Tóttir sem enn voru sjáanlegar í byrjun átjándu aldar þóttu samt benda til þess að hjáleigurnar hefðu verið fjórar en ekki bara tvær.

Í Jarðabókinni frá 1710 segir að landið sem fólkið í Garðshorni hafði áður til afnota sé nú brúkað til slægna og beitar af bændum á sjálfri heimajörðinni.[1037] Eins var þetta með Leifshús en þar höfðu skriðuföll valdið enn meiri landskemmdum en í Garðshorni, að sögn heimildarmanna Árna Magnússonar.[1038]

Óljóst er nú hvar í landareigninni þessar fornu hjáleigur stóðu en í jarðabók frá árinu 1805 er þess þó getið að bærinn í Garðshorni hafi staðið hér í túninu eða alveg við það (i hjemmemarken) en Leifshús annars staðar í landareigninni.[1039] Fornar tóttir, sem að líkindum eru rústir gamallar hjáleigu, sjást enn örskammt frá öðrum og mun yngri tóttum af kotinu Þverá sem byggðist í landi Bæjar undir lok 19. aldar og sagt er frá hér litlu aftar (sjá bls. 101-109). Vera má að hinar eldri tóttir sem þar blasa við séu af Leifshúsum.

Við munum nú innan skamms hefja göngu um landareign fólksins í Bæ með viðkomu á Þverá og á Mönguholti en á síðarnefnda staðnum  hafðist fólk við í nokkur ár á 19. öld. Áður en lagt verður af stað skulum við samt tefja litla stund hjá bæjarhellunni góðu við rústirnar á Hjallhólunum og huga að eyktamörkum en að sögn þeirra sem hér voru kunnugastir fyrir hálfri öld (um 1950) eru þau þessi: Dagmál framan við Laugatind (sjá hér Fremri-Vatnadalur). Hádegi, skarð utan við Borgahnúk (sjá hér Fremri-Vatnadalur). Nón, steinn á fjallinu upp af Kálfakika (sjá hér Fremri-Vatnadalur). Miðaftann, Skatnatindahryggur (sjá hér Staður). Náttmál, steinn á Móum yfir Bjarnanesi (sjá hér Staður).[1040]

Nú er sólin í hádegisstað og við tökum stefnuna á kotið Þverá sem féll í eyði árið 1911 en þar hafði fólk þá hafst við í a.m.k. 14 ár. Þetta þurrabúðarkot var handan við Langá og rétt framan við Þverána sem fellur í Langá neðan við túnið í Bæ. Vegalengdin frá hlaðinu í Bæ að tóttunum á Þverá er varla nema 300-400 metrar ef farið er beint af augum en á þeirri leið þurfum við að vaða yfir Langá.

Neðan við gamla túnið í Bæ voru áður mýrar og flóaveitur[1041] en nú hefur þetta allt verið ræktað upp svo heita má að túnið nái að árbakkanum. Best er að vaða ána á gamla hestavaðinu en rétt neðan við það var áður göngubrú.[1042] Engin ummerki sjást nú lengur um brúna en hún var að sögn beint niður af Langhól.[1043] Handan við ána og beint á móti hestavaðinu er gömul malargryfja í stóru holti.[1044] Brúin var mjó, varla nema hálfur metri á breidd, svo ekki fór nema einn maður yfir hana í einu.[1045] Þeir sem fóru fótgangandi úr Bæ til kirkjunnar á Stað fóru jafnan yfir þessa brú og önnur brú var á Þverá sem líka var þá farið yfir[1046] (sjá hér Staður). Hér handan við ána, hjá nýnefndu holti, var kvíaból fólksins í Bæ á fyrri hluta 20. aldar.[1047] Undir sama holti en svolítið framar var fljót í ánni og þar var silungur veiddur í net.[1048]

Frá vaðinu á ánni leggjum við leið okkar um Akkelsmýrar og stefnum á rústirnar af kotinu sem kennt var við Þverá. Nýnefndar mýrar þótti á fyrri tíð illar yfirferðar[1049] og í þeim voru margar mógrafir.[1050] Nú hefur fremsta hluta Akkelsmýra verið breytt í tún.[1051] Í þessum mýrum er svolítil lækjarsytra sem heitir Hrökkálslæna[1052] og má ætla að einhverjir heimamanna í Bæ hafi talið sig verða vara við slíka furðufiska á þessum slóðum. Ofan við mýrarnar er Akkelsmýraholt. Nær Þveránni, sem rennur á landamerkjum Bæjar og Staðar, kúra rústirnar af þurrabúðarkotinu sem nefnt var Þverá og búið var í á árunum kringum aldamótin 1900. Má svo heita að þær séu beint fram af kirkjunni á Stað. Hjá nýnefndum tóttum skulum við nú staldra við og hyggja nánar að því sem þar er að sjá og heyra.

Fullvíst er að kotið var reist eigi síðar en 1897 því að í sóknarmannatali frá 31. desember á því ári nefnir prestur það í fyrsta sinn og þá voru sex manneskjur búsettar hér.[1053] Það voru Jens Arnbjörnsson smiður og eiginkona hans, Jónína Sigríður Guðmundsdóttir, tvær dætur þeirra og átti Jens aðra en Jónína hina, faðir Jónínu, Guðmundur Guðmundsson, er áður var bóndi í Bæ, og vinnukona hans, Ingibjörg Markúsdóttir.[1054]

Hugsanlegt er að nær allt þetta fólk hafi sest að á Þverá fáeinum árum fyrr þó að prestur segi það eiga heima í Bæ allt til 1897 því hafa ber í huga að kotið var reist í landi Bæjar og í sóknarmannatölum frá árunum 1897-1911 er fólkið sem þá átti sannanlega heima á Þverá stundum aðeins sagt vera búsett í Bæ.[1055] Magnús Hjaltason, sem kom fyrst í Súgandafjörð svo kunnugt sé árið 1896, fullyrðir í dagbók sinni frá árinu 1911 að Jens Arnbjörnsson hafi reist byggð á Þverá árið 1889 og Guðmundur, tengdafaðir hans, verið þar frá því kotið var byggt.[1056] Sú staðhæfing Magnúsar að þeir Jens og Guðmundur hafi reist byggð á Þverá árið 1889 fær ekki staðist því Jens fluttist ekki úr Önundarfirði til Súgandafjarðar fyrr en 1891 og Guðmundur tengdafaðir hans stóð fyrir búi sínu í Bæ allt til vorsins 1893.[1057] Undarlegt má samt heita ef þarna skeikar heilum átta árum hjá Magnúsi og verið getur að fólk það sem hér var nefnt hafi fært sig úr Bæ yfir í kotið einhvern tíma á árunum 1893-1896 þó að presturinn, séra Janus Jónsson í Holti, geti þess ekki fyrr en 1897. Valdimar Þorvaldsson segir að kotið á Þverá hafi menn byggt árið 1894.[1058] Líklegt má telja að hann fari þar rétt með því hann var frá fæðingu heimamaður í Súgandafirði, varð 16 ára sumarið 1894 og var við róðra á Suðureyri þá um vorið í fyrsta sinn.[1059]

Halldór Guðmundsson, sem átti heima á Þverá í nokkur ár og var mágur Jens Arnbjörnssonar, segir að húsakynnin hafi verið ósköp þröng og lítil.[1060] Hann getur þess að húsið sem Jens reisti fyrst og bjó í hafi verið timburkofi, 6 x 4 álnir að flatarmáli,[1061] það er 3,77 x 2,51 metri eða um það bil 9,5 fermetrar. Guðmundur Guðmundsson, sem var tengdafaðir Jens Arnbjörnssonar og faðir Halldórs, byggði síðan, að sögn sonar hans, dálitla íbúð út frá annarri hliðinni á þessum kofa og var inngangur sameiginlegur.[1062]

Tóttirnar sýna svo ekki verður um villst að hér risu síðar fleiri byggingar en vera má að það hafi eingöngu verið útihús, þar á meðal smiðja eða smíðahús sem fullvíst er að Jens Arnbjörnsson átti hér á Þverá.[1063] Svo virðist sem grunnflötur allrar húsaþyrpingarinnar sem hér stóð hafi verið um 70 fermetrar og er þá ekki talin með djúp tótt sem stendur vestast, næst Þveránni, og er þó áföst við hinar en þar hefur líklega verið heystæði. Einn kofi hefur svo verið í brekkunni ofan við bæjarhúsin og eru um 30 metrar þar á milli.

Örfáum metrum framan við bæjartóttirnar á Þverá eru aðrar mun eldri tóttir sem allar líkur benda til að séu af einhverri þeirri hjáleigna í landi Bæjar sem á er minnst í Jarðabók Árna og Páls frá árinu 1710 (sjá hér bls. 100). Allar fóru þær í eyði fyrir 1650 en hinar fornu tóttir, sem hér eru sjáanlegar, eru að öllum líkindum af þeirri hjáleigu sem nefnd var Leifshús ellegar af annarri tveggja hjáleigna sem menn kunnu ekki lengur að nefna með nafni í byrjun 18. aldar. Milli yngri rústanna og þessara mun eldri tótta er svolítil lægð. Um hana rennur lækjarsytra og mun það vera Hrökkálslæna sem hér var áður nefnd.[1064]

Jens Arnbjörnsson, sem fyrstur byggði á Þverá á síðari tímum, var Dýrfirðingur að ætt og uppruna, fæddur í Ytri-Lambadal í Mýrahreppi 14. maí 1859 og átti heima á Hofi í Þingeyrarhreppi við fermingu vorið 1873[1065] en kom frá Ísafirði að Eyri í Önundarfirði árið 1887 (sjá hér Eyri). Á Eyri var hann í sambúð við Ólöfu Ólafsdóttur, er þar átti heima, og eignaðist með henni tvær dætur.[1066] Önnur þeirra var Guðbjörg Helga Híramína, fædd 8.4.1890,[1067] sem um skeið var hjá föður sínum hér á Þverá.[1068] Til Súgandafjarðar kom Jens einn síns liðs árið 1891 og settist þá þegar að í Bæ.[1069] Hann hafði smíðar að aðalstarfi og er víða titlaður smiður í heimildum.[1070] Magnús Hjaltason segir að hann hafi verið völundur til smíða, skýr vel og skeggjaður, í meðallagi á hæð og vel vaxinn.[1071] Að sögn Valdimars Þorvaldssonar var Jens sjálflærður smiður, bæði á tré og járn, og smíðaði margar skektur og jullur.[1072] Haustið 1893 kvæntist Jens Jónínu S. Guðmundsdóttur en hún var dóttir Guðmundar Guðmundssonar er búið hafði í Bæ frá árinu 1882.[1073] Guðmundur hætti búskap árið 1893[1074] og mun þá þegar eða mjög fáum árum síðar hafa farið í húsmennsku að Þverá og átti hér heima allt til ársins 1911, þegar kotið fór í eyði, nær alltaf í sambýli við eitthvert barna sinna og maka þeirra.

Guðmundur var fæddur á Hóli á Hvilftarströnd í Önundarfirði á þriðja degi jóla árið 1833, sonur hjónanna Guðmundar Pálssonar og Halldóru Guðmundsdóttur er þar bjuggu[1075] en mörg barna þessara hjóna fluttust til Súgandafjarðar. Eiginkona Guðmundar Guðmundssonar var Þuríður Markúsdóttir frá Kroppstöðum í Önundarfirði (sjá hér Neðri-Breiðadalur). Þau hófu búskap í Neðri-Breiðadal í Önundarfirði árið 1860 og bjuggu þar í liðlega 20 ár (sjá hér Neðri-Breiðadalur) eða allt þar til þau fluttust í Súgandafjörð og fóru að búa í Bæ. Guðmundur missti konu sína 5. nóvember 1889[1076] en stóð áfram fyrir búi sínu í Bæ til ársins 1893 eins og hér var áður nefnt. Markús sonur hans, sem kvæntur var Guðrúnu, dóttur Guðmundar Jóhannessonar í Bæ, tók þá við og bjó í þrjú ár.[1077] Markús átti síðar lengi heima í þorpinu á Suðureyri.[1078]

Guðmundur Guðmundsson var sextugur að aldri eða liðlega það er hann gerðist þurrabúðarmaður hér á Þverá en farinn að nálgast áttrætt er hann fluttist héðan til Súðavíkur árið 1911. Hingað kom hann ekkjumaður en hafði vinnukonu sér við hlið og var það Ingibjörg Markúsdóttir, systir Þuríðar er hann hafði átt fyrir eiginkonu.[1079] Svo má heita að Ingibjörg hafi fylgt Guðmundi öll árin sem hann var á Þverá.

Guðmundur á Þverá mun um nokkurt skeið hafa verið meðhjálpari í Staðarkirkju[1080] og segir Magnús Hjaltason að hann hafi verið valmenni mikið, skynsamur og trúrækinn.[1081] Fimm af börnum Guðmundar og Þuríðar konu hans komust upp.[1082] Hér var áður getið um Markús en hin fjögur voru Jónína, Anna og Halldór, sem öll áttu heima á Þverá um nokkurt skeið, og svo Kristján sem var yngstur.[1083] Þessi yngsti sonur Guðmundar og Þuríðar drukknaði í maímánuði árið 1897, sagður 22ja ára gamall.[1084] Hann var þá háseti á þilskipi sem hét Þráinn[1085] og gert var út frá Ísafirði en skip þetta fórst í hafi (sjá Firðir og fólk 900-1999, 23-24). Eigendur þess voru Skúli Thoroddsen, alþingismaður á Ísafirði, og fleiri en skipstjóri Bjarni Bjarnason á Laugabóli í Mosdal í Arnarfirði (sjá hér Laugaból).

Af börnum Guðmundar Guðmundssonar var það Jónína sem settist fyrst að á Þverá en hún giftist Jens Arnbjörnssyni árið 1893 eins og hér var áður nefnt. Þau Jens og Jónína voru á Þverá þar til í desembermánuði árið 1900 en settust þá að á Suðureyrarmölum.[1086] Segir hér lítið eitt nánar frá þeim síðar (sjá hér bls. 107-109).

Halldór Guðmundsson og kona hans, Rannveig Kristjánsdóttir, voru í húsmennsku á Þverá frá 1903 til 1908 en Anna Guðmundsdóttir og hennar eiginmaður, Kristján Bjarni Guðmundsson, frá 1909 til 1911.[1087] Halldór og Rannveig bjuggu síðar lengi á Suðureyri en Anna og Kristján Bjarni á Flateyri.[1088] Á árunum 1901 til 1903 var ekkert af börnum Guðmundar Guðmundssonar hjá honum hér í kotinu en þá voru mæðginin Kristján Maríasson og móðir hans, Ástríður Halldórsdóttir, hér í húsmennsku.[1089]

Í drögum að ævisögu sinni gerir Halldór Guðmundsson svolitla grein fyrir búskapnum á Þverá.[1090] Hann kvæntist Rannveigu Kristjánsdóttur, sem var úr Önundarfirði, vorið 1903 og sama vor settust þau að hjá föður Halldórs á Þverá.[1091] Halldór var þá þrítugur að aldri en Rannveig nær sjö árum eldri, fædd 21. janúar 1866.[1092] Búslóðin, sem þau fluttu með sér, var ein rúmföt og föt til skipta, koffort, kommóða og gömul kista.[1093]

Áður en Halldór kvæntist Rannveigu hafði hún eignast tvö börn sem Mosvallahreppur þurfti að borga með á uppvaxtarárum þeirra.[1094] Af þeim sökum var Halldóri meinað að eiga hana nema hann borgaði 250,- krónur í sveitarsjóð Mosvallahrepps.[1095] Þessa upphæð, sem svaraði til liðlega tveggja kúgilda,[1096] tókst honum að reiða fram og þá fyrst fengu þau Rannveig að ganga í hjónaband.

Vorið 1903 var Halldór háseti á sexæring Guðmundar Sigurðssonar í Bæ og reru þeir frá Suðureyri.[1097] Af túnblettinum á Þverá fengust 10-20 hestar af heyi[1098] en blettur þessi mun aldrei hafa verið mældur út.[1099] Feðgarnir, Halldór og Guðmundur faðir hans, heyjuðu líka annars staðar í dalnum og borguðu fyrir slægjurnar með vinnu hjá viðkomandi bændum.[1100] Fyrir dagsverk voru þá greiddar tvær krónur og fæði að auk[1101] en fyrir leyfi til að heyja í annars manns landi þurfti að greiða 50 aura fyrir hvern hestburð.[1102] Hestur, sem fenginn var að láni til heyflutninga, kostaði tvær krónur á dag,[1103] sömu upphæð og mönnum var greidd fyrir eitt dagsverk.

Árið 1895 átti Guðmundur gamli Guðmundsson 10 ær og 4 gemlinga og Jens tengdasonur hans 5 ær og 1 gemling.[1104] Líklegt er að þeir hafi þá báðir verið komnir hingað að Þverá (sjá hér bls. 102). Haustið 1901 var Guðmundur meðhjálpari eini fjáreigandinn hér í kotinu og var þá með 9 ær og 3 gemlinga.[1105] Að sögn Halldórs Guðmundssonar var bústofninn á Þverá hins vegar kominn upp í um það bil 30 sauðkindur er hann fór héðan árið 1908 og eru þá taldar kindur beggja feðganna, Halldórs og Guðmundar.[1106] Kú eða hest virðist fólkið á Þverá aldrei hafa átt.

Á þeim árum sem Halldór Guðmundsson átti heima á Þverá, árunum 1903-1908, mun hann jafnan hafa verið við sjóróðra á vorin og réðst árið 1906, ásamt tveimur öðrum mönnum úr Staðardal, í kaup á mótorbát (sjá hér bls. 93-94). Veturinn 1903-1904 var hann í skiprúmi hjá Guðmundi Guðmundssyni er þá átti heima í Hraunakoti í Vatnadal.[1107] Bátinn átti Guðfinna Daníelsdóttir, búandi ekkja á Stað.[1108] Að vetrarlagi urðu róðrarnir sjaldan mjög margir á hinum opnu áraskipum, enda sinnti Halldór jafnframt barnakennslu og gengu börn frá Stað og Bæ í skóla sinn hingað að Þverá.[1109] Kennslugjaldið var 2,- krónur á mánuði fyrir hvert barn.[1110]

Fyrsta árið sem Halldór og Rannveig kona hans bjuggu á Þverá ákvað hann að reisa hlöðu og setja á hana járnþak.[1111] Í Súgandafirði var þakjárn nær alveg óþekkt árið 1903 en séra Þorvarður Brynjólfsson, sem kom að Stað vorið 1902, hafði þó látið setja járn á nýjan enda er hann reisti við gömlu baðstofuna[1112] og sumarið 1902 var bárujárn sett á þak nýs íbúðarhúss í Selárdal (sjá hér Selárdalur).

Þakjárnið, sem Halldór hugðist setja á hlöðuna, varð hann að kaupa vestur á Flateyri og flytja á hestum yfir Klofningsheiði sem ekki var þægilegt. Til liðs við sig fékk hann Veturliða H. Guðnason í Bæ, sem þá var 17 ára, og fóru þeir vestur með 3 hesta er Halldór hafði fengið að láni.[1113] Á Flateyri keypti hann 24 plötur af bárujárni og bjó um í pokastriga.[1114] Síðan lögðu þeir á heiðina en þar er bratt upp að fara og á leiðinni frá Flateyri að Þverá urðu þeir sextán sinnum að taka járnið ofan af hestunum.[1115] Allt bjargaðist þetta samt að lokum.

Á árunum 1897-1911 var fjöldi heimilisfólks á Þverá nær alltaf á bilinu frá fimm og upp í átta.[1116] Fjölmennast var hér síðasta árið, fardagaárið 1910-1911, en auk Guðmundar gamla meðhjálpara og fylgikonu hans voru hér þá hjónin Kristján Bjarni Guðmundsson og Anna Guðmundsdóttir og fjögur börn þeirra á aldrinum 10-17 ára.[1117] Anna var dóttir Guðmundar meðhjálpara á Þverá eins og hér hefur áður verið nefnt en Kristján Bjarni var sonur hjónanna Guðmundar Jónssonar og Lovísu Rannveigar Jónsdóttur er bjuggu um skeið á Rafnseyrarhúsum í Arnarfirði.[1118] Afi Kristjáns Bjarna í föðurætt var séra Jón Ásgeirsson, prestur á Álftamýri og seinna á Rafnseyri, en í móðurætt Jón Magnússon, sem var bóndi hér í Bæ á árunum 1839-1847 (sjá hér bls. 34-35), sonur hjónanna Magnúsar Guðmundssonar og Bergljótar Össurardóttur í Bæ.[1119] Hér í landi Bæjar átti Kristján Bjarni því djúpar rætur og sjálfur hafði hann alist upp í Bæ að nokkru leyti.[1120]

Þegar Kristján Bjarni Guðmundsson fluttist að Þverá vorið 1909 var hann að verða 44 ára gamall og hafði lengi átt heima á Flateyri (sjá hér Flateyri). Þar var hann búsettur árið 1901 og er í manntalinu frá því ári sagður stunda hvalveiðar.[1121] Hann var um skeið skipverji á einum norsku gufubátanna sem gerðir voru út til hvalveiða frá Sólbakka í Önundarfirði[1122] en á þeim árum sem Kristján Bjarni var búsettur á Þverá hefur hann líklega verið skútusjómaður.

Konu sinni, Önnu Guðmundsdóttur, kvæntist Kristján Bjarni haustið 1890[1123] en þremur árum áður hafði hann eignast dóttur með systur Önnu, Jónínu S. Guðmundsdóttur,[1124] er síðar varð eiginkona Jens Arnbjörnssonar sem fyrstur byggði hér á Þverá. Þessi dóttir Kristjáns Bjarna og Jónínu var skírð Guðrún Elísabet[1125] og ólst hún að mestu upp hjá móðurafa sínum, Guðmundi Guðmundssyni, í Bæ og síðar á Þverá. Magnús Hjaltason segir að Kristján Bjarni hafi verið nefndur faðir þessarar stúlku[1126] og gefur þar með í skyn að einhver orðasveimur hafi verið á kreiki um annað faðerni. Út í þá sálma verður ekki farið hér.

Haustið 1905 varð nýnefnd Guðrún Elísabet Kristjánsdóttir 18 ára og átti þá enn heima hjá Guðmundi afa sínum hér á Þverá.[1127] Um það leyti varð hún barnshafandi og ól 2. ágúst 1906 piltbarn er hún kenndi Helga Sigurðssyni, ungum þurrabúðarmanni á Suðureyri, er seinna varð kunnur formaður, en hann kvaðst aldrei hafa verið við hana kenndur.[1128]

Þessi drengur var eina barnið sem fæddist hér á Þverá[1129] og hann lifði aðeins í tvo daga.[1130] Hvítvoðungurinn fór þó ekki óskírður í gröfina því ömmubróðir hans, Halldór Guðmundsson á Þverá, náði að skíra hann skemmri skírn og gaf honum nafnið Ágúst.[1131] – Ágúst Helgason skráir presturinn á Stað í bók sína en tekur fram að Helgi neiti faðerninu.[1132]

Nokkru síðar játaði hin unga móðir fyrir prestinum, séra Þorvarði Brynjólfssyni, að faðir barnsins sem dó væri stjúpi hennar, Jens Arnbjörnsson smiður,[1133] er fimm árum áður hafði flust frá Þverá og sest að í húsi er hann byggði sér utarlega á Suðureyrarmölum.

Í nóvembermánuði árið 1906 hóf Magnús Torfason sýslumaður miklar yfirheyrslur vegna þessa barnsfaðernismáls og stóðu réttarhöldin yfir nokkuð á fjórða mánuð.[1134] Margar furðulegar sögur sagði unga stúlkan á Þverá sýslumanni í þessum yfirheyrslum og breytti reyndar oft framburði sínum.[1135] Síðast hélt hún því fram að samfarir hennar við smiðinn, stjúpa sinn, hefðu hafist er hún var á tólfta árinu en þá voru þau bæði búsett á Þverá.[1136] Ýmsa fleiri taldi hún sig hafa átt líkamleg mök við, flesta nákomna, og sparaði sýslumaður ekki að knýja ungmeyna til að gefa mjög nákvæmar lýsingar á öllu sem hún hefði upplifað af slíku tagi.[1137] Þær frásagnir verða ekki raktar hér en sé eitthvað að marka bókanir Magnúsar Torfasonar nefndi stúlkan aldrei að stjúpi hennar eða aðrir hefðu beitt hana ofbeldi en gat þess reyndar einu sinni að hún hefði ekki getað kallað á hjálp þó að hún hefði viljað.[1138]

Eins og nærri má geta voru karlmennirnir líka yfirheyrðir og ná bókanir sýslumanns í þessu barnsfaðernismáli Guðrúnar Elísabetar á Þverá yfir 35 blaðsíður í dómabókinni.[1139]

Jens Arnbjörnsson neitaði í fyrstu að hafa átt samræði við þessa dóttur konu sinnar og var úrskurðaður í gæsluvarðhald þann 28. nóvember 1906.[1140] Við síðari yfirheyrslur viðurkenndi hann að hafa átt mök við stúlkuna og 9. janúar 1907 féllst hann á að verið gæti að hann væri faðir barnsins.[1141] Í gæsluvarðhaldinu var Jens frá 28. nóvember 1906 til 16. mars 1907[1142] eða samtals í 108 daga. Þann 9. janúar 1907 var stúlkan, Guðrún Elísabet, líka úrskurðuð í gæsluvarðhald þar eð dómarinn taldi að hún segði ekki allan sannleikann.[1143]

Dóm sinn í máli þessu kvað Magnús Torfason upp 30. júní 1907 og var Jens dæmdur í fjögra ára hegningarvinnu en Guðrún Elísabet, sem kenndi honum barnið, var dæmd til tveggja mánaða fangelsisvistar.[1144] Í dómsorði sínu tekur sýslumaður fram að Jens Arnbjörnsson hafi viðurkennt samræði við stúlkuna og þá sérstaklega nálægt þeim tíma er barn það … gat hafa komið undir en bætir við að hann verði þó ekki talinn faðir þess  þar annar maður átti við hana fullt samræði um sama leyti.[1145]

Niðurstaðan varð því sú að þrátt fyrir langar yfirheyrslur og fangelsisdóma tókst aldrei að feðra barnið.

Jens Arnbjörnsson, sem fyrstur manna settist að hér á Þverá, var á síðari hluta ársins 1907 fluttur sem fangi suður til Reykjavíkur og sat þar inni í hegningarhúsinu við Skólavörðustíg í tvö ár eða því sem næst.[1146] Líklegt er að efnahagur þessa timburmanns hafi verið viðunandi áður en hann var dæmdur í tugthúsið en þegar honum var sleppt var hann orðinn þurfalingur.[1147] Jens og kona hans, Jónína S. Guðmundsdóttir, fluttust úr Súgandafirði norður í Skutulsfjörð árið 1906[1148] og er Jens kom úr tugthúsinu sumarið 1909 varð hann fljótlega að leita á náðir hreppsnefndarinnar í Eyrarhreppi. Í skýrslu um sína hagi er hann gaf hreppstjóranum í Hnífsdal 9. september 1909 sagði hann skýringuna á þörf sinni fyrir sveitarstyrk vera afleiðing af málsrekstri og straffúttöku og tók fram að hann hefði ekkert getað unnið fyrir sér á 3ja ár.[1149]

Þegar Jens kom úr tugthúsinu, sumarið 1909, var enn búið á Þverá en tveimur árum síðar, vorið 1911, fór allt fólkið burt héðan og enginn kom í staðinn.[1150] Guðmundur gamli Guðmundsson meðhjálpari, sem átt hafði heima í þessu koti lengur en okkur annar, fluttist þá inn í Súðavík á vegu dótturdóttur sinnar, Guðrúnar Elísabetar Kristjánsdóttur.[1151] Hann var þá 77 ára gamall og mun hafa dáið í Súðavík 18. mars 1917.[1152]

Að sögn Magnúsar Hjaltasonar, sem átti heima í Súgandafirði árið 1911, voru öll hús á Þverá rifin til grunna við brottför fólksins sem hér hafði búið.[1153] Tóttirnar eru hér þó enn og minna á horfið mannlíf, hamarshögg smiðsins, gamla meðhjálparann á leið til kirkju, börnin úr nágrenninu sem gengu hingað í skóla, sætleik syndarinnar, barnið sem fæddist og dó að fenginni skemmri skírn, refsinguna sem til var sáð, bros og tár í mannheimi sem kann að virðast smár en geymir þó svo undarlega margt.

Frá Þverá leggjum við nú leið okkar fram að Mönguholti en þar var líka mannabústaður um nokkurt skeið. Vegalengdin þarna á milli er um það bil einn kílómetri. Skammt framan við tóttirnar á Þverá komum við að Akkelsmýraholti sem enn (1996) er óræktað.[1154] Í örnefnalýsingu sinni frá árinu 1949 nefnir Kristján G. Þorvaldsson Akkelsmýraholt í eintölu[1155] og vera má að það hafi verið málvenja. Þarna ofan við Akkelsmýrar eru þó í raun nokkur smáholt í hvirfingu og nafnið samheiti fyrir þau.[1156] Frá þessum holtum tökum við stefnu á stóra holtið hjá gamla brúarstæðinu þar sem áður var farið yfir Langá (sjá hér bls. 101). Á því holti er nú gróið tún. Þar göngum við fram eftir og komum brátt að læk sem heitir Bröndulækur.[1157] Lækurinn er í sínum gamla farvegi og framan við hann er Mönguholtið[1158] sem nú hefur verið gert að sléttu túni. Þessi tvö holt sem liggja að Bröndulæknum eru bæði fyrir vestan Langá.

Mönguholt er að heita má beint fram af íbúðarhúsi fólksins í Bæ og spölurinn þar á milli ekki lengri en tæplega hálfur kílómetri. Við ræktunarframkvæmdir hvarf tóttin sem áður stóð hér á Mönguholti en þó sér enn móta fyrir grunninum á holtsbrúninni um 26 metrum frá Bröndulæknum.[1159] Frá kofanum sem hér stóð var örstutt niður að ánni en yfir hana þurfti að fara til að komast heim á hlaðið í Bæ. Á tóttinni mátti sjá að dyr kofans hafa snúið niður að ánni[1160] og lausleg mæling gefur til kynna að grunnflötur hans hafi verið um það bil 3 x 6 metrar eða nálægt 18 fermetrum.

Kristján G. Þorvaldsson segir árið 1949 að á Mönguholti séu tóttir af gömlu býli[1161] og tekur fram að þar hafi verið byggt … fyrir miðja síðustu öld.[1162] Hann nefnir ekki hvaða fólk það var sem hafðist við á Mönguholti og ótvíræðar upplýsingar um það liggja ekki á lausu. Kristján var fæddur árið 1881[1163] og þau orð hans að byggt hafi verið á holtinu fyrir miðja síðustu öld benda eindregið til þess að hann hafi haft einhverja vitneskju um búsetu fólks á þessum stað á fyrri hluta nítjándu aldar. Ólíklegt er að svo greinargóður maður sem Kristján var hefði tekið svona til orða ef hann hefði talið þessar rústir vera mun eldri. Hér þarf einnig að hafa í huga að fróðleik um mannlíf og atburði í Staðardal á árunum um og upp úr miðri 19. öld mun Kristján ekki síst hafa haft frá móður sinni, Sigríði Friðbertsdóttur, sem fæddist í Fremri-Vatnadal sumarið 1852 og ólst þar upp að mestu leyti[1164] en hún komst á tíræðisaldur og átti jafnan heima undir sama þaki og Kristján sonur hennar. Hafi einhver sest að í kofa á Mönguholti á árunum kringum 1830 og hafst þar við í nokkur ár má telja fullvíst að Sigríður hafi heyrt um það talað á sínum uppvaxtarárum og henni orðið það minnisstætt því vegalengdin frá Fremri-Vatnadal niður á Mönguholt er aðeins um það bil einn kílómetri.

Til gamans verður hér sett fram sú tilgáta að kona nokkur sem hét Margrét Magnúsdóttir og var húskona í Bæ á árunum milli 1820 og 1830 hafi reist sér kofa á Mönguholti og það sé við hana kennt.[1165] Þung áhersla skal þó á það lögð að hér er aðeins um tilgátu að ræða sem máske væri nær að kalla hugdettu því hana er í rauninni ekki unnt að rökstyðja svo nokkurt gagn sé að. Hið eina sem hægt er að tefla fram hygmyndinni til stuðnings er að hafi einhver Manga reist byggð hér á holtinu á fyrri hluta 19. aldar kemur vart nokkur önnur til greina en þessi af þeim sem nefndar eru í sóknarmannatölum prestanna á Stað.

Árið 1816 var Margrét þessi Magnúsdóttir vinnukona á Gelti í Súgandafirði og er í manntalinu frá því ári sögð fædd í Bæjum á Snæfjallaströnd.[1166] Að svo hafi verið er einnig tekið fram í sóknarmannatali frá árinu 1833.[1167] Í manntalinu frá 1. desember 1816 er Margrét talin 24 ára gömul[1168] og ætti þá að hafa verið fædd árið 1792. Nær fullvíst má telja að hún sé sú Margrét Magnúsdóttir sem var 8 ára gömul hjá móður sinni, Ragnhildi  Þórðardóttur, búandi ekkju í Bæjum, þann 1. febrúar 1801.[1169]

Árið 1816 var Margrét komin að Gelti í Súgandafirði eins og hér var áður nefnt og þar var hún vinnukona hjá Jóni bónda Bjarnasyni sem var sjálfur af Snæfjallaströndinni eins og hún.[1170] Að Bæ kom hún frá Gelti vorið 1821[1171] og í sóknarmannatali frá marsmánuði árið 1823 er hún sögð vera húskona í Bæ.[1172] Næstu sjö árin, 1824-1830, nefnir prestur hana ætíð húskonu og ritar nafn hennar jafnan síðast er hann skráir fólkið i Bæ.[1173] Það eitt gefur til kynna að hún hafi bollokað ein og sér. Á þessu skeiði er Manga lengi skráð sjö árum yngri en hún var en þá villu leiðréttir prestur árið 1829 og segir hana þá vera 37 ára sem mun hafa verið nærri lagi.

Á árunum 1825-1830 lætur prestur þess getið við allar húsvitjanir að Margrét húskona í Bæ sé geðstór eða skapstór.[1174] Sú umsögn prestsins bendir eindregið til þess að hún hafi átt erfitt með að lúta stjórn annarra og viljað fara sínar eigin leiðir, enda var hún aldrei vinnukona á þessum árum en alltaf í húsmennsku sem bauð upp á mun meira sjálfræði.

Vart þarf að taka fram að geðstór húskona hefur verið öðrum kynsystrum sínum líklegri til þess að gerast einsetukona, reisa sér kofa utan við túnfótinn og setjast þar að í sjálfsmennsku. Og það er einmitt vegna ummæla prestsins um skapgerð Margrétar Magnúsdóttur sem sú hugmynd fæðist að hún sé sú Manga er færði sig hingað á holtið og við hana sé það kennt. Með hvaða hætti títtnefnd Margrét aflaði sér brauðs er ekki ljóst en líklegast er að hún hafi unnið hin og þessi verk á búunum í Staðardal án þess að vera fastráðin til langs tíma. Hugsanlegt er að hún hafi meðal annars stundað sjóróðra. Í sóknarmannatölum frá 19. öld eru mörg dæmi finnanleg um að fólk sem hafði komið sér fyrir í þurrabúð utan túns væri skráð sem heimilisfólk á viðkomandi bújörð án nokkurrar aðgreiningar frá öðru  heimafólki þar (sjá hér bls. 102 og Fremri-Vatnadalur, Hraunakot þar). Ljóst er því að hin geðstóra húskona, Margrét Magnúsdóttir, gæti sem best hafa verið ein út af fyrir sig í kofa hér á Mönguholtinu á árunum um og fyrir 1830 þó að prestur segi hana eiga heima í Bæ. Hugmyndin um að svo hafi verið er því ekki alveg út í bláinn en verður þó aldrei annað en hugmynd því sannanir skortir.

Vorið 1830 eða 1831 gafst Margrét upp á sjálfsmennskunni og gerðist vinnukona hjá séra Eiríki Vigfússyni á Stað.[1175] Á prestssetrinu var hún í fáein ár og árið 1833 segir séra Eiríkur að hún sé skýr og vel að sér í kristindómsþekkingu.[1176] Einu ári síðar fluttist þessi fyrrverandi húskona burt úr Súgandafirði og er óljóst hvað um hana varð.

Vel getur verið að lágreistum mannabústöðum hafi verið hróflað upp hér á Mönguholti oftar en einu sinni á liðnum öldum en ólíklegt að byggð hafi nokkru sinni haldist til lengdar á þessum stað. Sterkar líkur benda til þess að hjónin Bergur Lárentíusson og Margrét Eiríksdóttir hafi byggt sér kofa hér á Mönguholti árið 1864 eða 1865 og hafst hér við í fáein ár (sjá hér bls. 48). Þau höfðu áður búið í sjö ár í Lækjarhúsum, hjáleigu í landi Staðar (sjá hér Staður) og komu þaðan að Bæ.[1177] Í sóknarmannatali frá 31. desember 1865 er bærinn sem Bergur og Margrét bjuggu í nefndur Holtið.[1178] Með vísan til þess og orða Kristjáns G. Þorvaldssonar um byggð á Mönguholti (sjá hér bls. 110) má telja líklegt að Holtið, sem prestur nefnir þarna, hafi verið Mönguholt. Fjórbýli var í Bæ á árunum 1862-1868[1179] og því þröngt setinn bekkurinn. Við þær aðstæður er skiljanlegt að Bergur hafi orðið að koma sér upp sérstökum kofa fyrir sig og sína fjölskyldu en það hafði hann einnig gert í Lækjarhúsum (sjá hér Staður). Á Holtinu hefur Bergur þó varla verið nema í tvö til fjögur ár því ætla má að hann hafi fært sig í heimabæinn þegar faðir hans, Lárentíus Hallgrímsson, féll frá vorið 1866 eða tveimur árum síðar þegar móðir hans, Sigurborg Bergsdóttir, hætti að búa (sjá hér bls. 48) og ábúendum í Bæ fækkaði úr fjórum í þrjá.[1180] Bústofn Bergs var mjög lítill á árunum kringum 1865 (sjá hér bls. 48) svo jafnvel var álitamál hvort hann ætti að teljast bóndi eða húsmaður. Hafi Bergur Lárentíusson búið hér á Mönguholti mun hann vera sá síðasti sem kaus sér það hlutskipti og vera má að hann hafi einnig verið sá fyrsti.

Eiginkona Bergs hét reyndar Margrét Eiríksdóttir eins og fyrr var nefnt og að Bergi látnum var hún húskona í Bæ í 4 ár frá 1875 til 1879.[1181] Sú var kenning Valdimars Þorvaldssonar, sem margt ritaði um mannlíf í Súgandafirði, að holtið væri kennt við hana.[1182] Það verður þó að teljast mjög vafasamt og hafi mannabústaður risið hér á holtinu á fyrri hluta 19. aldar eins og Kristján Þorvaldsson greinir frá hafa hjónin Bergur og Margrét alls ekki verið fyrstu manneskjurnar sem hér áttu heima.

Valdimar Þorvaldsson segir reyndar líka að um 1880 hafi verið sjáanlegar tóttir af tveimur kotbýlum hér vestan ár í landi Bæjar.[1183] Annað þessara býla hafi verið Mönguholt en hitt borið nafnið Stöðlar, kennt við einn eða fleiri stöðla þar sem kýr voru mjólkaðar.[1184] Stutt var á milli þessara tveggja kota að sögn Valdimars.[1185]

Nafnið Stöðlar finnst ekki í örnefnaskrá Kristjáns G. Þorvaldssonar, sem hér er víða vísað í, og engin heimild finnanleg um kot þetta nema orð Valdimars. Guðmundur Ibsen, fæddur 1926, dvaldist oft í Bæ hjá afa sínum og ömmu á árunum fyrir og um 1940. Hann kannaðist vorið 1996 ekki við örnefnið Stöðla og taldi mjög ólíklegt að Bæjarfólk hefði á fyrri tíð mjólkað kýr sínar á stöðli handan ár.[1186] Þeir Guðmundur Ibsen og Karl Guðmundsson, sem nú (1996) býr í Bæ, muna heldur ekki eftir neinum tóttum af kotbýli á þessum slóðum nema tóttinni á Mönguholti og svo á Þverá.[1187] Mjög vafasamt verður því að telja hvort kotið sem Valdimar nefnir Stöðla hafi nokkru sinni verið til og um þetta kynni hann að hafa fengið rangar upplýsingar.

Hér hefur áður verið gerð grein fyrir landamerkjum Bæjar á móti jörðunum Stað og Vatnadal (sjá hér bls. 1 og Staður og Fremri-Vatnadalur) en til upprifjunar skal þess getið að uppi á Sunddal á Bær allt land norðan Þverár. Um afdal þennan sem gengur suðaustur úr Staðardal og liggur neðst í um það bil 150 metra hæð yfir sjávarmáli hefur áður verið rætt (sjá hér Staður) en þangað stefnum við nú til að líta á rústirnar af hinu forna seli Bæjarmanna þar á dalnum og svipast nánar um. Um Sunddal lá þjóðleiðin sem farin var á Klofningsheiði en yfir þá heiði lá alfaravegur milli Staðardals í Súgandafirði og Önundarfjarðar (sjá hér Staður og Eyri). Úr Staðardal var þá oftast lagt upp frá Bæ eða Stað en fyrsti bær handan heiðar var Eyri í Önundarfirði.

Gamla gatan frá Bæ upp á Sunddal lá frá holtinu við kvíabólið[1188] sem fyrr var nefnt (sjá hér bls. 101). Frá hlaðinu í Bæ sér enn móta greinilega fyrir þessari gömlu götu í hlíðinni fyrir neðan Taglið en svo heitir raninn á Sunddalshorni þar sem hið fríða fjall teygist í átt að kirkjunni á Stað. Við endann á Taglinu hverfur þessi gróni stígur manna og hesta upp á dalinn.

Við röltum nú af stað og fylgjum hinni fornu slóð en leggjum þó svolitla lykkju á leið okkar til að njóta unaðar sem í boði er hjá fossinum hvíta rétt neðan við dalsmynnið. Að honum er mikil prýði. Í örnefnalýsingu Kristjáns G. Þorvaldssonar frá árinu 1949 er hann ekki nefndur með nafni en ýmsir sem hér þekkja vel til segja að hann sé kenndur við ána og heiti Þverárfoss.[1189] Frá glitrandi fossúðanum snúum við aftur upp á gömlu götuna í hlíðinni og fylgjum henni upp í dalsmynnið. Á árunum kringum 1940 var hún enn rudd á hverju vori eða því sem næst[1190] og upp undir dalsmynninu er vegkantur, sem menn hafa hlaðið, enn mjög greinilegur.

Skammt ofan við dalsmynnið, í um það bil 200 metra hæð, mætast göturnar tvær, sú sem farin var frá Bæ og hin sem farin var frá Stað, og verða að einni. Þjóðleiðin fram dalinn lá síðan norðan árinnar og þar með í landi Bæjar alveg fram í dalbotn og upp á heiði[1191] en Sunddalur er rösklega þrír kílómetrar á lengd. Norðan við dalinn er fjallið Sunddalshorn sem skilur að Sunddal og Vatnadal[1192] en í klettabrúninni handan ár ber mest á Magnúsarhorni sem er í nánd við miðjan dalinn (sjá hér Staður).

Í mynni Sunddals blasir við mikil þyrping grjóthóla sem ætla má að myndast hafi í lok síðustu ísaldar við stórkostleg skriðuhlaup úr fjöllunum beggja vegna. Þessi hólaþyrping heitir Sunddalshraun[1193] og nær alveg fram að litlu stöðuvatni í nánd við miðjan dal. Frá grjóthólunum í mynni Sunddals er gott að skoða fjallið Sunddalshorn sem fyrr var nefnt. Á móts við dalsmynnið liggur brún þess í liðlega 250 metra hæð yfir sjávarmáli en hækkar síðan inn til landsins. Hér við dalsmynnið er sjálf klettabrúnin, efst í fjallinu, svo skörp að líkja má við hnífsegg. Neðan við brúnina eru tveir hjallar sem heita Efri-Flatarhjalli og Neðri-Flatarhjalli en niður frá neðri hjallanum gengur Taglið sem hér var áður nefnt.[1194] Á öxlinni ofan við efri hjallann var lítil varða sem hét Miðmundavarða[1195] og mun hafa verið eyktamark frá Bæ (sbr. hér bls. 100) en miðmundi heitir sá tími dagsins sem er mitt á milli hádegis og nóns, það er klukkan 13:30 að réttum sólartíma.

Best er að fylgja götunni fram yfir Hraunið og er hún hvarvetna greinileg. Fremst í Hrauninu og hægra megin við götuna, þegar gengið er fram dalinn, eru rústir af grjóthlöðnum kofa sem eftir stærðinni að dæma má ætla að hafi verið smalakofi. Gunnar M. Magnúss, sem var smali í Bæ sumarið 1910, getur um hjásetukofa á þessum slóðum og segir að þeir Guðfinnur Guðmundsson hafi hlaðið hann fyrsta hjásetudaginn á því sumri.[1196] Vel má vera að þetta séu rústir hans. Þar sem Hraunið endar og flatirnar framan við það taka við liggur stöðuvatnið sem hér var áður getið um. Það er lítið en laglegt og heitir Sunddalsvatn en sá skanki úr Hrauninu sem nær lengst fram í dalinn heitir Hraunafótur.[1197]

Framan við Sunddalshraun tekur við mikið flatlendi og heita þar Heimri-Flatir næst Hrauninu og Sunddalsvatni.[1198] Rétt framan við vatnið og fremsta enda Hraunsins eru seltóttirnar sem fyrr voru nefndar og var nafnið Sel notað um þann stað allt fram á daga núlifandi manna.[1199] Rústirnar bera líka með sér að hér hafa ær verið mjaltaðar í kvíum svo ekki er um að villast. Líklegt er að hér hafi um alllangt skeið verið sel frá tveimur býlum í Bæ því húsasamstæðurnar eru tvær og tvennar kvíar.

Sé götuslóðanum fylgt eru seltóttirnar á vinstri hönd þegar gengið er fram dalinn. Vegalengdin frá götunni að kvínni sem næst liggur er varla nema 10 metrar og máske 20 metrar frá þeirri kví að selhúsunum sem næst eru. Þar hafa staðið tvö sambyggð hús. Lítið eitt fjær götunni eru svo rústir annarrar húsasamstæðu af sama tagi og kvíin, sem ætla má að hafi fylgt þeim húsum, reynist vera hér aðeins ofar, nær hlíðarfætinum, og örfáum metrum framar. Hér hefur aðeins verið getið stærstu húsanna á þessu svæði sem hafa verið fjögur, tvö og tvö saman, og lausleg mæling bendir til að þau hafi hvert um sig verið um það bil 4 fermetrar. Í selinu hafa svo einnig verið ýmsir smærri kofar og sjást enn rústir af sumum þeirra. Allir veggir eru sem vænta mátti grjóthlaðnir.

Þessar fornu seltóttir er auðvelt fyrir hvern sem er að finna því eins og fyrr var nefnt eru þær nánast rétt við götuna þar sem áður lá alfaraleið og mjög skammt fyrir framan litla stöðuvatnið og Hraunafót. Við leit að tóttunum má einnig hafa í huga að þær eru nánast beint á móti Magnúsarhorni, fjallinu svartbrýnda sem mest ber á hinum megin í dalnum.

Enginn veit nú hvenær fólkið í Bæ var síðast með búsmala sinn í seli hér uppi á Sunddal. Ærið langt kann að vera síðan og fullyrða má að ær hafi aldrei verið mjaltaðar á þessum stað eftir 1800. Séra Andrés Hjaltason á Stað segir í sóknarlýsingu sinni frá árinu 1839 að í Súgandafirði séu ær hvergi hafðar í seli[1200] og verður að taka það trúanlegt. Hann segir reyndar líka að ekki sé til þess vitað að slíkt búskaparlag hafi tíðkast í þessu byggðarlagi nema á mjög fáum býlum.[1201] Sú staðhæfing er þó röng eins og sjá má í þessu riti (sjá hér Staður, Fremri-Vatnadalur. Suðureyri, Kvíanes, Botn, Selárdalur og Norðureyri) en hefði seljabúskapur enn verið iðkaður í tíð þeirra manna sem séra Andrés var samtíða í Súgandafirði má ætla að hann hefði hagað orðum sínum á annan veg. Við mat á þessu ber þó að hafa í huga að nefndur prestur hafði aðeins þjónað Súgfirðingum í sjö mánuði eða því sem næst er hann gekk frá sóknarlýsingunni (sjá hér Staður).

Við seltóttirnar er gott að dveljast langa stund og láta hugann reika til þeirra löngu liðnu daga þegar ferðamönnum, sem hér áttu leið um, gafst kostur á að heilsa upp á stúlkurnar í selinu og heyrðu smalann hóa svo undir tók í fjöllunum beggja vegna dalsins.

Eftir góða hvíld stöndum við á fætur og röltum fram undir dalbotninn, án þess þó að leggja á heiðina. Svolítið framan við selið taka Fremri-Flatir við af Heimri-Flötum og skilur skriða á milli en flatir þessar liggja niður að ánni.[1202] Skammt fyrir framan Fremri-Flatir komum við að Urðinni, sem svo heitir,[1203] grjóturð mikilli í norðurhlíð dalsins. Oftast nær mun Urðin vera undir snjó langt fram á sumar.[1204] Í fremsta grasteignum heiman við skaflinn mikla liggur gamla reiðgatan í bugðum upp hlíðina uns komið er liðlega hálfa leiðina neðan frá sléttlendinu við ána og upp að klettum.[1205] Þarna hátt uppi í hlíðinni var svo farið yfir Urðina og þar er gatan enn glögg.[1206] Sá spotti var alltaf ruddur á hverju vori.[1207]

Framan við Urð kemur Jökulteigahryggur og framan við hann eru Jökulteigar hér norðantil í dalnum.[1208] Klettagirðingin sem við sjáum fyrir botni dalsins heitir Klif og liggur hinn forni alfaravegur yfir það.[1209] Áin sem rennur um dalinn og skiptir löndum milli Bæjar og Staðar fellur fram af Klifinu svo nokkur hluti þess er í landi Staðar.[1210] Frá Klifinu er skammt á heiðarbrún.

Um sjálfa Klofningsheiði og hina frægustu ferð sem farin hefur verið yfir hana er rætt hér á öðrum stað (sjá hér Eyri). Þar uppi voru 18 vörður og segir Kristján G. Þorvaldsson að talið hafi verið að aldrei kæmi sá bylur að ekki væri ratandi milli varða að degi til, ef menn gátu stjórnað sér fyrir ofviðri.[1211] Reinald Kristjánsson póstur, er lengi bjó á Kaldá í Önundarfirði, lætur þess getið að leiðina yfir Klofningsheiði fari fullhraustir göngumenn á tæplega tveimur klukkustundum[1212] og hlýtur þá að meina alla leiðina frá Bæ eða Stað í Súgandafirði að Eyri í Önundarfirði. Líklega eru þeir fáir sem kæmust þetta nú á svo skömmum tíma því vegalengdin er að minnsta kosti 8 kílómetrar og fara þarf upp í 600 metra hæð. Sjálfur var Reinald reyndar átta klukkutíma að komast þetta, fárveikur maður vorið 1899.[1213]

Fyrir liðlega 100 árum voru Súgfirðingar að reyna að tryggja sér nokkrar krónur af opinberu fé til vegabóta hér á Sunddal og á Klofningsheiði, báðu um 16,- krónur árið 1889 og um 30,- krónur árið 1890.[1214] Við undirbúning þessara skrifa var ekki kannað hvort sýslunefnd Ísafjarðarsýslu muni hafa samþykkt þessar fjárbeiðnir en fullvíst er að viðhald reiðvegarins yfir Urðina, sem fyrr var nefnd, og nauðsynleg aðhlynning að vörðunum á heiðinni á hverju ári hefur kostað bæði fé og fyrirhöfn.

Undir Klifinu í botni dalsins snúum við nú til baka sömu leið og stöndum að einni klukkustund liðinni aftur á Mönguholtinu þar sem lagt var upp í ferðina fram á Sunddal. Hér á holtinu erum við stödd mjög skammt frá gamla túninu í Bæ en þó aðeins framar og hinum megin við Langá, það er vestan árinnar. Fram undan er nú rölt um þann hluta af landareign Bæjarmanna sem enn hafa engin skil verið gerð og verður litið á það allra helsta sem fyrir augu ber.

Sé horft frá Mönguholti fram í dalinn er fjallið Sunddalshorn á hægri hönd en hjallinn þar í hlíðinni heitir Bólhjalli.[1215] Héðan frá Mönguholti er örskammt niður að Langá. Árdalurinn á móts við holtið heitir Langiárdalur en framan við það er Litliárdalur og nær að Hraunafæti[1216] en það er sá fótur Hraunanna miklu í Vatnadal sem teygir sig lengst í átt til sjávar.[1217] Við Hraunafót tekur Stóriárdalur við af Litlaárdal og nær alveg fram að sjálfum Hraununum þar sem þau breiða úr sér þvert yfir dalinn.[1218] Litlu framar en hraunjaðarinn, sem við augum blasir, er hóllinn Hraunakollur en um hann og Helguhól, sem er handan árinnar liggur landamerkjalínan milli Bæjar og Vatnadals (sjá hér Fremri-Vatnadalur).

Við landamerkin bregðum við okkur yfir ána og höldum síðan sem leið liggur frá Vatnadal niður í Bæ. Spölurinn frá merkjunum heim að bænum er varla lengri en 700 metrar. Fyrsti slægjubletturinn Bæjarmegin við merkin heitir Helguhólspartur og neðanvert við hann er Stekkjarbali hjá ánni.[1219] Klettar í hlíðinni heimantil við merkin heita Hamrar en Lambakinn er nafnið á hinni grösugu hlíðarbrekku heiman við þá.[1220] Neðan við Lambakinn er Votihjalli.[1221]

Á hlaðinu í Bæ stöldrum við enn við skamma stund og lítum til fjalls. Ofan við fremsta hluta gamla túnsins liggur hryggur upp í hlíðina og heitir sá Hjallhryggur.[1222] Neðarlega í hlíðinni og hér beint upp af bænum er klettabelti og ofan við það Kolviðarhjalli.[1223] Nafnið sýnir að hér hefur land verið viði vaxið á fyrri tíð og skammt að fara til kolagerðar hjá þeim sem bjuggu í Bæ.

Hér var áður minnst á Lambakinn, grasbreiðu í hlíðinni framan við gamla túnið í Bæ. Í örnefnalýsingu frá árinu 1949 segir að heim og upp  af Lambakinn séu tvær smálægðir undir brúninni, séð frá Bæ, og heiti þær Stefnir efri og Stefnir neðri.[1224] Karl Guðmundsson, sem nú er bóndi í Bæ (1996) og ólst hér upp, fæddur 1945, kveðst hins vegar hafa heyrt talað um að Efri-Stefnir væri hjalli neðan við fjallsbrúnina, nær beint upp af íbúðarhúsinu sem hann býr í, en Lægri-Stefnir grasbali í hlíðinni þar beint fyrir neðan.[1225] Hjallann sem Karl nefnir Efri-Stefni er auðvelt að greina frá hlaðinu í Bæ og má hafa til marks að vestan (norðvestan) við hann er lækjarfarvegur í fjallshlíðinni. Allt er þetta hins vegar dálítið undarlegt sé haft í huga að ofan við þennan sama hjalla er bakhliðin á fjallshrygg sem á fyrri hluta tuttugustu aldar var tvímælalaust nefndur Stefnir af heimafólki á Suðureyri (sjá hér Suðureyri). Líklegt er að á fyrri tíð hafi það líka verið fjallshryggurinn sem fólkið í Bæ nefndi Stefni og þeir sem fóru upp á hjallann, sem nú ber þetta nafn, hafi þá farið upp Stefni. Sé þessi tilgáta rétt hefur síðan breyst í á og nafnið á fjallshryggnum færst með þeim hætti niður á hjallann.

Hlíðin neðan við túnið í Bæ heitir Bæjarhlíð og nær alveg niður að sjó og að Spillisrönd.[1226] Framan við hana liggur raflínan yfir Háls (sjá hér Suðureyri). Þar sem hálsbrúnin er lægst heitir Geldingaskarð og vísar nýnefnd raflína á það.[1227] Framan við Geldingaskarð er stór hnúkur sem heitir Vatnabálkur.[1228] Frá hlaðinu í Bæ blasir hann við og ber við himin því brúnin sem liggur hærra en hnúkurinn sést ekki.

Hér á hlaðinu kveðjum við fólkið í Bæ og þökkum góðar móttökur en höldum síðan sem leið liggur niður Bæjarhlíð í átt til sjávar. Þessi spölur niður að sjónum er tæplega einn og hálfur kílómetri. Við fylgjum akveginum og komum rétt utan við túnið að svolitlum ás sem heitir Leiti.[1229] Skýringin á nafninu er sú að væri horft út með hlíðinni frá gamla bænum, sem áður stóð á Hjallhólunum og fyrr var frá sagt, sást aðeins út á þetta leiti. Frá tröppum íbúðarhússins sem byggt var um 1910 neðar í túninu (sjá hér bls. 94), nær sjó, sést hins vegar á Brunnshrygg sem er svolítið fjær.

Brunnshrygg er auðvelt að greina því hann er þar sem vegurinn liggur hæst á leiðinni frá Bæ til sjávar.[1230] Hryggurinn dregur nafn af uppsprettulind sem nefnd er Gvendarbrunnur og er hér rétt ofan við veginn.[1231] Sagt er að þessi forna lind sé kennd við Guðmund góða, er var biskup á Hólum á 13. öld, en hann fór víða um land og vígði björg og brunna. Tveir Gvendarbrunnar eru í Staðardal, annar hér á Brunnshrygg en hinn í landi Staðar (sjá hér Staður, Staðarhús ytri þar). Úr lindinni fornu hér á Brunnshrygg rann áður lítill lækur sem féll í Langá[1232] en nú fer vatnið úr Gvendarbrunninum aðra leið og rennur góðan spöl hér ofan við vegkantinn.

Frá Brunnshrygg og næsta nágrenni hans er gott að svipast um og virða fyrir sér eitt og annað sem fyrir augu ber hér á Bæjarhlíðinni. Hlíðin endar við Spillisrönd en þar tekur við fjallið Spillir (sjá hér Suðureyri). Á öllum öldum hefur leið fólksins í Bæ og annarra Dalmanna til Suðureyrar legið um fjörurnar undir Spilli og þar er nú akfær vegur með sjó fram. Innan við Spilli er Háls[1233] og liggur hálsbrúnin í um það bil 350 metra hæð yfir sjávarmáli. Leiðin yfir Háls er greiðfær því hægt er að sneiða hjá öllum klettum en seinfarin engu að síður því hlíðarnar beggja vegna eru ærið brattar. Mun fljótlegra er því að fara þjóðgötuna um Bæjarhlíð og Fjörurnar undir Spilli því vegalengdin frá Bæ að ystu húsunum á Suðureyri er aðeins þrír kílómetrar (sbr. hér Suðureyri).

Bæjarhlíð er vel gróin en ofan við gróðurlendið eru klettabelti sem teygjast frá nýnefndri Spillisrönd og ná þau sem lengst seilast fram undir túnið í Bæ. Í þeim er sums staðar þó nokkur gróður og þá einkum hér beint upp af Brunnshrygg en þar eru Hvanntær sem svo heita.[1234] Framan við þær eru Breiðuklettar en grastær ofan við fremsta hluta þeirra heita Hnausar.[1235] Neðan við Hvanntær, það er nær sjó, eru Vegghamrar.[1236] Nafnið skýrist af því að þar eru klettarnir eins og veggur, einkum næst Spillisröndinni. Eitt klettalagið í Vegghömrum er þykkara en önnur og nær inn fyrir Spillisrönd.[1237] Það heitir Þykkvastál.[1238]

Á Bæjarhlíð voru margir slægjupartar og hafði hver sitt nafn. Neðan við Leiti, sem fyrr var nefnt, var Fúapartur og náði niður að á.[1239] Næst kom Stekkjarpartur og síðan Brunnshryggsbreiður sem náðu alveg hingað að Brunnshrygg.[1240] Neðan við gömlu engjalöndin á Bæjarhlíð niðar Langá með sínum fögru lygnum og tæru hyljum. Alveg við Bæjartúnið eru ármót hennar og Þverár eins og hér hefur áður verið nefnt en rétt neðan við þau er Torfhylur og neðan við hann Litlafljót.[1241] Neðst í því er Djúpihylur en fram með Bjarnanesi, sem er handan við ána og beint niður af túninu á Stað, liggur Bjarnanesfljót og í því er Bjarnaneshylur.[1242]

Hér við Gvendarbrunninn á hryggnum sem við hann er kenndur er gott að rifja upp þessi fornu örnefni í fjalli, hlíð og á og leitast við að festa sér þau í minni. Héðan sér enn til heimahúsa í Bæ en brátt munu þau hverfa sjónum okkar sem nú erum hér á ferð. Vatnið úr brunni Guðmundar biskups er gott að teyga en þegar nóg er drukkið látum við lokið dvöl okkar á Brunnshryggnum og höldum göngunni áfram í átt til sjávar. Handan við Brunnshrygg komum við fyrst að Grænateig, sem reyndar er aðeins mjór hryggur,[1243] en síðan kemur Mjóipartur, þá Breiðipartur og loks Sjóarpartur en allt voru þetta slægjulönd á fyrri tíð.[1244] Í Sjóarpartinum reistu hjónin Guðmundur Pálmason og Sigríður Kristjánsdóttir nýbýli árið 1942 og nefndu Sólstaði.[1245] Þau bjuggu hér í 40 ár en Guðmundur andaðist 10. mars 1982 og var þá að verða 94 ára gamall.[1246] Að honum látnum fóru Sólstaðir í eyði. Íbúðarhúsið stóð mjög skammt frá ánni og aðeins rétt fyrir framan brúna sem akvegurinn heim að Stað liggur yfir.

Ofan við Sjóarpart, nær hlíðarfætinum, er slægjuland sem nær alveg fram á bakkabrúnina ofan við Stöð, er svo heitir, en frá Stöðinni reru Bæjarmenn löngum til fiskjar og þeir sem áttu heima í Vatnadal eins og brátt verður vikið nánar að. Hér á bökkunum ofan við Stöð og örskammt frá Spillisröndinni standa enn nokkrar verbúðatóttir frá fyrri tíð.[1247] Þær þrjár sem eru næst bakkabrúninni virðast vera nýlegastar. Tvær þeirra eru sambyggðar en sú þriðja stök og stendur aðeins fjær brúninni. Þessar búðir hafa verið um það bil 12 fermetrar hver um sig, þrír metrar á annan veginn og fjórir á hinn. Nær 50 metrum fjær sjó eru tvær samhliða tóttir sem munu vera þó nokkru eldri. Þær eru 5-6 metrar á lengd en athygli vekur að gaflana vantar. Vera má að í þessum tóttum hafi bátar verið geymdir í vetrarlægi því þær líkjast einna helst naustum. Í Klausturpóstinum frá júlímánuði árið 1818 er frá því greint að aðfaranótt 20. mars á því ári hafi snjóflóð tekið hjall að veggjum í Bæ í Súgandafirði og flutt út í sjó.[1248] Tekið er fram að í hjallinum hafi verið mikið af matvælum.[1249] Hafi hjallurinn staðið heima við bæ er óhugsandi að snjóflóð hafi fært hann út í sjó. Öðru máli gegnir um fiskhjall sem kynni að hafa staðið hér á bökkunum við verbúðirnar hjá Stöðinni. Með það í huga mætti reyndar hugsa sér að gafllausu tóttirnar tvær, sem fyrr voru nefndar og liggja hvor við annarrar hlið, séu rústir af þessum hjalli. Rétt framan við þær og aðeins ofar eru svo tvær býsna fornlegar tóttir sem ætla má að séu af verbúðum og er önnur þeirra 3 x 3,5 metrar en hin 2 x 4 metrar eða því sem næst.

Ekki mun fjarri lagi að bakkabrúnin ofan við Stöð liggi 40 metrum ofar en fjaran og leiðin niður er býsna brött. Að þessu sinni förum við ekki niður í Stöðina en tökum stefnu á Árós þar sem Langá fellur til sjávar. Frá búðatóttunum ofan við Stöð er spölurinn niður að árósnum varla nema 200-300 metrar.

Nafnið Árós nær ekki aðeins yfir sjálfan ósinn því víkin innan við hann gengur einnig undir þessu nafni.[1250] Á síðari hluta 19. aldar stóðu þar beitarhús frá Bæ[1251] og svo mun lengi hafa verið. Þessi beitarhús í Árós voru undir lok 19. aldar aðal húsin fyrir sauðfé bændanna í Bæ því fjárhús sem stóðu heima á túni voru mun minni.[1252] Fjörubeitin skipti miklu máli og í því skyni að nýta hana sem best voru húsin reist hér niður við sjó.

Eitthvað óhreint var talið vera á sveimi í beitarhúsunum hér í Árós og voru svartir krossar á öllum hurðum.[1253] Var þeim ætlað að koma í veg fyrir að illar verur kæmust í húsin og grönduðu fénu.[1254] Sú var lengi trú manna að aldrei mætti hafa hrút í þessum húsum.[1255] Eins og nærri má geta kom þetta sér illa um fengitímann því þá varð að leiða hrútinn fram og til baka á hverjum degi í hvaða veðri og færð sem var, heiman frá bæjunum og hingað niður eftir.[1256] Talið var að hrúturinn dræpist væri hann hafður í beitarhúsunum að nóttu til og höfðu menn lengi á hraðbergi sögur um slík dæmi.[1257] Á síðustu árum 19. aldar mun þessi gamla hjátrú þó hafa verið virt að vettugi án þess að tjón hlytist af.[1258] Þá stóðu hér á hákambinum ofan við fjöruna þrjú fjárhús og ein hlaða.[1259] Dyrnar á fjárhúsunum sneru til sjávar en hlaðan stóð að húsabaki.[1260] Árið 1905 voru húsin rifin og engin önnur byggð hér við sjóinn í þeirra stað (sjá hér bls. 2).

Á árunum kringum aldamótin 1900 voru, að sögn, mjög margar gamlar tóttir hér í Árós[1261] og kynnu sumar þeirra að hafa verið verbúðatóttir því héðan var sjór sóttur á fyrri tíð. Allar þessar tóttir eru nú horfnar en grjót úr þeim mun hafa verið notað þegar skilarétt var byggð hér við árósinn snemma á tuttugustu öld.[1262]

Ólafur Olavius, sem rannsakaði atvinnuhætti á Vestfjörðum sumarið 1775, nefnir Árós Vatnadalsós og segir að hér sé verstöð.[1263] Að hans sögn var þá önnur verstöð í Stöð[1264] sem einnig er í landi Bæjar og aðeins 300 metrum innar á ströndinni eða því sem næst. Olavius getur þess að hér og í Stöðinni séu illar lendingar en mikið útræði engu að síður, einkum á vorin.[1265] Ýmislegt bendir til þess að lendingarskilyrði hér við Árós hafi farið versnandi um eða upp úr 1800. Að minnsta kosti voru þau orðin býsna slæm um 1840 eins og sjá má á orðum séra Andrésar Hjaltasonar í sóknarlýsingu hans frá árinu 1839. Séra Andrés segir þar:

 

Önnur lending er utar betur [þ.e. utar en Stöð – innsk. K.Ó.] við Vatnadalsós, eður almennt kallaðan Árós, þar sem Vatnadalsá kemur til sjóar. Þykir þessi hin viðfangsversta lending í öllum Súgandafirði. Er þar bæði afar brimasamt og fláanda grunn langt út á fjörð.[1266]

 

Frá Árós mun lítið hafa verið róið eftir 1850[1267] en á síðari hluta 19. aldar sóttu Bæjarmenn sjó frá Stöðinni (sjá hér bls. 123-128). Hinn mikli fjöldi gamalla tótta sem enn sáust hér í Árós um aldamótin 1900 og ummæli Olaviusar frá árinu 1775 um mikið útræði frá þessari verstöð bendir hvort tveggja til þess að fleiri en Bæjarmenn og þeir sem áttu heima í Vatnadal hafi sótt héðan sjó á vorin. Hverjir það voru er þó ekki vitað en vera má að prestarnir á Stað og þeirra forverksmenn hafi stundum verið hér með báta sína á átjándu öld því Olavius nefnir ekki Keravík er hann telur upp verstöðvarnar í Súgandafirði[1268] en þaðan reru Staðarmenn síðar. Í máldaga Staðarkirkju frá árinu 1324 eða því sem næst er reyndar tekið fram að kirkjan eigi rétt til naustgjörðar við Árós í Bæjarlandi[1269] svo vel getur verið að Staðarmenn hafi öldum saman verið hér með báta sína.

Tvímælalaust er að Vatnadalsmenn áttu rétt til skipsuppsáturs í Árós[1270] og hafa þeir án vafa róið héðan. Í byrjun 18. aldar greindi menn hins vegar á um hvort bændurnir í Vatnadal ættu rétt á að vera með tvö skip hér við ósinn eða bara eitt (sjá hér Fremri-Vatnadalur).

Innan við víkina hjá árósnum er svolítill höfði sem heitir Hreggnasi.[1271] Þar hefur nú (1995) um alllangt skeið staðið lítið hús þar sem bornar voru fram veitingar á réttardaginn. Á Hreggnasi eru klettabakkar ofan við fjöruna sem fara hækkandi í átt að hlíðinni við Spillisröndina[1272] en neðan við þessa bakka eru Klappir sem svo heita[1273] og ganga þær í sjó fram. Innan við Klappir er lítil sjávarvík sem heitir Skollasandur.[1274] Gatan sem áður var farin niður í víkina þegar menn komu úr Staðardal og stefndu á Spillisfjörur hét Skollagata. Um hana og fjörurnar undir Spilli lá almenn leið allra sem fóru frá bæjunum í Staðardal til annarra byggðra bóla í Súgandfirði og allra sem komu frá öðrum bæjum í firðinum og áttu erindi út í dalinn. Skollagatan var örmjó svo illgerlegt var að komast hana með baggahest.[1275] Algengt var að ríðandi menn færu af baki og teymdu hest sinn upp eða niður Skollagötuna, enda var hún svo tæp að bæri eitthvað út af mátti búast við að hesturinn hrykki fram af vegbrúninni og ofan í fjörugrjótið.[1276] Akvegurinn sem nú er farinn liggur í nánd við gömlu Skollagötuna, sem er horfin, en hann er ólíkt breiðari svo hér þarf nú engu að kvíða.

Við brún Skollagötunnar kveðjum við Staðardal, lítum til kirkjunnar á Stað í síðasta sinn og stöndum fyrr en varir í sandinum sem einnig er kenndur við skolla. Sjávarvíkin, sem menn nefna Skollasand, er reyndar með því marki brennd að þar er oft alls enginn sandur[1277] en í annan tíma fyllist hún af sandi[1278] nema breyting kynni að hafa orðið í þeim efnum á síðustu áratugum.

Rétt innan við Skollasand taka Spillisfjörur við og á leið okkar um þær komum við fyrst að Stöðinni þar sem áður var lending og uppsátur Bæjarmanna. Sjálf Stöðin er allbreitt skarð í klettavegginn neðan við Spillisröndina.[1279] Skarð þetta er mjög áberandi og því auðfundið fyrir ókunnuga. Lauslega áætlað er það 10-15 metrar á breidd og hæðin upp á bakkabrún varla undir 40 metrum. Hér er bratt upp að ganga frá akveginum við fjöruna og ekkert undirlendi við veginn.

Lendingin er í vog milli tveggja skerja,[1280] alveg rétt innan við Stöðina. Vogurinn heitir Staðarvogur og skerin Staðarsker.[1281] Eins og fyrr var frá greint lætur Ólafur Olavius þess getið að í Stöðinni sé verstöð en hann ferðaðist um Vestfirði sumarið 1775. Verbúðirnar munu þó alltaf hafa verið uppi á bökkunum, ofan við skarðið sem nefnt er Stöð, og hefur áður verið frá þeim sagt (sjá hér bls. 120-121)). Svæðið uppi á bakkabrúninni og í nánd við hana var í daglegu tali kallað á Stöð[1282] en hins vegar var talað um að lenda í Stöð og þegar gengið var um skarðið fóru menn upp eða niður Stöðina.

Bátana sem héðan reru var erfitt að verja fyrir brimi og voru þeir jafnan settir upp undir háa kletta þegar eitthvað brimaði að ráði.[1283] Ólafur Olavius segir að lendingarnar í Stöð og í Árós séu fremur illar en frá þessum verstöðvum sé þó mikið útræði, einkum á vorin, af því þær séu svo nærri hafinu.[1284]

Athygli verð er lýsing séra Andrésar Hjaltasonar frá árinu 1839 á þessari veiðistöð en hann segir:

 

Fyrst er lending sú er Stöð heitir, næst fyrir utan Spillisfjörur. Er það þröngur vogur millum tveggja flatra skerja en efst í vogbotninum er malarsandur. Er þar mjög brimskátt og erfið landtaka, utan þá hálffallinn er sjór, en sá er þar ókostur með kostum að verður ekki sett skip undan sjóargangi, ef hann upp kemur, því fjara er mjó en þar fyrir ofan þvernýpir hamrar, hverja er einstig eitt upp að ganga sem einasta er færum mönnum hent um vetur.[1285]

 

Einstigið sem prestur nefnir þarna er skarðið sem enn er nefnt Stöð og hér var áður lýst.

Valdimar Þorvaldsson frá Selárdal í Súgandafirði var kominn á unglingsár þegar hætt var að róa úr Stöðinni og þekkti ýmsa sem sótt höfðu sjó frá þessari fornu veiðistöð. Lendingunni og öllum aðstæðum lýsir hann með þessum orðum:

 

Hún [Stöð] er inn við Spillisrönd og háir klettar fyrir ofan. Lendingin er vogur sem er mjög mjór er upp kemur. Hann liggur á snið út og upp og þó meira inn framan. Og hornið á ytra skerinu, sem nær nokkru lengra fram en hitt, heldur á neðansjávar með langdregnum halla niður og meira að vognum. Þarna mun af kunnugum hafa verið talið best að lenda en þar var lítið pláss fyrir skip og hætta af ofanfalli úr klettunum. Oft voru þarna 3 bátar sem þótti þó of mikið.

Búðirnar voru uppi á klettunum. … Ef ekki var lendandi vegna brims var farið inn á Malir [Suðureyrarmalir].[1286]

 

Frá Stöð mun sjór einkum hafa verið sóttur á vorvertíð sem stóð yfir frá páskum og fram undir lok 12. viku sumars.[1287] Þá lágu menn við í verbúðunum hér uppi á bökkunum og líka að sögn á haustin.[1288] Að vetrinum var hins vegar farið mun sjaldnar á sjó og þá voru menn heima en gengu til skipa sinna þegar róið var.[1289]

Á þessum blöðum hefur áður verið sagt frá hinu átakanlega slysi sem hér varð 18. desember 1873 er fimm menn drukknuðu í lendingunni (sjá hér bls. 51-54). Fjórir þeirra áttu heima í Bæ en einn á Stað og voru að koma úr kaupstaðarferð til Flateyrar. Var talið að þeir hefðu beygt of fljótt upp og báturinn tekið niðri á horni ytra skersins við voginn.[1290]

Hér var þess áður getið að oft hefðu þrír bátar róið úr Stöðinni. Nær fullvíst má telja að svo hafi enn verið vorið 1888 því þá átti fólkið í Bæ tvo báta og bændur í Vatnadal einn.[1291] Allt voru þetta sexæringar eða fjögra manna för. Í tíundarskýrslunni sem hér er byggt á er minni bátum jafnan sleppt og þeir ekki taldir með. Eigendur þessara þriggja báta voru. Jóhann Þórðarson, bóndi í Bæ en síðar lengi ráðsmaður í Selárdal, Guðmundur Guðmundsson, bóndi í Bæ, síðar á Þverá, Þorleifur Sigurðsson, húsmaður í Bæ, síðar bóndi á Norðureyri, Þórður Jónsson, bóndi í Ytri-Vatnadal, og Guðmundur Jónsson, bóndi í Fremri-Vatnadal.[1292] Allir áttu þeir hálfan bát hver nema Jóhann sem átti sinn bát einn.[1293] Ekki liggur fyrir hverjir voru formenn hér í Stöðinni vorið 1888 en tveimur árum fyrr, vorið 1886, var Guðmundur Jóhannesson á Langhól einn formannanna sem héðan reru[1294] en frá honum er sagt hér á öðrum stað (sjá hér bls. 42-47). Einn af hásetum Guðmundar það vor var Þórður Sigurðsson er þá var ungur vinnumaður hjá séra Janusi Jónssyni í Holti[1295] en gerðist síðar bóndi í Neðri-Breiðadal í Önundarfirði og bjó þar lengi.

Veturinn 1888-1889 virðast a.m.k. tveir bátar hafa róið úr Stöðinni og einn frá Keravík. – Þeir lentu hér allir úr Dalnum, skrifar Einar Jónsson á Suðureyri í dagbók sína 3. apríl 1889 og nefnir formennina sem voru þessir: Jón Ólafsson á Stað, Þórður Jónsson i Ytri-Vatnadal og Jóhann Þórðarson í Bæ.[1296] Ætla má að Jón hafi róið úr Keravík en Þórður og Jóhann úr Stöðinni.

Ljóst virðist að á síðasta áratug 19. aldar hafi menn hætt að sækja sjó héðan frá Stöð. Á árunum 1888-1895 fækkaði stærri bátum í eigu heimafólks í Bæ og Vatnadal úr þremur í einn.[1297] Valdimar Þorvaldsson, sem varð 12 ára gamall árið 1890 og átti heima í Súgandafirði, segir að vorið 1890 hafi þrír bátar róið frá Stöðinni[1298] og staðhæfir að á árunum þar í kring hafi tveir bátar sótt sjó frá verstöðvunum í Staðardal að vetrarlagi þegar veður var gott og dag fór að lengja og von var um færafisk út af firðinum.[1299] Fullvíst má telja að annar þessara báta hafi verið frá Stað og róið úr Keravík (sbr. hér Staður) og líklegt er að hinn bátinn, sem Valdimar getur um, hafi Bæjarmenn átt og hann verið gerður út héðan frá Stöðinni. Sú tilgáta byggir á því að vorið 1891 voru aðeins til í Staðardal tveir bátar sem náðu þeirri stærð að geta talist sexæringar eða fjögra manna för og var annar þeirra í eigu bóndans á Stað en hinn í eigu Bæjarmanna.[1300] Auk bátanna sem hér var gerð grein fyrir átti einn heimamanna í Bæ reyndar hálfan bát sem taldist vera sexæringur eða fjögra manna far[1301] en sameignarmaður hans var ekki búsettur í Súgandafirði[1302] og óvíst hvaðan sá bátur var gerður út.

Árið 1895 áttu Bæjarmenn enn bát sem líklegt er að þeir hafi farið í nokkrar sjóferðir á yfir veturinn og haldið úti til róðra héðan frá Stöðinni að vorlagi. Þessi bátur var sexæringur eða fjögra manna far og áttu hann þeir Jón Guðmundsson og Markús Guðmundsson sem þá voru báðir búandi menn í Bæ.[1303] Árið síðar fluttist Markús burt[1304] og virðist líklegt að útgerð stærri báta frá Stöðinni hafi þá lagst niður því veturinn 1897-1898 voru bændurnir þrír í Bæ allir í skiprúmi hjá Sturlu Jónssyni á Stað sem reri úr Keravík (sjá hér Staður). Þeir fórust þá allir í senn eins og hér hefur áður verið frá sagt og kunnugt er að Guðmundur Sigurðsson, sem hóf búskap á einu býlanna í Bæ vorið 1899, gerði sinn bát jafnan út frá Suðureyrarmölum (sjá hér bls. 92-94 ).

Í tíundarskýrslunum úr Suðureyrarhreppi, sem hér hefur verið stuðst við, er aldrei getið um minnstu bátana, þá sem aðeins töldust vera tveggja eða þriggja manna för.[1305] Kunnugt er þó að héðan var stundum farið á sjó á slíkum fleytum að sumarlagi. Dæmi um það er auðvelt að nefna frá árinu 1893. Einar Jónsson, sem þá var húsmaður í Ytri-Vatnadal, getur í dagbók sinni frá júlí og september á því ári um sex sjóferðir Friðberts Guðmundssonar, sem þá var liðlega sjötugur húsmaður í Hraunakoti í Vatnadal, og fram kemur að í þeim sjóferðum voru aldrei nema ein eða tvær manneskjur auk Friðberts (sjá hér Fremri-Vatnadalur). Fullvíst er að Friðbert reri héðan úr Stöðinni á árunum upp úr 1890 því um það liggur fyrir frásögn Kristjönu dóttur hans sem sjálf hjálpaði til við að bera aflann fram að Hraunakoti (sjá hér Fremri-Vatnadalur). Bátur Friðberts hét Trausti og oft var kona hans, Sigmundína Sigmundsdóttir, með í þessum sjóferðum en hún var 40 árum yngri en eiginmaðurinn (sjá hér Fremri-Vatnadalur).

Óvíst er hvenær Friðbert fór í sinn síðasta róður en hann andaðist 76 ára gamall vorið 1899. Hér voru áður leiddar líkur að því að útgerð stærri báta héðan úr Stöð hefði lagst af árið 1896 eða því sem næst og ætla má að skömmu síðar hafi gamli maðurinn í Hraunakoti hætt að fara á flot.

Magnús Hjaltason kom fyrst í Súgandafjörð árið 1896 og varð brátt vel kunnugur í þessu byggðarlagi. Í dagbók sinni 1. júní 1899 nefnir hann Stöðina veiðistöð til forna[1306] og benda þau ummæli hans mjög eindregið til þess að þá hafi öll sjósókn héðan verið niður fallin.

Allt frá því skömmu eftir kristnitöku hafa lík Súgfirðinga verið flutt til greftrunar að Stað, nær alltaf á sjó frá bæjunum innan við Spilli og allri norðurströnd fjarðarins svo og frá Keflavík. Í rituðum heimildum sem kannaðar hafa verið er ekki að finna óyggjandi upplýsingar um hvort líkkisturnar voru lagðar á land í Keravík eða hér í Stöðinni. Traustir heimildarmenn, sem ólust upp á Stað á fyrri hluta tuttugustu aldar, staðhæfa hins vegar að á þeirra uppvaxtarárum hafi kistur hinna látnu jafnan verið lagðar hér á land.

Fyrsta vitni í þeim efnum er Haraldur Þorvarðarson sem fæddist á Stað árið 1915 og átti þar heima uns hann fluttist að Suðureyri árið 1928.[1307] Vorið 1996 mundi hann enn að heiman frá Stað sást jafnan fyrst til líkmanna er þeir komu með kistuna upp úr Skollagötunni sem fyrr var nefnd (sjá hér bls. 122)[1308] en það sýnir með ótvíræðum hætti að lent var í Stöðinni. Erfitt hlýtur að hafa verið að komast með líkkistu upp hina þröngu Skollagötu en Haraldur bendir á að enn verra hafi verið að komast með slíkan flutning upp úr Keravík áður en kerruvegur var lagður niður í víkina.

Annað vitni er séra Gísli Kolbeins sem fluttist að Stað á fyrsta ári með foreldrum sínum árið 1926 og átti þar heima til fimmtán ára aldurs. Hann minntist þess vorið 1996 að í sérhvert skipti sem líkfylgd kom á Skollagötuna áttu börnin á Stað að koma inn frá leikjum og forðast allan hávaða.[1309] Þeir Haraldur og Gísli kannast ekki við að líkkista hafi nokkru sinni verið lögð á land í Keravík en taka fram að samt geti þeir ekki fortekið það.[1310] Séra Gísli bendir á að oftast sé meiri bára í Keravík heldur en í Stöð og því hafi að öllum jafnaði verið auðveldara að lenda með kistu hér í Stöðinni.

Guðmundur Ibsen, sem fæddist á Suðureyri í Súgandafirði árið 1926 og ólst þar upp en dvaldist oft hjá afa sínum og ömmu í Bæ, kvaðst vorið 1996 minnast þess að hafa sjálfur verið staddur hér í Stöð á barnsaldri þegar líkkista var lögð á land.[1311] Að því sinni var komið með kistuna á vélbát en árabátur fylgdi og var kistan flutt í land á honum.[1312] Þetta mundi hann glöggt og gat sagt hver stýrði bátnum til lendingar en það var Jón H. Guðmundsson frá Gelti sem þá átti heima á Suðureyri.[1313] Við lendinguna mátti ekkert út af bera og varð því að stýra með gát.

Ummæli þriggja greinargóðra manna, sem hér hefur vitnað til, benda eindregið til þess að á fyrri hluta 20. aldar hafi lík yfirleitt verið lögð hér á land og má ætla að svo hafi verið um aldir því siðvenjur er tengdust jarðarförum voru löngum í föstum skorðum. Fullvíst er þó að eitt lík var lagt á land í Keravík árið 1898 en það var af manni sem fórst í sjávarháska norður undir Öskubak og hafði ekki verið kistulagt þegar lent var í Keravík og hinn andvana líkami lagður þar á land (sjá hér Staður).

Verið getur að lík heimamanna á Suðureyri hafi stundum verið borin til greftrunar fyrir Spilli á fyrri tíð en þeir séra Gísli Kolbeins og Guðmundur Ibsen minntust vorið 1996 aðeins einnar slíkrar jarðarfarar frá sínum uppvaxtarárum.[1314] Var það jarðarför Friðberts Friðbertssonar skólastjóra, sem andaðist sumarið 1938, en börnin, sem þá voru á skólaaldri, gengu öll í hóp út Fjörur á eftir kistunni.[1315] Þá hlýtur kistan að hafa verið borin upp Skollagötu því um aðra leið var ekki að ræða og sýnir þetta eina dæmi að upp þessa gömlu götu sem nú er horfin var fært með líkkistu.

Haustið 1948 varð bílfært frá Suðureyri að Stað. Þann 16. nóvember á því hausti var Kristín Benediktsdóttir, eiginkona Valdimars Þorvaldssonar á Suðureyri, jörðuð.[1316] Kista hennar var fyrsta líkkistan sem flutt var á bíl alla leið frá Suðureyri heim að Stað.[1317]

Á liðnum öldum munu heimamenn í Bæ og Vatnadal oft hafa gripið til bátanna er farið var í kaupstað og valið sjóleiðina, einkum þó eftir 1790 er farið var að versla á Flateyri. Um miðbik 19. aldar var lendingin í Árós orðin það slæm að hætt var að nota hana (sjá hér bls. 121-122) og þaðan í frá mun fólkið í Bæ og í Vatnadal hafa lagt upp í sínar kaupstaðarferðir héðan úr Stöðinni, væru þær farnar á sjó. Hér var kaupstaðarvaran svo borin í land þegar komið var til baka og í þeim efnum varð engin breyting er farið var að versla á Suðureyri árið 1891. Sjálf sjóferðin tók þá bara mun styttri tíma en áður hafði verið. Í búferlaflutningum voru eigur manna líka færðar á skip hér í Stöð eða teknar úr skipi og bornar á land. Dæmi um það frá árinu 1899 var nefnt hér litlu framar (sjá hér bls. 94).

Flest sem hér kom á land, hvort sem það var fiskur, kaupstaðarvara eða búslóð, varð að bera upp Stöðina, hið bratta skarð sem fyrr var frá sagt (sjá hér bls. 123). Margur svitadropi mun hafa fallið er menn strituðu við að koma þungavöru úr fjörunni á brún. Snemma á tuttugustu öldinni varð hér hins vegar nokkur breyting á en þá var sett upp eins konar talía til að létta af fólki mesta erfiðinu við burðinn.[1318] Einn staur var þá settur upp ofan við fjöruna og annar uppi á brekkubrúninni.[1319] Milli stauranna var strengdur dráttarvír sem lék á hjólum og krókur hafður á vírnum til að hengja flutninginn á.[1320] Með þessu móti var unnt að draga það sem flytja þurfti upp eða niður brekkuna og láta talíuna létta sér dráttinn. Líklega hefur talían verið í notkun alveg fram undir miðja 20. öld því bílvegur frá Suðureyri út í Staðardal var ekki lagður fyrr en 1948. Svolítið brot af staurnum á brekkubrúninni stóð hér enn sumarið 1996.

Dvöl okkar í hinni fornu veiðistöð við Spillisröndina er nú orðinn lengri en ætlað var. Við látum því slag standa og tökum strikið inn fjörurnar í átt að Suðureyri. Nesið rétt innan við Stöð heitir Kýrnes og handan við það eru landamerki Bæjar og Suðureyrar. Í þinglýstri landamerkjaskrá frá árinu 1890 er klettur fyrir innan Kýrnes sagður vera á landamerkjunum.[1321] Klettur þessi, sem er rétt ofan við akveginn og utan við Ytra-Vallanesgil, er nú nefndur Svartiklettur eða Svörtuklettar.[1322] Vallanesgilin eru tvö, ytra og innra, bæði fyrir utan Vallanes sem er næsta nes fyrir innan Kýrnes.[1323] Frá merkjunum eru aðeins um 1300 metrar að ystu húsunum á Suðureyri.

 

 

 

 

– – – – – – – – – – o o o o o – – – – – – – – – –

 

[1] Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns VII, 128-139.

[2] Sama heimild.

[3] Örnefnastofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 80.

[4] Sama heimild.

[5] Sama heimild, 82 og 91.

[6] Jarðab. Á. og P. VII, 131-132.

[7] Rtk. Isl. Journal 9, nr. 34. Búnaðarskýrslur 1791.

[8] Sama heimild.

[9] Rtk. Jarðabækur V. 16. Ísafj.sýsla 1805.

[10] Sama heimild.

[11] Sama heimild.

[12] Lbs. 27364to, Magnús Hjaltason, bls. 47.

[13] Fasteignamatsskjöl. Gjörðabók undirmatsnefndar í V-Ísafj.sýslu, löggilt 26.3.1919.

[14] Fasteignamatsskjöl. Gjörðabók undirmatsnefndar í V-Ísafj.sýslu, löggilt 26.3.1919.

[15] Lbs. 7974to, Jarðaskrá úr Ísafj.sýslu frá árinu 1658.

[16] Lbs. 7974to, Jarðaskrá úr Ísafj.sýslu frá árinu 1695.

[17] Jón J. Aðils 1971, 419-420.

[18] Jarðab. Á. og P. VII, 131.

[19] Sama heimild.

[20] Jarða- og bændatöl 1752-1767, Ísafj.sýsla 1753.

[21] J. Johnsen 1847, 196.

[22] Fasteignamatsskjöl. Gjörðabók undirmatsnefndar í V-Ísafj.sýslu, löggilt 26.3.1919.

[23] Sama heimild.

[24] Lbs. 7974to, Jarðaskrá úr Ísafj.sýslu frá árunum 1658 og 1695.

[25] Jarðab. Á. og P. VII, 131.  Jarða- og bændatöl 1752-1767, Ísafj.sýsla 1753.

[26] J. Johnsen 1847, 196.  Fasteignamatsskjöl. Gjörðab. undirmatsnefndar í V-Ísafj.sýslu, löggilt 26.3.1919.

[27] Jarðab. Á. og P. VII, 131.

[28] Jarðab. Á. og P. VII, 131-132.

[29] Sama heimild.

[30] Sama heimild.

[31] Gunnar M. Magnúss 1977, 107.

[32] Ólafur Þ. Kristjánsson 1964, 24 og sami 1966, 45-48 (Ársrit S.Í.).  Sbr. Friðbert Pétursson 1966, 43-45 (Ársrit S.Í.).

[33] D.I. II, 575.

[34] Sama heimild.

[35] D.I. V, 206-207.

[36] Sama heimild.

[37] D.I. V, 206-207.

[38] Sama heimild.

[39] D.I. V, 206-207.

[40] Lbs. 7974to, Jarðaskrá úr Ísafj.sýslu frá árinu 1658.  Jarðab. Á. og P. VII, 131.  J. Johnsen 1847, 196.

[41] Safn til sögu Íslands 1886 II. 4. Jón Halldórsson / Hirðstjóraannáll, bls. 652-654.

[42] Safn til sögu Íslands 1956 II. 1. 4, Björn Þorsteinsson, bls. 17.

[43] Sama heimild.

[44] Sama heimild, 17-21.

[45] Safn til sögu Íslands 1886 II, Jón Halldórsson / Hirðstjóraannáll, bls. 652-654.

[46] D.I. V, 486-487.  Safn til sögu Íslands 1956 II. 1. 4, Björn Þorsteinsson, bls. 14-15.

[47] Sömu heimildir.

[48] Íslenskar æviskrár I, 267.

[49] D.I. VII, 247-249.  Sbr. D.I. VII, 232-234.

[50] Theódór Árnason / Vestfirskar ættir IV,373-375.

[51] Sama heimild.  Ísl. æviskrár I, 267.

[52] D.I. IX, 278.

[53] Sama heimild.

[54] D.I. VIII, 452-455 og 722-723.  D.I. IX, 278-279.  Sveinn Níelsson 1950, 193-195.

[55] D.I. IX, 278-279.  Theódór Árnason / Vestf. ættir IV, 373-375.

[56] Sömu heimildir.

[57] D.I. IX, 278.

[58] D.I. IX, 278-279.

[59] Sama heimild, 279.

[60] Sama heimild.

[61] D.I. X, 421-422.  Theódór Árnason / Vestf. ættir IV, 366, 368 og 373-374.

[62] Theódór Árnason / Vestf. ættir IV, 366.

[63] D.I. X, 421-422.

[64] Sbr. Theódór Árnason / Vestf. ættir IV, 373-374.

[65] Theódór Árnason / Vestf. ættir IV, 373-375.

[66] Sama heimild.

[67] Sama heimild.  Ísl. æviskrár III, 215.

[68] Theódór Árnason / Vestf. ættir IV, 373-375.

[69] Sama heimild.

[70] Sama heimild.

[71] Theódór Árnason / Vestf. ættir IV, 373-375.

[72] D.I. XIV, 622-623.  Theódór Árnason / Vestf. ættir IV, 373-375.

[73] D.I. XV, 46.

[74] D.I. XV, 147-148.

[75] Sbr. Theódór Árnason / Vestf. ættir IV, 375.

[76] D.I. XV, 373-375.

[77] Sama heimild.

[78] Sama heimild.

[79] Theódór Árnason / Vestf. ættir IV, 373-375.

[80] Sama heimild.

[81] Sama heimild.

[82] Sama heimild.

[83] Ísl. æviskrár V, 187-188.

[84] Theódór Árnason / Vestf. ættir IV, 375.

[85] Sama heimild.

[86] Jarðabréf frá 16. og 17. öld. Útdrættir, bls. 155.  Theódór Árnason / Vestf. ættir IV, 373-375.

Lögréttumannatal, bls. 497.

[87] Theódór Árnason / Vestf. ættir IV, 373-375.

[88] Sama heimild.

[89] Sbr. sama heimild, 374.

[90] Sbr. Lögréttumannatal, bls. 427-428 og 497.

[91] Ísl. æviskrár III, 243 og IV, 98.

[92] Jarðabréf frá 16. 0g 17. öld. Útdrættir, bls. 155.

[93] Lögréttumannatal, bls. 497.

[94] Lbs. 7974to, Jarðaskrá úr Ísafj.sýslu frá árinu 1658.

[95] Ísl. æviskrár V, 183.

[96] Sama heimild I, 21 og V, 183.

[97] Alþingisbækur Íslands IX, 70-71.

[98] Lbs. 7974to, Jarðaskrá úr Ísafj.sýslu frá árinu 1695.  Jarðab. Á. og P. VII, 131.  Alþ.b. Íslands XI, 611.

[99] Alþ.b. Íslands XI, 611.

[100] Ísl. æviskrár III, 468.

[101] Alþ.b. Íslands XIV, 514-515.  Sbr. Ísl. æviskrár III, 461.

[102] Alþ.b. Íslands XIV, 514-515.

[103] Manntal 1762.

[104] Alþ.b. Íslands XIV, 514-515.

[105] Alþ.b. Íslands XV, 486.

[106] Ísl. æviskrár IV, 41.

[107] Rtk. Jarðabækur V. 16, Ísafj.sýsla 1805.

[108] Sóknarm.töl og prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[109] Sóknarm.töl og prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[110] Sömu heimildir.

[111] Sömu heimildir.

[112] Vestf. ættir I, 396-407.

[113] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[114] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XII. 10. Skiptabók 1860-1864, bls. 56-62.

[115] Skýrslur um landshagi 1870, IV, bls. 486.

[116] Sama heimild.

[117] Sama heimild.

[118] Sama heimild.

[119] Skýrslur um landshagi 1870, IV, bls. 486.

[120] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XVI. 2. Veðmálabók 1856-1869, bls. 147 og 148.

[121] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Suðureyrarhreppur 3. Uppskrifta- og gerðabók 1881-1913. Uppskrift á

dánarbúi Sigurborgar Bergsdóttur á Gelti frá árinu 1905.

[122] Manntal 1901, fylgiskjöl.

[123] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[124] Fasteignamatsskjöl. Gjörðabók undirmatsnefndar í V-Ísafj.sýslu, löggilt 26.3.1919.  Prestsþj.b. og

sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[125] Sömu heimildir.

[126] Lbs. 22304to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 5.6.1913.

[127] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.  Vestf. ættir I, 396-403.

[128] Lbs. 22304to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 5.6.1913.

[129] Vestf. ættir I, 400-403.

[130] Fasteignamatsskjöl. Gjörðabók undirmatsnefndar í V-Ísafj.sýslu, löggilt 26.3.1919.

[131] Fasteignamatsskjöl. Gjörðabók undirmatsnefndar í V-Ísafj.sýslu, löggilt 26.3.1919.

[132] Fasteignamatsskjöl. Gjörðabók fasteignamatsnefndar í V-Ísafj.sýslu, löggilt 9.3.1916.

[133] Sama heimild.

[134] Sama heimild.

[135] Sama heimild.

[136] Manntal 1703.  Jarðab. Á. og P. VII, 131.  Jarða- og bændatöl 1752-1767, Ísafj.sýsla 1753.

Manntal 1762.  Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf. 1786-1804, 1811 og 1812 og 1817-1900.

[137] Bændatöl og skuldaskrár 1720-1765, Ísafjarðarsýsla um 1735, eftirrit.  Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[138] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[139] Sömu heimildir.

[140] Sömu heimildir.

[141] VA III, 408, búnaðarskýrslur 1840.

[142] Jarðab. Á. og P. VII, 131.  Rtk. Isl. Journ. 9, nr. 34. Bún.sk. 1791.  Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís.  XX. 1,

bún.sk. 1821 og 1834.  VA III, 412, bún.sk. 1850.  VA III, 421, bún.sk. 1870.  Hsk. Ísaf., nr. 295.

Skýrsla hreppstjóra yfir gripi og fénað í Suðureyrarhr. í fardögum 1934.

[143] Rtk. Isl. Journal 9, nr. 34, búnaðarskýrslur 1791.

[144] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1, búnaðarskýrslur 1821.

[145] Sama heimild.

[146] Sama askja, búnaðarskýrslur 1834.

[147] VA III, 408, búnaðarskýrslur 1840.

[148] VA III, 412, búnaðarskýrslur 1850.

[149] VA III, 417, búnaðarskýrslur 1860.

[150] Sama heimild.

[151] VA III, 421, búnaðarskýrslur 1870.

[152] Sama heimild.

[153] VA III, 424, búnaðarskýrslur 1880.

[154] D.I. V, 206-207 og 890.

[155] Annálar III, 362.

[156] Manntal 1703.

[157] Manntal 1703.

[158] Sama heimild.

[159] Manntal 1703.

[160] Sama heimild.

[161] Sama heimild.

[162] ÍB 10 og 144to, Ættartölubækur J. Espólín 1780 og 5332-5333.

[163] Jarðab. Á. og P. XIII, 298.

[164] Manntal 1703.

[165] Sama heimild.

[166] Jarðab. Á. og P. VII, 131.  Skj.s. prófasta XIII. 1. B. 2, bls. 246-247.

[167] Jarðab. Á. og P. VII, 131.

[168] Sama heimild, 128-139.

[169] Manntal 1703 og nafnalykill þess.

[170] Bændatöl og skuldaskrár 1720-1765, Ísafj.sýsla um 1735, eftirrit.

[171] Jarða- og bændatöl 1752-1767, Ísafj.sýsla 1753.

[172] Manntal 1762.

[173] Sama heimild.

[174] Sama heimild.

[175] Manntal 1762.

[176] Sama heimild.

[177] Vestfirskar sagnir II, 126-127.

[178] Sama heimild.

[179] Sama heimild.

[180] Sama heimild.

[181] Sama heimild, 97-176.

[182] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[183] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[184] Sama heimild.

[185] Sama heimild.

[186] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[187] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[188] Sama heimild.

[189] Sama heimild.

[190] Sama heimild.

[191] Sama heimild.

[192] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[193] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.  Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1. búnaðarskýrslur 1821.

[194] Manntal 1816, bls. 691.

[195] Manntal 1762.

[196] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[197] Ísl. æviskrár III, 262-263.

[198] Sama heimild og Ísl. æviskrár V, 96-97.

[199] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[200] Sama heimild.

[201] Sama heimild.

[202] Ísl. æviskrár III, 262-263.

[203] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[204] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[205] Sóknarm.töl og prestaþj.b. Staðar í Súgandaf.

[206] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[207] Rtk. Isl. Journal 9, nr. 34, búnaðarskýrslur 1791.

[208] Rtk. Jarðabækur V. 16, Ísafj.sýsla 1805 (sjá þar Bær í Suðureyrarhreppi).

[209] Manntal 1801, vesturamt, bls. 304.

[210] Manntal 1816, bls. 698.

[211] Manntal 1801.

[212] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[213] Manntal 1845, vesturamt, bls. 210-211.

[214] Sbr. Bergsveinn Skulason 1982 I, 16-24.  Sami 1964, 121.  Lúðvík Kristjánsson 1953, 165.

[215] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[216] Sama heimild.

[217] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf. 1785-1800.

[218] Sama heimild.

[219] Sama heimild.

[220] Rtk. Isl. Journal 9, nr. 34, búnaðarksýrslur 1791.

[221] Sama heimild.

[222] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf. og Manntal 1816, bls. 690.

[223] Manntal 1801.

[224] Manntal 1816, bls. 697, sbr. þar bls. 690 og Manntal 1801, vesturamt, bls. 295.

[225] Rtk. Jarðabækur V. 16, Ísafj.sýsla 1805.  Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[226] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[227] Vestf. ættir I, 396.

[228] Manntal 1816, bls. 698.

[229] Vestf. ættir I, 396.

[230] Einar Haukur Kristjánsson 1986, 80 (Árbók Ferðaf. Ísl.).

[231] Sama heimild 112.  Sbr. Manntöl 1801 og 1845.

[232] Vestf. ættir I, 396.

[233] Einar Haukur Kristjánsson 1986, 110.

[234] Vestf. ættir I, 396.  Manntal 1703.

[235] Árni Björnsson 1989, 59 (Árbók F.Í.).

[236] Manntal 1703.

[237] Sama heimild.

[238] Sama heimild.  Vestf. ættir I, 396.

[239] Árni Björnsson 1989, 59.

[240] Þjóðsögur Jóns Árnasonar I, 534-537.

[241] Þjóðsögur Jóns Árnasonar VI, 97.

[242] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[243] Sama heimild.

[244] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[245] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[246] Sama heimild.

[247] Manntal 1801.

[248] Rtk. Isl. Journal 9, nr. 34, búnaðarskýrslur 1791.

[249] Sama heimild.

[250] Sama heimild.

[251] Sama heimild.

[252] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[253] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[254] Sama heimild.  Sbr. Rtk. Jarðabækur V. 16, Ísafj.sýsla 1805, Bær í Suðureyrarhreppi.

[255] Rtk. Jarðabækur V. 16, Ísafj.sýsla 1805.

[256] Sama heimild.

[257] Sama heimild.

[258] Manntal 1801, vesturamt, bls. 304.

[259] Jarða- og bændatöl 1752-1767, Ísafj.sýsla 1753.

[260] Manntal 1801.

[261] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[262] Manntal 1801, vesturamt, bls. 304.

[263] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf. 1811 og 1812.

[264] Sama heimild.

[265] Sbr. Loftur Guttormsson 1983, 64.

[266] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[267] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[268] Kristján G. Þorvaldsson 1983, 132 (Ársrit S.Í.).

[269] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[270] Sóknarm.tal Staðar í Súgandaf. 1811.

[271] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[272] Vestf. ættir I, 57 og 396.

[273] Sama heimild.

[274] Vestf. ættir I, 332-333.  Ísl. æviskrár III, 375.  Lúðvík Kristjánsson 1960, 39-40 og 264-265.

[275] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[276] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[277] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[278] Sbr. Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[279] Vestf. ættir I, 55.

[280] Sama heimild, 37.

[281] Sama heimild, 39 og 57.

[282] Sama heimild, 57.

[283] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. IV. 6. Dóma- og þingbók 1817-1834, bls. 104.

[284] Sama heimild.

[285] Sama heimild.

[286] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. IV. 6. Dóma- og þingbók 1817-1834, bls. 104.

[287] Rtk. Jarðbækur V. 16. Ísafj.sýsla 1805.

[288] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. IV. 6. Dóma- og þingbók 1817-1834, bls. 113-114.

[289] Sama heimild.

[290] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1, búnaðarskýrslur 1821.

[291] Sama heimild.

[292] Sama heimild.

[293] Sama heimild.

[294] Sama askja, búnaðarskýrslur 1827.

[295] Sama askja, búnaðarskýrslur 1830.

[296] Sama askja, búnaðarskýrslur 1821, 1827 og 1830.

[297] Sama heimild.

[298] Sama heimild.  Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[299] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[300] Manntal 1816.  Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1, búnaðarskýrslur 1821, 1827 og 1830.

Sóknarm.tal Staðar í Súgandaf. 1833.

[301] Manntal 1816.  Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1, búnaðarskýrslur 1821, 1827 og 1830.

Sóknarm.tal Staðar í Súgandaf. 1833.

[302] Vestf. ættir I, 396-407.

[303] Manntal 1816.  Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1, búnaðarskýrslur 1821, 1827 og 1830.

[304] Valdimar Þorvaldsson 1963, 67 (Ársrit S.Í.).

[305] Vestf. ættir I, 156 og 396.

[306] Rtk. Isl. Journal 9, nr. 34, búnaðarskýrslur 1791.

[307] Einar Laxness 1995 I, 209.

[308] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1. búnaðarskýrslur 1821, 1827 og 1830.  Sóknarm.tal Staðar í Súgandaf.

  1. Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf., skrá yfir dána 1833.

[309] Sbr. Lbs. 22294to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 20.9.1912.

[310] Lbs. 22294to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 20.9.1912.

[311] Ólafur Veturliðason. – Viðtal K.Ó. við hann 11.2.1996.

[312] Sama heimild.

[313] Sama heimild.

[314] Sóknalýsingar Vestfjarða II, 118.

[315] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[316] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[317] Vestf. ættir I, 396 og 400.

[318] Sama heimild.  Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[319] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[320] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[321] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[322] Sama heimild.

[323] Sama heimild.

[324] VA III, 408, búnaðarskýrslur 1840.

[325] Sama heimild.

[326] Sama heimild.

[327] Sama heimild.

[328] Sama heimild.

[329] ÍB 8268vo, Dagbók séra Sigurðar Tómassonar 30.6. og 1.7.1843.  Sbr. sömu dagbók 21.10.1843.

[330] Einar Laxness 1995 II, 204.

[331] Skýrslur um landshagi , Kph.1858 I, 262.

[332] ÍB 8268vo, Dagbók séra Sigurðar Tómassonar 30.6. og 1.7.1843.

[333] Sóknarm.töl og prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[334] Kristján G. Þorvaldsson 1983, 132-133 (Ársrit S.Í.).

[335] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.  Manntal 1845.

[336] Sömu heimildir.

[337] Manntal 1845.

[338] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.  Sbr. Manntal 1850.

[339] VA III, 412, búnaðarskýrslur 1850.

[340] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[341] Sama heimild.

[342] Sama heimild og prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[343] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 59.  Sbr. sami 1983, 133.

[344] Vestf. ættir I, 396.

[345] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[346] Sama heimild.

[347] Vestf. ættir I, 396.

[348] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[349] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1, búnaðarskýrslur 1837.

[350] VA III, 408, búnaðarskýrslur 1840.  Sbr. Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[351] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 82.

[352] Karl Guðmundsson. – Viðtal K.Ó. við hann 8.7.1995.

[353] Valdimar Þorvaldsson 1963, 64.

[354] Sóknarm.tal Staðar í Súgandaf. 1824.

[355] Sóknarm.tal Staðar í Súgandaf. 1823.

[356] Sama heimild.

[357] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1, búnaðarskýrslur 1837.

[358] VA III, 408, búnaðarskýrslur 1840.

[359] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1, búnaðarskýrslur 1837.

[360] VA III, 408, búnaðarskýrslur 1840.

[361] Sama heimild.

[362] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1, búnaðarskýrslur 1833.

[363] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1, búnaðarsk. 1833-1838.  VA III, 408, búnaðarsk. 1839 og 1840.

[364] Vestf. ættir I, 396.  Manntal 1845.

[365] Manntal 1845.

[366] Prestsþj.b. Eyrar í Skutulsf. – innfluttir 1852.

[367] Þjóðólfur 10.4.1851 og 19.4.1852.

[368] Sama heimild.  Jón Þ. Þór 1984, 165.

[369] Vestf. ættir II, 496-497.

[370] Vestf. ættir I, 55 og II, 489, 496-497.

[371] Þjóðólfur 2.3.1853.

[372] Sbr. Vestf. ættir II, 697.

[373] Þjóðólfur 2.3.1853.

[374] Gunnar M. Magnúss / Kristján G. Þorvaldsson 1977, 139.

[375] Vestf. ættir I, 396.

[376] Sama heimild.

[377] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[378] Vestf. ættir I, 396 og 400.

[379] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[380] Vestf. ættir I, 400.

[381] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.  VA III, 408, búnaðarskýrslur 1840.

[382] VA III, 408, búnaðarskýrslur 1840.

[383] Vestf. ættir I, 400.  Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[384] Vestf. ættir I, 400-407.

[385] Sama heimild.

[386] Sama heimild, 263 og 400.

[387] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[388] Manntal 1801, vesturamt, bls. 304.

[389] Sóknarm.töl og prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.  Manntal 1801, vesturamt, bls. 305.

[390] Sömu heimildir.

[391] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[392] Rtk. Jarðabækur V. 16, Ísafj.sýsla 1805.  Sóknarm.tal Staðar í Súgandaf., mars 1811.

[393] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[394] Gunnar M. Magnúss / Magnús Hjaltason 1977, 253.

[395] Sama heimild.

[396] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[397] Sama heimild.

[398] Sama heimild.

[399] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1, búnaðarskýrslur 1821.

[400] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[401] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[402] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[403] Vestf. ættir I, 153.  Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.  Sbr. Manntal 1816, bls. 700.

[404] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[405] Manntal 1845, vesturamt, bls. 291.

[406] Manntöl 1816 og 1835.

[407] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[408] VA III, 412, búnaðarskýrslur 1850.

[409] Manntal 1901, Kirkjuból í Bjarnardal í Mosvallahreppi.

[410] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[411] Sóknarm.töl og prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[412] Sömu heimildir.

[413] Einar Jónsson 1982, 69-71 (Ársrit Sögufél. Ísf.).  Sbr. Manntal 1845, vesturamt, bls. 291.

[414] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[415] Sama heimild.

[416] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[417] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.  VA III, 412, búnaðarskýrslur 1850.

[418] Sömu sóknarm.töl.  Manntal 1845, vesturamt, bls. 293.

[419] Eyjólfur Jónsson 1980, 134-135 (Ársrit S.Í.).

[420] Manntal 1845, vesturamt, bls. 293.  Manntal 1816, 728.

[421] Vestf. ættir II, 536.

[422] Sóknarm.töl Sauðlauksdalspr.kalls.

[423] Sama heimild.

[424] Ísl. æviskrár I, 460-461.  Manntal 1816, 727-728.

[425] Manntal 1816, 727-728.

[426] Prestsþj.b. Staðar i Grunnavík.

[427] Ísl. æviskrár I, 460-461.

[428] Þjóðsögur Jóns Árnasonar I, 325 og VI, 95.

[429] Prestsþj.b. Staðar í Grunnavík, ferming 1818.

[430] Eyjólfur Jónsson 1980, 134-135 (Ársrit S.Í.).

[431] Sóknarm.tal Staðar í Súgandaf. 1826.

[432] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[433] Sama heimild og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[434] Eyjólfur Jónsson 1980, 134-136.

[435] Sama heimild.

[436] Sama heimild.

[437] Sama heimild.

[438] Sama heimild.

[439] Sama heimild.

[440] Sama heimild.

[441] Sama heimild.

[442] Sama heimild.

[443] Sama heimild.

[444] Sama heimild.

[445] Manntal 1801.  Sbr. Manntal 1845, vesturamt, bls. 293.

[446] Manntal 1801.

[447] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf. – hjónavígslur 1838.

[448] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[449] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[450] VA III, 412, búnaðarskýrslur 1850.

[451] Sama heimild.

[452] Sama heimild.

[453] Eyjólfur Jónsson 1980, 134-136 (Ársrit S.Í.).

[454] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[455] Manntal 1845.

[456] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[457] Eyjólfur Jónsson 1980, 134.

[458] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[459] Sama heimild.

[460] Sama heimild.

[461] Eyjólfur Jónsson 1980, 136 (Ársrit S.Í.).

[462] Eyjólfur Jónsson 1980, 134 (Ársrit S.Í.).  Sbr. Jón Þ. Þór 1984, 230-233.

[463] Eyjólfur Jónsson 1980, 134.

[464] Sama heimild.  Sbr. Halldór Kristjánsson 1991, 50 (Ársrit S.Í.).

[465] Eyjólfur Jónsson 1980, 127-136.

[466] Sama heimild, 134.

[467] Prestsþj.b. Eyrar í Skutulsfirði.

[468] Eyjólfur Jónsson 1980, 134.

[469] Sama heimild.  Sóknarm.töl Eyrar í Skutulsfirði.

[470] Eyjólfur Jónsson 1980, 134.

[471] Sama heimild, 129.

[472] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[473] Sömu heimildir.

[474] Sömu heimildir.

[475] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[476] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[477] Sömu heimildir.

[478] Sömu heimildir.

[479] Sömu heimildir.

[480] Sömu heimildir.

[481] Magnús Hjaltason / Frá ystu nesjum V, 120-121.  Valdimar Þorvaldsson / Frá ystu nesjum VI, 61-62.

[482] Valdimar Þorvaldsson 1963, 61-63 (Ársrit S.Í.).

[483] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[484] Sama heimild, janúar 1851, Vatnadalur.

[485] Prestsþj.b. Eyrar í Skutulsfirði.

[486] Sóknarm.töl og prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[487] Sömu heimildir.

[488] Sömu heimildir.

[489] Sóknarm.tal Staðar í Súgandaf., janúar 1851.

[490] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[491] Sama heimild.

[492] Sóknarm.töl og prestsþj.b. Staðar í Súgandaf. og Holts í Önundarf.

[493] Sóknarm.töl og prestsþj.b. Staðar í Súgandaf. og Holts í Önundarf.

[494] Sömu heimildir.

[495] Sömu heimildir.

[496] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[497] Valdimar Þorvaldsson / Frá ystu nesjum VI, 61-62.

[498] Sbr. Jón Þ. Þór 1984, 163.

[499] Jón Þ. Þór 1984, 138-139.

[500] Þjóðólfur 2.3.1853, 47.  Sbr. Kristján Jónsson frá Garðsstöðum 1960, 10 (Ársrit S.Í.).

[501] Annáll 19. aldar II, 383.  Kristján Jónsson frá Garðsstöðum 1960, 14.

[502] Valdimar Þorvaldsson / Frá ystu nesjum VI, 61-62.

[503] VA III, 417, búnaðarskýrslur 1860.  VA III, 421, búnaðarskýrslur 1870.

[504] Sömu heimildir.

[505] Valdimar Þorvaldsson / Frá ystu nesjum VI, 61-62.

[506] Magnús Hjaltason / Frá ystu nesjum V, 120-123.

[507] Sama heimild.

[508] Magnús Hjaltason / Frá ystu nesjum V, 120-121.

[509] Valdimar Þorvaldsson / Frá ystu nesmum VI, 56.

[510] Sóknarm.töl og prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[511] Lbs. 38584to, Dagbók Einars Jónssonar 23.9.1893.

[512] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[513] Lbs. 31524to, Halldór Guðmundsson, Suðureyri: Æfisaga – Upphaf, bls. 94-97. Prestsþj.b. og

sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.  Manntal 1.10.1870, Bær.

[514] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[515] Lbs. 31524to, Halldór Guðmundsson, Suðureyri: Æfisaga – Upphaf, bls. 94-97.

[516] Lbs. 31524to, Halldór Guðmundsson, Suðureyri: Æfisaga – Upphaf, bls. 94-97.

[517] Minningarbók íslenskra hermanna 1914-1918, Winnipeg 1923, bls. 473.

[518] Sama heimild.

[519] Lbs. 31524to, Halldór Guðmundsson, Suðureyri: Æfisaga – Upphaf, bls. 94-97.

[520] Minningarbók íslenskra hermanna 1914-1918, Winnipeg 1923, bls. 473.

[521] Sama heimild.

[522] Sama heimild.

[523] Minningarbók íslenskra hermanna 1914-1918, Winnipeg 1923, bls. 473.

[524] Sama heimild.

[525] Minningarbók íslenskra hermanna 1914-1918, Winnipeg 1923, bls. 473.

[526] Valdimar Þorvaldsson / Frá ystu nesjum VI, 62.

[527] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[528] Jón Þ. Þór 1990, 206.  Manntal 1920, Fjarðarstræti 27, Ísafirði.

[529] Lbs. 31524to, Halldór Guðmundsson, Suðureyri: Æfisaga – Upphaf, bls. 94-97.  Valdimar Þorvaldsson /

Frá ystu nesjum VI, 62.  Jón Guðnason og Pétur Haraldsson 1965 I, 406-407.  Sbr. Ísl. æviskrár IV, 240.

[530] Lbs. 38584to, Dagbók Einars Jónssonar 19.9.1893.

[531] Sama dagbók 12.11.1893.

[532] Sama heimild.

[533] Sama dagbók 12.11. og 13.11.1893.

[534] Sama dagbók 24.3. og 26.3.1894.

[535] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[536] Sama heimild.

[537] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[538] Lbs. 22334to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 19.11.1914.

[539] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[540] VA III, 419, búnaðarskýrslur 1865.

[541] Sama heimild.

[542] VA III, 420, búnaðarskýrslur 1867.

[543] Sama heimild.

[544] Sóknarm.töl og prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.  VA III, 420, búnaðarskýrslur 1867-1869.

[545] Sömu heimildir.

[546] Sbr. Valdimar Þorvaldsson 1963, 63 og 67 (Ársrit S.Í.).

[547] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[548] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[549] Vestf. ættir I, 162.

[550] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[551] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[552] Vestf. ættir I, 36 og 162.

[553] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.  Valdimar Þorvaldsson 1963, 61.

[554] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[555] Sömu heimildir.

[556] VA III, 412, búnaðarskýrslur 1850.

[557] VA III, 417, búnaðarskýrslur 1860.

[558] VA III, 421, búnaðarskýrslur 1870.

[559] Sama heimild.

[560] Sama heimild.

[561] Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 128.

[562] VA III, 412, 417 og 421, búnaðarskýrslur 1850, 1860 og 1870.

[563] Valdimar Þorvaldsson 1963, 61 (Ársrit S.Í.).

[564] Gunnar M. Magnúss / Kristján G. Þorvaldsson 1977, 144.  VA III, 421 búnaðarskýrslur 1870.

Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf., dánir 1873.

[565] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[566] Sama heimild og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[567] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[568] Sama heimild.

[569] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[570] Sama heimild.

[571] Sama heimild.

[572] Sama heimild og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[573] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[574] Sama heimild.

[575] Valdimar Þorvaldsson 1963, 59 (Ársrit S.Í.).

[576] Sama heimild.

[577] Sama heimild, 59-61.  Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[578] Valdimar Þorvaldsson 1963, 59.

[579] Sama heimild, 59-60.

[580] Valdimar Þorvaldsson 1963, 60 (Ársrit S.Í.).

[581] Sama heimild.

[582] Valdimar Þorvaldsson 1963, 60 (Ársrit S.Í.).

[583] Sama heimild.

[584] Sama heimild.

[585] Sama heimild.

[586] Sama heimild, 60-61.

[587] Sbr. sömu heimild, 61.

[588] Sóknarm.töl og prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[589] Valdimar Þorvaldsson 1963, 61.  Vestf. ættir II, 413 og 416.

[590] Valdimar Þorvaldsson 1963, 61.

[591] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[592] Sömu heimildir.  Valdimar Þorvaldsson 1963, 61.

[593] Valdimar Þorvaldsson 1963, 61.

[594] Valdimar Þorvaldsson 1963, 61-62 (Ársrit S.Í.).

[595] Sama heimild.

[596] Sama heimild.

[597] Sama heimild, 62-63.

[598] Sama heimild.

[599] Lbs. 22364to, bls. 65-72 (Magnús Hjaltason).

[600] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[601] Valdimar Þorvaldsson 1963, 61 (Ársrit S.Í.).  Vestf. ættir II, 413 og 416.

[602] Valdimar Þorvaldsson 1963, 61.  Vestf. ættir I, 162 og 237 og II, 434-435 og 695.

[603] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[604] Sama heimild.

[605] Sama heimild.

[606] Sama heimild og Vestf. ættir II, 416.

[607] Sóknarm.töl og prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[608] Eyjólfur Jónsson 1967, 50 (Niðjatal Sveins á Hesti).

[609] Hsk. á Ísaf. nr. 089. Höfuðbók nr. 5 frá verslun Hjálmars Jónssonar á Flateyri, bls. 149.

[610] Sama heimild.

[611] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[612] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[613] Sama heimild.

[614] Sama heimild.

[615] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[616] Sama heimild.

[617] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[618] Sama heimild.  Sbr. Valdimar Þorvaldsson 1963, 67 (Ársrit S.Í.).

[619] Vestf. ættir I, 400.

[620] Sama heimild, 396 og 400.

[621] Sama heimild, 400.

[622] Valdimar Þorvaldsson 1963, 67.

[623] Vestf. ættir I, 400.

[624] Sama heimild.  Manntal 1816, 719.

[625] Ísl. æviskrár V, 161-162.

[626] Vestf. ættir I, 263 og 400.

[627] Sama heimild.

[628] Manntal 1850.

[629] Manntal 1855.

[630] Manntal 1870.  Sóknarm.töl Rafnseyrar og Álftamýrar.

[631] Vestf. ættir I, 400.

[632] Vestf. ættir I, 400.

[633] Sama heimild, 400-403.

[634] Manntal 1870.

[635] Sóknarm.töl Rafnseyrar.

[636] Sama heimild.  Vestf. ættir I, 400.

[637] Sóknarm.töl Rafnseyrar og Staðar í Súgandaf.  Valdimar Þorvaldsson 1963, 67 (Ársrit S.Í.).

[638] Valdimar Þorvaldsson 1963, 67.

[639] VA III, 424, búnaðarskýrslur 1880.

[640] Þjóðviljinn ungi 20.10.1898.

[641] Valdimar Þorvaldsson 1963, 67 (Ársrit S.Í.).

[642] Vestf. ættir I, 400-403.

[643] Sama heimild.

[644] Þjóðviljinn ungi 20.10.1898.

[645] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[646] Sömu heimildir.

[647] Sömu heimildir.

[648] Valdimar Þorvaldsson 1963, 67.

[649] Sama heimild.

[650] Sama heimild.

[651] Sama heimild.

[652] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[653] Þjóðviljinn ungi 20.10.1898.

[654] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[655] Prestsþj.b. Kirkjubólsþinga. Vestf. ættir II, 530-536.

[656] Prestsþj.b. Kirkjubólsþinga.

[657] Sama heimild.

[658] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. IV. 13. Dóma- og þingbók 1858-1867, réttarhald 1. júlí 1859 að Bæjum á

Snæfjallaströnd.

[659] Sama heimild.

[660] Sama heimild.

[661] Sama heimild.

[662] Manntal 1860. Laugaból í Ögursveit.

[663] Sama heimild.

[664] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. IV. 13. Dóma- og þingbók 1858-1867, réttarhald 1. júlí 1859 að Bæjum á

Snæfjallaströnd.

[665] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. IV. 13. Dóma- og þingbók 1858-1867, réttarhald 15. ágúst 1859 í Ögri.

[666] Sama heimild.

[667] Sama heimild.

[668] Sóknarm.töl og prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[669] Sömu heimildir.  Sbr. Eyjólfur Jónsson 1980, 127-134 (Ársrit S.Í.).

[670] Sömu heimildir.

[671] Sóknarm.töl Ögurþinga.

[672] Sama heimild.

[673] Sama heimild.

[674] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[675] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[676] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[677] Valdimar Þorvaldsson 1963, 68 (Ársrit S.Í.).

[678] Lbs. 44074to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 77.

[679] Sama heimild.

[680] Sama heimild.

[681] Sama heimild, 80.

[682] Sama heimild.

[683] Sama heimild, 77-78.

[684] Sama heimild, 79.

[685] Lbs. 44074to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 79.

[686] Lbs. 44074to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 79.

[687] Vestf. ættir II, 530-531.  Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf. og Holts í Önundarf.

[688] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[689] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[690] Sama heimild.

[691] Sama heimild.

[692] Indriði Indriðason / Guðlaugur Kristjánsson 1947, 9, 48-50, 53-55, 63-64, 112, 119 og 121-128.

[693] Sama heimild, 250-252.

[694] Sama heimild.

[695] Indriði Indriðason / Guðlaugur Kristjánsson 1947, 250-252.

[696] Sama heimild.

[697] Sama heimild.

[698] Sama heimild.

[699] Manntöl 1840, 1845, 1850, 1855, 1860, 1870, 1880 og 1890. Sóknarm.töl Ögurþinga 1872, 1874, 1885

og 1894.

[700] Sbr. Vestf. sagnir III, 320-322.

[701] Valdimar Þorvaldsson 1963, 68 (Ársrit S.Í.).

[702] Lbs. 22184to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 18.3.1900.

[703] Þjóðviljinn ungi 20.10.1898.

[704] Sama heimild.

[705] Sóknarm.töl og prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[706] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[707] Vestf. ættir I, 400.

[708] Sama heimild, 400-403.  Sóknarm.tal Staðar í Súgandaf. 31.12.1897.

[709] Peter Hallberg 1971, 9.

[710] Gunnar M. Magnúss 1956, 29-31.

[711] Sama heimild.

[712] Sama heimild, 160 og 169.  Lbs. 22174to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 15.4.1896.

[713] Gunnar M. Magnúss 1956, 31 og 168-169.

[714] Lbs. 22174to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 15.4.1896.

[715] Sama heimild, 10.3.1898.

[716] Lbs. 22174to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 10.3.1898.

[717] Sama dagbók 13.3.1898.

[718] Sama heimild.

[719] Sama dagbók 9.4. og 12.4.1898.

[720] Sama dagbók 6.1.1898.

[721] Sama dagbók 1.4.1898.

[722] Sama dagbók 1.10.1898.

[723] Gunnar M. Magnúss 1956, 202.

[724] Lbs. 22174to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 25.-27.10.1898.

[725] Lbs. 22174to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 27.10.1898.

[726] Lbs. 22174to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 17.11.1898.

[727] Gunnar M. Magnúss 1956, 204.

[728] Lbs. 22174to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 28.12.1898.

[729] Guðgeir Magnússon / Birtingur 1956, 1. hefti, bls. 1-9.

[730] Guðgeir Magnússon / Birtingur 1956, 1. hefti, bls. 1-9.

[731] Guðgeir Magnússon / Birtingur 1956, 1. hefti, bls. 1-9.

[732] Sama heimild.

[733] Guðgeir Magnússon / Birtingur 1956, 1. hefti, bls. 1-9.

[734] Karl Guðmundsson. – Viðtal K.Ó. við hann 8.7.1995.

[735] Sama heimild.

[736] Lbs. 22184to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 16.10.1899.

[737] Gunnar M. Magnúss 1956, 207-211.

[738] Sama heimild, 271.

[739] Gunnar M. Magnúss 1956, 207-392.

[740] Gunnar M. Magnúss 1956, 373.  Vestf. ættir I, 400-401.

[741] Lbs. 22194to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 22.5.1900.

[742] Sama heimild 15.4.1901.

[743] Lbs. 22204to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 18.2.1902.

[744] Lbs. 22304to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 19.1.1913.

[745] Gunnar M. Magnúss 1956, 354 og 375.

[746] Guðgeir Magnússon / Birtingur 1956, 1. hefti, bls. 1.

[747] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[748] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[749] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[750] Manntal 1901.

[751] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[752] Sama heimild og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[753] Prestsþj.b. Gufudals.

[754] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[755] Sömu heimildir.

[756] Lbs. 38604to, Dagbók Einars Jónssonar 8.4.1898.

[757] Lbs. 31524to, Halldór Guðm. á Suðureyri: Æfisaga – Upphaf, bls. 94-97.  Lbs. 27364to / M.Hjaltason, 47.

[758] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[759] Sókn.m.töl og prestsþj.b. Staðar í Súgandaf. og Holts í Önundarf.  Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar II, 6.

[760] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[761] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[762] Sömu heimildir.

[763] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[764] Sömu heimildir.

[765] Guðný Guðnadóttir. – Viðtal K.Ó. við hana 28.6.1996.

[766] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.  Júníus H. Kristinsson 1983, 196.

[767] Júníus H. Kristinsson 1983, 196.  Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[768] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.  Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.  Manntal 1880.

[769] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[770] Prestsþj.b. Holts í Önundarf.

[771] Sama heimild.

[772] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[773] Vestf. ættir II, 530-535.

[774] Valdimar Þorvaldsson 1963, 68 (Ársrit S.Í.).

[775] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[776] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[777] Valdimar Þorvaldsson 1963, 68.

[778] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XVI. 9, Veðmálabók 1898-1907, bls. 180-181.

[779] Sama veðmálabók, bls. 656.

[780] Sama veðmálabók, bls. 180-181.

[781] Stjórnartíðindi 1900 B, bls. 38-39.

[782] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XVI. 9, Veðmálabók 1898-1907, bls. 180-181.

[783] Sama heimild.

[784] Sama veðmálabók, bls. 656.

[785] Sama heimild.

[786] Eyjólfur Jónsson 1967, 68 (Niðjatal Sveins á Hesti).

[787] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[788] Sama heimild.  Eyjólfur Jónsson 1967, 68.

[789] Lbs. 31524to, Halldór Guðmundsson: Æfisaga – Upphaf, bls. 103.

[790] Lbs. 31524to, Halldór Guðmundsson: Æfisaga – Upphaf, bls. 103-119.

[791] Sama heimild.

[792] Lbs. 31524to, Halldór Guðmundsson: Æfisaga – Upphaf, bls. 103-119.

[793] Sama heimild.

[794] Sama heimild, 118-119.

[795] Sama heimild.

[796] Sama heimild.

[797] Sama heimild, 121.

[798] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[799] Hsk.á Ísaf. nr. 227. Skýrsla um ábúðarhundruð bænda í Suðureyrarhr., undirrituð af Jóhannesi

Hannessyni hreppstjóra 29.10.1902.

[800] Skj. Suðureyrarhr. varðv. þar. Bók án titils með ýmsum skýrslum og gögnum frá árunum 1901-1914.

Tíundarskýrsla frá árinu 1902.

[801] Sóknarm.tal Staðar Súgandaf. 31.12.1901.  Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf. og Holts í Önundarf.

[802] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.  Manntal 1901.

[803] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[804] Sömu heimildir.

[805] Sömu heimildir.

[806] Sömu heimildir.

[807] Gunnar M. Magnúss 1977, 342.

[808] Lbs. 22204to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 12.11.1901.  Lbs. 27364to, Magnús Hjaltason, bls. 55.

[809] Gunnar M. Magnúss 1956, 207-214.

[810] Sama heimild.

[811] Gunnar M. Magnúss 1956, 207-214.

[812] Lbs. 22184to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 5.2., 9.2. og 10.2.1900.

[813] Guðgeir Magnússon / Birtingur 1956, 1. hefti, bls. 4.

[814] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[815] Sama heimild.

[816] Lbs. 22184to, Dagbók M. Hjaltasonar 9.2.1900. Sbr. tilvitnuð orð Guðrúnar Önnu hér ofar á síðunni.

[817] Gunnar M. Magnúss 1956, 211-217.

[818] Sama heimild.

[819] Sama heimild.

[820] Sama heimild.

[821] Sama heimild.

[822] Gunnar M. Magnúss 1956, 211-217.

[823] Sama heimild.

[824] Lbs. 22184to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 2.4.1900.

[825] Lbs. 27364to / Magnús Hjaltason, bls. 46.

[826] Lbs. 31524to, Halldór Guðmundsson: Æfisaga – Upphaf, bls. 255.

[827] Sama heimild, 275.  Gunnar M. Magnúss 1977, 274.

[828] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[829] Prestsþj.b. Holts í Önundarf.

[830] Sóknarm.töl og prestsþj.b. Holts í Önundarf. og Staðar í Súgandaf.

[831] Sömu heimildir.

[832] Sömu heimildir.

[833] Sömu heimildir.

[834] Sömu heimildir.

[835] Sömu heimildir.

[836] Sömu heimildir.

[837] Sömu heimildir.

[838] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[839] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Eyrar í Skutulsf. og Staðar í Súgandaf. Manntal 1855, Geirastaðir í Hólshreppi, N-Ís.  Manntal 1860, Árbær í Hólshreppi, N-Ís.  Manntal 1870, Botn í Suðureyrarhreppi.

[840] Sömu heimildir.

[841] Sóknarm.töl og prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[842] Sóknarm.töl og prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[843] Sömu heimildir.  Gunnar M. Magnúss 1977, 391-392 og 489.  Lbs. 22284to, Dagb. Magnúsar Hjaltasonar

3.9.1911.  Lbs. 22294to, Sama dagbók 13.6.1912.  Lbs. 22304to, Sama dagbók 12.1.1913.

[844] Sóknarm.töl og prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[845] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[846] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[847] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[848] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[849] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[850] Sóknarm.töl Eyrar í Skutulsf.

[851] Lbs. 38604to, Dagbók Einars Jónssonar 8.3. og 18.4.1898.

[852] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[853] Sama heimild.  Sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[854] Sóknarm.töl Eyrar í Skutulsf., Staðar í Súgandaf. og Holts í Önundarf.

[855] Sama heimild.

[856] Lbs. 38604to, Dagbók Einars Jónssonar 8.3.1898.

[857] Lbs. 38604to, Dagbók Einars Jónssonar 18.4.1898.

[858] Sama heimild.

[859] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[860] Sömu heimildir.

[861] Kristjana Friðbertsdóttir. – Viðtal K.Ó. við hana í júlí 1968.

[862] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[863] Sama heimild.

[864] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[865] Kristjana Friðbertsdóttir. – Viðtal K.Ó. við hana í júlí 1968.

[866] Lbs. 27364to / Magnús Hjaltason, bls. 46.

[867] Kristjana Friðbertsdóttir. – Viðtal K.Ó. við hana í júlí 1968.

[868] Sama heimild.

[869] Sama heimild.

[870] Sama heimild.

[871] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[872] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. IV. 11, Dóma- og þingbók 1848-1854, bls. 38-41 og 44-46.

[873] Vestf. ættir II, 526.

[874] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. IV. 11, Dóma- og þingbók 1848-1854, bls. 38-41 og 44-46.

[875] Sama heimild.

[876] Vestf. ættir II, 526.

[877] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. IV. 11, Dóma- og þingbók 1848-1854, bls. 38-41 og 44-46.

[878] Sama heimild.

[879] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. IV. 11, Dóma- og þingbók 1848-1854, bls. 44-46.

[880] Landsyfirréttardómar og hæstaréttardómar í íslenskum málum 1802-1873 VI, 259-260.

[881] Sama heimild VI, 403.

[882] Inga Huld Hákonardóttir 1992, 235.

[883] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. IV. 11, Dóma- og þingbók 1848-1854, bls. 38-41.

[884] VA – J 12, nr. 130 II. Bréf Friðriks konungs VII 19.12.1850 til amtmannsins í vesturamtinu á Íslandi.

[885] Sama bréf.

[886] Sama bréf.

[887] Sbr. Björn Th. Björnsson 1961, 168-173.

[888] VA – J 12, nr. 130 II. Bréf Magnúsar Gíslasonar sýslumanns 4.10.1852 til Páls Melsted amtmanns. Bréf

dómsmálaráðherra 28.2.1854 til sama.

[889] VA – J 12, nr. 130 I. Orð M. Gíslasonar sýslum. rituð á afrit af hæstaréttardómi í málinu nr. 232/1850.

[890] Sóknarm.töl Ögurþinga. Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. IV, 13. Dóma- og þingbók 1858-1869, réttarhald í

barnsfaðernismáli Guðríðar Eiríksdóttur 1. júlí 1859.

[891] Prestsþj.b. Eyrar í Skutulsf.

[892] Vestf. ættir II, 526.

[893] Sóknarm.töl og prestsþj.b. Eyrar í Skutulsf.

[894] Vestf. ættir II, 536.

[895] Sama heimild.

[896] Sama heimild, 526-547.

[897] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Eyrar í Skutulsf.

[898] Sömu heimildir.  Vestf. ættir II, 526.

[899] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. IV. 11, Dóma- og þingbók 1848-1854, bls. 38-41.

[900] Vestf. ættir II, 526.

[901] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Kirkjubólsþinga og Staðar í Aðalvík.  Vestf. ættir I, 315.

[902] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. IV. 13, Dóma- og þingbók 1858-1869, réttarhald í barnsfaðernismáli

Guðríðar Eiríksdóttur 1.7.1859.

[903] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. IV. 13, Dóma- og þingbók 1858-1869. Réttarhald í barnsfaðernismáli

Guðríðar Eiríksdóttur 1.7.1859.

[904] Sama dóma- og þingbók, bls. 201-206. Réttarhald að Botni í Súgandafirði 15.7.1863.

[905] Sama dóma- og þingbók. Réttarhald í barnsfaðernismáli Guðríðar Eiríksdóttur 1.7.1859.

[906] Sama heimild.

[907] Sama dóma- og þingbók, bls. 201-206. Réttarhald að Botni í Súgandafirði 15. og 16. 7.1863.

Sóknarm.töl og prestsþj.b. Eyrar í Skutulsf. og Staðar í Súgandaf.

[908] Sömu heimildir.

[909] Eyjólfur Jónsson 1980, 131 (Ársrit S.Í.).

[910] Sama heimild.

[911] Sóknarm.töl og prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[912] Sömu heimildir.

[913] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. IV. 13, Dóma- og þingbók 1858-1869, bls. 201-206. Réttarhald í Botni í

Súgandaf. 15.7.1863.  Eyjólfur Jónsson 1980, 129.  Vestf. ættir II, 526.

[914] Vestf. ættir II, 526.

[915] Eyjólfur Jónsson 1980, 127-138 (Ársrit S.Í.).

[916] Eyjólfur Jónsson 1980, 127-138 (Ársrit S.Í.).

[917] Prestsþj.b. Eyrar í Skutulsf.

[918] Vestf. ættir II, 536.

[919] Eyjólfur Jónsson 1980, 134.

[920] Sama heimild, 128-129 og 134.

[921] Vestf. ættir II, 536.

[922] Eyjólfur Jónsson 1980, 138.

[923] Sókn.m.tal Eyrar í Skutulsf. 31.12.1868. Sókn.m.töl og pr.þj.b. Staðar í Súg. 1862-1865 og 1871-1883.

[924] Vestf. ættir II, 526-536.

[925] Sama heimild.

[926] Sama heimild.

[927] Sama heimild.

[928] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. IV. 13, Dóma- og þingb. 1858-1869. Réttarh. í Bæjum á Snæfj.str. 13.8.1859.

[929] Sama dómabók. Dómsuppkvaðning á Ísafirði 10. sept. 1859 í barnsfaðernismáli Guðríðar Eiríksdóttur.

[930] Halldór Kristjánsson 1991, 56-57 (Ársrit S.Í.).

[931] Sama heimild.

[932] Björn Þórðarson 1926, 167-168, 171 og 174 (Refsivist á Íslandi 1761-1925).

[933] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[934] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[935] Sömu heimildir.

[936] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[937] Sama heimild.

[938] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[939] Sama heimild og prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[940] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. IV. 13, Dóma- og þingbók 1858-1869, bls. 257.

[941] Eyjólfur Jónsson 1980, 131-134 (Ársrit S.Í.).

[942] Sama heimild.

[943] Sama heimild.

[944] Eyjólfur Jónsson 1980, 131-134 (Ársrit S.Í.).

[945] Vestf. ættir II, 526.

[946] Gunnar M. Magnúss / Magnús Hjaltason 1977, 398.

[947] Gunnar M. Magnúss 1977, 399-400.

[948] Handrit í eigu K.Ó., móttekið sumarið 1983 frá Þórði Ágúst Ólafssyni, bónda á Stað í Súgandafirði.

[949] Sama heimild.

[950] Handrit í eigu K.Ó., móttekið sumarið 1983 frá Þórði Ágústi Ólafssyni, bónda á stað í Súgandafirði.

[951] Sama heimild.

[952] Gunnar M. Magnúss 1977, 398.

[953] Sama heimild, 400.

[954] Lbs. 27364to / Magnús Hjaltason, bls. 46.

[955] Valdimar Þorvaldsson 1963, 68 (Ársrit S.Í.).

[956] Lbs. 38594to Dagbók Einars Jónssonar 20.7.1897.

[957] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[958] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[959] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[960] Sóknarm.töl og prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[961] Gunnar M. Magnúss 1977, 286.

[962] Sama heimild, 274 og 286.

[963] Lbs. 22284to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 3.9.1911.

[964] Gunnar M. Magnúss 1977, 286.

[965] Lbs. 31524to, Halldór Guðmundsson, Suðureyri: Æfisaga – Upphaf, bls. 173-179.

[966] Sama heimild.

[967] Sama heimild.

[968] Sama heimild.

[969] Sama heimild.

[970] Sama heimild.

[971] Sama heimild.

[972] Gunnar M. Magnúss 1977, 274.

[973] Gunnar M. Magnúss 1977, 274.

[974] Sama heimild.

[975] Gunnar M. Magnúss 1977, 274.

[976] Hsk. á Ísaf. nr. 227. Skýrsla um ábúðarhundruð bænda í Suðureyrarhreppi, undirrituð 29.10.1902 af

Jóhannesi Hannessyni hreppstjóra.

[977] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[978] Skjöl Suðureyrarhr., varðv. þar. Bók án titils með nokkrum tíundarskýrslum og öðrum gögnum frá

árunum 1901-1914. Niðurjöfnunarskrá Suðureyrarhrepps fardagaárið 1908-1909.

[979] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 82.  Lbs. 44094to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 30-31.

[980] Karl Guðmundsson. – Viðtal K.Ó. við hann 27.6.1996.

[981] Sama heimild.

[982] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[983] Hsk. á Ísaf. nr. 227. Skýrsla um ábúðarhundruð bænda í Suðureyrarhreppi, undirrituð 29.10.1902 af

Jóhannesi Hannessyni hreppstjóra.

[984] Lbs. 22324to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 14.6.1914.

[985] Gunnar M. Magnúss 1977, 102.

[986] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[987] Lbs. 22314to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 14.6.1913.

[988] Lbs. 22334to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 21.1.1915.

[989] Gunnar M. Magnúss 1977, 102.

[990] Sama heimild, 429.

[991] Lbs. 22274to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 20.12.1910.  Sbr. Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[992] Vestf. ættir II, 400-403.

[993] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[994] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[995] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[996] Lbs. 27364to / Magnús Hjaltason, bls. 47.  Manntal 1901.

[997] Manntal 1901.

[998] Lbs. 27364to / Magnús Hjaltason, bls. 47.

[999] Gunnar M. Magnúss 1978, 128.

[1000] Manntal 1901.

[1001] Lbs. 27364to / Magnús Hjaltason, bls. 47.

[1002] Gunnar M. Magnúss 1978, 127-129.

[1003] Manntal 1901.

[1004] Gunnar M. Magnúss 1977, 448.

[1005] Lbs. 22294to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 30.11.1912.

[1006] Lbs. 22314to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 4.9.1913.

[1007] Sama heimild.

[1008] Lbs. 22324to, Dagb. M. Hjaltas. 26.7. og 23.9.1914.  Lbs. 22334to, Sama dagb. 25.12.1915 og 16.1.1916.

[1009] Sbr. Gunnar M. Magnúss 1977, 448-449.

[1010] Gunnar M. Magnúss 1977, 449.  Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf. Dánarskýrsla prests í vörslu þjóðskrár.

[1011] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 82.

[1012] Guðm. Ibsen. – Viðtal K.Ó. við hann 16.5.1996.  Karl Guðm.son. – Viðtal K.Ó. við hann 27.6.1996.

[1013] Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 26.

[1014] Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 25-27.

[1015] Sama heimild.

[1016] Sama heimild.

[1017] Sama heimild.

[1018] Sama heimild.

[1019] Sama heimild.

[1020] Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 25-27.

[1021] Sama heimild.

[1022] Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 25-27.

[1023] Sama heimild.

[1024] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 82.

[1025] Sama heimild.

[1026] Sama heimild.

[1027] Karl Guðmundsson. – Viðtal K.Ó. við hann 27.6.1996.

[1028] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 82.

[1029] Sama heimild.

[1030] Örnefnastofnun/Kristján G. Þorvaldsson 1949, 82.

[1031] Sama heimild.

[1032] Örnefnastofnun/Kristján G. Þorvaldsson 1949, 82.

[1033] Sama heimild, 82-83.

[1034] Jarðab. Á. og P. VII, 131-132.

[1035] Sama heimild.

[1036] Sama heimild.

[1037] Sama heimild.

[1038] Sama heimild.

[1039] Rtk. Jarðabækur V. 16. Ísafj.sýsla 1805.

[1040] Örnefnastofnun/Kristján G. Þorvaldsson 1949, 80.

[1041] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 79.

[1042] Karl Guðmundsson. – Viðtal K.Ó. við hann 27.6.1996.

[1043] Sama heimild.

[1044] Sama heimild.

[1045] Guðmundur Ibsen. – Viðtal K.Ó. vð hann 16.5.1996.

[1046] Sama heimild.

[1047] Sama heimild.

[1048] Sama heimild.

[1049] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 81.

[1050] Karl Guðmundsson. – Viðtal K.Ó. við hann 8.7.1995.

[1051] Sama heimild.

[1052] Sama heimild.

[1053] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[1054] Sama heimild.

[1055] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf. 1904 og 1906.  Sbr. Lbs. 31524to, Halldór Guðmundsson: Æfisaga – Upphaf.

[1056] Lbs. 22284to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 5.7.1911.

[1057] Sóknarm.töl og prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[1058] Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 95.

[1059] Lbs. 44094to, Sami, bls. 14.

[1060] Lbs. 31524to, Halldór Guðmundsson: Æfisaga – Upphaf, bls. 170.

[1061] Sama heimild.

[1062] Sama heimild.

[1063] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. IV. 15. Dóma- og þingbók 1903-1907, réttarhald 5.1.1907.

[1064] Karl Guðmundsson. – Viðtal K.Ó. við hann 8.7.1995.

[1065] Prestsþj.b. Sanda í Dýraf. fermdir piltar 1873 Manntal 1860, Ytri-Lambadalur í Mýrahr.  Manntal 1901,

Suðureyri í Súgandaf.  Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[1066] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[1067] Prestsþj.b. Holts í Önundarf.

[1068] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[1069] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[1070] Sömu heimildir.  Manntal 1901.

[1071] Lbs. 27364to, Magnús Hjaltason, bls. 41.

[1072] Lbs. 44094to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 15.

[1073] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[1074] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[1075] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[1076] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[1077] Sóknarm.töl og prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.  Lbs. 31524to, H. Guðm.son: Æfisaga – Upphaf, 94-97.

[1078] Gunnar M. Magnúss 1977, 54, 330 og 364.

[1079] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.  Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[1080] Lbs. 27364to, Magnús Hjaltason, bls. 42.

[1081] Sama heimild.

[1082] Ól. Þ. Kr. 1949, 109-110 Frá ystu nesjum V).

[1083] Sama heimild.

[1084] Sóknarm.töl og prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[1085] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[1086] Gunnar M. Magnúss / Kristján G. Þorvaldsson 1977, 329.

[1087] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[1088] Ól. Þ. Kr. 1949, 109-110 (Frá ystu nesjum V).

[1089] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[1090] Lbs. 31524to, Halldór Guðmundsson: Æfisaga – Upphaf, bls. 170-201.

[1091] Lbs. 31524to, Halldór Guðmundsson: Æfisaga – Upphaf, bls. 170-201.

[1092] Eyjólfur Jónsson 1967, 67-68 (Niðjatal Sveins á Hesti).

[1093] Lbs. 31524to, Halldór Guðmundsson: Æfisaga – Upphaf, bls. 173.

[1094] Sama heimild, 163-164.

[1095] Sama heimild.

[1096] Stjórnartíðindi 1903 B, bls. 32.

[1097] Lbs. 31524to, Halldór Guðmundsson: Æfisaga – Upphaf, bls. 169 og 174-179.

[1098] Sama heimild, 180.

[1099] Lbs. 27364to, Magnús Hjaltason, bls. 41.

[1100] Lbs. 31524to, Halldór Guðmundsson: Æfisaga – Upphaf, bls. 180-181.

[1101] Sama heimild.

[1102] Sama heimild.

[1103] Sama heimild.

[1104] Skj. Suðureyrarhr., varðv. þar. Bók fyrir Suðureyrarhrepp 1888-1902, tíundarskýrsla frá árinu 1895.

[1105] Sama hreppsbók, tíundarskýrsla árið 1901.

[1106] Lbs. 31524to, Halldór Guðmundsson: Æfisaga – Upphaf, bls. 181.

[1107] Lbs. 31524to, Halldór Guðmundsson: Æfisaga – Upphaf, 182-183 og 196-197.

[1108] Sama heimild, 182-183 og 196-198.

[1109] Sama heimild, 197-198.

[1110] Sama heimild.

[1111] Sama heimild, 185-190.

[1112] Sama heimild.

[1113] Sama heimild.

[1114] Sama heimild.

[1115] Sama heimild.

[1116] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[1117] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[1118] Vestf. ættir I, 400-405.

[1119] Sama heimild.

[1120] Sóknarm.töl og prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[1121] Manntal 1901.

[1122] Frá ystu nesjum I, 1942, 54 og 57.

[1123] Vestf. ættir I, 404-405.

[1124] Sama heimild.

[1125] Sama heimild.

[1126] Lbs. 27364to, Magnús Hjaltason, bls. 41-42.

[1127] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[1128] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. IV. 15. Dóma- og þingbók 1903-1907, bls. 337-344, 347-350, 352, 377-384,

392-394, 405, 407-409, 418-419, 427-428 og 450-452.

[1129] Sóknarm.töl og prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[1130] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[1131] Sama heimild.

[1132] Sama heimild.

[1133] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. IV. 15. Dóma- og þingbók 1903-1907, bls. 337-344.

[1134] Sama dómab., 337-344, 347-350, 352, 377-384, 392-394, 405, 407-409, 418-419, 427-428 og 450-452.

[1135] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. IV. 15. Dóma- og þingbók 1903-1907, bls. 337-344, 347-350, 352, 377-384, 392-394, 405, 407-409, 418-419, 427-428 og 450-452.

[1136] Sama heimild.

[1137] Sama heimild.

[1138] Sama heimild.

[1139] Sama heimild.

[1140] Sama heimild.

[1141] Sama heimild.

[1142] Sama heimild.

[1143] Sama heimild.

[1144] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. IV. 15. Dóma- og þingbók 1903-1907, bls. 450-452.

[1145] Sama heimild.

[1146] Hsk. á Ísaf. nr. 229. Skýrsla um þurfalinginn Jens Arnbjörnsson, dags. í Hnífsdal 9.9.1909. Bréf

bæjarfógetans í Reykjavík, dags. 14.7.1909, til sýslumannsins í Ísafj.sýslu.

[1147] Hsk. á Ísaf. nr. 229. Skýrsla um þurfalinginn Jens Arnbjörnsson, dags. í Hnífsdal 9.9.1909. Bréf

bæjarfógetans í Reykjavík, dags. 14.7.1909, til sýslumannsins í Ísafj.sýslu, dags. 9.9.1909.

[1148] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[1149] Hsk. á Ísaf. nr. 229. Skýrsla um þurfalinginn Jens Arnbjörnsson, dags. í Hnífsdal 9.9.1909.

[1150] Lbs. 22284to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 5.7.1911.  Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[1151] Sama dagbók sama dag.

[1152] Ól. Þ. Kr. 1949, 109 (Frá ystu nesjum V.).

[1153] Lbs. 22284to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 5.7.1911.

[1154] Karl Guðmundsson. – Viðtal K.Ó. við hann 27.6.1996.

[1155] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 81.

[1156] Karl Guðmundsson. – Viðtal K.Ó. við hann 27.6.1996.

[1157] Sama heimild.

[1158] Sama heimild.

[1159] Karl Guðmundsson. – Viðtal K.Ó. við hann 27.6.1996.

[1160] Sama heimild.

[1161] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 81.

[1162] Sama heimild, 79.

[1163] Gunnar M. Magnúss 1977, 70.

[1164] Sóknarm.töl og prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[1165] Sbr. Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[1166] Manntal 1816.  Sbr. Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[1167] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[1168] Manntal 1816.

[1169] Manntal 1801, vesturamt, bls. 345.

[1170] Manntal 1816.

[1171] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[1172] Sama heimild.

[1173] Sama heimild.

[1174] Sama heimild.

[1175] Sóknarm.tal Staðar í Súgandaf.

[1176] Sóknarm.tal Staðar í Súgandaf.

[1177] Sama heimild.

[1178] Sama heimild.

[1179] Sama heimild.  VA III, 420, búnaðarskýrslur 1867 og 1868.

[1180] Sbr. Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.  VA III, 420, búnaðarskýrslur 1867-1869.

[1181] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[1182] Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 94.

[1183] Sama heimild.

[1184] Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 94.

[1185] Sama heimild.

[1186] Guðmundur Ibsen. – Viðtal K.Ó. við hann 16.5.1996.

[1187] Sama heimild.  Karl Guðmundsson. – Viðtal K.Ó. við hann 27.6.1996.

[1188] Guðmundur Ibsen. – Viðtal K.Ó. við hann 16.5.1996.

[1189] Haraldur Þorvarðarson, Þorvaldur H. Þórðarson. – Viðtal K.Ó. við þá 22.4.1996 og 26.6.1996.

[1190] Karl Guðmundsson. – Viðtal K.Ó. við hann 8.7.1995.

[1191] Landmælingar Íslands / Uppdráttur Íslands 1977, blað 11.

[1192] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 81.

[1193] Sama heimild, 80.

[1194] Sama heimild, 81.

[1195] Sama heimild.

[1196] Gunnar M. Magnúss 1978, 126.

[1197] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 80-81.

[1198] Sama heimild.

[1199] Sama heimild.

[1200] Sóknalýs. Vestfj. II, 117.

[1201] Sóknalýs. Vestfj. II, 117.

[1202] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 80.

[1203] Sama heimild.

[1204] Pétur E. Þórðarson. – Viðtal K.Ó. við hann 16.12.1995.

[1205] Pétur E. Þórðarson. – Viðtal K.Ó. við hann 16.12.1995.

[1206] Sama heimild.

[1207] Sama heimild.

[1208] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 80.

[1209] Sama heimild.

[1210] Sama heimild.

[1211] Kristján G. Þorvaldsson 1983, 123 (Ársrit S.Í.).

[1212] Reinald Kristjánsson / Ingivaldur Nikulásson 1932, 67.

[1213] Reinald Kristjánsson / Ingivaldur Nikulásson 1932, 67.

[1214] Skj. Suðureyrarhr., varðv. þar. Fundabók fyrir Suðureyrarhrepp 1889-1919., fundargerðir hreppsnefndar  4.3.1889 og 1.3.1890.

[1215] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 81.

[1216] Sama heimild.

[1217] Sama heimild.

[1218] Sama heimild.

[1219] Sama heimild.

[1220] Sama heimild, 82.

[1221] Sama heimild.

[1222] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 83.

[1223] Sama heimild.

[1224] Sama heimild, 82.

[1225] Karl Guðmundsson. – Viðtal K.Ó. við hann 27.6.1996.

[1226] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 83.

[1227] Karl Guðmundsson. – Viðtal K.Ó. við hann 27.6.1996.  Sbr. Örn.stofnun / Kr. G. Þorv.son 1949, 82.

[1228] Sömu heimildir.

[1229] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 84.

[1230] Karl Guðmundsson. – Viðtal K.Ó. við hann 8.7.1995.

[1231] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 84.

[1232] Sama heimild.

[1233] Sama heimild, 91.

[1234] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 83-84.

[1235] Sama heimild, 83.

[1236] Sama heimild.

[1237] Sama heimild.

[1238] Sama heimild.

[1239] Sama heimild, 84.

[1240] Sama heimild.

[1241] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 84.

[1242] Sama heimild.

[1243] Sama heimild.

[1244] Sama heimild.

[1245] Gunnar M. Magnúss 1977, 107-108.

[1246] Gunnar M. Magnúss 1977, 107-108.  Hagstofa Íslands / Skrár yfir dána 1982.

[1247] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 85.

[1248] Klausturpósturinn 1818, nr. 7, bls. 94-95.

[1249] Sama heimild.

[1250] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 84.

[1251] Sama heimild.

[1252] Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 26.

[1253] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 29.

[1254] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 29.

[1255] Sama heimild.

[1256] Sama heimild.

[1257] Sama heimild.

[1258] Sama heimild, 29-30.

[1259] Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 27.

[1260] Sama heimild.

[1261] Sama heimild.

[1262] Þórður Ág. Ólafsson / Minnisblöð hans frá árinu 1980 um tóttir og örnefni í Staðardal, ljósr. í eigu K.Ó.

[1263] Ólafur Olavius 1964, I, 185.

[1264] Sama heimild.

[1265] Sama heimild.

[1266] Sóknalýs. Vestfj. II, 116-117.

[1267] Valdimar Þorvaldsson 1963, 57.

[1268] Ól. Olavius 1964, I, 185.

[1269] D.I. II, 575.

[1270] Jarðab. Á. og P. VII, 129-131.

[1271] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 84.

[1272] Sama heimild.

[1273] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 84.

[1274] Sama heimild.

[1275] Þórður Ág. Ólafsson / Minnisblöð hans frá árinu 1980 um tóttir og örnefni í Staðardal, ljósr. í eigu K.Ó.

[1276] Sama heimild.

[1277] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 84-85.

[1278] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 84-85.

[1279] Valdimar Þorvaldsson 1963, 57.  Þórður Ág. Ólafsson / Minnisblöð hans frá árinu 1980 um tóttir og

örnefni í Staðardal, ljósr. í eigu K.Ó.

[1280] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 85.

[1281] Sama heimild.

[1282] Sama heimild.

[1283] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 85.

[1284] Ól. Olavius 1964, I,  185.

[1285] Sóknalýs. Vestfj. II, 116.

[1286] Valdimar Þorvaldsson 1963, 57.

[1287] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 10-11.

[1288] Sama heimild.

[1289] Sama heimild.

[1290] Valdimar Þorvaldsson 1963, 60-61.

[1291] Skj. Suðureyrarhr., varðv. þar. Bók fyrir Suðureyrarhrepp 1888-1902.  Framtal til lausafj.tíundar 1888.

[1292] Sama heimild.  Sbr. Sóknarm.töl og prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[1293] Skj. Suðureyrarhr., varðv. þar. Bók fyrir Suðureyrarhrepp 1888-1902.  Framtal til lausafj.tíundar 1888.

[1294] Þórður Sigurðsson 1986, 27 (Ársrit S.Í.).

[1295] Þórður Sigurðsson 1986, 13-35 (Ársrit Sögufél. Ís.f.).

[1296] Lbs. 38584to, Dagbók Einars Jónssonar 3.4.1889.

[1297] Skj. Suðureyrarhr., varðv. þar. Bók fyrir Suðureyrarhr. 1888-1902, tíundarskýrslur 1888, 1891 og 1895.

[1298] Lbs. 44084to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 3.

[1299] Valdimar Þorvaldsson 1963, 64.

[1300] Skj. Suðureyrarhr., varðv. þar. Bók fyrir Suðureyrarhr. 1888-1902, tíundarskýrslur 1888, 1891 og 1895.

[1301] Sama heimild.

[1302] Sama heimild.

[1303] Sama heimild.

[1304] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[1305] Skj. Suðureyrarhr., varðv. þar. Bók fyrir Suðureyrarhr. 1888-1902, tíundarskýrslur 1888, 1891 og 1895.

[1306] Lbs. 22184to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 1.6.1899.

[1307] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[1308] Haraldur Þorvarðarson. – Viðtal K.Ó. við hann 22.4.1996.

[1309] Séra Gísli Kolbeins. – Viðtal K.Ó. við hann 22.4.1996.

[1310] Haraldur Þorvarðarson og sr. Gísli Kolbeins. – Viðtal K.Ó. við þá 22.4.1996.

[1311] Guðmundur Ibsen. – Viðtal K.Ó. við hann 16.5.1996.

[1312] Sama heimild.

[1313] Sama heimild.

[1314] Séra Gísli Kolbeins og Guðmundur Ibsen.. – Viðtöl K.Ó. við þá 22.4. og 16.5. 1996.

[1315] Sömu heimildir.

[1316] Lbs. 44094to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 152-154.

[1317] Sama heimild.

[1318] Þórður Ág. Ólafsson / Minnisblöð hans frá árinu 1980 um tóttir og örnefni í Staðardal, ljósr. í eigu K.Ó.

[1319] Sama heimild.

[1320] Sama heimild.

[1321] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 80.

[1322] Karl Guðmundsson. – Viðtal K.Ó. við hann 27.6.1996.

[1323] Þorvaldur H. Þórðarson. – Viðtal K.Ó. við hann 26.6.1996.

1000-1900

Guðmundur Justsson

Á fyrri hluta 20. aldar var Guðmundur Justsson, sem fæddist á Gemlufalli haustið 1841,[1] einna kunnastur þeirra sem búið höfðu á Dröngum, a.m.k. utan Dýrafjarðar,

LESA MEIRA »
1000-1900

Krossadalur

Í Krossadal var löngum tvíbýli á fyrri tíð, Hærri- og Lægri- (eða Neðri-) Krossdalur, og voru þetta ystu bæir við Tálknafjörð. Stundum var reyndar þríbýli

LESA MEIRA »
1000-1900

Arnarstapi

Arnarstapi og Krossadalur voru tvær ystu jarðirnar á norðurströnd Tálknafjarðar og hafa nú báðar verið í eyði frá því um 1940.[1] Frá verbúðatóttunum í Arnarstapavík

LESA MEIRA »