Botn

Botn í Súgandafirði er gömul bújörð og var á fyrri tíð ein þriggja stærstu jarðanna í Suðureyrarhreppi, 24 hundruð að dýrleika samkvæmt fornu mati.[1] Hinar tvær jarðirnar, sem einnig töldust vera 24 hundruð, voru Bær og Suðureyri[2] en matið á Suðureyri lækkaði niður í 20 hundruð þegar hjáleigan Laugar var gerð að sjálfstæðri bújörð (sjá hér Laugar).

Botn er nú ein þriggja gamalla jarða í Suðureyrarhreppi sem búið er á og hér er nýbýlið Birkihlíð sem reist var fyrir nokkrum áratugum (sjá Firðir og fólk 1900-1999, 449).

Á fyrri hluta 20. aldar var hér jafnan tvíbýli, allt til ársins 1945, og bæirnir jafnan nefndir efri bær og neðri bær (sjá Firðir og fólk 1900-1999, 446-447). Þeir standa hér báðir enn (1996) í gamla túninu og innan marka þess er líka íbúðarhúsið í Birkihlíð. Neðri bærinn stendur reyndar aðeins hærra en sá efri en mun hafa verið nefndur svo vegna þess að frá honum er aðeins skemmra til sjávar. Örstutt er á milli bæjanna.

Gamla túnið í Botni er upp af vestanverðum fjarðarbotninum. Mestur hluti þess er á stórri hæð sem hallar frá á þrjá vegu, fram til dalsins, niður að árósnum við fjarðarbotninn, og út á við.

Landamerkjum Botns á móti Kvíanesi hefur áður verið lýst í þessu riti (sjá hér Kvíanes) en að norðanverðu liggja merkin á móti Gilsbrekku, sem er næsta jörð, um Seltjörn ytri og Seltjarnarhrygg ytri.[3] Þessi landamerki, norðan fjarðarins, eru nær beint á móti túninu á Kvíanesi og álíka langt inn í fjarðarbotninn frá báðum merkjunum, einn til einn og hálfur kílómetri. Í landareign Botns er allur Botnsdalur sem er rösklega þrír kílómetrar að lengd og grösugur. Dalurinn liggur upp frá fjarðarbotninum og stefnir í suðaustur upp til heiðarinnar, sem einnig er kennd við Botn, en yfir hana lá alfaravegur milli Súgandafjarðar og Skutulsfjarðar þar sem nú er Ísafjarðarkaupstaður. Á Botnsdal voru góð slægjulönd sem nú hefur verið breytt í tún. Sumarbeit er þar ágæt en snjóþungt að vetrinum.[4]

Á átjándu öld mun oftast hafa verið þríbýli í Botni[5] en frá fyrstu og síðustu árum þeirrar aldar finnast þó dæmi um fjórbýli.[6]

Á fyrstu árum nítjándu aldar munu bændurnir í Botni oftast hafa verið þrír,[7] en árið 1816 hafði þeim fjölgað upp í fimm.[8] Sú tala hélst óbreytt allt til ársins 1820.[9] Líklegt er að einn þessara fimm bænda hafi búið í Klúku, gamalli hjáleigu sem árið 1710 hafði staðið lengi í eyði og var enn óbyggð árið 1805.[10] Í sóknarmannatölum prestanna á Stað er Klúka þó ekki nefnd með nafni fyrr en 1828.[11] Vorið 1820 fækkaði Botnsbændum úr fimm í fjóra og sex árum síðar niður í þrjá.[12] Á árunum 1827-1833 bjuggu aðeins tveir bændur í Botni, þrír frá 1833 til 1840 og fjórir frá 1840 til 1848 en fækkaði um einn í fardögum á því ári.[13] Þessar tölur um fjölda býla eru máske ekki alveg hárnákvæmar vegna þess að á fyrri hluta nítjándu aldar voru hér oftast ein eða fleiri fjölskyldur í húsmennsku og sumir þeirra sem töldust halda heimili ýmist flokkaðir sem húsmenn eða bændur.[14] Sem dæmi má nefna að haustið 1840 töldust bændurnir í Botni vera fjórir en heimilin voru sex að tómthúsfólkinu í Klúku meðtöldu. Skortur á nákvæmni í þessum efnum birtist líka í því að á árunum kringum 1860 kallar prestur herramanninn sem þá réð húsum í Klúku bónda en í búnaðarskýrslu er hann ekki talin til bænda.[15]

Á síðari hluta nítjándu aldar bjó hér einn bóndi á allri jörðinni í tvö ár, 1883-1884 og 1899-1900.[16] Hér var þá tvíbýli í 25 ár, þríbýli í 9 ár og fjórbýli í 14 ár sé greining sóknarprestanna milli bænda og húsmanna tekin gild.[17] Síðast var fjórbýli í Botni á árunum 1892-1899[18] en á fyrri hluta 20. aldar var hér nær alltaf tvíbýli, allt til ársins 1945 svo sem fyrr var nefnt.

Oft var margt um manninn í Botni á síðari hluta 19. aldar, því að auk bændanna og þeirra skylduliðs var hér oft eitthvað af húsfólki eins og áður.[19] Sem dæmi um fjölda heimafólks má nefna að í lok ársins 1886 taldist það vera 36, þar af 9 í Klúku.[20]

Hér var áður minnst á bæina tvo, sem búið var í á fyrri hluta tuttugustu aldar og enn standa (1996), en þeir voru jafnan nefndir efri bær og neðri bær. Á síðasta fjórðungi nítjándu aldar munu Botnsbæirnir hafa staðið þar sem bæirnir frá fyrri hluta tuttugustu aldar standa nú.[21] Vel má vera að þessi bæjastæði séu bæði gömul en þriðja bæjarstæðið mun að líkindum hafa verið á hólnum framan og ofan við hina miklu útihúsasambyggingu sem nú stendur hér í túninu en Lambhúsá rennur milli hennar og hólsins. Þegar rótað var með jarðýtu í þessum hól vegna ræktunar komu í ljós mikil öskulög og rústir og þar fannst þá líka gömul steinkola.[22] Rétt fyrir utan nýnefndan hól og aðeins ofar var dálítill hryggur eða rani og á honum gamlar og grónar rústir sem árið 1949 voru taldar bæjartóttir.[23] Sá staður hét Virki og var rétt fyrir neðan veginn sem nú (1996) er ekið um en nokkuð fyrir ofan gamla akveginn sem lá fram túnið í Botni og enn er á sínum stað.[24] Engin ummerki sjást nú um þennan hrygg.

Frá fyrrnefndum hól þar sem steinkolan fannst, er gott að litast um og virða fyrir sér fjallahringinn.

Við lítum fyrst út með firðinum að vestanverðu og festum augun við Kvíanesnúpinn, hið svipfagra fjall sem blasir við rétt utan við túnið á Kvíanesi (sjá Kvíanes). Innan við hann er Kvíanesdalur en síðan kemur lægra fjall sem heitir Nautaskálarhorn.[25] Þar eru landamerki Botns og Kvíaness eins og hér hefur áður verið nefnt. Innan við Nautaskálarhorn er Nautaskál og síðan kemur fjallið Nónhorn.[26] Innan við það er Hafradalur og er hann beint upp af túninu í Botni.[27] Áin sem fellur í fossi fram af dalbrúninni beitir Hafradalsá en ofan við túnið skiptist hún í tvær kvíslar, Lambhúsá og Stórhól[28] eða Stórhólslæk sem fellur utar.[29] Fjallið framan við Hafradal heitir Hádegishorn og skriðan mikla sem það hefur fyrir svuntu heitir Hornskriða.[30]

Framan við Hádegishorn er Seljahvilft og ofan úr henni kemur Þverá sem fellur í Botnsá eins og allir lækir á Botnsdal.[31] Framan við Seljahvilft er Leitishvilftarhnúkur.[32] Stóra hvilftin þar fyrir framan heitir Leitishvilft.[33] Þangað horfum við nú en lítum síðan skamma stund til baka og rifjum upp hver voru hin fornu eyktamörk fólksins í Botni.

 

Dagmál:    Leitishvilftarhnúkur.

Hádegi:      Hádegishorn.

Nón:          Slakki innan við Nónhorn.

Miðaftann: Yfir miðri Nautaskál.

Náttmál:    Utanvert við Kvíanesnúp.[34]

 

Fjallið framan við Leitishvilft, sem hér var áður nefnd, virðist nú vera nafnlaust, en framan við það eru tvær hvilftar, langtum minni en Leitishvilft og Seljahvilft. Þær heita Folaldahvilft og Rjúpnahvilft og er Rjúpnahvilft framar.[35]

Rétt fyrir framan Leitishvilft gengur fram svolítill klettarani, neðan við háfjallið. Heimantil við hann og aðeins neðar er allstór hóll eða haugur, lítt gróinn. Þessi hóll heitir Súgandi[36] og ýmsir haft fyrir satt að þar hafi Hallvarður súgandi verið heygður, en í Landnámabók er hann sagður hafa numið Súgandafjörð.[37] Frá þessum grjóthól sér vel yfir innfjörðinn.

Fjallið sem stendur þvert fyrir dalbotninum og aðeins norðan við hann heitir Búrfell og er nær beint á móti næst fremstu hvilftinni að vestanverðu en það er Folaldahvilft[38] sem hér hefur áður verið nefnd. Spölurinn þar á milli er varla nema einn kílómetri. Gamli reiðvegurinn yfir Botnsheiði lá rétt vestan (suðvestan) við Búrfell og síðan í nær beina stefnu til austurs niður í Tungudal í Skutulsfirði.

Kollurinn á Búrfelli liggur í 741 metra hæð yfir sjávarmáli og þaðan er mjög víðsýnt. Norðan við Búrfell er Gyltuskarð.[39] Yfir það fóru menn stundum á fyrri tíð úr Súgandafirði í Skutulsfjörð, eingöngu þó eða nær eingöngu að vetrarlagi, en gangfæri var þar stundum betra en á heiðinni þegar mikið var um snjó.[40] Var þá komið niður á Seljalandsdal norðan við skarðið.

Yfir norðurhlíð Botnsdals er röð af fjöllum og hvilftum. Þar er fremst Svarthamrahorn og liggur að Gyltuskarði. Fjallið ber nafn með réttu því svartir hamrar neðan við brúnina setja á það sinn sterka svip. Héðan frá Botni ber hins vegar lítið á kollinum sem er ofan við nýnefnda brún, en hann er reyndar býsna hár eins og sjá má ef gengið er á fjallið eða litið þangað utan frá fjarðarmynninu. Svarthamrahorn er hæsta fjall í Súgandafirði en varðan sem landmælingamenn reistu á kolli þess er í 781 metra hæð yfir sjávarmáli. Kollur Svarthamrahornsins stendur á mörkum þriggja fornra hreppa, Suðureyrarhrepps, Eyrarhrepps og Hólshrepps. Sé horft á bakhlið þessa sama fjalls frá Ísafjarðarkaupstað eða öðrum stöðum í Skutulsfirði hefur það allt annan svip og heitir öðru nafni. Það nafn er Kistufell[41] sem skýrist af því að séð frá Skutulsfirði er þetta klettalaust fell og stendur rétt hjá fjallinu Kistu sem er kistulaga.[42]

Heiman við Svarthamrahorn er Svarthamrahvilft, þá Geirsteigshvilftarfjall, síðan Geirsteigshvilft, þá Stekkjarhvilftarfjall, síðan Stekkjarhvilft, þá Lækjahvilftarhnúkur og síðan Lækjahvilft.[43] Utan við Lækjarhvilft er Grensfjall og í því mætast lönd Botns og Gilsbrekku.[44] Norðurhlíð Botnsdals er prýdd birkikjarri sem nær frá Grensfjalli og fram undir Svarthamrahorn. Þetta er Botnsskógur.[45]

Við höfum nú litið til fjalla frá hólnum þar sem steinkolan fannst (sjá hér bls. 2-3) en dalinn skoðum við betur síðar (sjá hér bls. 112-116 og 120-122). Gaman væri að sjá Krubbu en héðan sést hún ekki því þetta er kvos hátt í hlíðinni neðan við Stekkjarhvilftarfjall og svolítið framan við mitt fjallið.[46] Munnmæli herma að eitt sinn hafi ræningjar komið að Botni og þá hafi fólkið flúið í Krubbu og leynst þar en eftir varð heima gömul kona sem ekki var ferðafær.[47] Sagt er að ránsmennirnir hafi spurt kerlinguna hvar allt fólkið væri og hún svarað: Allt fólk í Krubbu, ræningjar góðir.[48]

Þetta svar kom ræningjunum ekki að gagni því þeir voru engu nær. Líklega hefur Krubba verið ágætur felustaður því hún er girt að neðan af háum börðum og sést því varla móta fyrir henni þegar horft er upp hlíðina.[49] Kvos þessi er nú mun grynnri en áður var því í hana hefur runnið bæði aur og grjót úr fjallinu svo heita má að hún sé orðin full.[50]

Sagan um komu ræningjanna gæti vel verið sönn í aðalatriðum eða einhver fótur fyrir henni og má minna á að árið 1579 fór fjölmennur flokkur erlendra ræningja um Súgandafjörð og drap fjóra menn í þessu fámenna byggðarlagi (sjá hér Fremri-Vatnadalur). Líklegt er að slíkir flokkar hafi oftar verið á ferð hér um slóðir og margir óttuðust Spánverjana sem fóru með ránum um Súgandafjörð og nálægar byggðir haustið 1615 (sjá Fremri-Vatnadalur).

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá árinu 1710 er gert lítið úr flestum kostum þessarar jarðar en kapp lagt á að draga fram það sem talist gat til ágalla. Þar segir:

 

 

Útigangur mjög lítill á vetur og við lakari kost. Torfrista og stunga næg. Skógur til kolgjörðar nægur. Móskurður til eldiviðar lakur. Silungsveiði lítil í Botnsá, brúkast lítt. Grasatekja og hvannatekja hefur verið en er nú eytt.

Engjunum granda skriður úr brattlendi. Hætt er kvikfé fyrir snjóflóðum og sjávarflæðum sem oft verður mein að. Vatnsból bregðast um vetur og er þá óbærilega langur vatnsvegur í úthaga. Kirkjuvegur langur ut supra. Hætt er húsum fyrir stórveðrum og svo heyjum.[51]

 

Í jarðabók frá árinu 1805 er getið um ýmis hlunnindi í Botni. Þar má sjá að árlega fengust hér þrjár tunnur af fjallagrösum og voru þau hlunnindi virt á 30 álnir[52] eða sem svaraði einum fjórða parti úr kýrverði. Silungsveiði var hins vegar talin mjög óveruleg og hlunnindi af henni aðeins virt á tvær og hálfa alin.[53] Árið 1805 voru selveiðar bændanna í Botni taldar gefa af sér 16 potta af lýsi á ári og voru þau hlunnindi virt á tæplega 11 álnir.[54] Í byrjun 19. aldar var einnig róið til fiskjar frá Botni að sumrinu og ef marka má jarðabókina frá 1805 fékkst þá að jafnaði hálf vætt af hertum þorski í hlut,[55] það er 20 kíló, og 5 kíló af steinbítsriklingi.[56] Sumarhluturinn af þorski var virtur á 10 álnir en steinbítshluturinn á 7 og 1/3 úr alin.[57]

Séra Andrés Hjaltason, sem var prestur á Stað í Súgandafirði á árunum 1839-1849, ritar dálítið um jarðirnar í Súgandafirði í sóknarlýsingu sinni frá árinu 1839 og segir þar að Botn sé heyskaparjörð best í öllum Súgandafirði því svo megi heita að allt undirlendið á Botnsdal sé einlægt slægjuengi.[58] Séra Andrés lætur þess einnig getið að margir af nágrönnum Botnsbænda fái léðar slægjur í Botni.[59]

Alþýðuskáldið Magnús Hjaltason var vinnumaður að hálfu hér í Botni í nokkra mánuði árið 1899.[60] Hann lýsir jörðinni svo:

 

Botn var allgóð jörð, slægjur afarmiklar, mór óþrjótandi og hrís (í norðurhlíðinni) og var hann talinn bera í hverju meðalári 150 fjár, 5 kýr og 4 hesta. En slæmt var að þurrka þar hey er leið á sumar því sólar naut þá lítt vegna fjallanna. Og þar var afar snjóþungt.[61]

 

Magnús segir líka að hér í fjarðarbotninum sé mikið um marhálm sem fé og hestar frá Botni og Kvíanesi hafi úðað í sig þegar beitt var i fjöruna.[62]

Árið 1916 var talið að hér mætti fleyta fram enn stærri bústofni en Magnús nefnir, það er að segja 5 kúm, 240 sauðkindum og 7 hrossum.[63] Heyfengur í meðalári var þá 175 hestar af töðu og 400 hestar af útheyi.[64] Að sögn matsmanna, sem unnu að fasteignamati árið 1916, var Botnstúnið þá grasgefið en grýtt og þýft.[65] Engjalönd jarðarinnar segja þeir líka vera grasgefin en grýtt og óslétt, beitilandið gott og víðlent en taka fram að hér sé snjóþungt.[66] Af hlunnindum nefna þessir sömu matsmenn aðeins mótak er var bæði gott og nærtækt.[67] Á árunum kringum aldamótin 1900 var nokkuð um að fólk frá öðrum bæjum fengi að taka upp mó í Botni (sjá hér Suðureyri) og svo mun einnig hafa verið bæði fyrr og síðar.

Mór var reyndar ekki eini eldiviðurinn sem í boði var í landareigninni því hér er líka surtarbrandur. Í ritgerð frá árinu 1949 segir Kristján G. Þorvaldsson að í Botni hafi um langan tíma verið tekið nokkuð af surtarbrandi til heimilisnotkunar en námuvinnsla hafi þó ekki hafist fyrr en á árum fyrri heimsstyrjaldarinnar.[68] Þorvaldur Thoroddsen náttúrufræðingur getur um surtarbrandinn í Botni í frásögn af ferð sinni um Súgandafjörð sumarið 1887.[69] Segir hann brandinn vera í 137 metra hæð yfir sjó.[70]

Þann 14. ágúst 1905 kom þýskur jarðfræðingur að skoða surtarbrandinn í Botni.[71] Hann kom frá Flateyri[72] og hefur, að því er ætla má, verið í tengslum við Pál og Kristján Torfasyni, sem þar áttu heima, en þeir voru um þetta leyti að hefjast handa við víðtæka málm- og jarðefnaleit í landi Eyrar í Önundarfirði og víðar (sjá hér Flateyri). Tveir þýskir jarðfræðingar komu líka í Botn sumarið 1911 og skoðuðu námuna.[73] Bræðurnir Kristján og Ólafur Torfasynir komu þá með þeim frá Flateyri.[74] Haustið 1912 dró til stærri tíðinda. Magnús Hjaltason, sem átti þá heima á Suðureyri, greinir frá þeim í dagbók sinni og ritar þar á þessa leið:

 

Kom til Súgandafjarðar Árni kaupmaður Sveinsson á Ísafirði til að athuga surtarbrandsnámu í Botni og víðar. Hann var að gjöra skriflega samninga millum Botnseigenda og útlends hlutafélags er hafði áformað að láta vinna í surtarbrandsnámunni þar í Botni. Skyldi starf það hefjast 1913.

Það varð að samningi að hlutafélagið skyldi borga Botnseigendum 2000,- tvö þúsund krónur árið 1913, hvort sem nokkuð yrði unnið við námuna eða eigi, en síðan skyldi það borga 400,- fjögur hundruð krónur á ári.

Kristján Sigurðsson, bóndi á Norðureyri, átti 9 hundruð í Botni. Fyrir því varð Árni að fara yfir að Norðureyri til að fá samþykki Kristjáns að samningnum og undirskrift.[75]

 

Mjög líklegt má telja að sendimaðurinn, Árni Sveinsson, sem hér var nefndur til sögu, hafi verið í samstarfi við Kristján Torfason á Flateyri og hans þýsku bandamenn. Sem ungur maður hafði Árni verið búsettur á Flateyri á árunum 1882-1887.[76] Hann hafði þá smíðar að atvinnu og bjó í þrjú ár í Torfahúsi, hjá foreldrum Kristjáns sem þá var um fermingaraldur.[77] Nærri lætur að fyrir þær 2000,- krónur sem ráðgert var að Botnseigendur fengju greiddar fyrir námuréttindin árið 1913 hefði verið unnt að kaupa 16 kýr og hefðu þó um það bil 59,- krónur staðið eftir af upphæðinni því kýrverðið í Ísafjarðarsýslu var þetta ár kr. 121,33.[78]

Samningurinn sem Magnús greinir frá kom hins vegar aldrei til framkvæmda. Vera má að plöggin, sem eigendur Botns skrifuðu undir hjá Árna Sveinssyni haustið 1912, hafi aldrei orðið að fullgildum og staðfestum samningi en hafi ráðagerðir hins erlenda hlutafélags um surtarbrandsnám í Botni verið enn á dagskrá vorið 1914 hlutu þær að gufa upp þegar hin mikla Evrópustyrjöld braust út síðar á því ári.

Í byrjun ágúst árið 1914 var orðið ljóst að yfir vofði allsherjarstríð milli helstu stórvelda Evrópu. Ætla má að hreppsnefnd Suðureyrarhrepps hafi gert sér nokkra grein fyrir þeim dökku horfum er hún á fundi sínum 7. ágúst það ár ræddi um birgðir til vetrarins handa hreppsbúum, sérstaklega eldivið.[79] Í fundargerð þessa fundar segir að menn hafi einkum bent á surtarbrand í Botni og hrís í skóginum.[80]

Að sögn Snorra Sigfússonar skólastjóra, er átti sæti í hreppsnefnd Mosvallahrepps frá 1916-1922,[81] var það fyrir atbeina sýslunefndar og þing- og héraðsmálafundanna í Vestur-Ísafjarðarsýslu að hafist var handa við vinnslu surtarbrands í Botni á árum heimsstyrjaldarinnar fyrri.[82] Námuvinnslan hófst árið 1916 en þá hafði kolaverð rokið upp úr öllu valdi af styrjaldarástæðum.[83] Að vinnslunni stóðu Suðureyrarhreppur, Mosvallahreppur og Þingeyrarhreppur[84] og mun einkum hafa verið haft í huga að tryggja þorpsbúum á Suðureyri, Flateyri og Þingeyri eldivið.[85]

Þessar ráðagerðir munu hafa verið komnar á flugstig haustið 1915 því Magnús Hjaltason, sem þá átti heima á Suðureyri, segir 29. október það ár að mótorbátur hafi farið á Ísafjörð að sækja tvo menn, danskan og íslenskan og tvær borunarvélar sem ætlunin sé að nota til þess að rannsaka kolanámuna hér í Botni.[86] Í dagbók Magnúsar sést að engin vinnsla komst þó í gang haustið 1915 því 13. nóvember skrifar hann þetta: Hætt við námuna í Botni. Allt ómögulegt vegna ótíðar.[87] Árið 1916 tókst hins vegar að hefja vinnslu eins og fyrr var nefnt og þann 18. október á því ári segir Magnús að tveir mótorbátar frá Suðureyri hafi farið inn í Botn að sækja surtarbrand.[88] Í þessari lotu mun hafa verið unnið hér við námugröft allt til stríðsloka, það er frá 1916 til 1918,[89] en Snorri Sigfússon segir að námuvinnslan hafi gengið í basli og orðið hreppunum, sem að henni stóðu, dýr.[90]

Einn þeirra sem unnu í surtarbrandsnámunni hér í Botni á árum fyrri heimsstyrjaldarinnar var Sigurður Thoroddsen, síðar verkfræðingur, og skal hér vísað á frásögn hans sem birtist í Ársriti Sögufélags Ísfirðinga árið 1982.[91]

Á árum seinni heimsstyrjaldarinnar hófst hér námuvinnsla á ný og þá á vegum Brúnkola hf, hlutafélags sem skrásett var á Ísafirði.[92] Að því sinni hófst vinnsla í námunni árið 1941 en var hætt haustið 1942.[93] Að surtarbrandstökunni unnu á þessum árum sjö Færeyingar og var einn þeirra námusérfræðingur.[94] Um surtarbrandsnámið á þessum árum hefur Friðbert Pétursson ritað vandaða grein og verður hér látið nægja að vísa mönnum á hana.[95]

Surtarbrandsnáman hér í Botni er um 20 metrum ofan við hjalla sem ber nafnið Ytri-Latur.[96] Hún er í um það bil 150 metra hæð yfir sjávarmáli og að heita má beint upp af bæjunum í Botni.[97] Námuopin eru neðst í klettabelti, neðan við brún Hafradals, og mjög skammt fyrir utan fossinn sem þar blasir við augum.[98] Vorið 1942 var lokið við að leggja akfæran veg upp að námunni.[99] Sést hann enn í hlíðinni en er fyrir löngu orðinn ófær bílum.

Elsta heimild sem fyrir liggur um landskuldina er Botnsbændur þurftu að greiða eigendum jarðarinnar er frá árinu 1658. Þá var hún 140 álnir á ári[100] en í kýrverðinu voru jafnan 120 álnir. Árið 1695 var landskuldin orðin enn hærri eða átta vættir,[101] það er 160 álnir.

Árið 1710 var landskuldin af Botni enn 160 álnir[102] og hafði ekkert lækkað þrátt fyrir allt mannfallið í stórubólu. Í Jarðabókinni frá því ári sést að leiguliðunum, sem hér bjuggu, var gert að greiða jarðarafgjaldið í fiski og lýsi sem þeim bar að leggja inn hjá einokunarversluninni á Ísafirði.[103] Um miðbik átjándu aldar var landskuldin nokkru lægri en verið hafði 1695 og 1710 og hafði fallið úr 160 álnum í 135 álnir.[104] Nær hundrað árum síðar, það er um 1845, var landskuld af þessari sömu jörð komin niður í 120 álnir[105] eða nákvæmlega eitt kýrverð. Á öðrum áratug tuttugustu aldar var landskuldin af Botni svo orðin enn lægri því árið 1916 eða mjög skömmu síðar var hún 96,- krónur á ári[106] en hið opinbera kýrverð var kr. 162,- árið 1916 og kr. 313,-  árið 1918.[107]

Innstæðukúgildi sem fylgdu jörðinni í Botni voru sjö árið 1658[108] en sex ær voru í hverju kúgildi. Árið 1695 höfðu 5 leiguær bæst við svo innstæðukúgildin voru orðin nær átta.[109] Eftir stórubólu, sem felldi um það bil þriðja hvern mann í landinu árið 1707, fækkaði leigukúgildunum hér niður i sex og hálft.[110] Leigur af innstæðukúgildunum voru yfirleitt borgaðar með smjöri og var lögleiga tíu smjörkíló fyrir hvert kúgildi.[111] Á árunum upp úr 1700 urðu Botnsbændur að fara á ári hverju vestur að Mýrum í Dýrafirði með smjörið sem gjalda bar í leigurnar en landsdrottinn þeirra var þá Ástríður Jónsdóttir sem átti heima á Mýrum.[112]

Þegar leið á átjándu öldina fækkaði innstæðukúgildunum hér í Botni niður í fimm,[113] og um miðbik nítjándu aldar var sú tala óbreytt.[114] Árið 1916 fylgdu jörðinni enn 24 leiguær eða sem svaraði fjórum kúgildum.[115]

Hér hefur áður verið gerð nokkur grein fyrir fjölda býla í Botni á 18. og 19. öld (sjá hér bls. 1-2) og við hæfi að birta einnig nokkur dæmi um fjölda búfjár á því tímaskeiði. Verður þá að byggja á opinberum skýrslum en búast má við að sauðféð hafi býsna oft verið svolítið fleira en þar kemur fram. Tafla I[116] sýnir búfjártöluna sem upp er gefin í hinum opinberu heimildum.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Tafla I

 

Ár       Tala býla     Kýr     Aðrir nautgripir       Ær       Aðrar sauðkindur     Hross

1710           3          11                  5                  65                75                  6

1791           3            4                  1                  42                 5                  2

1821           4            5                  0                  32                 6                  3

1830           2            5                  1                  28                20                  2

1840           4            5                  1                  59                16                  4

1850           3            6                  1                  76                66                  2

1860           2            5                  2                  38                26                  5

1870           2            3                  1                  43                42                  4

1880           2            5                  1                  58                60                  6

1891           4            3                  2                  57                50                  4

1900           2            2                  1                  46                16                  3

 

Í tíundarskýrslu frá árinu 1891 eru bændurnir í Botni taldir vera fjórir eins og sjá má í töflunni, en prestur flokkar einn þeirra aftur á móti sem húsmann og telur býlin vera þrjú (sbr. hér bls. 2).[117] Fram skal tekið að við gerð töflunnar var kálfum, lömbum og folöldum sleppt en fénaður húsfólksins, sem oftast var aðeins örfáar kindur, jafnan talinn með. Í dálknum sem sýnir fjölda býla eru heimili húsmannanna, sem sumir voru reyndar einhleypir, hins vegar ekki talin með.

Við skoðun töflunnar vekur athygli hversu mjög búfénu fækkaði milli áranna 1710 og 1791, nautgripum úr 16 í 5, sauðkindum úr 140 í 47 og hrossum úr 6 í 2. Á nítjándu öld virðist bústærð bændanna í Botni jafnan hafa verið langtum minni en verið hafði 1710. Við fjárböðun, sem hreppsnefndin stóð fyrir í marsmánuði árið 1897, reyndust sauðkindurnar í Botni að vísu vera talsvert fleiri en upp er gefið í búnaðarskýrslu frá árinu 1880 og tíundarskýrslu frá 1891 eða 153 á móti 118 og 107 í fyrrnefndum skýrslum.[118] Samanburður á þessum tölum sýnir þó ekki að miklum fjölda fjár hafi verið stungið undan því ætla má að lömb séu talin með í böðunarskýrslunni en alls ekki í skýrslunum frá 1880 og 1891 sem hér voru nefndar.

Árið 1762 virðist enginn bátur frá Botni hafa verið gerður út á hinni hefðbundnu vorvertíð (sjá hér Suðureyrarhreppur, inngangskafli) og árið 1791 áttu bændurnir í Botni engan bát.[119] Engu að síður verður að telja líklegt að sumir þeirra sem hér bjuggu á átjándu öld hafi átt bát um lengri eða skemmri tíma og við jarðamat, sem fram fór á fyrstu árum nítjándu aldar, var talið til kosta að héðan gætu menn róið til fiskjar úr heimavör að sumrinu (sjá hér bls. 5-6).

Skýrslur sýna að á nítjándu öld áttu Botnsbændur yfirleitt einn eða fleiri báta. Árið 1821 og 1830 var hér einn bátur, sexæringur eða fjögra manna far.[120] Árið 1840 áttu bændurnir í Botni tvo slíka báta og svo einn minni.[121] Árin 1850 og 1860 áttu þeir einn sexæring eða fjögra manna far og tvo minni báta.[122] Árið 1870 voru til tveir bátar hér í Botni en báðir litlir, tveggja eða þriggja manna för.[123] Árin 1880, 1891 og 1900 var hér jafnan sexæringur eða fjögra manna far en ef marka má hinar opinberu skýrslur áttu Botnsmenn þá engan minni bát.[124]

Á vorin reru bændur í Botni yfirleitt frá Suðureyrarmölum (sjá Suðureyrarhreppur, inngangskafli og Suðureyri) og kunnugt er að Jóhannes Hannesson, bóndi í Botni, átti þar verbúð á árunum kringum aldamótin 1900 (sjá hér Suðureyri). Fullvíst má telja að ýmsir hinna fyrri Botnsbænda hafi einnig átt búð þar á Mölunum. Í þeirri veiðistöð héldu innsveitarmenn yfirleitt til í verbúðum á vorin og stundum líka á haustin, en gengu til skipa sinna að vetrinum því þá voru róðrar stopulir (sjá hér Suðureyri).

Jarðarinnar Botns í Súgandafirði er fyrst getið í kaupbréfi frá árinu 1449 en 16. febrúar á því ári seldi Bessi Einarsson, sýslumaður Húnvetninga, Einari Þorleifssyni hirðstjóra nokkrar jarðir í Ísafjarðarsýslu og var Botn ein þessara jarða.[125] Bessi er því fyrsti eigandi jarðarinnar, sem um er kunnugt, en hann mun hafa búið á Silfrastöðum í Blönduhlíð og á Reykjum í Tungusveit í Skagafirði þó að hann færi með sýsluvöld í Húnaþingi.[126] Í kaupbréfinu frá 1449 er tekið fram að Bessi selji Einari hirðstjóra jarðirnar í Ísafjarðarsýslu með samþykki konu sinnar, Sæunnar Guðnadóttur,[127] sem gæti bent til þess að þær hafi verið hennar heimanfylgja. Ein jarðanna sem Bessi seldi Einari 16. febrúar 1449 var Hóll í Bolungavík[128] en Sæunn, kona Bessa, var dóttir Guðna Oddssonar, auðugs bónda, sem lengi hafði búið á Hóli.[129] Sú staðreynd eykur mjög líkur á því að Bessi hafi fengið þessar jarðir með konunni og þær hafi áður verið í eigu Guðna Oddssonar á Hóli en hann andaðist árið 1431.[130]

Þegar Einar Þorleifsson hirðstjóri keypti Hól í Bolungavík og Botn í Súgandafirði árið 1449 átti hann aðeins þrjú ár ólifuð.[131] Hann var ókvæntur og átti engin skilgetin börn.[132] Móðir hans, Kristín Björnsdóttir í Vatnsfirði við Djúp, mun því að líkindum hafa erft mikið af eignum þessa sonar síns, og fullvíst er að hún átti Botn í Súgandafirði er hún andaðist árið 1458.[133] Kristín var dóttir Björns Einarssonar Jórsalafara en eiginmaður hennar var Þorleifur Árnason sýslumaður sem andaðist árið 1433.[134] Hún var ein allra auðugasta kona landsins og tíðum nefnd Vatnsfjarðar-Kristín.

Eitt barna Vatnsfjarðar-Kristínar var Solveig Þorleifsdóttir er giftist Ormi Loftssyni, sem um skeið var hirðstjóri, en hann var sonur Lofts ríka Guttormssonar á Möðruvöllum í Eyjafirði.[135]Að móður sinni látinni eignaðist Solveig Botn í Súgandafirði og átti hún jörðina til æviloka.[136] Er Solveig eignaðist Botn var hún skilin við eiginmann sinn og bjó með Sigmundi presti Steinþórssyni á Miklabæ í Skagafirði en seinna sat hún lengi í Víðidalstungu.[137] Í Vestfirðingasögu sinni hefur Arnór Sigurjónsson ritað fróðlegan þátt um þessa systur Björns ríka Þorleifssonar á Skarði og verður hér látið nægja að vísa í þau skrif.[138]

Við andlát Solveigar Þorleifsdóttur árið 1479 erfði Stefán Loftsson, sonarsonur hennar, Botn í Súgandafirði.[139] Faðir hans var Loftur Ormsson riddari sem bjó á Staðarhóli í Saurbæ og dó árið 1476,[140] þremur árum á undan móður sinni. Stefán Loftsson frá Staðarhóli mun hafa orðið skammlífur[141] og óljóst er hver eignaðist Botn að honum látnum.

Vitneskja um eigendur jarðarinnar á 16. öld og fyrri hluta 17. aldar liggur reyndar ekki á lausu en í heimild frá árinu 1658 sést að hún var þá komin í eigu séra Jóns Jónssonar.[142] Ætla má að um sé að ræða séra Jón Jónsson sem þá var prestur í Holti í Önundarfirði[143] en hann var bróðursonur Brynjólfs biskups Sveinssonar. Einkabarn séra Jóns Jónssonar og Halldóru Jónsdóttur, konu hans, var Ástríður er giftist Magnúsi Jónssyni í Vigur sem nefndur var Magnús digri.[144]

Ástríður skildi að lögum við eiginmann sinn árið 1675 og settist þá eða skömmu síðar að á Mýrum í Dýrafirði (sjá hér Mýrar). Hún mun hafa erft Botn við andlát foreldra sinna, prestshjónanna í Holti, og var sannanlega eigandi jarðarinnar árið 1695.[145] Jörð þessa í Súgandafirði átti Ástríður enn árið 1710 en í Jarðabókinni frá því ári er eigandinn sagður vera Ástríður Jónsdóttir við Dýrafjörð.[146]

Annar tveggja höfunda hinnar miklu Jarðabókar frá fyrstu árum 18. aldar, Páll Vídalín lögmaður, var reyndar tengdasonur Ástríðar á Mýrum því hann átti dóttur hennar, Þorbjörgu Magnúsdóttur, fyrir konu.[147] Ástríður á Mýrum eignaðist tvær dætur með Magnúsi digra og engin önnur börn.[148] Við andlát Ástríðar árið 1719 munu Þorbjörg dóttir hennar og Páll lögmaður Vídalín hafa erft Botn í Súgandafirði og að Páli látnum hafði tengdasonur þessara hjóna sannanlega umráð yfir Botni.[149]

Þau Páll lögmaður og Þorbjörg kona hans bjuggu í Víðidalstungu í Húnaþingi, en þá miklu jörð veðsetti hann til tryggingar fyrir peningaláni er hann fékk hjá Árna Magnússyni, prófessor og handritasafnara,[150] samverkamanni sínum við gerð Jarðabókarinnar. Páll andaðist árið 1727[151] og var þá ekki búinn að borga lánið. Svo virðist sem Árni hafi ekki gengið hart eftir greiðslunni hjá erfingjum Páls, enda um langan veg að fara frá Kaupinhafn að Víðidalstungu eða Þingeyrum. Við andlát Árna 7. janúar 1730 var lánið enn ógreitt[152] en hann hafði arfleitt bróðurdóttur sína, Ástríði Magnúsdóttur frá Hvammi í Dölum, að öllum eignum sínum á Íslandi.[153] Sumarið 1730 voru þessi gömlu skuldamál gerð upp á Alþingi en Bjarni Halldórsson, sýslumaður á Þingeyrum, sem var tengdasonur Páls Vídalín, lét þá af hendi við umboðsmann Ástríðar þrjár jarðir á Vestfjörðum og nokkurt lausafé en fékk veðböndunum létt af Víðidalstungu á móti.[154] Stærsta jörðin sem umboðsmaður Ástríðar tók við úr hendi Bjarna sýslumanns var Botn í Súgandafirði, 24 hundruð, en hinar tvær voru Eyri í Skötufirði, 18 hundruð, og Blámýrar í Laugardal við Djúp, 12 hundruð.[155] Með þessum hætti tengdist Botn viðskiptum höfunda Jarðabókarinnar, samverkamannanna Árna Magnússonar og Páls Vídalín.

Ástríður Magnúsdóttir frá Hvammi, sem síðar varð prestsfrú í Hjarðarholti í Dölum,[156] átti Botn aðeins í eitt ár því fjárhaldsmaður hennar, Ormur Daðason Dalasýslumaður, seldi þessa sömu jörð fyrir hönd meyjarinnar á Alþingi sumarið 1731.[157]

Sá sem þá keypti Botn var Markús Bergsson, sýslumaður i Ögri, en fyrir jörðina, ásamt fimm og hálfu kúgildi er henni fylgdi, varð hann að greiða 163 ríkisdali og 48 skildinga.[158] Markús sýslumaður átti jörðina enn árið 1736 sem sjá má á því að þá veðsetti hann hana til tryggingar greiðslu, er honum bar að standa skil á við fjárhirslu konungs, fyrir Ísafjarðarsýslu og meðfylgjandi umboðsjarða árlega afgift.[159] Að þeirrar tíðar hætti hafði Markús sýsluna og kóngsjarðirnar sem henni fylgdu að léni og fyrir þetta lén þurfti hann að greiða kóngi ákveðið gjald á hverju ári.

Markús Bergsson andaðist vorið 1741[160] og þá mun Eggert sonur hans, er seinna fór utan og gerðist hermaður,[161] hafa orðið eigandi að Botni. Þann 6. ágúst 1746 seldi hann jörðina með fimm kúgildum fyrir 135 ríkisdali[162] og hafði verð hennar því lækkað um 17% á þeim fimmtán árum sem hún var í eigu Ögurfeðga.

Í Alþingisbókinni frá sumrinu 1746 sést að sá sem keypti Botn af Eggerti Markússyni hét Ólafur Jónsson.[163] Mjög líklegt má telja að kaupandinn hafi verið Ólafur Jónsson, lögréttumaður og lögsagnari á Eyri í Seyðisfirði við Djúp, því ljóst er að börn hans áttu þessa jörð síðar. Ólafur lögsagnari dó árið 1761.[164] Einu ári síðar er eigandi Botns sagður vera Sivert Olafssen[165] en það er danska myndin af nafninu Sigurður Ólafsson. Sterkar líkur benda til þess að þarna sé um að ræða Sigurð Ólafsson, er þá var nýlega sestur að búi í Ögri, en hann var sonur Ólafs lögsagnara á Eyri.[166] Eins og fyrr var nefnt dó Ólafur Jónsson, lögsagnari á Eyri, árið 1761 og má vera að ekki hafi verið búið að skipta dánarbúi hans þegar manntal var tekið árið 1762 en í því er Sigurður Ólafsson (Sivert Olafssen) talinn eigandi Botns. Jörðin gæti því hafa verið eign dánarbúsins og Sigurður skrifaður fyrir því. Fullvíst er að dóttir Ólafs lögsagnara á Eyri og eiginmaður annarrar dóttur hans, sem þá var látin, áttu Botn í Súgandafirði árið 1805[167] (sbr. einnig Ytri-Hjarðardalur). Sú staðreynd bendir eindregið til þess að Ólafur sá Jónsson sem keypti Botn árið 1746 hafi verið Ólafur lögsagnari á Eyri.

Dóttir Ólafs lögsagnara og tengdasonur, sem áttu Botn árið 1805, voru þau Solveig Ólafsdóttir, prestsekkja á Bíldudal, og séra Jón Sigurðsson á Rafnseyri.[168] Solveig hafði verið gift séra Jóni Sigurðssyni, sem var prestur í Holti í Önundarfirði frá 1783 til 1796, en séra Jón Sigurðsson á Rafnseyri hafði verið kvæntur systur Solveigar, Ingibjörgu Ólafsdóttur, sem andaðist árið 1799.[169] Þær systur, Solveig og Ingibjörg Ólafsdætur frá Eyri, voru báðar ógiftar er faðir þeirra andaðist árið 1761 en giftust nýnefndum prestum 1771 og 1775.[170] Líklegt er að erfðahlut sinn eftir foreldrana hafi þær fengið að heimanfylgju er þær gengu í hjónaband, þar á meðal sína hálflenduna í Botni hvor þeirra.

Solveig Ólafsdóttir andaðist 24. október 1805[171] en hið eina af börnum hennar sem upp komst var Jarþrúður Jónsdóttir sem fæddist 8. maí 1776.[172] Jarþrúður var því einkaerfingi móður sinnar. Eiginmaður Jarþrúðar var Bogi Benediktsson frá Staðarfelli í Dölum, sem árið 1805 var verslunarstjóri á Bíldudal en síðar í Stykkishólmi og að lokum bóndi og mikilvirkur fræðimaður á Staðarfelli í Dölum.[173] Vorið 1814 seldi Bogi hálflendu þeirra hjóna hér í Botni Örnólfi Snæbjörnssyni, bónda á Suðureyri í Súgandafirði.[174] Verðið fyrir hálflenduna, tólf hundruð, greiddi Örnólfur í tvennu lagi. Fyrir einn fjórða part úr jörðinni greiddi hann 96 spesíur en fyrir annan fjórða part 114 ríkisdali í smápeningum[175] og mun þá átt við kúrantmynt.[176] Með í þessum kaupum fylgdu líka 15 leiguær en fyrir þær lofaði Örnólfur að greiða 24 spesíur að þremur árum liðnum og var sú upphæð ekki innifalin í jarðarverðinu.[177]

Hálflendu sína í Botni átti Örnólfur á Suðureyri til dauðadags en hann andaðist haustið 1825 (sjá hér Suðureyri). Eiginkona Örnólfs var Elín Illugadóttir og við skipti á dánarbúi hans vorið 1826 fékk hún meðal annars í sinn hlut fimm jarðarhundruð hér í Botni.[178] Hin sjö hundruðin, sem Örnólfur hafði átt í þessari sömu jörð, skiptust jafnt á milli tveggja dætra þeirra hjóna, Guðrúnar og Hólmfríðar.[179] Við þessi erfðaskipti var hálflendan, sem Örnólfur hafði átt í Botni, virt á 336 ríkisdali (sjá hér Suðureyri) svo ætla má að öll jörðin hafi þá verið talin 672ja ríkisdala virði.

Á árunum 1826-1840 mun Elín hafa látið hálft annað jarðarhundrað úr þessari jörð af hendi við börn sín því þegar hún andaðist vorið 1840 var jarðeign hennar í Botni þrjú og hálft hundrað.[180] Vitað er að Hólmfríður Örnólfsdóttir, sem var yngsta barn Elínar, átti ári áður en móðir hennar andaðist, fjögur og hálft hundrað í jörð hér í Botni,[181] einu hundraði meira en hún fékk í föðurarf. Hólmfríður var þá unglingur og var Össur Magnússon í Bæ fenginn til að gerast fjárhaldsmaður hennar.[182] Saman munu þær systur, Hólmfríður og Guðrún Örnólfsdætur, hafa átt hálfa jörðina í Botni eða því sem næst því Guðrún erfði þrjú og hálft hundrað eftir föður sinn vorið 1826, eins og hér hefur áður verið nefnt, og við uppgjör á dánarbúi móður þeirra sumarið 1840 bættist þrjú og hálft hundrað við þessa eign hennar.[183]

Guðrún Örnólfsdóttir og sambýlismaður hennar, Sigurður Sigurðsson, er hún giftist síðar, hófu búskap á jarðarparti hér í Botni vorið 1826,[184] og munu hafa verið fyrstu ábúendurnir hér um mjög langt skeið sem unnt var að flokka með sjálfseignarbændum þó að eignin væri lítil. Þau Sigurður og Guðrún bjuggu í Botni á annan áratug (sjá hér bls. 40-44) og bjó hún á þriðjungi úr jörðinni haustið 1837, þá nýlega orðin ekkja.[185] Tveimur árum síðar gafst hún upp á búskapnum[186] en bróðir hennar, Árni Örnólfsson, fór að búa hér í Botni vorið 1840 (sjá hér Fremri-Vatnadalur) sama vor og móðir þeirra andaðist, en aðeins á fjórum hundruðum.[187]Árni varð skammlífur því hann dó haustið 1841 (sjá hér Fremri-Vatnadalur) en ekkja hans, Sigurfljóð Guðmundsdóttir, bjó áfram í Botni í nokkur ár.[188]

Hér var áður frá því greint að systir Árna, Guðrún Örnólfsdóttir, átti sjö hundruð í Botni haustið 1840 og hafði fengið þau í arf eftir foreldra sína. Ein af dætrum Guðrúnar var Ásdís Sigurðardóttir er giftist Sæmundi Einarssyni og bjó með honum í kaupstaðnum á Ísafirði þar sem Sæmundur var formaður á eigin báti og átti í eitt ár sæti í bæjarstjórn.[189] Um sjötugsaldur var Guðrún sest að hjá þessari dóttur sinni og hennar manni[190] og ekki ólíklegt að hún hafi lagt eignarhlut sinn hér í Botni á borð með sér. Fullvíst er að Sæmundur, tengdasonur Guðrúnar, seldi þessi sjö jarðarhundruð 22. júlí 1868 V.T.Thostrup, verslunarfulltrúa í Neðstakaupstað á Ísafirði.[191]

Hér hefur nú verið sýnt fram á hverjir voru helstu eigendur annarrar hálflendunnar í Botni á fyrrri hluta 19. aldar og allt fram undir 1870. Hin hálflendan var árið 1805 í eigu séra Jóns Sigurðssonar á Rafnseyri, eins og hér hefur áður verið nefnt. Þau tólf hundruð mun séra Jón hafa fengið með konu sinni, Ingibjörgu Ólafsdóttur frá Eyri í Seyðisfirði (sjá hér bls. 15), sem andaðist árið 1799. Jón prestur lifði til 1821[192] og mun hafa átt þennan jarðarpart hér í Botni til dauðadags. Sú staðreynd að sonur hans og tengdasonur áttu báðir einhver hundruð úr þessari sömu jörð fáum áratugum síðar bendir eindregið til þess að svo hafi verið. Séra Sigurður Jónsson tók við prestsembætti af föður sínum á Rafnseyri árið 1821 og var þar sóknarprestur í 30 ár en áður aðstoðarprestur.[193] Þann 20. júní 1843 keypti hann 3 hundruð úr Botni af mági sínum, Benedikt Gabríel Jónssyni, er þá bjó á Kirkjubóli í Skutulsfirði.[194] Fyrir þennan jarðarpart greiddi séra Sigurður 48 spesíur,[195] það er 96 ríkisdali.

Benedikt Gabríel,  sem seldi séra Sigurði hundruðin þrú í Botni, var kvæntur Helgu Jónsdóttur, systur hans,[196] og má telja mjög líklegt að Helga hafi fengið þau í arf eftir föður sinn. Nýnefndur mágur prestsins á Rafnseyri hafði áður búið á Rauðsstöðum í Arnarfirði og í Reykjarfirði þar og var víðkunnur galdramaður (sjá hér Rauðsstaðir).

Ekki er alveg ljóst hvað séra Sigurður á Rafnseyri átti mörg hundruð í Botni er hann andaðist hjá Margréti dóttur sinni á Steinanesi árið 1855 en líklegast er að það hafi verið hálf jörðin. Þórdís Jónsdóttir, ekkja séra Sigurðar, dó sjö árum síðar, 22. júlí 1862,[197] og þá fyrst komst á dagskrá að skipta dánarbúi þeirra hjóna. Börn þeirra voru sem alkunnugt er þrjú, Margrét Sigurðardóttir, húsfreyja á Steinanesi í Suðurfjörðum Arnarfjarðar, Jens Sigurðsson, kennari og síðast rektor lærða skólans í Reykjavík, og Jón Sigurðsson, skjalavörður og alþingismaður í Kaupmannahöfn, sem við nefnum Jón forseta.[198]

Þann 30. ágúst 1862 ritaði Margrét Sigurðardóttir á Steinanesi bróður sínum í Kaupmannahöfn, Jóni forseta, bréf og segir þar meðal annars þetta:

 

Það er nú þér í fréttum að segja að ég og börnin og allir eru hér ósjúkir nú sem stendur en lífsglas móður okkar út rann þann 28. júlí. Þá greip hana sótt sem hér var þá að geisa en öll skynsemi, mál og greind var með henni fram að andláti og einlægt vildi hún ég læsi fyrir sig hann Munster [rétt J.P. Mynster – K.Ó.] þangað til síðasta daginn. … Nú er meira að tala við þig sem er um jarðirnar okkar systkinanna. Ekki verð ég sú sem get keypt ukkar part því ég hefi ekki þá peninga, þó minna væri. Jens hefur slegið í stramma við mig að hann ætlaði að pantsetja Arnardalinn fyrir húsi sem hann hefur keypt í Reykjavík en það er nú dýrasta jörðin en hann á víst eftir að spyrja þig að því en Botnshundruðin i Súgandafirði eru að sönnu fullgóð jörð en það er ekki gott að fá þau byggð nema með hinum partinum sem aðrir eiga og þriðja er Gljúfrá sem þér tilheyrir í rauninni.[199]

 

Þetta bréf Margrétar á Steinanesi sýnir að við andlát Þórdísar Jónsdóttur, gömlu prestsfrúarinnar frá Rafnseyri, sumarið 1862 hafa börn hennar, þau Jón forseti, Jens og Margrét, fengið tvær jarðeignir í arf, aðra í Arnardal við Skutulsfjörð og hina hér í Botni. Tíu hundruð úr jörðinni Gljúfrá í Arnarfirði hafði Jón hins vegar eignast miklu fyrr og þau nægðu til að tryggja honum kjörgengi er kosið var til Alþingis í fyrsta sinn árið 1844 (sjá hér Gljúfrá).

Í Neðri-Arnardal höfðu prestshjónin á Rafnseyri, séra Sigurður Jónsson og Þórdís kona hans, átt a.m.k. 12 hundruð[200] en um fjölda hundraðanna hér í Botni ríkir dálítil óvissa. Þó er líklegast að þau hafi verið tólf því séra Jón Sigurðsson á Rafnseyri, afi Jóns forseta, var á sínum tíma annar tveggja eigenda Botns og virðist hafa átt hálfa jörðina (sjá hér bls. 15).

Jarðeignir foreldra sinna í Arnardal og hér í Botni áttu systkinin þrjú frá Rafnseyri saman í þó nokkur ár. Milli þeirra varð að samkomulagi að Jens, sem var að kaupa sér hús í Reykjavík, fengi að veðsetja Neðri-Arnardal en Margrét nyti jarðarafgjaldsins frá viðkomandi leiguliðum hér í Botni og mun Jón forseti hafa stungið upp á þeirri tilhögun.[201]

Í bréfi sem Margrét á Steinanesi skrifaði Jóni haustið 1863 segist hún hafa boðið Jens bróður þeirra hundruðin í Botni en bætir síðan við:

 

… en þú hafðir sagt honum að láta mig hafa afgjaldið af þeim en ég get ekki launað honum það nema að láta hann ekki borga með í öðru það sem maðurinn minn lánaði honum. En afgjaldinu verð ég hjartans fegin meðan ég er að flækjast við þennan búskap þó bágt sé að ná því út fyrir mig því þeir gjöra sér að skyldu að draga mig á því og pretta á milli.[202]

 

Orðin sem hér hefur verið vitnað til úr bréfum Margrétar á Steinanesi sýna, svo ekki verður um villst, að Jón forseti er einn hinna fyrri eigenda Botns en jarðir sem hægt er að skreyta með því flaggi munu aðeins vera fjórar, það er að segja þessar þrjár, sem hér voru nefndar, og svo Auðkúla í Arnarfirði (sjá hér Gljúfrá).

Fullvíst er að þau Rafnseyrarsystkin áttu jarðarpart sinn hér í Botni enn sumarið 1868[203] en líklega hafa þau selt hann mjög skömmu síðar. Kaupandinn mun að líkindum hafa verið séra Stefán P. Stephensen, prófastur í Holti, en skjalfest er að hann seldi Brynjólfi Jónssyni, bónda og hreppstjóra, í Bæ í Súgandafirði hálfan Botn, 12 hundruð, 24. júlí 1871.[204] Með fylgdu tvö og hálft kúgildi og öll tilheyrandi jarðarhús en kaupverðið var 660 ríkisdalir.[205] Nær fullvíst má telja að það hafi verið neðri bærinn hér í Botni sem fylgdi þessari hálflendu því að í honum settust hjónin Tómas Eiríksson og Málfríður Guðmundsdóttir að er þau hófu búskap á eigin jarðnæði í Botni vorið 1882 (sbr. hér bls. 54-55 og 79-80)[206] en fyrri eiginmaður Málfríðar hafði verið nýnefndur Brynjólfur Jónsson sem drukknaði 1873 (sjá hér Bær).

Röksemdir, sem hér er gerð grein fyrir á öðrum stað, benda til þess að efri bærinn í Botni hafi fylgt hálflendunni sem Örnólfur Snæbjörnsson á Suðureyri átti (sjá hér bls. 16-17 og 79-81) og síðan niðjar hans, samfellt eða með litlum hléum, fram á tuttugustu öld en síðastur í þeirri röð var Kristján Sigurðsson, bóndi á Norðureyri (sjá hér bls. 66-67, 79-80 og Norðureyri). Séu þau rök tekin gild ætti Rafnseyrarfólk að hafa átt neðri bæinn og hálflenduna sem hann fylgdi, þá sömu og séra Stefán seldi Brynjólfi í Bæ.

Málfríður Guðmundsdóttir, sem hér var nefnd, og hennar fjölskylda átti hér enn allmörg jarðarhundruð á árunum kringum aldamótin 1900. Árið 1899 var Magnús Hjaltason vinnumaður í Botni um nokkurt skeið og segir í dagbók sinni frá því ári að Tómas aukapóstur Eiríksson og kona hans, Málfríður Guðmundsdóttir, eigi hér 9 jarðarhundruð.[207] Valdimar Þorvaldsson, sem mundi líka eftir Tómasi, segir hins vegar að hann hafi átt hálfa jörðina, það er 12 hundruð.[208] Í fylgiskjölum manntalsins sem tekið var árið 1901 eru eigendur Botns sagðir vera Jón Brynjólfsson og fleiri.[209] Þar mun átt við Jón Brynjólfsson, skipstjóra á Ísafirði, son Málfríðar Guðmundsdóttur og fyrri eiginmanns hennar, Brynjólfs Jónssonar í Bæ (sbr. hér Bær).[210]

Ljóst virðist að hálflendan sem Brynjólfur Jónsson í Bæ eignaðist árið 1871 hafi verið sá partur úr jörðinni sem fylgdi neðri bænum hér í Botni því Tómas Eiríksson og Málfríður bjuggu í honum[211] og á þeim jarðarparti bjó seinna Jóhannes Hannesson.[212] Þennan jarðarpart mun Guðmundur Halldórsson hafa keypt á árunum um eða upp úr 1910 því hann bjó þá í neðri bænum hér í Botni (sjá hér Firðir og fólk 1900-1999, 446-448) og er í heimild frá árinu 1915 sagður vera óðalsbóndi.[213]

Árið 1875 fóru hjónin Sigurður Lárentíusson og Sigríður Árnadóttir að búa hér í Botni en Sigríður var sonardóttir Örnólfs ríka Snæbjörnssonar sem fyrr var nefndur (sjá hér bls. 44 og 51-52). Þremur árum síðar áttu nýnefnd hjón sannanlega part úr jörðinni því 19. ágúst 1878 veðsetti Sigurður 5 jarðarhundruð sem þau áttu þá í Botni.[214] Sigurður dó árið 1883 og átti þá hálfa jörðina, tólf hundruð.[215] Líklegt er að hann hafi eignast alla hálflenduna eigi síðar en 1878 og synir hans, Steindór og Kristján, áttu hér a.m.k. 9 hundruð á árunum kringum aldamótin 1900.[216]

Hundruðin sem Sigurður Lárentíusson eignaðist í Botni munu áður hafa verið í eigu Örnólfs Snæbjörnssonar á Suðureyri og erfingja hans, en minnt skal á að tengdasonur einnar dóttur Örnólfs seldi dönskum verslunarfulltrúa á Ísafirði sjö þessara hundraða árið 1868 (sjá hér bls. 17).

Af því sem hér hefur verið ritað má ráða að á síðasta fjórðungi 19. aldar hafi önnur hálflendan í Botni jafnan verið í eigu Málfríðar Guðmundsdóttur og hennar fjölskyldu en hin í eigu Sigurðar Lárentíussonar og hans niðja, a.m.k. frá 1878. Guðmundur Ásgrímsson á Gelti var reyndar umráðamaður yfir nokkrum jarðarhundruðum í Botni á árunum kringum 1890[217] en skýringin á því mun vera sú að hann var þá fjárhaldsmaður eins eða fleiri af ómyndugum börnum Sigurðar Lárentíussonar sem misst höfðu foreldra sína árið 1883 (sbr. hér bls. 52-53 og 56-58).

Sumarið 1879 gáfu hjónin Sigurður Lárentíusson og Sigríður Árnadóttir börnum sínum, átta að tölu, ýmsar jarðeignir samtals nær 19 hundruð að fornu mati.[218] Þar í voru 3 hundruð úr Botni.[219] Gjafabréfinu var þinglýst[220] en skýring á þessari gjöf liggur ekki í augum uppi því bæði hjónin voru þá enn innan við fimmtugt og öll börnin á ungum aldri.[221] Eitt þessara barna var Steindór Sigurðsson er seinna varð bóndi í Botni og átti 6 hundruð í jörðinni þegar eignir hans voru boðnar upp árið 1899 (sjá hér bls. 66-77). Kristján Sigurðsson, bróðir Steindórs, keypti þá þann part.[222] Árið 1916 var Kristján bóndi á Norðureyri og átti þá 9 hundruð í Botni.[223] Á þeim hundruðum bjó þá frændi hans, Guðmundur Pálmason, en þeir voru bræðrasynir.[224] Vitað er að Guðmundur Pálmason bjó alla sína búskapartíð í Botni í efri bænum (sjá Firðir og fólk 1900-1999, 446-448), svo ætla má að sá bær hafi fylgt jarðarpartinum sem Sigurður Lárentíusson og synir hans eignuðust.

Árið 1916 voru eigendur jarðarinnar þrír, auk Kristjáns Sigurðssonar þeir Jóhann Þórðarson á Suðureyri og Guðmundur Halldórsson í Botni sem fyrr var nefndur.[225] Jóhann, sem áður hafði lengi verið ráðsmaður í Selárdal, átti 3 hundruð[226] en Guðmundur átti 12 hundruð.[227] Hann var þá bóndi í Botni með 15 hundruð til ábúðar[228] og bjó í neðri bænum (sjá Firðir og fólk 1900-1999, 446-448). Eiginkona Guðmundar, Guðfinna Daníelsdóttir, hóf búskap í Botni árið 1904 og tók þá við af Jóhannesi Hannessyni[229] sem verið hafði leiguliði.

Nær allir bændurnir sem bjuggu í Botni á 18. og 19. öld voru leiguliðar og má telja líklegt að svo hafi einnig verið á fyrri tímum. Nöfn þeirra sem bjuggu á jörðinni fyrir 1700 eru nær öll óþekkt en í munnmælum hefur verið haft að landnámsmaðurinn Hallvarður súgandi hafi reist bæ sinn hér.[230] Um það hvort svo hafi verið liggur þó engin marktæk vitneskja fyrir en hér er á öðrum stað gerð grein fyrir frásögn Landnámabókar af landnámi í Súgandafirði (sjá hér Suðureyrarhreppur, inngangskafli).

 

***

Fyrsti heimamaðurinn í Botni, sem sögur fara af, er Guðmundur Þórðarson sem uppi var á 17. öld og talinn göldróttur. Í Eyrarannál segir m.a. svo frá atburðum ársins 1673:

 

Borinn galdraáburður á Guðmund Þórðarson í Botni í Súgandafirði af Lénharði Jónssyni, áttræðum, og hans syni Sveini, er legið hefur máttlaus og mjög veikur heilt ár en var þó áður af þess háttar verknaði ryktaður um veikleika Þórunnar, konu séra Björns Þorleifssonar. Dæmt málið til Alþingis, hvort Gvendi skyldi eiður dæmast þar engin líkindi fylgdu áburðinum. Honum dæmdur á Alþingi tylftareiður, hvern hann sór síðar.[231]

 

Annállinn, sem hér er vitnað til, er ritaður af Magnúsi Magnússyni, sýslumanni á Eyri í Seyðisfirði við Djúp, er bjó þar frá 1653 til 1704.[232] Skjallegar heimildir sýna að Lénharður Jónsson, sem kærði Guðmund í Botni fyrir galdra, var Lénharður enski er þá hafði lengi búið á Kvíanesi,[233] næsta bæ við Botn, og hér er sagt frá á öðrum stað (sjá Kvíanes). Ljóst er að feðgarnir á Kvíanesi hafa ekki verið þeir einu sem töldu Guðmund Þórðarson vera göldróttan því Magnús sýslumaður segir það orð hafa legið á að þessi sami Guðmundur hafi líka valdið veikindum Þórunnar Árnadóttur, eiginkonu séra Björns Þorleifssonar sem var prestur í Ögurþingum frá 1665 til 1679 og bjó þá á Svarfhóli í Álftafirði.[234]

Kæra Kvíanesfeðga á hendur Guðmundi var tekin fyrir á Öxarárþingi 3. júlí 1673 og varð niðurstaða lögréttunnar sú, að hinum meinta galdramanni skyldi gefinn kostur á að hreinsa sig með tylftareiði.[235] Hann þurfti því að fá tólf menn úr Súgandafirði eða næstu byggðarlögum til að sverja með sér að hann væri saklaus. Hér var um ekkert minna en lífið að tefla því næði Guðmundur ekki að koma fram eiðnum mátti búast við að sekt yrði talin sönnuð og hann færður á bál. Samkvæmt gildandi reglum máttu eiðamennirnir ekki vera nánir ættingjar eða venslamenn hins sakaða, en Guðmundur var frændmargur á heimaslóðum og gekk því illa að fá eiðamenn sem hægt væri að taka gilda. Að ári liðnu var mál hans tekið fyrir að nýju á Alþingi og þetta fært til bókar:

 

Um undanfæri Guðmundar Þórðarsonar í Ísafjarðar-sýslu sem til tals kom hér í fyrra sumar … . Auglýsti sýslu-maðurinn, Páll Torfason, sig við leitast hafa oftar en eitt sinn í næstum þremur sveitum honum eiðvætti nefna en ekki fengist utan eitt vegna mægða og skyldugleika svo sem héraðadómar um hljóða. Virðist lögmönnum og lögréttu-mönnum honum forsvaranlegt nauðsynja vegna í þeirri sveit innan sýslu málið upp setja sem hentugast má vera málinu til lykta leiðslu.[236]

 

Með þessari samþykkt lögréttu var sýslumanninum, Páli Torfasyni á Núpi í Dýrafirði, gefinn kostur á að leita eiðamanna fyrir Guðmund hvar sem væri í Ísafjarðarsýslu. Samt tókst ekki að leiða málið til skjótra lykta og var það enn óafgreitt þegar Alþingi kom saman sumarið 1675.[237] Sýslumennirnir í Ísafjarðarsýslu, þeir Páll Torfason á Núpi og Magnús Magnússon á Eyri í Seyðisfirði, voru þá enn áminntir um: … að þeir til haldi eiðvættum Guðmundar Þórðarsonar að sverja sína samvisku, hvort heldur horfa kynni Guðmundi til falls eður frelsis í greindu máli.[238]

Á fyrstu vikum ársins 1676 tókst loks að ná saman nægilega mörgum eiðamönnum, og 5. febrúar á því ári sóru þeir með Guðmundi sakleysi hans.[239] Karlinn slapp því undan eldslogunum, sem vofað höfðu yfir honum í nær þrjú ár, en svo virðist sem hann hafi staðið mjög tæpt. Sumarið 1676 gerði Páll Torfason sýslumaður lögréttumönnum á Alþingi grein fyrir úrslitum málsins  og var ákveðið að þeir sem kært höfðu karlinn Guðmund skyldu greiða honum 6 hundruð í skaðabætur og að auk 8 merkur (liðlega 3 hundruð) í sekt til fjárhirslu konungs.[240] Guðmundur í Botni var sjálfur mættur á Alþingi að þessu sinni og mun hafa borið höfuðið hátt. Kvaðst hann þar láta sér lynda þessi 6 hundruð í bætur yrðu þau borguð refjalaust.[241] Hann sneri nú vörn í sókn en örðugt reyndist að fá bæturnar greiddar því feðgarnir á Kvíanesi, sem kært höfðu Guðmund, voru báðir látnir er hér var komið sögu, þeir Lénharður enski og Sveinn sonur hans.[242]

Sveinn Lénharðsson dó barnlaus og eina barn Lénharðs, annað en Sveinn, var Guðrún sem giftist manni er hét Nikulás Brandsson.[243] Þau Guðrún Lénharðsdóttir og Nikulás eignuðust eina dóttur, sem líka hét Guðrún, og var hún barn að aldri þegar faðir hennar andaðist veturinn 1676-1677.[244] Vorið 1677 mun stúlkubarn þetta hafa verið eini niðji Lénharðar enska sem enn var á lífi. Þrír hálfbræður móður hennar voru hins vegar í fullu fjöri, þeir Sigfús, Jón og Egill Sveinssynir, sem eiginkona Lénharðar enska, Ólöf Vigfúsdóttir, hafði eignast með sínum fyrri eiginmanni, Sveini Andréssyni á Kvíanesi (sbr. hér Kvíanes).[245]

Þann 25. apríl 1677 hélt Páll Torfason sýslumaður þing á Suðureyri í Súgandafirði og kvað upp þann úrskurð að bræðurnir þrír væru fullkomnir svaramenn stúlkunnar, Guðrúnar Nikulásdóttur, hins ómynduga erfingja að eignum föður síns og afa, þeirra Nikulásar Brandssonar og Lénharðar enska.[246] Með dómi sýslumanns var þessum stjúpsonum Lénharðar því gert að greiða Guðmundi Þórðarsyni í Botni þau 6 hundruð sem úrskurðað hafði verið í lögréttu að hann ætti að fá í miskabætur frá þeim er höfðu kært hann fyrir galdra.

Ljóst er að Sveinssynir hafa tregðast við að inna bæturnar af hendi[247] en þegar Guðmundur í Botni hafði náð að hreinsa sig með tylftareiði virðast yfirvöldin hafa tekið hann upp á sína arma og sneru þá geiri sínum gegn Sigfúsi Sveinssyni á Kvíanesi, einum þriggja stjúpsona Lénharðar enska.

Áður en Guðmundur náði að koma fram tylftareiðnum höfðu verið lagðir fram falsaðir vitnisburðir um hann og var Sigfús grunaður um að hafa átt þar hlut að máli eins og sjá má í Alþingisbókinni frá 1677 en þar segir:

 

Um mál Sigfúsa Sveinssonar, sem sýslumaðurinn Páll Torfason með dómi fram bar í lögréttu, álykta lögmenn og lögréttumenn að svo prófuðu að fyrir samantekt eður völd þeirra falsvitnisburða sem um getur í héraðsdóminum tilheyri Sigfúsa Sveinssyni að vinna fullan lyrittareið hinn stærra með svoddan eiðsinntaki – að hann hafi hvorki skrifað né skrifa látið þá sömu vitnisburði, sem ósannir reyndust, viðvíkjandi kynningu Guðmundar Þórðarsonar og eigi heldur í nokkrum ráðum eður samvitund þar um verið … .[248]

 

Í Jónsbókarlögum var mælt fyrir um að lyrittaeið ættu þrír menn að sverja[249] en Sigfúsi var gert að vinna fullan lyrittareið hinn stærra og þar sem hann var ásakaður um rógburð má gera ráð fyrir að eiðamennirnir hafi átt að vera sex því að í Jónsbók stendur:

 

Svá er mælt um rógsmenn að sá maður sem hann rægir mann við konung eður biskup, jarl eður sýslumann svari slíku fyrir sem sá ætti er rægður var, ef hann væri þess sannur, nema sá er rægði sýni og hafi fyrir sér séttareið.[250]

 

Með svardaga Sigfúsar á Kvíanesi lenti allt í undandrætti því sumarið 1679 hafði hann enn ekki náð að koma fram eiðnum.[251] Ljóst er að Sigfús og hans vinir hafa verið mjög ósáttir við dóm Alþingis frá árinu 1677 í máli hans og þegar þingað var á Suðureyri 30. maí 1679 tjáði einn viðstaddra sig um dóminn með þessum orðum: Svo sem guð lifir og svo sem guð á mig get ég bevísað [sannað] hann rangan, og kvaðst sjálfur vera eitt skeini ef hann gæti það ekki.[252] Sá sem þannig mælti var Guðmundur Guðmundsson á Baulhúsum í Arnarfirði.[253]

Við að heyra þvílíkt orðbragð virðast yfirvöldin hafa gleymt Sigfúsi á Kvíanesi eða sett mál hans í salt en tóku þess í stað að eltast við Guðmund á Baulhúsum. Í Alþingisbókunum verður þess ekki vart að Sigfús hafi unnið tildæmdan eið eða verið um hann krafinn eftir 1680[254] og lifði hann þó til 1702 (sjá hér Kvíanes). En fyrir orðin sem Guðmundur á Baulhúsum mælti á Suðureyrarþingi vorið 1679 var Arnfirðingur þessi hundeltur af réttvísinni í 18 ár og að lokum hýddur 90 vandarhöggum suður við Öxará árið 1697 (sjá hér Baulhús). Líkur hafa verið leiddar að því að Guðmundur á Baulhúsum hafi verið bróðir Guðrúnar Guðmundsdóttur, eiginkonu Sigfúsar á Kvíanesi[255] en það er þó engan veginn öruggt.

Þegar Guðmundur á Baulhúsum var kaghýddur á Alþingi við Öxará sumarið 1697 var liðinn nær aldarfjórðungur frá því galdraáburður var borinn á Guðmund Þórðarson í Botni en til þeirra sakargifta átti mál Baulhúsa-Gvendar sínar rætur að rekja í nokkuð flókinni atburðarás.

Óvíst er nú hvort Guðmundur Þórðarson muni hafa verið lífs eða liðinn þegar nafni hans var strýktur 90 vandarhöggum og um þennan elsta heimamann hér í Botni, sem hægt er að nefna með nafni, er reyndar ekkert vitað nema það eitt að hann var borinn galdrasökum og náði að hreinsa sig með tylftareiði eins og hér hefur verið gerð grein fyrir. Í þeim heimildum sem hér hefur verið byggt á, Eyrarannál og Alþingisbókunum, sést ekki hvort títtnefndur Guðmundur Þórðarson i Botni hafi verið bóndi. Samt má telja mjög líklegt að svo hafi verið því maður af lægstu þrepum í þjóðfélagsstiganum hefði varla náð að tryggja sér eiðamenn og sleppa þannig við bálið.

Þegar allsherjarmanntal var tekið árið 1703 voru þeir báðir fallnir frá, Guðmundur Þórðarson í Botni og nágranni hans Sigfús Sveinsson á Kvíanesi.[256] Þá bjuggu fjórir bændur í Botni og voru allir kvæntir nema einn sem bjó með móður sinni.[257] Þessir bændur voru: Jón Þorgilsson, 40 ára, sem átti Sigríði Sigfúsdóttir fyrir konu, Grímur Steinsson, 49 ára, sem átti Vigdísi Pálssdóttur fyrir konu, Ari Einarsson, 33ja ára, sem átti Sigríði Björnsdóttur, og Jón Halldórsson, 36 ára, sem bjó með móður sinni, Þorkötlu Indriðadóttur.[258] Alls voru heimilismennirnir 27 á þessum fjórum heimilum, þar af 11 hjá Jóni Þorgilssyni.[259] Annar tveggja vinnumanna hjá honum hét Jón Snorrason og var vistráðinn að tveim pörtum en laus að 3ja parti.[260]

Vigdís Pálsdóttir, sem hér var nefnd og átti Grím Steinsson, bónda í Botni, fyrir eiginmann, mun að öllum líkindum hafa verið sonardóttir hins kunna skálds, séra Ólafs Jónssonar á Söndum, og systir Dórótheu Pálsdóttur, húsfreyju á Suðureyri[261] (sjá hér Suðureyri).

Hjá hjónunum Ara Einarssyni og Sigríði Björnsdóttur í Botni var árið 1703 móðir húsfreyjunnar, Guðrún Jónsdóttir, sem þá var 55 ára gömul, og líka hálfbróðir Sigríðar, Jón Gunnarsson, sem var 24 ára.[262] Ellefu árum fyrr, árið 1692, var nýnefnd Guðrún líka búsett í Botni og þá var henni stefnt vegna hórdómsbrots fyrir prestastefnu sem haldin var á Eyri í Skutulsfirði.[263] Þáverandi eiginmaður Guðrúnar hét Gunnar Jónsson en sá sem hún féll með Halldór Sigmundsson.[264] Á prestastefnu sem haldin var tveimur árum síðar í Holti í Önundarfirði var samþykkt að veita þeim Guðrúnu og Gunnari heimild til skilnaðar, enda var Gunnar farinn burt úr Súgandafirði og kominn í aðra sókn.[265] Til endanlegs úrskurðar var málinu þó vísað til Þórðar biskups Þorlákssonar.[266]

Theódór Árnason verkfræðingur, sem þekkir manna best til ætta Vestfirðinga á 17. og 18. öld, segir að þessi hórkona í Botni hafi verið af ætt séra Erlendar Snæbjörnssonar,[267] sem var prestur á Stað í Súgandafirði um og upp úr 1600.[268] Theódór telur sig líka kannast við Gunnar Jónsson, eiginmann Guðrúnar, og segir hann hafa verið son Jóns Brynjólfssonar sem átti 4 hundruð í Fremri-Vatnadal árið 1658.[269] Kenning Theódórs er sú að það hafi svo verið þessi Gunnar Jónsson sem seldi séra Sigurði Jónssyni í Holti hundruðin fjögur í Fremri-Vatnadal 1. júní 1679[270] (sbr. hér Fremri-Vatnadalur).

Um bændurna sem bjuggu í Botni árið 1703 er nú fátt kunnugt. Svolítil vitneskja liggur þó fyrir um hjónin Jón Þorgilsson og Sigríði Sigfúsdóttur. Sigríður var dóttir Sigfúsar Sveinssonar á Kvíanesi, sem hér var nýlega nefndur (sjá hér Kvíanes), en foreldrar Jóns voru hjónin Þorgils Jónsson og Ásta Tómasdóttir.[271] Sagt er að þau hafi búið í Botni.[272] Árið 1703 var Ásta orðin ekkja og dvaldist hér hjá syni sínum og tengdadóttur, talin 71 árs gömul í manntalinu frá því ári.[273] Tvö börn hennar voru þá á lífi í Súgandafirði, Jón Þorgilsson, bóndi í Botni, og Margrét Þorgilsdóttir, húsfreyja á Suðureyri, gift Erlingi Sigfússyni, bónda þar, bróður Sigríðar húsfreyju í Botni.[274] Ásta í Botni, sem komin var á áttræðisaldur árið 1703, var dóttir séra Tómasar Þórðarsonar, prests á Stað á Snæfjallaströnd, og fyrri konu hans, Margrétar Gísladóttur, en síðari kona séra Tómasar var Margrét Þórðardóttir er nefnd var Galdra-Manga[275] og miklar sögur fóru af.[276]

Af bændunum fjórum sem bjuggu í Botni árið 1703 stóðu tveir hér enn fyrir búi sjö árum síðar, þeir Jón Þorgilsson og Grímur Steinsson, en í stað hinna tveggja var kominn Bjarni Þórðarson.[277] Jón bjó þá á 10 hundruðum en hinir tveir á sjö hundruðum hvor.[278] Árið 1710 var Jón Þorgilsson með 7 nautgripi, 55 sauðkindur, veturgamlar og eldri, 30 lömb og 2 hesta.[279] Bú hinna bændanna sem þá bjuggu í Botni voru minni (sbr. hér bls. 11).[280]

Eitt barna Jóns Þorgilssonar og Sigríðar konu hans hét Brynjólfur og var þriggja ára gamall árið 1703.[281] Um 1735 var Jón Þorgilsson farinn úr Botni og bjó þá á Suðureyri í þríbýli á móti Brynjólfi syni sínum og Grími Teitssyni (sjá hér Suðureyri). Þessi Brynjólfur Jónsson var faðir Bjarna Brynjólfssonar sem lengi var sjálfseignarbóndi á Suðureyri og hér er sagt frá á öðrum stað (sjá hér Suðureyri).

Bændurnir sem bjuggu í Botni árið 1735 hétu Bjarni Arason, Jón Helgason og Þorvaldur Jónsson en 1753 bjuggu hér Jón Bjarnason, Jón Þorleifsson og Þorvaldur Bjarnason.[282] Um þessa búandmenn er fátt að segja því öll vitneskja um þá er af mjög skornum skammti. Allir voru þeir horfnir á braut árið 1762.[283] Þá bjuggu í Botni bændurnir Erlingur Þorgilsson, 26 ára, Hallur Sigfússon, 36 ára, og Jósep Torfason, 40 ára. Erlingur bjó seinna í Keflavík og svo lengi í Bæ (sjá hér Keflavík og Bær).[284] Þessir þrír bændur voru allir kvæntir. Auk bændanna og þeirra skylduliðs áttu tvær húskonur heima í Botni árið 1762, þær Guðrún Einarsdóttir, sem sögð er 39 ára gömul í manntalinu frá því ári, og Kristín Einarsdóttir sem þar er sögð vera 66 ára.[285] Henni fylgdi 9 ára stúlkubarn.[286]

Í manntalinu frá 1762 er ekki unnt að sjá nöfn eiginkvenna bændanna í Botni en líklegt er að Hallur Sigfússon, sem var einn þeirra, hafi átt fyrir konu Ástríði Jónsdóttur, sem fardagaárið 1785-1786 var búandi ekkja í Botni, því dóttir hennar var Guðrún Hallsdóttir, sögð 12 ára gömul í janúar 1786.[287] Þá var Ástríður sögð vera 55 ára[288] en í manntalinu frá 1762 er hin ónefnda eiginkona Halls Sigfússonar talin 30 ára.[289] Þarna skeikar aðeins tveimur árum sem er svo lítill munur að vel getur þess vegna verið um sömu manneskjuna að ræða. Hafa verður í huga að á 18. öld og reyndar einnig á 19. öldinni létu prestarnir oft nægja að tilgreina aldur fólks svona nokkurn veginn en ekki endilega hárrétt.

Hjá nýnefndri Ástríði Jónsdóttur, húsfreyju í Botni, var árið 1786 móðir hennar sem hét Kristín Einarsdóttir, þá 90 ára að aldri.[290] Allar líkur benda til að þetta sé sama Kristín Einarsdóttir og var hér húskona 1762 því aldurinn passar. Hún ætti að hafa verið fædd árið 1696 og mun vera sama Kristín Einarsdóttir og var 7 ára gömul árið 1703 hjá móður sinni, Rannveigu Jónsdóttur, búandi ekkju á Hreggstöðum á Barðaströnd.[291]

Séra Þorsteinn Þórðarson á Stað segir árið 1788 um Kristínu gömlu í Botni að hún sé guðrækin og vel fróð.[292] Þessi aldraða kona dó hér í Botni 29. mars 1792 og var þá, að sögn prestsins, 96 ára.[293] Ljóst er að séra Þorsteini hefur fundist kerlingin merkileg eða hennar hái aldur því að í prestsþjónustubókina skráir hann ekki aðeins andlátsdaginn eins og venja var heldur líka sitthvað fleira. Þar lætur hann þess getið að Kristín hafi verið guðhrædd, lifað í hjónabandi í 40 ár og verið ekkja í 37 ár.[294] Prestur segir hana hafa eignast tíu börn og tekur fram að þegar hún andaðist hafi afkomendur hennar verið orðnir 81.[295]

Ekkjan Ástríður Jónsdóttir, dóttir gömlu Kristínar, stóð fyrir búi í Botni allt til ársins 1793 eða 1794.[296] Síðustu árin sem hún var við bú var hér jafnan þríbýli og á móti henni bjuggu þá lengst þeir Þorgils Jónsson og Erlingur Sigfússon.[297] Þessir bændur voru báðir yngri en fyrrnefnd Ástríður en dóu þó báðir áður en hún hætti að búa. Þorgils mun hafa verið sonur Jóns Helgasonar sem einnig hafði búið í Botni.[298]

Þeir Þorgils og Erlingur bjuggu hér báðir í janúarmánuði árið 1786 og var Þorgils þá talinn 46 ára en Erlingur einu ári yngri.[299] Báðir kynnu þeir að hafa hafið hér búskap þó nokkru fyrr. Eiginkona Þorgils hét Helga Daðadóttir og í ársbyrjun 1786 áttu þau a.m.k. sjö börn á lífi, sex dætur og einn son.[300] Erlingur Sigfússon var líka kvæntur maður og átti fyrir konu Ástríði Guðmundsdóttir sem var um það bil níu árum eldri en hann.[301] Erlingur var frá Kvíanesi (sjá hér Kvíanes) en afi hans, sem líka hét Erlingur Sigfússon, bjó á Suðureyri um aldamótin 1700[302] (sbr. hér Suðureyri).

Þeir Þorgils Jónsson og Erlingur Sigfússon, bændur í Botni, dóu báðir um fimmtugsaldur, Þorgils árið 1790 eða í ársbyrjun 1791 og Erlingur í marsmánuði árið 1793.[303] Séra Þorsteinn Þórðarson á Stað lætur þess getið að Erlingur hafi dáið hastarlega á Botnsheiði … undir byrði af nokkrum matvælum frá Skutulsfirði.[304] Hann hefur því verið á heimleið úr kaupstaðarferð þegar kallið kom. Orðalag prestsins bendir til þess að Erlingur hafi orðið bráðkvaddur á heiðinni en ekki króknað eins og þeir sem urðu úti í stórviðrum. Í þeim efnum gat þó stundum verið mjótt á munum. Líklegt er að Erlingur hafi verið kominn skammt áleiðis yfir heiðina er hann andaðist því lík hans var flutt til greftrunar að Eyri í Skutulsfirði.[305]

Að Þorgils og Erlingi látnum fór nýtt fólk að búa hér í Botni því ekkjurnar viku báðar frá.[306] Helga Daðadóttir, sem átt hafði Þorgils bónda fyrir eiginmann, var í febrúarmánuði árið 1791 komin til Ástríðar Jónsdóttur sem þá var enn búandi ekkja í Botni[307] og hér hefur áður verið nefnd. Sat Helga þar um kyrrt næstu árin.[308] Ástríður Guðmundsdóttir, ekkja Erlings Sigfússonar, fór hins vegar að Kvíanesi með börn þeirra tvö, Sigfús og Guðrúnu, og þar voru þau enn vinnuhjú öll þrjú árið 1801.[309]

Á árunum 1790-1795 hófu þrír bændur búskap í Botni en það voru Brynjólfur Jónsson, sem tók við af Þorgils Jónssyni árið 1790, Markús Jónsson, sem tók við af Ástríði Jónsdóttur árið 1793 eða 1794, og Sigurður Jónsson, sem tók við af Erlingi Sigfússyni 1793 eða 1794.[310] Þeir Brynjólfur og Sigurður bjuggu báðir í Botni í yfir 30 ár en hér verður fyrst sagt lítið eitt frá Markúsi sem bjó hér mun skemur.

Markús Jónsson var fæddur á Norðureyri árið 1767 eða því sem næst,[311] sonur hjónanna Jóns Þorleifssonar og Guðrúnar Jónsdóttur sem lengi bjuggu þar en þeirra hefur áður verið getið í þessu riti (sjá hér Staður, Staðarhús ytri þar og Suðureyri). Svo virðist sem Markús hafi verið elsta barn foreldra sinna og hann var enn hjá þeim á Norðureyri í febrúar árið 1792.[312] Þá um haustið gekk hann að eiga Guðrúnu Hallsdóttur, 19 ára heimasætu í Botni, en hún var dóttir Ástríðar Jónsdóttur er hér var þá búandi ekkja.[313] Ekki verður nú annað séð en Guðrún hafi verið einkabarn foreldra sinna[314] en vera má að systkini hennar hafi dáið á ungum aldri. Markús fluttist að Botni sama ár og hann kvæntist þessari ungu stúlku.[315] Hér settist hann í gróið bú og tók við þó nokkrum efnum því búnaðarskýrsla frá árinu 1791 sýnir að, Ástríður, tengdamóðir hans, var með eitt stærsta búið í Súgandafirði.[316] Hún bjó þá með þrjá nautgripi og 34 fullorðnar sauðkindur en þeir Erlingur Sigfússon og Brynjólfur Jónsson, sem bjuggu á móti henni hér í Botni, voru þetta sama ár bara með eina belju hvor og hjá þeim voru ekki nema sex eða sjö kindur á hvoru búi.[317] Markús hefur því hrósað happi þegar hann náði í einkadóttur Ástríðar.

Fyrsta ár sitt í Botni, fardagaárið 1792-1793, var hann skráður vinnumaður hjá tengdamóður sinni en foreldrar hans, þau Jón Þorleifsson og Guðrún Jónsdóttir, fengu þá einhvern skika úr Botnstúninu til að hokra á með börnin fimm sem enn fylgdu þeim.[318] Sá búskapur stóð aðeins í eitt eða tvö ár[319] en þau Jón og Guðrún fluttust fáum árum síðar norður í Grunnavík (sjá hér Norðureyri). Óljóst er hvort Markús tók við búi af tengdamóður sinni og foreldrunum vorið 1793 eða 1794[320] en í maílok 1794 var hann tvímælalaust tekinn við. Sönnun þess er að finna í vísitazíugerð séra Jóns Ásgeirssonar prófasts frá 27. maí 1794. Þann dag vísiteraði hann kirkjuna á Stað í Súgandafirði og greinir í vísitazíugerð sinni frá því að Staðarkirkja hafi nú eignast konusæti.[321] Prófastur gerir nánari grein fyrir þessu merkilega sæti og segir það vera

 

… með brík og bakslám, samt sjö pílárum, upp á kostað, tilbúið og kirkjunni gefið af búandanum í Botni, Markúsi Jónssyni, með skilyrði að mega ráða þarna tveggja kvenmanna sessi sér viðkomandi.[322]

 

Gjöfin og skilyrðið, sem Markús setti fyrir henni, sýna að talsverður völlur hefur verið á þessum unga manni um það leyti sem hann settist í bú tengdamóður sinnar í Botni en fullvíst má telja að sætin hafi verið ætluð hinni ungu eiginkonu Markúsar og Ástríði móður hennar. Hér þarf að hafa í huga að fyrir liðlega 200 árum voru aðeins örfá sæti kvennamegin í Staðarkirkju (sjá hér Staður) svo að konurnar sem sóttu messu urðu að standa upp á endann meðan embættað var. Kirkjuvegurinn frá Botni að Stað var 13 kílómetrar og oft torsótt að vetrarlagi vegna snjóa. Má því nærri geta hvílíkur munur það var fyrir mæðgurnar í Botni að fá sætin og geta nú jafnvel látið sér líða í brjóst undir ræðu prestsins.

Skömmu áður en Markús gaf Staðarkirkju konusætin segir prestur hann vera hæglátan en tekur líka fram að kunnátta Markúsar sé í daufara lagi.[323] Svo virðist sem Markús bóndi hafi vaxið í áliti hjá prestinum síðar, því árið 1799 er hann sagður vera vel að sér og tekið fram að hegðun hans sé góð.[324]

Á einmánuði árið 1801 varð banaslys hér í Botni er Jón Jónsson, sem var 24 ára gamall vinnumaður hjá Markúsi, hrapaði í fjalli. Presturinn á Stað segir Jón hafa dáið 7. apríl 1801 þá hann viku áður hrapaði úr fjalli og höfuðið laskaðist svo mjög að honum var ólíft.[325] Í manntalinu frá 1. febrúar 1801 sést að þessi ungi maður var vinnumaður hjá Markúsi.[326] Markús bóndi átti bróður sem Jón hét og var sá piltur 7 ára á Norðureyri í febrúar 1786.[327] Einhverjum gæti dottið í hug að það hafi verið hann sem hrapaði til bana í Botni árið 1801. Sú hugmynd fær þó ekki staðist því að í manntalinu frá 1816 er Jón Jónsson, 37 ára gamall bóndi á Hesteyri, sagður fæddur á Norðureyri[328] (sbr. hér Norðureyri) og verður að telja fullvíst að þar sé kominn bróðir Markúsar því Guðrún, móðir þeirra, var þá hjá þessum syni sínum á Hesteyri.[329] Það eina sem vitað er um ætterni þess Jóns Jónssonar, sem hrapaði til bana í Botni árið 1801, er að hann átti systur sem hét Guðrún og var hún þá líka vinnuhjú í Botni.[330] Þau systkinin voru bæði á líkum aldri.[331] Þessi Guðrún Jónsdóttir var þó ekki sama stúlka og alnafna hennar, sem einnig var í Botni vorið 1801, og giftist Bergi Jónssyni á Norðureyri síðar á því ári[332] (sbr. hér Staður, Staðarhús ytri þar).

Markús bóndi og kona hans, Guðrún Hallsdóttir, fóru frá Botni með allt sitt vorið 1802 og fluttust að Tröð í Bolungavík.[333] Þaðan fluttust þau aftur í Súgandafjörð vorið 1804 og þá að Suðureyri.[334] Þar bjó Markús í tvíbýli á móti Guðmundi Ólafssyni (sjá hér Suðureyri) en aðeins í fáein ár því 1810 var hann orðinn bóndi í Keflavík, sem er afskekktasta býlið í Suðureyrarheppi, og þar munum við finna hann á ný, innan tíðar, undir lok göngunnar um endilangan hreppinn (sjá hér Keflavík).

Brynjólfur Jónsson, sem hóf búskap í Botni vorið 1790, er í ritinu Vestfirskum ættum sagður hafa verið sonur Jóns Sigfússonar á Kvíanesi[335] sem andaðist af uppdrætti og rýrðarsótt í móðuharðindunum árið 1785 (sjá hér Kvíanes). Þá var Brynjólfur kominn yfir tvítugt því hann virðist hafa verið fæddur 1761 eða 1762[336] og í manntalinu frá 1816 er hann sagður hafa fæðst í Botni.[337] Þann 8. júlí 1787 gekk Brynjólfur að eiga Guðrúnu Bjarnadóttur sem þá er sögð vera frá Hamri á Langadalsströnd við Djúp[338] en fæddist í Múla í Ísafirði um 1765.[339] Þremur árum síðar, vorið 1790, hófu þau Brynjólfur og Guðrún búskap á nokkrum hundruðum hér í Botni eins og áður var frá greint (sjá hér bls. 29). Móðir Guðrúnar og tengdamóðir Brynjólfs hét Margrét Jónsdóttir og dvaldist hún á heimili þeirra í elli sinni, sögð 75 ára gömul í manntalinu frá 1801.[340] Þar er hún sögð vera ógift [341] svo ætla má að dóttir hennar, Guðrún húsfreyja í Botni, hafi verið lausaleiksbarn.

Hjónin Brynjólfur Jónsson og Guðrún Bjarnadóttir bjuggu í Botni í 32 ár, frá 1790 til 1822, og  sem ekkja stóð Guðrún reyndar áfram fyrir búi í fjögur ár, allt til vorsins 1826 er Jón sonur þeirra tók við.[342] Á þessum árum voru bændurnir í Botni aldrei færri en þrír, stundum fjórir, og fardagaárin 1816-1817 og 1817-1818 voru þeir fimm.[343] Eins og nærri má geta voru búin því ekki stór. Búskap sinn byrjaði Brynjólfur með eina kú, sex ær, fimm lömb og einn hrút.[344] Á síðasta búskaparári þessa sama bónda var bú hans mun stærra eða 2 kýr, 1 kálfur, 18 ær, 6 sauðir eða hrútar, 18 lömb og 2 hestar.[345] Bú Brynjólfs var þá hið stærsta í Botni og af þáverandi Botnsbændum var hann sá eini sem átti bát.[346] Þessi bátur var sexæringur eða fjögra manna far.[347] Undarlegt er að sjá í búnaðarskýrslu frá árinu 1821 að enginn bændanna, sem þá bjuggu í Botni, skuli hafa tekið upp mó.[348] Þrjátíu árum fyrr, þegar Brynjólfur var að byrja sinn búskap, var mór þó notaður til eldiviðar á Botnsbæjunum.[349]

Við húsvitjanir fær Brynjólfur Jónsson, bóndi í Botni, ýmsar umsagnir hjá prestunum og stundum er merking þeirra nokkuð óljós. Árið 1799 er hann sagður vera skikkanlegur og kunnátta hans nokkurn veginn en 1811 tekur presturinn fram að bóndi þessi sé hreinskilinn og sæmilega uppfræddur.[350] Brynjólfur dó 26. febrúar 1822 og var þá um sextugt.[351] Fjórum árum síðar tók Jón Brynjólfsson, elsti sonur Brynjólfs og Guðrúnar konu hans, við búinu úr höndum móður sinnar[352] og verður sagt hér nánar frá honum síðar. Auk Jóns eignuðust hjónin Brynjólfur Jónsson og Guðrún Bjarnadóttir að minnsta kosti sjö önnur börn[353] og má úr þeim hópi nefna Júdith, sem giftist Borgari Jónssyni, er um skeið var húsmaður í Botni (sjá hér Botn bls. 95-98), og Þóru sem mun aldrei hafa gifst en eignaðist börnin Rósinkrönzu Guðmundsdóttur, er varð eiginkona Páls Guðmundssonar á Kvíanesi (sjá hér Kvíanes), og Jóhannes Guðbrandsson en meðal barna hans var Margrét, eiginkona Steinþórs Jónssonar, bónda í Dalshúsum í Valþjófsdal í Önundarfirði.[354]

Sá bóndi sem lengst var sambýlismaður Brynjólfs Jónssonar í Botni hét Sigurður Jónsson og byrjaði hann sinn búskap hér árið 1793 eða 1794.[355] Í ritinu Vestfirskum ættum er hann sagður hafa verið sonur Kristínar Bergsdóttur á Norðureyri og fyrri eiginmanns hennar.[356] Vera má að það sé rétt en örugg heimild fyrir því hefur ekki fundist við lauslega leit.

Mjög líklegt má telja að Sigurður Jónsson, sem hóf búskap í Botni um 1793, sé sá maður með því nafni sem hér átti jafnan heima á árunum 1785-1793, talinn 19 ára í sóknarmannatali frá janúar 1786.[357] Hann var þá jafnan á heimili Ástríðar Jónsdóttur, sem hér var búandi ekkja, kallaður uppalningur í elstu sóknarmannatölunum en síðan vinnumaður.[358] Árið 1791 eða 1792 gekk Sigurður að eiga stúlku sem Guðrún Jónsdóttir hét og fardagaárið 1792-1793 voru þau bæði vinnuhjú hjá Ástríði.[359] Í sóknarmannatali frá janúarmánuði 1793 er tekið fram að þau séu gift en þau hafa líklega verið gefin saman utan Súgandafjarðar því ekkert er bókað um þessa hjónavígslu í prestsþjónustubókinni frá Stað.

Þau Sigurður og Guðrún kona hans voru á mjög líkum aldri, fædd 1766 eða því sem næst.[360] Í manntalinu frá 1816 er Sigurður sagður vera fæddur hér í Botni en Guðrún kona hans inn á Langadalsströnd[361] við norðanvert Ísafjarðardjúp. Hér í Botni tóku hjón þessi við af Erlingi Sigfússyni sem andaðist eins og fyrr var nefnt á Botnsheiði í marsmánuði árið 1793.[362] Þegar sóknarpresturinn húsvitjaði árið 1795 voru börn þessara ungu hjóna í Botni orðin þrjú og seinna bættust a.m.k. fimm við.[363] Yngsta barn þeirra, stúlkan Jóhanna, er sögð vera eins árs í manntalinu frá 1816 en móðirin 50 ára[364] svo ljóst er að foreldrar barnsins hafa haldið áfram að fjölga mannkyninu eins lengi og kostur var.

Þau Sigurður Jónsson og Guðrún Jónsdóttir stóðu hér fyrir búi í 33 eða 34 ár, frá 1793 eða 1794 til 1827[365] en jarðnæðið, sem þau höfðu til ábúðar, hefur varla verið mikið. Allur bústofn Sigurðar árið 1821 var ein kýr og sex ær.[366] Að dómi sóknarprestsins var þessi fátæki bóndi spaklyndur en ekki vel að sér.[367] Vorið 1827 gáfust þau Sigurður og kona hans upp á búskapnum en voru næsta fardagaár í húsmennsku í Klúku sem er gömul hjáleiga frá Botni.[368] Þaðan fóru þau vorið 1828 og fluttust þá að Kirkjubóli í Skutulsfirði.[369]

Vorið 1802 eða 1803 fóru hjónin Úlfur Andrésson og Ástríður Guðmundsdóttir að búa hér í Botni og tóku við þegar Markús Jónsson vék frá.[370] Þessi sömu hjón höfðu reyndar búið hér áður en að því sinni bara í eitt eða tvö ár.[371] Úlfur var fæddur á Gilsbrekku árið 1767 eða því sem næst, sonur Andrésar Pálssonar, bónda þar,[372] en móðir Úlfs mun hafa andast fyrir 1786 og nafn hennar finnst því ekki í embættisbókum prestanna á Stað. Um tvítugsaldur var Úlfur enn hjá föður sínum á Gilsbrekku en haustið 1794 gekk hann að eiga Ástríði Guðmundsdóttur, sem þá átti heima í Bæ í Súgandafirði,[373] systir Össurar Guðmundssonar bónda þar.[374] Þessi systkin, Össur og Ástríður, voru bæði fædd á Guðnýjarstöðum í Helgafellssveit á Snæfellsnesi (sjá hér Bær og Laugar) .

Ástríður virðist hafa verið um það bil tíu árum eldri en Úlfur og var komin hátt á fertugsaldur er þau gengu í hjónaband.[375] Hún hafði þá verið hjú hjá Össuri bróður sínum í Bæ í nokkur ár og er í sóknarmannatali frá árinu 1793 sögð vinnumikil.[376]

Þegar Úlfur og Ástríður giftust 7. september 1794 var brúðurin komin langt á leið því elsta barn þeirra fæddist 15. október þetta sama haust.[377] Fyrsta hjúskaparárið og allt til vorsins 1796 voru þau í húsmennsku í Bæ en fóru svo að búa á jarðarparti hér í Botni.[378] Sá búskapur stóð aðeins í eitt eða tvö ár og árið 1799 var Úlfur orðinn bóndi á 4. býli í Bæ.[379] Á því ári eða hinu næsta fluttust Úlfur og Ástríður kona hans hins vegar norður í Grunnavík og bjuggu þar um skeið í tvíbýli á Kerlingarstöðum.[380] Í manntalinu frá 1801 bregður reyndar svo við að þar er Ástríður húsfreyja sögð vera mun yngri en tilgreint er í öðrum heimildum.[381] Samt hlýtur þetta að vera sama fólkið því að aldurinn á Úlfi passar og líka nöfnin á börnunum þremur, Guðmundi, Ástríði og Andrési, og líka aldur þeirra svona nokkurn veginn.[382]

Eins og fyrr var nefnt hófu þau Úlfur og Ástríður búskap hér í Botni í annað sinn vorið 1802 eða 1803 og komu þá norðan úr Grunnavík. Hér sátu þau síðan að búi í yfir tuttugu ár.[383] Um Úlf bónda í Botni segir prestur árið 1811 að hann sé skikkanlegur og skýr í andlegu en Ástríður, kona Úlfs, virtist prestinum þá vera alvörugefin og ekki illa að sér.[384] Ekki liggur ljóst fyrir hversu stórt bú þessara hjóna var þegar umsvif þeirra voru mest en um 1820 virðist Úlfur hafa misst þær fáu kindur sem hann kynni að hafa átt því að í skýrslu frá árinu 1821 er bústofn hans sagður vera ein kýr og eitt lamb en engar aðrar sauðkindur.[385] Enginn hestur var þá á búi Úlfs og hann átti ekki heldur bát.[386] Svona bláfátækur maður taldist þó vera bóndi[387] af því hann átti þessa einu kú. Ef til vill hefur Úlfur verið orðinn heilsulaus þegar hér var komið sögu en hann lifði þó allt til ársins 1825, andaðist 30. september á því ári.[388]

Ekkja Úlfs, Ástríður Guðmundsdóttir, fluttist frá Botni að Laugum hér í sveit vorið 1826 til sonar síns, Guðmundar Úlfssonar, sem þá var að byrja búskap (sjá hér Laugar).

Á árunum 1812-1816 fjölgaði býlunum í Botni úr þremur í fimm.[389] Líklegt er að þá hafi aftur hafist byggð í Klúku (sjá hér bls. 86), hinni fornu eyðihjáleigu sem lengi hafði staðið í eyði árið 1710 og var enn óbyggð árið 1805.[390] Í sóknarmannatölum frá fyrsta fjórðungi nítjándu aldar og í manntalinu frá 1816 eru að vísu aðeins sett númer á býlin í Botni en hugsanlegt er að fólk sem bjó hér á 4. eða 5. býli hafi átt heima í Klúku þó að nafn hinnar endurreistu  hjáleigu sjáist ekki í embættisbókum prestsins fyrr en 1828.[391]

Bændurnir tveir sem hófu búskap í Botni á árunum 1812-1816 og kynnu, annar hvor eða báðir, að hafa búið í Klúku hétu Sigmundur Jónsson og Jón Jónsson.[392] Þeir voru reyndar mágar því að Jón var kvæntur Helgu Jónsdóttur, systur Sigmundar.[393] Systkinin, Sigmundur og Helga, voru bæði fædd á Hanhóli í Bolungavík[394] en foreldrar þeirra voru hjónin Jón Guðmundsson, hreppstjóri þar, og Gróa Jónsdóttir sem var þriðja eiginkona hans (sjá hér Fremri-Vatnadalur). Kona Sigmundar var Guðrún Erlingsdóttir frá Botni, dóttir hjónanna Erlings Sigfússonar og Ástríðar Guðmundsdóttur sem hér bjuggu á árunum kringum 1790.[395] Í manntalinu frá 1816 er Sigmundur talinn 33ja ára en Guðrún kona hans 41 árs, sögð fædd á Norðureyri.[396] Þau bjuggu þá á fjórða býli hér í Botni en hjónin Jón Jónsson og Helga Jónsdóttir, sem fyrr voru nefnd, hokruðu þá á fimmta býlinu og er Jón sagður vera 40 ára, fæddur í Bæ í Súgandafirði, en Helga 27 ára.[397] Þau Jón og Helga bjuggu í Botni til 1820[398] en fluttust þá að Laugum og þar bjó Jóhannes sonur þeirra síðar (sjá hér Laugar).

Sigmundur Jónsson og Guðrún Erlingsdóttir, sem hér voru áður nefnd, bjuggu í Botni frá 1814 til 1824 og Guðrún áfram sem ekkja til vorsins 1826.[399] Hún hafði flust með móður sinni, ekkjunni Ástríði Guðmundsdóttur, frá Botni að Kvíanesi árið 1793 eða 1794 (sjá hér bls. 29), þá á unglingsaldri, og á Kvíanesi var hún enn árið 1811 er hún tók saman við Sigmund.[400] Um aldamótin 1800 var hann á Hanhóli í Bolungavík hjá móður sinni, ekkjunni Gróu Jónsdóttur,[401] en fluttist skömmu síðar til Súgandafjarðar og var árið 1811 orðinn vinnumaður hjá Ara bónda Þorkelssyni á Kvíanesi.[402] Svo virðist sem sóknarpresturinn, séra Þorlákur Jónsson á Stað, hafi ekki verið alls kostar ánægður með þennan vinnumann á Kvíanesi og segir að hann sé bæði fjölorður og fjölmáll.[403]

Fardagaárin 1810-1811 og 1811-1812 voru þau Sigmundur Jónsson og Guðrún Erlingsdóttir ógift vinnuhjú á Kvíanesi en þegar elsta barn þeirra fæddist, haustið 1813, voru þau komin á Suðureyri og orðin hjón.[404] Búskap sinn hér í Botni munu þau hafa byrjað vorið 1814 því hingað voru þau komin er næsta barn fæddist í janúar 1815.[405] Á árunum 1816-1820 bjuggu þau hér í fimmbýli og síðan í fjórbýli[406] svo jarðnæðið hefur aldrei verið mikið. Bústofn þeirra haustið 1821 var ein kýr, átta ær, níu lömb og einn hestur.[407]

Séra Eiríkur Vigfússon á Stað húsvitjaði í Botni í marsmánuði árið 1817. Heimilin voru þá fimm og var Vídalínspostillu að finna á þremur þeirra, hjá Brynjólfi Jónssyni, Úlfi Andréssyni og Sigmundi.[408] Hjá bændunum Sigurði Jónssyni og Jóni Jónssyni, sem einnig bjuggu þá hér í Botni, voru hins vegar engar bækur.[409] Presturinn tekur fram að Jón bóndi Jónsson sé engu að síður vel að sér og Helga, eiginkona Jóns, nokkuð betur að sér en hann.[410] Sú kona var eins og fyrr hefur verið nefnt systir Sigmundar Jónssonar en önnur systir hans var Hippolithe Jónsdóttir, fædd um 1790.[411] Hún giftist aldrei en var vinnukona hjá Sigmundi bróður sínum hér í Botni í allmörg ár og er árið 1821 sögð vera vel kunnandi og vel að sér.[412]

Þau Sigmundur Jónsson og Guðrún Erlingsdóttir eignuðust á árunum 1813-1819 fjögur börn en misstu þau öll nema eina stúlku, Elínu Sigmundsdóttur, sem fæddist hér í Botni árið 1818.[413] Hún varð seinna húsfreyja í Klúku (sjá hér bls. 89-92) og dó liðlega áttræð að aldri í Hraunakoti í Vatnadal hér í Súgandafirði (sjá hér Fremri-Vatnadalur, Hraunakot þar).

Bóndinn Sigmundur Jónsson í Botni andaðist 18. nóvember 1824 en ekkja hans, Guðrún Erlingsdóttir, baslaðist hér áfram við búskap næsta fardagaár.[414] Vorið 1826 fór hún í húsmennsku en dvaldist áfram hér í Botni með dótturina, lengst hjá Sigurði bónda Sigurðssyni og Guðrúnu Örnólfsdóttur. Ekkja þessi andaðist 28. febrúar 1843.[415]

Fardagaárið 1825-1826 stóðu hér þrjár ekkjur fyrir búi, þær Guðrún Bjarnadóttir, Ástríður Guðmundsdóttir og Guðrún Erlingsdóttir, sem allar hafa fyrr verið kynntar á þessum blöðum, og á fjórða býlinu sátu svo hjónin Sigurður Jónsson og Guðrún Jónsdóttir.[416] Vorið 1826 varð hins vegar sú mikla breyting að tveir nýir bændur hófu hér búskap en tvær af ekkjunum hættu.[417] Annar þessara nýju bænda var Sigurður Sigurðsson, sem tók við af Guðrúnu Erlingsdóttur og hér verður brátt sagt nánar frá, en hinn var Jón Brynjólfsson sem tók við af móður sinni, Guðrúnu Bjarnadóttur.[418]

Jón Brynjólfsson var orðinn 37 ára gamall er hann tók við búsforráðum úr höndum móður sinnar hér í Botni vorið 1826 því hann var fæddur árið 1789.[419] Þegar Jón byrjaði sinn búskap voru liðin 36 ár frá því foreldrar hans, þau Brynjólfur Jónsson og Guðrún Bjarnadóttir, fóru að búa í Botni en fjögur ár frá því faðir hans andaðist (sjá hér bls. 32-33). Á þessum fjórum árum hafði móðir Jóns staðið fyrir búinu.[420]

Kona Jóns Brynjólfssonar var Margrét Guðmundsdóttir og var hún um það bil 15 árum yngri en hann,[421] fædd á Kleifum í Skötufirði[422] árið 1803 eða því sem næst og mun hafa verið dóttir hjónanna Guðmundar Sigurðssonar og Elínar Vilhjálmsdóttur sem bjuggu lengi á Kleifum[423] en um skeið á Stað í Súgandafirði (sjá hér Staður). Eldri systir Margrétar var Guðrún Guðmundsdóttir, lengi húsfreyja á Gilsbrekku (sjá hér Gilsbrekka), og yngri systir þeirra var Rósa Guðmundsdóttir sem giftist Jóhannesi Jónssyni og bjó með honum hér í Botni og síðar á Laugum (sjá hér Laugar).

Jón Brynjólfsson stóð fyrir búi hér í Botni í um það bil tvo áratugi eða allt til dauðadags en hann andaðist 22. ágúst 1846.[424] Síðustu árin var hann ekkjumaður því að Margrét kona hans dó af meinlætum 1. maí 1840.[425] Úr höndum móður sinnar tók Jón við allstóru búi og var haustið 1827 með 3 kýr, 20 fullorðnar sauðkindur og gemlinga, 9 lömb og 1 hest.[426] Bátinn, sem faðir hans hafði átt, fékk Jón líka þegar hann fór að búa og var það sexæringur eða fjögra manna far.[427] Árið 1834 horfði enn bærilega hjá Jóni en hann bjó þá með 2 kýr, 24 fullorðnar sauðkindur, 5 gemlinga, 6 lömb og 1 hest.[428] Á næstu þremur árum varð hins vegar mikill samdráttur í búskapnum hjá þeim Jóni og Margréti og árið 1837 voru þau bara með eina kú, tíu ær, fjögur lömb og einn hest.[429] Árið 1840 hafði búið stækkað svolítið á ný því við hafði bæst ein kýr sem Jón átti að hálfu á móti Jóhannesi Jónssyni, svila sínum, sem þá var orðinn bóndi í Botni, og bátnum hélt hann enn.[430]

Þegar Jón Brynjólfsson missti konu sína var móðir hans enn á lífi hjá þessum syni sínum hér í Botni.[431] Hún var þá orðin öldruð en á heimilinu var líka á síðustu búskaparárum Jóns systir hans, Þóra Brynjólfsdóttir, og er hún í manntalinu frá 1845 sögð vera bústýra bróður síns.[432] Hún var þá um fimmtugt og hafði ekki gifst[433] en eignast tvö börn í lausum leik.[434] Fyrra barnið sem Þóra eignaðist var Jóhannes Guðbrandsson, sem fæddist í Botni árið 1826, en faðir hans var Guðbrandur Jónsson, þá ungur vinnumaður í Botni,[435] skikkanlegur og vel uppfræddur að sögn prestsins.[436] Jóhannes var fyrsta barn þeirra beggja en Guðbrandur náði áður en lauk að barna fimm konur og var því kallaður Barna-Brandur (sjá hér Bær). Síðara barnið sem Þóra Brynjólfsdóttir eignaðist fæddist hér árið 1830 en það var Rósinkranza Guðmundsdóttir sem kynnt er til sögunnar á öðrum stað í þessu riti (sjá hér Kvíanes). Bæði þessi börn Þóru komust upp og eignuðust niðja.[437] Jóhannes var um skeið húsmaður í Fremri-Vatnadal (sjá hér Fremri-Vatnadalur) en Rósinkranza húsfreyja á Kvíanesi.

Jón Brynjólfsson, bóndi í Botni, sem hér er til umfjöllunar, eignaðist að minnsta kosti þrjú börn með Margréti konu sinni.[438] Elstur þessara barna var Brynjólfur, fæddur 23. september 1825.[439] Hann tók við búi föður síns sumarið 1846[440] og bjó hér í 11 ár.[441] Þegar Brynjólfur hóf búskap var hann ókvæntur en fékk sér strax bústýru[442] er hann kvæntist skömmu síðar. Þessi stúlka hét Sigríður Guðmundsdóttir og var dóttir hjónanna Guðmundar Jónssonar og Ingibjargar Jónsdóttur sem fluttust til Súgandafjarðar árið 1843 frá Görðum í Önundarfirði (sjá hér Garðar). Brynjólfur fór frá Botni vorið 1857 að Bæ í Súgandafirði og bjó þar til dauðadags og hér hefur áður verið um hann fjallað (sjá Bær).

Á sínu fyrsta búskaparári hér í Botni hafði Brynjólfur átta hundruð til ábúðar[443] en fjórum árum síðar var hann kominn með umráð yfir hálfri jörðinni, það er tólf hundruðum.[444] Hann var þá með stærra bú en flestir sveitungar hans, 3 nautgripi og 44 sauðkindur, auk lamba.[445] Þá átti Brynjólfur líka tvo báta og var annar þeirra sexæringur eða fjögra manna far en hinn minni.[446]

Þegar Brynjólfur Jónsson fór frá Botni vorið 1857 voru 67 ár liðin frá því afi hans og alnafni hóf hér búskap (sjá hér bls. 32-33) og bjuggu þeir feðgar hér hver fram af öðrum allan þann tíma.[447] Við brottför Brynjólfs Jónssonar yngri urðu því tímamót.

Hér var áður nefnt að vorið 1826 hefðu tveir bændur byrjað búskap í Botni. Annar þeirra var Jón Brynjólfsson, sem hér hefur þegar verið gerð grein fyrir, en hinn var Sigurður Sigurðsson.[448] Sigurður fæddist á Gelti 3. nóvember 1797. Móðir hans, Þuríður Aradóttir, var ógift vinnukona þar og kenndi hún barnið Sigurði Sigurðssyni, kvæntum manni í Fremri-Vatnadal (sjá hér Staður, Staðarhús fremri þar) Hann neitaði og á uppvaxtarárum var pilturinn því jafnan nefndur Sigurður Þuríðarson (sjá Staður, Staðarhús fremri þar). Þuríður Aradóttir var enn á lífi árið 1840 og var þá sveitarómagi á Kvíanesi.[449] Í sóknarmannatali frá því ári er hún sögð vera 70 ára, fædd á Minni-Bakka í Skálavík.[450]

Sigurður Þuríðarson mun hafa alist upp á sveit. Þann 1. febrúar 1801 var hann þrevetra niðursetningur í Staðarhúsum ytri,[451] gamalli hjáleigu frá prestssetrinu á Stað í Súgandafirði. Þar réðu húsum hjónin Kristófer Kolbeinsson og Ásdís Hákonardóttir (sjá hér Staður, Staðarhús fremri þar) og hjá þeim var hann enn á sama stað í marsmánuði árið 1811, kominn á fjórtánda ár.[452] Árið 1816 var Sigurður kominn til manns og orðinn vinnudrengur á Norðureyri.[453] Í manntalinu frá því ári er hann enn nefndur Sigurður Þuríðarson[454] en í sóknarmannatali frá því í marsmánuði 1817 er hann skráður Sigurður Sigurðsson og þaðan í frá er hann jafnan nefndur svo í embættisbókum prestanna.[455] Að Sigurður Þuríðarson og Sigurður Sigurðsson séu einn og sami pilturinn er alveg tvímælalaust eins og sjá má á því sem hér mun brátt verða dregið fram. Árið 1817 segir prestur að þessi 19 ára gamli vinnudrengur á Norðureyri sé fashægur og vel kunnandi sinn kristindóm.[456] Næsta ár lætur prestur þau orð falla um þennan sama pilt að hann sé vel uppfræddur.[457]

Sigurður var á Norðureyri í a.m.k. fimm ár, frá 1816 til 1821,[458] en frá 1821 til 1823 var hann vinnumaður hjá Örnólfi ríka Snæbjörnssyni á Suðureyri.[459] Þar komst hann í kærleika við Guðrúnu Örnólfsdóttur, sem orðin var liðlega tvítug, en hún var elsta barn Örnólfs ríka og konu hans, Elínar Illugadóttur.[460] Sumarið 1822 varð Guðrún þunguð af völdum Sigurðar og ól honum 3. apríl 1823 dóttur sem skírð var Ásdís.[461]

Fáir munu hafa vænst þess að Örnólfur ríki gæfi hinum fyrrverandi sveitarómaga, Sigurði Þuríðarsyni, dóttur sína refjalaust, enda sýna sóknarmannatöl prestsins að Sigurður hvarf burt úr Súgandafirði um svipað leyti og barnið fæddist.[462] Merkilegra er þó hitt að barnið var líka strax sent í aðra sveit en Guðrún Örnólfsdóttir, hin falleraða bóndadóttir, sat eftir í föðurgarði.[463] Ekki liggur ljóst fyrir hvert Sigurður fór eða hvar barnunganum var komið fyrir.

Haustið 1825 dó Örnólfur bóndi Snæbjörnsson á Suðureyri og um svipað leyti sneri Sigurður, sonur Þuríðar, aftur til Súgandafjarðar en hann hafði þá verið fjarverandi á þriðja ár.[464] Ljóst er að í marsmánuði árið 1826 var hann orðinn vinnumaður hjá ekkjunni Guðrúnu Erlingsdóttur í Botni og tók við búi af henni þá um vorið.[465] Guðrún Örnólfsdóttir fór þá þegar til þessa unnusta síns og barnsföður og er í sóknarmannatali frá fyrsta búskaparári Sigurðar sögð vera bústýra hans.[466] Þann 25. ágúst 1827 voru þau gefin saman í hjónaband í Staðarkirkju og segir prestur að svaramennirnir hafi verið Elín Illugadóttir, móðir brúðarinnar, og Sigurður Sigurðsson.[467]

Allar líkur benda til að þessi svaramaður sé enginn annar en faðir brúðgumans, sá sem áður neitaði að viðurkenna faðernið. Tvímælalaust er að hann var þá enn á lífi (sjá hér Staður, Staðarhús fremri þar) og í Súgandafirði voru það aðeins þessir feðgar sem báru nafnið Sigurður Sigurðsson árið 1827.[468] Vera má að með þeim hafi tekist fullar sættir og sá eldri talið launsoninn vera sér til sóma þegar skýrast fór hvað í piltinum bjó.

Þegar Sigurður Sigurðsson, sem áður var nefndur Þuríðarson, kom aftur til Súgandafjarðar árið 1825 eða 1826 og settist að í Botni segir prestur hann vera átta árum yngri en hann var í raun og veru.[469] Þvílíkur ruglingur á aldri fólks var því miður ekkert einsdæmi á þeirri tíð. Rökin fyrir því að Sigurður Sigurðsson, bóndi í Botni, sem Guðrún Örnólfsdóttir giftist árið 1827, sé sami Sigurður og sá sem gerði henni barn fimm árum áður blasa þó við í embættisbókum prestsins því að sóknarmannatölin sýna að árið 1827 tóku þau Sigurður og Guðrún elstu dóttur sína, fyrirmálsbarnið Ásdísi, til sín og á næstu árum er hún jafnan skráð þeirra barn og hennar aldur sá rétti.[470]

Tvennt er svo vert að nefna sem sýnir að Sigurður Sigurðsson er hóf búskap í Botni vorið 1826 hljóti að hafa verið Sigurður Þuríðarson. Fyrst það að í sóknarmannatölum frá árunum 1832-1836 er hann jafnan sagður fæddur á Gelti[471] en á árunum 1790-1810 fæddist þar enginn annar Sigurður Sigurðsson.[472] Við bætist síðan enn sterkari röksemd sem er sú að árið 1829 var Þuríður Aradóttir hjá Sigurði bónda í Botni og í sóknarmannatalinu frá því ári er tekið fram að hún sé móðir hans.[473] Nafnalykill manntalsins frá 1801 sýnir að þessi Þuríður Aradóttir hlýtur að vera sú hin sama og fæddi barnið Sigurð 3. nóvember 1797 því engin önnur kona með því nafni sem þá var á dögum kemur til greina.[474] Drengurinn Sigurður Þuríðarson varð því alveg tvímælalaust bóndi í Botni og frá því hann var um tvítugt jafnan nefndur Sigurður Sigurðsson af presti.

Þegar Örnólfur Snæbjörnsson á Suðureyri dó, haustið 1825, átti hann 68 hundruð í jarðeignum, þar á meðal 12 hundruð hér í Botni (sjá hér Suðureyri), það er hálfa jörðina. Við skipti á dánarbúi hans vorið 1826 fékk Guðrún Örnólfsdóttir þrjú og hálft hundrað úr Botni í sinn erfðahlut en Hólmfríður systir hennar fékk jafn stóran skika og móðir þeirra fimm hundruð (sjá hér bls. 16-17). Þetta sama vor fóru þau Guðrún og Sigurður að búa í Botni eins og hér hefur þegar verið nefnt og er þau rugluðu saman reitum sínum með formlegum hætti sumarið 1827 varð Sigurður meðeigandi konu sinnar að þeim jarðarhundruðum sem hún átti. Þessi ungi maður, sem alist hafði upp sem ófeðraður sveitarómagi, komst þar með í hóp landeigenda sem á þeirri tíð var enn mjög fámennur á landi hér. Sigurður Þuríðarson er reyndar fyrsti sjálfseignarbóndinn í Botni sem hægt er að nefna með nafni því aðrir ábúendur, sem hér bjuggu fyrir 1850 og um er kunnugt, voru allir leiguliðar (sjá hér 12-16).

Þegar séra Eiríkur Vigfússon húsvitjaði í Botni á fyrsta búskaparári Sigurðar fannst honum þessi ungi bóndi vera hæglátur en vel upp fræddur.[475] Fáum árum síðar þótti presti orðið siðprúður eiga best við er hann tjáði sig um Sigurð.[476]

Enda þótt Sigurður Sigurðsson eignaðist túnskika í Botni þegar hann kvæntist Guðrúnu Örnólfsdóttur var hann engu að síður fátækur maður og bú þeirra fremur smátt. Búskap sinn byrjuðu þau með 2 kýr, 8 ær og einn hest.[477] Árið 1834 voru kýrnar þeirra tvær eins og áður en þá voru ærnar orðnar sextán og kominn hrútur og fjórir gemlingar.[478] Hér virtist því ekki fjarri lagi að tala um sígandi lukku.

Frá 1827 til 1833 bjó Sigurður í tvíbýli hér í Botni á móti Jóni Brynjólfssyni.[479] Óljóst er hversu mörg hundruð hvor þeirra hafði þá til ábúðar en líklegt er að ábúðarhundruðin hafi verið eitthvað fleiri hjá Jóni því bú hans var á þeim árum stærra en bú Sigurðar.[480] Vorið 1833 bættist þriðji bóndinn við og hér var þríbýli næstu ár.[481] Haustið 1837 bjuggu bændurnir þrír í Botni á 8 hundruðum hver[482] og má telja líklegt að svo hafi verið næstu fjögur ár þar á undan.

Sigurður Sigurðsson, bóndi í Botni deyði úr svefni 19. júní 1837[483] og var þá aðeins 39 ára gamall (sjá hér bls. 39-40).

Þegar Sigurður bóndi í Botni tók síðustu andvörpin áttu þau Guðrún fjórar dætur á lífi.[484] Elst þeirra var Ásdís, sem fyrr var nefnd, orðin 14 ára þegar faðir hennar dó. Hún giftist Bjarna Ólafssyni haustið 1845 en þau voru þá bæði vinnuhjú í Bæ.[485] Með honum fluttist hún frá Bæ norður á Sandeyri á Snæfjallaströnd árið 1847 en haustið 1850 voru þau Ásdís og Bjarni í Neðri-Arnardal í Skutulsfirði.[486] Tíu árum síðar hefur Bjarni líklega verið dáinn því þá var Ásdís gift öðrum manni, Sæmundi Einarssyni, og áttu þau heima á Eyri í Skutulsfirði haustið 1860.[487] Árið 1870 voru þau búsett í Ísafjarðarkaupstað og þá var Guðrún Örnólfsdóttir þar hjá þessari dóttur sinni og Sæmundi (sjá hér bls. 17).

Sigríður Sigurðardóttir, systir Ásdísar, giftist Örnólfi Magnússyni og bjuggu þau um skeið á Kirkjubóli í Korpudal (sjá hér Kirkjuból í Korpudal), en yngsta systirin, María, giftist Þórði Jónssyni og bjó með honum á Laugum og hér í Botni (sjá hér Laugar).

Ekkjan Guðrún Örnólfsdóttir stóð fyrir búi í Botni allt til vorsins 1839 og var svo hér í húsmennsku í fjölda ára.[488] Við uppgjör á dánarbúi föður hennar vorið 1826 hafði hún eignast þrjú og hálft hundrað í þessari bújörð og við andlát móður sinnar árið 1840 erfði hún annan álíka jarðarskika hér í Botni (sjá hér bls. 16-17). Þessi sjö hundruð átti hún lengi en tengdasonur hennar, Sæmundur Einarsson á Ísafirði, seldu þau árið 1868 (sjá hér bls. 19). Sjálf var hún þá enn á lífi eins og hér hefur áður verið nefnt.

Hér var áður á það minnst að vorið 1833 fjölgaði bændunum í Botni úr tveimur í þrjá. Sá sem þá hóf hér búskap var Jóhannes Jónsson, sonur hjónanna Jóns Jónssonar og Helgu Jónsdóttur[489] sem alllöngu fyrr höfðu búið hér í skamman tíma (sjá hér bls. 35-36). Jóhannes og kona hans, Rósa Guðmundsdóttir, voru við búskap hér í Botni í 13 ár, frá 1833 til 1846, en bjuggu síðar á Laugum og hefur áður verið frá þeim sagt í þessu riti (sjá hér Laugar).

Er Guðrún Örnólfsdóttir hætti búskap vorið 1839 tóku hjónin Guðbrandur Jónsson og Ástríður Magnúsdóttir við af henni hér í Botni og bjuggu á parti úr jörðinni næstu ár, allt til 1848.[490] Þau Guðbrandur og Ástríður bjuggu síðar um nokkurt skeið í Bæ og hér hefur áður verið frá þeim sagt (sjá hér Bær) en það var þessi Guðbrandur sem nefndur var Barna-Brandur.

 

Vorið 1840 fjölgaði bændunum í Botni úr þremur í fjóra.[491] Fyrir voru Jón Brynjólfsson, Jóhannes Jónsson og Guðbrandur Jónsson en við bættist Árni Örnólfsson,[492] bróðir Guðrúnar Örnólfsdóttur sem hér hafði hætt búskap vorið 1839. Árni og kona hans, Sigurfljóð Guðmundsdóttir, bjuggu áður á Suðureyri og í Fremri-Vatnadal (sjá hér Fremri-Vatnadalur). Árni dó hér í Botni, hálffertugur að aldri, 23. september 1841 en Sigurfljóð ekkja hans hélt búskapnum áfram og giftist aftur nokkrum árum síðar.[493] Í skýrslu frá árinu 1840 sést hver var fjöldi ábúðarhundraða hjá hverjum einstökum bónda í Botni. Jón Brynjólfsson bjó þá á 6 hundruðum, Jóhannes Jónsson á 6 hundruðum, Guðbrandur Jónsson á 8 hundruðum og Árni Örnólfsson á 4 hundruðum.[494]

Fardagaárið 1840-1841 voru heimilin í Botni reyndar sex þó að bændabýlin væru ekki nema fjögur.[495] Tveir af heimilisfeðrunum voru þurrabúðarmenn, þeir Borgar Jónsson, sem átti Júdith Brynjólfsdóttur fyrir konu, og Jón Torfason sem var kvæntur Elínu Sigmundsdóttur.[496] Frá þessum þurrabúðarmönnum og þeirra fólki er sagt hér á öðrum stað (sjá hér bls. 45, 88-93 og 95-98) en fram skal tekið að hjónin Jón og Elín áttu um 1840 heima í hjáleigunni Klúku.[497] Árið 1843 voru enn sex heimili í Botni, að Klúku meðtalinni, en þegar prestur húsvitjaði árið 1844 hafði þeim fækkað um eitt því Borgar var farinn burt.[498]

Sigurfljóð Guðmundsdóttir, sem var búandi ekkja í Botni frá haustinu 1841, var frá Fremri-Vatnadal, dóttir hjónanna Guðmundar Jónssonar og Sigríðar Jónsdóttur sem þar bjuggu (sjá hér Fremri-Vatnadalur). Þegar hún missti mann sinn, Árna Örnólfsson, haustið 1841 var hún rétt liðlega fertug og dætur þeirra tvær, Kristín og Sigríður, barnungar.[499] Að Árna látnum fékk hún ungan vinnumann sér til aðstoðar við búskapinn og var það Friðbert Guðmundsson, sem þá var um tvítugt, síðar bóndi og hreppstjóri í Fremri-Vatnadal.[500] Var hann hjá henni í þrjú ár.[501] Árið 1843 eða 1844 fékk hún sér svo ráðsmann.[502] Hann hét Egill Ólafsson og var fæddur árið 1808 eða því sem næst.[503] Í manntalinu frá 1845 er Egill sagður fæddur í Skutulsfjarðarsókn[504] og mun hann vera sá Egill Ólafsson sem árið 1816 var 8 ára drengur hjá foreldrum sínum í Engidal í Skutulsfirði, hjónunum Ólafi Ólafssyni og Guðrúnu Egilsdóttur[505] því enginn annar Egill Ólafsson var þá til á öllum Vestfjörðum.[506] Í manntalinu frá 1816 er nefndur Egill reyndar sagður fæddur í Súðavík[507] og má vera að það sé rétt. Þann 13. september 1844 gengu þau Egill og Sigurfljóð í hjónaband[508] og bjuggu áfram í Botni allt til ársins 1853 en fluttust þá að Gilsbrekku.[509] Árið 1850 hafði Egill hér 7 hundruð til ábúðar og bjó með 2 kýr, 16 ær, 16 gemlinga, 16 lömb og 1 hest.[510] Hann átti þá líka lítinn bát sem var tveggja eða þriggja manna far.[511]

Árið 1850 var þríbýli í Botni en þá bjuggu hér bændurnir Brynjólfur Jónsson, Egill Ólafsson og Jón Torfason.[512] Um Brynjólf og Egil hefur áður verið rætt en frá Jóni Torfasyni segjum við nánar þegar staldrað verður við í Klúku. Hann var þar lengi þurrabúðarmaður en síðan bóndi í Botni frá 1848 til 1864 eða 1865 og bjó hér á 5 hundruðum árið 1850 (sjá hér bls. 88-92).

Sumir bændanna, sem hófu búskap í Botni á árunum kringum 1850, stöldruðu stutt við og verður fátt frá þeim sagt. Vorið 1846 tóku Jón Brandsson og Steinunn Benjamínsdóttir hér við 4 jarðarhundruðum þegar Jóhannes Jónsson og Rósa kona hans fluttust frá Botni út að Laugum.[513] Í sóknarmannatali frá árinu 1847 er Jón þessi Brandsson sagður vera 31 árs en Steinunn bústýra hans 36 ára.[514] Þau bjuggu hér aðeins í eitt ár en í þeirra stað komu vorið 1847 Björn Filippusson, 31 árs, og hans bústýra, Lilja Jónsdóttir.[515] Þá var mjög skammt um liðið síðan þau tóku saman því 2. nóvember 1845 var Björn í Neðri-Hjarðardal í Dýrafirði en Lilja í Engidal í Skutulsfirði.[516] Hér í Botni bjuggu þau aðeins í eitt ár.[517]

Einar Brynjólfsson, sem hafðist við hér í Botni frá 1849 til 1852 ásamt konu sinni, Guðlaugu Sigmundsdóttur,[518] var á mörkum þess að geta talist til bænda. Í búnaðarskýrslu frá árinu 1850 er honum skipað á bekk með búlausum[519] en í sóknarmannatali frá janúar 1851 er hann talinn bóndi og sagður hafa léð 3 hundruð af 1. býli.[520] Á þessum þremur hundruðum hefur Einar búið í skjóli bróðursonar síns, Brynjólfs Jónssonar, sem á þessum árum hafði hér umráð yfir hálfri jörðinni, það er að segja tólf hundruðum (sjá hér bls. 39).

Einar Brynjólfsson fæddist í Botni 6. janúar 1801 og var eitt margra barna hjónanna Brynjólfs Jónssonar og Guðrúnar Bjarnadóttur sem þá bjuggu hér.[521] Hann mun ekki hafa alist upp hjá foreldrum sínum og var árið 1811 tíu ára tökudrengur hjá Ara bónda Þorkelssyni á Kvíanesi.[522] Á árunum 1811 til 1839 átti hann jafnan heima á Kvíanesi og var þar vinnumaður frá því hann komst á unglingsár.[523] Þegar Einar var 17 ára segir prestur að hann sé dagsfarsgóður og í meðallagi að sér í andlegu.[524]

Þann 23. september 1839 kvæntist Einar stúlkunni Guðlaugu Sigmundsdóttur sem var ellefu árum yngri en hann[525] og voru þau næstu árin vinnuhjú í Selárdal.[526] Guðlaug var fædd á Kroppstöðum í Önundarfirði 4. janúar 1812, dóttir hjónanna Sigmundar Erlingssonar og Guðnýjar Oddsdóttur sem þar bjuggu, en faðir hennar var frá Bæ í Súgandafirði[527] (sbr. hér Kroppstaðir og Bær). Um tvítugt kom hún úr Önundarfirði í Selárdal[528] og var þar lengi vinnukona hjá Gissuri bónda Einarssyni.[529] Með honum eignaðist hún dótturina Signýju, sem fæddist í Selárdal haustið 1834, og tók Gissur þar fram hjá konu sinni (sjá  hér  Selárdalur). Veturinn 1849-1850 var Signý hjá móður sinni og stjúpa hér í Botni.[530]

Einar Brynjólfsson fluttist frá Kvíanesi að Selárdal þegar hann kvæntist Guðlaugu og þar voru þau bæði vinnuhjú hjá nýnefndum Gissuri allt til vorsins 1848.[531] Um það leyti sem Guðlaug giftist Einari segir prestur hana vera vel að sér.[532] Fardagaárið 1848-1849 voru þau Einar og Guðlaug húsfólk á Laugum en fluttust hingað í Botn vorið 1849[533] eins og fyrr var nefnt. Einar var þá orðinn 48 ára gamall og hugðist nú loks byrja búskap. Hann náði þó ekki að tryggja sér ábúðarrétt en fékk eins og áður var frá greint að hokra á þremur jarðarhundruðum í skjóli Brynjólfs Jónssonar frænda síns sem þá var leiguliði hér í Botni. Þau Einar og Guðlaug voru hér í 3 ár og vorið 1850 var bústofn þeirra ein kýr, tíu ær og átta gemlingar.[534] Engan áttu þau hestinn og því síður bát.[535] Þau eignuðust hins vegar fimm börn og komst eitthvað af þeim upp.[536]

Vorið 1852 fengu hjón þessi Keflavík í Suðureyrarhreppi til ábúðar og fluttust þangað frá Botni.[537] Þar bjuggu þau í fjögur ár[538] en hafa líklega farið norður í Skálavík í Hólshreppi vorið 1856 því þaðan komu þau aftur í Súgandafjörð árið 1859.[539] Við þá endurkomu segir prestur að Einar sé örvasa og gamall búandi maður.[540] Bóndamaður þessi var þá 58 ára.

Fardagaárið 1859-1860 bjuggu þau Einar og Guðlaug á Norðureyri[541] en þar urðu þau að gefast upp og var þá ráðstafað að Stað.[542] Þar var Guðlaug vinnukona hjá prestinum, séra Arngrími Bjarnasyni, haustið 1860 en Einar var þá niðursetningur hjá Ólafi karlinum staupa sem einnig bjó á Stað[543] (sbr. hér Staður).

Af því sem hér hefur verið sagt má ráða að Einar Brynjólfsson hafi verið þrotinn að kröftum er hann var settur niður á Stað árið 1860 og eftir það náði hann aldrei að rétta úr kútnum. Hann drukknaði í sjó 24. apríl 1862 og er prestur bókar andlátið lætur hann þess getið að hinn látni hafi verið sveitarómagi.[544] Með hvaða hætti Einar drukknaði liggur hvergi fyrir en hann var eini maðurinn úr Súgandafirði sem fórst í sjó þennan dag.[545]

Guðlaug Sigmundsdóttir, sem átti Einar fyrir eiginmann, lifði miklu lengur. Árið 1880 var hún vinnukona á Gelti en síðustu 16 árin, frá 1883 til 1899, var hún í Selárdal og þar dó hún, 87 ára gömul, 13. desember 1899, orðin sveitarómagi.[546] Guðlaug var jörðuð 7. janúar árið 1900, fyrst allra í nýja kirkjugarðinum á Stað,[547] þeim sem enn gegnir sínu hlutverki. Þessi blásnauða kona, sem sjaldan mun hafa átt meira en rétt til hnífs og skeiðar, átti þó sterkefnaða ættingja því móðir hennar var systir Gísla Oddssonar er síðast bjó í Meira-Garði í Dýrafirði[548] (sbr. Meiri-Garður og Lokinhamrar) og mun hafa verið einn allra ríkasti bóndinn á Vestfjörðum á síðasta fjórðungi nítjándu aldar. Eitt barna hjónanna Guðlaugar Sigmundsdóttur og Einars Brynjólfssonar var Guðrún sem giftist Geirmundi Jónssyni frá Tannanesi í Önundarfirði[549] og þau munum við hitta á Gilsbrekku, næsta bæ við Botn hér að norðanverðu.

Einar Brynjólfsson og Guðlaug, kona hans, fóru frá Botni vorið 1852 eins og fyrr var nefnt en tveimur árum síðar færðu sig hingað hjónin Björn Helgason og Ástríður Sigfúsdóttir.[550] Björn var þá um fimmtugt en Ástríður á fertugsaldri.[551] Þau hokruðu hér á jarðarparti í 3 ár, 1854-1857, en höfðu áður verið þurrabúðarfólk í Klúku[552] og verður frá þeim sagt þegar við stöldrum við þar í hjáleigunni (sjá  hér bls. 92-95).

Síðastur í röð þeirra sem bjuggu í mjög skamman tíma í Botni á árunum kringum 1850 kom Ari Sigurðsson frá Norðureyri er ásamt konu sinni, Elísabetu Guðmundsdóttur, bjó hér á nokkrum hundruðum fardagaárið 1857-1858.[553] Þau Ari og Elísabet voru hér aðeins í eitt ár en hófu vorið 1858 búskap á Keravíkurbökkum í landi Staðar og hefur áður verið um þau fjallað í þessu riti (sjá hér Staður, Bakkakot þar).

Hér hefur nú verið minnst á ýmsa sem bjuggu skamma hríð hér í Botni um miðbik nítjándu aldar og sumt af því fólki var reyndar jarðnæðislaust. Stærsti bóndinn á jörðinni var á þeim árum Brynjólfur Jónsson, og þegar hann fluttist héðan út í Bæ vorið 1857 urðu þáttaskil (sjá hér bls. 39-40). Þau sem tóku við af Brynjólfi hér í Botni voru Kristín Þórarinsdóttir og sambýlismaður hennar Guðmundur Sturluson.[554]

Kristín Þórarinsdóttir hafði skilið við eiginmann sinn, Þórarinn Sigurðsson, bónda á Látrum í Mjóafirði haustið 1852 og flust þaðan, fáum mánuðum síðar, ásamt Guðmundi Sturlusyni, vestur í Hjarðardal í Önundarfirði eins og hér hefur áður verið rakið (sjá hér Innri-Hjarðardalur). Að Botni kom Kristín frá Innri-Hjarðardal og var rétt um fimmtugt er hún fluttist hingað vorið 1857 (sjá hér Staður). Henni fylgdu þá, auk Guðmundar, sex börn hennar og sex aðrir heimilismenn (sjá hér Staður). Af Kristínu Þórarinsdóttur er mikil saga sem áður hefur verið sögð á þessum blöðum (sjá hér Staður) en hér í Botni bjó hún aðeins í sjö ár, frá 1857 til 1864 (sjá hér Staður). Guðmundur Sturluson, sem verið hafði ráðsmaður Kristínar á árum hennar í Hjarðardal, var reyndar talinn bóndi í Botni í sóknarmannatölum prestsins en tekið fram að Kristín væri  fyrirráðandi.[555] Guðmundur andaðist 1. febrúar 1861[556] svo að búskaparár hans hér urðu aldrei nema tæplega fjögur en Kristín bjó áfram í Botni uns hún fluttist að Stað vorið 1864.[557]

Fyrsta árið sem Kristín og Guðmundur bjuggu í Botni var þríbýli á jörðinni en síðan tvíbýli frá 1858 til 1864.[558] Á hinu býlinu bjuggu þá hjónin Jón Torfason og Elín Sigmundsdóttir sem áður voru í Klúku.[559] Jón bjó hér á 5 hundruðum árið 1850[560] og sterkar líkur benda til þess að hundruðin sem hann hafði til ábúðar á árunum kringum 1860 hafi ekki verið miklu fleiri.[561] Þeirri kenningu til rökstuðnings má nefna að Guðmundur Sturluson og Kristín Þórarinsdóttir voru árið 1860 með 4 kýr, 2 hesta og 2 tryppi en Jón og Elín bara með 1 kú og 1 hest.[562] Sauðkindurnar voru reyndar heldur fleiri hjá Jóni eða 35 á móti 29 hjá Guðmundi og Kristínu ef marka má búnaðarskýrsluna.[563] Af búfjártölunum má ráða að Kristín og Guðmundur hafi haft talsvert stærri part úr jörðinni til ábúðar en þau Jón og Elín, máske 16 af 24 hundruðum. Allar líkur benda reyndar til þess að Kristín Þórarinsdóttir og Guðmundur Sturluson hafi verið hér með fleiri hundruð til ábúðar en nokkur hinna fyrri nítjándu aldar bænda í Botni því svo virðist sem enginn þeirra hafi fengið meira en hálfa jörðina til ábúðar (sbr. hér bls. 29-45).

Heimili Kristínar hér í Botni var jafnan fjölmennt. Árið 1860 voru heimilismennirnir 16 og árið 1862 voru þeir 14.[564] Að Guðmundi Sturlusyni látnum mun Sigurður Þórarinsson, sonur Kristínar, hafa verið forverksmaður móður sinnar hér í Botni en hann var elstur þeirra sex barna hennar sem hingað fluttust, fæddur á jóladag árið 1832 (sjá hér Staður). Hér er á öðrum stað sagt nokkuð frá Sigurði, en hann var formaður á skipi móður sinnar og reri a.m.k. stundum frá Bolungavík á þeim árum sem þau áttu heima í Botni (sjá hér Staður). Í búnaðarskýrslu frá árinu 1860 sést að þau Kristín Þórarinsdóttir og Guðmundur Sturluson áttu þá tvo báta og var annar þeirra sexæringur eða fjögra manna far en hinn minni.[565]

Þegar Kristín Þórarinsdóttir fluttist frá Botni að Stað vorið 1864 fór Þórður Þórðarson, frændi hennar, sem þá var ungur maður, að búa hér í Botni.[566] Þórður, sem fæddur var árið 1832, var systursonur Kristínar og fóstursonur hennar (sjá hér Ytri-Vatnadalur). Hann fluttist með Kristínu frá Látrum í Mjóafirði til Önundarfjarðar og síðan hingað í Botn. Þórður og kona hans, Helga Sigurðardóttir frá Norðureyri, stóðu fyrir búi hér í Botni í tvö ár, frá 1864 til 1866,[567] en fluttust héðan vorið 1866 út í Vatnadal og hefur áður verið frá þeim sagt í þessu riti (sjá hér Ytri-Vatnadalur).

Sá sem tók við af Þórði Þórðarsyni hér í Botni vorið 1866 var Þórður Jónsson frá Tannanesi sem kvæntur var Maríu, dóttur hjónanna Sigurðar Sigurðssonar og Guðrúnar Örnólfsdóttur er búið höfðu í Botni á árunum 1826-1837 (sjá hér bls. 39-43). Þórður og María komu frá Laugum en þar höfðu þau verið við búskap í þrjú ár (sjá hér Laugar). Hér í Botni bjó Þórður frá 1866 til 1881 og aftur frá 1884 til 1886.[568] Á árunum 1881-1884 var hann húsmaður í Botni og konu sína, Maríu Sigurðardóttur, missti hann hér í janúarmánuði árið 1882.[569] Frá Botni fluttist Þórður Jónsson að Ytri-Vatnadal.[570] Þar stóð hann fyrir búi í tíu ár og hefur áður verið frá honum sagt á þessum blöðum (sjá hér Ytri-Vatnadalur).

Líklegt er að þeir Þórður Þórðarson og Þórður Jónsson hafi búið hér á sama jarðarparti og Kristín Þórarinsdóttir hafði áður til ábúðar. Árið 1870 bjó Þórður Jónsson hér í Botni með 3 nautgripi, 56 sauðkindur, að lömbum frátöldum, og 2 hesta.[571] Hann var þá með þriðja stærsta búið í Súgandafirði en heldur stærri voru búin hjá Kristínu Þórarinsdóttur á Stað og Brynjólfi Jónssyni í Bæ.[572] Báturinn sem Þórður átti þá var hins vegar lítill, ekki nema tveggja eða þriggja manna far.[573] Árið 1880 var bú Þórðar orðið enn stærra því þá var hann með 4 nautgripi, 72 sauðkindur, að lömbum frátöldum, 2 hesta og 2 tryppi.[574] Bú Þórðar mun þá hafa verið hið stærsta eða næst stærsta í Súgandafirði og er hér var komið sögu átti hann bát sem var sexæringur eða fjögra manna far.[575] Sumarið 1881 lagði Þórður inn fisk hjá verslun Hjálmars Jónssonar á Flateyri.[576] Hlutirnir virðast hafa verið sex og fékk Þórður sjálfur þrjá hluti en þeir Guðmundur Einarsson, Geirmundur Jónsson og Jóhannes Albertsson einn hlut hver.[577] Auk þess að eiga bátinn hlýtur Þórður því líka að hafa verið formaður.

Á árinu 1881 hætti þessi uppgangsbóndi reyndar öllum búskap, að sinni, eins og hér var áður nefnt en óljóst er hvað olli þeirri ráðabreytni. Vera má að hin miklu harðindi, er hófust árið 1881, hafi komi illa við Þórð eða veikindi eiginkonunnar sem dó eins og fyrr var frá greint á fyrstu vikum ársins 1882. Líklegasta skýringin er þó sú að honum hafi verið sagt upp jarðnæðinu því kunnugt er að eigandi flestra hundraðanna sem Þórður bjó á hóf hér sjálfur búskap vorið 1882 (sjá hér bls. 20 og 54-55).

Á þeim árum sem Þórður Jónsson var bóndi í Botni var hér jafnan tvíbýli nema síðasta árið, 1885-1886, en þá var Guðni Egilsson í hjáleigunni Klúku talinn þriðji bóndinn í Botni.[578] Sambýlismaður Þórðar á hans fyrstu búskaparárum var Kristján Þorgilsson sem hóf búskap á jarðarparti hér í Botni árið 1864 eða 1865 og tók þá við af Jóni Torfasyni sem áður var í Klúku.[579]

Kristján var fæddur 24. nóvember 1828 á Svarfhóli í Álftafirði við Djúp, sonur hjónanna Þorgils Bjarnasonar og Sesselíu Steinsdóttur sem þar bjuggu.[580] Hann var bróðir Maríasar Þorgilssonar sem fyrstur manna tók sér varanlega bólfestu á Suðureyrarmölum[581] og hér hefur áður verið sagt frá (sjá hér Suðureyri).

Í marsmánuði árið 1862 var Kristján Þorgilsson orðinn húsmaður hjá Jóni bónda Torfasyni í Botni og átti hér síðan heima til æviloka.[582] Kristján kvæntist haustið 1863 Sigríði Sigurðardóttur, ungri ekkju sem verið hafði tengdadóttir Jóns Torfasonar og konu hans, Elínar Sigmundsdóttur í Botni.[583] Fyrri mann sinn, Sigmund Jónsson, missti Sigríður 5. nóvember 1861 en hann andaðist af slysförum (sjá  hér bls. 91-92).

Sigríður Sigurðardóttir var fædd í Vatnadal 9. maí 1838 en fluttist með foreldrum sínum, Sigurði Bjarnasyni og Guðnýju Nikulásdóttur, að Norðureyri sama vor og ólst þar upp (sjá hér bls. 92). Hún giftist fyrri eiginmanni sínum haustið 1859 og eignaðist með honum tvær dætur.[584] Af þeim lifði sú yngri, Sigmundína, sem fæddist réttum níu mánuðum eftir andlát föður síns.[585]

Þau Kristján Þorgilsson og Sigríður Sigurðardóttir bjuggu í Botni í tíu eða ellefu ár, frá 1864 eða 1865 og allt þar til Kristján andaðist en hann varð úti á Botnsdal 3. apríl 1875.[586] Eiginkona Kristjáns varð þá ekkja í annað sinn og er hún eina húsfreyjan hér í Botni sem varð svo kunnugt sé fyrir þeim ósköpum að missa tvo eiginmenn af slysförum. Einn sonur Sigríðar af hennar seinna hjónabandi komst upp og var það Steinn Kristjánsson sem drukknaði 24 ára gamall 28. febrúar 1898 (sjá hér Staður).[587]

Bú Kristjáns Þorgilssonar og Sigríðar konu hans hér í Botni mun aldrei hafa verið stórt. Árið 1870 bjuggu þau með 1 kú, 13 ær, 2 sauði eða hrúta, 14 gemlinga og 2 hesta.[588] Þessi bústofn var aðeins helmingur af bústofni Þórðar Jónssonar, sem þá var hinn bóndinn í Botni,[589] svo ætla má að Kristján hafi haft um það bil einn þriðja úr jörðinni til ábúðar en Þórður tvo þriðju parta.

Ekkja Kristjáns, Sigríður Sigurðardóttir, hætti strax að búa er hún missti eiginmann sinn vorið 1875. Níu árum síðar gerðist hún hins vegar bústýra hjá Þórði Jónssyni, bónda í Botni (sjá hér bls. 54), sem hér var áður nefndur, en hann var þá orðinn ekkjumaður.[590] Með Þórði fluttist hún

að Ytri-Vatnadal vorið 1886 og fylgdi honum æ síðan uns hún andaðist á Suðureyri árið 1910.[591]

Á þeim árum sem Kristján Þorgilsson var bóndi í Botni var hér jafnan tvíbýli en heimilin voru stundum þrjú því nokkuð var um húsfólk.[592] Um 1865 voru hjónin Sigurður Þorleifsson og Gróa Jónsdóttir hér í húsmennsku skamma hríð[593] en þau bjuggu síðar á Laugum (sjá hér Laugar) og frá 1872 til 1882 voru Marías Þorgilsson, bróðir Kristjáns bónda, og hans fjölskylda húsfólk hér í Botni.[594]

Vorið 1875 hófu hjónin Sigurður Lárentíusson og Sigríður Árnadóttir búskap í Botni en Kristján Þorgilsson, sem hér hafði búið á móti Þórði Jónssyni, var þá nýlega látinn.[595] Sigurður var fæddur í Ytri-Vatnadal árið 1833, sonur hjónanna Lárentíusar Hallgrímssonar og Sigurborgar Bergsdóttur[596] sem þar bjuggu lengi en síðar á Gelti (sjá hér Ytri-Vatnadalur og Göltur). Eiginkona Sigurðar, Sigríður Árnadóttir, var átta árum yngri en hann, fædd á nýársdag árið 1841.[597] Foreldrar hennar voru hjónin Árni Örnólfsson og Sigurfljóð Guðmundsdóttir[598] sem bjuggu skamma hríð hér í Botni og Sigurfljóð reyndar mun lengur en Árni sem var fyrri eiginmaður hennar (sjá hér bls. 44-45).

Sigurður Lárentíusson og Sigríður Árnadóttir voru gefin saman í hjónaband haustið 1860 og byrjuðu búskap í tvíbýli á Gelti vorið 1862.[599] Þaðan fluttust þau þremur árum síðar að Norðureyri og bjuggu þar búi sínu frá 1865 til 1875 er þau færðu sig hingað í Botn.[600]

Árið 1878 var Sigurður orðinn eigandi að jarðarparti hér í Botni og átti hálfa jörðina er hann andaðist árið 1883 (sjá hér bls. 20-21). Í röð sjálfseignarbænda sem um er kunnugt hér í Botni er Sigurður Lárentíusson númer tvö því að frá fyrri tíð er aðeins vitað um einn Botnsbónda sem átti part úr jörðinni, Sigurð Sigurðsson sem hér bjó frá 1826 til 1837 (sjá hér bls. 39-43).

Árið 1880 bjó Sigurður Lárentíusson í tvíbýli hér í Botni og var þá í röð gildari bænda í Súgandafirði.[601] Ef marka má hina opinberu búnaðarskýrslu frá því ári bjó hann þá með 2 kýr, 28 ær, 18 gemlinga og 2 hross en átti engan bát.[602] Bátlaus hefur Sigurður þó varla verið lengi. Tíu árum fyrr átti hann sannanlega lítinn bát en þá bjó hann á Norðureyri[603]

 

og árið 1883 átti hann tvö fjögra manna för.[604]

Þau Sigurður Lárentíusson og Sigríður kona hans dóu bæði með fárra daga millibili síðla sumars árið 1883,[605] hann fimmtugur en hún 42ja ára. Þau höfðu þá eignast 14 börn, fædd á árunum 1861-1881, og af þeim voru fimm á lífi, fjórir drengir og ein stúlka.[606] Fjögur barnanna höfðu dáið á fyrsta ári, einn sex ára dreng misstu þau árið 1876, tvö börn á unglingsaldri vorið 1880 og líklega önnur tvö, bæði um 5 ára aldur, í mislingunum 1882.[607] Um stúlkuna Eufemíu, sem líklegast er að hafi dáið í mislingunum, er þó svolítil vafi. Nafn hennar hverfur úr sóknarmannatölum prestsins árið 1882 án þess að hann skrái andlát hennar eða brottflutning í aðra sókn.[608]

Af börnum Sigurðar Lárentíussonar og Sigríðar konu hans voru fjögur innan við fermingu er þau misstu foreldrana. Einn drengur úr þeim hópi var nokkru áður kominn í fóstur að Gelti, tveimur var ráðstafað vestur í Önundarfjörð haustið 1883 og yngsta barninu, sem var tveggja ára drengur, var komið fyrir í Bæ.[609]

Elsti sonur hjónanna, Sigurðar og Sigríðar, sem náði að vaxa úr grasi hét Steindór og var orðinn 19 ára þegar faðir hans og móðir önduðust árið 1883. Hann varð síðar bóndi í Botni en fór ekki að búa fyrr en vorið 1891 (sjá hér bls. 66-77). Systkinin fimm, sem enn lifðu árið 1883, náðu öll að verða fullorðin nema Jón sem drukknaði 16 ára gamall er þilskipið „Jeanette” frá Flateyri fórst vorið 1887.[610]

Í skjölum Suðureyrarhrepps er varðveitt uppskrift af dánarbúi Sigurðar Lárentíussonar og Sigríðar konu hans. Þar sést að þau áttu 12 jarðarhundruð hér í Botni[611] og einnig þessar jarðeignir:

 

2 hundruð og 30   álnir  í Bæ í Súgandafirði.

1 hundrað  –    60      –     í Gelti í Súgandafirði.

2 hundrað  –    30      –     í Norðureyri í Súgandafirði.

8       –        í Tannanesi í Önundarfirði.

4       –        í Selakirkjubóli í Önundarfirði.[612]

 

Samtals voru allar þessar jarðeignir, 30 hundruð að fornu mati, virtar á kr. 1.821,25.[613] Aðrar eignir dánarbúsins voru virtar á kr. 467,16 svo heildarverðmæti búsins var að dómi virðingarmanna kr. 2.288,41.[614] Kýrverðið var þá um 109 krónur[615] svo alls hafa þetta verið tuttugu kúgildi  og einu betur. Við athugun á dánarbúinu kemur fátt á óvart. Í uppskriftinni sést að Sigurður, bóndi í Botni, átti olíutreyju og líka olíulampa, sem var virtur á tvær krónur, en þrír gamlir lýsislampar úr kopar á eina krónu hver.[616] Á heimili Sigurðar og Sigríðar konu hans voru líka til nær tuttugu guðsorðabækur í kistli, kaffikvörn, fjögur bollapör, handkvörn, fimmtán trog og reisla og er þá fátt talið.[617] Við bæjarvegginn stóð hverfisteinn en niður við sjó tvö fjögra manna för sem hinn látni hafði átt.[618] Þeim fylgdu fjögur handfæri, tvær blýleddur, tólf lóðir, ein sprökulóð, eitt bikað færi, sex stjórafæri og fleira smálegt.[619]

 

Vorið 1884 byrjaði Þórður Jónsson, sem áður bjó í Botni, búskap hér að nýju (sjá hér bls. 49) og mun þá hafa tekið við jarðarpartinum sem Sigurður Lárentíusson hafði búið á. Að því sinni bjó Þórður hér aðeins í tvö ár[620] en þá tóku við nýir bændur sem hér verður síðar sagt frá.

Þegar Þórður Jónsson hætti búskap í Botni hið fyrra sinn, vorið 1881, tóku við af honum þeir Geirmundur Jónsson, sem var bróðir Þórðar, og Jóhannes Albertsson.[621] Þeir bjuggu hér aðeins í eitt ár.[622] Geirmundur var áður á Gilsbrekku (sjá hér Gilsbrekka) en Jóhannes varð bóndi á Norðureyri (sjá hér Norðureyri).

Vorið 1882 fóru hjónin Tómas Eiríksson og Málfríður Guðmundsdóttir svo að búa í Botni[623] að því er ætla má á jarðarpartinum sem Þórður Jónsson hafði áður til ábúðar, því Sigurður Lárentíusson sat um kyrrt.

Þau Tómas og Málfríður komu hingað frá Kvígindisdal við Patreksfjörð en þar var Tómas búandi ekkjumaður haustið 1880 og Málfríður bústýra hans.[624] Fyrri kona Tómasar var Halldóra Snæbjörnsdóttir frá Dufansdal í Arnarfirði og bjuggu þau í Kvígindisdal árið 1870[625] en fyrri maður Málfríðar var Brynjólfur Jónsson, bóndi í Bæ í Súgandafirði, sem drukknaði 18. desember 1873, og hefur hún áður komið við sögu á þessum blöðum (sjá hér Bær). Málfríður var árið 1870 húsfreyja í Bæ[626] en fluttist þaðan árið 1877 vestur á Ingjaldssand[627] og var sem áður sagði orðin bústýra hjá Tómasi Eiríkssyni í Kvígindisdal haustið 1880.[628] Málfríður var fædd á Laugum í Súgandafirði 4. júní 1836 og var dóttir hjónanna Guðmundar Úlfssonar og Guðfinnu Þorgilsdóttur sem þar bjuggu en Tómas, seinni eiginmaður Málfríðar, var frá Ingjaldssandi.[629] Hann var 10 ára gamall hjá foreldrum sínum í Hrauni á Ingjaldssandi árið 1845[630] en faðir hans, Eiríkur Tómasson, bóndi í Hrauni, drukknaði í lendingu við Sæbólssjó fjórum árum síðar (sjá hér Sæból).

Fyrri eiginmaður Málfríðar Guðmundsdóttur, Brynjólfur Jónsson, bóndi í Bæ, keypti aðra hálflenduna í Botni, 12 hundruð, sumarið 1871, tveimur árum áður en hann drukknaði (sjá hér bls. 19-20), og þessari eign mun Málfríður hafa haldið að mestu eða öllu leyti því vitað er að þau Tómas Eiríksson áttu a.m.k. 9 hundruð í Botni árið 1899 (sjá hér bls. 20). Þegar þau komu hingað frá Kvígindisdal vorið 1882 voru þau því að flytjast á sína eigin jörð.

Jón Brynjólfsson, sonur Málfríðar Guðmundsdóttur og fyrri eiginmanns hennar, var hjá móður sinni í Kvígindisdal árið 1880, þá 15 ára, og þar voru líka nokkur börn Tómasar af fyrra hjónabandi hans.[631] Sumt af þessu ungviði fluttist með þeim hingað í Súgandafjörð og var heimili þeirra jafnan fjölmennt á þeim árum sem þau bjuggu í Botni.[632] Heimilismenn voru til dæmis að taka þrettán haustið 1883.[633] Saman eignuðust þau Tómas og Málfríður a.m.k. eitt barn, dótturina Guðbjörgu, sem fluttist með þeim að Botni vorið 1882, og segir prestur hana þá vera tveggja ára gamla.[634]

Tómas Eiríksson var mikilll framkvæmdamaður og byggði upp bæjarhúsin á sínum jarðarparti (sjá hér bls. 81-82). Svo fór að hann bjó þó ekki í Botni nema í 5 ár því vorið 1887 tóku þau Málfríður sig upp og gerðust kaupstaðarbúar á Ísafirði.[635] Jarðeign sína hér leigðu þau Jóhannesi Hannessyni[636] sem bjó i Botni frá 1886 til 1904.[637]

Í ritinu Söguþættir landpóstanna er frá því greint að Tómas Eiríksson hafi fyrstur manna annast póstferðir frá Ísafirði til Súgandafjarðar sennilega um eða fyrir 1900.[638] Nær fullvíst má telja að þessar ferðir hafi hafist 1892 eða 1893 þegar opinber bréfhirðing var sett upp í Botni (sjá hér bls. 61). Tómas var þá farinn að nálgast sextugt en mun hafa verið prýðilega ferðafær og átt krafta í kögglum. Magnús Hjaltason nefnir hann aukapóst í dagbók sinni frá haustinu 1899[639] svo ætla má að Tómas hafi þá enn borið póstinn yfir Botnsheiði. Árið 1902 var annar maður hins vegar tekinn við þessu starfi, Marías Guðmundsson frá Langhól í Súgandafirði.[640]

Á árunum 1886 og 1887 skipti alveg um ábúendur því Tómas Eiríksson og Þórður Jónsson, sem hér höfðu búið í tvíbýli, viku báðir burt, Þórður 1886 og Tómas 1887.[641] Í þeirra stað komu Jóhannes Hannesson og Sveinbjörn Pálsson sem báðir hófu reyndar búskap í Botni vorið 1886 svo hér var þríbýli á síðasta búskaparári Tómasar.[642] Magnús Hjaltason segir í dagbók sinni frá árinu 1899 að þau Tómas og Málfríður eigi níu hundruð af því jarðnæði sem Jóhannes Hannesson hafði þá til ábúðar[643] svo telja má fullvíst að Jóhannes hafi tekið við af Tómasi en Sveinbjörn af Þórði. Að svo hafi verið má líka ráða af orðum Valdimars Þorvaldssonar sem greinir frá því að Guðfinna Daníelsdóttir, sem tók við af Jóhannesi Hannessyni hér í Botni árið 1904, hafi búið í neðri bænum þar sem Tómas var áður.[644]

Þeir Sveinbjörn og Jóhannes komu báðir frá Kvíanesi og höfðu staðið þar fyrir búi í fáein ár er þeir færðu sig inn í Botn vorið 1886 (sjá hér Kvíanes).

Sveinbjörn Pálsson og kona hans, Guðmundína Jónsdóttir, bjuggu hér í Botni í 13 ár, frá 1886 til 1899, en síðan á Laugum og hefur áður verið frá þeim sagt í þessu riti (sjá hér Laugar). Jarðarparturinn sem Sveinbjörn bjó á haustið 1888 var liðlega 7 hundruð að fornu mati[645] svo hann hefur þá haft tæpan þriðjung úr jörðinni til ábúðar. Eigendur þessara hundraða voru börn Sigurðar Lárentíussonar en eitt eða fleiri úr þeim hópi ólust upp hjá Guðmundi Ásgrímssyni á Gelti (sjá hér bls. 53 og 67) og mun hann hafa verið fjárhaldsmaður þeirra. Sveinbjörn var fátækur maður með mörg börn og árið 1889 var hreppsnefnd Suðureyrarhrepps að reyna að tryggja honum þriggja ára ábúðarrétt í Botni.[646] Það reyndist ekki vera auðvelt og á næsta ári réðust þeir Guðmundur Ásgrímsson og Steindór Sigurðsson, sem var elsti sonur Sigurðar Lárentíussonar, í að byggja Sveinbirni út og vísa honum burt frá Botni,[647] enda mun Steindór þá hafa haft fullan hug á að hefja sjálfur búskap á þessum jarðarparti.

Þessi útbygging olli hreppsnefnd verulegum áhyggjum og munu þeir sem í nefndinni sátu hafa óttast að Sveinbjörn yrði bjargþrota með alla sína ómegð ef hann missti jarðnæðið. Í þessum vanda leitaði nefndin ráða hjá Skúla sýslumanni Thoroddsen og ritaði honum bréf þann 28. nóvember 1890. Þar segir meðal annars:

 

Hér með tilkynnist herra sýslumanni Skúla Thoroddsen Ísafirði að við undirskrifaðir höfum frétt að bóndi Guðmundur Ásgrímsson á Gelti og Steinþór[rétt Steindór K.Ó.] Sigurðsson á Botni hafi útbyggt bóndanum Sveinbirni Pálssyni á Botni og fyrir þá sök að hann geti ekki staðið í ábyrgð fyrir öllum jarðarhúsum sem fylgja, sem er 6 álna baðstofa [það er 3,77 metrar á lengd – innskot K.Ó.] sem var í löku standi hvað veggjum viðkom þó að hún væri nýbyggð að viðum og búrkofi, keyptur fyrir 14,- krónur, og þetta eru nú öll húsin og tveir partar af göngum sem liggja inn í baðstofuna og eru þau ekki mikils virði.

Þó að eignir Sveinbjarnar séu litlar, þá er það ekki orðavert nú sem stendur að Sveinbjörn Pálsson eigi ekki eignir fyrir því til ofanálags á þessi ofanskrifuðu jarðarhús, þó þau væru að falli komin, hvað ekki er. Á allri þessari ofanskrifuðu eign vildi bóndi Guðmundur Ásgrímsson á hreppaskilum 1889 að hreppsnefndin stæði í ábyrgð fyrir með Sveinbirni en þá vildi hreppsnefndin fá viðunanlega bréflega skilmála yfir bygging á jörðinni en það hefur hún ekki fengið enn í dag … .[648]

 

Bréfi hreppsnefndarinnar svaraði Skúli sýslumaður 9. janúar 1891 með þessum orðum:

 

Út af bréfi hinnar háttvirtu hreppsnefndar, 28. nóvem-ber fyrra ár, gefst nefndinni hér með til vitundar að þar sem hreppsnefndin, eftir skýrslu þeirra Guðmundar Ásgrímssonar og Steinþórs Sigurðssonar eigi hefur viljað standa í ábyrgð fyrir Sveinbjörn Pálsson eins og umtalað var er hann fékk jörðina og þar sem hér er um ómyndugra eign að ræða en ábúandinn svo efnalítill að það hefur sýnt sig að hann hefur eigi getað séð leigufénu borgið, þá fæ ég ekki betur séð en það sé bæði réttur og skylda fjárhaldsmanna hinna ómyndugu að leitast við að koma jörðinni í betri byggingu.[649]

 

Á almennum hreppsfundi sem haldinn var 13. febrúar 1891 bauð hreppsnefndin Guðmundi Ásgrímssyni að ábyrgjast vegna Sveinbjörns skilvísa greiðslu af þremur jarðarhundruðum í Botni en því tilboði hafnaði Guðmundur.[650] Mun hreppsnefndinni þá hafa sýnst að málið væri tapað og er þetta bókað í fundargerðinni:

 

Þar eð bóndinn Guðmundur Ásgrímsson á Gelti var ófáanlegur að ganga að ofanskrifuðum skilmálum þá voru þessir sem kosningarétt höfðu allir samhuga á því, einn fyrir alla og allir fyrir einn, að láta Guðmund Ásgrímsson á Gelti bera bóndann Sveinbjörn Pálsson út með allt sitt, af þessum þremur jarðarhundruðum, sem honum tilheyra og hann er umráðamaður yfir, upp á sinn kostnað.[651]

 

Undir þessa samþykkt eru síðan rituð nöfn ellefu fundarmanna,[652] þar á meðal nöfn allra hreppsnefndarmanna en þeir voru Jóhannes Hannesson í Botni, Jón Ólafsson á Stað og Þorbjörn Gissurarson á Suðureyri. Hér virtust mál vera komin í harðan hnút en Sveinbjörn var þó aldrei borinn út. Svo fór að hann fékk að búa áfram á þremur jarðarhundruðum, tæpum helmingi þess jarðnæðis sem hann hafði áður haft til ábúðar, en Steindór lét sér nægja að byrja búskap á fjórum hundruðum og er þá miðað við hið forna mat.[653]

Hundruðin þrjú, sem Sveinbjörn fékk að halda, voru lítið jarðnæði en þau varð hann að láta sér nægja því að aðrir úrkostir voru ekki í boði. Á þessum litla skika bjó hann enn haustið 1895[654] og líklega allt þar til hann fluttist að Laugum árið 1899. Allur bústofn Sveinbjörns árið 1888 var ein kýr, átta sauðkindur og eitt tryppi.[655] Sjö árum síðar var ástandið svipað en þá bjó hann með eina kú, átta ær, fimm gemlinga og einn hest.[656] Búfjártölurnar sýna að þröngt hefur verið í búi hjá Sveinbirni og Guðmundínu konu hans hér í Botni.

Hér var þess áður getið að vorið 1886 hófu tveir bændur búskap hér í Botni og var Sveinbjörn Pálsson annar þeirra en hinn var Jóhannes Hannesson sem hafði rýmra um hendur og bjó hér í 18 ár.

Jóhannes fæddist á Stað í Grunnavík 17. nóvember 1846 en foreldrar hans voru séra Hannes Arnórsson og síðari eiginkona hans, Guðrún Sigurðardóttir frá Seljalandi í Skutulsfirði.[657] Faðir Jóhannesar, séra Hannes Arnórsson frá Vatnsfirði við Djúp, var prestur á Stað í Grunnavík í 10 ár en drukknaði á heimleið úr kaupstað 18. desember 1851.[658] Móðir Jóhannesar Hannessonar, Guðrún Sigurðardóttir, átti ættir að rekja til Súgandafjarðar því móðir hennar, Málfríður Jónsdóttir húsfreyja á Seljalandi, var frá Gelti.[659]

Þegar Jóhannes missti föður sinn var hann aðeins 5 ára gamall en þegar hann var 10 ára giftist móðir hans í annað sinn (sjá hér Kvíanes). Seinni eiginmaður hennar var Friðrik Verner Gíslason og með þeim fluttist Jóhannes norðan úr Grunnavík að Tungu í Skutulsfirði árið 1859 eða 1860 og að Kvíanesi í Súgandafirði vorið 1862.[660] Þegar Jóhannes kom í Súgandafjörð var hann 15 ára gamall og næstu 24 árin átti hann jafnan heima á Kvíanesi.[661] Vorið 1869 eignaðist hann eitt hundarð í þeirri jörð er hann fékk föðurarf sinn greiddan.[662] Þann 22. september 1878 kvæntist þessi ungi maður Guðrúnu Ólafsdóttur,[663] sem fædd var árið 1854, en hún var dóttir hjónanna Ólafs Árnasonar og Kristínar Sveinsdóttur[664] sem bjuggu um skeið á Görðum í Önundarfirði (sjá hér Garðar). Haustið 1880 töldust Jóhannes og Guðrún enn vera vinnuhjú hjá móður hans og stjúpföður á Kvíanesi.[665] Jóhannes átti þá bara þrjár ær en þá þegar átti hann bát sem var sexæringur eða fjögra manna far.[666]

Í sóknarmannatali frá haustinu 1882 eru þau Jóhannes Hannesson og Guðrún kona hans sögð vera húsfólk á Kvíanesi[667] sem bendir eindregið til þess að þá hafi þau verið búin að koma sér fyrir á eigin heimili. Hér var áður frá því greint að um 1880 hefði Jóhannes byggt upp neðri bæinn á Kvíanesi og búið í honum (sjá hér Kvíanes) og má telja nær fullvíst að þau hafi flust í hann er þau gerðust húsfólk og hættu að vera hjú árið 1882.

Haustið 1882 varð Jóhannes líka hreppstjóri í Suðureyrarhreppi og tók þá við því embætti af Kristjáni Albertssyni á Suðureyri.[668] Á árunum fyrir aldamótin 1900 var harla fátítt að búlaus maður væri gerður að hreppstjóra og gefur valið á Jóhannesi til kynna að sveitungar hans hafi borið til hans mikið traust. Hreppstjóraembættinu mun Jóhannes hafa gegnt í aldarfjórðung eða því sem næst.[669] Hann átti einnig lengi sæti í hreppsnefnd Suðureyrarhrepps og var oddviti hennar frá því fyrir 1890 og fram yfir aldamót.[670]

Jóhannes Hannesson var einn þeirra Súgfirðinga sem árið 1883 réðust í að festa kaup á þilskipi og tók hann vorið 1884 við skipstjórn á skipi þessu sem var skonnorta og hét Sjófuglinn (sjá hér Suðureyrarhrepppur, inngangskafli). Mjög líklegt verður að telja að fyrir 1883 hafi Jóhannes verið háseti á þilskipum um lengri eða skemmri tíma því án slíkrar reynslu hefði hann varla getað orðið skipstjóri á Sjófuglinum. Skipi þessu stýrði hann til veiða í fjögur ár, 1884-1887 (sjá hér Suðureyrarhreppur, inngangskafli), og var því skútuskipstjóri er hann hóf búskap í Botni vorið 1886. Flestar skúturnar voru á þessum tíma gerðar út í fimm eða sex mánuði á ári. Úthaldið byrjaði þá yfirleitt í mars eða apríl en í september voru skipin tekin á land (sjá  hér Flateyri). Útgerð Sjófuglsins gekk fremur illa (sjá hér Suðureyrarhreppur, inngangskafli) en vera má að Jóhannes hafi engu að síður haft allgóðar tekjur á þessum skipstjóraárum sínum.

Síðustu þrjú árin sem Jóhannes var á Kvíanesi mun hann hafa talist vera bóndi en jarðnæðið var lítið því þá var ýmist tvíbýli eða þríbýli á þessari átta hundraða jörð.[671] Hér í Botni fékk Jóhannes hins vegar til ábúðar liðlega 16 hundruð að fornu mati, og mun yfirleitt hafa búið á 15 til 17 hundruðum þau átján ár sem hann var hér við búskap.[672] Hann hafði því löngum um það bil tvo þriðju hluta allrar jarðarinnar til ábúðar því hún var að fornu mati 24 hundruð eins og hér hefur áður verið nefnt. Á því skeiði sem Jóhannes Hannesson bjó í Botni fékk Kristján Albertsson á Suðureyri hins vegar oft að heyja á Botnsengjum (sjá hér Suðureyri)[673] og má ætla að hann hafi fengið léðar slægjur hjá Jóhannesi.

Vorið 1888 bjó Jóhannes með 3 nautgripi, 32 sauðkindur, að lömbum frátöldum, og 2 hesta.[674] Hann átti þá tvo báta, sem báðir voru sexæringar eða fjögra manna för, og svo einn tólfta part í þilskipinu[675] sem hér var áður nefnt. Sjö árum síðar hafði fénu fjölgað verulega hjá Jóhannesi því haustið 1895 voru sauðkindurnar orðnar 54, auk lamba, en umsvif hans í útgerð höfðu aftur á móti dregist saman því nú átti hann bara einn sexæring eða fjögra manna far.[676] Á síðustu árum nítjándu aldar varð nokkur samdráttur í búskap Jóhannesar hreppstjóra í Botni því vorið 1901 var hann aðeins með 2 nautgripi, 29 sauðkindur og 2 hesta.[677] Báturinn sem hann átti þá var sá sami og áður eða annar álíka stór.[678]

Heildarupphæð lausafjár sem Jóhannes taldi fram vorið 1888 var níu hundruð og sex álnir og sú upphæð breyttist lítið á næstu árum.[679]Aðeins tveir menn í Súgandafirði töldu að jafnaði fram meira lausafé en Jóhannes á árunum 1888-1895 en það voru þeir Jón Ólafsson á Stað og Guðmundur Ásgrímsson á Gelti.[680] Jóhannes var hins vegar með tiltölulega mörg innstæðukúgildi sem fylgdu ábýli hans í Botni[681] og þess vegna lenti hann á þessum árum svolítið neðar í röðinni væri spurt um tíundarhöfuðstól

lausafjár[682] því leiguliðar greiddu ekki tíund af innstæðukúgildunum sem voru annarra eign. Innstæðukúgildin, sem Jóhannes hafði undir höndum á þessu skeiði, voru yfirleitt ekki færri en þrjú og þá hafa leiguærnar verið 18 en sum árin voru þær 20 eða sem því svaraði.[683] Um aldamót voru umsvif Jóhannesar í búskapnum orðin nokkru minni og árið 1900 greiddu fimm bændur í hreppnum hærri lausafjártíund en hann og tveir jafnháa.[684]

Á búskaparárum sínum í Botni gerði Jóhannes jafnan út bát frá Suðureyrarmölum á vorvertíð og átti þar verbúð (sjá hér Suðureyri). Sjálfur mun hann oft hafa verið formaður en þó ekki alltaf (sjá hér Suðureyri). Oft mun Jóhannes einnig hafa farið í nokkra róðra að vetrinum en frá þeim róðrum segir Kristján G. Þorvaldsson svo:

 

Hann [Jóhannes] átti langa leið til sjávar og fór ekki að jafnaði á sjó á vetrum en þegar gæftakafli kom, síðari hluta vetrar, safnaði hann að sér mönnum í innsveitinni og gekk til Suðureyrar. Hann varð að gista hjá bændum Suðureyrar meðan gæftirnar héldust en þegar veður breyttist fóru þeir heim til sín. Þær sjóferðir urðu fáar á vetri hverjum.[685]

 

Skýringin á því að Jóhannes og skipverjar hans urðu að gista hjá bændunum á Suðureyri þegar róið var að vetrinum er sú að þá var talið ólíft í verbúðunum vegna kulda (sjá hér Suðureyri). Þær voru aðeins notaðar vor og haust.

Á þeim árum sem Jóhannes Hannesson bjó í Botni hófust póstferðir yfir Botnsheiði (sjá hér bls. 55). Var þá komið upp vísi að opinberu pósthúsi á heimili Jóhannesar. Magnús Hjaltason segir að þessari bréfhirðingu hafi verið komið á fót árið 1892[686] en Kristján G. Þorvaldsson nefnir árið 1893.[687] Tvímælalaust er að Jóhannes hreppstjóri í Botni annaðist fyrstur manna um bréfhirðingu í Súgandafirði því áður var engin slík þjónusta í boði.[688] Allt fram á síðasta ár nítjándu aldarinnar fór pósturinn, sem var í ferðum til Súgandafjarðar, aðeins að Botni.[689] Á aðalfundi sýslunefndar Vestur-Ísafjarðarsýslu sem haldinn var 18. apríl árið 1900 var samþykkt að mæla með því að aukapósturinn í Súgandafjörð gangi að Suðureyri í hverri ferð með því að Botn, sem hann hefur gengið að, sé á hreppsenda.[690] Við þessum tilmælum mun póststjórnin hafa orðið og breytingin komið til framkvæmda skömmu síðar.

Hjónin Jóhannes Hannesson og Guðrún Ólafsdóttir eignuðust tvær dætur og voru þær einu börn þeirra en á þessum systrum var 15 ára aldursmunur sem þótti sérstakt.[691] Sú eldri var Sigríður Híramína, fædd 20. júní 1879, en sú yngri hét Hansína.[692]

Í ritum sínum minnist alþýðuskáldið Magnús Hjaltason oft á Jóhannes hreppstjóra í Botni og skrifar um hann bæði lof og last. Fyrstu kynni þeirra munu hafa orðið eigi síðar en snemma á árinu 1898 og ekki verður annað séð en vel hafi farið á með þeim í fyrstu. Þann 15. apríl 1898 var Magnús á ferð frá Ingjaldssandi að Selárdal í Súgandafirði og flutti Jóhannes hreppstjóri hann frá Suðureyri yfir að Norðureyri.[693] Um hreppstjórann í Botni orti Magnús þá þessa vísu:

 

Skýr Jóhannes, hreppstjórinn,

                              hest brimramma leiðir sinn

                              út um hranna hýbýlin,

                              heiðursmanna jafninginn.

 

Þetta vor átti Jóhannes í brösum við Steindór Sigurðsson, sambýlismann sinn í Botni, sem var að bilast á geðsmunum (sjá hér bls. 66-77), og bað hreppstjórinn Magnús að yrkja fyrir sig skammavísur um Steindór.[694] Orti Magnús tvo bragi og nefndi þann fyrri Surtsrímu[695] en hinum síðari gaf hann nafnið Gaman og alvara.[696] Kveðskapur þessi, lítt merkur, er enn í góðri geymslu með öðrum handritum alþýðuskáldsins í Landsbókasafni[697] og í Surtsrímu eru m.a. þessar vísur:

 

Surtur minn með svaðalegum flýti,

                              síbeitandi svaranað

                              sinni konu hljóp þá að

 

                              Mæla þannig málmarunnur gerði:

                              “Eignum skipta okkar vil”

                              og svo fór hann þessa til.

 

                              Reif hann sæng úr rúmi konu sinnar

                              í heiftaræði og hleypur þá

                              á harða skeiði bænum frá.

 

                              Fjárhúsgarm hann finna þarna náði

                              inn þar fór þó ei sé rótt

                              og þar hvíldi næstu nótt.

 

                              Heim á bænum hvíldi í fleti aumu

                              í megnum kulda menjagná,

                              mannlaus hlaut að vera þá.[698]

 

Magnús Hjaltason var heimilismaður hjá Jóhannesi Hannessyni í Botni í allmarga mánuði árið 1899.[699] Var hann þá vinnumaður að hálfu en heitkona alþýðuskáldsins, Guðrún Anna Magnúsdóttir, vinnukona að öllu.[700] Af dagbókarskrifum Magnúsar frá vorinu 1899 má ráða að þá hafi enn farið heldur vel á með honum og Jóhannesi hreppstjóra.[701] Eitt af því sem Magnús veitti athygli á sínum fyrstu vikum í Botni var hversu góða stjórn hreppstjórinn hafði á sínum eigin fjármálum. Því lýsir Magnús svo:

 

Jóhannes hreppstjóri í Botni ritar skrár í sérstakar bækur, reglulegar mjög, yfir allt sem hann kaupir og fær að láni í þarfir heimilis síns. Eru fáir sem hirða um að skrifa slíkt en sem flestir ættu að gjöra. Margar slíkar skrár sá ég hjá Jóhannesi í dag.[702]

 

Mikill snjór var í Botni vorið 1899 og veður hörð suma daga. Hjá sveitungum hreppstjórans var bjargræði víða af skornum skammti og horfur á fjárfelli. Í dagbókarskrifum sínum lýsir Magnús tíðarfarinu og dregur upp skýrar myndir af örðugri lífsbaráttu í byrjun sumars. Dagana 20.-28. apríl 1899 ritar hann meðal annars þetta:

 

  1. apríl, fimmtudagur. Sumardagur fyrsti. Austnorðan mold og fjarska frost, eflaust það grimmasta á vetrinum. Fórum við Jóhannes hreppstjóri heim, börðum á bát inn í Þorleifsvík, fyrir innan Lauga, og gengum svo þaðan á ís inn í Botn og bárum í soð. …
  2. apríl, laugardagur. Stormur á norðan með grimmdarfrosti og kafaldsryki. Sótti ég og Jóhannes hreppstjóri Guðrúnu Önnu, unnustu mína, að Langhól. Fórum svo inn í Botn. Er þá unnusta mín komin þangað sem áformað er að hún verði þetta ár. …
  3. apríl, mánudagur. Öskrandi moldbylur á norðan með frosti. Var ég við fjárgjafir í Botni og svo að spyrja Guðjón út úr [þ.e. Guðjón Bjarnason, fósturson Jóhannesar, sem þá var um 14 ára aldur – innskot K.Ó.]. Nú er lítt orðið mögulegt að komast í peningshús í Botni. Snjórinn er svo mikill að dregið er af hverjum húsmæni og verður að ganga inn um heygarða og hlöðubjóra til að sinna skepnum. Heyvandræði hjá almenningi hér í sveit og horfir til fellis. Alls staðar út á sveitinni, þar sem næst til sjóar, eru söl sótt á hólma og sker og þari krakaður upp með orfum og hrífum. …
  4. apríl, þriðjudagur. Dimmur með frosti framan af deginum en birti síðan. Ég dauðveikur, lá í rúminu – nærri farinn. …
  5. apríl, miðvikudagur. Gott veður. Klukkan að ganga til 5 um morguninn fórum við sjómennirnir af stað úr Botni, gangandi út á ísskör og þaðan á bát út á Malir og síðan á sjó, fjórir á sexræðingnum, ég sá fjórði. Fór ég það með miklum þjáningum því svo var ég veikur. … Við fiskuðum 26.
  6. apríl, fimmtudagur. Hvass á austnorðan með grimmdarfrosti sem er á hverjum degi. Gaf ekki á sjó. Fór ég út að Þverá fyrir formanninn, Jóhannes hreppstjóra …
  7. apríl, föstudagur. Austnorðan gjóstur og frost. Fórum á sjó, fiskuðum 8. Má heita fisklaus sjór því þannig er afli hjá öllum í Suðureyrarhreppi. …[703]

 

Þegar leið á vorið rættist úr en sú saga verður ekki rakin hér. Þann 6. nóvember um haustið fór Magnús að kenna börnum á Norðureyri en unnusta hans sat um kyrrt í Botni.[704] Hún var þá barnshafandi og gekk með fyrsta barn þeirra Magnúsar.[705] Þegar Magnús fór að Norðureyri var hún komin 7 mánuðu á leið og tæpum mánuði síðar varð hann að fara með hana burt úr Botni.[706] Að sögn skáldsins vildi Jóhannes hreppstjóri ekki hafa stúlkuna endurgjaldslaust svona á sig komna.[707] Barnið ól Guðrún Anna í Bæ rétt eftir áramótin, þann 5. janúar 1900 (sjá hér Bær).

Við þessa atburði slitnuðu vináttubönd skáldsins og hreppstjórans og gerðist Magnús nú heldur fjandsamlegur Jóhannesi í Botni. Litlu síðar orti hann brag um áflog þeirra Jóhannesar hreppstjóra og Péturs Péturssonar sem lengi var húsmaður í Klúku.[708] Þennan brag, sem er 17 erindi, nefndi Magnús Einvígisrímu og þar eru meðal annarra þessar vísur:

 

 

 

                              Hreppstjórinn var þarna þá,

                              þrotinn dyggð og æru,

                              maðurinn sem úlfinn á

                              undir lambagæru.

                                     – – – – – –

                              Andlitið varð ekki bjart,

                              ekki fór þá betur.

                              Hreppstjórinn með æðisart

                              ætlaði að kyrkja Pétur.

                                        – – – – – –

                              Frekt með höndum fálmaði,

                              fólinn lyndisstífur

                              og í dauðans ofboði

                              ógnar könnu þrífur.

 

                              Heiftarglóð í brjóti brands

                              braust um hjartarætur

                              og á hausinn hreppstjórans

                              hana darka lætur.[709]

 

Er Magnús Hjaltason fór frá Botni undir lok ársins 1899 bar hann heldur þungan hug til Jóhannesar hreppstjóra, svo sem fyrr var nefnt, og lýsir honum svo í dagbók sinni á gamlársdag:

 

Reyndar er Jóhannes jafnan með þægilegustu mönnum á að hitta en þegar að er gáð leynir sér ekki að hann er slægur mjög. Talar hann ávallt glymjandi fagurgala og hrósar þeim sem hann á tal við, úr hófi öllu, og segir vart nokkurn tíma hreint meiningu sína. Fær hann því laklegt orð meðal sveitunga sinna sökum óhreinskilni.

Óhætt má telja Jóhannes með liprari gáfumönnum þótt undirferli og slægð sitji hjá honum jafnan í fyrirrúmi en í þá snöru hefur enginn fallið dýpra en sjálfur ég. …  Jóhannes er lítill maður vexti “Kubbi” en skjótur í hreyfingum með allstór og soraleg augu, mikið enni og heldur kengbogið nef, drykkjumaður grófur og brúkar daglega, jöfnum höndum og ber því á sér, neftóbak og rullu.[710]

 

Magnús Hjaltason fór burt úr Suðureyrarhreppi árið 1900 og kom ekki aftur hingað til langdvalar fyrr en 1911, er hann settist að á Suðureyri,[711] en þar átti hann síðan heima til æviloka (sjá hér Suðureyri). Á þessum síðari dvalarárum Magnúsar í Súgandafirði tókust að sögn Gunnars M. Magnúss fullar sættir með alþýðuskáldinu og gamla hreppstjóranum sem þá hafði látið af embætti. Gunnar var kunnugur báðum og segir frá á þessa leið:

 

Tókst þá með þeim góður kunningsskapur sem báðum entist til hins betra á seinni árum. Jóhannes færði honum þá ýmsar gjafir, fatnað og peninga, en Magnús orti Jóhannesi loflegt ljóð á sjötugsafmæli hans.[712]

 

Um Guðrúnu Ólafsdóttur, konu Jóhannesar Hannessonar, segir Magnús árið 1915 að hún hafi verið kvenskörungur mikill og söngkona með afbrigðum[713] en hún var þá látin fyrir nokkrum árum. Dætur þeirra hjóna, þær Sigríður Híramína og Hansína, fá líka hrós hjá Magnúsi en hann segir þær vera fríðar sýnum og prýðilega gáfaðar.[714]

Jóhannes Hannesson bjó í Botni allt til ársins 1904 en fluttist þá að Stað og bjó þar á parti úr jörðinni næstu fimm árin.[715] Þegar Jóhannes fór frá Botni var hann farinn að nálgast sextugt og hefur líklega viljað minnka við sig í búskapnum því að á Stað fékk hann aðeins fjórðung úr jörðinni til ábúðar, það er fjögur hundruð að fornu mati (sjá hér Staður).

Eiginkona Jóhannesar, Guðrún Ólafsdóttir, andaðist árið 1909.[716] Hann hætti þá að búa og kom sér fyrir hjá dóttur sinni, Sigríði Híramínu og eiginmanni hennar, Kristjáni Albert Kristjánssyni á Suðureyri.[717] Hann átti þá enn tuttugu ár ólifuð en andaðist 82ja ára gamall 14. júlí 1929.[718]

Gunnar M. Magnúss segir um Jóhannes að hann hafi verið góðum gáfum gæddur, lesið mikið og lært margt, enda af mörgum verið talinn fróðastur maður sinnar samtíðar í Suðureyrarhreppi.[719]

Á sjötugsaldri stundaði Jóhannes Hannesson enn vorróðra á árabát frá Suðureyrarmölum.[720] Báturinn sem hann átti árið 1913 hét Gísli og var þriggja rúma.[721] Gamli maðurinn fór þá enn með sjóferðabæn þegar lagt var úr vör en uppsátur fyrir bátinn hafði hann í Þvertumvör og ofan við hana átti hann beitingaskúr úr timbri sem var klæddur með tjörupappa.[722] Vorið 1913 reru Jóhannes og skipverjar hans með lóðir en voru líka með handfæri.[723]

Hér hefur áður verið minnst á Steindór Sigurðsson sem hóf búskap í Botni vorið 1891 og bjó hér næstu átta árin. Um hann hefur margt verið ritað[724] en hér verður látið nægja að stikla á stóru.

Steindór fæddist 21. júlí 1864 og var sonur hjónanna Sigurðar Lárentíussonar og Sigríðar Árnadóttur sem þá áttu heima á Gelti.[725] Foreldrar hans hófu búskap í Botni vorið 1875 og bjuggu hér í átta ár en dóu bæði árið 1883 (sjá hér bls. 52-53). Eftir foreldra sína mun Steindór hafa erft jarðarpart í Botni (sjá hér bls. 20-21) en ekki er alveg ljóst hversu mörg hundruð það voru. Árið 1899 átti hann hér 6 hundruð, sem Kristján bróðir hans keypti á því ári,[726] en Kristján átti nokkrum árum síðar 9 hundruð í þessari sömu jörð[727] og hefur líklega erft 3 hundruð.

Þegar Steindór missti foreldra sína árið 1883 var hann 19 ára gamall. Hann fór þá fyrst að Laugum og var þar vinnumaður í tvö ár en fardagaárið 1885-1886 var hann vinnumaður á Gelti.[728] Á árunum 1887-1889 var hann líka eitthvað á Gelti því þaðan fluttist hann 1889 norður í Hnífsdal.[729] Í einni heimild er fullyrt að Steindór hafi á yngri árum verið við sjóróðra í Bolungavík[730] svo líklega hefur hann bæði róið þaðan og frá Hnífsdal. Undir lok ársins 1890 var Steindór kominn aftur í Súgandafjörð og sestur að í Botni.[731] Hann var þá lausamaður að sögn prestsins.[732]

Búskap sinn hér í Botni byrjaði Steindór vorið 1891 á 4 hundruðum að fornu mati, það er einum sjötta parti úr jörðinni,[733] en haustið 1895 hafði hann til ábúðar liðlega fimm og hálft hundrað og er þá miðað við hið forna mat.[734] Á sínu fyrsta búskaparári var Steindór kýrlaus en bjó með 11 ær og 2 gemlinga.[735] Hann átti þá hálfan hest á móti Jóni Tómassyni[736] sem var húsmaður í Botni á árunum 1888-1892[737] og taldist reyndar búa hér á tæplega einu hundraði fardagaárið 1891-1892.[738]

Vorið 1895 var Steindór enn kýrlaus en sauðfénu hafði fjölgað því hann var kominn með 29 ær og 16 gemlinga.[739] Svo átti hann líka tvö tryppi þegar hér var komið sögu.[740]

Er Steindór byrjaði búskap var hann maður einhleypur en systir hans, Sigurfljóð Sigurðardóttir, var hjá honum tvö fyrstu búskaparárin, 1891-1892 og 1892-1893.[741] Við lok ársins 1891 segir prestur hana vera 18 ára.[742] Fardagaárið 1893-1894 var Vigdís Þórðardóttir, þá liðlega fertug, vinnukona hjá Steindóri en næsta fardagaár var hann einn í heimili.[743]

Árið 1895 fékk Steindór sér bústýru og var það María, dóttir hjónanna Maríasar Þorgilssonar og Ástríðar Halldórsdóttur sem þá áttu heima á Suðureyrarmölum.[744] Þar höfðu þau tekið sér bólfestu haustið 1889, fyrst allra (sjá hér Suðureyri).

María Maríasdóttir var tveimur árum eldri en Steindór og var orðin 33ja ára er hún gerðist bústýra hans.[745] Sumarið 1889 hafði hún eignast barn með Guðmundi Guðmundssyni, sem hér hefur áður verið nefndur,[746] en hann hafði tveimur árum fyrr misst konu sína, Guðnýju Þórðardóttur á Laugum, með mjög sviplegum hætti (sjá hér Laugar).

Barnið sem María eignaðist með Guðmundi var stúlka og hlaut hún nafnið Guðmunda.[747] Hún náði að komast á annað ár en dó á gamlársdag árið 1890.[748] Ekki auðnaðist Maríu að sjá fyrir barninu þann skamma tíma sem það lifði, enda nær fullvíst að frá föðurnum, sem fluttur var í annað byggðarlag, hafi einskis stuðnings verið að vænta. Hin einstæða móðir varð því að leita á náðir hreppsins til að sjá barninu farboða.[749] Þegar María fór til Steindórs var barnið dáið en hún skuldaði hreppnum enn peninga sem hann hafði borgað með því. Samkvæmt gildandi lögum og reglum mátti hún því ekki ganga í hjónaband nema hreppurinn fengi skuldina greidda eða gæfi hana eftir.[750] Þann 12. apríl 1896 voru Steindór í Botni og María, ráðskona hans, þó pússuð saman af presti[751] og í reikningum Suðureyrarhrepps er gerð grein fyrir uppgjöri á sveitarskuldinni með þessum orðum:

 

Þær 27 krónur 24 aurar frá Steinþóri Sigurðssyni, Botni, stendur svo á að hann borgaði þær fyrir stúlkuna Marju Marjasardóttur á Botni. Hún skuldaði hreppnum 54 krónur 48 aura fyrir barn sem hún átti fyrir nokkrum árum. Svo andaðist barnið og voru menn afhuga að hún myndi geta borgað ofannefnda skuld. Þó kom að því að Steinþór Sigurðsson á Botni beiddi hennar sér fyrir konu og var henni þá eftir gefin hálf skuldin, ef Steinþór Sigurðsson vildi borga það hálfa af skuldinni til hreppsins sem hann hefur gjört. Hefði skuldin átt að borgast öll gat allt eins skeð að ekki væri von um neitt af ofannefndri skuld.[752]

 

Upphæðin sem Steindór greiddi fyrir Maríu svaraði á þáverandi verðlagi til um það bil eins fjórða hluta úr kýrverði.[753]

Svaramenn við hjónavígsluna í Staðarkirkju 12. apríl 1896 voru þeir Kristján Albertsson á Suðureyri og Jóhannes Hannesson, oddviti og hreppstjóri í Botni.[754] Magnús Hjaltason segir að það hafi verið Jóhannes hreppstjóri sem kom þeim Steindóri og Maríu í hjónaband en brúðguminn hafi í raun gengið nauðugur upp að altarinu.[755] Um sannleiksgildi þeirra orða er best að hafa fyrirvara en frásögn Magnúsar, er hvað sem öðru líður, skemmtileg. Hann segir frá á þessa leið:

 

Steindór Sigurðsson hafði búið sem óðalsbóndi í Botni í besta uppgangi og var þá ógiftur en síðan fékk hann konu þeirrar er María hét Maríasdóttir úr Súgandafirði. Átti hann hana nauðugur. Var sagt að Jóhannes Hannesson hreppstjóri hefði knúsað þau saman til þess að koma því til leiðar að María yrði hluttakandi í fasteignum Steindórs sem voru ærið miklar.[756]

 

Þessi orð Magnúsar eru skrifuð vorið 1898 en nær þremur árum síðar greinir hann nánar frá hjónavígslunni og kemst þá svo að orði:

 

… og varð það með samanbarningi Jóhannesar Hannessonar að þau Steindór og María voru gefin saman í hjónaband á Stað í Súgandafirði vorið 1896. Var sú athöfn skringileg mjög. Svo var Steindór nauðugur að fara inn að grátunum að tveir menn ætluðu ekki að geta komið honum þangað og ekki játaði hann nema tveimur spurningum prófasts, Janusar Jónssonar í Holti. Og svo var hann búinn til fótanna að hann hafði stígvél á öðrum fæti en skinnskó á hinum. Vildi hann ekki vera á annan veg búinn.

En eftir að þau voru þannig komin í hjónaband hét María því að launa skyldi hún nú manni sínum þráa þann er hann hefði sýnt við að eiga sig og stríddi hún honum nú sem mest hún mátti. Lenti í ærnum ófriði á milli þeirra uns Steindór hætti að hugsa nokkuð um heimili sitt og tók að fara víðs vegar. Fór þá bú hans, sem var ærið mikið, allt á ringulreið.[757]

 

Steindór í Botni mun snemma hafa gerst nokkuð einrænn og ekki hafði hann verið lengi í hjónabandi þegar verða fór vart við alvarlega bilun á geðsmunum hans. Jóhannes Hannesson hreppstjóri var sambýlismaður Steindórs og líklega hefur það nábýli verið orðið hreppstjóranum til óþæginda árið 1898 er hann fékk Magnús Hjaltason til að yrkja fyrir sig skammavísurnar sem hér voru áður nefndar (sjá hér bls. 62). Steindór taldist þá enn vera búandi maður í Botni,[758] og á fyrri hluta þess árs keypti hann sér bát norður í Bolungavík.[759] Á páskadagsmorgun, 10. apríl 1898,  kom hann róandi, einn síns liðs, á báti þessum frá Bolungavík og lenti í sandinum utan við túnið á Suðureyri.[760] Á vorvertíðinni sem þá fór í hönd reri hann einn á bátnum frá Suðureyrarmölum og kom sjaldan í land nema tvisvar í viku.[761] Bátinn missti Steindór því hann fauk og brotnaði í spón.[762] Um þetta leyti mun geðveikin hafa verið að ná tökum á honum og illdeilur hans við Jóhannes hreppstjóra fóru harðnandi. Þann 10. september 1898 skrifar Einar Jónsson á Suðureyri þetta:

 

Jóhannes Hannesson kom hér og sagði að Hannes Hafstein hefði komið í Botn og átt að halda réttarhald yfir Steinþóri en þá var hann horfinn ríðandi eitthvað inn á Botnsheiði og skildi fólk ekkert í að sýslumaðurinn skyldi ekki hafa séð hann.[763]

 

Upp úr þessu fór allt úr skorðum hjá Steindóri og gerðist hann umrenningur og mátti um skeið kallast útilegumaður. Að kröfu lánardrottna voru jarðeignir hans boðnar upp 13. júlí 1899 en hann átti þá sex hundruð í Botni og þrjá aðra jarðarparta í Súgandafirði, það er að segja tæplega eitt hundrað í Bæ og einhverjar álnir í jörðunum Gelti og Norðureyri.[764]

Á árunum 1899-1902 var Steindór yfirleitt á flakki um Súgandafjörð, Önundarfjörð, Bolungavík og Skutulsfjörð.[765] Hann fór líka inn í Álftafjörð og Seyðisfjörð við Djúp[766] og máske lengra. Einhverjar vikur var hann þó í kaupavinnu sumarið 1899, hjá Jóni Guðmundssyni búfræðingi er þá bjó á Kroppstöðum í Önundarfirði, og síðast dvaldist hann um hríð í Botni í septembermánuði árið 1899.[767]

Magnús Hjaltason segir að oft hafi Steindór farið fjallasýn og óvegi og tíðast gist í útihúsum um nætur.[768] Haustið 1899 var Magnús heimamaður í Botni og segir Steindór hafa komið gangandi yfir Botnsheiði 25. október.[769] Frá þessari komu hans í Botn segir Magnús nánar og kemst þá svo að orði:

 

Beiddi hann að lofa sér að vera og ætlaði Jóhannes húsbóndi að gera það en Guðrún kona hans tók það með öllu af. Fór hann [Steindór] því af stað í niðamyrkri út að Kvíanesi og fékk að vera þar um nóttina. Ekki vildi Guðrún í Botni heldur gjöra honum neitt gott.[770]

 

Þegar hér var komið sögu hefur Steindór líklega verið búinn að rífa bæinn, sem hann hafði átt í Botni, því að sögn Magnúsar eyddi hann eigum sínum með öllu móti svo tryggt yrði að María kona hans fengi einskis notið af þeim.[771]

Aldamótaveturinn 1900-1901 átti Magnús Hjaltason heima á Úlfsá við Skutulsfjörð. Þann vetur skrifar hann í dagbók sína 2. janúar:

 

Kom Steindór Sigurðsson frá Botni. … Hann kom utan úr Seljadal og hafði legið þar úti nóttina áður. Á hann hvergi heimili og ferðast þannig milli manna missiri eftir missiri. Er hann hörmulega til fara. Mjög sjaldan talar hann við menn en kemur af og til á bæi og biður þá oft að gefa sér mat. Engum gerir hann vísvitandi mein en oft hefur mönnum orðið felmt við, helst kvenfólki, er hann hefur fundist óvænt í útihúsum.

Er hann nú einkennilega klæddur, í gæruúlpu ermalausri er hann hefur búið til úr sex gærum. Smokkar hann henni niður yfir sig, utan yfir önnur föt, og hefur handleggina innanundir. Brúkar því enga vettlinga. Úlpan klæðir niður á mjóalegg. Til fótanna er hann í skinnsokkum úr hrosshúð og snýr hárið inn. Á höfðinu hefur hann skinnhúfu. Þannig klæddur liggur hann úti um nætur, úti á víðavangi eða þá í útihúsum.[772]

 

Steindór Sigurðsson var talinn ramur að afli, að sögn Magnúsar Hjaltasonar efldur tveggja manna maki.[773] Finnbogi Bernódusson í Bolungavík segir ýmsar kraftasögur af Steindóri, m.a. þá að hann hafi gripið tvo pilta um tvítugt, er gert höfðu honum grikk, sinni hendi hvorn og borið þá ærinn spöl til sjávar í Bolungavík.[774] Piltar þessir höfðu tekið skjóðu Steindórs og neituðu að skýra frá hvar þeir hefðu látið hana.[775] Þá er best að sjórétturinn skeri úr, sagði förumaðurinn, greip piltana og lagði af stað með þá í átt til sjávar.[776] Þegar niður í sandinn kom og Steindór lét sem hann hyggðist kæfa þessa pörupilta gugnuðu þeir og sögðu til skjóðunnar.[777]

Á sínum förumannsárum fór Steindór stundum í eina eða tvær sjóferðir frá Bolungavík ef mann vantaði í róður.[778] Ekki vildi hann þó hlutinn sinn úr þessum róðrum og var hann jafnan sendur Suðureyrarhreppi.[779] Förumaðurinn frá Botni vildi aldrei peninga og keypti aldrei neitt en hann þáði mat hjá góðviljuðu fólki.[780] Frá neysluháttum Steindórs segir Finnbogi Bernódusson svo:

 

Helst vildi hann rúgbrauð og slátur. Fisk og lifur borðaði hann gráðugt en var lítið gefinn fyrir kjöt. Smjör vildi hann ekki en flot og bræðingur þótti honum góður og væri það ekki fyrir hendi át hann brauðið allslaust og deif því ofan í vatn. Betra þótti honum að dýfa því ofan í sjó og það gerði hann þegar hann ferðaðist með sjó fram. Grautur þótti honum mjög góður og gat étið firn af honum. Annars át hann allt sem að kjafti kom þegar hann var soltinn á ferðum sínum, og fóru af því hinar ótrúlegustu sögur. Hann kvaðst hafa bragðað marglyttu en taldi það vera það versta sem hann hefði lagt sér til munns. Aftur á móti fannst honum allur skelfiskur kostafæða. Sló hann þá skeljunum við stein, braut þær og kroppaði fiskinn innan úr með fingrunum og át hann hráan. Aldrei sást hann hafa hníf meðferðis en það sem hann þurfti að ná sundur barði hann sundur með steini, þar sem hendur hans og tennur hrukku ekki til.[781]

 

Finnbogi Bernódusson, sem þetta ritaði, var fæddur 1892 og mun sjálfur hafa munað eftir Steindóri. Hann lýsir vel þessum þrekmikla flakkara og kemst þá meðal annars svo að orði:

 

Fámáll var Steindór. Aldrei heilsaði hann eða kvaddi þar sem hann kom og barði aldrei að dyrum. Hann birtist bara allt í einu í loftsgatinu, dró sig upp á loftið og settist án þess að yrða á neinn og sat svo þegjandi þar til á hann var yrt.

… Aldrei vissu menn hann þvo sér. Hár hafði hann niður á herðar og var allt einn flóki, hár og skegg. … Oft var hár hans og skegg ein klakahetta þegar hann kom til byggða úr vondum vetrarveðrum. Undruðust margir þrek hans og hörku. Steindór hafði afburða góða heilsu til líkamans, varð aldrei misdægurt, hvernig sem hann fór með sig og hvað sem hann lét ofan í sig.[782]

 

Eitt sinn var Steindór á ferð frá Keflavík í Suðureyrarhreppi til Bolungavíkur og fór fjöruna undir fjallinu Öskubak. Hann hrapaði þá úr Bakkaófæru utan Skálavíkur og fram í sjó en svamlaði þó að landi.[783] Þessari svaðilför lýsir Finnbogi Bernódusson og segir:

 

Ekki kom hann samt við í Skálavík heldur fór þar með sjó fram og inn alla Stigahlíð til Bolungavíkur. Þegar þangað kom voru föt hans í henglum og sá víða í hann beran. Marinn og flumbraður var hann, bæði á fótum, höndum og höfði, og hár og skegg allt ein blóðstorka. Þar var gert að sárum hans og honum gefin föt og hlynnt að honum.[784]

 

Haustið 1901 átti Magnús Hjaltason heima á Grænagarði, litlu þurrabúðarkoti innan við kaupstaðinn á Ísafirði. Þann 7. september á því ári fylgdi hann móður heitkonu sinnar vestur í Súgandafjörð og hittist þá svo á að Steindór var staddur í Botni.[785] Um kvöldið greip Magnús dagbókina og skrifaði:

 

Ærinn kvartur er nú meðal Súgfirðinga undan Steindóri Sigurðssyni, umrenningnum frá Botni. Er hann nú farinn að sýna yfirgang svo mikinn að fólk getur ekkert við hann tætt. Einnig er hann farinn að stela og hefur hann stolið skreið allmikilli úr hjöllum ýmsra bænda í Súgandafirði. Pálmi bóndi í Botni hefur á þann hátt misst 10 til 20 steinbíta. ¼

Steindór var í Botni þennan dag og stal þótt um hádag væri. Sá ég hann. Var hann ekki illa mjög til fara, með hár í fléttum niður á herðar. Er nú slíkt nýlunda hjá karlmanni því nú láta allir snoðklippa sig.[786]

 

Hálfum mánuði síðar færir Magnús okkur aftur fréttir af Steindóri og greinir frá því að 22. september hafi þessi einfari sést reka fjárhóp út með norðanverðum Súgandafirði en verið stöðvaður á Gilsbrekkuhlíð af Jóhannesi Hannessyni hreppstjóra og hans fólki.[787] Í fjárhópnum voru 27 sauðkindur, flestar úr Skutulsfirði.[788] Við hreppstjórann sagði Steindór að Tungubændur hefðu gefið sér þetta fé og nú væri hann á leið með það til Keflavíkur og hygðist hagnýta sér það þar til vetrarforða.[789] Þessa skýringu gat Jóhannes hreppstjóri ekki tekið gilda og lét hann reka féð úr höndum Steindórs og sendi kæru til sýslumanns.[790]

Næsta dag var Steindór kominn norður í Skutulsfjörð og var í Tungu er sýslumaður reið þar í hlað.[791] Hann brá sér þá inn á Kirkjubólsrétt og þangað kom sýslumaður skömmu síðar.[792] Við réttina skipaði sýslumaður Jóni hreppstjóra Halldórssyni á Kirkjubóli að taka Steindór fastan[793] og frá því sem síðan gerðist segir Magnús Hjaltason með þessum orðum:

 

En það gekk tregt að fá menn til að taka Steindór því engir þorðu að honum. Steindór var á gangi með hendur í vösum í kringum réttina og talaði ekki orð. Síðan lagðist hann sjálfviljugur niður og var hann þá tekinn en bar sig ekkert á móti og báru hann svo fjórir menn frá réttinni og ofan að Hafrafelli. Þaðan var hann fluttur út á Ísafjörð og var rígbundinn niður í skipið. ¼ Síðan báru þeir sömu fjórir menn hann úr skipinu upp í fangahús.[794]

 

Fjórum dögum síðar braust Steindór út úr tugthúsinu, náði glugga úr og tróð sér þar út.[795] Skömmu síðar mætti hann sýslumanni á götu og tók þá ofan fyrir yfirvaldinu, aldrei þessu vant.[796] Hann var nú settur aftur í tugthúsið á Ísafirði og sat þar í einn mánuð en 27. október þetta sama haust var farið með heljarmennið vestur í Súgandafjörð, til Jóhannesar Hannessonar, hreppstjóra í Botni.[797] Þar dvaldist hann ekki lengi því fimm dögum síðar, 1. nóvember 1901, var hann kominn að Kvíanesi og er í allsherjarmanntalinu sem tekið var þann dag sagður vera flökkumaður.[798] Í sóknarmannatölum prestsins frá 31.12.1899 og 31.12.1900 er hann hins vegar skráður í Botni en sagður vera á flækingi.[799] Árið 1901 hefur Steindór líklega verið eitthvað hjá frændfólki sínu á Gelti því að í desemberlok á því ári telur prestur hann eiga þar heima en vera á flækingi.[800]

Í dagbók Magnúsar Hjaltasonar frá árinu 1902 er stöku sinnum minnst á Steindór, meðal annars þann 4. febrúar en þá er þessi orð að finna í dagbókinni: Einsdæmi er nú að heyra af Steindóri Sigurðssyni frá Botni í Súgandafirði, umrenningnum. Hann drekkur þvagið úr sér, pissar vanalega í glas er hann ber í vasa sínum og drekkur svo. Ekki sýnist heilsa hans bilast að heldur.[801]

Sumardag einn árið 1902 berast enn tíðindi af Steindóri norður að Grænagarði og Magnús færir þau í letur. Hann skrifar:

 

Af Steindóri ¼ var það nú að frétta að hann hélt til í Keflavík norðan Gölt og byggði þar fram í dal vegg ærið mikinn. Svo hafði hann og slegið mikinn hluta túnsins í Keflavík og borið nokkuð af heyinu saman í tótt. Leit því út sem hann ætlaði að setjast þar að en stundum fór hann til bæja, til Skálavíkur norður eða vestur í Súgandafjörð til að fá sér að éta.[802]

 

Þetta ritaði Magnús 6. júlí en tveimur dögum síðar fékk hann nýjar fréttir af Steindóri og þær öllu lakari eins og sjá má í dagbókinni, en þar stendur:

 

Steinþór [rétt Steindór] frá Botni, umrenningurinn, velti grjóti niður úr Spillinum [fjalli í Súgandafirði] á ýmsa Súgfirðinga er fóru um fjöruna. Eftir að hafa gert þetta í viku var gjör að honum mannsöfnuður og náðist hann. Var svo farið með hann á þing er sýslumaður, Hannes Hafstein, þingaði á Suðureyri. Var Steindóri þá hótað illu og gafst hann þá upp með góðu. Var hann þá látinn laus, enda var hann þá búinn að vera fjóra daga í böndum og að sögn ekkert hlíft.[803]

 

Við þessa handtöku mun útilegumannsferli Steindórs hafa lokið og má ætla að næstu vikurnar og máske lengur hafi hann verið í strangri vörslu. Við lok ársins 1902 segir prestur Steindór vera ómaga hjá Jóni Einarssyni á Suðureyri og ári síðar var hann ómagi hjá Guðmundi Ásgrímssyni á Gelti.[804] Í reikningum Suðureyrarhrepps frá fardagaárinu 1902-1903 má sjá að þá hefur kostnaður hreppsins vegna Steindórs numið kr. 183,70,[805] sem þá svaraði til verkamannakaups fyrir 735 vinnustundir (sbr. hér Suðureyri).

Í reikningum hreppsins er að finna nákvæma sundurliðun á þessum kostnaði. Fæðiskostnaður var kr. 142,00 en fyrir föt á Steindór og skóleður voru greiddar kr. 32,70.[806] Þrjár krónur fékk Jóhannes Hannesson hreppstjóri greiddar fyrir ferð á Ísafjörð eftir járnum og tveir lásar til að læsa með járnum kostuðu báðir til samans tvær krónur.[807] Þeir Friðbert Guðmundsson og Jóhannes Albertsson fengu svo greiddar fjórar krónur, báðir til samans, fyrir að flytja heljarmanninn á milli bæja og er þá allt talið.[808]

Hreppsreikningurinn sem hér hefur verið vitnað í sýnir, svo ekki verður um villst, að sumarið 1902 hefur Steindór verið settur í járn og menn því ekki látið nægja að færa hann í bönd eins og Magnús Hjaltason greindi frá. Hversu lengi Steindór var hafður í járnum veit nú líklega enginn, máske bara í fáa daga, en verið getur að sá tími hafi verið miklu lengri.

Árið 1903 var Steindóri eins og fyrr var nefnt  komið fyrir á Gelti hjá Guðmundi bónda Ásgrímssyni en þau Steindór og eiginkona Guðmundar, Guðrún Ólafsdóttir, voru bræðrabörn (sjá hér bls. 66-67 og Göltur). Á almennum hreppsfundi, sem haldinn var á Suðureyri 27. febrúar 1904, lýsti Guðmundur hins vegar yfir því að sér væri með öllu ömögulegt að hafa drussann lengur á sínu heimili og var Steindóri þá ráðstafað til Guðmundar bónda Sigurðssonar á Langhól í Bæ.[809]

Ýmislegt bendir til að um þetta leyti hafi Steindór farið að spekjast og víst er um það að sumarið 1904 gekk hann að verkum á Langhól í sex vikur og fjóra daga sem hver annar kaupamaður.[810] Í bréfi sem Guðmundur á Langhól ritaði þáverandi oddvita Suðureyrarhrepps 5. september 1904 tilkynnir hann að Steindór sé nú strokinn frá sér en tekur fram að hann hafi dvalist á Langhól í 25 vikur og 4 daga.[811] Fyrir fæði Steindórs átti hreppurinn að greiða bóndanum á Langhól 50 aura á dag en í nýnefndu bréfi tekur Guðmundur fram að fyrir vinnu Steindórs í 6 vikur og 4 daga reikni hann honum níu krónur á vikuna og fæðisreikningurinn fyrir allan dvalartíma þessa niðursetnings lækki því úr kr. 89,50 í kr. 29,50.[812]

Reikningar Suðureyrarhrepps bera með sér að á árunum 1903-1909 var árlegur kostnaður sveitarfélagsins af Steindóri mun lægri en verið hafði fardagaárið 1902-1903. Næsta fardagaár var þessi kostnaður til dæmis að taka kr. 52,80 og kr. 106,07 árið 1905-1906.[813]

Á árunum 1904-1909 virðist Steindór ýmist hafa verið á Gelti eða í Bæ.[814] Fardagaárið 1905-1906 var hann settur niður í Bæ[815] og þar, hjá bóndanum Kristjáni Guðmundssyni, var honum líka ætluð vist fardagaárið 1908-1909.[816]

Árið 1907 tók geðveikrahælið á Kleppi til starfa[817] og á almennum hreppsfundi, sem haldinn var á Suðureyri 16. mars á því ári, var samþykkt að sækja strax um vist á hælinu fyrir Steindór.[818] Séra Þorvarður Brynjólfsson á Stað var þá orðinn oddviti í Suðureyrarhreppi og í aprílmánuði árið 1907 sendi hann stjórn geðveikrahælisins beiðni um pláss fyrir Steindór á Kleppi.[819] Ráðamenn geðveikrahælisins töldu sér þá ekki fært að taka við Steindóri fyrst um sinn en vorið 1909 var umsóknin endurnýjuð og fékk þá jákvæðari undirtektir.[820]

Við lok ársins 1909 var Steindór þó enn til heimilis hjá Kristjáni Guðmundssyni í Bæ[821] og mun ekki hafa farið á Klepp fyrr en 1910. Á geðveikrahælinu átti hann sín síðustu ár og andaðist þar, fimmtugur að aldri, á jóladag árið 1914.[822]

Frá dvöl Steindórs á Kleppi segir Finnbogi Bernódusson svo:

 

Þar var hann settur í að bera sand en neitaði því fljótlega, kvaðst ekki vera svo vitlaus að vera að bera sama sandinn dag eftir dag. En nú brá svo við að Steindór fór að heimta rakstur og snyrtingu dag hvern. Reikaði hann þá gjarnan um bæinn í frakka með hvítt um hálsinn og kúluhatt. En ekkert handtak fékkst hann til að vinna. Hann varð Súgfirðingum mjög dýr sjúklingur. Vildu þeir fá hann heim aftur en Steindór neitaði að fara og dvaldi á Kleppi til æviloka.[823]

 

Hér verður ekki fjallað nánar um Steindór bónda í Botni en bent skal á að grjótveggurinn sem hann hlóð í Keflavík árið 1902 stendur þar enn (sjá hér Keflavík).

Árið 1899 fór allt fólk úr efri bænum hér í Botni því Steindór lagðist út og Sveinbjörn Pálsson fluttist þá um vorið með sína fjölskyldu að Laugum (sjá hér Laugar). Eins og áður var nefnt er líklegt að Steindór hafi rifið bæinn og svo mikið er víst að þegar hann kom að kvöldlagi í Botn 25. október 1899 þurfti hann að biðjast gistingar í neðri bænum (sjá hér bls. 70-71).

Fardagaárið 1899-1900 bjó enginn í efri bænum í Botni[824] en vorið 1900 fluttust hingað hjónin Pálmi Lárentíusson og Sesselja Jónsdóttir sem komu frá Keflavík norðan Galtar en þar höfðu þau búið í 14 ár.[825] Er Pálmi fór frá Keflavík reif hann bæinn og öll útihús sem hann átti þar[826] og má ætla að hann hafi flutt húsaviðinn með sér í Botn og notað hann hér til uppbyggingar.

Pálmi Lárentíusson var föðurbróðir Steindórs Sigurðssonar, sem hér var síðast sagt frá , og voru þau hjónin, Pálmi og Sesselja, orðin roskin er þau hófu búskap í Botni.[827] Þau fengu ábúð á þeim tæplega 9 jarðarhundruðum, að fornu mati, sem Steindór Sigurðsson og Sveinbjörn Pálsson höfðu haft til ábúðar, en Jóhannes Hannesson bjó áfram á liðlega 15 hundruðum eins og áður.[828]

Búskaparár Pálma hér í Botni urðu 13[829] en frá honum og fólki hans verður sagt hér nánar síðar þegar við komum til Keflavíkur (sjá hér Keflavík). Hér verður þó að nefna hið hörmulega slys er 16 ára dóttir Pálma og Sesselju varð fyrir steinkasti í smalamennsku og hlaut bana af. Þessi unga stúlka hét Ólöf og var hún að smala í norðurhlíðinni, á móti bæjunum í Botni, er slysið skeði 12. júní 1902.[830] Í prestsþjónustubókinni segir að skriða hafi fallið á Ólöfu í smalamennsku[831] en sé litið á nákvæma lýsingu Magnúsar Hjaltasonar á öllum atvikum virðist réttara að tala um steinkast. Magnús, sem átti heima á Grænagarði við Skutulsfjörð sumarið 1902, var góðvinur Pálma Lárentíussonar og fjölskyldu hans í Botni og hafði kennt börnum Pálma í Keflavík (sjá hér Keflavík).

Magnús fékk fréttir af slysinu 23. júní og greinir þá frá því í dagbók sinni[832] en 16. júlí þetta sama sumar ritaði hann Þorsteini Erlingssyni, skáldi og ritstjóra, er þá átti heima á Bíldudal, bréf og greinir þar býsna nákvæmlega frá því sem þarna gerðist. Frásögn Magnúsar í bréfinu til Þorsteins er nær alveg samhljóða því sem hann ritaði í dagbókina. Í bréfinu er frásögn hans á þessa leið:

 

Hörmulegt slys skeði í Súgandafirði 12. fyrra mánaðar. Ólöf, dóttir Pálma smiðs Lárentíussonar, bónda í Botni, var að smala í hlíðinni, hinni nyrðri, á móti Botni og var Guðmundur bróðir hennar, 14 ára gamall, með henni.

Guðmundur var nokkuð á undan systur sinni og sá hann að steinn (klettur) losnaði uppi í klettunum. Kallaði hann þá til systur sinnar og beiddi hana að flýta sér svo steinninn ekki hitti hana en hún sinnti því ekki og fór steinninn á höfuð henni, felldi hana til jarðar og marði hana til dauðs.

Pilturinn gekk síðan til hennar og sá að hún var liðið lík. Hljóp hann þá heim og sagði Sesselju móður sinni frá hinum skyndilega voðaatburði. Féll konan í öngvit en vitkaðist eftir nokkra stund, hefur síðan verið í rúminu og við rúm af sorg. Karlmaður fullorðinn var enginn heima og fluttu kvenmenn líkið heim.

Var þá sent til föður hinnar látnu út að Norðureyri, þangað sem hann stundaði sjó með Jóni syni sínum. Var sviplegt fyrir þá feðga að fá hraðboða með slíka hörmungarfregn. Þó harkaði gamli maðurinn furðanlega af sér, enda er hann prýðisskynsamur og þekkir báðar hliðar þessa lífs. Hann fór gangandi áleiðis heim til sín, sem er þó ærið langur og örðugur vegur, til að annast um lík dóttur sinnar. Ólöf sáluga var myndar- og atgjörvisstúlka. Hún var námsmey mín veturna 1898-1900.[833]

 

Á árunum 1793-1902 týndu a.m.k. fimm heimamenn í Botni lífi með voveiflegum hætti hér í landareigninni eða á ferð yfir Botnsheiði. Þeir voru: Erlingur Sigfússon, sem dó á Botnsheiði í mars 1793 (sjá hér bls. 28-29), Jón Jónsson, sem hrapaði úr fjalli í marslok árið 1801 (sjá hér bls. 31), Sigmundur Jónsson, sem andaðist voveiflega 5. nóvember 1861 (sjá hér bls. 91-92), Kristján Þorgilsson sem varð úti á Botnsdal 3. apríl 1875 (sjá hér bls. 50-51), og loks nýnefnd Ólöf Pálmadóttir sem varð fyrir steinkasti 12. júní 1902.

Ólöf var eina dóttirin sem hjónin Pálmi Lárentíusson og Sesselja Jónsdóttir náðu að koma á legg en tveir synir þeirra, Jón og Guðmundur, komust upp.[834] Pálmi andaðist hér í Botni 18. júní 1913 en Jón sonur hans, sem var formaður á mótorbátnum Hlín, drukknaði hálffertugur að aldri í sjóróðri frá Suðureyri 11. nóvember sama ár.[835]

Af börnum Pálma og Sesselju náði Guðmundur einn háum aldri en hann tók við búi hér í Botni af föður sínum árið 1913[836] og byggði á því ári í stað gamla efri bæjarins íbúðarhús úr timbri[837] sem enn stendur.

Hér að framan hefur nú verið gerð einhver grein fyrir öllum bændum sem bjuggu í Botni á árunum 1784-1900. Líklegt er að allan þann tíma hafi Botnsbæirnir aðeins verið tveir, efri bær og neðri bær, þó bændurnir hafi oft verið fleiri, en frá fyrri tíð er þó fyrir hendi sterk vísbending um a.m.k. eitt eldra bæjarstæði svolítið framar í túninu (sjá hér bls. 2-3).

Kristján G. Þorvaldsson, sem fæddur var árið 1881, ritar svo um þetta árið 1949:

 

Bæir (í Botni) virðast jafnan hafa verið þar sem þeir eru nú og hafa menn ekki sagnir af bæjum annars staðar en tóttir bera þess vott að bær hafi verið framanvert á túninu. Mun langt síðan og vafalítið hefur þá einnig verið bær þar sem hann er enn.[838]

 

Gaman hefði verið að geta raðað bændunum sem bjuggu í Botni á nítjándu öld niður á bæina og gert grein fyrir hverjir voru í efri bænum og hverjir í þeim neðri. Það viðfangsefni er þó ekki auðleyst því að í búnaðarskýrslum og sóknarmannatölum er engin svör að finna við slíkum spurningum.

Valdimar Þorvaldsson, sem fæddur var árið 1878, skrifaði á sínum tíma ritgerð þar sem hann lýsir bæjunum í Súgandafirði eins og þeir voru um aldamótin 1900.[839] Hann segir þar að Guðfinna Daníelsdóttir, sem hóf búskap í Botni árið 1904, hafi búið í neðri bænum og þar hafi Jóhannes Hannesson verið og á undan honum Tómas Eiríksson.[840] Tómas og hans fjölskylda áttu aðra hálflenduna í Botni (sjá hér bls. 19-20) og má telja fullvíst að neðri bærinn hafi fylgt henni fyrst þau settust að í honum. Tómas var giftur Málfríði Guðmundsdóttur, sem misst hafði fyrri eiginmann sinn, Brynjólf Jónsson í Bæ, árið 1873 (sjá hér Bær) en tveimur árum fyrir dauða sinn hafði Brynjólfur keypt hálfan Botn (sjá hér bls. 19 og 37-40). Einsýnt virðist að Málfríður og Tómas muni hafa búið á þeirri hálflendu því kunnugt er að hér í Botni áttu þau a.m.k. 9 jarðarhundruð (sjá hér bls. 54-55).

Sá sem vék frá þegar Tómas Eiríksson bjó sig undir að hefja búskap á jarðeign sinni í Botni var Þórður Jónsson (sjá hér bls. 49-50 og 54) og má því telja mjög líklegt að hann hafi búið í neðri bænum. Hið sama má segja um Þórð Þórðarson sem vék frá er Þórður Jónsson hóf búskap í Botni vorið 1866 og Kristínu Þórarinsdóttur en Þórður Þórðarson hafði tekið við af henni vorið 1864 (sjá hér bls. 49).

Kristín Þórarinsdóttir tók við af Brynjólfi Jónssyni er hann fluttist frá Botni í Bæ vorið 1857 (sjá hér bls. 48). Mjög líklegt verður því að telja að Brynjólfur hafi einnig búið í neðri bænum og þá að líkindum faðir hans og afi, þeir Jón Brynjólfsson og Brynjólfur Jónsson eldri, en þessir feðgar bjuggu óslitið í Botni, mann fram af manni, frá 1790-1857 (sjá hér bls. 32-33 og bls. 37-40). Um bústað bændanna sem hér bjuggu á undan Tómasi Eiríkssyni hefur þó aðeins verið ályktað út frá sterkum líkum svo hafa verður fullan fyrirvara á.

Með sama hætti er þó hægt að setja fram allvel rökstudda tilgátu um búsetu nokkurra bænda í efri bænum hér í Botni á nítjándu öld. Vitað er að í honum bjó Pálmi Lárentíusson á árunum 1900-1913 (sjá Firðir og fólk 1900-1999, 447) en hann tók við ábúð af Steindóri Sigurðssyni og Sveinbirni Pálssyni sem ætla má að báðir hafi verið í efri bænum en Steindór átti drjúgan part úr efri bæjar hálflendunni (sjá hér bls. 21 og 66-67). Faðir Steindórs, Sigurður Lárentíusson, sem var sjálfseignarbóndi í Botni á árunum kringum 1880 og bjó um skeið í tvíbýli á móti Tómasi Eiríkssyni (sjá hér bls. 52-54) hlýtur líka að hafa verið í efri bænum úr því Tómas var í þeim neðri. Sigurður tók á sínum tíma við ábúð af Kristjáni Þorgilssyni, sem varð úti vorið 1875, en Kristján tók við af Jóni Torfasyni (sjá hér bls. 50-51 og 88-92) og sýnist því líklegt að þeir hafi báðir verið í efri bænum. Meiri óvissa ríkir hins vegar um ýmsa bændur sem bjuggu í Botni um miðbik 19. aldar en þá var hér oft þríbýli og stundum fjórbýli.

Rök voru áður leidd að því að Jón Brynjólfsson, sem var bóndi í Botni frá 1826 til 1846, hefði búið í neðri bænum og þeir feðgar en hafi svo verið hlýtur Sigurður Sigurðsson að hafa verið í efri bænum, því að þeir Jón og Sigurður bjuggu hér í tvíbýli á árunum 1826-1837 (sjá hér bls. 38-43). Sigurður var kvæntur Guðrúnu Örnólfsdóttur sem erfði nokkur jarðarhundruð í Botni eftir föður sinn, Örnólf Snæbjörnsson á Suðureyri, vorið 1826 (sjá hér bls. 41-42). Örnólfur hafði átt hér aðra hálflenduna allt frá árinu 1814 (sjá hér bls. 16) og með vísun til raka fyrir því að Sigurður og Guðrún Örnólfsdóttir hafi átt heima í efri bænum má telja líklegt að sá bær hafi fylgt þeim hundruðum sem Örnólfur átti.

Sé út frá gengið að Sigurður Sigurðsson og Guðrún Örnólfsdóttir hafi búið í efri bænum má telja líklegt að ekkjan Guðrún Erlingsdóttir, sem þau tóki við af (sjá hér bls. 36 og 41), hafi einnig búið þar og maður hennar Sigmundur Jónsson meðan hann lifði. Hið sama má segja um hjónin Guðbrand Jónsson og Ástríði Magnúsdóttur sem tóku við ábúð af Guðrúnu Örnólfsdóttur, er þá var orðin ekkja, vorið 1839 (sjá hér bls. 44 og Bær). Að hætta sér lengra út í þessa sálma sýnist hins vegar lítið vit og minnt skal á að fullar sannanir skortir fyrir því að allt sé rétt sem hér hefur verið leitast við að rökstyðja varðandi skiptingu á fólki milli bæjanna tveggja í Botni.

Frá Valdimar Þorvaldssyni eru hins vegar í boði lýsingar á gömlu torfbæjunum í Botni þar sem fræðast má um útlit þeirra undir lok nítjándu aldar.[841]

Valdimar segir að Tómas Eiríksson, sem bjó í neðri bænum, hafi byggt þann bæ upp og líka mörg útihús.[842] Hann segir baðstofuna sem Tómas reisti hafa verið 6 x 12 álnir að flatarmáli[843] eða sem svarar rösklega 28 fermetrum. Loft var í henni, alþiljað og með skarsúð, en þar uppi var allt einn geimur.[844] Niðri voru hins vegar tvö alþiljuð herbergi sitt í hvorum enda.[845] Annað þeirra var málað og hitt líka að einhverju leyti.[846]

Á þessum torfbæ voru timburgaflar sem náðu jafnt neðri gluggum í báða enda.[847] Samhliða baðstofunni var svo framhús og í því bæði búr og eldhús.[848] Göng lágu í gegnum framhúsið og var búrið til vinstri en eldhúsið til hægri þegar inn var gengið.[849] Þessi bygging var 12 álnir á lengd eins og baðstofan en breiddin 4,5 álnir. Í framhúsinu voru skilrúm úr timbri og þar var fjögurra feta langur gangur.[850] Bæjardyrnar sneru niður að sjónum en húsin sem hér var lýst lágu í sömu stefnu og dalurinn.[851]

Tómas bóndi Eiríksson átti líka tvær hlöður, skepnuhús eftir þörfum og skemmu með lofti á bitum.[852] Í skemmunni var alþiljað herbergi undir loftinu og þangað inn bauð Tómas hinum betri gestum sínum.[853] Að sögn Valdimars tók hann þá svo til orða: Viltu ekki koma inn í kontuna, kunningi.[854] Skemma Tómasar var 4,5 x 7 álnir[855] eða um 12,5 fermetrar að flatarmáli.

Bæjarhús þau í Botni sem hér hefur nú verið lýst og reist voru árið 1884 munu hafa verið hin allra bestu húsakynni sem þá voru til í Súgandafirði.[856] Við bæ Tómasar tók Jóhannes Hannesson hreppstjóri vorið 1887 og bjó í honum til 1904 eins og hér hefur áður verið nefnt.

Albertína Jóhannesdóttir, sem fædd var árið 1893 og ólst upp á Kvíanesi, næsta bæ við Botn, sagði svo frá í elli sinni að á milli rúmanna í gamla Botnsbænum hefðu verið þil sem náðu alveg upp í súðina.[857] Á þessum rúmþiljum voru litlar hillur og á þeim geymdi fólk eitt og annað smálegt.[858] Væru slík þil fyrir hendi var hægt að draga tjöld fyrir hvert rúm en þau voru nefnd sparlök.[859] Þegar Albertína talar þarna um gamla bæinn í Botni má telja fullvíst að hún hafi í huga bæ Tómasar Eiríkssonar, sem reistur var árið 1884, en í honum bjó Jóhannes Hannesson þegar unga stúlkan frá Kvíanesi kom þar fyrst upp á skörina.

Guðmundur Halldórsson, sem árið 1907 var að taka við búsforráðum á neðri bæjar hálflendunni í Botni,[860] byggði þá nýja baðstofu á grunni framhússins sem fyrr var nefnt.[861] Grunnflötur þessarar baðstofu var 6 x 12 álnir eins og verið hafði hjá Tómasi en veggina, sem áður voru 8 fet (4 álnir), hækkaði Guðmundur upp í 10 fet.[862] Í stað hins eldra baðstofulofts kom því porthæð.[863] Í bæ Guðmundar voru engin skilrúm uppi á loftinu en neðri hæðin var stúkuð sundur í herbergi.[864] Veggirnir voru klæddir plægðum borðum og þakið úr timbri með pappa og járni.[865]

Þessi baðstofa stóð sem áður sagði á grunni framhússins frá dögum Tómasar en á baðstofugrunni hans reisti Guðmundur timburskúr sem að sögn Valdimars var 5 x 12 álnir að flatarmáli.[866] Í fasteignamatsskjölum frá árinu 1916 eru upplýsingar Valdimars um stærð baðstofunnar staðfestar en þar er skúrinn sagður vera heldur minni eða 12 x 4 álnir.[867] Þessi skúr var áfastur við sjálfa baðstofuna svo allur grunnflötur bæjarins hefur verið um það bil 47 fermetrar séu tölur matsmannanna frá 1916 réttar en 52 fermetrar ef Valdimar kynni að hafa verið nákvæmari.

Neðri bærinn, sem Guðmundur Halldórsson byggði upp árið 1907, tók síðar miklum breytingum. Árið 1940 var íbúðarhús þáverandi bónda þó talið vera hið sama og Guðmundur reisti aldarþriðjungi fyrr.[868] Húsið var þá skilgreint sem timburhús með steingafli og sagt vera ein og hálf hæð.[869]      Ýmsar breytingar og endurbætur voru gerðar á því síðar, m.a. reist bæði skúr og kvistur, en að lokum var það brotið niður og fjarlægt árið 1998.

Á síðustu árum nítjándu aldar var efri bærinn í Botni mun minni en sá neðri. Í bréfi hreppsnefndar Suðureyrarhrepps til sýslumanns, rituðu 28. nóvember 1890, segir að sú baðstofa sé aðeins 6 álnir (sjá hér bls. 56-57) og hlýtur þar að vera átt við lengdina. Í sama bréfi er tekið fram að búrkofi fylgi þessari litlu baðstofu og annað ekki.

Valdimar Þorvaldsson segir að um 1890 hafi þessi baðstofa verið hálf á palli en hitt með lofti, þiljuð og með skarsúð.[870] Hann tekur fram að fyrir aldamót hafi hún verið byggð upp og loft sett í hana alla.[871] Líklegt er að í þessa uppbyggingu hafi verið ráðist þegar Steindór Sigurðsson hóf búskap í Botni árið 1891 og bændum í efri bænum fjölgaði úr einum í tvo (sjá hér bls. 56-58 og 66-67). Grunnflötur nýju baðstofunnar var að sögn Valdimars 5 x 9 álnir[872] eða 17 til 18 fermetrar.

Á efri bænum sneru bæjardyrnar upp að fjallinu og lágu göngin beint inn í baðstofuna.[873] Þegar gengið var inn göngin var eldhúsið til hægri handar.[874]

Eins og fyrr var nefnt má telja nokkuð líklegt að þessi lýsing Valdimars eigi við baðstofuna sem búið var í á árunum 1891-1899 en það er þó ekki alveg víst því ætla má að Pálmi Lárentíusson hafi byggt hér upp árið 1900 (sjá hér bls. 78), það er að segja fyrir aldamót, svo verið getur að það sé hans bær sem Valdimar lýsir í ritgerð sinni.

Um aldamót voru bændurnir í Botni bara tveir og áttu þá sinn hjallinn hvor niður við sjó.[875]

Árið 1913 tók Guðmundur Pálmason við búsforráðum af föður sínum í Botni og bjó í efri bænum eins og hér hefur áður verið nefnt. Hann lét á því ári reisa íbúðarhús úr timbri í stað torfbæjarins.[876] Húsið, sem stendur enn, er ein hæð, port og ris. Í fasteignamatsskjölum frá árinu 1916 er grunnflötur þess sagður vera 7×9 álnir[877] eða 4,39 x 5,65 metrar, tæplega 25 fermetrar, og mun það vera innanmál. Áföst við þetta gamla timburhús frá árinu 1913 stendur nú yngri bygging með skúrarlagi en það hefur allt til þessa (1996)  verið notað til sumardvalar. Smíðameistari við byggingu þess var Helgi Elíasson, bátasmiður á Ísafirði.[878] Timburhúsið var reist á gamla bæjarstæðinu, þar sem efri bærinn hafði staðið svo lengi sem elstu menn mundu, þeir sem á lífi voru á árunum kringum aldamótin 1900 (sjá hér bls. 80), og ef til vill miklu lengur.

Árið 1916 fylgdu neðri bænum í Botni þessi útihús: Tvö fjós, þrjár hlöður, fjárhús, hesthús, skemma, hjallur, eldhús og mylla.[879] Efri bænum fylgdu þá tvö fjárhús, þrjár hlöður, fjós, geymsluhús, hjallur og smiðja.[880] Neðri bærinn ásamt meðfylgjandi útihúsum var árið 1916 virtur á kr. 2.800,- en efri bærinn og útihúsin sem honum fylgdu á kr. 2.900,-.[881]

Dvöl okkar hér í Botni er nú orðin nokkuð löng en enn eigum við þó eftir að svipast um í Klúku, gömlu hjáleigunni út við landamerkin á móti Kvíanesi, og rölta þaðan um landareignina. Enn erum við stödd í hinu gamla heimatúni fólksins í Botni. Frá hólnum þar sem steinkolan fannst (sjá bls. 2-3) höfum við virt fyrir okkur fjöll og hvilftar beggja vegna og rifjað upp helstu örnefnin þar efra (sjá hér bls. 3-5). Á morgun göngum við svo um hlíð og dal og gefum gaum að ýmsu sem þar er að sjá en í kvöld verðum við í Klúku. Þangað höldum við brátt en lítum þó fyrst einu sinni enn yfir hið aldna heimatún sem allt hefur verið ræktað upp á nútímavísu.

Lækirnir tveir, Lambhúsá og Stórhólslækur, niða hér enn og fylgja sínum gömlu vegum á leið til sjávar. Báðir falla þessir lækir um túnið í Botni en Hafradalsá, sem skiptist í tvennt skammt ofan við það, sér þeim ár og síð fyrir vatni. Nærri lætur að Lambhúsáin renni niður mitt gamla túnið í Botni[882] en Stórhólslækur sveigir út á við fyrir ofan hæðina sem gömlu Botnsbæirnir standa á og síðan í átt til sjávar alveg rétt utan við hana. Stórhólslæk nefna ýmsir Stórhól[883] en lækurinn dregur nafn af hól sem svo heitir. Sá hóll er mjög skammt fyrir utan og neðan neðri bæinn í Botni og rennur lækurinn rétt utan við hann.[884] Á Stórhól er nú gróið tún og hann eitthvað lægri en áður var.[885]

Túnið framan við Lambhúsá og ofan við gamla akveginn, sem enn er á sínum stað (sbr. hér bls. 2-3), var á fyrstu  áratugum tuttugustu aldar nefnt Tóttatún og þar stóð þá fjárhús sem nefnt var Hæsthús.[886] Á Tóttatúni, um það bil 20 eða 25 metrum framan við Lambhúsá, var Virki sem hér var áður getið[887] (sjá bls. 2-3). Utan við Lambhúsá og ofan við gamla veginn er annar túnpartur sem nefndur var Hundrað. Framan við Lambhúsá og neðan við gamla veginn er Lambhúsflöt en þýfður túnskiki framan við hana var nefndur Ormaþúfur.[888] Fremst og neðst í gamla túninu var svo Neðsthúsflöt.[889]

Íbúðarhús fólksins í Birkihlíð stendur í þeim parti túnsins sem ber hið gamla nafn Skegg. Allt Skeggið er ofantil í túninu og fyrir utan Stórhólslæk en lækurinn skilur á milli Skeggsins og Bóls sem er framar.[890] Bólið er innan girðingar en óræktað.[891] Upp af Bóli og ofan girðingar er svo Bæli[892] en bæði þessi örnefni eiga ugglaust rætur að rekja til kvíabóls sem hér hefur verið á fyrri tíð. Utan við Skegg er Rimi sem var ysti og efsti partur túnsins í Botni.[893]

Neðan við hæðina sem Botnsbæirnir standa á og rétt framan við Stórhólslæk er Ystipartur.[894] Í honum er Stórhóll sem fyrr var nefndur.[895] Framan við Ystapart tekur við Miðhluti en síðan Fjósatunga sem nær fram að Lambhúsá.[896] Allir voru þessir skikar innan marka gamla túnsins.

Margt af því fólki sem lifði og dó í sveitum landsins á liðnum öldum trúði á álfa og huldar vættir. Örnefni sýna að svo hefur einnig verið hér í Botni. Framan við gamla túnið og rétt fyrir ofan þjóðveginn, sem nú er ekið um, standa enn Kirkjusteinn og Landbúasteinn[897] og hafa ekki haggast þó að nútímanum fylgi margvíslegt umrót. Kona sem ólst upp í Botni á nítjándu öld sagði dóttur sinni að annar steinninn væri bær en hinn kirkja huldufólksins.[898] Báðir eru þeir 100-200 metrum fyrir framan Lambhúsá. Kirkjusteinn, sem er uppmjór og býsna stór, stendur alveg rétt fyrir ofan akveginn og Landbúasteinn þar beint fyrir ofan,[899] dálítið neðan við skriðufæturna undir fjallinu Hádegishorni. Þessi síðarnefndi steinn er stærri um sig en annað grjót á þessum slóðum, um tveir metrar á hæð og nær flatur að ofan.

Hjá Landbúasteini er gott að dvelja í kyrrð en frá honum liggur leið okkar skamman spöl til baka, út að landamerkjum Botns og Kvíaness, en alveg rétt innan við þau er hjáleigan Klúka sem vert er að skoða svolítið nánar.

Klúka

 

Sé akveginum fylgt er spölurinn frá Botni út í Klúku um það bil einn kílómetri en sé farin skemmsta leið, neðan vegar, er þessi spotti varla nema 600 metrar. Um Klúku segir svo í Jarðabók Árna og Páls frá árinu 1710:

 

Klúka heita tóttarústir nokkrar sem hér liggja um landamót á milli Kvíarness og Botns og eru munnmæli að hér hafi að fornu byggð verið þó þess sjáist nú lítil merki. Ekki má hér aftur byggð setja fyrir heyskaparleysi.

Ágreiningur er nokkur um þetta land og hefur Botns eigandi látið lögfesta þetta land með Botni fyrir nokkrum árum en þó hefur ekki með lögum reynt verið hvörjir þetta land eiga með réttu. En landið brúka Botns ábúendur til beita.[900]

 

Um hina fornu byggð í Klúku, sem þarna er getið um, veit nú enginn neitt en tilvitnuð orð úr Jarðabókinni benda eindregið til þess að kotið hafi fallið í eyði fyrir 1600. Á átjándu öld settist enginn maður að í Klúku svo kunnugt sé og í jarðabók frá árinu 1805 er þessi forna hjáleiga sögð standa í eyði.[901] Nokkrum árum síðar var hins vegar reist hér bú á nýjan leik og á nítjándu öldinni var fleira eða færra fólk búsett í Klúku í a.m.k. 56 ár.[902]

Ekki er nú unnt að fullyrða hvaða ár byggð hófst að nýju í Klúku en nokkrar líkur benda til þess að hjónin Jón Jónsson og Helga Jónsdóttir, sem árið 1816 hokruðu á 5. býli í Botni, hafi búið í Klúku (sjá hér bls. 35-36). Fyrir því er þó engin vissa. Í embættisbókum prestanna á Stað er Klúka fyrst nefnd á nafn við húsvitjun í marsmánuði árið 1828[903] en þá höfðust hér við í húsmennsku hjónin Sigurður Jónsson og Guðrún Jónsdóttir sem lengi höfðu búið í Botni og voru orðin roskin (sjá hér bls. 33-34). Þau eru fyrstu manneskjurnar sem hægt er að nafngreina og vitað er með fullri vissu að áttu hér heima. Ætla má að þau hafi búið hér við þurrt hús fardagaárið 1827-1828 en aðeins þetta eina ár því kunnugt er að árið 1828 fluttust þau norður í Skutulsfjörð (sjá hér bls. 34). Þá settist hér hins vegar að nýtt fólk, sem brátt verður gerð grein fyrir, en fyrst skal þess getið að í húsvitjanabókum Staðarpresta sést að hér var alveg tvímælalaust búið frá 1827 til 1863 og frá 1879 til 1899.[904] Vel gæti líka verið að eitthvað af húsfólkinu sem skráð var til heimilis í Botni á árunum 1863-1879 hafi hírst hér í Klúku skamman tíma þó að viðkomandi prestar hafi látið vera að taka það sérstaklega fram. Fardagaárið 1909-1910 var svo stór fjölskylda búsett í Klúku og verður síðar gerð nánari grein fyrir henni (sjá hér bls. 114-116) en á þeim árum sem liðin eru frá 1910 hefur enginn ráðist í að setjast hér að.[905]

Í sóknarmannatölum prestanna eru þeir sem húsum réðu í Klúku á nítjándu öld oftast sagðir vera húsmenn eða húskonur en stöku sinnum eru viðkomandi þó kallaðir bændur.[906] Þessum atvinnuheitum virðast prestarnir reyndar sletta af okkru handahófi því athugun á búnaðarskýrslum og tíundarskýrslum leiðir í ljós að a.m.k. sumir þeirra Klúkubúa sem þeir kalla bændur voru í raun þurrabúðarmenn með enga kú og álíka fjölda kinda og ýmsir aðrir sem nefndir eru húsmenn í embættisbókum prestanna.[907] Fæstir þeirra sem bjuggu í Klúku áttu kú og hér var sjaldan hestur.[908] Þó var hér sannanlega kýr í fjósi á árunum 1854-1859 (sjá hér bls. 98-99). Oftast var bústofn fólksins í Klúku tíu til tuttugu sauðkindur og eru lömb þá ekki talin með.[909] Líklegt má telja að sumir þurrabúðarmennirnir sem hér bjuggu hafi unnið eitthvað í ígripum hjá bændum í Botni eða á Kvíanesi og verið á vorin í skiprúmi á þessum eða hinum bátnum sem gerður var út frá Suðureyrarmölum. Aðrir í þeirra hópi voru sjómenn á vestfirsku skútunum.

Á síðustu árunum sem búið var í Klúku taldist kot þetta að sögn hafa sín eigin skýrt afmörkuðu landamerki eins og um sjálfstæða bújörð væri að ræða.[910] Í niðurjöfnunarskrá frá árinu 1895 eru bændurnir þrír er þá bjuggu í Botni þó taldir hafa alla jörðina til ábúðar en þurrabúðarmaðurinn í Klúku sagður vera án jarðnæðis.[911] Sú staðreynd bendir eindregið til þess að landamerkjum Klúku hafi aldrei verið þinglýst eða þau fastsett með varanlegum hætti. Hitt getur engu að síður vel verið að um þau hafi verið samið manna á milli til skamms tíma og merkin verið virt í reynd.

Að sögn Kristjáns G. Þorvaldssonar takmarkaðist land Klúku af landamerkjum Botns á móti Kvíanesi að utan en að innan af línu sem dregin var úr Gýgjarholti í utanvert Hádegishorn.[912] Þessi lýsing á merkjunum fær þó ekki staðist því væri hún rétt hefðu þau legið um túnið í Botni. Augljóst virðist að villan liggi í því að nefnt er Hádegishorn þar sem átti að standa Nónhorn en það fjall er hið næsta fyrir utan Hádegishorn og Hafradalur á milli þeirra (sjá hér bls. 3). Að öðru leyti má ætla að lýsing Kristjáns á merkjunum sé rétt en Gýgjarholt, sem merkin liggja um að hans sögn, er stóra holtið upp frá sjávarbökkunum utan við gömlu grjóthlöðnu skilaréttina í Botni[913] sem enn stendur traustum fótum ofantil við fjöruna og blasir við augum þegar gengið er frá Botnsbæjunum út í Klúku.

Gamla túnið í Klúku var skammt frá sjó og aðeins spölkorn innan við Kvíanesána. Það hefur nú allt verið sléttað og ræktað upp. Tvær tóttir sjást þó enn. Nærri lætur að sú stærri sé 4,5 x 1,5 metrar að flatarmáli og er hún tvískipt. Á árunum milli 1880 og 1890 voru tveir bæir í Klúku,[914] enda voru hér oftast tvö heimili frá 1879 til 1891 og þrjú fardagaárið 1889 til 1890.[915] Valdimar Þorvaldsson, sem mundi eftir bæjunum í Klúku, lýsir þeim svo:

 

Annað húsið var í miðju túni og sneri út og inn, dyr við ytri gafl sneru niður að sjónum, loftlaust. Þar mun ávallt aðalhúsið hafa staðið. ¼  Hitt húsið var innar og ofar og sneri út og niður, dyr inn í ytri gafl og eftir stærð tóttarinnar 5 x 10 fet. Þar áttu heima hjón til 1887.[916]

 

Full ástæða er til að ætla að sú fullyrðing Valdimars að bæirnir í Klúku hafi verið tveir sé rétt en því að annar þeirra hafi aðeins verið 5 x 10 fet, það er 5 fermetrar, er erfitt að trúa. Efasemdum um stærðina má samt vísa á bug því að fyrir liggur í opinberum úttektum jarða í Önundarfirði frá árunum 1835-1902 að baðstofa á Vöðlum, þar í sveit, var aðeins 5,9 fermetrar árið 1837 og ein baðstofan á Selakirkjubóli aðeins 3,3 fermetrar árið 1885 (sjá Firðir og fólk 900-1900, 299-300).

Eins og fyrr var nefnt voru það roskin hjón sem fyrst allra síðari tíma manna fóru að bolloka í Klúku svo vitað sé með fullri vissu. Þau hétu Sigurður Jónsson og Guðrún Jónsdóttir og höfðu búið lengi í Botni en hér voru þau aðeins í eitt ár, fardagaárið 1827 -1828 (sjá hér bls. 33-34).

Vorið 1828 kom nýtt fólk í Klúku, mæðginin Sigríður Snjólfsdóttir, sem þá var á sextugsaldri, og sonur hennar , Jón Torfason, á nítjánda ári.[917] Þau komu frá Selhúsum, það er að segja gamla selinu í landi Suðureyrar í Súgandafirði, en þar höfðu þau hafst við í tvö ár (sjá hér Suðureyri). Áður bjó Sigríður á Laugum með manni sínum, Torfa Jónssyni, og um 1810 voru þau hjónin í Fremri-Staðarhúsum, gamalli hjáleigu frá Stað, en hún var einnig nefnd Vandræðakot (sjá hér Laugar). Sigríður Snjólfsdóttir fæddist á Skarði á Snæfjallaströnd um eða rétt eftir 1770 en fluttist til Súgandafjarðar mjög skömmu eftir 1800 (sjá hér Staður, Staðarhús fremri þar). Hér í sveit ól hún þaðan í frá allan sinn aldur og andaðist háöldruð hjá Jóni syni sínum í Botni vorið 1856.[918] Í þessu riti hefur áður verið sagt nokkuð frá Sigríði en hér í Klúku átti hún heima í tuttugu ár, frá 1828 til 1848,[919] og átti hvergi annars staðar svo langa dvöl á þeim um það bil 50 árum sem hún var búsett í Suðureyrarhreppi.[920] Á árunum 1828-1837 var Sigríður húsum ráðandi í þessu koti með Jóni syni sínum en þegar Jón kvæntist árið 1837 varð nokkur breyting á hennar högum og þaðan í frá var hún í horninu hjá syni sínum og tengdadóttur, fyrst hér í Klúku og síðan í Botni.[921]

Árið 1830 húsvitjaði séra Eiríkur Vigfusson í Klúku og segir þá að Sigríður Snjólfsdóttir sé skýr og vel að sér.[922] Í manntalinu frá 1840 er hún sögð vera ljósmóðir.[923] Þessi fátæka kona var þá um sjötugt og vel má vera að hún hafi sinnt ljósmóðurstörfum um langt skeið. Á 19. öld voru það Sigríður Snjólfsdóttir og Jón sonur hennar sem lengst allra áttu heima í Klúku[924] eða í full 20 ár eins og hér var áður nefnt. Vorið 1848 fylgdi Sigríður syni sínum og fjölskyldu hans frá Klúku og inn í Botn og þar dó hún átta árum síðar, 2. apríl 1856, ekkja örvasa frá Botni, segir prestur.[925]

Jón Torfason var eina barn Sigríðar Snjólfsdóttur og eiginmanns hennar, Torfa Jónssonar.[926] Þessi einkasonur þeirra fæddist 19. júlí 1809,[927] líklega í Vandræðakotinu gamla ofan við túnið á Stað (sbr. sóknarmannatal Staðar í Súgandafirði 1836, sjá einnig hér Staður, Staðarhús fremri þar). Á sínum uppvaxtarárum fylgdi Jón ætíð foreldrunum og að föðurnum látnum móður sinni[928] og með henni fluttist hann hingað í Klúku vorið 1828 eins og fyrr var nefnt. Hann var þá að verða nítján ára. Næstu ár voru þau mæðgin oftast ein í koti sínu en árið 1833 kom ný manneskja á heimilið.[929] Það var ung stúlka frá Botni og hét Elín Sigmundsdóttir.[930] Hún var þá aðeins 15 ára gömul, fædd 29. janúar 1818, dóttir hjónanna Sigmundar Jónssonar og Guðrúnar Erlingsdóttur,[931] sem bjuggu alllengi í Botni (sjá hér bls. 36-37). Faðir Elínar dó þegar þessi dóttir hans var aðeins sex ára gömul en hún dvaldist áfram í Botni hjá móður sinni, sem þar var lengi húskona.[932]

Frá Guðrúnu móður sinni í Botni fór Elín 14 ára gömul að Kvíanesi. Hingað kom hún næsta vor og svo fór að hún ílentist.[933] Í marsmánuði árið 1836 segir prestur að þessi 18 ára vinnustúlka í Klúku sé ekki ósiðsöm ¼  vel gáfuð og vel að sér í andlegu.[934] Við sömu húsvitjun fékk Jón Torfason þá einkunn hjá séra Eiríki Vigfússyni að hann væri hægferðugur og sæmilega vel kunnandi sinn kristindóm.[935] Er prestur kom í Klúku að þessu sinni voru nýnefnd ungmenni, þau Jón og Elín, farin að draga sig saman og máske búin að leggja drög að barni því Sigmundur sonur þeirra fæddist 8. desember 1836,[936] fyrsta barnið sem um er kunnugt að fæðst hafi í Klúku.

Í marsmánuði árið 1837 var drengur á fyrsta ári í fóstri hjá Guðrúnu Erlingsdóttur í Botni, móðurömmu Sigmundar, og lætur prestur þess getið í húsvitjanabókinni að hvítvoðungur sá sé fæddur í Klúku.[937] Þessi bókun prestsins bendir til að á fyrsta ári hafi Sigmundur verið um skeið í fóstri hjá ömmu sinni í Botni. Í sóknarmannatalinu frá 1837 nefnir prestur Klúkudrenginn í Botni reyndar Torfa Jónsson[938] en ætla má að þar sé aðeins um nafnabrengl að ræða. Annar möguleiki gæti verið að Sigmundur og Torfi hafi verið tvíburar og sá síðarnefndi hafi andast á fyrsta ári. Sú hugmynd virðist reyndar mjög langsótt og fær ekki staðist nema gert sé ráð fyrir að prestinum hafi láðst að skrá nafn Torfa bæði í fæðingar- og dánardálk prestsþjónustubókarinnar og þar að auki gleymt að skrá Sigmund í nýnefnt sóknarmannatal. Að gera ráð fyrir svo margföldum embættisafglöpum hjá presti virðist vera alveg ástæðulaust og því miklu líklegra að um einfalt nafnabrengl hafi verið að ræða og enginn Torfi Jónsson hafi fæðst í Klúku. Tvímælalaust er að Sigmundur Jónsson, sem fæddist 8. desember 1836, var eina barn Jóns Torfasonar og Elínar konu hans sem komst á legg.[939] Þegar drengurinn fæddist voru foreldrar hans enn ógift en 1. október 1837 voru þau pússuð saman af presti.[940] Þá var Elín 19 ára en brúðguminn 28 ára.

Sem hjón bjuggu þau Jón Torfason og Elín Sigmundsdóttir hér í Klúku í ellefu vetur og tíu sumur.[941] Ætla má að á þeim árum hafi þau jafnan verið kýrlaus og það voru þau alveg tvímælalaust haustið 1840 en áttu þá 14 ær, 2 gemlinga og 5 lömb.[942] Enginn hestur var þá til í Klúku og því síður bátur.[943]Húsmaður, hefur gras – stendur við nafn Jóns Torfasonar í Klúku í manntalinu frá 1845.[944] Þetta var tómthúsfólk sem gat að vísu heyjað fyrir fáeinum kindum en bjó við þurrt hús. Jón Torfason taldist því ekki vera bóndi á þeim árum sem hann átti heima í Klúku.

Líklegt er að hér hafi oft verið lítið að bíta og brenna og minnst um bjargræði þegar seint voraði. Á gamalsaldri sagði Elín Sigmundsdóttir sonardótturdóttur sinni þá sögu að eitt vorið í Klúku hafi hún ekkert átt til matar fyrir sig og barnið nema einn harðan steinbítskjamma.[945] Þá bað hún guð sinn um björg og taldi sig hafa fengið bænheyrslu.[946] Er hún vaknaði um morguninn og kom út sá hún mikinn hrafnagang hér fram á leirunum og þar var þá selkópur sem hafði fjarað uppi.[947] Og hún var nú ekki lengi, tekur hann náttúrlega og deyðir hann út af.[948] Að sögn sonardótturdóttur Elínar var farið að falla að svo ekki mátti tæpara standa.[949] Kópurinn var því eins og sending frá æðri máttarvöldum og fyrir bita af selkjöti eða spiki fékk hún mjólk á flösku og mjöl í tusku frá nágrönnum í Botni.[950] Þannig bjargaðist hún af og barnið líka en ætla má að eiginmaðurinn hafi verið í skiprúmi á Suðureyrarmölum á þessum tíma árs. Sigríður gamla Snjólfsdóttir, tengdamóðir Elínar, var jafnan í Klúku á þessum árum,[951] væri hún ekki að sinna ljósmóðurstörfum, og má vera að hún hafi hjálpað til við að ná í selinn. Eitthvað þurfti hún reyndar líka til að nærast á og halda lífi.

Vorið 1848 fóru þau Jón Torfason og Elín Sigmundsdóttir úr Klúku og hófu búskap á jarðarparti í Botni.[952] Jón og móðir hans höfðu þá verið tuttugu ár í Klúkunni en Elín í fimmtán ár og var nú orðin þrítug. Það var fjögra manna fjölskylda sem fluttist úr Klúku í Botn vorið 1848 því hjónunum fylgdi Sigmundur sonur þeirra og Sigríður Snjólfsdóttir sem komin var undir áttrætt.[953]

Í Botni fékk Jón Torfason 5 hundruð til ábúðar[954] og má telja líklegt að við búferlaflutningana hafi hagur þessa fólks vænkast nokkuð. Vorið 1850 voru þau komin með kú og bjuggu með 20 ær, 16 gemlinga og 20 lömb.[955] Í búið var líka komið folald en bátur enginn.[956] Árið 1860 var bústofn Jóns Torfasonar og Elínar konu hans álíka stór og verið hafði tíu árum fyrr og þá höfðu þau náð að eignast lítinn bát sem var tveggja eða þriggja manna far.[957]

Hjónin Jón Torfason og Elín Sigmundsdóttir, sem lengst bjuggu í Klúku, komu aðeins upp einu barni eins og hér var áður nefnt. Sigmundur Jónsson, sonur þeirra, hefur líklega verið efnispiltur því við ferminguna vorið 1850 fær hann þessar einkunnir hjá presti: Kann vel, hefur góðan skilning og greind og er siðsamur.[958] Hann kvæntist haustið 1859 stúlkunni Sigríði Sigurðardóttur en þau voru þá bæði vinnuhjú í Botni.[959] Sigríður var aðeins yngri en Sigmundur, fædd 1838, en hún var dóttir hjónanna Sigurðar Bjarnasonar og Guðnýjar Nikulásdóttur[960] er bjuggu skamman tíma í Fremri-Vatnadal en síðan alllengi á Norðureyri (sjá hér Norðureyri). Í Botn kom Sigríður vorið 1859 og hafði þá verið vinnukona á Gelti frá því hún fór um fermingaraldur úr foreldrahúsum á Norðureyri.[961]

Ungu hjónin, Sigmundur Jónsson og Sigríður Sigurðardóttir, unnu að búi foreldra hans í Botni á árunum 1859-1861.[962] Árið 1860 eignuðust þau sitt fyrsta barn, dótturina Sigríði, sem dó á fyrsta ári.[963] Sigmundur Jónsson var fyrsta barnið sem óx úr grasi í Klúku svo kunnugt sé en honum varð ekki langra lífdaga auðið. Þessi ungi bóndasonur andaðist tæplega 25 ára gamall 5. nóvember 1861 og var þá nýlega orðinn húsmaður,[964] það er að segja kominn með eigið heimili undir þaki foreldranna. Prestur segir að dauðsfallið hafi borið hastarlega að við voveiflegt tilfelli.[965] Hér hefði gjarnan mátt tala ljósar. Líklegast er að snjóflóð, skriða eða steinkast úr fjöllum hafi orðið Sigmundi að bana en líka getur verið að hann hafi hrapað í klettum. Þannig fórst ungur vinnumaður í Botni árið 1801 (sjá hér bls. 31) og sumarið 1902 varð steinkast úr fjalli norðan við Botnsdal ungri bóndadóttur að bana (sjá hér bls. 78-79).

Þegar Sigmundur Jónsson týndi lífi haustið 1861 átti hann ekkert barn á lífi og enginn vissi þá að hann ætti barn í vændum. Sjálfur var hann reyndar ekki aðeins eina barn foreldra sinna sem upp komst, heldur líka eina barnabarn beggja afa sinna og amma (sjá hér bls. 37 og Staður, Staðarhús fremri þar). Við dauða Sigmundar leit því út fyrir að allt þetta fólk væri dæmt til að fúna án þess að eiga sér nokkra framtíð í eigin niðjum. Að nokkrum vikum liðnum kom hins vegar í ljós að hin unga ekkja Sigmundar, Sigríður Sigurðardóttir, bar barn undir belti. Það barn fæddist 5. ágúst 1862, þegar liðnir voru nákvæmlega níu mánuðir frá hinum voveiflega atburði sem varð föður þess að bana.[966] Barnið var stúlka og henni var gefið nafnið Sigmundína.[967] Sú Sigmundína Sigmundsdóttir varð seinna eiginkona Friðberts Guðmundssonar, áður bónda og hreppstjóra í Fremri-Vatnadal, og átti með honum góð ár í Hraunakoti (sjá hér Fremri-Vatnadalur, Hraunakot þar). Þau eiga nú mikinn fjölda niðja en niðjar Sigmundínu eru eini hópurinn sem á langömmu hennar, Sigríði gömlu Snjólfsdóttur í Klúku, að formóður.

Þau Jón Torfason og Elín Sigmundsdóttir,sem áður voru í Klúku, stóðu fyrir búi í Botni í 16 eða 17 ár, frá 1848 til 1864 eða 1865.[968] Að Sigmundi syni þeirra látnum dvaldist hin unga ekkja hans, Sigríður Sigurðardóttir, áfram á heimili þeirra.[969] Hún giftist aftur haustið 1863 og tók næsta eða þar næsta vor, með sínum nýja eiginmanni, Kristjáni Þorgilssyni, við búi af Jóni og Elínu í Botni[970] (sbr. hér bls. 50-51). Jón andaðist, 57 ára gamall, á annan dag jóla árið 1866 en Elín Sigmundsdóttir, sem ung að árum varð húsfreyja í Klúku, átti þá fram undan nær þriðjung aldar.[971] Hún og Sigmundína, sonardóttir hennar, fylgdust jafnan að og síðustu 15 árin sem Elín lifði var hún í Hraunakoti í Vatnadal hjá Sigmundínu og manni hennar, Friðbert Guðmundssyni, en frá ellidögum hennar þar er sagt á öðrum stað í þessu riti (sjá hér Fremri-Vatnadalur, Hraunakot þar). Elín dó í Hraunakoti 15. febrúar 1899, komin á níræðisaldur.

Þegar Jón Torfason og Elín Sigmundsdóttir fóru frá Klúku, vorið 1848, settist annað fólk hér að í þurrabúð. Það voru hjónin Björn Helgason og Ástríður Sigfúsdóttir sem komu frá Keflavík norðan Galtar en þar höfðu þau hafst við í húsmennsku frá árinu 1844.[972]

Björn Helgason var 46 ára gamall eða því sem næst er hann fluttist úr Keflavík inn í Klúku vorið 1848, fæddur í Ögursókn árið 1803 eða því sem næst.[973] Móðir hans, Þorgerður Bjarnadóttir, var að líkindum úr Önundarfirði, en árið 1801 var hún 24 ára vinnukona í Kálfavík í Skötufirði, hjá hjónunum Helga Gunnarssyni og Sigríði Guðmundsdóttur.[974] Helgi var þá 37 ára gamall en Sigríður kona hans 61 árs.[975] Drenginn Björn, sem hér er frá sagt, eignaðist Helgi bóndi í Kálfavík fram hjá konunni með vinnukonu sinni, nýnefndri Þorgerði Bjarnadóttur. Helgi fluttist til Súgandafjarðar frá Eyri í Seyðisfirði árið 1816 og gerðist vinnumaður í Ytri-Vatnadal.[976] Gestur sonur hans, sem var á unglingsaldri, kom þá með föður sínum.[977] Þessi ungi maður kvæntist nokkrum árum síðar húsmóður þeirra, ekkjunni Guðrúnu Finnbjörnsdóttur í Ytri-Vatnadal, og tók þar við búsforráðum en fluttist með allt sitt norður að Sæbóli í Aðalvík vorið 1825 (sjá hér Ytri-Vatnadalur).

Óljóst er  hvar Björn Helgason ólst upp en í byrjun jólaföstu árið 1816 var hann tökupiltur á Hóli í Bolungavík, sagður 13 ára.[978] Húsbændur hans þar voru hjónin Ólafur Matthíasson og Helga Jónsdóttir[979] en hún var móðursystir Jóns Sigurðssonar forseta. Árið 1817 fluttist Björn frá Hóli að Ytri-Vatnadal í Súgandafirði[980] en þangað voru Gestur bróðir hans og Helgi faðir þeirra komnir einu ári fyrr eins og hér var nefnt. Næstu átta ár var Björn jafnan vinnumaður í Ytri-Vatnadal en vorið 1825 gerðist hann vinnumaður hjá ekkjunni Guðrúnu Hallsdóttur í Keflavík.[981] Þar var hann í tvö ár og í þorrabyrjun árið 1827 varð ein af dætrum húsfreyjunnar þunguð af hans völdum.[982] Sú stúlka hét Steinvör Markúsdóttir og var liðlega tvítug að aldri. Barn þeirra ól hún 31. október 1827 en þá voru þau Björn bæði vinnuhjú í Botni.[983] Þetta barn var telpa og fékk nafnið Þorgerður.[984] Þær mæðgur fluttust til Önundarfjarðar árið 1834[985] og voru báðar vinnukonur á Vífilsmýrum þar í sveit haustið 1845.[986] Þorgerður Björnsdóttir varð í fyllingu tímans eiginkona Hjalta Sveinssonar í Súðavík og eignaðist fjölda barna.[987]

Á árunum 1828-1831 var Björn Helgason ýmist í Botni eða á Norðureyri en vorið 1832 réð hann sig að Gelti. Þar lagði hann hug á Ástríði Sigfúsdóttur, kornunga stjúpdóttur Níelsar bónda Jónssonar, og voru þau Björn og Ástríður gefin saman í hjónaband haustið 1833.[988] Hún var þá tæplega 17 ára, fædd á Norðureyri 19. desember 1816.[989] Foreldrar Ástríðar voru hjónin Sigfús Erlingsson og Kristín Þorkelsdóttir, er þá bjuggu í tvíbýli á Norðureyri,[990] en Sigfús var frá Botni, sonur bóndans Erlings Sigfússonar, sem dó á Botnsheiði síðla vetrar árið 1793, og konu hans, Ástríðar Guðmundsdóttur (sbr. hér bls. 28-29).[991] Að Sigfúsi önduðum giftist Kristín, ekkja hans, Níelsi Jónssyni og bjuggu þau um skeið á Gelti en seinna í Keflavík.[992] Er séra Eiríkur Vigfússon á Stað bókar hjónavígslu Björns Helgasonar og Ástríðar Sigfúsdóttur haustið 1833 tekur hann fram að Ástríður hafi alist upp hjá móður sinni.[993]

Fyrstu hjúskaparárin voru þau Björn og Ástríður löngum vinnuhjú á Gelti en reyndu sig þó við tvíbýlisbúskap í Keflavík í eitt eða tvö ár fyrir 1840.[994] Frá 1841 til 1844 voru þau húsfólk á Gelti en færðu sig þá aftur til Keflavíkur og bollokuðu þar í húsmennsku næstu fjögur árin eða allt þar til þau fluttu sig hingað í Klúku vorið 1848.[995] Á Gelti og í Keflavík eignuðust þau nokkur börn, sem sum urðu skammlíf en önnur komust upp, og einn króa eignaðist Björn fram hjá konu sinni á þeim árum.[996] Það barn fæddist í Keflavík 12. maí 1845 og móðir þess var Guðfinna Markúsdóttir, systir Steinvarar sem Björn hafði barnað nær 18 árum fyrr.[997] Dóttir Björns og Guðfinnu var skírð Svanhvít og svo virðist sem eiginkona Björns hafi ekki tekið framhjáhaldi hans mjög illa því hún var einn þriggja votta við skírnina og fyrstu æviárin var Svanhvít þessi Björnsdóttir á heimili föður síns og Ástríðar konu hans í Keflavík.[998] Seinna fluttist telpan með móður sinni að Tungu í Skutulsfirði og þar var hún, 15 ára gömul, haustið 1860.[999]

Hér í Klúku voru Björn Helgason og Ástríður kona hans í 6 ár, frá 1848 til 1854,[1000] og munu á þeim árum jafnan hafa verið þurrabúðarfólk. Vorið 1850 var bústofninn 6 ær, 6 gemlingar, 6 lömb og svo einn kálfur.[1001] Fyrsta ár Björns og Ástríðar í Klúku voru hér hjá foreldrum sínum tvö börn þeirra, þau Sigríður og Kristján.[1002] Við brottför þeirra héðan, sex árum síðar, áttu þau a.m.k. fjögur börn á lífi því við höfðu bæst dæturnar Guðrún og Kristín sem fæddust báðar hér.[1003]

Úr Klúku fluttist þessi fjölskylda inn í Botn vorið 1854 en þar munu þau hafa fengið ábúð á fáeinum jarðarhundruðum.[1004] Búskaparár þeirra í Botni urðu hins vegar fá því að Björn bóndi andaðist úr brjóstveiki, 53ja ára að aldri, 31. mars 1857.[1005] Auk Þorgerðar, sem hann eignaðist fyrir hjónaband, komust sum barna hans upp og má þar nefna bæði Kristján og Kristínu.[1006]

Við brottför Björns og Ástríðar vorið 1854 færðu sig hingað frá Kvíanesi hjónin Pétur Borgarsson og Agnes Aradóttir.[1007] Agnes var dóttir Ara Þorkelssonar, bónda á Kvíanesi, og konu hans, Guðnýjar Pálsdóttur,[1008] en Pétur var reyndar hálfbróðir Björns Helgasonar sem hér var síðast sagt frá.[1009] Þeir voru sammæðra.[1010] Hér í Klúku tók því bróðir við af bróður.

Móðir Björns Helgasonar og Péturs Borgarssonar hét Þorgerður Bjarnadóttir og eignaðist hún Björn með kvæntum manni áður en hún giftist (sjá hér bls. 93). Mjög skömmu eftir fæðingu Björns giftist hún föður Péturs, Borgari Jónssyni.[1011] Þau voru gefin saman haustið 1804 og áttu þá bæði heima í Tungu í Valþjófsdal.[1012] Í manntalinu frá 1816 er Borgar sagður vera fæddur þar[1013] og árið 1786 var hann tökubarn á þeim bæ, sagður sex ára.[1014] Hann mun því hafa fæðst um 1780 en foreldrar Borgars voru Jón Sigmundsson og Agnes Borgarsdóttir sem seinna giftist Birni Ólafssyni í Tungu í Valþjófsdal.[1015] Árið 1811 bjuggu Borgar og Þorgerður kona hans á Hesti í Önundarfirði[1016] en fimm árum síðar voru þau komin að Efstabóli þar í sveit.[1017] Á árunum 1804-1816 eignuðust þau sex börn og eitt þeirra var Pétur sem seinna varð heimamaður hér í Klúku.[1018] Hann fæddist á Kirkjubóli í Bjarnardal 19. nóvember 1812[1019] en ætla má að þaðan hafi foreldrar hans flust að Efstabóli. Þar andaðist Þorgerður, móðir Péturs, af blóðlátum 26. mars 1816.[1020] Þrjú af börnum Borgars og Þorgerðar voru hjá föður sínum á Efstabóli 1. desember 1816 og var Pétur eitt þeirra.[1021]

Vorið 1817 gerðist Borgar vinnumaður hjá Guðmundi Jónssyni, bónda í Fremri-Vatnadal hér í Súgandafirði, og hafði með sér drenginn Pétur.[1022] Þar voru þeir feðgar að því sinni í þrjú ár en fardagaárið 1820-1821 voru þeir hjá Brynjólfi Jónssyni bónda í Botni.[1023] Þar kynntist Borgar dóttur Brynjólfs, er Júdith hét, og urðu þau kynni honum örlagarík. Næsta fardagaár var Borgar í Vatnadal en vorið 1822 réð hann sig til séra Eiríks Vigfússonar á Stað og var vinnumaður hjá presti fardagaárið 1822-1823.[1024] Drengurinn Pétur fylgdi þá föður sínum að Stað.[1025]

Á þessum árum fór hinn liðlega fertugi ekkjumaður að draga sig eftir heimasætunni Júdith Brynjólfsdóttur í Botni sem komin var á fertugsaldur og enn ógift í föðurgarði. Hún var dóttir hjónanna Brynjólfs Jónssonar og Guðrúnar Bjarnadóttur í Botni.[1026] Brynjólfur faðir hennar andaðist reyndar 26. febrúar 1822 en ekkjan bjó áfram í Botni með börnum sínum (sjá hér bls. 32). Veturinn sem Borgar var á Stað náði hann taki á Júdith og gerði henni barn á þrettánda degi jóla eða þar um bil. Líklega hefur hún komið þunguð úr kirkjuferð. Barnið, sem var stúlka, fæddist 6. október 1823 og var henni gefið nafnið Guðríður.[1027] Er prestur skráir þessa barnsfæðingu segir hann báða foreldrana vera hjú í Botni[1028] svo ætla má að Borgar hafi farið þangað frá Stað vorið 1823. Veturinn 1823-1824 mun Borgar hafa verið hjá unnustu sinni og barni í Botni en nafn hans er þó ekki að finna í sóknarmannatali prestsins frá marsmánuði á þeim vetri.[1029] Önnur heimild sýnir að hann hefur þó ekki verið langt undan. Þann 16. júní 1824 hélt Ebenezer Þorsteinsson sýslumaður manntalsþing á Suðureyri og þá var þetta bókað: Borgari á Botni, sem átt hefur barn með liðugri persónu og ekki er maður til að giftast, var skipað burt úr sókninni undir frekara lagatiltal.[1030]

Þessi tilskipun má kallast nægilega skorinorð en annað mál er hitt að henni virðist alls ekki hafa verið hlýtt því næsta vetur gifti séra Eiríkur skötuhjúin í Botni, þau Borgar og Júdith.[1031] Hjónavígslan fór fram 30. janúar 1825[1032] og þegar presturinn húsvitjaði nokkrum vikum síðar sat drengurinn Pétur hjá föður sínum og hans nýju eiginkonu í Botni,[1033] kominn á þrettánda ár.

Vorið 1825 færðu þau Borgar og Júdith sig frá Botni út í Keflavík og eignuðust þar sitt annað barn, soninn Markús, í nóvember um haustið.[1034] Hjón þessi bjuggu í tvíbýli í Keflavík frá 1825 til 1827 og var Pétur þar hjá föður sínum og stjúpu.[1035] Í sóknarmannatali frá árinu 1826 segir prestur að Borgar sé ekki óskýr í andlegu.[1036] Frá Keflavík fóru þau Borgar og Júdith að Gelti og bjuggu þar í fjögur ár, líka í tvíbýli, en gáfust þá upp á búskapnum og gerðust vinnuhjú á ný.[1037] Á árunum 1831-1840 voru þau nær alltaf vinnufólk, fyrst á Gilsbrekku en síðan í Botni og þar töldust þau reyndar vera húsfólk á árunum kringum 1840.[1038] Haustið 1840 áttu þau 6 ær, 3 gemlinga og 6 lömb.[1039] Fimm árum síðar voru þessi gömlu hjón komin að Múla í Ísafirði til Guðbjargar, dóttur Borgars af hans fyrra hjónabandi, en hún var þar húsfreyja, gift Illuga bónda Örnólfssyni en hann var sonur Örnólfs ríka á Suðureyri Snæbjörnssonar[1040] sem um er fjallað á öðrum stað í þessu riti (sjá hér Suðureyri). Hjá foreldrum sínum, Borgari og Júdith í Múla, var haustið 1845 dóttir þeirra, Guðríður að nafni, fædd á Gilsbrekku hér í Súgandafirði 4. desember 1832.[1041]

Árið 1845 var Borgar orðinn hálfsjötugur en hann var þó ekki sestur um kyrrt því haustið 1850 voru þau hjónin og Guðríður dóttir þeirra orðin vinnuhjú í Meiri-Hattardal í Álftafirði.[1042] Þar mun hann þó varla hafa verið lengi og þegar hann dó 26. janúar 1852 var hann kominn aftur til Guðbjargar dóttur sinnar, húsfreyju í Múla.[1043]

Borgar Jónsson bjó aldrei í Klúku en sonur hans hokraði hér í 9 ár og sonarsonur hans í 11 ár.[1044] Með hliðsjón af því var sá kostur valinn að kynna hann hér því sjálfur staldraði hann aldrei svo lengi við á nokkurri jörð í Súgandafirði.

Pétur Borgarsson, sem settist að í Klúku vorið 1854, fylgdi löngum föður sínum á uppvaxtarárunum en haustið 1832 var hann tvítugur vinnupiltur hjá Sigurði bónda Sigurðssyni í Botni.[1045] Þar var hann enn 1834 en kominn í Selárdal 1837.[1046] Frá Selárdal fór Pétur að Kvíanesi vorið 1839 en lét þá eftir afkvæmi í móðurkviði. Stúlkan sem gekk með barni hans þetta vor var Guðfinna Markúsdóttir, vinnukona í Selárdal,[1047] en hún eignaðist sex árum síðar annað barn og þá með nýlega nefndum Birni Helgasyni, hálfbróður Péturs (sjá hér bls. 94).

Sonur Péturs og Guðfinnu fæddist í Selárdal 30. júlí 1839 og var skírður Guðmundur en tæplega átta vikum síðar kvæntist Pétur stúlkunni Agnesi Aradóttur á Kvíanesi.[1048] Hann var þá að verða 27 ára en Agnes liðlega þrítug.[1049] Hún var dóttir hjónanna Ara Þorkelssonar og Guðnýjar Pálsdóttur á Kvíanesi en þegar Pétur kom að Kvíanesi var Ari bóndi látinn og Guðmundur Arason, bróðir Agnesar, tekinn við búsforráðum (sjá hér Kvíanes).

Á sínum fyrstu hjúskaparárum voru Pétur og Agnes vinnuhjú á Kvíanesi en eigi síðar en 1845 fóru þau að bolloka þar í húsmennsku.[1050] Drengurinn, sem Pétur eignaðist með Guðfinnu Markúsdóttur, fór á fyrsta eða öðru ári til föður síns og ólst síðan að öllu leyti upp hjá honum og Agnesi.[1051] Á þau Agnes og Pétur hlóðst brátt ómegð, því á árunum 1840-1849 eignuðust þau sjö börn sem öll nema eitt náðu að komast á unglingsár.[1052] Tvö þessara barna ólust að verulegu leyti upp hjá bróður Agnesar, Guðmundi bónda Arasyni á Kvíanesi og konu hans Þorgerði Jónsdóttur (sjá hér Kvíanes), og sumum hinna var ráðstafað sem sveitarómögum á aðra bæi um lengri eða skemmri tíma[1053] því foreldrarnir réðu ekki við að fæða alla þessa munna.

Er hjón þessi fluttust frá Kvíanesi hingað í Klúkuna vorið 1854 var Pétur 41 árs gamall (sjá hér bls. 95-96) og Agnes 46 ára eða því sem næst.[1054] Aðeins þrjú af börnunum fylgdu þeim hingað.[1055] Það voru Guðmundur, sem Pétur hafði eignast fyrir hjónaband og var að verða 15 ára, Þuríður, sem var á áttunda ári, og Helga, tæplega 5 ára, en hún var yngsta barnið.[1056] Með þessi þrjú börn voru þau Pétur og Agnes hér í Klúku næstu fimm árin en þá fækkaði í hópnum.[1057]

Á árunum 1854-1858 var þessi fjölskylda jafnan með eina kú[1058] en hinir fyrri tómthúsmenn í Klúku voru yfirleitt kýrlausir (sjá hér bls. 86-87). Á búskaparárum sínum í Klúku átti Pétur líka um tíma hálfan hest en hross þetta var þá sameign hálfbræðranna Péturs Borgarssonar í Klúku og Björns Helgasonar í Botni.[1059] Sauðkindur Péturs og Agnesar voru jafnan mjög fáar. Í búnaðarskýrslu frá árinu 1855 eru þau sögð eiga einn gemling og annað ekki af sauðfénaði.[1060] Vorið 1856 voru þau með 5 ær og 4 gemlinga og tveimur árum síðar með 4 ær, 1 hrút og 6 gemlinga.[1061] Þá var hér líka tryppi en búið að selja hestinn, sem bræðurnir höfðu átt saman, eða farga honum.[1062]

Veruleg breyting varð á högum Péturs og Agnesar á síðari hluta ársins 1858 eða fyrri hluta ársins 1859 því búnaðarskýrslur sýna að á árunum 1859-1863 voru þau alveg búlaus og virðast enga kind hafa átt á þessum árum þó að þau sætu áfram hér í Klúku.[1063] Árið 1859 fóru eldri börnin, þau Guðmundur og Þuríður, líka burt af heimilinu en Helga, sem var yngst, fylgdi foreldrunum öll níu árin sem þau höfðust við í þessu koti.

Mjög sterkar líkur benda til þess að Pétur og Agnes hafi lafað við búskap í Klúku á árunum 1854-1858 í skjóli Brynjólfs Jónssonar bónda í Botni, sem fluttist þaðan út í Bæ vorið 1857, en Guðmundur Sturluson og Kristín Þórarinsdóttir, sem þá hófu umsvifamikinn búskap í Botni (sjá hér bls. 48-49 og Staður), hafi skömmu síðar sagt hjónunum í Klúku upp jarðnæðinu. Með hvaða móti Pétri og Agnesi tókst að framfleyta sér og barni sínu á árunum 1859-1863 er óljóst, en líklegast er að þau hafi unnið fyrir sér með ígripavinnu á búunum í Botni og/eða á Kvíanesi því hér er stutt á milli bæja. Vorið 1863 viku þau burt frá Klúku og þá fór Agnes að Kvíanesi en Pétur fylgdi Guðmundi Þórarinssyni, syni Kristínar Þórarinsdóttur í Botni, að Stað.[1064] Þar var Guðmundur bústjóri móður sinnar næsta fardagaár (sjá hér Staður). Þessi aðskilnaður hjónanna Péturs og Agnesar árið 1863 gæti bent til þess að Pétur hafi unnið að bústörfum í Botni næstu ár á undan en Agnes á Kvíanesi.

Undir lok ársins 1865 höfðu hjónin Pétur og Agnes sameinast á ný undir einu þaki og voru þá hjá Guðmundi bónda Jóhannessyni í Bæ.[1065] Sú samvera varð ekki löng því Pétur andaðist, 55 ára gamall, 2. júlí 1868 og var þá vinnumaður á Suðureyri en Agnes virðist hafa setið um kyrrt í Bæ frá 1865 og þar andaðist hún 14. júlí 1871, – kerling frá Bæ – , segir prestur.[1066]

Við brottför Péturs Borgarssonar og Agnesar Aradóttur frá Klúku vorið 1863 fór kotið í eyði og ekki er vitað með vissu til þess að nokkurt fólk hafi hafst hér við næstu sextán árin.[1067]

Árið 1879 byggðist Klúka á ný en þá settust hér að hjónin Páll Guðmundson og Rósinkransa Guðmundsdóttir.[1068] Þau höfðu staðið fyrir búi á Kvíanesi á árunum 1856-1863 og síðan á Suðureyri frá 1863 til 1867, en næsta áratug voru þau yfirleitt annarra hjú (sjá hér Kvíanes). Þegar Páll og Rósinkransa byggðu upp í Klúku vorið 1879 voru þau farin að reskjast, hann að verða 54 ára en hún fimm árum yngri (sjá hér Kvíanes). Hér réðu þau húsum í tvö ár, frá 1879 til 1881, en voru búlaus.[1069] Líklegt er að þau hafi lifað á snapavinnu hjá nágrönnum. Um þau Pál og Rósinkrönsu hefur áður verið ritað á þessum blöðum (sjá hér Kvíanes).

Páll og Rósinkransa voru reyndar ekki eina fólkið sem settist að í Klúku árið 1879 því húskonan Guðríður Eiríksdóttir, sem þá var fimmtug að aldri, færði sig einnig hingað frá Kvíanesi og hafði með sér dóttur sína Jónu Guðbrandsdóttur[1070] er varð 13 ára á því ári.[1071] Um tvítugsaldur hafði Guðríður verið dæmd til dauða en var náðuð af konungi og hefur áður verið gerð allrækileg grein fyrir henni í þessu riti (sjá hér Bær). Það sem þar var sagt verður ekki endurtekið en minnnt skal á að Guðríður var á þessum árum starfandi ljósmóðir[1072] og önnur ljósmóðirin í Klúku sem um er kunnugt því Sigríður Snjólfsdóttir, sem hér átti heima frá 1828 til 1848, var líka ljósmóðir (sjá hér bls. 88-92).

Á árunum 1879-1885 var Guðríður oftast sjálfrar sín hér í Klúku en eitt ár á þessu skeiði var hún þó vinnukona hjá Sveinbirni Pálssyni sem þá var hér húsmaður.[1073] Frá 1885 til 1887 hokraði sonur Guðríðar hér í Klúkunni og var hún þá hjá honum svo dvalarár hennar á þessum stað urðu átta.[1074] Hér varð þessi margreynda kona fyrir þeirri þungu sorg að missa dóttur sína, Jónu Guðbrandsdóttur, sem andaðist í Klúku 17 ára gömul, 5.ágúst 1883.[1075]

Óvíst er nú hvort Guðríður og Jóna dóttir hennar hafa verið hér undir sama þaki og hjónin Páll og Rósinkransa. Vel má vera að um 1880 hafi allt heimafólk í Klúku verið í sama bænum en hitt er líka hugsanlegt að þær mæðgur hafi verið einar sér í kofa því fullvíst er að mjög fáum árum síðar voru tveir bæir í Klúku (sjá hér bls. 87-88).

Vorið 1881 settust hér að hjónin Sveinbjörn Pálsson og Guðmundína Jónsdóttir sem þá voru að byrja sinn búskap.[1076] Næsta fardagaár á undan höfðu þau verið á Gelti og komu þaðan hingað í Klúku.[1077] Sveinbjörn var sonur hjónanna Páls og Rósinkrönsu, sem hér höfðu bollokað í tvö ár, en þau gerðust nú heimilisfólk hjá honum.[1078] Þegar Sveinbjörn og Guðmundína fluttust að Klúku áttu þau eitt barn á lífi, dótturina Pálínu, en Pétur sonur þeirra fæddist hér 21. maí 1881. Sjálfur taldi hann sig fæddan þann dag[1079] en prestur segir hann hafa fæðst 12. maí þetta sama ár.[1080]

Sveinbjörn og Guðmundína voru við húsmennskubasl hér í Klúku í tvö ár en fengu jarðarpart á Kvíanesi til ábúðar vorið 1883 og fluttust þangað.[1081] Upplýsingar um bústofn Sveinbjörns á Klúkuárunum liggja ekki fyrir en fullvíst má telja að hann hafi verið mjög lítill. Lífsbjörgina mun tómthúsmaður þessi einkum hafa sótt í sjó og virðist reyndar hafa verið nokkurs megnugur á þessum harðindaárum því hjá þeim Guðmundínu voru sjö heimilismenn í nóvembermánuði árið 1881 og átta einu ári síðar.[1082]

Fyrir vertíðarhlutinn sinn, sem lagður var inn hjá verslun Hjálmars Jónssonar á Flateyri árið 1882, fékk Sveinbjörn kr. 91,62 og var það eina innlegg hans hjá Flateyrarverslun það ár.[1083] Kýrverðið var þá um 98 krónur[1084] svo andvirði hásetahlutarins hefur numið sem svaraði tæplega einu kýrverði. Af matvælum keypti Sveinbjörn þetta hjá versluninni á Flateyri sama ár: 325 pund af rúgi, 100 pund af rúgmjöli, 125 pund af hrísgrjónum, 25 pund af bankabyggi og 8 pund af brauði.[1085] Úttekt hans á munaðarvörum hjá sama kaupmanni var þá sem hér segir: 8 pund af kaffi, 4 pund kaffibætir, 7 pund hvítasykur, 5 pund kandís, ½ pund munntóbak, 1 pund neftóbak, ½ flaska brennivín og 1 pund skonrok.[1086] Aðrar vörur sem Sveinbjörn keypti á Flateyri árið 1882 voru þessar: 10¼ pund steinolía, ½ tunna salt, 2 brýni, 1 skæri, 1 sjóhattur, 1 box, 5½ pund leður, lítilræði af timbri og varningur sem ekki er gott að átta sig á hver var en kostaði kr.4,55.[1087] Í peningum var ráðstafað með milliskrift úr reikningi hans kr.11,50 og að þeirri fjárhæð meðtalinni nam öll úttekt Sveinbjörns þetta ár kr. 124,81.[1088] Tölurnar sýna að innleggið dugði ekki fyrir úttektinni. Í lok ársins 1882 skuldaði Sveinbjörn Hjálmari kaupmanni því kr. 33,19 en hafði verið skuldlaus við hann í byrjun sama árs.[1089]

Vera má að auk viðskiptanna við Hjálmar á Flateyri hafi Sveinbjörn verslað eitthvað smávegis á Ísafirði árið 1882 en sú staðreynd að vertíðarhluturinn var lagður inn á Flateyri gefur til kynna að þangað hafi hann einnig sótt flest af því sem kaupa þurfti í verslun.

Um hjónin Sveinbjörn Pálsson og Guðmundínu Jónsdóttur hefur áður verið ritað á þessum blöðum en þau bjuggu síðar á Kvíanesi, í Botni og á Laugum (sjá hér Laugar).

Fardagaárið 1883-1884 virðist Guðríður Eiríksdóttir, sem fyrr var nefnd, hafa verið ein í Klúku, því Páll og Rósinkransa fóru með Sveinbirni syni sínum að Kvíanesi vorið 1883. Ljóst er að Guðríður var búsett hér í ágústmánuði á því ári, þegar Jóna dóttir hennar andaðist, því prestur segir Jónu þá hafa átt heima í Klúku.[1090] Í sóknarmannatali frá nóvembermánuði 1883 er reyndar ekki tekið fram að Guðríður sé í Klúku en hún er þar sögð vera kerling í Botni og talin upp síðust allra heimamanna þar. Minnt skal á að hjáleigukotið hér í Klúku var í landareign Botns og þess vegna má telja allt eins líklegt að Guðríður hafi verið hér um kyrrt þó að prestur skrái hana að þessu sinni í Botni. Hugsanlegt er þó að hún hafi dvalist í Botni veturinn 1883-1884 en það verður samt að teljast fremur ólíklegt því við lok ársins 1884 skráir prestur hana enn á ný í Klúku og hér var hún líka næstu ár.

Vorið 1884 færðu sig hingað hjónin Jón Kristjánsson og Guðný Jónsdóttir sem um hefur verið fjallað á öðrum stað í þessu riti (sjá hér Bær). Jón var þá að verða 33ja ára en Guðný var 47 ára. Þau voru jarðnæðislaus og höfðu jafnan verið vinnuhjú eða í húsmennsku. Með þeim fluttist hingað í Klúku Guðrún Sigurðardóttir, sem þá var 21 árs, en hún var dóttir Guðnýjar og fædd löngu áður en móðir hennar giftist Jóni Kristjánssyni (sjá hér Bær og Fremri-Vatnadalur, Hraunakot þar). Eina barn Jóns Kristjánssonar og Guðnýjar konu hans sem upp komst var hins vegar drengur sem fæddist hér í Klúku haustið 1884 og var skírður Lúðvík Emil (sjá hér Bær).

Hjónin Jón og Guðný voru tómthúsfólk í Klúku í þrjú ár, frá 1884 til 1887.[1091] Líklegt er að Jón hafi þá jafnan verið á skútum en hann drukknaði vorið 1887 þegar þilskipið „Jeanette” frá Flateyri fórst og allir sem þar voru um borð týndu lífi (sbr. hér Flateyri).[1092] Í sumarmálagarðinum 1887 fórust auk „Jeanette” tvær skútur frá Ísafirði og á hverju þessara þriggja skipa voru átta menn sem allir drukknuðu.[1093] Þrír mannanna sem þá fórust voru frá bæjunum hér innst í Súgandafirði en það voru, auk Jóns Kristjánssonar í Klúku, yngismennirnir Guðbjartur Friðriksson á Kvíanesi (sjá hér Kvíanes) og Jón Sigurðsson frá Botni, sem reyndar hafði flust til Flateyrar fáum árum áður (sjá hér bls. 52-53).

Á árunum 1885-1887 var Guðni Egilsson húsum ráðandi hér í Klúku og hefur að líkindum fengið umráð yfir því litla jarðnæði sem kotinu fylgdi (sbr. hér bls. 86-88) því hann er kallaður bóndi í sóknarmannatölum frá þeim árum.[1094] Guðni var sonur Guðríðar Eiríksdóttur sem hér hafði hafst við allt frá árinu 1879. Hann var 27 ára gamall er hann settist að í Klúku og kom frá Selárdal þar sem hann hafði verið vinnumaður í fjögur ár (sjá hér Bær). Er Guðni tók stefnuna á Klúku mun hann hafa verið heitbundinn Guðrúnu Sigurðardóttur sem hingað fluttist með móður sinni og stjúpföður vorið 1884 og hér var áður nefnd. Guðni og Guðrún hófu búskap í Klúku vorið 1885 og voru gefin saman í hjónaband þá um haustið (sjá hér Bær) en mæður beggja, þær Guðríður Eiríksdóttir og Guðný Jónsdóttir, höfðu verið hér samtíða fardagaárið 1884-1885, líklega þó í sínum kofanum hvor.

Elsta barn Guðna Egilssonar og Guðrúnar Sigurðardóttur, Veturliði Híram, fæddist hér í Klúku 6. maí 1886[1095] en hér bjuggu þau aðeins í tvö ár en fluttust þá að Kvíanesi. Frá Guðna og Guðrúnu er sagt annars staðar í þessu riti (sjá hér Kvíanes og Bær).

Þegar Guðni Egilsson fluttist frá Klúku að Kvíanesi vorið 1887 fóru móðir hans og tengdamóðir, þær Guðríður Eiríksdóttir og Guðný Jónsdóttir, með honum þangað svo enginn varð hér eftir af því fólki sem átt hafði heima í Klúku.[1096] Kotið féll þó ekki í eyði því hingað kom strax nýtt fólk. Þar er fyrst að nefna Kára Ólafsson og sambýliskonu hans, Sigurborgu Jónsdóttur, sem settust að í Klúku vorið 1887 en þeim fylgdu þrír ungir synir.[1097] Kári var fæddur í Tröð í Bolungavík 27. apríl 1854 og var sonur hjónanna Ólafs Jónssonar og Kristínar Torfadóttur sem þar voru við bú.[1098] Sigurborg var átta árum eldri, fædd á Gilsbrekku í ágúst árið 1846 en þar bjuggu þá foreldrar hennar, þau Jón Sigurðsson og Jarðþrúður Ólafsdóttir (sbr. hér  Gilsbrekka).[1099]

Kári og Sigurborg fluttust til Súgandafjarðar árið 1886 norðan úr Bolungavík eða Skálavík ytri og höfðu með sér syni sína þrjá á aldrinum 2ja til 5 ára.[1100] Fyrsta ár sitt í Súgandafirði voru þau húsfólk á Kvíanesi en færðu sig í Klúku vorið 1887 og voru hér í fjögur ár.[1101] Er þau komu til Súgandafjarðar segir prestur Sigurborgu vera vinnukonu Kára,[1102] enda voru þau þá ógift, en 22. apríl 1888 voru hjónaleysi þessi gefin saman í Staðarkirkju.[1103] Kári var búlaus maður[1104] og má telja fullvíst að hann hafi haft sjómennsku að aðalstarfi. Í manntalinu frá 1. nóvember 1890 er reyndar tekið fram að tómthúsmaður þessi í Klúku lifi á fiskveiðum.[1105] Ekki er ólíklegt að hann hafi verið skútusjómaður. Einn af drengjum Kára og Sigurborgar, sem hér voru með foreldrum sínum í fjögur ár, var Ólafur Kárason[1106] er varð skipstjóri og síðar kaupmaður á Ísafirði.[1107] Kári og fjölskylda hans fluttust frá Klúku norður í Bolungavík árið 1891.[1108]

Flest árin sem Kári og Sigurborg áttu heima í Klúku voru hér einnig önnur hjón, þau Pétur Pétursson og Guðfinna Pétursdóttir sem brátt verður sagt nánar frá. Í sóknarmannatali frá 31. desember 1888 eru Kári og Pétur sagðir vera húsmenn í Botni[1109] en muna ber að Klúka er í Botnslandi og gætu þeir því vel hafa verið í Klúku. Að Kári hafi þá verið hér má reyndar telja nær fullvíst því presturinn segir hann vera búsettan í Klúku bæði einu ári fyrr og einu ári síðar.[1110] Býsna líklegt má einnig telja að Pétur og Guðfinna hafi tekið sér bólfestu í Klúku árið 1888 þó að prestur segi þau vera í Botni við lok þess árs. Einu ári síðar voru þau alveg tvímælalaust komin hingað og sátu um kyrrt næsta áratug eins og sjá má í embættisbókum viðkomandi sóknarprests.[1111]

Fardagaárið 1889-1890 voru þrjár fjölskyldur í Klúku, Kári Ólafsson og hans fólk, Pétur og Guðfinna, með dreng sem þau áttu, og svo ekkjan Guðný Jónsdóttir með son sinn sem þá var um 5 ára aldur.[1112] Að þessu sinni var hún hér aðeins í eitt ár en hafði áður átt hér heima í þrjú ár með manni sínum Jóni Kristjánssyni sem fyrr var nefndur (sjá hér bls. 102).

Valdimar Þorvaldsson segir að hjón, sem hann nefnir ekki hvað hétu, hafi átt heima í minni bænum í Klúku  til 1887 (sbr. hér bls. 88).[1113] Líklegt er að hann eigi þar við nýnefndan Jón Kristjánsson og Guðnýju því Jón drukknaði vorið 1887 og Guðný fór sama ár frá Klúku að Kvíanesi eins og fyrr var frá greint. Valdimar var þá 9 ára drengur í Selárdal en ártalið 1887 mun hafa setið fast í mörgum hér um slóðir vegna hins mikla manntjóns er þá varð þegar þrjú þilskip frá Ísafirði og Flateyri fórust með allri áhöfn í sama veðrinu og 24 hraustir sjómenn hlutu vota gröf (sjá hér bls. 102-103). Jón Kristjánsson í Klúku var einn þeirra og það gæti Valdimar hafa munað fram á elliár þó að margt annað væri gleymt. Sú staðreynd að Guðný Jónsdóttir gerðist á ný húskona í Klúku eftir tveggja ára vist á Kvíanesi verður líka skiljanlegra sé ráð fyrir því gert að hér hafi hún átt húskofa frá samvistarárum þeirra hjóna. Um þetta veit þó enginn neitt með fullri vissu en hitt er staðreynd að þegar prestur húsvitjaði í Klúku veturinn 1889-1890 áttu hér heima þrjár fjölskyldur og höfuðin á mannfólkinu sem hér lifði sínu lífi reyndust þá vera tíu.[1114] Af þessum tíu manneskjum hurfu sjö á braut á árunum 1890 og 1891 en eftir sátu hjónin Pétur Pétursson og Guðfinna Pétursdóttir sem hokruðu hér allt til ársins 1899. Verður nú sagt lítið eitt nánar frá þeim.

Pétur Pétursson í Klúku var fæddur á Kvíanesi 13. maí 1844 og var sonur hjónanna Péturs Borgarssonar og Agnesar Aradóttur sem lengi voru í húsmennsku á Kvíanesi og frá 1854 til 1863 hér í Klúku.[1115] Frá þeim hefur áður verið sagt í þessu riti (sjá hér bls. 95-99). Í frumbernsku var Pétur hjá foreldrum sínum á Kvíanesi en þau voru fátækt fólk sem ekki gat séð öllum börnum sínum farborða og varð hreppsnefndin því að ráðstafa sumum þeirra sem sveitarómögum á aðra bæi.[1116] Pétur var tekinn frá foreldrunum þegar hann var um 5 ára aldur og frá 6 ára aldri var hann niðursetningur á Gelti.[1117] Hann var því aldrei hjá foreldrum sínum hér í Klúku.[1118] Veturinn 1857-1858 var hann 13 ára niðursetningur á Gelti.[1119] Um vorið var hann fermdur og segir prestur hann þá kunna sæmilega vel en tekur fram að skilningurinn sé  daufur.[1120]

Árið sem Pétur varð 18 ára fór hann sem vinnumaður frá Gelti að Seljalandi í Skutulsfirði og var þar í eitt ár en fardagaárið 1863-1864 var hann vinnumaður á Suðureyri og næstu árin á Stað í Súgandafirði.[1121] Árið 1867 var hann enn á Stað[1122] en fluttist árið 1870 frá Bæ í Súgandafirði vestur að Holti í Önundarfirði.[1123] Fáum árum síðar barst hann norður í Aðalvík og var þar húsmaður á Látrum árið 1877.[1124] Þann 7. ágúst á því ári gekk Súgfirðingur þessi að eiga stúlkuna Guðfinnu Pétursdóttur sem þá átti einnig heima á Látrum og var þar  sjálfrar sín.[1125]

Guðfinna var þremur árum eldri en Pétur, fædd 20. apríl 1841 í Rekavík bak Höfn í Sléttuhreppi.[1126] Móðirin var Þóra Þórðardóttir, ógift vinnukona í Rekavík, en faðirinn Pétur Þorsteinsson, vinnumaður í Höfn þar í Hornvík.[1127]  Þessi tilvonandi húsfreyja í Klúku ólst að miklu leyti upp sem tökubarn í Hlöðuvík á Hornströndum[1128] en árið 1870 var hún komin að Látrum í sömu sveit og var þar vinnukona.[1129] Eins og fyrr var getið voru þau Pétur pússuð saman sumarið 1877 og 9. júní 1880 fæddist eina barnið sem þau komu upp, sonurinn Pétur.[1130] Þá voru þau tómthúsfólk í Stakkadal[1131] sem er næsti bær við Látra í Aðalvík. Á harðindaárunum sem nú voru fram undan neyddust þau til að segja sig til sveitar og voru árið 1885 flutt hreppaflutningi, öll þrjú, norðan úr Aðalvík til Súgandafjarðar, á fæðingarhrepp Péturs.[1132] Í fyrstu voru þau sett niður í Vatnadal.[1133] Fardagaárið 1887-1888 voru þau í húsmennsku á Kvíanesi[1134] en settust að í Klúku eigi síðar en 1889 og að líkindum vorið 1888 (sjá hér bls. 104).

Á þeim tíu eða ellefu árum sem Pétur Pétursson og Guðfinna kona hans voru í Klúku virðast þau hafa bjargast af, enda fátt í heimili, þau tvö og sonurinn Pétur.[1135] Frá 1891 til 1899 voru þau eina fjölskyldan í Klúku og frá 1892 er Pétur jafnan sagður vera bóndi í sóknarmannatölum.[1136] Í tíundarskýrslum er hann hins vegar flokkaður með búlausum húsmönnum og þar sést að hann hefur verið kýrlaus en átt nokkrar ær.[1137] Vorið 1891 átti Pétur 6 ær og 8 gemlinga en fjórum árum síðar 9 ær og 8 gemlinga.[1138] Þessar fáu sauðkindur voru þá eini búfénaðurinn í Klúku ef marka má skýrslurnar.[1139] Við sérstaka fjártalningu í marsmánuði árið 1897 reyndust sauðkindurnar í Klúku hins vegar vera 26.[1140]

Ætla má að Pétur Pétursson í Klúku hafi verið háseti í sjóróðrum frá Suðureyrarmölum eins og flestir eða allir þurrabúðarmennirnir sem áður höfðust við í Klúku. Vísa sem hér er birt á öðrum stað (sjá hér Fremri-Vatnadalur) og frásögn sem henni fylgir bendir líka til þess.

Guðmundur Guðmundsson, síðar bóndi á Gelti, var 9 ára drengur í Vatnadal árið 1885 (sjá hér Fremri-Vatnadalur) þegar Pétur og fjölskylda hans komu norðan úr Aðalvík en þeim var þá komið fyrir í Vatnadal. Röskum aldarfjórðungi síðar sagði hann Magnúsi Hjaltasyni að Pétur hefði þá verið snar og duglegur og mönnum þótt mikið til atorku hans koma.[1141]

Pétur Pétursson og fjölskylda hans voru síðasta fólkið sem bjó árum saman í Klúku. Þau fóru héðan vorið 1899 eins og fyrr var nefnt og voru næsta fardagaár á Gilsbrekku[1142] en síðan í húsmennsku á Kvíanesi frá 1900 til 1905 og höfðust þar við í neðri bænum (sjá hér Kvíanes), síðust allra. Er Pétur og Guðfinna fóru frá Kvíanesi voru þau bæði komin á sjötugsaldur og settust þá að í þorpinu á Suðureyrarmölum.[1143] Þar dvöldust þau í skjóli Péturs sonar síns til æviloka[1144] en hann keypti árið 1906 lítið hús sem varð númer níu við Rómarstíg þegar göturnar í þorpinu fengu nöfn og húsin númer.[1145]

Pétur Pétursson eldri og Guðfinna kona hans náðu bæði háum aldri. Hún dó 87 ára gömul 7. maí 1928 en hann andaðist 30. apríl 1929 og var þá að verða 85 ára.[1146]

Pétur Pétursson yngri var síðasta barnið sem ólst að miklu leyti upp í Klúku. Hann kom hingað með foreldrum sínum átta eða níu ára gamall og var orðinn 19 ára þegar þau fóru frá Klúku. Gunnar M. Magnúss rithöfundur var lengi samtíða þessu fólki á Suðureyri á öðrum og þriðja áratug tuttugustu aldar og segir svo frá þeim:

 

Í litlu húsi á mörkum grundarinnar á Innri-Mölum og fiskreita Ásgeirsverslunar áttu heima roskin hjón, Pétur og Guðfinna, er áður höfðu búið á Gilsbrekku og Klúku. Þeirra sonur var Pétur og átti heima hjá þeim. Pétur yngri eða „Pétur sonur” eins og hann var títt nefndur stundaði sjóinn en var aldrei í landvinnu. Hann festi ekki ráð sitt. ¼  Hann var mikill dráttarmaður. Pétur sonur var einn hinn snyrtilegasti plássmanna. Ekki hafði hann verið fyrir löngu kominn úr sædrifinu og unnið að fjöruverkum en hann var kominn aftur út, nýrakaður og gljáði af sápu. Hann var svo hreinlegur að hver flík á honum virtist vera nýþvegin og strokin. Hann var óádeilinn, glaðlegur í félagsskap en dálítið var um sig. Hann hafði jafnan mikla útivist á göngum í plássinu.[1147]

 

Þegar fjölskyldan sem hér var síðast sagt frá fór frá Klúku vorið 1899 lagðist kotið í eyði og næstu tíu árin bjó hér enginn. Svo fór þó að enn kviknaði líf í Klúku.

 

 

Sóknarmannatalið frá 31. desember 1909 sýnir að þá var hér búsett átta manna fjölskylda, hjónin Guðmundur Jónsson og Anna Jónsdóttir og börn þeirra sex.[1148] Þau Guðmundur og Anna komu í Súgandafjörð frá Flateyri árið 1906 og settust þá að á Suðureyrarmölum.[1149] Þar áttu þau heima nær óslitið til 1914 en voru þó hér í Klúku í eitt ár, fardagaárið 1909-1910.[1150]

Í manntalinu frá 1910 er Guðmundur þessi Jónsson sagður hafa fæðst í Múlasveit við norðanverðan Breiðafjörð[1151] og líklega er hann sá Guðmundur sem fæddist á Firði þar í sveit árið 1873 ellegar hinn drengurinn með sama nafni sem fæddist á Vattarnesi haustið 1871.[1152] Árið 1901 voru Guðmundur og fjölskylda hans búsett á Firði og í manntalinu frá því ári er hann sagður vera 28 ára gamall[1153] sem passar við fæðingarárið 1873. Þess skal þó getið að í ritinu Söguþættir landpóstanna er hann sagður hafa fæðst á Illugastöðum í Múlasveit 4. ágúst 1863.[1154] Þeirri staðhæfingu verður þó að taka með miklum fyrirvara því hjá viðkomandi sóknarpresti verður ekki séð að nokkur drengur með þessu nafni hafi fæðst í Múlasveit árið 1863.[1155] Er Guðmundur fluttist til Súgandafjarðar árið 1906 er hann sagður vera 33ja ára gamall[1156] sem passar við aldur hans í manntalinu frá 1901 og fæðingarárið 1873.

Anna Jónsdóttir, eiginkona Guðmundar Jónssonar og síðasta húsfreyjan í Klúku, var fædd í Setbergssókn á Snæfellsnesi og mun hafa verið á líkum aldri og Guðmundur en kynni þó að hafa verið aðeins eldri.[1157]

Þau Guðmundur og Anna gengu í hjónaband árið 1897 og fluttust í Múlasveit utan úr Svefneyjum þremur árum síðar.[1158] Elstu börn þessara hjóna, þau Haraldur og Herborg, munu bæði hafa fæðst í Svefneyjum eða annars staðar í Vestureyjum Breiðafjarðar.[1159]

Í sóknarmannatalinu frá 31. desember 1909 er Guðmundur Jónsson sagður vera húsmaður í Klúku.[1160] Væri það eina heimildin um búsetu hans hér gæti hvarflað að lítt trúgjörnum lesendum að þarna væri einhver misskilningur á ferð og enginn hefði í raun sest að í þessu koti eftir lok nítjándu aldar. En heimildirnar um búsetu Guðmundar og hans fólks hér í Klúku þetta eina ár eru fleiri. Í hreppsbók frá árunum 1901-1914 er að finna skjal með yfirskriftinni Ómagaframfæri í Suðureyrarhreppi fardagaárið 1908-1909.[1161] Neðantil á þessu blaði eru skráðar greiðslur úr sveitarsjóði vegna Sigurðar Jóhannssonar á Gilsbrekku fardagaárin 1909-1910 og 1910-1911.[1162] Greiðslur þessar eru af ýmsu tagi en 24. júní 1910 hefur oddvitinn, séra Þorvarður Brynjólfsson á Stað, bókað þetta: Reikningur frá Guðmundi Jónssyni í Klúku, 1 kindareldi 9 vikur 0/27 = 2/43.[1163] Fleiri reikningar af sama tagi eru færðir þarna til bókar og sýna að þegar leið á hinn mikla snjóavetur 1910 hefur Sigurður bóndi á Gilsbrekku verið orðinn heylítill og kindum hans, sumum eða öllum, verið komið fyrir hjá nágrönnunum svo þær féllu ekki úr hor.

Reikningurinn frá Guðmundi gefur til kynna að hann hafi sjálfur alið fáeinar kindur í Klúku veturinn 1909-1910 og verið aflögufær um hey þegar kom fram á útmánuði og hvergi sá á dökkan díl. Hann gat því tekið eina kind af nágranna sínum handan fjarðarins og ól hana í níu vikur. Fyrir þetta greiddi Suðureyrarhreppur honum kr. 2,43 eins og reikningurinn sem hér var frá greint sýnir, það er 27 aura fyrir hverja viku, sem þá mun hafa verið talið sanngjarnt verð. Séra Þorvarður segir Guðmund búsettan í Klúku þegar hann greiðir honum reikninginn en þá var komin Jónsmessa og fardagar að baki. Vel má vera að þau Guðmundur og Anna hafi setið um kyrrt með barnahópinn í Klúku sumarið 1910 og verið hér tvö sumur en örugglega ekki nema einn vetur því fyrir lok ársins 1910 voru þau komin aftur á Suðureyrarmalir.[1164]

Þriðja heimildin fyrir því að Guðmundur Jónsson og hans stóra fjölskylda hafi búið í Klúku fardagaárið 1909-1910 er prestsþjónustubókin frá Stað. Ein af dætrum Guðmundar og Önnu konu hans fæddist nefnilega hér í Klúku 8. september 1909 og var hún skírð Guðrún María.[1165] Er prestur skráir fæðingu barnsins tekur hann fram að foreldrarnir eigi heima í Klúku[1166] svo vottorðin um búsetu þeirra hér eru ekki færri en þrjú. Guðrún María Guðmundsdóttir var síðasta barnið sem fæddist í Klúku og það eina sem leit hér fyrst dagsins ljós eftir lok nítjándu aldar.[1167]

Fyrsti veturinn sem Guðrún María lifði var hinn mikli snjóavetur 1909-1910 en þá voru börnin í Klúku sex eins og hér var nefnt og höfðu aldrei verið fleiri svo kunnugt sé. Þegar prestur húsvitjaði nálægt áramótum skráir hann nöfn og aldur barnanna og telur þau upp í þessari röð: Haraldur 12 ára, Herborg Ágústa 10 ára, Guðríður 8 ára, Jón Ingigeir 6 ára, Ástráður*) Þorgils 2ja ára og Guðrún María á 1. ári.[1168] Öll lifðu þau veturinn af[1169] og þess má geta að Haraldur, elsti drengurinn, varð seinna skipstjóri á Ísafirði og átti þar alllengi sæti í bæjarstjórn.[1170]

Hjónin Guðmundur Jónsson og Anna Jónsdóttir fluttust úr Klúku í þorpið á Suðureyrarmölum árið 1910 og síðan þá hefur enginn búið

 

 

*) Í sóknarmannatalinu virðist ritað Ástríður en þetta var piltbarn og rétta nafnið Ástráður (sbr. Söguþættir landpóstanna 1942, I, 370-371).

 

 

hér.[1171] Næstu fjögur ár voru Guðmundur og fjölskylda hans búsett þar á Mölunum ­­­­en fengu vorið 1914 jörðina Fremri-Vatnadal til ábúðar.[1172] Þar bjuggu þau í fjögur ár, voru síðan aftur á Suðureyrarmölum í eitt ár en fluttust árið 1919 til Ísafjarðar.[1173]Frá 1923 til 1928 sá Guðmundur um flutning á pósti milli Ísafjarðar og Bíldudals og lenti þá oft í erfiðum ferðum.[1174] Um framgöngu Guðmundar pósts í þessum ferðalögum segir svo á einum stað:

 

Hefir hann verið sérstaklega skyldurækinn maður og framúrskarandi ósérhlífinn svo að nær var um of oft og tíðum. ¼ Unni hann sér naumast svefns né matar meðan á ferðalögunum stóð.[1175]

 

 

 

 

Fjöllin ofan við Klúku heita Nautaskálarhorn og Nónhorn og skálin á milli þeirra Nautaskál[1176] en utan við Nautaskálarhorn er Kvíanesdalur (sjá hér Kvíanes). Undir lok nítjándu aldar lifðu enn á vörum fólks sögur um óvætt nokkra eða skrímsli sem sagt var að ætti heimkynni sín í Nautaskál (sjá hér Kvíanes).

Klúka var hjáleiga frá Botni eins og hér hefur áður verið nefnt, en fólkið sem hér bjó hafði þó um skeið umsamin sérréttindi til afnota af landspildu sem náði frá landamerkjum Botns og Kvíaness, hér rétt utan við Klúku, og inn að línu sem dregin var úr fjallinu Nónhorni um Gýgjarholt í sjó fram (sjá hér bls. 87-88). Ytri merkin, sem jafnframt voru landamerki Botns og Kvíaness, fylgdu hins vegar línu sem dregin var úr Nautaskálarhorni í þúfu á sjávarbökkunum skammt fyrir innan Kvíanesá (sjá hér Kvíanes). Milli þessara merkja er hvarvetna unnt að ganga á örfáum mínútum því þetta er lítið land.

Á árum áður og fram yfir miðja tuttugustu öld runnu tveir lækir niður Klúkulandið og voru nefndir Innri- og Ytri-Klúkulækur.[1177] Neðan við túnið var milla lækjanna svolítil ræma með sjónum sem hét Ártungur og var þar að sögn álagablettur sem ekki mátti slá.[1178] Kristján G. Þorvaldsson greinir frá því að síðasti búandi í Klúku hafi virt bannhelgina að vettugi og slegið þarna eitt sumar.[1179] Um afleiðingar þessa framtaks ritar sami höfundur svo: Um haustið setti hann fimm ær á en missti þrjár um veturinn. Rann honum þá svo í skap að hann drap þær sem eftir voru og kvað best að þær færu allar sömu leiðina.[1180] Ætla má að sá sem þarna er frá sagt sé Guðmundur Jónsson sem var í Klúku fardagaárið 1909-1910 og hér hefur áður verið gerð grein fyrir.

 

Héðan frá Klúku leggjum við nú upp í göngu um land bændanna í Botni og höldum okkur að mestu við láglendið, því fjöllin höfum við áður skoðað frá heimahlaði Botnsbænda (sjá hér bls. 3-4). Við röltum fyrst inn með sjónum og fylgjum gömlu reiðgötunni sem liggur hér rétt ofan við fjöruna og er enn sjálfri sér lík. Fram undan sjáum við Gýgjarholt sem er skammt frá sjó og mikið um sig, en rétt fyrir innan og neðan það er gamla Botnsrétt.[1181] Reiðgatan lá og liggur enn neðan við holtið.

Á Gýgjarholti gerum við stuttan stans. Nafnið gleður hugann því orðið gýgur merkir tröllkona. Nú eru samt týndar þær tröllasögur sem áður voru í minnum hafðar. Nafnið eitt lifir, sveipað dul, en vera má að gýgurin sem forðum steig hér fæti á fold hafi verið sömu ættar og óvættur sú úr Nautaskál sem hér var áður frá sagt og enn varð vart við undir lok nítjándu aldar.

Frá Gýgjarholti lítum við til fjalls og horfum til baka. Utan við holtið var slægjupartur sem tók nafn af því og var nefndur Gýgjarholtspartur.[1182] Í brekkunum upp af honum er Stekkjartún[1183] og þar mun Klúkulömbunum hafa verið stíað frá mæðrum sínum á stekktíðinni í fyrri daga. Í hlíðinni ofan við Stekkjartún en fyrir neðan Nautaskálarbrúnina eru Hjallar sem svo heita og ná út að Kvíanesá og inn undir Hafradal.[1184]

Innan við holtið sem við kveðjum nú stendur gömul grjóthlaðin skilarétt niðri við fjöruna og heldur velli þó árin líði. Hún er liðlega tuttugu metrar á lengd og líklega sjö eða átta metrar á breiddina. Hér gat því rúmast margt fé. Utan og ofan við réttina er hlaðinn pallur og þar munu um eitthvert skeið á tuttugustu öld hafa verið bornar fram veitingar í tjaldi á réttardögum. Beint fyrir ofan réttina og alveg rétt hjá henni mótar fyrir öðru langtum eldra mannvirki. Líklega er þetta bátshróf og hér í grennd mun lending Botnsbænda ætíð hafa verið.

Frá réttinni er skammur spölur inn í fjarðarbotninn, liðlega hálfur kílómetri. Mjög skammt fyrir innan réttina er allstór hæð við sjóinn og heitir Höfði.[1185] Á honum er nú ræktað tún en milli þess og gamla heimatúnsins í Botni er lægðin sem Stórhólslækur fellur um (sjá hér bls. 84-85). Ofan við Höfða er mýri sem heitir Kvöl og ofan við hana holtin Langholt og Barnaholt.[1186] Síðarnefnda holtið er nær túninu og mjög skammt fyrir neðan akveginn. Þar mun áður hafa verið leikvangur barnanna mörgu sem ólust upp í Botni en nú er holt þetta varla nema svipur hjá sjón, því vegagerðarmenn hafa tekið þar mikið af ofaníburði.

Hér var áður minnst á Hjalla er svo heita í hlíðinni ofan við Klúku. Þessir sömu Hjallar teygjast alllangt inn á við í fjallshlíðinni neðan við Nónhorn[1187] en innan við þá tekur við stakur hjalli sem meira ber á og heitir Latur ytri eða Ytri-Latur.[1188] Á honum var athafnasvæði námumannanna sem á árunum 1916-1918 og 1941-1942 grófu hér surtarbrand úr jörð og áður var frá sagt (sjá  hér bls. 7-9).

Hjallinn Ytri-Latur nær að Hafradalsá, sem fellur í háum fossi fram af brún Hafradals, en framan við ána er annar álíka hjalli sem heitir Latur innri[1189] eða Innri-Latur.

Hafradalur er beint upp af túnunum í Botni og liggur brún dalsins í tæplega 200 metra hæð yfir sjávarmáli.[1190] Fram af henni steypist fossinn. Klettarnir neðan við dalbrúnina heita Hafradalsklettar og í þeim eru tvö klif, Ytra-Klif og Innra-Klif.[1191] Fjöllin sitt hvorum megin við Hafradal heita Hádegishorn og Nónhorn og er Nónhorn utan við dalinn.[1192] Í Nónhorni er Breiðhilla og neðan við hana Breiðhilluklettar en skriðan mikla sem klæðir fjallshlíðina neðan við Hádegishorn heitir Hornskriða.[1193]

Við höfum áður gengið um gamla túnið í Botni og staldrað við hjá Landbúasteini framan við það (sjá hér bls. 84-86). Gömlu bæina höfum við líka kvatt og höldum því ekki í hlað en hefjum göngu fram vestanverðan Botnsdal, án þess þó að fylgja bílveginum. Það ferðalag er gott að hefja í nánd við árósinn þar sem Botnsá fellur til sjávar í fjarðarbotninum, en hún er megináin á Botnsdal[1194] og mun stundum hafa verið nefnd Langá.[1195]

Í fjarðarbotninum, neðan við Botnstúnið, er nú margt með öðrum brag en áður því hér hefur verið stunduð laxarækt og miklum garði verið ýtt upp vegna hennar. Rifin tvö sem hér voru áður og náðu að kalla þvert yfir fjarðarbotninn, frá HjalleyriJónseyri,[1196] eru horfin. Yfir þau var um fjörur fær leið landa á milli fyrir gangandi mann en varð þó að stikla á steinum yfir lítið sund.[1197] Um flæðar fóru þau nálega í kaf.[1198] Gömlu Rifin voru náttúrusmíð en garðarnir tveir, sem hér liggja nú þvert yfir botn fjarðarins, eru nýleg mannvirki og bílfær vegur yfir þann innri.

Innan við Rifin innst í fjarðarbotninum voru Ósar, allstórt svæði sem þornaði að mestu upp á hverri fjöru.[1199] Hjalleyri, sem hér var nefnd, er að kalla beint niður af Stórhól[1200] en svo heitir hóll einn mikill yst í gamla Botnstúninu (sjá hér bls. 84-85). Ætla má að fiskhjallarnir tveir sem vitað er að stóðu hér niður við sjó um aldamótin 1900 (sjá hér bls.84) hafi verið á þessari eyri.

Rétt við árósinn hér að vestanverðu er Grjóthóll[1201] en eldra nafn mun vera Grjóthólar.[1202] Skammt hér frá en nær gamla túninu var mýri sem hét Þemba.[1203] Í henni var tekinn upp mór[1204] en Þemba er nú orðin að túni. Næsta holt niður við ána heitir Hlaðsholt[1205] og frá því í átt að Þembu var slægjuland er nefnt var Hlaðspartur.[1206] Nokkur hluti þess hefur nú verið gerður að túni.

Lægðin framan við Hlaðsholt heitir Leirlág[1207] en þar fyrir framan eru Hornpartar og ná fram að Reiðholti.[1208] Efst í Hornpörtum er langt holt sem heitir Háholt.[1209] Reiðholtið, sem hér var nefnt, er stórt og mikið og um það lá vegurinn sem farinn var þegar riðið var frá Botni fram dalinn í átt til heiðarinnar.[1210] Framan við Reiðholt er Reyrlág og hjá henni Reyrlágarholt.[1211] Framan og neðan við það eru Sund, gamalt slægjuland sem nú (1996) er nær allt orðið að ræktuðu túni.[1212] Þar fyrir framan var annað engjapláss og hét Hólaskógur.[1213] Þar er nú líka komið tún.[1214] Þverá sem kemur úr hvilftinni framan við Hádegishorn fellur meðfram Hólaskógi og niður með Sundum.[1215] Á síðasta áratug nítjándu aldar fékk Kristján Albertsson á Suðureyri oft léðar slægjur í Botni (sjá  hér bls. 60) og þá var fólk hans við heyskap í Sundum og Hólaskógi (sjá hér Suðureyri). Ætla má að engjaplássið Hólaskógur hafi á öldum áður verið viði vaxið en langt mun nú vera síðan sá skógur eyddist.

Hvilftin framan við Hádegishorn heitir Seljahvilft[1216] og úr henni kemur Þverá eins og fyrr var nefnt. Niður undan hvilftinni eru tveir hjallar kenndir við hana og heita Seljahvilftarhjallar.[1217] Á hvilftarbrúninni er stór steinn, nefndur Grettistak.[1218]

Framan við Hólaskóg er Seljapartur.[1219] Niður framverðan Seljapart liggur Seljahryggur[1220] og er neðan við Seljahvilft. Örnefnin gefa mjög sterklega til kynna að á þessum slóðum hafi búsmali fólksins í Botni verið hafður í seli á fyrri tíð. Á Seljahrygg eru enn (1996) tvær fornlegar tóttir en ekki verður sagt með vissu hvort þær tengjast selinu því engin kví er nú sjáanleg. Hún kynni þó að hafa verið hér mjög skammt frá því mikið umrót hefur orðið vegna vegagerðar og ræktunarframkvæmda.

Tóttirnar á Seljahrygg, sem enn standa, eru mjög skammt fyrir neðan elsta bílveginn, þann sem lagður var rétt fyrir 1940. Stærri tóttin er 7 x 2 metrar að flatarmáli eða því sem næst og tvískipt. Hin er miklu minni, 1,5 x 2 metrar eða svo. Spölurinn heiman frá bæjunum í Botni fram á Seljahrygg er einn og hálfur til tveir kílómetrar.

Úr hlíðinni ofan við Seljahrygg er gott að líta yfir Botnsdal. Hinn mikli gróður gefur dalnum hlýlegt yfirbragð og prýði er að skóginum í brattri norðurhlíðinni. Botnsskógur sem svo heitir[1221] nær frá landamerkjunum undir Grensfjalli og allt fram að undirhlíðum Svarthamrahorns (sbr. hér bls. 4). Utan við landamerkin tekur Gilsbrekkuskógur við og síðan Selárdalsskógur lengra út með firðinum.

Skógurinn er ekki hávaxinn og sums staðar dálítið slitróttur hér fram í dalnum en virðist þó ekkert hafa látið á sjá síðustu áratugina. Vera má að birkiskógur þessi í norðurhlíð Botnsdals og út með firðinum að norðanverðu hafi verið lakar á sig kominn um miðbik nítjándu aldar. Til þess að svo hafi verið benda orð séra Andrésar Hjaltasonar, en í sóknarlýsingu sinni frá árinu 1839 kemst hann svo að orði:

 

Skógur má heita gjöreyddur í Súgandafirði. Sjást nú einasta litlar eftirleifar af skógi í Botni, Gilsbrekku og Selárdal. Hafa slíkri auðn mest valdið, að því er menn til vita, skriðuhlaup og árennsli. Kann og hér til að hafa hjálpað óvarleg meðferð manna, seint og snemma.[1222]

 

Virði menn fyrir sér þann skóg sem hér er nú í landi þessara þriggja jarða verða ummæli séra Andrésar um gjöreyðingu hans að teljast svolítið skrýtin.

Líklega hefur skógurinn einnig verið minni en nú þegar Þorvaldur Thoroddsen náttúrufræðingur kom í Súgandafjörð 12. júlí 1887. Því sem fyrir augu hans bar í Botnsdal lýsir Þorvaldur svo:

 

Í hlíðum Botnsdalsins er ákaflega grösugt móti sólu, sums staðar dýjavermsl  ¼  Í skrúðgrænum grasbrekkunum eru hér og hvar stórar gulgrænar skellur og hélt ég í fyrstu, langt til að sjá, að þar væri skógarkjarr og gulvíðir í brekkunum en þegar nær kom var það eintómur skógur af burknum eða tóugrösum og hafði ég aldrei áður séð þess konar gróður.[1223]

 

Þorvaldur segir að burknarnir standi saman í runnum og séu 2-3 fet á hæð.[1224] Um tóugrösin tekur hann fram að skepnur vilji alls ekki éta þau.[1225] Þorvaldur var hér á ferð 12. júlí og þá hafa menn verið að taka upp mó, enda lætur hann þess getið að neðst í dalnum sé mikill móskurður.

Í Súgandafirði var lengi haft fyrir satt að Þorvaldur hefði talið að Botnsdalur væri með fegurstu dölum Vestfjarða[1226] og má vel vera að hinn merki náttúrufræðingur hafi einhvers staðar haft uppi tal í þá veru.

Tóugrösin sem Þorvaldur minnist á setja enn svip á Botnsdal og líka hinn gulgræni dýjamosi í hlíðunum. Botnsdalur er þröngur og aðeins rösklega þrír kílómetrar á lengd en hér voru grösugar engjar sem nú eru flestar orðnar að túnum. Í Súgandafirði mun hvergi hafa verið betra slægjuland og séra Andrés Hjaltason lýsir dalnum svo árið 1839:

 

Fram úr fjarðarbotninum til austurs gengur Botnsdalur, hver að sönnu ekki er mjög langur eður víður en gjörvallt undirlendi hans, allt upp til Botnsheiðar, sem liggur til Tungudals í Skutulsfirði, má heita einlægt slægjuengi, hvar fyrir Botn er heyskaparjörð best í öllum Súgandafirði.[1227]

 

Við höfum nú litið yfir dalinn úr hlíðinni neðan við Seljahvilft og stöldrum aftur við hjá tóttunum á Seljahrygg sem fyrr voru nefndar. Framan við hann er ræktað tún. Við tökum nú stefnuna á Leiti sem er um það bil 700 metrum fyrir framan Seljahrygg. Leitið sem nú heitir svo er hryggur framan við Leitisá og mun á árum áður hafa verið nefnt Fremra-Leiti.[1228] Í máli þeirra sem hér voru kunnugir fyrir daga bílanna voru Leitin á Botnsdal tvö. Annað heiman við Leitisá, þar sem gangandi eða ríðandi maður á leið fram dalinn hvarf sjónum þeirra sem stóðu á hlaðinu í Botni, og svo Fremra-Leiti sem nú er jafnan aðeins nefnt Leiti.[1229] Framan við Seljahrygg og Seljapart en heiman við heimra Leitið var á fyrri tíð mýrlendi sem náði frá gamla veginum og niður að á og var nefnt Breiðumýrar[1230] (sbr. hér Suðureyrarhreppur, inngangskafli, þar bls 76).

Leið okkar liggur nú yfir Leitisá en hún kemur úr Leitishvilft sem er næst fyrir framan Seljahvilft en milli þessara tveggja hvilfta er Leitishvilftarhnúkur og Leitishvilftaröxl neðan við hann (sjá hér bls. 3) Frá Leitisá er skammur spölur fram á Leiti en í norðurhlíð dalsins, hér beint á móti, er munni jarðgangnanna sem nú er ekið um milli Súgandafjarðar og Skutulsfjarðar. Þá leið förum við ekki en höldum áfram í átt til heiðarinnar með fjallið Búrfell á vinstri hönd. Það fjall stendur stakt fyrir botni dalsins eins og hér hefur áður verið lýst (sjá hér bls. 4).

Framan við Leiti gefst enn kostur á að fylgja bílveginum sem var alfaraleið frá 1940 og allt þar til jarðgöngin voru opnuð haustið 1996. Fyrir göngufólk er þó hægara að stytta sér leið og stefna því sem næst beint á vesturhorn Búrfells. Upp úr dalbotninum er farið um Aurbrekkur sem svo heita[1231] en að þeim komum við hjá neðri króknum á þeim spotta akvegarins sem jafnan var nefndur Stórabeygja[1232] og ber nafn með réttu. Aurbrekkurnar eru brattar og gróðurvana en ofan við þær er aðeins skammur spölur að sjálfri heiðarbrúninni. Þar er Folaldahvilft á hægri hönd og framan við hana Rjúpnahvilft sem er fremst af öllum Botnshvilftum.[1233] Þessar tvær fremstu hvilftar eru reyndar langtum smærri í sniðum en Leitishvilft og Seljahvilft, sem fyrr voru nefndar, og eru reyndar á mörkum þess að geta með réttu kallast hvilftar.

Hér uppi undir heiðarbrúninni töldu ýmsir sig verða vara við eitthvað óhreint á árum áður og kenndu margir lasleika er þeir fóru upp Aurbrekkur.[1234] Sagt var að í Folaldahvilft hefði verið reynt að koma fyrir sendingu sem var hálfflegið folald.[1235] Niðursetningin tókst hins vegar ekki betur en svo að skepnan gekk laus og til voru þeir sem töldu sig hafa séð folaldið með húðina dragandi á eftir sér.[1236]

Norðanvert við heiðarveginn, á hrygg þeim sem skilur vötn milli Súgandafjarðar og Skutulsfjarðar var grjótdysin Hlaðka og lengi var öllum sem um veginn fóru talið skylt að kasta þremur steinum í dysina.[1237] Undir lok nítjándu aldar var þessi siðvenja á undanhaldi en börn og unglingar sem þá voru að alast upp heyrðu talað um að litlu fyrr hefði þótt sjálfsagt að ríðandi menn færu af baki til að kasta steinum í Hlöðku.[1238] Svo virðist sem steindys þessi sé nú horfin og má vera að umrót við vegagerð á okkar dögum hafi orðið henni að falli.

Hvíldarklettur, sem svo heitir,[1239] stendur hins vegar enn óhaggaður við hinn forna alfaraveg. Hann er við rætur Búrfells þar sem vötnum tekur að halla norður af. Við klettinn þann fékk margur þráða hvíld að lokinni erfiðri göngu upp brattann fyrir botni dalsins. Hvíldarklettur fer varla nokkru sinni á kaf í snjó[1240] og er þó ærið snjóþungt í Botnsdal og á Botnsheiði. Í vetrarferðum reyndu menn að velja snjóléttustu leiðina og var þá oft farið upp á klettinn og svo eftir hnúkum og hólum norður af honum.[1241]

Gamla þjóðleiðin yfir Botnsheiði lá frá heiðarbrúninni við rætur Búrfells og þaðan að kalla má beint í austur, niður í Tungudal við Skutulsfjörð. Bílvegurinn var hins vegar lagður með allt öðrum hætti, það er að segja nær beint í suður frá heiðarbrúninni og á bílveginn milli Skutulsfjarðar og Önundarfjarðar. Nærri lætur að gamla þjóðleiðin frá heiðarbrúninni við Búrfell og niður að Tungu í Skutulsfirði sé sex kílómetrar en fylgi menn akveginum er sú leið að minnsta kosti þremur kílómetrum lengri. Sá vegur liggur niður í Dagverðardal í Skutulsfirði en er nú úr sögunni vegna jarðgangnanna. Á heiðarbrúninni við rætur Búrfells erum við í 516 metra hæð yfir sjávarmáli og hér tekur vötnum að halla í átt til Skutulsfjarðar.

Botnsheiði mun löngum hafa verið fjölfarnari en aðrar leiðir úr Súgandafirði til nálægra byggða. Á Skutulsfjarðareyri, þar sem nú er Ísafjarðarkaupstaður, hófst verslunarrekstur eigi síðar en á 16. öld,[1242] og þar áttu Súgfirðingar öll sín kaupstaðarviðskipti á 17. og 18. öld,[1243] allt þar til verslunarrekstur hófst á Flateyri undir lok átjándu aldar (sjá hér Suðureyrarhreppur, inngangskafli og Flateyri), en á nítjándu öld gátu menn verslað að eigin vali á Skutulsfjarðareyri eða á Flateyri.

Leiðin yfir Botnsheiði var greiðfær ríðandi mönnum á sumrin og vel vörðuð.[1244] Sumar af gömlu vörðunum standa enn en þess sjást merki að þær eru orðnar aldurhnignar. Vörðurnar sýna hvar gönguleiðin lá en reiðgatan yfir sjálfa heiðina var aðeins sunnar.[1245] Að sumarlagi gátu röskir menn gengið frá Botni að Tungu í Skutulsfirði á tveimur og hálfum klukkutíma en nærri lætur að sú vegalengd sé tíu kílómetrar og mesta hæð liðlega 500 metrar. Þann 30. nóvember 1901 fór Magnús Hjaltason reyndar fram og til baka frá Grænagarði við Skutulsfjörð að Botni á fimm klukkustundum[1246] en spölurinn frá Grænagarði inn að Tungu er einn og hálfur kílómetri. Ekki hefur snjór tafið fyrir daginn þann, þó kominn væri vetur, og knálega hefur Magnús þreytt gönguna, enda var hann að fara með meðul sem berast áttu vinkonu hans, Gunnjónu Einarsdóttur á Norðureyri, og hún var í þörf fyrir.[1247]

Í hásumardýrð reið hér margur glaður sinn veg en vetrarferðir yfir heiðina urðu oft býsna erfiðar, þegar kafa varð djúpan snjó fram dalinn og alla leið í misjöfnum veðrum. Í fannfergi og hríðarbyl var torsótt að brjótast áfram með þunga byrði á baki og stundum urðu þeir sem hér voru á ferð að neyta ýtrustu krafta þegar teflt var um líf og dauða. Hér hefur áður verið getið tveggja bænda í Botni sem önduðust á ferð yfir heiðina, þeirra Erlings Sigfússonar og Kristjáns Þorgilssonar (sjá hér bls. 29 og 50-51). Báðir voru þeir á heimleið úr kaupstað á útmánuðum en þá var löngum þrengst í búi hjá fátækum. Um Erling, sem andaðist árið 1793, segir prestur að hann hafi dáið undir byrði af nokkrum matvælum en um Kristján Þorgilsson, sem lést árið 1875, að hann hafi orðið úti.[1248] Í annarri heimild er frá því greint að hann hafi verið að koma úr kaupstaðnum í fylgd með nokkrum mönnum en veikst á heiðinni og dáið er komið var nokkuð niður í dalinn.[1249]

Enginn veit nú hver borið hefur þyngsta byrði yfir Botnsheiði en þess má geta að 14. maí 1899 bar alþýðuskáldið Magnús Hjaltason fimm fjórðunga (50 pund) yfir heiði þessa[1250] og var hann þó talinn lítill kraftamaður. Allra sterkustu menn í röðum  Vestfirðinga um aldamótin  1900 báru víst um og yfir 200 pund fjarða á milli ef nauðsyn krafði (sjá hér Fremri-Breiðadalur og Drangar).

Austantil við Hvíldarklett, sem fyrr var nefndur, er lítið stöðuvatn sem heitir Botnsheiðarvatn.[1251] Úr því fellur Tunguá til Skutulsfjarðar.[1252] Skammt austan við vatnið eru Búrfellsmóar, stórt hvolf með grasgeirum,[1253]og þar mun fólkið í Tungu, handan heiðarinnar, stundum hafa heyjað.[1254]

Lengra förum við ekki en stöldrum við hjá nýnefndu vatni. Furðulegar kynjasögur lifðu lengi á vörum fólks um undirgang sem sagður var liggja frá því og alla leið að Forvöðum á sjávarströndinni rétt fyrir innan landamerki Botns og Gilsbrekku.[1255] Sagt var að vatnið væri tvíbytnuvatn og vegna beinna tengsla við sjó gætti þar flóðs og fjöru.[1256] Þeir sem lengst gengu fullyrtu að maður hefði drukknað niður um ís á vatninu að vetrarlagi og lík hans fundist rekið um vorið við Forvaða.[1257] Svo áttu menn til að snúa þessari sögu við og segja að maðurinn hefði drukknað fram af Forvöðum en lík hans fundist við vatnið hér uppi á heiði.[1258]

Hér hefur áður verið sagt nokkuð frá vegabótum á Botnsheiði á árunum 1880-1910 og frá viðleitni Súgfirðinga til að útvega fjármuni í lagfæringar á heiðarveginum (sjá hér Suðureyrarhreppur, inngangskafli). Árið 1888 voru menn að hlaða vörður á gömlu þjóðleiðinni yfir Botnsheiði en skömmu eftir aldamótin 1900 voru komnar upp hugmyndir um hraðfara veg sem lagður yrði frá heiðarbrúninni við Búrfell í stefnu á þjóðleiðina milli Önundarfjarðar og Skutulsfjarðar en sú leið lá úr Önundarfirði yfir Breiðadalsheiði og niður í Dagverðardal.[1259] Ætlun manna virðist þá hafa verið sú að slíkur hraðfara reiðvegur yrði lagður á svipuðum slóðum og akveginum var valinn staður á fjórða áratug tuttugustu aldar.

Haustið 1936 var lokið við að leggja bílfæran veg yfir Breiðadalsheiði (sjá hér Fremri-Breiðadalur) og á næstu árum var unnið kappsamlega að vegarlagningu yfir Botnsheiði og á Botnsdal. Í fundargerð hreppsnefndar Suðureyrarhrepps frá 15. maí 1940 má sjá að nefndarmenn hafa þá talið mögulegt að ljúka við veginn á komandi sumri ef lán yrði tekið til framkvæmdanna.[1260] Allt mun það hafa gengið eftir og á fundi hreppsnefndar 26. desember 1940 var samþykkt að gefa Ásgeiri Ásgeirssyni alþingismanni umboð til að taka allt að 40.000,- króna lán vegna vegarins yfir Botnsheiði.[1261] Ásgeir útvegaði strax 36.000,- krónur og voru þeir peningar notaðir til að endurgreiða kostnað við lagningu bílvegarins yfir heiðina[1262] en hann mun hafa verið opnaður til umferðar haustið 1940. Í blaðinu Skutli, sem gefið var út á Ísafirði, segir 17. ágúst 1940 að vel miði við lagningu vegarins til Súgandafjarðar og tekið fram að unnið sé í tveimur flokkum.[1263] Um miðjan ágúst var annar vinnuflokkurinn efst í heiðinni vestantil en hinn á Botnsdal.[1264] Þann 31. ágúst 1940 er í sama blaði greint að nýju frá gangi mála við lagningu vegarins yfir Botnsheiði og segir þar að hann verði trúlega fullgerður um miðjan næsta mánuð.[1265] Sá sem hér krotar orð á blað stóð við veginn hjá túninu á Laugum þegar fyrsti bíllinn frá Ísafirði ók út með Súgandafirði haustið 1940 og minnist þess enn að hafa þá þegið eina eða tvær karamellur úr hendi bílstjórans, Þóris Bjarnasonar.

Við höfum nú um sinn verið á rangli við rætur Búrfells, setið á Hvíldarkletti og speglað okkur í Botnsheiðarvatni. Létt væri að ganga á fjallið því frá heiðarbrúninni í nánd við Hvíldarklett þarf aðeins að hækka sig um 225 metra og þá er kollinum á Búrfelli náð. Þaðan er fagurt útsýni. Göngu á Búrfell látum við samt bíða betri tíma en snúum við og þokum okkur til baka niður í dalinn. Frá heiðarbrúninni blasa við fjöll og hvilftar norðan við Botnsdal en nöfn þeirra hafa áður verið nefnd á þessum blöðum og grein gerð fyrir röðinni (sjá hér bls. 4). Héðan frá heiðarbrúninni blasir líka við klettalaus kollurinn á Svarthamrahorni en hann stendur á mörkum þriggja fornra hreppa eins og áður var frá sagt og er nefndur Kistufell þegar á hann er horft norðan að.

Neðan við brún heiðarinnar skulum við nema staðar og virða fyrir okkur tvö fremstu fjöllin yfir norðurhlíðinni, það er Svarthamrahorn, sem er fremst, og Geirsteigshvilftarfjall sem kemur næst. Á milli þeirra er Svarthamrahvilft. Úr Syðridal í Bolungavík upp Hestakleif, sem er   vestantil við Hestakleifarfjall, og niður í utanverða Svarthamrahvilft lá hin forna leið ríðandi manna úr Bolungavík sem stefndu á vesturheiðar,[1266] til þings í Þorskafirði eða hvert á land sem var. Hestakleifarfjall, sem hér var nefnt, liggur fyrir botni Syðridals.[1267] Á uppdrætti Landmælinga Íslands, blaði 11 frá árinu 1977, er nafn fjallsins sett á annað fjall sem heitir Miðfell[1268] og  blasir við frá byggðinni í Hnífsdal. Hestakleifarfjall er hins vegar áfast við nýnefnt Kistufell, aðeins slakki á milli.[1269]

Í tímaritinu Heima í Bolungavík, aprílhefti  frá árinu 1960 er á bls. 259 sagt að Hestakleif sé austan við Hestakleifarfjall en í greinargerð sem Birgir Bjarnason, bóndi á Miðdal í Bolungavík, tók saman haustið 2007 og sendi Örnefnastofnun Íslands sýnir hann fram á að leiðin um Hestakleif geti ekki hafa legið austan við fjallið heldur vestan við það.[1270] Að sögn Birgis var algerlega ófært með hesta austan við Hestakleifarfjall allt þar til jarðýta ruddi þar veg vegna lagningar raflínu um 1978.[1271] Í ritgerðinni Örnefni í Gilslandi sem birt var í tímaritinu Heima í Bolungavík vorið 1960 og hér var áður vísað í segir: Niður undan Hestakleif er hóll með vörðubroti á,  Fuglstapaþúfa. Þar niður eftir má sjá þrjá hjalla: Urðarhjalla, Hamrahjalla og Stúfhjalla sem er efst í Gilshorni ….  .[1272]

Ein röksemd Birgis er sú að þessi lýsing passi nákvæmlega við hina réttu Hestakleif en alls ekki sé Hestakleif talin vera austan við Hestakleifarfjall. Þarna hljóti því að vera um misritun að ræða hjá höfundi ritgerðarinnar Nöfn í Gilslandi sem birt var í nýnefndu tímariti.

Birgir Bjarnason er prýðilega marktækur heimildarmaður um staðsetningu Hestakleifar. Hann er fæddur árið 1931 og hefur frá barnsaldri verið nátengdur jörðinni Gili, hinni fremstu í Syðridal. Faðir Birgis, Bjarni Eiríksson, kaupmaður í Bolungavík, var með fé sitt í sumarhögum í Gilslandi á uppvaxtarárum Birgis og var Birgir frá ungum aldri jafnan einn gangnamanna í Syðridal og fór þar títt í eftirleitir.[1273]  Þegar Birgir hóf síðan búskap á Miðdal, einum bæjanna í Syðridal, árið 1955 tók hann við kindum föður síns og nýtti áfram beitilandið á Gili. Tíu árum seinna keypti hann Gil og var ætíð þar með fé sitt í sumarhögum.[1274]

Leiðin um Hestakleif var stundum farin í tíð fólks sem enn var á lífi þegar Birgir hóf búskap á Miðdal.[1275] Hann varð snemma mjög áhugasamur um allt sem varðaði örnefni, einkum á Miðdal og um allan Syðridal. Fróðleik sinn um þau efni sótti hann meðal annars til heimafólks á þessum slóðum sem fætt var fyrir aldamótin 1900 og nefnir úr þeim hópi systurnar Guðrúnu og Margréti Jónsdætur, fæddar á Miðdal 1885 og 1892 og ólust þar upp, og svo Kristján Ásgeir Ólafsson, fæddan á Hanhóli í Syðridal 1887, síðar bóndi á Gili í Syðridal og svo á Geirastöðum.[1276]

Leiðin um Hestakleif fyrir botni Syðridals í Bolungavík og yfir í Svarthamrahvilft í Súgandafirði lá síðan áfram með hvilftarbrúnum ofan við Botnsdal og þaðan á vesturheiðar. Gera má ráð fyrir að sumir langferðamanna hafi, við bestu skilyrði, tekið stefnuna beint á Glámu frá hæðarbrúninni ofan við Botnsdal og farið fjallasýn. Þó má ætla að hinir hafi verið fleiri sem kusu að leggja leið sína um Önundarfjörð og síðan á Glámu úr Dýrafjarðarbotni. Væri sá kostur valinn hafa ríðandi menn farið með hvilftarbrúnum og síðan um aðra Hestakleif upp úr Leitishvilft, sem er vestan við Botnsdal[1277] (sjá hér bls. 116), og þaðan niður í Langdalinn, fremsta hluta Breiðadals í Önundarfirði.

Hin forna leið um Hestakleif og Botnshvilftar mun af ýmsum hafa verið nefnd Þingmannaheiði Bolvíkinga[1278] og ekki ólíklegt að stórhöfðingjar þeir sem stundum sátu á Hóli í Bolungavík á 14. öld og síðar hafi riðið hana í fyrsta áfanga langrar ferðar til Þingvalla við Öxará og enn áður hinir sem á þjóðveldisöld komu úr Bolungavík til þings í Þorskafirði. Úr hvílustað okkar fremst á Botnsdal, neðan við heiðarbrúnina, höldum við för okkar áfram niður dalinn.

Skammt neðan við Aurbrekkur, sem fyrr voru nefndar (sjá hér bls. 116), tökum við strikið norður yfir ána með stefnu á Grástein sem stendur þar stakur, skammt frá árbakkanum. Framar í norðurhlíðinni og mun hærra eru Guldý, sem svo heita,[1279] en þar eru stærri flekkir af dýjamosa en annars staðar á Botnsdal.

Frá Grásteini sést heim til bæjanna í Botni og Birkihlíð. Grasbalinn heiman við Grástein heitir Karlsbali og á honum hvíldi sú bannhelgi að þar mátti ekki bera ljá í gras. Um miðbik tuttugustu aldar sagði Guðmundur Halldórsson, áður bóndi í Botni, frá þessum álögum og fórust honum svo orð:

 

Heita má að Karlsbali sé jafnan sígrænn en ekki veit ég til að nokkur Botnsbóndi  hafi slegið balann í seinni tíð. Ganga gamlar sagnir um að einn Botnsbænda hafi látið slá Karlsbala. Hefndist honum svo fyrir þetta að hann missti allt fé sitt og flosnaði upp af jörðinni.

Meðan ég bjó í Botni var enn römm trú, að enginn skyldi slá Karlsbala.[1280]

 

Mikið af burkna vex nú á Karlsbala. Heiman við balann er Djúpilækur[1281] sem kemur úr Svarthamrahvilft. Rétt hjá honum er jarðgangnamunninn og vegskáli sem honum tengist.

Heimantil við Karlsbala taka við hin fornu slægjulönd, hér norðan ár, sem nú hefur flestum verið breytt í tún. Fyrst slægja sem kölluð var undir Svarthömrum en síðan kom Votihvammur og þá Heystæður.[1282] Fremsta túnið er nú (1996)  í Votahvammi.[1283] Heystæður hafa ekki verið ræktaðar upp til fulls en þar hefur ræktun verið undirbúin með skurðgreftri.[1284] Hjá Heystæðum er í Botnsá lítill foss sem heitir Heystæðufoss[1285] og fleiri smáfossar eru þar í grennd.

Heimantil við Heystæður streymir Bjartilækur niður bratta hlíðina en hann kemur úr Geirsteigshvilft og fellur um Bjartalækjarhvamm sína leið niður í Botnsá.[1286]

Við dveljum um stund hjá Bjartalæk en höldum svo för okkar áfram heim dalinn. Næsti engjapartur var Rimar og síðan kom Geirsteigur.[1287] Hér fyrir ofan er Geirsteigshvilft og skammt fyrir neðan brún hvilftarinnar Svöð.[1288] Þau eru beggja vegna við Bjartalæk.[1289]

Lækurinn heiman við Geirsteig hefur ýmist verið nefndur Geirsteigsgil eða Rjóðragil en Rjóðrin eru heimantil við þennan læk.[1290] Neðan við þau er Rjóðrafoss í Botnsá og neðst í Rjóðrunum voru að sögn holur í árbakkanum þar sem stundum var hægt að ná í silung með höndunum, án allra veiðarfæra.[1291] Fjallið ofan við Rjóðrin heitir

Stekkjarhvilftarfjall (sjá hér bls. 4).

Heiman við Rjóðrin er Grafapartur, sem einnig var nefndur Illipartur,[1292] en þarna er reyndar dálítill spölur á milli.[1293] Í Grafaparti var tekið upp mikið af mó[1294] en svo má heita að parturinn sé beint á móti Reiðholti sem er hér handan við ána og fyrr var nefnt (sjá hér bls. 113). Heiman við Grafapart komu í þessari röð partarnir: Mjóipartur, Stekkjarbrotspartur og Höfðalækjarpartur sem náði að Höfðalæk.[1295]

Hér uppi í hlíðinni, fyrir framan Höfðalæk, eru gróin klettabelti sem menn nefna  Belti. Gjarðir liggja mun hærra, skammt neðan við hvilftarbrún, og ná lengra fram eftir hlíðinni.[1296]  Ofarlega í Gjörðum og framan við mitt Stekkjarhvilftarfjall var gjótan Krubba sem nú er norðin nær full af aur og grjóti.[1297] Gömul munnmæli herma að fyrir margt löngu hafi heimafólk í Botni flúið í Krubbu og leynst þar þegar flokkur erlendra reyfara fór hér um byggðir með ránum og morðum (sjá hér bls 5).

Höfðalækur er nokkuð vatnsmikill og fellur hér niður fjallshlíðina utan við Gjarðir og Höfðalækjarpart.[1298] Utan við lækinn og rétt við árósinn er Höfði, andspænis Grjóthól sem er hér handan árinnar og fyrr var nefndur (sjá hér bls. 113). Við Höfðalæk eða fjarðarbotninn, sem er um það bil 200 metrum utar en lækurinn, tekur Botnshlíð við af Botnsdal.[1299] Ef marka má örnefnakort frá árunum kringum 1930 hafa klettasyllur neðan við Stekkjarhvilft og rétt utan við Höfðalæk verið nefndar Tóhillur[1300] en Kristján G. Þorvaldsson segir 1949 að nafnið sé Tóuhilla og að grasblettur, sem er nokkuð áberandi hærra í hlíðinni, heiti Tóublettur. Birkir Friðbertsson, fæddur í Botni 1936 og ætíð búsettur í Botni eða í Birkihlíð í sama túni, segir nafnið vera Tóhillublettur.[1301] Niður af þessum grasbletti er Gjóta, klettagil sem sker tvö klettabelti. Innan við Gjótu heita þessi belti Björg.[1302]Kristján G. Þorvaldsson segir að nýnefnd Björg séu upp af Stekkjarparti, er sé rétt utan við Höfða, en utan við Björgin og upp af Jónseyri sé Strengberg.[1303] Vera má að þetta sé rétt en áleitin er sú hugsun að Strengberg muni vera nafn á ókleifum klettastöndum eða berggöngum sem blasa við frá bæjarhlaðinu í Botni en þeir eru í og við nýnefnda Gjótu, neðan við ysta hluta Stekkjarhvilftar og nokkru framar en vera ætti samkvæmt orðum Kristjáns. Um þessi efni mun þó best að tala varlega.

Skamma stund höfum við staldrað við á Höfðanum, norðan við árósinn í fjarðarbotninum, en hefjum nú göngu út með sjónum í átt að Gilsbrekku. Gamli slægjuparturinn utan við Höfða heitir Stekkjarpartur.[1304] Stekkurinn sem þar var stendur enn og er að kalla beint upp af árósnum. Hann er um það bil 5 x 2 metrar að flatarmáli og með lambakrær við báðar hliðar. Nokkru utar er Jónseyri við sjóinn og upp af henni Jónseyrarhvolf (sbr. hér bls. 112).[1305] Skammt utan við Jónseyri komum við að Innri-Forvaða og svolítið utar er Ytri-Forvaði og verður fyrir hvorugan komist nema lágsjávað sé.[1306] Innri-Forvaðinn er á móts við Botnsrétt og þó aðeins innar[1307] en réttin blasir við augum handan fjarðarins. Á milli Jónseyrar og Forvaðanna var á árunum kringum aldamótin 1900 tekinn smiðjumór.[1308]

Upp frá Forvöðunum er í háfjallinu ysta hvilftin í landi Botns hér að norðanverðu. Hún er stór og heitir Lækjarhvilft eða Lækjahvilft.[1309] Innan við hvilftina er Lækjahvilftarhnúkur en fjallið fríða utan við hana heitir Grensfjall.[1310] Kollur þess liggur í 586 metra hæð yfir sjávarmáli. Undir Lækjarhvilft eru brattir klettar hátt í hlíðinni. Grashillur í þeim heita Lækjahillur.[1311] Utan við Ytri-Forvaða falla til sjávar tveir lækir sem koma ofan úr Lækjarhvilft og eru nefndir Gil.[1312] Milli þeirra er Hosuteigur uppi í hlíðinni.[1313] Milli Ytri-Forvaða og Giljanna, sem hér voru nefnd, er við ströndina djúp vík sem heitir Pollur en hér fyrir framan er skerjótt.[1314] Snemma á tuttugustu öld var eitt sinn tekinn afarmikill síldardráttur, fleiri hundruð tunnur, í þessum Polli[1315] og var það vorið 1908.[1316]

Fyrir utan Poll er Kálfeyri og fram af henni Kálfeyrarsker.[1317] Á Kálfeyri er stór stekkjartótt, um það bil 5 x 5 metrar að flatarmáli, og virðist lambakró hafa verið innan við stekkinn. Stekkjartóttin er utarlega á eyrinni og svo má heita að hún sé beint á móti fjallinu Nautaskálarhorni, handan fjarðarins. Í einni heimild er þessi tótt sögð vera yngsta stekkjartóttin í landareign Botnsbænda.[1318]

Við nálgumst nú landamerki Botns og Gilsbrekku. Við ströndina utan við Kálfeyri er Kálfeyrarbugur. Þar stendur stakur klettur, sem sjór fellur að í stórum flæðum, og heitir Seltjarnarforvaði.[1319] Litlu utar er Innri-Seltjörn og upp af henni Innri-Seltjarnarhryggur.[1320] Á sjávarnesi þar rétt fyrir utan er svo Ytri-Seltjörn og í hlíðinni þar fyrir ofan Ytri-Seltjarnarhryggur.[1321] Þessar Seltjarnir eru nú þornaðar upp en þó má vera að stundum sjáist þarna  vatn.

Landamerki jarðanna Botns og Gilsbrekku eru við Ytri-Seltjörn og Ytri Seltjarnarhrygg[1322] og lætur nærri að hið efra séu merkin í miðju Grensfjalli.

Heiman frá Botni er aðeins liðlega einn og hálfur kílómetri út að landamerkjunum. Við þau lýkur göngunni um Botnsdal og Botnshlíð og nú skundum við héðan beinustu leið í hlað á Gilsbrekku. Sá bær stóð á fjarðarströndinni hér svolítið utar og aðeins tíu eða tólf mínútna gangur þangað frá merkjunum. Land Gilsbrekku er ætlunin að skoða betur síðar.

 

 

 

 

 

 

– – – – – – – – – – o o o o o – – – – – – – – – –

 

 

 

[1] Jarðab. Á. og  P. VII, 134-135.

[2] Sama heimild, 128-139.

[3] Örn.st./Kr.G.Þorv. 1949, 110.

[4] Fasteignamatsskjöl. Gjörðabók undirmatsnefndar í Vestur-Ísafj.sýslu, löggilt 26.3.1919.

[5] Jarðab. Á. og P. VII, 134-135. Bændatöl og skuldaskrár 1720-1765, Ísafj.sýsla um 1735, eftirrit. Jarða- og bændatöl 1752-1767, Ísafj.sýsla 1753. Manntal 1762. Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf. jan. 1786, jan. 1787, apríl 1788, mars 1789, mars 1790, febr. 1791, 1795, mars 1797.

[6] Manntal 1703. Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf. jan. 1793 og 1799.

[7] Manntal 1801. Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf. mars 1802, mars 1804, mars 1811 og mars 1812.

Rtk. Jarðabækur V.16, Ísafj.sýsla 1805.

[8] Manntal 1816.

[9] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[10] Jarðab. Á. og P. VII, 134-135. Rtk. Jarðabækur V.16, Ísafj.sýsla 1805.

[11] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[12] Sama heimild.

[13] Sama heimild. VA III, 408, bún.skýrslur 1840.

[14] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[15] Sama heimild. VA III, 417, bún.skýrslur 1860.

[16] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[17] Sama heimild. Sbr. VA III, 424, bún.skýrslur 1880.

[18] Sama heimild.

[19] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[20] Sama heimild.

[21] Örn.st./Kr.G.Þorv. 1949, 110.

[22] Birkir Friðbertsson. Viðtal K.Ó. við hann 8.8.1995.

[23] Örnefnastofnun. Kristján G. Þorvaldssoon 1949, 110-111.

[24] Sama heimild. Birkir Friðbertsson. – Viðtal K.Ó. við hann 8.8. 1995.

[25] Örnefnastofnun. Kristján G. Þorvaldsson, 107.

[26] Sama heimild.

[27] Sama heimild, 110-111.

[28] Sama heimild.

[29] Birkir Friðbertsson. Viðtal K.Ó. við hann 8.8.1995.

[30] Örn.st./Kr.G.Þorv. 1949, 112-113.

[31] Sama heimild, 113-114. Uppdr. Suðureyrarhr. eftir Jón Hróbjartsson, gefinn út 1983, eftirprentun af örnefnakorti frá því um 1930.

[32] Sami uppdráttur.

[33] Sama heimild.

[34] Örn.st./Kr.G.Þorv. 1949, 110.

[35] Örn.st./Kr.G.Þorv. 1949, 110.

[36] Örn.st./Kr.G.Þorv. 1949, 110.

[37] Sbr. Örn.st./Kr.G.Þorv. 1949, 108 og 114.

[38] Uppdr. Suðureyrarhr. eftir Jón Hróbjartsson, sjá tilvísun 31.

[39] Örn.st./Kr.G.Þorv. 1949, 115.

[40] Sama heimild, 17.

[41] Örn.stofnun/Fremri-Hnífsdalur í Eyrarhr og Gil í Hólshr.

[42] Sbr. Örn.skrá/Gil í Hólshr.

[43] Örn.st./Kr.G.Þorv. 1949, 115.

[44] Örn.st./Kr.G.Þorv. 1949, 115.

[45] Sama heimild, 118.

[46] Birkir Friðbertsson. Viðtal K.Ó. við hann 8.8.1995.

[47] Örn.st./Kr.G.Þorv. 1949, 115-116.

[48] Sama heimild.

[49] Sama heimild.

[50] Birkir Friðbertsson. Viðtal K.Ó. við hann 8.8.1995.

[51] Jarðab. Á. og P. VII, 134-135.

[52] Rtk. Jarðabækur V.16, Ísafj.sýsla 1805.

[53] Rtk. Jarðabækur V.16, Ísafj.sýsla 1805.

[54] Sama heimild.

[55] Sama heimild.

[56] Sama heimild.

[57] Sama heimild.

[58] Sóknalýs. Vestfj. II, 113.

[59] Sama heimild.

[60] Lbs. 27364to, M.Hj., 54-56.

[61] Sama heimild.

[62] Lbs. 22334to, Dagb. M.Hj. 3.5.1916.

[63] Fasteignamatsskjöl. Gjörðabók undirmatsnefndar í Vestur-Ísafj.sýslu, löggilt 26.3.1919.

[64] Sama heimild.

[65] Sama heimild.

[66] Fasteignamatsskjöl. Gjörðabók undirmatsnefndar í Vestur-Ísafj.sýslu, löggilt 26.3.1919.

[67] Sama heimild.

[68] Örn.st./Kr.G.Þorv. 1949, 108-109.

[69] Þorv. Thor. 1959, 118-119 (Ferðabók II).

[70] Sama heimild.

[71] Lbs. 38614to, Dagb. Einars Jónssonar 14.8.1905.

[72] Sama heimild.

[73] Gunnar M. Magnúss. 1977, 91.

[74] Sama heimild.

[75] Lbs. 22294to, Dagb. M.Hj. 15.9.1912.

[76] Sóknarm.töl og prestsþj.b. Holts í Önundarf. og Eyrar í Skutulsf.

[77] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[78] Stjórnartíðindi 1914 B, 48.

[79] Skjöl Suðureyrarhr., varðv. þar. Hreppsbók 1901-1914, án titils, fundargerð hreppsnefndar 7.8.1914.

[80] Sama heimild.

[81] Sbr. Séra Jón Guðnason og Pétur Haraldsson 1967, 250-251.

[82] Snorri Sigfússon 1969, 138 og 164.

[83] Örn.st./Kr.G.Þorv. 1949, 108-109. Sig. Thoroddsen 1982, 26-32 (Ársr. S.Í.).

[84] Sömu heimildir.

[85] Sbr. Snorri Sigfússon 1969, 164.

[86] Lbs. 22334to, Dagb. M.Hj. 29.10.1915.

[87] Sama dagbók 13.11.1915.

[88] Lbs. 22344to, Dagb. M.Hj. 18.10.1916.

[89] Örn.st./Kr.G.Þorv. 1949, 108-109.

[90] Snorri Sigfússon 1969, 164.

[91] Sig. Thor. 1982, 26-32.

[92] Friðb. Pét. 1986, 36-43. Örn.st./Kr.G.Þorv. 1949, 108-109.

[93] Friðb. Pét. 1986, 36-43 (Ársrit S.Í.).

[94] Sama heimild.

[95] Sama heimild.

[96] Örn.st./Kr.G.Þorv. 1949, 112. Birkir Friðbertsson.  Viðtal K.Ó við hann 8.8. 1995.

[97] Friðbert Pét. 1986, 36-43 (Ársrit S.Í.)

[98] Sama heimild.

[99] Sama heimild.

[100] Lbs. 7974to, Jarðaskrá úr Ísafj.sýslu frá árinu 1658.

[101] Sama askja, Jarðaskrá úr Ísafj.sýslu  frá árinu 1695.

[102] Jarðab. Á. og P. VII, 134-135.

[103] Sama heimild.

[104] Jarða- og bændatöl 1752-1767, Ísafj.sýsla 1753.

[105] J. Johnsen 1847, 196.

[106] Fasteignamatsskjöl. Gjörðabók undirmatsnefndar í Vestur-Ísafj.sýslu, löggilt 26.3.1919.

[107] Stj.tíð. 1917 B, 114 og 1919 B, 58.

[108] Lbs. 7974to, Jarðaskrá úr Ísafj.sýslu frá árinu 1658.

[109] Sama askja, Jarðaskrá úr Ísafj.sýslu frá árinu 1695.

[110] Jarðab. Á. og P. VII, 134-135.

[111] Þorvaldur. Thor./Lýs. Ísl. III, 45-46.

[112] Jarðab. Á. og P. VII, 134-135.

[113] Jarða- og bændatöl 1752-1767, Ísafj.sýsla 1753.

[114] J. Johnsen 1847, 196.

[115] Fasteignamatsskjöl. Gjörðabók undirmatsnefndar í Vestur-Ísafj.sýslu, löggilt 26.3.1919.

[116] Jarðab. Á. og P. VII, 134-135. Rtk. Isl. Journ. 9, nr. 34, bún.sk. 1791. Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1, bún.sk. 1821 og 1830. VA III, 408,412,417,421 og 424, bún.sk. 1840, 1850, 1860, 1870 og 1880. Skjöl Suðureyrarhr., varðv. þar. Bók fyrir Suðureyrarhrepp 1888-1902, tíundarskýrslur 1891 og 1900.

[117] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[118] Skjöl Suðureyrarhrepps, varðveitt þar. Fundabók fyrir Suðureyrarhrepp. 1889-1919. Skýrsla um fjárböðun 29.3.1897.

[119] Rtk. Isl. Journ. 9, nr. 34, bún.sk. 1791.

[120] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1, bún.sk. 1821 og 1830.

[121] VA III, 408, bún.sk. 1840.

[122] VA III, 412 og 417, bún.sk. 1850 og 1860.

[123] VA III, 421, bún.sk. 1870.

[124] VA III, 424, bún.sk. 1880. Skjöl Suðureyrarhrepps, varðveitt þar. Bók f. Suðureyrarhr. 1888-1902, tíundarsk. 1891 og 1900.

[125] D.I. IV, 753-756. Sbr. Ísl. æviskrár I, 153 og 393. Sbr. einnig Arnór Sigurj. 1975, 114.

[126] Ísl. æviskrár I, 153.

[127] D.I. IV, 753-756.

[128] Sama heimild.

[129] Ísl. æviskrár I, 153. II, 196 og  III, 23. Sbr. Arnór Sigurj. 1975, 257.

[130] Ísl. æviskrár II, 196.

[131] Ísl. æviskrár I, 393.

[132] Sama heimild.

[133] D.I. V, 163-164. Sbr. Ísl. æviskrár V, 172.

[134] Ísl. æviskrár V, 172 og I, 212.

[135] Ísl. æviskrár IV, 99.

[136] D.I. VI, 198.

[137] Ísl. æviskrár IV, 99 og 205.

[138] Arnór Sigurj. 1975, 144-170.

[139] D.I. VI, 198. Arnór Sigurj. 1975, 168-170. Sbr. Ísl. æviskrár IV, 99 og III, 397.

[140] Ísl. æviskrár III, 397.

[141] Sama heimild.

[142] Lbs. 7974to, Jarðaskrá úr Ísafj.sýslu frá árinu 1658.

[143] Sbr. Ísl. æviskrár III, 172-173.

[144] Ísl. æviskrár III, 172-173 og 433-434.

[145] Lbs. 7974to, Jarðaskrá úr Ísafj.sýslu frá árinu 1695.

[146] Jarðab. Á. og P. VII, 134.

[147] Ísl. æviskrár III, 433-434 og IV, 145-146.

[148] Sama heimild.

[149] Alþ.b. Ísl. XI, 615. Sbr. Ísl. æviskrár IV, 145-146.

[150] Sama heimild.

[151] Ísl. æviskrár IV, 145-146.

[152] Alþ.b. Ísl. XI, 615. Sbr. Ísl. æviskrár I, 62.

[153] Ísl. æviskrár III, 443.

[154] Alþ.b. Ísl. XI, 615.

[155] Sama heimild.

[156] Ísl. æviskrár III, 443 og V, 73.

[157] Alþ.b. Ísl. XII, 126.

[158] Alþ.b. Ísl. XII, 126.

[159] Sama heimild, 357.

[160] Ísl. æviskrár III, 468.

[161] Sama heimild.

[162] Alþ.b. Ísl. XIII, 404.

[163] Sama heimild.

[164] Ísl. æviskrár IV, 61.

[165] Manntal 1762.

[166] Sbr. Ísl. æviskrár IV, 61 og Kristján Jónsson frá Garðsst. 1949, 52-58 (Frá ystu nesjum V).

[167] Rtk. Jarðabækur V.16, Ísafj.sýsla 1805. Sbr. Ísl. æviskrár  IV, 61 og III, 263-265.

[168] Rtk. Jarðabækur V.16, Ísafj.sýsla 1805.

[169] Ísl. æviskrár III, 263-265 og IV, 61.

[170] Ísl. æviskrár III, 263-265 og IV, 61.

[171] Ísl. æviskrár IV, 61.

[172] Ísl. æviskrár I, 262-263 og IV, 61

[173] Séra Jón Pétursson frá Kálfafellsstað/Hannes Þorsteinsson. (Staðarfellsætt). 1966, 78-84.

[174] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. IV. 5. Dóma- og þingbók 1805-1817, 153.

[175] Sama heimild.

[176] Sbr. E.Lax. 1995, II, 203.

[177] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. IV. 5. Dóma- og þingbók 1805-1817, 153.

[178] Sama skj.s. Ís. XII. 3. Skiptabók 1825-1836, uppskrift á dánarbúi Örnólfs Snæbjörnssonar á Suðureyri 26.10. 1825 og skipti á dánarbúi hans 18.5. 1826.

[179] Sama heimild.

[180] Sama skj.s. Ís. XII. 5. Skiptabók 1836-1841, 321-355.

[181] Sama skj.s. Ís. IV. 7. Dóma- og þingbók 1835-1841, 263-266.

[182] Sama heimild.

[183] Sama skj.s. Ís. XII. 5. Skiptabók 1836-1841, 321-355.

[184] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[185] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1, bún.sk. 1837.

[186] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[187] Sbr. VA III, 408, bún.sk. 1840.

[188] Sóknarm.töl og prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[189] Sömu heimildir og prestsþj.bækur og sóknarm.töl Eyrar í Skutulsfirði. Jóhann G. Ólafsson 1966, 193 (Bæjarstjórn Ísafj.kaupstaðar 100 ára).

[190] Manntal 1870

[191] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XVI. 2. Veðmálabók 1856-1869, 254-255.

[192] Ísl. æviskrár III, 263.

[193] Sama heimild IV, 239-240.

[194] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XVI. 1. Veðmálabók 1804-1844.

[195] Sama heimild.

[196] Ísl. æviskrár III, 263.

[197] Sama heimild IV, 239-240.

[198] Sama heimild.

[199] Lbs. 25904to, Bréf Margr. Sig. á Steinanesi 30. ág. 1862 til Jóns Sig. forseta.

[200] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XVI. 3. Veðmálabók 1868-1882, 64-65.  Sbr. Lbs. 25904to, Bréf M.S. til J.S. 30.sept. 1862.

[201] Sömu heimildir. Lbs. 25904to Bréf Margrétar Sigurðardóttir 14. sept. 1863 til Jóns Sig. forseta.

[202] Lbs. 25904to, Bréf M.S. 14. sept. 1863 til J. Sig. forseta.

[203] Lbs. 25904to, bréf Jens S. til Jóns S. 3.júní 1868.

[204] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XVI. 3. Veðmálabók 1868-1882, 36-37.

[205] Sama heimild.

[206] Lbs. 44104to/Vald. Þorv., bls. 17-19.

[207] Lbs. 22184to, Dagb. M.Hj. 17. okt. 1899.

[208] Lbs. 44104to/ Vald. Þorv., bls. 17-19.

[209] Manntal 1901, fylgiskjöl.

[210] Sbr. Vestf. ættir I, 162.

[211] Lbs. 44104to/Vald. Þorv., bls. 17-19.

[212] Lbs. 22184to, Dagb. M.Hj. 17. okt. 1899.

[213] Magnús Hjaltason/Vestri 14. apríl 1915.

[214] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XVI. 3. Veðmálabók 1868-1882, 196-197.

[215] Sama skj.s. Ís. Suðureyrarhr. 3. Uppskrifta- og gerðabók 1881-1913. Uppskr. af db. S.L. 24.9.1883.

[216] Lbs. 22184to, Dagb. M.Hj. 13. júlí 1899. Sbr. Lbs. 22294to, Dagb. sama 15. sept. 1912.

[217] Skj. Suðureyrarhr. varðveitt þar. Fundabók fyrir Suðureyrarhrepp 1889-1919, fundarg. hr.n. 4.3.1889 og fundarg. alm.hreppsfundar 13.2.1891. Sama bók, bréf hr.n. 28.11.1890 til Skúla.Thor. sýslum., afrit, og bréf sama sýslum. 9.1.1891 til hr.n., afrit.

[218] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XVI. 3. Veðmálabók 1868-1882, 197-198.

[219] Sama heimild.

[220] Sama heimild.

[221] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[222] Lbs. 22184to, Dagb. Magnúsar Hjaltasonar 13. júlí 1899.

[223] Fasteignam.skj. Gjörðab. undirmatsn. í V-Ís., lögg. 26. mars 1919, 207-208.

[224] Sama heimild; Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[225] Fasteignam.skj. Gjörðab. undirmatsn. í V-Ís., lögg. 26. mars 1919, 207-208.

[226] Sama heimild. Sbr. prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[227] Fasteignam.skj. Gjörðab. undirmatsn. í V-Ís., lögg. 26. mars 1919, 207-208.

[228] Fasteignam.skj. Gjörðab. undirmatsn. í V-Ís., lögg. 26. mars 1919, 207-208.

[229] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[230] Sbr. Ól.Þ.Kr. 1964, 24 (Ársrit S.Í.). Fr. Pét. 1966, 43-45 (Ársrit S.Í.). Ól.Þ.Kr. 1966, 45-48 (Ársrit S.Í.).  Örn.st./Kr.G.Þorv. 1949, 99, 108 og 123-124.

[231] Annálar III, 300.

[232] Ísl. æviskrár III, 443.

[233] Theódór Árnason 1968, 378-380 (Vestfirskar ættir IV).

[234] Annálar III, 300. Ísl. æviskrár I, 257-258.

[235] Alþ.b. Ísl. VII, 261.

[236] Alþ.b. Ísl. VII, 300.

[237] Sama heimild, 319.

[238] Sama heimild.

[239] Sama heimild, 337-338.

[240] Sama heimild.

[241] Sama heimild.

[242] Theódór Árnason 1968, 378-380 (Vestf. Ættir IV).  Sbr. Alþb. Ísl. VII, 261.

[243] Theódór Árnason 1968, 378-380 (Vestf. Ættir IV).  Sbr. Alþb. Ísl. VII, 261.

[244] Sama heimild.

[245] Theódór Árnason 1968, 378-380 (Vestf. Ættir IV).

[246] Sama heimild.

[247] Sbr. Alþ.b. Ísl. VII, 390.

[248] Alþ.b. Ísl. VII, 390.

[249] Magnús Már Lárusson/Kultur  Historisk Leksikon XI, 3

[250] Lögbók Magnúsar konungs lagabætis handa Ísl. eður Jónsbók hin forna, lögtekin á Alþ. 1281. – (Akureyri 1858), bls.58).

[251] Alþ.b. Ísl. VII, 427-428 og 454-455.

[252] Sama heimild, 454-455 og 512-513.

[253] Sama heimild, 650.

[254] Ól.Þ.Kr. 1961, 46 (Ársrit S.Í.).

[255] Theódór Árnason 1968, 379-380 (Vestfirskar ættir IV).

[256] Manntal 1703 og nafnalykill þess.

[257] Manntal 1703.

[258] Manntal 1703.

[259] Sama heimild.

[260] Sama heimild.

[261] JS 3044to. Skrif þar um niðja séra Ólafs Jónssonar á Söndum. Sbr. ÍB 164to, Ættartölubækur Jóns Espólín, dálkur 6434. ÍB 144to, dálkar 5362 og 5363.

[262] Manntal 1703 og Theódór Árnason 1968, 371-372 (Vestf. ættir IV).

[263] Theódór Árnason 1968, 371-372. Skjalasafn prófastanna XIII.1.B.2. Skjalabók frá Holti í Önundarfirði. 1484-1731, bls. 45-58.

[264] Sama skjalabók, bls. 45-58.

[265] Skjalasafn prófastanna XIII. 1. B.2. Skjalabók frá Holti í Önundarfirði 1484-1731, bls. 135-139.

[266] Sama heimild og Theódór Árnason 1968, 371-372 (Vestf. ættir IV).

[267] Theódór Árnason 1968, 371-372.

[268] Ísl. æviskrár I, 445.

[269] Theódór Árnason 1968, 371-372.

[270] Theódór Árnason 1968, 371-372.

[271] Manntal 1703, bls. 210. Vestf. ættir I, 36.

[272] Vestf. ættir I, 36.

[273] Manntal 1703.

[274] Sama heimild.  Vestf. ættir I, 36.

[275] Vestf. ættir I, 36. Ísl. æviskrár V, 19-20.

[276] Alþ.b. Ísl. VI, 384, 474-475, 658-660 og 695-696. Ól.Þ.Kr. 1949, 99-100.

[277] Jarðab. Á. og P. VII, 134-135.

[278] Sama heimild.

[279] Sama heimild.

[280] Sama heimild.

[281] Manntal 1703.

[282] Bændatöl og skuldaskrár 1720-1765, Ísafj.sýsla um 1735, eftirrit. Jarða- og bændatöl 1752-1767, Ísafj.sýsla 1753.

[283] Manntal 1762.

[284] Sama heimild.

[285] Manntal 1762.

[286] Sama heimild.

[287] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[288] Sama heimild.

[289] Manntal 1762.

[290] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[291] Manntal 1703 og nafnaskrá þess.

[292] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[293] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[294] Sama heimild.

[295] Sama heimild.

[296] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[297] Sama heimild.

[298] Vestf. ættir I, 367.

[299] Sóknarm.töl Staðar í Súgandafirði.

[300] Sama heimild.

[301] Sama heimild.

[302] Vestf. ættir I, 36 og 153.

[303] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[304] Sömu heimildir.

[305] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[306] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[307] Sama heimild.

[308] Sama heimild.

[309] Sama heimild. Manntal 1801.

[310] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[311] Manntal 1816, bls. 700. Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[312] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[313] Prestsþj.b.  og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[314] Sömu heimildir.

[315] Sömu heimildir.

[316] Rtk. Isl. Journ. 9, nr. 34. Búnaðarskýrslur 1791.

[317] Sama heimild.

[318] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[319] Sama heimild.

[320] Sama heimild.

[321] Skj.s. prófasta XIII.1.A.2. Vísitazíubók 1793-1809, vísitazíugerð frá Stað í Súgandaf. 27.5.1794.

[322] Skj.s. prófasta XIII.1.A.2. Vísitazíubók 1793-1809, vísitazíugerð frá Stað í Súgandaf. 27.5.1794.

[323] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf. janúar 1793.

[324] Sama heimild 1799.

[325] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.. Manntal 1801, vesturamt, bls. 302.

[326] Manntal 1801, vesturamt bls. 302.

[327] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[328] Manntal 1816, bls. 735.

[329] Sama heimild.

[330] Manntal 1801.

[331] Sama heimild.

[332] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf., febr. 1801.

[333] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf. og Eyrar í Skutulsf.. Hsk. á Ísaf. nr. 190. Kristján G. Þorvaldsson: Saga Suðureyrar og Suðureyrarkauptúns, 31-33.

[334] Sbr. Rtk. Jarðab. V.16, Ísafj.sýsla 1805.

[335] Vestf. ættir I, 162.

[336] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf. Manntöl 1801 og 1816.

[337] Manntal 1816.

[338] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[339] Sóknarm.tal Staðar í Súgandaf. 1832, sbr. Manntal 1801, vesturamt, bls. 302.

[340] Manntal 1801, vesturamt, bls. 302.

[341] Sama heimild.

[342] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf. Vestf. ættir I, 162.

[343] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[344] Rtk. Isl. Journ. 9, nr. 34, búnaðarskýrslur 1791.

[345] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1, búnaðarskýrslur 1821.

[346] Sama heimild.

[347] Sama heimild.

[348] Sama heimild.

[349] Rtk. Isl. Journ. 9, nr. 34, búnaðarskýrslur 1791.

[350] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[351] Vestf. ættir I, 162.

[352] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[353] Manntal 1801, vesturamt, bls. 302.  Manntal 1816, 699.

[354] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf. og Holts í Önundarf.

[355] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[356] Vestf. ættir I, 96. Sbr. hér Staður, Staðarhús ytri þar.

[357] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[358] Sama heimild.

[359] Sama heimild.

[360] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf. Manntal 1801, vesturamt, bls. 303. Manntal 1816, 699.

[361] Manntal 1816, 699.

[362] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[363] Manntal 1801, vesturamt, bls. 303. Manntal 1816, 699.

[364] Manntal 1816, 699.

[365] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[366] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1, búnaðarskýrslur 1821.

[367] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf. mars 1811.

[368] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf. Sbr. Jarðabók Á. og P. VII, 135 og hér bls.88.

[369] Sóknarm.töl og prestsþj.b. Staðar í Súgandaf. og Eyrar í Skutulsfirði.

[370] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[371] Sama heimild.

[372] Sama heimild og prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[373] Sóknarm.töl og prestsþj.b Staðar í Súgandafirði.

[374] Sömu heimildir.

[375] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf. Manntal 1816, 699.

[376] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[377] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[378] Sama heimild og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[379] Prestsþj.bækur og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[380] Manntal 1801, vesturamt, bls. 351.

[381] Sama heimild.

[382] Sama heimild. Sbr. Manntal 1816, 699 og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[383] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[384] Sama heimild.

[385] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XXI. 1, búnaðarskýrslur 1821.

[386] Sama heimild.

[387] Sama heimild.

[388] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[389] Sóknarm.töl Staðar í Súgandafirði. Manntal 1816.

[390] Jarðab. Á. og P. VII, 134-135.  Rtk. Jarðab. V. 16, Ísafj.sýsla 1805.

[391] Sóknarm.töl og prestsþj.b. Staðar í Súgandaf. Manntal 1816.

[392] Sóknarm.töl og prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.. Manntal 1816.

[393] Sömu heimildir.

[394] Manntal 1816, 699.

[395] Sóknarm.töl og prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[396] Manntal 1816, 699.

[397] Sama heimild.

[398] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[399] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[400] Sömu heimildir. Manntal 1801.

[401] Manntal 1801, vesturamt, bls. 313).

[402] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[403] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf. 1811 og 1812.

[404] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[405] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[406] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[407] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1, búnaðarskýrslur 1821.

[408] Sóknarm.tal Staðar í Súgandaf. mars 1817.

[409] Sama heimild.

[410] Sama heimild.

[411] Manntal 1801, vesturamt, bls. 313. Manntal 1816, 699. Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[412] Sömu heimildir og  Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[413] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[414] Sömu heimildir.

[415] Sömu heimildir.

[416] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[417] Sama heimild.

[418] Sama heimild.

[419] Vestf. ættir I, 162.

[420] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[421] Sóknarm.tal Staðar í Súgandaf. 1827.

[422] Sóknarm.tal Staðar í Súgandaf. 1832.

[423] Manntal 1801, vesturamt, bls. 323. Manntal 1816, 720.

[424] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[425] Sama heimild.

[426] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1, búnaðarskýrslur 1827.

[427] Sama heimild. Sbr. hér bls. 32-33.

[428] Sama askja, búnaðarskýrslur 1834.

[429] Sama askja, búnaðarskýrslur 1837.

[430] VA III, 408, búnaðarskýrslur 1840.

[431] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[432] Manntal 1845, sbr. Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[433] Manntal 1845.

[434] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[435] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[436] Sóknarm.tal Staðar í Súgandaf. 1826.

[437] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[438] Manntal 1845, vesturamt, bls. 292. Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[439] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[440] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf. VA III 410 og 411, búnaðarskýrslur 1845 og 1846.

[441] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[442] Sóknarm.t. Staðar í Súgandaf. 1847.

[443] VA III, 411, búnaðarskýrslur 1846.

[444] VA III, 412, búnaðarskýrslur 1850.

[445] VA III, 412, búnaðarskýrslur 1850.

[446] Sama heimild.

[447] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[448] Sama heimild.

[449] Sóknarm.töl og prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[450] Sömu heimildir.

[451] Manntal 1801.

[452] Sama heimild. Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[453] Manntal 1816, 700.

[454] Sama heimild.

[455] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[456] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[457] Sama heimild.

[458] Manntal 1816. Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[459] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[460] Sbr. Manntal 1801, vesturamt, bls. 330 og hér Suðureyri.

[461] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[462] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[463] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[464] Sama heimild.

[465] Sama heimild.

[466] Sama heimild.

[467] Prestsþj.bækur Staðar í Súgandaf.

[468] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[469] Sama heimild.

[470] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[471] Sama heimild

[472] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[473] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[474] Manntal 1801 og nafnalykill þess.

[475] Sóknarm.tal Staðar í Súgandaf. 1827.

[476] Sóknarm.tal Staðar í Súgandaf. 1832.

[477] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1, búnaðarskýrslur 1827.

[478] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1,  búnaðarskýrslur 1834.

[479] Sama askja, búnaðarskýrslur 1827 og 1830. Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[480] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1, búnaðarskýrslur 1827 og 1830.

[481] Sama askja, búnaðarskýrslur 1834 og 1837. Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[482] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1, búnaðarskýrslur 1837.

[483] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[484] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[485] Sömu heimildir.

[486] Sömu heimildir. Manntal 1850.

[487] Manntal 1860.

[488] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[489] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[490] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[491] Sóknarm.töl og prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.. VA III, 408, búnaðarskýrslur 1840.

[492] Sömu heimildir. Sbr. hér Suðureyri.

[493] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[494] VA III, 408, búnaðarskýrslur 1840.

[495] Sama heimild.

[496] Sama heimild. Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[497] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[498] Sama heimild. Sbr. hér bls. 97.

[499] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[500] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[501] Sömu heimildir.

[502] Sömu heimildir.

[503] Sömu heimildir. Manntal 1816, 708.

[504] Manntal 1845, 293.

[505] Manntal 1816, 708.

[506] Manntal 1816 og nafnalykill þess.

[507] Manntal 1816, 708.

[508] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[509] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[510] VA III, 412, búnaðarskýrslur 1850.

[511] Sama heimild.

[512] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf. VA III, 412, búnaðarskýrslur 1850.

[513] Sama heimild. Sbr. Manntal 1845, vesturamt, bls. 293. VA III, 411, búnaðarskýrslur 1846.

[514] Sóknarm.töl Staðar í Súgandafirði.

[515] Sama heimild.

[516] Manntal 1845 og nafnalykill þess.

[517] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[518] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[519] VA III, 412, búnaðarskýrslur 1850.

[520] Sóknarm.tal Staðar í Súgandaf. janúar 1851.

[521] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[522] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[523] Sama heimild.

[524] Sama heimild.

[525] Ól.Þ.Kr./Önfirðingar I, 125.

[526] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[527] Ól.Þ.Kr./Önfirðingar.

[528] Sama heimild.

[529] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[530] Sama heimild.

[531] Sama heimild.

[532] Sama heimild.

[533] Sama heimild.

[534] VA III, 412, búnaðarskýrslur 1850.

[535] Sama heimild.

[536] Ól.Þ.Kr./Önfirðingar I, 125.

[537] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[538] Sama heimild.

[539] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[540] Sama heimild.

[541] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[542] Sama heimild.

[543] Sama heimild.

[544] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[545] Sama heimild.

[546] Manntal 1880. Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[547] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[548] Ól. Þ. Kr./Önfirðingar I, 97-98 og 169 og sama III, 236.

[549] Ól. Þ. Kr./Önfirðingar.

[550] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[551] Manntal 1845, vesturamt, bls. 294.

[552] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[553] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[554] Sama heimild.

[555] Sóknarm.tal Staðar í Súgandaf. 1858.

[556] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[557] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[558] Sama heimild.

[559] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[560] VA III, 412, búnaðarskýrslur 1850.

[561] VA III, 417, búnaðarskýrslur 1860.

[562] Sama heimild.

[563] Sama heimild.

[564] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[565] VA III, 417, búnaðarskýrslur 1860.

[566] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[567] Sama heimild. VA III, 419, búnaðarskýrslur 1866.

[568] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[569] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[570] Sömu heimildir.

[571] VA III, 421, búnaðarskýrslur 1870.

[572] VA III, 421, búnaðarskýrslur 1870.

[573] Sama heimild.

[574] VA III, 424, búnaðarskýrslur 1880.

[575] Sama heimild.

[576] Hsk. á Ísaf. nr. 240. Skiptabók Flateyrarverslunar frá árunum 1881-1886.

[577] Sama heimild.

[578] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[579] Sama heimild.

[580] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Ögurþinga og Staðar í Súgandaf.  Manntal 1845, 314 og nafnalykill þess.

[581] Sömu heimildir.

[582] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[583] Sömu heimildir.

[584] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[585] Sömu heimildir.

[586] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf. Valdimar Þorvaldsson 1963, 70 (Ársrit S.Í.).

[587] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[588] VA III, 421, búnaðarskýrslur 1870.

[589] Sama heimild.

[590] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[591] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[592] Sömu heimildir.

[593] Sömu heimildir.

[594] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[595] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[596] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[597] Sömu heimildir.

[598] Sömu heimildir.

[599] Sömu heimildir.

[600] Sömu heimildir.

[601] VA III, 424, búnaðarskýrslur 1880.

[602] Sama heimild.

[603] VA III, 421, búnaðarskýrslur 1870.

[604] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ísafj.sýslu. Suðureyrarhreppur, 3. Uppskrifta- og gerðabók 1881-1913,

uppskrift á dánarbúi Sigurðar Lárentíussonar í Botni, dagsett 24.9.1883.

[605] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[606] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf. Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ísafj.sýslu. Suðureyrarhreppur,

  1. Uppskrifta- og gerðabók 1881-1913, uppskrift á dánarbúi Sigurðar Lárentíussonar í Botni, dags.

24.9.1883.

[607] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[608] Sömu heimildir.

[609] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[610] Sömu heimildir. Ól.Þ.Kr./Önfirðingar II, 133.

[611] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ísafj.sýsla. Suðureyrarhreppur. 3. Uppskrifta- og gerðabók 1881-1913,

uppskrift á dánarbúi Sigurðar Lárentíussonar í Botni, dagsett 24.9.1883.

[612] Sama heimild.

[613] Sama heimild.

[614] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ísafj.sýsla. Suðureyrarhreppur. 3. Uppskrifta- og gerðabók 1881-1913,

uppskrift á dánarbúi Sigurðar Lárentíussonar í Botni, dagsett 24.9.1883.

[615] Stjórnartíðindi 1884 B, bls. 19-20.

[616] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ísafj.sýsla. Suðureyrarhreppur. 3. Uppskrifta- og gerðabók 1881-1913,

uppskrift á dánarbúi Sigurðar Lárentíussonar í Botni, dagsett 24.9.1883.

[617] Sama heimild.

[618] Sama heimild.

[619] Sama heimild.

[620] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[621] Sama heimild.

[622] Sama heimild

[623] Sama heimild.

[624] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf. Manntal 1880.

[625] Manntal 1880. Sbr. Manntal 1845, 250 og nafnalykill þess.

[626] Manntal 1870.

[627] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[628] Manntal 1880. Sbr. Manntal 1845, 292 og nafnalykill þess.

[629] Manntal 1880 (Kvígindisdalur). Manntal 1845 og nafnalykill þess. Prestsþj.b. Staðar í Súgandafirði.

[630] Manntal 1845, 277 og nafnalykill þess. Sbr. Manntal 1880 (Kvígindisdalur).

[631] Manntal 1880.

[632] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[633] Sömu heimildir.

[634] Sömu heimildir.

[635] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[636] Lbs. 22184to, Dagb. Magnúsar Hjaltasonar 17.10.1899.

[637] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[638] Helgi Valtýsson 1942, II, 347 (Akureyri).

[639] Lbs. 22184to, Dagb. Magnúsar Hjaltasonar 17.10.1899.

[640] Helgi Valtýsson 1942, II, 347.

[641] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[642] Sama heimild.

[643] Lbs. 22184to, Dagb. M.Hj. 17.10.1899.

[644] Lbs. 44104to/Valdimar Þorvaldsson, bls. 17-19 og 46.

[645] Skjöl Suðureyrarhr., varðveitt þar. Bók fyrir Suðureyrarhrepp 1888-1902, niðurjöfnunarskrá 1888.

[646] Sama skjalasafn, Fundabók fyrir Suðureyrarhrepp 1889-1919, fundargerð hreppsnefndar 4.3.1889.

[647] Sama Fundabók, bréf hreppsn. Suðureyrarhr. 28.11.1890 til Skúla Thoroddsen sýslumanns, afrit.

[648] Skjöl Suðureyrarhr., varðveitt þar. Fundabók fyrir Suðureyrarhrepp1889-1919, bréf hreppsn. Suðureyrarhr. 28.11.1890 til Skúla Thoroddsen sýslumanns, afrit.

[649] Skjöl Suðureyrarhr., varðveitt þar. Fundabók fyrir Suðureyrarhrepp 1889-1919, bréf Skúla sýslu-

manns Thoroddsen 9.1.1891 til hreppsnefndar Suðureyrarhr., afrit.

[650] Fundabók fyrir Suðureyrarhrepp, fundargerð almenns hreppsfundar 13. febrúar 1891.

[651] Skjöl Suðureyrarhr., varðveitt þar. Fundabók fyrir Suðureyrarhrepp 1889-1919, fundargerð almenns hreppsfundar 13. febrúar 1891.

[652] Sama heimild.

[653] Skjöl Suðureyrarhr., varðveitt þar. Bók fyrir Suðureyrarhrepp 1888-1902, niðurjöfnunarskrá, dagsett

18.11.1891.

[654] Sama hreppsbók. Niðurjöfnunarskrá dagsett 28.11.1895.

[655] Sama hreppsbók, tíundarskýrsla 1888.

[656] Sama hreppsbók, tíundarskýrsla 1895.

[657] Vestf. ættir I, 308-309. Ísl. æviskrár II, 303-304.

[658] Ísl. æviskrár II, 303-304.

[659] Ól. Þ Kr. 1948, 73 (Frá ystu nesjum IV).

[660] Lýður Björnsson 1992, 151 (Grunnvíkingabók II). Sbr. hér Kvíanes.

[661] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[662] Skj.s. ´syslum. og sv.stj. Ís. XVI. 3, Veðmálabók 1868-1882, bls. 27.

[663] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[664] Eyjólfur Jónsson 1967, 120 (Niðjatal Sveins á Hesti).

[665] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[666] VA III, 424, búnaðarskýrslur 1880.

[667] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[668] Kristján G. Þorvaldsson 1962, 16-17 (Ársrit S.Í.).

[669] Gunnar M.Magnúss 1977, 83.

[670] Skjöl Suðureyrarhr., varðveitt þar. Fundabók fyrir Suðureyrarhrepp 1889-1919, fundargerðir og bréf.

[671] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[672] Skjöl Suðureyrarhr., varðveitt þar. Bók fyrir Suðureyrarhrepp  1888-1902, niðurjöfnunarskrár 1888,

1891, 1895 og 1900. Hsk. á Ísafirði, nr. 227. Skýrsla um ábúðarhundruð bænda í Suðureyrarhreppi,

dagsett 29.10.1902.

[673] Sbr. Lbs. 38594to, Dagbók Einars Jónssonar 9.8.1895, 16.8.1896 og 16.8.1897. Sbr. einnig Lbs. 22184to

Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 1.9.1899.

[674] Skjöl Suðureyrarhr., varðveitt þar. Bók fyrir Suðureyrarhrepp  1888-1902, tíundarskýrsla 1888.

[675] Sama heimild.

[676] Sama hreppsbók, tíundarskýrsla 1895.

[677] Sama hreppsbók, tíundarskýrsla 1901.

[678] Sama heimild.

[679] Sama hreppsbók, tíundarskýrslur 1888, 1891 og 1895.

[680] Sama heimild.

[681] Sama heimild.

[682] Skjöl Suðureyrarhr. varðveitt þar. Bók fyrir Suðureyrarhrepp  1888-1902, niðurjöfnunarskrár 1888,

1891 og 1895.

[683] Skjöl Suðureyrarhr. varðveitt þar. Bók fyrir Suðureyrarhrepp  1888-1902,  tíundaskýrslur 1888, 1891 og 1895.

[684] Sama hreppsbók, niðurjöfnunarskrá 1900.

[685] Hsk. á Ísaf., nr. 190. Kristján G. Þorvaldsson, Saga Suðureyrar og Suðureyrarkauptúns, bls. 214.

[686] Lbs. 22184to, Dagbók M.Hj. 19.5.1899.

[687] Hsk. á Ísaf., nr. 190. Kristján G. Þorvaldsson, Saga Suðureyrar og Suðureyrarkauptúns, bls. 176.

[688] Sama heimild. Lbs. 22184to, Dagbók M.Hj. 19.5.1899.

[689] Þjóðviljinn, 14. árg., no. 16, 7. maí 1900.

[690] Sama heimild.

[691] Gunnar M. Magnúss 1977, 83.

[692] Sama heimild, 177-179 og 182.

[693] Lbs. 22174to, Dagbók M.Hj. 15.4.1898.

[694] Lbs. 22174to, Dagbók M.Hj. 10.2.1898.

[695] Sama heimild.

[696] Sama dagbók 11.5.1898.

[697] Lbs. 25604to.

[698] Lbs. 25604to, Magnús Hjaltason/Surtsríma.

[699] Lbs. 22184to, Dagbók M.Hj. 1899.

[700] Lbs. 27364to/Magnús Hjaltason, bls. 54.

[701] Lbs. 22184to, Dagbók M.Hj. apríl og maí 1899.

[702] Lbs. 22184to, Dagbók M.Hj. 24.4.1899.

[703] Lbs. 22184to, Dagbók M.Hj. apríl 1899.

[704] Sama dagbók, nóvember og desember 1899.

[705] Lbs. 27364to, Magnús Hjaltason, bls. 54.

[706] Lbs. 22184to, Dagbók M.Hj. 3.12.1899.

[707] Lbs. 27364to, Magnús Hjaltason, bls. 54. Sbr. Gunnar M. Magnúss 1956, 207-208.

[708] Daníel Á. Daníelsson, læknir, Dalvík, f. 1902. Viðtal K.Ó. við hann 24.4.1991. Sbr. Gunnar M. Magnúss 1956,      234-236.

[709] Einvígisríma ort af Magnúsi Hjaltasyni, ljósrit í eigu K.Ó. úr fórum D.Á.D. læknis á Dalvík.

[710] Lbs. 22184to, Dagbók M.Hj. 31.12.1899.

[711] Gunnar M. Magnúss 1956, 207-351.

[712] Gunnar M. Magnúss 1956, 256.

[713] Magnús Hjaltason/Vestri 14.4.1915.

[714] Lbs. 27364to/Magnús Hjaltason, bls. 54.

[715] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[716] Gunnar M. Magnúss 1977, 83.

[717] Sama heimild.

[718] Vestf. ættir I, 308-309.

[719] G.M.M. 1977, 83.

[720] Páll Hallbjörnsson 1969, 29.

[721] Sama heimild.

[722] Sama heimild, 29-30.

[723] Sama heimild.

[724] G.M.M. 1973, 154-163. Sami 1977 20-24. Finnbogi Bernódusson 1969, 51-55.

[725] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[726] Lbs. 22184to, Dagbók M.Hj. 13.7.1899.

[727] Lbs. 22294to, Dagbók M.Hj. 15.9.1912.

[728] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[729] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[730] Finnbogi Bernódusson 1969, 51.

[731] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[732] Sama heimild.

[733] Skjöl Suðureyrarhr. varðveitt þar. Bók fyrir Suðureyrarhrepp  1888-1902, niðurjöfnunarskrá,

dags. 18.11.1891. Sbr. hér bls. 57-58.

[734] Sama hreppsbók, niðurjöfnunarskrá, dags. 28.11.1895.

[735] Sama hreppsbók, tíundarskýrsla, dags. 23.6.1891.

[736] Sama heimild.

[737] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[738] Skjöl Suðureyrarhr. varðveitt þar. Bók fyrir Suðureyrarhrepp  1888-1902, tíundarskýrsla,

dags. 23.6.1891.

[739] Sama hreppsbók, tíundarskýrsla, dags. 22.6.1895.

[740] Sama heimild.

[741] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[742] Sama heimild.

[743] Sama heimild.

[744] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[745] Sömu heimildir.

[746] Sömu heimildir.

[747] Sömu heimildir.

[748] Sömu heimildir.

[749] Skjöl Suðureyrarhr. varðveitt þar. Bók fyrir Suðureyrarhrepp 1888-1902, fylgiblað við reikning

     Suðureyrarhrepps 1895-1896.

[750] Sbr. hér Bær, Þverá þar, og Suðureyri, bls. 149 þar.

[751] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[752] Skjöl Suðureyrarhr. varðveitt þar. Bók fyrir Suðureyrarhrepp  1888-1902, fylgiblað við reikning

     Suðureyrarhrepps 1895-1896.

[753] Stjórnartíð. 1895 B, bls. 29-30.

[754] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[755] Lbs. 22174to, Dagbók M.Hj. 11.5.1898.

[756] Lbs. 22174to, Dagbók M.Hj. 11.5.1898.

[757] Lbs. 22194to, Dagbók M.Hj. 2.1.1901.

[758] Sóknarm.tal Staðar í Súgandaf. 31.12.1898.

[759] Lbs. 38604to, Dagbók Einars Jónssonar 10.4.1898.

[760] Sama heimild.

[761] Lbs. 22184to, Dagbók M.Hj. 13.7.1899.

[762] Sama heimild.

[763] Lbs. 38604to, Dagbók Einars Jónssonar 10.9.1898.

[764] Lbs. 22184to, Dagbók M.Hj. 13.7.1899.

[765] Gunnar M. Magnúss 1973, 154-163. Sami 1978, 120-122. Finnbogi Bernódusson 1969, 51-55.

[766] Finnbogi Bernódusson 1969, 51.

[767] Lbs. 22184to, Dagbók M.Hj. 13.7.1899, 23.9.1899 og 25.10.1899.

[768] Sama dagbók, 13.7.1899.

[769] Sama dagbók, 25.10.1899.

[770] Lbs. 22184to, Dagbók M.Hj. 25.10.1899.

[771] Sbr. Lbs. 22194to, Dagbók M.Hj. 2.1.1901

[772] Lbs. 22194to, Dagbók M.Hj. 2.1.1901.

[773] Lbs. 22174to, Dagbók M.Hj. 11.5.1898.

[774] Finnbogi Bernódusson 1969, 53.

[775] Sama heimild.

[776] Sama heimild.

[777] Finnbogi Bernódusson 1969, 53.

[778] Sama heimild, 51.

[779] Sama heimild.

[780] Sama heimild.

[781] Finnbogi Bernódusson 1969, 51.

[782] Finnbogi Bernódusson 1969, 52.

[783] Sama heimild, 51.

[784] Finnbogi Bernódusson 1969, 51.

[785] Lbs. 22194to, Dagbók M.Hj. 7.9.1901.

[786] Sama heimild.

[787] Lbs. 22204to, Dagbók M.Hj. 23.9.1901.

[788] Sama heimild.

[789] Lbs. 22204to, Dagbók M.Hj. 23.9.1901.

[790] Sama heimild.

[791] Sama heimild.

[792] Sama heimild.

[793] Sama heimild.

[794] Lbs. 22204to, Dagbók M.Hj. 23.9.1901.

[795] Sama dagbók, 30.9.1901.

[796] Sama heimild.

[797] Sama heimild, 27.10. 1901.

[798] Manntal 1901.

[799] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[800] Sama heimild.

[801] Lbs. 22204to, Dagbók M.Hj. 4.2.1902.

[802] Lbs. 22214to, Dagbók M.Hj. 6.7.1902.

[803] Lbs. 22214to, Dagbók M.Hj. 8.7.1902.

[804] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[805] Skjöl Suðureyrahrepps, varðveitt þar. Hreppsbók án titils frá árunum 1901-1914. Fylgiblað við

     reikning Suðureyrarhrepps, ár 1902-1903.

[806] Sama heimild.

[807] Skjöl Suðureyrahrepps, varðveitt þar. Hreppsbók án titils frá árunum 1901-1914. Fylgiblað við

     reikning Suðureyrarhrepps, ár 1902-1903.

[808] Sama heimild.

[809] Skjöl Suðureyrarhrepps, varðveitt þar. Fundabók fyrir Suðureyrarhrepp 1889-1919, fundargerð

almenns hreppsfundar 27.2.1904.

[810] Sama skjalasafn. Bréfabók nr. 1. Bréf Guðm. Sigurðssonar 5.9.1904 til Jóns oddvita Einarrssonar.

[811] Sama heimild.

[812] Sama heimild.

[813] Sama skjalasafn. Hreppsbók án titils frá árunum 1901-1914. Fylgiblað við reikning Suðureyrarhrepps

árið 1903-1904. – Uppteiknun yfir ómagaframfæri í Suðureyrarhreppi 1905-1906.

[814] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[815] Skjöl Suðureyrarhr., varðveitt þar. Hreppsbók án titils frá árunum 1901-1914. Fylgiblað við reikn.

Suðureyrarhr. árið 1903-1904. – Uppteiknun yfir ómagaframfæri í Suðureyrarhreppi 1905-1906.

[816] Sama hreppsbók, Ómagaframfæri í Suðureyrarhreppi fardagaárið 1908-1909.

[817] Öldin okkar 1950, 72.

[818] Skjöl Suðureyrarhr., varðv. þar. Fundabók fyrir Suðureyrarhepp 1889-1919, fundargerð almenns

hreppsfundar 16.3.1907.

[819] Sama skjalasafn. Bréfabók nr. 1. Bréf séra Þorvarðar Brynjólfssonar oddvita 15.7.1907 til

yfirstjórnar geðveikrahælisins á Kleppi.

[820] Sama Bréfabók. Bréf séra Þorvarðar Brynjólfssonar 20.4.1909 til yfirstjórnar geðveikrahælisins á

Kleppi og ódagsett bréf sama til Þórðar Sveinssonar, geðveikralæknis á Kleppi.

[821] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[822] Lbs. 22334to, Dagbók M.Hj. 28.1.1915. Gunnar M. Magnúss 1973, 163.

[823] Finnbogi Bernódusson 1969, 55.

[824] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[825] Sama heimild.

[826] Gunnar M. Magnúss/M.Hj. 1977, 16.

[827] Sóknarm.töl og prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[828] Hsk. á Ísaf. nr. 227. Skýrsla um ábúðarhundruð bænda í Suðureyrarhr. dags. 29.10.1902.

Sbr. hér bls. 55-59 og 67).

[829] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf. Sbr. Firðir og fólk 1900-1999, 447.

[830] Lbs. 41644to, Bréf Magnúsar Hjaltasonar 16.7.1902 til Þorsteins Erlingssonar skálds.

[831] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[832] Gunnar M. Magnúss/M.Hj. 1973, 123-124.

[833] Lbs. 41644to, Bréf M.Hj. 16.7.1902 til Þorsteins Erlingssonar skálds.

[834] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[835] Vestf. ættir II, 517-518.

[836] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf. Sbr. Firðir og fólk 1900-1999, 447.

[837] Lbs. 44104to/Valdimar Þorvaldsson, bls. 46.

[838] Örn.stofnun/Kristján G. Þorvaldsson 1949, 110.

[839] Lbs. 44104to/Valdimar Þorvaldsson.

[840] Sama heimild, bls. 17-19 og 46.

[841] Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 17-19 og 46.

[842] Sama heimild, bls. 17-19.

[843] Sama heimild.

[844] Sama heimild.

[845] Sama heimild.

[846] Sama heimild.

[847] Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 17-19 og 46.

[848] Sama heimild.

[849] Sama heimild.

[850] Sama heimild.

[851] Sama heimild.

[852] Sama heimild.

[853] Sama heimild.

[854] Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 17-19.

[855] Sama heimild

[856] Sama heimild.

[857] Þjóðháttaskrá Þjóðminjasafns Íslands. 36. spurningaskrá, nóvember 1977. Svör Albertínu Jóhannesd.

[858] Sama heimild.

[859] Sama heimild.

[860] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[861] Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 46.

[862] Sama heimild.

[863] Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 46.

[864] Sama heimild.

[865] Sama heimild.

[866] Sama heimild.

[867] Fasteignamatsskjöl. Gjörðabók undirmatsnefndar í Vestur-Ísafjarðarsýslu, löggilt 26.3.1919, bls. 207.

[868] Manntal 1940.

[869] Sama heimild.

[870] Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 17-19.

[871] Sama heimild.

[872] Sama heimild.

[873] Sama heimild.

[874] Sama heimild.

[875] Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 17-19.

[876] Sama heimild, bls. 46.

[877] Fasteignamatsskjöl. Gjörðabók fasteignamatsnefndar í V..Ís., löggilt 9.3. 1916 (Botn). Sama skjalasafn. Gjörðabók undirmatsnefndar í V. Ís., löggilt 26.3. 1919 (Botn)

[878] Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 17-19 og 46.

[879] Fasteignamatsskjöl. Gjörðabók undirmatsnefndar í Vestur-Ísafjarðarsýslu, löggilt 26.3.1919, bls. 207.

[880] Sama heimild, bls. 208.

[881] Sama heimild, bls. 207-208. Sbr. Fasteignabók 1921, 81.

[882] Örn.stofnun/Kristján G. Þorvaldsson 1949, 110-111.

[883] Sama heimild.

[884] Birkir Friðbertsson. Viðtal K.Ó. við hann 8.8.1995.

[885] Sama heimild.

[886] Örn.stofnun/Kristján G. Þorvaldsson 1949, 111.

[887] Birkir Friðbertsson. Viðtal K.Ó. við hann 8.8.1995

[888] Örn.stofnun/Kristján G. Þorvaldsson 1949, 111.

[889] Sama heimild.

[890] Birkir Friðbertsson. Viðtal K.Ó. við hann 8.8.1995.

[891] Sama heimild.

[892] Sama heimild

[893] Örn.stofnun/Kristján G. Þorvaldsson 1949, 111.

[894] Sama heimild.

[895] Sama heimild.

[896] Sama heimild.

[897] Birkir Friðbertsson. Viðtal K.Ó. við hann 8.8.1995; Sbr. Örn.stofnun/Kr. G. Þorvaldss. 1949, 34-35.

[898] Örn.stofnun/Kristján G. Þorvaldsson 1949, 34-35.

[899] Birkir Friðbertsson. Viðtal K.Ó. við hann 8.8.1995.

[900] Jarðab. Á. og P. VII, 135.

[901] Rtk. Jarðabækur V. 16, Ísafj.sýsla 1805.

[902] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[903] Sóknarm.töl og prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[904] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[905] Sóknarm.töl og prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[906] Sömu heimildir.

[907] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf. VA III, 408, 412, 417 og 424, bún.skýrslur 1840, 1850, 1860 og 1880.

Skjöl Suðureyrarhr., varðv. þar. Bók fyrir Suðureyrarhrepp 1888-1902, tíundarsk. 1891 og 1895.

[908] Sömu heimildir.

[909] Sömu heimildir.

[910] Örn.stofnun/Kristján G. Þorvaldsson 1949, 106-107.

[911] Skjöl Suðureyrarhr. varðv. þar. Bók fyrir Suðureyrarhrepp 1888-1902, niðurj.skrá, dags. 28.11.1895.

[912] Örn.stofnun/Kristján G. Þorvaldsson 1949, 107.

[913] Örn.stofnun/Kristján G. Þorvaldsson 1949, 107.

[914] Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 17-19.

[915] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[916] Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 17-19.

[917] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[918] Sóknarm.töl og prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[919] Sömu heimildir.

[920] Sömu heimildir.

[921] Sömu heimildir.

[922] Sömu heimildir.

[923] Manntal 2.11.1840.

[924] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[925] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[926] Sömu heimildir.

[927] Sömu heimildir.

[928] Sömu heimildir.

[929] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[930] Sama heimild.

[931] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[932] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[933] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[934] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[935] Sama heimild.

[936] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[937] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[938] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[939] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[940] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[941] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[942] VA III, 408, búnaðarskýrslur 1840.

[943] Sama heimild.

[944] Manntal 1845, vesturamt, bls. 292.

[945] Kristjana Friðbertsd. Viðtal K.Ó. við hana í júlí 1968.

[946] Sama heimild.

[947] Sama heimild.

[948] Sama heimild.

[949] Sama heimild.

[950] Sama heimild.

[951] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[952] Sama heimild.

[953] Sama heimild.

[954] VA III, 412, búnaðarskýrslur 1850.

[955] Sama heimild.

[956] Sama heimild.

[957] VA III, 417, búnaðarskýrslur 1860.

[958] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[959] Sama heimild.

[960] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[961] Sömu heimildir.

[962] Sömu heimildir.

[963] Sömu heimildir.

[964] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[965] Sömu heimildir.

[966] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[967] Sama heimild.

[968] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[969] Sama heimild.

[970] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[971] Sömu heimildir.

[972] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[973] Ól.Þ.Kr./Önfirðingar III, 373-374. Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf. Manntal 1816, 702. Manntal 1845,

vesturamt, bls. 294.

[974] Ól.Þ.Kr./Önfirðingar III, 373-374. Manntal 1801, vesturamt, bls. 322.

[975] Manntal 1801, vesturamt, bls. 322.

[976] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[977] Sömu heimildir; Manntal 1816, 697. Sbr. Manntal 1801, vesturamt, bls. 322.

[978] Manntal 1816, 702.

[979] Manntal 1816, 702.

[980] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[981] Sömu heimildir.

[982] Sömu heimildir.

[983] Sömu heimildir.

[984] Sömu heimildir.

[985] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[986] Manntal 1845, vesturamt, bls. 287.

[987] Vestf. ættir I, 229-236.

[988] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[989] Sömu heimildir.

[990] Manntal 1816.

[991] Manntal 1801, vesturamt, bls. 303. Manntal 1816, 700.

[992] Sóknarm.töl og prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[993] Sömu heimildir.

[994] Sömu heimildir.

[995] Sóknarm.töl og prestsþj.b. Staðar í Súgandaf. Manngal 1845, vesturamt, bls. 294.

[996] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[997] Sömu heimildir.

[998] Sömu heimildir. Manntal 1845.

[999] Manntal 1860.

[1000] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[1001] VA III, 412, búnaðarskýrslur 1850.

[1002] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[1003] Sama heimild, mars 1854.

[1004] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf. Manntal 1855.

[1005] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[1006] Vestf. ættir I, 108, 230 og 231.

[1007] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[1008] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[1009] Ó.Þ.Kr./Önfirðingar I, 53 og III, 268 og 373-374.

[1010] Sama heimild.

[1011] Ó.Þ.Kr./Önfirðingar I, 53 og III, 268 og 373-374.

[1012] Sama heimild.

[1013] Manntal 1816, 691.

[1014] Ól.Þ.Kr./Önfirðintar I, 53.

[1015] Sama heimild. Sbr. Manntal 1801, vesturamt, bls. 299.

[1016] Ól.Þ.Kr./Önfirðingar I, 53.

[1017] Sama heimild.

[1018] Sama heimild I, 53 og III, 268.

[1019] Sama heimild III, 268.

[1020] Ól.Þ.Kr./Önfirðingar  III, 373-374.

[1021] Manntal 1816, 691.

[1022] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[1023] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[1024] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[1025] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[1026] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[1027] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[1028] Sama heimild.

[1029] Sóknarm.tal Staðar í Súgandaf. 1824.

[1030] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. IV. 6. Dóma- og þingbók 1817-1834, bls. 136-137.

[1031] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[1032] Sama heimild.

[1033] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[1034] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[1035] Sömu heimildir.

[1036] Sömu heimildir.

[1037] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[1038] Sama heimild.

[1039] VA III, 408, búnaðarskýrslur 1840.

[1040] Manntal 1845, vesturamt, bls. 330. Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[1041] Sömu heimildir.

[1042] Manntal 1850.

[1043] Ól.Þ.Kr./Önfirðingar I, 53.

[1044] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[1045] Sömu heimildir.

[1046] Sömu heimildir.

[1047] Sömu heimildir.

[1048] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[1049] Sömu heimildir.

[1050] Sömu heimildir. Manntal 1845, vesturamt, bls. 292.

[1051] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf. Manntöl 1840, 1845, 1850 og 1855.

[1052] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[1053] Sömu heimildir.

[1054] Sóknarm.töl og prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[1055] Sömu heimildir.

[1056] Sömu heimildir.

[1057] Sömu heimildir.

[1058] VA III, 414-416, búnaðarskýrslur 1854-1858.

[1059] Sömu heimildir.

[1060] Sömu heimildir.

[1061] VA III, 414-416, búnaðarskýrslur 1854-1858.

[1062] Sömu heimildir.

[1063] VA III, 416-418, búnaðarskýrslur 1859-1863.

[1064] Sóknarm.töl og prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[1065] Sóknarm.töl og prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[1066] Sömu heimildir.

[1067] Sömu heimildir.

[1068] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[1069] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf. VA III, 424, búnaðarskýrslur 1879-1881.

[1070] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[1071] Vestf. ættir II, 536.

[1072] Lbs. 44074to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 118.

[1073] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[1074] Sama heimild.

[1075] Vestf. ættir II, 536.

[1076] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[1077] Sama heimild.

[1078] Sama heimild.

[1079] Sigríður Pétursdóttir. Viðtal K.Ó. við hana 13.12.1992.

[1080] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[1081] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[1082] Sama heimild.

[1083] Hsk. á Ísaf. nr. 90. Höfuðbók frá verslun Hjálmars Jónssonar á Flateyri, bls. 130.

[1084] Stjórnartíðindi 1883 B, bls. 21-23.

[1085] Hsk. á Ísaf. nr. 90. Höfuðbók frá verslun Hjálmars Jónssonar á Flateyri, bls. 130.

[1086] Sama heimild.

[1087] Hsk. á Ísaf. nr. 90. Höfuðbók frá verslun Hjálmars Jónssonar á Flateyri, bls. 130.

[1088] Sama heimild.

[1089] Sama heimild.

[1090] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[1091] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[1092] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[1093] Gils Guðmundsson 1977, I, 213 og III, 278-279 (Skútuöldin, 2. útgáfa).

[1094] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[1095] Vestf. ættir II, 530-531.

[1096] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[1097] Sóknarm.töl og prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[1098] Prestsþj.b. Eyrar í Skutulsfirði og Vestf.ættir II, 486-487.

[1099] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[1100] Sömu heimildir.

[1101] Sömu heimildir.

[1102] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[1103] Sömu heimildir.

[1104] Skjöl Suðureyrarhr., varðv. þar. Bók fyrir Suðureyrarhrepp 1888-1902, tíundarsk., dags. 23.6.1888.

[1105] Manntal 1890,

[1106] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[1107] Vestf. ættir II, 487.

[1108] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[1109] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[1110] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[1111] Sama heimild.

[1112] Sóknarm.tal Staðar í Súgandaf. 31.12.1889.

[1113] Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 17-19.

[1114] Sóknarm.tal Staðar í Súgandaf. 31.12.1889.

[1115] Prestsþj.b. og sóknarm.töl staðar í Súgandaf.

[1116] Sömu heimildir.

[1117] Sömu heimildir.

[1118] Sömu heimildir.

[1119] Sömu heimildir.

[1120] Sömu heimildir.

[1121] Sömu heimildir.

[1122] Sömu heimildir.

[1123] Sömu heimildir.

[1124] Prestsþj.b. Staðar í Aðalvík.

[1125] Sama heimild.

[1126] Sama heimild.

[1127] Sama heimild. Kristinn Kristmundsson og Þórleifur Bjarnason 1971, 110 og 267.

[1128] Manntal 1845, bls. 347. Manntal 1850.

[1129] Manntal 1870.

[1130] Prestsþj.b. Staðar í Aðalvík og Staðar í Súgandaf.

[1131] Prestsþj.b. Staðar í Aðalvík.

[1132] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[1133] Sama heimild.

[1134] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[1135] Sama heimild.

[1136] Sama heimild.

[1137] Skjöl Suðureyrarhr., varðv. þar. Bók fyrir Suðureyrarhrepp 1888-1902, skýrslur um framtal til

lausafjártíundar 1891 og 1895.

[1138] Sama heimild.

[1139] Sama heimild.

[1140] Skjöl Suðureyrarhrepps, varðveitt þar. Fundarbók fyrir Suðureyrarhrepp 1889-1919, skýrsla um

fjárfjölda í hreppnum 29.3.1897.

[1141] Lbs. 22304to, Dagbók M.Hj. 11.12.1912.

[1142] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[1143] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[1144] Sóknarm.töl og prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[1145] Skrá yfir húseignir á Suðureyri, rituð á árunum upp úr 1940 af Kristjáni Albert Kristjánssyni, bls. 22.

Skráin er í eigu sparisjóðsins á Suðureyri.

[1146] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[1147] Gunnar M. Magnúss 1977, 385-386.

[1148] Sóknarm.töl og prestsþj.bækur Staðar í Súgandaf.

[1149] Sóknarm.töl og prestsþj.bækur Staðar í Súgandaf.

[1150] Sömu heimildir.

[1151] Manntal 1910.

[1152] Sbr. Prestsþj.b. Flateyjarprestakalls.

[1153] Manntal 1901.

[1154] Söguþættir landpóstanna 1942, I, 370-371.

[1155] Prestsþj.b. Flateyjarprestakalls.

[1156] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[1157] Manntal 1901, Fjörður í Múlasveit. Manntal 1910, Suðureyri í Súgandafirði.

[1158] Manntal 1901, Fjörður í Múlasveit.

[1159] Sama heimild. Manntal 1910, Suðureyri í Súgandafirði.

[1160] Sóknarm.tal Staðar í Súgandaf. 31.12.1909.

[1161] Skjöl Suðureyrarhrepps, varðveitt þar. Hreppsbók án titils frá árunum 1901-1914.

[1162] Sama heimild.

[1163] Skjöl Suðureyrarhrepps, varðveitt þar. Hreppsbók án titils frá árunum 1901-1914.

[1164] Sóknarm.tal Staðar í Súgandaf. 31.12.1910.

[1165] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[1166] Sama heimild.

[1167] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[1168] Sóknarm.tal Staðar í Súgandaf. 31.12.1909

[1169] Sama heimild, 31.12.1910.

[1170] Jóhann Gunnar Ólafsson 1966, 134-135.

[1171] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[1172] Sama heimild.

[1173] Sóknarm.töl og prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[1174] Söguþættir landpóstanna 1942, I, 370-371.

[1175] Sama heimild.

[1176] Örn.stofnun/Kristján G. Þorvaldsson 1949, 107.

[1177] Birkir Friðbertsson. Viðtal K.Ó. við hann 8.8.1995.

[1178] Örn.stofnun/Kristján G. Þorvaldsson 1949, 107.

[1179],Örn.stofnun/Kristján G. Þorvaldsson 1949, bls. 33-34 og 107.

[1180] Sama heimild, bls. 34.

[1181] Sama heimild, bls. 107.

[1182] Sama heimild.

[1183] Sama heimild.

[1184] Sama heimild. Birkir Friðbertsson. -Viðtal K.Ó. við hann 8.8. 1995.

[1185] Örn.stofnun/Kristján G. Þorvaldsson 1949, 112.

[1186] Sama heimild.

[1187] Örn.stofnun/Kristján G. Þorvaldsson 1949, 112.

[1188] Sama heimild, 4 og 112.

[1189] Sama heimild, 112.

[1190] Friðbert Pétursson 1986, 36 (Ársrit S.Í.).

[1191] Birkir Friðbertsson. Viðtal K.Ó. við hann 8.8.1995.

[1192] Örn.stofnun/Kristján G. Þorvaldsson 1949, 112-113.

[1193] Sama heimild.

[1194] Sama heimild, 113.

[1195] Lbs. 22184to, Dagbók M.Hj. 11.6.1899.

[1196] Sbr. Örn.stofnun/Kristján G. Þorvaldsson 1949, 117.

[1197] Kristján G. Þorvaldsson 1951, 49 (Árbók F.Í.).

[1198] Sama heimild.

[1199] Örn.stofnun/Kristján G. Þorvaldsson 1949, 117.

[1200] Sama heimild, 111.

[1201] Birkir Friðbertsson. Viðtal K.Ó. við hann 8.8.1995.

[1202] Örn.stofnun/K.G.Þ. 1949, 113. Uppdráttur Suðureyrarhrepps eftir Jón Hróbjartsson, gefinn út 1983 sem

eftirprentun af örnefnakorti frá því um 1930.

[1203] Örn.stofnun/Kristján G. Þorvaldsson 1949, 113.

[1204] Sama heimild.

[1205] Sama heimild.

[1206] Sama heimild.

[1207] Birkir Friðbertsson. Viðtal K.Ó. við hann 8.8.1995.

[1208] Örn.stofnun/Kristján G. Þorvaldsson 1949, 113.

[1209] Sama heimild.

[1210] Sama heimild.

[1211] Sama heimild.

[1212] Sama heimild.  Birkir Friðbertsson. Viðtal K.Ó. við hann 8.8.1995.

[1213] Örn.stofnun/Kristján G. Þorvaldsson 1949, 113.

[1214] Birkir Friðbertsson. Viðtal K.Ó. við hann 8.8.1995.

[1215] Sama heimild.

[1216] Örn.stofnun/Kristján G. Þorvaldsson 1949, 114.

[1217] Örn.stofnun/Kristján G. Þorvaldsson 1949, 114.

[1218] Birkir Friðbertsson. -Viðtal K.Ó. við hann 8.8.1995.

[1219] Örn.stofnun/Kristján G. Þorvaldsson 1949, 113.

[1220] Birkir Friðbertsson. -Viðtal K.Ó. við hann 8.8.1995.

[1221] Örn.stofnun/Kristján G. Þorvaldsson 1949, 118.

[1222] Sóknalýs. Vestfj. II, 115.

[1223] Þorvaldur Thoroddsen 1959, 118-119 (Ferðabók II).

[1224] Sama heimild.

[1225] Sama heimild.

[1226] Kristján G. Þorvaldsson 1951, 49 (Árbók FÍ.) Gunnar M. Magnúss 1977, 76.

[1227] Sóknalýs. Vestfj. II, 113.

[1228] Örn.stofnun/Kr.G.Þorv. 1949, 113-114. Birkir Friðbertsson. -Viðtal K.Ó. við hann 8.8.1995.

[1229] Sömu heimildir.

[1230] Örn.stofnun/Kr.G.Þorv. 1949, 113-114.

[1231] Sama heimild, 114.

[1232] Birkir Friðbertsson. -Viðtal K.Ó. við hann 8.8.1995.

[1233] Örn.stofnun/Kr.G.Þorv. 1949, 114.

[1234] Sama heimild, 35.

[1235] Sama heimild.

[1236] Sama heimild.

[1237] Sama heimild.

[1238] Sama heimild.

[1239] Örn.stofnun/Kr.G.Þorv. 1949, 115.

[1240] Sama heimild.

[1241] Sama heimild.

[1242] Jón Þ. Þór 1984, 73.

[1243] Jón J. Aðils 1971, 286.

[1244] Örn.stofnun/Kr.G.Þorv. 1949, 17.

[1245] Sigríður Pétursdóttir frá Laugum. -Viðtal K.Ó. við hana 16.12.1992.

[1246] Lbs. 22204to, Dagbók M.Hj. 30.11.1901.

[1247] Lbs. 22204to, Dagbók M.Hj. 30.11.1901.

[1248] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[1249] Örn.stofnun/Kr.G.Þorv. 1949, 35.

[1250] Lbs. 22184to, Dagbók M.Hj. 14.5.1899.

[1251] Örn.stofnun/Örnefnaskrá Tungu í Skutulsfirði, samin af Bjarna Halldórssyni í Tungu.

[1252] Sama heimild.

[1253] Sama heimild.

[1254] Sama heimild.

[1255] Lbs. 4708to, Magnús Hjaltason : Þjóðsögur skrásettar 1907-1908. Örn.stofnun/Kr.G.Þorv. 1949, 36 og 116.

[1256] Örn.stofnun/Kr.G.Þorv. 1949, 36.

[1257] Lbs. 47084to, Magnús Hjaltason.

[1258] Örn.stofnun/Kr.G.Þorv. 1949, 36.

[1259] Skjöl Suðureyrarhrepps, varðveitt þar. Fundabók fyrir Suðureyrarhrepp 1889-1919, fundargerðir

4.3.1889 og 3.2.1903.

[1260] Skjöl Suðureyrarhr., varðveitt þar. Fundargerðabók 1926-1942, fundargerð hreppsnefndar 15.5.1940.

[1261] Sama fundargerðabók, fundargerð hreppsnefndar 26.12.1940.

[1262] Sama fundargerðabók, fundargerð hreppsnefndar 27.2.1941.

[1263] Skutull XVIII, bls. 109, 17. ág. 1940.

[1264] Sama heimild.

[1265] Sama heimild, bls. 116, 31. ág. 1940. Sbr. Vesturland XVII, bls. 110, 27. júlí 1940.

[1266] Birgir Bjarnason, bóndi í Miðdal í Bolungavík, greinargerð hans um Hestakleif, dagsett 16.10.2007 og send Örnefnastofnun Íslands, ljósrit í eigu K.Ó. Sbr. Örn.stofnun/Kr.G.Þorv. 1949, 115. Sbr. einnig tímaritið Heima í Bolungavík, apríl 1960, þar ritgerðin ÖrnefniNöfn og kennileiti í Bolungavík III. Nöfn í Gilslandi.

[1267] Birgir Bjarnason. – Viðtal við K.Ó við hann 20.10. 2007.

[1268] Birgir Bjarnason. – Viðtal við K.Ó við hann 28.9. 2007.

[1269] Sama heimild.

[1270] Birgir Bjarnason, greinargerð hans um Hestakleif, dagsett 16.10.2007 og send Örnefnastofnun Íslands, ljósrit í eigu K.Ó.

[1271] Sama heimild.

[1272] Tímaritið Heima í Bolungavík, apríl 1960, bls. 259.

[1273] Birgir Bjarnason. – Viðtal við K.Ó við hann 28.9. 2007.

[1274] Sama heimild.

[1275] Birgir Bjarnason, greinargerð hans um Hestakleif, dagsett 16.10.2007 og send Örnefnastofnun Íslands.

[1276] Birgir Bjarnason. – Viðtöl við K.Ó við hann 28.9. og 20.10. 2007. Sbr. prests.þj.bækur og sóknarmannatöl Hólssóknar í Bolungavík.

[1277] Birkir Friðbertsson. – Viðtal K.Ó. við hann 25.11.2007.

[1278] Örn.stofnun/Kr.G.Þorv. 1949, 17 og 115.

[1279] Örn.stofnun/Kr.G.Þorv. 1949, 116.

[1280] Vestf. þjóðsögur III, 1, 140.

[1281] Uppdr. Suðureyrarhr. eftir Jón Hróbjartsson, gefinn út 1983, eftirpr. af örnefnakorti frá því um 1930.

[1282] Örn.stofnun/Kr.G.Þorv. 1949, 116.

[1283] Birkir Friðbertsson. -Viðtal K.Ó. við hann 8.8.1995.

[1284] Sama heimild.

[1285] Sama heimild.

[1286] Uppdr. Suðureyrarhr. eftir Jón Hróbjartsson, gefin út 1983, eftirpr. af örnefnakorti frá því um 1930;

Örn.stofnun/Kr.G.Þorv. 1949, 116.

[1287] Örn.stofnun/Kr.G.Þorv. 1949, 117.

[1288] Uppdr. Suðureyrarhr. eftir Jón Hróbjartsson, gefin út 1983, eftirpr. af örnefnakorti frá því um 1930.

[1289] Birkir Friðbertsson. -Viðtal K.Ó. við hann 8.8.1995.

[1290] Örn.stofnun/Kr.G.Þorv. 1949, 117.

[1291] Sama heimild.

[1292] Örn.stofnun/Kr.G.Þorv. 1949, 117.

[1293] Birkir Friðbertsson. -Viðtal K.Ó. við hann 8.8.1995.

[1294] Örn.stofnun/Kr.G.Þorv. 1949, 117.

[1295] Uppdr. Suðureyrarhr. eftir Jón Hróbjartsson, gefinn út 1983, eftirpr. af örnefnakorti frá því um 1930.

[1296] Birkir Friðbertsson. -Viðtal K.Ó. við hann 8.8.1995.

[1297] Sama heimild.

[1298] Örn.stofnun/Kr.G.Þorv. 1949, 117. Uppdr. Suðureyrarhr. eftir  Jón Hróbjartsson, gefinn  út 1983, eftirprentun af örnefnakorti frá því um 1930.

[1299] Örn.stofnun/Kr.G.Þorv. 1949, 118.

[1300] Uppdr. Suðureyrarhr. eftir Jón Hróbjartsson, gefinn út 1983, eftirpr. af örnefnakorti frá því um 1930.

[1301] Birkir Friðbertsson. -Viðtal K.Ó. við hann 8.8.1995

[1302] Sama heimild.

[1303] Örn.stofnun/Kr.G.Þorv. 1949, 115 og 117.

[1304] Örn.stofnun/Kr.G.Þorv. 1949, 115 og 117.

[1305] Sama heimild.

[1306] Örn.stofnun/Kr.G.Þorv. 1949, 117-118.

[1307] Birkir Friðbertsson. -Viðtal K.Ó. við hann 8.8.1995.

[1308] Lbs. 22184to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 23.10.1899.

[1309] Uppdr. Suðureyrarhr. eftir Jón Hróbjartsson, gefinn út 1983 , eftirprentun af örn.korti frá því um 1930. Örn.stofnun/Kr.G.Þorv. 1949, 115 og 118. Birkir Friðbertsson. – Viðtal K.Ó. við hann 8.8. 1995.

[1310] Sömu heimildir.

[1311] Birkir Friðbertsson. – Viðtal K.Ó. við hann 8.8. 1995.

[1312] Örn.stofnun/Kr.G.Þorv. 1949, 118.

[1313] Sama heimild.

[1314] Sama heimild. Birkir Friðbertsson. -Viðtal K.Ó. við hann 8.8.1995.

[1315] Örn.stofnun/Kr.G.Þorv. 1949, 118.

[1316] Gunnar M. Magnúss 1977, 322-323.

[1317] Örn.stofnun/Kr.G.Þorv. 1949, 118.

[1318] Örn.stofnun/Kr.G.Þorv. 1949, 118.

[1319] Sama heimild.

[1320] Sama heimild.

[1321] Sama heimild, 118 og 120.

[1322] Sama heimild, 110 og 119.

1000-1900

Guðmundur Justsson

Á fyrri hluta 20. aldar var Guðmundur Justsson, sem fæddist á Gemlufalli haustið 1841,[1] einna kunnastur þeirra sem búið höfðu á Dröngum, a.m.k. utan Dýrafjarðar,

LESA MEIRA »
1000-1900

Krossadalur

Í Krossadal var löngum tvíbýli á fyrri tíð, Hærri- og Lægri- (eða Neðri-) Krossdalur, og voru þetta ystu bæir við Tálknafjörð. Stundum var reyndar þríbýli

LESA MEIRA »
1000-1900

Arnarstapi

Arnarstapi og Krossadalur voru tvær ystu jarðirnar á norðurströnd Tálknafjarðar og hafa nú báðar verið í eyði frá því um 1940.[1] Frá verbúðatóttunum í Arnarstapavík

LESA MEIRA »