Flateyri     

Flateyri     

Eyrin sem þorpið Flateyri stendur á er skammt fyrir utan Sólbakka og vegalengdin þar á milli aðeins hálfur kílómetri eða tæplega það. Enginn veit nú hversu gamalt nafnið Flateyri muni vera en fullvíst má telja að landnámsjörðin Eyri dragi nafn af þessari flötu eyri sem þorpið stendur á. Eyrarbærinn var um aldamótin 1900 nær beint upp af Flateyri en þó aðeins utar og líklegast er að hann hafi staðið þar í hartnær þúsund ár. Í heimildum frá fyrri öldum er allvíða getið um bújörðina Eyri (sjá hér Eyri) en þar mun Flateyri hvergi vera nefnd og ekki fyrr en undir lok 18. aldar þegar sett var upp verslunarútibú á þessari flatlendu eyri fyrir innan og neðan Eyrarbæinn. Vel má þó vera að nafnið Flateyri hafi löngu fyrr verið orðið Önfirðingum munntamt en í rituðum heimildum finnst ekkert því til staðfestingar.

Allur kamburinn utantil á eyrinni er úr brimsorfinni möl og líka eyraroddinn en að innanverðu er jarðvegurinn leirborinn sandur.[1] Eyrin sem þorpið stendur á er um einn kílómetri á lengd og sveigir fremst svolítið inn á við. Næst hlíðarfætinum er hún um 400 metrar á breidd en mjókkar síðan nokkuð og í nánd við eyraroddann er breiddinn um 200 metrar. Innan við Flateyri er ágæt höfn frá náttúrunnar hendi því þangað nær úthafsaldan ekki. Þar heitir Eyrarbót.

Árið 1775 ferðaðist Ólafur Olavius um Vestfirði á vegum stjórnvalda. Honum var ætlað að kynna sér ástand efnahags- og atvinnumála og undirbúa tillögur um úrbætur. Í Ferðabók sinni lýsti Olavius mörgum höfnum á Vestfjörðum og segir þar m.a. um Eyrarbótina:

 

Sagt er að Hollendingar varpi stundum akkerum úti fyrir verstöðinni Kálfeyri á norðurströnd Önundarfjarðar og ennfremur að þeir leggi stundum upp skipum sínum, ef þau hafa laskast, með flóðinu í Eyrarbót sem svo er vel skýlt af eyrinni að enginn öldugangur nær þangað frá hafinu. Þar er hvítur, þéttur sandblandinn leirbotn og dýpið 10-14 faðmar.[2]

 

Eyrin sem Olavius getur um og tekur réttilega fram að skýli Bótinni er að sjálfsögðu Flateyri en athyglisvert er að hann talar bara um eyrina og virðist ekki hafa þekkt neitt nafn á henni. Höfnina á Eyrarbót segir Olavius vera mjög stóra. Hann kveðst hafa heyrt að eitt sinn hafi legið þar 60 fiskiskip en tekur fram að reyndar mætti koma þar fyrir miklu fleiri skipum.[3] Suðvestan og vestsuðvestan vinda taldi Olavius geta verið varasama fyrir skip sem þarna lægju en þó ekki hættulega.[4] Hann lætur þess hins vegar getið að sem vetrarhöfn sé Eyrarbót lakari en Haukadalsbót í Dýrafirði, m.a. vegna ísalaga og sjávarfallastrauma.[5]

Í varðveittum heimildum er hvergi getið um verslun á Flateyri á fyrri öldum og á einokunartímanum, sem stóð frá 1602 til 1787, var Önfirðingum yfirleitt ætlað að versla á Þingeyri en um tíma var þeim skipt á milli verslananna á Þingeyri og Skutulsfjarðareyri þar sem nú er Ísafjarðarkaupstaður (sjá hér Mosvallahreppur, inngangskafli). Ætla má að þrátt fyrir boð og bönn hafi bændur í Önundarfirði einnig verslað við erlenda duggara á 17. og 18. öld og í skýrslu frá árinu 1722 er Önundarfjörður sagður vera einn margra staða sem duggararnir haldi sig á í því skyni að reka þar launverslun.[6]

Skömmu áður en einokunartímanum lauk fór konungsverslunin á Þingeyri að taka við nýjum fiski á Flateyri og var hann verkaður þar á Nýfundnalandsvísu.[7] Sú starfsemi er fyrsti vísirinn að einhverjum atvinnurekstri á Flateyri óviðkomandi búskapnum á Eyri. Árið 1787 var öllum þegnum Danakonungs veit heimild til verslunarreksturs á Íslandi en tilskipun þar að lútandi tók gildi 1. janúar 1788. Hófst þá tímabil hinnar svokölluðu fríhöndlunar sem stóð til ársins 1855 þegar þegnum annarra ríkja var loks gefinn kostur á að eiga viðskipti við Íslendinga og reka hér verslanir. Á árinu 1787 var farið að undirbúa sölu á öllum eignum konungsverslunarinnar á Íslandi, m.a. þeirra sem undirkaupmaðurinn á Þingeyri hafði umsjón með. Einn þeirra sem höfðu hug á að kaupa eignir Þingeyrarverslunar var Ólafur Erlendsson í Ytri-Hjarðardal en hann var þá umboðsmaður konungsjarða í Ísafjarðarsýslu (sjá hér Ytri-Hjarðardalur). Í bréfi sem Ólafur ritaði stiftamtmanni 15. október 1787 kveðst hann m.a. vilja kaupa fiskverkunarplássið á Flateyri, tvö hús, byggð á íslenskan máta, sem konungsverslunin eigi þar ásamt járnvigt og nokkrum tunnum af salti (sjá hér Þingeyri). Torfhúsin tvö, sem þarna eru nefnd, eru fyrstu byggingarnar á Flateyri sem um er kunnugt og má telja líklegt að þetta séu fyrstu húsin sem þar voru reist. Í nýnefndu bréfi Ólafs Erlendssonar er engin nánari grein gerð fyrir þessum húsum, aðeins tekið fram að þau séu byggð á íslenskan máta. Fullvíst má heita að húsin hafi verið byggð í tengslum við saltfiskverkunina og þetta hafi ekki verið íbúðarhús.

Síðasti verslunarstjóri eða undirkaupmaður konungsverslunarinnar á Þingeyri var Henrik Henkel sem hér hefur áður verið sagt frá (sjá hér Þingeyri) og vorið 1788 keypti hann allar helstu eignir Þingeyrarverslunar. Með í þeim kaupum fylgdi fiskverkunarplássið á Flateyri og húsin tvö sem þar stóðu.[8] Þessi fyrrverandi verslunarstjóri konungsverslunarinnar gerðist þá sjálfstæður kaupmaður og rak sína eigin verslun á Þingeyri allt til dauðadags en hann andaðist árið 1817 (sjá hér Þingeyri). Árið 1792 hóf Henrik Henkel verslunarrekstur á Flateyri og setti hér upp útibú frá versluninni á Þingeyri[9]

Fáum árum áður hafði Jochum Amorsen, sem verið hafði verslunarþjónn á Þingeyri, gert tilraun til að hefja verslunarrekstur á Flateyri en var stöðvaður af yfirvöldum.[10] Jochum Amorsen var kvæntur íslenskri konu, sem hét Steinunn Álfsdóttir, og vorið 1789 voru þau enn búsett á Þingeyri. Barn þeirra, Karen, fæddist þar 18. apríl það ár og dó þar einum mánuði síðar.[11] Síðar á því ári mun Jochum Amorsen hins vegar hafa byrjað verslunarrekstur á Flateyri og sest þar að. Að svo hafi verið sést meðal annars á því að árið 1790 var hann kominn með ábúð á annarri hálflendunni á Hvilft[12] (sbr. Hvilft). Sönnun þess að Jochum hafi farið að versla á Flateyri árið 1789 er að finna í elstu prestsþjónustubókinni frá Holti. Þar er frá því greint að 27. september það ár hafi fæðst stúlkan Elísabet og sögð laungetið barn Jóns Snorrasonar við Önundarfjarðarkaupstað og Þorgerðar Aradóttur á Grafargili.[13] Þorgerður var þá á fertugsaldri því fjórum árum síðar var hún vinnukona í Holti og þá sögð 40 ára.[14] Eitt guðfeðgina við skírn hins laungetna barns var Jochum Amorsen.[15] Það eitt að presturinn nefnir Önundarfjarðarkaupstað sýnir með ótvíræðum hætti að verslunarrekstur hefur hafist á Flateyri eigi síðar en 1789. Orð prestsins sýna líka að Jochum, sem var verslunareigandinn, hefur ekki verið eini starfsmaðurinn við þennan rekstur en haft a.m.k. einn mann í sinni þjónustu sumarið 1789, það er að segja Jón Snorrason sem Þorgerður á Grafargili kenndi sitt laungetna barn þá um haustið. Verslunarumsvifin hljóta því þá þegar að hafa verið umtalsverð. Ekki er einfalt að gera sér grein fyrir hver Jón Snorrason, fyrsti óbreytti verslunarþjónninn á Flateyri, muni hafa verið. Hugsanlegt er að hann hafi andast á næstu árum eða flust úr landi en eini maðurinn með þessu nafni sem búsettur var á Vestfjörðum eða í grennd við þann landshluta árið 1801 var Jón Snorrason í Hvallátrum á Breiðafirði sem þá var 33ja ára gamall ókvæntur lausamaður.[16] Vel getur komið til greina að hann hafi verið við verslunarstörf á Flateyri 12 árum fyrr en um það er þó ekkert vitað. Hitt má svo nefna að árið 1801 var barnsmóðir hins fyrrverandi verslunarmanns á Flateyri, Þorgerður Aradóttir, vinnukona hjá Jóna bónda Sigmundssyni á Sæbóli á Ingjaldssandi.[17] Hún var þá gift Gísla Jónssyni,vinnumanni þar, sem var 15 árum yngri en hún, og hjá henni var á Sæbóli dóttir hennar sem áður var nefnd, Elísabet, en heitir reyndar í manntalinu frá 1801 Lysebeth Jónsdóttir og er sögð vera 13 ára gömul[18] en var reyndar einu ári yngri.

Sumarið 1790 hélt Jochum Amorsen uppteknum hætti og verslaði á Flateyri. Að svo hafi verið sést m.a. á orðum Steingríms Jónssonar, síðar biskups, í dagbókaruppkasti hans frá 12. ágúst á því ári. Steingrímur var þá liðlega tvítugur skrifari hjá Hannesi biskupi Finnssyni og fylgdi honum í vísitazíuferð um Vestfirði. Um miðaftan þann 12. ágúst 1790 lögðu þeir af stað sjóleiðis frá Súgandafirði til Önundarfjarðar og segir Steingrímur að áður en farið var að Holti hafi þeir komið í Eyrina til Amorsonar eins handlara.[19] Ummælin sýna að Amorsen hefur þá verið handlari á Flateyri sem Steingrímur nefnir bara Eyrina. Dagbók Steingríms Jónssonar úr Vestfjarðaferðinni sumarið 1790 og ýmislegt úr dagbókaruppkastinu er birt í 34. árgangi Ársrits Sögufélags Ísfirðinga.[20] Þar er Jochum Amorsen nefndur Arnórsson[21] sem er misritun.

Óhætt virðist að slá því föstu að Jochum Amorsen hafi rekið verslun á Flateyri í þrjú ár, 1789, 1790 og 1791, því presturinn í Holti nefnir hann kaupmann haustið 1791.[22] Á þessum árum var ekkert íbúðarhús á Flateyri en ætla má að kaupmaðurinn hafi hróflað hér upp einhverju skýli yfir vörurnar. Hugsanlegt er að Jón Snorrason hafi legið við í tjaldi á kauptíðinni. Sjálfur bjó Jochum Amorsen á Hvilft með fjölskyldu sinni og þar ól kona hans, Steinunn Álfsdóttir, honum dótturina Karen haustið 1790.[23] Á fyrrihluta ársins 1791 hefur Jochum líklega gert sér grein fyrir að í óefni stefndi með verslunarrekstur hans á Flateyri. Hann fluttist með fjölskyldu sína frá Hvilft þá um vorið eða litlu síðar yfir að Dalshúsum í Valþjófsdal því þar áttu þau hjónin heima er Jón sonur þeirra fæddist 7. október hið sama ár.[24] Versluninni hlýtur Jochum þó að hafa haldið gangandi sumarið 1791 því þegar nýnefndur drengur fæddist um haustið segir prestur föðurinn vera kaupmann.[25]

Þetta haust eða veturinn 1791-1792 varð þessi brautryðjandi í verslunarrekstri á Flateyri hins vegar að gefast upp vegna fyrirmæla stjórnvalda eins og hér var áður nefnt og vorið 1792 tók útibúið frá Þingeyrarverslun til starfa í Önundarfjarðarkaupstað. Jochum Amorsen bjó hins vegar áfram í Valþjófsdal um eitthvert skeið því þar var hann enn í Dalshúsum efri árið 1793.[26]

Þegar stjórnvöld bönnuðu Amorsen að reka hér verslun var sú skýring gefin að Flateyri væri hvorki löggiltur verslunarstaður né löggilt úthöfn og á úthöfnum mætti enginn hefja rekstur fastaverslunar nema hann ræki verslun í einhverjum kaupstað eða löggiltum verslunarstað.[27] Yfirvöld létu hins vegar gott heita að Henkel, kaupmaður á Þingeyri, setti upp útibú í Önundarfirði.[28]

Fyrsti útibússtjóri Henkels á Flateyri var Daniel M. Steenbach. Í hreppsbók Mosvallahrepps sést að hann settist að á Flateyri árið 1792[29] og af því má ráða að rekstur útbúsins hafi hafist á því ári.

Daniel Michelsen Steenbach mun hafa ráðist í þjónustu Henriks Henkel á Þingeyri árið 1788, sama ár og Henkel keypti Þingeyrarverslun af Danakonungi. Í aprílmánuði árið 1789 var þessi ungi Norðmaður vottur við barnsskírn á Þingeyri.[30] Sú staðreynd bendir eindregið til þess að hann hafi dvalist á Þingeyri veturinn 1788-1789 því harla ólíklegt verður að telja að nokkurt skip hafi komið frá Danmörku til Þingeyrar fyrir sumarmál árið 1789. Þegar Daniel Steenbach fluttist til Íslands og tók til starfa á Þingeyri var hann kominn fáein ár yfir tvítugt. Haustið 1793 er hann sagður vera 28 ára gamall[31] og mun því hafa fæðst árið 1764 eða 1765. Fæðingarstaður hans var Kóngsberg í Noregi[32] sem er í Buskerudfylki, 60-70 kílómetrum í vest-suðvestur frá Osló.

Þegar Daniel Steenbach settist að á Flateyri árið 1792 var hér engin byggð og hafði aldrei verið svo kunnugt sé. Einhverjar byggingarframkvæmdir hljóta hins vegar að hafa hafist á Flateyri á sama ári og útibúið frá Þingeyrarverslun tók til starfa og má telja líklegt að Norskahúsið, sem var bæði íbúðarhús og verslun,[33] hafi verið reist á því ári. Það stóð að sögn framarlega á eyrinni þar sem síðar var tún.[34] Af teikningu eða uppdrætti frá árinu 1844 má ráða að hús sem virðist vera Norskahúsið hafi staðið rétt vestan við Hafnarstræti og nær beint á móti húsinu sem nú (1995) er númer fjögur við þá götu en þó aðeins ofar (sjá hér bls. 55).

Fyrsta árið sem Daniel Steenbach stjórnaði rekstri verslunarútibúsins á Flateyri var hann einhleypur en þann 10. október haustið 1793 gekk hann að eiga Önnu Magdalene Henkel sem var systir Henriks Henkel, eiganda Þingeyrarverslunar.[35] Þau voru gefin saman á Söndum eða á Þingeyri og var Henkel kaupmaður svaramaður systur sinnar.[36] Þegar prestur skráir giftinguna í bók sína segir hann brúðgumann vera assistent og faktor, 28 ára að aldri en brúðina 27 ára.[37] Í embættisbókum prestanna í Holti í Önundarfirði og á Söndum í Dýrafirði er þessi eiginkona Daniels Steenbach ýmist nefnd Anna Magdalene eða Anna Maline[38] sem líklega er stytting.

Á árunum 1792-1796 var Daniel Steenbach tvímælalaust verslunarstjóri á Flateyri.[39] Þau hjónin munu þá hafa búið í Norskahúsinu og staðfest er að tvö elstu börn þeirra fæddust á Flateyri á árunum 1794 og 1795.[40] Árið 1796 varð hins vegar breyting á því Andreas Steenbach, yngri bróðir Daniels Steenbach (sjá hér Þingeyri), tók þá við verslunarstjórastarfinu á Flateyri en Daniel fór til Þingeyrar. Andreas var þá rétt um tvítugt og í sóknarmannatali frá janúarmánuði árið 1797 er hann sagður vera faktor á Flateyri, 21 árs gamall, forstöndugur og vel að sér.[41]

Aðeins fjórar manneskjur voru þá búsettar á Flateyri en auk faktorsins unga voru það Bríet Eggertsdóttir, vinnukona hans, 28 ára, skikkanleg og sæmilega að sér, Brynjólfur Bjarnason húsmaður, 51 árs, vel skýr í andlegu og sagður koma sér vel, og svo Sigríður Guðmundsdóttir, eiginkona Brynjólfs, 72ja ára, meinlítil og ekki óskýr í andlegu.[42] Þegar hér var komið sögu var Daniel Steenbach, bróðir Andreasar, búsettur á Þingeyri, sem sést m.a. á því að þriðja barn hans var borið þar til skírnar 15. júní 1797 (sjá hér Þingeyri).

Rekstri útibúsins á Flateyri stjórnaði Andreas Steenbach aðeins í örfá ár en tók síðan við starfi verslunarstjóra á Þingeyri og sá mjög lengi um verslunarreksturinn þar (sjá hér Þingeyri). Þegar Andreas fór frá Flateyri kom Daniel bróðir hans hingað aftur og tók á ný við stjórn útibúsins. Svo virðist sem Daniel hafi aftur verið tekinn við stjórn á Flateyri sumarið 1798 því það er hann sem sendir 13. ágúst á því ári frá sér skýrslu um skuldir Önfirðinga við verslunina á Flateyri og vaxtagreiðslur af þessum skuldum.[43] Þaðan í frá stjórnaði Daniel Steenbach verslunarrekstrinum á Flateyri allt til æviloka en hann andaðist 1. desember 1823.[44] Á árunum 1792-1823 var hann því verslunarstjóri á Flateyri í 29 eða 30 ár og á Þingeyri í eitt eða tvö ár meðan Andreas bróðir hans sat við stjórn á Flateyri.

Þann 18. júní 1800 fæddist hér á Flateyri fjórða barn þeirra Daniels Steenbach og eiginkonu hans, Önnu Magdalene, en 20 dögum síðar lauk ævi faktorsfrúarinnar því hún andaðist þann 8. júlí.[45] Þegar prestur færir andlát hennar til bókar nefnir hann hana Anne Maline[46] svo líklegt má telja að svo hafi hún verið nefnd í daglegu tali. Séra Jón Ásgeirsson, sem þá var prestur í Holti, segir líka að hún hafi verið norsk frá Kóngsberg.[47] Sé þetta rétt hafa þau hjónin bæði verið frá Kóngsbergi því þar var Daniel Steenbach fæddur eins og hér hefur áður verið nefnt.

Skömmu eftir konumissinn fékk Daniel Steenbach sér ráðskonu sem líka var norsk og hét Anne Olavsdatter ef marka má allsherjarmanntalið frá 1. febrúar 1801 en í sumum öðrum heimildum er þessi nýja Anna sögð vera Oledatter.[48] Á manntalinu frá 1801 er hún sögð vera bústýra hjá faktornum á Flateyri og 20. september 1802 voru þau gefin saman í hjónaband.[49] Við giftingu þeirra færir prestur til bókar að brúðurin hafi lagt fram skriflegt samþykki móður sinnar fyrir því að hún mætti giftast faktornum.[50] Þessi seinni eiginkona Daniels Steenbach var fædd í Nordenhauge í Noregi árið 1776 eða því sem næst[51] og var því liðlega tíu árum yngri en eiginmaðurinn. Með Önnu Oledatter eignaðist Daniel Steenbach þrjú börn[52] svo alls urðu börn hans sjö með báðum konunum. Af þeim munu fjögur hafa komist upp, tvö af fyrra hjónabandi og tvö af hinu síðara. Sonur Daniels Steenbach af fyrra hjónabandi var Christian M. Steenbach sem fæddist á Flateyri 18. júní árið 1800 og varð kaupmaður á Patreksfirði (sjá hér bls. 17-18) en börn Daníels með seinni konunni voru Ole Steenbach, sem fæddist árið 1803 og drukknaði í hákarlalegu frá Stykkishólmi árið 1831,[53] og Anne Magdalene Steenbach, fædd 1808.[54] Hún giftist Árna Thorlacius, kaupmanni í Stykkishólmi,[55] og hjá þeim var móðir hennar, faktorsekkjan frá Flateyri, búsett árið 1845.[56]

Á árunum 1792-1796 og 1798-1823 var heimili Daniels Steenbach jafnan það eina á Flateyri[57] og Norskahúsið var því eina íbúðarhúsið sem hér stóð allan eða nær allan þann tíma.

 

Á Flateyrarkaupstað fríhöndlarinn

frægur situr,

Daniel Steinbak stilltur, vitur.

 

– segir Gunnlaugur Arason í rímu sem hann orti um bændur í Önundarfirði árið 1815.[58] Frá því um 1800 og allt til 1823 var Daniel Steenbach með ábúð á annarri hálflendunni á Hvilft eins og hér hefur áður verið gerð grein fyrir. Hann mun þó aldrei hafa átt heima á Hvilft (sjá hér Hvilft) en ætla má að hann hafi nytjað þann jarðarpart sem hann hafði umráð yfir. Upplýsingar um fjölda búfjár hjá verslunarstjóranum liggja ekki á lausu en þess má geta að framan af árum var heimili hans heldur fámennt en þar fjölgaði nokkuð með vaxandi umsvifum þegar verslunin hóf skútuútgerð frá Flateyri árið 1815. Sem dæmi um fjölda heimilisfólks má nefna að árið 1801 voru heimilismennirnir hjá Steenbach ekki nema sjö en árið 1816 voru þeir orðnir fjórtán eða nákvæmlega tvöfalt fleiri.[59]

Í byrjun mun Daniel Steenbach hafa verið eini fastráðni starfsmaðurinn við verslunarútibúið á Flateyri en árið 1801 var hann búinn að fá aðstoðarmann, Jón Jónsson sem var ungur og einhleypur og bjó á heimili faktorsins.[60] Jón þessi Jónsson var fæddur árið 1776 eða því sem næst og var verslunarþjónn á Flateyri frá því um 1800 og til 1812[61] eða máske lengur. Sumarið 1807 kenndi Halldóra Sveinsdóttir á Kaldá honum barn sem reyndar fæddist andvana.[62]

Hér var þess áður getið að saltfiskverkun á vegum Þingeyrarverslunar hefði hafist á Flateyri nokkru áður en verslunareinokuninni var aflétt og þó nokkrum árum fyrr en verslunarútibúið tók hér til starfa. Líklegt er að fiskunum sem verslunin keypti til verkunar hafi fjölgað á fyrstu starfsárum útibúsins og saltfiskverkunin tekið nýjan kipp þegar farið var að gera út skúturnar sem sagt er frá hér litlu aftar. Henrik Henkel, sem um aldamótin 1800 var eigandi verslananna á Þingeyri og Flateyri, var öflugur og framsækinn kaupmaður. Til marks um það má m.a. nefna að eitthvað af saltfiskinum frá Flateyri og Þingeyri sendi hann beint til Spánar sem þá var fátítt (sjá hér Þingeyri) og batt því ekki öll sín viðskipti við Kaupmannahöfn. Sem verslunarstjóri bar Daniel Steenbach ábyrgð á saltfiskverkuninni á Flateyri en hana varð að vanda ef vel átti að fara. Í hlut stjórnanda útibúsins kom líka að taka við öllum innlendum afurðum sem verslunin keypti og að afgreiða erlendu vörurnar til bænda og búaliðs. Svo varð hann líka að annast bókhaldið og helst að sjá til þess að enginn steypti sér í meiri skuldir en hann væri borgunarmaður fyrir.

Hér hefur áður verið minnst á skrána sem Daniel Steenbach tók saman sumarið 1798 og sýnir skuldastöðu hinna ýmsu viðskiptamanna verslunarútibúsins á Flateyri við árslok 1794, 1795, 1796 og 1797.[63] Skráin sem birt er í bæklingi sem Henrik Henkel lét prenta árið 1799 sýnir líka hvaða vexti hver og einn þurfti að greiða af þessum verslunarskuldum.[64] Á skránni er að finna nöfn allra þeirra sem eitthvað skulduðu við ein eða fleiri áramót á þessu fjögurra ára tímabili en þeir voru samtals 62.[65] Í hópnum eru 47 bændur og 2 prestar úr Mosvallahreppi og svo 13 bændur af Ingjaldssandi. Á þessum skuldalista er því að finna nöfn meginþorra bænda í Önundarfirði á árunum 1794-1797 en líklega ekki alveg allra því  árið 1801 bjó 61 bóndi í Mosvallahreppi og 17 bændaheimili voru þá á Ingjaldssandi.[66] Tölurnar gætu bent til þess að um fimmtungur bænda í Mosvallahreppi hefði aldrei skuldað neitt um áramót á þessu tímabili og má gera ráð fyrir að þar sé einkum um að ræða fátækustu bændurna sem ekkert lánstraust höfðu.

Skuldaskráin sýnir að við lok ársins 1794 námu heildarskuldir viðskiptamanna útibúsins 203 ríkisdölum og 38 skildingum.[67] Þær hækkuðu síðan ár frá ári. Þann 31.12.1795 voru þær komnar upp í 213 ríkisdali og 35 skildinga, ári síðar námu þær 271 ríkisdal og 11 skildingum og fyrir lok ársins 1797 fóru þessar verslunarskuldir Önfirðinga upp í 358 ríkisdali og 66 skildinga.[68] Fjöldi skuldaranna var líka dálítið breytilegur frá einu ári til annars. Fyrsta árið sem skráin nær yfir voru þeir 38, svo 49, þá 54 og 31.12.1797 voru þeir 52.[69] Á því fjögurra ára tímabili sem hér um ræðir var meðalskuld á hvern skuldugan viðskiptamann ætíð á bilinu 4-7 ríkisdalir við áramót.[70] Hæst var þetta meðaltal 31.12.1797, 6 ríkisdalir og 86 skildingar en sé prestunum tveimur sleppt reynist meðalskuldin á hvern bónda hafa verið 6 ríkisdalir og 36 skildingar.[71] Á þessum tíma var hver ríkisdalur virtur á 24 álnir ef um spesíumynt var að ræða en á 21 og 1/3 úr alin ef borgað var með kúrantmynt sem var verðminni.[72] Sé miðað við kúrantmynt, sem þá var almennt notuð í viðskiptum við kaupmenn,[73] hafa því verið 5 ríkisdalir og 60 skildinga í kýrverðinu svo nærri lætur að við lok ársins 1797 hafi meðalskuld á hvern bónda numið einu kýrverði og tæpum fjórðungi þess að auk. Sé smæð búanna á þessum tíma höfð í huga var vissulega ástæða til að hafa áhyggjur af svo háum verslunarskuldum.

Skuldaskráin sem hér er byggt á sýnir að séra Jón Ásgeirsson í Holti var sá sem skuldaði næst mest hjá verslunarútibúinu á Flateyri í lok ársins 1797 en skuld hans þar var þá 25 ríkisdalir og 30 skildingar.[74] Séra Jón var þá nýlega fluttur frá Söndum í Dýrafirði að Holti og sé litið á aðra skuldaskrá, sem sýnir skuldir viðskiptamanna á Þingeyri, kemur í ljós að þar skuldaði hann 112 ríkisdali og 52 skildinga á sama tíma.[75] Verslunarskuldir prófastsins í Holti á Þingeyri og Flateyri námu því samanlagt 137 ríkisdölum og 82 skildingum eða álíka fjárhæð og allar verslunarskuldir 22ja miðlungsbænda í Önundarfirði. Um það hvort prófasturinn hafi verið borgunarmaður fyrir öllum þessum skuldum er best að segja sem fæst en þess má geta að heildarúttekt hans hjá Þingeyrarverslun árið 1796, síðasta heila árið sem hann var á Söndum, nam 114 ríkisdölum og 74 skildingum.[76] Á öðrum stað í þessu riti er sagt frá málshöfðun Henkels kaupmanns á hendur séra Jóni Ásgeirssyni (sjá hér Þingeyri) en í þeim sviptingum reyndi hann m.a. að notfæra sér skuldastöðu prófastsins. Að lokum skal tekið fram að séra Jón Ásgeirsson var eini Önfirðingurinn sem skuldaði bæði á Flateyri og á Þingeyri í lok ársins 1797.[77] Allir hinir voru aðeins í skuld hjá útibúinu á Flateyri.

Úr hópi bændanna í Önundarfirði var Árni Bárðarson í Dalshúsum sá sem mest skuldaði verslunarútibúinu á Flateyri í árslok 1797 en hann var þá talinn skulda 28 ríkisdali.[78] Aðrir sem náðu að skulda meira en 12 ríkisdali hjá útibúinu við einhver áramót á árunum 1794-1797 voru: Ólafur Magnússon á Eyri, Guðmundur Arason á Kirkjubóli í Korpudal, Sigmundur Erlingsson í Tungu í Firði, Sveinn Jónsson á Hesti og séra Guðmundur Þorvaldsson, aðstoðarprestur í Hjarðardal.[79] Enginn þessara fimm manna fór þó með áramótaskuld sína upp fyrir 15 ríkisdali nema Ólafur Magnússon á Eyri en hann skuldaði 33 ríkisdali og 82 skildinga við lok ársins 1794.[80] Þremur árum síðar hafði hann greitt skuldina upp.[81]

Árið 1815 hóf Henrik kaupmaður Henkel þilskipaútgerð frá Flateyri er hann keypti skonnortuskipið Charlottu og sendi til veiða frá Flateyri.[82] Fullvíst má telja að útibússtjóri Henkels á Flateyri, Daniel Steenbach, hafi stjórnað útgerðinni frá fyrstu byrjun. Sjálfur mun Henkel hins vegar hafa ráðið því að skonnorturnar tvær, sem hann keypti á árunum 1815 og 1816, voru báðar gerðar út frá Flateyri en ekki frá Þingeyri. Skonnortan Charlotta var 14 stórlestir,[83] það er 36,4 smálestir[84] og mun hafa verið keypt frá Danmörku. Þegar Charlotta var keypt til Flateyrar höfðu aðeins þrjú þilskip verið gerð út frá Vestfjörðum[85] ef frá er talin skúta sem sagt er að séra Páll Björnsson hafi gert út frá Selárdal í Arnarfirði á 17. öld. Fyrstu tvö þilskip Vestfirðinga á síðari tímum keypti Ólafur Thorlacius, kaupmaður á Bíldudal, árið 1806 og voru þau gerð út frá Patreksfirði.[86] Þriðja skipið eignaðist Guðmundur Scheving, kaupmaður í Flatey á Breiðafirði, árið 1807 og var það gert út frá Tálknafirði uns það týndist í hafi árið 1813.[87] Fjórða þilskip Vestfirðinga var svo skonnortan Charlotta sem gerð var út frá Flateyri[88] og hér var áður nefnd en henni gaf Henkel kaupmaður nafn konu sinnar, Charlottu Amalíu Ísfjörð, sem frá er sagt á öðrum stað í þessu riti (sjá hér Þingeyri).

Sem skipstjóra á skonnortuna réði Henkel kaupmaður ungan mann norðan úr Eyjafirði, Símon Sigurðsson að nafni, er tekið hafði stýrimannapróf í Danmörku (sjá hér Dynjandi). Símon varð seinna bóndi á Dynjanda í Arnarfirði og gerði þar garðinn frægan. Hann er fyrsti Íslendingurinn, búsettur hérlendis, sem vitað er til að stýrt hafi skipi milli landa á síðari öldum.[89] Með fullri vissu er vitað að Símon fór á skonnortu til Danmerkur og heim aftur haustið 1818[90] og nær fullvíst má telja að skipið sem hann þá lét skríða yfir Íslandshaf hafi verið Charlotta frá Flateyri því á henni var hann skipstjóri á þessum árum. Símon fór líka til Kaupmannahafnar árið 1816 en í heimild sem það vottar verður ekki séð hvort hann tók sér þá far með kaupskipi eða stýrði Charlottu yfir hafið.[91]

Í riti sínu Skútuöldinni segir Gils Guðmundsson að Símon hafi verið eitthvað í siglingum á árunum 1810-1815[92] en óljóst er á hvaða heimild hann byggir þá staðhæfingu. Sé þetta hins vegar rétt verður að telja líklegast að Henkel kaupmaður hafi ráðið Símon í sína þjónustu úti í Kaupmannahöfn sama ár og hann festi kaup á skonnortunni, það er 1815, og Símon hafi því staðið við stjórn þegar þilskipið Charlotta tók stefnuna inn á Önundarfjörð að lokinni sinni fyrstu siglingu yfir hafið. Tvímælalaust er að 1. desember 1816 var herra Símon Sigurðsson skipherra búsettur á heimili Daniels Steenbach, verslunarstjóra á Flateyri[93] en þá var liðið nokkuð á annað ár frá því Charlotta komst í eigu Henkels og farið var að gera hana út héðan frá Flateyri. Í ritgerð sinni frá árinu 1832 um þilskipaveiðar Vestfirðinga segir Guðmundur Scheving að Símon hafi verið skipstjóri á Charlottu og getur þess að árið 1822 hafi fengist 108 tunnur af hákarlalifur og 50 skippund af saltfiski úr aflanum sem þessi frægðarmaður flutti að landi.[94] Er því ljóst að skipið hefur verið gert út bæði á hákarlaveiðar og þorskveiðar. Hjá Guðmundi Scheving fær Símon þá einkunn að hann sé listamaður og fjörmaður mikill.[95] Á Flateyri var Símon búsettur allt til ársins 1823 (sjá hér Dynjandi). Hann hefur því efalítið verið skipstjóri á Charlottu frá 1815 til 1823 og máske lengur því í ritgerð sinni frá 1832 nefnir Guðmundur Scheving engan annan skipstjóra á þessu skipi. Árið 1823 gekk skipherrann á Charlottu í hjónaband og fluttist þá frá Flateyri að Dynjanda í Arnarfirði og bjó þar í 35 ár. Nánar er sagt frá Símoni Sigurðssyni á öðrum stað í þessu riti(sjá hér Dynjandi).

Árið 1816 keypti Henkel kaupmaður aðra skonnortu og lét einnig gera hana út frá Flateyri.[96] Þetta skip hét Henrétta og var 15 stórlestir,[97]það er 39 smálestir. Skipstjóri á Henréttu var, að sögn Guðmundar Scheving, Sigurður Andrésson.[98] Í manntalinu frá 1. desember 1816 er maður að nafni Sigurður Andrésson sagður vera vinnumaður á heimili verslunarstjórans á Flateyri, 21 árs gamall, en hann fæddist á Mosvöllum 1. janúar 1795.[99] Gera má ráð fyrir að þetta sé sá Sigurður Andrésson sem Guðmundur Scheving segir hafa verið skipstjóra á Henréttu. Vegna hins unga aldurs Sigurðar mætti þó láta sér detta í hug að hann hafi ekki tekið við stjórn á skonnortunni strax og útgerð hennar frá Flateyri hófst. Hugsanlegt er að danskur eða norskur skipstjóri hafi stýrt henni til veiða í byrjun. Um það er þó ekkert vitað og óljóst er líka hvar Sigurður aflaði sér þekkingar í siglingafræði. Vera má að Símon hafi tekið hann í læri. Sigurður Andrésson var skipherra á Flateyri 1823 og 1829 en fluttist seinna til Ísafjarðar og þar var hann í febrúar 1835, ókvæntur fiskijaktarskippar, fertugur að aldri.[100]

Þilskipin Charlotta og Henrétta voru fyrstu skonnorturnar í flota Vestfirðinga því hin skipin þrjú sem keypt voru fyrir 1815 og gerð út frá Patreksfirði og Tálknafirði (sjá hér bls.10) voru ýmist jaktir eða slúpskip.[101] Munurinn á jakt og skonnortu var m.a. sá að á jöktum var aðeins eitt mastur og eins á slúpskipum en á skonnortum voru þau tvö og aftursiglan venjulega mun hærri en sú fremri.[102]

Henrik Henkel, sem fyrstur manna hóf þilskipaútgerð frá Flateyri árið 1815, átti þá skammt eftir ólifað því hann andaðist árið 1817 og var þá kominn hátt á sextugsaldur (sjá hér Þingeyri). Þegar Henkel andaðist var eiginkona hans, Charlotta Ísfjörð, enn innan við fertugt og næstu tvö árin taldist hún vera eigandi Þingeyrarverslunar og útibúsins á Flateyri svo og þilskipanna tveggja sem Henkel hafði átt á Flateyri og hafskipsins Tykkebay sem hann hafði í vöru- og afurðaflutningum milli landa (sjá hér Þingeyri). Allar þessar eignir seldi hún 1. júní 1819. Þeir sem keyptu voru Andreas Steenbach, verslunarstjóri á Þingeyri, Daniel Steenbach, verslunarstjóri á Flateyri, Christian M. Steenbach, sem var sonur Daniels Steenbach, og Friðrik J. Svendsen en hann var hálfbróðir frúarinnar sem seldi þeim allar þessar eignir (sjá hér Þingeyri).

Á Þingeyri stóð Andreas Steenbach fyrir verslunarrekstrinum þar til hann andaðist árið 1824 en þar tók sonur hans, Niels M. Steenbach, við einu eða tveimur árum síðar (sjá hér Þingeyri). Á Flateyri virðist Daniel Steenbach hafa haldið um stjórntaumana í daglegum rekstri eins og áður allt til dauðadags en hann andaðist 1. desember 1823.[103] Orðin sem séra Ásgeir, prófastur í Holti, ritaði í embættisbók sína við andlát verslunarstjórans benda að minnsta kosti til að svo hafi verið því þar er Daniel Steenbach nefndur faktor en ekki fyrrverandi faktor.[104] Á þessum árum, 1819-1823, virðist Friðrik J. Svendsen aðeins hafa verið með annan fótinn á Flateyri eins og sjá má á því sem um hann er ritað hér litlu aftar. Líklegast er að hann hafi dvalist í Kaupmannahöfn á veturna og aðeins komið til Flateyrar á sumrin meðan Daniel Steenbach var á lífi. Fjórði kaupandinn, Christian M. Steenbach, sem var sonur Daniels, mun hafa lagt föður sínum lið á hans síðustu árum. Hann dvaldist eitthvað í Kaupmannahöfn á unglingsárum og fluttist þaðan til Flateyrar árið 1820.[105] Tveimur árum síðar var hann vottur við barnsskírn í Holti og er þá nefndur kaupmaður frá Flateyri.[106] Hann var þá 22ja ára og ekki nema 19 ára þegar hann, ásamt föður sínum og tveimur öðrum, réðst í að kaupa verslanirnar á Þingeyri og Flateyri árið 1819. Að föður sínum látnum vék Christian M. Steenbach hins vegar burt úr Önundarfirði og gerðist þá þegar kaupmaður á Patreksfirði (sjá hér Þingeyri). Friðrik J. Svendsen tók þá einn við bæði verslun og útgerð á Flateyri. Óljóst er hvort fjórmenningarnir, sem stóðu sameiginlega að kaupum á verslununum á Þingeyri og Flateyri árið 1819, skiptu strax hinum keyptu eignum á milli sín eða hvort þeir voru með sameiginlegan rekstur um skeið. Tvímælalaust virðist þó að eftir lát bræðranna Daniels og Andreasar Steenbach á árunum 1823 og 1824 hafi alls ekki verið um samrekstur að ræða og þá eða fyrr hljóta eignaskipti að hafa farið fram.

Við andlát Daniels Steenbach árið 1823 urðu tímamót á Flateyri því hann hafði þá stjórnað verslunarrekstrinum þar í 25 ár, án þess nokkurt hlé yrði á, og áður í 4 ár, frá 1792 til 1796 (sjá hér bls. 5-6), svo faktorsár hans á Flateyri urðu samtals 29 áður en lauk. Þilskipaútgerðinni mun hann einnig hafa stjórnað frá upphafi hennar árið 1815 og allt þar til þrek hans þraut. Í skránni yfir þá sem önduðust í Holtsprestakalli árið 1823 segir Ásgeir Jónsson, prófastur í Holti, að Daniel Steenbach hafi verið  faktor í Önundarfirði í 35 ár[107] sem fær þó engan veginn staðist en hins vegar lætur nærri að til samans hafi hann verið við verslunarstörf á Þingeyri og Flateyri í allan þann árafjölda, þ.e. frá 1788 til 1823 (sjá hér bls. 5-6).

Ebenezer Þorsteinsson sem varð sýslumaður í Ísafjarðarsýslu árið 1810 fór þá að búa í Ytri-Hjarðardal í Önundarfirði og átti þar heima síðustu 13 árin sem Daniel Steenbach lifði (sjá hér Ytri-Hjarðardalur). Þeir hljóta því að hafa verið  allvel kunnugir hvor öðrum. Í bréfi sem Ebenezer sýslumaður ritaði Bjarna Þorsteinssyni, amtmanni á Stapa, vorið 1824 segir hann að hinn látni verslunarstjóri á Flateyri hafi verið mikið vænn maður og munstur í mörgu.[108] Um aldamótin 1900 mundu fáir eftir Daniel Steenbach en í Önundarfirði lá það orð á að bæði hann og Andreas bróðir hans á Þingeyri hefðu verið prúðmenni og notið almennra vinsælda.[109] Svo virðist sem ekkja Daniels Steenbach, Anna Oledatter, hafi verið búsett á Flateyri í nokkur ár að honum látnum (sjá hér bls. 35-36) og hefur þá að líkindum búið áfram í Norskahúsinu. Ætla má að Friðrik Svendsen hafi verið með sína verslun í því húsi og sterkar líkur benda til þess að á árunum 1845-1849 hafi það enn verið notað til íbúðar (sjá hér bls. 55-56).

Þann 31. maí árið 1823 var Flateyri löggilt sem verslunarstaður[110] en þá hafði útibú frá Þingeyrarverslun verið starfrækt hér í meira en þrjá áratugi. Frá árinu 1823 mun verslunin á Flateyri hafa verið rekin sem sjálfstætt fyrirtæki án beinna tengsla við Þingeyrarverslun en löggilding Flateyrar sem verslunarstaðar var forsenda þess að svo gæti orðið. Sama ár og löggildingin náði fram að ganga andaðist Daniel Steenbach eins og hér hefur áður verið nefnt. Friðrik J. Svendsen sem keypt hafði verslanirnar á Þingeyri og Flateyri í félagi við Steenbachbræður árið 1819 tók þá að fullu við stjórn verslunarreksturins og þilskipaútgerðarinnar á Flateyri og stýrði þeim rekstri með myndarbrag í röskan áratug. Svendsen var stórhuga og umsvifagjarn framfaramaður sem beitti sér fyrir margvíslegum nýjungum en missti heilsuna á miðjum aldri og varð þá lítið úr flestu því sem hann hafði fengist við. Engu að síður er saga hans öll hin merkilegasta.

Friðrik Jónsson Svendsen fæddist á Eskifirði 25. apríl 1788,[111] sonur hjónanna Jóns Sveinssonar, sýslumanns í Suður-Múlasýslu, og konu hans, Soffíu Erlendsdótur.[112] Móðir Friðriks var dóttir Erlends Ólafssonar, sýslumanns á Hóli í Bolungavík, og danskrar konu hans, Birgittu Andresen Kvist.[113] Faðir Friðriks, Jón Sveinsson, sýslumaður á Eskifirði, var aftur á móti sonur Sveins Sölvasonar lögmanns á Munkaþverá í Eyjafirði.[114] Jón sýslumaður var seinni eiginmaður Soffíu Erlendsdóttur frá Hóli en hún hafði áður verið gift Þorláki Magnússyni er nefndi sig Þorlák Ísfjörð.[115] Eins og Soffía var Þorlákur Bolvíkingur að uppruna.[116] Þrítugur að aldri varð hann sýslumaður í Suður-Múlasýslu árið 1778 og settist þá að á Eskifirði þar sem hann lést þremur árum síðar.[117] Eftirmaður hans í sýslumannsembættinu varð Jón Sveinsson sem giftist ekkju forvera síns og sonur þeirra var Friðrik Svendsen. Börn Soffíu Erlendsdóttur af fyrra hjónabandi hennar og hálfsystkini Friðriks Svendsen voru þau Kjartan og Charlotta Ísfjörð.[118] Kjartan Ísfjörð var um skeið umsvifamikill fjármálamaður í Kaupmannahöfn og hóf fyrstur Íslendinga verslunarrekstur á Eskifirði[119] en Charlotta giftist Henrik Henkel, eiganda Þingeyrarverslunar, og varð að honum látnum herforingjafrú í Danmörku (sjá hér Þingeyri). Alsystir Friðriks J. Svendsen var svo Málfríður sem giftist fyrst verslunarstjóra á Eskifirði en fluttist vestur í Önundarfjörð á vegum bróður sins, þegar hún var orðin ekkja, og giftist þar Niels Steenbach sem lengi var kaupmaður og síðar verslunarstjóri á Þingeyri og um skeið verslunarstjóri á Flateyri (sjá hér bls. 43-47). Af þessum fjórum dótturbörnum Erlends Ólafssonar, sýslumanns á Hóli í Bolungavík, tengdust því þrjú verslunarrekstrinum á Flateyri og Þingeyri með beinum hætti þó að öll væru þau fædd og/eða alin upp austur á Eskifirði.

Þegar Friðrik Svendsen var 11 ára gamall missti hann föður sinn og tveimur árum síðar var dreng þennan ekki lengur að finna á heimili móður hans í Eskifirði.[120] Á unglingsárum mun hann hafa dvalist langdvölum í Danmörku hjá hálfbróður sínum, grósseranum Kjartani Ísfjörð sem hér var áður nefndur.[121] Þar ytra vann hinn ungi Svendsen við verslunarstörf og náði að mennta sig á því sviði.[122] Um tvítugsaldur var hann kominn til starfa hjá mági sínum, Henrik Henkel Þingeyrarkaupmanni, og vel má vera að þau systkinin, Kjartan Ísfjörð og Charlotta, sem var eiginkona Henkels, hafi annast uppeldi þessa föðurlausa hálfbróður síns í sameiningu á unglingsárum hans.

Á Þingeyri verður fyrst vart við Friðrik Svendsen árið 1808 en 5. desember á því ári var hann skírnarvottur þegar nýfædd dóttir faktorshjónanna þar var borin til skírnar.[123] Í febrúarmánuði árið 1810 var hann vottur við hjónavígslu á Þingeyri og skírnarvottur í annað sinn á sama stað 13. maí 1812.[124] Prestsþjónustubókin frá Söndum í Dýrafirði sýnir því svo ekki verður um villst að á árunum 1808-1812 hefur Friðrik Svendsen verið verslunarmaður á Þingeyri enda nefndur assistent af Sandapresti.[125] Dagsetningarnar sem hér voru nefndar sýna líka að þessi ungi verslunarmaður hefur dvalist á Þingeyri árið um kring á þessu skeiði. Þegar hér var komið sögu sátu systir hans og mágur, sem voru eigendur Þingeyrarverslunar, hins vegar jafnan í Kaupmannahöfn á veturna (sjá hér Þingeyri) en daglegum rekstri á Þingeyri var þá stjórnað af Andreas Steenbach. Vorið 1808 varð Friðrik Svendsen tvítugur og á því ári er hann sannanlega kominn til starfa á Þingeyri en líklegt má telja að hann hafi hafið þar störf árið 1805 því í ritgerð sinni frá árinu 1831 kveðst hann hafa 26 ára reynslu af saltfiskverkun.[126] Eftir 1812 finnst nafn hans ekki í prestsþjónustubókinni frá Söndum en vera má að hann hafi engu að síður átt heima á Þingeyri fyrstu árin þar á eftir. Fullvíst er þó talið að á árunum 1813-1820 hafi Svendsen dvalist langdvölum í Danmörku og verið búsettur þar um lengri eða skemmri tíma.[127] Á þessum árum kvæntist hann danskri prestsdóttur sem hét Jakobine Susanne Lovise Köbke.[128] Árið 1819 var Friðrik Svendsen orðinn liðlega þrítugur og á því ári réðst hann í að kaupa verslanirnar á Þingeyri og Flateyri í félagi við verslunarstjórana þar, þá Andreas Steenbach á Þingeyri og Daniel Steenbach á Flateyri. Fjórði maðurinn í þeim félagsskap var Christian M. Steenbach, tæplega tvítugur sonur verslunarstjórans á Flateyri. Hér hefur áður verið greint frá þessum kaupum (sjá hér bls. 12) en seljandinn var
Charlotta Ísfjörð, hálfsystir Friðriks Svendsen. Hún var þá orðin ekkja því eiginmaður hennar, Henrik Henkel, sem lengi hafði átt þessar verslanir, féll í valinn tveimur árum áður en nýnefndar eignir voru seldar.

Í prestsþjónustubókinni frá Holti er frá því greint að Friðrik Svendsen og fjölskylda hans hafi flust frá Kaupmannahöfn til Flateyrar árið 1820.[129] Hingað munu þau hafa komið um vorið eða snemma sumars því skuldabréf sem Svendsen skrifaði undir er dagsett á Önundefiords Handelsted 24. júní 1820.[130] Svendsen og kona hans höfðu reyndar verið hér sumarið áður því dóttir þeirra, Juliane Nicoline, fæddist á Flateyri 9. ágúst 1819.[131] Hin danska eiginkona Svendsens og ungur sonur þeirra komu með honum til Flateyrar vorið 1820 svo og systir frúarinnar og verðandi eiginmaður hennar, Christian M. Steenbach,[132] en eins og Svendsen var hann einn fjórmenninganna sem keypt höfðu verslanirnar á Þingeyri og Flateyri. Hin danska jómfrú, P.D.Ch. Kiöbke, og Christian M. Steenbach gengu í hjónaband tveimur árum síðar og voru þá gefin saman í Holti.[133] Auk þeirra sem hér hafa nú verið talin upp komu með Svendsen frá Kaupmannahöfn þeir Jón Ólafsson skipherra, sagður 22ja ára, og Jón Sveinsson Vídalín gartner, 27 ára.[134] Þetta var mikið lið og líklegt til að leiða inn nýja tíma á Flateyri þar sem hinir fáu íbúar bjuggu allir í Norskahúsinu, bústað Daniels Steenbach verslunarstjóra.

Jón Ólafsson er hér var nefndur fæddist í Múla í Þorskafirði 22.10.1791[135] og var því sex árum eldri en presturinn í Holti skráði við komu hans til Flateyrar. Jón Ólafsson var búsettur á Flateyri eða annars staðar í Önundarfirði frá 1820 til 1824[136] og er titlaður skipherra í hreppsbók Mosvallahrepps árið 1823.[137] Mjög líklegt má telja að Jón hafi verið skipstjóri á Patrioten, jaktskipi sem Friðrik Svendsen keypti árið 1821 og seldi 1824 (sjá hér bls.19). Sama ár og skip þetta var selt til Flateyjar á Breiðafirði fluttist nýnefndur skipstjórnarmaður til Patreksfjarðar.[138] Hann dó á Fossi í Suðurfjörðum Arnarfjarðar 20. júní 1860.[139]

Jón Vídalín Sveinsson, sem einnig kom með Friðrik Svendsen til Flateyrar vorið 1820, var nefndur gartner og mun því hafa lært eitthvað í garðyrkju er hann dvaldist utanlands. Jón fæddist vorið 1787 og var sonur séra Sveins Jónssonar, sem þá var aðstoðarprestur á Stað í Steingrímsfirði, og konu hans, Guðrúnar Sumarliðadóttur frá Víðidalsá í Steingrímsfirði.[140] Vídalínsnafnið sem hann tók upp mun hafa verið dregið af bæjarnafninu Víðidalsá og gefur ekki til kynna ættartengsl við hina eldri Vídalína. Á Flateyri kom Friðrik Svendsen upp kál- og kartöflugörðum[141] og má ætla að Jón Vídalín gartner hafi liðsinnt honum við að koma garðyrkjunni af stað. Árið 1822 fór garðyrkjumaðurinn að búa á Þórustöðum í Önundarfirði en fluttist þaðan að Hrauni á Ingjaldssandi vorið 1824.[142] Þá var eitt ár liðið frá því hann kvæntist Guðrúnu Tómasdóttur frá Hrauni.[143] Jón gartner og Guðrún kona hans bjuggu á Horni í Mosdal í Arnarfirði frá 1826 til 1831. Hann var umboðsmaður konungsjarða í Ísafjarðarsýslu frá 1823 til dauðadags (sjá hér Horn í Mosdal) en ævi sinni lauk þessi ræktunarmaður 25. janúar 1837 og átti þá heima í Reykjarfirði í Suðurfjörðum Arnarfjarðar.[144] Sonur Jóns Vídalín Sveinssonar og Guðrúnar konu hans var Arngrímur Vídalín Jónsson sem lengi var bóndi og skútuskipstjóri í Ytri-Hjarðardal (sjá hér Ytri-Hjarðardalur).

Christian M. Steenbach, sem kom með Svendsen frá Kaupmannahöfn, var sonur Daniels Steenbach eins og hér hefur áður verið nefnt og svo virðist sem kaupendurnir fjórir hafi skipt þannig með sér verkum að Andreas Steenbach sæi um verslunina á Þingeyri eins og hann hafði lengi gert en hinir þrír einbeittu sér að rekstrinum á Flateyri þar sem umsvifin voru meiri vegna skútuútgerðarinnar. Til þessa bendir að minnsta kosti sú staðreynd að auk Daniels Steenbach voru bæði Christian M. Steenbach og Friðrik Svendsen viðloðandi eða búsettir á Flateyri á árunum 1820-1823. Um nánari verkaskiptingu þessara félaga á því skeiði liggja hins vegar engar upplýsingar á lausu. Vel má vera að Daniel Steenbach hafi verið  farinn að bila á heilsu þegar Christian sonur hans og Friðrik Svendsen tóku til starfa á Flateyri árið 1820 en heilsulaus hefur Daniel þó varla verið því í hreppsbók Mosvallahrepps heldur hann velli allt til dauðadags árið 1823.[145] Í þeirri bók er nafn Friðriks Svendsen hins vegar ekki að finna fyrr en fáum mánuðum áður en Daniel andaðist (sjá hér bls. 28) og gæti sú staðreynd bent til þess að Svendsen og fjölskylda hans hafi aðeins dvalist á Flateyri á sumrin á árunum 1819-1823 en setið í Kaupmannahöfn á veturna. Svo þarf þó alls ekki að vera og reyndar er vitað að næstelsti sonur Friðriks Svendsen fæddist á Flateyri 4. janúar 1822 (sjá hér bls. 28-29) sem sýnir að þá hefur fjölskylda hans haft hér vetursetu.

Daniel Steenbach, sem lengi hafði verið verslunarstjóri á Flateyri, dó 1. desember 1823 og fáum mánuðum síðar var Christian sonur hans orðinn kaupmaður á Patreksfirði (sjá hér bls. 13). Svo virðist sem Friðrik Svendsen hafi þá orðið einkaeigandi verslunarinnar á Flateyri og þilskipaútgerðarinnar sem rekin var í tengslum við hana. Tvímælalaust er að Svendsen stjórnaði einn öllum rekstri á Flateyri frá og með árinu 1824 og vel má vera að hann hafi verið hér mestur ráðamaður alveg frá 1820. Eitt fyrsta verk Svendsens á Flateyri hlýtur að hafa verið að koma sér upp þaki yfir höfuðið og má telja líklegt að íbúðarhúsið sem hann byggði hafi verið reist árið 1820 eða því sem næst. – Eitt er þar íveruhús af múr, segir í ritgerð frá árinu 1840 um verslunarstaðinn á Flateyri[146] og má af því ráða að íbúðarhúsið sem Svendsen lét reisa og bjó í hafi verið múrað í binding eins og algengt var í Danmörku. Í yngri heimild segir svo um hús þetta sem stóð á Flateyri fram yfir miðja 20. öld:

 

Fyrsta verk Svendsens var að láta reisa nýtt hús fyrir sig. Það hús var vandað að efni og smíði, einlyft með háu risi eins og þá gerðist og múrað í binding. Allmörgum árum síðar er talið að hann hafi látið reisa svonefndan „skans” norðan við það. Var það pallur eða svalir í veggjahæð og með flaggstöng, hlaðinn úr köntuðu grjóti sem sótt var suður í Vatneyrarhlíð í Patreksfirði.[147]

 

Að utanmáli var grunnflötur hússins 75 fermetrar (sjá hér bls. 81-82. Þegar Torfi Halldórson keypti Flateyri vorið 1858 fylgdi hús þetta með í kaupunum og í því munu Torfi og fjölskylda hans hafa búið í um það bil hálfa öld (sjá bls. 81-82). Húsið sem Svendsen byggði um 1820 fékk þá nafnið Torfahús en á dögum Torfa var það stækkað og gerðar á því miklar breytingar[148] (sjá mynd í Torfaættarbók, bls. 11). Þetta sögufræga hús frá 1820 hélt velli allt til ársins 1963 en á því ári varð það eldi að bráð.[149] Oft var þar margmennt en þegar húsið brann mun aðeins einn maður hafa búið í því.

Hús þetta sem Friðrik Svendsen byggði um 1820 og síðar var nefnt Torfahús stóð á lóð sem nú (1995) stendur auð við Hafnarstræti á Flateyri og er austan við götuna, næst fyrir neðan hús Sparisjóðs Önundarfjarðar sem er númer fjögur við Hafnarstræti.[150] Árið 1840 var hús Svendsens eina íbúðarhúsið á Flateyri sem búið var í[151] en þar stóðu þá fimmtán hús af öðru tagi.[152] Af þessum húsum voru tíu úr torfi en fimm út timbri.[153] Eitt þessara timburhúsa mun hafa verið Norskahúsið, sem hér hefur áður verið nefnt, en eitt eða fleiri fiskitökuhús voru hér líka.[154]

Hér var þess áður getið að Henrik Henkel, sem átti verslanirnar á Þingeyri og Flateyri, hefði um aldamótin 1800 eignast aðra hálflenduna á Hvilft í Önundarfirði (sjá hér bls. 7 og Hvilft). Þó að Daniel Steenbach verslunarstjóri ætti heima á Flateyri var hann með ábúð á þessum parti úr Hvilft allt frá 1799 eða svo og til dánardags árið 1823 (sjá hér Hvilft). Þegar Daniel andaðist tók Friðrik Svendsen við þessum 9 jarðarhundruðum á Hvilft[155] og má ætla að þau hafi verið  nytjuð á hans vegum frá Flateyri á árunum 1824 og 1825.[156] Um svipað leyti og Svendsen varð einkaeigandi verslunarinnar á Flateyri mun hann hafa eignast þessi jarðarhundruð á Hvilft sem Henkel kaupmaður átti áður. Tvímælalaust er að Svendsen átti um skeið aðra hálflenduna á Hvilft og seldi hana í tvennu lagi. Sjö hundruð úr Hvilft seldi hann Ólafi Ólafssyni, hattamakara á Eyri í Skötufirði, í makaskiptum og fékk í staðinn sjö hundruð úr Eyri í Önundarfirði en tvö hundruð úr Hvilft seldi Svendsen Finni Guðmundssyni, bónda á Hvilft (sjá hér Hvilft). Vorið 1826 sleppti Svendsen ábúð á hálflendunni sem hann hafði haft til nota á Hvilft en fékk þá til ábúðar 16 hundruð úr jörðinni Eyri,[157] það er tvo þriðju hluta þeirrar jarðar. Líklegt er að makaskiptin við Ólaf hattamakara hafi farið fram um svipað leyti. Í þeim skiptum eignaðist Svendsen 7 hundruð í Eyri eins og áður var frá greint og önnur 9 hundruð úr þeirri jörð mun hann hafa keypt um 1826 eða litlu síðar. Svo mikið er víst að allt frá árinu 1826 taldist Svendsen kaupmaður vera ábúandi á 16 hundruðum úr Eyri[158] og þessi 16 jarðarhundruð átti hann árið 1835 og líka árið 1851 (sjá hér bls. 41 og Hvilft). Um búskap Friðriks Svendsen er fjallað í stuttu máli hér litlu aftar (sjá hér bls. 27 og 53-58) en 16 hundruðin úr Eyri voru nytjuð á hans vegum nær óslitið um 30 ára skeið, frá 1826-1856.

Þegar Friðrik Svendsen og félagar hans keyptu verslanirnar á Þingeyri og Flateyri árið 1819 fylgdu skonnorturnar tvær, Charlotta og Henrétta, með í kaupunum (sjá hér bls. 12). Þær höfðu þá verið gerðar út frá Flateyri, önnur í fjögur ár og hin einu ári skemur (sjá hér bls. 10-12). Allt bendir til þess að Friðrik Svendsen hafi frá því fyrsta haft mikinn hug á að efla þilskipaútgerðina frá Flateyri og viljað leggja kapp á vandaða fiskverkun. Mjög skömmu eftir komu sína til Flateyrar bætti hann þriðja þilskipinu við en það var Patrioten sem hann keypti árið 1821.[159] Skúta þessi var 11 stórlesta jaktskip,[160] það er 28,6 smálestir. Ekki er ólíklegt að Jón Ólafsson skipherra, sem fluttist með Svendsen frá Kaupmannahöfn til Flateyrar árið 1820 (sjá hér bls. 16), hafi orðið skipstjóri á þessu skipi. Næstu ár voru öll þessi þrjú þilskip gerð út til veiða frá Flateyri,[161] það er skonnorturnar tvær og nýnefnd jakt. Svo mun þó aðeins hafa verið í þrjú ár því jaktskipið Patrioten var selt til Flateyjar á Breiðafirði haustið 1824 fyrir 1.050 spesíur, það er 2.100 ríkisdali.[162] Skonnorturnar tvær, Charlottu og Henréttu, mun Friðrik Svendsen hins vegar hafa gert út frá Flateyri fram yfir 1830.[163]

Á árunum 1827 og 1828 bætti Svendsen enn tveimur þilskipum í flota sinn og voru þau bæði smíðuð á Flateyri úr rekavið sem hann lét sækja norður á Strandir.[164] Slíkir viðarflutningar töldust jafnan til stórræða en í heimildum frá 18. öld má þó finna dæmi um viðarferðir norður á Strandir bæði frá Ísafirði og af Barðaströnd.[165] – Í gær fóru 2 skip úr Önundarfirði á Strandir, segir séra Sigurður Tómasson í dagbók sinni 13. júní 1849[166] en hann var þá enn viðloðandi í Mosvallahreppi. Um erindi Önfirðinganna þangað norður getur hann ekki en varla kemur nema tvennt til greina, viðarferð eða bjargferð til að ná sér í egg.

Skipunum sem Friðrik Svendsen lét smíða úr rekavið af Ströndum gaf hann íslensk nöfn og hét annað Föðurlandið, smíðað 1827, en hitt Eiríkur rauði, smíðað 1828.[167] Bæði voru þau slúpskip[168] sem kallað var en skútur af þeirri gerð voru með einu mastri eins og jaktirnar en skonnortur voru hins vegar tvímastra.[169] Munurinn á jöktum og slúpskipum var aftur á móti sá að jaktirnar voru með mun breiðari skut.[170] Skipin tvö, sem Svendsen lét smíða á Flateyri, voru um það bil 9 stórlestir,[171] það er 23-24 smálestir. Þau hafa því bæði verið mun minni en skonnorturnar tvær sem Svendsen gerði út en þær töldust vera 36 og 39 smálestir (sjá hér bls. 10-11). Eðlilega lengd á 10 stórlesta (26 smálesta) þilskipi smíðuðu úr rekavið taldi Guðmundur Scheving vera 21 alin,[172] það er 13,2 metra. Breidd í miðju á slíku skipi segir hann geta verið 6 álnir og 22 þumlunga,[173] það er 4,34 metra og dýpt 2 álnir og 18 þumlunga,[174] það er 1,73 metra. Í ritgerð sinni frá árinu 1832 lætur Guðmundur Scheving í Flatey þess getið að Sakarías Þórðarson sé eða hafi verið skipstjóri á Föðurlandinu en Olsen nokkur á Eiríki rauða.[175] Sakarías átti heima á Flateyri árið 1826 og er í heimild frá því ári sagður vera stýrimaður.[176] Á árunum 1829-1833 voru a.m.k. tveir skipherrar búsettir á Flateyri að staðaldri og voru það Sigurður Andrésson, sem hér hefur áður verið nefndur, og Magnús Sveinsson.[177]

Elstu skútuskipstjórarnir á Flateyri voru Símon Sigurðsson, síðar bóndi á Dynjanda, og Sigurður Andrésson (sjá hér bls. 10-12) en sá þriðji var Jón Ólafsson sem var búsettur hér frá 1820 til 1824 (sjá hér bls. 16). Sakarías Þórðarson og Magnús Sveinsson fá svo titilinn skipherra í sóknarmannatölum Holtspresta um svipað leyti og þilskipunum tveimur, sem Friðrik lét smíða á árunum 1827 og 1828, var hleypt af stokkum.[178]

Magnús Sveinsson fæddist á Vífilsmýrum 27. júlí 1805, sonur hjónanna Sveins Oddssonar og Kristínar Magnúsdóttur sem þar bjuggu.[179] Sveinn faðir hans var einn hinna mörgu Önfirðinga sem týndu lífi í mannskaðanum mikla 6. maí 1812 (sjá hér Mosvallahreppur, inngangskafli og Vífilsmýrar) en Kristín, móðir Magnúsar, giftist aftur nokkru síðar og gekk þá að eiga Indriða Jónsson. Þau bjuggu fyrst á Vífilsmýrum en seinna í Fremri-Breiðadal (sjá hér Fremri-Breiðadalur). Árið 1816 var Magnús Sveinsson tíu ára gamall hjá móður sinni og stjúpa á Vífilsmýrum.[180] Árið 1829 var hann tvímælalaust orðinn skipherra á Flateyri eins og sjá má í hreppsbókinni og áður var nefnt en er þó nefndur húsmaður í sóknarmannatali frá því ári.[181] Í byrjun ársins 1833 var Magnús enn skipherra á Flateyri[182] en á því ári mun hann hafa siglt til Kaupmannahafnar því þaðan fluttist hann til Vestmannaeyja árið 1834 og er þá sagður vera stýrimaður.[183] Magnús skipstjóri frá Vífilsmýrum varð skammlífur því hann drukknaði þrítugur að aldri á þilskipi frá Vestmannaeyjum 28. september 1835.[184]

Um Sakarías Þórðarson, sem eins og Magnús var skútuskipstjóri á Flateyri á árunum kringum 1830, er fátt vitað. Líklegt er þó að hann sé sá Zacharías Þórðarson sem árið 1816 var 27 ára gamall ókvæntur vinnumaður hjá Ebenezer Þorsteinssyni, sýslumanni í Ytri-Hjarðardal.[185]

Smíði skipanna Föðurlandsins og Eiríks rauða á árunum 1827 og 1828 sætti miklum tíðindum því þetta voru fyrstu þilskipin sem ráðist var í að smíða í Ísafjarðarsýslu og reyndar á öllum Vestfjörðum ef frá er talin skonnortan Haabet sem Guðmundur Scheving lét smíða í Flatey árið 1822.[186] Talið var á þessum árum að kostnaður við smíði á 26 smálesta skipi væri 1.523 ríkisdalir en segl og annar búnaður var talinn kosta annað eins.[187] Af smíðakostnaðinum var gert ráð fyrir að 600 ríkisdalir færu í vinnulaun og var þá miðað við að verkið tæki sex menn 100 daga.[188] Daglaun hvers og eins við smíðarnar hafa því verið einn ríkisdalur sem er býsna hátt kaup en allar eru þessar tölur úr ritgerð Guðmundar Scheving í Flatey frá árinu 1832.[189]

Enginn veit nú hverjir unnu að smíði Föðurlandsins og Eiríks rauða hér á Flateyri á árunum 1827 og 1828. Um hitt er aftur á móti kunnugt að Ebenezer Þorsteinsson, sýslumaður í Ísafjarðarsýslu, sem bjó í Ytri-Hjarðardal í Önundarfirði, ritaði stjórnvöldum 1. apríl 1820 og bað um líkan af norskum dekkbát.[190] Í bréfi sínu tekur Ebenezer fram að innan sýslunnar hafi vissir menn hug á að ráðast í smíði á slíkum bát[191] og verður að telja mjög líklegt að þar sé fyrst og framst átt við Friðrik Svendsen sem alveg nýlega var sestur að á Flateyri þegar Ebenezer skrifaði bréfið. Sem svar við þessu bréfi fékk Ebenezer sent líkan og teikningu af litlu þilskipi[192] og má ætla að þau gögn hafi komið að einhverjum notum þegar skipasmíðarnar hófust á Flateyri fáum árum síðar. Í tilskipun konungs frá 28. mars 1829 er þess reyndar getið að annað slúpskipið, sem Svendsen lét smíða, hafi verið ætlað til hvalveiða og verið smíðað eftir teikningu frá rentukammerinu í Kaupmannahöfn.[193] Frá tilraunum Svendsens til hvalveiða er sagt hér nokkru aftar.

Um 1830 átti Friðrik Svendsen fjögur þilskip sem hér hafa öll verið nefnd, Charlottu, Henréttu, Föðurlandið og Eirík rauða. Öll voru þau gerð út frá Flateyri og á þessum árum var Svendsen einn þriggja helstu útgerðarmanna á öllu landinu en hinir tveir voru Guðmundur Scheving í Flatey og Bjarni Sívertsen riddari í Hafnarfirði.[194]

Fullvíst má telja að þilskip Svendsens, kaupmanns á Flateyri, hafi ýmist verið gerð út á hákarlaveiðar eða þorskveiðar eins og almennt var á þessum tíma.[195] Um afla þeirra liggja nákvæmar upplýsingar ekki fyrir en þess má geta að árið 1828 var meðalafli á skip hjá Guðmundi Scheving í Flatey 7768 þorskar og 63 og hálf tunna af hákarlslifur.[196] Úr þessum afla fengust tæplega 64 skippund af saltfiski sem seldust á 1.233 ríkisdali.[197] Úr þorskinum fékkst líka ein og hálf tunna af lýsi sem seldist á 30 ríkisdali.[198] Úr hákarlslifrinni fengust 42 og hálf tunna af lýsi sem seldist á 552 ríkisdali og 60 skildinga.[199] Hákarlsbúkar gáfu svo af sér 45 ríkidali og annar afli 62 ríkisdali og 60 skildinga.[200] Söluverðmæti afurðanna var því um það bil 1.923 ríkisdalir á hvert skip árið 1828[201] en árið 1830 fór sú tala upp í 2.600 ríkisdali hjá Guðmundi Scheving.[202] Gera má ráð fyrir að hjá Friðrik Svendsen á Flateyri hafi þetta verið eitthvað svipað.

Algengt var að sjö menn væru í hverri skipshöfn,[203] það er skipstjóri, stýrimaður og fimm hásetar. Hjá Guðmundi Scheving fékk hver einstakur sjómaður fjórða hvern fisk af sínum þorskdrætti.[204] Hlutinn fengu menn greiddan í verkuðum saltfiski og þurftu sjómennirnir ekki að greiða neitt gjald fyrir verkunina.[205] Af hákarlsaflanum fékk skipstjórinn ¼ úr spesíu, það er hálfan ríkisdal, fyrir hverja lifrartunnu,[206] stýrimaðurinn 1/3 úr ríkisdal og hásetarnir 1/5 úr ríkisdal hver.[207] Auk þess fékk skipherrann 16 ríkisdali og stýrimaðurinn 8 ríkisdali í því dæmi sem Guðmundur Scheving lét fylgja ritgerð sinni árið 1832. Af söluverðmæti aflans, sem árið 1828 var um það bil 1.923 ríkisdalir á skip, hafa því 91 ríkisdalur og 72 skildingar komið í hlut skipstjórans, 73 ríkisdalir og 16 skildingar í hlut stýrimannsins og 56 ríkisdalir og 67 skildingar í hlut hvers háseta. Hásetarnir voru fimm og má því ljóst vera að skipshöfnin hefur til samans borið úr býtum 448 ríkisdali og 39 skildinga sem var um það vil 23,3% af söluverðmæti afurða úr meðalafla á hvert skip. Nærri lætur að hásetahluturinn, 56 ríkisdalir og 67 skildingar, hafi að verðgildi svarað til þriggja kúgilda á þessum tíma en hefði þó þurft að hækka um 12% til að ná því marki.[208] Auk þessa fengu skipverjar svo frítt fæði um borð.[209] Allt er þetta miðað við hlutaskipti á þilskipum frá Flatey á Breiðafirði á árunum kringum 1830 en líklegt má telja að skiptin hafi verið  með svipuðum hætti á Flateyri. Það er þó ekki alveg víst því í ritgerðinni frá 1832 segir Guðmundur Scheving að kaupið sem sumir eigendur þilskipa borgi skipverjum sínum sé framar lagað eftir viknatali en fengnum.[210]

Á dögum Friðriks Svendsen mun þilskipunum oftast hafa verið haldið til veiða í fimm og hálfan mánuð á ári eða því sem næst, það er að segja frá miðjum mars til ágústloka.[211] Frá haustdögum og þar til langt var liðið á góu stóðu skipin uppi og skipti þá miklu máli að vetrarlægið væri öruggt þó stormar blésu. Á Flateyri lét Friðrik Svendsen gera mikið hróf eða eins konar skipakví þar sem skútur hans voru geymdar að vetrinum og mun það mannvirki hafa kostað drjúgan skilding.[212] Á hverju hausti voru þilskipin mokuð inn í kvína með þeim hætti að grafin var renna sem þau flutu eftir um stórstraumsflóð en síðan var fyllt fyrir framan með möl og grjóti.[213] Áður en nýtt úthald hófst varð svo jafnan að moka fram rennuna svo skúturnar kæmust á flot.[214] Í riti sínu frá árinu 1951 lætur Óskar Einarsson læknir þess getið að enn sjáist nokkuð af þessu gamla hrófi sunnan við húsið sem er númer eitt við Hafnarstræti á Flateyri.[215] Svo er einnig nú (1995), allmörgum áratugum síðar. Í garðinum sunnan við húsið er breið og djúp grasigróin lægð sem snýr frá austri til vesturs og nær hún líka inn í garð við húsið númer tvö við Grundarstíg sem er aðeins vestar. Að þarna hafi hrófið mikla verið eins Óskar læknir greinir frá þarf vart að efa, enda átti hann kost á að ræða það mál við Önfirðinga sem fæddir voru um svipað leyti og Friðrik Svendsen andaðist.

Á sínum fyrstu árum á Flateyri mun Friðrik Svendsen hafa lagt mikið kapp á að bæta fiskverkunina og um það viðfangsefni skrifaði hann merkilega ritgerð sem birtist í tímaritinu Ármann á Alþingi árið 1831 og heitir þar Stutt ávísan til að verka klipfisk.[216] Ritgerð þessa skrifaði Svendsen á dönsku en Baldvin Einarsson, sem hafði forgöngu um útgáfu tímaritsins, sneri henni á íslensku.[217] Ritgerð sína byrjar Svendsen á þessa leið:

 

Þegar fiskurinn er kominn á þann stað er hann skal saltast leggja menn mikla alúð á að hreinsa hann frá öllum óhreinindum. Taka menn þá burt blóðdálkinn og hina svörtu himnu sem er innan í þunnildunum, er sumir kalla óminnishimnu, áður en hann er saltaður. … Þegar þetta er búið salta menn hann, annað hvort í stakka eða í stór ílát. Menn breiða fiskinn út sem best svo að hann verði sem sléttastur, eitt lag á annað ofan. Ofan á sérhvert lag strá menn salti. …

Þegar búið er að salta fiskinn á téðan hátt liggur hann óhrærður í 3 sólarhringa, síðan er hann tekinn upp og borinn fram í sjó með flóði. Þarf þá einkum sá fiskur sem hefir verið saltaður í stakka að liggja í sjónum stundarkorn svo að öll óhreinindi úr saltinu skolist úr honum til hlýtar. Þeir sem eiga að þvo fiskinn hafa þyrla (bursta) með skafti. Með þessum þyrlum strjúka þeir fyrst fiskinnn og síðan roðið á hverjum fiski, skola hann síðan vel og flytja hann síðan á mölina til þerris. Sé þerrir snúa menn fiskinum strax upp þangaðtil að kvöldi, áður dögg falli.Þykist menn sjá gott veður fyrir til næsta dags snúa menn honum á grúfu eða svo að roðið horfi upp en óttist menn fyrir regni, þá leggja menn fiskinn í hrauka eða hrúgur ….[218]

 

Í ritgerð sinni gerir Svendsen síðan mun nánari grein fyrir vinnubrögðum við saltfiskverkunina á Flateyri og baráttu sinni fyrir því að fá sjómennina sem reru á opnum bátum frá Kálfeyri til að blóðga fiskinn um leið og hann kæmi inn fyrir borðstokkinn. Öll sú frásögn ber með sér að allt þar til Friðrik Svendsen fór að láta til sín taka létu menn vera að blóðga fiskinn. Um þetta ritar hann svo:

 

Að endingu vil ég geta þess er gerir að sá fiskur sem landsmenn veiða á bátum sínum aldrei getur orðið nærri eins útgengilegur og góður varningur utanlands eins og fiskur sá sem á þilskipunum veiðist því þó menn taki hann strax sem hann kemur í landi og vandi alla hans verkan og meðferð sem mest, þá verður hann þó miklum mun lakari en hinn síðarnefndi.

Orsökin er þó svo lítilfjörleg að fæstir mundu trúa því og svo auðveld að hrinda úr vegi að hún þarf eigi að saka bátafisk landsmanna framar en þilskipafiskinn. Hún er ekki önnur en sú að menn skera eigi hvörn fisk á háls (kverksigann) jafnóðum og honum er kippt inn af borðstokknum. Þetta gera menn ætíð á þilskipum en aldrei á bátum og þó þess hafi verið innilega beðið. Ómakið er ekki stórt og þarf ekki að tefja vanan fiskimann sem ætíð hefur hníf við hendina … . Einungis af því að landsmenn hafa vanrækt þetta litla atvik, að minnsta kosti í kringum mig (þó stundum meðfram af annarri vanrækt), er það að sá hálsskorni eða þilskipafiskur hefir gengið 30 til 33 pro centa meira alls staðar utanlands en sá óskorni eða bátafiskur.[219]

 

Frá aðferð sinni og árangri við að kenna sjómönnum á opnu bátunum betri siði greinir Svendsen loks á þessa leið:

 

Fyrir 2 árum fékk ég af einni skipshöfn fyrir dálitla greiðasemi að gera það fyrir mig að kverksigaskera allan sinn fisk. Nokkru áður en ég fór að heiman átti ég 100 skippund af fiski breitt til þerris á mölinni og þar á meðal það sem ég hafði fengið frá þessum eina báti. En þótt það, svo lítið það var að reikna á móti hinu, lægi vítt á dreif innanum hinn fiskinn gat þó hvör maður og þó alls óvanur væri við fyrsta yfirlit tínt úr hvörn einasta þyrskling frá téðum báti, svo miklu gagnsærari var hann, ekki einasta á fiskinn heldur og einnig á beinin.

Ég vonaði strax að þetta, sem var hvörri sögu ríkara fyrir hvörn sem það sá, mundi leiða til þess að mínir nábúar og skiptavinir myndu taka þetta til greina þrátt fyrir sinn gamla vana, einkum þegar þeir vissu að þeir áynni þriðjung verðs þar við. Vonin lét mig heldur eigi til skammar verða því í öllum 3 veiðistöðum þeim er næstar mér eru hafa nú allir á seinni hluta þessarar vertíðar skorið fisk sinn og verkað sem best að öllu.[220]

 

Ástæðulaust mun vera að efast um sannleiksgildi þessara orða Friðriks Svendsen og á hann þakkir skildar fyrir að hafa kennt mönnum að sjá hag sinn í því að blóðga nýveiddan fisk.

Á árunum kringum 1830 var þessi merkilegi útgerðarmaður á Flateyri alveg tvímælalaust í fremstu röð þeirra manna sem reyndu að efla framfarir á Íslandi og ryðja nýjum atvinnuháttum braut. Með útgerð þilskipa, smíði þeirra hér innanlands og bættri fiskverkun sýndi hann í verki hvað unnt væri að gera og vísaði öðrum leið. Ýmislegt bendir til þess að Friðrik Svendsen hafi látið sig þjóðarhag miklu varða og haft sterka löngun til að verað þjóðarheildinni að liði, enda segir prýðilega marktækur samtímamaður þennan útgerðarmann á Flateyri vera góðfrægan að menntun og hjartanlegri föðurlandsást.[221]

Eitt skýrasta dæmið um viðleitni þessa merkilega frumkvöðuls til að efla þjóðarhag er stofnun Búnaðarsjóðs vesturamtsins árið 1827. Á því ári var fyrsta þilskipinu sem smíðað var í Ísafjarðarsýslu hleypt af stokkunum á Flateyri (sjá hér bls. 20-21) og af því tilefni hafði Svendsen forgöngu um stofnun búnaðarsjóðsins og gekkst fyrir samskotum til að tryggja honum nokkra fjármuni.[222] Um miðjan nóvember árið 1828 voru komnir í sjóðinn 250 ríkisdalir og í árslok 1830 átti hann 537 ríkisdali.[223] Af þeirri upphæð hafði Friðrik Svendsen lagt fram 324 ríkisdali[224] eða um 60% heildarfjárhæðarinnar en flestir kaupmenn og veraldlegir embættismenn innan vesturamtsins höfðu þá lagt sjóðnum eitthvað til og einnig fáeinir menn af geistlegri og bændastétt.[225]

Það kom í hlut Bjarna Thorsteinson, amtmanns á Stapa, að semja reglugerð fyrir sjóðinn og var hún staðfest af konungi 4. júní 1830.[226] Um stofnanda sjóðsins, Friðrik Svendsen á Flateyri, lét Bjarni amtmaður þessi orð frá sér fara í bréfi rituðu 1. janúar 1831:

 

En eins og sá framkvæmdarsami föðurlandsvinur, kaupm. Fred. Svendsen á Önundarfirði, er þessa sjóðs fyrsti stiptari, svo hefur hann og með stórgjöfum aukið hann með hartnær 2/3 pörtum eða hérumbil 324 ríkisdölum í reiðu silfri. Honum fyrst og fremst ber þess vegna heiður og þakklæti fyrir þá nytsemi er þessi sjóður seinna meir mun af sér leiða.[227]

 

Í bréfi sem Bjarni amtmaður ritaði nær tveimur árum síðar lætur hann þess svo getið að á árinu 1832 hafi Svendsen gefið Búnaðarsjóðnum 75 ríkisdali í viðbót svo heildarframlag hans til sjóðsins sé komið upp í um það bil 400 ríkisdali.[228]

Tilgangurinn með stofnun Búnaðarsjóðs vesturamtsins var sá að mynda sjóð sem veitt gæti verðlaun fyrir hvers kyns viðleitni til framfara á sviði atvinnulífsins. Um ráðstöfun vaxta af stofnfé sjóðsins segir svo í reglugerðinni:

 

Renta af fjársjóðsins höfuðstól skal hins vegar árlega brúkast sem premía eða verðlaun til að framkvæma jarðarrækt, fiskirí, húsligar handiðnir og yfirhöfuð hvern sem helst nytsamlegan og almenningi áríðandi næringarveg. … Öllum yfirhöfuð er gefið leyfi að sækja um premíu en þó sér í lagi fátækum framkvæmdarsömum og ráðvöndum mönnum í bændastétt.[229]

 

Þegar um það bil níu ár voru liðin frá því Friðrik Svendsen gekkst fyrir stofnun Búnaðarsjóðs vesturamtsins lofaði danska stjórnin að leggja honum til dálítið fé, svo og öðrum búnaðarsjóði í norður- og austuramtinu og hinum þriðja sem þá var fyrirhugað að stofna sunnanlands.[230] Sú tilkynning stjórnvalda sem út var gefin 9. mars 1836 varð til þess að í janúarmánuði árið 1837 var ráðist í að stofna Suðuramtsins Húss- og bústjórnarfélag sem seinna varð að Búnaðarfélagi Íslands.[231] Auðvelt er því að greina tengsl milli búnaðarsjóðsins sem Friðrik Svendsen gekkst fyrir að stofna árið 1827 og bústjórnarfélagsins sem komst á fót tíu árum síðar og varð í fyllingu tímans að Búnaðarfélagi Íslands.

Hér hefur áður verið rætt nokkuð um útgerð og fiskverkun Friðriks Svendsen á Flateyri og þess hefur einnig verið getið að allt frá árinu 1826 hafði hann 16 hundruð úr bújörðinni Eyri til ábúðar. Á öðrum stað er sagt hér dálítið frá búskap Svendsens á hans síðari árum (sjá hér bls. 53-58) en þess er vert að geta nú þegar að árið 1830, þegar umsvif hans voru hvað mest í útgerðinni, var hann líka með næst stærsta búið í Mosvallahreppi ef marka má opinberar skýrslur.[232] Sá eini sem var með stærra bú var Ebenezer Þorsteinsson sýslumaður sem bjó í Ytri-Hjarðardal.[233] Bústofn stórútgerðarmannsins á Flateyri var þá 5 kýr, 2 kálfar, 50 ær, 23 fullorðnir sauðir og hrútar, 32 gemlingar, 16 lömb, 4 hestar og eitt folald.[234] Auk þilskipanna átti Svendsen árið 1830 þrjá opna báta.[235] Sá stærsti þeirra var áttæringur eða teinæringur, annar sexæringur eða fjögra manna far og sá þriðji tveggja eða þriggja manna far.[236]

Í hreppsbókum Mosvallahrepps er Friðrik Svendsen fyrst nefndur á nafn í skrá yfir tekjur hreppsins fardagaárið 1822-1823 en á því ári greiddi hann hreppnum 3 ríkisdali, sem virðist hafa verið frjálst framlag, og svo álíka fjárhæð næsta ár.[237] Á árunum 1824-1835 greiddi hann hreppnum alloft átta til tíu ríkisdali í slík frjáls framlög en tíundin, sem honum var gert að greiða til sveitarfélagsins, var yfirleitt ekki nema einn til tveir ríkisdalir á ári.[238] Greinilegt er að við mat á eignunum sem lausafjártíund var greidd af hafa þilskipin alls ekki verið talin með. Fardagaárið 1825-1826 var tíundarstofn Svendsens 9 hundruð og 60 álnir en á næstu árum fór stofninn stöðugt vaxandi og komst upp í 21 hundruð og 60 álnir fardagárið 1831-1832.[239] Úr því fór tíundarstofn hans aftur lækkandi og var komin niður í 16 hundruð fardagaárið 1834-1835.[240] Á þessu tímabili, 1824-1835, var Ebenezer Þorsteinsson sýslumaður yfirleitt með hæsta gjaldstofn allra íbúa hreppsins en þeir Friðrik Svendsen og Ásgeir Jónsson prófastur í öðru og þriðja sæti.[241] Einu sinni náði Svendsen þó fyrsta sætinu en það var fardagaárið 1832-1833.[242] Tíundarstofn hans var þá 21 hundruð en 20 hundruð hjá sýslumanni.[243]

Hér var áður minnst á eiginkonu Friðriks Svendsen, hina dönsku prestsdóttur, Jakobine Susanne Lovise, fædd Köbke (líka ritað Kiøbke) (sjá hér bls. 15-16), sem bjó með honum á Flateyri í 15 ár, frá 1820-1835. Frú Svendsen hefur að líkindum verið fædd árið 1795 eða þar um bil því á manntalinu frá 2. febrúar 1835 er hún sögð vera 39 ára.[244] Börn þeirra hjóna urðu sex, fjórir synir og tvær dætur,[245] en seinna eignaðist Friðrik Svendsen þrjú börn með annarri konu sem hann kvæntist árið 1849 og frá er sagt hér nokkru aftar (sjá bls. 51-54. Sbr. Vífilsmýrar). Öll börn Svendsens kaupmanns og fyrri eiginkonunnar nema eitt fæddust á Flateyri á árunum 1819-1829.[246] Eina barnið sem ekki fæddist á Flateyri var elsti sonurinn, Henrik Henkel Svendsen, sem skráður er eins árs þegar foreldrarnir komu með hann til Íslands árið 1820 og settust að á Flateyri.[247] Samkvæmt því ætti drengurinn að hafa fæðst árið 1818 eða 1819 en reyndar kemur árið 1820 líka til greina því algengt var á þessum tíma að börn á fyrsta ári væru sögð eins árs í embættisbókum prestanna. Séra Þorvaldur Böðvarsson, sem þá var prestur í Holti, segir Friðrik Svendsen og konu hans hafa flust frá Kaupmannahöfn til Flateyrar árið 1820 eins og fyrr var getið og engin veruleg ástæða er sjáanleg til að rengja það ártal. Ljóst er hins vegar að þau voru hér stödd sumarið 1819 því elsta dóttir þeirra, Juliane Nicoline Lovise, fæddist á Flateyri 9. ágúst á því ári.[248] Með hliðsjón af þeirri barnsfæðingu er útilokað að drengurinn Henrik Henkel hafi fæðst árið 1819 svo líklegast verður að telja að hann hafi fæðst 1818. Hann er þó sagður vera aðeins 15 ára á manntalinu frá 2. febrúar 1835[249] svo verið getur að hann hafi verið alveg nýfæddur þegar foreldrarnir komu með hann hingað til lands árið 1820. Önnur börn kaupmannshjónanna á Flateyri voru þessi: Jón Jóhann Friðrik, fæddur 4. janúar 1822, Harald Jacob, fæddur 10. júlí 1824, Júlíus Viggó, fæddur 26. apríl 1826, og Soffía Amalía, fædd 28. apríl 1829.[250]

Haustið 1828 brá Friðrik Svendsen sér til Danmerkur og mun hafa dvalist þar veturinn 1828-1829 (sjá hér bls. 33). Sóknarmannatalið úr Önundarfirði frá febrúarmánuði árið 1829 ber með sér að hann hefur þá verið fjarverandi og sérstaka athygli vekur að þrjú elstu börn kaupmannshjónanna voru ekki heldur hjá móður sinni á Flateyri þegar presturinn í Holti húsvitjaði á fyrstu vikum ársins 1829 og hvergi í hans prestakalli.[251] Líklegasta skýringin á þessu er sú að Svendsen kaupmaður hafi tekið börnin þrjú með sér til Danmerkur haustið 1828.

Þegar manntal var tekið 2. febrúar 1835 voru Friðrik Svendsen og frú hans enn á Flateyri.[252] Öll börn þeirra sex voru þá innan við 17 ára aldur en aðeins tvö úr hópnum dvöldust þá í foreldrahúsum, drengurinn Henrik Henkel, sagður 15 ára, og yngsta barnið, Sophie Amalie (líka ritað Soffía Amalía) sem var að verða sex ára.[253] Mjög líklegt má telja að sum eða öll hin börnin hafi þá verið komin til Danmerkur en þangað fluttust foreldrarnir haustið 1835 (sjá hér bls. 40). Ekkert barnanna dó í Önundarfirði.[254] Um systkini þessi frá Flateyri skal því einu bætt við að Henrik Henkel Svendsen fékkst við kaupmennsku bæði í Danmörku og á Íslandi en Jón Jóhann Friðrik Svendsen varð prestur í Færeyjum og bilaðist þar á geðsmunum áður en lauk.[255]

Síðari eiginkona Henriks Henkel Svendsen var Augusta Snorradóttir Svendsen sem fyrst kvenna hóf sjálfstæðan verslunarrekstur á Íslandi en hún mun hafa byrjað þann rekstur árið 1885 eða 1887 og rak lengi hannyrðaverslun í húsinu Aðalstræti 12 í Reykjavík.[256] Þessi tengdadóttir Friðriks Svendsen á Flateyri var fædd árið 1835 eða því sem næst (sjá hér bls. 96) og lifði allt til ársins 1924.[257]

Dóttir Henriks Henkel Svendsen og Augustu konu hans var Louise (eða Lovísa) H. Svendsen sem giftist Birni Jenssyni, kennara við lærða skólann í Reykjavík,[258] en hann var bróðursonur Jóns Sigurðssonar forseta. Hjónin Björn og Louise eignuðust að minnsta kosti sjö börn sem öll eyddu sínum ævidögum hérlendis[259] og frá þeim er nú kominn fjöldi niðja.

Eina sóknarmannatalið sem varðveist hefur frá hinum fyrri árum Friðriks Svendsen á Flateyri er frá febrúarmánuði árið 1829 en þá var hann sjálfur fjarverandi ásamt þremur barnanna eins og hér hefur þegar verið nefnt. Hús kaupmannsins var þá eina íbúðarhúsið á Flateyri og þar áttu heima 20 manneskjur[260] en sé nöfnum húsbóndans og barnanna sem voru fjarverandi bætt við hækkar sú tala upp í 24. Næsta ár, 1830, töldust íbúarnir í kaupmannshúsinu á Flateyri vera 26 en haustið 1834 var sú tala komin niður í 15[261] og þegar manntal var tekið 2. febrúar 1835 voru íbúarnir á Flateyri líka 15.[262]

Um skútuskipstjórana, sem áttu heima á Flateyri á árunum 1815-1835, hefur áður verið rætt (sjá hér bls. 10-12 og 16 og 21) en fróðlegt er að skoða hvað finnanlegt er í fátæklegum heimildum um verslunarþjóna á Flateyri á þessu skeiði. Hér var áður minnst á Jón Jónsson assistent sem starfaði alllengi á Flateyri á árunum kringum 1810 (sjá hér bls. 8) en þegar manntal var tekið árið 1816 var enginn verslunarmaður búsettur á Flateyri nema sjálfur faktorinn, Daniel Steenbach.[263] Á árunum kringum 1830 var ungur maður norðan úr Skagafirði hins vegar alllengi verslunarþjónn á Flateyri. Sá hét Sveinn Sölvason og í fjarveru Friðriks Svendsen veturinn 1828-1829 taldist hann vera verslunarstjóri og er nefndur faktor í sóknarmannatalinu frá febrúar 1829.[264] Annars bar hann titilinn assistent og svo er hann nefndur í prestsþjónustubókinni þegar fæðing Hjalta sonar hans var skráð árið 1832.[265] Sveinn þessi var fæddur árið 1806 eða því sem næst á Hólum í Hjaltadal.[266] Foreldrar hans voru hjónin Sölvi Þorkelsson er skömmu síðar varð prestur í Hofstaðaþingum í Skagafirði og bjó lengst á Hjaltastöðum og kona hans Þórey Guðmundsdóttir.[267] Faðir Sölva prests var Þorkell officiales Ólafsson á Hólum en eiginkona hans og móðir séra Sölva var Ingigerður, dóttir Sveins lögmanns Sölvasonar.[268] Á þessu sést að Sveinn Sölvason, verslunarþjónn á Flateyri, og Friðrik Svendsen kaupmaður hafa verið náskyldir því sá síðarnefndi var sonarsonur Sveins lögmanns Sölvasonar eins og hér hefur áður verið nefnt (sjá hér bls. 14). Ekki er alveg ljóst hversu lengi prestssonurinn úr Skagafirði var við verslunarstörf hjá frænda sínum hér vestra en nokkur ár hafa það að líkindum verið því skjalfest er að hann var starfandi við Flateyrarverslun bæði 1829 og 1832 eins og hér var áður nefnt.

Stúlkan sem Sveinn assistent á Flateyri gerði barn sumarið 1831 hét Solveig Ebenezersdóttir en hún var vinnukona á Flateyri þegar barnið fæddist 15. apríl 1832.[269] Hans 1. brot, hennar 2. frillulífsbrot, skrifar prestur í bók sína við þessa barnsfæðingu.[270] Barnið var drengur og fékk nafnið Hjalti.[271] Hann bjó síðar lengi í Súðavík og dó þar 10. maí 1903.[272]

Veturinn 1828-1829 var Sveinn Sölvason ekki eini starfsmaðurinn við Flateyrarverslun því í sóknarmannatalinu frá febrúar 1829 er 59 ára gamall Dani, sem þá átti heima á Flateyri, nefndur handelsbetjent.[273] Hann hét Jóseph Hendriksen og fær í sömu heimild þennan dóm hjá Ásgeiri prófasti í Holti: Blótar á dönsku, er ekki illa að sér.[274] Við upphaf ársins 1835 var þessi herramaður enn á Flateyri, talinn 75 ára gamall,[275] en hefði átt að vera 65 ára ef rétt var farið með aldurinn í sóknarmannatalinu frá 1829. Í manntalinu frá 2. febrúar 1835 er hann sagður vera gamall danskur sjómaður.[276] Þennan dag, 2. febrúar, sem manntalið frá 1835 er kennt við, var gamli Jóseph Hendriksen reyndar dauður því hann andaðist 14. janúar 1835[277] og sýnir þetta að manntalið hefur í raun verið tekið í fyrri hluta janúar á því ári eða fyrr þó svo eigi að heita að það sé miðað við 2. febrúar.

Sumarið 1834 hefur Sveinn Sölvason að líkindum verið farinn burt frá Flateyri og fullvíst er að hann átti þar ekki heima í byrjun ársins 1835.[278] Önnur vísbending gefur til kynna að Sveinn hafi leitað á önnur mið fyrir 1834 eða á fyrri hluta þess árs og hún er sú að síðla sumars á því ári var annar ungur maður sannanlega orðinn assistent á Flateyri. Sá hét Magnús Ásgeirsson og var sonur Ásgeirs Jónssonar, prófasts í Holti, og konu hans, Rannveigar Matthíasdóttur.[279] Þann 25. september 1834 voru Magnús Ásgeirsson og Friðrika María Steenbach gefin saman í hjónaband í kirkjunni á Söndum í Dýrafirði.[280] Við það tækifæri er hann sagður vera 24 ára assistent í Flateyrarkaupstað. Brúðurin var tveimur árum eldri, kölluð stofupía á Þingeyri.[281] Hún var systir Níelsar Steenbach, verslunarstjóra á Þingeyri,[282] sem tók við stjórn verslunarinnar á Flateyri vorið 1835 (sjá hér bls. 42-44). Vera má að Magnús Ásgeirsson frá Holti hafi aðeins unnið við verslunina á Flateyri sumarið 1834 en hitt gæti líka verið að hann hafi hafið þar störf einu eða tveimur árum fyrr. Seinna var Magnús alllengi verslunarstjóri í Ólafsvík.[283] Hann keypti Flensborgarverslun í Hafnarfirði árið 1846 en andaðist skömmu síðar í Kaupmannahöfn og seldi ekkja hans þær eignir 1850.[284]

Hér hefur nú verið getið um þá verslunarmenn sem störfuðu svo kunnugt sé hjá Friðrik Svendsen á Flateyri á árunum 1820-1834. Auk konu hans og barna, skipstjóranna Sigurðar Andréssonar og Magnúsar Sveinssonar (sjá hér bls. 10-12 og 21) og tveggja nýnefndra verslunarmanna, voru 13 manneskjur á heimili kaupmannshjónanna veturinn 1828-1829.[285] Úr þeim hópi má nefna þjónustustúlkuna Önnu Kristínu Kolbeinsen, sem þá var liðlega þrítug[286] en hún var dóttir séra Eyjólfs Kolbeinssonar, sem þá var prestur á Eyri í Skutulsfirði.[287] Í húsi Friðriks Svendsen á Flateyri voru líka þennan vetur hjónin Guðmundur Jónsson og Ingibjörg Jónsdóttir með börn sín tvö, Friðbert og Sigríði.[288] Þau höfðu áður búið í nokkur ár á Kaldá og bjuggu seinna á Görðum (sjá hér Garðar). Í sóknarmannatalinu frá febrúar 1829 er Guðmundur sagður vera lausamaður en Ingibjörg var ein þriggja vinnukvenna hjá frú Svendsen.[289] Vinnumennirnir voru tveir og húsmenn voru taldir tveir[290] en annar þeirra var reyndar skútuskipstjóri (sjá hér bls. 21). Ein húskona var líka á Flateyri þennan vetur með son sinn 15 ára sem var smali og liðlega áttræð kerling var niðursetningur hjá kaupmannshjónunum.[291] Er þá allt fólkið talið sem átti heima á Flateyri veturinn 1828-1829. Sex árum síðar hafði fækkað í húsi Friðriks Svendsen. Fimmtán manneskjur áttu þá heima í þessu eina íbúðarhúsi á Flateyri.[292] Í þeim hópi voru auk Svendsens og fjölskyldu hans 5 vinnukonur og 2 vinnumenn[293] en líka eini lærði læknirinn sem þá var starfandi á Vestfjörðum (sjá hér bls. 39), eitt gamalmenni, eitt barn og einn lausamaður.[294]

Svo virðist sem Friðrik Svendsen hafi á sínu blómaskeiði verið mjög opinn fyrir nýstárlegum hugmyndum af ýmsu tagi og fús að leggja fram krafta sína til að hrinda þeim í framkvæmd. Sem dæmi um þetta má nefna hvalveiðitilraunir sem hann hafði forgöngu um og ráðagerðir hans um landkönnun á Grænlandi, m.a. í því skyni að leita þar uppi afkomendur Eiríks rauða.[295]

Hér var þess áður getið að annað hinna tveggja þilskipa sem Svendsen lét smíða á Flateyri á árunum 1827 og 1828 hafi verið ætlað til hvalveiða (sjá hér bls. 22). Mjög ólíklegt verður þó að telja að það hafi eingöngu átt að stunda slíkar veiðar. Árið 1827 voru yfir 600 tunnur af hvallýsi fluttar út frá Ísafirði[296] og má vera að Svendsen hafi átt þar einhvern hlut að máli. Mjög skömmu síðar lét Bjarni amtmaður á Stapa dönsku stjórnina vita að hvalveiðitilraunir manna úr vesturamtinu hefðu mistekist vegna kunnáttuleysis og lélegra tækja.[297] Í sama bréfi mælti amtmaður eindregið með því að Friðrik Svendsen yrði falið að hafa forgöngu um frekari tilraunir því vegna dugnaðar hans og góðra tengsla við almenning mætti vænta hins besta af honum.[298]

Veturinn 1828-1829 mun Svendsen hafa dvalist í Kaupmannahöfn og reynt að tryggja stuðning stjórnvalda við áform sín um hvalveiðar. Í bréfi rentukammers frá 25. apríl 1829 er tekið fram að þegar kaupmaðurinn frá Flateyri komi til Íslands eigi hann að snúa sér til amtmanns[299] sem sýnir að Svendsen hefur ekki verið staddur hér á landi þegar bréfið var skrifað. Í sóknarmannatali frá febrúar 1829 er fólkið sem búsett var á Flateyri talið upp en þar vantar nafn sjálfs kaupmannsins[300] og bendir sú staðreynd líka eindregið til þess að hann hafi þá verið fjarverandi.

Svo fór að rentukammerið í Kaupmannahöfn féllst á að veita 1.600 ríkisdala styrk til hvalveiðanna og sendi hingað 3 báta (slúpskip) sem talið var að gætu hentað til slíkra veiða.[301] Svo virðist sem Ebenezer Þorsteinsson, sýslumaður í Ytri-Hjarðardal, og Kristján Guðmundsson, bóndi í eynni Vigur á Ísafjarðardjúpi, hafi verið í félagi við Friðrik Svendsen um fyrirhugaðar hvalveiðar og var ákveðið að dönsku bátarnir þrír yrðu gerðir út frá Vigur.[302] Snemma vors árið 1830 komu hingað sex danskir hvalveiðimenn[303] og skömmu síðar héldu bátarnir þrír til veiða frá Vigur.[304] Skemmst er hins vegar frá því að segja að þessar hvalveiðitilraunir skiluðu engum árangri og varð því verulegt tap á rekstrinum.[305] Í bréfi sem H.C. Paus, verslunarstjóri í Neðstakaupstað á Ísafirði, ritaði 1. september 1830 er greint frá málum á þessa leið:

 

Snemma í vor komu hingað frá Kaupmannahöfn, á reikning konungs og undir stjórn herra Friðriks Svendsen, 6 danskir hvalveiðimenn eða harpunarar, útbúnir með nauðsynlega báta og tæki til þess að veiða hvali. Var tilgangurinn sá að kenna landsmönnum hvalveiðar en vor og haust er mikið um hval á Ísafjarðardjúpi. En þessi fyrsta tilraun hefur reynst gjörsamlega árangurslaus og hefur ekki tekist að veiða einn einasta hval.[306]

 

Svo virðist sem hinir dönsku hvalveiðimenn hafi ekki kunnað til verka þegar á reyndi en líka er hugsanlegt að tækin sem menn fengu í hendur hafi verið ónothæf.

Á árunum 1830 og 1831 voru uppi ráðagerðir um að halda hvalveiðitilraununum áfram en ekkert varð þó úr því og seint á árinu 1831 eða snemma árs 1832 óskaði Svendsen eftir að verða leystur frá öllum skuldbindingum varðandi þetta mál.[307] Með bréfum rentukammers 1. september 1832 og 31. ágúst 1833 til Bjarna Thorsteinson amtmanns voru gefin fyrirmæli um að hvalveiðibátarnir yrðu seldir og að peningunum sem fyrir þá fengjust yrði m.a. varið til að greiða Friðrik Svendsen þá 595 ríkisdali og 76 skildinga sem hann hafði lagt í þetta fyrirtæki.[308] Jafnframt var tekið fram að fengist hærra verð fyrir bátana ætti að ráðstafa afganginum til Búnaðarsjóðs vesturamtsins[309] en þann sjóð hafði Svendsen haft forgöngu um að stofna eins og hér hefur áður verið rakið. Líklega hefur Friðrik Svendsen orðið fyrir ærnum vonbrigðum þegar ljóst varð að áform hans um að hefja hvalveiðar í stórum stíl reyndust ekki framkvæmanleg. Hann var þarna á undan tímanum og það var ekki fyrr en rösklega hálfri öld síðar sem slíkar veiðar hófust hér við land frá vinnslustöðvum í landi (sjá hér Sólbakki).

Þegar Friðrik Svendsen réðst ásamt félögum sínum í að kaupa verslanirnar á Þingeyri og Flateyri árið 1819 var húkkortan Tykkebay eitt af því sem fylgdi með í kaupunum[310] en hana hafði Henrik Henkel keypt af konungsversluninni á Þingeyri árið 1788.[311] Skip þetta kom með vörurnar frá Danmörku til Flateyrar á vorin og fór með afurðirnar sem út voru fluttar á haustin. Á sumrin var það hins vegar látið stunda fiskveiðar úti fyrir Vestfjörðum og Vesturlandi.[312] Í skuldabréfi sem kaupendur verslananna á Þingeyri og Flateyri gáfu út 24. júní 1820 er fragtskipið Tykkebay sagt vera 47 lestir[313] og mun átt við stórlestir eins og venja var á þessum tíma. Samkvæmt því ætti skipið að hafa verið 122 smálestir.[314] Í annarri heimild frá árinu 1836 er fragtskip með þessu sama nafni, sem líka var tengt versluninni á Flateyri, sagt vera 63,5 lestir, það er 165 smálestir (sjá hér bls. 43), og má vera að stærðarmælingin hafi verið eitthvað á reiki. Hugsanlegt er þó líka að þá hafi nýrra skip og stærra verið komið í stað gömlu 18. aldar húkkortunnar en nafnið hafi haldist óbreytt. Á fragtskipinu Tykkebay komu Svendsen og fjölskylda hans til Flateyrar vorið 1820 eftir langa siglingu frá Kaupmannahöfn og lentu þá í hafís út af Snæfellsnesi.[315] Ekki tókst honum að sjá Grænland að því sinni en áhugi hans fyrir fornum heimkynnum norrænna manna þar mun þá þegar hafa verið vaknaður.[316] Á þessum tíma töldu flestir að ógerlegt væri að komast upp að austurströnd Grænlands vegna ísreks en hinn nýi kaupmaður á Flateyri hafði fullan hug á að fá úr því skorið.[317] Þegar skil voru gerð á milli verslananna á Þingeyri og Flateyri mun húkkortan Tykkebay hafa komið í hans hlut og á árunum 1824-1830 lét hann skipstjórann á henni kanna á hverju sumri öll skilyrði til siglinga á hafinu í nánd við strönd Grænlands.[318] Skipstjórinn á Tykkebay sem hafði þetta verkefni með höndum hét Kornelius Lambertsen.[319]

Sú var trú Friðriks Svendsen að Eystribyggð á Grænlandi, sem um er getið í Eiríks sögu rauða, hafi verið á austurströnd þess stóra lands og þar vænti hann þess að enn kynnu að finnast niðjar hinna fornu Íslendinga sem fluttust búferlum til Grænlands undir lok tíundu aldar.[320] Hinn mikli Grænlandsáhugu Svendsens kemur meðal annars fram í því að hann gaf öðru þeirra tveggja þilskipa er hann lét smíða á Flateyri nafnið Eiríkur rauði. Skipi þessu var hleypt af stokkunum árið 1828 og einmitt á því ári komst Kornelius Lambertsen, skipstjórinn á húkkortu Svendsens, svo nálægt austurströnd Grænlands að hann hefði treyst sér til landtöku ef til þess hefði verið ætlast.[321]

Nokkrum árum áður höfðu Friðrik Svendsen og Árni Thorlacius, síðar kaupmaður í Stykkishólmi, leitað eftir styrk hjá dönsku stjórninni vegna ráðagerða um Grænlandsleiðangur sem ætlunin var að farinn yrði á skonnortunum Charlottu og Henréttu frá Flateyri en báðar voru þær í eigu Svendsens.[322] Árni, sem var sonur Ólafs Thorlacius kaupmanns á Bíldudal, var þá ungur maður, fæddur 1802, og hafði nýlega tekið hið meira skipstjórapróf í Björgvin í Noregi.[323] Að líkindum hefur hann dvalist eitthvað á Flateyri á árunum kringum 1825 því þar náði hann í konu sína, Önnu Magdalenu, dóttur Daníels Steenbach verslunarstjóra sem stýrði rekstrinum á Flateyri allt þar til Friðrik Svendsen tók við (sjá hér bls. 13). Þau Árni og Anna M. Steenbach voru gefin saman í Holti 23. mars 1826.[324] Móðir brúðarinnar var svaramaður hennar svo ætla má að þær mæðgur hafi þá enn verið búsettar á Flateyri en þegar hjónavígslan fór fram var liðið nokkuð á þriðja ár frá andláti Daniels Steenbach. Skonnorturnar tvær sem fara áttu í Grænlandsleiðangurinn virti eigandinn á 12.500 ríkisdali og alls töldu þeir félagar sig leggja um 15.000 ríkisdali í hættu ef farið yrði á þessum tveimur skipum.[325] Þeir höfðu reiknað út að neyddust þeir til að hafa vetursetu á Grænlandi en kæmust síðan heilir heim að vori yrði kostnaðurinn 6.200 ríkisdalir[326] og mun þá hafa verið miðað við að 24-30 menn yrðu þarna með í för.[327] Styrkurinn sem Svendsen og Árni Thorlacius fóru fram á var 1.000 ríkisdalir á hvern veiðimánuð sem skipin glötuðu og andvirði þeirra ef þau færust.[328] Auk þess vildu þeir fá mikinn og góðan vopnabúnað frá stjórninni í Kaupmannahöfn.[329] Svo virðist sem þeir hafi sjálfir ætlað sér að vera leiðangursstjórar og að íslenskar áhafnir yrðu á skipunum.

Haustið 1826 var beiðni þeirra svarað og tilkynnt að þeim yrðu sendir 5 rifflar, 10 haglabyssur og 100 pund af púðri og auk þess var þeim heitið 1.000 ríkisdölum ef þeir næðu landi á austurströnd Grænlands, milli 61. og 67. breiddargráðu.[330] Tvö þúsund ríkisdalir áttu svo að bætast við ef árangur leiðangursins yrði meiri.[331] Rifflarnir, haglabyssurnar og púðrið komu til Flateyrar með Tykkebay vorið 1828 en með hliðsjón af áhættunni munu þeir félagar hafa talið að boð stjórnarinnar um fjárhagsstuðning væri ekki fullnægjandi.[332] Svendsen var þó tregur til að gefa þessi áform upp á bátinn. Hann sneri sér því til konungs og reyndi að fá styrkinn hækkaðan.[333] Benti hann kóngi á nauðsyn þess að kristna heiðingjana á Grænlandi og leita þar uppi niðja hinna fornu Íslendinga, Eiríks rauða og manna hans.[334] Bendingar og blíðmæli kaupmannsins á Flateyri við konung dugðu þó ekki til að fá styrkinn hækkaðan og þar við sat.[335] Leiðangurinn frá Flateyri til austurstrandar Grænlands var því aldrei farinn.

Svolítil deila varð um byssurnar sem sendar höfðu verið til Flateyrar vegna þessara ráðagerða. Þegar sýnt þótti að ekkert yrði úr leiðangrinum fékk Bjarni amtmaður á Stapa fyrirmæli um að láta selja þær á uppboði en Svendsen andmælti því og taldi að kóngur hefði gefið sér þessi vopn.[336] Hann varð þó að lúta í lægra haldi en náði að kaupa byssurnar og púðrið líka þegar allt þetta var boðið upp.[337]

Engin sárabót var það fyrir Svendsen að um svipað leyti og hann varð að leggja til hliðar öll áform um hvalveiðar og frægðarför til Grænlands náði annar Íslendingur að stíga fæti á Grænlandsgrund. Sá maður var skáldið Sigurður Breiðfjörð sem unnið hafði sem beykir á Ísafirði á fyrstu árum Svendsens á Flateyri.[338] Vera má að leiðir þeirra hafi þá legið saman. Sigurður Breiðfjörð vann sem beykir við konungsverslunina á Grænlandi frá 1831 til 1834[339] og þar orti hann Númarímur sem fyrst voru prentaðar árið 1835. Merkilegt er hins vegar að þegar Breiðfjörð kom frá Grænlandi settist hann að í Stykkishólmi, hjá Árna Thorlacius sem tekið hafði þátt í öllum ráðagerðum Svendsens um Grænlandsför.[340] Honum tileinkaði skáldið Númarímur sínar[341] og hafa þeir haft margt að spjalla um stúlkurnar á Grænlandi og alla landshætti þar. Í þeim samræðum skáldsins og hins örláta kaupmanns í Stykkishólmi hefði Friðrik Svendsen gjarnan viljað taka þátt en þar var hann fjarri góðu gamni, enda farið að halla undan fæti hjá honum þegar Breiðfjörð kom frá Grænlandi árið 1834.

Allt til ársins 1834 virðist rekstur Svendsens hafa gengið bærilega sem sést m.a. á því að á árunum 1819-1833, að báðum þeim árum meðtöldum, greiddi hann jafnan umsamda vexti af láninu sem til var stofnað við kaup verslananna á Flateyri og Þingeyri árið 1819.[342] Gjalddagi vaxtanna var 11. desember ár hvert og síðast voru þeir greiddir 11. desember 1833.[343] Um greiðslur afborgana fyrir 1834, til lækkunar á skuldinni, er allt hins vegar óljósara.

Á árunum 1820-1835 var Svendsen yfirleitt með fjölskyldu sína á Flateyri nema ef vera kynni að þau hafi dvalist í Kaupmannahöfn á veturna fyrstu árin (sjá hér bls. 16-17 og 28-29). Á þessum árum fjölgaði börnum kaupmannshjónanna smátt og smátt og urðu þau að lokum sex, öll fædd á árunum 1818-1829.[344] Heimilið var jafnan fjölmennt og töldust heimilismenn vera 20 árið 1829[345] en 26 árið 1830.[346]

Á sínum fyrstu árum á Flateyri mun Svendsen kaupmaður hafa hafist handa við að rækta upp tún í kringum verslunarstaðinn á Flateyri og hlaða grjótgarð því til varnar. Þann 8. ágúst 1832 gerði Ebenezer Þorsteinsson sýslumaður, ásamt Finni Guðmundssyni, hreppstjóra á Hvilft, og Magnúsi Ólafssyni, sjálfseignarbónda á Eyri, eins konar úttekt á þessum framkvæmdum og ritaði lýsingu á þeim.[347] Hann segir þar að af þessu nýja túni hafi þá um sumarið fengist hey sem nægi til að fóðra eina kú í 36 vikur en fyrir ellefu árum hafi þessi sami blettur verið þakinn grjóti og möl.[348] Lengd grjótgarðsins sem Svendsen sé búinn að hlaða segir sýslumaður vera um 200 faðma[349] en 12 árum seinna var garðurinn orðinn mun lengri (sjá hér bls. 54-55).

Í þessari greinargerð frá sumrinu 1832 ber sýslumaður mikið lof á kaupmanninn á Flateyri fyrir eljusemi hans og dugnað er hann segir hafa orðið öðrum til hvatningar.[350] Meðal þess sem Ebenezer sýslumaður nefnir Svendsen kaupmanni til lofs og dýrðar er smíði þilskipanna tveggja sem áður var sagt frá og stofnun Búnaðarsjóðs Vesturamtsins en einnig lætur hann þess getið að hinn örláti kaupmaður hafi komið á fót sérstökum fátækrasjóði fyrir Mosvallahrepp og eigi sjóðurinn nú 63 ríkisdali til góða.[351] Til marks um mikinn áhuga Svendsens fyrir öllum málum er varði almannaheill lætur Ebenezer þess einnig getið að kaupmaðurinn á Flateyri hafi gefið mest af timbrinu sem notað var til að lagfæra hinn hættulega veg yfir Ófæruna (sjá hér Þorfinnsstaðir) og til að vekja þjóðarandann hafi Svendsen tekið upp þann hátt að veita ungum mönnum sem sköruðu fram úr við fiskveiðar sérstök verðlaun.[352]

Með vísun til alls þessa beindi sýslumaðurinn í Hjarðardal þeim tilmælum til Bjarna amtmanns á Stapa að reynt yrði að tryggja Svendsen einhverja viðurkenningu frá kóngi.[353] Undir þessa málaleitan tók Bjarni amtmaður mjög eindregið í bréfi er hann ritaði rentukammeri í Kaupmannahöfn 9. nóvember 1832 en þar mælti hann með því að Svendsen yrði veittur riddarakross Dannebrogsorðunnar af hinni fjórðu gráðu.[354]

Öll sú kynning á verkum Svendsens sem hér hefur verið gerð grein fyrir bar þann árangur að 1. maí 1833 var honum veitt nafnbótin Kongelig agent.[355] Guðmundur Scheving í Flatey hlaut þá líka þessa sömu nafnbót og var hún veitt þeim í heiðurs- og viðurkenningarskyni fyrir brautryðjendastörf á sviði útgerðar og fiskverkunar.[356] Þegar Svendsen veittist þessi heiður var hann 45 ára gamall og þaðan í frá var hann oft nefndur Agent Svendsen. Er hér var komið sögu tók hins vegar brátt að halla ört undan fæti hjá hinum merka brautryðjanda á Flateyri. Hann gerðist þá sólgnari í áfenga drykki en góðu hófi gegndi og drykkjuæði sem stundum rann á hann benti til þess að geðheilsan væri í tæpasta lagi.[357] Í marsmánuði árið 1835 var öllum orðið ljóst að hinn konunglegi agent á Flateyri væri ekki lengur heill á geðsmunum.[358] Á hann var komið trúarvingl og brátt varð hann hamstola og reyndi að ráða sig af dögum.[359] Í þessum sviptingum hefði Svendsen að öllum líkindum látið lífið ef ekki hefði viljað svo til að læknir var búsettur á heimili hans á þessum tíma. Læknir þessi var systursonur Svendsens og hét Jón Ögmundsen.[360]

Jón Sigurður Ögmundsen fæddist á Eskifirði 30. nóvember árið 1806 en foreldrar hans voru hjónin Málfríður Jónsdóttir og Guðmundur Ögmundsson sem þá var verslunarstjóri á Eskifirði en seinna á Eyrarbakka.[361] Jón Ögmundsen útskrifaðist úr Borgardyggðaskólanum í Kaupmannahöfn árið 1825 og læknanámi lauk hann þar í borg vorið 1831.[362] Þá var faðir hans látinn fyrir allmörgum árum en móðir hans hafði flust vestur í Önundarfjörð á vegum bróður síns, Friðriks Svendsen á Flateyri. Þar giftist hún í annað sinn árið 1827 en seinni maður hennar var Niels Steenbach sem stýrði lengi verslunarrekstrinum á Þingeyri (sjá hér bls. 42-47 og Þingeyri). Tengsl Jóns Ögmundsen við fólk í Önundarfirði og Dýrafirði voru því orðin ærin þegar hann lauk námi vorið 1831, enda fór það svo að hann gerðist ári síðar læknir í norðurhéraði vesturamtsins og settist að á Flateyri.[363] Hann var þá ókvæntur og fékk samastað á heimili móðurbróður síns, Svendsens kaupmanns. Læknishéraðið sem Jón Ögmundsen gegndi náði yfir allan Vestfjarðakjálkann.[364] Aðeins tveir embættislæknar höfðu verið búsettir á Vestfjörðum áður en Jón Ögmundsen tók hér til starfa, annar íslenskur og hinn danskur.[365] Sá fyrsti var Jón Einarsson sem gegndi læknisstarfi á Vestfjörðum frá 1782 til 1813 og bjó lengst á Ármúla við Ísafjarðardjúp.[366] Jón Ögmundsen var hins vegar fyrsti embættislæknirinn sem tók sér bólfestu í Vestur-Ísafjarðarsýslu en hann bjó á Flateyri frá 1832 til 1835.[367] Héðan fluttist Jón læknir til Danmerkur árið 1835 og bjó þar æ síðan.[368] Hann dó árið 1857, þá héraðslæknir í Rípum á Jótlandi.[369] Á árunum 1836-1863 gegndu þrír danskir læknar embætti héraðslæknis á Vestfjörðum og tók einn við af öðrum.[370] Þeir sátu allir á Ísafirði[371] en frá því Jón Ögmundsen fór frá Flateyri árið 1835 og þar til Þorvaldur læknir Jónsson settist að á Ísafirði árið 1863 var enginn skólagenginn íslenskur læknir við störf á Vestfjörðum.[372]

Með hliðsjón af því sem hér hefur nú verið sagt um læknisþjónustuna á Vestfjörðum á fyrri hluta 19. aldar má það kallast merkileg hending að lærður læknir skyldi vera við hendina þegar geðheilsan brást hjá agentinum á Flateyri og hann varð gripinn æði. Þess var áður getið að í æðisköstunum gerði Svendsen veslingur margar tilraunir til að stytta sér aldur og svo fór að frændi hans, læknirinn, varð að setja hann í spennitreyju.[373] Oft var sjúklingurinn þó rólegur en þegar æðið rann á hann þurfti fjóra menn til að hafa á honum hemil.[374] Ein aðferðin sem Svendsen reyndi til að stytta sér aldur var að gleypa málmhluti og eitt sinn þegar læknirinn var fjarverandi náði hann að kyngja teskeið úr silfri.[375] Það var í júlímánuði árið 1835 sem hann gleypti silfurskeiðina og úr því tók hann að þjást af sárum verk fyrir bringspölum.[376] Um haustið fluttist Jón Ögmundsen til Danmerkur og tók hann þá frænda sinn með sér.[377] Hin danska eiginkona Svendsens og sum börn þeirra voru enn á Flateyri á fyrstu mánuðum ársins 1835 (sjá hér bls. 29) en fluttust til Danmerkur síðar á því ári. Líklegt má telja að þau hafi orðið samferða hinum sjúka fjölskylduföður yfir hafið. Þegar skeiðin sem áður var nefnd var komin í kviðarhol Svendsens mun hann hafa orðið rólegri en áður og einhverja bót fékk hann á sínum geðræna sjúkdómi í Kaupmannahöfn veturinn 1835-1836.[378] Um fullan bata var þó alls ekki að ræða og mjög var hann þjakaður innvortis af völdum skeiðarinnar.[379] Vorið 1836 lét hann sig þó hafa að snúa heim og dvaldist á Flateyri þá um sumarið.[380] Þann 23. júlí voru eitt ár og tveir dagar liðnir frá því Svendsen gleypti skeiðina og þann dag varð hann var við að eitthvað svart var komið út úr sári sem hann hafði á síðunni, neðan við brjóstið, hægra megin.[381] Reyndist það vera skaftið á silfurskeiðinni sem hafði kvalið hann í 367 daga.[382] Sjálfu skeiðarblaðinu gat hann ekki náð úr sárinu en skaftið svarf hann af.[383] Skeiðarblaðið sat eftir enn um sinn en þegar Svendsen var á leið til Kaupmannahafnar haustið 1836 og skipið var statt í námunda við Færeyjar leystist það líka úr sárinu.[384] Við komuna til Hafnar gat Svendsen því sýnt frænda sínum, Jóni Ögmundsen, bæði blað og skaft skeiðarinnar og líka síðusárið til marks um þetta kraftaverk.

Sagan um silfurskeiðina er ótrúleg en mun þó vera sönn því allt sem hér hefur verið sagt um Svendsen og skeiðina er byggt á því sem Jón Ögmundsen læknir ritaði og birti í dönsku læknariti.[385] Vera má að síðusárið, er hann hlaut af skeiðinni, hafi átt sinn þátt í því að Svendsen mun á köflum hafa talið sig vera einhvers konar mannkynsfrelsara í líkingu við Jesú Krist.[386]

Þegar geðveikin tók að herja á Friðrik Svendsen varð hann ófær til allra stjórnunarstarfa. Í rekstrinum virðist allt hafa verið með felldu þar til kom fram á árið 1834 (sjá hér bls. 37) en vera má að skútuútgerðin hafi þó verið komin á fallanda fót eitthvað fyrr. Ótvíræðar upplýsingar um hvort svo hafi verið liggja reyndar ekki á lausu. Í ritgerð Guðmundar Schevings frá árinu 1832 er gerð skilmerkileg grein fyrir þeim fimm þilskipum sem Friðrik Svendsen hafði keypt eða látið smíða (sjá hér bls. 19-20). Tvö þeirra höfðu þá verið seld í önnur byggðarlög, jaktskipið Patrioten, sem var selt til Flateyjar á Breiðafirði árið 1824, og slúpskipið Eiríkur rauði sem hafði verið smíðað á Flateyri árið 1828 en var selt til Eskifjarðar eigi síðar en 1832.[387] Hin skipin þrjú, Charlotta, Henrétta og Föðurlandið, voru öll í góðri geymslu og brúkun á Vesturlandinu árið 1832 að sögn Guðmundar Scheving og hann lætur þess ekki getið að Friðrik Svendsen hafi þá verið búinn að selja þau öðrum.[388] Líklegast verður því að telja að þau hafi öll þrjú verið gerð út frá Flateyri allt til ársins 1832 og máske alveg þangað til ruglið kom yfir Svendsen.

Árið 1834 eða 1835 komst rekstur hins stórhuga útgerðarmanns á Flateyri tvímælalaust í þrot og má ætla að geðveikin, sem að honum sótti, hafi ráðið mestu um það. Þegar hér var komið sögu skuldaði hann hálfsystur sinni, Charlottu Ísfjörð, enn verulega fjármuni, það er eftirstöðvar af skuldinni sem til var stofnað þegar hún seldi Svendsen og félögum hans verslanirnar á Þingeyri og Flateyri árið 1819.[389] Greinilegt virðist að Charlotta, sem orðin var herforingjafrú í Danmörku, hafi yfirtekið verslunina á Flateyri og allar eignir sem henni fylgdu þegar bróðir hennar komst í þrot. Til þessa bendir eindregið sú staðreynd að þann 7. ágúst 1835 var á hennar vegum gefið út skjal þar sem tekið er fram að herforingjafrúin afsali fyrir lífstíð verslunarstaðnum Flateyri með öllum húsum sem þar standi í hendur bróður síns, herra agents, Friðriks Svendsen.[390] Þarna fylgdu með 16 hundruð í jörðinni Eyri en á þilskipin er ekki minnst.[391] Hafi Svendsen ekki verið búinn að tapa þeim áður hefur Charlotta tekið þau upp í skuld.

Það var Árni Þorsteinsson, sem bjó í Krossnesi í Eyrarsveit og var umboðsmaður konungsjarða á Snæfellsnesi, er gaf út afsalið fyrir hönd Charlottu.[392] Skýringin á því er að líkindum sú að 6. maí 1834 var hann skipaður sýslumaður í Ísafjarðarsýslu og hélt þar umboðsmann þar til Þorkell Gunnlaugsson tók við vorið 1835 en þá hafði Árni afsalað sér sýslunni.[393] Umboðið sem Charlotta veitti Árna Þorsteinssyni kynni þó að hafa verið gefið út vorið 1835 því óvíst er hvort Charlotta, sem bjó í Danmörku, hafi þá verið búin að frétta að hann hefði afsalað sér embættinu. Hitt getur líka verið að Charlotta hafi ekki veitt Árna þetta umboð sem sýslumanni í Ísafjarðarsýslu heldur vegna persónulegra tengsla en hann var kvæntur dóttur Andreasar Steenbach, sem lengi var verslunarstjóri á Þingeyri[394] og þá í þjónustu Charlottu og fyrri eiginmanns hennar, Henriks Henkel, en þau voru eigendur Þingeyrarverslunar á þeim árum. Fullvíst má telja að áður en Charlotta ákvað að afhenda Friðrik bróður sínum Flateyri og verslunina þar til eignar á nýjan leik – þó geðveikur væri – hafi verið fastmælum bundið að annar maður tæki þar við allri stjórn. Sá maður var Niels Steenbach, sonur Andreasar, en Niels var kvæntur Málfríði Jónsdóttur, alsystur Friðriks Svendsen og hálfsystur Charlottu (sjá hér bls. 39 og Þingeyri). Sonur Málfríðar af hennar fyrra hjónabandi var svo Jón Ögmundsen læknir sem mest reyndi á í veikindum Svendsens.

Tvímælalaust er að Niels Steenbach tók við stjórn verslunarrekstursins á Flateyri vorið 1835 eða þá um sumarið (sjá hér bls. 43-47) og það hlýtur hann að hafa gert á vegum Charlottu eða með hennar samþykki.

Þegar herforingjafrúin ráðstafaði Flateyri til bróður síns í annað sinn mun enn hafa verið talin von til þess að hann næði heilsu og gæti þá tekið við rekstrinum á ný en Steenbach átti að brúa bilið. Í afsalinu frá 7. ágúst 1835 verður ekki séð að Charlotta hafi ætlast til nokkurrar greiðslu fyrir verslunarstaðinn og jarðarhundruðin sem hún lýsti bróður sinn eiganda að,[395] enda er skjal þetta kallað gjafabréf í þinglýstum kaupsamningi frá árinu 1858 (sjá hér bls. 80). Í nýnefndu afsali frá árinu 1835 er hins vegar tekið fram að við andlát Svendsens skuli þessar eignir ganga til barna hans eftir ákveðnum reglum sem gerð var grein fyrir í skjalinu.[396] Flest bendir raunar til þess að Charlotta hafi viljað koma málum þannig fyrir að þessar eignir í Önundarfirði gætu veitt bróður hennar eins konar framfærslutryggingu í hans sjúkdómsbasli og arður af þeim rynni að öðru leyti til að kosta uppeldi barna hans, færi svo að þessi sárt leikni bróðir hennar kæmist ekki til heilsu. Sjálf staðfesti hún gerðir umboðsmanns síns á Íslandi í þessum efnum með undirskrift sinni 13. apríl 1836.[397]

Tæplega tveimur árum síðar, þann 29. mars 1838, ritaði herforingjafrúin, Charlotta Amalia Michaelsen, undir annað skjal þar sem hún tekur m.a. fram að þinglýstar skuldir Friðriks Svendsen við sig frá árunum 1833 og 1834 megi strikast út úr veðmálabókinni.[398] Í þessu sama skjali sést líka hvað Charlotta fékk greitt upp í skuldir við sölu sumra þeirra skipa sem Svendsen átti undir lok skútuútgerðar sinnar frá Flateyri.[399] Óljóst er hins vegar hvort þau voru seld skömmu áður en Svendsen veiktist eða síðar. Við sölu tveggja skipa fékk herforingjafrúin samtals 699 ríkisdali en þar var um að ræða skonnortuna sem bar hennar eigið nafn og Föðurlandið[400] sem smíðað var á Flateyri árið 1827. Hér hefur áður verið greint frá sölu jaktskipsins Patrioten og Eiríks rauða (sjá hér bls. 41) svo ljóst er að allar fiskiskútur Svendsens nema Henrétta hafa verið seldar. Sú munnmælasaga að í suðvestanroki hafi sjór gengið inn í hrófið þar sem skip hans voru geymd að vetrinum og brotið þrjú þeirra í spón[401] virðist því ekki fá staðist en einhverjum skemmdum kann slikt óveður að hafa valdið.

Hér var áður minnst á húkkortuna Tykkebay sem Friðrik Svendsen átti og hafði í vöruflutningum milli Danmerkur og Íslands (sjá hér bls. 34-35). Í yfirlýsingu Charlottu systur hans frá 29. mars 1838 sést að við sölu þessa skips hefur hún fengið greidda 5.030 ríkisdali upp í eftirstöðvar gömlu skuldanna sem til var stofnað árið 1819.[402] Skipið var selt á uppboði í Kaupmannahöfn 14. febrúar 1836 og sá sem keypti var M.W. Sass grósseri,[403] eigandi Neðstakaupstaðarverslunarinnar á Ísafirði. Við þessa sölu var bókað að Tykkebay væri 63,5 stórlestir,[404] það er 165 smálestir, og hefði áður verið skráð á Íslandi en 16 árum fyrr var flutningaskip verslananna á Þingeyri og Flateyri með þessu sama nafni talið nokkru minna eða 122 smálestir (sjá hér bls. 34-35). Vera má að á árunum milli 1820 og 1836 hafi nýtt skip með nafninu Tykkebay komið í stað annars eldra með sama nafni. Eftir 1836 var nýnefnt fragtskip lengi í förum milli Kaupmannahafnar og Ísafjarðar og mun á Ísafirði hafa gengið undir nafninu Þykkvibær.[405]

Um Niels Steenbach, er tók við stjórn verslunarinnar á Flateyri árið 1835, og Málfríði Jónsdóttur konu hans, sem var systir Friðriks Svendsen, hefur áður verið ritað á þessum blöðum en hann hafði með höndum stjórn verslunarrekstursins á Þingeyri frá 1825 til 1835 og svo aftur frá 1840 til 1855 (sjá hér Þingeyri). Verslunarstjóri á Flateyri var hann hins vegar aðeins í fimm ár, frá 1835-1840.[406]

Á Flateyri komu þau Niels og Málfríður sér fyrir í húsi Friðriks Svendsen en fjölskylda kaupmannsins fluttist eins og fyrr var nefnt til Danmerkur sama ár og faktorinn frá Þingeyri tók við stjórnartaumunum á Flateyri. Sjálfur kom Svendsen þó yfirleitt til Flateyrar á sumrin á þessum árum (sjá hér bls. 49-50) og mun þá hafa haldið til hjá Málfríði systur sinni og manni hennar í sínu gamla húsi. Þegar Niels Steenbach tók við rekstrinum á Flateyri árið 1835 var skútuútgerðin liðin undir lok og öll umsvif því langtum minni en áður. Árið 1830 höfðu íbúarnir í húsi kaupmannsins á Flateyri verið 26 (sjá hér bls. 37) en hjá Steenbach voru 15 heimilismenn í febrúarmánuði árið 1838[407] og var það eina fólkið sem þá átti heima á Flateyri. Í þeim hópi voru Rannveig Matthíasdóttir, ekkja Ásgeirs Jónssonar, prófasts í Holti, og Abigael Þórðardóttir, 26 ára gömul þjónustustúlka[408] sem giftist fjórum mánuðum síðar séra Sigurði Tómassyni er þá var aðstoðarprestur í Holti (sjá hér Holt).

Á sínum velmektardögum hafði Friðrik Svendsen nytjað 16 hundruð úr jörðinni Eyri og verið með 5 kýr og 50 ær auk annars búpenings (sjá hér bls. 27-28). Hjá Niels Steenbach voru umsvifin á þessu sviði mun minni, enda bjó hann aðeins á helmingi þess jarðnæðis sem Svendsen hafði nytjað, það er átta hundruðum.[409] Hin átta hundruðin voru leigð Finni Guðmundssyni, bónda á Hvilft, til afnota.[410] Steenbach faktor og Málfríður kona hans voru þó með allstórt bú á þeirra tíma mælikvarða og má sem dæmi nefna að árið 1837 bjuggu þau með 4 kýr, 24 ær, 6 fullorðna sauði og hrúta og 2 hesta.[411] Áttæringurinn sem Svendsen hafði átt var þá enn við lýði og lítill bátur sem aðeins var tveggja eða þriggja manna far.[412]

Líklegt má telja að almenn viðskipti við verslunina á Flateyri hafi verið heldur minni á árum Nielsar Steenbach en þegar umsvifin voru mest hjá Friðrik Svendsen. Frá árinu 1836 liggur fyrir skrá yfir útfluttar vörur og er hún undirrituð af Niels Steenbach 24. ágúst á því ári.[413] Líklegt er að þar sé um að ræða heildarútflutning verslunarinnar á Flateyri það ár en ekki er þó alveg víst að svo sé. Útflutningsafurðirnar sem þarna eru taldar upp voru þessar:

 

 1. 51 tunna af hákarlalýsi.
 2. 4129 kíló af skreið.
 3. 4637 kíló af saltfiski.
 4. 235 kíló af hvítri ull.
 5. 92 kíló af mislitri ull.
 6. 2335 pör af einbandssokkum.
 7. 8 pör af vettlingum.
 8. 80 heil lambskinn.
 9. 20 hálf lambskinn.
 10. 11 hvít refaskinn.
 11. 2 grá refaskinn.
 12. 3 búnt af söltuðum sauðagærum.[414]

 

Verðlagsskrá sem sýslumaðurinn í Ísafjarðarsýslu sendi frá sér árið 1840[415] gefur vísbendingu um hvað bændur fengu greitt fyrir afurðirnar á þessum árum. Samkvæmt þeirri skrá var verðlagið sem hér segir:

 

Ein tunna hákarlslýsi ……………………………….  20   ríkisdalir

Eitt skippund (160 kíló) af skreið ………………  17        –

Eitt skippund (160 kíló) af saltfiski ……………  15        –

Eitt kíló af hvítri ull …………………………………  44   skildingar a)

Eitt kíló af mislitri ull ………………………………  36        –

Eitt par einbandssokkar ……………………………  16        –

Eitt par vettlingar ………………………………………  6        –

Eitt lambskinn …………………………………………..  6        –

Eitt hvítt refaskinn …………………………………..  80        –

Eitt grátt refaskinn …………………………………….  2   rd. og 48 sk.

____________________________

 1. a) 96 skildingar voru í hverjum ríkisdal.

 

Fyrir afurðirnar, sem fluttar voru út frá Flateyri árið 1836 og hér var áður gerð grein fyrir, hafa bændur fengið greidda 2.445 ríkisdali og 8 skildinga ef miðað er við verðið frá árinu 1840. Þá eru búntin þrjú af söltuðum sauðagærum reyndar ekki talin með en um verð á þeim er ekki getið í skránni sem hér er byggt á. Af nýnefndum útflutningsafurðum fékkst mest fyrir hákarlslýsið, 1.020 ríkisdalir en fyrir skreiðina fengust 439 ríkisdalir og 435 dalir fyrir saltfiskinn. Í fjórða sæti komu svo sokkarnir en fyrir þá fengust 389 ríkisdalir.

Frá Niels Steenbach hefur einnig varðveist skrá yfir erlendar vörur sem slúpskipið Adolf kom með til Flateyrar 5. júní 1837 og er skráin undirrituð af verslunarstjóranum þann sama dag.[416] Á þessari skrá eru taldar upp um það bil 80 vörutegundir og má telja líklegt að þarna sé um að ræða allar eða nær allar þær erlendu vörur sem fluttar voru inn á vegum Flateyrarverslunar árið 1837. Skráin gefur allgóða mynd af þeim erlenda varningi sem Önfirðingar og aðrir landsmenn töldust hafa þörf fyrir á þessum tíma og skal nú talið upp allt sem sent var frá Kaupmannahöfn til Flateyrar með nýnefndu skipi vorið 1837:

 

60 tunnur af rúgi                                        50 tunnur af salti frá Liverpool

30 tunnur af bankabyggsgrjónum                   68 hálftunnur & 44 kvarttunnur af                        rúgmjöli

454 kíló af skonroki                                    172 ½ kíló af skipsbrauði

5 föt af rommi                                            60,4 pottar af kornbrennivíni

119 ½ pottur af miði                                   120 pottar af frönsku víni

116 kíló af skrotóbaki                                  49 kíló af rjóli

104 kíló af gráfíkjum                                   47 kíló af rúsínum

40 kíló af sveskjum                                     111 ½ kíló af sírópi

78 kíló af kaffibaunum                                17 karlmannshattar

6 drengjahattar                                           12 silkihattar

1000 3ja tommu naglar                                1000 2ja tommu naglar

1000 einnar tommu naglar                            2000 hálftommu naglar

1000 aðrir naglar og 3 naglap. að auk             576 hnappar

72 hnífar                                                   12 pennahnífar

1000 saumnálar                                          500 stoppinálar

36 fingurbjargir                                          12 ullarbrekán

24 pör ullarkambar                                     1440 lykkjur og krókar úr messing [notað á flíkur]

2 ½ kíló af púðri                                         36 hengilásar

48 skæri                                                    12 composions (?) dósir

12 blikkdósir                                             3 pakkar rauðir barnahnappar

2000 patrónur                                            61 alin af hörgarni

60 álnir af lituðu sirsi                                  500 (eða 1000) pappírsarkir

8 kíló af hvítri sápu                                     8 kíló af lakkrís

½ kíló af rauðu lakki                                   ½ kíló af svörtu lakki

Ein máluð kista                                          24 speglar í römmum

250 grömm af svörtum silkitvinna                 4 rauð og græn ullarbönd

50 stykki af 60 faðma línu                            4 annars konar bönd

4 tunnur af tjöru                                         Einn áttungur úr tunnu af grænsápu

100 brýni                                                  ½ tunna af biki

11 búnt af tunnustöfum                                1 tunna af baunum

150 pelaflöskur                                          Einn kassi gler

54 ½ kíló kandís                                         2 rifflar

132 álnir Pak lavet (?)                                 52 kíló hvítasykur

20 álnir flauel                                            38 álnir bravatin (?)

75 álnir af hvítu bómullarefni í vinnuföt          192 stykki af langböndum og borðviði

21 ½ alin bómullartau í vesti                         18 tjörutunnur með steinkolum

36 3ja tommu plankar                                  48 þráðaröskjur

24 almanök                                               1 kíló þræðir af ýmsu tagi

40 tómar lýsistunnur                                   99 ríkisdalir í reiðu silfri.[417]

 

Um verðlag á nokkrum helstu vörunum sem inn voru fluttar má fá góða vísbendingu með því að líta á verðlagsskrá sýslumannsins í Ísafjarðarsýslu frá árinu 1838.[418] Samkvæmt þeirri skrá kostaði rúgtunnan 4 ríkisdali og 64 skildinga, tunna af rúgmjöli 5 ríkisdali og 32 skildinga, pottur af dönsku brennivíni 16 skildinga, pottur af rommi 24 skildinga, kíló af kaffibaunum 64 skildinga og kíló af kandís eða molasykri kostaði líka 64 skildinga.[419]

Þess var áður getið að líklegt mætti telja að aðeins eitt skip hafi komið með erlendar vörur til verslunarinnar á Flateyri árið 1837 en sé svo eru nær allar slíkar vörur sem verslunin fékk á því ári taldar upp í skránni sem hér var birt. Engu að síður er fremur hæpið að slá nokkru föstu um árlega neyslu út frá því magni einstakra vörutegunda sem þarna er gefið upp. Ástæða þess er sú að gera má ráð fyrir að talsvert hafi verið verslað við lausakaupmenn á þessum tíma (sjá hér bls. 60-63) og auk þess gat verið allbreytilegt hversu mikið af vörum lá óselt um hver áramót. Ætti að gera tilraun til að meta meðalneysluna á hvern íbúa þarf líka að hafa í huga að auk Önfirðinga munu margir Súgfirðingar hafa verslað á Flateyri á þessum tíma. Úr fjarlægari sveitum hafa menn varla sótt verslun til Flateyrar nema sérstaklega stæði á en þess má geta að séra Sigurður Tómasson, aðstoðarprestur í Holti, segir í dagbók sinni að 4. september 1839 hafi Jóhannes í Heydal og Hólm komið að sækja vörur.[420] Nánari skýring á þessu ferðalagi liggur ekki fyrir en Jóhannes, sem þarna er nefndur, hlýtur að hafa átt heima í Heydal í Vatnsfjarðarsveit. Manntal frá árinu 1835 sýnir að Jóhannes Halldórsson var þá kvæntur húsmaður í Heydal, 51 árs gamall.[421]

Þau Niels Steenbach og Málfríður kona hans, sem réðu ríkjum á Flateyri frá 1835 til 1840, áttu engin börn saman en Málfríður hafði átt þrjú börn með sínum fyrri eiginmanni, Guðmundi Ögmundssyni, verslunarstjóra á Eskifirði,[422] og var eitt þeirra Jón Ögmundsen læknir sem hér hefur áður verið sagt frá. Þegar Niels Steenbach settist að á Flateyri árið 1835 var hann 32ja ára gamall, fæddur 1803 (sjá hér Þingeyri), en Málfríður kona hans var um fimmtugt.[423] Hún var þá ekki að koma til Flateyrar í fyrsta sinn því hér hafði hún áður átt heima hjá bróður sínum, Friðrik Svendsen. Fyrri eiginmaður Málfríðar hafði andast árið 1824, þá verslunarstjóri á Eyrarbakka,[424] og í sínu ekkjustandi brá hún á það ráð að flytjast vestur á Flateyri til bróður síns. Sú yngri af tveimur dætrum ekkjunnar hét Charlotta Sophia Ögmundsen, fædd 1813,[425] og fylgdi hún móður sinni vestur. Stúlka þessi var fermd í Holtskirkju árið 1827[426] og þann 23. maí á sama ári voru móðir hennar, sem þá átti heima á Flateyri, og Niels Steenbach gefin saman í hjónaband.[427] Hinn nýi eiginmaður Málfríðar var þá kaupmaður á Þingeyri (sjá hér Þingeyri) og þangað fluttust þær mæðgur þegar búið var að ferma og gifta.[428]

Í húsi Friðriks Svendsen, sem seinna var nefnt Torfahús, gekk ein vistarveran undir nafninu Lottuherbergið á síðari hluta 19. aldar og hafa vísir menn bent á að það muni hafa verið kennt við nýnefnda stúlku Charlottu Sophiu Ögmundsen.[429] Undir þá skoðun skal tekið hér því ólíklegt verður að telja að móðursystir hennar, Charlotta Amalia Ísfjörð, sem orðin var herforingjafrú í Kaupmannahöfn, hafi látið sjá sig á Flateyri eftir 1820 og enn ólíklegra að hún hafi haft þar sérstakt herbergi. Þegar Björn Bjarnason frá Viðfirði var á Ísafirði á árunum rétt eftir aldamótin 1900 færði hann í letur frásögn af reimleikum í þessu gamla húsi á Flateyri og þar kom Lottuherbergið sem svo var nefnt við sögu. Frásögnina byrjar doktor Björn með þessum orðum:

 

Þegar Torfi kaupmaður Halldórsson og kona hans byrjuðu búskap á Flateyri fyrir rúmum 40 árum fluttu þau í gamalt hús er fyrrverandi eigendur eyrarinnar höfðu búið í. Það var hálfdönsk fjölskylda og kvað konan hafa verið af aðalsættum. Sá orðrómur lá á húsinu að þar væri næsta reimt. Torfi og kona hans voru lítt trúuð á drauga og forynjur og skeyttu því engu hvað fólk sagði um reimleikana. En ekki höfðu þau verið þar lengur en hálfsmánaðartíma þegar vinnukona þeirra kemur inn einn morgun með miklu fasi og segir: „Komin er hún enn.” Húsfreyja skildi ekki við hvað hún átti og hváði við. „En nályktin”, sagði vinnukonan í húsinu og fussaði. „Það eru einhver ósköp sem hvíla yfir þessu húsi. Á hálfsmánaðarfresti leggur fyrir sterkustu nálykt í eldhúsinu, í litla herberginu fyrir innan eldhúsið og í loftsherberginu sem er uppi yfir því. Það kvað heita „Lottuherbergi” þetta þarna uppi á loftinu. Guð má vita hvaða sögu það á að geyma. Mér verður alltaf eitthvað svo kynlegt ef ég kem þangað í myrkri.” [430]

 

Reimleikasaga Björns frá Viðfirði er nokkuð löng en meginefni hennar er það að ýmsir gestir og heimilismenn í Torfahúsi töldu sig finna nálykt í grennd við Lottuherbergið og sáu þar, ýmist í vöku eða svefni, stúlku í hvítum klæðum sem var óvanalega fríð sýnum og féll ljósgult hárið niður um brjóst og herðar ofan fyrir mitti.[431] Í draumi greindi þessi hvítklædda vera einni af vinnukonunum í húsinu frá því að hún hefði á árum áður fyrirfarið barni sínu uppi í Lottuherberginu og þegar aðra vinnukonu dreymdi sama drauminn nokkru síðar þótti mörgum að ekki þyrfti frekari vitna við.[432] Var þá komin skýring á nályktinni og litið svo á að þessi ólánsama móðir hlyti að hafa komið barnslíkinu fyrir milli þils og veggjar í nefndu herbergi.[433] Danskur beykir, Westergaard að nafni, sem látinn var sofa í herberginu heyrði líka hringl í beinum og undir svefninn sýndist honum dálítill barnskroppur hanga á snæri upp við sperrulegginn undir súðinni.[434] Fleiri sögur voru sagðar um þessa reimleika og tóku sumir mark á þeim en aðrir ekki.

Líklega hefur orðrómurinn um reimleika í Lottuherberginu og þar í kring verið nokkuð svæsinn á fyrsta áratug 20. aldar. Til marks um það má nefna að veturinn 1909-1910 hafði ungur læknir ætlað sér að setjast að í Torfahúsi en gugnaði á því vegna myrkfælni.[435] Torfi Halldórsson var þá látinn og ekkja hans, María Össurardóttir, flutt að nokkru upp á Sólbakka þar sem synir hennar bjuggu. Í bréfi sem hún skrifar tveimur dætra sinna 14. mars 1910 kemst hún svo að orði:

 

Læknirinn var hálfpart búinn að panta hjá mér verelsin mín [í Torfahúsi] og ég búin að dragast á það en hvað skeður? Var hann þá ekki svo myrkfælinn að hann þorði ekki að sofa þar. Ég vissi vel hvað myrkfælni var. Hélt hana varla sjálf út í fyrravetur.[436]

 

Læknirinn sem gegndi störfum á Flateyri frá 1. febrúar 1910 til 1. júlí á sama ári hét Guðmundur T. Hallgrímsson og var fæddur 17. desember 1880.[437]

Í prestsþjónustubókinni verður ekki séð að stúlkan sem Lottuherbergið var kennt við hafi eignast barn þegar hún átti heima á Flateyri, enda var hún þá um og innan við fermingu. Árið 1830 var hún búsett hjá móður sinni og stjúpa á Þingeyri[438] en fimm árum síðar var hún farin þaðan.[439] Hugsanlegt er að hún hafi dvalist eitthvað hjá Svendsen frænda sínum á Flateyri á árunum 1830-1834, þá um tvítugt, en engin sóknarmannatöl eru til úr Holtsprestakalli frá þeim árum. Leynilegar barnsfæðingar voru algengari en skyldi á fyrsta þriðjungi nítjándu aldar og líkum barna sem fæddust andvana við slíkar aðstæður stundum holað niður á ólíklegustu stöðum. Vitneskjan um það gaf ímyndunaraflinu byr undir vængi eins og sjá má af sögunum um Lottuherbergið í húsi Friðriks Svendsen. Hafi Charlotta Sophia eða einhver hinna mörgu vinnukvenna Svendsens losast þar við leyndan þunga er sá atburður hins vegar fyrir löngu gleymdur og reyndar ber frásögn doktors Björns frá Viðfirði með sér að fólkið sem þóttist finna nályktina hafði í raun enga vitneskju um að nokkuð slíkt hefði skeð í þessu húsi.

Hér var þess áður getið að Friðrik Svendsen, eigandi verslunarinnar á Flateyri, hefði bilast á geðsmunum árið 1835 og farið utan þá um haustið með Jóni Ögmundsen lækni (sjá hér bls. 40). Hin danska eiginkona kaupmannsins settist þá að á sínum heimaslóðum í Danmörku og börn þeirra fylgdu móðurinni.[440] Elsta barnið var þá 17 ára eða því sem næst.

Frá haustinu 1835 til vorsins 1839 var Svendsen líka búsettur í Danmörku og stríddi þar við sinn þráláta sjúkdóm. Hann kom þó til Flateyrar á sumrin bæði 1836 (sjá hér bls. 40) og 1837. Kom Agent Svendsen frá Kaupmannahöfn, skrifar séra Sigurður Tómasson, sem þá var aðstoðarprestur í Holti, í dagbók sína 5. júní 1837[441] svo hér er ekki um að villast. Ekki er kunnugt um að Svendsen hafi verið á Flateyri sumarið 1838 en vorið 1839 lagði hann enn upp í Íslandsferð eins og sjá má í bréfi sem Jón Sigurðsson forseti skrifaði Sigurði Bjarnasyni frá Tjaldanesi 26. apríl á því ári. Forseti segir svo:

 

Svendsen veslingur fer nú heim hvað sem þá verður úr. Mikið væri mér gleði að því hann kæmist á fót því varla mun vera velviljaðri maður Íslandi en hann er þó margir kannske hugsi annað.[442]

 

Þann 15. september þetta sama ár var Svendsen við messu í Holti. Það var aðstoðarpresturinn, séra Sigurður Tómasson, sem messaði þennan dag og lýsir hann deginum svo í dagbók sinni: Gott veður. Messaði hér, fjöldi. Kom Agenten. Varð ég fuld.[443] Sex árum fyrr hafði Friðrik Svendsen verið veitt heiðursnafnbótin kongelig Agent (sjá hér bls. 38) og þaðan í frá var hann mjög oft nefndur agenten af sveitungum sínum í Önundarfirði.

Þegar Svendsen agent kom til Íslands vorið 1839 mun geðheilsa hans hafa verið orðin eitthvað skárri en þegar hún var lökust. Um haustið fór hann ekki til Kaupmannahafnar en hélt kyrru fyrir á Flateyri og settist þar að á ný til langdvalar. Þar með slitnaði endanlega upp úr sambúð hans við eiginkonuna því hún mun aldrei hafa komið til Íslands eftir 1835. Í sóknarmannatali frá febrúarmánuði árið 1840 sést að Friðrik Svendsen var þá heimilismaður hjá Niels Steenbach, mági sínum, á Flateyri.[444] Sá síðarnefndi gegndi þá enn starfi verslunarstjóra[445] en Svendsen taldist enn vera eigandi Flateyrarverslunar eins og hér hefur áður verið gerð grein fyrir (sjá bls. 41-42). Í heimild frá þessum sama vetri er nefnt að hinn konunglegi agent á Flateyri hafi spilað á fiðlu og verið eini maðurinn í prestakallinu sem það kunni.[446]

Síðar á árinu 1840 fóru þau Niels Steenbach og Málfríður kona hans frá Flateyri og settust aftur að á Þingeyri (sjá hér Þingeyri). Friðrik Svendsen varð þá húsbóndi á ný í eina íbúðarhúsinu á Flateyri og þannig er hann titlaður í manntalinu frá 2. nóvember 1840.[447] Hann hafði þá lítið umleikis en var þó kominn með bústýru og alls voru heimilismennirnir níu.[448] Skemmst er frá því að segja að þaðan í frá bjó Svendsen agent í húsi sínu á Flateyri allt til dauðadags en hann andaðist 13. febrúar 1856 og var þá orðinn nær 68 ára gamall.[449]

Í ýmsum ritum frá síðari tímum er haft á orði að geðheilsa agentsins á Flateyri hafi verið fremur bágborin á þessu síðasta skeiði ævinnar. Á einum stað er til dæmis sagt að hann hafi naumast á heilum sér tekið á árunum um og upp úr 1840[450] og í öðru riti er Svendsen sagður hafa verið niðurbrotinn á sál og líkama er hann kom frá Danmörku vorið 1839.[451] Fullvíst má telja að hinn áður hugumstóri umsvifamaður hafi aldrei náð alveg fullri heilsu eftir veikindin 1835 og í bréfi sem þessi konunglegi agent skrifaði Eggerti Briem, þáverandi sýslumanni í Ísafjarðarsýslu, 25. júlí 1848 má greina merki um truflaða sansa. Í bréfinu kemst hann meðal annars svo að orði:

 

Mér er lagt í Penna af Ljósanna föður að votta Y.Ð.U.R. að þettað Y.Ð.A.R. Bróður Kærleikans Merki á móti hans bágstöddu Börnum sé og verði óaflátanlega til sýnis í hans Eilífa Náðar D.A.G.E.R.O.T.Y.P.[452]

 

Í ritgerð sinni um Friðrik Svendsen segir Jón Helgason ritstjóri að eftir veikindin 1835 hafi hann aldrei náð andlegu jafnvægi og fullri dómgreind.[453] Sami höfundur bætir síðan við þessum orðum:

 

Hann hafði ekki látið af þeirri trú að guð hefði kjörið hann til þess að birta mönnum hin dýpstu sannindi. Hann hugði sig skilja raddir náttúrunnar og eitt var það í kenningu hans að Íslendingar væru komnir af þrettándu ættkvísl Ísraels. − „Guð er stór í norðrinu”, var löngum viðkvæði hans. En öll ærsl voru fyrir löngu af honum runnin og óra hans umbáru menn með þögn og þolinmæði, enda margir minnugir fyrri verðleika þessa manns.[454]

 

Þessi lýsing er að líkindum mjög nærri sanni en hinu má ekki gleyma að þrátt fyrir veikleika sinn var Svendsen nokkurs megnugur á þessum seinni árum sínum á Flateyri. Skýrast kom getan fram í því að hann náði að festa sér unga konu og eignast með henni þrjú börn. Stúlkan sem hann seiddi til sín, e.t.v. með fiðluleik, hét Guðbjörg Bjarnadóttir[455] og var frá Brekku í Dýrafirði (sjá hér Vífilsmýrar). Um fyrstu kynni þeirra eru heimildir þöglar en haustið 1840 var hún komin í hús agentsins á Flateyri og í manntali sem þá var tekið er hún sögð vera bústýra hans.[456] Hún var þá 24 ára en hann 52ja.[457] Þaðan í frá fylgdust þau að uns yfir lauk.[458] Sumarið 1841 náði Svendsen að gera stúlkunni barn, sem fæddist 4. mars 1842, og í nóvembermánuði árið 1843 bættist annað við.[459] Bæði börnin voru stúlkur og var sú eldri skírð Haraldine Vilhelmine en hin Fernandína Friðrika Málfríður.[460]

Í Önundarfirði mun almúginn hafa velkst í vafa um hvort agentinn á Flateyri hefði nokkru sinni fengið löglegan skilnað frá sinni dönsku eiginkonu en almenna reglan var sú á þessum tíma að færi kvæntur maður að búa með frillu sinni var þeim stíað sundur hið fyrsta með góðu eða illu. Aldrei var þó hróflað við sambúð þeirra Friðriks Svendsen og Guðbjargar en vera má að fordæmið sem blasti við á Flateyri hafi gert yfirvöldunum erfiðara um vik að stía öðru fólki í sundur, bæði í Önundarfirði og nálægum byggðum. Til þess benda reyndar orð Eggerts sýslumanns Briem í einkabréfi, sem hann ritaði Bjarna amtmanni Thorsteinsen á Stapa 8. janúar 1845, en hann segir þar um aðra konu sem nýlega hafði eignast barn með kvæntum manni:

 

Ætli hún [Ingibjörg Jónsdóttir á Veðrará] megi ekki vera kyrr ef ég get ekki komið henni í burt með góðu, með því að Önfirðingar hneykslast máske meira á mjög miklum strangleika í þessu máli með því Sveinsson agent fær að hafa sína frillu undir sama þaki.[461]

 

Haustið 1849 gekk bústýra agentsins á Flateyri með þriðja barn þeirra undir belti og var eins og allir gátu séð komin langt á leið. Þau Guðbjörg og Svendsen agent höfðu þá búið saman í níu ár og nú fengu þau prestinn í Holti til að pússa sig saman. Hjónavígslan fór fram í fyrri hluta október og mánuði síðar, þann 7. nóvember 1849, fæddist barnið.[462] Þetta var drengur og var hann skírður Baldur Kristján Friðrik.[463] Presturinn sem gifti Friðrik Svendsen og Guðbjörgu Bjarnadóttur var séra Lárus M. Johnsen og þegar hann skráir hjónavígsluna lætur hann fylgja með þá athugasemd að agentinn sé skilinn við konu sína að lögum.[464] Hin fyrri eiginkona Svendsens var þá á lífi í Danmörku. Síðar kvisaðist og var haft fyrir satt að Svendsen hefði aldrei skilið við hana með lögformlegum hætti[465] en hvað rétt er í þeim efnum hefur ekki verið kannað. Á brúðkaupsdaginn gaf Svendsen brúði sinni og bústýru húsið Baldurskofa með öllu tilheyrandi í morgungjöf en óljóst er hvaða hús það hefur verið.[466] Ætla má að Baldurskofi hafi staðið á Flateyri en íbúðarhús hefur þetta varla verið. Hugsanlegt er að vísu að Jón Einarsson skipherra og fjölskylda hans, sem áttu heima á Flateyri frá 1845 til 1847 (sjá hér Hvilft og Sveinseyri),   hafi komið sér þar upp bæ eða timburstofu og Svendsen keypt það húsnæði að þeim burtfluttum. Hvað sem öðru líður mun nafnið Baldurskofi vera hugarsmíð Svendsens og sýnist líklegt að það tengist nafni sonar hans og Guðbjargar, piltsins sem fæddist rétt eftir hjónavígsluna og gefið var nafnið Baldur.

Börn Friðriks Svendsen og Guðbjargar Bjarnadóttur náðu öll þrjú að komast á unglingsár en tvö þeirra, Haraldine Vilhelmine og Baldur Kristján Friðrik, dóu innan við tvítugt.[467] Dóttirin Fernandína Friðrika Málfríður lifði hins vegar mun lengur, giftist í Danmörku og eignaðist afkomendur.[468]

Á sínum fyrri árum á Flateyri hafði Svendsen verið framsækinn og stórhuga kaupmaður sem stýrði einni stærstu þilskipaútgerð landsins eins og hér hefur áður verið rakið. Á hans síðari Flateyrarárum, tímabilinu frá 1839 til 1856, horfðu málin allt öðru vísi við því þá var hann aldrei heill á geði. Þilskipin voru úr leik (sjá hér bls. 44) og svo virðist sem rekstri verslunar hans á Flateyri hafi lokið árið 1840 þegar Niels Steenbach, sem verið hafði verslunarstjóri, fluttist burt. Til þessa bendir m.a. sú staðreynd að í sóknarmannatölum og öðrum heimildum er Friðrik Svendsen aldrei nefndur kaupmaður eftir 1840 og í opinberum verslunarskýrslum frá árunum 1849 og 1855 er því slegið föstu að á Flateyri sé enginn fastakaupmaður.[469] Ekki er heldur sjáanlegt að nokkur starfandi verslunarmaður hafi átt heima á Flateyri á árunum 1841-1856.[470] Engar líkur eru til þess að Svendsen hefði getað stjórnað verslunarrekstri eins og heilsu hans var háttað á þessum árum.  Búskapurinn á þeim 16 hundruðum úr Eyri sem Svendsen átti og hafði til ábúðar gekk hins vegar fyrir sig með eðlilegum hætti, enda er hann þrisvar sinnum kallaður bóndi í sóknarmannatölum frá þessum árum[471] og í manntölunum frá 1850 og 1855 er hann sagður vera bóndi og lifa af búi sínu.[472] Veturinn 1840-1841 var hann með ráðsmann[473] en líklegast er að á árunum 1842-1856 hafi það verið Guðbjörg sem í raun stjórnaði búrekstrinum. Á heimilinu voru þá oftast ellefu til þrettán manneskjur[474]og búið nokkuð stórt miðað við það sem almennt var hjá bændum í Mosvallahreppi á þeim tíma.

Haustið 1845 bjuggu þau Svendsen og Guðbjörg með 3 kýr, 1 naut, 38 ær, 4 sauði, 27 gemlinga og 2 hesta.[475] Vorið 1850 var bústofninn 3 kýr, 1 kvíga, 1 kálfur, 48 ær, 18 sauðir og hrútar, 26 gemlingar, 46 lömb og þrír hestar.[476] Ein kýrin sem Svendsen agent átti á þessum árum hét Góa en nafn hennar er að finna í dagbók séra Sigurðar Tómassonar sem bjó á Flateyri frá 1847 til 1849. Haldið Góu Agentsins, skrifar prestur í dagbók sína 3. mars 1848[477] og þarf ekki frekari vitna við. Haustið 1855 bjuggu Svendsen og Guðbjörg kona hans enn með 3 kýr og eina kvígu en sauðféð var þá mun færra en verið hafði fimm árum áður.[478] Ærnar voru nú ekki nema fjórtán en sauðir og hrútar sextán.[479] Þetta haust var agentinum á Flateyri gert að greiða eina vætt og tuttugu fiska í útsvar og af 54 búandi gjaldendum í hreppnum var hann þá sá tíundi í röðinni, talið frá hæsta manni til hins lægsta.[480] Sexæring átti Svendsen á þessum árum og mun hann hafa verið gerður út frá Kálfeyri.[481] Að auk áttu þau Guðbjörg stundum einn eða tvo minni báta.[482]

Á einu sviði búskaparins stóð Svendsen öllum öðrum Önfirðingum framar á árunum kringum 1850. Það svið var garðyrkjan.[483] Í lýsingu Holtssóknar frá árinu 1840 segir að kálgarðarækt sé sérlega vel stunduð í Hjarðardal ytri, nokkuð í Holti og vel á Flateyri.[484] Um kartöflur er þess getið í sömu heimild að þær séu ræktaðar í Hjarðardal og ekki síður á Flateyri af agent Svendsen.[485] Tíu árum síðar, vorið 1850, voru þau Svendsen og Guðbjörg kona hans með fimm kál- og kartöflugarða sem samtals voru 40 ferfaðmar að flatarmáli.[486] Ekkert annað heimili í Mosvallahreppi var þá með svo stóra kálgarða.[487] Hjá þeim sem næstir komu var stærð garðanna sem hér segir: Hjá Guðrúnu Þórðardóttur, sýslumannsekkju í Ytri-Hjarðardal, 36 ferfaðmar, hjá séra Lárusi M. Johnsen í Holti 24 ferfaðmar, hjá Magnúsi Einarssyni á Hvilft 20 ferfaðmar og hjá Helgu Jónsdóttur á Þórustöðum 10 ferfaðmar.[488] Hjá hverjum hinna fjögurra bænda í hreppnum sem stunduðu einhverja kál- eða kartöflurækt og hér hafa ekki verið nefndir var stærð garðanna innan við tíu ferfaðma.[489]

Hér var áður minnst á túnið sem Svendsen ræktaðu upp á Flateyri og grjótgarðinn er hann hlóð eða lét hlaða umhverfis það (sjá hér bls. 37-38). Árið 1832 var þessi túngarður um 200 faðmar á lengd (sjá hér bls. 37-38), lausbl.)), árið 1840 var hann um 270 faðmar[490] og árið 1844  var lengd

garðsins komin upp í 364½ faðm.[491] Í sóknalýsingu sinni frá árinu 1840 fullyrðir séra Tómas Sigurðsson í Holti að túngarðurinn á Flateyri sé sá eini í prestakallinu.[492]

Árið 1844 ákvað Svendsen að leita eftir viðurkenningu frá Hinu konunglega danska landbúnaðarfélagi fyrir túnrækt sína á Flateyri og hleðslu túngarðsins. Umsókn hans þessu viðvíkjandi, dagsett 28. september 1844, er enn varðveitt og teikning sem henni fylgdi af Flateyrarodda og öllum helstu mannvirkjum þar.[493] Teikning þessi sem birt er í bókinni Firðir og fólk 900-1900 á bls. 385 er í litum og listilega vel gerð eins og sjá má. Allar stærðir og vegalengdir sýnast líka vera hárnákvæmar. Í bréfi tveggja hreppstjóra úr Önundarfirði, dagsettu 27. september 1844, er tekið fram að Svendsen hafi sjálfur dregið upp myndina[494] og ef grannt er skoðað má líka sjá að upphafsstafirnir í nafni hans, F.J.S., standa undir skýringartextanum sem fylgir myndinni en í honum er allt með sama handbragði og á sjálfri teikningunni.

Stærsta húsið á myndinni er alveg tvímælalaust íbúðarhúsið sem Svendsen byggði 1820 eða mjög skömmu síðar en svolítið norðar og vestar stendur annað býsna stórt hús sem mjög líklegt verður að telja að sé Norskahúsið frá 1792, elsta íbúðarhús á Flateyri. Þetta hús sem myndin sýnir stóð rétt vestan við Hafnarstræti, nær beint á móti húsinu sem nú er númer fjögur við þá götu en þó aðeins ofar og sneru gaflarnir í austur og vestur. Í Norskahúsinu munu verslunin og íbúð verslunarstjórans hafa verið allt til 1820 (sjá hér bls. 5-7 og 18) og nær fullvíst má telja að verslunin hafi ætíð verið þar uns rekstri hennar var hætt haustið 1840 (sjá hér bls. 53).

Á árunum 1845-1847 var Jón Einarsson skipherra frá Kollafjarðarnesi búsettur á Flateyri (sjá hér Hvilft) og var með sex manna heimili haustið 1845.[495] Sumarið 1846 fékk hann 12 hundruð úr Eyrarjörðinni til ábúðar en eigandi þess jarðnæðis var Friðrik Svendsen.[496] Í úttektabók Mosvallahrepps má sjá að húsnæðið sem skipherrann fékk hjá Svendsen var timburhús, nefnt gamla stofa og kom í staðinn fyrir baðstofu, búr og eldhús.[497] Fyllsta ástæða er til að ætla að þetta timburhús sem nefnt var gamla stofa hafi verið Norskahúsið því þess verður hvergi vart í heimildum að nokkurt íbúðarhús hafi verið reist á Flateyri fyrir 1850 nema það og svo húsið sem Friðrik Svendsen reisti og bjó sjálfur í. Ugglaust hefur Jón Einarsson fengið þessa gömlu stofu til íbúðar þegar hann settist að á Flateyri árið 1845 þó að úttektin færi ekki fram fyrr en sumarið 1846. Í úttektargerðinni er tekið fram að skipherrann lofi að bika húsið á hverju ári en auk íbúðarhússins fékk hann til umráða tvö fjárhús, annað niðurfallið, og hlöðu með 11 x 5 álna gólffleti en lofthæð í henni var 6 álnir.[498]

Jón Einarsson skipherra bjó aðeins í tvö ár á Flateyri, frá 1845 til 1847, en fluttist þá að Sveinseyri í Dýrafirði (sjá hér Sveinseyri). Þegar hann fór burt settist séra Sigurður Tómasson, sem verið hafði aðstoðarprestur í Holti, að á Flateyri ásamt sínu fylgdarliði (sjá hér Holt) og hlýtur að hafa sest að í húsinu sem Jón skipherra flutti úr. Séra Sigurður fór frá Flateyri árið 1849 og mun hafa verið síðasti maðurinn sem bjó í Norskahúsinu. Eftir 1850 mun því ekki hafa verið haldið við og þess er ekki getið þegar Torfi Halldórsson keypti Flateyrareignir árið 1858 (sjá hér bls. 80-81).

Eins og hér var áður nefnt ákvað Friðrik Svendsen haustið 1844 að leita eftir viðurkenningu frá Hinu konunglega danska landbúnaðarfélagi. Hann kvaddi þá á sinn fund þá Jón Sigurðsson, hreppstjóra á Kirkjubóli í Korpudal, og Sturla (heitir Sturli) Jónsson, hreppstjóra í Dalshúsum, til að skoða túngarðinn og túnið á Flateyri og bera saman við málin á teikningunni sem hann hafði sjálfur dregið upp. Vitnisburðarbréfið sem þeir skrifuðu undir 27. september 1844 hljóðar á þessa leið:

Ár 1844 þann 27. september vorum við undirskrifaðir staddir að Flateyri til, eftir Hr. Agent F.J. Sveinssens ósk, að samanbera eina af honum samda teikningu yfir Flateyrarodda og fundum við, eftir að hafa mælt garðinn umhverfis túnið, að lengdin er uppá hið nákvæmasta samstemma með þeirri á teikningunni umgetnu mælingu, nefnilega 364½ faðmur umhverfis innan garðs, sem allir eru hlaðnir úr grjóti. Þvergarðurinn fyrir ofan túnið er 7½ kvartil á hæð [þ.e. 1,18 metrar – innsk. K.Ó.], hinir 6 kvartil víðast en sums staðar lægri.

Að verk þetta beri sjálft vitni með sér um þolinmóða og langvinna fyrirhöfn er auðsætt af því að allt það sem nú er orðið að einhverju því fallegasta túni, sem í fyrra skilaði 23 hestum af töðu, var alt áður en agentinn búfesti sig hér fyrir 23 árum síðan einungis möl, álíkt tilsýndar eins og það sem sést utangarðs á teikningunni, að undanteknum fáeinum mosabölum sem og sannast best af því að allir garðarnir eru hlaðnir af grjóti því sem áður var í túnstæðinu.

Að þetta svoleiðis sé sannað frá oss eftir því sem oss er kunnugt og við nú sameiginlega höfum skoðað og aðgætt, þá eru vor nöfn og hjáþrykkt signet til vitnis.

Flateyrar Höndlunarstað ut supra

Sturli Jónsson                  Jón Sigurðsson[499]

 

Þetta ágæta vitnisburðarbréf er með rithönd agentsins og líklega hefur hann samið það sjálfur en báðir hreppstjórarnir hafa skrifað undir með eigin hendi og engin ástæða til að rengja vitnisburð þeirra.

Daginn eftir heimsókn hreppstjóranna ritaði Svendsen kunningja sínum, Bjarna Thorsteinson, amtmanni á Stapa, bréf og bað hann að koma á framfæri umsókn sinni um verðlaun eða einhvers konar viðurkenningu frá Hinu konunglega danska landbúnaðarfélagi.[500] Þessu bréfi sínu til amtmanns lét hann fylgja teikninguna af Flateyrarodda og vitnisburð hreppstjóranna.[501] Í bréfinu til Bjarna minnir Svendsen á að sjálfur hafi amtmaðurinn oft séð túnið og garðinn á Flateyri og sé því bærilega kunnugur öllum málavöxtum.[502]

Eins og vænta mátti tók amtmaðurinn á Stapa málaleitan Svendsens með vinsemd en til að styrkja umsóknina bað hann Eggert Briem, sem nýlega hafði tekið við sýslumannsembættinu í Ísafjarðarsýslu, að líta á framkvæmdir Svendsens og láta í té umsögn sína um þær.[503] Þessu erindi svaraði Briem sýslumaður með bréfi til amtmanns, dagsettu 4. júlí 1845, og segir þar að í vitnisburðarbréfi sínu frá haustinu áður hafi hreppstjórarnir tveir greint satt og rétt frá en síðastliðinn vetur hafi brim valdið þó nokkrum skemmdum á hinum mikla grjótgarði Svendsens.[504] Að sögn sýslumanns var agentinn þá þegar farinn að lagfæra skemmdirnar og niðurstaðan í álitsgerð Eggerts Briem var sú að sjálfsagt væri að leita eftir verðlaunum eða viðurkenningu honum til handa.[505] Um grjótið í garðinum lætur sýslumaður þess getið að nokkuð af því hafi verið tekið úr fjörunni en sumt úr túnstæðinu.[506]

Síðla sumars árið 1845 sendi Bjarni amtmaður öll þau plögg sem hér hefur nú verið gerð grein fyrir til rentukammers og lét fylgja með bréf frá sér er hann ritaði þann 20. ágúst. Hann mælir þar með umsókn Svendsens og lætur í ljós þá skoðun að hinn mikli dugnaður agentsins við þessar framkvæmdir sé enn merkilegri en ella fyrir það að maðurinn sé engan veginn heill heilsu.[507] Þá 23 hesta af heyi, sem nú fáist af túninu á Flateyri, segir Bjarni vera eitt kýrfóður[508] en í öðrum heimildum frá 18. og 19. öld sést að kýrfóðrið var talið allt frá 16 eða 17 hestum og hjá bestu mjólkurkúm upp í 35 hesta en í einum heyhesti áttu að vera 100 kíló.[509] Í nýnefndu bréfi lagði Bjarni amtmaður til að Svendsen yrði veittur sérstakur heiðurspeningur frá kóngi ef svo færi að umsókn hans yrði hafnað hjá danska landbúnaðarfélaginu.[510] Ekki hefur verið kannað hvort slík viðurkenning kynni að hafa borist til Flateyrar en fyrir liggur að danska landbúnaðarfélagið synjaði umsókninni með þeim rökum að þegar hefði verið ákveðið að öll verðlaun á þess vegum, sem þarna gátu komið til greina, ættu að renna til Grænlands næstu fimm árin.[511]

Um daglega hætti Friðriks Svendsen síðustu árin sem hann lifði er því miður fátt vitað með vissu. Ljóst er þó að þrátt fyrir skerta heilsu fékk hann sér í staupinu, a.m.k. stöku sinnum. – Agent kenndur og ég, skrifar séra Sigurður Tómasson í dagbók sína dag einn í júnímánuði árið 1848[512] en brennivínsprestur þessi, sem frá er sagt hér á öðrum stað (sjá hér Holt), var þá búsettur á Flateyri og hitti því nær daglega hinn eina konunglega agent í Mosvallahreppi. Ekki verður annars vart en vel hafi farið á með þeim en stirðari hafa samskiptin að öllum líkindum verið við Magnús bónda Einarsson á Hvilft sem árið 1852 höfðaði mál á hendur Svendsen og frá er sagt hér á öðrum stað (sjá hér Hvilft).

Vorið 1855 varð agentinn á Flateyri 67 ára gamall og fór þá að styttast í lok ævinnar því hann andaðist 13. febrúar 1856 af verkjaflogum undir síðunni eins og það er orðað í prestsþjónustubókinni frá Holti.[513] Vera má að gamlar undir frá því hann gleypti silfurskeiðina tveimur áratugum fyrr hafi að lokum flýtt fyrir dauða hans því muna má að af völdum skeiðarinnar hlaut Svendsen síðusár undir hægra brjóstinu og um það gróf hún sér farveg út úr líkama hans (sjá hér bls. 40). Hvert sem banameinið hefur í raun verið er líklegt að þetta undarlega síðusár hafi átt nokkurn þátt í að festa í kolli agentsins þær grillur að hann væri mannkynsfrelsari eða að minnsta kosti sérlegur sendiboði frá Ljósanna föður (sjá hér bls. 51).

Í Annál nítjándu aldar er getið um andlát Svendsens og hans minnst með þessum orðum:

 

Um mánaðamótin febrúar og mars andaðist Fredrik J. Svendsen, fyrr kaupmaður á Flateyri í Önundarfirði og „agent” að nafnbót. Hann var hinn mesti dugnaðarmaður meðan hann hafði heilsu og prýðilega að sér. Hann var hinn fyrsti er verulega kom á stofn fiskveiðum á þilskipum vestanlands.[514]

 

Við andlát Friðriks Svendsen erfðu börnin, sem hann hafði eignast í sínu fyrra hjónabandi, allar fasteignir hans á Flateyri og það sem hann átti í jörðinni Eyri. Erfðaréttur þeirra byggðist á ákvæðum í afsalinu sem út var gefið 7. ágúst 1835 (sjá hér bls. 41-42) en vorið 1858 seldu þessir erfingjar allar eignir föður síns á Flateyri (sjá hér bls. 79-81). Guðbjörg Bjarnadóttir, seinni kona agentsins, fékk því engar umtalsverðar eignir í sinn hlut við uppgjör dánarbúsins. Að Svendsen látnum tók hún saman við mann sem Björn Torfason hét og áttu þau heima á Flateyri til 1860 en fluttust þá að Kaldá og síðan að Vífilsmýrum (sjá hér Vífilsmýrar).

Á árunum 1832 til 1835 hafði Svendsen orðið að hætta allri skútuútgerð frá Flateyri. Verslunarrekstrinum var hins vegar haldið áfram allt til ársins 1840 en við brottför Nielsar Steenbach haustið 1840 virðist þeim rekstri einnig hafa lokið eins og hér hefur áður verið rökstutt (sjá hér bls. 50 og 53). Frá hnignuninni sem varð á Flateyri þegar Svendsen missti heilsuna segir svo í tímaritinu Gesti Vestfirðingi árið 1847:

 

Á fyrsta fjórðungi aldar þessarar reis upp kaupstaður á Flateyri við Önundarfjörð og þótti hann allálitlegur meðan Friðrik kaupstjóri Svendsen sat þar. Fer nú öllu miður síðan verslunarstaður þessi leið að mestu undir lok.[515]

 

Orðalagið bendir reyndar til þess að útgefendur tímaritsins sem búsettir voru í Breiðafjarðareyjum hafi ekki haft vitneskju um að Friðrik Svendsen var reyndar búsettur á Flateyri árið 1847 sem breytir þó engu um efni málsins því hann var þá fyrir löngu orðinn ófær til allra forystustarfa.

Í sautján ár, frá 1815 til 1832, hafði þilskipaútgerðin frá Flateyri staðið með blóma en frá 1835 til 1856 átti heimafólk á þessum stað engan hlut að slíkri útgerð ef frá er talinn Jón Einarsson skipherra sem aðeins var búsettur á Flateyri í 2 ár, frá 1845 til 1847 (sjá hér bls. 55-56). Á árunum 1837-1856 voru ein til tvær skútur þó jafnan gerðar út frá Önundarfirði og átti Magnús Einarsson á Hvilft hlut að slíkum rekstri öll þau ár og allt til ársins 1858 (sjá hér Mosvallahreppur, inngangskafli og Hvilft). Ekki er ólíklegt að Magnús og félagar hans hafi fengið að nota hróf Friðriks Svendsen á Flateyri sem vetrarlægi fyrir sínar skútur en um það er þó ekkert vitað með vissu.

Heimildir frá árunum kringum 1850 sýna að innlendar og erlendar skútur komu þá mjög oft inn á Eyrarbót, höfnina innan við Flateyri, enda var þar gott skipalægi (sjá hér bls. 1-2) Um slíkar skipakomur er handhægast að vitna í dagbók séra Sigurðar Tómassonar sem var búsettur á Flateyri á árunum 1847-1849. Frá sumarmálum til Jónsmessu árið 1848 minnist prestur a.m.k. átta sinnum á komu fiskijakta eða legu þeirra á Eyrarbót.[516] Meðal þilskipanna sem lögðust á Eyrarbót á þessu tveggja mánaða tímabili voru Bogi, sem þeir Magnús á Hvilft og Jón bróðir hans voru eigendur að, og Pröven, sem Einar Jónsson, bóndi í Ögri, átti og gerði út, en hingað komu líka á þessum sömu vikum ein eða fleiri franskar skonnortur og a.m.k. ein hollensk dugga.[517]

Á árunum 1841 til 1865 urðu Önfirðingar að sækja nær alla sína verslun til lausakaupmanna sem hingað sigldu ellegar um langan veg til Þingeyrar eða á Ísafjörð. Hér hefur áður verið sýnt fram á að Friðrik Svendsen muni hafa hætt sínum verslunarrekstri á Flateyri, alveg eða nær alveg, árið 1840 og Guðmundur Á. Eiríksson sem lengi bjó á Þorfinnsstöðum segir að verslun Hjálmars Jónssonar hafi tekið til starfa árið 1865.[518] Ætla má að Guðmundur, sem fæddur var árið 1853 og ólst upp á Þorfinnsstöðum (sjá hér Þorfinnsstaðir), fari þarna rétt með því hann var sjálfur orðinn nær 12 ára gamall á kauptíðinni árið 1865. Líklegt er þó að Hjálmar hafi í fyrstu verslað á Flateyri sem lausakaupmaður og ekki sett hér á stofn fastaverslun fyrr en á árunum 1867-1868 (sjá hér bls. 97).

Margt bendir til þess að á 17. og 18. öld hafi Önfirðingar átt veruleg viðskipti við erlendar þjóðir á laun því verslunarrekstur hófst ekki á Flateyri fyrr en árið 1789 (sjá hér bls.2-5). Með lögum sem tóku gildi 1. janúar 1788 hafði öllum þegnum Danakonungs verið veitt heimild til verslunarreksturs á Íslandi og tók þá hin svokallaða fríhöndlun við af einokunarkerfinu sem verið hafði við lýði allt frá árinu 1602. Á árunum 1792-1817 rak Henrik Henkel, kaupmaður á Þingeyri, verslunarútibú á Flateyri. Fullvíst er að á þeim árum áttu Önfirðingar og Dýrfirðingar allmikil viðskipti við lausakaupmenn sem komu á skipum sínum að sumarlagi með margvíslegan varning er þeir buðu falan gegn greiðslu í peningum eða afurðum. Sú verslun fór fram á skipum úti.

Marktækar upplýsingar um hlutdeild lausakaupmanna í verslunarviðskiptum Önfirðinga og Dýrfirðinga á fyrstu áratugum fríhöndlunarinnar liggja því miður ekki á lausu en eigandi Þingeyrarverslunar og útibúsins á Flateyri hélt því fram að ásókn lausakaupmanna í viðskipti væri óvíða eða hvergi meiri en einmitt í Dýrafirði[519] og má ætla að hið sama hafi átt við um Önundarfjörð. Vel getur verið að Henkel fari þarna með ýkjur en talsvert mikil hljóta viðskiptin við lausakaupmenn þó að hafa verið fyrst hann sá ástæðu til að bera sig svona illa.

Líklegt er að Friðrik Svendsen hafi líka átt meiri eða minni samkeppni að mæta frá lausakaupmönnum flest árin sem hann stóð fyrir verslunarrekstri á Flateyri. Úr röðum lausakaupmanna, sem sigldu á Önundarfjörð síðustu árin sem verslun Friðriks Svendsen var starfrækt á Flateyri, má nefna Ditlevsen sem séra Sigurður Tómasson getur um í dagbók sinni frá sumrinu 1839 (sjá hér Holt). Dagbókarskrif séra Sigurðar benda reyndar eindregið til þess að á árunum upp úr 1840 hafi ferðum lausakaupmanna inn á Önundarfjörð fjölgað verulega frá því sem áður var. Skýringin er auðvitað sú að haustið 1840 var rekstri Flateyrarverslunar hætt eins og hér hefur áður verið nefnt og lausakaupmennirnir, sem kallaðir voru spekúlantar, voru því einir um hituna næstu árin. Ditlevsen, sem fyrr var nefndur, sigldi áfram á Önundarfjörð á árunum 1841-1845 (sjá hér Holt) og þá fóru verslanirnar á Þingeyri og í Neðstakaupstað á Ísafirði að senda spekúlantskip til Önundarfjarðar á hverju sumri (sjá hér Holt). Edward Thomsen var þá eigandi Þingeyrarverslunar en bróðir hans, William Thomsen, rak verslun á Patreksfirði. Sum árin virðast þeir hafa farið saman í spekúlanttúra á Önundarfjörð (sjá hér Holt).

Traustar heimildir sýna að á árunum 1840-1860 sendi Edward Thomsen á Þingeyri mjög oft spekúlantskip til Önundarfjarðar og stundum fór hann sjálfur með í þessar ferðir. Var Thomsen fram á morgun í landi, skrifar séra Sigurður Tómasson 12. júní 1848[520] en nefndur prestur átti þá heima á Flateyri (sjá hér Holt). Tölur frá árinu 1845 benda til þess að Thomsen á Þingeyri hafi þá náð til sín innan við þriðjungi af verslunarviðskiptum Önfirðinga (sjá hér Þingeyri). Sala hans í Önundarfirði á sex algengum vörutegundum nam þá minna en fjórðungi þess sem hann náði að selja af sömu vörum á Þingeyri (sjá hér Þingeyri) en íbúafjöldinn í Önundarfirði, að Ingjaldssandi meðtöldum, var þá um 80% af íbúafjöldanum í Dýrafirði.[521] 567 manneskjur áttu heima í Önundarfirði en 713 í Dýrafirði.[522]

Frá árinu 1858 liggur fyrir skrá yfir það sem selt var og keypt í spekúlanttúr sem farið var í frá Þingeyri til Önundarfjarðar. Skipið sem verslun Edwards Thomsen á Þingeyri sendi í þennan leiðangur hét Aurora & Nicoline og skipstjóri á því var C.N. Clausen.[523] Vörurnar sem tókst að selja í Önundarfirði voru þessar:

 

 1. 20 tunnur af rúgi.
 2. 8 tunnur af rúgmjöli.
 3. 16 tunnur af bankabyggi.
 4. 11 tunnur af salti.
 5. 6 tunnur af steinkolum.
 6. 300 pottar af brennivíni.
 7. 375 kíló af kaffi.
 8. 350 kíló af kandís.
 9. 60 kíló af tóbaki.
 10. 125 kíló af brauði.
 11. 24 plankar.
 12. 72 stykki af borðvið.
 13. Fatnaður, vefnaðarvara, og járnvörur fyrir 150 ríkisdali.[524]

 

Fyrir ofantaldar vörur greiddu Önfirðingar að mestu með afurðum en þær voru þessar:

 

 1. 3.200 kíló af skreið.
 2. 3.360 kíló af saltfiski.
 3. 400 kíló af hvítri ull.
 4. 192 kíló af mislitri ull.
 5. 9 tunnur, 7 kútar og 1 pottur af lýsi.
 6. 120 pör af sokkum.
 7. 250 pör af vettlingum.
 8. 35 lambskinn.[525]

 

Að auk fengu sendimenn kaupmannsins á Þingeyri greidda 50 ríkisdali í beinhörðum peningum[526] en óljóst er hvort það dugði til að jafna reikningana.

Sem dæmi um verðlagið hjá Thomsen árið 1858 má nefna að rúgtunnan kostaði 8 ríkisdali, tunna af bankabygg 11 ríkisdali, tunna af salti 2 ríkisdali og 48 skildinga, tunna af kolum 2 ríkisdali og 64 skildinga, kaffikíló 52 skildinga og kandískíló hið sama, kíló af skrotóbaki 1 ríkisdal og 48 skildinga og pottur af dönsku brennivíni 18 skildinga.[527] Sé verðið á þessum átta vörutegundum skoðað í samhengi við það vörumagn sem Önfirðingar keyptu og áður var gerð grein fyrir kemur í ljós að í þetta sinn keyptu þeir kaffi fyrir 203 rd og 12 sk, kandís fyrir 189 rd og 56 sk, bankabygg fyrir 176 rd, rúg fyrir 160 rd, skrotóbak fyrir 90 rd, brennivín fyrir 56 rd og 24 sk, salt fyrir 27 rd og 48 sk og kol fyrir 16 rd.

Verðskrá Þingeyrarverslunar fyrir keyptar afurðir, dagsett 7. nóvember 1858 gefur til kynna hvaða verð Önfirðingar fengu greitt fyrir afurðir sínar hjá spekúlantinum frá Þingeyri þá um sumarið.[528] Fyrir kíló af skreið fengust 10,8 skildingar, fyrir kíló af saltfiski fengust 8,4 skildingar, fyrir kíló af hvítri ull fengust 52 skildingar, fyrir kíló af mislitri ull 40 skildingar, fyrir tunnu af hákarlalýsi 24 ríkisdalir, fyrir eitt par af sokkum 18 skildingar, fyrir eina vettlinga 8 skildingar og fyrir eitt lambskinn 8 skildingar[529] en 96 skildingar voru í hverjum ríkisdal. Fyrir allar afurðirnar, sem Önfirðingar seldu um borð í spekúlantskipinu frá Þingeyri sumarið 1858, hafa þeir því fengið 1.224 ríkisdali og 30 skildinga sem skiptust þannig: Fyrir skreið 360 rd, fyrir saltfisk 294 rd, fyrir hvíta ull 216 rd og 64 sk, fyrir mislita ull 80 rd, fyrir hákarlalýsi 227 rd og 38 sk, fyrir sokka 22 rd og 48 sk, fyrir vettlinga 20 rd og 80 sk og fyrir lambskinn 2 rd og 88 sk.

Í ritgerð sinni um aldarhátt í Önundarfirði á 19. öld segir Guðmundur Á. Eiríksson, hreppstjóri á Þorfinnsstöðum, að um 1860 hafi verslunarmálin verið Önfirðingum mjög óhagstæð[530] og bætir síðan við:

 

Lausakaupmenn (spekulantar) komu aðeins einu sinni á ári, um vertíðarlokin [það er seint í júní – innsk. K.Ó.]. Það sem bændur seldu þeim var harðfiskur, ull og lýsi. Sá bóndi þótti vel stæður sem gat fengið sína tunnuna af hverju, rúgi og grjónum, þó hefði 10-12 manns í heimili. Þegar fram á veturinn kom urðu menn oft að bera matvöru frá Ísafirði og var ótrúlegt hvað sumir gátu lagt á sig, þetta frá 6-8 fjórðunga[531][, þ.e. 30-40 kíló – innskot K.Ó.].

 

Ástandið í verslunarmálum Önfirðinga segir Guðmundur ekki hafa farið að lagast fyrr en Hjálmar Jónsson fór að versla á Flateyri árið 1865[532] (sbr. hér bls. 96-97). Þessi umskipti mundi Guðmundur á Þorfinnsstöðum vel því hann var að verða 12 ára þegar aftur var byrjað að versla á Flateyri eftir langt hlé sem staðað hafði í aldarfjórðung (sjá hér bls. 53).

Hér verður brátt sagt nokkuð frá Hjálmari Jónssyni (sjá hér bls. 91-132) en eðlilegt virðist að minnast fyrst á Torfa Halldórsson sem lagði grunninn að rekstri Hjálmars á Flateyri og stjórnaði þeim rekstri frá degi til dags í umboði eigandans. Að rösklega tveimur árum liðnum frá andláti Friðriks Svendsen keypti Torfi Flateyri af erfingjum hans. Með í þeim kaupum fylgdi íbúðarhús Svendsens, svo og önnur hús og mannvirki er hann hafði átt á Flateyri og einnig 16 hundruð í bújörðinni Eyri.[533] Frá kaupunum var gengið 4. maí 1858.[534]

Torfi Halldórsson, sem festi kaup á Flateyri vorið 1858, var fæddur á Arnarnesi í Dýrafirði 14. febrúar 1823, sonur hjónanna Halldórs Torfasonar og Svanfríðar Jónsdóttur.[535] Jón afi hans var Gunnarsson og bjó á Fjallaskaga, merkur bóndi sem drukknaði 49 ára gamall í hákarlaróðri sumarið 1807 (sjá hér Fjallaskagi). Hinn afinn var Torfi Snæbjörnsson sem árið 1801 var bóndi á Kirkjubóli í Þingeyrarhreppi en átti heima á Brekku í sama hreppi (sjá hér Brekka) þegar hann andaðist af strangri taksótt í októberlok árið 1805.[536] Faðir Torfa Snæbjörnssonar og langafi Torfa Halldórssonar var hinn víðfrægi Mála-Snæbjörn og var Torfi eini sonurinn sem hann eignaðist með seinni konunni (sjá hér Sæból).

Þegar Torfi Halldórsson var sjö ára gamall missti hann föður sinn sem drukknaði 1. júlí 1830 (sjá hér Arnarnes). Ekkja Halldórs, Svanfríður Jónsdóttir, bjó áfram á Arnarnesi og fékk brátt til liðs við sig ungan mann sem Bjarni hét Hákonarson. Haustið 1833 voru þau gefin saman í hjónaband og tók Bjarni þá við búsforráðum á Arnarnesi (sjá hér Arnarnes).

Fyrstu ár ævinnar ólst Torfi Halldórsson upp hjá foreldrum sínum en síðan hjá móður sinni og stjúpa á Arnarnesi. Vorið 1836 var hann fermdur[537] af séra Jóni Sigurðssyni sem þá var prestur í Dýrafjarðarþingum og sat á Núpi en prestur þessi fluttist ári síðar að Gerðhömrum (sjá hér Núpur og Gerðhamrar), næsta bæ við Arnarnes. Frá Arnarnesi er um það bil klukkustundar gangur inn að Núpi og segir sagan að fyrir ferminguna hafi Torfi gengið daglega til prestsins en skilað þó öllum sínum venjubundnu verkum á búi móður sinnar og stjúpa.[538] Ekki fer á milli mála að séra Jóni Sigurðssyni, sem kallaður var Jón svarti, hefur litist vel á drenginn frá Arnarnesi því þegar hann skráir nöfn fermingarbarnanna vorið 1836 í bók sína gefur hann Torfa þessa einkunn: Flestum fremri að skilningi og kunnáttu, siðsamur.[539]

Á unglingsárum hefur Torfi Halldórsson án efa farið til róðra á Fjallaskaga eins og allir aðrir sæmilega heilbrigðir bændasynir sem ólust upp í Mýrahreppi á nítjándu öld. Líklegt er að slíkur efnispiltur hafi orðið formaður á Skaga um eða innan við tvítugt og í Torfaættarbók, sem út var gefin árið 1991, er fullyrt að svo hafi verið.[540] Árið 1843 varð Torfi tvítugur og á því ári eignuðust Dýrfirðingar sitt fyrsta þilskip, Hákarlinn, sem Jón Gíslason á Lækjarósi smíðaði en meðeigandi hans að skipinu var Guðmundur Brynjólfsson á Mýrum (sjá hér Lækjarós). Fjórum árum síðar voru þilskip í eigu bænda í Mýrahreppi orðin þrjú (sjá hér Mýrahreppur, inngangskafli) og ekki ósennilegt að Torfi á Arnarnesi hafi náð að ráða sig í skiprúm á einhverju þeirra. Eins líklegt er þó að feril sinn sem skútusjómaður hafi Torfi byrjað hjá Jóni Einarssyni er var skipstjóri á Boga á árunum 1844-1848 (sjá hér Hvilft og Mosvallahreppur, inngangskafli). Þilskipið Bogi var þá gert út frá Hvilft í Önundarfirði en eigendur þess voru Magnús Einarsson, bóndi á Hvilft, og Jón Einarsson bróðir hans sem stýrði skipinu til veiða. Eins og hér hefur áður verið greint frá andaðist Jón skipstjóri á Boga voveiflega haustið 1848 (sjá hér Sveinseyri og Þingeyrarhreppur, inngangskafli). Tveimur árum síðar var Torfi Halldórsson orðinn skipstjóri á Boga[541] og mjög líklegt verður að telja að hann hafi tekið við skipinu í byrjun vertíðar árið 1849. Sighvatur Borgfirðingur segir að Torfi hafi byrjað sjómennsku á þilskipum árið 1844 og orðið stýrimaður árið 1847.[542]

Í búnaðarskýrslum úr Mýrahreppi er Bjarni Hákonarson á Arnarnesi, stjúpfaðir Torfa Halldórssonar, sagður hafa eignast fjórðung í þilskipi árið 1849 og þar er hann skrifaður fyrir þessum skipsparti í þrjú ár, 1849, 1850 og 1851 (sjá hér Mosvallahreppur, inngangskafli). Í annarri heimild frá sama tíma er Torfi hins vegar sagður hafa átt einn fjórða part í Boga 1850 og 1851[543] en aðrir eigendur skipsins á þeim árum voru Magnús Einarsson á Hvilft, séra Lárus M. Johnsen í Holti og Guðrún Þórðardóttir, sýslumannsekkja í Ytri-Hjarðardal.[544] Líklegast er að Bjarni Hákonarson og Torfi stjúpsonur hans hafi staðið saman að kaupum á einum fjórða parti í Boga árið 1849 því engar vísbendingar gefa til kynna að Bjarni hafi þá fest kaup á eignarhlut í einhverju öðru skipi (sjá hér Mosvallahreppur, inngangskafli). Tilviljun gat svo ráðið hvor þeirra var skrifaður fyrir eigninni við skýrslugerðir.

Í hópi Önfirðinganna þriggja sem áttu þrjá fjórðu parta í Boga árið 1849 var Magnús Einarsson á Hvilft sá eini sem hafði reynslu af útgerð þilskipa og hafði sjálfur verið skútuskipstjóri í allmörg ár (sjá hér Hvilft). Nær fullvíst má því telja að hann hafi ráðið mestu um það að Torfi Halldórsson var gerður að skipstjóra á Boga. Ekki mun Magnús hafa orðið fyrir vonbrigðum með árangurinn af þeirri ráðstöfun því árið 1850 kom Torfi með meiri afla að landi en nokkur hinna skipstjóranna á tíu þilskipum úr Ísafjarðarsýslu sem varðveitt aflaskrá nær til.[545] Samt voru sex af þessum tíu þilskipum stærri en Bogi sem taldist vera 7 stórlestir,[546] það er 18,2 smálestir því í hverri stórlest voru á þessum tíma 2,6 smálestir (sjá hér Þingeyrarhreppur, ingangskafli).

Um miðbik 19. aldar stunduðu þilskip Vestfirðinga fyrst og fremst hákarlaveiðar en veiddu þó líka svolítið af þorski.[547] Árið 1850 varð aflinn hjá Torfa 129 tunnur af hákarlslifur og 300 þorskar að auk.[548] Hundrað þorskar voru þá metnir til jafns við eina tunnu af hákarlslifur[549] svo heildarafli Torfa þetta ár svaraði til 132ja lifrartunna.

Á þessum árum var talið að útgerð þilskipa sem stunduðu hákarlaveiðar gæti borið sig ef vertíðaraflinn næði 70 lifrartunnum.[550] Aflinn sem Torfi færði að landi sumarið 1850 var hins vegar nær tvöfalt meiri en þessu svaraði. Úr lifrartunnunum 129 munu hafa fengist um það bil 86 tunnur af lýsi (sjá bls. 22) en algengt verð á einni tunnu af hákarlslýsi mun um þetta leyti hafa verið 16-18 ríkisdalir og stundum meira.[551] Útflutningsverðmæti aflans sem Torfi og skipshöfn hans á Boga færðu að landi árið 1850 hefur því að líkindum verið yfir 1.500 ríkisdalir eða sem svaraði um það bil 60 kúgildum.[552] Í áhöfninni hafa þó varla verið nema sex eða sjö menn (sjá hér Mýrahreppur, inngangskafli).[553]

Á öðrum fjórðungi nítjándu aldar varð mikil fjölgun í þilskipaflota Vestfirðinga. Árið 1825 voru aðeins 7 þilskip í öllum Vestfirðingafjórðungi[554] en árið 1847 voru þau 36.[555] Ellefu þilskip úr fjórðungnum höfðu þá farist með allri áhöfn,[556] þar af tíu á síðustu 15 árum, 1832-1847,[557] og er erfitt að gera sér þvílíkt manntjón í hugarlund á flota sem ekki var stærri en þetta. Marktækir menn hafa reyndar talið að á árunum 1832-1846 muni útgerðarmenn í Vestfirðingafjórðungi hafa misst 22 þilskip alls og helming þeirra með allri áhöfn.[558] Árið 1847 var röskur þriðjungur þilskipanna í Vestfirðingafjórðungi í eigu bænda eða 13 skip en hin 23 áttu kaupmenn.[559]

Torfi Halldórsson var skipstjóri á Boga í tvær eða þrjár vertíðir, það er 1850 og 1851[560] og líklega einnig 1849. Á þessum árum átti hann enn heima hjá móður sinni og stjúpa á Arnarnesi[561] og hefur að líkindum unnið þar að búverkum þann helming ársins sem skúturnar voru geymdar í sínu vetrarlægi. Haustið 1851 sigldi Torfi til Danmerkur í því skyni að afla sér menntunar í sjómannafræðum og má telja líklegt að bæði Magnús Einarsson á Hvilft, sem sá um útgerð Boga, og Ásgeir Ásgeirsson, skipherra og síðar kaupmaður á Ísafirði, hafi hvatt hann til þess. Hinn síðarnefndi, sem var sex árum eldri en Torfi, hafði tekið skipstjórapróf í Danmörku árið 1847[562] og var enn skipstjóri á Lovísu sumarið 1851,[563] fyrsta þilskipinu sem hann eignaðist. Á næstu árum áttu þeir Ásgeir og Torfi margt saman að sælda og það var einmitt Ásgeir skipherra sem keypti eignarhlut Torfa í þilskipinu Boga þegar Torfi hélt utan til náms. Að svo hafi verið sést ef bornar eru saman skýrslur um þilskipin í Ísafjarðarsýslu 1851 og 1852 en þær birtust á sínum tíma í Þjóðólfi.[564]

Þegar níutíu ár voru liðin frá utanför Torfa kunnu menn frá því að segja að áður en hann sigldi hafi þessi ungi skipstjóri farið í langt ferðalag um Vestfirði til að selja fénað sinn og aðrar eignir.[565] Að svo búnu hafi hann keypt sér hest og riðið suður til Reykjavíkur til þess að ná á póstskipið sem fór þá tvær ferðir á ári milli Reykjavíkur og Kaupmannahafnar.[566] Einar Jónsson, sem skrifaði nokkur orð um Torfa í afmælisrit Stýrimannaskólans árið 1941, segir frá þessu og bætir við:

 

Þegar til Kaupmannahafnar kom leitaði Torfi á fund Jóns Sigurðssonar forseta og bað hann leiðbeina sér eins og þá var títt um Íslendinga og lét Jón eins og vita mátti þessum unga manni alla þá aðstoð í té sem í hans valdi stóð að veita. Þarf ekki að efa að dugnaður og framtakssemi Torfa hefir verið Jóni mjög að skapi og að hann hefir því tekið Torfa hið besta. … Fór um Torfa eins og aðra er Jóni kynntust að hann fékk á honum hinar mestu mætur og var aðdáandi og öruggur fylgismaður Jóns upp frá því.[567]

 

Ómögulegt er nú að dæma um það hvort þarna sé farið rétt með því engrar heimildar er getið. Líklegt má þó telja að Torfi hafi leitað liðsinnis hjá Jóni forseta eins og svo margir aðrir Íslendingar en haustið sem Torfi kom til Danmerkur brunnu eldar hvað heitast á Jóni á fyrstu vikum og mánuðum eftir lok þjóðfundarins 1851. Þeir Torfi Halldórsson og Jón forseti voru reyndar náskyldir því að Mála-Snæbjörn var langafi Torfa en langalangafi Jóns. Undir eina bréfið sem Torfi skrifaði Jóni síðar á ævinni og varðveist hefur ritar hann Yðar skuldbundinn frændi[568] og munu báðir hafa kannast við skyldleikann.

Sjómannaskólinn sem Torfi fékk inngöngu í haustið 1851 var í Flensborg[569] en sú ágæta borg er í Slésvík og stendur rétt sunnan við núverandi landamæri Danmerkur og Þýskalands. Árið 1851 voru landamærin hins vegar nokkru sunnar og þá var Flensborg dönsk þó að nú sé hún þýsk. Sighvatur Borgfirðingur segir að Torfi hafi verið 18 vikur í skólanum og lokið fullkomnu prófi með besta vitnisburði.[570] Hafi námstíminn í Flensborg aðeins verið 18 vikur má telja líklegt að Torfi hafi dvalist um skeið í Kaupmannahöfn þennan vetur, 1851-1852. Þar slógu þeir sér saman hann og Hjálmar Jónsson, timburmaður frá Kambi í Veiðileysufirði á Ströndum, og ákváðu að festa kaup á þilskipi. Hjálmar var einu ári eldri en Torfi, fæddur 1822, og hafði bæði lært skipasmíðar og verið farmaður á dönskum skipum.[571] Segir nánar frá honum síðar.

Skútan sem Torfi og Hjálmar keyptu í Danmörku hét Lovísa og sigldi Torfi henni heim vorið 1852.[572] Þetta var slúpskip eða slúffa eins þau voru nefnd[573] en slíkir farkostir höfðu bara eitt mastur eins og jaktirnar en voru með mjórri skut.[574] Lovísa var smíðuð í Kalmar í Svíþjóð árið 1845 og var úr furu og eik en Hjálmar keypti hana í Rönne á Borgundarhólmi 10. maí 1852.[575] Skip þetta var tæplega 52 fet á lengd, breiddin liðlega 14 fet og dýpt tæplega 7 fet.[576] Í heimild frá árinu 1853 er Lovísa sögð vera 18 lestir[577] og er þá efalaust átt við stórlestir en þá ætti hún að hafa verið um það bil 47 smálestir (sjá hér Mýrahreppur, inngangskafli). Í opinberri skipaskrá frá árinu 1870 er þetta sama skip hins vegar sagt vera 35,47 smálestir[578] og má ætla að það sé réttara. Engu að síður mun Lovísa hafa verið stærsta og best búna fiskiskipið í Ísafjarðarsýslu á árunum upp úr 1850[579] og Lúðvík Kristjánsson fullyrðir reyndar að þessi skúta þeirra Torfa og Hjálmars hafi um skeið verið stærsta skip sem Íslendingar áttu.[580]

Ásgeir Ásgeirsson, skipherra á Ísafirði og síðar kaupmaður þar, átti á árunum kringum 1850 annað þilskip sem einnig hét Lovísa og var 28,6 smálestir.[581] Þessum tveimur skipum með sama nafni má ekki rugla saman en nýnefnt skip Ásgeirs fórst með allri áhöfn vorið 1854.[582]

Sameignarmennirnir Torfi og Hjálmar töldust eiga sinn helminginn hvor í sínu stóra skipi[583] en óvíst er hvernig kaupin á því voru fjármögnuð. Sú saga hefur hins vegar lifað að þegar Torfi kom frá Danmörku hafi hann aðeins átt einn ríkisdal í sínum fórum og ákveðið að geyma hann til minja.[584] Þessi ríkisdalur, sem reyndar er sænskur, er nú varðveittur á Byggðasafni Vestfjarða á Ísafirði.[585]

Þegar Torfi kom úr utanför sinni vorið 1852 settist hann að á Ísafirði og átti þar heima næstu fimm árin.[586] Öll þau ár var hann skipstjóri á Lovísu[587] sem gerð var út á hákarlaveiðar en hákarlavertíð þilskipanna byrjaði þá yfirleitt í mars og stóð fram í september.[588] Sumarið 1852 var aflinn hjá Torfa 117 lifrartunnur en hæsti skipstjórinn í Ísafjarðarsýslu á þeirri vertíð var Hinrik Sigurðsson á skútunni De syv Søskende frá Ísafirði en afli hans var 234 tunnur af hákarlslifur.[589] Við samanburð á þessum aflatölum þarf að hafa í huga að Torfi hefur að líkindum ekki komið til landsins á Lovísu fyrr en langt var liðið á vor og máske komið fram á sumar. Hann kynni því að hafa misst af hálfri vertíðinni. Ári síðar, sumarið 1853, var sagt frá þilskipaútgerð Vestfirðinga í blaðinu Norðra þann 16. júlí og komist svo að orði: Hákallsafli hefur þar og verið hinn besti svo að þiljuskip voru búin að fá 100 til 200 tunnur lifrar og er sagt að skipherra Torfi Halldórsson hafi verið sá hlutarhæsti.[590]

Þessi frétt í Akureyrarblaðinu Norðra mun hafa verið skrifuð snemma í júlí þegar einn til tveir mánuðir voru eftir af vertíðinni en frásögnin bendir til þess að eftir námsdvöl sína í Danmörku hafi Torfi verið einn allra aflasælasti skipstjórinn á vestfirska þilskipaflotanum en það var hann reyndar líka fyrir utanförina (sjá hér bls. 65).

Haustið 1852 hóf Torfi kennslu í sjómannafræðum á Ísafirði og stýrði þar frá 1852-1856 fyrsta sjómannaskólanum á Íslandi.[591] Einstaka menn höfðu þá veitt fáeinum nemendum einhverja tilsögn á þessu sviði fyrir stofnun skólans en af slíkum fræðurum er helst að nefna Árna Thorlacius í Stykkishólmi, sem fæddur var árið 1802, og Magnús Waage í Stóru Vogum á Vatnsleysuströnd sem var þremur árum eldri en Árni.[592]

Hér hefur áður verið minnst á hin miklu og tíðu sjóslys á árunum 1832-1847 þegar a.m.k. tíu þilskip úr Vestfirðingafjórðungi fórust með allri áhöfn (sjá hér bls. 65-66). Ýmsir þeirra sem hnútum voru kunnugastir munu hafa gert sér ljóst að oft var það fyrst og fremst skortur á þekkingu í siglingafræði og ýmsum undirstöðuatriðum sjómennskunnar sem olli hinum hörmulegu slysum.[593] Hugmyndin um stofnun sjómannaskóla var því í hæsta máta tímabær.

Árið 1847 orðaði Jón Sigurðsson forseti slíka hugmynd í bréfum til þriggja manna vestanlands og bað um álit þeirra.[594] Einn þessara manna var Ásgeir Ásgeirsson skipherra á Ísafirði sem í svarbréfi til Jóns frá 13. janúar 1848 segist ekki sjá annað en koma verði á fót einhverri skólanefnu.[595] Sumarið 1850 var sjómannaskólamálið tekið til umræðu á Kollabúðafundi.[596] Fundur þessi var annar í röð þjóðmálafundanna sem Vestfirðingar héldu árlega í tuttugu ár, frá 1849 til 1868, á hinum forna þingstað í landi Kollabúða við Þorskafjörð. Í frétt sem birtist í blaðinu Þjóðólfi í aprílmánuði árið 1851 segir að nokkrir Ísfirðingar hafi átt frumkvæði að því að málið var tekið til umræðu á Kollabúðafundinum[597] og má ætla að þar hafi Ásgeir skipherra verið fremstur í flokki því vitað er að hann var á fundinum.[598] Á þessum fundi var kosin nefnd til að ræða hugmyndir manna um stofnun sjómannaskóla og til að semja tillögu um málið.[599] Frá niðurstöðu nefndarinnar er sagt á þessa leið í Þjóðólfi:

 

Vildi nefndin að stofnaður væri sjómannaskóli hér á landi en áleit ekki tiltækilegt að semja um það bænarskrá og láta svo bíða Alþingis því sá dráttur yrði óþolandi. … Stakk þess vegna nefndin upp á að því væri farið á flot við þilskipaeigendur í þessum landsfjórðungi að skjóta fé saman með því móti að þegar í sumar legði til 8 skildinga hver þeirra af verði hverrar hákarlslifrartunnu uns fengnar væru 50 tunnur með skipi, þá 12 skildinga til þess fengnar væru 100 tunnur og þaðan af 16 skildinga en hálfu minna af hverju fiskhundraði eftir aflaupphæð sem áður er sagt.

… Vildi nefndin að þessi ráðstöfun félagsins kæmist á prent svo fljótt sem yrði, að menn í hinum fjórðungum landsins fengi tækifæri til að íhuga og láta í ljósi álit sitt um það hvort ekki mundi best og hagkvæmast þörfum tímans að hinn sami háttur væri upptekinn um land allt, svo að einn sjómannaskóli yrði stofnsettur um hvers tilhögun einhverjir er til þess fyndu sig færa segja skyldu álit sitt svo tímanlega að það gæti orðið þjóðkunnugt áður en Öxarárfundurinn yrði haldinn að sumri svo þá yrði rætt þar um málið.[600]

 

Nefndaráliti þessu fylgdi greinargerð sem giskað hefur verið á að séra Lárus M. Johnsen í Holti, sem var einn fundarmanna, hafi samið.[601] Í henni segir meðal annars:

 

Það er allillt fyrir hverja þjóð sem er að verða að fá frá öðrum þjóðum flestallar nauðsynjar sínar og það hvað lakast fyrir oss sem erum í slíkum fjarska en það bætir þó miklu á að geta ekki sjálfur sótt nauðsynjarnar þangað sem þær er að fá og flutt þangað aftur það sem þar er sótt eftir og maður hefur aflögu, heldur verða að eiga það allt undir náð annarra … .

Það virðist líka minnkun, eigi smá, að geta varla farið til fiskjar né leiðar sinnar yfir höfuð á sjó nema með hálfum huga þar sem þó að öllu öðru leyti er svo ástatt að menn færu öldungis óhikað ef ekki bristi kunnáttu þá sem til þess útheimtist og nú er algeng orðin hjá öllum siðuðum þjóðum … .[602]

 

Á fundinum að Kollabúðum gengu tíu þilskipaeigendur sem þar voru mættir í félag um stofnun sjómannaskóla og skuldbundu sig til að greiða áðurnefndar fjárhæðir í sjóð sem ætlaður var til að koma skólanum á fót.[603] Í lok fundarins var kosinn einn fulltrúi úr hverri sýslu á Vestfjarðakjálkanum til að fylgja málinu eftir og safna liði. Þessir þrír voru: Ásgeir Ásgeirsson, skipherra á Ísafirði, Ásgeir Einarsson, bóndi og alþingismaður á Kollafjarðarnesi, og Sigurður Johnsen, kaupmaður í Flatey.[604] Af þeim sem gengu í félagið á Kollabúðafundinum voru 5 úr Ísafjarðarsýslu, 4 úr Barðastrandarsýslu og 1 úr Strandasýslu.[605] Þeir sem gengu í félagið úr Barðastrandarsýslu voru allir úr Flatey á Breiðafirði en Strandamaðurinn eini var Ásgeir á Kollafjarðarnesi.[606] Síðar á árinu 1850 eða á fyrstu mánuðum ársins 1851 bættust níu þilskipaeigendur við í félagið og voru þeir allir úr Ísafjarðarsýslu.[607] Einn þeirra sem þá gerðist félagsmaður var Torfi Halldórsson.[608] Svo virðist sem Ásgeir á Kollafjarðarnesi og Flateyingarnir fjórir hafi slitnað frá félaginu strax á fyrsta starfsári þess, hvað sem valdið hefur, en félagsmennirnir fjórtán sem búsettir voru í Ísafjarðarsýslu héldu áfram.[609] Af þeim voru 3 búsettir á Ísafirði, 4 í öðrum byggðum við Ísafjarðardjúp, 2 í Önundarfirði og 5 í Dýrafirði.[610] Þá er Torfi talinn með Dýrfirðingunum því hann var enn heimilisfastur á Arnarnesi árið 1850[611] og ekki annað vitað en hann hafi átt þar heima allt til haustsins 1851.

Svo fór að Vestfirðingarnir sem stóðu að félaginu sem hér var frá sagt fengu engar undirtektir í öðrum landshlutum við hugmyndir sínar um stofnun sjómannaskóla og á sömu leið fór þegar leitað var eftir stuðningi hjá amtmanninum í Vesturamtinu og forstöðumanni íslensku stjórnardeildarinnar í Kaupmannahöfn.[612] Þegar rúmt ár var liðið frá því sjómannaskólamálið var rætt á Kollabúðafundi og sýnt þótti að undirtektir yrðu daufar víðast hvar á landinu var ákveðið að boða til fundar í Ísafjarðarsýslu deildinni. Sá fundur var haldinn á Ísafirði 18. ágúst 1851.[613] Þar voru þrír menn kosnir í stjórn og voru það Ásgeir Ásgeirsson skipherra, Eiríkur Ólsen, verslunarstjóri á Ísafirði og séra Lárus M. Johnsen í Holti.[614] Ljóst er að Ásgeir skipherra hefur í raun verið eins konar formaður og við lok ársins 1851 skrifar hann undir skýrslu um ástand og efnahag félagsins og nefnir sig þar umsjónarmann deildarinnar.[615] Skýrsla þessi var birt í blaðinu Þjóðólfi og með fylgdi dálítil grein sem Ásgeir eða einhver honum nákominn mun hafa skrifað. Þar er sagt frá framvindu mála og m.a. komist svo að orði:

 

Það er frá Ísafjarðarsýslu deildinni að segja þetta ár að þann 18. dag ágústmánaðar í sumar héldum vér fund með oss á Ísafjarðar verslunarstað og völdum forstöðumenn vorrar deildar, Ásgeir skipherra, séra Lárus og E. Ólsen faktor. Var það þá gjört að álitum að hér skyldi setja sjómannaskólann af þeim styrk er hér gæti fengist þar eð hinir aðrir virtust svo seinlátir á eftirvæntri tilhlutun málsins að ósýnt þótti hvort nokkurs liðs væri frá þeim von.[616]

 

Á þessum fundi var bundið fastmælum að hinn fyrirhugaði sjómannaskóli tæki til starfa á Ísafirði svo fljótt sem verða mætti, burtséð frá því hvort einhver stuðningur fengist annars staðar að. Ákveðið var að útvega strax nauðsynleg áhöld og bækur en Eiríkur Ólsen verslunarstjóri, sem var í þann veginn að sigla til Danmerkur, tók að sér að annast þau innkaup.[617] Fékk hann í hendur allan félagssjóðinn sem þá nam 132 ríkisdölum og 22 skildingum en auk þess 117 ríkisdali og 74 skildinga sem viðstaddir félagsmenn lögðu fram á fundinum sem bráðabirgðalán.[618] Mjög líklegt má telja að á þessum fundi hafi verið rætt hver ætti að verða forstöðumaður skólans og hugsanlegt að frá þeim málum hafi verið gengið áður en Torfi Halldórsson lagði upp í sína námsferð til Danmerkur haustið 1851. Engar marktækar heimildir liggja þó á lausu sem skorið gætu úr um þetta.

Haustið 1852 tók skólinn til starfa eins og að hafði verið stefnt og sá Torfi um kennsluna.[619] Við lok þess árs skrifuðu Ásgeir skipherra og Eiríkur Ólsen undir skýrslu Sjómannafélagsins í Ísafjarðarsýslu fyrir árið 1852 og gera þar nokkru nánari grein fyrir aðdragandanum að stofnun skólans. Í þeirri skýrslu er sagt frá á þessa leið:

 

Það var í fyrstu tilgangur félags vors að koma á sjómannaskóla fyrir allt landið og efla hann svo með tillögum félagsmanna að í honum yrði numið svo mikið sem þyrfti til að stunda fiskiveiðar hér við land og fara landa á milli ef á þyrfti að halda og létta þannig á löndum vorum örðugleik þeim og kostnaði er því fylgir að verða að sækja slíka kennslu í önnur lönd. Vildum vér helst að skóli vor fengi jafnt gildi við aðra samkynja skóla í ríkinu og að þeim sem hér lærðu gæfist kostur á að taka hér lærdómspróf það er þeir hljóta að taka sem fara mega með skip þau er skaðabótafélagið í Kaupmannahöfn vill ábyrgjast.

Þótti oss betur hlýða að leita þar um samþykkis stjórnarinnar og hafði sýslumaður Barðstrendinga, herra Jón Þórðarson [þ.e. Jón Thoroddsen skáld – innsk. K.Ó.], lofað að bera fram bænarskrá vora þar um fyrir amtið. Hvort hann hefur gleymt því eða ekki fengið hávelborna áheyrn vitum vér ekki en það vitum vér að ekkert hefur frést af því síðan.

Þegar vér vorum nú úrkula vonar um árangur af þessu réðumst vér í að senda stjórninni aðra bænarskrá beinlínis frá oss og bar einn félagsmanna hana fram fyrir hina íslensku stjórnardeild [í Kaupmannahöfn] en sá sem þar var fyrir svörum, herra O. Stephensen með því nafni, taldi á því öll vandkvæði.[620]

 

Þeir Ásgeir og Eiríkur gera síðan nánari grein fyrir viðræðunum við Oddgeir Stephensen, forstöðumann hinnar íslensku stjórnardeildar í Kaupmannahöfn, og segja hann meðal annars hafa haldið því fram að félagslimina í Ísafjarðarsýslu skorti alla hæfileika til að standa fyrir og bera ábyrgð á slíku skólahaldi.[621] Einnig hafði Oddgeir á orði að þetta hefði ekki verið stofnað í Reykjavík og að bænarskráin hefði ekki komið til stjórnarinnar réttan lagaveg, gegnum amtið.[622]

Við þessa frásögn sína bæta Ásgeir skipherra og Eiríkur félagi hans enn fáeinum orðum og segja:

 

Það mun fara svo að þeim sem ekki þekkja yfirvöldin að öðru en vanalegri embættisfærslu þeirra, sem kemur fram við oss almúgann, muni virðast sem þau verði fremur vonum voldug og mikil og röggsamleg og úrskurðarsöm þegar þau fá tækifæri til að neita bænum manna. Vel væri nú að vér félagar yrðum sem fyrst svo sjálffærir að vér þyrftum þó ekki að eiga undir þeim þetta lítilræði.[623]

 

Í ljósi þess sem síðar varð er merkilegt til þess að hugsa að einmitt sama árið og Ásgeir skipherra festi þessi tilvitnuðu orð á blað hóf hann verslunarrekstur sinn á Ísafirði[624] en Ásgeirsverslun velti síðar um nokkurt skeið meiri fjármunum á ári hverju en flest eða öll önnur fyrirtæki sem þá voru í rekstri á landi hér.

Um það leyti sem sjómannaskólinn á Ísafirði tók til starfa höfðu 437 ríkisdalir og 83 skildingar safnast í skólasjóðinn en þegar ýmis kostnaður hafði verið dreginn frá átti félagið sem stóð að stofnun skólans 383 ríkisdali og 59 skildinga.[625]

Í skýrslunni sem Ásgeir skipherra og Eiríkur Ólsen skrifuðu undir 31. desember 1852 og hér var áður frá sagt er tilkynnt að skólastarfinu verði haldið áfram en hins vegar hafi verið ákveðið að ráðstafa eignum skólasjóðsins til undirstöðu skaðabóta- eða ábyrgðarsjóðs fyrir fiskiduggum félagsins.[626]

Ljóst er að þeir sem haft höfðu forgöngu um stofnun skólans hafa á árinu 1852 ákveðið að reka hann á eigin ábyrgð og afla tekna með skólagjöldum (sjá hér bls. 76). Jafnframt var bundið fastmælum að verja þeim fjármunum sem skólasjóðurinn átti til að koma fótum undir annars konar félagsskap, það er að segja sjóvátryggingafélag fyrir eigendur þilskipa í Ísafjarðarsýslu. Ekkert slíkt tryggingafélag var þá til í landinu en örfáir útgerðarmenn tryggðu skip sín hjá erlendum tryggingafélögum.[627] Þörfin fyrir innlent sjóábyrgðarfélag var hins vegar tvímælalaust mjög brýn vegna hinna tíðu skipskaða sem urðu hér við land á þessum árum og áður var minnst á. Haustið 1853 fórust tvö þilskip Vestfirðinga með allri áhöfn, Jóhannes frá Dýrafirði (sjá hér Mýrahreppur, inngangskafli) og Spids frá Ísafirði[628] en frá stofnun sjóábyrgðarfélagsins mun hafa verið gengið fáum mánuðum síðar eins og frá er greint í 6. tölublaði Norðra árið 1854. Þar segir:

 

Ísfirðingar hafa því fyrir það fyrsta ráðstafað af skaðabótastofni sínum 200 ríkisdölum til þeirra er verðugastir þóttu og mest nauðsyn var að hjálpa. Þeir höfðu og tekið sig saman um, fyrir jólin í vetur, að stofna nýtt skaðabótafélag sem fyrst um sinn er ætlast til að ábyrgist 15 þilskip, þannig að hálft verð hvers skips sé ábyrgst.a) Þeir sem standa fyrir ábyrgðinni eru 12 þilskipaeigendur og leggur hver þeirra til 500 ríkisdali. Veð fyrir ábyrgðinni stendur í helmingi skipanna. Þetta vottar meðal annars hve miklir ágætismenn Ísfirðingar eru í vilja sínum, samtökum, mætti og framkvæmdum.[629]

_______________________________

 1. Að þetta lag verði haft á er líka tekið fram í bréfi sem Ásgeir Ásgeirsson, skipherra á Ísafirði, skrifaði Jóni Sigurðssyni forseta 5. desember 1852.[630]

 

Vorið 1854 misstu Vestfirðingar þrjú þilskip með allri áhöfn í einu og sama veðrinu og þá fórust líka þrír áttæringar úr Bolungavík.[631] Þilskipin sem þá týndust með manni og mús voru Lovísa sem Ásgeir skipherra á Ísafirði átti og gerði út,[632] Katrín litla frá Önundarfirði (sjá hér Kaldá) og Hákarlinn frá Dýrafirði (sjá hér Mýrahreppur, inngangskafli). Við þvílíkt áfall hlýtur hið unga tryggingafélag að hafa beðið ærinn hnekk og vera má að þessi mikli skaði, sem varð í einu veðri, hafi náð að lama starfsemi þess um sinn. Árið 1857 voru prentuð lög fyrir Hið nýja Sjóábyrgðarfélag Ísfirðinga[633] og virðist þar hafa verið um að ræða annað félag en það sem stofnað hafði verið fjórum árum fyrr.[634] Fullvíst má þó telja að forgöngumenn beggja félaganna hafi verið hinir sömu og þau bæði greinar á einum og sama meiði. Samkvæmt lögunum frá 1857 gafst eigendum skipanna aðeins kostur á að tryggja þau að hálfu[635] eins og verið hafði hjá eldra félaginu. Vorið 1859 veðsettu níu menn félaginu hluti í þilskipum og húseign á Ísafirði og stóðu veðin sem trygging fyrir hlutafé sem var samtals 3.750 ríkisdalir.[636] Í þessum níu manna hópi voru bæði Ásgeir skipherra og Torfi Halldórsson sem þá var kominn til Flateyrar.[637] Fleiri en níu virðast félagsmennirnir ekki hafa verið þegar hér var komið sögu því að í fyrstu grein félagslaganna frá 1857 er tekið fram að heildarupphæð hlutafjárins sé einmitt 3.750 ríkisdalir.[638] Um sögu Hins nýja Sjóábyrgðarfélags Ísfirðinga er fátt kunnugt og það mun aðeins hafa starfað í örfá ár.[639]

Í sjómannaskólanum sem tók til starfa á Ísafirði haustið 1852 var kennslu haldið uppi í fjóra vetur og var Torfi Halldórsson eini kennarinn þar og skólastjóri allan þann tíma.[640] Hér var þess áður getið að um svipað leyti og kennslan hófst var öllum þeim fjármunum sem safnað hafði verið til skólans ráðstafað til að koma fótum undir sjóvátryggingafélag þilskipaeigenda í Ísafjarðarsýslu. Svo virðist sem Torfi Halldórsson og Ásgeir Ásgeirsson skipherra hafi tekið að sér að reka skólann tveir einir fyrir eigin reikning. Að svo hafi verið kemur skýrast fram í bréfi sem Ásgeir skipherra ritaði Jóni forseta 5. desember 1852 en þar kemst hann svo að orði:

 

Það verða í vetur eitthvað 8 eða 10 menn sem fá tilsögn. … Þann kostnað tökum við samt ekki af stofninum heldur kaupum við Torfi Halldórsson öll áhöldin fyrir peninga svo að stofninn minnki ekki.[641]

 

Í skýrslu sem stjórnarmenn sjómannaskólafélagsins skrifuðu undir 31. desember 1852 sést að andvirði bóka og áhalda sem keypt höfðu verið til skólans áður en hann tók til starfa, að upphæð 250 ríkisdalir (sjá hér bls. 72), var á árinu 1852 ráðstafað til hins fyrirhugaða sjóvátryggingafélags eins og öllum öðrum eignum skólasjóðsins.[642] Þeir Ásgeir og Torfi hafi því að líkindum orðið að kaupa áhöldin og bækurnar af undirbúningsfélaginu þegar þeir tóku við skólarekstrinum. Í bréfi sem Ásgeir skipherra ritaði 5. desember 1852 biður hann Jón forseta líka að kaupa bækur og tæki fyrir skólann.[643] Greiðslu fyrir þau námsgögn lét hann fylgja bréfinu. Jón Sigurðsson brást vel við þessari beiðni og sendi bækurnar og tækin sem um hafði verið beðið til Ísafjarðar og reyndust þau kosta 126 ríkisdali og 2 skildinga.[644] Meðal þess sem Ásgeir bað forseta að kaupa fyrir skólann voru 16 eintök af kennslubók í siglingafræði, 10 sjókort yfir Ísland og Færeyjar, 10 sams konar kort yfir svæðið frá Hornbjargi til Skagafjarðar, sirklar, reglustrikur og önnur mælitæki.[645]

Í sjómannaskólanum hjá Torfa mun kennsla yfirleitt hafa hafist í októbermánuði og skólatímanum lokið í febrúar.[646] Í mars hófst vertíð hjá þilskipunum og stóð hún fram undir miðjan september en á þeim árum sem skólinn starfaði var Torfi skipstjóri á skútunni Lovísu sem hér var áður nefnd[647] og hann átti að hálfu á móti Hjálmari Jónssyni. Í bréfinu sem Ásgeir skipherra skrifaði Jóni Sigurðssyni 5. desember 1852 segir hann að 8 eða 10 nemendur muni fá tilsögn í skólanum þann vetur.[648] Í blaðinu Norðra segir hins vegar að nemendur skólans hafi verið 6 þennan fyrsta vetur.[649] Þessum tölum ber ekki alveg saman en vera má að sex hafi lokið prófi en fleiri notið einhverrar kennslu.

Það voru góðar fréttir sem Akureyrarblaðið Norðri hafði að færa frá Vestfjörðum þann 16. júlí 1853, landburður af fiski á nýliðinni vertíð og hákarlsafli þilskipanna með allra besta móti.[650]Er sagt að skipherra Torfi Halldórsson hafi verið sá hlutarhæsti, segir í Norðra, og bætir síðan við:

 

Hann er það sem kennir sjómannafræði (Navigation) á Ísafirði og hafði næstliðinn vetur 6 unglingsmenn … 19 þiljuskip eru nú sögð í Ísafjarðarsýslu og vottar það meðal annars hve miklir atorku- og áræðismenn Vestfirðingar eru. Þeir eru og sagðir meðal hinna mestu sjómanna á Íslandi og sjósókn þeirra hin harðfengasta og þeir hér á landi sem besta hafa kunnáttu og áhöld til siglinga.[651]

 

Allt er þetta mikið hrós en minnt skal á að fyrr en eitt ár var liðið frá því Norðri lét ljós sitt skína með þessum hætti höfðu 5 þilskipanna úr Ísafjarðarsýslu farist og allir drukknað sem þar voru um borð (sjá hér bls. 73-74). Ýmsir munu hins vegar hafa vonað að sú fræðsla sem kostur gafst á í skólanum hjá Torfa Halldórssyni gæti á komandi árum átt þátt í að fækka hinum ógnvænlegu sjóslysum.

Kennslugjald í sjómannaskólanum á Ísafirði var 2 ríkisdalir á viku og aðra 2 ríkisdali á viku þurfti hver nemandi að greiða fyrir fæði og húsnæði.[652] Eins og áður var nefnt mun árlegur skólatími hafa verið fjórir til fimm mánuðir og sé gert ráð fyrir 18 vikum hefur hver einstakur nemandi þurft að greiða 72 ríkisdali samtals fyrir kennsluna, fæði og húsnæði. Sú upphæð var nokkuð há eða litlu minni en þrjú kúgildi.[653] Fyrsta skólaveturinn var fjöldi nemenda á bilinu frá sex til tíu og síðasta veturinn sem skólinn starfaði eru þeir sagðir hafa verið sjö eða átta.[654] Tölur þessar um nemendafjölda er að finna í bréfum sem Ásgeir skipherra á Ísafirði skrifaði á starfsárum skólans og í blaðafregn frá þeim árum.[655] Í langtum yngri heimild er fullyrt að þann vetur sem námspiltarnir voru flestir hafi þeir verið 11, þar af 5 úr Norðurlandi og 2 frá Austfjörðum[656] en enginn veit nú hversu marktæk sú fullyrðing er. Sé reiknað með átta nemendum á ári hafa árlegar tekjur skólans verið 576 ríkisdalir. Helmingur þeirrar upphæðar var greiddur fyrir fæði og húsnæði eins og áður var frá greint og standa þá eftir 288 ríkisdalir. Sé út frá því gengið að kennslubækur og áhöld sem keypt voru fyrir skólann 1851 og 1853 og kostuðu samtals 376 ríkisdali (sjá hér bls. 75) hafi dugað í þau fjögur ár sem skólinn starfaði verða eftir 194 ríkisdalir á ári til að borga kennaralaunin og ýmsan tilfallandi kostnað svo sem þrif og upphitun á kennslustofunni. Þarna er reyndar alls ekki um nákvæmar tölur að ræða því að geta verður í nokkrar eyður. Þær upplýsingar sem fyrir liggja benda þó til þess að rekstur skólans hafi staðið undir sér og Torfi fengið eitthvað greitt fyrir kennsluna. Miðað við tölurnar hér að ofan gætu kennaralaun hans hafa verið 35-40 ríkisdalir á mánuði sem á árunum upp úr 1850 svaraði til eins og hálfs kúgildis. Líklega er sú tala þó of há því hið ágæta brauð, Holt í Önundarfirði, var árið 1853 ekki talið gefa prestinum sem því þjónaði nema liðlega 30 ríkisdali í mánaðartekjur[657] ef marka má hið opinbera brauðamat.

Mjög líklegt verður að telja að kennslan sem Torfi veitti nemendum sínum á árunum 1852-1856 hafi farið fram heima hjá honum en árið 1855 virðist hann hafa búið í húsi sem kaupmenn frá Sönderborg í Danmörku reistu í Miðkaupstaðnum á Ísafirði árið 1816. Hús þetta, sem stendur enn og er nú númer 12 við Aðalstræti, keyptu þeir Torfi Halldórsson, Hjálmar Jónsson timburmaður og Hinrik Sigurðsson, skipherra frá Seljalandi, í febrúarmánuði árið 1854.[658] Fullvíst er að Hjálmar bjó í húsinu árið 1860[659] og þar mun hann líka hafa átt heima árið 1855[660] en þá voru þeir Torfi undir sama þaki, báðir einhleypir[661] (sbr. hér bls. 94).

Sjómannaskólinn á Ísafirði sem Torfi Halldórsson veitti forstöðu var hin merkilegasta stofnun. Í bók um Stýrimannaskólann í Reykjavík kemst höfundurinn, Einar Jónsson, svo að orði að skóli Torfa megi vel teljast hinn fyrsti sjómannaskóli á Íslandi og alveg tvímælalaust sá fyrsti sem nokkuð kveður að.[662] Skóli Torfa var líka hinn allra fyrsti starfsgreinaskóli á landi hér sem sinnti öðru en menntun embættismanna.[663] Nemendur sjómannaskólans á Ísafirði voru flestir Vestfirðingar en nokkrir komu þó úr fjarlægum landshlutum. Einn nemandi Torfa fyrsta veturinn var norðan úr Skagafirði[664] og auk Vestfirðinga kenndi hann síðar piltum úr Árnessýslu, af Snæfellsnesi, úr Þingeyjarsýslu og Eyjafirði og líka frá Vopnafirði og Siglufirði.[665] Öllum sem skólann sóttu kenndi Torfi að nota sjókort og halda leiðarreikning.[666] Hjá honum lærðu þeir líka siglingareglurnar og á öll hjálpartæki við skipstjórn sem þá voru í boði.[667]

Síðasta veturinn sem Torfi Halldórsson hélt uppi kennslu í sjómannafræðum á Ísafirði fór annar skútuskipstjóri þar að veita nemendum tilsögn í fræðum þessum[668] og má ætla að þar hafi gætt áhrifa frá skólahaldi Torfa. Þessi nýi fræðari var Bjarni Jónsson frá Álftamýri, einn margra sona séra Jóns Ásgeirssonar sem þar var prestur á árunum 1837-1863 en síðar á Rafnseyri.[669] Í bréfi sem Ásgeir skipherra á Ísafirði ritaði Jóni forseta 17. janúar 1856 getur hann þess að þá séu 4 eða 5 nemendur hjá Bjarna en 7 eða 8 hjá Torfa.[670] Ekki er nú kunnugt um að Bjarni Jónsson frá Álftamýri hafi kennt skipstjóraefnum sjómannafræði nema þennan eina vetur en hugsanlegt er þó að hann hafi haldið kennslunni áfram eitthvað lengur. Frá Torfa Halldórssyni er þá sögu að segja að hann fluttist frá Ísafirði til Flateyrar árið 1857 og næstu árin þar á eftir kenndi hann nemendum á Flateyri með líkum hætti og hann hafði áður gert á Ísafirði.[671] Stóð svo í allmarga vetur.[672] Því miður er flest óljóst um þetta skólahald á Flateyri.

Á Ísafirði átti Torfi heima í fimm ár, frá 1852 til 1857, og stundaði þá jafnan hákarlaveiðar sem skipstjóri á skútunni Lovísu er hann átti að hálfu á móti Hjálmari Jónssyni eins og áður var frá sagt (sjá hér bls. 67-68). Þeir Torfi og Hjálmar réðust líka í að bræða sjálfir lifrarafla sinn og juku þannig verðmæti hans.[673] Einnig keyptu þeir lifur af öðrum til bræðslu.[674] Í fjóra af fimm vetrum á Ísafirði notaði Torfi svo tímann milli vertíða til að sinna kennslu við sjómannaskólann. Á þessum árum mun hinn dugmikli og farsæli skipstjóri frá Arnarnesi hafa náð að verða allvel efnaður á þeirrar tíðar mælikvarða. Til marks um það má m.a. nefna að á fyrstu vikum ársins 1856 gaf hann 100 ríkisdali til fyrirhugaðrar kirkjubyggingar á Eyri í Skutulsfirði og var það hærri upphæð en nokkur annar heimamaður lagði fram ef frá er talinn Ásgeir skipherra sem gaf 200 ríkisdali.[675] Ásgeir var þá orðinn kaupmaður og hafði rekið verslun í fjögur ár.[676] Svo virðist sem Torfi hafi líka verið eitthvað riðinn við verslun á Ísafirði á þessum árum en þó í mjög smáum stíl og aðeins sem meðeigandi félaga síns, Hjálmars timburmanns, sem fór að versla þar á árunum upp úr 1850. Í bréfi sem Ásgeir skipherra ritaði 10. ágúst 1852 segir hann meðal annars: Ekki gátum við enn farið að sækja okkar vörur. Torfi og Hjálmar hafa verið í sumar að borga það sem þeir voru skuldugir en ég hef verið í umsvifum með að byggja og fleira … .[677]

Ásgeir var sannanlega byrjaður á sínum verslunarrekstri þegar bréfið var skrifað og í orðalagi hans felst vísbending um að þeir Hjálmar og Torfi hafi líka verið farnir að versla eða verið með ráðagerðir í þá átt. Öruggt er það þó ekki. Aftur á móti liggur fyrir að í febrúarmánuði árið 1854 festu þeir Hjálmar og Torfi, ásamt Hinriki Sigurðssyni á Seljalandi, kaup á 15.960 ferálna lóð í Miðkaupstað á Ísafirði og í þeim kaupum fylgdu með íbúðarhús og sölubúð sem stóðu á lóðinni.[678] Bæði húsin og nýnefnd lóð höfðu áður verið í eigu danskra kaupmanna frá Sönderborg á Jótlandi er hófu verslun í Miðkaupstað árið 1816.[679] Þeir Hjálmar og Hinrik voru síðan alllengi með verslunarrekstur í Miðkaupstað[680] en um meinta þátttöku Torfa í þeim rekstri er í raun ekkert vitað nema það eitt að hann stóð með Hinriki og Hjálmari að kaupum á verslunarlóðinni og meðfylgjandi húsum árið 1854.

Í febrúarmánuði árið 1856 andaðist Friðrik Svendsen sem þá hafði lengi búið á Flateyri og átti verslunarstaðinn þar (sjá hér bls. 58-59). Hann hafði á árum áður rekið umfangsmikla verslun og þilskipaútgerð frá Flateyri en vegna heilsubrests verið ófær til allra stórræða síðustu tvo áratugina. Frá andláti Svendsens hefur að líkindum ekki liðið langur tími uns Torfi Halldórsson lét sér detta í hug að reyna að kaupa Flateyri og hefja þar verslun og þilskipaútgerð, einn eða í samvinnu við aðra. Í Önundarfirði var hann mörgum kunnugur frá því hann var skipstjóri á þilskipinu Boga á árunum 1849-1851 en það skip var þá að mestu í eigu Önfirðinga (sjá hér bls. 64-65). Magnús Einarsson, sem verið hafði mestur ráðamaður við útgerðina á Boga, bjó enn á Hvilft árið 1856 og mætti vel láta sér detta í hug að hann hafi hvatt vin sinn Torfa til að ráðast í að kaupa Flateyri.

Guðbjörg Bjarnadóttir, sem var síðari eiginkona Friðriks Svendsen, var náfrænka Torfa því feður þeirra voru bræður[681] (sbr. hér Vífilsmýrar). Fyrstu árin eftir andlát eiginmanns síns bjó Guðbjörg áfram á Flateyri en við skipti á arfi eftir hann kom lítið í hennar hlut því ákvæði í afsalsbréfi frá árinu 1835 leiddu til þess að allar húseignir Svendsens á Flateyri og þau 16 hundruð sem hann hafði átt í jörðinni Eyri féllu við erfðaskiptin í hlut barna hans af fyrra hjónabandi (sjá hér bls. 41-42). Öll voru þau búsett erlendis þegar faðir þeirra andaðist.

Sumarið 1857 fluttist Torfi frá Ísafirði til Flateyrar[682] og má ætla að hann hafi sest að í kaupmannshúsinu hjá Guðbjörgu frænku sinni því önnur húsakynni munu ekki hafa verið í boði. Árið 1858 töldust þó vera tvö heimili á Flateyri og voru þá níu heimilismenn hjá Guðbjörgu en sex hjá Torfa.[683] Hann fékk þá þegar 8 hundruð úr Eyri til ábúðar og frá vorinu 1858 hafði hann þar ábúð á 16 hundruðum.[684] Líklega hefur Torfi verið búinn að leggja drög að kaupunum á Flateyrareignum þegar hann fluttist vestur yfir Breiðadalsheiði sumarið 1857 en kaupsamningurinn var þó ekki undirritaður fyrr en 4. maí 1858 og þá á Bíldudal.[685]

Umboðsmaður seljenda var Eiríkur Ólsen, þá kaupmaður á Bíldudal, en hann hafði fáum árum áður verið verslunarstjóri í Neðstakaupstað á Ísafirði og viðriðinn undirbúning að stofnun sjómannaskólans þar (sjá hér bls. 71-72). Eiríkur og Torfi hljóta því að hafa verið allvel kunnugir hvor öðrum. Áður en gengið var frá undirritun kaupsamningsins lagði Eiríkur fram fullmakt frá séra J.J.F. Svendsen, presti í Ströby í Danmörku[686] en hann var næstelsti sonur Friðriks Svendsen á Flateyri og varð síðar prestur í Færeyjum (sjá hér bls. 29). Það skjal var dagsett 27. janúar 1858 og með yfirlýsingu sem þar var fest á blað gaf presturinn í Ströby Eiríki Ólsen, fyrir sína hönd og meðsystkina sinna, fulla heimild til að selja eignir þeirra á Flateyri og það sem þau áttu í jörðinni Eyri. Í sjálfum kaupsamningnum er hvað eignarheimild seljendanna varðar vísað í gjafabréf Generalindu Charlottu Amaliu von Michaelsen sem dagsett var 7. ágúst 1835.[687] Með því bréfi hafði herforingjafrúin Charlotta, fædd Ísfjörð, ráðstafað Flateyrareignum til hálfbróður síns, Friðriks J. Svendsen, endurgjaldslaust, og látið fylgja með ákvæði um að við andlát hans skyldu eignirnar ganga til barna Svendsens eftir sérstökum reglum sem hún lét færa inn í veðmálabók (sjá hér bls. 41-42). Um eignarheimild seljendanna þurfti því ekki að efast.

Eignirnar sem Torfi keypti voru þessar:

 1. 16 hundruð í jörðinni Eyri í Önundarfirði án jarðarhúsa en með fylgdu 2 kúgildi og 2/3 úr kúgildi betur.[688]
 2. Verslunarstaðurinn Flateyri en honum fylgdi samkvæmt virðingargerð frá 1. apríl 1857 það sem nú verður talið upp:

 

 1. Flateyrartanginn eins og hann skerst út frá Eyrarlandi með túnbletti að mestu uppgræddum.
 2. Íveruhús með kálgörðum, skúr og öllu naglföstu, að utan á lengd 16 álnir, á breidd 12 álnir.
 3. Hlöður tvær.
 4. Fjós.
 5. Hesthús.
 6. Skanshús.
 7. Tvístæðuhús yfir 20 fjár.
 8. Smiðja.
 9. Ennfremur þeir munir sem í virðingargerðinni undir staflið C eru tilgreindir.[689]

 

Hvaða munir það voru sem þarna er vísað til er ókunnugt því virðingargerðin frá 1. apríl 1857 hefur ekki komið í leitirnar. Allar aðrar eignir sem þarna voru seldar eru taldar upp í kaupsamningnum eins og hér má sjá[690] og fyrir allt þetta greiddi Torfi 2.200 ríkisdali[691] sem varla getur talist hátt verð sé haft í huga að útflutningsverðmæti aflans sem hann og skipshöfn hans á Boga fluttu að landi árið 1850 var yfir 1.500 ríkisdalir (sjá hér bls. 65). Við undirritun samningsins var kaupverðið að fullu greitt svo afsal fór fram sama dag.[692] Við frágang málsins hafði Torfi sér við hlið sinn gamla félaga, Hjálmar timburmann. Hann ritar undir kaupsamninginn sem vottur og nefnir sig Hjálmar Johnsen[693] sem ekki kemur á óvart. Hinn votturinn að þessum kaupum var Hákon Bjarnason,[694] þá assistent á Bíldudal[695] og síðar kaupmaður þar. Kaupsamningnum, sem einnig fól í sér afsal Flateyrareigna í hendur Torfa, var þinglýst á Þórustöðum, þingstað Mosvallahrepps, 12. júlí 1859.[696]

Sé litið yfir upptalninguna á hinum seldu eignum vekur athygli að ekki er á þeim lista nema eitt íbúðarhús. Norskahúsið, sem svo var kallað og byggt var 1792 (sjá hér bls. 5-7 og 55-56), hefur því líklega verið fallið þegar hér var komið sögu. Sá möguleiki að einhver annar en Svendsen hafi átt það hús á síðustu æviárum hans kemur vart til greina því að á árunum 1850-1856 átti enginn heima á Flateyri nema þessi fyrrverandi kaupmaður og hans heimilisfólk.[697] Íbúðarhúsið, sem Torfi eignaðist þegar hann keypti Flateyri, var hins vegar það sem Svendsen hafði jafnan búið í allt frá því það var reist á árunum um eða upp úr 1820 (sjá hér bls. 18). Í kaupsamningnum, sem hér hefur nú verið sagt frá og gerður var 4. maí 1858, sést að grunnflötur hússins var 16 x 12 álnir, það er 75 fermetrar, og er þá miðað við utanmál en þess hefur áður verið getið að hús þetta var múrað í binding, einlyft með háu risi (sjá hér bls. 55-56). Í þessu húsi hafði Torfi búið í tæplega eitt ár þegar hann festi kaup á Flateyrareignum vorið 1858 og síðan bjó hann þar með sínu fólki í nær hálfa öld og allt til dauðadags. Torfi lét reyndar stækka húsið og gera á því einhverjar aðrar breytingar og á hans velmektarárum á Flateyri fékk það í munni Önfirðinga nafnið Torfahús. Árið 1858 var það eina íbúðarhúsið á Flateyri og stóð svo allt til ársins 1880 (sjá hér bls. 298).

Vorið 1887 var húsið virt til peningaverðs á 7.500,- krónur.[698] Í virðingargerðinni frá 27. maí 1887 er grunnflötur hússins sagður vera 26 x 12,75 álnir,[699] það er liðlega 130 fermetrar. Málin eru ef til vill ekki alveg nákvæm og gera verður ráð fyrir að breiddin hafi verið hin sama 1858 og 1887 þó að hún sé ýmist sögð vera 12 eða 12,75 álnir. Ljóst er hins vegar að á þessu skeiði hefur húsið verið lengt býsna mikið.

Í virðingargerðinni frá 1887 er tekið fram að aðeins tæpur helmingur hússins sé á tveimur hæðum, það er 12 álnir af 26, og þar má sjá að hæðin var 10 álnir eða 6,3 metrar frá grunni í kjöl [700] og hafa þá verið liðlega 3 metrar undir loft á hvorri hæð.

Vorið 1905 var Torfi að búa sig undir að afhenda sonum sínum, Kristjáni og Ásgeiri, búsforráð á Eyri (sjá hér bls. 234) og umráð yfir sínu gamla íbúðarhúsi á Flateyri. Þá var húsið tekið út og var þá að sögn úttektarmannanna 23 x 16 álnir[701] það er 145 fermetrar. Á árunum 1887-1905 hefur Torfi því látið breikka húsið en ekki er unnt að skýra hvers vegna lengd þess er sögð vera 26 álnir árið 1887 en 23 álnir 18 árum seinna. Líklega er þar um misritun að ræða. Húsinu fylgdi árið 1905 6.375 ferfeta lóð.[702]

Þegar Torfi Halldórsson fluttist til Flateyrar sumarið 1857 var hann 34 ára gamall. Hann var þá enn ókvæntur en kom þó ekki einsamall. Í prestsþjónustubókinni frá Holti sjáum við að þau voru fjögur sem fylgdust að og komu sér fyrir hjá ekkjunni Guðbjörgu Bjarnadóttur á Flateyri, frænku Torfa sem hér var áður nefnd.[703] Torfa nefnir presturinn skipherra er hann skráir komu hans í Önundarfjörð og var það eðlilegt því sá titill var oftast notaður sem atvinnuheiti skútuskipstjóra á þessum árum. Í fylgdarliði skipherrans voru svo María Össurardóttir ráðskona hans, 17 ára, Magnús Össurarson, bróðir ráðskonunnar, sagður 12 ára, og Sigríður Magnúsdóttir sem var 24 ára gömul vinnukona.[704] Frá Maríu og Magnúsi segir hér nánar síðar en fyrst verður að minnast aðeins á Sigríði. Hún var síðar nefnd Sigríður stórráða og um hana skrifaði Játvarður Jökull Júlíusson bók sem gefin var út árið 1985.

Sigríður Magnúsdóttir fæddist í Skáleyjum á Breiðafirði 14. júlí 1833, dóttir hjónanna Magnúsar Einarssonar og Sigríðar Einarsdóttur sem þar bjuggu.[705] Faðir hennar var bróðir Eyjólfs Einarssonar í Svefneyjum, sem menn nefndu Eyjajarl, en móðirin systir séra Guðmundar Einarssonar frá Skáleyjum, sem varð prestur á Kvennabrekku í Dölum, og Þóru Einarsdóttur í Skógum, móður séra Matthíasar Jochumssonar.[706] Vorið 1855 fluttist Sigríður úr Flatey á Breiðafirði til Ísafjarðar[707] og þar mun hún hafa komist í kynni við Torfa Halldórsson sem hún fylgdi til Flateyrar tveimur árum síðar.

Á Flateyri var Sigríður aðeins í tvö ár en sumarið 1859 sigldi hún til Kaupmannahafnar.[708] Hundrað árum síðar töldu nánustu ættingjar Sigríðar sig vita að í þá för hefði hún ráðist með stuðningi Hjálmars Jónssonar timburmanns[709] sem á árunum 1852-1883 var náinn félagi og sameignarmaður Torfa Halldórssonar. Í Danmörku lagði Sigríður stund á nám í hannyrðum og hússtjórn og lærði þar smjör- og ostagerð.[710] Líklega er hún fyrsta íslenska vinnukonan sem sigldi til að afla sér menntunar og sýnir það strax hversu stórráð hún var. Í Danmörku dvaldist Sigríður að þessu sinni í þrjú ár en kom aftur til Íslands vorið 1862 og var þá eitt ár hjá séra Hallgrími Jónssyni á Hólmum í Reyðarfirði.[711] Þaðan fór hún að Möðrudal á Fjöllum vorið 1863 og gerðist bústýra hjá Sigurði Jónssyni sem þar bjó.[712] Hjá Sigurði í Möðrudal var á þessum árum eitt allra stærsta bú landsins, yfir 400 fjár á fóðrum.[713] Í Möðrudal var Sigríður í ellefu ár og hafði þar mikið umleikis.[714] Hún hélt þar námskeið í meðferð mjólkur og kenndi smjör- og ostagerð.[715] Slíkt var þá einsdæmi á landi hér.

Sigurður Jónsson, bóndi í Möðrudal, var kvæntur maður og kona hans við bærilega heilsu en engu að síður tók Sigríður Magnúsdóttir við allri stjórn í búri og eldhúsi skömmu eftir komu sína á heimili þeirra.[716] Hún var stjórnsöm og ráðrík og á þessum árum ýmist nefnd Sigríður fagra eða Sigríður stórráða.[717] Með Sigurði í Möðrudal eignaðist hún dóttur sem fæddist árið 1868 en dó tveimur árum síðar.[718] Tengsl hennar við stórbóndann í Möðrudal komu henni að lokum í erfiða flækju sem Játvarður Jökull gerir grein fyrir[719] en ekki verður fjallað um hér.

Þann 6. mars 1874 dó Sigurður í Möðrudal og um mitt sumar á því ári steig Sigríður stórráða um borð í spekúlantsskip austur á Vopnafirði og stefndi fyrir Langanes.[720] Enginn þar austur frá vissi hvert hún ætlaði sér en með henni í för var bróðurdóttir hennar, Sigríður Sveinbjarnardóttir úr Skáleyjum, sem dvalist hafði í þrjú ár hjá frænku sinni í Möðrudal.[721] Þegar Sigríður stórráða yfirgaf Möðrudal var hún fertug að aldri en frænka hennar og nafna rétt liðlega tvítug.[722] Óljóst er hversu langt þær komust með spekúlantsskipinu sumarið 1874 en gangandi komu þær yfir Breiðadalsheiði áður en haustaði að og hjá fornvinum sínum á Flateyri kom hin fyrrverandi bústýra í Möðrudal frænku sinni fyrir og réð hana í vist hjá Torfa Halldórssyni (sjá hér Hvilft). Sigríður Sveinbjarnardóttir, sem fylgdi hinni stórráðu frænku sinni frá Möðrudal til Flateyrar, varð síðar húsfreyja á Hvilft eins og hér hefur áður verið sagt frá.

Sigríður stórráða mun hins vegar ekki hafa átt langa dvöl í Önundarfirði er hún staldraði hér við bak þjóðhátíð árið 1874. Um dvalarstaði hennar næstu þrjú eða fjögur ár er allt í óvissu en haustið 1878 var hún komin að Ingjaldshóli undir Jökli og orðin hómópati[723] en svo voru smáskammtalæknar nefndir á þeirri tíð. Presturinn í Nesþingum segir Sigríði hafa komið að Ingjaldshóli frá Flatey[724] en vel má vera að hún hafi dvalist um lengri eða skemmri tíma í Danmörku á árunum 1874-1878 og aflað sér þar þekkingar í smáskammtalækningum og hjúkrun sjúkra. Frá 1878 til 1886 var Sigríður búsett á ýmsum stöðum á Snæfellsnesi[725] en haustið 1886 eða á allra næstu árum þar á eftir steig hún enn á skipsfjöl og sigldi til Danmerkur, komin nokkuð á sextugsaldur.[726] Þaðan í frá kom hún aldrei til Íslands en lifði þó enn í fulla þrjá áratugi. Í Kaupmannahöfn rak hún matsölu um skeið[727] og starfaði sem hjúkrunarkona, m.a. á Friðriksspítala.[728]

Í danskri minningargrein um Sigríði er fullyrt að á sínum velmektardögum hafi hún verið hjúkrunarkona.[729] Þá staðhæfingu verður að taka gilda og er hún því fyrsta íslenska konan sem borið hefur þetta starfsheiti svo vitað sé. Eins og áður sagði má telja líklegt að Sigríður hafi aflað sér einhverrar menntunar á sviði lækninga og hjúkrunar á árunum 1874-1878 en haustið 1878 verður þess fyrst vart að hún sé nefnd hómópati en orðin hjúkrunarkona og hjúkrunarfræðingur voru þá ekki til í íslensku máli.

Liðlega sextug að aldri gerðist Sigríður sjöunda dags aðventisti og þegar hún andaðist, 86 ára gömul, 3. nóvember 1919 kom í hlut forstöðumanns aðventistasafnaðarins í Kaupmannahöfn að sjá um útförina.[730]

Sé litið yfir æviferil Sigríðar Magnúsdóttur stórráðu blasir við mynd af konu sem kaus að standa á eigin fótum og ryðja nýjar brautir. Hún gerði uppreisn gegn lögmáli vanans og reif sig lausa frá því basli sem á 19. öld var hlutskipti meginþorra íslenskra kvenna.

Það er merkilegt að virða þau fyrir sér, þessa þrenningu sem settist að á Flateyri árið 1857, hinn hyggna og forsjála aflaskipstjóra, Torfa Halldórsson, sem í fjögur ár hafði séð um alla kennslu í fyrsta sjómannaskólanum á Íslandi, og konurnar tvær sem hann hafði með sér, ráðskonuna Maríu sem aðeins var 17 ára og Sigríði sem var sjö árum eldri. Sjálfur var Torfi orðinn 34 ára og var í þann veginn að festa kaup á Flateyri með öllu sem þessum verslunarstað fylgdi. Skoðað úr fjarlægð sýnist líklegt að þeim Torfa og Sigríði hefði átt að lítast vel hvoru á  annað og merkilegur unglingur má María Össurardóttir hafa verið ef Torfi hefur átt kost á að velja en kosið sér hana fremur en Sigríði. Um þetta veit nú enginn neitt en vera má að svo stórhuga maður sem Torfi Halldórsson var hafi talið Sigríði frá Skáleyjum einum of stórráða fyrir sig. Ólíklegra verður hitt að teljast að Sigríður hafi aldrei litið Torfa hýru auga er hún var vinnukona hans og bæði einhleyp á besta aldri. Að minnsta kosti var hún ekki alveg frábitin karlmönnum eins og sjá má á ævintýralegum ferli hennar síðar austur í Möðrudal.

María Össurardóttir, sem var varla orðin 17 ára þegar þau settust öll þrjú að á Flateyri, var hins vegar sú sem Torfi kaus sér fyrir eiginkonu. Þegar presturinn í Holti skráir búferlaflutninga Torfa, Maríu og Sigríðar frá Ísafirði til Flateyrar árið 1857 tekur hann fram að það sé María sem sé ráðskona hjá Torfa.[731] Nú mun ekki vera unnt að sjá á hvaða tíma ársins þau komu að norðan en líklegast er að það hafi verið um vorið eða snemma sumars. Vel kann að vera að þau Torfi og María hafi þá þegar verið heitbundin og svo mikið er víst að í byrjun gormánaðar um haustið varð María þunguð af hans völdum því elsta barn þeirra, Páll Júlíus Torfason, fæddist á Flateyri 31. júlí 1858.[732] Þá voru foreldrar barnsins enn ógift, enda aðeins liðnir sex dagar frá því móðirin unga náði 18 ára aldri.[733] Sigríður Magnúsdóttir frá Skáleyjum, sem seinna var ýmist nefnd Sigríður fagra eða Sigríður stórráða, var þá enn vinnukona hjá Torfa[734] og má ætla að það hafi komið í hennar hlut að hlynna að móður og barni, enda var hún einn þriggja votta þegar þessi frumburður Torfa og Maríu var skírður.[735] Þann 3. febrúar 1859 voru þau Torfi Halldórsson og María Össurardóttir svo gefin saman í hjónaband[736] en síðar á því ári vék Sigríður brott af heimili þeirra og fór þá til Danmerkur eins og hér var áður nefnt.

Hálfri öld síðar mun hún enn hafa haldið einhverjum bréfatengslum við Maríu Össurardóttur því María segir í bréfi 14. mars 1910: Aumingja gamla Sigríður skrifar mér í gær: Allt bendir á heimsendinn.[737] Full ástæða er til að ætla að þessi gamla Sigríður sem taldi heimsendi vofa yfir árið 1910 hafi verið Sigríður stórráða sem þá hafði lengi búið í Danmörku. Þó að María taki svo til orða að hún hafi skrifað sér í gær gæti meiningin allt eins verið sú að bréf Sigríðar hafi borist í gær. Er þarna var komið sögu var Sigríður stórráða orðin aðventisti svo sem fyrr var nefnt (sjá hér bls. 84) og árið 1910 var mikið um að fólk úr sértrúarsöfnuðum hvetti aðra til að gera iðrun og yfirbót því að heimsendir væri í nánd. Einmitt á því ári átti halastjarna Halley’s að rekast á jörðina og eyða öllu lífi á þessari plánetu.

María Össurardóttir, sem var bústýra Torfa Halldórssonar frá hans fyrstu dögum á Flateyri og síðan eiginkona hans, var fædd í Bæ í Súgandafirði 25. júlí 1840 og hét fullu nafni María Júlíana.[738] Foreldrar hennar voru Össur Magnússon í Bæ og Salóme Jónsdóttir frá Hvítanesi í Ögursveit.[739] Össur, faðir Maríu, var sonur Magnúsar Guðmundssonar, hreppstjóra í Bæ í Súgandafirði og konu hans Bergljótar Össurardóttur (sjá hér Bær) en Magnús hreppstjóri var sonarsonur Bárðar Illugasonar í Arnardal, ættföður Arnardalsættar.[740] Salóme, móðir Maríu, var dóttir Jóns Einarssonar, bónda og hreppstjóra á Hvítanesi í Ögursveit, og eiginkonu hans, Elínar Markúsdóttur, prests á Söndum í Dýrafirði, Eyjólfssonar.[741] Foreldrar Salóme voru þremenningar og áttu bæði Ólaf Jónsson, lögsagnara á Eyri í Seyðisfirði, fyrir langafa.[742] Frá Ólafi lögsagnara á Eyri var María Össurardóttir því komin á tvo vegu en hann og Mála-Snæbjörn, sem var langafi Torfa Halldórssonar, áttu lengi í miklum illdeilum eins og frá er sagt á öðrum stað í þessu riti (sjá hér Mýrar og Sæból). Í börnum Torfa og Maríu urðu þessir fornu fjendur hins vegar eitt.

Árið 1843 fluttist María Össurardóttir með foreldrum sínum frá Bæ að Hvítanesi[743] en tveimur árum síðar voru þau öll komin í Súðavík og áttu þar heima næstu sjö árin.[744] Frá Súðavík fluttist María með foreldrunum á Ísafjörð árið 1852 og þar var hún enn í foreldrahúsum árið 1855,[745] tveimur árum áður en hún gerðist lagskona Torfa Halldórssonar og fylgdi honum vestur yfir Breiðadalsheiði.

Þegar Össur Magnússon, faðir Maríu, fluttist til Ísafjarðar er hann sagður vera smiður en í manntalinu frá 1855 er hann nefndur úttektarmaður [746] sem sýnir að honum hefur verið treyst til vandasamra verka. Össur var líka viðriðinn útgerð og átti með félaga sínum lítinn dekkbát á árunum um og upp úr 1850.[747] Sá bátur hét Ingólfur og var 5,2 smálestir (2 stórlestir) að stærð.[748] Össur var einn þeirra 19 útgerðarmanna í Ísafjarðarsýslu sem árið 1850 gengu í félag til að undirbúa stofnun sjómannaskóla (sjá hér bls. 70-71) og var því þá þegar stutt á milli hans og Torfa Halldórssonar.

Salóme Jónsdóttir, eiginkona Össurar og móðir Maríu, er sögð hafa verið skörungur mikill og dugnaðarforkur[749] og var sagt að eitt sinn hefði hún, ásamt öðrum kvenmanni, bjargað mönnum af skipreika í Álftafirði.[750] Hún mun hafa verið formaður á báti sem reri frá Súðavík og munnmæli herma að hún hafi kunnað að synda[751] sem var mjög fátítt á hennar dögum. Í munnmælum er líka haft að Salóme hafi verið gefin fyrir áfengan drykk og í hópi niðja hennar hefur verið á kreiki sá orðrómur að þau hjónin, Össur og hún, hafi slitið samvistir.[752] Bæði eru þau þó skráð undir sama þaki árið 1855 og sögð vera gift[753] en tveimur árum síðar lauk Salóme sinni ævigöngu er hún andaðist, 45 ára gömul, þann 13. nóvember 1857.[754] Þá var María dóttir hennar flutt til Flateyrar með Torfa Halldórssyni fyrir nokkrum vikum eða mánuðum og hafði tekið með sér annan tveggja bræðra sinna, drenginn Magnús Össurarson sem þá var að verða 12 ára[755] (sbr. hér bls. 82). Hjónin Salóme Jónsdóttir og Össur Magnússon dóu bæði sama veturinn, Össur fimm mánuðum síðar en hún,[756] og má telja líklegt að María hafi tekið drenginn með sér til Flateyrar vegna veikinda foreldranna, annars þeirra eða beggja. Þaðan í frá ólst Magnús Össurarson upp hjá Maríu systur sinni og Torfa á Flateyri[757] og var hann eitt nokkurra fósturbarna sem þau ólu upp að einhverju eða öllu leyti.[758] Sjálf eignuðust María og Torfi ellefu börn og náðu átta af þeim að vaxa úr grasi.[759] Hér er á öðrum stað sagt lítið eitt frá sumum þessara barna (sjá hér bls. 183 og 196-243) og fjallað nánar um Maríu Össurardóttur, húsfreyjuna sem í hálfa öld réð ríkjum innan stokks í Torfahúsi á Flateyri (sjá hér bls. 180-184).

Tvö fyrstu árin sem Torfi Halldórsson var búsettur á Flateyri, 1857-1859, hélt hann áfram að stunda sjó og var eins og áður skipstjóri á skútunni Lovísu sem þeir Hjálmar Jónsson áttu saman.[760] Sighvatur Borgfirðingur segir í minningarorðum um Torfa að hann hafi verið skipstjóri þar til hann var 36 ára gamall[761] og hætt á sjónum árið sem hann kvæntist,[762] það er 1859. Líklega er þetta alveg rétt hjá Sighvati því presturinn í Holti nefnir Torfa skipherra bæði 1857 og 1858 og líka 3. febrúar 1859 en í ódagsettu sóknarmannatali frá því síðar á því ári er hann aðeins nefndur húsbóndi og svo hreppstjóri árið 1860.[763]

Kennslunni í sjómannafræðum, sem Torfi hafði stundað á Ísafirði, hélt hann að sögn áfram fyrstu ár sín á Flateyri og var þá með pilta í læri að vetrinum.[764] Óljóst er hvenær Torfi hætti að kenna.

Þegar Torfi settist að á Flateyri árið 1857 hafði engin eða nær engin verslun verið rekin þar í 17 ár (sjá hér bls. 50 og 53) og ekki verður séð að Torfi hafi farið að sinna verslunarstörfum fyrr en Hjálmar Jónsson, félagi hans, fluttist til Flateyrar árið 1867 eða því sem næst og setti hér verslun á stofn (sjá hér bls. 96-97). Á árunum 1858-1865 var Torfi því fyrst og fremst bóndi og bjó á þeim 16 hundruðum úr Eyri sem hann festi kaup á vorið 1858 um leið og hann keypti allar Flateyrareignir og áður var frá sagt. Í sóknarmannatölum frá árunum 1859-1865 er hann líka ýmist nefndur hreppstjóri, húsbóndi eða bóndi og bóndatitilinn lætur prestur nægja á Torfa árið 1865.[765] Búið var þó ekki mjög stórt á þessum fyrstu Flateyrarárum Torfa ef marka má búnaðarskýrslur. Árið 1860 bjó hann með 3 kýr, 1 griðung, 2 veturgamla nautgripi, 26 ær, 4 sauði, 10 gemlinga, 2 hross og 1 tryppi.[766] Tíu árum síðar var bústofninn hjá Torfa og Maríu orðinn allmiklu stærri en þá bjuggu þau með 3 kýr, 1 veturgamlan nautgrip, 54 ær með lömbum, 10 geldar ær, 28 sauði og hrúta, 24 gemlinga, 2 hesta og 1 tryppi.[767] Bú Torfa var þá næststærsta búið í Mosvallahreppi en séra Stefán P. Stephensen í Holti var einn með enn stærra bú.[768]

Árið 1880 hafði hausunum enn fjölgað í búi Torfa og Maríu á Flateyri en í fardögum á því ári eru þau sögð búa með 3 kýr, 1 veturgamlan nautgrip, 77 ær, 25 sauði og hrúta, 60 gemlinga, 3 hesta og 7 tryppi.[769] Á þessum tíma var Séra Stefán í Holti líka sá eini í Mosvallahreppi sem var með stærra bú en Torfi,[770] alveg eins og verið hafði 1870. Merkilegt er að sjá í búnaðarskýrslum hversu mikil garðrækt var hjá Torfa og Maríu á Flateyri árið 1880 en kál- og kartöflugarðar þeirra voru þá 180 ferfaðmar að stærð, tvöfalt stærri en hjá prestinum í Holti sem var þó með næststærstu garðana í hreppnum.[771]

Vera má að jafnframt búskapnum og starfi hreppstjóra hafi Torfi sinnt útgerð eins eða tveggja þilskipa á árunum 1859-1867 en í búnaðarskýrslum má sjá að á þessum árum átti hann ætíð hlut í einu eða fleiri þilskipum.[772] Árið 1857, fyrsta ár Torfa á Flateyri, er hann sagður eiga 5/6 úr skipi, árið 1858 3/4 úr skipi, árin 1859-1861 eitt skip, gæti þó verið tvö hálf, 1862 hálft skip, 1863 og 1864 3/4 úr skipi og 1865 5/6 úr skipi.[773] Tekið skal fram að þarna er alls staðar átt við þilskip.

Í tiltækum heimildum er þess hvergi getið að skipherrann Torfi Halldórsson hafi sótt sjó á árabát frá verstöð Önfirðinga eins og almennt var um bændur. Líklega er þó best að slá engu föstu í þeim efnum en bent skal á að samkvæmt búnaðarskýrslum frá 1860 átti Torfi bara einn opinn bát sem var tveggja eða þriggja manna far.[774] Mjög ólíklegt verður að telja að hann hafi stundað vertíðarróðra á slíkri fleytu. Seinna eignaðist Torfi stærri árabáta og má sem dæmi nefna að árið 1870 átti hann auk litla bátsins tvo aðra sem báðir voru sexæringar eða fjögra manna för og einn slíkan bátt átti hann árið 1880.[775] Ætla má að einhverjum þessara báta hafi verið róið til fiskjar á vorvertíð og líka stöku sinnum á öðrum árstímum en slíka róðra hefur Torfi varla stundað sjálfur og síst eftir 1865 þegar annríki hans við annars konar störf fór að verða meira en áður eins og hér verður brátt greint nánar frá.

Fyrsta þilskipið sem Torfi Halldórsson eignaðist hlut í var Bogi sem hann átti með þremur öðrum á árunum 1849-1851 og hér hefur áður verið sagt frá (sjá hér bls. 64-66). Torfi var þá skipstjóri á Boga og svo á Lovísu sem þeir Hjálmar Jónsson keyptu saman árið 1852 (sjá hér bls. 65-68). Frá 1852-1859 var Torfi skipstjóri á Lovísu og hún er eina skipið sem vitað er með vissu að hann átti hlut í þegar hann fluttist til Flateyrar árið 1857. Hafi eignarhlutur hans í Lovísu þá verið óbreyttur frá því sem verið hafði 1852 og hann því átt þetta skip hálft  má gera ráð fyrir að hann hafi að auki átt einn þriðja part í öðru skipi því búnaðarskýrslan sýnir að samtals átti hann þetta ár 5/6 úr skipi. Hugsanlegt er reyndar líka að auk helmingsins í Lovísu hafi Torfi átt hluti í tveimur öðrum skipum árið 1857 og þá einn sjötta part í hvoru þeirra. Líklegast er að hann hafi þá þegar átt eitthvað í Hildu Maríu sem í skjali frá árinu 1859 er sögð hafa verið jakt.[776] Fyrir liggur að Hjálmar Jónsson, félagi Torfa, átti sjötta part í því skipi árið 1859 en það mun fyrst hafa komið til landsins frá Danmörku árið 1856 og þá til Ísafjarðar.[777]

Lovísu áttu þeir Torfi og Hjálmar í fullan aldarfjórðung eða frá 1852 og fram undir 1880 (sjá hér bls. 126). Torfi var skipstjóri á Lovísu til 1859 (sjá hér bls. 87) en tveimur árum síðar var Örnólfur Þorleifsson frá Suðureyri í Súgandafirði, sem búsettur var á Ísafirði, orðinn skipstjóri á þessu sama skipi.[778]

Hér var áður getið um skútuna Hildu Maríu sem keypt var frá Danmörku til Ísafjarðar árið 1856. Hugsanlegt er að Torfi hafi þá þegar eignast hlut í því skipi en skýrar upplýsingar liggja ekki fyrir í þeim efnum. Aftur á móti liggur fyrir að Hilda María var mjög lengi gerð út frá Flateyri og þá var Torfi aðaleigandi hennar um langt skeið (sjá hér bls. 127-128).

Meðal þeirra sem áttu með vissu hlut í Hildu Maríu á árunum um og upp úr 1860 má auk Hjálmars Jónssonar nefna Guðmund Brynjólfsson, bónda á Mýrum í Dýrafirði[779] (sjá hér Mýrar). Árið 1861 var Andrés Pétursson í Haukadal í Dýrafirði skipstjóri á henni[780] en Brynjólfur Guðmundsson, sonur Guðmundar Brynjólfssonar á Mýrum, mun einnig hafa verið skipstjóri á þessu sama skipi um eitthvert skeið á árunum upp úr 1860.[781] Brynjólfur andaðist liðlega þrítugur að aldri árið 1869 (sjá hér Mýrar) en talið er að hann hafi lært sjómannafræði hjá Torfa Halldórssyni.[782]

Svo virðist sem bæði Lovísa og Hilda María hafi verið gerðar út frá Ísafirði á árunum kringum 1860. Til þessa bendir einkum sú staðreynd að í formannavísum sem ortar voru um skipstjórana á þilskipum frá Ísafirði árið 1861 koma bæði þessi skip við sögu og eru nefnd með öðrum þilskipum frá Ísafirði.[783]

Hér var áður minnst á að Torfi Halldórsson kynni að hafa eytt nokkru af sínum kröftum í skútuútgerð á árunum 1859-1865 eins og hans var vandi bæði fyrr og síðar. Um störf Torfa að útgerðinni á þessum árum er þó allt í óvissu og það eitt vitað að hann átti þá jafnan hlut í einu eða tveimur skipum og hugsanlega í þremur. Hafi Lovísa og Hilda María hins vegar verið gerðar út frá Ísafirði á þessu skeiði hefur Torfi varla stjórnað útgerðinni á þeim og ekki er kunnugt um að hann hafi átt hlut í öðrum þilskipum á þessum árum. Hjálmar Jónsson, sameignarmaður Torfa, var þá enn búsettur á Ísafirði og fyrir liggur að hann átti hlut í báðum þessum síðastnefndu skipum árið 1859. Hafi hann haldið þeim eignarhlut á næstu árum og skipin verið gerð út frá Ísafirði má telja líklegt að umsjón með útgerð þeirra hafi fyrst og fremst hvílt á honum. Hitt getur samt verið að þeir hafi skipt með sér verkum og Torfi verið með annan fótinn á Ísafirði þegar mest kallaði að, til dæmis þegar verið var að búa skipin til veiða síðla vetrar.

Á árunum 1865-1870 urðu þáttaskil á ferli þeirra félaga, Hjálmars og Torfa, en Hjálmar fluttist þá frá Ísafirði til Flateyrar og setti þar á stofn verslun.[784] Torfi, sem var eigandi Flateyrar, leigði Hjálmari lóð undir verslunina og tók að sér að annast verslunarreksturinn þegar eigandinn væri fjarverandi en á árunum 1865-1882 sat Hjálmar yfirleitt í Kaupmannahöfn á veturna.[785] Um svipað leyti munu þeir félagar hafa einsett sér að gera Flateyri að miðstöð þilskipaútgerðar sinnar og kom í hlut Torfa að stjórna útgerðinni. Lítil grein hefur enn verið gerð fyrir Hjálmari á þessum blöðum og verður nú reynt að bæta nokkur úr því.

Hjálmar Jónsson fæddist 17. ágúst 1822 á bænum Kambi í Veiðileysufirði í Árneshreppi í Strandasýslu.[786] Foreldrar hans voru Jón Þórólfsson, bóndi þar, og kona hans, Helga Hjálmarsdóttir.[787] Faðir Helgu og afi Hjálmars var Hjálmar Jónsson sem bjó í Kjós í Árneshreppi og dó þar úr hungri hálffertugur að aldri þann 3. júní 1803.[788] Sá Hjálmar var bróðir Einars Jónssonar, dannebrogsmanns á Kollafjarðarnesi,[789] föður Magnúsar Einarssonar, bónda á Hvilft í Önundarfirði. Hjálmar á Flateyri og Magnús á Hvilft voru því náskyldir frændur.

Hjálmar ólst upp á Kambi fram undir þrettán ára aldur en vorið 1835 fluttist hann með foreldrum sínum að bænum Reykjarfirði í sama hreppi og átti þar heima við fermingu vorið 1836.[790] Sagt er að Hjálmar hafi alist upp í mikilli fátækt,[791] enda voru foreldrar hans stundum jarðnæðislaus og höfðust þá við í húsmennsku á Kambi.[792] Þegar Hjálmar var 14 ára gamall lætur sóknarprestur hans þess getið að drengurinn sé efnilegur, greindur og vel uppfræddur.[793] Við sömu húsvitjun fær móðir Hjálmars þá einkunn hjá presti að hún sé greiðvikin og vel þenkjandi en um bóndann Jón, föður Hjálmars, kemst prestur svo að orði að hann sé sérlundaður og daufur í skilningi.[794] Allt fram að fermingaraldri var Hjálmar jafnan á heimili foreldra sinna[795] en skömmu eftir ferminguna fór hann að vinna fyrir sér hjá vandalausum. Hann fór þó ekki langt fyrstu árin. Á árunum 1839-1842 var hann vinnupiltur á Kambi, þar sem hann hafði fæðst og alist upp, en foreldrar hans voru þá í Kjós.[796] Til þeirra fór hann aftur vorið 1842, þá tæplega tvítugur, og var hjá þeim í Kjós fardagaárið 1842-1843.[797] Systir Hjálmars og mágur, þau Steinunn Jónsdóttir og Jóhann Söebeck beykir, voru þá reyndar húsráðendur á bænum en foreldrar Hjálmars og Steinunnar dvöldust á heimili dóttur sinnar og tengdasonar.[798]

Um fyrstu peningana sem Hjálmar eignaðist var síðar höfð eftir honum sjálfum dálítil saga sem Gils Guðmundsson færði í þennan búning:

 

Hjálmar var fátækur í æsku og höfðu foreldrar hans engin ráð til að kosta hann á menntabraut en í þá átt sneri hugur hans allur. Var honum ungum komið fyrir til dvalar hjá vandalausum og fékkst hann við smalamennsku á sumrin. Sagði hann svo frá að fyrstu aura sína hefði hann fengið með því móti að safna saman smjörsköku þeirri er honum var ætluð til viðbits og smalaklípa var kölluð. Seldi hann smjörið og keypti fyrir það tóbak í kauptíðinni. Tóbakið fór hann með í verstöðvarnar að vorinu er tekið var að sneyðast um allan varning og prangaði því út meðal sjómanna.[799]

 

Einhver fótur gæti sem best verið fyrir þessari sögu en tvær fjölmennar hákarlaveiðistöðvar voru skammt frá uppvaxtarslóðum Hjálmars, önnur á Gjögri, yst við norðanverðan Reykjarfjörð, en hin í Skreflum í landi Kaldbaks.[800] Sjóleiðin frá Kambi í Veiðileysufirði að Gjögri er liðlega fjórir kílómetrar en um níu kílómetrar inn í Skreflur.

Á uppvaxtarárum sínum var Hjálmar jafnan í næsta nágrenni við verslunarstaðinn í Kúvíkum við Reykjarfjörð því þangað er aðeins klukkutíma gangur frá Kambi og litlu lengra frá bænum Kjós í Reykjarfirði. Í ungri heimild er frá því greint að í æsku hafi Hjálmar lengi verið óbreyttur verkmaður á Skagaströnd[801] en í þeim skertu sóknarmannatölum sem varðveist hafa er hann aldrei skráður þar til heimilis og ekki heldur í næsta nágrenni.[802] Líklegra verður því að telja að pilturinn hafi unnið eitthvað sem verkamaður við verslunina í Kúvíkum, máske við smíðar með mági sínum, beykinum Jóhanni Söebeck sem hér var áður nefndur.

Í marsmánuði árið 1843 var Hjálmar tvítugur vinnupiltur hjá þessum mági sínum, sem átti heima í Kjós, en ári síðar er hann horfinn úr Árnesprestakalli.[803] Í manntalinu frá 1845 er hann hvergi að finna þó leitað sé hringinn í kringum landið[804] og má gera ráð fyrir að hann hafi þá verið farinn úr landi. Um feril Hjálmars á árunum 1844-1851 er margt óljóst og engar frumheimildir í boði en sagt er að um skeið hafi hann verið farmaður á dönskum skipum og svo hafi hann lært skipasmíðar.[805] Um smíðakunnáttuna þarf reyndar ekki að efast því þegar Hjálmar settist að á Ísafirði á árunum upp úr 1850 var hann nefndur timburmaður.[806] Líklegt virðist að Hjálmar hafi ekki komið til Ísafjarðar fyrr en 1852 og svo mikið er víst að nafn hans er ekki þar að finna í manntalinu frá 1850. Að vísu gæti hann hafa sest að á Ísafirði árið 1851 en líklegra er hitt að leiðir þeirra Torfa Halldórssonar hafi fyrst legið saman í Danmörku veturinn 1851-1852 og þeir ákveðið þann vetur að ráðast sameiginlega í kaup á skipi.

Vorið 1852 voru liðin um það bil níu ár frá því Hjálmar yfirgaf foreldra sína og hélt út í heiminn frá kotbýlinu Kjós í Reykjarfirði þar sem afi hans hafði dáið úr hungri. Á þessum níu árum hlýtur margt að hafa drifið á daga hans sem allt er nú gleymt. Það eina sem liggur ljóst fyrir er að á árunum milli tvítugs og þrítugs náði Hjálmar að brjótast úr sárri fátækt og verða það efnaður að 29 ára gamall gat hann gengið í félag með Torfa um kaup á skipi sem var stærra og betur búið en öll önnur fiskiskip sem þá voru til á Vestfjörðum og jafnvel á landinu öllu (sjá hér bls. 67-68). Þetta stóra skip, slúffuna Lovísu, keyptu þeir Hjálmar og Torfi tveir einir vorið 1852 eins og áður var frá greint. Á henni sigldi Torfi heim sama vor eða um sumarið (sjá hér bls. 67-68) og ekki er ólíklegt að þar hafi Hjálmar verið með í för. Báðir settust þeir að á verslunarstaðnum Ísafirði sem þá var í örum vexti. Á næstu árum stóðu þeir saman að útgerð Lovísu frá Ísafirði og var Torfi skipstjóri á henni eins og áður var frá sagt. Hjálmar timburmaður mun hins vegar hafa haft smíðar að aðalstarfi á þessu skeiði ævinnar.[807] Skipasmíðar og viðgerðir á skipum voru hans fag en eitthvað mun hann líka hafa fengist við húsasmíðar.[808] Margir leituðu til Hjálmars um ráðgjöf við skipakaup og eftirlit með smíði skipa sem Vestfirðingar fengu smíðuð erlendis.[809] Fór hann því oft á milli landa. Á árunum kringum 1880 sinnti Hjálmar enn slíkum eftirlitsstörfum og hafði svo dæmi sé tekið eftirlit með smíði tveggja skonnorta fyrir Mýramenn og fleiri Dýrfirðinga á árunum 1878-1881[810] (sjá hér Mýrar).

Árið 1857 stjórnaði Hjálmar smíði á Dokkunni á Ísafirði sem var eins konar skipakví þar sem þilskipin höfðu öruggt vetrarlægi.[811] Það voru eigendur þilskipanna á Ísafirði sem stóðu að smíði Dokkunnar[812] en með gerð hennar spöruðu þeir sér og öðrum mikið erfiði sem fylgdi því að setja skipin upp á kamb á haustin og koma þeim aftur niður í vertíðarbyrjun. Dokkan á Ísafirði var fyrsta skipakví sinnar tegundar á Íslandi og er sagt að hún hafi kostað 2.600 ríkisdali.[813] Hún var um 4.800 ferálnir með tvöföldum tréveggjum en á milli þeirra var fyllt upp með grjóti og möl.[814] Hliði Dokkunnar var lokað með trjám og voru þau felld í um nætur.[815] Í Dokkunni gátu sex eða sjö skip legið, hlið við hlið.[816] Hún var í notkun fram yfir aldamótin 1900[817] en löngu seinna var hún fyllt upp[818] og sést því ekki lengur.

Snemma á árinu 1854 réðst Hjálmar timburmaður ásamt tveimur öðrum í að kaupa verslunarlóð og meðfylgjandi hús í Miðkaupstað á Ísafirði.[819] Að þessum kaupum stóðu með Hjálmari tveir skútuskipstjórar, þeir Hinrik Sigurðsson frá Seljalandi í Skutulsfirði og Torfi Halldórsson.[820] Bæði Hinrik og Hjálmar hófu verslunarrekstur í Miðkaupstað um svipað leyti og kaup þessi voru gerð og þar verslaði Hjálmar í um það bil tvo áratugi.[821] Verslunarlóðina í Miðkaupstað virðast þeir Hjálmar og Hinrik hafa átt sameiginlega allt til ársins 1868 en þá var lóðinni skipt á milli þeirra.[822]

Verslun Hjálmars á Ísafirði varð samt aldrei umfangsmikil, enda átti hann löngum annríkt við önnur störf og þá einkum við smíðarnar.[823] Verslunarrekstrinum sinnti hann því aðeins í ígripum.[824] Síðustu átta árin sem Hjálmar rak verslun í Ísafjarðarkaupstað var hann búsettur á Flateyri en var með fulltrúa sem stjórnaði rekstrinum á Ísafirði. Síðasti verslunarstjóri Hjálmars þar var Lárus Á. Snorrason og honum seldi hann þessa verslun sína árið 1874.[825] Frá kaupunum var gengið 18. ágúst 1874 en afsal gefið út 9. október 1877.[826] Þá hafði Lárus greitt að fullu kaupverðið sem var 2.000 ríkisdalir.[827]

Þegar Hjálmar, Hinrik og Torfi keyptu verslunarlóð sína í Miðkaupstað á Ísafirði árið 1854 fylgdi með í kaupunum stórt íbúðarhús sem danskir kaupmenn frá Sönderborg á Jótlandi höfðu reist á þessari sömu lóð árið 1816 (sjá hér bls. 77). Hús þetta stendur enn og er númer 12 við Aðalstræti.[828] Þeir sem best eru kunnugir á Ísafirði telja manntalið frá 1860 sýna að Hjálmar hafi þá búið í þessu húsi[829] og niðurröðun fólks á manntalinu frá 1855 bendir eindregið til þess að þeir félagarnir, Hjálmar, Hinrik og Torfi, hafi þá allir verið í sama húsi og skammt frá Ásgeiri Ásgeirssyni, skipherra og kaupmanni,[830] sem vitað er að bjó þar sem nú er Aðalstræti 20.[831] Nær fullvíst má því telja að þeir hafi þá þegar verið komnir í hús Sönderborgarmanna þar sem nú er Aðalstræti 12 (sbr. hér bls. 77). Hjálmar og Torfi voru þá báðir einhleypir en Hinrik kvæntur með fimm manna heimili.[832]

Hér var áður minnst á slúpskipið Lovísu sem þeir Hjálmar og Torfi Halldórsson keyptu árið 1852 (sjá hér bls. 67-68 og 89-90). Lovísu áttu þeir fram undir 1880 og árið 1859 átti Hjálmar líka einn sjötta part í jaktinni Hildu Maríu (sjá hér bls. 89). Hugsanlegt er að hann hafi átt hlut í fleiri þilskipum á þeim 14 árum, 1852-1866, sem hann átti sannanlega heima á Ísafirði en um það er þó ekki vitað með vissu.

Auk smíðanna og umstangs við verslun og útgerð gaf Hjálmar timburmaður sér tíma til að sinna ýmsum þjóðmálum og sveitarmálefnum við Skutulsfjörð. Þegar Dýrafjarðarmálið sem svo hefur verið nefnt var á döfinni (sjá hér Þingeyri) og franska keisarastjórnin í París lagði kapp á að fá heimild til stofnunar franskrar nýlendu á Þingeyri var Hjálmar einn hinna mörgu Vestfirðinga sem snerust hart gegn þessum fyrirætlunum. Á fundi sem haldinn var á Ísafirði 2. desember 1856 var hann ásamt fjórum öðrum kosinn í nefnd til að semja bænarskrá og safna undirskriftum gegn því að Þingeyri yrði látin í hendur Frakka.[833] Mál þetta var mikið hitamál eins og frá er greint á öðrum stað í þessu riti (sjá hér Þingeyri og Hvilft) en með Hjálmari í nefndinni voru Ásgeir Ásgeirsson, skipherra og kaupmaður, Eiríkur Magnússon, þá barnakennari á Ísafirði en síðar lengi bókavörður í Cambridge, Erlendur Þórarinsson sýslumaður, og Pétur Guðmundsson, verslunarstjóri í Hæstakaupstað á Ísafirði.

Á árunum um og upp úr 1860 voru komnar upp hugmyndir um að gera verslunarstaðinn á Tanganum við Skutulsfjörð að sjálfstæðum kaupstað og skilja hann frá hinum forna Eyrarhreppi. Hjálmar timburmaður var framarlega í flokki þeirra sem börðust fyrir slíkri breytingu. Á almennum hreppsfundi, sem haldinn var 29. október 1862, urðu nær allir fundarmenn sammála um að fara þess á leit að hreppnum yrði skipt í tvennt og urðu menn ásáttir um að kjósa sex manna nefnd til að setja saman drög að samningi um aðskilnaðinn.[834] Í þá nefnd var Hjálmar kosinn ásamt tveimur öðrum Tangabúum og þremur fulltrúum bændanna í hreppnum.[835] Fimm dögum síðar voru tillögur nefndarinnar í þessum efnum samþykktar á öðrum almennum hreppsfundi en strax að honum loknum komu Tangabúar saman í húsum Hjálmars Jónssonar kaupmanns og kusu þar hina fyrstu bæjarstjórn á Ísafirði.[836] Þessi bæjarstjórn, sem starfaði í þrjú og hálft ár, var að vísu ekki lögformleg því verslunarstaðurinn á Tanganum var ekki gerður að kaupstað með formlegum hætti fyrr en 26. janúar 1866.[837] Sjálfur var Hjálmar kosinn ásamt tveimur öðrum í þessa fyrstu bæjarstjórn á Ísafirði[838] og hafði þar ýmsu að sinna eins og sjá má í bréfum hans frá árinu 1863 til Jóns Sigurðssonar forseta.[839] Þann 5. desember 1863 tók Hjálmar sæti í sérstakri nefnd sem skipuð var að boði amtmanns til að semja reglugerð um stjórn bæjarins og aðra um stofnun byggingarnefndar í hinum fyrirhugaða kaupstað.[840] Báðar þessar reglugerðir sömdu Hjálmar og samstarfsmenn hans á síðustu vikum ársins 1863 og settu nöfn sín undir þær 2. janúar 1864.[841] Nafn Hjálmars stendur þar fyrst[842] sem bendir til þess að hann hafi verið eins konar formaður í nefndinni.

Af því sem nú var sagt má ráða að Hjálmar var alveg tvímælalaust búsettur á Ísafirði veturinn 1863-1864. Úr því fór hins vegar að styttast í veru hans þar. Í bréfi sem Þorvaldur Jónsson, læknir á Ísafirði, skrifaði Jóni Sigurðssyni forseta í lok febrúar árið 1866 segir hann að Hjálmar sé farinn og á þá greinilega við að hann sé fluttur burt úr kaupstaðnum.[843] Hjálmar taldist þó enn vera búsettur á Ísafirði við lok ársins 1866[844] en ætla má að allt frá haustinu 1865 hafi hann dvalist í Kaupmannahöfn á veturna. Í desembermánuði árið 1867 taldi sóknarpresturinn á Ísafirði að Hjálmar væri fluttur þaðan fyrir fullt og allt[845] og einmitt á því ári verður fyrst vart við Hjálmar í hreppsbók Mosvallahrepps (sjá hér bls. 97). Tvímælalaust má því heita að Hjálmar hafi flust frá Ísafirði til Flateyrar árið 1867 en á Flateyrarárum sínum mun hann þó jafnan hafa átt vetrardvöl í Kaupmannahöfn.

Þegar Hjálmar fór frá Ísafirði mun hann hafa verið orðinn allvel efnaður. Til marks um það má til dæmis nefna að haustið 1865 gaf hann ekkjunni Arnórínu Augustu Svendsen tvo jarðarparta sem hann átti, það er að segja 4 hundruð í Kirkjubóli í Skutulsfirði og 4 hundruð í Grundarhóli í Bolungavík.[846] Arnórína Augusta, sem síðar var yfirleitt bara nefnd Augusta Svendsen, var um 1865 ráðskona hjá bróður sínum, Lárusi Á. Snorrasyni, sem var verslunarstjóri Hjálmars á Ísafirði, og hjá þeim systkinunum átti Hjálmar heima sín síðustu ár á Ísafirði.[847] Árið 1865 var Augusta Snorradóttir Svendsen rétt um þrítugt en var orðin ekkja með sex ára dóttur á sínu framfæri.[848] Hún hafði verið gift Henrik Henkel Svendsen, syni Friðriks Svendsen, áður kaupmanns á Flateyri (sjá hér bls. 28-30). Þegar tveir áratugir voru liðnir frá því Hjálmar gaf henni jarðarhundruðin hóf hún verslunarrekstur í Reykjavík, fyrst kvenna (sjá hér bls. 29-30).

Óljóst er nú hvað olli því að Hjálmar Jónsson ákvað að fara frá Ísafirði og hefja verslunarrekstur á Flateyri en svo virðist sem hugmyndin hafi kviknað alllöngu áður en hann tók sig upp eða um það leyti sem Torfi Halldórsson, félagi hans og vinur, ákvað árið 1857 að reyna að kaupa Flateyrareignir (sjá hér bls. 117).

Guðmundur Á. Eiríksson, hreppstjóri á Þorfinnsstöðum, sem fæddur var árið 1853 (sjá hér Þorfinnsstaðir), segir að Hjálmar hafi byrjað að versla á Flateyri árið 1865.[849] Þessa staðhæfingu nákunnugs manns, sem mundi komu Hjálmars í Önundarfjörð, er erfitt að rengja en hér hefur áður verið sýnt fram á að Hjálmar fluttist þó ekki til Flateyrar fyrr en 1867. Í opinberum skrám yfir komur skipa frá útlöndum til hinna ýmsu verslunarstaða hringinn í kringum landið sést að það var einmitt árið 1865 sem vöruskip kom beint til Flateyrar frá útlöndum í fyrsta sinn eftir langt hlé.[850] Annað mál er það að ef marka má þessar sömu skýrslur kom engin slík sigling til Önundarfjarðar næstu þrjú árin þar á eftir, 1866-1868.[851] Í hreppsbók Mosvallahrepps er Hjálmar aldrei nefndur á nafn fyrr en haustið 1867 en þá var honum gert að greiða 1 vætt og 20 fiska til sveitarsjóðs.[852] Í sóknarmannatölum Holtspresta er Hjálmar fyrst skráður til heimilis á Flateyri árið 1870[853] og í skýrslum Stefáns Bjarnarsonar, sýslumanns á Ísafirði, frá árunum 1865-1868 er jafnan fullyrt að enginn fastakaupmaður reki verslun á Flateyri.[854] Sambærilegar skýrslur frá árunum 1869-1872 virðast ekki liggja á lausu en á árunum 1873-1875 mundi sýslumaður hins vegar alltaf eftir því að föst verslun var rekin á Flateyri.[855]

Allt bendir þetta til þess að Hjálmar hafi byrjað að versla við Önfirðinga sem lausakaupmaður og alls ekki sett upp fasta verslun hér á Flateyri fyrr en 1867. Á því ári eða hinu næsta mun rekstur fastrar verslunar hafa hafist því Torfi Halldórsson, sem gerðist verslunarstjóri Hjálmars, er nefndur verslunarmaður í bréfi frá haustinu 1868 (sjá hér Hvilft, bls. 75 þar).

Þegar Hjálmar Jónsson setti upp fasta verslun á Flateyri var hann kominn hátt á fimmtugsaldur. Þeir Torfi Halldórsson höfðu þá verið sameignarmenn í þilskipaútgerð í a.m.k. 15 ár og nær áratugur var liðinn frá því Torfi festi kaup á Flateyri með öllum húsum og mannvirkjum sem þar stóðu (sjá hér bls. 79-81). Nú leigði hann Hjálmari verslunarlóð á framoddanum fyrir 100,- krónur á ári en gildistími leigusamningsins var 99 ár.[856] Á þessari lóð byggði Hjálmar verslunarhús[857] sem ætla má að hafi verið tekið í notkun þegar hann fór að reka hér fasta verslun. Í því var síðar rekið útibú frá Ásgeirsverslun á Ísafirði og frá 1927 eða 1928 til 1956 var þar sölubúð og skrifstofa Kaupfélags Önfirðinga (sjá Firðir og fólk 1900-1999, 392-393). Næstu árin þar á eftir var Kaupfélag Önfirðinga með afgreiðslu á bensíni og olíum í húsinu.[858] Þann 30. maí árið 1982 brann þetta gamla verslunarhús sem Hjálmar Jónsson reisti[859] og hafði þá staðið ónotað um alllangt skeið. Húsið stóð á Flateyrarodda, þar sem nú er auð lóð fyrir enda Hafnarstrætis.

Auk verslunarhússins, sem hér var frá sagt, lét Hjálmar byggja nokkur geymsluhús á Flateyrarodda og í desembermánuði árið 1883, þegar tæpt ár var liðið frá því Hjálmar seldi Flateyrarverslun, átti hún níu hús hér á Oddanum (sjá hér bls. 116). Á teikningu eða uppdrætti af Flateyri sem gerður var árið 1883 eru flest hús sem þar var að finna merkt með svörtum punkti (sjá Firðir og fólk 900-1900, mynd þar á bls. 391). Þar sést að lýsisbræðslan, sem starfrækt var á dögum Hjálmars, stóð nær beint austur af verslunarhúsinu og aðeins 30-40 metrar á milli. Á þessum sama uppdrætti sést líka að tvö hús stóðu enn neðar á oddanum og má telja líklegt að þau hafi bæði verið pakkhús eða geymsluhús af einhverju tagi. Uppdrátturinn sýnir að annað þessara tveggja húsa stóð beint sunnan við verslunarhúsið og aðeins mjótt sund á milli. Hitt húsið var lítið eitt austar og aðeins sunnar.

Annað þessara geymsluhúsa frá dögum Hjálmars stendur enn á sínum gamla stað og er nú fyrir enda Hafnarstrætis. Hús þetta stendur eins og fyrr var lýst aðeins rétt fyrir sunnan lóðina sem sjálft verslunarhúsið stóð á og á þeim stað sem einn svarti punkturinn á uppdrættinum frá 1883 sýnir. Í úttektargerð frá sama ári er grunnflötur eins af húsum Flateyrarverslunar sagður vera 12 x 9 álnir og hæð þess í kjöl 7 álnir (sjá hér bls. 116). Nýleg mæling á gamla geymsluhúsinu sem enn stendur á Flateyri leiðir í ljós að grunnflötur þess er 12,1 x 9,1 alin[860] svo stærðin passar nákvæmlega við málin sem upp eru gefin í úttektargerðinni frá 1883. Um hæð hússins er að vísu svolítið aðra sögu að segja því í nýnefndri úttektargerð frá árinu 1883 er hún sögð vera 7 álnir, sem gæti reyndar þýtt 7,4 álnir því allt er gefið upp í heilum álnum, en við mælingu í marsmánuði árið 1996 reyndist hæðin vera 8,2 álnir.[861] Þarna munar því að minnsta kosti 50 sentimetrum en skýringin á því er ef til vill sú að við útektina árið 1883 hafi þrengsta rýmið uppi í rjáfrinu ekki verið talið með en við nýju mælinguna árið 1996 var gaflinn mældur að utan frá jörð og upp í mæni.

Í úttektinni frá 1883 er lengd, breidd og hæð allra húsa verslunarinnar á Flateyri gefin upp en þau töldust þá vera níu (sjá hér bls. 116). Þær tölur sýna að bara eitt af öllum þessum húsum getur verið það hús sem enn stendur fyrir enda Hafnarstrætis svo hér er ekki um að villast. Í títtnefndri úttekt frá árinu 1883 er hús þetta sagt vera fiskhús og er virt á 1.000,- krónur en árið 1918 var það nefnt fiskgeymsluhús og virt á 2.200,- krónur (sjá hér bls. 275-276).

Á þeim árum sem Hjálmar rak fasta verslun á Flateyri hafði hann jafnan sérstakt herbergi til afnota fyrir sig í húsi Torfa Halldórssonar.[862] Var það nefnt Hjálmarsherbergi.[863] Á þessum árum var hann yfirleitt í Kaupmannahöfn á veturna en dvaldist á Flateyri á sumrin.[864]

Sú ákvörðun Hjálmars að hefja rekstur verslunar á Flateyri sætti miklum tíðindum því er hann opnaði búð sína hafði engin fastaverslun verið rekin hér allt frá árinu 1840 þegar Friðrik Svendsen hætti að höndla (sjá hér bls. 50 og 53). Öll árin sem verslun Hjálmars Jónssonar var starfrækt á Flateyri mun Torfi Halldórsson hafa séð um reksturinn þegar Hjálmar var fjarverandi[865] en í sóknarmannatölum er hann þó ekki nefndur faktor eða verslunarstjóri fyrr en 1872.[866] Aftur á móti fylgir þetta starfsheiti nafni Torfa í öllum sóknarmannatölum prestsins í Holti frá árunum 1872-1883.[867] Við hjónavígslu, þar sem Torfi var svaramaður haustið 1870, er hann líka nefndur faktor.[868]

Svo virðist sem Hjálmar hafi átt verslunina einn en sum þilskipin sem gerð voru út frá Flateyri á þessum árum áttu þeir Torfi saman (sjá hér bls. 125-131). Líklega hefur Hjálmar jafnan ráðið því sem hann vildi ráða um verðlag á vörum og afurðum hjá sinni eigin verslun á Flateyri. Í bréfi er hann skrifaði Torfa 12. janúar 1881 frá Kaupmannahöfn ræðir hann um verð á salti og mælir fyrir um að það verði selt á misháu verði eftir því hvort um sé að ræða viðskiptamenn sem láti verslunina á Flateyri hafa fisk eða einhverja aðra.[869] Um þessi efni kemst Hjálmar svo að orði:

 

Riis og Árni skrifa mér að Lárus [þ.e. Lárus A. Snorrason, kaupmaður á Ísafirði – innsk. K.Ó.] hafi selt salt frá í fyrrahaust á 4,- kr. Nú er ekki annað fyrir okkur að gjöra en bæta saltið upp sem hefur verið tekið í Önundarfirði, Súgandafirði og Skálavík með 50 aurum tunnan frá 1. janúar – 1. október og setja svo prísinn á 4,- kr. fyrir þessi pláss. Um það sem kann að verða selt til Dýra- og Arnarfjarðar verður fyrir það fyrsta að selja á 5,- kr. því það getur varla verið ástæða fyrir mig og Gram að selja höndlunarmönnum Jóns frá Flatey salt fyrir minna verð. Hjá skipunum verður líka að gottgjöra saltið. Með þessum saltprís verður maður að áskilja sér fiskinn úr saltinu en hvað þér sýnist [á líklega að vera hvað sýnist þér – innsk. K.Ó.] um að reikna það salt sem maður fær ekki fiskinn úr á 5,- kr.? Ég get ekki séð annað en það verði tap á saltinu á 4,- kr., minnst 25 aurar, og er það hart.[870]

 

Jón frá Flatey, sem Hjálmar nefnir þarna, er Jón Guðmundsson, kaupmaður í Flatey á Breiðafirði, en hann var frá Mýrum í Dýrafirði og kom oft sem lausakaupmaður á Dýrafjörð á þessum árum og átti þar viðskipti við sína gömlu sveitunga (sjá hér Mýrar). Vera má að einhverjir Önfirðingar hafi líka verslað við Jón.

Í nýnefndu bréfi Hjálmars til verslunarstjóra síns á Flateyri, er hann skrifaði frá Kaupmannahöfn í janúarmánuði árið 1881, lætur hann vita að hann ætli sér að koma með Arcturusi í vor og muni snemma vorsins senda skip sitt Lovísu með vörur til Flateyrar.[871] Á dögum Hjálmars mátti svo heita að öll verslun á landi hér væri vöruskiptaverslun því sáralítið var um peninga. Eitthvað sást þó af gullkrónum á árunum kringum 1880 og haustið 1882 sendi Hjálmar 5.000 slíkar með pósti frá Kaupmannahöfn til Torfa á Flateyri.[872] Enginn banki var þá til á Íslandi.

Í riti frá árinu 1941 er verkaskiptingu þeirra félaga, Hjálmars og Torfa, lýst með þessum orðum:

 

Skiptu þeir … þannig verkum með sér að Torfi annaðist allt heimafyrir, einkum útgerðina sem brátt fór vaxandi og annað þess háttar, en Hjálmar sá um kaup á erlendum vörum til verslunarinnar og sölu hinnar útfluttu vöru erlendis.[873]

 

Þessi lýsing mun vera nærri lagi en líklega hefur Hjálmar þó látið til sín taka við verslunarreksturinn á Flateyri þegar hann var staddur á heimavígstöðvunum. Óljóst er hins vegar hversu oft og hversu lengi hann dvaldist á Flateyri á þessum árum. Almennt séð má telja mjög líklegt að hann hafi alltaf eða nær alltaf verið í Danmörku á veturna en hér heima á sumrin eins og ýmsir síðari tíma menn hafa fullyrt.[874] Í sóknarmannatölum frá árunum 1870-1875, sem öll eru skráð í desembermánuði, er Hjálmar þó jafnan nefndur sem einn af íbúunum í Torfahúsi á Flateyri og þess ekki getið að hann sé fjarverandi.[875] Vera má að kaupmaðurinn hafi stundum dvalist á Flateyri að vetrinum á þessum árum en ólíklegt verður það samt að teljast og sýnist nær að ætla að prestur hafi talið Hjálm,ar eiga lögheimili í Torfahúsi og skráð hann þess vegna sem íbúa í húsinu þó fjarverandi væri. Í sendibréfum frá árunum upp úr 1870 sést reyndar að Hjálmar var í Danmörku bæði veturinn 1871-1872 og veturinn 1872-1873[876] svo  hér er ekki um að villast.

Í sóknarmannatölunum úr Holtsprestakalli er Hjálmar aðeins talinn eiga heima á Flateyri á árunum 1870-1875[877] en í hreppsbók Mosvallahrepps er hann talinn búsettur hér frá 1867 til 1882 að báðum þeim árum meðtöldum.[878] Í reikningum Mosvallahrepps frá árinu 1869 er að finna skrá yfir Tillög frá búlausum hús-, lausa- og vinnumönnum.[879] Þar er Hjálmar kaupmaður talinn fyrstur og borgaði hann 5 vættir, það er 5/6 úr kýrverði, í tillag til hreppsins á þessu ári en hinir 39, sem líka voru búlausir, greiddu samtals 10 vættir og 13 fiska.[880] Tillag Hjálmars til sveitarfélagsins fór síðan hækkandi á næstu árum og var á fardagaárinu 1875-1876 komið upp í 15 vættir,[881] það er tvö og hálft kýrverð. Til samanburðar skal þess getið að séra Stefán P. Stephensen í Holti greiddi 5 vættir og 25 fiska (40 fiskar voru í vættinni) árið 1869 og 6 vættir og 10 fiska árið 1875 en Torfi Halldórsson á Flateyri greiddi 8 vættir og 5 fiska árið 1869 og 7 vættir og 10 fiska árið 1875.[882] Greiðslur annarra hreppsbúa til sveitarfélagsins voru mun lægri á þessum árum.[883]

Skýrar upplýsingar um greiðslur Hjálmars til Mosvallahrepps á árunum 1877-1882 liggja ekki á lausu en í hreppsbókinni er nafn hans síðast nefnt árið 1882.[884]

Vísbendingar um veltuna í verslunarrekstri Hjálmars er helst að finna í verslunarskýrslum þar sem sagt er frá innflutningi til Flateyrar því gera má ráð fyrir að nær allur sá innflutningur og það sem héðan var flutt út á árunum 1870-1882 hafi farið um hendur Hjálmars og starfsmanna hans. Einhver viðskipti munu Önfirðingar þó hafa átt við lausakaupmenn á þessum árum og tölunum sem er að finna í hinum opinberu skýrslum er skynsamlegt að taka með nokkrum fyrirvara því gera má ráð fyrir að þær séu ekki alltaf nákvæmlega réttar. Tölur um inn- og útflutning frá einu einstöku ári geta líka verið mjög villandi því magn hinna ýmsu vörutegunda og afurða var oft mjög breytilegt milli ára. Verslunarskýrslurnar sýna þó í aðalatriðum hvaða vörur Hjálmar verslaði með og sé tekið meðaltal tveggja ára fæst nokkur vísbending um árlegan inn- og útflutning eins og hann var á þeim tíma. Hér hafa árin 1876 og 1877 orðið fyrir valinu og á töflu 1 á bls.102 eru taldar upp allar vörur sem fluttar voru inn til Flateyrar á þeim árum og sýnt hver var árlegur meðalinnflutningur á þessum tveimur árum af hverri vörutegund samkvæmt opinberum verslunarskýrslum. Hið sama gildir um útflutninginn sem einnig er sýndur á töflunni. Verslunarskýrslurnar sem hér er byggt á eru prentaðar í C deild Stjórnartíðinda frá árinu 1882 og þar er þær að finna á blaðsíðu 19-54.

 

 

 

 

 

 

 

 

Tafla 1

Innflutningur til Flateyrar og útflutningur þaðan 1876-1877 – að jafnaði á ári

 

Innflutningur

 

Vörur Magn Heildarverð kr. Vörur Magn Heildarverð kr.
Rúgur 39.000 pd 3.770,- Rúgmjöl 14.500 pd 1.455,-
Bankabygg 20.160 pd 2.822,- Hveiti 290 pd ?
Hrísgrjón 21.000 pd 3.360,- Brauð ? 1.650,-
Ostur 20 pd ? Kaffibaunir 2.450 pd 2.575,-
Kaffirót 1.600 pd 528,- Te 10 pd ?
Kandíssykur 3.430 pd 1.908,- Hvítasykur 1.200 pd 600,-
Púðursykur 110 pd ? Síróp 250 pd ?
Ýmsar nýl.vörur ? 445,- Salt 444 tn 2.439,-
Neftóbak 900 pd 1.125,- Munntóbak 1.146 pd 2.373,-
Vindlar 4.000 stk ? Brennivín og vínandi 1.888 pt 1.345,-
Önnur vínföng 258 pt ? Öl 520 pt 172,-
Edik 60 pt ? Léreft úr bómull og hör ? 3.638,-
Önnur álnavara ? 406,- Tvinni ? 210,-
Tilbúinn fatnaður ? 1.576,- Sápa ? 503,-
Litunarefni ? 1031,- Pottar og kaðlar 69 stk ?
Tréílát 31 stk ? Stofugögn (meubler) ? 104,-
Steinolía 620 pt ? Steinkol 225 sk.pd 1.584,-
Annað eldsneyti ? 42,- Kaðlar 1200pd ?
Færi 443 pd 532,- Selgarn 135 pd ?
Hestajárn 65 gangar 65,- Ljáir 96 stk ?
Rokkar 13 stk ? Saumavélar 1 stk ?
Járnvörur ? 1.977,- Prentaðar bækur ? 3,-
Skrifpappír 45 bækur ? Önnur ritföng ? 20,-
Járn 1.760 pd 420,- Stál 50 pd ?
Aðrir málmar ? 4,- 12 feta plankar 442 stk 1.180,-
12 feta borð 1.679 stk 1.959,- Farfi ? 75,-
Tjara 9 tunnur 270,- Gluggagler ? 50,-
Skinn og leður ? 700,- Hampur 13 pd ?
Ýmislegt ? 25,-      

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Útflutningur

 

Vörur Magn Heildarverð kr.
Saltfiskur (þorskur) 138.760 pd 30.354,-
Söltuð ýsa og smáfiskur     9.920 pd 1.395,-
Hvít ull    3.514 pd 2.636,-
Svört ull         62 pd ?
Mislit ull       788 pd 425,-
Eingirnissokkar      180 pör 74,-
Belgvettlingar      620 pör 130,-
Dúnn        36 pd 623,-
Lambskinn      226 stk 36,-
Þorskalýsi        23 tunnur 920,-
Hákarlslýsi      340 tunnur 14.960,-
     

 

Fram skal tekið að í verslunarskýrslunum er einingarverð sumra vörutegundanna og einstakra afurða aðeins gefið upp annað árið, það er 1876 eða 1877, en þá er út frá því gengið hér að verðið hafi verið hið sama bæði árin. Í hinum prentuðu verslunarskýrslum sem Tafla 1 byggir á er gefið upp almennt verð á vörum og afurðum eins og það var í Ísafjarðarsýslu á árunum 1876 og 1877 og við gerð töflunnar er út frá því gengið að á Flateyri hafi verðlagið verið hið sama og almennt var í sýslunni. Margt athyglisvert kemur hér fram en leggja verður áherslu á að allar þessar tölulegu upplýsingar ber fremur að líta á sem frambærilegar vísbendingar en sem staðreyndir.

Sé litið á nokkra helstu vöruflokkana sem inn voru fluttir kemur í ljós að kornvörur, að hrísgrjónum meðtöldum, virðast hafa verið fluttar inn fyrir liðlega 13.000,- krónur á ári, kaffi og sykur fyrir um 6.000,- krónur, tilbúinn fatnaður og álnavara fyrir álíka upphæð, munn- og neftóbak fyrir um 3.500,- krónur, áfengi að öli meðtöldu fyrir um 1.700,- krónur, timbur fyrir um 3.200,- krónur, járn og járnvörur fyrir um 2.400,- krónur, salt fyrir álíka upphæð og steinkol fyrir um 1.600,- krónur.

Í útflutningnum vó saltfiskurinn langsamlega þyngst og verðmæti hans yfir 60% af öllu sem út var flutt ef ýsan og smáfiskurinn eru talin með. Næst kom hákarlalýsið með um 30% af heildarútflutningnum en fyrir ull og ullarvörur virðast aðeins hafa fengist 6-7% af andvirði heildarútflutningsins hjá Hjálmari.

Ljóst er að árleg velta í rekstri kaupmannsins á Flateyri hefur numið liðlega 50.000,- krónum á árunum 1876 og 1877 ef marka má skýrslurnar. Á töflunni sést að fyrir útflutningsvörurnar greiddi hann um 51.600,- krónur að jafnaði á ári en nærri lætur að söluverð erlendu varanna sem vitað er um verð á hafi verið um 43.000,- krónur. Verðið á allmörgum innfluttum vörum er óþekkt eins og sjá má á töflunni en með hliðsjón af ýmsum upplýsingum sem fyrir liggja í verslunarskýrslum um verðlag á þessum varningi fáum árum síðar má áætla að söluverðmæti hins árlega innflutnings á árunum 1876 og 1877 hafi numið 45-48.000,- krónum. Tvímælalaust sýnist vera að verðmæti útflutningsins hafi verið nokkru meira en verðmæti innflutningsins svo vöruskiptajöfnuðurinn hefur verið jákvæður.

Til þess að átta sig nánar á þeirri fjárhæð sem verslun Hjálmars velti í viðskiptum við Önfirðinga á árunum 1876 og 1877 má hafa í huga að kýrverðið var þá 110,- til 112,- krónur.[885] Eins og áður var nefnt benda líkur til þess að árleg velta hjá Hjálmari hafi verið um 50.000,- krónur en nærri lætur að sú upphæð hafi jafngilt 450 kúgildum.

Á töflunni hér að framan sjáum við meðal annars hversu mikið var flutt inn af hinum ýmsu vörutegundum og gefa þær tölur nokkra vísbendingu um hver neyslan muni hafa verið. Því fer þó fjarri að þar sé um nákvæmar upplýsingar að ræða því gera má ráð fyrir að Önfirðingar hafi verslað eitthvað við lausakaupmenn og/eða verslanir á Þingeyri og Ísafirði. Eins kynni Hjálmar að hafa sent skip sín í spekúlanttúra á aðrar hafnir. Fullvíst má þó telja að mikill meirihluti af verslunarviðskiptum Önfirðinga á þessum árum hafi verið við Hjálmar og að vörurnar sem hann flutti inn hafi nær allar verið seldar fólki sem búsett var í Önundarfirði eða Súgandafirði.

Í Héraðsskjalasafninu á Ísafirði eru varðveittar fáeinar verslunarbækur frá verslun Hjálmars Jónssonar á Flateyri[886] en sá fróðleikur sem þær geyma nægir ekki til þess að unnt sé að draga upp skýra heildarmynd af rekstrinum. Ein bókanna sem varðveist hafa er Höfuðbók nr. 5 en þar er að finna nöfn 266 viðskiptamanna og yfirlit yfir viðskipti þeirra á árunum 1874-1881 en nokkrir í þeim hópi voru þó ekki í viðskiptum við verslunina nema sum árin á því tímabili.[887] Í hópi þessara 266 viðskiptamanna eru 7 verslanir eða kaupmenn, 20 skútur eða skipstjórar á skútum, 8 bátar og 2 sveitarsjóðir.[888] Af þeim 228 viðskiptamönnum sem þá standa eftir eru 154 úr Mosvallahreppi, 36 af Ingjaldssandi, 27 úr Súgandafirði, 5 úr Skutulsfirði, 2 úr Dýrafirði, 2 úr Bolungavík, 1 úr Arnarfirði, 1 úr Skálavík og 1 sem ekki er alveg víst hvar átti heima.[889]

Í höfuðbókinni sem hér er byggt á sjáum við að meðal verslana sem Hjálmar átti viðskipti við voru Ásgeirsverslun á Ísafirði, verslun J.M. Falck & Co á Ísafirði, verslun Jakobs J. Thorarensen á Kúvíkum í Strandasýslu, verslun H.A. Clausen á Ísafirði og verslun Lárusar Á. Snorrasonar á Ísafirði.[890] Merkilegt er að sjá að af þeim 20 skútum sem áttu viðskipti við Hjálmar á Flateyri og hér var áður minnst á voru 5 úr Eyjafirði, 1 frá Siglufirði og 1 frá Fljótum í Skagafirði.[891] Í hópi þessara tuttugu skipa var líka skonnortan Happy & Lucky frá Belfast á Írlandi.[892]

Í verslunarbókum Hjálmars sem varðveist hafa er ekki aðeins að finna upplýsingar um innlegg og úttekt einstakra bænda á verslunarsvæði hans heldur líka yfirlit yfir viðskipti allmargra kvenna og búlauss fólks á ýmsum aldri.[893] Í höfuðbók númer 5 sem hér var áður vitnað til eru konur til dæmis að taka skrifaðar fyrir röskum þriðjungi af öllum viðskiptareikningum einstaklinga.[894] Í þeim hópi munu vera fáar húsfreyjur á bændaheimilum en margar bændadætur, húskonur og vinnukonur.[895] Ein þessara viðskiptakvenna Hjálmars er í verslunarbókum hans nefnd Kristíana Trankokk á Veðrará[896] og mun hafa unnið við að bræða hákarlslifur sem Flateyrarskúturnar færðu að landi.

Í títtnefndri höfuðbók frá verslun Hjálmars Jónssonar sjáum við með skýrum hætti að viðskiptasvæði verslunar hans á Flateyri hefur náð yfir allan Mosvallahrepp, Ingjaldssand og Súgandafjörð.[897] Fullvíst má þó telja að Súgfirðingar hafi ekki sótt alla sína verslun til Flateyrar því fyrir suma þeirra lá beinna við að fara til Ísafjarðar. Til þessa bendir líka sú staðreynd að í höfuðbókinni sem varðveist hefur er aðeins að finna nöfn 27 Súgfirðinga eins og hér var áður nefnt en þar eru aftur á móti nefndir 36 viðskiptamenn af Ingjaldssandi sem þó var mun fámennara byggðarlag. Sé miðað við íbúafjöldann eins og hann var árið 1877 lætur nærri að 16,6% allra Súgfirðinga séu skráðir sem viðskiptamenn í þessari einu höfuðbók frá Hjálmari en 31,3% allra Sandmanna.[898] Varasamt getur verið að gera þessum samanburði of hátt undir höfði en í tölunum felst engu að síður vísbending um að verslun Súgfirðinga hafi skipst nokkuð jafnt milli Flateyrar og Ísafjarðar. Skylt er hins vegar að taka fram að Súgfirðingarnir 27 sem skráðir eru sem viðskiptamenn í títtnefnda höfuðbók Flateyrarverslunar dreifast nokkuð jafnt á allan Suðureyrarhrepp en þar vantar þó alveg nöfn frá bæjunum Norðureyri og Keflavík.[899]

Árið 1877 áttu 525 manneskjur heima í Mosvallahreppi, 115 á Ingjaldssandi og 163 í Súgandafirði, þar af 76 í Staðardal og á Suðureyri.[900] Sé út frá því gengið að allir Sandmenn hafi verslað á Flateyri og líka þeir Súgfirðingar sem bjuggu í Staðardal og á Suðureyri þá hefur íbúafjöldinn á verslunarsvæði Hjálmars verið 716 manneskjur árið 1877. Miðað við þá íbúatölu og þann innflutning sem Tafla 1 á bls. 102 sýnir ætti árleg neysla fimm manna fjölskyldu af nokkrum vörutegundum að hafa verið sem hér segir: Rúgur 136 kg, rúgmjöl 50,6 kg, bankabygg 70,4 kg, hrísgrjón 73,3 kg, kaffibaunir 8,6 kg, kaffirót 5,6 kg, kandíssykur 12 kg, hvítasykur 4,2 kg, neftóbak 3,1 kg, munntóbak 4 kg, brennivín og vínandi 13 lítrar, önnur vínföng 1,8 lítrar, öl 3,6 lítrar, steinolía 4,3 lítrar, steinkol 251,4 kg.

Í hinum opinberu verslunarskýrslum sem hér er byggt á er greint frá algengasta verði margra vörutegunda eins og það var í Ísafjarðarsýslu á þeim árum sem hér um ræðir.[901] Með samanburði á því sem greitt var fyrir dagsverk við heyannir á árunum 1876 og 1877[902] og verði hinna ýmsu vörutegunda á sama tíma má finna út hversu lengi kaupamenn hjá bændum voru að vinna fyrir ákveðnu magni af þessari eða hinni vörutegund. Meðalgreiðsla fyrir dagsverk við heyannir var 2 krónur og 78 aurar í Ísafjarðarsýslu á árunum 1876 og 1877.[903] Sé nú gert ráð fyrir 16 klukkustunda vinnutíma á sólarhring, sem líklega mun ekki vera fjarri lagi,[904] þá hefur jafnaðarkaup fyrir hverja unna klukkustund verið liðlega 17 aurar. Að þessum forsendum gefnum verður niðurstaðan sú að á árunum 1876-1877 hafi menn verið 69 mínútur að vinna fyrir 1 kg af rúgmjöli, 111 mínutur fyrir 1 kg af hrísgrjónum, 12 klukkutíma að vinna fyrir 1 kg af kaffibaunum, 6 klukkutíma og 20 mínútur að vinna fyrir 1 kg af kandís, 5 klukkutíma og 47 mínútur að vinna fyrir 1 kg af hvítum sykri, 14 klukkutíma og 27 mínútur að vinna fyrir 1 kg af neftóbaki, 23 klukkutíma og 42 mínútur að vinna fyrir 1 kg af munntóbaki, 4 klukkustundir og 6 mínútur að vinna fyrir 1 potti af brennivíni, 1 klukkustund og 54 mínútur að vinna fyrir 1 potti af öli og 12 klukkutíma og 43 mínútur að vinna fyrir 50 kg af kolum.

Af öllu því sem hér hefur verið sagt má ráða að á árunum milli 1870 og 1880 hafi umsvifin hjá verslun Hjálmars Jónssonar á Flateyri verið talsvert mikil. Allt frá árinu 1874 voru jafnan tveir fastir starfsmenn hjá þessu fyrirtæki, auk Hjálmars og Torfa.[905] Til marks um umsvifin má líka nefna að árið 1870 komu tvö skip frá Kaupmannahöfn með vörur til Hjálmars, fyrst skonnortan Auguste þann 16. maí og réttri viku síðar slúpskipið Lovísa[906] sem þeir Hjálmar og Torfi áttu sjálfir. Í skjölum sýslumannsembættisins sést að árið 1870 kom Lovísa frá Kaupmannahöfn um vorið og fór aftur utan um haustið en var á fiskiveiðum hér við land yfir sumarið.[907] Líklegt er að þessi háttur hafi verið hafður á í allmörg ár og vera má að Hjálmar kaupmaður hafi þá stundum siglt með þessu skipi sínu yfir hafið. Staðfest er að Lovísa var höfð í vöruflutningum milli landa árið 1858[908] en þá rak Hjálmar verslun á Ísafirði eins og hér var áður frá sagt.

Bæði skipin sem komu með vörur til Hjálmars árið 1870 sigldu hlaðin varningi inn á Flateyrarhöfn í maímánuði og þannig var það líka árið 1881 eins og sjá má í dagbók Jóns Guðmundssonar frá Grafargili. Þar lætur hann þess getið að vöruskipin hafi komið 18. og 20. maí en nefnir ekki nöfn þeirra.[909] Flest bendir til þess að á dögum Hjálmars hafi yfirleitt komið tvö vöruskip frá útlöndum til Flateyrar á hverju ári. Dæmi um það frá árunum 1870 og 1881 hafa þegar verið nefnd og í skýrslum frá árunum 1873 og 1876 sést að þá voru vöruskipin líka tvö og farmrúm þeirra samtals 104 tonn annað árið en 112 hitt árið.[910] Árið 1876 kom annað skipið frá Danmörku en hitt frá Bretlandi.[911] Árið 1877 brá svo við að þá komu fjögur skip frá útlöndum með vörur til verslunar Hjálmars á Flateyri.[912] Tvö þessara skipa komu frá Danmörku, eitt frá Bretlandi og eitt frá Noregi.[913] Farmrúm þeirra allra til samans var 223 tonn.[914]

Í bréfum sem Hjálmar skrifaði á árunum 1879-1882 má finna nöfn nokkurra erlendra fyrirtækja og einstaklinga er hann átti þá viðskipti við. Úr þeim hópi má nefna: J.Chr. Hansen í Liverpool, sem árið 1880 fékk sent bæði lýsi og saltfisk frá Hjálmari, C.A. Leth & Co í Kaupmannahöfn, Simmelhag & Holm í Kaupmannahöfn, Ludvig David í Hamborg, Garcia & Jensen í Barcelona og Tollef Larsen í Arendal í Noregi.[915] Á sínum kaupmannsferli hefur Hjálmar efalaust átt viðskipti við miklu fleiri fyrirtæki en þau sem hér eru nefnd en þessi fáu nöfn sýna að viðskiptasvæði Hjálmars náði ekki aðeins til Íslands og Danmerkur heldur líka til Noregs, Bretlands, Þýskalands og Spánar.

Menn sem áttu heima á Flateyri á árunum 1865-1882 og bera í sóknarmannatölum titilinn verslunarmaður eða bókhaldari hljóta allir að hafa unnið hjá Hjálmari því engin önnur verslun var þá starfrækt í Önundarfirði. Í sóknarmannatölum séra Stefáns P. Stephensen í Holti bregður atvinnuheitinu búðarmaður fyrst fyrir árið 1873.[916] Á næsta ári voru starfsmenn verslunarinnar, aðrir en Hjálmar og Torfi, orðnir tveir og þá er annar nefndur verslunarþjónn en hinn bókhaldari.[917] Tala þeirra sem störfuðu við verslunina á Flateyri hélst síðan óbreytt allt þar til Hjálmar seldi hana haustið 1882.[918] Svo virðist sem öll umsvif í verslunarrekstrinum hafi aukist verulega á árunum 1872-1874. Til marks um það má nefna að fyrir 1872 var Torfi Halldórsson eini starfsmaður verslunarinnar sem sat á Flateyri árið um kring en samt virðist ekki hafa verið litið svo á að hann hefði vinnu sína við verslunina að aðalstarfi því prestur nefnir hann mjög sjaldan verslunarmann eða verslunarstjóra fyrir 1872 (sjá hér bls. 98-99). Á næstu tveimur árum festist sá titill hins vegar við Torfa og að auk fjölgar starfsmönnum verslunarinnar úr tveimur í fjóra og er þá Hjálmar sjálfur talinn með sem einn starfsmannanna. Allt þetta segir sína sögu.

Fyrsti óbreytti búðarmaðurinn við verslun Hjálmars Jónssonar á Flateyri hét Jón Kristjánsson og var úr Keldudal í Dýrafirði. Hann var sonur hjónanna Kristjáns Guðmundssonar og Jóhönnu Jónsdóttur sem bjuggu alllengi á Arnarnúpi en seinna í Hrauni í Keldudal.[919] Jón Kristjánsson mun hafa fæðst árið 1853 eða því sem næst og átti heima hjá foreldrum sínum á Arnarnúpi þegar hann fermdist vorið 1868.[920] Við það tækifæri lýsir prestur kunnáttu drengsins með þessum orðum: Ágætlega vel uppfræddur í kristindómi og sérlega vel bóklæs.[921] Á unglingsárum fluttist Jón með foreldrum sínum frá Arnarnúpi að Hrauni sem var næsti bær og frá Hrauni kom hann til Flateyrar árið 1873.[922] Hér var hann búsettur í fjögur ár, 1873-1877, og vann allan þann tíma við verslun Hjálmars.[923] Í embættisbókum prestsins í Holti frá þessum árum er hann ýmist nefndur búðarmaður, verslunarpiltur, verslunarþjónn eða verslunarmaður.[924]

Árið 1877 fór Jón Kristjánsson frá Flateyri og fluttist heim til foreldra sinna að Hrauni í Keldudal.[925] Þar dvaldist hann næstu ár en fluttist árið 1880 austur á Seyðisfjörð og er þá kallaður verslunarþjónn.[926] Nokkru síðar fór hann að búa á Skálanesi, yst á suðurströnd Seyðisfjarðar, og var óðalsbóndi þar árið 1901.[927]

Árið 1874 bættist annar verslunarmaður við á Flateyri en það var Jón Guðmundsson sem kom beina leið frá Kaupmannahöfn.[928] Hann var fæddur í Vatnsfirði við Djúp árið 1850, sonur hjónanna Guðmundar Bárðarsonar og Sigríðar Guðmundsdóttur sem fóru árið 1855 að búa á Eyri í Seyðisfirði en þar bjó Guðmundur stórbúi í nær hálfa öld.[929]

Jón Guðmundsson ólst upp hjá foreldrum sínum á Eyri en sigldi haustið 1873 til verslunarnáms í Kaupmannahöfn.[930] Að sögn kunnugra dvaldist hann í því sem næst eitt ár í Kaupmannahöfn og stundaði þar nám við Merkantilske Institut.[931] Þegar Jón tók til starfa á Flateyri þjóðhátíðarárið 1874 var hann því orðinn menntaður í verslunarfræðum og var titlaður bókhaldari fyrsta veturinn sem hann dvaldist á Flateyri.[932] Jón Guðmundsson vann við verslun Hjálmars Jónssonar á Flateyri í fjögur ár og átti þá jafnan heima í Torfahúsi eins og allir aðrir starfsmenn Flateyrarverslunar á árunum 1870-1880.[933] Hann er þá ýmist sagður vera bókhaldari, verslunarmaður eða assistent[934] en af því má ráða að auk bókhaldsins hafi hann sinnt hinum almennu verslunarstörfum þegar á þurfti að halda.

Á Flateyrarárum sínum var Jón Guðmundsson maður einhleypur en nokkru áður en hann sigldi hafði hann trúlofast ungri stúlku úr Húnavatnssýslu sem þá átti heima í Akureyjum á Breiðafirði.[935] Stúlkan hét Vigdís Pálsdóttir og var uppeldisdóttir prestsekkjunnar Ragnheiðar Jónsdóttur sem um nokkurra ára skeið var ráðskona hjá séra Friðriki Eggerz í Akureyjum.[936] Séra Friðrik segir skemmtilega frá þessari trúlofun sem mun hafa verið ákveðin án þess stúlkan væri höfð með í ráðum og án þess að þau Jón og Vigdís hefðu sést.[937] Séra Friðrik kveðst reyndar hafa talið að nokkru áður en bóndasonurinn frá Eyri bað Vigdísar hefðu hún og annar maður, Guðmundur Einarsson á Hlaðhamri í Hrútafirði, fengið ofurást hvort á öðru[938] en frásögn gamla Akureyjaklerksins, sem var húsbóndi Vigdísar, er annars á þessa leið:

 

Er maður nokkur er Jón hét, sonur Guðmundar Bárðarsonar á Eyri í Seyðisfirði, hafði beðið hennar og var því vel svarað og lagði Friðrik [þ.e. séra Friðrik, sá hinn sami og segir söguna – innsk. K.Ó.] þar ekkert til utan þegar því var skotið undir hans álit sagði hann sem satt var að Dísa væri gáfustúlka, væn en heilsulin. Urðu þau svo trúlofuð og þótti Guðmundi [þ.e. Guðmundi Einarssyni, unnusta Vigdísar sem fyrr var nefndur – innsk. K.Ó.] það illa fara og taldi til þess að hann væri einfaldur og drumbslegur og var það satt. Jón kom í veislu séra Þorvaldar að sjá heitstúlku sína en hún lagðist þá veik og lá meðan hann dvaldi í Akureyjum og tók ekki höfuðið frá koddanum. En þá hann var farinn á næsta degi sté hún úr rekkju og fór með Ragnheiði suður og bar ekki á veikleika hennar. Eftir það fór hún vestur. Jón sigldi og gekk á verslunarskóla og kom út með góðum orðstír og varð við Hjálmars verslun á Þingeyri og dróst allt áform hans og Dísu í sundur því hvorugt var öðru sinnandi.[939]

 

Þarna nefnir séra Friðrik Hjálmars verslun á Þingeyri, sem er augljóslega misritun fyrir Flateyri, en veisla séra Þorvaldar, sem hann getur um og segir Jón hafa komið í, er brúðkaupsveisla séra Þorvaldar Stefánssonar í Hvammi í Norðurárdal og Kristínar Jónsdóttur í Akureyjum sem var uppeldissystir Vigdísar.[940] Það brúðkaup var haldið í Akureyjum í júnímánuði árið 1872,[941] rösklega einu ári áður en Jón Guðmundsson frá Eyri sigldi til Danmerkur. Óvíst er hins vegar hvort trúlofun þeirra Jóns Guðmundssonar og Vigdísar Pálsdóttur var að fullu slitið þegar Jón settist að á Flateyri árið 1874. Í ritgerð frá árinu 1964 segir að Jóni hafi brugðist þessi ráðahagur er brúðkaup þeirra skyldi halda og þar er haft eftir dóttur þessa vonsvikna festarmanns að seinna hafi Vigdís gefið til kynna að hún gæti reyndar hugsað sér að giftast honum en þá hafi hann verið orðinn því fráhverfur.[942] Með öllu er þó óvíst hvort þessi unga sögusögn um meinta kúvendingu Vigdísar hafi átt sér nokkra stoð í raunveruleikanum. Aftur á móti liggur fyrir að árið 1884 gekk hún að eiga Gísla Einarsson sem þá var enn við skólanám en varð seinna prestur í Hvammi í Norðurárdal og Stafholti í Borgarfirði.[943] Þá voru 12 ár liðin frá því hún gerði sér upp krankleika og lagðist í rúmið þegar annar fyrirhugaður brúðgumi vitjaði hennar í Akureyjum. Þess má svo geta að eitt barna séra Gísla Einarssonar og Vigdísar var Sverrir bóndi Gíslason í Hvammi í Norðurárdal[944] sem árið 1945 var kjörinn fyrsti formaður Stéttarsambands bænda.

Jón Guðmundsson fór frá Flateyri árið 1878 eins og hér var áður nefnt. Hann fluttist þá til föður síns að Eyri í Seyðisfirði[945] og mun hafa dvalist þar næstu ár.[946] Árið 1883 kvæntist hann Karitas Benediktsdóttur, sem verið hafði vinnukona hjá föður hans á Eyri, og árið 1890 hófu þau Jón og Karitas búskap í Eyrardal í Álftafirði.[947] Á sínum fyrstu árum í Eyrardal var Jón Guðmundsson í forystusveit Kaupfélags Ísfirðinga, þess sem stofnað var árið 1888, og stjórnaði rekstri félagsins sem varaframkvæmdastjóri þegar Skúli Thoroddsen, sýslumaður og kaupfélagsstjóri, þurfti að bregða sér frá.[948] Árið 1895 hóf Jón rekstur eigin verslunar í Eyrardal og hélt honum áfram allt til ársins 1914.[949] Með búskapnum þar og verslunarstarfseminni stundaði hann útgerð, fiskkaup og fiskverkun og hagnaðist vel.[950] Í bærilega marktækri heimild er reyndar fullyrt að þessi fyrrverandi bókhaldari á Flateyri hafi um langt skeið tvímælalaust verið langríkastur Djúpmanna.[951] Jón í Eyrardal andaðist sumarið 1937 og var þá orðinn 87 ára gamall[952] eða því sem næst.

Hér hefur nú verið getið tveggja verslunarmanna, Jóns Kristjánssonar og Jóns Guðmundssonar, sem báðir störfuðu á Flateyri um nokkurt skeið á áttunda áratug nítjándu aldar. Við brottför Jóns Kristjánssonar árið 1877 kom í hans stað Kristján Friðriksson frá Mosdal en þegar Jón Guðmundsson fór frá Flateyri einu ári síðar kom Gunnlaugur J. Oddsen í hans stað.[953]

Kristján Friðriksson frá Mosdal var 27 ára gamall eða því sem næst er hann gerðist verslunarmaður á Flateyri árið 1877.[954] Hann fæddist í Mosdal 22. september 1850, sonur Friðriks Guðmundssonar, sem þá var vinnumaður á Sæbóli á Ingjaldssandi, og Maríu Jónsdóttur, vinnukonu í Mosdal.[955] Kristján mun líka hafa alist upp í Mosdal[956] og var stundum kenndur við fæðingarstaðinn og nefndur Kristján Mosdal.[957] Hann var við verslunarstörf á Flateyri í sex ár, frá 1877 til 1883, og er þá ýmist nefndur assistent eða verslunarþjónn í sóknarmannatölum.[958] Þegar Kristján hætti verslunarstörfum gerðist hann sjómaður[959] og bjó í fáein ár með konu sinni, Guðbjörgu Sveinfríði Sigurðardóttur, á Eyri, bújörðinni gömlu ofantil við Flateyri.[960] Árið 1886 var hann stýrimaður á skútunni Hildu Maríu,[961] sem þá hafði lengi verið gerð út frá Flateyri, en vorið 1887 tók hann við skipstjórn á annarri skútu sem hét Jeanette. Með þessu skipi fórst Kristján og menn hans allir í sumarmálagarðinum mikla það sama vor (sjá hér bls. 148).

Flest árin sem Kristján Friðriksson var verslunarmaður á Flateyri starfaði þar við hlið hans Gunnlaugur Jón Oddsen sem fluttist hingað frá Kaupmannahöfn 25 ára gamall árið 1878.[962] Gunnlaugur fæddist á Grímsstöðum á Fjöllum 7. febrúar 1853 en foreldrar hans voru hjónin Gunnlaugur E. Oddsen og Guðbjörg Jónsdóttir sem þá áttu heima á Grímsstöðum en bjuggu síðar á Refstað í Vopnafirði og á Ketilsstöðum í Jökulsárhlíð á Fljótsdalshéraði.[963] Faðir Gunnlaugs Jóns var sléttur bóndi en afi þessa verslunarmanns á Flateyri var Gunnlaugur Oddsen, dómkirkjuprestur í Reykjavík, sem andaðist vorið 1835.[964]

Gunnlaugur J. Oddsen fluttist með foreldrum sínum frá Grímsstöðum að Refstað í Vopnafirði árið 1854 og fylgdi þeim að Ketilsstöðum í Jökulsárhlíð árið 1866.[965] Hann var þó fermdur á Hofi í Vopnafirði vorið 1867 en skýringin á því kynni að vera sú að séra Halldór Jónsson á Hofi hafði verið kvæntur föðursystur drengsins sem að vísu var látin þegar hér var komið sögu.[966]

Eins og áður var nefnt kom Gunnlaugur frá Kaupmannahöfn til Flateyrar árið 1878 og starfaði sem verslunarmaður hjá Hjálmari næstu árin.[967] Þegar Gunnlaugur kom til Flateyrar var hann einhleypur og settist að í Torfahúsi en haustið 1882 kvæntist hann Margréti Steinvöru Gunnlaugsdóttur sem flust hafði hingað vestur frá Akureyri einu ári fyrr.[968] Sama ár og hann gekk í hjónaband byggði Gunnlaugur tveggja hæða íbúðarhús með lágu risi og í því bjó hann næstu tvö árin.[969] Hús þetta var nefnt Gunnlaugshús og stóð þar sem nú er Grundarstígur 8.[970] Þetta var timburhús á hlöðnum grunni og var rifið á árunum kringum 1960.[971] Þegar Gunnlaugur byggði hús sitt var þorpsmyndun rétt að hefjast á Flateyri því allt til 1880 var hið gamla Torfahús, sem byggt var um 1820, eina íbúðarhúsið á þessum verslunarstað. Fyrsta íbúðarhúsið sem reist var á síðari hluta nítjándu aldar byggði Sveinn Rósinkranzson skipstjóri árið 1880 (sjá hér bls. 220) og næst kom Gunnlaugshús árið 1882.[972]

Gunnlaugi J. Oddsen auðnaðist ekki að búa lengi í sínu nýja og vel byggða húsi því haustið 1882 var verslun Hjálmars Jónssonar á Flateyri seld (sjá hér bls. 114) og starfstími hans hjá hinum nýja eiganda verslunarinnar varð aðeins eitt ár eða því sem næst. Árið 1884 fór Gunnlaugur burt frá Flateyri og fluttist þá norður í Skagafjörð.[973] Næstu fimm árin var hann á Hofsósi en síðan við verslunarstörf á Akureyri og um skeið á Seyðisfirði.[974] Árið 1901 voru Gunnlaugur og fjölskylda hans búsett í Hafnarstræti 1 á Akureyri.[975] Gunnlaugur Jón Oddsen andaðist á Akureyri 18. janúar 1909[976] og var þá að verða 56 ára.

Allan þann tíma sem Hjálmar Jónsson rak verslun á Flateyri voru náin tengsl milli verslunarinnar og útgerðar þilskipanna sem þeir Torfi Halldórsson og Hjálmar áttu. Frá útgerðinni er sagt hér á öðrum stað (sjá hér bls. 125-131).

Hjálmar Flateyrarkaupmaður kvæntist aldrei og lét yfirleitt fara lítið fyrir sér en hann var hagsýnn maður og áreiðanlegur í öllum viðskiptum.[977] Óskar Einarsson, sem var læknir á Flateyri 1925-1936, náði að ræða við ýmsa sem mundu eftir Hjálmari og segir frá honum á þessa leið:

 

Hjálmar var maður hægur og jafn í viðmóti og gerði sér engan mannamun við hvern sem hann talaði og þótti það fáheyrt í þá daga, ekki síst um kaupmann sem átti löngum heima í kóngsins Kaupmannahöfn. Hjálmar bragðaði hvorki vín né tóbak en reykti mjög mikið af asthma-vindlingum, enda mun hann hafa liðið af þeim sjúkdómi. Orð hans og loforð stóðu jafnan sem stafur á bók. Í viðskiptum var hann ávallt hreinskiptinn en þótti nokkuð harðskiptinn. Þegar unnið var fyrir hann við uppskipun kola eða salts gaf hann oft sápustykki eða jafnvel handklæði og sápustykki ef fleiri en einn unnu frá sama heimili. … Mjög var honum og umhugað um að þeir bátar sem hann átti hlut í væru vandaðir að efni og vinnu svo að ekki væri sparað til seglaútbúnaðar. Lagtækum unglingum gaf hann oft af smíðatólum sínum.[978]

 

Svipuð er lýsing Gils Guðmundssonar á Hjálmari en hann ritar á þessa leið:

 

Hjálmar Jónsson var stór maður vexti, nokkuð toginleitur og ekki fríður en stilltur í framgöngu og bauð af sér góðan þokka. Mjög þótti hann alþýðlegur og lítillátur og gerði engan mun á snauðum mönnum og ríkum. Var sú framkoma heldur óvanaleg í þá daga er margir hinna svonefndu „heldri manna” töldu sjálfsagt að lítilsvirða og fyrirlíta smælingja. Börn og unglingar hændust mjög að Hjálmari og oft vék hann góðu að þeim. Minntist hann löngum fátæktar sinnar í æsku enda hvatti hann ýmsa efnismenn og styrkti til framtaks.[979]

 

Um verslunarrekstur Hjálmars á Flateyri og skipin sem hann lét smíða segir Gils:

 

Verslun Hjálmars kaupmanns á Flateyri stóð mjög traustum fótum og græddist honum smám saman allmikið fé. Heldur þótti hann hafa fáskrúðugan varning á boðstólum en góðar voru vörur hans. Var svo um allt er Hjálmar snerti við að því mátti hiklaust treysta. Báru þess fagurt vitni skipin er hann lét smíða. Var þeim við brugðið fyrir traustleika sakir enda entust þau flest mjög vel.[980]

 

Páll Eggert Ólason getur þess í Íslenskum æviskrám að Hjálmar hafi verið hagsýnn og forsjáll en líka framsýnn um nýjungar í framleiðslu.[981] Til þess að svo hafi verið bendir meðal annars ferð hans á vörusýninguna sem haldin var í Edinborg vorið 1882.[982] Á þeirri sýningu mun Hjálmar hafa verið eini íslenski kaupmaðurinn en hann sýndi þarna lýsi, dún, niðursoðið kjöt og silung.[983] Fyrir þátttöku sína í sýningunni fékk hann sérstök heiðursverðlaun hjá Skotum.[984]

Árið sem Hjálmar bauð varning sinn falan í Edinborg náði hann sextugsaldri og hefur líklega verið farinn að þreytast. Þá um haustið seldi hann verslun sína á Flateyri Ásgeiri G. Ásgeirssyni, forstjóra Ásgeirsverslunar á Ísafirði.[985] Sá Ásgeir var oft nefndur Ásgeir yngri til aðgreiningar frá föður sínum, Ásgeiri Ásgeirssyni skipherra, sem var stofnandi Ásgeirsverslunar en látinn þegar hér var komið sögu. Tvímælalaust er að Hjálmar seldi Flateyrarverslun haustið 1882 því hann greinir sjálfur frá þeim tíðindum í bréfi er hann ritaði verslunarstjóra sínum, Torfa Halldórssyni, þann 12. nóvember á því ári. Í bréfinu sem Hjálmar skrifaði Torfa frá Kaupmannahöfn kemst hann svo að orði:

 

Eins og við töluðum um hef ég selt Ásgeiri höndlunina, húsin mín, skipin Bogö og Lovísu, samt vörubeholdningu alla og útistandandi skuldir, því verð ég að biðja þig að sjá um að það verði tekin rétt beholdning [þ.e. vörutalning – innsk. K.Ó.] á öllu saman og stemma og bækurnar uppgjörðar við nýár. Hann hefur lofað að bæði þú, Gunnlaugur og Kristján verðið í hans þjónustu. Sá viður sem þú pantaðir til hússins þíns kemur ekki í beholdninguna, heldur ekki er með húsunum Gunnlaugshúsið eða hans reikningur. Hann [þ.e. Ásgeir – innsk. K.Ó.] vill drífa fiskirí og svo hafa þá höndlun sem getur verið við hliðina. Ég treysti því að þú leigir honum bæði verkunarplássið og grunninn undir húsunum. … Við getum aldrei fengið betri menn til að yfirtaka og drífa okkar forretningu en Ásgeir og Árna og ég er viss um að það gengur í góðu lagi allt.[986]

 

Árni sá sem Hjálmar nefnir þarna er vafalaust Árni Jónsson, mágur Ásgeirs G. Ásgeirssonar, en hann var árið 1882 og um langt skeið verslunarstjóri við Ásgeirsverslun á Ísafirði. Í bréfinu lætur Hjálmar þess getið að hinn nýi eigandi Flateyrarverslunar hafi lofað sér því að allir starfsmenn hennar skyldu áfram eiga þess kost að halda störfum sínum en þeir voru Torfi Halldórsson verslunarstjóri, Gunnlaugur J. Oddsen og Kristján Friðriksson eins og hér hefur áður verið gerð grein fyrir (sjá hér bls. 107 og 110-112). Starfstími þeirra allra hjá útibúi Ásgeirsverslunar á Flateyri varð þó mjög skammur (sjá hér bls. 110-112 og 135) og má ætla að ósamkomulag hafi orðið.

Bréfið sem hér var vitnað í skrifaði Hjálmar 12. nóvember 1882 og greinilegt er að hann gerir ráð fyrir að Torfi fái það í hendur fyrir lok þess árs. Póstferðir milli Kaupmannahafnar og Reykjavíkur voru þá 9 eða 10 á ári og í fimm þessara ferða fór póstskipið hringinn í kringum landið.[987] Með hliðsjón af tíðni ferðanna má gera ráð fyrir að bréfið frá Hjálmari hafi komist í hendur Torfa í tæka tíð og verslunin á Flateyri því verið rekin sem útibú frá Ásgeirsverslun alveg frá 1. janúar 1883.

Þá um áramótin hætti Hjálmar líka allri þátttöku í útgerð frá Flateyri en eignarhlutir hans í skútunum Maríu og Hildu Maríu komust í annarra hendur (sjá hér bls. 128 og bls. 143). Ætla má að einhvers konar peningalegt uppgjör milli Hjálmars og Torfa hafi líka farið fram á þessum tíma en gögn skortir um þau efni. Í Torfaættarbók, sem út var gefin árið 1991, er þó minnst á þetta uppgjör og sögð tíðindi sem benda til þess að fjölskylda Torfa hafi fengið verulega fjármuni í hendur við þessi eignaskipti. Sú frásögn er á þessa leið:

 

Munnmæli rekja það að við uppgjör þeirra Torfa Halldórssonar og Hjálmars Jónssonar 1882 hafi dætrum Torfa verið ánafnaðar 3.000,- krónur hverri og sjóðirnir ætlaðir þeim til menntunar. Í „kontrabók” fyrir systkinin, sem til er, er upphæðin á reikningu Guðrúnar 2.956,37 og nefnd gjöf Hjálmars Jónssonar.[988]

 

Guðrún Torfadóttir var aðeins tíu ára þegar Hjálmar fór frá Flateyri. Þrettán ára fór hún til Reykjavíkur og dvaldist þar í eitt ár og á næstu tíu árum fór hún tvisvar til Noregs og lærði hannyrðakennslu.[989] Árið 1882 áttu Torfi og María kona hans þrjár dætur á lífi[990] og hafi þær fengið 3.000,- krónur hver hefur heildarupphæðin sem kom í hlut þeirra verið 9.000,- krónur en þess má geta að samkvæmt launalögum frá árinu 1877 voru árslaun sýslumanna frá 2.000,- krónum og upp í 3.500,- krónur.[991] Samkvæmt þessu ætti hver og ein dætranna að hafa fengið í sinn hlut fjárhæð sem svaraði til árslauna sýslumanns og varla hafa synir Torfa, sem voru fimm á lífi, fengið minna. Skylt er þó að taka fram að um þetta er ekkert vitað með vissu.

Allt frá æskudögum hafði Hjálmar Jónsson verið með annan fótinn í Danmörku og þar settist hann að fyrir fullt og allt haustið 1882 og lifði á eignum sínum þaðan í frá að því er best er vitað.[992]

Upplýsingar um verðið sem Hjálmar fékk greitt fyrir eignir sínar á Flateyri og fraktskipin tvö, Bogö og Lovísu, liggja því miður ekki á lausu en við úttekt sem gerð var 21. desember 1883 voru húseignir Ásgeirs G. Ásgeirssonar hér á Flateyri virtar á 6.830,- krónur.[993] Alls voru þetta níu hús og má telja nær fullvíst að Ásgeir hafi keypt þau öll af Hjálmari einu ári fyrr. Húsin voru þessi:

 

 1. Sölubúð 15 x 12 álnir (um 70 m2). Hæð frá gólfi og upp í rjáfur 8 álnir, með 15 x 5 álna skúr við aðra hliðina. Virt á 2.600,- kr.

 

 1. Salthús 9 x 6 álnir (21,3 m2). Hæð þess 5,5 álnir. Tveir skúrar fylgdu húsinu, einn við hvora hlið, annar 9 x 4 álnir en hinn 9 x 3 álnir. Virt á 400,- kr.

 

 1. Matvöruhús 18 x 9 álnir (um 64 m2). Hæð í kjöl 7,5 álnir. Skúr við aðra hliðina var 15 x 5,5 álnir. Virt á 1.500,- kr.

 

 1. Bræðsluhús 10 x 9 álnir (35,5 m2). Hæð frá gólfi og upp í mæni 7 álnir. Virt á 800,- kr.

 

 1. Kolahús 11 x 7 álnir (um 30 m2). Hæð í kjöl 6 álnir. Með torfveggjum en þak og annar stafn úr tré. Virt á 300,- kr.

 

 1. Annað kolahús 8,5 x 7 álnir (23,3 m2). Hæð í kjöl 4,5 álnir. Með torfveggjum en tréþaki. Virt á 100,- kr.

 

 1. Fiskhús 12 x 9 álnir (um 42 m2). Hæð í kjöl 7 álnir. Virt á 1.000,- kr.

 

 1. Beituhús 5,5 x 4 álnir (tæpl. 9 m2). Hæð í kjöl 4 álnir. Veggir og þak úr torfi. Virt á 50,- kr.

 

 1. Vinnufólkshús 8,5 x 5 álnir (16,4 m2). Hæð í kjöl 6 álnir. Veggir og þak úr torfi.[994] Virt á 80,- kr.

 

 

Eitt þessara húsa, það sem nefnt er fiskhús, stendur enn (1996) á sínum gamla stað (sjá hér bls. 98).

Haustið 1882 settist Hjálmar kaupmaður Jónsson alveg að í Kaupmannahöfn eins og hér var áður nefnt. Þar hafði hann átt sitt hálfa líf og var í góðum kynnum við marga landa sem þar bjuggu. Einn þeirra var Jón Sigurðsson forseti.

Tíu bréf sem Hjálmar skrifaði Jóni hafa varðveist og eru þau öll skrifuð á árunum 1856-1864[995] en þá var Hjálmar búsettur á Ísafirði. Fyrsta bréfið er skrifað 12. ágúst 1856. Hann segir þar að ferðin heim hafi gengið vel og slúppan hafi fiskað í góðu meðallagi en jaktin hins vegar lítið.[996] Af öðrum heimildum má ráða að slúppan sem þarna er nefnd muni vera Lovísa en jaktin sé hins vegar Hilda María (sjá hér bls. 67, 89 og 90).

Í þessu bréfi greinir Hjálmar Jóni frá því að Friðrik Svendsen, áður kaupmaður á Flateyri, sé nú sálaður en maður að nafni Böyesen sé í þann veginn að kaupa annað hvort Flateyri eða Þingeyri.[997] Þarna mun eflaust átt við Andreas Böyesen lausakaupmann sem Vestfirðingar áttu mikil viðskipti við á þessum árum[998] en ekki varð samt af því að hann festi kaup á Þingeyri eða Flateyri. Merkilegt er að í þessu sama bréfi til Jóns forseta frá sumrinu 1856 nefnir Hjálmar sinn eigin áhuga fyrir því að hefja verslunarrekstur á Flateyri. Það er nú annars staður, segir hann um Flateyri, sem mig hefði langað til að fá en það verða líklega aðrir fyrir því.[999]

Þessi orð Hjálmars styrkja þá hugmynd að hann hafi verið með í ráðum þegar Torfi félagi hans Halldórsson réðst í að kaupa Flateyrareignir árið 1858 (sjá hér bls. 80-81) og þá þegar hafi verið að því stefnt að Hjálmar hæfi fyrr eða síðar verslunarrekstur á Flateyri. Engu að síður liðu sjö ár frá því Torfi keypti Flateyri þar til Hjálmar fór að versla hér á eigninni sem lausakaupmaður og a.m.k. níu ár þar til hann setti hér á stofn fasta verslun (sjá hér bls. 97). Skýringin á því liggur ekki í augum uppi en vera má að hann hafi viljað fara með gát og styrkja fjárhagsgrundvöllinn áður en byrjað yrði á nýjum rekstri sem mikil áhætta hlaut að fylgja. Engar nákvæmar upplýsingar eru í boði um peningaráð Hjálmars á árunum kringum 1860 en allvel stöndugur hlýtur hann þó að hafa verið. Til marks um það má nefna að um eða nokkru eftir 1860 lánaði hann Jóni forseta 100 sterlingspund[1000] sem var ærinn skildingur. Þessa skuld endurgreiddi Jón 4. apríl 1868 með tveimur 500 ríkisdala hlutabréfum í danska Privatbankanum.[1001] Skuldin við Hjálmar hefir því numið 1000 ríkisdölum eða sem svaraði um það bil 25 kúgildum samkvæmt almennri verðlagsskrá.[1002] Í opinberu skattmati frá desember 1993 var mjólkurkýr þá metin til eignar á 58.770,- krónur[1003] og gefur sú viðmiðun til kynna að þessir 1000 ríkisdalir sem Jón forseti skuldaði Hjálmari hafi á núvirði svarað til einnar og hálfrar milljónar króna eða þar um bil. Við mat á verðgildi þessara peninga má líka hafa í huga að samkvæmt launalögum frá árinu 1877 voru árslaun sýslumanns 2.000,- til 3.500,- krónur,[1004] það er 1000-1750 ríkisdalir sem einnig bendir til þess að um 1870 hafi 1000 ríkisdalir verið meira virði en ein milljón króna var árið 1993. Hér blasir því við að það hafa verið þó nokkrir fjármunir sem Jón forseti fékk að láni hjá Flateyrarkaupmanninum.

Hjálmar mun einnig hafa stutt Jón forseta með ýmsum öðrum hætti og þegar ungir og róttækir menn úr liðsveit Jóns í Kaupmannahöfn stofnuðu árið 1872 leynifélag til að vinna að þjóðfrelsismálum Íslendinga gerðist Hjálmar liðsmaður í þeim félagsskap þó orðinn væri fimmtugur að aldri.[1005] Í þessum harðsnúna  flokki, sem valdi sér nafnið Atgeirinn, voru þeir langelstir Ásgeir kaupmaður eldri Ásgeirsson á Ísafirði og Hjálmar á Flateyri[1006] en báðir sátu þeir í Kaupmannahöfn að vetrinum á þessum árum og blönduðu þar geði við hina ungu menntamenn í hirð Jóns Sigurðssonar.

Þorvaldur Thoroddsen, sem var við nám í náttúrufræði við Kaupmannahafnarháskóla á árunum 1875-1880, segir að af íslenskum verslunarmönnum í Kaupmannahöfn hafi Hjálmar frá Flateyri og Jón Vídalín, sem þá var um tvítugt, verið hinir einu sem umgengust landa sína við háskólann.[1007] Hann lætur þess einnig getið að Hjálmar og Ásgeir kaupmaður Ásgeirsson frá Ísafirði hafi stutt leynifélagið Atgeirinn með fjárframlögum.[1008] Um þátttöku Hjálmars í starfi annars leynifélags er fátt kunnugt en sagt er að hann hafi verið frímúrari.[1009]

Þegar Hjálmar hætti að versla á Flateyri við lok ársins 1882 mun hann hafa verið orðinn sæmilega loðinn um lófana og varla hefur hann tapað fjármunum á þeim liðlega 18 árum sem hann átti þá enn ólifuð. Á því skeiði dvaldist hann jafnan í Danmörku og mun sjaldan eða aldrei hafa komið til Íslands.[1010] Hjálmar dó í Kaupmannahöfn ,78 ára gamall, þann 28. apríl 1901.[1011] Fyrir dauða sinn hafði hann ráðstafað sínum mörgu og góðu bókum til Landsbókasafns Íslands og mælt svo fyrir að af eignum sínum skyldi 13.457,60 krónum varið til að koma á fót sérstökum sjóði til styrktar verðugum og fátækum ekkjum og börnum íslenskra fiskimanna er í sjó drukkna.[1012] Árið 1901 var opinbert kýrverð í Vestur-Ísafjarðarsýslu 107,86 krónur[1013] og má því segja að þessi gjöf Hjálmars hafi numið nær 125 kúgildum. Reiknað með sama hætti og hér var gert á bls. 117 telst andvirði gjafarinnar vera yfir 7 milljónir króna á verðlagi ársins 1993. Við mat á þessum fjármunum má líka minnast þess að árið 1901 voru að jafnaði greiddar 2,56 krónur fyrir dagsverk við heyannir í Vestur-Ísafjarðarsýslu.[1014] Gjöf Hjálmars svaraði því til greiðslu fyrir 5.078 slík dagsverk. Sé miðið við almennar launagreiðslur til verkafólks á árinu 1994 sýnist varla hægt að gera ráð fyrir lægri upphæð en 6.000,- krónum fyrir 14 tíma vinnu á sólarhring en mælt á slíkan kvarða yrði upphæðin sem Hjálmar gaf um 30 milljónir króna á verðlagi ársins 1994. Um nokkurt skeið var hluta vaxtanna af þessum fjármunum úthlutað í samræmi við stofnskrá sjóðsins[1015] en ætla má að verðbólgueldurinn sem hér geisaði án viðnáms í marga áratugi hafi nú fyrir löngu gert þessa góðu gjöf að engu.

Á Landsbókasafni Íslands eru nú varðveitt ýms gögn úr fórum Hjálmars Jónssonar. Mest af því dóti er frá tveimur síðustu áratugunum sem hann lifði og í öllum þeim skrifum hans sem þar er að finna er fátt sem varpar ljósi á verslunarreksturinn á Flateyri. Afrit af ýmsum bréfum sem Hjálmar skrifaði á árunum 1879-1886 hefur hann fært inn í sérstaka bréfabók sem enn er varðveitt í Landsbókasafni og í henni eru m.a.  afrit af sex bréfum til Torfa Halldórssonar á Flateyri.[1016] Elsta bréfið til Torfa er skrifað 12. janúar 1881, annað 12. nóvember 1882 og svo eru þarna fjögur bréf sem Hjálmar skrifaði Torfa árið 1885.[1017] Þau sýna að enginn skuggi hefur fallið á vináttu þessara gömlu félaga þó að Hjálmar hætti að versla á Flateyri og þeir hættir að sjást augliti til auglitis.

Í bréfunum fjórum sem Hjálmar skrifaði Torfa á árinu 1885 segir hann frá ýmsum tíðindum úr stórborginni við Eyrarsund og sitthvað kemur þar fram um viðhorf hans sjálfs til eins og annars sem þá var ofarlega á baugi. Seint í júlímánuði hefur hann þær fréttir að færa að þrír íslenskir stúdentar við Kaupmannahafnarháskóla hafi nýlega verið settir í varðhald og segir Finn Jónsson vera einn þeirra. Frásögn sína af þessu orðar Hjálmar svo:

 

Hér gengur mikið á með góðtemplarafélögin sem nú eru að útbreiðast um alla Danmörk. Í Noregi voru í vor 8 þúsundir gengnar í það félag og í Svíþjóð 40 þúsundir. Allir ljúka upp einum munni um það að það sé guði og mönnum þægt verk að styðja að eflingu þeirra félaga, enda er nú tekið strangara á drykkjuskap hér en áður hefur verið gert.

Þrír íslenskir stúdentar hafa verið settir hér í varðhald í vetur, sá síðasti nú nýlega, Finnur nokkur Jónsson, og það verður vafalaust hætt að senda hingað skólapilta eða stúdenta sem eru óreglumenn.[1018]

 

Orðin sýna viðhorf Hjálmars til áfengismálanna á ritunartíma bréfsins en Finnur Jónsson sem nefndur er getur enginn annar verið en sá sem varð dósent í norrænu við Kaupmannahafnarháskóla árið 1887 og hafði lokið doktorsprófi við sömu menntastofnun haustið 1884.[1019]

Hinn fyrrverandi kaupmaður minnist oftar á bindindismál í bréfum sínum til Torfa frá árinu 1885 og ekki fer milli mála að hann hefur talið þá Pál Torfason, sem var elsti sonur Torfa Halldórssonar, og Magnús Össurarson, sem var fóstursonur Torfa, súpa helst til mikið af sterkum drykkjum. Páll Torfason, sem var 27 ára gamall árið 1885, hafði þá dvalist í Kaupmannahöfn um skeið og fékkst við viðskipti[1020] en Magnús, sem var skipstjóri og þrettán árum eldri en Páll, kom oft til Danmerkur, m.a. til að sækja skip og sigla þeim til Íslands (sjá hér bls. 153-158). Sumarið 1885 stóð til að Kristján Torfason frá Flateyri sigldi til Kaupmannahafnar en hann var þá aðeins 14 ára gamall og virðist Torfi hafa beðið Hjálmar að líta til með drengnum. Því erindi svarar Hjálmar í bréfi er hann skrifaði Torfa 27. ágúst þetta sama ár og segir:

 

Ég flyt 1. október þangað sem ég hef búið áður, á Hótel Krónprinsinn nr. 21 í Nýhöfn, en komi kólera hingað fer ég til Borgundarhólms. Þó ég gjarnan vildi, þá er mér þess vegna ekki hægt að hafa umsjón á Kristjáni ef hann kemur hingað en velkominn er hann að heimsækja mig þegar ég er hér í bænum og skal ég þá ráða honum til þess besta sem ég get. Mér hefur orðið örðugt að sjá um þrjá aðra drengi fyrir utan Pál og svo hefur orðið fyrir fleirum. – Það væri skynsamlegt af Páli að sjá að sér meðan hann er svo ungur að hann gæti tekið fyrir sig það sem hann gæti lifað af þegar hann missir umsorgun foreldranna. Það eru hér og víðar margir yngri og eldri menn sem alvarlega hafa tekið fyrir sig að hætta að drekka og orðið nýtir menn og þá haft gleði af lífinu og þakkað guði fyrir að þeir komust á réttan veg. Ég er alviss um það að hætti Páll alveg að drekka gæti hann orðið nýtur maður á Íslandi. … Magnús [þ.e. Magnús Össurarson – innsk. K.Ó.] ætti líka að fylgja dæmi Einars Pálssonar meðan hann hefur heilsu.[1021]

 

Einar Pálsson, sem Hjálmar nefnir þarna, var skipstjóri á einni af skútum Ásgeirsverslunar, Maríu Margréti, og fórst með henni vorið 1887.[1022]

Í þessu bréfi Hjálmars sjáum við að hann hefur búið um lengri eða skemmri tíma á Hótel Krónprinsinn í Nýhöfninni en þar mun varla hafa verið í kot vísað. Annað heimilisfang Hjálmars frá árinu 1885 er líka þekkt: H.C. Örstedsvej nr. 27, 1. hæð.[1023]

Í síðasta bréfinu sem gamli Hjálmar ritaði Torfa árið 1885 er að finna ýmsar þenkingar hans um nauðsyn þess að menn eyði ekki um efni fram og líka um sveiflur í efnahagslífinu og illvíg stéttaátök í Danmörku. Hann segir þar m.a.:

 

Það barst í tal með okkur Ásgeiri um forsyning á Önundarfirði [þ.e. hversu mikið af vörum væri sent þangað – innsk. K.Ó.]. Hann sagði mér að hann hefði fengið nokkur þúsund krónum minni vöru þaðan en hann sendi þangað en í hallærisárum ætti fólk að spara við sig og taka sem minnst af þeim vörusortum sem það getur án verið. En gjörir það fjöldinn af höndlunarfólkinu? Vilja ekki margir lifa eins og á góðu árunum? En það er rétt sem þú skrifar að það væri skynsamlegt fyrir kaupmenn að hafa matvöru til við verslanirnar til að selja fyrir borgun út í hönd en af því að stórt tap hefur orðið á sölu á íslensku vörunum hafa kaupmenn flutt meir en gagnlegt var af þeim vörum sem mest hefur verið að þéna á. Við þekkjum báðir kaupmenn og landsmenn okkar. Þeir fyrstu [þ.e. hinir fyrrnefndu – innsk. K.Ó.] koma sér ekki saman og þeir síðari sækja í hinn staðinn það sem þeir ekki fá í þessum. En það eru hreinustu sannindi að fólk hefur mesta ógagn til lífs og sálar af óþarflegum vínkaupum, hverju nafni sem heitir.[1024]

 

Í þessu sama bréfi frá 4. nóvember 1885 ræðir Hjálmar nokkuð um efnahagskreppuna sem olli margvíslegri bölvun á árunum um og upp úr 1880 og kemst hann þá svo að orði:

 

Fyrir 6 árum síðan fór að byrja höndlunarþrautin í Ameríku og fyrst í ár í maí og júní fór að líta betur út og hefur farið batnandi. Frá Ameríku útbreiddist um allan heim höndlunardeifð, tap og bankarot, sjá Skírni. Nú segja vitrir menn að eins muni ganga með batann í höndlunarviðskiptum því fjöldi óráðsettir höndlunarmenn eru horfnir sem hafa verið sér og öðrum til skaða og margir aðgætnari en áður af þeim sem eftir eru. Þessu lík er þín hugmynd í þínu kæra bréfi að breyting muni verða á höndlun og væri þeim öllum vel sem gætu fylgst með tímanum.[1025]

 

Svo virðist sem bæði Hjálmar og Torfi hafi kunnað nokkur skil á hagfræði og gert sér að einhverju marki grein fyrir þeim lögmálum sem mestu réðu um hinar stóru sveiflur í efnahagslífi Evrópu og Norður-Ameríku á 19. öld. Á kröfur þeirra sem á árunum upp úr 1880 voru að koma á fót verkalýðsfélögum og töldu brýnasta verkefnið að efla stéttabaráttuna leist Hjálmari karli hins vegar miður vel eins og vænta mátti sé haft í huga hver sjónarhóll hans var. Um hin hörðu stéttaátök í Kaupmannahöfn árið 1885 kemst hann að orði á þessa leið í einu bréfinu til Torfa:

 

En vinstri menn breyta ekki sínum háttum. Fyrir nokkrum dögum þegar konungur Kristján IX var með öllu sínu ættfólki og tengdafólki, utan keisarinn af Rússlandi sem ekki var með, í Konunglega Teatrinu á Kóngsins nýja torgi héldu vinstri menn sama kvöldið fund í Teatrinu Kasinó í Amalíugötunni og var hús alveg fullt af vinstri ræðismönnum og þeirra lagsmönnum og voru þar haldnar stífar ræður móti ráðgjöfum og stjórn. Mörgum skynsömum mönnum finnst vinstri menn ekki ætíð brúka tilhlýðilega nærgætni. Hér af sérðu, Torfi minn, að mikið hefur breyst staðarlífið hér í bænum síðan þessi voðalegi flokkadráttur byrjaðist. Varla kemur dagur að ekki séu einhverjar ófarir og smáupphlaup, helst af skríl og handverksmönnum. Flestir járn- og maskínusmiðir hafa gjört „strike” og gengið aðgerðalausir langan tíma, lifa af samskotum, vilja fá hærri laun, meira frelsi en konur og börn svelta heima meðan þessir garpar eru umkring á veitingaknæpunum en þeir sem hafa gjört óróa hafa utan víðara verið settir fastir og dæmdir.

Í gærkvöld voru um 600 menn af þessum landeyðum komnir saman til að yfirfalla þá handverksmenn af þeirra flokki sem hafa erfiðað til að bjarga sér og sínum. … Yfir 50 pólitímenn höfðu fullt í fangi að vernda þá saklausu og setja þá verstu af foringjunum í höft. Þegar síðast fréttist var búið að læsa 10 eða 12 inni í fangelsi sem bíða þar síns dóms. Þetta er hörmulegt ástand.[1026]

 

Nær sex vikum síðar minnist Hjálmar aftur á verkfall járn- og maskínusmiða í Kaupmannahöfn sem hann segir þá hafa staðið í 17 vikur og lætur þess getið að það séu síósalistar, er hann nefnir svo, sem standi fyrir samskotum til að halda í þeim lífinum.[1027]

Gamli Flateyrarkaupmaðurinn fylgdist vel með atburðum og var áskrifandi að blaðinu Nationaltidende. Blaðinu hélt hann saman og 4. nóvember 1885 kveðst hann munu senda Torfa mörg eintök af því eftir áramótin honum til fróðleiks.[1028] Þó að Hjálmar karl væri kominn á sjötugsaldur árið 1885 var hann enn vel vakandi og áhugasamur um stjórnmál bæði í Danmörku og á Íslandi. Haustið 1884 varð Skúli Thoroddsen sýslumaður Ísfirðinga en hann var þá 25 ára gamall. Svo virðist sem Hjálmar hafi bundið vonir við Skúla sem álitlegt mannsefni þó að honum hafi væntanlega verið kunnugt um róttækar skoðanir hins unga sýslumanns sem hallaðist mjög til vinstri. Áform Skúla um stofnun prentsmiðju á Ísafirði vildi hann styrkja eins og sjá má í bréfinu til Torfa frá 4. nóvember 1885 en þar segir Hjálmar meðal annars þetta:

 

Svo vona ég að þið hafið góðan sýslumann. Hans fyrsti dómur er nú staðfestur af yfirréttinum. Faðir hans var einn af mínum bestu kunningjum á sinni tíð og því óska ég börnum hans alls góðs. Rétt held ég að þú hafir mælt við Þorvald lækni, því ekki hef ég heyrt að haft hafi verið á móti þeim prentsmiðjum sem eru bæði á Suður-, Austur- og Norðurlandi og hvers vegna þá ekki á Ísafirði?[1029]

 

Svo fór að Torfi Halldórsson varð annar tveggja stærstu hluthafanna í Prentfélagi Ísfirðinga sem stofnað var í marsmánuði árið 1886[1030] en þá voru aðeins liðnir örfáir mánuðir frá því honum barst í hendur þessi hvatning frá Hjálmari. Á vegum prentfélagsins var fyrsta prentsmiðjan keypt til Ísafjarðar. Þau kaup voru forsenda þess að blaðaútgáfa gæti hafist í höfuðstað Vestfjarða og haustið 1886 fóru Skúli sýslumaður og félagar hans að gefa þar út blað sitt Þjóðviljann.[1031]

Hér hafa nú verið birtar nokkrar glefsur úr bréfum sem gamli Hjálmar skrifaði Torfa félaga sínum á Flateyri árið 1885 og þeim ætlað að gefa örlitla innsýn í sumt af því sem þessi fyrrverandi kaupmaður var að hugsa um þegar hér var komið sögu. Í bréfunum til Torfa frá þessu sama ári er líka að finna ýmsar fréttir úr viðskiptalífinu sem varða þó yfirleitt ekki verslunarreksturinn á Flateyri nema með óbeinum hætti og verða því ekki raktar hér.

Eitt dæmi úr bréfunum til Torfa um áhuga Hjálmars fyrir tækniframförum er hins vegar skylt að láta fylgja hér með en það er frásögn hans af tilraunum manna í Frakklandi til að fljúga í loftinu. Ætla má að sú frétt hafi þótt nokkuð merkileg í Önundarfirði undir lok ársins 1885. Hjálmar skrifar:

 

1870 byrjuðu franskir að stíga upp í loftballúnum. Sigldu með einni af þeim frá París norður á fjöll. … Síðan hafa þeir nú í 15 ár verið að endurbæta loftsiglingarverkfæri sín til að geta brúkað loftskipin til að fara á þeim í loft upp og geta séð yfir herflokka óvina sinna í stríðstíð. Það loftskip sem getur um í seðli númer sjö er það fullkomnasta af öllum. Eru í því maskínur með ýmsum lofttegundarvélum.[1032]

 

Hér var áður gerð grein fyrir með hvaða hætti Hjálmar Jónsson ráðstafaði stórum hluta eigna sinna fyrir andlát sitt sem bar að árið 1901 (sjá hér bls. 118-119). Úr fórum hans bárust Landsbókasafni Íslands síðar margvíslegir pappírar, þar á meðal bréfabókin sem geymir afrit af fjölda bréfa er hann skrifaði á árunum 1879-1886 og hefur hér verið vitnað í fáein þeirra. Ekki er ætlunin að gera hér grein fyrir öllum þeim plöggum sem þarna fylgdu með en nokkur þeirra er vert að nefna og þá fyrst og fremst til að vekja athygli á sumu því sem áhugi þessa gamla timburmanns beindist að síðustu tvo áratugina sem hann lifði. Í kössunum sem geyma pappíra Hjálmars er meðal annars þetta að finna:

 

 1. Margir kladdar frá árunum kringum 1890 með að því er virðist nákvæmum skrám yfir vöruflutninga frá Kaupmannahöfn til hinna ýmsu hafna á Íslandi. Getið er um nöfn skipanna sem vörurnar fluttu, talið upp hvað sent var í hverri ferð og á hvaða höfn vörurnar áttu að fara.

 

 

 1. Margvíslegar upplýsingar um verðlag á fiskmörkuðum í ýmsum löndum og einnig um verkun á saltfiski.

 

 1. Uppskriftir Hjálmars úr bókum, blöðum og tímaritum, miklar að vöxtum með fjölbreytilegu efni.

 

 1. Úrklippur úr blöðum, mikið safn.

 

 1. Handskrifuð bók með uppskriftum Hjálmars úr dönskum og íslenskum fjárlögum frá árunum 1850-1891. Þar virðist vera skráð allt það helsta sem varðar fjárveitingar til verkefna á Íslandi.

 

 1. Uppskriftir stúdenta á fyrirlestrum háskólakennera í læknisfræði, lífeðlisfræði og meðalafræði.

 

 1. Uppskriftir Hjálmars úr gömlum annálum með margvíslegum fróðleik um árferði, aflabrögð og sitthvað fleira.

 

 1. Annáll áranna 1869-1885 með rithönd Hjálmars og líklega frumsaminn af honum, tvær bækur.

 

 1. Bók sem Hjálmar nefnir Uddrag úr ældre Notis Bøger for Aarene 1880-1888.

 

 1. Handskrifaður fróðleikur um fiskiríið við Lófót í Noregi á árunum 1886-1888.

 

 1. Andmæli Hjálmars frá árinu 1884 gegn hugmyndum um að deild Hins íslenska bókmenntafélags í Kaupmannahöfn yrði flutt til Reykjavíkur. Hjálmar mun hafa verið í nefnd sem fjallaði um málið.

 

 1. Uppskrift Hjálmars frá sumrinu 1888 á gömlum vísum sem hann segist hafa lært í æsku. Fyrstu hundrað vísurnar eru ætlaðar til brúkunar þegar menn kveðast á en síðan fylgir annar kveðskapur. Allt er þetta handskrifað í einni bók, 185 blaðsíður. Utan á bókina hefur Hjálmar skrifað Dægrastytting.

 

 1. Tvær contrabækur Finns Magnússonar, leyndarskjalavarðar konungs sem sýna viðskipti hans við J.P. Sielle urtakramara í Kaupmannahöfn á árunum 1835-1847.

 

 1. Spjaldskrá í nokkrum kössum yfir mikið safn bóka og virðist vera bókasafn Jóns Sigurðssonar forseta.

 

 1. Ættartala Hjálmars, fagurlega skrifuð í bók og er með rithönd Jóns Sigurðssonar forseta. Ættartalan er 20-30 blaðsíður og hana fékk Hjálmar að gjöf frá Jóni forseta árið 1874.

 

Hér var áður sagt frá hinni blómlegu þilskipaútgerð sem rekin var frá Flateyri frá 1815 og fram undir 1835 (sjá hér bls. 10-12,19-26 og 41 og 43). Á árunum 1835-1856 átti heimafólk á Flateyri hins vegar engan hlut að skútuútgerð ef frá eru talin árin 1845-1847 (sjá hér bls. 55-56 og 59). Á þessu liðlega tuttugu ára skeiði var miðstöð skútuútgerðar Önfirðinga á Hvilft eins og hér hefur áður verið rakið.

Við komu Torfa Halldórssonar til Flateyrar árið 1857 varð hér aftur breyting á því Torfi átti þá hlut í tveimur eða jafnvel þremur skipum (sjá hér bls. 89-90) og var sjálfur skipstjóri á Lovísu allt til ársins 1859. Á árunum 1857-1865 átti Torfi jafnan nokkurn hlut í einni eða fleiri skútum en ómögulegt er nú að gera sér grein fyrir hvað þær voru margar. Þrjár er þó líklega hámark en samanlagt námu eignarhlutir Torfa á þessum árum frá hálfu skipi og upp í heilt skip.[1033] Þessir eignarhlutir hans voru hins vegar talsvert breytilegir frá einu ári til annars.[1034] Lovísa er eina skútan sem vitað er með vissu að Torfi átti hlut í á þessum árum en nokkrar líkur benda til þess að hann hafi þá þegar átt einhvern hlut í Hildu Maríu (sjá hér bls. 89-90). Báðar þessar skútur virðast þó hafa verið gerðar út frá Ísafirði á árunum upp úr 1860 eins og hér hefur áður verið nefnt (sjá hér bls. 90) og í rauninni er allt mjög óljóst um það hvort nokkur þilskipanna sem Torfi var meðeigandi að áttu sína heimahöfn á Flateyri fyrir 1865.

Á árunum 1865-1870 varð hins vegar mikil breyting á í þessum efnum en á því skeiði settist Hjálmar Jónsson kaupmaður að á Flateyri og setti þar á stofn fasta verslun (sjá hér bls. 96-97). Hjálmar og Torfi höfðu þá lengi verið sameignarmenn í útgerðinni eða allt frá árinu 1852 er þeir festu kaup á slúpskipinu Lovísu (sjá hér bls. 67-68). Á árunum kringum 1870 kom þessi sama Lovísa með vörur til Flateyrarverslunar á vorin og sigldi með afurðir á haustin en yfir sumarmánuðina var henni haldið til veiða (sjá hér bls. 106). Skipstjóri á Lovísu árið 1877 var danskur maður, Poul Jeppesen (eða Jespersen) Koch að nafni.[1035] Eftir 1877 verður þess hvergi vart í heimildum að gamla Lovísa hafi enn verið í eigu þeirra Hjálmars og Torfa en óvíst er hvað varð um skipið. Á árunum 1878-1880 lét Hjálmar Jónsson smíða fyrir sig nýtt skip í Vejle í Danmörku og hlaut það einnig nafnið Lovísa.[1036] Þessi nýja Lovísa var nokkru stærri en sú gamla eða 52 smálestir[1037] Á árunum 1880-1882 var Hjálmar með hana í flutningum milli landa eins og hér verður brátt vikið að en svo virðist sem hún hafi aldrei verið talin með fiskiskipum á Flateyri. Seinna var hún gerð út á hákarlaveiðar frá Ísafirði.[1038]

Í bréfum Hjálmars frá árunum 1880-1882 sést að hann er þá með tvö skip í vöru- og afurðaflutningum milli landa, Lovísu og Bogö.[1039] Bogö keypti Hjálmar vorið 1874.[1040] Það skip var 72,6 smálestir, skonnorta smíðuð í Korsør í Danmörku árið 1870.[1041] Bæði Lovísu og Bogö sendi Hjálmar með saltfisk til Spánar þegar henta þótti. Í bréfi sem hann skrifaði spænsku fyrirtæki í Barcelona síðla sumars árið 1881 segist hann senda það með Lovísu.[1042] Í öðru bréfi sem Hjálmar skrifaði 2. júní 1882 kveðst hann reikna með að senda annað hvort skipið til Spánar[1043] og í enn einu bréfi sem Hjálmar skrifaði 12. nóvember 1882 lætur hann þess reyndar getið að Bogö sé á leiðinni til þessa sólarlands við Miðjarðarhafið.[1044]

Á þessum fraktskipum Hjálmars voru danskir eða norskir skipstjórar og ekki er kunnugt um að íslenskir menn hafi verið í áhöfn þeirra þegar siglt var til Spánar. Hér var áður minnst á Poul Jeppesen (eða Jespersen) Koch sem var skipstjóri á hinni eldri Lovísu árið 1877 og ugglaust er það sami maður sem var skipstjóri á yngri Lovísu árið 1883 og er þá nefndur Poul Jespersen Koch.[1045] Skipstjóri þessi virðist hafa verið allmörg ár í þjónustu Hjálmars og það var hann sem sigla átti til Spánar haustið 1881.[1046]

Annar skipstjóri sem ætla má að Hjálmar hafi haft í sinni þjónustu hét C.N. Christensen og hefur ef til vill átt heima í Marstal á eynni Ærø, sunnan við Fjón, því þar var hann staddur um jólaleytið árið 1880.[1047] Í marsmánuði árið 1882 bauð Hjálmar stýrimanninum á Bogö, sem hét M.P. Jokumssen, að verða skipstjóri á Lovísu það ár[1048] en óljóst er hvort hann tók því boði.

Hér var áður frá því greint að árið 1870 hafi Lovísa eldri, hið gamla slúpskip Hjálmars og Torfa, verið höfð í vöru- og afurðaflutningum milli landa haust og vor en gerð út á veiðar frá Flateyri að sumrinu (sjá hér bls. 106). Þess verður hins vegar hvergi vart í heimildum að fraktskipin tvö sem Hjálmar átti á árunum kringum 1880 hafi verið gerð út á veiðar á þeim árum. Í opinberum skýrslum frá þessum árum virðast þau aldrei vera talin með fiskiskipum frá Flateyri. Sem dæmi má nefna að í skýrslu frá árinu 1880 eru þrjú þilskip sögð vera gerð út frá Önundarfirði og tekið fram að öll til samans séu 75 smálestir.[1049] Fraktskipin Lovísa og Bogö voru hins vegar um það bil 125 smálestir bæði til samans eins og hér hefur áður verið gerð grein fyrir svo að óhugsandi er að þau séu talin þarna með. Samtalan 75 smálestir passar hins vegar vel við stærð þriggja þilskipa, sem kunnugt er úr öðrum heimildum að stunduðu veiðar frá Flateyri þetta ár, en þau voru María, Hilda María og Svanurinn (sjá hér bls. 130).

Þegar Hjálmar Jónsson seldi Ásgeirsverslun á Ísafirði verslun sína á Flateyri haustið 1882 fylgdu bæði fraktskipin, Lovísa og Bogö, með í þeim kaupum.[1050] Lovísa mun hafa verið alllengi í eigu Ásgeirsverslunar og vera má að hið eldra skip Hjálmars og Torfa með því nafni hafi einnig komist í eigu þeirrar umsvifamiklu verslunar.[1051] Skonnortan Bogö, sem Hjálmar hafði nýtt til vöruflutninga milli landa í átta eða níu ár, nýttist Ásgeirsverslun hins vegar aðeins í nokkra mánuði því hún fórst árið 1883 og með henni fimm menn.[1052] Að skip þetta hafi farist árið 1883 er staðfest í hinni opinberu skipaskrá en þar er Bogö strikað út 24. september 1883 som forlist.[1053]

Á árunum milli 1870 og 1880 munu þrjú þilskip oftast hafa verið gerð út til veiða frá Flateyri. Eitt þessara skipa var Lovísa hin eldri, sem þó var einnig notuð til vöru- og afurðaflutninga yfir Atlantshafið (sjá hér bls. 106), en hin tvö voru skúturnar Hilda María og María. Hér hefur áður verið minnst á Hildu Maríu en vitað er að Hjálmar Jónsson átti einn sjötta part í því skipi árið 1859 (sjá hér bls. 89-90). Hilda María var eikarskip smíðað í Álaborg árið 1852[1054] Fyrsta aldarfjórðunginn var hún jakt en á árunum 1878-1879 voru gerðar á henni miklar endurbætur í Vejle í Danmörku og þá var henni breytt úr jakt í skonnortu.[1055] Hilda María var liðlega 30 smálestir (30,87) og árið 1879 taldist Hjálmar kaupmaður á Flateyri vera aðaleigandi hennar.[1056] Með afsali sem gefið var út 3. janúar 1883 urðu þeir Torfi Halldórsson á Flateyri og Kjartan Rósinkranzson frá Tröð hins vegar eigendur skipsins, Torfi að þremur fjórðu hlutum og Kjartan að einum fjórða.[1057] Hilda María mun hafa verið gerð út frá Flateyri fram að aldamótunum 1900 og ef til vill lítið eitt lengur[1058] en varð að lokum ósjófær og stóð þá alllengi uppi á kambi.[1059] Óljóst er hvenær farið var að gera Hildu Maríu út frá Flateyri en þess hefur áður verið getið að hún var keypt frá Danmörku til Ísafjarðar árið 1856 og frá Ísafirði var hún gerð út árið 1861 (sjá hér bls. 90). Líklegast er að Hilda María hafi fylgt Hjálmari Jónssyni kaupmanni frá Ísafirði til Flateyrar á árunum 1865-1870 og þaðan í frá hafi Torfi Halldórsson séð um að gera hana út. Í riti sínu Skútuöldinni segir Gils Guðmundsson að mágur Torfa, Magnús Össurarson sem fæddur var árið 1845, hafi hafið sinn skipstjóraferil á Hildu Maríu.[1060] Magnús ólst upp hjá Torfa á Flateyri frá 12 ára aldri (sjá hér bls. 153-158) og yfirgnæfandi líkur eru á því að Torfi hafi orðið fyrstur til að treysta þessum mági sínum fyrir skipi. Magnús varð 25 ára gamall árið 1870[1061] og má ætla að um það leyti hafi hann tekið við skipstjórn á Hildu Maríu. Í sóknarmannatölum er hann þó ekki nefndur skipstjóri fyrr en 1872.[1062]

Með hliðsjón af því sem hér hefur verið sagt má telja nær fullvíst að þrjú þilskip hafi verið gerð út frá Flateyri á árunum kringum 1870, það er að segja Lovísa og Hilda María og svo María sem var lítil skonnorta,[1063] smíðuð í Danmörku árið 1866. Um Maríu liggur allt nokkuð ljóst fyrir því að í ódagsettri útskrift frá skráningarskrifstofu í Kaupmannahöfn sést að skip þetta var smíðað úr eik í Kolding í Danmörku árið 1866 og með afsalsbréfi dagsettu 24. september þá um haustið urðu Hjálmar Jónsson, kaupmaður á Flateyri, og fleiri eigendur þess.[1064] Í öðrum heimildum má sjá að þeir sem áttu Maríu með Hjálmari voru Torfi Halldórsson og Arngrímur Jónsson í Ytri-Hjarðardal sem lengi var skipstjóri á þessari skútu.[1065] Arngrímur hefur að líkindum tekið við Maríu strax og hún kom til Flateyrar haustið 1866 eða vorið 1867[1066] en hann var þá 37 ára gamall og hafði verið skútuskipstjóri allt frá árinu 1858 eða jafnvel lengur (sjá hér Ytri- Hjarðardalur). Meðeigandi að skipinu hefur hann hins vegar ekki orðið fyrr en 1870 eða 1871 ef marka má búnaðarskýrslur (sjá hér Ytri-Hjarðardalur).

Nákvæmar upplýsingar um eignarhald á þessum þremur skipum, Lovísu, Hildu Maríu og Maríu, á árunum 1865-1880 liggja ekki á lausu. Ef taka ætti mark á búnaðarskýrslum yrði niðurstaðan sú að á árunum 1865-1870 hefði Torfi Halldórsson verið eini maðurinn í Mosvallahreppi sem átti hlut að skútuútgerð en eign hans á þessu skeiði þó aldrei verið nema á bilinu frá einum þriðja úr skipi og upp í eitt skip.[1067] Megingallinn á þessu er sá að í nýnefndum búnaðarskýrslum sést ekkert um skipaeign Hjálmars Jónssonar, eiganda verslunarinnar á Flateyri, en hann gæti sem best hafa átt eitt til tvö skip á þessum árum eins og sannanlegt er að hann átti síðar. Skýringin á því að Hjálmar er ekki talinn með mun vera sú að hann var jafnan úti í Danmörku meirihlutann úr árinu og ekki í bændatölu í Önundarfirði. Í búnaðarskýrslum frá árunum 1873-1878 er nafn Hjálmars ekki heldur að finna en þrír aðrir menn í Mosvallahreppi áttu þá ætíð hlut í einu eða fleiri þilskipum.[1068] Þeir voru Torfi Halldórsson á Flateyri, séra Stefán P. Stephensen í Holti og Arngrímur Vídalín Jónsson í Ytri-Hjarðardal.[1069] Samanlagt áttu þessir þrír menn liðlega eitt til tæplega eitt og hálft skip á þessum árum og árið 1878 eitt skip og tvo þriðju parta úr öðru.[1070] Á þessu skeiði var eignarhlutur Torfa lengst 5/6 úr skipi en Arngrímur átti jafnan einn fjórða part úr skipi.[1071] Ljóst er að Arngrímur skipherra var þátttakandi í útgerð þeirra Torfa og Hjálmars á Flateyri en séra Stefán virðist ekki hafa verið sameignarmaður þeirra. Einu þilskipin sem vitað er með vissu að hann átti verulegan hlut í eru Egill Skallagrímsson, sem fórst haustið 1880, og Anna Soffía sem gerð var út frá Ísafirði (sjá hér bls. 130-134).

Árið 1879 er Hjálmar, kaupmaður á Flateyri, fyrst nefndur í búnaðarskýrslu og þar sést að hann átti á því ári eitt þilskip og einn fjórða part úr öðru.[1072] Í þessari skýrslu er líka getið í fyrsta sinn um eignarhluti tveggja búlausra skipstjóra á Flateyri í þilskipaútgerðinni, þeirra Magnúsar Össurarsonar og Sveins Rósinkranzsonar, en þeir áttu þá sinn skipsfjórðunginn hvor.[1073] Hugsanlegt er að þeir hafi eignast hlut í skipi eitthvað fyrr en þess ekki verið getið í búnaðarskýrslum af því þeir voru búlausir menn. Tvímælalaust er að árið 1879 voru tvö og hálft þilskip í eigu Hjálmars og Torfa og þeirra þriggja manna sem vitað er að voru eða höfðu verið skipstjórar hjá þeim, þeirra Arngríms Vídalíns Jónssonar, Magnúsar Össurarsonar og Sveins Rósinkranzsonar.[1074] Á árinu 1880 lét Magnús Össurarson sinn eignarhlut af hendi en Torfi og Hjálmar bættu við sig þriðjungi úr skipi hvor.[1075] Eignarhlutur Torfa varð þá 5/6 hlutar úr skipi en Hjálmars eitt skip og 7/12 partar úr öðru.[1076] Til samans og að eignarhlutum skipstjóranna, Arngríms og Sveins, meðtöldum áttu þessir félagar tvö skip og 11/12 úr hinu þriðja er hér var komið sögu.[1077]

Árið 1878 keypti Hjálmar, kaupmaður á Flateyri, helming í Voninni, skútu sem gerð hafði verið út frá Flatey á Breiðafirði í nokkur ár.[1078] Þetta var 28 smálesta jakt sem á dönsku máli hét Haabet og var smíðuð í Noregi árið 1868 en keypt til Flateyjar fjórum árum síðar.[1079] Hlut sinn í Voninni átti Hjálmar í fjögur ár, 1878-1882, en sameignarmaður hans að því skipi var Jón Guðmundsson frá Mýrum í Dýrafirði sem þá var kaupmaður í Flatey.[1080] Í riti sínu Skútuöldinni segir Gils Guðmundsson að Vonin hafi verið gerð út frá Flateyri á árunum 1878-1882.[1081]

Sama ár og Hjálmar kaupmaður gerðist meðeigandi að Voninni keyptu fjórir Önfirðingar nýtt þilskip frá Danmörku og gáfu því nafnið Egill Skallagrímsson (sjá hér bls. 132-134). Egill fórst haustið 1880 en á því ári festi annar hópur Önfirðinga kaup á skonnortunni Svani og gerðu hana út í nokkur ár (sjá hér bls. 134). Sé Vonin talin með voru því yfirleitt gerð út fjögur þilskip frá Önundarfirði á árunum kringum 1880, það er að segja Hilda María og María sem áður var frá sagt og svo Vonin og Egill Skallagrímsson en haustið 1880 eða vorið 1881 kom Svanurinn í stað Egils. Í opinberum skýrslum frá þessum árum, 1879-1882, eru þilskip

Önfirðinga jafnan sögð vera þrjú eða fjögur[1082] og má vera að Vonin sé ekki alltaf talin með því hún var að hálfu í eigu Jóns Guðmundssonar, kaupmanns í Flatey, eins og hér var áður nefnt. Hinar opinberu tölur um skipafjölda Önfirðinga á þessum árum sýna hins vegar að slúpskipið Lovísa, sem Hjálmar Jónsson og Torfi Halldórsson keyptu árið 1852 (sjá hér bls. 89-90 og 126) hlýtur að hafa verið úr leik þegar hér var komið sögu. Augljóst er líka að fraktskipin tvö sem Hjálmar kaupmaður átti um 1880 (sjá hér bls. 126-127) hafa ekki verið talin með þegar gerð var grein fyrir þilskipaflota Önfirðinga í opinberum skýrslum.

Í einni heimild er frá því greint að skútan Guðrún, sem smíðuð var að fyrirlagi Hjálmars kaupmanns, hafi gengið um skeið frá Flateyri[1083] en það skip hefur líklega alltaf verið skráð á Ísafirði, enda var Lárus Á. Snorrason, kaupmaður þar, löngum talinn aðaleigandi þess.[1084] Árið 1874 keypti Lárus verslunina sem Hjálmar Flateyrarkaupmaður átti á Ísafirði (sjá hér bls. 94) og í marktækum heimildum er fullyrt að Guðrún hafi verið elsta fiskiskip Lárusar[1085] og hann hafi eignast þessa góðu skútu á fyrstu kaupmannsárum sínum.[1086] Efamál verður því að telja hvort Guðrún hafi nokkru sinni verið gerð út frá Flateyri en tvímælalaust er að Hjálmar kaupmaður átti hana hálfa á móti Lárusi í janúarmánuði árið 1885 og getur hann þess sjálfur í bréfi.[1087]

Á árunum kringum 1880 voru skúturnar frá Flateyri enn gerðar út á hákarlaveiðar[1088] og svo mun löngum hafa verið á samstarfsárum þeirra Torfa og Hjálmars. Sjö til tíu menn virðast þá hafa verið í áhöfninni á hverju skipi því að í opinberum skýrslum eru skipverjar þriggja skipa úr Önundarfirði ýmist sagðir hafa verið samtals 23 eða 28 á árunum 1880-1883.[1089]

Hér hafa áður verið nefndir þrír skipstjórar hjá útgerð Torfa og Hjálmars á Flateyri, þeir Arngrímur Vídalín Jónsson, Magnús Össurarson og Sveinn Rósinkranzson, sem allir voru líka meðeigendur í þessari útgerð um lengri eða skemmri tíma og áttu þá oftast einn fjórða part úr skipi hver. Annars staðar í þessu riti er sagt nánar frá öllum þessum skipstjórum (sjá hér bls. 153-158, Ytri-Hjarðardalur og Hvilft) en vitað er að bæði Arngrímur og Sveinn Rósinkranzson voru skipstjórar á Maríu og Magnús Össurarson á Hildu Maríu um eitthvert skeið.[1090] Á Voninni var Kristján Kristjánsson, bóndi í Stapadal í Arnarfirði, skipstjóri um lengri eða skemmri tíma á þeim árum sem Hjálmar kaupmaður á Flateyri átti hlut að útgerð hennar.[1091]

Á árunum 1872-1876 var Magnús Össurarson eini starfandi skútuskipstjórinn sem búsettur var á Flateyri en Sveinn Rósinkranzson frá Tröð, sem settist hér að árið 1877, er titlaður skipherra í sóknarmannatali frá desembermánuði á því ári.[1092] Þriðji skipstjórinn, Ebenezer Sturluson, fluttist svo hingað árið 1879 eða 1880 og sá fjórði, Kjartan Rósinkranzson, sem var bróðir Sveins, árið 1883.[1093] Frá Ebenezer og Kjartani er sagt  hér á öðrum stað (sjá hér bls. 158-164) en þess skal getið að Magnús Össurarson var í allmörg ár skipstjóri á skútum frá Ísafirði og Kjartan á skútu frá Dýrafirði[1094] þó að búsettir væru á Flateyri.

Hér verður nú áður en langt um liður settur punktur aftan við þátt Hjálmars Jónssonar í útgerðarsögu Önfirðinga en áður en það verður gert mun vera hyggilegt að skyggnast um og skoða hvaða aðrir Önfirðingar en þeir sem voru í samstarfi við Hjálmar kynnu að hafa átt hlut að skútuútgerð á þeim árum sem hann rak verslun á Flateyri, árunum 1867-1882. Áður var reyndar frá því greint að séra Stefán P. Stephensen í Holti hefði átt hlut í þilskipum frá því á árunum upp úr 1870 og allt þar til hann fluttist burt úr Önundarfirði árið 1884. Á árunum 1873-1877 átti prestur jafnan einn þriðja part í skipi en árið 1878 bætti hann við sig einum fjórða parti og svo enn þriðjungi úr skipi árið 1880 ef marka má búnaðarskýrslur og vantaði þá aðeins einn tólfta part til að eiga sem svaraði heilu skipi.[1095] Fullvíst má telja að skipið sem séra Stefán eignaðist að einum fjórða árið 1878 hafi verið skonnortan Egill Skallagrímsson, því það skip var keypt nýtt frá Danmörku á því ári og vitað er að presturinn í Holti var þá einn fjögurra eigenda þess.[1096] Hinir þrír eigendurnir voru Magnús Össurarson skipstjóri, Sveinn Rósinkranzson skipstjóri og Jón Guðmundsson verslunarmaður, allir búsettir á Flateyri.[1097] Allir eigendurnir áttu í fyrstu jafn stóran hlut í skipinu, einn fjórða part hver.[1098] Egill Skallagrímsson var 26,6 smálesta eikarskip, smíðað í Rudkjøbing í Danmörku árið 1878.[1099]

Skipstjóri á Agli sumarið 1880 var Sæmundur Kristjánsson frá Efrihúsum í Hestþorpinu í Önundarfirði[1100] en bróðir Sæmundar, Bjarni H. Kristjánsson, var þá skipstjóri á skútunni Önnu Soffíu sem gerð var út frá Ísafirði.[1101] Báðir höfðu þeir bræður lokið prófi í stýrimannafræðum frá sjómannaskólum í Danmörku árið 1878 og lærði Bjarni í Bogö en Sæmundur í Fanö.[1102]

Um 10. september 1880 töldu þeir bræður vertíðinni vera lokið og lágu með skipin inni á Dýrafirði því til stóð að setja þau á land á Þingeyri.[1103] Séra Stefán P. Stephensen í Holti, sem átti þá fullan helming í Agli Skallagrímssyni og einn þriðja í Önnu Soffíu,[1104] kom til Þingeyrar þegar menn voru að búa sig undir að setja skipin á land og fór þess eindregið á leit við Sæmund og Bjarna að þeir færu í eina veiðiferð enn.[1105] Sæmundur var tregur til því unnusta beið hans heima og þau ætluðu að fara að gifta sig alveg á næstu dögum.[1106] Samt lét hann til leiðast og ákvað Bjarni bróðir hans þá að fara líka.[1107] Þann 12. september héldu þeir til hafs en daginn eftir skall á norðan stórviðri með miklu frosti.[1108] Í þessu ofsaveðri fórst Egill Skallagrímsson, hið vel búna skip prestsins í Holti og sameignarmanna hans, með átta manna áhöfn og bjargaðist enginn þeirra.[1109]  Í stað brúðarsængurinnar sem Sæmundur skipstjóri átti í vændum hlaut hann vota gröf. Þegar Sæmundur drukknaði var hann 31 árs að aldri og átti heima hjá móður sinni í Efrihúsum.[1110] Af mönnunum sjö, sem drukknuðu með Sæmundi, voru fimm búsettir í Mosvallahreppi, allt vinnumenn.[1111]

Í margar vikur frétti heimafólk í Ísafjarðarsýslu ekkert af skipunum tveimur sem lagt höfðu upp frá Dýrafirði þann 12. september og þar kom að báðir bræðurnir og allir þeirra menn voru taldir af.[1112] En þegar komið var undir jól og þrettán vikur liðnar birtust þrír af hásetunum á Önnu Soffíu í Dýrafirði og höfðu komið gangandi með sunnanpósti frá Reykjavík.[1113] Í fárviðrinu sem braut allt ofan af skipinu hafði þrjá menn úr skipshöfninni tekið út, tvo í Látraröst og hinn þriðja suður við Geirfuglasker.[1114] Einn þeirra var stýrimaðurinn, Kristján Jónsson, sonur Jóns Bjarnasonar, skipstjóra frá Rana í Dýrafirði.[1115] Fjórir lifðu af og komust að lokum inn til Reykjavíkur eftir langan hrakning.[1116] Þar hafði Bjarni skipstjóri orðið eftir til að fylgjast með viðgerðum á skipinu þegar hásetar hans þrír sem eftir lifðu lögðu upp í gönguna löngu.[1117] Einn þeirra var frá Arnarnúpi í Keldudal í Dýrafirði og þegar hann kom loks heim voru erfingjarnir búnir að selja rúmfötin hans og allt það litla sem hann hafði átt.[1118]

Bæði Egill Skallagrímsson og Anna Soffía voru óvátryggð[1119] og urðu eigendur Egils því fyrir mjög verulegu fjárhagstjóni. Einn þeirra var Sveinn Rósinkranzson, skipstjóri á Flateyri, eins og hér hefur áður verið nefnt. Að skaða hans víkur Hjálmar Jónsson kaupmaður í bréfi er hann ritaði Torfa Halldórssyni 12. janúar 1881. Hjálmar segir þar: Ég kenni í brjósti um Svein. Honum varð þetta sár skaði eftir hans efnum.[1120]

Bjarni H. Kristjánsson frá Efrihúsum, sem var skipstjóri á Önnu Soffíu og tókst að halda skipi sínu á floti við illan leik þegar bróðir hans fórst, átti þá mörg ár ólifuð. Næstu árin var hann heimilisfastur hjá móður sinni í Efrihúsum[1121] en var þá skipstjóri á þilskipi frá Ísafirði.[1122] Seinna fluttist hann til Ísafjarðar og þar var hann kosinn í bæjarstjórn árið 1901.[1123] Fullu nafni hét hann Bjarni Hermann og drukknaði í fiskiróðri á opnum báti frá Ísafirði 7. janúar 1905.[1124]

Egill Skallagrímsson var annað tveggja þilskipa sem menn úr Önundarfirði réðust í að kaupa á árunum 1878-1881 án sjáanlegra tengsla við útgerð Hjálmars og Torfa á Flateyri. Hitt skipið var Svanur sem sjö Önfirðingar keyptu frá Eyjafirði[1125] (sjá hér Kirkjuból í Valþjófsdal). Helsti hvatamaður að þeim kaupum var Jón Sveinbjörnsson, skipstjóri frá Kirkjubóli í Valþjófsdal, ungur maður á þrítugsaldri, en hann andaðist úr mislingum vorið 1882. Að Jóni látnum varð Bóas Guðlaugsson skipstjóri á Svaninum en hann var einn þeirra sjö sem keypt höfðu skipið (sjá hér Kirkjuból í Valþjófsdal). Skonnortan Svanur kom til Önundarfjarðar árið 1880 eða 1881[1126] og var aðeins gerð út héðan í nokkur ár en skömmu fyrir 1889 keyptu nokkrir þeirra sem verið höfðu eigendur hans hlut í skonnortunni Sigríði sem gerð var út frá Ísafirði.[1127] Önfirðingarnir sem eignuðust hlut í Sigríði voru þessir: Guðmundur Jónsson á Kaldá, Halldór Guðmundsson á Þórustöðum og bræðurnir Bóas og Páll Guðlaugssynir.[1128] Saman áttu þessir fjórir menn nær hálft skipið en sameignarmenn þeirra voru árið 1889 búsettir á Ísafirði, í Hnífsdal og Bolungavík og inni í Djúpi.[1129] Áður hafði Sigríður verið í eigu Ásgeirsverslunar á Ísafirði.

 

Hér var áður frá því greint að haustið 1882 hefði Ásgeirsverslun á Ísafirði keypt verslunina á Flateyri af Hjálmari Jónssyni og frá byrjun ársins 1883 hefði hún verið rekin sem útibú (sjá hér bls. 114-115). Torfi Halldórsson, sem verið hafði verslunarstjóri hjá Hjálmari, gegndi því starfi áfram fyrsta árið eftir eigendaskiptin en á árinu 1884 tók nýr verslunarstjóri við rekstri útibúsins á Flateyri.[1130] Ásgeir G. Ásgeirsson, sem oft var nefndur Ásgeir yngri, var þá forstjóri Ásgeirsverslunar og svo virðist sem eitthvert ósamkomulag hafi valdið því að Torfi hætti sem verslunarstjóri. Um hvað ágreiningurinn snerist vita nú fáir eða engir en í riti sínu Skútuöldinni segir Gils Guðmundsson frá atburðum á þessa leið:

 

Hjálmar Jónsson hafði áskilið það er hann seldi verslun sína að Torfi Halldórsson yrði verslunarstjóri áfram eins og verið hafði. Snemma tók að bera á ágreiningi milli Torfa og hinna nýju eigenda er lauk á þann veg að forstjóraskipti urðu skyndilega [þ.e. útibússtjóraskipti – innsk. K.Ó.] . … Ekki sat Torfi auðum höndum eftir að hann fór frá versluninni. Skildu menn það á ýmsu að ekki myndi hann gráta það mjög þótt hinir nýju eigendur græddu lítt á kaupunum.

Keypti hann nú allmikið af byggingarefni, réð til sín smiði og reisti verslunarhús beint á móti húsi Ásgeirsverslunar og var ekki steinsnar á milli. Strax og smíðinni var lokið keypti hann allmikið af vörum og hóf harða samkeppni við hitt fyrirtækið. Hleypti þetta allmiklu fjöri í verslun alla og viðskipti og hrósuðu Önfirðingar happi því að aldrei hafði vöruverð verið hagkvæmara en þá.[1131]

 

Ætla má að sannleiksbrot leynist í þessari frásögn en sá galli er á að Torfi Halldórsson var ekki eigandi verslunarinnar sem hér er frá sagt því hana átti norskur maður, J. Uglehus að nafni, eins og hér verður nú sýnt fram á. Fullvíst má hins vegar telja að Torfi hafi verið verslunarstjóri. Heimildirnar sem sýna að það var Uglehus sem hóf verslunarrekstur á Flateyri árið 1885 eru af tvennum toga. Þar er fyrst að nefna bréf Hjálmars Jónssonar til Torfa Halldórssonar, skrifuð 28. júlí og 4. nóvember 1885[1132] og síðan uppskriftina frá 28. júlí 1886 á þrotabúi J. Uglehus á Flateyri.[1133] Uppskriftargerðin sýnir að Uglehus átti reyndar líka hlut í lýsisbræðslunni sem sett var upp á Flateyri árið 1885 svo og í tveimur hinna þriggja þilskipa sem keypt voru til Flateyrar frá Noregi á því ári[1134] (sbr. hér bls. 144-148 og  166-174.

Í bréfi sem Hjálmar Jónsson sendi til Flateyrar frá Kaupmannahöfn 4. nóvember 1885 segir hann meðal annars:

 

Ekki fór heppilega fyrir skipi Uglehus. Hér er altalað að bæði hann og skipherrann hafi verið heldur mikið með í því spili. Það er verst að þið hafið baga af að fá ekki þær vörur sem þið áttuð að hafa. Ég hef af afspurn frá því fyrsta ekki haft traust á Uglehus og því gleður það mig að heyra af þínu góða bréfi að þú heldur að þú og Sveinn minn sleppið skaðlausir frá viðskiptum ykkar við hann.[1135]

 

Þessi orð Hjálmars sýna að árið 1885 hafa þeir Torfi og Sveinn Rósinkranzson á Flateyri átt í viðskiptum við Uglehus þann sem nefndur er í bréfinu og hann meðal annars tekið að sér að sjá um vörusendingu til Flateyrar. Af orðunum sem til var vitnað má ráða að sá flutningur hafi ekki gengið áfallalaust og síðar í sama bréfi bætir Hjálmar við þessum orðum:

 

Í dag frétti ég að Uglehus hefði sloppið sem frí. Það gladdi mig ykkar vegna og vegna hans familíu því ólíkt hægra verður ykkur að klára sakir ykkar við hann sem frjálsan mann heldur en dæmdan. Um hvort álit hans batnar sést með tímanum.[1136]

 

Í öðru bréfi sem Hjálmar skrifaði á árinu 1885 sést að Uglehus var Norðmaður og það var í samvinnu við hann sem Torfi kom upp gufulýsisbræðslu innan við Flateyri árið 1885 (sjá hér bls. 166-167).

En hver var hann þessi Norðmaður sem hóf verslunarrekstur á Flateyri árið 1885 og réðst í að kaupa þrjár nýjar skútur í samvinnu við Torfa og fleiri Önfirðinga? Skýr svör við þeirri spurningu liggja því miður ekki á lausu en sitthvað er þó um hann vitað. Í íslenskum heimildum verður fyrst vart við J. Uglehus árið 1883 en í lok þess árs var hann skráður til heimilis á Ísafirði og sagður vera sjómaður.[1137] Hann var þá einn síns liðs.[1138] Veturinn 1884-1885 mun Uglehus að líkindum hafa dvalist í Noregi því að í embættisbók prestsins á Eyri í Skutulsfirði er hann sagður flytjast þaðan til Ísafjarðar árið 1885.[1139] Að því sinni hafði hann eiginkonuna og þrjú börn þeirra með og að auki tvo norska vinnumenn.[1140]

Við lok ársins 1885 átti allt þetta fólk heima í kaupstaðnum á Ísafirði og þá segir prestur húsbóndann vera kaupmann, 40 ára að aldri.[1141] Í sóknarmannatölum Eyrarprestakalla frá árunum 1883 og 1885 er Norðmaður þessi reyndar nefndur J. Uglehuus með tveimur u-um í síðari hluta nafnsins og má vera að sú mynd þess sé hin rétta. Eiginkona hans hét Thomine Amalie og var tíu árum yngri en hann.[1142] Dætur þeirra tvær báru nöfnin Jeanette Amanda og Anne Dorothea.[1143] Þær voru 7 og 8 ára gamlar við lok ársins 1885 en þriðja barnið var drengur, Sjelderup að nafni, sem þá var 3ja ára.[1144]

Sóknarmannatalið frá 31.12.1885 sýnir að Uglehus hefur staðið í þó nokkrum stórræðum því á heimili hans voru þá fjórir aðrir Norðmenn á aldrinum 20-40 ára og eru þeir allir sagðir vera vinnumenn hans,[1145] hver svo sem störf þeirra hafa í raun verið. Á heimilinu voru svo líka einn íslenskur vinnumaður, Jón Jónsson, þrítugur að aldri, og tvítug vinnustúlka sem hét Petrína Halldórsdóttir.[1146]

Í íslenskum blöðum frá árinu 1885 er a.m.k. einu sinni minnst á Uglehus en það er í Þjóðólfi frá 16. október á því ári. Þar segir:

 

Uglehus, norskur kaupmaður á Ísafirði, er tekinn fastur af bæjarfógeta (SkúlaThoroddsen) grunaður um tilraun til að svíkja „assurance” félag. Hafði fengið skip upp með vörur til hans og á Önundarfjörð. Skipið fórst á leið frá Ísafirði til Önundarfjarðar en Uglehus hafði skýrt frá að hann hefði skipað í land á Ísafirði talsvert minni vöru en í raun og veru var og hefði þannig meira átt að farast með skipinu en fórst. Skipstjóri hafði gengið við því fyrir rétti að hann eftir strandið hefði tekið í land nokkuð af vörum „til að standa sjálfur assurance-félaginu skil á þeim.(!)”[1147]

 

Ljóst er að Uglehus hefur verið handtekinn á Ísafirði vegna meintrar tilraunar til tryggingasvika en að því sinni mun hann hafa sloppið sem frí eins og Hjálmar Jónsson kemst að orði í bréfi sínu til Torfa á Flateyri, rituðu 4. nóvember 1885 og hér var áður vitnað til.

Flest bendir til þess að verslun J. Uglehus á Flateyri hafi aðeins verið starfrækt sumarið 1885 eða til loka þess árs og tvímælalaust er að um mitt sumar árið 1886 var hún komin í þrot.[1148] Þegar þrotabú kaupmanns J.Uglehus hér á stað var skrifað upp á Flateyri í lok júlí þá um sumarið voru eignir þess virtar á 9.503,57 krónur,[1149] það er 92 kúgildi.[1150]

Helstu eignir hans á Flateyri voru þá þessar: Hálft þilskipið Jeanette 3.500,- krónur, 3/8 í þilskipinu Flairam 2.362,50 krónur, útistandandi skuldir samkvæmt verslunarbókum 997,70 krónur, geymsluhús – eigi fullsmíðað 900,- krónur, 1/3 í gufulýsisbræðslu og tækjum sem henni fylgdu 747,83 krónur.[1151]

Í skránni yfir eignir Norðmannsins á Flateyri kennir annars margra grasa. Auk vöruleifa og hvers kyns verslunaráhalda má nefna: Gamlan karlmannafatnað og eitt vesti, smiðju og ameríkanskan bát með tveimur árum.[1152]

Frá skipunum tveimur sem Uglehus átti hlut í, Jeanette og Flairam, er sagt hér á öðrum stað (sjá hér bls. 145-150) svo og frá lýsisbræðslunni (sjá bls. 167-175). – Geymsluhúsið,  sem svo er nefnt í uppskriftinni frá 28. júlí 1886, stóð á Flateyri í 37 ár eða allt til ársins 1922 og var lengi nefnt Uglehus hús (sjá hér bls. 205-206). Því var í fyrstu ætlað að vera hvort tveggja í senn vörugeymsla og sölubúð og er í annarri heimild skilgreint á dönsku máli sem Pakhus med Butikslocale (sjá hér bls. 202).

Fullvíst má telja að allar eignir J. Uglehus á Flateyri, sem um er getið í uppskriftargerðinni frá sumrinu 1886, hafi verið boðnar upp. Uppboðsbók sýslumannsins í Ísafjarðarsýslu frá þessum árum mun hins vegar vera glötuð svo ekki er unnt að sjá hvað um þær varð. Þó er vitað að Torfi Halldórsson keypti sjálft verslunarhúsið á uppboði, það er pakkhúsið sem sölubúðin var í (sjá hér bls. 202 og 205-206). Eignarhlutir Norðmannsins í skipunum sem hér voru nefnd gengu líka til Torfa og/eða sameignarmanna hans (sjá hér bls. 145-147).

Þegar fjárnám var gert í eignum J. Uglehus á Flateyri seint í júlímánuði árið 1886 og þær skrifaðar upp mun hann hafa verið horfinn úr landi. En kona hans var hér enn eins og sjá má í dagbók Sighvats Grímssonar Borgfirðings á Höfða í Dýrafirði en hann skrifar þar 1. september 1886: Dampurinn kom með Ameríkuskip inn á lag. Og þremur dögum síðar:

 

Um kveldið komu þeir Jakobsen og Tomson og keyptu 4 potta af mjólk fyrir frú Uglehus sem fer nú með þeim Marsell til Ameríku en maður hennar er strokinn til Ameríkumanna að menn ætla.[1153]

 

Orð Sighvats sýna að í byrjun september hefur frú Uglehus verið komin til Dýrafjarðar til að ná í Ameríkuskipið sem þar lá og mjólkurkaupin benda til þess að hún hafi verið með börnin með sér. Í prestsþjónustubókinni frá Ísafirði er J. Uglehus og öll fjölskylda hans sögð hafa flust til Ameríku árið 1886[1154] svo að hér er ekki um að villast. Gamanið sem menn höfðu af Uglehus á Flateyri stóð því stutt.

Eitt af því sem Uglehus skildi eftir á Flateyri þegar hann hvarf úr augsýn lánardrottna sinna og strauk til Ameríku var amerískur bátur með tveimur árum eins og hér var áður nefnt. Þennan bát hlýtur Uglehus að hafa fengið hjá hinum amerísku sjómönnum frá Gloucester í Massachusetts á austurströnd Bandaríkjanna sem stundu lúðuveiðar á Vestfjarðamiðum á hverju sumri frá 1884-1897. Sumarið 1884 voru þrjár bandarískar skonnortur á lúðuveiðum hér við land og höfðu a.m.k. tvær þeirra bækistöð á Ísafirði.[1155] Næsta sumar voru fimm skonnortur frá Gloucester við lúðuveiðar á Vestfjarðamiðum[1156] en flestar munu þær hafa orðið þrettán.[1157]

Í skýrslu bandarískrar fiskveiðinefndar um lúðuveiðarnar við Íslandsstrendur sumarið 1884 er greint frá sérstökum tengslum hinna amerísku lúðuveiðara við Norðmanninn Egelhus sem þá var búsettur á Ísafirði.[1158] Könnun á sóknarmannatölum leiðir í ljós að þar getur vart verið um nokkurn annan mann að ræða en J. Uglehus því enginn annar Norðmaður með álíka nafni átti heima í Ísafjarðarkaupstað á árunum 1883-1885.[1159] Í ritgerð frá 1987 gerir Ragnheiður Mósesdóttir grein fyrir því helsta sem ritað var um lúðuveiðarnar hér við land árið 1884 í skýrslu bandarísku fiskveiðinefndarinnar frá því ári og segir m.a.:

 

Skipin þrjú sem fóru til Íslands voru: Alice M. Williams, 78 tonn, Concord 94 tonn, og David A. Story, 87 tonn. … Alice M. Williams varð að vonum fyrst á vettvang, kom til Ísafjarðar 25. maí. Ekki var allt unnið þótt komið væri á Íslandsmið. Á Ísafirði var skipstjóranum tilkynnt að bandarískum skipum væri óheimilt að taka vatn og vistir, landa salti eða koma í íslenska höfn nema einhver búsettur á landinu tæki skipið á leigu. Það varð svo að vera og var skipið leigt Egelhus nokkrum, Norðmanni sem bjó á Ísafirði. Honum voru greiddar 400,- krónur fyrir vikið en í staðinn fékk skipið leyfi til að landa salti, taka vatn og vistir, fara inn á íslenskar hafnir og veiða innan þriggja mílna landhelgi.[1160]

 

Hinar skonnorturnar tvær þurftu líka að greiða 400,- krónur hvor fyrir sams konar fyrirgreiðslu[1161] en ekki liggur ljóst fyrir hvort J. Uglehus fékk alla þá fjármuni í sinn hlut. Líklegt er þó að svo hafi verið og um tengsl hans við amerísku lúðuveiðarana þarf ekki að efast. Hann náði hins vegar ekki að verða umboðsmaður þeirra hérlendis til frambúðar því árið 1885 færðu þeir miðstöð sína hérlendis frá Ísafirði til Þingeyrar[1162] og þá þegar mun N. Chr. Gram, Þingeyrarkaupmaður, hafa tekið við því hlutverki sem J. Uglehus hafði áður. Árið 1886 var Gram svo gerður að ræðismanni Bandaríkjanna hérlendis.[1163] Á því ári voru hinar litlu eignir Norðmannsins á Flateyri hins vegar teknar til gjaldþrotaskipta og seldar á uppboði eins og hér hefur áður verið rakið.

Mjög líklegt verður að telja að Torfi Halldórsson hafi orðið fyrir ærnum vonbrigðum í samskiptum sínum við J. Uglehus. Hann lagði þó ekki árar í bát en hélt ótrauður áfram við leit að úrræðum í verslunarmálum Önfirðinga.

Í blaðinu Þjóðviljanum birtust haustið 1887 tvær greinar án höfundarnafns sem sýna að sumarið 1886 hafði Torfi forystu um stofnun sameignarfélags þilskipaeigenda á Flateyri og réðst í að panta vörur erlendis frá á þess vegum. Með þessum hætti reyndi hann enn að veita útibúi Ásgeirsverslunar á Flateyri nokkra samkeppni.

Í fyrri Þjóðviljagreinninni segir að ýmsir Önfirðingar hafi gengið í pöntunarfélag undir forystu herra Torfa Halldórssonar og hafi bændur sem voru með menn á hákarlaskipunum átt að fá kaup þeirra greitt með vörum og þær seldar á lægra verði en kaupmenn byðu upp á.[1164] Höfundur greinarinnar segir síðan:

 

Fyrirtæki þetta mun nú mega telja komið um koll. Félaginu brugðust með öllu vörur þær er það átti von á í haust og mátti því heita nær matvörulaust í Önundarfirði ef hin ötula verslun Á. Ásgeirssonar á Ísafirði hefði eigi brugðið við og sent skipið „Ane Sophie” þangað með nokkuð af kornvöru. Það er vatn á myllu kaupmanna þegar fyrirtæki sem sýnast stofnuð almenningi til heilla fara þannig að forgörðum.[1165]

 

Eins og sjá má er grein þessi ekki vinsamleg í garð Torfa en hún sýnir í aðalatriðum hver hugmyndin á bak við stofnun félagsins var og hvílíku áfalli það varð fyrir þegar vörusendindingin brást haustið 1887. Orð greinarhöfundar um vöruþurrðina í Önundarfirði þá um haustið benda til þess að býsna margir Önfirðingar hafi gengið í félagið og treyst á forsjá Torfa um innkaup á vörum og flutning þeirra til landsins.

Í svargrein sem birtist í Þjóðviljanum 26. nóvember 1887 er gerð mun nánari grein fyrir áðurnefndu félagi sem að sögn höfundar þeirrar greinar var stofnað sumarið 1886 og hét reyndar Þilskipafélag Flateyringa.[1166] Í þessari síðari grein koma fram margar merkilegar upplýsingar um starfsemi félagsins og segir þar meðal annars svo:

 

Í fyrra sumar gengu nokkrir þilskipaeigendur á Flateyri í félag er þeir nefndu „Þilskipafélag Flateyringa”. Félag þetta hefur hingað til verið rekið undir forustu Torfa Halldórssonar er mestan hlut á í því. Tilgangur félagsins var meðal annars sá að gera tilraun til að útvega skipum þessum og eigendum þeirra nauðsynjar með vægara verði en þá tíðkaðist. En hann var einnig sá að reyna til að koma í veg fyrir hið sílækkandi verð á afurðum skipa þessara með því að bæta vöruverkunina. …

Að félaginu hafi áunnist nokkuð, bæði hvað verð á útlendri og innlendri vöru snertir, munu jafnvel eigi mótstöðumenn félags þessa, séu þeir nokkrir, dirfast að neita.

Þilskip, útvegur, bræðsluverk og önnur áhöld félags þessa kosta rúmlega 50.000,- krónur. Það hefur í ár flutt út lýsi fyrir yfir 16.000,- krónur að ótöldum kostnaði. Lýsi þess hefur bæði í fyrra og ár selst betur en annað lýsi frá Vesturlandinu. Félagið hefur í sumar veitt um 40 mönnum fasta atvinnu og er ég rita línur þessar goldið þeim á tólfta þúsund krónur í kaupgjald. Að auki hefir það goldið daglaunamönnum um 1.500,- krónur. … Upplýsingar þessar munu nægja til þess að sýna að félag þetta er eigi komið um koll eins og komist er að orði í greinarkorninu.[1167]

 

Allt sýnir þetta að Þilskipafélag Flateyringa, sem Torfi gekkst fyrir að stofna sumarið 1886, hefur um skeið verið býsna öflugur félagsskapur og haft með höndum bæði innkaup á nauðsynjavörum og sölu á afurðum.

Höfundur síðara Þjóðviljagreinarinnar skýrir einnig frá því að árið 1887 hafi félagið fengið um 80% af öllu korni sem það þurfti beint frá Kaupmannahöfn þó að síðasta vörusendingin sem það átti að fá á því ári með Thyru hafi brugðist.[1168] Til þess að fylla í það skarð varð félagið að kaupa matvöru á hærra verði hjá verslunum á Ísafirði og Þingeyri og varð af þeim ástæðum fyrir nokkrum skaða.[1169] Eins og fram hefur komið var félag þetta fyrst og fremst samtök nokkurra manna í Önundarfirði sem áttu hlut í einu eða fleiri þilskipum en allir sem hlut áttu að taka af skipum þess munu þó hafa átt kost á að fá  hásetahlut sinn greiddan í vörum á sama verði og félagsmenn ef þeir kærðu sig um.[1170] Það boð þáðu margir sumarið 1887 en snerust öndverðir gegn félaginu um haustið þegar vörusendingin með Thyru brást.

Höfundur greinarinnar sem birtist í Þjóðviljanum 26. nóvember 1887 segir svo frá málalyktum þá um haustið:

 

Til þess að gera enda á allri þrætu bauð félagið mönnum hvern kostinn þeir vildu heldur að fá lýsishlut sinn útborgaðan með hér verandi lýsisverði, 27,- kr. tunnan, og svo þá vöru er þeir þegar höfðu fengið pantaða með algengu kaupstaðarverði hér – eða þá að þeir héldu samning sinn við félagið og fengju vöru fyrir lýsi það er sent var fyrir þeirra reikning til Hafnar í sumar með fyrstu gufuskipsferð næsta vor.

Að fjöldinn hafi gleypt við fyrri kostinum segir sig sjálft, sökum þess að þar var boðið meira fyrir lýsistunnuna í krónutali en hægt var að lofa þeim fyrir hana ef lýsið væri sent fyrir þeirra reikning. Og það gerðu jafnvel þeir menn er pöntunarreikning höfðu í höndunum er sýndi þeim og sannaði að þeir fengju meiri vöru fyrir hlut sinn með því að halda samning sinn við félagið. Enginn mun lá félagi þessu þótt það næsta ár verði tregara til að leggja nokkuð í sölurnar fyrir þann hluta almennings er nú launaði því fyrirhöfn þess og greiðvikni með því að setja því ókosti. … Ekki er gott að koma mörgum þverhöfðum í einn hatt, segja menn. Það hefir oft verið reynt til að koma mönnum í verslunar- og pöntunarfélag hér vestra en ætíð hefir það mistekist meira og minna hrapallega.[1171]

 

Í bók sinni Aldarfar og örnefni í Önundarfirði segir Óskar Einarsson læknir að Þilskipafélag Flateyringa er hann nefnir Pöntunar- og þilskipafélag Önfirðinga hafi aðeins starfað í eitt ár.[1172] Eftir 1887 hefur starfsemi félagsins því líklega engin verið en Torfi og nokkrir skipstjórar á Flateyri höfðu áfram samvinnu um þilskipaútgerð eins og hér verður brátt vikið að og hann hélt áfram að panta vörur frá útlöndum fyrir sig og fleiri. Eiginlegan verslunarrekstur mun Torfi hins vegar ekki hafa byrjað þar fyrr en fáum árum síðar (sjá hér bls. 175-176). Skútuútgerðin var hins vegar alltaf meginþátturinn í rekstri Torfa og sýnist því eðlilegt að segja fyrst frá henni.

Hér hefur áður verið sagt frá uppruna Torfa Halldórssonar, ferli hans sem skútuskipstjóra og forstöðumanns fyrsta sjómannaskólans á Íslandi og líka frá kaupum hans á jörðinni Eyri og verslunarstaðnum Flateyri árið 1858 (sjá hér bls. 63-82). Áður hefur líka verið fjallað um fyrstu ár Torfa á Flateyri og samvinnu þeirra Hjálmars Jónssonar við verslunarrekstur á árunum 1867-1882 og við þilskipaútgerðina frá Flateyri sem Torfi stjórnaði á því skeiði. Þegar Ásgeirsverslun á Ísafirði yfirtók verslunarreksturinn á Flateyri í byrjun ársins 1883 áttu Torfi og félagar hans tvö þilskip, Maríu og Hildu Maríu.[1173]  Bæði þessi skip höfðu þá lengi verið gerð út frá Flateyri og hér hefur áður verið sagt nokkuð frá þeim. Við uppgjör og eignaskipti milli Torfa og Hjálmars Jónssonar í lok ársins 1882 urðu Torfi og Kjartan Rósinkranzson eigendur Hildu Maríu (sjá hér bls. 128) og samkvæmt afsali sem gefið var út 3. janúar 1883 taldist Torfi eiga þrjá fjórðu parta í skipinu en Kjartan einn fjórða.[1174] Skútuna Maríu, sem kom ný til Flateyrar árið 1866, hafði Torfi átt í mörg ár með Hjálmari Jónssyni og Arngrími Vídalín Jónssyni (sjá hér bls. 129) en með afsalsbréfi frá 3. janúar 1883 kom Sveinn Rósinkranzson í stað Hjálmars.[1175] Afsalsbréfið frá 3. janúar 1883 sýnir að Torfi átti þá hálft skipið en Arngrímur og Sveinn sinn fjórða partinn hvor.[1176]

Skútan María var gerð út frá Flateyri á vegum Torfa og félaga hans fram til 1895 en í bréfi Hannesar Hafstein sýslumanns frá 20. febrúar 1897 sést að þá hefur Árni Sveinsson, kaupmaður á Ísafirði, verið búinn að kaupa þetta 30 ára gamla skip[1177] (sbr. hér bls. 151). Á þeim um það bil 30 árum sem María var gerð út frá Flateyri voru bara þrír menn skipstjórar þar um borð svo kunnugt sé, fyrst Arngrímur Vídalín Jónsson í Ytri-Hjarðardal, síðan Sveinn Rósinkranzson frá Tröð, sem um skeið átti heima á Flateyri en gerðist bóndi á Hvilft, og loks Páll Rósinkranzson sem var bróðir Sveins og bjó á Kirkjubóli í Korpudal. Hér hefur áður verið sagt frá öllum þessum skipstjórum (sjá hér Ytri-Hjarðardalur, Hvilft og Kirkjuból í Korpudal). Árið 1883 var Sveinn orðinn skipstjóri á Maríu. Afli hans það ár var 417 lifrartunnur og hreinn ágóði eigenda af útgerð skipsins 8.765,80 krónur.[1178] Kýrverðið í Ísafjarðarsýslu var þá um 100,- krónur[1179] svo að ágóðinn af útgerð Maríu þetta eina ár hefur numið 80-90 kúgildum sem var ærinn skildingur. Hásetahlutur á Maríu þetta sama ár var 420-450 krónur en stýrimaður er sagður hafa haft einn og hálfan hlut og skipstjóri þrjá hásetahluta.[1180]

Hilda María var gerð út frá Flateyri enn lengur en María og annaðist Torfi Halldórsson löngum útgerð þeirra beggja. Margir menn voru skipstjórar á Hildu Maríu og úr þeim hópi má nefna Magnús Össurarson, sem líklega hefur orðið skipstjóri á henni um 1870 (sjá hér bls. 128), og Kjartan Rósinkranzson frá Tröð sem vitað er að stýrði henni til veiða 1885 og 1886.[1181] Reinald Kristjánsson, er seinna bjó á Kaldá, var þá einn af hásetum Kjartans.[1182]

Líklegt er að Kjartan hafi verið skipstjóri á Hildu Maríu alveg frá árinu 1883 en í byrjun þess árs náði hann að eignast einn fjórða part í skipi þessu eins og hér hefur áður verið nefnt en hina þrjá fjórðu partana átti Torfi Halldórsson. Sumarið 1885 stundaði Kjartan hákarlaveiðar á Hildu Maríu og færði að landi 253 lifrartunnur sem Ásgeirsverslun á Flateyri keypti.[1183] Fyrir hverja tunnu fengust 24,- krónur svo verðmæti aflans nam 6.072,- krónum.[1184] Úthaldið stóð í 172 daga, liðlega fimm og hálfan mánuð, og eru þá taldir með dagarnir sem hásetar unnu við að koma skipinu niður um vorið og taka það upp um haustið.[1185] Fast kaup skipstjórans var 16,- krónur á viku eða 411,43 krónur fyrir allan tímann.[1186] Auk þess voru honum greiddar 506,- krónur í premíu[1187] en ætla má að hún hafi verið reiknuð sem hlutfall af afla. Heildartekjur Kjartans skipstjóra námu því 917,43 krónum fyrir þetta 172 daga úthald eða 5,33 krónum á dag. Til samanburðar skal þess getið að sumarið 1885 voru að jafnaði greiddar 2,42 krónur fyrir dagsverk um heyannir í Ísafjarðarsýslu ef marka má opinbera verðlagsskrá.[1188]

Svo virðist sem aðeins hafi verið átta menn í áhöfn Hildu Maríu sumarið 1885. Stýrimaður var, svo sem fyrr var nefnt, Kristján Friðriksson Mosdal, þá bóndi á Eyri í Önundarfirði, en hásetar þeir Reinald (Reinharður) Kristjánsson, síðar bóndi á Kaldá, Guðmundur Andrésson, Guðmundur Sigmundsson, Guðmundur Ólafsson, Halldór á Villingadal og Hólmgeir.[1189] Í höfuðbókinni frá Ásgeirsverslun á Flateyri, sem hér er byggt á, er ekki gerð nánari grein fyrir þessum mönnum en nær fullvíst má telja að Halldór á Villingadal sé Halldór Jónsson sem fórst með þilskipinu Skarphéðni vorið 1887 (sjá hér Villingadalur) og að Hólmgeir sé Hólmgeir Jónsson frá Tungu í Firði (sjá hér Tunga  í Firði), síðar bóndi og dýralæknir á Þórustöðum.

Hér var áður gerð grein fyrir tekjum skipstjórans á Hildu Maríu sumarið 1885 en þær voru eins og vænta mátti mun hærri en tekjur stýrimanns og háseta. Kristján stýrimaður hafði 10,- krónur í fast kaup fyrir hverja viku en með premíunni urðu tekjur hans fyrir allan tímann sem úthaldið stóð 500,14 krónur.[1190] Fast kaup hásetanna var breytilegt, frá 8,- krónum og upp í 10,- krónur á viku.[1191] Með premíunni fengu þeir hver um sig frá 280,- krónum og upp í 356,- krónur fyrir þessa 172 daga sem úthaldið stóð[1192] eða frá 1,63 krónum og upp í 2,07 krónur á dag.

Frá tveimur þeirra manna sem lengi stýrðu Hildu Maríu til veiða, þeim Magnúsi Össurarsyni og Kjartani Rósinkranzsyni er sagt hér á öðrum stað (sjá hér bls. 153-158 og bls. 160-164).

Allt fram undir aldamótin 1900 voru skúturnar frá Flateyri yfirleitt gerðar út á hákarlaveiðar. Á síðasta áratug aldarinnar fór þetta þó að breytast og þá voru sumar þeirra látnar stunda þorskveiðar. Sumarið 1896 var Gísli Kristjánsson, síðar bóndi í Lokinhömrum, skipstjóri á Hildu Maríu en hann var þá aðeins 21 árs að aldri.[1193] Stýrimaður hjá Gísla þetta sumar var Guðmundur Gunnarsson á Hrygg í Alviðru, gamall og margreyndur skipstjóri[1194] (sbr. hér Alviðra). Þeir stunduðu þorskveiðar og öfluðu vel.[1195] Að sögn voru þá aðeins átta menn í áhöfninni en hæfilegt mun hafa verið talið að vera með fjórtán menn ef fara átti á þorskveiðar.[1196] Þegar hér var komið sögu var Hilda María orðin gamalt skip og farin að láta á sjá. Guðmundur G. Hagalín rithöfundur, sem var sonur Gísla Kristjánssonar skipstjóra, segir á einum stað frá þessu fyrsta sumri föður síns sem skútuskipstjóra og þar lýsir hann Hildu Maríu svo:

 

Hún var um það bil 30 smálestir og þótti gott sjóskip. En hún var alræmd fyrir það hve afleitlega hún sigldi nema á undanhaldi og mjög var á orði haft hve illa hún stæði á fiski, bæði ræki hratt og geigaði mikið, slægi sér ýmist undan eða ryki upp í vind og sjóa.[1197]

 

Árið 1900 var Hilda María enn gerð út á þorskveiðar frá Flateyri og átti Torfi þá enn hlut að þeirri útgerð.[1198] Eftir það sést hún hins vegar aldrei nefnd í opinberum skýrslum um þilskipaútgerðina.[1199]

Eins og hér hefur áður verið nefnt voru María og Hilda María einu þilskipin sem Torfi Halldórsson og sameignarmenn hans áttu þegar Hjálmar Jónsson hætti verslunarrekstri á Flateyri við lok ársins 1882. Fáum árum síðar fékk Torfi hins vegar ýmsa yngri menn til liðs við sig og hafði í samvinnu við þá og norska kaupmanninum J. Uglehus forgöngu um að láta smíða þrjú ný skip úti í Noregi. Helstu samstarfsmenn Torfa í þessum nýja félagsskap munu hafa verið skipstjórarnir Sveinn Rósinkranzson, Ebenezer Sturluson og Helgi Andrésson,[1200] sem líklega hafa allir lært meira eða minna í sjómannafræðum hjá honum, en fleiri menn eignuðust hluti í þessum nýju skipum eins og hér verður brátt vikið að.

Haustið 1884 eða snemma á árinu 1885 var Helgi Andrésson sendur til Noregs til að fylgjast með smíði skipanna sem öll voru smíðuð í Stavanger eða þar í grennd.[1201] Meðan Helgi dvaldist í Noregi aflaði hann sér viðbótarmenntunar í sjómannafræðum og tók þar skipstjórapróf.[1202]

Skipin þrjú sem Torfi og félagar hans létu smíða í Noregi veturinn 1884-1885 fengu nöfnin Ísafold, Flateyri og Jeanette.[1203] Eitt þessara skipa bar að vísu annað nafn í fyrstu og var það Flateyrin sem þá var nefnd Flairam. Í skýrslu sýslumanns um komin og farin skip til og frá Flateyrarverslunarstað árið 1885 sést að Jeanette og Flairam komu til Flateyrar frá Stavanger þann 20. apríl 1885 og níu dögum síðar kom Ísafold.[1204] Á heimsiglingunni var Helgi Andrésson skipstjóri á Ísafold en á hinum tveimur skipunum voru norskir eða danskir skipstjórar, J.P. Iversen og Hvam.[1205] Öll voru þessi nýju skip að heita mátti nákvæmlega jafn stór og í skýrslunni, sem hér var síðast vitnað í, er fullyrt að þau séu 27,29 – 27,33 og 27,69 smálestir.[1206] Mælingin hefur þó verið eitthvað á reiki því að í öðrum heimildum eru skipin Ísafold og Flateyri talin vera 35 og 35,29 smálestir.[1207] Öll þessi nýju skip fóru beint á veiðar örfáum dögum eftir komuna til Flateyrar og lét hið síðasta þeirra úr höfn þann 1. maí.[1208] Sú fullyrðing að skipið sem nefnt er Flairam í skýrslunni frá 1885 sé hið sama og síðar fékk nafnið Flateyri þarfnast nánari rökstuðnings sem sjálfsagt er að leggja hér fram.

Er þá í fyrsta lagi rétt að benda á að í ritinu Skútuöldin, sem telja má góða og gilda heimild um þetta, er fullyrt að Flateyrin hafi verið eitt þeirra þriggja þilskipa sem komu nýsmíðuð til Flateyrar árið 1885[1209] en í skýrslum sýslumanns um skipakomur frá útlöndum til Flateyrar á árunum 1885-1887 er aldrei getið um komu skips með nafninu Flateyri frá Noregi eða annars staðar að úr veröldinni en þess í stað nefnd Flairam.[1210] Í annan stað er vert að hafa í huga að þilskipið Flairam var nánast alveg jafn stórt og systurskipið Ísafold og það var Flateyrin líka eins og hér hefur áður verið nefnt. Í þriðja lagi er svo þess að minnast að í skýrslum yfir þilskip og opin skip í Mosvallahreppi frá árunum 1885 og 1886 er getið um þilskipið Flairam[1211] en aldrei síðar svo kunnugt sé. Skútan Flateyri er hins vegar fyrst nefnd á nafn í kunnum heimildum sumarið 1887[1212] og ber því hér allt að sama brunni. Í fjórða lagi má svo nefna að í verslunarbókum útibús Ásgeirsverslunar á Flateyri sést að Slupgaleas Flairam var þar í viðskiptum á árunum 1885 og 1886 en árið 1887 hefur verið strikað yfir nafnið Flairam og nafnið Flateyri verið ritað í staðinn.[1213]

Í hinni opinberu skipaskrá er engar upplýsingar að finna um skipin Flateyri og Jeanette en þar má sjá að Ísafold var slupgaleas, smíðuð í Rosendal hjá Stavanger árið 1885.[1214] Í öðrum heimildum sjáum við að Flateyrin var líka galeas[1215] og einnig Jeanette.[1216]

Fullvíst má telja að Torfi Halldórsson hafi haft forgöngu um þessi skipakaup árið 1885 eins og víða er nefnt í heimildum. Eignarhlutur hans í skipunum mun hins vegar ekki hafa verið mjög stór í byrjun. Hér var áður frá því greint að Norðmaðurinn J. Uglehus, sem hóf verslunarrekstur á Flateyri árið 1885, hafi allt fram á sumarið 1886 átt helming í Jeanette og þrjá áttundu hluta í Flairam (sjá hér bls. 137) sem skömmu síðar fékk nafnið Flateyri. Í þessum tveimur skipum hafa Torfi og aðrir Önfirðingar því aðeins átt rúman helming fyrstu tvö sumrin sem þau voru gerð út frá Flateyri. Augljóst er líka að skipið Jeanette hefur borið nafn stúlkunnar Jeanette sem var dóttir J. Uglehus (sjá hér bls. 137-138) og ætla má að nafnið Flairam hafi líka verið frá honum komið. Þegar verslunarfyrirtæki J. Uglehus á Flateyri varð gjaldþrota sumarið 1886 munu eignarhlutir hans í þessum tveimur skipum hafa verið boðnar upp (sjá hér bls. 137-138 og 145-146) og keyptir af Torfa eða samstarfsmönnum hans. Jeanette var þá virt á 7.000,- krónur en Flairam á 6.300,- krónur.[1217]

Í þriðja skipinu, Ísafold, átti Norðmaðurinn hins vegar engan hlut haustið 1885 og Torfi ekki heldur. Eigendur hennar voru þá: Helgi Andrésson, Jón Ólafsson, Sveinn Rósinkranzson og Eiríkur Egilsson.[1218] Allir áttu þeir jafn stóran eignarhlut, einn fjórða part hver.[1219] Án efa er þarna um að ræða skipstjórana Helga Andrésson og Svein Rósinkranzson, sem sagt er frá annars staðar í þessu riti, og svo Jón Ólafsson og Eirík Egilsson sem þá áttu báðir heima á Stað í Súgandafirði (sjá hér Staður). Í marsmánuði árið 1892 áttu þrír þessara manna enn hluti í Ísafold en Torfi Halldórsson og Jónas Th. Hall, verslunarstjóri Ásgeirsverslunar á Flateyri, höfðu þá eignast nær hálft skipið og Helgi Andrésson var ekki lengur meðeigandi.[1220] Árið 1892 skiptust eignarhlutirnir í Ísafold sem hér segir: Torfi Halldórsson átti 5/16, Sveinn Rósinkranzson 4/16, Eiríkur Egilsson á Stað 3/16, Jón Ólafsson á Stað 2/16 og Jónas Th. Hall 2/16.[1221] Jón Ólafsson  andaðist á því ári og nokkru síðar var eignarhlutur hans í skipinu virtur á 375,- krónur.[1222] Af því má ráða að þá hefur skipið verið talið 3.000,- króna virði.

Við komu nýju skipanna þriggja til Flateyrar árið 1885 fjölgaði þilskipum, sem héðan voru gerð út, úr tveimur í fimm því fyrir voru gömlu skúturnar tvær, Hilda María og María. Þann 6. júlí 1887 birtist í Þjóðviljanum skýrsla um afla hákarlaskipanna sem gerð voru út á því ári frá Ísafirði, Dýrafirði og Önundarfirði.[1223] Venja var að vertíðin hæfist seint í mars eða í byrjun apríl og í byrjun júlí árið 1887 var afli skipanna frá Flateyri orðinn sem hér segir:

 

 1. Ísafold, skipstjóri Helgi Andrésson    180 lifrartunnur.
 2. María, skipstjóri Sveinn Rósinkranzso 160      –
 3. Hilda María, skipstjóri Kjartan Rósinkransson 140 –
 4. Flateyri, skipstjóri Ebenezer Sturluson 75      –
 5. Jeanette, skipstjóri Kristján Mosdal   50 lifrartunnur.[1224]

 

Fréttin í Þjóðviljanum sýnir að öll hafa skipin verið gerð út á hákarlaveiðar en aflatölurnar benda til þess að úthaldstími þeirra hafi verið mislangur þetta ár og fullkunnugt er reyndar að Jeanette fórst á miðum úti um sumarmál vorið 1887 eins og hér verður síðar sagt nánar frá. Í nýnefndri frétt Þjóðviljans er getið um ellefu hákarlaskip frá Ísafirði, Önundarfirði og Dýrafirði og í byrjun júlí árið 1887 var vertíðarafli þeirra allra til samans kominn upp í 1200 lifrartunnur.[1225] Mestur var aflinn hjá Helga Andréssyni á Ísafold og Bjarna Kristjánssyni frá Efrihúsum í Önundarfirði en hann var þá með skútuna Lovísu sem Ásgeirsverslun á Ísafirði átti. Þeir Helgi og Bjarni voru báðir komnir með 180 lifrartunnur. Samtals voru skipin fimm frá Flateyri búin að leggja á land 605 lifrartunnur þegar aflafréttirnar voru birtar í Þjóðviljanum[1226] en athygli vekur að þar er einnig frá því greint að af heildarafla skipanna frá Ísafirði og úr Ísafjarðarsýslu hafi 885 lifrartunnur verið lagðar í land á Flateyri þetta ár en aðeins 195 tunnur á Ísafirði og 120 tunnur á Þingeyri.[1227] Skýringin á þessu getur varla verið nokkur önnur en sú að útgerðarmenn í öðrum byggðarlögum hafi sóst eftir að fá lifrina brædda í gufubræðslunni hjá Torfa á Flateyri, enda mun lýsi sem þar var framleitt hafa selst á nokkru hærra verði en almennt var (sjá hér bls. 168).

Hér var þess áður getið að skútan Jeanette frá Flateyri hefði farist í sumarmálagarðinum vorið 1887[1228] en hún var þá aðeins tveggja ára gömul. Í þessu sama veðri fórust líka tvær hákarlaskútur sem Ásgeirsverslun á Ísafirði gerði út og hét önnur þeirra Skarphéðinn en hin María Margrét.[1229] Öll týndust skip þessi með manni og mús. Í hverri skipshöfn voru átta menn svo alls fórust þarna 24 sjómenn.[1230] Skipstjóri á Maríu Margréti var Einar Pálsson sem þá átti heima á Ísafirði[1231] en á Skarphéðni Magnús Össurarson frá Flateyri[1232] sem var uppeldissonur Torfa Halldórssonar og mágur hans. Frá Magnúsi er sagt hér á öðrum stað (sjá hér bls. 153-158).

Skipstjóri á Jeanette vorið 1887 var Kristján Friðriksson sem nefndur var Kristján Mosdal en hann hafði áður, á árunum 1877-1883, verið verslunarmaður á Flateyri. Kristján var fæddur í Mosdal árið 1850 og hér hefur áður verið nokkuð frá honum sagt (sjá hér bls. 111). Sumarið 1886 hafði Kristján verið stýrimaður hjá Kjartani Rósinkranzsyni á Hildu Maríu en einn hásetanna þar um borð var Reinald Kristjánsson, seinna bóndi og víðfrægur póstur á Kaldá í Önundarfirði.[1233] Einhverjum erjum áttu þeir Kristján og Reinald í þetta sumar og sagði Reinald síðar svo frá að hann hefði þá beðið Kristjáni bölbæna.[1234] Er skip Kristjáns týndist í hafi með allri áhöfn næsta vor sóttu á Reinald þungir þankar því hann óttaðist að bölbænir sínar kynnu að hafa valdið þar nokkru um.[1235]

Þegar Kristján Friðriksson drukknaði átti hann heima á Eyri í Önundarfirði og var kvæntur Guðbjörgu Sveinfríði Sigurðardóttur sem fædd var árið 1862.[1236] Skömmu eftir lát Kristjáns fór ekkja hans að búa með Sigurði Jóhannssyni, er menn nefndu Sigurð skurð, og eignaðist með honum tvær dætur.[1237] Þeir sem fórust á Jeanette með Kristjáni Friðrikssyni og um er kunnugt voru: Arnór Friðriksson stýrimaður, Mosdal, 29 ára, Ásgeir Kristjánsson vinnumaður, Tannanesi, 16 ára, Guðjón Guðmundsson vinnumaður, Efrihúsum, 20 ára, Elías Guðmundsson vinnumaður, Hóli í Firði, 20 ára, Jón Sigurðsson vinnumaður, Flateyri, 15 ára og Jón Kristjánsson, húsmaður í Klúku í Súgandafirði, 36 ára.[1238]

Í maí og júní árið 1887 héldu menn enn í vonina um að eitthvert þeirra þriggja skipa sem farist höfðu um sumarmál kynni að koma fram og svo virðist sem ýmsir hafi jafnvel ekki verið búnir að gefa upp alla von þann 6. júlí því þann dag er komist svo að orði í Þjóðviljanum:

 

Af ofantöldum skipum eru menn hræddir um að Skarphéðinn, María Margrét og Jeanette séu farin. Síðan um sumarmál hefir eigi spurst til þeirra og telja menn víst að þau séu því að einhverju leyti hindruð.[1239]

 

Sá orðrómur komst reyndar á kreik að Magnús Össurarson og menn hans á Skarphéðni hefðu alls ekki farist heldur siglt af ásettu ráði til fjarlægra landa og lifðu þar góðu lífi (sjá hér bls. 157-158). Um skútuna Jeanette frá Flateyri,sem fórst eins og Skarphéðinn vorið 1887, komst hins vegar sú saga á loft allmörgum árum síðar að Norðurhafsleiðangur hefði fundið skipið í ís og séð öll deili þess að þar hefði gerst harmsaga mikil.[1240] Kviksaga þessi var enn síðar endursögð á prenti og greint frá á þessa leið:

 

Var sagt að trjáviður allur hefði verið horfinn úr skipinu nema nakinn byrðingurinn og þess getið til að skipsmenn hefðu brennt honum meðan til vannst. Þá fylgdi það og sögunni að fjórar beinagrindur hefðu verið í skipinu og allt bent í þá átt að hungur hefði orðið mönnunum að bana. Frásögn þessi er talin hafa komið í norsku sjómannablaði en eftir því sem næst verður komist hefur íslenskum stjórnvöldum aldrei borist nein skýrsla um fund þennan.[1241]

 

Söguna um fund skútunnar Jeanette frá Flateyri norður í hafísnum seljum við ekki dýrar en hún var keypt.

Á árunum kringum 1890 gerði Torfi Halldórsson út fjórar skútur og voru það hinar sömu og áður nema hvað Jeanette vantaði í hópinn. Árið 1890 stunduðu þrjár af skútum Torfa og félaga hans hákarlaveiðar en Ísafold var ein á þorskveiðum.[1242] Þetta ár munu skipstjórar á Ísafold hafa verið fleiri en einn en heildarafli skipsins varð það ár 25.400 þorskar.[1243] Vera má að eitthvað af öðrum bolfiski sé þó talið þar með. Þetta ár var maður að nafnin Jón Pálsson skipstjóri á Hildu Maríu og varð afli hans 305 lifrartunnur.[1244] Með Flateyrina var Ebenezer Sturluson og fékk 292 lifrartunnur en Sveinn Rósinkranzson á Maríu, sem var minna skip, færði 224 lifrartunnur að landi.[1245] Þegar hér var komið sögu var Ásgeirsverslun farin að gera eina skútu út frá Flateyri og var það Grettir.[1246] Skipstjóri á honum var aflakóngurinn Helgi Andrésson en afli hans varð á þessu ári 436 lifrartunnur.[1247]

Næsta ár, 1891, tók Sveinn Rósinkranzson við Ísafold en Páll bróðir hans, sem þá var 26 ára gamall, varð skipstjóri á Maríu.[1248] Hann var þá að byrja búskap á Kirkjubóli í Korpudal (sjá hér Kirkjuból í Korpudal). Ebenezer Sturluson var áfram skipstjóri á Flateyrinni og Jón Pálsson á Hildu Maríu.[1249] Jón þessi Pálsson er líklega sá sem lengi var skútuskipstjóri á Ísafirði, sonur Páls Símonarsonar í Stapadal í Arnarfirði og sonarsonur Símonar á Dynjanda.[1250] Þetta ár varð aflinn sem hér segir: Hjá Sveini Rósinkranzsyni á Ísafold 25.000 þorskar, hjá Jóni Pálssyni á Hildu Maríu 321 lifrartunna, hjá Páli Rósinkranzsyni á Maríu 259 lifrartunnur og hjá Ebenezer Sturlusyni á Flateyrinni 244 lifrartunnur.[1251]

Á árunum 1888-1894 gerðu Torfi og félagar hans jafnan út fjórar skútur, Maríu, Hildu Maríu, Ísafold og Flateyrina. Eignarhlutar Torfa í þessum fríða flota var þá aldrei minni en tvö skip og frá árinu 1890 tvö skip og níu sextándu hlutar úr því þriðja[1252] (sbr. hér bls. 202-203). Árið 1890 átti Torfi Hildu Maríu einn, Maríu átti hann þá hálfa, þrjá fjórðu parta í Flateyrinni og fimm sextándu hluta í Ísafold (sjá hér bls. 202-203). Árið 1895 mun María hafa verið seld til Ísafjarðar (sbr. hér bls.143 og151) en á því ári féll skipaeign Torfa úr 2 og 9/16 í 1 og 9/16[1253] svo líklega hefur hann átt Maríu einn síðustu árin sem hún var á Flateyri. Á árunum 1897-1901 var eignarhlutur Torfa í Flateyrarskútunum yfirleitt sem svaraði einu skipi.[1254] Hildu Maríu átti hann enn, einn eða með öðrum, árið 1900 (sjá hér bls. 145) svo og tæpan þriðjung í Ísafold[1255] og eignarhlut sinn í skútunni Flateyri seldi hann ekki fyrr en haustið 1901 (sjá hér bls. 230). Ef marka má opinberar skýrslur hætti Torfi allri þilskipaútgerð haustið 1901 eða 1902,[1256] enda var hann þá kominn fast að áttræðu.

Síðustu árin sem Torfi tók þátt í að gera Flateyrina út var hún á þorskveiðum.[1257] Ebenezer Sturluson var þá skipstjóri á henni eins og áður en árin 1900 og 1901 var Valdimar Þorvaldsson frá Selárdal í Súgandafirði einn af hásetum hans.[1258] Árið 1900 var hann við skip í 24 vikur og hafði 7,50 krónur í fast kaup yfir vikuna.[1259] Auk þess fengu hásetar 7,50 krónur í premíu af hverju skippundi sem þeir drógu.[1260] Valdimar dró 10 skippund sem þótti heldur rýrt.[1261] Heildartekjur hans á þessum 24 vikum urðu því 255,- krónur og svo trosfiskur sem hann flutti með sér heim er úthaldinu lauk.[1262] Sé gert ráð fyrir sex vinnudögum í hverri viku hafa daglaun Valdimars numið 1,77 krónum en þetta sama aldamótaár voru greiddar 2,56 krónur fyrir dagsverk um heyannir í Ísafjarðarsýslu ef marka má hina opinberu verðlagsskrá.[1263] Gera má ráð fyrir að daglegur vinnutími hafi verið lengri við heyskapinn en á skútunum og einnig er vert að hafa í huga að á þessari vertíð dró Valdimar, að eigin sögn, einna minnst allra skipverja á Flateyrinni, enda var hann óvaningur.[1264] Hér er einnig þess að gæta að þeir sem réðu sig á skútu náðu að tryggja sér atvinnu og fastar tekjur í mun lengri tíma en hinir sem fóru í kaupavinnu.

Þilskipaútgerð Torfa Halldórssonar og félaga hans á Flateyri var í nær þriðjung aldar ein sú öflugasta á Vestfjörðum og allan þann tíma var það Torfi sem stjórnaði þessari útgerð. Á fyrri hluta þess tímabils var Hjálmar Jónsson nánasti samstarfsmaður hans og helsti sameignarmaður en á þeim árum náðu að minnsta kosti þrír skipstjórar að eignast hlut í skipi á móti þeim Torfa og Hjálmari (sjá hér bls. 129-130). Á árunum 1883-1900 var það svo nánast regla að skipstjórarnir ættu einhvern hlut í skútunum sem Torfi sá um að gera út en sjálfur átti hann þá oft hálft skipið eða liðlega það.

Skúturnar sem Torfi Halldórsson gerði út sendi hann yfirleitt á hákarlaveiðar eins og hér hefur áður verið gerð grein fyrir en á árunum kringum 1890 var þó farið að hafa eitt af fjórum skipum á þorskveiðum (sjá hér bls. 150). Eitthvað mun sá veiðiskapur hafa aukist á síðasta áratug nítjándu aldar en tölur úr útflutningsskýrslum benda þó til þess að hákarlaútgerðin hafi haldið velli, svona nokkurn veginn, alveg fram að aldamótum (sjá hér bls. 171-172). Hákarlaskipin á Flateyri voru oftast sett niður í síðari hluta mars og hófu veiðar í lok mars eða byrjun apríl eins og sjá má í dagbók Jóns Guðmundssonar frá Grafargili. Flateyringar á leið að setja út hákarlaskipin, skrifar hann 18. mars 1822 og bætir við fimm dögum síðar: Sveinn búinn að setja fram hana Maríu.[1265] Eitthvað hefur þetta þó verið misjafnt eins og sjá má dæmi um í nýnefndri dagbók. Eru skipin komin fram á Flateyri, skrifar Jón 11. mars 1883 en 19. apríl 1889 lætur hann þess getið að þá séu allar fiskiskútur komnar fram og flestar út.[1266] Oftast lauk hákarlavertíðinni í byrjun september og þá voru skipin sett á land. Nú er búið að setja upp öll hákarlaskipin sem mér er kunnugt um, skrifar sami dagbókarritari 12. september 1888[1267] og 31. ágúst 1893 var búið að setja upp bæði Ísafold og Maríu.[1268]

Oft reyndi nokkuð á þegar menn voru að setja niður skipin eða taka þau á land og einu sinni varð banaslys. Jón frá Grafargili getur um slysið í dagbók sinni 29. mars 1884 og segir: 28. þessa mánaðar datt hákarlaskonnortan María á Flateyri ofan á mann sem Guðmundur Hans hét og hafði hann bana af.[1269] Sighvatur Borgfirðingur á Höfða í Dýrafirði getur líka um þetta sama slys í sinni dagbók og segir það hafa orðið tveimur dögum fyrr en Jón frá Grafargili heldur fram.[1270] Þeir Jón og Sighvatur eru líka ósammála um hvaða skip hafi fallið á manninn því Sighvatur segir það hafa verið Hildu Maríu.[1271] Líklegra verður að telja að Jón frá Grafargili fari þarna rétt með þar eð hann var nær vattvangi. Hjá Sighvati sjáum við hins vegar að Guðmundur Hans Guðmundsson, sem þarna hlaut bana, var frá Gerðhömrum í Dýrafirði.[1272] Hann var jarðsettur í Holti 2. apríl og er þá sagður hafa verið 31 árs vinnumaður frá Gerðhömrum.[1273]

Hér hefur nú verið sagt nokkuð frá skútuútgerðinni sem Torfi Halldórsson stóð fyrir á síðustu áratugum nítjándu aldar en áður en horfið verður frá því viðfangsefni sýnist við hæfi að gera svolitla grein fyrir skipstjórunum á flota Torfa. Sumir þeirra voru um langt skeið bændur á bújörðum í Önundarfirði og frá þeim hefur áður verið sagt á þessum blöðum, Arngrími Vídalín Jónssyni í Ytri-Hjarðardal, Sveini Rósinkranzsyni á Hvilft og Páli Rósinkranzsyni á Kirkjubóli í Korpudal. Hér verður því nú eingöngu fjallað um þá skipstjóra sem voru búsettir á Flateyri á dögum Torfa og voru samverkamenn hans um lengri eða skemmri tíma. Sjálfur var Torfi skútuskipstjóri í um það bil tíu ár, 1849-1859, og síðustu árin á því skeiði var hann búsettur á Flateyri (sjá hér bls. 63-68, 79 og 87-88). Svo virðist sem hann hafi hins vegar hætt að stýra þilskipi til veiða um 1860 og þegar skútuútgerð frá Flateyri tók að eflast á ný á árunum 1865-1870 voru það Arngrímur í Ytri-Hjarðardal og Magnús Össurarson sem gerðust skipstjórar á skútunum Maríu og Hildu Maríu.

 

Magnús Össurarson var fæddur í Súðavík 23. desember árið 1845 og var bróðir Maríu Össurardóttur, eiginkonu Torfa Halldórssonar.[1274] Frá foreldrum þeirra er sagt á öðrum stað í þessu riti (sjá hér bls.85-87). Magnús fluttist til Flateyrar með Maríu systur sinni og Torfa árið 1857, þegar hann var ellefu ára gamall, og ólst síðan upp hjá þeim.[1275] Hann byrjaði ungur að stunda sjó og þegar hann fluttist tvítugur að aldri til Danmerkur árið 1866 er hann sagður vera sjómaður.[1276] Á unglingsárum fékk Magnús tilsögn í sjómannafræðum hjá Torfa mági sínum[1277] en hið meira skipstjórapróf tók hann úti í Danmörku.[1278] Svo virðist sem á árunum upp úr tvítugu hafi Magnús dvalist í Danmörku í þrjú ár því presturinn í Holti segir hann flytjast frá Flateyri til Danmerkur árið 1866 og aftur frá Kaupmannahöfn til Flateyrar árið 1869.[1279] Við heimkomu Magnúsar lætur prestur þess getið að Magnús sé sjómaður og tekur fram fáum mánuðum síðar að hann sé vel að sér.[1280]

Í riti sínu Skútuöldinni segir Gils Guðmundsson að fyrsta skútan sem Magnús varð skipstjóri á hafi verið Hilda María (sjá hér bls. 128). Líklegt má telja að hann hafi tekið við skipstjórn á henni 1869 eða 1870 en í embættisbókum prestsins í Holti er hann þó ekki titlaður skipstjóri fyrr en 1871.[1281] Þann 27. september 1872 voru skipstjóraréttindi Magnúsar staðfest með sérstöku bréfi sem sýslumaðurinn á Ísafirði gaf út.[1282]

Magnús Össurarson kvæntist 10. október 1871 Hólmfríði Vilhelmínu Ámundadóttur og er við hjónavígsluna nefndur skipstjóri.[1283] Hólmfríður, kona Magnúsar, var óskilgetin dóttir Ámunda Halldórssonar, smiðs á Kirkjubóki í Langadal við Djúp, og Guðrúnar Ásgeirsdóttur sem var systir Ásgeirs Ásgeirssonar skipherra, eiganda Ásgeirsverslunar á Ísafirði.[1284] Á árunum 1871-1876 voru þau Magnús og Hólmfríður jafnan í Torfahúsi á Flateyri en þeim varð ekki barna auðið og í aprílmánuði árið 1877 skrifuðu þau Hans hátign, kónginum í Kaupmannahöfn, og fóru fram á að mega lifa aðskilin að borði og sæng næstu þrjú árin. Í bréfinu gera þau grein fyrir hvað valdi og skýra frá á þessa leið:

 

Skömmu eftir að hjónabandið var inngengið bryddi á ólíku skapferli og þarafleiðandi óeiningu sem við sambúðina hefir farið sívaxandi, okkur sjálfum til mikillar óánægju og mæðu og öðrum ekki til góðs eftirdæmis.[1285]

 

Nokkrum vikum síðar barst sýslumanninum í Ísafjarðarsýslu tilkynning frá amtmanni um að Magnúsi og eiginkonu hans væri veitt umbeðið leyfi til skilnaðar að borði og sæng og að yfirvöldin hefðu fallist á að eignum þeirra yrði skipt eins og þau höfðu sjálf komið sér saman um.[1286] Í þessu bréfi amtmanns gefur að líta hverjar voru helstu eignir Magnúsar skipstjóra og konu hans þegar hér var komið sögu, 8 hundruð í Kirkjubóli í Valþjófsdal, önnur 8 hundruð í Hóli (líklega Hóli í Firði) og 1.729,- krónur sem stóðu inni hjá verslun Hjálmars Jónssonar á Flateyri og víðar.[1287] Árið 1877 var opinbert kýrverð í Ísafjarðarsýslu 112,57 krónur[1288] svo að hér var um þó nokkrar eignir að ræða eða sem svaraði 31 kúgildi og þá er lausafé, annað en peningarnir, ekki talið með.

Eignunum skiptu þau þannig að Hólmfríður fékk 1.000,- krónur sem stóðu inni hjá versluninni á Flateyri og 200,- krónur sem stjúpfaðir hennar, Jón Jónsson, snikkari á Ísafirði, hafði í vörslu en Magnús fékk báða jarðarpartana, 529,- krónur í peningum og allt lausafé úr búi þeirra annað en þá peninga sem gengu til Hólmfríðar.[1289] Nærri lætur að Magnús hafi því fengið tvo þriðju eignanna í sinn hlut en Hólmfríður einn þriðja.

Árið 1880 höfðu Magnús og Hólmfríður lifað aðskilin að borði og sæng í þrjú ár og nokkru síðar fór hann að sækja um leyfi til endanlegs og lögformlegs hjónaskilnaðar. Í bréfi sem amtmaður sendi landshöfðingja í febrúarmánuði árið 1883 er greint frá beiðni Magnúsar og þess getið að Hólmfríður sé og hafi verið í nokkur ár svo vitskert að hvorki hefur orðið leitað um sættir milli hennar og manns hennar né hún getað gefið neina yfirlýsingu um það hvort hún óski algjörs hjónaskilnaðar eða ekki.[1290]

Með bréfi landshöfðingja 27. febrúar 1883 var Magnúsi Össurarsyni veitt heimild til fullkomins hjónaskilnaðar[1291] og næsta dag sendi amtmaður sýslumanninum í Ísafjarðarsýslu tilkynningu um þennan úrskurð.[1292] Þar var tekið fram að fyrir leyfisbréfið yrði Magnús þó að greiða 33,60 krónur[1293] en svo virðist sem einhver dráttur hafi orðið á þeirri borgun því vorið 1884 sendi amtmaður sýslumanninum á Ísafirði fyrirspurn um þessa peninga sem þá höfðu enn ekki borist.[1294]

Á árunum 1876-1887 var Magnús Össurarson ýmist búsettur á Flateyri eða á Ísafirði og undir lokin var hann eitthvað í Bolungavík.[1295] Hann fór frá Flateyri 1876, kom aftur 1877, fór 1878, kom aftur 1881, fór 1883 til Kaupmannahafnar, kom þaðan 1884 og fluttist 1886 frá Flateyri til Bolungavíkur.[1296]

Á þessum árum mun Magnús oft hafa verið skipstjóri á skipum Ágeirsverslunar á Ísafirði og þó nokkrum sinnum var hann sendur til Danmerkur til að sækja skip og sigla þeim yfir hafið.[1297] Sagt er að hann hafi m.a. sótt Egil Skallagrímsson[1298] sem smíðaður var í Danmörku árið 1878 og staðfest er að sjálfur átti Magnús einn fjórða part í því skipi[1299] (sbr. hér bls. 132). Í ritinu Skútuöldin segir að liðlega tvítugur hafi Magnús Össurarson stýrt nýju skipi er Hjálmar Jónsson og Torfi Halldórsson á Flateyri áttu frá Danmörku heim til Íslands og þetta skip hafi verið Grettir.[1300] Þarna er augljóslega um einhvern misskilning að ræða því Grettir var ekki smíðaður fyrr en 1880 og það var Ásgeirsverslun á Ísafirði sem þá eignaðist skipið að hálfu á móti dönskum manni og síðar að fullu[1301] en Hjálmar og Torfi áttu aldrei neitt í Gretti. Hafi Magnús komið liðlega tvítugur með skip frá Danmörku til Hjálmars og Torfa hlýtur það að hafa verið María sem þeir félagar keyptu alveg nýsmíðaða í Danmörku haustið 1866 (sjá hér bls. 129). Ólíklegt verður þó að telja að Magnús hafi setið við stjórn þegar Maríu var siglt heim frá Danmörku haustið 1866 því hann var þá aðeins tvítugur að aldri. Fjórtán árum síðar var hann hins vegar fær í flestan sjó og ekki þarf að efast um að það var hann sem sótti Gretti til Danmerkur fyrir Ásgeirsverslun á Ísafirði árið 1880.[1302] Grettir var tæplega 30 smálesta skonnorta, smíðuð í Vejle í Danmörku árið 1880.[1303] Fyrstu eigendur hennar voru Ásgeir G. Ásgeirsson, forstjóri Ásgeirsverslunar á Ísafirði, og danskur maður sem bjó í Kaupmannahöfn og hét Carl Andersen.[1304] Áttu þeir sinn helminginn hvor í skipinu en haustið 1895 keypti Ásgeir hlut Carls Andersen af erfingjum hans.[1305] Í hinni opinberu skipaskrá sést að Magnús Össurarson var skipstjóri á Gretti árið 1880[1306] og hefur hann að því er ætla má tekið við þessari skonnortu nýsmíðaðri úti í Vejle.

Eitthvað fékkst Magnús við að kenna sjómannafræði[1307] og hann var jafnan talinn dugmikill skipstjóri. Þeir sem mundu eftir honum sögðu löngu síðar að hann hefði verið aflamaður og karlmenni en of drykkfelldur.[1308] Þeir sem kunnu að lýsa útliti þessa vaska skipstjóra nokkrum áratugum eftir lát hans sögðu að hann hefði verið fremur lítill vexti, svartur á brún og brá, harðger, hnellinn og snarlegur.[1309]

Árið 1883 fór Magnús til Danmerkur að sækja nýtt skip sem smíðað var í Thurö við Svendborg á Fjóni.[1310] Þetta var 27,6 smálesta skonnorta sem fékk nafnið Skarphéðinn og átti hann sjálfur einn fjórða part í skipinu.[1311] Aðrir eigendur þess voru Ásgeir G. Ásgeirsson, forstjóri Ásgeirsverslunar á Ísafirði, og J.M. Riis, verslunarstjóri á Ísafirði og áttu þeir hvor um sig þrjá áttundu parta.[1312]

Svo slysalega tókst til að skipið fórst á heimleið við Skotlandsstrendur, nánar til tekið við Bresca á Hjaltlandi (Shetlandseyjum) ef marka má orð Hjálmars Jónssonar sem þá var búsettur í Kaupmannahöfn og nýlega hættur verslunarrekstri á Flateyri.[1313] Hjálmar segir að Skarphéðinn hafi farist við Skotland 10. mars 1883, tveir menn hafi drukknað en hinir komist af.[1314] Rétta ártalið kynni þó að vera 1884 því Magnús var enn á Flateyri í desember 1882 og fór til Danmerkur 1883 ef marka má embættisbækur prestsins í Holti.[1315]

Gils Guðmundsson segir frá skipstapanum við Skotlandsstrendur í riti sínu Skútuöldinni og kemst þá svo að orði:

 

Árið 1884 fór hann [Magnús] utan til að sækja nýtt skip fyrir Ásgeirsverslun en sjálfur mun hann hafa átt einhvern hluta í skipinu. Svo slysalega vildi til að á leiðinni til Íslands strandaði skipið við Skotlandsstrendur og brotnaði í spón. Sýndu skipverjar karlmennsku mikla og snarræði í kröggum þessum og fengu með naumindum borgið lífi sínu. Var framkoma Magnúsar mjög rómuð af félögum hans er töldu hann hafa unnið þrekvirki við björgunina. … Lét hann þetta ekki á sig bíta, sneri hið skjótasta við til Kaupmannahafnar, fékk Ásgeir forstjóra til að láta smíða nýtt skip í stað hins fyrra, beið í Danmörku meðan á því stóð og sigldi síðan heilu og höldnu heim til Íslands. Skip þetta nefndist Skarphéðinn og þótti frítt og vandað.[1316]

 

Þessi yngri Skarphéðinn var eins og sá fyrri smíðaður í Thurö hjá Svendborg og í skipaskrá er smíðaár hans sagt vera 1884.[1317] Bæði voru skip þessi af svipaðri stærð og gerð.[1318]

Næstu árin mun Magnús hafa verið skipstjóri á Skarphéðni og frá háttum hans á því skeiði segir Gils Guðmundsson svo:

 

Magnús Össurarson tók nú við stjórn Skarphéðins á fiskveiðum. Reyndist hann enn sem fyrr sjómaður góður og aflamaður í fremstu röð. Harður var hann við háseta sína og ekki vorkunnlátur en menn umbáru slíkt vegna dugnaðar mannsins og aflasældar. Drykkfelldur var Magnús og fór ekki sparlega með fjármuni. Var honum löngum vant skotsilfurs, þótt oft væri hann með tekjuhæstu mönnum. Jókst og sókn Magnúsar í höfga drykki eftir því sem fram liðu stundir.[1319]

 

Vorið 1887 týndist Skarphéðinn í hafi um sumarmál ásamt tveimur öðrum skútum frá Vestfjörðum eins og hér hefur áður verið minnst á (sjá hér bls. 147-149). Öll munu skip þessi hafa verið á hákarlaveiðum[1320] og voru átta menn í hverri áhöfn.[1321] Magnús Össurarson var enn skipstjóri á Skarphéðni vorið 1887 og hvarf í hafið með skipi sínu.[1322] Þegar Magnús drukknaði var hann 41 árs að aldri.

Sú undarlega saga komst á kreik sumarið 1887 að Magnús Össurarson og menn hans hefðu reyndar alls ekki drukknað heldur látið sig hverfa og siglt á Skarphéðni til fjarlægra landa til að byrja þar nýtt líf.[1323] Orðrómur í þessa veru flaug víða og varð lengi við hann vart, enda töldu hinir og þessir sig sjá Magnús í hópi franskra sjómanna hér við land og aðrir kváðust hafa spurnir af því að hann væri í Ameríku.[1324]

Ýmis rök voru reyndar færð fram fyrir því að Magnús og félagar hans hefðu ætlað sér að stökkva af landi brott á laun. Meðal annars var bent á að allir skipverjar hans hefðu verið ungir menn og ókvæntir.[1325] Alveg sérstaklega var þó haft á orði að þeir hefðu að þessu sinni tekið með sér tvöfaldan matarskammt svo og ýmsan fatnað og jafnvel bækur sem ekki var venja að hafa um borð í hákarlaskipum.[1326]

Engar líkur eru þó á því að Magnús Össurarson og menn hans á Skarphéðni hafi í raun strokið til annarra landa. Hitt má telja fullvíst að þeir hafi allir hlotið vota gröf í sumarmálagarðinum mikla vorið 1887. Jón Guðmundsson frá Grafargili getur í dagbók sinni um hin hörmulegu sjóslys sem þá urðu og segir að á Skarphéðni hafi mátt heita valinn maður fyrir mann.[1327] Auk Magnúsar nefnir hann nokkra úr skipshöfninni: Guðbjart Friðriksson frá Kvíanesi í Súgandafirði, sem var stýrimaður, Daníel Ág. Daníelsson frá Stað í Súgandafirði, Hallgrím Guðmundsson frá Hjarðardal í Önundarfirði og Halldór Jónsson frá Villingadal á Ingjaldssandi[1328] (sjá hér Villingadalur). Með Skarphéðni fórst líka Kristján Bergsson, 35 ára gamall vinnumaður í Tröð í Önundarfirði.[1329]

 

Ebenezer Þ. Sturluson, skipstjóri á Flateyri, var einu ári yngri en Magnús Össurarson, fæddur í Dalshúsum á jóladag árið 1846.[1330] Foreldrar hans voru hjónin Sturla (stundum ritað Sturli) Jónsson og Kristín Ebenezersdóttir[1331] sem bjuggu lengi í Dalshúsum (sjá hér Kirkjuból í Valþjófdal, Dalshús þar) og þar mun Ebenezer hafa alist upp. Hann lærði sjómannafræði hjá Torfa á Flateyri og fyrir fáum áratugum var ein af kennslubókunum sem Torfi ritaði enn í eigu sonar Ebenezers, Sturlu, sem átti heima á Flateyri.[1332] Svo vill til að þeir Ebenezer og Magnús Össurarson kvæntust báðir sama daginn, þann 10. október 1871, en Ebenezer gekk þá að eiga Margréti, dóttur Bjarna Jónssonar, bónda á Sæbóli á Ingjaldssandi[1333] (sbr. hér bls. 154). Þau Ebenezer og Margrét voru gefin saman á Sæbóli en Magnús og Hólmfríður, kona hans, í Holti.[1334] Á árunum 1870-1876 taldist Ebenezer vera vinnumaður á Sæbóli[1335] en árið 1876 fluttist hann þaðan að Hjarðardal.[1336] Mjög líklegt verður að telja að á þessum árum hafi hann verið sjómaður á skútum en í sóknarmannatölunum frá 1876-1878 er Ebenezer jafnan sagður vera vinnumaður hjá Jóni Ólafssyni, mági sínum, í Ytri-Hjarðardal.[1337]

Árið 1880 settist Ebenezer Sturluson að á Flateyri og er þá nefndur skipherra.[1338] Þaðan í frá var hann jafnan búsettur á Flateyri[1339] og mjög lengi skipstjóri á skútum sem Torfi Halldórsson gerði út. Óljóst er hvaða skipi Ebenezer stýrði til veiða á árunum 1880-1884 en ekki er ólíklegt að hann hafi orðið skipstjóri á Hildu Maríu næstur á eftir Magnúsi Össurarsyni en Magnús tók við Gretti, nýju skipi Ásgeirsverslunar á Ísafirði, árið 1880 (sjá hér bls. 156).

Árið 1885 fengu Torfi Halldórsson og félagar hans þrjár nýjar skútur frá Noregi sem allar voru síðan gerðar út frá Flateyri eins og hér hefur áður verið sagt frá. Ebenezer var einn þeirra sem stóðu að þessum kaupum og taldist á árunum 1885-1901 jafnan eiga einn fjórða part úr skipi (sjá hér Mosvallahreppur, inngangskafli). Eitt hinna nýju skipa sem komu til Flateyrar vorið 1885 var skútan Flateyri og tók Ebenezer strax við því skipi.[1340] Hann var lengi skipstjóri á Flateyrinni,[1341] líklega alveg til 1901 en á því ári seldu þeir Torfi og Ebenezer skip þetta nýjum eigendum.

Ebenezer Sturluson mun hafa verið farsæll skipstjóri og í ritinu Skútuöldin fær hann þessa umsögn:

 

Skipstjóri á Flateyrinni var um langan tíma Ebenezer Sturluson frá Dalshúsum í Önundarfirði. Hafði hann ungur tekið að stunda sjóinn og vandist snemma störfum öllum á þilskipum. Var hann í allmörg ár með Arngrími Jónssyni á Maríu og þótti snemma röskur og úrræðagóður. Skipstjórn hans á Flateyrinni heppnaðist vel. Var hann aflamaður meiri en í meðallagi og svo ágætur stjórnari að til fyrirmyndar þótti.[1342]

 

Þegar Ebenezer Sturluson fluttist til Flateyrar haustið 1880 voru þar engin íbúðarhús nema Torfahúsið og nýja tveggja  hæða timburhúsið sem Sveinn Rósinkranzson reisti þá um sumarið (sjá hér bls. 298). Ebenezer mun þá þegar hafa fest kaup á einum fjórða parti af því húsi og bjó hann þar æ síðan[1343] en hús þetta er enn nefnt Sveinshús. Margrét Bjarnadóttir, sem var fyrri eiginkona Ebenezers, andaðist árið 1888 en 30. mars árið 1891 gekk hann að eiga Friðriku Halldórsdóttur frá Hóli á Hvilftarströnd sem þá var tæplega þrítug að aldri, fimmtán árum yngri en brúðguminn.[1344] Með fyrri konunni eignaðist Ebenezer þrjá syni sem náðu að vaxa úr grasi en fluttust allir af landi brott.[1345] Fimm börn hans af seinna hjónabandi komust upp og ílentust þau öll hérlendis.[1346] Með sjómennskunni hafði Ebenezer lengi svolítinn búskap og nytjaði um langt skeið 5 jarðarhundruð í Innri-Hjarðardal þó að hann ætti heima á Flateyri (sjá hér Innri-Hjarðardalur).

Þegar Ebenezer Sturluson skipstjóri dó sumarið 1923 átti hann enn heima á Flateyri.

 

Einn skipstjóranna sem settust að á Flateyri á árunum um og upp úr 1880 var Kjartan Rósinkranzson. Hann fæddist í Tröð 14. maí 1858 og var eitt margra barna hjónanna Rósinkrans Kjartanssonar og Guðlaugar Pálsdóttur sem þar bjuggu búi sínu.[1347] Einn bræðra Kjartans var Sveinn Rósinkranzson sem líka var skútuskipstjóri á Flateyri en seinna bóndi á Hvilft. Árið 1880 átti Kjartan enn heima í Tröð en árið 1883 fluttist hann til Flateyrar og settist að í Torfahúsi.[1348] Í sóknarmannatali frá því ári er hann nefndur skipherra.[1349] Á því ári eða litlu fyrr hefur hann því orðið skipstjóri á þilskipi sem mun hafa verið Hilda María[1350] en líklegt verður að telja að Torfi Halldórsson eða Magnús Össurarson hafi kennt honum undirstöðuatriðin í sjómannafræðum. Sama ár og Kjartan fluttist til Flateyrar keypti hann einn fjórða part í Hildu Maríu og gerðist þar með sameignarmaður Torfa Halldórssonar (sjá hér bls. 128). Árið 1887 var Kjartan enn með Hildu Maríu (sjá hér bls. 148) en seinna var hann skipstjóri á ýmsum skútum, lengst á Guðnýju frá Dýrafirði[1351] og árið 1899 var hann með kútterinn Lovísu sem Ásgeirsverslun á Ísafirði átti og gerði út.[1352]

Kjartan Rósinkranzson kvæntist haustið 1884 jafnöldru sinni, Þórlaugu Björnsdóttur, sem var fósturdóttir Torfa Halldórssonar og konu hans, Maríu Össurardóttur.[1353] Sama haust byggðu þeir Kjartan og Páll Guðlaugsson, mágur hans, tveggja hæða timburhús[1354] og var það þriðja íbúðarhúsið sem reist var á Flateyri,[1355] að frátöldu hinu gamla Torfahúsi sem orðið var meira en 60 ára gamalt (sjá hér bls. 16-18). Hin tvö húsin voru byggð 1880 og 1882.[1356] Jón Guðmundsson smiður frá Grafargili vann við að reisa Kjartanshús á Flateyri haustið 1884 og segir í dagbók sinni þann 4. október:

 

Við erum fjórir að setja upp hús á Flateyri, Árni Sveinsson snikkari, Hjörtur Hjartarson og Magnús Bergur Guðmundsson. Húsið er 16 álnir á lengd og 12 á breidd, tveggja tasíu.[1357]

 

Einum mánuði síðar lætur Jón þess getið að hann sé búinn að vinna við þessa húsbyggingu í 6 vikur og það séu Kjartan og Páll sem eigi þetta nýja hús.[1358] Á sóknarmannatalinu frá 31.12.1884 eru þau Kjartan og Þórlaug enn skráð til heimilis í Torfahúsi en Páll mágur hans var þá að líkindum fluttur inn í nýja húsið.[1359] Kjartanshús stendur enn á Flateyri (1995) og er númer 7 við Hafnarstræti.[1360]

Í ritinu Skútuöldin er Kjartani skipstjóra lýst með þessum orðum:

 

Annar [þ.e. annar skipstjóri – innsk. K.Ó.] var Kjartan Rósinkranzson frá Tröð, bróðir Sveins skipstjóra á Maríu. Átti hann langan og frækilegan skipstjóraferil fyrir höndum. Lengst var Kjartan með Guðnýju frá Dýrafirði og aflaði frábærlega vel. Svo sparsamur var hann og nýtinn á alla hluti að einstakt mátti heita og gilti þar einu hvort hann hélt á sjálfs sín eignum eða annarra. Vildi við brenna að sparsemi Kjartans reyndist um of en alla tíð þótti hann í röð fremstu hákarlamanna á Vestfjörðum. Brást honum aldrei afli enda skorti hann hvorki kappsemi né forsjálni og útsjón.[1361]

 

Árið 1890 eða því sem næst tók Kjartan við skipstjórn á skonnortunni Guðnýju sem Mýramenn í Dýrafirði áttu og gerðu út á hákarlaveiðar (sjá hér Mýrar). Fimm árum síðar var hann enn skipstjóri á Guðnýju en árið 1899 var hann með Lovísu, einn af kútterum Ásgeirsverslunar á Ísafirði, sem þá mun hafa verið gerð út frá Flateyri og stundaði hákarlaveiðar.[1362] Kjartan var þá með mestan afla af fimm hákarlaskipum er gerð voru út frá Önundarfirði og Dýrafirði, 867 tunnur.[1363]

Um ástæður þess að Kjartan Rósinkranzson hætti sem skipstjóri hjá útgerð Torfa á Flateyri um 1890 er ekki vitað en vera má að hann hafi aðeins talið skonnortu Mýramanna betra skip en gömlu Hildu Maríu. Þess má þó geta að í bréfum Maríu Össurardóttur, eiginkonu Torfa Halldórssonar, sem birt eru í Torfaættarbók, andar fremur köldu í garð Kjartans en eins og áður sagði var hann kvæntur fósturdóttur þeirra Torfa og Maríu. Í bréfi sem María skrifaði Guðrúnu dóttur sinni að morgni gamlársdags árið 1903 segir hún frá brúðkaupsveislu sem haldin var fáum dögum áður á Flateyri og kemst þá svo að orði:

 

Þú hefðir átt að sjá Bóas og „nærri” tengdason minn [Kjartan Rósinkranzson] standa eins og dáleidda í barnaskólanum og raða okkur niður. Bara þú virkilega hefðir verið komin að sjá vængjasláttinn og kurteisina og augun prófastsins þegar „ljósagætarinn” varð að fara að skara lampana svo hann sæi til að lesa! Eins og þú veist er Kjartan minn sparsemdarmaður og lætur ekki loga of mikið fyrr en á þarf að halda![1364]

 

María víkur oftar að Kjartani í bréfum sínum til Guðrúnar á árunum 1895, 1896 og 1903 og ætíð fremur kuldalega.[1365] Í bréfi sem María skrifaði Guðrúnu dóttur sinni í nóvembermánuði árið 1907 minnist hún enn á Kjartan Rósinkranzson og segir frá á þessa leið:

 

Sýslumaður gisti hér um nóttina. Þegar hann kom á fætur kom hann hérna inn til mín og sagðist þurfa ofan á Flateyri [sjálf var María þá á Sólbakka – innsk. K.Ó.] að útnefna virðingarmenn og kom okkur saman um að Bóas og Eiríkur yrðu. En úr því varð þá Bóas og Kjartan og varð mér þá á að segja sýslumanni að það væri maður sá er mér væri verst við að væri inni í þessum búsökum og las honum svo dálítinn texta! Sagði hann að sér hefði ekki dottið í hug annað en ég myndi vilja hafa hann og að hann væri „sjentilmaður”. En það fór af þegar starfinu var lokið.[1366]

 

Við lestur þessara orða þarf að hafa í huga að búið sem átti að virða var dánarbú Torfa Halldórssonar, eiginmanns Maríu, en pistillinn sýnir glöggt að samskipti Kjartans skipstjóra við Maríu Össurardóttur hafa verið í stirðara lagi, að minnsta kosti á köflum, enda þótt hann væri nærri tengdasonur hennar eins og hún sjálf komst að orði. Í Torfaættarbók er höfð eftir dótturdóttur Maríu sú saga að Kjartan hafi hálfpartinn bannað Þórlaugu [eiginkonu sinni] að hafa of mikil samskipti við Maríu fósturmóður sína og hafi hann verið hræddur um að áhrif Maríu hefðu óæskileg áhrif á fjárhag heimilisins.[1367]

Vel gæti þetta verið rétt en ekki liggur fyrir hvort erjur Kjartans við Maríu Össurardóttur hafa haft einhver áhrif á samskipti hans við Torfa Halldórsson sem gerði hann ungan að sameignarmanni sínum og skipstjóra á Hildu Maríu.

Seinna urðu umsvif Kjartans meiri í þilskipaútgerðinni því á árunum 1904-1906 átti hann kútterinn Stjernö og gerði hann út á þorskveiðar.[1368] Í opinberum heimildum er þessi tvímastra kútter ýmist sagður hafa verið 45 eða 53 smálestir.[1369] Hann var smíðaður í Lowestoft í Englandi árið 1871 og var árið 1895 í eigu nokkurra manna í Reykjavík.[1370] Til Flateyrar mun Stjernö ekki hafa komið fyrr en á árunum 1902-1904.[1371] Á því ári (1904) gerði Kjartan Rósinkranzson þennan gamla kútter út á þorskveiðar og voru 15 hásetar um borð.[1372] Vertíðin stóð í 27 vikur og varð aflinn sem hér segir: 38.600 þorskar, 7.300 smáfiskar (þyrsklingar), 3.700 ýsur, 325 lúður og 875 stykki af öðrum fisktegundum.[1373] Kútterinn Stjernö var rifinn á Flateyri árið 1914.[1374]

Kjartan Rósinkranzson átti heima á Flateyri í 43 ár, frá 1883 til 1926, og allt til ársins 1907 er hann jafnan nefndur skipstjóri (eða skipherra) í húsvitjanabók prestsins í Holti.[1375] Árið 1907 fær hann hins vegar titilinn kaupmaður[1376] og mun þá hafa verið byrjaður að versla.

Fyrstu afskipti Kjartans Rósinkranzsonar af verslunarmálum, sem um er kunnugt, eru reyndar frá árinu 1895 en þá veitti hann forstöðu Pöntunarfélagi Önundarfjarðar sem flutti inn lítilræði af erlendum vörum (sjá hér Mosvallahreppur, inngangskafli). Það félag virðist aðeins hafa starfað þetta eina ár. Verslunarleyfi mun Kjartan hafa fengið árið 1901 en nafn hans er þá nefnt í fyrsta sinn í opinberum skýrslum þar sem kaupmennirnir á Flateyri eru taldir upp.[1377] Í þessari sömu skýrslu er hins vegar tekið fram að á árinu 1901 hafi hann ekki fengið neinar vörur erlendis frá og ekki heldur flutt neitt út.[1378] Á þessu fyrsta ári nýrrar aldar hefur Kjartan því ekki verið virkur kaupmaður þó að hann væri kominn með verslunarleyfi. Sömu sögu er að segja frá árinu 1902[1379] en árið 1903 hófst hann handa og flutti þá inn svolítið af varningi.[1380] Heildarsöluverð þessa varnings út úr búð á Flateyri var áætlað 2.286,08 krónur[1381] sem var aðeins tæplega 10% af verðmæti þeirra vara sem bróðir Kjartans, Bergur Rósinkranzson, kaupmaður á Flateyri, flutti inn þetta sama ár.[1382] Árið 1904 var innflutningur Kjartans enn minni[1383] svo segja má að hann hafi farið hægt af stað. Umsvif Kjartans Rósinkranzsonar á verslunarsviðinu urðu aldrei mikil en einhvern verslunarrekstur mun hann þó hafa verið með í um eða yfir 20 ár. Snorri Sigfússon skólastjóri, sem var búsettur á Flateyri á árunum 1912-1929, segir að verslun Kjartans hafi verið fremur smávaxin en þó hafi hann haft flestar erlendar vörur á boðstólum.[1384] Snorri getur þess líka að Kjartan hafi ekki verið með fiskverkun og ekkert flutt út af fiski.[1385] Sölubúð sína var Kjartan með í íbúðarhúsinu sem hann kom sér upp árið 1884[1386] og hér hefur áður verið nefnt.

Með konu sinni, Þórlaugu Björnsdóttur, eignaðist Kjartan fimm börn en þrjú þeirra dóu á árunum 1912-1914 og hið fjórða árið 1919.[1387] Öll munu þau hafa dáið úr berklum[1388] en þegar þau létust voru þau á aldrinum frá 17 til 28 ára.[1389] Konu sína missti Kjartan líka árið 1914 en hún andaðist 5. júní á því ári, 55 ára gömul.[1390] Eina barn Kjartans og Þórlaugar sem náði þrítugsaldri var María Salóme sem giftist Páli Sigurðssyni tryggingayfirlækni, fæddum 1892.[1391]

Kjartan Rósinkranzson andaðist 12. júlí 1926, 68 ára að aldri, og var þá kaupmaður á Flateyri.[1392]

 

Helgi Andrésson var einn af skipstjórunum á Flateyri í tíð Torfa Halldórssonar og sá síðasti úr þeirra hópi sem hér verða gerð einhver skil. Helgi var fæddur árið 1858 á Hvilft og voru þeir jafngamlir hann og Kjartan Rósinkranzson.[1393] Foreldrar Helga voru hjónin Andrés Sakaríasson og Helga Guðmundsdóttir sem bjuggu fyrst á Hvilft og seinna á Görðum en fluttust til Súgandafjarðar árið 1872 (sjá hér Hvilft). Árið 1885 settust þau að á Flateyri og komu þá úr Súgandafirði (sjá hér Hvilft). Árið 1870 var Helgi Andrésson léttingur í Hjarðardal, þá 12 ára gamall, en um fermingaraldur fluttist hann að Vatnadal í Súgandafirði en þar áttu foreldrar hans heima í nokkur ár.[1394] Árið 1880 var Helgi hjá foreldrum sínum í Lækjarkoti, hjáleigu frá Stað í Súgandafirði, en árið 1885 fluttist hann frá Ísafirði til Flateyrar og var þá orðinn skipstjóri.[1395] Sjómannafræði er sagt að hann hafi lært hjá Torfa Halldórssyni.[1396]

Sama ár og Helgi fluttist til Flateyrar var hann fenginn til að fara til Noregs og líta þar eftir smíði þriggja skipa sem Torfi Halldórsson og samstarfsmenn hans voru að láta smíða í Stavanger (sbr. hér  bls. 145). Hann var þá aðeins 27 ára gamall en sendiför þessi sýnir að hinn ungi skipstjóri hefur notið mikils trausts. Meðan Helgi beið eftir skipunum í Noregi tók hann þar skipstjórapróf.[1397] Sjálfur átti Helgi hlut í einu þessara skipa og var það Ísafold sem hann stýrði sjálfur yfir hafið á heimsiglingunni frá Noregi (sjá hér bls. 146). Næstu árin var Helgi skipstjóri á Ísafold sem var 35 smálesta slupgaleas og gerð út frá Flateyri (sjá hér bls. 147-148) en árið 1889 var hann orðinn skipstjóri á Gretti,[1398] tæplega 30 smálesta skonnortu sem Ásgeirsverslun gerði út frá Flateyri[1399] (sbr. hér bls. 155-156). Árið 1891 var Helgi enn skipstjóri á Gretti[1400] en árið 1897 var hann með skonnortuna Capellu frá Þingeyri.[1401] Í ofsaveðri í maíbyrjun þá um vorið fór Capella á hvolf í Látraröst og síðan heila veltu en náði að rétta sig af og sluppu Helgi og menn hans heilir úr þessum voða.[1402]

Árið 1898 var Helgi Andrésson orðinn skipstjóri á Sigríði, kútter sem Ásgeirsverslun gerði út,[1403] og næsta ár var hann einnig með þennan sama kútter og stundaði enn hákarlaveiðar.[1404] Skipin sem Helgi stýrði til veiða munu hafa verið talsvert fleiri en þau sem hér hafa verið nefnd og m.a. var hann um skeið með eitt af skipum Péturs J. Thorsteinsson á Bíldudal.[1405]

Mikið orð fór af Helga sem skipstjóra og hann var talinn vel menntaður í sjómannafræðum, enda kenndi hann ungum mönnum þau fræði og tók suma þeirra á heimili sitt meðan á kennslunni stóð.[1406] Í ritinu Skútuöldin er sagt nokkuð frá Helga, meðal annars þetta:

 

Helgi Andrésson var með mörg skip, bæði frá Önundarfirði, Dýrafirði og Arnarfirði. Hann var dugandi sjómaður og aflamaður ágætur. Átti hann oft í harðri keppni við Kjartan Rósinkranzson því að þeir þóttu um skeið ágætastir hákarlamanna þar vestra. Var sagt að þeir litu stundum hornauga hvor til annars og ekki með sem mestri ástúð enda þótt tengdir væru á milli en þeir voru svilar. Helgi varð oft fyrir hrakningum og áföllum og það kom fyrir hann sem einsdæmi mun vera að skipi hans hvolfdi og fór það heila veltu í sjónum en komst síðan á réttan kjöl.[1407]

 

Þegar Helgi Andrésson fluttist til Flateyrar árið 1885 var hann nýlega kvæntur en kona hans hét Helga Björnsdóttir og voru þau bræðrabörn.[1408] Þau Helgi og Helga voru gefin saman í  hjónaband árið 1884 en foreldrar hennar voru hjónin Björn Sakaríasson og Guðbjörg Torfadóttir[1409] sem bjuggu skamman tíma á Hvilft og seinna á Kaldá og voru í húsmennsku á Selakirkjubóli (sjá hér Hvilft og Kaldá). Hjónaband Helga Andréssonar og Helgu Björnsdóttur stóð í yfir 40 ár og saman munu þau hafa eignast tólf börn.[1410]

Á Flateyri bjó Helgi frá 1885-1888 og aftur frá 1896-1915 en á árunum 1888-1894 var hann á Kaldá og 1894-1896 á Bakka í Arnarfirði.[1411]

Árið 1896 settist Helgi Andrésson að á Flateyri í annað sinn og á því ári byggðu þeir Friðrik Bjarnason allstórt timburhús sem lengi var nefnt Helgahús. Grunnflötur hússins var 12 x 10 álnir[1412] það er liðlega 47 fermetrar. Það var portbyggt[1413] og hefur því verið ein hæð og ris en hallandi súðin upp á loftinu ekki náð alveg niður á gólf. Bárujárnsþak var á þessu nýja húsi og þann 10. febrúar 1897 var það virt af opinberum úttektarmönnum á 1.800,- krónur.[1414] Helgi átti þá tvo þriðju hluta þess en Friðrik Bjarnason einn þriðja.[1415] Þetta 100 ára gamla hús stendur enn (1995) og er nú númer 9 við Grundarstíg hér á Flateyri[1416] (sbr. hér bls. 302). Þegar Helgi fór frá Flateyri seldi hann húsið Halldóri Georg Stefánssyni lækni og bjó Halldór í því um skeið.[1417]

Eigi síðar en árið 1901 fékk Helgi Andrésson leyfi til að reka sveitaverslun sem svo var nefnt[1418] og árið 1902 flutti hann inn lítið eitt af erlendum vörum.[1419] Í hinum opinberu verslunarskýrslum er þó tekið fram að vörurnar sem Helgi fékk frá útlöndum þetta ár séu aðeins til heimilisbrúkunar.[1420] Meðal þess sem Helgi flutti inn árið 1902 voru 419 kíló af kandíssykri[1421] en opinberar skýrslur benda mjög eindregið til þess að hann hafi aldrei farið út í eiginlegan verslunarrekstur. [1422]

Árið 1915 fluttust Helgi og kona hans til Reykjavíkur.[1423] Hann var þá orðinn 57 ára gamall, tími hákarlaveiðanna liðinn og seglskipin að hverfa úr sögunni. Þessi gamli sægarpur að vestan hélt þó áfram sjómennsku og á fyrstu vikum ársins 1925 var hann háseti á togaranum Leifi heppna. Í Halaveðrinu mikla 7. og 8. febrúar 1925 fórust tveir togarar og drukknuðu allir sem þar voru um borð, samtals 68 menn. Annar þessara togara var Leifur heppni. Í þessu fárviðri á Halanum háði gamli hákarlaskipstjórinn frá Flateyri sitt síðasta stríð og varð nú loks að lúta í lægra haldi eins og allir hinir sem týndu lífi þegar Leifur heppni fórst.[1424] Í hópi þeirra sem fórust með Leifi heppna var líka sonur Helga Andréssonar, sem Ingólfur hét, en hann var stýrimaður á skipinu.[1425]

Helga Björnsdóttir, ekkja Helga Andréssonar, lifði enn í 27 ár en hún andaðist nær 95 ára gömul á heimili dóttur sinnar að Þórsgötu 3 í Reykjavík þann 11. febrúar árið 1952.

 

Hér hefur nú eða áður verið sagt meira eða minna frá öllum helstu skipstjórum á flotanum sem Torfi Halldórsson gerði út frá Flateyri á síðasta þriðjungi 19. aldar. Með útgerðinni og búskapnum á Eyri starfaði hann í hálfan annan áratug sem verslunarstjóri við verslun Hjálmars Jónssonar á Flateyri eins og hér hefur áður verið greint frá og nokkru eftir brottför Hjálmars kom Torfi á fót merkilegri lýsisbræðslu. Seinna fór hann svo að versla á eigin nafni og réðst í mikil umsvif sem hér verður brátt sagt frá en ætla má að þá hafi synir hans verið komnir með frumkvæðið.

Árið 1882 setti Gránufélagið upp gufulýsisbræðslu á Oddeyri við Eyjafjörð og mun það hafa verið fyrsta bræðslan af því tagi sem sett var upp hérlendis og náði að skila árangri til frambúðar.[1426] Áður hafði þó verið reynt að nota gufuafl við bræðslu á þorskalifur í Grindavík.[1427]

Árið 1885 var gufulýsisbræðsla sett upp innantil við Flateyri fyrir forgöngu Torfa Halldórssonar en um það fyrirtæki hafði hann samvinnu við Norðmanninn J. Uglehus sem þá var búsettur á Ísafirði og var að hefja verslunarrekstur á Flateyri[1428] (sbr. hér bls. 135-140). Gufubræðslan frá 1885 mun hafa verið sett upp skammt fyrir utan landamerki Eyrar og Hvilftar því fullvíst er að þar var lifrin brædd á síðustu árum 19. aldar, – innan við bryggjuna sem þá var á Sólbakka.[1429] Eldri lýsisbræðsla var hins vegar niðri á Flateyrarodda (sjá hér bls. 97-98). Gufubræðslan sem Torfi og samstarfsmenn hans komu upp árið 1885 þótti merkileg nýjung og mun hafa verið ein fyrsta lýsisbræðslan hérlendis sem gekk fyrir gufuafli. Fullvíst er að J. Uglehus átti í byrjun einn þriðja part í bræðslunni[1430] og orð Hjálmars Jónssonar í bréfi til Torfa, skrifuðu sumarið 1885, benda eindregið til þess að aðrir eigendur hafi verið þeir Torfi Halldórsson og Sveinn Rósinkranzson skipstjóri, síðar bóndi á Hvilft. Þú skrifar mér, segir Hjálmar í nýnefndu bréfi, að þið Sveinn megið til að taka þátt í bræðsluverkinu.[1431] Auk verslunarrekstursins á Flateyri og þátttöku í að koma upp gufubræðslunni átti J. Uglehus stóran hlut í tveimur hinna þriggja nýju þilskipa sem keypt voru til Flateyrar árið 1885 (sjá hér bls. 135-140). Veldi hans var því ekki lítið en hrundi fyrr en varði.

Tilgangurinn með uppsetningu gufubræðslunnar var fyrst og fremst sá að fá verðmætara lýsi úr hákarlslifrinni. Gils Guðmundsson greinir frá þessu framtaki í riti sínu Skútuöldinni og segir:

 

Árið 1886 [rétt er 1885 – innsk. K.Ó.] fékk Torfi gufulýsisbræðslu til Flateyrar og var það fyrsta gufubræðslan þar um slóðir. Áður hafði orðið að bræða lifrina á hlóðum og vildi lýsið þá verða dökkt og ljótt á litinn. Keypti Torfi því lítinn gufuketil og þrjá bræðslupotta. Brá svo við strax á fyrsta ári að lýsið reyndist stórum ljósara og fékkst mun betra verð fyrir það. Samtök höfðu þilskipaeigendur einnig, undir forystu Torfa, til að afla veiðarfæra og annars nauðsynjavarnings á hagkvæman og ódýran hátt.[1432]

 

Áður en Torfi fékk gufubræðsluna mun hann hafa látið bræða hákarlslýsið með gömlu lagi og 30 árum fyrr voru þeir félagar, Torfi og Hjálmar Jónsson, með sína eigin lýsisbræðslu á Ísafirði.[1433]

Þú skrifar mér að þið séuð farnir að bræða við Damp, segir Hjálmar í bréfinu er hann ritaði Torfa frá Kaupmannahöfn í júlílok árið 1885[1434] og getur því vart leikið á tveim tungum hvaða ár gufubræðslan komst í gagnið á Flateyri. Í þessu sama bréfi sést að það var Norðmaðurinn Uglehus, er hér var áður nefndur, sem sendi þetta nýja bræðsluverk til Íslands og þar kemur einnig fram að við nokkra byrjunarörðugleika var að etja.[1435] Í bréfi frá Torfa hefur Hjálmar fengið fréttir af gangi mála og í sínu svarbréfi tjáir hann sig meðal annars á þessa leið:

 

… en hvernig útkoman verður á lifrinni er vel ekki hægt að vita um. Það kemur sem þú veist mikið upp á að kassarnir séu þéttir í skipunum og lifrarílátin á landi leki ekki lýsinu. Ég hef ekki trú á kössum undir lifur á landi. Ég hafði kassana úr Hildi [líklega er þarna átt við skútuna Hildu Maríu – innsk. K.Ó.] sem voru úr 2ja tommu furuplönkum og vel seymdir með spíkurum og lukkaðist mér ekki að brúka þá undir lifur. Þeir láku lýsinu. Þú skrifar mér að þið Sveinn megið til að taka part í bræðsluverkinu úr því þið ekki getið selt lifrina en hafði ekki Uglehus samið um við þá sem hann útvegaði skipin að bræða þá lifur sem þau fiskuðu? En það er merkilegt að Uglehus sendir til Íslands dýrt bræðsluverk og mikið af fötum undir lýsi en ekkert ílát til að láta lifrina í þegar hún er losuð upp úr skipunum.[1436]

 

Þessi kafli úr bréfi Hjálmars er reyndar býsna merkilegur því hann sýnir að það var Uglehus sem hafði milligöngu um smíði skipanna þriggja sem Önfirðingar keyptu frá Stavanger árið 1885 eins og hér var áður minnst á. Augljóst er að Uglehus hefur ætlað sér að annast sölu á lýsinu frá Torfa. Hjálmar hafði hins vegar litla trú á þessum Norðmanni og reyndi að vara vini sína á Flateyri við honum. Í bréfinu sem áður var vitnað til segir hann meðal annars:

 

Hann [þ.e. Uglehus – innsk. K.Ó.] vill senda lýsið til Bergen en það er vanskilegt að senda sínar vörur í framandi land nema maður hafi áreiðanlegan mann til að selja þær og svo standa skil á borguninni. Ég hef eins og þú baðst mig í þínu góða bréfi 18. apríl haldið fyrirspurn um Rosinvald í Stavanger en ekki fengið neinar upplýsingar um þann mann en því miður heyri ég haft eftir Norðmönnum að Uglehus hafi ekki mikið álit á sér hjá sínum landsmönnum. Ég vildi óska, kæri vin, að þú og Sveinn minn færuð svo varlega í viðskiptum ykkar við þessa Norðmenn að ykkur yrði ekki að baga.[1437]

 

Haustið 1885 kom Torfi þeim boðum til Hjálmars að þeir Sveinn Rósinkranzson teldu sig hafa sloppið nokkurn veginn skaðlausir frá viðskiptunum við Uglehus (sjá hér bls. 136) og í bréfi sem Hjálmar ritaði Torfa þegar komið var fram í nóvember þetta sama ár kvaðst hann gleðjast yfir þeim tíðindum og lét vini sína á Flateyri vita að Uglehus hefði sloppið sem frí frá kærumálum er búið var að höfða gegn honum (sjá hér bls. 135-136).

Hér var áður frá því greint að sumarið 1886 var verslun J. Uglehus á Flateyri lýst gjaldþrota (sjá hér bls. 137-138). Allar eignir hans hér voru virtar og skrifaðar upp þann 28. júlí á því ári[1438] og munu síðar hafa verið seldar á uppboði. Í uppskriftargerðinni frá 28. júlí sést að tæki lýsisbræðslunnar voru virt á 2.243,50 krónur[1439] en þau voru þessi:

 

 1. Grútarpressa og spikskurðarvél virt á      kr.   1.050,00
 2. Dampketill og þrír pottar með tilheyrandi   virtir á      kr.      900,00
 3. Fótstykki undir kötlum o.fl. virt á      kr.      120,00
 4. Fjórir lifrarkassar virtir á      kr.      120,00
 5. Níu lifrarplankar virtir á      kr.        22,50
 6. Gamall pottur virtur á      kr.          5,00
 7. Þrjú mál með hönkum virt á      kr.          4,50
 8. Fjórir gamlir balar virtir á      kr.          1,00
 9. Fjórir búkkar virtir á      kr.        10,00
 10. Fimm börur virtir á      kr.          5,00
 11. Lifrarausa virt á      kr.          0,50
 12. Einn stampur virtur á      kr.          3,00
 13. Fjögra tunnu kar                    virt á      kr.          2,00

Samtals      kr.   2.243,50

 

Af öllu því sem hér var nú talið upp átti J. Uglehus einn þriðja part[1440] eins og fyrr var getið. Aftan við upptalninguna á öllum eignum þrotabús hans á Flateyri hefur Guðmundur Jónsson, hreppstjóri á Kaldá, skrifað þann 29. júlí 1886:

 

Allt hið framanskrifaða hefur Árni Sveinsson [þá smiður á Flateyri, seinna kaupmaður á Ísafirði – innsk. K.Ó.] lofað að annast fyrst um sinn að fráskildum partinum í bræðsluverkinu sem nú er undir brúkun.[1441]

 

Orð hreppstjórans sýna að lýsisbræðslan var í fullum gangi sumarið 1886 og þó að Uglehus gengi úr skaftinu munu Torfi og samverkamenn hans hafa haldið áfram starfrækslu hennar í allmörg ár. Bræðslan stóð skammt frá sjó, rétt innan við Flateyri, og þegar gengið var frá samningum við Hans Ellefsen um leigu á landi fyrir væntanlega hvalstöð á Sólbakka var ákveðið að ytri mörk þess leigulands skyldu vera um það bil tíu metrum fyrir utan hana (sjá hér Sólbakki).

Ef marka má skrif í blaðinu Þjóðviljanum frá nóvembermánuði árið 1887 var það Þilskipafélag Flateyringa sem taldist þá eiga bræðsluverkið en í því félagi var Torfi Halldórsson mestur ráðamaður eins og hér hefur áður verið gerð grein fyrir (sjá hér bls. 140-142).

Á nítjándu öld voru hákarlslýsi og saltfiskur helstu afurðirnar sem út voru fluttar frá Flateyri. Árið 1837 fékkst að því er virðist meira fyrir hákarlslýsið en það sem greitt var fyrir saltfisk og skreið samanlagt og mun meira en greitt var fyrir ull og prjónles frá Flateyri (sjá hér bls. 44-45). Annar útflutningur frá Flateyri var þá sáralítill. Á árunum 1876 og 1877 var útflutningsverðmæti saltfisksins, sem sendur var frá Flateyri til annarra landa, hins vegar um það bil tvöfalt meira en útflutningsverðmæti lýsisins ef marka má opinberar skýrslur (sjá hér bls. 103), en sum árin á milli 1880 og 1900 fékkst hins vegar mun meira fyrir hákarlslýsið sem Önfirðingar fluttu út en það sem greitt var fyrir allar aðrar útfluttar sjávarafurðir frá Flateyri samanlagt. Sem dæmi um þetta má nefna árin 1883 og 1898.[1442] Upplýsingum úr verslunarskýrslum frá 19. öld verður að vísu að taka með nokkrum fyrirvara því þær eru ekki alltaf mjög nákvæmar en gefa engu að síður góðar vísbendingar. Séu átta ár valin af handahófi og skoðað hvað hákarlslýsið gaf af sér stóran hluta af heildarútflutningstekjum fyrir hinar venjubundnu afurðir frá Flateyri verður niðurstaðan þessi samkvæmt hinum opinberu skýrslum: 1837 um 40,0% (sjá hér bls. 44-45), 1876/1877 29,0% (sjá hér bls. 103), 1881 24,3%, 1883 58,2%, 1887 32,9%, 1893 42,2% og 1898 80,0%.[1443] Þarna eru hvalafurðir frá Sólbakka ekki taldar með og ekki heldur ísaður koli sem aðeins er nefndur í skýrslum ársins 1893.

Í hverri lýsistunnu voru 120 pottar af lýsi[1444] og á árunum 1876-1900 voru samkvæmt verslunarskýrslunum fluttar út 11.199 tunnur af hákarlslýsi frá Flateyri. Tunnufjöldinn skiptist þannig á hvert fimm ára tímabil:

 

 • 369 tunnur á ári
 • 381 tunna  á ári
 • 471 tunna  á ári
 • 309 tunnur á ári
 • 710 tunnur á ári[1445]

 

Fyrir 1898 voru flestar tunnur fluttar út árin 1886 og 1892, 570 fyrra árið og 586 það síðara.[1446] Þrisvar sinnum var fjöldi lýsistunnanna innan við 200, það er að segja 164 árið 1882, 78 árið 1894 og 30 árið 1895.[1447] Þessar lágu tölur eru grunsamlegar en skýringin kynni að vera sú að mikið af lýsinu hafi verið flutt á aðra útflutningshöfn í nágrenninu áður en það komst í skip sem sigldi með það úr landi. Í athugasemd er fylgir verslunarskýrslum ársins 1893 er reyndar tekið fram að eitthvað af útflutningsvörum frá Flateyri hafi verið fluttar út frá Ísafirði.[1448]

Árið 1898 fjölgaði hákarlslýsistunnunum frá Flateyri úr 333 upp í 1230.[1449] Þá voru stórir kútterar í eigu Ásgeirsverslunar farnir að stunda hákarlaveiðar[1450] og má ætla að afli þeirra segi þarna til sín í fyrsta sinn. Næsta ár eru lýsistunnurnar frá Flateyri sagðar hafa verið 1539. Á fyrsta ári nýrrar aldar urðu tunnurnar 1284[1451] en á allra næstu árum þar á eftir var hákarlaveiðunum hætt, enda breytti vélvæðing bátaflotans öllum viðhorfum í útgerð. Árið 1905 voru aðeins fluttar út 302 tunnur af hákarlslýsi úr allri Ísafjarðarsýslu, ef marka má verslunarskýrslurnar, og á árunum 1906 og 1907 var ekkert hákarlslýsi flutt út frá Flateyri eða öðrum verslunarstöðum í sýslunni.[1452]

Nokkrar líkur benda til þess að á árunum 1876-1897 hafi í raun verið flutt út meira af hákarlslýsi frá Flateyri en upp er gefið í verslunarskýrslunum. Nefna má að á árunum 1890 og 1891 komu fjórar skútur sem gerðar voru út frá Flateyri með liðlega 1260 lifrartunnur að landi hvort ár eða samtals 2523 lifrartunnur á tveimur árum.[1453] Í ritgerð frá árinu 1832 gekk Guðmundur Scheving í Flatey á Breiðafirði út frá því að tvær tunnur af hákarlslýsi fengjust að jafnaði úr hverjum þremur lifrartunnum (sjá hér bls. 22). Lifrartunnurnar 2523 hefðu því átt að gefa af sér um það bil 1680 tunnur af lýsi. Í verslunarskýrslunum segir hins vegar að frá Flateyri hafi aðeins verið fluttar út 868 tunnur af hákarlslýsi á þessum tveimur árum, 1890 og 1891.[1454]

Í þessu sambandi er vert að taka fram að þarna þarf alls ekki að vera um undanskot frá útflutningsgjaldi að ræða. Líklegri skýring er að talsvert af lýsinu frá Flateyri hafi verið flutt á aðra höfn áður en það komst í skip sem flutti það úr landi. Einnig getur verið að lýsi frá útibúi Ásgeirsverslunar á Flateyri hafi verið bókað sem útflutningur frá Ísafirði en þar voru höfuðstöðvar þess fyrirtækis.

Frá 1840 til 1884 var verðið á hákarlslýsinu oft um og yfir 40,- krónur eða 20 ríkisdali fyrir tunnuna. Árið 1840 var verðið 20 ríkisdalir samkvæmt verðlagsskrá (sjá hér bls. 45) Árið 1858 greiddi Þingeyrarverslun 24 ríkisdali fyrir tunnu af hákarlslýsi (sjá hér bls. 62) en við myntbreytinguna árið 1873 varð hver ríkisdalur að tveimur krónum. Á árunum 1876 og 1877 fengust 44 krónur fyrir lýsistunnuna[1455] en á árunum 1878-1884 var meðalverðið tæplega 43,- krónur fyrir hverja tunnu,[1456] fór lægst í 33,- krónur árið 1880 en hæst í 54,- krónur árið 1883, og er þá átt við verð á hákarlslýsi frá Flateyri eins og það er gefið upp í verslunarskýrslum.[1457] Árið 1884 byrjaði lýsisverðið að lækka en var þó 42,- krónur fyrir tunnuna á því ári.[1458] Næstu fjögur ár lækkaði verðið stöðugt og var árið 1888 komið niður í 24,- krónur fyrir tunnuna.[1459] Svo mátti heita að þetta lága verð héldist síðan óbreytt fram yfir aldamót því að á árunum 1889-1903 fengust yfirleitt 24-27,- krónur fyrir hverja tunnu af hákarlslýsi sem flutt var út frá Flateyri.[1460] Á þessu skeiði komst verðið þó einstaka sinnum upp í 30,- krónur og fór hæst í 32,- krónur árið 1891.[1461] Hér mun ætíð vera átt við hið innlenda verð á lýsinu en ekki söluverð þess erlendis.[1462]

Óhætt er að segja að um 1885 hafi lýsisverðið lækkað varanlega um því sem næst 40% frá meðalverði áranna 1878-1884. Annað verðlag lækkaði hins vegar mun minna eins og hér er sýnt á töflu nr. 2 svo kaupmáttur peninganna sem fengust fyrir hákarlslýsið rýrnaði mjög mikið. Til samanburðar sýnist vel til fundið að líta á þróun verðlags á nokkrum algengum neysluvörum sem þá voru fluttar inn, svo og á kýrverðið og breytingar á greiðslum fyrir dagsverk um heyannir. Af innfluttu vörunum veljum við rúg, rúgmjöl, bankabygg, hrísgrjón, kaffibaunir, kandíssykur, hvítasykur, munntóbak og brennivín og skoðum hvað borga þurfti fyrir ársneyslu fimm manna fjölskyldu af þessum vörum öllum til samans. Reyndar vitum við ekki nákvæmlega hver ársneyslan var en látum nægja að gera ráð fyrir að tölur um íbúafjölda og innflutt magn hverrar vörutegundar árið 1877 segi til um neysluna (sjá hér bls. 102 og 105-106). Að þessum forsendum gefnum verður útkoman sú að árið 1876 hafi hver fimm manna fjölskylda varið að jafnaði 134,87 krónum til kaupa á þessum níu vörutegundum, öllum til samans, og er þá miðað við opinbert verðlag í Ísafjarðarsýslu.[1463] Þá tölu köllum við 100. Kýrverðið í Ísafjarðarsýslu árið 1876 var 110,11 krónur og meðalgreiðsla fyrir dagsverk um heyannir 2,63 krónur.[1464] Báðar þessar tölur köllum við líka 100 þegar við setjum þær inn í töfluna svo og þær 44,- krónur sem þá fengust greiddar fyrir eina tunnu af hákarlslýsi. Töluraðirnar á töflunni sýna svo með hvaða hætti verðið breyttist á næstu árum, annars vegar á lýsinu og hins vegar á þeim innfluttu vörum sem hér voru nefndar, svo og á kúnni og dagsverkinu. Allar grunntölur eru sóttar í hinar opinberu verslunarskýrslur og verðlagsskrár[1465] en útreikningar á ábyrgð höfundar þessa rits. Ætíð er miðað við verðlag í Ísafjarðarsýslu og á Flateyri þegar þess var kostur. Minnt skal á að hið opinbera kýrverð, sem upp er gefið í Stjórnartíðindum hvert ár sérstaklega, segir í raun til um hvert meðalverð í viðskiptum með slíka stórgripi er talið hafa verið næsta ár á undan. Hið sama á við hvað varðar dagsverk um heyannir og var tekið tillit til þess við gerð töflunnar.

 

Tafla 2

 

Breytingar á verðlagi 1876-1898

 

Ár 1. Hákarlslýsi 2. Innfl. vörur, miðað er við níu algengar vörutegundir 3. Kýrverð Gjald fyrir

dagsverk um heyannir

1876 100,0 100,0 100,0 100,0
1881 90,9 109,4 88,9 93,2
1883 122,7 91,8 99,3 118,6
1887 61,4 88,7 92,9 86,3
1893 55,1 90,9 97,1 97,3
1898 59,4 86,5 89,0 89,3

 

 

Taflan sýnir svo ekki verður um villst að um 1885 lækkaði verðið á lýsinu varanlega og að því er virðist um nálega þriðjung að raunvirði.

Hér var þess áður getið að verðið á lýsi og öðrum útflutningsvörum, sem upp er gefið í verslunarskýrslum frá árunum kringum aldamótin 1900, er ætíð kaupverðið hér innanlands en ekki söluverðið erlendis (sjá hér bls. 172-173). Full ástæða er þó til að ætla að innlenda verðið hafi hækkað og lækkað nokkurn veginn í takt við breytingar á söluverðinu erlendis. Engar nákvæmar upplýsingar liggja á lausu um muninn á innlenda lýsisverðinu og söluverði þessa sama lýsis á erlendum mörkuðum. Eina vísbendingu um þennan mun er þó vert að nefna.

Árið 1887 voru 452 tunnur af hákarlslýsi fluttar út frá Flateyri og innlenda verðið var þá 27,- krónur fyrir tunnuna.[1466] Heildarverð á þessum 42 lýsistunnum hér innanlands ætti þá að hafa verið 12.204,- krónur. Í blaðagrein sem ónefndur heimamaður á Flateyri skrifaði í nóvembermánuði þetta sama ár er hins vegar fullyrt að fyrir lýsið sem Önfirðingar sendu þá á erlendan markað hafi fengist liðlega 16.000,- krónur, að ótöldum kostnaði.[1467] Söluverðið hefur þá verið um það bil þriðjungi hærra en hið innlenda kaupverð eða kostnaðarverð.

Freistandi er að skoða þróun mála á Flateyri í ljósi breytinga sem urðu á lýsisverðinu. Árið 1883 fór verðið á lýsinu hæst og komst upp í 54,- krónur fyrir tunnuna (sjá hér bls. 172). Á því ári eða hinu næsta munu Torfi Halldórsson og félagar hans hafa ákveðið að ráðast í hinar miklu fjárfestingar sem komust í gagnið árið 1885, það er að segja kaup á þremur nýjum skipum frá Noregi og tækjum til að setja upp nýtísku lýsisbræðslu er gengi fyrir gufuafli svo sem fyrr var rakið. Nær fullvíst má telja að hið háa lýsisverð hafi ýtt undir þessi miklu og djarfmannlegu umsvif. Þegar nýju skipin komu til landsins og gufubræðslan fór í gang var lýsisverðið hins vegar tekið að falla og í kjölfar þess sigldu margvíslegir erfiðleikar sem þrengdu að starfsemi Þilskipafélags Flateyringa (sjá hér bls. 140-142).

Þrátt fyrir verðhrun á lýsinu tókst Torfa Halldórssyni og samstarfsmönnum hans að halda skipunum gangandi. Athygli vekur að þótt lýsisverðið hefði fallið um þriðjung lét Torfi þrjú af fjórum skipum sem hann gerði út á árunum kringum 1890 stunda hákarlaveiðar en Ísafoldin var ein á þorskveiðum (sjá hér bls. 150-151). Annað tveggja skipa sem gerð voru út frá Flateyri á vegum útibús Ásgeirsverslunar á árunum um og upp úr 1890 var líka látið stunda hákarlaveiðar[1468] svo ætla má að þær hafi enn gefið eitthvað í aðra hönd þegar vel aflaðist.

Árið 1887 var verðið á hákarlslýsinu komið niður í 27,- krónur fyrir tunnuna og orðið mun lægra en áður hafði þekkst en einmitt á því ári voru lögð drög að nýju ævintýri í atvinnulífi Önfirðinga. Páll Torfason á Flateyri, elsti sonur Torfa Halldórssonar, brá sér þá til Noregs og hitti þar að máli bræðurna Andreas og Hans Ellefsen (sjá hér Sólbakki). Haustið 1888 gekk hann með samþykki föður síns frá samningi við Hans Ellefsen um leigu á landspildu innan við Flateyri undir hvalveiðistöð í eigu Norðmanna og árið 1889 tók stöðin til starfa (sjá hér Sólbakki). Hin norska hvalveiðistöð á Sólbakka innan við Flateyri var í lok 19. aldar með meiri umsvif og veltu en flest eða öll önnur atvinnufyrirtæki sem þá voru starfrækt á Íslandi (sjá hér Sólbakki) en frá rekstri hvalstöðvarinnar hefur áður verið sagt á þessum blöðum.

Þegar rekstur hvalveiðistöðvarinnar á Sólbakka hófst árið 1889 var Torfi Halldórsson orðinn 66 ára gamall. Fimm ár voru þá liðin frá því hann hætti störfum sem verslunarstjóri útibús Ásgeirsverslunar á Flateyri. Þar hafði hann aðeins verið verslunarstjóri í liðlega eitt ár en næstu 15 ár þar á undan var hann verslunarstjóri við verslun Hjálmars Jónssonar á Flateyri eins og hér hefur áður verið sagt frá. Með komu norsku hvalveiðimannanna að Sólbakka urðu tímamót og við blasti að hvers kyns umsvif hlytu að aukast verulega á Flateyri. Sama ár og rekstur hvalveiðistöðvarinnar hófst virðist Torfi hafa ákveðið að hefja verslunarrekstur á eigin nafni. Á þeim árum sem liðin voru frá því hann hætti hjá Ásgeirsverslun hafði hann um skeið staðið fyrir pöntunarstarfsemi á nafni Þilskipafélags Flateyringa svo sem áður var frá sagt og fengið sendan frá útlöndum þann varning sem pantaður var (sjá hér bls. 140-142). Kaupmaður gat hann þó ekki talist á þeim árum og er jafnan nefndur bóndi í sóknarmannatölum frá árunum 1884-1889 og reyndar líka 1890.[1469]

Í lok ársins 1891 nefnir séra Janus Jónsson í Holti Torfa á Flateyri kaupmann í fyrsta sinn og segir þá að hann sé kaupmaður og bóndi.[1470] Í sóknarmannatölum frá 1892 og 1893 er Torfi svo nefndur kaupmaður bæði árin.[1471] Væri á engu að byggja nema sóknarmannatölunum mætti því ætla að Torfi hefði byrjað að versla á eigin nafni árið 1891 en nær fullvíst má þó telja að hann hafi hafið verslunarrekstur árið 1889. Sterkustu rökin fyrir því er að finna í dagbók Jóns Guðmundssonar frá Grafargili sem oft dvaldist við vinnu á Flateyri eða Sólbakka á þessum árum. Í dagbókinni getur Jón um komur skipa með vörur til Torfa bæði vorið 1889 og vorið 1890[1472] svo ætla verður að Torfi hafi þá verið farinn að versla.

Annað sem bendir til þess að Torfi hafi byrjað sinn eigin verslunarrekstur árið 1889 er koma Matthíasar Ólafssonar frá Haukadal í Dýrafirði til Flateyrar það ár. Matthías hafði unnið sem verslunarmaður á Flateyri undir stjórn Torfa árið 1883[1473] og þá hjá útibúi Ásgeirsverslunar en hætti þar um leið og Torfi árið 1884 og fluttist burt frá Flateyri.[1474] Árið 1889 kom hann aftur og settist að í Torfahúsi ásamt eiginkonu.[1475] Að því sinni var hann á Flateyri í eitt til tvö ár og er kallaður verslunarmaður þegar hann fór frá Flateyri árið 1890.[1476] Eins og áður var getið bjó Matthías í Torfahúsi á Flateyri veturinn 1889-1890 en slíkt hefði varla talist við hæfi ef hann hefði á þeim tíma verið verslunarmaður hjá Ásgeirsverslun. Miklu líklegra er hitt að Matthías hafi verið ráðinn til starfa hjá Torfa, máske sem barna- og unglingakennari yfir veturinn, því hann var realstúdent frá Möðruvöllum, og svo við verslunarstörf að sumrinu. Í minningargrein um Matthías er líka staðhæft að hann hafi verið við verslunarstörf hjá Torfa frá 1889-1890.[1477] Matthías settist að á heimaslóðum sínum í Haukadal í Dýrafirði árið 1890 og gerðist þar skömmu síðar kaupmaður og verslunarstjóri sem mikið kvað að og um skeið var hann alþingismaður Vestur-Ísafjarðarsýslu. Frá Matthíasi er sagt nánar hér á öðrum stað (sjá Haukadalur).

Líklega hefur Torfi byrjað verslunarreksturinn í smáum stíl því vörusendingarnar sem hann fékk frá útlöndum 1889 og 1890 dugðu ekki til að koma honum á blað sem kaupmanni, hvorki hjá presti né sýslumanni, og í manntalinu frá 1890 er hann nefndur óðalsbóndi. Í hinum opinberu verslunarskýrslum, sem byggðar eru á upplýsingum frá sýslumönnunum, er jafnan sögð vera bara ein verslun á Flateyri á árunum 1883-1891[1478] og hlýtur þá að vera átt við útibú Ásgeirsverslunar sem var í raun eina verslunin á Flateyri á þessum árum, allt þar til Torfi opnaði sína búð.

Árið 1892 er Torfa getið í fyrsta sinn í skýrslum sýslumanns sem eins þeirra kaupmanna er ráku verslun í Ísafjarðarsýslu.[1479] Allur útflutningur Torfa á því ári var 315 tunnur af hákarlslýsi[1480] en innlent verð á því magni af lýsi mun hafa verið um það bil 8.000,- krónur.[1481] Söluverð varanna sem Torfi flutti inn árið 1892 var hins vegar 11.849,50 krónur ef marka má hina opinberu skýrslu, og skiptist þannig: Kornvörur 4.085,- krónur, kaffi og sykur 1.656,50 krónur, tóbak 343,- krónur, fatnaður og álnavara 3.200,- krónur, og annar varningur 2.565,- krónur.[1482] Vörur sínar fékk Torfi frá Kaupmannahöfn og Granton í Skotlandi.[1483] Aðeins tvær verslanir voru starfandi á Flateyri árið 1892 og benda hinar opinberu skýrslur til þess að Torfi hafi verið með um það bil 25% af innflutningi beggja og er þá litið á söluverð út úr búð. Velta útibús Ásgeirsverslunar á Flateyri var því um það bil þrefalt meiri en hjá Torfa.

Árið 1893 afhenti Torfi elsta syni sínum, Páli J. Torfasyni, verslunarrekstur sinn á Flateyri og tengdist sú ráðstöfun stofnun Íslenska útflutningsfyrirtækisins sem hér er sagt frá á öðrum stað en þar var Páll í forsvari (sjá hér bls. 201-215). Með stofnun nýnefnds fyrirtækis var mikið lagt undir en svo fór að starfsemi þess lauk árið 1894. Árið 1895 fór Torfi að versla á ný og var jafnan með svolítinn verslunarrekstur á árunum 1895-1897.[1484] Þessi rekstur var þó ekki nema rétt nafnið. Til marks um það má nefna að samkvæmt verslunarskýrslum var vöruinnflutningur Torfa árið 1895 aðeins 2-3 % af því sem útibú Ásgeirsverslunar á Flateyri flutti inn á því ári.[1485] Næstu tvö árin var þessi innflutningur Torfa svo enn minni[1486] og varla nema til heimilisnota.[1487] Engar afurðir voru fluttar út á vegum Torfa á árunum 1895-1897 ef marka má verslunarskýrslurnar[1488] og þær sýna að árið 1898 er öldungur þessi hættur að versla.[1489]

Húsið sem Torfi verslaði í stóð á Flateyrarodda og var á þeim árum nefnt Torfabúðin. Húsið var reist af Norðmanninum J. Uglehus árið 1885 en frá honum og húsi þessu er sagt hér á öðrum stað (sjá hér bls. 135-139 og bls. 202-207). Í þinglýstu skjali frá haustinu 1890 er minnst á þetta verslunarhús Torfa og þar er það nefnt á dönsku Pakhus med Butikslocale,[1490] það er að segja vörugeymsla með búðarplássi. Orðalagið gefur til kynna að bygging þessi hafi fyrst og fremst verið pakkhús til að geyma vörurnar í en lítil sölubúð hafi þó einnig verið í húsinu. Í nýnefndu skjali er tekið fram að húsið sé virt á 2.000,- krónur[1491] sem sýnir að ekki var þetta neitt stórhýsi. Gamla íbúðarhúsið sem Torfi bjó í á Flateyri var þá virt á 12.000,- krónur og annað íbúðarhús er hann átti á 5.000,- krónur[1492] en kýrverðið var árið 1890 107,05 krónur.[1493]

Verslunin sem Torfi rak í fáein ár í húsi þessu náði aldrei að eflast að neinu marki, enda var eigandinn kominn hátt á sjötugsaldur þegar hann hóf þennan rekstur og var með fleiri járn í eldinum, útgerð fjögurra þilskipa og búskapinn á Eyri en á þessum árum bjó hann einn á allri Eyrarjörðinni og var jafnan með eitt stærsta búið í Mosvallahreppi.[1494] Ekki er kunnugt um að neinir verslunarmenn hafi ráðist til starfa hjá Torfa á árunum um og upp úr 1890, aðrir en synir hans, nema ef vera skyldi Matthías Ólafsson sem var á Flateyri 1889 og 1890 eins og hér hefur áður verið nefnt. Tveir synir Torfa, þeir Páll og Kristján, áttu hins vegar meiri eða minni hlut að verslunarrekstri föður síns á þessum árum og eru nefndir verslunarmenn í ýmsum gögnum frá þessu skeiði. Páll er fyrst nefndur svo í skýrslu um verkfæra karlmenn í Mosvallahreppi árið 1887[1495] sem bendir til þess að hann hafi annast afgreiðslu á vörunum sem menn pöntuðu hjá Þilskipafélagi Flateyringa. Þessu sama starfsheiti heldur Páll næstu ár[1496] og í sóknarmannatölum frá árunum 1891 og 1892 eru þeir Páll og Kristján Torfasynir báðir sagðir vera verslunarmenn.[1497] Árið 1890 varð Páll 32ja ára en Kristján 19 ára.[1498]

Svo má heita að Torfi hafi hætt öllum verslunarrekstri árið 1893 þegar Íslenska útflutningsfyrirtækið tók til starfa því vörusala hans á árunum 1895-1897, sem hér var áður getið um, var í svo smáum stíl að varla er hægt að kalla rekstur. Í húsvitjanabók séra Janusar Jónssonar í Holti er Torfi síðast nefndur kaupmaður við lok ársins 1893 og að því sinni segir prestur Pál son hans líka vera kaupmann.[1499] Einu ári síðar voru aðstæður hins vegar breyttar því þá segir séra Janus að Torfi sé bóndi og Páll Torfason, sem orðinn var 35 ára gamall, fær nú ekkert starfsheiti hjá sóknarprestinum en er talinn upp með sínum yngri systkinum og látið nægja að taka fram að þau séu öll börn Torfa og Maríu konu hans.[1500] Að umskiptunum sem urðu hjá Torfa og hans fólki árið 1894 er nánar vikið hér á öðrum stað (sjá hér bls. 204-215). Að svo stöddu skal þess eins getið að enda þótt séra Janus hætti að nefna Torfa kaupmann í sínum embættisbókum frá og með árinu 1895[1501] bregður því starfsheiti stöku sinnum fyrir aftan við nafn hans í öðrum heimildum frá árunum 1895-1906, síðustu tólf árunum sem Torfi lifði. Dæmi um það er skjal frá árinu 1904, tengt stofnun ábyrgðarsjóðs fyrir Draupni, spari- og lánasjóð Flateyringa.[1502] Í minningargrein um Torfa, sem birtist í blaðinu Dagfara skömmu eftir lát hans árið 1906, er hins vegar fullyrt að síðustu árin sem þessi öldungur lifði hafi hann verið hættur að versla.[1503]

Þegar Torfi Halldórsson og María Össurardóttir settist að á Flateyri árið 1857 voru þau ung að árum, hann 34 ára og hún helmingi yngri, aðeins 17 ára. Þau hófu þá búskap í eina íbúðarhúsinu sem til var á þessum löggilta verslunarstað þar sem engin föst verslun hafði verið starfrækt síðustu 17 árin. Í því húsi bjuggu þau saman allt þar til Torfi andaðist 27. september 1906. Á þeirra dögum var þar miðstöð mannlífs í nær hálfa öld, miðpunktur flestra hræringa í atvinnulífi Önfirðinga. Er Torfi Halldórsson ákvað að flytjast frá Ísafirði til Flateyrar og festa kaup á Flateyrareignum, átti hann nær tíu ára skipstjóraferil að baki og hafði áunnið sér traust og virðingu margra. Á Ísafirði hafði hann veitt forstöðu fyrsta sjómannaskólanum sem stofnaður var á Íslandi (sjá hér bls. 69-78) og má vera að lengst verði hans minnst sem hins merka frumherja er ungur gekk fram fyrir skjöldu í viðleitni til að bæta úr mjög brýnni þörf fyrir aukna þekkingu íslenskra skipstjórnarmanna í siglingafræði og ýmsu öðru sem varðaði sjómennsku á þilskipum. Í minningarorðum um Torfa á Flateyri komst ónefndur höfundur reyndar svo að orði að með kennslu sinni á Ísafirði og síðar á Flateyri hefði hann verið það fyrir sjávarútveginn sem nafni hans í Ólafsdal [Torfi Bjarnason, stofnandi fyrsta búnaðarskólans] varð síðar fyrir landbúnaðinn.[1504]

Á Flateyri stóð Torfi áratugum saman fyrir útgerð þilskipa og um alllangt skeið var hann verslunarstjóri og  svo kaupmaður eins og hér hefur verið rakið. En hann var líka bóndi með stórt bú á þeirrar tíðar mælikvarða, hafði lengi tvo þriðju hluta úr jörðinni Eyri til ábúðar og hin síðari ár alla jörðina sem að fornu mati var 24 hundruð. Athafnir Torfa höfðu mikil áhrif á allt mannlíf í Önundarfirði þar sem hann hafði margvísleg trúnaðarstörf með höndum, auk þess að sinna eigin búskap og rekstri. Hreppstjóri var hann til dæmis að taka í 20 ár, fyrst 1860 (sjá hér bls. 88), og sáttasemjari í meira en 40 ár.[1505] Meðal verkefna Torfa sem hreppstjóra var að innheimta lestagjald af erlendum fiskiskipum sem leituðu hafnar á Flateyri. Árið 1877 náði hann að láta skipstjóra á 18 frönskum skútum greiða gjald þetta, samtals 117 ríkisdali og 44 skildinga.[1506] Í prentuðum ritum er allvíða minnst á Torfa Halldórsson og ýmsir sem þekktu hann eða áttu þess kost að ræða við honum kunnuga menn hafa lýst þessum merka sveitarstólpa og verða nú dregin fram fáein brot úr þeim skrifum.

Í grein sem birtist í Þjóðviljanum 31. október 1906 segir Sighvatur Grímsson Borgfirðingur að Torfi hafi borið höfuð og herðar yfir alla sveitunga sína að dugnaði og auðsæld[1507] og bætir síðan við:

 

Í allri daglegri framkomu getur ekki viðfelldnari mann, glaðværari og ávarpsbetri en hann. Hvernig sem á stóð og hvar sem hann var að hitta var alltaf hin sama viðfelldna, tilgerðarlausa prúðmennska förunautur hans og svo grandvart að hann gerði sér nokkurn mannamun, jafnvel það alúðlegasta kom best í ljós við þá sem allra minnst áttu undir sér en þó var hann í hvívetna hispurslaus og hafði hreinan skjöld fyrir öllu smjaðri, enda hefir sú verið lengst kynfylgjan ættmanna hans.

Hann var hreinn og ósvikinn Íslendingur í hverja taug, elskaði landið sitt og vildi hafa óskertan rétt þess og virðingu. Hann var maður vel að sér gjör til sálar og líkama, hraustmenni til burða, langt fram yfir það sem gerist í meðallagi, gildvaxinn og vel á fót kominn og bar alla ævi göfuglegan og góðan svip.

Hús þeirra hjóna var um langan aldur athvarf og griðastaður svo margra að ekki er unnt að telja, bæði sjúkra og heilbrigðra, voldugra og vesælla, og voru hendur þeirra hjóna jafn tamar til þeirrar athafnar allt til hins síðasta.[1508]

 

Í blaðinu Dagfara sem Ari Arnalds gaf út á Eskifirði árið 1906 birtist minningargrein um Torfa á gamlársdag það ár. Nafns höfundar er ekki getið en hann hefur greinilega þekkt allvel til í Ísafjarðarsýslu. Um Torfa segir þar að hann hafi verið hygginn og gætinn um leið og hann var framsækinn og kappgjarn[1509] og munu það vera sönn orð. Í þessari sömu grein er sagt nánar frá Torfa og Maríu konu hans og m.a. komist svo að orði:

 

Torfi sálugi var hinn mesti umsýslumaður, bæði til lands og sjávar. Auk skipaútgjörðarinnar hafði hann og stórbú á landi. Var hann um langan tíma öndvegishöldur í héraðinu og grenndinni. Hann átti líka þá konu sem var frábær að atorku, rausn og öllum skörungsskap og því samhent manni sínum í því að gjöra garðinn frægan. …

Torfi sálugi Halldórsson var höfðingi í lund og sæmdarmaður í hvívetna. Hann var manna jafnlyndastur og glaðlyndastur, fastur fyrir þegar á var leitað og fylginn sér þegar því var að skipta. Eigi gat hjálpfúsari mann við alla sem bágt áttu en hann. En eigi hirti hann um að láta mikið á sér bera og í kyrrþey vann hann miklu meira fyrir sveit sína og hérað en almenningi er kunnugt. … Hann var líka á sinni tíð einn af öflugustu fylgismönnum Jóns Sigurðssonar í Ísafjarðarsýslu. Ísland hefur með honum misst einn af sínum merku og góðu sonum. Svo mikið er víst að þegar rituð verður sagan um íslenskan sjávarútveg, þá mætti ekki láta hans ógetið.[1510]

 

Í bók sem gefin var út í tilefni af 50 ára afmæli Stýrimannaskólans í Reykjavík árið 1941 er að finna lýsingu á ytra útliti Torfa og segir þar svo:

 

Torfi Halldórsson var meðalmaður á hæð, beinvaxinn og þreklegur, ljós á hár og augun blá og snör. Hann var prúðmannlegur og höfðinglegur í framkomu og þýður í viðmóti við hvern sem í hlut átti, ljúfmenni hið mesta og mikill barnavinur. Hann var hversdagsgæfur og sást sjaldan bregða skapi en undir niðri stór í lund. … [1511]

 

Hjá Gils Guðmundssyni, sem á árunum kringum 1940 ræddi við marga er þekkt höfðu Torfa og Maríu konu hans, er að finna lýsingu sem bendir til þess að María hafi verið mun örari í skapi en Torfi og bæði hafi þau átt erfitt með að gleyma mótgerðum. Lýsingin sem Gils bregður upp er svona:

 

Torfi Halldórsson þótti alla tíð hinn mesti skörungur. Í framkomu allri var hann prúðmenni en kona hans þótti skapstór nokkuð og ekki allra bokkur. Fannst flestum illt að verða fyrir reiði hennar og þeirra hjóna því að langrækin voru bæði og gleymdu seint mótgerðum. En á hinn bóginn var borgið hverjum þeim smælingja er þau tóku í vernd sína því að þá var ekki sýtt í smámuni né liðsemd skorin við neglur.[1512]

 

Allar heimildir benda til þess að eiginkona Torfa, María Össurardóttir, hafi verið stjórnsöm húsmóðir sem lét að sér kveða bæði innan og utan heimilis. Hér hefur áður verið sagt frá uppruna hennar og komu þeirra Torfa til Flateyrar (sjá hér bls. 82-87) en til að skýra myndina af Maríu verður nú vitnað hér í ummæli nokkurra manna er um hana hafa ritað.

Óskar Einarsson var læknir á Flateyri frá 1925 til 1936. Þegar hann kom í Önundarfjörð voru liðin tíu ár frá andláti Maríu en hann heyrði margt um hana talað og heimili þeirra Torfa. Frá þeim hjónum segir hann á þessa leið:

 

María stjórnaði hinu mannmarga heimili með glæsilegum skörungsskap, enda talin fluggáfuð og hugmyndarík. Torfi var aftur á móti sérlega hægur í dagfari, þéttur á velli og þéttur í lund og talinn laus við hugmyndaflug húsfreyjunnar og sumra sona hennar. Hjónaband þeirra var hið besta og heimilið orðlagt fyrir gestrisni og myndarbrag.[1513]

 

Gunnar M. Magnúss rithöfundur fæddist á Flateyri árið 1898 og átti þar heima uns hann var kominn á tólfta ár. Gunnar mundi vel eftir Maríu Össurardóttur og lýsir henni svo:

 

María var ekki einungis frábær dugnaðarkona til allra verka og samhent manni sínum í búnaði og öllum framförum heldur hafði hún frá náttúrunnar hendi hæfileika til lækninga. Og svo sem Torfi var hæggerður og rólegur í framgöngu þá var María aftur á móti umsvifamikil. Hún var hefðarleg í fasi, rösk í tali, langt frá því að vera bljúg, því síður lágkúruleg, en tiltektarsöm húsmóðir sem virtist hafa auga á hverjum fingri og allsstaðar nálæg, yfir matnum, þvottinum, úti á túni eða í garðrækt þegar vora tók. Einnig tók hún á móti fólki ef sjúkdóma bar að höndum eða slys henti. Læknislaust var á Flateyri en læknar sátu á Þingeyri og Ísafirði. María hafði í heimahúsum smyrsl og dropa, batt um sár, stakk á kaunum, setti blóðkoppa á marða líkamshluta og dró út óhreint blóð, lagði spanskflugu á fólk í sama tilgangi … . Stundum var gustur í kringum hana en þó fylgdi henni jafnan hlýr vorilmur.[1514]

 

Snorri Sigfússon getur líka um lækningar Maríu í minningargrein er hann ritaði að henni látinni og birtist í blaðinu Vestra í septembermánuði árið 1915. Snorri segir þar:

 

Hún hafði þegar á unga aldri kynnst ýmsum læknum – helst erlendum – og lesið talsvert af læknaritum og hafði hið mesta yndi af að setja sig inn í þau fræði. Kunni hún skilgrein á ýmsum algengum sjúkdómum og ráð við þeim og þótti lækningaviðleitni hennar takast mæta vel.[1515]

 

Frá öðrum skrifum Snorra um Maríu er greint á öðrum stað í þessu riti (sjá hér bls. 237-238).

Kristjana Friðbertsdóttir, sem fæddist árið 1884 og var vinnustúlka á Flateyri frá 1898-1900, svaraði löngu síðar spurningu um lækningar Maríu og greindi þá frá á þessa leið:

 

Hún hafði ávallt lyf til reiðu og einnig saumaði hún saman skurði. Til að mynda notaðist hún mikið við Jónsgras til áburðar en það var talið græða vel. Þá er María stundaði sárþjáða sjúklinga hafði hún vinnukonur heimilanna sér til aðstoðar.[1516]

 

Pétur Sigurðsson, erindreki Stórstúku Íslands og ritstjóri, var tengdasonur Torfa og Maríu á Flateyri. Hann kvæntist Sigríði dóttur þeirra að Maríu látinni[1517] en mun oft hafa heyrt sagt frá hjúkrunarstörfum tengdamóður sinnar og gestrisni húsráðenda í Torfahúsi. Um þau efni skrifar Pétur á þessa leið:

 

Úr öllu nágrenninu við Flateyrarheimilið var ævinlega leitað ráða hjá Maríu og ekki hikað við að leita læknis ef hún taldi þess þörf. Yfirsetukonuna aðstoðaði hún við hverja barnsfæðingu í nágrenninu og tók oft við hjúkrun sængurkvenna þegar ljósmóðirin þurfti frá að hverfa. Kom þá oft fyrir að hún sendi allan eldri barnahópinn af heimili sængurkonunnar heim á sitt eigið heimili og dvöldu þau þar eins lengi og henni þótti þörf gerast. …

… Stundum varð næstum öll fjölskyldan að ganga úr rúmum sínum er marga næturgesti bar að garði. Voru þetta oft sjóhraktir menn eða ferðafólk. Þrjú gestarúm stóðu jafnan til reiðu og var stundum ekkert þeirra autt sumarlangt. Þar gistu bæði ríkir og fátækir, innlendir og erlendir höfðingjar. Og þá voru húsráðendur kátastir þegar setinn var bekkurinn.[1518]

 

Í Torfaættarbók sem út var gefin árið 1991 eru birt allmörg bréf sem María skrifaði Guðrúnu dóttur sinni á árunum 1895-1896 og 1903-1910.[1519] Mikill fengur er að þessum bréfum því sitthvað er þar að finna um líf fólksins á Flateyri undir lok nítjándu aldar og á fyrsta áratug hinnar tuttugustu. Orðin sem María skrifar skerpa líka myndina af henni sjálfri og er hér á stöku stað vitnað til þessara bréfa (sjá hér m.a. bls. 193-195, 215-222, 226-229 og 231-233).

Torfi Halldórsson og María Össurardóttir eignuðust ellefu börn sem fæddust á árunum 1858-1883.[1520] Af þessum ellefu börnum dóu þrjú innan við sjö ára aldur á árunum 1861-1875 en átta náðu að verða fullorðin, fimm synir og þrjár dætur.[1521] Auk sinna eigin barna ólu þau Torfi og María upp þrjú fósturbörn.[1522] Ekki er ætlunin að segja hér frá öllum þessum börnum hjónanna í Torfahúsi en greinargott yfirlit um lífshlaup þeirra hvers og eins svo og niðjatal er að finna í Torfaættarbók og skal þeim sem fræðast vilja um niðja Torfa og Maríu vísað á það rit.[1523] Tveir synir þessara merku hjóna, þeir Páll Júlíus, fæddur 1858, og Kristján, fæddur 1871, komu hins vegar við sögu á síðustu árum Torfa og Maríu með þeim hætti að óhjákvæmilegt reynist að gera þeim nokkur skil og er því nánar frá þeim sagt hér litlu aftar (sjá hér bls. 196-243).

Í Torfahúsi á Flateyri var löngum mannmargt. Á árunum 1860-1869 voru heimilismenn þar yfirleitt á milli 10 og 20 og árið 1870 voru þeir orðnir 21.[1524] Á næstu árum hélt fólkinu í Torfahúsi áfram að fjölga og árið 1878 áttu þar heima 28 manneskjur en 30 árið 1883.[1525] Í upphafi þess árs varð mikil breyting á Flateyri er Ásgeirsverslun á Ísafirði tók við rekstri einu verslunarinnar á staðnum og gerði hana að útibúi. Þá hætti fólkinu í Torfahúsi að fjölga. Árið 1884 fækkaði íbúum þess niður í 28, árið 1885 niður í 23 og árið 1886 niður í 19.[1526] Um langt skeið, fyrir 1887, höfðu allir eða nær allir íbúar hússins verið heimilismenn hjá Torfa og Maríu en á því ári varð breyting á því nú fóru þau að taka inn á sig húsfólk sem ætla má að hafi verið sér um heimili þó að búsett væri í Torfahúsi.[1527] Þetta hafa því verið leigjendur eða gustukafólk. Á árunum kringum 1890 var heimilisfólk Torfa oftast milli 12 og 20 en annað fólk í húsinu oftast 5-7 manneskjur.[1528] Þetta munstur hélst lítt breytt fram undir 1898 en um það leyti fækkaði íbúum hússins enn og á árunum 1898-1905 áttu yfirleitt bara 10-15 manneskjur heima í Torfahúsi.[1529] Þá var þar ekkert húsfólk ef frá er talinn Páll, elsti sonur Torfa og Maríu, en hann átti á árunum 1900-1905 heima hjá foreldrum sínum og er stundum nefndur húsmaður í sóknarmannatölum frá þeim árum.[1530] Honum fylgdu þá eiginkona og barn.[1531]

Á verslunarstjóraárum Torfa var jafnan mikill fjöldi vinnufólks á heimili þeirra Maríu. Sem dæmi má nefna að árið 1870 voru þar 5 vinnumenn og 6 vinnukonur, árið 1875 4 vinnumenn og 7 vinnukonur og árið 1880 6 vinnumenn og 7 vinnukonur.[1532] Um 1885 fór vinnufólkinu að fækka án þess þó að nokkurs samdráttar yrði vart í búskapnum[1533] (sbr. hér bls. 88 og 189). Árið 1885 voru 3 vinnumenn og 5 vinnukonur hjá Torfa og Maríu á Flateyri, árið 1890 enginn vinnumaður en 3 vinnukonur, árið 1895 1 vinnumaður og 3 vinnukonur, árið 1900 1 vinnumaður og 3 vinnukonur og árið 1905 enginn vinnumaður og bara ein vinnukona.[1534]

Líklegt er að eitthvað af vinnufólki Torfa hafi á árunum 1870-1884 unnið við erfiðisstörf sem til féllu hjá versluninni og hann af þeim ástæðum þurft færra vinnufólk síðar er hann hafði látið af störfum sem verslunarstjóri. Einnig er vert að minna á að árið 1885 voru fimm af börnum Torfa komin um og yfir fermingu og hin yngstu í barnahópnum orðin 2ja og 7 ára. Af þeim ástæðum hefur líka þurft færra vinnufólk en áður því fullvíst má telja að þegar börnin fóru að stálpast hafi þau gengið að verkum með foreldrum sínum. Reyndar sigldu þau öll til náms, flest um og innan við tvítugt,[1535] en komu aftur heim og dvöldust mörg lengi á heimili foreldra sinna.[1536] Þann 1. nóvember 1901 áttu sex af átta börnum Torfa og Maríu enn lögheimili hjá foreldrum sínum á Flateyri en þrjú af þessum sex dvöldust þá erlendis við nám og störf.[1537]

Af öllu heimilisfólki Torfa og Maríu á ýmsum tímum mun Guðbrandur Tómasson vera sá sem átti lengsta dvöl í húsi þeirra. Þangað var honum ráðstafað árið 1865 og þar var hann enn þegar Torfi dó haustið 1906 og hafði verið allan tímann.[1538] Í manntalinu frá 1870 er Guðbrandur sagður vera letingi[1539] en hann var þá þrítugur að aldri, fæddur á Þórustöðum 22. ágúst 1840, sonur ógiftra vinnuhjúa.[1540] Af einhverjum ástæðum mun Guðbrandur ekki hafa átt gott með að bjarga sér á eigin spýtur og var því lengi á framfæri sveitarinnar. Í sóknarmannatölum frá árunum 1865-1885 er hann yfirleitt sagður vera ómagi eða niðursetningur[1541] en er hann hafði dvalist hjá Torfa og Maríu í 20 ár varð breyting á í þeim efnum því eftir 1885 er hann ætíð nefndur karl eða vikakarl í húsvitjanabókinni[1542] og léttingur eða hjú í manntölum.[1543] Nær fullvíst má því telja að síðustu 20 árin sem Guðbrandur lifði hafi ekkert verið greitt með honum úr sveitarsjóði. Svo virðist sem hann hafi reyndar getað unnið ýmis verk. Í júnímánuði árið 1887 var hann til dæmis að hjálpa Jóni Guðmundssyni búfræðingi við að hlaða upp túngarðinn á Flateyri og nefnir Jón hann Brand gamla í dagbók sinni[1544] en þá var Guðbrandur 47 ára og átti eftir að lifa í nær 20 ár. Á sínum síðustu árum hafði Guðbrandur þann starfa að bera vatn í Torfahús.[1545] Hann var þá með vatnsgrind og létta yfir axlirnar og hafði tréhlemma yfir fötunum.[1546] Fólkið nefndi hann Brandsa, þennan gamla vatnsbera sem var orðinn axlasiginn og þreytulegur en virðulegur í framkomu þó klæddur væri í tötra.[1547]

Að Torfa Halldórssyni látnum fluttist fjölskylda hans inn að Sólbakka haustið 1906. Af vandalausum var Guðbrandur sá eini sem fylgdi með í þeim flutningum og við lok ársins 1906 er hann sagður vera gamalmenni á Sólbakka. Þessi gamli letingi safnaðist til feðra sinna 23. mars 1907,[1548] hálfu ári síðar en Torfi Halldórsson sem hafði veitt honum skjól í 40 ár.

Haustið 1875 verður fyrst vart við kennara á Flateyri en þá var ungur stúdent við kennslu í Torfahúsi.[1549] Þessi ungi maður hét Jóhann Lúther Sveinbjarnarson og var frá Skáleyjum á Breiðafirði.[1550] Hann var bróðir Sigríðar Sveinbjarnardóttur, síðar húsfreyju á Hvilft, sem ráðist hafði til Torfa og Maríu á Flateyri einu ári fyrr en bróðir hennar (sjá hér Hvilft). Þegar Jóhann Lúther hóf kennslu á Flateyri haustið 1875 var hann 21 árs gamall og hafði lokið stúdentsprófi þá um vorið.[1551] Hann varð seinna prestur á Hólmum í Reyðarfirði og þjónaði því prestakalli allt til dauðadags haustið 1912.[1552] Á Flateyri dvaldist Jóhann Lúther aðeins í einn vetur[1553] og mun einkum hafa kennt þeim börnum Torfa og Maríu sem farin voru að stálpast. Guðrún Torfadóttir var þá bara þriggja ára en 27 árum síðar varð hún eiginkona þessa sama Skáleyings sem þá hafði misst sína fyrri konu.[1554] Vera má að þeim Jóhanni Lúther og Guðrúnu hafi strax litist vel hvoru á annað veturinn sem hann dvaldist í Torfahúsi þó að lengi þyrfti að bíða eftir hjónabandinu.

Í varðveittum heimildum er annars sjaldan getið um kennara hjá Torfa og Maríu. Vel má vera að eldri börnin hafi verið látin kenna þeim yngri og reyndar er Páll Torfason, elsti sonurinn í Torfahúsi, sagður vera barnakennari á Flateyri árið 1883 (sjá hér bls. 197). Veturinn 1896-1897 var Jón Stefánsson cand. theol. kennari á Flateyri og dvaldist þá á heimili Torfa.[1555] Jón var Hreppamaður að uppruna og útskrifaðist úr prestaskólanum árið 1895.[1556] Hann varð prestur að Lundarbrekku í Bárðardal en andaðist tæplega þrítugur.[1557] Annar ungur menntamaður átti heima í Torfahúsi á árunum 1882-1884, Björn Jónsson frá Broddanesi í Strandasýslu.[1558] Hann er þá sagður vera skólapiltur við nám.[1559] Þeir Björn og Halldór Torfason frá Flateyri voru skólafélagar í lærða skólanum í Reykjavík[1560] en hurfu úr skólanum og lásu báðir tvo síðustu bekkina utanskóla[1561] hjá foreldrum Halldórs á Flateyri.[1562] Stúdentspróf tóku þeir utanskóla í júlímánuði árið 1884.[1563] Halldór varð læknir og fluttist til Ameríku[1564] en Björn lauk prófi frá prestaskólanum árið 1886 og var prestur í Miklabæ í Skagafirði frá 1889 til 1921.[1565] Hann kvæntist Guðfinnu Jensdóttur frá Innri-Veðrará í Önundarfirði sumarið 1884 og lifði hún mann sinn en hann dó 1924.[1566]

Á árunum 1886-1889 [NB. Guðrún Borgfjörð segir Sigríði Sveinbjarnard. og dóttur hennar hafa verið búsettar á Flateyri 1885] dvaldist Sigríður Sveinbjarnardóttir Blöndal hjá þeim Torfa og Maríu á Flateyri.[1567] Hún var dóttir Sveinbjarnar Egilssonar rektors og konu hans Helgu Benediktsdóttur Gröndal en hafði verið gift Gunnlaugi Blöndal sem um skeið var sýslumaður í Barðastrandarsýslu.[1568] Þegar frú Sigríður Blöndal fluttist til Flateyrar árið 1886 var hún orðin ekkja en eiginmaður hennar dó vorið 1884 og hafði þá verið bilaður á geðsmunum um nokkurt skeið.[1569] Ekki liggur ljóst fyrir hvers vegna þessi fimmtuga sýslumannsekkja kaus að setjast að hjá Torfa og Maríu á Flateyri en líklegt verður að telja að um einhver tengsl eða kunningsskap hafi verið að ræða.

Börn Sigríðar voru fjögur en þau voru öll komin um og yfir tvítugt þegar hún settist að á Flateyri. Yngst var Þórunn og kom hún með móður sinni í Önundarfjörð vorið 1886, sögð 18 ára, en fluttist til Ísafjarðar þá um haustið.[1570] Björn Blöndal, sonur Sigríðar, sem var við læknanám á þessum árum,[1571] dvaldist þó stundum hjá móður sinni í Torfahúsi á Flateyri. Hér hefur áður verið vitnað í dagbókarskrif Jóns Guðmundssonar búfræðings, síðar bónda á Veðrará, en hann kom í Önundarfjörð vorið 1887, nýútskrifaður frá búnaðarskólanum í Ólafsdal, og var þá ráðinn til starfa hjá Torfa á Flateyri (sjá hér Ytri-Veðrará). Jón búfræðingur átti heima í Torfahúsi frá vorinu 1887 og fram á haustið 1888 og minnist stundum á frú Sigríði Blöndal og Björn son hennar í dagbók sinni frá þessu skeiði. Þann 1. desember 1887 minnist hann á afmæli frú Sigríðar, sem þá varð 52ja ára, og segir:

 

Frú Blöndal hélt afmæli sitt í dag og við borðið sátu: Torfi og María, Jóna Hall og Sigríður Sveinbjarnardóttir, Anna Hall, Páll og Kitti, Mangi og Jón búfræðingur og svo frúin.[1572]

 

Sigríður Sveinbjarnardóttir, sem þarna er nefnd, var kona Sveins Rósinkranzsonar skipstjóra en hún var alnafna frú Blöndal allt þar til sú síðarnefnda gekk í hjónaband og tók upp Blöndalsnafnið.

Þann 29. júlí 1888 getur Jón um komu Björns Blöndal og segir hann hafa komið með franska orlogsskipinu á Súgandafjörð.[1573] Björn var þá alveg nýkvæntur[1574] og í dagbók Jóns búfræðings sjáum við að kona hans, Sigríður, fædd Möller, hefur komið með honum til Flateyrar. Þann 13. ágúst 1888 skrifar Jón: Það fór að ríða inn í fjörð, húsmóðirin og Kitti, Ásta, Björn Blöndal og Sigríður hans kona o.s.frv.[1575]

Árið 1889 fluttist frú Sigríður Blöndal frá Flateyri til Ísafjarðar[1576] en Þórunn dóttir hennar var þá orðin eiginkona Sophusar J. Nielsen, verslunarstjóra þar.[1577] Svo virðist sem góð vinátta hafi lengi ríkt milli frú Sigríðar Blöndal og Maríu Össurardóttur og náð að einhverju leyti til barna þeirra. Skáldið H.S. Blöndal reitt frá Ísafirði til Flateyrar, segir Magnús Hjaltason í sinni dagbók 29. júní 1893[1578] og á þá tvímælalaust við Hannes S. Blöndal, son Sigríðar.[1579]  – Ég var í dag að skrifa frú Blöndal, segir María Össurardóttir í bréfi er hún ritaði dóttur sinni 10. nóvember 1896 og í öðru bréfi frá 29. desember á sama ári segir hún að frú Blöndal hafi gefið sér krukku og svartan silkiklút í jólagjöf.[1580] Allt eru þetta vísbendingar um langvarandi vináttu þessara tveggja kvenna, Maríu Össurardóttur og Sigríðar Sveinbjarnardóttur Blöndal sem sat um kyrrt í húsi Maríu á Flateyri í þrjú ár.

Hér hefur nú verið sagt lítið eitt frá örfáum þeirra mörgu karla og kvenna sem áttu heima í Torfahúsi á Flateyri um lengri eða skemmri tíma á dögum Torfa og Maríu. Dagbók Jóns búfræðings, sem áður var nefndur, frá árunum 1887 og 1888 geymir ýmsan fróðleik um mannlífið á Flateyri á þeim árum og kemur þar m.a. við sögu Svanfríður Jónsdóttir frá Veðrará, bróðurdóttir Torfa Halldórssonar. Þann 7. október 1888 greinir búfræðingurinn frá þessum tíðindum:

 

Svanfríður trúlofaðist í dag Oddi nokkrum Jónssyni, útlærðum í sjómannafræði frá Höfn. Þau settu upp hringi og héldu dálítið gilli o.s.frv. og margt er nú við það að athuga ef maður vildi nokkuð eiga við það.[1581]

 

Eins og sjá má lætur Jón búfræðingur í það skína að ekki hafi allt verið með felldu við þessa trúlofun Odds og Svanfríðar en þau launmál eru nú gleymd og grafin. Svanfríður var að verða 27 ára þegar hún trúlofaðist Oddi[1582] en þau munu aldrei hafa gengið í hjónaband. Fimmtán árum síðar giftist hún hins vegar Guðjóni Sigmundssyni, skipstjóra á Flateyri, sem var ekkjumaður og hafði áður átt systur Svanfríðar fyrir konu.[1583]

Fyrstu 22 árin sem Torfi Halldórsson og María Össurardóttir áttu heima á Flateyri var húsið þeirra eina íbúðarhúsið á þessum verslunarstað en árið 1880 réðst Sveinn Rósinkranzson skipstjóri í að koma sér upp íbúðarhúsi og síðan fjölgaði húsunum ár frá ári.[1584] Frá þróun byggðar á Flateyri á árunum 1880-1906 er sagt hér á öðrum stað en að sinni skal þess aðeins getið að árið 1888 voru íbúar þorpsins á Flateyri orðnir 72, árið 1892 voru þeir 74, árið 1894 101, árið 1900 204 og árið 1905 234.[1585] Þarna er ekki talið með fólkið sem átti heima á Eyri en búsetu þar lauk árið 1903[1586] og ekki heldur heimilisfólk á Sólbakka þar sem hvalveiðistöð var reist árið 1889 (sjá hér Sólbakki). Enginn vafi er hins vegar á því að umsvifin á Sólbakka áttu nokkurn þátt í hinni miklu íbúafjölgun sem varð á Flateyri á síðasta áratug nítjándu aldar.

Torfi Halldórsson hefur oft verið nefndur faðir kauptúnsins á Flateyri og er sú nafngift ekki fjarri lagi. Hann var þó kominn undir sextugt þegar þorpsmyndunin hófst en var enn á lífi 20 árum síðar þegar íbúatalan komst yfir 200. Hér hefur áður verið fjallað um þilskipaútgerðina frá Flateyri á dögum Torfa og forystu hans á þeim vettvangi og einnig sagt frá störfum hans að verslunarmálum. Um búskap Torfa á árunum 1860-1880 hefur líka verið rætt (sjá hér bls. 88) en áður en lengra er haldið virðist bæði rétt og skylt að gera hér svolitla grein fyrir búrekstri hans síðasta aldarfjórðunginn sem hann lifði. Þrátt fyrir öll sín miklu umsvif við útgerð og verslunarrekstur lét þessi sjómannafræðari búskapinn aldrei sitja á hakanum.

Þegar Torfi festi kaup á Flateyrareignum árið 1858 fylgdu þar með 16 hundruð í bújörðinni Eyri (sjá hér bls. 80-81) sem að fornu mati var 24 hundraða jörð en verslunarlóðin á Flateyri var í hennar landi og varla nema einn kílómetri frá gamla faktorshúsinu sem varð heimili Torfa og Maríu að bæjarhúsunum á Eyri. Á árunum 1884-1902 voru þau jafnan með 4-8 nautgripi í fjósi og áttu 100-200 sauðkindur ef marka má skýrslur um búnaðarástand sem skráðar eru í hreppsbók Mosvallahrepps.[1587] Lömb eru þá ekki talin með. Flestir urðu nautgripirnir árin 1889 og 1892 en fjárhópurinn varð stærstur árið 1894 en þá voru í hjörðinni 202 sauðkindur.[1588] Fjórum árum seinna voru þær nær helmingi færri.[1589] Framan af árum mun Torfi hafa verið með allmarga sauði eins og lengi hafði tíðkast á Eyri. Má sem dæmi nefna að árið 1870 voru 28 sauðir og hrútar á búi hans og 25 árið 1880 (sjá hér bls. 88). Upp úr 1880 fór sauðunum hins vegar að fækka og árið 1894 var tala hrúta og sauða komin niður í tíu[1590] en vera má að þá sé eingöngu átt við fullorðna sauði. Þau Torfi og María áttu lengi marga hesta. Á árunum 1883-1885 voru þeir 10 en 5-9 á árunum 1886-1902.[1591] Síðustu fjögur árin sem Torfi lifði, 1903-1906, var búið mun minna en áður, 2-3 kýr, 40-60 kindur og 2-3 hestar.[1592] Á búi þeirra Maríu var þá líka eitthvað af svínum.[1593]

Eins og aðrir stöndugir bændur í Önundarfirði átti Torfi löngum hálfan eða heilan sexæring og stundum tvo[1594] (sbr. hér bls. 89) og má ætla að á þeim hafi vinnumenn hans róið til fiskjar á vertíð eins og siðvenja var. Árið 1890 eða 1891 varð hins vegar breyting á í þessum efnum hjá Torfa því síðustu 16 árin sem hann lifði, 1891-1906, átti hann engan opinn bát, ef marka má hreppsbókina, og ekki heldur part úr slíkri fleytu nema árið 1903 en þá áttu þeir saman áttæring, hann og Sveinn Rósinkranzson á Hvilft.[1595]

Á árunum 1858-1886 mun Torfi jafnan hafa búið á 16 hundruðum úr Eyri, það er tveimur þriðju af allri jörðinni[1596] (sbr. hér bls. 88). Frá 1887 bjó hann hins vegar einn á allri jörðinni og hélst sú skipan óbreytt allt til ársins 1905 en síðasta árið sem hann lifði hafði Torfi aðeins þriðjung jarðarinnar til ábúðar.[1597] Synir hans, Kristján og Ásgeir, töldust þá líka búa á Eyri og höfðu sinn þriðjunginn úr jörðinni hvor.[1598]

Þau sextán hundruð úr Eyri sem Torfi hafði lengst til ábúðar keypti hann með öðrum Flateyrareignum árið 1858 eins og hér hefur áður verið nefnt og var því sjálfseignarbóndi alla tíð. Árið 1883 voru þeir Torfi og Rósinkranz Kjartansson í Tröð einu sjálfseignarbændurnir í Mosvallahreppi.[1599] Óljóst er hvort Torfi náði nokkru sinni að eignast þann þriðja part úr Eyri sem ekki fylgdi með í kaupunum árið 1858. Í fylgiskjali með manntalinu frá 1901 er hann sagður eiga jarðirnar Eyri og Hól í Firði og jarðarpart í Breiðadal og á Vífilsmýrum.[1600] Fullvíst er hins vegar að í þessu skjali er oft látið nægja að nefna eingöngu aðaleiganda hverrar jarðar. Í annarri heimild sést að árið 1909 átti dánarbú Torfa 17 hundruð í Eyri, 8 hundruð í Neðri-Breiðadal, 1 hundrað í Selakirkjubóli og 12½ hundrað í Hóli í Firði og er þá ætíð miðað við hið forna mat á jörðunum.[1601] Nær fullvíst má því telja að eignarhlutur Torfa í Eyrarjörðinni hafi aldrei orðið meiri en 17 af 24 hundruðum því varla hefði hann farið að selja aftur frá sér einhverja skák úr jörðinni.

Í búskap sínum nytjaði Torfi stundum parta úr öðrum jörðum en Eyri, til dæmis þriðjung úr Selabóli árið 1883 og lítinn part úr Neðri-Breiðadal árið 1885.[1602]

Á árunum 1883-1885 taldist heimatúnið hjá Torfa vera 11,5 dagsláttur en hver dagslátta var 900 ferfaðmar[1603] og hefur túnið því verið liðlega þrír og hálfur hektari á þessum árum. Árið 1886 var Búnaðarfélag Önfirðinga stofnað (sjá hér Mosvallahreppur, inngangskafli) og á því ári stækkaði hann túnið um eina og hálfa dagsláttu svo þær urðu þrettán.[1604] Árið 1887 bætti hann svo við sig þeim þriðjungi úr Eyri sem verið hafði í ábúð annarra og við það fór túnstærðin upp í 18 dagsláttur.[1605] Vorið 1887 réð Torfi líka ungan búfræðing í sína þjónustu, Jón Guðmundsson frá Ketilsstöðum í Hvammssveit í Dalasýslu, er síðar varð bóndi á Ytri-Veðrará (sjá hér Ytri-Veðrará). Jón starfaði hjá Torfa frá vorinu 1887 til haustsins 1888 og á þeim skamma tíma stækkaði túnið úr 18 dagsláttum í 28.[1606] Það hefur því munað vel um handaverk hins unga búfræðings á Flateyri.

Næstu sex árin var stærð túnsins óbreytt ef marka má hreppsbók Mosvallahrepps en árið 1895 fór það að minnka og var jafnan 15 dagsláttur á árunum 1897-1906.[1607] Líklegasta skýringin á þessari minnkun er sú að stór hluti túnsins hafi farið undir byggingar þegar fólkinu tók að fjölga á Flateyri en svo mátti heita að íbúatalan þar tvöfaldaðist á fimm árum, 1894-1899, er hún fór úr 101 í 196.[1608]

Fyrir ræktunarframkvæmdir sínar á árunum 1887 og 1888 fékk Torfi 30,- króna verðlaun frá Búnaðarfélagi Önfirðinga og var tekið fram að þau væru veit fyrir framúrskarandi dugnað við jarðabætur.[1609] Ef marka má hreppsbókina fólust ræktunarframkvæmdir Torfa á árunum 1887 og 1888 einkum í því að grafnir voru 290 faðma langir skurðir til vatnsveitinga og hlaðinn 25 faðma langur túngarður.[1610] Auk þess voru sléttaðir 1200 ferfaðmar,[1611] það er ein dagslátta og einn þriðji partur úr annarri.

Á árunum 1883-1886 var heyfengur Torfa yfirleitt 40-60 hestar af töðu og 50 hestar af útheyi. Við jarðabæturnar jókst töðufengurinn mjög mikið og var yfirleitt 100-200 hestar á árunum 1889-1901.[1612] Er Torfi bætti við sig jarðnæði og fór að búa á allri Eyrarjörðinni árið 1887 jókst engjaheyskapurinn líka og á árunum 1887 – 1901 fengust sjaldan minna en 100 hestar af engjunum og allt upp í 300 hesta þegar vel áraði og kapp var lagt á heyskapinn.[1613]

Einn þáttur í búskap Torfa og Maríu konu hans á Flateyri var garðræktin. Árið 1880 voru kál- og kartöflugarðar þeirra um 180 ferfaðmar að flatarmáli (sjá hér bls. 88) en stækkuðu enn á næstu árum og voru yfirleitt um það bil 250 ferfaðmar á árunum 1883-1897.[1614] Uppskeran virðist ekki alltaf hafa verið mikil úr þessum görðum en þó finnast dæmi um 10 tunnur af kartöflum og aðrar 10 af rófum eða næpum sama haustið.[1615]

Hér hefur áður verið minnst á hinn mikla fjölda vinnufólks hjá Torfa og Maríu á Flateyri (sjá hér bls. 183-184) en á sumrin mun fólkið þó oft hafa verið enn fleira en fram kemur í sóknarmannatölunum sem oftast voru miðuð við búsetu manna á síðasta degi ársins, a.m.k. eftir 1880. Til þess að gefa vísbendingu um fjölda sumarfólks hjá Torfa má nefna að 2. júlí 1887 komu til hans 7 kaupamenn með einu og sama skipinu.[1616] Það er Jón Guðmundsson búfræðingur, er þá var starfandi hjá Torfa, sem greinir frá þessu í dagbók sinni og þó að hún sé slitrótt er þar ýmsar upplýsingar að finna um búskaparhætti á Flateyri árin 1887 og 1888. Að kvöldi Jónsmessudags árið 1887 var fært frá.[1617] Fráfæruær Torfa voru 40 en 16 hjá Jónasi Hall sem þá var verslunarstjóri við útibú Ásgeirsverslunar á Flateyri.[1618] Miðað við heildarfjölda sauðfjár í eigu Torfa á þessum tíma (sjá hér bls. 189-190) kynnu menn að hafa vænst þess að ærnar sem fært var frá hefðu verið fleiri. Tala búfræðingsins er þó efalaust rétt, enda var Torfi jafnan með mikið af geldfé, auk sauða og hrúta fjöldann allan af gemlingum. Sem dæmi má nefna að árið 1883 skiptist fjárhópurinn hjá Torfa þannig 72 ær og 2ja vetra sauðir, 8 sauðir 3ja vetra og eldri og svo 50 gemlingar.[1619] Tveggja vetra sauðirnir, sem þarna eru flokkaðir með ánum, gætu sem best hafa verið 30. Sumarið 1887 byrjaði sláttur 7. júlí.[1620] Sumarið 1888 var fært frá 23. júní og lömbin flutt þá þegar út á Sauðanes.[1621] Þann 10. júlí, sem var þriðjudagur, hófst sláttur.[1622] Þetta sumar lét Torfi heyja bæði Flateyraroddann og Eyrartúnið og líka á Hóli í Firði og Vífilsmýrum.[1623]

Eyrarbændur höfðu löngum góð not af beitinni á Sauðanesi (sjá hér Eyri) og svo var einnig um Torfa Halldórsson. Í bréfi sem Jón Guðmundsson búfræðingur skrifaði Torfa Bjarnasyni, skólastjóra í Ólafsdal, í góulok árið 1888 segir hann að þá um veturinn hafi roskið fé Torfa á Flateyri aðeins legið inni á nóttinni í einn mánuð.[1624] Jón Guðmundsson frá Grafargili getur þess einnig í sinni dagbók að Torfi á Flateyri hafi sleppt öllu rosknu fé og 30 gemlingum út á Sauðanes í síðari hluta febrúar árið 1890.[1625] Snorri Sigfússon, sem varð skólastjóri á Flateyri árið 1912, fékk margt að heyra um búskaparlag Torfa og segir að hann hafi venjulega sleppt fénu út á Nes um góuna miðja, það er í marsbyrjun, en tekur fram að hjarðmaður hafi verið látinn líta eftir því við og við og stundum daglega.[1626]

Í lýsingu sinni á Holtsprestakalli frá árinu 1840 segir séra Tómas Sigurðsson að hvergi í prestakallinu sé þá stundaður seljabúskapur nema á prestssetrinu í Holti.[1627] Séra Tómas lætur þess einnig getið í sömu ritgerð að ekkert sóknarbarna hans minnist þess að búsmali frá öðrum bæjum í Önundarfirði hafi verið hafður í seli en seltóttir séu þó víða sjáanlegar.[1628] Engin gild ástæða er til að rengja þessar staðhæfingar prestsins en þeim mun merkilegra er að þau Torfi Halldórsson og María kona hans tóku engu að síður upp seljabúskap á sínum velmektarárum á Flateyri og létu selstúlkur og smala hafast við í Eyrarseli í einhverjar vikur á hverju sumri í allmörg ár. Því miður er ekki ljóst hvenær þau tóku upp þetta forna búskaparlag en fullvíst er að búsmali var mjaltaður í selinu á árunum 1895, 1896 og 1897.[1629] Hið gamla Eyrarsel var liðlega einum og hálfum kílómetra fyrir utan bæinn á Eyri, nánar til tekið rétt utan við Klofningsá[1630] sem kemur úr Klofningsdal en um hann lá þjóðleið til Staðardals í Súgandafirði (sjá hér Eyri). Í þessu forna seli við Selhólana, er svo heita, kveiktu þau Torfi og María nýtt líf[1631] en um seltóttirnar utan við Klofningsá er rætt hér á öðrum stað (sjá Eyri).

Eina bestu heimildina sem þekkt er um seljabúskapinn í Eyrarseli undir lok nítjándu aldar er að finna í bréfum Maríu Össurardóttur sjálfrar er hún ritaði Guðrúnu dóttur sinni árið 1896 en Guðrún dvaldist þá í Noregi. Í fimm bréfum Maríu frá þessu ári minnist hún á selið eins og hér verður nú rakið. Í góulok er María að velta fyrir sér hvaða fólk hún geti haft í selinu á komandi sumri og af orðunum í bréfi hennar frá 15. mars má ráða að seljabúskapurinn er eitthvað sem Guðrún dóttir hennar þekkti svo fullyrða má að hann hefur verið tekinn upp fyrir 1896. María skrifar:

 

G.P. vill ekki vera í selinu fyrir mig og er ég búin að byggja því öllu út úr Nesdal. Þuríður gamla ætlar að vera í því. Það er nú bara gott. Hún er fróm eftir því sem allir segja. Smali er ófenginn.[1632]

 

Til skýringar skal þess getið að Nesdalur, sem þarna er nefndur, er eflaust húsið sem Torfi átti á Flateyri (sjá  hér bls. 300) og bar þetta nafn. G.P. er að líkindum Guðrún Pálsdóttir sem við lok ársins 1895 var 57 ára gömul vinnukona í Torfahúsi en fór frá Flateyri árið 1896.[1633] Þuríður gamla er María nefnir svo í bréfinu er tvímælalaust Þuríður Magnúsdóttir, dóttir Magnúsar Einarssonar, áður bónda á Hvilft (sjá hér Hvilft). Veturinn 1895 til 1896 var Þuríður húskona á Flateyri og bjó þar með börnum sínum, Eggerti og Kristrúnu.[1634] Húskona þessi var þá hálfsextug að aldri.[1635]

Allt gekk þetta eftir með gömlu Þuríði en með henni voru í selinu sumarið 1896 stúlka sem María nefnir Völu og mun vera Valgerður Guðbjartsdóttir, tvítug tengdadóttir Þuríðar gömlu[1636] og svo Olli sem var smali en svo nefndi María yngsta son sinn, Ólaf Torfason, sem var 13 ára gamall sumarið 1896. Þann 14. maí var allt afráðið um þetta fólk[1637] og 5. júní átti að byrja 6 vikna þvott úti í seli.[1638]

Í júnílok var búskapurinn í selinu hafinn en gekk þó heldur skrykkjótt. Þann 1. júlí fór María sjálf þangað út eftir og var orðin þreytt þegar hún kom gangandi til baka að kvöldi sama dags. Næsta dag hripaði hún dóttur sinni í Noregi nokkrar línur og segir:

 

Þar [í selinu] gengur heldur skrykkjótt til. Þuríður er orðin veik af erfiði eftir 4 daga með jafnduglega stúlku og Völu sem aldrei hefur komið heim síðan fært var frá. Það var allt í vandræðum í gærmorgun þegar ég kom klukkan 11 svo ég gjörði skyr úr 100 pottum og ost úr hundrað. Svo strokkaði ég sjálf því ekkert af þessu var búið. Svo límdi ég pappír á rifurnar o.fl. Var nærri búin með mysuostinn. Klukkan 6 fór ég heim bara af því ég vissi að Fía var að fara [þ.e Svanfríður Jónsdóttir frá Ytri-Veðrará, bróðurdóttir Torfa – innsk. K.Ó.].

Ég sat fyrsta daginn yfir fénu með Völu og Olla. Svo var ég út frá um nóttina svo Þuríður hefur ekki tekið þátt í að gjöra neitt nema elda, því mikið af ullinni þvoði ég líka daginn sem ég var. … Olla gengur heldur vel að sitja hjá, enda er nú Ingi-Geir öðru hverju út frá. Til allrar lukku bauð Jóhann skómakari mér kærustunu sína í sumar svo ég er að hugsa um að taka hana og láta Dóru taka selið en sleppa Þuríði alveg. Dóra er bæði þrifin og lagleg í öllu en þá missir maður hana alveg úr húsinu og það er líka bágt.[1639]

 

Ingigeir sem nefndur er í bréfi Maríu mun vera Ingigeir Bjarnason en hann var 26 ára gamall vinnumaður á Flateyri árið 1896 og kvæntist þá um haustið Guðrúnu Bjarnadóttur, vinnukonu á Flateyri, en hún var tveimur árum yngri.[1640] Höldum veislu Inga-Geirs á laugardag, skrifar María 23. september 1896[1641] og stendur það heima því Ingigeir og Guðrún Bjarnadóttir voru pússuð saman þremur dögum síðar.[1642] Þau fluttust frá Flateyri til Danmerkur árið 1899.[1643]

Óljóst er hver Dóra muni hafa verið, stúlkan sem María ætlaði að láta taka selið í júlíbyrjun árið 1896. Þar getur varla verið um Halldóru Jónsdóttur frá Veðrará, bróðurdóttur Torfa, að ræða því sú Dóra var sumarið 1896 fertug húsfreyja í Efrihúsum og nokkur ár liðin frá því hún giftist Kjartani Jónssyni, bónda þar.[1644]

Hin selstúlkan frá þessu sumri, Valgerður Guðbjartsdóttir, sem hér var áður nefnd, var árið 1920 vinnukona hjá Vilmundi Jónssyni, lækni á Ísafirði.[1645]

Orð Maríu í bréfinu frá 2. júlí 1896 sýna svo ekki verður um villst að í Eyrarseli hefur störfum þá verið hagað með líkum hætti og áður hafði tíðkast við seljabúskap, – ærnar mjaltaðar í kvíum og mjólkin unnin í skyr og osta. Greinilegt er að Maríu hefur þótt henta að hafa tvær stúlkur í selinu og helst tvo smala. Í bréfinu segist hún hafa límt pappír á rifurnar í selinu og bendir það eindregið til þess að selhús þeirra hjóna, Torfa og Maríu, hafi verið timburskúr. Ljóst er að sumarið 1896 hefur búskapurinn í Eyrarseli hafist 27. eða 28. júní því í bréfinu frá 2. júlí, sem hér var vitnað til, segir María að Þuríður gamla sé orðin veik af erfiði eftir 4 daga. Áður var þess getið að á Flateyri var fært frá ánum rétt um Jónsmessu á árunum 1887 og 1888 (sjá hér bls. 191-192). Seljabúskapurinn hefur því hafist strax að loknum fráfærum eins og eðlilegt var. Líklega hafa ærnar verið mjaltaðar í selinu í fulla tvo mánuði því að í bréfi sem María skrifaði 27. ágúst 1896 sér hún ástæðu til að geta þess að Olli sonur hennar, sem var selsmali þetta sumar, komi nú heim á hverri nóttu.[1646] Það sýnir að hann er enn í selinu frá morgni til kvölds þó að komið sé fram undir höfuðdag. Í síðustu viku ágúst var reyndar hópur af vinnufólki frá Flateyri við heyskap í selinu og frásögn Maríu í bréfinu sem síðast var nefnt bendir eindregið til þess að það hafi þá legið við þar út frá. Hún segir þar:

 

Allt okkar fólk er úti í seli að slá … Á sunnudaginn var fennti ofan í miðjar hlíðar en við komum öllu okkar heyi inn og þó er hlaðan ekki bitafull. Í kvöld þegar ég svona hálfpartinn ætlaði að fara að sofa kom einn pilturinn utan úr seli og var þá ein kaupakonan með krampa. Hún á vanda til þess arna. Það líður yfir í dag. Ég sendi með öl til hennar.[1647]

 

Vona má að ölið frá Maríu hafi dugað til að vinna bug á krampaflogum kaupakonunnar.

Sama dag og María skrifaði Guðrúnu dóttur sinni þetta bréf settist selsmalinn Olli, sonur Maríu, líka við skriftir og páraði nokkrar línur til Guðrúnar systur sinnar. Hann segir þar m.a. að í selinu séu 60 rollur í kvíum og að Halldóra, ráðskonan þar sem hér var áður nefnd, búi til gott skyr og góðan ost.[1648]

Í bréfum sínum til Guðrúnar Torfadóttur frá árinu 1896 segir móðir hennar ýmsar fréttir af búskapnum á Eyri sem ekki snerta selið en þær verða ekki raktar hér. Þess skal þó getið að þann 4. október átti að slagta 40 kindum.[1649]

Sumarið 1897 var búsmali Torfa og Maríu á Flateyri hafður í seli eins og undanfarin ár[1650] en hvort svo hefur verið næstu ár þar á eftir er ekki vitað með vissu. Engu að síður er fullvíst að innan Vestur-Ísafjarðarsýslu voru Torfi og María þau allra síðustu sem stunduðu seljabúskap en í Vatnsfirði við Djúp mun séra Stefán P. Stephensen, sem áður var í Holti, hafa verið með ær í seli til æviloka en hann andaðist vorið 1900.[1651] Sé leitað um land allt reynist seljabúskapur hafa verið stundaður á fimm bæjum eftir aldamótin 1900, seinast á Hnausum í Húnaþingi árið 1904[1652] nema talin sé með tilraunastarfsemi þriggja bænda í Bolungavík sem á árunum 1952-1954 voru að sumrinu með kýr sínar á eyðibýlinu Meira-Hrauni í Skálavík og höfðu þar tvær stúlkur við mjaltir.[1653] Engin mjólkurvinnsla fylgdi hins vegar þeirri starfsemi og af þeim ástæðum var ekki um hefðbundinn seljabúskap að ræða.

Um landbúskap Torfa og Maríu á Flateyri verða orðin sem hér hafa verið rituð að nægja en áður var sagt frá hinum miklu umsvifum Torfa í útgerð og við verslunarrekstur. Fyllsta ástæða er til að ætla að Torfi hafi um alllangt skeið verið býsna vel stæður fjárhagslega eftir því sem þá gerðist og reyndar fullvíst að hann var í góðum efnum. Líklega hafa fjárráð hans verið einna mest um það leyti sem þeir Hjálmar Jónsson gerðu upp sitt gamla félagsbú árið 1883 en þá var Torfi sextugur að aldri. Flest bendir líka til þess að hann hafi haldið öllu sínu fram undir sjötugt en skömmu síðar varð hann fyrir miklu fjárhagslegu áfalli og í elli sinni tapaði þessi gætni og sómakæri maður öllu sem hann átti svo dánarbú hans reyndist vera þrotabú. Fullnægjandi gögn skortir til að skýra þau ósköp til hlítar. Sitthvað er þó til og bendir flest til þess að veðleyfin sem hinn mikli loftkastalasmiður, Páll Torfason, fékk hjá föður sínum hafi ráðið þar mestu um. Lágt verð á hákarlslýsi eftir 1885 (sjá hér bls. 172-174) mun þó einnig hafa haft sitt að segja. Áður en gerð verður grein fyrir því helsta sem fyrir liggur um efnahag Torfa Halldórssonar á árunum kringum 1890 og peningalegri stöðu hans við ævilok er óhjákvæmilegt að greina hér nokkuð frá Páli, elsta barni þeirra Torfa og Maríu.

Páll Júlíus Torfason fæddist á Flateyri 31. júlí 1858,[1654] rösklega fimm mánuðum áður en foreldrar hans voru gefin saman í hjónaband (sjá hér bls. 85). Hann ólst upp hjá foreldrum sínum á Flateyri og fermdist í Holti vorið 1872. Við ferminguna gefur prestur drengnum þessa umsögn: Les, kann og skilur mjög vel, mannvænlegur.[1655] Veturinn 1877-1878 var Páll við nám í Lærða skólanum í Reykjavík[1656] en hvarf þá frá námi tvítugur að aldri og fékkst síðar eingöngu við kaupsýslu eins og komist er að orði í Íslenskum æviskrám.[1657] Á árunum 1878-1885 mun Páll hafa verið eitthvað í Kaupmannahöfn (sjá hér bls. 119-120) en óljóst er hversu lengi því öll þessi ár er hann skráður til heimilis hjá foreldrum sínum á Flateyri.[1658] Samt má gera ráð fyrir að einmitt á þessu skeiði hafi hann náð að kynnast viðskiptalífinu í höfuðborg Danaveldis og séð margar dyr standa opnar fyrir djarfhuga fjáraflamenn sem þorðu að taka áhættu og spila hátt. Merkilegt er að sjá hvers konar atvinnuheiti eru hengd á Pál í hreppsbók Mosvallahrepps á árunum 1883-1889. Árið 1883 er hann sagður vera barnakennari, árið 1884 veðurfræðingur, árið 1886 vinnumaður en verslunarmaður 1887, 1888 og 1889.[1659]

Fyrsta atvinnufyrirtækið sem Páll átti hlut að svo kunnugt sé og tengdist ekki rekstri föður hans er Selaveiðafélagið á Flateyri sem starfrækt var á árunum upp úr 1880. Ljóst er að félag þetta hefur hafið starfsemi eigi síðar en árið 1881 því 1. janúar 1882 átti það 34,08 krónur inni á eigin reikningi hjá verslun Hjálmars Jónssonar á Flateyri.[1660]

Á árunum 1882-1884 voru félagsmennirnir í selaveiðafélaginu jafnan með reikning á þess nafni hjá versluninni á Flateyri[1661] en umsvif þessa félagsskapar virðast reyndar hafa verið ósköp lítil. Að Páll hafi verið við félagið riðinn sést á því að árið 1882 tekur hann tíu sinnum peninga eða varning út úr reikningi þess og haustið 1883 fær hann greiddar 17,11 krónur inn á sinn eigin reikning fyrir selhluti.[1662]

Árið 1882 lagði félagið inn hjá versluninni þrjá seli, fimm kópa og 95 pund af selspiki.[1663] Fyrir allt þetta fékk félagið greitt 137,28 krónur en að auk lagði það inn saltfisk fyrir 67,25 krónur þetta sama ár.[1664] Árið 1883 lagði félagið aðeins inn sex kópa og svolítið af saltfiski og 1884 bara tvo kópa og einn fiskhlut.[1665] Ekki er vel ljóst hverjir stóðu með Páli að selaveiðafélaginu en úttektir á viðskiptareikningi þess benda til að Halldór bróðir hans og þrír verslunarmenn á Flateyri, þeir Gunnlaugur Oddsen, Kristján Mosdal og Matthías Ólafsson hafi allir átt þar hlut að.[1666]

Í viðskiptareikningum selaveiðafélagsins og Páls hjá versluninni á Flateyri gefst kostur á að sjá hvað þessi ungi maður tók út og lagði inn á árunum 1882-1884, þegar hann var um 25 ára aldur. Af reikningi félagsins tók hann árið 1882 út 7,88 krónur í peningum og líka eina peningabuddu, tvö búnt af sígarettum, einn kraga, þrjá klúta og eitt krekjubréf.[1667]

Árið 1883 var þessi elsti sonur Torfa Halldórssonar með reikning á sínu nafni við Ásgeirsverslun en það var fyrsta starfsár útibús hennar á Flateyri. Hann lagði þá inn saltfisk fyrir 39,74 krónur.[1668] Fyrir selhluti fékk hann 17,11 krónur eins og hér var áður nefnt, í tekjur af skektu 9,68 krónur, í greiðslu frá Matthíasi Ólafssyni 7,50 krónur, í grentolla frá Mosvallahreppi 36,00 krónur og fyrir vinnu við vörutalningu hjá versluninni í fjórtán daga 28,00 krónur.[1669] Samtals gerði þetta 138,03 krónur og annað var innleggið ekki. Grentollarnir sýna að Páll hefur ekki aðeins stundað selveiðar heldur líka refaveiðar og legið á grenjum. Við vörutalninguna hefur hann unnið með föður sínum í desembermánuði 1883 en Torfi var þá að hætta sem verslunarstjóri Ásgeirsverslunar á Flateyri.

Árið 1883 tók Páll aðeins út peninga og vörur fyrir 52,21 krónu eða röskan þriðjung innleggsins og átti því nær 86,00 krónur inni hjá versluninni við lok þess árs.[1670] Úttekt hans árið 1883 var þessi: Peningar 38,00 krónur, einn pakki af reyktóbaki 0,90 krónur, þrjú kerti 0,30 krónur, fimmtíu pund af rúgi 5,00 krónur, ein húfa 2,25 krónur, tíu pund af höglum á 5,00 krónur og tvö pund af blýi á 0,76 krónur.[1671]

Snemma á árinu 1884 fékk Páll greiddar inn á reikning sinn tuttugu krónur frá versluninni og voru það laun fyrir að skrifa reikninga. Þá um sumarið virðist hann hafa verið einhvern tíma á skútunni Sigríði frá Ísafirði því inn á reikning hans kom haustið 1884 einn fiskhlutur og hálfur dráttur frá því skipi, að verðmæti samtals 23,13 krónur.[1672] Þetta ár jókst úttekt Páls hjá versluninni verulega.[1673] Meðal þess sem hann keypti voru skautar sem kostuðu 3,60 krónur, kápa sem kostaði 9,00 krónur, buxur á 3,25 krónur, tréskóstígvél á 15,00 krónur, sjóhattur (Sydvest) á 1,75 krónur, hattur á 5,00 krónur, rakhnífur á 1,50 krónur, ein reykjarpípa á 0,65 krónur, eitt vatnsglas á 0,33 krónur, fimmtíu vindlar og svolítið af reyktóbaki, rullu og rjóli.[1674] Athygli vekur að á árunum 1883 og 1884 kaupir Páll alls ekkert brennivín eða aðra sterka drykki hjá versluninni á Flateyri[1675] en vera má að hann hafi búið að gömlum birgðum eða haft aðra útvegi. Halldór Torfason, bróðir Páls, fékk sér hins vegar fjórar flöskur af sérrýi og hálfa kampavínsflösku í síðari hluta júlí og í ágústmánuði árið 1884[1676] en hann hafði þá alveg nýlega lokið stúdentsprófi frá lærða skólanum í Reykjavík (sjá hér bls. 186).

Hér hefur áður verið minnst á stjórnmálafélagið Vakanda sem stofnað var í Önundarfirði veturinn 1883-1884 (sjá hér Mosvallahreppur, inngangskafli). Enginn vafi sýnist leika á því að Páll Torfason hafi verið frumkvöðull að stofnun þessa félags og helsti forystumaður þess. Hann var jafnan stórhuga og í nafni félagsins sendi hann í marsmánuði árið 1884 út boðsbréf um Þingvallafund á komandi sumri.[1677] Boðsbréf þetta var m.a. sent íslenskum námsmönnum við háskólann í Kaupmannahöfn og þar er talað um nauðsyn þess að bindast samtökum og hefja stríð mót öfugum þjóðaranda, ófrelsi og óþjálni í stjórnháttum … og leti og deyfð landsmanna til að bjarga sér sjálfir.[1678] Í þessu sama boðsbréfi sem Páll er án vafa höfundur að er komist að orði á þessa leið:

 

Nú hefur oss nokkrum mönnum hér vestanlands komið saman um að boða til fundar á Þingvelli við Öxará 10. dag júlímánaðar næstkomandi. Vildum vér þar koma á fót félagi ungra manna, lærðra sem leikra, um land allt. Skyldi félag það hafa fyrir mark og mið framfarir þjóðarinnar á andlegan og líkamlegan hátt.

Vér leyfum oss því að skora á yður að þér sækið fund þenna og takið þar við forystu félagsins með aðstoð vorri og fleiri góðra drengja.[1679]

 

Undir bréfið ritar Páll og sex menn aðrir, sem allir áttu heima á Flateyri, þar á meðal Torfi faðir hans.[1680] Þegar Páll setur nafn sitt undir boðsbréfið nefnir hann sig veðurfræðing[1681] en um nám hans í veðurfræði er allt ókunnugt. Í lok hins merkilega bréfs frá Flateyri til stúdentanna í Kaupmannahöfn er tekið fram að það sé skrifað í nafni 400 félaga á Vesturlandi og allur sá hópur sé aðeins úr tveim sveitum.[1682] Mun þá að líkindum átt við Önundarfjörð og Dýrafjörð.

Af hinum fyrirhugaða Þingvallafundi varð ekki en 1. ágúst 1884 ritaði Páll annað bréf til Kaupmannahafnar og var það einkabréf til Finns Jónssonar sem þá var að ljúka námi í Höfn, síðar háskólakennara þar um langt skeið. Í því bréfi kemur mjög skýrt fram hversu róttækur Páll var á þessum árum og bardagafús. Ofdirfskan sem löngum sótti að honum er þarna líka á næsta leiti. Í bréfinu til Finns kemst hann m.a. svo að orði:

 

Ég hef nú reyndar ekki margt að segja af hinu nýstofnaða félagi okkar Vestfirðinga. Sumarannirnar hafa tekið af því mesta berserksganginn fyrst um sinn. Eftir því sem ég kemst næst er á því „rauðalogn”. … Ekki varð af Þingvallafundi í ár. Við því var heldur ekki að búast. En mitt princip er að setja allt sem næst oddinum því að þess hægri er næsta tilraun. … Að vísu hefur margt tekist klaufalega hjá okkur sem höfum gengið á undan því að hefðum við allir vitað hvað við vildum og haft vit og þrek til að segja almenningi það, þá væru allir Vestfirðingar eitt félag, að Ísfirðingum og fáeinum freðhausum undanteknum. Ég efast ekki um að [það] mætti ná mestum hluta Ísfirðinga á okkar mál. En til þess þarf fund og á þeim fundi þarf að vera maður sem eins og Ferdinand Lassalle kemst að orði, hlífðarlaust án manngreinarálits rotar með andlegum kylfuhöggum sérhvern er mælir móti málefni því er hann flytur.[1683]

 

Þess mun rétt að geta að Ferdinand Lassalle, sem Páll vitnar þarna í með velþóknun, var einn af helstu forystumönnum þýskra sósíalista á árunum kringum 1860 og féll í einvígi árið 1864.

Síðar í bréfinu frá 1. ágúst 1884 bætir hugmyndafræðingurinn í Torfahúsi á Flateyri þessum orðum við:

 

Við erum heldur ekki alveg á sama máli, „postularnir”. Sumir vilja ekki hafa í félaginu annað en úrval manna, sem gjörsamlega skilji tilgang þess o.s.frv. En ég er á öðru máli og því hefur verið fylgt hingað til. Ég vil hafa allt fyrir félaga. Úrvalsmennirnir hafa ekki krónuráðin og þau eru nú sem stendur höfuðatriðið.

Majoritet [þ.e. meirihluti – innsk. K.Ó.] er líka ætíð majoritet og að óttast að það vaxi yfir höfuð manni þó nokkrir tvískinnungar og annað núllarusl bætist við er vottur um minna sjálfstraust en okkur ber að hafa.

… Hvað sjálfan mig áhrærir er ég alveg að kafna í fyrirspurnum, detta um ósýnilega bakbíti o.s.frv., enda dugi ég ekki til annars en berja frá mér, beint framan í mótstandendur mína. Ég er alveg ónýtur við að intrigera [þ.e. að ástunda leynilegt ráðabrugg – innsk. K.Ó.]. En sé það eitt af nauðsynlegu meðölunum til að ná markinu þá verð ég að fara að leggja mig eftir því. En ég veit fyrir að mér tekst það ekki.[1684]

 

Í lok þessa sama bréfs til Finns Jónssonar kveðst Páll enn vera alveg ófúinn og biður viðtakanda bréfsins að tilkynna það kunningjunum í Höfn.[1685]

Stjórnmálafélagið Vakandi, sem Páll Torfason gekkst fyrir að stofna veturinn 1883-1884, varð ekki langlíft. Sumarið 1887 birtist í blaðinu Þjóðviljanum stutt fréttabréf úr Önundarfirði og er mjög líklegt að Páll sé höfundur þess. Þar segir bréfritari að áhugi manna á þjóðmálum sé sáralítill síðan félag vor Önfirðinga leið undir lok[1686] og á þá eflaust við Vakanda.

Í þessu sama fréttabréfi úr Önundarfirði, sem ætla má að Páll Torfason hafi skrifað, er líka viðruð sú skoðun að Íslendingar ættu að stofna lýðveldi og slíta með öllu tengslin við Danmörku.[1687] Orðum sínum um þetta hagar bréfritari svo:

 

Ef eitthvað verður tilrætt um stjórnarmálefni láta ýmsir málsmetandi menn í ljósi að Ísland eigi helst að vera lýðveldi. Að alríkiseiningunni verður mörgum að brosa er þeir líta á hagsmuni þá er Ísland hefir af henni.[1688]

 

Mjög merkilegt er reyndar að sjá þennan lýðveldisboðskap í fréttabréfi úr Önundarfirði frá árinu 1887 því sárafáir eða engir höfðu áður orðið til þess að kynna slík viðhorf í blaðagreinum eða tala fyrir þeim á opinberum vettvangi.[1689] Páll Torfason hefur því að líkindum verið einn sá allra fyrsti sem boðaði slit á konungssambandi við Dani og stofnun lýðveldis á Íslandi, 57 árum áður en sá draumur varð að veruleika.

Að sinni verður þessi kynning á æskumanninum Páli Torfasyni ekki lengri, enda mál til komið að víkja að framgöngu hans á fjármálasviðinu og þeim áhrifum sem gerðir hans höfðu á efnahag foreldranna og þróun atvinnulífs í Önundarfirði.

Þegar Torfi Halldórsson hætti störfum sem verslunarstjóri við útibú Ásgeirsverslunar árið 1884 fór hann strax að undirbúa verslunarrekstur á Flateyri í samvinnu við Norðmanninn J. Uglehus sem þá hafði nýlega sest að á Ísafirði (sjá hér bls. 135-140). Nokkrir Önfirðingar sem Torfi var í forystu fyrir stofnuðu þá líka til félagsskapar við þennan norska kaupsýslumann um smíði þriggja þilskipa úti í Noregi og um kaup á gufuknúinni lýsisbræðslu sem sett var upp rétt innan við Flateyri (sjá hér bls. 137-138, 145-150 og 167-175). Allt var þetta með nokkrum ævintýrabrag og auðvelt að láta sér detta í hug að Páll Torfason, sem varð 26 ára gamall árið 1884, hafi átt nokkurn þátt í að laða föður sinn til samstarfs við Norðmanninn um þessar stórhuga ráðagerðir sem veruleg áhætta hlaut að fylgja. Um hugsanlegt frumkvæði eða þátttöku Páls í þessum ráðagerðum er þó ekkert vitað með vissu. Svo fór að Uglehus komst í þrot árið 1886 og hvarf til Ameríku en Torfi og félagar hans í Önundarfirði náðu þá að halda öllum þremur þilskipunum sem komið höfðu ný frá Noregi árið áður og einnig bæði lýsisbræðslunni og verslunarhúsinu sem Uglehus hafði náð að koma undir þak á Flateyri (sjá hér bls. 135-140, 145-150 og 167-175).

Um þátt Páls Torfasonar í að koma föður sínum í samband við Hans Ellefsen, sem reisti hvalveiðistöðina á Sólbakka innan við Flateyri árið 1889, liggur allt ljósar fyrir. Skjalfest er að það var Páll sem í umboði föður síns undirritaði samninginn við hann haustið 1888 (sjá hér Sólbakki) og hálfri öld síðar kunnu gamlir menn í Önundarfirði að greina frá því að viðræður sem Páll átti við Ellefsen úti í Noregi árið 1887 hefðu komið þessum norska hvalveiðimanni á sporið sem leiddi til þess að hvalveiðistöðin var reist á Sólbakka tveimur árum síðar (sjá hér Sólbakki). Til marks um tengsl Páls Torfasonar við Noreg má svo nefna að á yngri árum var hann um skeið trúlofaður norskri stúlku, Agnesi Reimann.[1690]

Haustið 1885 taldi Torfi Halldórsson sig hafa sloppið nokkurn veginn skaðlaust frá viðskiptum sínum við hinn norska Uglehus (sjá hér bls. 136) og sá hagnaður sem hann gat vænst þegar farið var að reisa hvalveiðistöðina á Sólbakka árið 1889 var verulegur. Samningurinn sem Páll Torfason gerði haustið 1888 færði föður hans á næstu árum 11.555,- krónur í leigutekjur fyrir landið sem Ellefsen fékk til afnota (sjá hér Sóbakki) en auk þess hlaut Torfi, sem var eigandi Flateyrar, að gera sér vonir um margvíslegan ábata af hinum miklu umsvifum sem hófust á Sólbakka árið 1889. Ekki er ólíklegt að traust hans á fjármálavisku elsta sonarins hafi vaxið þegar hjólin fóru að snúast á Sólbakka en Páll var þá kominn rétt yfir þrítugt og framtíð hans enn óráðin. Sjálfur var Torfi orðinn 66 ára gamall þegar hvalveiðarnar frá Sólbakka hófust og næsta ár lét hann leiðast til að afsala nær öllum eignum sínum í hendur tveggja sona sinna, Páls og Kristjáns, en sá síðarnefndi var þá aðeins 19 ára.[1691]

Eignirnar sem þarna var afsalað voru þessar:

 

1…… 16 hundruð í jörðinni Eyri, virt á ………………………………  kr.    8.000,-

 1. 14 hundruð í jörðinni Hóli í Firði, 8 hundruð í Breiða-

…….. dal og 6 hundruð í Vífilsmýrum, virt samtals á …………..  kr.    3.000,-

3…… Íbúðarhús, virt á ……………………………………………………..  kr.  12.000,-

4…… Annað íbúðarhús, virt á …………………………………………..  kr.    5.000,-

5…… Pakkhús með sölubúð og meðfylgjandi innréttingum

…….. og áhöldum, virt á …………………………………………………..  kr.    2.000,-

…….. Á dönsku máli nefnt Pakhus med Butikslocale

6…… Vörulager, virtur á ………………………………………………….  kr.  18.000,-

7…… Útistandandi skuldir viðskiptamanna, virtar á …………….  kr.    6.000,-

8…… Skipið Hilda María, jakt-galeas, virt á ………………………  kr.    6.000,-

9…… Þrír fjórðu partar í skipinu Flateyri (kútter) virtir á ……..  kr.    5.000,-

10…. Fimm sextándu hlutar úr skipinu Ísafold (kútter),

…….. virtir á …………………………………………………………………..  kr.    2.000,-

11…. Hálf skonnortan María, að verðmæti …………………………  kr.    3.000,-

         Samtals[1692]   kr.   70.000,-

 

Íbúðarhúsin tvö sem þarna eru nefnd munu vera Torfahús og Gunnlaugshús á Flateyri. Gunnlaugshús eignaðist Torfi eigi síðar en 1887[1693] og líklega hefur hann keypt það árið 1884 þegar Gunnlaugur Oddsen, fyrsti eigandi þess, fluttist burt frá Flateyri.

Fyrir allar þær eignir sem hér voru taldar upp fékk Torfi í hendur skuldarviðurkenningu frá sonum sínum, þeim Páli og Kristjáni, þar sem lýst var yfir að þeir skuldi föður sínum allt áætlað söluverðmæti eignanna sem var 70.000,- krónur.[1694] Enginn gjalddagi var settur á skuldina en kveðið á um að af henni bæri að greiða 6-7% vexti og tekið fram að Torfi gæti hvenær sem væri krafist þess að fá allt lánið greitt með vöxtum og áföllnum kostnaði.[1695] Báðum þessum skjölum, afsalinu og skuldarviðurkenningunni var þinglýst 26. september 1890 og voru þau undirrituð þann sama dag.[1696]

Í afsalsbréfinu frá 1890 er ekkert ákvæði að finna sem veiti Torfa veðrétt í hinum seldu eignum en í ljósi þess sem síðar kom fram virðist líklegt að Páll hafi ætlað sér að nýta eignirnar sem veð til lántöku. Þarna var greinilega ekki um neina venjulega sölu eigna að ræða því eins og áður sagði var ekkert borgað út af kaupverðinu og engir fastir gjalddagar nefndir hvað greiðslu þess varðaði. Matsverð eignanna, sem upp eru taldar á skuldabréfinu, jafngilti árið 1890 654 kúgildum.[1697] Við mat á slíkri fjárupphæð er líka gott að hafa í huga að á þessum tíma var eitt kýrverð og eitt hundrað í einhverri miðlungsjörð yfirleitt lagt að jöfnu eins og löngum hafði tíðkast. Ljóst er að sú viðmiðun hefur verið höfð í huga við verðlagningu á jarðarpörtum Torfa á Hóli, í Breiðadal og á Vífilsmýrum sem með fylgdu er hann seldi sonum sínum eignirnar. Þau 28 jarðarhundruð sem þarna var um að ræða voru virt á 3.000,- krónur samtals eins og sjá má hér að framan, það er hvert hundrað á 107,14 krónur, en hið opinbera kýrverð var á þessum tíma 107,05 krónur.[1698] Verðmæti eignanna sem Torfi afhenti sonum sínum var því álíka mikið og það sem fá mátti fyrir 654 jarðarhundruð en að fornu mati var samanlagður dýrleiki allra bújarða í Mosvallahreppi 608 hundruð væri prestssetrið í Holt ekki talið með (sjá hér Mosvallahreppur, inngangskafli). Ljóst er að verðmæti eignanna, sem Torfi afhenti Páli og Kristjáni haustið 1890, var því engir smápeningar.

Svo virðist sem þessi eignasala hafi hins vegar aðeins farið fram að nafninu til þó að skjölunum væri þinglýst og hugsanlega í því skyni einu að auðvelda Páli Torfasyni að verða sér úti um lánsfé. Til marks um það að Torfi hafi áfram talið sig vera eiganda hinna seldu eigna má nefna að í hreppsbók Mosvallahrepps er eignarhlutur hans í þilskipunum á Flateyri talinn vera alveg sá sami bæði fyrir og eftir söluna, alltaf tvö og hálft eða tvö skip og níu sextándu hlutar úr hinu þriðja á árunum 1890-1895.[1699] Eignarhlut sinn í jörðinni Eyri og íbúðarhús sitt á Flateyri átti Torfi líka alveg tvímælalaust árið 1893, þrátt fyrir söluna þremur árum fyrr. Að svo hafi verið sést m.a. á því að 12. júlí 1893 veðsetti hann báðar þessar eignir eins og hér verður brátt vikið nánar að.

Óljóst er nú við hvaða fyrirtæki Páll Torfason kann að hafa verið riðinn fyrir 1893 ef frá er talin verslunin sem þá var rekin á nafni föður hans. Líklegt er reyndar að þau hafi hvorki verið mörg né stór en aftur á móti má telja fullvíst að þessi hugmyndaríki kaupmannssonur hafi haft ýmis spjót úti, bæði innanlands og utan, í leit sinni að tækifærum til að koma á fót gróðavænlegum rekstri. Vorið 1893 virtist ætla að rætast úr. Páll var þá kominn í samband við kaupsýslumann sem hét Andrew Johnson og átti heima í Hull úti í Englandi. Saman voru þeir að ráðgera að stofna fyrirtæki um fiskveiðar og fiskútflutning í stórum stíl. Miðstöð þess átti að vera á Flateyri og meiningin var að ráðast í útgerð gufuskipa sem áttu að stunda fiskveiðar og þá einkum lúðuveiðar.[1700] Engin gufuskip eða önnur vélknúin skip eða bátar voru gerð út til fiskveiða frá höfnum á Íslandi árið 1893 en hvalveiðar voru hins vegar stundaðar á gufubátum frá Sólbakka í Önundarfirði og fáeinum öðrum norskum hvalveiðistöðvum á Vestfjörðum.

Fyrstu heimildina um þessar ráðagerðir Páls Torfasonar og Andrews Johnson er að finna í dagbók Jóns Guðmundssonar frá Grafargili sem skrifar þetta í bók sína 27. apríl 1893:

 

Fór yfir á Flateyri. … Á Flateyri var kominn danskur maður eða enskur sem ætlar að fiska spröku á gufuskipum og svo kaupir hann rauðsprettu, spröku og gefur 5 aura fyrir pundið.[1701]

 

Þann 12. júlí 1893 var gengið með formlegum hætti frá stofnun fyrirtækisins sem hlaut nafnið Islandsk Exportforretning[1702] það er Íslenskt útflutningsfyrirtæki. Hlutaféð var 40.000,- krónur og skiptist þannig að Páll Torfason lagði fram 20.000,- krónur, Andrew Johnson 18.000,- krónur, fyrir hönd fyrirtækisins Andrew Johnson, Knudtzon & Co. í Hull, og N.Chr. Nielsen frá Ringkjøbing í Danmörku lagði fram 2.000,- krónur.[1703]

Í 1. grein samþykkta félagsins segir að tilgangur þess sé að reka verslunarstarfsemi, fiskveiðar og vinnslu og þar er tekið fram að aðsetur félagsins sé á Flateyri.[1704] Eigendurnir þrír sátu allir í stjórn og áttu að hafa 1.800,- krónur hver í föst laun á ári.[1705] Í 7. grein samþykkta félagsins er kveðið á um skiptingu væntanlegs arðs af rekstrinum og mælt svo fyrir að honum skyldi deilt út í réttu hlutfalli við hlutafjáreign hvers og eins en færu arðgreiðslur yfir 10% af hlutafénu skyldi því sem umfram yrði skipt jafnt milli hluthafanna, óháð hlutafjáreign.[1706] Í sömu grein var líka tekið fram að hugsanlegu tapi bæri að skipta jafnt á þessa þrjá hluthafa án tillits til þess hvað hver og einn þeirra hefði lagt fram mikið hlutafé.[1707]

Ellefta grein samþykktanna er sú síðasta og í henni segir að komi til ágreinings milli hluthafa skuli deiluaðilar skipa tvo menn í gerðardóm er skeri úr um ágreiningsefnið.[1708] Tækist gerðardómsmönnunum hins vegar ekki að ná samkomulagi um sjálft deilumálið var gert ráð fyrir að þeir tilnefndu sameiginlega einhvern þriðja mann er fengi þá úrskurðarvaldið í hendur.[1709] Eins og áður sagði var skrifað undir samþykktir félagsins 12. júlí 1893 og 28. júní 1894 var plagginu þinglýst á almennu hreppaskilaþingi sem haldið var á Þórustöðum.[1710] Við lestur nýnefndra samþykkta félagsins kemur í ljós að enda þótt Páll Torfason teldist vera eigandi að helmingi hlutafjárins gat hann komið sér hjá því að leggja fram eina einustu krónu í peningum,[1711] enda líklegt að lítið hafi verið um peningaseðla eða slegna mynt á Flateyri árið 1893. Í stað peninga lét Páll af hendi veð í eignum upp á samtals 20.000,- krónur sem skiptist þannig:

 

 1. Veð í 12 hundruðum úr jörðinni Eyri og í Torfahúsi á Flateyri til tryggingar greiðslu sem var samtals 14.200,- krónur.
 2. Veð í vörubirgðum og útistandandi skuldum viðskiptamanna við verslun Torfa Halldórssonar á Flateyri til tryggingar greiðslu á 3.800,- krónum.
 3. Veð í húseigninni Uglehus hús sem virt var á 2.000,- krónur.[1712]

 

Allar þessar eignir sem þarna voru settar að veði átti Torfi Halldórsson þegar kom að stofnun félagsins en sama dag og það var stofnað ritaði hann undir skjal sem veitti Páli syni hans heimild til að veðsetja fyrrnefnd 12 hundruð úr Eyrarjörðinni og húsið sem Torfi og fjölskylda hans höfðu búið í á Flateyri í 36 ár.[1713] Jafnframt skrifaði hann undir tvö önnur skjöl og lýsti þar yfir að frá og með þessum degi, 12. júlí 1893, væri Páll sonur sinn eigandi að Uglehus húsi og versluninni sem Torfi hafði þá rekið á Flateyri um nokkurra ára skeið.[1714] Með fylgdu vörubirgðir verslunarinnar og útistandandi kröfur hennar.[1715] Ekki verður þó séð að Páll hafi borgað neitt fyrir þessi verðmæti en með nýnefnd bréf í höndunum gat hann að sjálfsögðu veðsett umræddar eignir.

Sú spurning vaknar hvaða hús það hafi verið sem Torfi afhenti syni sínum til eignar þennan sögulega dag árið 1893 og var kennt við Uglehus þann sem var með verslunarrekstur á Flateyri árið 1885 og hér var áður frá sagt (sjá hér bls. 135-140). Til að finna svar við þeirri spurningu þarf reyndar ekki að leita langt yfir skammt. Hér hefur áður verið frá því greint að árið 1890 var verslunarhús Torfa á Flateyri virt á 2.000,- krónur (sjá hér bls. 202) og í samþykktum Íslenska útflutningsfyrirtækisins frá sumrinu 1893 stendur skýrum stöfum að virðingarverð húseignarinnar sem þar er nefnd Uglehus hús sé einmitt 2.000,- krónur eins og hér var nefnt.

Á Flateyri var ekki um margar húseignir að ræða árið 1893 og má því segja að þarna sé komin mjög eindregin vísbending um að Uglehus hús hafi verið nafn á verslunarhúsi Torfa. Snorri Sigfússon, sem var skólastjóri á Flateyri á árunum 1912-1929, segir að verslunarhúsið sem Torfi byggði á Flateyri hafi brunnið árið 1921[1716] en rétt ártal mun vera 1922 eins og hér verður brátt sýnt fram á. Á veðskjali frá árinu 1893 þar sem minnst er á Uglehus hús hefur löngu síðar verið ritað að það sé brunnið.[1717] Hér er því varla um að villast og svo virðist sem telja megi fullvíst að verslunarhús Torfa og húsið sem kennt var við Uglehus sé ein og sama byggingin. Í skjalinu sem Torfi ritaði undir þegar hann afhenti Páli syni sínum Uglehus hús til eignar sumarið 1893 er tekið fram að húsið standi á Flateyrartanga sem passar nákvæmlega við staðsetninguna á verslunarhúsi Torfa og í sama skjali lætur Torfi þess getið að hann hafi eignast þetta hús á opinberu uppboði.[1718] Minnt skal á að Uglehus varð gjaldþrota sumarið 1886 (sjá hér bls. 137-138) og eignir hans á Flateyri voru að líkindum boðnar upp þá um haustið.

Árið 1886 var Uglehus hús reyndar aðeins virt á 900,- krónur en þá var það eigi fullsmíðað (sjá hér bls. 137-138). Það hefur því komið í hlut Torfa að ljúka smíði þessa verslunarhúss sem virt var á 2.000,- krónur bæði 1890 og 1893 eins og hér var áður nefnt og reyndar líka vorið 1887.[1719] Þá var húsið tekið út þann 27. maí, fullklárað, og í úttektargerðinni sjáum við að grunnflötur þess var 12 x 10 álnir, það er 7,53 x 6,28 metrar eða 47,3 fermetrar, og hæðin frá gólfi og upp í mæni 6,6 metrar.[1720]

Til samanburðar má nefna að verslunarhús Hjálmars Jónssonar á Flateyri, sem Kaupfélag Önfirðinga eignaðist síðar og verslaði í fram yfir miðja 20. öld, var um 70 fermetrar en bara 5 metrar á hæð (sjá hér bls. 116). Mælt í rúmmetrum var verslunarhús Torfa því litlu minna en hús Hjálmars.

Uglehus hús sem síðar var nefnt Torfabúðin og brann árið 1922 stóð eins og áður var nefnt á Flateyrartanga og í einni heimild er sagt að það hafi verið reist beint á móti húsi Ásgeirsverslunar og ekki steinsnar á milli þessara tveggja verslunarhúsa (sjá hér bls. 135). María Jóhannsdóttir, sem er dótturdóttir Torfa Halldórssonar og átti heima á Sólbakka (Litlabýli) á sínum uppvaxtarárum, var um fermingaraldur þegar Torfabúðin brann. Hún minnist þess að aðeins var svolítið sund milli hennar og verslunarhúss Ásgeirsverslunar, sem Kaupfélag Önfirðinga eignaðist síðar, og segir Ásgeirsverslun hafa verið heldur neðar, nær Eyraroddanum.[1721] Á ljósmynd frá árinu 1898 má sjá að Torfabúðin hefur staðið aðeins ofar en verslunarhús Ásgeirsverslunar og lítið eitt austar (sjá Firðir og fólk 900-1900,bls. 395).[1722]

Um 1920 komst Torfabúðin í eigu hlutafélags sem Steingrímur Árnason veitti forstöðu en sá félagsskapur var þá að hefja verslunarrekstur og bátaútgerð á Flateyri (sjá Firðir og fólk 1900-1999, bls. 387). Aðfaranótt 15. október árið 1922 varð eldur laus í þessu gamla verslunarhúsi sem Norðmaðurinn Uglehus hafði látið reisa árið 1885 og brann það til kaldra kola.[1723] Húsið var þá í eigu Steingríms Árnasonar & Co.[1724] og í því var sölubúð, vörulager og fiskgeymsla.[1725] Í blaðafrétt um brunann á Flateyri 15. október 1922 segir svo: Mjög nærri lá að hús Sameinuðu verslananna brynnu því þau stóðu næst og ákaflega nærri. En þó tókst að verja þau. … Meiðsli urðu engin í brunanum.[1726]

Ummæli þessi staðfesta það sem hér var áður sagt að örskammt hafi verið á milli Torfabúðarinnar og verslunarhúsa Ásgeirsverslunar en þau hús eignuðust Hinar sameinuðu íslensku verslanir árið 1918.

Þegar Íslenska útflutningsfyrirtækið var stofnað á Flateyri árið 1893 voru hluthafarnir bara þrír eins og hér hefur verið rakið Páll Torfason, Andrew Johnson og Niels Chr. Nielsen. Það var hins vegar Torfi Halldórsson sem gerði Páli syni sínum kleift að ráðast í þetta ævintýri og sjálfur tók hann í raun á sig alla áhættuna sem fylgdi þessu brambolti sonarins. Með því að veita heimild til veðsetningar á eignum átti Torfi stóran þátt í að tryggja þessu nýja fyrirtæki fjármagn og auk þess lét hann því í té land undir starfsemina. Frá samningi um leigu á fyrirhuguðu athafnasvæði félagsins var gengið sama dag og það var stofnað og í honum tekið fram að Torfi leigði því til 30 ára allan Flateyrartanga nema túnið, kálgarða og beitiland.[1727] Torfi áskildi sér líka umráðarétt yfir sjálfri strandlengjunni en jafnframt var í samningnum tekið fram að nýting hans á sjávarströndinni mætti ekki með neinu móti valda erfiðleikum í þeim rekstri sem leigutakinn stæði fyrir.[1728] Leigan var ákveðin 100,- krónur á ári og svo 1% af verðmæti þeirra vara sem inn yrðu fluttar á vegum félagsins.[1729] Í leigusamningnum var líka tekið fram að Torfi veitti Íslenska útflutningsfyrirtækinu forkaupsrétt að öllum eignum sínum á Flateyrartanga en með því skilyrði þó að einhver sona hans yrði er þar að kæmi enn meðeigandi í þessu sama fyrirtæki eða ætti kost á að verða það.[1730]

Allir þeir pappírar sem Torfi Halldórsson skrifaði undir á stofndegi þessa nýja hlutafélags, 12. júlí 1893, bera með sér að hér stóð mikið til, enda var ætlunin sú að hefja á undan öllum öðrum landsmönnum fiskveiðar á vélknúnum skipum, – bátum eða togurum, ef marka má orð Jóns Guðmundssonar frá Grafargili um fyrirhugaðar lúðuveiðar á gufuskipum, rituð 27. apríl 1893 (sjá hér bls. 204). Í samþykktum félagsins er líka rætt um verksmiðjurekstur og þá að líkindum átt við fiskvinnslu en þó hugsanlegt að fleira hafi komið til greina. Sölu á framleiðslu fyrirtækisins munu eigendur þess hafa ætlað að sjá um sjálfir og í samþykktunum er tekið fram að auk fiskveiða og vinnslu muni það reka verslun.

Það voru reyndar kútterar en ekki gufuskip sem hófu lúðuveiðar í Önundarfirði vorið 1893 en Jón frá Grafargili getur þess í dagbók sinni þann 8. maí að lúðukútterarnir séu farnir að fiska hér á firðinum.[1731] Kútterarnir sem stunduðu kolaveiðar á Önundarfirði þetta sumar og á næstu árum munu reyndar, sumir eða allir, hafa verið með hjálparvélar.[1732]

Íslenska útflutningsfyrirtækið var ekki stofnað með formlegum hætti fyrr en tveir mánuðir voru liðnir frá því nýnefndir lúðukútterar hófu veiðar. Engu að síður má ætla að þeir hafi verið gerðir út á vegum Andrews Johnson í Hull eða verið í viðskiptum við fyrirtæki hans. Við könnun fyrirliggjandi gagna kemur í ljós að í hópi þeirra sem fluttust til Flateyrar árið 1893 voru tveir menn sem fullvíst má telja að hafi verið á vegum Íslenska útflutningsfyrirtækisins. Annar þeirra var Niels Chr. Nielsen, sem kom frá Englandi og var 28 ára gamall, en hinn P.C. Pedersen sem kom frá Danmörku og var 44 ára.[1733] Ætla má að Niels Chr. Nielsen sé hinn sami og maður með því nafni sem átti 5% hlutafjár í Íslenska útflutningsfyrirtækinu (sjá hér bls. 204-205) en P.C. Pedersen, sem Holtsprestur kallar P.C. Petersen, var ásamt Ebenezer Sturlusyni vottur við undirskrift allra skjalanna sem gengið var frá á stofndegi hlutafélagsins.[1734] Báðir komu þeir Nielsen og Pedersen með eiginkonur með sér til Flateyrar og hinum síðarnefnda fylgdi auk þess dóttir.[1735]

Fyrsta vörusending til félagsins kom með gufuskipinu Lauru frá Kaupmannahöfn þann 5. maí um vorið[1736] og má ætla að þær vörur hafi Torfi Halldórsson pantað haustið 1892. Næstu vörusendingu fékk félagið beint frá Hull með gufuskipinu Hermes sem kom til Flateyrar 19. maí.[1737] Skipstjóri í þeirri ferð var N.Kr. Nielsen, segir í skýrslu sem Páll Torfason sendi sýslumanni,[1738] og gæti sem best verið sami maður og hér var áður nefndur Niels Chr. Nielsen.

Umsvif Íslenska útflutningsfyrirtækisins á Flateyri voru mikil sumarið 1893. Fyrstu sendinguna af ísaðri rauðsprettu sem fór á markað í Hull sendi það frá sér 1. júní en samtals flutti félagið út 72.254 kíló af rauðsprettu í þeim mánuði og 144 kíló af lúðu.[1739] Allur þessi fiskur var fluttur ísvarinn til Englands.[1740] Engin rauðspretta var send úr landi eftir júnímánaðarlok en í júlí fóru 22.200 kíló af saltfiski frá félaginu til Spánar og 17.835 kíló af hákarlslýsi til Englands.[1741] Líklega hafa það verið 167 tunnur og er þá gert ráð fyrir eðlisþyngdinni 0,89[1742] og að 120 lítrar hafi verið í hverri tunnu eins og venja var.[1743] Skipin sem fluttu afurðir félagsins úr landi þetta sumar hétu Akkilles, Ceres, Nordenskjold og Hermes.[1744]

Jón Guðmundsson frá Grafargili segir í dagbók sinni frá sumrinu 1893 að Nielsen á Flateyri hafi þá greitt 5 aura fyrir pundið af rauðsprettu og sama fyrir spröku (sjá hér bls. 204) svo ætla má að innkaupsverð á öllu sem út var flutt af þessum fisktegundum hafi verið 7.240,- krónur. Árið 1893 var saltfiskverðið á Flateyri 42,50 krónur fyrir hvert skippund (160 kíló) og 24,25 krónur voru greiddar þar fyrir hverja tunnu af hákarlslýsi samkvæmt verslunarskýrslunum.[1745] Verðmæti allra afurðanna sem Íslenska útflutningsfyrirtækið flutti út árið 1893 hefur því verið um 17.200,- krónur. Er þá miðað við gangverð í viðskiptum hér en söluverðið erlendis var að sjálfsögðu mun hærra.

Samtímaheimild sýnir að verslunarsvæði Íslenska útflutningsfyrirtækisins náði til Súgandafjarðar þegar umsvif þess voru mest sumarið 1893. Einar Jónsson, sem þá átti heima í Vatnadal í Súgandafirði, getur þess í dagbók sinni 14. ágúst að þann dag hafi Þórður Jónsson, bóndi í Ytri-Vatnadal, verið með nágrönnum sínum á Stað að vikta inn fiskinn til Páls Torfasonar.[1746] Einum mánuði síðar lætur sami dagbókarritari þess getið að skipið Hildur hafi komið til Súgandafjarðar með vörur frá Páli Torfasyni[1747] svo hér þarf ekki frekari vitna við. Ætla má að skipið sem Einar nefnir Hildi hafi verið skútan Hilda María frá Flateyri sem hér er sagt frá á öðrum stað.

Árið 1893 voru bara tvö fyrirtæki á Flateyri sem sendu afurðir á erlendan markað, útibú Ásgeirsverslunar og Íslenska útflutningsfyrirtækið.[1748] Hvalveiðistöðin á Sólbakka er þá ekki talin með. Í verslunarskýrslum sést að á þessu fyrsta starfsári Íslenska útflutningsfyrirtækisins var það með um það bil einn þriðja af heildarverðmæti útfluttra afurða þessara tveggja fyrirtækja á Flateyri en Ásgeirsverslun með því sem næst tvo þriðju.[1749]  Sé hins vegar litið á innflutning til Flateyrar þetta sama ár og hvalveiðistöðinni á Sólbakka sleppt kemur í ljós að hlutur Íslenska útflutningsfyrirtækisins var um 54% af heildarinnflutningnum en hlutur Ásgeirsverslunar 46%.[1750] Allt sýnir þetta að forráðamenn hins nýja fyrirtækis stefndu að mjög verulegum umsvifum en fyrr en varði fór að bera á erfiðleikum í rekstrinum og áður en langir tímar liðu snerist samstarf hluthafanna þriggja upp í illvígar deilur þeirra á milli sem greint er frá hér litlu aftar.

Meðal þess sem Íslenska útflutningsfyrirtækið á Flateyri flutti inn árið 1893 voru 400 tunnur af salti, 160 tonn af kolum, færi og fiskiáhöld fyrir 1.080,- krónur, net fyrir 540,- krónur, sjóklæði fyrir 800,- krónur, timbur fyrir 1.500,- krónur og glysvarningur fyrir 200,- krónur.[1751] Ekkert brennivín var flutt inn á vegum félagsins en svolítið af öðrum vínföngum.[1752]

Við lok ársins 1893 bjuggu hinir erlendu starfsmenn Íslenska útflutningsfyrirtækins sem hér voru áður nefndir, þeir Niels Chr. Nielsen og P.C. Pedersen, og eiginkonur þeirra enn á Flateyri. Í sóknarmannatali frá síðasta degi ársins eru þeir sagðir vera verslunarmenn og áttu þá báðir heima í sama húsinu.[1753] Í því húsi voru þá líka hjónin Kristján B. Guðmundsson og Anna Guðmundsdóttir og dætur þeirra tvær.[1754]

Í byrjun þorra, nánar til tekið þann 28. janúar 1894, fór P.C. Pedersen með byssu út á Sauðanes og var talið að hann hefði ætlað að skjóta fugla.[1755] Úr þeirri ferð kom hann ekki lifandi og langur tími leið án þess lík hans fyndist. Fáum vikum eftir hvarf Pedersens varð kona Nielsens, félaga hans, léttari og ól dreng sem fékk nafnið Arthur.[1756] Vottar við skírn hans voru þeir Kjartan Rósinkranzson og Páll Guðlaugsson sem báðir áttu heima á Flateyri og svo Maren, danska ekkjan sem sá eiginmann sinn síðast hverfa með byssu út á Sauðanes.[1757]

Þegar voraði tóku Maren Pedersen og dóttir hennar fyrstu ferð til Danmerkur[1758] en þann 11. júní fannst lík P.C. Pedersens uppi í austanverðum Klofningsdal og var talið að hann hefði hrapað því bæði var fóturinn brotinn og höfuðið skaddað.[1759] Í blaðinu Þjóðviljanum unga er greint frá líkfundinum og þar er Pedersen sagður hafa verið verslunarmaður hjá Exportforretningen á Flateyri.[1760]

Pedersen var jarðsettur í kirkjugarðinum í Holti og það kom í hlut hreppsnefndar Mosvallahrepps að sjá um útförina.[1761] Kostnaður við hana var 56 krónur og 88 aurar og reyndist erfitt að innheimta þá peninga frá heimabæ Pedersens í Danmörku sem var Frederikshavn á Jótlandi.[1762] Bréf um málið gengu milli ráðuneyta í Danmörku og æðstu embættismanna á Íslandi en að nær þremur og hálfu ári liðnu gat landshöfðingi loks tilkynnt um endanlegan úrskurð í málinu og var bæjarfélaginu í Frederikshavn gert að greiða Mosvallahreppi útfararkostnaðinn.[1763]

Vera má að einhverjir hafi litið á hvarf og voveiflegan dauða P.C. Pedersens sem illan fyrirboða hvað varðaði rekstrarhorfur hjá Íslenska útflutningsfyrirtækinu og svo virðist reyndar sem það hafi strax komist í fjárþröng haustið 1893. Að vísu er ekki kunnugt um neitt yfirlit yfir fjárhag félagsins en veðmálabók sýslumannsins í Ísafjarðarsýslu sýnir að á fimm mánaða tímabili frá því í október árið 1893 og til febrúarloka árið 1894 þurftu þeir félagar, Páll Torfason og Niels Chr. Nielsen, að fá liðlega 8.000,- krónur að láni hjá hinum og þessum í nafni fyrirtækisins.[1764] Hæstu upphæðina, 5.000,- krónur, fengu þeir hjá Árna Sveinssyni, kaupmanni á Ísafirði, sem áður hafði átt heima á Flateyri.[1765] Lárus H. Bjarnason, sýslumaður á Ísafirði, lánaði þeim 2.300,- krónur, Kristján Albertsson á Suðureyri í Súgandafirði 600,- krónur og hjá Bjarna nokkrum Bjarnasyni fengu þeir lánaðar 320,- krónur.[1766]

Til tryggingar greiðslu á láninu frá sýslumanni var Uglehus hús á Flateyri sett að veði ásamt skúrbyggingu sem reist hafði verið við húsið sumarið 1893 og 600 tunnum af salti sem geymdar voru í þessari viðbyggingu.[1767] Kristján Albertsson á Suðureyri fékk hins vegar veð í 9000 pundum af blautum saltfiski sem í veðskuldabréfinu er sagður liggja í húsum fyrirtækis Páls Torfasonar og félaga á Flateyri[1768] en tryggingin sem Árna Sveinssyni var látin í té var veð í eignunum sem Páll Torfason hafði lagt með sér í bú félagsins við stofnun þess[1769] (sbr. hér bls. 205).

Í marsmánuði árið 1894 kom gufuskip frá Skotlandi inn á Önundarfjörð og hafði verið á sprökuveiðum[1770] en ekki er unnt að fullyrða hvort það hafi verið á vegum Andrews Johnson í Hull og sameignarmanna hans á Flateyri. Aftur á móti liggur ljóst fyrir að 30. maí þá um vorið tók einn af eigendum Íslenska útflutningsfyrirtækisins, Niels Chr. Nielsen sem þá var búsettur á Flateyri, land á leigu á Hóli á Hvilftarströnd, tæplega 4 kílómetrum fyrir innan Flateyri, í því skyni að reisa þar íshús og aðrar byggingar.[1771] Ætla má að sú leigutaka hafi tengst áformum forráðamanna fyrirtækisins um aukinn útflutning á ísuðum fiski. Ef lukkast hefði að koma upp nothæfu íshúsi á Hóli sumarið 1894 hefði það reyndar orðið hið fyrsta á landi hér (sjá hér bls. 279 og Hóll á Hvilftarströnd) en húsið komst aldrei upp og brátt varð ljóst að Íslenska útflutningsfyrirtækið var að þrotum komið. Eins og áður sagði var Andrew Johnson, sem átti 45% hlutafjárins, búsettur í Hull í Englandi og fékkst þar við sölu á fiski (sjá hér bls. 278). Að uppruna mun hann hafa verið danskur og í einni heimild er hann sagður hafa verið frá Jótlandi (sjá hér bls. 286). Í seinna hluta júnímánaðar sumarið 1894 kom Johnson til Flateyrar og upp úr því var félaginu slitið. Þeir Jón Guðmundsson frá Grafargili og Sighvatur Grímsson Borgfirðingur á Höfða geta báðir um endalok félagsins í dagbókum sínum frá þessu sumri. Jón frá Grafargili ritar um málið 28. júní og segir: Johnson kominn aftur á Flateyri. Er nú verið að gera upp verslunarreikninga Exportforretningen og er þeim félagsskap uppbrugðið að sagt er.[1772]

Sighvatur Borgfirðingur fær fréttirnar 10 dögum síðar og skrifar þann 8. júlí:

 

Fréttist um málaferli Páls Torfasonar á Flateyri og enska Johnsens út úr viðskiptum og að Lárus dánumaður hefði dæmt Páli 40.000,- krónur en talið er að Páll fái aldrei neitt.[1773]

 

Lárus dánumaður, sem Sighvatur nefnir þarna er, án efa Lárus H. Bjarnason er þá gegndi sýslumannsembætti í Ísafjarðarsýslu en dómabók sýslunnar frá þessum árum er því miður glötuð og hefur að líkindum brunnið. Af þeim ástæðum er ekki auðvelt að sjá hvað hæft kann að vera í orðum Sighvats en fremur hæpið verður þó að telja að Páli hafi verið dæmdar 40.000,- krónur í bætur og hitt líklegra að þessi tala hafi orðið ýmsum sögumönnum munntöm, svo há sem hún var, af því heildarupphæð hlutafjárins sem í félagið var lagt nam 40.000,- krónum. Af þeirri fjárhæð lagði Páll Torfason fram helminginn sem hann greiddi þó ekki í peningum heldur með því að leggja fram tryggingar en það voru veð í ýmsum eignum þeirra feðga, Páls og Torfa föður hans, eins og hér hefur áður verið rakið (sjá hér bls. 205).

Í blaðinu Þjóðviljanum unga er sagt frá endalokum Íslenska útflutningsfyrirtækisins þann 20. júlí 1894. Þar er m.a. frá því greint að Andrew Johnson hafi komið til Flateyrar 26. júní og þeir Páll Torfason þá orðið saupsáttir.[1774] Í frétt blaðsins er þess líka getið að Andrew Johnson og Niels Chr. Nielsen, sem var þriðji hluthafinn, séu mágar og sagt að Johnson og Páll Torfason hafi gert mjög háar fjárkröfur hvor á hendur öðrum, svo tugum þúsunda skiptir.[1775] Blaðið fræðir okkur loks á því að nokkrir víxlar sem Páll Torfason hafði gefið út hafi enn ekki verið innleystir og bíði borgunar fyrst um sinn, á meðan ekkert greiðist úr þessari snurðu.[1776]

Þann 25. ágúst 1894 ritaði sýslumaður Guðmundi Á Eiríkssyni, hreppstjóra á Þorfinnsstöðum, bréf og mælti fyrir um að hann léti skrifa upp og virða allar eignir hins gjaldþrota fyrirtækis á Flateyri.[1777] Í bréfi sýslumanns var tekið fram að einnig bæri að skrifa upp og meta til fjár allar eignir Páls Torfasonar sem meðeiganda nefnds verslunarfélags.[1778] Til að virða eignirnar og annast uppskrift þeirra kvaddi hreppstjórinn þá Vigfús bróður sinn, bónda í Tungu í Valþjófsdal, og Eyjólf Jónsson, bónda á Kirkjubóli í Valþjófsdal.[1779] Verkið unnu þeir örfáum dögum síðar og var niðurstaðan færð inn í úttektabók Mosvallahrepps. Þar má sjá að eignir Íslenska útflutningsfyrirtækisins á Flateyri voru virtar á 2.024,- krónur en í virðingargerðinni er þess einnig getið að það eigi veðskuldabréf er hljóði upp á 14.500,- krónur sem sé í vörslu Andrews Johnson í Hull.[1780] Ætla má að veðin sem þar var um að ræða hafi verið í eignum Torfa Halldórssonar.

Helstu eignir fyrirtækisins, sem metnar voru til verðs við uppskriftina 28. ágúst 1894, verða nú taldar upp og var virðingarverð þeirra sem hér segir:

 

1…… Geymsluhús með skúr …………………………….  kr.    800,-

2…… Um það bil 100 tunnur af salti ………………….  kr.    300,-

3…… 37 tré, 136 plankar og 98 borð …………………  kr.    220,-

 1. Uppskipunarskip, fjórar vigtir með

…….. lóðum og sex masturtré …………………………..  kr.    105,-

5…… Ellefu kolanet ………………………………………..  kr.     100,-[1781]

 

Aðrir munir voru virtir á innan við 100,- krónur hver en í upptalningu á þeim kennir margra grasa. Nefna má 100 pund af grjónum, 33 ganga af hestajárnum, 30 brýni, 7 olíusvuntur, 3 sjóhatta (suðvest), 3000 krekjur með taumum, 12 sagarblöð, 14 gærur, 12 sauðskinn, 2 hesthúðir, 28 kolakassa, 20 kolapoka, 50 pund af sprengiefninu dynamit og hálfur skúr sem stóð við hliðina á Gunnlaugshúsi á Flateyri.[1782]

Í virðingargerðinni er tekið fram að Páll Torfason hafi vísað á eignir fyrirtækisins[1783] en þegar kom að hans eigin eignum reyndust þær ekki vera miklar. Allt sem hann átti, ef marka má uppskriftina, voru 45 bækur, 2 byssur með 200 skotum, ein kommóða, koffort og kista.[1784] Samtals voru þessar fátæklegu eigur fjármálamannsins taldar vera 150,- króna virði.[1785]

Engin gögn hafa komið í leitirnar sem nægi til að skera úr um hversu miklum fjármunum þeir Torfi Halldórsson og Páll sonur hans töpuðu þegar loftkastalarnir sem upp höfðu verið byggðir í kringum Íslenska útflutningsfyrirtækið hrundu. Mjög líklegt verður þó að telja að allt hlutafjárframlagið hafi tapast, það er 20.000,- krónur, en það voru liðlega 180 kúgildi.[1786] Í september um haustið var Torfabúðin á Flateyri seld á söluþingi[1787] og hefur þá að því er ætla má verið boðin upp. Annað mál er það að á uppboðinu mun Torfi hafa náð að halda búðinni eða eignast hana á ný mjög skömmu síðar (sjá hér bls. 220). Verslunarhús þetta, sem einnig var nefnt Uglehus hús (sjá hér bls. 205-207), var einmitt ein þeirra eigna sem veðsettar höfðu verið þegar Íslenska útflutningsfyrirtækinu var komið á fót. Eignarhlut sínum í Eyrarjörðinni og íbúðarhúsi sínu á Flateyri, sem Torfi hafði líka afsalað í hendur sona sinna árið 1890 (sjá hér bls. 202-203), tókst honum þó að halda en ætla má að hann hafi þurft að reiða fram ærna fjármuni til að forða þessum eignum undan hamrinum.

Fullvíst er að á árunum 1894 og 1895 varð hann að fá 10.000,- krónur að láni hjá Hans Ellefsen, forstjóra hvalveiðistöðvarinnar á Sólbakka, og 7.700,- krónur hjá sparisjóðnum á Ísafirði.[1788] Samtals voru þetta 17.700,- krónur og þess verður hvergi vart að Torfi hafi notað eitthvað af þeim peningum til fjárfestinga. Allt bendir því til að þeim hafi hann orðið að verja til að bjarga eignunum sem veðsettar höfðu verið þegar Íslenska útflutningsfyrirtækið var stofnað. Torfi, sem talinn var sterkefnaður, varð einnig um þetta leyti að láta af hendi skonnortuna Maríu sem hann hafði gert út í nær þrjá áratugi og átti að hálfu árið 1890 (sjá hér bls. 128-129, 143 og 150-151). Sá sem eignaðist það skip árið 1895 var Árni Sveinsson, kaupmaður á Ísafirði (sjá hér bls. 143) en hann hafði lánað Íslenska útflutningsfyrirtækinu 5.000,- krónur veturinn 1893-1894 (sjá hér bls. 211). Árið 1890 var skipið María virt á 6.000,- krónur[1789] svo vel má láta sér detta í hug að Árni hafi fengið þessa góðu skonnortu, sem bar nafn eiginkonu Torfa, upp í skuldina.

Hér verður ekki reynt að skýra hvers vegna allt fór upp í loft hjá Íslenska útflutningsfyrirtækinu áður en hinn fyrirhugaði rekstur komst í fullan gang. Til að setja fram slíkar skýringar þyrfti gleggri heimildir en nú eru í boði. Aftur á móti virðist liggja í augum uppi að sjálf grunnhugmyndin á bak við ráðagerðir stofnenda hlutafélagsins hafi verið mjög áhugaverð, – sú að hefja fyrstir allra útgerð vélknúinna fiskiskipa frá íslenskri höfn og senda fiskinn ísaðan á Englandsmarkað, sem líka var nýjung. Árið 1894, sama ár og Íslenska útflutningsfyrirtækið leið undir lok, fór annað fyrirtæki að flytja ísaðan fisk frá Önundarfirði til Bretlands en það var hlutafélagið Dansk Damp Trawling Aktieselskab – DAN í Kaupmannahöfn (sjá hér bls. 278-291). Á næstu árum jókst þessi atvinnustarfsemi verulega eins og hér er greint frá á öðrum stað, bæði kolaveiðar danskra skipa í Önundarfirði og flutningur á ísuðum fiski til Bretlands.

Sérstaka athygli vekur að Andrew Johnson í Hull, sá sem stofnaði Íslenska útflutningsfyrirtækið með Páli Torfasyni, var líka umboðsmaður fyrir DAN  félagið í Englandi og tók þar við fiskinum sem sendur var ísaður frá Flateyri til Hull (sjá hér bls. 278-285). Vel má vera að hann hafi líka verið einn eigenda þess félags en Páll Torfason virðist hins vegar ekki hafa átt neinn hlut að rekstri þess.

Hið fjárhagslega áfall sem Torfi Halldórsson varð fyrir árið 1894, þegar Íslenska útflutningsfyrirtækið var leyst upp, leiddi af sér margvíslegan vanda svo auraráð fjölskyldu hans urðu minni en áður hafði verið. Verslun sína á Flateyri hafði Torfi afhent Páli syni sínum árið 1893 og var hún þá þegar lögð í bú hins nýja fyrirtækis sem ári síðar var leyst upp. Þá var Torfi orðinn 71 árs gamall og þaðan í frá er hann aldrei nefndur kaupmaður eða kenndur við verslun í embættisbókum prestsins í Holti[1790] (sbr. hér bls. 175-178). Meginhluta eigna sinna hélt Torfi þó eftir en skuldirnar sem á þeim hvíldu voru þungur baggi.

María Össurardóttir, eiginkona Torfa, var 17 árum yngri en hann og því aðeins 54 ára gömul árið 1894. Í bréfum sem hún skrifaði Guðrúnu, dóttur þeirra hjóna er dvaldist í Noregi, á árunum 1895 og 1896 er að finna ýmis ummæli sem lúta að efnahag fjölskyldunnar. Í sumum þeirra má greina sáran kvíða hinnar stoltu og stórhuga húsfreyju sem svo lengi hafði átt þess kost að veita gestum og gangandi án þess að þurfa að skera við nögl en óttaðist nú að verða jafnvel að þiggja af öðrum. Skrif Maríu varpa í raun skýrara ljósi á leiksvið lífsins í Torfahúsi eins og það var í þessum þrengingum en flestar tölulegar upplýsingar gætu gert. Með það í huga verða fáeinir kaflar úr bréfum hennar til Guðrúnar dóttur sinnar, sem áður hafa verið prentuð, teknir hér upp. Um jólaleytið árið 1895 var búið að veðsetja allar jarðeignir Torfa og frá því greinir María með þessum orðum í bréfi er hún skrifaði þá á þriðja degi jóla:

 

Með sömu ferð kom Páll að norðan með skjöl og skilríki fyrir að enginn jarðarpartur er í eigu manns ópantsettur. Ég get ekki annað fundið en Páll sé alltaf að reyna að brjótast eitthvað í þessum norsku vandræðum og þrátt fyrir allt og allt er það þó hann sem eitthvað lengir í skandalanum.[1791]

 

Páll sá sem María nefnir þarna er án vafa Páll Torfason, sonur hennar, er bjó þá enn á heimili foreldra sinna, orðinn 37 ára gamall.

Í bréfi rituðu 15. mars 1896 segir María:

 

Þú talar um að selja en það er ómögulegt þar [sem] enginn vill eða getur borgað nema í stórum skaða [fyrir okkur] svo það verður að láta draslast þangað til maður er búinn að skulda nóg til að verða reglulega fallítt. Nema guð gjöri reglulegt kraftaverk sé ég ekki að annað liggi fyrir.[1792]

 

Síðar í sama bréfi bætir hún þessum orðum við:

 

Ég sé ekki við hvað lendir með þessa gesti. Við höfum skenkt í hundraðatölu kaffibolla þessa daga og þótt ég finni mig ekkert hafa, þá er ómögulegt að snúa við. Mér finnst líka eins og karlmennirnir, sem ég hef að snúa mér að, ekki almennilega skilja hvað þetta er en það er ekki létt að halda mitt hús með mínum ástæðum. Ég tek það ekki upp fyrir pabba þínum því menn á hans aldri eru farnir að ganga í barndóm.[1793]

 

Eitthvað var þó eftir af bjartsýni í Torfahúsi þessa einmánaðardaga árið 1896 því nýlega hafði verið ákveðið að panta leirtau fyrir 12 og svart tau í föt fyrir systurnar, hvort tveggja beint frá París.[1794]

Þann 6. apríl 1896 hafði María m.a. þessar fréttir að færa:

 

Páll kom í gær sunnan úr Reykjavík. Fór með bát sem Ellefsen léði H. Hafstein suður. Hann kom til Ísafjarðar með frú til að skoða sitt tilvonandi hús. [Hannes Hafstein var þá um það bil að taka við sýslumannsembættinu á Ísafirði – innsk. K.Ó.] Palli fór að reyna að fresta Hildarskuldinni sem komin var til Skúla til innköllunar. Hann sagðist hafa getað talað við Hafstein í ferðinni suður og finnst honum megi minnka hana um þúsund og fresta til hausts. Ég þarf ekki að segja þér hvað illt hefur verið talað um ferðalag Páls eins og vant er. Nú en alltaf finnst mér hann vera að reyna.[1795]

 

Skúli sem nefndur er í bréfinu er efalítið Skúli Thoroddsen, fyrrverandi sýslumaður í Ísafjarðarsýslu, sem enn var búsettur á Ísafirði árið 1896, en Hildarskuldin hlýtur að tengjast Hildu Maríu, gömlu skútunni sem Torfi átti enn. Ætla má að veð hafi hvílt á henni og við legið að hún yrði boðin upp.

Síðar í bréfinu frá 6. apríl 1896 lætur María þessi orð falla:

 

Ó, guð minn góður að þurfa að þiggja af fólki eftir allt. Það er hart, já, en ég vona þú sért nú orðin svo fullorðin að ég gjöri þér ekki verulega illt með að skrifa þér um allt mitt basl.[1796]

 

Greina má að traustið á dótturinni, sem dvaldist úti í Noregi, hefur orðið móður hennar til styrktar. Því fór þó fjarri að María væri alltaf fyllilega ánægð með öll börnin sín og í bréfi rituðu 4. júní 1896 kemst hún svo að orði:

 

Það er á stundum dálítið hart að eiga 8 börn og enginn skuli geta notað eins mikla og fallega eign og Flateyri er – því arðsamari mun ekki víða ef allt væri notað og vel drifið, það sjá allir skynsamir menn. En svona er það.[1797]

 

Í lok ágúst þetta sama sumar gat María skýrt dóttur sinni frá því að Hildarmáli hefði verið frestað fram í mars á næsta ári[1798] og um haustið virtist um sinn rofa svolítið til í peningamálunum.[1799] Til marks um það má nefna að í bréfi frá 25. september segir María: Þó er nú betra en maður óttaðist í sumar því allar rentur til Ellefsen gátu þó borgast og líka í sparisjóð. … Flestu kaupafólki er líka borgað.[1800]

Þess var áður getið að á árunum 1894 og 1895 fékk Torfi verulega fjármuni að láni hjá Ellefsen á Sólbakka og í sparisjóðnum á Ísafirði (sjá hér bls. 214) sem kemur heim við orð Maríu. Um lánskjörin er ekki vitað en María fullyrðir í einu bréfa sinna frá árinu 1896 að Ellefsen hafi heimtað af Torfa tryggari veð og hærri vexti en þegar hann lánaði öðrum.[1801] Sú staðhæfing bendir til þess að hvalveiðiforstjórinn hafi talið Torfa standa mjög höllum fæti í peningasökum þegar hér var komið sögu.

Í bréfinu frá 25. september 1896 segir María ýmsar fréttir og þar er meðal annars þessi orð að finna:

 

Við þurfum að fá ber því ekki er nú allt gott með húsholdnings sakirnar [þ.e. heimilishaldið – innsk. K.Ó.] – ekki eitt lóð af nokkurs konar kryddi eða víni nema það sem ég kaupi smátt og smátt fyrir mjólkurpeningana sem þó pabba þínum liggur við að muna eftir. Ég gat selt ullina mína og lét svo að ég átti ekki eftir í sokka en ég er orðin skuldug fyrir því. Ég keypti 50 flöskur af öli og dálítið af víni um borð í „Vestu”. Það var rétt helmingi billegra en í búðinni.

… Ekki get ég að því gjört en mér finnst heimilið hér vera allt annað þegar þó Páll er ekki heima, þrátt fyrir allt og allt. Allt sem ég verð að þola þegar skyldir sem vandalausir eru að hnoða saman svika- og bedragsnöfnum [bedrag merkir svik – innsk. K.Ó.] á hann, fyrir utan að standa sjálf í brennandi hræðsluloga út af ferðalaginu. Það er líka hér eins og allir ætli lifandi að gleypa pabba þinn þegar Páll er ekki.Það versta er að auminginn finnur það ekki. Það er hans aldur [og hann á] ekki að þurfa að hafa neitt undir höndum.[1802]

 

Ummælin sem hér var vitnað til sýna vel hversu sárt það var fyrir móðurhjarta Maríu að heyra dóma skyldra og vandalausra um Pál son hennar en engan þarf að undra þó að mörg orð hafi fallið um hans framgöngu eins og komið var og þau verið misjafnlega vönduð. Síðar í þessu sama bréfi kemur fram að þegar það var skrifað var Páll á leið til Noregs en af orðum Maríu má skilja að Ellefsen á Sólbakka hafi reynt að koma í veg fyrir að Páll kæmist úr landi. Um þetta kemst María svo að orði:

 

Það er sem ég sjái framan í Ellefsen þegar Páll kemur til ykkar núna – það er víst grunnt á góða á báðum stöðunum. En til hvers Ellefsen er að banna honum að fara með skipunum skil ég ekki. Það er ekki klókt því hann má vita að Páll fer samt þegar hann bara ætlar. Mikið væri gaman að vita hvernig Berg væri á bak P. því gott talar hann við hann.[1803]

 

Þegar María talar þarna um Berg á hún án nokkurs vafa við Norðmanninn Lauritz Berg sem var forstjóri hvalveiðistöðvarinnar á Höfðaodda í Dýrafirði. Ekki er ólíklegt að Páll hafi reynt að koma sér í mjúkinn hjá honum þegar vináttuböndin við Ellefsen tóku að bresta.

Haustið 1896 dvaldist Páll Torfason í Kaupmannahöfn og þann 10. nóvember skrifar María móðir hans Guðrúnu dóttur sinni, meðal annars þetta:

 

Það eru hér langir kvíða- og vonleysisdagar síðan Páll fór. … þó ég á kvöldin gjöri allt mitt til að sofna er eins og ótal raddir kalli. Hvað nú? Hvað skyldi nú vera á þeim og þeim stað? Að vita af þér peningalausri og Páli í sínum gamla freistingastað. Við höfum fengið tvö góð bréf frá Páli síðan hann fór en það er eins og að kasta olíu í eldinn. Þau hafa komið áður og allt hefur sýnst á góðum vegi. En hvað svo? Að sjá hann skrifa núna frá Höfn. Þangað hafði ég þó síst hugsað hann ætti erindi. Já, og ekki sé ég þó neinn annan upphugsanlegan veg en ef gegnum hann komi eitthvað sem hægt væri að nota sér. Mig hryllir við afdrifunum ef enginn hlutur opnast og það bráðlega.[1804]

 

Það sem María segir hér sýnir að enn hefur hún ekki verið búin að gefa upp alla von um að frumburður hennar reyndist sá bjargvættur í peningamálum sem hún og fjölskylda þeirra þurftu nú svo sárlega á að halda. Hún vissi þó líka vel af freistingunum í stórborginni við Eyrarsund (sbr. hér bls. 119-120) og lifði hvern dag milli vonar og ótta.

Mér finnst Páll geta lært en nær lærir hann að skrifa með smærri tölum, spyr hin kvíðafulla móðir í bréfi rituðu í byrjun jólaföstu þetta sama ár.[1805] Hún þekkti fíkn sonarins í háar tölur, loftkastalaástríðuna sem hafði leitt hann sjálfan í ógöngur og svipt fólkið í Torfahúsi því fjárhagslega öryggi sem það taldi sig áður búa við.

Þegar aðeins voru eftir tveir dagar af árinu 1896 settist María Össurardóttir enn við bréfaskriftir og orðin sem hrjóta úr pennanum sýna hversu þröngt var orðið um nauðsynjar í þessu stóra húsi þar sem heimafólk, gestir og gangandi höfðu áður setið lengi við allsnægtaborð. – Mér finnst hálf örðugt hér með að koma fólki úr rúminu vegna klæðleysis, ritar hin vökula og úrræðagóða húsfreyja þennan sólarlitla dag og bætir við að hér þyrfti tífalt ef ætti að geta borið sig.[1806]

Aldrei varð þó þurrð í búi hjá Torfafólki en svo virðist sem teflt hafi verið á tæpasta vaðið um sinn.

Hér var áður frá því greint að Guðrún Torfadóttir hefði veturinn 1895-1896 stungið upp á því í bréfi er hún sendi foreldrum sínum frá Noregi að þau reyndu að selja eignirnar (sjá hér bls. 216). Svar Maríu var að enginn fengist til að kaupa þær á viðunandi verði. Ýmis ummæli hennar í bréfunum til Guðrúnar sýna þó að í raun mátti hún vart til þess hugsa að Flateyri kæmist í annarra hendur. Þau Torfi og María áttu allt land á Flateyri árið 1896 og höfðu átt það í 38 ár eins og hér hefur áður verið gerð grein fyrir. Þegar hér var komið sögu var Torfi hins vegar fyrir alllöngu farinn að leigja út lóðir undir íbúðarhús og aðrar byggingar því fólki í þorpinu fjölgaði ár frá ári. Fyrsta íbúðarhúsið, að frátöldu Torfahúsi, hafði Sveinn Rósinkranzson frá Tröð byggt árið 1880 (sjá hér bls. 298) en þeir Torfi voru mjög lengi sameignarmenn í útgerð og Sveinn skipstjóri á skútu sem Torfi sá um að gera út. Þar var löngum vinátta á milli. Dómar Maríu Össurardóttur um Kjartan Rósinkranzson, bróður Sveins, voru hins vegar ekki allir vinsamlegir (sjá hér bls. 161-162). Bræður þessir frá Tröð voru ekki færri en fimm (sjá hér Tröð) og yngstur þeirra var Bergur, 20 árum yngri en Sveinn bróðir hans. Vorið 1896 varð Bergur Rósinkranzson 26 ára gamall og hafði þá fullan hug á að hefja verslunarrekstur á Flateyri. Um haustið fóru þeir bræður að leita hófanna hjá Torfa og í bréfi sem María Össurardóttir skrifaði þann 4. október segir hún Guðrúnu dóttur sinni tíðindin með þessum orðum:

 

Allt virðist kvíði en engin von. Það virðist ekki stuttur tími þessi vetur að fá aldrei bréf. Óvissan er löngum örðug og svo það sem hér gengur á. Þeir hafa nú allir Rósinkranzsynir verið með pabba þínum heilan dag frammi í búð að fá hann til að lána sér hana eða þá að byggja hús, náttúrulega til að höndla í, helst hér fyrir framan okkar hús í grenndinni. Bergur er svo sem forstjóri. Ég fór að hafa grun um að eitthvað væri þegar samtalið var svo langt og fann pabba þinn. … En þó er nú ekki enn orðið af samningum og ég vona að ekki verði, nema þá eitthvað komi sérstakt fyrir, og hart er að sjá þá bræður og Ásgeir þurfa að taka hér allt. Það er sannkallaður dauðadómur. – „Falleg ertu Fljótshlíð”, mælti Gunnar forðum. Eins er fyrir mér. Ég veit að hér má lifa og það hefur meira að segja verið … sýnt af nærri öllum nema okkur hér.[1807]

 

Ásgeir, sem María nefnir þarna, er án vafa Ásgeir G. Ásgeirsson stórkaupmaður, eigandi Ásgeirsverslunar, en hann var oft nefndur Ásgeir yngri til aðgreiningar frá föður sínum. María segir Torfa, eiginmann sinn, og þá Rósinkranzsyni hafa verið heilan dag frammi í búð og þeir bræður hafi viljað fá Torfa til að leigja sér hana. Búðin, sem hún nefnir þarna, getur varla önnur verið en sú hin sama Torfabúð og seld var á uppboði haustið 1894 (sjá hér bls. 213-214) en orð Maríu sýna að Torfa hefur auðnast að halda þessu verslunarhúsi sínu eða eignast það á ný ef aðrir hafa keypt það á uppboðinu í september 1894.

Hafi María fengið einhverju ráðið má ætla að hún hafi átt nokkurn þátt í því að Torfi neitaði að leigja þeim Rósinkranzsonum Torfabúðina. Annað mál er það að síðar um haustið gaf hann þeim bræðrum kost á lóð undir vörugeymsluhús[1808] og leið þá ekki á löngu uns Bergur byrjaði að versla (sjá hér bls. 291-292). Frá leigusamningi um nýnefnda lóð var gengið 6. nóvember 1896[1809] og í bréfum sem María skrifaði dóttur sinni í Noregi á næstu dögum og vikum minnist hún oft á þá Rósinkranzsyni frá Tröð og svo virðist sem henni hafi þótt meira en nóg um framsókn þeirra til auðs og valda. Máske hefur tólfunum kastað þegar einn þeirra fór að hvetja Torfa til að hætta öllum búskap og selja sér eða leigja sjálfa Eyrarjörðina.

Í bréfi rituðu 10. nóvember 1896 greinir María frá á þessa leið:

 

Það eru reyndar allir góðir við mann eins og stendur. Rósi í Tröð [þ.e. Rósinkranz Rósinkranzson – innsk. K.Ó.] vill vera svo náðugur að taka Eyri og hvíla okkur þreytt við búskapinn. Að þessu hef ég komist nýlega hjá pabba þínum. Hefur verið í makki síðan í haust. Ég veit að Ásta [þ.e. Ástríður, elsta dóttir Torfa og Maríu – innsk. K.Ó.]  skrifar þér um borgarabréf og útmælingu Bergs og kæri mig ekki um að taka það upp. Ég gat ekki gjört af því mér blöskraði hvað langt þeir væru komnir með pabba þinn og að það var af hendingu hann sagði mér það. Svo höfðu þeir kæru Rósinkranzsynir alla torfuna hér undir sér.

Ég sé þá ekki hvað við höfum hér eftir því það lítið sem ég hef þessi árin getað vikið fyrir okkur er þá af búinu. … Ég fékk í það sinn að mér fannst óslítanlega krafta til að búa. Þó ég fái aldrei neitt og ekki neitt skal ég búa.[1810]

 

Svo fór að meðan Torfi lifði þurfti María ekki að þola þá raun að verða að hætta við búskapinn. Nóg var samt að sjá hið nýja verslunarhús Traðarbræðra rísa af grunni þegar allt virtist komið á fallanda fót í Torfahúsi. Í síðasta bréfinu sem María skrifaði árið 1896 segir hún meðal annars:

 

[Ég lá] langan tíma í rúminu vakandi og hugsandi, úrráða- og kraftlaus sjáandi mig ekki lengur geta bætt úr neinu. Páll hefur skrifað að Kitti [þ.e. Kristján, sonur Torfa og Maríu – innsk. K.Ó.] skyldi ganga í félag við Berg. Það er hlutur sem ég skil ekki. Er maður nú ekki búinn að fá nóg af Traðarbræðra-félagsskap þó ekki sé upp á nýtt lagt af stað, enda hefur Kitti ekki skilað bréfinu en þó talað um það við Kjartan. Til allra gleði var Bergur hér í 3 daga fyrir jólin og kom ekki heim svo á því sér maður þeir sinna ekki því tilboði enda er nú í ósköpunum verið að byggja … að húsunum þeirra. Sagt að Ellefsen eigi að koma upp með það. … Þó Kjartan [Rósinkranzson] sé nú peningasterkur sé ég ekki meira þar en hér hefur verið á stundum til að byrja með. Skyldi nú Ellefsen leggja út fyrir húsið fyrir þá? Það væri ekki minni bón en þó hann hefði efnt loforð sitt við Kitta svo hér hefði verið haldið áfram með skipin eða tekið mestan pant og mestar rentur af pabba þínum af öllum.[1811]

 

Hér leynir sér ekki að María hefur fundið til þess að náðarsól Ellefsens á Sólbakka væri nú tekin að skína skærar á aðra en fólkið í Torfahúsi sem sat í skugganum og átti fárra kosta völ með sínar miklu skuldir. Hér hefur áður verið látið að því liggja að sú þunga skuldabyrði hafi einkum átt rætur að rekja til áfallsins sem Torfi og fjölskylda hans urðu fyrir þegar Íslenska útflutningsfyrirtækið lagði upp laupana árið 1894 (sjá hér bls. 201-204 og 211-215). Þeim dómi mun varla verða haggað síðar en þess er þó skylt að geta að hér kom fleira til, m.a. hið lága verð sem jafnan fékkst fyrir hákarlslýsið, allt frá árinu 1885 (sjá hér bls. 172-173).

Á árunum 1896-1900 dvaldist Páll Torfason yfirleitt í Kaupmannahöfn á veturna[1812] og stundum máske líka á sumrin. Hann var þó alltaf talinn eiga lögheimili hjá foreldrum sínum á Flateyri.[1813] Um athafnir Páls í Danmörku á þessum árum er fátt kunnugt en fullvíst má telja að hann hafi haft þar ýmis járn í eldi og lagt kapp á að brjóta sér nýjar brautir í ævintýraheimi fjármálanna. Í hreppsbók Mosvallahrepps er hann stundum nefndur kaupmaður á þessum síðustu árum 19. aldarinnar[1814] en óljóst er hvers konar viðskipti það voru sem hann einkum fékkst við á því skeiði. Í verslunarskýrslum frá árunum 1897-1901 er Páls jafnan getið þegar upp eru taldir eigendur fastra verslana á Flateyri[1815] og fyrsta árið af þessum fimm flutti hann inn lítið eitt af vörum, m.a. 145 potta af brennivíni og 58 flöskur af öðrum vínföngum.[1816] Nærri lætur að heildarverðmæti varanna sem Páll flutti inn árið 1897 hafi verið um 750,- krónur[1817] sem engan veginn gat talist nóg til að hefja verslunarrekstur og var reyndar innan við 1,5% af vöruinnflutningi útibús Ásgeirsverslunar á Flateyri þetta sama ár.[1818] Með hliðsjón af hinni örlitlu veltu hjá Páli var þess tæplega að vænta að hann hefði sérstakan forstöðumann fyrir rekstrinum, annan en sjálfan sig. Verslunarskýrslurnar bera þó með sér að svo hefur verið árið 1897[1819] og kynni skýringin að vera sú að sjálfur hafi Páll verið utanlands. Þessi forstöðumaður hét Halldór Halldórsson[1820] og má telja nær fullvíst að þar sé um að ræða Halldór Halldórsson frá Þórustöðum sem sagt er frá annars staðar í riti þessu (sjá hér Þórustaðir) en hann fór til Ástralíu næsta ár og kom aldrei aftur til Íslands nema ef vera kynni sem gestur.

Eins og áður sagði er Páll Torfason ætíð nefndur í verslunarskýrslum frá árunum 1897-1901 sem eigandi fastrar verslunar á Flateyri en í þessum sömu skýrslum er líka oftast tekið fram að hann hafi ekki, það og það ár, flutt neinar vörur til landsins né heldur selt afurðir úr landi.[1821] Verslunarumsvif Páls á Flateyri hafa því verið sáralítil á þessum árum en í heimild sem telja verður marktæka er þess þó getið að aldamótaárið 1900 hafi hann verið með ýmsan varning á boðstólum í Torfabúðinni sem kennd var við föður hans.[1822] Í skýrslum um aðfluttar og útfluttar vörur frá árunum 1898-1900 er nafn Páls þó hvergi að finna og þá var faðir hans hættur verslunarrekstri.[1823] Hinir elstu úr hópi nánustu ættingja Páls hérlendis vita heldur ekki til þess að hann hafi verið með nokkurn verslunarrekstur á Flateyri á árunum 1901-1909[1824] en til Danmerkur fluttist hann árið 1909 og lifði þar til æviloka.

Það er Valdimar Þorvaldsson frá Selárdal í Súgandafirði sem segir frá komum sínum í búðina til Páls árið 1900 en hann var þá liðlega tvítugur háseti á þilskipinu Flateyri sem Torfi Halldórsson, faðir Páls, gerði út frá Flateyri.[1825] Valdimar skrifar:

 

Þegar ég var til sjós frá Flateyri 1900 þá var Páll með lítilsháttar af vörum í búðinni sem faðir hans átti og hafði verslað í. Hjá honum fékk ég nokkuð til hlífðarfata og fleira. Þangað kom ég oft. Hann gat sagt frá mörgu sem var spennandi að hlusta á. Hann hafði oft farið til útlanda, suður um álfu, og þekkti margt, hafði komist í kynni við vasaþjófa og þeir einu sinni tekið frá honum buddu, fulla með gullpeningum.  … Hann var jafn alúðlegur við hinn ófróða fjölda eins og hann væri að tala við jafningja sína.[1826]

 

Í sömu frásögn lætur Valdimar þess getið að kona Páls Torfasonar hafi verið frönsk herforingjadóttir.[1827]

Í veðmálabók Ísafjarðarsýslu sést að í febrúarmánuði árið 1899 náði Páll að taka 50.000,- króna lán og gat þá enn veðsett eignir síns gamla föður á Flateyri.[1828] Þegar sú veðsetning var á döfinni voru eignir Torfa á Eyri og Flateyri metnar til fjár og virtar á 146.500,- krónur af opinberum matsmönnum.[1829] Þetta er í raun furðulega há tala því kýrverðið var á þessum tíma rétt um 107,- krónur[1830] og hafa eignirnar því verið metnar á um það bil 1370 kúgildi. Á Flateyri virðist Torfi þó ekki hafa átt önnur íbúðarhús en Torfahúsið, Gunnlaugshús og Nesdal.[1831] Við matsgerðina sem fór fram 5. mars 1898 og til er vísað í veðskuldabréfinu frá 25. febrúar 1899 eru jarðeignir Torfa, aðrar en 17 hundruð í Eyri, ekki taldar með.[1832] Á þessum árum átti hann þó einhver hundruð í jörðunum Hóli í Firði, Neðri-Breiðadal og Vífilsmýrum (sjá hér bls. 202-203. Sbr. Manntal 1901, fylgiskjöl, og hér Hóll í Firði og Neðri-Breiðadalur) svo að matsverð heildareigna hans hefði orðið enn hærra.

Stóra lánið sem Páll Torfason tók í umboði föður síns 25. febrúar 1899 veitti fyrirtækið Leontis Warburgs Søn & Co. í Kaupmannahöfn og í veðskuldabréfinu sem dagsett er þann dag sést að það var Edmund Warburg hæstaréttarlögmaður sem var í fyrirsvari fyrir þetta fyrirtæki.[1833] Þetta 50.000,- króna lán var veitt til 10 ára, afborganalaust allan þann tíma en ársvextir voru 5%.[1834]

Eignirnar sem þeir feðgar, Torfi og Páll sonur hans, veðsettu við þessa lántöku voru: 17 hundruð að fornu mati í jörðinni Eyri í Önundarfirði ásamt Flateyrartanga með íbúðarhúsum Torfa þar, verslunar- og geymsluhúsum, heyhlöðum, gripahúsum, kvikfénaði og öðru lausafé sem þessum eignum fylgdi.[1835] Allt var þetta veðsett með veðrétti næst á eftir rétti hinna eldri veðhafa, þeirra Hans Ellefsen á Sólbakka og Sparisjóðs Ísfirðinga[1836] en hér var áður gerð grein fyrir lántöku Torfa hjá þeim á árunum 1894 og 1895 (sjá hér bls. 214).

Enginn veit nú með vissu hvernig Páll Torfason ráðstafaði þeim 50.000,- krónum sem hann fékk að láni snemma á árinu 1899 út á eignir föður síns. Hitt liggur aftur á móti ljóst fyrir að um þetta leyti stóð þessi elsti sonur Torfa og Maríu á Flateyri í stórræðum á að minnsta kosti tvennum vígstöðvum. Hann var að festa sér konu, sem hér verður síðar getið, og svo var hann að leggja á ráðin um stofnun banka, sem átti að verða fyrsti einkabanki á Íslandi, en þá voru aðeins liðin 13 ár frá þvi bankastarfsemi hófst á landi hér er Landsbankinn tók til starfa árið 1886. Til að hefja búskap á heldri manna vísu með væntanlegri eiginkonu þurfti peninga og að líkindum enn meira fé til að koma hugmyndunum um bankann niður á jörðina.

Indriði Einarsson hagfræðingur og rithöfundur með fleiru var árið 1899 endurskoðandi landsreikninga. Í endurminningabók sinni segir hann að Páll Torfason hafi komið til landsins veturinn 1899 með áætlun um hlutabankastofnun og þar hafi verið gert ráð fyrir að bankinn fengi rétt til seðlaútgáfu og gæfi út innleysanlega seðla.[1837] Í Danmörku hafði Páli tekist að afla hugmyndinni um stofnun einkabanka á Íslandi nokkurs stuðnings í fjármálaheiminum og vera má að hann hafi einnig verið búinn að ræða málið við norska fésýslumenn þegar hann lagði ráðagerð sína fyrir íslensk stjórnvöld. Tveir helstu samverkamenn Páls við undirbúning að stofnun Íslandsbanka virðast hafa verið þeir Ludvig Arntzen hæstaréttarlögmaður og Alexander Warburg stórkaupmaður.[1838] Vorið 1899 komu þeir Ludvig Arntzen og Alexander Warburg út hingað til að kynna sér aðstæður og ræða málin[1839] og þá um sumarið sendu þeir Alþingi formlegt erindi og buðust til að hafa forgöngu um það að komið yrði á fót hér á landi bankastofnun með hlutafélagsformi ef slíkum banka yrðu veitt ákveðin réttindi.[1840] Frumvarp um málið var lagt fyrir Alþingi skömmu síðar og lög um stofnun slíks banka samþykkt af konungi 7. júní 1902.[1841] Í lögunum var kveðið á um að bankinn fengi þó ekki að taka til starfa nema áhugamönnum um stofnun hans tækist að safna að minnsta kost  2 milljónum króna í hlutafé fyrir 1. október árið 1903.[1842]

Ludvig Arntzen hæstaréttarlögmaður, sem hér var nefndur, var prestssonur af norskri ætt, fæddur 1844.[1843] Grósserinn Alexander Warburg var hins vegar af gyðingaættum og hét fullu nafni Alexander Elias Warburg.[1844] Hann var fæddur árið 1861 og dó 1933.[1845] Líklegt er að Edmund Warburg, sem lánaði Páli Torfasyni 50.000,- krónur í febrúarmánuði árið 1899 eins og hér var áður getið, hafi verið náinn ættingi Alexanders Warburg en sonur þess síðarnefnda var Erik Warburg, fæddur 1892, kunnur læknir og háskólakennari í Kaupmannahöfn.[1846]

Frá hugmyndasmiðnum Páli Torfasyni er það að segja að aldamótaárið 1900 kom hann með sína ungu eiginkonu til Flateyrar.[1847] Hún hét Adele Eugene la Cour Mogensen og var fædd í Kaupmannahöfn 5. nóvember 1877[1848] en mun hafa verið af frönskum ættum eins og nafnið bendir til. Þau Páll og Adele gengu í hjónaband 9. desember 1899,[1849] hann 41 árs en hún nær helmingi yngri. Þegar voraði sigldu þau yfir hafið og settust að hjá foreldrum brúðgumans í Torfahúsi á Flateyri.

Væri mikið um að vera átti Páll jafnan erfitt með að sitja hjá og þegar hann kom til landsins stóðu alþingiskosningar fyrir dyrum. Í bréfi sem hann skrifaði Þorsteini skáldi Erlingssyni 8. ágúst 1900 kveðst hann senda honum 30 eintök af ritgerð sinni og biður skáldið að dreifa henni á Austur- og Norðurlandi en Þorsteinn var þá ritstjóri Bjarka á Seyðisfirði.[1850] Óljóst er um hvað ritgerð þessi fjallaði en mjög líklegt má telja að þar hafi Páll rætt um hina fyrirhuguðu stofnun Íslandsbanka og komandi alþingiskosningar en í Ísafjarðarsýslu fóru þær fram þann 1. september eða liðlega þremur vikum síðar en nýnefnt bréf var skrifað. Í bréfinu til Þorsteins lætur Páll þess getið að hann hafi orðið að taka bæklinginn úr prentsmiðjunni án þess búið væri að hefta saman blöðin og biður hann Þorstein að sjá um heftinguna og útsendingu á þessum 30 eintökum.[1851] Allt var í tímahraki því ná þurfti seinustu ferð á undan kosningum … til Norður- og Austurlandsins.[1852]

Sonur Páls Torfasonar og eiginkonu hans, sem skírður var Snæbjörn Elvin Magnús Eugen Pálsson Fornjótur, fæddist á Flateyri 27. nóvember árið 1900.[1853] Hann varð síðar blaðamaður og ferðaskrifstofustjóri í Kaupmannahöfn.[1854] Páll og fjölskylda hans áttu heima í Torfahúsi á Flateyri allt til ársins 1906 og síðan í þrjú ár á Sólbakka[1855] en fluttust þaðan til Reykjavíkur árið 1909[1856] og skömmu síðar til Danmerkur.

Hér var áður greint frá framgöngu Páls á árunum rétt fyrir aldamótin 1900 við að tryggja erlent fjármagn til stofnunar einkabanka á Íslandi og fá samþykkt heimildarlög sem nauðsynleg voru svo að rekstur slíkrar fjármálastofnunar gæti hafist. Orð Indriða Einarssonar, sem hér var áður vitnað til, sýna að á þessum vígstöðvum var Páll milligöngumaður milli íslenskra stjórnvalda og hinna erlendu fjármálamanna sem sýnt höfðu hugmyndinni áhuga. Mjög líklegt verður einnig að telja að það hafi verið Páll sem fyrstur manna lét sér detta í hug að koma slíkum banka á fót og hófst handa við að afla hugmyndinni fylgis utanlands og innan.

Er lögin um stofnun bankans höfðu verið staðfest af konungi í júnímánuði árið 1902 kom hins vegar babb í bátinn því erfiðlega gekk að safna því hlutafé sem tilskilið var en það voru 2 milljónir króna eins og hér var áður nefnt og í lögunum kveðið á um að sú upphæð yrði að nást fyrir lok september árið 1903. Indriði Einarsson segir að Páll Torfason hafi þá verið sendur utan, sjálfsagt upp á sinn eigin kostnað, en bætir við að hann hafi víst lítið getað gert.[1857] Óhætt mun þó að fullyrða að Páll hafi fylgt bankamálinu eftir til loka og á síðustu stundu eða þann 25. september 1903 tókst að stofna hlutafélagið.[1858] Þeir sem skárust í leikinn haustið 1903 og lögðu fram það hlutafé sem vantaði voru tveir bankar, annar í Kaupmannahöfn og hinn í Osló, og svo víxlarafirmað Rubin & Bing í Kaupmannahöfn.[1859]

Dagurinn 25. september árið 1903 var mikill gleðidagur í lífi Páls Torfasonar og líklegt er að hann hafi sjaldan á langri ævi talið sig sjá annan eins árangur af sínum margvíslegu umbrotum og daginn þann, þegar loks tókst að tryggja opnun bankans sem hann hafði svo lengi barist fyrir. Sama dag sendi hann konu sinni á Flateyri bréf frá Kaupmannahöfn og um efni þess má lesa í öðru bréfi sem María móðir hans skrifaði dóttur sinni á Hólmum í Reyðarfirði einum mánuði síðar. Hún segir þar:

 

… síðan var bankaspenningurinn ofan á en þá kom þetta stóra bréf til Adelu frá Páli daginn sem allt var undirskrifað því viðkomandi. … Páll segist vera „útúrdrukkinn af gleði” þegar hann skrifaði. Ég var ekki frá að vera skelkuð við það, þótt ég vissi að það væri ekki af spíritus.[1860]

 

Konan sem ritaði þessar línur, María húsfreyja í Torfahúsi á Flateyri, stendur þarna á furðulegum tímamótum í þjóðarsögunni. Örfáum árum fyrr var hún að bjástra við seljabúskap en nú var sonurinn, sem hún hafði eignast 18 ára gömul, búinn að koma í kring stofnun banka með hlutafé upp á tvær milljónir króna. Sú upphæð var meira en tvöfalt hærri en allar tekjur landssjóðs árið 1903 (sjá hér Sólbakki).

Bankinn sem Páll Torfason beitti sér fyrir að koma á fót hlaut nafnið Íslandsbanki og tók til starfa í Reykjavík 7. júní 1904. Starfstími hans varð 26 ár og allan þann tíma var hann eini einkabankinn á Íslandi. Vera má að einhver telji hér vera gert of mikið úr hlut Páls Torfasonar við undirbúning að stofnun Íslandsbanka. Ótvírætt er þó að það var hann sem fyrstur manna kynnti ráðagerðirnar um stofnun bankans fyrir stjórnvöldum í Reykjavík (sjá hér bls. 224-225) og í Íslenskum æviskrám fullyrðir Páll Eggert Ólason, bankastjóri og prófessor í sögu Íslands, að Páll Torfason hafi verið aðalstofnandi bankans eins og hann orðar það.[1861] Sá vitnisburður skiptir máli því Páll Eggert var bæði sagnfræðingur og bankastjóri svo varla er ástæða til að ætla að hann fari þarna með fleipur. Hann var auk þess kominn yfir tvítugt þegar Íslandsbanki tók til starfa og hafði því betri forsendur en við sem nú lifum til að kynna sér allt sem snerti undirbúning og aðdraganda að stofnun bankans.

Orð Páls Eggerts má samt ekki skilja á þann veg að nafni hans Torfason hafi verið sá sem lagði fram mesta fjármuni þegar Íslandsbanka var komið á fót. Merking þeirra er miklu frekar sú að hann hafi verið helsti hvatamaður að stofnun bankans og sá sem virkastur var við að tengja saman alla þræði er flétta þurfti í einn streng svo að hugmyndin gæti orðið að veruleika. Sé sá skilningur lagður í orð hins margfróða sagnfræðings og bankastjóra mun vera óhætt að taka þau gild án mjög stórra fyrirvara.

Um tengsl Páls Torfasonar við dönsku fjármálamennina sem árið 1899 sendu skriflegt erindi til Alþingis og buðust til að hafa forgöngu um stofnun bankans þarf ekki að efast. Þeir hétu Ludvig Arntzen og Alexander Warburg eins og hér hefur áður verið nefnt (sjá hér bls. 224-225) og svo virðist sem samband Páls við annan þeirra eða báða hafi enn verið náið haustið 1907. Í bréfum Maríu móður hans frá því hausti er oftar en einu sinni minnst á Warburg og Arnesen og þá ætíð í tengslum við fjármálaráðstafanir eða lögfræðilega ráðgjöf.[1862] María talar þar um Warburg og Arnesen en þó að hún væri skýrleikskona er vel hugsanlegt að Arnesen sé misritun fyrir Arntzen. Um það skal þó ekkert fullyrt hér. Af skrifum Maríu verður ljóst að eftir andlát Torfa, eiginmanns hennar, sem bar að haustið 1906, hefur Páll sonur þeirra leitað samráðs við hina dönsku herramenn sem hér voru nefndir. Ári síðar greinir María frá nýlegu samtali sínu við Magnús Torfason, er þá var sýslumaður í Ísafjarðarsýslu, og segir að sér hafi skilist að

 

hann væri á sömu meiningu og Warburg og Arnesen í fyrra, að æskilegt hefði verið að Flateyri og eign hér [þ.e. á Sólbakka – innsk. K.Ó.] hefði sjálf unnið fyrir sjálfri sér undir stjórn ráðsmanns af beggja liði.[1863]

 

Það er meðferðin á eignum dánarbús Torfa Halldórssonar sem þarna var á dagskrá.

Aftur minnist María á þá Warburg og Arnesen í bréfi er hún skrifaði 28. október 1907 og segir þar:

 

Páll fékk í gær bréf frá Warburg og Arnesen og gat ég lesið annað þeirra og finnst mér þau mjög góð. Þótt ég hafi almennilega ekki vit í þeim efnum fannst mér það allt annað en ég bjóst við. … hvað Pál snertir og búið hér, nærri að segja frá byrjun til enda. Þeir hafa fengið mann sem Arnesen innistendur fyrir að sé áreiðanlegur. Hann á að vera hér og segir A. að embætti sitt krefji sig til þess en hann muni alltaf standa með ráð þar sem P. sé annars vegar. … Hann segir líka að ef ég kunni að eiga séreign megi ekki blanda henni saman við búið. Nú á ég enga. Ég er ekki dóttir Glukksteds eins og frú Warburg. Warb. skrifar líka vel en satt að segja skil ég hvorki upp né niður í því en hugsa samt að hann verði svona, þó ekki verði meira en einni milljón ríkari fyrir fallíttið sitt, þótt búið hérna ekki græði. Það er sem sagt ekki hægt að tapa því sem ekkert er og það læt ég vera, yfir slíkt er hægt að fara.[1864]

 

Í sama bréfi lætur María þess svo getið að Warburg hafi sett nafnið hans Páls fyrir víxil yfir í banka í Eglandi sem nam 200.000,- krónum fyrir utan þau 50 [þúsund] sem hvíla á eignunum hér sem fyrir löngu síðan eru engar.[1865]

Eldra lánið sem María nefnir þarna er ugglaust það sem Páll tók árið 1899 þegar hann fékk heimild föður síns til að veðsetja eignirnar á Flateyri vegna 50.000,- króna lántöku (sjá hér bls. 223). Á jólaföstu árið 1896 hafði María varpað fram þeirri spurningu hvenær Páll sonur hennar myndi læra að skrifa með smærri tölum (sjá hér bls. 219). Ellefu árum síðar virðist henni hafa verið hætt að bregða þó að tölurnar hækkuðu og yrðu jafnvel svimandi háar að flestra dómi.

Ekki verður nú séð með auðveldu móti hvort framganga Páls Torfasonar við stofnun Íslandsbanka og tengsl hans við hina erlendu fjármálamenn sem þar áttu hlut að máli breyttu nokkru verulegu fyrir hann sjálfan. Í sóknarmannatölum frá árunum 1900-1909 er hann ýmist sagður vera húsmaður eða kaupmaður[1866] en mun þó enga eða nær enga verslun hafa rekið á Flateyri á því skeiði (sjá hér bls. 222-223) og um umsvif hans í viðskiptalífinu á þessum árum er nú flest á huldu. Kunnugt er þó að árið 1900 var Páll kominn með umboð fyrir amerískar vélar af Wolveringerð og þá um sumarið lét hann setja slíka vél í áraskektu á Flateyri.[1867] Þessi skekta var, að því er best er vitað, fyrsti báturinn í eigu íslenskra manna, búsettra hérlendis, sem knúinn var vélarafli. Vélbátur þessi var þó ekki gerður út til fiskveiða og eingöngu notaður til ferða um Önundarfjörð.[1868] Bátavélum höfðu Önfirðingar reyndar kynnst nokkru fyrr því Danir, sem stunduðu kolaveiðar í Önundarfirði á síðustu árum 19. aldar, voru með vélknúnar skektur sér til aðstoðar við þær veiðar (sjá hér bls. 289-291). Vélvæðing íslenskra fiskibáta hófst hins vegar ekki fyrr en í nóvembermánuði 1902 þegar Árni Gíslason á Ísafirði lét setja vél í sexæringinn Stanley.[1869] Þá var áraskektan, sem Páll Torfason breytti í vélbát, búin að ganga fyrir vélarafli í tvö ár og vorið 1903 hóf Ásgeir Torfason á Flateyri róðra á bát sem vél frá Páli bróður hans hafði verið sett í.[1870] Amerísku vélarnar, sem Páll hafði umboð fyrir, voru settar í fleiri báta í Önundarfirði en reyndust að sögn ekki hentugar fyrir þessa báta.[1871]

Ekki er ólíklegt að Páll Torfason hafi komið sér upp umboðum fyrir sitthvað fleira en amerísku vélarnar og um það leyti sem Íslandsbanki tók til starfa var hann að glíma við að koma upp sparisjóði á Flateyri. Í veðmálabók Ísafjarðarsýslu frá árinu 1904 er varðveitt stofnskrá ábyrgðarsjóðs til tryggingar inneignum manna í Draupni, spari- og lánasjóði Flateyringa.[1872] Skjal þetta er dagsett 14. ágúst 1904 og þar má sjá að 14 menn hafa tekið að sér að ábyrgjast samtals 60.000,- krónur. Fjórðung þeirrar upphæðar, 15.000,- krónur, ábyrgðist Torfi Halldórsson á Flateyri einn og synir hans þrír, Páll, Kristján og Ásgeir, tóku ábyrgð á 5.000,- krónum hver.[1873] Hinir ábyrgðarmennirnir tíu, sem flestir voru búsettir á Flateyri og allir í Önundarfirði, tóku ábyrgð á tvö til fimm þúsund krónum hver.[1874] Í stofnskrá ábyrgðarsjóðsins var tekið fram að hann skyldi geymdur í vörslu Íslandsbanka nema aðalfundur ákvæði annað[1875]Líklegt er að með sjóðsstofnuninni hafi Páll viljað treysta tengsl sín við bankann en svo virðist sem þessi áform hafi runnið út í sandinn því ekki er kunnugt um að nefndur sparisjóður hafi tekið til starfa.[1876]

Hér hefur nú um sinn verið sagt nokkuð frá Páli Torfasyni og merkilegu frumkvæði hans, bæði við stofnun Íslandsbanka, hins eldra með því nafni, og vélvæðingu bátaflotans. Þegar Páll stóð í þessum stórræðum á árunum kringum aldamótin 1900 var Torfi faðir hans enn á lífi, kominn um áttrætt og farinn að hafa hægt um sig. Á yngri árum hafði hann verið í fremstu röð skipstjóra á seglskipaflota Íslendinga og einnig forstöðumaður og eini kennari fyrsta sjómannaskólans á Íslandi. Á gamals aldri náði hann að sjá vélbáta bruna um Önundarfjörð og líklegt má telja að hann hafi í elli sinni fylgst með ákafri baráttu sonar síns fyrir stofnun Íslandsbanka. Þegar bankinn tók til starfa sumarið 1904 var Torfi orðinn 81 árs en átti þó enn tvö ár ólifuð.

Hér hefur áður verið gerð grein fyrir hinum miklu fjárhagslegu áföllum sem Torfi Halldórsson varð fyrir á síðari hluta ævinnar, fyrst á árunum upp úr 1885 þegar verð á hákarlslýsi lækkaði varanlega um fullan þriðjung (sjá hér bls. 172-174) og svo árið 1894 þegar Íslenska útflutningsfyrirtækið, sem Páll Torfason átti að hálfu, varð að hætta rekstri (sjá hér bls. 211-215). Árið 1899 átti Torfi þó enn veðhæfar eignir sem dugðu Páli syni hans sem trygging fyrir nýju 50.000,- króna láni (sjá hér bls. 223) en síðustu árin sem Torfi lifði mun jafnan hafa verið álitamál hvort eignir hans dygðu fyrir skuldum. Aldamótaárið 1900 var hann enn að fást við skútuútgerð og þá um haustið fékk hann 2.100,- krónur lánaðar hjá Kjartani Rósinkranzsyni, skipstjóra á Flateyri.[1877] Til tryggingar greiðslu á þessu láni lét hann að veði 3/4 í skútunni Flateyri og 5/16 í skútunni Ísafold.[1878] Ísafold virðist aldrei hafa verið gerð út frá Flateyri eftir 1897[1879] og haustið 1904 var hún seld héðan til Patreksfjarðar.[1880]

Þann 9. nóvember árið 1901 seldu Torfi og Ebenezer Sturluson, sem var sameignarmaður hans, skútuna Flateyri fyrir 4.000,- krónur en þeir sem keyptu voru Bergur Rósinkranzson, kaupmaður á Flateyri, og Páll bróðir hans, bóndi og skipstjóri á Kirkjubóli í Korpudal.[1881] Við lok ársins 1901 átti Torfi enn einn fjórða part í skútu en á næsta ári lét hann þá eign af hendi og hætti þar með allri þátttöku í útgerð þilskipa,[1882] enda kominn fast að áttræðu. Um svipað leyti fækkaði hann líka verulega fénaði sínum, kindunum úr 137 í 48 árið 1903 og kúnum úr fjórum í tvær á árunum 1903 og 1904.[1883]

Torfi Halldórsson andaðist á Flateyri 27. september árið 1906 og var þá 83ja ára að aldri. Útför hans var gerð frá kirkjunni í Holti þann 6. október. Henni lýsir Sighvatur Borgfirðingur svo:

 

Torfi sálugi var jarðsettur að Holti í Önundarfirði laugardaginn 6. október í einu því hreinasta blíðviðri sem komið hefir á þessu hausti. Húskveðju hélt sóknarprestur hans, síra Janus prófastur Jónsson í sorgarhúsinu. Var líkið síðan flutt sjóveginn að Holti og voru fjórir mótorbátar í förinni, auk annarra minni dráttarskipa sem öll voru alskipuð fólki. Í kirkjunni hélt síra Janus líkræðu en síra Sigtryggur Guðlaugsson á Núpi talaði við gröfina. Að síðustu voru sungin nokkur erindi eftir Sighvat Gr. Borgfirðing á Höfða. Fjölmenni var þar mikið, ekki einungis úr Önundarfirði heldur og af Ísafirði og vestan úr Dýrafirði.[1884]

 

Hér hefur áður verið vitnað í minningargreinar sem skrifaðar voru um Torfa og í ýmsar aðrar umsagnir um hann (sjá hér bls. 179-181) en þess má geta að kvæði Sighvats Borgfirðings, sem sungið var við gröfina, er prentað í blaðinu Þjóðviljanum 6. nóvember 1906.[1885] Að sögn var jarðarför Torfa hin fjölmennasta sem sést hafði í Önundarfirði.[1886] Gamlir nemendur hans gáfu að honum látnum stóran silfurskjöld sem hengdur var upp í Holtskirkju. Á skjöldinn eru m.a. letruð þessi orð um Torfa: Lærði erlendis stýrimannafræði og kenndi síðan hér á landi fyrstur manna löndum sínum þá fræðigrein með einstakri elju og samviskusemi.[1887]

Við uppgjör á dánarbúi þessa merka framkvæmdamanns og sveitarstólpa kom í ljós að við lok ævinnar átti hann ekki fyrir skuldum. Dánarbú hans var því þrotabú.[1888] Langan tíma tók að ganga frá ráðstöfun búsins og svo virðist sem tveir af sonum Torfa og Maríu, þeir Páll og Kristján, hafi hvor í sínu lagi reynt að ná samningum við lánardrottna um yfirtöku á eignunum. Þeir bjuggu báðir á Sólbakka á árunum 1906-1909 og María móðir þeirra var þar líka oftast nær.[1889] Í bréfum sem hún skrifaði Guðrúnu dóttur sinni á árunum 1907 og 1910 er stöku sinnum minnst á togstreitu bræðranna sem báðir vildu ná taki á eignum foreldranna.

Þann 5. júlí 1907 skrifar María:

 

Um forretningar get ég ekkert skrifað. Það er nú endalaus og botnlaus þvæla sem ég alls ekkert botna í enda löngu búin að sætta mig við hvernig sem allt fer – aðeins sárt ef misskilningur innan famelíunnar getur orðið til þess að koma stórkostlega illu af stað.[1890]

 

Um miðjan október þetta sama ár segir María frá viðræðum sínum við Magnús Torfason sýslumann og kemst þá meðal annars svo að orði:

 

Sýslumaður var hér í gær … . Bað mig um prívat samtal og sátum við hér í kompu minni hátt í 3 tíma. Meðal annars spurði hann hvort til mín væri komið frá börnum mínum skilríki fyrir því að sitja í óskiptu búi og sagði ég sem satt var „nei” … . Honum fannst töluverður klofningur hér í familíunni. Ég hvorki neitaði né játaði. … [Er hann talaði] um klofning hér á Sólbakka, þá greip ég fram í að þar legði ég ekki orð frá mér til – mætti láta þá bræður sjálfráða um sína, ef til kæmi, dómstólasamkeppni – hvort heldur veldur rógur þeirra sem vilja ná í bitann eða vanhugsun sjálfra þeirra.

… Honum sýslumanni fannst hér ekki annað hægt en halda hér von bráðar skiptafund eða skiptaráðafund sem hann kallar. Þó ætlar hann að draga það. … Tár gætu hér fallið ef til væru.[1891]

 

Nokkrum dögum síðar párar María annað bréf og segir:

 

Það er svo lengi búið að hanga yfir [að eignirnar tapist – innsk. K.Ó.] en það er alltaf sárt ef þau réttindi sem hér væri enn hægt að nota verða að engu vegna misklíðar í sjálfri familíunni. Hvað er skaði hjá skömm? Mér finnst ég gjöra allt sem ég get til að draga úr óánægjunni sem mér finnst hér, enda sorgin hjá sjálfri mér, en nú er það eins og að hella olíu á eldinn svo ég er að mestu hætt að segja nokkuð, t.d. við Pál sem er þó sá eini sem talar vanalega við mig. Ég sáraumkast yfir Kitta [þ.e. Kristján Torfason] sem mér finnst vilja gjöra vel þótt hann segi ekki neitt við mig en sem ég er hrædd um að ekki viti nógu gildar ástæður fyrir svo mörgu sem hann þyrfti. Nú ætlar hann suður með „Láru” [skipinu]. Ég svona hálf kvíði fyrir þessum næsta tíma, bæði þegar sýslumaður kemur og ef svo Páll fer líka sem mér finnst svo margt benda á.[1892]

 

Tæpum mánuði síðar, þann 23. nóvember 1907, skrifar María enn:

 

Þá er nú sýslumaður búinn að koma hér og virða. Hann kom með Skálholti [skipinu] og var þá Páll að fara um borð þegar hann kom í land og mátti þá verða hér allt sem vildi það. Þótt hann [þ.e. Páll, sonur Maríu – innsk. K.Ó.] sé að mörgu leyti aumingi með köflum hafa á stundum skyldir og vandalausir leitað ráða til hans, að minnsta kosti þegar í nauðir hefur rekið. Og þótt mér hafi í sumar fundist hann á stundum stuttur í spuna, þá fékk ég töluverðar upplýsingar út úr samtali Adelu og Siggu hér um daginn [þ.e. Adelu, konu Páls Torfasonar, og Sigríðar Sveinbjarnardóttur, húsfreyju á Hvilft – innsk. K.Ó.]. Þar með er ekki sagt að ég hafi fengið gleðifregnir – síður en svo. En hefði [ég] fengið meiri einlægni og minna af stóryrðum eða þögn en fram við mig kom í sumar var ekki ómögulegt að leggja hefði mátt orð á betri veg áður en allt var komið í bál og brand. Að trúa manni og trúa ekki eru tvær hliðar. Ég hugsa að sá allur misskilningur hljóti að taka enda hjá þeim bræðrunum. Annar hvor hlýtur að fara héðan.[1893]

 

Þarna reyndist María sannspá því áður en tvö ár voru liðin frá því hún festi þessi orð á blað flutti Páll sonur hennar burt úr Önundarfirði og settist að í Danmörku (sjá hér bls. 226).

Í marsmánuði árið 1910 hafði dánarbúi Torfa ekki enn verið ráðstafað. María skrifar Guðrúnu dóttur sinni þann 14. mars á því ári og segir:

 

Jæja, ég er nú bráðum úr sögunni. Aksjónin [uppboðið] kemur nú 18. apríl. Hef það frá Flateyri [sjálf var María á Sólbakka – innsk. K.Ó.]. Þau berjast um hana [Flateyri] félögin. Það ku verða margt um manninn. Hugsa þá margt að melta en þyngst hugsa ég ef frændur og vinir fara að berast spjótum, þótt þau kunni ekki að verða banaspjót eins og í gamla daga. Ég hef líka frétt að Kjartan [Rósinkranzson] ætli að kaupa búðina með tilheyrandi. Hvert skyldi nú Mangi fara? [Mangi er Magnús Bergur Guðmundson, fóstursonur Torfa og Maríu, en hann bjó í Torfahúsi á Flateyri árið 1910 – innsk. K.Ó.]. Mér er færð leiga af þeim 4 verelsum sem hann hefur. … Hef frétt frá Flateyri að Páll komi bráðum en um það getur hvorki Adela né Bamsi [það er Adele, kona Páls Torfasonar, og Snæbjörn Fornjótur, sonur þeirra – innsk. K.Ó.] en eitthvað bankaröfl er það. Ég er bara orðlaus yfir því.[1894]

 

Hér hefur nú verið vitnað í nokkur ummæli Maríu Össurardóttur sem varða togstreitu tveggja sona hennar um eignirnar sem faðir þeirra lét eftir sig. Ánægjulegt er að sjá að hvað sem á gekk virðist hin aldna móðir þeirra aldrei hafa tapað sinni ágætu kímnigáfu. Til marks um það má nefna að í bréfinu frá 14. mars 1910 segir hún að sáluhjálparherinn hafi nýlega haldið miklar ræður fyrir norðan og leitist við að hugga syrgjendur með þeim boðskap að látnir ástvinir þeirra hefðu farið beina leið til vítis.[1895]

Hér að framan hefur margt verið ritað um Pál Torfason en minna um Kristján bróður hans sem á árunum 1907-1910 keppti við hann um Flateyrareignir. Kristján var þrettán árum yngri en Páll, fæddur 12. janúar 1871.[1896] Tíu ára gamall varð hann fyrir slysi við fall af hestbaki og varð vinstri hendin þá máttvana og hætti að vaxa.[1897] Á ungum aldri sigldi hann til Kaupmannahafnar og dvaldist þar um skeið við nám í verslunarfræðum.[1898] Líklega hefur Kristján farið utan þegar hann var 17 ára því Jón búfræðingur Guðmundsson, sem þá átti heima á Flateyri, segir í dagbók sinni 25. október 1888 að þann dag hafi Kristján og Magnús Bergur Guðmundsson, sem var fóstursonur Torfa, farið vestur á leið til siglingarinnar.[1899] Kristján kvæntist ekki en árið 1913 eignaðist hann með danskri konu son sem fæddist í Kaupmannahöfn.[1900] Um tvítugt er Kristján Torfason sagður vera verslunarmaður á Flateyri[1901] og mun þá hafa unnið við verslun föður síns en um það leyti sem faðir hans andaðist er hann nefndur póstafgreiðslumaður í sóknarmannatölum.[1902]

Vorið 1905 afhenti Torfi Halldórsson tveimur sonum sínum, þeim Kristjáni og Ásgeiri, öll umráð yfir íbúðarhúsi sínu á Flateyri, sem nefnt var Torfahús, og 17 hundruðum í jörðinni Eyri.[1903] Hið 85 ára gamla íbúðarhús sem Torfi og fjölskylda hans höfðu búið í allt frá árinu 1857 var þá tekið út og var að sögn úttektarmannanna 23 álnir á lengd og 16 álnir á breidd (sbr. hér bls. 16-18 og 81-82). Húsi þessu hefur áður verið lýst (sjá hér bls. 18 og 81-82) en það var nú orðið mun stærra en það hafði verið þegar Torfi keypti Flateyrareignir árið 1858. Haustið 1963 varð hið aldna hús eldi að bráð (sjá hér bls. 18) en áður var það komið í niðurníðslu. Lóðin sem húsið stóð á stendur nú auð og er við neðanvert Hafnarstræti (sjá hér bls. 18).

Vorið 1906 keypti Kristján Torfason bryggjuna á Sólbakka og ýmis önnur mannvirki þar af Hans Ellefsen (sjá hér Sólbakki) en þá voru liðin nær fimm ár frá því hvalveiðistöðin á Sólbakka brann og allri vinnslu hvalafurða þar var hætt. Um svipað leyti og Kristján keypti bryggjuna á Sólbakka og aðrar eignir þar en þó fáeinum mánuðum síðar leigði faðir hans honum allt land á Sólbakka sem Ellefsen hafði áður haft á leigu fyrir hvalstöðina (sjá hér Sólbakki). Gildistími nýnefnds leigusamnings feðganna var 40 ár og líklega hefur hann verið eitt allra síðasta skjalið sem Torfi skrifaði undir því samningurinn var undirritaður 21. ágúst 1906 (sjá hér Sólbakki) en Torfi andaðist fimm vikum og tveimur dögum síðar.

Að sögn kunnugra var það Kristján sem stjórnaði rekstrinum á flestum eignum föður síns síðustu árin sem Torfi lifði.[1904] Samningur þeirra feðga um Sólbakka bendir einnig til þess að Torfi hafi haft traust á Kristjáni sem að föður sínum látnum gerðist umsvifamikill athafnamaður. Í sóknarmannatölum frá árunum 1908-1910 er Kristján Torfason jafnan sagður vera kaupmaður,[1905] enda hafði hann verslunarleyfi og fékkst við ýmis viðskipti. Hann var hins vegar ekki með neinn innflutning á vörum eða verslunarrekstur af almennu tagi ef taka má mark á hinum opinberu verslunarskýrslum.[1906]

Þann 30. desember árið 1909 var uppboð á eignum dánarbús Torfa Halldórssonar auglýst[1907] en eignirnar voru þó ekki boðnar upp fyrr en sumarið 1911. Þá höfðu bræðurnir, Páll og Kristján Torfasynir, fengið sér sinn lögfræðinginn hvor og voru þeir ekki valdir af lakari endanum því að Lögfræðingur Páls var Einar Arnórsson prófessor, síðar ráðherra og hæstaréttardómari, en lögfræðingur Kristjáns var Sveinn Björnsson, síðar forseti Íslands.[1908] Í Lögbirtingablaðinu var boðað að þessar fasteignir dánarbúsins yrðu seldar á uppboðinu:

 

 1. 17 hundruð að fornu mati í jörðinni Eyri.
 2. 8 hundruð að fornu mati í Neðri-Breiðadal.
 3. 12 ½ hundrað að fornu mati í Hóli í Firði.
 4. 1 hundrað að fornu mati í Selakirkjubóli.
 5. Íbúðarhús hins látna á Flateyri.
 6. Gunnlaugshús á Flateyri.
 7. „Svonefnt Uglehús”.
 8. Geymsluhús, heyhlöður, fjós og fjárhús.[1909]

 

Í þessu riti var áður minnst á Uglehus hús á Flateyri og mun óhætt að fullyrða að það sé það sem þarna er nefnt Uglehús. Hér var áður sýnt fram á með rökum að það hafi verið verslunarhús Torfa Halldórssonar sem á árunum fyrir og um 1890 var nefnt Uglehus hús (sjá hér bls. 205-207). Enn ein vísbending um að svo hafi verið felst í því að í bréfi rituðu 14. mars 1910 segir ekkja Torfa, María Össurardóttir, að á uppboðinu sem þá hafði nýlega verið auglýst ætli Kjartan Rósinkranzson að kaupa búðina (sjá hér bls. 233). Auglýsingin í Lögbirtingablaðinu ber hins vegar með sér að þar sést engin búð auglýst til kaups nema höfð sé í huga sú staðreynd að húsið sem þar er nefnt Uglehús var hið 24 ára gamla verslunarhús Torfa Halldórssonar.

Uppboðið á fasteignum dánarbús Torfa Halldórssonar fór fram 27. júlí árið 1911 og var uppboðsrétturinn settur undir berum himni í Eyrarlandi.[1910] Skömmu síðar varð þó samkomulag um að færa uppboðið inn í hús á Sólbakka.[1911] Á uppboð þetta mættu fjórir umboðsmenn veðhafa og annarra sem hlut áttu að máli, Sighvatur Bjarnason bankastjóri fyrir hönd Íslandsbanka, Magnús Guðmundsson, þá starfsmaður í stjórnarráðinu en síðar ráðherra, fyrir hönd landssjóðs, Einar Arnórsson lagaprófessor, síðar ráðherra og hæstaréttardómari, fyrir hönd Páls Torfasonar og ekkjunnar, Maríu Össurardóttur, og loks Sveinn Björnsson lögmaður, síðar forseti Íslands, fyrir hönd Kristjáns Torfasonar.[1912] Líklega er óhætt að fullyrða að svo fríður flokkur verðandi forystumanna þjóðarinnar hafi aldrei áður mætt á uppboð í Önundarfirði og ekki heldur síðar.

Fyrsta veðrétt í eignunum hafði Íslandsbanki en skuld dánarbúsins við hann var 38.000,- krónur auk ógreiddra iðgjalda af brunatryggingu og áfallins kostnaðar.[1913] Eigandi eða handhafi annars veðréttar var Kristján Torfason sem lagði fram veðskuldabréf er honum hafði verið framselt frá Leontis Warburgs Søn og Co.[1914] í Kaupmannahöfn en það fyrirtæki hafði lánað Páli Torfasyni 50.000,- krónur árið 1899 og tekið veð í eignum Torfa (sjá hér bls. 223-224). Minnt skal á að annar þeirra dönsku fjármálamanna sem Páll Torfason var í tengslum við og buðust til að hafa forgöngu um stofnun Íslandsbanka hét einmitt Warburg og þau tengsl voru enn óslitin árið 1907 (sjá hér bls. 223-228).

Líklegt er að Páli Torfasyni, sem hafði unnið ötullega að stofnun Íslandsbanka í samvinnu við Alexander Warburg, hafi á tveimur fyrstu starfsárum bankans, 1904-1906, tekist að færa nokkuð af eldri skuldum föður síns þangað. Mjög athyglisvert er að það skuli vera Kristján Torfason sem mætir á uppboðið með veðskuldabréfið frá Leontis Warburgs Søn Co. en ekki Páll bróðir hans sem á sínum tíma samdi við þetta fyrirtæki um lántökuna. Freistandi er að setja fram þá tilgátu að á síðustu árunum eða síðustu mánuðunum fyrir uppboðið hafi Kristjáni tekist að sannfæra þessa lánardrottna um að skynsamlegra væri fyrir þá að veðja á sig en Pál ef þeir ætluðu að fá lánið endurgreitt. Slíkt er þó aðeins tilgáta en til þess að fá lánið greitt þurfti að tryggja einhvern arð af eignunum sem það hvíldi á. Á uppboðinu hélt lögmaður Páls Torfasonar því fram að veðskuldabréfið frá Danmörku hefði verið framselt Kristjáni án heimildar og skuldin sem bréfið ætti að vitna um væri í raun engin.[1915] Sú staðreynd styrkir reyndar þá tilgátu sem hér var sett fram.

Um þessi efni var fært til bókar á uppboðinu 27. júlí 1911:

 

Viðvíkjandi 2. veðrétti leyfi ég [Einar Arnórsson] mér að taka fram að umbjóðandi minn P.J. Torfason fullyrðir að veðskuldabréf Leontis Varburgs sön og Co. hafi af því búi verið framselt í heimildarleysi með því skuldin sé í raun og veru ekki til sem það hljóðar um og óska ég því hlutaðeigendum óskertan rétt til að koma fram ábyrgð á hendur þeim sem kynnu að hafa misbrúkað nefnt veðskuldabréf.

Lögmaður Sveinn Björnsson óskar bókað:

Ég held fram fullum rétti umbjóðanda míns [það er Kristjáns Torfasonar] samkvæmt innihaldi veðskuldabréfsins og hlýt þar af leiðandi að mótmæla þeirri staðhæfingu að skuldin sé ekki til sem ósannaðri og órökstuddri.[1916]

 

Á títtnefndu uppboði bauð umboðsmaður landssjóðs, Magnús Guðmundsson, 40.000,- krónur í allar fasteignir dánarbúsins sem hér voru áður taldar upp.[1917] Einar Arnórsson bauð 61.200,- krónur fyrir hönd Páls Torfasonar en Sveinn Björnsson 62.000,- krónur fyrir hönd Kristjáns Torfasonar og var það hæsta boð.[1918] Til tryggingar greiðslu bauð Sveinn 2. veðrétt í eignum Kristjáns á Sólbakka.[1919] Þá tryggingu taldi sýslumaður ekki vera fullnægjandi en veitti Kristjáni liðlega eins mánaðar frest til að standa við boð sitt.[1920] Sá frestur mun hafa dugað honum til að verða sér úti um nægilegt fé eða tryggingar sem hægt var að taka gildar því fullvíst er að hann náði að festa sér allar þessar Flateyrareignir árið 1911.[1921] Á næstu árum stóð Kristján fyrir miklum framkvæmdum og merkilegum atvinnurekstri á Sólbakka sem er önnur saga og verður ekki rakin hér.

Líklegt er að María Össurardóttir hafi saknað Páls sonar síns síðustu árin sem hún lifði en hann var þá búsettur í Danmörku. Engu að síður gat hún fagnað því að Flateyrareignir héldust áfram í ættinni og hjá sonum sínum á Sólbakka, þeim Kristjáni og Ásgeiri, átti hún góða elli. Snorri Sigfússon, sem varð skólastjóri á Flateyri 1912, hitti hana þar á árunum 1912-1915 og segir frá á þessa leið:

 

Ekki minnist ég þess að hafa séð öllu gáfulegri og gjörvulegri konu en frú Maríu á hennar aldri. Að sitja hjá henni og tala við hana um daginn og veginn og ekki síður um andlega mennt og mál var ógleymanlegt. Hún var óvenju andlega sterk, víðsýn og stórbrotin í huga. Ég man enn og mun aldrei gleyma hvað mér kom snögglega í hug er ég í fyrsta sinn sá frú Maríu. Hún sat uppi við herðadýnu í rekkju sinni, gamalli, stórmyndarlegri sparlaksrekkju, og var að sýna mér fram á verkefnin glæsilegu sem lægju fyrir unga fólkinu til úrlausnar. Ég hafði þá fyrir nokkrum árum, 1908, setið undir einni af ræðum Björnstjerne Björnsson, eggjunar- og hvatningarræðu, og fundist eldur áhugans og skáldlegra tilþrifa sindra af persónuleika hins aldraða mikilmennis. Og þótt ég vitanlega beri þetta ekki að öllu leyti saman, þá greip mig skyndilega sú hugsun hve svipmót þessara tveggja öldruðu andlita var í raun og veru líkt. Hið gráa og mikla hár, hið háa og mikla enni, tígulegt nef, hvössu brýr og sterklegu andlitsdrættir. Allt þetta fannst mér svo undarlega svipað, þótt konan væri að vísu smágerðari og svipþýðari en karlinn, að ég get ekki gleymt því.

Og hánorræn voru þau bæði, víkingaættar, stórgerð og stórbrotin hvort á sína vísu, því að þótt María væri ekki skáld á sama hátt og Björnsson, þá sá hún furðulegar sýnir skáldlegra hillinga er mannvit og máttur myndu gera að veruleika. Það var ekki ömurlegur mannheimur er þá blasti við. En hún reiknaði ekki heldur með augnablikum einnar mannsævi heldur kynslóðum, öldum og milljónum ára, og alltaf birti meir og meir í þeim heimi.[1922]

 

Ýmislegt fleira ritar Snorri um Maríu en sagt var að á gamals aldri hefði hún látið falla þessi orð um Pál son sinn er þá var sestur að í Danmörku: Það gat farið mikið í súginn hjá honum Páli mínum en hann sá jafnan rétt.[1923]

Hér hafa áður verið kynntar nokkrar frásagnir kunnugra af Maríu Össurardóttur og rifjað upp hvernig þeir lýstu henni (sjá hér bls. 181-183). Verður nú látið við það sitja. María andaðist á Sólbakka 7. maí 1915[1924] og var þá tæplega 75 ára gömul.

Páll Torfason fluttist endanlega til Danmerkur árið 1909 eins og hér hefur áður verið nefnt. Hann var þá orðinn 51 árs gamall en átti þó meira en 30 ár fram undan. Hann andaðist í Kaupmannahöfn 1. desember 1940.[1925] Hér verður engin tilraun gerð til að lýsa fjármálaumsvifum Páls í Danmörku á síðari hluta ævinnar en sögur af honum flugu víða, bæði sannar og lognar.

Um Torfasyni, Pál og Kristján, ritar Snorri Sigfússon á þessa leið:

 

Þeir voru báðir gáfaðir menn og svo glæsilegir á velli að af bar og höfðinglegir sýnum. Báðir fengust þeir mikið við alls konar fjármálastarfsemi og ýmiss konar kaupsýslu og þóttu þar meiri hugsæis- en raunsæismenn, einkum Páll. Voru margar sögur af honum sagðar og sumar harla ótrúlegar eins og þegar hann átti að hafa selt jarðskjálftann eða jafnvel norðurljósin eða þeir í félagi, Einar Benediktsson skáld og hann. Raunar mun Páll hafa sagt að Einar hefði aldrei haft vit á fjármálum. Og við mig sagði Páll eitt sinn að það hefði enginn Íslendingur sem hann þekkti til. Þeir væru allir að þvælast með fimmeyringinn í huganum, skildu ekki að hér um bil sama væri hver hann ætti, allt ylti á því hver nyti vaxtanna.[1926]

 

Einn þeirra ungu manna sem hittu Pál Torfason í Kaupmannahöfn á árunum kringum 1920 var Halldór Laxness sem segir að hann hafi litið út eins og patríarki úr austurkirkjunni eða jafnvel drottinn alsherjar með skegg niðrá bríngu.[1927]

Í Ameríku hitti Halldór síðar gamlan kunningja Páls Torfasonar úr Önundarfirði, Ástralíufarann Halldór Halldórsson frá Þórustöðum, sem hér er sagt frá á öðrum stað (sjá hér Þórustaðir), og fékk hjá honum þessa sögu um framgöngu Páls á fyrri tíð:

 

Páll seldi skipsfarm af bakkalaó í Bilbaó og skipið líka en fór síðan með járnbraut norður til Kaupmannahafnar og hafði með sér í farángrinum tólf spánskar dansmeyar sem hann kom fyrir á einu af glæsihótelum hins danska höfuðstaðar.[1928]

 

Um þessa ágætu gamansögu er það helst að segja að hún gæti svo sem verið sönn og minnt skal á að í annarri og óskyldri heimild er þess getið að Páll hafi farið suður um álfu áður en 19. öldinni lauk (sjá hér bls. 223).

Kristján Torfason átti heima á Sólbakka til æviloka en hann andaðist 28. september 1932.[1929] Hann var áræðinn og hugumstór framkvæmdamaður og hafði um skeið mikil umsvif bæði á Flateyri og á Sólbakka. Hann komst þó ekki á skrið með eigin rekstur fyrr en 20. öldin var gengin í garð og af þeim ástæðum verður ekki fjallað um hans merkilega þátt í atvinnusögu Vestfirðinga hér en þess í stað látið nægja að geta um fátt eitt með örfáum orðum.

Fyrir forgöngu Kristjáns og Ásgeirs bróður hans hófst togaraútgerð frá Flateyri árið 1908 en Ásgeir Torfason var frá 1908-1910 skipstjóri á togaranum Frey sem gerður var út frá Flateyri.[1930]

Árið 1911 réðst Kristján Torfason svo í að taka nokkra þýska togara á leigu.[1931] Á þessum togurum voru þýskir skipstjórar og vélstjórar en áhafnirnar að öðru leyti úr Önundarfirði, þar á meðal sérstakir fiskiskipstjórar.[1932] Afli þessara skipa var lagður upp á Flateyri og þar var líka keyptur fiskur af öðrum erlendum togurum árið 1911.[1933]

Í samvinnu við þýskt fyrirtæki kom Kristján upp mikilli beinamjölsverksmiðju á Sólbakka árið 1911 eða 1912 og var hún starfrækt í nokkur ár.[1934] Þar var líka brætt lýsi og í verksmiðjunni lét hann gera tilraunir með vinnslu þaramjöls í fóðurbæti.[1935] Vegna heimsstyrjaldarinnar fyrri stöðvaðist rekstur verksmiðjunnar en árið 1924 var henni að frumkvæði Kristjáns breytt í síldarverksmiðju. Íslandsbanki yfirtók reksturinn skömmu síðar vegna skulda en bróðir Kristjáns, Ásgeir Torfason á Sólbakka, stjórnaði verksmiðjurekstrinum á vegum bankans frá 1926 til 1933.[1936] Verksmiðjan á Sólbakka komst svo í eigu Síldarverksmiðju ríkisins og árið 1935 og næstu ár þar á eftir var hún notuð til karfavinnslu sem veitti miklum fjölda manna atvinnu.[1937]

Að báðum foreldrum sínum látnum virðist Kristján hafa náð að halda öllum eða nær öllum fasteignum þeirra í sinni eigu. Þar munaði mest um kaup hans á Flateyrareignum árið 1911, sem hér var áður sagt frá, og kaupin á Sólbakka. Árið 1918 voru fasteignir Kristjáns Torfasonar virtar á 167.703,54 krónur[1938] en þær voru þá þessar:

 

1…… Flateyri (lóðir og lendur) ………………………  virt á      kr.       55.000,00

2…… Húseignir á Flateyri ……………………………..  virtar á   kr.       12.350,00

3…… 7/10 hlutar ur jörðinni Eyri ……………………  virtir á   kr.       21.072,92

4…… Sólbakki, landið…………………………………… virt á      kr.       16.700,00

5…… Aðrar fasteignir á Sólbakka …………………..  virtar á   kr.       51.000,00

6…… Jörðin Hóll á Hvilftarströnd ………………….  virt á      kr.         4.000,00

7…… Mannvirki á nýnefndri jörð …………………..  virt á      kr.         1.800,00

8…… Jarðarpartur í Mosdal ……………………………  virtur á kr.            478,52

9…… Jarðarpartur á Vífilsmýrum …………………..  virtur á kr.         1.578,96

10…. Jarðarpartur á Hóli í Firði ……………………..  virtur á  kr.         2.146,83

11…. Jarðarpartur í Neðri-Breiðadal ……………….  virtur á  kr.         1.366,31

12…. Jarðarpartur á Selakirkjubóli …………………  virtur á  kr.            210,00[1939]

 

Samtals voru þessar fasteignir Kristjáns metnar á 167.703,54 krónur eins og hér var áður nefnt en sú upphæð svaraði árið 1918 til 536 kúgilda.[1940] Til samanburðar má einnig nefna að verksmiðjan mikla á Sólbakka, sem hér var áður nefnd, var þetta sama ár virt á 158.000,- krónur[1941] eða nokkru lægri upphæð en þær fasteignir sem Kristján Torfason átti einn. Eigandi verksmiðjunnar var þá Sólbakki h.f.[1942] en að því fyrirtæki munu einkum hafa staðið þýskir fjármálamenn auk Kristjáns Torfasonar. Fróðlegt hefði verið að vita hversu mikið Kristján Torfason skuldaði árið 1918 en upplýsingar um það liggja ekki á lausu.

Í bréfasafni séra Janusar Jónssonar og frú Sigríðar Halldórsdóttur konu hans er m.a. að finna bréf með fréttum úr Önundarfirði, skrifað haustið 1912. Konan sem skrifar bréfið nefnir sig Möttu og það er skrifað á Bakka, líklega Bakka í Neðri-Hjarðardal í Dýrafirði. Bréfið er stílað til frú Sigríðar Halldórsdóttur, sem áður var prestsfrú í Holti, en haustið 1912 voru liðin fjögur ár frá því hún og séra Janus fluttust burt úr Önundarfirði. Konan sem bréfið skrifar segir þar meðal annars þessi tíðindi:

 

Úr Önundarfirði er fátt að frétta nema þeir eru að kafna í heyunum og allt gengur þar í fartinni og með þýskum gufukrafti, að fólk segir, svo Önfirðingar tala nú víst mest þýsku. Nú kvað Kristján Torfason vera að selja Flateyrina Englendingum, það er að segja Oddann, upp að Goðahól, og kvað vera í orði að þeir ætli að setja upp verslun og kvað 6 traalarar eiga að hafa þar bækistöðvar í vetur.[1943]

 

Margar hugmyndir Kristjáns Torfasonar um atvinnuskapandi framkvæmdir náðu aldrei að verða að veruleika. Hann fór snemma að láta rannsaka hvort ekki fyndust einhverjir málmar eða verðmæt jarðefni í landi Eyrar og árið 1910 fékk hann breskt fyrirtæki til samstarfs um þessar rannsóknir.[1944] Í Eyrarfjalli, beint upp af Flateyri, er allþykkt leirlag og þar urðu menn varir við útfellingar sem gáfu hugmyndunum um járnvinnslu byr undir vængi.[1945]

Í bréfi sem Kristján skrifaði Landsbankanum skömmu fyrir andlát sitt kemst hann svo að orði:

 

Þá hefi ég um mörg ár látið rannsaka málma og önnur efni í landareignum Eyrar og Sólbakka og kostað til geipimiklu fé, með þeim árangri að fullvíst er að þar er gnægð málma og annarra efna sem mjög eru eftirspurð.[1946]

 

Hinar umfangsmiklu rannsóknir á járngrýti úr Eyrarfjalli og gráleitu aluminium leirlagi í Mosskerjakambi á Sauðanesi kostuðu mikla peninga en hinar endanlegu niðurstöður urðu neikvæðari en Kristján hafði vænst.[1947]

Árið 1916 stóð Kristján Torfason fyrir kaupum á vatnsréttindum í Dynjanda, fossinum stóra í Arnarfirði.[1948] Á næstu árum fóru fram víðtækar athuganir á virkjunarmöguleikum þar um slóðir og munu Kristján og samstarfsmenn hans hafa verið með ráðagerðir um byggingu áburðarverksmiðju eða álverksmiðju til nýtingar á raforkunni sem fyrirhuguð virkjun í Arnarfirði átti að leggja til.[1949] Hugmyndir um vinnslu á salti úr sjó og sementi úr skeljasandinum í Önundarfirði voru líka á sveimi og um sumt af þessu var Kristján í samvinnu við Pál bróður sinn í Kaupmannahöfn.[1950]

Engin af þessum stórbrotnu fyrirætlunum náði þó að verða að veruleika meðan Kristján lifði og ekki heldur sú hugmynd hans að hefja á ný hvalveiðar úr Önundarfirði.[1951]

Snorri Sigfússon skólastjóri, sem átti heima á Flateyri frá 1912 til 1929, lýsir Kristjáni vel í bók sinni Ferðin frá Brekku. Hann segir þar:

 

Var það almæli allra er þekktu að þá væri Kristján Torfason í essinu sínu er hann hafði um sig margt gesta og jós í þá veitingum og hugmyndum af hinum mikla sjóði hjarta síns og hugarflugs. Þá rann upp mörg stundin sem flestum mun erfitt að gleyma.

Mörgum fannst Kristján Torfason of stórhuga, fljúga of hátt og hratt, horfa of fast á hlutina í ljósi hins æskilega en taka of lítið tillit til hins mögulega. En enginn kom þar að tómum kofum er út í rökræður um slíkt skyldi lagt. Hann sá og vissi, hann hafði hugsað og reiknað dögum, mánuðum og árum saman, enda hafði hann mikla þekkingu til brunns að bera á flestum sviðum fjármála- og athafnalífs. Hann vildi leysa úr læðingi ónotaða möguleika og þá sá hann alls staðar. Beina fjármagni þangað sem það bæri ríkulegasta vexti og væri flestum að gagni og stíga risaskref fram í allsnægtir hins nýja tíma.[1952]

 

Aðra svipmynd af Kristjáni Torfasyni, máske dálítið ýkta, er að finna í bréfi Þórbergs Þórðarsonar rithöfundar til Kristínar Guðmundsdóttur, rituðu 27. júní 1924. Þórbergur segir þar:

 

Um daginn fór ég vestur í Önundarfjörð með Vilmundi. Við fórum fótgangandi yfir ofurhátt fjall snævi þakið. … Um kvöldið heimsóktum við systur Páls Torfasonar. Þær búa á Sólbakka. … Önnur þeirra systra, Ástríður að nafni, er höfðinglegasta kona sem ég hefi nokkurntíma séð. Hún hefir aldrei verið við karlmann kend. … Kristján bróðir þeirra systra býr í hárri höll í sama túninu. Hann sat í öndvegi úti á veggsvölum, þegar við riðum hjá, og horfði með konunglegri tign yfir héraðið eins og Óðinn úr Hliðskjálf. Kristján á alla Flateyrina. Þar býr um 300 manns. Hann krefur engan mann um lóðargjald, þótt hann sitji sveltandi heima, og aldrei stígur hann fæti sínum niður á Flateyri. Það telur Kristján ekki virðingu sinni samboðið. Þau systkini eru aristokratar frá hvirfli til ilja.[1953]

 

Með þessum orðum Þórbergs ljúkum við hér langri frásögn af Torfa Halldórssyni á Flateyri og fólki hans.

 

Haustið 1882 festi Ásgeirsverslun á Ísafirði kaup á verslun Hjálmars Jónssonar á Flateyri og þann 1. janúar 1883 fóru eigendaskiptin fram (sjá hér bls. 114-115). Óvíst er um kaupverðið en fraktskipin Bogö og Lovísa fylgdu með í kaupunum (sjá hér bls. 114). Við eigendaskiptin var versluninni á Flateyri breytt í útibú frá Ásgeirsverslun og var útibú þetta starfrækt í 36 ár, frá 1883 til 1918.[1954] Sölubúð Ásgeirsverslunar á Flateyri var allan þann tíma í verslunarhúsinu sem Hjálmar Jónsson reisti skömmu fyrir 1870 (sjá hér bls. 97-98) en seinna rak Kaupfélag Önfirðinga verslun í þessu sama húsi í nær 30 ár.

Þegar Ásgeirsverslun keypti verslunina á Flateyri voru liðin fimm ár frá andláti Ásgeirs Ásgeirssonar skipherra sem hafði hafið verslunarrekstur á Ísafirði árið 1852 og verið einkaeigandi Ásgeirsverslunar allt til dauðadags. Ekkja Ásgeirs, Sigríður Maren Ásgeirsson, fædd Sandholt, sat að Ásgeiri látnum í óskiptu búi og var því eigandi fyrirtækisins en árið 1882 var sonur þeirra Ásgeirs, Ásgeir G. Ásgeirsson, farinn að stjórna rekstrinum sem prókúruhafi[1955] og það var hann sem gekk frá kaupunum á Flateyrarverslun haustið 1882 (sjá hér bls. 114-115).

Ásgeir G. Ásgeirsson hét Ásgeir Guðmundur og fæddist á Ísafirði 8. september 1856.[1956] Til aðgreiningar frá föður sínum var hann oft nefndur Ásgeir yngri. Hann ólst upp á Ísafirði og síðar í Kaupmannahöfn en foreldrar hans fluttust þangað um 1870.[1957] Þegar Ásgeir yngri var 17 ára varð hann verslunarstjóri við verslun föður síns á Ísafirði en áður hafði hann numið verslunarfræði í Danmörku.[1958] Verslunarstjórastarfinu á Ísafirði gegndi hann í fjögur ár en þegar faðir hans dó, árið 1877, fluttist Ásgeir yngri til Kaupmannahafnar[1959] og mun fljótlega hafa tekið þar við allri stjórn á rekstri fjölskyldufyrirtækisins.

Þann 16. janúar 1889 gengu þau Ásgeir yngri og Sigríður móðir hans frá sameignarfélagssamningi og með undirritun hans var Ásgeir gerður með formlegum hætti að meðeiganda í verslunarfyrirtæki móður sinnar, Ásgeirsverslun.[1960] Í þessum samningi áskildi Sigríður sér m.a. þann rétt að henni yrðu árlega greiddar 1.695,- krónur í leigu af eignunum, það er 900,- krónur fyrir verslunaraðstöðu á Ísafirði, 750,- krónur í leigu af skipum verslunarinnar og 45,- krónur fyrir verslunaraðstöðu á Flateyri.[1961]

Ásgeir G. Ásgeirsson var forstjóri Ásgeirsverslunar nær allan þann tíma sem útibú frá henni var rekið á Flateyri eða allt til dauðadags en hann andaðist árið 1912.[1962] Ásgeir sat jafnan í Kaupmannahöfn en kom þó til Ísafjarðar á hverju sumri.[1963] Verslunarstjóri Ásgeirsverslunar á Ísafirði, allt frá árinu 1877, var Árni Jónsson og hafði hann jafnframt yfirumsjón með rekstri útibúanna.[1964] Árni var prestssonur frá Gilsbakka í Borgarfirði, fæddur 1851.[1965] Hann lauk námi í prestaskólanum árið 1874 og fluttist mjög skömmu síðar til Ísafjarðar.[1966] Hann kvæntist Lovísu, elstu dóttur Ásgeirs kaupmanns eldri Ásgeirssonar, árið 1877 og tók þá um haustið við verslunarstjórastarfinu á Ísafirði.[1967] Konu sína missti Árni eftir stutta sambúð en kvæntist síðar á ný.[1968] Hann var verslunarstjóri Ásgeirsverslunar á Ísafirði frá haustinu 1877 til loka ársins 1909 og mun einnig hafa haft yfirumsjón með rekstrinum næstu árin þar á eftir.[1969] Árni Jónsson var atkvæðamikill stjórnandi með auga á hverjum fingri og hafði fleiri þræði í sínum höndum en flestir samtíðarmenn hans á Ísafirði. Þeir Ásgeir yngri og Árni mágur hans stjórnuðu í raun öllum rekstri Ásgeirsverslunar í þriðjung aldar en ekki mun fjarri lagi að hún hafi sum árin á því skeiði verið stærsta atvinnufyrirtækið á landi hér (sjá hér Sólbakki).

Björn Jónsson ritstjóri segir í minningargrein um Ásgeir eldri að hann hafi alveg vafalaust verið langauðugastur innlendra kaupmanna hér á landi.[1970] Grein þessi birtist í Ísafold mjög skömmu eftir lát Ásgeirs árið 1877.[1971] Ætla má að Björn ritstjóri hafi haft nægilega yfirsýn til að dæma um þetta en meðan Ásgeir eldri lifði hafði fyrirtæki hans þó eingöngu fengist við verslun og útgerð á Ísafirði. Fyrsta útibúið sem Ásgeirsverslun kom á fót var á Flateyri[1972] og hófst rekstur þess 1. janúar 1883 eins og hér hefur áður verið nefnt. Næsta útibú tók til starfa á Hesteyri árið 1889 og á næstu árum þar á eftir bættust við fjögur í viðbót.[1973] Með rekstri útibúanna jókst velta fyrirtækisins en það sem hleypti þó mestu lífi í reksturinn voru kaup forráðamanna Ásgeirsverslunar á hinni gömlu verslun í Neðstakaupstað á Ísafirði og öllu því athafnasvæði sem hún hafði yfir að ráða.[1974] Frá þeim kaupum var gengið 13. mars árið 1883[1975] eða alveg um svipað leyti og rekstur útibúsins á Flateyri hófst. Við kaupin á Neðstakaupstað fékkst meðal annars aukið rými til fiskverkunar sem á næstu árum og áratugum kom að mjög góðum notum. Verslunina í Neðstakaupstað með öllu sem henni fylgdi fengu forráðamenn Ásgeirsverslunar fyrir 32.000,- krónur[1976] sem er mun lægra verð en gera mátti ráð fyrir. Neðstakaupstað keypti Ásgeirsverslun af dánarbúi stórkaupmannsins B.W. Sass.[1977] Fyrirtæki hans á Ísafirði hét M.W. Sass og Sönner en síðasti verslunarstjóri þess á Ísafirði var Vilhelm Holm, tengdafaðir Ásgeirs G. Ásgeirssonar.[1978] Vera má að þau tengsl hafi auðveldað Ásgeiri að ná þessum kaupum.

Fyrir 1877 voru þilskipin sem Ásgeirsverslun gerði út aldrei fleiri en fjögur[1979] en á árunum 1883-1893 jókst þilskipafloti verslunarinnar mjög verulega. Árið 1893 voru skúturnar, sem verslunin gerði út frá Ísafirði, orðnar sextán[1980] en þá er Grettir, sem gerður var út frá Flateyri (sjá hér  bls. 272-273), ekki talinn með. Flest þessara skipa voru lítil eða milli 10 og 20 smálestir en hin stærstu allt upp í 50 smálestir.[1981] Eftir 1893 mun þilskipum verslunarinnar ekki hafa fjölgað að neinu ráði og við lok ársins 1914 átti hún tólf þilskip og fimm vélbáta.[1982]

Ásgeirsverslun keypti líka mikið af fiski og á tímabilinu frá 1890 til 1914 mun þetta eina fyrirtæki hafa átt um það bil tvo þriðju hluta af öllum saltfiski sem fluttur var út frá Ísafirði[1983] Sum árin fór magnið af þurrkuðum saltfiski sem verslunin flutti út í um og yfir 2000 tonn og árið 1902 taldi forstjóri Ásgeirsverslunar um 500 manns vera í vinnu hjá þessu stóra fyrirtæki.[1984] Auk saltfisksins sem fór til Spánar og annarra Miðjarðarhafslanda voru hákarlslýsi og þorskalýsi mikilvægar útflutningsafurðir á uppgangsskeiði Ásgeirsverslunar.[1985]

Allt frá árinu 1872 var Ásgeirsverslun með sitt eigið flutningaskip í millilandasiglingum.[1986] Fyrsta skipið af því tagi sem verslunin eignaðist var S. Louise, 120 rúmlesta skonnortubrigg sem Ásgeir eldri lét smíða á árunum 1871-1872.[1987] Um 1880 bættust fleiri flutningaskip við en sum þeirra entust aðeins í skamman tíma.[1988] Árið 1889 keypti forstjóri Ásgeirsverslunar 36 rúmlesta gufubát er hlaut nafnið Ásgeir litli og kom hann fyrst til Ísafjarðar sumarið 1890.[1989] Bátur þessi var fyrsta gufuskipið sem Íslendingar eignuðust og mjög skömmu eftir komu hans til Ísafjarðar tókust samningar milli sýslunefndar Ísafjarðarsýslu og Ásgeirs G. Ásgeirssonar forstjóra um að báturinn færi á sumrin í fastar áætlunarferðir um Ísafjarðardjúp og norður í Jökulfirði og líka í Súgandafjörð og Önundarfjörð.[1990] Í þessum áætlunarferðum var Ásgeir litli í 15 sumur og auk þess var hann notaður til margvíslegra flutninga milli byggða á vegum Ásgeirsverslunar.[1991] Á veturna stóð þessi ágæti gufubátur þó jafnan uppi í fjöru en þegar fór að vora hófust ferðirnar.[1992]

Árið 1893 keypti Ásgeir G. Ásgeirsson, forstjóri Ásgeirsverslunar, 849 rúmlesta gufuskip fyrir eigin reikning og var það fyrsta gufuknúna millilandaskipið sem íslenskur maður eignaðist.[1993] Skipi þessu, sem áður hét Helge og var nær 25 ára gamalt, gaf Ásgeir nafn föður síns og nefndi það Á. Ásgeirsson.[1994] Það kom fyrst til Ísafjarðar 8. maí 1894 og á næstu árum var það jafnan í millilandasiglingum með vörur og afurðir Ásgeirsverslunar frá vori til hausts og fór þá m.a. með saltfisk til Miðjarðarhafslanda.[1995] Á veturna var þetta stóra gufuskip leigt öðrum og notað til ýmissa flutninga milli landa í Evrópu.[1996] Á Ísafirði og í Ísafjarðarsýslu var gufuskipið Á. Ásgeirsson  oftast nefnt Ásgeir stóri í daglegu tali til aðgreiningar frá gufubátnum Ásgeiri litla.[1997] Áhöfnin á Ásgeiri stóra var yfirleitt dönsk að mestu[1998] en Árni Riis frá Ísafirði var þó skipstjóri þar um borð á árunum 1913-1915.[1999] Hann var kjörsonur Jörgens Michaels Riis á Ísafirði sem varð forstjóri Ásgeirsverslunar haustið 1912 og eiginkonu hans, Maríu Ásgeirsdóttur, en hún var dóttir Ásgeirs kaupmanns Ásgeirssonar hins eldri og systir Ásgeirs G. Ásgeirssonar forstjóra.[2000]

Hér hefur áður verið á það minnst að Ásgeirsverslun hafi á árunum kringum aldamótin 1900 verið eitt stærsta og umsvifamesta fyrirtækið sem þá var starfrækt á landi hér og sum árin að líkindum með mestu veltuna (sjá hér Sólbakki). Þann 1. janúar 1915 voru eignir verslunarinnar virtar á 1.128.124,- krónur en skuldir námu þá 136.018,- krónum[2001] Hrein eign var því 992.106,- krónur. Sigríður Ásgeirsson, ekkja Ásgeirs kaupmanns eldri Ásgeirssonar, var þá enn á lífi og hafði erft Ásgeir G. Ásgeirsson son sinn sem andaðist barnlaus árið 1912.[2002] Hún var því einkaeigandi Ásgeirsverslunar og auk þess átti hún aðrar eignir sem voru virtar á 147.434,- krónur.[2003] Hjá þessari öldruðu konu var því mikill auður saman kominn en hún andaðist vorið 1915, 85 ára að aldri, og hafði þá lengi verið búsett í Kaupmannahöfn. Matsverð skuldlausra eigna Ásgeirsverlunar í byrjun árs 1915 svaraði þá til 8066 kúgilda[2004] eða 954 árslauna verkamanna í Reykjavík sé miðað við 10 tíma vinnu á dag og 300 vinnudaga á ári.[2005] Til samanburðar skal þess getið að á fjárlögum ársins 1916, sem samþykkt voru á Alþingi 1915, var gert ráð fyrir að allar tekjur landssjóðs á þvi ári yrðu rétt liðlega 2.000.000,- króna[2006] svo að skuldlausar eignir Ásgeirsverslunar hafa verið taldar álíka mikils virði og helmingurinn af árstekjum landssjóðs á þeim tíma.

Bókfært verð heildareigna verslunarinnar þann 1. janúar 1915 var reyndar mun hærra en matsverðið eða 1.702.703,- krónur en 1.566.685,- krónur þegar skuldir höfðu verið dregnar frá.[2007] Bókfært verð útibúsins á Flateyri var þá 94.429,- krónur[2008] eða því sem næst 5,5% af heildarupphæðinni. Allar eignir á Flateyri eru taldar þarna með, þar á meðal vörubirgðir og líka salthús sem verslunin átti í Valþjófsdal.[2009]

 

Hér verður nú sagt lítið eitt frá rekstri útibús Ásgeirsverslunar á Flateyri sem starfrækt var frá 1883 til 1918 en þó látið nægja að fjalla nær eingöngu um árin fyrir aldamót því framvinda mála á tuttugustu öld fellur að mestu utan ramma þessarar ritsmíðar. Á árunum 1883-1900 var útibú Ásgeirsverslunar tvímælalaust helsta verslunin á Flateyri því verslunarrekstur Torfa Halldórssonar náði aldrei að verða mjög öflugur (sjá hér bls. 135-138 og 175-178) þó að umsvif hans í þilskipaútgerð væru mikil. Árið 1912 var útibú Ásgeirsverslunar enn langstærsta verslunin á Flateyri[2010] og í þeim efnum mun engin breyting hafa orðið fyrr en það var selt árið 1918. Útibúið á Flateyri mun líka hafa verið hið stærsta af útibúunum sex sem Ásgeirsverslun rak.[2011]

Útibússtjórar Ásgeirsverslunar á Flateyri urðu sex en þeir voru þessir:

 

Torfi Halldórsson 1883-1884,

Jónas Th. Hall 1884-1895,

Sophus Henrik Holm 1895-1903,

Júlíus St. Guðmundsson 1903-1905,

Jón Bachmann 1905-1907 og

Kristján Ásgeirsson 1907-1918.[2012]

 

Frá Torfa hefur þegar verið sagt allrækilega hér að framan en sjálfsagt virðist að kynna hina með örfáum orðum áður en lengra verður haldið.

Jónas Thorsteinsson Hall fæddist í Reykjavík 2. desember 1856,[2013] sonur hjónanna R.P. Hall assistents og Önnu M. Hall.[2014] Til Flateyrar kom Jónas frá Ísafirði[2015] þar sem hann hafði unnið við verslunarstörf. Þegar Jónas fluttist til Flateyrar árið 1884 og tók við starfi útibússtjóra var hann aðeins 27 ára gamall. Hann var þá nýlega kvæntur Jónu Örnólfsdóttur sem var nær sjö og hálfu ári yngri en eiginmaðurinn og kom hún með honum til Flateyrar.[2016] Jóna var dóttir Örnólfs Þorleifssonar, skipstjóra á Ísafirði, og konu hans, Margrétar Jónsdóttur,[2017] en Örnólfur var um skeið, á árunum upp úr 1860, skipstjóri á Lovísu, þilskipi Torfa Halldórssonar á Flateyri og Hjálmars Jónssonar (sjá hér bls. 89).

Fyrsta árið sem Jónas og Jóna Hall bjuggu á Flateyri munu þau hafa átt heima í Gunnlaugshúsi[2018] en síðasta veturinn sem þau voru á Flateyri bjuggu þau í hinu nýja faktorshúsi sem Ásgeirsverslun byggði árið 1894.[2019] Í verslunarbókum útibús Ásgeirsverslunar á Flateyri sést að húsið var byggt árið 1894 og timbrið í það ásamt klæðningu, dyrum og gluggum kostaði 2.200,- krónur.[2020] Heildarkostnaður við byggingu hússins taldist við lok ársins 1894 vera 5.307,38 krónur[2021] en á árinu 1895 bættust við 489,55 krónur.[2022]

Þann 27. apríl 1895 var húsið tekið út og virt á 7.500,- krónur[2023] sem var býsna há upphæð eða sem svaraði nær 70 kúgildum.[2024] Í úttektargerðinni frá vorinu 1895 segir að húsið sé að öllu leyti búið innan, ómálað utan og grunnurinn ósementeraður.[2025] Þar er tekið fram að grunnflötur þessa nýja húss sé 15 x 14 álnir,[2026] það er tæplega 83 fermetrar, en alla nánari lýsingu vantar í úttektargerðina.

Hús þetta var reist á Flateyrarodda, ekki langt frá sölubúð Ásgeirsverslunar en dálítið vestar. Það var upphaflega ein hæð með háu risi.[2027] Húsið stendur enn (1995) á sínum gamla stað[2028] þó nokkuð breytt og er nú tvær hæðir með lágu risi. Á árunum milli 1920 og 1930 komst þetta gamla faktorshús í eigu Kaupfélags Önfirðinga og var lengi notað sem íbúðarhús fyrir kaupfélagsstjórann.[2029] Síðustu árin (ritað 1995) hefur farandverkafólk haft þar aðsetur.[2030]

Með útibússtjórastörfunum rak Jónas Hall svolítinn búskap á Flateyri. Til marks um það má nefna að vorið 1887 var fært frá 16 kindum sem hann átti (sjá hér bls. 192). Hann átti líka bát sem gerður var út á vertíð veturinn 1889 frá verstöðinni í Seljadal á Óshlíð milli Hnífsdals og Bolungavíkur. –  Árni Sigurðsson fór norður með bátinn hans Jónasar og rær honum í Seljadal í vetur,[2031] skrifar Jón búfræðingur Guðmundsson í dagbók sína 5. nóvember 1888 en hann var þá búðarmaður hjá Jónasi svo hér er ekki um að villast. Af störfum Jónasar sem útibússtjóra fer nú fáum sögum en á Flateyri gegndi hann því starfi í ellefu ár. Árið 1895 fluttist hann ásamt fjölskyldu sinni til Ísafjarðar og þar áttu þau heima næstu sjö árin en síðan á Þingeyri í allmörg ár og vann Jónas þar við verslunarstörf.[2032] Þau Jónas Hall og Jóna kona hans eignuðust 12 börn sem fæddust á árunum 1883-1907 og komust upp öll nema eitt.[2033] Að auk átti útibússtjórinn son sem hann hafði eignast fyrir hjónaband.[2034] Jónas andaðist 17. maí 1946[2035] og var þá kominn fast að níræðu.

Sophus Henrik Holm, sem tók við útibússtjórastarfinu af Jónasi Hall árið 1895, kom til Flateyrar frá Ísafirði.[2036] Hann var sonur Vilhelms Johans Holm, sem verið hafði verslunarstjóri í Neðstakaupstað þar í bæ á árunum 1870-1883, en Laura A. Filippia, systir Sophusar, var eiginkona Ásgeirs G. Ásgeirssonar, forstjóra Ásgeirsverslunar.[2037] Þessi mágur forstjórans var fæddur í Skagen á Jótlandi vorið 1858[2038] og var því 37 ára gamall er hann tók við útibússtjórastarfinu á Flateyri árið 1895. Þegar Sophus kom til Flateyrar var hann nýkvæntur.[2039] Kona hans hét Sophie Jörgine Nielsen[2040] og voru þau hjónin bæði dönsk. Sophus var útibússtjóri Ásgeirsverslunar á Flateyri í átta ár, frá 1895 til 1903,[2041] en lét þá af því starfi hver sem ástæðan hefur verið. Hann bjó þó áfram á Flateyri í mörg ár, a.m.k. fram yfir 1920.[2042] Með konu sinni eignaðist Sophus sex börn sem öll fæddust á árunum 1895-1904.[2043] Í sóknarmannatölum frá árunum kringum 1905 er Sophus sagður vera húsmaður á Flateyri.[2044] Eftir 1912 bjó hann alllengi í Gunnlaugshúsi og var um skeið skrifstofumaður hjá Kristjáni Torfasyni á Sólbakka.[2045] Snorri Sigfússon skólastjóri kynntist þessum fyrrverandi faktor á árunum upp úr 1912 og segir að hann hafi aldrei lært að tala íslensku til neinnar hlítar.[2046] Nánar lýsir Snorri honum svo:

 

Sophus Holm var eitt hið mesta snyrtimenni sem ég hefi þekkt. Hann var bláfátækur er hér var komið en kvartaði ekki. Mátti hann þó muna fífil sinn fegri. Og er hann seinna varð að þiggja lítilsháttar hjálp af sveitinni tók hann henni með háttvísi og hafði eigi að síður á sér fyrirmannasnið. Mátti sjá að hann hafði verið alinn upp við fastar venjur og fágaða siði, enda var hann af dönsku fyrirfólki kominn sem nóg mun hafa haft handa á milli á sinni tíð.

Var orð á því gert á Flateyri að „faktor Holm” hefði látið vaða á súðum og lifað hátt meðan hann hafði ráð á því. Því merkilegra var hversu vel hann tók fátæktinni. Sögðu menn að honum sjálfum nægði vel dúkað borð þótt lítill væri á því maturinn og mátti segja að stundum virtist sem nokkuð væri hæft í því. Og sparsamur var hann og nýtinn með afbrigðum eftir að ég kynntist honum.[2047]

 

Snorri getur þess líka að Sophus Holm hafi verið ágætlega laghentur og haft gaman af að smíða leikföng, gervi og grímur fyrir börnin í þorpinu.[2048] Þessi danski herramaður sem um skeið stjórnaði verslunarrekstri á Flateyri náði að verða fjörgamall. Hann dó í Reykjavík 1. júlí 1951.[2049]

Þegar Sophus Holm lét af störfum sem útibússtjóri sendi Ásgeir forstjóri ungan mann frá Kaupmannahöfn til Flateyrar.[2050] Hann hét Júlíus St. Guðmundsson og var aðeins tvítugur að aldri þegar hann var gerður að útibússtjóra á Flateyri árið 1903.[2051] Júlíus gegndi útibússtjórastarfinu í tvö ár en fluttist aftur til Kaupmannahafnar árið 1905.[2052] Á Flateyrarárum sínum var hann einhleypur og bjó í Torfahúsi.[2053]

Næstur tók Jón Bachmann við útibússtjórastarfinu á Flateyri og gegndi því frá 1905 til 1907.[2054] Hann kom til Flateyrar norðan frá Hesteyri, þar sem Ásgeirsverslun var líka með útibú, og var þá 25 ára gamall.[2055] Jón Bachmann var fæddur á Vatneyri við Patreksfjörð 2. nóvember 1880 en foreldrar hans voru Sigurður Bachmann, kaupmaður þar, og kona hans María Guðbjörg Eiríksdóttir.[2056] Tvítugur að aldri fluttist Jón frá Vatneyri til Reykjavíkur og var þá orðinn verslunarþjónn.[2057] Fáum árum síðar réðst hann í þjónustu Ásgeirsverslunar og gerðist verslunarmaður við útibú hennar á Hesteyri eigi síðar en 1903.[2058] Þaðan kom Jón til Flateyrar árið 1905 eins og hér var áður nefnt.

Þau tvö ár sem Jón Bachmann stýrði rekstri útibúsins á Flateyri bjó hann með systur sinni, Maríu Guðbjörgu Bachmann, sem kom til Flateyrar frá Kaupmannahöfn árið 1905.[2059] Hún var þremur árum yngri en Jón bróðir hennar.[2060]

Síðasti útibússtjóri Ásgeirsverslunar á Flateyri var Kristján Ásgeirsson sem tók við starfinu árið 1907 og gegndi því allt þar til fyrirtækið var selt árið 1918 og síðan áfram hjá nýjum eigendum og undir öðru nafni.[2061] Kristján var fæddur á Skjaldfönn í Nauteyrarhreppi við Djúp 21. febrúar 1877, sonur Ásgeirs Ólafssonar bónda þar og konu hans Steinunnar Jónsdóttur.[2062] Hann réðst ungur til starfa hjá Ásgeirsverslun[2063] og var verslunarmaður á Ísafirði árið 1901.[2064] Þaðan kom hann til Flateyrar árið 1907 og tók við stjórn útibúsins.[2065] Kona Kristjáns var Þorbjörg Guðmundsdóttir frá Höll í Haukadal í Dýrafirði, fædd 1873, og voru þau gefin sam haustið 1900.[2066]

Snorri Sigfússon, sem var skólastjóri á Flateyri frá 1912 til 1929, var allvel kunnugur Kristjáni og hefur ritað um hann á þessa leið:

 

Hann sat um tíma í hreppsnefnd og var um skeið oddviti hennar. Hann var einn af stofnendum sparisjóðs Önfirðinga og í stjórn hans um tíma, í skólanefnd var hann, skattanefnd, kjörstjórn og fleiri nefndum. Átti hann þar sæti um lengri eða skemmri tíma og alls staðar var hann mikill ráðamaður, því að hann skorti hvorki greind, kapp né metnað til þess að láta að sér kveða, enda hafði hann mikla ánægju af opinberum störfum og vildi hvarvetna láta gott af sér leiða.

Og við sjálfan „faktorinn” urðu menn ekki mikið varir þótt hollustu við húsbónda sinn yrði hann að sjálfsögðu að rækja svo sem skyldugt var.

Kristján Ásgeirsson hafði talsvert vín um hönd og hafði af því ánægju. En vínneyslu hans var í hóf stillt og einkum þótti honum gaman að gleðja aðra með einu og einu staupi er honum voru kunnugir og kærir.[2067]

 

Þau Kristján og Þorbjörg kona hans eignuðust tíu börn sem fæddust á árunum 1902-1917.[2068] Á Flateyri bjuggu þau í faktorshúsinu er svo var nefnt[2069] en fluttust síðar til Reykjavíkur og þar andaðist Kristján árið 1965.[2070]

Af sóknarmannatölum úr Holtsprestakalli má ráða að á árunum 1883-1903 hafi einn til þrír verslunarmenn oftast verið starfandi við útibú Ásgeirsverslunar á Flateyri auk útibússtjórans og á þessum 20 árum réðust a.m.k. 12 menn til almennra verslunarstarfa hjá útibúinu. Úr þeim hópi er fyrst að nefna þá Gunnlaug J. Oddsen og Matthías Ólafsson sem báðir unnu hjá Ásgeirsverslun á Flateyri frá 1883 til 1884 undir stjórn Torfa Halldórssonar.[2071] Gunnlaugur hafði áður starfað við verslun Hjálmars Jónssonar á Flateyri og hér er frá honum sagt á öðrum stað (sjá hér bls. 111-112). Um Matthías Ólafsson frá Haukadal í Dýrafirði sem síðar varð umsvifamaður þar hefur líka verið fjallað annars staðar á þessum blöðum og verður hér látið nægja að vísa til þess sem þar var ritað (sjá hér bls. 175-176 og Haukadalur). Þó skal minnt á að Matthías settist að á Flateyri í annað sinn árið 1889 og dvaldist hér að því sinni í eitt ár eða liðlega það en mun þá ekki hafa unnið hjá Ásgeirsverslun.

Árið 1884 tók Jónas Th. Hall við stjórn útibúsins og á því ári virðast þrír aðrir menn hafa verið ráðnir þar til starfa.[2072] Sá eini þeirra sem kominn var af unglingsaldri var Páll Guðlaugsson, er fæddur var á Hóli á Hvilftarströnd 22. júní 1850, en hann er sagður verslunarþjónn í sóknarmannatali frá 31.12.1884.[2073] Páll settist að á Flateyri ásamt konu sinni, Málfríði Rósinkranzdóttur frá Tröð í Önundarfirði, þegar hann fór að vinna við verslunina (sbr. hér bls. 160-161) en næstu ár á undan höfðu þau átt heima í Tröð. Í hreppsbók Mosvallahrepps er Páll sagður vera skipstjóri í Tröð árið 1883[2074] en ekki er kunnugt um að hann hafi síðar stýrt þilskipi til veiða. Við verslunarstörf mun Páll aðeins hafa unnið í tvö ár, frá 1884 til 1886[2075] en seinna er hann stundum nefndur smiður[2076] og þegar hann dó, 17. febrúar 1896, segir prestur hann hafa verið söðlasmið og húseiganda á Flateyri..[2077]

Ungu piltarnir tveir sem réðust til starfa hjá Jónasi Th. Hall, útibússtjóra Ásgeirsverslunar á Flateyri, árið 1884, hétu Arnór Árnason og Kristján Guðmundsson.[2078] Arnór kom með Jónasi frá Ísafirði og var aðeins eitt ár á Flateyri.[2079] Hann fluttist aftur til Ísafjarðar árið 1885 og þá segir presturinn í Holti hann vera 18 ára.[2080] Kristján Guðmundsson, sem einnig hóf störf hjá Ásgeirsverslun á Flateyri árið 1884, var þá aðeins 16 eða 17 ára.[2081] Í sóknarmannatalinu frá því ári er hann reyndar sagður vera Jónsson en við húsvitjun í desembermánuði árið 1886 er strikað yfir Jónsson og pilturinn sagður vera Guðmundsson sem rétt var.[2082] Kristján vann sem verslunarþjónn hjá útibúi Ásgeirsverslunar á Flateyri frá 1884 til 1888. Hann var fæddur á Mosvöllum 7. nóvember 1867, sonur Guðmundar Jónssonar, er síðar bjó í Fremri-Breiðadal og á Kaldá (sjá hér Fremri-Breiðadalur), og konu hans Rannveigar Guðlaugsdóttur.[2083] Hann var systursonur Páls Guðlaugssonar sem einnig hóf störf hjá verslunarútibúinu á Flateyri árið 1884.[2084] Árið 1888 fluttist Kristján frá Flateyri til Geirseyrar við Patreksfjörð og þar dó hann 26 ára gamall sumarið 1894, sagður verslunarstjóri.[2085]

Árið 1886 kom Emil Hall til starfa hjá útibúi Ásgeirsverslunar á Flateyri[2086] og mun hafa tekið við af Páli Guðlaugssyni. Hann kom til Flateyrar á því ári og er sagður 42ja ára í manntalinu frá 1890.[2087] Emil fæddist í Reykjavík 4. september 1848 og hét fullu nafni Theódór Emil Hall.[2088] Hann var bróðir Jónasar Th. Hall, verslunarstjóra á Flateyri,[2089] sem hér var áður gerð grein fyrir. Faðir þeirra var danskur maður sem átti alllengi heima í Reykjavík og hét Rasmus Peter Hall.[2090] Þar var hann ýmist verslunarstjóri, verslunarþjónn eða verslunarskrifari.[2091] Móðir þeirra, Anna M. Hall, mun líka hafa verið dönsk eða hálfdönsk því meyjarnafn hennar var Nordgaard en hún var fædd í Hafnarfirði.[2092]

Emil Hall var við verslunarstörf í Reykjavík árið 1875 og kvæntist á því ári stúlku sem hét Anna María Jóhannsdóttir og var nokkrum árum yngri en hann.[2093] Hún var fædd í Útskálasókn á Suðurnesjum.[2094] Þau Emil Hall og Anna kona hans bjuggu árið 1875 í Ingólfsbrekku í Reykjavík[2095] en munu síðar hafa verið um skeið á Suðurnesjum því að dóttir þeirra, sem var 5 ára gömul árið 1890, er í manntali frá því ári sögð fædd í Útskálasókn.[2096]

Þess var áður getið að Emil Hall fluttist til Flateyrar árið 1886 og var þá ráðinn til starfa hjá Jónasi bróður sínum sem stjórnaði rekstri Ásgeirsverslunar hér. Fjölskylda Emils fylgdi honum vestur. Fyrstu tvö árin bjuggu þau hjá Jónasi[2097] en 7. nóvember 1888 settust þau að í Sveinshúsi.[2098] Þá var Sveinn Rósinkranzson, sem byggt hafði húsið átta árum fyrr, að flytjast þaðan að Hvilft.[2099] Emil Hall starfaði sem verslunarmaður á Flateyri í 5 ár en fluttist burt árið 1891.[2100]

Haustið 1888 var Jón Guðmundsson búfræðingur ráðinn til starfa hjá útibúi Ásgeirsverslunar á Flateyri.[2101] Hér hefur áður verið gerð grein fyrir Jóni sem lengi var bóndi á Ytri-Veðrará (sjá hér bls. 191 og Ytri-Veðrará) en hann hafði flust til Flateyrar sunnan úr Dalasýslu vorið 1887 og var þá 22ja ára gamall. Fyrstu fimmtán mánuðina í Önundarfirði vann Jón sem búfræðingur og við önnur störf hjá Torfa Halldórssyni og bjó þá á heimili hans í Torfahúsi á Flateyri. Þann 16. september 1888 varð breyting á og þann dag ritar hinn ungi búfræðingur í dagbók sína þessi orð: … færði ég mig frá Torfa Halldórssyni til Jónasar Th. Hall og verð hjá honum búðarmaður í vetur.[2102]

Svo virðist sem Jón hafi tekið við störfum í búðinni af Kristjáni Guðmundssyni, er hér var áður nefndur, en hann hætti einmitt og fluttist burt árið 1888. Í sóknarmannatalinu frá 31.12.1888 sjáum við að Jón búfræðingur bjó þá á heimili Jónasar Th. Hall og er sagður vera búðarmaður.[2103] Jón vann við verslunarstörf hjá Ásgeirsverslun á Flateyri í tvö ár eða þar um bil[2104] (sbr. hér Ytri-Veðrará) og í dagbók hans frá vetrinum 1888-1889 má sjá eitt og annað sem tengist starfi hans í búðinni og því sem þar var um að vera.

Þann 28. nóvember kom S. Louise, flutningaskip Ásgeirsverslunar, með vörur til Flateyrar. – Kom S. Lovísa inn, Hafnarskip Ásgeirs Ásgeirssonar, skrifar Jón Guðmundsson frá Grafargili í dagbók sína þennan dag.[2105] Nafni hans, Jón Guðmundsson búfræðingur og búðarmaður, getur líka um þessa sömu skipskomu í sinni dagbók og nefnir skipið Lovísu.[2106] Nú vill svo til að á þessum tíma átti Ásgeirsverslun bæði 120 rúmlesta skip sem hét S. Louise og 147 rúmlesta skip sem hét Lovise.[2107] Bæði voru fraktskip en líklega hefur það verið hið fyrrnefnda sem kom til Flateyrar nefndan dag fyrst Jón frá Grafargili setur S-ið fyrir framan Lovísunafnið.

Í þetta sinn urðu þó nokkrar tafir  á upp- og útskipun vegna veðurs og var skipið á Flateyri til 14. desember.[2108] Þann 15. desember segir Jón mikla ös hafa verið í búðinni og þann dag komu bæði Dalmenn og Sandmenn.[2109] – Ég var í búðinni fram yfir miðjan dag, svo hélt ég heilagt, skrifar búfræðingurinn í dagbók sína á aðfangadag jóla.[2110] Þann 15. febrúar var mikið að gera hjá búðarmanninum og lýsir hann því svo: Það var gróf ös, ég mátti vera bæði úti og inni.[2111] Í lok febrúar var póstur sendur til Ísafjarðar og greinir Jón frá á þessa leið: Páll Torfason sendi Sigga Jóhannsson með póstbréfin í dag en Jónas ætlar að senda Gvend Sveinsson á morgun.[2112] Þess má geta að Siggi Jóhannsson, sem sendur var með póst yfir Breiðadalsheiði, mun vera Sigurður Jóhannsson, er margir nefndu Sigurð skurð, en árið 1889 var hann húsmaður á Eyri. Á góunni þennan sama vetur komu svo bændur úr Staðardal í Súgandafirði til Flateyrar og voru á tveimur skipum.[2113] Þeir voru í kaupstaðarferð og nefnir búðarmaðurinn tvo þeirra með nafni, Jón Ólafsson á Stað og Guðmund Jónsson í Vatnadal,[2114] en þeir voru báðir Önfirðingar að uppruna.[2115]

Eins og var getið hætti Jón búfræðingur störfum hjá útibúi Ásgeirsverslunar á Flateyri þegar leið á árið 1890 og 1891 hætti líka Emil Hall. Á því ári kom nýr maður til starfa hjá útibúinu og var það Þórður Jóhann Jensson, fæddur 2. júlí 1867 í Geirsbæ í Reykjavík.[2116] Þórður kom til Flateyrar frá Ísafirði en þar hafði hann unnið við verslunarstörf um nokkurt skeið. Haustið 1890 átti hann heima í Árnahúsi á Ísafirði og er í manntali sem þá var tekið sagður vera verslunarþjónn.[2117] Við útibú Ásgeirsverslunar á Flateyri starfaði hann óslitið í 5 ár, frá 1891 til 1896, og vorið 1895 kvæntist hann tvítugri stúlku í Önundarfirði, Ingibjörgu Guðrúnu Guðbjartsdóttur.[2118] Með konu sinni eignaðist Þórður eina dóttur sem varð húsfreyja á Ísafirði.[2119] Í húsvitjanabók séra Janusar í Holti er Þórður nefndur assistent og þar má sjá að fyrsta árið sitt á Flateyri bjó hann hjá Jónasi Th. Hall, útibússtjóra Ásgeirsverslunar.[2120] Árið 1896 virðist Þórður hafa hætt verslunarstörfum því við lok þess árs er hann nefndur húsmaður í sóknarmannatali[2121] en 1897 varð hann verslunarmaður á ný.[2122] Þórður J. Jensson andaðist á Flateyri 7. febrúar 1898, rétt liðlega þrítugur að aldri.[2123]

Árið 1894 var Jens Albert Guðmundsson búfræðingur ráðinn til starfa hjá verslunarútibúinu á Flateyri.[2124] Hann fluttist til Önundarfjarðar fjórum árum fyrr og hafði þá lokið námi við búnaðarskólann í Ólafsdal.[2125] Jens var fæddur að Broddadalsá í Strandasýslu 27. febrúar 1864, sonur Guðmundar Magnússonar bónda og seinni konu hans, Önnu Margrétar Jónsdóttur frá Litlu-Ávík í Árneshreppi á Ströndum.[2126] Eiginkonu sinni, Margréti Magnúsdóttur, kvæntist Jens haustið 1894[2127] en hún var dóttir Magnúsar á Ísafirði Arnórssonar, prests í Vatnsfirði Jónssonar.[2128] Veturinn 1893-1894 var Margrét barnakennari á Þorfinnsstöðum og í heimild frá 15. október 1893 er hún sögð vera kærasta Jens Guðmundssonar.[2129] Þau Jens og Margrét eignuðust átta börn, öll fædd á árunum 1895-1905,[2130] og komust a.m.k. sex þeirra upp.[2131]

Jens Guðmundsson starfaði sem verslunarmaður hjá útibúi Ásgeirsverslunar á Flateyri í 9 ár, lengur en nokkur annar ef frá eru taldir verslunarstjórarnir Jónas Th. Hall og Kristján Ásgeirsson.[2132] Síðustu árin sem hann vann við verslunarstörf á Flateyri er hann nefndur bókhaldari.[2133] Jens hætti störfum hjá Ásgeirsverslun árið 1903 og gerðist bóndi. Árið 1906 fluttist hann ásamt fjölskyldu sinni frá Hóli í Firði til Þingeyrar[2134] og þar var hann kaupmaður í nokkur ár (sjá Firðir og fólk 1900-1999, 203). Hann drukknaði 26. maí 1919 og var þá enn búsettur á Þingeyri.[2135]

Þegar Sophus Holm tók við útibússtjórastarfinu á Flateyri árið 1895 voru tveir almennir verslunarmenn starfandi við útibúið, þeir Þórður J. Jensson og Jens Guðmundsson. Sophus bætti þó strax þriðja manninum við, 14 ára pilti frá Ísafirði sem hét Tryggvi Jóakimsson.[2136] Tryggvi vann við verslunina á Flateyri í tvö ár, 1895-1897, en fluttist að þeim tíma liðnum aftur til Ísafjarðar.[2137] Á árunum 1900-1906 var hann í siglingum á erlendum kaupskipum og við störf í Bandaríkjunum frá 1906 til 1917.[2138] Seinna var hann mjög lengi kaupmaður og breskur konsúll á Ísafirði.[2139] Móðir Tryggva Jóakimssonar og Ásgeir G. Ásgeirsson, forstjóri Ásgeirsverslunar, voru systkinabörn.[2140]

Árið 1897 hóf Eiríkur Brynjólfur Finnsson störf hjá Ásgeirsverslun á Flateyri[2141] og virðist hafa tekið við af Tryggva Jóakimssyni. Eiríkur var þá liðlega tvítugur, fæddur 8. nóvember 1875.[2142] Hann var sonur Finns Eiríkssonar, bónda á Kirkjubóli í Valþjófsdal, og Guðnýjar Guðnadóttur, konu hans.[2143] Eiríkur vann við verslunarstörf á Flateyri í tvö ár, 1897-1899, og var því enn verslunarmaður á Flateyri þegar hann kvæntist Jóhönnu Hjálmarsdóttur þann 18. febrúar 1899.[2144] Veturinn 1897-1898 bjó hann á heimili Sophusar Holm útibússtjóra og er þá sagður vera verslunarmaður[2145] svo fullvíst má telja að hann hafi unnið hjá Ásgeirsverslun. Árið 1899 mun Eiríkur hafa hætt verslunarstörfum því að í sóknarmannatali sem skráð var í desember á því ári er hann sagður vera húsmaður á Flateyri.[2146] Árið 1901 fluttist hann frá Flateyri til Ísafjarðar og þar var hann orðinn utanbúðarmaður 1. nóvember á því ári.[2147] Eiríkur bjó síðan alla tíð á Ísafirði og var þar m.a. verkstjóri og fiskimatsmaður.[2148] Fyrri konu sína, Jóhönnu Hjálmarsdóttur, missti hann vorið 1905 en kvæntist aftur sumarið 1911 Kristínu Sigurlínu Einarsdóttur frá Hríshóli í Reykhólasveit.[2149] Með henni eignaðist hann sex börn sem öll komust upp.[2150] Árið sem lýðveldi var stofnað á Íslandi var Eiríkur Brynjólfur Finnsson sæmdur riddarakrossi af fálkaorðunni[2151] en tólf árum síðar safnaðist hann til feðra sinna.[2152]

Síðasti verslunarmaðurinn sem ráðinn var til starfa við útibú Ásgeirsverslunar á Flateyri fyrir aldamótin 1900 var Guðmundur Snorri Björnsson sem gerðist verslunarmaður hjá Sophusi Holm árið 1899.[2153] Guðmundur Snorri fæddist árið 1863 eða því sem næst í Þingeyrasókn í Húnavatnssýslu.[2154] Kona hans, Ingunn Sigríður Jónsdóttir, var fædd í Skagafirði[2155] en á árunum kringum 1890 voru þau búsett í Reykhólasveit um alllangt skeið.[2156] Vorið 1895 fluttust þau Guðmundur Snorri og Ingunn kona hans úr Reykhólasveit í Dýrafjörð.[2157] Ári síðar settust þau að á Flateyri og komu þá frá Gemlufalli í Dýrafirði.[2158] Séra Janus í Holti segir árið 1896 að Guðmundur Snorri sé söðlasmiður[2159] og það atvinnuheiti fylgir líka nafni hans í manntalinu frá 1901.[2160] Í sóknarmannatölum frá árunum 1899-1902 er hann hins vegar alltaf sagður vera verslunarmaður á Flateyri[2161] og má því gera ráð fyrir að hann hafi unnið hjá útibúi Ásgeirsverslunar í fjögur ár. Árið 1903 fluttust Guðmundur Snorri, Ingunn kona hans og synir þeirra þrír frá Flateyri til Ísafjarðar.[2162]

Þegar Sophus Holm hætti störfum sem útibússtjóri Ásgeirsverslunar á Flateyri árið 1903 urðu þar mikil umskipti því báðir verslunarmennirnir sem unnið höfðu með Sophusi síðustu árin, þeir Jens A. Guðmundsson og Guðmudur Snorri Björnsson, hættu líka. Næstu fimm árin virðist enginn verslunarmaður hafa verið fastráðinn hjá útibúinu[2163] nema útibússtjórarnir sem hér voru áður nefndir (sjá hér bls. 251).

Greinilegt er að mikill samdráttur hefur orðið í öllum rekstri Ásgeirsverslunar á Flateyri á árunum 1902-1904 og er þar að leita skýringanna á þessari miklu fækkun í starfsliðinu. Ástæðurnar fyrir minnkandi umsvifum í rekstri útibúsins á Flateyri voru tvenns konar, endalok hákarlaveiðanna sem frá er sagt á öðrum stað í þessu riti (sjá hér bls. 273-274) og sókn Bergs Rósinkranzsonar á verslunarsviðinu. Til marks um hana má nefna að árið 1899 var Bergur aðeins með tæpan fimmtung af samanlögðum vöruinnflutningi þessara tveggja verslana á Flateyri[2164] en árið 1903 var þessi hlutfallstala Bergs komin upp í nær 53% og hann orðinn stærri innflytjandi en útibú Ásgeirsverslunar.[2165] Árið 1904 herti Bergur enn sóknina og náði á því ári að verða með nær 59% af samanlögðum innflutningi þessara tveggja verslana en Ásgeirsverslun fór niður í 41%.[2166]

Sömu sögu er að segja af útflutningnum. Árið 1899 var Bergur aðeins með örlítið brot af útflutningi útibús Ásgeirsverslunar á Flateyri.[2167] Árið 1903 flutti hann hins vegar út afurðir fyrir 9.518,- krónur en allt sem útibúið sendi frá sér var þá verðlagt á 1.802,37 krónur.[2168] Þetta ár var það Bergur sem sendi hákarlalýsið frá Flateyri á erlendan markað[2169] en þá var hákarlaútgerðin að syngja sitt síðasta, enda hafði verðið á lýsinu verið lágt um langan tíma (sjá hér bls. 171-175 og bls. 273-274).

Ásgeirsverslun á Flateyri átti hins vegar eftir að rétta úr kútnum og árið 1912 var hún enn á ný orðin langstærsta verslunin á Flateyri (sjá hér bls. 274). Fyrsta ár Kristjáns Ásgeirssonar sem útibússtjóra, árið 1907-1908, var hann einn við verslunarstörfin eins og tíðkast hafði næstu fjögur ár á undan en árið 1908 kom til starfa hjá Kristjáni ungur maður sem  hét Pétur Valdimarsson Snæland.[2170] Hann var þá 25 ára gamall og kom til Flateyrar frá Ísafirði þetta sama ár. Pétur var Eyfirðingur, fæddur í Samtúni í Glæsibæjarhreppi 19. febrúar 1883.[2171] Hann var verslunarmaður á Flateyri frá 1908 til 1910 en fluttist þá til Reykjavíkur.[2172] Við starfi hans á Flateyri tók Snorri Sturluson, sem hét reyndar fullu nafni Guðjón Snorri og var fæddur á Ísafirði 6. júní 1895. Í sóknarmannatali frá 31. desember 1910 er hann sagður vera 15 ára búðarsveinn á Flateyri[2173] Foreldrar Snorra voru Sturla Friðrik Jónsson frá Sveinseyri í Dýrafirði og kona hans, Arnfríður Ásgeirsdóttir frá Kleifum í Seyðisfirði við Djúp.[2174] Sturla var lengi skipstjóri og fiskimatsmaður hjá Ásgeirsverslun á Ísafirði[2175] en Snorri sonur hans varð að lokum skrifstofumaður í Reykjavík og andaðist þar, þrítugur að aldri og nýlega kvæntur, árið 1925.[2176]

 

Á árunum 1884-1900 var útibú Ásgeirsverslunar stundum eina verslunin á Flateyri og alltaf sú stærsta. Fyrsti keppinauturinn var Torfi Halldórsson, þá Íslenska útflutningsfyrirtækið, sem að vísu starfaði aðeins í eitt ár, og svo Bergur Rósinkranzson sem byrjaði að versla árið 1897 (sjá hér bls. 291-295). Hjá verslun Torfa voru umsvifin mest árið 1892. Hann var þá með um 25% af vöruinnflutningi beggja verslananna á Flateyri en Ásgeirsverslun með um 75% (sjá hér bls. 176-177). Torfi átti þá röskan helming af öllu hákarlslýsinu sem sent var frá Flateyri til annarra landa en var með engan annan útflutning.[2177] Á útflutningssviðinu hefur Ásgeirsverslun því líka verið öflugri en keppinauturinn.

Árið 1893 komst útibú Ásgeirsverslunar á Flateyri næst því að tapa forystunni sé aðeins litið á árin fyrir aldamót. Á því ári var Íslenska útflutningsfyrirtækið, sem hér er sagt frá á öðrum stað, með þriðjung af útflutningnum frá Flateyri og um 54% af innflutningnum (sjá hér bls. 210). Það ár var útibú Ásgeirsverslunar því aðeins með röskan helming af sameiginlegri veltu þessara tveggja fyrirtækja en þau voru þá einu verslunarfyrirtækin á Flateyri.

Á árunum 1897-1904 og líka á næstu árum þar á eftir var það Bergur Rósinkranzson sem keppti við Ásgeirsverslun á Flateyri. Frá verslunarrekstri hans er sagt hér á öðrum stað (sjá hér bls. 291-295).

Í bók sinni Aldarfar og örnefni í Önundarfirði segir Óskar Einarsson læknir að árið 1885 hafi útibú Ásgeirsverslunar á Flateyri flutt inn vörur fyrir 34.922,52 krónur en andvirði útfluttra vara, að frádregnum tollum og umbúðum, hafi numið 29.958,39 krónum.[2178] Svo virðist sem Óskar hafi sínar tölur úr gögnum Ásgeirsverslunar og má heita að útflutningstölur hans komi heim við það sem segir í hinum opinberu verslunarskýrslum.[2179] Samkvæmt verslunarskýrslunum var innflutningurinn hins vegar svolítið meiri en fram kemur hjá Óskari og munar þar 2.412,- krónum.[2180] Fram skal tekið að innflutningsverðið, sem upp er gefið í hinum opinberu verslunarskýrslum, er áætlað söluverð út úr búð á hinum innflutta varningi.[2181] Hér verður nú litið á þrjú ár, 1885, 1895 og 1899, og athugað hvað andvirði vöruinnflutnings Ásgeirsverslunar til Flateyrar, sem upp er gefið í verslunarskýrslunum, nam mörgum kúgildum hvert ár og mörgum daglaunum fyrir það sem nefnt var dagsverk um heyannir í hinum opinberu verðlagsskrám. Niðurstaða slíkrar könnunar er þessi:

Árið 1885 var andvirði innflutningsins 37.334,78 krónur sem svaraði til 340 kúgilda en 15.428 daglauna fyrir dagsverk um heyannir.[2182] Árið 1895 flutti Ásgeirsverslun á Flateyri inn vörur fyrir 63.099,35 krónur sem svaraði til 583 kúgilda en 24.269 daglauna fyrir dagsverk um heyannir.[2183] Árið 1899 nam andvirði vöruinnflutnings þessa sama fyrirtækis 54.365,- krónum sem svaraði til 508 kúgilda en 21.320 daglauna fyrir dagsverk um heyannir.[2184] Til fróðleiks skal þess svo getið að árið 1900 var gert ráð fyrir að tekjur af rekstri Ásgeirsverslunar á Flateyri yrðu 2.500,- krónur á því ári[2185]

Skylt er að taka fram að tölurnar sem sýna heildarverðmæti innflutningsins eru að líkindum ekki alveg hárnákvæmar, m.a. vegna þess að skýrslurnar sem byggt er á eru örlítið götóttar. Engu verulegu getur þó skeikað nema gert sér ráð fyrir fölsunum. Við mat á tölunum hér að framan er vert að hafa í huga að árið 1885 var Ásgeirsverslun ein með verslunarrekstur á Flateyri ef marka má hinar opinberu skýrslur, árið 1895 var hún með 92,5% af heildarinnflutningnum til Flateyrar og árið 1899 með 80,7%.[2186]

Hinar tölulegu upplýsingar sem hér hafa verið birtar sýna meðal annars að milli áranna 1885 og 1895 jókst verðmæti heildarinnflutnings á vörum til Flateyrar um nær 70% í krónum talið og álíka mikið ef mælt er á föstu verðlagi. Samt er innflutningur til hvalveiðistöðvarinnar á Sólbakka, sem hóf rekstur árið 1889, ekki með í þessum tölum en í verslunarskýrslum er ekkert getið um hann fyrr en 1896 en þá og á næstu árum þar á eftir er sá innflutningur flokkaður sér í skýrslunum. Athygli vekur að árið 1885 nam allur vöruinnflutningurinn til Flateyrar aðeins sem svaraði andvirði 15.428 dagsverka um heyannir en slíkt dagsverk var þá virt á 2,42 krónur.[2187] Sé gert ráð fyrir 300 slíkum vinnudögum á ári ætti greiðsla fyrir 51 ársverk því að hafa dugað til að kaupa upp allt sem inn var flutt af erlendum vörum en íbúar á verslunarsvæðinu munu þó hafa verið um eða yfir 700 (sjá hér bls. 105. Sbr.Hagskinna 1997, 68-69). Alkunnugt er að neysla alls almennings byggðist að mjög verulegu leyti á sjálfsþurftarbúskap á fyrri tíð og svo var enn á síðustu áratugum 19. aldar. Í raun mun þó hafa þurft talsvert fleiri ársverk meðalmanna en þau 51 sem hér voru nefnd til að standa undir kaupum á öllum þeim varningi sem fluttur var frá útlöndum til Flateyrar árið 1885. Skýringin á því er sú að enda þótt greiddar væru 2,42 krónur fyrir dagsverk um heyannir þá voru daglaunin að jafnaði mun lægri á öðrum tímum ársins. Nærri lætur að ársverk vinnumanna væri metið á 400,- krónur á þessum árum.[2188] Af þeirri upphæð fékk vinnumaðurinn um það bil fjórðung borgaðan út en allt hitt fór í kostnað við föt hans og fæði sem húsbændurnir lögðu til.[2189] Störf vinnukvenna voru jafnan lægra metin en störf karlmannanna og mun ársverk þeirra hafa verið virt á 250,- til 300,- krónur á árunum um og upp úr 1880 en af þeirri fjárhæð voru aðeins 30,- til 50,- krónur borgaðar út og jafnvel minna.[2190] Með vísun til þess sem hér hefur nú verið dregið fram sýnist ekki fjarri lagi að meta ársverk hvers meðalmanns, karla og kvenna, á 340,- krónur. Sé miðað við þá tölu verður niðurstaðan sú að þurft hafi andvirði um það bil 100 ársverka til að standa undir kaupum á öllum þeim erlenda varningi sem skipað var í land á Flateyri árið 1885.

Sé litið nánar á erlendu vörurnar sem komu til Flateyrar árið 1885 vekur athygli að þetta ár hefur innflutningur á kolum numið 1700 skippundum (272 tonnum)[2191] sem er margfalt meira en svarar til meðalinnflutnings á ári á þessum tíma. Þetta voru því margra ára birgðir sem sést best á því að næstu fimm árin voru aðeins flutt inn til Flateyrar 532 skippund af kolum samtals[2192] eða liðlega 106 skippund á ári að jafnaði. Þetta er nauðsynlegt að hafa í huga þegar skoðuð er skipting heildarinnflutningsins í vöruflokka árið 1885. Sú skipting var sem hér segir:

 

Innflutningur Ásgeirsverslunar til Flateyrar árið 1885

 

–  skipting í vöruflokka  –

 

Vörur                                                     Kr.                % af heild

1… Kornvörur ……………………………..  7.610,00 …………  20,38

2… Kaffi og sykur ………………………..  5.646,25 …………  15,12

3… Tóbak og áfengir drykkir …………  3.546,88 …………..  9,50

4… Fatnaður og álnavara ………………  3.610,00 …………..  9,67

5… Búsgögn o.fl. til heimilsnota ……  2.401,00 …………..  6,43

6… Kol og annað eldsneyti ……………  9.350,00 …………  25,05

7… Kaðlar og færi ………………………..  1.318,55 …………..  3,53

8… Timbur, ljáir, járn og járnvörur ..  1.772,10 …………..  4,75

9… Ýmislegt ……………………………….  2.080,00 …………..  5,57

Samtals    37.334,78              100,00[2193]

 

Af kornvörunum var mest flutt inn af rúgi eða 10.000 kíló en næstum jafnmikið af bankabyggi eða 9.800 kíló en 3.000 kíló af hrísgrjónum.[2194] 1794 ½ kíló voru flutt inn af kaffibaunum og 2685 ½ kíló af kandíssykri en langtum minna af öðrum sykurtegundum.[2195] Tóbakið sem flutt var inn skiptist þannig að af neftóbaki komu 200 kíló en 202 kíló af munntóbaki og svo 6000 stykki af vindlum.[2196] Brennivínspottarnir sem komu til Flateyrar árið 1885 voru 2031 en af öli komu bara 75 pottar.[2197] Tvær saumavélar voru fluttar inn þetta sama ár, 120 ljáir, 10 lampar og gluggagler fyrir 40,- krónur.[2198]

Sem dæmi um söluverð erlendra vara á Flateyri árið 1885 má nefna að 50 kíló af rúgi kostuðu 9,- krónur, 50 kíló af bankabyggi 13,- krónur, 50 kíló af hrísgrjónum 13,- krónur, kíló af kaffibaunum 1,20 krónur, kíló af kandíssykri 80 aura, kíló af neftóbaki 3,- krónur, 10 vindlar 65 aura, kíló af munntóbaki 4,- krónur, brennivínspotturinn 85 aura en ölpotturinn 30 aura og ljár í orfið 1,10 krónur.[2199]

Varasamt er að draga mjög víðtækar ályktanir af tölulegum upplýsingum sem aðeins ná til eins árs og hér verður því bætt við álíka fróðleik um innflutning Ásgeirsverslunar til Flateyrar árið 1895, tíu árum síðar. Það ár skiptist innflutningurinn í vöruflokka með þeim hætti sem hér segir:

 

Innflutningur Ásgeirsverslunar til Flateyrar árið 1895

 

 • skipting í vöruflokka –

 

Vörur                                                     Kr.                % af heild

1…… Kornvörur …………………………  11.747,85 …………  18,62

2…… Kaffi og sykur ……………………..  9.744,00 …………  15,44

3…… Salt …………………………………….  6.800,00 …………  10,78

4…… Tóbak og áfengir drykkir ………  8.973,00 …………  14,22

5…… Fatnaður og álnavara ……………  7.350,00 …………  11,65

6…… Búsgögn o.fl. til heimilsnota …  1.908,00 …………..  3,02

7…… Kol, steinolía, annað eldsneyti

…….. og ljósmeti ………………………….  3.164,50 …………..  5,02

8…… Kaðlar, seglgarn og færi ……….. 2.930,00 …………..  4,64

9…… Járn, járnvörur og ljáir ………….  7.344,00 …………  11.64

10…. Ýmislegt …………………………….  3.138,00 …………..  4,97

Samtals    63.099.35              100,00[2200]

 

Við skoðun á þessum tölum er rétt að hafa í huga að árið 1895 var Ásgeirsverslun með 92-93% af heildarinnflutningi erlendra vara til Flateyrar (sjá hér bls. 261). Í skýrslunni sem Sophus Holm, útibússtjóri á Flateyri, sendi sýslumanni tekur hann fram að auk þess sem hér er talið hafi verslunin fengið eitthvað af vörum frá Ísafirði[2201] en ekki mun nú vera unnt að sjá hversu mikið það var.

Af kornvörum var mest flutt inn af brauði árið 1895 eða 17.500 kíló en af bankabyggi komu 12.500 kíló og 11.750 kíló af rúgmjöli.[2202] Innflutningur á kaffibaunum nam þetta ár 2.000 kílóum og af kandíssykri komu 5.250 kíló en aðeins 1.850 kíló af hvítasykri og sama magn af púðursykri.[2203] Af salti komu 1700 tunnur en 500 kíló voru flutt inn af munntóbaki og 325 kíló af neftóbaki.[2204] Af reyktóbaki komu 280 kíló og að auk 6000 vindlar.[2205] Þetta ár komu 3500 pottar af brennivíni til Ásgeirsverslunar á Flateyri og 669 pottar af öðrum vínföngum en ekkert af öli.[2206] Af steinolíu flutti verslunin inn 27 föt en 180 pottar voru í hverju fati svo alls voru þetta 4860 pottar.[2207] Kol voru flutt inn fyrir 2.290,- krónur[2208] en óljóst er um magnið. Á þessum árum var verð á einu skippundi af kolum oft í kringum 5,- krónur svo líklega hafa það verið 458 skippund (73.280 kíló) af kolum eða þar um bil sem Ásgeirsverslun á Flateyri flutti inn árið 1895. Af færum voru flutt inn 568 stykki, 144 ljáir, 6 rokkar og 2 sauma- eða prjónavélar.[2209] Söluverð skotfæranna sem inn voru flutt þetta sama ár var 500,- krónur og verðmæti svonefnds glysvarnings var hið sama.[2210] Prentaðar bækur sem inn voru fluttar voru aðeins virtar á 50,- krónur en hér er ætíð miðað við söluverð út úr búð.[2211] Til nýjunga mátti telja 4 tunnur af sementi, 2 kassa af gluggagleri og eldunarvélar fyrir 200,- krónur sem óvíst er hvað voru margar.[2212]

Sem dæmi um söluverð erlendra vara á Flateyri árið 1895 má nefna að eitt kíló af brauði kostaði 38 aura, 50 kíló af rúgmjöli 5,47 krónur, 50 kíló af bankabyggi 8,50 krónur, eitt kíló af kaffibaunum 2,20 krónur, eitt kíló af kandíssykri 48 aura.[2213] Tunna af salti kostaði 4,- krónur, eitt kíló af neftóbaki 3,- krónur eitt kíló af munntóbaki 4,- krónur, tíu vindlar 75 aura, pottur af brennivíni 90 aura, pottur af steinolíu 15 aura.[2214] Færin virðast hafa kostað um það bil 3,- krónur stykkið, saumavél 50,- krónur, ein tunna af sementi 12,- krónur en tunna af tjöru 29,- krónur.[2215]

Allar vörur sem Ásgeirsverslun á Flateyri fékk frá útlöndum árið 1895 komu frá Danmörku nema saltið og kolin sem komu frá Bretlandi.[2216]

 

Á árunum 1883-1900 var Ásgeirsverslun oftast eina fyrirtækið sem flutti út eitthvert umtalsvert magn af afurðum frá Flateyri sé útflutningur hvalveiðistöðvarinnar á Sólbakka ekki talinn með.[2217] Undantekning frá þessu eru árin 1892 og 1893 þegar Torfi Halldórsson og Íslenska útflutningsfyrirtækið létu til sín taka í útflutningnum (sjá hér bls. 175-176 og bls. 201-213) og svo var Bergur Rósinkranzson með svolítinn útflutning allt frá árinu 1898.[2218]

Á töflu 3 verður nú sýnt hver útflutningur Ásgeirsverslunar á Flateyri var árin 1883, 1888, 1894 og 1900. Allar tölur eru byggðar á upplýsingum úr verslunarskýrslum og um er að ræða verð afurðanna eins og það var á Flateyri en ekki söluverð erlendis.[2219]

 

 

 

 

Tafla 3

 

Útflutningur útibús Ásgeirsverslunar á Flateyri 1883, 1888, 1894 og 1900

 

 

  1883   1888   1894   1900  
Vörutegund Magn Verð kr. Magn Verð kr. Magn Verð kr. Magn Verð kr.
Saltfiskur (þorskur) 32.855 ½  kg 15.397,50 59.723 kg 14.930,75 7.452 kg 1.957,73 17.280 kg 4.725,82
Söltuð ýsa og smáfiskur 10.697 kg 3.343,00 32.712 kg 8.178,00 27.733 ½  kg 5.720,58    
Langa, keila og ufsi 0 0 224 kg 53,36 3.592 kg 718,40 0 0
Hákarlslýsi 493 ½ tunna 26.649,00 316 tunnur 7.584,00 78 tunnur 1.872,00 ? 26.196,40
Þorskalýsi 1 ½ tunna (45,00) 0 0 0 0 0 0
Hvít ull 117 ½ kg 82,25 939 ½ kg 1,127,40 1.344 kg 1.585,92 522 ½ kg 365,75
Mislit ull 0 0 292 kg 262,80 154 kg 129,36 123 kg 61,50
Hertar sauðagærur 10 stk. (20,00) 0 0 0 0 0 0
Eingirnissokkar 168 pör (75,60) 0 0 0 0 0 0
Belgvettlingar 152 pör 38,00 0 0 0 0 0 0
Saltaðar sauðagærur 0 0 0 0 30 búnt (120,00) ? 143,25
 

Samtals

 

 

 

45.650,35

 

 

 

32.136,31

 

 

 

12.103,99

 

 

 

31.492,72

 

 

Til skýringar skal þess getið að tölur innan sviga eru áætlaðar. Ástæða þess er sú að í verslunarskýrslunum skortir stöku sinnum upplýsingar um verð. Hér er þá gert ráð fyrir sama verði og upp er gefið eitthvert annað ár rétt á undan eða rétt á eftir. Fullvíst er að sá verðmunur sem þarna gæti verið um að ræða skekkir ekki svo neinu nemi þá heildarmynd sem fram kemur á töflunni. Tölurnar hér að ofan bera hins vegar með sér að magn hinna ýmsu afurða sem út voru fluttar gat verið mjög breytilegt frá einu ári til annars. Hugsanlegt er að útflutningsafurðum úr Önundarfirði hafi stundum verið dengt saman við afurðir sem Ásgeirsverslun sendi utan frá Ísafirði og af þeim ástæðum er því miður óvíst hvort taflan gefur alveg rétta mynd. Árið 1895 tekur útibússtjórinn á Flateyri það sérstaklega fram í skýrslu sinni til sýslumanns að ákveðið magn afurða hafi farið til Ísafjarðar og þar sjálfsagt tekið til greina sem útflutt eins og hann kemst að orði.[2220] Þetta ár er hins vegar ekki með hér á töflunni. Áður en töluröðunum á töflunni hér að framan verður sleppt lausum er svo rétt að taka fram að árin 1883, 1888 og 1894 var útibú Ásgeirsverslunar eina fyrirtækið á Flateyri sem sendi vörur á erlendan markað en árið 1900 var Bergur Rósinkranzson, kaupmaður og útgerðarmaður, líka með dálítinn útflutning á saltfiski.[2221] Verðmæti útflutningsins hjá Bergi var árið 1900 3.325,- krónur[2222] og er þá eins og áður miðað við verðlag á Flateyri það ár. Aldamótaárið 1900 fluttu verslanirnar tvær á Flateyri því út afurðir fyrir 34.818,- krónur ef marka má verslunarskýrslurnar.

Helstu útflutningsafurðirnar frá Flateyri á árunum 1883-1900 voru tvímælalaust saltfiskur og hákarlslýsi og svo hafði lengi verið (sbr. hér bls. 44-45 og 102). Mikið af saltfiskinum fór beint til Suðurlanda, það er Spánar og Ítalíu, en oft var fiskurinn líka sendur til Kaupmannahafnar og þaðan fór hann svo áfram sína leið. Skip sem Ásgeirsverslun átti voru m.a. notuð til að flytja saltfiskinn til Spánar og Ítalíu og má sem dæmi nefna að 1. ágúst 1889 lagði S. Louise af stað frá Flateyri til Genúa á Ítalíu með 12.640 kíló af saltaðri ýsu og smáfiski, auk nokkurs af fiski frá Ísafirði, og 26. september 1891 lagði Amphitrite af stað frá Flateyri til Spánar.[2223] Síðarnefnda skipið, sem var 97 rúmlesta skonnorta, smíðuð 1856, hafði Ásgeirsverslun eignast árið 1883 en það fórst við Orkneyjar árið 1892.[2224]

Um hákarlslýsið og útflutning á því hefur áður verið fjallað í þessu riti (sjá hér bls. 170-174) en það fór yfirleitt á markað í Danmörku eða í Bretlandi.[2225] Á árunum 1883-1901 voru ekki færri en 10.770 tunnur af hákarlslýsi fluttar út frá Flateyri[2226] en auk þess kynni eitthvað af lýsinu frá Flateyri að hafa farið í skip Ásgeirsverslunar á Ísafirði og verið bókað sem útflutningur þaðan. Í hverri tunnu voru 120 pottar (sjá hér bls. 171) og hafa því að minnsta kosti 1.292.400 pottar af hákarlslýsi verið sendir á erlendan markað frá Flateyri á þessu 19 ára skeiði eða um 68.000 pottar að jafnaði á ári. Á síðustu áratugum nítjándu aldar var lítið flutt út frá Flateyri af öðrum afurðum en saltfiski og hákarlslýsi eins og sjá má á töflunni sem hér er birt á bls. 265.

Ýmsar upplýsingar eru í boði um skipakomur til Flateyrar á starfsárum Ásgeirsverslunar þar fyrir og um aldamótin 1900 en ekki verður farið langt út í þá sálma hér. Sem dæmi má nefn að árið 1886 komu 6 skip frá höfnum á Íslandi og 5 frá útlöndum[2227] en þá mun eingöngu vera átt við fraktskip í vöruflutningum. Eitt þessara fimm skipa kom frá Noregi en hin öll frá Danmörku.[2228] Farmrúm í skipunum sem komu frá Danmörku þetta ár var að jafnaði rétt liðlega 100 smálestir en aðeins 36 smálestir í skipinu sem kom frá Noregi.[2229] Allt voru þetta seglskip.[2230] Þess má svo geta að næsta ár á eftir komu tvö fraktskip frá Bretlandi til Flateyrar.[2231]

Árið 1888 fóru 6 skip frá Flateyri með afurðir til útlanda. Fyrsta skipið fór í júnímánuði með saltfisk, hákarlslýsi og ull til Kaupmannahafnar, annað 30. júlí með hákarlslýsi og ull til Kaupmannahafnar, þriðja skipið fór svo í ágústmánuði með saltaða ýsu og smáfisk til Ítalíu.[2232] Fjórða skipið lagði upp þann 12. september með saltaðan fisk til Englands og fimmta skipið fór 4. október með saltfisk og ull til Danmerkur.[2233] Sjötta og síðasta skipið fór svo þegar komið var fram á jólaföstu með saltfisk til Danmerkur.[2234]

Að lokum skal þess svo getið að árið 1899 voru fluttar út afurðir frá Flateyri fyrir 76.167,- krónur en þar af fór liðlega helmingur til Danmerkur, röskur fjórðungur til Bretlands og um fimmtungur til Spánar.[2235] Er þá miðað við verð en ekki við magn.

Á síðustu áratugum 19. aldar mun oftast hafa gengið vel að losa og lesta flutningaskipin sem komu með vörur til Flateyrar og tóku hér afurðir til útflutnings. Svo illa tókst þó til í desembermánuði árið 1893 að eitt af flutningsskipum Ásgeirsverslunar sem beið byrjar á Flateyrarhöfn dreif upp og rak á land í miklu hvassviðri.[2236] Þetta var nær 78 smálesta galeas sem hét Árni Jónsson[2237] og bar nafn Árna Jónssonar, verslunarstjóra Ásgeirsverslunar á Ísafirði. Kaupfar þetta hafði verslunin aðeins átt í skamman tíma en það kom í fyrsta sinn með vörur til Ísafjarðar á hennar vegum vorið 1892.[2238] Í nóvembermánuði árið 1893 tók galeasinn Árni Jónsson saltfisk á Flateyri og beið síðan byrjar á Önundarfirði í fullan mánuð.[2239] Þann 20. desember gerði ofsarok og í þeim hamförum slitnuðu festarnar.[2240] Skipverjar reyndu að forða strandi og hjuggu m.a. bæði möstrin af skipinu en allt kom fyrir ekki.[2241] Við strandið varð galeasinn fyrir miklum skemmdum og var fáum dögum síðar dæmdur óhaffær.[2242] Skipsskrokkurinn og allur búnaður sem einhvers virði var talinn var svo seldur á uppboði sem haldið var á Flateyri 16. janúar 1894.[2243]

Hér var þess áður getið að samkvæmt opinberum skýrslum hefði andvirði innfluttra vara hjá útibúi Ásgeirsverslunar á Flateyri numið 37.334,- krónum árið 1885 og er þá miðað við áætlað söluverð út úr búð á hinum innflutta varningi (sjá hér bls. 260-262). Fróðlegt hefði verið að sjá hvað vöruúttekt úr búðinni á Flateyri var í raun mikil þetta sama ár en á því gefst ekki kostur því svo virðist sem tvær af fimm höfuðbókum verslunarútibúsins á Flateyri frá þessu ári vanti í það safn verslunarbóka Ásgeirsverslunar sem varðveitt er á Héraðsskjalasafninu á Ísafirði. Er þar um að ræða höfuðbækur sem merktar eru bókstöfunum B og C en í þær er vísað allvíða í þremur bókum verslunarinnar frá þessu ári sem varðveittar eru í skjalasafninu[2244] ásamt fjölda annarra bóka frá Ásgeirsverslun. Í þessum þremur bókum er að finna nöfn 227 virkra viðskiptamanna og yfirlit yfir allt sem þeir lögðu inn og tóku út þetta ár, afurðir, vörur og peninga.[2245] Ef frá er talin úttekt móðurfyrirtækisins, Ásgeirsverslunar á Ísafirði, er nam 5.734,11 krónum reynist úttekt viðskiptamanna sem þarna eru skráðir hafa numið 61.617,07 krónum árið 1885.[2246] Svo virðist sem í bókunum þremur sem varðveist hafa sé að finna mikinn meirihluta allra viðskiptamanna á verslunarsvæði útibúsins á Flateyri en greinilegt að nokkurn hóp manna vantar þó og munu þeirra reikningar vera eða hafa verið í þeim tveimur höfuðbókum sem ekki komu í leitirnar við könnun sem gerð var þegar þetta rit var í undirbúningi. Þá 227 viðskiptamenn á árinu 1885 sem er að finna í þeim bókum sem handbærar eru má flokka með ýmsum hætti. Þeir skiptast til dæmis þannig að 206 eru einstaklingar sem kalla má almenna viðskiptamenn, 15 í hópi viðskiptamannanna eru þilskip, 4 eru verslunarfyrirtæki eða kaupmenn, allir á Ísafirði og í þeim hópi Ásgeirsverslun þar, og 2 eru hreppar, það er að segja Mosvallahreppur og Suðureyrarhreppur.[2247] Ef frá er talin úttekt móðurfyrirtækisins á Ísafirði skiptist úttekt annarra þannig að einstaklingar í almennum viðskiptum voru með 59,1% úttektarinnar, þilskipin eða þeirra útgerðir með 38%, Ísafjarðarkaupmennirnir þrír með 1,3% og hrepparnir tveir með 1,6%.[2248]

Athygli vekur hve þáttur þilskipanna í viðskiptunum er stór. Þar koma fimmtán skip við sögu en átta þeirra eru með mjög lítil viðskipti.[2249] Hin sjö og úttekt þeirra var sem hér segir:

 

Hilda María, Flateyri ……………………  kr…………. 6.175,85

María, Flateyri …………………………….  kr. ………..  5.590,61

Mary, Ingjaldssandi ……………………..  kr. ………..  3.169,04

 1. maí, Dýrafirði ……………………….. kr. ……….. 2.511,75

Svanur, Önundarfirði ……………………  kr. ………..  1.851,17

Sjófugl, Súgandafirði ……………………  kr. ………..  1.562,87

Flairam, Flateyri ………………………….  kr. ………..  1.359,87[2250]

 

Eins og fyrr var nefnt er reikninga 206 einstaklinga í almennum viðskiptum að finna í þeim höfuðbókum Ásgeirsverslunar á Flateyri frá árinu 1885 sem varðveittar eru. Úttekt þeirra á því ári nam samtals 36.404,73 krónum eða 176,72 krónum að jafnaði á hvern.[2251] Minnt skal á að þar er ekki eingöngu um að ræða vöruúttekt heldur líka þá peninga sem teknir voru út hjá versluninni eða hún greiddi upp í skuldir viðskiptamanna sinna við aðra. Sá einstaklingur sem tók mest út árið 1885 var Jónas Th. Hall, sem sjálfur stjórnaði verslunarrekstri Ásgeirsverslunar á Flateyri, og nam úttekt hans 3.067,96 krónum en minnst var úttektin hjá ungum manni úr Súgandafirði, Guðbjarti Friðrikssyni á Kvíanesi, sem verslaði fyrir aðeins 55 aura.[2252]

Milli byggðarlaga skiptist úttekt þessara 206 viðskiptamanna þannig árið 1885:

 

95 íbúar Mosvallahrepps ………………………  kr.   23.596,80   eða     64,8%

29 Súgfirðingar ……………………………………  kr.     5.642,13   eða     15,5%

16 Sandmenn (frá Ingjaldssandi) ……………  kr.     2.142,06   eða       5,9%

66 einstaklingar frá öðrum byggðarlögum  kr.     5.023,74   eða     13,8%

Samtals………. kr.   36.404,73   eða      100%

 

Úttekt þeirra 95 viðskiptamanna sem áttu heima í Mosvallahreppi var að meðaltali 248,39 kr. þetta ár, hjá Súgfirðingunum 194,56 kr., hjá Sandmönnum 133,88 kr. og hjá öðrum 76,12 kr.[2253] Taka verður fram að frá Ingjaldssandi vantar greinilega allmarga gilda bændur í viðskiptamannahópinn og má ætla að reikningar þeirra hafi verið í bókunum tveimur sem ekki komu í leitirnar. Tölurnar hér að ofan um viðskipti Sandmanna gefa því að líkindum ekki rétta mynd. Flestir þeirra sem skiptu við Ásgeirsverslun á Flateyri árið 1885 og búsettir voru utan Önundarfjarðar og Súgandafjarðar voru sjómenn á þilskipum[2254] og viðskipti flestra í þeim hópi að sjálfsögðu langtum minni en almennt var um bændur á viðskiptasvæði verslunarinnar.

Sé litið sérstaklega á viðskipti þeirra 95 íbúa Mosvallahrepps sem kostur gefst á að skoða kemur í ljós að í þeim hópi eru 18 menn sem tóku út meira en 300,- krónur í vörum og peningum hjá versluninni á Flateyri árið 1885.[2255] Þessir menn og ársúttekt þeirra var sem hér segir:

 

1… Jónas Th. Hall, verslunarstjóri á Flateyri ……………………………….  kr.  3.067,96

2… Torfi Halldórsson, útgerðarmaður á Flateyri …………………………..  kr.  2.788,97

3… Arngrímur Vídalín Jónsson, bóndi og skipstjóri í Ytri-Hjarðardal …..  kr.  1.389,27

4… Kjartan Rósinkranzson,skipstjóri á Flateyri …………………………….  kr.  1.310,87

5… Sveinn Rósinkranzson, skipstjóri á Flateyri …………………………….  kr.  1.146,68

6… Kristján Friðriksson Mosdal, skipstjóri á Eyri …………………………  kr.     891,81

7… Séra Janus Jónsson, prestur í Holti ………………………………………  kr.     724,05

8… Bóas Guðlaugsson, bóndi og skipstjóri á Innri-Veðrará ………………  kr.     680,87

9… Páll Guðlaugsson, verslunarmaður á Flateyri …………………………..  kr.     538,15

10.. Halldór Guðmundsson, bóndi á Þórustöðum …………………………..  kr.     472,89

11.. Ebenezer Sturluson, skipstjóri á Flateyri ……………………………….  kr.     435,39

12.. Guðmundur Sturluson, bóndi í Dalshúsum – hann fluttist

….. að Sæbóli á Ingjaldssandi vorið 1885 ……………………………………  kr.            ?

13.. Steinþór Jónsson, bóndi á Kirkjubóli í Valþjófsdal, síðar

….. í Dalshúsum ………………………………………………………………..  kr.     417,28

14.. Rósinkranz Kjartansson, bóndi í Tröð …………………………………..  kr.     401,22

15.. Jón Halldórsson, bóndi á Ytri-Veðrará ………………………………….  kr.     393,95

16.. Guðmundur Jónsson, bóndi á Kaldá …………………………………….  kr.     377,47

17.. Bjarni Guðmundsson, bóndi á Kirkjubóli í Korpudal …………………  kr.     305,14

18.. Þorkatla Bjarnadóttir, búandi ekkja í Tungu í Firði ……………………  kr.     300,16[2256]

 

Átján manna skráin sem hér hefur nú verið birt sýnir meðal annars að skútuskipstjórarnir í Önundarfirði hafa átt mikil viðskipti við Ásgeirsverslun á Flateyri og árleg úttekt þeirra verið mun meiri en almennt var hjá bændum. Eina konan sem náði að komast á þessa skrá er Þorkatla Bjarnadóttir sem árið 1885 var búandi ekkja í Tungu í Firði. Í hópi 95 almennra viðskiptamanna Ásgeirsverslunar úr Mosvallahreppi, sem hér hafa komið til skoðunar, er reyndar ekki að finna nema fimm aðrar konur sem allar voru með langtum minni úttekt en Þorkatla, enda stóðu fáar þeirra fyrir búi.[2257] Greinilegt er að viðskipti giftra kvenna sem eitthvað versluðu á Flateyri hafa öll eða nær öll verið skráð á nöfn eiginmanna þeirra. Einstaka vinnumenn eru hins vegar skráðir í verslunarbækurnar með reikning í eigin nafni svo og húsmenn og lausamenn, einkum þeir sem voru í skiprúmi á einhverju þilskipanna.[2258]

Af 29 viðskiptamönnum úr Súgandafirði, sem versluðu við útibú Ásgeirsverslunar á Flateyri árið 1885 og um er kunnugt, tóku sex út meira en sem svaraði andvirði 300,- króna. Úttekt þessara sex manna var sem hér segir:

 

1… Jón Ólafsson, bóndi og útgerðarmaður á Stað ………………………….  kr.  1.022,72

2… Kristján Albertsson, bóndi og útgerðarmaður á Suðureyri ……………  kr.     776,63

3… Jóhannes Hannesson, skipstjóri á Kvíanesi, síðar bóndi í Botni ……..  kr.     599,88

4… Dánarbú Sigurðar Lárentíussonar í Botni (peningar teknir út til að

….. borga skuldir dánarbúsins við ýmsa lánardrottna) ……………………..  kr.     510,69

5… Guðmundur Guðmundsson, bóndi í Bæ …………………………………  kr.     320,00

6… Jón Kristjánsson, bóndi í Botni [Klúku]………………………………… kr.     302,58[2259]

 

Við skoðun viðskiptamannareikninga Súgfirðinga vekur athygli að bændur á jörðunum við norðanverðan Súgandafjörð reynast hafa verslað þó nokkuð á Flateyri.[2260] Reikningarnir sýna að úttekt Guðmundar Ásgrímssonar á Gelti hjá Ásgeirsverslun á Flateyri nam árið 1885 290,99 krónum, úttekt Þorvaldar Gizurarsonar í Selárdal 217,37 krónur og úttekt Friðrikku Friðriksdóttur sem bjó á Norðureyri 161,76 krónum.[2261] Gera má ráð fyrir að margir Súgfirðingar hafi þó líka verslað eitthvað á Ísafirði.

Hér var áður nefnt að margir sjómenn, sem áttu heima utan Önundarfjarðar og Súgandafjarðar, hefðu verslað lítið eitt við útibú Ásgeirsverslunar á Flateyri. Slíkt kemur reyndar ekki á óvart því ýmsir menn úr öðrum byggðarlögum réðu sig á skúturnar frá Flateyri og algengt var að þilskip frá öðrum byggðarlögum leituðu inn á Önundarfjörð undan stormi eða af öðrum ástæðum. Sé litið á viðskipti manna sem búsettir voru utan Önundarfjarðar og Súgandafjarðar við verslunarútibúið á Flateyri árið 1885 ber þar mest á Dýrfirðingum og Arnfirðingum.[2262] Svolítið er líka um Djúpmenn og aðeins bregður fyrir mönnum sem búsettir voru við Breiðafjörð og jafnvel í Reykjavík.[2263] Áður var þess getið að í varðveittum verslunarbókum mætti sjá að a.m.k. 66 menn, búsettir utan Önundarfjarðar og Súgandafjarðar, hefðu átt viðskipti við útibú Ásgeirsverslunar á Flateyri árið 1885. Flestir þessara manna voru jarðnæðislausir sjómenn á þilskipum og úttekt margra þeirra mjög lítil eins og skiljanlegt er en fáeinir í hópnum voru þó bændur og kynnu að hafa farið í sérstakar verslunarferðir til Flateyrar um langan veg, það er frá Dýrafirði og jafnvel frá norðurströnd Arnarfjarðar og úr Skálavík í Hólshreppi, yst við vestanvert Ísafjarðardjúp. Í 66 manna hópnum sem fyrr var nefndur voru árið 1885 nítján einstaklingar sem náðu að koma ársúttekt sinni hjá Ásgeirsverslun á Flateyri upp fyrir 100,- krónur. Úttekt hvers og eins þessara manna var þá sem hér segir:

 

1… Kristján Sigurðsson, Þingeyri, skipstjóri á þilskipinu 17. maí ……….  kr.     504,26

2… Benedikt Bjarnason, Skálavík í Hólshreppi …………………………….  kr.     254,45

3… Tómas Kristjánsson, Gemlufalli í Dýrafirði ……………………………  kr.     244,23

4… Lúther Einarsson, Hvammi í Dýrafirði ………………………………….  kr.     240,05

5… Guðmundur Pálsson, Gemlufalli í Dýrafirði ……………………………  kr.     233,63

6… Gísli Ólafsson, Auðkúlu í Arnarfirði ……………………………………  kr.     223,51

7… Jón Jónsson, Bíldudal ……………………………………………………..  kr.     185,28

8… Sveinn Jónsson, Næfranesi í Dýrafirði ………………………………….  kr.     178,99

9… Guðmundur Kristjánsson, Gemlufalli í Dýrafirði ……………………..  kr.     178,09

10.. C.E.A. Fensmark, sýslumaður á Ísafirði ………………………………..  kr.     169,07

11.. Guðmundur Jónsson, Mýrum í Dýrafirði ……………………………….  kr.     165,33

12.. Jón Eggertsson, Stykkishólmi ……………………………………………  kr.     162,15

13.. Jón Ólafsson, Tjaldanesi í Arnarfirði ……………………………………  kr.     162,13

14.. Konráð Konráðsson, Stykkishólmi ………………………………………  kr.     149,26

15.. Magnús Jónsson, Meirihlíð í Hólshreppi ……………………………….  kr.     142,28

16.. Skúli Thoroddsen, sýslumaður á Ísafirði ……………………………….  kr.     137,02

17.. Pálmi Bjarnason, Skálavík í Hólshreppi ………………………………..  kr.     108,97

18.. Þorsteinn Bjarnason, Hvammi í Dýrafirði ………………………………  kr.     107,91

19.. Jónas Bjarnason, Lokinhömrum í Arnarfirði …………………………..  kr.     102,65[2264]

 

Svo virðist sem Ásgeirsverslun hafi ekki verið með neina þilskipaútgerð frá Flateyri fyrstu árin sem hún starfrækti hér útibú og líklega ekki fyrr en 1888 eða þar um bil. Árið 1886 er Jónas Th. Hall, útibússtjóri Ásgeirsverslunar á Flateyri, reyndar sagður eiga einn fjórða part í þilskipi[2265] en óvíst er hvaða skip það hefur verið og hverjir voru meðeigendur hans. Árið 1887 var skonnortan Lovísa í viðskiptum við útibúið og er á viðskiptamannareikningi sögð vera frá Flateyri.[2266] Skip þetta mun þá hafa verið í eigu Ásgeirsverslunar en virðist ekki hafa verið gert út frá Flateyri næstu árin þar á eftir.

Á árunum 1888-1894 gerðu Torfi Halldórsson og félagar hans yfirleitt út fjögur þilskip og öll frá Flateyri (sjá hér bls. 150-151). Í opinberri skýrslu um fjölda þilskipa í Mosvallahreppi árið 1888 eru þau sögð vera fimm og fram kemur að á þvi ári hefur þeim fjölgað um eitt og hreppsbúar auk þess náð að eignast tæpan helming úr skipi í stað Jeanette sem fórst í hafi árið 1887.[2267] Vitað er með vissu að skonnortan Grettir, sem Ásgeirsverslun átti, var gerð út frá Flateyri árið 1889 og næstu ár þar á eftir[2268] og líklega hefur hún verið gerð út frá Flateyri allt frá árinu 1888. Grettir var tæplega 30 smálesta skonnorta, smíðuð í Vejle í Danmörku árið 1880 og kom ný til Ísafjarðar á því ári (sjá hér bls. 155-156). Ásgeirsverslun eða forstjóri hennar voru eigendur Grettis frá upphafi, fyrst að hálfu en síðan að fullu (sjá hér bls. 155-156), og mun skipið hafa verið gert út frá Ísafirði fyrstu árin. Árið 1889 var Helgi Andrésson skipstjóri á Gretti[2269] og má telja líklegt að hann hafi tekið við skipinu þegar farið var að gera það út frá Flateyri. Helgi hafði áður verið skipstjóri á Ísafold og var með það skip sumarið 1887 (sjá hér bls. 147 og 164-165). Hann var enn með Gretti árið 1891[2270] en á síðustu árum 19. aldar var Páll Rósinkranzson, bóndi á Kirkjubóli í Korpudal, skipstjóri á þessari skonnortu Ásgeirsverslunar.[2271]

Grettir mun hafa verið gerður út frá Flateyri í yfir 30 ár. Árið 1915 var Jónas Guðmundsson frá Alviðru í Dýrafirði skipstjóri á honum.[2272] Heimahöfn skipsins var þá enn á Flateyri og Jónas var búsettur hér.[2273] Hann var lengi með Gretti en árið 1926 var þessi gamla skúta seld frá Flateyri til Stykkishólms og þaðan mun hún hafa verið gerð út fram yfir 1950.[2274]

Flest bendir til þess að Grettir hafi oft verið eina skipið sem Ásgeirsverslun gerði út frá Flateyri á árunum 1888-1897 en þó er kunnugt um að Jónas Th. Hall, útibússtjóri Ásgeirsverslunar, átti árið 1891 skútuna Kamillu sem einnig var haldið til veiða frá Flateyri um nokkurt skeið.[2275] Svo virðist sem umsvif Ásgeirsverslunar í útgerð þilskipa frá Flateyri hafi aukist mjög árið 1898 en á því ári fjölgaði lýsistunnunum sem út voru fluttar frá þessum verslunarstað úr 333 í 1230.[2276] Þá voru enn stundaðar hákarlaveiðar og allt var þetta hákarlslýsi.[2277] Fullvíst er að árið 1899 voru fjögur skip frá Ásgeirsverslun gerð út á hákarlaveiðar frá Flateyri[2278] og árið 1900 voru þau þrjú.[2279]

Skipin sem Ásgeirsverslun gerði út frá Flateyri árið 1899 voru Grettir, Lovísa, Sigríður og Fiskaren[2280] og næsta ár varð sú eina breyting á að þá var Fiskaren ekki gerður út héðan.[2281] Sigríður var nær 40 smálesta skonnorta, byggð í Stavanger í Noregi árið 1864, og hafði lengi verið í eigu Ásgeirsverslunar.[2282] Vera má að sú Lovísa sem þarna kemur við sögu sé sama skip og Lovísa sem Ásgeirsverslun keypti af Hjálmari Jónssyni, Flateyrarkaupmanni, árið 1882 (sjá hér bls. 114) en það er þó ekki alveg víst. Sú Lovísa var 52 smálestir að stærð[2283] en í skýrslu frá árinu 1900 er Lovísa, sem þá var gerð út frá Flateyri, sögð vera 49 smálestir.[2284] Fiskaren eða Fiskeren var rétt liðlega 29 smálestir og þess má geta að sú skúta gekk síðast til veiða frá Flateyri sumarið 1931.[2285]  Hún var seinasta seglskipið sem Önfirðingar gerðu út en reyndar hafði verið sett í hana 6 hestafla Dan vél árið 1920.[2286]

Skipstjórar á skipum Ásgeirsverslunar á Flateyri árið 1899 voru þessir: Kjartan Rósinkranzson var með Lovísu, Helgi Andrésson með Sigríði, Páll Rósinkranzson með Gretti og Kristmundur eyfirski með Fiskaren.[2287] Síðastnefnda skipið var aðeins gert út til júlíloka og hafði þá fengið 150 lifrartunnur.[2288] Hinum skipunum þremur mun hafa verið haldið til veiða allt til vertíðarloka og afli þeirra varð sem hér segir á þessari vertíð: Lovísa 867 lifrartunnur, Sigríður 830 lifrartunnur og Grettir 660 lifrartunnur.[2289]

Á árunum rétt eftir aldamótin 1900 varð mikill samdráttur í öllum rekstri Ásgeirsverslunar á Flateyri eins og hér hefur áður verið nefnt (sjá hér bls. 258-259). Ef marka má opinberar skýrslur um útgerð og afla þilskipa voru engin skip frá Ásgeirsverslun gerð út frá Flateyri eftir 1900.[2290] Að sögn þeirra sem sömdu hinar opinberu aflaskýrslur var aðeins eitt þilskip gert út frá Flateyri árið 1901, Flateyrin sem þeir Torfi Halldórsson og Ebenezer Sturluson áttu þá enn og var hún á þorskveiðum.[2291] Mikið af hákarlslýsi var hins vegar flutt út frá Flateyri árið 1901 eða 1284 tunnur.[2292] Verið getur að það lýsi hafi verið unnið úr afla næsta árs á undan en einnig er hugsanlegt að eitthvað af hákarlslifur frá skipum sem gerð voru út frá öðrum stöðum hafi verið brætt hér á Flateyri og flutt út héðan.

Útflutningur á hákarlslýsi frá Flateyri á árunum kringum aldamótin 1900 var annars sem hér segir: Árið 1891 1230 tunnur, árið 1899 1539 tunnur og árið 1901 1284 tunnur.[2293] Ekki er alveg ljóst hver útflutningurinn var árið 1900 en skip Ásgeirsverslunar sem þá voru gerð út frá Flateyri fluttu á því ári að landi 1793 tunnur af hákarlslifur[2294] og má ætla að úr þeim afla hafi fengist um það bil 1200 tunnur af lýsi (sjá hér bls. 22 og 172). Allt eða nær allt hákarlslýsi sem framleitt var á Flateyri á þessum árum var unnið úr afla sem skip Ásgeirsverslunar fluttu að landi.[2295]

Á árunum upp úr aldamótunum 1900 lögðust hákarlaveiðarnar alveg niður frá Flateyri og mun þilskip síðast hafa verið gert út á slíkar veiðar árið 1904 og líklega farið í einn túr sumarið 1905. Útgerðarmaður þess var Bergur Rósinkranzson (sjá hér bls. 293).

Við lok hákarlaveiðanna varð mikill samdráttur í öllum rekstri Ásgeirsverslunar á Flateyri og svo fór að hann varð um skeið bara svipur hjá sjón (sjá hér bls. 258-259). Umsvifin jukust hins vegar á ný fáum árum síðar og árið 1912 var Ásgeirsverslun aftur orðin langstærsta verslunin á Flateyri.[2296] Það ár settist Snorri Sigfússon skólastjóri að í plássinu og sagði síðar frá á þessa leið:

 

Á Flateyri voru fjórar verslanir er ég kom vestur. Langstærst þeirra var Ásgeirsverslun. … Hún hafði fremsta hluta Eyrarinnar og besta fyrir sitt athafnasvæði, mikla fiskreiti og góða. Og einu smábryggjuna sem á eyrinni var átti sú verslun. Aðalverslunarhúsið var hið gamla og fyrsta hús Hjálmars Jónssonar. … Enga útgerð hafði verslunin en keypti fisk og verkaði og mátti heita að hún væri eini atvinnuveitandinn á Flateyri á þeim dögum. Var kaupgjald þá 25 aurar á klukkustund fyrir karlmenn en kaup kvenna var helmingi lægra. Og þar sem þetta kaup var venjulegast greitt með vörum úr búðinni sem líklega hefir verið allmjög lagt á, má fara nærri um það að vinnukraftur þessi hefir ekki orðið versluninni dýr né heldur tekjur fólksins orðið því drjúgar til lífsframfæris.[2297]

 

Það var Kristján Ásgeirsson frá Skjaldfönn, síðasti útibússtjóri Ásgeirsverslunar á Flateyri, sem náði að auka umsvifin á ný svo um munaði og koma rekstri útibúsins upp úr lægðinni sem hann hafði lent í á árunum 1902-1904. Kristján tók sem áður sagði við stjórn útibúsins árið 1907 en saga þess á hans tíma verður ekki rakin hér því að rammi þessarar ritsmíðar er í grófum dráttum við það miðaður að setja punkt sem fyrst þegar komið er fram yfir aldamótin 1900. Rétt er þó að minna á að útibú Ásgeirsverslunar var starfrækt á Flateyri allt til ársins 1918 en á því ári var móðurfyrirtækið selt og útibúið með. Á þeim árum sem Kristján Ásgeirsson stýrði rekstrinum á Flateyri mun verslunin aldrei hafa verið með neina útgerð en sjálfur átti hann skamma hríð lítinn kútter sem hét Kristján eins og eigandinn.[2298] Skipstjóri á honum var Bernharður Guðmundsson, síðar bóndi á Kirkjubóli í Valþjófsdal.[2299] Þessi litla skúta var 15,4 smálestir og mun fyrst hafa verið gerð út frá Flateyri árið 1909.[2300] Í opinberri skýrslu frá því ári eru eigendurnir sagðir vera Kristján Ásgeirsson og fleiri.[2301] Tveimur árum síðar var Helgi Andrésson, skipstjóri á Flateyri, hins vegar talinn eiga þessa fleytu.[2302]

Þegar Ásgeirsverslun hóf starfrækslu útibús á Flateyri í ársbyrjun 1883 höfðu stjórnendur fyrirtækisins fest kaup á verslunarhúsinu sem Hjálmar Jónsson reisti skömmu fyrir 1870. Pakkhús Hjálmars fylgdi einnig með í þeim kaupum og fleiri hús sem tengdust versluninni (sjá hér bls. 114-116). Öll árin sem Ásgeirsverslun var með rekstur á Flateyri var verslunarútibú hennar í þessu sama húsi en árið 1918, þegar Ásgeirsverslun var seld, átti hún 13 hús á Flateyri.[2303] Þau voru þessi:

 

1…… Húsið (það er íbúðarhúsið sem útibússtjórinn bjó í) ………  virt á kr.    5.000.-

2…… Verslunarbúð (hið gamla verslunarhús Hjálmars) ………  virt á kr.    5.200,-

3…… Geymsluhús …………………………………………………..  virt á kr.    5.000,-

4…… Kornhús ………………………………………………………..  virt á kr.    3.500,-

5…… Bræðsluhús ……………………………………………………  virt á kr.       800,-

6…… Kolahús …………………………………………………………  virt á kr.       100,-

7…… Fiskgeymsluhús ……………………………………………..  virt á kr.    2.200,-

8…… Skúr og hjallur ……………………………………………….  virt á kr.       600,-

9…… Beitingaskúr …………………………………………………..  virtur á kr.    600,-

10…. Íbúðarhús ………………………………………………………  virt á kr.    1.000,-

11…. Pakkhús ………………………………………………………..  virt á kr.       300,-

12…. Hlaða ……………………………………………………………  virt á kr.       400,-

13…. Fjós ………………………………………………………………  virt á kr.        600,-[2304]

 

Samtals voru þessar húseignir virtar á 25.300,- krónur árið 1918 en auk þess átti Ásgeirsverslun þá lóðarréttindi á Flateyri sem voru virt á 17.500,- krónur og bryggju sem var virt á 4.500,- krónur.[2305] Samanlagt fasteignamatsverð allra þessara eigna var 47.300,- krónur.

Hér hefur áður verið gerð grein fyrir húsinu sem Ásgeirsverslun lét reisa á Flateyri árið 1894 og ætlað var til íbúðar fyrir verslunarstjóra hennar þar (sjá hér bls. 248-249). Á skránni hér að framan er það virt á 5.000,- krónur. Um sjálfa verslunarbúðina frá tíð Hjálmars Jónssonar hefur líka verið fjallað á öðrum stað í þessu riti (sjá hér bls. 96-98 og 114-116) en á skránni sem hér var síðast birt er það hús virt á 5.200,- krónur.

Í þessari sömu skrá frá árinu 1918 eru stóru pakkhúsin tvö sem Ásgeirsverslun átti þá nefnd geymsluhús og kornhús. Bæði hljóta þessi hús að hafa verið mjög stór því geymsluhúsið var virt á 5.000,- krónur, jafn háa upphæð og íbúðarhús faktorsins, og kornhúsið á 3.500,- krónur. Þau Guðmundur Valgeir Jóhannesson, sem fæddur er árið 1905, og María Jóhannsdóttir, fædd 1907, sem ólust upp á Flateyri og í næsta nágrenni, muna bæði (1995) eftir tveimur stórum pakkhúsum Ásgeirsverslunar sem stóðu á Flateyraroddanum, skammt frá sölubúðinni.[2306] Á árunum kringum 1920 var annað þessara pakkhúsa nefnt Rauða pakkhúsið en hitt Hvíta pakkhúsið eða Gráa pakkhúsið og gekk líka undir nafninu Mjölhúsið.[2307] Fullvíst má telja að það séu þessi tvö pakkhús sem árið 1918 voru virt á 5.000,- krónur og 3.500,- krónur og nefnd eru í skránni yfir eignir Ásgeirsverslunar á Flateyri á því ári. Í þeirri skrá er húsið sem virt var á 3.500,- krónur nefnt Kornhús og má ætla að það sé enn eitt nafn á Mjölhúsinu. Á uppdrætti frá árinu 1928 sést að bæði þessi stóru pakkhús frá dögum Ásgeirsverslunar stóðu austan við sjálft verslunarhúsið og aðeins mjótt sund á milli.[2308] Eyjólfur Jónsson, sem fæddur var árið 1917 og ólst upp á Flateyri, sagði (1995) að Rauða pakkhúsið hafi staðið rétt fyrir austan verslunarhúsið og Hvíta pakkhúsið (Mjölhúsið) fyrir austan það rauða og bara sund á milli.[2309] Um þetta sund á milli pakkhúsanna lágu járnbrautarteinar[2310] en á fyrstu áratugum 20. aldar voru fjórhjóla vagnar, sem ýtt var eftir slíkum teinum, notaðir til margvíslegra flutninga. Ekki er alveg víst hvenær þessi stóru pakkhús Ásgeirsverslunar voru byggð. Nær fullvíst má þó telja að stóra húsið sem blasir við á ljósmynd frá árinu 1898 (sjá Firðir og fólk 900-1900,bls. 395) og stendur austan við verslunarhús Ásgeirsverslunar muni vera Hvíta pakkhúsið. Útlit hússins, sem er mjög áberandi á myndinni, passar við nýnefnt pakkhús en alls ekki við Rauða pakkhúsið sem var með lægra þaki.[2311] Hvíta pakkhúsið hefur þá verið byggt fyrir 1898 en Rauða pakkhúsið verið óbyggt þegar myndin var tekin. Ýmsir telja að nafnið Hvíta pakkhús hafi verið notað á Flateyri allt frá dögum Hjálmars kaupmanns Jónssonar og verið nafn á húsi sem hann byggð um 1870.[2312] Marktækar heimildir um að svo hafi verið liggja þó ekki á lausu og fullvíst er að Hvíta pakkhúsið sem svo var nefnt um 1920 var reist eftir burtför Hjálmars frá Flateyri (sjá hér bls. 115-116).

Hér hefur nú verið fjallað um fjögur verðmætustu húsin sem Ásgeirsverslun átti á Flateyri árið 1918, faktorshúsið, verslunarhúsið og tvö stærstu pakkhúsin. Í skránni sem hér er birt á bls. 276 og sýnir fasteignir verslunarinnar á Flateyri þetta ár er fimmta verðmætasta húsið sagt vera fiskgeymsluhús og er það virt á 2.200,- krónur. Allar líkur benda til að það sé húsið sem stóð rétt fyrir sunnan sjálft verslunarhúsið og stendur enn á sama stað, fyrir enda Hafnarstrætis. Það hús sést greinilega á myndinni frá 1898 og í skýringum með nýlegum uppdrætti af Flateyri, sem ætlað er að sýna öll hús sem stóðu hér árið 1901, er þetta sama hús sagt hafa verið fiskgeymsluhús á fyrstu árum 20. aldar (sjá uppdrátt af Flateyri sem fylgir BA-ritgerð Helga S. Sigurðssonar). Matið á fiskgeymsluhúsinu árið 1918, 2.200,- krónur, kemur líka vel heim við stærð þessa húss sé borið saman við Kornhúsið (mjölhúsið) sem var virt á 3.500,- krónur árið 1918 (sjá ljósmynd frá 1898 í Firðir og fólk 900-1900, bls. 395). Hér hefur áður verið sýnt fram á að gamla geymsluhúsið, sem nú stendur fyrir enda Hafnarstrætis á Flateyri, sé hið sama og nefnt er fiskhús í úttektargerð frá árinu 1883 (sjá hér bls. 97-98 og 115-116). Rökin sem þar voru færð fram mega kallast óyggjandi svo fullyrða má að hús þetta hafi verið reist eigi síðar en 1883 og líklegast er að því hafi verið komið upp um 1870, á fyrstu verslunarárum Hjálmars Jónssonar sem fastakaupmanns hér á Flateyri.

Auk faktorshússins, sem áður var gerð grein fyrir, átti Ásgeirsverslun eitt íbúðarhús á Flateyri árið 1918 og var það virt á 1.000,- krónur eins og sjá má í skránni sem hér er birt á bls. 276. Óljóst er nú hvaða íbúðarhús þetta hefur verið en minnt skal á að 17 árum fyrr átti verslunin verbúð á Flateyri sem 12 karlmenn dvöldust í þegar manntal var tekið 1. nóvember 1901.[2313] Tíu þeirra áttu þá lögheimili á sveitabæjum í Mosvallahreppi en tveir voru utansveitarmenn.[2314] Verbúð þessi var byggð úr torfi og grjóti og var stundum nefnd hrútakofinn.[2315] Hún stóð að sögn spölkorn fyrir neðan verslunarhús Ásgeirsverslunar og var árið 1883 virt á 80,- krónur.[2316] Líklega hefur hún verið byggð á því ári. Ýmsir sem unnu tímabundið hjá Ásgeirsverslun við fiskverkun eða annað og áttu ekki heima á Flateyri höfðust við í þessari verbúð, – hrútakofanum.

 

Hér var áður sagt nokkuð frá Íslenska útflutningsfyrirtækinu sem stofnað var á Flateyri árið 1893 og hóf þá þegar útflutning á rauðsprettu sem flutt var ísvarin á markað í Bretlandi (sjá hér bls. 201-215). Rauðsprettuna og lítið eitt af lúðu keypti félagið af dönskum veiðiskipum sem hófu kolaveiðar á Önundarfirði og þar í grennd þetta sama ár. Að íslenska útflutningsfyrirtækinu stóðu Páll Torfason á Flateyri og Andrew Johnson, fiskkaupmaður í Hull, en auk þeirra átti mágur hins síðarnefnda, Niels Chr. Nielsen, lítinn hlut í fyrirtækinu (sjá hér bls.201-215). Upp úr samstarfi Páls Torfasonar við þessa tvo herramenn slitnaði í júnímánuði árið 1894 og þar með lauk sögu Íslenska útflutningsfyrirtækisins á Flateyri sem fyrst allra hafði ráðist í að flytja ísvarinn fisk af Íslandsmiðum á erlendan markað (sjá hér bls. 211-215). Engu að síður var þessari nýstárlegu atvinnustarfsemi haldið áfram á vegum Andrews Johnson í Hull sem virðist strax hafa fundið sér nýjan samstarfsaðila í stað Páls Torfasonar. Þar var um að ræða danskt hlutafélag sem hét fulli nafni Dansk Damp Trawling Aktieselskab DAN [2317] en verður hér nefnt DAN-félagið. Einn ráðamanna þess félags var C. F. Drechsel sjóliðsforingi en hann var einnig ráðunautur danska innanríkisráðuneytisins um fiskveiðar á árunum 1894-1907.[2318] Reyndar má vel vera að þeir Drechsel sjóliðsforingi og Andrew Johnson hafi ákveðið að taka upp samstarf nokkru áður en Páli Torfasyni var skákað til hliðar.

Fullvíst er að þeir Andrew Johnson frá Hull og danski sjóliðsforinginn C.F. Drechsel voru báðir staddir hérlendis í síðari hluta júnímánaðar

og/eða í fyrri hluta júlí árið 1894[2319] og á þeim dögum gekk Drechsel frá skriflegri fyrirspurn til íslenskra yfirvalda um nokkur atriði er snertu lagahlið hinnar fyrirhuguðu útflutningsstarfsemi og samstarf danska fyrirtækisins við hið enska. Þessu erindi kom amtmaðurinn í suður- og vesturamti á framfæri við landshöfðingja með bréfi dagsettu 14. júlí og landshöfðingi svaraði sex dögum síðar.[2320]

Í nýnefndu bréfi landshöfðingja frá 20. júlí 1894 kemur fram með skýrum hætti hvert erindi sjóliðsforingjans var og hvaða svör hann fékk hjá íslenskum yfirvöldum. Það sem Drechsel spurði um var tvennt. Í fyrsta lagi hvort nokkuð væri því til fyrirstöðu að DAN-félagið stundaði fiskveiðar í landhelgi þó að nokkrir enskir þegnar ættu hlut í því og í öðru lagi hvort félagið mætti í sameiningu við enska fiskveiðafélagið Anglo-Norwegian Company hafa skip liggjandi á Önundarfirði og nota það til geymslu á ís.[2321] Væri svarið við síðari spurningunni neikvætt vildi Drechsel fá að vita hvort DAN-félagið mætti þá hafa sitt eigið skip liggjandi á Önundarfirði til ísgeymslu handa skipum sínum og til þess að selja enska félaginu ís.[2322]

Svör landshöfðingja við þessum fyrirspurnum sjóliðsforingjans voru í stuttu máli þessi: Að hlutafélagi sem utanríkismenn ættu hlut í væri ekki heimilt að stunda fiskveiðar innan landhelgislínunnar en hins vegar væri þegnum annarra þjóðhöfðingja en Danakonungs frjálst að flytja afla sem þeir hefðu fengið utan landhelginnar inn fyrir landhelgislínuna og verka hann á skipum eða búa hann út til útflutnings á annan hátt, til að mynda salta hann í tunnur, leggja hann í ís eða skipa honum í önnur skip.[2323] Við lestur þessa úrskurðar landshöfðingja þarf reyndar að hafa í huga að á þessum tíma náði landhelgin aðeins þrjár sjómílur út frá ströndinni.[2324]

Fyrir DAN-félagið og Anglo-Norwegian Company var mikilvægt að fá leyfi til að hafa skip með birgðir af ís inni á Önundarfirði því að sumarið 1894 var ekkert íshús tekið til starfa á Vestfjörðum og reyndar hvergi á landinu ef frá eru talin íshús sem reist var á Seyðisfirði árið 1888 eða því sem næst og lánaðist ekki og svo lítið íshús sem H.Th.A. Thomsen, kaupmaður í Reykjavík, kom upp í Elliðaárhólma sumarið 1894 og ætlað var til að geyma lax.[2325]

Í svari landshöfðingja, sem greint var frá hér að framan, var tekið fram að DAN-félagið mætti ekki láta skip sín stunda veiðar innan landhelgismarkanna fyrst nokkrir þegnar Bretakonungs væru í hópi hluthafa. Þennan þröskuld virðast forráðamenn félagsins þó hafa komist yfir með auðveldum hætti en við réttarhöld haustið 1896 fullyrtu talsmenn þess að skipin sem stunduðu veiðar innan landhelgislínunnar væru dönsk en þau ensku væru öll að veiðum utan við landhelgismörkin.[2326] Við sömu réttarhöld var hins vegar upplýst að öll þjónusta við skipin svo og flutningur á fiskinum til Englands og sala hans þar væri samstarfsverkefni danskra og enskra fyrirtækja.[2327] Að forminu til taldist danska félagið þó flytja út allan þann fisk sem veiddur var innan landhelgismarkanna.[2328]

DAN-félagið, sem hér kemur við sögu, mun hafa hafið veiðar við Ísland árið 1892[2329] en svo virðist sem Önundarfjörður hafi ekki orðið miðpunktur þeirra veiða fyrr en 1894. Sumarið 1894 hófst samvinna félagsins við Andrew Johnson í Hull og á því ári var Cimbria, flutningaskip DAN-félagsins, í förum með ísaða rauðsprettu og annan flatfisk frá Önundarfirði til Hull.[2330] Í bréfi sem Drechsel sjóliðsforingi skrifaði Tryggva Gunnarssyni, bankastjóra Landsbankans, í nóvembermánuði árið 1894 greindi hann frá því að danskur kútter hefði veitt rauðsprettuna sem skip félagsins flutti til Englands þetta sumar og hefði eigandi kúttersins fengið rúmlega helming af söluverði aflans en hitt farið í kostnað, m.a. við flutningana.[2331] Vera má að aðeins einn kútter hafi stundað hér veiðar fyrir markaðinn í Hull þetta sumar eins og sjóliðsforinginn segir. – Einir kolaveiðarar eru farnir að fiska kola hér í firðinum, segir Jón Guðmundsson frá Grafargili í dagbók sinni 8. júlí 1894 og minnist ekki á aðra.[2332]

Bæði 1895 og 1896 urðu umsvif DAN-félagsins og fyrirtækja er tengdust Andrew Johnson í Hull mun meiri en áður í fiskveiðum á Vestfjarðamiðum og útflutningi á ísuðum fiski. Önundarfjörður festist þá í sessi sem miðstöð þessarar starfsemi og hér var staðsett hið mikla skip Roma sem sá öllum danska og breska veiðiflotanum fyrir ís.[2333] Í bréfi sem Drechsel sjóliðsforingi ritaði Tryggva Gunnarssyni 4. mars 1895 greinir hann m.a. frá því að DAN-félagið sé búið að kaupa stórt seglskip frá Noregi fyrir 15.000,- krónur.[2334] Skipið heiti Roma og verði sent til Önundarfjarðar með 750 tonn af ís.[2335]

Á árunum 1895 og 1896 lá þetta mikla barkskip vikum og mánuðum saman á Önundarfirði[2336] en í opinberum heimildum er stærð þess ýmist sögð hafa verið 542 eða 548 tonn.[2337] Þetta var þrímastra tréskip, smíðað í Porsgrund í Noregi árið 1875.[2338] Lengd þess var 138 fet, breidd 27,2 fet og dýpt 18,5 fet.[2339] Heimahöfn skipsins taldist vera í Önundarfirði[2340] en verkefni þess hér var það eitt að sjá flota DAN-félagsins og samstarfsmanna þess fyrir nægilegum birgðum af ís.[2341]

Bestu heimildina um veiðar danskra og breskra fiskiskipa sem tengd voru DAN-félaginu og Andrew Johnson í Hull á árunum 1895 og 1896 er að finna í útskrift úr dómabók Ísafjarðarsýslu þar sem greint er frá réttarhöldum sem fóru fram um borð í barkskipinu Roma á Flateyrarhöfn þann 10. september 1896. Hannes Hafstein, sem síðar varð fyrsti ráðherra Íslands, hafði þá verið sýslumaður í Ísafjarðarsýslu í tæplega eitt ár og setti nú rétt um borð í birgðaskipi DAN-félagsins þar sem það lá á Flateyrarhöfn.[2342] Tilgangur réttarhaldsins var að kanna hversu mikið DAN-félagið og samstarfsmenn þess hefðu flutt út af fiski sem veiddur hefði verið innan landhelgismarkanna en af öllum fiski sem þar veiddist og fluttur var út átti lögum samkvæmt að greiða útflutningsgjald.[2343] Ennfremur reyndi sýslumaður að fá upplýst hversu mikið hefði verið flutt inn af tollskyldum varningi á vegum danskra og breskra útgerðarfélaga sem veiddu flatfisk á Önundarfirði og þar í grennd til flutnings í ís á markaðinn í Hull.[2344]

Þrír menn voru yfirheyrðir í þessu réttarhaldi, þeir N.K. Nielsen, útgerðar- eða framkvæmdastjóri fiski- og flutningaskipa á vegum Andrew Johnson, Knudtzon og Co í Hull og tengdra félaga er við sögu komu, Christian Emil Best, skipstjóri á barkskipinu Roma, 32ja ára að aldri, og Hans Henrik Bagger, skipstjóri á flutningaskipinu Cimbria, 43ja ára að aldri.[2345] Nær fullvíst má telja að N.K. Nielsen, sem þarna er nefndur, sé sami maður og Niels Chr. Nielsen sem stóð að stofnun Íslenska útflutningsfyrirtækisins með Andrew Johnson í Hull og Páli Torfasyni á Flateyri árið 1893 (sjá hér bls. 204-205, 208-213). Nafnið er það sama því Christian/Kristian var ritað sitt á hvað og aldurinn passar líka. Á sóknarmannatali úr Holtsprestakalli frá 31.12.1893 er Niels Chr. Nielsen sagður vera 28 ára[2346] og við réttarhaldið 10.9.1896 er N.K. Nielsen sagður vera 30 ára.[2347] Þeir N.K. Nielsen og Christian Emil Best voru yfirheyrðir um borð í barkskipinu Roma en Hans Henrik Bagger um borð í flutningaskipinu Cimbria sama dag, þann 10. september 1896, en bæði skipin lágu þá inni á Önundarfirði.[2348] Við yfirheyrslurnar bar þeim að heita mátti alveg saman, framkvæmdastjóranum og báðum skipstjórunum, en meðal þess sem þeir greindu frá var þetta:

 

 1. Árin 1895 og 1896 voru veiðarnar stundaðar bæði af gufuskipum og seglskipum í eigu margra útgerðarmanna og félaga, þar á meðal DAN-félagsins, Andrew Johnson/Knudtzon & Co í Hull, Vendsyssels Fiskesportforretning, Tomas Brönnun & Co í Fredrikshavn, Fr. Nielsen í Esbjerg, Melpomene (skip eða félag) í eigu H.H. Baggers skipstjóra á flutningaskipinu Cimbria, og nefndur er sérstaklega kútter Maagen sem var í eigu manns er hét Casse en hann var hæstaréttarlögmaður í Kaupmannahöfn.

 

 1. Dönsku skipin veiddu rauðsprettu (skarkola) inni á Önundarfirði og fleiri fjörðum en bresku gufuskipin veiddu lúðu og skötu utan landhelgislínunnar. Sex kútterar og tveir gufubátar stunduðu kolaveiðarnar (rauðsprettu) á fjörðum inni. Hér þarf að hafa í huga að á þessum tíma höfðu Danir sama rétt og Íslendingar til fiskveiða innan landhelginnar.

 

 1. Kolinn (rauðsprettan) var ýmist veiddur í lagnet eða í dragnót og sá háttur hafður á að menn voru sendir frá skipunum á litlum bátum til að koma veiðarfærunum í sjó en við dráttinn voru notuð gufuknúin spil um borð í skipunum.

 

 1. Bæði sumrin, 1895 og 1896, voru tvö flutningaskip í ferðum með ísfisk frá Önundarfirði til Hull og kom hvort skip á 14 daga fresti svo um vikulegar ferðir var að ræða. Fiskinn tóku þau af veiðiskipunum inni á Önundarfirði og Dýrafirði og stundum líka á Tálknafirði. Ís fengu skipin hjá barkskipinu Roma, sem áður var nefnt, en það lá jafnan á Önundarfirði.

 

 1. Sumarið 1895 voru skipin Ceres og Cimbria í ísfiskflutningunum til Hull en sumarið 1896 kom Gipsy í staðinn fyrir Ceres. Allt voru þetta gufuskip. Eigandi Cimbria var DAN-félagið, Ceres átti Anglo-Norwegian Trawling Company en Gipsy var í eigu Andrew Johnson/Knudtzon & Co í Hull. Framkvæmdastjóri fyrir útgerð beggja síðastnefndu skipanna var N.K. Nielsen og sýnir það að félögin tvö sem áttu þessi skip hafa verið nátengd.

 

 1. Við yfirheyrslurnar 10. september 1896 fengust engar upplýsingar um hversu mikið hefði verið flutt út af fiski á vegum samstarfshópsins sem hér kom við sögu. Hinir yfirheyrðu kváðust ekkert um það vita því aflinn væri ekki vigtaður fyrr en hann kæmi til Hull. Upplýsingar um aflamagn töldu þeir helst hægt að fá hjá hinum ýmsu útgerðum veiðiskipanna og svo að líkindum hjá Andrew Johnson/Knudtzon & Co í Hull sem sá um sölu á fiskinum. Upplýst var að hvert veiðiskip hefði afmarkað rúm fyrir sinn fisk í flutningaskipunum og að eigendur flutningaskipanna hafi fengið um það bil þriðjung af söluverðmæti aflans í sinn hlut.

 

 1. Með flutningaskipunum kom hingað talsvert af varningi til hinna erlendu sjómanna, m.a. tóbak og sykur en enginn spíritus. Andrew Johnson/Knudtzon & Co í Hull sá um vörusendingarnar og sendi varning eftir pöntunum skipstjóranna á veiðiskipunum. Vörum þessum var aldrei skipað hér í land en sjómennirnir á veiðiskipunum fengu þær beint úr flutningaskipunum.

 

 1. Við réttarhaldið greindi skipstjórinn á barkskipinu Roma svo frá að eina verkefni sitt og sinnar skipshafnar á Önundarfirði væri að afhenda ís til hinna ýmsu skipa, bæði innlendra (það er danskra) og erlendra. Hann kvaðst láta vigta allan ís sem látinn væri af hendi og fá kvittun fyrir móttöku en hins vegar tæki hann ekki við borgun fyrir ísinn. Móttökukvittanirnar voru allar sendar til Andrew Johnson/Knudtzon & Co í Hull. Gera má ráð fyrir að kaupverð íssins hafi verið dregið frá söluverði aflans við uppgjör.

 

 1. Öllum spurningum um greiðslur tolla og útflutningsgjalda svöruðu þeir Nielsen, Best og Bagger svo að þeir hefðu aldrei verið krafðir um slík gjöld og þeim hafi ekki verið kunnugt um að greiða ætti útflutningsgjald af fiski sem veiddur væri í landhelgi eða innflutningstoll af tóbaki og sykri sem flutningaskipin færðu hinum erlendu sjómönnum.[2349]

 

Hér hefur nú verið greint frá því helsta sem fram kom við yfirheyrslur sýslumanns um borð í skipunum Roma og Cimbria haustið 1896 en þau lágu þá bæði inni á Önundarfirði. Við lok réttarhaldsins fór Hannes Hafstein þess á leit við þá H.H. Bagger og N.K. Nielsen að þeir könnuðu við komuna til Hull hversu mikið af fiski, veiddum í íslenskri landhelgi, hefði verið flutt þangað á árunum 1895 og 1896 og hvað mikið af tollskyldum varningi hefði komið hingað með flutningaskipunum sem héldu þessi tvö sumur uppi reglubundnum ferðum milli Flateyrar og Hull.[2350] Báðir féllust þeir á að senda sýslumanni skýrslu um málið.[2351]

Skömmu eftir réttarhöldin um borð í skipunum Roma og Cimbria skrifaði Hannes sýslumaður amtmanni bréf og sendi honum þá útskrift úr dómabók Ísafjarðarsýslu sem hér hefur verið vitnað til.[2352] Í bréfi sínu til amtmanns leiðir Hannes rök að því að hin erlendu fyrirtæki eigi tvímælalaust að greiða bæði útflutningsgjald af þeim fiski sem veiddur hafi verið í landhelginni og innflutningstoll af tollskyldum varningi sem afgreiddur sé inni á fjörðum til veiðiskipanna.[2353] Hann spyr þó amtmann hvort nokkur vafi geti leikið á þessu og biður um úrskurð hans. Í bréfinu lætur Hannes þess jafnframt getið að skipstjórarnir á flutningaskipunum muni ekki hafa þekkt hin íslensku lagaákvæði og þess vegna telji hann ekki rétt að dæma þá til refsingar.[2354] Um barkskipið Roma segir sýslumaður í þessu sama bréfi að það hafi legið á Flateyrarhöfn allt sumarið sem fljótandi vörugeymsla og verslunarhús (Isoplag).[2355]

Mörg skjöl og gögn sýslumannsembættisins á Ísafirði frá þessum árum eru brunnin og af þeim ástæðum er ekki auðvelt að sjá hvaða upplýsingar Hannes Hafstein fékk að lokum í hendur um afla skipanna sem stunduðu kolaveiðar inni á Önundarfirði og víðar. Engu að síður er ljóst að árið 1897 var ákveðið að láta málssókn niður falla, enda höfðu eigendur kolaveiðiskipanna þá greitt hin lögboðnu gjöld.[2356]Við ákvörðun þeirrar greiðslu hefur efalaust verið miðað við eitthvert ákveðið aflamagn en hvort þar hefur allt verið tíundað sem skipin veiddu innan landhelgismarkanna skal ósagt látið.

Af því sem hér hefur verið dregið fram má ráða að um kolaveiðarnar í Önundarfirði á síðasta áratug 19. aldar var fyrirtækið Andrew Johnson/Knudtzon & Co í Hull mestu ráðandi og hafði í raun alla þræðina í sinni hendi. Allt bendir til að stjórnandi þess hafi verið sami Andrew Johnson og sá sem stofnaði Íslenska útflutningsfyrirtækið á Flateyri með Páli Torfasyni árið 1893 og hér hefur áður verið gerð grein fyrir. Veldi hans virðist hafa verið mikið og maðurinn ekkert lamb að leika sér við. Ísfélagið við Faxaflóa, sem Tryggvi Gunnarsson bankastjóri var í forystu fyrir, byggði íshús sem tók til starfa árið 1895.[2357] Á því ári var eitthvað af ísvörðum fiski frá félaginu flutt til Englands í samvinnu við DAN-félagið[2358] sem einnig kom við sögu í Önundarfirði. Í bréfi sem C.F. Drechsel sjóliðsforingi, einn ráðamanna DAN-félagsins, skrifaði Tryggva Gunnarssyni í byrjun nóvember árið 1895 sést að Tryggvi hefur verið óánægður með söluna í Englandi og látið vita að hann vilji ekki selja Johnson í Hull meira af lúðu.[2359] Ætla má að það sé enn hinn sami Andrew Johnson sem þarna er nefndur en í bréfi sínu til Tryggva lætur sjóliðsforinginn hann vita að Johnson muni ekki fallast á hugmyndir íslenska bankastjórans um fyrirkomulag fiskflutninganna til Englands nema hann fái sjálfur að annast söluna í Hull.[2360] Þar var hinn voldugi fiskkaupmaður á heimavelli og gat líka sett mönnum stólinn fyrir dyrnar þegar rætt var um flutninga á fiskinum yfir hafið.

Í einu bréfanna sem Drechsel sjóliðsforingi skrifaði Tryggva Gunnarssyni árið 1895 sést að sölukostnaðurinn í Hull var þá 5% af söluverði aflans og að auk var greiðsla vinnulauna dregin frá við uppgjör.[2361] Svo virðist sem þessi 5% hafi því verið eins konar umboðslaun til Andrews Johnson eða fyrirtækis hans.

Líklega hefur verið nokkuð dýrt að láta barkskipið Roma liggja á Önundarfirði sem ísbirgðastöð heilu sumrin og svo mikið er víst að heimamenn á Flateyri höfðu árið 1895 fullan hug á að koma upp íshúsi í landi er gæti tryggt kolaveiðiflotanum á Önundarfirði og flutningaskipunum nægilegar birgðir af ís.[2362] Hér var áður greint frá ráðagerðum Nielsar Chr. Nielsen, umboðsmanns Andrews Johnson, um byggingu íshúss á Hóli á Hvilftarströnd árið 1894 en þau áform runnu út í sandinn (sjá hér bls. 212). Ári síðar voru Torfi Halldórsson á Flateyri og fleiri heimamenn í Önundarfirði með áætlanir um byggingu íshúss á prjónunum. Drechsel sjóliðsforingi, sem hér var áður nefndur, segir í bréfi er hann ritaði 2. ágúst 1895 að Torfi hafi skrifað sér um þær ráðagerðir.[2363] Hlutafélag til að standa fyrir íshúsbyggingunni hafði þá verið stofnað á Flateyri og var hlutafé þess að sögn Torfa 7.000,- krónur, það er fjórtán 500.- króna hlutir.[2364]

Ekkert varð þó úr framkvæmdum og svo virðist sem viðskipti dönsku kolaveiðimannanna við heimafólk í Önundarfirði hafi ekki verið mjög mikil. Með ýmsum hætti nutu Önfirðingar þó góðs af umsvifum DAN-félagsins á þeirra heimaslóðum. Eitt var það að gufuskip félagsins, Cimbria, sem var í flutningum á ísfiski frá Flateyri til Hull flutti líka póst landa á milli í þessum ferðum.[2365] Slíkir póstflutningar frá Vestfjörðum til Hull munu hafa hafist árið 1893[2366] og þeim var haldið áfram næstu ár. Póstsendingarnar með Cimbria voru þó ólöglegar því að Sameinaða danska gufuskipafélagið hafði þá einkaleyfi á öllum póstflutningum til og frá Íslandi.[2367] Yfir sumarmánuðina voru ferðir Cimbria hins vegar mun tíðari en ferðir strandferðaskipanna sem taka áttu póst fyrir Sameinaða gufuskipafélagið.

Árið 1895 var flutt á Alþingi tillaga um að veita DAN-félaginu leyfi til að láta skip sitt Cimbria taka póst á Vestfjörðum á 14 daga fresti og flytja til Englands.[2368] Lagt var til að félaginu yrði veittur 5.000,- króna styrkur til að annast þessa póstflutninga.[2369] Sá sem beitti sér fyrir þessu á Alþingi var Tryggvi Gunnarsson bankastjóri en Ísfélagið við Faxaflóa, sem hann var í forystu fyrir, hafði þá komið sér upp íshúsi í Reykjavík og var í viðskiptum við DAN-félagið.[2370] Tillagan um að DAN-félagið fengi heimild til póstflutninga og 5.000,- króna styrk náði ekki fram að ganga á Alþingi[2371] en þessir flutningar á pósti til Englands héldu áfram engu að síður og frá Englandi fóru bréfin svo áfram til annarra landa.

Ég skrifa þér með Húll-bátnum, segir María Össurardóttir á Flateyri í bréfi er hún ritaði Guðrúnu dóttur sinni 4. október 1896 en Guðrún dvaldist þá í Noregi.[2372] Aldamótaárið 1900 voru kolaveiðarnar enn í fullum gangi í Önundarfirði eins og hér verður síðar vikið að. Í blaðinu Þjóðviljanum sem þá var gefið út á Ísafirði segir svo 6. júní það ár um póstflutningana er þeim tengdust:

 

Í sumar, líklega til ágústmánaðarloka, ganga í viku hverri gufuskip frá Flateyri í Önundarfirði til Hull á Englandi og koma þau á leiðinni frá útlöndum við á Patreksfirði. Skip þessi flytja póstbréf og eru því bréf send héðan frá póstafgreiðslunni [þ.e. frá Ísafirði – innsk. K.Ó.] í viku hverri, degi áður en skipin fara frá Flateyri.[2373]

 

Yfirleitt munu skipin fara reynt að fara frá Flateyri á mánudegi og var þá miðið við að koma til Hull á fimmtudegi, sem talinn var besti söludagurinn á ísfiskmarkaðinum.[2374] Stöku sinnum tóku fiskflutningaskipin farþega og vorið 1896 fór Sigurður Briem sýslumaður með Cimbria til Hull, sem þó hafði ekki verið ætlun hans. Sigurður hafði verið sýslumaður í Ísafjarðarsýslu stuttan tíma en lét af því embætti þetta vor. Í Minningum sínum segir hann frá á þessa leið:

 

Í þá daga stunduðu enskir togarar fiskveiðar við Vesturland og komu inn til Önundarfjarðar í hverri viku. Þar á höfninni lá stórt skip, „Barkskipið Roma”, fullt af ís til afnota við fiskflutninga til Englands en flutningana önnuðust dönsk skip, Cimbria og Dania. Svo stóð á að Cimbria var að fara af stað til Englands með fisk og samdi ég við skipstjórann, Bagger að nafni, að hann skyldi taka mig með og setja mig á land í Keflavík eða einhvers staðar á Reykjanesi eða þá í bát sem við kynnum að hitta á sunnanverðum Faxaflóa.

Þegar við komum inn á Faxaflóa var svo mikið rok af norðri að eigi var viðlit að koma mér neinsstaðar á land. Skipstjóri fór því með mig til Hull. Þar var ég í tvo daga meðan verið var að selja fiskinn, skoðaði bæinn og var þar í miðdegisboði hjá Jóta, Johnsen að nafni, sem var riðinn við Exportforretninguna svonefndu sem líka var kölluð á íslensku Rótarverslun. Verslun þessi var á Flateyri.

Mér er sagt að Johnson þessi hafi verið afi flugkonunnar Johnson sem hefur getið sér heimsfrægð fyrir flugafrek og nýlega hefur farist í flugslysi við Thempsárósa. Hún var gift flugkappa að nafni Mollison. Um kvöldið skemmti ég mér á cirkussýningu mikilli og bar þar margt nýstárlegt fyrir augu. Þar voru framúrskarandi fimleikamenn, skrípafífl, hestar, úlfaldar, fílar, apakettir og fleiri dýr. Hestarnir voru ljómandi fallegir og eftir því fimir og vel tamdir. Eftir 10 daga ferð frá Önundarfirði skilaði Bagger skipstjóri mér til Reykjavíkur.[2375]

 

Eins og hér hefur áður verið skýrt frá var það Exportforretningin á Flateyri, sem Sigurður Briem nefnir svo, er hóf útflutning á ísuðum kola árið 1893 og á næstu árum voru danskir kútterar og gufubátar við kolaveiðar á Önundarfirði á hverju sumri. Stóð svo fram að aldamótum og eitthvað aðeins lengur, a.m.k. til 1903,[2376] en svo brást aflinn,[2377] líklega vegna ofveiði. Sumarið 1900 voru þrír enskir togarar við kolaveiðarnar á Önundarfirði auk dönsku kútteranna[2378] og öll voru þessi skip í samlögum um útflutninginn[2379] eins og verið hafði fimm árum fyrr. Bresk gufuskip, líklega togarar, höfðu þá stundað lúðuveiðar á Vestfjarðamiðum í allmörg ár og lönduðu fiskinum í flutningaskip er fluttu hann ísaðan til Hull (sjá hér bls. 281-282). Í dagbók Jóns Guðmundssonar frá Grafargili má sjá að Bretarnir hófu veiðar snemma á vorin og má sem dæmi nefna að hann getur þess 1. apríl 1895 að fyrsti enski sprökuveiðigufubáturinn sé kominn inn á Önundarfjörð.[2380] Árið 1902 voru sex kútterer frá Friðrikshöfn í Danmörku við kolaveiðar á Önundarfirði, auk þriggja íslenskra báta.[2381] Þá var aflinn ýmist saltaður í tunnur eða fluttur út ísvarinn.[2382]

Á árunum 1895 og 1896 var allur fiskur sem fór frá Önundarfirði á markaðinn í Hull fluttur þangað ísvarinn eins og hér hefur áður verið rakið. Á þeim árum lá barkskipið Roma inni á Flateyrarhöfn sumarlangt og þjónaði danska og breska veiðiflotanum sem ísbirgðastöð (sjá hér bls. 280-283). Svo virðist sem skip þetta hafi aðeins verið hér þessi tvö sumur og í bréfi sem Hannes Hafstein, þáverandi sýslumaður í Ísafjarðarsýslu, skrifaði landshöfðingja 22. júní 1897 tekur hann fram að Roma hafi eigi komið hingað til lögsagnarumdæmisins á þessu ári.[2383]

Í varðveittum heimildum verður ekki séð að annað ísbirgðaskip hafi komið í stað barkskipsins Roma og líklegast er að sumarið 1897 hafi verið tekin upp ný aðferð við geymslu á kolanum sem Danir veiddu í Önundarfirði, því íshús mun ekki hafa verið byggt á Flateyri fyrr en 1915 eða því sem næst (sjá Firðir og fólk 1900-1999, bls, 396).

Í bók sinni Í Vesturvíking, sem er ævisaga Jóns Oddssonar, skipstjóra frá Sæbóli á Ingjaldssandi, segir Guðmundur G. Hagalín rithöfundur að dönsku skipin, sem stunduðu veiðar í Önundarfirði og Dýrafirði um aldamótin 1900, hafi sett kolann í damm og geymt hann þar lifandi[2384] Að sögn Guðmundar G. Hagalín var mestur hluti lestanna í þessum skipum afþiljaður með vatnsheldum skilrúmum og voru göt á byrðingnum út frá kjalsíðunum svo að alltaf var sjór í hinu rúmi.[2385] Þetta afþiljaða rúm í lestum skipanna var nefnt dammur og í hann var kolinn settur lifandi, beint úr dragnótinni.[2386] Þegar skipin höfðu fyllt damminn sigldu þau inn á Flateyri eða Þingeyri og framhaldinu lýsir sami höfundur svo:

 

Þar var kolinn háfaður upp úr „damminum” og látinn í stóra kassa sem á voru göt. Kössunum var síðan lagt við akkeri og þarna lifði kolinn uns skip kom frá Danmörku til að sækja hann. Þá var hann ísaður og fluttur á markað í Bretlandi.[2387]

 

Í hinni ágætu greinargerð frá 1896 um kolaveiðarnar á því ári og hinu næsta á undan sem hér er sagt frá á blaðsíðu 280-283 er hvorki minnst á damminn né það að aflinn hafi verið geymdur í götóttum kössum sem látnir voru liggja við akkeri. Nær fullvíst má telja að skýringin sé sú að þessi geymsluaðferð hafi ekki verið tekin upp fyrr en sumarið 1897 þegar hætt var að senda ísbirgðaskip til Önundarfjarðar. Að sögn Guðmundar G. Hagalín var kolinn, sem geymdur hafði verið í dammi, fluttur ísaður til Bretlands. Þessir fiskflutningar frá Flateyri til Hull stóðu í a.m.k. tíu ár, frá 1893-1903.[2388]

Á árunum 1893-1903 var miðstöð kolaveiðanna tvímælalaust í Önundarfirði. Ætla má að dönsku kolaveiðimennirnir hafi þá átt margvísleg samskipti við Önfirðinga og eitthvað mun heimafólk á Flateyri hafa unnið við netabætingar hjá þessum erlendu fiskimönnum. Ein þeirra sem unnu við að bæta netin var Guðrún Guðbjartardóttir sem þá var ung kona á Flateyri og af kolaveiðimönnunum lærði hún lögin úr Kátu ekkjunni, hinum kunna söngleik eftir Ungverjann Frans Lehár, en Káta ekkjan mun þá nýlega hafa verið færð upp í Kaupmannahöfn í fyrsta sinn.[2389]

Fögur sönglög voru hins vegar ekki það eina sem Önfirðingar lærðu af hinum dönsku fiskimönnum sem stunduðu skarkolaveiðarnar. Hjá þeim sáu þeir líka fyrst vélknúna smábáta sem þutu um hafflötinn án segla eða ára, ekki aðeins í meðbyr heldur líka í logni og á móti sjó og vindi. Mótorvélarnar sem knúðu báta kolaveiðimannanna voru forboði nýrra tíma og þeirra byltingarkenndu breytingar sem voru í nánd.

Á árunum kringum aldamótin 1900 stunduðu dönsku kolaveiðimennirnir ekki aðeins veiðar á Önundarfirði heldur líka á Dýrafirði og Súgandafirði. Fróðlegt er að skoða frásögn Kristjáns G. Þorvaldssonar sem fæddist í Selárdal í Súgandafirði árið 1881 og ólst þar upp en átti síðar heima á Suðureyri. Hann segir frá á þessa leið:

 

Fyrstu kynni Súgfirðinga af vélknúnum skipum voru þau að 12. júlí 1896 kom danskur bátur sem stundaði kolaveiði á fjörðinn. Hann var með hjálparvél og dró vörpuna með vélknúnu spili. Einnig flutti hann vörpuna út á litlum vélbát. Skipverjar fóru sér til skemmtunar inn á fjörð á litla bátnum og vakti það ekki litla athygli að sjá bátinn þjóta áfram án segla eða ára. Upp frá því og nokkuð fram yfir aldamót voru lík skip á firðinum á hverju vori. Aðallega veiddu þessi skip skarkola (rauðsprettu) sem látinn var í „dam”, það er lestin var aðgreind með vatnsheldum skilrúmum og fylltist hún af sjó sem streymdi inn um göt á byrðingnum. Fiskurinn var látinn í lestina og lifði hann þar lengi því sjórinn í henni var hreinn og endurnýjaðist stöðugt. Lítið veiddu þessi skip af þorski en það sem fékkst var látið í lestina. Aftur á móti fengu þau töluvert af steinbít í vörpuna en hann gáfu skipverjar hverjum sem hafa vildi. Oft voru tvö eða þrjú dönsk veiðiskip á firðinum samtímis og þá jafnframt nokkrir smábátar með lóðir sínar en aldrei var þess getið að hinir dönsku fiskimenn skemmdu veiðarfæri manna.[2390]

 

Ummæli Kristjáns sýna að dönsku kútterarnir, sem voru við kolaveiðar í Önundarfirði og á nálægum fjörðum, voru með hjálparvélar og litlu bátarnir sem þeir notuðu til að koma veiðarfærunum í sjó voru líka vélknúnir.

Árni Gíslason, formaður á Ísafirði, sem árið 1902 lét fyrstur íslenskra manna setja vél í fiskibát segir í bók sinni, Gullkistunni, að áhugi hans fyrir vélbátum hafi kviknað er hann sá hvernig dönsku kolaveiðimennirnir í Önundarfirði notuðu opna smábáta með mótorvélum. Nánar greinir hann frá á þessa leið:

 

Um síðustu aldamót stunduðu bátar frá Esbjerg í Danmörku kolaveiðar frá Flateyri í Önundarfirði. Bátar þessir voru um 25 smálestir að stærð og höfðu hjálparvélar (mótora). Við kolaveiðarnar notuðu þeir opna smábáta með litlum mótorvélum. Varð mörgum starsýnt bæði á stærri skipin og smærri bátana sem brunuðu áfram bæði í logni og andviðri. Komu sumir þessir smærri bátar hingað til Ísafjarðar til þess að sækja póst því stærri skipin lögðu aflann í flutningaskip sem fóru vikulega til Bretlands. Ekki sá ég mótorvélarnar heldur aðeins bátana er brunuðu hér um fjörðinn. Varð ég strax hrifinn af þessari nýjung og óskaði þess að ég ætti eftir að eignast svona farartæki.[2391]

 

Hina opnu smábáta kolaveiðimannanna segir Árni hafa verið litlu minni en 2 tonn.[2392]

Vélin sem Árni lét setja í sexæringinn Stanley kom til Ísafjarðar frá Danmörku 2. nóvember 1902.[2393] Þann 25. sama mánaðar var vélin komin í bátinn og þann dag fór Árni í fyrstu reynsluferðina.[2394] Á vetrarvertíðinni árið 1903 var Stanley gerður út frá Ísafirði[2395] og mun þá hafa verið eini vélbáturinn í íslenska fiskveiðiflotanum en um vorið bættist við annar bátur sem gerður var út frá Flateyri.[2396]

Árið 1900 var Páll J. Torfason á Flateyri kominn með umboð fyrir amerískar vélar af Wolveringerð og þá um sumarið fékk hann eina slíka vél senda.[2397] Orka hennar var eitt og hálft hestafl og var vélin þá þegar sett í litla áraskektu sem bróðir Páls, Kristján Torfason á Flateyri, átti.[2398] Þessi skekta var fyrsti vélbáturinn í eigu íslenskra manna, búsettra hérlendis, en hún var aðeins notuð til ferða um Önundarfjörð.[2399] Amerísku vélarnar, sem Páll Torfason hafði umboð fyrir, voru bensínvélar með hraðkveikju og veturinn 1902-1903 var ein slík fimm hestafla Wolverinvél sett í bát sem Ásgeir Torfason á Flateyri, bróðir Páls og Kristjáns, hóf róðra á vorið 1903.[2400] Allar líkur benda til þess að sá bátur hafi verið annar tveggja eða einn þriggja fyrstu íslensku vélbátanna sem gerðir voru út á vertíð.[2401] Árið 1903 voru reyndar settar vélar í a.m.k. tvo báta á Flateyri, Ednu og Valborgu.[2402] Að sögn kunnugra kom Ásgeir Torfason heim úr siglingum árið 1902 beinlínis í þeim tilgangi að ráðast í útgerð vélbáta frá Flateyri með Páli bróður sínum.[2403] Árið 1903 fór Ásgeir með Pál bróður sinn frá Flateyri til Reykjavíkur á mótorbátnum Valborgu og voru þeir aðeins 18 klukkustundir á leiðinni.[2404]

Af því sem hér hefur verið ritað má ráða að notkun Dana á vélknúnum smábátum við kolaveiðar í Önundarfirði varð með beinum og ótvíræðum hætti undanfari að vélvæðingu íslenska bátaflotans. Við að sjá dönsku bátana bruna mót straumi og vindi um hafflötinn án segla og ára kviknaði hjá Árna Gíslasyni, að hans eigin sögn, sú hugmynd að fá sér vél í sexæringinn Stanley eins og hér var áður nefnt. Að því er ætla má hafa áhrifin ekki verið minni á þá Torfasyni sem voru jafnan mikið fyrir nýjungar og höfðu dönsku mótorbátana fyrir augum sumar eftir sumar. Sú fyrirmynd sem í boði var hjá dönsku kolaveiðimönnunum átti því sinn stóra þátt í að þeir Árni Gíslason á Ísafirði og Torfasynir á Flateyri tóku frumkvæðið og urðu fyrstir hérlendra manna til þess að fá sér vélar í opna báta. Nokkrum árum fyrr höfðu Önfirðingar og fleiri Vestfirðingar líka kynnst vélvæðingu af öðrum toga og ýmsum tækninýjungum í hvalveiðistöðinni á Sólbakka (sjá hér Sólbakki og Höfði) og í öðrum hvalveiðistöðvum Norðmanna á Vestfjörðum. Kynnin af allri þessari tækni, sem ekki voru í boði annars staðar á landinu, gætu líka hafa átt sinn þátt í því að Vestfirðingar urðu á undan öðrum landsmönnum að ráðast í vélvæðingu bátaflotans og þar urðu Önfirðingar fljótari til en flestir aðrir eins og hér hefur verið rakið. Amerísku bensínvélarnar sem Páll J. Torfason á Flateyri hafði umboð fyrir reyndust hins vegar ekki nægilega vel því þær voru viðkvæmar fyrir ágjöfum.[2405] Þær munu því ekki hafa verið lengi í notkun en glóðarhausvélar komu í staðinn.

 

Hér hefur áður verið gerð grein fyrir öllum verslunar- og útgerðarfyrirtækjum, sem starfrækt voru á Flateyri á 19. öld og eitthvað kvað að, nema verslun Bergs Rósinkranzsonar sem hóf hér verslunarrekstur árið 1897 og hafði um skeið mikil umsvif.

Bergur fæddist í Tröð í Önundarfirði þann 10. maí 1870[2406] en foreldrar hans voru Rósinkranz Kjartansson, bóndi þar, og kona hans, Guðlaug Pálsdóttir.[2407] Foreldrar Bergs eignuðust 12 börn sem flest komust upp[2408] og var hann yngsta barnið í þeim hópi.[2409] Hér að framan hefur ýmislegt verið ritað um suma bræður Bergs Rósinkranzsonar, einkum Svein, Kjartan og Pál sem allir lögðu fyrir sig sjómennsku og urðu skipstjórar á þilskipum. Bergur gekk hins vegar aðra braut og sigldi liðlega tvítugur til náms í Danmörku.[2410] Þar stundaði hann nám við verslunarskóla í Álaborg í tvö ár og lauk prófi árið 1895.[2411] Að námi loknu var hann í eitt ár við störf á Eskifirði en settist aftur að í Önundarfirði árið 1896 og bjó sig undir að hefja verslunarrekstur. Haustið 1896 fékk hann, ásamt bræðrum sínum, leigða lóð hjá Torfa Halldórssyni á Flateyri og verslunarleyfi, sem nefndist borgarabréf, mun hann hafa fengið um svipað leyti (sjá hér bls. 220–221).

Árið 1896 sést nafn Bergs Rósinkranzsonar í fyrsta sinn í hinum opinberu verslunarskýrslum en á því ári flutti hann inn lítilræði af vörum, samtals fyrir 210,- krónur.[2412] Í skýrslunum er hins vegar tekið fram að sá innflutningur hafi aðeins verið til eigin brúks.[2413] Á síðustu vikum ársins 1896 var Bergur að undirbúa húsbyggingu og í einni samtímaheimild frá Flateyri er nefnt að væntanlega muni Ellefsen, hvalveiðiforstjóri á Sólbakka, koma með hús þetta frá Noregi að vori, það er vorið 1897 (sjá hér bls. 221). Húsið sem Bergur reisti árið 1897 stendur enn (1999) og er nú númer þrjú við Hafnarstræti.[2414] Í þessu húsi hóf Bergur sinn verslunarrekstur en seinna var hér verslun Bræðranna Eyjólfsson[2415] og svo Bókaverslun Jóns Eyjólfssonar. Verið getur að hann hafi byggt  húsið í áföngum því verslunarreksturinn hóf hann árið 1897 en virðist ekki hafa farið að búa í þessu húsi sínu fyrr en aldamótaárið 1900.[2416] Skömmu eftir aldamót byggði Bergur svo húsið sem nú er númer eitt við Hafnarstræti og fluttist þangað en verslunina var hann áfram með í eldra húsinu eins og verið hafði.[2417]

Opinberar verslunarskýrslur sýna að Bergur Rósinkranzson byrjaði sinn verslunarrekstur árið 1897.[2418] Á því ári flutti hann inn vörur fyrir um það bil 8.500,- krónur.[2419] Þar var um margvíslegan varning að ræða, bæði matvöru, álnavöru og ýmsar aðrar nauðsynjar.[2420] Vínsöluleyfi mun Bergur hafa haft frá upphafi því fyrsta árið flutti hann inn 587 potta af brennivíni.[2421] Á næstu árum jókst veltan hjá Bergi og árið 1899 flutti hann inn vörur fyrir nær 13.000,- krónur og er þá eins og áður miðað við söluverð þeirra út úr búð.[2422] Fyrsta árið sem Bergur rak verslun á Flateyri var hann með engan útflutning en árið 1898 flutti hann út saltfisk, aðallega smáfisk, fyrir 2000.- krónur en engar aðrar afurðir.[2423]Á næstu árum jukust umsvif hans verulega og það svo að á árunum 1903-1904 var hann með meiri innflutning en útibú Ásgeirsverslunar á Flateyri (sjá hér bls. 259). Engar aðrar verslanir, sem eitthvað munaði um, voru þá reknar á Flateyri. Mjög skömmu eftir aldamótin fór þessi dugmikli kaupmaður að kaupa þilskip og stunda útgerð en hann mun einnig hafa keypt fisk til verkunar og árið 1903 var hann með mun meiri útflutning en þá var skráður hjá keppinautnum, útibúi Ásgeirsverslunar á Flateyri (sjá hér bls. 258).

Skipin sem Bergur festi kaup á á árunum upp úr aldamótum voru þrjú, Flateyrin, Geir og Haffrúin. Skipið Flateyrina, sem var 35 smálesta galeas, keyptu Bergur og Páll bróðir hans haustið 1901 af þeim Torfa Halldórssyni og Ebenezer Sturlusyni (sjá hér bls. 230). Þilskip þetta var þá 16 ára gamalt, smíðað í Noregi árið 1885 (sjá hér bls. 137 og 144-150).

Flateyrin var fyrsta þilskipið sem Bergur keypti en einu eða tveimur árum síðar náði hann að festa kaup á skonnortunni Geir sem sannanlega var kominn til Flateyrar árið 1904.[2424] Geir var 35 smálestir, smíðaður í Danmörku haustið 1886.[2425] Fyrsti eigandi hans var Geir Zoëga, útgerðarmaður í Reykjavík, sem keypti skip þetta nýtt með öllum búnaði fyrir 9.500,- krónur.[2426] Á þeim árum sem Geir Zoëga gerði skipið út var Sigurður Símonarson frá Dynjanda í Arnarfirði skipstjóri á því um alllangt skeið.[2427]

Þegar Bergur Rósinkranzson hóf þilskipaútgerð á árunum 1902-1904 var tímaskeiði hákarlaveiðanna að ljúka. Árið 1904 lét hann skip sitt Geir stunda hákarlaveiðar alla vertíðina og Flateyrina líka um nokkurt skeið á þeirri vertíð.[2428] Hjá Geir varð vertíðaraflinn að því sinni 511 lifrartunnur og Flateyrin færði þá að landi 202 tunnur af hákarlslifur.[2429] Árið 1905 var ekkert skip gert út á hákarlaveiðar frá Flateyri nema Geir sem virðist aðeins hafa farið í einn eða tvo túra því ársafli hans af hákarlslifur var þá ekki nema 53 tunnur[2430] eða um það bil einn tíundi hluti þess sem fiskast hafði árið áður. Eftir 1905 verður ekki vart við hákarl í opinberum skýrslum um afla skipanna sem gerð voru út frá Flateyri.[2431] Í ljósi þess virðist mega slá því föstu að Bergur Rósinkranzson hafi verið síðasti maðurinn hér í Önundarfirði sem lét skip sín stunda hákarlaveiðar og að skonnortan Geir hafi verið síðasta þilskipið sem gert var út á slíkar veiðar. frá Flateyri.

Frá Ísafirði var hákarlaveiðunum haldið áfram aðeins lengur en frá Flateyri en annars staðar í grenndinni lögðust þær fyrr af.[2432]

Haffrúna, sem var rösklega 40 smálesta skúta, mun Bergur ekki hafa eignast fyrr en 1908 eða 1909[2433] en hún hafði áður verið gerð út frá Ísafirði.[2434] Þegar Bergur keypti Haffrúna var hún komin nokkuð til ára sinna, smíðuð í Kerteminde í Danmörku á árunum 1874-1875.[2435]

Hér verður ekki ráðist í að telja upp alla skipstjóra á skútunum þremur, sem Bergur Rósinkranzson átti og gerði út, en nefna má að Ingibjartur Sigurðsson, bróðir Guðmundar Sigurðssonar, vélsmiðs á Þingeyri, var um skeið skipstjóri á Geir á þeim árum sem skipið var gert út frá Flateyri.[2436] Að sögn kunnugra var Ingibjartur þrekmaður og kjarkmikill sjómaður [2437] og Geir var jafnan talinn gott og sterkt skip.[2438]

Árið 1907 var Ólafur Jónsson skipstjóri á Flateyrinni.[2439] Hann var Arnfirðingur, en fæddur á Hofi í Dýrafirði 28. september árið 1874.[2440] Ólafur settist að á Flateyri árið 1906[2441] og kom þá frá Lokinhömrum í Arnarfirði.[2442] Bergur Rósinkranzson gerði Flateyrina út á þorskveiðar árið 1907 og einn hásetanna var Jón Oddsson frá Sæbóli á Ingjaldssandi, þá tvítugur að aldri, en hann varð seinna skipstjóri á breskum togurum.[2443] Jón var ráðinn upp á óskert hálfdrætti en slík kjör munu ekki hafa verið boðin öðrum en þeim sem taldir voru miklir fiskimenn.[2444]

Skútan Flateyri var seld til Patreksfjarðar árið 1910[2445] en Geir og Haffrúna átti Bergur enn árið 1912.[2446] Haffrúna seldi hann til Stykkishólms árið 1914[2447] og skonnortuna Geir mun Bergur hafa selt ekki löngu síðar því að hann hætti öllum atvinnurekstri á Flateyri í lok ársins 1915.[2448] Geir var síðar breytt í vélskip.[2449] Hann fékk líka nýtt nafn og var nefndur Þórir.[2450] Endalok hans urðu þau að stranda í Skerjafirði 7. mars árið 1941 og var hann þá dæmdur ónýtur.[2451]

Auk útgerðarinnar og verslunarrekstursins stóð Bergur líka fyrir fiskverkun og voru fiskreitir hans uppi á Kambinum,[2452] utantil (vestan) á eyrinni. Á Flateyri lét Bergur til sín taka í félagsmálum og átti m.a. sæti í skólanefnd, hreppsnefnd og sýslunefnd.[2453] Hann hafði líka umsjón með byggingu skólahússins sem reist var á Flateyri árið 1903.[2454] Með Bergi í byggingarnefnd skólans voru Kjartan bróðir hans og Helgi Andrésson og tókst þeim að koma húsinu upp fyrir 2.733,- krónur.[2455]

Eiginkona Bergs Rósinkranzsonar var Vilhelmína Magnúsdóttir, ættuð austan af Fljótsdalshéraði, og voru þau gefin saman á Ísafirði 3. júní árið 1900.[2456] Vilhelmína fluttist til Önundarfjarðar ári áður en hún giftist Bergi og kom þá austan af fjörðum sem kennari.[2457] Hún var þremur árum eldri en eiginmaðurinn.[2458] Skömmu eftir að Bergur kvæntist byggði hann stórt og mikið tveggja hæða íbúðarhús sem enn stendur (1999) og telst vera númer eitt við Hafnarstræti.[2459] Í því húsi munu Bergur og fjölskylda hans hafa búið uns þau fluttust til Reykjavíkur[2460] árið 1916..

Líklega hafa verslunarumsvif Bergs á Flateyri orðið mest á árunum kringum 1905 en hér var þess áður getið að um það leyti var hann með meiri vöruinnflutning en útibú Ásgeirsverslunar (sjá hér bls. 259 og 292). Kristjáni Ásgeirssyni, sem tók við stjórn útibúsins árið 1907, tókst hins vegar að rétta rekstur þess við og árið 1912 var Ásgeirsverslun aftur orðin langstærsta verslunin á Flateyri.[2461] Blómaskeið Bergs í verslunarrekstrinum stóð því stutt og þegar fram í sótti varð hann að láta undan síga í samkeppninni við stórveldið. Í lok ársins 1915 hætti hann öllum rekstri á Flateyri og fluttist vorið 1916 til Reykjavíkur.[2462] Hann var þá 46 ára gamall.

Í Reykjavík mun Bergur hafa rekið eigin verslun í sex ár eða því sem næst en árið 1922 varð hann skrifstofumaður hjá skipaskoðunarstjóra en því embætti gegndi þá bróðursonur hans, Ólafur Th. Sveinsson frá Hvilft í Önundarfirði.[2463] Hjá embætti skipaskoðunarstjóra vann þessi fyrrverandi kaupmaður frá Flateyri fram undir áttrætt en hann andaðist 28. febrúar 1951 á áttugasta og fyrsta aldursári.[2464]

Auk Ásgeirsverslunar voru a.m.k. fjórir einstaklingar sem búsettir voru á Flateyri með verslunarleyfi á síðustu árum nítjándu aldarinnar. Þeir voru Bergur Rósinkranzson, sem hér hefur nú verið gerð grein fyrir, feðgarnir Torfi Halldórsson og Páll Torfason, sem áður var fjallað um, og svo Kristján Guðmundsson sem fæddur var árið 1862. Á árunum 1897-1900 var þó enginn þeirra með eiginlegan verslunarrekstur nema Bergur, þó að Páll Torfason flytti reyndar inn örlítið af vörum árið 1897.

Kristján Guðmundsson, sem hér var nefndur, virðist hafa fengið sér borgarabréf og þar með verslunarleyfi árið 1897. Í opinberri skýrslu um fastar verslanir í Ísafjarðarsýslu á því ári er hann sagður vera einn kaupmanna á Flateyri en jafnframt tekið fram að á því ári hafi hann hvorki fengið sendar vörur eða flutt út afurðir.[2465] Í sams konar skýrslu frá næsta ári stendur sama athugasemd við nafn Kristjáns[2466] og í skýrslum um innfluttar og útfluttar vörur til og frá Flateyri á árunum 1899-1902 verður þess aldrei vart að hann hafi verið með nokkurn verslunarrekstur.[2467]

Fyrir 1897 er nafn Kristjáns aldrei nefnt í verslunarskýrslum[2468] og óhætt virðist að slá því föstu að á árunum 1897-1904 hafi hann aldrei lagt út í verslunarrekstur þó að hann væri með borgarabréf upp á vasann. Engu að síður er hann árið 1898 nefndur kaupmaður í hreppsbók Mosvallahrepps[2469] og í sóknarmannatölum frá árunum 1899-1901 er hann jafnan nefndur borgari.[2470] Slíkir titlar sanna í sjálfu sér ekki neitt nema það að maðurinn hefur haft verslunarleyfi. Reyndar er hugsanlegt að herramaður þessi hafi fengist eitthvað við prang á þessu skeiði en að nefna hann kaupmann er villandi og gefur ranga mynd.

Kristján Guðmundsson fæddist á Vífilsmýrum 11. október 1862 og var sonur hjónanna Guðmundar Magnússonar og Margrétar Magnúsdóttur sem bjuggu á Vífilsmýrum í fáein ár.[2471] Með foreldrum sínum fluttist hann að Tungu í Valþjófsdal skömmu fyrir 1870[2472] og árunum kringum 1875 var hann léttingur hjá Finni Eiríkssyni, bónda á Kirkjubóli í Valþjófsdal.[2473] Árið 1877 hverfur nafn piltsins úr húsvitjanabók prestsins í Holti án þess að séð verði með auðveldum hætti hvert hann muni hafa farið[2474] en 15 árum síðar var hann þrítugur vinnumaður á Kirkjubóli.[2475] Árið 1895 eða því sem næst tók hann upp sambúð við ekkjuna Guðbjörgu Þórðardóttur sem flust hafði sem vinnukona frá Hnífsdal að Kirkjubóli í Dal árið 1893.[2476] Árið 1895 eða 1896 settust þau að á Flateyri og bjuggu hér næstu árin.[2477] Guðbjörg, bústýra Kristjáns, var um það bil 13 árum eldri en hann, fædd haustið 1849.[2478] Árið 1902 fluttust þau frá Flateyri til Ísafjarðar.[2479]

Á árunum 1900-1910 munu tveir menn hafa hafið verslunarrekstur á Flateyri. Annar þeirra var Kjartan Rósinkranzson skipstjóri, sem hér er sagt frá á öðrum stað (sjá hér bls. 160-164), en hinn var Guðmundur G. Sverrisen.[2480] Ólafur Árnason, sem fluttist til Flateyrar árið 1904[2481] og kallaður er kaupmaður í manntalinu frá 1920,[2482] mun hins vegar ekki hafa byrjað að versla fyrr en eftir 1910 því hann er jafnan nefndur húsmaður eða lausamaður í heimildum frá árunum 1905-1910.[2483] Verslanir Kjartans Rósinkranzsonar og Guðmundar G. Sverrisen höfðu báðar mjög lítil umsvif.

Guðmundur Guðmundsson Sverrisen fæddist í Skurðbæ í Meðallandi í Vestur-Skaftafellssýslu 21. júlí 1879 og var sonur hjónanna Guðmundar Jónssonar og Sigurlaugar Oddsdóttur sem bjuggu í Skurðbæ frá 1868 til 1880.[2484] Þegar drengurinn var á 1. eða 2. ári skildu foreldrar hans og ólst hann upp á ýmsum bæjum í Vestur-Skaftafellssýslu, m.a. á Geirlandi á Síðu og í Hraungerði í Álftaveri.[2485] Á árunum 1894-1898 var Guðmundur vinnumaður á Hnausum í Meðallandi en fór þá til Reykjavíkur og var námspiltur þar árið 1902.[2486] Nafnið Sverrisen, sem hann tók snemma upp, mun Guðmundur hafa dregið af nafni langafa síns, Sverris Eiríkssonar sem fæddur var árið 1739 og bjó síðast í Seglbúðum í Landbroti.[2487] Sverrir þessi eignaðist a.m.k. 25 börn.[2488] Guðmundur G. Sverrisen fluttist til Flateyrar frá Reykjavík árið 1904 og var þá 25 ára gamall.[2489] Í sóknarmannatali frá 31.12.1904 er hann nefndur faktor [2490] sem sýnir að hann hefur þá þegar verið byrjaður að versla en titillinn bendir til þess að prestur hafi þá talið einhvern annan eiga verslunina sem Guðmundur rak. Í sóknarmannatölum frá næstu árum er Guðmundur hins vegar jafnan nefndur kaupmaður [2491] svo að ekki fer milli mála að hann hefur rekið sína eigin verslun á Flateyri á þessum árum. Gunnar M. Magnúss, sem fæddist á Flateyri árið 1898 en fluttist burt þaðan árið 1910, hefur ritað svolitla lýsingu á sölubúð Sverrisens og kemst þar svo að orði:

 

Hann leigði í húsi á miðri eyrinni og allir sem um götuna fóru gátu lesið auglýsingu á spjaldi sem fyllti nærri heila rúðu:  –  Verslun G. G. Sverrisens  –  .

Hann hafði sett upp dálítið búðarborð yfir þvert herbergið en í hillum og kössum var varningur. Í gluggakistunni var hvítt pappaspjald. Á það var raðað sápum, burstum, greiðum, kömbum, reyktóbakspökkum og vasahnífum. En á snúru sem var strengd þvert yfir gluggann héngu skóreimar, brjósthlífar karla, fingravettlingar, sikkerisnælur og tautölur á spjöldum.[2492]

 

Um Guðmund G. Sverrisen kaupmann segir Gunnar að hann hafi verið nærsýnn og notað gleraugu.[2493] Rödd hans var djúp en svo virtist sem einhver hrönglingur hindraði að hann hefði samfellda röð orðanna.[2494] Gunnar M. Magnúss minntist þess líka að þessi nærsýni kaupmaður, sem seldi Önfirðingum sápu, tóbak og skóreimar, átti myndavél og tók af fólki ljósmyndir[2495] en slíkt iðkuðu fáir á fyrstu árum aldarinnar.

Snorri Sigfússon skólastjóri sem settist að á Flateyri árið 1912 segir svo frá Guðmundi G. Sverrisen og verslunarrekstri hans:

 

Þá var fjórða verslunin í litlu húsi um miðbik Eyrarinnar. Það hús átti og rak þar smáverslun aðfluttur maður einhleypur, Guðmundur G. Sverrisen. Hann verslaði aðeins með smádót en ekki matvöru og fékkst líka ofurlítið við myndasmíði.[2496]

 

Húsið sem Guðmundur verslaði í stóð á lóðinni númer 10 við Grundarstíg[2497] en er nú horfið[2498] Hann mun einnig hafa búið í því húsi og í manntalinu frá 1920 er það nefnt Sverrisenshús.[2499] Þá hefur Guðmundur líklega verið hættur að versla því að í þessu manntali er hann ekki nefndur kaupmaður en sagður vera undirsíldarmatsmaður.[2500] Ugglaust hefur það verið síldin sem dró þennan fyrrverandi smákaupmann norður á Siglufjörð en þar andaðist hann 13. desember 1924[2501] og var þá 45 ára gamall.

 

Hér hefur nú verið gerð nokkur grein fyrir þeim einstaklingum og fyrirtækjum sem ráku útgerð þilskipa eða verslun á Flateyri á nítjándu öld og árunum kringum aldamótin 1900. Enn hefur þó fátt verið sagt um myndun þorpsins og íbúafjölgunina sem hér varð á tveimur síðustu áratugum nítjándu aldarinnar. Þess var þó áður getið að í byrjun ársins 1880 var Torfahús enn eina íbúðarhúsið á Flateyri en miklar breytingar voru þá á næsta leiti.

Sumarið 1880 byggði Sveinn Rósinkranzson skipstjóri, síðar bóndi á Hvilft, stórt tveggja hæða timburhús[2502] sem nefnt var Sveinshús. Húsið stóð á hlöðnum grunni og var með lágu risi.[2503] Hús þetta var tekið út í desembermánuði árið 1883 og segir í úttektargerðinni að það sé tvíloftað, flatarmálið 15 x 12 álnir og hæð frá gólfi í kjöl 11,75 álnir.[2504] Hver hæð hefur því verið um það bil 70 fermetrar. Húsið var virt á 5.500,- krónur.[2505] Haustið 1880 mun Sveinn hafa selt Ebenezer Sturlusyni skipstjóra einn fjórða hluta þessa nýja húss og átti Ebenezer þar heima æ síðan, allt til dauðadags.[2506] Enn er búið í Sveinshúsi (1995) sem stendur á sínum gamla stað og er nú númer 7 við Hafnarstræti.[2507]

Næsta timburhús var byggt á Flateyri árið 1882.[2508] Fyrsti eigandi þess var Gunnlaugur Oddsen sem þá var bókhaldari við verslun Hjálmars Jónssonar.[2509] Húsið var því nefnt Gunnlaugshús. Þetta var líka tveggja hæða hús með lágu risi og stóð á hlöðnum grunni.[2510] Flatarmálið var 12 x 10 álnir eða um það bil 47 fermetrar og hæðin 11,5 álnir,[2511] það er 7,2 metrar. Gunnlaugshús var tekið út í desembermánuði árið 1883 og virt á 4.800,- krónur.[2512] Húsið stóð þar sem nú er Grundarstígur 8 á Flateyri en var rifið á árunum kringum 1960.[2513] Á uppdrætti sem gerður var af Flateyri árið 1883 sést að Sveinshús hefur þá verið hvítt að lit en Gunnlaugshús brúnt.[2514]

Þriðja timburhúsið bættist svo við árið 1884. Það hús byggðu þeir Kjartan Rósinkranzson skipstjóri og Páll Guðlaugsson, mágur hans,[2515] sem á sama ári gerðist verslunarmaður hjá Ásgeirsverslun á Flateyri (sjá hér bls. 253). Þetta var líka tveggja hæða hús, 16 x 12 álnir að flatarmáli (sjá hér bls. 160-161) og var því heldur stærra en Sveinshús. Eins og hin húsin tvö var það með lágu risi og reist á hlöðnum grunni.[2516]

Hús Kjartans og Páls var árið 1884 með sinn eigin viðskiptamannareikning hjá útibúi Ásgeirsverslunar á Flateyri.[2517] Reikningurinn sýnir að til byggingarinnar voru teknar út vörur hjá útibúinu fyrir 1.294,10 krónur.[2518] Þar var bárujárnið, sem kostaði 393,76 krónur, dýrasti liðurinn en allt var þetta tekið út í mánuðunum september-desember árið 1884.[2519] Timbrið í hús sitt keyptu þeir Kjartan og Páll ekki hjá versluninni á Flateyri[2520] og má vera að þeir hafi fengið það frá Noregi.

Hús þetta frá árinu 1884, sem nefnt var Kjartanshús, stendur enn (1995) og er númer 9 við Hafnarstræti.[2521] Búið var í húsinu eitthvað fram yfir miðja 20. öld en síðustu áratugina hefur það verið notað sem vörugeymsla.[2522] Árið 1885 og í allmörg næstu ár voru Torfahús, Sveinshús, Gunnlaugshús og Kjartanshús einu íbúðarhúsin á Flateyri.[2523] Árið 1887 voru þau metin til peningaverðs og voru þá virt á samtals 21.530,- krónur.[2524] Þinglýstar veðskuldir sem á þeim hvíldu voru þá 4.200,- krónur.[2525] Árið 1894 bættist fimmta íbúðarhúsið við en það byggði Ásgeirsverslun og í því bjuggu útibússtjórar hennar á Flateyri síðan. Húsið stendur enn (1995) nokkuð breytt en því hefur áður verið lýst á þessum blöðum (sjá hér bls. 248-249).

Á árunum um og upp úr 1890 var oft þröngt setinn bekkurinn í timburhúsunum þremur sem byggð höfðu verið á Flateyri á árunum 1880-1884.[2526] Frá 1884 til 1894 fjölgaði íbúum á Flateyri úr 55 í 101 (sjá hér bls. 307-308) án þess að íbúðarhúsum fjölgaði nema hvað faktorshúsið bættist við síðasta árið en inn í það fluttust engir nema útibússtjórinn við Ásgeirsverslun og hans fjölskylda. Verið getur að fáeinar manneskjur hafi þó stundum búið í Nesdal á síðari hluta þessa tíu ára tímabils en það var lítill torfbær sem Torfi Halldórsson átti og fullvíst er að þar hafðist fólk við veturinn 1895-1896[2527] og eins á næstu árum þar á eftir,[2528] en þegar Snorri Sigfússon fluttist til Flateyrar árið 1912 var Nesdalur horfinn.[2529]

Torfbær þessi stóð á Flateyrarodda en hvar á Oddanum er ekki alveg ljóst. Gunnar M. Magnúss rithöfundur, sem fæddist í þessum bæ árið 1898[2530] en fluttist þaðan innan við þriggja ára aldur,[2531] sagði áttræður að Nesdalur hefði staðið þar sem hraðfrystihúsið á Flateyri stendur nú (1995).[2532] Gunnar ólst upp á Flateyri allt þar til hann var á tólfta árinu og ætti því að fara nærri um þetta. Á nýlegum uppdrætti, sem á að sýna staðsetningu húsanna á Flateyrarodda árið 1901, er Nesdalur hins vegar sagður hafa staðið fáeinum metrum fyrir vestan Faktorshúsið sem enn stendur (1995) (sjá uppdrátt sem fylgir óprentaðri BA ritg. Helga S. Sigurðssonar) en í því bjuggu síðar um langt skeið, hver fram af öðrum, hinir ýmsu kaupfélagsstjórar hjá Kaupfélagi Önfirðinga. Eyjólfur Jónsson á Ísafirði sem þekkti sögu Flateyrar manna best kvaðst (1995) ekki vita hvar Nesdalur hafi staðið en telur hugsanlegt að hann hafi verið þarna, rétt vestan við Faktorshúsið.[2533] Sóknarmannatal frá árinu 1898 sýnir að þá var búið í 14 húsum á Flateyri.[2534] Nesdalur var þá eini torfbærinn í þorpinu sem búið var í því fullvíst er að hin þrettán húsin voru öll timburhús (sjá hér bls. 298-299 og 301-305). Með hliðsjón af þeirri vitneskju verður að telja mjög líklegt að torfbær sem sést á ljósmynd af Flateyrarodda sem tekin var árið 1898 sé Nesdalur því myndin ber með sér að þá hefur verið búið í bænum sem þar sést (sjá Firðir og fólk 900-1900, 395). Á myndinni sjást flest húsin sem stóðu á Flateyrarodda árið 1898 og torfbærinn er þar á miðri mynd, lítið eitt fyrir norðan verslunarhús Ásgeirsverslunar og aðeins vestar. Af myndinni má ráða að þetta er alls ekki eitthvert gripahús heldur mannabústaður og kemur þá varla annað til greina en Nesdalur eða verbúð Ásgeirsverslunar, sem nefnd var hrútakofinn, en hún stóð að sögn á öðrum stað, spölkorn fyrir neðan verslunarhús Ásgeirsverslunar (sjá hér bls. 278). Torfbærinn á myndinni frá 1898 er með timburþili og nokkuð stór eins og Nesdalur hlýtur að hafa verið því þar áttu ellefu manneskjur heima þann 1. nóvember árið 1901.[2535] Heimilin voru þrjú og að auk töldust tveir einhleypingar þá vera búsettir í Nesdal.[2536] Sé það Nesdalur sem blasir við á ljósmyndinni frá 1898 þá hefur bærinn staðið á bletti sem nú er innan veggja hraðfrystihússins og ekki langt frá suðaustur horni þess.[2537] Sú staðsetning kemur heim við fullyrðingu Gunnars M. Magnúss er hér var áður getið um.

Síðasta fólkið sem átti heima í Nesdal voru hjónin Jón Guðmundsson og Elísabet Engilbertsdóttir og þeirra fjölskylda.[2538] Í sóknarmannatölum prestanna í Holti sést að þau voru jafnan í Nesdal á árunum 1899-1906.[2539] Við lok ársins 1906 voru þau þar en næstu ár þar á eftir eru húsin á Flateyri ætíð nafnlaus í sóknarmannatölunum[2540] og þess vegna er ekki auðvelt að sjá hvenær búsetu lauk í Nesdal. Ástæðulaust mun þó vera að rengja þá staðhæfingu Snorra Sigfússonar skólastjóra, sem fyrr var nefnd, að Nesdalur hafi verið horfinn þegar hann fluttist til Flateyrar árið 1912.

Til marks um þrengslin á Flateyri á árunum upp úr 1890 má nefna að við lok ársins 1891 töldust íbúarnir vera 101 (sjá hér bls. 300) en allt íbúðarhúsnæði á þessum verslunarstað var þá 574 fermetrar eða 604 ef stækkuninni á Torfahúsi, sem ráðist var í á árunum 1887-1905, hefur verið hrint í framkvæmd fyrir þann tíma (sjá hér bls. 298-300 og bls. 80-82). Sé miðað við hærri töluna hafa þetta verið 6 fermetrar á íbúa. Mun þrengra var þó stundum um fólkið í nýju timburhúsunum á Flateyri og má sem dæmi nefna að árið 1894 voru 42 manneskjur búsettar í Sveinshúsi.[2541] Í þessu tveggja hæða húsi var hvor hæð 70 fermetrar eins og hér var áður nefnt en eitthvað af fólki mun líka hafa búið í risinu svo ætla má að gólfpláss á hvern íbúa hafi verið 4-5 fermetrar.

Árið 1895 bættust við þrjú ný íbúðarhús[2542] og segja má að frá og með árinu 1894 hafi húsunum fjölgað ár frá ári. Þeir sem byggðu árið 1895 voru Kristján Bjarni Guðmundsson, Guðbjartur Helgason og Bjarni Bjarnason.[2543] Öll þessi hús voru tekin út haustið 1896.[2544] Öll voru þau á einni hæð og mun minni en þau sem byggð voru 1880-1884.[2545] Hús Kristjáns Bjarna var 10 x 7 álnir[2546] eða um það bil 28 fermetrar. Það var virt á 1.000,- krónur.[2547] Timbrið í hús Kristjáns Bjarna var flutt inn tilhöggvið frá Noregi og sömu sögu er að segja um hús Hólmbergs Gíslasonar (sjá hér bls. 303) sem reist var á Flateyri tveimur árum síðar.[2548] Bæði þessi hús standa enn (1995) en hafa tekið miklum breytingum.[2549] Hús Kristjáns Bjarna er nú númer eitt við Vallargötu.[2550]

Húsið sem Guðbjartur Helgason kom upp árið 1895 taldist ári síðar vera sameign hans og Greips Oddssonar.[2551] Þetta hús var 13 x 8,5 álnir[2552] eða tæplega 44 fermetrar og var virt á 1.700,- krónur haustið 1896.[2553] Það stendur enn (1995) fremur lítið breytt og er númer 4 við Bárugötu en skúrbygging við norðurvegginn er mun yngri.[2554]

Hús Bjarna Bjarnasonar var minnst hinna þriggja íbúðarhúsa sem menn byggðu á Flateyri árið 1895, aðeins 6 x 3 álnir en því fylgdi skúr sem var 6 x 5 álnir.[2555] Að skúrnum meðtöldum var gólfflöturinn því um það bil 19 fermetrar. Þetta hús var virt á 600,- krónur.[2556] Það stendur enn og er númer 3 við Bárugötu en er gjörbreytt að útliti.[2557]

Árið 1896 settist Helgi Andrésson skipstjóri að á Flateyri í annað sinn og á því ári byggðu þeir Friðrik Bjarnason allstórt timburhús sem löngum var nefnt Helgahús (sjá hér bls. 166). Húsið var tekið út 10. febrúar 1897 og virt á 1.800,- krónur.[2558] Helgi átti þá 2/3 í húsinu en Friðrik 1/3.[2559] Hús þetta stendur enn (1995), nokkuð umbreytt og með viðbyggingum. Miðhluti þess mun vera elstur og er númer 9 við Grundarstíg en yngri viðbygging er númer 11 við sömu götu.[2560] (sbr. hér bls. 166).

Allir sem byggðu sér íbúðarhús á Flateyri á árunum kringum aldamótin 1900 þurftu að fá leigða lóð hjá Torfa Halldórssyni sem átti allt land á Flateyri. Þann 21. ágúst 1897 leigði Torfi þeim Jens A. Guðmundssyni og Guðjóni Sigmundssyni lóð undir hús og var hún 2500 ferfet.[2561] Í leigusamningnum var tekið fram að leigan væri 1 eyrir á ári fyrir hvert ferfet, það er 25,- krónur fyrir alla lóðina og auk þess urðu þeir að greiða 250,- krónur sem var eingreiðsla.[2562] Þeir Jens og Guðjón munu hafa komið húsi sínu upp haustið 1897 því að í sóknarmannatali frá 31. desember á því ári er Guðjón sagður vera húseigandi.[2563] Í sóknarmannatölum frá næstu árum þar á eftir má sjá að þeir bjuggu þá saman í húsi.[2564] Það hús er nefnt Jenshús í manntalinu frá 1901[2565] og er nú miðhluti sambyggingar sem er númer 17 og 19 við Hafnarstræti.[2566]

Hús Jens A. Guðmundssonar og Guðjóns Sigmundssonar var ekki það eina sem reist var á Flateyri árið 1897. Á því ári munu þrjú eða fjögur önnur íbúðarhús hafa bæst við í þessu litla þorpi.[2567] Þar er fyrst að nefna hús Bergs Rósinkranzsonar sem hóf verslunarrekstur á Flateyri árið 1897 en timbrið í það mun hafa komið tilhöggvið frá Noregi.[2568] Hús þetta, sem er á tveimur hæðum, var fyrst og fremst ætlað til verslunarreksturs en þar var líka íbúð og bjó Bergur í henni í nokkur ár (sjá hér bls. 292-293). Húsið stendur enn (1995) og er númer 3 við Hafnarstræti[2569] en er nú eitthvað lengra en það var í fyrstu.[2570] Verslun Bræðurnir Eyjólfsson stendur á skilti yfir dyrunum og minnir á liðna tíð en Jens Eyjólfsson frá Kirkjubóli í Valþjófsdal og bræður hans, Jón og Kristján, hófu verslunarrekstur í húsinu um það leyti sem fyrri heimsstyrjöldinni lauk (sjá Firðir og fólk 1900-1999, 402). Einn þessara bræðra, Jón Eyjólfsson, var mjög lengi með verslunarrekstur í húsinu og bókabúðin sem hann setti á stofn árið 1920 er hér enn og hefur nú (1995) verið rekin í þessu gamla húsi í 75 ár. Rétt eftir aldamótin 1900 byggði Bergur Rósinkranzson annað hús sem fékk nafnið Bergshús og er nú Hafnarstræti 1.[2571]

Hér hafa nú verið nefnd tvö hús sem reist voru á Flateyri árið 1897 en hin tvö sem líka komust upp á því ári voru: Hús Guðmundar Snorra Björnssonar og hús Hólmbergs Gíslasonar.[2572] Íbúðarhúsið sem hér er kennt við Guðmund Snorra munu þeir hafa átt saman, hann og tengdafaðir hans, séra Jón Jónsson uppgjafaprestur,[2573] sem settist að á Flateyri árið 1897 (sjá hér bls. 309-310). Hús Guðmundar Snorra stóð þar sem nú er Hafnarstræti 13[2574] en hús Hólmbergs stendur enn (1995), mikið breytt að vísu, og er númer 12 við Grundarstíg.[2575] Á lóðinni Hafnarstræti 13, þar sem áður stóð hús Guðmundar Snorra og séra Jóns, stendur (1995) hús sem byggt var 1912 og er það elsta steinsteypta húsið á Flateyri.[2576]

Enn eitt íbúðarhús kynni að hafa verið byggt árið 1897, húsið sem nefnt er Guðbjarnahús í manntalinu frá 1901 og kennt við þáverandi eiganda þess Guðbjarna Bjarnason.[2577] Guðbjarni átti húsið sannanlega við lok ársins 1900 og virðist hafa flust til Flateyrar á því ári.[2578] Hins vegar er Reginbald Erlendsson talinn húseigandi á Flateyri árið 1897 og bjó þá með sinni fjölskyldu einn í húsi.[2579] Ekki verður séð að þar geti verið um að ræða neitt hinna eldri húsa og verður því að ætla að hann hafi byggt sér hús árið 1897 eða jafnvel 1896. Reginbald dó árið 1898 og á því ári fluttist ekkja hans, Bjargey Sigurðardóttir, norður í Sléttuhrepp.[2580] Líklegast er að það hafi verið hús Reginbalds sem Guðbjarni eignaðist árið 1900 þó að ekki sé það alveg víst. Hús Guðbjarna var númer 10 við Grundarstíg[2581] og brann á árunum kringum 1985.[2582]

Þegar manntal var tekið 1. nóvember 1901 var búið í 17 húsum á Flateyri.[2583] Verbúð Ásgeirsverslunar er þá ekki talin með því þeir sem þar dvöldust áttu sitt lögheimili annars staðar (sjá hér bls. 278 og 301). Hér að framan hefur verið gerð grein fyrir öllum þessum íbúðarhúsum nema Ásbjarnarhúsi og Guðmundarskúr en það voru nýjustu íbúðarhúsin í þorpinu haustið 1901. Ásbjarnarhús byggði Ásbjörn Bjarnason, sem stundum var nefndur garðyrkjumaður,[2584] árið 1898[2585] en Guðmundarskúr reisti Guðmundur Kristjánsson árið 1901.[2586] Ásbjarnarhús er nú horfið en mun hafa staðið þar sem nú er Brimnesvegur 4.[2587] Guðmundarskúr, sem stóð við Vallargötu, hefur líka verið rifinn[2588] en hefði skagað út í götuna eins og hún er nú og að líkindum verið númer fimm.[2589]

Á árunum 1902 til 1910 voru sjö ný íbúðarhús reist á Flateyri en þau voru þessi: Hús Bergs Rósinkranzsonar, nú Hafnarstræti 1, hús Bóasar Guðlaugssonar, nú Ránargata 5, hús Ólafs Jónssonar skipstjóra, nú Ránargata 6, hús Ólafs Árnasonar, nú Ránargata 10, hús Þorbergs Jenssonar, nú Vallargata 3, hús Magnúsar Guðmundssonar skósmiðs og hús Guðbjartar Þorgeirssonar.[2590] Tvö síðastnefndu húsin eru nú horfin en hús Magnúsar stóð þar sem nú er Brimnesvegur 13 og hús Guðbjartar Þorgeirssonar mun hafa staðið á svipuðum slóðum og nú er Grundarstígur 7.[2591]

Um húsin á Flateyri á fyrstu áratugum þorpsins verða þessi orð að duga en því má samt bæta við að árið 1903 var byggður barnaskóli sem stóð við Grundarstíg og góðtemplarahús sem var vígt 24. október 1903 og stóð skammt frá horni Grundarstígs og Bárugötu, norðan síðarnefndu götunnar.[2592] Snorri Sigfússon lætur þess getið að skólahúsið hafi kostað 2.733,- krónur og það hafi verið Bergur Rósinkranzson sem sá um byggingu þess.[2593] Þetta skólahús mun hafa verið rifið á árunum upp úr 1980[2594] en stúkuhúsið frá 1903 stendur enn (1995), eitthvað breytt, og er númer 13 við Grundarstíg.[2595]

Erfitt var að afla neysluvatns á Flateyri áður en vatnsveitan, sem komið var upp árið 1908, kom til sögunnar.[2596] Tveir brunnar munu hafa verið í þorpinu á árunum fyrir 1900. Var annar þeirra milli Sveinshúss og Gunnlaugshúss en hinn hjá húsi Helga Andréssonar og var nefndur Helgapumpa.[2597]

Fróðlegt getur verið að skoða hver var atvinna þeirra 20 manna sem byggðu eða eignuðust íbúðarhúsnæði á Flateyri á árunum 1880-1901 og hvaðan þeir komu. Hinir fimm fyrstu, Sveinn, Ebenezer, Gunnlaugur, Kjartan og Páll voru allir Önfirðingar að uppruna nema Gunnlaugur sem alist hafði upp í Vopnafirði og austur á Fljótsdalshéraði[2598] (sjá hér bls. 111-112). Þeir Sveinn, Ebenezer og Kjartan voru allir skútuskipstjórar, Gunnlaugur var verslunarmaður og það var Páll líka um skeið en fékkst síðar við söðlasmíði og fleira.[2599] Kristján Bjarni Guðmundsson var Arnfirðingur og er í manntalinu frá 1901 sagður stunda hvalveiðar.[2600] Bjarni Bjarnason, sem eins og Kristján byggði sér hús á Flateyri árið 1895, var sjómaður á fiskiskipum, fæddur á Ingjaldssandi.[2601] Þeir Guðbjartur Helgason og Greipur Oddsson, sem áttu hús saman, voru hins vegar iðnaðarmenn, Guðbjartur járn- og trésmiður og Greipur járnsmiður.[2602] Báður vor