Mosvallahreppur hinn forni

Mosvallahreppur hinn forni

Áður en Mosvallahreppi var skipt náði hann yfir allan Önundarfjörð að frátöldum Ingjaldssandi sem er í Mýrahreppi. Hreppamörkin á móti Mýrahreppi eru við Reyðarsker undir Hrafnaskálarnúp á vesturströnd Önundarfjarðar (sjá hér Villingadalur og Mosdalur) en að norðanverðu náði Mosvallahreppur hinn forni að Gathamri sem er yst á norðurströnd fjarðarins, rétt innan við Sauðanestána (sjá hér Eyri). Þar eru nú mörk Flateyrarhrepps og Suðureyrarhrepps en hinum forna Mosvallahreppi var skipt í tvö sveitarfélög árið 1922, Mosvallahrepp og Flateyrarhrepp (sjá Firðir og fólk 1900-1990, 390-391). Hreppamörkin milli þeirra eru við Breiðadalsá á norðurströnd Önundarfjarðar.

Í fjarðaröðinni milli Látrabjargs og Stiga er Önundarfjörður sá fimmti sé talið frá Bjargtöngum og liggur milli Dýrafjarðar og Súgandafjarðar. Meginstefna fjarðarins er frá vestnorðvestri til austsuðausturs en innan við Holtsodda sveigir hann til suðurs og síðan dálítið til austurs innst við fjarðarbotninn. Útverðir Önundarfjarðar eru fjöllin Barði og Sauðanes sem rísa hömrum prýdd úr sjó við fjarðarmynnið, Barði að vestan en Sauðanes að norðan. Ystu brúnir beggja þessara fjalla eru í um það bil 480 metra hæð yfir sjávarmáli.

Nærri lætur að Önundarfjörður sé um 20 kílómetrar á lengd ef miðað er við loftlínu sem hugsast dregin inn um miðjan fjörðinn. Sé farið með ströndum fram er vegalengdin lítið eitt lengri frá annesjum í fjarðarbotn en þar munar þó ekki miklu því engar stórar víkur eða vogar verða á leið þeirra sem ganga hér um fjörur. Breiðastur er fjörðurinn yst, liðlega sex kílómetrar í fjarðarkjaftinum. Síðan mjókkar hann smátt og smátt og þegar kemur inn undir Flateyri eru aðeins þrír kílómetrar stranda á milli. Úr Flateyraroddanum yfir í Valþjófsdal eru tveir kílómetrar en þar fyrir innan er breidd fjarðarins víðast hvar tveir til þrír kílómetrar uns komið er inn undir Holtsodda. Þar mjókkar fjörðurinn verulega og grynnkar mjög. Úr sjálfum Holtsoddanum er örskammt yfir að Sela-Kirkjubóli, máske 300 metrar, en innan við hann, í Vöðunum sem svo heita, er víða um það bil einn kílómetri milli landa. Allur innsti hluti fjarðarins, fyrir innan Holtsodda, kallast Vöð en vegalengdin frá Holtsoddanum inn að innstu mörkum lands og sjávar er fimm til sex kílómetrar. Á flæði fer allt undir sjó í Vöðunum en þegar fjarar út koma þar upp miklir leirar svo auðvelt verður að komast ríðandi milli landa.

Í Önundarfirði er meira undirlendi en víðast annars staðar á Vestfjörðum. Í þeim efnum munar hvað mest um Ingjaldssand og gróðurlendið upp frá botni fjarðarins. Í kringum hið forna prestssetur Holt er líka mikið flatlendi og vel gróið sem nær frá Bjarnardal út að fjallinu Þorfinni. Í Valþjófsdal og Breiðadal er einnig talsvert sléttlendi og mikið um gras.

Fjalllendið beggja vegna Önundarfjarðar er víðast hvar sundurskorið af margvíslega löguðum dölum og hvilftum, sumum stórum en öðrum smáum. Undantekning frá þessu er Sauðanesið, yst við norðanverðan fjörðinn, en á því má fjallsbrúnin heita órofin allt frá ysta annesi að Kálfeyrardal og er sú vegalengd um það bil sex kílómetrar.

Hæð fjalla við utanverðan Önundarfjörð er víðast hvar á bilinu frá 500 til 700 metrar. Innan við Flateyri og Valþjófsdal eru mörg enn hærri fjöll og brúnir þeirra flestra í 700-800 metra hæð yfir sjávarmáli. Í hálendinu fyrir botni fjarðarins er á nokkrum stöðum hægt að komast í yfir 800 metra hæð og hæsta fjall í Mosvallahreppi mun vera Þverfell fyrir botni Hestdals en brún þess er í 908 metra hæð yfir sjávarmáli. Fjall þetta er sunnan við Hestskarð og liggur á mörkum Mosvallahrepps og Súðavíkurhrepps.

Áður en lengra er haldið mun vera rétt að telja upp nokkur helstu fjöll og dali í Önundarfirði og gera grein fyrir röð þeirra. Nánari útlistun verður hins vegar látin bíða ferðarinnar sem fram undan er bæ frá bæ um allan fjörðinn.

Ysta fjall við vestanverðan Önundarfjörð er Barði en milli hans og Hrafnaskálarnúps liggur dalurinn Ingjaldssandur sem er í Mýrahreppi og hér hefur áður verið sagt frá. Innan við Hrafnaskálarnúp kemur Mosdalur, lítill og þröngur. Þar var ein bújörð á fyrri tíð. Fyrir innan Mosdal kemur fjallið Sporhamar og þar fyrir innan er Valþjófsdalur. Sá dalur er með þeim stærri í Önundarfirði og þar voru fjórar fornar bújarðir. Innan við Valþjófsdal er fjallið Þorfinnur, beint á móti Flateyri sem er hinum megin við fjörðinn. Fyrir innan Þorfinn er Hjarðardalur og þar eru þrjár bújarðir á sléttlendinu neðan við dalsmynnið. Innan við Hjarðardal gnæfir Holtsfjall, kennt við prestssetrið Holt sem stendur hér skammt frá, um það bil miðja vega milli fjöru og fjalls. Innan við Holtsfjall skerst Bjarnardalur suður í fjalllendið. Þar eru tvær bújarðir í dalsmynninu og aðrar tvær nokkru framar í dalnum. Vestur úr Bjarnardal ganga Berjadalur, Galtardalur og Skáldagrímsdalur og þar, í Bjarnardal vestanverðum, er Kaldbakur svipmesta fjallið. Syðsta hornið á austurhlið Holtsfjalls heitir Messuhorn en milli þess og Vaðlafjalls er Berjadalur. Galtardalur er svo milli Vaðlafjalls og Kaldbaks og Skáldagrímsdalur milli Kaldbaks og Skáldagrímsfjalls. Er þá komið fram undir botn á Bjarnardal. Suðaustur úr þessum sama Bjarnardal gengur svo Mjóidalur en við mynni Bjarnardals að austanverðu stendur Mosvallafjall. Kóróna þess er Mosvallahornið. Mosvallafjall og Mosvallahorn eru upp af bænum Mosvöllum en sú hlíð fjallsins sem snýr fram að firðinum heitir Bakkafjall.

Þegar farið er frá Mosvöllum inn Bakkahlíð er stutt í fjarðarbotninn. Hafradalur heitir lítill fjalldalur vestan við botn fjarðarins en framan við hann rís fjallið Krákur yfir bænum á Vífilsmýrum. Þrír stórir dalir ganga upp frá undirlendinu við fjarðarbotninn. Vestast er Ekkilsdalur, þá Hestdalur sem reyndar heitir Tungudalur vestan (sunnan) ár en nyrst er Korpudalur. Svipmestu fjöllin fyrir botni fjarðarins eru Krákur sem áður var nefndur, Tunguhorn, sem stendur milli Ekkilsdals og Hestdals (Tungudals) og svo Hestur sem skilur að Hestdal og Korpudal. Síðast nefnda fjallið ber af og gefur öllu umhverfinu sterkan svip. Öll þessi þrjú fjöll eru í nánd við byggðina en fjær mannabyggð og nokkru austar en þau eru enn hærri fjöll, Vatni á mörkum Mosvallahrepps og Mýrahrepps (sjá hér Tunga í Firði) en Þverfell og Hnífar á mörkum Mosvallahrepps og Súðavíkurhrepps (sjá hér Hestur og Kirkjuból í Korpudal). Hestskarð skilur að fjöllin Þverfell og Hnífa og er síðarnefnda fjallið norðan við skarðið. Sjö bújarðir voru frá fornu fari á sléttlendinu fyrir botni Önundarfjarðar. Þar var löngum margbýli á Hesti og tvíbýli á sumum hinna jarðanna.

Norðan við fjarðarbotninn eru Kroppstaðafjall og Kirkjubólsfjall og mega kallast sama fjallið en Kroppstaðaskál skilur þó á milli. Lítið eitt utar er Tannanesfjall og handan við það Jafnadalur sem liggur hátt. Utan við Jafnadal tekur við Veðrarárfjall og er þá komið að Breiðadal, sem ber nafn með réttu, en hann skiptist framantil í Langdal og Þverdal. Milli þeirra er fjallað Skógarhorn. Þrjár bújarðir voru á fjarðarströndinni innan við Breiðadal og tvær aðrar í sjálfum dalnum. Utan við Breiðadal skiptast á fjöll og dalir sem allir eru þó minniháttar. Innst er  fjallið Breiðadalsstigi, síðan kemur Kaldárdalur, þá Hólsfjall og utan við það er dalur sem heitir Hólsdalur innan ár en Garðadalur fyrir utan ána. Utan við Garðadal er Garðafjall en nokkru utar Eyrarfjall sem er ofan við Flateyri. Milli Garðafjalls og Eyrarfjalls gengur allstór skál inn í fjalllendið og heitir hún Hvilft. Fjarðarströndin milli Flateyrar og Breiðadals heitir Hvilftarströnd. Þar voru lengi fimm bújarðir en ein þeirra mun þó hafa verið hjáleiga í fyrstu. Sjötta jörðin á þessum slóðum var svo Eyri sem stóð undir Eyrarfjalli rétt utan og ofan við þorpið sem nú er á Flateyri. Eyri var ysta jörðin við norðanverðan Önundarfjörð en talið er að á fyrri öldum hafi tvö eða jafnvel þrjú hjáleigukot verið þar utar á ströndinni, öll í landi Eyrar. Utan við Eyrarfjall er Klofningsdalur og þar skammt fyrir utan Kálfeyrardalur sem aðeins er lítil skál neðan við fjallsbrúnina. Er þá komið að Sauðanesi, fjallinu sem skilur að ystu strendur Önundarfjarðar og Súgandafjarðar.

Um mannlíf í Önundarfirði á fyrstu öldum Íslandsbyggðar er harla fátt kunnugt. Önundur Víkingsson, bróðir Þórðar í Alviðru nam Önundarfjörð allan og bjó á Eyri, segir í Landnámabók.[1] Engar nánari upplýsingar er þar að hafa um Önund þennan og hans er hvergi getið annars staðar í íslenskum fornritum. Skynsamlegt mun því vera að hafa nokkurn fyrirvara á um alla hans tilveru. Athyglisvert er að höfundar Landnámabókar fullyrða að Önundur hafi numið Önundarfjörð allan en þetta stangast á við þeirra eigin frásögn af Ingjaldi Brúnasyni sem sagður er hafa numið Ingjaldssand (sjá hér Svipast um á Ingjaldssandi). Í Vestfirskum sögnum, sem út voru gefnar á fjórða áratug 20. aldar, má sjá dæmi um tilraunir síðari tíma manna til að spinna upp landnámssögu Önundarfjarðar[2] en þau skrif verða hér látin liggja milli hluta.

Í Íslendingasögum, sem flestar voru ritaðar á 13. öld en greina frá atburðum á 10. öld og fyrstu áratugum hinnar elleftu, er hvergi minnst á Önundarfjörð nema í Gísla sögu Súrssonar. Þar segir að Vésteinn Vésteinsson, fóstbróðir og mágur Gísla, hafi búið undir Hesti í Önundarfirði og af frásögn sögunnar má ráða að þar er tvímælalaust átt við bæ þann sem síðar var ýmist nefndur Hafurshestur eða Hestur.[3] Aðrir bæir í Önundarfirði sem nefndir eru í Gísla sögu eru Mosvellir og Holt og þar er líka minnst á Arnkelsbrekku þó ekki sé alveg ljóst hvort þar hafi staðið bær á ritunartíma sögunnar.[4] Hér er á öðrum stað greint frá sendiför húskarla Gísla úr Haukadal í Dýrafirði að Hesti í Önundarfirði og hinni örlagaríku ferð Vésteins yfir Gemlufallsheiði, frá Hesti að Haukadal (sjá hér Hestur), en í Gíslasögu eru engir Önfirðingar nefndir á nafn nema Vésteinn og Þorvarður sem sagður er hafa búið í Holti.[5]

Helstu heimildir um mannlíf og atburði á Íslandi á 12. og 13. öld eru Biskupasögur og Sturlunga. Í þeim ritum er stöku sinnum minnst á Önundarfjörð og menn sem þar áttu heima. Í Árna sögu biskups (Þorlákssonar) er þess getið að kirkja hafi staðið í Holti í Önundarfirði á dögum Þorláks biskups hins helga[6] en hann var biskup í Skálholti á árunum 1178-1193. Líklegt er að kirkja hafi risið í Holti talsvert fyrr en um það sést þó ekkert í varðveittum heimildum. Í Biskupasögum má líka sjá að Guðmundur Arason hinn góði lagði leið sína í Önundarfjörð á ferð sinni um Vestfirði sumarið 1200[7] og þar segir margt frá Þorvaldi Helgason sem prestur var í Holti seint á 13. öld (sjá hér Holt). Í Sturlungu eru tveir Önfirðingar nefndir til sögu, þeir Steinþór Steinþórsson, prestur í Holti, og Guðmudur Sigríðarson sem bjó á Kirkjubóli í Valþjófsdal[8] og verður þeirra beggja getið hér nánar síðar (sjá hér Holt og Kirkjuból í Valþjófsdal). Ýmsir höfðingjar Sturlungaaldar lögðu leið sína til Önundarfjarðar og áttu þar breytilegum erindum að gegna. Sem dæmi má nefna að Sturla Sighvatsson kom í Holt sumarið 1230 og lauk þar upp gerðum eftir Sauðafellsför[9] og það var hjá kirkjugarðinum í Holti sem Órækja Snorrason lét vega Illuga Þorvaldsson úr Vatnsfirði, stjúpson systur sinnar, árið 1241.[10]

Margir Önfirðingar voru í liði Þórðar kakala í Flóabardaga sumarið 1244. Eitt skipanna í flota Þórðar, sem sigldi til móts við Kolbein unga á Húnaflóa, var staðarferja úr Holti og þar var líka annað skip úr Önundarfirði, teinæringur.[11] Í Þórðar sögu kakala er þess getið að Önfirðingar hafi verið á staðarferjunni[12] og ekki er ólíklegt að þeir hafi líka skipað mörg rúm á teinæringnum góða. Því skipi stýrði Sigurður rábiti Eyvindarson[13] og má vel vera að hann hafi verið úr Önundarfirði en yfir liðið á staðarferjunni frá Holti skipaði Þórður tvo alvana bardagamenn úr sínum innsta hring, þá Hákon galinn Bótólfsson og Kolbein grön Dufgusson.[14] Hákon var norskur að faðerni og hafði verið kertissveinn Skúla hertoga Bárðarsonar[15] sem laut í lægra haldi fyrir Hákoni gamla í átökum um Noregs kórónu. Hákon þessi hafði á sínum tíma komið út til Íslands með Órækju Snorrasyni en var nú heimamaður Þórðar kakala.[16] Kolbeinn grön Dufgusson var aftur á móti náfrændi Þórðar því Hvamm-Sturla var afi annars en langafi hins. Við hlið annarra Sturlunga, frænda sinna, hafði Kolbeinn grön háð marga hildi áður en hann var settur yfir staðarferjuna frá Holti og meðal annars gengið hart fram í Örlygsstaðabardaga en fékk þó grið að orrustu lokinni þar sem hann sat við hlið Svarthöfða bróður síns uppi á mæni kirkjunnar í Miklabæ.[17]

Um kynni Hákonar galins og Kolbeins Dufgussonar af Önfirðingum áður en lagt var upp í hina miklu herför norður fyrir Horn er allt á huldu en ekki verður annars vart en þeir sem sátu undir árum á staðarferjunni hafi vel dugað. Undir lok Flóabardaga er heldur tók að halla á bardagasveit Þórðar kakala tóku ýmsir Vestfirðingar, sem barist höfðu á öðrum skipum, þann kost að hlaupa um borð í staðarferjuna frá Holti og varð skipið þá svo hlaðið og þröngt að inn féll um söxin og háborurnar.[18]

Er drjúgur hluti af liði Þórðar var ófær orðinn til bardaga tóku sum skipa hans að snúa til lands í vesturátt.[19] Harðnaði þá enn hríðin hjá þeim sem enn stóðu undir vopnum, meðal annars hjá Önfirðingunum á staðarferjunni þar sem Kolbeinn grön stóð í stafni. Tóku menn þá að flýja til að forða lífinu en fyrirliðinn vildi þó hvergi hvika. Um framgöngu hans í lok bardagans kemst höfundur Þórðar sögu kakala svo að orði:

 

Var þá óður vopnaburður á skipinu Kolbeins Dufgussonar svo að menn héldust eigi við. Flýðu menn þá svo gersamlega af því skipi að Kolbeinn stóð einn eftir. Tóku þá menn hans og drógu hann öfugan milli skipanna til sín og í því fékk hann fjögur sár, þrjú í lærið og voru tvö í gegnum lærið en eitt í ilina neðan og skar út í klaufina við þumaltána og varð það sár mikið.[20]

 

Enda þótt Þórði kakala og Vestfirðingum hans tækist ekki að sigra Kolbein unga í Flóabardaga urðu norðanmenn þar fyrir slíkum áföllum að þeir megnuðu ekki að veita Vestfjarðaflotanum eftirför þegar í stað er Þórður og skip hans öll létu undan síga og héldu í vesturátt.[21]

Ekki er vitað hversu margir Önfirðingar féllu í Flóabardaga en líklega hafa þeir verið fáir því að í sögunni segir að Þórður hafi aðeins misst fáa menn og öll alþýða verið lítt sár.[22]

Merkileg er frásögn Þórðar sögu af heimferð Önfirðinga og annarra Vestfirðinga eftir Flóabardaga en þeir fóru landveg úr Trékyllisvík á Ströndum því skipin höfðu laskast meira og minna og voru því vart sjófær. Bardaginn var háður nóttina fyrir 25. júní og að morgni þess dags[23] en að kvöldi sama dags lagði Þórður af stað áleiðis upp með fjalli frá Árnesi ásamt meginþorra sinna liðsmanna.[24] En er þeir komu upp í dalinn beiddist liðið hvíldar[25] sem vonlegt var því ærið erfiði var að baki. Ekki fengu menn þó að hvílast lengi því gera mátti ráð fyrir eftirför Kolbeins unga og hins fjölmenna hers er hann hafði dregið saman í því skyni að ná Kakala á sitt vald og eyða ríki hans á Vestfjörðum.

Í Þórðar sögu er greint frá heimferðinni á þessa leið:

 

Nú er þar til að taka sem fyrr var frá horfið að Þórður hafði tekið hvíld upp í dalnum [Árnesdal]. Hafa menn þá sofnað fast. Og er komið var að sólarfalli þá lætur Þórður vekja liðið og varð að ausa köldu vatni á marga menn áður fólkið vaknaði.

 … Gekk Þórður þá upp á fjallið og kom ofan í Ingólfsfjörð og úr Ingólfsfirði til Ófeigsfjarðar. Voru þá mennirnir svo þreyttir af mæði og blóðrás og svefnleysi að þá vildu menn eigi lengra fara. Lögðust menn þá niður og tóku á sig svefn.

En drottinsdaginn er Þórður vaknaði kallaði hann saman menn sína og spurði þá alþýðuna hvað þá væri líkast til ráða að taka. Fann hann það skjótt að bændur voru heimfúsir. … Sneru flestir þar á fjall upp og komu ofan í Ísafirði. Gengu sumir hið efra um fjöll allt til Barðastrandar. Komu hverjir þar ofan í fjörðuna sem heima áttu.[26]

 

Gera verður ráð fyrir að menn hafi fengið sig flutta af Langadalsströnd yfir Djúpið en síðan hafa þeir tekið stefnuna á Glámu. Þar uppi skildi leiðir, Önfirðinga, Dýrfirðinga, Arnfirðinga og Barðstrendinga er hver maður hélt til síns heima og fóru þar ofan í fjörðuna sem heima áttu.

Löng ferð og ströng hefur þetta verið fyrir sára menn og þreytta en lífið bauð ekki upp á annan kost.

Sjálfur skildi Þórður við menn sína í Ófeigsfirði og hélt norður í Furufjörð.[27] Samt var hann kominn að Holti í Önundarfirði á Pétursmessumorgun[28] og mun þar átt við Pétursmessu og Páls sem er þann 29. júní. Þá voru aðeins þrír dagar liðnir frá því hann skildi við menn sína í Ófeigsfirði svo hratt hefur þessi langferðamaður farið yfir. Allt getur það samt staðist ef gert er ráð fyrir flutningi yfir Djúpið og reiknað með að hross hafi stöku sinnum verið sett undir höfðingjann. Á leið sinni úr Furufirði í Önundarfjörð setti Þórður menn út á Stigagnúp, yst við vestanvert Ísafjarðardjúp, að verða varir við ef Kolbeinn sigldi hið ytra með skipum.[29]

Frá síðari viðureign Þórðar kakala við Skagfirðinga og aðra fjandmenn sína segjum við ekki hér, enda munu Önfirðingar lítt hafa komð þar við sögu og reyndar bendir flest til þess að þeir hafi sjaldan verið kvaddir til vopna eftir herförina miklu sumarið 1244.

Í heimildum frá 14., 15. og 16. öld er Önundarfjarðar sjaldan getið, nema þar sem sagt er frá kirkjulegum málefnum og prestunum sem sátu í Holti. Áður en langt um líður munum við staldra við um stund á hinu forna prestssetri og verður þá eitthvað af þess konar fróðleik rifjað upp. Hér skal þess aðeins getið að á fyrstu öldum kristni í landinu mun allur Mosvallahreppur hafa verið ein kirkjusókn því eina alkirkjan var sú í Holti.[30] Árið 1470 varð breyting á í þessum efnum er Skálholtsbiskup vígði nýja kirkju á Kirkjubóli í Valþjófsdal og mælti fyrir um að þaðan í frá skyldi vera þar alkirkja (sjá hér Kirkjuból í Valþjófsdal). Bæirnir í Valþjófsdal og Mosdal urðu þá sérstök kirkjusókn. Í máldaga kirkjunnar í Valþjófsdal frá árinu 1470 segir að mörk sóknanna tveggja, Kirkjubólssóknar og Holtssóknar, séu við Hrossagötugil.[31] Það örnefni mun nú vera öllum gleymt[32] en vafalaust má telja að gil þetta sé eða hafi verið einhvers staðar á Ófæruhlíð, milli Hjarðardals og Valþjófsdals, en þar á hlíðinni hafa sóknarmörkin ætíð verið. Vel má vera að einhverjir heimilisprestar hafi verið búsettir á Kirkjubóli í Valþjófsdal á tímabilinu frá 1470 til 1540 en allt frá siðaskiptum hefur Holtsprestakall náð yfir allan Mosvallahrepp og eina prestssetrið í hreppnum jafnan verið í Holti.

Fornar bújarðir í hreppnum, sem lengi héldust í byggð, eru 30. Sé byrjað í Mosdal og endað á Eyri er röð þeirra þessi: Mosdalur, Kirkjuból í Valþjófsdal, Tunga í Valþjófsdal, Grafargil, Þorfinnsstaðir, Ytri-Hjarðardalur, Innri-Hjarðardalur, Þórustaðir, Holt, Vaðlar, Tröð, Kirkjuból í Bjarnardal, Mosvellir, Vífilsmýrar, Hóll í Firði, Tunga í Firði, Hestur (Hafurshestur), Efstaból, Kroppsstaðir, Kirkjuból í Korpudal, Tannanes, Innri-Veðrará, Ytri-Veðrará, Fremri-Breiðadalur, Neðri-Breiðadalur, Selakirkjuból, Kaldá, Hóll á Hvilftarströnd, Hvilft og Eyri. Ein þessara jarða, Þórustaðir, mun þó hafa byggst að fornu úr landi staðarins í Holti[33] og ætti því ef til vill að flokkast með hjáleigum. Í heimild frá árinu 1377 eru bæir í Holtsprestakalli (sem náði yfir allan Mosvallahrepp) sagðir vera 31[34] og má ætla að þá sé átt við jarðirnar.

Í Mosvallahreppi hinum forna voru löngum, auk gamalla bújarða, allmargar hjáleigur í byggð. Í sumum þeirra var aðeins búið í nokkur ár eða áratugi en í öðrum um margra alda skeið. Hjáleigur sem byggðust snemma á 17. öld eða fyrr og héldust í byggð fram á 19. og/eða 20. öld voru fjórar: Dalshús í landi Kirkjubóls í Valþjófsdal, Efrihús í landi Hests, Kirkjubólshús í landi Kirkjubóls í Korpudal og Garðar í landi Hvilftar.[35]

Í Önundarfirði er meira um það en í flestum öðrum byggðarlögum af svipaðri stærð að tvær eða jafnvel fleiri jarðir beri sama nafn. Kunnasta dæmið um þetta eru Kirkjubólin fjögur en skráin yfir bújarðir í Mosvallahreppi sýnir líka að tvær jarðir heita Tunga og tvær bera nafnið Hóll. Til aðgreiningar var þá talað um Tungu í Valþjófsdal og Tungu í Firði og Hól á Hvilftarströnd og Hól í Firði. Til skýringar á orðunum í Firði skal þess getið að í máli heimamanna í Önundarfirði var byggðin fyrir botni fjaðarins nefnd Fjörður en þar eru sjö fornar bújarðir, fyrst Vífilsmýrar og síðast Kirkjuból í Korpudal ef fylgt er boðleið bæja á milli og byrjað að vestanverðu.

Stærstu bújarðirnar í Mosvallahreppi samkvæmt fornu mati voru þessar: Kirkjuból í Korpudal 30 hundruð, Hestur 48 hundruð, Kirkjuból í Valþjofsdal 48 hundruð, Ytri-Hjarðardalur 68 hundruð en þó með fyrirvara,[36] og svo prestssetrið Holt sem var kirkjulén og yfirleitt ekki metið til hundraða. Samkvæmt Jarðabókinni frá 1710 var samanlagður dýrleiki allra jarða í Mosvallahreppi, annarra en Holts, 608 hundruð.[37] Í Jarðatali Johnsens frá árinu 1847 er matið á jörðunum óbreytt nema hvað Selakirkjuból er virt á 12 hundruð árið 1710 en á 18 hundruð árið 1847.[38] Óhætt sýnist að gera ráð fyrir að prestssetrið Holt hafi í raun verið að minnsta kosti 60 hundraða jörð, sé mælt á þann kvarða sem áður tíðkaðist við jarðamat. Þeirri kenningu til stuðnings má m.a. benda á að um 1920 var Holtsland virt á 8.300,- krónur en allt land í Ytri-Hjarðardal, sem áður taldist 68 hundraða jörð, á aðeins 5.000,- krónur.[39] Einum áratug síðar var heyfengur í Holti talinn meiri en á nokkurri annarri jörð í hreppnum og aðallega var þetta úthey[40] svo þar koma ræktunarframkvæmdir frá tuttugustu öld lítið eða ekkert við sögu. Samanlögð hundraðatala allra bújarða í Mosvallahreppi hefur því verið um eða nokkuð yfir 670 hundruð. Til samanburðar skal minnt á að í Þingeyrarhreppi voru jarðarhundruðin 530 og í Mýrahreppi 776 (sjá hér Þingeyrarhreppur, inngangskafli, og Mýrahreppur, inngangskafli) en mun færri í Auðkúluhreppi og Suðureyrarhreppi.

Í Mosvallahreppi voru 30 fornar bújarðir eins og hér hefur áður verið nefnt en í Mýrahreppi voru þær 28 (sjá hér Mýrahreppur, inngangskafli). Í öðrum hreppum Vestur-Ísafjarðarsýslu voru jarðirnar mun færri. Nokkur munur var á meðalstærð jarða í hinum ýmsu hreppum sýslunnar. Stærstar voru þær tvímælalaust í Mýrahreppi eða um 28 hundruð að meðaltali en 25 hundruð í Þingeyrarhreppi og 22 eða máske 23 hundruð í Mosvallahreppi.[41] Í Auðkúluhreppi og Suðureyrarhreppi voru jarðirnar smærri.

Í Mosvallahreppi var engin jörð að öllu leyti í sjálfsábúð árið 1710 en eigendur bjuggu þá á tveimur jarðarpörtum, það er fimm hundruðum úr Tröð og hálfu fimmta hundraði úr Vífilsmýrum.[42] Þessir sjálfseignarbændur voru bræðurnir Ólafur Jónsson á Vífilsmýrum og Magnús Jónsson í Tröð  en þeir voru dóttursynir Þorleifs bónda Sveinssonar í Innri-Hjarðardal, bróður Brynjólfs biskups (sjá hér Vífilsmýrar og Tröð). Ein jörð í hreppnum var árið 1710 konungseign, átta í eigu kirkna en allar hinar í eigu einstaklinga sem búsettir voru víðs vegar um landið.[43] Bændur í hreppnum voru því nær allir leiguliðar. Af öllum jarðarhundruðum í Mosvallahreppi áttu sjálfseignarbændur, búsettir í hreppnum, 1,4 % árið 1710, kirkjan á Kirkjubóli í Valþjófsdal átti 1,8 %, Danakonungur átti 10,2 %, Holtskirkja í Önundarfirði átti 21,6 % og ýmsir landeigendur, sem flestir bjuggu í öðrum sveitum, áttu 65 % jarðeignanna.[44] Við þessa skiptingu er prestssetrið Holt talið 60 hundraða jörð, sem er ágiskun, en að öðru leyti er byggt á hundraðatölu Jarðabókar Árna og Páls. Eina jörðin í hreppnum sem kóngur átti árið 1710 var Ytri-Hjarðardalur, Kirkjubólskirkja í Valþjófsdal átti bara jörðina Mosdal en Holtskirkja átti 6 jarðir í hreppnum auk heimalands.[45] Þær voru Þórustaðir, Vaðlar, Kirkjuból í Bjarnardal, Mosvellir, Kaldá og Hóll á Hvilftarströnd.[46]

Af einstökum jarðeigendum átti Holtskirkja flest jarðarhundruð í Mosvallahreppi árið 1710 en þau voru 84 fyrir utan heimalandið[47] sem telja má að hafi verið a.m.k. 60 hundraða virði. Næstur í röðinni kom kóngur með 68 hundruð[48] en aðrir sem áttu meira en 40 hundruð voru þessir: Páll Torfason, sýslumaður á Núpi í Dýrafirði, 60 hundruð (þó var talið að Snæbjörn sonur hans kynni að eiga einn tíunda hluta þeirra jarðeigna), Björn Jónsson á Hörgslandi á Síðu 58 hundruð, Bjarni Bjarnason í Arnarbæli á Fellsströnd (áður á Hesti í Önundarfirði) 48 hundruð, Erlendur Jónsson á Stórólfshvoli í Rangárvallasýslu 48 hundruð, Þorbjörg Björnsdóttir eldri, ekkja séra Árna Ámundasonar á Setbergi, 42 hundruð og Þorbjörg Björnsdóttir yngri, ekkja séra Einars Gíslasonar á Helgafelli, 42 hundruð.[49] Þessar tvær Þorbjargir voru dótturdætur séra Jóns Sveinssonar er var prestur í Holti í Önundarfirði á fyrri hluta 17. aldar.[50] Samtals áttu þeir átta jarðeigendur sem hér hafa verið nefndir 75-80 % allra jarðeigna í Mosvallahreppi. Af jarðeignum í hreppnum sem ekki voru í eigu kóngs eða kirkju áttu einstaklingar búsettir á Vestfjörðum um það bil 46 % en fólk sem átti heima í öðrum landshlutum um það bil 54 %.[51]

Í manntalinu sem tekið var árið 1762 sést að eignarhald á jörðum í Mosvallahreppi var þá með svipuðu sniði og verið hafði 1710.[52] Jarðir sem Holtskirkja átti í Önundarfirði voru t.d. þær sömu og Ytri-Hjarðardalur var enn í eigu konungs.[53] Sjálfseignarbændum hafði aðeins fjölgað frá 1710 úr tveimur í þrjá en enginn þeirra átti heila jörð heldur bara þann jarðarpart sem þeir hver um sig höfðu til ábúðar.[54] Þessa þrjá sjálfseignarbændur var að finna í Fremri-Breiðadal, á Kirkjubóli í Korpudal og í Tröð.[55]

Er Jarðatal Johnsens var gefið út árið 1847 voru kirkjujarðirnar í Mosvallahreppi enn hinar sömu og verið hafði 1710[56] en kóngur var þá búinn að selja Ytri-Hjarðardal og átti nú enga jörð í hreppnum.[57] Um miðja 19. öld hafði sjálfseignarbændum fjölgað nokkuð frá því sem verið hafði 1710 og 1762. Árið 1847 töldust 50 bændur búa í hreppnum og af þeim bjuggu 4 á sinni eigin jörð auk kaupmannsins á Flateyri og sýslumannsekkjunnar í Ytri-Hjarðardal.[58] Jarðirnar Tröð, Tunga í Firði og Eyri voru þá að öllu leyti í sjálfsábúð og bóndinn á Hvilft átti liðlega 60 % í þeirri jörð.[59]

Árið 1883 voru hins vegar ekki nema tveir sjálfseignarbændur í Mosvallahreppi, þeir Torfi Halldórsson sem átti Eyri og Rósinkranz Kjartansson í Tröð.[60] Til samanburðar skal þess getið að af 43 bændum sem bjuggu í Mosvallahreppi árið 1932 voru 24 sjálfseignarbændur og 3 í viðbót áttu þá nokkurn hluta þess jarðnæðis sem þeir höfðu til ábúðar.[61]

Þær heimildir sem hér er byggt á sýna ljóslega að á 18. öld og fyrri hluta 19. aldar voru flestallir bændur í Önundarfirði leiguliðar og svo mun einnig hafa verið á hinum fyrri öldum. Í Jarðabók Árna og Páls frá árinu 1710 sjáum við vel með hvaða kjörum jarðirnar voru leigðar á þeirri tíð. Meðallandskuld af jörðum í Mosvallahreppi var þá liðlega 5 álnir fyrir hvert hundrað[62] sem samsvarar rúmlega 4 % ársvöxtum því í einu hundraði voru 120 álnir. Ársleiga fyrir 12 hundraða jörð var því að jafnaði um það bil 60 álnir en sú upphæð samsvaraði hálfu kýrverði. Árið 1710 var meðaltal landskuldar fyrir hvert jarðarhundrað nánast hið sama í Mosvallahreppi og Mýrahreppi (sjá hér Mýrahreppur, inngangskafli) en þessir tveir hreppar voru þá hinir fjölmennustu í Vestur-Ísafjarðarsýslu. Fyrir stórubólu, sem hér geisaði á árunum 1707-1709 og stráfelldi nær þriðjung þjóðarinnar, var landskuld af jörðum í Mosvallahreppi nokkru hærri en síðar eða því sem næst 6 álnir fyrir hundraðið að jafnaði.[63] Meðaltalstölurnar, sem hér hafa verið nefndar, segja þó engan veginn alla söguna því jarðarafgjaldið gat verið þó nokkuð breytilegt frá einni jörð til annarrar. Hæsta landskuld í Mosvallahreppi fyrir hvert hundrað í jörð þurfti leiguliðinn á Þórustöðum að greiða árið 1710 og var hún 60 álnir fyrir þessa 6 hundraða jörð[64] eða 10 álnir fyrir hvert hundrað sem bendir eindregið til þess að jörðin hafi verið verðmætari en hið opinbera hundraðatal sagði til um. Lægst var landskuldin aftur á móti hjá kóngsbændunum í Ytri-Hjarðardal sem aðeins þurftu að greiða 2,65 álnir á ári fyrir hvert jarðarhundrað.[65] Jörðin var talin 68 hundruð en hið lága afgjald bendir til þess að það mat hafi verið of hátt.

Eins og venja var voru jarðirnar í Önundarfirði yfirleitt leigðar með nokkrum innstæðukúgildum en þau voru samtals 148 ½  í Mosvallahreppi árið 1710.[66] Í hverju kúgildi var annað hvort ein kýr eða sex ær, loðnar og lembdar, svo kúgildafjöldinn sem hér var nefndur svarar til 891 ærgildis. Árið 1710 var greidd landskuld af 586½ jarðarhundraði í Mosvallahreppi[67] svo ljóst er að um það bil 18 leiguær (eða 3 kýr) hafa fylgt hverri 12 hundraða jörð og er þá aðeins litið á meðaltalið. Lögleiga fyrri hvert málnytukúgildi var tveir fjórðungar af smjöri samkvæmt Jónsbók (sjá Firðir og fólk 900-1900, 174-175) en 5 kíló voru í hverjum fjórðungi. Fyrir 18 leiguær, þrjú kúgildi, hafa menn því þurft að greiða sem svaraði 30 kílóum af smjöri til landeigandans á hverju ári. Í raun voru leigurnar oftast greiddar í smjöri.

Í byrjun 18. aldar urðu allir leiguliðarnir í Mosvallahreppi að standa skil á landskuld og leigum eins og lög og landsvenjur gerðu ráð fyrir en auk þess hvíldu á landsetum Holtskirkju sérstakar kvaðir.[68] Þeir urðu allir að leggja til mann í skiprúm meðan vertíð stóð á Kálfeyri og sumum þessara leiguliða var einnig gert að standa við slátt í Holti einn dag á hverju sumri.[69] Aðrir bændur í Mosvallahreppi voru þá lausir við slíkar kvaðir nema tveir landsetar Páls Torfasonar, sýslumanns á Núpi.[70] Annar þeirra bjó á Hóli í Firði en  hinn á Kroppsstöðum og höfðu báðir gengist undir að leggja sýslumanninum til mann í skiprúm á vertíðinni.[71] Undir lok 18. aldar hurfu kvaðir af þessu tagi yfirleitt úr sögunni[72] og má ætla að svo hafi einnig farið í Mosvallahreppi. Á sjálfri landskuldinni og fjölda leigukúgilda urðu þar hins vegar litlar breytingar lengi vel því samkvæmt Jarðatali Johnsens frá árinu 1847 var meðal landskuld af hverju jarðarhundraði, sem leiguliðar í hreppnum höfðu til ábúðar, nánast hin sama og verið hafði 1710, það er um það bil 5 álnir fyrir hundraðið.[73] Um miðja 19. öld voru leigukúgildin, sem fylgdu jörðunum í Mosvallahreppi, einnig litlu færri en þau höfðu verið árið 1710 en þó hafði þeim fækkað um tæplega eitt af hverjum tíu og voru nú 135 ½.[74]

Í byrjun 18. aldar töldust búendur í Mosvallahreppi vera 84 og eru þá eingöngu taldir þeir forstöðumenn heimila sem höfðu jarðarafnot.[75] Nærri lætur að þrír bændur hafi þá verið að jafnaði á hverri jörð og ljóst að meðalbóndinn hefur aðeins haft 7 til 8 jarðarhundruð til ábúðar. Hér hefur bekkurinn því verið býsna þröngt setinn en skylt er að hafa í huga að menn lifðu bæði af landi og sjó og gátu því oft haft viðunandi afkomu þó að jarðnæðið væri lítið. Í stórubólu sem hér geisaði á árunum 1707-1709 mun bændum í Mosvallahreppi hafa fækkað þó nokkuð eins og best sést á því að árið 1710 voru þeir 66[76] eða 18 færri en verið hafði sjö árum fyrr. Árið 1762 hafði bændunum fjölgað á ný og voru þá orðnir 73[77] en eftir stórubólu hafa býlin í Önundarfirði líklega aldrei orðið eins mörg og þau höfðu verið rétt fyrir bóluna. Árið 1801 töldust býlin í Mosvallahreppi vera 63 en árið 1845 voru þau komin niður í 51 og sú tala stóð óbreytt þegar tuttugasta öldin rann upp.[78] Tala bændanna í Mosvallahreppi í byrjun tuttugustu aldar var því ekki nema um 60 % af því sem verið hafði tveimur öldum fyrr. Tölurnar sem hér hafa verið nefndar um fjölda býlanna eru reyndar ekki alveg hárnákvæmar því stundum getur verið álitamál hvort flokka eigi þennan eða hinn einstakling sem bónda út frá þeim upplýsingum sem fram koma í manntölunum. Í manntalinu frá 1901 eru álitaefnin flest hvað þetta varðar en hér hafa allir forstöðumenn heimila á bújörðum verið flokkaðir sem bændur nema beinlínis sé tekið fram að þeir séu húsmenn, sjómenn, smiðir eða eitthvað því um líkt. Húsmennirnir eru hins vegar ekki taldir hér til bænda, enda þótt margir þeirra hafi haft einhverja lítilfjörlega grasnyt. Þess er einnig vert að geta að hér að ofan hafa prestarnir í Holti verið taldir til bænda, enda stóðu þeir jafnan fyrir búrekstri.

Á 18. og 19. öld voru heimilin í Mosvallahreppi alltaf talsvert fleiri en bændabýlin og munaði þar lengi mest um húsmennina sem flestir höfðu sjósókn að aðalstarfi. Árið 1703 voru í hreppnum fjórir húsmenn og ein húskona sem öll höfðu fyrir fjölskyldu að sjá.[79] Auk þess voru í hreppnum á því ári fimm einhleypir húsmenn og sex einhleypar húskonur.[80] Nær allt þetta fólk hefur amlað ofan af fyrir sér án þess að vera vistráðið en þó er tekið fram um sumar húskonurnar að þær nærist af guðsþakkagjörðum eða ölmusugjörðum.[81] Um marga úr hópi húsmannanna er þess hins vegar getið að þeir nærist á sjóbjörg og sumir þeirra höfðu litla grasnyt.[82] Athygli vekur að af níu húsmönnum í hreppnum voru fjórir búsettir í Valþjófsdal, tveir á Eyri og einn á Hvilft[83] en allir þessir staðir lágu vel við með tilliti til sjósóknar.

Í manntalinu frá 1762 eru nær engir húsmenn taldir upp í Mosvallahreppi, aðeins einn maður og var hann búsettur á Innri-Veðrará.[84] Form manntalsins gerir þó ráð fyrir því að húsfólk sé talið sér en um framkvæmdina er ekki gott að segja.

Árið 1801 voru 7 húsmenn í hreppnum.[85] Um flesta þeirra er tekið fram að þeir séu jarðnæðislausir og nær allir höfðu þeir fyrir fjölskyldu að sjá.[86] Húskonurnar þrjár sem þá voru í hreppnum þurftu hins vegar ekki að fæða fleiri munna en sinn eigin.[87] Árið 1845 voru húsmennirnir sjö eða nákvæmlega jafnmargir og verið hafði í byrjun aldarinnar.[88] Þá voru heimilin á verslunarstaðnum Flateyri hins vegar orðin tvö því við hlið kaupmannsins þar var kominn skipari sem lifði á fiskveiðum.[89] Þessi merkismaður var skipstjóri á þilskipi eins og frá er greint annars staðar á þessum blöðum (sjá hér Flateyri).

Árið 1901 voru aðstæður gjörbreyttar í Önundarfirði frá því sem verið hafði um miðja 19. öld. Þorp var risið á Flateyri með 212 íbúum og á Sólbakka í landi Eyrar, þar sem hvalveiðistöð hafði verið rekin um nokkurra ára skeið, voru búsettir 22 einstaklingar.[90] Atvinnuskipting í hreppnum var þá orðin allt önnur en áður hafði verið því svo mátti heita að allir íbúar Flateyrar og Sólbakka lifðu á öðru en landbúnaði[91] eins og nánar verður vikið að síðar. Á sveitabæjunum í hreppnum var líka um aldamótin 1900 talsvert af fólki sem hafði sitt framfæri af launavinnu eða lifði fyrst og fremst af sjósókn og í þeim hópi a.m.k. fjórtán forstöðumenn heimila.[92] Auk þess stunduðu flestir bændanna enn sjóróðra með búskapnum[93] eins og löngum hafði verið.

Fróðlegt gæti verið að skoða fjölda vinnufólks í hreppnum á ýmsum tímum en hér verður þó látið nægja að nefna dæmi frá árinu 1801 en þá voru 39 vinnumenn í Mosvallahreppi og 67 vinnukonur.[94] Að jafnaði reynist ein vinnukona hafa verið á hverju heimili í hreppnum þetta ár en vinnumaður aðeins á liðlega öðru hvoru hinna 69 heimila sem þá voru í hreppnum. Nánustu ættingjar húsráðenda eru þá ekki taldir með vinnufólki. Sláandi er hvað vinnukonurnar voru miklu fleiri en vinnumennirnir og getur þar varla verið um tilviljun eina að ræða. Ýmsar skýringar á þessum mismun gætu komið til greina, m.a. sú að vinnukonurnar lifa lengur en vinnumennirnir, enda drukknuðu margir þeirra í sjó á ungum aldri. Árið 1801 var meðalaldur vinnumanna í Mosvallahreppi rétt um 30 ár en meðalaldur vinnukvennanna var tæplega 38 ár.[95] Vinnuhjú sem voru yngri en 15 ára eru þá ekki talin með.

Gleggstar upplýsingar um sveitarómaga og flakkara er að finna í manntalinu frá 1703. Sveitarómagar í Mosvallahreppi vorið 1703 voru 10 auk barna sem voru á framfæri hreppsins en þau voru a.m.k. fjögur.[96] Elsta konan í hópnum hét Kristín Jónsdóttir og um hana segir svo í manntalinu: Kristín Jónsdóttir meinast 80 ára því hún man það ekki sjálf, hefur bæði á hýsingum og tíundum forsorgast.[97] Um sveitarómagann Guðmund Jónsson, sem líka er sagður 80 ára, er tekið fram að hann hafi forsorgast á tíundum á Efstabóli og á því sem hann í sumar að var hér í sveit sér reitti.[98] Sérstaklega er tekið fram að þessi áttræði maður hafi nú ekkert flakkað út fyrir hreppinn.[99]

Flakkarar úr öðrum sveitum sem gistu í Mosvallahreppi nóttina fyrir páska vorið 1703 voru aftur á móti fimm. Í manntalinu er með fáeinum orðum gerð grein fyrir hverjum einstökum í þeim hópi og eru umsagnir þessar nokkuð fróðlegar. Þær hljóða svo:

 

 1. Vigfús Árnason, taldi sig 30 ára, sagðist vera af Suðurnesjum en ættaður og barnfæddur norður í landi.
 2. Sigurður Torfason sem hér um sveitir er alþekktur.
 3. Stúlka honum meðfylgjandi, Guðfinna Ásmundsdóttir, við hvað menn hér um sveitir munu og kannast.
 4. Bjarni Magnússon úr Steingrímsfirði, 19 ára gamall, kynningarlaus.
 5. Kolfinna Jónsdóttir úr Álftafirði, 32 ára, kynningarlaus en þó sökum harðinda þar hingað flakkað.[100]

 

Fróðlegt er að skoða uppruna fólksins sem bjó í Mosvallahreppi um miðbik 19. aldar. Hér var áður nefnt að liðlega 84 % þeirra sem áttu heima í Mýrahreppi haustið 1845 voru fæddir í Dýrafirði eða Önundarfirði og athugun leiddi í ljós að yfir 95 % íbúanna þar voru fæddir í Ísafjarðarsýslu (sjá hér Mýrahreppur, inngangskafli). Í þessum efnum var munurinn á Mýrahreppi og Mosvallahreppi ekki stór því 91,3 % þeirra sem búsettir voru í Mosvallahreppi haustið 1845 voru fæddir í Ísafjarðarsýslu[101] 66,2 % þáverandi íbúa Mosvallahrepps höfðu fæðst í þeim sama hreppi, 14,7 % í öðrum hreppum Vestur-Ísafjarðarsýslu og 10,4 % í Norður-Ísafjarðarsýslu. Auk þeirra sem fæddir voru í Ísafjarðarsýslu höfðu 5,6 % fæðst annars staðar á Vestfjarðakjálkanum en aðeins 3,1 % af íbúum hreppsins 2. nóvember 1845 voru fæddir utan Vestfjarða.[102] Þessar tölur sýna vel hversu lítil hreyfing var á fólki milli Ísafjarðarsýslu og fjarlægra landshluta og reyndar er vert að taka fram að í hópi þeirra fáu sem fæddir voru utan Vestfjarða eru hér taldir bæði séra Tómas í Holti og Eggert Briem sýslumaður, sem átti heima í Ytri-Hjarðardal þegar manntal var tekið haustið 1845. Án þessara embættismanna og þeirra fólks færi tala þeirra íbúa Mosvallahrepps sem fæddir voru utan Vestfjarða úr 14 niður í 6 og hlutfallstalan úr 3,1% í 1,4%.[103] Ætla má að þær tölur frá árinu 1845 sem hér hafa verið raktar og varða tvo fjölmennustu hreppana í Vestur-Ísafjarðarsýslu gefi mjög vel marktæka vísbendingu um hvernig háttað var í þessum efnum í allri Ísafjarðarsýslu, alveg fram undir 1880 er samgönguhættir tóku að breytast. Að minnsta kosti má telja nær útilokað að miklu meiri hreyfing hafi verið á almúgafólki á 17. og 18. öld heldur en fram kemur í þessum tölum.

Um íbúafjölda í Mosvallahreppi fyrir 1700 eru fáar upplýsingar í boði. Þegar fyrsta allsherjarmanntalið var tekið árið 1703 reyndust íbúar hreppsins vera um það bil 520 en alveg nákvæm niðurstöðutala liggur ekki fyrir þar sem í skránni yfir sveitarómaga er á einum stað talað um nafngreind hjón og börn þeirra án þess að börnin séu nefnd eða barnafjöldinn.[104]

Á 18. og 19. öld mun íbúafjöldi hreppsins oftast hafa verið á bilinu frá 380 til 530 allt þar til þéttbýli tók að myndast á Flateyri undir lok 19. aldar en þá fjölgaði fólkiu verulega. Íbúatölur sex ára ættu að nægja til að sýna í höfuðdráttum hver mannfjöldaþróunin var á tímabilinu frá 1700 til 1900. Þær tölur verða nú sýndar í töflu 1.

 

Tafla 1

 

Íbúafjöldi í Mosvallahreppi[105]

 

Ár:               Holtssókn                Kirkjubólssókn       Allur hreppurinn

 

1703                421                                  96                              517

1762                437                                  86                              523

1801                398                                  90                              488

1816                309                                  72                              381

1845                374                                  76                              450

1901                626                                105                              731

 

Eins og áður var getið er íbúatalan frá árinu 1703 ekki alveg nákvæm. Færri en 517 hafa íbúarnir þó ekki verið en hafi felubörnin verið fleiri en tvö hækkar íbúatalan sem því svarar. Hér verður einnig að taka fram að við gerð töflunnar var sveitarómögum, sem í manntalinu frá 1703 eru taldir heimilislausir, skipt á milli sóknanna tveggja í hreppnum í sömu hlutföllum og þáverandi íbúafjöldi í hvorri sókn bauð upp á.

Taflan sýnir ekki þá mannfækkun sem varð í Mosvallahreppi í hinni miklu bólusótt sem hér geisaði árið 1707 og nefnd hefur verið stórabóla en talið er að sá faraldur hafi lagt nær þriðjung allra landsmanna í gröfina.[106] Í Sjávarborgarannál, sem ritaður var norður í Skagafirði á árunum 1727-1736,[107] segir að í stórubólu árið 1707 hafi 127 manneskjur andast í Önundarfirði.[108] Þar mun Ingjaldssandur þó ekki vera talinn með því einnig er frá því greint í sömu heimild að 124 manneskjur hafi dáið úr bólunni í Dýrafjarðarþingum[109] en þau náðu sem kunnugt er yfir alla norðurströnd Dýrafjarðar og Ingjaldssand. Full ástæða er til að ætla að höfundur Sjávarborgarannáls greini nokkurn veginn rétt frá tölu látinna í þeim hreppum norðanlands og vestan sem hann nefnir sérstaklega en sé svo hefur fjórði hver maður í Mosvallahreppi dáið úr hinni mannskæðu bólusótt sem herjaði á landsmenn árið 1707. Þessa mannfækkun höfðu Önfirðingar hins vegar unnið upp að fullu hálfri öld síðar eins og sjá má á töflunni sem hér er birt á blaðsíðu 15.

Á henni sjáum við líka að áður en þéttbýlismyndun hófst hafa íbúar Kirkjubólssóknar, sem nær aðeins yfir Valþjófsdal og Mosdal, yfirleitt verið 16-19 % af öllum íbúum hreppsins. Við skoðun talnanna á töflu 1 vekur athygli hversu mjög íbúum hreppsins fækkar á árunum frá 1762 til 1816, fyrst um 6,7 % frá 1762 til 1801 og síðan um nær 22 % frá 1801 til 1816. Fljótt á litið gæti mönnum dottið í hug að árið 1801 hefðu Önfirðingar ekki verið búnir að jafna sig eftir móðuharðindin sem lögðu fjölda fólks að velli á árunum 1783 til 1786. Sú skýring stenst þó varla því hvergi á landinu var minna mannfall í móðuharðindunum heldur en í Ísafjarðarsýslu[110] en þrátt fyrir geysilegt mannfall víða annars staðar á landinu var íbúatala alls landsins árið 1801 orðin hærri en hún hafði verið 1762.[111] Hér þarf því að leita annarra skýringa sem reyndar er ekki auðvelt að finna.

Á árunum 1762 til 1801 fækkaði íbúum Mosvallahrepps um 35 en mun meiri fólksfækkun átti sér stað á árunum 1801 til 1816 er íbúatala hreppsins hrapaði úr 488 í 381. Þar hefur meðal annars sagt til sín hið hörmulega sjóslys vorið 1812 er sjö bátar úr Önundarfirði fórust, allir á einum og sama deginum, og með þeim um það bil 50 menn (sjá hér bls. 48-64). Af þeim sem þar týndu lífi og nefndir eru í prestsþjónustubókum voru 30 úr Mosvallahreppi en 19 úr Mýrahreppi.[112]

Hið mikla manntjón vorið 1812 dugar þó ekki eitt sér til að skýra alla mannfækkunina sem varð í Mosvallahreppi á árunum 1801 til 1816 er íbúunum fækkaði um 107. Vera má að hallæri áranna 1811-1814 (sbr. Mýrahreppur, inngangskafli) hafi líka stuðlað að þeirri mannfækkun.

Á töflu 1 hér að framan sést að á síðari hluta 19. aldar fjölgar fólkinu í Mosvallahreppi mjög verulega því íbúatalan var 450 árið 1845 en 731 árið 1901. Meginskýringin á þessari stökkbreytingu er þéttbýlismyndunin sem varð á Flateyri á tveimur síðustu áratugum aldarinnar. Árið 1845 áttu aðeins 17 manneskjur heima á Flateyri, árið 1880 var íbúatalan þar komin upp í 41 en árið 1901 voru 212 manneskjur heimilisfastar á Flateyri.[113] Auk þess voru 22 menn taldir til heimilis við hvalveiðistöðina á Sólbakka þegar manntal var tekið árið 1901 en þar hafði enginn verið 1845 og ekki heldur 1880.[114] Bæði þorpið á Flateyri og hvalveiðistöðin á Sólbakka voru reist í landi Eyrar sem var ein hinna fornu bújarða í Önundarfirði. Um Flateyri og Sólbakka er rætt á öðrum stað (sjá hér Sólbakki og Flateyri) en hér er vert að benda á þá staðreynd að fólkinu á sveitabæjunum í Mosvallahreppi fjölgaði reyndar líka á árunum 1845 til 1901. Íbúatalan þar var 433 árið 1845 en 497 árið 1901[115] sem er um það bil 15 % fjölgun. Þorpsmyndunin á Flateyri sýnist því alls ekki hafa stuðlað að mannfækkun í sveitinni fyrst framan af heldur jafnvel ýtt undir fjölgun. Sérstaka athygli vekur sú mikla fólksfjölgun sem varð í Valþjófsdal á milli áranna 1845 og 1901 en þar fjölgaði íbúunum úr 66 í 93[116] eða um full 40 %.

Atvinnuheiti heimilisfeðranna á sveitabæjunum árið 1901 segja ein sér ærna sögu af þeim breytingum sem þá höfðu átt sér stað frá allri kyrrstöðunni á fyrri tíð. Flestir forstöðumenn heimila í sveitinni lifðu að vísu enn á landbúnaði eða landbúnaði og sjóróðrum en manntalið sýnir okkur líka atvinnuheiti af öðru tagi.[117] Á Eyri var húsbóndinn á öðru heimilinu sjómaður og daglaunamaður en sjómaður á hinu.[118] Á Hvilft var annar tveggja heimilisfeðra bóndi og þilskipaútgerðarmaður.[119] Á Selakirkjubóli voru 6 heimili. Húsbóndinn á einu þeirra er nefndur stórskipasmiður og á öðru sjómaður.[120] Í Neðri-Breiðadal finnum við húsmann sem lifir á efnum sínum og í Fremri-Breiðadal er húsráðandi sem lifir á sjóróðrum og landvinnu.[121] Á Ytri-Veðrará er annar bóndinn óðalsbóndi og búfræðingur.[122] Á Tannanesi er einn þriggja heimilisfeðra bræðslumaður og annar sjómaður.[123] Á Kroppsstöðum er búfræðingur og þar er líka annar heimilisfaðir sem sagður er vera leigjandi, sláttumaður og sjómaður.[124] Í Neðrihúsum hjá Hesti er bóndi sem stundar ekki aðeins sjóróðra heldur líka daglaunavinnu.[125] Í Innri-Hjarðardal er eini heimilisfaðirinn sagður vera sjómaður.[126] Á Kirkjubóli í Valþjófsdal finnum við útgerðarmann og þar í dalnum er einn heimilisfaðirinn trésmiður.[127] Allt er þetta til marks um að nýr tími er að ganga í garð þar sem fjölbreytnin í atvinnuháttum verður meiri en um gat verið að ræða í gamla bændasamfélaginu.

Í fáeinum ritum frá síðari öldum er minnst á Önfirðinga og þá stundum sagt lítillega frá lifnaðarháttum þeirra. Elsta heimild af þessu tagi er Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar en þeir munu hafa ferðast um Ísafjarðarsýslu sumarið 1754.[128] Í Ferðabókinni er Eggert reyndar fáorður um Önundarfjörð en greinir þó svo frá að þar í sveit safni menn skeggi og gangi í fötum með fornlegu sniði.[129] Ætla má að lýsing Eggerts á þeim sem bjuggu norðantil á Vestfjörðum eigi hins vegar m.a. við Önfirðinga en þar kemst hann svo að orði:

 

Þeir … leggja aðalstund á fiskveiðarnar sem þeir sækja af kappi frá því á vorin og fram á haust. Á vetrum hafa þeir kyrrt um sig. Þeir eru yfirleitt ekki eins glaðlyndir og hinir fyrrtöldu [þ.e. Breiðfirðingar] og skeyta um fátt nema aflabrögð og sjómennsku. Þeir sem vel eru þar efnum búnir hafa að vísu nokkrar kindur og láta tæta úr ullinni í fatnað handa heimafólki og vaðmál, sokka og vettlinga til sölu. En fátæklingarnir sem enga ull eiga og ekki heldur tólg eða lýsi til ljósa í vetrarmyrkrinu verða því að sofa mestan hluta vetrarins. Áflog, missætti og háreysti er sjáldgæft á Vestfjörðum. Annars eru Vestfirðingar vel gefnir og vel uppfræddir í andlegum efnum. Þeir hafa og góðan skilning á því sem þeim er sagt.[130]

 

Ólafur Olavius ferðaðist um Vestfirði sumarið 1775 og segir fleira frá Önfirðingum heldur en Eggert. Um Önundarfjörð og Önfirðinga ritar Olavius á þessa leið:

 

Önundarfjörður er í raun réttri einn hinn fegursti fjörðurinn vestanlands. Í honum eru auk annexíunnar Sæbóls tvær kirkjusóknir, Holts og Kirkjubóls í Valþjófsdal sem er annexía. Milli kirknanna er hinn alkunni en torfæri vegur Dalsófæra.

Fjörðurinn liggur næstum því samhliða Dýrafirði. … Fullur þriðjungur fjarðarins verður þurr um fjöru en með flóði flæðir sjórinn upp í hann. Þetta kallast Vaðlar og er nafnið dregið af því að hestar vaða þar yfir, ef um þessar leirur er farið, þegar sjór er hálffallinn. Þriðjungur sveitarinnar í kringum fjarðarbotninn er mjög grösugur en hins vegar svo votlendur að til vandræða horfir. Af flatlendinu sem mjög er tjörnótt er ekki unnt að veita vatninu en vel mætti það takast við hlíðarnar. Því að þess verður því miður langt að bíða að Íslendingar fái hagnýtt sér Paternoster-tæki, ausuhjól, vatnssnigla eða önnur slík tæki sem notuð eru til að veita vatni af mýrlendi og ekki einu sinni vatnsmylnur þær sem notaðar eru í merskilöndunum, sem eru bestu og hagkvæmustu tækin. Annars staðar er Önundarfjörðurinn miklu ógrösugri, einkum á Hvilftarströndinni. Engu að síður er bæði sauðfjár- og nautgriparækt þar í góðu lagi.

En ein hætta vofir yfir sveit þessari sem vinda þyrfti bráðan bug að að bægja frá og það er sandfok. Hefur það þegar valdið allmiklu tjóni svo að báðir Harðardalirnir og Þórustaðirnir eru að mestu komnir í eyði og drjúg spilda af landi prestssetursins er kafin í sand. Þetta gefur tilefni til að láta sér detta í hug hvort ekki mætti hafa hér gagn af secale [mel] eða öðrum þeim plöntum sem hefta sandfok.

Það er annars dálítið sérkennilegt að allir bændur í þessum fjölmennu sveitum ásamt fáeinum bændum í Dýrafirði og Súgandafirði láta sér vaxa skegg umfram aðra landsmenn og ganga í gamaldags klæðum með óbreyttu sniði frá því sem lýst er í Ferðabók Eggerts og Bjarna. Bændur þessir eru allsérlundaðir. Þeir gifta sjaldan dætur sínar utansóknarmönnum eða taka sér konur af ókunnum ættum. Annars eru þeir hæglátir og geðstilltir. Siðir þeirra virðast jafnóspilltir og annarra og bróðurkærleiki þeirra mikill. Því verður ekki heldur á móti mælt að meðferð þeirra á mat og drykk er óbrotin og sæmilega hreinleg og þeir standa nábúum sínum efnalega jafnfætis. Þeir nota að mestu steinbítsroð í skó og slítur maðurinn oft 3-4 pörum á dag af þeim. Daglegt viðurværi þeirra er mest mjólkurmatur ásamt steinbít og rauðmaga. Menn leggja hér meiri stund á landbúnað en sjósókn og ullarvinna er stunduð af kappi á vetrum af karlmönnum. … Kvenbúningur er hér næstum hinn sami og annars staðar á landinu nema faldurinn á höfðinu er að gamalli venju nokkru breiðari að ofan en almennt tíðkast. Þá nota konar hér oft ól, setta látúni, í stað beltis.[131]

 

Öll er þessi lýsing Olaviusar á Önfirðingum og háttum þeirra hin fróðlegasta en hann greinir líka frá fiskveiðum bænda í Önundarfirði, þar á meðal rauðmagaveiðum, eins og hér er lítillega frá sagt á öðrum stað (sjá hér bls. 41-43). Við lestur á skrifum Olaviusar vekur athygli að hann segir Önfirðinga leggja meiri stund á landbúnað en sjósókn sem reyndar stangast á við þá fullyrðingu Eggerts Ólafssonar að á norðanverðum Vestfjörðum skeyti menn um fátt annað en aflabrögð og sjómennsku. Full ástæða er þó til að ætla að Olavius fari hér með rétt mál því ljóst er að hann hefur kynnt sér búskaparhætti Önfirðinga mun betur en Eggert. Greinilegt er að Olavius hefur talið mjög búsældarlegt um að litast í Önundarfirði og niðurstaða hans var sú að þar í sveit væri unnt að fjölga býlunum.[132]

Er 40 ár voru liðin frá ferð Olaviusar um norðanverða Vestfirði lagði merkilegur erindreki leið sína til Önundarfjarðar. Það var Ebenezer Henderson, sendimaður breska biblíufélagsins, en hann kom ríðandi yfir Gamlufallsheiði 12. júní 1815.[133] Í Önundarfirði ræddi Henderson einkum við prestinn í Holti og sýslumanninn í Hjarðardal eins og síðar verður frá greint (sjá hér Holt og Ytri-Hjarðardalur) en um Önundarfjörð og almúgann þar ritar hinn breski guðsmaður á þessa leið:

 

Eftir þriggja stunda ferð [frá Gemlufalli] var ég kominn niður á hina víðu og fögru velli í Önundarfirði sem sumir eru myndaðir af árframburði en að mestu leyti eru mýrar þar sem eru fyrirtaks slægjulönd. Fjöllin til beggja handa eru svo skáldlega fjölbreytileg sem frekast má verða. Hér og þar ganga í gegnum þau djúpir dalir og fyrir það fá þau á sig strýtumyndaða lögun og eru sem einangruð. Lögin í þeim eru fjörutíu eða fimmtíu að tölu og þeim hlaðið fjarska reglulega. Sams konar jarðmyndanir er að sjá um alla Vestfirði enda þótt ekki sé í svo stórfenglegum og heillandi máta sem hér. Það á einkar vel við að nefna þennan hluta landsins Vestfirði því hann er eintómir firðir svo að þá skilur ekkert annað en hinir háu fjallskagar sem ganga fram á milli þeirra. … Ég átti eitt sinn tal við hollenskan skipstjóra er lengi og víða hafði komið á Vestfirði. Hann sýndi mér í einu andartaki uppdrátt af þeim með því að leggja höndina flata á borðið og rakti siglingaleiðina úr Faxaflóa kringum þumalfigurinn inn á Breiðafjörð, síðan fyrir vísifingurinn inn á Tálknafjörð o.s.frv., uns hann hafði komið við á öllum helstu fjörðunum.  … Í þessum hluta landsins er fólkið að heita má afskorið frá öllu samneyti við erlenda menn og því má vera að það varðveiti meira af fornnorrænum siðum en fólk í öðrum landshlutum. Ekki er heldur nóg með það að fólk þetta sé fastheldnara á siði og hætti forfeðra sinna, heldur leggur það einnig meiri rækt við að skrifa upp ritaðar og prentaðar sögur og margar þeirra hefur það lært utanbókar og heita má að hér geti hver maður rökrætt um kosti og lesti á því er sögurnar segja frá.

Það sem einkum vakti athygli mína var hið fyrirmannlega skegg er Önfirðingar báru. Og það er ég viss um að hvar sem þeir hefðu orðið á vegi mínum á meginlandi Evrópu mundi ég hafa haldið þá vera pólska Gyðinga, ef ekki hefði verið fyrir það hve ljóshærðir þeir eru.[134]

 

Ekki fer milli mála að hinum víðförla erindreka breska biblíufélagsins hefur litist vel á Önfirðinga en merkilegt má það kalla að Eggert Ólafsson, Ólafur Olavius og Ebenezer Henderson skuli allir þrír sjá ástæðu til að minnast á hið öldurmannlega skegg sem flestir bændur í Önundarfirði söfnuðu á kjálka og höku á árum áður. Orð ferðalanganna um þetta sýna að á árunum frá 1750 til 1815 hefur skeggsöfnun Önfirðinga verið með sérstökum hætti og meiri en almennt var í öðrum byggðarlögum hérlendis. Vel má vera að þeir skeggsiðir sem þremenningarnir greina frá hafi átt sér langa sögu í Önundarfirði fyrir 1750 og þá mætti sem best taka upp á nýjan leik.

Þorvaldur Thoroddsen náttúrufræðingur reið um Önundarfjörð í júlímánuði 1887, kom yfir Klofningsheiði frá Súgandafirði og fór Klúku úr Valþjófsdal í Dýrafjörð.[135] Í Ferðabók sinni segir hann nær ekkert um mannlíf í Önundarfirði en gerir svolitla grein fyrir landslagi og náttúrufari. Í þeirri lýsingu kemst hann m.a. svo að orði:

 

Fjöllin í kringum Önundarfjörð eru skorin sundur af fjöldamörgum dölum, kvosum og giljum. Þetta tekur sig annars upp um alla Vestfirði. Hafi maður séð einhvern af stærri fjörðunum þá veit maður hér um bil hvernig allir hinir eru. Jarðlögin eru hin sömu, eilíf blágrýtislög í fjöllunum með litlum eða engum halla … . Mjög víða eru hjallar fram með sjónum, sums staðar er í þeim eintómt malargrjót, hnullungar og sandur, sums staðar er blágrýti innan í og hefur þá hjalli þessi áður verið brimsorfinn fjallsfótur. … Tangar eða eyrar ganga út í nærri alla firði hér vestra, þó eru flestir í Dýrafirði. … Tangar þessir eru sumpart myndaðir úr möl og sjávarsandi, sumpart úr skeljasandi. Holtstangi er hinn stærsti í Önundarfirði. Í honum er fjarska mikið af skeljasandi og smágjörvum þurrum leir. Hefir þar eigi alls fyrir löngu fundist rostungshaus í sandinum.[136]

 

Hér hefur nú verið gerð dálítil grein fyrir frásögnum og lýsingum fjögurra manna sem ferðuðust um Vestfirði á 18. og 19. öld og komu þá í Önundarfjörð. Allir voru þeir langt að komnir. Sjálfir munu Önfirðingar lítið hafa skrifað um sína heimahaga fyrir 1850 og flest glatað sem þó kynni að hafa verið til af því tagi. Á bændarímu, sem ort var um Önfirðinga árið 1815,[137] er lítið að græða en þar eru nefnd nöfn allra sem þá stóðu fyrir búi í Mosvallahreppi. Höfundur rímunnar er Gunnlaugur Arason sem um skeið átti heima á Dynjanda í Arnarfirði.

Vorið 1839 sendi Kaupmannahafnardeild Hins íslenska bókmenntafélags öllum prestum á landinu 70 spurningar sem þeir voru vinsamlega beðnir að svara. Með þessu var ætlunin að safna sem gleggstum upplýsingum um náttúrufar, atvinnuhætti og mannlíf í hverju einasta prestakalli á landinu og svo fór að flestir prestanna brugðust vel við erindi þessu. Svör séra Tómasar Sigurðssonar í Holti í Önundarfirði eru reyndar í rýrara lagi en þar er samt ýmsan fróðleik að finna sem ekki liggur fyrir í öðrum heimildum. Séra Tómas svaraði Kaupmannahafnardeild bókmenntafélagsins í marsmánuði árið 1840 og eru þau svör hans prentuð í Sóknalýsingum Vestfjarða.[138] Prestur þessi hafði aðeins verið þrjú ár í Önundarfirði er hann fékk spurningablaðið í hendur[139] og hefur því máske ekki verið þrautkunnugur í prestakallinu. Þess má þó geta að bæði afi hans og langafi höfðu verið prestar í Holti og héldu staðinn frá 1680-1760.[140] Vera kann að þau ættartengsl hafi hjálpað eitthvað upp á þekkinguna hjá séra Tómasi.

Svo virðist sem séra Tómas hafi ekki verið vel sáttur við veðurfarið í Önundarfirði og var tíðarfar þó fremur milt á árunum 1836-1840. Um veðrið ritar hann á þessa leið:

 

Veðrasamt er hér mjög af hverri átt sem er og nærfellt á hverjum ársins tíma. Samt eru eins og tilfinnanlegust norðan og útvestan veðrin. Rigningasamt er hér, þó mest af suðri á sérhverri árstíð en minnst af norðri. Snjóasamt er hér mjög, nærfellt af hverri átt, svo oft ber við að ekki verður án mestu útslita komist á milli húsa og bæja. Samt ber mest á þessu í norðan og útsynningi. Norðanáttin er eins og víða köldust en sunnanáttin þykir hlýjust.[141]

 

Ekki minnist prestur þarna á þau veður sem margir íbúar þorpsins á Flateyri hafa talið hvað ógnvænlegust á síðari tímum. Óskar Einarsson, sem um skeið var læknir Önfirðinga á fyrri hluta 20. aldar, nefnir hins vegar þessi veður og segir:

 

Þegar á sunnan blæs, niður Hjarðardal og út grundirnar meðfram Þorfinni í stefnu yfir á kauptúnið Flateyri, með ofsarokum sem allt ætla um koll að keyra en ógnandi grafarþögn milli hviðanna, nefnist það Grundarendaveður.[142]

 

Skylt veðurlýsingu séra Tómasar er svar hans við spurningunni um hafískomur. Prestur segir að inn á Önundarfjörð komi allt of oft mikill hafís og afleiðingarnar segir hann vera þessar:

 

Bitur kuldi, gróðurleysi, ótímgun manna og skepna, mjög stór tálmun bjargræðisútvega af sjó, hindrun fyrir útlensk skip að komast inn á höfn, meiðing þeirra að nokkru og eyðilegging stundum sumra.[143]

 

Bjargræðisvegi í Önundarfirði árið 1840 segir séra Tómas vera fiskirí og fjárrækt[144] og störfum manna lýsir hann með þessum orðum

 

Vinnu allri hagar svoleiðis: Á vetrum er spunnið, prjónað, ofið í dönskum vefstólum, þæft etc. En útivinna á vetrum er að hirða um naut, hross og fjárpening. Róið er til fiskjar þegar gefur frá sumum bæjum. Sláttur byrjar oftast 12 vikur af sumri og endast um Michaelismessu, þó eftir veðurfarinu.[145]

 

Séra Tómas var m.a. spurður hvernig hýst væri á bæjunum í Önundarfirði og svaraði hann þeirri spurningu svo: Á Hjarðardal ytri framúrskarandi. Holti svona og svona. Hvilft, Tungu í Firði og Tröð sæmileg. Kirkjubóli í Valþjófsdal nokkuð og Dalshúsum þokkalega.[146]

Íþróttir segir prestur lítið vera iðkaðar í Holtsprestakalli nema skot en til skemmtunar hafi menn sögur og rímur og sumir lesi fróðlegar bækur.[147] Athygli vekur að séra Tómas segir margar fornsögur vera í eigu Önfirðinga[148] og hlýtur þá að eiga við handrit því prentaðar útgáfur slíkra rita náðu ekki útbreiðslu hjá almúga fyrr en síðar. Þess er þó vert að geta að lestrarfélagi var komið á fót í Önundarfirði árið 1848[149] en hið fyrsta lestrarfélag alþýðu, sem um er kunnugt á landi hér, var stofnað aðeins fimm árum fyrr í Gufudalssveit.[150] Um starfsemi þessa gamla lestrarfélags Önfirðinga er fátt kunnugt og má telja líklegt að það hafi orðið skammlift. Um skriftarkunnáttu Önfirðinga árið 1840 segir klerkurinn í Holti að margir þeirra séu skrifandi þó í hópi sóknarbarnanna séu líka margir sem ekki kunni að skrifa, bæði karlar og konur.[151] Trúrækni og þekkingu trúarbragðanna segir hann fara vaxandi og tekur fram að fólk sé ekki ósiðsamt. Hins vegar mætti það gjarnan vera hlýðnara sínum yfirboðurum.[152]

Fróðleg er upptalning séra Tómasar á hinum ýmsu innlendu meðölum er notuð séu af alþýðu manna í Önundarfirði í lækningaskyni. Hann nefnir þar muru, smára, vallhumal, helluhnoðra, blóðberg, himinnjólablöðkur með rótinni, hvannarót og hennar fræ og hrafnablöðku en getur þess að lokum að sumir brúki líka sjóböð.[153]

Í þessu riti er allvíða vitnað í svör séra Tómasar við spurningum Hafnardeildar bókmenntafélagsins en hér verður að sinni ekki tínt fleira til úr þeim skrifum. Sannleikurinn er reyndar sá að þær upplýsingar sem séra Tómas býður upp á eru oftast mjög takmarkaðar. Mun ýtarlegri og á allan hátt viðameiri er ritgerð Guðmundar Eiríkssonar, hreppstjóra á Þorfinnsstöðum, um aldarhátt í Önundarfirði á 19. öld en sú ritgerð birtist í Ársriti Sögufélags Ísfirðinga árið 1957.[154] Í henni er margvíslegan og dýrmætan fróðleik að finna um lífshætti Önfirðinga á fyrri tíð. Guðmundur Eiríksson var fæddur í Mosdal árið 1853 og ól nær allan sinn aldur í Önundarfirði.[155] Hann mundi árin um og upp úr 1860 en nefnda ritgerð mun hann hafa samið er hann var kominn nálægt áttræðu.[156] Húsakynnum Önfirðinga á sínum uppvaxtarárum lýsir Guðmundur svo:

 

Um þetta leyti voru húsakynni fremur léleg og gluggar litlir. Baðstofur voru frá 8-12 álna langar, 4-5 álna breiðar, hæðin frá 6-7 álnir frá gólfi í kjöl. Loft var í þeim flestum og eitt eða fleiri stafgólf voru undir súð. Þar sváfu vanalega húsbændurnir og skyldulið þeirra. Víða var þiljað af eitt stafgólf niðri til að bjóða í gestum.

Göng til útidyra voru frá 6-12 álnir, breiddin 1-2 álnir og hæð frá 3-4 álnir, vanalegast með tveim hurðum. Búr og eldhús voru vanalega sitt hvoru megin við göngin og gengið í þau úr göngunum. Þó var sums staðar búrið inn af eldhúsinu og voru bæði oft 15 álna löng en breiddin vanalega um 3 álnir. Fjárhúsin voru feykilega garðamjó en að öðru leyti sæmileg. Fjósin voru að sínu leyti lökust, hræðilega dimm og loftill. Heyhlöður voru ekki nema á stöku bæjum, mjóar og rismiklar. Mest af heyjunum var borið í galta eða hey sem kallað var. Þau voru þakin með tvöföldu torfi, að minnsta kosti í mæninn. Þegar þau voru fullsigin var gjört upp með þeim sem kallað var, nefnilega þakin með torfi frá jörð og torfuendunum fest við þakið með tréhælum. Að vetrinum, þegar gefið var úr þeim, varð að smokka trjám undir þakið fram á ógefna heyið svo þakið félli ekki niður í þíðum.

Verulegar umbætur á húsakynnum í Önundarfirði urðu ekki fyrr en um 1880.[157]

 

Fróðlegt er að bera þessa frásögn Guðmundar saman við þær upplýsingar um stærð 19. aldar bæjanna í Önundarfirði sem fyrir liggja í úttektabókum Mosvallahrepps. Sá samanburður leiðir í ljós að bæirnir voru flestir nokkru minni en tölur Guðmundar gefa til kynna.[158] Guðmundur segir að um 1860 hafi baðstofurnar yfirleitt verið um 10 álnir á lengd og 4-5 álnir á breidd og ætti gólfflötur meðalbaðstofu því að hafa verið 17-18 fermetrar. Sé hins vegar litið á 16 baðstofur í Mosvallahreppi frá árunum 1835-1870, sem frá er greint í úttektabók, reynist meðalstærð þeirra hafa verið 12,4 fermetrar.[159] Minnsta baðstofan í þessum hópi var á Vöðlum, 5,9 fermetrar, en sú stærsta í Dalshúsum, 24,6 fermetrar.[160] Í því skyni að glöggva sig á stækkun bæjanna á síðustu áratugum nítjándu aldar má skoða hvað úttektabókin segir um stærð þrettán baðstofuhúsa í Mosvallahreppi á árunum 1880-1902. Slík athugun leiðir í ljós að meðalstærð baðstofanna á þessum þrettán bæjum var þá 13,4 fermetra[161] sem bendir til þess að stækkunin frá því sem verið hafði um miðja öldina hafi í raun verið sáralítil. Af baðstofunum sem hér koma við sögu var sú minnsta á Selakirkjubóli, aðeins 3,2 fermetrar en sú stærsta í Dalshúsum, 24,6 fermetrar.[162]

Þessi athugun á stærð 16 baðstofa í Mosvallahreppi frá árunum 1835-1870 og 13 baðstofa frá árunum 1880-1902 segir að sjálfsögðu ekki nákvæmlega til um hver meðalstærð allra baðstofa í hreppnum var en gefur þó mjög sterka vísbendingu um það því rannsóknin náði til verulegs hluta af öllum býlum í hreppnum. Prestssetrinu í Holti og sýslumannssetrinu í Ytri-Hjarðardal var þó haldið utan við könnunina svo að niðurstöður hennar gæfu sem réttasta mynd af bændabýlunum. Einnig er vert að taka fram að í úttektabókunum kynni í stöku tilvikum eingöngu að vera gefin upp stærð á þeim hluta þessarar eða hinnar baðstofu sem viðkomandi bóndi fékk til umráða ef tveir bændur bjuggu í sömu baðstofunni með sitt skyldulið.

Guðmundur Eiríksson segir eins og hér var áður vitnað til að um 1860 hafi hæðin í baðstofum Önfirðinga, frá gólfi í kjöl, yfirleitt verið 6-7 álnir, það er um 4 metrar. Svo virðist sem þessi tala sé líka full há því könnun á hæð 20 baðstofuhúsa í Önundarfirði frá árunum 1840-1896 sem valin voru af handahófi sýnir 5,7 álnir sem meðalhæð, það er 3,6 metra.[163] Slík hæð nægði reyndar alveg til þess að hægt væri að hafa loft í baðstofunni en slík baðstofuloft voru þá á flestum bæjum en þó alls ekki á öllum.[164]

Bæjargöngin frá baðstofu til útidyra segir Guðmundur að hafi verið 6-12 álnir á lengd. Athugun á 33 nítjándu aldar bæjum í Mosvallahreppi sýnir að þau voru að jafnaði um það bil 7 álnir, það er 4-5 metrar.[165] Um búr og eldhús segir Guðmundur á Þorfinnsstöðum að þau hafi oft verið 15 álnir á lengd og 3 álnir á breidd og mun þá eiga við samanlagða lengd beggja. Könnun á stærð 25 búra og 33ja eldhúsa á bændabýlum í Mosvallahreppi á árunum 1835-1900 eins og hún er gefin upp í úttektabókunum sýnir líka að þessi hús voru nokkru minni en Guðmundur taldi vera. Meðalstærð búranna var 5,86 x 3,36 álnir eða tæplega 8 fermetrar og meðalstærð eldhúsanna 4,75 x 3,05 álnir eða um það bil 5,7 fermetrar.[166]

Ef marka má úttektabækurnar voru bæjarhúsin í Mosvallahreppi nær alls staðar hin sömu á árunum 1835-1900, það er að segja baðstofa, búr og eldhús.[167] Mjög lítið var um skemmur á bændabýlunum[168] og má telja fullvíst að allur matarforði, sem ekki var geymdur í búrinu, hafi verið varðveittur á neðri hæð baðstofuhússins, undir baðstofuloftinu. Þar var líka pláss fyrir amboðin og flest annað sem á þurfti að halda í búrekstrinum. Guðmundur á Þorfinnsstöðum segir í ritgeð sinni að víða hafi eitt stafgólf verið þiljað af á neðri hæð baðstofuhúsanna til að bjóða í gestum. Hinar opinberu úttektir á bæjarhúsunum í Önundarfirði benda þó eindregið til þess að nær alla 19. öldina hafi slíkt afþiljað herbergi undir baðstofuloftinu þó aðeins fyrirfundist á stöku bæjum þar sem húsakynnin voru best.[169] Í þessum efnum kynni breyting hins vegar að hafa orðið á árunum kringum aldamótin 1900.

Af því sem hér hefur verið sagt má ráða að í lýsingu Guðmundar Eiríkssonar á nítjándu aldar bæjunum í Önundarfirði er greinilega miðað við hina betri bæi og þeim lýsir hann án efa í öllum meginatriðum rétt.

Í títtnefndri ritgerð Guðmundar á Þorfinnsstöðum gerir hann ágæta grein fyrir atvinnuháttum Önfirðinga á árunum kringum 1860. Hann minnist m.a. á rauðmagaveiðarnar og sumarróðra (sjá hér bls. 41-43) en um vorróðrana frá Kálfeyri og hin ýmsu störf fólksins frá einni árstíð til annarrar ritar hann m.a. á þessa leið:

 

Um 1860 voru atvinnuvegir í Önundarfirði eiginlega þeir sömu og nú, nefnilega landbúnaður og fiskiveiðar. Bændur og vinnumenn reru frá Kálfeyri að vorinu, mest á sexræðingum, eingöngu með handfæri og fiskuðu mest steinbít og þorsk. Allt var þá hert. Það stærsta af þorskinum var látið til svokallaðra „spekúlanta”, hitt var notað til fæðis á heimilunum. … Vanalega var komið heim úr veri 10 vikur af sumri. Var þá farið að rista torf (heytorf) til að þekja heyin með. Torfurnar voru hringaðar en velt úr hringnum þegar þerrir gafst. Líka tóku menn upp mó. Þegar sæmilega var sprottið byrjaði sláttur laugardaginn í 12. viku sumars. Um sláttinn var vanalega unnið í 16 stundir á dag og mundi það þykja of langur vinnutími nú.

… Mest var dittað að húsum að haustinu og gjört upp með heyjum, reiddur áburður á túnin. Það var kallað að reiða á völl. Til þess voru brúkuð hrip, tveir rimlakassar sem hengdir voru á klakka, sinn hvoru megin á hestinn.

Að vetrinum var unnið af kappi á flestum heimilum. Kvenfólk spann og prjónaði. Allt kvenfólk kunni að spinna og prjóna, margt að sauma og laga föt og ýmsar fleiri hannyrðir. Kvenfólk mjaltaði alltaf kýrnar, hvernig sem viðraði, en þó fór karlmaður með í fjósið þegar verst var veður. Karlmenn ófu. Á flestöllum heimilum var vefstóll. … Einnig fléttuðu karlmenn reipi, annaðhvort úr ull eða hrosshári til að binda í heyið að sumrinu.[170]

 

Fróðleg mjög er lýsing Guðmundar Eiríkssonar á mataræði fólksins í Önundarfirði á árunum kringum 1860. Hann segir:

 

Um 1860 var daglega fæðið að sumrinu morgunmatur sem kallaður var skattur, skyr eða rúgmjölsgrautur, kallaður kássa, hrærður saman við skyrið og nýmjólk út á. Hann var borðaður á dagmálum, klukkan 9. Miðdegismatur á nóni, klukkan 3, var harðfiskur og smjör og eitthvað af köku eða brauði, hituð mjólk í bolla með ofurlitlu af steinsykri á eftir. Kvöldskatturinn var vanalega ystingur og borðaður á náttmálum, klukkan 9 síðdegis. Að vetrinum á morgnana mélmjólk, soðin mjólk með ofurlitlu af grjónamjöli. Miðdegismatur harðfiskur, steinbítur eða skata með floti (bræðing), hnoðaður mör bræddur saman við lýsi og mjólkurbolli á eftir. Kvöldmatur flautir, hleypt nýmjólk og þeytt með þyrli og vanalega eitthvað upp úr súru niðrí. Á vorin var á heimilunum mest borðaður soðinn fiskur. … Að haustinu fékk hvert hjú kind, kvenfólk lamb en karlmenn veturgamla kind. Þetta var kallað „slægjur”. Úr því var vanalega gjörð villibráð sem kallað var. Hún var þannig til búin að kjötið var soðið þar til hægt var að smokka beinunum úr því. Svo lagt sjóðandi niður í dall eða fötu, með lögum feitt og magurt, og hellt feitinni sem rann af kjötinu milli laganna. Síðan pressað eins og hægt var og hellt svo yfir lagi af mörfloti. Þetta geymdist ágætlega í köldum húsum fram eftir öllum vetri.

Allur matur var skammtaður til hverrar máltíðar, nema fiskur og feitmeti. Af fiski fengu karlmenn tvo steinbíta til viku hver en kvenmenn einn og hálfan. Feitmeti var oftast skammtað eða fengið út sem kallað var til hvers misseris eða skemur eftir ástæðum, hnoðaður mör að vetri til en smjör að sumrinu. Brauð var ekki skammtað nema til máltíðar. Vermönnum var þó skammtað brauð til hverrar viku. Kjöt nær eingöngu gjört að hangikjöti og sjaldan borðað nema á hátíðum og eftir þær því vanalega var skammtað meira af því en borðað var í einu. Magálar voru og skammtaðir með á nýári og sumardaginn fyrsta. Þeir voru þannig til búnir: Soðnir og þurrkaðir vel. Síðan geymdir svo að lítið loft kæmist að þeim í korni eða vafðir inn í þétt efni. … Margir geymdu rafabelti til gamlárskvölds. Það var steikt á glóð og þótti góður matur.[171]

 

Um klæðnað Önfirðinga á árunum upp úr miðri 19. öld er Guðmundur fáorður en segir þó að í illviðrum hafi oft verið notaðir skinnstakkar og skinnbuxur.[172] Fótabúnaði sveitunga sinna á þeim árum lýsir hann svo:

 

Roðið, bæði af steinbít og skötu, var notað í skó. Í þurrki var það ágætt en slæmt og haldlítið í vætu. Skinn af nautum, hestum og sauðfé var líka notað í skó. Í skó utan yfir brækur, sjóskó, var haft sútað leður. Af Fransmönnum keyptu menn oft gömul stígvél fyrir vettlinga og notuðu þau í sjóskó. Að vetrinum notuðu þeir er störfum gegndu úti skinnsokka sem kallaðir voru dorningar.[173]

 

Í ritgerð sinni um aldarhátt í Önundarfirði á 19. öld gleymir Guðmundur á Þorfinnsstöðum ekki að minnast á viðleitni fólksins til menntunar, uppfræðslu barna og iðkun heimilisguðrækni. Um þessi efni ritar hann svo:

 

Um 1860 var uppfræðing barna í Önundarfirði ekki margbrotin. Þó var töluverð alúð lögð við að kenna börnum að lesa og kverið voru þau látin læra utanbókar, þó töluvert langt væri, og mundi það þykja strembið nú. Víðast hvar var börnum kennt að draga til stafs enda voru margir fullorðnir karlmenn þá í Önundarfirði skrifandi. Það sýna úttektarbækurnar frá þeim tíma. Bækur voru þá ekki á flestum heimilum nema húslestrarbækur og biblían. Lesnir voru þó húslestrar á hverjum sunnudegi að vetrinum, sérstaklega um langaföstuna lesið á hverju kvöldi og svo á jólanóttina. En sá lestur hélt víst ekki öllum vakandi. Margt, sérstaklega eldra fólk, var þá mjög guðhrætt og draughrætt. Ætlaði draug í hverju horni er dimma tók. Um 1870 kom Halldór Melsteð í Holt. Hann hafði verið sex ár á háskóla í Kaupmannahöfn en vegna óreglu ekki tekið próf. Hann kenndi mörgum piltum dönsku, reikning og íslensku og var ágætur kennari.[174]

 

Um líðan Önfirðinga áður en margvíslegar breytingar frá áratugunum kringum 1900 hófust kemst Guðmundur Eiríksson svo að orði í sömu ritgerð:

Yfirleitt leið fólki vel. Það var nægjusamt og flestir húsbændur gerðu sér far um að hjúum þeirra liði vel. Fötin voru hlý og haldgóð og fæðið kjarngott þó einfalt væri. Það er því mikill efi á að fólki nú líði nokkuð betur þó það hafi bæði miklu meira handa á milli og ýmis þægindi sem ekki voru þekkt fyrir sjötíu árum.[175]

 

Nú eru brátt liðin önnur sjötíu ár frá því Guðmundur, hreppstjóri á Þorfinnsstöðum, færði um 1930 í letur minningar sínar um aldarhátt í Önundarfirði á árunum um og upp úr 1860. Á því tímaskeiði hafa breytingarnar orðið enn stórfelldari en þær sem menn upplifðu á tímabilinu frá 1860 til 1930. Endanlegur og ótvíræður dómur um það hvort líðan fólks hafi batnað mun hins vegar seint verða kveðinn upp.

Að sögn Guðmundar Eiríkssonar urðu litlar breytingar á atvinnuháttum og efnahag Önfirðinga fyrr en á síðasta þriðjungi 19. aldar.[176] Þilskipaúterð hafði þó hafist frá Flateyri árið 1815 en á árunum 1837-1878 áttu Önfirðingar sjaldan fleiri en eina skútu (sjá hér bls. 65-71). Friðrik Svendsen, sem rak blómlega verslun og útgerð á Flateyri á árunum milli 1820 og 1830, reyndi líka að hefja saltfiskverkun (sjá hér Flateyri) en sú tilraun virðist ekki hafa borið varanlegan árangur því Guðmundur Eiríksson segir að ekki hafi verið farið að salta fisk í verstöðinni á Kálfeyri fyrr en upp úr 1865.[177] Áður var fiskurinn hertur.

Á árunum milli 1870 og 1880 stóð saltfiskverkun hins vegar með blóma á Kálfeyri og þá fóru fleiri ungir menn en áður að ráða sig á þilskip sem almennt voru nefnd jaktir á þeirri tíð.[178] Á þessum sama áratug fóru tveir veitingamenn á Ísafirði, þeir Jón Vedholm og Teitur Jónsson, að kaupa fé á fæti af bændum í Önundarfirði[179] sem áður áttu þess engan kost að selja kjöt eða lifandi fé á markað.

Allar þessar nýjungar, sem hér hafa nú verið nefndar, stuðluðu að bættum efnahag og mörkuðu upphaf nýs tíma. Á árunum milli 1880 og 1900 komst þó fyrst verulegt rót á bændasamfélagið í Önundarfirði en flestar þær breytingar sem þá gengu yfir tengdust þéttbýlismynduninni á Flateyri eða norsku hvalveiðistöðinni á Sólbakka og verða því ræddar síðar (sjá hér Flateyri og Sólbakki).

Hér hefur áður verið fjallað dálítið um jarðir og ábúð í Mosvallahreppi á 18. og 19. öld er nær allir bændur í hreppnum voru þá enn leiguliðar (sjá hér bls. 7-12). Sjálfsagt er að gera líka nokkra grein fyrir fjölda búfjár í hreppnum á fyrri tíð en í þeim efnum verður að byggja á opinberum skýrslum. Gera má ráð fyrir að tölur sem þar er að finna séu ekki alltaf í fullu samræmi við veruleikann en þær ættu þó að gefa allgóða vísbendingu um búfjárfjöldann á hverjum tíma. Hér verður nú brugðið á það ráð að birta töflu (sjá bls. 31) sem sýnir fjölda búfjár á hverjum bæ árin 1710, 1830 og 1880. Hvað varðar árið 1710 eru allar upplýsingar fengnar úr Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns en tölur um búfjárfjölda árin 1830 og 1880 eru sóttar í búnaðarskýrslur.[180]

Áður en lengra er haldið er rétt að taka fram að í tölum ársins 1880 á Töflu 2 eru þær örfáu skepnur sem búlausir menn áttu taldar með búfé bænda á viðkomandi jörð. Samtals er þar um að ræða 2 kýr, 23 ær, 21 gemling og einn hest. Þess er einnig skylt að geta að nýbýlið Bethanía, sem byggðist í landi Mosvalla á árunum upp úr 1840, er hér talið með Mosvöllum í tölum frá árinu 1880.

Það sem einkum vekur athygli við skoðun töluraðanna á Töflu 2 er hversu mjög bæði nautgripum og sauðum hefur fækkað á tímabilinu frá 1710 til 1830. Nautgripum fækkar um 27% en sú fækkun helst reyndar nokkurn veginn í hendur við samsvarandi fækkun bænda í hreppnum á þessu skeiði. Í flokknum sauðir, hrútar og gemlingar er fækkunin hins vegar langtum meiri því þar lækkar heildartalan um fullan helming og reyndar liðlega það. Í Jarðabókinni frá 1710 og búnaðarskýrslunum frá 1830 er ekki greint á milli sauða, hrúta og gemlinga en ætla má að hin mikla fækkun í þessum flokki sem átti sér stað á árunum frá 1710 til 1830 hafi fyrst og fremst orðið í sauðahjörðunum. Árið 1880 eru gemlingarnir

 

Jarðir Jarðarhundruð Fjöldi ábúenda   Nautgripir   Ær   Sauðir, hrútar og gemlingar Lömb (sett á vetur)   Hross  
    1710 1830 1880 1710 1830 1880 1710 1830 1880 1710 1830 1880 1710 1830 1880 1710 1830 1880
Mosdalur 12 1 1 1 3 4 4 25 16 15 22 14 14 20 10 ? 2 3 3
Kirkjub. í Valþj.d. 32 2 2 2 5 7 6 39 39 45 31 21 28 32 20 ? 3 4 4
Dalshús 16 2 2 1 7 4 5 28 22 34 28 18 40 27 8 ? 3 2 2
Tunga í Valþj.d. 12 2 2 2 7 3 3 38 18 23 47 4 12 37 12 ? 3 2 2
Grafargil 12 2 1 1 7 4 4 31 26 19 46 17 10 27 16 ? 4 1 2
Þorfinnsstaðir 24 2 2 1 4 4 3 24 20 32 36 7 10 26 8 ? 2 2 2
Hjarðardalur ytri 68 4 1 1 14 10 3 67 84 30 81 68 23 65 24 ? 8 8 2
Hjarðardalur innri 18 2 2 2 6 5 4 26 32 42 32 17 18 27 10 ? 4 2 3
Þórustaðir 6 2 1 1 4 4 5 12 23 44 16 10 17 13 10 ? 2 1 2
Holt ? 1 2 1 20 12 11 80 93 153 84 84 195 72 8 ? 8 6 10
Vaðlar 12 2 2 2 7 4 7 33 36 32 39 14 21 35 20 ? 3 4 4
Tröð 18 3 1 1 7 6 5 52 38 32 54 28 22 52 18 ? 5 3 5
Kirkjub. í Bjarn.d. 18 2 1 0 7 4 0 27 21 0 44 16 0 27 18 0 3 2 0
Mosvellir 24 2 2 3 7 6 6 35 22 37 40 12 29 33 8 ? 4 3 5
Vífilsmýrar 18 3 3 3 10 10 9 45 34 45 42 17 34 43 42 ? 6 4 3
Hóll í Firði 18 3 1 2 8 5 4 41 21 27 42 20 24 38 16 ? 5 3 3
Tunga í Firði 18 1 1 2 4 3 3 24 24 28 20 20 17 20 16 ? 2 3 4
Hestur 24 2 1 1 8 4 2 36 18 32 42 6 6 34 18 ? 6 2 2
Efri Hesthús 12 1 1 1 5 3 3 16 18 22 15 8 14 14 12 ? 2 3 2
Neðri Hesthús 12 1 1 1 5 2 2 17 6 13 20 0 10 20 8 ? 2 1 2
Múli ? 1 0 0 0 0 0 3 0 0 5 0 0 5 0 0 0 0 0
Efstaból 12 2 1 1 7 4 3 30 20 33 37 16 24 23 12 ? 4 2 3
Kroppstaðir 18 2 1 1 8 4 5 31 19 47 35 19 23 24 16 ? 3 2 4
Kirkjub. í Korpud. 20 2 2 2 11 8 5 53 36 44 63 21 22 53 24 ? 5 4 2
Kirkjubólshús 10 1 1 0 4 3 0 14 12 0 13 6 0 10 12 0 2 1 0
Tannanes 24 3 3 2 6 4 3 37 24 28 33 13 16 34 19 ? 7 3 3
Innri Veðrará 12 1 1 1 3 4 2 17 18 12 19 8 10 14 19 ? 2 2 1
Ytri Veðrará 18 1 1 1 4 3 3 14 20 24 23 18 20 14 12 ? 1 2 3
Fremri Breiðad. 12 2 1 1 5 3 1 27 23 16 30 20 0 23 13 ? 3 2 1
Neðri Breiðad. 24 3 2 3 8 6 3 48 28 22 50 4 13 44 16 ? 4 3 4
Selakirkjuból 12 1 1 2 3 2 3 22 6 14 24 0 12 22 8 ? 1 1 1
Kaldá 12 2 1 1 3 2 2 24 12 25 25 0 9 24 4 ? 2 1 2
Hóll á Hvilftarstr. 12 1 1 1 4 4 2 18 18 16 20 9 11 17 8 ? 1 1 2
Garðar 6 1 1 1 4 1 1 24 13 9 17 2 2 21 6 ? 1 0 1
Hvilft 18 1 1 1 6 7 3 34 31 20 58 18 16 23 12 ? 3 3 4
Eyri 24 2 1 1 10 2 2 68 20 14 103 19 11 57 10 ? 4 1 1
Flateyri 0 0 1 1 0 7 5 0 50 80 0 55 85 0 16 ? 0 5 11
Samtals 608 + Holt 66 50 49 231 168 132 1160 961 1109 1336 629 818 1070 509 0 120 92 105

 

 

taldir sér í búnaðarskýrslum og töldust vera 669 í Mosvallahreppi.[181] Sauðir og hrútar, eldri en veturgamlir, voru þá aðeins 149 í öllum hreppnum en þar af voru 65 hjá séra Stefáni P. Stephensen í Holti, 25 hjá Torfa Halldórssyni á Flateyri og 24 hjá Guðmundi Sturlusyni í Dalshúsum.[182]

 

Út frá töluröðunum á Töflu 2 er auðvelt að reikna út hina opinberu stærð meðalbúsins í Mosvallahreppi á árunum 1710, 1830 og 1880. Niðurstaðan úr því dæmi er þessi:

 

Árið 1710 3 til 4 nautgripir, 38 sauðkindur, aðrar en lömb, og 2 hross.

Árið 1830 3 til 4 nautgripir, 32 sauðkindur, aðrar en lömb, og 2 hross.

Árið 1880 2 til 3 nautgripir, 39 sauðkindur, aðrar en lömb, og 2 hross.

 

Til samanburðar má nefna að á árunum kringum 1930 hafði fjöldi nautgripa og hrossa í Mosvallahreppi breyst mjög lítið frá því sem verið hafði 1880[183] en sauðfé hafði fjölgað allnokkuð. Bændur í hreppnum voru þá 43 en sauðkindurnar töldust vera 2395[184] eða um það bil 56 á hvern bónda.

Búnaðarfélag Önfirðinga var stofnað árið 1886 (sjá Firðir og fólk 1900-1999, 326) en fyrir þann tíma var lítið um jarðræktarframkvæmdir eða aðrar búnaðarframfarir í Mosvallahreppi ef marka má opinberar skýrslur. Í búnaðarskýrslum er þó getið um 270 faðma langan túngarð á Eyri árið 1837[185] og í annarri heimild má sjá að það var Friðrik Svendsen, kaupmaður á Flateyri, sem lét hlaða garðinn.[186] Garður þessi virðist hins vegar fljótlega hafa lasnast og hætt að gegna sínu hlutverki því á árunum 1850 til 1880 eru engir túngarðar sagðir fyrirfinnast í hreppnum.[187]

Ebenezer Þorsteinsson var sýslumaður í Ísafjarðarsýslu frá 1810 til 1834. Hann bjó þá í Ytri-Hjarðardal í Önundarfirði og hélt þar áfram búskap uns hann andaðist á áttræðisaldri haustið 1843.[188] Sýslumaður þessi í Hjarðardal hóf fyrstur manna í Önundarfirði tilraunir til kynbóta á sauðfé og kom sér upp fjárstofni af spönsku merinókyni. Fyrstu erlendu hrútana hefur hann að öllum líkindum fengið hjá Magnúsi Stephensen, dómstjóra í Viðey, sem flutti fyrstur Íslendinga á 19. öld inn spænskan hrút árið 1809.[189] Í lýsingu Holtssóknar í Önundarfirði, sem séra Tómas Sigurðsson, prestur í Holti, ritaði árið 1840, er þess getið að í Ytri-Hjarðardal sé sauðfé af útlendu kyni – en arðsamara er það ekki að tiltölu við það innlenda, segir prestur.[190] Í fyrsta árgangi af tímaritinu Gesti Vestfirðingi, sem kom út árið 1847, er látið mun betur af tilraunum þeirra sem reyndu að bæta íslenska fjárstofninn með innfluttu merinófé. Í tímaritsgreininni er frá því skýrt að þrír menn hafi staðið fyrir flutningi merinófjár til Vestfjarða, þeir Ebenezer Þorsteinsson, sýslumaður í Hjarðardal, Guðmundur Scheving, kaupstjóri og umboðsmaður í Flatey á Breiðafirði og Þorvaldur Sívertsen í Hrappsey.[191] Um árangurinn af þessari tilraun kemst höfundur greinarinnar svo að orði:

 

Hjá nokkrum vestra hafa ullargæði batnað að mun fyrir þá sök að nokkrir hafa fengið sauðfé frá útlöndum með mýkri og þvínær toglausri ullu (Merinósauðfé) og hafa látið þær kynblandast við heimaalið fé. Ýkjulaust má segja að ull af fénaði þessum verður hálfu betri en almenn ull og þriðjungi þyngri af hverri sauðkind, gengur fé þetta eins vel úti á vetrum og er engu lakara til niðurlags en sauðfé það sem íslenskt er í báðar ættir.[192]

 

Hér verður ekki farið fleiri orðum um merinóféð í Önundarfirði á fyrri hluta 19. aldar, enda liggja vart á lausu nákvæmar upplýsingar um árangurinn af viðleitni sýslumannsins í Hjarðardal til að bæta sauðfjárstofninn. Í sóknalýsingunni frá 1840 er þess hins vegar getið að hvergi í Holtsprestakalli hafi verið reynt að slétta túnbletti nema lítið eitt í Ytri-Hjarðardal.[193]

Ef marka má búnaðarskýrslur voru engar eða nær engar tilraunir til jarðræktar gerðar í Mosvallahreppi fyrir 1860.[194] Jarðabótafélag var reyndar stofnað þar árið 1845[195] en mun hafa lognast út af skömmu síðar og engu komið til leiðar ef mark má taka á búnaðarskýrslunum. Í slíkum skýrslum verður þess fyrst vart árið 1864 að byrjað sé á jarðabótum í hreppnum en í búnaðarskýrslu frá því ári er þess getið að Jón Gíslason í Ytri-Hjarðardal hafi látið grafa 100 faðma vatnsveitingaskurð.[196] Jón Gíslason, sem hér er nefndur til sögu, bjó áður á Lækjarósi í Dýrafirði og hóf fyrstur Dýrfirðinga þilskipaútgerð árið 1843 (sjá hér Lækjarós). Í Ytri-Hjarðardal átti hann aðeins heima í 10 ár, frá 1858 til 1868, en fluttist þá aftur til Dýrafjarðar (sjá hér Ytri-Hjarðardalur). Á eftir Jóni Gíslasyni varð Jón Jónsson á Kirkjubóli í Bjarnardal næstur til að hefja jarðræktarframkvæmdir í Önundarfirði. Vorið 1869 var hann búinn að grafa 30 faðma langan áveituskurð og slétta 15 ferfaðma blett í túninu.[197] Næsta ár stækkaði hann bæði skurðinn og sléttuna.[198] Jarðyrkjumaður þessi á Kirkjubóli var hreppstjóri í sinni sveit[199] en varð því miður skammlífur því hann andaðist 25. maí 1871, aðeins liðlega fertugur að aldri.[200] Ekkja hans, Ingibjörg Pálsdóttir að nafni, hélt hins vegar áfram búskap á Kirkjubóli um nokkurt skeið.

Svo virðist sem þeir Jón Gíslason í Ytri-Hjarðardal og Jón Jónsson á Kirkjubóli hafi orðið fyrstir til að hefja jarðræktartilraunir í Mosvallahreppi, að frátöldum Ebenezer Þorsteinssyni sýslumanni sem byrjaði á túnasléttun í Ytri-Hjarðardal fyrir 1840 eins og hér var áður nefnt. Fáir eða engir munu hins vegar hafa fetað í fótspor þessara manna á árunum 1870 til 1880 því í búnaðarskýrslu ársins 1880 segir að hvergi í hreppnum séu finnanlegir áveituskurðir eða túnasléttur.[201] Sumarið 1883 ferðaðist Sæmundur Eyjólfsson búfræðingur um Ísafjarðarsýslu að tilhlutan sýslunefndar og leiðbeindi bændum um eitt og annað er varðaði búskapinn.[202] Einnig vann hann svolítið að jarðyrkju á nokkrum bæjum.[203] Sæmundur var þá ungur maður, aðeins 22ja ára gamall, og hafði nýlega útskrifast sem búfræðingur frá búnaðarskólanum í Ólafsdal.[204] Átta árum síðar lauk hann prófi frá prestaskólanum í Reykjavík en varð skammlífur og andaðist 35 ára gamall vorið 1896.[205]

Í Önundarfirði dvaldist Sæmundur frá 29. júlí til 9. ágúst sumarið 1883.[206] Hann vann þá í fjóra daga alls að jarðyrkju í Dalshúsum, á Þórustöðum og í Holti en notaði tímann að öðru leyti til að leiðbeina bændum um sitthvað sem betur mátti fara í búskapnum.[207] Sæmundur Eyjólfsson mun hafa verið fyrsti búfræðingurinn sem bændur í Mosvallahreppi komust í kynni við en þremur árum eftir heimsókn hans til þeirra var Búnaðarfélag Önfirðinga stofnað og úr því fór hreyfing að komast á  (sjá Firðir og fólk 1900-1999, 326-334).

Meðal fyrstu nýjunga í búnaðarháttum, sem upp voru teknar í Mosvallahreppi á síðari hluta 19. aldar, voru færikvíar en slíkar kvíar voru gerðar úr timbri og færðar til á kvíabólinu úr einum stað í annan eftir því sem henta þótti. Með notkun færikvía var áburðurinn frá kvíaánum nýttur til að rækta upp bletti á bólinu eða í kringum það.

Í sóknalýsingu séra Tómasar Sigurðssonar í Holti, er hann ritaði árið 1840, segir að engar færikvíar séu til í prestakallinu[208] og 20 árum síðar var allt óbreytt í þeim efnum.[209] Árið 1862 voru hins vegar komnar færikvíar hjá þeim Jóni Gíslasyni í Ytri-Hjarðardal, sem hér var nýlega nefndur, og hjá Torfa Halldórssyni á Flateyri[210] sem hér kemur víða við sögu. Á næstu árum fjölgaði færikvíunum hægt en slíkt þarfaþing var þó komið á átta bæi árið 1873.[211] Sjö árum síðar, árið 1880, voru 19 færikvíar til í hreppnum og not af þeim höfðu þá 22 bændur.[212]

Séra Tómas Sigurðsson í Holti fræðir okkur lítið eitt um búnaðarhætti í Önundarfirði árið 1840 og kemst þá m.a. svo að orði:

 

Kýr eru ekki inni nokkurn part sumarsins meðan hlýjast er. Hestar aldregi traðaðir. Beitarhús hvergi nema í Holti. Borgir engar heldur svokölluð hlöð, þaklaus, sem fé gengur út og inn um. Fjárhús standa í túnum heima á öllum bæjum.[213]

 

Í ritgerð sinni frá árinu 1840 segir séra Tómas að í Holtsprestakalli sé hvergi stundaður seljabúskapur nema á prestssetrinu[214] en Holtsselið var frammi í Bjarnardal þar sem áður stóð fornbýlið Arnkelsbrekka (sjá hér Arnkelsbrekka og Holtssel). Séra Tómas lætur þess einnig getið að víða í dölum Önundarfjarðar sjáist tóttabrot sem vitni um seljabúskap á fyrri tíð en fullyrðir jafnframt að ekkert þálifandi sóknarbarna hans minnist þess að búsmali hafi verið mjaltaður í seljum, − að frátöldu Holtsselinu.[215] Ætla verður að þarna fari séra Tómas rétt með en sé svo þá hafa Önfirðingar, aðrir en prestarnir í Holti, horfið frá seljabúskap mun fyrr en nágrannar þeirra í Dýrafirði því í Mýrahreppi og Þingeyrarhreppi var víða haft í seli langt fram eftir 19. öld (sjá hér Þingeyrarhreppur og Ytri-Lambadalur). Á síðari hluta 19. aldar voru ær reyndar hafðar í seli frá a.m.k. tveimur bæjum í Mosvallahreppi því Holtsselið var í notkun fram yfir 1880 (sjá hér Holt) og á síðustu árum 19. aldar var Torfi Halldórsson á Flateyri með búsmala í Eyrarseli (sjá hér Flateyri og Eyri). Torfi var Dýrfirðingur að uppruna og hefur vanist seljabúskap á uppvaxtarárum.

Árið 1775 var aðeins einn kálgarður í allri Vestur-Ísafjarðarsýslu og var hann á Þingeyri, hjá danska undirkaupmanninum sem þar bjó[216] (sjá hér Þingeyri). Þá voru 15 ár liðin frá því séra Björn Halldórsson í Sauðlauksdal byrjaði að rækta kartöflur, fyrstur allra hérlendra manna.[217] Nær fullvíst má telja að Önfirðingar hafi fyrst kynnst garðrækt á Þingeyri en þangað sóttu flestir þeirra verslun allt til ársins 1789 (sjá hér Flateyri). Árið 1804 voru liðlega 50 matjurtagarðar í öllum Vestfirðingafjórðungi[218] en óvíst er hvort nokkur þeirra hefur verið í Önundarfirði. Aftur á móti er ljóst að á tveimur fyrstu áratugum 19. aldar tóku Önfirðingar rækilega við sér á sviði garðyrkjunnar því árið 1821 var búið að koma upp 27 matjurtagörðum í Mosvallahreppi.[219] Árið eftir voru 254 slíkir garðar í öllum Vestfirðingafjórðungi[220] svo ætla má að um það bil tíundi hver garður í fjórðungnum hafi þá verið í Önundarfirði sem er býsna hátt hlutfall. Mestir garðyrkjumenn í Mosvallahreppi árið 1821 voru þeir séra Þorvaldur Böðvarsson í Holti, sem var með sex matjurtagarða, og Ebenezer Þorsteinsson, sýslumaður í Ytri-Hjarðardal, sem hafði komið sér upp fjórum görðum.[221] Á næstu árum fækkaði matjurtagörðum nokkuð í Önundarfirði og voru til dæmis að taka 16 árið 1830 og 12 árið 1837.[222] Í sóknalýsingunni frá 1840 minnist séra Tómas Sigurðsson í Holti á garðræktina og kemst þá svo að orði:

 

Kálgarðarækt sérlega vel stunduð í Hjarðardal ytri, nokkuð í Holt og vel á Flateyri. Kartöflur líka í Hjarðardal og ekki síður á Flateyri af agent Svendsen. En misjafnt vill lukkast ávöxtur þar af, líklega vegna jarðlagsins og kuldanna.[223]

 

Á næstu fjórum áratugum virðist matjurtagörðunum í Mosvallahreppi ekki hafa fjölgað neitt verulega og fyrir 1880 munu þeir sjaldan eða aldrei hafa orðið fleiri en verið hafði árið 1821.[224] Í búnaðarskýrslu frá árinu 1880 eru kálgarðar í hreppnum sagðir vera 21 og samanlögð stærð þeirra allra var 660 ferfaðmar.[225] Bændur í hreppnum voru þá um það bil 50[226] svo ljóst er að á meirihluta býlanna hefur enginn garður verið. Síðar jókst garðyrkjan til muna og árið 1915 fengust 165 tunnur af rófum og næpum og 68 tunnur af kartöflum úr matjurtagörðum í Mosvallahreppi.[227]

Í Jarðabókinni frá 1710 er allvíða getið um hlunnindi er fylgdu sumum bújarðanna í Mosvallahreppi. Eitthvert mótak virðist þá hafa verið á þrettán jörðum í hreppnum en er sagt vera þrotið á þeirri fjórtándu.[228] Um hrognkelsaveiði er getið á sjö jörðum og selveiði á fjórum.[229] Sums staðar er minnst á skóg en hann er alls staðar sagður þrotinn nema á Hesti en þar var hann reyndar líka svo að segja eyddur.[230] Lyngrif var stundað frá þremur bæjum, silungsveiði frá einum en hafði áður verið víðar og svolítil hlunnindi af reka höfðu bændur á tveimur jörðum, Eyri og Hvilft.[231] Í sóknalýsingunni sem séra Tómas Sigurðsson í Holti ritaði árið 1840 segir hann hlunnindi vera sáralítil í sínum sóknum utan sums staðar mótak, lítilsháttar grasa- og berjatekja.[232]

Af orðum Jarðabókarinnar sem til var vitnað hér á undan er ljóst að mótekja hefur verið stunduð frá mörgum býlum í Önundarfirði í byrjun 18. aldar. Búnaðarskýrslur frá fyrri hluta 19. aldar benda hins vegar til þess að mjög hafi dregið úr mónotkun síðar, að líkindum vegna þess að mó hafi þrotið á þeim stöðum sem um hann var vitað án þess að nýtt mótak fyndist í staðinn. Hafa menn þá orðið að láta sér nægja klíning og sauðatað til eldiviðar. Þessu til rökstuðnings má nefna að í búnaðarskýrslu frá árinu 1821 er sagt að mó sé aðeins brennt á þremur heimilum í Mosvallahreppi, það er að segja hjá Daniel Steenback, verslunarstjóra á Flateyri, hjá séra Þorvaldi Böðvarssyni í Holti og hjá Ebenezer Þorsteinssyni, sýslumanni í Ytri-Hjarðardal.[233] Árið 1830 var mó brennt á átta heimilum í hreppnum en árið 1834 aðeins á fjórum bæjum ef marka má hinar opinberu skýrslur.[234] Svo virðist sem harla dauft hafi verið yfir mótekjunni langt frameftir 19. öldinni því í búnaðarskýrslum frá árunum 1860-1872 er þess jafnan getið að hvergi hafi fundist nýtt mótak.[235] Árið 1873 tók hins vegar að rætast úr eldsneytismálunum því þá fundu menn loks mótak í landi Kirkjubóls í Bjarnardal.[236] Árið 1915 virðist ástandið í þessum efnum hafa verið orðið býsna gott því þá tóku íbúar Mosvallahrepps upp 2420 hestburði af mó[237] en meðaltalið í hverjum hreppi í Ísafjarðarsýslu var þá 2144 hestar.[238]

Í heimildum frá 18. og 19. öld er víða getið um rauðmagaveiðar Önfirðinga enda fékkst oft mikið af þessum ágæta fiski þar í firðinum. Önfirðingar höfðu líka sérstaka aðferð við veiðar á rauðmaga í Holtsós, þar sem fjörðurinn er mjóstur, og á grynningunum innan við ósinn

Að sögn Guðmundar Eiríkssonar, bónda og hreppstjóra á Þorfinnstöðum í Önundarfirði, sem fæddur var árið 1853, óðu karlar og konur um grynningarnar og kræktu rauðmagann upp með gogg.[239] Síðan drógu þeir aflafenginn á eftir sér þegar vaðið var í land.[240] Guðmundur er þarna að lýsa atvinnuháttum á árunum kringum 1860. Til rauðmagaveiðanna var líka farið á litlum bátum og síðustu hundrað árin munu flestir hafa notað báta við þessar veiðar.[241] Óskar Einarsson, sem var læknir á Flateyri frá 1925-1936, segir að langur haki hafi verið notaður við veiðarnar og rauðmaginn stunginn.[242] Frá rauðmagaveiðunum í Holtsós greinir Óskar nánar á þessa leið:

 

Í ósnum er mjög mikil rauðmagaveiði og er hann stunginn þegar fjara er. Einn maður á bát krækir stundum upp rauðmaga á einni fjöru svo hundruðum skiptir en rauðmaginn er mjög smár. Stundum eru einnig veiddar þar grásleppur sem eru að hryggna. … Það var hefð í Önundarfirði að bændur mættu veiða þarna þótt þeir ættu ekki land að ósnum.[243]

 

Báðir tala þeir Óskar læknir og Guðmundur á Þorfinnsstöðum um að rauðmaginn hafi verið kræktur upp og nákvæmlega sama orðalag er að finna í Jarðabók Árna og Páls frá árinu 1710 en þar segir um jörðina Neðri-Breiðadal að bændur sem þar bjuggu hafi að fornu veitt hrognkelsi sem krækt voru af skipi.[244] Tvímælalaust má því telja að sú veiðiaðferð að stinga rauðmagann eða stanga hann eins og það var líka kallað[245] hafi tíðkast í Önundarfirði í margar aldir. Hagalín Guðmundsson, sem fæddur er árið 1921 og átti heima í Innri-Hjarðardal í Önundarfirði í 67 ár, segir að þegar rætt var um þennan veiðiskap hafi sögnin að stanga oft verið notuð og menn talað um að stanga rauðmaga.[246]

Í einni heimild um rauðmagaveiðarnar í Holtsós á fyrri hluta tuttugustu aldar er veiðiaðferðinni lýst með þessum orðum:

 

Við veiðina var oftast einn maður á báti og hafði 12-16 feta hrognkelsastöng. Á öðrum enda hennar voru fimm agnhaldslausir krókar en á hinum járnhólkur og með honum var stjakað þegar báturinn var færður.[247]

 

Krókunum á neðri endar stangarinnar var krækt undir rauðmagann og síðan var stönginni kippt upp. Sat hann þá fastur á krókunum.[248]

Enn einn heimildarmaður segir hrognkelsastöngina hafa verið heldur lengri en þarna er talið eða 9 álnir (18 fet) og með krókunum fimm sem á henni voru hafi rauðmaginn verið húkkaður.[249] Í Holtsós mun rauðmaginn einkum hafa verið veiddur að næturlagi eða seint á kvöldin, helst í logni og alltaf á fjöru svo vel sæist til botns.[250]

Guðmundur Hjaltason alþýðufræðari sem ferðaðist um Vestfirði haustið 1914 greindi svo frá að í Önundarfirði væri ekki óalgengt að menn fengju 4000-5000 stykki af rauðmaga á einn bát yfir veiðitímabilið.[251] Aðfaranótt 27. maí 1891 var Jón Guðmundsson á Grafargili við rauðmagaveiðar inn á Ós og fékk þá 348 rauðmaga og 42 grásleppur.[252]

Hagalín Guðmundsson frá Innri-Hjarðardal segir þessar tölur mjög vel geta staðist og kveðst vita til þess að einn bátur hafi fengið allt upp í 1200 rauðmaga á einni fjöru.[253] Rauðmagaveiðarnar voru oftast stundaðar frá maíbyrjun og fram í miðjan júní.[254] Síðast mun hafa verið farið á ós á árunum upp úr 1980 en undir lokin var þessum veiðiskap nær eingöngu sinnt frá tveimur bæjum, Breiðadal og Innri-Veðrará og í minna mæli frá Þórustöðum.[255]

Hin sérstaka veiðiaðferð Önfirðinga mun eingöngu hafa verið notuð við rauðmagaveiðar í Holtsós og í Vöðunum innan við ósinn og var það kallað að fara á ós þegar þangað var farið til rauðmagaveiða.[256] Utar í firðinum voru hrognkelsi veidd í net[257] eins og almennt var í nálægum byggðarlögum.

Elsta heimild um rauðmagaveiðar Önfirðinga er Mosvalladómur frá árinu 1594. Með þeim dómi var staðfest að öllum almenningi skyldi frjálst að veiða rauðmaga í Holtsós með hinni fornu veiðiaðferð sem hér hefur verið lýst.[258] Tilefni þess að dæmt var í málinu árið 1594 var að bændur á Eyri og Hvilft höfðu skömmu áður farið að leggja rauðmaganet fyrir sínu landi en með dómnum frá 1594 voru slíkar netaveiðar bannaðar með þeim rökum að þær brytu í bága við forna hefð og væru líklegar til að spilla veiði í almenningnum fyrir innan.[259] Í dómsforsendunum frá 1594 kemur fram með skýrum hætti að rauðmagaveiðar almennings í Holtsós hafa þá þegar verið orðnar hefðbundnar og að þar hefur eingöngu verið notuð sú veiðiaðferð að stinga rauðmagann.[260] Í þessu sama skjali frá lokum 16. aldar má einnig sjá að á þeirri tíð hefur fólk úr öðrum sveitum komið til Önundarfjarðar í harðindum til að ná sér í rauðmaga.[261]

Í þessum merkilega dómi, sem dæmdur var á þingstað Önfirðinga að Mosvöllum 20. maí 1594, segjast dómsmennirnir hafa verið kvaddir til að skoða og rannsaka hvernig fara skyldi með þann ágreining er upp væri kominn vegna netalagna sem bændur á Hvilft og Eyri hafi nú fyrir nokkrum árum uppbyrjað en allir sveitarmenn er þar fyrir innan búa vilja á móti mæla.[262] Um netaveiðarnar frá Hvilft og Eyri komast dómsmennirnir svo að orði að þær virðast til stórrar hömlunar horfa á þeirri rauðmagaveiði sem guð sendir, bæði þeirri sveit og fleirum öðrum til bjargræðis inn í þann ós sem liggur fyrir innan greindar jarðir og almenningur hafi haldinn verið til þessa dags og sé enn haldinn.[263] Í forsendum dómsmannanna segir ennfremur:

 

Hafa hér aldrei að vorri vitund aðrar veiðivélar hafðar verið, utan á skipum kræktur af hverjum sem viljað hefur, mótmælislaust fyrir hvers manns landi og hefur hér að orðið stórt bjargræði, bæði þeirri sveit og fleirum öðrum þegar harðindi hafa verið svo að oftsinnis hafa fengist hlaðin skip með einni fjöru. Bera gamlir menn að í fyrri tíð hafi þeir heyrt að net hafi lagt verið á fyrrnefndri jörðu, Hvilft, og hafi sveitarmenn sem fyrir innan byggju það í burtu tekið því þeim hafi virst það hamla áðursögðum fiskigangi.[264]

 

Hér hefur þegar verið greint frá sjálfri dómsniðurstöðunni sem var sú að banna hinar umdeildu netaveiðar. Úrskurð sinn um þetta orðuðu dómsmennirnir svo:

 

Að heilags anda náð tilkallaðri dæmdum vér með fullu dómsatkvæði áðurgreind net af og ekki mega leggjast í greindri sveit vegna almúgans nauðsynja … en þeir sem þennan vorn dóm rjúfa séu að slíku sekir sem lögin útvísa og netin rétttæk og ófriðhelg ef lögð verða að heyrðum og upplesnum dómnum.[265]

 

Skýrara gat það ekki verið. Ekki verður séð að dómur þessi frá Mosvöllum kæmi til kasta Öxarárþings eða undir úrskurð lögmanna enda þótt dómsmennirnir vestra gerðu ráð fyrir að svo myndi verða.[266] Héraðsdómurinn frá 1594 um rauðmagaveiðar í Önundarfirði virðist hins vegar hafa náð að standa óhaggaður í 400 ár því veiðisvæðið í Holtsós og Vöðunum innan við hann hefur jafnan verið talið almenningur þar sem öllum væri frjálst að veiða rauðmaga með hefðbundnum hætti.[267]

Það var Gizur Þorláksson, lögsagnari á Núpi í Dýrafirði, sem nefndi menn í dóm á Mosvöllum vorið 1594 er gert skyldi út um ágreining þann sem risinn var vegna netalagna bændanna á Eyri og Hvilft. Í dómnum er Gizur nefndur löglegur umboðsmaður Páls bónda Jónssonar millum Langaness og Arnarness.[268] Sá Páll Jónsson, sem þarna er nefndur, er vafalaust enginn annar en Staðarhóls-Páll sem var tengdafaðir Gizurar á Núpi. Orðalagið sýnir að Staðarhóls-Páll, sem lengi bjó á Reykhólum, hefur farið með sýsluvöld í Ísafjarðarsýslu á þessum tíma en Gizur verið umboðsmaður hans í Vestur-Ísafjarðarsýslu og tveimur hreppum Norður-Ísafjarðarsýslu, það er Hólshreppi og Eyrarhreppi. Dómsmennirnir sem Gizur á Núpi skikkaði til að dæma um rauðamagaveiðarnar í Önundarfirði voru sex[269] og hafa ugglaust flestir átt heima í Mosvallahreppi. Einn dómsmannanna var Ólafur Jónsson lögréttumaður[270] í Hjarðardal[271] en ekki er fyllilega ljóst hvort lögréttumaður þessi bjó í Ytri-Hjarðardal í Önundarfirði eða Neðri-Hjarðardal í Dýrafirði (sjá hér Neðri-Hjarðardalur).

Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar er byggð á upplýsingum sem þeir félagar öfluðu á rannsóknarferðum sínum um landið á árunum 1750-1757. Þar minnist Eggert á hrognkelsaveiðar Vestfirðinga og segir að á Patreksfirði og Önundarfirði og fjörðunum þar á milli sé mikið veitt af hrognkelsum í net.[272] Eggert getur ekki um hina sérstöku veiðiaðferð Önfirðinga en um hrognkelsanetin segir hann að þau séu búin til úr togi eða nánar til tekið úr grófgerðri vetrarull sem líkist úlfaldahári.[273] Eggert fullyrðir að á fjörðunum milli Sauðaness og Látrabjargs sé hrognkelsaveiði betur stunduð en annars staðar á Íslandi og segir að grásleppan og rauðmaginn séu ýmist etin heima eða seld vindhangin til útlendinga og þyki kostafæða.[274] Nýtingu og verkun Vestfirðinga á rauðmaganum lýsir Eggert nánar með þessum orðum:

 

Rauðmaginn er etinn nýr, ýmist steiktur eða soðinn í súpu með sýru í. Hann er bragðgóður og heilnæm fæða. Þegar hann er hengdur upp er haus, sporður, þunnildi og veiðikúla skorið af honum. Síðan er hann hengdur upp þar sem vindur leikur um hann en sól skín ekki á hann en hann er ekki saltaður.[275]

 

Á öðrum stað lætur Eggert þess getið að kaupmenn á Vestfjörðum sækist mjög eftir rauðmaganum og greiði jafnmikið fyrir einn rauðmaga og fullorðinn þorsk.[276]

Ólafur Olavius ferðaðist um Vestfirði sumarið 1775 og staldraði þá við í Önundarfirði. Í ferðabók sinni segir hann að daglegt viðurværi Önfirðinga sé einkum mjólkurmatur ásamt steinbít og rauðmaga.[277] Önundarfjörður er einkum kunnur fyrir hve mikið er þar af rauðmaga, segir Olavius og lætur þess jafnframt getið að hvarvetna í Ísafjarðarsýslu muni vera eitthvað um þennan góða fisk sem þó sé lítið veiddur nema í Önundarfirði þar sem allmikið sé veitt af honum í net á vorin og þar til hálfum mánuði eftir Jónsmessu.[278]

Rauðmaginn kemur venjulega upp að landinu um sumarmál eða nokkru fyrr og varð því oft mörgum horkranga til bjargar sem misst hafði þrek og þrótt í útmánaðasultinum. Um alla Ísafjarðarsýslu dró svartbakurinn lifandi rauðmaga á land á vorin þar sem þarabotn er við ströndina og ekki of djúpt, eins og Olavius kemst að orði.[279] Víða munu stálpuð börn og liðléttingar hafa verið látin fylgjast með drætti veiðibjöllunnar og þeim ætlað að hirða þessa matbjörg úr klóm hennar strax og fuglinn hafði náð að draga rauðmagann upp í fjöru. Stundum gat hrafninn þó orðið fyrri til í þeirri baráttu því hann þurfti líka að fæða sig og sína. Ef sást til veiðibjöllunnar þegar hún var að draga voru það samt oftast börnin sem fengnum náðu. Fátækt fólk sem hvorki átti bát né veiðarfæri fékk því alloft rauðmaga í pottinn á vordögum með tilstyrk hins ágæta fugls sem flestir nefna nú svartbak en áður hét veiðibjalla.

Ólafur Olavius, sem fæddur var og uppalinn á Eyri í Seyðisfirði við Ísafjarðardjúp, taldi reyndar að flestir Vestfirðingar, að Önfirðingum frátöldum, gerðu alltof lítið af því að veiða rauðmaga í net. Þessi vanræksla varð honum tilefni reiðilesturs um leti og óhlýðni vinnuhjúa en þar kemst þessi einbeitti efnahagsráðgjafi m.a. svo að orði:

 

Það er gamalt mál að rauðmagi leiti upp að ströndinni á vorin á þeim tíma þegar karlmenn allir eru í veri svo að heima á bæjunum eru aðeins konur og börn til að sinna um hrognkelsaveiðina. En hver er sá sem ekki kannast við framtakssemi og búsýslu sjálfráðs vinnufólks sem enginn er til að stjórna? Og hver getur borið á móti að óhlýðni verkafólksins á Íslandi, sem aldrei er eða hefur verið hegnt, þrátt fyrir lög og tilskipanir, hefur valdið miklu um hnignun atvinnuveganna, allt um iðni og dugnað húsbændanna? Það er ekki sjaldgæft að smalastrákar hafi hagað sér eins og þeir væru húsbændur og ósvífnar vinnukonur eins og húsmæður þegar þeim svo sýndist. Um verkun og sölu rauðmagans er þess að geta að hann er aðeins fluttur út í mjög smáum stíl en mjög er sóst eftir honum í Kaupmannahöfn.[280]

 

Hér hefur nú verið vikið lítið eitt frá efninu en þótt ádrepa Olaviusar beinist fremur að öðrum en Önfirðingum þá á hún heima hér því hún er sett fram í beinum tengslum við frásögn af rauðmagaveiðum Önfirðinga.

Hér var áður vitnað í lýsingu Óskars Einarssonar læknis á hinni sérstöku aðferð Önfirðinga við rauðmagaveiðarnar. Sú lýsing mun vera rituð um eða rétt fyrir miðja tuttugustu öld. Hann segir þá að áður á árum hafi rauðmaginn oft bjargað Önfirðingum frá búsveltu á vorin og aldrei í manna minnum hafi rauðmaginn brugðist nema eftir frostaveturinn mikla 1918.[281]

Um blessun rauðmagans og nýtingu svila og hrogna úr rauðmögum og grásleppum ritar Óskar á þessa leið:

 

Gamall maður, ættaður úr Barðastrandarsýslu, vestarlega, sagði mér að hann hefði oft heyrt um það talað og enda séð það sjálfur að þegar rauðmaginn fór að veiðast á vorin hafi hulu létt af hálfbrostnum augum barnanna og þau orðið skær og glaðari í bragði. Sömuleiðis hefðu hreyfingar þeirra orðið kvikari. Ennfremur sagði hann mér að blandað hafði verið saman svilum og hrognum við svolítið af mjöli og fjallagrösum og þetta svo súrsað og geymt til vetrarins og gefist vel.[282]

 

Hér hefur ýmislegt verið dregið fram um rauðmagaveiðar Önfirðinga á fyrri tíð en enginn skyldi samt halda að þær hafi verið gildasti þátturinn í sjósókn bænda í Mosvallahreppi. Nær lagi væri að kalla þær góða búbót. Sjósókn Önfirðinga á 18. og 19. öld beindist hins vegar fyrst og fremst að veiðum á þorski og steinbít og svo mun einnig hafa verið á fyrri öldum. Hákarlaveiðar voru líka stundaðar og gáfu góðan arð þegar lýsi var í háu verði.

Í dagbók séra Sigurðar Tómassonar frá árunum 1848 til 1850 er stöku sinnum minnst á hákarlalegur sem Önfirðingar fóru í að vetrarlagi, meðal annars frá Valþjófsdal og Hjarðardal. – Komu sjómenn, fengu 19 hákalla, skrifar séra Sigurður 29. mars 1848.[283] Fáein önnur dæmi úr sömu dagbók skulu nefnd:

 

26.11.1849 – Dalmenn í legu.

15.1.1850  – Dalmenn 14 hákalla.

16.1.1850  – Bæjamenn í legu.

17.1.1850  – Fengu bæjamenn einn dogg með kvarteli.

20.1.1850  – Dalmenn fengu 10 hákalla, 3 cirka tunnur.

 

Dalmenn sem þarna eru nefndir eru þeir sem áttu heima í Valþjófsdal en Bæjamenn eru bændur í Ytri- og Innri-Hjarðardal og á Þórustöðum. Á árunum kringum 1880 var enn eitthvað um að Önfirðingar færu í hákarlalegur á opnum bátum í skammdeginu (sjá hér Kirkjuból í Valþjófsdal) en þess konar sjóferðir lögðust skömmu síðar niður.

Eina verstöðin í Mosvallahreppi, sem jafnan var róið frá á vorin á árunum 1700-1900, var Kálfeyri við norðanverðan Önundarfjörð en þangað er tæplega klukkutíma gangur frá Flateyri ef farið er út með ströndinni. Frá Kálfeyri mun einnig hafa verið róið á fyrri öldum og snemma á 17. öld eða fyrr var tveimur eða þremur bátum haldið til róðra frá Hvannökrum[284] sem eru um það bil tveimur kílómetrum fyrir utan Kálfeyri. Báðar þessar fornu verstöðvar eru í landi Eyrar.

Í Jarðabók Árna og Páls frá árinu 1710 segir að bændur úr allri sveitinni fyrir innan Valþjófsdal rói frá Kálfeyri á vorvertíð.[285] Þessi orð verður að skilja svo að þeir sem bjuggu í Valþjófsdal hafi ekki róið frá Kálfeyri á fyrstu árum 18. aldar og má því ætla að þeir hafi róið frá Dalssjó en þar er heimavör frá Kirkjubóli í Valþjófsdal. Að svo hafi verið er þó ekki sagt beinum orðum í Jarðabókinni en þess getið að við Dalssjó sé góð lending og þaðan megi ef vill stunda útræði.[286] Höfundar Jarðabókarinnar taka þó fram að sökum langræðis rói menn ekki frá Dalssjó að vetrarlagi.[287] Yngri heimildir sýna að um miðbik 19. aldar reru allir formenn úr Mosvallahreppi frá Kálfeyri á vorvertíð, líka þeir sem bjuggu í Valþjófsdal,[288] en á síðustu árum 19. aldar var bátum úr Valþjófsdal ýmist haldið til róðra frá Kálfeyri eða Dalssjó á vorvertíð.[289] Róðrar frá Kálfeyri lögðust ekki niður fyrr en 1928 en þaðan var eingöngu róið á árabátum (sjá hér Eyri). Vélbátum, sem bændur í Valþjófsdal komu sér upp skömmu eftir  aldamótin 1900, var aftur á móti haldið til róðra frá Dalssjó (sjá hér Kirkjuból í Valþjófsdal) og um svipað leyti hófst vélbátaútgerð frá Flateyri (sjá hér Flateyri).

Á Kálfeyri hófst vorvertíðin um sumarmál og stóð fram í byrjun júlí[290] en á öðrum tímum ársins var oft skotist á sjó úr heimavör frá bæjum við utanverðan fjörðinn og þá einkum á haustin.[291] Nær allir bændur í Önundarfirði á nítjándu öld voru jafnframt sjómenn og svo mun það löngum hafa verið, bæði þar og annars staðar á Vestfjörðum. Hjá sumum var sjósóknin jafnvel veigameiri þáttur í lífsstríðinu heldur en basl við kýr og kindur. Er skútuútgerð hófst frá Flateyri á öðrum áratug 19. aldar jókst vægi sjávarútvegsins enn að miklum mun hjá íbúum Mosvallahrepps en enn stærra stökk var þó vélvæðing bátaflotans í byrjun 20. aldar.

Á fyrirhugaðri ferð okkar bæ frá bæ um allan Önundarfjörð verður síðar staldrað við á Flateyri og Kálfeyri. Er þangað kemur mun nokkur grein verða gerð fyrir skútuútgerðina frá Flateyri á 19. öld og vorróðrum Önfirðinga frá Kálfeyri á fyrri tíð. Hér verður því að sinni látið nægja að drepa á örfá atriði er snerta sjósókn þeirra sem bjuggu í hinum forna Mosvallahreppi áður en atvinnuhættir tóku að færast í nútímahorf.

Í Jarðabókinni frá 1710 er með beinum eða óbeinum hætti sagt eða gefið til kynna að einhverjir sjóróðrar hafi verið stundaðir úr heimavör frá átta af þrjátíu jörðum í Mosvallahreppi.[292] Þessar átta jarðir eru Mosdalur, Kirkjuból í Valþjófsdal, Þorfinnsstaðir, Ytri-Hjarðardalur, Innri-Hjarðardalur, Holt, Hvilft og Eyri.[293] Hér eru ekki taldar með þær jarðir þar sem aðeins er getið um hrognkelsaveiði og/eða selveiði en þær eru Neðri-Breiðadalur, Selakirkjuból, Kaldá og Hóll á Hvilftarströnd.[294] Aðeins á einni jörð, Eyri, er sagt vera heimræði árið um kring en frá öllum hinum jörðunum er sjósókn talin erfið af ýmist þessum eða hinum ástæðum.[295] Um Ytri-Hjarðardal segja höfundar Jarðabókarinnar til dæmis að taka að þar hafi heimræði stundum brúkast á sumar og haust en á vorvertíð sé aldrei róið þaðan sökum langræðis.[296] Lending í Ytri-Hjarðardal var þó góð og talið gott að setja þar upp báta.[297] Áður en vélar komu í báta skipti höfuðmáli hversu langt var að róa á miðin og til að forðast langræði voru Eyrarbændur stundum með báta sína á Kálfeyri á vorvertíð[298] þó að hægt væri að róa úr heimavör á Eyri árið um kring.

Ólafur Olavius, sem ferðaðist um Vestfirði sumarið 1775, segir að í Önundarfirði, Dýrafirði og Súgandafirði séu menn sérlega vel fallnir til sjómennsku.[299] Í tillögum sínum til danskra stjórnvalda lagði hann áherslu á að frá þessum fjörðum yrði hafin útgerð þilskipa og mun stærri báta en áður höfðu tíðkast (sjá hér Þingeyrarhreppur, inngangskafli). Hugmyndir Olaviusar um útgerð stórra árabáta af norskri gerð frá fjörðunum í Vestur-Ísafjarðarsýslu urðu aldrei að veruleika en skútuútgerð hófst hins vegar frá Flateyri árið 1815 (sjá hér bls. 65-66 og Flateyri), þegar rétt 40 ár voru liðin frá ferð Olaviusar um Vestfirði, og var það fyrsta tilraun til þilskipaútgerðar í allri Ísafjarðarsýslu.

Olavius minnist líka á hákarlaveiðar Önfirðinga og annarra Vestur-Ísfirðinga en telur Djúpmenn vera þeim fremri á því sviði.[300] Í Ferðabók sinni lýsir hann helstu aðferðum Vestfirðinga við hákarlaveiðar á opnum skipum eins og hér hefur áður verið rakið að nokkru (sjá hér Þingeyrarhreppur, inngangskafli). Algengast var að veiða á hákarlasóknir sem festar voru á vaði úr nautshúð. Um þessa veiðiaðferð ritar Olavius svo:

 

Að liggja við stjóra er sama og að liggja við kraka, það er að veiða þegar báturinn liggur kyrr við akkeri meðan skipverjar renna þaðan vöðum sínum sem eru ólar úr nautshúð er hákarlasóknirnar eru festar við. … Þannig veiða menn stundum 16-24 hákarla í einu sem dregnir eru á seil í land með ærnum erfiðismunum, jafnvel þótt veður sé kyrrt. En ef ekki er unnt að koma hákörlunum í land er lifrin tekin úr þeim en skrokknum fleygt en bæði dregur það úr aflahlut sjómannanna og spillir veiðinni framvegis. En þessi veiðiaðferð sem notuð er almennt á Dýrafirði, Önundarfirði, Súgandafirði, Aðalvík og jafnvel í Bolungavík er kölluð að fara í hákarlalegur. … Bestur er afli í norðanátt, með nýju tungli og með byrjandi norður- eða suðurfalli og við sólarupprás. Besta hákarlabeitan er blóðselur, sem er spik af nýdrepnum sel, hrossaket eða úldið hvalket.[301]

 

Hér hefur áður verið gerð nánari grein fyrir hákarlaveiðum Dýrfirðinga á opnum skipum á síðari hluta 19. aldar (sjá hér Þingeyrarhreppur, inngangskafli) og skal til þess vísað því ætla má að enginn verulegur munur hafi verið á hákarlaveiðum Dýrfirðinga og Önfirðinga á því skeiði. Það sem hér hefur nú verið sagt á eingöngu við hákarlaveiðar á opnum bátum en minnt skal á að mikið var líka veitt af hákarli á þilskipunum er þau komu til sögu.

Séra Tómas Sigurðsson í Holti segir reyndar í sóknalýsingu sinni frá árinu 1840 að hákarlsafli sé orðinn nær enginn og kennir um háttsemi sjómanna á þilskipunum.[302] Varla mun hyggilegt að taka orð séra Tómasar um þetta sem heilagan sannleika en pistill hans um hákarlaveiðarnar sýnir vel viðhorf margra sem töldu litla blessun stafa af útgerð þilskipa. Um hákarlaveiðar Önfirðinga og stríðið við jaktamenn ritar séra Tómas svo:

 

… hákallaafla fer óðum hnignandi og er orðinn nær engi vegna háttsemi fiskijaktanna, sem skera og sleppa hverjum hákalli dýpst niðri á hafi, hvar við hákallinn hverfur gjörsamlega af vanalegum hans miðum en dýpra en þau ráða er ekki farið á íslenskum smáskipum. Fyrrnefnd háttsemi þykir ekki heldur mjög uppbyggileg sveitunum sem oft þarfnast bæði matar og skóleðurs, sem hvort tveggja ykist ef jaktráðendur létu flytja til lands hákall og skráp þeim til sölu er kaupa vildu, hvar fyrir flestir þökkuðu.[303]

 

Í Jarðabók Árna og Páls segir að 16 bátar hafi gengið frá Kálfeyri vorið 1710[304] en ætla má að vertíðarbátar úr öllum hreppnum hafi þá verið lítið eitt fleiri því bændur úr Valþjófsdal virðast þá hafa róið frá Dalssjó eins og hér var áður nefnt. Á árunum 1820-1880 var fjöldi báta í Mosvallahreppi yfirleitt á bilinu frá 13 til 30 ef marka má búnaðarskýrslur.[305] Sé litið á fjölda báta árin 1821, 1830, 1837, 1850, 1860, 1870 og 1880 reynist meðalfjöldi þeirra hafa verið tuttugu og einum betur.[306] Með hliðsjón af því má telja mjög líklegt að á 19. öldinni hafi sjófærar fleytur í hreppnum oftast verið í kringum tuttugu eða álíka margar og verið hafði árið 1710.

Á fyrri hluta 19. aldar var talsvert um áttæringa í Önundarfirði og má sem dæmi nefna að á árunum 1821, 1830 og 1837 voru fjórir til sex áttæringar eða þaðan af stærri bátar í Mosvallahreppi.[307] Árið 1850 var tala þeirra komin niður í tvo og á síðari hluta aldarinnar var oft bara einn eða jafnvel enginn áttæringur í öllum hreppnum.[308] Algengasta bátastærðin á 19. öld var sexæringar eða fjögra manna för en minni fleytur voru þó oft um það bil þriðjungur bátaflotans og stundum nær helmingur um og eftir miðja öldina.[309] Á þeim sjö árum, frá tímabilinu 1820 til 1880, sem skoðuð voru sérstaklega við undirbúning þessa rits og hér voru áður nefnd, var alltaf eitthvað um báta í Valþjófsdal og stundum var líka bátur í Mosdal.[310] Fæstir voru bátarnir í þessum hluta hreppsins árið 1821 en þá voru þeir bara tveir en flestir 1850 og 1860 er bændur í Valþjófsdal og Mosdal áttu sjö báta.[311]

Í Skjalasafni landshöfðingja eru varðveittar skýrslur um þilskip, opin skip og báta á árunum 1875-1899.[312] Þar eru bátar í Mosvallahreppi sagðir hafa verið 13 árið 1881 en í búnaðarskýrslum, sem hér hefur verið byggt á, er á því sama ári gefinn upp 21 bátur og nefndir eigendur að þeim öllum. Mismunurinn skýrist af því að í skýrslunni sem send var embætti landshöfðingja eru eingöngu talin fjögra manna för og þaðan af stærri bátar. Árið 1880 voru aðeins einn áttæringur og tveir sexæringar í öllum Mosvallahreppi ef marka má hinar opinberu skýrslur en tíu fjögra manna för voru þá í hreppnum.[313] Árið 1889 hafði sexæringunum fjölgað upp í átta og fjögra manna förin voru þá þrettán en á því ári var enginn áttæringur til í hreppnum. Við lok níunda áratugar 19. aldar hafði fjögra manna förum og þaðan af stærri bátum fjölgað verulega frá því sem verið hafði árið 1880. Tala þessara stærri báta var árið 1889 komin upp í 21 og væru 2ja og 3ja manna för talin með hefur heildarfjöldi bátanna að líkindum verið í kringum 30. Fleiri en það munu bátarnir sjaldan eða aldrei hafa orðið á 19. öld.[314]

Hér mun síðar verða fjallað um verstöð Önfirðinga á Kálfeyri og þá gerð grein fyrir einu og öðru sem tengist sjósókn Önfirðinga á fyrri tíð en lýsing Guðmundar Eiríkssonar á Þorfinnsstöðum á haustróðrunum, sem farið var í úr heimavör frá bæjum utantil í firðinum, á betur heima hér. Frásögn hans af haustróðrunum á fyrst og fremst við árin í kringum 1860[315] en ætla má að allt hafi þetta verið með líkum brag um langan aldur. Guðmundur ritar:

 

Að haustinu var oft róið, sérstaklega utantil úr firðinum. Fiskaðist þá skata og spraka. Skatan var látin í kös, síðan tekin upp og hert. Einnig voru hert bæði riklingur og rafabelti af sprökunum. Skötulifrin var brædd og brúkuð til ljósa. Magarnir, bæði úr skötu og spröku, voru hirtir. Þeir voru kallaðir bumlingar, soðnir og súrsaðir.

Þessi veiðiaðferð var þannig: Á fráferðinni var stjaldrað við annaðhvort annesið (Barða eða Sauðanes) og veiddur þar smáfiskur á bert járn. Svo var haldið á nokkuð út fyrir fjarðarmynnið, legið við stjóra, smáfiskinum beitt og fiskað á handfæri. Skata fékkst oft í strauma en spraka ekki nema um straumskipti sem kallað var liggjandi.[316]

 

Á öllum öldum hafa Önfirðingar orðið að tefla á tvær hættur við harða sjósókn á opnum bátum út á úfið haf. Enginn veit nú hversu mörg mannslíf hafa tapast í þeirri þúsund ára baráttu sem oft var háð upp á líf og dauða. Í annálum sem greina frá atburðum á 17. og 18. öld er stöku sinnum minnst á sjóslys í Önundarfirði en þó má ætla að hin séu miklu fleiri sem hvergi eru nefnd. Í annálsgreinum séra Sigurðar Jónssonar, sem var prestur í Holti í Önundarfirði frá 1680-1730 og áður aðstoðarprestur þar í ellefu ár, segir svo við árið 1698:

 

Forgekk áttæringsskip úr Önundarfirði á djúpsjó 17. júní í … veðri með 6 mönnum. Komst enginn af. Formaður þess skips Jón Jörundsson. Mörg skip hröktust í því veðri með sína hákalla.[317]

 

Skipstapi á Önundarfirði um vorið með 6 mönnum, segir í Djáknaannálum við árið 1771 og á sama stað er þess getið að þar í firðinum hafi kona hrapað úr fjalli skömmu síðar og beðið bana.[318]

Mesta sjóslys á Vestfjörðum sem sögur fara af er mannskaðinn mikli í Önundarfirði árið 1812 en þann 6. maí á því ári fórust átta bátar þaðan úr firðinum, þar af sjö með allri áhöfn. Fjórir þessara báta voru frá bæjum í Mosvallahreppi en þrír frá Ingjaldssandi (sjá hér Svipast um á Ingjaldssandi).

Í hreppsbók Mosvallahrepps má sjá að haustið 1810 voru til ellefu bátar í öllum hreppnum.[319] Níu þessara báta voru taldir stórir en tveir litlir.[320] Ásgeir Jónsson prófastur átti einn stóra bátinn[321] en fluttist sumarið 1811 frá Holti út á Ingjaldssand (sjá hér Holt og Sæból) og má gera ráð fyrir að bátum í Mosvallahreppi hafi þá fækkað um einn. Líklegast er að íbúar Mosvallahrepps hafi því átt 10 báta við upphaf vertíðar vorið 1812 en fimm þeirra týndust í hafi 6. maí, þar af fjórir með allri áhöfn.

Vorið 1812 var árferði með lakasta móti hérlendis, fjárfellir í stórum stíl og víða urðu menn að skera kýr vegna heyleysið.[322] Er þannig áraði stóð hungurvofan í dyragættinni á mörgum heimilum og fiskurinn í sjónum eina vonin um lífsbjörg. Þó veðurútlit væri tvísýnt að morgni dags sýndist ekki heillavænlegt að liggja í landi svo oft var teflt á tæpasta vað. Í prestsþjónustubókum Holtsprestakalls og Dýrafjarðarþinga finnast nöfn 49 manna sem drukknuðu 6. maí 1812.[323] Af þeim voru 45 úr Önundarfirði en 4 úr Dýrafirði.[324] Jón Espólín getur þess að einn bátur enn hafi farist frá Önundarfirði skömmu áður eða litlu síðar og segir að alls hafi þeir sem drukknuðu verið 54.[325] Gísli Konráðsson, sem eins og Espólín var fjarri vettvangi, ritaði líka um mannskaðann mikla í Önundarfirði og segir að 52 hafi drukknað[326] en Ebenezer Þorsteinsson, sýslumaður í Hjarðardal, segir í skjali frá árinu 1832 að þeir sem fórust 6. maí 1812 hafi verið 54.[327] Ólíklegt verður þó að telja að nokkur þessara talna sé nákvæmlega rétt og líklegast er að prestarnir í Önundarfirði og Dýrafirði sem skráðu nöfn hinna drukknuðu í embættisbækur sínar rétt eftir slysið fari rétt með og þeir sem fórust hafi verið 49. Hafi enn fleiri menn drukknað af bátum sem reru frá Önundarfirði þennan dimma dag má telja fullvíst að þeir hafi verið úr öðrum sóknum. Til rökstuðnings þeirri kenningu að prestarnir tveir hafi skráð nöfn allra sem drukknuðu vorið 1812 í þeirra sóknum má benda á að skömmu eftir mannskaðann mikla skrifaði sýslumaður upp dánarbú 27 manna úr hópi þeirra sem farist höfðu þann 6. maí. Þær skýrslur eru enn varðveittar[328] og öll nöfnin sem þar er að finna eru líka á skrám prestanna sem bendir til þess að engin nöfn hafi gleymst hjá þjónum kirkjunnar.

Í aldanna rás hafa ótrúlega margir drukknað í sjó við Íslandsstrendur og í mestu mannskaðaárum fórust allt upp í 400 íslenskir sjómenn á einum vetri.[329] Fá ef nokkur dæmi munu þó finnanleg um það að eitt 600 manna byggðarlag hafi orðið fyrir annarri eins blóðtöku af völdum sjóslysa og þeirri sem Önfirðingar máttu þola vorið 1812. Ellefu árum fyrr höfðu þeir talist vera 631 en þá áttu 488 manneskjur heima í Mosvallahreppi og 143 á Ingjaldssandi.[330] Svipuð þessu hefur íbúatalan án efa verið í byrjun ársins 1812. Það voru því liðlega sjö af hverjum hundrað Önfirðingum sem drukknuðu vorið 1812 eða um það bil fjórðungur allra verkfærra karlmanna í firðinum. Þetta svarar til þess að við Íslendingar sem nú lifum (1993) misstum 18.700 menn í sjóinn á einum degi.

Opinberar heimildir sýna að í mannskaðanum mikla missti 21 kona eiginmann sinn í sjóinn.[331] Fjórtán þessara ekkna áttu heima í Mosvallahreppi, sex á Ingjaldssandi og ein í Dýrafirði.[332] Börn innan við 18 ára aldur sem hinir drukknuðu létu eftir sig voru a.m.k. 50 og kynnu að hafa verið lítið eitt fleiri.[333] Af þessum 50 börnum voru tvö reyndar enn í móðurkviði þegar feðurnir drukknuðu. Nær helmingur barnanna var á Ingjaldssandi þar sem tveir menn, þeir Guðmundur Hákonarson á Brekku og Jón Jónsson á Villingadal, létu eftir sig átján börn, níu hvor.[334]

Hið mikla áfall sem Önfirðingar urðu fyrir vorið 1812 skildi eftir sig djúp sár sem voru lengi að gróa.

Haustið 1811 voru bókfærðar árstekjur sveitarsjóðs í Mosvallahreppi 72 ríkisdalir og 46 skildingar en haustið 1813 voru þær komnar niður í 36 ríkisdali og 8 skildinga.[335] Á árunum 1811-1817 fjölgaði sveitarómögum í hreppnum hins vegar úr 9 í 24 en slík fjölgun ómaga kallaði eins og nærri má geta á aukin útgjöld úr hreppssjóðnum.

Sem dæmi um afleiðingar mannskaðans mikla má einnig nefna að í Holtsprestakalli fækkaði barnsfæðingum mjög verulega. Á árunum 1807-1811 fæddust að jafnaði 15 börn á ári í prestakallinu en árið 1813 urðu þau bara 7 og meðalfjöldi árlegra fæðinga 1813-1816 var níu.[336] Á fimm ára tímabili frá 1.1.1807 til 31.12.1811 voru fæddir umfram dána í Holtsprestakalli 12.[337] Á næsta fimm ára tímabili, það er frá 1.1.1812 til 31.12.1816, varð útkoman hins vegar sú að þeir sem dóu urðu 102 en hinir sem fæddust 52.[338] Dánir umfram fædda á þessum fimm árum reynast því hafa verið 50. Sé litið yfir sextán fyrstu ár 19. aldarinnar kemur í ljós að á því skeiði hefur reyndar orðið veruleg mannfækkun í Mosvallahreppi því árið 1801 töldust íbúar hreppsins vera 488 en árið 1816 var íbúatalan komin niður í 381 (sjá hér bls. 15).

Frumheimildir um mannskaðann mikla í Önundarfirði er að finna í embættisbókum prestanna og skiptabók sýslumanns en elsta heimild af öðru tagi eru skrif Jóns Espólíns, sem var sýslumaður í Skagafirði þegar Önfirðingar misstu fjórða hvern verkfæran karlmann í sjóinn. Frásögn Espólíns er á þessa leið.

 

Það bar þá til miðvikudaginn fyrir uppstigningardag að týndust sjö skip úr Önundarfirði og hið áttunda litlu eftir eða áður, auk þess skaða er fyrri varð, voru á fjórir menn hins sjötta tugar en ekkjur urðu 16 eftir.

Hafði þar áður varla fengist kvik kind en þann dag hlóðu flestir menn og drukknuðu þeir allir er eigi köstuðu út og síðan fékkst þar enginn fiskur. Voru þá enn svo hjátrúargjarnir menn á Vesturlandi að sumir eignuðu þetta því að Ebeneser Þorsteinsson, er þar var þá settur fyrir sýsluna og fyrr bjó í Langey, mundi vera þess valdur því að sumir þeir menn er týndust höfðu mælt í móti honum á þingi en hann haft nokkuð svo í heitingum við þá. Var hann kallaður lítt að sér í lögum og öðrum vísindum en trúmaður lítill og brögðóttur og réði hann miklu við Ísfirðinga eftir það.[339]

 

Ekki þarf að fara mörgum orðum um þær hugmyndir að Ebenezer sýslumaður hafi valdið mannskaðanum með göldrum enda munu fáir hafa lagt trúnað á slíkt. Aftur á móti var lengi haft á orði að Ebenezer sýslumaður, sem bjó í Ytri-Hjarðardal í Önundarfirði, hefði gengið hart fram við að skrifa upp eignir hinna látnu og skipta dánarbúunum.[340] Á sínum síðari æviárum var Ebenezer talinn vel efnaður og var þá eftir honum haft að blessaðar ekkjurnar í Önundarfirði hefðu komið undir sig fótunum.[341] Þau orð eru til marks um almannaróm en segja út af fyrir sig ekkert um embættisstörf sýslumannsins.

Ýtarlegasta nítjándu aldar frásögnin af mannskaðanum mikla í Önundarfirði er sú sem Gísli Konráðsson skráði[342] en hún var löngu síðar prentuð lítið eitt breytt í tímaritinu Blöndu.[343] Einnig er stuðst við frásögn Gísla í ritgerð sem Gils Guðmundsson birti árið 1944 í riti sínu Frá ystu nesjum.[344] Gísli Konráðsson var ungur maður norður í Skagafirði er mannskaðinn mikli varð í Önundarfirði en fluttist til Flateyjar á Breiðafirði árið 1852 og átti þar heima til dauðadags árið 1877.[345] Þátt sinn um hin miklu sjóslys í Önundarfirði hefur Gísli að líkindum ekki skráð fyrr en hann kom til Flateyjar en eitthvað gæti hann þó hafa heyrt um þessa atburði skömmu eftir að þeir skeðu.

Gísli segir 12 báta hafa róið frá Önundarfirði mannskaðadaginn 6. maí, þar af fjóra frá Ingjaldssandi.[346] Hann nefnir formenn á bátunum sjö sem fórust með allri áhöfn og líka þá fjóra formenn sem náðu landi heilir á húfi á bátum sínum.[347] Tólfta formanninn nefnir hann ekki en getur þess að sex mönnum af þessu tólfta skipi hafi Sveini á Þorfinnsstöðum tekist að bjarga á hafi úti í veðurofsanum.[348]

Sem heimildarmenn að skrifum sínum um hinar miklu slysfarir í Önundarfirði nefnir Gísli tvo menn, þá Jóhannes Jónsson, síðar hreppstjóra á Folafæti í Súðavíkurhreppi, er hann segir hafa verið á skipi Ásgeirs prófasts í mannskaðaveðrinu mikla og Jón Jónsson er kallaður var smali og var á skipi frá Kirkjubóli í Valþjófsdal.[349] Að sögn Gísla var Jón smali síðar sauðamaður hjá Ebenezer Þorsteinssyni, sýslumanni í Hjarðardal.[350] Vel er hugsanlegt að Gísli hafi sjálfur hitt þessa heimildarmenn, annan eða báða, ellegar fengið frá þeim skriflegar upplýsingar og má ætla að frásögn Gísla sé í aðalatriðum rétt, enda þótt hann segi þá sem fórust hafa verið þremur fleiri en þeir að líkindum hafa verið í raun.

Hér var áður sagt frá baráttu Ásgeirs Jónssonar prófasts, er var formaður á einum bátanna sem reru frá Ingjaldssandi þennan dag. Í tengslum við þá frásögn var rakin lýsing Gísla Konráðssonar á veðrahamnum á mannskaðadaginn og gerð grein fyrir hverjir fórust á skipum Sandmanna (sjá hér Sæból). Ásgeir prófastur náði landi við Svalvogahamar á annesinu milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar og þar bar einnig að landi tvo aðra báta úr Önundarfirði sem björguðust úr sjávarháskanum 6. maí.[351] Formenn á þeim voru Jón Guðmundsson bóndi á Kirkjubóli í Valþjófsdal og Jón Jónsson bóndi á Veðrará en Sveinn Þorleifsson, bóndi á Þorfinnsstöðum, náði landi í Ketildölum vestan Arnarfjarðar.[352] Af bátunum tólf sem reru þennan dag voru fjórir frá Ingjaldssandi og fórust þrír þeirra (sjá hér Sæból). Átta bátar reru úr Mosvallahreppi og fórust fjórir þeirra með allri áhöfn.[353] Flestir bátanna úr Mosvallahreppi hafa vafalaust róið frá Kálfeyri eins og venja var en hugsanlegt er þó að bátarnir úr Valþjófsdal og Mosdal hafi róið frá Dalssjó (sjá hér bls. 45).

Formenn eða forráðamenn á bátunum fjórum úr Mosvallahreppi sem fórust með allri áhöfn voru þessir: Jón Jónsson, silfursmiður á Hvilft, Ólafur Jónsson, hreppstjóri í Mosdal, Páll Þórðarson, bóndi í Breiðadal og á fjórða bátnum töldust báðir eigendur hans vera forráðamenn, þeir Sveinn Jónsson á Hesti og Sveinn Oddsson á Vífilsmýrum.[354]

Annar tveggja heimildarmanna Gísla Konráðssonar, þeirra sem áður voru nefndir, var á skipi með Jóni Guðmundssyni á Kirkjubóli í Valþjófsdal.[355] Gísli lýsir fyrst baráttu Ásgeirs prófasts við storm, stórsjó og hríð þennan örlagaríka dag, uppsiglingu hans og landtöku (sjá hér Sæból), en segir síðan:

 

En það er frá Jóni Guðmundssyni að segja frá Kirkjubóli að sá maður var á skipi með honum er Jón hét, kallaður yngri og af sumum smali, er síðar var sauðamaður að Ytra-Hjarðardal hjá Ebenezer sýslumanni Þorsteinssyni. Sagði hann svo frá að í hinum mikla veðuræsingi og briman er þeir sigldu upp sáu þeir á þrjá skipsskaðana, − eitt skip á hvolfi og á öðru þrjá menn á kjöl með ópi og kalli. Tók þá hásetum Jóns mjög hugur að digna en fyrir því enginn kostur var mannbjargar að freista í ofsa svo ægilegum og bráður bani lá við ef til hefði verið reynt og Jón lítt mannaður, − hvatti hann þá háseta sína að gæta sín og barði hnefum á söxin.

Það sagði og Jón smali að árar sæu þeir síðan fljóta af hinu þriðja skipinu og mönnum upp skjóta úr öldunum. Vissu þó ógjörla hver skip þau voru en gat þess þó til að eitt af þeim mundi verið hafa skip Jóns silfursmiðs á Hvilft og helst það er menn sáust á, að á kjöl komust, og er þá af því að ráða að Jón Guðmundsson væri skammt á eftir prófasti og komst hann undir Svlavogahamar og Jón á Veðrará.

Sveinn á Þorfinnsstöðum var á hinu fjórða skipi, staðarferju úr Holti er Ásgeir prófastur átti og sumir telja 5 manna far og nefna Uxann. Vildi honum til sú hamingja á uppsiglingunni að hann fékk bjargað 6 mönnum af báti er fyrir honum urðu í kafaldinu, komst í Dali vestur [þ.e. Ketildali í Arnarfirði – innsk. K.Ó.]. Þar rak og skip það heilt með farvið og fiski er Sveinn bjargaði af mönnunum.[356]

 

Um Svein á Þorfinnsstöðum segir Gísli að hann hafi verið lítill maður vexti og kallaður væskilmenni en þó hinn fimasti formaður og hverjum manni brattgengari.[357] Vel má vera að margir nágrannar Sveins hafi verið honum stærri og sterkari. Engu að síður var það hann sem vann þá hetjudáð að bjarga sex mönnum af sökkvandi skipi í fárviðri á hafi úti. Væskilmenni hefur hann því varla verið. Björgunarafrek Sveins verður reyndar enn merkilegra þegar þess er gætt að hann virðist hafa verið á minnsta bátnum, − 5 manna fari, en bátana sem fórust segir Gísli Konráðsson ýmist hafa verið sexæringa eða áttæringa.[358] Fyrir björgunarafrek sitt hlaut Sveinn sérstaka viðurkenningu frá kóngi (sjá Firðir og fólk 900-1900, 305).

Um bátinn sem Sveinn á Þorfinnsstöðum bjargaði mönnunum af segir Gísli að hann hafi síðar rekið á land og Ásgeir prófastur látið bæta hann og stækka.[359] Gísli lætur þess einnig getið að sexæringinn frá Mosdal hafi bændur úr Rauðasandshreppi fundið mannlausan á hafi úti er veðrinu slotaði og hafi þeir látið bjóða hann upp.[360] Sá sem keypti hann á uppboðinu var að sögn Gísla Þórður beykir Þóroddsson á Vatneyri og tók hann bátinn með sér að Reykhólum er hann fluttist þangað skömmu síðar.[361] Um bát þennan á Reykhólum hefur Gísli ugglaust haft nærtækar heimildir í Flatey því þar er ekki langt á milli og samgöngur greiðar á sjó. Auk þess má benda á að sonur Þórðar beykis, Jón Thoroddsen skáld og sýslumaður, var búsettur í Flatey á fyrstu árum Gísla þar og gæti vel hafa sagt honum þessa sögu um bátinn frá Mosdal. Enn einn bátinn sem týndist í hafi þann 6. maí rak síðar mannlausan að landi á norðurströnd Arnarfjarðar og var það bátur þeirra Sveins á Hesti og Sveins á Vífilsmýrum eins og sjá má í skiptabók sýslumanns.[362]

Hinn skagfirski fræðimaður í Flatey greinir aðeins frá nöfnum tveggja þeirra tólf báta úr Önundarfirði sem voru á sjó þegar manndrápsveðrið skall á. Undarlegt má kalla að hann segir báða þessa báta hafa borið nafnið Uxi. Annar þeirra var áttæringurinn sem Ásgeir prófastur stýrði og lengi síðan fylgdi Holti en hinn Uxinn var að sögn Gísla staðarferja sú úr Holti sem Sveinn á Þorfinnsstöðum var formaður á.[363] Hætt er við að þarna hafi einhver ruglingur orðið. Um staðarferjuna, sem Sveinn á Þorfinnsstöðum stýrði, segir Gísli að sumir telji hana hafa verið 5 manna far og nefni Uxann. Í öðrum heimildum sést að árið 1811 fylgdi staðnum í Holti áttæringur sem nefndur var Uxi (sjá hér Holt). Með hliðsjón af orðum Gísla má telja líklegt að Ásgeir prófastur, sem þá bjó á Sæbóli, hafi verið formaður á honum. Þetta skip var orðið mjög lélegt árið 1821 og ófært var þá talið að halda því við sem fullgildum áttæringi (sjá hér Holt). Ef til vill mætti hugsa sér að nafnið Uxi hafi færst yfir á staðarferjuna þegar áttæringurinn var úr sögunni og ferja þessi, sem Sveinn á Þorfinnsstöðum stýrði þegar mest á reið, hafi því borið það góða nafn er Gísli Konráðsson ritaði frásögn sína af mannskaðanum mikla alllöngu síðar, − þó að áttæringurinn einn hafi heitið svo árið 1812.

Hér verða nú talin upp nöfn þeirra 30 manna úr Mosvallahreppi sem fórust 6. maí 1812 og skráð eru, ásamt aldri hvers og eins, í dánardálk prestsþjónustubókarinnar frá Holti en nöfn Sandmannanna fimmtán og fjögurra Dýrfirðinga, sem einnig týndu lífi, er að finna annars staðar í þessu riti (sjá hér Sæból). Rétt er að taka fram að aldurinn sem skráður er í dánardálkinn og hér er gefinn upp er ekki alltaf alveg nákvæmur en þar mun þó ekki skeika mjög miklu. Þeir sem fórust úr Mosvallahreppi voru:

 

Frá Mosdal:                     Ólafur Jónsson hreppstjóri                     45 ára

Jón Jónsson vinnumaður                        23 ára

Jóhann Jónsson vinnumaður                   37 ára

 

Frá Kirkjubóli í                 Jón Ásmundsson bóndi                          ?

Valþjófsdal:

 

Frá Þorfinnsstöðum:          Jón Jónsson vinnumaður                        30-40 ára

 

Frá Þórustöðum:               Sigurður Jónsson                                  23 ára

 

Frá Kirkjubóli í                 Bjarni Jónsson vinnumaður                    28 ára

Bjarnardal:

 

Frá Vífilsmýrum:              Sveinn Oddsson bóndi                           32 ára

Þórður Jónsson vinnumaður

 

Frá Hóli í Firði:                Guðmundur Þorláksson                         24 ára

Páll Þorláksson                                    21 árs

 

Frá Hesti:                        Sveinn Jónsson bóndi                            51 árs

Andrés Jónsson bóndi                           42 ára

Jón Andrésson vinnumaður                    28 ára

 

Frá Ytri-Veðrará:              Friðrik Þórðarson bóndi                         43 ára

Guðmundur Friðriksson                         16 ára

Ólafur Magnússon                                19 ára

 

Frá Neðri-Breiðadal:          Páll Þórðarson bóndi                             53 ára

Greipur Oddsson bóndi                          33 ára

Jón Jónsson bóndi                                 36 ára

Hjalti Pálsson bóndasonur                      20 ára

 

Frá Fremri-Breiðadal:        Egill Jónsson vinnumaður                      24 ára

 

Frá Selakirkjubóli:            Guðmundur Jónsson bóndi                     56 ára

Jón Guðmundsson bóndasonur                24 ára

 

Frá Görðum:                    Jón Magnússon bóndi                            42 ára

Þorsteinn Guðlaugsson vinnumaður         18 ára

 

Frá Hvilft:                       Jón Jónsson bóndi og silfursmiður           39 ára

Sigurður Grímsson vinnumaður              23 ára

 

Frá Eyri:                          Jón Magnússon bóndi                            38 ára

Rósinkrans Ólafsson sonur húsfreyju        16 ára

 

Meðalaldur þeirra sem fórust í hinu mikla mannskaðaveðri 6. maí 1812 var rétt liðlega 30 ár.[364] Elstir voru Guðmundur Jónsson, bóndi á Selakirkjubóli, og Jón Sigmundsson, bóndi á Álfadal á Ingjaldssandi, báðir 56 ára.[365] Yngstur var Pétur Jónsson, bóndasonur frá Rana í Dýrafirði, aðeins 15 ára, en næstyngstir voru þeir Guðmundur Friðriksson á Ytri-Veðrará og Rósinkrans Ólafsson á Eyri, báðir 16 eða 17 ára.[366] Pétur á Rana hafði farið til róðra með föður sínum sem einnig hlaut vota gröf (sjá hér Sæból). Um Guðmund Friðriksson á Ytri-Veðrará er tekið fram í prestsþjónustubókinni að hann hafi verið ófermdur er hann drukknaði[367] og líklegt virðist að hann hafi verið í skiprúmi með föður sínum, Friðriki bónda Þórðarsyni sem einnig týndi lífi. Þriðji pilturinn, Rósinkrans á Eyri, var sonur Ólafs Magnússonar, sem þar bjó um aldamótin 1800,[368] en áður höfðu Ólafur og kona hans, Þuríður Gísladóttir, búið á Núpi í Dýrafirði en það forna höfuðból höfðu forfeður Ólafs átt mann fram af manni í nær 300 ár (sjá hér Núpur). Árið 1812 var Ólafur Magnússon látinn og Þuríður ekkja hans nýlega gift Jóni Magnússyni. Með honum hefur Rósinkrans, stjúpsonur hans, að líkindum verið í skiprúmi og fórust þeir báðir.

Hér var áður minnst á skipti dánarbúa þeirra sem fórust í hinu mikla mannskaðaveðri 6. maí 1812. Alls voru bú 27 drukknaðra manna skrifuð upp og sá Ebenezer sýslumaður um skipti á flestum þeirra.[369] Hinir 22, sem einnig hlutu vota gröf, voru búlausir menn og munu hafa verið eignalausir að kalla. Í hópi þeirra sem drukknuðu voru 20 bændur og lét sýslumaður skrifa bú þeirra allra upp. Einnig lét hann færa til bókar eignir og skuldir 7 vinnumanna og bændasona úr hópi þeirra sem drukknuðu. Uppskrift allra þessara dánarbúa er enn varðveitt í skiptabók Ísafjarðarsýslu og er þar mikinn fróðleik að finna um eignir manna og skuldir.[370] Við undirbúning þessa rits var ekki farið út í nákvæma rannsókn á dánarbúunum en slík könnun væri reyndar mjög áhugaverð.

Skuldlausar eignir dánarbúa bændanna sem hér koma við sögu námu samtals 2.398 ríkisdölum og 8 skildingum.[371] Efnaðastur þeirra var Páll Þórðarson í Neðri-Breiðadal en eignir hans að frádregnum skuldum voru virtar á 568 ríkisdali og 11 skildinga.[372] Páll átti meðal annars jörðina sem hann bjó á, 24 hundruð, en af þeim 49 mönnum sem drukknuðu vorið 1812 áttu aðeins fjórir einhver hundruð í jörð. Næstir Páli að efnum voru þeir Jón Jónsson, bóndi og silfursmiður á Hvilft, og Ólafur Jónsson, bóndi og hreppstjóri í Mosdal, en skuldlausar eignir þeirra hvors um sig voru reyndar innan við þriðjung af eignum Páls Þórðarsonar. Jón silfursmiður reyndist eiga 182 ríkisdali og 8 skildinga, þegar skuldir höfðu verið dregnar frá, en Ólafur hreppstjóri í Mosdal þremur skildingum minna.[373]

Fátækastir bændanna sem týndu lífi 6. maí 1812 voru þeir Guðmundur Sigurðsson á Hálsi á Ingjaldssandi sem átti 20 ríkisdali og 85 skildinga, Jón Jónsson í Hrauni á Ingjaldssandi sem átti 42 ríkisdali og 20 skildinga og Jón Jónsson í Neðri-Breiðadal sem átti 46 ríkisdali og 19 skildinga.[374] Hér er þá alltaf miðað við skuldlausar eignir. Jón Magnússon á Eyri er hér ekki talinn með hinum fátækustu. Við uppskrift dánarbúsins taldist hann eiga um það bil 119 ríkisdali umfram skuldir en síðar kom í ljós að sjö jarðarhundruð sem þar voru talin með voru séreign ekkju hans svo Jón átti í raun ekkert er skuldir höfðu verið greiddar.[375] Við mat á efnahag meðalbóndans í hópi þeirra sem drukknuðu sýnist eðlilegt að líta framhjá Páli í Breiðadal, sem var í algerum sérflokki hvað varðaði eignir, og Jóni Magnússyni á Eyri sleppum við líka vegna séreignar ekkjunnar. Meðaltal skuldlausra eigna hinna bændanna átján reynist hafa verið 95 ríkisdalir og 5 skildingar, ef ekki eru taldar með þær skuldir sem gefnar voru eftir fyrir uppgjör dánarbúanna.[376] Í skiptabók sýslumanns kemur fram að árið 1812 hefur meðalkýr verið virt á um það bil 15 ríkisdali[377] svo ljóst er að skuldlausar eignir miðlungs bónda í hópi þeirra sem drukknuðu hafa verið virtar á liðlega 6 kýrverð.

Búlausir menn sem týndu lífi í mannskaðanum mikla voru 29 en sýslumaður lét aðeins skrifa upp eignir og skuldir sjö einstaklinga úr þeim hópi.[378] Samtals reyndust skuldlausar eignir þeirra nema 134 ríkisdölum og 52 skildingum[379] sem gerir 19 ríkisdali og 21 skilding á mann. Af þeim 27 dánarbúum sem Ebenezer sýslumaður lét skrifa upp og hér hafa verið til umfjöllunar voru 22 tekin til opinberra skipta.[380] Hin fimm voru öll mjög smá og skipti á þeim virðast aldrei hafa verið færð til bókar.[381]

Skiptabókin sjálf sýnir hvað Ebenezer fékk greitt frá hverju dánarbúi fyrir vinnu sína við að skipta þeim á milli erfingja. Þessar tölur hefur Halldór Kristjánsson frá Kirkjubóli kannað og birt niðurstöðu sína í Ársriti Sögufélags Ísfirðinga.[382] Við athugun hans kom í ljós að greiðslurnar sem sýslumaður fékk fyrir skipti allra þessara dánarbúa námu samtals um það bil 60 ríkisdölum.[383] Lausleg athugun höfundar þessara orða staðfestir að sú tala muni vera nærri lagi. Heildarupphæðin sem Ebenezer fékk í sinn hlut hefur þá numið sem svaraði 4 kýrverðum – eða máske liðlega það, því árið 1812 mun gangverð á góðri kú hafa verið um það bil 15 ríkisdalir eins og hér var áður nefnt.

Á almennan mælikvarða íslenskra sýslumanna töldust 60 ríkisdalir ekki vera neitt stórfé á þessum tíma og gátu engan veginn dugað slíkum embættismanni til að koma fótunum undir sig í fjárhagslegu tilliti. Til samanburðar má hafa í huga að þessir 60 ríkisdalir jafngiltu 4 kýrverðum en við uppgjör á dánarbúi Ebenezers, 32 árum síðar, voru eignir hans virtar á 6.848 ríkisdali og 50 skildinga (sjá hér Ytri-Hjarðardalur). Opinbert kýrverð vestanlands var þá 25 ríkisdalir og 31 skildingur svo að skuldlausar eignir dánarbúsins hafa numið 270 kýrverðum. Engu að síður voru 60 ríkisdalir nokkuð há greiðsla fyrir þau dagsverk sem fóru í skipti dánarbúana árið 1812 og vafalaust mun ýmsum hafa þótt sýslumaðurinn vera aðgangsharður við ekkjurnar.

Ekki er kunnugt um að neinn hafi orðið til þess að kæra sýslumanninn í Hjarðardal fyrir framgöngu hans við skipti dánarbúanna í Önundarfirði árið 1812 en þess má geta að um það bil 20 árum síðar voru skipti hans á áveðnu dánarbúi dæmd ómerk og að engu hafandi í Landsyfirrétti.[384] Þar var um að ræða dánarbú Rannveigar Guðlaugsdóttur í Vigur, sem andaðist sumarið 1831, en talið var að áður en dánarbúinu var skipt hafi verið afráðið að eftirlifandi eiginmaður Rannveigar, Kristján Guðmundsson í Vigur, gengi að eiga aðra tveggja dætra Ebenezers sýslumanns.[385] Svo virðist sem landsyfirréttur hafi talið að við uppgjör á dánarbúi Rannveigar hafi Ebenezer verið að hygla dóttur sinni og tilvonandi tengdasyni, sem var 32 árum eldri en hún, á kostnað barna Rannveigar af fyrra hjónabandi hennar. Fyrir brot á réttum reglum við þessi búskipti var sýslumaður dæmdur til að greiða sekt og háar bætur, − samtals milli 200 og 300 ríkisdali.[386]

Ætla má að svo fjárglöggur maður sem Ebenezer er sagður hafa verið hafi haft vit á að láta ekkjurnar borga sér ómakslaunin í fríðu enda lítið um peninga í Önundarfirði árið 1812. Sé aftur á móti gert ráð fyrir að hann hafi einhvers staðar tekið við bankaseðlum og setið uppi með þá á árunum 1812 til 1814, þá hefur lítið orðið úr hagnaðinum því á þeim árum hrundi peningakerfi danska ríkisins svo slíkir seðlar urðu einskis virði.[387]

Einn bændanna sem fórust í mannskaðanum mikla var Sveinn Jónsson á Hesti í Önundarfirði. Fyrir allmörgum árum tók Eyjólfur Jónsson saman niðjatal hans og gaf út á bók. Þar fylgir með hin gamla uppskrift Ebenezers sýslumanns á dánarbúi Sveins og einnig skiptagerðin frá 19. desember 1812.[388] Hér verður látið nægja að birta uppskrift sýslumanns á einu af hinum dánarbúunum tuttugu og sex og verður þá fyrir valinu bú Ólafs Jónssonar, hreppstjóra í Mosdal. Þetta bú var skrifað upp 19. maí, þrettán dögum eftir slysið, og eignir og skuldir færðar til bókar með þessum orðum:

 

Anno 1812 þann 19. maí var sá constitueraði [setti] sýslumaður yfir Ísafjarðarsýslu, E. Thorstensen, til staðar að Mosdal í Önundarfirði til að registrera [skrá] og virða láta fallið sterfbú eftir sáluga hreppstjóra Ólaf Jónsson sem burtkallaðist þann 6. þessa mánaðar. Til virðingarmanna voru útnefndir: sá setti hreppstjóri, Jón Jónsson á Kirkjubóli og nú ráðinn fyrirvinnumaður að Mosdal, og Jón Jónsson frá Gerðhömrum. Var svo framlagt til virðingar sem fylgir:

 

 1. Í Bókum

           No.                                                                                                      Rd.     sk.

 1. Vídalínspostilla, límd og trosnuð.                                                 1        –
 2. Gerhardihugvekjur, rotnar.                                                                   16
 3. Vídalíns föstupredikanir.                                                                       16
 4. Sálma- og flokkabók.                                                                             40
 5. Síðari partur flokkabókarinnar.                                                            20
 6. Sturms hugvekjur, fyrri partur.                                                             20
 7. Missiraskiptaoffur.                                                                                32
 8. Píslarþankar.                                                                                         12
 9. Fæðingarsálmar og fæðingarhugvekjur í einu bandi                           16
 10. Kristjáns kóngs 5 Norsku lög.                                                               32

 

 1. Í Fötum

          No.                                                                                                       Rd.     sk.

 1. Skyrta af grófum dúk, þó ný.                                                                 60
 2. Blá peysa borin með messingshnöppum.                                        1     48
 3. Önnur sams konar með ókveiktum 23 silfurhnöppum , slitnari.    2       –
 4. Blátt klæðisvesti með stólhnöppum og rafndúksfóðri.                   1       –
 5. Blá klæðistreyja, gatslitin, með messingshnöppum.                       1    16
 6. Tvíhneppt röndótt Kalemangs peysa, tvíhneppt, slitin.                        72
 7. Forn og slitin blá tvíhneppt peysa bætt, með beintölum.                     24
 8. Grá ný peysa, ótilbúin.                                                                          72
 9. Tvíhneppt hvít peysa með tíu hnöppum.                                               80
 10. Vesti af grófu klæði með tíu hnöppum og einskeftufóðri.                     32
 11. Léreftsskyrta, ekki mikið slitin.                                                       1       –
 12. Svartar prjónabuxur, nýlegar.                                                              72
 13. Aðrar með blönkum messingshnöppum, gatslitnar.                             20
 14. Garmar dto. með látúnshnöppum.                                                        16
 15. Svartar nærbuxur með bláum streng.                                                   48
 16. Mórauð slitin peysa með tíu hnöppum.                                                16
 17. Tvennir mórauðir sokkar, gatslitnir.                                                    24
 18. Tvennir nýlegir sokkar, brugðnir, hvítir.                                              48
 19. Hattur með flauelsborða og tinhringju.                                         1     24
 20. Sauðskinnshúfa.                                                                                    16
 21. Lambskinnshúfa.                                                                                   12

 

 1. Rúmfatnaður

          No.                                                                                                       Rd.    sk.

 1. Nýjar einskeftu rekkjuvoðir.                                                          2     24
 2. 3 fiðurlaus dýnuver, bætt.                                                                     48
 3. Einar slitnar einskeftu rekkjuvoðir.                                                      48
 4. Aðrar dto. fornfálegar.                                                                         32
 5. Brekán fornt og slitið.                                                                           36
 6. Lítill koddi með segldúksveri, forn.                                                      24
 7. Annar dto. með einskeftuveri.                                                               16

 

 1. Elds- og Búrsgögn

           No.                                                                                                       Rd.   sk.

 1. Tunnusár í bærilegu standi                                                            1     12
 2. Annar bandalítill, gamall, nokkru minni.                                             80
 3. Þriðji rotinn og gamall, minnstur.                                                        64
 4. Tvíbytnu tunna með tveimur járnböndum.                                            54
 5. Önnur dto., bandlaus.                                                                           32
 6. Sár, tekur 1½ tunnu, laggbrotin og bandalítill.                                    64
 7. Fjögur trog í bærilegu standi.                                                              64
 8. Sex trog, slæm og biluð.                                                                        64
 9. Tvö 1½ fjórðungs keröld.                                                                      80
 10. Fjögur dto. dto., minni.                                                                         48
 11. Fjórar ýmislegar fötur.                                                                         48
 12. Strokkur, gamall og bandalaus.                                                            24
 13. Sex askar, sumir lakir, sumir brúkanlegir.                                           48
 14. Drykkjarkanna.                                                                                     24
 15. Skálar tvær og diskar þrír.                                                                   32
 16. Þriggja fjórðunga pottur, næstum gatbrunninn.                            1       –
 17. Tveggja fjórðunga dto. í betra standi.                                           1       –
 18. Eins fjórðungs       dto., gamall og lasinn.                                            32
 19. Fimm fjórðunga    dto., brunninn og eyralaus.                              1     24

 

 

 1. Smíðatól

           No.                                                                                                       Rd.    sk.

 1. Langviðarsög, deig, bítur illa.                                                              64
 2. Grindarsög, brotin og gölluð, samt önnur minni.                                24
 3. Fellihefill.                                                                                             12
 4. Þjöl, bjúghnífur og 2 borjárn.                                                              20
 5. Lítill slaghamar.                                                                                   60
 6. Steðji lægðóttur.                                                                             1     12
 7. Belgur með lítt nýtum skinnum.                                                            24

 

 

 1. Amboð og reiðskapur

           No.                                                                                                        Rd.    sk.

 1. Þrjú orf, mjög lasin.                                                                              24
 2. Fimm misjafnar hrífur.                                                                          28
 3. Hnakkur með svipu, tveimur gjörðum og ólalausum ístöðum

                   samt þófagarmi                                                                             3        –

 1. Eitt hornreipi með slæmum kaðalsilum.                                                26
 2. Fimm ýmislegir hnífar.                                                                          80
 3. Reka, biluð, og móskrín.                                                                        22

 

 

 1. Hirslur

           No.                                                                                                       Rd.    sk.

 1. Vættarkista, nýleg, með lasinni skrá og lömum.                            1     12
 2. Önnur vættarkista með krókalömum.                                             1     48
 3. Tveir kistlar og einn lár.                                                                 1        –
 4. Tveir einnar tunnu strokkar og einn 1½ tunnu strokkur.                      80

 

 

 1. Aðskiljanlegt

           No.                                                                                                       Rd.    sk.

 1. Tveir lampar, annar lítt nýtur.                                                              44
 2. Eir – Teketill.                                                                                         24
 3. Þrjú kindaskinn.                                                                                    50
 4. Tveir önglar.                                                                                          24
 5. Tveir pallar og fjórir rúmstokkar með bríkum.                              4        –
 6. Íslenskur vefstaður, lasinn.                                                                    60
 7. Fjárhús, tekur 20 á jötu.                                                                2     24
 8. Annað dto., minna.                                                                         1        –
 9. Rauðmaganet.                                                                                        40
 10. Grásleppunet.                                                                                        44
 11. Annað, vel brúkanlegt.                                                                   1     24
 12. Laus viður yfirhöfuð.                                                                      3     32
 13. Fjárhús, tekur 16 kindur.                                                               1     16
 14. Hjallur í þremur stafgólfum með höggsperrum.                            3        –
 15. Tvær tjörutunnur, bandalitlar.                                                       1        –
 16. Skemma í þremur stafgólfum með slagþili,

                  hurð á járnum, skrá og lykli.                                                          6      48

 

 

 1. Lifandi peningur

           No.                                                                                                       Rd.     sk.

 1. Rauðskjöldótt kýr, 7 vetra, væntist snemmbær.                           16        –
 2. Rauðskjöldótt kýr, 13 vetra, snemmbær.                                      14        –
 3. Rauðflekkótt kýr, 16 eða 17 vetra.                                               12        –
 4. Rauður hestur, 8 vetra.                                                                  8     48
 5. Jarpur klár, 24 ára.                                                                        4        –
 6. Sex sauðir eldri en tvævetrir.                                                       18        –
 7. Sjö sauðir tvævetrir.                                                                     14        –
 8. Átta ær í nokkurn veginn gildu lagi.                                            16        –
 9. Tveir gemlingar.                                                                             2        –
 10. 23 pör sokka á 10 skildinga.                                                          2     38
 11. Hálfur áttæringur á Eyri, bakborðssíða.                                       4     48
 12. 5 manna far, gamalt með nýju segli og einni ár.                         28        –

                                                                                                   Summa       212      52

 

 

                  Ekkjan veit ekki til að sterfbúið eigi neitt útistandandi

                  inngjald en skuldir hefta á sterfbúinu sem ekkjan til veit:

 

          No.                                                                                                       Rd.     sk.

 1. Til Flateyrarhöndlunar.                                                               22    04
 2. Til Guðmundar á Flateyri, hvar upp í til er óvirt skyrta.              1       –
 3. Áfallin landskuld í vor

                  − einn ríkisdalur í framfærðu og tveir í óframfærðu.                    3       –

                                                                                                                        26    04

                                                        Ut supra

 1. Thorstensen

 

                         Jón Jónsson                                          Jón Jónsson

 

           NB Erfingjar í sterfbúinu eru: Ekkjan Guðrún Sumarliðadóttir og börnin

                  hennar, Guðrún 11 ára, Marsibil 9 ára, Sumarliði 6 ára og Ólafur 3ja ára.

 

                                                        Ut supra

 1. Thorstensen

 

Þannig hljóðaði uppskrift dánarbús Ólafs hreppstjóra í Mosdal sem fest var á blað 19. maí 1812. Hér er hún birt sem sýnishorn en þess er vert að geta að aðeins tveir menn í hópi þeirra sem drukknuðu 6. maí þá um vorið áttu meiri skuldlausar eignir en Ólafur.

Í Önundarfirði og í nálægum fjörðum varð fólki lengi tíðrætt um mannskaðann mikla vorið 1812. Sumir vildu meina að fárviðrið, sem varð um það bil 50 mönnum að bana, hefði verið gerningaveður.[389] Hér var áður minnst á sögusagnir af því tagi er beindust að Ebenezer Þorsteinssyni sýslumanni (sjá hér bls. 50-51) en fleiri munu þó hafa haft grun á flakkara einum sem þá fór víða um Vestfirði. Sá hét Jón Guðmundsson og var kallaður Jón rassband. Hann var af vestfirskum höfðingjaættum, sonarsonur Teits Arasonar, sýslumanns á Reykhólum, en faðir Teits var Ari Þorkelsson, sýslumaður í Haga á Barðaströnd og umboðsmaður konungsjarða.[390] Ættarstyrkur Jóns dugði honum þó ekki til farsældar og varð hann auðnuleysingi sem flakkaði um og fór með kukl.

Nokkru fyrir mannskaðann mikla höfðu einhverjir heyrt Jón rassband hafa í heitingum við Ásgeir Jónsson prófast en Ásgeir var einn hinna tólf formanna úr Önundarfirði sem lentu í fárviðrinu á mannskaðadaginn. Vegna þessara heitinga flakkarans við prófastinn komust skömmu eftir mannskaðann á kreik sögur um að Jón rassband hefði verið valdur að fárviðrinu þann 6. maí og gerningaveðrið verið til þess ætlað að bana Ásgeiri prófasti. Er nokkuð á aðra öld var liðið frá atburðum sagði gamalt fólk í Önundarfirði söguna á þessa leið:

 

Þann 6. maí 1812 kom Jón rassband kjagandi vestur yfir Breiðadalsheiði og til Önundarfjarðar. Fær hann brátt fréttir af því að Ásgeir prófastur muni róinn og þykir bera vel í veiði. Heldur hann nú til sjávar og hefur þar umbúnað mikinn … . Bregður brátt svo við að á skellur stórhríð og er veðurofsinn hamslaus með öllu. Færist Jón jafnt og þétt í aukana og herðir særingar sínar sem mest hann má. … Nú er að segja frá prófasti. Hann hafði róið alldjúpt og verður nú fyrir þeim ósköpum að sjór ýfist og umhverfist í skjótri svipan. Er þegar tekið til segla og hleypt undan veðrinu. … Og er enn herti veðrið tók prófastur upp sjálfskeiðung sinn og skar litla flís úr borðstokk bátsins. Því næst gerði hann rispu á fingur sér svo að blæddi. Lét blóð drjúpa á flísina og kastaði henni fyrir borð. Að því búnu þreif hann sjóhattinn af höfði sér, deif honum í sjóinn og lét hann síðan á sig aftur. Við þessar aðgerðir linaði veðrið því að nú fann Jón rassband það af kunnáttu sinni, þar sem hann stóð og hamaðist í fjörunni, að Ásgeir prófastur var kollvotur orðinn og blóð hans komið í sjó. Þótti honum þá nóg að gert og hætti særingum sínum.[391]

 

Sitthvað bar líka í drauma fólks í Önundarfirði og grennd, bæði skömmu fyrir mannskaðann mikla og á næstu vikum þar á eftir. Guðmundur Jónsson úr Önundarfirði, líklega sá sem bjó á Kaldá árið 1822,[392] var vorið 1812 við róðra í Súgandafirði, hjá Magnúsi Guðmundssyni í Bæ.[393] Guðmundur þekkti flesta mennina sem týndu lífi í fárviðrinu 6. maí og skömmu síðar dreymdi hann að hann hitti marga þeirra.[394] Frá draumi hans er sagt í ritinu Frá ystu nesjum en sonardóttir Guðmundar Jónssonar á Kaldá, er hét Sigríður Friðbertsdóttir, var ein fárra nafngreindra heimildarmanna að því sem þar er skrifað um mannskaðann mikla.[395] Sigríður var fædd árið 1852 og var 11 ára gömul er Guðmundur afi hennar andaðist árið 1863.[396] Í elli hans en æsku hennar hafa þau náð að ræða saman því bæði voru á sama bæ í Súgandafirði. Nýnefnd frásögn af draumi Guðmundar Jónssonar er svona:

 

Hann þóttist vera kominn í stóran sal með geysimikilli hvelfingu. Þar hitti hann marga af mönnum þeim sem drukknað höfðu. Tóku þeir hann tali og ræddu við hann langa hríð en ekki mundi hann hvað þeim fór á milli. Allt í einu heyrir hann að einhver tekur að kveða. Verður honum litið upp og sér að það er kona sem situr í eins konar hásæti og ber yfir allan hópinn. Þess verður hann brátt vís að kona þessi heitir Helena eða Helga. Hún kveður:

 

                   Fyrir ríki þessu ræður

                   riddari nokkur sá,

                   er mönnum yfrið skæður,

                   enginn hann standast má.

                   Rammur í risa móði

                   reynir hann þeirra megn.

                   Hann hræðast allar þjóðir,

                   honum að standa í gegn.

 

Þegar hin ókunna kona hafði kveðið vísuna til enda vaknaði Guðmundur.[397]

 

Sjálfur var Guðmundur Jónsson, sem um skeið bjó á Kaldá, skáldmæltur[398] og líklegt að hann hafi ort vísu þessa milli svefns og vöku.

Hér verður nú látið staðar numið með frásagnir er tengjast mannskaðanum mikla í Önundarfirði þann 6. maí 1812. Mörg önnur slys hafa þar að höndum borið, bæði fyrr og síðar, en frá þeim verður þó ekki sagt hér. Mannskaðinn mikli var hvað sem öllu öðru líður einstakur.

Full ástæða er til að ætla að það hafi tekið bændur í Önundarfirði langan tíma að ná sér aftur á strik í bátaútgerðinni eftir hið mikla áfall sem yfir dundi vorið 1812. Í bréfi tveggja Holtspresta frá árinu 1822 segir að þá um vorið hafi aðeins gengið þrjú skip frá Kálfeyri en vorið 1811 hafi þau verið þrettán.[399] Vorið 1822 voru aðeins gerð út sjö skip úr allri sveitinni, það er Mosvallahreppi, en höfðu verið átján vorið 1811.[400] Þegar prestarnir tala þarna um skip má ætla að þeir meini sexæringa og þaðan af stærri áraskip því hinir minni bátar voru yfirleitt ekki nefndir skip á Vestfjörðum.[401] Við hið mikla áfall vorið 1812 mun hinum stærri áraskipum Önfirðinga hafa fækkað verulega og varanlega. Fyrstu árin eftir mannskaðann voru fullgildir karlmenn í byggðarlaginu mun færri en áður og því alls ekki unnt að manna jafn stóran flota og áður hafði róið til fiskjar úr Önundarfirði. Ætla má að þessar aðstæður hafi m.a. valdið því að bátarnir sem reru frá Kálfeyri urðu ekki bara færri heldur líka smærri en áður. Skýra vísbendingu um þetta gefa orð prestanna í Holti í bréfi því frá árinu 1822 sem hér var áður nefnt en þar bera þeir fram þá bón að framvegis verði látið duga að staðnum fylgi fjögra manna far í stað áttæringsins sem lengi hafði verið gerður út frá Holti (sjá hér Holt).

Við athugun á þessari þróun verður líka að hafa í huga að aðeins örfáum árum eftir mannskaðann mikla hófst þilskipaútgerð frá Flateyri og má telja fullvíst að margir hinna vöskustu sjómanna í Önundarfirði hafi þá þegar ráðið sig á skúturnar. Árið 1815 var skonnortuskipið Charlotta keypt til Flateyrar[402] en þá voru aðeins þrjú ár liðin frá því mannskaðinn mikli lamaði mannlífið í Önundarfirði. Allt frá árinu 1792 hafði Henrik Henckel, eigandi verslunarinnar á Þingeyri, rekið verslunarútibú á Flateyri og það var hann sem keypti skonnortuna Charlottu árið 1815 og hóf útgerð hennar frá Flateyri (sjá hér Flateyri). Hvergi í Ísafjarðarsýslu hafði áður verið reynt að gera út þilskip en á Bíldudal hafði Ólafur Thorlacius byrjað útgerð slíkra skipa árið 1806, fyrstur manna á Vestfjörðum[403] ef frá er talin tilraun séra Páls Björnssonar í Selárdal til skútuútgerðar á síðari hluta 17. aldar.

Koma skonnortunnar Charlottu til Flateyrar árið 1815 markaði upphaf nýs tímabils í atvinnusögu Önundarfjarðar því á næsta ári bættist annað þilskip við og á árunum milli 1820 og 1830 voru allt upp í fjórar skútur gerðar út frá Flateyri (sjá hér Flateyri). Frá þessari byltingu í fiskveiðum Önfirðinga verður nánar greint er við stöldrum við á Flateyri á hinu fyrirhugaða ferðalagi um allan Önundarfjörð.

Hér verður líka að minnast stuttlega á þilskipaútgerð bænda í Önundarfirði sem hófst á árunum milli 1830 og 1840. Tvímælalaust er að engin slík útgerð var hafin árið 1832[404] en í búnaðarskýrslu frá árinu 1837 er Finnur Guðmundsson, bóndi á Hvilft, sagður eiga fiskijakt.[405] Nær fullvíst má telja að jakt Finns á Hvilft sé fyrsta þilskipið sem bændur í Önundarfirði náðu að eignast og varla hefur Finnur keypt skútuna fyrr en 1836 eða 1837 því árið 1835 var hann vinnumaður í Bæ í Súgandafirði[406] en hafði reyndar búið áður á Hvilft.[407] Finnur var fæddur á Kvíanesi í Súgandafirði um 1790[408] og hefur því verið liðlega hálffimmtugur er hann eignaðist skútuna. Furðulegt má það kalla að maður sem taldist vera í stétt vinnumanna árið 1835 skuli tveimur árum síðar vera farinn að gera út þilskip sem á þessum árum var ekki talið vera á færi annarra en kaupmanna eða mjög vel efnaðra bænda.

Ekki verður nú séð hvernig Finnur Guðmundsson á Hvilft hefur náð að verða sér úti um fé til kaupa á þilskipi en allar líkur benda til að þótt hann sé talinn eini eigandi skútunnar í búnaðarskýrslunni frá 1837 þá hafi Magnús Einarsson, tengdasonur hans, staðið með honum að þessum kaupum. Magnús kvæntist haustið 1836 dóttur Finns sem Ragnheiður hét og vorið 1838 tóku þau við búi á Hvilft af foreldrum hennar.[409] Í búnaðarskýrslu frá því ári er það Magnús sem sagður er vera eini skútueigandinn í Mosvallahreppi og næstu tvo áratugina átti hann nær alltaf þilskip eða hlut í slíku skipi á móti öðrum.[410] Í skýrslunum verður hins vegar ekki séð að Finnur, tengdafaðir hans, hafi verið viðriðinn skútuútgerð nema þetta eina ár sem hér var áður nefnt, það er 1837.[411]

Magnús Einarsson var bóndi á Hvilft öll þau ár sem hann stóð fyrir útgerð þilskipa en hætti búskap þar vorið 1858.[412] Magnús var fæddur á Kollafjarðarnesi í Strandasýslu árið 1809 og fluttist til Önundarfjarðar árið 1836. Hann var oft titlaður skipherra[413] sem sýnir að hann hefur sjálfur verið skipstjóri á þilskipi um lengri eða skemmri tíma. Lúðvík Kristjánsson, sem mest hefur ritað um Magnús, telur að hann muni hafa lært sjómannafræði í Danmörku og tekið þar skipstjórapróf[414] en engar vísbendingar um það liggja fyrir í varðveittum heimildum (sjá hér Hvilft).

Magnús á Hvilft var á árunum 1844 til 1858 einn allra nánasti vopnabróðir Jóns Sigurðssonar forseta í Ísafjarðarsýslu og var kosinn varaþingmaður í fyrstu alþingiskosningunum, árið 1844. Frá Magnúsi og samstarfi hans við Jón Sigurðsson forseta verður sagt þegar við komum að Hvilft (sjá hér Hvilft).

Skútuútgerðin sem hófst á Flateyri árið 1815 stóð með blóma fram yfir 1830[415] en tók þá mjög að hnigna[416] og mun hafa verið liðin undir lok árið 1837 er Finnur á Hvilft og Magnús tengdasonur hans fóru að gera út þilskip (sjá hér (Flateyri). Í búnaðarskýrslum úr Ísafjarðarsýslu frá því fyrir 1837 gerir eyðublaðið ekki ráð fyrir neinum upplýsingum um fiskijaktir, enda finnst þar enginn fróðleikur um þær. Frá og með árinu 1837 verður hins vegar breyting á í þessum efnum og skýrslan frá því ári sýnir að Finnur á Hvilft átti þá eina þilskipið sem til var í Önundarfirði.[417] Vera má að þeir Hvilftarmenn hafi keypt sína fyrstu skútu af versluninni á Flateyri en um það er þó ekkert vitað með vissu. Eins og áður sagði tók Magnús Einarsson við búinu á Hvilft vorið 1838 af Finni tengdaföður sínum og á því ári færist skútan sem Finnur var áður skrifaður fyrir líka yfir á hans nafn.[418] Árið 1839 virðist engin skúta vera gerð út frá Hvilft og þá ekki heldur frá öðrum bæjum í Önundarfirði en árið 1840 er Magnús Hvilftarbóndi aftur orðinn eigandi að hálfu þilskipi.[419] Næsta ár á hann ekki bara hálfa fiskijakt heldur heila og árið 1843 var hann orðinn eigandi tveggja þilskipa.[420] Hann var þá eini skútuútgerðarmaðurinn í Mosvallahreppi og svo hafði jafnan verið allt frá árinu 1838.[421]

Árið 1844 var Magnús kosinn varaþingmaður fyrir Ísafjarðarsýslu en á því ári virðist hafa dregið mjög úr umsvifum hans í skútuútgerðinni. Hann taldist þá aðeins eiga hálft þilskip en hinn helminginn í skipinu átti Jón Einarsson, bróðir hans, sem nú var líka kominn að Hvilft.[422] Skip þeirra bræðra var þá eina skútan í eigu manna í Mosvallahreppi.

Jón Einarsson frá Kollafjarðarnesi var 5 árum yngri en Magnús bróðir hans, fæddur 1814 eða því sem næst.[423] Í búnaðarskýrslunni frá 1844 er hann nefndur skipari og þann titil hafði hann líka árið 1843, fyrsta árið sem hann var á Hvilft[424] Titillinn skipari sýnir að Jón hefur verið skipstjóri á þilskipi og allar líkur eru á því að hann hafi farið með stjórn á skipi þeirra bræðra. Árin 1845 og 1846 var allt óbreytt í þessum efnum nema hvað Jón Einarsson fór frá Hvilft vorið 1845 og settist að á Flateyri.[425] Vorið 1847 fluttist hann frá Flateyri að Sveinseyri í Dýrafirði en hélt áfram skipstjórn á skútu þeirra bræðra (sjá hér Sveinseyri) Búnaðarskýrslur frá árunum 1847 og 1848 sýna að þeir bræður, Jón á Sveinseyri og Magnús á Hvilft, eiga þá hálft þilskip hvor eins og verið hafði næstu ár á undan.[426]

Haustið 1848 varð sá hörmulegi atburður að Jón Einarsson skipstjóri stytti sér aldur með byssuskoti er verið var að koma skipi hans fyrir í vetrarlægi í Höfðaoddanum á norðurströnd Dýrafjarðar (sjá hér Sveinseyri). Í dagbók Guðmundar Guðmundssonar norðlenska, sem þá átti heima á Næfranesi, næsta bæ fyrir innan Höfða, er greint frá þessum atburði og þar segir skýrum orðum að skútan sem Jón var skipstjóri á þegar hann skaut sig hafi heitið Bogi.[427] Svo má telja að þarna sé komin örugg heimild um nafnið á fiskijaktinni sem þeir Magnús Einarsson á Hvilft og Jón bróðir hans áttu og gerðu út árið 1848 og mjög líklegt er að það hafi verið þetta sama skip sem þeir áttu saman allt frá árinu 1844 er Jón Einarsson gerðist meðeigandi Magnúsar bróður síns. Hvort þilskipið sem Magnús gerði út á árunum 1838 til 1843 hefur líka verið Bogi er óvíst en getur þó vel verið.

Á árunum 1838-1848 var Magnús Einarsson á Hvilft eini þilskipaeigandinn í Mosvallahreppi, nema hvað Jón bróðir hans var eins og áður sagði þátttakandi í útgerð Magnúsar þau fáu ár sem hann átti heima í Önundarfirði.[428] Er Jón Einarsson féll frá haustið 1848 varð hér fljótlega breyting á því vorið 1849 er eignarhlutur Magnúsar kominn niður í fjórðung úr skipi og þá eru nýir meðeigendur komnir til sögunnar sem líka eiga sinn fjórðunginn hver.[429] Tveir þessara meðeigenda Magnúsar voru búsettir í Önundarfirði, þau séra Lárus M. Johnsen, sem var prestur í Holti frá 1848-1855, og Guðrún Þórðardóttir í Ytri-Hjarðardal, ekkja Ebenezers Þorsteinssonar sýslumanns.[430] Guðrún í Hjarðardal var orðin sextug er hún hóf þátttöku í útgerð skútunnar en nánar verður sagt frá þeim Guðrúnu og séra Lárusi þegar staldrað verður við í Hjarðardal og Holti.

Þriðji maðurinn sem nú gekk til liðs við Magnús á Hvilft og gerðist meðeigandi að skútunni Boga var ungur og upprennandi sjósóknari frá Arnarnesi í Dýrafirði, Torfi Halldórsson að nafni. Í skýrslum um afla tíu þilskipa úr Ísafjarðarsýslu á árunum 1850 og 1851 sem birtust í blaðinu Þjóðólfi er fullyrt að Torfi eigi þá fjórða part í duggunni Boga en aðrir eigendur hennar séu þeir þrír Önfirðingar sem hér voru nefndir.[431] Þar kemur líka fram með ótvíræðum hætti að Torfi hefur tekið við skipstjórn á Boga eigi síðar en 1850.[432] Í búnaðarskýrslum frá þessum árum verður þess hins vegar ekki vart að ungi skipstjórinn á Arnarnesi hafi átt hlut í skipinu en þar er stjúpfaðir hans, Bjarni Hákonarson, bóndi á Arnarnesi, sagður hafa eignast fjórða part í þilskipi árið 1849 og þar er hann skrifaður fyrir þessum fjórðungi í þrjú ár, 1849-1851.[433] Nafn skipsins, sem Bjarni er talinn eiga hlut í, er ekki nefnt í þessum skýrslum en nær fullvíst má telja að þar sé um sama skipspartinn að ræða og skýrslurnar í Þjóðólfi segja Torfa hafa átt. Sem rök fyrir þeirri kenningu má m.a. nefna að árið 1849 eiga bændur í Mýrahreppi þrjár skútur og að auk þann fjórðung sem Bjarni er skrifaður fyrir í búnaðarskýrslunum.[434]

Vel má vera að í raun hafi þeir Bjarni og Torfi átt þennan fjórðung í Boga saman en hvernig svo sem því hefur verið háttað er hitt víst að það var Torfi sem tók við skipstjórn á skútunni eigi síðar en vorið 1850. Mjög líklegt er reyndar að hann hafi orðið skipstjóri á Boga ári fyrr er stjúpfaðir hans eða þeir báðir saman keyptu fjórðung í skipinu. Torfi var þá 26 ára gamall, fæddur 14. febrúar 1823, og gæti sem best hafa tekið við skipstjórn strax og ráða þurfti nýjan mann að Jóni Einarssyni látnum, í upphafi vertíðar vorið 1849.

Hér var þess áður getið að árið 1850 varð Torfi aflahæstur allra skipstjóranna á þeim tíu þilskipum úr Ísafjarðarsýslu sem frá er sagt í Þjóðólfi (sjá hér Arnarnes). Aflaskýrslan sem blaðið birtir ber með sér að svo hafi verið. Uppistaðan í aflanum var hákarl og var sá afli mældur í lifrartunnum. Ársaflinn hjá Torfa var 129 lifrartunnur árið 1850 en auk hákarlsins slæddust með 300 þorskar.[435] Á þessum árum voru 100 þorskar metnir til jafns við eina tunnu af hákarlslifur[436] svo heildaraflinn hjá Torfa hefur samsvarað 132 lifrartunnum. Reiknað með sama hætti voru þeir tveir skipstjórar sem næstir komu í röðinni með 129 lifrartunnur í heildarafla.[437]

Í aflaskýrslunum sem Þjóðólfur birti sjáum við líka stærð vestfirsku þilskipanna sem þar komu við sögu. Stærstu skipin eru sögð vera 11 lestir en Bogi talinn vera 7 lestir.[438] Þarna er vafalaust átt við stórlestir (commerciallestir) eins og almennt var um miðbik 19. aldar en í hverri stórlest voru 2,6 smálestir (sjá hér Mýrahreppur, inngangskafli). Þilskipið Bogi frá Önundarfirði, sem Torfi Halldórsson stýrði til veiða sumarið 1850, hefur því verið liðlega 18 tonn en stærstu skipin í Ísafjarðarsýslu voru þá tæplega 29 tonn.

Torfi var enn skipstjóri á Boga sumarið 1851. Afli hans var þá 190 lifrartunnur og 300 þorskar.[439] Meðalafli á skip var talsvert meiri en verið hafði árið áður og nú var Torfi þriðji aflahæsti skipstjórinn í sýslunni.[440] Um haustið sigldi þessi ungi og aflasæli skipstjóri til Danmerkur og hóf þar nám í sjómannafræðum en nokkrum árum síðar keypti hann verslunarstaðinn Flateyri af erfingjum Friðriks Svendsen og gerðist þar er tímar liðu umsvifamikill verslunarstjóri og útgerðarmaður. Nánar verður sagt frá Torfa og atvinnurekstri hans á Flateyri þegar þangað kemur (sjá hér Flateyri). Áður en lengra er haldið skal þess hins vegar getið að á árunum 1831 til 1847 fjölgaði þilskipum í Vestfirðingafjórðungi, það er í núverandi Vestfjarða- og Vesturlandskjördæmum, úr 13 í 36.[441] Af þessum 36 skipum voru 23 í eigu kaupmanna árið 1847 en 13 í eigu bænda.[442] Fáein af skipum þessum, þau er kaupmenn eiga, fara til Danmerkur á haustin með varnað eður til aðgerða og koma aftur snemma á vorin, segir í tímaritsgrein frá árinu 1847 þar sem fjallað er um þilskipaútgerðina vestanlands.[443] Er grein þessi birtist voru rétt liðlega 40 ár liðin síðan útgerð þilskipa hófst í landsfjórðungnum en á þessum fjórum áratugum höfðu 11 slík skip frá Vestfjörðum eða Vesturlandi farist með allri áhöfn.[444] Það var geysileg blóðtaka en sjósókn á opnum bátum fylgdu þó síst minni hættur.

Er Torfi Halldórsson sigldi til Danmerkur haustið 1851 seldi hann Ásgeiri Ásgeirssyni, skipherra á Ísafirði, eignarhlut sinn í Boga (sjá hér Flateyri) og nafn stjúpföður Torfa, Bjarna á Arnarnesi, hverfur þá af listanum yfir útgerðarmenn þilskipa sem skráður er í búnaðarskýrslum.[445]

Magnús Einarsson á Hvilft hélt hins vegar áfram þátttöku í þilskipaútgerð allt til ársins 1858. Á árunum 1849-1857 átti hann þó jafnan bara einn fjórða part í skipi[446] en sameignarmenn hans voru hinir sömu og hér hafa áður verið nefndir.[447]

Árið 1855 fluttist séra Lárus í Holti burt úr Önundarfirði og síðustu árin sem Magnús á Hvilft átti hlut að útgerð var sýslumannsekkjan í Hjarðardal eini sameignarmaður hans í Önundarfirði.[448] Vorið 1857 áttu þau enn sinn fjórðunginn hvort í þilskipi en ári síðar voru þau búin að selja þessa eignarhluti sína.[449]

Í búnaðarskýrslum frá árunum 1837-1856 verður ekki séð að nokkrir íbúar Mosvallahrepps hafi átt hlut í þilskipi á því skeiði, nema það fólk sem hér hefur verið nefnt. Úr öðrum heimildum er hins vegar kunnugt að Jón Indriðason á Kaldá hafði veturinn 1853-1854 forgöngu um kaup á skonnortu sem Katrín hét en hún fórst þá um vorið (sjá hér Kaldá) og hafði því verið mjög skamma hríð í eigu Önfirðinga. Á þessu 20 ára tímabili var Magnús á Hvilft því eini bóndinn í Mosvallahreppi sem átti hlut að þilskipaútgerð til lengdar. Sérstaða hans er þar af leiðandi mjög skýr, enda hélt hann merkinu uppi í tvo áratugi. Fullt tilefni gæti því verið til þess að segja hér nánar frá Magnúsi en verður þó látið bíða uns komið verður í hlað á Hvilft, enda lét hann mjög til sín taka á fleiri sviðum og þá ekki síst í stuðningi við þjóðmálastefnu Jóns Sigurðssonar forseta.

Síðasta árið sem Magnús Einarsson á Hvilft hélt úti þilskipi var Torfi Halldórsson, sem verið hafði skipstjóri á Boga, sestur að í Önundarfirði en hann fluttist árið 1857 frá Ísafirði til Flateyrar.[450] Torfi átti þá part í einu eða fleiri þilskipum, samtals fimm sjöttu hluta úr skipi.[451] Vorið 1858 keypti Torfi Flateyrareignir (sjá hér Flateyri) og urðu þá kaflaskil. Frá 1858-1870 var Torfi jafnan eini maðurinn í Önundarfirði sem fékkst við þilskipaútgerð en á þessum árum átti hann ýmist part í þilskipi eða heila skútu einn sér. Sem dæmi má nefna að árið 1859 átti hann part í skútunni Lovísu á móti Hjálmari Jónssyni kaupmanni er þá átti heima á Ísafirði[452] en Hjálmar fluttist síðar til Flateyrar. Allt frá árinu 1857 er Torfi settist að á verslunarstaðnum Flateyri rak hann jafnan búskap á Eyri[453] en verslunarlóðin á Flateyri var í landi þeirrar jarðar. Útgerð Torfa getur þó varla talist bændaútgerð því verslunarreksturinn mun snemma hafa orðið meginþáttur í umsvifum hans við hlið útgerðarinnar. Hér verður því fjallað um útgerð Torfa þegar sagt verður frá verslunarstaðnum á Flateyri en þar urðu umsvif hans mest á tveimur síðustu áratugum 19. aldar (sjá hér Flateyri). Fyrir 1880 átti Torfi hins vegar aldrei fleiri þilskip en eitt í senn, ef marka má búnaðarskýrslur.[454]

Á árunum milli 1870 og 1880 tók þeim Önfirðingum að fjölga sem lögðu fé í skútuútgerð. Arngrímur Vídalín Jónsson átti á þeim árum heima í Ytri-Hjarðardal og var sjálfur skútuskipstjóri (sjá hér Ytri-Hjarðardalur). Hann eignaðist fjórða part í þilskipi árið 1871 og átti þann skipspart enn árið 1880.[455] Næstur reið á vaðið séra Stefán P. Stephensen í Holti. Hann keypti þriðjung í þilskipi á árunum 1871-1873.[456] Næstu árin var eignarhlutur hans óbreyttur en fór árið 1878 upp í 7/12 úr skipi og árið 1880 átti séra Stefán einn og sér fimm sjöttu hluta úr þilskipi.[457]

Á árunum 1858-1878 virðast engir búandi menn í Mosvallahreppi hafa átt hlut í þilskipi nema þeir þrír sem hér hafa verið nefndir, Torfi, Arngrímur og séra Stefán[458] og í búnaðarskýrslum frá þeim árum verður ekki séð að búlausir menn í hreppnum hafi þá verið þátttakendur í útgerð þilskipa. Árið 1879 verður hins vegar mikil breyting hvað þetta varðar. Hjálmar Jónsson kaupmaður var þá með annan fótinn á Flateyri (sjá hér Flateyri) en hann átti um þær mundir eina skútu og fjórðung í annarri.[459] Skipstjórarnir Sveinn Rósinkranzson og Magnús Össurarson voru þá báðir búsettir á Flateyri og þeir eignuðust hvor um sig fjórða part í þilskipi árið 1879.[460] Er hér var komið sögu voru skútuútgerðarmenn í hreppnum því orðnir sex og skipin sem þeir áttu þrjú. Fjórir þessara manna áttu þá heima á Flateyri en samt voru þar bara tvö heimili.[461] Vaxandi skútuútgerð kallaði hins vegar á fleira fólk og á árunum milli 1880 og 1890 tók þorp að myndast á þessum útgerðarstað. Þaðan var skútunum haldið til veiða og þar var miðstöð allrar þilskipaútgerðar Önfirðinga á tveimur síðustu áratugum 19. aldar.

Hér verða nú taldir upp þeir íbúar Mosvallahrepps sem áttu þilskip eða hlut í þilskipi á árunum 1880-1906 en margir þessara manna voru bændur. Allt sem hér verður sagt um þilskipaeign einstakra manna byggist á upplýsingum sem skráðar eru í hreppsbækur Mosvallahrepps frá þessu tímabili.[462]

 

Eigendur þilskipanna voru þessir:

 1. Torfi Halldórsson á Flateyri átti á árunum 1880-1903 minnst einn fjórða part úr skipi en mest tvö skip og 9/16 úr því þriðja. Torfi hafði verið þátttakandi í þilskipaútgerð frá Flateyri allt frá árinu 1857.
 2. Hjálmar Jónsson, kaupmaður á Flateyri, átti á árunum 1879-1882 eitt þilskip og hlut í öðru. Sá hlutur var minnst 1/12 og mest 7/12.
 3. Arngrímur Vídalín Jónsson, bóndi og skipstjóri í Ytri-Hjarðardal, átti jafnan ¼ úr skipi á árunum 1880-1895. Hann hafði verið þátttakandi í þilskipaútgerð frá Flateyri allt frá árinu 1871.
 4. Séra Stefán P. Stephensen í Holti átti 5/6 úr skipi árið 1880 og 1/3 úr skipi 1882 og 1883. Hann hafði tekið þátt í útgerð þilskipa allt frá 1872 eða 1873 en fluttist 1884 burt úr Önundarfirði.
 5. Sveinn Rósinkranzson skipstjóri, sem lengst bjó á Hvilft, átti ¼ úr þilskipi á árunum 1879 og 1880 og á árunum 1883-1903 átti hann minnst ¼ úr skipi en mest ¾.
 6. Guðmundur Jónsson á Kaldá átti 1/8 úr skipi frá 1881 til 1886.
 7. Halldór Guðmundsson á Þórustöðum átti 1/8 úr skipi frá 1881 til 1886 og tvö næstu ár átti ekkja hans, Guðrún Jónsdóttir, þennan sama hlut.
 8. Guðmundur Sturluson í Dalshúsum átti ¼ úr skipi frá 1881 og þar til hann fluttist úr hreppnum árið 1885.
 9. Jón Sveinbjörnsson, skipstjóri á Þorfinnsstöðum, átti ¼ úr skipi árið 1881 og sá hlutur var næsta ár í eigu dánarbús hans.
 10. Bóas Guðlaugsson, sem bjó á Kroppstöðum og svo á Innri-Veðrará, átti 1/8 úr skipi 1881-1884. Árið 1885 átti hann 1/16 úr skipi og sama hlut árið 1888.
 11. Páll Guðlaugsson í Tröð, síðar á Flateyri, átti 1/8 úr skipi 1881-1886 og sama hlut árið 1888.
 12. Kristján Friðriksson, verslunarmaður og síðar skipstjóri á Flateyri en síðast á Eyri, sem nefndur var Mosdal, átti 1/8 úr skipi 1881-1885.
 13. Sveinbjörn Halldórsson á Þorfinnsstöðum, áður bóndi á Kirkjubóli í Valþjófsdal, átti ¼ úr skipi 1883 og 1884. Ætla má að það hafi verið sá skipspartur sem Jón sonur hans (hér nr. 9) lét eftir sig.
 14. Kjartan Rósinkranzson, skipstjóri á Flateyri, átti ¼ úr skipi 1883-1889. Árið 1904 varð Kjartan svo eigandi að þilskipi sem hann átti einn næstu ár.
 15. Einar Jónsson á Görðum átti hálft skip árið 1885.
 16. Jónas Th. Hall, verslunarstjóri á Flateyri, átti ýmist 1/8 eða ¼ úr skipi á árunum 1885-1891 en 1892-1895 átti hann 1 skip og 1/8 úr öðru.
 17. Ebenezer Sturluson, skipstjóri á Flateyri, átti jafnan ¼ úr skipi frá 1885 til 1901.
 18. Helgi Andrésson, skipstjóri á Flateyri, átti yfirleitt ¼ úr skipi á árunum 1885-1889 en þó hálft skip árið 1888.
 19. Rósinkranz Kjartansson í Tröð átti ¼ úr skipi árið 1887 og 1/8 árið 1888.
 20. Bergur Rósinkranzson á Flateyri hóf þilskipaútgerð árið 1902 og átti þá hálft skip en fjórum árum síðar átti hann einn tvö þilskip.
 21. Páll Rósinkranzson á Kirkjubóli í Korpudal átti hálft þilskip á árunum 1902-1906. Þann sama eignarhlut átti hann enn 1912 og líklega eitthvað lengur. Páll mun hafa verið síðasti bóndinn í Mosvallahreppi sem lagði peninga í skútuútgerð.

 

Skráin sem hér er komin á blað sýnir að á árunum 1880-1906 lagði 21 Önfirðingur fé í skútuútgerð og er hlutur Sandmanna þá enn ótalinn.

Í tíundarskýrslunum sem hér er byggt á sést að á árunum 1880-1906 var þilskipaeign íbúa Mosvallahrepps minnst ein skúta og sjö tólftu hlutar úr annarri en mest fjórar skútur og ellefu sextándu hlutar úr þeirri fimmtu. Árið 1880 var þilskipaeign hreppsbúa 2 og 11/12, árin 1881-1891 3 til 4 og 1/2 , árin 1892-1894 4 og 11/16, árin 1895-1900 1 og 7/12 til 2 og 13/16. Árin 1901-1903 voru jafnan tvær skútur í eigu hreppsbúa en 1904 bættist sú þriðja við og 1906 var skútueignin komin upp í þrjár og hálfa.

Þær tölur sem hér hafa nú verið dregnar fram gefa vísbendingu um fjölda þilskipa sem gerð voru út frá Önundarfirði á þessum árum en segja þó engan veginn alla söguna í þeim efnum. Ástæða þess er sú að menn úr öðrum hreppum áttu oft hlut í skipum sem gerð voru út frá Flateyri og ef til vill mætti líka finna einhver dæmi um að Önfirðingar hafi á þessu tímaskeiði átt hlut í skipum sem út voru gerð frá öðrum plássum.

 

Um verslun og viðskipti Önfirðinga á hinum fyrri öldum er fátt kunnugt en líklegt má telja að á 15. og 16. öld hafi þeir átt meiri eða minni viðskipti bæði við Englendinga og Þjóðverja sem þá héldu uppi siglingum hingað til lands og versluðu við landsmenn á fjölda hafna. Kunnugt er um verslun Þjóðverja í Dýrafirði á 16. öld (sjá hér Þingeyri) og varla hafa þeir látið sig muna um að skjótast inn á Önundarfjörð því ætla má að þar hafi jafnan verið á boðstólum þær afurðir sem hinir erlendu kaupmenn sóttust eftir, lýsi og skreið.

Á einokunartímabilinu sem stóð frá 1602 til 1787 var Íslendingum bannað að versla við þegna annarra ríkja en Danmerkur og á árunum 1662-1733 giltu strangar reglur um skiptingu landsins í kaupsvæði þar sem kveðið var á um hvar íbúarnir í þessu eða hinu byggðarlagi máttu versla.[463] Á því skeiði munu flestir Önfirðingar hafa sótt verslun til Þingeyrar[464] en í trúverðugri heimild frá árinu 1720 sést þó að þeir sem bjuggu á norðurströnd fjarðarins og á Kirkjubóli í Korpudal versluðu á Ísafirði.[465] Fróðlegt hefði verið að vita hversu lengi markalínan milli verslananna á Þingeyri og Ísafirði var með þessum hætti en allt er nú óljóst í þeim efnum.

Á 17. og 18. öld munu Önfirðingar jafnan hafa verslað nokkuð við erlenda fiskimenn, enda þótt slík viðskipti væru stranglega bönnuð og þungar refsingar lagðar við öllum brotum á gildandi reglum. Í skýrslum danskra kaupmanna og Odds Sigurðssonar lögmanns frá árinu 1722 er Önundarfjörður og þá einkum Ingjaldssandur sagðar vera einn þeirra staða þar sem heimamenn eigi meiri eða minni viðskipti við erlenda duggara í trássi við boð og bönn stjórnvalda í Danmörku.[466] Hversu mikil þessi viðskipti við hollenska, enska og franska fiskimenn hafa verið veit enginn en ætla má að Sandmenn og aðrir Önfirðingar hafi stundað slíka launverslun þegar færi gafst allan einokunartímann.

Með konunglegri tilskipun frá árinu 1787 var öllum þegnum Danakonungs leyft að reka verslun á Íslandi en eftir sem áður var landsmönnum bannað að eiga nokkurn kaupskap við þegna annarra ríkja. Það bann stóð í fullu gildi allt til ársins 1855. Er öllum þegnum Danakonungs var veitt heimild til verslunarreksturs á Íslandi jukust verslunarviðskiptin nokkuð víða um land og örfáum árum síðar ákvað hinn danski kaupmaður sem þá rak verslun á Þingeyri að setja upp verslunarútibú á Flateyri í Önundarfirði. Rekstur útibúsins hófst árið 1792 en þremur árum fyrr hafði annar maður hafið verslun á Flateyri (sjá hér Flateyri). Allt frá árinu 1792 hafa Önfirðingar sótt nær alla sína verslun til Flateyrar. Um miðbik 19. aldar var þó enginn verslunarrekstur á Flateyri um alllangt skeið en bændur í Önundarfirði versluðu þá aðallega við lausakaupmenn. Um verslunarreksturinn á Flateyri er fjallað hér á öðrum stað en ástandi verslunarmálanna um 1860, þegar engin verslun var starfrækt á Flateyri, lýsir Guðmundur Eiríksson, hreppstjóri á Þorfinnsstöðum, fæddur 1853, svo:

 

Um 1860 var verslunin mjög óhagstæð í Önundarfirði. Lausakaupmenn (spekulantar) komu aðeins einu sinni á ári, um vertíðarlokin. Það sem bændur seldu þeim var harðfiskur, ull og lýsi. Sá bóndi þótti vel stæður sem gat fengið sína tunnuna af hverju, rúgi og grjónum, þó hefði 10-12 manns í heimili. Þegar fram á veturinn kom urðu menn oft að bera matvöru frá Ísafirði og var ótrúlegt hvað sumir gátu lagt á sig, þetta frá 6-8 fjórðunga [þ.e. 30-40 kíló, − innsk. K.Ó.]. Fáir munu gefa sig í það nú. Á þessu og jafnvel fleiru varð breyting 1865 [eða 1867 – innsk. K.Ó., sjá Flateyri] er Hjálmar Jónsson, kallaður Jónsen, byrjaði að versla á Flateyri, þó í smáum stíl væri.[467]

 

Á tveimur síðustu áratugum 19. aldar var talsvert af fé úr Önundarfirði rekið til slátrunar á Ísafjörð, þar á meðal kindur af Ingjaldssandi (sjá hér Brekka á Ingjaldssandi) og úr Valþjófsdal. Sumt af þessu fé keyptu veitingamennirnir á Ísafirði, þeir Jón Vedholm og Teitur vert, en annað var selt hverjum sem hafa vildi á eins konar torgsölu en kaupendurnir sáu þá yfirleitt um slátrunina.[468]

Í dagbók sinni frá árunum 1880-1897 minnist Jón Guðmundsson á Grafargili í Valþjófsdal alloft á fjárrekstra þaðan til Ísafjarðar. Kom Vedholm í fjárkaup ritar Jón í bók sína 6. september 1880[469] og þarf ekki að efa að sá sem þar er nefndur muni vera Jón Vedholm, hinn kunni veitingamaður á Ísafirði. Á árunum 1889-1891 fór Jón á Grafargili á hverju hausti með fjárrekstur til Ísafjarðar.[470] Árið 1889 fékk hann þar 20 aura fyrir hvert kjötpund af skrokkum sem náðu 40 pundum en 16 og 18 aura fyrir pundið af minni skrokkum.[471]

Þann 6. maí árið 1888 var stofnað á Ísafirði pöntunarfélag sem hlaut nafnið Kaupfélag Ísfirðinga.[472] Stofnendur félagsins voru níu bændur úr byggðunum við Ísafjarðardjúp, einn úr Grunnavík og svo tveir embættismenn, þeir Sigurður Stefánsson, prestur í Vigur, og Skúli Thoroddsen, sýslumaður á Ísafirði.[473] Í fyrstu stjórn félagsins voru kosnir Skúli Thoroddsen, séra Sigurður í Vigur og Gunnar Halldórsson í Skálavík[474] en Gunnar og séra Sigurður voru þá alþingismenn Ísfirðinga. Félag þetta tók þegar til starfa. Sumarið 1888 fékk það sendar pöntunarvörur frá Englandi sem félagsmenn greiddu með saltfiski sem verkaður hafði verið fyrir Spánarmarkað.[475] Viðskipti þessi þóttu takast mjög vel og stóð hagur félagsins með blóma í nokkur ár en síðar hallaði undan fæti og árið 1899 var ákveðið að leysa félagið upp.

Stofnendur Kaupfélags Ísfirðinga voru allir úr norðurhluta Ísafjarðarsýslu en greinilegt er að ýmsir bændur í vesturhluta sýslunnar hafa frá upphafi haft hug á að taka þátt í starfsemi félagsins eða mynda sitt eigið pöntunarfélag. Til marks um það má nefna að 24. mars 1888 var rætt um stofnun pöntunarfélags á fjölmenum fundi sem þá var haldinn að Mýrum í Dýrafirði og fyrir lok ársins 1888 var gengið frá stofnun pöntunarfélagsdeildar í Mýrahreppi.[476]

Í Önundarfirði var einnig hafinn undirbúningur að stofnun slíks félags fyrir lok ársins 1888. Svo virðist sem menn úr Valþjófsdal hafi haft forgöngu um þessa félagsstofnun. – Var haldinn fundur á Þorfinnsstöðum og rætt um að leggja saman og panta vörur frá Skotlandi, skrifar Jón Guðmundsson á Grafargili í dagbók sína 27. desember 1888.[477] Næsta dag fóru Jón á Grafargili og tveir menn með honum yfir á Flateyri að reyna að koma á pöntunarfélagi eins og sjá má í annarri dagbók.[478] Með Jóni á Grafargili voru á Flateyri í þessum erindum þeir Guðmundur Á. Eiríksson, hreppstjóri á Þorfinnsstöðum, og Páll Rósinkranzson í Tröð,[479] síðar bóndi á Kirkjubóli í Korpudal.

Ljóst er að þessi viðleitni til að koma á fót félagssamtökum um verslun hefur fengið þó nokkrar undirtektir hjá Önfirðingum og 3. janúar 1889 fer Jón á Grafargili norður á Ísafjörð í þeim tilgangi að ná sameiningu við Pöntunarfélag Ísfirðinga eins og hann orðar það.[480] Jón var á Ísafirði í nokkra daga og fór þaðan 12. janúar inn í Ögur og Vigur.[481] Þar hefur hann borið málaleitan Önfirðinga upp við séra Sigurð Stefánsson og Jakob Rósinkarsson í Ögri sem báðir voru áhrifamiklir í Kaupfélagi Ísfirðinga. Ferðina inn í Djúp fór Jón með báti sem var að sækja fulltrúa á kaupfélagsfund er haldinn var á Ísafirði 14. janúar.[482] Á þeim fundi samþykkti fulltrúaráð kaupfélagsins fyrir sitt leyti

 

… að taka Mýrahreppsmenn og Önfirðinga inn í félagið ef þeir hvor um sig legðu þar inn í ár innlendar vörur upp á 5.000,- krónur en þó því aðeins að Commissioner [umboðsmaður] félagsins ekki áliti að koma skipsins [inn á Önundarfjörð og Dýrafjörð] bakaði félaginu í heild sinni meiri kostnað en réttu hlutfalli svarar.[483]

 

Fundinn á Ísafirði sátu þeir Jón Guðmundsson á Grafargili og Gestur Björnsson í Hjarðardal í Dýrafirði[484] sem var formaður pöntunarfélagsdeildarinnar í Mýrahreppi (sjá hér Fremri-Hjarðardalur). Á skilmálana sem þar voru settir mun hafa verið fallist og 10. febrúar 1889 hélt kaupfélagsdeildin í Önundarfirði fund eftir messu í Holti.[485] Þar var gengið frá pöntun á erlendum vörum og loforð tekin af mönnum um innlendar afurðir á móti.[486] Þann 16. júní á sama ári kom póstgufuskipið Laura með fyrstu kaupfélagsvörurnar til Önundarfjarðar og nam andvirði þeirra 2.650,- krónum eða þar um bil.[487] Formaður kaupfélagsdeildarinnar í Önundarfirði hefur að líkindum verið Guðmundur Á. Eiríksson á Þorfinnsstöðum því ljóst er að félagsmenn áttu að standa honum skil á andvirði þeirra pöntunarvara sem þeir fengu sendar.[488]

Ekki er nú unnt að fullyrða hversu lengi kaupfélagsdeildin í Önundarfirði starfaði en líkur benda til að það hafi aðeins verið þetta eina ár, 1889. Á næstu árum er aldrei á hana minnst í dagbók Jóns á Grafargili nema einu sinni í sambandi við uppgjör vegna viðskipta á árinu 1889.Á þjóðmálafundi sem haldinn var á Þórustöðum í Önundarfirði 27. desember 1890 bar Jón á Grafargili fram tillögu um ný úrræði í verslunarmálum Önfirðinga.[489] Á öðrum fundi sem haldinn var á Þórustöðum 3. febrúar 1891 var þessi tillaga samþykkt án verulegra breytinga en efni hennar segir tillögumaðurinn hafa verið þetta:

 

… að allir bændur og búlausir sem þurfa að fá útlenda vöru fyrir innlenda gangi í fjárlag hver með öðrum upp á þann máta að safna saman öllum vörutegundum sem menn hefðu í eitt og kjósa félagsstjóra í þeim tilgangi að hann hafi umráð til að semja við einhvern kaupmann upp á áðurgreinda vöru í þeim tilgangi að láta íslensku vöruna með almennu kaupstaðarverði en fá útlendu vörurnar nokkrum prósentum lægri en almennt kaupstaðarverð gerist og var gripið á svona hér um bil frá 12 til 15%.[490]

 

Á þessum sama fundi var Guðmundi Á. Eiríkssyni á Þorfinnsstöðum falið að hafa forystu á hendi við samningaumleitanir af þessu tagi og hann kosinn félagsstjóri.[491] Honum til halds og trausts voru einnir kjörnir tveir eftirlitsmenn, þeir Bóas Guðlaugsson á Veðrará og Jón Guðmundsson á Grafargili.[492]

Ráðagerðirnar sem þarna voru uppi miðuðu að því að ná fram verðlækkun á erlendum vörum með því móti að allir legðu saman og einn verslaði fyrir alla í stórkaupi. Óljóst er hvort þessi tilraun Önfirðinga til að ná fram hagstæðari viðskiptakjörum skilaði einhverjum árangri en fullkunnugt er aftur á móti að í öðrum landsfjórðungum höfðu menn hér og þar reynt félagsverslun af þesu tagi, a.m.k. allt frá árinu 1853.[493]

Pöntunarfélag var líka starfandi í Önundarfirði árið 1895 og í verslunarskýrslum sést að á því ári voru fluttir inn vörur á þess vegum fyrir 3.161,- krónu og voru það 4-5 % af heildarinnflutningi til Flateyrar á því ári.[494] Félagið flutti árið 1895 inn um það bil 10 tonn af kornvöru sem kostaði 1.442,- krónur, kaffi og sykur fyrir 1.060,- krónur, 2140 potta af steinolíu sem kostuðu 325,- krónur og annan varning fyrir 334,- krónur.[495] Allar tölur eru þá miðaðar við söluverð varanna til félagsmanna. Pöntunarfélagið flutti líka út lítið eitt af saltfiski árið 1895 og sendi utan 1.480,- krónur í peningum.[496] Sá sem skrifaði undir skýrslur um innfluttar vörur og útfluttar afurðir fyrir hönd Pöntunarfélags Önundarfjarðar þetta ár var Kjartan Rósinkranzson á Flateyri.[497] Líklegt má því telja að hann hafi verið formaður félagsins. Í verslunarskýrslunum sést reyndar líka að árið 1895 eru bæði Páll Guðlaugsson á Flateyri, mágur Kjartans, og Guðmundur Á. Eiríksson á Þorfinnsstöðum skráðir sem útflytjendur á saltfiski og Páll er þar sagður hafa fengið vörur frá útlöndum fyrir 250,- krónur.[498] Vera má að útflutningur þeirra og innflutningur Páls hafi tengst pöntunarfélaginu með einum eða öðrum hætti.

Í verslunarskýrslum frá árunum 1896 og 1897 er ekki minnst á Pöntunarfélag Önundarfjarðar[499] og er því líklegast að félagið hafi bara starfað þetta eina ár.

Hér hefur nú verið sagt lítillega frá fyrstu tilraunum Önfirðinga til að koma á samtökum um einhvers konar félagsverslun. Kaupfélag Önfirðinga sem starfaði allt til ársins 1989 var stofnað árið 1918 (sjá Firðir og fólk 1900-1999, 392-394) en fyrir stofnun þess reyndu bændur í Önundarfirði oftar en einu sinni að mynda pöntunarfélag og hefja félagsverslun með því sniði. Sú saga verður ekki rakin hér en nefna má að á fundi sem haldinn var á Þórustöðum 31. janúar 1910 var samþykkt að stofna pöntunarfélagsdeild í líku formi og fyrir vestan á Þingeyri og í sambandi við hana.[500] Tólf menn gerðust stofnfélagar.[501] Kristján Jóhannesson í Ytri-Hjarðardal var fundarstjóri á þessum fundi en deildarstjóri var kosinn Bjarni Sigurðsson á Flateyri.[502]

Um verslanirnar á Flateyri, sem verið hefur verslunarmiðstöð Önfirðinga allt frá árinu 1792, er ritað hér á öðrum stað og skal til þess vísað (sjá hér Flateyri svo og Firðir og fólk 1900-1999, 382-402).

Samskipti Önfirðinga við fólk úr nálægum byggðarlögum munu ætíð hafa verið veruleg og þá einkum við Dýrfirðinga því milli Önundarfjarðar og Dýrafjarðar er greiðfær reiðvegur yfir Gemlufallsheiði sem er einn lægsti fjallvegur á öllum Vestfjörðum og hvergi hærri en 283 metrar yfir sjávarmáli. Vegalengdin milli bæja er heldur ekki löng þegar farið er yfir heiðina, tíu kílómetrar eða þar um bil frá Kirkjubóli í Bjarnardal að Gemlufalli í Dýrafirði. Um Gemlufallsheiði hafa flestir Önfirðingar farið í sínar verslunarferðir til Þingeyrar á fyrri tíð, líklega allir nema Sandmenn. Frá Gemlufalli hljóta þeir að hafa fengið flutning yfir Dýrafjörð ef nokkurt lag hefur verið á samgöngumálunum.

Leiðin norður til Skutulsfjarðar, þar sem nú er Ísafjarðarkaupstaður, var mun erfiðari þó vegalengdin sé ekki löng. Engin leið var í boði nema sú sem liggur yfir Breiðadalsheiði þar sem fara varð upp í 610 metra hæð. Að vetrarlagi voru slíkar ferðir ekkert spaug þegar allt var á kafi í snjó og allra veðra von. Á sumrin var stundum farið yfir heiðina á hestum en þar er bæði bratt og grýtt svo teyma varð hestana síðasta spölinn upp í heiðarskarðið (sjá hér Fremri-Breiðadalur). Á veturna urðu allir að ganga og bera á sjálfum sér það sem í kaupstaðinn var sótt. Í vetrarferðum notuðu Vestfirðingar oft skó úr steinbítsroði og vegalengdir yfir hina ýmsu fjallvegi voru mældar í roðskóm. Var þá talað um tveggja eða þriggja roðskóa heiði, allt eftir því hversu mörg pör af skóm þurfti að nota á leiðinni.[503]

Á öllum öldum hafa helstu samgönguleiðir Önfirðinga til nálægra byggðarlaga legið um Gemlufallsheiði og Breiðadalsheiði og svo var enn allt til ársins 1996. Ýmsir aðrir fjallvegir voru þó oft farnir þegar lausgangandi menn úr Önundarfirði brugðu sér fjarða á milli. Úr Valþjófsdal var farið yfir Klúku á Sandsheiði og þaðan á Ingjaldssand eða niður að Gerðhömrum í Dýrafirði.[504] Úr botni Önundarfjarðar var farið um Álftafjarðarheiði eða Hestskarð til Álftafjarðar.[505] Milli Önundarfjarðar og Súgandafjarðar var oftast farið um Grímsdalsheiði eða Klofningsheiði. Á Grímsdalsheiði lögðu menn upp frá bæjunum Hóli eða Görðum á Hvilftarströnd og komu niður að bænum Kvíanesi hinum megin við heiðina. Á Klofningsheiði var hins vegar farið um Klofningsdal, sem er spölkorn fyrir utan Flateyri, og komið niður í Staðardal í Súgandafirði. Öllum þessum leiðum sem hér hafa síðast verið nefndir er lýst svolítið nánar annars staðar í þessu riti (sjá hér Kirkjuból í Valþjófsdal, Hestur, Kirkjuból í Korpudal, Hóll á Hvilftarströnd og Eyri.

Áður en vélar komu í báta munu Önfirðingar sjaldan hafa farið sjóleiðis í önnur byggðarlög[506] nema helst Sandmenn sem kynnu að hafa róið fyrir Barða og inn á Þingeyri í stillum. Í innansveitarferðir var hins vegar oft farið á bátum og sem samgöngutæki voru bátarnir nauðsynlegastir fyrir þá sem bjuggu í Valþjófsdal, í Mosdal og á Ingjaldssandi. Stundum þurftu ferðamenn að fá flutning yfir Önundarfjörð. Vísbendingu um greiðslur fyrir slíka flutninga má sjá á reikningi sem Eggert Briem sýslumaður sendi frá sér í marsmánuði árið 1847. Fáum vikum áður hafði hann fengið flutning frá Hvilft yfir í Holtsbug og greitt 48 skildinga fyrir (sjá hér Álfadalur). Sú upphæð svaraði þá til liðlega tveggja álna á landsvísu eða ríflega eins tíunda hluta úr ærverði.[507] Sama gjald þurfti sýslumaður að greiða er tveir menn fluttu hann á báti frá Holtsbug og út í Valþjófsdal í febrúar árið 1847 (sjá hér Álfadalur). Flutningur á sexæring úr Valþjófsdal út á Ingjaldssand kostaði sýslumann hins vegar 2 ríkisdali og 32 skildinga í þessu sama ferðalagi (sjá hér Álfadalur).

Í Önundarfirði er víðast hvar greiðfært bæja á milli. Fjöruleiðin út á Ingjaldssand er þó mjög slæm eins og hér hefur áður verið lýst (sjá hér Mosdalur og Villingadalur). Þegar farið var úr Valþjófsdal út í Mosdal þurfti líka að sæta sjávarföllum á fyrri tíð og Dalsófæra, sem er rétt innan við Valþjófsdal, var áður mikill farartálmi. Frá Dalsófæru og fjöruleiðinni undir Sporhamri verður nánar sagt er þangað kemur á ferð okkar bæ frá bæ.

Um miðbik 19. aldar voru vegabætur komnar á dagskrá og víða gengust hreppstjórar fyrir því að helstu reiðvegum væri haldið við. Í vegabótaskýrslu úr Mosvallahreppi frá 30. október 1853 segir að þá um sumarið hafi vegurinn um Bakkahlíð (milli Mosvalla og Vífilsmýra) verið ruddur og einnig leiðin um Ófæruhlíð, úr Hjarðardal í Valþjófsdal.[508] Tekið er fram að vegurinn um Bakkahlíð hafi áður verið nær ófær með hesta en sé nú allbærilegur.[509] Um Ófæruhlíðina segir höfundur skýrslunnar að vegurinn þar spillist á hverjum vetri svo að þess sjáist litlar menjar þó vel hafi rutt verið árið fyrir.[510]

Í þessari vegabótaskýrslu frá árinu 1853 er getið um fimm heiðarvegi sem Önfirðingar fóru á ferðum sínum til annarra byggðarlaga, það er Klofningsheiði, Breiðadalsheiði, Álftafjarðarheiði, Gemlufallsheiði og Klúku en fram kemur að engan þessara fjallvega hafi tekist að ryðja vegna fanna er lágu á þeim fram á haust.[511] Ætla má að fannfergi á heiðum uppi hafi oft verið með líkum hætti og þarna er frá sagt.

Þórður Sigurðsson, sem bjó í Neðri-Breiðadal í Önundarfirði frá 1900 til 1935, var lengi verkstjóri við lagningu vega í Önundarfirði og hefur ritað um upphaf nútímalegrar vegagerðar þar í sveit.[512] Þórður fluttist til Önundarfjarðar árið 1884[513] og þekkti því vel til mála þar áður en menn hófust handa við eiginlega vegagerð. Í ritgerð sinni segir Þórður meðal annars:

 

Eins og víðar á Íslandi var engin vegagerð í Önundarfirði sem því nafni gat nefnst fyrr en um 1890. Fram að þeim tíma voru hestafæturnir látnir mynda götuslóða hvort sem var um að ræða mýrar eða móa, skriður eða fjörur. Aðeins á stöku stað var gatan rudd einu sinni á ári þar sem skriður runnu á eða sjór náði til að skemma götuna. Þessi ruðningur fór venjulega fram á vorin til þess að leiðin væri fær yfir sumarið. Til lengri tíma var ekki tjaldað. Þau svæði sem árlega þurfti að ryðja voru hlíðarnar milli Hjarðardals og Valþjófsdals og leiðin frá Innri-Veðrará út að Flateyri sem lá mest í fjörunni.[514]

 

Helstu fjallvegi segir Þórður yfirleitt hafa verið rudda frá báðum hliðum, að hreppamörkum og nefnir í þvi sambandi Gemlufallsheiði, Breiðadalsheiði, Klofningsheiði og Klúku.[515] Á fyrstu árum Þórðar í Önundarfirði var fé til vegabóta ekki annað en hreppavegagjaldið sem var miðað við hálft dagsverk af verkfærum manni.[516] Um þær vegabætur sem unnið var að á þessum árum kemst Þórður svo að orði:

 

Oft sendu bændur unglinga til þessarar vinnu, enda var hún mest fólgin í að kasta lausum steinum úr götu en einnig að ná upp jarðföstum steinum sem voru óþægilegir fyrir hestafæturna. Gekk það misjafnlega því að verkfæri voru oft heldur í lélegu lagi. Hakar og malarskóflur þekktust til dæmis ekki fyrr en hvalveiðistöðin var reist á Sólbakka [1889] og járnkarlar voru aðeins sívalir járnbútar, oftast fremur stuttir.[517]

 

Árið 1889 dró til mikilla tíðinda í Önundarfirði er bygging norsku hvalveiðistöðvarinnar á Sólbakka hófst (sjá hér Sólbakki). Fyrir forgöngu Hans Ellefsen, forstjóra hvalveiðistöðvarinnar, var á allra næstu árum hafist handa um lagningu vegar inn Hvilftarströnd og voru það fyrstu vegaframkvæmdirnar í Önundarfirði með nýju sniði.[518] Hinn nýi vegur, sem mun hafa verið fær hestvögnum, var lagður uppi á bökkunum en gamli reiðvegurinn hafði legið í fjörunni, neðan við bakkana.[519] Við þessa vegagerð og aðrar framkvæmdir sem tengdust hvalveiðistöðinni á Sólbakka voru hakar og malarskóflur notuð í fyrsta sinn í Önundarfirði[520] en hér um slóðir voru slík verkfæri óþekkt fyrir komu Ellefsens að Sólbakka. Verkstjóri við vegagerðina á Hvilftarströnd á árunum 1892-1896 var Jón Guðmundsson frá Grafargili.[521] Þórður Sigurðsson í Breiðadal, sem vann við lagningu vegarins inn Hvilftarströnd og var síðar mjög lengi verkstjóri við vegagerð í Önundarfirði, segir að Jón frá Grafargili hafi verið góður verkstjóri, vandvirkur og áhugasamur við sitt starf, lagvirkur og útsjónarsamur.[522]

Sumarið 1892 var ætlunin að leggja veg um túnið á Hvilft en þá kom babb í bátinn því eigendur jarðarinnar neituðu að veita heimild til slíkrar vegagerðar nema þeir fengju skaðabætur.[523] Við þetta stöðvaðist vegarlagningin að sinni en samkomulag mun hafa tekist um að fá valda menn til að meta hversu háar skaðabæturnar ættu að vera.[524] Þetta mat fór fram sumarið 1893 eins og sjá má í dagbók verkstjórans við vegagerðina en hann skrifar þar 1. júlí 1893 þessi orð: Var mælt Hvilftartúnið og reiknað út hvað kostaði undir veginn, 15 ferfaðmar sem kostaði hæstvirt 30,- krónur.[525]

Sumarið 1893 stóð Mosvallahreppur straum af kostnaði við þessa vegagerð í fyrsta sinn en þá var unnið við veginn á Hvilftarströnd frá 23. maí til 9. september,[526] ef til vill þó með einhverjum hléum. Um haustið var vegurinn kominn inn að Hólsá.[527] Sumarið 1894 var unnið að vegagerðinni fyrir liðlega 1.100,- krónur.[528] Þá tókst að koma veginum inn að Kaldá og einnig var byrjað að leggja veg á Tannaneshlíð.[529] Það sumar voru oftast þrír eða fjórir menn í vinnu við vegagerðina.[530]

Árið 1895 unnu 15 og 16 menn við vegarlagninguna um vorið en 10 um sláttinn.[531] Á því sumri tókst að komast með veginn alla leið inn að Breiðadalsá.[532] Um vinnutíma, kaup og kjör í vegavinnunni á Hvilftarströnd sumarið 1895 hefur Þórður í Breiðadal ritað og segir þar:

Vinnutími var alltaf 11 tímar á dag, unnið frá kl. 6 að morgni til kl. 7 að kvöldi og 2 tímar frá til matar og kaffis. Hélst svo til 1907 en þá komu verkstjórar að sunnan og tóku þeir upp 10 tíma vinnudag. Kaupgjald var öll þessi ár 3 krónur á dag en þó ekki nema 2,50 krónur hjá sumum.[533]

 

Sumarið 1895 lágu vegavinnumennirnir við í tjöldum[534] en verkstjórinn virðist hafa haft sérstakan skúr fyrir sig við Hvilftarsjóinn.[535] Nú er ég orðinn einn og vinn ekki í dag, skrifar hann í dagbók sína 28. september þetta haust[536] en þá hafa verkamennirnir verið farnir hver heim til sín. Árið 1896 var lagður vegur frá Breiðadalsá og inn eftir Veðrarárholtum[537] en næstu ár þar á eftir mun lítið sem ekkert hafa verið unnið við vegagerð í Önundarfirði og lagningu samfellds vegar frá Breiðadal inn að ánni Korpu, sem fellur í fjarðarbotninn, lauk ekki fyrr en 1921.[538]

Öllum heimildum, sem tiltækar eru, ber saman um að Hans Ellefsen á Sólbakka hafi verið frumkvöðull að vegarlagningunni á Hvilftarströnd.[539] Framkvæmdir þessar mun hann hafa hafið fyrir eigin reikning.[540] Haustið 1891 birtist í Þjóðviljanum unga, blaði Skúla Thoroddsen á Ísafirði, frétt er hljóðaði svo:

 

Hr. Hans Ellefsen, hvalveiðimaður á Sólbakka í Önundarfirði, hefur að sögn gert hreppsnefndinni í Mosvallahreppi það höfðinglega tilboð að ef hún vilji leggja vagnveg frá Flateyri inn eftir Önundarfirði skuli hann standast kostnaðinn við það fyrirtæki að helmingi á móts við hreppinn.[541]

 

Eins og hér hefur komið fram hófust framkvæmdir eigi síðar en 1892 og í frétt Þjóðviljans má sjá að gert var ráð fyrir að hinn nýi vegur yrði fær hestvögnum. Svo virðist sem hreppsnefnd Mosvallahrepps hafi í fyrstu verið eitthvað hikandi við þátttöku í þessum stórframkvæmdum. Allt frá árinu 1893 mun hreppsnefndin þó hafa staðið fyrir vegagerðinni.[542] Vorið 1895 tók hún 2.400,- króna lán hjá Ellefsen og var þeim peningum varið til vegagerðarinnar.[543]

Ár eru margar í Önundarfirði en ekki er kunnugt um að nokkur þeirra hafi verið brúuð fyrr en komið var fram yfir 1880, enda mátti heita að slíkar framkvæmdir væru óþekkt fyrirbæri víðast hvar á landi hér allt þar til hafist var handa um smíði Ölfusárbrúar sem tekin var í notkun haustið 1891.[544] Fyrsta áin sem brúuð var í Önundarfirði er Þorfinnsstaðaá í Valþjófsdal en brú yfir hana var byggð fyrir samskotafé haustið 1881.[545] Tæpum fjórum mánuðum síðar reif áin mannvirki þetta af sér í vestan kafaldsstormi.[546] Ekki mun þó hafa liðið mjög langur tími uns áin var brúuð á ný og nær tíu árum síðar tók stormur brúna af þessari sömu á í annað sinn.[547] Hún var þá endurbyggð þann sama vetur.[548]

Á fundi sem haldinn var á Þórustöðum í febrúarmánuði árið 1891 var rætt um smíði brúar á Bjarnardalsá.[549] Sú brú mun hafa verið smíðuð haustið 1892[550] og kostaði um 300,- krónur.[551] Kostnaðurinn skiptist nær jafnt milli sýslusjóðs og sveitarsjóðs.[552] Haustið 1893 var Hólsá á Hvilftarströnd brúuð[553] og Kaldá, sem þar er næst fyrir innan, einu ári síðar.[554] Haustið 1894 var byggð ný brú á Breiðadalsá og til þess notað að hluta efni úr eldri brú sem þá var rifin.[555] Um aldur þessarar eldri brúar er ekki vitað. Efnið í þær þrjár brýr sem síðast voru nefndar og byggðar voru á árunum 1893-1894 mun Hans Ellefsen á Sólbakka hafa gefið[556] en þær entust allar býsna lengi og voru fyrst endurbyggðar árið 1930.[557]

Bændafélagið Vonin, sem frá er sagt á öðrum stað í þessu riti (sjá hér bls. 91), var stofnað 4. mars 1894. Eitt fyrsta verkefni þess var að safna fjármunum til smíði brúar yfir ána Korpu sem fellur um undirlendið fyrir botni Önundarfjarðar. Byrjað var á þessum samskotum haustið 1894[558] og brúin byggð árið 1895.[559]

Í sveitarblaðinu Nútímanum, sem gefið var út í Önundarfirði á árunum kringum aldamótin 1900, var birt skýrsla með nöfnum þeirra 86 manna sem styrktu smíði brúarinnar á Korpu með því að leggja fram peninga eða vinnu.[560] Þar sést hvað hver og einn gaf mikið en samtals námu þessi framlög 378,09 krónum.[561] Stærsta framlagið kom frá Hans Ellefsen á Sólbakka 74,28 krónur en aðrir sem gáfu tíu krónur eða meira voru þessir: Jón Guðmundsson, Grafargili, 23,67 krónur, Páll Rósinkranzson, Kirkjubóli í Korpudal, 15,26 krónur, Jón Guðmundsson, Kroppstöðum (síðar á Veðrará), 13,00 krónur, Guðmundur Bjarnason, Hóli, 12,40 krónur, Hólmgeir Jensson, Tungu, 12,00 krónur, og Jón Sveinsson, Vífilsmýrum, 10,00 krónur.[562]

Í byrjun febrúar árið 1895 var hafist handa um framkvæmdir og byrjað á að sprengja grjót í brúarstólpana.[563] Við þær framkvæmdir og sjálfa brúarsmíðina mun Jón Guðmundsson frá Grafargili hafa haft verkstjórn á hendi ásamt Bjarna Sigurðssyni frá Neðrihúsum er síðar starfaði sem smiður á Flateyri.[564] Við grjótvinnuna hrökk steinflís í lærið á Jóni frá Grafargili svo hann varð óvinnufær í nokkra daga.[565] Fjórtán mánuðum síðar skar Sigurður Magnússon læknir í lærið á Jóni og dró flísina út. Að sögn Jóns reyndist hún vera 7 línur á lengd (um 1,5 cm) og 4 línur á breidd (um 8,7 mm) þar sem hún var breiðust með sárum röndum og oddhvöss í annan endann.[566]

Burðartrén í brúna á Korpu lagði Ellefsen á Sólbakka til.[567] Tveir menn á doríu drógu trén inn í fjarðarbotn og þaðan var þeim fleytt eftir ánni að brúarstæðinu.[568] Dagana 19. -21. maí 1895 voru burðartrén sett á brúarstólpana og gengið frá brúargólfinu að mestu leyti en handrið var ekki sett á brúna fyrr en um haustið[569] og frá veginum að brúnni var ekki gengið til fulls fyrr en árið 1897.[570]

Í áðurnefndri skýrslu um framlög til smíði brúarinnar á Korpu sést að alls hefur brúarsmíðin kostað 308,14 krónur eða sem svaraði greiðslu fyrir liðlega 100 dagsverk í vegavinnu á þeim tíma (sjá hér bls. 83). Af söfnunarfénu, sem eins og áður sagði nam 378,09 krónum, voru því tæplega 70,- krónur enn í sjóði þegar framkvæmdum lauk við Korpu.[571] Í skýrslunni um framlög manna til brúarsmíðinnar er tekið fram að þessar krónur séu geymdar hjá Jóni Guðmundssyni á Grafargili og til þess ætlast að þær gangi til brúargjörðar á Hestá sem ætti að verða innan skamms.[572] Í smíði brúar yfir Hestá var ráðist árið 1898[573] en báðar þessar ár, Korpa og Hestá, falla um undirlendið fyrir botni Önundarfjarðar og varla nema 300-500 metrar á milli þeirra víðast hvar. Brúin á Hestá fauk haustið 1899 en var komin aftur á ána fyrir 13. janúar 1900, öllu styrkari en áður.[574]

Er brúin var byggð á Korpu bjó Jón Guðmundsson búfræðingur á Kroppstöðum, næsta bæ við brúarstæðið. Í dagbók hans sést að skömmu eftir að brúin var tekin í notkun hafa menn verið uggandi um að hún kynni að fjúka því 2. janúar 1896 var farið að draga að henni grjót.[575] Ef til vill hefur þó ekki verið búið að festa hana niður með þessu grjóti fimm dögum síðar, þann 7. janúar, en þann dag tók veðrið brúna og kastaði henni upp á bakka.[576] Þar nam hún staðar í heilu lagi nema stakketið var allt brotið.[577] Sem betur fór skemmdist brúin lítið í þessum sviptingum og fyrir lok febrúar var búið að koma henni aftur á réttan stað[578] þar sem hún gegndi sínu hlutverki í nær sjö áratugi.

Er bílferðir hófust milli Ísafjarðar og Dýrafjarðar árið 1936 lá þjóðbrautin um Önundarfjörð yfir gömlu brúna á Korpu en brúin var þá þegar orðin liðlega 40 ára gömul. Árið 1942 eða því sem næst var steypt utan um brúarstöplana, sem í fyrstu höfðu verið hlaðnir úr grjóti, og eftir 1953 voru stoðir settar undir brúna til að styrkja hana.[579] Vorið 1962 lá þjóðbrautin frá Reykjavík til Ísafjarðar enn um þessa gömlu brú í mynni Korpudals en á því sumri var Korpa brúuð talsvert neðar og nýr vegur lagður yfir mýrlendið í fjarðarbotninum.[580] Gamla brúin frá 1895 var þó ekki tekin burt fyrr en árið 1964 en þá var ný brú yfir Korpu reist á þessu gamla brúarstæði.[581] Hún er eingöngu ætluð fyrir innansveitarakstur og hvílir á gömlu brúarstöplunum[582] sem að stofni til eru hinir sömu og reistir voru fyrir samskotafé og með gjafavinnu árið 1895.

Hér hefur nú verið sagt frá flestum helstu framkvæmdum við vegagerð og brúasmíði í Önundarfirði á árunum fyrir aldamótin 1900. Vel má þó vera að einhverjar fleiri ár þar í firðinum hafi verið brúaðar áður en ný öld gekk í garð og enn hefur ekki verið sagt frá miklum lagfæringum á leiðinni milli Hjarðardals og Valþjófsdals, þar sem heitir Dalsófæra, og unnið var að á árunum 1892 og 1893. Þá frásögn er að finna annars staðar í þessu riti (sjá hér Þorfinnsstaðir).

Hér var áður minnst á Vöðin í Önundarfirði sem öll eru innan við Holtsodda. Yfir þau var oft farið ríðandi á fyrri tíð en þó aðeins þegar lágsjávað var og um nokkuð útfallið.[583] Í lýsingu Holtssóknar frá árinu 1840 er getið um fimm vöð og þau nefnd þessum nöfnum: Ysta-vað eða Prestavað, Veðrarárvað, Garðsendavað, Steinsvað og Kúhólmavað innst.[584] Höfundur sóknalýsingarinnar tekur fram að oftast sé farið yfir Veðrarárvað[585] sem ætla má að sé sama vaðið og nefnt er Skeiðisvað í yngri heimildum.[586]

Á Ysta-vað, sem menn nefndu einnig Prestavað, var riðið frá innan verðum túnfætinum á Ytri-Veðrará og stefnt á Holtsstekk.[587] Þetta vað mun aðeins hafa verið fært á stórstraumsfjöru og þar drukknaði séra Jón Sigurðsson í Holti vorið 1796.[588] Á fyrri hluta 20. aldar mun sjaldan hafa verið riðið yfir fjörðinn á Ysta-vaði en þá var oftast farið yfir Skeiðisvað,[589] sem áður mun hafa verið nefnt Veðrarárvað. Leiðin yfir fjörðinn lá þá úr Skeiðistanga, innan við Innri-Veðrará, og yfir á Mosvallaskeið (sjá hér Mosvellir) sem er gróið flatlendi við sjóinn neðan við mynni Bjarnardals. Innsta vaðið, sem heitir Kúhólmavað, er niður af Tannanesi og var að sögn kunnugra annað aðalvaðið á þessum slóðum.[590]

Ferðir manna yfir Vöðin settu sérstakan svip á samgönguhætti Önfirðinga á fyrri tíð en annars staðar í þessu riti er gerð svolítið nánari grein fyrir Vöðunum og ferðum manna yfir þau (sjá hér Holt, Mosvellir, Tannanes, Innri-Veðrará og Ytri-Veðrará). Hér verður hins vegar ekki fjallað nánar um ferðir Önfirðinga að sinni en þó skal þess getið að lokum að lögferja yfir Önundarfjörð var á Ytri-Veðrará á fyrstu áratugum tuttugustu aldar[591] og má ætla að svo hafi lengi verið. Þar gátu menn fengið sig flutta yfir í Melinn sem er utantil við túnið í Holti.

Við munum nú, áður en langt um líður, hefja ferð okkar bæ frá bæ um allan Mosvallahrepp en áður en lagt verður upp í þá för mun vera rétt að greina stuttlega frá því helsta sem vitað er um skipuleg félagasamtök í hreppnum fyrir aldamótin 1900 og þá fyrst og fremst á tveimur síðustu áratugum 19. aldar.

Fyrstu almennu þjóðmálafundirnir, sem um er kunnugt að efnt hafi verið til í Önundarfirði, voru haldnir í Holti og í Hjarðardal í febrúar og mars árið 1844 (sjá hér Holt, þar dagbók séra Sigurðar Tómassonar). Á árunum milli 1840 og 1850 var reynt að stofna a.m.k. tvö félög í Mosvallahreppi, jarðabótafélag og lestrarfélag[592] og eru það fyrstu dæmin af því tagi sem um er kunnugt frá þessum slóðum. Ætla má að Magnús Einarsson á Hvilft hafi verið helsti hvatamaður að stofnun þessara félaga en hann var þá nánasti trúnaðarmaður Jóns Sigurðssonar forseta í vesturhluta Ísafjarðarsýslu (sjá hér Hvilft). Um starfsemi þessara félaga er í rauninni ekkert vitað og líklegast að þau hafi bæði lognast út af án þess að ná sér nokkru sinni á strik svo að verulega munaði um. Þannig fór að minnsta kosti fyrir flestum slíkum félögum sem reynt var að koma á fót hér og þar um landið þetta snemma á 19. öldinni. Fæst þeirra reyndust lífvænleg því tími félagshyggjunnar var enn ekki runninn upp. Lestrarfélag var þó til í Önundarfirði árið 1880[593] og máske hugsanlegt að þráðurinn frá 1848 hafi aldrei slitnað að fullu. Hitt er þó líklegra að lestrarfélagið sem hélt fund á Þorfinnsstöðum 29. nóvember 1880[594] hafi verið nýtt félag án tengsla við gamla félagið sem reynt var að koma á fót árið 1848. Á árunum frá 1880 til 1895 var þó nokkuð um fundarhöld hjá lestrarfélaginu.[595] Greinilegt er að félagið hefur náð yfir allan hreppinn því fundir eru haldnir á ýmsum bæjum en þó líklega oftast á Flateyri.[596] Haustið 1888 mættu 12 menn á fund í lestrarfélaginu og þar voru þessir þrír kosnir í stjórn: Guðmundur Á. Eiríksson á Þorfinnsstöðum, formaður, séra Janus Jónsson í Holti, gjaldkeri, og Jón Guðmundsson, búfræðingur, þá á Flateyri en síðar á Veðrará, bókavörður.[597]

Árið 1883 rituðu Önfirðingar bréf til Alþingis og sóttu um 300,- króna styrk til bókasafns og lestrarfélags á Flateyri.[598] Sumarið 1883 birtist í blaðinu Þjóðólfi grein sem sögð er vera eftir þrjá Vestfirðinga er væru að stofna lestrarfélag í sinni sveit.[599] Í blaðagrein þessari eru menn hvattir til að stofna lestrarfélög sem víðast og rætt um nauðsyn þess að kaupa nýjar bækur frá hinum Norðurlöndunum.[600] Síðan segir:

 

Nýlega er stofnað lestrarfélag í Önundarfirði og er svo til ætlast að þar komist á fót gott safn af innlendum og útlendum bókum. Á fyrsta ári ætlar félagið þegar að verja 1.000,- krónum til bókakaupa og hefur svo um samist að Kristján bóksali Þorgrímsson verði kaupstjóri þess og að félagið eigi öll sín bókakaup við hann framvegis. … Teljum vér víst að Alþingi mundi fúst að styrkja slík atkvæðamikil lestrarfélög með tillögum af almannafé og þar að auki má jafnan ganga að því vísu að ýmsir verði til að senda félögunum bókagjafir.[601]

 

Svo virðist sem greinarhöfundar séu þarna að tala um alveg nýstofnað félag því getið er um hvað það ætli sér að gera á fyrsta ári. Einhver tengsl hafa þó að líkindum verið milli þessa nýja lestrarfélags og hins sem sannanlega var starfandi í Önundarfirði þremur árum fyrr og hér var áður nefnt. Máske hefur starfsemin legið niðri í eitt til tvö ár og félagið síðan verið endurreist.

Athygli vekur hversu stórhuga forráðamenn félagsins árið 1883 hafa verið, − að ætla sér að verja 1.000,- krónum til bókakaupa á einu ári en nærri lætur að sú upphæð hafi þá verið tólf kúgildi.[602] Óhætt mun að fullyrða að Torfi Halldórsson á Flateyri og þó máske öllu frekar synir hans hafi verið flestum öðrum líklegri til að láta slíka fjárhæð ekki vaxa sér í augum og má ætla að áformin um hin miklu bókakaup séu þaðan runnin. Óvíst er hins vegar með öllu hvort svo miklum fjármunum hefur í reynd verið varið til bókakaupa á vegum lestrarfélagsins í Önundarfirði og í Alþingistíðindum frá árinu 1883 verður ekki séð að beiðni Önfirðinga um styrkveitingu til bókakaupa hafi verið tekin þar til umfjöllunar.[603]

Á tveimur síðustu áratugum 19. aldar voru að minnsta kosti sjö félög starfandi í Mosvallahreppi um lengri eða skemmri tíma. Auk lestrarfélagsins voru það bindindisfélag, stjórnmálafélagið Vakandi, Búnaðarfélag Önfirðinga, pöntunarfélag, Sjónleikafélagið og framfarafélagið Vonin. Hér verður látið duga að minna með örfáum orðum á hvert og eitt þessara félaga en annars staðar í þessu riti er gerð nánari grein fyrir starfsemi sumra þeirra.

Af þessum sjö félögum hafa lestrarfélagið og bindindisfélagið tvímælalaust verið elst. Um stofnár þeirra er ekki kunnugt en bæði voru þau starfandi veturinn 1880-1881. Frá lestrarfélaginu hefur þegar verið sagt og í dagbók Jóns Guðmundssonar frá Grafargili er getið um fund í bindindisfélaginu sem haldinn var á Flateyri 25. mars 1881,[604] nær þremur árum áður en fyrsta íslenska good-templarastúkan var stofnuð. Á þessum bindindisfundi á Flateyri mættu 14 félagsmenn og þeir sem fundinn sóttu úr Valþjófsdal gengu að honum loknum á ís yfir fjörðinn og stigu á land innan við Hjarðardalsnaust.[605]

Stjórnmálafélagið Vakandi mun hafa verið stofnað veturinn 1883-1884 og miðstöð þess var tvímælalaust á Flateyri, enda þótt félagssvæðið næði yfir bæði Önundarfjörð og Dýrafjörð og jafnvel stærra svæði. Í 32. árgangi Ársrits Sögufélags Ísfirðinga birti Eyjólfur Jónsson merkilegar heimildir, sem varðveittar eru í Kaupmannahöfn, um stórhuga ráðagerðir helstu forystumanna Vakanda árið 1884.[606] Í marsmánuði á því ári sendu þeir frá sér áskorun um Þingvallafund sem ætlunin var að kæmi saman þá um sumarið og var áskorun þessi send út í nafni 400 félaga á Vesturlandi en undirrituð af sjö mönnum sem allir nema einn voru búsettir á Flateyri.[607] Því miður munu ráðagerðir Önfirðinganna um Þingvallafund sumarið 1884 ekki hafa fengið þær undirtektir sem vænst var og enginn slíkur fundur var haldinn á því sumri. Félagið Vakandi varð því að lækka seglin og mun fljótlega hafa lognast út af.

Heimildir sem fyrir liggja benda eindregið til þess að Páll Torfason á Flateyri hafi verið helsti forgöngumaður að stofnun þessa skammlífa en merkilega félags. Páll var sonur Torfa Halldórssonar, verslunarstjóra og útgerðarmanns á Flateyri, og konu hans, Maríu Össurardóttur. Hann var þá 25 ára gamall og hafði dvalist um skeið í Kaupmannahöfn þar sem hann kynntist ýmsum úr röðum þeirra íslensku stúdenta í Höfn sem lengst vildu ganga í sjálfstæðisbaráttunni við Dani. Bréfið sem Páll skrifar á Flateyri 1.ágúst 1884 til Finns Jónssonar, síðar prófessors við Kaupmannahafnarháskóla,[608] sýnir með ótvíræðum hætti að þar heldur byltingarsinnaður ungur maður á penna (sjá hér Flateyri). Síðar á ævinni gerðist Páll Torfason hins vegar umsvifamikill kaupsýslumaður og var þá löngum búsettur í Kaupmannahöfn.

Hér er á öðrum stað sagt frá pöntunarfélaginu sem Önfirðingar komu á fót í kringum áramótin 1888 og 1889 en það félag fékk á sínum tíma inngöngu í Kaupfélag Ísfirðinga, hið elsta með því nafni (sjá bls. 75-78). Búnaðarfélag Önfirðinga var stofnað árið 1886  en þess er vert að geta að áður mun stundum hafa verið rætt um búnaðarmál á almennum hreppsfundum. Sem dæmi má nefna að í dagbók sinni getur Jón Guðmudsson á Grafargili þess að rætt hafi verið um búnaðarmál á fundi sem haldinn var á Þórustöðum 2. mars 1885 en þar var einnig talað um nauðsyn þess að fá póstgufuskipið til að koma til Ísafjarðar einu sinni á vetri[609] en ekki bara að sumarlagi.

Ljóst er að Búnaðarfélag Önfirðinga hefur verið stofnað á fyrri hluta ársins 1886 en jarðabætur á vegum félagsins hófust þá um sumarið.[610] Jón Guðmundsson búfræðingur, síðar bóndi á Ytri-Veðrará, vottar í skýrslu er hann undirritaði 5. apríl 1888 að sumurin 1886 og 1887 hafi búnaðarfélagið látið slétta 2150 ferfaðma, garðahleðslur á þess vegum hafi á sama tíma náð 8817 teningsfetum og grafnir skurðir 23.850 teningsfetum.[611] Einn fjórði hluti af túngörðunum, sem félagið hafði forgöngu um að hlaða á þessum árum, var úr grjóti en hinir voru torfgarðar.[612]

Formaður Búnaðarfélags Önfirðinga vorið 1888 var Guðmundur Á. Eiríksson á Þorfinnsstöðum[613]  og ekki ólíklegt að hann hafi verið formaður frá upphafi. Árið 1887 var félaginu veittur 50.- króna styrkur úr sýslusjóði (sjá Firðir og fólk 1900-1999, 326) og í marsmánuði árið 1888 ákvað sýslunefnd Ísafjarðarsýslu að mæla eindregið með því að búnaðafélaginu í Önundarfirði yrði veittur styrkur á fjárlögum.[614] Félagsmenn þess voru þá tólf og vorið 1888 átti það tæplega 100.- krónur í sjóði.[615] Beiðni félagsins um styrk úr landssjóði var vel tekið og árið 1888 var því veittur 100.- króna styrkur á fjárlögum (Firðir og fólk 1900-1999, 326). Um störf búnaðarfélagsins verður ekki fjallað nánar en látið nægja að visa í ritgerð Guðmundar Inga Kristjánssonar í bókinni Firðir og fólk 1900-1999 (sjá þar bls. 326-334).

Af þeim sjö félögum sem nefnd voru hér að framan hefur enn ekki verið gerð grein fyrir tveimur. Annað þeirra er Vonin, framfarafélag sem stofnað var 4. mars 1894 en þann 28. janúar á sama ári hafði undirbúningsfundur verið haldinn á Kirkjubóli í Korpudal.[616] Á undirbúningsfundinum mættu 11 menn og þar var Hólmgeiri Jenssyni, búfræðingi í Tungu, Jóni Guðmundssyni, búfræðingi á Kroppstöðum (síðar á Ytri-Veðrará), og Páli Rósinkranzsyni bónda á Kirkjubóli í Korpudal, falið að semja lög eða reglur fyrir félagið og undirbúa stofnfund.[617] Við lok stofnfundarins, þann 4. mars, voru félagsmenn orðnir 28.[618] Félagið hóf strax útgáfu á handskrifuðu blaði sem nefnt var Nútíminn og komu sex tölublöð út á fyrsta starfsári Vonarinnar.[619]

Fyrsta átak í verklegum framkvæmdum sem Vonarfélagið stóð fyrir var smíði brúar á ána Korpu árið 1895 (sjá hér bls. 83-85). Félagið Vonin starfaði í marga áratugi og hafði mikil áhrif en nafni þess var breytt árið 1911 í Bændafélagið Vonin.[620] Um þetta merkilega félag er fjallað í ritinu Firðir og fólk 1900-1999 (sjá þar bls. 323-324).

Síðasta 19. aldar félagið í Mosvallahreppi sem hér verður getið um er svo Sjónleikafélagið en það var stofnað á Flateyri árið 1895. Um þetta félag hefur Þórður J. Magnússon ritað ágæta grein sem birtist í 28. árgangi Ársrits Sögufélags Ísfirðinga árið 1985.[621] Lög félagsins eru enn varðveitt og eru þau undirrituð af sjö körlum og þremur konum sem öll voru búsett á Flateyri í lok ársins 1895.[622] Sjónleikafélagið á Flateyri mun aðeins hafa starfað veturinn 1895-1896 en stóð fyrir sýningum á a.m.k. fjórum leikritum eða leikþáttum (sjá hér Flateyri). Fullvíst er að þetta voru reyndar ekki fyrstu leiksýningarnar á Flateyri því fimmtán árum fyrr var færð þar upp komödia (sjá hér Flateyri).

Undir lok 19. aldar fór unga fólkið í Önundarfirði að safnast saman til dansleikja á nýjan leik eftir langt hlé sem staðið hafði allt frá því á 18. öld er hætt var að iðka hina fornu dansa og vikivakaleiki (sjá hér Sæból). Ekki er vitað hvaða ár Önfirðingar tóku að dansa á ný en líklegt er að dansiðkun hafi ekki hafist hér að verulegu marki fyrr en um 1890 og þá fyrir áhrif harmóníkunnar og erlendra verkamanna á hvalveiðistöðinni á Sólbakka. Þó er reyndar vitað að haustið 1873 var leikið á harmóníku og dansað í brúðkaupsveislu á Hvilft (sjá hér Hvilft). Slík skemmtun var þá án nokkurs vafa nýmæli en tveimur áratugum síðar var orðið miklu meira um dansiðkun. Í dagbók Jóns Guðmundssonar á Grafargili frá vetrinum 1894-1895 er fjórum sinnum getið um slíkar skemmtanir. Þann 8. desember 1894 skrifar Jón í dagbókina: Var í kveld haldið reisugilli í minningu þess að nú má heita að búin sé baðstofan. Var helst haft fyrir skemmtun að dansa.[623]

Það er baðstofan á Þórustöðum, sem Jón er þarna að tala um, og innan hennar veggja hefur dansinn verið stiginn. Á nýársdag árið 1895 var dansað í stofunni hjá Kjartani Rósinkranzsyni á Flateyri fram til klukkan 2 eftir miðnætti[624] og 24. febrúar, þennan sama vetur, var aftur stiginn dans á Flateyri.[625] Þann 27. apríl um vorið var svo haldin skemmtisamkoma ógifta fólksins á Flateyri og stóð til klukkan sex að morgni.[626] Vart þarf að efast um að þar hafi líka verið dansað.

Á síðasta áratug 19. aldar tíðkuðust líka í Önundarfirði brennur og blysfarir um áramót og fylgdi þá stundum dans. – Var brenna á Flateyri, álfar og blysfarir, skrifar Jón á Grafargili í dagbók sína um gamlársdag 1892.[627] Hann tekur fram að 60 manns hafi verið við brennuna og þar hafi fólk dansað og sungið.[628] Tveimur árum síðar var líka haldin brenna á Flateyri[629] og á þrettánda degi jóla, 6. janúar 1895, var efnt til brennu á Mjóanesi í landi Holts.[630] Þar var mikið fjölmenni saman komið, um það bil 130 manneskjur.[631] Blys voru borin og fólkið dansaði og söng.[632] Næsta vetur var svo haldin brenna og blysför úti í Valþjófsdal á síðasta degi ársins.[633]

Hér var áður minnst á stjórnmálafélagið Vakanda, sem stofnað var veturinn 1883-1884, og hafði miðstöð sína á Flateyri. Félag þetta varð skammlíft en heimildir sýna að á síðustu áratugum 19. aldar hafa allmargir Önfirðingar verið áhugasamir um stjórnmál og talsvert var um þjóðmálafundi. Um þjóðmál var oft rætt á almennum hreppsfundum og sérstakir fundir voru haldnir til undirbúnings sýslunefndarfunda.[634] Sumarið 1888 sendu Önfirðingar tvo fulltrúa á sérstakan kjörfund sem haldinn var á Ísafirði til að kjósa menn til farar á Þingvallafund sem haldinn var á því sumri[635] í því skyni að herða kröfuna um endurskoðun á stjórnarskránni frá 1874. Á þennan kjörfund á Ísafirði mættu fulltrúar úr tíu af fjórtán hreppum sýslunnar, tveir úr hverjum hreppi,[636] og kusu þeir Skúla Thoroddsen sýslumann og séra Þorstein Benediktsson á Rafnseyri til Þingvallaferðar.[637]

Í desembermánuði árið 1890 héldu Önfirðingar tvo fundi þar sem rætt var um stjórnarskrármálið en einnig um verslunarmál og bankamál.[638] Sá fyrri þessara tveggja funda var haldinn að Þorfinnsstöðum þann 14. desember og var til hans boðað samkvæmt bréflegri áskorun frá Dýrfirðingum.[639] Síðari fundurinn var haldinn á Þórustöðum 27. desember.[640] Á fundi sem Önfirðingar héldu í febrúarmánuði árið 1892 var rætt um menntun unglinga og þar var einnig fjallað um þá hugmynd að Ísafjarðarsýslu yrði skipt í tvö sýslufélög.[641] Krafa um slíka skiptingu var þá ofarlega í huga margra sem áttu heima í vesturhluta sýslunnar og á sýslunefndarfundi sem haldinn var á Ísafirði í marsbyrjun 1892 gengu flestir eða allir fulltrúar vestanmanna af fundi þegar tillaga um að skipta sýslunni í tvennt fékkst ekki samþykkt.[642] Með lögum frá 6. mars 1896 náði krafa þeirra um slíka skiptingu hins vegar fram að ganga.[643]

Heimildir um þjóðmálafundina, sem haldnir voru í Önundarfirði á síðustu áratugum 19. aldar, eru af skornum skammti en nægja þó til að sýna að þó nokkrir slíkir fundir voru haldnir á árunum um og eftir 1890. Fundir þessir voru haldnir hér og þar í hreppnum, á Flateyri, í þinghúsinu á Þórustöðum, á prestssetrinu í Holti og á Þorfinnsstöðum.[644] Umræðuefnin voru af margvíslegum toga. Stundum var rætt um sérstök hagsmunamál Önfirðinga en oft um almenn landsmál og þá ekki síst um stjórnarskrármálið og sjálfstæðisbaráttuna við Dani. Merkilegt er að sjá að sautján árum áður en Háskóli Íslands tók til starfa voru Önfirðingar að ræða um nauðsyn slíkrar menntastofnunar á fundi sem haldinn var á Flateyri. Þessi fundur var haldinn 8. apríl 1894 og þar var ákveðið að hefja fjársöfnun til Háskólasjóðs Íslands.[645]Gengu í félagið 19 með árstillagi frá 50 aurum upp að 1,- krónu, skrifar Jón á Grafargili sem sjálfur var á fundinum.[646] Eitthvað mun þó hafa dofnað yfir áhuganum síðar því í janúarmánuði árið 1897 féll boðaður fundur í Félagi hins íslenska háskólasjóðs niður vegna lélegrar mætingar.[647]

Hér hefur nú um sinn verið spjallað um félagslíf Önfirðinga undir lok 19. aldar en áður var greint nokkuð frá staðháttum í Mosvallahreppi, mannlífi þar og búskaparháttum á fyrri tíð. Ekki mun ástæða til að dvelja lengur við þau efni, enda mál til komið að leggja upp í gönguna bæ frá bæ um allan hreppinn. Þá för hefjum við á hreppamörkum undir Hrafnaskálarnúpi og lítum fyrst við í Mosdal.

– – – – – – – – – – o o o o o – – – – – – – – – –

 

[1] Íslensk fornrit I, 186.

[2] Vestfirskar sagnir II, 80-88.

[3] Ísl. fornrit VI, 16, 38-39.

[4] Sama heimild.

[5] Sama heimild.

[6] Biskupasögur I, 432.

[7] Sama heimild II, 259.

[8] Sturlunga saga II, 192-194, 257 og III, 15.

[9] Sama heimild II, 192-194.

[10] Sama heimild, 370-371.

[11] Sama heimild III, 78.

[12] Sama heimild.

[13] Sturl. III, 78.

[14] Sturl. III, 78.

[15] Sama heimild, 39-40.

[16] Sama heimild.

[17] Sama heimild II, 350.

[18] Sama heimild III, 90.

[19] Sama heimild, 90-93.

[20] Sama heimild, 92.

[21] Sturl. III, 93-96.

[22] Sturl. III, 97.

[23] Sama heimild, 82 og 95.

[24] Sama heimild, 98.

[25] Sama heimild.

[26] Sama heimild, 100-101.

[27] Sturl. III, 101-102.

[28] Sturl. III, 101-102.

[29] Sama heimild.

[30] D.I. XII, 14-15, kirknatal Páls biskups Jónssonar frá því um 1200.

[31] D.I. V, 579-580.

[32] Óskar Einarsson 1951, 119.

[33] Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns VII, 102-103.

[34] D.I. III, 324.

[35] Jarðab. Á. og P. VII, 94-127.

[36] Sama heimild.

[37] Sama heimild.

[38] Sama heimild og J. Johnsen 1847, 194-196.

[39] Fasteignabók 1921.

[40] Fasteignabók 1932, 51-52.

[41] Jarðab. Á. og P. VII, 3-139.

[42] Sama heimild, 94-127.

[43] Sama heimild.

[44] Sama heimild.

[45] Sama heimild.

[46] Sama heimild.

[47] Sama heimild.

[48] Sama heimild.

[49] Jarðab. Á. og P. VII.

[50] Íslenskar æviskrár I, 248.

[51] Jarðab. Á. og P. VII, 94-127.

[52] Manntal 1762.

[53] Sama heimild.

[54] Sama heimild.

[55] Sama heimild.

[56] J. Johnsen 1847, 194-196.

[57] Sama heimild.

[58] Sama heimild.

[59] Sama heimild.

[60] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Mosvallahreppur 5. Hreppsbók 1883-1912, bls. 13.

[61] Fasteignabók 1932.

[62] Jarðab. Á. og P. VII, 94-127.

[63] Jarðab. Á. og P. VII, 94-127.

[64] Sama heimild.

[65] Sama heimild.

[66] Sama heimild.

[67] Sama heimild.

[68] Sama heimild.

[69] Sama heimild.

[70] Sama heimild.

[71] Jarðab. Á. og P. VII, 94-127.

[72] E. Laxness 1987, 274-276.

[73] J. Johnsen 1847, 194-196.

[74] Sama heimild.

[75] Manntal 1703.

[76] Jarðab. Á. og P. VII, 94-127.

[77] Manntal 1762.

[78] Manntöl 1801, 1845 og 1901.

[79] Manntal 1703.

[80] Sama heimild.

[81] Manntal 1703.

[82] Sama heimild.

[83] Sama heimild.

[84] Manntal 1762.

[85] Manntal 1801.

[86] Sama heimild.

[87] Sama heimild.

[88] Manntal 1845.

[89] Sama heimild.

[90] Manntal 1901.

[91] Sama heimild.

[92] Sama heimild.

[93] Sama heimild.

[94] Manntal 1801.

[95] Manntal 1801.

[96] Manntal 1703.

[97] Sama heimild.

[98] Sama heimild.

[99] Sama heimild.

[100] Sama heimild.

[101] Manntal 1845.

[102] Manntal 1845.

[103] Sama heimild.

[104] Manntal 1703.

[105] Manntöl 1703, 1762, 1801, 1816, 1845 og 1901.

[106] Einar Laxness 1977, 165.

[107] Annálar IV, 216-223.

[108] Sama heimild, 322.

[109] Sama heimild.

[110] Guðmundur Hálfdanarson 1984, 146 (Skaftáreldar, bókin). Sbr. Annálar V, 183.

[111] Tölfræðihandbók 1984.

[112] Prestsþjónustubækur Holts í Önundarf. og Dýrafj.þinga.

[113] Manntöl 1845, 1880 og 1901.

[114] Sömu heimildir.

[115] Manntöl 1845 og 1901.

[116] Sömu heimildir.

[117] Manntal 1901.

[118] Sama heimild.

[119] Manntal 1901.

[120] Sama heimild.

[121] Sama heimild.

[122] Sama heimild.

[123] Manntal 1901.

[124] Sama heimild.

[125] Sama heimild.

[126] Sama heimild.

[127] Sama heimild.

[128] Eggert Ólafsson 1975, I, 219.

[129] Sama heimild 262-263.

[130] Eggert Ólafsson 1975, 262-263.

[131] Ólafur Olavius 1964, I, 146-148.

[132] Sama heimild, 183-184.

[133] Ebenezer Henderson 1957, 296-298.

[134] E. Henderson 1957, 296-298.

[135] Þorvaldur Thoroddsen / Ferðabók II, 121-123.

[136] Þorvaldur Thoroddsen / Ferðabók II, 121-123.

[137] ÍB 7838vo, Bændaríma kveðin Anno 1815.

[138] Sóknalýsingar Vestfjarða II, 97-110.

[139] Ísl. æviskrár V, 16.

[140] Sama heimild V, 16 og IV, 234-235 og 256.

[141] Sóknalýs. Vestfj. II, 100-101.

[142] Óskar Ein. 1951, 15.

[143] Sóknalýs. Vestfj. II, 101.

[144] Sama heimild, 108.

[145] Sama heimild, 109.

[146] Sama heimild, 108.

[147] Sóknalýs. Vestfj. II, 109.

[148] Sóknalýs. Vestfj. II, 110.

[149] Lúðvík Kristjánsson 1953, 180-181.

[150] Lúðvík Kristjánsson 1953, 174-175.

[151] Sóknalýs. Vestfj. II, 109.

[152] Sama heimild.

[153] Sama heimild, 110.

[154] Guðmundur Eiríksson 1957, 65-71.

[155] Snorri Sigfússon 1977, 67-77 (Ársrit S.Í.).

[156] Guðm. Eiríksson 1957, 69.

[157] Guðm. Eiríksson 1957, 65-66.

[158] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Mosvallahreppur . 6. Úttektabók 1835-1874. 7. Úttektabók 1875-1905.

[159] Sama heimild.

[160] Sama heimild.

[161] Sama heimild.

[162] Sama heimild.

[163] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Mosvallahreppur. 6. Úttektabók 1835-1874 og 7. Úttektabók 1875-1905.

[164] Sama heimild.

[165] Sama heimild.

[166] Sama heimild.

[167] Sama heimild.

[168] Sama heimild.

[169] Sama heimild.

[170] Guðm. Eiríksson 1957, 66-67.

[171] Guðm. Eiríksson 1957, 68-69.

[172] Sama heimild, 68.

[173] Sama heimild, 67-68.

[174] Guðm. Eiríksson 1957, 70-71.

[175] Sama heimild, 69.

[176] Sama heimild, 69-70.

[177] Guðm. Eiríksson 1957.

[178] Sama heimild.

[179] Guðm. Eiríksson 1957, 69-70.

[180] Jarðab. Á. og P. VII, 94-127. Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1. bún.sk. 1830. VA III, 424, bún.sk. 1880.

[181] VA III, 424, búnaðarskýrsla 1880.

[182] Sama heimild.

[183] Fasteignabók 1932.

[184] Sama heimild.

[185] VA III, 407, búnaðarskýrslur 1837.

[186] Sóknalýs. Vestfj. II, 108-109.

[187] VA III, 412, 417, 421 og 424, búnaðarskýrslur 1850, 1860, 1870 og 1880.

[188] Ísl. æviskrár I, 311-312.

[189] Þorv. Thoroddsen / Lýsing Íslands III, 315-316. Sbr. Sig. Sig. 1937, 319-322 (B.Í. Aldarminning II).

[190] Sóknalýs. Vestfj. II, 109.

[191] Gestur Vestfirðingur 1847, I, 14.

[192] Sama heimild.

[193] Sóknalýs. Vestfj. II, 108-109.

[194] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. I., búnaðarskýrslur 1821 og 1830. VA III, 407, 412 og 417,

búnaðarskýrslur 1837, 1850 og 1860.

[195] L. Kr. 1960, 300.

[196] VA III, 417-421, búnaðarskýrslur 1860-1873.

[197] Sömu heimildir.

[198] VA III, 417-421, búnaðarskýrslur 1860-1873.

[199] Manntal 1870.

[200] Prestsþj.b. Holts í Önundarf.

[201] VA III, 424, búnaðarskýrslur 1880.

[202] Hsk. á Ísaf. nr. 221. Skýrsla Sæmundar Eyjólfssonar um ferð hans um Ísafjarðarsýslu sumarið 1883.

[203] Sama heimild.

[204] Ísl. æviskrár IV, 380-381.

[205] Sama heimild.

[206] Hsk. á Ísaf. nr. 221. Skýrsla Sæmundar Eyjólfssonar um ferð hans um Ísafjarðarsýslu sumarið 1883.

[207] Sama heimild.

[208] Sóknalýs. Vestfj. II, 108.

[209] VA III, 417, búnaðarskýrslur 1860.

[210] VA III, 417-421, búnaðarskýrslur 1860-1870.

[211] VA III, 421, búnaðarskýrslur 1873.

[212] VA III, 424, búnaðarskýrslur 1880.

[213] Sóknalýs. Vestfj. II, 108.

[214] Sama heimild, 104.

[215] Sama heimild.

[216] Ól. Olavius 1964, I, 174-175.

[217] Þorvaldur Thoroddsen / Lýsing Íslands IV, 95-97.

[218] Gestur Vestfirðingur 1847, I, 18.

[219] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1., búnaðarskýrsla 1821.

[220] Gestur Vestfirðingur 1847, I, 18.

[221] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1., búnaðarskýrsla 1821.

[222] Sama heimildasafn, búnaðarskýrslur 1830. VA III, 407, búnaðarskýrslur 1837.

[223] Sóknalýs. Vestfj. II, 109.

[224] VA III, 412, 417, 421 og 424, búnaðarskýrslur 1850, 1860, 1870 og 1880.

[225] VA III, 424, búnaðarskýrslur 1880.

[226] Sama heimild.

[227] Hagskýrslur Íslands, búnaðarskýrslur 1915.

[228] Jarðab. Á. og P. VII, 94-127.

[229] Sama heimild.

[230] Sama heimild.

[231] Sama heimild.

[232] Sóknalýs. Vestfj. II, 105.

[233] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1., búnaðarskýrsla 1821.

[234] Sama heimildasafn Ís. XX. 1., búnaðarskýrslur 1830 og 1834.

[235] VA III, 417-421, búnaðarskýrslur 1860-1873.

[236] Sömu heimildir.

[237] Hagskýrslur Íslands, búnaðarskýrslur 1915.

[238] Sama heimild.

[239] Guðm. Eiríksson 1957, 66.

[240] Sama heimild.

[241] Guðmundur Ingi Kristjánsson. – Viðtal  K.Ó. við hann 30.6.1993. Hagalín Guðmundsson. – Viðtal K.Ó.

við hann 2.8.1993.

[242] Óskar Ein. 1951, 49.

[243] Óskar Ein. 1951, 80-81.

[244] Jarðab. Á. og P. VII, 121.

[245] Kristján Þorvaldsson 1951, 17.

[246] Hag. Guðm. – Viðtal K.Ó. við hann 2.8.1993.

[247] L. Kr. 1985, 366-367.

[248] Hag. Guðm. – Viðtal K.Ó. við hann 2.8.1993.

[249] Guðrún Ingibjörg Jónsdóttir 1985, 161 (Bóndi er bústólpi VI).

[250] Sama heimild.

[251] Guðmundur Hjaltason / Lögrétta 10.2.1915.

[252] Lbs. 45824to, Dagbók Jóns Guðmundssonar frá Grafargili 26. og 27.5.1891.

[253] Hag. Guðm. – Viðtal K.Ó. við hann 2.8.1993.

[254] Sama heimild.

[255] Sama heimild.

[256] L. Kr. 1985, 366. Eyjólfur Jónsson. – Viðtal K.Ó. við hann 28.6.1993.

[257] Óskar Ein. 1951, 49.

[258] Alþingisbækur Íslands III, 61-62.

[259] Sama heimild.

[260] Alþingisbækur Íslands III, 61-62.

[261] Sama heimild.

[262] Sama heimild.

[263] Alþingisbækur Íslands III, 61-62.

[264] Sama heimild.

[265] Sama heimild.

[266] Alþingisbækur Íslands III, 61-62.

[267] Guðm. I. Kr. – Viðtal K.Ó. við hann 30.6.1993.

[268] Alþingisbækur Íslands III, 61-62.

[269] Alþingisbækur Íslands III, 61-62.

[270] Sama heimild.

[271] Lögréttumannatal, bls. 414.

[272] Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar 1975, I, 345-346.

[273] Sama heimild.

[274] Sama heimild.

[275] Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar 1975, I, 345-346.

[276] Sama heimild, 266.

[277] Ól. Olavius 1964, I, 146-148.

[278] Sama heimild, 207.

[279] Ól. Olavius 1964, I, 207.

[280] Sama heimild, 207-208.

[281] Óskar Ein. 1951, 49.

[282] Óskar Ein. 1951, 25.

[283] ÍB 8268vo, Dagbók séra Sigurðar Tómassonar 29.3.1848.

[284] Jarðab. Á. og P. VII, 126-127.

[285] Sama heimild.

[286] Sama heimild, 96.

[287] Sama heimild.

[288] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. B. 2., skipaskýrsla 1857. Ársrit Sögufélags Ísfirðinga 1986, 97-98.

[289] Lbs. 22174to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar apríl / maí 1897. Lbs. 45824to, Dagbók J.G. frá Grafargili,

5.4.1889, 12.6.1889 og 22.4.1896.

[290] Jarðab. Á. og P. VII, 126. Sóknalýs. Vestfj. II, 104-105.

[291] Sóknalýs. Vestfj. II, 109. Guðm. Eiríksson 1957, 66-67.

[292] Jarðab. Á. og P. VII, 94-127.

[293] Jarðab. Á. og P. VII, 94-127.

[294] Sama heimild.

[295] Sama heimild.

[296] Sama heimild, 101.

[297] Sama heimild.

[298] Sama heimild, 126.

[299] Ól. Olavius 1964, I, 202.

[300] Ól. Olavius 1964, I, 200-203.

[301] Ól. Olavius 1964, I, 201-202.

[302] Sóknalýs. Vestfj. II, 105.

[303] Sama heimild.

[304] Jarðab. Á. og P. VII, 126.

[305] Skj. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1., búnaðarskýrslur 1821 og 1830. VA III, 407, 412, 417, 421 og 424,

búnaðarskýrslur 1837, 1850, 1860, 1870 og 1880.

[306] Sömu heimildir.

[307] Skj. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1., búnaðarskýrslur 1821 og 1830. VA III, 407, 412, 417, 421 og 424,

búnaðarskýrslur 1837, 1850, 1860, 1870 og 1880.

[308] Sömu heimildir.

[309] Sömu heimildir.

[310] Sömu heimildir.

[311] Sömu heimildir.

[312] Landshöfðingjasafn, séröskjur nr. 24.

[313] Sama heimild.

[314] Landshöfðingjasafn, séröskjur nr. 24. Bjarni Sæmundsson 1903, 101 (Andvari).

[315] Guðm. Eiríksson 1957, 66-67.

[316] Sama heimild.

[317] Annálar III, 175.

[318] Annálar VI, 168.

[319] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Mosvallahreppur. 1. Hreppsbók 1786-1819.

[320] Sama heimild.

[321] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Mosvallahreppur. 1. Hreppsbók 1786-1819.

[322] Þorv. Thoroddsen 1916, 210-213 (Árferðisannáll).

[323] Prestsþj.b. Holts í Önundarf. og Dýrafj.þinga.

[324] Sömu heimildir.

[325] Jón Espólín / Íslands Árbækur XII, 55.

[326] Lbs. 12884to, bls. 57-61. Sbr. einnig Pétur Guðmundsson / Annáll 19. aldar I, 159.

[327] Rtk. Isl. journal 21, nr. 1555. Greinargerð dagsett 8.8.1832 og undirrituð af Ebenezer Þorsteinssyni,

sýslumanni, Finni Guðmyndssyni á Hvilft og Magnúsi Ólafssyni á Eyri.

[328] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XII. 2. Skiptabók 1811-1815.

[329] J. Espólín / Ísl. Árb. VIII, 66.

[330] Manntal 1801.

[331] Prestsþj.b. og sóknarmannatöl Holtspr.kalls og Dýrafj.þinga. Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XII. 2.

Skiptabók 1811-1825.

[332] Sömu heimildir.

[333] Sömu heimildir.

[334] Sömu heimildir.

[335] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Mosvallahreppur. 1. Hreppsbók 1786-1819.

[336] Prestsþj.b. Holtspr.kalls.

[337] Sama heimild.

[338] Prestsþj.b. Holtspr.kalls.

[339] J. Espólín / Ísl. Árb. XII, 55.

[340] Frá ystu nesjum II, 130.

[341] Sama heimild.

[342] Lbs. 12884to, bls. 57-61.

[343] Blanda IV, 160-163.

[344] Frá ystu nesjum II, 119-137.

[345] Ísl. æviskrár II, 66-67.

[346] Lbs. 12884to, bls. 57-61.

[347] Lbs. 12884to, bls. 57-61.

[348] Sama heimild.

[349] Sama heimild.

[350] Sama heimild. Sbr. Manntal 1816.

[351] Lbs. 12884to, bls. 57-61.

[352] Sama heimild og Frá ystu nesjum II, 125.

[353] Lbs. 12884to, bls. 57-61.

[354] Sama heimild og Frá ystu nesjum II, 124-125.

[355] Lbs. 12884to, bls. 57-61.

[356] Lbs. 12884to, bls. 57-61.

[357] Sama heimild.

[358] Sama heimild.

[359] Lbs. 12884to, bls. 57-61.

[360] Sama heimild.

[361] Sama heimild.

[362] Halldór Kristjánsson 1987, 60.

[363] Lbs. 12884to, bls. 57-58 og 60.

[364] Prestsþj.b. Holtspr.kalls í Önundarf. og Dýrafj.þinga.

[365] Sömu heimildir.

[366] Sömu heimildir.

[367] Prestsþj.b. Holtspr.kalls í Önundarf. og Dýrafj.þinga.

[368] Manntal 1801.

[369] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XII. 2. Skiptabók 1811-1825.

[370] Sama heimild.

[371] Sama heimild.

[372] Sama heimild.

[373] Sama heimild.

[374] Sama heimild.

[375] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XII. 2. Skiptabók 1811-1825.

[376] Sama heimild.

[377] Sama heimild.

[378] Sama heimild.

[379] Sama heimild.

[380] Sama heimild.

[381] Sama heimild.

[382] H. Kr. 1987, 66-68.

[383] Sama heimild.

[384] H. Kr. 1987, 74-77.

[385] Sama heimild.

[386] Sama heimild.

[387] Þorkell Jóhannesson 1950, 385-391.

[388] Eyjólfur Jónsson 1967, 7-11.

[389] Frá ystu nesjum II, 132.

[390] Sama heimild, 132-133. Ísl. æviskrár V, 5. Lögr.m.tal, bls. 196.

[391] Frá ystu nesjum II, 134-136.

[392] Sbr. Valdimar Þorvaldsson 1982, 85-96 (Ársrit S.Í.).

[393] Frá ystu nesjum II, 130-131.

[394] Sama heimild.

[395] Sama heimild.

[396] Prestsþj.b. Staðar í Súgandafirði.

[397] Frá ystu nesjum II, 131.

[398] Valdimar Þorvaldsson 1982, 85-96.

[399] Bps. C. V, 135 B. Bréf séra Þorv. Böðvarss. og séra Ásg. Jónssonar 12.7.1822 til Geirs Vídalín biskups.

[400] Sama heimild.

[401] L. Kr. 1982, 102.

[402] Guðmundur Scheving 1832, 86-88 (Ármann á Alþingi IV).

[403] Sama heimild.

[404] Sama heimild, 86-90.

[405] VA III, 407, búnaðarskýrslur 1837.

[406] Manntal 1835.

[407] Manntal 1816.

[408] Manntöl 1801, vesturamt, bls. 303 og 1816, bls. 688.

[409] L. Kr. 1955, 43. Prestsþj.b. Holtspr.kalls. VA III, 407, búnaðarskýrslur 1837 og 1838.

[410] VA III, 407-416, búnaðarskýrslur 1838-1858.

[411] Sömu heimildir.

[412] L. Kr. 1953, 128-129.

[413] L. Kr. 1955, 44-45.

[414] Sama heimild.

[415] Guðm. Scheving 1832, 86-90 (Ármann á Alþingi IV).

[416] Skútuöldin I, 112-113.

[417] VA III, 407, búnaðarskýrslur 1837.

[418] VA III, 407, búnaðarskýrslur 1837 og 1838.

[419] VA III, 408, búnaðarskýrslur 1839 og 1840.

[420] VA III, 409-410, búnaðarskýrslur 1841-1843.

[421] VA III, 407-410, búnaðarskýrslur 1837-1843.

[422] VA III, 410, búnaðarskýrslur 1844.

[423] Manntal 1816, bls. 743. Manntal 1845, vesturamt, bls. 282.

[424] VA III, 410, búnaðarskýrslur 1843 og 1844.

[425] VA III, 410-411, búnaðarskýrslur 1845 og 1846. Manntal 1845.

[426] VA III, 411, búnaðarskýrslur 1847-1848.

[427] Lbs. 23328vo, Dagbók Guðmundar Guðmundssonar 28. og 29.10.1848.

[428] VA III, 407-411, búnaðarskýrslur 1838-1848.

[429] VA III, 412, búnaðarskýrslur 1849.

[430] Sama heimild.

[431] Þjóðólfur III., 10.4.1851 og IV., 19.4.1852.

[432] Sömu heimildir.

[433] VA III, 411-414, búnaðarskýrslur úr Ísafj.sýslu 1847-1855.

[434] Sömu heimildir.

[435] Þjóðólfur III., 10.4.1851.

[436] Gestur Vestfirðingur 1847, I, 21.

[437] Sama heimild.

[438] Þjóðólfur III., 10.4.1851 og IV., 19.4.1852.

[439] Þjóðólfur IV., 19.4.1852.

[440] Sama heimild.

[441] Gestur Vestfirðingur 1847, I, 18-19. Sbr. Ármann á Alþingi 1832, IV, 86-90.

[442] Sama heimild.

[443] Sama heimild.

[444] Sama heimild.

[445] VA III, 411-416, búnaðarskýrslur 1847-1858.

[446] Sömu heimildir.

[447] Sömu heimildir.

[448] Sömu heimildir.

[449] VA III, 411-416, bún.sk. 1847-1858. L. Kr. 1953, 128-129, bréf M. Einarss. 15.8.1858 til Jóns Sig. fors.

[450] Prestsþj.b. Holts í Önundarf.

[451] VA III, 415, búnaðarskýrslur 1857.

[452] Jón Þ. Þór 1984, 165.

[453] VA III, 415-421, búnaðarskýrslur 1857-1870.

[454] VA III, 415-424, búnaðarskýrslur 1858-1880.

[455] VA III, 421-424, búnaðarskýrslur 1870-1880.

[456] VA III, 421, búnaðarskýrslur 1870, 1871 og 1873.

[457] VA III, 422-424, búnaðarskýrslur 1874-1880.

[458] VA III, 416-424, búnaðarskýrslur.

[459] VA III, 423-424, búnaðarskýrslur 1878-1880.

[460] Sömu heimildir.

[461] Manntal 1880.

[462] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Mosvallahreppur 4. og 5. Hreppsbækur 1849-1883 og 1883-1912.

[463] E. Lax. 1987, 109.

[464] Jón J. Aðils 1971, 285.

[465] Skj.s. stiftamtm. III. nr. 176. Bréf Markúsar Bergssonar, sýslumanns í Ísafjarðarsýslu, 16.7.1720 til

stiftamtmanns ásamt meðfylgjandi bæjatali úr Ísafjarðarsýslu þar sem fram kemur hverjir versli á

Þingeyri og hverjir á Ísafirði.

[466] J.J. Aðils 1971, 610.

[467] Guðm. Eiríksson 1957, 69-70 (Ársrit S.Í.).

[468] Jóhannes Davíðsson 1970, 105.

[469] Lbs. 45824to, Dagb. J. Guðm. frá Grafargili 6.9.1880.

[470] Sama dagbók 19.9.1889, 22.9.1890 og 18.9.1891.

[471] Sama heimild.

[472] Jón Guðnason 1968, 122-133.

[473] Jón Guðnason 1968, 122-133.

[474] Sama heimild.

[475] Sama heimild.

[476] Lbs. 23744to, Dagbók Sighvats Grímssonar Borgfirðings 24.3.1888 og ársyfirlit 1888 þar.

[477] Lbs. 45824to, Dagb. J. Guðm. frá Grafargili 27.12.1888.

[478] Lbs. án safnnúmers. Gögn Jóns Guðmundssonar, búfræðings á Veðrará, dagbók hans 28.12.1888.

[479] Sama heimild.

[480] Lbs. 45824to, Dagb. J. Guðm. frá Grafargili 3.1.1889.

[481] Sama dagbók 12.1.1889.

[482] Sama dagbók  sama dag.

[483] Lbs. 45824to, Dagb. J. Guðm. frá Grafargili 14.1.1889.

[484] Sama dagbók 15.1.1889.

[485] Sama dagbók 10.2.1889.

[486] Sama dagbók sama dag.

[487] Sama dagbók 16.6.1889.

[488] Sama dagbók 7.4.1890.

[489] Sama dagbók 27.12.1890 og 3.2.1891.

[490] Sama dagbók 3.2.1891.

[491] Lbs. 45824to, Dagb. J. Guðm. frá Grafargili 3.2.1891.

[492] Sama heimild.

[493] Kjartan Ólafsson 1991, 11 (Verslunarsaga Vestur-Skaftfellinga, 2. bindi).

[494] Skj.s. landshöfð. Verslunarsk.. Askja XLIII. Stj.tíðindi 1896 C, bls. 206-207. Verðlag á Flateyri 1895.

[495] Sama heimild.

[496] Sama heimild.

[497] Sama heimild.

[498] Sama heimild.

[499] Sama skjalasafn. Verslunarskýrslur. Öskjur XLVI og XLVIII.

[500] Lbs. án safnnr. Gögn Jóns Guðmundssonar búfr. á Veðrará, fundarg. frá fundi á Þórustöðum 31.1.1910.

[501] Sama heimild.

[502] Sama heimild.

[503] Lbs. 45824to, Dagb. J. Guðm. frá Grafargili 3.2.1891. Sbr. Ól. Olavius 1964, I, 148.

[504] Þorv. Thoroddsen / Ferðabók II, 121-122.

[505] Óskar Ein. 1951, 96-99.

[506] Óskar Ein. 1951, 30.

[507] Skýrslur um landshagi I, 262.

[508] Ársrit Sögufélags Ísfirðinga 1986, 96.

[509] Sama heimild.

[510] Sama heimild.

[511] Sama heimild.

[512] Þórður Sigurðsson 1968, 145-149.

[513] Óskar Ein. 1951, 113.

[514] Þórður Sigurðsson 1968, 145.

[515] Sama heimild.

[516] Sama heimild, 146.

[517] Sama heimild.

[518] Sama heimild, 145-149.

[519] Þórður Sigurðsson 1968, 145-149.

[520] Sama heimild.

[521] Sama heimild, 147. Lbs. 45824to, Dagb. J. Guðm. frá Grafargili árin 1892-1896.

[522] Þórður Sigurðsson 1986, 32-33.

[523] Sama heimild, 147.

[524] Sama heimild.

[525] Lbs. 45824to, Dagb. J. Guðm. frá Grafargili 1.7.1893.

[526] Sama dagbók 23.5. og 9.9.1893. Þórður Sigurðsson 1986, 32-33.

[527] Þórður Sigurðsson 1986, 32-33.

[528] Lbs. 45824to, Vegabótaskýrsla yfir unnar vegabætur 1894, skráð í dagbók J.Guðm. frá Grafargili næst á

eftir dagbókarskrifum frá sumrinu 1896.

[529] Lbs. 45824to, Dagb. J. Guðm. frá Grafargili 27.4.1895 og sama dagbók 3.7.1894.

[530] Þórður Sigurðsson 1986, 32-33.

[531] Sami 1968, 148.

[532] Sama heimild.

[533] Þórður Sigurðsson 1968, 148.

[534] Lbs. 45824to, Dagb. J. Guðm. frá Grafargili 11.8.1895.

[535] Sama dagbók 15.9.1895.

[536] Sama dagbók 28.9.1895.

[537] Þórður Sigurðsson 1968, 148. Sbr. Lbs. 45824to, Dagb. J. Guðm. frá Grafargili 5.8.1896.

[538] Þórður Sigurðsson 1968, 148.

[539] Sama heimild, 146-148. Frá ystu nesjum I, 34-35.

[540] Sömu heimildir.

[541] Þjóðviljinn ungi 26.9.1891.

[542] Þórður Sigurðsson 1986, 32-33.

[543] Frá ystu nesjum I, 34-35.

[544] Kjartan Ólafsson 1991, 221-223 (Verslunarsaga Vestur-Skaftfellinga, 2. bindi).

[545] Lbs. 45824to, Dagb. J. Guðm. frá Grafargili 1.10.1881.

[546] Sama dagbók 29.1.1882.

[547] Sama dagbók 8.11.1891.

[548] Eyjólfur Jónsson 1986, 145. Sbr. Lbs. 45824to, Dagb. J. Guðm. frá Grafargili 15.2.1892.

[549] Lbs. 45824to, Dagb. J. Guðm. frá Grafargili 23.2.1891.

[550] Sama dagbók 27.9.1892.

[551] Þjóðviljinn ungi 30.11.1892, bls. 7.

[552] Sama heimild.

[553] Lbs. 45824to, Dagb. J. Guðm. frá Grafargili 22.9.1893.

[554] Eyjólfur Jónsson 1986, 145.

[555] Sama heimild.

[556] Þórður Sigurðsson 1968, 147-148.

[557] Sama heimild.

[558] Lbs. 45824to, Dagb. J. Guðm. frá Grafargili 30.11.1894.

[559] Sama dagbók febrúar – október 1895.

[560] Lbs. án safnnr. Gögn úr fórum Jóns Guðm. búfræðings á Veðrará, ljósrit sem þar fylgir með af skýrslu

      yfir alla þá sem gáfu til brúarinnar á Korpu.

[561] Sama heimild.

[562] Lbs. án safnnr. Gögn úr fórum Jóns Guðm. búfræðings á Veðrará, ljósrit sem þar fylgir með af skýrslu

      yfir alla þá sem gáfu til brúarinnar á Korpu.

[563] Lbs. 45824to, Dagb. J. Guðm. frá Grafargili 3.-5.2.1895. Eyjólfur Jónsson 1986, 145-147.

[564] Eyjólfur Jónsson 1986, 145-147.

[565] Lbs. 45824to, Dagb. J. Guðm. frá Grafargili, mars 1895.

[566] Sama dagbók 7.5.1896.

[567] Eyjólfur Jónsson 1986, 145-147.

[568] Sama heimild.

[569] Sama heimild.

[570] Minnisblað frá Guðm. I. Kr. dags. 20.7.1995 og sent K.Ó. m. upplýsingum úr gjörðabók Vonarfélagsins.

[571] Lbs. án safnnr., áðurnefnd skýrsla um framlög til smíði brúar á Korpu.

[572] Sama heimild.

[573] Minnisblað frá Guðm. I. Kr. dags. 20.7.1995 og sent K.Ó. m. upplýsingum úr gjörðabók Vonarfélagsins.

[574] Sama heimild.

[575] Lbs. án safnnr. Gögn úr fórum J. Guðm. búfræðings á Veðrará, dagbók hans frá árinu 1896.

[576] Sama heimild.

[577] Sama heimild.

[578] Sama dagbók 25.2.1896.

[579] Vegamál, júlí 1984.

[580] Sama heimild.

[581] Sama heimild.

[582] Sama heimild.

[583] Sóknalýs. Vestfj. II, 106.

[584] Sama heimild.

[585] Sóknalýs. Vestfj. II, 106.

[586] Óskar Ein. 1951, 16. Kristján Þorvaldsson 1951, 75.

[587] Óskar Ein. 1951, 16.

[588] Sama heimild.

[589] Sama heimild.

[590] Sama heimild.

[591] Sama heimild.

[592] L. Kr. 1953, I, 180-181 og sami 1960, III, 300.

[593] Lbs. 45824to, Dagb. J. Guðm. frá Grafargili 29.11.1880.

[594] Sama heimild.

[595] Sama dagbók 29.11.1880, 14.10.1884, 27.1.1888, 21.10.1888, 16.3.1891 og 30.11.1894.

[596] Sama heimild.

[597] Sama heimild.

[598] Þjóðólfur 21.7.1883.

[599] Sama heimild 30.7. og 11.8.1883.

[600] Sama heimild, 21.7.1883.

[601] Sama heimild.

[602] Kjartan Ólafsson 1987, 389.

[603] Alþingistíðindi 1883.

[604] Lbs. 45824to, Dagb. J. Guðm. frá Grafargili 25.3.1881.

[605] Sama heimild.

[606] Eyjólfur Jónsson 1991, 65-71.

[607] Sóknarm.tal Holtspr.kalls.

[608] Ársrit Sögufél. Ísf. 1990-1991, bls. 69-71.

[609] Lbs. 45824to, Dagb. J. Guðm. frá Grafargili 2.3.1885.

[610] Skjalasafn landshöfðingja. Ár 1888. Lh. N. J. N.nr 458. Bréf Skúla Thoroddsen,, sýslumanns í Ísafj.s. 14.4. 1888 til amtsráðs vesturamtsins og fylgiskjöl með því.

[611] Sama heimild.

[612] Sama heimild.

[613] Sama heimild.

[614] Sama heimild.

[615] Sama heimild.

[616] Guðm. I. Kr. 1983, 152-153 (Bóndi er bústólpi IV). Guðrún I. Jónsd. 1985, 137 (Bóndi er bústólpi VI).

[617] Guðm. I. Kr. 1983, 152-153.

[618] Sama heimild.

[619] Sama heimild.

[620] Sama heimild, 177.

[621] Þórður J. Magnússon 1985, 130-138.

[622] Sama heimild.

[623] Lbs. 45824to, Dagb. J. Guðm. frá Grafargili 8.12.1894.

[624] Sama dagbók 1.1.1895.

[625] Sama dagbók 24.2.1895.

[626] Sama dagbók 27.4.1895.

[627] Sama dagbók 31.12.1892.

[628] Sama heimild.

[629] Sama dagbók 5.1.1895.

[630] Sama dagbók 6.1.1895.

[631] Sama heimild.

[632] Sama heimild.

[633] Sama dagbók 31.12.1895.

[634] Lbs. 45824to, Dagb. J. Guðm. frá Grafargili 27.1.1888 og 23.2.1891.

[635] Sama dagbók 29.7.1888.

[636] Sama heimild.

[637] Jón Guðnason 1974, 62-68.

[638] Lbs. 45824to, Dagb. J. Guðm. frá Grafargili 14.12. og 27.12.1890.

[639] Sama heimild.

[640] Sama heimild.

[641] Sama dagbók 22.2.1892.

[642] Sama dagbók 3.3.1892 og Þjóðviljinn ungi 11.3.1892.

[643] Stjórnartíðindi 1896 A, bls. 14-17.

[644] Lbs. 45824to, Dagb. J. Guðm. frá Grafargili 14.12.1890, 27.12.1890, 8.4.1894 og 11.3.1895.

[645] Lbs. 45824to, Dagb. J. Guðm. frá Grafargili 8.4.1894.

[646] Sama heimild.

[647] Sama dagbók 29.1.1897.

1000-1900

Guðmundur Justsson

Á fyrri hluta 20. aldar var Guðmundur Justsson, sem fæddist á Gemlufalli haustið 1841,[1] einna kunnastur þeirra sem búið höfðu á Dröngum, a.m.k. utan Dýrafjarðar,

LESA MEIRA »
1000-1900

Krossadalur

Í Krossadal var löngum tvíbýli á fyrri tíð, Hærri- og Lægri- (eða Neðri-) Krossdalur, og voru þetta ystu bæir við Tálknafjörð. Stundum var reyndar þríbýli

LESA MEIRA »
1000-1900

Arnarstapi

Arnarstapi og Krossadalur voru tvær ystu jarðirnar á norðurströnd Tálknafjarðar og hafa nú báðar verið í eyði frá því um 1940.[1] Frá verbúðatóttunum í Arnarstapavík

LESA MEIRA »