Holt

Hinn forni kirkjustaður Holt í Önundarfirði á sér mikla sögu. Líklegt má telja að kirkja hafi verið reist í Holti á 11. öld. Í varðveittum heimildum verður hennar fyrst vart á síðari hluta 12. aldar og á dögum Þorláks helga Þórhallssonar, sem biskup var í Skálholti á árunum 1178-1193, náði kirkjan forræði yfir staðnum í Holti.[1] Holtskirkja varð snemma mjög auðug, enda var hún í kaþólsku talin önnur tveggja höfuðkirkna á Vestfjörðum. Til marks um það má nefna að á 14. og 15. öld urðu allir skattbændur sem bjuggu á svæðinu frá Kjálkafirði við Breiðafjörð að botni Seyðisfjarðar við Ísafjarðardjúp að greiða einn eyri á hverju ári (það er einn tuttugasta hluta úr kýrverði) til kirkjunnar í Holti.[2] Svæði þetta nær yfir alla Vestur-Ísafjarðarsýslu, alla Vestur-Barðastrandarsýslu og tæplega þrjá hreppa í Norður-Ísafjarðarsýslu.

Á síðari öldum var Holt í Önundarfirði löngum talið eitt besta brauð á landinu, enda var jörðin álitleg til búskapar og hinar miklu eignir kirkjunnar gáfu af sér drjúgan arð. Allt fram til síðustu aldamóta (1900) fóru tekjur prestanna eftir því hvað búskapurinn á prestssetrinu og eignir kirkjunnar sem hann þjónaði gáfu af sér. Í þessum efnum var munurinn milli hinna ýmsu prestakalla geysimikill. Við tekjumat sem fram fór árið 1737 var Holt í Önundarfirði talið annað besta brauðið á Vestfjörðum, aðeins Selárdalur í Arnarfirði var þá hærra metinn.[3] Við sams konar mat frá árinu 1884 lenti Holt aftur í öðru sæti, fyrir ofan Selárdal og Vatnsfjörð, en þá var Eyri í Skutulsfirði talin besta brauðið á Vestfjörðum[4] vegna margmennis í Ísafjarðarkaupstað. Eins og nærri má geta fengu jafnan færri en vildu að gerast prestar í Holti og þar komu sjaldan aðrir til greina en þeir sem mikils voru metnir eða áttu sér sterkar stoðir í fé og frændum. Á árunum 1538-1820 var ellefu prestum veitt Holtið.[5] Allir sátu þeir þar til æviloka nema sá síðasti[6] og segir það ærna sögu um auðsæld þá sem brauðinu fylgdi. Hefðina í þessum efnum rauf séra Þorvaldur Böðvarsson sem fór frá Holti 63ja ára gamall árið 1821 og hafði þá aðeins setið hér í ellefu ár.[7] Hér verður síðar sagt lítið eitt frá sumum prestunum í Holti en áður en sú kynning hefst mun vera við hæfi að gera dálitla grein fyrir sjálfum staðnum.

Hið fornfræga prestssetur Holt í Önundarfirði er innarlega á vesturströnd fjarðarins, um það bil miðja vega milli Hjarðardals og Bjarnardals. Umhverfis staðinn er víðáttumikið og vel gróið sléttlendi sem strax við fyrstu sýn gefur til kynna að hér muni vera gott undir bú. Kirkja og bæjarhús standa hér nú sem fyrr á svolítilli hæð sem ber yfir flatlendið í kring. Um síðustu aldamót (1900) stóð gamli bærinn á þessum sama hól en aðeins nær kirkjugarðinum.[8] Smiðjan náði þá inn í hornið á kirkjugarðinum eins og hann er nú en áður var garðurinn minni.[9] Heiman frá Holti eru um það bil 500 metrar til sjávar, þar sem styst er, en um 800 metrar að rótum fjallsins sem gnæfir hér yfir byggðinni með sínum dökku hamraveggjum. Það heitir Holtsfjall og efstu brúnir þess eru í nær 750 metra hæð yfir sjávarmáli. Ofan við túnið í Holti og í suður frá bænum er Holtsengið sem nær milli landamerkja og að rótum fjallsins. Þetta mikla slægjuland er gróðursælt mýrlendi þar sem gras þraut sjaldan eða aldrei. Sagt er að í allri sögu byggðarinnar við Önundarfjörð hafi allt Holtsengi aldrei verið slegið á einu sumri,[10] enda töldu flestir að í Holti væri nær ótakmarkað gras.[11] Neðan við túnið eru melar og vallgrónar grundir sem ná inn að Vaðli þar sem Bjarnardalsá fellur til sjávar. Skammt utan við Holt gengur langur sandoddi fram í fjörðinn og heitir Holtsoddi. Frá fremstu tánni á Oddanum er aðeins mjótt sund milli hennar og norðurstrandarinnar. Sund þetta heitir Holtsós og þar eru varla nema 300 metrar milli landa. Innan við ósinn breikkar fjörðurinn á ný en er þar mjög grunnur. Þar eru Vöðin sem hér er nánar sagt frá á öðrum stað en um þau lá alfaraleið ríðandi manna á fyrri tíð þó aðeins væri fært yfir þau þegar lágsjávað var.

Heiman frá Holti er mjög víðsýnt. Þaðan sér vel til hafs þó að bein loftlína út í fjarðarmynnið sé um það bil 16 kílómetra löng. Handan fjarðarins, andspænis Holtsoddanum opnast Breiðadalur og sitt hvoru megin við hann blasa við fjöllin Breiðabólsstigi sem er utar og Veðrarárfjall sem er beint á móti Holti.

Frá bæjarhólnum í Holti sést til allra bæja í Holtssókn nema eins,[12] bæði þeirra sem enn eru í byggð og hinna sem komnir eru í eyði. Nær allir sóknarmenn gátu því beint sjónum heim að Holti ef þess gerðist þörf. Eini bærinn sem ekki sást til var Efstaból.

Landareign staðarins í Holti skiptist í tvo hluta, heimalandið, þar sem beit fyrir sauðfé var minni en viðunandi gat talist á höfuðbóli, og sellandið frammi í Bjarnardal þar sem nóg var um beit. Hér verður nú leitast við að gera grein fyrir landamerkjum þessara tveggja aðskildu parta landareignarinnar og verður þá fyrst litið á heimalandið. Á ytri merkjum, sem eru á móti Þórustöðum, hefur þegar verið minnst (sjá hér Þórustaðir) en þau eru í fjallshlíðinni skammt fyrir innan mynni Hjarðardals þar sem Tvísteinar og Hlaðshryggur segja til um legu merkjanna og svo landamerkjaskurður sem þarna hefur verið grafinn. Niður við ströndina eru þessi landamerki rétt hjá Holtsnaustum sem eru utanvert við Holtsoddann er áður var nefndur.[13] Bugurinn utan við Oddann heitir Holtsbugur[14] og þar við Holtsnaust var helsta lending staðarmanna í Holti og þeirra sem bjuggu á Þórustöðum.[15]

Enn sér móta fyrir naustunum hér niður við sjóinn og eru Ytri-Holtsnaust rétt utan við línu sem hugsast dregin frá bænum á Þórustöðum í beina stefnu til sjávar.[16] Innri-Holtsnaust eru spölkorn innan við þessa sömu línu.[17] Bæði naustin rísa aðeins hærra en landið í kring og eru því auðfundin þó að tóttirnar séu orðnar ógreinilegar. Annað naustið var í notkun alveg til loka 18. aldar (sjá hér bls. 187-189 og 193) en mun hafa fordjarfast af sandi um aldamótin 1800. Í Ytri-Holtsnaustum sér enn móta fyrir veggjum en nærri liggur að sandinum hafi tekist að hylja þetta forna mannvirki. Fyrir fáum árum sáust hér enn hvolftré ef rótað var í sandinum[18] og í Ytri-Holtsnaustum var séra Jón Ólafsson í Holti, prestur þar 1929-1962, með skektu sem farið var á í kaupstað.[19] Ástand rústanna sem nú eru sjáanlegar í Holtsnaustum bendir hins vegar til þess að hið mikla sjávarhús prestanna í Holti sem stóð hér við sjóinn á 18. öld hafi verið í innri naustunum en þau eru rétt utan við endann á flugbrautinni sem hér er nú.

Að innanverðu eiga jarðirnar Vaðlar og Mosvellir land á móti Holti en báðar þessar jarðir standa í mynni Bjarnardals, Vaðlar vestan árinnar en Mosvellir austan hennar. Á móti Vöðlum á Holt land að Vaðalbotnsskriðu sem er allstór skriða í fjallshlíðinni skammt fyrir utan Vaðla. Skriðan kemur úr Holtsskál hér uppi í fjallinu.[20] Frá Illukeldu undir hlíðarfætinum liggur landamerkjalínan að annarri keldu og frá henni í Bjarnardalsá við brú á gamla akveginum sem nú er aðeins nýttur að hluta sem heimreið frá þjóðveginum að Vöðlum.[21] Sunnan og austan við Bjarnardalsá og Vaðalinn sem hún fellur í eiga Mosvellir nær allt land á þessum slóðum en Holt á þó sjávarhólmana, rétt innan við árósinn, og dálitla landræmu sem heitir Holtsfit og liggur upp með Vaðlinum og ánni að sunnan- eða austanverðu.[22] Kvísl sem ber nafnið Sjóarlæna rennur á landamerkjum Holts og Mosvalla sunnan við Sjóarhólma[23] Frá Holti að Vaðlinum og ósi Bjarnardalsár er tæplega einn kílómetri.

Hér hefur nú verið gerð grein fyrir landamerkjum heimalandsins í Holti en milli þess og sellandsins, sem hér var áður nefnt, liggja landareignir allra jarðanna í Bjarnardal en þær eru fjórar. Tvær fremstu jarðirnar í dalnum eru Tröð og Kirkjuból, sín hvorum megin ár, og eiga þær báðar land á móti staðnum í Holti því að selland staðarins er framar í dalnum. Landamerki Traðar og Holts eru heimantil við Holtsselið þar sem heitir Seljaleiti (sjá Firðir og fólk 1900-1999, 358) en merkin milli Kirkjubóls í Bjarnardal og Holts eru við Hádegisá (sjá Firðir og fólk 1900-1999, 360) sem fellur um austurhlíð dalsins og í Bjarnardalsá beint á móti Holtsselinu.[24] Vegalengdin frá Kirkjubóli fram að Holtsseli er um það bil tveir kílómetrar en frá Tröð eru þrír kílómetrar fram að selinu.

Framan við Seljaleiti og Hádegisá á Holt allt land í Bjarnardal, beggja vegna árinnar sem kennd er við dalinn, einnig Mjóadal sem er alllangur afdalur suðaustur úr Bjarnardal og heiðarlandið á Gemlufallsheiði allt að hreppamörkum við Folaldahvilftargil þar sem land Mýra í Dýrafirði tekur við (sjá hér Mýrar). Þetta er selland staðarins og þar er víða góð beit. Í Holtsseli hér frammi í Bjarnardal var búsmali síðast nytkaður að fornum hætti á árunum upp úr 1880 en enn síðar voru selhúsin notuð sem beitarhús. Við munum innan skamms staldra við hjá hinum fornu seltóttum á vesturbakka Bjarnardalsár og þá er ætlunin að fjalla nokkru nánar um seljabúskap Holtspresta og svipast um í sellandinu (sjá hér Arnkelsbrekka og Holtssel).

Í Gísla sögu Súrssonar er getið um Arnkelsbrekku í Bjarnardal[25] og á síðari hluta 14. aldar átti Holtskirkja jörð með því nafni sem þá virðist hafa verið í byggð eða nýlega farin í eyði.[26] Talið er að bær þessi hafi staðið um það bil mitt á milli Holtssels og Seljaleitis sem er lítið eitt heimar á dalnum.[27] Þennan stað nefndu menn Ekkilskot á fyrri hluta 20. aldar og mun að líkindum vera afbökun úr Arnkelskot.[28] Í Jarðabók Árna og Páls frá árinu 1710 segir svo um Arnkelsbrekku:

 

Arnkelsbrekka heitir í Bjarnadal skammt fyrir neðan Holts sel og í Holts lands eign. Þar sér til bæjarstæðis eður gamalla tóttaleifa og eru sagnir að hér hafi bær staðið, þó fyrir mörgum mannsöldrum og veit enginn til að segja nær það býli hafi eyðilagst.[29]

 

Í þúfnakarganum sem menn nefndu Ekkilskot gætu hæglega leynst tóttaleifar en ekki verður nú séð með ótvíræðum hætti hvar bærinn stóð. Hafi hann staðið mjög nálægt ánni er hugsanlegt að hún hafi náð að eyða tóttunum.

Með hliðsjón af því sem hér hefur verið sagt verður að telja mjög líklegt að fornbýlið Arnkelsbrekka hafi átt allt það land í Bjarnardal og Mjóadal sem Holt eignaðist síðar. Árið 1377 var kirkjan í Holti orðin eigandi jarðarinnar[30] og kynni að hafa eignast hana þó nokkru fyrr. Augljóst er að staðurinn í Holti hefur snemma þurft á meira beitilandi að halda en því sem kostur var á í heimalandinu. Af þeim ástæðum er líklegt að ekki hafi liðið mjög langur tími frá því Holtskirkja eignaðist Arnkelsbrekku uns staðarhaldarar í Holti ákváðu að búskap á fyrrnefndu jörðinni skyldi hætt og allt beitilandið sem henni fylgdi yrði lagt undir sjálft prestssetrið. Skýringin á því að landareign Holts skuli nú vera tvískipt getur hvað sem öðru líður varla verið önnur en sú að landareign Arnkelsbrekku, sem forðum var sjálfstæð bújörð, hafi verið lögð undir Holt og sameinuð heimajörðinni þó að landamerki þessara tveggja jarða lægju hvergi saman.

Í um það bil sjö aldir var Holt í Önundarfirði kirkjulén undir forræði biskups en svo var litið á að slíkir staðir væru eins konar sjálfseignarstofnanir. Þegar dýrleiki annarra jarðeigna í landinu var metinn til hundraða var slíkum kirkjustöðum yfirleitt sleppt og því er í rauninni ekki unnt að segja til um hversu hátt jörðin var virt að fornu mati. Í Jarðabók Árna og Páls frá byrjun 18. aldar er tekið fram að jarðardýrleiki sé óviss[31] en skömmu fyrir miðja 19. öld virðast einhverjir nákomnir hafa séð sér hag í að koma þeirri kenningu á flot að rétt væri að meta Holtið á 12 hundruð.[32] Vart þarf að taka fram að slíkt mat á þessari vildisjörð hlýtur að teljast gjörsamlega fráleitt og andstætt allri skynsemi en vera má að sandfokið sem þá herjaði (sjá hér Þórustaðir, Innri-Hjarðardalur og Ytri- Hjarðardalur) hafi valdið því að slíkri tölu var slegið fram. Til þess að nálgast skynsamlegt mat á jarðardýrleika Holts er þó nauðsynlegt að líta í aðra átt.

Við fasteignamatið sem fram fór á árunum kringum 1920 var landverð hverrar bújarðar metið og gefið upp í krónum. Hinir fornu kirkjustaðir sem höfðu átt sig sjálfir voru þá ekki lengur undanskildir. Að því sinni var bújörðin Holt virt á kr. 8.300,- og þar með hærra en nokkur önnur jörð í Önundarfirði, og er þá eingöngu átt við landverð en húsin sem á jörðinni stóðu ekki tekin með.[33] Nærri lætur að við þetta mat hafi meðalverð á hverju jarðarhundraði í Mosvallahreppi verið talið nema 134,- krónum[34] og samkvæmt því ætti dýrleiki staðarins í Holti að hafa verið liðlega 60 hundruð að fornu mati. Þá niðurstöðu mun vera óhætt að líta á sem allgóða vísbendingu um jarðargæði í Holti.

Hér hefur áður verið minnst á hið mikla gras í heimalandinu og beitiland var nóg fram í Bjarnardal og Mjóadal. Margvísleg hlunnindi fylgdu líka jörðinni og má þar nefna selveiði, rauðmagaveiði í Holtsós, silungsveiði í Bjarnardalsá og gott mótak.[35] Í Jarðabók Árna og Páls frá árinu 1710 er gert lítið úr rauðmagaveiðinni en sagt að hún hafi áður verið meiri.[36] Í Jarðabókinni er líka getið um egggver af kríu ofantil við Holtsodda og þar sjáum við að stundum var róið til fiskjar frá Holtssjó, einkum á haustin.[37] Um sjósóknina segir annars svo í Jarðabókinni:

 

Útræði getur hér verið en langræði er ærið mikið og ganga því skip staðarhaldarans utar í Önundarfirði, á Kálfeyri eður og annars staðar þar haga þykir. Á haustin kann þetta útræði að brúkast, þá svo á stenst.[38]

 

Enda þótt gott væri undir bú í Holti var jörðin ekki gallalaus. Helsti bölvaldurinn var sandfokið frá Holtsodda sem hér hefur áður verið minnst á. Í Jarðabókinni frá 1710 er tekið fram að sandurinn hafi valdið miklum spjöllum á engi og heimahögum jarðarinnar[39] og í sóknalýsingu séra Tómasar Sigurðssonar frá árinu 1840 er gert enn meira úr þessu vandamáli. Þar er fullyrt að mikill partur túnsins í Holti sé orðinn að einlægum sandi, af hverjum það umgirðist að norðan og vestan.[40] Að sögn séra Tómasar voru hinar góðu engjar í Holti líka fordjarfaðar af sandi á hans dögum.[41] Seinna var hafist handa um sandgræðslu  og mun hafa tekist vel.

Í Landnámabók er Eyri sögð vera landnámsjörðin í hinum forna Mosvallahreppi[42] en þar er ekki getið um Holt. Engar heimildir hafa varðveist um upphaf byggðar í Holti en telja verður mjög líklegt að fólk hafi sest hér að strax á landnámsöld. Á liðnum öldum munu ýmsir hafa reynt að geta sér til um eitt og annað sem varðaði fyrstu byggð á þessum forna kirkjustað og ein slík saga er á þessa leið:

 

Þóra hét kona sem bjó á Þórustöðum í heiðni. Hún sá ljós í landsuður af bæ sínum á holti sem þá var kallað Berholt. Ef kýr hennar komu þar nálægt lét hún hella niður mjólkinni úr þeim næsta mál á eftir. Seinna var bærinn Holt byggður á Berholti og Holtskirkja þar sem ljósið hafði sést.[43]

 

Í Gísla sögu Súrssonar er getið um Þorvarð bónda í Holti og húskarla hans tvo sem urðu ósáttir og börðust með ljám.[44] Á sinni örlagaríku ferð frá Hesti í Önundarfirði að Haukadal í Dýrafirði kom Vésteinn Vésteinsson við í Holti og sætti þessa tvo húskarla Þorvarðar bónda, að sögn höfundar Gísla sögu.[45]

Í samanlögðum Íslendinga sögum er aðeins getið um Holt í Önundarfirði á þessum eina stað og orðin sem þar standa segja okkur það eitt að á ritunartíma sögunnar, um 1250, hafi menn talið sjálfsagt að gera ráð fyrir að búið hafi verið í Holti á síðari hluta 10. aldar þegar atburðir þeir sem frá er sagt í Gísla sögu áttu að hafa skeð.

Elstu fréttirnar frá Holti sem kallast geta sæmilega öruggar er að finna í Árna sögu biskups en þar er frá því greint að allt frá dögum hins sæla Þorláks biskups hafi Skálholtsbiskupar haft forræði yfir staðnum í Holti.[46] Þorlákur biskup sem þarna er nefndur getur enginn annar verið en Þorlákur helgi Þórhallsson sem biskup var í Skálholti á árunum 1178-1193. Kunn er barátta hans fyrir því að ná sem flestum kirkjustöðum úr höndum bænda og veraldlegra höfðingja undir forræði kirkjunnar í samræmi við boðskap erkibiskups.[47] Í þeirri lotu virðist honum hafa tekist að ná staðnum í Holti undir kirkjuvaldið en á Suðurlandi fór hann að lokum halloka er Jón Loftsson í Odda, sem þá var voldugasti maður landsins, neitaði að hlýða boðskap erkibiskups.

Enginn veit nú hvenær kirkja var fyrst reist í Holti en ætla má að guðshús hafi staðið þar um alllangt skeið áður en Þorlákur helgi náði staðnum úr höndum leikmanna á síðasta fjórðungi tólftu aldar. Um presta og bændur í Holti fyrir daga Þorláks helga er allt ókunnugt. Í Prestatali og prófasta er Steinþór Bjarnason sagður hafa verið prestur í Holti á árunum kringum 1200.[48] Óvíst verður þó að telja að svo hafi verið[49] og ekkert verður um það fullyrt hver húsum réð í Holti á fyrsta áratug 13. aldar, þegar Þorvaldur Snorrason Vatnsfirðingur átti þar skamma dvöl svo sem frá er greint í Hrafns sögu Sveinbjarnarsonar.[50]

Fyrsti presturinn sem þekktur er með nafni og fullvíst er að sat í Holti er Steinþór Steinþórsson sem uppi var á fyrri hluta 13. aldar og nefndur er bæði í Íslendingasögu Sturlu Þórðarsonar og í Þórðar sögu kakala.[51] Við Steinþór prest í Holti verður fyrst vart vorið 1230 er Sturla Sighvatsson reið í Holt með hundrað manna til að lúka upp gerðum og kveða á um sektargjöldin sem Vatnsfirðingar ættu að greiða fyrir Sauðafellsför sem farin hafði verið árið áður.[52] Er Sturla kom í Önundarfjörð fór Steinþór prestur til móts við hann að Arnkelsbrekku[53] sem var fyrsti bær fyrir norðan Gemlufallsheiði og bauð hinum vígreifa Dala-Frey heim til sín. Sturla var í Holti um nóttina, segir þar, og lét vaka átján menn, níu í hvorn hlut.[54] Morguninn eftir kom Þórður Vatnsfirðingur Þorvaldsson í Holt utan úr Valþjófsdal og lauk Sturla þá upp gerðum um víg og áverka á mönnum og flestum öðrum sökum en fjörráðum við sig. Galt Þórður þá níu tugi hundraða.[55]

Árið 1235 átti Steinþór prestur í Holti þátt í að koma boðum norður í Vatnsfjörð til Órækju Snorrasonar og vara hann við fjörráðum sem ýmsir þeir er áður fylltu flokk hans í Vatnsfirði voru nú farnir að brugga honum.[56] Einn þeirra sem taldir voru eiga hlut að fjörráðunum eða hafa vitneskju um þau, án þess að vara Órækju við, var Illugi, sonur Þorvaldar Snorrasonar Vatnsfirðings,[57] en Þorvaldur hafði verið kvæntur Þórdísi Snorradóttur, systur Órækju. Veturinn 1234-1235 stökk Illugi brott úr Vatnsfirði eftir jól[58] og mun Órækja hafa haft á honum illan grun.

Árið 1236 var Órækja hrakinn úr landi og kom ekki aftur til Íslands fyrr en þremur árum síðar.[59] Illugi Þorvaldsson var þá farinn að búa í Æðey[60] og þótti líklegur til höfðingja við Ísafjarðardjúp.[61] Sumarið 1241 stefndi Órækja honum til fundar við sig hér í Holti.[62] Illugi kom til fundarins á tilsettum degi og hafði aðeins með sér átta menn.[63] Litlu síðar hinn sama dag kom Órækja í Holt með sveit sína vestan um heiði.[64] Illugi bað þá Steinþór prest að vera við tal þeirra. Frá atburðum í Holti þennan dag segir Sturla Þórðarson á þessa leið:

 

Órækja kallaði Illuga á tal þá er hann kom og gengu þeir allir austur með kirkjugarði og norður um þaðan. Órækja bað fólkið eigi eftir ganga. Þeir Steinþór prestur og Gísli af Sandi voru eftir í kirkjugarði. En þeir Órækja og Illugi gengu frá öðru fólkinu og þar með þeim Þórarinn staur og Ásgrímur baulufótur. Þeir höfðu talað um daginn áður þrír. Órækja tók þá til Illuga og mælti: „Nú skal launa þér fjörráðin”,  − og sté fyrir fætur Illuga og felldi hann en Þórarinn vá að honum. Eftir það fóru Illuga menn í braut og eigi erindi fegnir. En þeir Órækja voru leystir. Síðan sá prestur fyrir líki Illuga en Órækja fór að erindum sínum þar um fjörðu.[65]

 

Svo virðist sem Steinþór prestur í Holti hafi verið meiri vinur Órækju en Illuga. Í frásögninni sem hér var tekin upp er þess getið að Órækja og hinir mennirnir tveir sem stóðu að drápi Illuga hafi þegar í stað verið leystir sem hlýtur að merkja að þeim hafi að kristnum sið verið veitt aflausn fyrir ódæðisverkið. Þá aflausn mun staðarpresturinn í Holti hafa veitt.

Í Þórðar sögu kakala eru á einum stað taldir upp margir helstu bændur í Ísafjarðarsýslu árið 1242 og þar er Steindór Steindórsson prestur í Holti talinn með.[66] Full ástæða er til að ætla að þar sé átt við hinn sama Steinþór prest og séð hafði fyrir líki Illuga Þorvaldssonar sem veginn var í Holti einu ári fyrr. Gera má ráð fyrir að það hafi verið Steinþór prestur sem lánaði Þórði kakala og mönnum hans staðarferju úr Holti sem var eitt skipa Þórðar í Flóabardaga sumarið 1244.[67] Að loknum bardaga voru skipin ófær til ferðar svo liðsmenn Þórðar, víðs vegar að af Vestfjörðum, urðu að ganga hver heim til sín norðan úr Trékyllisvík á Ströndum − sumir hið efra um fjöll allt til Barðastrandar og komu hverjir þar ofan í fjörðuna sem heima áttu.[68] Sjálfur fór Þórður norður í Furufjörð og þaðan landveg til Önundarfjarðar[69] en mun þó hafa látið ferja sig yfir Djúpið. Hin mikla sjóorrusta sem menn nefna Flóabardaga var háð 25. júní og Pétursmessumorgun, það er á Pétursmessu og Páls sem er 29. júní, kom Þórður í Holt[70] en þar átti hann vinum að mæta, hvort sem Steinþór prestur hefur enn ráðið þar húsum eða breyting verið orðin á í þeim efnum.

Er Þórður sat yfir borðum í Holti og hans menn allir næsta dag kom njósnarmaður með þau tíðindi að erkióvinurinn, Kolbeinn ungi, væri kominn með skipalið að orðan fyrir Horn.[71] Var þá ekki til setunnar boðið og nýr liðsafnaður hafinn þegar í stað.[72] Kolbeinn fór þó aldrei lengra en í Æðey þar sem hann stefndi mörgum Djúpmönnum til fundar við sig og lét þá sverja sér trúnaðareiða.[73]Skutust þá margir við Þórð í trúnaðinum og fóru til fundar við Kolbein, segir höfundar Þórðar sögu.[74] Til nýs bardaga kom ekki og fór Kolbeinn brátt norður en Þórður kvaddi í Holti og stefndi suður á Breiðafjörð.[75]

Á árunum 1269-1298 var Árni Þorláksson biskup í Skálholti og átti í hörðum deilum við leikmenn um forræði yfir kirkjustöðunum. Helsti andstæðingur Árna biskups í þessum deilum var Hrafn Oddsson sem hafði barist með Þórði kakala í Flóabardaga sumarið 1244, þá 18 ára gamall, en varð árið 1270 umboðsmaður konungs á Vestfjörðum.[76] Hrafn Oddsson var dóttursonur Hrafns Sveinbjarnarsonar á Eyri við Arnarfjörð og átti þar heima á sínum yngri árum[77] en seinna á Sauðafelli í Dölum og í Glaumbæ í Skagafirði.[78] Árið 1279 varð Hrafn hirðstjóri yfir öllu landinu[79] og fáum árum síðar náðu deilur þeirra Árna biskups um kirkjustaðina hámarki.

Árið 1284 náðu leikmenn forræði yfir 17 kirkjustöðum sem áður höfðu lotið valdi biskups.[80] Einn þessara staða var Holt í Önundarfirði[81] sem þá hafði verið undir forræði kirkjuvaldsins í um það bil 100 ár eða allt frá dögum Þorláks biskups helga. – Eiríkur Marðarson og Sveinbjörn Súðvíkingur tóku Holtskirkju í Önundarfirði, segir í Árna sögu biskups þar sem greint er frá atburðum ársins 1284[82] en þeir voru báðir liðsmenn Hrafns Oddssonar.[83] Eiríkur bjó á Eyri við Arnarfjörð[84] en Sveinbjörn að líkindum í Súðavík. Ekki er kunnugt um að Eiríkur eða Sveinbjörn hafi talið sjálfa sig eiga nokkra persónulega kröfu til umráða yfir staðnum í Holti[85] en svo virðist sem þeir hafi verið fúsir til að ganga fram fyrir skjöldu í baráttu leikmanna gegn kirkjuvaldinu.

Árni biskup lét nú hart mæta hörðu og neitaði að una yfirráðum leikmanna á kirkjustöðunum. Haustið 1285 útnefndi hann Þorvald prest Helgason sem staðarhaldara í Holti og fól honum að gegna þar prófastsdæmi.[86] Höfundur Árna sögu biskups kemst svo að orði að haustið 1285 hafi biskup falið Þorvaldi að gegna prófastsdæminu vestra af nýju,[87] en það orðalag bendir eindregið til þess að Þorvaldur hafi verið prestur og staðarhaldari í Holti árið 1284 þegar Eiríkur Marðarson og Sveinbjörn Súðvíkingur tóku þar öll völd í sínar hendur. Líklegt er að Þorvaldur prestur Helgason, sem biskup setti yfir Holt haustið 1285, hafi þá verið nýkominn úr Grænlandsleiðangri en þangað er hann talinn hafa farið um vorið eða sumarið það sama ár. – Fundu Helgasynir Nýjaland, Aðalbrandur og Þorvaldur, segir í Konungsannál þar sem getið er helstu atburða ársins 1285[88] og í öðrum annál er sama frétt sögð með þessum orðum: Helgasynir sigldu í Grænlands óbyggðir.[89] Vitað er að Þorvaldur prestur í Holti átti Aðalbrand fyrir bróður[90] og báðir voru þeir synir Helga Lambkárssonar.[91] Með hliðsjón af því hafa menn leyft sér að draga þá ályktun að það hafi verið þessir bræður sem fóru til Grænlands sumarið 1285 enda mun nafnið Aðalbrandur hafa verið harla fátítt svo hér leikur varla nokkur vafi á.[92]

Um traust Árna biskups á Þorvaldi presti haustið 1285 þarf enginn að efast því verkefnið sem honum var falið á hendur að  rækja hentaði ekki öðrum en þeim sem kallast máttu færir í flestan sjó. Óvíst er hvort Þorvaldur hefur náð undir sig staðnum í Holti haustið 1285 eins og til var ætlast af biskupi því að Hrafn Oddsson, sem enn var foringi leikmanna, brást við hart er hann frétti að biskup hefði á ný sett Þorvald yfir staðinn í Holti. Í bréfi sem Hrafn ritaði Árna biskupi um þetta leyti tekur hann svo til orða:

 

Vitið það til víss að meðan ég hefi sýslu af Noregskonungs hendi í Vestfjörðum skal Þorvaldur eigi hafa prófastsdæmi og eigi hefur hann staðinn í Holti nema hann verði ríkari en ég.[93]

 

Sumarið 1286 fór Árni biskup sjálfur vestur á firði. Á Maríumessu síðari, þann 8. september, var hann í Holti og þar bannfærði hann Eirík Marðarson á Eyri í Arnarfirði[94] sem staðið hafði fyrir töku staðarins rösklega tveimur árum fyrr. Fleiri sakir voru þá bornar á Eirík, m.a. sú að hann hefði borið um Vestfirði þau bréf Hrafns Oddssonar sem opinberlega skylduðu menn til að brjóta niður biskuplegt vald og kirkjunnar rétt.[95]

Á þessari yfirreið biskups um Vestfirði sumarið 1286 var Þorvaldur prófastur Helgason í för með honum og er þeir komu í Langadal við Ísafjarðardjúp sendi biskup Þorvald aftur heim í Holt en biskup reið áfram yfir Steingrímsfjarðarheiði til fundar við Hrafn Oddsson sem bjó á þessum árum í Glaumbæ í Skagafirði.[96] Áður en biskup sendi prófastinn úr Holti til baka hafði hann fengið þær fréttir að Hrafn ætlaði sér að handtaka Þorvald er flokkur biskups kæmi í Steingrímsfjörð.[97] Í viðræðum Árna biskups og Hrafns á næstu dögum urðu þeir ásáttir um að skjóta deilumálum sínum undir dóm konungs og erkibiskups í Noregi.[98]

Sumarið 1287 lét Hrafn dæma alla þá menn útlæga sem herra biskup skipar á staði og kirkjueignir þær sem hann [Hrafn] kallaði leikmenn eiga eins og segir í Árna sögu biskups.[99] Þessi útlegðardómur var kveðinn upp með lófataki á Alþingi en biskup kallaði alla þá í banni sem á þessu þingi höfðu verið.[100] Á Vestfjörðum gerði Hrafn sérstakar ráðstafanir þetta sama sumar. Þar lét hann í hverri kirkjusókn lesa upp bréf frá sér þar sem tilkynnt var:

 

… að hver sá maður sem séra Þorvald héldi fyrir formann eða veitti honum nokkra hlýðni eða honum festi nokkurt mál skyldi heita landráðamaður og hafa fyrirgert fé og friði og þeir menn sem þennan Þorvald verðu eða styrktu skyldu réttlausir vera fyrir konungsmönnum.[101]

 

Á Önfirðinga lagði Hrafn þá sérstöku kvöð að hrekja Þorvald frá staðnum í Holti og tryggja yfirráð leikmanna þar með góðu eða illu.[102]

Vorið 1288 sat Þorvaldur þó enn í Holti en þá reið Hrafn vestur í því skyni að handtaka þennan umboðsmann biskups á Vestfjörðum.[103] Þegar Hrafn kom að Holti var Þorvaldur kominn í kirkju og settust norðanmennirnir um kirkjuna.[104] Áður en langur tími leið gekk Þorvaldur á vald herra Hrafni og hét öll sín mál undir hann að leggja og þó að haldinni hlýðni við guð og heilaga kirkju og biskup sinn, eins og segir í sögunni.[105]

Ekki mun biskupi hafa þótt Þorvaldur standa sig sem skyldi í baráttunni við Hrafn, enda bárust nú þær fréttir suður í Skálholt að þessi helsti trúnaðarmaður biskups á Vestfjörðum hefði sukkað kirknafjám í Holti og Vatnsfirði.[106]

Svo virðist sem Hrafn hafi fljótlega sleppt Þorvaldi úr haldi því að um hvítasunnu þetta sama vor var sá síðarnefndi kominn suður í Skálholt.[107] Þar fékk hann hins vegar heldur óblíðar móttökur hjá biskupi sem brátt fór að krefja hann um greiðslu á fé því sem Þorvaldur skuldaði kirkjunum fyrir vestan og einnig mági sínum er leitað hafði á náðir biskups vegna skuldakröfu á Þorvald prest.[108] Meðal þess sem Þorvaldur hafði fram að bjóða upp í skuldirnar var náhvalstönn sem var að minnsta kostu hálfur þriðji metri á lengd, á fimmtu öln, en að sögn höfundar Árna sögu biskups hafði Þorvaldur fengið tönnina með klókskap hjá bónda nokkrum á Vestfjörðum.[109]

Þegar Þorvaldur fann að reiði biskups við sig var ærin orðin taldi hann þann kost vænstan að biðja sér orlofs til siglingar.[110] Þeirri bón neitaði biskup[111] en hinn sukksami prófastur af Vestfjörðum ákvað að virða þá synjum að vettugi og bjó sig til siglingar í Hvítá orlofslaust.[112]

Sumarið 1288 lögðu þeir allir upp í siglingu til Noregs – Árni biskup, Hrafn Oddsson og Þorvaldur Helgason en biskup hafði þá með sér náhvalstönnina er áður var nefnd og kvaðst myndu gefa hana Eiríki konungi Magnússyni,[113] sem þá réði ríkjum í Noregi og nefndur hefur verið Eiríkur prestahatari. Þeir Árni biskup og Hrafn komust báðir til Noregs en kaupskipið sem Þorvaldur hafði tekið sér far með strandaði skömmu eftir að látið var úr höfn svo hann varð afturreka.[114]

Næsta vetur, 1288-1289, sat Þorvaldur í Holti en prófastsembættið mun hann þá hafa verið búinn að missa – og gekk eigi í kirkju.[115] Aftur á móti hafði hann sér við hlið manns konu þá er Valgerður hét og var Gunnarsdóttir og fékk þar af mikla ófrægð.[116] Þennan sama vetur gegndi Runólfur Sigmundsson, ábóti í Veri, störfum biskups vegna fjarveru Árna Þorlákssonar og lét hann þau boð berast til Noregs vorið 1289 að nú væri uppvíst orðið að Þorvaldur í Holti hefði fleiri kirkjum rangt gert og sukkað í sumum stöðum Rómarskatti í Vestfjörðum.[117]

Sumarið 1289 kvaddi Þorvaldur Helgason sitt heimafólk í Holti og hélt til skips á ný.[118] Að því sinni komst hann til Noregs en mun hafa andast þar fáum mánuðum síðar.[119] Í Árna sögu biskups er greint frá undarlegum veikindum Þorvalds síðustu mánuðina sem hann lifði og allt kapp lagt á að sýna fram á að óhlýðni prófastsins við biskup og heilaga kirkju hafi kallað yfir hann þjáningar og dauða. Þar er greinilega um áróðursskrif að ræða sem varasamt er að taka mikið mark á en hvað sem sannleiksgildinu líður þá er frásögnin skemmtileg og má kallast gott dæmi um áróðurstækni íslenskra fulltrúa Rómarkirkjunnar á þessum tíma. Um utanferð Þorvaldar sumarið 1289, veikindi hans og dauða kemst höfundur sögunnar meðal annars svo að orði:

 

Á þessu sumri fór Þorvaldur í skip að nýju í ólofi Runólfs ábóta. … en svo fór sigling hans að þeir létu skip við Færeyjar en tóku allir land. Í þessi ferð henti hann hörmulegt tilfelli að þar áður var hann sakir frænda og framkvæmda og mikilla mennta öruggur ásóknarmaður óvina guðs kristni, meðan hann hélt trúnað við sinn herra, var hann gripinn af óhreinum anda svo harðlega að til heilagrar Magnúskirkju leiddu hann tíu menn fyrir nauðsyn og inn í kirkju … Nú er þeir komu með þennan mann í kirkjuna varð hann svo ólmur í æði að hann féll sem dauður niður í höndum þeim og þau bein sem áður voru sterk um eðli fram urðu nú blaut og breyskleg móti allri náttúru. Lofaði hann þá lifandi guð, júngfrú Máríu og Magnús kirkjudrottinn.

Þeir voru sem svo töluðu hégómlega um þetta og sögðu orðið af sterkri drykkju og það hefði valdið æði hans. En til prófunar að illa er satt vitjaði þetta mein hans eftir það hann kom í Noreg á fund herra Eiríks konungs. Voru og þeir menn er það sönnuðu að þá er hann tók að ásaka sinn herra fyrir Eiríki konungi sótti hann hin sama meinsemd. Geymdu hans þá fyrst íslenskir menn og síðan norrænir. Var þá gerr bakstur nokkur sérlegur og bundinn við höfuð honum en það dugði ei. Andaðist hann í þessi hörmung.[120]

 

 

Þess skal getið að steinveggir Magnúsarkirkjunnar, sem reist var í Kirkjubæ í Færeyjum á síðari hluta 13. aldar, standa enn og geyma minninguna um æði séra Þorvaldar í Holti þar innan og utan dyra fyrir liðlega 600 árum.

Deilunum um forræði yfir kirkjustöðunum lauk með sættargerð Árna biskups og Eiríks konungs sem gengið var frá í Ögvaldsnesi í Noregi árið 1297. Meginatriði samkomulagsins var að þeir staðir sem kirkjan átti alla skyldu lúta forræði biskups en hinir sem leikmenn áttu, þó ekki væri nema að hálfu, skyldu vera undir þeirra forsjá.[121] Holt í Önundarfirði var einn þeirra staða sem komu í hlut kirkjunnar manna við þessa uppskiptingu og réttur Skálholtsbiskupa til yfirráða þar mun aldrei hafa verið dreginn í efa næstu aldirnar.

Hér hefur nú verið sagt lítið eitt frá tveimur fyrstu prestunum sem um er vitað að setið hafi í Holti, þeim Steinþóri Steinþórssyni, sem uppi var á fyrri hluta 13. aldar, og Þorvaldi Helgasyni sem kemur við sögu á árunum 1284-1289. Níu aðrir kaþólskir prestar sem sátu í Holti eru einnig þekktir með nafni og sitthvað kunnugt um suma þeirra. Um Holt og Holtspresta í kaþólskum sið hefur Ólafur Þ. Kristjánsson birt ágæta ritgerð í Ársriti Sögufélags Ísfirðinga frá árinu 1972[122] og verður því farið hér fljótt yfir sögu.

Þriðji presturinn í Holti sem menn kunna að nefna hét Ormur og var nefndur Lang-Ormur.[123] Hann var prestur í Holti árið1323 og prófastur um Vestfjörðu eins og komist er að orði í Lárentíus sögu.[124] Um Lang-Orm er það eitt vitað að hann var kvaddur til að taka sæti í gerðardómi sem settur var á fót til að útkljá deilu um biskupstíundir í Hólastifti.[125]

Fjórði Holtspresturinn sem sögur fara af er Þorstein Pálsson sem menn kölluðu Þorstein bút. Hann tók við staðnum í Holti árið 1326 og var þá um leið gerður að prófasti[126] eins og tíðkast hafði um fyrirrennara hans. Tólf árum síðar tók þessi kirkjuhöfðingi þátt í bardaga sem háður var á Þingeyri á dýradag. Þar var særður séra Þorsteinn butr prófastur og margir menn aðrir, segir í frásögn Gottskálksannáls af bardaganum á Þingeyri.[127]

Enginn veit nú hvers vegna prestur þessi var nefndur bútur. Vera má að hann hafi misst fót eða handlegg í orrustu en haldið þó eftir svolitlum bút. Í Íslenskum æviskrám er Þorsteinn bútur sagður hafa orðið gamall maður. Hann er þar talinn fæddur um 1270 en sagður hafa dáið árið 1367.[128] Ekki verður þó séð að nokkrar heimildir sem á er byggjandi liggi fyrir um þetta.

Vel má vera að Þorsteinn bútur hafi enn verið prestur í Holti sumarið 1354 þegar Gyrðir biskup Ívarsson hélt þar eins konar prestastefnu og setti reglur um predikanir, frillur presta, aflausnir og fleira.[129] Í þeirri reglugerð er margt tekið fram, meðal annars þetta:

 

Að hver prestur í sinni kirkjusókn prediki fyrir sínu sóknarfólki á sunnudaga og á hátíðisdaga af heilagri trú almennilegri og hennar articulis, af septem sacramentis og af sjö höfuðsyndum, himinríkis fögnuðum og helvítis pínum.

…Item að hver sú kona sem opinber hefur orðið að barneign með presti sé hvergi til heimilis í hans kirkjusókn … ella er hún sjálfsett út af heilagri kirkju og hennar sacramentis utan í lífsháska svo framt sem hún trúlofar að bæta við heilaga kirkju.

… Item að bænhús þau sem biskup lofar söng að hafi þvílíkan rétt á sér og þyrmslur sem aðrar sóknarkirkjur svo að hver sem þaðan tekur góss annars manns með stuldi, gripi eður ráni eður nokkurs konar ofvaldi, falli sá í bann af sjálfu verkinu.[130]

 

Þarna var líka kveðið á um að þeir sem ekki sæktu kirkju þrjá drottinsdaga í röð skyldu gjalda umboðsmanni biskups 2 aura (einn tíunda hluta úr kýrverði) nema þeir gætu gefið fullgildar skýringar á fjarveru sinni.[131]

En sæti einhver heima í sex vikur án þess að koma til kirkju skyldi sá hinn sami settur út af sakramentinu og honum meinað að njóta náðarmeðala kirkjunnar uns hann hefði skriftað, greitt sína sekt og fengið aflausn.[132]

Fimmti maður í röð nafnkunnra Holtspresta er Nikulás Þorsteinsson sem veginn var í Holti á Pétursmessu árið 1377 eða máske 1378.[133] Í Gottskálksannál er frá því greint að Oddgeir Þorsteinsson, biskup í Skálholti, hafi komið í Holt árið 1377 og hreinsað kirkjuna þar.[134] Gera má ráð fyrir að sú hreinsun hafi tengst vígi Nikulásar prests sem ef til vill hefur verið veginn í kirkjunni.

Í Vilkinsmáldaga frá árinu 1397 er presturinn, sem hafði staðarforráð í Holti þegar máldaginn var skrifaður, sagður heita Sæmundur[135] en föðurnafns hans er ekki getið. Sæmundur þessi er sjötti presturinn í Holti sem hægt er að nefna en sá sjöundi er Ólafur Ísleiksson sem sannanlega var kominn í Holt árið 1443. Á því ári sendi séra Ólafur biskupi kæru um vangreiðslu á eyristollinum[136] sem allir skattbændur á svæðinu frá Kjalkafirði við Breiðafjörð að botni Seyðisfjarðar við Ísafjarðardjúp áttu að gjalda til Holtskirkju (sjá hér bls. 1).

Séra Ólafur Ísleiksson var enn á dögum um 1460 og var þá prófastur í allri Ísafjarðarsýslu, milli Geirólfsgnúps og Langaness.[137] Fyrir hönd kirkjunnar í Holti festi séra Ólafur kaup á tveimur jörðum. Önnur þeirra var Kjaransvík á Norðurströndum sem hann keypti af Vatnsfjarðar-Kristínu árið 1448[138] en hin Lækur í Dýrafirði sem hann keypti af tengdadóttur Kristínar, Ólöfu ríku Loftsdóttur, árið 1459.[139] Báðar þessar jarðir héldust síðan mjög lengi í eigu Holtskirkju.[140]

Á dögum séra Ólafs Ísleikssonar var þeim sem sóttu kirkjuna í Holti með reglubundnum hætti boðið upp á að verða leystir frá öllum sínum syndum og áttu þeir kost á að fá 40 daga aflát fyrir hvern messudag.[141] Slík skipan var tekin upp árið 1452 að boði Gottskálks Kænikssonar, biskups á Hólum, en hann fór þá einnig með biskupsvald í Skálholtsbiskupsdæmi.[142]

Reyndar var það ekki kirkjusóknin ein sem skar úr um hvort menn fengju syndaaflausn hjá prestinum í Holti því hana var unnt að tryggja sér með margvíslegu móti samkvæmt áðurnefndu bréfi Gottskálks biskups. Með gjöfum til kirkjunnar eða störfum í hennar þágu gátu menn keypt sér 40 daga aflát og sams konar syndakvittun fengu þeir sem mestum tíma eyddu í bænagerðir og iðkun helgisiða. Í biskupsbréfinu sem skrifað var í Holti 31. ágúst 1452 er komist svo að orði um þetta:

 

40 daga í aflát fyrir sérhvern þessara daga [þ.e. fyrir að sækja kirkju á þeim messudögum sem upp eru taldir í bréfinu] – þeim og er sitt starf eður þjónustu eður góss leggja til uppheldis þessari kirkju eða henni gjöra nokkur hlunnindi svo sem er vax eður önnur ornamenta undir sömu grein – 40 daga þeim og sem þrjá tíma lesa pater noster og svo oft versit ave María við fyrstu hringing um morgna og síðustu um kvöld og þeir sem ljósta á brjóst sér í messunni þá er presturinn segir nobis quoque peccatoribus – 40 daga hversdagslega fyrir sérhvert þetta fyrir predikun hvern tíma hverjum er heyrir. Enn 40 daga þeim og sem ganga umhverfis kirkjuna biðjandi fyrir þeim sem jarðaðir eru í kirkjunni eður kirkjugarðinum og fyrir öllum kristnum sálum. Þeir og sem fylgja vors herra líkama þann tíma sem hann berst til sjúkra manna og svo til síðustu smurningar. – 40 daga fyrir sérhverja þessa grein. Skal þessi vor skipan standa um aldur og ævi upp héðan.[143]

 

Ekki virðist fráleitt að ætla að presturinn í Holti hafi með slíkum kostaboðum getað fengið fleiri en ella til að gefa kirkjunni gjafir og taka þátt í helgisiðunum, − ekki síst þá sem fallið höfðu í stórar syndir.

Áttundi Holtspresturinn sem við kunnum að nefna er séra Narfi Böðvarsson sem hingað var kominn árið 1458[144] og var enn prestur í Holti árið 1492.[145]

Hér hefur áður verið sagt nokkuð frá deilum séra Narfa við Halldór Hákonarson, ríkan bónda á Kirkjubóli í Valþjófsdal (sjá hér Kirkjuból í Valþjófsdal), en Halldór og séra Narfi og liðsmenn þeirra börðust með grjóti og lásbogum í kirkjugarðinum í Holti sumarið 1462. Ekkert mannfall mun þó hafa orðið í þeirri hríð. Á næstu árum fékk Halldór því framgengt að Holtsprestakalli var skipt í tvær sóknir, Holtssókn og Kirkjubólssókn sem nær yfir Valþjófsdal og Mosdal. Árið 1470 var sóknarkirkja vígð á Kirkjubóli, þar sem Halldór bjó, og þá hafði hann fengið leyfi biskups til að hafa þar heimilisprest (sjá hér Kirkjuból í Valþjófsdal).

Séra Narfi mun hafa verið prestur í Holti í fullan aldarþriðjung og hann var einnig prófastur milli Geirhólms og Langaness.[146]

Fyrir siðaskipti munu oft hafa verið tveir prestar samtíða í Holti, enda er beinlínis gert ráð fyrir þeirri skipan í máldögum kirkjunnar frá 14. öld.[147] Níundi presturinn sem ætla má að setið hafi í Holti er Grímur Þorsteinsson sem virðist hafa verið kominn hingað á síðustu árum séra Narfa, upp úr 1490,[148] og andaðist um 1520.[149] Í fornum bréfum mun hvergi vera sagt beinum orðum að Grímur hafi verið prestur í Holti en líkurnar á því að svo hafi verið verða þó að teljast yfirgnæfandi.[150]

Séra Grímur Þorsteinsson var sonur Þorsteins Sveinssonar og Bergljótar Halldórsdóttur frá Kirkjubóli í Valþjófsdal[151] en hún var hálfsystir Halldórs Hákonarsonar, lögréttumanns á Kirkjubóli sem hér var nýlega nefndur (sjá hér Kirkjuból í Valþjófsdal). Foreldrar Gríms áttu jarðir í Valþjófsdal sem þau seldu Halldóri Hákonarsyni á sínum efri árum en fengu í staðinn Eyri í Önundarfirði. Séra Grímur var af höfðingjum kominn því að móðuramma hans var Oddfríður Aradóttir, hálfsystir Guðmundar ríka á Reykhólum (sjá hér Kirkjuból í Valþjófsdal). Í skjali sem dagsett er á Mosvöllum í Önundarfirði 1. febrúar 1504 er Grímur Þorsteinsson nefndur prófastur í millum Geirhólms og Langaness og umboðsmaður heilagrar Skálholtskirkju yfir officialisdæminu í millum Gilsfjarðar og Geirhólms.[152] Fullvíst má því telja að séra Grímur hafi um skeið verið umboðsmaður Stefáns Jónssonar, biskups í Skálholti, bæði í Ísafjarðar- og Barðastrandarsýslu. Stefán biskup átti þá í illvígum deilum við Björn Guðnason í Ögri og þurfti Grímur prófastur stundum að mæta héraðshöfðingjanum í Ögri fyrir hönd herra síns, biskupsins í Skálholti.[153]

Árið 1498 festi séra Grímur kaup á jörðinni Vífilsmýrum í Önundarfirði[154] en árið 1509 er hann nefndur fyrstur í sex presta dómi sem upp var kveðinn suður í Skálholti um eignarráð Vatnsfjarðarkirkju yfir jörðinni Hælavík í Sléttuhreppi.[155]

Eins og áður var getið dó séra Grímur Þorsteinsson á árunum kringum 1520 en séra Þorgils Nikulásson var sannanlega orðinn prestur í Holti áður en Björn Guðnason í Ögri dó,[156] það er fyrir 1518.

Þorgils var tíundi presturinn í Holti sem um er kunnugt og sá næst síðasti í kaþólskum sið. Hann mun hafa verið prestur í Holti í um það bil 20 ár og kemur síðast við skjöl árið 1536.[157]

Á sínum fyrstu árum í Holti mun séra Þorgils hafa orðið fyrir nokkurri áreitni frá hendi Björns Guðnasonar sem þá átti í hörðu stríði við Stefán Jónsson, biskup í Skálholti. Í bréfi frá þessum árum má sjá að menn Björns í Ögri hafa farið um Holtsengi og látið þar heldur ófriðlega.[158] Nokkru síðar fór séra Þorgils til fundar við Ragnhildi Bjarnadóttur, konu Björns Guðnasonar, og samþykkti, að hennar undirlagi, að falla frá öllum ákærum vegna þeirra óspekta.[159] Sá fundur var haldinn að Læk í Dýrafirði. Vitnisburðarbréf um fundinn á Læk er skrifað í Ögri skömmu eftir að hann var haldinn. Bréfið er dagsett 15. júlí en ártalið vantar.[160] Líklegast er að sáttafundur þessi á Læk hafi verið haldinn 1516 eða 1517. Haustið 1515 bannfærði Stefán biskup Björn í Ögri og lausn úr því banni fékk hann ekki fyrr en 21. ágúst 1517,[161] nokkrum mánuðum fyrir dauða sinn. Sumarið 1517 var Björn enn við góða heilsu[162] en ætla má að bannfæringin hafi valdið því að hann mætti ekki sjálfur til fundar við Þorgils prest.

Í vitnisburðinum frá Ögri um niðurstöður nýnefnds sáttafundar að Læk segir meðal annars að þar hafi séra Þorgils í votta viðurvist gefið alla menn Björns Guðnasonar … kvitta og að öllu ákærulausa fyrir sér og öllum sínum eftirkomendum um alla þá sök og sókn og allt skaðræði er hann þóttist hafa fengið af mönnum Björns.[163] Vitnin fullyrða ennfremur að Þorgils prestur hafi tekið sérstaklega fram að enginn liðsmanna Björns yrði ákærður fyrir það rusk og rask, högg eða slög sem greidd hafi verð á Holtsengi.[164] Í bréfinu er reyndar tekið fram að einn af mönnum Björns í Ögri hafi Þorgils prestur þó skilið undan er hann gaf þessi loforð, Helga Pálsson sem aðeins var heitið griðum meðan hann nyti verndar Ögurhjóna, Björns og Ragnhildar, hvað sem síðar yrði.[165]

Ekki verður séð að frúin í Ögri hafi lofað Holtsprestinum einhverjum bótum fyrir það skaðræði sem hann og annað heimafólk í Holti hafði orðið fyrir þegar flokkur Ögurmanna reið þar hjá garði. Flest bendir því til þess að á sáttafundinum hafi það verið eiginkona hins bannfærða veraldarhöfðingja sem hafði undirtökin og þar hafi Þorgils prestur orðið að lúta hennar vilja.

Séra Þorgils Nikulásson kemur alloft við skjöl á árunum 1513-1536[166] og undir það síðasta mun hann hafa verið orðinn prófastur.[167] Í sumum skjalanna er þessi Holtsprestur nefndur Gísli Nikulásson og ekki Þorgils.[168] Þar mun þó vera átt við sama mann en nafn hans stytt með þessum hætti.[169] Frá 16. öld eru finnanleg ýmis dæmi um slíkar styttingar á mannanöfnum og er í þeim efnum nærtækast að minnast Sigfúsar Brúnmannssonar, tengdasonar Björns í Ögri, sem oft er nefndur Fúsi í skjölum.

Þann 13. ágúst 1530 var Ögmundur Pálsson, biskup í Skálholti, staddur í Holti[170] og lét presta sína dæma þar ýmsa dóma, m.a. um eignarráð yfir Hóli í Bolungavík[171] en sá úrskurður vakti mikla ólgu.[172]

Ellefti presturinn í Holti sem þekktur er með nafni hét Ólafur Jónsson og mun hafa tekið við staðnum árið 1537 eða því sem næst.[173] Hann þjónaði prestakallinu allt til ársins 1574[174] og var því síðasti kaþólski presturinn í Holti. Um uppruna séra Ólafs er allt á huldu en kona hans var Steinvör Ólafsdóttir frá Hóli í Bolungavík, systir séra Pantaleons Ólafssonar á Stað í Grunnavík.[175] Foreldrar þessara systkina voru Ólafur Eiríksson á Hóli og kona hans Bríet Jónsdóttir en móðir Bríetar var Solveig, dóttir Björns Þorleifssonar hirðstjóra og Ólafar ríku Loftsdóttur á Skarði.[176]

Nokkrar líkur benda til þess að séra Ólafur hafi verið ráðsmaður í Skálholti stuttan tíma áður en hann fékk veitingu fyrir Holti[177] svo vel má vera að hann hafi strax á þeim árum komist í kynni við Gizur Einarsson og aðra helstu forkólfa siðaskiptanna. Þegar Ögmundur biskup útnefndi Gizur sem eftirmann sinn árið 1539 hafði Ólafur aðeins verið prestur í Holti í tvö ár eða því sem næst en í skjölum má sjá að hann var einn þeirra 24 presta sem dæmdu Gizur Einarsson löglega kjörinn biskup á prestastefnu 28. júní árið 1540.[178] Ólafur í Holti var líka í hópi þeirra presta sem árið 1541 samþykktu á prestastefnu að taka við hinni nýju krikjuskipun í anda Lúthers[179] en þá hafði Gizur tekið við biskupsráðum í Skálholti og gamli Ögmundur verið fluttur nauðugur úr landi.

Ekki verður annars vart en séra Ólafur Jónsson í Holti hafi tekið fúslega við boðskap siðaskiptamanna og heimildir sem varðveist hafa sýna svo ekki verður um villst að hjá Gizuri biskupi naut hann fyllsta trausts.

Árið 1543 var Gizur biskup staddur úti í Þýskalandi og skrifar þar bréf sem dagsett er í Hamborg á fjórða degi páska.[180] Með þessu bréfi viðurkennir Gizur skuld sína við nafngreindan þýskan kaupmann en vísar jafnframt á séra Ólaf Jónsson í Holti sem þann er greiða muni skuldina fyrir sína hönd.[181] Bréfið er á þessa leið:

 

Ég Gizur Einarsson, superintendens Skálholtsstiftis, meðkennist það ég er skuldugur Claus Overlender 20 voðir vaðmáls tvítugar fyrir fulla peninga sem ég hefi sjálfur af honum þar fyrir uppborið. Set ég til séra Ólaf Jónsson í Holti að afgreiða Claus greindar 20 voðir nú í sumar af mínum tíundum.[182]

 

Til marks um traust Gizurar biskups á séra Ólafi í Holti má einnig nefna að Gizur bauð honum að verða prestur í Vatnsfirði. Bréfið með því boði er að líkindum skrifað árið 1545 en engin dagsetning er sjáanleg á því. Í þessu bréfi kemst Gizur m.a. svo að orði:

 

Kunngjöri ég yður kæri vin að síra Jón Eiríksson hefur talað við mig um sinn stað Vatnsfjörð, það hann vildi hann afgreiða og vel við skilja meðan þess væri kostur … . Virðist og flestum sem svoddan garður [það er Vatnsfjörður] sé ekki öllum mönnum í hendur fáandi. … En sakir þess að þér eruð einn af kennimönnum best fjáðir í Vestfjörðum svo og reyndur að góðri forstöðu og hollustu við heilaga Skálholtskirkju hefur mér með góðra manna ráði litist að gjöra umskipti við yður og veita yður Vatnsfjörð fyrir Beneficium.[183]

 

Um svipað leyti skrifaði Gizur séra Jóni Eiríkssyni, sem þá var enn prestur í Vatnsfirði, annað bréf og segir þar að sér hafi þótt ráðlegast að bífala Vatnsfjarðarstað séra Ólafi Jónssyni því að hann hafa nóga peninga og sé reyndur að forstöðu.[184]

Þrátt fyrir tilboð Gizurar biskups fór séra Ólafur þó aldrei í Vatnsfjörð en sat kyrr í Holti. Vorið 1543 var hann orðinn prófastur en óvíst er hversu lengi hann gegndi prófastsstörfum.[185]

Konu sinni, Steinvöru Ólafsdóttur, sem hér var áður nefnd, mun séra Ólafur hafa kvænst skömmu eftir siðaskiptin en áður var prestum bannað að ganga í hjónaband. Ólafur prestur í Holti og tilvonandi eiginkona hans munu þó hafa búið saman í fáein ár áður en prestum var leyft að kvænast og saman áttu þau nokkur börn.[186] Eitt þeirra var Bjarni sem bjó á Hóli í Önundarfirði (sjá hér Hóll í Firði).

Kirkjan í Holti var í kaþólskum sið helguð heilögum Lárentíusi píslarvotti eins og sjá má í máldagabók frá árinu 1367[187] en hann var brenndur í Róm árið 258. Í máldögum frá síðari hluta 14. aldar er tekið fram að í Holti skuli vera tveir prestar[188] og í Vilkinsmáldaga frá árinu 1397 sjáum við að mörk prestakallsins hafa þá verið hin sömu og nú því að til kirkjunnar í Holti lágu þá tíundir og gröftur frá öllum bæjum milli Sauðaness og Hrafnaskálarnúps.[189] Elsti máldagi Holtskirkju sem varðveist hefur, þar sem rækileg grein er gerð fyrir eignum kirkjunnar, er talinn vera frá árinu 1377 en á því ári ferðaðist Oddgeir biskup Þorsteinsson um Vestfirði.[190]

Kirkjan átti þá allt heimaland í Holti og auk þess þrjár jarðir, allar í Önundarfirði, Arnkelsbrekku, Vaðla og Þórustaði sem í máldaganum eru nefndir Þórólfsstaðir.[191]Síðast nefnda jörðin hafði reyndar byggst úr heimalandi Holts (sjá hér Þórustaðir). Auk jarðanna þriggja átti Holtskirkja margvísleg ítök annars staðar og skulu hér nefnd þau sem upp eru talin í máldaganum frá 1377:

Á Sauðanesi sjöttung í hvalreka og einnig í Keflavík en í Reykjarfirði tólftung í hvalreka og viðreka með grasnautn allt til Hvanneyra. Skóg í Dýrafjarðarbotni á meðal gilja tveggja fyrir ofan Þingmannarjóður á hina vinstri hönd er á Glámu ríður (sjá hér Botn). Beit fyrir fimm kúgildi í Nesdal. Beitarrétt í landi Innri-Hjarðardals*) (sjá hér bls. 22, neðanmáls) frá því er úr seli er komið til tvímánaðar[192] en að gömlu íslensku tímatali hefst sá mánuður næsta þriðjudag eftir 20. ágúst.

Í greinargerð frá árinu 1709 segir séra Sigurður Jónsson í Holti að skógarteigur kirkjunnar í Dýrafjarðarbotni sé að mestu eyddur og kveðst hann ekki hafa getað nýtt sér þetta ítak í mörg ár.[193] Ummæli séra Sigurðar gefa þó vísbendingu um að á fyrstu árum sínum í Holti hafi hann sjálfur nýtt rétt sinn til hrísrifs í Dýrafjarðarbotni.

Öll ítökin sem hér voru nefnd eru innan marka Vestur-Ísafjarðarsýslu nema rekaréttindin í Reykjarfirði en þar mun vera um að ræða Reykjarfjörð í Grunnavíkurhreppi.

Í máldaganum frá 1377 er tekið fram að í Reykjarfirði eigi Holtskirkja tólftung bæði í viðreka og hvalreka með grasnautn allt til Hvanneyra.[194] Örnefnið Hvanneyrar mun ekki vera til í Reykjarfirði[195] og hefur líklega aldrei verið en í Þaralátursfirði, sem er næstu fjörður fyrir norðan Reykjarfjörð, ber grundarræma nokkur við sjó nafnið Hvanneyrar enn þann dag í dag.[196] Þær Hvanneyrar eru mjög utarlega á norðurströnd Þaralátursfjarðar, skammt fyrir innan Könnu, sem er klettur einn mikill í fjörunni undir Furufjarðarnúp, en við hana eru landamerki jarðanna Þaralátursfjarðar og Furufjarðar.[197] Þarna á eyrunum voru á síðari tímum beitarhús frá Þaralátursfirði[198] og má ætla að tóttir þeirra sjáist enn.

Orðalag máldagans bendir til þess að Þaralátursfjörður hafi legið undir Reykjarfjörð þegar frumgerð skjalsins var samin því ætla má að ella hefði verið tekið fram að réttindin næðu einnig til Þaralátursfjarðar. Um byggð í Þaralátursfirði fyrir 1400 liggur nær engin vitneskja fyrir. Frásögn Eyrbyggju af dvöl Óspaks Kjallakssonar og óaldarflokks hans þar í firðinum sumarlangt gefur ekkert til kynna um fasta búsetu.[199] Nokkrar líkur benda til þess að Snorri Arngeirsson læknir, sem tók við Guðmundi

_________________________

*) Í máldögum frá 14. og 16. öld er jafnan talað um Hjarðardal  hinn idra  þegar beitarítak þetta er nefnt. (D.I. III, 324, D.I. IV, 141 og D.I. XV, 572). Þannig er líka ritað í vísitazíugerðum biskupanna Brynjólfs Sveinssonar, Þórðar Þorlákssonar og Jóns Árnasonar frá árunum 1639, 1675 og 1725 þegar minnst er á þetta sama beitarítak Holtskirkju. (Bps. A. II, 6 – Vísitazíubók Brynjólfs biskups Sveinssonar, Holt 17.8.1639. Bps. A. II, 11 – Vísitazíubók Þórðar biskups Þorlákssonar, Holt 24.8.1675. Bps. A. II, 17 – Vísitazíubók Jóns biskups Árnasonar, Holt 26.8.1725). Ætla verður að bókstafurinn  d  standi þarna fyrir  ð   og Hjarðardalur hinn iðri merki Innri-Hjarðardalur. Í vísitazíugerð Finns biskups Jónssonar frá árinu 1761 er þessu hins vegar breytt og beitarréttindin sögð vera í Hjarðardal  hið ytra . (Bps. A. II, 21 – Vísitazíubók Finns biskups Jónssonar, Holt 28.8.1761). Gera má ráð fyrir að þar sé um misritun að ræða og reyndar er með öllu óvíst hvort Holtsprestar hafi enn nýtt sér þessi ævafornu beitarréttindi þegar komið var fram á síðari hluta 18. aldar. Til stuðnings þeirri kenningu að  hinn idri  merki hinn innri má m.a. nefna að Brynjólfur biskup Sveinsson ritar eigin hendi að bróðir sinn Þorleifur hafi búið í Hjarðardal hinum  idra  (sjá hér Innri-Hjarðardalur) en kunnugt er úr öðrum heimildum að hann bjó í Innri-Hjarðardal (sjá hér Innri-Hjarðardalur). Villa Finns biskups frá árinu 1761 hefur hins vegar komist inn í yngri rit og má þar nefna vísitazíugerð sonar hans, Hannesar biskups Finnssonar, frá árinu 1790 (Bps. A. II, 24 – Vísitazíubók Hannesar biskups Finnssonar, Holt 13.8.1790).

Arasyni, síðar biskupi, úr skipreikanum haustið 1179, hafi búið í Þaralátursfirði[200] en fullvíst er það ekki og má vel vera að hann hafi átt heima í Reykjafirði eða Furufirði. Þaralátursfjörður er einnig nefndur í

kirknaskrá Páls biskups Jónssonar frá því um 1200 og í fjarðatali frá árinu 1312 eða því sem næst[201] en af þeim skjölum verður ekkert ráðið um byggð í þeim mjóa firði.

Ítakaskrá Holtskirkju kynni, að stofni til, að vera allmiklu eldri en máldaginn frá 1377 og vera má að bújörðin Þaralátursfjörður hafi hreint ekki verið komin til sögu þegar kirkjan í Holti tryggði sér umrædd rekaréttindi á Ströndum. Hitt er svo líka mögulegt að menn hafi reist bú í Þaralátursfirði strax á tíundu öld en jörðin hafi síðar fallið í eyði og land hennar verið lagt undir Reykjarfjörð

Af títtnefndum máldaga frá árinu 1377 má skilja að gert hafi verið ráð fyrir að sendimenn prestanna í Holti kæmu með hesta norður í Reykjarfjörð og Þaralátursfjörð til að vitja rekans því talað er um grasnautn allt til Hvanneyra. Aðrir grasbítar en hross koma hér ekki til greina. Orðalag máldagans gefur því til kynna að hvalspik og rekaviður sem Holtsprestar fengu af Ströndum á fyrri öldum hafi verið flutt á hestum úr Reykjarfirði vestur að Djúpi eða til Grunnavíkur. Líklegast er að hestalestirnar hafi farið yfir Skorarheiði og síðan áfram sem leið liggur til Grunnavíkur en þangað hafi rekinn verið sóttur á staðarferju frá Holti. Burðarklára kynnu Holtsmenn að hafa fengið léða hjá prestunum sem héldu Stað í Grunnavík.

Árið 1775 var Holtskirkja enn talin eigandi hinna fornu réttinda norður í Reykjarfirði. Í vísitazíugerð frá því ári er hins vegar greint frá því að þáverandi eigandi Reykjarfjarðar í Grunnavíkurhreppi hafi hreyft þrætu um þetta ítak og telji ekki koma fram í fornum heimildum við hvaða Reykjarfjörð sé átt.[202] Eigandi Reykarfjarðar á þessum tíma var reyndar enginn annar en Hallvarður Hallsson[203] frá Horni, hinn kunni ferðagarpur og rímnaskáld sem margir töldu fjölkunnugan og frá er sagt í þjóðsögum. Hallvarður bjó síðast í Skjaldabjarnarvík, nyrsta bæ í Árneshreppi, og liggur þar grafinn í óvígðri mold. Ýfingum Hallvarðs út af rekaréttindum Holtskirkju svaraði séra Magnús Snæbjörnsson, prófastur á Söndum, svo að orðin með grasnaut allt til Hvanneyra, sem stóðu í máldögum frá 14. öld, sýndu með ótvíræðum hætti að átt væri við jörð Hallvarðar, það er Reykjarfjörð norðan Geirólfsgnúps.[204] Fjórar jarðir á Vestfjarðakjálkanum heita Reykjarfjörður en prófastur taldi örnefnið Hvanneyrar skera úr öllum vafa um við hvaða Reykjarfjörð væri átt.

Í Vilkinsmáldaga frá árinu 1397 sést að þegar hann var ritaður hafði Holtskirkja eignast tvær jarðir í viðbót við þær þrjár sem hér voru áður nefndar. Þessar tvær jarðir voru Kaldá og Kirkjuból í Bjarnardal,[205] báðar í Mosvallahreppi. Í máldaganum er reyndar ekki tekið fram hvaða Kirkjuból það sé sem Holtskirkja eigi en yngri heimildir sýna að þar muni átt við það Kirkjuból sem hér var nefnt.[206]

Í Vilkinsmáldaga eru talin upp öll þau ítök Holtskirkju sem hér voru áður nefnd og nokkru nánari grein gerð fyrir tveimur þeirra.[207] Um rekaítakið á Sauðanesi segir þar að kirkjan eigi hálfan sjöttung í hvalreka á Sauðanesi og sjöttung í hvalreka frá Dalsá til Raufar á þessu sama nesi.[208] Dalsá, sem þarna er nefnd, er í Staðardal í Súgandafirði en Rauf er skarð í fjallsbrúninni á Sauðanesi, yst í Önundarfirði (sjá hér Staður í Súgandafirði og Eyri í Önundarfirði). Orð máldagans verður því að skilja á þann veg að norðantil á Sauðanesi hafi kirkjan átt sjöttung hvalreka en ekki nema hálfan sjöttung vestan til á nesinu.

Um beitarréttindi Holtskirkju í landi Innri-Hjarðardals er tekið fram í Vilkinsmáldaga að þau gildi aðeins í annað mál og aðeins í 6 vikur frá því er úr seli er komið til tvímánaðar.[209] Af þessu orðalagi má ráða að komið hafi verið úr selinu um miðjan júlí því tvímánuður hefst 21.-27. ágúst.

Auk ítakanna sem nefnd eru í máldaganum frá 1377 eru í Vilkinsmáldaga, sem skráður var 20 árum síðar, talin upp mörg fleiri ítök sem kirkjan átti. Sum þeirra eignaðist hún á þessu 20 ára skeiði en önnur kynni að hafa gleymst að nefna þegar eldri máldaginn var festur á blað.

Ítök sem Vilkin bókar árið 1397 eru þessi:

Þriðjungur í hvalreka í Rekavík hjá Höfn (í Hornvík). Áttungur í hvalreka í Hlöðuvík. Tólftungur í hvalreka í Fljóti og einnig í Sigluvík (norðan Geirólfsgnúps). Í Bolungavík á Ströndum átti kirkjan allan viðreka milli Auðna og Áróss og níunda hlut í hvalreka á sömu fjöru. Í Jarðabók Árna og Páls er tekið fram að Auðnir séu ekki alllangt frá bænum í Bolungavík.[210] Allar þessar rekafjörur eru í Sléttuhreppi nema Sigluvík og Bolungavík sem eru í Grunnavíkurhreppi.

Í Vilkinsmáldaga er einnig getið um rétt Holtskirkju til mótekju á þremur stöðum í Önundarfirði. Áttfeðmings mótak átti kirkjan á Vífilsmýrum og einnig á Kaldá en tvo áttfeðminga í Tröð.[211] Athygli vekur að nefnd skuli vera móskurðarréttindi á Kaldá þar eð kirkjan átti þá jörð. Líklegasta skýringin á þessu er sú að forráðamenn kirkjunnar hafi náð að tryggja henni þetta ítak áður en hún eignaðist jörðina og þannig hafi málsgreinin um móskurðarréttindin komist inn í eldri máldaga en Vilkin ekki gætt þess að fella hana niður þó að jörðin sjálf væri orðin kirkjueign árið 1397. Um móskurðarréttindin á Kaldá er auk þess tekið fram í Vilkinsmáldaga að verkmenn Holtskirkju megi koma ríðandi í mógrafirnar og láta hross hafa haga utan töðu og engjar.[212]

Um 1570 átti Holtskirkja 9 jarðir auk heimalandsins, fjórum fleiri en verið hafði 1397. Arnkelsbrekka var þá ekki talin með því búið var að leggja allt hennar land undir Holt (sjá hér Arnkelsbrekka og Holtssel) en jarðirnar sem bæst höfðu við voru þessar: Mosvellir og Hóll á Hvilftarströnd, báðar í Önundarfirði, Lækur í Dýrafirði, Engidalur í Skutulsfirði og Kjaransvík á Ströndum.[213]

Í Gíslamáldaga frá árunum upp úr 1570 má sjá hver var árleg landskuld af öllum jörðum kirkjunnar á þeim tíma[214] en upplýsingar um dýrleik jarðanna er að finna í Jarðabók Árna og Páls frá árinu 1710. Skrá sem byggir á þessum heimildum lítur svona út:

 

 

Skrá yfir jarðeignir Holtskirkju árið 1570

og landskuld af þeim

 

 1. Þórustaðir …………………….. 6    hundruð   landskuld    48    álnir
 2. Vaðlar ……………………….. 12          –                –           60        –
 3. Kirkjuból í Bjarnardal ….. 18          –                –           80        –
 4. Mosvellir ……………………. 24          –                 –         120       –
 5. Hóll á Hvilftarströnd ……. 12          –                 –           60       –
 6. Kaldá …………………………. 12          –                 –           60       –
 7. Lækur í Dýrafirði ………… 12          –                 –           60       –
 8. Engidalur í Skutulsfirði .. 18          –                 –         120       –
 9. Kjaransvík á Ströndum ….. 4           –                –           40       –

 

 

Skráin ber með sér að um 1570 átti Holtskirkja 118 hundruð í jarðeignum auk heimalands sem nærri lætur að svari til þess að kirkjan  hefði átt tvö höfuðból auk staðarins í Holti. Á síðari hluta 16. aldar hefur verið algengast að kirkjan léti landseta sína greiða 5 álnir á ári af hverju jarðarhundraði í landskuld eins og skráin sýnir og hefur þá jarðarafgjaldið numið liðlega 4% af jarðarverðinu samkvæmt hinu almenna mati sem fólst í hundraðatölu hverrar jarðar. Við ákvörðun landskuldar af fjórum þessara níu jarða hafa forráðamenn kirkjunnar þó vikið frá þessari almennu viðmiðun, mest gagnvart landsetanum í Kjaransvík sem þurfti að greiða kirkjunni 10 álnir á ári fyrir hvert jarðarhundrað sem hann hafði til ábúðar.

Af þremur jarðanna sem Holtskirkja átti, Mosvöllum, Læk og Kjaransvík var árið 1710 greidd sama landskuld og verið hafði um 1570.[215] Á hinum sex hafði landskuldin hækkað sem hér segir: Á Þórustöðum úr 48 álnum í 60, á Vöðlum úr 60 álnum í 80, á Kirkjubóli úr 80 álnum í 120, á Hóli úr 60 álnum í 80, á Kaldá úr 60 álnum í 80 og í Engidal úr 120 álnum í 140.[216]

Allar þær jarðir sem hér hafa verið taldar upp voru enn í eigu Holtskirkju um miðbik 19. aldar en engar nýjar höfðu bæst við.[217]

Árið 1901 átti kirkjan í Holti enn sjö af þessum níu jörðum, allar nema Læk og Kjaransvík[218] og þá átti hún líka Betaníu (Kot)[219] sem byggðist út úr landi Mosvalla á árunum upp úr 1840 (sjá hér Kot-Bethanía). Kjaransvík í Sléttuhreppi seldi kirkjan árið 1897 og fékk fyrir hana 650,- krónur.[220]

Jörðum Holtskirkju fylgdu yfirleitt nokkur kúgildi sem landsetar kirkjunnar tóku á leigu. Árið 1710 átti kirkjan 39 kúgildi sem dreifðust á átta jarðir en Kjaransvík var þá í eyði.[221] Lögleiga fyrir hvert kúgildi var 10 kíló (2 fjórðungar) af smjöri ár hvert samkvæmt Jónsbókarlögum (sjá hér Mosdalur, bls. 7 þar)og mun hafa haldist óbreytt í margar aldir. Árið 1710 voru leigukúgildin á jörðum Holtskirkju reyndar nokkru fleiri en almennt var því samkvæmt úttektum og vísitazíugerðum frá 17., 18. og 19. öld voru föst innstæðukúgildi sem jörðunum fylgdu 32 en ekki 39.[222]

Fyrir kúgildin 32 fengu prestarnir í Holti 64 fjórðunga af smjöri á ári hverju í leigur, það er 320 kíló, eins og m.a. má sjá í greinargerð séra Sigurðar Jónssonar frá árinu 1709 um eignir Holtskirkju og lífskjör prestanna sem henni þjónuðu.[223] Sá fjöldi smjörfjórðunga kemur nákvæmlega heim við lagagreinina úr Jónsbók sem hér var áður vísað til. Í greinargerð séra Sigurðar sést líka að smjörfjórðungarnir 64 voru virtir á 5 hundruð og 40 álnir[224] sem þýðir 10 álnir fyrir hvern fjórðung. Ársleiga fyrir hvert kúgildi hefur því numið 20 álnum eða einum sjötta hluta úr kýrverði. Má því segja að árleg leiga fyrir þann búpening sem prestarnir leigðu út hafi verið 16,67% af andvirði hans og þætti góð ávöxtun í nútímanum.

Auk landskuldar af jörðum kirkjunnar og leigna af kúgildunum fengu prestur og kirkja í Holti ýmsar aðrar tekjur svo sem ljóstolla, lambseldi og líksöngseyri og fyrir að þjóna annexíunni í Valþjófsdal fengu Holtsprestar í byrjun 18. aldar eina vætt af smjöri á ári hverju,[225] það er 40 kíló, en e.t.v. hefur sú greiðsla lækkað síðar því Sighvatur Borgfirðingur segir hana hafa verið 40 pund.[226] Að lokum skal þess getið að ítökum þeim sem Holtskirkja átti árið 1397 og upp voru talin hér að framan hélt hún öllum enn um miðbik 19. aldar.[227] Eftir 1400 bættust hins vegar fá ítök við ef marka má Gíslamáldaga frá árunum upp úr 1570 og orð séra Tómasar Sigurðssonar sem prestur var í Holti 1836-1848.[228] Þess verður þó að geta að séra Narfi Böðvarsson í Holti taldi vorið 1475 að hann hefði tryggt kirkjunni rétt til að gera út skip frá Bolungavík við Ísafjarðardjúp án nokkurrar tollgreiðslu.[229] Þessi réttindi virðist forsvarsmönnum kirkjunnar hins vegar ekki hafa tekist að festa í sessi því þeirra er ekki getið í Gíslamáldaga og ekki heldur í yngri heimildum svo séð verði í fljótu bragði.

Í Jarðabókinni frá 1710 er Holtskirkja hins vegar sögð eiga tollfrjálsa skipstöðu í landi jarðarinnar Minni-Bakka í Skálavík í Hólshreppi[230] Í byrjun 18. aldar mun þó löngu hafa verið hætt að senda menn frá Holti í ver norður í Skálavík því að í Jarðabókinni er tekið fram að verbúð Holtskirkju þar, sem nefnd var Holtsmannaskáli, sé fallin í tótt og hafi ekki verið notuð svo lengi sem elstu menn muni.[231] Í sömu heimild er þess getið að kirkjunni í Holti séu eignuð beitarréttindi á Sauðanesi í landi Eyrar og megi Holtsprestar hafa þar 60 sauði yfir veturinn.[232] Um önnur ítök Holtskirkju vísar Árni Magnússon í hina fornu máldaga[233] en hér hefur áður verið getið allra ítaka Holtskirkju sem þar eru nefnd.

Um sumar jarðeignir Holtskirkju er vitað með hvaða hætti þær komust í hennar eigu og hið sama er hægt að segja um eitt ítak að minnska kosti. Jarðirnar Læk í Dýrafirði og Kjaransvík á Ströndum keypti séra Ólafur Ísleiksson í Holti á árunum 1448 og 1459 (sjá hér bls. 16) en rekaítakið í Sigluvík norðan Geirólfsgnúps var dánargjöf Einars Eiríkssonar, bónda í Vatnsfirði, sem drukknaði árið 1382[234] en hann var faðir Björns Einarssonar Jórsalafara.

Ætla má að oft hafi menn gefið Holtskirkju sitt af hverju sér eða sínum nánustu til sáluhjálpar. Sem dæmi um slíkar gjafir má nefna hundraðið sem Guðni Oddsson á Hóli í Bolungavík gaf kirkjunni í Holti árið 1431 fyrir sál konu sinnar.[235]

Alkunn er þjóðsagan um aðferð prestsins í Holti við að ná jörðinni Engidal undir Holtskirkju. Sagt er að ónefndur bóndi í Önundarfirði ætti þá jörð og hafi prestur komið að vitja hans í banalegunni. Frá viðskiptum þeirra er nánar sagt með þessum orðum:

 

Þegar bóndi veiktist svo að honum var ekki frekar lífs hugað var Holtsprestur sóttur að þjónusta hann. Brá prestur við hið skjótasta en tók djákna einn með í förina ef rita þyrfti eða staðfesta dánargjafir. Er prestur kom til bóndans var vanmætti hans svo langt komið að hann mátti ekki mæla svo til hans heyrðist. …

Prestur tók fljótt til náðarmeðalanna fyrir bónda. Jafnframt bað hann djákna að vera skjótan í aðstoð allri sér til handa. Gengu þeir síðan báðir að beði bónda. Dreypti prestur á hann. Bærði bóndi þá varirnar en glöggt mátti greina að skammt væri til lífsskilnaðar hans. Prestur hélt áfram að þjónusta bónda. Laut síðan niður að vitum hans, leit síðan til djákna og kvað bónda hafa gefið Holtskirkju jörð sína. Segja sumir það hafa verið Hól á Hvilftarströnd. Djákninn ritfesti gjöfina í viðurvist tilkvaddra votta af heimafólki.

Prestur laut í annað sinn að bónda sem var rétt við eða að taka andvörpin og með öllu mállaus orðinn. Leit prestur síðan til djákna og mælti stundarhátt:

„Gaf hann enn guðsmaðurinn, Engidal undir Holt, skrifaðu djákni!”

Er það haft að ortaki síðan.[236]

 

Í máldögum Holtskirkju frá síðari hluta 14. aldar er getið um eyristollinn sem var áður nefndur (sjá hér bls. 1) og öllum skattbændum milli Auðna í Kjálkafirði og Kleifa í Seyðisfirði var gert að greiða til kirkjunnar í Holti.[237] Gjaldtaka þessi bendir mjög eindregið til þess að á fyrstu öldum kristninnar hafi verið litið á Holtskirkju sem einhvers konar höfuðkirkju á öllu svæðinu frá Kjálkafirði við Breiðafjörð að botni Seyðisfjarðar við Ísafjarðardjúp. Óvíst er hvenær þessi sérkennilegi skattur var fyrst lagður á en í Árna sögu biskups er sagt frá málflutningi hans í deilum við veraldlega höfðingja á Alþingi sumarið 1284 og er þá m.a. komist svo að orði: Hann taldi og um tolla Holtskirkju í Önundarfirði, að það væri ranglega undan henni dregið.[238] Allar líkur benda til þess að þarna hafi biskup verið að tala um áðurnefnda eyristolla því að ekki er kunnugt um neinar aðrar tollgreiðslur til Holtskirkju sem þarna gætu hafa verið á dagskrá. Full ástæða er því til að ætla að Holtsprestar hafi verið byrjaðir að innheimta eyristollinn fyrir 1284 og vera má að þá hafi verið alllangt um liðið frá því gjaldtaka þessi hófst.

Að fornu jafngilti einn lögeyrir sex álnum[239] svo að greiðslan sem hverjum skattbónda var ætlað að inna af hendi á hverju ári hefur numið fimm hundraðshlutum úr kýrverði. Árið 1311 munu skattbændur á öllum Vestfjarðakjálkanum hafa verið um það bil 350[240] og líklega ekki fjarri lagi að ætla að 200 þeirra hafi búið á svæðinu frá Kjálkafirði að botni Seyðisfjarðar.[241] Sé út frá því gengið að svo hafi verið hafa árlegar tekjur Holtskirkju af eyristollinum numið 10 kýrverðum eða sem svaraði andvirði 20 hundraða jarðar á tveimur árum. Hér var því um langtum meira fé að ræða en þurfti til viðhalds kirkjunni en hins vegar má gera ráð fyrir að afföll hafi stundum orðið veruleg og eitthvað hefur kostað að innheimta tollinn.

Á árunum 1437-1447 sat í Skálholti hollenskur biskup er nefndi sig Goðsvin en mun í heimalandi hafa borið nafnið Gozewijn Cornhaer.[242] Á þessum árum mun séra Ólafur Ísleifsson í Holti hafa átt í basli við að innheimta eyristollinn og þann 23. júlí árið 1443 lét Goðsvin biskup málið til sín taka og skrifaði bréf er svo hljóðar lítið eitt stytt:

 

Vér Goðsvin með guðs náð biskup í Skálholti gjörum góðum mönnum viturlegt með þessu voru opnu bréfi að vor kæri son, Ólafur Ísleiksson prestur, hefur kært fyrir oss að í mörgum stöðum lúkast eigi svoddan gamlar ískyldur og guðtollar sem góðfúsir menn hafa um langan tíma, hver eftir annan, gefið með góðvilja og goldið árlega til kirkjunnar sankti Laurencii í Holti í Önundarfirði fyrir sinni sál og sinna eftirkomandi erfingja eftir því sem máldagi fyrrgreindrar Holtskirkju útvísar.

Því áminnum vér alla góða menn og sérhvern um sig, þá er þetta mál varðar, að þér lúkið héðan af reiðulega hvert ár sem yður ber með fullri skyldu svoddan fyrrgreindar ískyldur til kirkjunnar í Holti sem fyrr skrifað stár, takandi þar fyrir ævinleg laun af vorum herra, jómfrú Maríu og sankti Laurencii.

En hver sem öðru vísi gjörir og dirfist héðan frá að halda ranglega undir sig með þrjósku og óhlýðni fyrrgreindum gömlum og nýjum guðtollum, eftir það þeir hafa heyrt þetta vort áminningarhréf, lýsum vér fallna vera í heilagrar kirkju forboð og hæstu banns pínu af sjálfu verkinu. Setjum vér þeim 30 daga fyrir þrjár löglegar áminningar, að þeir þar fyrir innan komi til fullrar betringar við heilaga kirkju. … hverjum enduðum og yfirbót þá eigi framkominni afsetjum vér þeim faðmi heilagrar kirkju og hennar sakramentis og samneyti annarra kristinna manna. Skulu þeir haldast af öllum svo sem bannsettir menn þaðan frá þar til þeir sættast og fullkomlega með auðmýkt yfirbæta við guð og heilaga kirkju.[243]

 

Þarna hótar Goðsvin biskup öllum bannfæringu sem þrjóskist við að greiða tollinn en líklega hefur bannfæringarbréfið þó ekki dugað því að ári síðar kvaddi biskup 6 presta í dóm til að dæma um þann eyristoll er máldagabókin í Skálholti útvísar að eigi kirkjan í Holti í Önundarfirði að hverjum skattmanni milli Kleifa í Seyðisfirði og Kjálkafjarðar.[244] Niðurstaða prestanna sem um málið dæmdu varð sú að tollinn bæri öllum skattbændum í fyrrgreindu takmarki að greiða til Holtskirkju hvert ár ævinlega í vöru eða vöruvirðum eyri svo framarlega að ekki fyndist annar löglegri máldagi á móti.[245]

Árið 1447 andaðist Goðsvin biskup[246] en á næstu árum fór Steinmóður Bárðarson, ábóti í Viðey, með biskupsvöld um skeið í umboði Marcellusar Skálholtsbiskups er dvaldist erlendis.

Þann 18. júlí 1449 lét Steinmóður ábóti sex presta dæma enn einu sinni um þennan gamla toll til kirkjunnar í Holti.[247] Svo virðist sem bóndi nokkur, Jón Ingimundarson að nafni, hafi verið kærður fyrir að neita að greiða tollinn. Í dómi prestanna segir að komið hafi í ljós að Jón hafi ekki haft neitt löglegt svar í móti máldaganum og var hann því dæmdur til að greiða þrjár merkur í sekt.[248]

Í hverri mörk munu hafa verið átta lögaurar[249] svo að sektin sem Jóni var gert að greiða hefur numið 24 aurum en 20 aurar voru í kýrverðinu. Engum sögum fer af því hvernig gengið hafi að innheimta sektina hjá Jóni Ingimundarsyni og ókunnugt er hvort hótun Goðsvins biskups um bannfæringu hefur verið framfylgt í raun.

Í skjali frá árinu 1492 er bréf Goðsvins biskups um eyristollinn birt[250] en í rituðum heimildum frá því eftir 1500 mun sjaldan vera á hann minnst fyrr en í vísitazíugerð Brynjólfs biskups Sveinssonar frá árinu 1639 en þar er hans enn getið í skrá yfir eignir og réttindi Holtskirkju.[251]

Elstu skrá yfir kirkjugripi í Holti er að finna í Oddgeirsmáldaga frá árinu 1377 eða því sem næst.[252] Þar er kirkjan sögð eiga þessa gripi: Einn silfurkaleik, eitt Lárentíusarlíkneski, eina Maríuskrift (það er Maríumynd), tvo krossa, sex klukkur, tvær bjöllur, eina steinda brík yfir altari (það er málaða og útskorna altaristöflu), þrjá kertastjaka, eitt glóðarker, eina mundlaug, eitt fontklæði, eitt steint paxspjald (það er blað eða spjald til að kyssa á við guðsþjónustur) og síðast en ekki síst einn bjarnarfeld.[253] Slík hvítabjarnarskinn munu prestar hafa haft undir fótunum svo þeim yrði ekki kalt þegar þeir stóðu fyrir altari.[254]

Árið 1377 átti Holtskirkja líka fimm messuklæði, tvö altarisklæði, einn slopp, fjórar kantarakápur sem er þannig lýst í máldaganum að ein hafi verið með pell, önnur með bastarð, þriðja skínandi og sú fjórða með vef.[255] Í Oddgeirsmáldaga er þess einnig getið að kirkjan í Holti eigi tíðabækur fyrir alla 12 mánuði ársins.[256]

Næsti máldagi frá Holti er frá árinu 1397, kenndur við Vilkin biskup.[257] Á þeim tuttugu árum sem þarna liðu á milli virðist kirkjan hafa tapað nokkrum gripum en fleiri höfðu þó bæst við. Gripir sem kirkjan átti um 1377 en ekki eru taldir upp í máldaganum frá 1397 eru þessir: Bríkin yfir altarinu, bjöllurnar tvær, fontklæðið, paxspjaldið og bjarnarfeldurinn og nú hafði klukkunum fækkað úr sex í þrjár.[258] Gripir og klæði sem bæst höfðu við voru aftur á móti þessi: Altarisdúkur, altarisklæði, skrín, glergluggi, vatnskanna, klæðakista, tveir kertastjakar, tvö merki og tveir lektarar[259] en það eru litlar borðplötur á einum fæti sem bækur voru látnar hvíla á við lestur.

Við siðaskiptin upp úr 1540 voru margir gripir sem kenna mátti við pápisku fjarlægðir úr kirkjum landsins. Í máldaga Holtskirkju frá árunum upp úr 1570 sést að gripum hennar hafði þá fækkað verulega.[260] Einu kirkjugripirnir sem þá var að finna í Holti voru þessir:

Þrjár klukkur, tvær bjöllur, tveir koparhjálmar, einn formur, einn stóll, einn lektari, bakstursjárn og svo silfurkaleikur sem Bjarni Ólafsson hafði gefið.[261] Járnkarl átti kirkjan reyndar líka og var hann gjöf frá sama manni.[262] Séra Ólafur Jónsson, sem var gamall prestur í Holti á árunum kringum 1570, átti son sem hét Bjarni[263] og má telja líklegt að hann sé gefandinn sem nefndur er í máldaganum. Sá Bjarni Ólafsson bjó síðar á Hóli í Firði (sjá hér Hóll í Firði).

Um 1570 átti Holtskirkja tvenn messuklæði, önnur ný og talin sæmileg en hin rotin.[264] Eitt rykkilín fylgdi þar með og tvö altarisklæði.[265] Bækur úr kaþólsku virðist kirkjan enn hafa átt á árunum upp úr 1570 því að í Gíslamáldaga segir svo um bókaeignina: Bækur gamlar svo sem kirkjunni gagnast að fornu fari.[266]

Fróðlegt er að skoða búfjáreign Holtskirkju á 14. og 16. öld. Árið 1377 átti kirkjan tólf kýr, einn kálf, eina gyltu með þremur grísum, tvo veturgamla sauði, eitt geldfjárkúgildi, tvö hross og það þriðja veturgamalt.[267] Þarna virðist hafa láðst að nefna ærnar. Um 1570 átti kirkjan enn 12 kýr og þá voru ærnar 120.[268] Annar bústofn kirkjunnar var þá sem hér segir: Fjögur kúgildi í nautum, önnur fjögur kúgildi í sauðum, tvö hross, annað gamalt.[269]

Í máldögunum frá 14. öld er ekki getið um búsmuni í eigu kirkjunnar í Holti nema drepsteðjann sem nefndur er í máldaganum frá 1377 eða árunum þar í kring.[270] Í Gíslamáldaga frá því um 1570 er aftur á móti talinn upp mikill fjöldi amboða, búsáhalda og hvers kyns innanstokksmuna sem þá voru til í Holti og kirkjan taldist eiga.[271] Hér verður nú talið upp það helsta:

Þrír katlar og tók einn þeirra fjórðung (það er 10 potta), annar 5 fjórðunga (50 potta) og sá þriðji tvær tunnur (240 potta). Þrjú ker, eitt 100 skjólna, þétt, annað 50 skjólna, orðið gamalt, og hið þriðja tveggja tunna. Einn sár, tólf smákeröld gömul en þó matheld, þrettán trog, sjö gamlir diskar, sex skerdiskar, sextán borðskálar, sex spænir, einn strokkur.

Næst er talin 5 marka trékanna, loklaus, en fyrir 1619 mun mörk hafa verið sama og hálfur pottur þegar rætt var um lagarmál. Þá koma þessir gripir: Ein mundlaug, einn vatnskall, tveir dúkar með einu handklæði, einn pottur, bættur í barminn, ein byrða (það er stór kista) heil, einir kláfar og einir krókar, einn könnustóll, fjögur bekkjarborð og eitt stórt, tvær sængur fornar með hægindum, einar hvíluvoðir, eitt gamalt áklæði og einn lás. Til heyskapar átti kirkjan þrjú orf, tvo ljái og sex hrífur.

Síðast í Gíslamáldaga er svo nefnt áttærings skip[272] sem ekki mun hafa verið minnsta eignin. Í hinum eldri eignaskrám Holtskirkju, sem báðar eru frá síðari hluta 14. aldar, verður hins vegar ekki séð að kirkjan hafi þá verið búin að koma sér upp báti.

Tímabilið frá siðaskiptum fram til 1900 spannar um það bil 360 ár. Á því skeiði sátu 16 prestar í Holti[273] og lætur nærri að þeir hafi þjónað prestakallinu í 23 ár hver að jafnaði. Sumir þessara presta höfðu verið aðstoðarprestar forvera sinna í Holti áður en þeir fengu veitingu fyrir brauðinu og séu þau ár talin með hækkar meðaltími hvers og eins úr 23 árum í 27. Á þessu sama skeiði þjónuðu líka í Holti 7 aðstoðarprestar sem fengu aldrei veitingu fyrir brauðinu.[274] Meðalstarfstími þeirra í Önundarfirði var 7-8 ár.

Fyrsti lúterski presturinn í Holti var séra Ólafur Jónsson sem hér hefur áður verið sagt frá (sjá bls. 19-21) en hann tók við staðnum skömmu fyrir siðaskipti og var því einnig síðasti kaþólski presturinn í Holti. Séra Ólafur mun hafa andast árið 1574 eða því sem næst[275] og hafði þá þjónað Holtsprestakalli í nær 40 ár.

Næsti prestur í Holti var séra Brynjólfur Jónsson, sonur Jóns Ólafssonar sýslumanns sem bjó í Hjarðardal,[276] líklega Neðri-Hjarðardal í Dýrafirði (sjá hér Neðri-Hjarðardalur). Séra Brynjólfur varð skammlífur og er talinn hafa andast árið 1581.[277] Kona hans var Bríet, dóttir séra Pantaleons Ólafssonar á Stað í Grunnavík. Tvær dætur þessara prestshjóna komust upp og hétu báðar Guðrún.[278]

Þegar séra Brynjólfur andaðist var Gísli Jónsson biskup í Skálholti. Hann tók þá ákvöðrun að veita Holtsprestakall kornungum manni, Sveini Símonarsyni, sem verið hafði kirkjuprestur í Skálholti nokkuð á fjórða ár. Sú ákvörðun biskups sýnir að þessi ungi prestur hefur notið mikils trausts og verið álitinn vel til forystu fallinn.

Séra Sveinn Símonarson var Sunnlendingur að ætt og uppruna. Föðurfaðir hans var séra Jón Héðinsson í Hruna sem lengi var ráðsmaður í Skálholti á dögum Ögmundar biskups. Þar stóð séra Jón fyrir drápi hins danska fógeta Diðriks af Mynden og fylgdarmanna hans sumarið 1539 en fáum mánuðum áður höfðu Diðrik og aðrir konungsmenn rænt klaustrið í Viðey og svívirt helgidóma þeirra sem enn héldu tryggð við páfann. Séra Jón Héðinsson sem nefndur var rauðkollur[279] hefur tvímælalaust verið einbeittur maður og óvílinn og svo var einnig um marga niðja hans. Tæpum tveimur árum eftir víg Diðriks af Mynden lét konungur handtaka Ögmund biskup og flytja hann nauðugan úr landi og sumarið 1541 var hin nýja lúterska kirkjuskipan samþykkt af flestum prestanna í Skálholtsbiskupsdæmi. Fáeinir neituðu þó að gangast undir hinn nýja sið og einn þeirra var séra Jón Héðinsson í Hruna[280] sem hélt tryggð við kaþólskuna allt til dauðadags en hann andaðist að talið er árið 1543.

Séra Jón Héðinsson í Hruna átti tvo syni og var annar þeirra Símon prestur sem að föður sínum látnum gekk til liðs við Gizur biskup Einarsson og varð kirkjuprestur í Skálholti árið 1544.[281] Þaðan fór hann að Kálfholti í Rangárþingi og þar var hann prestur frá 1545 til 1568. Kona séra Símonar hét Halla Bjarnadóttir og voru þau foreldrar Sveins Símonarsonar sem fæddist í Kálfholti árið 1559 eða því sem næst.[282]

Í bréfi frá árinu 1615 kveðst séra Sveinn hafa hafið skólanám í Skálholti 10 vetra gamall og síðan verið þar vistfastur við nám og störf í nær 13 ár samfleytt.[283] Úr öðrum heimildum er kunnugt að honum var veitt Holtsprestakall árið 1582[284] og verður því að gera ráð fyrir að hann hafi fæðst árið 1559. Síðustu ár sín í Skálholti var Sveinn kirkjuprestur þar en prestvígslu mun hann hafa tekið árið 1578.[285]

Áður en séra Sveinn fór úr Skálholti fékk hann sérstakt vitnisburðarbréf hjá Gísla biskupi en þar fer biskup mjög lofsamlegum orðum um þennan unga mann sem nú átti að taka við staðarforráðum í Holti. Bréfið er ritað 30. janúar 1582 og í því kemst biskup m.a. svo að orði:

 

Ég Gísli Jónsson, superintendens Skálholtsstiftis, gjöri góðum mönnum kunnugt með þessu mínu opnu bréfi að þessi ærleg persóna, síra Sveinn Símonarson, hefir hér í Skálholti verið svo sem frá sínum blautum barnsdómi. Kom hann hér í minn barnaskóla 10 vetra og var í honum 9 ár. Þareftir kallaði ég hann til kennimannsskapar svo hann hefir bæði verið minn kórprestur og kirkjuprestur í Skálholti. Því veit ég ekki annað á mína klára samvisku utan svo: Hann hegðaði sér í sínum skóla svo sem góðum skólapilti bar og heyrði með allri hlýðni, auðveldni og lærdómi svo og sér til orðs og æðis skikkandi svo sem góðum skólapilti bar og heyrði og nú síðan er hann tók sinn kennimannsskap hefir hann sér í allan máta svo skikkað utan kirkju og innan svo sem einni ærlegri persónu ber, bæði í kenningu, áminningu og loflegum lifnaði það ég kann af að vita og svo allir þeir sem verið hafa í Skálholti, minni háttar og meiri … .[286]

 

Þegar Sveinn prestur tók við staðnum í Holti vorið 1582 var hann aðeins 23ja ára gamall eða því sem næst en á þeim liðlega 400 árum sem síðan eru liðin mun svo ungum presti aldrei hafa verið veitt þetta ágæta brauð. Öllum heimildum ber saman um að séra Sveinn Símonarson hafi verið prestur í Holti í meira en hálfa öld en hinum ýmsu höfundum sem um hann hafa ritað ber hins vegar ekki alveg saman um hvenær hann hafi látið af embætti (sjá hér bls. 39-40).

Óhætt mun að fullyrða að séra Sveinn hafi haldið staðarforráðum í Holti og þjónað Holtsprestakalli lengur en nokkur annar prestur í lúterskum sið og ólíklegt er að nokkur kaþólskur prestur hafi setið hér svo lengi en um suma þeirra er ekkert vitað. Við samanburð á starfsaldri séra Sveins og annarra presta í Holti kemur í ljós að einn maður veitir honum þó mjög harða samkeppni hvað þetta varðar en það er séra Sigurður Jónsson sem hafði staðarforráð í Holti í 50 ár, frá 1680-1730,[287] og þar með litlu skemur en séra Sveinn. Þess er einnig skylt að geta að séra Sigurður hafði verið hér aðstoðarprestur í 11 ár þegar hann tók við forræði staðarins (sjá hér bls. 56-57) svo vera má að hann hafi jafnvel stigið oftar en séra Sveinn í stól kirkjunnar í Holti.

Séra Jón Halldórsson í Hítardal segir að séra Sveinn Símonarson hafi árið 1583 orðið prófastur og umboðsmaður biskups í allri Ísafjarðarsýslu[288] og í Alþingisbókinni frá 1589 er hann sagður fara með biskupsumboð milli Geirhólms og Langaness,[289] það er í allri Ísafjarðarsýslu. Upp úr 1590 var annar maður hins vegar orðinn prófastur í norðurhluta sýslunnar[290] en séra Sveinn mun hafa verið prófastur í vesturpartinum allt til ársins 1632 er Jón sonur hans tók við því starfi.[291] Á starfsárum séra Sveins, hinum fyrri að minnsta kosti, munu tveir hreppar í Norður-Ísafjarðarsýslu hafa talist til vestara prófastsdæmisins því árið 1595 eru mörk prófastsdæmanna í Ísafjarðarsýslu sögð vera við Arnarnes[292]

Um búskaparhætti í Holti á dögum Sveins Símonarsonar er fátt vitað með vissu. Einn vitnisburður frá árinu 1599 gefur þó vísbendingu um mikil umsvif í útgerð en þar greinir maður að nafni Bjarni Gunnarsson svo frá að hann hafi verið formaður á staðarskipi frá Holti í 11 vertíðir og jafnan róið frá landi jarðarinnar Minni-Bakka í Skálavík[293] en þar átti Holtskirkja tollfrjálsa skipsstöðu (sjá hér bls. 27). Ólíklegt verður að telja að séra Sveinn hafi verið með alla sína útgerð norður í Skálavík en nær lagi að gera ráð fyrir að skip staðarins hafi verið fleiri en eitt og a.m.k. einn bátur frá Holti hafi verið gerður út frá Kálfeyri sem var helsta verstöð Önfirðinga.

Vitnisburð áðurnefnds Bjarna Gunnarssonar, dagsettan 19. apríl 1599 hefur Brynjólfur biskup látið færa inn í vísitazíubók sína 40 árum síðar og þar er hann skráður með þessum orðum:

 

Vitnisburður Bjarna heitins Gunnarssonar hver að meðkennir sig hafa verið ellefu vertíðir á staðarins skipi í Skálavík og fyrir full sannindi vitað að kirkjan í Holti hafi átt þar átölulaust tolllaust skip um allan þann tíma og eldiviðartak í Breiðabólshlíð. Item að Sveinn heitinn Jónsson sem þá hélt Breiðaból og Bakka hafi hjálpað til þá þeir ristu upp á búðina, léð þar til torfljá og verkfæri sem með þurfti og boðið staðarmönnum að halda uppi þeirra búð og búa vel að henni.

Item lýsir Bjarni Gunnarsson að Narfi heitinn Þórðarson hafi lýst því að á dögum séra Ólafs heitins [þ.e. séra Ólafs Jónssonar sem var prestur í Holti á árunum 1537-1574, − innskot K.Ó.] hafi Holtskirkja talist eiga rétt á að gera teinært skip út frá Skálavík, Breiðabólsmegin.[294]

 

Í bréfum og skjölum frá árunum 1580-1640 má sjá að séra Sveinn Símonarson í Holti lét víða til sín taka og margt bendir til þess að hann hafi löngum notið meiri virðingar en flestir aðrir klerkar sem þá voru á dögum. Ýmis dæmi sýna að séra Sveinn hikaði ekki við að ganga fram fyrir skjöldu í veraldlegum málum ef mikið þótti við liggja eins og bréf klerkanna sex úr prófastsdæmi hans frá vorinu 1615 sýnir best.[295] Í þessu bréfi veitast prestarnir harkalega að dönsku einokunarkaupmönnunum sem þá höfðu setið einir að allri verslun við Íslendinga í þrettán ár. Gera má ráð fyrir að Sveinn prófastur sé aðalhöfundur bréfsins því hann skrifar fyrstur undir og það er ritað á hans heimili í Holti.[296] Hér hefur áður verið vitnað í þetta bréf Vestfjarðaprestanna gegn verslunarmáta dönsku einokunarkaupmannanna (sjá hér Þingeyri) en þar er hinum síðarnefndu meðal annars borið á brýn að þeir falsi mál og vog og fullyrt að margar innfluttar vörur hafi hækkað í verði um fjórðung eða þriðjung á skömmum tíma en öllum kröfum um hærra verð fyrir innlendar afurðir sé hins vegar synjað af kaupmönnum.

Séra Sveinn Símonarson var líka einn þriggja presta og níu leikmanna úr Ísafjarðarsýslu sem vorið 1616 sendu Alþingi kærubréf vegna framferðis spænskra hvalveiðimanna á Vestfjörðum þrjú undanfarin ár.[297] Þetta síðarnefnda bréf var ritað í Holti 3. júní 1616 og hafði þann eina tilgang að réttlæta framgöngu Dýrfirðinga og Djúpmanna er þeir murkuðu niður yfir 30 spænska skipbrotsmenn haustið 1615 (sjá hér Fjallaskagi).

Bréfin tvö frá Holti sem hér hafa nú verið nefnd tengjast bæði Ara Magnússyni, sýslumanni í Ögri, en hann var á þessum árum ótvíræður forystumaður Vestfirðinga í baráttu þeirra við danska einokunarkaupmenn (sjá hér Þingeyri) og stóð líka fyrir vígum Spánverjanna haustið 1615. Svo virðist sem Ari sýslumaður og Sveinn prófastur í Holti hafi jafnan verið nánir bandamenn en á fyrstu árum sínum í Holti hafði séra Sveinn hins vegar átt í útistöðum við forvera Ara í embætti sýslumanns, Pál Jónsson, sem nefndur var Staðarhóls-Páll, og var föðurbróðir Ara í Ögri. Á þeim árum sem Páll fór með sýsluvöld í Ísafjarðarsýslu átti hann jafnan heima utan sýslunnar, lengst á Reykhólum, en studdist við umboðsmenn sína innan sýslunnar. Svo virðist sem séra Sveinn í Holti og fleiri mektarmenn í Ísafjarðarsýslu hafi verið mjög ósáttir við dómgæslu Páls og í bréfi er séra Sveinn og sjö aðrir menn rituðu höfuðsmanni árið 1596 bera þeir fram kæru á hendur Staðarhóls-Páli fyrir þær sakir að sýslumaður þessi hafi að engu dóma og úrskurði sinna eigin umboðsmanna.[298] Þegar þetta bréf var ritað mun séra Sveinn tæplega hafa átt þess von að hann myndi fáum árum síðar ganga að eiga Ragnheiði, dóttur Staðarhóls-Páls, sem þá var enn eiginkona Gizurar Þorlákssonar, lögsagnara á Núpi í Dýrafirði. Fjórum árum síðar var Ragnheiður hins vegar orðin ekkja og gekk þá að eiga séra Svein (sjá hér bls. 38-39). Var það annað hjónaband beggja.

Á fyrstu áratugum tuttugustu aldar lifðu enn á vörum fólks í Önundarfirði sagnir um framgöngu séra Sveins við byggingu nýrrar kirkju í Holti. Kjarninn úr þeim sögum var síðar færður í letur og búinn til prentunar í ritinu Frá ystu nesjum. Þar segir:

 

Það herma sagnir að á dögum Sveins klerks hafi kirkja verið mjög hrörleg orðin í Holti og að falli komin. Með dugnaði miklum og fyrirhyggju aflaði Sveinn kirkjuviðar og fékk hann fluttan sjóleið inn í svonefnd Vöð og allt þangað sem Arnarbæli heitir. Var kirkjuviður þessi stærri og þyngri en sést hafði fyrr þar um slóðir, svo að lítt þóttu stærstu trén hesttæk. Er sagt að séra Sveinn hafi látið grafa skurð eftir Holtsengi og allt heim að túni. Var trjáviðnum til kirkjunnar síðan fleytt eftir skurði þessum og þótti vel takast. Sést enn fyrir gömlum skurði sem legið hefur þvert yfir engið og telja sumir að þar sé um að ræða skurð Sveins prófasts.[299]

 

Sumarið 1993 sást skurður þessi enn býsna vel og liggur hann frá norðurbakka Vaðalsins og þaðan í ótal krókum í átt að kirkjunni.

Líklega hefur kirkjan sem séra Sveinn lét reisa staðið enn uppi árið 1639 þegar Brynjólfur sonur hans vísiteraði í Holti í fyrsta sinn, þá nývígður Skálholtsbiskup. Í vísitazíugerð Brynjólfs frá sumrinu 1639 segir um Holtskirkju að hún sé gömul að viðum en máttarviðirnir séu þó sterkir.[300] Þarna sést að kirkjan sem stóð í Holti árið 1639 var torfkirkja því í vísitazíugerðinni segir svo: Moldir allar gamlar utan einn veggur nýlagaður norðan fram.[301]

Séra Sveinn Símonarson mun hafa verið góður lærdómsmaður en fátt liggur eftir hann í rituðu máli. Ein bók sem hann þýddi var þó prentuð á Hólum árið 1618 og er það Vinaspegill (Speculum amicitiæ) eftir Sigmund Svevus, þýskan 16. aldar mann er einnig nefndi sig Schwabe, en hann var síðast prófastur í borginni Neustadt í Þýskalandi.[302] Bók þessi hefur að geyma ýms guðrækileg heilræði en hina íslensku útgáfu hennar tileinkaði séra Sveinn Ara Magnússyni, sýslumanni í Ögri.[303]

Í formála Vinaspegils birtir séra Sveinn rímað ávarp til lesenda er hann mun sjálfur hafa ort og hljóðar fyrsta erindið svo:

 

Að vísu er þér vinur trúr,

vörnin sterk og hlífðarmúr,

hallkvæmari en hirsla full,

heimsins auður, silfur og gull.[304]

 

Fleiri rit en Vinaspegil mun prófastur þessi í Holti hafa fengist við að snúa á íslensku, m.a. bækling um hagkvæmni í búskap ef marka má orð Jóns Ólafssonar frá Grunnavík og talið er að séra Sveinn eða Jón sonur hans hafi þýtt safn predikana eftir þýskan háskólakennara í guðfræði, Balthazar Meisner í Wittenberg.[305]

Sighvatur Grímsson Borgfirðingur, sem ritaði margt um presta, kunni að nefna þrjú frumsamin rit eftir séra Svein Símonarson og telur þau upp í þessari röð: 1. Kristileg hústafla í sautján greinum. 2. Hugvekjur undir nafninu Nýársgáfur að offra. 3. Annálságrip.[306] Síðastnefnda ritið mun nú vera glatað en í öðrum og yngri söguritum er stundum til þess vitnað.[307]

Í annálabrotum Gísla Oddssonar, biskups í Skálholti, er vitnað í bréf sem séra Sveinn í Holti ritaði 2. janúar 1610 og segir þar svo:

 

Þann 2. janúar skrifar séra Sveinn Símonarson, virðingarverður öldungur og prófastur, að sést hafi að vetrinum um Andrésarmessu þrjú tungl í senn. Var forkunnarskær hringur í kringum þau og komu á eftir óvenju hræðilegir stormar. – Sömuleiðis skrifar hann að um hábjartan og heiðskíran dag hafi loftið eða ásýnd himinsins verið svo blóðrauð að engu var líkara en að morgunroða slæi á fjöll. Sömuleiðis getur hann þess að sumarið 1609 hafi í sólskini sést stjörnur sem gengu í útsuður á móti nátúrunnar reglum.[308]

 

Fróðlegt gæti verið að heyra skýringar stjörnufræðinga á þeim himinteiknum sem þarna er frá greint. Frásögn séra Sveins af sínum furðulegu loftsjónum er reyndar ekki sú eina af því tagi sem Gísli biskup færir inn í annál sinn því kirkjuhöfðinginn í Skálholti taldi sig þekkja fjölmörg dæmi um alvarlegan rugling á lögmálum hinnar bláu festingar himinhvolfsins.[309] Tilgátu um að séra Sveinn í Holti hafi verið ölmóður þegar hann sá þrjú tungl á lofti og stjörnur himinsins víkja af réttri braut skulum við leggja í salt en hér verður síðar að því vikið að hann þótti fyrirmyndarprestur, bæði drukkinn og ódrukkinn.[310]

Séra Sveinn Símonarson var tvíkvæntur. Fyrri kona hans var Þórunn, laundóttir Björns Hannessonar lögsagnara sem var sonur Hannesar Eggertssonar, hirðstjóra á Núpi í Dýrafirði, og dóttursonur Björns Guðnasonar í Ögri. Af börnum séra Sveins með Þórunni náðu fimm fullorðinsaldri. Eitt þeirra var séra Jón Sveinsson sem tók við embætti af föður sínum. Tveir aðrir synir séra Sveins og Þórunnar Björnsdóttur gerðust bændur í Önundarfirði, þeir Björn á Þórustöðum og Þorleifur í Hjarðardal.[311]

Ekki er vitað með vissu hvenær Þórunn Björnsdóttir, prestsfrú í Holti, andaðist en fullvíst er þó að hún kvaddi lífið fyrir 1600, líklega á árunum kringum 1595. Snemma á árinu 1597 var Gizur Þorláksson, lögsagnari á Núpi í Dýrafirði, á ferð yfir Rafnseyrarheiði og fórst þá í snjóflóði vestantil við heiðarskarðið (sjá hér Rafnseyri). Gizur var kvæntur Ragnheiði, dóttur Staðarhóls-Páls, og segir sagan að séra Sveinn í Holti hafi verið fenginn til að greina henni frá slysinu. Minning um fund prófastsins í Holti og ekkjunnar á Núpi lifði lengi í munnmælum og orð Ragnheiðar er hún kvaddi sálusorgarann færð í þennan búning: − Fyrst þú hrelldir mig, séra Sveinn, er þér skyldast að gleðja mig aftur (sjá hér Núpur).  Þau orð var tæplega hægt að skilja nema á einn veg enda leið ekki á löngu uns prófasturinn í Holti kom að Núpi í bónorðsför og 14. september árið 1600 voru þau Sveinn Símonarson prófastur og Ragnheiður Pálsdóttir á Núpi gefin saman.[312] Var það annað hjónaband beggja. Giftingarmaður ekkjunnar var Ari Magnússon, sýslumaður í Ögri,[313] en þau voru bræðrabörn.

Er séra Sveinn gekk að eiga Ragnheiði var hann um fertugsaldur en hún að líkindum eitthvað yngri. Saman lifðu þau í hjónabandi í 36 ár uns Ragnheiður andaðist haustið 1636. Með fyrri manni sínum hafði Ragnheiður Pálsdóttir eignast tvo syni sem náðu að vaxa úr grasi, Jón sem síðar varð bóndi og fræðimaður á Núpi (sjá hér Núpur) og Magnús sem varð bartskeri og bjó í Lokinhömrum (sjá hér Lokinhamrar). Börn séra Sveins og Ragnheiðar urðu líka tvö, synirnir Gizur og Brynjólfur. Gizur Sveinsson, sem fæddur var árið 1604, varð prestur á Álftamýri (sjá hér Álftamýri) en Brynjólfur, sem fæddist 14. september árið 1605, varð í fyllingu tímans biskup í Skálholti. Frá uppvexti hans í Önundarfirði er sagt litlu aftar í þessu riti.

Einn þeirra sem minnast á séra Svein Símonarson í ritum sínum er séra Torfi Jónsson í Gaulverjabæ en hann var sonur Jóns Gizurarsonar á Núpi í Dýrafirði sem var stjúpsonur séra Sveins. Í ævisögu Brynjólfs biskups sem séra Torfi ritaði segir:

 

Hans faðir var sá virðulegi og guðhræddi kennimann, séra Sveinn Símonarson, nafnfrægur að gervöllum manndyggðum og langgæður prestur 56 ár þess sama staðar og yfir 43 ár prófastur yfir vestari hluta Ísafjarðarsýslu.[314]

 

Ef marka má orð séra Torfa hefur Sveinn prestur í Holti haldið embætti sínu þar allt til ársins 1638 en þá var hann 79 ára gamall (sjá hér bls. 33) og átti sex ár ólifuð.

Í viðauka við Skarðsárannál er séra Sveinn sagður hafa þjónað kennimannsembætti í 67 ár[315] og ætti samkvæmt því að hafa haldið prestsembættinu til dauðadags því hann tók prestvígslu árið 1578 (sjá hér bls. 33) en andaðist í Holti 18. desember 1644.[316] Þennan viðauka við Skarðsárannál er talið að Brynjólfur biskup Sveinsson hafi samið[317] en undarlegt má kalla að þeim frændum, Brynjólfi biskupi og séra Torfa í Gaulverjabæ, skuli ekki bera saman um embættisár séra Sveins svo nákomnir honum sem þeir voru og greinargóðir báðir tveir.

Árið 1647 fór Brynjólfur biskup í sína þriðju yfirreið um Vestfirði og vísiteraði þá í Holti þann 20. ágúst. Í þeirri vísitazíugerð biskups stendur skýrum stöfum að til ársins 1630 hafi séra Sveinn haldið staðinn í Holti einn en síðan að hálfu á móti Jóni syni sínum allt til dauðadags og tekið fram að Sveinn prestur hafi andast árið 1644.[318] Þegar biskup lét færa þetta til bókar voru aðeins liðin tæplega þrjú ár frá andláti föður hans svo óhætt mun að taka fullt mark á því sem þarna er sagt.

Að nafninu til hefur séra Sveinn því verið prestur í Holti til æviloka og haldið staðinn að hálfu síðustu fjórtán árin. Engin ástæða er samt til að rengja þau orð Torfa í Gaulverjabæ að séra Sveinn í Holti hafi verið nær blindur og legið að mestu í kör á sínum síðustu æviárum.[319]

Frá andláti séra Sveins á jólaföstu árið 1644 er greint í annálum[320] og í einum viðauka við Skarðsárannál er hinum burtsofnaði öldungi í Holti lýst með þessum orðum: Hann var sérdeilis prestmann og yfirgekk vel flesta menn í hegðan og skikkun, svo vel drukkinn sem ódrukkinn.[321]

Um Ragnheiði Pálsdóttur, prestsfrú í Holti og móður Brynjólfs biskups, hefur sitthvað verið fest á blað. Öllum sem um hana hafa ritað ber saman um að hún hafi verið hinn mesti skörungur og allvíða er greint frá tengslum hennar við huldar vættir. Að Ragnheiði stóðu sterkir stofnar og óhætt mun að fullyrða að á síðustu áratugum 16. aldar hafi Páll Jónsson faðir hennar, almennt nefndur Staðarhóls-Páll, og bræður hans frá Svalbarði við Eyjafjörð verið ríkari og voldugri en flestir aðrir veraldarhöfðingjar er þá voru uppi á landi hér. Í móðurkyn var Ragnheiður svo komin af Jóni Arasyni Hólabiskupi því Helga Aradottir, móðir Ragnheiðar, var sonardóttir Jóns biskups.

Séra Torfi Jónsson í Gaulverjabæ, sem var sonarsonur Ragnheiðar Pálsdóttur, kallar þessa ömmu sína í Holti göfuga og dyggðaríka höfðingskvinnu[322] og séra Jón Halldórsson í Hítardal lýsir Ragnheiði með þessum orðum: Hún var mikill kvenskörungur, vitur, örlát og sagði djarflega meiningu sína við hvern sem í hlut átti.[323] Frá komu Odds Einarssonar biskups að Holti sumarið 1605 segir sonarsonur hans, Oddur Eiríksson á Fitjum í Skorradal, svo í Fitjaannál:

 

Þegar biskupinn, herra Oddur, kemur nú að Holti þá er séra Sveinn kominn í kaupstað. Ragnheiður var kvenskörungur mikill og tók biskup og hans sveina vel og heiðarlega með stórveitingum og drykkju. Sest hún líka sjálf til borðs með biskupi og þegar hann er af öli glaður orðinn og málhreifur, þá skrafa þau til samans eitt og annað.

Segir þá biskup sig hafi grunað eða hann ætli að einn af sonum séra Sveins muni biskup verða í Skálholti eftir sig. Ragnheiður tekur því ekki nærri, bæði vegna fátæktar og annars fleira sem hún til finnur, en segist þó vilja sýna honum syni hans svo hún megi um það fræðast hver biskup af þeim eigi að verða. Þeir voru þá flestir ungir. Svo er á þá alla kallað og er svo einn eftir annan fram leiddur fyrir biskup og blessar hann hvern fyrir sig. Þá spyr Ragnheiður, þegar þeir ganga frá biskupi einn af öðrum: „Er hann það nokkuð, herra?” – „Nei”, segir biskup, og svo kemur Gizur, sonur séra Sveins og hennar … . Hún spyr þá biskup hvort hann sé það. Biskup neitar því. Þá svarar Ragnheiður: „Nú ætlar yður að slá feil, herra.” – „Ekki mun það verða”, segir biskup, og leggur hönd sína á brjóst hennar eður lítið neðar og segir: „Ef sá verður ekki biskup eftir mig sem þú ber fyrir brjóstinu núna, þá bregst mér.” Þá átti Ragnheiður að segja: „Satt er það, herra minn, annað hvort verður það biskup eða meistari.” [324]

 

Óþarft mun að taka fram að barnið sem prestsfrúin í Holti bar undir belti þegar Oddur Einarsson settist að veislu í hennar húsum var Brynjólfur Sveinsson sem síðar varð bæði meistari og biskup. Þessari ágætu sögu virðist því ætlað að sýna og sanna að bæði hafi þau verið forspá, Oddur biskup í Skálholti og Ragnheiður í Holti.

Líklegt er að frægð Brynjólf biskups hafi stuðlað að því að ýmsar sagnir um móður hans urðu til og lifðu sumar lengi í munnmælum. Þar er nær eingöngu fjallað um tengsl Ragnheiðar við þá huldu álfaþjóð sem trúað var að í landinu byggi við hlið mennskra manna. Í einni slíkri sögu er frá því greint að þegar Ragnheiður var ung stúlka á Staðarhóli í Saurbæ hafi hún alið barn í álfhól fram á Traðardal.[325] Þangað fór hún skrautbúin með rauða damasksvuntu en kom til baka næsta dag og var þá svuntulaus.[326]

Í annarri sögu af sama tagi er greint frá vináttu Ragnheiðar við álfkonu sem átti heima í Mjóanesi en nes þetta sem er mjótt og nokkuð hátt gengur fram í leirurnar við fjarðarbotninn, um það bil miðja vega milli Mosvalla og Kota, litlu innar en gegnt Tannanesi. Þangað er tæplega klukkutíma gangur frá Holti. Í bókfestri munnmælasögu úr Önundarfirði um samskipti prestsfrúarinnar í Holti og huldukonunnar í Mjóanesi segir meðal annars svo:

 

Ragnheiður þótti nærkona hin besta, mjúkhent og farsæl. Sat hún yfir álfkonunni, vinu sinni í Mjóanesi, í hvert skipti sem hún ól barn.

Það var einhverju sinni að Ragnheiður var kölluð að Mjóanesi. Átti hún ekki hægt um vik að sinna kallinu því að hún var vanfær og komin langt á leið. Þó ætlaði hún að fara en Sveinn prófastur varð þess var og bað hana í öllum bænum að hreyfa sig hvergi. Lét hún að orðum bónda síns og þó með semingi.

Næstu nótt var sent til hennar öðru sinni og fylgdu þau skilaboð að álfkonan væri lögst á sæng og gæti ekki alið barn sitt. Reis hún þá upp sem skjótast, lét ekkert hefta för sína og hélt rakleitt að Mjóanesi. Mátti ekki tæpara standa að hún kæmi því að mjög var af álfkonunni dregið. Tók Ragnheiður nú til þess sem hún kunni best og tókst brátt að greiða úr öllum vanda. Þegar álfkonan var léttari orðin þakkaði hún Ragnheiði lífgjöfina, tók smyrslabauk upp úr skríni sínu, rétti henni og sagði:

„Bauk þennan skalt þú þiggja sem lítinn vott þakklætis míns og vináttu. Er þú kemur heim munt þú brátt á sæng leggjast og svein ala. Skalt þú taka baukinn, smyrja sveininn með smyrslum þessum og rjóða þeim í augu honum. Mun það vel gefast.”

Ragnheiður tók við bauknum og kvaddi vinkonu sína. Fór allt eftir sem álfkonan sagði og fylgdi Ragnheiður ráði hennar. Sveinninn sem hún ól var Brynjólfur, síðar meistari og biskup í Skálholti. Erfði hann skyggnigáfu móður sinnar og hafði náin kynni af álfum allt frá fyrstu bernsku. Nam Brynjólfur af þeim ýmsan fróðleik og varð fyrir þær sakir fjölvísari en flestir menn aðrir.[327]

 

Sagan um Ragnheiði í Holti og álfkonuna í Mjóanesi er gott dæmi um rótgróna trú alþýðu manna fyrrum á þeim heillum sem fylgdu tryggðavináttu við huldar vættir landsins.

Ragnheiður Pálsdóttir í Holti andaðist í nóvembermánuði árið 1636. Brynjólfur sonur hennar, sem hálfu öðru ári síðar var kjörinn til biskups í Skálholti, greinir frá andláti móður sinnar með þessum orðum:

 

Deyði Ragnheiður Pálsdóttir í Holti í Önundarfirði þann 19. nóvember (1636), á föstudag eftir miðdegi, lá 13 daga, tók sótt um sunnudag, andaðist kristilega, segjandi góða nótt öllum og sóknina fyrirgefningar biðjandi. Stóð uppi til sunnudags og var svo jörðuð eftir embætti. Vitur kona, mild, örlát, greind og djarfmannleg, skörungur mikill og sagði meining sína hver sem í hlut átti.[328]

 

Sonarsonur Ragnheiðar, séra Torfi Jónsson í Gaulverjabæ, greinir einnig frá andláti hennar og tekur fram að hún hafi verið þvinguð af heimakomu tvö síðustu árin sem hún lifði.[329]

Af prestum sem þjónuðu Holtsprestakalli á liðnum öldum náði enginn að verða biskup enda þótt stöku sinnum munaði mjóu að svo yrði. Aftur á móti átti það fyrir Brynjólfi Sveinssyni að liggja að setjast á biskupsstól í Skálholti en hann var fæddur í Holti 14. september 1605, sonur séra Sveins Símonarsonar og Ragnheiðar Pálsdóttur konu hans sem hér hefur verið sagt lítillega frá. Óhætt mun að fullyrða að Brynjólfur biskup sé kunnastur allra þeirra sem koma við sögu kirkjustaðarins í Holti enda hlaut hann mestan embættisframa og var að líkindum lærðari en nokkur hinna. Hér verður þó látið duga að draga fram það helsta sem kunnugt er um uppvöxt Brynjólfs í Önundarfirði og tengsl hans við fæðingarstað sinn en ekki ráðist í að fjalla um ævi hans og störf svo nokkru nemi.

Sjálfur minnist Brynjólfur á fæðingu sína og uppvaxtarár í viðaukagrein sem fylgir Skarðsárannál og kveðst þar vera fæddur um miðaftansbil föstudaginn 14. september 1605.[330] Á sama stað lætur hann þess getið að fyrstu þrjú árin hafi hann verið í fóstri á bænum Hóli í Önundarfirði, hjá Bjarna Ólafssyni og Margréti Guðmundsdóttur, en síðan alist upp hjá föður sínum og móður í Holti til þrettánda árs.[331]

Séra Torfi Jónsson í Gaulverjabæ, bróðursonur Brynjólfs biskups og náinn samstarfsmaður, ritaði á sínum tíma svolítið kver um lífshlaup Brynjólfs og segir þar:

 

Þessi blessaði biskup var fæddur til þess dauðlega ljóss og lífs að Holti í Önundarfirði á Vestfjörðum anno 1605, sjálfa krossmessu um haustið sem innfellur á þann 14. dag septembris er þá bar upp á föstudag, eftir miðaftan, af heiðarlegum, ættgöfugum og guðhræddum foreldrum.[332]

 

Séra Torfi greinir ekki nánar frá fæðingu Brynjólfs biskups en lætur þess getið að hann hafi verið nefndur eftir séra Brynjólfi Jónssyni sem prestur var í Holti næstur á undan séra Sveini.[333]

Um ástæður þess að Brynjólfi Sveinssyni var skömmu eftir fæðingu hans komið í fóstur að Hóli í Firði er ekki vitað en á 16. og 17. öld mun eitthvað hafa tíðkast að fyrirmenn kæmu ungum börnum sínum í fóstur hjá almúgafólki um lengri eða skemmri tíma.[334] Líklegt er að Bjarni á Hóli og Margrét kona hans hafi verið í góðu vinfengi við prestshjónin í Holti og notið hjá þeim sérstaks trausts og þess má reyndar geta að Bjarni bóndi á Hóli var sjálfur prestssonur frá Holti en faðir hans var séra Ólafur Jónsson, síðasti kaþólski presturinn þar og jafnframt sá fyrsti í lúterskum sið.[335] Sjálfur segist Brynjólfur hafa verið í fóstri hjá Bjarna og Margréti á Hóli þrjú fyrstu aldursár sín[336] en séra Torfi í Gaulverjabæ orðar það svo að biskup hafi verið þar allt til þriðja árs.[337]

Nám í latínu og kristnum fræðum mun Brynjólfur hafa hafið hjá föður sínum á ungum aldri og fylgdi þar Gizuri bróður sínum[338] sem var liðlega hálfu öðru ári eldri. Að sögn Torfa í Gaulverjabæ setti séra Sveinn drengjunum fyrir hvað þeir áttu að lesa og hlýddi þeim svo yfir á máltíðum meðan setið var að snæðingi.[339] Sjálfur kvaðst Brynjólfur hafa lesið biblíuna fimm sinnum á tólfta aldursári en haustið sem Brynjólfur varð 12 ára reið séra Sveinn suður í Skálholt með drengi sína tvo og þar voru þeir bræður báðir teknir inn í skólann.[340]

Úr Skálholtsskóla var Brynjólfur útskrifaður árið 1623 eftir sex vetra nám en á þeim árum mun hann jafnan hafa dvalist heima í Holti á sumrin og einnig fyrsta árið að stúdentsprófi loknu.[341]

Haustið 1624 var Brynjólfur 19 ára gamall og sigldi þá til háskólanáms í Kaupmannahöfn. Fimm árum síðar kom hann heim og hafði þá lokið háskólaprófi í guðfræði, heimspeki og málfræði.[342] Á árunum 1629-1631 dvaldist Brynjólfur heima í Holti hjá foreldrum sínum og lagði þá einkum stund á grískunám.[343] Sumarið 1631 reið hann suður að Öxará og var þar á Alþingi.[344] Oddur Einarsson biskup í Skálholti var þá andaður og er sagt að Vestfirðingar hafi þá þegar viljað fá Brynjólf kjörinn sem eftirmann hans.[345] Sú hugmynd náði þó ekki fram að ganga enda var Brynjólfur þá ekki nema 25 ára gamall. Hinn hámenntaði prestssonur frá Holti sigldi því aftur til Kaupmannahafnar haustið 1631 og lagði þar enn stund á háskólanám næsta vetur. Haustið 1632 varð hann konrektor við Hróarskelduskóla í Danmörku og gegndi því starfi í sex ár.[346] Á þessum árum var Brynjólfur talinn einn hinna lærðustu manna í öllu Danaveldi og vorið 1633 hlaut hann meistaranafnbót frá háskólanum í Kaupmannahöfn.[347]

Vorið 1638 kom Brynjólfur út til Íslands en þá hafði hann ekki vitjað fósturjarðarinnar í nær sjö ár. Ef marka má orð hans sjálfs í bréfi frá haustinu 1638 mun ætlun hans hafa verið sú að dveljast hér aðeins í nokkrar vikur en halda síðan áfram fyrri störfum í Danmörku.[348] Allt fór þetta hins vegar á annan veg því sumarið 1638 andaðist Gísli biskup Oddsson um þingtímann og var þá samþykkt á prestafundi að kjósa Brynjólf til biskups í Skálholti. Sjálfur var Brynjólfur staddur við Öxará þegar Gísli biskup safnaðist þar til feðra sinna. Sagt er að ásamt öðrum heldri mönnum hafi hann verið beðinn að fylgja líki biskups austur í Skálholt[349] og í ágætri heimild greint nánar frá á þessa leið:

 

Reið hann með fylgdinni austur undir Hrafnagjá og skildi þar við hana því hann varð þess áskynja hvað menn höfðu í hyggju. En þetta mislíkaði mörgum. En hann sneri á leið vestur í Borgarfjörð og dvaldi nokkrar nætur í Stafholti.[350]

 

Ljóst er að Brynjólfur hefur verið tregur til að takast biskupsembættið á hendur en Árni Oddsson lögmaður, bróðir hins nýlátna biskups, er sagður hafa fylgt því fastast fram að Brynjólfur yrði kosinn.[351]

Um miðjan september haustið 1638 sigldi Brynjólfur til Kaupmannahafnar frá Akureyri[352] Í bréfi sem hann ritaði kanslara konungs þá um haustið færist hann eindregið undan og bendir á séra Þórð Jónsson í Hítardal í sinn stað.[353] Þessar undanfærslur neituðu kóngur og kirkjuyfirvöld í Danmörku að taka til greina og 5. maí 1639 var hinn lærði guðfræðingur frá Holti vígður til biskups.[354] Veturinn 1638-1639 hafði hann dvalist í Danmörku en sigldi heim í júní 1639 og tók þá þegar við stólsforráðum í Skálholti.

Biskupsembættinu gegndi Brynjólfur Sveinsson í 35 ár, frá 1639 til 1674, og stjórnaði málefnum kirkjunnar allan þann tíma af miklum skörungsskap. Jafnframt sinnti hann margvíslegu veraldarvafstri og lét aldrei niður falla sínar lærdómsiðkanir. Embættisbækur hans eru miklar að vöxtum og geyma margan fróðleik en einnig liggja eftir hann ýmis rit af öðru tagi sem flest eru skrifuð á latínu.

Síðasta aldarfjórðunginn sem Brynjólfur biskup lifði varð trúarofstæki galdrafársins ríkjandi þáttur í hugarheimi margra íslenskra menntamanna. Sjálfur var Brynjólfur mótaður af öðrum viðhorfum og féll aldrei flatur fyrir tíðarandanum. Í æsku hafði hann lagt sig eftir heimspeki franska húmanistans Péturs Ramusar og mun alla tíð hafa haldið tryggð við kenningar hans. Skólann í Skálholti lét Brynjólfur sér jafnan annt um og kenndi þar sjálfur, m.a. hebresku og rökfræði áðurnefnds Ramusar.[355] Á 18. og 19. öld var það álit margra að Brynjólfur Sveinsson hefði verið lærðastur allra Íslendinga, bæði fyrr og síðar, einkum í grísku og latínu, fornfræði og sögu.[356]

Á biskupsárum sínum fór Brynjólfur Sveinsson að minnsta kosti sjö sinnum í vísitazíuferð um Vestfirði og kom þá jafnan að Holti[357] Hina fyrstu þessara ferða fór hann sumarið 1639 og hafði þá tekið við embætti fyrir fáum vikum. Í þeirri ferð hitti hann föður sinn en tæplega þrjú ár voru þá liðin frá því móðir hans andaðist.

Sumarið 1643 lagði Brynjólfur upp í sína aðra vísitazíuferð um Vestfirði og komst þá norður að Stað í Aðalvík og að Árnesi í Trékyllisvík en á þessum kirkjustöðum hafði þá enginn biskup vísiterað í meira en 100 ár.[358] Á heimleið úr þessari norðurför kom Brynjólfur að Holti og sat þar kaupöl Björns Snæbjörnssonar, skólameistara í Skálholti og Þórunnar Jónsdóttur í Holti (sjá hér Kirkjuból í Valþjófsdal) en festarmær skólameistarans var dóttir séra Jóns Sveinssonar í Holti sem var hálfbróðir Brynjólfs biskups. Í þessari ferð sá Brynjólfur föður sinn í síðasta sinn en séra Sveinn var þá orðinn 84 ára gamall eða því sem næst og andaðist heima í Holti skömmu fyrir jól árið 1644.

Í vísitazíuferðum var Brynjólfur biskup vanur að hafa með sér allfjölmennt fylgdarlið, skólameistara, heyrara og skynsama presta.[359] Í ferðir þessar tók hann líka ætíð með sér eitthvert hraustmenni til að halda virðingu sinni og vera ekki kominn upp á handbjargir annarra, hvað sem upp á kynni að koma eða ef við stórbokka þyrfti að skipta.[360]

Einn hinna mörgu sem ritað hafa um Brynjólf biskup Sveinsson er Pétur biskup Pétursson sem fæddur var árið 1808 an andaðist árið 1891. Hann lýsir Brynjólfi meðal annars með þessum orðum

 

Í klæðaburði var Brynjólfur biskup ekki skrautgjarn. Að útliti og atgerfi líkamans var hann hinn öldunglegasti maður, á vöxt með hærri mönnum, þrekinn og karlmannlega vaxinn, hraustmenni, oftast heilsugóður, raustin röggsamleg og nokkur riða á höfðinu. Hann var rauðbirkinn á hár og skegg. Hárið klippti hann þegar það náði neðri eyrnableðlinum en skeggið lét hann vaxa svo það náði ofan á bringu og breiddist út á báðar axlir og tóku margir heldri menn þetta eftir honum. … Hann var nokkuð skjálfhentur og ágerðist það svo með aldrinum að hann á seinustu árum sínum skrifaði lítið. … Sumum þótti hann hneigjast um of til páfatrúar af því hann fastaði á föstudögum og um föstuna á miðvikudögum. … Hann vildi ekki hallmæla kaþólskum mönnum né að öllu leyti hafna sumum siðum og setningum þeirra.[361]

 

Brynjólfur biskup Sveinsson gekk árið 1640 að eiga Margréti, dóttur Halldórs Ólafssonar lögmanns og eiginkonu hans, Halldóru Jónsdóttur frá Grund í Eyjafirði, en þau hjónin, Brynjólfur og Margrét, voru fjórmenningar að frændsemi því Jón Arason, biskup á Hólum, var langalangafi beggja. Með konu sinni eignaðist Brynjólfur sjö börn sem öll dóu á barnsaldri nema tvö, Halldór og Ragnheiður.[362] Um heimilishagi Brynjólfs biskups í Skálholti og þá þungu harma sem hann varð fyrir er líða tók á ævina hefur ýmislegt verið ritað og sumt orðið skáldum að yrkisefni svo sem alkunnugt er. Eiðurinn sem biskup lét dóttur sína tvítuga sverja í Skálholtskirkju vorið 1661, að viðstöddu fjölmenni, var lengi í minnum hafður og ekki að ástæðulausu. Þar í dómkirkjunni lagði Ragnheiður hönd á helga bók og sór að skipan föður síns að enn væri hún óspillt mey af öllum karlmanns völdum og holdlegum saurlífisverkum en 9 mánuðum og 4 dögum síðar ól hún sveinbarn, getið í frillulífi með Daða Halldórssyni sem verið hafði einkakennari hennar í Skálholti.

Sú hugraun sem biskupinn og hin unga dóttir hans máttu bæði þola vegna þessara atburða var ærin og vera má að þeir harmar hafi kallað yfir Ragnheiði Brynjólfsdóttur sjúkdóminn sem dró hana til dauða en hún andaðist 22ja ára gömul þrettán mánuðum eftir fæðingu sonar síns, Þórðar Daðasonar. Fáum árum síðar, þann 15. desember 1666, andaðist Halldór, sonur Brynjólfs biskups, úti í Englandi, í borginni Yarmouth. Við andlát Halldórs Brynjólfssonar missti gamli kirkjuhöfðinginn í Skálholti eina barn sitt sem eftir var og átti þaðan í frá enga niðja á lífi nema harmkvælasoninn, Þórð Daðason, dreng Ragnheiðar. Piltbarn þetta sem áður var óvelkomið varð nú vonarstjarna afa síns og ömmu og hlaut alla þá umhyggju sem þau með nokkru móti gátu látið í té.

Sumarið 1667 lögðu þeir Brynjólfur biskup og Þórður dóttursonur hans upp í langa ferð frá Skálholti vestur að Holti í Önundarfirði. Biskup var þá kominn á sjötugsaldur en drengurinn aðeins fimm ára gamall. Guðbrandur Jónsson, frændi þeirra, sem þá var aðstoðarprestur í Vatnsfirði, getur um ferð þeirra í annál sínum og greinir frá á þessa leið:

 

Reið biskup, meistari Brynjólfur Sveinsson vestur um sumarið yfir Glámu og lét með sér ríða í ferðinni sinn dótturson Þórð Daðason, 5 vetra, hvern hann arfleiddi í Holti í Önundarfirði til alls þess góss sem hann ætti og yrði að eigandi, conditionaliter (að því tilskildu) nær þeir bræður hans hefðu undan sér játað, hverja hann arfleiddi með nokkurri afgreiðslu. Item hafði hans hústrú fengið á þessu ári samþykki bræðra sinna þennan sinn dótturson ogsvo að arfleiða, hvað og gerðist.[363]

 

Í erfðaskránum var tekið fram að félli Þórður frá án þess að láta eftir sig lífserfingja skyldu eignirnar ganga aftur til nánustu ættingja hans í móðurætt.

Ferð gamla biskupsins með drenginn allar hinar mörgu dagleiðir frá bökkum Hvítár í Árnessýslu vestur í Önundarfjörð verður tæplega skýrð út frá sjónarmiðum kaldrar skynsemi því auðvitað var hægt að ganga frá erfðamálunum án þess að barnið væri endilega viðstatt. Á 17. öld voru lítil börn aldrei látin fylgja fullorðnum á langferðum nema um búferlaflutninga væri að ræða eða flakk bjargþrota fólks. Reið Brynjólfs með Þórð Daðason vestur að Holti er því einsdæmi og hlýtur að hafa átt sér tilfinningalegar forsendur. Í hvikulu ljósi harmsögunnar sjáum við myndina rísa, aldinn mann og ungan svein á ferð yfir snæbreiður Glámu, að baki margar dagleiðir á undarlegu ferðalagi en nú hallar loks vestur af. Þegar myndin fjarlægist verða þeir báðir eitt.

Í þessari ferð, sumarið 1667, kvaddi Brynjólfur bernskuslóðir sínar í Önundarfirði og kom þar aldrei þaðan í frá svo séð verði. Sex árum síðar andaðist Þórður Daðason, þá ellefu ára. Sjálfur lifði gamli Vestfirðingurinn í Skálholti tveimur árum lengur. Um mitt sumar árið 1675 lagðist hann banaleguna og urðu honum þá helst til fróunar ljóð séra Ólafs Jónssonar á Söndum í Dýrafirði en sum þeirra hafði hann lært af móður sinni í bernsku.[364] Brynjólfur Sveinsson andaðist 5. ágúst 1675 og var að eigin ósk lagður til hvíldar við hlið Þórðar Daðasonar í Skálholtskirkjugarði.[365]

Á árunum 1582-1680 sátu nánir ættingjar Brynjólfs biskups í Holti og þjónuðu prestakallinu mann fram af manni. Fyrstur í þeirri röð er faðir Brynjólfs, séra Sveinn Símonarson, sem hér hefur áður verið sagt frá, en síðan koma þeir séra Jón Sveinsson, sem var hálfbróðir Brynjólfs, og loks séra Jón Jónsson, sonur Jóns Sveinssonar. Samtals spannar tímabil þessara feðga í Holti nær heila öld.

Séra Jón Sveinsson fékk árið 1613 eins konar vonarbréf fyrir Holti frá hirðstjóranum Herluf Daae[366] og mun um svipað leyti hafa orðið aðstoðarprestur föður síns þar.[367] Ætla má að séra Jón hafi þá verið um eða rétt innan við þrítugt og hefur hann að líkindum verið elsta barn séra Sveins Símonarsonar og Þórunnar Björnsdóttur sem var fyrri eiginkona Sveins. Frá 1630 mun séra Jón hafa haldið staðinn í Holti að hálfu á móti föður sínum[368] og tók þar að fullu við staðarforráðum árið 1644 (sjá hér bls. 40). Í ritinu Prestatal og prófasta er séra Jón Sveinsson í Holti sagður hafa látið af embætti árið 1661 og er að líkindum rétt en í sumum öðrum ritum er hann talinn hafa sleppt prestakallinu nokkru fyrr.[369] Við prófastsembættinu í vesturhluta Ísafjarðarsýslu tók séra Jón Sveinsson af föður sínum árið 1632[370] og var prófastur í um það bil 20 ár.[371]

Kona séra Jóns Sveinssonar í Holti var Þorbjörg Guðmundsdóttir frá Gröf á Höfðaströnd í Skagafirði en hún var föðursystir séra Hallgríms Péturssonar sálmaskálds.[372] Börn þeirra sem upp komust voru þrjú, Jón prestur, sem tók við Holtsprestakalli af föður sínum, og Þórunn, sem árið 1643 gekk að eiga Björn Snæbjörnsson, skólameistara í Skálholti, er síðar varð prestur á Staðastað á Snæfellsnesi (sjá hér Kirkjuból í Valþjófsdal). Þriðja barnið var Ólafur bartskeri sem fluttist af landi brott.[373]

Sighvatur Borgfirðingur segir séra Jón Sveinsson í Holti hafa fengist eitthvað við að kenna piltum undir skóla og á árunum 1629-1631 hafi þeir Jón Jónsson, sem var sonur séra Jóns Sveinssonar, og Torfi Jónsson frá Núpi í Dýrafirði verið við nám hjá honum.[374] Báðir voru piltar þessir teknir í Skálholtsskóla haustið 1632.[375]

Að sögn Jóns Halldórssonar í Hítardal, sem fæddur var árið 1665, var séra Jón Sveinsson enn á lífi árið 1667 þegar Brynjólfur biskup kom að Holti með Þórð Daðason til að ganga þar frá erfðamálum.[376]

Séra Jón Jónsson, sem tók við prestsembætti í Holti af föður sínum, varð aðstoðarprestur þar árið 1643. Líklegast er að hann hafi tekið við prestsembættinu að fullu árið 1661 og fullvíst að hann var aðstoðarprestur og síðan prestur í Holti í 37 ár, frá 1643 til dauðadags árið 1680.[377] Um fæðingarár séra Jóns Jónssonar er ekki vitað en hann var tekinn í Skálholtsskóla árið 1632 eins og fyrr var getið og hefur þá að líkindum verið um 14 ára aldur. Úr skólanum í Skálholti útskrifaðist hann árið 1638 og varð ári síðar prestur á Brjánslæk á Barðaströnd.[378] Þar þjónaði hann í fjögur ár uns hann gerðist aðstoðarprestur föður síns og fluttist aftur að Holti.

Kona séra Jóns Jónssonar var Halldóra, dóttir Jóns Magnússonar eldri, sýslumanns í Haga á Barðaströnd.[379] Þau voru gefin saman árið 1643. Dóttir þeirra var Ástríður, kona Magnúsar Jónssonar digra í Vigur, tengdamóðir Páls Vídalíns lögmanns og Mála-Snæbjörns (sjá hér Mýrar).

Séra Jón Jónsson varð prófastur í vesturhluta Ísafjarðarsýslu árið 1652 og hélt því embætti til æviloka.[380] Innheimtu biskupstíunda í Ísafjarðarsýslu hafði hann og með höndum um skeið.[381] Jón prestur Jónsson í Holti mun hafa verið talinn ágætur kennimaður og lærdómsmaður á þeirrar tíðar vísu. Dálítið fékkst hann við þýðingar á kristilegum ritum. Þrefaldur trúarfésjóður nefnist ritlingur sem var prentaður á Hólum árið 1677, útlagður og samantekinn af séra Jóni Jónssyni í Holti.[382] Á Hólum var smárit þetta frá Holti látið fylgja annarri útgáfu af hugvekjum séra Hallgríms Péturssonar, Diarium christianum, og hvort tveggja gefið út í einni bók.[383] Vel má vera að frændsemi séra Hallgríms og séra Jóns í Holti hafi stuðlað að þessari ákvörðun um tilhögun útgáfunnar en þeir voru systkinasynir eins og hér hefur áður verið gerð grein fyrir.

Séra Jón Jónsson í Holti og Halldóra kona hans eru nú kunnust fyrir liðsinni sitt við Þuríði Jónsdóttur frá Kirkjubóli í Skutulsfirði en óhætt mun að fullyrða að þau hafi átt hvað drýgstan þátt í björgunaraðgerðum henni til varnar þegar til stóð að brenna hana á báli fyrir galdra.

Þann 9. apríl 1656 voru feðgar á Kirkjubóli í Skutulsfirði sem báðir hétu Jón Jónsson dæmdir fyrir galdra á þriggja hreppa þingi er haldið var á þingstað réttum að Eyri þar í firðinum.[384] Að kröfu séra Jóns Magnússonar þumlungs, sem þá var prestur á Eyri, voru þeir báðir dæmdir til dauða[385] og brenndir á báli næsta dag, þann 10. apríl.[386]

Þuríður Jónsdóttir á Kirkjubóli var dóttir eldri Jóns sem brenndur var og systir þess yngri. Í Píslarsögu Jóns þumlungs verður þess ekki vart að hann hafi grunað Þuríði um galdra fyrr en búið var að brenna föður hennar og bróður. Kvalirnar sem Eyrarklerkur taldi sig líða linuðust hins vegar ekki þó búið væri að brenna feðgana og svo fór að Jón þumlungur sannfærðist um að nú væri það Þuríður sem leiddi yfir hann þessar píslir og yrði hún því líka að færast á bál.[387] Í Píslarsögunni leitast klerkur við að sýna fram á sekt Þuríðar og kemst að þeirri niðurstöðu að stúlkan sé sannbevísuð galdrakona og ekkert tilvanti til eldsmála utan eina tröppu.[388]

Þegar ofsóknir hins sálsjúka Eyrarklerks á hendur Þuríði komust á alvarlegt stig brá hún á það ráð að flýja að heiman og leita skjóls hjá prófastshjónunum í Holti í Önundarfirði, séra Jóni Jónssyni og Halldóru konu hans.[389] Þangað kom Þuríður haustið 1656 og dvaldist næsta vetur ýmist í Holti eða hjá Brynjólfi Bjarnasyni í Neðri-Hjarðardal í Dýrafirði (sjá hér Neðri-Hjarðardalur). Ljóst er að séra Jón þumlungur hefur talið hjálp prófastshjónanna við Þuríði reginhneyksli og á einum stað kemst hann svo að orði að í Holti hafi stúlkan frá Kirkjubóli setið samkera dóttur Jóns og Halldóru og með henni átt svefn og samneyti, sess og sæng.[390] Prestsdóttirin í Holti sem þumlungur nefnir þarna til sögunnar hlýtur að vera Ástríður sem síðar giftist Magnúsi Jónssyni digra í Vigur því að prestshjónin í Holti áttu enga aðra dóttur.

Í Píslarsögu séra Jóns þumlungs greinir hann frá því að þennan vetur fyrir jól hafi Þuríður komið til sín vestan úr Holti og látið sem hún bæði sig fyrirgefningar.[391] Þá ferð telur Eyrarklerkur hafa verið farna að Njáls ráðum[392] og virðist þar eiga við prófastinn í Holti.

Um kvalir sínar af völdum Þuríðar ritar klerkurinn á Eyri langt mál og hefur þar meðal annars þetta fram að færa:

 

En djöfullegar kvalir jukust mér þá aftur að nýju svo mér gagnaðist ekki í skálanum eða innanbæjar svefn eða nokkur næturfrói og reyndi því til stundum í tjaldhreysi, stundum undir segli, stundum undir berum himni og stundum úti í heyhlöðu mér svefns og vægðar að leita. Eina þá nótt minnist ég í það sinn er ég lagðist niður í tjaldkorn mitt og mín fátæk kvinna þar hjá mér sem mér vildi sampínast í þeim útileguhrakningi … . Og er ég var niðurlagstur til svefns skriðu utan um mig eftir venju svo að finna sem þegar mýs skriði og skoppuðu. Datt ég þó samt undir þessu kvikinda skriði og skoppi, hvar við ég vel kannaðist, í fastan svefnhöfga hræðilega kvalráðan svo að ég þykist eigi kunna frá slíku að skýra.[393]

 

Á öðrum stað kemst Jón þumlungur svo að orði að Þuríður sé ekki aðeins líkleg til galdurs heldur auðsýnileg tröllkona.[394] Síðar bætir hann við þeim ummælum að við Þuríði hafi ósóminn haft þá fordild að ríða svo sem riddari í hennar líki brúnum jó eða hrossi, samlitum hesti þeim sem hana hafði borið frá Kirkjubóli að Holti.[395]

Í Píslarsögunni nefnir Jón þumlungur prófastshjónin í Holti sjaldan með nöfnum en oft má skilja hver meiningin er áður en skellur í tönnum. Engin mál segir klerkur betur varin á Íslandi en galdramál og lætur fylgja þessa yfirlýsingu:

 

Og því tilhugsast mér að andskotinn muni nú mega halda brullaup sitt þegar honum líst hér á Íslandi því nú hefur hann fengið það sem hann má telja sér til kaups og konumundar, einkum málafylgi manna, þeirra þó sem kristnir kallast, með því fleira sem þar að hnígur og mun líkast að þeir bíði launa sem best vinna til.[396]

 

Orð Eyrarklerks um þá menn sem kallist kristnir en veiti sjálfum andskotanum fylgi sitt fela vafalítið í sér sneið til prófastshjónanna í Holti sem skotið höfðu skjólshúsi yfir það verkfæri myrkrahöfðingjans sem Þuríður frá Kirkjubóli var í augum séra Jóns þumlungs. Aftar í Píslarsögunni kemst hinn þrautpíndi klerkur á Eyri svo að orði að á Vestfjörðum séu tröll nú orðin að ríkismanna gersemi enda njóti Þuríður verndar fólks af háum stigum.[397]

Í janúarmánuði árið 1657 sendi Jón þumlungur stjúpson sinn, Bjarna Snorrason, vestur að Holti og lét hann lesa þar upp bréf frá sér til prófasts þar sem þess var krafist að prófasturinn sinnti með viðeigandi hætti þeim galdraákærum sem bornar höfðu verið fram gegn Þuríði.[398] Þegar málin komust á þetta stig mun séra Jón í Holti hafa talið óhjákvæmilegt að mál Þuríðar yrði tekið til rannsóknar af réttum yfirvöldum svo takast mætti að hreinsa hana af ákærum prestsins á Eyri. Jón prófastur sendi því sýslumönnunum í Ísafjarðarsýslu, þeim Magnúsi Magnússyni á Eyri í Seyðisfirði og Gísla Jónssyni, sem var umboðsmaður Þorleifs Kortssonar, formlegt erindi þar sem þess var farið á leit að kærumálin á hendur Þuríði yrði rannsökuð svo sannleikurinn mætti fyrir guðs aðstoð í ljós leiðast og samviskurnar fríast, þeirra sem í hlut eiga.[399] Við mat á þessu skrefi Jóns prófasts í Holti er vert að hafa í huga að sýslumennirnir báðir voru honum nátengdir því Gísli sem bjó í Reykjarfirði í Suðurfjarðahreppi var mágur hans, bróðir Halldóru prestsfrúar í Holti, en Magnús á Eyri var bróðursonur hennar.[400] Engin réttarrannsókn í máli Þuríðar fór þó fram þennan vetur en allur sá ákafi datt undir Holtspall eins og Jón þumlungur kemst að orði –  því sagt hefur verið, bætir hann við, að Halldóra Jónsdóttir, kvinna prófastsins séra Jóns Jónssonar … hafi lagt þátt í með Þuríði, hvað sjálft sýnir sig og er eftir að sannað verði.[401]

Sumarið 1657 reið séra Jón þumlungur á Alþing til að bera þar upp kærumál sín á hendur stúlkunni Þuríði Jónsdóttur frá Kirkjubóli. Samt var hann varla hestfær bæjarleið að eigin sögn.[402] Við Öxará taldi Eyrarklerkur sig fá litlar undirtektir[403] en þar var þó samþykkt almenn áminning til sýslumanna og annarra yfirvalda í héruðum að ganga hart fram gegn þeim sem grunaðir væru um gjörninga á vegum djöfulsins.[404]

Veturinn 1657-1658 var loks þingað í máli Þuríðar frá Kirkjubóli[405] og varð niðurstaðan sú að vísa ákærunni til Alþingis. Sumarið 1658 riðu þau bæði suður að Öxará, presturinn á Eyri og stúlkan Þuríður. Þar var kærumál prestsins á hendur henni fyrst tekið fyrir á almennri prestastefnu þann 30. júní og komist að niðurstöðu um hvaða þættir þess þyrftu helst rannsóknar við. Um þetta segir m.a. svo í ályktun prestanna:

 

Aðgreinist og rannsakist hvort nokkrir vita galdraskóla haldinn verið hafa á Kirkjubóli fyrir börn eður aðra þá sem sig vildu eftir hafa.

 … Hvort svo reynist satt að Þuríður sýnt hafi á sér sérdeilis gleðimót með leikaraskap og glens, dinglað fótum við stokka, leikið að skopparakringlu með skemmtun og skrítilyrðum, sett upp flögelshúfu þá hún vitað hafi föður sinn og bróður á einu báli brennda.[406]

 

Í lögréttu var ákveðið að gefa Þuríði kost á að leysa sig frá ákærum séra Jóns þumlungs með tylftareiði en færi svo að hún kæmi ekki fram eiðnum skyldu hún þola refsingu að lögum,[407] − það er brennast á báli. Samkvæmt úrskurði lögréttu var henni gert að vinna eiðinn innan tíu vikna[408] og áður en sá frestur rynni út þurfti hún að hafa fengið tólf konur úr sinni heimabyggð eða næsta nágrenni til að sverja með sér að hún væri saklaus eða eins og það er orðað í Alþingisbókinni:

 

… að hún hvorki með göldrum né gjörningum, orðum né athöfnum hafi gjört né gjöra látið greindum síra Jóni Magnússyni neina kvöl né pínu, þá sem hann liðið hefur, og ei sé hún völd þar af að nokkurn trölldóm eður töfra framið hafi, síra Jóni eða nokkrum öðrum manni eða peningum til nokkurs heilsubrests, skaða eða hindrunar.[409]

 

Í úrskurði lögréttu er síðan tekið fram að séra Jóni á Eyri skuli heimilt að vera viðstaddur eiðatökuna og skuli hún fara fram þar sem sýslumönnum sýnist hentast með góðra manna samþykki.[410]

Þetta frelsi hvað staðarvalið snerti virðast sýslumennirnir hafa skilið svo að eiðatakan þyrfti ekki endilega að fara fram í Eyrarprestakalli þar sem Þuríður hafði verið búsett og séra Jón þumlungur annaðist sálirnar. Sakleysi sitt sór hún á Mosvöllum, þingstað Önfirðinga, í næsta nágrenni við Holt.[411] Gera má ráð fyrir að eiðinn hafi tólf konur svarið með henni eins og krafist hafði verið í úrskurði lögréttunnar. Með eiðnum björguðu þessar tólf konur hinni ofsóttu bóndadóttur frá bálinu sem sóknarprestur hennar vildi færa hana á en logar þess höfðu áður banað föður hennar og bróður.

Þegar ljóst var orðið að Þuríði hafði tekist að koma fram eiðnum varð séra Jón þumlungur ólmur mjög. Í bréfi til sýslumannanna í Ísafjarðarsýslu lætir hann uppi þá skoðun að það væri Halldóra Jónsdóttir, prófastsfrú í Holti, sem útvegað hafi Þuríði tilskilinn fjölda eiðakvenna.[412] Í þessu bréfi segir presturinn á Eyri að konurnar sem eiðinn sóru með Þuríði séu fáfróðar manneskjur sem virðist ekki kunna að stíga rétt niður fæti sínum og mikið megi vera ef þær hafi ekki af umtölum meira en sjálfra þeirra vilja eða gegnd í þann dansinn dregnar verið svo að Halldóra Jónsdóttir frændkona ykkar [það er sýslumannanna] mætti vinna og sínu fylgi fram koma.[413] Eyrarklerkur bætir síðan ýmsu við og heldur því meðal annars fram að þær Halldóra og Þuríður hafi fengið einfaldar og fáfróðar manneskjur og æðisgengnar kerlingar til að sverja eiðinn og gefið almúga aumingjum brennivín á meðan þeir eru fengnir til eiðvættanna.[414]

Engin ástæða sýnist til að rekja hér tilraunir séra Jóns þumlungs til að fá kærumál sín á hendur Þuríði frá Kirkjubóli tekin upp enn á ný eftir eiðatökuna á Mosvöllum sumarið 1658,[415] enda báru þær tilraunir hans engan árangur. Sumarið 1659 gerði Magnús Magnússon sýslumaður grein fyrir eiðatökunni í máli Þuríðar á Alþingi og þeim úrskurði sýslumanna að hún væri saklaus.[416] Við Öxará var bókað að lögmönnum og lögréttumönnum sýndust þeir dómar að vestan vel trakteraðir.[417] Hér hefur áður verið minnst á málsókn Þuríðar gegn séra Jóni þumlungi, sem fylgdi í kjölfar eiðatökunnar, en þegar sakleysi hennar hafði verið sannað með lögmætum hætti sneru hún vörn í sókn og gerði kröfu um að sóknarpresturinn á Eyri greiddi sér skaðabætur (sjá hér Neðri-Hjarðardalur). Um lyktir þess máls er ekki vitað.

Af því sem hér hefur verið sagt má ljóst vera að séra Jón þumlungur hefur talið prófastshjónin í Holti og þá einkum frú Halldóru eiga mesta sök á því að Þuríður frá Kirkjubóli skyldi sleppa undan eldslogunum. Full ástæða er til að ætla að þau hafi í raun bjargað lífi stúlkunnar því flestum múgamönnum reyndist erfitt að afla sér eiðvætta í slíkum málum án stuðnings frá einhverjum úr hópi þeirra sem höfðu völd og áhrif. Ef til vill má líta á framgöngu séra Jóns í Holti og Halldóru konu hans í máli Þuríðar sem vísbendingu um afstöðu Brynjólfs Sveinssonar biskups til kröfu margra ofstækismanna um tíðari galdrabrennur. Jón prófastur í Holti var bróðursonur Brynjólfs eins og hér hefur áður verið nefnt og á árunum 1643-1656 kom Brynjólfur að minnsta kosti fimm sinnum að Holti, meðal annars sumarið 1656,[418] fáum mánuðum áður en Þuríður flýði á náðir prófastshjónanna þar. Í Holti átti Brynjólfur jafnan frændum og vinum að mæta og var tengdur bernskuslóðum sínum þar sterkum tilfinningalegum böndum eins og ferð hans þangað með Þórð Daðason árið 1667 sýnir best (sjá hér bls. 47-48). Mjög ólíklegt verður að telja að séra Jón í Holti og Halldóra kona hans hefðu gengið fram fyrir skjöldu til varnar Þuríði í óþökk kirkjuhöfðingjans í Skálholti en ætla má að viðhorf hans til slíkra mála hafi verið þeim vel kunnug. Um þetta er þó ekkert vitað með vissu og því er skylt að gæta hófs í ályktunum. Ýmsar aðrar vísbendingar benda hins vegar til þess að Brynjólfur biskup hafi jafnan viljað fara með gát í galdramálum og forðast bálið (sjá hér Hestur).

Þegar Kirkjubólsfeðgar, faðir Þuríðar og bróðir, voru brenndir árið 1656 var það fyrsta galdrabrennan í Ísafjarðarsýslu.[419] Síðan liðu ellefu ár uns næsti maður var færður á bál.[420] Vera kann að vasklega framganga prófastshjónanna í Holt og fleira fólks sem lagði Þuríði lið hafi dugað til þess að stöðva skriðuna um sinn. Síðar snerust mál á annan veg þegar séra Páll Björnsson í Selárdal, sá hálærði maður, hóf sína miklu útrýmingarherferð gegn galdramönnum. Sú saga verður ekki rakin hér, enda snertir hún ekki Þuríði frá Kirkjubóli né heldur prófastshjónin í Holti, séra Jón og Halldóru konu hans.

Þegar séra Jón Jónsson í Holti stóð í stappi út af Þuríði frá Kirkjubóli var hann um fertugsaldur og átti eftir að gegna prestsþjónustu í Holtsprestakalli nokkuð á þriðja áratug. Í Alþingisbókunum verður þeirra Holtshjóna sjaldan vart á þeim árum. Nafni frú Halldóru Jónsdóttur í Holti bregður þó fyrir árið 1666 en þá kom til kasta lögréttu dómur úr Ísafjarðarsýslu í þjófnaðarmáli sem prestsfrúin hafði höfðað gegn konu nokkurri, Þórunni Jónsdóttur að nafni.[421] Árið 1668 var máli þessu vísað frá í lögréttu og tekið fram í þeim úrskurði að vilji séra Jón í Holti taka málið upp á ný þá verði hann að sækja það sjálfur.[422] Sú staðreynd að það var frú Halldóra sem stóð fyrir áðurnefndri kæru en ekki prófasturinn bendir til þess að hún hafi stundum verið fljótari en hann að taka af skarið. Vísbendingar í sömu átt má reyndar einnig lesa úr ummælum séra Jóns þumlungs um þau hjónin eins og hér hefur áður komið fram.

Séra Jón Jónsson í Holti féll frá vorið 1680. Séra Sigurður Jónsson sem tók þá við Holtsprestakalli greinir í annálsgreinum sínum á þessa leið frá andláti forvera síns:

 

Þann 25. maí (1680) sálaðist prófasturinn, séra Jón Jónsson, vestur í Reykjarfirði er hann fór þaðan á skipi til síns heimilis Holts í Önundarfirði og jarðsettur þar annan dag hvítasunnu.[423]

 

Í einni afskrift af Prestaæfum séra Jóns Halldórssonar í Hítardal er þess getið að í Reykjarfirði hafi séra Jón í Holti verið að heimta arf og orðið þar fyrir misþyrmingum er hafi leitt hann til bana.[424]

Af þessu má ráða, hvað sem sögninni um misþyrmingar líður, að séra Jón hafi andast í Reykjarfirði í Suðurfjörðum Arnarfjarðar eða á heimleið þaðan en ekki í Reykjarfirði við Djúp eða Reykjarfirði í Grunnavíkurhreppi. Í Reykjarfirði í Suðurfjörðum bjó mágur séra Jóns, Gísli Jónsson, sem um skeið fór með sýsluvöld í Ísafjarðarsýslu, en bæði hann og kona hans dóu árið 1679 eða 1680.[425] Gísli í Reykjarfirði og kona hans, Guðný Jónsdóttir, áttu engin börn sem upp komust[426] og þess vegna hefur systir Gísla, Halldóra prófastsfrú í Holti, talið sig eiga von á þó nokkrum arfi eftir hjónin í Reykjarfirði. Þann arf mun séra Jóni, eiginmanni hennar, hafa verið ætlað að heimta og í þeim erindagerðum lagði hann upp í sína feigðarför.

Frú Halldóra Jónsdóttir í Holti lifði mann sinn í nokkur ár en andaðist að Mýrum í Dýrafirði árið 1688, líklega 2. febrúar.[427] Þangað mun hún hafa flust mjög skömmu eftir lát eiginmanns síns og var eigandi Mýra árið 1681 (sjá hér Mýrar). Frá Mýrum var lík hennar flutt til greftrunar að Holti.[428]

Eina barn séra Jóns Jónssonar í Holti og Halldóru konu hans var Ástríður sem hér hefur áður verið nefnd. Svo virðist sem hún hafi látið sér annt um minningu foreldra sinna því vorið 1688 var aflað vitnisburða um framferði hinna burtkölluðu prófastshjóna og þeir auglýstir á Alþingi þá um sumarið.[429] Skjöl þessi eru nú líklega glötuð en í Alþingisbókinni frá 1688 er frá þeim sagt með þessum orðum:

 

Sömuleiðis voru upp lesnir í lögréttu vitnisburðir þeirra guðhræddu og góðfrægu hjóna, síra Jóns Jónssonar og Halldóru Jónsdóttur, útgefnir um þeirra ærlegt framferði og lofsverða kynning, datum Holti í Önundarfirði dominica (sunnudaginn) 1. post trinitatis Anno 1688.[430]

 

Gera verður ráð fyrir að vitnisburðirnir hafi verið til þess ætlaðir að mæta rógi vondra manna.

Þess var áður getið að þegar séra Jón Jónsson í Holti andaðist, árið 1680, höfðu þeir feðgar, Sveinn Símonarson, Jón Sveinsson og Jón Jónsson, þjónað Holtsprestakalli óslitið í 98 ár. Að séra Jóni Jónssyni látnum var aðstoðarpresti hans, séra Sigurði Jónssyni frá Vatnsfirði, veitt brauðið og þjónaði hann Holtsprestakalli næstu 50 árin og síðan sonur hans, séra Sigurður Sigurðsson, í 30 ár. Þessir síðarnefndu feðgar héldu því staðinn í Holti í átta áratugi, frá 1680-1760, eða litlu skemur en séra Sveinn og hans niðjar.

Séra Sigurður Jónsson fæddist í Vatnsfirði við Djúp árið 1643. Foreldrar hans voru séra Jón Arason, sem lengi var prestur í Vatnsfirði, og kona hans, Hólmfríður Sigurðardóttir. Faðir séra Sigurðar var sonur Ara Magnússonar, sýslumanns í Ögri, en Hólmfríður móðir hans var sonardóttir Odds Einarssonar, biskups í Skálholti.[431] Sigurður útskrifaðist úr Skálholtsskóla árið 1661 og var síðan um skeið við nám hjá séra Páli Björnssyni í Selárdal.[432] Árið 1665 sigldi hann til háskólanáms í Kaupmannahöfn og var þar í þrjú ár.[433] Talið er að í Höfn hafi hann tekið próf í guðfræði.[434] Sumarið 1668 kom Sigurður heim og hafði þá fengið vonarbréf fyrir Holti. Ári síðar gerðist hann aðstoðarprestur séra Jóns Jónssonar og þjónaði sem slíkur í Holti í ellefu ár, 1669-1680, uns hann tók við brauðinu að fullu við andlát séra Jóns.[435] Frá 1680 var séra Sigurður prófastur í vesturhluta Ísafjarðarsýslu og frá 1691 í sýslunni allri.[436] Prófastsembættinu hélt hann til ársins 1711.[437]

Er séra Sigurður kom að Holti árið 1669 var hann ókvæntur en kvæntist þremur árum síðar Helgu Pálsdóttur frá Selárdal í Arnarfirði[438] en foreldrar hennar voru séra Páll Björnsson, prestur í Selárdal, og Helga Halldórsdóttir kona hans. Til þessa hjónabands þurfti konungsleyfi því séra Sigurður og konuefni hans voru þremenningar að frændsemi, áttu bæði Magnús Jónsson prúða fyrir langafa.[439]

Í Vatnsfjarðarannál yngri er greint frá brúðkaupi aðstoðarprestsins í Holti og heimasætunnar í Selárdal árið 1672. Þar segir:

 

Drukkið kaupöl í Selárdal vestur þann 12. Júlii, séra Sigurðar Jónssonar og Helgu Pálsdóttur, en 29. Septembris, sem var Mikaelsmessu sjálfa, var haldið þeirra brullaup þar sama staðar.[440]

 

Á sínum fyrstu árum í Holti mun séra Sigurður hafa haft þriðjung staðarins til ábúðar og þriðjung tekna af brauðinu.[441] Fáum árum fyrir andlát séra Jóns Jónssonar varð hins vegar að samkomulagi að aðstoðarpresturinn fengi tvo þriðju hluta staðarins í Holti til umráða og ábúðar.[442]

Eins og fyrr var getið var séra Sigurður Jónsson alllengi við nám hjá séra Páli Björnssyni í Selárdal á sínum yngri árum. Tæplega þrítugur að aldri gekk hann að eiga dóttur séra Páls og stóð hjónaband þeirra í 58 ár. Í Selárdal mun Sigurður einkum hafa numið grísku og hebresku[443] en ekki er ólíklegt að hann hafi þá þegar kynnst hugmyndum séra Páls um þær ógnir sem stafað gætu af galdramönnum og þeirra nánu tengslum við Satan og ára hans. Þegar Sigurður kvæntist Helgu Pálsdóttur frá Selárdal árið 1672 var galdrafárið þar komið í algleyming og séra Páll, faðir hennar, búinn að koma tveimur meintum galdramönnum á bál.[444] Um það bil tíu árum síðar veiktust kona og börn séra Sigurðar í Holti af undarlegum sjúkdómi og þóttu veikindi prestsfrúarinnar líkjast krankleik þeim sem lengi hafði hrjáð móður hennar, frú Helgu Halldórsdóttur í Selárdal, og sannað þótti að galdramenn hefðu valdið.[445] Eigi leið heldur á löngu uns Sigurður prestur sannfærðist um að undirrótin að veikindum konu hans og barna væri sú sama og í Selárdal, það er galdrakúnstir djöfullegra útsendara. Grunur féll á Svein nokkurn Árnason og kærði Sigurður prófastur hann fyrir að hafa búið konu sinni og börnum heilsutjón með galdrasendingum.[446]

Árið 1683 var mál þetta rannsakað á Nauteyrarþingi af Magnúsi Jónssyni lögmanni og Sveini dæmdur tylftareiður.[447] Honum tókst ekki að koma fram eiðnum og var því brenndur í Arngerðareyrarskógi í Nauteyrarhreppi við Ísafjarðardjúp haustið 1683.[448] Þessi brenna sem knúin var fram af séra Sigurði Jónssyni í Holti varð síðasta galdrabrennan á Íslandi.[449]

Viðhorf séra Sigurðar og forvera hans, séra Jóns Jónssonar í Holti, til galdrafársins sýnast hafa verið harla ólík eins og sjá má á því sem hér hefur verið skrifað og svo mun einnig hafa verið um sjónarmið eiginkvenna þessara tveggja presta, þegar að því kom að þenkja og álykta um meinta galdragjörninga. Þegar galdrakveinin upphófust í Holti á árunum upp úr 1680 var frú Halldóra Jónsdóttir, ekkja séra Jóns Jónssonar, farin þaðan að Mýrum en undir hennar verndarvæng flýði Þuríður Jónsdóttir frá Kirkjubóli aldarfjórðungi fyrr og bjargaðist þannig frá brennudauða eins og hér hefur áður verið rakið. Líklegt er að gömlu prestsekkjunni frá Holti hafi þótt lítið koma til framgöngu þeirra sem þar réðu ríkjum haustið 1683 þegar Sveinn Árnason var brenndur í Arngerðareyrarskógi.

Besta innsýn í hugarheim séra Sigurðar Jónssonar í Holti um það leyti sem hann stóð fyrir síðustu galdrabrennunni á Íslandi er að finna í bréfi er hann ritaði Þórði Þorlákssyni biskupi 17. desember 1684. Þar segir:

 

Víða hafa hér í fjöllum, fjörðum og hlíðum heyrst svo sem fáheyrðir dynkir eður skothljóð, bæði á nóttu og degi, sem mörgum þykir nýlundum nema og óttalegt. Hvað þetta hefur að þýða eður merkja veit guð best. En víst mun Ísland mega að sér gæta, einkum þessir Vestfirðir, hvar galdrar og djöflalærdómur með sínum eitruðum ávexti heyrist og tíðkast ár eftir ár, guði til styggðar en hans börnum og þjónum til kvala, morðs og meiðsla, þeim sem fyrir því Satans hælbiti verða, hvað viðurstyggilegt er og hryggilegt um að hugsa. Guð náði og betri svoddan foreyðandi svívirðing.[450]

 

Frú Helga Pálsdóttir, kona séra Sigurðar prófasts í Holti, var aðeins liðlega þrítug þegar hún lenti í veikindunum sem talin voru stafa af göldrum. Svo virðist sem þetta sjúkdómsstríð hafi ekki valdið henni varanlegu heilsutjóni. Að minnsta kosti hélt hún áfram að eiga börn og komst áður en lauk hátt á níræðisaldur.[451] Í heimildum frá 18. öld er þess hins vegar getið að prestsfrú þessi í Holti hafi verið óstjórnlega eyðslusöm og drukkkið mikið.[452] Til marks um drykkjuskapinn má nefna að vorið 1729 fór sonur prestshjónanna í Holti þess á leit á Mosvallaþingi að vitni sem þar voru stödd segðu til um hvort móðir hans hefði verið drukkin eða ódrukkin þegar hún seldi jörðina Arnarnes í Dýrafirði (sjá hér Arnarnes). Þegar sonur hennar bar upp þessa fyrirspurn í heyranda ljóði var frú Helga komin um áttrætt en vitnin svöruðu að hún hefði að vísu verið kennd af brennivíni en ei skert á rænu (sjá hér Arnarnes).

Enda þótt galdratrúin næði að móta allt hugarfar Sigurðar prófasts í Holti um lengri eða skemmri tíma mun hann samt hafa verið talinn einn merkasti kennimaður landsins undir lok 17. aldar. Að svo hafi verið sést best á því að þegar konungur fór þess á leit við Þórð Þorláksson Skálholtsbiskup árið 1691 að hann nefndi til þrjá presta sem best væru til þess fallnir að taka við biskupsembætti á Hólum, þá var séra Sigurður í Holti einn þeirra fjögurra drottins þjóna sem Þórður biskup benti á.[453] Presta þessa vildi konungur fá til Kaupmannahafnar svo að hann gæti valið þar úr hópnum en séra Sigurður skoraðist undan og gaf ekki kost á sér.[454]

Prófastur þessi í Holti var stóreignamaður á mælikvarða sinnar samtíðar. Árið 1710 átti hann 214 jarðarhundruð innan sýslumarka Ísafjarðarsýslu[455] en ekki hefur verið kannað hvaða jarðeignir hann kynni að hafa átt í öðrum sýslum. Jarðir þær í Ísafjarðarsýslu sem séra Sigurður átti að einhverju eða öllu leyti árið 1710 voru þessar:

Höfn, Sveinseyri, Meðaldalur, Hólar, Kirkjuból, Bakki, Gerðhamrar, Arnarnes, − allar í Dýrafirði. Vatnadalur fremri í Súgandafirði, Breiðaból í Skálavík, Hrafnabjörg og Þernuvík í Ögursveit, Kelda í Mjóafirði og Sæból í Aðalvík.[456]

Líklega hefur séra Sigurður í Holti kunnað vel að gæta fengins fjár og fljótur var hann að kæra þegar systursonur hans, svallarinn Jón Torfason frá Flatey, tók að selja jarðeignir, sem verið höfðu í eigu ættarinnar, án þess að hirða um að bjóða frænda sínum í Holti að njóta forkaupsréttar.[457] Til stuðnings kröfu sinni um forkaupsréttinn vísaði prestur í Óðalsbálk gildandi laga og bréf konungs.[458] Á Alþingi var fallist á rök séra Sigurðar og tekið fram í úrskurði lögréttumanna að við jarðasölur mættu svo nákomnir ættingjar ekki fyrir bí gangast.[459] Bú séra Sigurðar í Holti var stórt á þeirrar tíðar mælikvarða. Árið 1710 var búpeningurinn 12 kýr, 8 aðrir nautgripir, 80 ær, 84 sauðir, 72 lömb og 8 hross.[460] Eitthvað af þessum búpeningi hafði prestur þá á fóðrum á öðrum bæjum.[461]

Á sinni löngu æfi skrifaði séra Sigurður Jónsson ýmislegt og hefur sumt af þeim skrifum varðveist til okkar daga. Þar er fyrst að nefna tvær skjalabækur sem varðveittar eru í Þjóðskjalasafni og bera vott um röggsemi í embættisfærslu. Frá hendi séra Sigurðar eru einnig varðveittar nokkrar líkræður og líklegt er talið að hann hafi jarðsungið tengdamóður sína, Helgu Halldórdóttur í Selárdal, sem andaðist árið 1704, en veikindi hennar 35 árum fyrr áttu stærstan þátt í að kynda undir galdrafárinu þar.[462] Í ræðunni sem flutt var við útför gömlu maddömunar er m.a. komist svo að orði að hún hafi komist í hina háskafullustu orustu móti Satans eldflugum.[463] Sighvatur Borgfirðingur getur þess að sami prestur hafi líka skrifað rit er nefnist Útlistun þeirra synda sem bannaðar eru í þeim 10 boðorðum[464] og fleira mætti tína til.

Að lokum er vert að nefna annálsgreinar er klerkur þessi ritaði sem eins konar viðauka við Vatnsfjarðarannál yngri sem bróðir hans, séra Guðbrandur Jónsson í Vatnsfirði, hafði samið. Þessi skrif séra Sigurðar eru prentuð í annálaútgáfu Hins íslenska bókmenntafélags undir nafninu Annálsgreinar frá Holti og ná yfir árin 1673-1705.[465] Allt eru þetta örstuttar minnisgreinar en samt er þar margvíslegan fróðleik að finna um atburði á Vestfjörðum og jafnvel víðar. Annálsgreinarnar frá Holti hafa fræðimenn talið vera áreiðanlega heimild svo langt sem þær ná.[466]

Árið 1709 varð Sigurður Sigurðsson, sonur séra Sigurðar Jónssonar í Holti, aðstoðarprestur hjá föður sínum og gegndi því starfi allt til ársins 1730 er hann tók við staðarforráðum í Holti með formlegum hætti samkvæmt konungsbréfi sem gefið var út 3. mars á því ári.[467] Á því ári andaðist séra Sigurður Jónsson, 87 ára að aldri, en þá var liðið 61 ár frá hann kom að Holti sem aðstoðarprestur og 50 ár voru liðin frá því hann tók þar að fullu við staðarforráðum sem sóknarprestur. Síðustu árin mun þessi gamli Holtsprestur hafa legið í kör[468] og þegar hann lést var hann elstur allra presta í Skálholtsbiskupsdæmi.[469]

Börn séra Sigurðar Jónssonar og Helgu Pálsdóttur konu hans, sem ættir eru frá komnar, voru auk séra Sigurðar Sigurðssonar þau Ragnheiður, sem giftist séra Teiti Pálssyni á Eyri í Skutulsfirði, og Guðbrandur sem varð bóndi á Gerðhömrum í Dýrafirði.[470]

Séra Sigurður Sigurðsson sem tók við embætti sóknarprests í Holti af föður sínum árið 1730 var fæddur haustið 1684.[471] Sigurður Sigurðsson frá Holti í Önundarfirði reið fyrst í skóla til Skálholts, segir faðir hans í sínum stuttorðu annálsgreinum er hann gerir grein fyrir atburðum aldamótaársins 1700.[472] Sex árum síðar lauk hann Sigurður yngri sínu skólanámi og var haustið 1709 vígður aðstoðarprestur föður síns.[473] Sem aðstoðarprestur í Holti þjónaði Sigurður Sigurðsson í 21 ár og þar var hann síðan sóknarprestur í 30 ár, allt til dauðadags árið 1760.[474]

Séra Sigurður Sigurðsson í Holti var þríkvæntur. Fyrsta eiginkona hans var Ásta Pálsdóttir sem dó árið 1737. Hún var dóttir Páls Torfasonar, sýslumanns á Núpi í Dýrafirði. Meðal barna Sigurðar prests og Ástu voru Gróa, sem hér verður síðar nefnd (sjá bls. 62), og Halldóra, sem giftist Jóni Teitssyni er síðar varð biskup á Hólum en þau hjónin voru systkinabörn í báðar ættir.[475]

Önnur kona séra Sigurðar Sigurðssonar í Holti var Elín, dóttir Markúsar Bergssonar, sýslumanns í Ögri. Með henni eignaðist séra Sigurður tvær dætur og var önnur þeirra Ásta sem giftist Sigurði Sigurðssyni sýslumanni er nefndur var skuggi (sjá hér Mosvellir). Þriðja eiginkona séra Sigurðar var svo Katrín, dóttir Guðmundar Vernharðssonar, prests í Selárdal.[476] Þeirra sonur var séra Guðmundur Sigurðsson á Stað í Aðalvík, fæddur 1748 og hefur því verið 12 ára þegar faðir hans andaðist 76 ára gamall.[477]

Séra Sigurður Sigurðsson í Holti er sagður hafa verið vel látinn af sínum sóknarbörnum[478] en ekki þótti Ludvig Harboe mikið koma til þekkingar hans. Þessi danski heittrúarmaður fór hér með biskupsvald á árunum 1741-1745 og ferðaðist þá um nær allt landið í því skyni að rannsaka kristnihald og undirbúa tillögur um úrbætur í þeim efnum. Að Holti kom hann 6. júlí 1745[479] og hitti þar séra Sigurð sem kominn var á sjötugsaldur. Í umsögn sinni um hann segir Harboe að prestur þessi sé gamall, hirðulaus og illa menntaður.[480] Tillaga Harboes var sú að séra Sigurður í Holti yrði sem allra fyrst látinn fá aðstoðarprest og einnig hvatti hann til þess að séra Ásgeiri Bjarnasyni, sem þá var prestur í Ögurþingum, yrði veitt Holtsprestakall þegar það losnaði.[481] Séra Ásgeir fékk reyndar vonarbréf fyrir Holti þegar tæplega eitt ár var liðið frá því Harboe ferðaðist um Vestfirði[482] en varð samt aldrei prestur þar. Í skýrslu sinni um kristnihald og uppfræðslu almúgans í Önundarfirði árið 1745 lætur Harboe þess getið að í Holtsprestakalli kunni 211 manneskjur að lesa en 273 séu ólæsar.[483] Þarna eru börn greinilega talin með og hækkar það mjög fjölda hinna ólæsu. Tölurnar sýna að Harboe hefur talið að nær 44 % íbúanna í Holtsprestakalli kynnu að lesa, sem mátti reyndar teljast nokkuð gott því að í Ísafjarðarsýslu voru aðeins 39,7 % íbúanna læsir að sögn Harboes og ekki nema 33,9 % í öllu Skálholtsbiskupsdæmi.[484]

Ludvig Harboe sigldi héðan til Danmerkur í ágústmánuði árið 1745[485] og talið er að í sama mánuði hafi ungur maður sem Hjalti Markússon hét tekið prestvígslu og verið ráðinn sem aðstoðarprestur að Holti.[486] Varla hefur Harboe þó haft trú á að mikið lið væri í honum við eflingu kristnihalds í Önundarfirði því að einu ári fyrr hafði hann neitað að vígja þennan sama Hjalta og taldi hann þá hinn mesta einfeldning sem með engu móti gæti gegnt prestsstarfi vegna vanþekkingar.[487] Séra Hjalti var sonur Markúsar Bergssonar, sýslumanns í Ögri, og var því bróðir Elínar sem var miðkona Sigurðar prests í Holti. Hjalti Markússon þjónaði sem aðstoðarprestur í Holti í 9 ár, frá 1745-1754, og kvæntist Gróu, dóttur séra Sigurðar Sigurðssonar í Holti af hans fyrsta hjónabandi.[488] Þau séra Hjalti og Gróa kona hans bjuggu á Mosvöllum um skeið en urðu bæði holdsveik.[489] Af þeim sökum varð hann að hætta störfum sem aðstoðarprestur árið 1754[490] og mun þá hafa verið innan við fertugt.

Þegar séra Hjalti Markússon hvarf úr þjónustu kirkjunnar var Sigurður tengdafaðir hans orðinn sjötugur og hefur að líkindum átt erfitt með að sinna öllum prestverkum í Holtsprestakalli. Samt liðu tvö ár uns hann fékk nýjan aðstoðarprest sem var séra Jón Sigurðsson, síðar prestur í Ögurþingum.[491] Séra Jón var fátækra manna eins og Sighvatur Borgfirðingur orðar það,[492] sonur Sigurðar Þorleifssonar, bónda í Vatnadal í Súgandafirði, og Guðrúnar Jónsdóttur konu hans.[493]

Að sögn Sighvats Borgfirðings ólst Jón þessi Sigurðsson að einhverju leyti upp hjá Þorkötlu Jónsdóttur ríku á Sæbóli á Ingjaldssandi.[494] Samt verður að hafa í huga að Jón er talinn fæddur árið 1729 eða því sem næst[495] en Þorkatla andaðist árið 1739 (sjá hér Sæból).

Séra Jón útskrifaðist úr Skálholtsskóla vorið 1751 og varð ári síðar djákni á Þykkvabæjarklaustri.[496] Snemma á árinu 1754 var hann vígður til prests í Gufudal en sagði af sér því starfi tveimur árum síðar og gerðist aðstoðarprestur hjá séra Sigurði Sigurðssyni í Holti.[497] Séra Sigurður andaðist um jólaleytið árið 1760[498] en þá hafði séra Jón Sigurðsson verið honum til aðstoðar í embættisverkum nokkuð á fimmta ár. Vorið 1761 kom nýr prestur að Holti og þá varð séra Jón embættislaus. Hann fluttist þá að Hvilft í Önundarfirði en árið 1763 voru honum veitt Ögurþing og því prestakalli þjónaði hann til æviloka. Um prest þennan sem þjónaði Önfirðingum í 5 ár segir Sighvatur Borgfirðingur að hann hafi verið stilltur og spaklyndur og afburðamaður að afli.[499]

Kona Jóns Sigurðssonar var Ólöf Þórðardóttir, dótturdóttir séra Hjalta Þorsteinssonar í Vatnsfirði og systir séra Þorsteins Þórðarsonar á Stað í Súgandafirði.[500] Frá Margréti, dóttur séra Jóns og Ólafar konu hans, eru ættir komnar.[501]

Vorið 1761 varð séra Jón Eggertsson prestur í Holti en hann þjónaði Holtsprestakalli í 22 ár, allt til dauðadags vorið 1783.[502] Séra Jón var fæddur á Höfða á Höfðaströnd í Skagafirði árið 1731 og eftir fæðingarstað sínum tók hann sér að sögn aukanefnið höfði en það nafn mun þó ekki hafa fylgt honum lengi.[503] Foreldrar Jóns Eggertssonar voru Eggert Bjarnason er síðar bjó á Skarði á Skarðsströnd og kona hans Ragnheiður Þórðardóttir sem var prestsdóttir úr Svarfaðardal.[504] Föðurfaðir séra Jóns var Bjarni Pétursson ríki á Skarði á Skarðsströnd, sem talinn var auðugasti maður á Vesturlandi um sína daga.[505] Bjarni var fjórði maður frá Staðarhóls-Páli í beinan karllegg.[506]

Jón Eggertsson útskrifaðist úr Skálholtsskóla vorið 1751 og varð guðfræðingur frá Kaupmannahafnarháskóla vorið 1755 en þar hafði hann þá verið við nám í 2 ár.[507] Á árunum 1755-1761 var Jón um skeið í Hrappsey á Breiðafirði[508] og árið 1758 missti hann prestskaparréttindi sín vegna barneignar með Þorbjörgu, dóttur séra Jóns Jónssonar er síðast var prestur í Saurbæjarþingum í Dalasýslu.[509] Nokkru síðar fékk hann uppreisn. Í marsmánuði árið 1761 var honum veitt Holtsprestakall og 12. maí þá um vorið var hann vígður til prests.[510]

Þegar séra Jón Eggertsson kom að Holti var hann einhleypur en kvæntist fáum árum síðar Gunnhildi, dóttur séra Hákonar Snæbjörnssonar, prests á Álftamýri, sem var sonur Mála-Snæbjörns (sjá hér Álftamýri). Sighvatur Borgfirðingur lýsir séra Jóni svo:

 

Séra Jón Eggertsson var vel að sér, kallaður drengur góður og vinur vina sinna en átti í erjum við nokkra fáa menn. Hann var sæmilegur í prestsverkum og allvel liðinn í sóknum sínum en kallaður nokkuð kvenkær. Á seinustu árum ævi sinnar krenktist hann af holdsveikisnerti að sagt er.[511]

 

Eitt barna séra Jóns og Gunnhildar konu hans var Eggert sem lengi var prestur á Ballará á Skarðsströnd en hans sonur var séra Friðrik Eggerz í Akureyjum. Í hinu mikla riti séra Friðriks um forfeður sína og sitt eigið lífshlaup greinir hann nokkuð frá afa sínum og ömmu, þeim séra Jóni Eggertssyni og Gunnhildi Hákonardóttur í Holti.

Til marks um næmi afa síns, séra Jóns Eggertssonar, nefnir Friðrik að í æsku hafi hann lært á degi hverjum tíu blöð í Ponta[512] en Ponti, er svo var nefndur, var spurningakver eftir danska guðfræðinginn Erik Pontoppidan og bar heitið Sannleiki guðhræðslunnar.[513] Kver þetta var fyrst gefið út á íslensku árið 1741 í þýðingu séra Halldórs Brynjólfssonar er síðar varð biskup á Hólum.[514] Í þeirri útgáfu var mikið um rangar þýðingar og einnig villur af öðru tagi svo að snemma var farið að nefna kverið Ranga-Ponta.[515] Án efa hefur það verið þetta kver sem séra Jón Eggertsson lærði undir fermingu því hann var 10 ára þegar bókin kom út en orðinn 15 ára þegar Ponti var gefinn út í annað sinn í nýrri og betri þýðingu séra Högna Sigurðssonar á Stafafelli í Lóni, síðar á Breiðabólsstað í Fljótshlíð.[516]

Að sögn séra Friðriks Eggerz var Jón afi hans við sjóróðra í Bjarneyjum á Breiðafirði í æsku en var þó lítið gefinn fyrir sjó.[517] Hrösun afa síns þegar hann var óvígður guðfræðingur og missti prestkaparréttindin um skeið vegna barneignar utan hjónabands lýsir séra Friðrik svo:

 

Fór hann þá að Skarði og stóð til að hann tæki prestvígslu, fengi Ingjaldshólsþing og dóttur Guðmundar sýslumanns Sigurðssonar (Glugga-Gvendar), Ingibjörgu er vicelögmaður Eggert Ólafsson eignaðist síðar fyrir konu. En þá tók Jón þunga legu á Skarði. Stúlka stundaði hann í veikinni. Sú hét Þorbjörg, dóttir séra Jóns er var prestur í Saurbæjarþingum. Hresstist hann úr sjúkdómi þeim og rataði í þá óheppni að Þorbjörg varð af hans völdum ólétt, ól sveinbarn, Þórð er síðar fór til Kaupmannahafnar, lærði handverk og varð ei gamall og deyði barnlaus. En er Þórður fæddist var loku fyrir skotið að Jón fengi Ingjaldshólsþing og Ingibjörgu en hvorugt varð teljandi til skaða.[518]

 

Um Þorbjörgu Jónsdóttur, nýnefnda barnsmóður séra Jóns Eggertssonar, segir Friðrik sonarsonur hans að hún hafi síðar gliðnað úr augnakalli á svelli og það slys dregið hana til dauða.[519]

Þegar séra Jón Eggertsson kvæntist Gunnhildi Hákonardóttur frá Álftamýri árið 1765 var hann orðinn þrítugur og hafði verið prestur í Holti í fjögur ár en brúðurin mun hafa verið um tvítugt.[520] Um búskap afa síns og ömmu í Holti er séra Friðrik ekki margorður en segir frá á þessa leið:

 

Hún [Gunnhildur] var forstands- og búsýslukona og lá búsumsjón mjög svo á henni. En séra Jón var örlátur er við fátæka var að skipta og því varð það ósjaldan er hann fór í kaupstað að hann skipti vöru sinni meðal fátæklinga og setti sjálfur heim með lítið og ekkert á stundum. Og var svo að orði kveðið um hann að ekkert gæti séra Jón aumt séð án þess að hrærast til meðaumkunar. Það var og eftir honum haft að ekki væri sér að leita ábata í skiptum við menn því ávallt hefði sér orðið það til óhagnaðar. Jöfn viðskipti yrðu hollust.

Séra Jón var mjög gefinn fyrir bókmenntir og þó tók hann hendi til er með þurfti. Um sláttinn heyjaði hann fjóra daga af vikunni fyrir reiðhest sinn en tvo daga samdi hann ræðu sína og var við lesningu. … Hann tók hart á mótgjörðum, væri hann við öl, en almennt báru menn virðingu fyrir honum og var hann þeim hinn ástsælasti.[521]

 

Vorið 1783 andaðist séra Jón Eggertsson í Holti.[522] Ýmsar sögur komust síðar á kreik um andlát hans og aðdraganda þess[523] en traustasta heimildin í þeim efnum er bréf séra Guðlaugs Sveinssonar í Vatnsfirði er hann ritaði Hannesi biskupi Finnssyni 30. júní 1783, þegar skammt var liðið frá andláti séra Jóns. Í þessu bréfi kemst séra Guðlaugur svo að orði:

 

Með rökum er fortalið það séra Jón Eggertsson í Holti sé nýlega burtkallaður. Hann var krankur í vor og ei til páska vel, þá hann ferðaðist vestur í fjörður. Er sagt hestur hafi þar með hann fallið og hann runnið hérum 40 faðma, samt orðið undir snjó og aur. Komst þó heim aftur. Að hann hafi verið 2 nætur á Rafnseyri 2 á Álftamýri og 1 á Mýrum en deyði fáum dögum síðar.[524]

 

Séra Friðrik Eggerz greinir líka frá andláti afa síns, segir hann hafa dottið af hestbaki vestur í Arnarfirði, komist heim þaðan en dáið fáum dögum síðar.[525] Séra Friðrik bætir hins vegar ýmsu við sem ekki er nefnt í bréfi séra Guðlaugs í Vatnsfirði. Segir hann Hákon prest á Álftamýri hafa beðið séra Jón, sem var tengdasonur hans, að taka ónefndan Arnfirðing til skrifta og hafi sá maður gefið prestinum frá Holti ólyfjan sem í raun hafi orðið honum að bana. Frásögn séra Friðriks af atburðum þessum er svona:

 

Beiddi hann [séra Hákon á Álftamýri] séra Jón er var orðlagður fyrir klerkdóm að skrifta þar sér í lagi manni nokkrum er var þekktur að forneskju og þrælmennsku og gerði hann það. En að aflokinni þjónustugerðinni bauð maður sá séra Jóni að súpa á brennivínsflösku. Honum þótti brennivín gott, þó hann drykki það með hófsemi, og saup á flöskunni. Og jafnskjótt kenndi hann nokkurs krankleika og reið af stað. Datt af baki á ferðinni og skemmdist lítið á höfði. Komst hann heim til sín og lagðist stuttu þar á eftir algerlega í rúmið því krankleikur hans fór vaxandi. En er hann ekki þoldi að heyra skarkala í bænum og gestagang færði kona hans hann út í kirkju. … Þá séra Jón var búinn að liggja þar veikur um nokkra daga dró mátt af honum, …[526]

 

 

og þar í kirkjunni gaf hann upp andann ef marka má frásögn séra Friðriks.

Um örlög þrælmennisins, sem byrlaði skriftaföður sínum ólyfjan, taldi séra Friðrik sig líka vita og segir mann þann hafa farist næsta haust þegar aur- og vatnsflóð hljóp á sjóbúð hans.[527]

Þegar eitt ár var liðið frá andláti séra Jóns Eggertssonar fluttist ekkja hans, Gunnhildur Hákonardóttir, burt frá Holti með börn sín suður að Skarði á Skarðsströnd þar sem tengdaforeldrar hennar höfðu búið.[528] Eggert Bjarnason á Skarði, faðir séra Jóns Eggertssonar, hafði andast rösklega einu ári fyrr en Jón sonur hans en ekki var búið að ganga frá skiptum á dánarbúi Eggerts þegar Jón féll frá. Það kom því í hlut Magnúsar Ketilssonar, sýslumanns í Búðardal á Skarðsströnd, sem var tengdasonur Eggerts á Skarði, að annast dánarbúin á Skarði og í Holti og undirbúa uppgjör á þeim.[529] Sumarið 1784 gerði Magnús sýslumaður sér ferð vestur í Önundarfjörð til að sækja Gunnhildi svilkonu sína og flytja hana að Skarði.[530] Friðrik Eggerz, sem var sonarsonur Gunnhildar, greinir frá því að á Skarði hafi hún þó aðeins fengið landjörðina til ábúðar en allt hvað jörðinni tilheyrði af eyja- og sjávargagni hafi Magnús sýslumaður haft til sinna nota.[531]

Um skipti á dánarbúum feðganna, Eggerts Bjarnasonar á Skarði og séra Jóns Eggertssonar í Holti, varð mikil og langvarandi þræta. Eggert Jónsson, lengst prestur á Ballará, sem var 8 eða 9 ára þegar faðir hans, séra Jón Eggertsson, andaðist gerði þá kröfu þegar hann óx úr grasi að uppgjör Magnúsar Ketilssonar á dánarbúum séra Jóns og Eggerts föður hans yrði fellt úr gildi og búin tekin til nýrra skipta.[532] Í þessari rimmu gekk séra Eggert svo langt að saka Magnús sýslumann um að hafa falsað undirskrift séra Jóns Eggertssonar í Holti undir sum skjölin sem um var deilt.[533] Ekki er ætlunin að gera hér grein fyrir þessari þrætu en þeim sem um hana vilja fræðast skal vísað á skrif séra Friðriks Eggerz sem var sonur Eggerts á Ballará en dóttursonur Magnúsar Ketilssonar. Augljóst er þó að séra Friðrik dregur taum föður síns í viðskiptum hans við afann.

Málalyktir urðu þær að þegar 16 ár voru liðin frá dauða séra Jóns Eggersssonar í Holti var dánarbú hans tekið til nýrra skipta og við það uppgjör byggt á samningi er séra Eggert hafði náð að gera við Guðmund Ketilsson, bróður Magnúsar sýslumanns.[534] Þegar tveir mánuðir voru liðnir frá samningsgerðinni var efnt til brúðkaups í Búðardal og þar voru þau séra Eggert Jónsson og Guðrún, dóttir Magnúsar Ketilssonar sýslumanns, gefin saman í hjónaband[535] Ætla má að frá þeim hjúskaparmálum hafi verið gengið í hinum flóknu samningum sem fram fóru sumarið 1799 og leiddu til nýrra skipta á dánarbúi séra Jóns Eggertssonar í Holti sem þá hafði legið í gröf sinni í 16 ár.

Gunnhildur Hákonardóttir sem ung varð prestsfrú í Holti fór þaðan 19 árum síðar suður að Skarði, þá ekkja með 5 börn. Í Holti hafði þeim séra Jóni búnast vel en þegar hún fór þaðan voru móðuharðindin skollin á. Um þessa ömmu sína kemst séra Friðrik Eggerz svo að orði:

 

Gunnhildur var forstands- og búsýslukona sem áður er sagt en því skal hér við bæta að hún var kona trúrækin og lét lesa bænir og sálma í húsi sínu kvöld og morgna á vetrum til hvítasunnu og ávallt gekk hún í kirkju á sunnudögum. Þá harðindin gengu yfir eftir 1784 var umferð mikil af hungruðu fólki og horuðu og kom það margt til hennar að Skarði og var því öllu veitt hýsing og beini og fylgd. En svo aumt var fólk það af hungrinu að það varð að nærast með hinni mestu varúð og einkum á mjólk. Frá mörgu varð að taka sokka og skó á kvöldin því hið óvandaðra fór á fætur á nóttinni og stal mat ef náði honum.

Eitt sinn er menn sátu þar að húslestri á föstunni sáu menn, er gengið var um bæinn, að komumaður stóð þar og nagaði staf í dyrunum. Var honum hjúkrað sem öðrum og fylgt sem venja var til að næsta bæ og fréttist bráðum að dáið hefði hann út á ströndinni.[536]

 

Þegar Gunnhildur prestsekkja frá Holti bjó á Skarði á Skarðsströnd var séra Ólafur Einarsson prestur í Skarðsþingum og bjó á Ballará.[537] Síðustu æviárin dvaldist hann í Ytri-Hjarðardal í Önundarfirði, hjá sonardóttur sinni, Guðrúnu Þórðardóttur, konu Ebenezers Þorsteinssonar sýslumanns.[538] Þar dó hann sumarið 1828 og er grafinn í Holti. Um samskipti Gunnhildar Hákonardóttur og séra Ólafs Einarssonar, þegar bæði voru á Skarðsströnd kunni Friðrik Eggerz þessa sögu:

 

Gunnhildur var eftirlát presti sínum, séra Ólafi á Ballará, og umbar vel hans breyskleika þá hann var við öl. En er af honum leið átaldi hún hann einslega og tók hann því jafnan vel. Það var einhverju sinni er hann kom að Skarði svo ölvaður að hann datt þar í bæjardyrum, máttlaus og mállaus. Gunnhildur sat í baðstofu og var henni frá því sagt. Gekk hún þá til dyra og tók annarri hendi undir herðar honum en annarri undir knésbætur og bar hann þannig inn í húsrúm undir baðstofuloftinu. Séra Ólafur var ístrumaður mikill og talinn 22 fjórðungar (110 kíló) að þyngd og má af því marka hver afburðakvenmaður Gunnhildur var að kröftum.[539]

 

Þessum orðum séra Friðriks viljum við gjarnan trúa og er þá að líkindum vandfundin sú prestsmaddama í Holti sem verið hefur sterkari en Gunnhildur, enda mun Mála-Snæbjörn, afi hennar, hafa verið vel að manni.

Þann 1. ágúst 1783 var séra Jóni Sigurðssyni, sem þá var prestur í Arnarbæli í Ölfusi, veitt Holtsprestakall.[540] Hann var fæddur í Holti undir Eyjafjöllum í desembermánuði árið 1747, sonur séra Sigurðar Jónssonar sem þar var prestur og eiginkonu hans, Valgerðar Jónsdóttur. Jón Sigurðsson kom í Skálholtsskóla haustið 1761 og var þar við nám í tvo vetur[541] en haustið 1763 var hann að tilhlutan Finns biskups Jónssonar sendur til Danmerkur og hóf  þar nám við skólann í Hróarskeldu.[542] Þar tók hann stúdentspróf árið 1767 og lauk fimm árum síðar guðfræðiprófi frá háskólanum í Kaupmannahöfn.[543]

Þann 24. október 1773 var Jón vígður til prests að Stað í Grunnavík og þjónaði þar í sex ár en fékk þá Arnarbæli í Ölfusi og þaðan kom hann að Holti sumarið 1784.[544] Þegar séra Jón Sigurðsson var prestur á Stað í Grunnavík gekk hann að eiga Solveigu Ólafsdóttur frá Eyri í Seyðisfirði við Djúp sem var önnur tveggja dætra Ólafs Jónssonar lögsagnara þar.[545] Systir hennar var Ingibjörg, amma Jóns Sigurðssonar forseta. Brúðkaup prestssins í Grunnavík og stúlkunnar frá Eyri var haldið á Kirkjubóli í Langadal 15. ágúst 1775 en þar var þá prestur séra Guðlaugur Sveinsson, síðar í Vatnsfirði.[546] Eina barn séra Jóns og Solveigar konu hans, sem upp komst, var Jarþrúður sem fæddist á Stað í Grunnavík vorið 1776 og varð síðar eiginkona hins merka fræðimanns Boga Benediktssonar á Staðarfelli á Fellsströnd en frá þeim hjónum er kominn mikill fjöldi niðja.[547] Þegar séra Jón fluttist að Holti fylgdu kona hans og dóttir honum þangað, þær Solveig og Jarþrúður.

Í riti sínu um íslenska presta birtir Sighvatur Borgfirðingur lýsingu á séra Jóni Sigurðssyni í Holti og byggir þar á skrifum Daða Níelssonar sem fæddist árið 1809 og var af mörgum nefndur Daði fróði. Sighvatur ritar:

 

Daði segir svo frá séra Jóni að hann væri drykkjugjarn mjög og þá um of hávaðasamur en oftast spakur ódrukkinn, greiðamaður mikill og góðgjörðasamur við fátæka, búmaður góður og mikill vexti, gildur til burða, lærður vel, enginn raddmaður, skrifaði ófagurt.[548]

 

Við þessa umsögn um séra Jón Sigurðsson bætir Sighvatur þeim orðum að hann hafi byggt vel upp staðinn í Holti og kirkjuna þar.[549]

Árið 1792 hafði séra Jón Sigurðsson verið prestur í Holti í átta ár og á því ári tók hann sér aðstoðarprest sem líka hét Jón Sigurðsson og var fæddur í Ögri árið 1759.[550] Aðstoðarpresturinn var bróðursonur eiginkonu sóknarprestsins og segir Sighvatur Borgfirðingur að séra Jón hafi í rauninni ekki þurft á liðsinni að halda við prestsstörfin en vegna vináttu og tengda hafi hann engu að síður fengið nafna sinn til að flytjast í Önundarfjörð og gerast aðstoðarprestur þar.[551] Séra Jón Sigurðsson frá Ögri var aðstoðarprestur í Holtsprestakalli í fjögur ár, 1792-1796, og bjó þá fyrst í Holti en síðan í Ytri-Hjarðardal.[552] Þann 6. september 1796 voru honum veitt Dýrafjarðarþing og vorið 1797 fluttist hann að Meira-Garði í Dýrafirði (sjá hér Ytri-Hjarðardalur og Meiri-Garður).

Þann 9. júní 1796 drukknaði séra Jón Sigurðsson, sóknarprestur í Holti, á reið yfir Vöðin í Önundarfirði, nánar tiltekið á Ystavaði, sem einnig var nefnt Prestavað, en yfir það var riðið úr fjörunni innan við bæjarhólinn á Ytri-Veðrará og stefnt á Holtsstekk.[553]

Lík séra Jóns fannst rekið litlu síðar og var jarðsett í Holti þann 18. júní.[554] Við útförina flutti séra Jón Ásgeirsson, prófastur á Söndum, langa ræðu sem enn er varðveitt og segir þar svo frá drukknum séra Jóns Sigurðssonar:

 

Þar að hnígur dauðdagi þessa vors framliðna og því þegar hann fyrra fimmtudagsmorgun, þann 9. þessa mánaðar, vildi hafa greitt ferð eins reisandi manns héðan frá norður yfir Vöð svokölluð. Hrataði hestur hans í pytt nokkurn er óforvarandis fyrir honum varð. Deyði þessi guðsmaður með svo voveiflegu og sorglegu dauðsfalli sem kunnugum er ljóst.[555]

 

Þarna kemur ekki fram hvað varð um ferðamanninn, sem prestur var að fylgja, en í Espihólsannál segir að séra Jón hafi drukknað af hesti með öðrum manni og hafi þeir tvímennt yfir fjörðinn.[556] Sú frásögn er færð í letur af Jóni Jakobssyni sem var tæplega sextugur sýslumaður norður í Eyjafirði þegar slysið skeði.

Sighvatur Grímsson Borgfirðingur mun lítið hafa rætt við Önfirðinga fyrr en hann fluttist, liðlega þrítugur, í Dýrafjörð árið 1873. Þá voru 77 ár liðin frá því séra Jón í Holti drukknaði. Sighvatur segir að presturinn hafi verið búinn að flytja hinn ónefnda ferðamann yfir Vöðin og verið á heimleið þegar hann drukknaði. Nánar orðar hann þetta svo:

 

Það segja gamlir menn í Önundarfirði að séra Jón hafi verið á heimleið að Holti er hann týndist og verið búinn að fylgja manninum en harða aðfall var í Vöðin og verður þar þá ófært á svipstundu en þegar hann drukknaði var tunglkomu stórstraumur.[557]

 

Enda þótt Sighvatur fái sínar fréttir seint og um síðir verður að ætla að hann fari þarna rétt með, ekki síst vegna veru sinnar í Breiðafjarðareyjum og þá einkum í Flatey á árunum 1861-1867 (sjá hér Höfði). Í Flatey hlýtur Sighvatur að hafa komist í kynni við Brynjólf Benedictsen kaupmann sem var dóttursonur séra Jóns Sigurðssonar í Holti. Móðir Brynjólfs, Jarþrúður Jónsdóttir, var tvítug heimasæta í Holti þegar faðir hennar drukknaði árið 1796. Henni varð langra lífdaga auðið og reyndar dó hún ekki fyrr en 1858, þremur árum áður en Sighvatur kom út í Breiðafjarðareyjar þar sem hann settist brátt við fótskör Gísla Konráðssonar er þar starfaði að söfnun gamals fróðleiks og sagnaritun í skjóli Brynjólfs Benedictsen sem sjálfur var ættfræðigrúskari. Þessi tengsl við Flateyinga styrkja því fullyrðingu Sighvats um að séra Jón hafi verið á heimleið þegar hann drukknaði í Vöðunum.

Síðari tíma frásögn úr Önundarfirði, sem birtist í ritinu Frá ystu nesjum árið 1944, bendir einnig til hins sama. Þar segir:

 

Gestur hafði komið að Holti kvöldið áður og fengið gistingu. Var hann á leið norður til Skutulsfjarðar og ætlaði Breiðadalsheiði. Þurfti ferðamaður að fá reiðslu yfir Vöðin sem svo kallast en þar háttar þannig til að sæta verður sjávarföllum. Er grunnt yfir vöð þessi um fjörur en ófært með öllu á flóði. Fólk var önnum kafið við vorverk því að þetta var rétt fyrir fráfærur. Vildi prestur ekki taka vinnumenn frá störfum sínum og bauðst til að reiða gestinn sjálfur yfir vöðin. Hross voru engin nálæg nema reiðhestur prests. Kvað hann slíkt nægja myndi og gætu þeir hæglega tvímennt. Lögðu þeir síðan af stað.

Jarþrúður prestsdóttir var stödd ásamt fleirum inni við svonefnda Stekka og var verið að stía þar fé. Sá stekkjarfólk glögglega til ferða Jóns prests. Fór hann yfir með manninn þar sem heitir á Ystavaði en þar er jafnan mest dýpið. Komust þeir yfir heilu og höldnu. Stórstraumsaðfall var og gætti Jón þess ekki sem skyldi að þá dýpkar undrafljótt. Sneri hann nú til baka eftir að hafa fylgt gesti sínum góðan spöl og lagði út í á sama vaði og áður. Leið ekki á löngu uns komið var á sund. Fólk allt við stekkinn beið verklaust og gaf presti gætur. Vissi það ekki fyrri til en hestur og maður hurfu báðir í kaf. Hestinum skaut þegar upp aftur en séra Jón hafði orðið viðskila við hann og sást ekki framar.[558]

 

Hér var áður minnst á líkræðuna sem séra Jón Ásgeirsson prófastur flutti við útför séra Jóns Sigurðssonar í Holti 18. júní 1796 en prófastinum var veitt Holtsprestakall fáum vikum síðar. Margar hafa ræðurnar verið langar en satt að segja er þessi ótrúlega löng, 64 handskrifaðar blaðsíður og 26 þrettán sentímetra langar línur á hverri síðu.[559] Mest er þetta almennt og innihaldslítið guðsorð en svolítill fróðleikur fær þó að fljóta með. Í líkræðunni er séra Jóni lýst með þessum orðum:

 

Hann var maður hreinskilinn í guðrækni og bljúgur fyrir sínum guði, bæði í sínum embættisverkum og húsandakt og hafði mikla þanka um velferð sálar sinnar og að gjöra sína útvalningu vissa. Röggsamlegur og siðavandur var hann, bæði opinberlega í söfnuðinum og sér tiltrúuðum sóknum sem og einnig á sínu heimili, forðaðist og hataði alla bakmælgi og lastlegt tal um aðra menn, fíflslegt hjal og kerskni, ástundandi og áfýsandi til guðs ótta og góðra siða. … Svo var hann bónþægur að hann jafnvel gjörði sjálfum sér skaða fyrir annarra þörf … en því meir sem hann gjörði gott af sér því meir auðgaðist hann.[560]

 

Þegar séra Jón Sigurðsson drukknaði var hann 48 ára gamall og hafði verið prestur í Holti í 12 ár. Jarþrúður, dóttir séra Jóns og Solveigar konu hans, giftist fáum mánuðum eftir andlát föður síns Boga Benediktssyni frá Staðarfelli á Fellsströnd og fluttist á hans heimaslóðir (sjá hér bls. 69 og 71). Hún var þá tvítug að aldri. Ekkjan, Solveig Ólafsdóttir, móðir Jarþrúðar, fór hins vegar ekki lengra en að Ytri-Hjarðardal í Önundarfirði og bjó þar næstu ár (sjá hér Ytri-Hjarðardalur).

Nú (1996) eru liðin 200 ár frá því séra Jón Sigurðsson í Holti týndi lífi í Vöðunum. Ýmsir þeirra sem síðar fóru um Vöðin töldu sig verða þar vara við svip þessa drukknaða prests og hélst sú trú lengi.[561] Fékk hann þá dauður nafnið Vaðapresturinn. Annar Holtsprestur drukknaði í Vaðlinum, sem ekki má rugla saman við Vöðin, haustið 1835 (sjá hér bls. 92-93) og á 17. öld eða skömmu eftir 1700 drukknaði maður úr Valþjófsdal í Vöðunum (sjá hér Tannanes).

Þann 19. júlí 1796 var séra Jóni Ásgeirssyni, sem þá var prestur á Söndum í Dýrafirði, veitt Holtsprestakall og fluttist hann frá Söndum að Holti vorið 1797.[562]

Séra Jón Ásgeirsson var fæddur árið 1740 í Folafæti í Súðavíkurhreppi, sonur séra Ásgeirs Bjarnasonar, sem þá var prestur í Ögurþingum, og konu hans Þórdísar Jónsdóttur.[563] Báðir foreldrar Jóns Ásgeirssonar voru úr Árneshreppi í Strandasýslu.[564] Hann útskrifaðist úr Skálholtsskóla vorið 1763 með mjög lofsamlegum vitnisburði og dvaldist næstu þrjú ár hjá foreldrum sínum að Stað í Súgandafirði[565] en séra Ásgeiri föður hans var veitt Staðarprestakall árið 1763.[566] Þann 3. ágúst 1766 tók Jón prestvígslu og gerðist aðstoðarprestur föður síns sem þá hafði nýlega tekið við Dýrafjarðarþingum og flust frá Stað í Súgandafirði að Mýrum.[567]

Árið 1770 gekk séra Jón að eiga Þorkötlu, einkadóttur séra Magnúsar Snæbjörnssonar, prófasts á Söndum, og konu hans Helgu Jónsdóttur.[568] Ungu hjónin munu þá hafa hafið búskap á Mýrum og þegar séra Ásgeir Bjarnason andaðist, tveimur árum síðar, voru Jóni syni hans veitt Dýrafjarðarþing.[569] Séra Jón Ásgeirsson þjónaði Dýrafjarðarþingum í 18 ár, fyrst sem aðstoðarprestur í 6 ár og síðan sem sóknarprestur í 12 ár. Allan þann tíma átti hann heima á Mýrum nema síðasta árið. Í marsmánuði árið 1783 andaðist séra Magnús Snæbjörnsson á Söndum og þá um vorið var séra Jóni Ásgeirssyni veitt Sandaprestakall.[570] Hann fluttist þá þegar yfir Dýrafjörð, frá Mýrum að Söndum, en þjónaði samt í Dýrafjarðarþingum til vorsins 1784[571] er þangað kom nýr prestur.

Árið sem séra Jón tók við Sandaprestakalli varð hann prófastur og hélt því embætti til æviloka.[572] Starfsár Jóns Ásgeirssonar á Söndum urðu 14 en sumarið 1796 var honum veitt Holt í Önundarfirði og þangað mun hann hafa flust vorið 1797.[573] Þegar séra Jón kom að Holti var hann 57 ára gamall og þar þjónaði hann til æviloka en andaðist úr landfarsótt 9. júní 1810, nær sjötugur að aldri.

Börn séra Jóns og Þorkötlu konu hans sem náðu fullorðinsaldri voru þrjú, öll fædd á Mýrum. Elst var Helga, fædd 1771 eða því sem næst. Hún var enn ógift í föðurgarði árið 1794 en eignaðist þá barn með kvæntum manni eins og hér hefur áður verið rakið (sjá Rafnseyri og Sandar). Fimm árum síðar giftist hún Ólafi, syni Matthíasar Þórðarsonar á Eyri í Seyðisfirði og Rannveigar, dóttur Guðlaugs Sveinssonar prests í Vatnsfirði.[574] Brúðkaupið fór fram í Holti 29. ágúst 1799 en sá sem gaf brúðhjónin saman var séra Guðlaugur í Vatnsfirði, afi brúðgumans. Þau Helga og Ólafur bjuggu árið 1801 í Folafæti í Súðavíkurhreppi[575] en voru árið 1816 komin að Hóli í Bolungavík og áttu þá þrjár dætur þar heima á aldrinum 3ja – 17 ára.[576] Ólafur Matthíasson mun hafa drukknað í hákarlalegu frá Vigur 29. mars árið 1830[577] en Helga kona hans lifði mann sinn (sjá hér Rafnseyri).

Yngri dóttir séra Jóns Ásgeirssonar og Þorkötlu konu hans var Þórdís sem giftist séra Sigurði Jónssyni á Rafnseyri 28. september 1803 en þau voru foreldrar Jóns Sigurðssonar forseta. Þórdís fæddist á Mýrum árið 1772 eða því sem næst og fluttist með foreldrum sínum að Holti 25 ára gömul vorið 1797. Hér hefur áður verið ritað ýmislegt um Þórdísi og skal til þess vísað (sjá hér Rafnseyri, Kirkjuból í Mosdal og Þingeyri). Í Holti átti hún heima í sex ár, allt þar til hún giftist séra Sigurði og fluttist til hans vestur á Rafnseyri. Brúðkaup þeirra var haldið í Holti (sjá hér Rafnseyri).

Yngsta barn séra Jóns Ásgeirssonar og Þorkötlu Magnúsdóttur og einkasonur þeirra var Ásgeir, fæddur 1779, en hann varð prestur og prófastur í Holti (sjá hér bls. 90-93).

Á þeim 44 árum sem séra Jón Ásgeirsson var prestur í Dýrafirði og Önundarfirði kom hann víða við sögu og hér hefur áður verið talsvert frá honum sagt (sjá m.a. Mýrar, Sandar og Þingeyri). Þær frásagnir gefa þó aðeins mjög takmarkaða mynd af þessum merkilega presti. Dagbók hans frá árunum 1774-1780 er merkileg heimild og skrár hans yfir bækur sem hann lánaði víðs vegar um Vestur-Ísafjarðarsýslu á árunum kringum 1780 segja ærna sögu. Bæði dagbókin og bókaskrárnar eru varðveittar í Landsbókasafni (sjá hér Mýrar).

Sighvatur Borgfirðingur, sem viðaði að sér miklum fróðleik um íslenska presta, lýsir séra Jóni Ásgeirssyni með þessum orðum:

 

Hann var vinfastur og vandaður merkisprestur og var hans saknað af mörgum. Hann var iðnarmaður mikill og ærið stundunarsamur um embætti sitt sem sjá má af dagbók hans og fleiru. Klerkur góður, vel að sér og vel gáfaður, snilldargóður skrifari á alla leturgjörð og að mörgu fleiru nettmenni, hóglyndur og stilltur vel, tryggur og góðlátur.

Haldinn var hann af sumum mönnum fjölkunnugur en lítt iðkaði hann þó slíkt svo vissar sögur færu af því. Daði [þ.e Daði Níelsson fróði] segir að hann og kona hans væru bæði drykkfelld um of og meintu menn að það myndi hafa ollað honum heilsuspillis. Líka stóð í minna lagi stjórn af honum í sóknum hans á hans síðustu árum svo siðsemi margra varð þar við lítilsverð.[578]

 

Í þessari mannlýsingu er ekki getið um yrkingar séra Jóns, enda mun hann ekki hafa iðkað vísnagerð að neinu verulegu marki. Jón Sigurðsson forseti, sem var dóttursonur séra Jóns Ásgeirssonar, hefur þó haldið til haga einni sérkennilegri vísu eftir þennan afa sinn og er hana að finna í svonefndri Bergsbók í safni Jóns. Vísan er svona:

 

Vanda menn í vegg lag.

Í verki hverju þarf lag.

Sálmar hafa sitt lag.

Sjómenn hreppa oft lag.

Kaupmenn keppast á lag.

Korða að flýja sárt lag.

Á skipi heitir skutlag.

Skakkur ljár fær rétt lag.[579]

 

Þann 1. febrúar 1801 voru heimilismenn í Holti 21 en heimili prófastshjónanna þar var þá það fjölmennasta í prestakallinu.[580] Ekkert húsfólk var þá á prestssetrinu og séra Jón nytjaði einn alla jörðina því gömlu hjáleigurnar voru horfnar úr sögunni.[581] Þegar manntalið var tekið árið 1801 voru prófastshjónin í Holti liðlega sextug. Tvö börn þeirra voru þá enn heima hjá foreldrum sínum, Þórdís 29 ára og Ásgeir sem þá var 23ja ára óvígður stúdent.[582] Þar var þá líka 8 ára gömul dótturdóttir prófastshjónanna, Karitas Þorkelsdóttir,[583] sem ólst upp á heimili afa síns og ömmu í Holti (sjá hér Rafnseyri). Árið 1801 voru sex vinnumenn í Holti og fjórar vinnukonur.[584] Kona og tvö börn fylgdu einum vinnumanninum. Ein vinnukvennanna í Holti árið 1801 var Kristín Snæbjörnsdóttir, 54 ára, og hefur hún líklega verið dóttir Mála-Snæbjörns og þar með föðursystir prestsfrúarinnar (sjá hér Sæból á Ingjaldssandi). Á heimilinu í Holti voru líka mæðgur sem ekki töldust til vinnufólks. Sú eldri þeirra var 85 ára gömul og sögð vera nákomin Þorkötlu húsfreyju en dóttir þessarar gömlu konu var 30 árum yngri.[585] Síðust heimilisfólksins í Holti árið 1801 er talin kona um fimmtugt, Sesselja Andrésdóttir, en hún var holdsveikur sveitarómagi.[586]

Þegar séra Jón Ásgeirsson kom að Holti vorið 1797 tók hann sér strax aðstoðarprest og valdi til þess starfs séra Guðmund Þorvaldsson sem þá hafði verið aðstoðarprestur á Stað í Súgandafirði í nokkur ár. Séra Guðmundur þjónaði sem aðstoðarprestur í Holtsprestakalli í sjö ár, frá 1797 til 1804, og bjó á þeim árum í Ytri-Hjarðardal. Hér hefur áður verið frá honum sagt (sjá hér Ytri-Hjarðardalur).

Árið 1804 varð Ásgeir Jónsson í Holti aðstoðarprestur föður síns og tók hann prestvígslu 2. september á því ári.[587] Hann var þá 25 ára og þjónaði sem aðstoðarprestur í Holti síðustu sex árin sem faðir hans lifði. Þegar Jón Ásgeirsson prófastur andaðist sumarið 1810 var Ásgeiri hins vegar ekki veitt brauðið og gerðist hann þá bóndi á Sæbóli á Ingjaldssandi. Tólf árum síðar kom Ásgeir aftur að Holti og var þar prestur og prófastur í 13 ár (sjá hér bls. 90-93).

Sumarið 1810 var séra Þorvaldi Böðvarssyni, er þá var prestur á Reynivöllum í Kjós, veitt Holtsprestakall og fluttist hann vestur sumarið 1811.[588] Séra Þorvaldur var fæddur á Mosfelli í Mosfellssveit 21. maí 1758, sonur séra Böðvars Högnasonar, er þá var prestur á Mosfelli, og konu hans, Gyðríðar Þorvaldsdóttur.[589] Séra Böðvar, faðir Þorvaldar, var einn af átta sonum séra Högna Sigurðssonar á Breiðabólsstað í Fljótshlíð sem allir urðu prestar.[590] Faðir þessara átta bræðra var því oft nefndur Presta-Högni.

Þorvaldur Böðvarsson útskrifaðist úr Skálholtsskóla vorið 1774 og var þá aðeins 16 ára gamall.[591] Ári síðar voru föður hans veitt Efri-Holtaþing í Rangárvallasýslu og fluttist Þorvaldur þá með foreldrum sínum úr Mosfellssveit austur í Marteinstungu. Þar áttu þau heima í eitt ár en síðan í Guttormshaga í Holtum.[592]

Þegar Þorvaldur var tvítugur að aldri drukknaði faðir hans í Högnalæk er hann var á heimleið frá Hagakirkju í Holtum.[593] Slys þetta mun hafa orðið 6. eða 10. janúar 1779.[594] Í riti sínu Prestaæfir getur Sighvatur Borgfirðingur tveggja ritaðra frásagna af drukknun séra Böðvars. Er önnur þeirra eftir Daða Níelsson hinn fróða en hin eftir séra Sigurð Br. Sívertsen sem var prestur á Útskálum.[595] Þessum tveimur frásögnum ber ekki alveg saman.[596] Þriðju útgáfuna af þessari sömu slysfarasögu ritaði sonarsonardóttir séra Böðvars, Rosa Anne Orde, fædd Repp, og hafði eftir föður sínum Þorleifi Repp, málfræðingi í Kaupmannahöfn. Sú frásögn er rituð á ensku en líklegt má telja að þar sé í aðalatriðum farið rétt með því Þorleifur Repp var á æskuárum nákunnugur þeim sem horfðu á afa hans drukkna í læknum, það er að segja Gyðríði ömmu sinni og föðurbróður sínum, séra Þorvaldi Böðvarssyni. Rosa Anne sem festi söguna á blað var fædd árið 1828.[597] Hún fluttist ung frá Kaupmannahöfn til Norðimbralands í Englandi og dó þar árið 1902[598] Ljósrit af minnisblöðum Rósu Önnu fékk höfundur þessara orða hjá barnabörnum hennar í Englandi árið 1985. Frásögnin af drukknun séra Böðvars er þar lögð í munn sonarsyni hans, Þorleifi Repp, og sé henni snúið á íslensku hljóðar hún svo:

 

Faðir föður míns var prestur í Efri-Holtaþingum. Sunnudag einn voru hann og fjölskylda hans á heimleið frá annexíunni að áliðnum degi. Séra Böðvar og sonur prestshjónanna gengu eitthvað hraðar en kona hans og dóttir þeirra en námu svo staðar við dálítinn læk til að bíða eftir þeim. Meðan þeir biðu fór afi minn að pikka í ísinn á læknum með stafnum sínum og skyndilega brast ísinn svo hann féll í lækinn. Sonur hans reyndi þegar í stað að koma honum til hjálpar en féll þá líka í straumvatnið. Þegar kona séra Böðvars og dóttirin komu að læknum sáu þær í fyrstu hvorki tangur né tetur af feðgunum en grilltu þó fljótt í eitthvað af fötum piltsins þar sem hann flaut í vatnsborðinu.

Amma mín var hávaxin kona og kraftamanneskja, enda tókst henni að draga son sinn upp úr læknum áður en líf hans fjaraði út. Eiginmanni sínum náði hún reyndar líka úr ísköldu vatninu en hann var þá látinn. Þannig lauk ævi Böðvars Högnasonar.

Drengurinn sem móðirin bjargaði var föðurbróðir minn, sá hinn sami og kenndi mér undir skóla en hann var um skeið rektor Bessastaðaskóla. Amma mín átti síðar heima hjá dóttur sinni og það man ég vel að mér fannst hún ætíð vera sá tignarlegasti („most matronly”) kvenmaður sem ég hefði nokkru sinni séð.[599]

 

Óhætt mun að slá því föstu að pilturinn sem féll með föður sínum í Högnalæk en móðirin náði að bjarga hafi verið Þorvaldur Böðvarsson, síðar prestur í Holti. Því til sönnunar nægir að nefna að Þorvaldur var eini föðurbróðir Þorleifs Repp.[600] Eina atriðið í frásögn Rósu Önnu sem ekki fær staðist er að séra Þorvaldur Böðvarsson hafi orðið rektor Bessastaðaskóla. Þar ruglar hún saman skólanum á Bessastöðum og barnaskólanum á Hausastöðum í Garðahverfi en við þann skóla var Þorvaldur forstöðumaður í 12 ár.[601] Sá ruglingur er skiljanlegur hjá konu sem aldrei hafði komið til Íslands því vafalaust hefur hún mun oftar heyrt föður sinn tala um skólann á Bessastöðum en sjaldan eða aldrei um hinn á Hausastöðum. Sjálfur ritaði séra Þorvaldur á efri árum stutta sjálfsævisögu sem lýkur þegar hann var nýlega kominn vestur í Önundarfjörð.[602] Hann minnist þar hvorki á fall sitt í Högnalæk né björgunarafrek móður sinnar en sú þögn gæti átt sér ýmsar skýringar og gefur varla tilefni til að véfengja hina ágætu frásögn frænku hans sem hér hefur verið lögð fyrir sjónir lesenda.

Eins og áður hefur verið nefnt var Þorvaldur 20 ára þegar faðir hans drukknaði í janúarmánuði árið 1779. Gyðríður móðir hans bjó áfram í Guttormshaga næstu tvö árin og var Þorvaldur fyrirvinna hjá henni.[603] Vorið 1781 fluttust Gyðríður og börn hennar frá Guttormshaga að Breiðabólsstað í Fljótshlíð til séra Stefáns Högnasonar sem var föðurbróðir Þorvaldar.[604]

Árið 1782 gekk Þorvaldur að eiga Rannveigu frænku sína, dóttur séra Stefáns á Breiðabólsstað, og ári síðar varð hann aðstoðarprestur hjá tengdaföður sínum.[605] Sama ár og Þorvaldur kvæntist fór hann að búa á Flókastöðum, sem eru rétt hjá Breiðabólsstað, og bjó þar í 10 ár, 1782-1792.[606]

Á fjórða degi jóla árið 1785 andaðist Rannveig Stefánsdóttir, eiginkona séra Þorvaldar,[607] en hjónaband þeirra hafði þá staðið í þrjú ár. Með Rannveigu hafði séra Þorvaldur eignast þrjú börn. Tvö þeirra fæddust andvana en þriðja barnið dó fárra daga gamalt.[608]

Þann 16. júní 1786 gekk séra Þorvaldur að eiga Guðrúnu, dóttur Einars Hafliðasonar, lögréttumanns í Skaftholti í Gnúpverjahreppi[609] en var þá að eigin sögn orðinn flæktur í kunningsskap við vinnukonu sína sem Margrét hét Arnoddsdóttir.[610] Þegar nákvæmlega eitt ár var liðið frá brúðkaupi séra Þorvaldar og Guðrúnar Einarsdóttur fæddist fyrsta barn þeirra, Böðvar, en þremur mánuðum síðar varð fyrrnefnd vinnukona einnig léttari og var sonur hennar skírður Guðmundur.[611]Að faðerni hans var ekki spurt, segir séra Þorvaldur í sjálfsævisögunni.[612] Árið 1788 játaði hann fyrir prófastsrétti að vera faðir að barni vinnukonunnar og var þá dæmdur frá prestlegum verðleikum[613] eða sviptur hempunni sem er kunnuglegra orðafar.

Þessi barneign séra Þorvaldar olli á sínum tíma þó nokkru hneyksli og á einum stað er frá því greint að þegar búið var að dæma hann óhæfan til prestverka hafi móðir hans gefið honum kinnhest og sagt um leið: Þar situr ættarskömmin.[614] Enginn veit nú hvort þarna sé rétt með farið en í líkræðu sinni yfir Þorvaldi Böðvarssyni komst séra Tómas Sæmundsson svo að orði að ættingjar hins látna hefðu um skeið snúið við honum baki og samlagsbræður hans rofið við hann félagsskap.[615]

Þegar séra Þorvaldur missti prestskaparréttindin var hann þrítugur að aldri og þau réttindi fékk hann ekki á ný fyrr en fimmtán árum síðar.[616] Allan þann tíma hafði hann kennslu að aðalstarfi. Fyrstu fjögur árin eftir missi hempunnar bjó Þorvaldur eins og áður á Flókastöðum í Fljótshlíð og kenndi þá allmörgum piltum undir skóla en aðrir stunduðu hjá honum sama nám og boðið var upp á í Skálholti og á Hólum.[617]

Árið 1792 tók Þorvaldur við starfi forstöðumanns nýs barnaskóla á Hausastöðum í Garðahverfi fyrir sunnan Hafnarfjörð og því starfi gegndi hann í 12 ár.[618] Skólinn á Hausastöðum var þá eini barnaskólinn á öllu landinu[619] en í honum voru fyrst framan af 12 nemendur, 6 drengir og 6 stúlkur.[620] Síðar á skólastjóraárum Þorvaldar fjölgaði nemendunum upp í 16.[621] Á Hausastöðum kenndi Þorvaldur líka ýmsum sem lengra voru komnir, bjó unglinga undir skólanám í Skálholti og kenndi sumum drjúgan hluta af því námsefni sem þar var haft til stúdentsprófs, alveg eins og verið hafði meðan hann bjó austur í Fljótshlíð.[622] Slíkri kennslu hélt hann áfram fram á elliár.[623]

Á Hausastöðum var Þorvaldur Böðvarsson búsettur í 12 ár. Þar missti hann konu sína, Guðrúnu Einarsdóttur. Af fimm börnum þeirra náðu fjögur að vaxa úr grasi og var hið elsta þeirra 16 ára þegar móðirin dó. Í sjálfsævisögunni segir Þorvaldur konu sína hafa dáið 6. desember 1803[624] en í prestsþjónustubókinni er hún sögð hafa andast 14. janúar 1804.[625] Skömmu áður en skólastjórinn á Hausastððum varð ekkjumaður í annað sinn fékk hann loks uppreisn æru fyrir sitt gamla hórdómsbrot og réttindi til að gegna prestsstörfum á ný.[626]

Vorið 1804 var séra Þorvaldur settur prestur á Reynivöllum í Kjós og þá um sumarið kvæntist hann í þriðja sinn og gekk að eiga Kristínu Björnsdóttur sem var prestsdóttir frá Bólstaðarhlíð en hafði í sjö ár verið þjónustustúlka hjá Benedikt Gröndal yfirdómara sem á þeim árum átti lengst heima í Nesi við Seltjörn og var kvæntur móðursystur hennar.[627] Þegar Þorvaldur og Kristín voru gefin saman í hjónaband var brúðurinn 24 ára[628] en brúðguminn 46 ára svo að hann hefði sem best getað verið faðir hennar. Með Kristínu eignaðist séra Þorvaldur 13 börn[629] svo að alls urðu börn hans 22. Af þeim komust 15 til fullorðinsára.[630]

Á Reynivöllum var séra Þorvaldur prestur í sjö ár, frá 1804 til 1811. Þann 20. júlí 1810 var honum veitt Holt í Önundarfirði en vestur fór hann ekki fyrr en sumarið 1811.[631] Í sjálfsævisögu sinni segir séra Þorvaldur frá ferð sinni vestur með þessum orðum:

 

1811 veik ég frá Reynivöllum með 5 börnum okkar [þ.e. þeirra Kristínar] er þá voru fædd, Birni, Ólafi, Ingibjörgu, Stefáni, Guðrúnu, og komim vestur að Holti 3. dag júlí 1811 og höfðum átt örðuga ferð en þó slysalausa.[632]

 

Í annarri og yngri heimild er haft eftir Önfirðingum að tveir menn sem fluttu séra Þorvald að Holti sumarið 1811 hafi drukknað en presti verið bjargað af skeri.[633] Sú fullyrðing hlýtur að vera á misskilningi byggð því sjálfur segir séra Þorvaldur að ferðin frá Reynivöllum að Holti hafi verið slysalaus. Í prestsþjónustubókum frá Holti er ekki heldur getið um neitt slíkt sjóslys árið 1811.[634] Aftur á móti drukknuðu þrír skipverjar Ásgeirs prófasts Jónssonar í lendingu á Sæbóli á Ingjaldssandi vorið 1811 en sjálfur slapp prófastur naumlega (sjá hér Sæból). Ásgeir prófastur fluttist frá Holti að Sæbóli þetta sama vor og má því telja mjög líklegt að þegar farið var að rifja þennan atburð upp í fjarlægum héruðum löngu síðar hafi menn ruglað saman prófastinum á Sæbóli og Þorvaldi presti í Holti.

Þegar séra Þorvaldur fluttist úr Kjósinni vestur í Önundarfjörð sendi hann flesta búsmuni sína vestur með fiskiduggu, svo og bækur sínar og handrit. Til þess skips spurðist aldrei framar svo að allt týndist þetta í hafi.[635] Harmaði prestur mjög missi bóka sinna og þó einkum handritanna.[636] Mjög líklegt verður að telja að duggan sem flutti eigur séra Þorvaldar hafi verið Delphin sem þá var í eigu Guðmundar Schevings í Flatey en gerð út frá Tálknafirði.[637] Skipstjóri á því skipi var Guðmundur Ingimundarson er hafði um nokkurra ára skeið búið í Stóra-Laugardal í Tálknafirði.[638] Guðmundur Scheving segir að vísu í ritgerð frá árinu 1832 að Delphin hafi farist árið 1813 en aðrar heimildir sýna svo ekki verður um villst að dugga þessi týndist í hafi tveimur árum fyrr,[639] sama ár og séra Þorvaldur fluttist að Holti. Hafi fiskiduggan sem flutti búslóð og bækur séra Þorvaldar verið íslenskt kemur aðeins þessi Tálknafjarðarskúta til greina og reyndar var hún eina íslenska þilskipið sem týndist í hafi á fyrsta þriðjungi 19. aldar.[640] Tjónið sem séra Þorvaldur varð fyrir var mikið og kom hann að Holti tómhentur af flestu sem á þurfti að halda til að hefja búskap.[641]

Sjálfsævisögunni, er Þorvaldur prestur hóf að rita á sínum efri árum, lýkur við komu hans að Holti. Hinn góðkunni Fjölnismaður, séra Tómas Sæmundsson, prestur á Breiðabólsstað í Fljótshlíð, bætti hins vegar nokkru við[642] og birti ævisögubrotið með þessum viðbótum í þriðja árgangi Fjölnis árið 1837 en séra Þorvaldur var þá nýlega látinn. Prestinum sem tók við stað og kirkju í Holti sumarið 1811 lýsir Tómas þar með þessum orðum:

 

Þorvaldur Böðvarsson var hár meðalmaður vexti og réttvaxinn, heldur mikill um herðar og þrekinn og beinamikill og vel limaður. Framan af ævinni var hann jarpur á hárslit og liðaðist hárið en er hann tók að eldast varð hár hans hvítt sem silfur og gjörðist hann þá nokkuð sköllóttur. Höfuðið var í stærra lagi. Hann var meðallagi þykkleitur, nokkuð svo rjóður í kinnum og lágu í hærra lagi kinnbeinin. Nefið hátt og mikið og liður á. Hakan lítil en munnur og varir í meðallagi og lék jafnan hægt bros um munninn.

Hann var ljósmóeygður og augun bæði skarpleg og blíðleg, fjörleg og þó stillileg. Allra manna fullorðinna var hann bjartastur á hörund og það fylgdi því að nærklæði velktust ekki á honum. Málfæri hans var lipurt og rómurinn þægilegur − ekki hár né hvellur og þó hreinn. Engi var hann raddmaður og þó lagsæll. Meðan hann gekk til verka (hann sló hvert sumar þar til hann var rúmt sextugur) þótti hann gildasti tveggja maki til allrar vinnu, að snarræði, fylgi, þoli og afköstum og fram að fimmtugsaldri svaf hann aldrei nema 4 stundir á sólarhring. Hann var þolinn og þrautgóður við vos og volk, hugaðri og djarffærnari flestum mönnum, skjótur til ráða og úrskurðar í vandræðum og hverjum manni fóthvatari og léttari til göngulags. Hann var lipur í allri hegðan, − fannst mörgum til, sér í lagi útlendingum er hann sáu, hvursu hann var háttprúður og kurteis og samferða tímanum í öllu.[643]

 

Séra Tómas, sem ritaði þessa ágætu lýsingu á Þorvaldi Böðvarssyni, var frændi hans því að Sæmundur, faðir Tómasar, og Þorvaldur voru bræðrasynir.[644] Tómas og Þorvaldur munu líka hafa orðið vel kunnugir á allra síðustu árum séra Þorvaldar en þá voru þeir báðir prestar í Rangárvallasýslu.

Hér var þess áður getið að Þorvaldur útskrifaðist úr Skálholtsskóla aðeins 16 ára gamall en fátítt var að svo ungir piltar næðu að ljúka skólanámi. Fullvíst má því telja að pilturinn hafi í æsku verið talinn með þeim allra efnilegustu til náms og mennta enda var hann búinn að yrkja mikið á latínu um þrettán ára aldur.[645] Kröpp kjör ollu því að Þorvaldur sigldi þó aldrei til háskólanáms en sjálfsnám stundaði hann lengi af kappi og varð mikill lærdómsmaður. Að ætlan Tómasar Sæmundssonar var Þorvaldur frændi hans lærðari en allir aðrir prestar á Íslandi sem ekki höfðu menntast erlendis.[646] Tómas segir hann hafa verið mjög vel að sér í grísku og latínu en þó hneigðastan fyrir heimspeki og guðfræði.[647]

Séra Þorvaldur fékkst talsvert við þýðingar og sneri ýmsum guðfræðiritum úr latínu, þýsku eða dönsku á íslensku.[648] Sumt af þessu var prentað í Leirárgörðum um aldamótin 1800 þegar Þorvaldur var forstöðumaður skólans á Hausastöðum.[649] Síðar sneri hann Hænsna-Þóris sögu á latínu og gaf þá þýðingu Jakob Rudolf Keyser, norskum menntamanni sem hér var við íslenskunám á árunum 1825-1827 en varð síðar prófessor í sagnfræði við háskólann í Kristianíu (Osló).[650]

Þorvaldur Böðvarsson mun snemma hafa byrjað að yrkja og á langri ævi orti hann mikinn fjölda af sálmum en líka eitthvað af skopvísum og öðrum veraldlegum skáldskap. Eitthvað af óprentuðum sálmum og kvæðum séra Þorvalds mun hafa glatast þegar bækur hans og handrit sukku í hafið árið 1811 en menn honum kunnugir sögðu að sjálfur hefði hann brennt stórri syrpu af sínum veraldlega kveðskap.[651]

Sálmar og kvæði eftir séra Þorvald fóru fyrst að sjást á prenti á síðustu árum 18. aldar, þegar hann var á Hausastöðum,[652]  −  í ritunum Vinagleði og Gamni og alvöru[653] sem prentuð voru í Leirárgörðum undir handarjaðri Magnúsar Stephensen sem þá var lögmaður norðanlands og vestan en varð síðar dómstjóri í landsyfirrétti. Árið 1797 var prentuð í Leirárgörðum bókin Skemmtileg Vinagleði í fróðlegum samræðum og ljóðmælum, leidd í ljós af Magnúsi Stephensen eins og það er orðað á titilsíðu hennar. Bók þessi hefur að geyma margvíslegt efni sem Magnús vildi koma fyrir sjónir lesenda og er það allt í anda upplýsingastefnunnar sem Magnús taldi eiga svo brýnt erindi við Íslendinga. Í þessari Vinagleði er m.a. að finna kvæðið Bóndabrag sem Magnús segir Þorvald Böðvarsson skólahaldara hafa kennt sér en fullvíst má telja að kvæðið sé eftir Þorvald eða þýtt af honum sem er líklegra. Í kvæðinu eru átta vísur, þar á meðal þessar tvær:

 

Af skarti dramba ýmsir hér,

við öllu því ég fussa.

Af hjörð sem ól ég unnin er

mín óbreytt vaðmálsmussa.

En heil og hrein og hlý hún var,

í  hana tættu dæturnar,

netthent á konan nálarfar,

næsta kær er sú mussa.

 

Min dóttir feta móðurstig,

munt þú víst fá að sanna:

Mannvaxna sækja mun um þig

mergð valdra yngismanna.

Beint hlýð þá raust í brjósti þér,

bylt þér í faðm á dyggum ver.

Við ástir lífsins ami þver,

æ fær það hvör að kanna.[654]

 

Líklega mun fáum nútímamönnum þykja þetta tilkomumikill skáldskapur en bæði er að allt hefur sinn tíma og vel má vera að skólahaldarinn hafi snarað kvæðinu á íslensku fyrir beiðni Magnúsar lögmanns án þess að leggja í verkið mikla alúð.

Öðru máli gegnir um sálmana því gera verður ráð fyrir að við sálmakveðskapinn hafi Þorvaldur reynt að gera sitt besta. Í Messusöngsbókinni sem Magnús Stephensen lét prenta í Leirárgörðum árið 1801 var 61 sálmur eftir Þorvald sem þá var hempulaus skólahaldari á Hausastöðum.[655] Þá eru að vísu taldir með sálmar sem hann hafði þýtt úr öðrum tungumálum.[656] Ekkert annað sálmaskáld átti þar svo stóran skerf[657] og í Eftirmælum 18. aldar sem út voru gefin árið 1806 segir Magnús Stephensen að máske beri að skipa séra Þorvaldi í öndvegissæti þegar valið sé úr hópi þeirra sálmaskálda sem þá séu á lífi.[658] Sérstaka athygli vekur að Fjölnismaðurinn, séra Tómas Sæmundsson, virðist 30 árum síðar hafa verið sömu skoðunar og Magnús í þessum efnum en um sálma séra Þorvaldar kemst Tómas svo að orði árið 1837:

 

Og er það ætlan vor, hvernig sem alþýðu dómur er, að þeir [það er sálmar Þorvaldar] að öllu samanteknu séu einhverjir ágætustu sálmar á vora tungu og er þá ekki höfundi þeirra hælt um of þó sagt sé að meira sálmaskáld hafi ekki verið á Íslandi þegar frá er skilinn Hallgrímur Pétursson og mun þetta betur sjást þegar lengra líður frá.[659]

 

Sú spá Tómasar Sæmundssonar að sálmar séra Þorvaldar myndu njóta vaxandi vinsælda síðar meir hefur ekki ræst enn sem komið er. Í sálmabókinni sem gefin var út árið 1871 voru þó reyndar 50 sálmar, frumsamdir eða þýddir af séra Þorvaldi[660] og hafði aðeins fækkað um ellefu á sjötíu árum. Í sálmabókinni frá 1886 á Þorvaldur hins vegar ekki nema sjö sálma[661] og í sálmabók frá 1972 eru þeir bara tveir.[662] Hér verður ekki ráðist í að kynna eða leggja dóm á sálmakveðskap séra Þorvaldar en þeim sem áhuga hafa skal vísað á sálmabækurnar frá 1801 og 1871. Þeir tveir sálmar sem Þorvaldur á í bókinni frá 1972 sýna að hann gat átt erindi á skáldaþing væru lofsöngvar þar á dagskrá. Af öllum skáldskap séra Þorvaldar kannast núlifandi menn líklega helst við jólasálminn Dýrð sé guði í hæstum hæðum en þar er fyrsta erindið svona:

 

Dýrð sé guði í hæstum hæðum,

himinn syngur fögrum hljóm.

Mannkyn, hvort í innstum æðum,

undir tak með löfsöngs róm.

Allt guðs speki, miskunn, mátt

mikli, göfgi, prísi hátt.

Dýrð sé guði í hæstum hæðum.

Hrósi jörð hans ástargæðum.[663]

 

Þegar Þorvaldur Böðvarsson tók við prestsembættinu í Holti var hann kominn á sextugsaldur og hafði margt reynt. Ætla má að mörgum Önfirðingum hafi leikið nokkur forvitni á að sjá og heyra þennan nýja prest því ýmsir hafa kannast við nafn hans úr sálmabókinni ef að líkum lætur og máske hafa skoðanir verið skiptar um kveðskapinn sem þar birtist. Víðast hvar á landinu vakti Messusöngsbókin frá 1801 upp harðar deilur því ýmsum fannst að í sálmunum sem þar birtust væri lítið fjallað um hina leyndardómsfullu höfuðlærdóma kristindómsins. Reyndar tóku útgefendur bókarinnar fram í formála hennar að kverið ætti fyrst og fremst að þéna til hjartans uppvakningar og siðbóta undir merkjum upplýsingarstefnunnar sem þeir voru boðberar fyrir.[664] Bók þessari var líka ætlað að innleiða nýjan messusöng og útrýma gamla grallarasöngnum sem var mörgum kær svo að hér hlaut að slá í brýnu.

Vinir Grallarans fundu hinni nýju Messusöngsbók frá Leirárgörðum býsna margt til foráttu og nefndu hana Leirgerði í háðungarskyni. Bókin lá að ýmsu leyti vel við höggi, ekki síst vegna þess hversu mikið var þar um skothent klúður.[665] Engu að síður var Leirgerður löggilt af konungi en Grallarinn varð smátt og smátt að þoka um set fyrir hinum nýja messusöng. Fullvíst má telja að í Önundarfirði hafi séra Þorvaldur beitt sér fyrir breytingum á kirkjusöngnum svo stóran hlut sem hann átti sjálfur í Leirárgarðasálmabókinni frá 1801. Enginn veit nú hversu hörð andstaðan kann að hafa verið hjá sóknarbörnum séra Þorvaldar vestra en ætla má að gamli grallarasöngurinn hafi átt sér einhverja málsvara í Holtsprestakalli eins og víðast annars staðar.

Þegar hundrað ár voru liðin frá brottför séra Þorvaldar úr Önundarfirði kunnu gamlir Önfirðingar frá því að segja að þar í prestakallinu hefði þessi sunnlenski prestur verið virtur og í metum hafður fyrir gáfur sínar og lærdóm en hins vegar hafi ávallt gætt nokkurrar fjarlægðar milli hans og sóknarbarnanna.[666] Vel má vera að deilur um kirkjusönginn hafi átt nokkurn þátt í að halda við þessari fjarlægð.

Sighvatur Borgfirðingur greinir líka frá samskiptum séra Þorvaldar við Önfirðinga og kemst þá svo að orði

 

Leitaðist hann við að koma af ýmsum ósiðum sem drottnuði í sóknum hans vestra, þá hann kom þar, og varð þess vegna fyrir aðkasti og þykkju af þeim sem í hlut áttu. Kölluðu þeir hann stoltan og óviðfelldinn en Guðný Oddsdóttir, fátæk kona og ráðvönd, hefur svo sagt Daða fróða að hann hafi verið góðsamur og þægilegur og hagað sér vel hvarvetna og margir höfðu saknað hans þá hann fór frá Holti.[667]

 

Allt sýnir þetta að hjá Önfirðingum hafa dómar manna um Þorvald prest Böðvarsson verið eitthvað misjafnir. Sighvatur getur þess að í Önundarfirði hafi séra Þorvaldur reynt að innleiða nýja siði og koma af ýmsum ósiðum en slík afskiptasemi kallar jafnan á nokkra andstöðu og svo mun einnig hafa verið hér, hvort sem deilur prestsins við sóknarbörnin hafa einkum snúist um Leirgerði og Grallarann eða aðra þætti kristnihaldsins.

Áður en eitt ár var liðið frá komu séra Þorvaldar í Önundarfjörð dundi þar yfir mannskaðinn mikli er svo hefur verið nefndur og hér er frá sagt á öðrum stað en þá drukknuðu 45 Önfirðingar á einum degi þegar sjö bátar fórust með allri áhöfn á hafi úti (sjá hér Eyri og Sæból). Af þeim sem drukknuðu þennan sorgardag, 6. maí 1812, voru 30 úr Holtsprestakalli og færir Þorvaldur nöfn þeirra allra skilmerkilega inn í prestsþjónustubókina (sjá hér Mosvallahreppur, inngangskafli). Ætla má að þetta fyrsta vor Þorvaldar í Önundarfirði hafi mikið á hann reynt við að hugga ekkjur og munaðarleysingja og sýnist hann mörgum líklegri til að hafa staðið sig vel í því erfiða hlutverki.

Í Holti var séra Þorvaldur prestur í ellefu ár, frá 1811 til 1822, og síðustu fimm árin þar var hann prófastur í vesturhluta Ísafjarðarsýslu.[668] Einn margra ferðamanna sem komu að Holti á þeim árum er Þorvaldur hélt staðinn var Ebenezer Henderson sem ferðaðist um Ísland á vegum breska biblíufélagsins. Henderson kom úr Dýrafirði yfir Gemlufallsheiði 12. júní 1815 og segir sjálfur frá á þessa leið:

 

Eftir að hafa farið yfir vonda flóa komum við á prestssetrið í Holti sem talið er eitt hinna bestu prestakalla á Íslandi. Þar fékk ég hinar prúðmannlegustu og hjartanlegustu móttökur hjá síra Þorvaldi Böðvarssyni sem strax fór með mig inn á skrifstofu sína. Var þar mikið safn bóka í margskonar fræðigreinum. Á borðinu lá bókin „The Vicar of Wakefield” [Presturinn á Vökuvöllum] ásamt enskri orðabók með dönskum þýðingum. Mátti af því ráða að hann hafði verið að lesa ensku. Hann er lærður maður og gott skáld en einkum sálmaskáld. Margir hans fögru sálma eru komnir löndum hans í hendur. Hann hefur þýtt allmörg kvæði eftir Gellert og nokkur eftir Pope. Einkum er „Messias” vel þýddur og af honum á ég eintak er hann hefur sjálfur ritað nafn sitt á.[669]

 

Athygli vekur að Ebenezer Henderson segir mikið safn bóka hafa verið á skrifstofu séra Þorvaldar í Holti sumarið 1815 en þá voru aðeins liðin fjögur ár frá því hann tapaði nær öllum bókum sínum og handritum eins og hér var áður getið (sjá bls. 80). Ummæli Hendersons benda til þess að eftir missi bóka sinna hafi séra Þorvaldur lagt kapp á að koma sér upp nýju bókasafni.

Hér hefur áður verið frá því greint að í Önundarfirði varð Ebenezer Henderson að snúa við vegna mikilla snjóa á Breiðadalsheiði. Séra Þorvaldur fór með hann út í Hjarðardal til fundar við Ebenezer Þorsteinsson sýslumann sem þar átti heima (sjá hér Ytri-Hjarðardalur). Nóttina fyrir 13. júní gisti hinn breski ferðalangur á prestssetrinu í Holti og segir hann að þar hafi ekkert verið látið ógert til að hlynna að sér.[670] Frá Holti sneri Henderson aftur næsta dag og fylgdu þeir séra Þorvaldur og Ebenezer sýslumaður honum þá til Þingeyrar.[671] Einum mánuði síðar var annar merkur ferðalangur staddur í Holti, hinn danski málvísindamaður Rasmus Christian Rask. Ekki er vitað hversu lengi Rask dvaldist í Holti en í prestsþjónustubókum þaðan má sjá að 16. júlí árið 1815 var hann vottur þegar Sigríður, dóttir séra Þorvaldar Böðvarssonar og Kristínar konu hans, var borin til skírnar.[672] Rask var þá 28 ára gamall og hafði dvalist hérlendis í um það bil tvö ár.[673] Stúlkan, Sigríður Þorvaldsdóttir, varð síðar eiginkona Ásgeirs Finnbogasonar, bókbindara, bónda og dannebrogsmanns á Lambastöðum á Seltjarnarnesi og að Lundum í Stafholtstungum.[674]

Að Holti komu séra Þorvaldur og Kristín kona hans með fimm börn, öll innan við sex ára aldur, en börn Þorvaldar af öðru hjónabandi voru þá öll komin um og yfir tvítugt.[675] Í Holti eignuðust prestshjónin átta börn á ellefu árum svo alls urðu börn séra Þorvaldar með síðustu eiginkonunni þrettán.[676] Af þessum þrettán börnum náðu tíu að vaxa úr grasi.[677] Eitt barn misstu séra Þorvaldur og Kristín kona hans 13 daga gamalt í Holti árið 1811 en önnur börn þeirra voru öll á lífi þegar þau fóru héðan.[678]  Barnið sem þau misstu í Holti var drengur og hét Páll.[679]

Á prestskaparárum sínum í Önundarfirði hafði séra Þorvaldur jafnan marga munna að fæða og mun hafa orðið að leggja hart að sér við búskapinn og allt það erfiði sem honum fylgdi. Í ritgerð sinni um séra Þorvald tekur Tómas Sæmundsson fram að í Önundarfirði hafi hann haft lítinn tíma afgangs til bókiðna sinna[680] og þar mun hann aldrei hafa verið með unglinga til kennslu[681] svo sem venja hans hafði verið áður en hann fluttist vestur (sjá hér bls. 79).

Í Holti munu jafnan hafa verið um tuttugu manns í heimili hjá séra Þorvaldi og Kristínu konu hans og þar voru þrír vinnumenn og þrjár vinnukonur í marsmánuði árið 1818.[682] Vorið 1821 var séra Þorvaldur með annað stærsta búið í Mosvallahreppi.[683] Kýr prestsins voru þá átta og aðrir nautgripir þrír.[684] Ærnar voru þrjátíu og sjö, hrútar og sauðir, eldri en eins árs, voru tólf en gemlingar tuttugu og átta.[685] Þetta sama vor átti séra Þorvaldur fimm hesta en sá eini í Mosvallahreppi sem þá var með stærra bú var Ebenezer, sýslumaður í Hjarðardal.[686]

Ljóst er að séra Þorvaldur hefur líka stundað útgerð af kappi á þeim árum sem hann sat í Holti. Vorið 1821 voru aðeins til sex áttæringar í öllum Mosvallahreppi, ef marka má búnaðarskýrslur, og af þeim voru tveir í eigu séra Þorvaldar og staðarins í Holti.[687] Auk þess átti hann svo einn minni bát, sexæring eða fjögra manna far.[688]

Þorvaldur Thoroddsen náttúrufræðingur getur þess að séra Þorvaldur Böðvarsson hafi verið áhugamaður um garðrækt og brautryðjandi á því sviði í Ísafjarðarsýslu.[689] Í búnaðarskýrslunni frá 1821 sjáum við að þá hafa verið sex kálgarðar í Holti en á öðrum bæjum í hreppnum voru þeir ýmist einn eða enginn, nema í Ytri-Hjarðardal þar sem Ebenezer sýslumaður var búinn að koma upp fjórum görðum.[690] Presturinn í Holti var líka einn þriggja manna í Mosvallahreppi sem höfðu mó til eldiviðar árið 1821[691] en allir hinir munu þá hafa brennt sauðataði (sjá hér Mosvallahreppur, inngangskafli). Allt sýnir þetta að séra Þorvaldur hefur sinnt búskapnum af alúð og verið fljótur að tileinka sér nýjungar á þeim árum sem hann bjó í Holti þó orðinn væri nokkuð roskinn þegar hann fluttist vestur. Ætla má að sjálfur hafi prestur orðið að ganga í flest verk og lengi var þess minnst í Önundarfirði hversu dugmikill séra Þorvaldur hafði verið við heyskap.[692]

Séra Þorvaldur Böðvarsson var ellefti sóknarpresturinn í Holti ef talið er frá siðaskiptum um miðja sextándu öld.[693] Hinir tíu höfðu allir setið kyrrir í Holti uns þeir önduðust eða létu af embætti fyrir ellisakir.[694] Þessa hefð rauf séra Þorvaldur og þótti sú ákvörðun hans sæta nokkrum tíðindum. Í Fjölni minnist Tómas Sæmundsson á brottför Þorvaldar frá Holti árið 1822 og segir:

 

… þó honum svona vegnaði þar allvel og hann yndi sæmilega hag sínum, eftir sem gjöra var, mun hann samt alltaf hafa þráð Suðurland og einkanlega viljað komast hjá að kona hans yrði einstæðingur á þessum útkjálka með 12 ungum börnum ef hans missti við … og vildi hún því komast aftur suður.[695]

 

Þarna er þess sérstaklega getið að frú Kristín Björnsdóttir, kona Þorvaldar, hafi viljað komast burt frá Holti og í Önundarfirði var lengi haft á orði að líklega hefði hún ráðið miklu um þá sameiginlegu ákvörðun prestshjónanna að fara.[696] Ýmislegt bendir til þess að frú Kristín hafi aldrei náð að festa rætur í Önundarfirði eða samlagast því mannlífi sem þar var lifað. Til hennar andar líka köldu í flestum sögum sem varðveist hafa um samskipti prestshjónanna við Önfirðinga.[697] Í ritinu Frá ystu nesjum er að vísu tekið fram að frú Kristín hafi verið ásjáleg kona og vel að sér í ýmsum kvenlegum listum en fullyrt að hún hafi verið með afburðum drambsöm og hofmóðug.[698]

Í sama riti er þess einnig getið hversu innilega prestsmaddama þessi hafi fyrirlitið ræflana í Önundarfirði og tekið fram að svo hafi hún nefnt flest eða öll sóknarbörn eiginmanns síns í Holtsprestakalli.[699] Sú saga var einnig sögð í Önundarfirði að við brottför Þorvaldar og Kristínar frá Holti hafi frúin haft á orði að réttast væri að grafa lík barnanna sem þau höfðu misst upp úr kirkjugarðinum og taka þau með sér fremur en láta þau hvíla hjá svo illa siðuðu og óguðlegu fólki sem því er hér ætti tryggan legstað.[700] Ekkert mun þó hafa orðið úr framkvæmdum í þessum efnum og við frásögnina verður að gera þá athugasemd að í Holti misstu prestshjónin aðeins eitt barn eins og hér hefur áður verið getið um (sjá hér bls. 87). Sögum af þessu tagi er reyndar sjálfsagt að taka með fyllstu varúð*) en hvað sem öðru líður má telja líklegt að stirðleikar í samskiptum við Önfirðinga hafi ráðið nokkru um brottför séra Þorvaldar og konu hans frá Holti. Þaðan fóru þau sumarið 1822 að Melum í Melasveit í Borgarfjarðarhéraði en Melar voru þá taldir mun lakara brauð en Holt í Önundarfirði. Til marks um það má nefna að í brauðamatinu frá 1737 var presturinn á Melum talinn geta haft 37 ríkisdali og 24 skildinga í árstekjur en sá sem sat í Holti 75 ríkisdali og 12 skildinga.[701] Sams konar tölur frá árinu 1853 voru 279 ríkisdalir og 78 skildingar fyrir Mela en 376 ríkisdalir og 89 skildingar fyrir Holt.[702]

Fyrir Melum fékk séra Þorvaldur veitingu seint í júnímánuði árið 1821 en fór þó ekki frá Holti fyrr en ári síðar.[703] Á Melum sat hann í fimm ár og þar fór hann aftur að kenna ungum piltum skólalærdóm.[704]

Þann 1. nóvember 1826 var séra Þorvaldi veitt Holt undir Eyjafjöllum og þangað fluttist hann vorið 1827, orðinn 69 ára gamall.[705] Prestakallinu undir Eyjafjöllum þjónaði hann til dauðadags en andaðist 78 ára gamall þann 21. nóvember 1836.[706] Daginn sem séra Þorvaldur dó sinnti hann

 

*) Sögum Önfirðinga um frú Kristínu Björnsdóttur sem birtust í ritinu Frá ystu nesjum árið 1944 andmælti dóttursonur hennar, séra Þorvaldur Jakobsson, mjög harðlega litlu síðar (Þorvaldur Jakobsson 1948, 92-116 / Selskinna I) og hélt því fram að mörgu væri þar á hana logið. Andstæðar fullyrðingar í þessum efnum er hins vegar engin leið að sannprófa.

bæði skriftum og kennslu.[707] Hann var þá á ferli fram undir rökkur en dó um kvöldið jöfnu beggja náttmála og miðnættis.[708] Útför hans var gerð fáum dögum síðar og voru þar 12 prestar viðstaddir.[709] Séra Tómas Sæmundsson á Breiðabólsstað í Fljótshlíð, sem hér var áður nefndur, flutti líkræðuna og sagði þá meðal annars:

 

Enginn var ástundunarsamari í köllun sinni, enginn iðjusamari, enginn sparneitnari né hófsamari, enginn glaðari né ánægðari með lítinn verð og þó veittist honum tæplega daglegt brauð þann hlutann ævinnar sem áhuginn er vanur að vera ákafastur. … Að meðsköpuðu atgjörvi, að andans gáfum tók hann flestum fram. Að lærdómi var hann að ætlan minni öllum fremri sem eingöngu hafa átt að búa að kunnáttu þessa lands. Hann var lipur og lítillátur, hógvær og hæverskur, siðprúður og guðhræddur.[710]

 

Allan tímann sem séra Þorvaldur Böðvarsson var prestur í Önundarfirði hafði hann aðstoðarprest og gegndi Böðvar sonur hans jafnan því starfi.[711] Á sínum Önundarfjarðarárum bjó séra Böðvar fyrst í Neðri-Breiðadal, svo á Görðum og loks á Þórustöðum. Lengst hefur hann líklega verið á Görðum og verður nánar frá honum sagt þegar þangað kemur (sjá hér Garðar). Séra Böðvar fór úr Önundarfirði vorið 1822, um svipað leyti og faðir hans, en þá hafði Holtsprestakall verið veitt séra Ásgeiri Jónssyni sem þá hafði verið prestur á Brjánslæk um nokkurra ára skeið en var áður aðstoðarprestur föður síns í Holti.

Séra Ásgeiri Jónssyni var veitt Holtsprestakall 30. ágúst 1821 og tók hann við búsforráðum í Holti vorið 1822.[712] Hann hafði áður verið þar aðstoðarprestur í sjö ár, frá 1804 til 1811, en starfi sóknarprests í Holtsprestakalli gegndi hann í liðlega þrettán ár, frá 1822-1835.[713]

Séra Ásgeir fæddist á Mýrum í Dýrafirði 9. febrúar 1779 en faðir hans var þá prestur í Dýrafjarðarþingum og sat á Mýrum.[714] Foreldrar Ásgeirs voru séra Jón Ásgeirsson, síðast prestur í Holti, og kona hans, Þorkatla Magnúsdóttir. Frá þeim hefur áður verið sagt á þessum blöðum (sjá hér bls. 73-76).

Þegar Ásgeir var fjögra ára gamall fluttist hann með foreldrum sínum frá Mýrum að Söndum í Dýrafirði og þar ólst hann upp en fluttist átján ára gamall með foreldrunum að Holti vorið 1797 þegar Jón faðir hans tók þar við stað og kirkju. Haustið 1797 settist Ásgeir í Hólavallaskóla í Reykjavík en hafði áður numið skólalærdóm hjá föður sínum.[715] Í skólanum á Hólavöllum sat hann þrjá vetur og útskrifaðist þaðan sem stúdent vorið 1800.[716] Á stúdentsvottorðinu er hann sagður hafa skarpar gáfur.[717] Fyrstu árin eftir stúdentspróf var Ásgeir heima í Holti hjá foreldrum sínum og mun þá hafa unnið að búskapnum og stundað sjó.[718] Haustið 1802 gekk hann að eiga Rannveigu, dóttur Matthíasar stúdents í Vigur Þórðarsonar,[719] og fluttist hún þá að Holti. Vorið 1803 fengu þau þriðjung jarðarinnar til ábúðar.[720]

Haustið 1804 tók Ásgeir prestsvígslu og gerðist þá aðstoðarprestur föður síns, séra Jóns Ásgeirssonar í Holti.[721] Árið 1806 gaf Geir biskup Vídalín leyfi til þess að séra Ásgeir mætti gegna prófastsverkum undir umsjá föður síns og þegar faðir hans dó árið 1810 var Ásgeir strax settur í embætti prófasts.[722] Sumarið 1810 var séra Þorvaldi Böðvarssyni veitt Holtsprestakall og kom hann vestur ári síðar eins og fyrr var getið. Ásgeir varð þá að víkja frá Holti og fluttist á eignarjörð sína, Sæból á Ingjaldssandi.[723] Þar bjó hann brauðlaus í 5 ár, 1811-1816, en gegndi þó áfram embætti prófasts[724] sem líklega er einsdæmi um brauðlausan prest. Á búskaparárum sínum á Sæbóli sótti Ásgeir prófastur sjó af kappi og var talinn einn hinna ágætustu formanna … hugdjarfur og skipstjórnari með afbrigðum.[725] Hér er á öðrum stað sagt frá mannskaðaveðrinu mikla 6. maí 1812 en Ásgeir prófastur var einn fárra formanna úr Önundarfirði sem þá náðu heilir í höfn og tók hann land á Svalvogahamri (sjá hér Mosvallahreppur, inngangskafli og Sæból).

Vorið 1816 var Ásgeiri veitt Brjánslækjarprestakall á Barðaströnd og fluttist hann þá frá Sæbóli að Brjánslæk. Þar var hann prestur í sex ár, 1816-1822, og prófastur tvö síðustu árin.[726] Síðla sumars árið 1821 var séra Ásgeiri veitt Holtsprestakall og kom hann aftur að Holti vorið 1822[727] en þá voru liðin ellefu ár frá því hann fluttist þaðan út á Ingjaldssand. Haustið 1822 varð Ásgeir prófastur í vesturparti Ísafjarðarsýslu í annað sinn.[728] Prestsembættinu í Holti og prófastsstörfunum gegndi Ásgeir til æviloka en hann andaðist 13. nóvember 1835 eins og hér verður síðar frá sagt.

Elsti sonur Ásgeirs og Rannveigar konu hans var Jón, fæddur 1804, sem lengi var prestur á Álftamýri í Arnarfirði (sjá hér Álftamýri). Vorið 1830 varð Jón Ásgeirsson aðstoðarprestur hjá föður sínum í Holti[729] og vorið 1832 fékk Ásgeir prófastur Jóni syni sínum Holt til ábúðar en fluttist sjálfur með konu sinni að Þórustöðum[730] sem voru kirkjujörð frá Holti. Þar bjó hann þrjú síðustu æviárin.

Sighvatur Borgfirðingur lýsir Ásgeiri Jónssyni prófasti svo:

 

Ásgeir prófastur var talinn meðal hinna merkustu manna í Ísafjarðarsýslu um sína daga. Hann var vel gáfaður, raddmaður mikill, ágætur skrifari, hraustur til burða og harðgjör, karlmenni mikið og að öllu vel að sér gjör, ræðumaður ágætur en þótti nokkuð fríþenkjari, drykkfelldur í meira lagi og heldur kvennakær svo sumur héldu um of. Sagt er hann væri orðinn feitur á síðustu árum og þá lítt fær vegna gigtar í öðru lærinu.[731]

 

Af tíu börnum Ásgeirs prófasts og Rannveigar konu hans náðu sjö að komast yfir tvítugt.[732] Sighvatur Borgfirðingur segir menn hafa talið að auk hjónabandsbarnanna hafi séra Ásgeir eignast dóttur með annarri konu á jóladag árið 1818.[733] Það barn fékk nafnið Solveig og var kennt Jóni Guðlaugssyni, vinnumanni séra Ásgeirs.[734] Þegar stúlka þessi fæddist var séra Ásgeir prestur á Brjánslæk en hin meinta barnsmóðir hans var Guðný, dóttir séra Tómasar Sigurðssonar, sem þá var prestur í Flatey á Breiðafirði,[735] en hann tók vð Holtsprestakalli vorið 1836. Nefnd Solveig andaðist af barnsförum í Holti árið 1849.[736]

Síðla hausts árið 1835 reið Ásgeir prófastur frá heimili sínu á Þórustöðum yfir að Tannanesi. Á heimleið úr þeirri ferð drukknaði hann í Vaðlinum sem Bjarnardalsá fellur í skammt innan við Holt.[737] Í ritinu Frá ystu nesjum er greint frá drukknun Ásgeirs prófasts og byggt að mestu á skrifum Sighvats Borgfirðings. Þar segir:

 

Svo bar við að Ásgeir prófastur hafði keypt sér kú af bónda þeim á Tannanesi er Jón hét og kallaður var „kerling”. Var kýrin komin til prófasts en hann reið til Tannaness með verð kýrinnar síðla dags, stóð þar við um stund og drakk brennivín nokkuð, svo allmikið var hann ölvaður. Bauð Jón bóndi honum fylgd sína yfir Vöðin en prófastur kvað þess enga þörf. Var dimmt orðið að kveldi dags er hann reið frá Tannanesi. Logn var á og blíðviðri og myrkur mikið um nóttina. Þetta var um stærsta stórstraum og var harða-aðfall komið í vöðin er hann fór frá Tannanesi. Verður þar þá óreitt á svipstundu. Drukknaði hann á þeirri leið.[738]

 

Sighvatur Borgfirðingur segir marga leirpytti vera í Vaðlinum og hafi verið talið að séra Ásgeir muni hafa riðið í einn þeirra og steypst af hestinum.[739] Á fyrri hluta tuttugustu aldar héldu ýmsir gamlir Önfirðingar því fram að í sinni feigðarför hefði Ásgeir prófastur komð við á Vöðlum í vökulok og þá verið á heimleið frá Tannanesi að Holti.[740] Vel gæti þetta verið rétt því að krókurinn er lítill.

Þegar fólk vaknaði að morgni næsta dags stóð hestur prófasts alvotur á hlaðinu og var þá farið að leita hans en líkið fannst ekki fyrr en næsta vor og var jarðsett í Holti 24. maí 1836.[741] Lík séra Ásgeirs fundu tveir kvenmenn í þarahrönn neðan við Breiðadal og var það að mestu óskemmt.[742]

Enda þótt Ásgeir prófastur fengi leg í vígðri mold munu ýmsir hafa talið að hann lægi ekki kyrr og til voru þeir sem sögðust hafa séð hann afturgenginn á þeysireið yfir Vaðalinn.[743] Er fram liðu stundir nefndu menn hann Vaðlaprestinn til aðgreiningar frá séra Jóni Sigurðssyni sem drukknaði í Vöðunum árið 1796 og kallaður var Vaðaprestur.[744] Svipir beggja birtust lengi þeim sem trúaðir voru á drauga og áttu hér leið um Vöðin eða Vaðalinn.

Þegar Ásgeir prófastur drukknaði var hann 56 ára gamall. Rannveig Matthíasdóttir, kona hans, varð fjörgömul en hún andaðist árið 1865 hjá dóttursyni sínum, Ásgeiri Magnússyni, bónda á Kleifum í Seyðisfirði við Djúp.[745]

Hér var þess áður getið að séra Jón Ásgeirsson sem var aðstoðarprestur föður síns, Ásgeirs Jónssonar prófasts, hefði tekið að fullu við búsforráðum í Holti vorið 1832, þremur árum áður en faðir hans andaðist. Séra Jón hafði staðarforráð í Holti í fimm ár, frá 1832 til 1837, en var þar aðstoðarprestur í sex ár, frá 1830 til 1836.[746]. Þegar faðir hans andaðist var séra Jón aðeins liðlega þrítugur og kom því varla til greina sem eftirmaður, enda var brauðið veitt mun eldri presti, séra Tómasi Sigurðssyni í Garpsdal. Séra Tómas kom í Önundarfjörð um sumarmál árið 1836 en svo fór að séra Jón Ásgeirsson sat í Holti eitt ár enn, þá embættislaus, og fluttist ekki þaðan fyrr en vorið 1837 en þá varð hann aðstoðarprestur séra Markúsar Þórðarsonar á Álftamýri (sjá hér Álftamýri).

Árin sem séra Jón Ásgeirsson og kona hans, Guðrún Guðmundsdóttir frá Auðkúlu, bjuggu í Holti voru þau með fjölmennt heimili og stórt bú. Í búnaðarskýrslu frá árinu 1834 sést að þá voru heimilismennirnir 21 og var það fólkflesta heimilið í hreppnum.[747] Séra Jón bjó þá með 5 kýr, 1 naut, 2 kálfa, 46 mylkar ær, 9 hrúta og sauði, 26 gemlinga, 8 lömb og 5 hesta.[748] Tveir bátar voru þá í Holti, annar áttæringur en hinn sexæringur eða fjögra manna far.[749] Áttæringinn hefur séra Jón að líkindum átt sjálfur því enginn áttæringur fylgdi staðnum þegar hér var komið sögu (sjá bls. 166-168). Kálgarðar voru þrír hjá séra Jóni og hvergi fleiri í hreppnum nema hjá Ebenezer sýslumanni í Ytri-Hjarðardal.[750]

Um séra Jón Ásgeirsson, sem síðar var lengi prestur á Álftamýri og á Rafnseyri, er fjallað hér á öðrum stað (sjá Álftamýri) og verður því látið nægja að rifja aðeins upp eina sögu af honum sem tengd er Holti. Séra Jón var einstakur kraftamaður, talinn margra manna maki að burðum. Til marks um afl hans mætti nefna mörg dæmi en ein sagan frá árum hans í Holti er á þessa leið:

 

Meðan séra Jón var aðstoðarprestur í Holti vildi það slys eitt sinn til að ein af kúm hans stakkst á höfuðið ofan í brunn þann er kúm var vatnað í og kallaður er Kúavök. Fara 5 eða 6 menn þangað með bönd og vilja draga kúna sem þá var dauð upp úr brunninum. En tilraunir þeirra til þess verða árangurslausar, enda var brunnurinn þröngur og erfitt að koma böndum við. Kemur þá séra Jón til þeirra, nokkuð við vín, og hefir orð á því að þeim farist þetta óhöndulega. Tekur hann í halann á kúnni og kippir upp úr í einum rykk. Þegar kýrin var gerð til kom í ljós að halaliðirnir voru allir sundurtogaðir og sumstaðar slitnir í sundur.[751]

 

Um 1950 gat Óskar Einarsson læknir enn vísað ókunnugum á Kúavök og leiðbeinir okkur með þessum orðum:

 

Fyrir framan bæinn [í Holti], fremst í túninu, eru tveir hólar, nefndir Fjóshólar. Þar rétt hjá er fjósið en fram af fjósinu var hola í mýrinni, kölluð Kúavök. Í hana var sótt vatn handa kúnum eftir að hætt var að vatna þeim úti.[752]

 

Þórður Sigurðsson, sem var vinnumaður í Holti á árunum 1884-1890 en seinna bóndi í Breiðadal, skýrir þetta nánar því hann tekur fram að fjósið hafi staðið þarna uppi á brekkunni en Kúavök verið fyrir framan túnbrekkuna.[753] Þarna í brekkunni var fjóshaugurinn og síaðist lögurinn frá honum ofan í mýrina svo að vatnið í Kúavök var eins og kúahland á litinn.[754]

Vorið 1836 var séra Tómasi Sigurðssyni í Garpsdal veitt Holtsprestakall og var hann prestur Önfirðinga í liðlega ellefu ár en afsalaði sér brauðinu haustið 1847[755]

Tómas fæddist í Vestmannaeyjum árið 1768, sonur Sigurðar Sigurðssonar, sem þá var sýslumaður í Eyjum, og konu hans, Ástu Sigurðardóttur, en faðir hennar og afi höfðu báðir verið prestar í Holti í Önundarfirði, þeir Sigurður Sigurðsson og Sigurður Jónsson (sjá hér bls. 56-63). Áður en Tómas fæddist hafði faðir hans verið sýslumaður í Ísafjarðarsýslu í 5 ár og bjó þá um skeið á Mosvöllum í Önundarfirði, nefndur Sigurður skuggi. (sjá hér Mosvellir).

Á árum sínum í Holti ritaði séra Tómas stutt æviágrip í prestsþjónustubókina og gerir þar grein fyrir sér.[756] Frá komu sinni í heiminn greinir hann þar með þessum orðum: Grátmessu mína byrjaði ég, Tómas Sigurðsson, á Oddsstöðum í Vestmannaeyjum 14. maí 1768.[757] Þegar drengurinn var tæplega tveggja ára gamall missti hann móður sína og ólst svo upp á téðum Eyjum án mikillar umhirðingar með miklu fjörlífi, að eigin sögn.[758] Í æviágripi sínu minnist séra Tómas á eitt og annað frá uppvaxtarárum sínum og getur þess að um 12 ára aldur hafi hann hrapað fram af bjargbrún í Elliðaey en stöðvast þegar peysan sem hann var í festist á klettanibbu.[759] Hékk hann þar bjargarlaus langan tíma uns menn komu á vetttvang og náðu honum upp á brúnina.[760]

Þegar Tómas var 16 ára gamall var honum komið fyrir til náms hjá séra Þorvaldi Böðvarssyni, síðar presti í Holti, sem þá var aðstoðarprestur og bjó á Flókastöðum hjá Breiðabólsstað í Fljótshlíð.[761] Var hann þar einn vetur, 1784-1785.[762] Séra Þorvaldur minntist þessa nemanda síns löngu síðar og komst þá svo að orði:

 

Líka var einn vetur hjá mér til að læra að lesa og skrifa og kristindóminn sinn, Tómas Sigurðsson, sýslumanns í Vestmannaeyjum, sem ég vegna uppeldisleysis og afræktra gáfna áleit heldur en ekki ófallinn til bóknáms. Þó lærði hann og er nú prestur í Garpsdal.[763]

 

Ummæli séra Þorvaldar benda eindregið til þess að sýslumaðurinn í Vestmannaeyjum hafi gefið sér lítinn tíma til að sinna uppeldi þessa einkasonar síns en samt náði drengurinn að spjara sig þokkalega. Vorið 1786 fluttist hann með föður sínum utan úr Eyjum að Hvanneyri í Borgarfirði og byrjaði á þorranum árið 1787 að læra undir skóla hjá séra Arngrími Jónssyni á Melum.[764] Eitthvað var hann líka við nám hjá séra Sigurði Jónssyni á Ökrum.[765]

Haustið 1789 settist Tómas í Hólavallaskóla í Reykjavík og var þá 21 árs að aldri. Sagt er að honum hafi gengið treglega við námið og lítið mun hann hafa haft fyrir sig að leggja því á námsárunum varð hann að gerast sumrungur til framfæris sér.[766]

Vorið 1796 var þessi sonur Sigurðar skugga útskrifaður sem stúdent frá Hólavallaskóla. Sighvatur Borgfirðingur telur sig reyndar hafa heimildir fyrir því að þá hafi legið nærri að honum yrði vísað frá prófi en fyrir atbeina Ólafs Stephensen stiftamtmanns hafi honum verið sleppt í gegn.[767] Ári síðar var Tómas vígður til prests og gerðist þá aðstoðarprestur séra Sigurðar Jónssonar í Hítarnesþingum í Mýrasýslu[768] sem var kvæntur föðursystur hans. Séra Sigurður andaðist sumarið 1799 og um svipað leyti gekk séra Tómas að eiga dóttur hans, sem Guðrún hét, en brúðhjónin voru systkinabörn.[769]

Ýmsir sem til þekktu vildu meina að séra Tómas hefði aldrei fengið Guðrúnu frænku sína fyrir konu nema vegna þess að hún hafði látið fallerast á ungum aldri í föðurgarði og eignast barn með manni sem Jón hét og var ýmist kallaður Jón lærði eða Jón greifi.[770] Faðir Jóns greifa var séra Jón Jónsson litli fæddur um 1715, síðast prestur í Stærra-Árskógi við Eyjafjörð.[771] Í einni heimild er frá því greint að foreldrar Guðrúnar hafi fengið Jón greifa til að kenna henni að skrifa og reikna en hann þá notað tækifærið til að fleka hana.[772] Sagt er að þessum barnsföður sínum hafi kona séra Tómasar unnað, bæði fyrr og síðar á langri ævi.[773]

Á þeim árum sem séra Tómas var aðstoðarprestur í Hítarnesþingum mun hann hafa búið í Hítarnesi því þar segist hann hafa misst 53 rosknar kindur í sjóinn.[774] Þegar nýr prestur kom að Hítarnesi vorið 1800 varð séra Tómas að víkja þaðan og var brauðlaus næstu sjö árin.[775] Á því skeiði bjó hann fyrst í Einholtum í Hraunhreppi í Mýrasýslu en síðustu tvö árin á Hrísum í Helgafellssveit.

Á þessum árum mun séra Tómas hafa stundað sjóróðra og segir Sighvatur Borgfirðingur að hann hafi róið 18 vertíðir til fiskjar.[776] Um framgöngu hins brauðlausa prests við sjóróðrana kemst Sighvatur svo að orði að hann hafi verið harðgjör og lítt hræðinn en ekki mikill ræðari þó allgildur væri að burðum, mikill vexti og afar þreklegur.[777] Víða er getið um hina miklu líkamsburði séra Tómasar og á einum stað frá því sagt að á yngri árum hafi hann kjálkabrotið hest með berum hnefa.[778]

Þegar séra Tómas kom heim frá Dritvíkurróðrum morgun einn vorið 1807 fékk hann í hendur orðsendingu frá Geir Vídalín biskupi sem kvaddi hann til að takast á hendur embætti aðstoðarprests hjá séra Þorkeli Guðnasyni á Skálmarnesmúla í Múlasveit við Breiðafjörð.[779] Sóknarkirkjur í prestakallinu voru tvær, önnur í Flatey en hin á Skálmarnesmúla þar sem séra Þorkell bjó. Ákveðið var að aðstoðarpresturinn settist að í Flatey og þangað fluttist séra Tómas skömmu eftir að honum barst í hendur orðsendingin frá biskupi.[780] Var þá aleiga hans að mestu ein kýr, segir Sighvatur.[781]

Árið 1809 varð séra Tómas sóknarprestur í Flatey en Þorkell, forveri hans, hafði þá fengið annað brauð.[782] Í Flatey var Tómas prestur búsettur í 16 ár, frá 1807 til 1823, og bjó þar með fjölskyldu sinni í Austurbænum.[783] Hjá Breiðfirðingum undi hann hag sínum vel en varð að eigin sögn að hrekjast frá Flatey fyrir ofríki Guðmundar Schevings[784] sem þar hafði mikil umsvif á árunum 1815-1837.

Árið 1823 var séra Tómasi veittur Garpsdalur og þjónaði hann því prestakalli í 13 ár en fékk vorið 1836 veitingu fyrir Holti í Önundarfirði og tók þar við embætti í júlímánuði á því ári.[785]

Þegar Gísli Konráðsson settist að í Flatey árið 1852 voru 29 ár liðin frá því séra Tómas fór þaðan. Engu að síður hefur Gísli átt kost á að ræða við margt fólk sem mundi vel eftir þessum dálítið sérkennilega presti og á þess orðum byggir hann lýsingu sína á honum. Um séra Tómas ritaði Gísli meðal annars þetta:

 

Hann var með stærstu mönnum á vöxt, herðamikill og hraustmenni, dökkleitur á hár og ærið brúnamikill, dökkeygur og holmikill í máli og rómi. Lærdómsmaður þótti hann enginn en sagnfróður í landsins sögu því hann las helst sögubækur. Gekk honum treglega allur skólalærdómur en alúðarsamur var hann í embættisverkum mörgum og þótti alþýðu hann sæmilegur kennari. Hann var framyfir sjötugsaldur ölkær mjög og þótti þá svaðamenni. Gestrisinn var hann og góðhjartaður og fús til að eiga þátt í framkvæmdum og atorkusemi með öðrum. Var hann því kallaður grjótpáll sumra athafna uppgangsmanna í samlífinu.[786]

 

Sighvatur Borgfirðingur, fæddur 1840, dvaldist alllengi í Vestureyjum Breiðafjarðar á yngri árum og átti síðar kost á að ræða við marga Önfirðinga sem þekkt höfðu séra Tómas. Hann bætir ýmsu við lýsingu Gísla Konráðssonar og segir meðal annars að klerkur þessi hafi vegið 24 fjórðunga, það er 120 kíló, en þó verið ístrulaus.[787] Um séra Tómas getur Sighvatur þess að hann hafi verið hetjulegur á velli en ekki kallaður fríður sýnum né prestslegur í fasi eða framgöngu … [með] kaffibrúnt hár og hvítan lepp á hægri vanga.[788] Sighvatur lætur þess einnig getið að séra Tómas hafi verið með stóra svartbláa bletti fyrir neðan augun, stórt nef og verið nokkuð nefmæltur, enda hafi hann brúkað mikið tóbak. Drykkfelldur var þessi stóri prestur, að sögn Sighvats, sem kveðst þó ætla að hann hafi vart sést ölvaður í kirkju.[789]Hann líktist Guðbrandi sýslumanni í því að ölföng unnu seint á þeirra sterku byggingu, bætir sami fræðimaður við sína fyrri lýsingu á séra Tómasi og mun þar líkja honum við Guðbrand kammerráð í Feigsdal við Arnarfjörð sem var sýslumaður í Barðastrandarsýslu frá 1812 til 1846.

Í æviágripi sínu nefnir séra Tómas Holt í Önundarfirði minna feðra 92 ára fastan verustað[790] og vísar þar til þess að afi hans og langafi voru hér prestar á árunum 1669-1760 (sjá hér bls. 56-63). Þegar Tómas fékk veitingu fyrir Holti vorið 1836 var hann nær 68 ára gamall og hefur ugglaust gert sér vonir um að geta átt góða daga í ellinni á slóðum feðra sinna í Önundarfirði. Holtsprestakall var líka langtum betra brauð en Garpsdalur væri litið á tekjurnar og til marks um það má nefna að við brauðamatið árið 1853 voru árstekur af Garpsdal taldar nema 129 ríkisdölum og 6 skildingum en af Holti 376 ríkisdölum og 89 skildingar.[791]

Þann 15. júlí 1836 hóf séra Tómas ferðina frá Garpsdal að Holti og fór yfir Þorskafjarðarheiði næsta dag.[792] Með prestinum voru í þessari ferð Guðrún kona hans, Sigurður sonur þeirra, sem þá var 32ja ára gamall,[793] og máske eitthvað af vinnufólki. Að kvöldi 17. júlí komu þau að Rauðamýri við Ísafjarðardjúp og fengu næsta dag flutning þaðan út í Vigur.[794] Þann 19. júlí voru þau flutt úr Vigur á Ísafjörð og næsta dag fór gamli presturinn einn yfir Breiðadalsheiði að Holti en kona hans og sonur dvöldust áfram á Ísafirði í fáeina daga.[795] Sunnudaginn 24. júlí var séra Tómas settur inn í embætti af prófastinum, séra Sigurði Jónssyni á Rafnseyri, en daginn áður höfðu Guðrún kona hans og Sigurður sonur þeirra komið yfir heiðina.[796]

Þegar séra Tómas kom í Önundarfjörð sat séra Jón Ásgeirsson í Holti með sitt fjölmenna heimili en hann hafði þjónað Holtsprestakalli einn frá því faðir hans andaðist í nóvembermánuði árið 1835. Fyrstu dagana í Önundarfirði mun nýi presturinn hafa haldið til í Ytri-Hjarðardal hjá Ebenezer Þorsteinssyni, fyrrverandi sýslumanni, en 28. júlí fór séra Tómas með fólk sitt frá Hjarðardal að kirkjujörðinni Vöðlum[797] en þar hafði hann fengið aðra hálflenduna til ábúðar.[798] Á Vöðlum bjó séra Tómas í tæplega eitt ár en fluttist að Holti 3. júní 1837[799] en þá var séra Jón Ásgeirsson að flytjast þaðan vestur á Álftamýri.

Sama dag og séra Tómas fór frá Vöðlum voru bæjarhúsin sem hann hafði búið í þetta fyrsta ár sitt í Önundarfirði tekin út og ekki voru nú húsakynnin merkileg. Að sögn úttektarmannanna var baðstofan aðeins 2 stafgólf, 5 x 3 álnir,[800] það er tæpleta sex fermetrar. Ekkert loft virðist hafa verið í þessari kytru en hæðin 3 álnir (1,88 metrar) undir bita.[801] Á eldhús er ekki minnst en gólfflöturinn í búrinu var sjö fermetrar.[802] Göng lágu frá baðstofunni til útidyra og voru þau tæplega tveir metrar á lengd en um 80 sentimetrar á breidd.[803] Fleiri voru vistarverurnar ekki í þessum mannabústað en með fylgdi fjárhús fyrir liðugt 12 ær, jötustokkalaust.[804]

Mjög skömmu eftir komu séra Tómasar í Önundarfjörð mun heilsa hans hafa farið að bila en prestsembættinu sagði hann þó ekki lausu fyrr en haustið 1847.[805] Aftan við æviágrip séra Tómasar í prestsþjónustubókinni frá Holti hefur eftirmaður hans þar skrifað að hjá þessum forvera sínum hafi farið að bera á óráði og ringli árið sem hann bjó á Vöðlum, það er 1836-1837 sem var fyrsta dvalarár séra Tómasar í Önundarfirði.[806] Þá þegar fékk þessi gamli klerkur aðstoðarprest sér til liðsinnis við embættisverkin og var það Sigurður sonur hans sem flust hafði með honum til Önundarfjarðar og tók prestsvígslu 9. október 1836.[807]

Af dagbók sonarins má ráða að oftast hafi það verið hann sem embættaði og vann hin ýmsu prestsverk á þeim árum sem þeir feðgar sátu báðir í Holti, 1836-1847.[808] Fyrstu árin bar þó við að gamli Tómas færi í hempuna og má sem dæmi nefna að sjálfur skírði hann barn í desembermánuði árið 1840.[809] Fyrr á því ári sendi hann líka frá sér þá Lýsingu Holtssóknar sem hér hefur alloft verið vitnað í, það er svör við 70 spurningum frá Kaupmannahafnardeild Hins íslenska bókmenntafélags. Þessi ritsmíð séra Tómasar var löngu síðar prentuð í ritinu Sóknalýsingar Vestfjarða[810] og stendur þar fyrir sínu. Hún er að vísu ósköp rýr en lesandi verður þess samt alls ekki var að eitthvert ringl eða rutl hafi verið á höfundinum þegar hann festi orðin á blað. Um eðli sjúkdóms séra Tómasar er erfitt að dæma en Sighvatur Borgfirðingur minnist á veikindi prestsins og segir frá á þessa leið:

 

Þegar séra Tómas var kominn að Holti veiktist hann skömmu síðar svo að hann varð ringlaður í greindarkraftinum og talaði mest öfugyrði með ráðleysusnerti sem síðan hélst við hann og gat því ei gegnt embættisverkum.[811]

 

Af því sem hér hefur verið sagt má ráða að messurnar sem séra Tómas söng í Holti hafi aldrei orðið margar en sóknarprestur var hann þar samt í ellefu ár að nafni til. Í Önundarfirði lifðu lengi ýmsar sögur af framgöngu séra Tómasar við prestverkin en eru nú flestar gleymdar. Við hjónavígslu hafði hann til dæmis að taka beðið guð að lýsa brúðhjónunum inn í eilífustu myrkur.[812] Í annan tíma stóð hann fyrir altari og þegar kirkjugestir áttu von á að heyra flutt guðspjall dagsins las prestur yfir þeim þetta erindi úr Andrarímum:

 

Það var högg sem Högni gaf,

hinn þurfti ekki fleiri.

Sextán gaddar sukku á kaf

sú var kylfan meiri.[813]

 

Á þeim árum sem feðgarnir, séra Tómas Sigurðsson og séra Sigurður Tómasson, sátu í Holti mun kristnihald hafa orðið hvað bágbornast í Önundarfirði því gamli presturinn var orðinn ringlaður en sá yngri lét Bakkus ráða sínum gerðum að mestu. Hér verður brátt sagt nánar frá séra Sigurði en sumarið 1847 var svo komið að Önfirðingar afsögðu með öllu að hafa hann fyrir prest[814] og varð faðir hans þá að segja af sér embætti og sleppa kallinu lausu því sjálfur var hann orðinn algerlega ófær um öll embættisverk.[815] Séra Tómas og kona hans, sem einnig var orðin öldruð, þurftu þó ekki að flytjast frá Holti en fengu að dveljast þar áfram hjá nýjum presti til dauðadags.[816] Gamli Tómas andaðist í Holti 13. október 1849 en Guðrún kona hans dó þar sumarið 1851.[817]

Séra Sigurður Tómasson sem var aðstoðarprestur föður síns í Holti á árunum 1836-1847 mun að líkindum hafa fæðst í Einholtum í Hraunhreppi í Mýrasýslu þann 20. júní 1804 en nokkur óvissa er þó um fæðingardag og fæðingarár hans.[818] Sigurður ólst upp hjá foreldrum sínum, séra Tómasi Sigurðssyni og Guðrúnu Sigurðardóttur, en á uppvaxtarárum hans áttu þau lengst heima í Flatey á Breiðafirði (sjá hér bls. 96-97). Tveir prestar á Stað á Reykjanesi, séra Páll Hjálmarsson og séra Friðrik Jónsson, kenndu prestssyninum úr Flatey undir skóla og haustið 1822 hóf Sigurður skólanám á Bessastöðum.[819] Átta árum síðar lauk hann stúdentsprófi frá Bessastaðaskóla með lélegum vitnisburði[820] og hefur að líkindum slegið slöku við námið því námstíminn var tveimur árum lengri en eðlilegt mátti kalla.

Sighvatur Borgfirðingur segir að Sigurður Tómasson hafi verið gáfnatregur og öllu minni námsmaður en faðir hans.[821] Þessi dómur fræðimannsins um gáfur Sigurðar er þó varla marktækur því sjálfur tekur Sighvatur fram að sumir segi þennan sama prest hafa haft gáfur í sæmilegu lagi.[822] Að sögn Sighvats var séra Sigurður allgóður ræðumaður en ekki mikill raddmaður, háttprúður og öðlingur við alla, karlmenni til burða og í skóla mikill glímumaður.[823] Útliti og auðkennum séra Sigurðar lýsir Sighvatur svo að hann hafi verið meðalmaður á vöxt, jarpur á hár og snotur að áliti en drykkjugjarn og kvenkær kallaður í meira lagi.[824] Daði Níelsson, sem nefndur var fróði, getur þess líka að Sigurður Tómasson hafi verið hraustur að afli og góður glímumaður á yngri árum, sæmilegur predikari en ekki mikill raddmaður.[825]

Þegar Sigurður hafði lokið stúdentsprófi gerðist hann skrifari hjá Ísaki Jakob Bonnesen, sýslumanni á Velli í Rangárþingi. Því starfi gegndi hann í þrjú ár, 1830-1833, og eignaðist árið 1832 barn með prestsdóttur frá Breiðabólsstað í Fljótshlíð.[826] Fyrir það barneignarbrot missti hann prestskaparréttindi sín en fékk uppreisn í desembermánuði árið 1834.[827]

Á árunum 1833-1836 dvaldist Sigurður Tómasson hjá foreldrum sínum[828] en Tómas faðir hans var þá prestur í Garpsdal. Þaðan fluttist hann með foreldrunum að Holti í Önundarfirði sumarið 1836 en séra Tómas hafði þá fengið veitingu fyrir Holtsprestakalli eins og hér hefur áður verið rakið.

Síðla sumars eða snemma hausts árið 1836 var Sigurður stúdent kvaddur til að gerast aðstoðarprestur föður síns og þann 9. september á því ári lagði hann upp í vígsluferð sína frá Holti suður að Laugarnesi[829] sem nú er innan borgarmarka Reykjavíkur. Nítján daga var hann á leiðinni og fór 15. september yfir Þorskafjarðarheiði í illviðri.[830] Þann 8. október predikaði Sigurður í dómkirkjunni í Reykjavík og daginn eftir var hann vígður til prests af Steingrími Jónssyni biskupi sem átti heima í Laugarnesi.[831] Þremur dögum eftir vígsluna lagði hinn nývígði prestur af stað vestur og náði heim í Holt á síðasta degi októbermánaðar eftir 20 daga ferð.[832] Á leið sinni suður fór Sigurður um Þorskafjarðarheiði, Sælingsdalsheiði og Bröttubrekku og þessa sömu leið fór hann til baka að öðru leyti en því að nú valdi hann Kollafjarðarheiði í stað Þorskafjarðarheiðar.[833] Allt sést þetta í dagbók séra Sigurðar en dagbækur hans frá árunum 1832-1865 eru varðveittar í Landsbókasafni. Í suðurferðinni var Sigurður ýmist gangandi eða ríðandi og flutning fékk hann á sjó yfir Ísafjarðardjúp og Gilsfjörð.[834]

Um séra Sigurð Tómasson og það helsta úr nýnefndum dagbókum hans hefur Halldór Kristjánsson frá Kirkjubóli skrifað tvær ritgerðir sem birtust í Ársriti Sögufélags Ísfirðinga árin 1973 og 1977[835] og skal til þeirra vísað. Hér verður því aðeins stiklað á stóru.

Þegar séra Sigurður tók vígslu var faðir hans orðinn lítt fær til prestverka  svo sem fyrr var getið og af þeim ástæðum varð aðstoðarpresturinn að sjá um nær öll embættisverk á þeim ellefu árum sem þeir feðgar höfðu staðarforráð í Holti. Dagbækur séra Sigurðar frá þessum árum bera með sér að þannig hefur þetta verið.[836]

Dagbókarskrif séra Sigurðar bera þess ljósan vott að hann hefur verið bæði drykkjugjarn og kvenkær eins og Sighvatur Borgfirðingur orðar það. Fyrstu tvö árin sem Sigurður Tómasson var í Holti var hann ókvæntur og á þeim árum gerir hann rækilegasta grein fyrir drykkju sinni og samskiptum við konur. Vera má að prestur hafi minnkað drykkjuna þegar hann gekk í hjónaband en hitt er líka hugsanlegt að hann hafi hætt að bóka jafn nákvæmlega og áður hvort hann hefði verið fullur eða ófullur þennan daginn eða hinn.

Sú stúlka í Önundarfirði sem fyrst virðist hafa fallið fyrir séra Sigurði hét Guðbjörg Guðmundsdóttir og má í dagbókum hans sjá ýmislegt um samskipti þeirra.[837] Veturinn 1836-1837 var Guðbjörg þjónustustúlka hjá séra Jóni Ásgeirssyni og Guðrúnu konu hans sem bjuggu þá enn í Holti þó séra Jón væri brauðlaus.[838] Þennan fyrsta vetur sinn í Önundarfirði voru þeir feðgar, séra Tómas og séra Sigurður, á Vöðlum eins og áður var nefnt en þaðan er um það bil 20 mínútna gangur að Holti.

Guðbjörg Guðmundsdóttir fæddist í Vigur 24. júlí 1818[839] og var því 18 ára þegar hinn liðlega þrítugi aðstoðarprestur tók að gera hosur sínar grænar fyrir henni. Foreldrar Guðbjargar voru Guðmundur Guðmundsson frá Auðkúlu í Arnarfirði og kona hans Guðbjörg Þorláksdóttir[840] sem var dóttir séra Þorláks Jónssonar er síðast var prestur á Stað á Snæfjallaströnd en áður á Stað í Súgandafirði.[841]

Foreldrar Guðbjargar Guðmundsdóttur voru árið 1816 á Auðkúlu í Arnarfirði hjá föðurforeldrum hennar en fluttust þaðan norður í Vigur árið 1817, einu ári áður en Guðbjörg fæddist.[842] Kristján bróðir hennar, sem síðar varð kunnur bóndi á Borg í Arnarfirði, varð þá eftir hjá afa þeirra og ömmu á Auðkúlu, Guðmundi Arasyni og Guðbjörgu Sæmundsdóttur, og ólst hann þar upp. Foreldrar Guðbjargar Guðmundsdóttur áttu heima I Vigur í nær tíu ár en 9. janúar 1827 drukknaði faðir hennar í vöðuferð.[843] Hann var oft nefndur Guðmundur skutlari[844] og mun hafa þótt einn snjallasti selaskutlari við Djúp.

Eiginkona séra Jóns Ásgeirssonar, sem sat í Holti veturinn 1836-1837, var Guðrún Guðmundsdóttir frá Auðkúlu (sjá hér Álftamýri) en hún var systir Guðmundar skutlara svo stúlkan Guðbjörg var bróðurdóttir frúarinnar. Guðrún Guðmundsdóttir giftist séra Jóni haustið 1828 og tveimur árum síðar varð hann aðstoðarprestur föður síns, Ásgeirs prófasts í Holti. Líklegt er að prestskonan frá Auðkúlu hafi tekið hina föðurlausu bróðurdóttur sína til sín um það leyti og fullvíst er að Guðbjörg var komin á heimili þeirra séra Jóns í Holti í febrúarmánuði árið 1835.[845] Þegar hún fluttist með séra Jóni Ásgeirssyni og Guðrúnu konu hans frá Holti að Álftamýri tveimur árum síðar er Guðrún nefnd uppalningur[846] sem bendir til þess að hún hafi komið til prestshjónanna á barnsaldri.

Ekki er ætlunin að gera hér nákvæma grein fyrir samskiptum aðstoðarprestsins við Guðbjörg, enda er margt sem hann skráir um þau efni torráðin merki og latneskar skammstafanir sem ekki er alltaf gott að skilja. Um drykkjuna á fyrstu mánuðum ársins 1837 má hins vegar nefna þessi dæmi úr dagbókinni og stundum kemur Guðbjörg við sögu, oftast nefnd G.G.

 

 

1.9.     Blev fuld og séra J. Ásgeirsson varð hér um nóttina.                        

    10.1.     Ég fuld.

    16.1.     Fór ég að Kirkjubóli og Tröð, blev fuld.

    17.1.     Fékk ég 3ja potta flösku frá Madme Steenback, blev fuld litd.

    31.1.     Ego litt.

      8.2.     Fór ég að Tröð, blev fuld.

      9.2.     Fór ég að Holti, blev perial [þ.e. slompaður – K.Ó.].

                  Min gamle afs. G.G.

    20.2.     Fór að Holti um kvöldið ……… G.G. et öllet.

    21.2.     Ogsaa fuld.

    23.2.     Blev jeg efter Sædvane litt et.

      4.3.     Ego pere fuld.

      6.3.     Ganske fuld.

      7.3.     Frost og fjúk. Fór faðir minn en ég fullur eftir [þ.e. á Flateyri –

innskot K.Ó.] og séra Jón Ásgeirsson.

 • Var kyrr. Ogsaa fuld.

      9.3.     Sama veður og ég eins.

    11.3.     Gott veður. Fór ég í burt. Húsvitjaði ég eftir Ströndinni og fór

                  heim um kvöldið ………. um nóttina fuld G.G.[847]

 

Næstu viku er presturinn sífullur og svo var löngum þetta ár en rann samt af honum á milli.[848] Þann 21. apríl 1837 messaði séra Tómas í Holti en aðstoðarpresturinn var fullur að venju og gisti um nóttina hjá sinni kæru Guðbjörgu. – G.G. 2 −  færir hann þá til bókar.[849]

Í maíbyrjun fór rauðmaginn að veiðast í Holtsós. Þann 1. maí 1837 skrifar séra Sigurður í dagbók sína: … fór ég að Holti, gandske fuld, ligeledes G.G. 2 og fjórum dögum síðar: Fór ég á Ós með séra Jóni, fengum 14. – G.G. 1.[850] Í þessum sama mánuði fer aðstoðarpresturinn oftar að stanga rauðmaga í Ósnum og hefur þá gjarnan flöskuna með. Fórum á Ós – skrifar hann 18. maí – urðum fullir. Vorum í Breiðadal ég og G.G.[851] Og viku síðar, þann 25. maí kemur þetta: Varð ég í Holti og svaf hjá G.G. 2 gange.[852]

Síðasti dagurinn sem séra Sigurður og foreldrar hans áttu heima á Vöðlum var 2. júní 1837. Þann dag skrifar hann í dagbókina: Bærilegt veður, urðum kenndir. Fór ég á Ós með G og Vil. Gat ég stangað 17. – G.G. 2.[853] Næsta dag fluttu feðgarnir frá Vöðlum með allt sitt og þann 10. júní lagði heimilisfólk séra Jóns Ásgeirssonar, sem var að flytja að Álftamýri, af stað í ferðina frá Holti vestur í Arnarfjörð. – Fóru allir héðan og Guðbjörg mín alfarin, hvörja ég ekki kvaddi, skrifar kapelláninn í bók sína þann dag.[854] Séra Jón Ásgeirsson fór þó ekki sjálfur alfarinn vestur á Álftamýri fyrr en 16. júní en þá hélt hann af stað með Hvilftarjaktinni og hafði meðferðis bréf til Guðbjargar frá séra Sigurði.[855]

Í fyrri hluta júlí 1837 virðist aðstoðarpresturinn hafa drukkið með minna móti. Þann 3. júlí var farið að rífa baðstofuna í Holti og níu dögum síðar var búið að endurbyggja hana svo allt hefur gengið vel við það verk.[856] Undir lok júlí barst séra Sigurði bréf frá Guðbjörgu[857] en hún hafði þá átt heima á Álftamýri í hálfan annan mánuð. Þann 21. ágúst þetta sama sumar brá Sigurður prestur sér vestur í Arnarfjörð og kom að Álftamýri í aftureldingu. O. du. G.G. eru orðin sem hann trúir dagbókinni fyrir þann dag.[858] Hjá vinum sínum á Álftamýri dvaldist prestur á annan sólarhring og átti að eigin sögn sorglega skilnaðarstund með sinni elskulegu Guðbjörgu.[859]

Þessi kveðjustund á Álftamýri og skilnaðurinn við Guðbjörgu mun þó ekki hafa valdið neinu hjartaskerandi hugarangri hjá presti því dagbókin ber með sér að áður en hann kvaddi stúlkuna á Álftamýri var hann kominn í tygi við aðra.

Fjórum árum síðar giftist Guðbjörg, sem þá var vinnukona á Baulhúsum í Arnarfirði, Þórði Markússyni[860] en hann var sonur séra Markúsar Þórðarsonar sem verið hafði prestur á Álftamýri.[861] Þau fluttust yfir Arnarfjörð og voru árið 1845 vinnuhjú í Selárdal.[862] Árið 1860 bjuggu þau á Kirkjubóli í Fífustaðadal, þar í Ketildölum, og hjá þeim voru þá þrír synir á aldrinum 7 til 11 ára.[863]

Nafn Abigaelar Þórðardóttur sést fyrst í dagbókum séra Sigurðar Tómassonar þann 20. apríl 1837 en þá skrifar hann þetta: Fékk ég eina mörk brennivíns hjá Abigael hérna.[864] Næst verður vart við Abigael 13. ágúst þetta sama ár en þann dag kemst séra Sigurður svo að orði: Messaði ég hér. Fór um nóttina með Jómfrú Abigael út á Flateyri. NB. Hér verða lesendur að geta sér til um þá duldu merkingu sem kynni að felast í stöfunum NB. Átta dögum síðar fór Sigurður prestur vestur á Álftamýri að kveðja Guðbjörgu og þegar hann kom til baka, 23. ágúst, hafði teningunum verið kastað. – Drakk ég ekkert í allri þessari ferð færir aðstoðarpresturinn inn í dagbók sína daginn eftir heimkomuna frá Álftamýri.[865] Bindindið stóð þó ekki lengi því fimm dögum síðar fer hann út á Flateyri og fær sér í staupinu.[866] Fikk en behagelig Sæng. NB, skrifar hann í bók sína þann dag, 29. ágúst,[867] og gefur merkinguna til kynna með sömu bókstöfum og hann notaði sextán dögum fyrr þegar hann fór með Jómfrú Abigael út á Flateyri að næturlagi.

Morguninn 30. ágúst vaknaði séra Sigurður í rúmi jómfrúarinnar á Flateyri og skrifar í bók sína þann dag: − Tog jeg Afsked med min elskværdige Sænge cammerat og fór heim.[868] Hér fer ekkert lengur milli mála og 4. september fer hann aftur út á Flateyri að finna Abigael og segir beinum orðum næsta dag að þá hafi hann farið með henni norður að Kirkjubóli í Skutulsfirði.[869] Í síðari hluta september þetta sama haust hefjast ákafar bréfaskriftir milli prestsins í Holti og jómfrúarinnar á Flateyri[870] og þegar Guðbjörg Guðmundsdóttir kemur ferðlúin að Holti vestan frá Álftamýri þann 29. september virðist henni ekki hafa verið boðið að gista. Kom Guðbjörg mín á Álftamýri og fór vestur, skrifar séra Sigurður daginn þann.[871] Um það leyti mun prestur hafa talið sig vera orðinn heitbundinn Abigael Þórðardóttur eins og sjá má á því sem hann skrifar í dagbók sína 7. október en þar nefnir hann hana sinn Fæstefælle.[872] Áður en lengra er haldið mun rétt vera að gera hér nokkra grein fyrir stúlkunni Abigael sem skömmu eftir trúlofunina varð eiginkona séra Sigurðar.

Abigael Þórðardóttir fæddist á Kirkjubóli í Skutulsfirði[873] árið 1811[874] en foreldrar hennar voru Þórður Þorsteinsson lögsagnari, sem mun hafa búið í Engidal í Skutulsfirði um skeið, og seinni kona hans, Vilborg Jónsdóttir.[875] Þórður lögsagnari var sonur séra Þorsteins Þórðarsonar á Stað í Súgandafirði og konu hans Kristínar Þórðardóttur frá Veðrará.[876] Tveir synir séra Þorsteins báru nafnið Þórður og var Þórður lögsagnari sá eldri þeirra,[877] fæddur um 1760, sagður 41 árs gamall á manntalinu frá 1801, þá húsmaður á Suðureyri í Súgandafirði.[878] Þórður var um skeið fulltrúi sýslumanns (sjá hér Þingeyri) eða lögsagnari eins og það var kallað. Hann fékk viðurnefnið grástakkur og fluttist til Færeyja þar sem hann gerðist barnakennari.[879]

Þórður yngri, bróðir Þórðar grástakks, varð prestur eins og faðir þeirra. Vorið 1810 tók hann við Ögurþingum og þjónaði því prestakalli síðan í 27 ár.[880] Hjá þessum föðurbróður sínum og konu hans, Guðbjörgu Magnúsdóttur frá Súðavík, ólst Abigael upp[881] Á sóknarmannatali frá árinu 1820 er hún hjá þeim á Eyri í Seyðisfirði, sögð átta ára gömul,[882] og þar fermdist hún árið 1825.[883]

Vorið 1833 kom Abigael í Önundarfjörð og varð þá þjónustustúlka hjá Ebenezer Þorsteinssyni, sýslumanni í Ytri-Hjarðardal.[884] Þar var hún í febrúar 1835[885] en fór þaðan ekki mjög löngu síðar til Níelsar Steenback, verslunarstjóra á Flateyri, og hjá honum var hún þjónustustúlka þegar hún féll fyrir hinum ölkæra kapellán í Holti að áliðnu sumri árið 1837.[886] Ekki er ástæða til að gera hér nánari grein fyrir ætterni þessarar þjónustustúlku en af því sem hér hefur verið sagt geta kunnugir ráðið að hún var í nánum ættartengslum við fjölda presta á Vestfjörðum og nefna má að ein föðursystra hennar var Guðrún Þorsteinsdóttir á Rauðamýri í Nauteyrarhreppi, amma Ásgeirs Ásgeirssonar skipherra, sem stofnaði Ásgeirsverslun á Ísafirði og átti það mikla fyrirtæki til dauðadags.[887]

Þann 10. júní 1838 gaf prófasturinn, séra Sigurður Jónsson á Rafnseyri, þau séra Sigurð Tómasson og Abigael Þórðardóttur saman í hjónaband og á brúðkaupsdaginn var haldin veisla á Flateyri.[888] Gestir í veislunni voru 57.[889]

Við hjónavígsluna var Abigael komin langt á leið því tveimur mánuðum síðar ól hún dóttur[890] sem ætla má að komið hafi undir í nóvembermánuði 1837. Í dagbókinni greinir séra Sigurður frá því að tveimur dögum áður en barnið fæddist hafi hann farið með Abigael norður yfir Breiðadalsheiði til vinafólks hennar á Kirkjubóli í Skutulsfirði og þar ól hún barnið 15. ágúst 1838.[891] Þremur vikum síðar fór séra Sigurður norður að sækja konu sína og dóttur[892] sem fékk nafnið Guðrún Ágústína. Stúlka þessi, sem faðir hennar nefndi jafnan Stínu,[893] varð eina barnið sem Sigurður prestur eignaðist með Abigael.[894]

Sighvatur Borgfirðingur segir að Abigael hafi verið mjög glysgjörn.[895] Í samtímaheimild frá árinu 1849 er hún sögð vera lipur, siðsöm og gagnleg til handavinnu og fyrir þjónustustúlku innanhúss.[896] Í dagbókum séra Sigurðar má sjá að Abigael var líka eftirsótt til ljósmóðurstarfa og hennar oft vitjað þeirra erinda þegar hún var prestsfrú í Holti.[897] Síðar starfaði hún sem ljósmóðir á Ísafirði.

Séra Sigurður Tómasson og Abigael kona hans bjuggu í Holti frá 1838 til 1847, nema tvö ár, 1840-1842, sem þau voru á Þórustöðum.[898] Í dagbókum hans má sjá eitt og annað um búskap þeirra en fátt af því verður rakið hér. Árið áður en Sigurður kvæntist taldist faðir hans vera fyrir búinu í Holti. Bústofninn var þá 4 kýr, 24 ær, 10 gemlingar, 24 lömb og 5 hestar.[899] Einn bátur var þá í Holti, sexæringur.[900]

Haustið 1839 taldist séra Sigurður hafa hálfan staðinn í Holti til ábúðar en faðir hans bjó þá enn á hinni hálflendunni.[901] Bústofn aðstoðarprestsins var þá 1 kýr, 1 kvíga, 22 ær, 5 gemlingar, 14 lömb, 1 hestur og 1 folald.[902] Tómas faðir hans var þá enn talinn hafa umráð yfir sexæringnum, eina bátnum sem til var í Holti.[903]

Vorið 1840 fluttust þau Sigurður prestur og Abigael kona hans að Þórustöðum eins og hér var áður nefnt og bjuggu þar í tvö ár. Í bænum sem varð heimili aðstoðarprestsins á Þórustöðum og þess fólks sem honum fylgdi voru baðstofa, búr og eldhús.[904] Bóndinn sem hér hafði búið hét Sakarías Andrésson og 15. júní 1840 voru bæjarhúsin tekin út og afhent séra Sigurði.[905] Baðstofan á Þórustöðum var þá þrjú stafgólf, 8,5 x 4 álnir[906] eða um það bil 13,4 fermetrar. Hæðin frá gólfi og undir bita 3 álnir (1,88 metrar) en þakið var ónýtt og sumir veggirnir í mjög slæmu ástandi.[907] Búrið var liðlega 8 fermetrar.[908] Fyrir því var hurð á járnum en skrá og lykil vantaði.[909] Eldhúsið var mun minna en búrið, aðeins tæplega 5 fermetrar.[910] Það var hurðar- og dyraumbúningslaust og ónýtt að veggjum og þaki en ekki að viðum.[911] Bæjargöng lágu frá baðstofu til útidyra. Lengd þeirra var röskir fimm metrar en breiddin náði ekki alveg einum metra.[912] Hurð á járnum var fyrir bæjardyrum en hún var gaddlaus og í göngunum voru hvorki sperrur eða stafir né heldur syllur eða bitar.[913] Auk þess var áreftið í slæmu standi.[914]

Vegna hins slæma ástands bæjarhúsanna á Þórustöðum var fráfarandi ábúanda þar gert að greiða séra Sigurði 20 ríkisdali og 48 skildinga í álag.[915] Til að standa skil á álaginu vísaði Sakarías prestinum m.a. á þessi verðmæti:

 

 1. Eitt ekki fullkomið stafgólf í öðrum enda baðstofunnar með einum glugga brotnum á gafli og lítilfjörlegum þiljaspækjum, hurðarlaust.
 2. Loft í hinum enda baðstofunnar, mjög lasið orðið.
 3. Stafgólfsmynd í búrinu, lítt nýt.[916]

 

Á móti því sem gengið hafði úr sér hjá Sakaríasi á Þórustöðum gat hann líka vísað presti á hesthúskofa fyrir tvo hesta, eldiviðarkofa og fallið og ónýtt fjárhús.[917] Við þessu öllu tók prestur sem greiðslu upp í álagið.

Búskaparsaga séra Sigurðar Tómassonar árin tvö sem hann sat á Þórustöðum verður ekki rakin hér en árið 1842 fór hann aftur að Holti og fékk þá eða mjög skömmu síðar allan staðinn til ábúðar.

Árið 1845 höfðu Sigurður prestur og Abigael kona hans öll búsforráð í Holti í sínum höndum.[918] Séra Tómas taldist þá vera búlaus en gömlu prestshjónin voru þó með eina kú, tvær ær, þrjá gemlinga og einn hest.[919] Þetta ár voru 23 manneskjur á heimilinu í Holti og bústofn séra Sigurðar var þá: 4 kýr, 1 naut, 3 kálfar, 36 ær, 18 gemlingar, 32 lömb og 2 hestar.[920] Sexæringurinn var þá enn í Holti, talinn að hálfu á nafni séra Tómasar en að hálfu á nafni Sigurðar sonar hans.[921] Annar minni bátur var þá líka þar.[922]

Á búskaparárum séra Sigurðar voru vinnumenn í Holti jafnan sendir í ver á sexæringnum og gera má ráð fyrir að þeir hafi ætíð róið á Kálfeyri. Í dagbókunum sést að jafnan var farið í verið í aprílmánuði. Vorið 1839 er getið verferðar þann 8. apríl en yfirleitt var farið í verið um sumarmál, 15.-25. apríl.[923] Oft komu vermenn heim með blautan fisk þegar ekki gaf á sjó. Fékk ég af Kálfeyri í fyrsta sinn 13 grásleppur og 6 rauðmaga, skrifar prestur 4. maí 1839 og 9. maí 1840 flytur hann okkur þessi tíðindi: Komu heim sjómenn. Höfðu róið alla vikuna. Hæstur hlutur 120 en minnstur um 80.[924] Vertíð lauk jafnan í fyrstu eða annarri viku júlí.[925] Kom Eyjólfur úr veri með 130 til hlutar, skrifar séra Sigurður 5. júlí 1843.[926] Árið 1839 komu vermenn ekki heim frá Kálfeyri fyrr en 12. júlí og daginn eftir tók séra Sigurður sjálfur til hendi vð fiskinn. – Hengdi ég út 70 steinbíts, skrifar hann þá í dagbókina.[927]

Áður en vertíð byrjaði var stöku sinnum farið á sjó úr heimavör. Reru piltar héðan um kvöldið, skrifar séra Sigurður 22. mars 1840 og við 29. mars 1847 standa þessi orð í dagbókinni: Róið héðan, 5 í hlut.[928] Að vetrinum fóru heimamenn í Holti eða nágrannar þeirra líka í hákarlalegur. – Komu sjómenn að, lítið hákallað, færir aðstoðarpresturinn til bókar í febrúarlok árið 1838.[929]

Um rauðmagaveiðarnar sjáum við líka ýmislegt í dagbókum aðstoðarprestsins. Í aprílmánuði fór rauðmagi að veiðast í net sem róið var með frá Flateyri og að minnsta kosti sum árin var rauðmaganet sem séra Sigurður átti lagt í sjó frá Flateyri snemma á vorin. Fór ég á Flateyri, fékk 18 rauðmaga, skrifar hann 20. apríl 1844 og einni viku seinna: Fór ég að Hvilft og Flateyri, fékk 45 rauðmaga úr netinu.[930] Árið 1845 var hrognkelsi farið að veiðast í net þann 6. apríl og næsta dag skrifar prestur: Sendi ég net mitt á Flateyri.[931] Sex dögum síðar koma svo þessar fréttir: Fékk ég 33 rauðmaga úr neti mínu og eina grásleppu.[932]

Rauðmagaveiðar í Ósnum virðast yfirleitt ekki hafa hafist fyrr en kominn var maí. Fékk ég fyrst úr Ós, 34 r. og 6 grásl., skrifar séra Sigurður 2. maí 1845 og 6. maí 1844 segir hann: Fékk Vigfús fyrst úr Ós 106.[933] Í ósnum voru menn að krækja í rauðmaga fram undir miðjan júní. Fór ég á Ós, fékk 287, skrifar prestur 10. júní 1844[934] og mun það vera mesti afli sem hann getur um að einn maður hafi fengið á einum sólarhring við þennan veiðiskap.

Á árunum 1844 og 1845 var séra Sigurður Tómasson líka að reyna við selveiðar frá Holti. Lagði ég selanót, skrifar hann 30. júní 1844 og tveimur dögum síðar var hann búinn að fá 2 seli.[935]

Í dagbókum séra Sigurðar er stundum minnst á eitt eða annað sem varðar þilskipaútgerðina, enda þótt prestur væri aldrei sjálfur þátttakandi í henni. Magnús Einarsson, bóndi á Hvilft, og Finnur Guðmundsson tengdafaðir hans eignuðust þilskip um svipað leyti og séra Sigurður kom í Holt (sjá hér Hvilft). Skip þetta nefnir prestur Hvilftarjaktina[936] og mun hún hafa verið fyrsta þilskipið sem bændur í Önundarfirði eignuðust (sjá hér Mosvallahreppur, inngangskafli). Kom inn Magnús hreppstjóri á Hvilft, skrifar séra Sigurður 19. apríl 1842[937] og af þeim orðum má ráða að Magnús hafi þá verið skipstjóri á jaktinni. Árið 1845 var Jón Einarsson, bróðir Magnúsar, orðinn skipstjóri á þilskipinu sem þá var gert út frá Hvilft (sjá hér Mosvallahreppur, inngangskafli). – Lagði út Hvilftar Bogi, skrifar aðstoðarpresturinn í Holti 13. mars 1845[938] og höfum við þar nafnið á skipinu en Magnús á Hvilft og samstarfsmenn hans gerðu lengi út skip með þessu nafni (sjá hér Hvilft og Flateyri).

Á árunum um og eftir 1840 voru ýmsir Önfirðingar í skiprúmi á þilskipum sem gerð voru út frá Ísafirði og Jón Arnfinnsson, sem þá bjó á Kirkjubóli í Bjarnardal, var skipstjóri á einu þeirra eins og sjá má í dagbókum séra Sigurðar. – Fóru jaktarmenn norður, skrifar prestur 4. apríl 1839 og slíkar ferðir í lok mars eða byrjun apríl nefnir hann stundum á næstu árum.[939] Um Jón Arnfinnsson getur dagbókarritarinn í Holti oftar en einu sinni og nefnir hann stundum skipara svo ekki fer milli mála að bóndi þessi á Kirkjubóli hefur verið skipstjóri á skútu.[940] Fór Jón Arnfinnsson norður til jakta, skrifar séra Sigurður í lok mars 1845 og af því má ráða að skipið sem Jón stýrði til veiða hafi verið gert út frá Ísafirði.

Stundum getur séra Sigurður þess hvenær byrjað var að slá í Holti á búskaparárum hans þar og nefnir þessar dagsetningar 14. júlí, 23. júlí og 13. júlí.[941] Sólskin og þerrir. Bundið af Fitinni, skrifar prestur 28. ágúst 1839[942] en um heyaflann er fátt að sjá í bókum hans. Í nóvembermánuði ár hvert var áburður reiddur á völl[943] svo grasvöxtur yrði sem mestur að sumri og eitt vorið getur séra Sigurður þess að hann hafi þá látið reiða 20 hesta á völl á einum degi.[944]

Á búskaparárum séra Sigurðar Tómassonar í Holti var búsmali hans jafnan hafður í seli í nokkrar vikur á sumri í hinu forna Holtsseli frammi í Bjarnardal. Frá seljabúskapnum er nánar sagt hér á öðrum stað en þess skal strax getið að séra Sigurður var ekki bara með ærnar í seli heldur líka kýrnar, að minnsta kosti sum árin.[945] Að vetrinum voru selhúsin notuð sem beitarhús í nokkra mánuði (sjá hér Arnkelsbrekka og Holtssel). Sauðamaður fylgdi fénu þangað fram eftir og hélt því til beitar. Sem dæmi má nefna að í lok október árið 1845 var farið með 68 sauðkindur sem séra Sigurður átti fram í Sel.[946]

Dagbækurnar bera með sér að prestur hefur oft verið með eitthvað af fé í eldi á öðrum bæjum, einkum seinni part vetrar, en þær kindur fékk hann heim þegar leið að sauðburði. Dæmu um þetta má nefna frá vorinu 1841 en þá lætur séra Sigurður þess getið þann 18. maí að þann dag hafi ærnar komið bæði frá Tröð og Kirkjubóli.[947] Um miðjan maí var kúnum í Holti hleypt út úr fjósinu eftir langan vetur[948] en í nóvember voru lömbin tekin á gjöf og líka hestarnir.[949] Stöku sinnum minnist prestur á eitthvað sem tengist fráfærum. Þann 8. júní 1842 lætur hann þess til dæmis getið að verið sé að byggja stekk og tveimur dögum síðar var stíað þar í fyrsta sinn.[950] Kálgarðar voru í Holti á þessum árum og ætla má að þar hafi m.a. verið ræktaðar kartöflur. – Fórum við til með garðana, skrifar prestur 14. júní 1843 og 30. maí 1844 koma þessi orð á blaðið: Átt við kálgarða og hauga.[951]

Eldiviðar var aflað með ýmsu móti. Í júlímánuði var skorinn mór. Árið 1839 lauk móskurði 19. júlí og unnið var að móskurði 11. júlí 1843 og 4. júlí 1845.[952] Í byrjun sumars árið 1842 hefur að líkindum verið orðið lítið um eldivið og þá var farið að rífa lyng á Mosvallaskeiði.[953] Haustið 1842 fékk séra Sigurður svo hestburð af eldivið frá Efstabóli og lynghest frá Fremri-Breiðadal.[954] Í febrúar árið 1843 var aftur orðið knappt um eldivið hjá presti. Hann sendi þá að Kroppstöðum og fékk þar 3 poka og 1 poka hjá Jóni Sigurðssyni,[955] að því er ætla má hreppstjóranum með því nafni sem bjó á Kirkjubóli í Korpudal. Í apríl fór heimafólk séra Sigurðar svo að rífa lyng.[956]

Steinkol hafa að líkindum eingöngu verið notuð í smiðjunni en 1. apríl 1840 fékk aðstoðarpresturinn í Holti eitthvað af þeim frá Þingeyri og í ágústmánuði árið 1843 fékk hann lánaða 3 kúta af steinkolum hjá Magnúsi Einarssyni, bónda á Hvilft.[957] Hjá Magnúsi, sem var skútuútgerðarmaður, fékk séra Sigurður líka oft vænan skammt af lýsi. Sem dæmi má nefna að 2. desember 1840 fékk hann tvo hálfkúta af lýsi frá Hvilft og 13. janúar þennan sama vetur fékk hann svo heilan lýsiskút frá Magnúsi.[958]

Í dagbókum séra Sigurðar frá árum hans í Holti og á Þórustöðum verður ekki séð í fljótu bragði að hann hafi sent vinnumenn sína í skóg til kolagerðar og átti Holtskirkja þó skógarítak í Dýrafjarðarbotni (sjá hér Botn í Dýrafirði). Sá skógur kynni reyndar að hafa verið gjöreyddur á árunum kringum 1840 því í Jarðabókinni frá 1710 segir að staðarhaldarar í Holti verði að kaupa skóg til kolagerðar þar sem Holtsteigur í botni Dýrafjarðar sé næsta því eyddur.[959] Svo virðist sem Önfirðingar hafi fengið eitthvað af viðarkolum úr Álftafirði og Hestfirði í Ögurþingum á þeim árum sem séra Sigurður átti heima í Önundarfirði. Til marks um það má nefna að 4. nóvember 1842 segir hann kolamenn frá séra Magnúsi hafa komið með bréf til sín.[960] Séra Magnús sem þarna er nefndur hlýtur að vera séra Magnús Þórðarson, prestur í Ögurþingum, sem þá bjó á Svarfhóli í Álftafirði en síðar á Hvítanesi.[961] Séra Magnús var náfrændi Abigaelar prestsfrúar í Holti og ekki ólíklegt að séra Sigurður hafi fengið viðarkol frá honum fyrst klerkurinn í Ögurþingum sendi kolamenn sína vestur yfir Álftafjarðarheiði.

Þegar vetur gekk í garð var séra Sigurður vanur að telja út steinbítsskammtinn fyrir sérhvert hjú á heimilinu, stundum og máske alltaf til eins mánaðar í senn.[962] Þá var líka byrjað að vefa á prestsheimilinu. Fest upp í vefstaðinn einskefta, skrifar séra Sigurður 12. nóvember 1842 og 26. nóvember 1844 segir hann bara: Farið að vefa.[963] Um steinbítsskömmtunina má finna þessi dæmi í dagbókum aðstoðarprestsins: Taldi ég J.G. og H. út steinbít til mánaðar. Taldi ég út fólkinu, sjá Lommebogen. Taldi ég steinbít stúlkunum, hvurri 24. Piltunum allt og Guðm. og Borgu 40.[964] Á vorin þurfti líka að búa út matarskammta fyrir þá sem fóru í verið og sjá um að þeir hefðu eitthvað á fæturna. Þann 12. apríl 1845 skrifar séra Sigurður: Fékk ég piltum mínum allt verkornið og kjötið, samt 16 steinbíta hverjum, 3 landskó Jóhannesi og tvenna Þorláki af leðri og 1 sjóskó hverjum.[965]

Samskipti við erlenda sjómenn, sem stunduðu veiðar á Vestfjarðamiðum, virðast ekki hafa verið mikil hjá Sigurði presti í Holti. Í júlímánuði árið 1838 nefnir hann þó komu Fransmanna: Komu inn franskir, skrifar hann þá 9. júlí og þremur dögum síðar: Komu franskir að fala Gránu.[966] Vonandi hafa þeir frönsku ekki sparað koníakið við prest þegar þeir komu í Holt að fala gráu merina en svo vildi reyndar til að sama dag bar þar tiginn gest að garði sem var Bjarni Þorsteinsson, amtmaður á Stapa.[967] Honum fylgdi Sigurður prestur norður yfir Breiðadalsheiði næsta dag.[968]

Í dagbókum sínum getur Sigurður Tómasson býsna oft um komu spekúlanta á Önundarfjörð en svo voru nefndir þeir lausakaupmenn sem sigldu af einni höfn á aðra og ráku verslun um borð í skipum sínum. Oft voru það reyndar fastakaupmenn sem sendu skip sín í spekúlanttúra á nálægar hafnir til að ná þar viðskiptum. Um miðbik 19. aldar komu verslunarskip frá Thomsen, kaupmanni á Þingeyri, oft til Önundarfjarðar og einnig var nokkuð um það að fastakaupmenn á þessum eða hinum verslunarstað sendu vöruskip sín í verslunarferðir á fjarlægar hafnir.

Sá lausakaupmaður sem séra Sigurður nefnir oftast er Ditlevsen (stundum ritað Detlevsen eða Detleivsen) en hann kom að minnsta kosti fimm sinnum með varning sinn á Önundarfjörð á árunum 1839-1845, alltaf í síðari hluta maímánaðar eða um miðjan þann mánuð.[969] Líklega hefur Ditlevsen byrjað að versla við Önfirðinga nokkru fyrr því í bréfi rituðu á Ísafirði sumarið 1833 er minnst á Ditlövsen lausakaupmann[970] sem líklegt er að sé sami maður. Sum árin virðist kaupmaður þessi hafa legið við á Önundarfirði mikið af sumrinu eða komið þangað oftar en einu sinni sama sumarið. Þessu til rökstuðnings má nefna að árið 1839 kom hann fyrst 31. maí en 6. ágúst það ár segir prestur að spekúlant þessi hafi siglt alfarinn héðan.[971] Í lok mars árið 1848 kom skip frá Danmörku á Ísafjörð og var þá sagt lát kóngsins og Detlevsens.[972]

Í dagbókum séra Sigurðar í Holti sést að á árunum 1842, 1843 og 1844 kom skip frá Edward Thomsen Þingeyrarkaupmanni inn á Önundarfjörð á hverju sumri í verslunarerindum.[973] Svo virðist sem Edward Thomsen og William bróðir hans (sjá hér Þingeyri og Grandi), sem rak verslun á Patreksfirði á þessum árum, hafi reyndar staðið sameiginlega að þessum spekúlanttúrum til Önundarfjarðar, að minnsta kosti sum árin. – Gott veður, fór ég til Speculanta Thomsena, skrifar Sigurður prestur 20. júní 1842 og átta dögum síðar segir hann stutt og laggott: Fóru Thomsenarnir.[974] Fullvíst má telja að það séu þessir bræður sem þarna er átt við.

Aðrir lausakaupmenn sem sigldu á Önundarfjörð á árunum upp úr 1840 og séra Sigurður nefnir með nafni voru Poulsen og Johnsen en líklegt er að spekúlantinn Jónssen sem prestur minnist á árið 1844 sé sami maður og hann nefnir Johnsen einu ári fyrr.[975]Komu 2 jaktir til Poulsen utanlands frá, ritar séra Sigurður 20. maí 1841.[976] Sá kaupmaður sem þarna er nefndur er án vafa Niels Christian Poulsen sem var verslunarstjóri í Neðstakaupstað á Ísafirði frá 1836 og eitthvað fram yfir 1840[977] en gerðist kaupmaður í Hafnarfirði haustið 1846.[978] Vitað er að Poulsen þessi átti nokkrum árum síðar hlut að útgerð þilskips frá Ísafirði.[979] Samstarfsmaður hans um þá skútuútgerð var Ásgeir Á. Johnsen sem hóf rekstur eigin verslunar á Ísafirði árið 1852 eða 1853.[980] Ásgeir var fæddur árið 1819, sonur Ásgeirs Jónssonar, prófasts í Holti, sem drukknaði í Vaðlinum árið 1835 (sjá hér bls. 90-93), og konu hans Rannveigar Matthíasdóttur. Ásgeir þessi Ásgeirsson frá Holti nefndi sig jafnan Ásgeir Á. Johnsen og ef til vill er það hann sem séra Sigurður Tómasson á við þegar hann skrifar 6. júní 1843: Kom Johnsen á lagið.[981] Á þeim tíma var Ásgeir að vísu ekki orðinn sjálfstæður kaupmaður en gæti hafa verið í þjónustu Poulsens þess sem hann gekk síðar í félag við um skútuútgerð frá Ísafirði. Skúta sem þeir N. Chr. Poulsen og Ásgeir Á. Johnsen áttu saman ásamt þriðja manni og gerð var út frá Ísafirði fórst í ofviðri haustið 1853.[982]

Þann 11. júní 1844 kveðst séra Sigurður í Holti hafa komið til Jóns spekúlants[983] sem hann nefnir aðeins í þetta eina skipti. Sex dögum síðar fer hann til Jónssens spekúlants[984] og verður að telja mjög líklegt þarna sé átt við einn og sama manninn. Sú hugmynd að spekúlantinn sem séra Sigurður nefnir ýmist Jónssen eða Johnsen muni vera Ásgeir Á. Johnsen, síðar kaupmaður á Ísafirði, er býsna ásækin. Um þetta er þó ekki hægt að fullyrða eitt né neitt. Einhverjum gæti líka dottið í hug að þetta muni vera Hjálmar Jónsson sem síðar gerðist kaupmaður á Flateyri (sjá hér Flateyri). Hjálmar var oft nefndur Jónsen[985] svo slík tilgáta þarf ekki að vera alveg fráleit. Á hitt ber þó að líta að á árunum 1843 og 1844 var Hjálmar aðeins rétt liðlega tvítugur, fæddur 1822,[986] og engin gild rök hafa fundist fyrir því að hann hafi þá verið í slíkum sendiferðum á vegum einhverra verslunarfyrirtækja. Sinn eigin verslunarrekstur hóf Hjálmar á Ísafirði á árunum upp úr 1850 og þá í mjög smáum stíl.[987]

Sigurður prestur getur alloft um ferðir sínar um borð í spekúlantskipin. Þann 8. júní 1841 skrifar hann til dæmis: Fórum við hjónin til Speculanta og heim um kvöldið.[988] Í júnímánuði árið 1842 fer hann líka út í spekúlantaskip og skrifar: Gott veður. Fór ég til Speculanta Thomsena – nog et over Maal.[989] Í það sinn hefur prestur drukkið meira en góðu hófi gegndi úti á skipinu. Þann 9. júní 1843 skrifar séra Sigurður aftur á móti þetta: Fór ég til Spekulanta og heim om Natten, ókenndur að öllu leyti.[990] Þetta sumar átti hann reyndar eftir að heimsækja spekúlantana í annað sinn og máske það þriðja því 1. ágúst kemur þetta: Kláraði ég við Spekulantana, varð noget fuld.[991]

Um miðbik 19. aldar var enginn eða nær enginn verslunarrekstur á Flateyri (sjá hér Flateyri) svo bændur og búalið í Mosvallahreppi hafa haft fyllstu ástæðu til að fagna árvissri komu spekúlantskipanna. Ætla má að á þeim árum sem séra Sigurður Tómasson bjó í Holti hafi viðskipti Önfirðinga við lausakaupmenn verið mjög veruleg. Hann átti líka nokkur viðskipti við verslanir á Þingeyri og Ísafirði. Áður var getið um steinkolin sem hann fékk frá Þingeyri árið 1840, en í febrúar 1845 og janúar 1846 sendir hann vinnumenn sína norður á Ísafjörð í verslunarerindum.[992] Komu piltar að norðan með 32 pund járn og 20 potta brennivíns, skrifar prestur í dagbók sína 20. janúar 1846 og hefur þá verið sæmilega birgur á þorranum. Í annarri vetrarferð fáum árum fyrr lét séra Sigurður kaupa á Ísafirði 2 pund af kaffi, 2 pund af sykri, 4 potta af brennivíni og skegghníf.[993]

Um samskiptin við leiguliðana á jörðum kirkjunnar í Holti segir séra Sigurður fátt í dagbókunum. Einstök dæmi um slíkt má þó finna. – Kom Jón Guðlaugsson með landskuld sína, gimbur og les, skrifar prestur 6. júní 1844.[994] Nær fullvíst má telja að þetta sé Jón Guðlaugsson sem bjó 58 ára gamall á Mosvöllum árið 1845[995] en þá jörð átti Holtskirkja (sjá hér bls. 24-25). Landskuld sína hefur Jón greitt prestinum með prjónlesi og einni gimbur.

Um miðbik 19. aldar var enn dálítið um flakkara sem fóru bæ frá bæ og lifðu á bónbjörgum. Stöku sinnum getur séra Sigurður um komu slíkra manna að Holti. Í nóvembermánuði árið 1841 fékk Abigael prestsfrú þar bréf með Hjálmari flakkara sem prestur nefnir svo[996] og má telja líklegt að það sé hinn alkunni Hjálmar goggur sem þá hefur verið á ferð. Vorið 1843 var Hjálmar líka á ferð í Önundarfirði og kom að Holti 26. apríl.[997] Hjálmar goggur var upprunninn í Barðastrandarsýslu og var um skeið böðull á vegum sýslumannsins þar.[998] Margir töldu að hann hefði verið einhvers konar fyrirmynd að Hjálmari tudda í skáldsögu Jóns Thoroddsen, Manni og konu.

Í dagbókum sínum minnist séra Sigurður mjög oft á messur og önnur prestverk en allt er það hversdagslegt og verður ekki rakið hér. Yfirleitt var messað á sunnudögum, annaðhvort í Holti eða á Kirkjubóli í Valþjófsdal en nokkuð var þó um að því væri sleppt. – Gaf mér ekki að messa í Dalnum. Ófæran mjög slæm, skrifar prestur til dæmis að taka í janúar 1843.[999]

Flestar heimildir um séra Sigurð Tómasson benda til þess að hann hafi verið lítill framkvæmdamaður en þess verður þó að geta að á hans dögum var kirkjan í Holti endurbyggð og henni komið í gott stand. Sigurður Jónsson, prófastur á Rafnseyri, vísiteraði í Holti 20. júní 1844 og færir þá til bókar að Holtskirkja hafi nú verið endurbyggð og í sómasamlegan máta leiðrétt og umbættir allir þeir gallar sem á húsinu áður voru.[1000] Prófastur tekur fram að kirkjan sé komin í rétt gott stand, bæði að viðum og veggjum og sýnist stæðileg til 20-30 ára.[1001] Aftur á móti var ástand kirkjugarðsins í Holti heldur bágborið sumarið 1844.[1002]

Kirkjan mun hafa verið endurbyggð sumarið 1843 því Sigurður Tómasson getur þess í dagbók sinni að 6. ágúst á því ári hafi hann messað og vígt þessa nýju kirkju.[1003] Frumkvæðið að kirkjubyggingunni mun reyndar hafa komið frá Magnúsi Einarssyni, bónda á Hvilft,[1004] og líklegt má telja að fleiri bændur í sókninni hafi lagt eitthvað til þeirrar byggingar.

Um lestur aðstoðarprestsins í Holti eða bókaeign hans sést harla lítið í skrifum hans. Þess má þó geta að vorið 1842 lánaði hann Jóni Arnfinnssyni, skipstjóra á Kirkjubóli í Bjarnardal, bókina Vinagleði[1005] sem prentuð var í Leirárgörðum árið 1797 og gefin út á vegum Magnúsar Stephensen, síðar dómstjóra í landsyfirrétti. Árið 1842 var Njóla Björns Gunnlaugssonar, yfirkennara á Bessastöðum, gefin út og líklega er það hún en ekki Njála sem séra Sigurður lánaði Guðrúnu Thorsteinsson, sýslumannsekkju í Hjarðardal, í byrjun jólaföstu árið 1843.[1006] Þá bók lánaði hann Friðrik Svendsen, agent og kaupmanni á Flateyri, einum mánuði síðar.[1007]

Þann 8. mars árið 1843 gaf Kristján VIII Danakonungur út tilskipun í 79 greinum um endurreisn Alþingis á Íslandi.[1008] Tveimur mánuðum síðar fékk séra Sigurður í Holti bréf og ljóðmæli frá Jóni Sigurðssyni í Kaupmannahöfn[1009] og hefur sendandinn án efa verið verðandi þingmaður Ísfirðinga, Jón Sigurðsson frá Rafnseyri. Ekki verður séð í dagbókum Sigurðar prests að fleiri bréf frá Jóni forseta hafi borist honum að Holti því signor Jón Sigurðsson sem sendir honum línu í marsmánuði árið 1844 mun ugglaust vera Jón Sigurðsson, hreppstjóri á Kirkjubóli í Korpudal.

Á fyrstu dögum ársins 1844 var aðstoðarpresturinn í Holti kominn með í hendur tvö eða fleiri eintök af tilskipun konungs um Alþing hið nýja. Annan dag janúarmánaðar á því ári fær Magnús Einarsson á Hvilft lánað hjá honum eitt eintak af þessu plaggi[1010] en Magnús var 100 dögum síðar kosinn varaþingmaður fyrir Ísafjarðarsýslu (sjá hér Hvilft). Fleiri Önfirðingar fengu alþingistilskipunina lánaða hjá presti á næstu vikum og má þar nefna Friðrik Svendsen á Flateyri og Jón Indriðason í Ytri-Hjarðardal sem seinna bjó á Kaldá.[1011]

Boðskapurinn um endurreisn Alþingis ýtti við mörgum sem áður létu sig stjórnmál litlu varða og víða í héruðum var efnt til fyrstu stjórnmálafundanna í síðari tíma sögu okkar Íslendinga. – Haldin hér samkoma, margt fólk, skrifar séra Sigurður í dagbók sína 24. febrúar 1844 og einum mánuði síðar segir hann samkomu hafa verið haldna í Hjarðardal 25. mars.[1012] Fróðlegt hefði verið að heyra meira um þessa fundi í Holti og Hjarðardal en gera má ráð fyrir að þeir hafi verið fyrstu almennu þjóðmálafundirnir í Önundarfirði. Fyrstu þingkosningarnar í Ísafjarðarsýslu voru haldnar 13. apríl 1844 og þar var Jón Sigurðsson frá Rafnseyri kosinn þingmaður Ísfirðinga en Magnús Einarsson á Hvilft í Önundarfirði varaþingmaður.[1013] Líklegt er að það hafi verið Magnús sem gekkst fyrir fundunum í Holti og Hjarðardal en hann varð snemma helsti trúnaðarmaður Jóns Sigurðssonar í vesturhluta Ísafjarðarsýslu.

Um pólitísk viðhorf séra Sigurðar Tómassonar er lítið vitað en geta má þess að 14. júní 1845 reið hann á Ísafjörð til fundar við Jón Sigurðsson sem ári fyrr hafði verið kjörinn þingmaður Ísfirðinga. Þennan dag hélt Jón Sigurðsson sinn fyrsta almenna þjóðmálafund á Ísafirði[1014] og Sigurður prestur í Holti segir frá á þessa leið: Sama blíða. Fórum allir á Ísafjörð, ég með Bola. Samkoma þar. Hélt heim um nóttina.[1015] Gjarnan hefðu þau orð mátt vera fleiri.

Næsta vetur tók aðstoðarpresturinn í Holti sig til og skrifaði Jóni forseta bréf. Hann ávarpar Jón kunnuglega og kveður hann með orðunum þinn ónýtur vin og kunningi.[1016] Þetta mun vera eina bréfið sem Jóni forseta barst frá Sigurði Tómassyni og þar biður hann Jón að útvega sér allar mögulegar upplýsingar um landamerki staðarins í Holti og kirkjujarðanna og um einstök réttindi og ítök Holtskirkju.[1017]Eiga Mýrar í Dýrafirði nokkuð tilkall til Mjóadals sem er hérmegin Gemlufallsheiðar?, spyr hann til dæmis að taka en minnist líka á þjóðmálafundinn á Ísafirði sumarið áður og segir þá samkomu hafa verið öllum til stórrar ánægju og uppbyggingar.[1018]

Hér var áður greint frá stjórnlausri brennivínsdrykkju séra Sigurðar Tómassonar fyrsta árið sem hann þjónaði Önfirðingum sem aðstoðarprestur (sjá hér bls. 102-105). Um þau ósköp öll tala dagbækur hans skýrustu máli. Þar má líka sjá að á næstu árum fékk prestur sér býsna oft í staupinu en eitthvað mun drykkjan þó hafa minnkað á fyrstu hjúskaparárunum, þegar Abigael Þórðardóttir var orðin húsfreyja í Holti. Dagbókarskrifin benda að minnsta kosti til þess en reyndar er mögulegt að þau segi ekki alla söguna.

Árið 1844 var Steingrímur Jónsson biskup að reyna að fá kirkjunnar þjóna til að minnka áfengisdrykkju og ganga í hófsemdarfélag. – Ritaði ég biskupi viðvíkjandi hófsemdarfélaginu og sendi honum mína undirskrift, skrifar séra Sigurður í Holti í dagbókina 1. nóvember 1844.[1019] Þau orð verða tæplega skilin á annan veg en þann að hann hafi lýst sig reiðubúinn til að ganga í hófsemdarfélagið og mega það kallast tíðindi. Vel má reyndar vera að Sigurður prestur hafi lítið sem ekkert drukkið árið 1845. Hann minnist þá aldrei á drykkju í dagbókinni fyrr en á annan dag jóla en þá segist hann vera kenndur[1020] og tæpum mánuði síðar fékk hann 20 potta af brennivíni frá Ísafirði.[1021]

Allt frá árinu 1840 falla dagbókarskrif séra Sigurðar Tómassonar stundum niður yfir sumarmánuðina, hvað sem valdið hefur, og árið 1847 skrifar hann ekkert í dagbókina eftir lok marsmánaðar.[1022] Nær fullvíst má telja að þá hafi Bakkus tekið völdin að fullu hjá presti eins og hér verður brátt rökstutt. Sögur þær af drykkjuskap Sigurðar Tómassonar sem Önfirðingar geymdu áður í minni eru nú flestar glataðar en ein sem greinir frá komu hans að Neðri-Hesthúsum, hjáleigu frá Hesti, hefur þó komist á prent. Þar segir:

 

Bóndinn í Neðrihúsum sá til prestsins og tók á móti honum úti á hlaði. Síðan leiddi hann sálusorgara sinn til baðstofu. Það voru ekki vegleg húsakynni í Neðrihúsum þá. Þó voru fjögur þrep í stiganum upp á baðstofupallinn en það var miklu meira en svo að presturinn kæmist það af eigin rammleik. Húsfreyjan stóð á pallskörinni og tók í axlir honum en bóndi var niðri og bakaði undir kennimanninn. Með þessum tilburðum komu þau honum upp á pallinn. Þegar þar var komið létu þau hann veltast upp í hjónarúmið. Þar lá hann og var þegar sofnaður.[1023]

 

Vera kann að þessa ferð að Neðrihúsum hafi séra Sigurður farið árið 1847, sem varð síðasta ár hans í embætti hjá Önfirðingum, en hitt er þó líka hugsanlegt að honum hafi verið tosað þar upp á pallinn nokkru fyrr því einmitt í Neðrihúsum vann þessi sami kennimaður sitt fyrsta prestverk í Önundarfirði er hann skírði þar barn 6. nóvember 1836.[1024]

Á árunum 1836-1851 var séra Sigurður Jónsson á Rafnseyri prófastur í vesturhluta Ísafjarðarsýslu. Á öðrum degi ársins 1847 ritar hann biskupi bréf og segir:

 

Holtsprestar hafa orðið að fá prest í sumar frá Súgandafirði til að gegna sóknarinnar nauðsynjum þar kapelláninn þar (því hinn aldurhnigna öldung, séra Tómas, er ekki að nefna til embættisverka) hefur verið allt sumarið sérlega sjúkur og sængurliggjandi en nú hve hann vera farinn að komast til heilsu sinnar.[1025]

 

Þann 10. apríl vorið 1847 skrifar prófastur biskupi nýjar fréttir af kapelláninum í Holti og segir hann hafa getað messað í vetur  þó hann sé veikur á milli af viðureign sinni við Bakkus.[1026] Í næsta bréfi, rituðu 30. júlí sama ár, kveðst prófastur hafa vísiterað í Holti fyrir skömmu og þar hafi hann ætlað að fela Sigurði Tómassyni að sjá áfram um prestverkin en þá gerðist nokkuð sem varð þess valdandi að málin tóku aðra stefnu. Í nýnefndu bréfi til biskups, frá 30. júlí 1847, segir prófasturinn á Rafnseyri frá með þessum orðum:

 

… en þá bændur heyrðu það, sem margir voru til staðar, afsögðu þeir allir í einu hljóði og kváðu hann ei geta afleyst nokkur embættisverk og aldrei kæmu þeir eða sitt hús að heyra hann. Mun óregla sakir drykkjuskapar hafa orsakað þetta.[1027]

 

Þessi gagnorða frásögn séra Sigurðar Jónssonar prófasts sýnir að við vísitazíu hans í Holti sumarið 1847 hafa Önfirðingar risið upp og krafist þess að séra Sigurði Tómassyni yrði þegar í stað vikið úr embætti fyrir óhóflega notkun áfengra drykkja. Vorið 1847 hafði hinn ölkæri aðstoðarprestur reyndar farið með sitt hafurtask frá Holti og sest að á Flateyri og getur prófastur þess í bréfi því til biskups sem hér var síðast vitnað í.[1028]

Vorið 1847 var séra Tómas Sigurðsson enn sóknarprestur í Holti að nafninu til en Sigurður sonur hans, sem taldist vera aðstoðarprestur föður síns, hafði í raun þjónað prestakallinu einn í mörg ár því gamli Tómas var fyrir löngu þrotinn að kröftum (sjá hér bls. 100).

Þegar Helga Thordersen biskupi bárust tíðindin um ástand mála í Holti brá hann skjótt við og fól Sigurði prófasti á Rafnseyri að fá séra Tómas til að segja af sér þegar í stað svo hægt væri að auglýsa prestakallið laust til umsóknar.[1029] Allt gekk það eftir og fékk séra Tómas lausn frá embætti 31. október 1847.[1030]

Á síðustu mánuðum ársins 1847 var beðið eftir nýjum presti í Holti til að taka þar við af þeim feðgum séra Tómasi og Sigurði syni hans. Séra Sigurði Jónssyni, prófasti á Rafnseyri, varð þá hugsað til sonar síns í Kaupmannahöfn sem þremur árum fyrr hafði verið kosinn alþingismaður Ísfirðinga. Sigurður prófastur var þá sjötugur að aldri og bar þá ósk í brjósti að Jón sonur hans kæmi heim frá Kaupmannahöfn og gerðist prestur á slóðum feðra sinna. Þann 30. desember 1847 skrifar hann Jóni og segir: Ekki er Holtið veitt ennþá. Mér hjálpar ekki að örva þig til prestsskaparins sem ég vildi þó mikið, því ég vildi miklu heldur að þú efldir Kristsríkið en heimsríkið … .[1031]

Enda þótt gamli prófasturinn vissi að lítið þýddi að hvetja soninn til að gerast prestur á Vestfjörðum kaus hann samt að segja honum hug sinn og benda á að nú væri Holtið laust, þetta góða brauð þar sem móðurbróðir og móðurafi Jóns Sigurðssonar höfðu báðir verið prestar. Í ljósi sögunnar er hins vegar dálitið kátlegt að setja sér fyrir sjónir þann möguleika að Jón forseti hefði orðið eftirmaður séra Sigurðar Tómassonar í Holti eins og gamli prófasturinn á Rafnseyri hefði svo gjarnan viljað.

Hér var áður frá því greint að séra Sigurður Tómasson hafi farið frá Holti vorið 1847 og skömmu síðar verið afhrópaður af sóknarbörnunum.

Frá ástandinu í Holti á síðasta ári Sigurðar Tómassonar þar segir Sighvatur Borgfirðingur svo:

 

… en séra Sigurður lagðist í svo mikið drykkjusvall að hann lá með köflum við það í rekkju sinni og þar kom að sögn gagnkunnugra manna að hann léði konu sína árlangt fyrir heilanker af brennivíni (cirka 40 potta) þeim manni er Steindór hét Torfason er var ráðsmaður á búi með þeim því ei vildi hún þá sjá eður heyra séra Sigurð, mann sinn. Þó er sagt að ekki yrði hún langdvölum með Steindóri.[1032]

 

Vel má vera að í þessari frásögu Sighvats sé sumt orðum aukið en hér verður nú litið nánar á þær heimildir sem þetta varða og helst er takandi mark á.

Veturinn 1845 til 1846 sat Eggert Briem sýslumaður í Ytri-Hjarðardal og þar var þá hjá honum Steindór Torfason, kallaður skrifari í manntalinu frá 2. nóvember 1845.[1033] Steindór er þar sagður 26 ára gamall, fæddur í Breiðabólsstaðarsókn í suðuramti[1034] og reyndar mun hann hafa verið prestssonur frá Breiðabólsstað í Fljótshlíð.[1035] Í dagbókum séra Sigurðar Tómassonar er Steindór fyrst nefndur 8. desember 1845 en þann dag og nokkra hina næstu var þessi herramaður við skriftir í Holti.[1036] Í dagbókum prestsins er því miður eyða frá maímáhuði árið 1846 og fram í október á sama ári en flest bendir til þess að einmitt þá hafi Steindór orðið heimilismaður hjá séra Sigurði í Holti og Abigael konu hans. Þetta sumar mun Steindór hafa gegnt störfum sýslumanns í Ísafjarðarsýslu, öðrum en dómarastörfum, í fjarveru Eggerts Briem.[1037]

Kom Steindór minn, skrifar Sigurður prestur 7. desember 1846 og nokkrum dögum síðar bókar hann að Steindór hafi farið á Flateyri 14. desember en komið til baka þann 18. sama mánaðar.[1038] Hálfum mánuði síðar, þann 4. janúar 1847, lætur prestur þess getið að Steindór sé alfarinn norður[1039] og sé þetta allt skoðað í samhengi verður að telja mjög líklegt að Steindór hafi dvalist langdvölum í Holti á síðari hluta ársins 1846. Ekki verður þó fullyrt um þetta með vissu því engin sóknarmannatöl eru til úr Holtsprestakalli frá því misseri og ekki heldur frá árinu 1847.

Þess var áður getið að séra Sigurður fluttist frá Holti vorið 1847 út á Flateyri og þegar nýr prestur í Holti skráir sitt fyrsta sóknarmannatal árið 1848 segir hann þau búa öll saman á Eyri – séra Sigurð, Abigael kona hans og Steindór.[1040] Heimili þeirra er þarna sagt vera annað tveggja býla á Eyri en verslunarstaðurinn á Flateyri er svo skráður sér sem sjálfstæð eining.[1041]

Væru engar aðrar heimildir í boði en nýnefnt sóknarmannatal mætti því ætla að prestshjónin og ráðsmaður þeirra hefðu komið sér fyrir heima á Eyri en ekki á verslunarstaðnum Flateyri. Önnur gögn benda hins vegar til þess að þarna sé þó ekki allt sem sýnist og þrenningin frá Holti hafi í raun fundið sér húsaskjól á Flateyri. Rökin fyrir því eru margvísleg eins og hér verður nú sýnt fram á.

Í fyrsta lagi er þess að geta að séra Sigurður Jónsson, prófastur á Rafnseyri, segir alveg skýrt í bréfi sínu frá 30. júlí 1847 að séra Sigurður Tómasson sé farinn frá Holti og sestur að á Flateyri (sjá hér bls. 120). Í öðru lagi má nefna að í hreppsbók Mosvallahrepps frá þessum árum og í búnaðarskýrslum frá sama tíma er Friðrik Svendsen, fyrrverandi kaupmaður, oft sagður búa á Eyri[1042] þó að fullvíst sé að hann átti heima á Flateyri. Skýringin er sú að Svendsen hafði hluta af Eyrarjörðinni til ábúðar[1043] en það hafði Steindór, ráðsmaður prestshjónanna, líka[1044] og má ætla að það sé þess vegna sem heimili prestsins og Steindórs er sagt vera á Eyri í áðurnefndu sóknarmannatali en hafa verður í huga að Flateyri var í landi Eyrar.

Þriðju rökin sem færa má fram fyrir því að séra Sigurður Tómasson hafi hafst við á Flateyri en ekki heima á Eyri eru svo þau að árið sem hann fór frá Holti fluttist Jón Einarsson skipstjóri og fjölskylda hans frá Flateyri að Sveinseyri í Dýrafirði (sjá hér Flateyri og Sveinseyri) en þá hlýtur húsnæði það sem Jón var í að hafa losnað. Á Eyri var hins vegar allt með kyrrum kjörum á þessum tíma og þar átti bara ein fjölskylda heima, Magnús Ólafsson og hans fólk, bæði 1846 og 1849.[1045] Er þá út frá því gengið að séra Sigurður hafi verið á Flateyri og sest þar að í sömu húsakynnum og Jón Einarsson skipstjóri yfirgaf árið 1847. Nær fullvíst má telja að Jón hafi verið í Norskahúsinu sem svo var nefnt, timburhúsi sem byggt var árið 1792, en það var fyrsta íbúðarhúsið sem menn reistu á Flateyri (sjá hér Flateyri). Um miðbik 19. aldar mun hús þetta hafa verið orðið hrörlegt og flest bendir til þess að séra Sigurður hafi verið sá síðasti sem átti þar heimili sitt.

Í dagbók séra Sigurðar er löng eyða árið 1847 og af þeim ástæðum greinir hann aldrei frá brottflutningi sínum frá Holti.[1046] Á árunum 1848 og 1849 skrifar hann hins vegar reglulega í dagbókina en þar er þó enga setningu að finna sem skeri með alveg afdráttarlausum hætti úr um það hvort hann var þá heimilisfastur á Eyri eða Flateyri.[1047] Nokkrar vísbendingar er samt að finna í dagbókinni sem styðja þá kenningu að prestur hafi verið á Flateyri. Ein er sú að hann minnist aldrei á umstang fólksins á Eyri við búskapinn en getur hins vegar nokkrum sinnum um tíðindi úr búskap Svendsens agents sem átti heima á Flateyri.[1048] Þann 11. nóvember 1848 getur prestur um grófasta foraðsveður og segir: Mölvaðist Bíslaget hérna allt í spón.[1049] Í þessum orðum felst líka vísbending um að hann hafi verið á Flateyri því varla er hægt að gera ráð fyrir bíslagi á torfbænum á Eyri árið 1848 en miklu líklegra að slíkt anddyri hafi verið á norska timburhúsinu á Flateyri.

Sterkustu vísbendingarnar um að séra Sigurður hafi verið á Flateyri er þó að finna í dagbókarskrifum hans frá 1. júní 1848 og 11. febrúar 1849. Þann 1. júní 1848 skrifar hann þessi orð: Kom andvana barn á Eyri[1050] og segir ekki hér á Eyri eins og eðlilegt hefði verið ef hann hefði sjálfur verið búsettur þar. Fæddist barn Vigdísar hér, Jón, skrifar prestur aftur á móti 11. febrúar 1849[1051] og er þá að segja frá barnsfæðingu á Flateyri því Vigdís Bjarnadóttir sem eignaðist soninn Jón Andrésson 11. febrúar 1849 var þá vinnukona hjá Svendsen agent á Flateyri.[1052] Hún var reyndar mágkona agentsins og eignaðist drenginn með Andrési Jónssyni, vinnumanni á Flateyri, sem hún giftist þremur árum síðar.[1053] Frá Jóni Andréssyni er sagt hér á öðrum stað (sjá Garðar), en hann var faðir Guðmundar Jónssonar á Görðum sem fæddist 1870).

Í sóknarmannatalinu frá 1848 er Steindór Torfason sagður vera ráðsmaður séra Sigurðar og þegar heimilisfólkið er talið upp er Steindór nefndur fyrstur, á undan prestshjónunum,[1054] sem bendir eindregið til þess að öll forsjá búsins hafi hvílt á honum. Tvímælalaust sýnist því vera að Sigurður prestur hafi lagt bú sitt í hendur Steindóri, hvort sem konan hefur nú fylgt með í þeim kaupum eins og Sighvatur segir eða ekki. Best er að trúa því varlega en líklegt er hins vegar að Steindór hafi tekið að sér að sjá presti fyrir brennivíni og öðrum nauðsynjum og vel gætu brennivínspottarnir hafa verið álíka margir og Sighvatur nefnir, um það bil 40 á ári. Hvernig Steindóri hefur svo gengið að standa við samningana er önnur saga.

Við skoðun sóknarmannatalsins frá 1848 vekur athygli hversu fjölmennt heimili Steindórs og hinna uppflosnuðu prestshjóna var því heimilismenn voru 14 enda þótt prestshjónin ættu aðeins eitt barn.[1055] Fjöldi vinnuhjúanna sýnir að þrátt fyrir allt hefur þessi undarlega þrenning á Eyri, Sigurður – Abigael – Steindór, reynt að hafa á sér höfðingjasnið í þeim efnum og náð að halda til jafns við gilda bændur. Vera má að forsjá Steindórs og prestsfrúarinnar hafi dugað til að forða búinu frá því algjöra hruni sem við mátti búast að yrði afleiðing volæðishegðunar prestsins.

Í búnaðarskýrslum frá árunum 1847 og 1848 sést að Steindór og prestshjónin höfðu þriðjung úr Eyri til ábúðar árið 1847 en 1848 bara einn sjötta part af jörðinni.[1056] Þessi jarðarpartur var aðeins 4 hundruð en auk hans höfðu þau undir alla Kaldá sem er 12 hundraða jörð.[1057] Í nýnefndri skýrslu frá árinu 1848 er Steindór talinn fyrir búinu[1058] sem staðfestir það sem hér var áður sagt. Samkvæmt skýrslunni var bústofninn þessi: 3 kýr, 2 naut, 39 ær, 1 hrútur, 30 gemlingar, 2 hestar og 1 folald.[1059] Þetta var hreint ekki svo lítið bú á þeirrar tíðar mælikvarða og vert að nefna að aðeins tveir menn í Mosvallahreppi voru með fleiri ær, þeir Agent Svendsen á Flateyri sem átti 43 og Magnús Einarsson á Hvilft sem átti 50.[1060] Í búi þeirra Steindórs og séra Sigurðar voru 2 bátar, báðir minni en fjögra manna far.[1061]

Á árinu 1848 eru litlar eyður í dagbók séra Sigurðar Tómassonar svo þar má sjá margt um gang mála hjá þrenningunni á Flateyri. Þess er þá fyrst að geta að veturinn 1847-1848 þjónaði séra Andrés Hjaltason á Stað í Súgandafirði Holtsprestakalli með sínu brauði en Sigurður prestur á Flateyri var embættislaus. Hann var þó stöku sinnum fenginn til að vinna prestverk því ekki var alltaf auðvelt að ná til séra Andrésar. Sem dæmi má nefna að 3. janúar 1848 var séra Sigurður fenginn til að skíra barn í Breiðadal.[1062] Þann 21. maí 1848 kvaddi séra Andrés söfnuðinn í Holtskirkju[1063] en nýr prestur kom ekki í kallið fyrr en 5. júlí þá um sumarið.[1064] Í júnímánuði urðu Önfirðingar því að grípa til séra Sigurðar ef á þurfti að halda og má sem dæmi nefna að 4. júní jarðsetti hann konu sem andast hafði af barnsförum.[1065]

Í dagbók séra Sigurðar frá árinu 1848 er hér og þar minnst á sjósókn og sjávarafla, ekki síst rauðmagaveiðarnar, en sjaldan er minnst á aðra þætti í búskap fólksins á Eyri. Þann 16. mars var rauðmaganetið lagt í fyrsta sinn en lítið eða ekkert virðist hafa fengist í það fyrr en kominn var apríl.[1066] Sigurður prestur og Abigael kona hans tóku bæði þátt í störfum við rauðmagaveiðarnar þetta ár.  Fór konan til neta, skrifar prestur 4. maí og nítján dögum síðar koma þessi orð: Rerum út að Nesi, fengum 9. Fórum á Ós, fengum 30.[1067] Ljóst er að sumarið 1848 hefur séra Sigurður stundum farið með í fiskiróðra en í dagbókum hans frá árunum í Holti verður þess aldrei vart að hann hafi sjálfur farið á sjó. Nokkur orð úr skrifum prests frá sumrinu 1848 vitna um sjómennsku hans:

 

 • Dregin upp net og 9 grásleppur og lóðin, ekkert á henni.
 • Gott veður, fengum 120 fiska.
 • Fengum 68 og eina skötu á lóð.
 • Gott veður. Rerum.
 • Rerum, fiskuðum 9.
 • Reri ég með Andrési. Fengum 80 og eina lóu.
 • Blíða. Rerum, fengum 48 og eina lóu.

 

Athygli vekur að haustið 1848 rær séra Sigurður með lóðir eins og sjá má í skrifum hans frá októbermánuði á því ári: 11.10. Á lóðir 32, 4 skötur, 1 lóa – 20.10. Lagðar fram lóðir – 21.10. Á lóðum 11 – 26.10. Lagðar lóðir.[1068]

Oft getur prestur um skipakomur í dagbók sinni frá Flateyri: 25.4. Kom inn Katrín, 15.5. Komu inn jaktir, 23.5. Kom hér inn Pröven, 13.6. Komu Fransmenn, 23.6. Komu inn tvennir hollenskir, 24.6. Kom inn Bogi[1069] og 24. júlí lætur hann þess getið að þann dag hafi Poulsen farið alfarinn.[1070] Er það ugglaust lausakaupmaðurinn sem hér var áður nefndur (sjá bls. 114-115).

Í dagbókinni verður ekki séð að séra Sigurður hafi drukkið mikið af brennivíni á fyrri hluta ársins 1848 en þegar kom fram á haustið jókst drykkjan hjá presti. – Urðum við hér missátt, skrifar hann í dagbók sína 13. águst[1071] og úr því fer að harðna á dalnum.

Nokkur dæmi úr dagbókinni sem öll lúta að samskiptum séra Sigurðar við Bakkus, Steindór ráðsmann eða eiginkonuna Abigael verða nú sett hér á blað:

 

 1. ágúst: Ég lítt.
 2. sept.: Ég kenndur.
 3. sept.: Ég kenndur.
 4. sept.: Fékk ég 4 potta af brennivíni.
 5. okt.: Fór allt til kirkju nema við hjón. NB. Godhed.
 6. okt.: Þann 17. september í ár hætti ég að smakka brennivín

                       nema 1 staup hjá Steindóri þann 29. sept.

 1. okt.: Fór Steindór norður. … Ab. Godhed!

                       [Ab. stendur hér fyrir Abigael – innsk. K.Ó.]

 1. nóv.: Varð ég lítt for meget.
 2. nóv.: Ég fuld. Slæmur við St. og lítt við konu mína. Guð

                       hjálpi mér.

 1. nóv.: Ég lille smul.
 2. nóv.: Dimmur kaldur, mér illt.
 3. nóv.: Við Steindór sættir.
 4. nóv.: Færði Steindór sig hingað í kamersrúmið.[1072]

 

Við lestur þessara orða fer tæplega milli mála að margt er þarna ósagt sem lýtur að samskiptum hinnar sérkennilegu þrenningar á Flateyri, prestsins, ráðsmannsins og frúarinnar. Um framhaldið er skemmst frá því að segja að 6. desember 1848 yfirgaf Abigael eiginmann sinn og hafðist við á Kaldá næstu mánuði. Með henni fór þangað dóttir prestshjónanna, Guðrún Ágústína sem þá var 10 ára gömul.[1073]

Frá Flateyri að Kaldá eru aðeins 4 kílómetrar og næstu vikur og mánuði fór séra Sigurður býsna oft að heimsækja konu sína og dóttur. Í þeim ferðum telur hann sig yfirleitt fá góðar móttökur hjá Abigael.[1074] Líklega hefur Steindór ráðsmaður þó komið enn oftar að Kaldá þessa vetrarmánuði sem barist var um frúna prestsins. Þessar ferðir Steindórs hafa greinilega verið séra Sigurði mjög ofarlega í huga því hann nefnir þær sí og æ í dagbókinni.[1075] Nokkrar tilvitnanir í hana sýna þetta best en þar stendur þetta skrifað:

 

 • Fór Steindór að Kaldá. Jeg bedrövelig.
 • Fór ég að Kaldá. Svaf hjá mínum um nóttina glaður.
 • Kom Steindór að norðan að Kaldá.
 • Óskemmtileg jólanótt.
 • Kom Steindór glaður kl. 7 e.m. … Varð Steindór of

                  ruglaður.

 • Fór Steindór að Kaldá, kom aftur um kvöldið.
 • Drakk lítt hjá Steindóri – í gær skrifaði ég konu minni.
 • Lille smuul.
 • Fór ég með Steindóri inn að Hvilft, ruglaður nokkuð.

Steindór að Kaldá.

 • Komu Steindór og Hebba frá Kaldá. Fór ég með þeim

hingað. … Leiðindasamt.

 • Fór Steindór frá Kaldá.
 • Fór Steindór að Kaldá.
 • Kom Steindór loksins frá Kaldá.
 • Fór Steindór aftur að Kaldá.
 • Skrifaði ég konu minni og sendi lubbann.
 • Skrifaði aftur konu minni.
 • Kom og fór Steindór.
 • Fór ég að Kaldá. Nöd Godhed hos min elske kone.Fór Steindór norður á laugardaginn var.

        2.3     Kom Steindór að norðan.

 • Fór Steindór inn eftir [þ.e. að Kaldá – innsk. K.Ó.].

19.3.    Við Steindór maliciöser dálítið. Mölvað upp púltið mitt.

             … Játaði Steindór sig.

 

Hvað það var sem Steindór játaði á sig þann 19. mars 1849 verða lesendur sjálfir að dæma um. Hugsanlegt er að þessi fyrrverandi sýsluskrifari hafi aðeins brotið upp púltið hjá presti en fleira kemur vissulega til greina. Af dagbókarskrifum séra Sigurðar í desember 1848 og á fyrsta fjórðungi ársins 1849 má ráða að hann hefur gjarnan viljað fá konu sína heim aftur en haft grun um að Steindór stæði þar í vegi.[1076]

Staðfestingu þess að Abigael hafi haft fullan hug á að fylgja Steindóri í önnur héruð er að finna í tveimur bréfum séra Magnúsar Þórðarsonar á Hvítanesi er hann ritaði Eggerti Briem sýslumanni 26. mars og 1. apríl 1849. Séra Magnús og prestskonan Abigael voru bræðrabörn og auk þess hafði hún alist upp hjá foreldrum Magnúsar eins og hér var áður nefnt (sjá bls. 105-107). Í hópi ættingja prestsfrúarinnar á Kaldá var séra Magnús sá karlmaður sem stóð henni næst þegar hér var komið sögu. Í bréfinu sem hann skrifaði sýslumanni 26. mars 1849 lætur hann falla þessi orð:

 

En þótt sá alvísi viti að ég ekki vilji fyrirmuna Abigael því besta hlutfalli sem hún nú gat hlotið (sem var að vera í umsjá ykkar heiðvirðu og góðu hjóna) sé það ekki diktur Steindórs þá hvörki get ég vitað né meina forsvarandi að láta hana ráða þeirri blindni að elta Steindór, ódæmd frá aumingjanum, séra Sigurði, í annað amt landsins þar Steindór fer með ykkur.[1077]

 

Þegar bréf þetta var ritað hafði Eggert Briem verið veitt sýslumannsembættið í Eyjafjarðarsýslu og hann því á förum norður. Orð séra Magnúsar sýna að Steindór hefur sagt honum að sýslumannshjónin væru fús til að ráða Abigael í sína þjónustu en presturinn á Hvítanesi gerir ráð fyrir að Steindór fari líka með þeim norður og af þeim ástæðum vill hann ekki ráðstafa frænku sinni með þeim hætti. Forsjármaður Abigaelar hefur þó engin úrræði á reiðum höndum til að koma málum hennar í skikkanlegt horf og segir í sama bréfi:

 

… þó ég vilji veita henni það litla ég get þá óttast ég fyrir að hún kunni ekki við eða geti gjört sér að góðu lifnaðarhætti okkar sveitamanna sem bæði björgum okkur með handaerfiði og lifum daglega við óbreyttan kost. Ég læt nú dragast að svara henni þangað til ég fæ að vita ætlun og álit yðar um þetta efni.[1078]

 

Bréf séra Magnúsar á Hvítanesi frá 26. mars hefur ekki verið lengi á leiðinni yfir Djúpið því Eggert sýslumaður, sem bjó á Melgraseyri, svarar því fjórum dögum síðar eins og sjá má í öðru bréfi sem presturinn á Hvítanesi skrifar honum 1. apríl 1849.[1079] Bréf Eggerts sýslumanns, skrifað 30. mars 1849, er nú að líkindum glatað en af svarbréfi séra Magnúsar, skrifuðu 1. apríl, má sjá að sýslumaður hefur boðist til að taka Abigael með sér norður. Því góða boði svarar Magnús prestur með þessum orðum:

 

… því þegar ég sá þar í [þ.e. í bréfi sýslumanns – innsk. K.Ó.] heitstrenging yðar, hvað Abigael snertir, þá bæti ég því nú við það áður skrifaða að bæði er það einlægur vilji minn og undireins auðmjúk tilmæli að þið góðu hjón vilduð lofa henni að fljóta í einhvörju blóði [?] ykkar norður, því ekkert veit ég henni nú betra, ef Steindór yrði kyrr (sem mig uggir þó að ekki verði) ellegar færi hann til ættingja sinna sem best væri í allt fall [það er suður á land – innsk. K.Ó.] – því að vita þá ráðleysinginn Abigael í guðs, yðar og góðu Madme umsjá væri gleði mín, hvörja reynsla mín staðfestir. Abigael er líka sem þið vitið bæði lipur, siðsöm og gagnleg til handavinnu og fyrir þjónustustúlku innanhúss og skyldi ég þá í hennar skyni, – sem ég vona að vilji manni sínum vel í einhvörju, rétta séra Sigurði hjálparhönd.[1080]

 

Þessar ráðagerðir um að koma prestsfrúnni á Kaldá norður í Eyjafjörð náðu þó aldrei fram að ganga og má telja líklegt að hún hafi sjálf neitað að fara, enda varð Steindór kyrr og fór aldrei norður.

Um miðjan apríl vorið 1849 leitaði Abigael á náðir frænku sinnar og fóstursystur, Þórdísar Þórðardóttur, prestsfrúar á Gerðhömrum í Dýrafirði, en hún var systir séra Magnúsar á Hvítanesi. Eiginmaður Þórdísar var séra Jón Sigurðsson, sóknarprestur á Gerðhömrum. Í dagbók séra Sigurðar Tómassonar sjáum við að Abigael fer fyrst vestur að Gerðhömrum 10. apríl þetta vor og kemur aftur þremur dögum síðar með bréf frá prestinum þar.[1081]

Af dagbók Sigurðar prests má ráða að Abigael hafi flust frá Kaldá að Gerðhömrum þann 15. apríl. Næsta dag skrifar hann í dagbókina: Fékk ég brennivín frá Guðmundsen. Steindór í Dýrafjörð. Gerðh. NB.[1082] Tveimur dögum síðar fór séra Sigurður líka vestur í Dýrafjörð og reyndar alla leið í Arnarfjörð. Í þeim leiðangri gisti hann þrjár nætur á Gerðhömrum.[1083] Á heimleið, þann 24. apríl, gisti þessi eiginmaður Abigaelar svo á Þórustöðum, næsta bæ við Holt, og þar hélt hann kyrru fyrir í fimm daga. Skýringuna á þessari löngu dvöl gefur prestur til kynna í dagbókinni. Hann skrifar:

 

 • Fór að Þórustöðum. – Æ guði sé lof!!!
 • Var kyrr. NB 2.g.
 • Lá grafkyrr, ligesaa fornöjet.

 

Á næstu 12 mánuðum gisti hinn uppflosnaði prestur býsna oft á Þórustöðum, enda sýna dagbókarskrifin að þar náði hann taki á kvenmanni á heimferð sinni frá Gerðhömrum 24. apríl. Að samskiptum þeirra verður vikið hér lítið eitt nánar síðar en við upphaf þeirra losnaði prestur undan fargi, enda lætur hann þakkir sínar til almættisins fyrir líkn rósarinnar á Þórustöðum óspart í ljós í dagbókinni og hættir nær alveg að minnast þar á Steindór Torfason sem áður gerði honum lífið leitt. Eftir fyrstu nóttina á Þórustöðum virðist hann hafa gefið Abigael upp á bátinn. Í byrjun ágúst þetta sama ár fór hann þó og heimsótti konu sína og dóttur að Gerðhömrum og dvaldist þar í fáa daga en svo vildi til að Steindór kom þar líka á sama tíma.[1084] Í september fór séra Sigurður aftur vestur að Gerðhömrum og gisti þar eina nótt og mun það hafa verið síðasta nóttin sem þau Abigael sváfu undir sama þaki.[1085] Þegar kom fram í nóvember sótti hún um skilnað og 10. apríl á næsta ári sendi séra Sigurður sams konar umsókn frá sér til réttra yfirvalda.[1086] Ekki var þó gengið frá hjónaskilnaðinum með formlegum hætti fyrr en löngu síðar.[1087]

Haustið 1849 fluttist Steindór Torfason burt úr Önundarfirði og má ætla að þá eða litlu fyrr hafi slitnað upp úr sambandi hans við Abigael Þórðardóttur. Séra Magnús, frændi hennar á Hvítanesi, greinir frá brottför Steindórs í bréfi er hann ritaði Eggert Briem sem þá var kominn norður í Eyjafjörð. Hann segir þar líka fréttir af Abigael og séra Sigurði Tómassyni. Bréfið er skrifað 16. september 1849 og þar segir presturinn í Ögurþingum þessar fréttir:

 

Steindór Torfason er hér nýfarinn hjá, landveg til Hafnarfjarðar og lést vera áhangandi kaupmanni Poulsen, átti að koma suður með Prövuna frá Ögri, hvörja Poulsen keypti í sumar hálfa á 500 ríkisdali en sú ferð hennar brást til næsta vors (af Einars hendi). Séra Sigurður Tómasson er sagt að fengið hafi eða skikkaður sé til Grímseyjar. Abigael er enn kyrr á Gerðhömrum, þó leið orðin þar en vill þó ei með honum fara.[1088]

 

Poulsen kaupmaður, sem þarna er nefndur, mun vera hinn sami og hér var áður sagt frá (sjá bls.114-115) en árið 1849 var hann farinn að reka verslun í Hafnarfirði. Pröven frá Ögri, sem séra Magnús nefnir, var þilskip sem Einar Jónsson bóndi þar átti um skeið og gerði út til veiða[1089]

Steindór Torfason mun ekki hafa verið lengi í þjónustu Poulsens í Hafnarfirði því árið 1853 var þessi fyrrverandi sýsluskrifari og ráðsmaður séra Sigurðar Tómassonar orðinn bóndi í Seli í Grímsnesi.[1090] Í Annál 19. aldar segir séra Pétur Guðmundsson frá andláti hans í byrjun ársins 1854 og greinir frá á þessa leið:

 

Nóttina milli þess 4. og 5. janúar varð Steindór Torfason, bóndi frá Breiðabólsstað úti í góðu veðri vestan undir Mosfellsfjalli. Hann var á besta aldri en hneigður mjög til drykkju.[1091]

 

Þannig lauk ævi þessa breyska prestssonar frá Breiðabólsstað í Fljótshlíð en hann var aðeins 33ja ára gamall þegar öndin skrapp úr líkamanum í vetrarblíðunni undir Mosfelli.

Abigael Þórðardóttir, sem verið hafði prestsfrú í Holti og bjó um skeið með eiginmanni sínum og Steindóri á Flateyri, fluttist til Ísafjarðar árið 1853 og átti þar löngum heima síðan uns hún andaðist um 1870.[1092] Á Ísafirði starfaði hún sem ljósmóðir.[1093] Guðrún Ágústína, sem var eina barn Abigaelar og séra Sigurðar Tómassonar, fylgdi móður sinni og ólst upp hjá henni. Árið 1860 bjuggu þær enn saman á Ísafirði og höfðu tvær vinnukonur.[1094] Guðrún Ágústína var þá 22ja ára gömul en hún giftist fimm árum síðar Jóni Vedholm, hinum kunna veitingamanni á Ísafirði, og varð seinni kona hans.[1095]

Í bréfi séra Magnúsar Þórðarsonar á Hvítanesi frá 16. september 1849, sem hér var áður vitnað í, var frá því greint að séra Sigurður Tómasson hefði þá nýlega fengið Miðgarðaprestakall í Grímsey eða verið skikkaður til að taka við því brauði. Bréf biskups um það mál var gefið út 18. júlí 1849.[1096] Í því er tekið fram að séra Sigurður sé settur til að gegna prestsembætti í Grímsey fyrst um sinn um eins árs tíma.[1097] Helgi Thordersen biskup skýrir málið nánar fyrir séra Sigurði og segir í sama bréfi:

 

Og ef þér, sem ég vona, gangist undir þessa constitution skora ég á yður að þér sem allra fyrst bregðið við og kostið kapps um að komast að embættinu svo að sóknarfólkið sem skemmst þurfi að bíða prestsþjónustu.[1098]

 

Í lok bréfsins ber Helgi biskup fram þá ósk að hinn afhrópaði prestur í Önundarfirði verði öðrum til góðrar fyrirmyndar norður í Grímsey með reglubundnu líferni og sönnum guðsótta og nái þannig að ávinna sér meðmæli til frekari frama á sínum tíma.[1099]

Ekki fór Sigurður Tómasson norður í Grímsey haustið 1849. Í bréfi sem hann ritar biskupi í lok þess árs lýsir hann sig reiðubúinn að halda til Grímseyjar á komandi vori en bréf biskups frá sumrinu áður segist hann ekki hafa fengið fyrr en 27. september og þá ekki treyst sér til að leggja allslaus af stað norður undir vetur.[1100]

Í þessu bréfi til biskups, sem séra Sigurður skrifaði 30. desember 1849, spyr hann hvort sú ákvörðun háyfirvaldanna sð fela sér á hendur prestsembættið í Grímsey standi enn óhögguð og biður um svar fyrir vorið.[1101]

Í dagbók sinni frá árinu 1849 nefnir séra Sigurður að hann hafi fengið bréf frá biskupi þann 26. september og hlýtur það að hafa verið bréfið sem beindi honum norður í Grímsey en á innihald þess minnist hann ekki í dagbókinni.[1102] Líklegt er að einhver hrollur hafi farið um prestinn við lestur bréfsins frá biskupi og vera má að hann hafi gert sér óljósar vonir um að sleppa við Grímseyjarför ef hann sæti kyrr í Önundarfirði til næsta vors.

Þann 6. mars 1849 var séra Andrési Hjaltasyni á Stað í Súgandafirði veittur Gufudalur[1103] og fór hann þangað um vorið. Varð þá prestlaust í Súgandafirði. Séra Sigurður Jónsson, prófastur á Rafnseyri, lét sig þá hafa að fela Sigurði Tómassyni að annast prestsþjónustu þar til bráðabirgða og getur sá síðarnefndi þess í bréfi því sem hann ritaði biskupi 30. desember á sama ári.[1104]

Í dagbók Sigurðar Tómassonar sést að hann fer úr Önundarfirði til Súgandafjarðar laugardaginn 2. júní og næsta dag messar hann í fyrsta skipti á Stað.[1105] Í Súgandafirði þjónaði séra Sigurður sem prestur í nær fjóra mánuði sumarið 1849, allt þar til séra Arngrímur Bjarnason kom vestur seint í september og tók við Staðarprestakalli.[1106] Í Súgandafirði var séra Sigurður þó laus við þessa sumarmánuði og jafnan með annan fótinn vestan Klofningsheiðar, helst á Þórustöðum.[1107]

Fardagaárið 1849-1850 varð síðasta ár séra Sigurðar Tómassonar í Önundarfirði og á því ári dvaldist hann stundum í Súgandafirði eins og hér var nefnt en þó aldrei mjög lengi í senn og aðeins í júní, júlí, ágúst og september. Í Önundarfirði hafði hann engan fastan samastað þetta ár en dvaldist á ýmsum bæjum.

Hér var áður sagt frá dvöl séra Sigurðar á Þórustöðum dagana 24.-29. apríl 1849 (sjá hér bls. 129) en þá náði hann að koma sér í mjúkinn hjá húskonu á góðum aldri sem þar átti heima. Á næstu mánuðum leitar hann aftur og aftur að Þórustöðum og virðist jafnan fá þar góðar móttökur. Á tímabilinu frá 24. apríl til 1. júní þetta vor gisti hinn brauðlausi prestur að minnsta kosti 20 sinnum hjá lagskonu sinni á Þórustöðum og á næstu mánuðum kom hann þar alltaf öðru hvoru til gistingar frá Súgandafirði.[1108]

Í dagbókum lætur séra Sigurður lengi vel ekkert uppi um nafn sinnar nýju lagskonu en gefur þó vísbendingar með ýmsum hætti eins og dæmin sem hér fylgja sýna:

 

 • Skrifaði ég R. dilect NB.
 • Fór ég frá Breiðadal og að Þórustöðum. Kom í Holt.

NB 1-2.

 • Var ég á Þórustöðum enn 1.G.
 • Fór ég að Flateyri og hingað aftur, dulce r.
 • Smíðaði í Hjarðardal. Varð hér um nóttina eftir vanda

                    6 : R.

4.6.              Fór að Þórustöðum [og er þar kyrr næstu daga – innsk.

                    K.Ó.]

9.6.              Fór tristes frá mea carissima amica að H. og V.

14.6.            Skrifaði ég meam carissimam Rosam.

29.6.            Skrifaði ég prófasti og meam dilect amic. florem

                    rosarum.[1109]

 

Ekki þarf mikla latínukunnáttu til að fá þá hugmynd við lestur þessara orða að konan heiti Rósa en nafn hennar nefnir prestur þó aldrei öðruvísi en á latínu fyrr en um miðjan næsta vetur en þá skrifar hann 22. desember: Rósu illt í gær og dag – og 9. janúar: Skrifaði Rósu og Abigael.[1110] Þar mætast þær báðar í einni setningu, eiginkonan á Gerðhömrum og hjákonan á Þórustöðum.

Fullu nafni hét hún Rósa Guðmundsdóttir eins og sjá má í manntölum og sóknarmannatölum frá þessum árum[1111] og var dóttir Guðmundar erki.djákna sem bjó á Vífilsmýrum og seinna á Vöðlum (sjá hér Vaðlar). Rósa fæddist á Vífilsmýrum árið 1812 og giftist Jóhannesi Andréssyni þegar hún var 25 ára.[1112] Þau bjuggu um skeið á Þórustöðum en þegar Jóhannes dó árið 1842 voru þau vinnuhjú í Holti.[1113] Einu til tveimur árum áður en Rósa missti manninn gaf séra Sigurður henni þá einkunn að hún væri skýr og skörp og vel örtuð.[1114] Þegar séra Sigurður fór að venja komur sínar að Þórustöðum vorið 1849 var Rósa 37 ára gömul. Hún var þá sjálfrar sín og kölluð húskona í sóknarmannatali.[1115]

Veturinn 1849-1850 gisti séra Sigurður oft hjá Rósu og getur þess í dagbókinni. – Fór ég alfarinn úr Súgandafirði að Þórustöðum, skrifar hann 15. október um haustið.[1116] Hjá Rósu dvaldist hann þó aldrei nema nokkra daga í senn, enda mun ekki hafa þótt við hæfi að hinn verðandi Grímseyjarprestur byggi hjá frillu sinni því hann taldist enn vera kvæntur maður. Dagbókarfærslurnar sýna þó vel hvernig sambandinu var háttað. Örfá dæmi frá því um jólaleytið sýna það skýrt en þá bókar prestur meðal annars þetta:

 

 • Fór ég út um Bæina. Varð á Þórustöðum 2.
 • Varð á Þórustöðum um nóttina. 2 g ge.
 • Varð á Þórustöðum 2 g er.
 • Varð á Þórustöðum 2.[1117]

 

Þennan síðasta vetur sinn í Önundarfirði dvaldist séra Sigurður ýmist í Holti, Tröð eða Hjarðardal þegar hann var ekki á Þórustöðum.[1118] Í fyrri hluta apríl var hann í Hjarðardal og þrettánda dag þess mánaðar barst honum bréf frá biskupi sem hafði að geyma tilkynningu um að hin fyrri köllun hans til Grímseyjar stæði í fullu gildi.[1119] Þann dag trúir séra Sigurður dagbókinni aðeins fyrir þessum fáu orðum: Bréf frá biskupi g.h.m.[1120] – sem útleggst guð hjálpi mér.

Þegar Sigurður Tómasson fékk þetta síðara bréf frá biskupi í hendur var hann 45 ára gamall. Síðast liðinn vetur hafði hann lifað á góðgjörðum annarra og átti hvergi öruggan samastað til frambúðar. Tilmælum Helga biskups um að hann gerðist prestur Grímseyinga gat hann neitað, án þess að verða dæmdur að lögum fyrir þá neitun, en hann átti fárra kosta völ, maður lítt hneigður fyrir búskap og líkamlegt erfiði. Um miðja 19. öld voru hálffimmtugir menn orðnir rosknir og ætla má að heilsa þessa kennimanns, sem svallað hafði vel og lengi í brennivíni, hafi verið farin að láta sig. Séra Sigurður gat varla vænst þess að honum yrði boðið annað brauð ef hann hafnaði boðinu um Grímsey og mun hann því aðeins hafa átt um tvo kosti að velja – að fara þangað eða reyna að lifa áfram á bónbjörgum.

Þegar biskupsbréfið barst honum í hendur brá hann á það ráð að fara vestur á Rafnseyri og hitta prófast.[1121] Hjá þessum fyrrverandi yfirboðara sínum, séra Sigurði Jónssyni á Rafnseyri, mun hinn hrösuli prestur hafa leitað sér styrks og ráða. Um miðjan maí seldi hann lítilfjörlegar eigur sínar á uppboði.[1122] Hann var þá í Hjarðardal en fór að Holti 25. maí og svaf þar sína síðustu nótt í Önundarfirði.[1123] Daginn eftir fylgdi séra Lárus M. Johnsen, sem þá hafði verið prestur í Holti í tvö ár, séra Sigurði norður yfir Breiðadalsheiði.[1124]

Þann 27. maí mættu þessir tveir prestar úr Önundarfirði á kjörþing sem haldið var á Ísafirði þann dag[1125] til að kjósa tvo fulltrúa fyrir Ísafjarðarsýslu á þjóðfundinn sem haldinn var í Reykjavík árið 1851 og frægur varð í sögunni. Kosningu hlutu Jón Sigurðsson forseti sem fékk 50 atkvæði og séra Lárus í Holti, samfylgdarmaður Sigurðar Tómassonar, sem fékk 27 atkvæði.[1126] Kjósendur sem greiddu atkvæði voru aðeins 51.[1127] Í kjörbókinni sést að séra Sigurður var einn þeirra sem greiddu atkvæði og kaus hann þá Jón forseta og Lárus í Holti.[1128] Aftur á móti kaus séra Lárus Jón forseta og Ásgeir skipherra Ásgeirsson á Ísafirði.

Nóttina eftir kjörfundinn fylgdi séra Lárus Grímseyjarprestinum inn í Vigur og síðan alla leið í Reykjarfjörð í Vatnsfjarðarsveit.[1129] Þar skildi leiðir 30. maí en séra Sigurður lagði á Steingrímsfjarðarheiði 6. júní með stefnu á Grímsey.[1130] Tíu dögum síðar náði hann að Steinsstöðum í Öxnadal,[1131] til Rannveigar sem þar bjó, systur Jónasar skálds Hallgrímssonar. Í Eyjafirði varð séra Sigurður að bíða þess fram í ágústmánuð að Grímseyingar kæmu til Akureyrar en þann 12. ágúst komst hann loks með þeim til brauðs síns í eyjunni norður við heimskautsbaug.[1132]

Sigurði Tómassyni varð jafnan gott til kvenna og meðan hann beið ferðar út í Grímsey náði hann sér í eina, 38 ára hreppstjóradóttur úr Borgarfirði sem hét Valgerður Einarsdóttir. Fór hún með honum til Grímseyjar og gerðist þar bústýra hans.[1133] Í bréfi til Eggerts Briem, sem þá var orðinn sýslumaður í Eyjafjarðarsýslu, rituðu í janúar 1851, lætur Grímseyjarpresturinn að vísu að því liggja að hann gæti hugsað sér að fá Abigael konu sína norður til sinna nýju heimkynna[1134] en í raun mun hann hafa vitað fullvel að ekki var von á henni. Þó skal tekið fram að í bréfi rituðu í janúar 1854 kemst Abigael svo að orði að hún sé þá loksins fast ákvörðuð í … að koma aldrei undir stjórn eða umsjón Sigurðar.[1135] Séra Sigurður þjónaði sem prestur í Grímsey í 17 ár, frá 1850 til 1867, og bjó Valgerður með honum allan þann tíma.[1136] Á fyrstu árum þeirra Valgerðar í Grímsey eignaðist hún tvö börn[1137] sem ætla má að séra Sigurður hafi verið faðir að en aðrir Grímseyingar gengust þó við faðerninu. Á þeim árum hafði ekki enn verið gengið frá formlegum slitum á hjónabandi séra Sigurðar og Abigaelar Þórðardóttur.[1138] Með hliðsjón af því má telja fullvíst að séra Sigurður hefði tapað hempunni ef hann hefði játað á sig faðernið og viðurkennt þar með hórdómsbrot. Bæði þessi börn sem fæddust í Grímsey dóu ung.[1139]

Sumarið 1860 mun séra Sigurður hafa verið orðinn laus úr hjónabandinu og vildi þá kvænast Valgerði sem verið hafði bústýra hans í tíu ár. Fóru þau bæði í land úr Grímsey til að fá sig pússuð saman en þá kom á daginn að enda þótt prestur hefði fengið skilnað frá fyrri konu sinni skorti hann leyfi til að giftast í annað sinn[1140] en slíkt leyfi munu þjónandi prestar, sem lent höfðu í hjónaskilnaði, hafa þurft að fá ef þeir vildu kvænast í annað sinn, að minnsta kost ef brúðurin hafði áður eignast börn í lausaleik. Þegar Sigurður prestur kom í land með konuefnið sumarið 1860 hefur hann að líkindum ekki gert sér grein fyrir þessari hindrun en er hún varð á vegi hans brá hann á það ráð að stíga yfir hana með því að segja af sér prestsembættinu. Lausnarbeiðni hans er dagsett í Glæsibæ við Eyjafjörð 7. ágúst 1860 og þar voru þau Valgerður gefin saman í hjónaband þann sama dag af séra Sveinbirni Hallgrímssyni.[1141]

Þrátt fyrir lausnarbeiðnina þjónaði séra Sigurður prestakallinu í Grímsey eins og áður allt til dauðadags en var þessi síðustu ár jafnan settur prestur til eins árs í senn.[1142]

Ekki er ætlunin að greina hér frá lífi og störfum séra Sigurðar á þeim sautján árum sem hann átti heima í Grímsey en til eru umsagnir um störf hans á því skeiði sem forvitnilegt er að skoða.

Í bréfi prófasts til biskups frá árinu 1852 eða 1853 gefur hann séra Sigurði góðan vitnisburð sem kennimanni og segir hann leitast við af fremsta megni að uppfræða ungdóminn.[1143] Með þessu bréfi prófasts fylgdi yfirlýsing sóknarbænda í Grímsey og í henni lýsa þeir sig ánægða með prestverk Sigurðar og bera honum gott orð fyrir reglusemi og ráðvendni.[1144]

Þessar umsagnir prófasts og sóknarbænda benda til þess að Sigurður Tómasson hafi tekið sig á þegar hann kom norður og náð að hafa hóf á sér. Bindindismaður gerðist hann þó ekki og hefur máske fengið sér ærlega í staupinu þá sjaldan hann fór í kaupstað til Akureyrar. Þar varð hann á vegi Konrads Maurer, prófessors frá München í Þýskalandi, sumarið 1858 og segir Maurer að Grímseyjarpresturinn hafi þá verið ansi vel við skál og varla staðið á fótunum.[1145]

Í skýrslu sem prófasturinn, séra Daníel Halldórsson á Hrafnagili í Eyjafirði, sendi frá sér árið 1866 kemst hann svo að orði um séra Sigurð:

 

Sigurður Tómasson í Grímsey sagði lausu brauði sínu sumarið 1860. Að honum hefur ekki verið fundið sem predikara en við ungdómsuppfræðingu hefur hann ekki getað ráðið svo að þurft hefur að taka ungmenni úr eyjunni til fræðslu. Að því leyti sem hann hefur sjálfur samið embættisskýrslur hafa þær verið allvel úr garði gerðar en koma oftast nær mjög seint. Hann er hversdagsgæfur maður en hneigður til drykkju í meira lagi og þess vegna í meðallagi þokkaður. Kirkjan er fallið hús og á því að endurbyggjast á næsta vori. Staðurinn er hrörlegur mjög og ekki vel setinn því að prestur þessi er ekki búmaður heldur daufur og frábitinn öllum framkvæmdum.[1146]

 

Séra Sigurður Tómasson andaðist úr brjóstveiki norður í Grímsey 1. febrúar 1867 og var jarðaður 11. júní[1147] svo lengi hefur þurft að bíða eftir presti úr landi til að syngja yfir moldum hans. Þegar rösklega tveir áratugir voru liðnir frá andláti séra Sigurðar í Grímsey settist fatlaður bókbindari í Svarfaðardal við skriftir og ritaði lýsingu á presti þessum. Vera má að hann hafi sjálfur séð Sigurð prest en hitt er þó líklegra að lýsingin sé byggð á orðum einhverra sem kunnugir voru í Grímsey þegar hinn gamli kunningi Önfirðinga sat þar í embætti. Bókbindarinn í Svarfaðardal hét Þorsteinn Þorkelsson og lýsir hann séra Sigurði Tómassyni svo:

 

Séra Sigurður var í hærra lagi meðalmaður á vöxt, álitlegur sýnum á fyrri árum og gildur til karlmennsku. Hann var hið mesta prúðmenni í framgöngu, góðgjarn og ljúflyndur og þótti kennimaður góður, guðhræddur og drjúgur að gáfum, sér í lagi auðkenndi það gáfur hans að hann var ekki laus við að vera forspár.[1148]

 

Með þessum orðum ljúkum við hér langri frásögn af Sigurði presti Tómassyni sem áður var í Holti.

Nýi presturinn, sem kom að Holti sumarið 1848, hét Lárus Mikael Johnsen. Hann var þá innan við þrítugt, fæddur í Reykjavík haustið 1819.[1149] Foreldrar séra Lárusar voru hjónin Sigmundur Jónsson og Birgitta Halldórsdóttir en Sigmundur faðir hans, sem var snikkari, dó þegar Lárus var 6 eða 7 ára.[1150] Þegar Lárus var á ellefta ári giftist móðir hans séra Þorsteini Hjálmarsen í Hítardal[1151] og fluttist drengurinn með henni þangað.[1152] Í Hítardal ólst Lárus upp og lærði þar undir skóla hjá stjúpa sínum.[1153]

Frá 1838 til 1844 var Lárus M. Johnsen í skólanum á Bessastöðum og útskrifaðist þaðan vorið 1844.[1154] Næsta vetur var hann barnakennari í Viðey en síðan skrifari stiftamtmanns í Reykjavík.[1155] Á aðfangadag jóla árið 1847 fékk hann veitingu fyrir Holtsprestakalli og var vígður 18. júní 1848. Fáum dögum síðar tók hann sér far með frönsku skipi úr Reykjavík vestur í Önundarfjörð[1156] og kom að Holti þann 5. júlí.[1157] Þegar séra Lárus kom vestur var hann ókvæntur og mun hafa dvalist fyrsta veturinn á Hvilft hjá Magnúsi bónda Einarssyni og konu hans Ragnheiði Finnsdóttur.[1158] Vorið 1849 gekk hinn tæplega þrítugi prestur að eiga Katrínu Þorvaldsdóttur frá Hrappsey sem þá var tvítug að aldri.[1159] Foreldrar hennar voru Þorvaldur Sívertsen, umboðsmaður í Hrappsey, og kona hans Ragnhildur, dóttir Skúla Magnússen, sýslumanns á Skarði.[1160]

Séra Lárus M. Johnsen var prestur í Holti í sjö ár, frá 1848 til 1855, og prófastur frá 1851.[1161] Sighvatur Borgfirðingur segir að þar hafi hann lifað í blóma við allsnægtir en Katrín kona hans hafi ekki unað sér vel í Önundarfirði og viljað komast aftur til átthaga sinna við Breiðafjörð.[1162] Um hina ungu eiginkonu Lárusar kemst Sighvatur svo að orði að hún hafi verið manni sínum fráhverf og lítt til yndis en sjálfur hafi séra Lárus verið hugljúfi allra … snotur að ásýnd, góðmenni hið mesta og siðprúður.[1163]

Þegar Lárus prestur kom að Holti sumarið 1848 voru þrjú ár liðin frá því hið endurreista Alþingi kom saman í fyrsta sinn og í júnímánuði árið 1849 komu 80 Vestfirðingar saman til fundar á Kollabúðaeyrum við Þorskafjörð til að ræða þar um frelsismál þjóðarinnar og landsins gagn og nauðsynjar.[1164] Á næsta ári var aftur efnt til fjölmenns þjóðmálafundar að Kollabúðum sem sóttur var víðs vegar að af Vestfjörðum[1165] og frá 1849 til 1868 voru slíkir fundir haldnir árlega á hinum forna þingstað við Þorskafjörð.[1166]

Á þeim árum sem Lárus Mikael var prestur í Holti hafði hann vakandi áhuga á þjóðmálum og mætti á fyrsta Kollabúðafundinn sumarið 1849.[1167] Næstu árin sótti hann jafnan þessa fundi og lét þar mjög til sín taka. Þegar fyrsti Kollabúðafundurinn var haldinn var Matthías Jochumsson drengur á 14. ári og átti heima í Skógum, næsta bæ við Kollabúðir. Matthías minntist löngu síðar þessara merkilegu funda eins og sjá má í kveðskap hans en þar er þessi vísa:

 

Séra Guðmund man ég minn

móðurbróður, Jón og Finn,

Mikael prófast málsnjallan

og Magnús sterka sýslumann.

 

Óhætt mun að fullyrða að Mikael prófastur hinn málsnjalli sem þarna er nefndur sé Lárus Mikael Johnsen, prestur og prófastur í Holti.

Þegar Lárus fluttist í Önundarfjörð var Magnús Einarsson, bóndi á Hvilft, helsti trúnaðarmaður Jóns Sigurðssonar forseta í vesturhluta Ísafjarðarsýslu og jafnframt varamaður hans á Alþingi. Í bréfi sem Magnús ritaði Jóni 30. júlí 1849 minnist hann á prestinn í Holti og kveðst vera ánægður með hann. Í nefndu bréfi gefur Magnús alþingismanni Ísfirðinga ýms góð ráð og segir meðal annars:

 

Séra Lárusi verður þú að láta í ljósi gleði þína yfir embættisfærslu hans og öllu því viðvíkjandi og máttu bera mig fyrir, en hvetja hann jafnframt í þjóðmálefni og samtök. Hann hefur vilja til þess en hann er svo hlífinn við okkur Önfirðinga og hefur hann mikið til síns máls.[1168]

 

Báðir höfðu þeir Magnús á Hvilft og séra Lárus í Holti farið á fyrsta Kollabúðafundinn sem haldinn var fáum vikum áður en bréf þetta var skrifað.

Á sínu fyrsta ári í Önundarfirði keypti séra Lárus einn fjórða part í skútunni Boga og gerðist þar með sameignarmaður Magnúsar á Hvilft (sjá hér Mosvallahreppur, inngangskafli) sem þá hafði gert út þilskip í heilan áratug.

Á Kollabúðum var árið 1850 rætt um nauðsyn þess að koma á fót sjómannaskóla, hinum fyrsta á Íslandi, og ákveðið að efna til samskota í því skyni.[1169] Lúðvík Kristjánsson rithöfundur sem manna mest hefur rannsakað sögu Kollabúðafundanna telur vafalítið að það hafi verið séra Lárus í Holti sem samdi bæði greinargerð um málið og sérstakt ávarp sem birtist í Þjóðólfi 19. apríl 1852.[1170] Um sjómannaskólamálið gat presturinn í Holti fjallað sem útgerðarmaður. Haustið 1852 tók sjómannaskólinn til starfa á Ísafirði og sá Torfi Halldórsson skipstjóri um kennsluna en séra Lárus var í skólanefndinni.[1171]

Vorið 1850 var séra Lárus kosinn sem annar tveggja fulltrúa Ísfirðinga á hinn fyrirhugaða þjóðfund sem haldinn var sumarið 1851. Við þær kosningar fékk Jón Sigurðsson forseti 50 atkvæði en Lárus 27.[1172] Á þjóðfundinum var presturinn í Holti í hópi eindregnustu stuðningsmanna Jóns Sigurðssonar og tók þátt í hinum sögufrægu mótmælum 9. ágúst 1851 þegar fulltrúi konungs sleit fundinum í skyndi áður en gengið hafði verið til almennrar umræðu um stjórnskipunarmálið og stöðu Íslands í danska ríkinu.

Á þjóðfundinum tók séra Lárus í Holti alloft til máls. Í umræðum um verslunarmálin lýsti hann eindregnum stuðningi við kröfuna um að Íslendingar fengju frelsi til að versla við fleiri en þegna Danakonungs en mælti hins vegar gegn því að erlendir menn fengju að veiða hér fisk og verka hann í íslenskum höfnum. Um þessi efni sagði séra Lárus meðal annars:

 

Ég gat þess við fyrstu umræðu að það mundi ekki vera hentugt að leyfa fiskiveiðar hér við land en aftur gæti það virst ósanngjarnt ef innlendir kaupmenn tækju utanríkisskip á leigu, að þeir skyldu þá ekki einnig mega hafa þau til fiskiveiða eins og sín eigin skip heldur yrðu þau að liggja þeim arðlaus inni á höfnum. – En ef þetta væri leyft, þá held ég að hægt væri að fara í kringum slíkt leyfi því útlendir menn gætu samið um það við kaupmanninn að færa honum vörur í nokkrum lestarrúmum með léttu verði í þvi skyni að geta aftur fiskað hér í skjóli hans. Þeir myndu þá fiska fyrir eigin reikning, leggja fisk sinn á land og þurrka hann og yrði það þá skaðlegt, ekki einungis fyrir landsmenn heldur og einnig fyrir kaupmenn.[1173]

 

Veturinn eftir þjóðfundinn skrifaði séra Lárus Jóni forseta bréf og minntist samveru þeirra á fundinum í Reykjavík. Í því bréfi kemst hann svo að orði:

 

Hryggur í huga sest ég nú niður að hripa yður línur þessar. Ég þakka yður kærlega yðar ástúðlegu atlot í sumar þá saman vorum og bið guð að blessa yður nýbyrjað ár og alla yðar góðu viðleitni. Nú eru ekki fallegar fréttir þær er hingað berast um það hvaða áheyrslu að mál vor fá þar ytra. Vesalings Ísland! Skal guði þá ekki þóknast einhvern tíma að hefja þig?

Þegar ég kom vestur í sumar kunnu menn hér illa málalokum þeim er urðu á fundinum. Þó urðu ekki nein brögð að því þar menn höfðu þá annað að hugsa, svo sem um heyskap sinn og þess háttar, enda eru sumir hér svo að þá gilti einu þó að þetta yrði hið síðasta þing.[1174]

 

Í þessu sama bréfi fer séra Lárus hörðum orðum um Pál Melsteð amtmann, sem verið hafði forseti þjóðfundarins, og deilir á Eggert Briem sýslumann sem hætti við að fara til Kaupmannahafnar, enda þótt þjóðfundarmenn hefðu kosið hann til þeirrar ferðar ásamt Jóni forseta og Jóni Guðmundssyni.[1175] Í Höfn áttu þessir þrír sendimenn að gera konungi og dönsku stjórninni grein fyrir kröfum meginþorra þjóðfundarmanna varðandi stjórnskipan og stöðu Íslands.

Um Eggert Briem og Pál Melsteð amtmann segir presturinn í Holti þetta í bréfi sínu til Jóns Sigurðssonar:

 

Það hélt ég ekki að Briem mundi svo bregðast okkur eins og hann gerði úr því hann var búinn að lofa ferðinni. Amtmanni okkar þykir Briem hafa breytt hyggilega. Hann þykist kenna í brjósti um yður en ekki nafna yðar [þ.e. Jón Guðmundsson – innsk. K.Ó.], sagði hann þegar hann las bréfið er bannaði honum að constituera Jón að hann hefði ekki þurft þess því hann mundi ekki hafa sett hann til að gegna hjá sér. Hann huggar sig nú við krossinn er hann mun fengið hafa fyrir frammistöði sína.[1176]

 

Til skýringar skal þess getið að Jón Guðmundsson var settur sýslumaður í Skaftafellssýslu þegar þjóðfundurinn var haldinn en að loknum þjóðfundi bönnuðu dönsk stjórnvöld amtmanni að láta hann gegna opinberu embætti þar eð Jón hafði farið til Kaupmannahafnar sem erindreki þjóðfundarmanna þrátt fyrir bann stiftamtmanns.

Hér var áður greint frá forgöngu séra Lárusar M. Johnsen við undirbúning að stofnun sjómannaskólans sem tók til starfa á Ísafirði haustið 1852. Á árunum 1851 og 1852 var einnig mikið rætt um stofnun bænda- eða alþýðuskóla og á Kollabúðafundi árið 1852 var kosin níu manna nefnd til að undirbúa stofnun slíks skóla.[1177] Einn nefndarmanna var séra Lárus í Holti. Hann greinir Jóni forseta frá þessum ráðgerðum í bréfi rituðu 20. ágúst 1852 og segir þar:

 

Þá er nú að fara að segja yður frá þjóðlífi okkar Ísfirðinga og er það fremur dauft. Að vísu fóru nokkrir héðan á Kollabúðafundinn í vor og var þar helsta umtalsefnið að koma bænda- eða alþýðuskóla á í öllum fjórðungum. Í máli þessu var kosin 7 manna nefnd til að stinga upp á fyrirkomulagi skólans og gera áætlunarreikning um kostnaðinn og varð hann 35.000 ríkisdalir og er það ærna fé. Svo voru og tilnefndir nokkrir menn í sýslu hverri í Vesturamtinu til að safna gjöfum til skólans en það er hætt við að lengi bíði, þar til að þessi höfuðstóll fæst. Það eru og margir hér í sýslu sem að vildu leggja nokkuð til ef að skóli kæmist á fyrir þessa sýslu eina en þeir eru miklu tregari þegar gera er um skóla fyrir allt amtið.[1178]

 

Öll þessi stóru áform frá árunum upp úr 1850 um stofnun bændaskóla eða alþýðuskóla í hverjum landsfjórðungi runnu að mestu út í sandinn, enda komst nefndin sem kosin var á Kollabúðafundi sumarið 1852 að þeirri niðurstöðu að til þess að koma einum slíkum skóla á fót þyrfti 35.500 ríkisdali.[1179] Var þá við það miðað að vextir af stofnfénu nægðu til að greiða tveimur kennurum laun, öðrum 600 ríkisdali á ári en hinum 500 ríkisdali.[1180] Nærri lætur að þessir 35.500 ríkisdalir hafi árið 1852 verið álíka verðmæti og 1400 kýr[1181] svo engan þarf að undra þó að illa gengi að safna slíkri fjárhæð. Danska stjórnin neitaði líka að veita fé til stofnunar búnaðarskóla á Íslandi en í Flatey á Breiðafirði hófst engu að siður kennsla í búnaðarfræðum haustið 1857 með einum kennara og fimm nemendum.[1182]

Haustið 1852 var kosið til Alþingis í annað sinn og í bréfi sínu til Jóns forseta frá 20. ágúst á því ári kveðst presturinn í Holti munu stuðla að því að nokkrir hér að vestan sæki kjörfundinn á Ísafirði en kveðst óttast að hann verði fámennur.[1183] Um kosningahorfurnar kemst hann svo að orði í sama bréfi: Ég hefi heyrt marga láta í ljósi að þeir vildu alls engan kjósa en það er víst að svo framarlega sem nokkur verður kosinn hér – og það verður, þá verðið þér fyrir því.[1184]

Kjörfundurinn var haldinn á Ísafirði 30. september 1852 en í bréfi sem séra Lárus skrifar Jóni Sigurðssyni í janúarmánuði árið 1853 lætur hann þess getið að þar hafi aðeins mætt 9 kjósendur.[1185] Þessir fáu menn kusu allir Jón Sigurðsson[1186] en stuðningurinn við hann mátti samt varla minni vera fyrst meginþorri manna kaus að sitja heima. Vegna lítillar þátttöku og meintra ágalla við auglýsingu kjördagsins var boðað til nýs kjörfundar í Ísafjarðarsýslu þann 10. janúar 1853.[1187] Þá mættu átta og kusu allir Jón.[1188]

Í bréfi sínu frá 14. janúar 1853 greinir presturinn í Holti frá því að flestir ungir menn úr Ísafjarðarsýslu fari nú á skúturnar og gert sé ráð fyrir að yfir 20 þilskip verði gerð út þaðan á komandi sumri.[1189] Sjálfur átti Lárus prestur hlut í þilskipi en svo virðist sem hin mikla fjölgun slíkra skipa á fáum árum hafi valdið honum nokkrum áhyggjum því í nýnefndu bréfi segir hann líta út fyrir að sumar jarðir hér verði ekki yrktar vegna fólksfæðar.[1190]

Hér hefur verið getið þriggja bréfa sem séra Lárus M. Johnsen skrifaði Jóni Sigurðssyni forseta og eru þau öll rituð á árunum 1852 og 1853. Ekki er kunnugt um að þessi þjóðfundarmaður Ísfirðinga hafi skrifað Jóni önnur bréf og svo virðist sem hann hafi brátt neyðst til að lækka flugið. Haustið 1854 voru séra Lárusi veitt Skarðsþing í Dalasýslu og vorið 1855 fór hann frá Holti og settist að í Dagverðarnesi þar í Skarðsþingum. Gamlir Önfirðingar, sem uppi voru á fyrstu áratugum tuttugustu aldar, sögðu svo frá að séra Lárus hefði farið sárnauðugur frá Holti en Katrín Þorvaldsdóttir kona hans hefði knúið hann til þessarar ráðabreytni með hótun um að fara ein og slíta hjónabandinu ef hann sæti kyrr.[1191] Ætla má að einhver fótur sé fyrir þessari sögu því Skarðsþingin voru mun lakara brauð en Holt.

Þau séra Lárus og Katrín kona hans voru barnlaus og að sögn Sighvats Borgfirðings undi Katrín því illa að vera bundin séra Lárusi, hvað sem valdið hefur. Í Dagverðarnesi voru þau búsett í þrjú og hálft ár en prestskonan var þá löngum hjá föður sínum úti í Hrappsey ef marka má orð Sighvats.[1192]

Um séra Lárus kemst fræðimaðurinn á Höfða svo að orði að hann hafi að síðustu orðið þunglyndur og sinnisveikur og rekur ástæður þess til erfiðleika í hjónabandinu.[1193]

Þann 12. janúar 1859 hvarf séra Lárus frá heimili sínu í Dagverðarnesi og kom ekki aftur.[1194] Hans var lengi leitað án árangurs en næsta vor fannst lík hans á Dagverðarnesfjörum.[1195] Katrín, ekkja séra Lárusar, giftist nokkrum árum síðar Jóni Árnasyni bókaverði, hinum kunna þjóðsagnasafnara, og segir Sighvatur að þeirra hjónaband hafi verið ástúðlegt.[1196]

Konu þessari frá Hrappsey, sem á sínum yngri árum var prestsfrú í Holti í sex ár en undi sér þar lítt, lýsir Sighvatur svo: Hún var miklum og göfugum kvenkostum prýdd, hógvær og hjartaprúð, stillt og glaðvær, trygg og vinföst, trúrækin og skyldurækin[1197] – og er illt til þess að vita að séra Lárus Mikael skyldi ekki geta komið að sér svo ágætri konu.

Þegar séra Lárus M. Johnsen fór frá Holti vorið 1855 tók við prestakallinu séra Stefán P. Stephensen og sat hann staðinn í Holti í nær þrjá áratugi, 1855-1884. Séra Stefán fæddist í Eystri-Ásum í Skaftártungu 24. janúar árið 1829. Foreldrar hans voru prestshjónin séra Pétur Stephensen, sonur Stefáns Stephensen, amtmanns á Hvítárvöllum, og kona hans, Gyðríður Þorvaldsdóttir, en hún var dóttir séra Þorvaldar Böðvarssonar sem prestur var í Holti frá 1811 til 1822 og hér var áður frá sagt. Þau séra Pétur og Gyðríður kona hans fluttust frá Ásum árið 1844 að Ólafsvöllum á Skeiðum og var Pétur lengi prestur Skeiðamanna.[1198]

Séra Stefán mun hafa alist upp hjá foreldrum sínum að mestu leyti en í einni heimild er þess getið að hann hafi á uppvaxtarárum átt víst athvarf hjá föðurbróður sínum, séra Hannesi Stephensen á Ytra-Hólmi,[1199] sem kunnastur er fyrir framgöngu sína á þjóðfundinum 1851 við hlið Jóns Sigurðssonar forseta.

Á unglingsárum var Stefán í tvo vetur við nám hjá frænda sínum, séra Ólafi Pálssyni sem þá var prestur á Reynivöllum í Kjós en síðar dómkirkjuprestur í Reykjavík um skeið.[1200] Haustið 1846 settist þessi ungi Stephensen síðan í lærða skólann í Reykjavík. Sagnir herma að hann hafi þó alls ekki haft hug á skólagöngu en verið þvingaður inn á þá braut af foreldrum sínum.[1201] Á sínu síðasta ári í lærða skólanum varð Stefán þátttakandi í uppreisn skólapilta gegn Sveinbirni Egilssyni rektor, −  pereatinu sem frægt varð.[1202] Hið beina tilefni uppreisnarinnar var að rektor reyndi að knýja alla nemendur skólans til að ganga í bindindisfélag, líka þá sem vildu alls ekki vera í slíku félagi.[1203] Einn þeirra var Stefán P. Stephensen sem í skýrslu rektors um þessa atburði er nefndur Stefán Pétursson.[1204]

Helgi Thordersen biskup, sem kvæntur var föðursystur Stefáns, lagði sérstakt kapp á að fá hann til að láta að vilja rektors í þessum efnum og ganga í félagið.[1205] Pilturinn lét að lokum undan síga og tilkynnti rektor að hann skyldi ganga í bindindisfélagið en tók fram að það gerði hann þó ekki af fúsum og frjálsum vilja heldur nauðugur.[1206] Þegar Stefán hvikaði með þessum hætti stóðu sjö piltar enn fastir á sinni fyrri neitun og vildu með engu móti ganga í félagið. Í þeim hópi voru Steingrímur Thorsteinsson skáld og Arnljótur Ólafsson sem lærði síðar hagfræði en varð prestur og sat lengi á Alþingi.[1207]

Þann 14. janúar 1850 komst deilan um skylduaðild að bindindisfélaginu á nýtt stig. Að kvöldi þess dags stefndi rektor piltunum sjö sem ekki vildu ganga í félagið heim til sín og einnig Stefáni P. Stephensen sem nauðugur hafði látið undan fyrir orð biskups. Á þessum fundi reyndi Sveinbjörn að tala um fyrir sjömenningunum en þær tilraunir hans báru engan árangur.[1208] Í skýrslu sinni um gang mál lýsir rektor óskammfeilni skólasveina og nefnir sérstaklega Stefán Pétursson Stephensen er hann segir hafa lýst því yfir, þegar piltar gengu til dyra frá viðræðufundinum 14. janúar, að hann hygðist taka upp sinn fyrri drykkjuskap.[1209]

Svo fór að nær allir nemendur skólans sögðu sig úr bindindisfélaginu og andmæltu þannig tilraunum skólayfirvalda til að þvinga menn inn í félagið.

Að morgni 17. janúar flutti Sveinbjörn rektor reiðilestur yfir piltum. Hann tilkynnti þá að öll fundarhöld á þeirra vegum væru stranglega bönnuð og hótaði hverjum þeim hörðu sem í smáu eða stóru gerðist brotlegur við agareglur skólans.[1210]

Hótanir rektors þennan morgun virkuðu sem olía á eld og leiddu til algerrar uppreisnar skólasveina. Einn úr þeirra hópi, Sigmundur Pálsson á Ljótsstöðum, greindi síðar frá atburðum dagsins og sagði þá meðal annars:

 

Einmitt við þessi orð [rektors] fór blóðið í drengjum í fullkominn hita. Við stóðum allir upp, sögðum nei, rukum út, nema fáeinar eftirlegukindur, og yfir á Skildinganesmela. Þar tókum við ráð okkar saman, gengum undir jugum (þ.e. sórust í fóstbræðralag) fylktum á þremur og gengum eftir takt beina leið að húsi rektors og inn í garðinn. Þá lauk hann hurðinni lítið eitt upp svo sá í andlit honum. Dundu þá yfir í hvellum róm: Rektor Sveinbjörn Egilsson pereat! [þ.e. burt með hann – innsk. K.Ó.] Hann lét fljótt aftur en við gengum í sömu fylkingu að hverju einasta húsi í bænum og kölluðum jafnan hið sama, síðan upp í skóla og entum hrópið fyrir utan skóladyrnar.[1211]

 

Afleiðing þessarar uppreisnar skólapilta í janúar 1850 varð sú að kennsla féll niður í mörgum greinum það sem eftir var vetrar og með ráðherrabréfi frá 18. maí 1850 var allt skólaárið dæmt ógilt.[1212] Stefán P. Stephensen var einn þeirra sem áttu að taka stúdentspróf vorið 1850 en vegna pereatsins náði hann ekki að útskrifast fyrr en ári síðar. Hinn tilvonandi Holtsprestur var reyndar einn af forsprökkum uppreisnarinnar og fyrir framgöngu sína í henni var hann rekinn úr skóla sumarið 1850 ásamt þremur öðrum piltum en áður hafði Arnljóti Ólafssyni verið vikið úr skólanum með ráðherrabréfi.[1213]

Sveinbjörn Egilsson rektor sigldi til Kaupmannahafnar í marsmánuði árið 1850 og tók ekki á ný við rektorsstarfinu fyrr en í júnílok eða júlíbyrjun á því ári.[1214] Með bréfi er Sveinbjörn ritaði stiftsyfirvöldum 15. júlí 1850 lagði hann til að þeim fjórum piltum sem hann taldi hættulegasta yrði vísað úr skóla og var Stefán P. Stephensen einn þeirra.[1215] Á þessa tillögu rektors var fallist en í nefndu bréfi kemst hann m.a. svo að orði:

 

Þar mér er og hefir verið annast um að stuðla til þess að komast mætti sem best skipulag á skólann eftirleiðis, þá leyfi ég mér undirgefnast að frambera fyrir hina hæstvirtu yfirstjórn þá uppástungu og bón að skólinn megi losast við þá skólapilta sem hættulegir eru fyrir góða siðsemi og við þá sem ekki vinna sjálfum sér það gagn í skólanum sem tilætlast er.[1216]

 

Um Stefán og hina piltana þrjá segir rektor í sama bréfi að þeir séu alkunnir að útsláttarsemi, óreglu og jafnaðarlegu hirðuleysi við bókiðnir.[1217]

Vegna brottrekstursins var Stefáni meinað að sitja í skólanum veturinn 1850-1851 en stúdentspróf fékk hann að taka utanskóla vorið 1851.[1218] Næsta haust sigldi hann til Kaupmannahafnar og dvaldist þar einn vetur en lítið mun hafa orðið úr námi.[1219]

Haustið 1852 settist þessi útsláttarsami pereatsmaður í prestaskólann í Reykjavík og þaðan lauk hann prófi sumarið 1854.[1220] Frá prestaskólanum útskrifaðist Stefán með II. einkunn lakari[1221] sem reyndar er varla í frásögur færandi því á árunum 1850-1854 mun aðeins helmingur kandidata frá prestaskólanum hafa náð I. einkunn eða II. einkunn betri.[1222]

Hér var þess áður getið að Stefán P. Stephensen var bróðursonur Ragnheiðar, eiginkonu Helga biskups Thordersen, og í þeirra húsum hefur hann að líkindum kynnst konuefni sínu, Guðrúnu Melsteð, sem var dóttir Páls Melsteð amtmanns og fyrri konu hans, Önnu Sigríðar Stefánsdóttur. Guðrún mun hafa alist upp hjá foreldrum sínum, fyrst á Ketilsstöðum á Völlum eystra og síðan í Hjálmholti í Árnessýslu[1223] en 23ja ára gömul kom hún á heimili Helga biskups og Ragnheiðar konu hans í Laugarnesi og átti þar síðan heima allt þar til hún giftist Stefáni sjö árum síðar.[1224]

Guðrún Melsteð fluttist til biskupshjónanna árið 1848[1225] en 1. september á því ári gekk bróðir hennar, Sigurður Melsteð prestaskólakennari, að eiga Ástríði sem var einkadóttir þessara sömu hjóna.[1226] Í sóknarmannatölum frá árum Guðrúnar í Laugarnesi er hún ýmist nefnd húsjómfrú, fröken eða amtmannsdóttir[1227] sem sýnir vel að hún var af öðru og hærra standi en vinnukonurnar.

Enginn veit nú hvort amtmannsdóttirin í Laugarnesi var farin að líta Stefán Pétursson Stephensen hýru auga um það leyti sem hann lenti í pereatinu en vel gæti það hafa verið því bæði voru þá fullvaxta, hann 21 árs og hún þremur og hálfu ári eldri. Veturinn eftir pereatið las Stefán utanskóla undir stúdentspróf eins og hér var áður getið og bjó þá í Laugarnesi hjá Helga biskupi og Ragnheiði frænku sinni, undir sama þaki og Guðrún Melsteð.[1228] Að loknu kandidatsprófi frá prestaskólanum sumarið 1854 settist Stefán aftur að hjá biskupshjónunum í Laugarnesi og þar voru þau Guðrún bæði til heimilis veturinn 1854-1855, þá ógiftar persónur[1229] en líklega harðtrúlofuð.

Á síðasta degi janúarmánaðar þennan vetur veitti Helgi biskup hinum unga prestaskólakandidat sem hjá honum dvaldist Holt í Önundarfirði[1230] en það prestakall var þá enn talið vera eitt besta brauð landsins. Ætla má að hin nánu tengsl Stefáns við biskup hafi ráðið miklu um þessa veitingu því námsárangur þessa verðandi prests hafði verið í slakara lagi og á engri reynslu að byggja við mat á hæfni hans til embættisstarfa á vegum kirkjunnar.

Þegar Stefán P. Stephensen fékk veitingu fyrir Holtsprestakalli mun Guðrún Melsteð hafa verið orðin þunguð af hans völdum því fyrsta barn þeirra fæddist tíunda dag októbermánaðar árið 1855.[1231] Þau Guðrún og Stefán voru þó ekki pússuð saman fyrr en 19. maí um vorið þegar hún var komin fjóra mánuði á leið og þremur vikum síðar var hann vígður til prests.[1232] Að vígslu lokinni fóru ungu hjónin að búa sig undir hina löngu ferð frá Laugarnesi vestur í Önundarfjörð þar sem hinn nývígði prestur tók við stað og kirkju áður en sumri tók að halla.

Í Holti gerðist séra Stefán brátt mikill umsvifamaður í búskap en að ýmsra dómi lét hann sig hins vegar minna varða um kirkjusókn og kristnihald í prestakallinu.

Fátt liggur eftir séra Stefán í rituðu máli en þó hafa varðveist tvö bréf sem hann ritaði skólabróður sínum, Sigurði Lárentíusi Jónassyni 1854 og 1856.[1233]Ég er og verð ómerkileg persóna, segir þessi verðandi prestur í fyrra bréfinu sem er skrifað daginn áður en hann gekk upp til lokaprófs í prestaskólanum.[1234] Hitt bréfið er aftur á móti skrifað fáum mánuðum eftir komu ungu prestshjónanna að Holti og þar segir séra Stefán meðal annars:

 

Ég er kominn langt úr öllum mannheimum vestast á landshorn … , orðinn prestur, giftur etc. … Ég kann hér dável hag mínum. Brauðið þetta er í betra lagi, sveitin ekki ljót og síðan er ég mjög ánægður með konuna sem ekki gjörir hvað minnst að verkum. … Það lítur svo út fyrir að ég muni hafa nægilegt fyrir mig og þá þykir nú gott hjá blessuðum prestunum.[1235]

 

Stefán prestur Stephensen mun hafa verið með stærstu mönnum, aðsópsmikill og framkvæmdasamur í búskap en minna gefinn fyrir bókaramennt og messusöng. Til eru ýmsar lýsingar á útliti hans og framgöngu og segir svo í einni þeirra:

 

Stefán var á yngri árum fríður sýnum og glæsimenni mikið. Stór var hann vexti, þrekinn og herðabreiður, en svipur allur og yfirbragð lýstu þrótti og einurð. Var sagt að mjög hefði hann sómt sér vel í hópi skólasveina, höfði hærri en fjöldi þeirra, aðsópsmikill og höfðingjadjarfur.[1236]

 

Þarna er tilraun gerð til að draga upp mynd af Stefáni presti á skólaárum hans en á öðrum stað er útliti hans og framgöngu síðar á ævinni lýst með þessum orðum:

 

Séra Stefán var mikill maður vexti, vel vaxinn og hinn höfðinglegasti ásýndum, sópaði mjög að honum; var forníslenskt höfðingjamót á honum og minnti hann þannig á hina gömlu öndvegishölda vora.[1237]

 

Eins og áður sagði var séra Stefán prestur í Önundarfirði í 29 ár. Margar sögur af honum lifðu þar lengi á vörum fólks og er flestum þeirra ætlað að sýna hversu meinilla honum var við að láta kirkjugöngur og kristnihald tefja sig eða aðra frá nauðsynlegum búverkum.[1238] Sem dæmi má nefna að einu sinni sem oftar var séra Stefán að heyverkum á sunnudegi þegar fólk fór að tínast til messu í Holti. Lét hann komu kirkjugestanna sig engu varða og hélt áfram verkum sínum. Að stundu liðinni gengu einhverjir úr hópi komumanna til hans út í flekkinn og segir einn þeirra við klerk að gott sé blessað veðrið á þessum drottins degi. Prestur hallar sér þá fram á hrífuna, hvessir á þá augun og segir: Þið eruð þá líka að nota það bölvaðir.[1239]

Öðru sinni kom fólk til kirkju að Holti á vetrardegi þegar von var á messu en séra Stefán taldi sig þá hafa öðru að sinna. Einn úr hópi bænda leyfði sér þá að hafa á orði að helvíti hart sé að brjótast til kirkju í byl og ófærð en fá svo enga messuna. Ekki stóð á svari hjá presti sem sagði strax: Ykkur var nær að vera ekki að þessu bölvuðu rölti.[1240]

Sögur þessar tvær bera með sér að séra Stefán hefur verið harður í horn að taka og sjálfur viljað ráða sínum háttum. Drykkjumaður mun hann ekki hafa verið meiri en í meðallagi[1241] en var þó stundum undir áhrifum við messugerðir. Ein saga sem sýnir þetta hefur áður komist á prent og er á þessa leið:

 

Fyrir gat það komið að Stefán prófastur væri gripinn slíkum ofsa að stórhneykslun olli. Það var einhverju sinni á síðari árum hans í Holti að hann embættaði í heimakirkju og var þá nokkuð við vín eins og oftar vildi við brenna. Áður en guðsþjónusta hófst hafði hann sagt forsöngvara hvaða sálmar skyldu vera sungnir, bæði fyrir og eftir predikun. En annað hvort gleymdi forsöngvari þessu eða misskildi því að seinasti sálmurinn sem sunginn var fyrir predikun var annar en sá sem klerkur hafði til tekið. Þessu reiddist séra Stefán heiftarlega. Um leið og hann gengur upp í predikunarstólinn snarast hann þangað sem forsöngvari sat og rekur honum syngjandi kinnhest. Forsöngvara verður heldur bilt við en lætur þó ekki á neinu bera til að forðast frekari helgispjöll. Fór svo messan fram án þess að fleira bæri til tíðinda.[1242]

 

Stefán prestur var jafnan hispurslaus í tali og talinn hvatvís og þrætugjarn.[1243] Þorra manna í sóknum sínum nefndi hann ýmsum uppnefnum og var sjálfur upphafsmaður flestra þeirra.[1244] Við fermingarpilt sem aðspurður kvað postulana hafa verið ellefu sagði prestur: Þú hefur þá drepið einn þeirra. Það er best að þú heitir postulabani.[1245] Festist það viðurnefni við drenginn.

Sighvatur Grímsson Borgfirðingur kom að Höfða í Dýrafirði árið 1873 og hóf þar búskap. Hann hefur því kynnst séra Stefáni á síðustu ellefu árum hans í Holti. Um séra Stefán hefur Sighvatur ritað eitt og annað og segir frá honum á þessa leið:

 

Enginn þótti hann vitringur í bókmenntum en búmaður góður og mjög sýnt um veraldlega hluti og heldur mátti hann auðugan kalla, enda hafði hann gott bú í Holti og átti í þilskipum. Var hugur hans allur við búskap. …

Hann var þó allsæmilegur kennimaður þegar hann kom að því. Hann var stór vexti og svipmikill, gildur og holdmikill, hraustur mjög til burða. Ekki mátti hann drykkjumann kalla en hneigður var hann til víns og var þá glaðværari og mannblendnari en ódrukkinn því jafnan var hann fálátur og önugur og enginn gestrisnismaður  … en vel var hann þeim er þjónuðu honum og þeim er honum geðjaðist að.[1246]

 

Um Guðrúnu Melsted, konu séra Stefáns, segir Sighvatur að hún hafi verið háttprúð og stillt, gáfuð vel og búsýslukona mikil.[1247] Einnig getur Sighvatur þess að Guðrún hafi haft góða söngrödd og hvarvetna komið fram til góðs.[1248]

Í ritgerð um séra Stefán P. Stephensen sem birtist í 9. árgangi Óðins árið 1913 segir að í Holti hafi hann rekið búskap í fornum stórbændastíl og verið þar með 5 til 6 hundruð fjár og 10 til 12 nautgripi.[1249] Þessar tölur um búfjárfjölda segir Sighvatur Borgfirðingur vera stórlega ýktar og hafi búfé prestsins aðeins verið um það bil þriðjungur af því sem þarna er nefnt.[1250]

Þessar tvær staðhæfingar stangast illilega á en lausleg athugun á búnaðarskýrslum bendir samt til þess að báðir hafi nokkuð til síns máls. Árið 1860 var séra Stefán í Holti með 5 nautgripi og um 120 sauðkindur ef marka má skýrslurnar en kálfar og lömb eru þá ekki talin með.[1251] Tíu árum síðar var bústofninn ekki miklu stærri en kýrnar í Holti voru þá 4, aðrir nautgripir 2 og kindurnar 156, þar af 90 ær með lömbum.[1252] Bæði þessi ár, 1860 og 1870, er bústofninn ekki fjarri því sem Sighvatur fullyrðir að hann hafi verið.

Búnaðarskýrslan frá árinu 1880 sýnir hins vegar að þá hefur bú prestsins í Holti verið orðið miklu stærra og farið að nálgast það sem gefið er upp í Óðni. Kýr og kelfdar kvígur voru þá 8, aðrir nautgripir 3 (veturgamlir og eldri), ær með lömbum 148, geldar ær 5, sauðir og hrútar eldri en veturgamlir 65, gemlingar 130 og hrossin voru þá 10 að meðtöldum tveimur tryppum.[1253] Þetta ár hefur séra Stefán því talið fram 11 nautgripi og um það bil 350 sauðkindur, án þess þó að kálfar eða lömb séu talin með. Minna en þetta hefur búið því alls ekki verið árið 1880 og yfirleitt voru bú manna í raun svolítið stærri en fram kemur í skýrslunum.

Tölurnar sýna að á árunum kringum 1880 hefur bú prestsins í Holti verið geysistórt á mælikvarða þeirrar tíðar. Til rökstuðnings þeirri fullyrðingu skal þess getið að hvergi annars staðar í Mosvallahreppi voru fleiri en fimm nautgripir í fjósi þetta ár og hjá Torfa Halldórssyni á Flateyri, sem var með langstærsta búið í hreppnum, að presti frátöldum, var sauðféð aðeins tæpur helmingur af því sem prestur gaf upp og skráð er í búnaðarskýrslunni.[1254]

Árið 1880 hafði séra Stefán tvær jarðir undir, Holt og Kirkjuból í Bjarnardal[1255] sem Holtskirkja átti og talið var 18 hundraða jörð. Þá jörð lagði séra Stefán undir staðinn á árunum milli 1870 og 1880 og lét jafnan nytja hana frá Holti á sínum síðustu búskaparárum þar (sjá hér Kirkjuból í Bjarnardal).

Í gamla Holtsselinu frammi í Bjarnardal var hann jafnan með búsmala í seli á hverju sumri.[1256] Um 1870 var Stefán prestur með bæði ær og kýr í selinu yfir hásumarið, ef marka má frásögn sonar einnar selstúlkunnar,[1257] en síðustu tólf búskaparár sín í Holti, 1872-1884 eða því sem næst, voru það bara ærnar sem séra Stefán lét nytka í selinu.[1258] Hinn ágæti fræðimaður Ólafur Þ. Kristjánsson, sem sjálfur var frá Kirkjubóli í Bjarnardal, birti árið 1979 fróðlega grein um vinnubrögð í Holtsseli á dögum séra Stefáns P. Stephensen og verður vikið hér að þeirri lýsingu síðar þegar staldrað verður við í selinu (sjá hér Arnkelsbrekka og Holtssel). Á veturna voru selhúsin í Bjarnardal notuð sem beitarhús frá því í fyrstu snjóum og fram undir jól[1259] en fyrir daga séra Stefáns var oft verið með féð frá Holti þar fram frá mun lengur fram eftir vetrinum (sjá hér Arnkelsbrekka og Holtssel).

Enda þótt séra Stefán væri mikill búmaður mun hann ekki hafa ráðist í ræktunarframkvæmdir fyrr en á sínum síðustu árum í Holti. Í búnaðarskýrslunni frá 1880 er tekið fram að í Mosvallahreppi séu alls engir áveituskurðir og ekki heldur túnasléttur (sjá hér Mosvallahreppur, inngangskafli). Óskar Einarsson læknir greinir hins vegar frá því að um 1880 hafi séra Stefán látið veita Hjarðardalsá fram hjá Innri-Hjarðardal og heim á Holtsengi til að auka þar grassprettu.[1260] Í grein sem birtist í Óðni árið 1913 og hér var áður nefnd segir að séra Stefán hafi bætt Holtsengi með vatnsveitingum og framræslu og þar er þess getið að hann hafi byggt upp bæinn í Holti og öll peningshús staðarins.[1261] Einnig stóð hann fyrir byggingu kirkjunnar sem enn stendur í Holti. Hún var reist árið 1869 og er fyrsta timburkirkjan þar sem um er kunnugt (sjá hér bls. 173-175). Löngu seinna var steypt utan um þessa sömu kirkju og fyrir 100 ára afmælið var byggð við hana forkirkja.[1262]

Á sínum fyrstu árum í Holti virðist Stefán prestur aðeins hafa gert út einn bát frá Kálfeyri á vorin og í búnaðarskýrslu frá árinu 1860 er þessi eini bátur í Holti sagður vera sexæringur eða fjögra manna far.[1263] Árið 1870 voru bátar prestsins hins vegar orðnir þrír og einn þeirra áttæringur, sá eini sem þá var til í Mosvallahreppi.[1264] Í umræðum á Alþingi árið 1877 kvaðst séra Stefán hafa gert út skip til hákarlaveiða í 14 ár en vera hættur slíkri útgerð þar eð hann sæi að það svaraði ekki kostnaði.[1265] Af þessu má ráða að á árunum 1861-1876 hafi áttæringur frá Holti verið gerður út til hákarlaveiða flest árin.

Á árunum 1871-1873 hóf séra Stefán í Holti þátttöku í útgerð þilskipa og átti árið 1873 ein þriðja part í skútu (sjá hér Mosvallahreppur, inngangskafli). Á næstu árum jók hann smátt og smátt eignarhlut sinn í þeirri útgerð og átti 1878  7/12 úr þilskipi en tveimur árum síðar 5/6 úr slíku skipi (sjá hér Mosvallahreppur, inngangskafli). Athygli vekur að hinn mikli vöxtur búsins í Holti á árunum milli 1870 og 1880 hélst í hendur við vaxandi umsvif prests á sviði sjávarútvegsins og bendir allt til þess að á þeim árum hafi séra Stefán náð að efnast verulega. Á þessum árum hætti hann hins vegar að leggja kapp á vorróðrana frá Kálfeyri sem best sést á því að árið 1880 var aðeins til einn bátur í Holti og var hann minni en fjögra manna far.[1266]

Vegna mikilla búsumsvifa þurfti séra Stefán á mörgu vinnufólki að halda og var heimili prestshjónanna í Holti jafnan fjölmennt á hans dögum. Árið 1870 voru heimilismenn 27 og 1880 voru þeir orðnir 31.[1267] Þá voru í Holti 7 vinnumenn og 9 vinnukonur.[1268] Í manntalinu frá 1. október 1870 er einn heimilismanna sagður vera sjómaður.[1269] Hann hét Bjarni Thorarensen og hafði í nóvembermánuði árið 1869 dvalist í borginni Tarragona[1270] á austurströnd Spánar, um það bil 80 kílómetrum fyrir sunnan Barcelona.

Einn þeirra sem lengi dvöldust í Holti á dögum séra Stefáns og Guðrúnar konu hans var Halldór Melsteð, bróðir prestsfrúarinnar. Halldór var fæddur haustið 1832 og útskrifaðist úr Reykjavíkurskóla 1853,  tveimur árum síðar en séra Stefán.[1271] Halldór var síðan alllengi við nám í Kaupmannahöfn en lauk því ekki.[1272] Guðmundur Eiríksson á Þorfinnsstöðum segir Halldór hafa verið í sex ár við háskólann í Kaupmannahöfn en hann hafi komið þaðan próflaus vegna óreglu.[1273] Haustið 1870 var Halldór kominn að Holti og þar var hann enn tíu árum síðar.[1274] Að sögn Guðmundar á Þorfinnsstöðum, sem fæddur var árið 1853, kenndi þessi mágur séra Stefáns mörgum piltum í Önundarfirði dönsku, reikning og íslensku og var talinn ágætur kennari.[1275] Halldór Melsteð varð síðar amtsskrifari.[1276] Hann var alla tíð ókvæntur en lét eftir sig einn son sem einnig hét Halldór.[1277] Sá piltur fluttist með séra Stefáni og Guðrúnu konu hans frá Holti í Vatnsfjörð árið 1884.[1278]

Árið 1860 var séra Stefán í Holti gerður að prófasti í vesturhluta Ísafjarðarsýslu og hélt hann því embætti í 24 ár.[1279] Þann 16. apríl 1875 var hann kosinn alþingismaður Ísfirðinga og sat á þremur þingum, 1875, 1877 og 1879. Með hinni nýju stjórnarskrá sem Kristján konungur IX færði Íslendingum árið 1874 var þjóðkjörnum alþingismönnum fjölgað úr 21 upp í 30.[1280] Þá voru 30 ár liðin frá því fyrst var kosið til Alþingis og allan þann tíma hafði Jón Sigurðsson forseti verið eini þingmaður Ísfirðinga.

Með þeim breytingum á kosningalögum sem stjórnarskránni fylgdu var þingmönnum níu kjördæma fjölgað úr einum í tvo.[1281] Eitt þessara kjördæma var Ísafjarðarsýsla[1282] en þar var kosið í fyrsta sinn samkvæmt hinni nýju skipan 16. apríl 1875.[1283] Í þeim kosningum var Jón forseti kosinn þingmaður í síðasta sinn. Kjósendur sem greiddu atkvæði voru 61 og hlaut Jón 57 atkvæði en séra Stefán í Holti fékk 41.[1284] Næstur kom Gunnar Halldórsson, bóndi í Skálavík í Vatnsfjarðarsveit, með 16 atkvæði en aðrir fengu minna.[1285] Tölurnar sýna að tveir þriðju kjósenda greiddu prófastinum í Holti atkvæði og var hann því kosinn með yfirburðum til að gegna þingmennsku fyrir Ísfirðinga við hlið Jóns forseta.

Hinn mikli stuðningur við séra Stefán í þessum kosningum er einkar athyglisverður og þá ekki síst ef haft er í huga að úr allri Vestur-Ísafjarðarsýslu, sem nú er, mættu aðeins níu kjósendur á kjörstað.[1286] Augljóst er því að margir kaupstaðarbúar og Djúpmenn hafa talið hinn umsvifamikla prest og stórbónda í Holti vera álitlegt þingmannsefni. Á Alþingi virðist séra Stefán hins vegar ekki hafa látið mikið að sér kveða.[1287]

Á sínu fyrsta þingi sumarið 1875 var presturinn í Holti kosinn formaður nefndar er fékk til meðferðar frumvarp til laga um breytingar á læknaskipan[1288] en við umræður um þetta lagafrumvarp tók hann þó aldrei til máls.[1289] Á þessu sama þingi flutti séra Stefán frumvarp um stofnun barnaskóla á Ísafirði og annað um heimild til að leggja skatt á útmældar lóðir þar í kaupstaðnum.[1290] Bæði þessi lagafrumvörp voru samþykkt á þinginu og send konungi til staðfestingar.[1291]

Sumarið 1877 mætti séra Stefán til þings í annað sinn. Á því þingi flutti hann frumvarp um bann gegn því að slægja og afhöfða fisk á sjó eða skera niður hákarl á hafi úti á öllu svæðinu milli Hornbjargs og Látrabjargs.[1292] Á þessum árum voru mjög margir þeirrar skoðunar að fiskigöngur fældust frá landinu ef slógi og dauðum hákarli væri fleygt í hafið úti á djúpmiðum. Í greinargerð með nýnefndu frumvarpi túlkaði séra Stefán þessi viðhorf kjósenda sinna og hélt því fram að fiskurinn legðist að ætum þeim sem kastað væri fyrir hann á hafi úti og gengi því síður en ella á grunnmiðin.[1293] Við umræður um þetta frumvarp var á það bent að málið þarfnaðist nánari athugunar og við lagasetningu um þessi efni þyrfti að hafa öll fiskimiðin hringinn í kringum landið í huga en ekki bara Vestfjarðamið.[1294] Á þessi rök féllst séra Stefán og dró frumvarpið til baka.[1295]

Á þingunum 1875 og 1877 áttu þeir báðir sæti sem þingmenn Ísfirðinga, séra Stefán í Holti og Jón forseti. Samskipti þeirra hljóta því að hafa verið nokkur en um þau er nánast ekkert kunnugt. Eina bréfið frá séra Stefáni til Jóns Sigurðssonar sem varðveist hefur er skrifað haustið 1877, daginn eftir að prestur kom heim úr alþingisferðinni.[1296] Í þessu bréfi greinir séra Stefán frá því að hann hafi týnt bréfi er Jón hafði beðið hann að koma til Þorvaldar læknis Jónssonar á Ísafirði.[1297] Á þessum klaufaskap biðst alþingismaðurinn í Holti afsökunar en minnist ekki á neitt annað í þessari stuttu orðsendingu til forseta.[1298] Sú staðreynd segir ekki mikið en bendir þó til þess að milli þessara tveggja manna hafi engir sérstakir kærleikar verið. Sumarið 1877 var heilsu Jóns forseta reyndar tekið að hnigna því um það leyti fór að sækja að honum minnisleysi og einhvers konar sljóleiki.[1299]

Vorið 1879 sagði Jón forseti af sér þingmennsku vegna veikinda[1300] og var séra Stefán eini fulltrúi Ísfirðinga á Alþingi þá um sumarið. Þann 8. ágúst 1879 var að vísu efnt til aukakosninga á Ísafirði og þar var Þorsteinn Thorsteinsson, kaupmaður og bakari, kosinn þingmaður í stað Jóns forseta og fékk þá 12 atkvæði.[1301] Þegar kosningin fór fram voru hins vegar aðeins 19 dagar eftir af þingtímanum[1302] svo hinn nýkjörni þingmaður náði ekki að mæta til þings að því sinni.[1303]

Þegar séra Stefán í Holti var kosinn alþingismaður árið 1875 var kjörtímabilið 6 ár svo ekki var kosið á ný í almennum þingkosningum fyrr en haustið 1880 og vorið 1881 en ekki var kosið í öllum kjördæmum sama daginn. Í þessum kosningum féll séra Stefán og fékk aðeins 10 atkvæði en á kjörfundinn sem haldinn var á Ísafirði 17. september 1880 mættu um það bil 60 kjósendur.[1304] Þeir sem náðu kosningu voru áðurnefndur Þorsteinn Thorsteinsson, kaupmaður og bakari á Ísafirði, og Þórður Magnússon, bóndi í Meiri-Hattardal. Þrír aðrir frambjóðendur fengu einnig fleiri atkvæði en séra Stefán á þessum kjörfundi en það voru Lárus Sveinbjörnsson, yfirdómari í Reykjavík, Gunnar Halldórsson, bóndi í Skálavík í Vatnsfjarðarsveit, og Benedikt Oddsson, bóndi í Fremri-Hjarðardal í Dýrafirði.[1305] Í hópi þeirra tíu manna sem héldu tryggð við séra Stefán og greiddu honum atkvæði í kosningunum haustið 1880 voru Þorvaldur Jónsson, læknir á Ísafirði, Árni Jónsson, faktor á Ísafirði, Grímur Jónsson (bróðir Árna), kennari á Ísafirði, og Sumarliði Sumarliðason gullsmiður sem um skeið bjó í Æðey.

Allt frá árinu 1863 var séra Stefáni ætlað að þjóna Staðarprestakalli í Súgandafirði til viðbótar við sitt eigið prestakall í Önundarfirði.[1306] Oft mun sú kvöð hafa gert honum gramt í geði en undan henni komst hann ekki fyrr en hann fór frá Holti árið 1884. Á árunum 1863-1879 var alltaf prestlaust á Stað og varð séra Stefán að þjóna í Súgandafirði af þeim ástæðum en með lögum frá 27. febrúar 1880 var Staðarprestakall lagt niður og sóknin í Súgandafirði lögð til Holtsprestakalls.[1307] Þeirri breytingu mun séra Stefán hafa verið mjög andvígur og var síðar staðhæft af kunnugum að þessi sameining prestakallanna hafi valdið miklu um að hann ákvað að fara frá Holti[1308] þar sem hann hafði þó efnast vel og notið lífsins í nær þrjá áratugi.

Sighvatur Borgfirðingur segir að prestsþjónusta séra Stefáns í Súgandafirði hafi gengið skrikkjótt og oft hafi lík staðið þar uppi svo mánuðum skipti.[1309] Sami heimildarmaður getur þess að við hafi legið að Súgfirðingar kærðu prófastinn í Holti fyrir að vanrækja alla þjónustu við þá.[1310]

Þegar séra Stefán P. Stephensen ákvað að fara frá Holti var hann orðinn nær hálfsextugur og benda fyrirliggjandi heimildir til þess að hann hafi ógjarnan viljað eiga yfir höfði sér að þurfa í ellinni að kjaga margoft yfir Klofningsheiði í ófærð og vetrarbyljum.

Þann 10. janúar 1884 var séra Stefáni veitt Vatnsfjarðarprestakall[1311] og þá um vorið fluttist hann frá Holti í Vatnsfjörð. Þar þjónaði hann Djúpmönnum til æviloka en andaðist í Vatnsfirði vorið 1900, liðlega sjötugur að aldri.[1312] Séra Stefán og Guðrún kona hans eignuðust sex börn sem náðu að vaxa úr grasi. Annar tveggja sona þeirra hjóna var Páll Stephensen sem prestur var í Holti frá 1908 til 1929.[1313]

Síðasti nítjándu aldar presturinn í Holti var séra Janus Jónsson sem fékk veitingu fyrir Holtsprestakalli í marsmánuði árið 1884 og fluttist að Holti fáum mánuðum síðar. Séra Janus fæddist á Kirkjubóli í Skutulsfirði á jólanótt árið 1851[1314] sonur hjónanna Jóns, bónda og silfursmiðs, Þórðarsonar og Þóru Katrínar Eyjólfsdóttur sem þar bjuggu.[1315] Faðir Janusar var frá Kjarna í Eyjafirði. Hann var bróðir séra Benedikts Þórðarsonar sem prestur var í Selárdal á árunum 1864-1873.[1316] Móðir Janusar var dóttir séra Eyjólfs Kolbeinssonar sem lengi var prestur á Eyri í Skutulsfirði.[1317]

Þegar Janus var á þriðja ári missti hann föður sinn en móðir hans hélt áfram búskap á Kirkjubóli og þar ólst hann upp að mestu leyti.[1318] Þessi yngsti sonur ekkjunnar á Kirkjubóli var þó snemma sendur að heiman sér til menningar, fyrst í Vatnsfjörð til séra Þórarins Böðvarssonar og um fermingaraldur var Janus kominn að Staðastað á Snæfellsnesi þar sem hann lærði undir skóla hjá séra Sveini Níelssyni.[1319] Á unglingsárum dvaldist hann líka eitthvað á Melgraseyri hjá Eyjólfi bróður sínum sem varð prestur í Kirkjubólsþingum við Djúp árið 1865.[1320] Árið 1867 eignaðist Janus barn á Melgraseyri með stúlku sem hét Elín Illugadóttir og var frá Múla í Nauteyrarhreppi.[1321] Hann var þá ekki nema 15 eða 16 ára gamall og þótti nokkuð snemmt. Barn þetta sem var drengur fékk nafnið Jón og fluttist til Ameríku um tvítugt með Bergþóri Jónssyni, föðurbróður sínum, áður bónda og snikkara í Lambadal í Dýrafirði.[1322]

Janus Jónsson fékk inngöngu í lærða skólann í Reykjavík haustið 1867 og útskrifaðist þaðan árið 1874.[1323] Embættisprófi frá prestaskólanum lauk hann tveimur árum síðar og var þá um haustið vígður prestur að Hesti í Borgarfirði.[1324] Þar var hann prestur í átta ár. Í nóvembermánuði árið 1877 gekk séra Janus að eiga frænku sína Sigríði, dóttur Halldórs Kr. Friðrikssonar, yfirkennara í Reykjavík.[1325]Þeir Halldór Kr. og Janus voru systkinasynir og áttu báðir séra Eyjólf Kolbeinsson á Eyri í Skutulsfirði fyrir afa. Á skólaárum sínum í Reykjavík hafði Janus búið lengi í húsi Halldórs frænda síns og komst þá í kynni við heimasætuna sem hann gekk að eiga í fyllingu tímans.[1326]

Eins og áður sagði var séra Janusi veitt Holtsprestakall í marsmánuði árið 1884 og fluttust þau hjónin að Holti þá um vorið eða sumarið frá Hesti í Borgarfirði. Prestur Önfirðinga var hann í 24 ár og prófastur allan þann tíma.[1327] Séra Janus þjónaði líka Staðarsókn í Súgandafirði frá 1884 til 1901 en með lögum frá 5. desember 1899 var Súgandafjörður gerður að sérstöku prestakalli á nýjan leik.[1328]

Hér var áður greint frá hinum miklu búsumsvifum séra Stefáns P. Stephensen í Holti. Janus eftirmaður hans hafði minna umleikis á því sviði,  enda ber heimildum saman um að hann hafi verið lítt hneigður fyrir allt umstang við kýr og kindur.[1329] Árið 1880 höfðu heimilismenn hjá séra Stefáni í Holti verið 31 (sjá hér bls. 152) en hjá séra Janusi voru aðeins 12 í heimili tíu árum síðar og ekki nema 10 árið 1901.[1330] Mannfjöldatölurnar einar sér nægja til að sýna hversu mjög dró úr öllum búskaparumsvifum í Holti við prestaskiptin. Í minningarorðum um séra Janus er þó tekið fram að hann hafi með aðstoð konu sinnar búið rausnar og risnu búi hér í Holti[1331] en í öðrum heimildum er þess getið að kona Janusar, frú Sigríður Halldórsdóttir, hafi í raun séð um alla stjórn á búrekstrinum.[1332]

Eins og áður var nefnt hafði séra Stefán P. Stephensen ær sínar í seli frammi í Bjarnardal yfir hásumarið eins og löngum hafði tíðkast í Holti. Þennan seljabúskap létu séra Janus og Sigríður kona hans niður falla en heyjað var í selinu eins og áður og féð haft þar fram frá fram undir jól á hverjum vetri (sjá hér Arnkelsbrekka og Holtssel).

Þórður Sigurðsson, sem lengi bjó í Neðri-Breiðadal, ólst að nokkru leyti upp á heimili séra Janusar og Sigríðar konu hans og fluttist með þeim að Holti sunnan úr Borgarfirði sumarið 1884. Hann var þá á 16. ári og átti heima í Holti næstu sex árin.[1333] Húsbændum sínum þar og heimilislífi á prestssetrinu lýsir hann með þessum orðum:

 

Heimilislíf í Holti var gott og skemmtilegt. Þar var venjulega nokkuð margt fólk í heimili, sérstaklega á sumrin. Þá voru vanalega 2 kaupamenn, 1 eða 2 kaupakonur og svo unglingar. Á veturna voru 3 karlmenn og 3 vinnukonur og 3 unglingar fyrir utan gesti sem oft komu. Svo voru hjónin eða húsbændurnir og Þóra, móðir séra Janusar. Það var því skemmtilegt og glaðlegt heimilislíf.

Séra Janus var það mesta prúðmenni í orðum og umgengni sem ég hef þekkt og afburða skemmtilegur í viðræðum. Þó var hann að upplagi fáorður og afskiptalítill um heimilisstörfin yfirleitt því að hann var hneigðari fyrir bókleg störf en búskap. Hann þurfti heldur ekki að vera með hugann allan við búskapinn því hann átti konu sem létti þeim áhyggjum af honum að miklu leyti.

Frú Sigríður var mesta búkona sem ég hef þekkt. Hún var bæði húsbóndinn og húsfreyjan að heita mátti. Hún var afburða dugleg og stjórnsöm. Þó hún væri stórgerð í lund var hún drenglynd og trygglynd. Hún gekk vanalega sjálf í flest verk með vinnukonunum þó hún ekki þyrfti þess. Hún sagði að sér fyndist svo lítið ganga með verkin nema hún ynni með sjálf. Áhuginn og kappið við hvert verk var svo mikið að hún gat ekki staðið hjá og horft á. Hún var líka hugsunarsöm um unglinga sem voru hjá henni og artarleg við þá sem unnið höfðu hjá þeim  hjónum.[1334]

 

Fróðleik um séra Janus í Holti er annars helst að finna í skrifum þeirra Sighvats Borgfirðings og séra Kristins Daníelssonar sem báðir voru honum vel kunnugir. Kristinn Daníelsson og Janus voru svilar[1335] og auk þess nágrannaprestar í 19 ár þegar Janus var í Holti en Kristinn á Söndum í Dýrafirði. Þeim Sighvati og Kristni ber saman um að séra Janus hafi verið mikill bókamaður og góður fræðimaður á sviði norrænnar málfræði og sögu.[1336] Sighvatur Borgfirðingur lætur þess getið að Janus prestur og Sigríður kona hans hafi bæði verið vinsæl og vel liðin en þessum síðasta nítjándu aldar presti í Holti lýsir hann annars með þessum orðum:

 

Janus prófastur var snyrtimenni og vel á sig kominn, með ljóst yfirbragð, þægilegur í viðmóti og gamansamur og þó jafnan hógvær og kurteis, hnittinn í tilsvörum og orðheppinn, predikari góður, ágætur söngmaður og fóru öll prestverk einkar vel. Fjárgæslumaður var hann góður og þó að öllu hneisulaust. Gestrisinn var hann og jafnan góður heim að sækja. Var þar öllum jafnt veitt, æðri sem óæðri, og hið sama tilgerðarlausa og háttprúða viðmót við alla, snauða sem auðuga. Hann var fræðimaður mikill og málfræðingur, lagði hann mikla stund á norræna málfræði og sögu og ritaði eigi alllítið í þeim vísindum því iðjumaður var hann að bókmenntum og ritaði snotra rithönd og góða aflestrar.[1337]

 

Séra Kristinn Daníelsson segir Janus hafa verið mikinn gáfumann og mjög vel að sér í sögu Íslands og íslenskum fræðum af hvaða tagi sem var. Hann gerir síðan nokkru nánari grein fyrir lærdómsiðkunum séra Janusar og segir:

 

Best af öllu lét honum íslensk málfræði, bæði forn og ný. Einkum lagði hann þó stund á fornmálið og var afbragðs vel að sér í því og mest yndi hafði hann af hinum forna skáldskap. Ætla ég að hann kynni utan að flestar vísur í fornsögum vorum og mikið í eddunum og var ávallt vakinn og sofinn í því að fást við hinn forna skáldskap og skýringar á honum og hefur ritað nokkuð um þau efni. Hef ég fyrir satt að hinum bestu vísindamönnum vorum í þeirri grein hafi fallið vel í geð tillögur hans. … Hvar sem hann hitti mann að máli sem eitthvað kunni grein á fornmáli og fornskáldskap brá ekki út af að viðræðurnar snerust brátt að þeim efnum.[1338]

 

Við þessa lýsingu læðist að manni sá grunur að máske hafi séra Janus lent á rangri hillu þegar hann gerðist prestur og segja má að séra Kristinn gefi slíkum grunsemdum enn sterkar undir fótinn á öðrum stað í ritgerð sinni um Janus svila sinn en þar kemst hann svo að orði:

 

Að áliti mínu lá fræðimennskan miklu dýpra í eðli séra Janusar en prestskapurinn þó að hann yrði aðalævistarf hans og þó að einnig þar láti hann sér að baki hinn lofsamlegasta feril. Eins og við önnur ritstörf var honum einkar létt um að semja ræður og þótti ávallt góður og oft með afbrigðum góður ræðumaður. … Hann var maður óhlutdeilinn og óhneigður fyrir að blanda sér í hagi annarra og kann að vera að honum hafi síður látið fyrir þá sök í prestskapnum það sem heyrir til sálgæslu. En hvenær sem hans var leitað var hann við alla hluttekningarsamur, hollráður og heilráður og ég held iðulega skilningsgóður á hvað best gegndi.[1339]

 

Séra Kristinn segir Janus hafa verið glaðværan og skemmtinn og að létt hafi legið fyrir honum að halda tækifærisræður. Pistill Kristins um þennan þátt í fari Janusar hljóðar svo:

 

Á yngri árum og reyndar alla ævi var séra Janus hinn mesti gleðimaður, frábærlega fyndinn og gamansamur, einkum í hópi skólabræðra sinna og okkar vina hans og vandamanna, þótt ókunnugum gæti þótt hann þurrlegur fyrst í stað sem brátt hvarf ef nokkrar viðræður hófust. … Allt gaman hans var gersamlega græskulaust og stefndi aldrei til særingar eða móðgunar við neinn, nema ef honum hefði þurfa þótt til sjálfsvarnar og minnist ég þó ekki slíkra atvika á langri samleið okkar. – Á mannfundum var hann ágætlega máli farinn og þótti oft besta skemmtun að hlýða á ræður hans. … Nokkuð er það að á kvöldfundum var fullt hús af tilheyrendum þegar búist var við að séra Janus mundi tala. Í brúðkaupum og undir borðum var hann jafnan tilbúinn að halda skálarræður, fullar af fjöri og gamansemi, út um alla heima og geima svo að stundum vissi ekki í fyrstu hvert stefndi en hitti þó um það er lauk naglann á höfuðið.[1340]

 

Á prestskaparárum sínum í Holti hafði séra Janus talsverð afskipti af opinberum málum og átti um skeið sæti í sveitarstjórn og sýslunefnd.[1341]

Þeir svilar, séra Janus Jónsson í Holti og séra Kristinn Daníelsson á Söndum, sátu báðir í sýslunefnd Ísafjarðarsýslu á árunum kringum 1890 og voru þá stundum á öndverðum meiði við Skúla Thoroddsen sýslumann. Eitt af baráttumálum þessara tveggja presta var að fá Ísafjarðarsýslu skipt í tvö sýslufélög eins og síðar varð en Skúli Thoroddsen var lengi andvígur slíkri skiptingu.

Í blaði Skúla, Þjóðviljanum unga, er sagt frá sýslunefndarfundi 3. mars 1892 þar sem rætt var um sýsluskiptingarmálið og fá þeir Janus og Kristinn þar heldur kaldar kveðjur. Þar segir:

 

Hefur máli þessu að undanförnu einkum verið fylgt fram á sýslunefndarfundum af þeim svilum, prófasti Janusi Jónssyni í Holti … og séra Kristni Daníelssyni á Söndum … en meðmæli þeirra svilanna virðast fremur hafa orðið til að spilla fyrir málinu en að hrinda því fram á leið. Um séra Janus er það jafnan örðugt að vita hvort hann mælir af alvöru eða til skemmtunar „fyrir fólkið” og séra Kristinn er svo einþykkur og þver – að vér ekki segjum stirðbusalegur, að fá mál munu hafa gott af fylgi hans.[1342]

 

Í frásögn blaðsins kemur fram að á sýslunefndarfundinum 3. mars 1892 voru þeir Janus og Kristinn í minnihluta þegar rætt var um sýsluskiptingarmálið en þó var samþykkt á fundinum að skipa 5 manna nefnd til að taka saman álitsgerð um kosti og galla slíkrar skiptingar.[1343] Þessari niðurstöðu munu svilarnir frá Holti og Söndum ekki hafa viljað una og í sömu blaðagrein segir svo frá viðbrögðum þeirra:

 

En viti menn, þessi úrslit geðjuðust síður en ekki svilunum að vestan. Þeir vildu ekki heyra nefndarkosningu nefnda en gengu í fússi af fundi þegar til kosninga var gengið og sýndu þannig berlega hve mikil alvara þeim er í þessu máli.[1344]

 

Í frásögn blaðsins er þess einnig getið að Gestur Björnsson í Hjarðardal, sýslunefndarmaður Mýrahrepps, hafi fylgt þessum geistlegu herrum til dyra.[1345]

Af þessari frásögn má ráða að séra Janus hafi vel getað hugsað sér að taka þátt í átökum ef því var að skipta og ekki alltaf verið fús til að vægja þegar í orrustu var komið.

Er um það bil fjórir mánuðir voru liðnir frá því blað Skúla Thoroddsen veittist að þeim svilum, séra Janusi og séra Kristni, með þeim hætti sem hér var lýst dæmdi Lárus H. Bjarnason setudómari Skúla frá sýslumannsembætti.[1346] Margir töldu að þar væri fyrst og fremst um pólitískan dóm að ræða, enda var dómsniðurstöðu Lárusar síðar hnekkt af hæstarétti í Kaupmannahöfn eins og alkunnugt er. Þegar Lárus var sendur vestur til höfuðs Skúla var honum illa tekið af mörgum og víða í Ísafjarðarsýslu átti hann þá óvild og beinum fjandskap að mæta. Séra Janus virðist hins vegar hafa tekið honum vel og sat Lárus um það bil hálfan mánuð í Holti við að semja dóminn yfir Skúla.[1347] Þessi greiðasemi prestsins við Lárus H. Bjarnason bendir til þess að hann hafi grátið brottvikningu Skúla úr embætti þurrum tárum því flestir munu fyrirfram hafa gert sér grein fyrir hvað til stóð þegar Lárus var sendur vestur. Vel má vera að deilurnar um sýsluskiptingarmálið og skrif Þjóðviljans unga fyrr á árinu 1892 hafi magnað upp kala til Skúla hjá klerkinum í Holti.

Séra Janus Jónsson mun hafa verið áhugasamur um stjórnmál en lét þó sjaldan eða aldrei verulega til sín taka á þeim vettvangi. Í kosningunum árið 1900 náðu þeir Skúli Thoroddsen og Hannes Hafstein báðir kjöri í Ísafjarðarsýslu en séra Sigurður Stefánsson í Vigur, sem verið hafði pólitískur félagi Skúla féll, fyrir Hannesi.[1348] Líklegt er að séra Janus hafi stutt Hannes í þessum kosningum og fullvíst að það gerði hann í kosningunum 1902 þegar Hannes féll og séra Sigurður náði kjöri á ný. Fyrir því höfum við orð séra Janusar sjálfs í bréfi er hann ritaði svila sínum, Halldóri Daníelssyni, bæjarfógeta í Reykjavík, 2. júlí 1902 en þá voru þrjár vikur liðnar frá kjördegi. Janus segir þar:

 

Svona fór þá kosningin hérna hjá oss. Ha! hvað segirðu? Reyndar var ekki við öðru að búast þótt engum dytti í hug að atkvæðamunurinn yrði svona mikill. [Skúli fékk 235 atkvæði, séra Sigurður 230 en Hannes bara 137 – innsk. K.Ó.] Þeir H.H. höfðu í almenningsaugum með flestu móti spillt fyrir sér með ofsa og ósköpum etc. sem ég hirði eigi að telja. Svo bætist við hið pólitíska álit og hræddur er ég um að H.H. [Hannes Hafstein] nái aldrei kosningu hér framar. … Ég vona eftir H.H. á hverri stundu. Hann hefur lofað því að koma hér ávallt við er hann sé á ferðinni en er víst eigi vel ánægður með mig þótt ég kysi hann af því að sú er ætlun hans að ég hafi ekki agiterað fyrir hann. Og það er satt, ég fann það eigi skyldu mína að upptroða sem agitator fyrir neinn, enda þekkti ég svo vel til hér að það hefði orðið árangurslaust að reyna að agitera fyrir hann hér. Það var reynt sem mest mátti af öðrum og dugði lítið.[1349]

 

Í bréfinu undirstrikar séra Janus orðið hann þegar hann lýsir yfir að hann hafi kosið Hannes og gefur þar með til kynna að þetta hafi fyrst og fremst verið persónulegur stuðningur. Bréfritarinn virðist reyndar ekki hafa verið bundnari en svo að óvíst verður að telja hvort hann hafi kosið Matthías Ólafsson, sem var samflokksmaður Hannesar og meðframbjóðandi hans í Ísafjarðarsýslu í þessum kosningum. Svo mikið er víst að í alþingiskosningunum sem efnt var til einu ári síðar lýsti Janus yfir stuðningi við séra Sigurð Stefánsson í Vigur.[1350] Þá hafði Ísafjarðarsýslu verið skipt í tvö kjördæmi og var séra Sigurður í kjöri í vestursýslunni þar sem hann féll fyrir Jóhannesi Ólafssyni á Þingeyri. Yfirlýsing séra Janusar um stuðning við séra Sigurð kemur fram í bréfi er sá fyrrnefndi ritaði Skúla Thoroddsen 19. maí 1903 og virðist Janus þá láta sér vel líka að vera í bandalagi við Skúla.[1351] Allt sýnir þetta að Janus prestur hefur ekki verið mjög fastur í flokki og svo virðist sem hann hafi látið mat sitt á þeim einstaklingum sem í boði voru hverju sinni ráða miklu um afstöðu sína í alþingiskosningum.

Á árunum 1887-1916 birtust í tímaritum allmargar ritgerðir eftir séra Janus þar sem fjallað er um ýmis efni á sviði íslenskra fræða. Eru þessar helstar:

Um klaustrin á Íslandi, Tímarit bókmenntafélagsins 1887, Saga latínuskóla á Íslandi, sama tímarit 1893, Vísur í Harðarsögu, sama tímarit 1892, Þormóður sagnaritari Torfason, sama tímarit 1903, Björn bóndi Einarsson Jórsalafari, Andvari 1914, Sturla Þórðarson, Almanak Þjóðvinafélagsins 1914, Skafti lögsögumaður Þóroddsson, Andvari 1916 og Edda í kveðskap fyrr og nú, Skírnir 1916.[1352]

Af öðrum prentuðum ritgerðum séra Janusar má nefna tvær sem birtust í Skírni 1913 og 1915 og fjallar önnur um Giordano Bruno en hin um Kopernikus.[1353] Eitthvað fékkst séra Janus líka við þýðingar og sneri meðal annars á íslensku skáldsögunni Over Skjær og Brænding eftir C.Andersen.[1354] Bók þessa nefndi hann á íslensku máli Gegnum brim og boða[1355] og kom hún út á Ísafirði árið 1898.

Ekki mun Janus prestur hafa talið sig vera skáld en hann átti létt með að setja saman tækifæriskveðskap og gamanbragi. Dálítið af slíkum yrkingum hans er enn til í handritum, meðal annars í póesíbók Thoru Friðriksson sem var mágkona Janusar. Á fyrstu dögum ársins 1890 sendi presturinn í Holti mágkonu sinni til dæmis þennan samsetning henni til skemmtunar:

 

 

Ég stend eins og naut sem er bundið á bás

− eins og blýstólpi galvaniseraður.

Það er alls ekki hætt við ég renni á rás,

svona rígbundinn, grunnsementeraður.

Ég stend eins og naut sem er bundið á blökk

− eins og blýstólpi electriseraður.

Ég tek aldrei undir mig stóreflis stökk,

svona stríðbundinn, hypnotiseraður.[1356]

 

Í þessum gamanbrag leikur séra Janus sér að nokkrum fjölþjóðlegum orðum sem öll lúta að nýjungum eða tískufyrirbærum áranna kringum 1890, þar á meðal bæði rafurmagni (electriseraður) og dáleiðslu hypnotiseraður).

Árið 1908 fékk séra Janus lausn frá prestskap en heilsu hans var þá eitthvað farið að hnigna því að honum sóttu brjóstþyngsli.[1357] Sumarið 1908 fór hann frá Holti og settist að í Reykjavík ásamt konu sinni[1358] en þeim hafði ekki orðið barna auðið í hjónabandinu.[1359] Haustið 1909 fluttist séra Janus í Hafnarfjörð og hóf kennslu við Flensborgarskóla.[1360] Þar kenndi hann í 10 ár en andaðist saddur lífdaga 7. nóvember 1922.[1361]

 

Hér hefur nú verið gerð nokkur grein fyrir þeim 16 prestum sem héldu staðinn í Holti frá siðaskiptum og fram til síðustu aldamóta en áður var fjallað stuttlega um nokkra presta sem þar sátu í kaþólskum sið (sjá hér bls. 7-21).

Um eignir og ítök Holtskirkju hefur áður verið fjallað á þessum blöðum (sjá hér bls. 21-32) og þar var líka rakið það helsta sem finnanlegt er í elstu heimildum um áhöld hennar og skrúða fyrir 1600. Um kirkjugripi í Holti á 17., 18., og 19. öld má margt finna í úttektar- og vísitazíubókum en fátt eitt af öllu sem þar er skráð verður tekið upp hér.

Merkileg er vísitazíugerð Brynjólfs biskups Sveinssonar frá árinu 1639 þegar hann kom á fæðingarstað sinn í Holti nývígður biskup. Sveinn Símonarson, faðir Brynjólfs, var þá háaldraður og hafði látið af prestverkum að mestu eða öllu leyti (sjá hér bls. 40). Séra Jón Sveinsson, hálfbróðir biskups, þjónaði þá Holtsprestakalli og gamli séra Sveinn var enn í Holti hjá þessum syni sínum þegar Brynjólfur reið í hlað um miðjan ágúst árið 1639.

Í vísitazíugerð Brynjólfs frá 17. ágúst 1639 er gerð rækileg grein fyrir gripum og skrúða Holtskirkju og öllu skipt í tvo flokka. Í öðrum flokknum eru gripir og klæði sem kirkjan hafði eignast áður en séra Sveinn tók við staðarforráðum í Holti árið 1582 en í hinum allt sem við hafði bæst á þeim 57 árum sem síðan voru liðin.[1362] Kirkjugripi, bækur og messuklæði sem Holtskirkja hafði eignast fyrir 1582 og enn voru í hennar eigu árið 1639 telur Brynjólfur upp og nefnir með þessum orðum:

 

Ein messuklæði heil en úrrotin, eitt altarisklæði, eitt rykkilín, tveir koparhjálmar – vantaði þrjár liljur í annan, tvær kertapípur, þrjár klukkur, tvær smáklukkur, ein mót, einn formi, tvær óttusöngvabækur, einn saltari skertur, nokkrar fánýtar kálfskinnsskræður, útbrunnin bakstursjárn, járnkall holur innan, vatnskall einn, silfurkaleikur brákaður og stóð 4 dali, gyllt brík yfir kórdyrum, eitt altari, máluð brík gömul yfir altarinu.[1363]

 

Minnt skal á að brík merkir hér altaristafla.

Brynjólfur biskup telur líka upp alla þá mörgu gripi sem Sveinn faðir hans hafði lagt til Holtskirkju á sinni löngu embættistíð. Sú upptalning hljóðar sem hér segir: Silfurkaleikur með húsinu, gylltur innan, metinn á 7 ríkisdali. Annar kaleikur, metinn á 8 ríkisdali. Hátíðamessuklæði, það er blár flauelshökull sem herra Gísli Jónsson (Skálholtsbiskup) hafði gefið séra Sveini og rykkilín sem fylgdi höklinum. Hversdagslegt altarisklæði, dökkt að lit. Tvær stórar altarispípur úr kopar. Mynd yfir altarinu sem sýndi fæðingarhistoriuna á léreft uppmálaða. Útskorinn fontur úr eik og í honum mundlaug úr látúni. Máluð brík milli kórs og kirkju. Biblía prentuð á norrænu [og hlýtur það að hafa verið Guðbrandsbiblía – innsk. K.Ó.][1364]

Allt þetta hafði séra Sveinn Símonarson lagt til kirkju sinnar í Holti og auk þess lagt 4 ríkisdali í viðgerð á gamla kaleiknum sem kirkjan hafði eignast fyrir 1582.

Í vísitazíugerðinni frá 1639 telur Brynjólfur biskup reyndar líka upp nokkra gripi sem séra Jón Sveinsson, bróðir hans, hafði lagt til kirkjunnar en það voru: Ein ný bakstursjárn. Tvö spjöld, máluð á léreft. Einn járnkall og engelskt altarisklæði sem kostað hafði 40 álnir (þriðjung úr kýrverði).[1365] Séra Jón hafði líka látið setja þrjár nýjar liljur á gamla koparhjálminn sem áður var nefndur í stað þeirra sem ónýtar voru orðnar.[1366]

Um torfkirkjuna sem stóð í Holti árið 1639 segir svo í þessari sömu vísitazíugerð Brynjólfs biskups:

 

Kirkjan í sjálfri sér gömul að viðum utan máttarviðir sterkir, moldir allar gamlar utan einn veggur nýhlaðinn norðanfram. Þó er hún að svo komnu stæðileg með gylltum predikunarstól … . Bekkir kringum kirkjuna og fjalagólf.[1367]

 

Í vísitazíunni frá 1639 er gerð rækileg grein fyrir jarðeignum og ítökum Holtskirkju en í þeim efnum er þó eingöngu um að ræða staðfestingu á því sem hér var áður rakið eftir máldögum frá 14. öld og öðrum heimildum (sjá hér bls. 21-28). Fróðlegt er hins vegar að sjá lýsingu Brynjólfs á bústofninum sem kirkjan átti og hvaða búsgögn hann getur um. Í vísitazíugerðinni segir:

Í fríðu meðtekið fyrst í gildum peningum, nautum, sauðum og færleikum 8 hundruð. Item 32 málnytukúgildi, kýr og ær til samans.[1368] Tala málnytukúgildanna kemur heim við þann kúgildafjölda sem yfirleitt var sagður fylgja jörðum Holtskirkju á 17., 18. og 19. öld (sjá hér bls. 26) en stundum voru kúgildin á kirkjujörðunum þó fleiri en 32 og munu til dæmis hafa verið orðin 42 á árunum rétt fyrir stórubólu sem hér geisaði á árunum 1707-1709.[1369]

Sá búpeningur, að verðmæti 8 hundruð, sem flokkaður er sér í vísitazíugerð Brynjólfs mun hafa fylgt sjálfum staðnum í Holti og þessi tvískipting á búfjáreign Holtskirkju, annars vegar 8 hundruð í gildum peningum og hins vegar 32 málnytukúgildi, sést víða í eignaskrám hennar frá 17. og 18. öld.[1370] Árið 1884 voru málnytukúgildi Holtskirkju á kirkjujörðunum enn álíka mörg og verið hafði um langt skeið.[1371]

Búsgögnin í Holti, sem Brynjólfur biskup telur upp árið 1639, voru þessi:

Tveggja tunnu ketill með tveimur bótum og vantaði á hann annað eyrað. Fimm fjórðunga ketill með einni bót. Þriggja fjórðunga ketill bættur. Pottur með þremur bótum. Stórt sýruker sem sagt var að tæki tólf tunnur. Annar sár sem tók fjórar tunnur. Gamall tveggja tunnu sár. Einn strokkur. Tólf smákeröld. Fimm borðskálar. Tólf trog. Sex Strandadiskar (þ.e. diskar smíðaðir norður á Ströndum úr rekavið). Sex spænir. Sjö skerdiskar (eða skyrdiskar). Fimm hrífur og fjögur orf. Tvö matborð. Tvær sængur fornar með hægindum og einar hvíluvoðir. Eitt brekán. Ein lítil trékanna. Einir torfkrókar. Einir taðkláfar. Tvær ljáspíkur og að lokum nefnir Brynjólfur skipið sem staðnum fylgdi en það var áttæringur.[1372]

Árið 1681 hafði lítil breyting orðið á búsgögnunum. Eitthvað hafði þó gengið úr sér og annað bæst við. Má þar nefna kramkistu og konustól.[1373] Búsgögnin innanstokks og amboð sem fylgdu staðnum í Holti á 17. og 18. öld voru mjög lengi virt á liðlega 400 álnir[1374] eða sem svaraði nær hálfu fjórða kýrverði.

Þegar leið á 19. öldina tók búsgögnum og innanstokksmunum að fjölga í Holti. Árið 1855 var komin þar handkvörn með stokk og loki og í úttekt frá því ári eru líka nefndir 5 stólar.[1375] Tæplega þremur áratugum síðar, vorið 1884, var kominn ofn með röri í stofu prestshjónanna og frá séra Stefáni P. Stephensen, sem þá var að fara frá Holti, fékk eftirmaður hans líka einhvers konar eldavél (komphur) með röri og reykháf.[1376] Gamall sófi var þá líka í Holti og einnig stofuborð, púlt og skápur.[1377] Sumarið 1891 var baðstofan endurbyggð (sjá hér bls. 197-198) og þá var veggfóður sett á eitt eða fleiri herbergi í þessum nýju húsakynnum.[1378] Nokkrum vikum áður en ráðist var í baðstofubygginguna var Jón Guðmundsson frá Grafargili að múra upp eldavél í Holti,[1379] líklega þá fyrstu sem þangað kom. Þegar staðurinn var tekinn út árið 1908 var eldavélin ásamt múrpípu virt á 55,- krónur og þá var skilvinda, metin á 50,- krónur, komin í búrið hjá presti.[1380]

Auk bústofns og búsgagna átti Holtskirkja öldum saman bát, staðarskipið, og var það lengi áttæringur. Í vísitazíugerð Brynjólfs Sveinssonar frá árinu 1639 er skip kirkjunnar sagt vera áttæringur[1381] en 17 árum síðar átti kirkjan bara sexæring.[1382] Í úttektum frá árunum 1681 og 1731 er líka minnst á skip kirkjunnar í Holti en ekki tekið fram hvort það sé áttæringur eða sexæringur.[1383] Í heimild frá árinu 1784 sjáum við að staðnum í Holti fylgdi þá áttæringur sem menn nefndu Uxa[1384] og í úttektargerð frá árinu 1797 segir:

Staðarskipið, 8 ræðingurinn Uxi, er ogsvo tilsagður af virðingarmönnum, álitinn í góðu standi, með segli, rá, reiða, stýri, 7 árum og austurfærum.[1385] Við afhendingu staðar og kirkju í Holti árið 1797 fylgdi líka legustrengur með skipinu Uxa, virtur á 6 ríkisdali, og einnig hákarlasóknir og selanót.[1386]

Sumarið 1811 var áttæringurinn Uxi enn í góðu standi[1387] en vorið 1812 varð hinn mikli mannskaði í Önundarfirði þegar sjö bátar sem þaðan reru fórust með allri áhöfn í fárviðri þann 6. maí (sjá hér Mosvallahrepur, inngangskafli). Líklega hefur Uxi verið einn þeirra fáu báta frá Önundarfirði sem þá náðu landi (sjá hér Mosvallahreppur, inngangskafli) en tíu árum síðar var þetta gamla skip orðið mjög lasburða.[1388]

Við mannskaðann mikla vorið 1812 hnignaði mjög skipakosti Önfirðinga og svo virðist sem þar hafi dregið verulega úr útgerð og sjósókn. Sagnir herma að Ásgeir prófastur Jónsson, sem þá bjó á Sæbóli á Ingjaldssandi, hafi verið formaður á staðarskipinu frá Holti þegar hann náði landi við illan leik í hinu mikla mannskaðaveðri vorið 1812 (sjá hér Sæból og Mosvallahreppur, inngangskafli). Tíu árum síðar tók hann við Holtsprestakalli og að lokinni úttekt sem fram fór 6. júlí 1822 skrifuðu hann og fráfarandi prestur í Holti biskupi bréf. Þar greina þeir svo frá að hinn gamli áttæringur í Holti sé nú orðinn mjög lélegur og ekki hægt að gera hann vertíðarfæran fyrir minna en 10 ríkisdali.[1389] Í bréfinu fara Ásgeir og Þorvaldur þess á leit að létt verði af Holtsprestum þeirri kvöð að halda við áttæring en þess í stað látið duga að fjögra manna far fylgi staðnum.[1390]

Þetta bréf prestanna tveggja sýnir betur en aðrar heimildir hversu mjög bátaútgerð Önfirðinga hnignaði við hinn mikla mannskaða sem þeir urðu fyrir vorið 1812. Um fækkun áraskipanna (sexæringa og áttæringa) sem sóknarmenn þeirra gerðu út komast prestarnir í Holti svo að orði:

 

Síðan manntjónið 1812 hafa svo fækkað menn og skip að í stað 13 sem gengu hér í veiðistöðunni 1811 gengu þar nú einungis 3 í ár og nú frá allri sveitinni ein 7 skip til sjóar útgjörð í staðinn 18 árið 1811.[1391]

 

Frá prestunum sem bréfið skrifuðu fékk Geir biskup þær fréttir að í Önundarfirði væri nær útilokað að manna gamlan og úr sér genginn áttæring[1392] og síðan komu þesar línur:

 

Af téðum orsökum kemur okkur hér undirskrifuðum saman um, hér með auðmjúkast að innflýja til yðar háæruverðugheita með þá auðmjúkustu bón að yður þóknast mætti að leyfa ekki einungis að nefnt Holtsstaðar 8æringsskip, Uxi kallað, mætti í inventarii stokknum umbreytast í gilt 4 manna far sem eftir nærverandi og fyrirsjáandi kringumstæðum mundi sem hentugra sumar- og haustskip en þó undireins ansvarsminna Beneficiato – heldur og að þeir nú ofan á téð skip lögðu 10 ríkisbankadalir burt falli að öllu sem nærverandi staðarhaldari er þá vel ánægður með.[1393]

 

Á góunni 1823 svaraði Geir biskup bréfinu frá Holti og tilkynnti prestunum að tilmæli þeirra um breytingar á útgerðarháttum hefðu verið samþykkt og þeim yrði hlíft við að kosta upp á viðgerð á Uxa.[1394] Svo virðist sem biskup hafi þó ekki fallist á að í stað áttæringsins kæmi fjögra manna far eins og prestarnir höfðu lagt til því í bréfi sínu talar hann um að í stað gamla Uxa eigi að koma vænt og gallalaust sexærings skip.[1395]

Leyfi biskups fyrir því að úrelda og afskrifa mætti staðarskipið Uxa var gefið út 10. mars 1823.[1396] Í raun hafði skipið þó verið dæmt úr leik nokkru fyrr því þegar séra Ásgeir tók við staðarforráðum í Holti af séra Þorvaldi Böðvarssyni sumarið 1822 fékk hann í stað gamla áttæringsins afhentan nýjan sexæring sem virtur var á 12 ríkisdali.[1397] Með öðrum eignum staðar og kirkju í Holti fylgdi þá líka verbúð á Kálfeyri sem metin var á 6 ríkisdali.[1398] Árið 1836 er sexæringurinn sem Holtskirkja átti sagður vera lítill[1399] og árið 1884 átti kirkjan bara fjögra manna far sem þó var svo stórt að það var talið jafngilda litlum sexæring.[1400] Í skjallegum heimildum má sjá eitt og annað um þann búnað sem fylgdi staðarskipinu í Holti á hverri tíð en engin grein verður gerð fyrir því hér. Aðeins skal þess getið að meðal þess sem séra Stefán P. Stephensen fékk í hendur upp í staðar álagið þegar hann gerðist prestur í Holti árið 1855 voru 2 ífærur og 6 goggar, 6 lóðir með niðurstöðum, 7 haldfæri með 4 leddum, einn kompás og einn blöndukútur.[1401] Af þessu dóti var kompásinn verðmætastur, metinn á 11 ríkisdali.[1402]

Hér hefur þess áður verið getið að Brynjólfur biskup Sveinsson vísiteraði sjö sinnum í Holti á þeim árum sem hann var biskup í Skálholti, fyrst 1639 og síðast 1667. Í vísitazíugerð Brynjólfs frá árinu 1667 sést að Holtskirkja átti þá enn nær alla þá kirkjugripi sem verið höfðu í hennar eigu árið 1639 og flest hin sömu skrúðklæði. Ýmsir gripir höfðu reyndar bæst við á þessum 28 árum. Hinir helstu þeirra voru ljósahjálmur sem virtur var á 20 ríkisdali og séra Jón Sveinson lagði kirkjunni til rétt fyrir 1650[1403] og silfurkaleikurinn sem séra Björn Snæbjörnsson frá Kirkjubóli í Valþjófsdal gaf Holtskirkju rétt eftir 1650 til minningar um móður sína, Þóru í Dal (sjá hér Kirkjuból í Valþjófsdal). Kaleikur þessi er fyrst nefndur í vísitazíugerð frá 1656 og var með patínunni sem honum fylgdi virtur á 9 ríkisdali.[1404] Hér er einnig vert að nefna silkivefnaðar hökul bláan og rauðan með krossi úr gullvír, sem séra Jón Sveinsson í Holti lagði kirkjunni til skömmu fyrir 1650 en frá honum fékk Holtskirkja líka nýja biblíu prentaða sem kostaði  2 hundruð og 5 aura (þ.e. 9 ríkisdali).[1405] og hlýtur það að hafa verið sú sem prentuð var á Hólum á árunum 1637 til 1644 og kennd er við Þorlák biskup Skúlason.

Séra Jón Jónsson, sem tók að fullu við staðarforráðum í Holti af föður sínum, séra Jóni Sveinssyni, árið 1649, lét nokkru síðar endurnýja ýmsa viði kirkjunnar og í hans tíð var sett ný skrá á kirkjuhurðina.[1406] Í vísitazíugerð Brynjólfs biskups frá árinu 1667 er getið um glerglugga á bak við kórinn í Holtskirkju[1407] og minnt skal á að gluggi með einni eða fleiri glerrúðum var kominn í þetta guðshús fyrir lok 14. aldar (sjá hér bls. 31).

Í vísitazíugerðum Brynjólfs biskups er stundum vitnað í vísitazíugerð Gísla Jónssonar sem var biskup í Skálholti á árunum 1558-1587. Einhverjir gripir sem Holtskirkja hafði átt á dögum Gísla voru ekki lengur í hennar eigu þegar Brynjólfur reið um Vestfirði. Í vísitazíugerð frá árinu 1656 er til dæmis minnst á látúnsskildi af altarisklæði sem horfnir séu og bókað að eldri hálfbræður biskups, þeir séra Jón og Þorleifur Sveinssynir, muni vel eftir þessum skjöldum[1408] Áður en Brynjólfur lauk við vísitazíugerðina var ákveðið að erfingjar föður hans, séra Sveins Símonarsonar í Holti, skyldu greiða kirkjunni 5 álnir fyrir þessa týndu skildi.[1409]

Búsgögn staðarins í Holti áttu líka til að ganga úr sér. Hér var áður minnst á áttæringinn sem fylgdi staðnum árið 1639. Þegar Brynjólfur vísiteraði í Holti sautján árum síðar var þar bara sexæringur, virtur á sjö ærgildi, það er 140 álnir.[1410] Talið var að áttæringurinn hefði hins vegar verið tólf ærgilda virði þegar séra Sveinn Símonarson tók við honum og þennan mismun, fimm ærgildi, var erfingjum séra Sveins gert að bæta.[1411] Sjálfur var biskup einn þessara erfingja föður síns en synir séra Sveins, sem upp komust, voru fimm svo hver þeirra hefur þurft að greiða eina rollu, loðna og lemda, til að bæta það sem tapast hafði við rýrnun staðarskipsins í Holti.

Þegar Brynjólfur biskup vitjaði fæðingarstaðar síns í Holti í síðasta sinn, árið 1667, lét hann færa til bókar að kirkjuna þar þurfi að endurbyggja áður en langt um líði.[1412] Árið 1675 var Holtskirkja þó enn gömul og lasin[1413] en þegar umboðsmaður biskups vísiteraði í Holti árið 1689 hafði kirkjan fyrir skömmu verið endurbætt og uppsmíðuð.[1414] Séra Sigurður Jónsson tók að fullu við staðarforráðum í Holti árið 1681[1415] og í vísitazíugerðinni frá 1689 sést að það er hann sem lét endurbyggja kirkjuna.[1416] Sú endurbygging kostaði liðlega 54 kýrverð og af þeirri upphæð gaf séra Sigurður kirkjunni tæplega 7 kýrverð.[1417] Í vísitazíugerðinni frá 1689 er tekið fram að upp í útlagðan kostnað við kirkjubygginguna eigi séra Sigurður að fá frá Holtskirkju aðra biblíuna sem hún átti, þá sem kostað hafði 9 ríkisdali.[1418] Verðið sýnir að þarna er átt við Þorláksbiblíu (sjá hér bls. 169) en í síðari biskupsvísitazíunni sést að um þetta leyti hvarf Guðbrandsbiblía úr eigu Holtskirkju. Aftur á móti reynist kirkjan hafa haldið mun lengur þeirri biblíu sem við Þorlák var kennd[1419] svo ef til vill hafa orðið þarna víxl á bókum milli klerks og kirkju.

Árið 1639 var Holtskirkja gömul að viðum og árið 1667 var talin þörf á endurbyggingu hennar (sjá hér bls. 164 og 169). Með hliðsjón af því má ætla að kirkjan sem séra Sveinn Símonarson lét reisa í Holti um 1600 (sjá hér bls. 36-37) hafi ekki verið tekin niður fyrr en á árunum upp úr 1680 þegar séra Sigurður Jónsson lét endurbyggja hana eins og hér var nýlega nefnt. Timburkirkjan sem nú stendur í Holti var reist árið 1869[1420] en svo virðist sem torfkirkjan þar hafi verið endurbyggð sex sinnum næstu 300 árin á undan. Tvær fyrstu kirkjubyggingarnar af þessum sex hafa þegar verið nefndar, þær sem prestarnir Sveinn Símonarson og Sigurður Jónsson höfðu forgöngu um.

Árið 1731 var kirkjan sem séra Sigurður Jónsson lét reisa upp úr 1680 orðin mjög léleg og viðir hennar fúnir.[1421] Skömmu síðar, um eða fyrir 1740, lét séra Sigurður Sigurðsson hins vegar endurbyggja Holtskirkju sem m.a. sést á því að í vísitazíugerð frá árinu 1749 er kirkjan sögð vera nýleg og sæmilega standandi að viðum og veggjum.[1422] Þessi uppbygging entist þó ekki lengi því árið 1761 voru viðir farnir að fúna og tekið fram af biskupi að kirkjan sem þá stóð í Holti geti ekki talist vera stæðileg.[1423]

Árið 1761 tók séra Jón Eggertsson við staðarforráðum í Holti og nokkru síðar eða um 1770 lét hann endurbyggja kirkjuna þar. Árið 1775 eru viðir og veggir Holtskirkju sagðir vera nýir, vænir og velstæðilegir[1424] svo hér er ekki um að villast. Árið 1790 var þessi sama kirkja enn talin vera velstæðilegt hús en 1811 var hún farin að ganga til og súðin talin þarfnast endurbóta.[1425]

Árið 1819 réðst séra Þorvaldur Böðvarsson í að byggja nýja torfkirkju í Holti[1426] og var það fimmta kirkjubyggingin þar sem um er kunnugt eftir siðaskipti. Nær aldarfjórðungi síðar, sumarið 1843, var sú kirkja endurbyggð[1427] og gegndi sínu hlutverki þaðan í frá í annan aldarfjórðung eða allt þar til timburkirkjan sem nú stendur í Holti var reist árið 1869.

Um stærð kirkjunnar sem séra Sveinn Símonarson lét reisa í Holti á árunum kringum 1600 er nú ekki vitað en líklegt er að stafgólf í henni hafi verið átta. Rökin fyrir þeirri kenningu eru sótt í vísitazíugerð frá árinu 1689 en þá hafði gamla kirkjan frá dögum séra Sveins verið endurbyggð fyrir þremur árum.[1428] Í þessari vísitazíugerð frá árinu 1689 er tekið fram að kór og kirkja hafi verið endurbyggð undir sama formi og þess getið að stafgólfin séu átta.[1429] Meining orðanna undir sama formi er að öllum líkindum sú að hin endursmíðaða kirkja hafi að stærð og ytra útliti verið mjög lík gömlu kirkjunni sem staðið hafði í Holti frá því um 1600.

Ekki varð heldur nein veruleg breyting á torfkirkjunni í Holti næstu 130 árin, þ.e. frá 1689 til 1819 en kirkjan sem séra Þorvaldur Böðvarsson lét byggja árið 1819 var hins vegar eitthvað frábrugðin hinum eldri kirkjum eins og hér verður síðar vikið nánar að.

Eins og áður sagði var kirkjan sem séra Sigurður Jónsson lét byggja upp árið 1686 í 8 stafgólfum. Í henni var fjalagólf og hún þiljuð í hólf og gólf.[1430] Við kirkjudyrnar og bak við altarið voru standþil og bjórþil.[1431]  Sunnantil í kórnum voru fóðraðir bekkir og einnig að nokkru leyti að norðanverðu. Í framkirkjunni voru fóðraðir bekkir með báðum veggjum og þrír fastir þverstólar, ein karlmannamegin og tveir kvennamegin.[1432] Í heimild frá árinu 1731 er líka getið um krókbekki við kirkjudyr, bæði að sunnan og norðan.[1433] Altari með gráðu og predikunarstóll með gylltu málverki settu svip á kirkjuna.[1434] Yfir altari og predikunarstól voru glergluggar.[1435] Í glugganum yfir altarinu voru þrjár rúður en margar í hinum.[1436] Á báðum göflum kirkjunnar voru vindskeiðar en í kirkjudyrum var hurð á járnum og á henni lítill koparhringur.[1437] Á hurðinni var líka skrá svo hægt var að læsa kirkjudyrunum með lykli.[1438] Jón biskup Vídalín sem vísiteraði í Holti seint í ágústmánuði árið 1700 getur líka um sérstaka stúku sunnantil í kór kirkjunnar[1439] og í yngri vísitazíugerðum og úttektum er stundum minnst á þessa sömu stúku.[1440]

Í vísitazíugerðum frá 18. öld má sjá að útlit kirkjunnar í Holti var þá jafnan mjög líkt því sem hér hefur verið lýst og svo var enn árið 1811.[1441] Ýmsar minniháttar breytingar munu þó hafa verið gerðar á kirkjunni á þessu skeiði og má sem dæmi nefna fjölgun glugga. Árið 1700 voru glggarnir bara tveir, annar yfir altari en hinn yfir predikunarstólnum. Árið 1749 höfðu hins vegar bæst við tveir nýir gluggar, sinn hvorum megin við altarið og voru 16 rúður í öðrum en 9 í hinum.[1442] Í vísitazíugerð frá því ári er þess líka getið að gamli glugginn yfir altarinu sé með þremur myndum en nokkuð brákaður og glugginn yfir predikunarstólnum sé með mörgum rúðum en nokkuð gallaður.[1443] Í þessari síðastnefndu vísitazíugerð er einnig frá því greint að kór kirkjunnar í Holti sé afdeildur frá framkirkjunni með dróttum og dyrastöfum samt vængjahurð af grindverki.[1444] Um miðbik 18. aldar var líka komið klukknaport framan við kirkjudyrnar með fjórum stöplum, súð í rjáfri, pílárum til beggja hliða og þili að framan með vindskeiðum yfir bita.[1445] Í vísitazíugerðinni frá 1749 sjáum við líka að vinskeiðarnar yfir dyrum kirkjunnar hafa verið útskornar.[1446]

Í vísitazíugerð sinni frá árinu 1761 tekur Finnur biskup Jónsson fram að Holtskirkja sé öll undir súð.[1447] Hugsanlegt er að svo hafi verið um langt skeið fyrir daga Finns en hann lætur þess einnig getið að stúkan í kórnum sé undir reisifjöl[1448] sem merkir að þar hafa fjalirnar í súðinni snúið upp og niður.

Á síðari hluta 18. aldar fjölgaði þversætum í Holtskirkju. Árið 1749 voru þau aðeins þrjú ef frá eru taldir krókbekkirnir, en tólf árum síðar hafði eitt slíkt sæti bæst við.[1449] Árið 1790 voru hin virðulegri þversæti á kirkjugólfinu orðin fjórtán, sjö hvoru megin, öll með bekkjum, bríkum og bakslám og þar fyrir framan voru svo einhver lægri sæti eða bekkjarfjalir.[1450] Þegar hér var komið sögu var líka komið loft í kirkjuna að sunnanverðu, yfir fimm fremstu stafgólfunum, og þar uppi voru tíu þversæti.[1451] Í kórnum höfðu líka bæst við lausir langbekkir og yfir kirkjudyrunum var kominn gluggi með fjórum rúðum.[1452]

Árið 1819 stóð séra Þorvaldur Böðvarsson fyrir kirkjubyggingu í Holti eins og fyrr var nefnt.[1453] Kirkjan sem hann lét reisa var í níu stafgólfum[1454] og ætti því að hafa verið svolítið stærri en átta stafgólfa kirkjurnar sem byggðar voru í Holti á 17. og 18. öld. Í einni heimild segir þó að kirkjan frá 1819 hafi verið styttri en sú næsta á undan.[1455] Nákvæmar upplýsingar um stærð hinna eldri kirkna liggja ekki fyrir en gólfflötur kirkjunnar frá 1819 var 19 álnir á lengd og 6,33 álnir á breidd,[1456] það er 11,93 x 3,97 metrar. Flatarmál kirkjunnar, sem séra Þorvaldur lét reisa, hefur því verið 47,36 m2 en í þeim heimildum sem hér er byggt á er ekki getið um hæð. Til samanburðar skal þess getið að timburkirkjan sem byggð var í Holti árið 1869 og enn stendur er 16 álnir á lengd og 10 álnir á breidd.[1457] Hún er því styttri en torfkirkjan frá 1819 en grunnflöturinn engu að síður um það bil þriðjungi stærri af því breiddin er svo miklu meiri.

Fróðlegt er að skoða kirkjubyggingarreikning séra Þorvaldar Böðvarssonar frá árinu 1819. Þar sést að heildarkostnaður við byggingu kirkjunnar varð 705 ríkisdalir og 49 skildingar[1458] en sú upphæð svaraði á þeim tíma til nær 13 kýrverða ef marka má opinberar verðlagsskrár.[1459] Byrjað var að rífa gömlu kirkjuna þann 7. september um haustið og tveimur mánuðum síðar höfðu kirkjusmiðirnir lokið sínu verki.[1460] Þeir voru tveir og hétu Jón Guðmundson og Sveinn Þorvaldsson.[1461] Sá síðarnefndi er að öllum líkindum Sveinn Þorvaldsson í Hvammi í Dýrafirði sem var kunnur smiður á sinni tíð eins og fleiri út ætt föður hans (sjá hér Hvammur). Báðir smiðirnir unnu að kirkjubyggingunni í 45 daga á tímabilinu frá 15. september til 6. nóvember.[1462] Daglaun þeirra hvors um sig voru 1 ríkisdalur og 64 skildingar[1463] og hefðu því átt að fá 75 ríkisdali hvor fyrir 45 vinnudaga eða samtals 150 ríkisdali. Í raun varð þó greiðslan til smiðanna lítið eitt meiri eða 157 ríkisdalir og var að hluta til borguð með fæði á smíðatímanum.[1464]

Svo virðist sem kirkjusmiðirnir hafi verið með allgott kaup því fyrir 33 daglaun gátu þeir keypt sér kú.[1465] Í byggingarreikningi kirkjunnar sést aftur á móti að venjulegir púlsmenn sem kvaddir voru til starfa við þessar framkvæmdir í Holti fengu ekkert fyrir sitt erfiði nema grjónagraut og skyr á málum. Um þeirra hlut að kirkjubyggingunni og verðlag á matnum sem þeir átu í Holti kemst séra Þorvaldur svo að orði:

 

Til þess sárfátæka og bjargarlitla sóknarfólks sem undir tilsjón smiðanna reif upp sokkinn grundvöll kirkjunnar, byggði af stórgrýti ½ alin háa stétt undir fótstykkjum allt um kring og slárnar undir gólfinu, flutti að grjót um langan veg og upphlóð syðri vegginn og ofan á hinn nyrðra, þakti húsið og færði burt moldir (hvað allt, eins og byggingin yfir höfuð, vegna dæmafárra votviðra og storma gekk seinna en annars mundi) – uppgengið:

 1. Tunna af skyri 16     ríkisdalir

        3 skeffur grjón         9     ríkisdalir

 1. Eldiviður hér til 3     ríkisdalir og 48 skildingar.[1466]

 

Ætla má að grjónin sem fólkið fékk hafi verið bygggrjón því hrísgrjón voru lítt þekkt hérlendis um 1820 og eldiviðurinn sem prestur tekur til kostnaðar hefur farið í að sjóða bygggrjónagrautinn.

Árið 1822 fór fram úttekt á stað og kirkju í Holti. Þá var hin nýja kirkja aðeins þriggja ára gömul. Í þessari úttekt er tekið fram að kirkjan sé í níu stafgólfum með fótstykkjum allt um kring af óflettum trjám og bindingsverki … með nýrri súð af þykkum borðum og nýju fjalagólfi.[1467] Fyrir kórgafli var tvöfalt standþil og annað standþil við dyragafl.[1468] Á dyragaflinum voru tveir stórir gluggar með sex rúðum hvor.[1469] Kórinn í þessari kirkju var þrjú stafgólf[1470] svo ljóst er að stafgólfin í framkirkjunni hafa verið sex. Við kórdyr var gráða fyrir altari þar sem 15 kirkjugestir gátu kropið.[1471]

Kirkjan frá 1819 mun hafa verið byggð af vanefnum og árið 1836 var hún talin þurfa verulegar endurbætur.[1472] Þá var talið að nauðsynlegar lagfæringar myndu kosta 60 spesíur,[1473] það er 120 ríkisdali. Ekki var þó ráðist í endurbyggingu kirkjunnar fyrr en árið 1843 eins og hér var áður nefnt en þá var hún byggð upp, mikinn part af gömlum viðum.[1474] Við endurbyggingu árið 1843 mun kirkjan hafa haldið sínu fyrra útliti í öllum höfuðatriðum og var áfram í níu stafgólfum. Í vísitazíugerð Helga biskups Thordersen frá sumrinu 1852 segir m.a. svo um Holtskirkju: Sjálf er kirkjan í 9 stafgólfum, öll undir súð með fjalagólf og þiljuð innan umhverfis.[1475] Loft var í kirkjunni yfir fjórum fremstu stafgólfunum og þar uppi fimm hálffóðraðir langbekkir.[1476] Í vísitazíugerðinni frá 1852 er getið um tvo glugga á kórnum og var hvor þeirra með sex stórum rúðum.[1477] Á framgafli voru líka tveir sex rúðna gluggar og sá þriðji yfir kirkjudyrum með fjórum rúðum.[1478]

Um kirkjuna sem nú stendur í Holti og byggð var árið 1869 verður ekki fjallað hér en þess skal þó getið að á henni voru gerðar miklar endurbætur árið 1907.[1479]

Margir góðir gripir prýddu Holtskirkju á liðnum öldum og hefur áður verið minnst á suma þeirra. Árið 1639 lét Brynjólfur biskup Sveinsson skrá í sérstakan flokk þá gripi sem kirkjan hafði eignast áður en faðir hans kom að Holti árið 1582 (sjá hér bls. 163-165). Fróðlegt er að skoða hvaða gripir úr þeim flokki héldust lengst í eigu kirkjunnar. Í þeim flokki voru tvær ljósakrónur úr kopar, sem Brynjólfur nefnir, en þeirra er einnig getið í máldaga Gísla biskups Jónssonar frá árunum upp úr 1570 (sjá hér bls. 31). Þriðja koparhjálminn eignaðist Holtskirkja svo skömmu fyrir 1650 fyrir forgöngu séra Jóns Sveinssonar (sjá hér bls. 168), sem þá var prestur í Holti, en hann var bróðir Brynjólfs biskups. Um þessar þrjár ljósakrónur eða koparhjálma er síðan getið í öllum vísitazíugerðum frá 17., 18. og 19. öld, allt til ársins 1884, og ekki verður annað séð en það séu jafnan sömu hjálmarnir.[1480] Ein þessara ljósakróna var upphaflega með 12 liljur eða arma en hinar tvær með sex.

Er Þorvaldur Jónsson, prófastur á Ísafirði, tók út stað og kirkju í Holti vorið 1884 lét hann bóka að Holtskirkja eigi 2 ljósakrónur úr kopar og sé önnur með 10 liljum, pípum og skálum en hin með 6.[1481] Enda þótt prófasturinn tali þarna um krónu með 10 liljum má telja fullvíst að þar sé um að ræða hina gömlu ljósakrónu sem upphaflega hafði 12 liljur. Sá ljósahjálmur prýðir kirkjuna enn og er nú með 10 liljum eða örmum en alveg greinilegt að á hann vantar tvo arma (skoðað 18.8.1995) sem reyndar voru vel varðveittir hjá þáverandi sóknarpresti sumarið 1995.[1482]

Í úttektinni frá 1884 er líka getið um þriðja ljósahjálminn sem verið hafði í eigu kirkjunnar og sagt að hann sé enn í Holti en talinn gallaður og tekið fram að ekki sé pláss fyrir hann í kirkjunni.[1483] Í úttekt frá árinu 1908 er enn getið um tvo koparhjálma í Holtskirkju og frá því greint að úr hinum þriðja og minnsta séu til hinir helstu partar.[1484] Séra Þórður Ólafsson, prófastur á Söndum í Dýrafirði, sem annaðist þá úttekt lét hins vegar bóka að ráðlegt væri að selja þessa parta.

Sumarið 1994 var gamli tólf arma ljósahjálmurinn enn á sínum stað í Holtskirkju eins og hér var áður nefnt og annar hinna fornu hjálma, sem voru með 6 örmum, var þá líka í vörslu prestshjónanna í Holti og geymdur á heimili þeirra. Tveir ljósahjálmar, sem nú eru í kirkjunni, hafa fimm arma og munu vera nýlegir.

Á fyrri tíð héngu ljósahjálmarnir í Holtskirkju í leðurólum úr nautshúð og svo var enn um 1950 en þessar gömlu leðurólar voru lagðar af skömmu fyrir 100 ára afmæli kirkjunnar árið 1969.[1485] Um leðurólarnar í Holtskirkju getur Hallgrímur biskup Sveinsson í vísitazíugerð sinni frá árinu 1896 og segir: Koparhjálmar, annar góður, hinn lítilfjörlegur. Þeir hanga báðir í leðurreim og snæri en í stað þess ætti að setja járnvír eða járnkeðju og búa tryggilega um.[1486]

Tvær kertapípur voru í Holtskirkju árið 1639 sem Brynjólfur segir þangað komnir fyrir 1582 (sjá hér bls. 163-165). Í máldögum frá árunum 1377 og 1397 er getið um þrjá kertastjaka í Holtskirkju (sjá hér bls. 30-31) og verið getur að tveir af þessum stjökum hafi enn verið í kirkjunni árið 1639, þá nefndir kertapípur. Í Gíslamáldaga frá árunum upp úr 1570 er að vísu ekki minnst á neina kertastjaka eða kertapípur í Holti (sjá hér bls. 31) en ólíklegt verður samt að telja að engin slík ljósfæri hafi þá verið þar í kirkjunni. Í vísitazíugerðum frá síðari hluta 17. aldar og frá 18. öld er Holtskirkja jafnan sögð eiga tvo stóra koparstjaka, sem séra Sveinn Símonarson lagði henni til árið 1604 (sjá hér bls. 164), en einnig aðra tvo minni stjaka eða kertapípur[1487] sem líklegt er að hafi verið hinir sömu og Brynjólfur biskup gat um árið 1639. Þessir litlu stjakar eru árið 1790 sagðir vera úr kopar með eirpípum og þeir voru enn í Holtskirkju árið 1852.[1488] Á síðari hluta 19. aldar virðist þessum gömlu kertastjökum hins vegar hafa verið fargað því þeirra er ekki getið við úttekt staðar og kirkju í Holti árið 1884 og ekki heldur 1908.[1489] Stjakarnir tveir, sem séra Sveinn Símonarson lagði kirkjunni til árið 1604, standa hins vegar enn á altarinu[1490] og eru það merkisgripir.

Þrjár kirkjuklukkur voru í Holti árið 1639 og einnig tvær smærri klukkur eða bjöllur. Allar þessar klukkur segir Brynjólfur biskup kirkjuna hafa eignast fyrir 1582 (sjá hér bls. 164). Árið 1397 átti Holtskirkja þrjár klukkur og í máldaga frá árinu 1377 er hún sögð eiga tvær bjöllur (sjá hér bls. 30-31). Í Gíslamáldaga frá því um 1570 er líka minnst á þrjár klukkur og tvær bjöllur í Holtskirkju..[1491] Ætla má að tvær af þessum klukkum séu hinar sömu og enn eru í kirkjunni því á þeim er að finna ártölin 1526 og 1527.[1492] Á annarri klukkunni standa þessi orð:Hinirich Koch Me Fecit[1493] − það er: Hinirich Koch gerði mig, og höfum við þar nafn klukkusmiðsins sem líklega hefur verið þýskur. Þriðja klukkan sem Holtskirkja átti um 1570 gæti sem best hafa verið ein klukknanna þriggja sem voru hér árið 1397. Í vísitazíugerðum frá 17. og 18. öld er jafnan getið um þrjár klukkur og tvær bjöllur í Holti þegar kirkjugripir eru taldir upp[1494] allt til ársins 1790 en þá eru stóru klukkurnar sagðar vera tvær og svo lítil klukka í kórnum[1495] sem að líkindum hefur verið önnur bjallan. Árið 1852 voru líka tvær stórar klukkur í Holtskirkju og ein minni.[1496] Í úttektum frá árunum 1884 og 1908 er kirkjan sögð eiga þrjár klukkur.[1497] Ein þessara þriggja klukkna var árið 1908 í láni hjá Eyrarkirkju í Skutulsfirði. Auk klukknanna tveggja frá 1526 og 1527 sem Holtskirkja á nú er einnig í hennar eigu þriðja klukkan en hún er sprungin.[1498] Þá klukku gaf séra Eyjólfur Kolbeinsson Holtskirkju árið 1840[1499] en hann var þá prestur á Eyri í Skutulsfirði. Líklega er það hún sem var í láni hjá Eyrarkirkju árið 1908.

Á 16. og 17. öld voru altaristöflur oftast nefndar bríkur. Í vísitazíugerð Brynjólfs biskups frá árinu 1639 sést að þá voru í Holtskirkju tvær bríkur sem þar höfðu verið þegar Sveinn faðir hans tók við staðnum árið 1582.[1500] Önnur þeirra var yfir kórdyrum og tekið fram að hún sé gyllt.[1501] Hin var yfir altarinu og lætur Brynjólfur þess getið að hún sé máluð og orðin gömul.[1502] Báðar þessar bríkur virðast hafa verið mjög lengi í kirkjunni.

Í öllum vísitazíugerðum og úttektum frá 17. og 18. öld sem kannaðar hafa verið við undirbúning þessarar ritsmíðar er getið um gyllta brík yfir kórdyrum kirkjunnar í Holti.[1503] Í vísitazíugerð Jóns biskups Árnasonar frá árinu 1725 segir að bríkin yfir kórdyrum sé úthöggvin og forgyllt[1504] og Hannes biskup Finnsson talar um vængjabrík af bíldhöggvaraverki yfir kórdyrum í Holtskirkju.[1505] Líklegt má telja að bríkin, sem Hannes lýsir svo árið 1790, sé sú sama og komin var í kirkjuna fyrir 1582 en þó er hugsanlegt að þetta sé yngri brík sem komið hafi í stað þeirrar gömlu. Vængjabríkin var enn yfir kórdyrum í Holti árið 1811[1506] en árið 1852 virðist þessi gamla brík hafa verið horfin því þá er talað um tvö líkneski yfir kórdyrunum.[1507] Ef til vill er þó ekki útilokað að orðið líkneski hafi verið notað um myndirnar á bríkinni því eins og hér var áður frá greint þá var hún bíldhöggvaraverk.

Hin bríkin sem Holtskirkja átti árið 1582 var máluð og höfð yfir altarinu eins og Brynjólfur biskup tók fram í vísitazíugerð sinni frá árinu 1639. Flest bendir til þess að sú altaristafla hafi verið mjög lengi í Holtskirkju. Brynjólfur lætur þess getið að hún hafi verið í kirkjunni árið 1582 og segir auk þess að hún sé gömul (sjá hér bls. 177). Í vísitazíugerðum og úttektum frá 18. öld er líka stundum tekið fram að hin málaða brík yfir altarinu í Holtskirkju sé gömul[1508] og Hannes biskup Finnsson segir 1790 að þetta sé vængjabrík, mjög fornfáleg.[1509] Líklegt er að það sé sama altarisbríkin og komin var í Holt fyrir 1582 en þess verður að geta að á árunum 1582-1639 lagði séra Sveinn Símonarson kirkjunni í Holti til aðra málaða brík sem valinn var staður milli kórs og kirkju.[1510]

Hinar fornu altarisbríkur sem prýddu Holtskirkju árið 1582 eru nú horfnar af sjónarsviðinu en vera má að líkneski frá Holti sem varðveitt eru í Þjóðminjasafninu og bera þar númerið 2069[1511] séu brot úr annarri hvorri þessara fornu bríka. Eins og áður var getið er í vísitazíugerð frá árinu 1852 minnst á líkneski yfir kórdyrum í Holtskirkju og réttum 30 árum síðar eignaðist forngripasafnið í Reykjavík, sem nú heitir Þjóðminjasafn Íslands, líkneski sem Sigurður Vigfússon, þáverandi forstöðumaður safnsins, fékk hjá prestinum í Holti.[1512]

Í safnskrá Þjóðminjasafnsins lætur Sigurður Vigfússon þess getið að í Holti hafi hann fengið líkneski Maríu, Jesú og Önnu, samföst úr eik.[1513] Myndirnar segir hann vera  hátt upphleyptar og hafi þær verið á vegg yfir altari.[1514] Sigurður tekur fram að á hinni útskornu mynd sé sveinninn allsnakinn og lætur í ljós þá skoðun að líklega séu líkneskin þýsk að uppruna frá árunum kringum 1500.[1515]

Í Árbók fornleifafélagsins frá árinu 1883 gerir Sigurður nánari grein fyrir þessum tréskurðarmyndum frá Holti og segir þar að þær María og Anna séu í nær fullri líkamsstærð, sitji báðar á sama stólnum og haldi María á barninu.[1516]

Tólf árum síðar birti Pálmi Pálsson, sem þá gegndi starfi forngripavarðar, svolitla ritgerð um líkneskin frá Holti í Árbók fornleifafélagsins.[1517] Hann segir konuna sem situr við hlið Maríu vera Elísabet[1518] en ekki Önnu eins og Sigurður Vigfússon hafði haldið fram. Elísabet var að sögn guðspjallamanna móðir Jóhannesar skírara en Anna móðir Maríu meyjar.

Pálmi Pálsson lætur þess getið að hæsta líkneskið sé 1,10 metrar á hæð og til samans séu þau öll þrjú nær 0,82 metrar á breidd.[1519] Hann segir myndirnar gerðar út tveimur eikarbútum sem hafi verið felldir saman.[1520]

Pálmi lýsir hinum fornu tréskurðarmyndum svolítið nánar og segir þá meðal annars:

 

María er með slegið hár og með kórónu á höfði, í skósíðum kyrtli með háum kraga og útbrettum hornum og framvíðum ermum … Elísabet er með höfuðskýlu, slíka sem nunnur báru, í kyrtli með ermum sem á hinu líkneskinu og með möttul yfir sér. Sveinninn Jesús hefur verið allsber. Hann heldur á einhvers konar ávexti í vinstri hendi en hægri handleggurinn er brotinn af fyrir ofan ölnboga.[1521]

 

Niðurstaða Pálma var sú að umrædd líkneski væru án efa frá kaþólskri tíð og hugsanlegt að þau væru jafnvel frá 13. eða 14. öld.[1522] Hann tekur fram að upphaflega hafi þau sýnilega verið máluð og gullroðin eða gyllt og segir þeim hafi verið ætlað að standa upp við vegg á eða yfir altari.[1523]

Hvort sem líkneski þessi eru hluti af gamalli altarisbrík eða ekki má telja fullvíst að ásamt paxspjaldi sem frá er sagt á öðrum stað (sjá hér bls. 186-187) séu þau elstu gripir úr Holtskirkju sem enn gefst kostur á að skoða. Róðukross, sem áður var í Holtskirkju, er reyndar einnig varðveittur í Þjóðminjasafni en talið er að hann sé varla eldri en frá 16. öld.[1524] Á þessum róðukrossi, sem ber safnnúmerið 2070, hangir hinn krossfesti á höndunum eins og algengt var í gotneskum stíl og báðir fætur eru negldir saman.[1525] Krossinn er úr eik og hæð róðunnar nú um 84 sentimetrar.[1526] Áður var hún lítið eitt hærri því brotnað hefur framan af tánum.[1527] Róðukrossinn fékk Sigurður Vigfússon í Holti sumarið 1882.[1528]

Um aðra gripi sem Holtskirkja átti árið 1582 verður ekki fjallað að sinni, enda munu fáir þeirra hafa enst jafn lengi og hinir sem grein hefur verið gerð fyrir hér að framan. Áður en lengra verður haldið sýnist hins vegar vera við hæfi að víkja að nokkrum kirkjugripum sem séra Sveinn Símonarson, er var prestur í Holti frá 1582 til 1644, lagði til kirkjunnar þar.

Af gripum sem Holtskirkja eignaðist fyrir forgöngu séra Sveins er fyrst að nefna tvo silfurkaleika sem árið 1639 voru metnir á sjö og átta ríkisdali hvor.[1529] Láta mun nærri að kýrverðið hafi á þessum tíma verið um það bil fjórir ríkisdalir og hefur því dýrari kaleikurinn kostað sem svaraði tveimur kýrverðum. Í vísitazíugerð Brynjólfs biskups Sveinssonar frá árinu 1639 er tekið fram að annar þessara tveggja kaleika sé gylltur innan og honum fylgi kaleikshús.[1530] Séra Sveinn lét líka gera upp gamlan silfurkaleik sem Holtskirkja hafði átt er hann tók við prestsembættinu í Holti árið 1582.[1531] Sú viðgerð kostaði 4 ríkisdali.[1532] Þessi síðast nefndi silfurkaleikur hefur að öllum líkindum verið sá hinn sami og nefndur er í Gíslamáldaga frá árunum upp úr 1570 en þar er getið um silfurkaleik sem Bjarni Ólafsson hafi goldið til kirkjunnar í Holti.[1533] Líklegt er að þar sé um að ræða Bjarna Ólafsson sem lengi bjó á Hóli í Önundarfirði en hjá honum var Brynjólfur Sveinsson, síðar biskup, í fóstri um nokkurra ára skeið í bernsku (sjá hér bls. 43-44). Bjarni þessi var sonur séra Ólafs Jónssonar sem var prestur í Holti frá því um 1534 og til 1574.

Um 1655 eignaðist Holtskirkja nýjan kaleik sem var stærri en hinir eldri. Gefandinn var séra Björn Snæbjörnsson frá Kirkjubóli í Valþjófsdal (sjá hér Kirkjuból í Valþjófsdal) sem þá var prestur á Staðastað en hafði áður verið rektor Skálholtsskóla í 11 ár. Í vísitazíugerð Brynjólfs biskups frá árinu 1656 segir:

 

Item hefur heiðarlegur kennimann séra Björn Snæbjörnsson kirkjunni í Holti til ævinlegrar eignar afhent í minning eftir sína sáluðu móður, ærugöfuga sæmdarkvinnu, Þóru Jónsdóttur, hverrar líkami hér hvílir, einn silfurkaleik með patínu sem til samans vegur 9 ríkisdali og skrifast hann inn í kirkjunnar inventarium.[1534]

 

Þennan kaleik hefur Holtskirkja eignast á árunum 1652-1656 því Þóra í Dal, móðir séra Björns Snæbjörnssonar andaðist árið 1652 eins og hér hefur áður verið nefnt (sjá hér Kirkjuból í Valþjófsdal).

Í vísitazíugerðum og úttektum frá árunum 1656 til 1825 er jafnan getið um þrjá silfurkaleika í Holtskirkju og oft tekið fram að einn þeirra sé stærri en hinir.[1535] Í vísitazíugerð Þórðar biskups Þorlákssonar frá árinu 1675 er tekið fram að báðir minni kaleikarnir séu gylltir innan en sá stærsti sé ógylltur og hann hafi séra Björn Snæbjörnsson gefið kirkjunni.[1536]

Með hliðsjón af því sem hér hefur verið sagt má telja nær fullvíst að annar kaleikurinn sem séra Sveinn Símonarson lagði til Holtskirkju, − sá sem var gylltur innan, hafi verið í eigu kirkjunnar fram á nítjándu öld. Um hinn kaleikinn frá séra Sveini er allt óljósara því ekki er tekið fram í frumheimildinni að hann hafi verið gylltur innan (sjá hér bls. 180) en hins vegar ljóst að báðir minni kaleikarnir sem voru í Holtskirkju á árunum 1656-1825 voru með slíkri gyllingu.[1537] Hugsanlegt er að í vísitazíugerð Brynjólfs frá árinu 1636 hafi láðst að geta um gyllinguna en hitt er líka mögulegt að einn kaleikanna þriggja sem Holtskirkja átti á árunum 1656-1825 hafi verið sá sem Bjarni Ólafsson á Hóli galt kirkjunni um eða fyrir 1570 og séra Sveinn lét gera upp eins og hér var áður frá greint. Úr þessu álitamáli verður tæplega skorið héðan af en hitt er ljóst að allir kaleikarnir þrír sem svo lengi höfðu þjónað sínu hlutverki í Holtskirkju voru lagðir til hliðar á fyrri hluta nítjándu aldar.

Um stóra kaleikinn sem séra Björn Snæbjörnsson gaf kirkjunni til minningar um móður sína er síðast getið árið 1811[1538] og í úttekt frá sumrinu 1836 er sagt að árið 1827 hafi hinir silfurkaleikarnir tveir verið steyptir upp og gerður einn nýr kaleikur úr þessu gamla silfri.[1539] Ártalið 1827, sem þarna er nefnt, er þó líklega ekki alveg rétt því á kaleiknum sem var í Holtskirkju árið 1908 stendur ártalið 1825[1540] og má gera ráð fyrir að sá kaleikur sé hinn sami og upp var steyptur úr hinu forna silfri frá dögum séra Sveins Símonarsonar. Þessi kaleikur er nú í kirkjunni á Flateyri en sá sem fenginn var til að gera einn kaleik úr tveimur árið 1825 var Sveinn Þorvaldsson, silfursmiður í Hvammi í Dýrafirði.[1541]

Meðal gripa sem séra Sveinn lagði til Holtskirkju voru kertastjakarnir tveir[1542] sem enn eru í kirkjunni (sjá hér bls. 164 og 176). Í vísitazíugerð Hannesar biskups Finnssonar frá sumrinu 1790 er minnst á þessa stjaka og tekið fram að séra Sveinn hafi lagt þá til kirkjunnar.[1543] Hannes greinir líka frá því að það séu skálarnar á stjökum þessum sem séu úr kopar en pípurnar séu úr járni.[1544] Í vísitazíugerð Helga biskups Thordersen frá árinu 1852 segir að stjakarnir séu merktir séra Sveini Símonarsyni og á þeim sé ártalið 1604.[1545] Ártalið 1604 bendir eindregið til þess að séra Sveinn hafi fært kirkjunni stjakana á þvi ári eða mjög skömmu síðar en þess er vert að minnast að Brynjólfur sonur hans, síðar biskup, fæddist í Holti 14. september 1605.

Séra Sveinn Símonarson lagði líka til Holtskirkju útskorinn skírnarfont úr eik og fylgdi honum mundlaug úr látúni.[1546] Skírnarfontur þessi var í Holtskirkju nokkuð á þriðju öld eins og sjá má í vísitazíugerðum og úttektum frá árunum 1639 til 1852.[1547] Í vísitazíugerð frá árinu 1790 er þess getið að málaður himinn yfir þessum gamla skírnarfonti sé orðinn fornfálegur.[1548] Árið 1852 var fonturinn enn í Holtskirkju[1549] en í úttekt frá árinu 1884 er tekið fram að hann sé kominn á Forngripasafnið í Reykjavík.[1550] Þangað barst hann 14. júlí 1882 og er nú númer 2071 í Þjóðminjasafni.[1551] Á fontinum er áletrum á lágþýsku og þar má sjá að hann hefur verið smíðaður fyrir séra Svein Símonarson árið 1594.[1552] Sá sem smíðaði fontinn hefur að líkindum heitið Rolef Eis því það nafn er einnig letrað á þennan forna grip. Gamla mundlaugin eða skírnarskálin sem fylgt hafði fontinum var enn í Holti árið 1884[1553] en í úttekt frá árinu 1908 er þess getið að henni hafi verið fargað.[1554]

Aðrir gripir sem séra Sveinn Símonarson færði kirkjunni í Holti virðast ekki hafa enst mjög lengi. Hér var áður minnst á málaða brík sem upphaflega var valinn staðir milli kórs og kirkju (sjá hér bls. 178). Þar hefur hún verið í námunda við gylltu bríkina yfir kórdyrum sem hér var áður minnst á en þá brík eignaðist kirkjan áður en séra Sveinn kom að Holti. Á síðari hluta sautjándu aldar munu báðar þessar bríkur hafa verið í nánd við kórdyr. Til marks um það má nefna að í vísitazíugerð Þórðar biskups Þorlákssonar frá sumrinu 1675 er getið um væna brík yfir kórdyrum og svo aðra brík af málverki yfir kórdyrum, kvennamegin.[1555] Ætla má að fyrrnefnda bríkin hafi verið sú gyllta, sem var eldri. Í úttekt frá árinu 1681 er líka getið um báðar þessar bríkur en þar er nefnd gyllt brík yfir kórdyrum og síðar brík við kórdyr, kvennamegin, af málverki.[1556] Árið 1700 virðist málaða bríkin, sem séra Sveinn lagði til kirkjunnar, hins vegar hafa verið búin að syngja sitt síðasta því í vísitazíugerð sinni frá því ári segir Jón biskup Vídalín aðeins eina brík vera við kórdyr í Holtskirkju og tekur fram að hún sé yfir kórdyrum, gömul og væn með gyllingu.[1557] Í vísitazíugerð frá árinu 1725 er líka tekið fram að bríkin yfir kórdyrum sé úthöggvin og forgyllt[1558] og bendir allt þetta til þess að það hafi verið eldri bríkin, sú gyllta, sem náði að halda velli fram á 19. öld (sjá hér bls. 177-178). Hugsanlegt er þó að bríkin frá séra Sveini hafi verið færð til í kirkjunni og ekki útilokað að það sé hún sem nefnd er máluð fjöl með þremur myndum og hékk yfir altari kirkjunnar í Holti árið 1852.[1559]

Frá Sveini Símonarsyni fékk Holtskirkja líka mynd sem máluð var á léreft og sýndi fæðingarhistoríuna.[1560] Árið 1681 voru trétafla og málaður léreftsdúkur með götum yfir altarinu í Holtskirkju[1561] og má telja líklegt að á þessum götótta léreftsdúk hafi verið myndin sem séra Sveinn lagði kirkjunni til og máluð var á léreft. Fyrst dúkurinn var orðinn götóttur árið 1681 má ætla að myndin sem á honum var hafi horfið úr kirkjunni ekki löngu síðar.

Guðbrandsbiblían sem séra Sveinn Símonarson færði Holtskirkju (sjá hér bls. 164 og 170) virðist líka hafa haldist þar skemur en vænta mátti. Árið 1681 var hún þó enn í Holtskirkju sem þá átti líka eintak af Þorláksbiblíu[1562] sem prentuð var á árunum 1637-1644. Hér var áður frá því greint að á árunum upp úr 1680 réðst séra Sigurður Jónsson, sem þá var prestur í Holti, í að endurbyggja kirkjuna þar og kostaði sú framkvæmd 54 hundruð og 60 álnir.[1563] Við þessi umsvif komst Holtskirkja í nokkra skuld við séra Sigurð og þegar umboðsmaður biskups vísiteraði í Holti haustið 1689 var ákveðið að upp í hana skyldi sóknarpresturinn fá þá biblíu sem kirkjan hafði eignast árið 1647, það er Þorláksbiblíuna, og var hún virt á 9 ríkisdali eða 2 hundruð og 30 álnir.[1564] Allt gat þetta verið eðlilegt en hitt er verra að biblían sem kirkjan tapaði um þetta leyti reynist ekki hafa verið sú sem kennd er við Þorlák biskup á Hólum heldur Guðbrandarbiblían. Í vísitazíugerðum frá 18. öld er þess aldrei getið að Holtskirkja eigi Guðbrandarbiblíu[1565] en Þorláksbiblían var enn í Holti árið 1761 upp úr bandi og óbrúkanleg.[1566] Skýring á þessu bókavíxli er ekki auðfundin en ólíklegt verður að telja að séra Sigurður hafi ruglast fyrir vangá á Guðbrandi og Þorláki.

Ýmislegt gat reyndar valdið því að einstakir gripir eða klæði hyrfu úr eigu kirkjunnar og má sem dæmi nefna rykkilínið sem lík hins nýnefnda séra Sigurðar Jónssonar var sveipað í við andlát hans haustið 1730 og notað sem moldarklæði þegar prestur þessi var jarðsunginn í Holti.[1567]

Þegar Brynjólfur biskup Sveinsson lét skrá kirkjugripi í Holti sumarið 1639 virðist eitt og annað smálegt hafa orðið út undan og ekki komist á blað. Líklegt verður a.m.k. að telja að skriftastólarnir tveir sem voru í Holtskirkju árið 1790 hafi verið aftan úr kaþólsku því varla hafa lúterskir prestar á 17. eða 18. öld farið að koma nýjum skriftastólum í kirkjurnar.

Nýnefndra skriftastóla er reyndar einnig getið í vísitaziugerð frá árinu 1761 og þar er bókað að sá stærri sé forn.[1568] Í vísitazíugerð sinni frá árinu 1790 nefnir Hannes biskup Finnsson þessa tvo skriftastóla í Holtskirkju og segir þann stærri vera með pílárum að baki og 2 bríkum.[1569] Sá stóll var í kór kirkjunnar[1570] en ekki verður séð hjá Hannesi hvar í kirkjunni hinn skriftastóllinn var. Árið 1811 voru báðir þessir skriftastólar í Holtskirkju[1571] og um stærri stólinn er síðast getið í vísitaziugerð frá árinu 1852.[1572] Þá voru 300 ár liðin frá siðaskiptum og varla hægt að gera ráð fyrir að bændur og búalið í Önundarfirði hafi enn gengið til skrifta hjá presti sínum í Holti. Líklegra er að þessir gömlu stólar hafi fengið að vera býsna lengi í friði á sínum stað þó bæði saklausir og syndugir væru hættir að ganga til skrifta. Minnt skal á að undir lok 18. aldar var skriftastóll líka varðveittur í kirkjunni á Kirkjubóli í Valþjófsdal (sjá hér Kirkjuból í Valþjófsdal).

Í byrjun 19. aldar voru skriftastólarnir ekki einu kirkjugripirnir í Holti sem minntu á kaþólska tíð. Af öðrum gripum sem þá voru enn í Holtskirkju og tengdust páfatrú verður hér látið nægja að nefna borð eitt sem kennt var við hinn kaþólska verndardýrling kirkjunnar, Lárentíus píslarvott (sjá hér bls. 21) sem kaþólikkar hafa lengi talið vera helgan mann. Í vísitaziugerð Brynjólfs biskups frá árinu 1639 er ekki getið um þetta Laurentiusarborð[1573] svo verið getur að kirkjan hafi eignast það síðar. Dýrlingsnafnið gefur engu að síður til kynna kaþólsk áhrif og hugsanlegt er að borð þetta hafi komist í eigu kirkjunnar fyrir siðaskipti, samanber það sem hér var áður sagt um skriftastólana.

Um Laurentiusarborðið í Holtskirkju er fyrst getið svo kunnugt sé í úttekt frá árinu 1731 en þar eru kirkjugripir taldir upp og nefnt eitt málað borð, kallað Laurentii með mannsmynd til beggja enda.[1574] Biskuparnir Finnur Jónsson og Hannes Finnsson nefna líka þetta Laurentiusarborð í vísitaziugerðum sínum frá árunum 1761 og 1790 og hjá þeim má sjá að borðið var úr eik.[1575] Í úttekt frá árinu 1811 sést að eikarborð dýrlingsins hefur verið ein alin á breidd og þrjár á lengd.[1576]

Þegar séra Þorvaldur Böðvarsson skilaði af sér stað og kirkju í Holti árið 1822 var þetta merkilega borð komið inn í bæ. Í úttekt frá því ári er það nefnt eikarborð hins gamla Laurentiusar og sagt vera í afþiljuðu húsi í vesturenda baðstofunnar.[1577] Þetta hús hefur að líkindum verið svefnhús prestshjónanna. Árið 1852 var Lárentíusarborðið enn í Holti og þess getið í vísitaziugerð.[1578] Ætla má að það hafi þá verið inni í bænum og í úttekt frá árinu 1855 er getið um sérstakt eikarborð sem fylgi staðnum og standi nú í einu herbergjanna undir baðstofupallinum (sjá hér bls. 197). Svo virðist sem eikarborð dýrlingsins hafi farið forgörðum á árunum 1855-1884, þegar Stefán P. Stephensen var prestur í Holti. Við brottför hans árið 1884 er þess getið að í stað eikarborðs sem áður hafi fylgt staðnum afhendi fráfarandi prestur nú annað borð í góðu standi.[1579]

Hér hefur nú verið minnst á allmarga gripi sem prýddu kirkjuna í Holti á liðnum öldum og að lokum er vert að nefna predikunarstólinn sem lengi stóð í gömlu torfkirkjunni. Í vísitaziugerð sinni frá árinu 1675 segir Þórður biskup Þorláksson að í Holtskirkju sé predikunarstóll með gylltum fjölum og í annarri vísitaziugerð frá árinu 1689 er tekið fram að í kirkjunni sé útlenskur predikunarstóll með gylltu málverki og pílárum þar við.[1580] Ætla má að þetta sé sami stóllinn þó hann sé ýmist sagður vera með gylltum fjölum eða gylltu málverki. Ekki verður nú séð hversu gamall þessi predikunarstóll var orðinn þegar Þórður biskup Þorláksson skoðaði kirkjuna í Holti árið 1675 en flest bendir til þess að hann hafi þá verið kominn nokkuð til ára sinna en þó átt eftir að endast lengi. Árið 1725 var predikunarstóllinn í Holtskirkju sagður vera gamall og árið 1852 var hann talinn mjög fornfálegur.[1581] Með hliðsjón af því sem hér hefur verið sagt má ætla að predikunarstóllinn sem var í Holtskirkju um miðbik 19. aldar hafi verið sá sami og þar stóð árið 1675 og líklega hefur hann verið orðinn a.m.k. 200 ára gamall þegar Helgi biskup skoðaði hann. Í vísitaziugerðum frá 18. öld er stundum minnst á þennan ræðustól prestanna og nánasta umhverfi hans í kirkjunni. Jón Árnason segir 1725 að yfir stólnum sé spjald, málað með olíulitum og Hannes Finnsson nefnir gylltan, útskorinn bríkarlista sem hann segir vera yfir og að baki predikunarstólnum.[1582] Áður var minnst á glergluggann yfir predikunarstólnum (sjá hér bls. 171-172) en um rúður hans barst birta sem oft dugði prestunum til að lesa á blöð sín og bækur.

Árið 1869 var ný timburkirkja reist í Holti eins og fyrr var getið og líklega hefur gamli predikunarstóllinn ekki verið talinn samboðinn svo veglegu húsi. Fullvíst er að 15 árum síðar var kominn í hana nýr predikunarstóll og nýtt altari.[1583]

Fyrsta orgelið kom í Holtskirkju árið 1882.[1584] Var það keypt fyrir samskotafé sem fólk úr söfnuðinum lagði fram og kostaði hátt á fjórða hundrað krónur.[1585] Um svipað leyti eða litlu fyrr eignaðist kirkjan líka sínar fyrstu nútímalegu sálmabækur og átti fimm slíkar þega séra Janus Jónsson varð prestur í Holti árið 1884.[1586] Fyrrum var grallarasöngurinn í hávegum hafður og árið 1790 átti Holtskirkja tvær söngbækur af því tagi.[1587]

Hér að framan hefur nú verið minnst á flesta þá merkisgripi sem um er kunnugt og verið hafa mjög lengi í eigu Holtskirkju. Af gripum sem ekki hafa verið nefndir og enn eru í kirkjunni er helst að nefna skarskæri og kertaslökkvara[1588] sem óljóst er um aldur á en báðir þessir gripir kynnu að vera orðnir nokkuð gamlir.

Hér hefur áður verið getið þriggja kirkjugripa frá Holti, sem varðveittir eru í Þjóðminjasafni, en það eru skírnarfontur, róðukross og líkneski (sjá hér bls. 178-180 og 182). Þar eru svo líka tveir aðrir gripir frá Holti sem vert er að nefna, ljósaskjöldur úr látúni og paxspjald, útskorið úr hvalbeini.[1589] Ljósaskjöldurinn sem er númer 2072 í safnskránni hefur hangið á vegg í kirkjunni.[1590] Á hann er drifið ártalið 1633 en annars er hann alveg sléttur.[1591] Lengd hans er 33,7 cm og breidd 18-19 cm.[1592]

Paxspjaldið, sem hér var nýlega nefnt, er númer 2129 í safnskránni og var afhent safninu haustið 1882.[1593] Sá sem færði safninu þennan forna grip var Páll Stephensen skólapiltur, sonur séra Stefáns P. Stephensen er þá var prestur í Holti. Svo virðist sem Páll hafi ekki getað gert skýra grein fyrir uppruna paxspjaldsins því að í aðfangaskrá safnsins er skráð að það hafi að líkindum tilheyrt Holtskirkju.[1594] Nær fullvíst má telja að Páll hafi komið með spjaldið frá Holti því ef hann hefði fengið það annars staðar má ætla að það væri tekið fram í skrá safnsins. Paxspjöld, sem svo voru kölluð, eru öll úr kaþólsku og tóku þau við friðarkossum af vörum kirkjugesta undir messunni.[1595] Hérlendis mun notkun slíkra spjalda hafa hafist um miðja 14. öld[1596] en áður mun kirkjugestum hafa verið ætlað að láta friðarvilja sinn í ljós með þeim hætti að allir kysstust á vissum stað í messunni. Enda þótt spjaldkossinn kæmi þarna að nokkru leyti í staðinn tók langan tíma að útrýma hinum fyrri sið. Til marks um það má nefna að á árunum kringum 1600 var Guðbrandur biskup Þorláksson enn að berjast gegn leifum hans.[1597] Allt kossaflæðið manna á milli taldi hann valda ókyrrð í kirkjunni og trufla helgihaldið.[1598]

Paxspjaldið frá Holti er úr hvalbeini en umgerðin er úr móbrúnu hvalskíði.[1599] Lengd þess er 16,5 cm og breidd 10,5 cm.[1600] Á það er skorin krossfestingarmynd í gotneskum stíl og á henni sjást bæði Jóhannes og María.[1601] Spjaldið er talið vera íslensk smíð frá 14. öld[1602] og er að öllum líkindum elsti gripurinn úr Holtskirkju sem enn er varðveittur.

− Staðurinn sjálfur sterkur að húsum, segir Brynjólfur biskup Sveinsson árið 1639 um húsakynni á fæðingarstað sínum í Holti í Önundarfirði.[1603] Því miður eru þau orð ekki fleiri og frá honum er ekki finnanleg nein lýsing á þessum stæðilegu bæjarhúsum.

Fyrsta rækilega lýsingin á bæjarhúsum í Holti sem komið hefur í leitirnar við undirbúning þessa rits er frá árinu 1731. Séra Sigurður Jónsson, sem verið hafði sóknarprestur í Holti í 50 ár, andaðist haustið 1730 og vorið eftir voru bæjarhúsin tekin út í hendur sonar hans, séra Sigurðar Sigurðssonar, sem tók við embætti af föður sínum. Þessi úttekt er varðveitt í skjalabók staðarins í Holti og þar eru talin upp 25 hús sem þá stóðu í Holti.[1604] Tíu þessara húsa virðist eðlilegt að flokka sem útihús og ef frá eru talin tvenn göng og tvö eldhús standa eftir ellefu vistarverur sem kallast gætu herbergi á nútímamáli.[1605] Öll þessi hús verða nú talin upp og fylgt sömu röð og gert var vorið 1731 en staðarhús í Holti voru þá þessi:

 

 1. Baðstofa, 3 stafgólf. Syllur á báðar hliðar. Rúmstæði fyrir ofan pallinn. Pallur með tveimur slám undir. Hurð á járnum með dróttum og dyrastöfum. Stæðilegt hús að viðum og veggjum.
 2. Hús suður af baðstofu, 3 stafgólf. Tvö rúm voru í þessu húsi með bríkum og setustokkum.
 3. Lítið hús afþiljað með hurð skrá og lykli. Þiljað sundur í miðju.
 4. Göng frá baðstofu að skáladyrum með níu bitum og syllur á báðar hliðar. Máttarviðir sterkir og veggir yfirleitt stæðilegir nema í þremur stafgólfum þar sem þeir voru farnir að láta sig að ofanverðu.
 5. Litla stofa í göngunum, 2 stafgólf. Syllur á báðar hliðar. Í henni var loft með tólf smáfjölum og stigi þangað upp. Þetta hús hafði séra Sigurður Sigurðsson byggt upp haustið 1730.
 6. Eldhúskofi í göngunum með þremur hvalkjálkum og nokkrum grenistaurum.
 7. Skálinn, 5 stafgólf með sex sperrum og sex bitum og stöfum undir. Syllur á báðar hliðar. Langbönd tvö á hvorri hlið, mæniás og reisifjöl af súð. Þiljað undir syllur og yfir og undir bita. Sjö rúm voru í skálanum og á honum hurð á járnum með dróttum og dyrastöfum.
 8. Forbúr, milli skála og búrs, 1 stafgólf. – Uppreftað af fúnum fjalvið en veggir stæðilegir.
 9. Búr, innar af forbúrinu, 5 stafgólf. Bæði búrið og forbúrið hafði séra Sigurður Jónsson látið endurbyggja árið 1679.[1606]
 10. Stóra stofa, 6 stafgólf. Hún var andspænis skálanum. Þrjú af sex stafgólfum stofunnar voru þiljuð fyrir neðan bita og að ofan var hún alþiljuð á báðum endum. Stofa þessi hafði verið endurbyggð árið 1725 og í úttektinni frá 1731 segir svo: Fyrir þveran gafl stofunnar er borð í einu stafgólfi með fóðruðum bekkjum og bríkum á báðum endum. Annars vegar í stofunni er bekkur fóðraður með hliðinni og borð fyrir framan en norðan til ófóðraður bekkur og borð fyrir framan með borðstólum. Víða er fjalagólf í stofunni.
 11. Klefi fram af stofunni, 2 stafgólf. Hann var þiljaður í sundur nærri miðju.
 12. Annar klefi, innar af stofunni, 4 stafgólf, tvídyraður með dróttum og dyrastöfum og hurð á járnum.
 13. Göng milli stofu og klefa, 2 stafgólf.
 14. Dyraport, 5 stafgólf. Í úttektinni er dyraportinu nánar lýst á þessa leið: Portið í dyrunum er í 5 stafgólfum, 12 stöfum, 6 bitum og sperrum yfir, syllum og áfellum og súð yfir. Fyrir neðan syllurnar er þiljað … . Að innanverðu er þiljað á milli bitanna og svo fyrir ofan undir sperrur. Fyrir bæjardyrunum og loftinu er slagþil upp í gegn og listað með vindskeiðum. Hurð á járnum með drótt og dyrastöfum.  Í dyraloftinu var eitt rúm með bríkum og lá fóðraður stigi þangað upp.
 15. Eldhús, 4 stafgólf. Dyrastafir með hurð á hjörum og þröskuldi. Óstæðilegt að veggjum og viðum.
 16. Skemma á hlaðinu, 4 stafgólf, − með þéttu greniárefti.
 17. Síðuskemma, 4 stafgólf.
 18. Spelahjallur, 3 stafgólf. Hurð á hjörum með hespu og keng.
 19. Smiðjuhús með einni stoð og mænitróðu. Innsigin á aðra síðu vegna viðarleysið en greniviður í árefti.
 20. Fjós með 14 básum og rangali fram af því með hurð og dyrastöfum.
 21. Hlaða inn af fjósinu með fjórum stoðum undir mæniás.
 22. Hesthús með fjórum stoðum.
 23. Fjárhús með sjö stoðum.
 24. Annað fjárhús með tíu stoðum.
 25. Naust fyrir áttæring, stæðilegt að veggjum og viðum með vængjahlerum á járnum.

 

Húsin tuttugu og fimm, sem um er getið í úttektinni frá 1731, hafa nú öll verið talin hér upp og sýnir sú upptalning eins og vænta mátti að staðarlegt hefur verið um að litast á prestssetrinu í Holti. Í úttektinni frá 1731 er að finna svolítið fleiri orð um hvert hús en hér hafa verið tekin upp. Nánari upplýsingar um stærð bæjarins eða einstakra húsa eru þó ekki færðar þar til bókar. Í þeim efnum verða því tilgátur út frá fjölda stafgólfanna að nægja.

Í íveruherbergjunum voru stafgólfin samtals liðlega þrjátíu og eru þá göng, búr og eldhús ekki talin með. Yfirleitt mun lengdin á hverju stafgólfi hafa verið 2½ – 3 álnir danskar[1607] og sé gert ráð fyrir að svo hafi verið í Holti árið 1731 ætti samanlögð lengd húsanna sem hér eru flokkuð sem íveruherbergi að hafa verið 75-90 álnir að innanmáli, það er 47-57 metrar.

Hér verður þó að hafa fyrirvara því ekki liggur fyrir hversu löng  hin  ýmsu stafgólf í Holtsbænum voru árið 1731 og ýmis dæmi finnast um stafgólf sem aðeins voru rétt liðlega 2 álnir danskar, það er um það bil 1,3 metrar (sjá hér bls. 196).

Um breidd og hæð þessara húsakynna er erfiðara að setja fram beina tilgátu. Danski lögfræðingurinn Niels Horrebow sem var við margvíslegar rannsóknir hérlendis á vegum stjórnvalda um 1750 segir að íslensku baðstofurnar séu yfirleitt 6-8 álnir á breidd.[1608] Í bók sinni Íslenskum þjóðháttum heldur Jónas Jónasson frá Hrafnagili því fram að þessar tölur fái ekki staðist og fullyrðir að á fyrri hluta 19. aldar hafi flestar baðstofur aðeins verið 3-4 álnir á breiddina.

Eggert Ólafsson, skáld og náttúrufræðingur, kannaði landshagi á Íslandi fáum árum síðar en Horrebow hinn danski. Í Ferðabók sinni minnist Eggert allvíða á húsakynni Íslendinga og lýsir m.a. nokkuð rækilega bæ þurrabúðarfólks á Snæfellsnesi með baðstofu og tveimur öðrum svefnhúsum, auk eldhúss, búrs og ganga.[1609] Hann segir þarna að breidd hvers húss (eða herbergis) hjá þurrabúðarfólkinu sé 5-6 álnir og lætur jafnframt í ljós þá skoðun að þessi hús séu mjög lítil.[1610] Eggert gerir enga athugasemd við þá staðhæfingu Horrebows að íslensku baðstofurnar séu oftast 6-8 álnir á breidd og fullyrðir reyndar að lýsing hans á íslensku bæjunum sé fullkomlega rétt og nákvæm.[1611]

Með hliðsjón af því sem hér hefur verið sagt virðist varla hægt að reikna með minni meðalbreidd á íveruhúsunum í Holti en 6 álnum, það er tæplega 4 metrum, og ætti þá samanlagt flatarmál íveruhúsanna ellefu að hafa verið um það bil 200 fermetrar. Sú tala gefur þó aðeins vísbendingu og er fjarri því að vera nákvæm en líklegt verður að telja að samanlagt flatarmál þessara ellefu húsa sem kallast mættu herbergi á nútímavísu hafi verið á bilinu frá 150-300 fermetrar.

Húsaskráin hér að framan ber með sér að árið 1731 var stóra stofan stærsta húsið í Holti. Hún var sex stafgólf en klefarnir tveir, sinn hvorum megin við stofuna voru tvö og fjögur stafgólf. Næst stærsta húsið sem ætlað var til daglegrar íveru var skálinn. Han var fimm stafgólf og það var dyraportið reyndar líka en í baðstofunni voru stafgólfin aðeins þrjú. Í sérstöku húsi suður af baðstofunni voru svo önnur þrjú stafgólf og hefur það að líkindum verið svefnherbergi prestshjónanna. Ætla má að vinnumenn hafi sofið í skálanum en börnin og eitthvað af vinnukonum í baðstofunni. Í stofunum tveimur kynni gestum að hafa verið vísað til sængur en óvíst er hvort nokkuð af heimafólki hefur sofið þar að jafnaði. Ekki er þó ólíklegt að litla stofan, sem séra Sigurður Sigurðsson lét byggja upp haustið 1730, hafi verið ætluð móður hans, Helgu Pálsdóttur frá Selárdal í Arnarfirði, sem komin var um áttrætt og hafði orðið ekkja þetta sama haust. Þess má einnig geta sér til að stundum hafi litla stofan í Holti verið bústaður aðstoðarprestsins þar. Um nýtingu þeirra tveggja húsa eða herbergja sem nefnd eru klefar í úttektinni frá 1731 er ekkert vitað með vissu.

Hörður Ágústsson segir í sinni ágætu ritgerð frá árinu 1987 að hús þau í íslenskum torfbæjum sem á fyrri öldum voru nefnd klefar hafi auðsjáanlega verið innanbæjargeymsluhús og telur að þar hafi einkum verið geymd mat- og drykkjarföng.[1612] Hann lætur þess einnig getið á sama stað að eftir 1600 hafi slíkum húsum, sem nefnd eru klefi í úttektargerðum, farið fækkandi.[1613] Í Holti voru klefarnir þó enn tveir árið 1731 og annar þeirra náði að standa fram á 19. öld eins og hér verður brátt rakið. Vel má vera að báðir klefarnir í Holti hafi verið einhvers konar birgðageymslur og annað ekki en sú kenning þarfnast þó nánari rökstuðnings. Hafa verður í huga að árið 1731 voru báðir klefarnir til samans heil sex stafgólf, jafn mörg og stóra stofa sem var stærsta hús í öllum bænum. Annað geymslupláss í Holti, það er að segja búrið, forbúrið, skemmurnar tvær og hjallurinn, var 17 stafgólf svo allt í allt hafa hús sem ætluð voru til að geyma marvæli og fleira verið 23 stafgólf sé út frá því gengið að báðir klefarnir hafi verið einhvers konar geymslur. Að þessi fjöldi stafgólfa hafi verið ætlaður til geymslu matarbirgða og annars sem búið þurfti við sýnist óneitanlega svolítið tortryggilegt sé haft í huga að þær vistarverur sem hugsanlegt er að flokka sem íveruherbergi voru allar til samans aðeins 25 stafgólf eða svo og er þá dyraportið talið með. Sú spurning hlýtur því að vakna hvort átjándu aldar klefarnir tveir í Holtsbænum kynnu að hafa verið notaðir til einhvers annars en að geyma mat. Heldur ólíklegt verður þó að telja að fólk hafi sofið í klefunum því sé gert ráð fyrir að heimilismenn, sem voru 25 árið 1703,[1614] hafi yfirleitt verið á milli 20 og 30 gátu þeir með góðu móti komist fyrir í skálanum og baðstofunni því venja var að tveir svæfu í hverju rúmi og gera má ráð fyrir að sjálf hafi prestshjónin sofið í húsinu suður af baðstofunni.

Líklegt er að sú húsaskipan frá árinu 1731 sem lýst var hér að framan hafi haldist lítt breytt um langan aldur og þessu lík hafi húsakynnin verið á dögum séra Sveins Símonarsonar sem prestur var í Holti frá 1582 til 1644.

Árið 1784 hafði bæjarhúsum í Holti fækkað nokkuð frá því sem áður var og sum þeirra voru orðin minni en áður. Allt í allt töldust húsin þá vera 17[1615] en höfðu verið 25 árið 1731. Af húsum sem nú voru ekki lengur uppistandandi má nefna litlu stofuna, búrið, forbúrið, annan klefann, aðra skemmuna og svo hlöðuna.[1616] Hvarf búrsins kemur dálítið á óvart en ljóst er að við úttektina frá 1784 er ekki minnst á búr þegar bæjarhús eru talin upp og ekki heldur við úttekt frá árinu 1797.[1617]

Árið 1731 hafði baðstofan ásamt sérstöku húsi þar suður af verið sex stafgólf en árið 1784 hafa stafgólfin í þeim hluta bæjarins líklega verið fimm og í úttektinni frá 1797 er tekið fram að í baðstofuna vanti eitt stafgólf.[1618] Baðstofan, ásamt húsi í norðurenda, var þá 11 íslenskar álnir að lengd en 5,75 álnir á breidd.[1619] Eins og sjá má er mælieiningin þarna íslensk alin og mun þá vera átt við Hamborgaralin sem var 57,3 cm en hún var aðalmælieiningin á Íslandi á 18. öld allt þar til dönsk alin var lögboðin hér árið 1776.[1620] Lengd baðstofunnar í Holti, að hinu afþiljaða svefnhúsi sem þá var í norðurenda hennar meðtöldu, hefur því verið komin niður í 6,3 metra eða þar um bil og hvert stafgólf verið um það bil tvær álnir á lengd eins og algengt var.

Merkilegt er að sjá að skálinn, stærri stofan og annar klefinn voru öll uppistandandi í Holti árið 1784 og reyndar líka 1797 og 1811 en fyrir lok síðastnefnda ársins gaf biskupinn yfir Íslandi þó út sérstakt bréf um að prestarnir í Holti þyrftu ekki lengur að halda klefanum við.[1621]

Árið 1784 voru bæði stofan og skálinn orðin minni en þau höfðu verið 50 árum fyrr, skálinn fjögur stafgólf í stað fimm og stofan fimm stafgólf í stað sex sem áður voru.[1622] Klefinn sem hélt velli fram á 19. öld var sá sem var innar af stofunni.[1623] Árið 1731 hafði hann verið fjögur stafgólf eins og hér var áður frá greint en árið 1784 og 1797 voru stafgólfin í klefanum ekki nema þrjú.[1624] Hús þetta hafði því skroppið saman eins og svo mörg önnur bæjarhús í Holti í basli og harðindum 18. aldarinnar.

Dyraportið sem var í Holti árið 1731 virðist hafa fengið að halda óbreyttri stærð allt þar til stökkbreyting varð á bæjarhúsunum í Holti á árunum milli 1810 og 1820. Árið 1731 er það sagt vera fimm stafgólf (sjá hér bls. 188) og svo var einnig 1784 og 1797.[1625] Hér var áður minnst á loftið sem var í dyraportinu árið 1731 en þar var þá eitt rúm. Rösklega hálfri öld síðar voru rúmin þar orðin tvö og þá er orðið dyraport ekki lengur notað, ef marka má úttektir, en þess í stað talað um öndina og bæjarportið.[1626] Í úttektum frá síðustu áratugum 18. aldar er tekið fram að húsrými þetta hafi portbyggingar form og úr bæjarportinu liggi þilstigi upp í dyraloftið.[1627] Fyrir uppgöngudyrum eða á sjálfu loftherberginu var skrálæst hurð.[1628]

Í þeirri úttekt bæjarhúsanna í Holti sem gerð var árið 1731 er ekki minnst á neina glugga[1629] og má ætla að þeir hafi engir verið. Gömlu skjáirnir hafa þá verið látnir duga. Árið 1784 er hins vegar tekið fram að baðstofunni í Holti fylgi einn fánýtur glergluggi.[1630] Tveir glergluggar voru þá líka komnir á dyraloftið og enn einn glergluggi með hlera fyrir var þá á skemmu sunnan við bæinn.[1631] Árið 1797 voru tveir lítilfjörlegir gluggar á baðstofunni í Holti og á svefnhúsinu í norðurenda hennar var þá fjögra rúðna gluggi.[1632]

Hér hefur áður verið getið um þau tíu útihús sem fylgdu staðnum í Holti árið 1731 (sjá hér bls. 188-189) en þá voru selhúsin ekki talin með. Árið 1731 voru skemmurnar tvær en undir lok átjándu aldar var bara önnur þeirra uppistandandi.[1633] Árið 1784 var hlaðan líka horfin en hjallur og smiðja héldu velli.[1634] Þessi tvö síðastnefndu hús virðast litlum breytingum hafa tekið um langt skeið, hjallurinn jafnan þrjú stafgólf og í smiðjunni ein stoð sem hélt þakinu uppi (sjá einnig hér bls. 189).[1635]

Fjósið og hesthúsið héldu líka sínum gamla svip alla átjándu öldina. Í fjósinu voru 14 básar 1731 og fjöldi þeirra óbreyttur árið 1784.[1636] Stoðir í fjósinu voru þá sextán og sá var líka fjöldi þeirra árið 1797[1637] svo ætla má að básarnir hafi þá verið jafn margir og áður. Í úttekt frá árinu 1811 er hins vegar tekið fram að fjósið í Holti taki ekki nema ellefu naut.[1638] Árið 1731 eru fjórar stoðir sagðar vera í hesthúsinu og 1784 er tekið fram að það sé ætlað fyrir sex hesta.[1639] Í úttektinni frá 1797 fáum við nánari lýsingu en þar er lengd hesthússins sögð vera 6 álnir og greint svo frá að það sé tvíkarmað með fjórum sterkum hvalbeinum og laslegum hurðarfleka.[1640]

Fjárhús voru lengi tvö í Holti. Árið 1731 var annað þeirra með sjö stoðum en hitt með tíu (sjá hér bls. 189). Hálfri öld síðar er þess getið að annað fjárhúsið taki þrjátíu sauði en hitt fjörutíu.[1641] Bæði húsin voru þá með jötu.[1642] Árið 1797 voru bæði fjárhúsin jafn stór og tóku hvort um sig þrjátíu sauði og þannig var það líka árið 1811.[1643]

Ein merkilegasta byggingin í Holti árið 1731 var naustið með vængjahlerum á járnum. Í því var áttæringur staðarins geymdur þegar hlé varð á notkun hans (sjá hér bls. 189) og þar hefur verið dyttað að skipinu. Óhætt mun að fullyrða að naustið hafi verið við lendinguna skammt utan við Holtsoddann, út undir landamerkjum Holts og Þórustaða, þar sem enn heita Holtsnaust (sjá hér bls. 204). Þar er nú allt á kafi í sandi. Árið 1797 var naustið enn vel uppi að viðum og veggjum og er þá sagt vera úti við sjóinn, það er Holtssjó, og tekið fram að bygging þessi sé með flekum og hurð fyrir, hespu og keng.[1644] Fjórtán árum síðar, sumarið 1811, var hins vegar bókað að naustið góða væri að engu orðið og ekki lengur byggilegt þar sem það hafði verið.[1645] Þá mun hið forna mannvirki við Holtssjóinn hafa verið sokkið í sand sem þar hefur æ síðan ráðið ríkjum.

Þegar staðarhúsin í Holti voru tekin út sumarið 1811 var séra Þorvaldur Böðvarsson að taka við prestsembættinu þar. Hann sat aðeins ellefu ár í Holti en á þeim fáu árum byggði hann upp bæði stað og kirkju og breytti mjög hinni fornu húsaskipan. Kirkjuna lét Þorvaldur reisa árið 1819 (sjá hér bls. 173-174) og á árunum 1812 til 1821 lét hann rífa gamla bæinn og byggði nýjan. Hinar miklu breytingar sem þá urðu á húsaskipan í Holti blasa við ef bornar eru saman úttektargerðirnar frá 1811 og 1822, önnur skráð við komu séra Þorvaldar en hin við brottför hans.[1646]

Gömlu bæjarhúsunum sem stóðu í Holti árið 1731 hefur áður verið lýst á þessum blöðum og flest stóðu þau enn árið 1811 þó stafgólfum hefði fækkað og sum húsanna væru því orðin minni en áður hafði verið (sjá hér 191-192). Árið 1811 voru skálinn og stofan enn helstu vistarverurnar í Holti ásamt baðstofunni. Í skálanum voru þá fjögur stafgólf og þar voru átta rúmstæði en í stofunni voru stafgólfin þá fimm eins og hér hefur áður verið nefnt. Baðstofan, að meðtöldu svefnhúsi í norðurenda hennar, var ekki nema fjögur stafgólf og því minni en stofan. Við framkvæmdir séra Þorvaldar á öðrum áratug 19. aldar varð hins vegar byltingarkennd breyting á húsaskipaninni því þá voru bæði skálinn og stofan jöfnuð við jörðu og látið vera að endurbyggja þau.[1647] Nýja baðstofan, sem séra Þorvaldur lét byggja, var hins vegar langtum stærri en sú gamla og er í úttektinni frá 1822 sögð vera tólf stafgólf.[1648] Rétt er þó að taka fram að hin nýja baðstofa var hólfuð sundir í nokkur herbergi eins og nánar verður vikið að síðar.

Vera má að einhverjum komi á óvart hversu seint baðstofan verður helsta vistarvera heimilisfólksins í Holti en af því sem hér hefur verið sagt má ráða að það hlutverk fær hún ekki fyrr en á öðrum áratug 19. aldar, þegar stofan og skálinn hurfu úr sögunni. Ástæðulaust mun þó vera að undrast þetta því úttektir frá prestssetrum víða um land sýna að það var ekki fyrr en um aldamótin 1800 og á fyrstu áratugum 19. aldar sem þess konar breytingar á húsaskipan komust í tísku. Þeirri fullyrðingu til styrktar má vísa í skrif Harðar Ágústssonar sem mest og best hefur rannsakað þróun íslenska torfbæjarins.[1649] Hvort sem litið er suður eða norður blasir við að álíka breytingar á húsaskipan hafa einmitt orðið víða á árunum 1790-1830 og má þar nefna dæmi frá Mosfelli í Grímsnesi og Laufási við Eyjafjörð.[1650] Við sínar miklu breytingar á bænum í Holti hefur séra Þorvaldur Böðvarsson því fylgt tísku og tíðaranda eins og Hörður Ágústsson kemst að orði um starfsbróður hans á Mosfelli sem stóð fyrir hliðstæðum breytingum á húsaskipan þar örfáum árum fyrr.[1651]

Á ýmsum stöðum náðu hinir fornu skálar þó að halda velli eitthvað lengur og máske ekki úr vegi að minna á skálann á Hrafnagili í Eyjafirði sem ekki var rifinn fyrr en árið 1834.[1652] Sagt var að þann skála hefði byggt Þórður hreða[1653] sem frá er sagt í einni af okkar gömlu Íslendinga sögum. Svo forn hefur skálinn í Holti tæplega verið en kynni þó að hafa staðið lítt breyttur á sínum stað í nokkrar aldir.

Um aldamótin 1800 var bæði skáli og stofa í frambænum á öllum hinum fornu prestssetrum í Vestur-Ísafjarðarsýslu[1654] en að Holti frátöldu voru þau fjögur, Álftamýri og Rafnseyri í Arnarfirði, Sandar í Dýrafirði og Staður í Súgandafirði. Á öllum þessum fjórum prestssetrum var baðstofan þó orðin stærsta húsið í bænum við upphaf 19. aldar,[1655] öfugt við það sem var í Holti. Skálarnir og stofurnar á prestssetrunum fjórum voru aðeins 2 til 3 stafgólf hvert hús. Á Söndum var stofunni breytt í eldhús og skálanum í búr á árunum 1817-1828.[1656] Á Stað í Súgandafirði varð stofan að eldhúsi á árunum 1802-1812 og skálinn þar hvarf úr sögunni á árunum 1812-1839.[1657] Á Álftamýri og Rafnseyri var hinum fornu húsum, skála og stofu, haldið við mun lengur og stóðu þau enn uppi á báðum þessum stöðum árið 1882.[1658] Á Rafnseyri féllu bæði stofan og skálinn á árunum 1883-1892[1659] en líklega hefur stofuhúsið á Álftamýri staðið eitthvað lengur því það var í góðu standi árið 1882 og hafði þá nýlega verið stækkað.[1660]

Hér var þess áður getið að gólfflötur íveruherbergjanna í gamla bænum í Holti muni árið 1731 hafa verið um það bil 200 fermetrar (sjá hér bls. 189). Þá er ekki talið með rými undir baðstofupallinum sem óljóst er hvernig var nýtt en úttektin frá 1731 ber með sér að baðstofan var pallbaðstofa (sjá hér bls. 187). Bærinn sem séra Þorvaldur Böðvarsson lét reisa í Holti á árunum kringum 1815 var mun minni en sá gamli sem hér hefur áður verið lýst.

Einu vistarverurnar í bæ séra Þorvaldar voru baðstofuhúsið, búr, eldhús, göng og anddyri.[1661] Þessi húsaskipan var í aðalatriðum í samræmi við tillögur séra Guðlaugs Sveinssonar í Vatnsfirði er hann setti fram í ritgerð sinni Um húsa- eður bæjabygging á Íslandi sem birtist í 11. árgangi Rita Lærdómslistafélagsins.[1662] Þar hvatti séra Guðlaugur eindregið til þess að bæjarhúsum yrði fækkað af hagkvæmniástæðum en þau hús sem eftir stæðu hins vegar stækkuð.[1663] Um þetta sjónarmið hafa skoðanir þó líklega verið eitthvað skiptar og þess má geta að í ritgerð um húsabyggingar sem birt var í ársritinu Gesti Vestfirðingi árið 1847 eru efnalitlir bændur eindregið hvattir til þess að hafa heldur húsin smá og fleiri en stór og færri.[1664]

Í úttektinni frá 1822 stendur skýrum stöfum að baðstofan sem séra Þorvaldur lét byggja sé portbyggð og tekið fram að hún sé 24,25 danskar álnir á lengd og 4,33 álnir á breidd.[1665] Gólfflöturinn á baðstofupallinum, ásamt stigaopi, hefur því verið 41,34 fermetrar eða þar um bil og álíka stór hlýtur gólfflötur herbergjanna undir pallinum að hafa verið. Samtals hafa þetta því verið 82,7 fermetrar eða því sem næst en þá er eldhúsið ekki talið með og ekki heldur búrið eða göngin sem voru 18 álnir á lengd (11,3 metrar) frá baðstofu til eldhúss.[1666] Í áðurnefndri úttekt frá árinu 1822 er gerð nokkur grein fyrir herbergjaskipan í baðstofuhúsi séra Þorvaldar og þar má sjá að húsrýmið undir pallinum hefur verið fjórskipt.. Nokkur orð tekin beint úr úttektinni gefa allgóða mynd af þessum húsakynnum. Þar segir:

 

Þrjú stafgólf í vesturenda undir súð. … Loft er yfir öllu húsinu með stiga. Í vesturendanum er afþiljað hús í þremur stafgólfum með skrálæstri hurð á járnum. Þiljað innan umhverfis og með fjalagólfi, tveimur gluggum, hver með 6 stórum rúðum. … Annað læst fram af, einnig þiljað í hólf og gólf, fjórar álnir danskar að lengd, einnig með glugga af 4 rúðum með hurð á járnum, skrálæstri, einu rúmi með stokk og bríkum. Hér fram af hús af átta álnum dönskum, óþiljað með einum 4 rúðna glugga.

Þá er í eystri enda hús í þremur stafgólfum, af hverjum eitt svarar að eitt sé þiljað, með hurð á járnum, skrálæstri, einum 4 rúðna glugga og tveimur rúmum. Í eystri endanum uppi alþiljuð þrjú stafgólf … með timburgafli á hverjum var stór 4 rúðna gluggi og þrjú rúm. Í mótsettum enda loks tvö stafgólf alþiljuð. … Í miðri baðstofunni voru fjögur rúm.[1667]

 

Lýsingin sem hér hefur verið skráð ber með sér að gaflar baðstofunnar sem séra Þorvaldur lét byggja sneru í austur og vestur en í gamla bænum sem séra Þorvaldur lét rífa sneri baðstofan hins vegar í norður og suður því talað var um alþiljað svefnhús í norðurenda hennar (sjá hér bls. 191).

Þegar skoðuð er lýsingin á baðstofu séra Þorvaldar í Holti vekur mesta furðu hversu stutt stafgólfin hafa verið eða aðeins rétt liðlega 2 danskar álnir ef marka má tölurnar í úttektinni frá 1822 þar sem baðstofan er sögð hafa verið 12 stafgólf en þó ekki nema 24 álnir og 6 þumlungar á lengd. Hvert stafgólf ætti þá að hafa verið 1,27 metrar en svo stutt geta rúmin sem fólkið svaf í tæplega hafa verið. Árið 1855 var húsaskipan í Holti mjög lík því sem verið hafði 1822 og þá er baðstofan sögð vera 24 álnir á lengd.[1668] Að því sinni eru stafgólfin sögð vera ellefu,[1669] einu færra en árið 1822, sem breytir reyndar litlu því samkvæmt því ætti lengd hvers stafgólfs að hafa verið 1,37 metrar. Erfitt er að hugsa sér að rúmin hafi verið styttri en einn og hálfur metri en ef til vill hafa stafgólfin verið mislöng og engin rúm í þeim stuttu. Rúmin sem fylgdu staðnum voru ekki nema tíu, níu uppi og eitt niðri,[1670] svo ætla má að ekki hafi verið sofið í hverju stafgólfi. Þess gerðist heldur ekki þörf því heimilisfólkið var sjaldan fleira en um tuttugu á þessum árum.

Í úttektinni frá 1855 er góð lýsing á baðstofunni í Holti og skilmerkilegri en sú frá 1822. Í síðari úttektinni sem hér var nefnd er þetta bókað:

 

Baðstofa 24 álnir á lengd og 4½ alin á breidd í 11 stafgólfum með tilhlýðilegum sperrum, syllum og stöfum. Í vestari enda er stofuhús undir lofti 5¾ alin á lengd, þiljað í hólf og gólf með 2ur 6 rúðna gluggum. Þar upp yfir í loftinu er súð en miðbik baðstofunnar undir árefti. Í austari enda hússins er hús alþiljað 5½ alin á lengd með 2ur 6 rúðna gluggum og súð þar yfir sem á að fylgja ásamt öllu loftinu í baðstofunni. Þiljurnar og gólfið í þessu húsi á ekki að fylgja nema hálft. – Fram af húsinu í vestari endanum er og annað hús rúmlega 3½ alin á lengd, þiljað í hólf og gólf, með 4 rúðna glugga sem einnig á að fylgja. Þar stendur eikarborð sem staðnum fylgir. Baðstofan er yfir höfuð ekki óstæðileg, viðir ekki sérlega fúnir en veggir víða farnir að síga inn að viðum.[1671]

 

Séra Stefán P. Stephensen, sem var prestur í Holti frá 1855-1884, byggði upp baðstofuna og breytti henni dálítið. Pallbaðstofan sem hann lét byggja var 21 alin á lengd og 5½ alin á breidd[1672] og hefur því verið lítið eitt styttri en þó nokkru breiðari en baðstofan sem hann tók við er hann kom að Holti. Hæð þessa nýja bæjar var 7½ alin, það er 4,70 metrar, neðan frá jörð og upp í mæni.[1673] Timburgafl sneri fram á hlaðið en baka til var gaflinn úr torfi.[1674] Á baðstofuloftinu voru tvö skilrúm svo það hefur verið stúkað sundir í þrennt en undir því var stofuhús, tvö lítil herbergi og eldhús.[1675] Fram í göngunum var svo annað eldhús eins og áður hafði verið og búr.[1676] Á baðstofunni sem séra Stefán lét byggja voru ellefu gluggar ef allt var talið, bæði uppi og niðri.[1677] Sumarið 1891 lét séra Janus Jónsson endurbyggja baðstofuna í Holti[1678] án þess þó að breyta þar húsaskipan að nokkru marki.[1679]

Vorið 1893 var Valdimar Þorvaldsson frá Selárdal í Súgandafirði nokkra daga í Holti vegna fermingarundirbúnings.[1680] Honum þótti hér staðarlegt um að litast og festi síðar á blað lýsingu á því sem við augum blasti á prestssetrinu.[1681] Flest sem Valdimar skrifar um húsaskipanina kemur heim við það sem staðfest er í úttektum en í pistli hans koma einnig fram ýmsar nýjar upplýsingar. Þar sjáum við að kirkjan sneri dyrum að bænum og við kirkjugarðsvegginn var komið lítið stofuhús úr timbri.[1682] Það var með lágu porti og risi.[1683] Dyr þessa húss sneru að bænum eins og kirkjudyrnar og giskar Valdimar á að grunnflötur þess hafi verið 6 x 8 álnir.[1684] Í þessari útistofu yfirheyrði séra Janus fermingarbörnin.[1685] Veggir kennslustofunar voru málaðir í bláum lit.[1686] Þar var borð, einn stóll og bekkur á einum fæti.[1687] Hinn endinn á bekknum lá á kassa.[1688] Í úttekt frá sumrinu 1908 er ekki getið um þetta stofuhús[1689] og mun það þá hafa verið horfið eða talist vera einkaeign séra Janusar.

Á þeirri hlið bæjarins sem sneri að kirkjunni var, að sögn Valdimars, timburveggur á löngum parti og á honum tvennar gluggadyr og tvöfaldar vængjahurðir.[1690] Innan við þessar dyr var alþiljaður og málaður gangur.[1691] Þegar gengið var inn ganginn var herbergi á hægri hönd en til vinstri voru tvær stofur, hvor inn af annarri.[1692] Fyrir enda gangsins voru dyr inn í eldhús og þar var stigi sem lá upp á baðstofuloftið.[1693] Úr þessu eldhúsi var farið um löng göng úr hnaus í hlóðaeldhúsið.[1694]

Á þessum árum var baðstofuloftinu í Holti skipt í þrennt eins og hér var áður nefnt. Valdimar segir prestshjónin hafa sofið þar í herberginu sem var næst fjallshlíðinni.[1695] Í hinum endanum var vistarvera vinnumannanna og þar var pláss fyrir tvö rúm við hvora hlið.[1696] Í miðbaðstofunni, sem var þrjár rúmlengdir, hafðist kvenfólkið við og þar var líka loftsgatið.[1697]

Í úttekt frá árinu 1908 er tekið fram að allt baðstofuloftið sé undir súð og þar var lægra undir loft heldur en niðri.[1698] Þar er getið um timburvegginn á austurhlið bæjarins og sagt að suðurgaflinn sé úr timbri en norðurgaflinn aðeins að hálfu leyti.[1699]

Í bænum sem séra Þorvaldur Böðvarsson byggði í Holti á árunum kringum 1815 voru baðstofuloftið og herbergin undir því eina húsnæðið ef frá eru talin göngin, búr, eldhús og anddyri.[1700]

Í bæ séra Þorvaldar Böðvarssonar voru göngin frá baðstofu til eldhúss 18 álnir á lengd og 2 álnir á breidd.[1701] Stutt göng voru þar líka frá eldhúsi að bæjardyrum.[1702] Árin 1855, 1884 og 1908 eru göngin milli eldhúss og baðstofu sögð vera nokkru styttri, það er 14 álnir (8,8 metrar).[1703] Á fyrri tíð hafa göngin að líkindum verið með berum moldarveggjum en árið 1908 voru þau öll þiljuð nema 6 álna stykki á efri vegg.[1704] Þau voru þá með súð og gólfi úr timbri og tveimur gluggum.[1705]

Árið 1822 var búrið í Holti talið vera 11½ x 4½ alin en 1855 10 x 4¼  úr alin.[1706] Árið 1908 var gólfflötur þess hins vegar kominn niður í 6 x 5 álnir.[1707] Gamla eldhúsið í bæjargöngunum skrapp líka saman. Árið 1822 var það talið vera 11½ x 3½ álnir en 1855 var það ekki nema 8½ x 4 álnir og hélst sú stærð óbreytt til 1908.[1708] Hafa ber í huga að á árunum 1855-1884 lét séra Stefán P. Stephensen koma öðru eldhúsi fyrir, undir baðstofuloftinu.[1709] Það eldhús var 4 álnir á lengd og árið 1908 fylgdi því lítill matklefi eða búr.[1710]

Anddyrið á bænum sem reistur var í Holti á árunum kringum 1815 var 4½ alin á lengd og 2 álnir á breidd,[1711] það er 2,8 x 1,25 metrar. Í útidyrunum voru tvær hurðir á járnum og slagþil þar fyrir innan.[1712] Árið 1855 var anddyri þetta nefnt dyraport. Stærðin var þá sú sama og verið hafði 1822 og tekið fram að dyraportið sé með hurð og burstaþili fyrir bænum og tilhlýðilegum dyraumbúningi … og með hurð fyrir að innanverðu.[1713] Árið 1884 var komið bíslag eða timburskúr í stað anddyrisins en árið 1908 var bíslag þetta ekki lengur til.[1714]

Árið 1908 varð séra Páll Stephensen prestur í Holti.[1715] Tveimur árum síðar lét hann reisa hér stórt íbúðarhús úr timbri og sá Trésmiðjan Víkingur á Ísafirði um byggingu þess.[1716] Rann þá upp nýr tími í húsnæðismálum prestanna í Holti og þeirra fólks. Í úttekt frá árinu 1929 er íbúðarhúsið í Holti sagt vera járnklætt timburhús, einlyft með porti og kvisti, og grunnflötur þess 16 x 12 álnir,[1717] það er 75 fermetrar.

Hér hefur áður verið sagt stuttlega frá útihúsum í Holti á árunum 1731-1811 (sjá hér bls. 192-193). Eitt þessara útihúsa var hjallurinn sem árið 1822 er sagður vera 3 stafgólf[1718] Stærð hans hefur líklega verið óbreytt árið 1855 en þá er flatarmál hans talið 7½  x 4 álnir.[1719] Þegar séra Stefán P. Stephensen fór frá Holti árið 1884 var kominn þar nýr hjallur, dálítið stærri en sá gamli og mældist 10 x 4½ alin.[1720] Árið 1731 voru skemmurnar í Holti tvær en á fyrstu árum 19. aldar var þar aðeins ein skemma. Í henni voru þrjú stafgólf árið 1822[1721] og máske hefur það verið sama skemman sem enn stóð uppi árið 1855. Þá var stærð hennar sögð vera 8½ x 4¼ alin og svo var enn árið 1884 en þá var líka búið að byggja nýja skemmu og var hún nokkru minni, 6½ x 4 álnir.[1722] Á árunum 1731-1811 var jafnan smiðja í Holti (sjá hér bls. 189 og 192) og svo var enn árið 1855 þegar séra Stefán P. Stephensen tók þar við staðarforráðum.[1723] Stærð smiðjunnar var þá 5 x 3 álnir,[1724] það er 3,14 x 1,88 metrar. Í úttektargerðum frá árunum 1884 og 1908 er smiðjunnar ekki getið[1725] en smiðjuhús mun þó hafa verið í Holti á fyrstu árum tuttugustu aldar (sjá hér bls. 2).

Í úttektum frá árunum 1822-1908 sést að fjósið í Holti var á þeim árum ætlað fyrir tíu eða ellefu nautgripi og árið 1884 var komin nautahlaða á prestssetrinu.[1726] Árið 1855 er fjósið sagt vera tvístætt og í góðu standi en þó of lágt.[1727] Önnur gripahús í nánd við bæinn í Holti voru á þessu tímaskeiði hesthús og fjárhús. Um miðja 19. öld var hesthúsið ætlað fjórum hestum en nýtt hesthús, sem byggt var síðar, gat tekið sex.[1728] Árið 1822 og 1855 voru fjárhúsin í Holti tvö og tóku um 70 fjár bæði saman.[1729] Hálfri öld síðar fylgdi aðeins eitt 60 kinda fjárhús staðnum og svo virðist einnig hafa verið árið 1884.[1730] Um selhús staðarins frammi í Bjarnardal verður ekki fjallað hér en grein er gerð fyrir þeim á öðrum stað í þessu riti (sjá hér Arnkelsbrekka og Holtssel).

Á síðari hluta 17. aldar var búið alllengi í tveimur hjáleigum frá Holti og um skamma hríð í þeirri þriðju.[1731] Hin síðasta þessara hjáleigna fór í eyði í stórubólu árið 1707[1732] og ekki er nú unnt að staðfesta sögusagnir frá fyrri hluta 20. aldar um aðrar nafngreindar hjáleigur í Holti. Á 18. og 19. öld bjuggu Holtsprestar yfirleitt einir á allri jörðinni en þó er kunnugt að árið 1735 hafði maður að nafni Björn Lífgjarnsson einhvern jarðarpart í Holti til ábúðar.[1733] Sú hjáleiga sem lengst var búið í var ýmist nefnd Melavaðshús, Péturshús eða Brynjólfshús[1734] og má ætla að þar hafi búið um eitthvert skeið maður að nafni Pétur en á öðrum tíma bóndi sem Brynjólfur hét. Nafnið Melavaðshús gefur til kynna hvar hjáleiga þessi mun hafa verið því Melavað, er svo hét, var farið yfir læk eða keldu sem lá milli gamla heimatúnsins í Holti og Húsatúns sem er neðar.[1735]

Í Melavaðshúsum var fyrst farið að búa á árunum kringum 1660[1736] og þar var síðan baslað við búskap í nær hálfa öld.[1737] Að líkindum er það þessi hjáleiga sem nefnd er Holtshús í manntalinu frá 1703 því hinar tvær voru þá báðar komnar í eyði ef marka má það sem stendur í Jarðabókinni frá 1710. Í Holtshúsum, sem svo eru nefnd í manntalinu, voru tvær fjölskyldur árið 1703, alls 10 manneskjur, en bændurnir þar hétu Brynjólfur Guðmundsson og Hákon Vilhjálmsson.[1738] Í Jarðabókinni frá 1710 eru Melavaðshús sögð vera við túnið í Holti og landskuld af kotinu var 5 aurar,[1739] það er 30 álnir, fjórðungur úr kýrverði. Á hjáleigubændunum þarna hvíldi sú kvöð að róa um vertíð á staðarskipinu frá Holti og kotinu fylgdi hálft annað kúgildi.[1740] Á árunum milli 1660 og 1670 hófst líka byggð í tveimur öðrum hjáleigum í Holti. Önnur þeirra reis á gömlu geldnauta fjósstæði og var nefnd Melavaðshús innri en hinni var fundinn staður í túnhalanum og fékk hún nafnið Heiðnahús eða Hauðnahús.[1741] Ætla má að túnhalinn sem þarna er getið um sé hinn sami og nefndur er Túnshali í örnefnaskrá frá miðri 20. öld en hann er þar sagður vera yst í túninu í Holti.[1742]

Trjágarðurinn, sem nú (1994) blasir við augum hjá skólahúsinu í Holti, er í gamla túnshalanum og nær rétt út fyrir hann.[1743] Á fyrri hluta 20. aldar mótaði enn fyrir tóttum í eða við enda Túnshalans, rétt norðvestan við trjágarðinn sem hér er nú.[1744]  Telja má líklegt að Heiðnahús hafi verið þar.

Melavað, sem áður var nefnt og lá milli Heimatúns og Húsatúns í Holti, var norður af kirkjugarðinum og í aðeins liðlega 100 metra fjarlægð frá honum.[1745] Rétt heiman við það og rétt austan við gamla akveginn sem nú er orðinn grasigróinn voru enn sjáanlegar allmiklar tóttir um miðbik 20. aldar[1746] svo líklegast er að þar hafi Melavaðshús eða Melavaðshús innri staðið.

Eins og áður var nefnt voru á fyrri hluta 20. aldar á kreiki sögusagnir um fimm hjáleigur eða einhvers konar kot í gamla Holtstúninu eða rétt utan við það og voru nefnd þessum nöfnum: Borustaðir, Endagat, Möngutótt, Sandhús og Vaðlahús.[1747] Athygli vekur að hvorugur þeirra heimildarmanna Óskars Einarssonar læknis sem nefndu við hann þessi nöfn virðist hafa kunnað skil á þeim þremur hjáleigum sem sannanlega voru í Holti á 17. öld og hér hafa áður verið nefndar. Sögusögnum um hinar fimm er sjálfsagt að taka með fullum fyrirvara meðan ekki koma í leitirnar skjöl sem dugað gætu til úrskurðar. Vel getur þó verið að fólk hafi hafst við skamman tíma í kofum með þessum nöfnum en ætla má að það hafi þá fremur verið húsmenn en hjáleigubændur.

Borustaðir eru sagðir hafa verið úti í engi, nálægt merkjum Þórustaða og Holts.[1748] Þeir sem kunnugastir eru í Holti geta enn vísað gestum og gangandi á Borustaði rétt innan við landamerkjaskurð sem skilur að landareignir Holts og Þórustaða[1749] en staður þessi sýnist vera í um 300 metra fjarlægð frá trjágarðinum við skólahúsið og er lítið eitt nær fjallinu. Þarna er nú, alveg á skurðbarminum, þýfður bali, sem er svolítið hærri en landið í kring, en engin greinileg tóttarmynd sjáanleg. Óskar Einarsson læknir hefur eftir Þórði Sigurðssyni í Breiðadal að um aldamótin 1900 hafi tóttir enn verið sjáanlegar á Borustöðum[1750] og vera kann að þær hafi farið undir uppmokstur úr landamerkjaskurðinum. Einnig er hugsanlegt að á balanum sem hér var nefndur hafi áður sést móta fyrir hleðslum sem nú verða ekki greindar við skyndiskoðun svo ótvírætt sé.

Afbýlið Endagat sagði Þórður í Breiðadal hafa verið rétt utan Túnshalans[1751] eða á svipuðum slóðum og áður stóð hjáleigan Heiðnahús sem nefnd er í Jarðabókinni frá 1710 (sjá hér bls. 201). Vera kann að hjáleigutóttinni við enda Túnshalans hafi verið gefið þetta nafn þegar kotið var komið í eyði.

Um Sandhús sagði Þórður í Breiðadal að þau hefðu líklega verið á Húsatúninu en þar stóðu fjárhús á dvalarárum hans í Holti.[1752] Hugsanlegt er að eyðihjáleigan Melavaðshús hafi fengið þetta nafn þegar sandágangurinn var mestur í Holti.

Möngutótt sögðu þeir Þórður í Breiðadal og Guðmundur Bjarnason á Mosvöllum vera rétt innan við túnið í Holti og skammt frá kirkjugarðium.[1753] Talið var að þar hefði síðast búið gömul kona sem Margrét hét.[1754] Engar greinilegar tóttir eru nú sjáanlegar á þessum stað en í um það bil 30 metra fjarlægð frá kirkjugarðinum og rétt innan við túnið er þúfnabali og vera má að þar hafi áður sést móta fyrir tótt.

Fimmta hjáleigan sem Þórður í Breiðadal kunni að nefna var svo Vaðlahús og taldi hann sennilegt að þau hefðu verið uppi undir Vaðalbotnsskriðu í nánd við landamerki Holts og Vaðla. Utan við landamerkin er engin tótt sjáanleg á þessum slóðum en rétt innan við skriðuna og örfáum metrum ofan við girðingu sem þarna er nú virðist móta fyrir gamalli kofatótt á grænum bala.

 

Hér hefur áður verið gerð nokkur grein fyrir nánasta umhverfi prestssetursins í Holti og allra helstu kennileitum í landareigninni (sjá hér bls. 1-3). Langri dvöl okkar á þessum forna kirkjustað fer nú senn að ljúka en áður en haldið verður úr hlaði skulum við rölta skamma stund um heimaland staðarins.

Rétt norðan við kirkjugarðinn er gamall hóll sem ýmist er nefndur Presthóll eða Prestahóll[1755] og mun að líkindum vera gamall öskuhaugur. Örlítið austar er annar hóll sem einnig er sagður vera gamall öskuhaugur.[1756] Á Presthól stendur nýlegur varði sem reistur var til minningar um Brynjólf biskup Sveinsson er fæddist í Holti árið 1605. Héðan er gott að skyggnast um og auðvelt að sannreyna að frá Holti sést til allra bæja í sókninni, að eyðibýlum meðtöldum, nema Efstabóls.

Um Túnshalann, þar sem nú er trjágarður, og gamla Melavaðið milli heimatúnsins og Húsatúns var áður rætt (sjá hér bls. 201). Lækurinn sem farið var yfir á Melavaði er nú horfinn en milli gamla heimatúnsins og Húsatúns er enn svolítið mýrlendi og lítill skurður sem mun hafa verið grafinn um 1880 þegar séra Stefán P. Stephensen réðst í að veita Hjarðardalsá á Holtsengi.[1757] Frá bæjarhólnum leggjum við leið okkar niður á Húsatún og förum hjá Melavaði sem áður var. Allt Húsatún liggur fyrir neðan Heimatún[1758] en utan við Húsatún er Hvítisandur sem nær lengra í átt til sjávar.[1759] Hvítisandur hefur slétt yfirbragð en neðan við hann er Melurinn sem er mishæðóttur.[1760]

Á mörkum Húsatúns og Hvítasands var mýrardrag, nefnt Veita.[1761] Innantil í Veitunni en utan við Húsatún var Hundahola, hið gamla vatnsból fólksins í Holti.[1762] Í pyttinn þarna var neysluvatnið sótt allt þar til séra Stefán P. Stephensen lét á árunum kringum 1880 veita vatni úr Hjarðardalsá heim að Holti[1763] og jafnvel lengur því Þórður Sigurðsson, sem var vinnumaður í Holti á árunum 1884-1890, segir að á fyrstu árum sínum þar hafi neysluvatn heimilisfólksins enn verið sótt í Hundaholu en þangað var að hans sögn langt og vont að fara í ófærð og vondu veðri.[1764] Neðan við Húsatún tekur Melurinn við og frá honum gengur Holtsoddi fram í fjörðinn, þessi mikli sandtangi sem teygist í átt að ströndinni handan fjarðar og aðeins mjótt sund frá oddatánni yfir í landið hinum megin (sjá hér bls. 2).

Á leið okkar til sjávar (1994) sneiðum við hjá flugvellinum, sem stendur hér á Melnum og hefur þjónað Önfirðingum síðustu áratugi, en nemum staðar á bryggjunni við Holtssjó. Svo má heita að hún sé beint niður af flugstöðvarhúsinu og var reist árið 1958 (sjá hér Firðir og fólk 1900-1999, 332) til að létta af mönnum erfiði við að ferja mjólkina sem send var á Ísafjörð fram í Djúpbátinn. Nú hafa samgönguhættir breyst og ekki lengur sama þörf fyrir þetta mannvirki. Frá bryggjunni, sem er utan við Holtsoddann, leggjum við leið okkar út með sjónum að landamerkjum Holts og Þórustaða. Sá spölur er mjög skammur en við landamerkin og rétt innan við þau sér enn móta fyrir hinum fornu Holtsnaustum sem áður var sagt frá á þessum blöðum (sjá hér bls. 2-3 og 189 og 193). Þeir sem hingað koma og ekki hafa áður heyrt naustanna getið taka þó varla eftir þeim litlu vísbendingum sem enn gefa til kynna að hér hafi staðið mannvirki forðum tíð. Nær tvær aldir eru nú liðnar síðan allt fór hér á kaf í sand og finna varð áttæringnum Uxa, sem lengi fylgdi staðnum í Holti, annan samastað á þurru landi. Hér við naustin var aðallending Holtsmanna á fyrri tíð en á síðari tímum var stundum lent við Grjóttanga sem er innan við Holtsoddann og mjög nærri því sem þjóðvegurinn lá upp í Melinn fyrir neðan Holt.[1765] Á þessum slóðum eru sandleirur við sjóinn á stóru svæði og aðeins á einum stað er þarna dálítil rák úr möl og smágerðu grjóti sem nær frá grundinni ofan við sandinn og fram í flæðarmál. Um tanga er varla hægt að tala en þetta hlýtur þó að vera Grjóttangi. Hér er fremst allstór jarðfastur steinn eða klöpp sem fer á kaf þegar fellur að en kemur aftur upp á hverju útfalli. Þessi lendingarstaður er nær beint niður af innri enda flugbrautarinnar og að heita má beint á móti brúnni yfir Breiðadalsá.

Frá Holtsnaustum hentar vel að ganga með sjó inn að Vaðlinum sem skiptir löndum milli Holts og Mosvalla. Sú vegalengd er aðeins þrír kílómetrar ef farið er yfir Melinn rétt ofan við Holtsodda. Fyrir innan Melinn teygist gróið flatlendi inn með fjarðarströndinni og heitir Grundir eða Holtsgrundir.[1766] Akvegurinn sem nú er farinn yfir Önundarfjörð liggur úr fjörunni utan við túnið á Ytri-Veðrará og upp á Holtsgrundir fyrir neðan gamla bæjarhólinn í Holti en þó aðeins innar. Þar eru vegamót en frá þeim liggur þjóðvegurinn inn Grundirnar, rétt ofan við fjöruna, í átt að brúnni yfir Vaðalinn. Mjög skammt innan við vegamótin og rétt ofan við þjóðveginn er enn sjáanleg gömul tótt þar sem áður var Holtsstekkur.[1767] Tótt þessi er nú nær full af sandi en sé gengið umhverfis hana má greina veggi hlaðna úr torfi. Svo má heita að stekkurinn hafi verið í beinni stefnu frá íbúðarhúsi og kirkju í Holti á gamla timburhúsið sem enn stendur uppi á Innri-Veðrará.[1768] Á árunum milli 1935 og 1950 talaði heimafólk í Holti jafnan um þessa tótt sem stekkinn[1769] og má því telja líklegt að hér hafi lambfé enn verið stíað á fyrstu áratugum 20. aldar eða allt þar til slíkir búskaparhættir lögðust af. Áður hafa stekkirnir líklega verið fleiri en einn á þessu svæði sem í munni fólks var oft kallað á Stekkunum.[1770]

Svolítið innan við stekkinn var sumarið 1993 komið borð og bekkur við þjóðveginn til þæginda fyrir ferðafólk sem snæða vill mat sinn úti í náttúrunni. Þar rétt hjá mótar enn fyrir allstórri tótt, neðan við þjóðveginn og alveg við fjöruna. Líklegt má telja að þetta sé líka gamall stekkur. Ofan við þjóðveginn blasa hér hins vegar við leifar af bogadreginni hleðslu sem bendir til nátthaga eða einhvers konar aðhalds fyrir fé og túnið ofan við veginn heitir Stekkjatún.[1771]

Mjög skammt er á milli þessara gömlu tótta og veggjabrota sem nú sjást á Stekkunum og fullvíst má telja að hér hafi öldum saman verið stekkur frá Holti og máske stundum fleiri en einn í notkun á sama tíma. Úr fjörunni neðan við Stekkana mun leiðin hafa legið þegar riðið var yfir fjörðinn á Ystavaði sem einnig var kallað Prestavað. Handan fjarðar var þá komið í land rétt innan við bæjarhólinn á Ytri-Veðrará.[1772] Frá Veðrará var lagt á Ystavað úr fjörunni við Götuskarð[1773] en héðan frá Holtsstekk sýnist það blasa við í sjávarbökkunum innantil við bæjarhólinn og að kalla hér beint á móti. Riðið var eftir malarkambi og væri komið að norðan var stefnt á Holtsstekk og mátti ekki af því bregða.[1774] Yfir Ystavað var aðeins fært á hestum um háfjöru og hér var það sem séra Jón Sigurðsson í Holti drukknaði þann 9. júní 1796 (sjá hér bls. 70-72). Þá var stekktíð og héðan frá stekknum sá heimafólk séra Jóns hann færast í kaf og hverfa í öldurnar en gat þó ekkert gert til hjálpar. Síðustu áratugina sem menn ferðuðust almennt á hestbaki munu fáir hafa riðið yfir fjörðinn á Ystavaði[1775] enda jafnan auðfarnara yfir vöð þau sem eru innar í firðinum, Skeiðisvað, Steinsvað, Garðsendavað og Kúhólmavað. Séra Jón Ólafsson, sem varð prestur í Holti árið 1929, reið þó oft yfir á ysta vaðinu eins og fyrirrennarar hans í Holti höfðu löngum gert.[1776] Á Ytri-Veðrará var lögferja um langt skeið (sjá hér Ytri-Veðrará) og allt þar til farið var að aka um Önundarfjörð á bifreiðum. Til hennar var gripið þegar svo stóð á sjó að ekki var fært ríðandi mönnum yfir Vöðin.

Fyrir innan Stekkana og aðeins rétt utan við Vaðalinn gengur lítill og mjór tangi í sjó fram og fer að mestu í kaf á hverri flæði. Þessi tangi heitir Arnarbælistangi og þar sem hann er hæstur hefur grasbrúskur náð að halda velli. Áður var tangi þessi eitthvað hærri og sagt er að þar hafi lengi sést móta fyrir skipshrófi.[1777] Á síðustu áratugum hefur mikið af grjóti verið tekið úr Arnarbælistanga til notkunar við verklegar framkvæmdir af ýmsu tagi[1778] en enn er hér svolítil grjótdreif þar sem tanginn er hæstur.

Hingað í Arnarbælistanga var fé prestanna í Holti rekið til rúnings á fyrri tíð og hér voru lömbin færð frá mæðrum sínum.[1779] Ólafur Þ. Kristjánsson skólastjóri frá Kirkjubóli í Bjarnardal lýsti vinnubrögðum við fráfærurnar svo:

 

Ærnar voru ávallt hafðar heima við í Holti um sauðburðinn. Féð var rekið um flæði inn í Arnarbælistanga og króað þar af og staðið fyrir því bæði þegar fært var frá og rúið. Arnarbælistangi er inn við Vaðalinn, fremst, og umflotinn sjó um flæðar en um fjöru verður þurrt umhverfis hann.

Lömbin voru við fráfærur tekin í Arnarbælistanga og venjulega reidd í kláfum heim að Holti. Þar voru þau setin nokkra daga en síðan rekin fram í Kálfabana. … Ærnar voru aftur á móti strax reknar fram í Holtssel.[1780]

 

Kálfabani sem þarna er nefndur er lítill afdalur sem liggur hátt í fjallinu fyrir framan Kirkjuból í Bjarnardal (sjá hér Kirkjuból í Bjarnardal).

Þær sagnir lifðu lengi á vörum fólks að séra Sveinn Símonarson, sem var prestur í Holti frá 1582 til 1644, hefði látið flytja stórtré til kirkjubyggingar sjóleiðis alveg inn að Arnarbæli og þaðan hefði timbrinu verið fleytt heim í tún eftir skurði miklum sem prestur lét grafa (sjá hér bls. 36-37). Enginn dómur verður lagður hér á sannleiksgildi þessarar gömlu sögu en frá Arnarbælistanga er örskammt fram í álinn sem nær svolítið inn fyrir tangann. Eftir álnum, sem er þó nokkuð djúpur, var því hægt að komast á allstórum bátum alveg inn að Arnarbæli[1781] svo allt gæti þetta staðist. Hafi kirkjuviðurinn verið fluttur hingað á bátum má telja líklegt að reynt hafi verið að fleyta honum nokkurn spöl upp eftir Vaðlinum, sem er hér rétt fyrir innan, svo styttra yrði að koma honum heim á kirkjustæðið. Skurðurinn gamli, sem haldið hefur sögunni lifandi og enn sést á löngum kafla, sýnist líka stefna á Vaðalinn, ekki langt frá honum miðjum en þaðan er leiðin yfir engið og heim í túnfótinn styst.

Vaðallinn sem hér var nefndur er um flæðar allbreiður vogur sem skerst inn í landið sunnantil við Holtsengið. Breidd hans er víða um það bil hálfur kílómetri og lengdin heldur meiri en breiddin. Um fjörur þornar Vaðallinn upp að mestu en í hann fellur Bjarnardalsá. Efst í Vaðlinum heita Vaðalbotnar[1782] og þar mætir árvatnið hinum salta sjó. Frá Arnarbælistanga er varla fimm mínútna gangur inn að Vaðlinum og á þeirri leið er gott að virða fyrir sér allstóran ávalan stein sem stendur upp úr sjó á grynningunum fram undan Vaðlinum. Þessi staki steinn heitir Bóndi. Svo má heita að hann sé beint fram af brúnni yfir Vaðalinn en um hana liggur þjóðvegurinn nú. Frá brúnni eru að sjá 200 til 300 metrar fram að Bónda. Hjá steini þessum lá leiðin þegar riðið var Skeiðisvað yfir fjörðinn frá Mosvallaskeiði rétt innan við Vaðalinn og yfir í Skeiðistanga sem er spölkorn fyrir innan bæinn á Innri-Veðrará, kenndur við Veðrarárskeið.[1783] Þeir sem komu ríðandi frá Holti eða bæjum þar fyrir utan og ætluðu sér yfir fjörðinn fóru stundum, ef fært var, úr Arnarbælistanga eða því sem  næst og beint yfir í Skeiðistanga, dálítið utan við almennu leiðina yfir Skeiðisvað.[1784] Skeiðisvað var næst ysta vaðið sem riðið var yfir og um það lá fjölfarin leið.[1785] Fyrir þá sem komu yfir Gemlufallsheiði og stefndu norður yfir Önundarfjörð lá beinast við að fara yfir á Skeiðisvaði. Í lýsingu Holtsprestakalls frá árinu 1840 er vað þetta nefnt Veðrarárvað og er þar sagt vera vanalegasta vaðið.[1786]

Á steininum Bónda, sem hér var áður nefndur, gátu menn séð hvort fært væri yfir Skeiðisvað. Væri steinninn umflotinn sjó var talið ófært en stæði eitthvað af leirunum við Bónda upp úr var reiðfjara yfir vaðið.[1787] Einnig var haft fyrir satt að sjá mætti á Bónda hvort fært væri yfir Vaðalinn. Kenningin var sú að stæði eitthvað af Bónda upp úr sjó mætti treysta á að álíka margir þumlungar af hæð reiðskjótans héldust ofansjávar þegar riðið væri yfir Vaðalinn.[1788] Ekki mun vera fjarri lagi að þetta geti passað sé höfð í huga sú reiðleið yfir Vaðalinn sem oftast var farin,[1789] það er frá Mosvallaskeiði og yfir í Fremstavaðstanga.[1790] Sú leið var kölluð Fremstavað.[1791] Upp með Vaðlinum voru tvö önnur vöð, Seljavað og Vaðalbotnar.[1792] Að Seljavaði lá Seljavaðstangi Holtsmegin við Vaðalinn[1793] og gera má ráð fyrir að um Seljavað hafi oftast verið farið þegar stefnt var frá Holti og fram í Bjarnardal þar sem búsmali prestanna var hafður í seli ár hvert öld fram af öld. Efsta vaðið lá svo eins og áður sagði yfir Vaðalbotna, þar sem Bjarnardalsá rennur út í Vaðalinn.[1794] Að þessu sinni förum við ekki yfir Vaðalinn en látum nægja að ganga dálítið upp með honum. Eins og áður sagði liggja landamerki Holts og Mosvalla um Vaðalinn en Mosvallamegin á staðurinn í Holti þó svolitla landspildu við ós Bjarnardalsár og heitir þar Holtsfit.[1795] Sjóarhólma sem þarna eru á staðurinn líka en lítil kvísl sem heitir Sjóarlæna greinir að lönd Holts og Mosvalla fyrir botni Vaðalsins.[1796]

Á rölti okkar upp með Vaðlinum minnumst við Ásgeirs Jónssonar prófasts, hins mikla sægarps sem drukknaði á ferð yfir hann í nóvember- mánuði árið 1835 og áður var frá greint (sjá hér bls. 92-93). Sumir töldu að hann hefði riðið í leirpytt.

Líklega hefur vaðallinn, sem við höfum hér fyrir augum, oft verið nefndur í fleirtölu á fyrri tíð og máske oftar verið talað um Vaðla en Vaðal. Bæjarnafnið Vaðlar bendir til að svo hafi verið á fyrstu öldum byggðar í landinu og þegar 19. aldar menn þóttust sjá Ásgeir prófast afturgenginn ríða hér um og fara geyst fékk hann í munni fólks nafnið Vaðlapresturinn.

Skammt frá botni Vaðalsins snúum við í norðurátt og stefnum á ný heim að Holti til að kveðja. Spölurinn er ekki langur, varla einn kílómetri, en nú liggur leið okkar um hið fríða Holtsengi, tólf karla engið þar sem aldrei þraut gras. Merkilegt er að sjá hvernig skurðurinn sem sagt var að séra Sveinn hefði látið grafa stefnir beint á kirkjuna þó bugðóttur sé. Sú staðreynd gefur trúnni á sannindi hinnar gömlu arfsagnar um timburflutninga hans byr undir vængi. Verið gæti að skurðurinn, sem reyndar liggur í mörgum krókum, hafi fyrst verið grafinn fyrir fjórum öldum en endurnýjaður síðar. Börnum sem ólust upp í Bjarnardal á öðrum áratug tuttugustu aldar var reyndar sagt að viðurinn í timburkirkjunni, sem nú stendur í Holti og byggð var árið 1869, hefði verið fluttur eftir þessum sama skurði.[1797]

Staðinn í Holti er best að kveðja í kirkjugarðinum þar sem ríkir og snauðir liggja grafnir í einum reit. Í garðinum finnum við bærast andblæ horfinna tíða og minnumst sögunnar um manninn frá Þórustöðum sem sendur var að Holti eitt haustkvöld fyrir hálfri annarri öld. Um það sem bar fyrir augu þessa sendimanns ritaði Magnús Hjaltason og hafði eftir fóstru sinni, Margréti Bjarnadóttur á Hesti:

 

Þegar hann kom inn undir öskuhauginn í Holti er var þá fyrir utan bæinn sér hann afar mikla mannþyrpingu umhverfis allan bæinn, upp að fjósi og ofan undir hesthús. Hópurinn náði líka út fyrir hauginn. Kirkjugarðurinn var fullur og inn fyrir kirkju. Svo var flokkur þessi þéttur að ósýnt þótti Friðriki [það er sendiboðanum] hvar hann gæti að bænum komist til að ljúka erindum sínum. Það sá hann að skipting var á flokknum, var fullorðið fólk sér, miðaldra fólk sér og börn sér. Loksins þokaðist hópurinn svo til að Friðrik gat komist að bænum og upp á glugga.[1798]

 

Nú hefur enn fjölgað í Holtskirkjugarði frá því sem var þegar nýnefndur Friðrik var sendur frá Þórustöðum að Holti til að kalla menn í róður. Öll sú mannþyrping er þó hulin okkar sjónum og hér ríkir kyrrðin djúp.

Nú stöndum við á fætur og lítum í suðurátt þar sem býlin í Bjarnardal blasa við. Þarna eru Vaðlar neðst í dalnum og þangað er ferð okkar heitið.

Frá syðri brún bæjarhólsins í Holti sjáum við glytta í vatn handan við gamla túngirðingu og vestan við akveginn sem áður lá frá Holti að Vöðlum en nú hefur verið lagður af. Þessi pyttur er sjálf Kúavök[1799] sem frá er sagt á öðrum stað en upp úr henni dró séra Jón Ásgeirsson, aðstoðarprestur í Holti, dauða belju á halanum, einn og óstuddur (sjá hér bls. 94-95), enda var hann talinn öðrum mönnum sterkari á sinni tíð. Hér rétt framan við bæjarhólinn voru Fjóshólarnir, sem búið er að ryðja burt, og gamla fjósið sem stóð uppi á túnbrekkunni (sbr. hér bls. 94).[1800] Nærri lætur að fjósið hafi verið beint suður af íbúðarhúsinu sem nú stendur í Holti og fjarlægðin þar á milli aðeins um 50 metrar.[1801] Fjósið stóð rétt vestan við gamla akveginn sem áður var nefndur en Fjóshólarnir austan við hann og í vegarröndinni.[1802] Frá fjósinu voru um eða innan við 50 metrar inn að Kúavök[1803] en í henni var venja að brynna kúnum á fyrri tíð.

Gamli akvegurinn sem liggur yfir Holtsengið í átt að Vöðlum er orðinn uppgróinn en honum er gott að fylgja. Á leið okkar yfir engið gerum við stuttan stans hjá Grásteini sem stendur einn sér lítið eitt neðan við veginn og nær meðalmann í mitti. Frá bæjarhólnum í Holti blasir steinninn við í stefnu rétt ofan við bæinn á Vöðlum.[1804] Slægjulandið umhverfis þennan mosavaxna stein var nefnt Grásteinsengi og þótti einn besti parturinn í öllu Holtsengi.[1805] Hér var gott að slá með hestasláttuvélum og heyið af Grásteinsengi talið fyrsta flokks áður en vegurinn var lagður.[1806] Við lagningu hans varð landið í kring þurrara og heygæðin minnkuðu.[1807]

Vegalengdin frá Holti að Vöðlum er aðeins rösklega hálfur annar kílómetri. Landamerki jarðanna eru á Vaðalbotnaskriðu [alls ekki Vaðalbólsskriða, segir Hagalín, en Vaðalbotns- eða Vaðalbotnaskriða] er fallið hefur úr skál sem blasir við augum uppi í fjallinu og heitir Holtsskál.[1808] Neðan við skriðuna liggja landamerkin að Illukeldu undir hlíðarfætinum og þaðan áfram í stefnu á brúna yfir Bjarnardalsá þar sem gamli akvegurinn mætir heimreiðinni sem nú er farin að Vöðlum.[1809]

 

 

 

 

– – – – – – – – – – o o o o o – – – – – – – – – –

 

 

 

[1] Biskupasögur I, 432 og 440.

[2] D.I. III, 324-325 og IV, 141-142, 641-642, 654-655 og 768.

[3] Sveinn Níelsson 1950, 171-213.

[4] Sama heimild.

[5] Sama heimild, 191-193.

[6] Sama heimild og Ísl. æviskrár.

[7] Sömu heimildir.

[8] Guðm. Ingi Kristjánsson. – Viðtal K.Ó. við hann 30.6.1993.

[9] Sama heimild.

[10] Kristján G. Þorvaldsson 1951, 77-78 (Árbók F.Í.).

[11] Frá ystu nesjum II, 7-10.

[12] Kr. G. Þorv. 1951, 77-78.

[13] Óskar Einarsson 1951, 114.

[14] Sama heimild.

[15] Sama heimild, 116.

[16] Hagalín Guðmundsson. – Viðtal K.Ó. við hann 2.8.1993.

[17] Sama heimild.

[18] Sama heimild.

[19] Sama heimild.

[20] Óskar Ein. 1951, 111.

[21] Brynjólfur Árnason. – Viðtal K.Ó. við hann 3.8.1993.

[22] Óskar Ein. 1951, 112.

[23] Sama heimild.

[24] Óskar Ein. 1951, 107.

[25] Ísl. fornrit VI, 39.

[26] D.I. III, 324 og IV, 141.

[27] Óskar Ein. 1951, 108.

[28] Sama heimild.

[29] Jarðabók Árna og Páls VII, 105.

[30] D.I. III, 324.

[31] Jarðab. Á. og P. VII, 103.

[32] Sóknalýs. Vestfj. II, 103. J. Johnsen 1847, 195.

[33] Fasteignabók 1921, 79.

[34] Jarðab. Á. og P. VII, 94-127.. Fasteignabók 1921, 79-81.

[35] Jarðab. Á. og P. VII, 103-104.

[36] Sama heimild.

[37] Jarðab. Á. og P. VII, 103-104.

[38] Sama heimild.

[39] Sama heimild.

[40] Sóknalýs. Vestfj. II, 103.

[41] Sama heimild.

[42] Ísl. fornrit I, 186.

[43] Vestf. sagnir , 87-88.

[44] Ísl. fornrit VI, 39.

[45] Sama heimild, 38-40.

[46] Bisk. I, 432 og 440-441.

[47] Jón Jóhannesson 1956, 216-220.

[48] Sveinn Níelsson 1950, 191.

[49] Ól. Þ. Kr. 1972, 62-63.

[50] Sturlungasaga I, 360 og 421.

[51] Sturlungasaga II, 192, 257, 370-371 og III, 15.

[52] Sturl. II, 192.

[53] Sama heimild.

[54] Sama heimild, 192-193.

[55] Sama heimild.

[56] Sturl. II, 256-258.

[57] Sama heimild, 257.

[58] Sama heimild.

[59] Sama heimild, 280-285 og 362-363.

[60] Sama heimild, 364.

[61] Sama heimild, 369-370.

[62] Sama heimild.

[63] Sama heimild.

[64] Sama heimild, 370-371.

[65] Sama heimild.

[66] Sturl. III, 15.

[67] Sama heimild, 78.

[68] Sama heimild, 100-102.

[69] Sama heimild.

[70] Sama heimild.

[71] Sama heimild, 102-104.

[72] Sama heimild.

[73] Sama heimild.

[74] Sama heimild.

[75] Sama heimild.

[76] Ísl. æviskrár II, 372-373.

[77] Sturl. III, 13-14.

[78] Ísl. æviskrár II, 372-373. Biskupasögur I, 434-436.

[79] Saga Íslands III, 55.

[80] Saga Íslands III, 191-192.

[81] Sama heimild.

[82] Bisk. I, 390-391.

[83] Sama heimild, 432 og 440.

[84] Sama heimild.

[85] Ól. Þ. Kr. 1972, 67.

[86] Bisk. I, 421.

[87] Sama heimild.

[88] Annálar og nafnaskrá 1948, 60.

[89] G. St. / Isl. annaler, 70.

[90] Bisk. I, 445.

[91] Sama heimild, 336.

[92] Sbr. Hermann Pálsson 1965, 126-142 (Eftir þjóðveldið).

[93] Bisk. I, 422.

[94] Sama heimild, 432.

[95] Sama heimild.

[96] Sama heimild, 434-435.

[97] Sama heimild.

[98] Sama heimild.

[99] Sama heimild, 440.

[100] Sama heimild.

[101] Sama heimild.

[102] Bisk. I, 440-441.

[103] Sama heimild, 445-448.

[104] Sama heimild.

[105] Sama heimild.

[106] Sama heimild.

[107] Sama heimild.

[108] Sama heimild.

[109] Sama heimild.

[110] Sama heimild.

[111] Sama heimild.

[112] Sama heimild, 457-459.

[113] Sama heimild.

[114] Sama heimild.

[115] Bisk. I, 457-459.

[116] Sama heimild, 463.

[117] Sama heimild.

[118] Sama heimild. 478-479.

[119] Sama heimild.

[120] Bisk. I, 478-479.

[121] Saga Íslands III, 223-226.

[122] Ól. Þ. Kr. 1972, 61-112.

[123] Bisk. III, 91.

[124] Sama heimild.

[125] Sama heimild.

[126] G. Storm / Isl. annaler, 346.

[127] Sama heimild, 350.

[128] Ísl. æviskrár V, 532.

[129] D.I. III, 92-95.

[130] Sama heimild.

[131] Sama heimild.

[132] Sama heimild.

[133] G. St. / Isl. Annaler, 281 og 412.

[134] Sama heimild, 363-364.

[135] D.I. IV, 141-142.

[136] D.I. IV, 641-642.

[137] D.I. V, 207-208.

[138] D.I. IV, 714.

[139] D.I.V, 176.

[140] Jarðab. Á. og P. VII, 72 og 301.

[141] D.I. V, 96-98.

[142] Sama heimild.

[143] D.I. V, 96-98.

[144] D.I. VI, 509-510.

[145] D.I. VII, 149.

[146] D.I. IX, 525-526.

[147] D.I. III, 324 og IV, 142.

[148] D.I. VII, 149.

[149] D.I. VIII, 627-628 og 772-773.

[150] Ól. Þ. Kr. 1972, 96-100.

[151] D.I. VIII, 772-773.

[152] D.I. VII, 674-676.

[153] D.I. VII, 613 og VIII, 114 og 562.

[154] D.I. VII, 387-388.

[155] D.I. VIII, 285.

[156] Sama heimild, 579.

[157] Ól. Þ. Kr. 1972, 100-104.

[158] D.I. VIII, 579-580.

[159] Sama heimild.

[160] Sama heimild.

[161] Arnór Sigurjónsson 1975, 441-453.

[162] Sama heimild, 451-453.

[163] D.I. VIII, 579-580.

[164] D.I. VIII, 579-580.

[165] Sama heimild.

[166] Ól. Þ. Kr. 1972, 100-104.

[167] Sama heimild.

[168] Sama heimild.

[169] Sama heimild.

[170] D.I. IX, 545-549.

[171] Sama heimild.

[172] Ól. Þ. Kr. 1972, 102.

[173] D.I. X, 358.

[174] Ól. Þ. Kr. 1972, 104-111.

[175] Ísl. æviskrár IV, 57 og 150.

[176] Ól. Þ. Kr. 1972, 102.

[177] Sama heimild, 104-111.

[178] Ól. Þ. Kr. 1972, 104-111.

[179] Sama heimild.

[180] D.I. XI, 206.

[181] Sama heimild.

[182] Sama heimild.

[183] Sama heimild, 448-449.

[184] D.I. XI, 420.

[185] Ól. Þ. Kr. 1972, 110-111.

[186] Sama heimild.

[187] D.I. III, 228.

[188] D.I.III, 324 og IV, 141-142.

[189] D.I. IV, 141-142.

[190] D.I.III, 324-325.

[191] Sama heimild.

[192] Sama heimild.

[193] Skjalasafn prófasta XIII. 1. B. 2., bls. 274.

[194] D.I. III, 324.

[195] Örn.stofnun / Guðfinnur Jakobsson.

[196] Örn.stofnun / Eiríkur A. Guðjónsson, 1977.

[197] Sama heimild.

[198] Sama heimild.

[199] Ísl. fornrit IV, 162-163.

[200] Sturl. I, 204-211 og Bisk. II, 198-205.

[201] D.I. II, 15 og III, 16.

[202] Bps. A. II, 22 – Vísitazíugerð Björns Halldórssonar, prófasts í Sauðlauksdal í umboði Finns Jónssonar

biskups. – Holt í Önundarfirði 22.6.1775.

[203] Sama heimild.

[204] Sama heimild.

[205] D.I. IV, 141.

[206] Jarðab. Á. og P. VII, 95, 107, 115 og 121-122.

[207] D.I. IV, 141-142.

[208] Sama heimild.

[209] Sama heimild.

[210] Jarðab. Á. og P. VII, 311-312.

[211] D.I. IV, 141-142.

[212] D.I. IV, 141-142.

[213] D.I. XV, 572-574.

[214] Sama heimild.

[215] Jarðab. Á. og P. VII, 72, 108 og 301.

[216] Jarðab. Á. og P. VII, 102, 105-106, 107, 122, 123, 162-163.

[217] Sóknalýs. Vestfj. II, 107.

[218] Manntal 1901, fylgiskjöl.

[219] Sama heimild.

[220] Lbs. 23684to, bls. 404-405 (S.Gr.B. Prestaæfir)

[221] Jarðab. Á. og P. VII, 72, 102-104, 105-106, 107, 108, 122, 123, 162-163 og 301.

[222] Bps. A. II, 6 – Vísitazíubók Brynjólfs biskups Sveinssonar, Holt 17.8.1639. Skj.s. próf. XIII. 1. B. 1,

skjalabók Holts í Ön. 1333-1708, bls. 239-245, úttekt 26.5.1681. Skj.s. próf. XIII. 1. B. 2, skjalabók

Holts í Ön. 1484-1731, bls. 300-307, úttekt 23.5.1731. Bps. A. II, 24 – Vísitazíubók Hannesar biskups

Finnssonar, Holt 13.8.1790. Kirkjustóll Holts í Ön. 1852-1963, úttekt 26.5.1884.

[223] Skj.s. prófasta XIII. 1. B. 2, skjalabók Holts í Ön. 1484-1731, bls. 271-276.

[224] Sama heimild.

[225] Sama heimild.

[226] Lbs. 23684to, bls. 404-405 (S.Gr.B. Prestaæfir).

[227] Sóknalýs. Vestfj. II, 107-108.

[228] Sama heimild og D.I. XV, 572-574.

[229] D.I. V, 782-783.

[230] Jarðab. Á. og P. VII, 103-104.

[231] Sama heimild, 143-144.

[232] Sama heimild.

[233] Sama heimild.

[234] D.I. III, 365-366 og XII, 24-26.

[235] D.I. IV, 484-486.

[236] Vestf. þjóðsögur II, síðari hluti, bls. 28-31.

[237] D.I. III, 324-325 og IV, 141-142.

[238] Bisk. I, 395-396.

[239] Björn M. Olsen 1910, 4-5 (Skírnir 84. árg.).

[240] Lýður Björnsson 1968, 22.

[241] Ól. Þ. Kr. 1972, 81.

[242] E. Lax. 1987, 70.

[243] D.I. IV, 641-642.

[244] D.I. IV, 654-655.

[245] D.I. IV, 654-655.

[246] Björn Þorsteinsson 1970, 181.

[247] D.I. IV, 768.

[248] Sama heimild.

[249] Björn M. Olsen 1910, 4-5 (Skírnir, 84. árg.).

[250] D.I. VII, 149.

[251] Bps. A. II, 6 – Vísitazíubók Brynjólfs biskups Sveinssonar 1639-1671, bls. 21-25.

[252] D.I. III, 324.

[253] Sama heimild.

[254] Þorv. Thor. / Landfræðisaga I, 135-136.

[255] Þorv. Thor. / Landfræðisaga I, 135-136.

[256] Sama heimild.

[257] D.I. IV, 141-142.

[258] Sömu heimildir.

[259] Sömu heimildir.

[260] D.I. XV, 572-574.

[261] Sama heimild.

[262] Sama heimild.

[263] Ísl. æviskrár IV, 57.

[264] D.I. XV, 572-574.

[265] Sama heimild.

[266] Sama heimild.

[267] D.I. III, 324.

[268] D.I. XV, 572-574.

[269] Sama heimild.

[270] D.I. III, 324.

[271] D.I. XV, 572-574.

[272] D.I. XV, 574.

[273] Sveinn Níelsson 1950, 191-193.

[274] Sama heimild.

[275] Ól. Þ. Kr. 1972, 104.

[276] Ísl. æviskrár I, 278-279.

[277] Sveinn Níelsson 1950, 191-193.

[278] Ísl. æviskrár I, 278-279.

[279] Sama heimild III, 150.

[280] Tryggvi Þórhallsson 1989, 188.

[281] Ísl. æviskrár IV, 283.

[282] Alþ.bækur Ísl. IV, 450-451.

[283] Sama heimild.

[284] Ísl. æviskrár IV, 374-375. Sveinn Níelsson 1950, 191-193.

[285] Alþ.bækur Ísl. IV, 450-451. Ísl. æviskrár IV, 374-375.

[286] JS. 3734to, bls. 281-382.

[287] Ísl. æviskrár IV, 234-235.

[288] Lbs. 1754to, Æfir presta Skálholtsstiftis, Holt, sbr. Jón Halldórsson 1903-1915, I, 129 og 143.

[289] Alþ.bækur Ísl. II, 151.

[290] Sveinn Níelsson 1950, 206.

[291] Sveinn Níelsson 1950, 205.

[292] Alþ.bækur Ísl. III, 20, sbr. þar bls. 87.

[293] Bps. A. II, 6, bls. 25.

[294] Sama heimild, sbr. þar á bls. 24, annan vitnisburð um sama efni.

[295] Alþ.bækur Ísl. IV, 277-281.

[296] Alþ.bækur Ísl. IV, 277-281.

[297] Sama heimild, 316-320.

[298] Páll E. Ólason / Menn og menntir IV, 515-516.

[299] Frá ystu nesjum II, 31.

[300] Bps. A. II, 6. Holt í Önundarfirði vísiterað 17.8.1639.

[301] Sama heimild.

[302] P. E. Ól. / Menn og menntir IV, 392-395.

[303] Sama heimild.

[304] Sama heimild og P. E. Ól. 1944, 390.

[305] P. E. Ól. / Menn og menntir IV, 392-395.

[306] Lbs. 23684to, Prestaæfir S.Gr.B.

[307] Frá ystu nesjum II, 32 og Annálar IV, 249 og 252.

[308] Annálar V, 515.

[309] Matthías Viðar Sæmundsson 1992, 149-151.

[310] Annálar I, 271.

[311] Ísl. æviskrár IV, 374.

[312] P. E. Ól. / Menn og menntir IV, 73.

[313] Sama heimild.

[314] Jón Halldórsson: Biskupssögur II, Rvík 1903-1910, bls. 332-333.

[315] Annálar I, 271.

[316] Sama heimild.

[317] Annálar I, 271.

[318] Bps. A. II, 6 – Vísitazíubók Brynjólfs biskups Sveinssonar 1639-1671, bls. 119.

[319] Jón Halldórsson / Biskupasögur II, bls. 344-345.

[320] Annálar III, 63 og 116.

[321] Annálar I, 271.

[322] Jón Halldórsson / Biskupasögur II, 333.

[323] Sama heimild I, 222-223.

[324] Annálar II, 118-119.

[325] Þjóðsögur J. Á., I, 76.

[326] Sama heimild.

[327] Frá ystu nesjum II, 38-40.

[328] Annálar I, 249.

[329] Sama heimild.

[330] Sama heimild, 192.

[331] Sama heimild.

[332] Jón Halldórsson / Biskupasögur II, 332-333.

[333] Jón Halldórsson / Biskupasögur II, 334.

[334] Sbr. Loftur Guttormsson 1983, 26-27.

[335] Ól. Þ. Kr. 1972, 104 og 110.

[336] Annálar I, 192.

[337] Jón Halldórsson / Biskupasögur II, 335.

[338] Sama heimild.

[339] Sama heimild.

[340] Sama heimild, 336.

[341] Þórhallur Guttormsson 1973, 22-23.

[342] Sama heimild, 24.

[343] Jón Halldórsson / Biskupasögur I, 225.

[344] Sama heimild.

[345] Sama heimild.

[346] Ísl. æviskrár I, 286-287.

[347] Sama heimild.

[348] Þórhallur Guttormsson 1973, 31.

[349] Pétur Pétursson 1884, 40 (Tímarit Hins ísl. bókm.fél.).

[350] Sama heimild.

[351] Sama heimild.

[352] Sama heimild.

[353] Sama heimild, 41 og Ísl. æviskrár I, 286-287.

[354] Ísl. æviskrár I, 286-287.

[355] Þórhallur Guttormsson 1973, 58.

[356] Pétur Péturson 1884, 55.

[357] Bps. A. II, 6 – Vísitazíuferðir 1639, 1643, 1647, 1650, 1653, 1656 og 1667.

[358] Jón Halldórsson / Biskupasögur I, 352.

[359] Pétur Pétursson 1884, 49-50.

[360] Sama heimild.

[361] Pétur Pétursson 1884, 59.

[362] Ísl. æviskrár I, 286-287.

[363] Annálar III, 145.

[364] P. E. Ól. 1942, 145-146 (Saga Ísl. V).

[365] Sama heimild.

[366] Alþ.bækur Ísl. IV, 459 og 472.

[367] Ísl. æviskrár III, 282.

[368] Ísl. æviskrár III, 282.

[369] Sama heimild.

[370] Sama heimild III, 282 og IV, 374.

[371] Sama heimild..

[372] Ísl. æviskrár II, 287 og III, 282.

[373] Sama heimild III, 282.

[374] Lbs. 23684to, S.Gr.B. Prestaæfir.

[375] Ísl. æviskrár III, 172-173 og V, 27.

[376] Jón Halldórsson / Biskupasögur I, 295.

[377] Ísl. æviskrár III, 172-173. Sveinn Níelsson 1950, 192.

[378] Ísl. æviskrár III, 172-173.

[379] Ísl. æviskrár III, 172-173.

[380] Sama heimild.

[381] Sama heimild.

[382] Frá ystu nesjum II, 43-44.

[383] Sama heimild.

[384] Séra Jón Magnússon 1967, 98-109.

[385] Sama heimild.

[386] Annálar III, 268.

[387] Jón Magnússon 1967, 118-168.

[388] Sama heimild, 167.

[389] Jón Magnússon 1967, 135-136.

[390] Ólafur Davíðsson 1940-1943, 197.

[391] Jón Magnússon 1967, 137.

[392] Sama heimild.

[393] Sama heimild, 144.

[394] Sama heimild, 155.

[395] Sama heimild, 164.

[396] Jón Magnússon 1967, 155.

[397] Jón Magnússon 1967, 164 og 166.

[398] Sama heimild, 140-141.

[399] Ól. Dav. 1940-1943, 196-197.

[400] Ísl. æviskrár III, 217 og 443. Jón Magnússon 1967, 141.

[401] Jón Magnússon 1967, 141.

[402] Sama heimild, 143.

[403] Sama heimild.

[404] Alþ.bækur Ísl. VI, 403-404.

[405] Jón Magnússon 1967, 147.

[406] Alþ.bækur Ísl. VI, 431-433.

[407] Sama heimild, 433.

[408] Sama heimild.

[409] Sama heimild.

[410] Sama heimild.

[411] Ól. Dav. 1940-1943, 217-218.

[412] Ól. Dav. 1940-1943, 218.

[413] Sama heimild.

[414] Sama heimild.

[415] Sama heimild.

[416] Alþ.bækur Ísl. VI, 455.

[417] Sama heimild.

[418] Bps. A. II, 6. Vísitazíugerðir 1656.

[419] Siglaugur Brynleifsson 1976, 101-151.

[420] Sama heimild.

[421] Alþ.bækur Ísl. VII, 94.

[422] Sama heimild, 129-130.

[423] Annálar III, 170.

[424] Annálar III, 170.

[425] Sama heimild og Lögréttumannatal, 158-159.

[426] Lögr.m.tal, 158-159.

[427] Annálar III, 172.

[428] Rtk. 2.1. Stríðshjálpin 1681.

[429] Alþ.bækur Ísl. VIII, 217.

[430] Sama heimild.

[431] Ísl. æviskrár IV, 234 og III, 41-42.

[432] Sama heimild IV, 234-235.

[433] Sama heimild.

[434] Annálar III, 162-163.

[435] Sama heimild.

[436] Sama heimild.

[437] Sama heimild.

[438] Sama heimild.

[439] Sama heimild.

[440] Sama heimild, 161.

[441] Ísl. æviskrár IV, 234-235.

[442] Ísl. æviskrár IV, 234-235.

[443] Annálar III, 162.

[444] Siglaugur Brynleifsson 1976, 168-178.

[445] Sama heimild, 202-203. Annálar III, 163-164.

[446] Annálar III, 163-164, 171 og 327.

[447] Sama heimild.

[448] Sama heimild.

[449] Siglaugur Brynleifsson 1976, 198-208.

[450] Annálar III, 164.

[451] Sama heimild, 164-166. Ísl. æviskrár IV, 234-235.

[452] H. Þ. Æfir lærðra manna, 53.

[453] P. E. Ól. 1942, 196.

[454] Sama heimild.

[455] Jarðab. Á. og P. VII, 3-317.

[456] Jarðab. Á. og P. VII, 3-317.

[457] Alþ.bækur Ísl. VIII, 445-447.

[458] Sama heimild.

[459] Sama heimild.

[460] Jarðab. Á. og P. VII, 103.

[461] sama heimild.

[462] Annálar III, 166.

[463] Siglaugur Brynleifsson 1976, 173.

[464] Lbs. 23684to, S.Gr.B. Prestaæfir.

[465] Annálar III, 162-178.

[466] Annálar III, 166-168.

[467] Sama heimild, 165.

[468] P. E. Ól. 1942, 309.

[469] Annálar III, 165.

[470] Sama heimild, 165-166.

[471] Ísl. æviskrár IV, 256.

[472] Annálar III, 175.

[473] Ísl. æviskrár IV, 256.

[474] Sama heimild.

[475] Sama heimild, IV, 256 og V, 8.

[476] Sama heimild IV, 256.

[477] Ísl. æviskrár II, 180-181.

[478] Ísl. æviskrár IV, 256.

[479] Skj.s. Kirkjustj.ráðs – K I. – 4, innk. skjöl 1744-1745, umsagnir L.Harboes    um ísl. presta.

[480] Sama heimild.

[481] Sama heimild.

[482] Ísl. æviskrár I, 88.

[483] Sömu umsagnir L. Harboes um íslenska presta.

[484] Sama heimild.

[485] P. E. Ól. 1943, 180.

[486] Ísl. æviskrár II, 360.

[487] Sama heimild.

[488] Sama heimild.

[489] Ísl. æviskrár II, 360.

[490] Sama heimild.

[491] Sama heimild III, 262.

[492] Lbs. 23684to, S.Gr.B. Prestaæfir.

[493] Ísl. æviskrár III, 262.

[494] Lbs. 23684to, S.Gr.B. Prestaæfir.

[495] Sama heimild og Ísl. æviskrár III, 262.

[496] Ísl. æviskrár III, 262.

[497] Sama heimild.

[498] Sama heimild IV, 256 og Annálar V, 338.

[499] Lbs. 23684to, S.Gr.B. Prestaæfir.

[500] Sama heimild.

[501] Sama heimild.

[502] Ísl. æviskrár III, 88.

[503] Lbs. 23684to, S.Gr.B. Prestaæfir.

[504] Ísl. æviskrár III, 88.

[505] Sama heimild I, 188 og 313.

[506] Lbs. 23684to, S.Gr.B. Prestaæfir.

[507] Ísl. æviskrár III, 88.

[508] Lbs. 23684to, S.Gr.B. Prestaæfir.

[509] Ísl. æviskrár III, 88 og 179-180.

[510] Sama heimild.

[511] Lbs. 23684to, S.Gr.B. Prestaæfir.

[512] Friðrik Eggerz 1950, 64.

[513] P. E. Ól. 1943, 181 og 209-210.

[514] Sama heimild.

[515] P. E. Ól. 1943, 181 og 209-210.

[516] Sama heimild og Ísl. æviskrár II, 381.

[517] Fr. Eggerz 1950, 64.

[518] Fr. Eggerz 1950, 64-65.

[519] Sama heimild.

[520] Sama heimild, 65. Ísl. æviskrár III, 88.

[521] Fr. Eggerz 1950, 65-66.

[522] Ísl. æviskrár III, 88.

[523] Lbs. 23684to, S.Gr.B.

[524] Annálar V, 453.

[525] Fr. Eggerz 1950, 66-67.

[526] Fr. Eggerz 1950, 66-67

[527] Sama heimild.

[528] Sama heimild, 68-70.

[529] Sama heimild.

[530] Sama heimild.

[531] Sama heimild.

[532] Sama heimild, 98-104.

[533] Sama heimild.

[534] Sama heimild.

[535] Friðrik Eggerz 1950, 105 og 111-113. Ísl. æviskrár I, 322-323.

[536] Fr. Eggerz 1950, 73-74..

[537] Ísl. æviskrár IV, 38-39.

[538] Sama heimild.

[539] Fr. Eggerz 1950 74-75.

[540] Ísl. æviskrár III, 264-265.

[541] Sama heimild.

[542] Lbs. 23684to, S.Gr.B. Prestaæfir.

[543] Ísl. æviskrár III, 264-265.

[544] Lbs. 42734to. Útfararræða séra Jóns Ásgeirssonar við útför séra Jóns Sigurðssonar í Holti í júní 1796.

[545] Ísl. æviskrár III, 264-265.

[546] Lbs. 23684to, S.Gr.B. Prestaæfir. Ísl. æviskrár III, 264-265.

[547] Ísl. æviskrár III, 264-265 og I, 262-263.

[548] Lbs. 23684to, S.Gr.B. Prestaæfir.

[549] Sama heimild.

[550] Annálar V, 446. Ísl. æviskrár III, 265.

[551] Lbs. 23684to, S.Gr.B. Prestaæfir.

[552] Ísl. æviskrár III, 265.

[553] Ísl. æviskrár III, 264.  Frá ystu nesjum II, 61-62.  Lbs. 23684to, S.Gr.B. Prestaæfir.

Óskar Ein. 1951, 90-91.  Sóknalýs. Vestfj. II, 106.

[554] Frá ystu nesjum II, 62.

[555] Lbs. 42734to Líkræða sr Jóns Ásgeirss. próf. á Söndum við útför sr Jóns Sigurðss. í Holti í júní árið 1796.

[556] Annálar V, 208.

[557] Lbs. 23684to, S.Gr.B. Prestaæfir.

[558] Frá ystu nesjum II, 61-62.

[559] Lbs. 42734to.

[560] Lbs. 42734to Líkræða sr Jóns Ásgeirss. próf. á Söndum við útför sr Jóns Sigurðss. í Holti í júní árið 1796.

[561] Frá ystu nesjum II, 61-62.

[562] Ísl. æviskrár III, 54. Lbs. 23684to, S.Gr.B. Prestaæfir.

[563] Ísl. æviskrár III, 54.

[564] Sama heimild I, 88-89.

[565] Lbs. 23684to, S.Gr.B. Prestaæfir.

[566] Ísl. æviskrár I, 88-89.

[567] Sama heimild III, 54.

[568] Sama heimild.

[569] Sama heimild.

[570] Sama heimild.

[571] Lbs. 23684to, S.Gr.B. Prestaæfir.

[572] Sama heimild.

[573] Sama heimild.

[574] Lbs. 23684to, S.Gr.B. Prestaæfir.

[575] Manntal 1801, vesturamt, bls. 325.

[576] Manntal 1816, 702.

[577] Lbs. 23684to, S.Gr.B. Prestaæfir.

 

[578] Lbs. 23684to, S.Gr.B. Prestaæfir.

[579] JS 4748vo, bls. 56.

[580] Manntal 1801.

[581] Sama heimild.

[582] Sama heimild.

[583] Sama heimild.

[584] Sama heimild.

[585] Sama heimild.

[586] Manntal 1801.

[587] Ísl. æviskrár I, 92-93.

[588] Fjölnir III, 48-49.

[589] Sama heimild, 34.

[590] Ísl. æviskrár II, 381-382.

[591] Fjölnir III, 40.

[592] Ísl. æviskrár I, 292.

[593] Lbs. 23604to, S.Gr.B. Prestaæfir.

[594] Sama heimild.

[595] Lbs. 23604to, S.Gr.B. Prestaæfir.

[596] Sama heimild.

[597] Íbúaskrá Kaupm.h. 1.2.1840, Østerg. 34, 3. h. og íb.skrá s. borg. 1.2.1845, Lille Helliggeiststr. 166, 2. h.

[598] Upplýsingar frá barnabörnum hennar sendar bókarhöfundi árið 1985.

[599] Minnisblöð skrifuð af Rosa Anne E. S. Orde. – Ljósrit í eigu bókarhöfundar.

[600] Ísl. æviskrár I, 292 og V, 184-185.

[601] Ísl. æviskrár V, 240-241.

[602] Fjölnir III, 1837, 34-49.

[603] Sama heimild, 40.

[604] Sama heimild, 40-41.

[605] Sama heimild, 41.

[606] Sama heimild, 44.

[607] Sama heimild, 41.

[608] Sama heimild.

[609] Sama heimild, 41-42. Ísl. æviskrár V, 240-241. Lögréttum.tal, 107.

[610] Fjölnir III, 41-42.

[611] Sama heimild.

[612] Sama heimild.

[613] Sama heimild, 42.

[614] Lbs. 23604to, S.Gr.B. Prestaæfir.

[615] Fjölnir III, 1837, 75.

[616] Ísl. æviskrár V, 240-241.

[617] Fjölnir III, 1837, 42-43.

[618] Sama heimild, 44-46.

[619] E. Lax. 1987, 58-60.

[620] Fjölnir III, 1837, 44.

[621] Sama heimild.

[622] Sama heimild, 45.

[623] Sama heimild, 50-52.

[624] Sama heimild, 46.

[625] Ísl. æviskrár V, 240-241.

[626] Fjölnir III, 1837, 46.

[627] Fjölnir III, 1837, 46-47.

[628] Ísl. æviskrár V, 240-241.

[629] Fjölnir III, 1837, 49-50.

[630] Ísl. æviskrár V, 240-241. Frá ystu nesjum II, 83-88.

[631] Fjölnir III, 1837, 48-49.

[632] Sama heimild.

[633] Annáll 19. aldar 1912, 148.

[634] Prestsþj.b. Holts í Önundarf.

[635] Fjölnir III, 1837, 49-50.

[636] Sama heimild.

[637] Guðm. Scheving 1832, 86-88.

[638] Gils Guðmundsson 1977, I, 72-73, 91-93, 116-118, III, 259-260. Árbækur Espólins XII, 53. Sóknarm.töl

Stóra-Laugardalssóknar. Skj.s. sýslum. og sv.stj. Barðastr.sýsla – Tálknafj.hr. 1. Hreppsbók 1786-1828.

[639] Fjölnir III,  49-50.

[640] Gils Guðmundsson 1977, III, 259-260.

[641] Fjölnir III, 1837, 49-50.

[642] Jón Helgason 1941, 122.

[643] Fjölnir III, 1837, 53-54.

[644] Ísl. æviskrár V, 17-18, 240-241, 260-261 og I, 292.

[645] Fjölnir III, 1837, 34-40. Frá ystu nesjum 1944, II, 67-78.

[646] Fjölnir III, 1837, 75.

[647] Sama heimild, 61.

[648] Lbs. 23604to, S.Gr.B. Prestaæfir.

[649] Ísl. æviskrár V, 240-241.

[650] Fjölnir III, 1837, 58-59.

[651] Frá ystu nesjum II, 79.

[652] Fjölnir III, 1837, 56.

[653] Sama heimild.

[654] Skemmtileg Vinagleði 1797, 123-125.

[655] Lbs. 23604to, S.Gr.B. Prestaæfir.

[656] Sama heimild.

[657] Sama heimild.

[658] Eftirmæli átjándu aldar 1806, bls. 543 og 553.

[659] Fjölnir III, 1837, 61.

[660] Lbs. 23604to, S.Gr.B. Prestaæfir.

[661] Sama heimild.

[662] Sálmabók íslensku kirkjunnar 1972, 542.

[663] Sama heimild, 83.

[664] Þorkell Jóhannesson 1950, 366.

[665] Þorkell Jóhannesson 1950, 368-369.

[666] Frá ystu nesjum II, 75.

[667] Lbs. 23604to, S.Gr.B. Prestaæfir.

[668] Fjölnir III, 1837, 50. Lbs. 23604to, S.Gr.B. Prestaæfir.

[669] Ebeneser Henderson 1957, 297-298.

[670] Sama heimild.

[671] Ebenezer Henderson 1957, 297-298.

[672] Prestsþj.b. Holtspr.kalls.

[673] Þorkell Jóhannesson 1950, 429-430.

[674] Ísl. æviskrár V, 237 og 240-241.

[675] Frá ystu nesjum II, 83-88.

[676] Sama heimild og Prestsþj.b. Holtspr.kalls.

[677] Frá ystu nesjum II, 83-88.

[678] Prestsþj.b. Holts í Önundarf. og Mela í Melasveit. Sbr. Frá ystu nesjum II, 83-88.

[679] Sömu heimildir.

[680] Fjölnir III, 1837, 50.

[681] Lbs. 23604to, S.Gr.B. Prestaæfir.

[682] Manntal 1816 og Sóknarm.töl Holtspr.kalls.

[683] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1., búnaðarskýrslur 1821.

[684] Sama heimild.

[685] Sama heimild.

[686] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1., búnaðarskýrslur 1821.

[687] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1., búnaðarskýrslur 1821.

[688] Sama heimild.

[689] Lýsing Íslands IV, 106-107.

[690] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1., búnaðarskýrslur 1821.

[691] Sama heimild.

[692] Frá ystu nesjum II, 74-75 og 79.

[693] Sveinn Níelsson 1950, 191-193.

[694] Sama heimild.

[695] Fjölnir III, 1837, 50.

[696] Frá ystu nesjum II, 82.

[697]  Frá ystu nesjum II, 79-83.

[698] Sama heimild, 72.

[699] Sama heimild, 80.

[700] Sama heimild, 82.

[701] Sveinn Níelsson 1950, 121 og 191.

[702] Sama heimild.

[703] Lbs. 23604to, S.Gr.B. Prestaæfir.

[704] Sama heimild.

[705] Ísl. æviskrár V, 240-241.

[706] Ísl. æviskrár V, 240-241.

[707] Fjölnir III, 1837, 52-53.

[708] Fjölnir III, 1837, 52-53.

[709] Lbs. 23604to, S.Gr.B. Prestaæfir.

[710] Fjölnir III, 1837, 75.

[711] Ísl. æviskrár I, 296.

[712] Sama heimild, 92-93.

[713] Sama heimild.

[714] Ísl, æviskrár I, 92-93 og III, 54.

[715] Ísl. æviskrár I, 92-93.

[716] Ísl. æviskrár I, 92-93.

[717] Sama heimild.

[718] Sama heimild og Frá ystu nesjum II, 121.

[719] Ísl. æviskrár I, 92-93.

[720] Lbs. 23684to, S.Gr.B. Prestaæfir.

[721] Sama heimild.

[722] Prestsþj.b. Holts í Önundarf. 1816-1849. Æviágrip Ásgeirs Jónssonar prófasts fremst í bókinni.

[723] Lbs. 23684to, S.Gr.B. Prestaæfir.

[724] Sama heimild.

[725] Sama heimild.

[726] Lbs. 23684to, S.Gr.B. Prestaæfir.

[727] Sama heimild.

[728] Sama heimild.

[729] Ísl. æviskrár I, 92-93.

[730] Ísl. æviskrár I, 92-93.

[731] Lbs. 23684to, S.Gr.B. Prestaæfir.

[732] Frá ystu nesjum II, 88-91.

[733] Lbs. 23684to, S.Gr.B. Prestaæfir.

[734] Sama heimild.

[735] Sama heimild.

[736] Sama heimild.

[737] Sama heimild. Óskar Ein. 1951, 16 og 112.

[738] Frá ystu nesjum II, 89.

[739] Lbs. 23684to, S.Gr.B. Prestaæfir.

[740] Frá ystu nesjum II, 89-90.

[741] Lbs. 23684to, S.Gr.B. Prestaæfir.

[742] Sama heimild. Frá ystu nesjum II, 89-90.

[743] Óskar Ein. 1951, 16.

[744] Sama heimild.

[745] Lbs. 23684to, S.Gr.B. Prestaæfir. Ísl. æviskrár I, 92-93.

[746] Ísl. æviskrár III, 54-55. Halldór Kristjánsson 1973, 8-9.

[747] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1., búnaðarskýrslur 1834.

[748] Sama heimild.

[749] Sama heimild.

[750] Sama heimild.

[751] Vestf. sagnir I, 256-257.

[752] Óskar Ein. 1951, 114.

[753] Þórður Sigurðsson 1986, 25 (Ársrit S.Í.). Sbr. hér bls. 209.

[754] Sama heimild.

[755] Lbs. 23684to, S.Gr.B. Prestaæfir.

[756] Prestsþj.b. Holtspr.kalls 1816-1849, fremstu síður.

[757] Sama heimild.

[758] Sama heimild.

[759] Sama heimild.

[760] Sama heimild.

[761] Lbs. 23684to, S.Gr.B. Prestaæfir.

[762] Sama heimild.

[763] Fjölnir 1837, III, 43.

[764] Lbs. 23684to, S.Gr.B. Prestaæfir.

[765] Sama heimild.

[766] Sama heimild.

[767] Sama heimild.

[768] Sama heimild.

[769] Ísl. æviskrár IV, 237 og V, 16.

[770] Lbs. 23684to, S.Gr.B. Prestaæfir.

[771] Sama heimild. Ísl. æviskrár III, 182.

[772] Lbs. 23684to, S.Gr.B. Prestaæfir.

[773] Sama heimild.

[774] Prestsþj.b. Holtspr.kalls 1816-1849, æviágrip séra Tómasar Sigurðssonar.

[775] Lbs. 23684to, S.Gr.B. Prestaæfir.

[776] Lbs. 23684to, S.Gr.B. Prestaæfir.

[777] Sama heimild.

[778]  Þjóðsögur J. Á. IV, 171.

[779] Lbs. 23684to, S.Gr.B. Prestaæfir.

[780] Sama heimild.

[781] Sama heimild.

[782] Sama heimild.

[783] Sama heimild.

[784] Prestsþj.b. Holtspr.kalls 1816-1849, æviágrip séra Tómasar Sigurðssonar.

[785] Ísl. æviskrár V, 16. ÍB 8258vo, Dagbók séra Sigurðar Tómassonar.

[786] Lbs. 23684to, S.Gr.B. Prestaæfir.

[787] Sama heimild.

[788] Sama heimild.

[789] Sama heimild.

[790] Prestsþj.b. Holtspr.kalls 1816-1849, æviágrip séra Tómasar Sigurðssonar.

[791] Sveinn Níelsson 1950, 171og 191.

[792] ÍB 8258vo, Dagbók séra Sigurðar Tómassonar.

[793] Sama heimild.

[794] Sama heimild.

[795] ÍB 8258vo, Dagbók séra Sigurðar Tómassonar.

[796] Sama heimild.

[797] Sama heimild.

[798] Prestsþj.b. Holtspr.kalls 1816-1849, æviágrip séra Tómasar Sigurðssonar.

[799]ÍB 8258vo, Dagbók séra Sigurðar Tómassonar.

[800] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Mosv.hr. 6. Úttektabók 1835-1874, bls. 9.

[801] Sama heimild.

[802] Sama heimild.

[803] Sama heimild.

[804] Sama heimild.

[805] Lbs. 23684to, S.Gr.B. Prestaæfir.

[806] Prestsþj.b. Holtspr.kalls 1816-1849, æviágrip séra Tómasar Sigurðssonar.

[807] ÍB 8258vo, Dagbók séra Sigurðar Tómassonar.

[808] Sama heimild.

[809] ÍB 8258vo, Dagbók séra Sigurðar Tómassonar, 16.12.1840.

[810] Sóknalýs. Vestfj. II, 97-110.

[811] Lbs. 23684to, S.Gr.B. Prestaæfir.

[812] Frá ystu nesjum I, 111-112.

[813] Halldór Kristjánsson 1973, 8 (Ársrit S.Í.).

[814] Sama heimild, 15-17.

[815] Halldór Kristjánsson 1973, 15-17 (Ársrit S.Í.).

[816] Lbs. 23684to, S.Gr.B. Prestaæfir.

[817] Sama heimild.

[818] Ísl. æviskrár IV, 272. Lbs. 23724to, S.Gr.B. Prestaæfir.

[819] Ísl. æviskrár IV, 272.

[820] Sama heimild.

[821] Lbs. 23724to, S.Gr.B. Prestaæfir.

[822] Sama heimild.

[823] Sama heimild.

[824] Sama heimild.

[825] Sýslum.æfir III, 512.

[826] Lbs. 23724to, S.Gr.B. Prestaæfir.

[827] Ísl. æviskrár IV, 272.

[828] Ísl. æviskrár IV, 272.

[829]Í.B. 8258vo, Dagbók séra Sigurðar Tómassonar.

[830] Sama heimild.

[831] Sama heimild.

[832] Sama heimild.

[833] Sama heimild.

[834] Sama heimild.

[835] Halldór Kristjánsson 1973, 7-32 og sami 1977, 103-119.

[836] ÍB 8258vo og 8268vo,  Dagbækur séra Sigurðar Tómassonar.

[837] Sama heimild.

[838] ÍB. 825 8vo, Dagbók séra Sigurðar Tómassonar. Prestsþj.b. Holts og Álftamýrar, skrár yfir innflutta og brottvikna árið 1837.

[839] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Ögurþinga, Holts, Álftamýrar og Selárdals. Manntal 1845, vesturamt bls. 243.

[840] Prestsþj.b. Ögurþinga.

[841] Ísl. æviskrár V, 161-162.

[842] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Rafnseyrar og Ögurþinga. Manntal 1816 bls. 683.

[843] Prestsþj.b. Ögurþinga. Vestf. ættir I, 76.

[844] Vestf. ættir I, 76.

[845] Manntal 2.2.1835.

[846] Prestsþj.b. Holts í Önundarf., − burtviknir 1837.

[847] ÍB 8258vo,  Dagbók séra Sigurðar Tómassonar.

[848] Sama heimild.

[849] Sama heimild.

[850] Sama heimild.

[851] Sama heimild.

[852] Sama heimild.

[853] Sama heimild.

[854] ÍB 8258vo,  Dagbók séra Sigurðar Tómassonar.

[855] Sama heimild.

[856] Sama heimild.

[857] Sama heimild.

[858] Sama heimild.

[859] Sama heimild.

[860] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Álftamýrar.

[861] Sömu heimildir. Manntal 1840 (Baulhús). Ísl. æviskrár III, 475.

[862] Manntal 1845.

[863] Manntal 1860.

[864] ÍB 8258vo,  Dagbók séra Sigurðar Tómassonar.

[865] Sama dagbók..

[866] Sama dagbók.

[867] ÍB 8258vo, Dagbók séra Sigurðar Tómassonar.

[868] Sama dagbók.

[869] Sama dagbók.

[870] Sama dagbók.

[871] Sama dagbók.

[872] Sama dagbók.

[873] Manntal 1845, vesturamt, bls. 281. Sóknarm.tal úr Holtspr.kalli frá árinu 1838, Flateyri.

[874] Ísl. æviskrár IV, 272.

[875] Sama heimild V, 234. Lbs. 23724to, Prestaæfir S.Gr.B.

[876] Ísl. æviskrár V, 234.

[877] Sama heimild.

[878] Manntal 1801.

[879] Lbs. 23724to, Prestaæfir S.Gr.B.,  æviágrip séra Sigurðar Tómassonar.

[880] Ísl. æviskrár V, 125-126.

[881] Lbs. 23724to, Prestaæfir S.Gr.B.

[882] Manntal 1816.

[883] Lbs. 23724to, Prestaæfir S.Gr.B.

[884] Sama heimild.

[885] Manntal 2.2.1835.

[886] Lbs. 23724to, Prestaæfir S.Gr.B.

[887] Vestf. ættir I, 98 og 123. Ísl. æviskrár V, 234. Manntal 1801, vesturamt bls. 339.

[888] ÍB 8258vo, Dagbók séra Sigurðar Tómassonar.

[889] Sama heimild.

[890] Sama heimild.

[891] Sama heimild.

[892] Sama heimild.

[893] Sama heimild.

[894] Sama heimild.

[895] Lbs. 23724to, Prestaæfir S.Gr.B.

[896] HSk. 10634to. Bréf séra Magnúsar Þórðarsonar á Hvítanesi 1.4.1849 til Eggerts Briem sýslumanns.

[897] ÍB 8258vo og 8268vo, Dagbækur séra Sigurðar Tómassonar.

[898] Sömu dagbækur og Sóknarm.töl Holtspr.kalls.

[899] VA III, 407, búnaðarskýrslur 1837.

[900] Sama heimild.

[901] VA III, 408, búnaðarskýrslur 1839.

[902] Sama heimild.

[903] Sama heimild.

[904] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Mosv.hr. 6. Úttektabók 1835-1874, bls. 18.

[905] Sama heimild.

[906] Sama heimild.

[907] Sama heimild.

[908] Sama heimild.

[909] Sama heimild.

[910] Sama heimild.

[911] Sama heimild.

[912] Sama heimild.

[913] Sama heimild.

[914] Sama heimild.

[915] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Mosv.hr. 6. Úttektabók 1835-1874, bls. 18.

[916] Sama heimild.

[917] Sama heimild.

[918] VA III, 410, búnaðarskýrslur 1845.

[919] Sama heimild.

[920] Sama heimild.

[921] Sama heimild.

[922] Sama heimild.

[923] ÍB 8258vo og 8268vo, Dagbækur séra Sigurðar Tómassonar 8.4.1839, 25.4.1840, 19.4.1841, 15.4.1842,

19.4.1843, 24.4.1844 og 21.4.1846.

[924] Sömu dagbækur, 4.5.1839 og 9.5.1840.

[925] Sömu dagbækur, 12.7.1839, 10.7.1841,5.7.1843 og 3.7.1845.

[926] Sömu dagbækur, 5.7.1843.

[927] IB 8258vo og 8268vo, Dagbækur séra Sigurðar Tómassonar, 12.7. og 13.7.1839.

[928] Sömu dagbækur, 22.3.1840 og 29.3.1847.

[929] Sömu dagbækur, 27.2.1838.

[930] Sömu dagbækur, 20.4. og 27.4.1844.

[931] Sömu dagbækur, 7.4.1845.

[932] Sömu dagbækur, 13.4.1845.

[933] Sömu dagbækur, 6.5.1844 og 2.5.1845.

[934] Sömu dagbækur, 10.6.1844.

[935] Sömu dagbækur, 30.6. og 2.7.1844. Sbr. 24.6., 25.6. og 4.7.1845.

[936] Sama dagbók, 16.6.1837.

[937] Sömu dagbækur, 19.4.1842.

[938] ÍB 8258vo og 8268vo, Dagbækur séra Sigurðar Tómassonar, 13.3.1845.

[939] Sömu dagbækur, 4.4.1839, 31.3.1840 og 2.4.1842.

[940] Sömu dagbækur, 17.4. og 26.4.1842 og 27.3.1845.

[941] Sömu dagbækur, 14.7.1838, 23.7.1839 og 13.7.1843.

[942] Sömu dagbækur, 28.8.1839.

[943] Sömu dagbækur, 2.11.1838, 9.11.1841 og 24.11.1846.

[944] Sömu dagbækur, 18.5.1843.

[945] Sömu dagbækur, 30.8.1839 og 10.7.1843.

[946] Sömu dagbækur, 27.10.1845.

[947] Sömu dagbækur, 18.5.1841.

[948] ÍB 8258vo og 8268vo, Dagbækur séra Sigurðar Tómassonar, 12.5.1845.

[949] ÍB 8258vo og 8268vo, Dagbækur séra Sigurðar Tómassonar, 7.11.1844 og 18.11.1845.

[950] Sömu dagbækur, 8.6. og 10.6.1842.

[951] Sömu dagbækur, 14.6.1843 og 30.5.1844.

[952] Sömu dagbækur, 19.7.1839, 11.7.1843 og 4.7.1845.

[953] Sömu dagbækur, 26.4.1842.

[954] Sömu dagbækur, 13.10 og 14.10.1842.

[955] Sömu dagbækur, 9.2. og 14.2.1843.

[956] Sömu dagbækur, 22.4.1843.

[957] Sömu dagbækur, 1.4.1840 og 8.8.1843.

[958] Sömu dagbækur, 2.12.1840 og 13.1.1841.

[959] Jarðab. Á. og P. VII, 103.

[960] ÍB 8258vo og 8268vo, Dagbækur séra Sigurðar Tómassonar, 4.11.1842.

[961] Ísl. æviskrár III, 464.

[962] ÍB 8258vo og 8268vo, Dagbækur séra Sigurðar Tómassonar, 23.10.1841, 3.11.1843 og 24.11.1845.

[963] Sömu dagbækur, 12.11.1842 og 26.11.1844.

[964] Sömu dagbækur, 23.10.1841, 3.11.1843 og 24.11.1845.

[965] Sömu dagbækur, 12.4.1845.

[966] Sömu dagbækur, 9.7. og 12.7.1838.

[967] Sömu dagbækur, 12.7.1838.

[968] Sömu dagbækur, 13.7.1838.

[969] ÍB 8258vo og 8268vo, Dagbækur séra Sigurðar Tómassonar, 31.5.1839, 19.5.1842, 14.5.1843, 29.5.1844

og 27.5.1845.

[970] Jón Þ. Þór 1984, 159.

[971] ÍB 8258vo og 8268vo, Dagbækur séra Sigurðar Tómassonar, 31.5. og 6.8.1839.

[972] Sömu dagbækur, 1.4.1848.

[973] Sömu dagbækur, 20.6.1842, 26.5.1843 og 5.6.1844.

[974] Sömu dagbækur, 20.6. og 28.6.1842.

[975] Sömu dagbækur, 20.5.1841, 6.6.1843 og 17.6.1844.

[976] Sömu dagbækur, 20.5.1841.

[977] Sbr. Jón Þ. Þór 1984, 122 og 129.

[978] Sigurður Skúlason 1933, 298.

[979] Jón Þ. Þór 1984, 135-136.

[980] Sama heimild.

[981] ÍB 8268vo, Dagbók séra Sigurðar Tómassonar, 6.6.1843.

[982] Lbs. 12884to, bls. 421-422 (Gísli Konráðsson: Vestfirðingasaga).

[983] ÍB 8258vo og 8268vo, Dagbækur séra Sigurðar Tómassonar, 11.6.1844.

[984] Sömu dagbækur, 17.6.1844.

[985] Guðm. Á. Eir. 1957, 69.

[986] Ísl. æviskrár V, 373-374.

[987] Jón Þ. Þór 1984, 141.

[988] ÍB 8258vo og 8268vo, Dagbækur séra Sigurðar Tómassonar, 8.6.1841.

[989] Sömu dagbækur, 20.6.1842.

[990] Sömu dagbækur, 9.6.1843.

[991] Sömu dagbækur, 1.8.1843.

[992] ÍB 8258vo og 8268vo, Dagbækur séra Sigurðar Tómassonar, 21.2. og 22.2.1845 og 20.1.1846.

[993] Sömu dagbækur, 27.1.1843.

[994] Sömu dagbækur, 6.6.1844.

[995] Manntal 1845.

[996] ÍB 8258vo og 8268vo, Dagbækur séra Sigurðar Tómassonar, 19.11.1841.

[997] Sömu dagbækur, 26.4.1843.

[998] Jón G. Jónsson 1953, 111 (Árbók Barð.).

[999] ÍB 8258vo og 8268vo, Dagbækur séra Sigurðar Tómassonar, 29.1.1843.

[1000] Skj.s. prófasta XIII AA4. Vísitazíugerð frá Holti 20.6.1844.

[1001] Skj.safn prófasta XIII AA4. Vísitazíugerð frá Holti 20.6.1844.

[1002] Sama heimild.

[1003] ÍB 8268vo, Dagbók séra Sigurðar Tómassonar, 6.8.1843.

[1004] Halldór Kristjánsson 1973, 14.

[1005] ÍB 8258vo og 8268vo, Dagbækur séra Sigurðar Tómassonar, 17.4.1842.

[1006] Sömu dagbækur, 7.12.1843.

[1007] Sömu dagbækur, 9.1.1844.

[1008] Aðalgeir Kristjánsson 1993, 99-100.

[1009] ÍB 8258vo og 8268vo, Dagbækur séra Sigurðar Tómassonar, 6.5.1843.

[1010] Sömu dagbækur, 2.1.1844.

[1011] Sömu dagbækur, 8.1 og 6.2.1844.

[1012] ÍB 8258vo og 8268vo, Dagbækur séra Sigurðar Tómassonar, 24.2. og 25.3.1844.

[1013] L. Kr. 1960, 39-40.

[1014] Sbr. L. Kr. 1960, 70-71.

[1015] ÍB 8268vo, Dagbók séra Sigurðar Tómassonar, 14.6.1845.

[1016] E. 10. Bréf séra Sigurðar Tómassonar 8.1.1846 til Jóns Sigurðssonar forseta.

[1017] Sama bréf.

[1018] Sama bréf.

[1019] ÍB 8258vo og 8268vo, Dagbækur séra Sigurðar Tómassonar, 1.11.1844.

[1020] ÍB 8258vo og 8268vo, Dagbækur séra Sigurðar Tómassonar, 26.12.1845.

[1021] Sömu dagbækur, 20.1.1846.

[1022] Sömu dagbækur.

[1023] Halldór Kristjánsson 1973, 7.

[1024] ÍB 8258vo, Dagbók séra Sigurðar Tómassonar, október og nóvember 1836.

[1025] Halldór Kristjánsson 1973, 15.

[1026] Sama heimild.

[1027] Sama heimild, 16.

[1028] Bps. C, V, 137 A. Bréf séra Sigurðar Jónssonar á Rafnseyri 30.7.1847 til biskups.

[1029] Halldór Kristjánsson 1973, 16-17

[1030] Lbs. 23684to, Prestaæfir S.Gr.B.

[1031] L. Kr. 1955, 29, sbr. þar bls. 28.

[1032] Lbs. 23724to, Prestaæfir S.Gr.B.

[1033] Manntal 1845.

[1034] Sama heimild.

[1035] Ísl. æviskrár V, 28-29. Halldór Kristjánsson 1973, 21 og 1977, 119.

[1036] ÍB 8268vo, Dagbók séra Sigurðar Tómassonar, 8.12. og 13.12.1845.

[1037] HSk. 13934to, Bréf Eggerts Briem 20.4.1846 til Jóns Péturssonar sýslumanns í Strandasýslu.

[1038] ÍB 8268vo, Dagbók séra Sigurðar Tómassonar, 7.12., 14.12. og 18.12.1846.

[1039] Sama dagbók, 4.1.1847.

[1040] Sóknarm.töl Holtspr.kalls.

[1041] Sama heimild.

[1042] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Mosv.hr. 3. Hreppsbók 1835-1847 og 4. Hreppsbók 1849-1883.

VA III, 411, búnaðarskýrslur 1847, 1848 og 1849.

[1043] VA III, 411, búnaðarskýrslur 1847-1849.

[1044] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Mosv.hr. 3. Hreppsbók 1835-1847.

[1045] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[1046] ÍB 8268vo, Dagbók séra Sigurðar Tómassonar.

[1047] Sama dagbók, 1848 og 1849.

[1048] Sama dagbók.

[1049] Sama dagbók, 11.11.1848.

[1050] Sama dagbók, 1.6.1848.

[1051] Sama dagbók, 11.2.1849.

[1052] Sóknarm.töl og prestsþj.b. Holts í Önundarfirði. Ól. Þ. Kr. / „Önfirðingar”.

[1053] Sömu heimildir.

[1054] Sóknarm.töl Holtspr.kalls.

[1055] Sóknarm.töl Holtspr.kalls.

[1056] VA III, 411, búnaðarskýrslur 1847 og 1848.

[1057] VA III, 411, búnaðarskýrslur 1848.

[1058] Sama heimild.

[1059] Sama heimild.

[1060] Sama heimild.

[1061] Sama heimild.

[1062] ÍB 8268vo, Dagbók séra Sigurðar Tómassonar, 3.1.1848.

[1063] Sama dagbók, 21.5.1848.

[1064] Sama dagbók, 5.7.1848.

[1065] ÍB 8268vo, Dagbók séra Sigurðar Tómassonar, 4.6.1848.

[1066] Sama dagbók, mars og apríl 1848.

[1067] Sama dagbók, 4.5. og 23.5.1848.

[1068] Sama dagbók, 11.10., 20.10., 21.10. og 26.10.1848.

[1069] Sama dagbók, 25.4., 15.5., 23.5., 13.6., 23.6. og 24.6.1848.

[1070] Sama dagbók, 24.7.1848.

[1071] Sama dagbók, 13.8.1848.

[1072] ÍB 8268vo, Dagbók séra Sigurðar Tómassonar, ágúst – nóvember 1848.

[1073] Sama dagbók, 6.12.1848.

[1074] Sama dagbók, desember 1848 og janúar – apríl 1849.

[1075] Sama dagbók, sami tími.

[1076] ÍB 8268vo, Dagbók séra Sigurðar Tómassonar, desember 1848 og janúar – mars 1849.

[1077] HSk. 10634to, Bréf séra Magnúsar Þórðarsonar 26.3.1849 til Eggerts Briem.

[1078] HSk. 10634to, Bréf séra Magnúsar Þórðarsonar 26.3.1849 til Eggerts Briem.

[1079] HSk. 10634to, Bréf sama til sama 1.4.1849.

[1080] Sama bréf sr. M.Þ. 1.4.1849 til Eggerts Briem.

[1081] ÍB 8268vo, Dagbók séra Sigurðar Tómassonar, 10.4. og 13.4.1849.

[1082] Sama dagbók, 16.4.1849.

[1083] Sama dagbók, 18.-24.4.1849.

[1084] Sama dagbók, 1.8.-7.8.1849.

[1085] Sama dagbók, 19.9.1849.

[1086] Sama dagbók, 30.11. og 25.12.1849 og 10.4.1850.

[1087] Lbs. 38924to, Bréf Abigaelar Þórðardóttir 12.1.1854 til Eggerts Briem sýslumanns.

[1088] HSk. 1241-12424to. Bréf  séra Magnúsar Þórðarsonar 16.9.1849 til Eggerts Briem.

[1089] Sbr. Kristján Jónsson frá Garðsstöðum 1949, 68 (Frá ystu nesjum V) og E.10. Bréf séra Jóns

Sigurssonar á Gerðhömrum 17.8.1846 til Jóns Sigurðssonar forseta.

[1090] Ísl. æviskrár V, 28-29.

[1091] Annáll 19. aldar 2. bindi bls. 381-382.

[1092] Ísl. æviskrár IV, 272. Lbs. 23724to, Prestaæfir S.Gr.B.

[1093] Jón Þ. Þór 1984, 221.

[1094] Sama heimild.

[1095] Sama heimild, 230-233. Halldór Kristjánsson 1973, 21 (Ársrit S.Í.).

[1096] Ísl. æviskrár IV, 272.

[1097] Halldór Kristjánsson 1973, 22-23.

[1098] Sama heimild.

[1099] Sama heimild.

[1100] Sama heimild, 23-24 (Ársrit S.Í.).

[1101] Sama heimild.

[1102] ÍB. 8268vo, Dagbók séra Sigurðar Tómassonar, 26.9.1849.

[1103] Ísl. æviskrár I, 10-11.

[1104] Halldór Kristjánsson 1973, 22-23 (Ársrit S.Í.).

[1105] ÍB 8268vo, Dagbók séra Sigurðar Tómassonar, 2.6. og 3.6.1849.

[1106] Sama dagbók, júní, júlí, ágúst og september 1849.

[1107] Sama dagbók.

[1108] Sama dagbók, apríl – sept. 1849.

[1109] Sama dagbók, maí og júní 1849.

[1110] ÍB 8268vo, Dagbók séra Sigurðar Tómassonar, 22.12.1849.

[1111] Manntal 1845, vesturamt, bls. 289. Sóknarm.töl Holtspr.kalls.

[1112] Ól. Þ. Kr. / „Önfirðingar”.

[1113] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[1114] Sama heimild.

[1115] Sama heimild.

[1116] ÍB 8268vo, Dagbók séra Sigurðar Tómassonar, 15.10.1849.

[1117] Sama dagbók, desember 1849 og janúar 1850.

[1118] Sama dagbók, 1849 og 1850.

[1119] Halldór Kristjánsson 1973, 24. ÍB 8268vo, Dagbók séra Sigurðar Tómassonar, 13.4.1850.

[1120] ÍB 8268vo, Dagbók séra Sigurðar Tómassonar 13.4.1850.

[1121] Sama dagbók, 13.-18.4.1850.

[1122] Sama dagbók, 13.5.1850.

[1123] Sama dagbók, 25.5.1850.

[1124] Sama dagbók 25.-30. maí 1850.

[1125] Sama heimild.

[1126] L.Kr. 1960, 157.

[1127] Sama heimild.

[1128] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ísafj. XXIV, 2. B. kjörbók 1848-1864.

[1129] ÍB 8268vo, Dagbók séra Sigurðar Tómassonar, maí og júní 1850.

[1130] Sama heimild.

[1131] ÍB 8268vo, Dagbók séra Sigurðar Tómassonar, maí og júní 1850.

[1132] Sama dagbók, júní-ágúst 1850.

[1133] Ísl. æviskrár IV, 272. Halldór Kristjánsson 1973, 25-26 (Ársrit S.Í.).

[1134] Lbs. 38954to, Bréf séra Sigurðar Tómassonar 28.1.1851 til Eggerts Briem.

[1135] Lbs. 38924to, Bréf Abigaelar Þórðardóttur 12.1.1854 til Eggerts Briem.

[1136] Halldór Kristjánsson 1973, 25-32.

[1137] Sama heimild.

[1138] Lbs. 38924to, Bréf Abigaelar Þórðardóttur 12.1.1854 til Eggerts Briem sýslumanns.

[1139] Halldór Kristjánsson 1973, 25-32.

[1140] Sama heimild.

[1141] Halldór Kristjánsson 1973, 25-32.

[1142] Sama heimild.

[1143] Sama heimild, 26-27.

[1144] Sama heimild.

[1145] Konrad Maurer / Lesbók Morgunblaðsins 24.9.1994.

[1146] Halldór Kristjánsson 1973, 31.

[1147] Sama heimild, 31-32.

[1148] Halldór Kristjánsson 1977, 119.

[1149] Ísl. æviskrár III, 388-389.

[1150] Lbs. 23664to, Prestaæfir S.Gr.B.

[1151] Ísl. æviskrár V, 209-210.

[1152] Lbs. 23664to, Prestaæfir S.Gr.B.

[1153] Sama heimild.

[1154] Sama heimild.

[1155] Sama heimild.

[1156] Sama heimild.

[1157] ÍB 8268vo, Dagbók séra Sigurðar Tómassonar, 5.7.1848.

[1158] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[1159] Ísl. æviskrár III, 388-389.

[1160] Ísl. æviskrár III, 388-389 og Ísl. æviskrár V, 246.

[1161] Lbs. 23664to, Prestaæfir S.Gr.B.

[1162] Sama heimild.

[1163] Sama heimild.

[1164] L.Kr. 1960, 221-235.

[1165] Sama heimild.

[1166] E. Lax. 1987, 254-255.

[1167] L.Kr. 1953, 126-130.

[1168] L.Kr. 1955, 48-49.

[1169] L.Kr. 1960, 262-270.

[1170] L.Kr. 1955, 140-142 og 1960, 264.

[1171] L.Kr. 1960, 265-268.

[1172] Skj.s. sýslum. og sv.stj Ísaf. XXIV 2. B. kjörbók 1844-1864.

[1173] Tíðindi frá þjóðfundi 1851, bls. 241.

[1174] E. 10. Bréf Lárusar M. Johnsen 6.1.1852 til Jóns Sigurðssonar forseta.

[1175] Sama bréf. Sbr. E. Lax. 1977, 228-230.

[1176] E. 10. Bréf Lárusar M. Johnsen 6.1.1852 til Jóns Sigurðssonar forseta.

[1177] L.Kr. 1960, 286.

[1178] E. 10. Bréf séra Lárusar M. Johnsen 20.8.1852 til Jóns Sigurðssonar forseta.

[1179] L.Kr. 1960, 286-291.

[1180] Sama heimild.

[1181] Skýrslur um landshagi 1858, I, 262.

[1182] L.Kr. 1960, 296-300.

[1183] E. 10. Bréf séra Lárusar M. Johnsen 20.8.1852 til Jóns Sigurðssonar forseta.

[1184] Sama bréf.

[1185] E. 10. Bréf séra Lárusar M. Johnsen 14.1.1853 til Jóns Sigurðssonar forseta.

[1186] Sama bréf.

[1187] Sama bréf.

[1188] Sama bréf.

[1189] Sama bréf.

[1190] Sama bréf.

[1191] Frá ystu nesjum II, 94-95.

[1192] Lbs. 23664to. Prestaæfir S.Gr.B.

[1193] Sama heimild.

[1194] Sama heimild.

[1195] Sama heimild og L.Kr. 1953, 130.

[1196] Lbs. 23664to, Prestaæfir S.Gr.B.

[1197] Sama heimild.

[1198] Ísl. æviskrár IV, 170.

[1199] Séra Sigurður Stefánsson / Óðinn IX, 1. tbl., apríl 1913.

[1200] Ísl. æviskrár IV, 74-75 og 336.

[1201] Frá ystu nesjum II, 96-97.

[1202] Klemens Jónsson / Minningar úr menntaskóla 1946, 9-19.

[1203] Sama heimild.

[1204] Sama heimild.

[1205] Hannes Pétursson 1964, 53-54 (Stgr. Thorst.).

[1206] Sama heimild.

[1207] Sama heimild, 49-58 og Ísl. æviskrár I, 80-81 og IV, 349-350.

[1208] Hannes Pétursson 1964, 53-54.

[1209] Sama heimild.

[1210] Sama heimild, 54-55.

[1211] Hannes Pétursson 1964, 56.

[1212] Heimir Þorleifsson 1978, 36-41.

[1213] Sama heimild, 41-43.

[1214] Sama heimild, 38 og 42.

[1215] Sama heimild, 43.

[1216] Sama heimild.

[1217] Sama heimild.

[1218] Heimir Þorleifsson 1978, 43.

[1219] Ísl. æviskrár IV, 326. Lbs. 23684to, Prestaæfir S.Gr.B.

[1220] Sömu heimildir.

[1221] Sömu heimildir.

[1222] Þorvaldur Jakobsson / Selskinna I 1948, 102.

[1223] Manntöl 1835 og 1840.

[1224] Sóknarm.töl Reykjavíkurpr.kalls 1845-1855.

[1225] Sama heimild.

[1226] Eiríkur Hreinn Finnbogason 1952, 12 (Inng. að Dagbók í Höfn).

[1227] Sóknarm.töl Reykjavíkurpr.kalls 1845-1855.

[1228] Sama heimild, des. 1850.

[1229] Sama heimild, des. 1854.

[1230] Ísl. æviskrár IV, 336.

[1231] Ísl. æviskrár I, 352.

[1232] Sama heimild IV, 336.

[1233] Lbs. 14844to.

[1234] Lbs. 14844to, Bréf Stefáns Stephensen 15.8.1854 til Sigurðar L. Jónassonar.

[1235] Lbs. 1484 4to, Bréf frá sama 19.1.1856 til sama.

[1236] Frá ystu nesjum II, 97.

[1237] Séra Sigurður Stefánsson / Óðinn IX, 1. tbl., apríl 1913.

[1238] Frá ystu nesjum II, 101-106.

[1239] Sama heimild, 104.

[1240] Sama heimild, 104-105.

[1241] Lbs. 23684to, Prestaæfir S.Gr.B.

[1242] Frá ystu nesjum II, 103.

[1243] Sama heimild, 99.

[1244] Sama heimild, 100.

[1245] Sama heimild, 107-108.

[1246] Lbs. 23684to, Prestaæfir S.Gr.B.

[1247] Sama heimild.

[1248] Sama heimild.

[1249] Séra Sigurður Stefánsson / Óðinn IX, 1. tbl., apríl 1913.

[1250] Lbs. 23684to, Prestaæfir S.Gr.B.

[1251] VA III, 417, búnaðarskýrslur 1860.

[1252] VA III, 421, búnaðarskýrslur 1870.

[1253] VA III, 424, búnaðarskýrslur 1880.

[1254] Sama heimild.

[1255] Sama heimild.

[1256] Ól. Þ. Kr. 1979, 137-145.

[1257] Sama heimild.

[1258] Ól. Þ. Kr. 1979, 137-145.

[1259] Ól. Þ. Kr. 1979, 141.

[1260] Óskar Ein. 1951, 113.

[1261] Séra Sigurður Stefánsson / Óðinn IX, 1. tbl., apríl 1913.

[1262] Landið þitt Ísland II, 95.

[1263] VA III, 417, búnaðarskýrslur 1860.

[1264] VA III, 421, búnaðarskýrslur 1870.

[1265] Alþingistíðindi 1877 II, 478-484.

[1266] VA III, 424, búnaðarskýrslur 1880.

[1267] Manntöl 1870 og 1880.

[1268] Manntal 1880.

[1269] Manntal 1870.

[1270] Sama heimild.

[1271] Ísl. æviskrár II, 266-267.

[1272] Sama heimild.

[1273] Guðmundur Eiríksson 1957, 70-71.

[1274] Manntöl 1870 og 1880.

[1275] Guðmundur Eiríksson 1957, 70-71.

[1276] Ísl. æviskrár II, 266-267.

[1277] Sama heimild.

[1278] Lbs. 23684to, Prestaæfir S.Gr.B.

[1279] Ísl. æviskrár IV, 336.

[1280] E. Lax. 1987, 13-15.

[1281] Alþingismannatal 1978, 15.

[1282] Sama heimild, 471.

[1283] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ísafj.sýsla XXIV. 3. Kjörbók 1869-1879.

[1284] Sama heimild.

[1285] Sama heimild.

[1286] Sama heimild.

[1287] Alþingistíðindi 1875, 1877 og 1879.

[1288] Sama heimild 1875, I, bls. III.

[1289] Sama heimild, I, 182-203.

[1290] Sama heimild, II, 24-28.

[1291] Sama heimild.

[1292] Sama heimild 1877, II, 478-484.

[1293] Sama heimild.

[1294] Alþingistíðindi 1877, II, 478-484.

[1295] Sama heimild.

[1296] E.10. Bréf séra Stefáns P. Sephensen 12.9.1877 til Jóns Sigurðssonar forseta.

[1297] Sama heimild.

[1298] Sama heimild.

[1299] E. Lax. 1979, 173-174.

[1300] Sama heimild.

[1301] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ísafj.sýsla XXIV. 3. Kjörbók 1869-1879.

[1302] Alþingismannatal 1978, 503.

[1303] Sama heimild, 426.

[1304] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ísafj.sýsla XXIV. 4. Kjörb. við alþ.kosn.. Kristján Jónsson frá Garðsst. 1956, 53-54 (Ársrit S.Í.).

[1305] Sömu heimildir.

[1306] Sveinn Níelsson 1950, 193-194.

[1307] Sama heimild, 193.

[1308] Séra Sigurður Stefánsson / Óðinn IX, 1. tbl., apríl 1913.

[1309] Lbs. 23684to, Prestaæfir S.Gr.B.

[1310] Sama heimild.

[1311] Ísl. æviskrár IV, 336.

[1312] Sama heimild.

[1313] Sama heimild, 140-141.

[1314] Kristinn Daníelsson / Óðinn XIX, 22-24.

[1315] Lbs. 23684to, Prestaæfir S.Gr.B.

[1316] Sama heimild.

[1317] Lbs. 23684to, Prestaæfir S.Gr.B.

[1318] Kristinn Daníelsson / Óðinn XIX, 22. Lbs. 23684to, Prestaæfir S.Gr.B.

[1319] Sömu heimildir.

[1320] Lbs. 23684to, Prestaæfir S.Gr.B.

[1321] Sama heimild.

[1322] Sama heimild.

[1323] Kristinn Daníelsson / Óðinn XIX, 22.

[1324] Sama heimild.

[1325] Sama heimild.

[1326] Sama heimild.

[1327] Sama heimild.

[1328] Sveinn Níelsson 1950, 193-194.

[1329] Kristinn Daníelsson / Óðinn XIX, 22. Frá ystu nesjum II, 110.

[1330] Manntöl 1890 og 1901.

[1331] Kristinn Daníelsson / Óðinn XIX, 22.

[1332] Frá ystu nesjum II, 110. Lbs. 23684to, Prestaæfir S.Gr.B.

[1333] Þórður Sigurðsson 1986, 13-29.

[1334] Þórður Sigurðsson 1986, 26-27.

[1335] Ísl. æviskrár II, 253-254.

[1336] Lbs. 23684to, Prestaæfir S.Gr.B. Kristinn Daníelsson / Óðinn XIX, 22-24.

[1337] Lbs. 23684to, Prestaæfir S.Gr.B.

[1338] Kristinn Daníelsson / Óðinn XIX, 22-24.

[1339] Sama heimild.

[1340] Sama heimild.

[1341] Kristinn Daníelsson / Óðinn XIX, 22-24.

[1342] Þjóðviljinn ungi, 11.3.1892.

[1343] Sama heimild.

[1344] Sama heimild.

[1345] Sama heimild.

[1346] Jón Guðnason 1968, 331-332.

[1347] Sama heimild.

[1348] Jón Guðnason 1974, 252-254.

[1349] Lbs. 41914to, Bréf séra Janusar Jónssonar 2.7.1902 til Halldórs Daníelssonar.

[1350] Lbs. 50204to. Bréf séra Janusar Jónssonar 19.5.1903 til Skúla Thoroddsen.

[1351] Sama heimild.

[1352] Frá ystu nesjum II, 114.

[1353] Sama heimild.

[1354] Kristinn Daníelsson / Óðinn XIX, 23.

[1355] Sama heimild.

[1356] Lbs. 36844to, Póesíbók frk. Thoru Friðriksson.

[1357] Kristinn Daníelsson / Óðinn XIX, 23.

[1358] Sama heimild.

[1359] Ísl. æviskrár III,13.

[1360] Kristinn Daníelsson / Óðinn XIX, 22-24.

[1361] Sama heimild. Ísl. æviskrár III, 13.

[1362] Bps. A. II, 6. – Vísitazíubók Brynjólfs biskups Sveinssonar 1639-1671, bls. 21-25.

[1363] Sama heimild.

[1364] Sama heimild.

[1365] Sama heimild.

[1366] Sama heimild.

[1367] Bps. A. II, 6. – Vísitazíubók Brynjólfs biskups Sveinssonar 1639-1671, bls. 21-25.

[1368] Sama heimild.

[1369] Jarðab. Á. og P. VII, 72, 103, 106, 107, 108, 122, 123, 163 og 301.

[1370] Skj.s. prófasta XIII. 1. B. 1, skjalabók Holts í Önundarf. 1333-1708, bls. 239-245, úttekt 26.5.1681.

Skj.s. prófasta XIII. 1. B. 2, skjalabók Holts í Önundarf. 1484-1731, bls. 300-307, úttekt 23.5.1731.

Bps. A. II, 24 – Vísitazíubók Hannesar biskups Finnssonar, Holt 13.8.1790. Kirkjustóll Holts í

Önundarf. 1776-1851, úttekt 17.5.1797.

[1371] Kirkjustóll Holts í Önundarfirði 1852-1963, úttekt 26.5.1884.

[1372] Bps. A.II, 6 – Vísitazíubók Brynjólfs biskups Sveinssonar 1639-1671, Holt 17. ág. 1639.

[1373] Skj.s. prófasta XIII. 1. B. 1, skjalabók Holts í Önundarf. 1333-1708, bls. 239-245, úttekt 26.5.1681.

[1374] Skj.s. próf. XIII. 1. B. 1, skjalabók Holts í Önundarf. 1333-1708, bls. 239-245, úttekt 26.5.1681. Sama skjalasafn XIII. 1. B. 2, skj.b. Holts í Ön.. 1484-1731, bls. 300-307, úttekt  23.5.1731.

Bps. A. II, 24 − Vísitazíubók Hannesar bisk. Finnssonar, Holt 13.8.1790.

Kirkjustóll Holts í Önundarf. 1776-1851, úttekt 17.5.1797.

[1375] Kirkjustóll Holts í Önf. 1852-1963, úttekt 21.5.1855.

[1376] Kirkjustóll Holts í Önundarfirði 1852-1963, úttekt 26.5.1884.

[1377] Sama úttekt.

[1378] Lbs. 45824to, Dagb. Jóns Guðmundssonar frá Grafargili júní-ágúst 1891.

[1379] Sama heimild.

[1380] Kirkjustóll Holts í Önundarfirði 1852-1963, úttekt 2.7.1908.

[1381] Bps A. II. 6, Vísitazíubók Brynjólfs biskups Sveinssonar , Holt 17.8.1639.

[1382] Sama vísitazíubók, Holt 20.8.1656.

[1383] Skj.s. próf. XIII. 1. B. 1, skjalabók Holts í Önundarf. 1333-1708, bls. 239-245, úttekt 26.5.1681.

Skj.s. próf. XIII. 1. B. 2, skjalabók Holts í Önundarf. 1484-1731, bls. 300-307, úttekt 23.5.1731.

[1384] Skj.s. próf. XIII. 1. A. 2, Vísitazíubækur prófasts, − Holt, úttekt 9.7.1784.

[1385] Kirkjustóll Holts í Önundarf. 1776-1851, úttekt 17.5.1797.

[1386] Sama heimild.

[1387] Sami kirkjustóll, úttekt 4.7.1811.

[1388] Kirkjustóll Holts í Önundarf. 1776-1851, úttekt 6.7.1822.

[1389] Bps. C. V., 135 B. Bréf sr. Þorv. Böðvarssonar og sr. Ásg. Jónssonar 12.7.1822 til Geirs bisk. Vídalín.

[1390] Sama heimild.

[1391] Sama heimild.

[1392] Sama heimild.

[1393] Bps. C. V., 135 B. Bréf sr. Þorv. Böðvarssonar og sr. Ásg. Jónssonar 12.7.1822 til Geirs bisk. Vídalín.

[1394] Kirkjustóll Holts í Önundarf. 1776-1851, bls. 128. Bréf Geirs bisk. Vídalín 10.3.1823 til prófastanna

séra Þorvaldar Böðvarssonar og séra Ásgeirs Jónssonar, afrit.

[1395] Sama heimild.

[1396] Sama heimild.

[1397] Sama heimild og Kirskjustóll Holts í Önundarf. 1776-1851, úttekt 6.7.1822.

[1398] Sama úttekt.

[1399] Kirkjustóll Holts í Önundarf. 1776-1851, úttekt 25.7.1836.

[1400] Kirkjustóll Holts í Önundarf. 1852-1963, úttekt 26.5.1884.

[1401] Sami kirkjustóll, úttekt 21.5.1855.

[1402] Sama heimild.

[1403] Bps. A. II, 6 – Vísitazíubók Brynjólfs biskups Sveinssonar 1639-1671, bls. 179.

[1404] Bps. A. II, 6 – Vísitazíubók Brynjólfs biskups Sveinssonar 1639-1671, bls. 261.

[1405] Sama heimild, bls. 180.

[1406] Sama heimild, bls. 329.

[1407] Sama heimild.

[1408] Sama heimild, bls. 262.

[1409] Sama heimild.

[1410] Sama heimild.

[1411] Sama heimild.

[1412] Sama heimild, bls. 329.

[1413] Bps. A. II, 11 − Vísitazíubók Þórðar biskups Þorlákssonar, Holt í Önundarf. 24.8.1675.

[1414] Sama vísitazíubók, Holt í Önundarf. 6.9.1689.

[1415] Skj.s. prófasta XIII. 1. B. 1. Holt í Önudnarf., skjalabók 1333-1708, bls. 239-245, úttekt 26.5.1681.

[1416] Bps. A. II, 11 − Vísitazíubók Þórðar biskups Þorlákssonar, Holt í Önundarf. 6.9.1689.

[1417] Sama heimild.

[1418] Sama heimild.

[1419] Bps. A. II, 21 − Vísitazíubók Finns biskups Jónssonar, Holt 28.8.1761 og

Bps. A. II, 24 − Vísitazíubók Hannesar biskups Finnssonar, Holt 13.8.1790.

[1420] Kirkjustóll Holts í Önundarf. 1852-1963, úttekt 26.5.1884.

[1421] Skj.s. prófasta XIII. 1. B. 2. Skjalabók Holts í Önundarf. 1484-1731, bls. 300-307, úttekt staðar og

kirkju í Holti 23.5.1731. Sbr. Bps. A. II. 14. Vísitazíubók Jóns bisk. Vídalín, Holt 24.8.1700, og Bps.

 1. II. 17. Vísitazíubók Jóns bisk. Árnasonar, Holt 26.8.1725.

[1422] Bps. A. II, 19 − Vísitazíubók Ólafs bisk. Gíslasonar, Holt 8.9.1749.

[1423] Bps. A. II, 21 − Vísitazíubók Finns bisk. Jónssonar, Holt 28.8.1761.

[1424] Bps. A. II, 22. Séra Björn Halldórsson í Sauðlauksdal vísiterar Holt 22.6.1775 í umboði biskups.

[1425] Bps. A. II, 24 − Vísitazíubók Hannesar bisk. Finnssonar, Holt 13.8.1790. Kirkjustóll Holts í Önundarf.

1776-1851, úttekt 4.7.1811.

[1426] Sami kirkjustóll,  úttektir 6.7.1822 og 25.7.1836.

[1427] Skj.s. prófasta XIII. 2. A. 4. Vísitazíubók prófasta í vesturparti Ísafj.s. 1836-1846, Holt 20.6.1844.

ÍB 8268vo, Dagbók séra Sigurðar Tómassonar 6.8.1843.

[1428] Annálar III, 172.

[1429] Bps. A. II, 11 − Vísitazíubók Þórðar bisk. Þorlákssonar, Holt 6.9.1689.

[1430] Sama vísitazíugerð og Bps. A. II, 14 − Vísitazíubók Jóns bisk. Vídlín, Holt 24.8.1700.

[1431] Sömu heimildir.

[1432] Sömu heimildir.

[1433] Skj.s. prófasta XIII. 1. B. 2. Skjalabók Holts í Önundarf. 1484-1731, bls. 300-307, úttekt 23.5.1731.

[1434] Bps. A. II, 11 − Vísitazíubók Þórðar bisk. Þorlákssonar, Holt 6.9.1689 og Bps. A. II, 14 − Vísitazíubók

Jóns bisk. Vídlín, Holt 24.8.1700.

[1435] Sömu heimildir.

[1436] Bps. A. II, 19 og 21. Holt, biskupsvísitazíur 8.9.1749 og 28.8.1761.

[1437] Bps. A. II. 11. vísitazíubók Þórðar bisk. Þorlákssonar, Holt 6.9.1689. – Bps. A. II, 14 − Vísitazíubók

Jóns biskups Vídalín. Holt 24.8.1700.

[1438] Sömu heimildir.

[1439] Bps. A. II, 14 − Vísitazíubók Jóns bisk. Vídalín, Holt 24.8.1700.

[1440] Bps. A. II, 21 − Vísitazíubók Finns bisk. Jónssonar, Holt 28.8.1761. Skj.s. prófasta XIII. 1. B. 2,

skjalabók Holts í Önundarf. 1484-1731, bls. 300-307, úttekt 23.5.1731.

[1441] Bps. Biskupsvísitazíur frá 1725, 1749, 1761, 1775 og 1790. Kirkjustóll Holtskirkju 1776-1851,

úttekt 4.7.1811.

[1442] Bps. A. II, 19 − Vísitazíubók Ólafs bisk. Gíslasonar, Holt 8.9.1749.

[1443] Sama heimild.

[1444] Sama heimild.

[1445] Sama heimild.

[1446] Sama heimild.

[1447] Bps. A. II, 21 − Vísitazíubók Finns bisk. Jónssonar, Holt 28.8.1761.

[1448] Sama heimild.

[1449] Bps. A. II, 21 − Vísitazíubók Finns bisk. Jónssonar, Holt 28.8.1761.

[1450] Bps. A. II, 24 − Vísitazíubók Hannesar bisk. Finnssonar, Holt 13.8.1790. Kirkjustóll Holts í Önundarf.

1776-1851, úttekt 4.7.1811.

[1451] Sömu heimildir.

[1452] Bps. A. II, 24 − Vísitazíubók Hannesar bisk. Finnssonar, Holt 13.8.1790.

[1453] Kirkjustóll Holts í Önundarf. 1776-1851. Byggingarreikn. Holtskirkju haustið 1819 og úttektir 6.7.1822

og 25.7.1836.

[1454] Sömu heimildir.

[1455] Halldór Kristjánsson 1973, 14.

[1456] Kirkjustóll Holts í Önundarf. 1776-1851. Byggingarreikn. Holtskirkju haustið 1819 og úttektir 6.7.1822

og 25.7.1836.

[1457] Kirkjustóll Holts í Önundarf. 1852-1963, úttekt 26.5.1884.

[1458] Kirkjustóll Holts í Önundarf. 1776-1851. Byggingarreikn. Holtskirkju haustið 1819.

[1459] Skýrslur um landshagi I, Kaupmannahöfn 1858, 262.

[1460] Kirkjustóll Holts í Önundarf. 1776-1851. Byggingarreikn. Holtskirkju haustið 1819.

[1461] Sama heimild.

[1462] Sama heimild.

[1463] Sama heimild.

[1464] Kirkjustóll Holts í Önundarf. 1776-1851. Byggingarreikn. Holtskirkju haustið 1819.

[1465] Skýrslur um landahagi I, 1858, 262.

[1466] Kirkjustóll Holts í Önundarf. 1776-1851. Byggingarreikn. Holtskirkju haustið 1819.

[1467] Sami kirkjustóll, úttekt 6.7.1822.

[1468] Sama heimild.

[1469] Sama heimild.

[1470] Sama heimild.

[1471] Sama heimild.

[1472] Sami kirkjustóll, úttekt 25.7.1836.

[1473] Sama heimild.

[1474] Kirkjustóll Holts í Önundarf. 1852-1963, vísitazíugerð Helga bisk. Thordersen 12.6.1852.

[1475] Sama heimild.

[1476] Sama heimild.

[1477] Sama heimild.

[1478] Sama heimild.

[1479] Kirkjustóll Holts í Önundarf. 1852-1963, úttekt 2.7.1908 sbr. úttekt 26.5.1884.

[1480] Bps. Vísitazíugerðir biskupa frá 17., 18. og 19. öld. Kirkjustóll Holts í Önundarf. 1852-1963.

[1481] Bps. XIII. 6. Kirkjustóll Holts í Önundarf. 1852-1963. Úttekt staðar og kirkju í Holti 26.5.1884.

[1482] Séra Gunnar Björnsson. – Viðtal K.Ó. við hann 28.6.1994.

[1483] Bps. XIII. 6. Kirkjustóll Holts í Önundarf. 1852-1963. Úttekt staðar og kirkju í Holti 26.5.1884.

[1484] Sami kirkjustóll. Úttekt 2.7.1908.

[1485] Guðm. I. Kristjánsson og Jóhanna Kristjánsdóttir. – Viðtal K.Ó. við þau 26.6.1994.

[1486] Bps. XIII. 6. Kirkjustóll Holts í Ön.f. 1852-1963. Vísitazíugerð Hallgríms bisk. Sveinssonar 31.7.1896.

[1487] Bps. biskupsvísitazíur frá 17. og 18. öld.

[1488] Bps. A. II, 24 − Vísitazíubók Hannesar bisk. Finnssonar, Holt 13.8.1790. Kirkjustóll Holts í Önundarf.

1852-1963, vísitazíugerð Helga bisk. Thordersen 12.6.1852.

[1489] Kirkjustóll Holts í Önundarf. 1852-1963, úttektir 26.5.1884 og 2.7.1908.

[1490] Skrá yfir gripi Holtskirkju, varðveitt 1995 hjá séra Gunnari Björnssyni í Holti.

[1491] D.I. XV, 572-574.

[1492] Skrá yfir kirkjugripi Holtskirkju, varðveitt 1995 hjá séra Gunnari Björnssyni í Holti.

[1493] Sama heimild.

[1494] Bps. biskupsvísitazíur frá 17. og 18. öld.

[1495] Bps. A. II, 24 − Vísitazíubók Hannesar bisk. Finnssonar, Holt 13.8.1790.

[1496] Kirkjustóll Holts í Önundarf. 1852-1963, vísitazíugerð Helga bisk. Thordersen 12.6.1852.

[1497] Sami kirkjustóll, úttektir 26.5.1884 og 2.7.1908.

[1498] Skrá yfir kirkjugripi í Holtskirkju, varðveitt 1994 hjá séra Gunnari Björnssyni í Holti.

[1499] Sama heimild.

[1500] Bps. A. II, 6 − Vísitazíubók Brynjólfs bisk. Sveinssonar 1639-1671, Holt 17.8.1639.

[1501] Sama heimild.

[1502] Sama heimild.

[1503] Bps. A. II, 11 − Vísitazíub. Þórðar bisk. Þorlákssonar, Holt 24.8.1675. Bps. A. II, 14 − Vísitazíub. Jóns

bisk. Vídalín, Holt 24.8.1700. Bps. A. II, 19 − Vísitazíub. Ólafs bisk. Gíslasonar, Holt 8.9.1749. Bps.

A, II. 24. − Vísitazíub. Hannesar bisk. Finnssonar, Holt 13.8.1790. Skj.s. próf. XIII. 1. B. 1. Holt í

Ön.f., skjalabók 1333-1708, úttekt 26.5.1681.og XIII. 1. B. 2, skjalabók 1484-1731, úttekt 23.5.1731.

[1504] Bps. A. II, 17 − Vísitazíubók Jóns biskups Árnasonar, Holt 26.8.1725.

[1505] Bps. A. II. 24. Vísitazíubók Hannesar bisk. Finnssonar, Holt 13.8.1790.

[1506] Kirkjustóll Holts í Önundarf., úttekt 4.7.1811.

[1507] Kirkjustóll Holts í Önudarf. 1852-1963. Vísitazíugerð Helga bisk. Thordersen 12.6.1852.

[1508] Skj.s. prófasta XIII. 1. B. 2. Skjalabók Holts í Önundarf. 1484-1731, bls. 300-307, úttekt 23.5.1731.

Bps. A. II, 19 − Vísitazíubók Ólafs bisk. Gíslasonar, Holt 8.9.1749.

[1509] Bps. A. II, 24 − Vísitazíubók Hannesar bisk. Finnssonar, Holt 13.8.1790.

[1510] Bps. A. II, 6 − Vísitazíubók Brynjólfs bisk. Sveinssonar 1639-1671, Holt 17.8.1639.

[1511] Safnskrá Þjóðminjasafns Íslands.

[1512] Sama skrá og Sigurður Vigfússon / Árbók Hins ísl. fornleifafélags 1883, bls. 5-6.

[1513] Safnskrá Þjóðminjasafns Íslands.

[1514] Sama heimild.

[1515] Sama heimild.

[1516] Sigurður Vigfússon / Árbók Hins ísl. fornleifafélags 1883, bls. 5-6.

[1517] Pálmi Pálsson 1895, 33-34. Sbr. Kristján Eldjárn 1962, 20.

[1518] Sama heimild.

[1519] Sama heimild.

[1520] Sama heimild.

[1521] Sama heimild.

[1522] Sama heimild.

[1523] Sama heimild.

[1524] Safnskrá Þjóðminjasafns Íslands.

[1525] Sama heimild.

[1526] Sama heimild.

[1527] Safnskrá Þjóðminjasafns Íslands.

[1528] Sama heimild.

[1529] Bps. A. II, 6 − Vísitazíubók Brynjólfs bisk. Sveinssonar 1639-1671, Holt 17.8.1639.

[1530] Sama heimild.

[1531] Sama heimild.

[1532] Sama heimild.

[1533] D.I. XV, 572-574.

[1534] Bps. A. II, 6 − Vísitazíubók Brynjólfs bisk. Sveinssonar, Holt 20.8.1656.

[1535] Bps. A. II, 11 − Vísitazíubók Þórðar bisk. Þorlákssonar, Holt 24.8.1675. Bps. A. II. 14 − Vísitazíubók

Jóns  bisk. Vídalín, Holt 24.8.1700. Bps. A. II, 19 − Vísitazíub. Ólafs bisk. Gíslasonar, Holt 8.9.1749.

Bps. A. II, 24 − Vísitazíubók Hannesar bisk. Finnssonar, Holt 13.8.1790. Skj.s. prófasta XIII. 1. B. 1.

skjalabók Holts í Önundarf. 1333-1708, bls. 239-245, úttekt 26.5.1681 og XIII. 1. B. 2., skjalabók Holts í Önundarf. 1484-1731, bls. 300-307, úttekt 23.5.1731. Kirkjustóll Holts í Önundarf. 1776-1851,

úttekt 4.7.1811.

[1536] Bps. A. II, 11 − Vísitazíubók Þórðar biskups Þorlákssonar, Holt 24.8.1675.

[1537] Sömu vísitazíur og úttektir og hér var síðast vísað til.

[1538] Kirkjustóll Holts í Önundarf. 1776-1851, úttekt 4.7.1811. Sbr. Kirkjust. Holts í Önundarf. 1852-1963,

vísitazíugerð Helga bisk. Thordersen 12.6.1852.

[1539] Kirkjustóll Holts í Önundarf. 1776-1851, úttekt 25.7.1836.

[1540] Kirkjustóll Holts í Önundarf. 1852-1963, úttekt 2.7.1908.

[1541] Séra Gunnar Björnsson og frú Ágústa Ágústsdóttir, Holti. – Viðtal K.Ó. við þau 28.6.1994.

[1542] Bps. A. II, 6 − Vísitazíubók Brynjólfs bisk. Sveinssonar 1639-1671, Holt 17.8.1639.

[1543] Bps. A. II, 24 − Vísitazíubók Hannesar bisk. Finnssonar, Holt 13.8.1790.

[1544] Sama heimild.

[1545] Kirkjustóll Holts í Önundarf. 1852-1963, vísitazíugerð Helga biskups Thordersen 12.6.1852.

[1546] Bps. A. II, 6 – Vísitazíubók Brynjólfs bisk. Sveinssonar1639-1671, Holt 17.8.1639.

[1547] Vísitazíugerðir og úttektir sem hér var áður vísað til á bls. 181.

[1548] Bps. A. II, 24 – Vísitazíubók Hannesar bisk. Finnssonar, Holt 13.8.1790.

[1549] Kirkjustóll Holts í Önundarf. 1852-1963, vísitazíugerð Helga bisk. Thordersen 12.6.1852.

[1550] Sami kirkjustóll, úttekt 26.5.1884.

[1551] Þjóðminjasafn Íslands. Skrá yfir gripi úr Holtskirkju í Önundarfirði.

[1552] Sama heimild.

[1553] Kirkjustóll Holts í Önundarf. 1852-1963, úttekt 26.5.1884.

[1554] Sami kirkjustóll, úttekt 2.7.1908.

[1555] Bps. A. II, 11 – Vísitazíubók Þórðar bisk. Þorlákssonar, Holt 24.8.1675.

[1556] Skj.s. prófasta XIII. 1. B. 1, skjalabók Holts í Önundarf. 1333-1708, bls. 239-245, úttekt 26.5.1681.

[1557] Bps. A. II, 14 – Vísitazíubók Jóns bisk. Vídalín, Holt 24.8.1700.

[1558] Bps. A. II, 17 – Vísitazíubók Jóns bisk. Árnasonar, Holt 26.8.1725.

[1559] Kirkjustóll Holts í Önundarf. 1852-1963. Vísitazíugerð Helga bisk. Thordersen 12.6.1852.

[1560] Bps. A. II, 6 – Vísitazíubók Brynjólfs bisk. Sveinssonar 1639-1671, Holt 17.8.1639.

[1561] Skj.s. prófasta XIII. 1. B. 1, skjalabók Holts í Önundarf. 1333-1708, bls. 239-245, úttekt 26.5.1681.

[1562] Sama heimild.

[1563] Bps. A. II, 11 – Vísitazíubók Þórðar bisk. Þorlákssonar, Holt 6.9.1689.

[1564] Sama heimild.

[1565] Bps. – vísitazíugerðir frá Holti í Önundarf. 1700-1800.

[1566] Bps. A. II, 21 – Vísitazíubók Finns bisk. Jónssonar, Holt 28.8.1761.

[1567] Skj.s. prófasta XIII. 1. B. 2, skjalabók Holts í Önundarf. 1484-1731, bls. 300-307, úttekt 23.5.1731.

[1568] Bps. A. II, 21 – Vísitaziubók Finns bisk. Jónssonar, Holt 28.8.1761.

[1569] Bps. A. II, 24 – Vísitaziubók Hannesar bisk. Finnssonar, Holt 13.8.1790.

[1570] Sama heimild.

[1571] Kirkjustóll Holts í Önundarf. 1776-1851, úttekt 4.7.1811.

[1572] Kirkjustóll Holts í Önundarf. 1852-1963, vísitaziugerð Helga bisk. Thordersen 12.6.1852.

[1573] Bps. A. II, 6 – Vísitaziubók Brynjólfs bisk. Sveinssonar 1639-1671, Holt 17.8.1639.

[1574] Skj.s. prófasta XIII. 1. B. 2, skjalabók Holts í Önundarf. 1484-1731, bls. 300-307, úttekt 23.5.1731.

[1575] Bps. A. II, 21 – Vísitaziubók Finns bisk. Jónssonar, Holt 28.8.1761. Bps. A. II, 24 – Vísitaziubók

Hannesar bisk. Finnssonar, Holt 13.8.1790.

[1576] Kirkjustóll Holts í Önundarf. 1776-1851, úttekt 4.7.1811.

[1577] Kirkjustóll Holts í Önundarf. 1776-1851, úttekt 6.7.1822.

[1578] Sami Kirkjustóll 1852-1963, vísitaziugerð Helga bisk. Thordersen 12.6.1852.

[1579] Sami Kirkjustóll1852-1963, úttekt 26.5.1884.

[1580] Bps. A. II, 11 – Vísitaziubók Þórðar bisk. Þorlákssonar, Holt 24.8.1675 og 6.9.1689.

[1581] Bps. A. II, 17 – Vísitaziubók Jóns bisk. Árnasonar, Holt 26.8.1725. Kirkjustóll Holts í Önundarf.

1852-1963, vísitaziugerð Helga bisk. Thordersem 12.6.1852.

[1582] Bps. A. II, 17 – Vísitaziubók Jóns bisk. Árnasonar, Holt 26.8.1725. Bps. A. II, 24 – Vísitaziubók

Hannesar bisk. Finnssonar, Holt 13.8.1790.

[1583] Kirkjustóll Holts í Önundarf. 1852-1963, úttekt 26.5 1884.

[1584] Sama heimild.

[1585] Sama heimild.

[1586] Kirkjustóll Holts í Önundarf. 1852-1963, úttekt 26.5 1884.

[1587] Bps. A. II, 24 – Vísitaziubók Hannesar bisk. Finnssonar, Holt 13.8.1790.

[1588] Skrá yfir gripi Holtskirkju, varðveitt 1994 hjá séra Gunnari Björnssyni í Holti.

[1589] Þjóðminjasafn Ísl. Skrá yfir gripi úr Holtskirkju í Önundarfirði sem nú eru í eigu safnsins.

[1590] Safnskrá Þjóðminjasafns Íslands.

[1591] Sama heimild.

[1592] Sama heimild.

[1593] Sama heimild.

[1594] Sama heimild.

[1595] Hjalti Hugason 1988, 181 (Ísl. þjóðmenning).

[1596] Hjalti Hugason 1988, 181 (Ísl. þjóðmenning).

[1597] Sama heimild.

[1598] Sama heimild.

[1599] Safnskrá Þjóðinjasafns Íslands.

[1600] Sama heimild.

[1601] Safnskrá Þjóðminjasafns Íslands.

[1602] Sama heimild.

[1603] Bps. A. II, 6 – Vísitaziubók Brynjólfs bisk. Sveinssonar, Holt 17.8.1639.

[1604] Skj.s. prófasta XIII. 1. B. 2, skjalabók Holts í Önundarf. 1484-1731, bls. 300-307, úttekt 23.5.1731.

[1605] Sama heimild.

[1606] Skj.s. prófasta XIII. 1. B. 2, skjalabók Holts í Önundarf. 1484-1731, bls. 226 (219).

[1607] Eggert Ólafsson 1975, I, 189-190. Jónas Jónasson frá Hrafnagili 1961, 439 og 450.

[1608] Jónas Jónasson frá Hrafnagili 1961, 438-439.

[1609] Eggert Ólafsson 1975, I, 189-190.

[1610] Eggert Ólafsson 1975, I, 189-190.

[1611] Eggert Ólafsson 1975, II, 219.

[1612] Hörður Ágústsson 1987, 340 (Íslenski torfbærinn í Ísl. þjóðmenning I).

[1613] Sama heimild.

[1614] Manntal 1703.

[1615] Skj.s. prófasta XIII. 1. A. 2, úttekt 9.7.1784.

[1616] Sama heimild.

[1617] Kirkjustóll Holts í Önundarf. 1776-1851, úttekt 17.5.1797.

[1618] Sama heimild.

[1619] Sama heimild.

[1620] Gísli Gestsson 1968, 63 og 76 (Árb. fornleifafél.).

[1621] Skj.s. prófasta XIII. 1. A. 2, úttekt 9.7.1784. Kirkjustóll Holts í Ön.f. 1776-1851, úttektir 17.5.1797 og

4.7.1811.

[1622] Skj.s. prófasta XIII. 1. A. 2, úttekt 9.7.1784. Kirkjustóll Holts í Ön.f. 1776-1851, úttektir 17.5.1797 og

4.7.1811. Sbr. hér bls. 187-189.

[1623] Skj.s. prófasta XIII. 1. A. 2, úttekt 9.7.1784. Kirkjustóll Holts í Ön.f.. 1776-1851, úttektir 17.5.1797 og

4.7.1811.

[1624] Sömu heimildir.

[1625] Sömu heimildir.

[1626] Sömu heimildir.

[1627] Sömu heimildir.

[1628] Sömu heimildir.

[1629] Skj.s. prófasta XIII. 1. B. 2, skjalabók Holts í Önundarf. 1484-1731, bls. 300-307, úttekt 23.5.1731.

[1630] Skj.s. prófasta XIII. 1. A. 2, úttekt 9.7.1784.

[1631] Sama heimild.

[1632] Kirkjustóll Holts í Önundarf. 1776-1851, úttekt 17.5.1797.

[1633] Skj.s. prófasta XIII. 1. A. 2, úttekt 9.7.1784. Kirkjust. Holts í Ön.f. 1776-1851, úttektir 17.5.1797 og

4.7.1811.

[1634] Sömu heimildir.

[1635] Skj.s. prófasta XIII. 1. A. 2, úttekt 9.7.1784. Kirkjust. Holts í Ön.f. 1776-1851, úttektir 17.5.1797 og

4.7.1811.

[1636] Skj.s. prófasta XIII. 1. A. 2, úttekt 9.7.1784. Kirkjustóll Holts í Ön.f.. 1776-1851, úttektir 17.5.1797 og

4.7.1811.

[1637] Sömu heimildir.

[1638] Sömu heimildir.

[1639] Sömu heimildir.

[1640] Sömu heimildir.

[1641] Sömu heimildir.

[1642] Sömu heimildir.

[1643] Sömu heimildir.

[1644] Kirkjustóll Holts í Önundarf. 1776-1851, úttekt 17.5.1797.

[1645] Sami kirkjustóll, úttekt 4.7.1811.

[1646] Kirkjustóll Holts í Önundarf.1776-1851, úttektir 17.5.1797, 4.7.1811, 6.7.1822 og 25.7.1836.

[1647] Kirkjustóll Holts í Önundarf. 1776-1851, úttektir 17.5.1797, 4.7.1811, 6.7.1822 og 25.7.1836.

[1648] Sömu heimildir.

[1649] Hörður Ágústsson 1987, 273-284 (Íslenski torfbærinn í Íslensk þjóðmenning I).

[1650] Sama heimild.

[1651] Sama heimild, bls. 284.

[1652] Jónar Jónasson frá Hrafnagili 1961, 451-453.

[1653] Sama heimild.

[1654] Skj.s. prófasta XIII. 1. A. 2, úttektarg. frá Álftamýri 31.10.1798. XIII. 1. A. 3, úttektarg. frá Rafnseyri

24.5.1822 og úttektarg. frá Söndum 13.6.1817. XIII. 1. A. 2, úttektarg. frá Stað í Súg. 14.6.1802.

[1655] Skj.s. prófasta XIII. 1. A. 2, úttektarg. frá Álftamýri 31.10.1798. XIII. 1. A. 3, úttektarg. frá Rafnseyri

24.5.1822 og úttektarg. frá Söndum 13.6.1817. XIII. 1. A. 2, úttektarg. frá Stað í Súg. 14.6.1802.

[1656] Skj.s. prófasta XIII. 1. A. 3, úttektargerðir frá Söndum í Dýrafirði 13.6.1817 og 28.5.1828.

[1657] Skj.s. prófasta XIII. 1. A. 2, úttektarg. frá Stað í Súgandaf. 14.6.1802, XIII. 1. A. 3, úttektarg. frá sama

stað 22.6.1812 og úttektarg. frá sama stað 7.6.1839.

[1658] Skj.s. prófasta XIII. 1. A. 7, úttektarg. frá Álftamýri 16.6.1882. XIII. 1. A. 8, úttektarg. frá Rafnseyri

9.4.1883.

[1659] Sömu heimildir og Skj.s. prófasta XIII. 1. A. 8, úttektarg. frá Rafnseyri 20.6.1892.

[1660] Skj.s. prófasta XIII. 1. A. 7, úttektarg. frá Álftamýri 16.6.1882.

[1661] Kirkjustóll Holts í Önudarf. 1776-1851, úttekt 6.7.1822.

[1662] Guðlaugur Sveinsson 1791, 242-278.

[1663] Sama heimild.

[1664] Gestur Vestfirðingur 1847, I, 59.

[1665] Kirkjustóll Holts í Önundarfirði 1776-1851, úttekt 6.7. 1822.

[1666] Kirkjustóll Holts í Önundarfirði 1776-1851, úttekt 6.7. 1822.

[1667] Sama heimild.

[1668] Kirkjustóll Holts í Önundarf. 1852-1963, úttekt 21.5.1855.

[1669] Sama heimild.

[1670] Kirkjustóll Holts í Önundarf. 1852-1963, úttekt 21.5.1855.

[1671] Sama heimild.

[1672] Sami kirkjustóll, úttekt 26.5.1884.

[1673] Sama heimild.

[1674] Sama heimild.

[1675] Sama heimild.

[1676] Sama heimild.

[1677] Sama heimild.

[1678] Lbs. 45824to, Dagb. Jóns Guðmundssonar frá Grafargili, júlí 1891.

[1679] Kirkjustóll Holts í Önundarf. 1852-1963, úttekt 2.7.1908.

[1680] Lbs. 44074to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 278-279.

[1681] Sama heimild.

[1682] Sama heimild.

[1683] Sama heimild.

[1684] Sama heimild.

[1685] Sama heimild.

[1686] Sama heimild.

[1687] Sama heimild.

[1688] Sama heimild.

[1689] Kirkjustóll Holts í Önundarf. 1852-1963, úttekt 2.7.1908.

[1690] Lbs. 44074to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 278-279.

[1691] Sama heimild.

[1692] Sama heimild.

[1693] Sama heimild.

[1694] Sama heimild.

[1695] Sama heimild.

[1696] Sama heimild.

[1697] Sama heimild.

[1698] Kirkjustóll Holts í Önundarf. 1852-1963, úttekt 2.7.1908.

[1699] Kirkjustóll Holts í Önundarf. 1852-1963, úttekt 2.7.1908.

[1700] Kirkjustóll Holts í Önundarf. 1776-1851, úttekt 6.7.1822.

[1701] Sama heimild.

[1702] Sami kirkjustóll, úttekt 25.7.1836.

[1703] Kirkjustóll Holts í Önundarf. 1852-1963, úttektir 21.5.1855, 26.5.1884 og 2.7.1908.

[1704] Sömu heimildir.

[1705] Sömu heimildir.

[1706] Sömu heimildir.

[1707] Sömu heimildir.

[1708] Sömu heimildir.

[1709] Kirkjustóll Holts í Önundarf. 1852-1963, úttektir 21.5.1855, 26.5.1884 og 2.7.1908.

[1710] Sömu heimildir.

[1711] Sömu heimildir.

[1712] Sömu heimildir.

[1713] Sömu heimildir.

[1714] Sömu heimildir.

[1715] Ísl. æviskrár IV, 140-141.

[1716] Lbs. 44094to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 77-78.

[1717] Kirkjustóll Holts í Önundarf. 1852-1963, úttekt 1.6.1929.

[1718] Kirkjustóll Holts í Önundarf. 1776-1851, úttekt 6.7.1822.

[1719] Kirkjustóll Holts í Önundarf. 1852-1963, úttektir 21.5.1855, 26.5.1884 og 2.7.1908.

[1720] Sömu heimildir.

[1721] Sömu heimildir.

[1722] Sömu heimildir.

[1723] Sömu heimildir.

[1724] Sömu heimildir.

[1725] Sömu heimildir.

[1726] Kirkjustóll Holts í Önundarf. 1852-1963, úttektir 21.5.1855, 26.5.1884 og 2.7.1908.

[1727] Sömu heimildir.

[1728] Sömu heimildir.

[1729] Sömu heimildir.

[1730] Sömu heimildir.

[1731] Jarðabók Á. og P. VII, 104-105.

[1732] Sama heimild.

[1733] Bændatöl og skuldaskrár 1720-1765, eftirrit.

[1734] Jarðabók Á. og P. VII, 103-105.

[1735] Óskar Ein. 1951, 112-114. Hagalín Guðmundsson. – Viðtal K.Ó. við hann 5.7.1994. Sbr. Þjóðminjasafn

Íslands. Ragnar Edvardsson / Rannsóknaskýrslur fornleifadeildar 1996, IV, kort 2.

[1736] Jarðabók Á. og P. VII, 103-105.

[1737] Sama heimild.

[1738] Manntal 1703.

[1739] Jarðabók Á. og P. VII, 104-105.

[1740] Sama heimild.

[1741] Sama heimild.

[1742] Óskar Ein. 1951, 114.

[1743] Hagalín Guðmundsson. – Viðtal K.Ó. við hann 5.7.1994.

[1744] Hagalín Guðmundsson. – Viðtal K.Ó. við hann 5.7.1994. Sbr. Óskar Ein. 1951, 113.

[1745] Hagalín Guðmundsson. – Viðtal K.Ó. við hann 5.7.1994.

[1746] Sama heimild.

[1747] Óskar Ein. 1951, 112-114.

[1748] Sama heimild.

[1749] Hagalín Guðmundsson. – Viðtal K.Ó. við hann 5.7.1994.

[1750] Óskar Ein. 1951, 113.

[1751] Sama heimild.

[1752] Sama heimild. Sbr. Þjóðm.safn Ísl., Ragnar Edvardsson / Rannsóknask. fornleifad. 1996, IV.

[1753] Óskar Ein. 1951, 113.

[1754] Sama heimild.

[1755] Hagalín Guðmundsson. – Viðtal K.Ó. við hann 5.7.1994. Guðm. Ingi. Kr. – Viðtal K.Ó. við hann

26.6.1994.

[1756] Þjóðminjasafn Íslands, Ragnar Edvardsson / Rannsóknask. fornleifad. 1996, IV.

[1757] Óskar Ein. 1951, 114. Þjóðm.safn Íslands. Ragnar Edvardsson / Rannsóknask. fornleifad. 1996, IV.

[1758] Hagalín Guðmundsson. – Viðtal K.Ó. við hann 5.7.1994.

[1759] Sama heimild.

[1760] Guðm. I. Kristjánsson – Viðtal K.Ó. við hann 26.6.1994.

[1761] Óskar Ein. 1951, 114.

[1762] Óskar Ein. 1951, 113-114.

[1763] Sama heimild, 113-114.

[1764] Þórður Sigurðsson 1986, 25 (Ársrit Sögufél. Ísf.).

[1765] Þórður Sigurðsson og Halldór Kristjánsson 1986, 19 og 35. Sbr. Óskar Ein. 1951, 114.

[1766] Óskar Ein. 1951, 112.

[1767] Hagalín Guðmundsson. – Viðtal K.Ó. við hann 5.7.1994.

[1768] Sama heimild.

[1769] Sama heimild.

[1770] Guðm. I. Kristjánsson. – Viðtal K.Ó. við hann 26.6.1994.

[1771] Brynjólfur Árnason. – Viðtal K.Ó. við hann 3.8.1993.

[1772] Óskar Ein. 1951, 90-91.

[1773] Sama heimild.

[1774] Sama heimild, 16.

[1775] Óskar Ein. 1951, 16.

[1776] Óskar Ein.. „Viðbætir” hans við örnefnalýsingu, handrit varðveitt á Örnefnastofnun.

[1777] Óskar Ein. 1951, 112-113.

[1778] Guðm. I. Kristjánsson. – Viðtal  K.Ó. við hann 26.6.1994.

[1779] Ól. Þ. Kr. 1979, 140.

[1780] Sama heimild.

[1781] Ingimundur Guðmundsson. – Viðtal K.Ó. við hann 22.2.1994.

[1782] Óskar Ein. 1951, 112.

[1783] Óskar Ein. 1951, 91 og „viðbætir” hans við örnefnalýsingu, handrit varðveitt hjá Örnefnastofnun.

[1784] Hagalín Guðmundsson. Viðtal K.Ó. við hann 2.8.1993.

[1785] Óskar Ein. 1951, 16.

[1786] Sóknalýs. Vestfj. II, 106.

[1787] Óskar Ein. 1951, 16. Ingimundur Guðmundsson. – Viðtal K.Ó. við hann 22.2.1994.

[1788] Óskar Ein. 1951, 16.

[1789] Ingimundur Guðmundsson. – Viðtal K.Ó. við hann 22.2.1994.

[1790] Hagalín Guðmundsson. Viðtal K.Ó. við hann 18.5.1994.

[1791] Óskar Ein. 1951, 114.

[1792] Óskar Ein. 1951, 114.

[1793] Sama heimild. Hagalín Guðmundsson. – Viðtal K.Ó. við hann 18.5.1994.

[1794] Óskar Ein. 1951, 114.

[1795] Sama heimild, 112.

[1796] Sama heimild.

[1797] Jóhanna Kristjánsdóttir og Guðm. I. Kristjánsson. – Viðtal K.Ó. við þau 26.6.1994.

[1798] Frá ystu nesjum III, 166.

[1799] Hagalín Guðmundsson. – Viðtal K.Ó. við hann 5.7.1994.

[1800] Sama heimild.

[1801] Sama heimild.

[1802] Sama heimild.

[1803] Sama heimild.

[1804] Sama heimild.

[1805] Sama heimild.

[1806] Hagalín Guðmundsson. – Viðtal K.Ó. við hann 5.7.1994.

[1807] Sama heimild.

[1808] Brynjólfur Árnason. – Viðtal K.Ó. við hann 3.8.1993. Hagalín Guðm.son. – Viðtal K.Ó. við hann

18.5.1994.

[1809] Brynjólfur Árnason. – Viðtal K.Ó. við hann 3.8.1993.

1000-1900

Guðmundur Justsson

Á fyrri hluta 20. aldar var Guðmundur Justsson, sem fæddist á Gemlufalli haustið 1841,[1] einna kunnastur þeirra sem búið höfðu á Dröngum, a.m.k. utan Dýrafjarðar,

LESA MEIRA »
1000-1900

Krossadalur

Í Krossadal var löngum tvíbýli á fyrri tíð, Hærri- og Lægri- (eða Neðri-) Krossdalur, og voru þetta ystu bæir við Tálknafjörð. Stundum var reyndar þríbýli

LESA MEIRA »
1000-1900

Arnarstapi

Arnarstapi og Krossadalur voru tvær ystu jarðirnar á norðurströnd Tálknafjarðar og hafa nú báðar verið í eyði frá því um 1940.[1] Frá verbúðatóttunum í Arnarstapavík

LESA MEIRA »