Suðureyrarhreppur 

Suðureyrarhreppur 

Suðureyrarhreppur nær yfir allan Súgandafjörð og Keflavík, sem er fyrir norðan fjallið Gölt, en í víkinni sem svo heitir stóð samnefndur bær. Hin vestari mörk hreppsins eru við Gathamar, yst á vestanverðu Sauðanesi (sjá hér Eyri) en fyrir norðan Keflavík eru hreppamörkin í lítilli vík sem heitir Mölvík og er norðarlega undir fjallinu Öskubak sem skilur að Keflavík og Skálavík.[1] Í vík þessari miðri er dálítill klettur í bökkunum og frá honum er merkjalínan dregin í horn eitt á fjallinu ofan við víkina.[2] Frá hreppamörkunum er skammur spölur norður að Skálavíkurófæru en norðan markanna tekur nú við land Bolungavíkurkaupstaðar og var áður hinn forni Hólshreppur. Við hreppamörkin undir Öskubak eru líka mörk Vestur-Ísafjarðarsýslu og Norður-Ísafjarðarsýslu en skipting Ísafjarðarsýslu í þessa tvo hluta var ákveðin með lögum frá 6. mars árið 1896.[3] Áður var Ísafjarðarsýsla ein óskipt heild en á fyrri tíð voru sýslumenn eða kóngsumboðsmenn í Ísafjarðarsýslu þó stundum tveir í einu og á 16. öld kom fyrir að þeir væru þrír.[4] Þá voru mörkin milli umdæmanna hins vegar ekki komin í fastar skorður svo fyrir gat komið að Súgandafjörður fylgdi norðurpartinum. Eitt sinn á 16. öld virðast umdæmamörkin meira að segja hafa verið dregin um endilangan Súgandafjörð því að í skjali frá 14. janúar 1563 er Torfi Jónsson nefndur kóngsumboðsmaður milli Arnaness og Kvíarness.[5] Efni skjalsins sýnir að Torfi hefur verið umboðsmaður konungs í ákveðnum parti Ísafjarðarsýslu[6] og fer þá varla á milli mála að umdæmi hans hefur aðeins náð yfir tvo ystu hreppana við Ísafjarðardjúp og hálfan Súgandafjörð því Arnanes sem þarna er nefnt hlýtur að vera Arnarnes milli Skutulsfjarðar og Álftafjarðar en Kvíarnes getur vart annað verið en bærinn Kvíanes í Súgandafirði sem stóð á vesturströnd fjarðarins, rétt utan við fjarðarbotninn.

Mjög fátítt mun þó hafa verið að Súgfirðingum væri skipt upp með þessum hætti milli tveggja valdsmanna og sé horft fram hjá þessari undantekningu er ekki annað vitað en mörk Suðureyrarhrepps hafi jafnan verið þau sömu og hér hefur verið lýst. Nafn hreppsins virðist hins vegar ekki hafa náð að festast í sessi fyrr en á 18. öld því að í manntalinu frá 1703 er hann nefndur Súgandafjarðarhreppur en þar er reyndar líka talað um Suðureyrarþingsókn.[7] Súgandafjörður heitir hreppurinn stendur líka í Jarðabókinni frá 1710.[8]

Í fjarðaröðinni milli Látrabjargs og Stiga liggur Súgandafjörður nyrst og hann er minnstur þeirra sex fjarða sem skerast þar inn í landið frá opnu úthafinu. Fjöllin sem standa vörð við mynni fjarðarins eru Sauðanes að vestan og Göltur að norðan. Þau eru bæði álíka há, Sauðanes 478 metrar við ystu brún og Göltur 445 metrar þar sem hann rís úr hafi. Ysti hluti Súgandafjarðar snýr í beina stefnu frá vestri til austurs en á móts við fjallið Spilli, skammt fyrir utan þorpið á Suðureyri, mjókkar fjörðurinn og tekur nýja stefnu sem liggur nokkurn veginn frá norðvestri til suðausturs. Á lengd er Súgandafjörður um það bil 13 kílómetrar og þegar kemur inn fyrir fjallið Spilli er hann aðeins 600-1500 metrar á breidd og enn mjórri í fjarðarbotninum. Út við fjarðarmynnið er breiddin hins vegar 3,5 kílómetrar eða því sem næst og hvergi minni en 3 kílómetrar alveg inn að Spillinum.

Brúnir fjallanna beggja vegna Súgandafjarðar liggja víða í 500-700 metra hæð yfir sjávarmáli. Hæst eru fjöllin sem standa á hreppamörkum fyrir botni fjarðarins og allrahæstur er kollurinn á Svarthamrahorni.[9] Hann liggur í 781 metra hæð yfir sjávarmáli[10] og sést líka frá Bolungavík, Hnífsdal og Ísafjarðarkaupstað. Í munni fólks sem þar býr ber hann nafnið Kistufell (sjá hér Botn). Svarthamrahorn er norðantil við framanverðan Botnsdal en fyrir botni dalsins er Búrfell, sem stendur stakt, og liggur brún þess í um það bil 740 metra hæð.

Í Súgandafirði er undirlendi hvarvetna af skornum skammti en þó einna mest í Staðardal. Engu að síður er land víða vel gróið frá fornu fari, ekki síst í Botnsdal, sem gengur upp frá fjarðarbotninum, og norðurhlíð innfjarðarins er skógi vaxin á um það bil fjögurra kílómetra löngu svæði, frá SelárdalGilsbrekku. Í norðurhlíð Botnsdals er líka þó nokkuð birkikjarr og mun skógurinn í Súgandafirði vera sá mesti í Vestur-Ísafjarðarsýslu.

Árið 1839 festi séra Andrés Hjaltason á blað stuttorða lýsingu á Staðarprestakalli í Súgandafirði[11] en hann var þá alveg nýlega orðinn prestur á Stað.[12] Séra Andrés gerir þarna svolitla grein fyrir landslagi, staðháttum og náttúrufari og segir m.a.:

 

Hvarvetna er sókn þessi umgirt afarháum og snarbröttum fjöllum með litlu undirlendi. … Eftir því sem áður er sagt um landslag í Súgandafirði þá er það heldur þurrlent en votlent þar víðast eru brattar hlíðar allt að fjöru fram. Er þar og allvíða þétt af gilja- og lækjafarvegum, framhlaupnum af skriðum en milli þessara farvega eru grasgeirar eður teigar, meira eður minna grýttir, í hverjum er þó bæði beitar- og slægjuland, hvar af flýtur að slægjur eru víðast bæði litlar ummáls og seinunnar sem og að flestar jarðir hér liggja undir meiri eður minni áföllum af skriðum og snjóflóðum og sumar hafa hér af töluvert af sér gengið frá því er gamlir menn muna til.

En að svo miklu leyti sem graslendi hér nemur má það heita ekki ónotasælt, helst fyrir sauðpening og af því meiri partur fjarðar þessa er fremur í hlé fyrir norðannæðingi er þar ekki þar eftir grassnöggt sem graslendi er lítið yfirferðar.

Af áður sagðri fjallakreppu sem umgirðir fjörð þenna leiðir alloft mikil snjóþyngsli á vetrum í norðanverðum firðinum, undan norðanátt, en í sunnanverðum mest af útsynningum. Í sumum plássum er þó allfljótt til jarðar á vorum vegna þess þau liggja einkar vel við sól, svo sem er á Gelti og Norðureyri, sem og yst á Sauðanesi.[13]

 

Séra Andrés tekur fram að í Súgandafirði hafi menn lítið að segja af reiðarþrumum, loftsjónum, skruggueldi, ellegar öðru því líku en hins vegar sé mikið um hafís.[14] Um þann vágest ritar prestur á þessa leið:

 

Hafís þar á móti er hér alþekktur sem víðar vestanlands, með sínum siðvanalegu afleiðingum sem eru harðari veðrátta, sjófrost og ísalög, hvar við sjómenn allmikið bagast í útvegum sínum. Íssins vanalegi komutími er á útlíðandi vetri eður frá þorrabyrjun. Helst hann þá hér við allt nær fram til sumarmála en ógjarna lengur.[15]

 

Með hafísnum komu stundum hvítabirnir sem margir óttuðust og ekki að ástæðulaustu. Birna með húnum kom á land í Súgandafirði, segir í Sauðlauksdalsannál þar sem greint er frá atburðum ársins 1773.[16]

Byggðinni í Suðureyrarhreppi má skipta í þrjá hluta. Er þá fyrst að nefna Staðardal sem liggur næst Önundarfirði og skerst inn í landið milli fjallanna Sauðaness og Spillis. Í dalnum voru frá fornu fari fjórar bújarðir og bæirnir þar þeir einu í hreppnum sem stóðu ekki örskammt frá sjó. Annar hluti byggðarinnar tekur við fyrir innan Spilli og norðan við fjöllin sem skilja innfjörðinn í Súgandafirði frá Staðardal og Vatnadal en sá síðarnefndi er annar tveggja dala sem Staðardalurinn skiptist í þegar fjær dregur frá sjávarströndinni. Í þessum hluta byggðarinnar eru sjö fornar bújarðir og frá því hjáleigan Laugar byggðist á ný, á síðari hluta átjándu aldar, voru jarðirnar átta. Þrjár þessara jarða eru á vesturströnd fjarðarins, ein við fjarðarbotninn og fjórar á norðurströnd fjarðarins. Þriðji sveitarhlutinn er svo Keflavík norðan við fjallið Gölt með einu bújörðinni í hreppnum sem ekki var í Súgandafirði.

Leiðin úr Staðardal að Suðureyri, sem var næsti bær, liggur um fjörur undir fjallinu Spilli og var oft erfið yfirferðar að vetrarlagi því væri mikið brimrót gekk sjávarlöðrið alveg upp í kletta og oft hrynur úr fjallinu sem rís þverhnípt að kalla upp frá sjávarströndinni. Akfær vegur um fjörurnar undir Spilli var lagður árið 1948 og síðan þá hefur verið bílfært frá Suðureyri út í Staðardal.

Aðrar leiðir milli bæja í Súgandafirði voru að öllum jafnaði greiðfærar nema í miklum snjóalögum en þá gat víða orðið þungt fyrir fæti. Leiðin frá Gelti, ysta bæ á norðurströnd fjarðarins, til Keflavíkur er hins vegar sú langversta í hreppnum. Á milli þessara tveggja jarða gengur hið tignarlega fjall Göltur í sjó fram, snarbratt og alsett hamrabeltum sem snúa að úthafinu. Leiðin milli bæjanna liggur um Galtarfjörur sem eru mjög stórgrýttar og þar verður að sæta sjávarföllum því á hverri flæði gengur sjór upp í kletta. Að sumarlagi er reyndar unnt að fara yfir fjall frá Gelti til Keflavíkur en að vetrinum er sú leið oft illfær eða ófær vegna harðfennis og hálku.[17] Í Keflavík bjó fólk því oft við mikla einangrun.

Um landnám í Súgandafirði segir svo í Landnámabók:

 

Hallvarður súgandi var í orrustu móti Haraldi konungi í Hafursfirði. Hann fór af þeim ófriði til Íslands og nam Súgandafjörð og Skálavík til Stiga og bjó þar.[18]

 

Í einni gerð Landnámabókar segir að Hallvarður hafi farið til Íslands frá Sætrum á Hörðalandi og talið hefur verið líklegt að þar sé átt við Setesdal á Ögðum[19] sem er langur dalur upp frá suðurströnd Noregs. Um dalinn fellur áin Otra. Engin nánari grein er gerð fyrir Hallvarði í Landnámabók og þess ekki getið hvar í Súgandafirði hann reisti bæ sinn. Sú fullyrðing að Hallvarður hafi numið bæði Súgandafjörð og Skálavík er athyglisverð vegna þess að Skálavík hefur, að því er best er vitað, verið í hinum forna Hólshreppi frá fyrstu tíð en ekki í Suðureyrarhreppi. Frá Skálavík er líka mun auðveldara að komast til Bolungavíkur, sem einnig var í Hólshreppi, heldur en til Súgandafjarðar og hreppamörkin, sem snemma festust í sessi, því í alla staði eðlilegri en þau mörk sem dregin voru milli landnáma Hallvarðs og Þuríðar sundafyllis að sögn hinna fornu höfunda.

Engar sönnur verða nú færðar á það hvort Hallvarður súgandi, sem um er getið í Landnámabók, hafi lifað í raun eða sé diktaður upp af þeim sem settu saman hið forna rit um landnám á Íslandi. Hyggilegast mun vera að gera báðum þessum möguleikum álíka hátt undir höfði en svolítið varasamir til að trúa á verða ýmsir landnámsmennirnir í Vestur-Ísafjarðarsýslu að teljast, þeir Örn, Dýri, Önundur og Hallvarður súgandi. Freistandi til íhugunar er sú tilgáta að firðirnir, sem við þá eru kenndir samkvæmt Landnámabók, hafi flestir eða allir fengið nöfn sín með öðrum hætti, en landnámsmennirnir síðan verið búnir til sem persónur í bók út frá nöfnum fjarðanna. En sé út frá því gengið að landnámsmaðurinn í Súgandafirði hafi í raun borið nafnið Hallvarður súgandi vakna aðrar spurningar. Ein er sú hvort nafn fjarðarins eigi þá rætur að rekja til viðurnefnis Hallvarðar eða hvort hann hafi fengið viðurnefnið vegna búsetu sinnar í Súgandafirði. Sé litið fram hjá Landnámabók virðist eðlilegt að gera ráð fyrir að nafn fjarðarins sé dregið af hinum súgandi sjó sem þar gefur oft að líta. Hitt má svo telja líklegt að einn eða fleiri úr hópi þeirra manna sem fyrstir settust að í Súgandafirði hafi hlotið viðurnefnið súgandi og verið nefndir svo í tali manna sem bjuggu í nálægum fjörðum.

Sumir landnámsmannanna, sem frá er greint í Landnámabók, koma einnig við sögu í öðrum fornritum og ýmis dæmi um að raktar séu til þeirra ættir fólks sem lifði á 13. öld þegar flestar Íslendinga sögur voru færðar í letur. Alllíklegt verður að telja að fleiri eða færri úr hópi þeirra hafi í raun numið hér land en mun hæpnara að svo hafi verið um hina sem hvergi finnast nefndir utan Landnámabókar og eru þar rétt aðeins nefndir á nafn. Í þessum efnum er Hallvarður súgandi í eins konar milliflokki. Frá honum eru engar ættir raktar og höfundar Landnámabókar láta nægja að nefna hann rétt aðeins á nafn og geta í örstuttu máli um landnám hans en á móti kemur að Hallvarðar er þó getið í Grettissögu.

Þar er frá því greint að áður en hann kom til Íslands hafi Hallvarður verið þrjú sumur með Önundi tréfæti, langafa Grettis sterka, í hernaði á Írlandi og við strendur Skotlands.[20] Saman börðust þeir líka gegn Haraldi konungi lúfu í Hafursfirði og flýðu á sama skipinu vestur um haf er þeirri miklu orrustu lauk með sigri Haralds.[21] Einn félagi þeirra Hallvarðar og Önundar hét Bálki. Í Grettissögu er frá því sagt að Bálki og Hallvarður hafi farið saman til Íslands og hafi Hallvarður numið Súgandafjörð og Skálavík en Bálki Hrútafjörð og hafi hann búið þar á Bálkastöðum.[22]

Önundur tréfótur hélt til Íslands nokkru síðar og á leið sinni yfir hafið minntist hann Hallvarðar félaga síns og kvað vísu þessa, ef marka má frásögn Grettissögu:

 

Þóttak hæfr að Hrotta

hreggvindi fyrr seggjum,

þás geirhríðar gnúði

grand hvasst, og Súgandi;

nú verður á skæ skorðu

skaldi sígur, at stíga

út með einum fæti

Íslands á vit, þvísa.[23]

 

Merkingu vísunnar hefur útgefandi Grettissögu skýrt á þessa leið:

 

Mönnum þótti áður fyrr ég og Hallvarður súgandi vera hlutgengir í bardaga, þegar orustan var sem áköfust. Nú verð ég að stíga á skip einfættur í Íslandsferð. Þessu skáldi fer hnignandi.[24]

 

Í Landnámabók er engan fróðleik að finna um þá sem fyrstir settust að í Súgandafirði nema þær fáu línur sem hér hefur áður verið vitnað til og tengjast Hallvarði. Í þeirri gömlu og góðu bók er þess hins vegar getið að Helgi Hrólfsson hafi orðið afturreka í Súgandafjörð, er hann hugðist sigla úr Eyjafirði til Noregs, og frá því greint að hann hafi haft vetursetu hjá Hallvarði.[25] Helgi þessi var að sögn hinna fornu höfunda sonarsonur Helga magra, landnámsmanns í Eyjafirði, og fór hann um vorið úr Súgandafirði að leita sér bústaðar.[26] Í þeirri leit kom hann brátt að ónumdum firði og hitti þar skutil í flæðarmáli.[27] Þar reisti hann sér bústað og nefndi fjörðinn Skutilsfjörð[28] en svo heitir enn ysti fjörðurinn við vestanvert Ísafjarðardjúp. Þangað er auðvelt að ganga úr Súgandafirði á fáum klukkutímum og liggur leiðin yfir Botnsheiði.

Engin vitneskja liggur fyrir um það hvar fólkið sem fyrst allra settist að í Súgandafirði reisti bæ sinn. Um þau efni hafi hins vegar verið settar fram kenningar[29] en þær hafa á engu að byggja nema munnmælasögum og tilgátum út frá staðháttum. Við slíka kenningasmíð hefur einkum verið staldrað við tvær jarðir, Bæ í Staðardal og Botn.[30] Munnmælasögur herma að Hallvarður landnámsmaður hafi búið í Botni og verið heygður í hól einum miklum sem stendur ofarlega í hlíðinni vestan við framanverðan Botnsdal.[31] Hóllinn heitir Súgandi[32] og frá honum er gott útsýni yfir strönd og hlíðar við norðanverðan Súgandafjörð og yfir allan innfjörðinn.

Í íslenskum fornritum er Súgandafjarðar nær aldrei getið ef frá er talin hin stuttorða frásögn Landnámabókar af Hallvarði landnámsmanni. Nafn fjarðarins er þó nefnt á tveimur stöðum, það er í Grettissögu, sem áður var getið, og í viðbæti við Hrafns sögu Sveinbjarnarsonar. Hrafn var sem kunnugt er veginn af Þorvaldi Vatnsfirðingi og mönnum hans á langaföstu árið 1213 (sjá hér Rafnseyri) og nokkru síðar var með gerðardómi felldur sá úrskurður að Þorvaldur skyldi hverfa brott af landinu og vera utanlands í fimm vetur.[33] Í dómsúrskurðinum var jafnframt tekið fram að Þorvaldur og þeir sem með honum fóru að Hrafni á Eyri skyldu um aldur og ævi vera óheilagir milli Vatnsfjarðar í Breiðafirði og Stiga í Ísafirði og aldrei koma í það takmark.[34] Gerðardómarinn var Þórður Sturluson og eitt ákvæðið í úrskurði hans var að allir menn skyldu vera úr þingi frá Þorvaldi, þeir er byggðum váru í Súgandafirði og vestur þaðan í því takmarki sem áður var tjáð.[35]

Talið er að Hrafns saga hafi verið rituð um miðja 13. öld (sjá hér Rafnseyri) og má ætla að þar sé í aðalatriðum greint rétt frá niðurstöðum dómarans sem kvað upp úrskurð sinn sumarið 1214. Orðin sem vitnað var til hér að ofan sýna því meðal annars að Súgandafjörður var í byggð á fyrstu árum 13. aldar. Að svo hafi verið er líka staðfest í kirknatali Páls biskups Jónssonar frá árunum kringum 1200 en þar er getið um kirkju á Stað í Súgandafirði.[36] Reyndar má telja mjög líklegt að búið hafi verið á flestum jarðanna í Súgandafirði allt frá því á 10. öld en heimildir um búsetu í Suðureyrarhreppi fyrir 1200 eru engar í boði þegar Landnámabók sleppir. Í ritum frá 13. öld og árunum kringum 1200 er Súgandafjarðar ekki heldur getið nema í þeim fáu heimildum sem hér hafa þegar verið nefndar. Í Fjarðatali, sem talið er vera frá árinu 1312 eða því sem næst, eru m.a. taldir upp helstu firðir á Vestfjörðum, þar á meðal Súgandafjörður.[37] Elsta heimildin úr Súgandafirði, sem telja má trausta og verulegur fengur er að, er svo máldagi kirkjunnar á Stað, sem ritaður var árið 1324,[38] en frá honum er nánar greint á öðrum stað í þessu riti (sjá hér Staður).

Í fornum bréfum frá 14., 15. og 16. öld er ýmsan fróðleik að finna um eigendur jarða í Súgandafirði og um skógar- og rekaítök innan marka Suðureyrarhrepps. Það helsta úr því safni er ætlunin að kynna hér síðar eftir því sem við á þegar staldrað verður við á bæjunum í ferð okkar um allan hreppinn.

Í heimildum frá síðari öldum eru fornar bújarðir í Suðureyrarhreppi yfirleitt taldar vera tólf og er Vatnadalur þá talinn tvær jarðir,[39] enda þótt allt beitiland beggja jarðanna þar væri sameiginlegt.[40] Álitamál sýnist því vera hvort ekki ætti fremur að telja Vatnadal eina jörð þó þar hafi löngum verið tvíbýli.

Jarðirnar tólf í Suðureyrarhreppi sem byggðar voru frá fornu fari voru þessar: Staður, Fremri-Vatnadalur, Ytri-Vatnadalur, Bær, Suðureyri, Kvíanes, Botn, Gilsbrekka, Selárdalur, Norðureyri, Göltur og Keflavík.[41] Þrettánda jörðin var svo Laugar, gömul hjáleiga frá Suðureyri sem komst aftur í byggð eftir nokkurt hlé á síðari hluta 18. aldar og búið var á nær óslitið næstu 200 árin eða því sem næst (sjá hér Laugar). Frá öðrum hjáleigum, sem héldust skemur í byggð á síðari öldum og urðu aldrei sjálfstæðar bújarðir, verður greint síðar.

Fjórar þessara jarða, Staður, Fremri-Vatnadalur, Ytri-Vatnadalur og Bær eru í Staðardal. Suðureyri, Laugar og Kvíanes eru á vesturströnd Súgandafjarðar og Botn fyrir botni fjarðarins. Á norðurströnd fjarðarins eru fjórar jarðir, Gilsbrekka, Selárdalur, Norðureyri og Göltur en Keflavík er í samnefndri vík fyrir norðan fjallið Gölt eins og hér var áður nefnt og er því ekki í Súgandafirði.

Prestssetur og eini kirkjustaðurinn var frá fornu fari Staður en í byrjun 18. aldar lifðu munnmæli um bænhús á Suðureyri og í Fremri-Vatnadal á fyrri tíð.[42] Þingstaður var alla tíð á Suðureyri, að því er best er vitað, og þar hófst þorpsmyndun á árunum kringum aldamótin 1900. Árið 1920 voru þorpsbúar orðnir 315.[43]

Dýrleiki jarðanna í Suðureyrarhreppi var að fornu mati sem hér segir:

Staður …………………    16   hundruð

Fremri-Vatnadalur .      8   hundruð

Ytri-Vatnadalur ……      8   hundruð

Bær …………………….    24   hundruð

Suðureyri ……………    20   hundruð

Laugar ………………..      4   hundruð

Kvíanes ………………      8   hundruð

Botn …………………..    24   hundruð

Gilsbrekka …………..      3   hundruð

Selárdalur ……………    12   hundruð

Norðureyri ………….      6   hundruð

Göltur …………………    12   hundruð

Keflavík ……………..      8   hundruð.[44]

 

Í a.m.k. einni heimild er dýrleiki jarðanna í Vatnadal reyndar metinn á annan veg en algengast var og Fremri-Vatnadalur talinn 7 hundraða jörð en Neðri-Vatnadalur 9 hundruð.[45] Þess ber einnig að geta að í jarðaskrá frá árinu 1658 er Gilsbrekka talin 6 hundraða jörð[46] en aðeins 3 hundruð að dýrleika í öllum yngri heimildum sem um er kunnugt, þar á meðal í jarðaskrá frá árinu 1695.[47]

Jarðaskráin sem hér er birt sýnir að stærstu jarðirnar í Suðureyrarhreppi voru Bær, Botn og Suðureyri, 24 hundruð hver að fornu mati og er hjáleigan Laugar þá talin með Suðureyri. Samanlögð hundraðatala allra jarða í hreppnum var 153 hundruð og meðalstærð jarðanna því um það bil 12 hundruð en þó nær 13 hundruðum meðan jarðirnar töldust aðeins vera tólf. Tvær minnstu jarðirnar í Suðureyrarhreppi, Gilsbrekka og Laugar, voru jafnframt minnstu bújarðirnar í allri Vestur-Ísafjarðarsýslu[48] en þess má geta að ýmsir bændur í öðrum hreppum sýslunnar, sem bjuggu á parti úr stærri jörðum, urðu stundum að láta sér nægja að hafa fjögur jarðarhundruð til ábúðar. Dýrleiki einnar jarðar í Auðkúluhreppi, Rauðsstaða, var reyndar færður úr tólf hundruðum niður í fjögur á síðari hluta 18. aldar.[49] Á nítjándu öldinni var hundraðatala Lauga í Súgandafirði og Rauðsstaða í Arnarfirði því hin sama, 4 hundruð,[50]en Gilsbrekka ein var talin enn rýrari, aðeins 3 hundruð.

Allar jarðirnar í Súgandafirði héldust í byggð fram á tuttugustu öld og flestar fram yfir 1940 en nú (1999) er aðeins búið á þremur þeirra, á Stað, í Bæ og í Botni en í landi Suðureyrar stendur samnefnt kauptún.

Árið 1710 töldust bændurnir í Suðureyrarhreppi vera tuttugu, að presti meðtöldum, en aðeins tveir þeirra voru sjálfseignarbændur.[51] Allir hinir voru leiguliðar. Bændurnir tveir sem bjuggu á sinni eigin jörð voru Jón Jónsson, sem bjó á 15 hundruðum úr Suðureyri, og Páll Jónsson sem bjó á hálfu Kvíanesi, það er 4 hundruðum.[52] Liðlega 12% allra jarðarhundraða í hreppnum voru því í sjálfsábúð árið 1710, 10,5% voru kirkjulén (beneficium) sem presturinn bjó á og liðlega 77% jarðarhundraðanna voru í leiguábúð.[53] Eigendur jarðnæðis í Suðureyrarhreppi árið 1710 voru þessir:

 

Ari Þorkelsson, sýslumaður í Haga á Barðaströnd, átti Bæ ………………  24  hundruð

Ástríður Jónsdóttir á Mýrum í Dýrafirði átti Botn …………………………  24  hundruð

Séra Halldór Pálsson í Selárdal í Arnarfirði átti Gölt og Ytri-Vatnadal ..  20  hundruð

Kirkjulénið Staður átti jörðina Stað …………………………………………  16  hundruð

Jón Jónsson á Suðureyri átti part úr Suðureyri …………………………….  15  hundruð

Eyrarkirkja í Skutulsfirði átti Selárdal ………………………………………  12  hundruð

Hólskirkja í Bolungavík átti Keflavík og Gilsbrekku ……………………..  11  hundruð

Guðrún Jónsdóttir í Haukadal í Dýrafirði átti part úr Suðureyri …………    9  hundruð

Séra Sigurður Jónsson í Holti átti part úr Fremri-Vatnadal ………………    4  hundruð

Páll Jónsson á Kvíanesi átti hálft Kvíanes ………………………………….    4  hundruð

Erfingjar Erlings Sigfúss. sem búið hafði á Suðureyri, áttu hálft Kvíanes    4  hundruð

Séra Jón Torfason á Stað í Súgandaf. átti part úr Norðureyri …………….    4  hundruð

Séra Gísli Hannesson á Snæfjöllum átti part úr Fremri-Vatnadal ……….    2   hundruð

Benedikt Hannesson frá Snæfjöllum átti part úr Fremri-Vatnadal ………    2  hundruð

Nikulás Bárðarson á Suðureyri átti part úr Norðureyri ……………………    1  hundrað

Jón Þorgilsson í Botni átti part úr Norðureyri ………………………………    1  hundrað.[54]

 

Skráin ber með sér að af 153 jarðarhundruðum í Súgandafirði áttu heimamenn 29 hundruð árið 1710, það er 18,9% allra jarðeigna í hreppnum. Kirkjurnar í Súgandafirði, Bolungavík og Skutulsfirði áttu til samans 39 jarðarhundruð eða 25,5% allra jarðeigna í hreppnum. Prestar og sýslumenn, búsettir utan Suðureyrarhrepps en þó allir á Vestfjörðum, áttu 50 jarðarhundruð í Súgandafirði, það er 32,7% allra jarðeigna í hreppnum, en bændafólk búsett í öðrum sveitarfélögum, allt þó á Vestfjörðum, átti hér 35 jarðarhundruð eða 22,9% allra jarðeigna í hreppnum. Athygli vekur að eigendur jarðanna í Suðureyrarhreppi voru allir búsettir í Ísafjarðarsýslu eða vesturhluta Barðastrandarsýslu.

Árið 1762 voru kirkjueignirnar hinar sömu og 1710, það er að segja Staður, Gilsbrekka, Selárdalur og Keflavík.[55] Aftur á móti hafði eignarhald á hinum jörðunum tekið miklum breytingum. Árið 1710 höfðu heimamenn í Súgandafirði aðeins átt um 19% allra jarðeigna í hreppnum eins og hér var áður nefnt en árið 1762 virðast þeir hafa átt 54 jarðarhundruð eða liðlega 35% af öllum jarðeignum í hreppnum.[56] Er þá út frá því gengið að Jón Guðmundsson og Jón Sigurðsson, sem áttu Vatnadalsjarðirnar, hafi verið bændurnir sem þar bjuggu en þeir hétu einmitt þessum nöfnum.[57] Sé þarna rétt til getið voru aðeins þrjár jarðir í Suðureyrarhreppi í eigu einstaklinga búsettra utan hreppsins árið 1762, Bær, Botn og Göltur.[58] Þessar þrjár jarðir töldust reyndar vera tæplega 40% af öllum jarðeignum í hreppnum því þær voru virtar á 60 hundruð samtals. Bæ átti séra Magnús Teitsson, prestur í Vatnsfirði.[59] Botn átti maður að nafni Sigurður Ólafsson[60] og mun að öllum líkindum vera Sigurður Ólafsson, bóndi og stúdent í Ögri,[61] því ætla má að sá Ólafur Jónsson sem keypti Botn árið 1746 hafi verið Ólafur Jónsson, lögréttumaður á Eyri í Seyðisfirði, er andaðist árið 1761 en hann var faðir Sigurðar Ólafssonar í Ögri.[62] Gölt átti hins vegar þetta sama ár Sigurður Sigurðsson, sýslumaðurinn á Mosvöllum í Önundarfirði,[63] er menn nefndu Sigurð skugga (sjá hér Mosvellir).

Árið 1762 virðast fimm sjálfseignarbændur hafa búið í Súgandafirði, tveir í Vatnadal, einn á Suðureyri og tveir á Kvíanesi.[64] Árið 1847 voru sjálfseignarbændurnir hins vegar bara þrír eða tveimur færri en verið hafði 85 árum fyrr og aðeins einum fleiri en verið hafði 1710.[65] Jarðirnar Suðureyri og Kvíanes, sem verið höfðu að hluta í sjálfsábúð árið 1710, voru að fullu í eigu ábúenda árið 1847 og var tvíbýli á Suðureyri sem þá taldist vera 20 hundruð.[66] Á öllum hinum jörðunum sátu leiguliðar.[67]

Árið 1932 hafði eignarhald og ábúð á jörðunum hins vegar tekið miklum breytingum. Kvíanes og Gilsbrekka voru þá komnar í eyði og bújörðin Suðureyri eingöngu nytjuð af þorpsbúum.[68] Af 122 jarðarhundruðum á hinum jörðunum voru nú 51 hundrað í sjálfsábúð, á 55 hundruðum bjuggu enn leiguliðar og á 16 hundruðum, sem voru eign kirkjunnar, bjó presturinn.[69]

Í Suðureyrarhreppi var meðallandskuld af hverju jarðarhundraði 7 álnir árið 1710[70] og því nokkru hærri en í Mosvallahreppi og Mýrahreppi þar sem meðallandskuldin af hverju jarðarhundraði var um 5 álnir á sama tíma (sjá hér Mosvallahreppur, inngangskafli). Sá mismunur bendir til þess að ef til vill hafi hið opinbera hundraðatal allmargra jarða í Súgandafirði verið heldur lægra en eðlilegt hefði verið. Athygli vekur að í Suðureyrarhreppi var landskuldin af hverju jarðarhundraði líka mjög breytileg, lægst í Keflavík, þar sem hún var 3,75 álnir af hverju hundraði, en hæst á Gilsbrekku, 13,33 álnir á hvert hundrað.[71] Við ákvörðun landskuldarinnar hefur Gilsbrekka því verið metin eins og um væri að ræða 6 hundraða jörð þó að hið opinbera mat væri 3 hundruð. Aftur á móti sýnir landskuldin að í raun hefur Keflavík aðeins verið metin á 4 hundruð eða því sem næst þó að hún teldist vera 8 hundraða jörð að fornu mati. Við samanburð á landskuldinni af þessum tveimur jörðum er vert að hafa í huga að eigandi beggja var sá sami, Hólskirkja í Bolungavík (sjá hér bls. 9).

Fyrir 12 hundraða jörð í Suðureyrarhreppi var meðallandskuld árið 1710 um það bil 84 álnir[72] eða sem svaraði 70% úr kýrverði. Landskuldin sem leiguliðarnir í Bæ þurftu að greiða var hins vegar mun hærri en þetta eða 120 álnir af hverjum 12 hundruðum.[73] Vera má að nýnefnd jörð hafi verið þeim kostum búin að þetta háa jarðarafgjald ætti við fullgild rök að styðjast en hitt getur líka verið að eigandi jarðarinnar, Ari Þorkelsson, sýslumaður i Haga, hafi krafist hærri landskuldar en sanngjarnt var.

Í ýmsum byggðarlögum varð þó nokkur lækkun á landskuldargreiðslum eftir stórubólu sem talið er að hafi fellt nær þriðjung þjóðarinnar árið 1707. Í Suðureyrarhreppi varð hins vegar lítil breyting á landskuldinni á árunum 1707-1710 en þó lækkaði hún um þriðjung á einni jörð og einnig lítið eitt á tveimur öðrum jörðum.[74] Á síðustu fimmtíu árunum fyrir stórubólu höfðu hins vegar orðið ýmsar breytingar á landskuld af jörðunum í Suðureyrarhreppi, ýmist til hækkunar eða lækkunar, sú mesta á Gelti en þar var jarðarafgjaldið lækkað úr 100 álnum niður í 60 álnir árið 1696.[75]

Hér var þess áður getið að árið 1710 hefði meðallandskuld af hverju jarðarhundraði í Suðureyrarhreppi verið 7 álnir og er þá miðað við meðaltal af öllum jörðum í hreppnum nema Stað en þar var prestssetur og engin landskuld goldin. Heildarlandskuld af hinum ellefu jörðunum var þá 960 álnir en vegna jarðarpartanna sem voru í sjálfsábúð runnu 90 álnir af þeirri upphæð í eigin vasa viðkomandi sjálfseignarbónda.

Á árunum 1710-1847 lækkaði landskuld af jörðunum í Suðureyrarhreppi, öðrum en prestssetrinu, hins vegar um liðlega 20% og var árið 1847 komin niður í 760 álnir.[76] Þar munaði mestu um lækkunina hjá þeim sem bjuggu í Bæ úr 240 álnum í 120 álnir,[77] það er úr tveimur kýrverðum í eitt. Á þessu tímabili, árunum frá 1710 til 1847, lækkaði meðallandskuld af hverju jarðarhundraði í hreppnum úr 7 álnum í 5,5 álnir[78] en var þó enn nokkru hærra en almennt var í Mosvallahreppi (sjá hér Mosvallahreppur, inngangskafli). Á 17. öld voru einhver dæmi þess að kvöð um að leggja til mann í skiprúm fylgdi leiguskilmálum jarða í Súgandafirði[79] en í byrjun 18. aldar var allt slíkt liðin tíð í þessu byggðarlagi.[80]

Eitt eða fleiri innstæðukúgildi fylgdu öllum jörðunum í Suðureyrarhreppi árið 1710 nema Keflavík.[81] Kirkjukúgildin sex, sem fylgdu Stað, hafði presturinn leigufrítt en af öllum hinum þurftu bændurnir að greiða leigu.[82] Í hverju kúgildi voru sex ær. Árið 1710 voru 118 jarðarhundruð í leiguábúð í Suðureyrarhreppi og þessum hundruðum fylgdu þá 27 kúgildi,[83] það er 162 leiguær. Lætur því nærri að eitt kúgildi hafi fylgt hverjum 4 jarðarhundruðum til jafnaðar en heildarfjöldi kúgildanna nægði þó ekki alveg til þess að svo væri.

Í Jarðabókinni frá 1710 sést að fyrir bóluna sem geisaði hér árið 1707 höfðu leigukúgildin sem fylgdu jörðunum í Suðureyrarhreppi verið nokkru fleiri, að því er virðist 31 á fyrstu árum 18. aldar og allt upp í 37 þegar flest var á síðari hluta 17. aldar.[84] Eitthvað var þetta samt breytilegt eftir árum.[85]

Árleg lögleiga fyrir hvert kúgildi var í margar aldir 10 kíló af smjöri eins og hér hefur áður verið greint frá (sjá hér Mosdalur) og þegar Árni Magnússon gerir grein fyrir leiguskilmálum hinna ýmsu bænda í Súgandafirði árið 1710 lætur hann þess oftast getið að kúgildaleigurnar eigi að greiða landsdrottni í smjöri.

Að lokum skal þess getið að um miðbik 19. aldar voru innstæðukúgildin sem fylgdu bújörðunum í Suðureyrarhreppi enn álíka mörg og verið hafði 1710.[86]

Árið 1703 bjuggu 24 bændur í Suðureyrarhreppi, að presti meðtöldum.[87] Þá var búið á 12 jörðum í hreppnum og engar hjáleigur í byggð nema tvær á Stað, báðar nefndar Staðarhús.[88] Fjórir bændur bjuggu þá í Botni, þrír í Bæ og einn prestur og tveir hjáleigubændur á Stað.[89] Á hinum jörðunum var ýmist einbýli eða tvíbýli.[90] Heimilin í Suðureyrarhreppi töldust árið 1703 vera a.m.k. einu fleiri en bændurnir, það er að segja 25, því einn húsmaður með fjögurra manna fjölskyldu hafðist við í Ytri-Vatnadal auk tveggja bænda og þeirra fólks.[91] Átta manneskjur aðrar töldust vera húsfólk en það voru allt einhleypingar sem ekki munu hafa verið með heimili út af fyrir sig.[92] Lausamaður var aðeins einn í Súgandafirði árið 1703, Ketill Brandsson á Stað, sem nærðist á sjóróðrum eins og flestir húsmannanna.[93]

Eins og áður sagði bjuggu 24 bændur í Suðureyrarhreppi árið 1703 og hafa því að meðaltali haft liðlega 6 jarðarhundruð til ábúðar hver (sjá hér bls. 8). Árið 1710 bjuggu 20 bændur í hreppnum[94] og hafði fækkað um fjóra frá árinu 1703. Ætla má að þar hafi áhrif drepsóttarinnar stórubólu sagt til sín. Næstu hálfa öldina eða svo fækkaði hreppsbændum enn um fjóra því árið 1762 voru þeir ekki nema 16, að presti meðtöldum.[95] Jörðin Keflavík var þá í eyði og líka báðar hjáleigurnar á Stað.[96]

Árið 1801 voru bændur í Suðureyrarhreppi orðnir 22[97] eða litlu færri en verið hafði 1703, og sérstök heimili húsfólks virðast hafa verið fjögur.[98] Þá var Keflavík komin aftur í byggð og líka Laugar, hin gamla hjáleiga frá Suðureyri sem lengi var í eyði á 17. og 18. öld.[99] Við upphaf 19. aldar var líka búið á þremur hjáleigum frá Stað.[100] Á árunum 1820-1880 var fjöldi býla í Suðureyrarhreppi yfirleitt á bilinu frá 16 og upp í 22.[101]

Við upphaf 20. aldar bjuggu enn 18 bændur í Suðureyrarheppi en þá var Keflavík í eyði og tólf jarðir i byggð.[102] Fjórbýli var þá í Bæ, tvíbýli á Suðureyri, í Botni og á Gelti en á hinum jörðunum átta bjuggu átta bændur, einn á hverri jörð.[103]

Á 18. öld og á fyrstu árum 19. aldar var yfirleitt lítið um húsfólk í Suðureyrarhreppi. Heimilin i hreppnum voru því litlu fleiri en bændabýlin. Árið 1703 áttu tíu húsmenn og húskonur heima í hreppnum en ef marka má þær upplýsingar sem fylgja manntalinu frá 1762 voru aðeins þrjár slíkar manneskjur búsettar hér á því ári.[104] Árið 1801 voru tvenn húsmannshjón í byggðarlaginu og þrír einhleypir húsmenn eða húskonur.[105] Engin börn voru þá á vegum þessa fólks.

Á 19. öld var fjöldi húsfólks í Suðureyrarhreppi talsvert breytilegur. Nokkur dæmi gefa þetta til kynna en að börnum húsmanna og öðru skylduliði meðtöldu var fjöldi húsfólksins sem hér segir:

 

1801 ………………..     7

1821 ……………………. 5

1827 ………………….. 19

1830 ……………………. 8

1840 ………………….. 11

1845 ………………….. 28

1850 ………………….. 15

1860 ………………….. 29

1870 ……………………. 1

1880 ………………….   25

1890 ………………….   21[106]

 

Skylt er að geta þess að hér eru allir sem í manntölum eru sagðir lifa á fiskveiðum flokkaðir sem húsmenn og líka fáeinir lausamenn sem aðeins finnast í manntalinu frá 1890.

Árið 1845 voru sex húsmannsheimili í Suðureyrarhreppi, tvö í Bæ, eitt á Kvíanesi, eitt í Klúku, hjáleigu frá Botni, eitt á Gilsbrekku og eitt í Keflavík.[107] Auk þess voru þá nokkrir einhleypingar, bæði karlar og konur, í húsmennsku[108] og má ætla að sumt af því fólki hafi verið út af fyrir sig um matseld.

Á síðustu árum 19. aldar settust fyrstu íbúarnir að á Suðureyrarmölum en tómthúsfólki fór þá fjölgandi í Súgandafirði. Frá mölunum utan við Suðureyrartúnið hafði lengi verið útræði en á síðasta áratug 19. aldar fór fólk að setjast þar að og fyrr en varði var orðið til svolítið þorp þar sem fólkinu fjölgaði mjög á tveimur fyrstu áratugum tuttugustu aldarinnar. Þegar manntal var tekið 1. nóvember 1901 var enginn maður í Súgandafirði titlaður húsmaður en um fjórtán karlmenn er tekið fram að þeir séu sjómenn eða bátsformenn eða lifi á fiskveiðum og um Guðnýju Sigríði Magnúsdóttur, 32ja ára gamla vinnukonu í Botni, er þess getið að hún rói á sjó.[109] Tveir einhleypir menn, sem sagðir eru vera leigjendur,[110] hafa einnig, ef að líkum lætur, haft sjósókn að aðalstarfi.

Haustið 1901 voru alls 26 heimili í Suðureyrarhreppi og á fimm af þessum heimilum voru húsráðendur sjómenn, þar af þrír bátsformenn.[111] Sjómennirnir, sem höfðu fyrir heimili að sjá, áttu allir heima á Suðureyri eða Suðureyrarmölum nema einn sem var búsettur á Kvíanesi.[112] Vart þarf svo að taka fram að um aldamótin 1900 stunduðu allir eða nær allir bændur í Súgandafirði líka sjóróðra með búskapnum eins og löngum hafði verið venja, enda byggðist afkoma heimilanna ekki síður á sjávarafla en því sem kýr og kindur gáfu af sér.

Haustið 1901 voru heimilin á Suðureyri orðin sex og þrjú að auk á Suðureyrarmölum.[113] Í manntalinu frá 1. nóvember á því ári eru tveir heimilisfeðranna á Suðureyri sagðir vera landbændur og bátaútgerðarmenn, einn er vinnumaður, einn háseti á bát, einn bátsformaður og sá sjötti var prestur[114] sem beið þess að jörðin Staður losnaði úr ábúð í næstu fardögum en þar voru prestssetrið og kirkjan. Þetta sama haust áttu svo tveir bátsformenn heima á Suðureyrarmölum og voru báðir fjölskyldumenn en þriðji húsráðandinn þar er kallaður timbursmiður í manntalinu[115] og fékkst m.a. við bátasmíðar.

Elstu upplýsingar um íbúafjölda í Suðureyrarhreppi er að finna í manntalinu frá 1703 en þá voru 193 manneskjur búsettar í hreppnum.[116] Með örfáum dæmum úr manntölum frá 18. og 19. öld og frá árinu 1901 má sjá hver íbúafjöldinn var að öllum jafnaði tvær síðustu aldirnar fyrir upphaf þéttbýlismyndunar á Suðureyri. Ætla má að tíu dæmi um íbúafjöldann á þessu skeiði gefi nokkurn veginn rétta heildarmynd og fylgja þau hér með.

 

Íbúafjöldi í Suðureyrarhreppi

 

1703 ………………….     193

1745 ……………………… 148

1762 ……………………… 137

1801 ……………………… 164

1821 ……………………… 172

1830 ……………………… 156

1845 ……………………… 169

1870 ……………………… 155

1880 ……………………… 177

1890 ……………………… 190

1901 ……………………… 189[117]

Tölurnar sem hér voru sýndar benda eindregið til þess að mannfjöldinn í hreppnum hafi yfirleitt verið á bilinu frá 150-200 og sjaldan farið yfir eða undir þau mörk.

Við athugun á mannfjöldatölum úr Súgandafirði frá fyrri tíð er vert að minnast þess að í þessu litla byggðarlagi létust 73 manneskjur úr drepsóttinni stórubólu árið 1707 ef marka má tölur sem upp eru gefnar í Sjávarborgarannál[118] en höfundur hans hóf ritun annálsins þegar 20 ár voru liðin frá þessu mikla sóttarári.[119] Fari höfundur annálsins rétt með hafa því 37,8% af íbúum hreppsins andast í bólunni og er það hærra hlutfall en í nokkrum öðrum hreppi í vesturhluta Ísafjarðarsýslu.[120] Er íbúafjöldinn við upphaf bólunnar þá talinn hafa verið hinn sami og hann var þegar manntalið var tekið fjórum árum fyrr. Í þeim efnum getur varla skeikað miklu.

Þorlákur Markússon, sem ritaði Sjávarborgarannál, segir að í hreppunum fimm í vesturhluta Ísafjarðarsýslu hafi 529 manneskjur látist úr bólunni árið 1707[121] eða 28,5% af þeim 1854 íbúum sem áttu heima í þessum sömu hreppum árið 1703.[122] Fjölda dauðsfalla í hverjum hreppi af völdum bólunnar segir Þorlákur hafa verið:

 

Í Auðkúluhreppi ……………………………      80

Í Þingeyrarhreppi …………………………..    125

Í Mýrahreppi ………………………………..    124

Í Mosvallahreppi …………………………..    127

Í Suðureyrarhreppi ………………………..      73[123]

 

Miðað við íbúafjölda í hverjum hreppi eins og hann var árið 1703 verður hlutfall látinna þá sem hér segir:

 

Í Auðkúluhreppi …………………………….    26,3%

Í Þingeyrarhreppi …………………………..    32,7%

Í Mýrahreppi …………………………………    27,1%

Í Mosvallahreppi ……………………………    24,6%

Í Suðureyrarhreppi …………………………    37,8%

 

Þau ósköp, sem yfir landslýðinn dundu í stórubólu árið 1707, er erfitt að gera sér í hugarlund en talið er að nær þriðjungur allra Íslendinga hafi fallið í þessari skæðu drepsótt.[124] Merkilegt er líka til þess að hugsa hversu fljótt fólkinu fjölgaði víðast hvar á ný þó að langur tími liði uns náðst hafði að fylla í öll skörðin sem hin mannskæða bólusótt skildi eftir. Á landinu öllu var íbúafjöldin liðlega 50.000 árið 1703[125] en eftir bóluna náði mannfjöldinn aldrei þeirri tölu fyrr en komið var árið 1824.[126] Margvísleg harðindi og sóttir, sem yfir þjóðina gengu á þessu skeiði, töfðu fyrir fólksfjölguninni.[127]

Í Vatnsfjarðarannál hinum yngsta er getið um illvíga bólusótt sem kom upp í Súgandafirði árið 1766 og segir þar svo:

 

Bólusóttin gekk nú sterk á Vestfjörðum. Hún kom af hollenskri fiskiduggu sem bólufólk á lá og fluttist frá Súgandafirði með bólusjúkum vermönnum, fyrst inn á Langadalsströnd og til Vatnsfjarðarsveitar hvar hún burttók margt fólk innan þrítugsaldurs, dreifðist svo víðar út en rénaði eftir jól.[128]

 

Óvíst er hversu margir dóu í Súgandafirði úr þessari bólusótt sem barst með Hollendingum árið 1766 en í annálum er hins vegar frá því greint að árið 1778 hafi tveir Súgfirðingar dáið úr svefni[129] og hefur slíkt þótt sæta tíðindum. Árið 1786 dóu fimm börn og unglingar í Suðureyrarhreppi úr bólusótt[130] en yngsta dæmið um mjög verulegan manndauða af völdum farsótta er frá árinu 1882 en á því ári dóu 25 manneskjur í þessum fámenna hreppi, þar af 18 börn, og flest úr mislingum.[131] Sagt er að í þessum faraldri hafi allir sem ekki voru orðnir 36 ára fengið mislinga.[132] Árið 1901 var fólkið í Suðureyrarhreppi ekki enn orðið jafn margt og verið hafði 200 árum fyrr (sjá hér bls. 15), á árunum fyrir stórubólu, og líklegast er að það gamla mannfjöldamet hafi aldrei verið slegið á 18. eða 19. öld.

Á liðnum öldum var Suðureyrarhreppur jafnan fámennasti hreppurinn í vesturhluta Ísafjarðarsýslu (sjá hér inngangskafla Auðkúluhrepps, Þingeyrarhrepps, Mýrahrepps og Mosvallahrepps). Fróðlegt getur verið að skoða hversu stór hluti íbúa Suðureyrarhrepps var búsettur í Staðardal á ýmsum tímum. Könnun á því leiðir í ljós að árið 1703 voru íbúar á bæjunum í Staðardal 73 en 185 manneskjur voru þá með fasta búsetu í öllum hreppnum auk 8 sveitarómaga sem ekki voru skráðir til heimilis á neinum bæjanna.[133] Árið 1703 voru íbúar Staðardals því 39,5% af því fólki í Suðureyrarhreppi sem hafði fasta búsetu. Árið 1801 voru 64 manneskjur búsettar í Staðardal eða 39% af íbúum hreppsins og árið 1901 töldust íbúar dalsins vera 71 og voru því 37,6% af öllum hreppsbúum það árið.[134] Þetta hlutfall virðist því hafa verið nokkuð fast og má ætla að fólkið í Staðardal hafi mjög oft verið röskur þriðjungur af öllum hreppsbúum eða 35-40% af heildartölu íbúanna.

Ekki er síður forvitnilegt að skoða hvernig fólkið í þessum fámenna hreppi skiptist í húsbændur og hjú á fyrri tíð og hver var fjöldi sveitarómaga og gustukafólks. Á Töflu 1 sem hér verður nú birt er öllum íbúum Suðureyrarhrepps á árunum 1703, 1762, 1801 og 1901 skipt niður eftir störfum þeirra og stöðu hvers og eins á viðkomandi heimili.

 

Tafla 1

 

Flokkun íbúa Suðureyrarhrepps

á árunum 1703, 1762, 1801 og 1901 eftir störfum og stöðu hvers og eins[135]

 

 

Fáeinar skýringar er vert að láta fylgja töluröðunum á Töflu 1 og er þess fyrst að geta að prestarnir eru flokkaðir hér með bændum, enda má segja að í svo rýru kalli hafi búskapurinn í raun verið þeirra aðalstarf. Um húsfólkið, sem átti heima í Suðureyrarhreppi árið 1703, er þess að geta að í þeim hópi voru aðeins ein hjón og áttu þau tvö börn.[136] Um húsmennina sem þá voru sex og fólkið sem var á þeirra framfæri er jafnan tekið fram í manntaliu frá 1703 að viðkomandi nærist af sjóbjörg eða forsorgist af sjávarafla.[137] Um eina hinna þriggja húskvenna, sem ekki höfðu við karlmann að styðjast, er þess hins vegar getið að hún lifi af guðsþakkagjörðum manna.[138]

Sé litið sérstaklega á þann hóp manna sem hér kallast fólk við önnur störf eða með óljósa stöðu kemur í ljós að sá eini í þeim flokki árið 1703 er 19 ára dvalarpiltur hjá presti,[139] e.t.v. námspiltur. Við sundurgreiningu þeirra sem bjuggu í hreppnum árið 1901 lentu hins vegar fimm manneskjur í þessum flokki. Voru það timbursmiðurinn á Suðureyrarmölum ásamt konu sinni og dóttur, kona í Bæ, sem sögð er vera leigjandi, og ungur karlmaður þar en nafni hans fylgir ekkert starfsheiti í manntalinu.[140]

Taflan sem hér er til umfjöllunar ber með sér að íbúum Suðureyrarhrepps árin 1703, 1762, 1801 og 1901 er hægt að skipta í fjóra meginflokka:

 

1703           1762           1801           1901

% af             % af             % af             % af

íbúafj.          íbúafj.          íbúafj.          íbúafj.

 1. Bændur og þeirra nánasta

skyldulið ……………………………..     53,9             57,7             68,3             59,8

 1. Vinnuhjú ………………………………… 26,9 31,4             21,3             18,5
 2. Tökubörn, annað gustukafólk

og sveitarómagar ………………………. 11,4               8,0               6,1               6,9

 1. Húsfólk, lausamenn, sjómenn

og þeirra skyldulið ………………………. 7,8               2,9               4,3             14,8

                                                                                                                             

                                                   100,0            100,0           100,0           100,0

 

 

Hér hefur áður verið getið um fjölda heimila í Suðureyrarhreppi á þeim árum sem hér hafa verið til sérstakrar skoðunar en fjöldi þeirra var sem hér segir: Árið 1703 25 heimili, árið 1762 17 heimili, árið 1801 26 heimili og árið 1901 26 heimili (sjá hér bls. 13-15). Meðalfjöldi íbúa á hverju heimili reynist því hafa verið 7,7 árið 1703, 8,1 árið 1762, 6,3 árið 1801 og 7,3 árið 1901 (sbr. hér tölur um íbúafjölda í hreppnum á bls. 15). Á bændaheimilunum var að jafnaði talsvert fleira fólk en á öðrum heimilum í hreppnum en tala bændaheimila var sem hér segir: Árið 1703 24, árið 1762 16, árið 1801 22 og árið 1901 18.[141]

Meðalfjöldi barna innan við 15 ára aldur á bændaheimilunum var 2 árið 1703, 2,3 árið 1762, 2,3 árið 1801 og 3,3 árið 1901.[142] Þá eru tökubörn talin með og einnig þau fáu börn sem voru á sveitarframfæri.

Árið 1703 voru vinnuhjúin röskur fjórðungur allra íbúa Suðureyrarhrepps, tæpur þriðjungur árið 1762 og tæpur fimmtungur árið 1901 eins og hér hefur áður verið rakið. Þegar litið er yfir tölurnar á Töflu 1, sem birt er hér litlu framar, vekur athygli að árin 1703, 1801 og 1901 var tala vinnukvenna í hreppnum ætíð sú sama en þessi þrjú ár töldust þær jafnan vera 22 eins og sjá má í manntölunum (sjá hér bls. 18). Það sem þessu veldur mun aðeins vera skemmtileg tilviljun því fráleitt er að tala vinnukvennanna hafi haldist óbreytt frá ári til árs í tvær aldir. Athyglisvert er líka að árin 1703 og 1762 voru vinnumennirnir talsvert fleiri en vinnukonurnar en bæði 1801 og 1901 voru vinnukonurnar hins vegar langtum fleiri en karlarnir í sömu stétt eins og sjá má á Töflu 1.

Öll vinnuhjúin í Súgandafirði á þeim fjórum árum sem hér eru til sérstakrar umfjöllunar voru vistráðin á bændaheimilum.[143] Árið 1703 var meðalfjöldi vinnuhjúa á hverju bændaheimili í hreppnum 2,2, árið 1762 2,7, árið 1801 1,6 og árið 1901 1,9.[144] Börn bænda og aðrir nánir ættingjar húsráðenda eru þá ekki talin til vinnuhjúa.

Í manntalinu frá 1703 er aðeins getið um nafn og aldur þeirra átta sveitarómaga sem þá voru á framfæri Suðureyrarhrepps en þeir voru liðlega 4% af öllum hreppsbúum.[145] Elsti ómaginn var þá 86 ára gamall og sá næstelsti 78 ára.[146] Þessir tveir voru báðir karlmenn[147] og má ætla að kraftar þeirra hafi verið þrotnir fyrir elli sakir. Hinir ómagarnir sex skiptust jafnt milli kynja og voru á aldrinum frá 13-62ja ára[148] en óljóst er hvað valdið hefur vanhæfni þeirra til að bjarga sér. Í manntalinu frá 1762 eru 11 manneskjur flokkaðar sem fátækar[149] og má ætla að allt það fólk hafi þegið af sveit eða verið niðursetningar. Fjórir hinna fátæku voru þó vinnufærir,[150] a.m.k. að einhverju leyti.

Árið 1801 voru sveitarómagarnir ekki nema sex. Einn þeirra var holdsveikur karlmaður, 46 ára gamall, sem átti konu og barn.[151] Hinir ómagarnir þrír voru 62ja ára gamall karlmaður, 75 ára gömul kona og svo barnið, Sigurður Þuríðarson, sem var 3ja ára, og ekki hafði enn tekist að feðra.[152]

Fæstir voru ómagarnir árið 1901, aðeins fjórir. Tveir þeirra voru nokkuð við aldur, annar 65 og hinn 75 ára, en hinir voru börn[153] og hafði faðir þeirra drukknað fáum árum áður.

Á töflunni sem hér er birt á bls. 18 má sjá að einn flakkari var sveitfastur í Súgandafirði árið 1901. Var það Steindór Sigurðsson sem hér er sagt nánar frá á öðrum stað (sjá hér Botn). Húsgangsfólki úr öðrum byggðarlögum, sem átti dvöl í Súgandafirði nóttina fyrir páska árið 1703 og um er getið í manntalinu frá því ári, er hins vegar haldið utan við tölurnar á nýnefndri töflu, enda var enginn þessara sex flakkara heimilisfastur í Suðureyrarhreppi að því er best er vitað. Merkilegt er hins vegar að sjá í manntalinu að allt var þetta húsgangsfólk langt að komið og aldur tveggja karlmanna í hópnum orðinn býsna hár því annar þeirra er sagður 73ja ára gamall og var úr Dalasýslu en hinn 75 ára og var úr Strandasýslu.[154] Hitt fólkið var allt innan við fimmtugt, einn karlmaður úr Dalasýslu og annar úr Húnavatnssýslu og svo mæðginin Sigríður Önundardóttir og Önundur sonur hennar sem var 13 ára gamall.[155] Um Sigríði er þetta skráð í títtnefnt manntal frá árinu 1703: Hún aðkomin úr Hjaltadal í Hegranessýslu [Skagafirði], gift í Ögursveit, þar sín börn alið.[156] Lengra nær sú frásögn ekki en að baki þessara fáu orða kynni að leynast merkileg saga.

Að morgni páskadags árið 1703 voru það 199 manneskjur sem vöknuðu af svefni á bæjunum í Suðureyrarhreppi.[157] Í þeim hópi voru húsgangsmennirnir sex, sem hér hefur nú verið gerð grein fyrir, og reynast hafa verið um 3% af fjölda heimamanna. Það hlutfall er býsna hátt og bendir til þess að í Súgandafirði hafi langt að komnir flakkarar og húsgangsfólk átt matarvon þegar fiskur tók að veiðast á vorin. Í manntalinu frá 1703 er reyndar getið um nokkra flakkara í öllum hreppum Vestur-Ísafjarðarsýslu nema í Þingeyrarhreppi,[158] en þar kynni að hafa láðst að skrá þá. Í Auðkúluhreppi voru þeir fimm, í Mýrahreppi sex, í Mosvallahreppi sex og í Suðureyrarhreppi sex.[159] Á öllu landinu voru 394 flakkarar vorið 1703 ef marka má upplýsingar sem fram koma í manntalinu frá því ári[160] en hefðu átt að vera um það bil 1500 ef skiptingin í heimamenn og húsgangsfólk hefði verið sú sama og í Súgandafirði um land allt.

Í manntalinu frá 1801 er förumannanna ekki getið sérstaklega og árið 1901 var orðið lítið um beiningamenn sem lögðu land undir fót í von um matbjörg í fjarlægum héruðum.

Á bls. 15 hér að framan sjáum við að árið 1845 áttu 169 manneskjur heima í Suðureyrarhreppi. Í manntalinu frá því ári gefst kostur á að skoða hvar allt þetta fólk var í heiminn borið. Í ljós kemur að 105, það er 62,1% allra hreppsbúa, voru fæddir í Suðureyrarhreppi, 20, það er 11,8%, í öðrum hreppum í vesturhluta Ísafjarðarsýslu, 36, það er 21,3%, í norðurhluta Ísafjarðarsýslu, 4 í Barðastrandarsýslu, 3 í Strandasýslu og 1 í Dalasýslu.[161]

Af þessu má sjá að liðlega 95% af öllum íbúum Suðureyrarhrepps árið 1845 voru fæddir í Ísafjarðarsýslu og allir nema einn á Vestfjarðakjálkanum.

Ekki kemur á óvart að úr hópi mannfólksins sem átti heima í Suðureyrarhreppi árið 1845 voru 15 fæddir í Önundarfirði, 6 í Skutulsfirði, 5 í Dýrafirði og 5 í Bolungavík eða Skálavík í Hólshreppi.[162] Allt eru þetta mjög nálæg byggðarlög. Meiri athygli vekur hins vegar að af 169 íbúum Suðureyrarhrepps á þessu ári voru 12 fæddir í Ögursveit og 5 í Vatnsfjarðarsveit.[163] Full 10% íbúanna voru því hingað komin úr þessum tveimur nokkuð fjarlægu sveitarfélögum en inn í Ögursveit varð ekki komist úr Súgandafirði á einum degi nema þá með sérstöku harðfylgi, og enn lengra var að fara í Vatnsfjörð og hinar innstu byggðir við Ísafjarðardjúp.

Líklegt er að fleira en eitt hafi ýtt undir þessa fólksflutninga úr Ögursveit og Vatnsfjarðarsveit til Súgandafjarðar á fyrri hluta 19. aldar en benda má á að báðir sóknarprestarnir sem þjónuðu Staðarprestakalli í Súgandafirði á árunum 1812-1845, þeir séra Eiríkur Vigfússon og séra Andrés Hjaltason, voru tengdir byggðunum við innanvert Ísafjarðardjúp mjög sterkum böndum. Séra Eiríkur hafði dvalist í sjö til tíu ár í Vatnsfirði á æskuárum og báðar eiginkonur hans, systurnar Ragnheiður og Solveig Halldórsdætur, voru frá Látrum í Mjóafirði,[164] þeim bæ í Vatnsfjarðarsveit sem liggur næst mörkum hennar og Ögursveitar. Séra Andrés Hjaltason tók við Staðarprestakalli í Súgandafirði árið 1839 og hafði þá tveimur árum fyrr gengið að eiga Margréti Ásgeirsdóttur frá Rauðamýri á Langadalsströnd við innanvert Ísafjarðardjúp[165] en hún var fædd í Vatnsfjarðarsveit og mun hafa alist þar upp að miklu leyti.[166]

Allar líkur benda til þess að prestsfrúrnar á Stað, þær Ragnheiður og Solveig Halldórsdætur og Margrét Ásgeirsdóttir, hafi átt stóran þátt í að laða fólk innan úr Djúpi til Súgandafjarðar, ekki síst vinnukonur sem giftust síðan Súgfirðingum og ílentust í Suðureyrarhreppi. Þessa kenningu má m.a. rökstyðja með því að alls voru 24 húsfreyjur í Suðureyrarhreppi árið 1845 og úr þeim hópi voru sex, það er fullur fjórðungur, fæddur í þessum tveimur sveitum inni í Djúpi, Ögursveit og Vatnsfjarðarsveit.[167] Ein af þessum sex var reyndar prestsfrúin sjálf, Margrét Ásgeirsdóttir á Stað.[168] Hins má einnig geta að af þeim sautján manneskjum úr Ögursveit og Vatnsfjarðarsveit, sem áttu heima í Suðureyrarhreppi árið 1845, voru sex börn og unglingar, átta voru konur en fullorðnir karlmenn ekki nema þrír.[169]

Um mannlíf í Súgandafirði á fyrri öldum eru fáar heimildir í boði. Sé litið fram hjá Hallvarði landnámsmanni mun hvergi í heimildum finnast nafn á manni úr Súgandafirði fyrr en komið var fram á síðari hluta 15. aldar en þá voru liðin 600 ár frá upphafi byggðar í landinu. Á síðari hluta 15. aldar voru hjónin Sveinn Þorgilsson og Steinunn Jónsdóttir eigendur Suðureyrar í Súgandafirði og kynnu að hafa búið þar (sjá hér Suðureyri). Á sama aldarhelmingi átti Sigmundur Brandsson jörðina Bæ í Súgandafirði og allsterkar líkur benda til þess að hann hafi verið þar búsettur (sjá hér Bær). Sigmundur var sonur Brands lögmanns Jónssonar sem sat á Mýrum í Dýrafirði á sínum síðustu árum og andaðist þar árið 1494.[170] Þau Sveinn Þorgilsson, Steinunn Jónsdóttir og Sigmundur Brandsson, sem hér voru nefnd, eru fyrstu manneskjurnar sem þekktar eru með nafni og umtalsverðar líkur benda til að hafi átt heima í Súgandafirði. Maður að nafni Ólafur Guðmundsson mun hins vegar vera fyrsti bóndinn sem kunnur er með nafni og vitað er með fullri vissu að átti heima í Súgandafirði en hann var hér búandi maður árið 1549.[171] Undir lok þess árs var að Stað í Súgandafirði gengið frá kaupmála Steinunnar, dóttur Ólafs þessa, og Örnólfs Jónssonar sem átti jarðirnar Hvilft og Eyri í Önundarfirði (sjá hér Hvilft). Hitt verður svo að taka fram að óvíst er hvar í Súgandafirði nýnefndur Ólafur Guðmundsson bjó.

Fyrsti sóknarpresturinn á Stað í Súgandafirði sem kunnur er með nafni hét Ólafur Teitsson.[172] Hann virðist hafa verið orðinn prestur í Súgandafirði eða þar í grennd árið 1460 og var sannanlega prestur á Stað á árunum kringum 1500.[173] Annan Staðarprest frá kaþólskri tíð er líka hægt að nefna og er það Ari Jónsson (sjá hér Staður) sem var prestur Súgfirðinga árið 1539 og líka tíu árum síðar.[174] Í einni heimild er Tómas Ólafsson líka sagður hafa verið prestur á Stað í Súgandafirði á fyrri hluta 16. aldar.[175] Sú fullyrðing verður þó að teljast mjög hæpin en séra Tómas mun hafa verið prestur og prófastur á Eyri í Skutulsfirði.[176] Hin fornu bréf, sem varðveist hafa, munu því aðeins geyma nöfn tveggja kaþólskra Staðarpresta, séra Ólafs Teitssonar og séra Ara Jónssonar, en aftur á móti liggur einhver vitneskja fyrir um alla eða nær alla lúterska presta sem þjónað hafa í Súgandafirði allt frá siðaskiptum árið 1541. Á árunum 1541-1900 munu a.m.k. fimmtán sóknarprestar hafa setið á Stað og frá þeim öllum mun eitthvað verða sagt þegar staldrað verður við á þessu forna prestssetri og kirkjustað Súgfirðinga.

Á síðasta fjórðungi sextándu aldar og fyrsta fjórðungi hinnar sautjándu fóru erlendir menn að minnsta kost tvisvar með ránum um Súgandafjörð, fyrst sumarið 1579 og svo í annað sinn haustið 1615. Í hið fyrra sinn voru hér á ferð enskir og hollenskir ránsmenn, hinir sömu og fáum dögum áður höfðu rænt í Saurbæ á Rauðasandi og tekið þar til fanga Eggert lögmann Hannesson[177] sem á þeirri tíð hefur að líkindum verið auðugasti maður landsins. Ragnheiður,  dóttir Eggerts lögmanns, sagði svo frá síðar að kvensilfrið sem greitt var til að fá föður hennar leystan úr haldi hefði verið upp á þrettán konur.[178]

Í bréfi til konungs greinir Eggert lögmaður sjálfur svo frá að ræningjarnir hafi fyrst farið með sig til Patreksfjarðar og síðan til Skutulsfjarðar en þaðan hafi þeir farið í ránsferðir um nágrennið, m.a. til Súgandafjarðar þar sem hin mestu hermdarverk voru unnin í Vatnadal.[179] Frá herför þessara vopnuðu ræningja til Súgandafjarðar og móttökunum sem þeir fengu í Vatnadal verður nánar sagt þegar við komum þar í hlað á hinni fyrirhuguðu göngu um Suðureyrarhrepp (sjá hér Fremri-Vatnadalur).

Hin síðari ránsferð erlendra manna um Súgandafjörð, sem frá er greint í heimildum og farin var haustið 1615, var af öðrum toga en hin fyrri. Þetta haust voru það skipbrotsmenn frá Baskalandi á Spáni sem fóru með ránum um ýmsar byggðir á Vestfjörðum en þeir munu fyrst og fremst hafa rænt sér til matar. Spánverjar þessir, sem voru hvalveiðimenn, brutu skip sín er þau rak á land norður í Reykjarfirði í Strandasýslu aðfaranótt 21. september 1615 (sjá hér Fjallaskagi). Þeir sem björguðust lifandi úr sjávarháskanum voru um það bil 80 og áttu þess nú engan kost að komast til heimkynna sinna það haustið. Skömmu áður en Spánverjarnir urðu skipreika hafði æðsti embættismaður konungs hér á Íslandi látið þau boð út ganga til sýslumannanna á Vestfjörðum að spánska hvalveiðimenn sem til næðist bæri að fordjarfa á lífi og góssi.[180] Ari Magnússon, sýslumaður í Ögri, var því að framfylgja skýlausu konungsboði er hann lét drepa alla þá skipbrotsmenn frá Baskalandi sem til náðist eins og hér er frá sagt á öðrum stað (sjá hér Fjallaskagi).

Við ríkjandi aðstæður áttu hinir spönsku skipbrotsmenn að því er virðist engan annan kost en þann að afla sér nauðþurfta með ránum og komu allvíða við áður en Vestfirðingar náðu að fella liðlega þrjátíu af flokki þessum, 13 á Fjallaskaga í Dýrafirði aðfaranótt 5. október (sjá hér Fjallaskagi) en 5 í Æðey og 13 á Sandeyri á Snæfjallaströnd níu dögum síðar.[181] Um það bil 50 þessara skipbrotsmanna komust hins vegar undan og höfðu vetursetu í dönsku verslunarhúsunum á Patreksfirði. Á leið sinni þangað komu þeir við í Súgandafirði og Önundarfirði eins og sjá má í bænarskrá sem nokkrir prestar og leikmenn, saman komnir í Holti í Önundarfirði 3. júní 1616, sendu frá sér en þar segir m.a. svo:

 

En þeir 50 er sig héldu á skútunni og öðrum fjórum bátunum dvöldu um þrjá daga á Önundarfirði og veittu þar, í Súgandafirði og á Ingjaldssandi, mönnum heimsókn, brutu upp kirkjur, hús og hirslur manna og rændu á þeim dögum í sömu sveitum hart nær til 20 hundraða.[182]

 

Andvirði ránsfengsins sem Spánverjarnir náðu í Önundarfirði og Súgandafirði hafa menn því talið vera sem svaraði nær tuttugu kýrverðum. Skútunni sem nefnd er í bænarskránni höfðu Spánverjarnir rænt frá bóndanum á Dynjanda í Jökulfjörðum[183] en vorið 1616 náðu þeir að ræna enskri fiskiduggu sem lagði leið sína inn á Patreksfjörð og á henni sigldu þeir til hafs.[184] Hvort þeir náðu að komast til síns heima veit nú enginn.

Prestur á Stað í Súgandafirði haustið 1615 var séra Gils Ólafsson og er hann einn þeirra 12 Vestfirðinga sem skrifuðu 3. júní 1616 undir bænarskrá er send var til Öxarárþings.[185] Ljóst er að þeir sem rituðu undir bænarskrána óttuðust að Spánverjar kynnu að leita hefnda fyrir þá landsmenn sína sem drepnir höfðu verið á Vestfjörðum. Bón þeirra sem rituðu undir nýnefnda skrá var því sú að hérlendir ráðamenn reyndu að fá Danakonung til að tryggja Íslendingum vernd gegn slíkum hefndarárásum.[186]

Í bænarskránni, sem séra Gils á Stað og fleiri skrifuðu undir, eru tilmælin orðuð svo:

 

… að hans náð [konungurinn] vildi þessu hans náðar skattlandi og oss hans fátækum undirsátum … lið og verndan veita svo fyrrgreindir spanskir illræðismenn og vorir hatursmenn hér aldeilis frá víki.[187]

 

Kristján konungur fjórði og ráðgjafar hans munu þó ekki hafa séð ástæðu til að senda herleiðangur til Íslands af þessu tilefni og svo fór að Spánverjar létu vera að leita hefnda.

Fullvíst má telja að allt frá því á 15. eða 16. öld hafi Súgfirðingar átt margvísleg samskipti við erlenda sjómenn, sem stunduðu veiðar á Vestfjarðamiðum, og þau samskipti hafi að öllum jafnaði verið vinsamleg en hin hörðu átök sem hér var frá sagt heyrt til undantekninga. Á tímabilinu frá 1602 til 1854 var Íslendingum bannað með lögum að eiga nokkur viðskipti við erlendar þjóðir, aðrar en Dani, og lágu þungar refsingar við öllum brotum á þeirri tilskipun eins og kunnugt er. Fullvíst er þó að þrátt fyrir bannið áttu margir landsmenn þó nokkur viðskipti við hina erlendu sjómenn er hingað sigldu til veiða og þá ekki síst þeir sem bjuggu í afskekktum byggðarlögum. Um þátttöku Súgfirðinga í slíkri launverslun er nú fátt að finna í rituðum heimildum en engu að síður má ætla að þeir hafi tíðum farið á svig við anda og bókstaf hinna konunglegu tilskipana um danska verslunareinokun. Árið 1722 reyndi stiftamtmaður að kanna hvar á landinu hinir erlendu duggarar, sem stunduðu launverslun, ættu sér helst athvarf og var honum bent á fjölmarga staði, þar á meðal bæði Súgandafjörð og Keflavík í Suðureyrarhreppi.[188]

Í Ferðabók Eggerts og Bjarna sem Eggert Ólafsson lauk við að rita árið 1766 kemst hann m.a. svo að orði:

 

Fram um 1700 komu bæði Frakkar og Bretar árlega til Vesturlands. Stunduðu Frakkar hvalveiðar en Englendingar fiskveiðar. Hvorir tveggja ráku launverslun en þeir réðu einnig Íslendinga á skip sín yfir sumarið. Á árunum 1700-1730 var hvalveiðum, fiskveiðum og verslun þessara þjóða að mestu lokið. … Útlendingar koma ekki framar til Vesturlands aðrir en Hollendingar. Leita þeir helst inn á Tálknafjörð og Jökulfirði. Kaupmenn kvarta mjög undan versluninni á þessum slóðum og halda að Hollendingar dragi hana mjög frá sér. Fyrrum var meiri ástæða til að halda slíku fram en nú því að menn eru nú orðnir leiðir á þessari launverslun. Stafar það bæði af því að hún er óleyfileg og af því að þeir skaðast á henni en til þeirra hluta taka alþýðumenn mest tillit.[189]

 

Líklega er það rétt hjá Eggerti að á árunum milli 1760 og 1770 hafi það fyrst og fremst verið Hollendingar sem stunduðu fiskveiðar á Íslandsmiðum en minnt skal á að alla eða nær alla nítjándu öldina var mikill fjöldi af frönskum skútum að fiskveiðum hér við land á hverju sumri (sjá hér Þingeyri). Hollensku sjómennirnir nefndu Súgandafjörð Picol[190] og mun vera stytting úr ítalska orðinu piccolo sem merkir sá litli. Hollensku duggurnar lágu tíðum undan Staðardal og utan við Suðureyri.[191] Á árunum kringum 1840 voru Hollendingar enn við veiðar á Vestfjarðamiðum og leituðu oft vars inni á Súgandafirði.[192] Börn sem ólust hér upp á síðasta fjórðungi 19. aldar heyrðu talað um að oft hefðu sjaldséðir munir verið á boðstólum hjá þessum framandi fiskimönnum og prísarnir verið ærið breytilegir.[193] Um síðustu aldamót (1900) áttu Súgfirðingar enn ýmsa hollenska muni svo sem skrautleg leirker.[194]

Franskar skútur sáust líka tíðum inni á firðinum, ekki síst á nítjándu öld. Frönsku sjómennirnir fóru þá á litlum bátum inn um allan Súgandafjörð og komu við á bæjunum.[195] Hjá Fransmönnunum keyptu Súgfirðingar ýmsan varning svo sem salt, kartöflur, brauð og fiskilínur og greiddu einkum með prjónlesi.[196] Frönsku skútusjómennirnir keyptu hér líka sauðfé og nautgripi til slátrunar og má sem dæmi nefna að 15. júní 1889 seldi Kristján Albertsson á Suðureyri frönskum skipstjóra tveggja vetra kálf og einn gemling.[197] Fyrir þessar tvær skepnur fékk hann tvær tunnur af brauði, þrjár af kartöflum og fimm af salti.[198] Á árunum kringum 1890 lágu hér stundum tíu til tuttugu erlend fiskiskip í vari á ytri höfninni, sem svo var nefnd, það er að segja fyrir utan Brimnes.[199] Þar sáust þá stundum í einum hnapp franskar skútur, amerískir lúðuveiðarar og norskir hvalveiðibátar.[200] Stöku sinnum kom líka franska herskipið sem fylgdi skútunum á Íslandsmið og færu þeir að skjóta tók undir í fjöllunum.

Eggert Ólafsson segir að á árunum kringum 1700 hafi bæði Frakkar og Englendingar, sem stunduðu veiðar úti fyrir Vestfjörðum, ráðið Íslendinga á skip sín yfir sumarið.[201] Enskur skipstjóri settist líka að í Súgandafirði skömmu fyrir 1630, kvæntist íslenskri konu og bjó í marga áratugi á Kvíanesi hér í sveit. Hann hét Lienardt Jonson[202] og er í íslenskum heimildum nefndur Lénharður (sjá hér Kvíanes).

Frá Englendingi þessum, sem ól aldur sinn í Súgandafirði í hálfa öld, verður nánar sagt þegar komið verður að Kvíanesi á okkar löngu göngu en þess skal strax getið að nokkur líkindi benda til þess að hann hafi á sínu blómaskeiði verið talinn fremstur meðal jafningja í röð bændanna sem þá bjuggu í Suðureyrarhreppi.

Árið 1648 andaðist Kristján konungur fjórði en sonur hans Friðrik þriðji settist á veldisstól. Hann lét strax þau boð út ganga til Íslands að velja skyldi tvo bændur úr hverri sýslu til að sverja sér trúnaðar- og hollustueiða fyrir hönd almúgans.[203] Af þessu tilefni var bændum úr norðurhluta Ísafjarðarsýslu og úr Súgandafirði stefnt til þings sem haldið var á Hóli í Bolungavík þann 12. júní 1649.[204] Í hyllingarskjalinu, sem þar var skrifað undir, er talað um þriggja hreppa þing en undirskriftirnar eru í skjalinu sjálfu flokkaðar eftir hreppum og bera með sér að til þingsins á Hóli hafa komið menn úr níu hreppum, það er að segja úr Súgandafirði og öllum hreppum Norður-Ísafjarðarsýslu nema Sléttuhreppi.[205] Samtals standa nöfn 95 manna undir þessu hyllingarskjali frá Hóli og í þeim hópi eigi færri en þrettán Súgfirðingar.[206] Fimm þeirra rita nafn sitt með eigin hendi en hinir átta urðu að láta aðra skrifa fyrir sig. Fyrstur allra ritaði nafn sitt á hyllingarskjalið Lénharður Jónsson hinn enski á Kvíanesi[207] og bendir sú staðreynd mjög eindregið til þess að hann hafi verið talinn fyrir sveitungum sínum. Í prentaðri útgáfu hyllingarskjalanna frá 1649 er sagt að Súgfirðingarnir sem mættu til fundarins á Hóli og rituðu nöfn sín eða fengu þau skráð hafi verið 29[208] en við athugun á sjálfri frumheimildinni kom í ljós að þar eru taldir með sextán menn sem óljóst er hvort áttu heima í Súgandafirði eða annars staðar í sýslunni.[209] Ljóst er engu að síður að fullur helmingur hreppsbænda fylgdi Lénharði norður að Hóli en á hvaða jörð hver einstakur bjó sjáum við ekki í hyllingarskjölunum því þar eru aðeins mannanöfn.

Árið 1649 fór Ari Magnússon í Ögri enn með sýsluvöld í Ísafjarðarsýslu en var þá orðinn áttræður og lítt ferðafær.[210] Það var Ari sýslumaður sem boðaði til fundarins á Hóli í Bolungavík 12. júní 1649 en þangað sendi hann Þorlák son sinn með fullu umboði í sinn stað.[211] Í skjalinu sem nöfn hinna 13 Súgfirðinga standa undir er tekið fram að þeim hafi verið kynnt bréf konungs þar sem farið sé fram á að tveir lögskilabændur úr hverri sýslu vinni hinum nýja konungi trúnaðar hollustu eiða.[212]

Svarið sem Súgfirðingarnir og allir hinir, sem sóttu þingið í Bolungavík, gáfu við þessum tilmælum má sjá í textanum sem menn settu nöfn sín undir en þar segir m.a.

 

… hvar upp á allir vér gefum það andsvar að vér með eigin handskriftum og með almenniligu lófataki gefum þeim tveimur bændum sem úr þessari fyrrnefndri sýslu ríða til Alþingis nú Anno 1649 fullmaktar umboð þann þegnskyldu eið af að leggja sem vér erum skyldugir með vorum kóngi að veita með allri hlýðni, hollustu og undirgefni svo sem landslög ávísa og sem sá eiður verður trakteraður af öðrum landsins höfðingjum, – vonandi oss aftur hans hylli og hjástoðar, verndar og forsvars í öllum áliggjandi nauðsynjum sem mögulegt vera kann í þessari háskasamri tíð.

Og þessu til meiri staðfestu setjum vér vor nöfn hér undir með eigin handskriftum svo margir sem af oss skrifa kunna en hinir með opinberri almenniligri játun og handsölum við Þorlák Arason nú á almenniligu þriggja hreppa þingi á Hóli í Bolungavík 12. júní sama ár sem fyrr segir.[213]

 

Nöfn þeirra tveggja bænda úr Ísafjarðarsýslu, sem þarna var veitt umboð til að sverja hollustueiðinn, eru hvergi nefnd í skjalinu en tekið fram að þessir tveir fulltrúar almúgans ætli að ríða til Alþingis þá um sumarið. Í Alþingisbókinni frá 1649 verður hins vegar ekki séð að hinir þar til kjörnir sérstöku fulltrúar hafi heitið konungi trúnaði og hollustu við Öxará á því sumri og virðast aðeins biskupar og lögmenn ásamt 19 prestum og 15 sýslumönnum hafa svarið eiðinn.[214]

Þá svardaga mun Friðrik kóngur hafa talið fullnægjandi, enda má segja að trúnaður íslenskra bænda við hann hafi verið fastmælum bundinn með undirskriftunum sem gengið var frá á hinum fjölmörgu hreppaþingum víðs vegar um landið snemma sumars árið 1649, m.a. á Hóli í Bolungavík.

Hyllingarskjalið frá 1649 er í raun fyrsti vísir að bændatali úr Súgandafirði sem varðveist hefur en gallinn á því er sá að þar verður ekki séð á hvaða jörð hver og einn bjó. Í hið almenna bændatal sem skráð var árið 1681 í tengslum við stríðshjálpina, sem svo var nefnd, vantar hins vegar Súgandafjörð[215] og af þeim ástæðum er manntalið frá 1703 elsta heimildin þar sem unnt er að sjá nöfn bændanna á hinum ýmsu jörðum í Suðureyrarhreppi og reyndar allra íbúanna. Skrá yfir bændur í Súgandafirði er líka að finna í Jarðabókinni frá 1710 og í jarða- og bændatölum frá árunum 1735 og 1753 og einnig í manntalinu frá 1762.

Allt frá árinu 1784 er síðan hægt að styðjast við sóknarmannatöl prestanna og frá nítjándu öld liggja einnig fyrir ellefu aðalmanntöl auk margvíslegra annarra heimilda.

Allt þetta heimildaefni verður stuðst við í frásögnum á ferð okkar bæ frá bæ milli endimarka Suðureyrarhrepps og sumt af því hefur einnig verið nýtt við ritun þessa inngangskafla.

 

Í Súgandafirði stunduðu fyrri tíðar menn jöfnum höndum sjósókn og kvikfjárrækt eins og almennt var á Vestfjörðum. Bændurnir voru sjómenn og sjómennirnir bændur. Um búfjáreign og sjávarafla á öldunum fyrir 1700 liggja engar upplýsingar á lausu en ýmislegt af slíku tagi er í boði frá 18. og 19. öld. Hér verður fyrst farið nokkrum orðum um landbúskap Súgfirðinga á árunum 1700-1900 en síðan litið á hið markverðasta varðandi sjósókn og aflabrögð.

Árið 1703 bjuggu 24 bændur í Suðureyrarhreppi, að meðtöldum presti, en árið 1762 voru þeir ekki nema 16 (sjá hér bls. 13). Yfirleitt mun fjöldi hreppsbænda hafa verið á þessu bili frá 16 og upp í 24 (sjá hér bls. 13). Samanlagður dýrleiki allra jarðanna í Suðureyrarhreppi var að fornu mati 153 hundruð (sjá hér bls. 8) svo hver meðalbóndi hafði liðlega 6 jarðarhundruð til ábúðar þegar bændurnir voru flestir en 10-11 hundruð þegar þeir voru fæstir. Túnin voru víðast hvar í minnsta lagi áður en jarðræktarframkvæmdir hófust á fyrri hluta tuttugustu aldar. Um 1930 var enn mjög lítið farið að rækta en eðlilegur heyfengur á hverri jörð var þá talinn vera sem hér segir:

Jörð                                              Taða                    Úthey

Staður ………………………………….. 160. hestar            125  hestar

Vatnadalur, báðar jarðirnar …………. 130…… –              320       –

Bær……………………………………… 200…… –              150       –

Suðureyri ……………………………….  80…… –                  ?       –

Laugar …………………………………..  40…… –                70       –

Kvíanes ……………………………….. 100…… –              150       –

Botn ……………………………………. 200…… –              600       –

Gilsbrekka ………………………………  25…… –                30       –

Selárdalur ……………………………… 100…… –              100       –

Norðureyri ………………………………  80…… –                75       –

Göltur ………………………………….. 100…… –                60       –

Keflavík …………………………………  58…… –                80       –  [216]

 

Um 1930 voru jarðirnar Neðri-Vatnadalur, Kvíanes og Gilsbrekka komnar í eyði (sjá Firðir og fólk 1900-1999, 436-459) og búskapur aðeins hafður í ígripum á Suðureyri. Ætla má að heyfengur Suðureyrarbænda hafi áður verið meiri en hér er nefnt. Skráin sýnir að bestu slægjurnar voru í Botni, enda var þar löngum margbýli.

Elstu tölur sem fyrir liggja um fjölda búfjár á hinum ýmsu jörðum í Suðureyrarhreppi eru frá árinu 1710.[217] Þær verða nú birtar hér á Töflu 2 og til samanburðar hliðstæðar tölur úr búnaðarskýrslum frá árunum 1830 og 1880.[218] Ætla má að þessar opinberu tölur um fjölda búfjár séu ekki alveg nákvæmar og fjöldi sauðfjár hafi í raun verið eitthvað meiri. Engu að síður gefa hinar opinberu búfjártölur góða vísbendingu því frávikin frá því rétta hafa varla verið mjög veruleg.

Til skýringar á tölunum sem hér eru birtar á Töflu 2 þarf að taka fram örfá atriði. Í Jarðabókinni frá 1710 er aðeins nefndur fjöldi ánna hjá öðrum tveggja bænda á Gelti og þær sagðar vera 15.[219] Í töflunni eru ærnar hins vegar sagðar hafa verið 30 og þá gert ráð fyrir að þær hafi verið jafn margar hjá báðum Galtarbændunum. Í töflunni eru hrossin í Súgandafirði sögð hafa verið 20 árið 1830 en þess skal getið að í hreppnum voru líka samkvæmt búnaðarskýrslunni 3 folöld.[220]

Í búnaðarskýrslunni frá 1880 eru mörkin milli bænda og húsmanna dálítið óskýr. Þar eru 19 einstaklingar flokkaðir sem bændur[221] og hér hefur því verið fylgt en taka verður fram að fjórir þessara manna, þrír í Bæ og einn á Stað, voru kýrlausir[222] og hafa að líkindum haft alveg sáralítið jarðnæði. Samanlagður bústofn þessara fjögurra manna var aðeins 24 ær og

 

Tafla 2
 Fjöldi búfjár í Suðureyrarhreppi árin 1710, 1830 og 1880
Jarðir Jarðar-hundr. Fjöldi ábúenda Nautgripir Ær Sauðir, hrútar og gemlingar Lömb                      (sett á vetur) Hross
    1710 1830 1880 1710 1830 1880 1710 1830 1880 1710 1830 1880 1710 1830 1880 1710 1830 1880
Staður 16 2 4 2 10 4 6 54 63 38 71 40 29 60 19 ? 3 3 3
Fremri-Vatnadalur 8 1 1 1 6 2 2 20 11 23 30 6 16 20 0 ? 2 2 2
Neðri-Vatnadalur 8 1 1 1 3 4 3 18 13 20 23 13 16 16 8 ? 1 1 3
Bær 24 2 2 5 10 7 5 49 68 87 67 64 52 51 13 ? 2 2 3
Suðureyri 20 2 2 2 7 6 5 43 48 40 72 39 63 42 14 ? 1 2 4
Laugar 4 0 1 1 0 1 2 0 11 10 0 5 10 0 9 ? 0 1 1
Kvíanes 8 2 1 1 5 3 2 28 15 23 40 14 12 24 10 ? 2 3 3
                                       
Botn 24 3 2 2 16 6 6 65 28 58 75 20 60 66 20 ? 5 2 6
Gilsbrekka 3 1 1 1 3 2 3 10 7 16 13 12 10 16 6 ? 2 1 1
Selárdalur 12 2 1 1 5 3 3 30 20 38 29 12 32 30 10 ? 1 1 3
Norðureyri 6 1 2 1 4 1 1 15 36 17 21 20 19 15 9 ? 1 2 1
Göltur 12 2 2 1 6 4 1 30 28 20 52 19 12 30 10 ? 1 0 1
Keflavík 8 1 0 0 3 0 0 14 0 0 10 0 0 14 0 0 1 0 0
Samtals 153 20 20 19 78 43 39 376 348 390 503 264 331 384 128 ? 22 20 31

 

 

18 gemlingar og þeir því að jafnaði með rétt liðlega 10 kindur hver. Til greina gat því komið að flokka þá fremur sem húsmenn og hefði þá tala hreppsbænda lækkað úr 19 í 15. Í búnaðarskýrslunni frá 1880 er svo líka gerð grein fyrir búfjáreign þriggja húsmanna sem þar eru ekki flokkaðir með bændum.[223] Þessir þrír menn voru allir kýrlausir en áttu til samans 11ær og 6 gemlinga.[224] Í töflunni eru þessar fáu kindur húsmannanna taldar með fé bænda á viðkomandi jörð.

Við skoðun töluraðanna á Töflu 2 vekur athygli hversu miklu stærri bústofn Súgfirðinga var árið 1710 heldur en 1830 eða 1880. Hvað sauðféð varðar er fækkunin þó ekki meiri en svo að undanskot gætu verið helsta skýringin. Allt öðru máli gegnir um kýrnar og aðra nautgripi sem fækkaði um helming á árabilinu frá 1710 til 1880. Á þessu skeiði varð mikil fækkun á nautpeningi yfir landið í heild því árið 1880 var tala nautgripa á öllu landinu aðeins 58,6% af því sem verið hafði í byrjun 18. aldar.[225] Fækkun nautgripa í Suðureyrarhreppi var því aðeins litlu meiri en almennt var. Um ástæður þessarar miklu fækkunar verður ekki fjallað hér, enda margt óljóst í þeim efnum. En sé litið yfir landið í heild virðist líklegt að skemmdir á haglendi hafi átt nokkurn þátt í því að svona fór.

Nánari upplýsingar um fjölda búfjár í Suðureyrarhreppi á árunum 1820-1880 sjáum við á Töflu 3, sem nú verður birt, en allar tölur sem þar er að finna eru teknar úr búnaðarskýrslum.[226]

Meðalfjöldi hreppsbænda á þessum níu árum var 19[227] og sýnir taflan að meðalbústærð hefur þá verið 2 kýr, 18 ær og 12 aðrar sauðkindur auk lamba. Að öllum jafnaði var líka einn hestur á hverju búi og einstaka bændur áttu stundum tvo eða jafnvel þrjá hesta.

 

 

 

 

 

Tafla 3

 

Búfjárfjöldi í Suðureyrarhreppi á 19. öld

 

Ár          Kýr        Aðrir nautgripir       Ær       Sauðir og hrútar        Gemlingar         Hross

1821          42                 10              324                  91                      77                 20

1827          38                   5              306                  68                      81                 18

1830          36                   7              348                100                    164                 20

1834          40                   3              337                110                    111                 18

1840          33                 10              323                  23                      82                 21

1850          35                   8              388                  47                    300                 19

1860          35                   6              332                  36                    184                 31

1870          24                   5              329                  55                    246                 20

1880          30                   9              390                  49                    282                 31

 

Töluraðirnar á töflunni sýna með skýrum hætti að á þessu sextíu ára tímabili urðu litlar breytingar á fjölda ánna en sauðum hefur greinilega fækkað mjög verulega á árunum 1835-1840 og þeir jafnan verið fáir á síðari hluta 19. aldar.

Á árunum 1881-1900 áttu Súgfirðingar að jafnaði 35 nautgripi, 684 sauðkindur, fyrir utan lömb, og 26 hross ef marka má hinar opinberu búnaðarskýrslur.[228] Rétt er að taka fram að inn í þessi meðaltöl vantar upplýsingar fyrir árið 1887. Á þessum tveimur síðustu áratugum nítjándu aldar varð lítil breyting á fjölda nautgripa og hrossa í Suðureyrarhreppi og tölur frá fyrsta og síðasta ári þessa tímaskeiðs nánast hinar sömu og þær sem sýna meðalfjöldann á þessum tuttugu árum.[229] Á þessu tímabili voru nautgripirnir fæstir árið 1886 en þá voru þeir 29 og flestir árið 1889 er þeir náðu tölunni 40.[230] Hrossin voru aftur á móti fæst árið 1882 eða 19 en flest urðu þau 33 árið 1896.[231]

Fjöldi sauðkindanna, sem Súgfirðingar áttu á þessum síðustu áratugum nítjándu aldar, var mun breytilegri samkvæmt skýrslunum. Árið 1881 voru þær 647 en urðu fæstar 387 árið 1886.[232] Flest var sauðféð árið 1896 er það taldist vera 979 kindur, auk lamba, en næstu árin fækkaði því ár frá ári og er öldinni lauk var fjártalan komin niður í 562.[233] Líklegt er að bráðapestin, sem þá herjaði víða á sauðfé landsmanna, hafi átt sinn þátt í þessari fækkun. Mjög veruleg fækkun sauðfjár varð líka í Súgandafirði á fardagaárinu 1881-1882 en þá fækkaði fénu úr 647 í 469 sauðkindur[234] eða um 28%. Sú fækkun hefur án vafa orðið vegna hinna miklu harðinda sem þrengdu að bændum um land allt á árunum upp úr 1880. Til samanburðar er vert að nefna að yfir landið í heild fækkaði sauðfénaði um 36% milli áranna 1881 og 1883.[235]

Allar þessar tölur um fjölda sauðfjár í Suðureyrarhreppi eru teknar úr hinum opinberu búnaðarskýrslum en ætla má að í raun hafi féð oftast nær verið svolítið fleira. Til marks um það má nefna að við almenna sauðfjártalningu sem fram fór 29. mars 1897, vegna fyrirhugaðra baðana, reyndist heildartala sauðfjár í Suðureyrarhreppi vera 1113 kindur.[236] Samkvæmt búnaðarskýrslu ársins 1896 höfðu þó aðeins 979 kindur verið settar á vetur þá um haustið eins og hér var áður nefnt. Við hina sérstöku talningu hækkaði tala kindanna því um 13-14%.

Hreppstjóraskýrsla frá árinu 1934 sýnir að í fardögum á því ári var búfjárfjöldi Súgfirðinga sem hér segir: Kýr og kelfdar kvígur 24, griðungar og geldneyti 10, kálfar 11, ær með lömbum 787, geldar ær 115, sauðir 26, hrútar eldri en veturgamlir 16, gemlingar 325, geitfé 14, hestar og hryssur 32, folöld 2, hænsni 357.[237]

Árið 1934 töldust bændur í Súgandafirði, að presti meðtöldum, vera ellefu.[238] Af 24 kúm og kelfdum kvígum áttu þeir 14 en 10 kýr voru í eigu þorpsbúa á Suðureyri.[239] Ærnar voru samtals 902 en af þeim áttu þorpsbúar 361 eða fjórar af hverjum tíu.[240] Meðalbústofn á hverju sveitabýli var því rétt liðlega ein kýr og um 50 ær samkvæmt þessari skýrslu hreppstjórans sem virðist nákvæm.

Í ritum frá 18. öld er fátt að finna um búnaðarhætti í Súgandafirði og ekkert í þaðan af eldri heimildum. Þeir Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson virðast ekki hafa komið í þetta byggðarlag á rannsóknarferðum sínum um landið um miðbik 18. aldar og Eggert minnist ekkert á Súgfirðinga í sinni miklu Ferðabók. Hann segir þar hins vegar margt um Vestfirðinga almennt og greinir frá einu og öðru um lifnaðarhætti þeirra sem bjuggu í fjörðunum milli Látrabjargs og Stiga en á því svæði liggur Súgandafjörður nyrst. Sumt af ummælum Eggerts um fólkið sem þarna bjó fyrir 250 árum hefur áður verið tekið upp í þetta rit (sjá hér bls. 25-27 og Mosvallahreppur, inngangskafli).

Ólafur Olavius fór í rannsóknarleiðangur um Vestfirði sumarið 1775 og minnist stuttlega á Súgandafjörð í bók þeirri er hann ritaði um ferðir sínar. Hann lætur þess getið að í Staðardal og fjarðarbotninum sé sæmilega grasgefið en annars staðar í firðinum sé hrjóstrugt og víða snjóflóðahætta.[241] Mörgum kunn eru þau ummæli Eggerts Ólafssonar að Önfirðingar safni skeggi og gangi í fötum með fornlegu sniði (sjá hér Mosvallahreppur, inngangskafli). Olavius staðfestir þessa frásögu Eggerts og bætir því við að fáeinir bændur í Súgandafirði og Dýrafirði hafi sama lagið á og Önfirðingar í þessum efnum.[242]

Séra Andrés Hjaltason á Stað skrifaði lýsingu á Staðarsókn í Súgandafirði árið 1839 og drepur þar á eitt og annað varðandi atvinnuhætti sóknarbarna sinna. Í sóknarlýsingunni kemst séra Andrés m.a. svo að orði:

 

Selstöður eru engar í sókn þessari. Sýnist hér og óvíða svo plássi varið að þær verði notaðar með heppni, enda er og á mjög fáum stöðum getið um að þær hafi nokkurn tíma til verið. Sama er að segja um afréttarlönd að þau eru mjög óviss og regluleg réttarhöld engin. Hvað almenna jarðrækt snertir, til dæmis túngarðahleðslu, túnasléttu, kál- og kartöflugarðarækt, færikvíar o.s.frv., þá er þar víðast lítil stund á lögð og sumstaðar alls ekki en hin siðvanalega peningsrækt er hér víða í allgóðu standi, hvar til menn bæði stunda heyskap með allri atorku og eljun sem og hafa á sumum stöðum beitarhús við sjó fram til að geta þess betur fjöru notað, að hverri er allvíða mikill beitarstyrkur.

Eggvarp, dúntekja, fjaðratekja, lundatekja, sölvatekja, meltak, hafa hér ekki stað. Fjallagrös eru hér að sönnu til, helst á fjöllum fram frá Vatnadal en notast ekki til hlítar af almenningi, veldur það því að þar liggur jafnan snjór á, utan um hásumar þá menn ekki gefa sér tíma til þess frá heyskapnum. Sama er að segja um ber og hvannir, að hvorugt af þessu er stundað til. Mótak er hér allvíða og er það höfuðeldsneyti flestra í sókn þessari svo þeir sem ekki hafa mó í landareign sinni fá hann þar sem kostur er.[243]

 

Séra Andrés segir trjáreka vera lítinn sem engan og tekur fram að Súgfirðingar kunni hvorki að nota rekavið né skógarrafta til húsabygginga og verði því að fá allt timbur úr kaupstað.[244] Flesta bæina í sókninni segir prestur vera lítt húsaða en þó sé vel hýst og reisulega í Bæ.[245]

Um sjósókn Súgfirðinga á liðnum öldum er rætt hér litlu aftar en þess skal strax getið að í sóknarlýsingu sinni segir séra Andrés Hjaltason að í Súgandafirði standi vorvertíðin yfir frá því á páskum og fram í 12. viku sumars.[246]

Af ummælum séra Andrésar sem til var vitnað hér að framan mætti ætla að á stöku bæjum í Súgandafirði hafi árið 1839 mátt sjá túngarða, túnasléttur, matjurtagarða og færikvíar eða að minnsta kosti eitthvert af þessum fyrirbærum. Ef mark má taka á búnaðarskýrslu frá árinu 1840 var hins vegar enga túngarða eða túnasléttur að finna í Suðureyrarhreppi á þessum árum og ekki heldur færikvíar en á bæjunum í Staðardal voru komnir fjórir kál- og kartöflugarðar eins og hér verður brátt vikið nánar að.[247] Hin óljósu ummæli séra Andrésar um þessi efni eru því að líkindum svolítið villandi þó orð hans megi til sanns vegar færa með vísun til matjurtagarðanna. Ef til vill er þó hæpið að taka mark á búnaðarskýrslunum frá 1840 og þar í kring hvað þetta varðar því að í skýrslu frá árinu 1791 eru sagðir vera einhverjir túngarðar á öllum jörðunum í Súgandafirði nema á Suðureyri, í Selárdal og á Laugum.[248] Samtals var lengd þessara garða þá 561 faðmur.[249] Lengstur var túngarðurinn í Bæ, 160 faðmar, og aðeins þar hafði verið aukið við garðinn árið 1791.[250] Lengd þess viðauka var 24 faðmar.[251] Á öðrum jörðum í Suðureyrarhreppi voru lengstu túngarðarnir í Keflavík og á Kvíanesi árið 1791, 81 faðmur í Keflavík og 73 faðmar á Kvíanesi.[252]

Vera má að túngarðarnir, sem um er getið í búnaðarskýrslunni frá 1791, hafi verið lítilfjörlegir og menn hafi um það leyti eða skömmu síðar hætt að halda þeim við. Til þess bendir sú staðreynd að í búnaðarskýrslum úr Suðureyrarhreppi frá árunum 1821, 1830, 1840, 1850, 1860 og 1870 er spurningunni um það hvort einhverjir túngarðar fyrirfinnist í byggðarlaginu aldrei svarað játandi.[253]

Í búnaðarskýrslum frá fyrri hluta 19. aldar má hins vegar sjá að þá fóru nokkrir bændur í Súgandafirði að grafa áveituskurði og veita vatni á tún sín eða engjar. Árið 1837 gróf Guðmundur Úlfsson, bóndi á Laugum, 20 faðma langan skurð til vatnsveitinga og virðist það hafa verið fyrsti skurðurinn af því tagi í öllum hreppnum.[254] Árið 1840 var skurður Guðmundar orðinn 50 faðma langur og þá var einnig búið að grafa álíka skurði á Gelti, í Selárdal, á Kvíanesi og í Bæ.[255] Lengstur var skurðurinn hjá Össuri Magnússyni í Bæ, 80 faðmar.[256] Á síðari helmingi 19. aldar virðist hafa verið mjög lítið um slíka áveituskurði því að í búnaðarskýrslum frá árunum 1850, 1860, 1872-1886 og 1888-1900 er þeirra getið aðeins einu sinni, árið 1891, en í skýrslu frá því ári eru slíkir skurðir í Suðureyrarhreppi sagðir vera 70 faðmar á lengd.[257]

Árið 1862 voru færikvíar teknar í notkun á tveimur bæjum í Mosvallahreppi (sjá hér Mosvallahreppur, inngangskafli). Um svipað leyti eða mjög fáum árum síðar var þessi nýjung, sem þótti gefast vel, einnig tekin upp á tveimur bæjum í Súgandafirði því skýrslur sýna að árið 1870 voru bæði Brynjólfur Jónsson í Bæ og Kristín Þórarinsdóttir á Stað komin með slíkar færanlegar kvíar.[258] Svo virðist þó sem notkun þeirra hafi fallið niður um alllangt skeið eftir 1874 því að í búnaðarskýrslum frá árunum 1875-1879 lætur hreppstjórinn í Suðureyrarhreppi jafnan vera að gefa jákvætt svar við spurningunni um notkun færikvía.[259]

Á 19. öld urðu litlar framfarir í búnaði á jörðunum í Suðureyrarhreppi og ekkert búnaðarfélag var stofnað í hreppnum fyrr en komið var alllangt fram yfir aldamótin 1900 (sjá Firðir og fólk 1900-1999,429). Einn af fyrstu íslensku búfræðingunum staldraði þó við í Súgandafirði í fjóra daga sumarið 1883 og leiðbeindi í jarðabótum og búnaði á nokkrum bæjum.[260] Þetta var Sæmundur Eyjólfsson sem þá ferðaðist um Ísafjarðarsýslu, að tilhlutan sýslunefndar, í því skyni að leiðbeina bændum og koma þeim á sporið varðandi eitt og annað sem til framfara horfði i búskapnum[261] (sbr. Mosvallahreppur, inngangskafli). Í Súgandafirði var Sæmundur frá 17. til 21. ágúst.[262]

Elstu opinberu upplýsingar um stærð túna í Suðureyrarhreppi eru frá árinu 1891 en þá eru túnin sögð vera 52 dagsláttur.[263]  Hver dagslátta var 30 x 30 faðmar, það er 900 ferfaðmar, og samtals hafa túnin í hreppnum því verið 46.800 ferfaðmar eða um það bil 166.000 fermetrar. Nú eru tún yfirleitt mæld í hekturum en einn hektari er sem kunnugt er 10.000 fermetrar. Túnin í hreppnum voru því, öll til samans, um það bil 16,6 hektarar árið 1891 og lætur nærri að meðaltúnstærð á hverju býli hafi þá verið um 9.200 fermetrar eða tæplega einn hektari. Er þá gert ráð fyrir 18 býlum í hreppnum en tala býlanna var jafnan á bilinu frá 16 og upp í 22 á árunum 1820-1880 og þau voru 18  árið 1901 (sjá hér bls. 13).

Á síðasta áratug 19. aldar stækkuðu túnin í Suðureyrarhreppi úr 52 dagsláttum í 71 dagsláttu[264] og lætur nærri að meðaltúnstærð á hverju býli hafi við lok 19. aldar verið komin upp í 12.600 fermetra eða 1,26 hektara.

Fréttir af töðufeng af túnunum í Súgandafirði fáum við fyrst árið 1889 en þá var hann 569 hestar.[265] Á árunum 1889-1900 var töðufengurinn mjög breytilegur og má sem dæmi nefna að árið 1891 fengust 813 hestar af töðu, árið 1892 333 hestar, árið 1895 773 hestar, árið 1896 396 hestar, árið 1899 835 hestar og árið 1900 643 hestar.[266] Á árunum 1891-1900 var meðaltöðufengur af túnum Súgfirðinga 609 hestar á ári eða rétt liðlega 10 hestar af hverri dagsláttu[267] og hefur líklega mátt kallast viðunandi. Sveinn Sveinsson búfræðingur segir í skýrslu Búnaðarfélags Suðuramtsins fyrir árin 1872-1874 að á Vesturlandi fáist til jafnaðar 5 hestar af hverri dagsláttu sé hún þýfð og á hana hafi verið borið.[268] Þorvaldur Thoroddsen náttúrufræðingur fullyrðir hins vegar fáum áratugum síðar að af góðum túnum víðsvegar um landið fáist 10-15 töðuhestar af hverri dagsláttu og nefnir dæmi um mun meiri töðufeng.[269] Samkvæmt opinberum skýrslum var meðaltöðufengur á öllu landinu 9 2/3 hestar af hverri dagsláttu árið 1911 en rúmlega 11 hestar árið 1914.[270] Á árunum upp úr aldamótunum 1900 munu margir hafa talið 40 hesta af töðu nægja í eitt kýrfóður.[271] Af túnunum í Súgandafirði fengust að jafnaði liðlega 600 hestar af töðu á ári hverju eins og hér hefur áður verið nefnt og hefðu samkvæmt nýnefndri viðmiðun átt að duga til að fóðra 15 kýr. Á 19. öld voru kýrnar í Súgandafirði hins vegar sjaldan færri en 30 (sjá hér bls. 32) svo ætla má að fóðrunin hafi verið í tæpasta lagi.

Á síðasta áratug 19. aldar var árlegur meðalfengur Súgfirðinga af útheyi 1292 hestar[272] en árlegur töðufengur var á sama tíma 609 hestar að jafnaði eins og hér hefur áður verið nefnt. Lætur því nærri að taðan hafi verið þriðjungur af öllum heyfengnum en útheyið tveir þriðju hlutar. Um 1930 var árlegur töðufengur á jörðunum í Súgandafirði talinn vera 1273 hestar[273] og hafði því tvöfaldast frá því sem verið hafði á síðustu árun nítjándu aldarinnar. Sátufjöldinn sem fékkst af engjum í Súgandafirði breyttist hins vegar mun minna á áratugunum frá aldamótunum 1900 og fram að 1930 en við lok þess tímabils var útheysfengurinn þó kominn upp í 1760 hesta á ári[274] en hafði verið tæplega 1300 hestar að jafnaði á ári svo sem fyrr var nefnt.

Á eyðublöðunum fyrir hinar opinberu búnaðarskýrslur var á árunum 1872-1900 jafnan spurt um þúfnasléttur og túngarða. Hreppstjórar Súgfirðinga, sem fylltu eyðublöðin út, sáu hins vegar aldrei á nefndu tímaskeiði ástæðu til að geta um einhverjar slíkar framkvæmdir í sínu byggðarlagi utan einu sinni sem var 1873 en í skýrslunni frá því ári er nefndur 3ja faðma langur túngarður í Ytri-Vatnadal[275] (sbr. hér bls. 34-35). Í sams konar skýrslum frá árunum 1901-1913 er ekki heldur nokkurt lífsmark að finna í þessum efnum úr Súgandafirði.[276] Vera má að skýrslurnar gefi ekki alveg rétta mynd en líklega hafa framkvæmdir við túnasléttun og hleðslu garða verið í minnsta lagi. Tvímælalaust er þó að Kristján Albertsson, sem var bóndi á Suðureyri frá 1875-1909, hóf byggingu grjótgarðs til varnar skriðuföllum í hlíðinni ofan við túnið á Suðureyri og munu þær framkvæmdir hafa hafist árið 1898.[277] Allmikill spotti af þessum garði hafði verið byggður þegar Kristján andaðist árið 1909 en síðar var bætt við hann.[278] Vera má að þessi varnargarður, sem stendur enn (1996), hafi ekki verið nefndur í búnaðarskýrslunum af því hann var ekki reistur til að verja túnið fyrir ágangi búfjár og var því ekki túngarður í hinni venjulegustu merkingu þess orðs. Kristján Albertsson, sem byggði grjótgarðinn, setti líka gaddavírsgirðingu utan um túnið á Suðureyri og var það fyrsta girðingin í Súgandafirði af þeirri gerð.[279]

Garðrækt í smáum stíl hófst í Súgandafirði á árunum milli 1820 og 1830 eins og sjá má í búnaðarskýrslum. Árið 1821 var enginn kál- eða kartöflugarður í Suðureyrarhreppi, ef marka má skýrslu frá því ári, en sex árum síðar voru séra Eiríkur Vigfússon á Stað og Guðmundur Jónsson, bóndi í Fremri-Vatnadal, komnir með slíka garða.[280] Árið 1830 var líka kominn kálgarður á Kvíanesi[281] en virðist ekki hafa orðið langær því 1834 eru sagðir vera fjórir slíkir garðar í öllum hreppnum, allir í Staðardal.[282] Árin 1837 og 1840 eru garðarnir líka sagðir vera fjórir og töldust fyrra árið vera 56 ferfaðmar (198,5 fermetrar), allir til samans, en aðeins 23 ferfaðmar árið 1840.[283]

Búnaðarskýrslur frá árunum 1860 og 1870 gefa hins vegar til kynna að þá hafi engir matjurtagarðar verið til í Suðureyrarhreppi.[284] Hið sama kemur í ljós sé litið í skýrslur frá árunum 1872-1892.[285] Verið getur að einhverjar garðholur hafi þó fyrirfundist á einstaka býli í Súgandafirði á þessum árum en hreppstjórunum, sem sömdu búnaðarskýrslurnar, hefur þá láðst að nefna þær. Ætla má að sú garðrækt hafi þá verið í mjög smáum stíl því á hinum opinberu eyðublöðum, sem skýrslurnar voru ritaðar á, var jafnan spurt um fjölda og /eða stærð kálgarða ef nokkrir væru. Skýrslurnar, sem hér er byggt á, benda eindregið til þess að í Súgandafirði hafi tilraunir með garðrækt hafist um 1825 og næstu tuttugu árin eða svo hafi eitthvert lítilræði af matjurtum verið ræktað árlega á fáeinum bæjum í Suðureyrarhreppi. Um miðbik 19. aldar virðist þessi vísir að garðyrkju hins vegar hafa lognast út af og menn ekki hafist handa að neinu marki á ný fyrr en 1893. Stærð matjurtagarðanna sem Súgfirðingar komu sér upp á því ári var 130 ferfaðmar,[286] ef marka má skýrslurnar, svo þetta voru mun fleiri og /eða stærri garðar en þeir gömlu frá fyrri hluta aldarinnar sem hér voru áður nefndir. Á næstu árum áttu garðarnir þó eftir að stækka og voru aldamótaárið 1900 orðnir 247 ferfaðmar.[287]

Kristján G. Þorvaldsson, sem fæddist í Súgandafirði árið 1881 og ólst þar upp, segir að bændurnir sem bjuggu á Suðureyri á síðasta fjórðungi 19. aldar, þeir Kristján Albertsson og Þorbjörn Gissurarson, hafi báðir ræktað matjurtir og um 1890 hafi þeir komið sér upp sameiginlegum garði út á Mölum er hafi verið 10 faðmar á hvern veg.[288] Sá garður, sem heppnaðist reyndar ekki vel, hefur því verið 100 ferfaðmar á stærð. Þarf vart að efa að það sé hann sem komist hafi í búnaðarskýrsluna frá 1893 ásamt 30 ferföðmum af öðru garðlandi sem að líkindum hefur einnig verið á Suðureyri. Til þess að svo hafi verið benda ummæli Kristjáns G. Þorvaldssonar sem lætur þess getið að áður en Suðureyrarbændur komu sér upp þessum garði á Mölunum hafi þeir átt sinn matjurtagarðinn hvor heima á Suðureyrartúni.[289]

Uppskeran úr matjurtagörðum Súgfirðinga árið 1893 var 6 tunnur af rófum og næpum en næsta ár 2 tunnur af kartöflum og 3 tunnur af rófum og næpum.[290] Árið 1896 og 1897 var uppskeran engin[291] og kemur það heim við orð Kristjáns G. Þorvaldssonar sem segir garðinn á Mölunum hafa fyllst af sandi og orðið óhæfan til ræktunar.[292] Suðureyrarbændur komu sér þó fljótt upp nýjum görðum[293] og vera má að fleiri Súgfirðingar hafi hafist handa við garðrækt á síðustu árum 19. aldar en haustið 1899 var uppskera garðávaxta í Suðureyrarhreppi 5 tunnur af kartöflum og 14 tunnur af rófum og næpum.[294]

Þess má svo geta að um 1930 voru ræktaðar matjurtir á um það bil helmingi jarðanna í Suðureyrarhreppi og flatarmál garðanna, allra til samans, var þá 1820 fermetrar eða því sem næst,[295] það er 517 ferfaðmar. Uppskeran var þá 25 ½ tunna af garðávöxtum.[296]

Í Jarðabókinni frá 1710 er getið um mótak á sjö jörðum í Suðureyrarhreppi, Fremri-Vatnadal, Neðri-Vatnadal, Bæ, Suðureyri, Kvíanesi, Botni og Keflavík.[297] Að sögn heimamanna sem Árni Magnússon ræddi við sumarið 1710 var þó hætt að stinga mó í landi Suðureyrar en þar höfðu mógrafirnar verið uppá fjalli í fjarska þar sem ekki verður hestum fyrir klettum að komið[298] (sbr. hér  Suðureyri).  Í Selárdal og á Gilsbrekku var skógur þá talinn vera nægur til kolagjörðar og eldiviðar[299] svo ætla má að á þessum tveimur bæjum hafi einkum verið brennt hrísi. Í byrjun 18. aldar fengu bændur á Suðureyri og Norðureyri líka eldivið úr Selárdalsskógi.[300]

Um almennt ástand í eldsneytismálum Vestfirðinga á árunum upp úr 1750 kemst Eggert Ólafsson svo að orði:

 

Menn nota þang og fiskbein til eldsneytis þótt ekki sé það jafntítt hér og undir Jökli. … en auk þess nota menn einnig harða grasrót sem þar vestra kallast svörður. Er hún skorin í lengjur og brennt þannig.[301]

 

Það sem Eggert nefnir þarna svörð er ef til vill mór en orðið getur þó líka merkt ofanafstunguna, sem nær niður að mólaginu, og er nær því að mega kallast hörð grasrót.

Frásögn sinni af eldsneytismálum Vestfirðinga á árunum upp úr 1750 heldur Eggert áfram og segir þá meðal annars:

 

Eldsneyti þetta [svörðurinn] logar vel. Engin ólykt er af því og eftir verður einungis lítils háttar hvít aska. Hins vegar er það hitalítið og þarf því mikið af því, enda er það mest notað til að spara annað það eldsneyti sem er mest notað á Vestfjörðum en er þó miklu dýrara en það er þurrkað tað. Margir álasa Íslendingum fyrir að þeir skuli nota þess konar eldsneyti og meira að segja sjóða mat við það en þeir gleyma því að margar siðaðar og tignar þjóðir hafa einnig gert og gera það enn.[302]

 

Greinargerð Eggerts um meðhöndlun á kúamykju og sauðataði, sem brennt var, verður ekki tekin upp hér en hana er að finna á blaðsíðu 269-270 í Ferðabók Eggerts og Bjarna.[303]

Um 1840 hefur hrísrif að líkindum verið orðið lítill þáttur í eldiviðaröflun Súgfirðinga því séra Andrés Hjaltason nefnir það ekki í sóknarlýsingu sinni frá árinu 1839. Hann segir þar að allur skógur í firðinum megi heita gjöreyddur en litlar eftirleifar sjáist þó enn í Botni, Gilsbrekku og Selárdal.[304] Að sögn séra Andrésar var mór höfuðeldsneyti á flestum heimilum í Suðureyrarhreppi árið 1839 (sjá hér bls. 34) og verður að ætla að þar sé rétt með farið. Í búnaðarskýrslu frá árinu 1821 er hins vegar fullyrt að aðeins sé brennt mó á fjórum bæjum í hreppnum, það er að segja í Keflavík, á Suðureyri, í Neðri-Vatnadal og á Stað.[305] Á næstu árum var mór aðeins notaður til eldiviðar á fjórum til fimm heimilum í Suðureyrarhreppi ef marka má skýrslurnar[306] en árið 1834 var farið að brenna mó á tíu af þeim tuttugu býlum sem þá voru í hreppnum.[307] Skömmu síðar var formi búnaðarskýrslnanna breytt og hreppstjórarnir, sem fylltu eyðublaðið út, þurftu þá ekki lengur að svara því hvort mór væri notaður til eldiviðar á þessu eða hinu býli.[308] Svarið við spurningu um þróun mála á árunum 1835-1839 fáum við hins vegar hjá séra Andrési Hjaltasyni en eins og áður var getið greinir hann svo frá að mórinn hafi verið mest notaða eldsneytið á flestum heimilum í Súgandafirði árið 1839. Allt sýnir þetta að á 18. öld og fyrstu áratugum 19. aldar hefur móskurður orðið langtum minni þáttur í eldsneytisöflun Súgfirðinga en verið hafði á árunum kringum 1700. Skömmu fyrir 1840 nær mórinn svo aftur sínu fyrra sæti sem það eldsneyti er mest var notað.

Ekki er ólíklegt að í Súgandafirði hafi notkun á skógarhrísi til eldiviðar aukist þegar móskurðurinn dróst saman en svo þarf þó ekki að vera því sauðatað kynni að hafa komið í staðinn fyrir móinn. Tað var lengi helsta eldsneytið í mörgum byggðarlögum svo sem alkunnugt er og fram kemur í orðum Eggerts Ólafssonar sem til var vitnað hér að framan.

Undir lok 19. aldar, nánar til tekið á árunum 1889-1900, var mótekjan í Suðureyrarhreppi 495,4 hestar að jafnaði á ári ef marka má opinberar skýrslur.[309] Mest varð mótekjan á þessu skeiði árið 1891, 669 hestar, en minnst árið 1896, 259 hestar.[310] Í búnaðarskýrslum frá árunum 1889-1900 er sex sinnum minnst á hrísrif Súgfirðinga og þeir þá sagðir rífa allt frá tveimur hestum og upp í þrettán hesta á ári af skógarhrísi.[311] Þær tölur er að líkindum hæpið að taka alveg bókstaflega en þær sýna svo ekki verður um villst að við lok 19. aldar hafa einstaka bændur í Suðureyrarhreppi enn notað lítið eitt af skógarhrísi til eldiviðar.

Í Jarðabók Árna og Páls frá árinu 1710 er yfirleitt gert mjög lítið úr öllum hlunnindum sem fylgdu hinum ýmsu bújörðum. Í greinargerð Árna Magnússonar um jarðirnar í Suðureyrarhreppi er þó alloft getið stuttlega um eitt og annað af slíku tagi. Hér hefur áður verið minnst á mó og skóg en í landi sumra jarðanna í Súgandafirði gafst líka kostur á reka eða silungsveiði, grasa- og hvannatekju eða lyngrifi.[312] Allvíða í hreppnum var góð fjörubeit og selveiði í boði á nokkrum jörðum.[313] Fyrir öllu þessu verður nánari grein gerð á ferð okkar bæ frá bæ um Suðureyrarhrepp en tvímælalaust mun vera að helsti kosturinn við búsetu í Súgandafirði hafi á öllum öldum verið góð aðstaða til sjósóknar og öflunar sjávarfangs.

 

Elstu heimildina um sjósókn bænda í Suðureyrarhreppi er að finna í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá árinu 1710.[314] Þar má sjá að í byrjun 18. aldar voru róðrar stundaðir úr heimavör frá sex jörðum í hreppnum, það er frá Stað, Bæ, Suðureyri, Norðureyri, Gelti og Keflavík.[315] Á Suðureyri og Norðureyri voru góðar lendingar og sæmileg á Gelti. Lendingar þær sem í boði voru á ströndinni fyrir mynni Staðardals þóttu hins vegar mun lakari, m.a. vegna brimsins, og í Keflavík var lendingin bæði stórgrýtt og brimasöm.[316]

Af orðum Árna Magnússonar í Jarðabókinni frá 1710 má ráða að í byrjun 18. aldar hafi Súgfirðingar átt eina tólf báta. Er þá gert ráð fyrir einum báti á hverri hinna sex nýnefndu jarða en þó tveimur á Suðureyri því í Jarðabókinni er þess getið sérstaklega að þaðan gangi tvö skip ábúenda.[317] Á Stað kynnu bátarnir reyndar líka að hafa verið tveir því Árni Magnússon segir að þaðan gangi eitt eða tvö skip staðarhaldarans.[318] Í Jarðabókinni er frá því greint að einn bátur frá Vatnadal sé gerður út frá lendingunni við Árós í landi Bæjar og bátur frá Selárdal rói frá Suðureyri.[319] Hér hafa þá verið taldir níu bátar og reyndar tíu sé reiknað með tveimur bátum á Stað en eftir er að geta tveggja eða þriggja báta sem gengu frá Suðureyri skamman tíma á vorin,[320] en ætla má að þeir hafi verið frá bæjum í innfirðinum, Kvíanesi, Botni og Gilsbrekku. Af öllu þessu má ráða að í allt hafi bátarnir varla verið færri en tólf.

Ólafur Olavius, sem ferðaðist um Vestfirði árið 1775, náði ekki að komast í Súgandafjörð en segir að þar séu fjórar verstöðvar, Suðureyri, Norðureyri, Stöð og Vatnadalsós.[321] Þegar Olavius talar um Vatnadalsós, sem reyndar er rangnefndur Vatnsdalsós í hinni íslensku útgáfu Ferðabókar hans, hlýtur hann að eiga við Árósinn í Staðardal sem stundum var nefndur svo[322] en þar höfðu bændur i Vatnadal sína verstöðu eins og hér hefur áður verið nefnt. Tvær verstöðvanna sem Olavius nefnir eru í landi Bæjar, það er að segja sú við Árósinn og svo Stöð sem er 200-300 metrum innar (sjá hér Bær). Olavius getur hins vegar ekki um Keravík , sem er í landi Staðar, en þaðan munu bátar frá prestssetrinu löngum hafa róið (sjá hér Staður).

Olavius greinir ekki frá fjölda báta í hverri veiðistöð en segir að frá verstöðvunum í Staðardal sé mikið útræði og þá einkum á vorin af því að stöðvar þessar eru svo nærri hafinu.[323] Orð hans benda til þess að um eitthvert skeið á síðari hluta 18. aldar hafi það ekki eingöngu verið bátarnir frá Bæ og Vatnadal sem reru frá Árósnum og /eða Stöðinni en nánari upplýsingar um það liggja ekki fyrir.

Í sóknarlýsingu séra Andrésar Hjaltasonar frá árinu 1839 er líka gerð grein fyrir hafnarskilyrðum og helstu lendingum í Súgandafirði en um þau efni ritar séra Andrés á þessa leið:

 

Á Súgandafirði er kölluð trygg og góð höfn fyrir utan Suður- og Norðureyri eður framundan svokölluðum Suðureyrarmölum. Er þar aldrei sjóarrót til skaða og sléttur sandbotn allt um kring. Er þar því gjarnan hælisstaður að hleypa í undan hafgörðum, svo vel fyrir fiskijaktir og þilfarsbáta hér innlenda sem og fyrir Hollendinga sem fiska í Íslands vesturhafi. En þó höfnin sé svo góð sem nú er sagt hefur hér aldrei verið neitt kauptún eður kaupmannshús né heldur hróf handa þilskipum eður neitt þessháttar.

Lendingar eru hér bestar sem áður er sagt á Suðureyri, eins Norðureyri. Til eru og aðrar þrjár lendingar utar betur með Súgandafirði, sunnanfram, sem eru ekki nærri svo góðar sem hinar fyrri.[324]

 

Prestur gerir síðan grein fyrir öllum þessum þremur lendingum, það er að segja Stöðinni, Árós, sem einnig var nefndur Vatnadalsós, og Keravík[325] en frá þeim öllum verður sagt hér nánar síðar (sjá hér Bær og Staður). Séra Andrés minnist líka á lendinguna sem bændur á Gelti reru frá og segir hana vera mjög óþægilega vegna brima og stórgrýtis.[326]

Á síðusta fjórðungi 19. aldar var líka róið frá öllum eða nær öllum þeim verstöðvum og lendingum sem hér hafa verið nefndar en Suðureyrarmalir voru þá alveg tvímælalaust helsta verstöðin í Súgandafirði[327] og svo mun löngum hafa verið. Á Suðureyri var örugg lending í hvaða átt sem var og þangað hleyptu formenn úr Staðardal og frá Gelti ef ólendandi var í þeirra heimavörum.

Á síðasta fjórðungi 19. aldar munu einstaka bátar úr Önundarfirði stundum hafa róið frá verstöðvum í Súgandafirði. Einn þeirra fórst 25. maí 1871 og drukknuðu þrír menn, allt Önfirðingar (sjá hér Eyri). Í ritgerð sinni Súgandafjörður um 1900 kemst Magnús Hjaltason svo að orði: Önfirðingar reru fleiri og færri í Súgandafirði á hverju vori, flestir á Suðureyri en líka í Keravík, Stöð, á Gelti og á Norðureyri.[328] Segir Magnús Önfirðingana hafa farið heim til sín á hálfsmánaðarfresti meðan vertíð stóð.[329]

Í Jarðabókinni frá 1710 gefur Árni Magnússon til kynna að þá hafi mun færri bátar róið frá Suðureyri en verið hafði nokkrum áratugum fyrr og kemst þá svo að orði:

 

Verstaða hefur hér verið og góð að fornu og sjást hér margar tóttarústir af vermannabúðum og er að sögn manna, eftir því sem þeir hafa heyrt af sér eldri mönnum, að hér hafi þá verið vertollur tveir fjórðungar af hverjum manni sem á skipunum reru. En ekki hefur þetta tollver brúkast til stórra gagnsmuna í næstu 40 ár eða lengur… .[330]

 

Þessi ummæli verða tæplega skilin á annan veg en þann að um miðbik 17. aldar hafi allmargir bátar úr öðrum byggðarlögum róið frá Suðureyri því harla ólíklegt verður að telja að bátar Súgfirðinga hafi verið svo miklu fleiri um 1660 en þeir voru 1710. Hafi einhverjir langt að komnir bátar róið frá Suðureyri á 17. öld er líklegast að áhafnir þeirra hafi verið innan úr Djúpi. Þaðan kom jafnan fjöldi báta til róðra úr Bolungavík á hverri vertíð og ýmislegt gat valdið því að einhverjir sem þar réðu för kysu fremur að róa frá Suðureyri um lengri eða skemmri tíma.

Í Vatnsfjarðarannál yngsta er líka frá því greint að árið 1766 hafi bólusótt borist með vermönnum frá Súgandafirði inn á Langadalsströnd og í Vatnsfjarðarsveit (sjá hér bls. 17). Bendir sú frásögn óneitanlega til þess að þá hafi Djúpmenn úr þessum sveitum róið frá Súgandafirði (sjá hér Suðureyri), og í júnímánuði árið 1791 andaðist sextugur útróðramaður úr Grunnavík innan marka Suðureyrarhrepps.[331]

Vorið 1785 önduðust líka tveir langt að komnir sjóróðramenn í Súgandafirði, þeir Hallur Jónsson úr Þorskafirði, 52ja ára, og Halldór Atlason úr Steingrímsfirði, 67 ára.[332] Presturinn á Stað segir annan þeirra hafa látist af megurð og rýrðarsótt en hinn af uppdrætti og megurð.[333] Móðuharðindin, sem þrengdu að Íslendingum á árunum 1783-1785, urðu mörgum að bana og mannfækkunin slík af þeirra völdum og ýmsra sjúkdóma að landsmönnum fækkaði á árunum 1783-1786 um fimmtung eða því sem næst.[334] Í Ísafjarðarsýslu létust um það bil 230 manneskjur á árunum 1784 og 1785 umfram það sem eðlilegt mátti kallast[335] en um dánartöluna í Súgandafirði er ekki unnt að fullyrða því séra Þorsteinn Þórðarson á Stað byrjar ekki að skrá hina látnu í prestsþjónustubók fyrr en 1785. Auk hinna langt að komnu sjóróðramanna önduðust a.m.k. tveir heimamenn í Súgandafirði af uppdrætti og rýrnun eða rýrðarsótt á því ári og fjórir dóu hastarlega eða bráðum dauða[336] en oft var það næringarskortur sem olli slíkum dauðsföllum.

Um miðbik 19. aldar hófst vorvertíð í Súgandafirði á páskum og stóð fram í 12. viku sumars.[337] Ætla má að svo hafi lengi verið og þannig var það enn á árunum kringum aldamótin 1900.[338] Í sóknarlýsingu sinni frá árinu 1839 tekur séra Andrés Hjaltason fram að í Súgandafirði sé vorvertíðin eina reglulega vertíðin, enda þótt menn rói til fiskjar þegar færi gefist á öllum tímum ársins.[339]

Árið 1762 voru 9 bátar gerðir út frá Súgandafirði og voru þrír þeirra með sjö manna áhöfn, tveir með sex manna áhöfn, einn með fimm manna áhöfn og þrír með fjögurra manna áhöfn.[340] Til að manna alla bátana þurfti því 50 sjómenn. Í Ferðabók sinni byggir Ólafur Olavius á upplýsingum er hann aflaði á ferð sinni um Vestfirði sumarið 1775. Hann segir þar að í Ísafjarðarsýslu séu bátarnir áttæringar, sexæringar og fimm manna för og tekur fram að í hverri áhöfn séu 4 -7 menn, eftir stærð bátanna.[341]

Í Súgandafirði voru eigendur báta með sjö manna áhöfnum þessir árið 1762: Séra Þorsteinn Þórðarson á Stað, Páll Pálsson á Kvíanesi og Jón Sigurðsson, líklega sá í Vatnadal.[342] Báta með sex manna áhöfn áttu þeir Bjarni Brynjólfsson á Suðureyri og séra Bergsveinn Hafliðason, áður prestur á Stað,[343] en eigendur báta með færri mönnum í áhöfn voru: Bjarni Brynjólfsson á Suðureyri, Hákon Björnsson á Gelti, Sigfús Erlingsson á Kvíanesi og Eiríkur Þorvaldsson sem virðist ekki hafa verið í bænda tölu og óvíst er hvar átti heima.[344] Við skoðun sjávarútvegsskýrslunnar frá 1762, sem hér er byggt á, vekur athygli að Bjarni Brynjólfsson, bóndi á Suðureyri, reynist hafa átt tvo af þessum níu bátum og líka hitt að séra Bergsveinn Hafliðason, sem var prestur í Súgandafirði á árunum 1742-1755, lét enn gera sexæring sinn héðan út þó að sjö ár væru liðin frá því hann fluttist sjálfur norður að Stað í Grunnavík.[345]

Formaðurinn á báti séra Bergsveins hét Ásmundur Guðmundsson[346] en nánari upplýsingar um hann liggja ekki á lausu. Formaður á báti séra Þorsteins á Stað hét Jón Bjarnason[347] og hefur að líkindum verið sá maður með því nafni sem þá var bóndi í Bæ.[348] Í skýrslunni frá 1762 er ekki getið um formenn á hinum bátunum en mjög líklegt má telja að eigendurnir hafi sjálfir stýrt þeim til veiða. Bjarni Brynjólfsson á Suðureyri hefur þó orðið að ráða sér formann á annan þeirra tveggja báta sem hann gerði út.

Um 1760 voru hlutaskipti í Súgandafirði með þeim hætti að báturinn eða eigandi hans fékk tvo hluti og þriðji aukahluturinn, sem í skýrslunni er nefndur mannshlutur,[349] hefur að líkindum verið ætlaður formanninum. Skýrslan frá 1762 ber með sér að aukahlutirnir voru þá þrír á öllum bátum Súgfirðinga, hvort sem fjórir, fimm, sex eða sjö menn voru í áhöfninni.[350] Á minnstu bátunum var því skipt í sjö staði en í tíu staði á þeim stærstu.

Í skýrslunni sem hér er byggt á er gefið upp hver hásetahluturinn var á hverjum bát, mælt í verðeiningunni fiskum[351] sem er annað en tala fiska upp úr sjó. Skráin sem hér fer á eftir sýnir hvert verðmæti hásetahlutarins var á hverjum bát og einnig heildarverðmæti aflans en þá hafa aukahlutirnir þrír verið teknir með í reikninginn.

 

Tafla 4

 

Skrá yfir hásetahluti og aflaverðmæti bátanna

sem reru frá Súgandafirði árið 1762

 

 

Eigendur báta                                        Hásetahlutur      Fjöldi í áhöfn     Heildarverðmæti aflans

 

 1. Páll Pálsson á Kvíanesi ……………………. 160.. fiskar …………  7 …………..  1.600  fiskar
 2. Séra Bergsveinn Hafliðason ……………….. 160.. fiskar …………  6 …………..  1.440  fiskar
 3. Jón Sigurðsson, líklega í Vatnadal ……….. 140.. fiskar …………  7 …………..  1.400  fiskar
 4. Séra Þorsteinn Þórðarson á Stað ………….. 120.. fiskar …………  7 …………..  1.200  fiskar
 5. Hákon Björnsson á Gelti …………………… 160.. fiskar …………  4 …………..  1.120  fiskar
 6. Bjarni Brynjólfsson á Suðureyri ………….. 120.. fiskar …………  6 …………..  1.080  fiskar
 7. Sigfús Erlingsson á Kvíanesi ……………… 120.. fiskar …………  5 …………….   960  fiskar
 8. Eiríkur Þorvaldsson (líklega frá Bæ) …….. 130.. fiskar …………  4 …………….   910  fiskar
 9. Bjarni Brynjólfsson (annar bátur hans) ……. 80.. fiskar …………  4 …………….   560  fiskar

_______________________________________________________________________________________________________________________________

 

Samtals…………………………………….. 1.190.. fiskar ……….  50 ………….  10.270  fiskar

 

 

Áður en lengra er haldið skal tekið fram að skráin sýnir afla frá áramótum til vorvertíðarloka[352] um mánaðamótin júní/júlí. Í þessum aflatölum er hákarl ekki talinn með en um hann er rætt sérstaklega hér litlu aftar. Nær fullvíst má telja að Páll á Kvíanesi hafi verið formaður á sínum báti og sýnir skráin að hann hefur þá verið aflakóngur að þessu sinni. Árið 1762 var Páll tæplega fertugur sjálfseignarbóndi og bjó i tvíbýli á Kvíanesi.[353]

Samanlagt aflaverðmæti bátanna var 10.270 fiskar eða 1.141 fiskur á hvern bát en 205,4 fiskar á hvern sjómann. Í einu kýrverði voru 240 fiskar svo ljóst er að verðmæti heildaraflans hefur numið tæplega 43 kúgildum eða sem svaraði 4,75 kúgildum að jafnaði á hvern bát. Meðalhásetahlutur var hins vegar um það bil 132 fiskar eða liðlega hálft kýrverð. Við mat á verðmæti aflans má einnig hafa í huga að almennt verð á íslenskum áttæringi var um þessar mundir 13 ríkisdalir[354] eða sem svaraði liðlega þremur kúgildum.[355]

Til samanburðar við aflahlut háseta árið 1762 skal þess getið að árið 1805 var talið að meðalhásetahlutur hjá þeim sem reru frá verstöðvunum í Súgandafirði væri um 200 fiskar yfir allt árið,[356] það er um 83% úr kýrverði. Tveir þriðju hlutar af verðmæti heildaraflans fengust þá fyrir steinbít og rikling[357] sem kann að hafi verið lúðuriklingur. Hitt var þorskur, ýsa og langa.[358] Þarna er lýsishlutur úr hákarlalegunum ekki talinn með en um hann er fjallað hér á öðrum stað (sjá hér bls. 48-50).

Út frá fyrirliggjandi upplýsingum um verðmæti fiskafla Súgfirðinga árið 1762 má reyna að gera sér hugmynd um aflamagnið í vetrar- og vorróðrum Súgfirðinga það ár. Samkvæmt kaupsetningunni sem hér var í gildi á árunum 1702-1776 var eitt skippund af harðfiski virt á 3 ríkisdali og 32 skildinga.[359] Þrjátíu álnir, það er 60 fiskar, voru þá í hverjum ríkisdal[360] svo að eitt skippund af harðfiski hefur lagt sig á 200 fiska. Í hverju skippundi voru 160 kíló en láta mun nærri að þorskur sem vigtar 10 kíló upp úr sjó sé eitt kíló að þyngd þegar búið er að verka hann í fullherta skreið.[361] Fyrir 1600 kíló af þorski upp úr sjó hafa því fengist 200 fiskar, það er 100 álnir, þegar búið var að verka hann í skreið, eða 2 skildingar fyrir hvern gildan þorsk því 96 skildingar voru í hverjum ríkisdal og dalurinn virtur á 30 álnir, þ.e. 60 fiska.

Ætla má að það sé verðmæti aflans eins og það var þegar fiskurinn var orðinn að skreið sem upp er gefið í skýrslunni frá 1762 og ber þá að margfalda fiskatöluna í skránni yfir aflaverðmæti hér að framan með tölunni átta til að fá út hversu mörg kíló aflinn vigtaði upp úr sjó. Verður þá niðurstaðan sú að í vetrarróðrum og á vorvertíð árið 1762 hafi bátar Súgfirðinga borið að landi 82.160 kíló af fiski eða 9.129 kíló á hvern bát og 1.643 kíló á hvern sjómann. Gallinn á þessum útreikningi er sá að þarna er allt miðað við þorsk en ætla má að verulegur hluti af afla Súgfirðinga hafi verið steinbítur. Skiptingin þar á milli liggur hins vegar ekki fyrir en þess má geta að á árunum upp úr 1760 virðist algengasta steinbítsverð hafa verið 30% lægra en verð á þorski (sjá hér bls. 52).

Ekkert af fiskinum sem Súgfirðingar veiddu árið 1762 var lagt inn í verslun,[362] enda langt að fara með skreiðarflutning í næsta kaupstað, það er til Ísafjarðar eða Þingeyrar. Allur aflinn var því hafður til heimilisnota.[363] Sé gengið út frá þeim aflatölum sem hér voru nefndar og haft í huga að árið 1762 voru íbúar Suðureyrarhrepps aðeins 137 (sjá hér bls. 15), þá reynist hvert mannsbarn í Súgandafirði hafa fengið um 600 kíló af fiski upp úr sjó til matar yfir árið eða sem svaraði 60 kílóum af skreið. Sá forði sýnist reyndar hafa verið í knappasta lagi því að í alþingissamþykkt frá árinu 1722 var gert ráð fyrir að hver vinnumaður fengi hálfan fiskafjórðung, 2,5 kíló, til matar yfir vikuna, það er 130 kíló á ári af hörðum fiski.[364] Samkvæmt þessari sömu samþykkt var vinnukonum hins vegar ætlaður helmingi minni skammtur eða 65 kíló af harðfiski yfir árið.[365] Á síðari hluta 19. aldar virðist vinnuhjúum á efnaheimilum reyndar hafa verið ætlaður mun meiri fiskur til matar en þarna er nefnt.[366]

Í skránni hér að framan mátti sjá að til þess að manna flota Súgfirðinga árið 1762 þurfti 50 sjómenn og er merkilegt að unnt skyldi að senda svo marga menn á sjó úr byggðarlagi þar sem íbúarnir voru aðeins 137. Manntalið frá árinu 1762 sýnir þó að þetta var mögulegt því að í Suðureyrarhreppi voru þá 49 vinnufærir karlmenn.[367] Ætla má að þeir hafi allir verið í skiprúmi og svo ein kona eða einn aðkomumaður að auk. Konurnar og börnin hafa hins vegar séð að mestu um bústörfin meðan vertíð stóð yfir eins og algengt var. Áður en skilist verður við fiskveiðar Súgfirðinga árið 1762 er svo rétt að ítreka að allar aflatölur, sem hér hafa verið birtar frá því ári, ná aðeins yfir aflann sem kom að landi á fyrri hluta ársins og allra fyrstu dagana í júlí (sjá hér bls. 46). Ætla má að mikill meirihluti ársaflans hafi komið á land á þeim tíma því aðalvertíðin var á vorin en engu að síður gæti þó nokkur afli hafa borist að landi í sumar- og haustróðrum.

Á tímabilinu frá nýári og fram að páskum árið 1762 fóru sex af bátum Súgfirðinga í hákarlaróðra ef marka má sjávarútvegsskýrsluna frá því ári sem hér hefur verið byggt á.[368] Bátarnir sex voru þessir:

 

 1. Sexæringur í eigu séra Bergsveins Hafliðasonar, áhöfn 6 menn.
 2. Sexæringur í eigu séra Þorsteins Þórðarsonar á Stað, áhöfn 7 menn.
 3. Sexæringur í eigu Jóns Sigurðssonar, líklega í Vatnadal, áhöfn 7 menn.
 4. Sexæringur í eigu Bjarna Brynjólfssonar á Suðureyri, áhöfn 6 menn
 5. Fjögra manna far í eigu Eiríks Þorvaldssonar, áhöfn 4 menn.
 6. Fjögra manna far í eigu Bjarna Brynjólfssonar á Suðureyri, áhöfn 4 menn.[369]

 

Á fjórum fyrst töldu bátunum var hásetahluturinn á nýnefndum vetrarmánuðum 2 kúttlingar af hákarlslýsi,[370] það er 10 pottar.[371] Hjá Eiríki Þorvaldssyni var hásetahluturinn tveir og hálfur pottur og á fjögurra manna fari Bjarna Brynjólfssonar einn pottur og tveir þriðju hlutar úr öðrum.[372] Ekki er alveg víst hvort hlutaskipti í hákarlaróðrunum hafi verið með sama hætti og þá tíðkaðist í fiskiróðrum en sé ráð fyrir því gert að svo hafi verið, þá hefur hákarlslifrin, sem bátarnir fluttu að landi þennan vetur, gefið af sér um það bil 409 potta af lýsi eða 3,4 lýsistunnur því 120 pottar voru í hverri tunnu.[373] Lifrartunnurnar hafa þá verið liðlega fimm því tvær tunnur af lýsi fengust úr þremur tunnum af lifur.[374] Árið 1762 mun hver tunna af hákarlslýsi hafa verið virt á 160 fiska, það er 80 álnir,[375] og lætur þá nærri að andvirði lýsisins sem Súgfirðingar náðu að bræða úr sinni hákarlslifur árið 1762 hafi verið 544 fiskar. Lýsið var sem kunnugt er langverðmætasta afurðin sem hákarlinn gaf af sér en hákarlsbúkarnir sem nýttir voru til matar og skrápurinn af þeim í skó voru líka nokkurs virði. Í dæmi úr Barðastrandarsýslu frá árinu 1828 sést að fyrir hákarlsbúkana fékkst þá um 8% af andvirði lýsisins (sjá hér Flateyri) og má því ætla að allur hákarlsafli Súgfirðinga árið 1762 hafi lagt sig á um það bil 600 fiska. Til samanburðar skal minnt á að annar fiskafli Súgfirðinga, sem barst á land árið 1762, taldist vera 10.270 fiska virði (sjá hér bls. 46) og sýnir það að hákarlaveiðarnar voru ekki stór þáttur í útgerðinni.

Sé andvirði hákarlsaflans bætt við tölurnar sem sýna andvirði annars afla á hvern bát í Töflu 4 sem hér er að finna á bls. 47, þá hækkar aflaverðmætið hjá séra Bergsveini Hafliðasyni úr 1440 fiskum í 1573 fiska og hjá Jóni Sigurðssyni úr 1400 fiskum í 1533 fiska. Hjá öðrum er hækkunin minni og þó hákarlinn sé talinn með heldur Páll Pálsson á Kvíanesi sínu sæti sem aflakóngur, enda þótt hann færi í engan hákarlaróður. Er þá eingöngu litið á verðmæti landaðs afla.

Á árunum kringum 1800 munu Súgfirðingar hafa lagt mun meira kapp á hákarlaveiðar en verið hafði um 1760. Til marks um það má nefna að árið 1762 var enginn bátur í Súgandafirði með meira en 10 potta af hákarlslýsi í hásetahlut frá nýári til páska, svo sem fyrr var getið, en árið 1805 var meðalhlutur háseta úr hákarlalegunum talinn vera þrír fjórðungar úr tunnu yfir árið,[376] það er 90 pottar. Hér þarf að hafa í huga að í hákarlalegur var tíðast farið síðara hluta vetrar[377] svo gera má ráð fyrir að  a.m.k. helmingur ársaflans hafi verið færður að landi á tímabilinu frá nýári til páska.

Ástæða þess að menn tóku að stunda hákarlaveiðar af meira kappi en áður á síðasta þriðjungi 18. aldar var sú að hákarlslýsið hækkaði mjög mikið í verði. Árið 1762 höfðu kaupmenn gefið 160 fiska fyrir tunnuna en á næsta ári hækkaði hún upp í 230 fiska.[378] Skömmu síðar hækkaði verðið á einni tunnu af hákarlslýsi upp í 280 fiska og stóð svo þegar Almenna verslunarfélagið hætti sínum rekstri hérlendis árið 1773.[379] Með kaupsetningunni sem gekk í gildi árið 1776 hækkaði verðið enn um nær 40%[380] og hefur þá komist í um 390 fiska.

Ekki er alveg ljóst hvert lýsisverðið var árið 1805 en þá var talið að hásetar, sem reru frá verstöðvum í Súgandafirði, fengju að jafnaði 90 potta af hákarlslýsi í hlut yfir árið eins og hér var áður nefnt. Hafi verðið enn verið álíka hátt og það hafði verið einum aldarfjórðungi fyrr þá hefur slíkur lýsishlutur gefið um 290 fiska í aðra hönd, það er nokkuð á annað kýrverð því 240 fiskar voru í kýrverðinu. Til samanburðar skal minnt á að meðalhásetahlutur hjá þeim sem sóttu sjó frá Súgandafirði var á sama tíma talinn vera um 100 álnir[381] sem svaraði til 200 fiska í landaurareikningi.

Á árunum skömmu fyrir 1880 fóru Súgfirðingar enn í hákarlalegur að vetrinum og reru þá út á djúpmið til að fanga þann gráa.[382] Ætla má að á árunum um eða upp úr 1880 hafi þeir farið í síðustu leguferðirnar af þessu tagi því marktækur dagbókarritari í Önundarfirði fullyrðir árið 1888 að aðeins einn maður í nálægum byggðum, Kristján Oddsson á Núpi í Dýrafirði, fari þá enn í leguferðir og veiði hákarl á djúpmiðum (sjá hér Lokinhamrar).

Sá sem gekk frá skýrslunni, er hér var nýlega vitnað til, um útgerð og aflabrögð í Súgandafirði árið 1762 var Sigurður Sigurðsson sýslumaður[383] sem nefndur var Sigurður skuggi og sat á Mosvöllum í Önundarfirði (sjá hér Mosvellir). Árið sem hann sendi frá sér nýnefnt plagg sat Eggert Ólafsson, skáld og náttúrufræðingur, í Sauðlauksdal við Patreksfjörð og vann að hinu mikla ritverki sem fékk nafnið Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar en við þá ritsmíð studdist hann einkum við athuganir sem þeir félagar höfðu gert á ferðum sínum um landið á árunum 1752-1757. Í Ferðabók sinni gerir Eggert enga grein fyrir sjósókn og aflabrögðum Súgfirðinga en ritar margt um steinbítinn. Sá fiskur hefur löngum verið önnur helsta uppistaðan í afla þeirra sem sóttu sjó frá Súgandafirði og ætla má að svo hafi einnig verið þegar Eggert sat í Sauðlauksdal en Sigurður skuggi á Mosvöllum. Með hliðsjón af því sýnist við hæfi að taka hér upp svolítið brot af skrifum Eggerts um þennan merkilega fisk og um steinbítsveiðar Vestfirðinga. Eggert fullyrðir reyndar að steinbítur sé helsti fiskurinn við Vesturland og veiði hans hafi aukist þar síðustu 50 árin fyrir 1766 að sama skapi og þorskveiðin hafi minnkað en fyrir þann tíma hafi einkum verið veiddur þorskur á svæðinu milli Látrabjargs og Ísafjarðar.[384] Eggert ritar:

 

Þegar steinbíturinn gengur upp undir landið í apríl eða jafnvel fyrr, er hann magur, en hann fitnar brátt af skeldýragnótt þeirri, sem hann liggur í nærri landi. … Hann hefur stóran útstæðan maga, sem hann troðfyllir af skeldýrum með skelinni, sem hann þó mylur. Jafnskjótt og sjómenn draga steinbít, slægja þeir hann og fleygja maganum útbyrðis. Þessu er steinbítsmergðin ef til vill mest að þakka, því að sennilega sækja þeir á slíka staði úr öllum áttum. Bátarnir geta líka með þessu móti innbyrt fjórðungi meiri fisk en ella, ef maginn fylgdi. Sjómennirnir verða mjög að varast tennur steinbítsins, þegar þeir veiða hann, en þær eru hvorki eins harðar né brothættar eins og tennur annarra dýra, heldur seigar og líkt og hornkenndar. … Steinbítsgall er sápukennt, og hreinsast skitinn ullardúkur mjög vel, ef hann er þveginn úr því. Það hefi ég sjálfur reynt.[385]

 

Eggert gerir líka góða grein fyrir verkun steinbítsins og nýtingu hans og segir þá meðal annars:

 

Steinbíturinn er hertur eða soðinn og yfirleitt farið eins með hann og þorsk. Ef hann er feitur, er hann bragðgóður nýr og einnig súpa af honum, soðin úr sýru. Þeir, sem vandlátir eru, leggja nýjan steinbít aldrei á gras, heldur á steina, því að þeir segja einróma, að hann skemmist og missi bragðið af að liggja á grasinu. Hertur, vel verkaður steinbítur er hvorki þrár né súr á bragðið, en af honum er sætukeimur, sem minnir á rafabelti og rikling [þ.e. lúðurikling – innskot K.Ó.]. Fátæklingar borða feitan steinbít, bæði nýjan og hertan viðbitslausan, því að þeim reynist þorskurinn, sem hafa verður smjer með, of dýr fæða. … Þeir landsmanna, sem skynsamastir eru, telja það þjóðarhapp, að steinbítur er ekki verslunarvara, því að þótt þorskurinn bregðist, þá fæst þó þessi fiskur alltént sem í undangengnum harðærum hélt lífinu í fjölda manns, ekki einungis á Vestfjörðum, heldur einnig á Norður- og Suðurlandi.[386]

 

Eggert getur þess sérstaklega að jafnframt því sem steinbítsaflinn hafi aukist hafi steinbíturinn gengið nær landi en áður og þurfi menn oft ekki að róa lengra eftir honum en svo að hægt er að kalla til bátanna úr landi.[387]

Sú fullyrðing Eggerts að steinbíturinn hafi haldið lífinu í fjölda manns á harðindaárunum upp úr 1750 er án vafa rétt og fyllsta ástæða til að ætla að þessi góði matfiskur hafi bæði þá og oft endranær bægt sulti og seyru frá dyrum margra Vestfirðinga.

Í Ferðabók sinni gerir Eggert nokkra grein fyrir verðlagi á steinbítnum sem virðist hafa verið mjög sveiflukennt. Venjulegt verð segir hann vera einn sléttan dal til 5 mörk spesíumyntar fyrir 60 steinbíta[388] og á þá vafalítið við hertan fisk. Eggert lætur þess hins vegar getið að í hörðum árum stígi verðið upp í einn ríkisdal spesíumyntar fyrir 60 steinbíta en nú síðustu árin hafi menn getað fengið þetta sama magn fyrir 2 mörk krónumyntar.[389] Séu allar þessar verðtölur Eggerts umreiknaðar og þeim breytt í skildinga spesíumyntar verður útkoman sú að venjulegt verð á 60 steinbítum hafi verið 80-90 skildingar, í hörðum árum hafi það farið upp í 96 skildinga en fallið síðustu árin niður í 30 skildinga.[390] Þetta mikla fall er reyndar dálítið tortryggilegt en hafa ber í huga að steinbíturinn var ekki lagður inn í verslanir og því aðeins um að ræða verð í innanlandsviðskiptum. Verið getur að í sumum árum hafi svo mikið borist að landi að verðið hafi af þeim ástæðum hrapað niður úr öllu valdi.

Það verð sem Eggert telur greinilega vera eðlilegt var 80-90 skildingar spesíumyntar fyrir 60 steinbíta eða um það bil 1,4 skildingar fyrir hvern steinbít. Einn gildur þorskur sem fullhertur var eitt kíló á þyngd var hins vegar talinn 2ja skildinga virði (sjá hér bls. 47) og sjá menn þá verðmuninn á þorski og steinbít eins og hann var á árunum kringum 1760.

Sumarið 1901 ferðaðist Bjarni Sæmundsson fiskifræðingur um Vestfirði og minnist á steinbítsveiðar Súgfirðinga í ritgerð sem hann birti í Andvara tveimur árum síðar. Hann segir þar:

 

Úti fyrir firðinum eru ein hin bestu steinbítsmið hér við land. … Súgandafjörður er því hið helsta steinbítsaflapláss á Vestfjörðum og hefur verið það lengi. Steinbíturinn er snemma vors í djúpinu en gengur á grunn þegar á líður. Er hann ýmist aflaður á lóðir eða færi og hertur líkt og riklingur. Roðið er haft nokkuð til skæða á Vestfjörðum.[391]

 

Ólafur Olavius, sem fór í rannsóknarleiðangur um Vestfirði á vegum stjórnvalda sumarið 1775, segir að frá verstöðvunum í Súgandafirði, Önundarfirði og Dýrafirði ætti að stunda sjó á stórum bátum eða fiskiskipum og sækja á djúpmið.[392] Líkur benda til að fáum árum áður en Olavius ferðaðist um Vestfirði hafi Súgfirðingar átt 3 áttæringa (sjá hér bls. 44-45). Hálfri öld síðar hafði þessum stóru bátum fjölgað dálítið því árið 1821 áttu bændur í Súgandafirði 5 áttæringa og hálfum betur.[393] Úr því fór áttæringum þeirra að fækka eins og hér má sjá á Töflu 5, sem sýnir bátaeign Súgfirðinga á árunum 1820-1880, en hún er birt hér á bls. 57.

Í formannavísum sem Gunnlaugur Arason orti um bátaformenn í Súgandafirði árið 1820 eru nefndir 14 slíkir[394] og má ætla að þar séu taldir upp allir sem stýrðu skipi til veiða á vorvertíð það ár. Höfundur vísnanna lætur yfirleitt nægja að nefna skírnarnafn þeirra sem hann yrkir um í þessum vísum en getur hvorki um föðurnafn eða nafn bæjarins sem menn bjuggu á.[395] Með hjálp manntalsins frá 1816 og þá vitneskju í huga að oftast voru það bændurnir sjálfir sem gerðust formenn á vertíðinni má hins vegar setja fram býsna líklega tilgátu um föðurnafn og bústað nær allra þessara fjórtán formanna.[396]

Magnús, sem fyrstur allra formannanna er nefndur til sögu, er vafalítið Magnús Guðmundsson, bóndi í Bæ.[397] Nöfnin í formannavísunum benda til þess að átta aðrir bændur í Suðureyrarhreppi hafi líka verið formenn árið 1820, þeir Jón Bjarnason á Gelti sem í vísunum er nefndur Jón frá Gelti, Ólafur Jónsson á Gilsbrekku, Sigurður Jónsson í Botni, Brynjólfur Jónsson í Botni, Ari Þorkelsson á Kvíanesi, Örnólfur Snæbjörnsson á Suðureyri, Þorgils Erlingsson í Bæ og Guðmundur Jónsson í Fremri-Vatnadal.[398] Um þann sem hér var síðast nefndur mun þó rétt að hafa allsterkan fyrirvara á því að einnig kemur til greina Guðmundur Úlfsson sem árið 1816 var 25 ára gamall bóndasonur í Botni, síðar bóndi á Laugum. Búnaðarskýrslur frá árinu 1821 og sóknarmannatal frá sama ári sýna að allir þessir bændur bjuggu þá enn í Súgandafirði nema Jón Bjarnason sem fluttist á því ári að Sæbóli á Ingjaldssandi[399] (sjá hér Sæból).

Hér hefur enn ekki verið minnst á fimm af þessum fjórtán formönnum frá árinu 1820 en í vísum Gunnlaugs Arasonar nefnir hann þá svo: Finnbjörn, Kjartan, Jón frá Marðareyri, Hákon og Jón Guðmundsson.[400]

Sé litið á manntalið frá árinu 1816 kemur aðeins einn Finnbjörn til greina, það er Finnbjörn Ólafsson, faðir búandi ekkju í Ytri-Vatnadal,[401] en samkvæmt þeirri heimild var hann orðinn 70 eða 71 árs vorið 1820.[402] Enginn annar Finnbjörn var til á öllum Vestfjörðum árið 1816, ef marka má manntalið frá því ári,[403] svo óhætt mun að slá því föstu að það sé gamli maðurinn í Vatnadal sem enn var formaður árið 1820. Hann dó árið 1822.[404]

Kjartan var enginn til í Súgandafirði árið 1820[405] svo óhætt mun að fullyrða að formaðurinn með því nafni hafi verið aðkomumaður. Nær fullvíst má reyndar telja að þessi formaður sé Kjartan Ólafsson, bóndi á Eyri í Önundarfirði og síðar í Tröð, en hann var 28 ára gamall vorið 1820 og hafði fáum árum áður gengið að eiga heimasætu frá Gelti í Súgandafirði (sjá hér Tröð) og kynni að hafa róið þaðan.

Jón frá Marðareyri, sem sagður er hafa verið formaður og róið frá Súgandafirði árið 1820, er vafalaust að kalla sá Jón Bjarnason sem var bóndi á Marðareyri í Veiðileysufirði í Jökulfjörðum árið 1816, þá 44 ára gamall,[406] en hann var þá nýlega kvæntur 20 árum yngri stúlku úr Súgandafirði, Sigríði Þorkelsdóttur frá Norðureyri.[407] Sjálfur var Jón dóttursonur Sigfúsar Erlingssonar, áður bónda á Kvíanesi í Súgandafirði.[408]

Hákon sá sem var einn fjórtán formanna í Súgandafirði árið 1820 er að öllum líkindum Hákon Bergsson, sem árið 1816 var 14 eða 15 ára bóndasonur í Staðarhúsum,[409] og því aðeins 18 eða 19 ára vorið 1820. Hann hefur því verið í yngsta lagi til að gerast formaður svo telja verður að einnig komi til greina Hákon Hákonarson, bóndi í Tungu í Önundarfirði, en kona hans var úr Súgandafirði.[410]

Um Jón Guðmundsson, sem hér er nefndur síðastur þessara formanna, er best að segja sem minnst. Aðeins einn maður með því nafni, sem náð hafði 16 ára aldri, var búsettur í Suðureyrarhreppi árið 1820 og var það 21 árs gamall vinnupiltur á Norðureyri.[411] Hugsanlegt er að hann hafi verið formaður á einum bátnum en getur þó ekki talist mjög líklegt. Annar sem líka kemur til greina er Jón Guðmundsson, sem árið 1816 var 25 ára gamall vinnumaður á Breiðabóli í Skálavík, en hann var fæddur í Selárdal í Súgandafirði.[412]

Hér hafa nú með gildum líkum verið leitaðir uppi nær allir formennirnir í Súgandafirði sem Gunnlaugur Arason orti um árið 1820. Vísur hans eru hins vegar ekki merkilegur kveðskapur og ástæðulaust að halda mörgum þeirra á lofti. Sem sýnishorn verða tvær þó látnar fylgja hér með og er önnur um Örnólf Snæbjörnsson á Suðureyri en hin um Brynjólf Jónsson í Botni:

 

Geðs í þeli þýðlyndur,                          Búinn prýði Brynjólfur          

þrekinn vel og stífur.                           borða skíðið smáa

Áls um mela Örnólfur                          lætur skríða laglegur

áraskel fram drífur.                             ljóst um víði bláa.[413]

 

Um nafn höfundar vísnanna fer ekkert á milli mála því að sjálfur kynnir hann sig svo:

 

Gjörði ljóðin Gunnlaugur,

grundu þara viður,

síst hjá þjóðum siðugur,

sagður Ara niður.[414]

 

Árið 1815 orti Gunnlaugur rímu um bændur í Önundarfirði (sjá hér Garðar) og hann mun hafa dvalist langdvölum á Vestfjörðum en verið Skagfirðingur að uppruna. Erfitt er að rekja feril þessa norðlenska rímnaskálds því nafn hans er hvergi að finna í manntölunum frá 1801 og 1816.[415] Á manntali frá árinu 1845 er Gunnlaugur Arason skráður til heimilis hjá Páli Jónssyni í Hrauni í Keldudal í Dýrafirði.[416] Hann er þar sagður vera ókvæntur 56 ára gamall vinnumaður, fæddur í Fagranessókn í norðuramti.[417] Ætla má að þetta sé sami Gunnlaugur Arason og sá sem orti formannavísurnar í Súgandafirði aldarfjórðungi fyrr því mjög ólíklegt verður að telja að tvo menn með þessu nafni, búsetta í Vestur-Ísafjarðarsýslu, vanti í manntölin frá 1801 og 1816. Gunnlaugur rímnaskáld hefur því fæðst norður á Reykjaströnd í Skagafirði árið 1789 eða því sem næst og líklega verið sonur hjónanna Ara Péturssonar og Margrétar Sveinsdóttur sem bjuggu í Hólakoti á Reykjaströnd á árunum 1786-1798.[418] Um uppvöxt hans og flutning til Vestfjarða liggja hins vegar engar upplýsingar á lausu, enda langt síðan prestsþjónustubækurnar úr Fagranessókn urðu eldi að bráð. Sú staðreynd að nafn Gunnlaugs skuli vanta í manntölin frá 1801 og 1816 gæti reyndar bent til þess að hann hafi snemma lagst í ferðalög og máske verið flakkari um skeið á sínum yngri árum.

Haustið 1850 var Gunnlaugur Arason orðinn sveitarómagi hjá Símoni Sigurðssyni, bónda og skútuskipstjóra á Dynjanda í Arnarfirði.[419] Hann var þá liðlega sextugur að aldri og í manntalinu frá 1850 er tekið fram að þessi gamli niðursetningur sé fæddur í Skagafirði.[420] Fimm árum síðar var hann enn ómagi hjá Símoni á Dynjanda og við Dynjanda er hann kenndur í handritaskrá Landsbókasafnsins en í því ágæta safni eru nú varðveittar vísur Gunnlaugs um formennina í Súgandafirði árið 1820 og ríman frá 1815 um bændurna í Önundarfirði.[421]

Eins og hér hefur áður verið nefnt voru það fjórtán formenn sem Gunnlaugur orti vísur um í Súgandafirði árið 1820. Vera má að þá hafi bátar Súgfirðinga samt verið aðeins fleiri en sú tala gefur til kynna því hugsanlegt er að sumum minnstu bátunum hafi ekki verið haldið til veiða með reglubundnum hætti. Búnaðarskýrslur frá árinu 1821 sýna að þá töldust Súgfirðingar eiga átján báta og hálfum betur eins og sjá má á Töflu 5 sem hér er birt en hún sýnir bátaeign manna í Suðureyrarhreppi á árunum 1820-1880. Til hliðsjónar við þær upplýsingar sem fram koma á töflunni skal þess getið að árið 1824 gengu 12 skip til veiða frá lendingarstöðum í Suðureyrarhreppi.[422] Líklegt er að orðið skip hafi aðeins verið notað um sexæringa og þaðan af stærri báta en vera kann að sum þessara tólf skipa hafi verið í eigu manna sem ekki voru búsettir í hreppnum.

 

 

Tafla 5

 

Bátaeign Súgfirðinga 1820-1880

 

–  Fjöldi báta og stærð þeirra  –

 

Áttæringar og             Sexæringar og                              Heildarfjöldi

Ár              stærri bátar               fjögra manna för       Minni bátar          bátanna

 

1821 5 ½ 5 8 18 ½
1827 3 ½ 6 8 17 ½
1830 2 ½ 4 9 15 ½
1834 3 3 ½ 8 14 ½
1837 2 ½ 2 ½ 10 15
1840 2 5 12 19
1850 ½ 5 11 16 ½
1860 2 3 13 18
1870 0 3 12 15
1880 0 13 4 17

 

Þær upplýsingar sem  hér eru birtar um fjölda báta og stærð þeirra er að finna í búnaðarskýrslum[423] og má ætla að þær séu nokkurn veginn réttar. Á skýrslueyðublöðunum eru áttæringar og þaðan af stærri bátar flokkaðir undir einn hatt og þess vegna segir hér áttæringar og stærri bátar en mjög ólíklegt verður þó að telja að einhver af bátum Súgfirðinga á þessu skeiði hafi verið stærri en áttæringur.

Við skoðun töluraðanna í Töflu 5 kemur í ljós að á árunum 1820-1850 reynast einstakir bændur í Súgandafirði alloft hafa átt hálfan bát á móti einhverjum utansveitarmönnum sem ekki er auðvelt að sjá hverjir voru. Síðasta dæmið um þetta, sem fram kemur á töflunni, varðar Þórarin Einarsson á Suðureyri sem árið 1850 átti hálfan áttæring en enginn annar Súgfirðingur átti þá hlut í svo stóru skipi[424] svo meðeigandinn hlýtur að hafa búið utan Suðureyrarhrepps.

Á árunum 1821-1840 fækkaði áttæringum Súgfirðinga úr fimm og hálfum í tvo og árin 1870 og 1880 var enginn áttæringur til í Súgandafirði ef marka má hinar opinberu skýrslur. Annan áttæringinn sem til var í Súgandafirði árið 1860 átti Guðmundur Guðmundsson á Suðureyri en hinn áttu þau saman, Guðmundur Jóhannesson í Bæ og Guðrún Ólafsdóttir, búandi ekkja í Selárdal,[425] en hún hafði verið gift Gissuri Einarssyni, bónda þar, sem andaðist árið 1854.[426]

Eins og hér hefur áður verið nefnt áttu Súgfirðingar tólf báta eða því sem næst árið 1710 og níu báta árið 1762 (sjá hér bls. 42 og 44). Á Töflu 5 má hins vegar sjá að á árunum 1820-1880 var fjöldi báta í Suðureyrarhreppi yfirleitt á bilinu frá 14 til 19. Líkur benda til að á átjándu öldinni hafi bátarnir hins vegar verið stærri en almennt var um miðbik nítjándu aldar. Þeirri kenningu til styrktar má nefna að árið 1762 var meirihluti bátanna í Súgandafirði sexæringar og áttæringar (sjá hér bls. 44-45) en á tímabilinu frá 1830 til 1870 var meirihluti bátanna minni en fjögra manna för (sjá hér bls. 56), það er að segja tveggja og þriggja manna för. Árið 1870 var svo komið að Súgfirðingar áttu enga áttæringa og aðeins þrjá báta sem voru sexæringar eða fjögra manna för en í hreppnum voru þá tólf bátar af minnstu gerðinni (sjá hér bls. 56). Hér hafði því orðið mikil afturför frá því sem áður var.

Í Töflu 5 sem birt er hér litlu framar og byggð er á búnaðarskýrslum eru Súgfirðingar sagðir hafa átt 13 sexæringa og fjögra manna för árið 1880 (sjá bls. 57). Í annarri opinberri skýrslu eru bátar þessir hins vegar sagðir hafa verið 11 þetta sama ár.[427] Líklegt er að tala bátanna hafi tekið einhverjum breytingum frá upphafi til loka ársins og báðar tölurnar gætu því verið réttar. Ef marka má hina opinberu skýrslu um þilskip, opin skip og báta frá árinu 1880 voru þetta reyndar allt fjögurra manna för.[428] Í sams konar skýrslum frá árunum 1881-1883, 1885 og 1887 sést að Súgfirðingar áttu þá enga báta sem voru stærri en fjögurra manna för en fjöldi þeirra var þá jafnan á bilinu frá 12 og upp í 16.[429]

Árið 1888 náðu Súgfirðingar loks að eignast sexæring á ný og árið eftir fjölgaði sexæringunum upp í fimm ef marka má þessar opinberu skýrslur.[430] Árið 1897 voru sexæringarnir líka fimm eins og sýnt er í Töflu 6 sem hér er birt á bls. 65.

Séra Andrés Hjaltason, prestur á Stað, gerir nokkra grein fyrir sjósókn Súgfirðinga á árunum kringum 1840 í sóknarlýsingu sinni frá árinu 1839 og greinir m.a. frá því að eina veiðarfærið, sem menn noti við almennar fiskiveiðar, sé handfæri.[431] Í tíundarskýrslum frá árunum 1857 og 1858 sést hins vegar að þá voru a.m.k. tveir menn í Súgandafirði komnir með nokkrar lóðir, þeir Guðmundur Sturluson í Botni og Páll Guðmundsson á Kvíanesi,[432] og á síðustu árum 19. aldar reru Súgfirðingar yfirleitt með lóðir á vetrarvertíð.[433]

Um sjóróðra og sjávarafla sóknarbarna sinna ritar Andrés prestur á Stað á þessa leið í fyrrnefndri ritgerð frá árinu 1839:

 

Hákalla og allsslags fiskiveiði stunda Súgfirðingar allkappsamlega. Fiskast hér þorskur, steinbítur, ýsa, langa, skata og flyðrur, stærri eður minni, sem og hrognkelsaveiði á vorum. Gefst þetta fiskirí meira eður minna öllum tímum ársins og er það þar eftir stundað. Þó er hér ekki haldin regluleg vertíð utan á vorum … .

Af því sem hér er sagt frá háttum og atferli Súgfirðinga sést að þeirra höfuðatvinnuvegir eru sjóarafli og kvikfjárrækt. Styður þetta svo hvort annað að vant er að segja hvort öðru skal fyrri teljast. … Á páskum byrjar vorvertíðin og viðvarir þangað til í 12. viku sumars. Þá tekur sláttur við sem endast í 21. til 22. viku sumars [þ.e. um miðjan eða upp úr miðjum september – innsk. K.Ó.]. Þar næst er sinnt þeim siðvanalegu haustverkum og peningshirðing þegar vetrar og þess á milli, þá veður leyfir, er róið til fiskjar framan af vetrum en fyrir hákall þá upp á líður veturinn, allt þar til vorvertíð byrjar aftur.[434]

 

Séra Andrés segir þarna að í Súgandafirði hafi vorvertíðin endað í 12. viku sumars en Kristján G. Þorvaldsson, sem fæddist í Súgandafirði árið 1881 og átti þar heima langa æfi, segir vorvertíð hafa staðið frá páskum til endaðrar 12. viku sumars.[435] Um aldamótin 1900 stóð vetrarvertíð í Súgandafirði frá nýári til páska, vorvertíð frá páskum til laugardagsins í 12. viku sumars og haustvertíð frá fyrstu dögunum eftir göngur (um 20. sept.) og fram að áramótum.[436]

Ólafur Olavius getur um nokkur fiskimið Súgfirðinga og Önfirðinga er hann heyrði talað um árið 1775 og kemst þá svo að orði:

 

Í Önundar- og Súgandafirði eru þessi mið: Atlastaðastekkur, Eldingar, Hamar, Kvíarhæll, Kvíarauga, Hundahæll, Stigi, Víkingur og Ritur. Þau eru öll 2-4 mílur í hafi úti og þar er leir- eða skeljasandsbotn.[437]

 

Séra Andrés Hjaltsson nefnir líka nokkur fiskimið Súgfirðinga, sem kunn voru um 1840, og eru þau öll talin upp hjá Olaviusi nema Melar sem séra Andrés bætir við.[438] Í upptalningu hans falla hins vegar niður fjögur mið, sem Olavius getur um, það er Atlastaðastekkur, Hamar, Víkingur og Ritur.[439] Þau fáu mið sem séra Andrés telur upp segir hann öll vera dýpra eður grynnra norður og ofanundan Súgandafirði[440] en um hákarlamið Súgfirðinga kemst hann svo að orði: En hákallamið eru engin viss, utan sem meira eður minna er haldið til hafs uns að komið er landsbrún allt nær.[441]

Um fiskimið Súgfirðinga á síðustu áratugum 19. aldar og fyrri hluta 20. aldarinnar hefur Kristján G. Þorvaldsson ritað mjög ýtarlega og nefnir þar 143 mið. Sú ágæta greinargerð ásamt nafnaskrá er aðgengileg hverjum sem skoða vill og verður því látið nægja að vísa til hennar hér.[442] Í Súgfirðingabók sem út kom árið 1977 nefnir Gunnar M. Magnúss líka 33 fiskimið Súgfirðinga[443] en flest þeirra eru einnig nefnd hjá Kristjáni.

Á árabátum var sjaldan farið dýpra til fiskiveiða en á Kleif[444] sem er mið þar sem Miðvíkurfjall í Aðalvík kemur fram undan Ritnum.[445] Miðvíkurfjall sem þarna er nefnt mun vera fjallið norðan við Miðvík en það heitir Mannfjall á máli þeirra sem hafa fast land undir fótum.[446] Klettabrún á hálsinum sem gengur út frá Mannfjalli heitir Kleif[447] og þar mun komin skýring á nafni fiskimiðsins sem áður var nefnt.

Allra dýpstu mið út af Súgandafirði, sem fyrri tíðar menn sóttu á, voru Björgin en þau eru þar sem Hælavíkurbjarg og Hornbjarg koma fram undan Kögri.[448]

Oft var skammt að fara til að fá sér í soðið því fiskur gekk inn í fjörðinn, að öllum jafnaði þó ekki lengra en á móts við Brimnes, að því er segir í heimild frá árunum kringum  aldamótin 1900,[449] en Brimnesið er um hálfum kílómetra fyrir utan ystu húsin í þorpinu á Suðureyri. – Þó kom fyrir að stútungsþorskur fiskaðist inn við Hlíðarhús, skrifar Magnús Hjaltason árið 1913,[450] en þau eru aðeins liðlega tveimur kílómetrum fyrir utan botn fjarðarins (sjá hér Kvíanes).

Í skrifum Kristjáns G. Þorvaldssonar er að finna ýmsan fróðleik um sjósókn Súgfirðinga á síðustu áratugum 19. aldar og nefnir hann meðal annars að í Súgandafirði hafi verið gömul venja að menn hefðu mat með sér á sjóinn en slíkt hafi ekki tíðkast í sumum verstöðvum við Djúp, þar hafi blöndukúturinn einn verið látinn nægja.[451] Matinn sem Súgfirðingar höfðu með sér í sjóferðum geymdu þeir í skinnskjóðum svo hann blotnaði ekki og kútur með sýrublöndu til drykkjar fylgdi jafnan með.[452] Á öðrum stað ritar Kristján á þessa leið:

 

Innsveitarmenn og Suðureyringar reru frá Suðureyrarmölum, höfðu þeir verbúðir þar og voru í þeim á vorin og einnig þegar róið var á haustvertíð. Á vetrum var langróið og sjaldan á sjó farið. Voru menn þá venjulega heima en gengu til skipa sinna þegar leit út fyrir gæftir. Staðarmenn reru frá Keravík en Bæjarmenn og Vatnadals frá Árós og Stöð. Voru á báðum stöðunum verbúðir sem verið var í vor og haust. Galtarmenn höfðu uppsátur ýmist í Galtarlandi [Galtarland er sérstakt örnefni í landi Galtar – sjá hér Göltur K.Ó.] eða á Stekk. Einn bóndinn þar hafði uppsátur undir bökkunum innan við Stalla en ekki mun hann hafa getað haft bát þar nema á vorin. Uppsátur þetta var nær bænum en hinir staðirnir en því fylgdu aðrir ókostir svo það var lagt niður.[453]

 

Bæði Magnús Hjaltason og Kristján G. Þorvaldsson geta um hrognkelsaveiðar Súgfirðinga á síðustu árum 19. aldar. Magnús segir að grásleppa hafi veiðst í firðinum utanverðum og alveg inn undir Selárdal[454] en Kristján lætur þess getið að konur og börn hafi stundað hrognkelsaveiðar á vorin meðan karlmennirnir voru í veri.[455]

Á öðrum stað í ritgerð Kristjáns, sem hér hefur verið vitnað til, kemst hann svo að orði:

 

Fiskiveiðar hafa eflaust verið mjög þýðingarmiklar fyrir afkomu Súgfirðinga allt frá fyrstu tímum og ávallt mun fiskur hafa gengið í fjörðinn og verið í honum síðari hluta vors og sumartímann þó ekki væri það notað til fulls fyrr en menn lærðu að hafa kúfisk til beitu. Þó var á sumrum, jafnvel inni á innri firði veitt nokkuð til matar og á síðari hluta 19. aldar var veitt nokkuð af lúðu á Boða út og fram af Suðureyri.

Auk þess sem sjór var stundaður að heiman fóru nokkrir menn til róðra á vetrum í verstöðvar við Djúp. Voru það menn sem farið gátu frá heimilisstörfum. Margir voru líka á þilskipum eftir að útgerð þeirra hófst í nágrenninu. Viðhorfið breyttist smátt og smátt en með vélabátunum urðu fyrst veruleg straumhvörf í lifnaðar- og atvinnuháttum.[456]

 

Kristján G. Þorvaldsson nefnir þarna að fiskveiðar inni á sjálfum firðinum hafi aukist til muna þegar farið var að beita kúfiski en hann reyndist vera ágæt beita á öllum grunnmiðum.[457] Súgfirðingar munu fyrst hafa notað kúfisk til beitu árið 1893 en á því ári kom Kristján Albertsson á Suðureyri sér upp tækjum til kúfisköflunar.[458] Áður var notuð ljósabeita, kræklingur eða fjörumaðkur.[459] Ljósabeitan, er svo var nefnd, voru smástykki úr þessum eða hinum fiskum, t.d. grásleppu, lúðu, keilu eða ufsa[460] (sjá hér Eyri). Ekki var ýsu beitt nema hörgull væri á annarri fiskbeitu og þá sem allra smæstri ýsu.[461] Steinbítslifur þótti góð beita.[462] Smokkfisk mun lítið hafa verið beitt fyrr en vélbátarnir komu til sögunnar og smásíld, sem veidd var inni í Ísafjarðardjúpi, var erfitt að ná í fyrir daga vélbátanna því hana varð að sækja til Ísafjarðar og bera í kössum yfir Botnsheiði.[463] Eitthvað var þó um slíkar ferðir og báru menn þá síldarkassana tvo í bak og fyrir.[464]

Á árunum 1897-1900 áttu Súgfirðingar 14-18 báta sem reru til fiskjar eins og sjá má í opinberum fiskaflaskýrslum frá þeim árum[465] og fjölgaði þeim á þessum árum úr fjórtán í átján.[466] Stærstu bátarnir á síðustu árum 19. aldar voru sexæringar.[467] Oftast áttu Súgfirðingar þá fimm sexæringa en þó sjö árið 1898.[468] Á árunum 1897-1900 voru fjögurra manna för í eigu Súgfirðinga stundum ekki nema tvö en árið 1900 fjölgaði þeim úr tveimur í sjö.[469] Á þessum árum voru tveggja manna förin sem róið var til fiskjar frá Súgandafirði ýmist fimm, sex, sjö eða átta.[470]

Á fjórum síðustu árum 19. aldar var árlegur meðalafli bátaflota Súgfirðinga sem hér segir: 7.912 þorskar, 31.896 þyrsklingar, 8.512 ýsur og 9.495 steinbítar.[471] Í hinum opinberu skýrslum, sem hér er byggt á, er allur þorskafli flokkaður í þorska og þyrsklinga og má ætla að allur málfiskur hafi flokkast sem þorskur en hinir smærri þorskar sem ekki náðu tilskilinni stærð kölluðust þyrsklingar. Almenna viðmiðunin var sú að málfiskur mátti ekki vera styttri en 18 þumlungar, það er liðlega 47 sentimetrar.

Sé nú gert ráð fyrir að sjómennirnir, sem reru frá Súgandafirði á þessum árum, hafi verið jafn margir og árarnar, það er sex menn á öllum sexæringum en tveir á tveggja manna förum, má ætla að þeir hafi verið 56 árið 1897, 64 árið 1898, 54 árið 1899 og 70 árið 1900.[472] Afli á mann verður þá sem hér segir:

 

Árið 1897 – 174 þorskar, 428 þyrsklingar, 186 ýsur og 165 steinbítar.

Árið 1898 – 108 þorskar, 387 þyrsklingar, 133 ýsur og 185 steinbítar.

Árið 1899 – 106 þorskar, 533 þyrsklingar, 149 ýsur og 140 steinbítar.

Árið 1900 – 132 þorskar, 667 þyrsklingar, 104 ýsur og 133 steinbítar.

 

Mjög takmarkaðar upplýsingar liggja fyrir um fjölda róðrardaga hjá hverjum bát en gera má ráð fyrir að tala sjóferðanna hjá hinum ýmsu formönnum hafi verið ákaflega breytileg. Við nánari athugun á nýnefndum fiskaflaskýrslum vekur athygli hversu stóran hluta aflans minnstu bátarnir báru að landi. Á árunum 1897-1900 var árlegur meðalafli á hverja ár hjá þeim sem reru á tveggja manna förunum um 1.350 fiskar en aðeins um 800 fiskar hjá þeim reru á fjögurra manna förum og innan við 1.000 fiskar á sexæringunum.[473] Við þá útreikninga var þó einum sexæring sleppt úr 1897, 1898 og 1900 þar eð afli hans var svo lítill að bersýnilegt var að hann hafði aðeins farið í örfáa róðra. Líklegt er að meðalafli á mann hafi verið sá sami og meðalafli á hverja ár eða því sem næst eins og hér hefur áður verið gerð grein fyrir.

Þessi skipting aflans milli stærri og minni bátanna bendir eindregið til þess að lítill hluti heildaraflans hafi borist að landi yfir vetrarmánuðina þegar minnstu bátarnir komust síst á sjó. Því til staðfestingar má líka nefna að nákunnugur fróðleiksmaður greinir svo frá að suma vetur á síðasta fjórðungi nítjándu aldar hafi bátar Súgfirðinga aðeins náð að fara í sára fáar sjóferðir.[474]

Í hinum opinberu fiskaflaskýrslum er nefndur eigandi að hverjum bát en þess ekki getið hver hafi verið formaður.[475] Fullvíst er að oft hefur eigandinn líka verið formaður á bátnum en algild regla var það að sjálfsögðu ekki. Sumir útgerðarmannanna í Súgandafirði á þessum árum áttu reyndar tvo eða jafnvel þrjá báta í senn[476] og hafa þá varla verið formenn á þeim öllum. Þó er reyndar hugsanlegt að einn og sami maður hafi stýrt tveimur eða þremur mismunandi stórum bátum til veiða, öllum á sama árinu. Gátu menn þá valið sér bátsstærð eftir því sem best hentaði á hverjum árstíma. Í fiskaflaskýrslunum frá síðustu árum 19. aldar er aldrei nefndur nema einn eigandi að hverjum bát.[477] Vel er þó hugsanlegt að einhverjir bátanna í Súgandafirði hafi þó verið í eigu tveggja eða fleiri manna en skýrsluhöfundar látið duga að geta um þann sem talinn var aðaleigandi eða sá um útgerð bátsins. Nefna verður hér að í skýrslunum er Kristján Albertsson á Suðureyri aðeins talinn eiga einn bát, tveggja manna far, 1897 og 1898 en engan 1899 og 1900.[478] Í þessum sömu skýrslum frá árunum 1897-1900 er Jón Einarsson á Suðureyri, tengdasonur Kristjáns, ætíð sagður eiga þrjá báta, sexæring, fjögurra manna far og tveggja manna far.[479] Í annarri heimild, sem telja verður trausta, er hins vegar frá því greint að Jón Einarsson hafi orðið formaður hjá Kristjáni í septembermánuði árið 1897 og um það leyti hafi Kristján, sem þá var hættur formennsku, aukið umsvif sín í bátaútgerð og stundum átt þrjá eða jafnvel fjóra báta á árunum kringum aldamótin 1900.[480] Augljóst virðist því að Kristján hafi í raun átt bátana, sem Jón tengdasonur hans er talinn fyrir í skýrslunum, eða a.m.k. mjög stóran hlut í þeim en vera má að Jón hafi séð að mestu um útgerð þeirra, auk þess að vera formaður. Athugun á dagbókarskrifum Einars Jónssonar á Suðureyri bendir reyndar til þess að það séu í raun formennirnir sem nefndir eru í hinni opinberu fiskaflaskýrslu frá árinu 1900 þó að í skýrslunni sé talað um eigendur eða úterðarmenn bátanna.[481] Ekki er þó unnt að slá neinu föstu um þetta því tæmandi upplýsingar eru ekki í boði hjá Einari.

Hér verður nú rakið hvaða bátur flutti mestan afla að landi hvert ár á því fjögurra ára skeiði sem hér hefur verið skoðað sérstaklega og verður þá að miða við fjölda fiska eins og gert er í skýrslunum og allar tegundir taldar með. Líka verða nefndir sérstaklega þeir sem voru með mestan afla á hvern skipverja, eða nánar til tekið á hverja ár, og frá því greint hjá hverjum fiskafjöldinn var mestur. Skrá með þessum fróðleik lítur svona út:

 

Ár 1897

Mestur afli á bát: ……….. Sexæringur Guðmundar Sigurðssonar á Laugum (síðar í Bæ), 13.000 fiskar.

Mestur afli á skipverja:…. Tveggja manna far Guðmundar Guðmundssonar á Suðureyri 7.080 fiskar, 3.540 á mann.

Mestur heildarafli:………. Guðmundur Sigurðsson á Laugum – einn sexæringur, 13.000 fiskar.

 

Ár 1898

Mestur afli á bát: ……….. Sexæringur Guðmundar Sigurðssonar á Laugum, 7.260 fiskar.

Mestur afli á skipverja:…. Tveggja manna far Guðmundar Guðmundssonar á Suðureyri, 4.380 fiskar, 2.190 á mann.

Mestur heildarafli:………. Jón Einarsson á Suðureyri, þrír bátar, sexæringur, fjögurra manna far og tveggja manna far. Samtals 15.920 fiskar.

 

Ár 1899

Mestur afli á bát:………… Sexæringur Guðmundar Sigurðssonar í Bæ, 9.040 fiskar.

Mestur afli á skipverja:…. Tveggja manna far Guðmundar Guðmundssonar á Suðureyri, 5.200 fiskar, 2.600 á mann.

Mestur heildarafli:………. Jón Einarsson á Suðureyri, þrír bátar, sexæringur, fjögurra manna far og tveggja manna far. Samtals 15.550 fiskar.

 

Ár 1900

Mestur afli á bát: …………. Sexæringur Jóns Einarssonar á Suðureyri, 9.830 fiskar.

Mestur afli á skipverja: … Tveggja manna far Jóns Einarssonar á Suðureyri, 6.310 fiskar, 3.155 á mann.

Mestur heildarafli: ………. Jón Einarsson á Suðureyri, þrír bátar, sexæringur, fjögurra manna far og tveggja manna far. Samtals 20.460 fiskar.

 

 

Skráin sýnir ljóslega að á síðustu árum 19. aldarinnar voru þeir Guðmundur Sigurðsson, Guðmundur Guðmundsson og Jón Einarsson mestir aflamenn í Súgandafirði en aðrir náðu þar ekki efstu sætunum. Elstur þessara manna var Guðmundur Guðmundsson á Suðureyri, áður bóndi á Laugum, fæddur 1852.[482] Guðmundur Sigurðsson, sem bjó á Laugum til 1899 og síðan lengi í Bæ, var fæddur 1865[483] en yngstur var Jón Einarsson á Suðureyri, fæddur 1873.[484]

Þeir Jón Einarsson, Guðmundur Sigurðsson og Friðbert, sonur Guðmundar Guðmundssonar, urðu fáum árum síðar fyrstir allra í Súgandafirði til þess að koma sér upp vélbátum en þessa fyrstu mótorbáta keyptu þeir allir eða létu smíða árið 1906.[485] Jón Einarsson og Kristján Albertsson, tengdafaðir hans, riðu á vaðið og keyptu í aprílmánuði bát sem þeir nefndu Svan.[486] Þá um sumarið lét Friðbert Guðmundsson smíða fyrir sig mótorbát, er hann gaf nafnið Von, en Guðmundur Sigurðsson og tveir félagar hans, Halldór Guðmundsson og Veturliði H. Guðnason, keyptu á sama ári mótorbátinn Sigurvon.[487] Á þessu fyrsta ári mótorbátaútgerðar frá Suðureyri lét Kristján Albertsson líka smíða upp og setja vél í nýlegan sexæring sem hann átti einn.[488] Sá bátur hét 19. öldin.[489]

Öll saga vélbátaútgerðar frá Súgandafirði heyrir tuttugustu öldinni til og fellur því utan við ramma þessarar ritsmíðar. Aftur á móti sýnist við hæfi að birta hér í töfluformi yfirlit yfir sjósókn og aflabrögð Súgfirðinga um það leyti sem nítjándu öldinni var að ljúka og hafa tvö ár, 1897 og 1900, orðið fyrir valinu. Allar upplýsingar sem fram koma á Töflu 6 og Töflu 7 er hér fylgja eru sóttar í hinar opinberu fiskaflaskýrslur sem hér hafa áður verið nefndar.[490]

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Tafla 6

 

Bátar og afli í fiskiróðrum frá Súgandafirði árið 1897

 

 

 

 

 

Tafla 7

 

Bátar og afli í fiskiróðrum frá Súgandafirði árið 1900

 

Töflurnar tvær hér að framan þarfnast engra skýringa en minnt skal á að ýmsir þeirra sem færðu lítinn afla að landi reru mun sjaldnar en hinir sem mest fiskuðu.

Árið 1900 var Jón Einarsson á Suðureyri sá formaður sem mestan afla dró að landi. Í dagbók föður hans, Einars Jónssonar á Suðureyri, sést að á því ári fór Jón í 106 róðra sem skiptust þannig á hina ýmsu mánuði ársins:

 

janúar ……………  4   róðrar

febrúar …………..  4        –

mars ……………..  6        –

apríl ………………  6        –

maí ……………..  14        –

júní ……………..  23        –

júlí ………………  15        –

ágúst ……………  10        –

september ………  9        –

október ………….  9        –

nóvember ………  2        –

desember ……….  4        –    [491]

 

Á bls. 65, hér litlu framar, sjáum við að árið 1900 veiddu Jón Einarsson og skipverjar hans 20.460 fiska og er þá aðeins talinn með þorskur, ýsa og steinbítur. Að jafnaði hefur aflinn úr hverjum róðri því verið um það bil 200 fiskar. Mest af aflanum var lagt inn hjá útibúi Ásgeirsverslunar á Suðureyri sem virðist hafa greitt 6 aura fyrir hvert pund af þorski.[492] Dagbókarskrif Einars Jónssonar sýna að á þessu ári stýrði Jón þremur bátum til veiða, sexæring, fjögurra manna fari og skektu[493] sem ætla má að hafi verið tveggja manna far. Allt kemur það heim og saman við það sem sagt er í hinni opinberu fiskaflaskýrslu (sjá hér töflu 7 á bls.65). Í janúar, febrúar og mars reri Jón á sexæringnum og líka á vorvertíðinni sem stóð frá því um páska og til 10.júlí.[494] Síðari hluta sumars reri hann yfirleitt á skektunni en um haustið, frá 25. september og fram í miðjan nóvember, á fjögurra manna farinu.[495] Að svo hafi verið sést m.a. á því að þá var skipt í sex staði.[496] Í fyrsta vetrarróðurinn fór Jón á sexæringnum þann 30. nóvember[497] og fullvíst má telja að í alla desemberróðrana hafi hann farið á sexæringnum.

Dagbókarskrif Einars Jónssonar sýna að á þessu síðasta ári nítjándu aldarinnar reri Jón sonur hans ýmist með línu eða handfæri og oft var kúfiskur notaður í beitu.[498] Einar getur þess líka að í sumarróðrunum, það er frá 10. júlí til 20. september, hafi hásetahluturinn hjá Jóni verið 118,- krónur en 63,- krónur á tímabilinu frá 20. september til 30. nóvember.[499] Til þess að átta sig á þeim tölum er gott að hafa í huga að tímakaup karla í fiskvinnu var þá 20 eða 25 aurar (sjá hér Flateyri).

Hér var þess áður getið að á árunum kringum 1760 hefðu aukahlutir verið þrír við skipti á afla af hverjum bát sem Súgfirðingar gerðu út (sjá hér bls. 45. Um aldamótin 1900 mun venjan hafa verið sú að báturinn fengi einn eða einn og hálfan hlut.[500] Í dagbók Einars Jónssonar frá árinu 1900 sjáum við dæmi um að á sexæring var skipt í átta staði[501] og hefur báturinn þá að líkindum fengið einn aukahlut og formaðurinn annan.

Á vorin og sumrin fóru Súgfirðingar í róður á hvaða tíma sólarhringsins sem var en á haustin og að vetri til var jafnan farið á flot undir morgun svo að orðið væri sæmilega miðaljóst þegar komið var út á fiskimiðin.[502] Formenn á bátum Súgfirðinga reyndu með ýmsum hætti að spá í veður. Jón Ágúst Eiríksson, sem fæddur var árið 1892[503] og var lengi formaður á mótorbátum frá Suðureyri, fræddi Lúðvík Kristjánsson um ýmislegt er varðaði sjósókn Súgfirðinga á árunum kringum aldamótin 1900 og á fyrstu áratugum tuttugustu aldar. Meðal þess sem Jón greindi Lúðvík frá var þetta:

 

Ef ský bar ört fram undan Geltinum var ekki talið róðrarveður og einnig ef hann lagði á Hvilftarnar, enda von á norðaustan veðri. Hvíta þoku lagði þá niður Hvilftarskörðin sem eru upp af innstu bæjunum í firðinum.[504]

 

Hvilftarnar sem þarna er talað um munu vera Botnshvilftar.

Af hegðun og tilburðum sjófuglanna gátu glöggir menn líka séð ýmislegt fyrir um breytingar á veðri. Eftir Jóni Eiríkssyni á Suðureyri, sem hér var síðast nefndur, og mönnum úr öðrum byggðarlögum hefur Lúðvík Kristjánsson þessa visku: Þegar sjófuglar, einkum mávar og veiðibjöllur, sátu mikið á sjó úti eða flugu þar hátt umruðu og höfðu lin vængjatök boðaði það stillu.[505] Ef fuglarnir hringsóluðu sólarsinnis eða kútveltust í loftinu mátti hins vegar búast við mjög slæmu veðri þó að enn væri logn.[506]

 

Hér hefur nú verið fjallað í alllöngu máli um bátaútgerð Súgfirðinga á liðnum öldum. Um þilskipaútgerð frá Súgandafirði, áður en vélar komu til sögunnar, er hins vegar hægt að vera fáorður því héðan var aðeins gerð út ein skúta og bara skamma hríð. Skip þetta, sem var skonnorta og hét Sjófuglinn, keyptu nokkrir Súgfirðingar árið 1883 en heimahöfn þess var áður norður í Eyjafirði.[507] Sjófuglinn mun hafa stundað veiðar á Vestfjarðamiðum um nokkurra ára skeið áður en hann var keyptur til Súgandafjarðar og átti þá nokkur viðskipti við verslun Hjálmars Jónssonar á Flateyri eins og sjá má í verslunarbók frá því fyrirtæki.[508] Þar er líka staðfest að skip þetta hafi verið frá Eyjafirði.[509]

Forgöngumenn um kaupin á Sjófuglinum voru Kristján Albertsson á Suðureyri og Jón Ólafsson, bóndi á Stað.[510] Áttu þeir sinn fjórða partinn hvor í skútunni en þriðja skipsfjórðunginn átti Hjalti Jónsson í Súðavík.[511] Hjalti var eini utansveitarmaðurinn sem átti hlut í skipinu en einn fjórða part í því áttu saman þeir Jóhannes Hannesson, hreppstjóri á Kvíanesi, síðar bóndi í Botni, Tómas Eiríksson í Botni, Guðmundur Jóhannesson í Bæ og Þórður Jónsson í Botni, síðar í Vatnadal.[512] Jóhannes Hannesson, sem var einn eigendanna, tók við skipstjórn á Sjófuglinum þegar skútan kom til Súgandafjarðar og var skipstjóri á henni í um það bil fjögur ár.[513] Útgerðin gekk illa.[514] Skömmu eftir að skúta þessi var keypt til Súgandafjarðar varð hún fyrir miklum skemmdum er hún barst í ofviðri upp á sker innantil við Suðureyrarmalir.[515] Viðgerð tók alllangan tíma en að henni lokinni var ákveðið að skipinu yrði framvegis haldið til veiða frá Flateyri[516] sökum óhægrar aðstöðu í Súgandafirði, og sú varð líka raunin.[517]

Í riti sínu Súgfirðingabók gefur Gunnar M. Magnúss til kynna að Sjófuglinn hafi verið gerður út á vegum Súgfirðinga eitthvað fram yfir 1890[518] en það fær ekki staðist ef marka má opinberar skýrslur. Hér var áður frá því greint að Kristján Albertsson á Suðureyri og sameignarmenn hans hefðu keypt Sjófuglinn árið 1883 en útgerð skipsins frá Súgandafirði mun ekki hafa hafist fyrr en 1884. Í hinar opinberu skýrslur um þilskip, opin skip og báta virðist reyndar vanta skýrslu frá því ári en í skýrslunni fyrir árið 1885 sést að þá áttu Súgfirðingar sem svaraði einu þilskipi og einum fjórða parti í öðru.[519] Þessar opinberu upplýsingar passa alveg nákvæmlega við það sem fram kemur í öðrum heimildum því eins og hér hefur verið greint frá áttu heimamenn í Súgandafirði þrjá fjórðu parta í Sjófuglinum og að auk áttu þeir Jón Ólafsson, bóndi á Stað í Súgandafirði, og Eiríkur Egilsson, húsmaður þar, sinn fjórðunginn hvor í skútunni Ísafold sem kom nýsmíðuð frá Noregi til Flateyrar vorið 1885 og var gerð út þaðan (sjá hér Flateyri). Árið 1887 hafði eignarhlutur Súgfirðinga í þilskipaflotanum minnkað um einn fjórða part úr skipi frá því sem verið hafði tveimur árum fyrr.[520] Nær fullvíst má telja að þeir Jón og Eiríkur á Stað hafi þá verið búnir að selja nær helming af eignarhlut sínum í Ísafold því með vissu er vitað að árið 1892 áttu þeir báðir til samans röskan fjórðung í því skipi (sjá hér Flateyri) en höfðu átt það hálft árið 1885 eins og hér var áður nefnt. Árið 1888 áttu Súgfirðingar enn sem svaraði einu þilskipi en árið 1889 féll eignarhlutur þeirra niður í fjórðung úr skipi.[521] Með hliðsjón af því sem hér hefur verið rakið má telja fullvíst að á því ári hafi þeir selt Sjófuglinn. Að sögn var skipið selt til Patreksfjarðar.[522]

Í hinum opinberu skýrslum, sem hér hefur verið stuðst við, sést að Sjófuglinn hefur verið 26 eða 28 smálestir.[523] Í áhöfninni voru ýmist níu eða tíu menn[524] og á árunum 1885, 1887 og 1888 var skipið jafnan gert út á fiskveiðar en ekki á hákarlaveiðar.[525]

Árið 1885 átti þessi skonnorta Súgfirðinga veruleg viðskipti við útibú Ásgeirsverslunar á Flateyri. Úttekt í vörum og peningum á nafni Sjófuglsins frá nefndri verslun á Flateyri nam á því ári 1.562,87 krónum.[526] Á móti þessari úttekt náðu þeir á Sjófuglinum að leggja inn fisk fyrir 1.454,68 krónur svo 108,19 krónur vantaði upp á að innleggið dygði fyrir úttektinni.[527]  Þann 1. janúar 1885 hafði skuld Sjófuglsins við Ásgeirsverslun á Flateyri verið 223,39 krónur[528] en hækkaði á því ári upp í 318,28 krónur.[529] 13,30 krónur höfðu þá verið gefnar eftir.[530]

Í viðskiptamannareikningi Sjófuglsins hjá versluninni á Flateyri sést að Jóhannes Hannesson var skipstjóri á Sjófuglinum árið 1885 og fékk hann greiddar 286,- krónur í kaup, 115,- krónur í premíu og 33,52 krónur í premíu af eigin drætti eða samtals 434,52 krónur.[531] Til samanburðar skal þess getið að opinbert kýrverð í Ísafjarðarsýslu var þá 109,74 krónur[532] og skútunni virðist aðeins hafa verið haldið úti í 2-3 mánuði yfir hásumarið.[533] Meðal þess sem tekið var út á nafni skipsins voru 26 ½ pottur af brennivíni og 15 pund af kaffi.[534] Kostaði brennivínið 22,53 krónur en kaffið 9,00 krónur.[535]

Hjá versluninni á Flateyri voru árið 1885 lögð inn á reikning Sjófuglsins 4.147 kíló af fiski[536] sem ætla má að allt hafi verið blautur saltfiskur og að auk 37 kútar af lifur og lítilræði af trosfiski.[537] Um það bil helmingur af þessum afla var lagður inn sem hálfdrætti átta nafngreindra manna[538] og má ætla að þar sé að finna nöfn skipsmanna, allra nema skipstjórans, en heimilisfang eða föðurnafn viðkomandi vantar oftast nær svo hér verður ekki reynt að ráða í hverjir mennirnir hafi verið.

Fyrir eitt skippund af málfiski (160 kíló) greiddi Ásgeirsverslun þetta ár 60,- krónur en samsvarandi tala fyrir smáfisk var 40,- krónur, fyrir ýsu 30,- krónur og fyrir löngu 50,- krónur.[539]

Jóhannes Hannesson, sem var einn af eigendum Sjófuglsins, var skipstjóri á honum í fjögur ár, frá 1884 til 1887, en tvö síðustu árin sem Súgfirðingar gerðu skipið út var Páll Þorsteinsson, bóndi í Botni í Geirþjófsfirði, skipstjóri.[540]

 

Enginn veit nú hversu margir Súgfirðingar drukknuðu í sjóróðrum á liðnum öldum. Í rituðum heimildum er fyrst getið um skipskaða hjá Súgfirðingum árið 1685 en Magnús Magnússon, sem þá var sýslumaður Ísfirðinga og sat á Eyri í Seyðisfirði við Djúp, greinir svo frá í annál sínum að sumarið 1685 hafi sex manna skipshöfn úr Súgandafirði farist í róðri en bátur þeirra fundist síðar í hafís.[541] Átta árum síðar, 1693, varð annar skiptapi í Súgandafirði en þá drukknaði aðeins einn maður og hét sá Pétur Ólafsson.[542]

Í lok 18. aldar og á 19. öld fórust a.m.k. fimm bátar frá Súgandafirði með allri áhöfn og á þeim hafa að líkindum verið um það  bil 30 menn. Sá fyrsti þessara fimm báta var frá Gelti og fórst í hákarlalegu sumarið 1800.[543] Tveir bátar sem reru frá Suðureyri fórust vorið 1815.[544] Á jólaföstu árið 1873 fórst í lendingu bátur úr Staðardal á heimleið frá Flateyri og snemma á góu árið 1898 fórst annar bátur úr Staðardal í fiskiróðri.[545] Með þessum tveimur síðastnefndu bátum fórust 11 menn[546] og var það mikið manntjón í fámennum dal þar sem heimilin voru sjaldan fleiri en sex til átta. Frá öllum þessum sjóslysum á árunum 1800-1898 verður sagt nánar síðar í þessu riti þegar komið verður við á bæjunum þar sem viðkomandi formenn áttu heima eða i verstöðinni sem róið var frá.

Á fyrstu árum vélbátaútgerðarinnar urðu Súgfirðingar líka fyrir mjög verulegu manntjóni er þeir misstu þrjá báta á árunum 1911-1913, Hlín 11. september 1911, Höfrung 16. október 1913 og nýja Hlín 11. nóvember 1913.[547] Með þessum þremur bátum fórust 15 menn og voru a.m.k. 9 þeirra búsettir í Súgandafirði en hinir í Önundarfirði og Dýrafirði.[548] Frá þessum síðastnefndu slysförum er sagt nánar í ritinu Firðir og fólk 1900-1999, sjá þar bls. 465.

 

Fyrir Súgfirðinga var á liðnum öldum harla torsótt að komast leiðar sinnar til annarra byggðarlaga. Sjóleiðin fyrir Sauðanes var stundum farin í kaupstaðarferðum til Flateyrar (sbr. hér Bær og Flateyri). Sú leið er um það bil 8 sjómílur ef lagt er upp frá Árós í Staðardal og má búast við að menn hafi sjaldan verið minna en 3 til 4 tíma að róa þennan spöl svo að 6 til 8 klukkutímar hafa þá farið í ferðirnar fram og til baka. Sjóleiðin úr Súgandafirði til verslunarstaðarins á Skutulsfjarðareyri, þar sem nú er Ísafjarðarkaupstaður, er svo meira en tvöfalt lengri en leiðin til Flateyrar eða um 20 sjómílur. Af eðlilegum ástæðum fóru Súgfirðingar því yfirleitt landveg í sínar kaupstaðarferðir á Ísafjörð en þegar gott var í sjóinn að sumarlagi brugðu menn þó stöku sinnum á það ráð að róa alla þessa löngu leið.[549] Væri logn og sléttur sjór hafa menn náð að róa úr Súgandafirði í kaupstaðinn við Skutulsfjörð á átta eða níu klukkutímum en í andviðri gat slík ferð tekið mun lengri tíma. Til viðmiðunar má hafa í huga að Valdimar Þorvaldsson frá Selárdal í Súgandafirði, sem á yngri árum var háseti á áraskipum frá Bolungavík, segir að alloft hafi tekið sex tíma að róa milli Suðureyrar og Bolungavíkur.[550] Í andbyr gat sjóferð frá Suðureyri til Bolungavíkur tekið tólf tíma eins og Valdimar nefnir dæmi um[551] og við slíkar aðstæður má búast við að þurft hefði sex tíma i viðbót til að komast alla leið í kaupstaðinn.

Gönguleiðina fyrir Sauðanes gátu menn valið ef fara átti úr Súgandafirði í Önundarfjörð en hún er um það bil 16 kílómetrar frá Stað í Súgandafirði að Eyri í Önundarfirði eða Flateyri og nokkuð seinfarin um stórgrýtta fjöru eða brattar hlíðar og mishæðótt land. Þessi leið var helst farin að vetrarlagi þegar snjóalög gerðu mönnum þungt fyrir fæti á heiðum uppi og fram til dala.

Mun erfiðari er fjöruleiðin fyrir Gölt eins og hér hefur áður verið vikið að, enda var hún sjaldan farin nema í ferðum manna úr Súgandafirði til Keflavíkur, nyrsta bæjarins í Suðureyrarhreppi. Ættu menn erindi til Skálavíkur mun þessi leið þó stundum hafa verið farin og þá áfram frá Keflavík sem leið liggur um tröllaveg með sjó fram undir fjallinu Öskubak eða þá um Bakkaskarð sem er fjallvegur milli Keflavíkur og Skálavíkur og hér verður síðar sagt nánar frá (sjá hér Keflavík). Þeir sem lögðu leið sína úr Súgandafirði til Bolungavíkur munu hins vegar sjaldan eða aldrei hafa farið fyrir Gölt nema þeir þyrftu að koma við í Keflavík eða Skálavík í leiðinni því mun hentugra var að velja heiðarvegina yfir Grárófu eða Gilsbrekkuheiði sem hér verður brátt gerð grein fyrir.

Helstu samgönguleiðir milli Súgandafjarðar og annarra byggðarlaga voru heiðarvegir sem allir liggja í yfir 500 metra hæð og sumir þeirra aðeins færir gangandi mönnum, jafnt sumar sem vetur. Fjölfarnasta leiðin lá yfir Botnsheiði og var jafnan farin í kaupstaðarferðum Súgfirðinga til verslunarstaðarins á Skutulsfjarðareyri þar sem nú er Ísafjarðarkaupstaður. Til Önundarfjarðar var oftast farið yfir Klofningsheiði en frá innstu bæjunum í Súgandafirði var líka stundum farin Grímsdalsheiði. Væri ferðinni heitið til Bolungavíkur fóru Súgfirðingar oftast yfir Grárófu en gátu líka valið Gilsbrekkuheiði.

Hér hafa nú verið nefndir fimm helstu fjallvegirnir sem farnir voru á fyrri tíð úr Súgandafirði til nálægra byggðarlaga en skylt er að gera hér nokkru nánari grein fyrir öllum þessum ferðaleiðum.

Yfir Klofningsheiði er farið frá Stað í Súgandafirði að Eyri í Önundarfirði og liggur fjallvegur þessi í liðlega 620 metra hæð. Frá Stað er farið fram Sunddal á heiðarbrún og niður Klofningsdal í Önundarfirði sem er skammt fyrir utan Flateyri og hið forna bæjarstæði Eyri. Spölurinn yfir sjálfa heiðina er aðeins um 1300 metrar en sagt er að þar uppi hafi á fyrri tíð staðið 18 vörður (sjá hér Eyri) og nýlegar vörður eru þar nú (1999). Yfir Klofningsheiði mátti komast á hestum að sumarlagi[552] en bratt er upp að fara, einkum að vestanverðu, og urðu menn því að teyma hestana síðasta spölinn áður en heiðarbrúninni var náð (sbr. hér Eyri). Að vetrarlagi urðu menn ætíð að fara gangandi yfir þessa heiði og hið sama á við um allar aðrar leiðir úr Súgandafirði til annarra byggða. Leiðin yfir Klofningsheiði, frá Stað í Súgandafirði að Eyri í Önundarfirði, er aðeins um 10 kílómetrar en vegna hæðarinnar og nokkurs torleiðis í dölunum beggja vegna má ætla að hún hafi sjaldan verið farin á skemmri tíma en þremur klukkustundum.

Grímsdalsheiði var farin frá bænum Kvíanesi, sem er mjög innarlega í Súgandafirði, og komið til bæja í Önundarfirði á Görðum eða Hóli á Hvilftarströnd. Fjallvegurinn yfir Grímsdalsheiði liggur í liðlega 660 metra hæð og má ætla að sú leið hafi verið farin fremur sjaldan. Frá Kvíanesi er farið upp Kvíanesdal sem er beint upp af bænum og komið niður að vestanverðu í dalinn sem nú heitir Garðadalur öðrum megin ár en Hólsdalur hinum megin. Líklegt er að sá dalur hafi áður borið nafnið Grímsdalur (sjá hér  Hóll á Hvilftarströnd). Sjálf heiðin er örstutt og öll leiðin milli bæja aðeins sjö kílómetrar eða svo. Vegna þess hversu hátt leiðin liggur má þó gera ráð fyrir að fyrri tíðar menn hafi verið fulla þrjá tíma að fara frá Kvíanesi að Görðum þegar færð var best og fyrir flest nútímafólk er hyggilegt að ætla sér tvöfalt lengri tíma. Yfir Grímsdalsheiði mátti að sumarlagi komast með lausan hest í taumi en reiðfær er þessi fjallvegur ekki.[553]

Svo langt aftur sem heimildir ná var fjallvegurinn yfir Botnsheiði jafnan helsta kaupstaðarleið Súgfirðinga eins og hér hefur áður verið nefnt. Lagt var á heiðina frá bænum Botni í Súgandafirði, farið fram Botnsdal og sem leið liggur rétt vestan (sunnan) við fjallið Búrfell og sveigt af heiðinni niður í Tungudal sem gengur til vesturs upp frá bænum Tungu í Skutulsfirði. Gamla leiðin yfir Botnsheiði liggur hæst í rétt liðlega 500 metra hæð og vegalengdin frá Botni að Tungu er um það bil níu kílómetrar. Þjálfaðir göngumenn gátu því komist milli þessara bæja á liðlega tveimur tímum ef þeir voru lausgangandi og færðin upp á það besta. Frá Tungu eru svo þrír og hálfur kílómetri út á Skutulsfjarðareyri þar sem snemma var farið að versla og kaupstaðurinn stendur nú. Á veturna tók ferð yfir heiðina oft miklu lengri tíma vegna snjóa. Sem dæmi má nefna að 10. nóvember 1914 var Guðmundur Hjaltason alþýðufræðari sjö klukkustundir að komast frá Ísafirði til Suðureyrar en þá var snjórinn á Botnsheiði í kálfa.[554] Þegar Guðmundur gekk yfir Botnsheiði var hann liðlega sextugur að aldri.[555]

Vegurinn yfir Botnsheiði mátti heita þokkalega reiðfær að sumarlagi[556] en á veturna var þar oft mjög snjóþungt og leiðin jafnan ófær með hesta. Spölurinn yfir sjálfa heiðina er stuttur, varla lengri en tveir kílómetrar, en nokkurt álitamál getur verið hvar telja á mörk dals og heiðar, einkum að norðanverðu.

Önnur leið frá Botni í Súgandafirði norður í Skutulsfjörð lá um Gyltuskarð.[557] Var þá farið norðan við fjallið Búrfell og um Seljalandsdal niður að bænum Seljalandi við Skutulsfjörð, en sá bær stóð skammt utan við Tungu. Þessi fjallvegur liggur efst í meira en 600 metra hæð og var sjaldan farinn nema að vetrarlagi þegar leiðin yfir Botnsheiði gat orðið nær ófær vegna fannfergis.

Yfir Gilsbrekkuheiði var farið úr Súgandafirði til Bolungavíkur. Leiðin liggur frá bænum Gilsbrekku á norðurströnd Súgandafjarðar um Gilsbrekkudal, sem þar er beint upp af bænum, yfir heiðina og niður í Syðridal að bæjunum Gili og Hanhóli sem eru fremstu bæirnir í dalnum. Leiðin yfir Gilsbrekkuheiði liggur efst í 582ja metra hæð. Sjálf heiðin er örstutt því strax hallar undan þegar upp er komið en vegalengdin frá Gilsbrekku að fremstu bæjum norðan heiðar er sjö til átta kílómetrar. Þaðan eru svo um það bil fimm kílómetrar niður á Bolungavíkurmalir þar sem nú er Bolungavíkurkaupstaður.

Kristján G. Þorvaldsson sem ólst upp í Selárdal, næsta bæ fyrir utan Gilsbrekku, á síðustu áratugum 19. aldar segir að í góðu færi hafi menn gengið yfir heiðina frá Gilsbrekku og niður á Malir í Bolungavík á tæplega þremur klukkustundum.[558] Svo hraðgengir menn hafa þá aðeins verið tæplega tvo tíma að komast milli bæja, frá Gilsbrekku að Gili eða Hanhóli í Syðridal, norðan heiðar. Gera verður ráð fyrir að aðeins hörðustu göngumenn hafi farið svo hratt yfir og þá helst í góðu gangfæri að vetrarlagi þegar nýta mátti snjóinn til að flýta för sinni af heiðarbrún niður í byggð. Að öllum jafnaði hafa menn varla farið þessa leið milli bæja á skemmri tíma en tveimur og hálfri klukkustund og síðan bættist ein klukkustund við væri förinni heitið niður á Bolungavíkurmalir.

Ekki var talið reiðfært yfir Gilsbrekkuheiði en hægt að komast þessa leið með lausan hest.[559] Frá Gilsbrekku fóru menn líka stundum norður í Hnífsdal[560] og var þá sveigt til austurs þegar komið var upp á Gilsbrekkuheiði og stefnt á Heiðarskarð sem er í um það bil 500 metra hæð fyrir botni Hnífsdals. Á þessari leið var vegalengdin milli bæja, það er frá Gilsbrekku að Fremri-Hnífsdal, um það bil tíu og hálfur kílómetri og því talsvert lengri en væri farið að fremstu bæjum í Syðridal í Bolungavík. Leiðin frá Gilsbrekku og niður að sjó í Hnífsdal er hins vegar álíka löng og sú sem farin var frá Gilsbrekku á Bolungavíkurmalir.

Um heiðina Grárófu lá alfaraleið milli Súgandafjarðar og Bolungavíkur. Lagt var upp frá bænum Selárdal á norðurströnd fjarðarins, gengið fram samnefndan dal og úr dalbotninum á heiðarbrún, en komið niður í Tungudal handan heiðar og fyrst að bænum Þjóðólfstungu í Bolungavík. Grárófa liggur í um það bil 600 metra hæð yfir sjávarmáli. Heiðin sjálf er örstutt milli brúna en vegalengdin frá Selárdal að Þjóðólfstungu liðlega tíu kílómetrar. Frá Þjóðólfstungu niður á Bolungavíkurmalir er skammur spölur, aðeins tæplega tveir kílómetrar. Leiðin yfir Grárófu er nokkuð seinfarin því mikið er um urð og grjót. Um þennan grýtta fjallveg kemst enginn maður ríðandi og ófært er þar með lausa hesta.[561] Líklega hafa allra hörðustu göngumenn komist frá Selárdal á Bolungavíkurmalir að sumarlagi á þremur og hálfri klukkustund (sbr. hér Selárdalur) en margur hefur þurft að ætla sér lengri tíma til þeirrar ferðar.

Af heiðarveginum yfir Grárófu lágu tvær leiðir niður í Skálavík, önnur af háheiðinni um Meira-Hraunskika niður í Meira-Hraunsdal en hin úr efstu drögum Tungudals um Gönguskörð niður í Minna-Hraunsdal[562] sem er hinum megin við Svartafjall.

Nafnið á heiðinni Grárófu er skemmtilegt en um líklega skýringu á því er getið hér á öðrum stað (sjá Selárdalur, sbr. Gunnar M. Magnúss 1977, 65). Afbökunina Gráróu, sem m.a. er að finna á Uppdrætti Íslands, blaði 11, sem Landmælingar Íslands gáfu út árið 1977, þyrfti hins vegar að kveða niður þó ekki væri nema vegna þess að nafnorðið róa er ekki til í íslensku máli. Hér verður líka að taka fram að í ritgerð Kristjáns G. Þorvaldssonar frá Selárdal,  Samgönguleiðir Súgfirðinga, sem birtist í Ársriti Sögufélags Ísfirðinga árið 1983, hefur rithætti höfundarins illu heilli verið breytt og Grárófa gerð að Gráróu.[563] Þegar ritgerðin birtist á prenti var Kristján látinn fyrir allmörgum árum en svo vel vill til að vélritað handrit hans að þessari sömu ritgerð, sem hann gekk frá árið 1949, er enn varðveitt og þar nefnir hann heiðina Grárófu eins og vænta mátti.[564] Í nefndu handriti er ritgerðin Samgönguleiðir Súgfirðinga aðeins kafli í mun lengra ritverki sama höfundar er hann nefndi Örnefni og sagnir úr Súgandafirði.[565]

Hér hefur nú verið gerð grein fyrir helstu fjallvegum sem menn fóru á fyrri tíð í ferðum milli Súgandafjarðar og annarra byggða þar í grennd. Ýmsar fleiri leiðir sem farnar voru stöku sinnum mætti nefna en engin þeirra gat talist alfaravegur. Frá Gelti og Norðureyri gátu menn farið yfir fjall til Skálavíkur[566] og frá Vatnadal var stundum farið upp úr dalbotninum og síðan áfram á fjöllum uppi sem leið liggur á Botnsheiði og niður í Skutulsfjörð.[567] Þessi leið frá Vatnadal í kaupstaðinn við Skutulsfjörð er um 22 kílómetrar og fjórum kílómetrum styttri en ef farið var fyrir Spilli og sem leið lá inn með Súgandafirði. Af þessari sömu fjallaslóð var líka hægt að sveigja niður í Önundarfjörð um Hólsdal, Kaldárdal eða Breiðadal en mun sjaldan hafa verið gert því yfirleitt hentaði betur að fara Klofningsheiði. Í ferðum milli Vatnadals og Eyrar í Önundarfirði eða Flateyrar fóru menn hins vegar ekki alltaf um Sunddal en kræktu fyrir hann og komu á norðurleið niður af fjallinu Sunddalshorni á móts við Hraunafót[568] sem er rétt neðan við landamerki Bæjar og Vatnadals (sjá hér Bær). Sú leið er klettalaus eða því sem næst.[569]

Á 19. öld mun sú venja hafa komist á víðast hvar á landinu að bændur eða vinnumenn þeirra væru kvaddir til að ryðja helstu fjallvegi milli byggða og innansveitarvegi einu sinni á ári og þá á vorin. Eitthvað mun líka hafa verið um slíkar vegabætur í Súgandafirði og má ætla að þörfin hafi verið mest á Spillisfjörum á leiðinni milli Suðureyrar og Staðardals en þar hrynur jafnan mikið af grjóti úr klettum á alfaraleið. Í skýrslu frá árinu 1881 sést að hópur Súgfirðinga vann þá í 16 klukkustundir að lagfæringum á heiðarveginum yfir Botnsheiði.[570] Skýrslu þessa sendi Þorbjörn Gissurarson á Suðureyri til sýslumannsins á Ísafirði en hún er því miður svolítið skemmd af bruna svo ekki er unnt að lesa alveg allt sem ritað var á blaðið. Nafnið á heiðinni sést því ekki í sjálfu skjalinu en örnefnið Skipabrekka, sem þar er nefnt, sýnir að það er vegurinn yfir Botnsheiði sem menn hafa verið að lagfæra. Skipabrekka er norðan heiðarinnar, fyrir botni Tungudals í Skutulsfirði,[571] og lá þjóðgatan um hana niður með Tunguá. Handan árinnar, gegnt Skipabrekku, eru Ártungur.[572]

Í nýnefndri skýrslu er frá því greint að 13. ágúst árið 1881 hafi 23 Súgfirðingar unnið að lagfæringum á heiðarveginum frá því klukkan 5 að morgni til klukkan 9 að kvöldi.[573] Höfundur skýrslunnar greinir nánar frá þessari vinnu og segir m.a. að Magnús Jónsson á Langhól og nokkrir menn með honum hafi verið settir í að  hreinsa gömlu götuna þar hún virtist orðin ófær til yfirferðar en þeim hafi ekki enst dagurinn til að fara lengra en á Skipabrekku.[574] Þeir sem ekki voru í flokki með Magnúsi hlóðu m.a. upp 54 faðma langan vegarspotta við það sem komið var áður af þjóðvegi.[575] Í skýrslu verkstjórans, Þorbjörns Gissurarsonar, sem send var sýslumanni, eru allir vegavinnumennirnir 23 nefndir með nafni og tekið fram hvar hver og einn átti heima.[576] Þar sést að í hópnum voru einn eða fleiri menn frá öllum bæjum í Suðureyrarhreppi sem þá voru í byggð.[577] Þorbjörn greinir líka skilmerkilega frá því hvað hver og einn fékk greitt fyrir þessa 16 tíma vinnu. Sjálfur stjórnaði hann verkinu og fékk 4,00 krónur en Magnús á Langhól sem gerður var að flokksstjóra fékk 3,50 krónur.[578] Flestir hinna fengu 3,00 krónur greiddar í vinnulaun en fjórir þó aðeins 2,00 – 2,50[579] og munu það hafa verið unglingar eða menn sem ekki töldust fullfærir af öðrum ástæðum.

Árið 1888 voru hlaðnar upp allmargar vörður á Botnsheiði[580] og á árunum kringum 1890 var oft rætt um vegabætur á hreppsnefndarfundum og almennum hreppsfundum Súgfirðinga. Þann 4. mars 1889 samþykkti hreppsnefndin að reyna að fá 50,- krónur af þjóðvegagjaldi til að ljúka við að varða Botnsheiðina og lagfæra verstu vegarkaflana á þeirri leið og 16,- krónur til Klofningsheiðar til að gera við veginn á Sunddal.[581]

Á almennu hreppaskilaþingi, sem haldið var á Suðureyri í júnímánuði á sama ári, var rætt um hina svonefndu aukavegi og fjórir menn, einn úr hverjum sveitarhluta, valdir til að hafa forgöngu um lagfæringu á þeim.[582]

Þann 1. mars árið 1890 var hreppsnefndarfundur haldinn á Suðureyri og samþykkt að leita eftir fjárframlögum úr sýslusjóði til vegabóta á ýmsum helstu ferðaleiðum Súgfirðinga. Í greinargerð um málið sem fundurinn samþykkti að senda sýslunefnd Ísafjarðarsýslu er í fyrsta lagi beðið um 50,- krónur til vegabóta á þjóðleiðinni frá Botni í Súgandafirði að Tungu í Skutulsfirði[583] og sú beiðni skýrð og rökstudd með þessum orðum:

 

Því það sýnist ekki mjög órýmilegt af okkur þó að við vildum hafa einhvers staðar þjóðveg út úr hreppnum meðan við þurfum að gjalda til almennra þarfa eftir efnum og ástæðum. Það er yfir Breiðumýrar á Botnsdalnum sem allra nauðsynlegast er að gjörður verði vegur og sömuleiðis óskum við til að gjörður verði vegur fram eftir Tungudalnum, fram í Ártungur.[584]

 

Ljóst er að á þessum tíma hafa menn einkum talið þörf á að lagfæra vegina í dölunum sitt hvorum megin við Botnsheiði.

Um nauðsyn fjárframlaga til vegabóta á öðrum ferðaleiðum Súgfirðinga segir svo í sömu greinargerð frá árinu 1890:

 

 1. Að við gætum fengið til Klofningsheiðar um 30,- krónur …
 2. Við höfum svo mikið af aukavegum sem nú skal greina að okkur er ómögulegt að geta unnið að þeim öllum eftir þörfum. Það er Gilsbrekkuheiði sem nauðsynlegt er að væri hraðfara vegur yfir og þar með vel vörðuð. Sömuleiðis Grímsdalsheiði þarf að vera svo góður vegur yfir að farið yrði með hesta yfir hana og þar með að vera vel vörðuð. Svo þurfa að vera vegir, hestfærir, beggja megin fjarðarins. Þar af er eitt stykki, Spillirinn, sem aldrei tekur minna á ári en 7-8 heil dagsverk. Þar af getið þið séð hvort verið er að biðja um styrk til vegagjörðar að óþörfu.[585]

 

Svo virðist sem þetta ákall Súgfirðinga hafi lítinn eða engan árangur borið að sinni því á almennu hreppaskilaþingi á Suðureyri nokkrum mánuðum síðar kom í ljós að menn vildu ekki sinna frekari vegabótum á leiðinni yfir Botnsheiði  þar eð ekkert endurgjald fengist.[586] Á þessum sama fundi var líka rætt um nauðsyn vegabóta á Gilsbrekkuheiði og Grímsdalsheiði en engin ákvörðun tekin því peninga skorti og margir hreppsbúar höfðu á næstliðnu ári unnið að vegagerð fram yfir skyldu sína.[587]

Gamla leiðin yfir Botnsheiði lá frá Botni í Súgandafirði að Tungu í Skutulsfirði svo sem fyrr var nefnt. Var þá farið rétt sunnan við fjallið Búrfell og síðan nær beint i austur, skemmstu leið niður í Tungudal. Á árunum rétt eftir aldamótin 1900 voru hins vegar komnar upp hugmyndir um að leggja greiðfæran reiðveg frá hinum gamla heiðarvegi á Botnsheiði og yfir á veg þann sem farinn var af Breiðadalsheiði niður í Dagverðardal í Skutulsfirði. Samþykkt sem gerð var á almennum hreppsfundi Súgfirðinga 3. febrúar 1903 sýnir þetta en í henni er m.a. komist svo að orði:

 

Svo var rætt um að fá [fé]  til vegagjörðar á Botnsheiði til þess að gjöra hraðfara veg frá því sem unnið hefur verið að undanfarin ár. Vegur þessi er lítt fær yfirferðar uppi á heiði en af Botnsheiði er meining okkar hreppsbúa allra að vegur yrði lagður yfir á Dagverðardal, á veginn þar. Með því fyrirkomulagi gætum við fengið allgóðan veg yfirferðar til Ísafjarðar. Til þess að koma hraðfara vegi fram eftir Botnsdalnum, upp á heiðina, mun þurfa um 400,- krónur og óskum við að hinni heiðruðu sýslunefnd vestari Ísafjarðarsýslu mætti þóknast að veita okkur svo mikla hjálp sem mögulegt er til ofannefndrar vegagjörðar á Botnsheiði.[588]

 

Svo fór að á árinu 1903 voru veittar 150,- krónur úr sýslusjóði og 50,- krónur úr hreppssjóði til þeirrar vegalagningar sem áformuð var og hér var frá sagt.[589] Sumarið 1903 voru þessir peningar hins vegar ekki notaðir sökum þess að snjóa leysti ekki þar sem vegurinn átti að leggjast og var því samþykkt á almennum hreppsfundi Súgfirðinga í febrúarmánuði árið 1904 að leita á ný eftir 150,- króna fjárframlagi úr sýslusjóði til hins fyrirhugaða vegar yfir Botnsheiði.[590] Líklega hefur framkvæmdum þó miðað hægt og á almennum hreppsfundi sem haldinn var á Suðureyri 6. febrúar 1908 var enn samþykkt að biðja um 200,- króna framlag úr sýslusjóði á móti 100,- króna framlagi frá hreppnum til vegalagningar yfir Botnsheiði.[591]

Hér var áður minnst á kröfur Súgfirðinga frá árinu 1903 um lagningu vegar af Botnsheiði yfir á Dagverðardal. Að líkindum hefur sá vegur átt að liggja á svipuðum slóðum og akvegurinn sem farinn var á árunum 1939-1996. Á árunum kringum aldamótin 1900 var sú leið stundum farin á hestum og má sem dæmi nefna að sumarið 1907 fóru fimm Súgfirðingar ríðandi frá Botni á Ísafjörð og fóru þá yfir fjallið og yfir á Dagverðardal eins og einn þeirra komst að orði er hann greindi löngu síðar frá þessu ferðalagi.[592] Þessi fimm manna hópur fór þá á Ísafjörð til að líta augum þáverandi konung Dana og Íslendinga, Friðrik VIII, sem staldraði við í höfuðstað Vestfjarða skamma hríð.

 

Á fimmtándu og sextándu öld áttu bæði Englendingar og Þjóðverjar margvísleg verslunarviðskipti við Vestfirðinga og komu sér þá upp bækistöðvum hér og þar í því skyni að auðvelda viðskiptin.[593] Ætla má að Súgfirðingum hafi þá gefist kostur á að versla við þessar þjóðir en engum sögum fer nú af þeim viðskiptum. Árið 1602 var öllum Íslendingum bannað að versla við aðra en Dani og allan einokunartímann, frá 1602 til 1787, munu Súgfirðingar jafnan hafa orðið að sækja verslun norður yfir Botnsheiði til dönsku einokunarkaupmannanna á Skutulsfjarðareyri. Um nokkurt skeið á 17. og 18. öld var öllu landinu skipt niður í afmörkuð kaupsvæði og hverjum og einum stranglega bannað að versla við nokkurn annan en þann einokunarkaupmann sem honum var ætlaður. Á því skeiði var Súgfirðingum sem vænta mátti gert að versla á Skutulsfjarðareyri[594] en sú tilskipun breytti litlu því þangað fóru þeir hvort eð var í sínar kaupstaðarferðir að öllum jafnaði. Næsti verslunarstaður, sem kom til greina að sækja, var Þingeyri en þangað munu Súgfirðingar sjaldan hafa farið i verslunarerindum því mun styttra var að fara norður.

Á einokunartímanum hafa Súgfirðingar að öllum líkindum átt þó nokkur viðskipti á laun við erlenda sjómenn líkt og aðrir sem bjuggu í afskekktum byggðum við strendur landsins (sjá hér bls.25-26). Um umfang slíkrar launverslunar er erfitt að spá og ekki er kunnugt um að nokkur maður úr Súgandafirði hafi verið dæmdur fyrir ólögleg viðskipti af þessu tagi. Hinir erlendu sjómenn, sem sóttu á miðin úti fyrir Vestfjörðum á 17. og 18. öld, voru flestir enskir, franskir eða hollenskir.

Á síðari hluta 18. aldar virðast það einkum hafa verið Hollendingar sem sigldu inn á Súgandafjörð. Eggert Ólafsson segir í sínu mikla riti frá árinu 1766 að af framandi þjóðum komi nú engir til Vesturlands nema Hollendingar (sjá hér bls. 25-56) og það var einmitt með Hollendingum sem skæð bólusótt barst í Súgandafjörð það sama ár (sjá hér bls. 17). Ólafur Olavius, sem ferðaðist um Vestfirði árið 1775, lætur þess einnig getið að á vorin leggist Hollendingar við akkeri á tveimur stöðum í Súgandafirði, undan Staðardal og við Suðureyri.[595]

Þann 1. janúar 1788 varð veruleg breyting á verslunarfyrirkomulaginu á Íslandi en þann dag tók gildi tilskipun konungs frá 13. júní 1787 um hina svonefndu fríhöndlun. Með þessari tilskipun var landsmönnum veitt heimild til að versla við alla þegna Danakonungs að eigin vild og þaðan í frá áttu Íslendingar kost á að hefja sjálfir verslunarrekstur ef þeir höfðu til þess fjárhagslegt bolmagn. Bannið gegn verslun við þegna annarra þjóðhöfðingja en Danakonungs stóð hins vegar óbreytt allt til 1. apríl 1855.[596]

Þegar nýnefnd tilskipun um fríhöndlun hafði verið leidd í lög var strax farið að versla á Flateyri við Önundarfjörð þar sem engin verslun hafði áður verið rekin (sjá hér Flateyri). Á árunum 1792-1819 var starfrækt þar útibú frá versluninni á Þingeyri og á árunum kringum 1820 varð Flateyrarverslun sjálfstætt fyrirtæki (sjá hér Flateyri). Líklegt virðist að einhverjir Súgfirðingar hafi snemma byrjað að versla á Flateyri en þó skal tekið fram að í skrá yfir skuldara og innstæðueigendur þar á árunum 1794-1797 er ekki að finna nöfn manna úr Súgandafirði[597] (sbr. hér Flateyri) og engar skjallegar heimildir í boði um verslun Súgfirðinga á Flateyri á fyrri hluta 19. aldar.

Um aldamótin 1800 voru tvær verslanir starfræktar á Ísafirði, verslun Busch og Paus í Neðstakaupstað og verslun Ólafs Thorlacius í Hæstakaupstað.[598] Hafi Súgfirðingar ekki verslað á Flateyri á þeim árum hljóta þeir að hafa verið í viðskiptum hjá verslununum á Ísafirði. Frá versluninni í Neðstakaupstað hefur varðveist reikningabók frá árunum 1801-1804 og þar er að finna nöfn og heimilisföng allra skuldara og innstæðueigenda sem voru í viðskiptum við þá verslun árið 1804.[599] Á þeirri skrá er þó aðeins að finna nöfn fjögurra manna úr Súgandafirði[600] en bændur í Suðureyrarhreppi voru 22 árið 1801.[601] Með hliðsjón af því sem hér hefur verið sagt má telja mjög líklegt að á fyrstu árum 19. aldar hafi flestir Súgfirðingar átt sín kaupstaðarviðskipti við Ólaf Thorlacius sem keypti Hæstakaupstaðarverslunina á Ísafirði árið 1795 og rak hana til dánardags en Ólafur andaðist árið 1815.[602]

Á árunum 1841-1868 var engin föst verslun rekin á Flateyri (sjá hér Flateyri) en á síðasta þriðjungi 19. aldar áttu Súgfirðingar tvímælalaust mikil viðskipti við verslun Hjálmars Jónssonar þar og við útibú Ásgeirsverslunar á Flateyri sem tók til starfa árið 1883.[603] Í kaupstaðarferðirnar til Flateyrar fóru menn þá ýmist á bátum fyrir Sauðanes eða landveg yfir Klofningsheiði. Ætla má að auk bændanna í Staðardal hafi þeir sem bjuggu á Suðureyri verslað meira eða minna á Flateyri en fyrir aðra Súgfirðinga lá beinna við að fara í kaupstað á Ísafjörð, a.m.k. ef farið var landveg. Samt versluðu þeir líka þó nokkuð á Flateyri eins og verslunarbækur þaðan bera með sér.[604]

Kristján G. Þorvaldsson frá Selárdal í Súgandafirði, sem fæddur var árið 1881, segir að á 19. öld hafi flestir Súgfirðingar verslað bæði á Ísafirði og Flateyri.[605] að hans sögn var venjan sú að menn færu í verslunarferð til Ísafjarðar í lok vorvertíðar,[606] það er í fyrri hluta júlí eða um þann mánuð miðjan. Þá voru jafnan komin skip með nýjar vörur og ull bænda tilbúin til sölu.[607]

Valdimar Þorvaldsson, bróðir Kristjáns, fæddur 1878, lýsir verslunarháttum Súgfirðinga á árunum milli 1880 og 1890:

 

Verslunarhættir í Súgandafirði höfðu frá löngu liðnum tíma verið þeir að menn fóru á stórum skipum til Ísafjarðar eða Flateyrar, einu sinni á ári eða oftar, með afurðir sínar sem aðallega voru fiskur, lýsi og ull. Fluttu svo á þeim til baka matvöru og aðrar nauðsynjar til ársins. Salt var oftast flutt í sérstökum ferðum og farið mjög sparlega með það – eins og raunar aðra vöru – og reynt að ná í það úr skipum, útlendum eða innlendum, ef tækifæri bauðst.

En það varð ávallt margt sem vantaði og varð að sækja yfir fjöll og heiðar að vetrinum, einkanlega hjá þeim sem vantaði bæði gjaldeyri og lánstraust, og voru dæmi til þess að menn sem fóru þessar ferðir, bæði fyrir sjálfa sig og aðra, hafi farið um 20 ferðir yfir veturinn og venjulega borið 5-6 fjórðunga [þ.e. 25-30 kíló – innsk. K.Ó.] eða meira.[608]

 

Eins og nærri má geta voru slíkar ferðir oft mjög erfiðar í illri færð og misjöfnum veðrum.

Á 19. öld munu Súgfirðingar hafa átt þó nokkur viðskipti við erlenda fiskimenn, einkum Frakka og Hollendinga og þá gafst líka oft kostur á að versla við spekúlanta um borð í vöruskipum sem danskir eða innlendir kaupmenn sendu með ströndum fram og komu víða við. Um komur Hollendinga til Súgandafjarðar á 18. öld var áður getið (sjá hér bls. 17 og 25-26) en þeir leituðu enn inn á Súgandafjörð á árunum kringum 1840 eins og sjá má í sóknarlýsingu séra Andrésar Hjaltasonar á Stað frá árinu 1839.[609] Menn sem ólust upp í Súgandafirði á síðustu áratugum 19. aldar heyrðu gamalt fólk segja frá viðskiptum sínum við Hollendinga. Kristján G. Þorvaldsson, sem fæddist árið 1881, heyrði m.a. talað um að Hollendingarnir hefðu oft haft sjaldséða muni á boðstólum[610] og greinir frá á þessa leið:

 

Haft var á orði að þeir [Hollendingar] seldu með misjöfnu verði sama hlutinn og lengi var sagt um kaupmenn sem seldu með mismunandi verði að þeir hefðu „hollenska prísa”. Fram til síðustu aldamóta [1900]voru til í Súgandafirði hollenskir munir, þar á meðal skrautleg leirker sem vel gátu verið frá einokunartímanum.[611]

 

Á hinum síðari áratugum nítjándu aldar áttu Súgfirðingar þess ekki lengur kost að skipta við hollenska Flandrara[612] en frönsku skúturnar, sem lengi höfðu stundað fiskveiðar á Íslandsmiðum, komu þá enn á hverju vori og áttu margvísleg samskipti við Vestfirðinga, m.a. þá sem bjuggu í Súgandafirði. Hjá hinum frönsku sjómönnum keyptu Súgfirðingar ýmsan varning svo sem salt, kartöflur, brauð og fiskilínur.[613] Frá þessum viðskiptum segir Kristján G. Þorvaldsson nánar og kemst þá svo að orði:

 

Þegar franskar skútur lágu inni var það títt að skipverjar færu á bátum inn um allan fjörð og kæmu þá við á bæjum. Þeir höfðu með sér brauð og buðu það fyrir prjónles, sokka og vettlinga. Ekki var rætt um verð í peningum, heldur um ákveðinn kökufjölda fyrir vettlingaparið o.s.frv. … Varlegra þótti að hafa ekki föt úti þegar þessir menn voru á ferð því þá vildi stundum hverfa flík þó engin kaka kæmi í staðinn.[614]

 

Sami heimildarmaður greinir einnig frá því að frönsku skipstjórarnir hafi oft keypt kindur eða nautgripi af Súgfirðingum og borgað fyrir með ýmsum varningi.[615] Sem dæmi um slík viðskipti má nefna að 15. júní 1889 seldi Kristján Albertsson á Suðureyri Fransmönnum 2ja vetra kálf og einn gemling. Fyrir kálfinn og gemlinginn fékk hann 2 tunnur af brauði, 3 tunnur af kartöflum og 5 tunnur af salti.[616]

Á árunum upp úr 1880 hófu Ameríkumenn lúðuveiðar á Vestfjarðamiðum og var aðalbækistöð þeirra hérlendis í allmörg ár á Þingeyri (sjá Firðir og fólk 1900-1999, 196-197). Þessir amerísku lúðuveiðarar komu víða við á Vestfjörðum og hjá þeim keyptu Súgfirðingar m.a. gúmmístígvél og fiskilínur úr bómull sem reyndust lakari en þær sem Frakkar höfðu á boðstólum.[617] Hjá Ameríkönunum fengu Súgfirðingar líka eitthvað af lúðuhausum að gjöf og þótti það, að sögn, mikils virði.[618] Í dagbók frá árinu 1894 er þess getið að 18. maí þá um vorið hafi 3 Ameríkanar komið að Suðureyri og gefið Kristjáni Albertssyni, sem þar bjó, 7 sprökuhausa.[619]

Valdimar Þorvaldsson, sem fæddur var árið 1878, greinir líka frá komum þessara erlendu skipa inn á Súgandafjörð á árunum milli 1880 og 1895 og kemst þá svo að orði:

 

Þegar ég var lítill var talað um ytri og innri höfn. Var þá meint fyrir utan og innan Brimnes og var allur fjöldi skipa fyrir utan [Brimnes er skammt utan við Suðureyri – innsk. K.Ó.]. Þar voru tveir eða þrír hópar af hvalveiðabátum, þeir voru saman frá hverri stöð. Þar voru Ameríkumenn, Frakkar og fleiri tegundir skipa, oft milli 10 og 20 að tölu. Þar lá herskipið franska, tvisvar eða oftar, og fjöllin endurómuðu hvert af öðru þegar það var að skjóta  … .[620]

 

Líklega eru þetta engar verulegar ýkjur hjá Valdimar því Einar Jónsson getur þess í dagbók sinni þann 17. júlí 1894 að þá hafi fimm franskar skútur og tvö amerísk skip legið inni á Súgandafirði.[621] Það komu hér 7 franskir á julu í Oddann, skrifar Einar sama dag og segir að þeir hafi verið hálfvilltir í þokunni.[622] Þennan sama dag komu líka í land þrír hérlendir menn, sem voru skipverjar á amerísku skipunum, og sátu lengi inni í stofu hjá Kristjáni Albertssyni á Suðureyri.[623]

Á síðari hluta nítjándu aldar munu Súgfirðingar hafa átt talsvert mikil viðskipti við ýmsa spekúlanta sem buðu upp á verslun um borð í vöruskipum er lögðust við akkeri út á firðinum og stöldruðu við í nokkra daga.[624] Margar verslanir, hér og þar á landinu, sendu skip í slíkar ferðir en flest vöruskipin sem komu til Súgandafjarðar munu hafa verið frá hinum ýmsu kaupmönnum er ráku fasta verslun annars staðar á Vestfjörðum. Fullvíst má telja að vöruskip af þessu tagi, sem jafnan voru nefnd spekúlantaskip, hafi farið að koma með varning sinn til Súgandafjarðar fyrir miðja nítjándu öld. Þeirri kenningu til styrktar má benda á að Edward Thomsen, sem rak Þingeyrarverslun á árunum 1836-1866, átti veruleg viðskipti við Önfirðinga og Djúpmenn á skipum úti árið 1845 (sjá hér Þingeyri) svo telja verður líklegt að hann hafi einnig falboðið varning sinn í Súgandafirði á árunum þar í kring. Séra Sigurður Tómasson, sem um skeið var aðstoðarprestur í Holti og átti heima í Önundarfirði frá 1836-1850, minnist líka oft á komu spekúlanta inn á Önundarfjörð í dagbók sinni frá þeim árum (sjá hér Holt) og virðist liggja í augum uppi að einhverjir þeirra hljóti líka að hafa komið við á Súgandafirði. Sumir þeirra lausakaupmanna, sem séra Sigurður minnist á, stóðu fyrir rekstri fastra verslana á Ísafirði, Þingeyri eða Patreksfirði en a.m.k. einn í þessum hópi var danskur maður sem virðist aðeins hafa verslað sem spekúlant eða lausakaupmaður (sjá hér Holt).

Hjálmar Jónsson kaupmaður, sem rak fasta verslun á Flateyri á árunum 1869-1882, fór að sögn oft í spekúlantstúra til Súgandafjarðar og inn í Djúp[625] og á síðustu áratugum nítjándu aldar mun drjúgur hluti af verslunarviðskiptum Súgfirðinga hafa farið fram um borð í spekúlantaskipunum.

Kristján G. Þorvaldsson frá Selárdal í Súgandafirði, sem hér hefur oft verið vitnað til, segir svo frá þessum viðskiptum:

 

Síðustu tugi liðinnar aldar voru spekúlantar árlegir gestir í Súgandafirði en svo kölluðust þeir kaupmenn sem sigldu milli hafna með vörur og versluðu með erlendar vörur og keyptu innlendar. Þeir þurftu stór skip til þeirra ferða. Þetta voru fljótandi verslanir og varð að hafa í þeim sölubúð og geymslur fyrir erlendan og innlendan varning. Tvö skip komu um margra ára bil árlega á Súgandafjörð sem fljótandi verslanir. Var annað frá Gramsverslun á Þingeyri en hitt frá verslun Markúsar Snæbjörnssonar á Geirseyri við Patreksfjörð. Áhafnir skipanna voru danskar en verslunarstjórar og afgreiðslumenn Íslendingar. Bæði fóru skipin norður á Húnaflóahafnir og komu við í báðum leiðum á öllum þeim stöðum sem hægt var að liggja á. Á norðurleið voru þau vanalega á Súgandafirði nálægt mánaðamótum maí og júní en á suðurleið í síðari hluta ágúst eða í byrjun september. Skipin lágu á Súgandafirði nokkra daga í hvert sinn. Fylgdust verslunarstjórarnir vel með viðskiptunum. Þekktu þeir flesta af margra ára kynnum. Skálvíkingar komu oft til spekúlanta á Súgandafirði.[626]

 

Skipið sem Markús kaupmaður á Geirseyri fór á í spekúlanttúra sína um Vestfirði hét Guðrún og var stór frönsk skonnorta, 94 brúttólestir.[627] Skip þetta keypti Markús á uppboði er það strandaði við utanverðan Patreksfjörð haustið 1883 og notaði það m.a. til að flytja saltfisk til Spánar og Ítalíu en líka í verslunarferðir sínar um Vestfirði og Breiðafjörð.[628] Markús fór sjálfur í þessa spekúlanttúra sem tóku um það bil tvo mánuði og hafði með sér einn eða tvo verslunarþjóna.[629]

Kristján G. Þorvaldsson segir að oft hafi Markús verið um borð þegar skip hans kom á Súgandafjörð en stundum hafi sonur Markúsar, er Jón hét, stjórnað kaupum og sölum um borð í Guðrúnu og hafi Súgfirðingum fallið betur við hann en gamla manninn.[630]

Einar Jónsson, sem árið 1889 var vinnumaður á Suðureyri, getur í dagbók sinni frá því ári um komu spekúlantanna.[631] Amicitie, skip Gramsverslunar á Þingeyri, kom 26. maí og skip Markúsar á Geirseyri virðist hafa komið sama dag.[632] Að kvöldi þess dags kom maður frá Markúsi til Kristjáns Albertssonar á Suðureyri.[633] – Það var margt að fara til Grams, skrifar Einar næsta dag.[634] Skip Markúsar lá þá fyrir utan Brimnesið en var daginn eftir, þann 28. maí, fært innfyrir Gram.[635] Seint í ágúst sama ár komu skip frá þessum sömu verslunum svo aftur í Súgandafjörð.[636]

Sumarið 1893 kom Guðrún, skonnorta Markúsar á Geirseyri, á Súgandafjörð þann 9. júlí.[637] Að því sinni var Markús gamli ekki með.[638] Í lok ágúst kom þetta sama skip aftur inn á Súgandafjörð og hélt kyrru fyrir í nokkra daga.[639] Einar Jónsson, sem hér var nýlega nefndur og þá var liðlega fimmtugur húsmaður í Ytri-Vatnadal, fór um borð þann 3. september og keypti þennan varning: Eina húfu sem kostaði 2,25 krónur, fjóra og hálfa alin af skyrtutaui, tvö pund af grænsápu, einn disk sem kostaði 25 aura, einn kamb á 12 aura, eitt pund af brauði á 25 aura, eitt lampaglas á 25 aura og eina alin af þurrkutaui sem kostaði líka 25 aura.[640]

Skipið sem Gramsverslun á Þingeyri sendi oftast í verslunarferðir til Súgandafjarðar og víðar um Vestfirði hét Amecia að sögn Kristjáns G. Þorvaldssonar[641] en þar mun hann eiga við skonnortuna Amicitie sem var stórt og mikið skip er Gram kaupmaður átti, einn eða með öðrum (sjá Firðir og fólk 1900-1999, 198). Í Súgandafirði þótti Gramsverslun hafa á boðstólum góða og fjölbreytta vöru en verðið þar um borð í hærra lagi.[642]

Í frásögn sinni af viðskiptum Súgfirðinga við spekúlantana undir lok nítjándu aldar kemst Kristján G. Þorvaldsson svo að orði:

 

Mest var verslunin vöruskipti því lítið var um peninga. Varan var mest borguð með ull og þurrum saltfiski. Börnum og unglingum þótti það mikil skemmtiferð að fá að fara út í spekúlant. Þar var margt að sjá sem gladdi. Smalarnir fóru með hagalagðana sína og keyptu fyrir þá. Öll börn sem í förinni voru fengu einhvern glaðning. Hugsað var einnig til litlu barnanna sem heima sátu.

Ofannefndar verslanir [Markús og Gram] héldu uppi spekúlantaferðum til aldamóta en þá lögðust þær niður. Sumarið 1897 kom Thor Jensen spekúlantsferð á fjörðinn.*) Versluðu menn töluvert við hann. Hann kom síðar eitt eða tvö sumur. Anton Proppé kom eitt sumar á litlu skipi sem gert var út af bræðrunum Proppé sem þá höfðu keypt Gramsverslun á Þingeyri.[643]

_____________

*)  Skipið var frá Thor Jensen en sjálfur mun hann ekki hafa verið um borð. (Lbs. 38594to, Dagbók Einars

Jónssonar 19.8.1897.  Sbr. Páll Kristjánsson 1977, 31-32, Þórður Njálsson 1951, 143 (Árbók F.Í.), Ásgeir  Jakobsson 1990,194).

 

Þetta skip frá Proppé-bræðrum hefur líklega verið síðasta spekúlantskipið sem kom á Súgandafjörð en þeir ráku verslun á Þingeyri frá 1914-1927 (sjá Firðir og fólk 1900-1999, 200-201). Hugsanlegt er þó að skip þetta hafi verið fyrr á ferð því Carl Proppé var verslunarstjóri á Þingeyri alveg frá 1905 og hafði starfað þar við Gramsverslun allt frá árinu 1892 (sjá Firðir og fólk 1900-1999, 200-201).

Hér hefur nú verið sagt lítið eitt frá viðskiptum Súgfirðinga á fyrri tíð við kaupmenn í nálægum byggðarlögum og við spekúlantana sem fóru á skipum með ströndum fram og falbuðu varning sinn. Skömmu áður en nítjándu öldinni lauk hófst svo verslunarrekstur á Suðureyri er Ásgeirsverslun á Ísafirði setti þar upp útibú árið 1891.[644] Fyrr en þá mun enginn hafa reynt að hefja verslunarrekstur í þessu litla byggðarlagi. Útibú Ásgeirsverslunar í Súgandafirði var rekið í nær þrjá áratugi, frá 1891 til 1918. Fyrsti útibússtjórinn var Kristján Albertsson á Suðureyri en frá þessari verslunarstarfsemi verður nánar sagt þegar við komum að Suðureyri á fyrirhugaðri ferð okkar bæ frá bæ um allan Súgandafjörð (sjá hér Suðureyri). Sú ferð verður nú brátt hafin en fyrst skulum við rifja upp ummæli tveggja sóknarpresta á Stað um siðferði, háttalag og menntunarástand Súgfirðinga á fyrri tíð.

Árið 1689 vísiteraði Þorsteinn prófastur Gunnarsson í Skálholti Staðarkirkju í Súgandafirði fyrir hönd biskups. Séra Jón Torfason var þá prestur á Stað og gaf hann sóknarfólki sínu kristilegan vitnisburð, bæði upp á guðsorða kostgæfilega heyrn og svo aðra kristilega hegðan almennilega eins og segir í vísitazíugerðinni.[645]

Séra Andrés Hjaltason var prestur á Stað í Súgandafirði á árunum 1838-1849 og greinir frá á þessa leið í ritgerð sem hann lauk við að skrifa 30. desember 1839:

 

Eftir því pláss þetta [Súgandafjörður] er mjög afskekkt frá öðrum sveitum, og lítil umgengni framandi fólks, flýtur af sjálfu sér, að fólk er hér miður menntað, í þeim fínni upplýsingargreinum (cultiverað) heldur en um miðpetti landsins, hvar hver uppbyggist af öðrum. Þar fyrir eru þær fínni íþróttir (svo sem söng- eður hljóðfæralist, skot, sund, skíða- eður skautaferð, glímur etc.) hér lítt þekktar eður tíðkaðar, að undanteknu því, að hér eru einstakir menn skyttur. Eins hafa menn hér lítið að skemmta sér við, utan vinnu sína, því hér er lítið um sögur eður fræðibækur, fornar eður nýjar, og neinslags fornleifum, hverju nafni sem heita, hafa menn hér ekki af að segja. Mjög fáir eru hér skrifandi, en flest fólk er hér bóklæst, sem komið er til þess aldurs og tilbærilega grein gjörandi á sínum kristindómi.

Hvað áhrærir siðferði Súgfirðinga, þá eru þeir yfirhöfuð blíðir í umgengni, svo vel við framandi, sem hver við annan innlendis og í hversdagsháttum sparsamir og iðjusamir.[646]

 

Séra Andrés lætur þess einnig getið að í Suðureyrarhreppi fáist enginn maður við lækningar og sem stendur sé þar engin yfirheyrð yfirsetukona.[647]

Fróðlegt hefði verið að heyra eitthvað frá presti um útlit sóknarbarna hans í Súgandafirði á þessum löngu liðnu árum en slíkar lýsingar eru ekki í boði. Óskar Einarsson, sem varð héraðslæknir á Flateyri árið 1925, heyrði hins vegar um það talað að gamlir Súgfirðingar hefðu verið svarthærðir og brúneygðir en í Önundarfirði segir hann fáa menn hafa litið þannig út.[648]

Á síðustu árum 19. aldar var enn lítið um verklegar framkvæmdir í Suðureyrarhreppi og tekjur hreppsins fóru nær allar í að framfleyta þurfamönnum eins og löngum hafði verið. Fardagaárið 1888-1889 var 165,51 kr. varið til ómagaframfærslunnar eins og sjá má í bókum hreppsins.[649] Ómagarnir voru þó ekki nema fjórir.[650] Dýrastur þeirra var Þorgils Guðmundsson í Botni, sagður 51 árs aumingi, en með honum voru lagðar 74,20 kr.[651] Hinir ómagarnir þrír voru Markús Andrésson, sagður 63ja ára og örvasa, Elín Sigmundsdóttir, sögð 74 ára og örvasa, og Guðlaug Sigmundsdóttir, sögð 69 ára og heilsulasin.[652] Markús var vistaður í þrjá mánuði í Vatnadal en annars á Suðureyri, Elín í Hraunakoti í Vatnadal árið um kring og Guðlaug í Selárdal.[653]

Einhver brúarnefna var komin á Staðará haustið 1888[654] en yfir hana þurftu flestir hreppsbúar að fara á leið til og frá kirkju. Kostnaður við brúna árið 1888 var 10,35 kr.[655] Fyrir skriffæri greiddi hreppssjóður 12,00 krónur, fyrir þinghúslán 5,00 krónur, fyrir grenjavinnslu 2,00 krónur og fyrir óskilgreinda vinnu í þágu sveitarfélagsins aðrar 2,00 krónur.[656] Er þá flest talið af útgjöldum Suðureyrarhrepps árið 1888.

Það var Kristján Albertsson á Suðureyri sem árið 1888 fékk greiddar fimm krónur fyrir að leigja sveitarfélaginu húsnæði til almennra funda.[657] Árið 1892 réðst Suðureyrarhreppur hins vegar í að byggja þinghús á Suðureyri og kostaði það 178,25 kr.[658] Helstu útgjaldaliðir við byggingu þinghússins voru: 1) Viður, borð og plankar 111,00 kr., 2) Vinnulaun 33,30 kr., 3) Þakpappi og naglar 20,35 kr.[659] Einn gluggi var á húsinu og kostaði gluggagrindin þrjár krónur en rúðurnar sex, sem settar voru í gluggann, kostuðu tvær krónur.[660] Smiðurinn sem reisti þinghúsið hét Magnús Jónsson[661] og mun hafa verið frá Skálavík[662] í Hólshreppi. Að smíði þinghússins vann Magnús í sex daga og fékk í kaup tvær krónur á dag auk fæðis.[663] Þorbjörn Gissurarson, bóndi á Suðureyri, vann með Magnúsi að smíði hússins allan tímann og fékk greidda eina krónu á dag fyrir þá vinnu.[664] Auk þess sá hann Magnúsi fyrir fæði sem kostaði eina krónu á dag og sá um að láta í húsið glugga og rúður og laga til hurðina og láta járn á hana, borð í húsið og láta á það pappaþak.[665] Fyrir þessa frágangsvinnu greiddi hreppurinn Þorbirni aðrar sex krónur.[666] Tíu aðrir Súgfirðingar lögðu hönd að verki við byggingu þinghússins og fengu greitt fyrir vinnu sína frá 25 aurum og upp í 4,60 kr.[667] Í þeim hópi var Sigríður Friðbertsdóttir, búandi ekkja í Selárdal,[668] en gera má ráð fyrir að það hafi verið vinnumaður frá henni en ekki hún sjálf sem vann að húsbyggingunni.

Þinghúsið, sem reist var árið 1892, stóð rétt fyrir utan neðsta hluta Stefnisgötu sem svo heitir nú og spölkorn fyrir neðan götuna Rómarstíg á Suðureyri (sjá hér Suðureyri).

Á næstu árum kom húsið að góðum notum við almenn fundarhöld og var líka leigt út til annarra nota eins og sjá má í reikningum hreppsins fyrir fardagaárið 1895-1896. Á því ári var Þorbirni Gissurarsyni, bónda á Suðureyri, og útibúi Ásgeirsverslunar þar leigt húsið til brúkunar milli funda.[669] Í leigu fyrir afnot af húsinu greiddi Þorbjörn fimm krónur það árið en Ásgeirsverslun fjórar krónur.[670]

Fardagaárið 1903-1904 var keyptur ofn í þinghúsið og byggt við það bíslag.[671] Ofninn ásamt tveimur langrörum og einu hnéröri kostaði 22,15 krónur, efni í bíslagið 18,43 krónur og fyrir vinnu við þessar framkvæmdir fékk Friðrik Guðmundsson greiddar 12,00 krónur.[672]

Svo virðist sem bygging þinghússins á Suðureyri árið 1892 hafi verið fyrsta verklega framkvæmdin sem eitthvað kvað að á vegum hreppsnefndar Suðureyrarhrepps. Áður mun hreppurinn þó hafa séð um árlega lagfæringu á helstu þjóðleiðum innansveitar og til næstu byggðarlaga eins og hvarvetna var venja. Í tengslum við þær samgöngubætur lagði hreppurinn líka fram árið 1888 liðlega tíu krónur til að leggja brú yfir Staðará á þjóðleiðinni rétt ofan við árósinn eins og hér hefur áður verið minnst á (sjá bls. 87). Óvíst er hvort það var fyrsta brúin en hins vegar ljóst að haustið 1894 var ráðist í byggingu miklu dýrari og vandaðri brúar á sama stað.[673] Það mannvirki virðist hafa kostað 84,45 kr.[674] Efnið í þessa nýju brú kostaði 43,45 kr. og vinnan 41,00 kr.[675] Við byggingu brúarinnar lögðu átján menn fram tuttugu og hálft dagsverk og fengu greiddar tvær krónur fyrir dagsverkið.[676] Af kostnaði við brúarsmíðina greiddi sýslusjóður 17,40 kr. eða liðlega fimmtung.[677] Í brúna fóru 72 fet af trjávið og 6 borð og svo plankar sem samtals voru 45 fet að lengd.[678] Til að ljúka brúarsmíðinni þurfti líka 25 pund af járni og dálítið af nöglum.[679] Mun þá allt vera upp talið.

Á árunum fyrir aldamótin 1900 átti hreppsnefnd Suðureyrarhrepps sjaldan erindi við landstjórnina í Reykjavík eða Alþingi. Eina málaleitan Súgfirðinga varðandi lagasetningu er þó vert að nefna og eru það tilmæli þeirra til Alþingis um að fá Suðureyrarhöfn löggilta. Þegar reglubundnar strandferðir gufuskipa hófust hér við land á árunum kringum 1880 komu þau við á fjölmörgum höfnum en sigldu þó ætíð fram hjá Súgandafirði. – Sugandafjord besejles ikke stóð í bókinni sem skipstjórarnir á dönsku strandferðaskipunum höfðu til leiðbeiningar á þessum tíma[680] og merkir: Á Súgandafjörð sigla menn ekki.

Við lok ársins 1895 stóð enn allt við það sama i þessum efnum en í febrúarmánuði árið 1896 var ráðist í að mæla breidd og dýpt Suðureyrarhafnar. Verkið unnu þeir Eiríkur Egilsson og Sturla Jónsson sem báðir áttu þá heima á Stað[681] en Eiríkur hafði lengi verið stýrimaður á þilskipum[682] og mun hafa aflað sér nokkurrar þekkingar í siglingafræði.

Þann 25. febrúar 1896 var haldinn almennur hreppsfundur í þinghúsinu á Suðureyri og í fundargerð þess fundar er bókað:

 

 1. Kom til umræðu að ef gufubátur gengi hér fyrir vestan landið, nefnilega upp á kostnað fjögurra eða fimm sýslna eða fleiri, værum vér með í því.
 2. Hvort fáanlegt væri að löggilda hér höfn á Suðureyri. Það hefur verið mælt í vetur frá Brimnesi og inneftir. Dýptin er 2½ faðmur og 4½ faðmur. Breiddin um 80 faðmar sem mjóst er. Sýslunefndarmanni okkar er á hendur falið að gefa fleiri upplýsingar í þessu efni.[683]

 

Á öðrum almennum hreppsfundi, sem haldinn var tæplega einu ári síðar, þann 20. febrúar 1897, var aftur rætt um  hafnarmálið og samþykkt að biðja þingmenn okkar að fá hér löggilta höfn við Suðureyrarmalir.[684]

Í júnímánuði árið 1898 hafði strandferðaskip viðkomu á Suðureyri í fyrsta sinn og var það gufuskipið Skálholt.[685] Skipstjóri á því var danskur maður, Aasberg að nafni.[686] Mældi hann höfnina nákvæmlega og árið 1899 var Suðureyrarhöfn löggilt á Alþingi.[687] Suðureyri var þá líka löggilt sem verslunarstaður[688] en verslunarútibú frá Ásgeirsverslun á Ísafirði hafði þá verið rekið þar í átta ár (sjá hér Suðureyri).

Bréfhirðing á vegum póststjórnarinnar var ekki sett upp í Súgandafirði fyrr en árið 1893 og var hún fyrstu árin í Botni.[689] Á árunum kringum 1910 var lagning símalínu til Súgandafjarðar eitt helsta framfaramálið sem forystumenn Súgfirðinga lögðu kapp á og sneri að stjórnvöldum í Reykjavík. Eins og alkunnugt er komst Ísland í ritsímasamband við nálæg lönd árið 1906 en þá um sumarið og á allra næstu árum tókst að koma símalínum til flestra byggðarlaga á landi hér. Árið 1908 var lögð símalína til Ísafjarðar og svo þaðan til Patreksfjarðar.[690] Að því sinni var þó ekki tekið tillit til óska Súgfirðinga um að fá slíka línu lagða til fjarðarins en á almennum hreppsfundi sem haldinn var á Suðureyri 6. febrúar 1908 hafði svohljóðandi tillaga verð samþykkt:

 

Þar eð fundurinn álítur ósanngjarnt að Suðureyrarhreppur fái ekki símaálmu til sín þar sem hann verður að taka tiltölulega þátt í kostnaðinum. – Af ofanskráðum ástæðum, sem og læknisástandinu, samþykkir fundurinn að fara þess á leit við hlutaðeigandi sýslunefnd að hún hlutist til um að Súgandafjörður verði ekki afskiptur hvað símann snertir, án frekari fjárframlaga frá hreppsins hálfu en hlutfallslega við aðra hreppa sýslunnar.[691]

 

Símasamband fengu Súgfirðingar ekki fyrr en sex árum síðar, haustið 1914. Gufuskipið Pollux kom þá um sumarið með símastaurana og á fundi hreppsnefndar þann 7. ágúst var ákveðið að fá menn til að bjarga þeim á land sem allra fyrst.[692] Á sama fundi var einnig samþykkt að auglýsa starf símstöðvarstjóra laust til umsóknar.[693] Tólf dögum síðar ritaði oddviti hreppsnefndarinnar, séra Þorvarður Brynjólfsson á Stað, bréf til landssímastjóra og lét hann vita að búið væri að flytja símastaurana á staði sína, frá Suðureyri og inn með firðinum.[694] Í bréfinu segir séra Þorvarður hreppsnefndina ganga út frá því að símalínan verði lögð þá um haustið eins og fyrirhugað hafi verið[695] og varð sú raunin á (sjá Firðir og fólk 1900-1999, 479).

Línan, sem lögð var frá Ísafirði til Súgandafjarðar árið 1914, var einkalína og varð Suðureyrarhreppur að standa straum af kostnaði við lagningu hennar.[696] Þessa línu keypti Landssíminn svo af hreppnum árið 1945.[697] Til þess að kosta lagningu símalínunnar árið 1914 þurfti Suðureyrarhreppur að taka lán.[698] Í dagbók Magnúsar Hjaltasonar frá marsmánuði árið 1914 eru skráð þau ummæli Magnúsar Torfasonar, þáverandi sýslumanns í Ísafjarðarsýslu, að ekki sé von að Súgfirðingum gangi vel að fá lán fyrir símanum því öngvir séu nú slíkir drykkjumenn sem þeir.[699] Sjáist fullur maður á götu á Ísafirði, þá er það Súgfirðingur, sagði sýslumaður á fundi á Þingeyri, ef marka má orð dagbókarritarans, og í leiðinni lét yfirvaldið þess getið að einn Súgfirðingur hefði keypt áfengi á Ísafirði fyrir 300,- krónur sumarið 1913.[700] Magnús Torfason sýslumaður var jafnan stóryrtur og gæti vel hafa látið sér um munn fara allt sem hér var eftir honum haft. Engu að síður tókst hreppsnefnd Suðureyrarhrepps að útvega nægilegt lánsfé og við lok ársins 1914 gekk algert áfengisbann í gildi um land allt svo sem kunnugt er.[701] Rann þá upp mikil bindindisöld í Súgandafirði og stóð lengi.

Magnús Hjaltason átti heima á Suðureyri árið 1914 og í dagbók hans má sjá ýmislegt um gang mála við lagningu símans. Þann 15. júlí komu símastaurarnir með skipinu Pollux en 21. október fluttu símamennirnir sig að Suðureyri og tjölduðu á flötinni fyrir innan barnaskólann[702] sem reistur hafði verið sex árum fyrr. Þann 2. nóvember 1914 var fyrst talað í síma milli Suðureyrar og Ísafjarðar en fimm dögum síðar var símstöð til almenningsnota opnuð á Suðureyri.[703] Sjö menn á Suðureyri fengu strax heimilissíma haustið 1914. Þeir voru: Friðbert Guðmundsson, Friðrik Hjartar, Guðrún Þórðardóttir, Kristján Albert Kristjánsson, Kristján G. Þorvaldsson, Sigurður E. Hallbjarnarson og Þórður Þórðarson.[704] Fyrsti símstöðvarstjóri á Suðureyri var Ása Grímsson, eiginkona Jóns Grímssonar, útibússtjóra Ásgeirsverslunar, og var hún með símstöðina á heimili þeirra.[705]

Á árunum rétt fyrir og um aldamótin 1900 var stöku sinnum rætt um skipan prestakalla og læknishéraða í Ísafjarðarsýslu á almennum hreppsfundum Súgfirðinga. Með lögum frá 27. febrúar 1880 var Staðarprestakall í Súgandafirði lagt niður en prestlaust hafði þá verið á Stað í 17 ár og sókninni þjónað frá Holti í Önundarfirði.[706] Á almennum hreppsfundi, sem  haldinn var á Suðureyri 20. febrúar 1897, var samþykkt að fara þess á leit við hið háa Alþingi að sóknin í Súgandafirði yrði á ný gerð að sérstöku prestakalli (sjá hér Staður) og náði það mál fram að ganga með lögum sem sett voru árið 1899.[707]

Fyrir árið 1836 höfðu Súgfirðingar lítið af lærðum læknum að segja en á því ári settist danskur læknir að á Ísafirði[708] og gafst íbúum Suðureyrarhrepps kostur á að leita til hans. Á árunum 1836-1858 gegndu þrír danskir læknar embætti héraðslæknis í norðurhéraði Vesturamtsins og sátu allir á Ísafirði, en frá 1858-1863 var þar læknislaust.[709] Árið 1863 var Þorvaldur Jónsson settur héraðslæknir á Ísafirði[710] og þjónaði hann Súgfirðingum í aldarfjórðung eða allt þar til vesturhluti Ísafjarðarsýslu var gerður að sérstöku læknishéraði og læknir settist að á Þingeyri árið 1888 (sjá hér Þingeyri). Sá hét Oddur Jónsson[711] og var hann læknir Súgfirðinga næstu árin. Oddur var af mörgum talinn ágætur læknir en hann var vínhneigður og af þeim ástæðum kom upp krafa um að honum yrði vikið frá (sjá hér Þingeyri). Í febrúar og mars árið 1893 var þessi kröfugerð rædd á a.m.k. tveimur fundum í Dýrafirði[712] og þann 18. febrúar sama ár kom málið til umræðu á almennum hreppsfundi í Súgandafirði.[713] Fyrir þeim fundi lá erindi frá hreppsnefnd Þingeyrarhrepps þar sem beðið var um að Súgfirðingar létu

 

álit sitt í ljósi hvort mönnum virðist að reyna að hann [þ.e. Oddur læknir] færi bústað sinn til dæmis að Núpi eða Mýrum eða vestan fram í Önundarfjörðinn eða að öðrum kosti að afþakka hann að einu og öllu sem lækni.[714]

 

Atkvæði voru greidd á fundinum um þessa tvo kosti og reyndust 14 fundarmenn kjósa að Oddur héldi áfram læknisstörfunum en færði bústað sinn í Mýrahrepp eða Önundarfjörð en tveir vildu hins vegar víkja honum frá.[715] Þessir tveir voru Þorbjörn Gissurarson á Suðureyri og Sturla Jónsson á Stað.[716]

Á fundinum var líka samþykkt að senda Friðbert Guðmundsson, fyrrverandi hreppstjóra í Hraunkoti í Vatnadal, á fund sem halda átti á Þingeyri einum mánuði síðar til að kynna þar viðhorf Súgfirðinga í þessu máli.[717] Þá var Friðbert liðlega sjötugur að aldri. Fáum mánuðum síðar lét Oddur af störfum sem héraðslæknir á Þingeyri og tók annar læknir við því embætti[718] (sbr. hér Þingeyri).

Á þessum árum munu margir Súgfirðingar hafa haft hug á að fá skipan læknishéraða breytt á þann veg að þeim gæfist kostur á að leita læknis á Ísafirði eins og áður hafði verið, enda mun lengra að fara til Þingeyrar. Eftir 1888 höfðu læknar á Ísafirði hins vegar engum embættisskyldum að gegna í Súgandafirði og gátu því neitað að sinna kalli þaðan þó mikið lægi við. Hversu oft slíkt kom fyrir er ekki vitað en dæmi frá haustinu 1903 var lengi í minnum haft. Eiríkur Egilsson, bóndi á Stað, var þá mjög illa haldinn af völdum kviðslits og var maður sendur norður á Ísafjörð í því skyni að fá Davíð Scheving Thorsteinsson, héraðslækni þar, til að koma og reyna að bjarga lífi Eiríks. Sendimaðurinn fékk þvert nei og andaðist Eiríkur fáum dögum síðar, 46 ára að aldri.

Um þennan atburð var rætt á almennum hreppsfundi á Suðureyri þann 27. febrúar 1904 og í fundargerðinni segir svo:

 

Síðan kom til umræðu að héraðslæknirinn á Ísafirði neitaði í lífsnauðsyn að koma til Eiríks sáluga Egilssonar á Stað í haust. Okkur finnst að lög um læknaskipun á Íslandi hafi verið brotin í þessu efni. Sömuleiðis er það eindreginn vilji hreppsbúa að Suðureyrarhreppur verði sameinaður læknishéraði Ísafjarðar.

Davíð héraðslæknir sagði við sendimann, Helga Sigurðsson, í haust að hann kæmi ekki í Súgandafjörð og kvaðst margsinnis hafa sagt okkur það Súgfirðingum.[719]

 

Ekki fengu Súgfirðingar þá ósk sína uppfyllta að héraðslækninum á Ísafirði væri gert að sinna þeim en árið 1910 var Þingeyrarlæknishéraði skipt í tvennt og þaðan í frá gátu íbúar Suðureyrarhrepps leitað til héraðslæknis sem búsettur var á Flateyri. Var það mikil breyting til bóta.

Að sögn séra Andrésar Hjaltasonar kunni flest fólk í Súgandafirði að lesa á bók árið 1839 eins og hér hefur áður verið nefnt en mjög fáir voru skrifandi (sjá hér bls. 86). Þau ummæli prestsins verður að taka trúanleg, því í hans verkahring var meðal annars að fylgjast með kunnáttu sóknarbarnanna. Óljóst er hins vegar hvort séra Andrés taldi þá eina vera skrifandi sem kallast máttu sendibréfsfærir eða líka hina sem bara gátu párað nafnið sitt. Í annarri heimild, sem telja verður trausta, sést að maður sem gegndi hreppstjóraembætti í Súgandafirði á árunum 1850-1858 kunni ekki að skrifa[720] og styrkir það frásögn séra Andrésar. Ætla má að í þessum efnum hafi ástand mála verið með líkum hætti víða um land en á síðari hluta 19. aldar lærðu fleiri að skrifa en áður hafði verið þó að almennir barnaskólar væru enn aðeins örfáir á öllu landinu þegar ný öld gekk í garð.

Lítið sem ekkert mun vera til frá 18. eða 19. öld af lýsingum ferðamanna á Súgfirðingum. Guðmundur Hjaltason alþýðufræðari, sem fór víða um landið á fyrstu áratugum tuttugustu aldar, getur hins vegar um komu sína í Súgandafjörð haustið 1914 í blaðagrein er hann ritaði fáum mánuðum síðar og segir þar m.a.:

 

Á Suðureyri hélt ég þrjá fyrirlestra fyrir íþróttafélagið sem þar er. Var þar mjög vel sótt. … Ég sá allmikið af steinbít á Suðureyri og eins skó úr steinbítsroði. Þeir eru held ég fullt eins góðir í freðnum snjó og þunnir sauðskinnsskór. En í bleytu, á grjóti og á hjarni eru þeir lakari.

Fólkið, það sem ég sá, virtist mér myndarlegt eins og aðrir Vestfirðingar.[721]

 

Ummæli Guðmundar Hjaltasonar um roðskóna, sem hann sá í Súgandafirði, eru dálítið skemmtileg vegna þess að sjálfur hafði hann verið í Noregi og var að reyna að kenna Íslendingum að ganga á tréskóm að hætti Norðmanna. Kunn er vísa sem Símon Dalaskáld orti um þessa viðleitni hins merka alþýðufræðara og er hún svona:

 

Á tréskóm er hann torf og leir,

á tréskóm er hann skaptur,

á tréskóm lifir, á tréskóm deyr,

á tréskóm gengur aftur.[722]

 

Í sóknarmannatali frá árinu 1789 sjáum við að séra Þorsteinn Þórðarson, sóknarprestur Súgfirðinga, taldi þá að af 96 sóknarbörnum, sem komin voru yfir tvítugt, kynnu 85 að lesa, 2 væru lítt læs og 9 ólæs.[723] Óljóst er nú hver mælikvarði prestsins var við þennan dilkadrátt. Í hópi þeirra ólæsu voru sjö konur og tveir karlar.[724] Annar karlmaðurinn var 48 ára gamall vinnumaður á Suðureyri en hinn, sem átti heima í Bæ, var 85 ára og vanfær af elli.[725] Þrjár húsfreyjur á aldrinum 48-58 ára taldi prestur vera ólæsar en hinar konurnar fjórar, sem ekki kunnu að lesa, voru ýmist vinnukonur eða niðursetningar.[726] Þær voru á aldrinum 62ja-68 ára.[727] Athygli vekur að séra Þorsteinn telur öll sóknarbörn sín, sem árið 1789 voru á aldrinum 20-45 ára, vera læs.[728] Sú staðhæfing hans bendir til þess að um 1760 hafi verið gert átak til að tryggja að öll ungmenni í byggðarlaginu lærðu að lesa. Kunnugt er að um miðbik átjándu aldar hófu kirkjuleg yfirvöld herferð um land allt í því augnamiði að bæta lestrarkunnáttu ungdómsins[729] og orð séra Þorsteins Þórðarsonar á Stað, sem til var vitnað, benda til þess að hér í þessu útkjálkabrauði hafi sú viðleitni borið þó nokkurn árangur.

Sagnir herma að Guðmundur Jónsson, sem áður bjó á Kaldá og Görðum í Önundarfirði (sjá hér Garðar), hafi verið fyrsti heimiliskennarinn í Súgandafirði og hafi hann m.a. kennt börnum í Selárdal.[730] Guðmundur fluttist úr Önundarfirði til Súgandafjarðar árið 1842 og var þá á sjötugsaldri (sjá hér Garðar). Fardagaárið 1842-1843 var hann í Selárdal en næstu árin þar á eftir á Suðureyri.[731] Eigi munnmælasagan um barnakennslu Guðmundar við rök að styðjast er líklegast að hann hafi kennt í Selárdal veturinn 1842-1843, því hann var aðeins búsettur þar þann eina vetur.[732] Í Selárdal bjuggu þá hjónin Gissur Einarsson og Guðrún Ólafsdóttir og áttu sex börn á aldrinum 3ja – 12 ára.[733] Eitt þessara barna var reyndar laundóttir Gissurar.[734] Sá sem skráði söguna um barnakennslu Guðmundar var Valdimar Þorvaldsson,[735] fæddur 1878, en árið 1843 var faðir hans eitt barnanna í Selárdal. Má því telja mjög líklegt að sagan sé sönn en í sóknarmannatali frá marsmánuði árið 1843 er Guðmundur sagður vera húsmaður i Selárdal.[736] Að sögn Valdimars fékkst Guðmundur við kennslu á fleiri bæjum í Súgandafirði[737] og kynni það að hafa verið á árunum 1844-1849 er hann var húsmaður á Suðureyri.

Um aðra barnakennara í Súgandafirði fyrir 1885 er ekki vitað og líklegast að þeir hafi engir verið. Sá maður í þessu byggðarlagi sem fyrstur réð til sín heimiliskennara á síðustu áratugum 19. aldar var Jón Ólafsson, bóndi á Stað, en hjá honum var maður að nafni Guðmundur Kjartansson við kennslu á árunum 1886-1891.[738] Guðmundur var fæddur í Bolungavík árið 1833[739] og var því orðinn roskinn er hann fór að kenna á Stað. Hann átti nótnabækur, kenndi börnunum söng og var forsöngvari í Staðarkirkju.[740] Kennari þessi mun líka hafa flutt eitthvað af fyrirlestrum sem ætlaðir voru fullorðnu fólki.[741] Að sögn Magnúsar Hjaltasonar kenndi Guðmundur bæði í Bæ og Vatnadal veturinn 1887-1888[742] og í nóvember og desember árið 1889 var hann 3 vikur í Botni.[743] Guðmundur Kjartansson dó á Sæbóli í Aðalvík í aprílmánuði árið 1900.[744]

Árið 1891 var Álfur Magnússon, sem hér er frá sagt á öðrum stað, við barnakennslu á Stað í Súgandafirði frá október og fram til áramóta (sjá hér Staður) en hann var þá skráður til heimilis í Önundarfirði (sjá hér Vaðlar). Álfur var líka við kennslu á Stað í marsmánuði árið 1893 (sjá hér Staður) og veturinn 1893-1894 er hann sagður hafa kennt börnum hjá Kristjáni Albertssyni á Suðureyri.[745] Í lok ársins 1893 var hann þó enn skráður til heimilis á Vöðlum í Önundarfirði (sjá hér Vaðlar).

Þann 10. október 1894 var hreppaskilaþing haldið á Suðureyri og í fundargerð frá þeirri samkomu segir m.a. svo:

 

Gjörð fyrirspurn hvort nokkur væri fáanlegur fyrir barnakennara. Þess skal getið að hér var viðstaddur Álfur Magnússon og gaf hann kost á sér og er hann því ráðinn af hreppsnefnd Suðureyrarhrepps á þessum fundi sem barnakennari veturinn 1894-1895.[746]

 

Svo virðist sem Álfur hafi verið fyrsti barnakennarinn í Súgandafirði sem ráðinn var til kennslu á vegum hreppsins.

Þennan vetur hefur Álfur líklega kennt eitthvað á Stað í Súgandafirði fyrir áramót[747] en á aðfangadag jóla greinir Einar Jónsson frá því í dagbók sinni að alveg á næstunni verði farið að kenna börnunum á Suðureyri.[748] Í sóknarmannatali frá 31. desember 1894 er Álfur sagður vera barnakennari á Suðureyri[749] og fáum dögum síðar sat nýnefndur dagbókarritari við að þæfa neðan á sokka fyrir kennarann.[750] Að þessu sinni mun Álfur hafa kennt á Suðureyri í sex vikur, frá áramótum til tíunda febrúar en þann dag fór hann alfarinn að Stað.[751] Kennslan fór fram í stóra timburhúsinu sem Kristján Albertsson hafði byggt árið 1892[752] (sbr. hér Suðureyri). Orð Einars Jónssonar, sem hann ritar í dagbók sína 16. janúar 1895, benda til þess að oftast hafi verið kennt í norðurstofunni en nefndan dag greinir Einar frá á þessa leið: Álfur með börnin færði sig upp á piltakamelsið því það var svo kalt niðri í norðurstofunni en hér var lagt í kamínuna.[753] Fáum dögum síðar fór kennarinn svo í róður með heimamönnum Kristjáns Albertssonar en Einar Jónsson segir að þessum ágæta barnafræðara hafi þótt kalt á sjónum.[754]

Frá 10. febrúar til 18. mars 1895 var Álfur á Stað en fór svo að kenna í Selárdal.[755] Að sögn kenndi hann líka um nokkurt skeið í Botni þennan sama vetur.[756] Frá Álfi hefur áður verið sagt nokkuð í þessu riti og skal til þess vísað (sjá hér Vaðlar).

Þann 9. október 1895 var ungfrú Jóhanna Gottfreðlína Guðmundsdóttir ráðin til barnakennslu í Súgandafirði á vegum Suðureyrarhrepps og á fundi sínum 25. febrúar 1896 samþykkti hreppsnefndin að greiða henni 50,- krónur í laun fyrir kennslustörf þennan vetur.[757] Fyrir áramót kenndi hún á Stað en hóf kennslu á Suðureyri um 20. janúar.[758] Hjá Jóhönnu fengu dætur Þorbjörns Gissurarsonar, bónda á Suðureyri, sem komnar voru um og yfir tvítugt, líka tilsögn í dönsku og skrift.[759] Veturinn 1895-1896 virðist þessi sama kennslukona einnig hafa kennt eitthvað á Flateyri (sjá hér Flateyri). Jóhanna var fædd á Broddadalsá í Strandasýslu haustið 1865 (sjá hér Flateyri) og var því þrítug að aldri er hún gerðist kennari í Súgandafirði. Þessi unga kennslukona settist að á Stað[760] og trúlofaðist Sturlu Jónssyni, bóndasyni þar.[761] Var áformað að þau tækju við búi á Stað af móður hans vorið 1898.[762] Þann 28. febrúar á því ári drukknaði Sturla en hann var þá formaður á sexæring sem fórst í fiskiróðri (sjá hér Staður).

Veturinn 1896-1897 mun Hjalti Magnússon hafa verið barnakennari í Súgandafirði því að í fundargerð frá hreppaskilaþingi sem haldið var á Suðureyri 13. október 1896 segir að hann hafi gefið kost á sér til kennslustarfanna meirihluta vetrarins eða máske allan.[763] Hjalti var fæddur árið 1839[764] og var sonur séra Magnúsar Þórðarsonar, sem lengst var prestur í Ögurþingum, og konu hans Matthildar, dóttur Ásgeirs prófasts Jónssonar í Holti í Önundarfirði.[765] Á yngri árum hafði hann búið um skeið með Friðrikku Kristjánsdóttur frá Borg í Arnarfirði og eignast með henni nokkur börn (sjá hér Hestur) en er hér var komið sögu voru þau Friðrikka skilin að skiptum fyrir löngu. Eitt barna þeirra var alþýðuskáldið og dagbókarritarinn Magnús Hjaltason sem kemur víða við sögu í þessu riti. Veturinn 1896-1897 mun Hjalti hafa kennt á ýmsum bæjum í Suðureyrarhreppi, m.a. í Keflavík.[766] Líklega hefur þetta ekki verið fyrsti vetur Hjalta við kennslu í Súgandafirði því Magnús sonur hans segir að faðir sinn hafi kennt á Kvíanesi, á Norðureyri og í Bæ veturinn 1891-1892 og í Keflavík veturinn 1895-1896.[767] Að sögn Magnúsar hafði Hjalti áður verið formaður í 30 vertíðir í verstöðvum við Ísafjarðardjúp.[768]

Á árunum 1896-1900 var Vernharður Einarsson frá Hvítanesi í Ögursveit heimiliskennari hjá Kristjáni Albertssyni á Suðureyri í þrjá eða fjóra vetur.[769] Vernharður var búfræðingur, fæddur 1870, og tók við búi af föður sínum á Hvítanesi árið 1911.[770] Veturinn 1897-1898 var fáeinum börnum frá öðrum bæjum komið fyrir á Suðureyri svo þau gætu notið kennslunnar hjá Vernharði með börnum Kristjáns Albertssonar. Eitt þessara barna var Kristjana Friðbertsdóttir frá Hraunakoti í Vatnadal, fædd 1884, síðar húsfreyja á Laugum. Hún sagði síðar að Vernharður hefði verið góður kennari en ósköp harður og stundum hefði hann slegið á fingur strákanna með reglustriku ef þeir voru með einhvern óróa.[771] Á efri árum taldi Kristjana sig muna að Vernharður hefði aðeins kennt í nokkra mánuði á hverjum vetri, hálfan veturinn eða svo, og sjálf hafði hún verið tvisvar við nám hjá honum, einn mánuð í hvort skipti. Árið 1898 var skólanum á Suðureyri sagt upp föstudaginn 2. apríl og næsta dag fór Vernharður norður.[772]

Í Súgandafirði mun Vernharður aðeins hafa kennt á Suðureyri en samtíða honum var hinn kunni dagbókarritari, Magnús Hjaltason, stundum líka við kennslu í Suðureyrarhreppi. Veturinn 1898-1899 kenndi Magnús í Keflavík og á Gelti og næsta vetur var hann um sinn við kennslu á Norðureyri.[773] Í Keflavík kenndi Magnús fjórum börnum og hafði 1,10 krónur í kaup á viku.[774] Halldór Guðmundsson, sem lengst af var búsettur á Suðureyri, fæddur í Neðri-Breiðadal í Önundarfirði árið 1872, var tíðum heimiliskennari í Súgandafirði á árunum 1897-1904.[775]

Heimiliskennararnir, sem kenndu börnum í Suðureyrarhreppi á árunum 1885-1900, létu yfirleitt vera að færa lögheimili sitt þangað og nöfn þeirra flestra er ekki að finna í sóknarmannatölum prestanna á Stað frá þessum tíma.[776]

Um barnafræðsluna í Súgandafirði undir lok 19. aldar verður ekki rætt nánar hér en minnt skal á að með lögum sem sett voru árið 1907 urðu öll börn á aldrinum 10-14 ára skólaskyld.

Á almennum sveitarfundi sem haldinn var á Suðureyri 16. mars 1907 var rætt hvort tiltækilegt væri að stofna vísi til barnakennslu á komandi vetri og þrír menn kosnir í nefnd til að athuga málið nánar og leggja fram tillögu.[777] Í nefndina voru kosnir þeir Friðbert Guðmundsson, Jón Einarsson og Þórður Þórðarson[778] og á almennum hreppsfundi, sem haldinn var 12. maí á sama ári, lögðu þeir fram svohljóðandi tillögu:

 

Að stofnaður verði barnaskóli á Suðureyri og að hreppurinn standi straum af kostnaðinum við rekstur hans en kennslukaup fyrir hvert barn sé 15,- krónur fyrir Suðureyringa en 12,- krónur annars staðar frá um allan tímann, í 6 mánuði. Kennslukaup um ½ kennslutímabilið sé kr. 7,50.[779]

 

Í fundargerðinni frá 12. maí er ekki tekið fram hvort tillagan hafi verið afgreidd[780] en líklegt er þó að hún hafi hlotið samþykki á fundinum því mjög skömmu síðar hófst hreppsnefndin handa við að útvega kennara. Naut hún þar milligöngu Friðriks Bjarnasonar, hreppstjóra á Mýrum í Dýrafirði, eins og sjá má í bréfi sem séra Þorvarður Brynjólfsson á Stað ritaði honum 15. júlí 1907, en þar segir meðal annars svo:

 

Það er fljótt sagt að við göngum að skilyrði því sem þér setjið, nefnilega að pilturinn hafi kr. 140,- í laun um kennslutímann, sem verður um ein króna um hvern virkan dag fyrir utan fæði, húsnæði og þjónustu. Við göngum út frá því að hann sé hæfur til starfsins, enda þekki ég svo mikið til yðar að þér hefðuð ekki farið fram á að hann hefði þessi kjör nema hann ynni fyrir þeim.

Áformað er að kennslan standi yfir í sex mánuði, að hún byrji í miðjum október og endi í miðjum apríl.[781]

 

Pilturinn, sem varð kennari á Suðureyri haustið 1907 og rætt er um í bréfinu, var bróðursonur hreppstjórans á Mýrum og hét líka Friðrik. Hann var Hjartarson og nefndi sig Friðrik Hjartar.[782] Þessi ungi maður var aðeins nítján ára gamall er hann hóf kennslu á Suðureyri haustið 1907 en þá um vorið hafði hann útskrifast sem gagnfræðingur frá Flensborgarskóla í Hafnarfirði.[783] Friðrik Hjartar var kennari og skólastjóri á Suðureyri í aldarfjórðung, frá 1907 til 1932, en var þó fjarverandi veturinn 1910-1911.[784] Þann vetur var hann við nám í Kennaraskólanum og tók þar kennarapróf um vorið.[785]

Fyrsta kennsluvetur Friðriks Hjartar í Súgandafirði var samþykkt á almennum hreppsfundi þann 13. janúar að kjósa fimm manna nefnd til að athuga hvort mögulegt væri að ráðast í byggingu funda- og skólahúss fyrir hreppinn.[786] Í nefndina voru kosnir þeir Þórður Þórðarson, Friðbert Guðmundsson, séra Þorvarður Brynjólfsson, Kristján Albertsson og Kristján Albert Kristjánsson.[787]

Tæpum mánuði síðar var boðað til annars hreppsfundar og þar lagði nefndin til að leitað yrði eftir heimild sýslunefndar til að taka allt að 2.000,- króna lán til fyrirhugaðrar skólabyggingar og var það samþykkt á fundinum.[788]

Sumarið 1908 var barnaskóli byggður á Suðureyri og þá um haustið hófst kennsla í hinu nýja skólahúsi.[789]

Um skemmtanir, leiki  og annan mannfagnað, er efnt kann að hafa verið til í Súgandafirði á tíu fyrstu öldunum sem landið var í byggð, eru engar heimildir í boði og um trúarhætti Súgfirðinga hefur fátt verið ritað. Eins og víðar fór unga fólkið í þessu byggðarlagi að iðka dans á árunum kringum aldamótin 1900 (sjá hér Suðureyri og Staður). Magnús Hjaltason, sem þá var orðinn kunnugur í Súgandafirði, getur um dansinn og minnist þá einnig á lestur sjóferðabænar og signingar sem enn tíðkuðust á þeim tíma. Hann ritar:

 

Um þessar mundir [1900] var dans að byrja í Súgandafirði en misjafnan byr fékk hann og sagði sumt gamalt fólk að hann væri „fjandanum til skemmtunar”. Enn var siður að signa sig er fyrst var komið út á morgnana og vani var að signa sig er farið var í nærskyrtuna – áður en henni var smokkað ofan yfir höfuðið. Sjóferðamannsbæn var lesin (í lágum hljóðum) í hvert skipti og farið var frá landi, hvort sem farið var í fiskileit eða í ferð (langferð).[790]

 

Þessum inngangskafla um Súgandafjörð og mannlífið þar á liðnum öldum hefði verið við hæfi að ljúka með fáeinum orðum um starfsemi félaga í Suðureyrarhreppi en svo virðist sem aðeins eitt félag hafi verið stofnað í hreppnum áður en tuttugusta öldin rann upp.[791] Þetta eina félag er Lestrarfélag Suðureyrarhrepps sem tíu Súgfirðingar stofnuðu 18. nóvember árið 1900[792] þegar aðeins lifðu 43 dagar af gömlu öldinni. Lestrarfélagið lifði lengi og eignaðist dálítið af bókum. Í fyrstu stjórn þess voru kjörnir á stofnfundi þeir Jón Einarsson, Kristján Albert Kristjánsson og Þórður Þórðarson.[793] Þeir áttu þá allir heima á Suðureyri. Veturinn 1910-1911 töldust félagsmennirnir vera 44.[794]

Frá félagslífi í Súgandafirði á tuttugustu öld er sagt í bókinni Firðir og fólk 1900-1999 (sjá þar bls. 429-432 og 484-491) en hér vendum við okkar kvæði í kross og hefjum ferð okkar um Súgandafjörð. Á því ferðalagi verður staldrað við á hverjum bæ og komum við fyrst að Stað.

 

 

 

– – – – – – – – – – o o o o o – – – – – – – – – –

[1] Örnefnastofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 153-154.

[2] Sama heimild.

[3] Stjórnartíðindi 1896 A, bls. 14.

[4] D.I. XIV, 40-41.

[5] Sama heimild.

[6] Sama heimild.

[7] Manntal 1703.

[8] Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns VII, 128.

[9] Uppdráttur Íslands, blað 11 frá árinu 1977.  Birkir Friðbertsson. – Viðtal K.Ó. við hann 8.8.1995.

[10] Sömu heimildir.

[11] Sóknalýsingar Vestfjarða II, 111-120.

[12] Íslenskar æviskrár I, 10-11.

[13] Sóknalýs. Vestfj. II, 111 og 115-116.

[14] Sama heimild, 17.

[15] Sama heimild.

[16] Annálar IV, 477.

[17] Kristján G. Þorvaldsson 1949, 16 / Örn.stofnun.

[18] Íslensk fornrit I, 186.

[19] Sama heimild.

[20] Ísl. fornrit VII, 3-4.

[21] Sama heimild, 6.

[22] Sama heimild, 13.

[23] Sama heimild, 20.

[24] Ísl. fornrit VII, 20.

[25] Ísl. fornrit I, 186-187.

[26] Sama heimild.

[27] Sama heimild.

[28] Sama heimild.

[29] Ólafur Þ. Kristjánsson 1964, 24 og 1966, 45-48.  Friðbert Pétursson 1966, 43-45 (Ársrit S.Í.).

[30] Sömu heimildir.

[31] Kristján G. Þorvaldsson 1951, 50 (Árbók F.Í.).

[32] Sama heimild.

[33] Sturlunga I, 441.

[34] Sturl. I, 441.

[35] Sama heimild.

[36] D.I. XII, 14.

[37] Sama heimild III, 13-17.

[38] Sama heimild II, 575-576.

[39] Jarðab. Á. og P. VII, 128-139.

[40] Kristján G. Þorvaldsson 1949, 70 / Örn.stofnun.

[41] Jarðab. Á. og P. VII, 128-139.

[42] Jarðab. Á. og P. VII, 129 og 132.

[43] Kristján G. Þorvaldsson 1951, 21 (Árbók F.Í.).

[44] Jarðab. Á. og P. VII, 128-139.  J. Johnson 1847, 196.  Sóknalýs. Vestfj. II, 112-114.

[45] Sóknalýs. Vestfj. II, 112.

[46] Lbs. 7974to, Jarðaskrá úr Ísafj.sýslu frá árinu 1658.

[47] Sama askja, Jarðaskrá út Ísafj.sýslu frá árinu 1695.

[48] Jarðab. Á. og P. VII, 3-139.  Sóknalýs. Vestfj. II, 32-35, 39-44, 55-58, 63-87, 101-104 og 112-114.

[49] J. Johnson 1847, 191.  Rtk. Jarðabækur V. 16, Ísafj.sýsla 1805.

[50] Sóknalýs. Vestfj. II, 33 og 113.

[51] Jarðab. Á. og P. VII, 128-139.

[52] Sama heimild.

[53] Sama heimild.

[54] Sama heimild.

[55] Manntal 1762.

[56] Sama heimild.

[57] Sama heimild.

[58] Sama heimild.

[59] Sama heimild.  Alþingisbækur Íslands XIV, 514-515.

[60] Manntal 1762.

[61] Alþ.b. Íslands XIII, 404.

[62] Lögréttumannatal IV, 417. Sbr. hér Botn.

[63] Manntal 1762.  Alþ.b. Íslands XV, 63.

[64] Manntal 1762.

[65] J. Johnson 1847, 196.

[66] Sama heimild.

[67] Sama heimild.

[68] Fasteignabók 1932.

[69] Fasteignabók 1932.

[70] Jarðab. Á. og P. VII, 128-139.

[71] Sama heimild.

[72] Sama heimild.

[73] Sama heimild.

[74] Sama heimild.

[75] Sama heimild.  Lbs. 7974to, Jarðaskrá úr Ísafj.sýslu frá árinu 1658.

[76] J. Johnsen 1847, 196.

[77] Sama heimild.

[78] Sama heimild.

[79] Jarðab. Á. og P. VII, 130.

[80] Sama heimild, 128-139.

[81] Sama heimild.

[82] Sama heimild.

[83] Sama heimild.

[84] Sama heimild.

[85] Sama heimild.  Sbr. Lbs. 7974to, Jarðaskrá úr Ísafj.sýslu frá árinu 1658.

[86] J. Johnsen 1847, 196.

[87] Manntal 1703.

[88] Sama heimild.  Sbr. Jarðab. Á. og P. VII, 129.

[89] Manntal 1703.

[90] Sama heimild.

[91] Sama heimild.

[92] Sama heimild.

[93] Sama heimild.

[94] Jarðab. Á. og P. VII, 128-139.

[95] Manntal 1762.

[96] Sama heimild.

[97] Manntal 1801.

[98] Sama heimild.

[99] Sama heimild.

[100] Sama heimild.

[101] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1, búnaðarskýrslur 1821, 1827, 1830 og 1834.  VA III, 408 , bún.sk.

 1. VA III, 412 bún.sk. 1850. VA III, 417, bún.sk. 1860.  VA III, 421, bún.sk. 1870.  VA III, 424,

bún.sk. 1880.

[102] Manntal 1901.

[103] Sama heimild.

[104] Manntöl 1703 og 1762.

[105] Manntal 1801.

[106] Skj.s. syslum. og sv.stj. Ís. XX. 1, bún.sk. 1821, 1827 og 1830.  VA III, 408, bún.sk. 1840.

Manntöl 1801, 1845, 1850, 1860, 1870, 1880 og 1890.

[107] Manntal 1845.

[108] Sama heimild.

[109] Manntal 1901.

[110] Sama heimild.

[111] Manntal 1901.

[112] Sama heimild.

[113] Sama heimild.

[114] Sama heimild.

[115] Sama heimild.

[116] Manntal 1703.

[117] Manntöl 1703, 1762, 1801, 1845, 1870, 1880, 1890 og 1901.  Skj.s. kirkjustj.ráðsins. K. I. 4, innkomin

bréf og önnur skjöl 1744-1745 – umsagnir Lúdvigs Harboes um presta í Ísafj.sýslu.  Skj.s. sýslum. og

sv.stj. Ís. XX. 1, bún.sk. 1821 og 1830.

[118] Annálar IV, 322.

[119] Sama heimild, 223.

[120] Sama heimild, 322.

[121] Sama heimild.

[122] Manntal 1703.

[123] Annálar IV, 322.

[124] Einar Laxness 1977, 165.

[125] Tölfræðihandbók 1984, 8.

[126] Sama heimild, 8-9.

[127] Sbr. Hagskýrslur Íslands II. 21, bls. 8-9.

[128] Annálar V, 347-348.

[129] Annálar VI, 209.

[130] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[131] Kristján G. Þorvaldsson / Gunnar M. Magnúss 1977, 158.

[132] Lbs. 44074to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 138.

[133] Manntal 1703.

[134] Manntöl 1801 og 1901.

[135] Manntöl 1703, 1762, 1801 og 1901.

[136] Manntal 1703.

[137] Sama heimild.

[138] Manntal 1703.

[139] Sama heimild.

[140] Manntal 1901.

[141] Manntöl 1703, 1762, 1801 og 1901.

[142] Sömu heimildir.

[143] Manntöl 1703, 1762, 1801 og 1901.

[144] Sömu heimildir.

[145] Manntal 1703.

[146] Sama heimild.

[147] Sama heimild.

[148] Sama heimild.

[149] Manntal 1762.

[150] Sama heimild.

[151] Manntal 1801.

[152] Sama heimild.

[153] Manntal 1901.

[154] Manntal 1703.

[155] Sama heimild.

[156] Manntal 1703

[157] Sama heimild.

[158] Sama heimild.

[159] Sama heimild.

[160] Hagskýrslur Íslands II, 21, bls. 22.

[161] Manntal 1845.

[162] Manntal 1845.

[163] Manntal 1845.

[164] Ísl. æviskrár I, 425-426.

[165] Sama heimild, I, 10-11.

[166] Vestfirskar ættir I, 98 og 118.

[167] Manntal 1845.

[168] Sama heimild.

[169] Sama heimild.

[170] Ísl. æviskrár I, 267.

[171] D.I. XI, 739.

[172] Sveinn Níelsson 1950, 193.

[173] D.I. V, 222.  D.I. VII, 396-397.  D.I. IX, 279.

[174] D.I. X, 421-422.  D.I. XI, 739.

[175] Sveinn Níelsson 1950, 193.

[176] D.I. VIII, 452-455 og 722-723 og nafnaskrá þar.  Sbr. D.I. VII, 149 og D.I. IX, 279.

[177] Jón Þorkelsson 1895, 54-58.

[178] Jón Espólín / Árbækur V, 30.

[179] Jón Þorkelsson 1895, 54-58.

[180] Alþ.b. Íslands IV, 309 og 312.

[181] Jón Guðmundsson lærði / Fjallkonan 1892, 134-135, 146-147 og 151.  Alþ.b. Íslands IV, 310.

[182] Alþ.b. Íslands IV, 318-319.

[183] Annálar III, 98-99.

[184] Jónas Kristjánsson 1950, XXXV–XXXVI.

[185] Alþ.b. Íslands IV, 316-320.

[186] Sama heimild.

[187] Alþ.b. Íslands IV, 316-320.

[188] Jón J. Aðils 1971, 610.

[189] Eggert Ólafsson 1975, I, 365.

[190] Poul Löwenörn 1788, I, 69.

[191] Ól. Olavius 1964 I, 216.

[192] Sóknalýs. Vestfj. II, 116.

[193] Kristján G. Þorvaldsson / Gunnar M. Magnúss 1977, 236.

[194] Sama heimild.

[195] Sama heimild, 236-237.

[196] Sama heimild.

[197] Lbs. 38584to, Dagbók Einars Jónssonar 15.6.1889.

[198] Sama heimild.

[199] Lbs. 44114to, Valdimar Þorvaldsson.

[200] Lbs. 44114to, Valdimar Þorvaldsson.  Sbr. Lbs. 38594to, Dagbók Einars Jónssonar 17.7.1894.

[201] Eggert Ólafsson 1975 I, 365.

[202] Skjöl um hylling Íslendinga 1649 við Friðrik konung III, Rvík 1914, 33-35.  Sbr. Ól. Þ. Kr. 1961, 40-42.

[203] Skjöl um hylling Íslendinga 1649 við Friðrik konung III, Rvík 1914, 33-35.

[204] Sama heimild.

[205] Sama heimild.

[206] Sama heimild.

[207] Sama heimild.

[208] Sama heimild.  Sbr. Páll E. Ólason 1926, 19.

[209] Rigsarkiv Kph. Island, Færøer og Grønland, nr. 42, hylling Friðriks konungs III árið 1649.

[210] Ísl. æviskrár I, 18-19.  Skjöl um hylling Íslendinga 1649 við Friðrik konung III, Rvík 1914, 36-37.

[211] Skjöl um hylling Íslendinga 1649 við Friðrik konung III, Rvík 1914, 33-37.

[212] Sama heimild.

[213] Sama heimild.

[214] Alþ.b. Íslands VI, 244-258.

[215] Rtk. 2.1. Stríðshjálpin 1681.

[216] Fasteignabók 1932, bls. 52.

[217] Jarðab. Á. og P. VII, 128-139.

[218] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1, búnaðarskýrslur 1830. Sbr. Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

VA III, 424, búnaðarskýrslur 1880.

[219] Jarðab. Á. og P. VII, 138.

[220] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1, búnaðarskýrslur 1830.

[221] VA III, 424, búnaðarskýrslur 1880.

[222] Sama heimild.

[223] VA III, 424, búnaðarskýrslur 1880.

[224] Sama heimild.

[225] Sigurður Sigurðsson 1937, 307-308 (B.Í. Aldarminning II).

[226] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1, búnaðarskýrslur 1821, 1827, 1830, 1834.  VA III, 408, búnaðarskýrsla   1840, VA III, 412, búnaðarskýrsla 1850, VA III, 417, búnaðarskýrsla 1860, VA III, 421, búnaðarskýrsla 1870, VA III, 424, búnaðarskýrsla 1880.

[227] Sömu heimildir.

[228] Stjórnartíðindi C deild 1884-1895, búnaðarskýrslur.  Landshagsskýrslur 1896-1901, búnaðarskýrslur.

[229] Sömu heimildir.

[230] Sömu heimildir.

[231] Sömu heimildir.

[232] Sömu heimildir.

[233] Stjórnartíðindi C deild 1884-1895, búnaðarskýrslur.  Landshagsskýrslur 1896-1901, búnaðarskýrslur.

[234] Sömu heimildir.

[235] Stjórnartíðindi 1886 C, bls. 19.

[236] Skjöl Suðureyrarhrepps, varðveitt þar. Fundabók fyrir Suðureyrarhrepp 1889-1919, skýrsla um

fjárfjölda í Suðureyrarhreppi 29.3.1897.

[237] Hsk. á Ísafirði nr. 295. Skýrsla um fjölda búfjár í Suðureyrarhreppi í fardögum árið 1934, undirrituð

28.11.1934 af Friðbert Guðmundssyni hreppstjóra.

[238] Sama heimild.

[239] Sama heimild.

[240] Sama heimild.

[241] Ól. Olavius 1964 I, 148.

[242] Ól. Olavius 1964 I, 147.

[243] Sóknalýs. Vestfj. II, 117-118.

[244] Sóknalýs. Vestfj. II, 117-118.

[245] Sama heimild.

[246] Sóknalýs. Vestfj. II, 119.

[247] VA III, 408, búnaðarskýrslur 1840.

[248] Rtk. Isl. Journ. 9, nr. 34. Búnaðarskýrslur 1791.

[249] Sama heimild.

[250] Sama heimild.

[251] Sama heimild.

[252] Sama heimild.

[253] Skj.s. sýslum. og sv.stj Ís. XX. 1, búnaðarskýrslur 1821 og 1830.  VA III, 408, 412, 417 og 421,

búnaðarskýrslur 1840, 1850, 1860 og 1870.

[254] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1, búnaðarskýrslur 1821, 1827, 1830, 1834 og 1837.

[255] VA III, 408, búnaðarskýrslur 1840.

[256] VA III, 408, búnaðarskýrslur 1840.

[257] VA III, 412, 417 og 421, bún.sk. 1850, 1860 og 1870.  Stjórnartíðindi 1878-1882, B deild, búnaðarsk. 1872-1879. Stjórnartíðindi 1884-1895, C deild, bún.sk. 1880-1886 og 1888-1894.  Landshagsskýrslur 1896-1901, bún.sk. 1895-1900.

[258] VA III, 421, búnaðarskýrslur 1870.

[259] Stjórnartíðindi 1878-1882, B deild, búnaðarskýrslur 1875-1879.

[260] Hsk. á Ísaf. nr. 221. Skýrsla Sæmundar Eyjólfssonar um ferð sína um Ísafjarðarsýslu sumarið 1883.

[261] Sama heimild.

[262] Sama heimild.

[263] Stjórnartíðindi 1892 C, búnaðarskýrslur 1891.

[264] Stj.tíðindi, C deild, 1892-1895, bún.sk. 1891-1894.  Landshagsskýrslur 1896-1901, bún.sk. 1895-1900.

[265] Stjórnartíðindi 1890, C deild, búnaðarskýrslur 1889.

[266] Stj.tíðindi 1890-1895, C deild, bún.sk. 1889-1894.  Landshagsskýrslur 1896-1901, bún.sk. 1895-1900.

[267] Sömu heimildir.

[268] Þorvaldur Thoroddsen / Lýsing Íslands III, 95.

[269] Sama heimild, 93.

[270] Sama heimild.

[271] Sama heimild.

[272] Stj.tíðindi 1892-1895, C deild, bún.sk. 1891-1894.  Landshagsskýrslur 1896-1901, bún.sk. 1895-1900.

[273] Fasteignabók 1932, 52.

[274] Sama heimild.

[275] VA III, bún.sk. 1873.  Sbr. Stj.tíðindi 1878-1882, B deild, bún.sk. 1872-1879.  Stj.tíðindi 1884-1895,

C deild, bún.sk. 1880-1886 og 1888-1894.  Landshagsskýrslur 1896-1901, bún.sk. 1895-1900.

[276] Landshagsskýrslur, búnaðarskýrslur 1901-1913.

[277] Lbs. 39334to, Ritgerð Valdimars Þorvaldssonar: Súgandafjörður, bls. 5-6.

[278] Kristján G. Þorvaldsson 1962, 13-14 (Ársrit S.Í.).

[279] Sama heimild.

[280] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1, búnaðarskýrslur 1821 og 1827.

[281] Sama skjalasafn. Ís. XX. 1, búnaðarskýrslur 1830.

[282] Sama skjalasafn. Ís. XX. 1, búnaðarskýrslur 1834.

[283] Sama skjalasafn. Ís. XX. 1. búnaðarskýrslur 1837.  VA III, 408, búnaðarskýrslur 1840.

[284] VA III, 417, búnaðarskýrslur 1860.  VA III, 421, búnaðarskýrslur 1870.

[285] Stj.tíðindi 1878-1882, B deild, bún.sk. 1872-1879. Stj.tíðindi 1884-1894, C deild, bún.sk. 1880-1892.

[286] Stjórnartíðindi 1894 C, bls. 61, 69 og 77, búnaðarskýrslur 1893.

[287] Stj.tíðindi 1895 C, 122 og 130, búnaðarsk. 1894.  Landshagsskýrslur 1896-1901, búnaðarsk. 1895-1900.

[288] Kristján G. Þorvaldsson 1962, 14 (Ársrit S.Í.).

[289] Sama heimild.

[290] Stjórnartíðindi 1894 C og 1895 C, búnaðarskýrslur 1893 og 1894.

[291] Landshagsskýrslur 1897 og 1898, búnaðarskýrslur 1896 og 1897.

[292] Kristján G. Þorvaldsson 1962, 14.

[293] Sama heimild.

[294] Landshagsskýrslur 1900, búnaðarskýrslur 1899.

[295] Fasteignabók 1932, 52.

[296] Sama heimild.

[297] Jarðab. Á. og P. VII, 128-139.

[298] Sama heimild, 132.

[299] Sama heimild, 136.

[300] Sama heimild, 133 og 137.

[301] Eggert Ólafsson 1975 I, 269.

[302] Sama heimild.

[303] Sama heimild, 269-270.

[304] Sóknalýs. Vestfj. II, 115.

[305] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XXI. 1, búnaðarskýrslur 1821.

[306] Sama skjalasafn. Ís. XXI. 1, búnaðarskýrslur 1827 og 1830.

[307] Sama skjalasafn. Ís. XXI. 1, búnaðarskýrslur 1834.

[308] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1, búnaðarskýrslur 1837.  VA III, 408, búnaðarskýrslur 1840.

[309] Stj.tíðindi, C deild, 1890-1895, bún.sk. 1889-1894.  Landshagsskýrslur 1896-1901, bún.sk. 1895-1900.

[310] Sömu heimildir.

[311] Sömu heimildir.

[312] Jarðab. Á. og P. VII, 128-139.

[313] Jarðab. Á. og P. VII, 128-139.

[314] Sama heimild.

[315] Sama heimild.

[316] Jarðab. Á. og P. VII, 128-139.

[317] Sama heimild.

[318] Sama heimild.

[319] Sama heimild.

[320] Sama heimild.

[321] Ól. Olavius 1964, 185.

[322] Sóknalýs. Vestfj. II, 117.

[323] Ól. Olavius 1964, 185.

[324] Sóknalýs. Vestfj. II, 116.

[325] Sama heimild.

[326] Sama heimild, 114.

[327] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 11.

[328] Lbs. 27364ro, bls. 39.

[329] Sama heimild.

[330] Jarðab. Á. og P. VII, 133.

[331] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[332] Sama heimild.

[333] Sama heimild.

[334] Einar Laxness 1977, 70.  Guðmundur Hálfdanarson 1984, 139-162 (Bókin Skaftáreldar).

[335] Guðmundur Hálfdanarson 1984, 146.

[336] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[337] Sóknalýs. Vestfj. II, 118-119.

[338] Lúðvík Kristjánsson 1982, 373.  Lbs. 38594to, Dagbók Einars Jónssonar 9.7. og 10.7.1897.

[339] Sóknalýs. Vestfj. II, 118.

[340] Rtk. IV. 1. Skýrslur um sjávarútveg 1762.

[341] Ólafur Olavius 1964, 211.

[342] Rtk. IV. 1. Skýrslur um sjávarútveg 1762.  Sbr. Manntal 1762.

[343] Sama heimild.

[344] Sama heimild.  Sbr. Manntal 1762.

[345] Sama heimild.  Ísl. æviskrár I, 145.

[346] Rtk. IV. 1. Skýrslur um sjávarútveg 1762.

[347] Sama heimild.

[348] Manntal 1762.

[349] Rtk. IV. 1. Skýrslur um sjávarútveg 1762.

[350] Sama heimild.

[351] Rtk. IV. 1. Skýrslur um sjávarútveg 1762.

[352] Sama heimild.

[353] Manntal 1762.

[354] Ól. Olavius 1964, 212.

[355] Jón J. Aðils 1971, 418-420.

[356] Rtk. Jarðabækur V. 16, Ísafj.sýsla 1805.

[357] Rtk. Jarðabækur V. 16, Ísafj.sýsla 1805.

[358] Sama heimild.

[359] Jón Aðils 1971, 397.

[360] Sama heimild, 418-420.

[361] Lúðvík Kristjánsson 1982, 111-112.

[362] Rtk. IV. 1. Skýrslur um sjávarútveg 1762.

[363] Sama heimild.

[364] Þorvaldur Thoroddsen / Lýsing Íslands IV, 323-324.

[365] Sama heimild.

[366] Jónas Jónasson frá Hrafnagili / Ísl. þjóðhættir 1961, 38.

[367] Manntal 1762.

[368] Rtk. IV. 1. Skýrslur um sjávarútveg 1762.

[369] Rtk. IV. 1. Skýrslur um sjávarútveg 1762.

[370] Rtk. IV. 1. Skýrslur um sjávarútveg 1762.

[371] R.W. Bauer 1858, 6.

[372] Rtk. IV. 1. Skýrslur um sjávarútveg 1762.

[373] R.W. Bauer 1858, 4.  Lúðvík Kristjánsson 1983, 373.

[374] Lúðvík Kristjánsson 1983, 373.

[375] Sama heimild, 320.

[376] Rtk. Jarðabækur V. 16, Ísafj.sýsla 1805.

[377] Kristján G. Þorvaldsson 1962, 10 (Ársrit S.Í.).  Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, 128-130.

[378] Lúðvík Kristjánsson 1983, 320.

[379] Jón J. Aðils 1971, 489.

[380] Sama heimild.

[381] Rtk. Jarðabækur V. 16, Ísafj.sýsla 1805.

[382] Kristján G. Þorvaldsson 1962, 10-11 (Ársrit S.Í.).

[383] Rtk. IV. 1. Skýrslur um sjávarútveg 1762.

[384] Eggert Ólafsson I, 1975, 346.

[385] Eggert Ólafsson I, 1975, 346-347.

[386] Sama heimild, 347.

[387] Sama heimild, 348.

[388] Eggert Ólafsson I, 1975, 347.

[389] Eggert Ólafsson I, 1975, 347.

[390] Sbr. Sigfús H. Andrésson  1988  I, 144-145 (Versl.saga Íslands 1774-1807).

[391] Bjarni Sæmundsson 1903, 100-101.

[392] Ól. Olavius 1964, I, 188.

[393] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1, búnaðarskýrslur 1821.

[394] ÍB 7838vo, Formannavísur við Súgandafjörð ortar Anno 1820.

[395] Sama heimild.

[396] ÍB 7838vo, Formannavísur við Súgandafjörð ortar Anno 1820.  Manntal 1816.

[397] Sömu heimildir.

[398] Sömu heimildir.

[399] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1, bún.sk. 1821.  Sóknarm.tal Staðar í Súgandaf. 1821.

[400] ÍB 7838vo, Formannavísur við Súgandafjörð ortar Anno 1820.

[401] Manntal 1816.

[402] Manntal 1816.

[403] Sama heimild, nafnalykill.

[404] Kristinn Kristmundsson og Þórleifur Bjarnason 1971, 258.  Sbr. þar bls. 265-266 og 298.  Manntal 1816.

[405] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[406] Manntal 1816.  Lýður Björnsson 1992, 235.  Sbr. Guðrún Ása Grímsdóttir 1989, 32 og 245.

[407] Manntal 1816.  Sbr. Manntal 1801, vesturamt, 301 og Manntal 1845, vesturamt, 340.

[408] ÍB 164to, Ættatölub. Jóns Espólín, dálkar 986-987. Lýður Björnsson 1992, 235. Sbr. Manntal 1816, 724.

[409] Manntal 1816.  Sbr. Kristján G. Þorvaldsson 1983, 130-133 (Ársrit S.Í.).

[410] Manntal 1816, 692.  Sbr. Manntal 1801, vesturamt, 304.

[411] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[412] Manntal 1816.

[413] ÍB 7838vo, Formannavísur við Súgandafjörð ortar Anno 1820.

[414] ÍB 7838vo, Formannavísur við Súgandafjörð ortar Anno 1820.

[415] Manntöl 1801 og 1816, nafnalyklar.

[416] Manntal 1845.

[417] Sama heimild.

[418] Skagfirskar æviskrár III 1985, 181.

[419] Manntal 1850.

[420] Manntal 1850.

[421] ÍB 7838vo.

[422] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. IV. 6. Dóma- og þingbók 1817-1834. Manntalsþing á Suðureyri 14.6.1825.

[423] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1, bún.sk. 1821, 1827, 1830, 1834 og 1837. VA III, 408, bún.sk. 1840.

VA III, 412, bún.sk. 1850.  VA III, 417, bún.sk. 1860.  VA III, 421, bún.sk. 1870. VA III, 424, bún.sk.

1880.

[424] VA III, 412, búnaðarskýrslur 1850.

[425] VA III, 417, búnaðarskýrslur 1860.

[426] Kristján G. Þorvaldsson / Gunnar M. Magnúss 1977, 143.

[427] Skj.s. landshöfðingja, séröskjur nr. 24. Skýrslur um þilskip, opin skip og báta 1875-1899.

[428] Sama heimild.

[429] Sama heimild.

[430] Skj.s. landshöfðingja, séröskjur nr. 24. Skýrslur um þilskip, opin skip og báta 1875-1899.

[431] Sóknalýs. Vestfj. II, 118-119.

[432] Hsk. á Ísaf. nr. 190. Kristján G. Þorvaldsson: Saga Suðureyrar og Suðureyrarkauptúns, 68-69.

[433] Sbr. Valdimar Þorvaldsson 1963, 65 (Ársrit S.Í.).

[434] Sóknalýs. Vestfj. II, 118-119.

[435] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 10-11.

[436] Lúðvík Kristjánsson 1982, 373.

[437] Ól. Olavius 1964, 189.

[438] Sóknalýs. Vestfj. II, 119.

[439] Sama heimild.

[440] Sama heimild.

[441] Sama heimild.

[442] Kristján G. Þorvaldsson 1982, 61-68.  Sbr. Örn.stofnun / Kr. G. Þorvaldsson 1949, 160-167 og 199-201.

[443] Gunnar M. Magnúss 1977, 251-252.

[444] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 164.

[445] Gunnar M. Magnúss 1977, 251.

[446] Guðrún Ása Grímsdóttir 1994, 108, 111, 119-121.

[447] Sama heimild.

[448] Gunnar M. Magnúss 1977, 251. Kristján G. Þorvaldsson 1982, 64 (Ársrit S.Í.).

[449] Lbs. 27364to, Magnús Hjaltason: Súgandafjörður um 1900, 37.

[450] Sama heimild.

[451] Hsk. á Ísaf. nr. 190. Kristján G. Þorvaldsson: Saga Suðureyrar og Suðureyrarkauptúns, 299.

[452] Hsk. á Ísaf. nr. 190. Kristján G. Þorvaldsson: Saga Suðureyrar og Suðureyrarkauptúns, 299.

[453] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 11.

[454] Lbs. 27364to, bls. 37.

[455] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 10.

[456] Sama heimild, 13.

[457] Gunnar M. Magnúss 1977, 166.

[458] Sama heimild.

[459] Sama heimild, 321-322.

[460] Gunnar M. Magnúss 1977, 321-322.

[461] Lúðvík Kristjánsson 1985, 34.

[462] Sama heimild.

[463] Gunnar M. Magnúss 1977, 321-322.

[464] Sama heimild.

[465] Skj.s. landshöfðingja. Fiskaflaskýrslur nr. I, II, III og IV fyrir árin 1897-1900.

[466] Sama heimild.

[467] Sama heimild.

[468] Sama heimild.

[469] Sama heimild.

[470] Sama heimild.

[471] Skj.s. landshöfðingja. Fiskaflaskýrslur nr. I, II, III og IV fyrir árin 1897-1900.

[472] Skj.s. landshöfðingja. Fiskaflaskýrslur nr. I, II, III og IV fyrir árin 1897-1900.

[473] Skj.s. landshöfðingja. Fiskaflaskýrslur nr. I, II, III og IV fyrir árin 1897-1900.

[474] Kristján G. Þorvaldsson 1962, 11 (Ársrit S.Í.).

[475] Skj.s. landshöfðingja. Fiskaflaskýrslur nr. I, II, III og IV fyrir árin 1897-1900.

[476] Skj.s. landshöfðingja. Fiskaflaskýrslur nr. I, II, III og IV fyrir árin 1897-1900.

[477] Sama heimild.

[478] Skj.s. landshöfðingja. Fiskaflaskýrslur nr. I, II, III og IV fyrir árin 1897-1900.

[479] Sama heimild.

[480] Kristján G. Þorvaldsson 1962, 26-28 (Ársrit S.Í.). Sbr. þar bls. 11.

[481] Lbs. 38604to, Dagbók Einars Jónssonar 1.1.– 31.12.1900. Skj.s. landshöfðingja. Fiskaflaskýrslur nr. I, II,

III og IV fyrir árin 1897-1900.

[482] Vestf. ættir II, 449.

[483] Sama heimild I, 405.

[484] Sama heimild II, 450.

[485] Gunnar M. Magnúss 1977, 274.

[486] Sama heimild.

[487] Sama heimild.

[488] Sama heimild.

[489] Sama heimild.

[490] Skj.s. landshöfðingja. Fiskaflaskýrslur nr. I, og IV fyrir árin 1897 og 1900.

[491] Lbs. 38604to, Dagbók Einars Jónssonar 1.1. –  31.12.1900.

[492] Sama dagbók, 19.3.1900.

[493] Lbs. 38604to, Dagbók Einars Jónssonar 1.1. –  31.12.1900.

[494] Sama heimild.

[495] Sama heimild.

[496] Sama heimild.

[497] Sama heimild.

[498] Sama heimild.

[499] Lbs. 38604to, Dagbók Einars Jónssonar 7.12.1900.

[500] Kristján G. Þorvaldsson 1962, 27 (Ársrit S.Í.).

[501] Lbs. 38604to, Dagbók Einars Jónssonar 19.3.1900.

[502] Lúðvík Kristjánsson 1985, 123.

[503] Vestf. ættir I, 224.

[504] Lúðvík Kristjánsson 1983, 138.

[505] Sama heimild, 148.

[506] Sama heimild.

[507] Kristján G. Þorvaldsson 1962, 26 (Ársrit S.Í.).  Gunnar M. Magnúss 1977, 253-254.

[508] Hsk. á Ísaf. nr. 089. Verslunarbækur frá verslun Hjálmars Jónssonar á Flateyri. Höfuðbók nr. 5, bls. 280.

[509] Sama höfuðbók, nafnaskrá viðskiptamanna.

[510] Gunnar M. Magnúss 1977, 253-254.

[511] Sama heimild.

[512] Sama heimild.

[513] Sama heimild.

[514] Kristján G. Þorvaldsson 1962, 26.

[515] Gunnar M. Magnúss. 1977, 254.  Sbr. Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 131-133.

[516] Sama heimild.

[517] Kristján G. Þorvaldsson 1962, 26.

[518] Gunnar M. Magnúss 1977, 254.

[519] Skj.s. landshöfðingja, séröskjur nr. 24. Skýrslur um þilskip, opin skip og báta 1875-1899.

[520] Skj.s. landshöfðingja, séröskjur nr. 24. Skýrslur um þilskip, opin skip og báta 1875-1899.

[521] Sama heimild.

[522] Gunnar M. Magnúss 1977, 254.

[523] Skj.s. landshöfðingja, séröskjur nr. 24. Skýrslur um þilskip, opin skip og báta 1875-1899.

[524] Sama heimild.

[525] Sama heimild.

[526] Hsk. á Ísaf. nr. 0123. Höfuðbók frá útibúi Ásgeirsverslunar á Flateyri frá árunum 1885-1890, 438-440.

[527] Sama heimild.

[528] Sama heimild.

[529] Sama heimild.

[530] Sama heimild.

[531] Sama heimild.

[532] Stjórnartíðindi 1886 B, bls. 26-27.

[533] Hsk. á Ísaf. nr. 0123. Höfuðbók frá útibúi Ásgeirsverslunar á Flateyri frá árunum 1885-1890, 438-440.

[534] Sama heimild.

[535] Sama heimild.

[536] Sama heimild.

[537] Hsk. á Ísaf. nr. 0123. Höfuðbók frá útibúi Ásgeirsverslunar á Flateyri frá árunum 1885-1890, 438-440.

[538] Sama heimild.

[539] Sama heimild.

[540] Hsk. á Ísaf. nr. 190. Kristján G. Þorvaldsson: Saga Suðureyrar og Suðureyrarkauptúns, 212-213.

[541] Annálar III, 341.

[542] Sama heimild, 372.

[543] Kristján G. Þorvaldsson 1983, 130-133 (Ársrit S.Í.).

[544] Gunnar M. Magnúss 1977, 253.

[545] Valdimar Þorvaldsson 1963, 56-74 (Ársrit S.Í.).

[546] Sama heimild.

[547] Gunnar M. Magnúss 1977, 294-298.

[548] Gunnar M. Magnúss 1977, 294-298.

[549] Kristján G. Þorvaldsson 1983, 120 (Ársrit S.Í.).

[550] Lbs. 44114to, Ritgerð Valdimars Þorvaldssonar: Fyrsta ferðin með vélbát, bls. 1.

[551] Sama heimild.

[552] Kristján G. Þorvaldsson 1983, 123 (Ársrit S.Í.).

[553] Sama heimild.

[554] Guðmundur Hjaltason / Lögrétta 10.2.1915.

[555] Ísl. æviskrár II, 154-155.

[556] Kristján G. Þorvaldsson 1983, 123 (Ársrit S.Í.).

[557] Sama heimild.

[558] Sami 1962, 7 (Ársrit S.Í.).

[559] Sami 1983, 122.

[560] Kristján G. Þorvaldsson 1983, 122 (Ársrit S.Í.).

[561] Sama heimild.

[562] Sama heimild.

[563] Sama heimild.

[564] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 16.

[565] Sama heimild, 1-202.

[566] Kristján G. Þorvaldsson 1983, 121-122 (Ársrit S.Í.).

[567] Sama heimild, 123-124.

[568] Ólafur Veturliðason. – Viðtal K.Ó. við hann 11.2.1996.

[569] Sama heimild.

[570] Hsk. Ísaf. nr. 222. Skýrsla Þorbjörns Gissurssonar um vinnu við vegabætur, dagsett 16.8.1881.

[571] Örn.skrá, Tunga í Skutulsfirði.

[572] Sama heimild.

[573] Hsk. á Ísaf. Nr. 222. Skýrsla Þorbjörns Gissurssonar um vinnu við vegabætur, dagsett 16.8.1881.

[574] Sama heimild.

[575] Sama heimild.

[576] Hsk. á Ísaf. nr. 222. Skýrsla Þorbjörns Gissurssonar um vinnu við vegabætur, dagsett 16.8.1881.

[577] Sama heimild.

[578] Sama heimild.

[579] Sama heimild.

[580] Skjöl Suðureyrarhrepps, varðv. þar. Fundabók fyrir Suðureyrarhrepp 1889-1919, fundargerð 4.3.1889.

[581] Sama heimild.

[582] Sama fundabók, fundargerð 22.6.1889.

[583] Sama fundabók, fundargerð 1.3.1890.

[584] Sama heimild.

[585] Skjöl Suðureyrarhrepps, varðv. þar. Fundabók fyrir Suðureyrarhrepp 1889-1919, fundargerð 1.3.1890.

[586] Sama fundabók, fundargerð 21.6.1890.

[587] Sama heimild.

[588] Sama fundabók, fundargerð 3.2.1903.

[589] Skjöl Suðureyrarhrepps, varðv. þar. Fundabók fyrir Suðureyrarhrepp, fundargerð 27.2.1904.

[590] Sama heimild.

[591] Sama fundabók, fundargerð 6.2.1908.

[592] Lbs. 44084to, Ritgerð Valdimars Þorvaldssonar: Konungskoman 1907, bls. 129.

[593] Jón J. Aðils 1971, 286-287.

[594] Sama heimild.

[595] Ól. Olavius 1964, I, 216.

[596] Einar Laxness 1987, 148-149.

[597] H. Henkel 1799, tafla nr. 6, fylgir 73. blaðsíðu.

[598] Jón Þ. Þór 1984, 84-91.

[599] Hsk. á Ísaf. nr. 327. Verslun Busch og Paus, Ísafirði. Reikningabók 1801-1804, bls. 28-35.

[600] Hsk. á Ísaf. nr. 327. Verslun Busch og Paus, Ísafirði. Reikningabók 1801-1804, bls. 28-35.

[601] Manntal 1801.

[602] Sbr. Ísl. æviskrár IV, 87 og Jón Þ. Þór 1984, 88-96.

[603] Sbr. Valdimar Þorvaldsson 1963, 59-61 (Ársrit S.Í.).  Lbs. án safnnr. Gögn úr fórum Jóns Guðmundssonar,       búfræðings á Veðrará, dagbók hans 16.9.1888.

[604] Hsk. á Ísaf. nr. 089. Höfuðbók nr. 5 frá verslun Hjálmars Jónssonar á Flateyri.  Sama skj.safn nr. 0123.

Höfuðbók frá útibúi Ásgeirsverslunar á Flateyri.

[605] Hsk. á Ísaf. nr. 190. Kristján G. Þorvaldsson: Saga Suðureyrar og Suðureyrarkauptúns, bls. 313.

[606] Sama heimild.

[607] Sama heimild.

[608] Lbs. 39334to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 11.

[609] Sóknalýs. Vestfj. II, 116.

[610] Gunnar M. Magnúss 1977, 236.

[611] Sama heimild.

[612] Sama heimild.

[613] Sama heimild.

[614] Gunnar M. Magnúss 1977, 236-237.

[615] Gunnar M. Magnúss 1977, 236-237.

[616] Lbs. 38584to, Dagbók Einars Jónssonar 15.6.1889.

[617] Sama heimild.

[618] Sama heimild.

[619] Lbs. 38594to, Dagbók Einars Jónssonar 19.4.1894.

[620] Lbs. 44114to Valdimar Þorvaldsson.

[621] Lbs. 38594to, Dagbók Einars Jónssonar 17.7.1894.

[622] Sama heimild.

[623] Lbs. 38594to, Dagbók Einars Jónssonar 17.7.1894.

[624] Gunnar M. Magnúss 1977, 237-238.

[625] Óskar Ein. 1951, 62.

[626] Gunnar M. Magnúss / Kristján G. Þorvaldsson 1977, 237-238.

[627] Sama heimild.  Guðjón Friðriksson 1973, 109 (Ársrit S.Í.).

[628] Guðjón Friðriksson 1973, 110.

[629] Sama heimild.

[630] Gunnar M. Magnúss 1977, 238.

[631] Lbs. 38584to, Dagbók Einars Jónssonar á Suðureyri 26.5. – 28.5.1889.

[632] Sama heimild.

[633] Sama heimild.

[634] Sama heimild.

[635] Sama heimild.

[636] Sama dagbók, 24.8. – 28.8.1889.

[637] Sama dagbók, 10.7.1893.

[638] Sama heimild.

[639] Sama dagbók, 1. og 3.9.1893.

[640]  Lbs. 38584to, Dagbók Einars Jónssonar á Suðureyri, 1. og 3.9.1893.

[641] Gunnar M. Magnúss 1977, 238.

[642] Sama heimild.

[643] Sama heimild.

[644] Kristján G. Þorvaldsson 1962, 22-23 (Ársrit S.Í.).

[645] Bps. A. II, 11. Vísitazíubók Þórðar biskups Þorlákssonar 1675-1695 B. Staður í Súgandafirði 9.9.1689.

[646] Sóknalýs. Vestfj. II, 119-120.

[647] Sama heimild.

[648] Óskar Ein. 1951, 32.

[649] Skjöl Suðureyrarhrepps, varðveitt þar: Bók fyrir Suðureyrarhrepp 1888-1902, – Uppteiknun yfir

     ómagaframfæri í Suðureyrarhreppi í Súgandafirði haustið 1888.

[650] Sama heimild.

[651] Sama heimild.

[652] Sama heimild.

[653] Sama heimild.

[654] Sama heimild.

[655] Sama heimild.

[656] Sama heimild.

[657] Sama heimild.

[658] Skjöl Suðureyrarhrepps, varðv. þar: Bók fyrir Suðureyrarhrepp 1888-1902. Reikningar hreppsins 1892.

[659] Sama heimild.

[660] Sama heimild.

[661] Sama heimild.

[662] Skrá yfir húseignir á Suðureyri, rituð á árunum upp úr 1940 af Kristjáni Albert Kristjánssyni, bls. 108.

Skráin er í eigu Sparisjóðsins á Suðureyri.

[663] Skjöl Suðureyrarhrepps, varðv. þar: Bók fyrir Suðureyrarhrepp 1888-1902, Reikningar hreppsins 1892.

[664] Sama heimild.

[665] Skjöl Suðureyrarhrepps, varðv. þar: Bók fyrir Suðureyrarhrepp 1888-1902, reikningar hreppsins 1892.

[666] Sama heimild.

[667] Skjöl Suðureyrarhrepps, varðv. þar: Bók fyrir Suðureyrarhrepp 1888-1902, reikningar hreppsins 1892.

[668] Sama heimild.

[669] Sama hreppsbók, reikningar hreppsins fardagaárið 1895-1896.

[670] Sama heimild.

[671] Skjöl Suðureyrarhrepps, varðv. þar: Bók frá árunum 1901-1914 (án titils), fylgiblað við reikning

     Suðureyrarhrepps árið 1903-1904.

[672] Sama heimild.

[673] Skjöl Suðureyrarhrepps, varðv. þar: Bók fyrir Suðureyrarhrepp 1888-1902, – reikningur yfir brúna á

     Staðará haustið 1894.

[674] Sama heimild.

[675] Sama heimild.

[676] Sama heimild.

[677] Skjöl Suðureyrarhrepps, varðv. þar: Bók fyrir Suðureyrarhrepp 1888-1902, – reikningur yfir brúna á

     Staðará haustið 1894.

[678] Sama heimild.

[679] Skjöl Suðureyrarhrepps, varðv. þar: Bók fyrir Suðureyrarhrepp 1888-1902, – reikningur yfir brúna á

     Staðará haustið 1894.

[680] Gunnar M. Magnúss 1977, 282.

[681] Sama heimild, 283.

[682] Sama heimild, 106.

[683] Skjöl Suðureyrarhrepps, varðv. þar: Fundabók fyrir Suðureyrarhrepp 1889-1919, fundargerð almenns

hreppsfundar 25.2.1896.

[684] Sama fundabók, fundargerð almenns hreppsfundar 20.2.1897.

[685] Gunnar M. Magnúss 1977, 283.

[686] Gunnar M. Magnúss 1977, 283.

[687] Sama heimild.

[688] Gunnar M. Magnúss 1977, 283.

[689] Hsk. á Ísaf. nr. 190. Kristján G. Þorvaldsson: Saga Suðureyrar og Suðureyrarkauptúns, bls. 176.

[690] Jón Þ. Þór 1988, 159-161. Sbr. hér Ytri-Veðrará.

[691] Skjöl Suðureyrarhrepps, varðv. þar: Fundabók fyrir Suðureyrarhrepp 1889-1919, fundargerð 6.2.1908.

[692] Sömu skjöl: Bréfabók nr. 1, bls. 65-66, bréf séra Þorvarðar Brynjólfssonar, oddvita hreppsnefndar,

19.8.1914 til landssímastjóra. Bók, án titils, með ýmsum fundargerðum hreppsnefndar Suðureyrarhrepps

frá árunum 1901-1914, fundargerð 7.8.1914.

[693] Sama fundargerð.

[694] Sama bréfabók nr.1, bls. 65-66, bréf séra Þorv. Brynjólfss., oddvita hreppsn., 19.8.1914 til landssímastjóra.

[695] Skjöl Suðureyrarhrepps, varðv. þar:  Bréfabók nr.1, bls. 65-66, bréf séra Þorv. Brynjólfss., oddvita hreppsn., 19.8.1914 til landssímastjóra.

[696] Hsk. á Ísaf. nr. 190. Kristján G. Þorvaldsson: Saga Suðureyrar og Suðureyrarkauptúns, bls. 173.

[697] Gunnar M. Magnúss 1977, 492.

[698] Sama heimild.

[699] Lbs. 22324to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 9.3.1914.

[700] Sama heimild.

[701] Sbr. Einar Laxness 1995 I, 45-46.

[702] Lbs. 22324to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 15.7. og 21.10.1914.

[703] Sama dagbók, 2.11. og 7.11.1914.

[704] Sama dagbók 31.10.1914.

[705] Gunnar M. Magnúss 1977, 492.

[706] Sveinn Níelsson 1950, 193-194.

[707] Sama heimild.

[708] Jón Þ. Þór 1984, 204.

[709] Sama heimild, 209.

[710] Ísl. æviskrár V, 244.

[711] Sama heimild IV, 16.

[712] Lbs. 23754to, Dagbók Sighvats Grímssonar Borgfirðings 23.2. og 18.3.1893.

[713] Skjöl Suðureyrarhrepps, varðv. þar: Fundabók fyrir Suðureyrarhrepp 1889-1919, fundargerð

almenns hreppsfundar 18.2.1893.

[714] Sama heimild.

[715] Sama heimild.

[716] Sama heimild.

[717] Skjöl Suðureyrarhrepps, varðv. þar: Fundabók fyrir Suðureyrarhrepp 1889-1919, fundargerð

almenns hreppsfundar 18.2.1893.

[718] Ísl. æviskrár IV, 248. Lbs. 23754to, Dagbók Sighvats Grímssonar Borgfirðings 1.8.1893.

[719] Skjöl Suðureyrarhrepps, varðv. þar: Fundabók fyrir Suðureyrarhrepp 1889-1919, fundargerð

almenns hreppsfundar 27.2.1904.

[720] Kristján G. Þorvaldsson / Gunnar M. Magnúss 1977, 136-138.

[721] Guðmundur Hjaltason / Lögrétta 10.2.1915.

[722] Lbs. 22364to, bls. 104.

[723] Sóknarm.tal Staðar í Súgandaf., mars 1789.

[724] Sama heimild.

[725] Sama heimild.

[726] Sama heimild.

[727] Sama heimild.

[728] Sóknarm.tal Staðar í Súgandaf., mars 1789.

[729] Loftur Guttormsson 1983, 92-95.  Páll Eggert Ólason 1943, 186-192.

[730] Valdimar Þorvaldsson 1982, 86 (Ársrit S.Í.).

[731] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[732] Sama heimild.

[733] Manntal 1845.

[734] Sama heimild.

[735] Valdimar Þorvaldsson 1982, 86.

[736] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[737] Valdimar Þorvaldsson 1982, 86.

[738] Gunnar M. Magnúss 1977, 454.  Sbr. Kennaratal I, 1958.

[739] Sama heimild.

[740] Sama heimild.  Lbs. 22304to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 29.1.1913.

[741] Gunnar M. Magnúss 1977, 454.  Lbs. 38584to, Dagbók Einars Jónssonar 28.4.1889.

[742] Lbs. 22304to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 29.1.1913.

[743] Lbs. 38584to, Dagbók Einars Jónssonar 8.12.1889.

[744] Þjóðviljinn 21.5. 1900.

[745] Kristján G. Þorvaldsson 1962, 29 (Ársrit S.Í.).

[746] Skjöl Suðureyrarhrepps, varðv. þar: Fundabók fyrir Suðureyrarhrepp 1889-1919, fundargerð

frá hreppaskilaþingi 10.10.1894.

[747] Sbr. Lbs. 38594to, Dagbók Einars Jónssonar 9.10. og 25.12.1894.

[748] Sama dagbók 24.12.1894.

[749] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[750] Lbs. 38594to, Dagbók Einars Jónssonar 5.1.1895.

[751] Sama dagbók 10.2.1895.

[752] Sama dagbók 16.1.1895.

[753] Sama heimild.

[754] Lbs. 38594to, Dagbók Einars Jónssonar 26.1.1895.

[755] Sama dagbók 10.2., 17.3. og 18.3.1895.

[756] Gunnar M. Magnúss 1977, 454.

[757] Skjöl Suðureyrarhrepps, varðv. þar: Fundabók fyrir Suðureyrarhrepp 1889-1919, fundargerð

hreppsfundar 25.2.1896.

[758] Lbs. 38594to, Dagbók Einars Jónssonar 19.1.1896.

[759] Sama dagbók 25.1.1896.

[760] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf. 1896 og 1897.

[761] Gunnar M. Magnúss 1977, 456.

[762] Sama heimild.

[763] Skjöl Suðureyrarhrepps, varðv. þar: Fundabók fyrir Suðureyrarhrepp 1889-1919, fundargerð frá

hreppaskilaþingi 13.10.1896.

[764] Vestf. ættir I, 400.

[765] Ísl. æviskrár III, 464.

[766] Gunnar M. Magnúss 1956, 204.

[767] Lbs. 22304to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 29.1.1913.

[768] Sama heimild.

[769] Kristján G. Þorvaldsson 1962, 29 (Ársrit S.Í.).  Kennaratal II, 1965, 245.  Lbs. 38594to, Dagbók Einars Jónssonar 11.4.1897.  Lbs. 38604to, Sama dagbók 6.1.1898 og  9.1. 1899.

[770] Vestf. ættir IV, 434.

[771] Kristjana Friðbertsdóttir. – Viðtal K.Ó. við hana sumarið 1968, uppskr. frá segulbandi.

[772] Lbs. 38604to, Dagbók Einars Jónssonar á Suðureyri 2.4.1898.

[773] Gunnar M. Magnúss 1956, 202-204 og 211.  Sbr. Lbs. 31524to, bls. 170-173 (Halldór Guðmundsson ævisaga, upphaf).

[774] Sama heimild.

[775] Kennaratal 1958, I, 247. Sbr. hér Bær.

[776] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[777] Skjöl Suðureyrarhrepps, varðv. þar: Fundabók fyrir Suðureyrarhrepp 1889-1919, fundargerð

almenns sveitarfundar 16.3.1907.

[778] Sama heimild.

[779] Skjöl Suðureyrarhrepps, varðv. þar: Fundabók fyrir Suðureyrarhrepp 1889-1919, fundargerð

almenns hreppsfundar 12. maí 1907.

[780] Sama heimild.

[781] Skjöl Suðureyrarhrepps, varðv. þar: Bréfabók nr.1,  bls. 1. Bréf séra Þorvarðar Brynjólfssonar 15.7.1907,  fyrir hönd hreppsnefndar, til Friðriks Bjarnasonar, hreppstjóra á Mýrum, afrit.

[782] Gunnar M. Magnúss 1977, 456-458.

[783] Gunnar M. Magnúss 1977, 456-458.

[784] Gunnar M. Magnúss 1977, 456-458.

[785] Sama heimild.

[786] Skjöl Suðureyrarhrepps, varðv. þar: Fundabók fyrir Suðureyrarhrepp 1889-1919, fundargerð

almenns hreppsfundar 13.1.1908.

[787] Sama heimild.

[788] Skjöl Suðureyrarhrepps, varðv. þar: Fundabók fyrir Suðureyrarhrepp 1889-1919, fundargerð

almenns hreppsfundar 6.2.1908.

[789] Kristján G. Þorvaldsson 1962, 29 (Ársrit S.Í.).  Páll Kristjánsson frá Stapadal 1977, 42.

[790] Lbs. 27364to, Magnús Hjaltason: Súgandafjörður um 1900, bls. 66.

[791] Gunnar M. Magnúss 1977, 496-498.

[792] Gunnar M. Magnúss 1977, 496-498.

[793] Sama heimild, 496-497.

[794] Hsk. á Ísaf. nr. 271. Meðlimabók Lestrarfélags Suðureyrarhrepps.

1000-1900

Guðmundur Justsson

Á fyrri hluta 20. aldar var Guðmundur Justsson, sem fæddist á Gemlufalli haustið 1841,[1] einna kunnastur þeirra sem búið höfðu á Dröngum, a.m.k. utan Dýrafjarðar,

LESA MEIRA »
1000-1900

Krossadalur

Í Krossadal var löngum tvíbýli á fyrri tíð, Hærri- og Lægri- (eða Neðri-) Krossdalur, og voru þetta ystu bæir við Tálknafjörð. Stundum var reyndar þríbýli

LESA MEIRA »
1000-1900

Arnarstapi

Arnarstapi og Krossadalur voru tvær ystu jarðirnar á norðurströnd Tálknafjarðar og hafa nú báðar verið í eyði frá því um 1940.[1] Frá verbúðatóttunum í Arnarstapavík

LESA MEIRA »