Eyri     

Eyri er eina landnámsjörðin í hinum forna Mosvallahreppi ef mark má taka á því sem ritað er um þau efni í Landnámabók en þar segir: Önundur Víkingsson, bróðir Þórðar í Alviðru, nam Önundarfjörð allan og bjó á Eyri.[1] Sú fullyrðing að Önundur hafi numið Önundarfjörð allan rekst þó á aðrar frásagnir sömu bókar þar sem greint er frá landnámi á Ingjaldssandi (sjá hér Svipast um á Ingjaldssandi). Í sumum gerðum Landnámabókar er gefið til kynna að Þórður Víkingsson í Alviðru hafi í raun verið sonur Haralds hárfagra Noregskonungs (sjá hér Alviðra) og má ætla að föðurnafnið Víkingsson sem þeir bræður, Þórður og Önundur, báru báðir hafi átt að vísa til hins konunglega faðernis. Í Landnámabók og öðrum fornum ritum er hins vegar engan fróðleik að finna um Önund landnámsmann hér á Eyri eða skyldulið hans og niðja. Hin ritaða frásögn af landnámi Önundarfjarðar er því mjög rýr en án hennar mætti reyndar telja harla líklegt að þeir sem hér byggðu fyrstir hafi sest að á Eyri. Að minnsta kosti liggur beint við að ætla að þeir sem komu af hafi að ónumdu landi og sigldu inn Önundarfjörð hafi strax veitt athygli hinni ágætu höfn innan við Flateyri og stigið þar á land.

Spölurinn frá oddatánni á Flateyri og upp að bæjarstæðinu á Eyri er um það bil 1300 metrar. Eyrarbærinn stóð undir Eyrarhjöllum[2] í túnbrekku rétt fyrir utan og ofan Flateyri.[3] Á þessum slóðum eru nú (1995)  miklar malargryfjur en bærinn stóð neðan við þær, þar sem nú er kartöflugarður sem Hjörtur Hjálmarsson skólastjóri átti.[4] Gamla bæjarstæðið á Eyri hefur því verið ofan við hesthúsin sem nú (1995) eru þarna og rétt aðeins innan við þau[5] en svolítið utar en endinn á sjóvarnargarðinum innan við Eyrarbótina sem blasir við hér fyrir neðan. Ljóst er að bærinn hefur staðið um það bil miðja vega milli fjörunnar og malargryfjanna sem nú setja hér svip á umhverfið en þó aðeins ofar. Öll túnin ofan við malargryfjurnar eru nýrækt en neðan við þær er enn sem áður nokkur hluti af gamla Eyrartúninu.[6]

María Jóhannsdóttir, sem er dótturdóttir Torfa Halldórssonar, útgerðarmanns á Flateyri, fluttist fimm ára gömul að Sólbakka austan frá Hólmum í Reyðarfirði árið 1912.[7] Hún hefur æ síðan átt heima á Sólbakka (Litlabýli) og á Flateyri. María minnist þess að á hennar fyrstu árum í Önundarfirði héngu enn uppi fjórir bæir á Eyri[8] en síðasta fólkið sem átti heima í þessum bæjarhúsum fluttist þaðan niður á Flateyri árið 1903 (sjá hér bls. 35). Að sögn Maríu stóðu þrír bæjanna á Eyri í túnbrekkunni sem hér var áður nefnd og var mjög skammt á milli þeirra.[9] Fjórði bærinn var svo mun neðar, skammt ofan við fjöruna.[10] María minnist þess að hafa heyrt móður sína tala um að Helga Ólafsdóttir, sem gift var Guðjóni Jónssyni lóðs á Ísafirði, hafi alist upp í innsta bænum uppi í brekkunni.[11] Nær fullvíst má því telja að það hafi verið gamli Eyrarbærinn því nýnefnd Helga var dóttir Ólafs Magnússonar sem lengi var bóndi á Eyri.[12] Hann andaðist þar árið 1883, þegar Helga var rétt liðlega tvítug, en ekkja hans, Sigurborg Sæmundsdóttir sem var móðir Helgu, hafðist við á Eyri allt til ársins 1888.[13] Í hinum þremur torfbæjunum, sem María mundi eftir að enn héngu uppi á árunum kringum 1915, hlýtur þurrabúðarfólk að hafa búið en margar slíkar fjölskyldur áttu heima á Eyri á árunum 1870-1903 (sjá hér bls. 29-38). Eðlilegt var að þurrabúðarfólkið reisti kofa sína utan við gamla Eyrarbæinn því snjóflóð sem oft féllu úr Eyrarfjalli fóru jafnan innan við hann niður á eyrina.[14]

Hér var áður frá því greint að einn bæjanna sem þurrabúðarfólk reisti á Eyri á síðasta þriðjungi 19. aldar hefði staðið niður við ströndina. Í þeim bæ fæddist Ólafía Sigurðardóttir vorið 1898. Hún sagði svo frá á árunum upp úr 1960 að bletturinn þar sem hús foreldra hennar stóð væri horfinn í sjóinn[15] sem vel getur staðist því hér hefur orðið töluvert landbrot eins og áður var nefnt. Ólafía var dóttir hjónanna Sigurðar Ólafssonar og Dagbjartar Jónsdóttur,[16] sem áttu heima á Eyri á árunum 1896-1900 (sjá hér bls. 37), og má ætla að þau hafi búið í þessum bæ sem var rétt ofan við fjöruna.

Síðasti bóndinn á Eyri var Kristján Mosdal Friðriksson sem var skipstjóri á þilskipinu Jeanette en hann drukknaði þegar skip hans fórst í hafi vorið 1887 (sjá hér Flateyri). Hann hafði þá verið búsettur á Eyri í þrjú ár og haft um það bil þriðjung jarðarinnar til ábúðar.[17] Tvo þriðju parta hennar eða því sem næst nytjaði þá Torfi Halldórsson á Flateyri og svo hafði lengi verið (sjá hér Flateyri). Á árunum 1888-1903 var það aðeins þurrabúðarfólk sem átti heimili á Eyri og frá 1903 hefur allt verið hér í eyði.[18] Gamli Eyrarbærinn er nú löngu horfinn og líka kofar þurrabúðarfólksins svo fátt eitt stendur eftir til að minna á fólkið sem áður lifði hér sínu lífi, hver kynslóð á fætur annarri í þúsund ár.

Að fornu mati var Eyri talin vera 24 hundraða jörð[19] og náði land jarðarinnar frá landamerkjunum á móti Hvilft, sem eru rétt innan við Sólbakka (sjá hér Sólbakki  og Hvilft) og að Gathamri yst á Sauðanesi,[20] en þar eru hreppamörk milli hins forna Mosvallahrepps og Suðureyrarhrepps í Súgandafirði. Skammt ofan við hið forna bæjarstæði á Eyri rís snarbrött hlíð Eyrarfjalls sem er hömrum krýnt hið efra. Fjallsbrúnin liggur í um það bil 680 metra hæð yfir sjávarmáli. Þar sem Eyrarfjall þrýtur, hálfum öðrum kílómetra fyrir utan Eyri, skerst Klofningsdalur inn í landið en um hann lá alfaraleið á Klofningsheiði yfir í Staðardal í Súgandafirði. Utan við dalinn tekur við fjallið Sauðanes sem skilur að Önundarfjörð og Súgandafjörð. Brún þess liggur víðast hvar í 500-550 metra hæð en er þó lítið eitt lægri yst. Vegalengdin milli innri og ytri landamerkja Eyrar er um 11 kílómetrar og í landareigninni er víða gott beitiland fyrir sauðfé, ekki síst á Sauðanesi eins og nafnið bendir til. Þangað slepptu Eyrarbændur yfirleitt fé sínu á góu eða einmánuði og gekk það að mestu sjálfala þaðan í frá[21] (sbr. hér Flateyri). Frá Eyri var líka gott að sækja sjó því að stutt var á miðin og Kálfeyri, sem löngum mátti kallast eina verstöð Önfirðinga, er í landi jarðarinnar, um það bil tveimur kílómetrum fyrir utan Eyri.

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns er getið um þrjú forn eyðiból í landi Eyrar, Bakkhús, Klofninga og Kálfhóla,[22] en allt er þó mjög óljóst um hugsanlega byggð þar á fyrri öldum.

Bakkhús eða Bakkahús voru dálítið innan við Eyri, á bökkunum þar sem Hans Ellefsen hvalveiðiforstjóri byggði síðar og nefndi Sólbakka[23] Kunnugir telja að Bakkahús hljóti að hafa verið á að heita má alveg sama stað og íbúðarhúsin sem nú (1995) standa á Sólbakka því bæði fyrir innan og utan er hætt við snjóflóðum.[24] Um Bakkhús segir svo í Jarðabókinni frá 1710:

 

Bakkhús heitir eitt örnefni hér í landinu inn frá bænum. Þar ætla menn að í fyrndinni hafi byggð verið og sjást þess nokkur merki af tóttarústum. Ekki má hér byggð setja fyrir túnstæðis- og heyskaparleysis.[25]

 

Eyðibýlið Klofninga segja höfundar Jarðabókarinnar hafa staðið þar sem Hvilftarsel var á ritunartíma bókarinnar,[26] það er kippkorn fyrir utan Klofningshrygg (sjá hér Hvilft) sem er hár hryggur rétt innan við Klofningsdal er hér var áður nefndur.[27] Í Jarðabókinni er frá því greint að þar sem nýnefnt eyðiból stóð sjáist ljós byggingamerki af tótta og girðingaleifum en jafnframt tekið fram að þar sé þó engan veginn mögulegt að hefja búskap á ný fyrir vatnsbrest og heyskaparleysi þó að túnstæði sé nokkurt.[28]

Þriðja eyðibýlið í landi Eyrar sem minnst er á í Jarðabókinni frá 1710 eru svo Kálfhólar,[29] ofan við verstöðina á Kálfeyri en skammt þar frá var lengi sel frá Eyri.[30] Vegalengdin frá Eyri og út að Kálfeyri er um það bil tveir kílómetrar. Þegar Árni Magnússon, prófessor og annar tveggja höfunda Jarðabókarinnar, kom í Önundarfjörð sumarið 1710 lifðu á vörum manna óljósar sagnir um búsetu fólks á þessum meintu eyðibólum fyrir margt löngu. Um Kálfhóla ritar Árni svo:

 

Kálfhólar heitir og eitt örnefni út lengra með sjónum [þ.e. fyrir utan Klofninga sem hér voru áður nefndir – innsk. K.Ó.] sem að sagt er að í fyrndinni hafi byggð verið og sjást hér enn bygginga merki af tóttarústum. Ekki má hér byggja því heyskapur er enginn og ekkert vatn.[31]

 

Ólafur Olavius sem fór í rannsóknarleiðangur um Vestfirði sumarið 1775 á vegum stjórnvalda nefnir býsna mörg eyðibýli í sinni Ferðabók.[32] Hann nefnir þó hvorki Bakkhús né Kálfhóla en getur um eyðibýlið Klofning í Klofningsdal í landi Eyrar[33] og er það ugglaust sama eyðiból og nefnt er Klofningar í Jarðabókinni frá 1710. Hvannakra á Sauðanesi, sem eru í landi Eyrar, segir Olavius líka vera eyðibýli[34] en Árni Magnússon taldi að þar hefði aðeins verið verstöð að fornu.[35] Frá Kálfeyri er rösklega einn kílómetri út að Hvannökrum en á göngu okkar fyrir Sauðanes munum við svipast um á öllum þessum stöðum, Klofningum, Kálfhólum og Hvannökrum (sjá hér bls. 82-83, 86-87og 114-117) og skoða hina fornu verstöð Önfirðinga á Kálfeyri. Vert er hins vegar að taka fram strax að í jarðabók frá árinu 1805 eru beitilandið á Sauðanesi og verstöðin á Kálfeyri sögð vera sameign jarðanna Eyrar og Hvilftar, þannig að Hvilft eigi 2/5 en Eyri 3/5 hluta.[36] Um ástæður þessa hefur áður verið fjallað í þessu riti og skal til þess vísað (sjá hér Hvilft).

Í Jarðabókinni frá 1710 er gerð grein fyrir kostum og ókostum þessarar 24 hundraða landnámsjarðar og þá einkum dregnir fram ókostirnir. Þar segir m.a. svo um Eyri:

 

Útigangur í betra lagi og bregst sjaldan þó hann sé mjög hættusamur sem síðar segir. Torfrista engin nýtileg og stunga lök. Lyngrif lítið. Elt er klíningi. Hvannatekja lítil í ógöngu klettum, brúkast ei. Rekavon hefur verið gagnvæn að fornu en valla til gagnsmuna teljandi í nokkur ár. Lagðist viðurinn til húsabóta þá nokkuð uppbar en hvala hefur landsdrottinn notið.

Túninu grandar möl og aur sem rennur á það í vatnagangi og leysingu af holti því er ofan völlin er [þ.e. ofan við túnið – innsk. K.Ó.]. Engjar mjög spilltar af skriðum og fyrir því víðast eyðilagðar. Hætt er kvikfé fyrir sjávarflæðum og merkilega fyrir snjóflóðum og hafa þessi snjóflóð stundum tekið hér bæði menn og fé út í sjó, og hesta, og gjört með því stórkostlegan skaða.

Kirkjuvegur torsóttur yfir Önundarfjörð til Holts. Hætt er húsum fyrir stórveðrum og ekki sýnist bænum öldungis óhætt fyrir snjóflóðum þó ekki hafi það hingað til mein gjört.

Heimræði er hér árið um kring og lending sæmileg og ganga hér 2 skip ábúenda, stundum eitt eftir því sem þeir fá við komið. Á vorin láta þeir skipin ganga stundum á Kálfeyri því þar er minna langræði.[37]

 

Árið 1710 var Eyri í leiguábúð og hér var þá tvíbýli. Landskuld af allri jörðinni var þá 160 álnir og svo hafði lengi verið.[38] Jörðinni fylgdu þá sex leigukúgildi.[39] Árið 1805 var jörðin komin í sjálfsábúð og þá bjó hér aðeins einn bóndi.[40] Í jarðabók frá því ári er talið að jörðin bjóði upp á útigang fyrir 15 sauði og var þá miðað við að níu þeirra væru veturgamlir, fjórir tveggja vetra og tveir eldri.[41] Þessi tala er reyndar grunsamlega lág því árið 1710 voru 103 sauðir á Eyri og þá voru ærnar 68.[42] Árið 1805 var gert ráð fyrir að við róðra frá Eyri fengjust að jafnaði í hlut yfir árið 175 pund af þorski, 67 pund af riklingi (líklega lúðu), 200 pund af steinbít og 25 pund af ýsu.[43] Ætla má að þarna sé ætíð miðað við hertan fisk en við þetta bættist hálf tunna af hákarlslifur og hrognkelsaafli sem svaraði til 300 punda af fiski,[44] væntanlega harðfiski. Beitin fyrir útigangssauðina var árið 1805 virt á 138 álnir[45] eða nokkru meira en svaraði einu jarðarhundraði og aðstaðan til sjósóknar á 196 álnir og hálfri betur.[46] Í sóknalýsingu séra Tómasar Sigurðssonar í Holti, sem rituð var árið 1840, er þess getið að jarðirnar Hvilft og Eyri hafi góða beit og slægjur á Sauðanesi en heima um sig fái þær fremur skaða af fjallsskriðum.[47]

Um 1920 voru öll jarðarhús fallin á Eyri en jörðin, án Sólbakka og Flateyrar, var þó virt á nær 30.000,- krónur.[48] Jörðin var þá notuð jöfnum höndum til beitar og slægna og í álitsgerð matsmanna frá sama tíma er tekið fram að á Eyri sé mjög góð fjörubeit og jörðin sé ágætis beitarjörð, bæði að vetrarlagi og á sumrin.[49] Í annarri heimild er staðhæft að Eyri hafi verið talin  ein besta jörð Önundarfjarðar[50] og mun það orð að sönnu.

Utan Landnámabókar er hvergi minnst á jörðina Eyri í Önundarfirði í íslenskum fornritum. Frásögnin af landnámsmanninum Önundi Víkingssyni, sem tók sér hér bólfestu, er því hið eina sem um jörðina finnst í heimildum frá því fyrir 1400. Í bréfum frá 15. öld er Eyrar hins vegar getið stöku sinnum og er ljóst að þá hefur kostajörð þessi orðið bitbein ríkismanna.

Í skránni yfir eignir Guðmundar ríka Arasonar á Reykhólum, sem teknar voru undir konung árið 1446, er nafn Eyrar ekki að finna.[51] Í vitnisburði Einars Þórðarsonar, fyrrum skrifara Guðmundar, frá 3. ágúst 1460 segir þó að Guðmundur hafi þóst taka bæði Kirkjuból og Eyri í Önundarfirði að erfðum en Einar kveðst reyndar hafa heyrt ákærur veittar á þær jarðir.[52] Í þessu vitnisburðarbréfi tekur Einar Þórðarson fram að sjálfur hafi hann haft umsjón með bréfagjörðum Guðmundar er hann hafði mestan yfirgang á Vestfjörðum.[53] Einar lætur þess getið að Guðmundur á Reykhólum hafi þá sölsað undir sig fjölda jarða án þess að greiða fyrir þær og telur upp þessar jarðeignir, þar á meðal Eyri.[54]

Sumarið 1478 var færð í letur á Þingvöllum skrá um dýrleika þeirra jarða sem þá var talið að Guðmundur ríki hefði náð með rangindum og skila átti aftur til hinna fyrri eigenda eða þeirra erfingja.[55] Ein þessara jarða var Eyri í Önundarfirði sem þarna er enn talin 25 hundruð að dýrleika.[56] Síðar var dýrleiki þessarar jarðar hins vegar ávallt sagður vera 24 hundruð en skýringuna á þeim mismun er reyndar auðvelt að finna eins og hér verður brátt vikið að. Þegar nýnefnd skrá var rituð hafði Halldór Hákonarson, bóndi og lögréttumaður á Kirkjubóli í Valþjófsdal, verið talinn eigandi Eyrar um alllangt skeið eða frá því fyrir 1470.[57] Frá Halldóri, sem var sonur hálfsystur Guðmundar ríka Arasonar, er sagt á öðrum stað í þessu riti (sjá hér Kirkjuból í Valþjófsdal). Í Kirkjubólsmáldaga frá 11. september 1470 er frá því greint að nýnefndur Halldór Hákonarson hafi gefið kirkjunni á Kirkjubóli í Valþjófsdal hundraðs eign í skóginum á Eyri.[58] Þetta skógarítak á Sauðanesi í landi Eyrar átti Kirkjubólskirkja lengi síðan eins og m.a. má sjá í Gíslamáldaga frá árunum upp úr 1570[59] og í Jarðabók Árna og Páls frá árinu 1710.[60] Í Jarðabókinni er þess getið að nefnt skógarítak sé í Barðsurðum á Sauðanesi en þar sé hins vegar ekkert eftir af trjágróðri.[61] Barðsurðir eru fyrir ofan klettabríkina Stóra-Barð sem gengur í sjó fram rétt utan við Björgin og Bjargavík á Sauðanesi en hún er skammt fyrir utan Kálfeyri (sjá hér bls. 112-114).

Óljóst er nú hversu lengi Halldór Hákonarson á Kirkjubóli átti Eyri en í vitnisburðarbréfum frá árinu 1521 segir að Halldór hafi selt hana mági sínum, Þorsteini Sveinssyni, og fengið hjá honum í staðinn jarðirnar Grafargil og Tungu í Valþjófsdal.[62] Þorsteinn var kvæntur Bergljótu Halldórsdóttur, hálfsystur Halldórs Hákonarsonar (sjá hér Kirkjuból í Valþjófsdal og Grafargil) og kynni að hafa búið á Eyri um eitthvert skeið. Í vitnisburði frá 18. febrúar 1521 er komist svo að orði að fyrir Grafargil og Tungu hafi Halldór gefið Þorsteini Sveinssyni  fimm hundruð og tuttugu í jörðinni Eyri er liggur í Önundarfirði … að fráteknu hundraði í skógi er Halldór hafði gefið kirkjunni á Kirkjubóli í Valþjófsdal.[63]

Hér var áður að því vikið að á dögum Guðmundar Arasonar ríka hefði jarðardýrleiki Eyrar verið talinn 25 hundruð en hins vegar 24 hundruð í öllum heimildum frá því eftir 1470. Af því sem nú hefur verið sagt virðist augljóst að matið á jörðinni hafi verið lækkað um eitt hundrað þegar skógarteigurinn í Barðsurðum var skilinn frá henni og gefinn kirkjunni í Valþjófsdal.

Eigi síðar en um 1480 náði hálfkirkjan á Hvilft, næsta bæ við Eyri, að eignast fimm hundruð úr Eyrarjörðinni ef marka má vitnisburð séra Narfa Böðvarssonar í Holti frá 21. apríl 1484 (sjá hér Hvilft). Nýnefndur prestur heldur því reyndar fram að hálfkirkjan á Hvilft eða eigandi hennar, Örnólfur Einarsson, hafi átt þessi fimm hundruð úr Eyri alveg frá því um 1460 eða lengur[64] sem stangast á við það sem hér var sagt um eignarhald Halldórs Hákonarsonar og Þorsteins Sveinssonar á allri Eyrarjörðinni. Þarna hefur því orðið einhver brenglun í vitnisburðunum en hvernig sem því hefur verið varið er unnt að fullyrða að títtnefnd hálfkirkja á Hvilft átti fimm hundruð í Eyri a.m.k. frá því um 1480 og allt þar til hún var lögð niður á árunum kringum 1600[65] (sbr. hér Hvilft). Þegar kirkjan var lögð niður náðu Hvilftarmenn að eignast margvísleg ítök í landi Eyrar, það er beitarrétt á Sauðanesi, rekaréttindi, rétt til selstöðu og ákveðin réttindi á Kálfeyri (sjá hér Hvilft). Þessi réttindi virðast Hvilftarmenn hafa öðlast er þeir létu af hendi þau fimm jarðarhundruð sem hálfkirkjan hafði átt en allt olli þetta síðar miklum deilum og var dæmt í þeim málum árið 1852 eins og hér hefur áður verið gerð grein fyrir (sjá hér Hvilft) og gat eigandi Hvilftar unað vel við dómsniðurstöðuna sem þá fékkst.

Hér hafa nú verið nefndir þrír elstu eigendur Eyrar, sem um er kunnugt eftir 1400, og er þá Guðmundur Arason ríki talinn einn þeirra en hinir tveir Halldór Hákonarson og Þorsteinn Sveinsson. Næsti eigandi Eyrar sem vitað er um með fullri vissu hét Örnólfur Jónsson[66] og mun hann hafa átt alla jörðina að frátöldum eignarhlut hálfkirkjunnar á Hvilft. Þegar Örnólfur gekk að eiga Steinunni Ólafsdóttur úr Súgandafirði í lok ársins 1549 hafði hann bæði Eyri og Hvilft til kaups og kvonarmundar eins og frá er greint í kaupmálabréfi sem skrifað var á Stað í Súgandafirði 30. desember 1549[67] (sbr. hér Hvilft). Líklegt má telja að brúðguminn, Örnólfur Jónsson, hafi verið niðji Örnólfs Einarssonar sem átti Hvilft, hálfa eða alla, um nokkurt skeið á síðari hluta 15. aldar og hér var nýlega nefndur. Sá Örnólfur var bóndasonur frá Hvilft en varð sýslumaður í Barðastrandarsýslu og bjó í Hvestu í Arnarfirði.[68]

Annar tveggja festingarvotta við gerð kaupmála Örnólfs Jónssonar og Steinunnar Ólafsdóttur 30. desember 1549 var séra Ari Jónsson[69] sem þá var prestur á Stað í Súgandafirði.[70] Nokkrar líkur benda til þess að séra Ari hafi eignast hálfa Eyri, nema þar sé um nafna hans að ræða. Í Alþingisbókinni frá árinu 1592 segir svo:

 

Ég Bjarni Jónsson í löglegu umboði séra Ólafs Jónssonar lýsi hér í dag lögveði í hálfri jörðinni Eyri í Önundarfirði, 12 hundruð að dýrleika, liggjandi í Holtskirkjusókn eftir þeim skilmála sem Páll heitinn Sveinsson hafði áður gjört við Ara Jónsson.[71]

 

Þennan texta er varla hægt að skilja á annan veg en þann að það hafi verið Ari Jónsson sem átti hálflenduna á Eyri og að hann hafi á árum áður gefið Páli Sveinssyni kost á að taka veð í jörðinni. Árið 1592 var Páll andaður eins og tilvitnaður texti ber með sér en fyrir hönd erfingjanna tók séra Ólafur Jónsson málið upp og fól Bjarna Jónssyni að þinglýsa þessu lögveði á Alþingi svo að enginn réttur tapaðist. Presturinn, séra Ólafur, getur enginn annar verið en séra Ólafur Jónsson sem árið 1592 var heimilisprestur í Bæ á Rauðasandi en tók fáum árum síðar við Sandaprestakalli í Dýrafirði og enn er þjóðkunnur fyrir skáldskap sinn. Enginn annar prestur bar þetta nafn árið 1592 ef marka má Íslenskar æviskrár.[72] Annað sem styrkir þá kenningu að það hafi verið séra Ólafur, síðar prestur á Söndum, sem lét lýsa lögveði í hálfri Eyri árið 1592 er að faðir Guðrúnar konu hans hét einmitt Páll Sveinsson og var bóndi á Sæbóli,[73] að því er ætla má á Ingjaldssandi. Hér getur því vart leikið nokkur vafi á en Bjarni Jónsson sem annaðist þinglýsinguna í umboði séra Ólafs er eflaust sá maður með þessu nafni sem var lögsagnari eða sýslumaður í vesturhluta Ísafjarðarsýslu á síðustu áratugum 16. aldar[74] (sbr. hér Kirkjuból í Korpudal).

Úr annarri heimild er kunnugt að Guðrún Pálsdóttir, eiginkona séra Ólafs á Söndum, átti a.m.k. hálfa Eyri um skeið því Ólafur seldi frænda sínum, Ara Magnússyni, sýslumanni í Ögri, þá hálflendu 30. mars árið 1604.[75] Frá kaupsamningnum var gengið á Söndum nefndan dag og segir þar m.a. svo:

 

Það meðkennist, auglýsi og opinbert gjöri ég, Ólafur Jónsson prestur, með þessu opnu bréfi fyrir öllum sem það sjá og heyra að ég hefi selt frómum og heiðarlegum manni, mínum frænda Ara Magnússyni, með samþykki minnar kvinnu, Guðrúnar Pálsdóttur hennar jarðarpart í Eyri í Önundarfirði, 12 hundruð að dýrleika, undan okkur og okkar erfingjum en undir fyrrnefndan Ara og hans eftirkomendur ….[76]

 

Í staðinn fyrir hálfa Eyri fengu séra Ólafur og Guðrún kona hans jörðina Höfn í Þingeyrarhreppi, 12 hundruð að fornu mati, en þá jörð hafði Ari sýslumaður átt.[77]

Þeir séra Ólafur á Söndum og Ari í Ögri voru þremenningar að frændsemi því Eggert lögmaður Hannesson, sem var afi Ara, var hálfbróðir ömmu séra Ólafs.[78] Sú er skýringin á því að hann nefnir Ara frænda sinn í kaupsamningnum sem hér var vitnað til og reyndar hafði séra Ólafur alist upp hjá Eggerti Hannessyni og að nokkru hjá foreldrum Ara sýslumanns, þeim Magnúsi prúða Jónssyni og Ragnheiði Eggertsdóttur.[79] Með hliðsjón af því sem hér hefur verið sagt má telja nær fullvíst að það hafi verið eiginkona skáldsins, séra Ólafs á Söndum, sem átti Eyri, hálfa eða alla, árið 1594 þegar bændum sem hér bjuggu var með dómi bannað að veiða rauðmaga í net fyrir landi jarðarinnar vegna almúgans nauðsynja (sjá hér Mosvallahreppur, inngangskafli). Rökin fyrir dómsniðurstöðunni voru þau að netaveiðarnar hömluðu göngu rauðmagans inn í Holtsós en þar var almenningur þar sem allir máttu stanga þennan góða fisk sér til bjargar (sjá hér Mosvallahreppur, inngangskafli).

Ari Magnússon, sýslumaður í Ögri, eignaðist Eyri árið 1604 eins og hér var áður nefnt. Allar líkur benda til þess að hann hafi átt jörðina til æviloka og síðan niðjar hans langt fram á 18. öld. Ari í Ögri andaðist árið 1652[80] og fullvíst er að sonur hans Þorlákur lögréttumaður í Súðavík var eigandi Eyrar árið 1658.[81] Þorlákur Arason átti bæði Eyri og Hvilft, sem er næsta jörð, og að honum látnum komust þessar jarðir í eigu Helgu dóttur hans sem giftist Jóni Vigfússyni, sýslumanni á Stórólfshvoli í Rangárvallasýslu (sjá hér Hvilft). Helga Þorláksdóttir, sýslumannsekkja á Stórólfshvoli, átti bæði Eyri og Hvilft árið 1695[82] og árið 1710 voru þessar sömu jarðir í eigu sonar hennar, Erlendar Jónssonar á Stórólfshvoli,[83] en hann drukknaði í Markarfljóti árið 1723 (sjá hér Hvilft). Sonur Erlendar á Stórólfshvoli var séra Vigfús á Setbergi í Grundarfirði[84] og má ætla að hann sé sá Vigfús Erlendsson sem átti bæði Eyri og Hvilft árið 1762.[85] Séra Vigfús Erlendsson andaðist árið 1781 en tíu árum síðar fluttist Ólafur Magnússon frá Núpi í Dýrafirði að Eyri[86] og fyrir liggur að hann eignaðist um þær mundir bæði Eyri og Hvilft (sjá hér Hvilft) sem hann að líkindum hefur keypt af erfingjum séra Vigfúsar.

Hér verður brátt sagt nánar frá Ólafi Magnússyni er var fyrsti sjálfseignarbóndinn á Eyri sem um er kunnugt með fullri vissu en hann og síðan kona hans, sonur og sonarsonur bjuggu hér á Eyri allt til ársins 1883 ef frá eru talin árin 1805-1810.[87]

Árið 1805 seldi Ólafur Magnússon Brynjólfi Hákonarsyni Eyri og bjó Brynjólfur hér í fjögur ár en seinna lengi á Mýrum í Dýrafirði.[88] Árið 1809 náði sonur Ólafs, sem Magnús hét, að rifta þeim kaupum og urðu erfingjar Ólafs Magnússonar þá eigendur Eyrar.[89] Allmörgum árum síðar, líklega um 1826, náði Friðrik Svendsen, kaupmaður á Flateyri, að kaupa 7 hundruð í Eyri af einum sona Ólafs Magnússonar og eigi síðar en 1835 var hann orðinn eigandi að 16 hundruðum úr Eyrarjörðinni (sjá hér Flateyri) og átti þar með 2/3 af allri jörðinni. Þessi 16 hundruð keypti svo Torfi Halldórsson á Flateyri af erfingjum Svendsens árið 1858 en þau átta hundruð sem Svendsen eignaðist ekki héldust í eigu fólksins sem bjó á Eyri, niðja Ólafs Magnússonar[90] sem  hér verður nánar sagt frá síðar. Fyrir andlát sitt árið 1906 hafði Torfi þó náð að eignast eitt hundrað í viðbót úr Eyrarjörðinni og átti þá sautján hundruð (sjá hér Flateyri). Um 1920 átti sonur Torfa, Kristján Torfason á Sólbakka, þessi 17 jarðarhundruð.[91] Kjartan Rósinkranzson á Flateyri átti þá eitt hundrað í Eyrarjörðinni en sex hundruð áttu enn niðjar Ólafs Magnússonar frá Núpi, sem settist hér að árið 1791, nánar tiltekið erfingjar sonarsonar hans og nafna, Ólafs Magnússonar sem dó bóndi á Eyri árið 1883.[92]

Þau orð sem hér hafa verið fest á blað nægja til að sýna að fátt skortir til þess að setja saman tæmandi skrá yfir eigendur Eyrar allt frá dögum Guðmundar ríka um miðbik 15. aldar, enda hélst jörðin öll eða partur úr henni stundum býsna lengi í eigu sömu ættarinnar.

Um fjölda býla á Eyri fyrir 1680 er allt ókunnugt en árið 1681 bjuggu hér tveir bændur.[93] Á 18. öld, allt fram til 1791, virðast býlin á Eyri oftast hafa verið þrjú[94] en stundum þó ekki nema tvö.[95] Er jörðin komst í sjálfsábúð, undir lok 18. aldar, varð hér breyting á og þaðan í frá var yfirleitt aðeins einn bóndi búsettur á Eyri.[96] Undantekningar finnast þó frá þessari reglu og má sem dæmi nefna að árið 1816 voru bræðurnir Magnús Ólafsson og Kjartan Ólafsson báðir bændur á Eyri.[97] Um skeið munu feðgarnir Magnús Ólafsson og Ólafur Magnússon yngri líka hafa búið hér í tvíbýli.[98] Allt frá árunum kringum 1830 voru tveir þriðjungar úr jörðinni jafnan í eigu manna sem áttu heima á Flateyri og nytjaðir þaðan eins og hér hefur nýlega verið nefnt. Þessir eigendur, þeir Friðrik Svendsen og Torfi Halldórsson, eru þó ekki flokkaðir hér sem bændur á Eyri. Um 1870 tók þurrabúðarmönnum að fjölga á Eyri eins og hér verður síðar vikið að en að sjálfsögðu eru þeir ekki flokkaðir með bændum.

Á árunum 1650-1710 var landskuldin af Eyri 160 álnir[99] eða sem svaraði 1 og 1/3 úr kýrverði. Þessa landskuld urðu leiguliðarnir sem hér bjuggu að greiða á hverju ári og á fyrri hluta 18. aldar eða um miðbik hennar hækkaði landskuldin í 170 álnir.[100] Þaðan í frá mun hún hafa haldist óbreytt meðan leiguliðar bjuggu á jörðinni.[101] Leigukúgildin sem jafnan fylgdu Eyrarjörðinni á fyrri tíð voru yfirleitt sex á árunum 1650-1790 en þó aðeins fimm árið 1681.[102] Lögleiga fyrir hvert kúgildi var 10 kíló af smjöri ár hvert eða 20 álnir (1/6 úr kýrverði) í öðrum skileyri.[103] Ætla má að í þeim efnum hafi leiguliðarnir á Eyri setið við sama borð og aðrir.

Úr röðum bændanna sem bjuggu á Eyri fyrstu 800 árin eða því sem næst eftir landnám eru aðeins tveir þekktir með nafni, þeir Markús Guðmundsson og Vilhjálmur Ólafsson, sem höfðu hér sína hálflenduna hvor til ábúðar árið 1681.[104] Er þá litið fram hjá landnámsmanninum Önundi Víkingssyni sem hendur verða tæplega festar á og þeim eigendum jarðarinnar sem ef til vill hafa búið hér um skeið á 15. og 16. öld og áður hafa verið nefndir (sjá hér bls. 6-7). Þögnin sem geymir nöfn hinna fyrri Eyrarbænda gefur tilefni til að rifja upp gamla vísu hafða eftir ferðamanni sem sagði fréttir frá þessum bæ fyrir margt löngu en hún er svona:

 

Enginn talar orð á Eyri,

enginn trúi ég mál þar heyri

daga og vikur heilar hér,

utan þetta: Lestu, lærðu,

lypptu, spinndu, sjóddu, hrærðu;

þegjandi róður þungbær er.[105]

 

Markús Guðmundsson, sem var bóndi á Eyri árið 1681, virðist hafa búið hér mjög lengi því maður með því nafni bjó á jörðinni árið 1703, þá 63ja ára gamall,[106] og enn 1710,[107] og hefur þá verið orðinn sjötugur. Á búskaparárum Markúsar, nánar til tekið í nóvembermánuði árið 1695 urðu hér miklir skaðar af völdum skriðufalla og lá við að allt túnið á Eyri færi undir skriðu.[108] Magnús Magnússon, sýslumaður sem þá bjó á Eyri í Seyðisfirði við Djúp, greinir frá þessum náttúruhamförum í Eyrarannál og segir miklar skemmdir hafa orðið á mörgum jörðum í Ísafjarðarsýslu.[109] Í Önundarfirði nefnir hann sérstaklega jarðirnar Hest, Tungu, Kirkjuból og Eyri, hvar tún mestallt af tók.[110] Hér hefur áður verið rakin að nokkru lýsing Magnúsar sýslumanns af veðurfarinu á Vestfjörðum á þessu hamfara- og harðindaári, 1695, þegar hafís lá við land frá þorra og fram á sumar og ríða mátti nes af nesi fyrir allar fjörður um veturinn (sjá hér Neðri-Hjarðardalur) og ei varð harðatorf [mór] til eldiviðar í torfgröfum skorið um sumarið sökum klaka í jörð.[111]

Allt þetta fengu Markús bóndi á Eyri og hans fólk að reyna og líklega hafa fleiri en Magnús sýslumaður veitt því athygli að bæði sól og tungl báru nú minni birtu en áður. Um þessar ógnir á himinhvelinu árið sem skriðan mikla hljóp á Eyrartúnið ritar sýslumaður svo:

 

Frá þessum nýársdegi [1695] og allt fram á góu gaf sólin ei svo mikla birtu eður hita af sér sem annars venjulegt var og til forna verið hafði svo umferðamenn sáu ei sinn skugga á hæstu fjöllum, hvar margir menn eftir tóku. Í sama máta um tunglsins skin að það skein ei svo skært um þennan tíma sem áður vanalegt verið hafði, hvað ei skeð hafði að elstu manna frásögu í næstu 80 eður 90 ár. Og þeir segja að álíka skeð hafi það ár sem Tyrkjar ræntu í Vestmannaeyjum og Austfjörðum.[112]

 

Vera má að þarna hafi gætt áhrifa frá Heklugosinu mikla árið 1693 en spurningunni um það hvort svo geti hafa verið er þó best að vísa til jarðfræðinga og annarra náttúruvísindamanna.

Ekki gafst Markús bóndi á Eyri upp við búskapinn þó að harðindin þrengdu að og túnið færi nær allt undir skriðu. Beitin á Sauðanesi og fiskurinn í sjónum hafa orðið fólkinu á Eyri til bjargar. Þegar manntal var tekið árið 1703 voru átta ár liðin frá hinum miklu skriðuföllum. Þá bjó Markús bóndi hér enn ásamt konu sinni, Járngerði Sveinsdóttur, hann 63ja ára, hún fimm árum yngri.[113] Tveir synir þeirra, annar 16 ára en hinn 21 árs, voru þá enn á heimili foreldranna og hétu báðir Sveinn.[114] Hjá þeim voru líka þrjár vinnukonur svo þetta var sjö manna heimili.[115] Árið 1703 var þríbýli á Eyri. Auk Markúsar Guðmundssonar bjuggu hér Guðmundur Markússon, 32ja ára, sem kvæntur var Guðfinnu Bárðardóttur, og ekkjan Vilborg Markúsdóttir sem var 28 ára gömul og hafði Jón Björnsson, 39 ára, að fyrirvinnu.[116] Líklegt virðist að bæði Guðmundur og Vilborg hafi verið börn gömlu hjónanna sem fyrr voru nefnd, Markúsar og Járngerðar, en Bárður, faðir Guðfinnu á Eyri, var sonur Torfa Jónssonar á Gerðhömrum í Dýrafirði og fyrri konu hans, Hallbjargar Ólafsdóttur.[117] Heimilin þrjú á Eyri voru öll álíka fjölmenn árið 1703 og að meðtöldum tveimur einhleypum húsmönnum, sem nærðust á sjóróðrum, voru tuttugu manneskjur og einni betur skráðar hér til heimilis það ár.[118]

Ætla má að eitthvað af Eyrarfólki hafi dáið í stórubólu árið 1707, þegar um það bil þriðjungur þjóðarinnar týndi lífi, og reyndar getur Jón Espólín þess að börn Guðmundar og Guðfinnu á Eyri hafi dáið í bólunni.[119] Markús bóndi lifði þó bóluna af og bjó enn á Eyri árið 1710, nú í tvíbýli á móti Guðfinnu Bárðardóttur.[120] Líklega er það sama Guðfinna Bárðardóttir og var húsfreyja hér árið 1703, þá gift Guðmundi Markússyni sem fyrr var nefndur. Nú, sjö árum síðar, mun hún hafa verið orðin ekkja. Bú Markúsar og Guðfinnu voru bæði álíka stór. Hann bjó með 4 kýr, 35 ær, 52 sauði, 26 lömb og 2 hesta en hún með 4 kýr, 33 ær, 51 sauð, 31 lamb og 2 hross.[121] Þessi bú voru talsvert stærri en almennt gerðist því sauðirnir á Eyri voru mun fleiri en á nokkurri annarri jörð í Mosvallahreppi og aðeins hjá prestinum í Holti voru fleiri ær (sjá hér Mosvallahrepur, inngangskafli).

Árið 1735 bjó Sveinn Markússon á Eyri[122] og er að líkindum annar tveggja sona Markúsar Guðmundssonar sem voru ungir í foreldrahúsum árið 1703 og hétu báðir Sveinn. Sambýlismenn Sveins bónda á Eyri árið 1735 voru Bjarni Bessason og Bjarni Jónsson.[123] Árið 1753 bjuggu Sveinn Markússon og Bjarni Jónsson enn á Eyri,[124] líklega hinir sömu og hér voru við búskap átján árum fyrr. Þriðji bóndinn á Eyri árið 1753 hét Guðmundur Sveinsson[125] sem gæti hafa verið sonur nýnefnds Sveins Markússonar, en um það hvort svo hefur verið er þó ekki unnt að fullyrða neitt. Af þessum þremur bændum, sem bjuggu á Eyri árið 1753, virðist Bjarni Jónsson hafa verið efnaðastur því hann var sá eini þeirra sem gert var að greiða skatt.[126] Tíundarskyldur lausafjárstofn hjá Bjarna var þá 8 hundruð en 5 hundruð hjá Sveini og 4 hundruð hjá Guðmundi.[127]

Guðmundur Sveinsson, bóndi á Eyri, hefur að líkindum verið ungur maður árið 1753 því börn hans fimm, sem um er kunnugt, fæddust öll á árunum 1749-1759.[128] Eiginkona Guðmundar Sveinssonar á Eyri hét Anna Guðmundsdóttir og var að sögn Jóns Espólín dóttir Guðmundar Jónssonar, bónda á Hvilft, og konu hans, Ingibjargar Pálsdóttur.[129] Árið 1762 var Anna Guðmundsdóttir ein þriggja ábúenda á Eyri[130] og mun þá hafa verið orðin ekkja því Guðmundur Sveinsson, eiginmaður hennar, fórst í snjóflóði á Klofningsheiði á leið úr Önundarfirði til Súgandafjarðar á árunum kringum 1760.[131] Sighvatur Grímsson Borgfirðingur greinir frá ævilokum Guðmundar og getur þess að hann hafi áður verið í skóla en misst hann.[132] Ætla má að það hafi verið Skálholtsskóli sem Guðmundur náði að setjast í og orð Sighvats verður að skilja svo að þar hafi hann misst ölmusuna, það er að segja námsstyrkinn sem fátækum piltum var veittur, og orðið af þeim ástæðum að hætta námi. Þetta hefur þó ekki tekist að fá staðfest.[133]

Eins og áður var nefnt bjó ekkja Guðmundar Sveinssonar, Anna Guðmundsdóttir, á Eyri árið 1762. Hún var þá 34 ára gömul með fjögur börn sín á aldrinum 5-12 ára.[134] Hjá henni var þá einn vinnumaður og ein vinnukona.[135] Meðal barna Guðmundar Sveinssonar á Eyri og Önnu konu hans voru Guðrún, kona Þorláks Sigurðssonar á Hóli í Firði (sjá hér Hóll í Firði), Halldóra, kona Bernharðar Guðmundssonar á Kirkjubóli í Korpudal (sjá hér Kirkjuból í Korpudal), og Guðmundur Guðmundsson meðhjálpari sem bjó á Hóli á Hvilftarströnd frá því um 1790 og til dauðadags árið 1819 (sjá hér Hóll á Hvilftarströnd). Frá börnum Guðmundar Sveinssonar á Eyri og Önnu konu hans, bæði þeim sem hér voru talin og öðrum, er nú kominn mikill fjöldi niðja. Ekkjan Anna Guðmundsdóttir á Eyri giftist í annað sinn á árunum kringum 1765 en seinni maður hennar var Þorsteinn Bjarnason, síðar bóndi á Hvilft (sjá hér Hvilft). Líklega hafa þau Þorsteinn og Anna búið í nokkur ár á Eyri því Ástríður dóttir þeirra fæddist hér um 1770.[136]

Eins og áður var getið bjuggu þau Guðmundur Sveinsson og Anna kona hans í þríbýli hér á Eyri árið 1753 og þrjú býli voru hér líka árið 1762 þegar sama Anna var búandi ekkja.[137] Hinir bændurnir tveir, sem þá bjuggu á Eyri, hétu Bjarni Jónsson og Jón Bjarnason.[138] Sá fyrrnefndi var 69 ára gamall[139] og er að líkindum sami Bjarni Jónsson og hér bjó 1735 og 1753 (sjá hér bls. 14). Jón Bjarnason, þriðji bóndinn á Eyri árið 1762, var þá 28 ára gamall og gæti því vel hafa verið sonur nýnefnds Bjarna Jónssonar en óvíst er hins vegar hvort svo hefur verið. Þessir tveir Eyrarbændur voru báðir kvæntir og árið 1762 voru ellefu heimilismenn hjá Bjarna en fjórir hjá Jóni.[140]

Um Jón Bjarnason, unga bóndann á Eyri árið 1762, er ekkert vitað með vissu umfram það sem sést í manntalinu frá því ári en vel gæti hann hafa búið hér fram yfir 1780. Bent hefur verið á að líklega sé það hann sem dó í Önundarfirði vorið 1804, þá ekkjumaður og sveitarómagi, kominn fast að sjötugu.[141]

Árið 1786 bjuggu á Eyri bændurnir Jón Magnússon frá Görðum og Magnús Jónsson sem seinna bjó á Görðum.[142] Hér hefur áður verið sagt lítið eitt frá báðum þessum bændum sem fæddir voru á árunum upp úr 1740 (sjá hér Garðar). Jón Magnússon, bóndi á Eyri, kvæntist í annað sinn vorið 1789[143] og fluttist þá að Kirkjubóli í Valþjófsdal þar sem hann bjó í nokkur ár en síðar á Sæbóli á Ingjaldssandi (sjá hér Garðar). Þegar Jón fór frá Eyri hóf hér búskap á hálflendunni sem hann hafði búið á maður að nafni Guðmundur Þorvarðsson.[144] Guðmundur bjó hér aðeins í tvö ár en fluttist þá að Hvilft og hefur áður verið um hann fjallað (sjá hér Hvilft).

Þegar Guðmundur Þorvarðsson fluttist frá Eyri að Hvilft vorið 1791 fór Ólafur Magnússon að búa hér á hálfri Eyrarjörðinni.[145] Með komu hans að Eyri urðu þáttaskil því öldum saman höfðu allir sem hér bjuggu verið leiguliðar (sjá hér bls. 6-10) en Ólafur keypti jörðina um svipað leyti og hann fluttist hingað búferlum (sjá hér Hvilft). Þáttaskilin fólust líka í því að með komu Ólafs hófst nær hundrað ára langt tímabil sem sama ættin sat hér nær óslitið að búi, fyrst nýnefndur Ólafur en síðan ekkja hans, sonur þeirra og sonarsonur. Í fjögur ár á þessu langa skeiði var þó ekkert af þessu fólki búandi á Eyri eins og hér verður síðar gerð grein fyrir.

Fyrstu fimm árin sem Ólafur Magnússon var á Eyri, 1791-1796, bjó hann ekki sjálfur á allri jörðinni.[146] Fardagaárið 1791-1792 var Magnús Jónsson, sem fyrr var nefndur og hér hafði búið í nokkur ár, með ábúð á hálfri jörðinni eins og verið hafði.[147] Hann fluttist að Görðum 1792 og dó þar 1803, þá hreppstjóri[148] (sbr. hér Garðar). Frá 1792-1796 bjó Ólafur á 16 hundruðum úr Eyri en Daniel Steenbach, verslunarstjóri á Flateyri, nytjaði þá 8 hundruð úr Eyrarjörðinni.[149] Vorið 1796 bætti Ólafur svo við sig þessum 8 hundruðum og bjó þaðan í frá einn á allri jörðinni.[150]

Ólafur Magnússon kom að Eyri frá Núpi í Dýrafirði en þar hafði hann búið í allmörg ár í sambýli við bróður sinn, Magnús Magnússon, sem bjó áfram á Núpi uns hann andaðist nær fjórum áratugum síðar (sjá hér Núpur). Faðir þeirra bræðra var Magnús Björnsson, bóndi á Núpi, og móðirin, að því er ætla má, önnur tveggja eiginkvenna hans en bóndi þessi á Núpi átti fyrst Guðnýju Ólafsdóttur frá Sæbóli og síðan Sigríði Þorleifsdóttur.[151] Magnús Björnsson á Núpi, faðir Ólafs á Eyri, var af hinni gömlu Núpsætt sem rekja má til Hannesar Eggertssonar hirðstjóra er sat á Núpi á árunum um og upp úr 1520 (sjá hér Núpur). Höfuðbólið Núp fékk Hannes með konu sinni Guðrúnu, dóttur Björns Guðnasonar í Ögri, sem eignaðist Núp árið 1508 (sjá hér Núpur). Eggert lögmaður, sonur Hannesar hirðstjóra, eignaðist Núp eftir föður sinn og bjó þar um skeið en seldi jörðina sumarið 1556 mági sínum, Þorláki Einarssyni sýslumanni sem kvæntur var Guðrúnu Hannesdóttur, systur Eggerts (sjá hér Núpur). Núpur gekk síðan jafnan að erfðum frá föður til sonar, allt þar til Ólafur Magnússon, síðar bóndi á Eyri, og Magnús bróðir hans erfðu þetta forna höfuðból við andlát föður síns árið 1777 (sjá hér Núpur). Flestir bjuggu þessir forfeður Ólafs Magnússonar á ættaróðalinu Núpi og reyndar allir nema tveir en alls voru þetta níu ættliðir ef Hannes Eggertsson hirðstjóri er talinn fyrstur og Ólafur eða Magnús bróðir hans síðastur (sjá hér Núpur). Tíunda liðnum má svo bæta við, ef horft er á eigendur jarðarinnar, það er Birni Guðnasyni í Ögri sem var tengdafaðir Hannesar hirðstjóra og eignaðist Núp árið 1508 en bjó þar reyndar aldrei.

Í manntalinu sem tekið var árið 1801 er Ólafur Magnússon á Eyri sagður vera 47 ára gamall[152] og mun því hafa fæðst árið 1753 eða 1754. Kona hans var Þuríður, dóttir séra Gísla Bjarnasonar, sem var prestur í Dýrafjarðarþingum og á Stað í Súgandafirði, og konu hans Þuríðar Jónsdóttur frá Melum í Hrútafirði.[153] Þess var áður getið að faðir Ólafs hefði andast árið 1777 en Ólafur og Þuríður kona hans munu hafa byrjað sinn búskap á Núpi um eða rétt eftir 1780 því elsta barn þeirra fæddist þar árið 1782.[154] Þuríður var fimm árum yngri en Ólafur.[155]

Í sóknarmannatali frá árinu 1785 er Ólafur Magnússon, sem þá bjó á Núpi, sagður vera forstandugur og alúðlegur en Þuríður kona hans hægferðug og siðsöm.[156] Í sömu heimild fær tengdamóðir Ólafs, prestsekkjan Þuríður Jónsdóttir, hins vegar þá umsögn að hún sé guðhrædd og sköruleg og  fárra líki að siðsemi og kunnáttu.[157]

Síðustu árin sem Ólafur var á Núpi, 1789 og 1790, átti hann meiri viðskipti við verslunina á Þingeyri en aðrir bændur í Dýrafirði sem um er kunnugt[158] og má því ætla að hann hafi verið sæmilega loðinn um lófana. Viðskiptavelta hans hjá versluninni var þá 74-78 ríkisdalir á ári.[159]

Ekki er vitað með fullri vissu hvaða ár Ólafur Magnússon festi kaup á jörðunum Eyri og Hvilft í Önundarfirði en skjalfest er að það var nokkrum árum fyrir 1796 (sjá hér Hvilft). Líklegast verður því að telja að hann hafi keypt Eyri sama ár og hann fluttist hingað, það er 1791, eða árið áður. Sé svo hefur það verið Ólafur sem samdi við Henrik Henkel, eiganda Þingeyrarverslunar, um að útibú frá henni yrði sett upp á Flateyri, í landi Eyrar, en það tók til starfa árið 1792 eins og hér hefur áður verið gerð grein fyrir. Þá var eitt ár liðið frá því Ólafur gerðist sjálfseignarbóndi á Eyri.

Hér eru á öðrum stað leiddar líkur að því að Núpstorfan, sem að fornu mati var 60 hundruð, að hjáleigunum meðtöldum, hafi skipst þannig milli bræðranna Ólafs og Magnúsar Magnússona að Ólafur hafi átt hjáleigurnar Ytrihús, Innrihús og Rana en Magnús heimajörðina, sem var 20 hundruð, og Kotnúp (sjá hér Núpur). Áttu þá bræðurnir sín 30 hundruðin hvor að kirkjueigninni sem var 20 hundruð meðtalinni en hún var í rauninni þeirra eign því að kirkjan var bændakirkja. Þegar Ólafur Magnússon fluttist frá Núpi að Eyri í Önundarfirði virðist hann ekki hafa selt eignarhlut sinn í Núpsjörðinni. Ekki liggur þó allt ljóst fyrir í þeim efnum en í jarðabók frá árinu 1805 segir að Núpur sé í eigu kirkjunnar þar og tveggja bænda.[160] Vitað er að annar þessara bænda var Magnús Magnússon, bróðir Ólafs, sem bjó á Núpi[161] og vera má að Ólafur hafi þá enn verið hinn eigandinn.

Árið 1801 hafði Ólafur Magnússon búið í tíu ár á Eyri með Þuríði konu sinni. Fimm synir þeirra hjóna voru þá á lífi, sá elsti 19 ára, og allir í foreldrahúsum.[162] Dætur eignuðust þau aldrei og synirnir fæddust allir áður en 18. öldinni lauk.[163] Alls voru þeir sjö en tveir dóu á barnsaldri.[164] Hinir voru þessir: Magnús sem varð bóndi á Eyri, Ólafur sem varð hattamakari og átti lengst heima á Eyri í Skötufirði, Kjartan sem varð bóndi í Tröð, Rósinkranz sem drukknaði 17 ára í mannskaðanum mikla árið 1812 og Jón sem varð bóndi á Kaldá og dó fertugur að aldri árið 1841.[165] Alls voru heimilismenn á Eyri 16 árið 1801. Auk fjölskyldu Ólafs voru á heimilinu fjórir vinnumenn, þrjár vinnukonur, eitt fósturbarn og svo systir Þuríðar húsfreyju.[166]

Árið 1803 var Ólafur Magnússon á Eyri orðinn hreppstjóri í Mosvallahreppi og er í sóknarmannatali frá því ári sagður forstandugur, mannlegur og eftir sínu standi vel að sér.[167] Hjá prestinum í Holti, séra Jóni Ásgeirssyni, fékk Þuríður húsfreyja á Eyri þá umsögn þetta sama ár að hún væri sæmdarkona, góðmannleg og vel að sér.[168]

Um þetta leyti varð Ólafur fimmtugur og þá virðist hafa gripið hann einhver undarleg óró sem leiddi til þess að hann tók sig upp og fluttist af landi brott, líklega til Englands, árið 1805.[169] Þessi ráðabreytni hins forstönduga hreppstjóra á Eyri sætti miklum tíðindum því einsdæmi mátti heita á þeim tíma að ráðsettur íslenskur bóndi yfirgæfi torfuna og settist að í öðrum pörtum heimsins, fjarri fósturjarðarströndum

Enginn veit nú hvað valdið hefur mestu um þessa ákvörðum Ólafs á Eyri en tvær skýringar koma helst til greina. Önnur er sú að kynni af erlendum sjómönnum og ævintýralöngun tengd þeim kynnum hafi leitt þennan fimmtuga hreppstjóra burt frá grónum götum vanans. Hitt er svo líka hugsanlegt að það hafi fyrst og fremst verið harðindin á árunum rétt eftir 1800 sem vöktu þá hugsun hjá Ólafi að fara burt og leita nýrra tækifæra á framandi slóðum. Vera má að þetta hvort tveggja hafi blandast saman.

Um árferðið á Íslandi í byrjun 19. aldar hefur víða verið ritað en hér verða aðeins tekin upp fáein orð úr Annál nítjándu aldar sem séra Pétur Guðmundsson, prestur í Grímsey ritaði. Um árið 1801 segir þar m.a. svo:

 

Með miðjum mars harðnaði veðrátta til muna. Hinn 11. sama mánaðar var stórhríð um allt land. Fylltust þá Vestfirðir og Norðurlandshafnir með hafís og gengu allt til 13. apríl ofviðri, frost og byljir svo varla var farandi bæja á milli án lífsháska, þótt bylurinn á góuþrælinn tæki yfir. Girti hafísinn allt land, frá Barðastrandarsýslu að vestan allt til Reyðarfjarðar að austan. Varð þá skepnufellir meiri eða minni í flestur sveitum … .

Þótt veðrátta tæki að gjörast vægari eftir fardaga kom eigi verulegur bati fyrr en um Jónsmessu og sumstaðar seinna þegar hafísinn tók að rýma frá. Fiskafli var á þessu ári víðast í betra lagi þá er hafís og ógæftir eigi hömluðu … en að því varð mörgum manni bagi í Bolungavík við Ísafjörð aðfaranótt hins 11. mars, er róðrar voru þar svo að segja nýbyrjaðir, að hafís og lagís þrengdi svo að, að þeir misstu öll veiðarfæri af 30 skipum er þeir urðu að yfirgefa og brjótast heim með allmiklu vosi en voru áður máttdregnir af hallæri því er þar var.[170]

 

Árið 1802 harðnaði enn í ári. Um þau ósköp ritar séra Pétur í Grímsey svo:

 

Þegar um nýár snerist veðrátta til kafalda allvíða. Voru spilliblotar í millum og tók þegar fyrir jörð og kom eigi upp fyrr en í maí. Mátti svo kalla að um allt land yrði vetur hinn harðasti er menn mundu og lengri en nokkur á hinni 18. öld. Var hann og af nokkrum nefndur Langijökull.

Sumstaðar á Vestfjörðum komu tún eigi upp fyrr en um venjulega sláttarbyrjun. Eigi varð fært frá fyrri en í 11. viku sumars og sumir urðu að skera hvert einasta unglamb vegna snjókyngi og gróðurleysis á afréttum. … Um Mikaelsmessu komu ný harðindi. … Hafís hafði þegar gjört vart við sig fyrir árslok 1801. Lá hann umhverfis land allan veturinn og yfirgaf eigi Norðurland fyrr en undir höfuðdag. … Allmikill fellir var um vorið bæði á hrossum og sauðfénaði og vestra bönnuðu hafísar og ófærð mönnum sjóróðra og kaupstaðarferðir. Margir flosnuðu þar upp um vorið og kvað svo rammt að þessu í Barðastrandarsýslu að börn fóru þar að leita sér uppeldis á húsgangsflakki.[171]

 

Árið 1803 og 1804 var tíðarfarið skárra en fólk var þá enn að falla úr hungri og vesöld því afleiðingar hinna miklu harðinda sögðu lengi til sín.

Þann 15. júlí 1805 gaf F.K. Trampe, amtmaður í vesturamtinu, út vegabréf fyrir Ólaf Magnússon og fleiri úr Holtssókn í Ísafjarðarsýslu.[172] Orðin sýna að Ólafur fór alls ekki einn en óvíst er hvort kona hans og synirnir fimm, sem þá voru á aldrinum 5-23 ára, hafi öll fylgt honum af landi burt. Líklegt er þó að þau hafi farið flest eða öll því enginn úr fjölskyldu Ólafs varð eftir á Eyri.[173] Áður en Ólafur fór seldi hann jörðina Brynjólfi Hákonarsyni, er seinna bjó lengi á Mýrum í Dýrafirði, og tók Brynjólfur við búsforráðum á Eyri vorið 1805.[174] Sala jarðarinnar og það að Ólafur fór ekki einn sýnir að meining hans var að flytjast búferlum en ekki að bregða sér í snögga ferð til útlanda.

Því miður varð Ólafi  ekki langra lífdaga auðið. Sighvatur Grímsson Borgfirðingur, sem náði að ræða við barnabörn Ólafs Magnússonar, segir að hann hafi dáið í Englandi árið 1806.[175] Þar er að líkindum rétt með farið og tvímælalaust er að hann andaðist utanlands fyrir 1810.[176] Sóknarmannatölin úr Holtsprestakalli frá fyrstu árum nítjándu aldar eru mjög slitrótt. Þar má þó sjá að Brynjólfur Hákonarson, þá hreppstjóri, bjó enn á Eyri árið 1808 og hér var þá enginn úr fjölskyldu Ólafs Magnússonar.[177] Ekki er hins vegar hægt að útiloka að einn eða fleiri úr fjölskyldu Ólafs hafi hafst við á öðrum bæjum í Önundarfirði um lengri eða skemmri tíma á árunum 1806-1809. Þau brot úr sóknarmannatölum sem varðveist hafa nægja engan veginn til að skera úr um það. Fullgild heimild sýnir hins vegar að ekkja hins burtsiglda og burtsofnaða bóndamanns sem hér var frá sagt, Þuríður Gísladóttir, tók á ný við búsforráðum á Eyri vorið 1809.[178]

Ekki verður nú sagt með fullri vissu hvort Þuríður og synirnir fimm fóru öll með Ólafi bónda af landi brott sumarið 1805. Hafi svo verið náðu þau öll að koma lifandi til baka nema sjálfur fjölskyldufaðirinn. Líklegast er að þau hafi þá aðeins verið utanlands í eitt eða tvö ár og komið aftur í síðasta lagi vorið 1807 því eftir árás Breta á Kaupmannahöfn síðar á því ári var mjög lítið um skipaferðir til Íslands og nær alger siglingateppa af styrjaldarástæðum árið 1808.[179]

Um einn hinna fimm sona Ólafs Magnússonar og Þuríðar konu hans á Eyri er reyndar vitað að hann dvaldist langdvölum erlendis en það er næstelsti sonurinn sem hét Ólafur og var fæddur árið 1785.[180] Hann hefur því verið rétt um tvítugt þegar faðir hans kvaddi fósturjörðina og má telja nær fullvíst að þeir feðgar hafi fylgst að. Ólafur Ólafsson frá Eyri lærði ungur hattariðn, að sagt var í Kaupmannahöfn eða í Björgvin í Noregi.[181] Á fyrri hluta 20. aldar kunnu niðjar Ólafs hattamakara frá því að segja að hann hafi starfað við flutninga hjá danska hernum og lent á vígvellinum í stríði þeirra við Englendinga 1807 eða í öðrum ófriði fáum árum síðar.[182] Bar hann þess nokkur merki, það er að segja þrjú ör og var eitt þeirra eftir fallbyssukúlu sem sagt var að hann hefði fengið í öxlina.[183] Óljóst er nú hvenær Ólafur kom aftur til Íslands en það hlýtur þó að hafa verið eigi seinna en árið 1816 því undir lok þess árs var hann heimilismaður hér á Eyri[184] og gekk haustið 1818 að eiga bóndadóttur frá Vigur.[185] Næstu ár bjó hann í Vigur en lengst á Eyri í Skötufirði við Djúp og var jafnan nefndur hattamakari, enda stundaði hann hattagerð með búskapnum.[186]

Hér var áður nefnt að Magnús Einarsson, bóndi á Hvilft, sem settist að í Önundarfirði árið 1835 eða því sem næst, greini svo frá að Magnús Ólafsson, elsti sonur Ólafs á Eyri, hafi árið 1809 náð að rifta kaupsamningnum sem gerður var þegar Ólafur faðir hans seldi Brynjólfi Hákonarsyni Eyri fjórum árum fyrr (sjá hér bls. 10). Allt bendir til þess að Magnús á Hvilft fari þarna rétt með því Brynjólfur Hákonarson bjó aðeins á Eyri í fjögur ár, 1805-1809,[187] en eins og áður sagði tók ekkja Ólafs Magnússonar aftur við jörðinni vorið 1809. Hún hóf þá þegar búskap á annarri hálflendunni en á móti henni bjó fyrstu árin Guðmundur Ólafsson sem hafði hina hálflenduna á Eyri til ábúðar frá 1809 til 1815 en fluttist þá að Neðri-Breiðadal og bjó þar næstu ár (sjá hér Neðri-Breiðadalur og  Hvilft).[188] Guðmundur hafði áður búið lengi í Súgandafirði og mun hafa flust þaðan að Eyri.

Er ekkjan Þuríður Gísladóttir tók á ný við búsforráðum á Eyri var hún fimmtug að aldri, fædd 1759 eða því sem næst.[189] Þó að eldri synirnir væru komnir vel til manns sá hún ástæðu til að fá sér ráðsmann og valdi til þess starfa Jón Magnússon, hinn yngri tveggja bræðra með því nafni en þeir voru synir hjónanna Magnúsar Jónssonar og Járngerðar Jónsdóttur sem búið höfðu á Eyri allt til ársins 1792 en seinna á Görðum[190] (sbr. hér Garðar). Þann 23. október 1810 giftist Þuríður þessum ráðsmanni sínum.[191] Hún var þá liðlega fimmtug en hann 37 ára eða því sem næst.[192] Sambúð þeirra stóð stutt því að hinn nýi bóndi á Eyri, eiginmaður Þuríður, týndi lífi í mannskaðanum mikla vorið 1812 (sjá hér Mosvallahreppur, inngangskafli). Þá drukknaði líka stjúpsonur hans, Rósinkranz Ólafsson, aðeins 17 ára gamall, en hann var næstyngstur hinna fimm sona Þuríðar Gísladóttur sem náðu fermingaraldri.[193]

Í mannskaðanum mikla 6. maí 1812 varð Þuríður ekkja í annað sinn. Búskapnum hélt hún þó áfram og bjó eins og áður á hálfri Eyri allt til vorsins 1815 er synir hennar tveir, Magnús og Kjartan, tóku við en þeir fengu þá alla Eyrarjörðina til ábúðar.[194] Báðir voru þeir þá kvæntir og 1. desember 1816 voru fimm manneskjur í heimili hjá Magnúsi á Eyri en tíu hjá Kjartani bróður hans.[195] Þuríður móðir þeirra var þá heimilisföst hjá Kjartani og líka þeir tveir synir hennar sem enn voru ókvæntir, Ólafur hattamakari, sem nefndur er monsjör í manntalinu frá 1816, og Jón sem aðeins var 15 ára.[196] Á fyrsta búskaparári Kjartans og Magnúsar gerðist sá atburður að 35 ára gamall vinnumaður frá Eyri, sem hét Jón Ásgrímsson, varð úti skammt frá bænum.[197] Hann var á heimleið úr Súgandafirði 23. nóvember 1815 og var kominn heim undir heimili sitt þegar kraftana þraut.[198]

Bræðurnir Magnús og Kjartan Ólafssynir bjuggu saman í tvíbýli hér á Eyri í ellefu ár, frá 1815 til 1826, en vorið 1826 fluttist Kjartan að Tröð og bjó þar í 28 ár. Hann var snemma talinn loðinn um lófana, enda voru þeir bræður sjálfseignarbændur (sjá hér bls. 11) sem mjög var fátítt í Önundarfirði á þeirri tíð. – Kjartan situr Eyri á með aurasafni, besti er hann bóndajafni, segir í rímu sem ort var um bændur í Önundarfirði árið sem þeir bræður tóku við búsforráðum á Eyri af móður sinni.[199]

Um Kjartan Ólafsson, bónda á Eyri og síðar í Tröð, hefur áður verið fjallað á þessum blöðum og skal til þess vísað (sjá hér Tröð). Um svipað leyti og Kjartan fór frá Eyri keypti Friðrik Svendsen, kaupmaður á Flateyri, tvo þriðju hluta Eyrarjarðarinnar, það er 16 hundruð (sjá hér Flateyri). Magnús Ólafsson hélt hins vegar eftir 8 hundruðum og bjó áfram á þeim þriðja parti úr jörðinni. Sá jarðarpartur sem Svendsen keypti var allt frá árinu 1826 nytjaður frá Flateyri og að hluta til frá Hvilft í fáein ár[200] (sbr. hér bls. 10 og Flateyri) og engin breyting varð í þeim efnum þegar Torfi Halldórsson keypti Flateyrareignir af erfingjum Friðriks Svendsen árið 1858 (sjá hér Flateyri). Eftir 1826 höfðu Magnús bóndi á Eyri og síðan Ólafur sonur hans því ekkert af jörðinni til ábúðar nema þau 8 hundruð sem þeir áttu sjálfir.

Magnús Ólafsson, sem var bóndi á Eyri frá 1815 og fram undir 1850, var elsti sonur hjónanna Ólafs Magnússonar og Þuríðar Gísladóttur á Eyri.[201] Hann fæddist árið 1782 á Núpi í Dýrafirði, þar sem foreldrar hans bjuggu áður, og var því níu ára gamall er þau fluttust frá Núpi að Eyri árið 1791.[202] Haustið 1810 kvæntist Magnús Steinvöru Guðmundsdóttur sem var sex árum yngri en hann.[203] Hún var dóttir Guðmundar Ólafssonar og Þuríðar Pálsdóttur sem bjuggu á hálfri Eyri frá 1809-1815 en áður í Súgandafirði og seinna í Neðri-Breiðadal (sjá hér bls. 21 og Neðri Breiðadalur). Bróðir Steinvarar var Finnur Guðmundsson, bóndi á Hvilft, tengdafaðir Magnúsar Einarssonar sem lengi bjó á Hvilft og gerði þar garðinn frægan.

Árið 1815 tóku Magnús og Kjartan bróðir hans við búsforráðum á Eyri af móður þeirra og bjuggu síðan í sambýli með alla jörðina til ábúðar næstu ellefu árin eins og hér var áður nefnt. Bústofn þeirra árið 1821 var sem hér segir ef marka má það sem skráð er í búnaðarskýrslu frá því ári. Hjá Kjartani: 3 kýr, 1 kálfur, 20 ær, 8 sauðir og hrútar, 10 gemlingar, 9 lömb og 1 hestur.[204] Hjá Magnúsi: 2 kýr, 13 ær, 2 hrútar eða sauðir, 4 gemlingar, 5 lömb og 2 hestar.[205] Svo virðist sem Kjartan hafi verið fyrir þeim bræðrum þó að Magnús væri eldri því bæði var hann með talsvert stærra bú eins og tölurnar sýna og átti auk þess stóran bát en Magnús var bátlaus.[206] Bátur Kjartans á Eyri var áttæringur en aðeins sex svo stórir bátar voru þá til í öllum hreppnum.[207] Tvo þeirra áttu presturinn í Holti og sýslumaðurinn í Hjarðardal en hina áttu tveir og tveir bændur saman nema áttæringinn á Eyri sem Kjartan átti einn.[208] Reyndar átti hann líka annan minni bát, tveggja manna far, og báðir voru þeir Eyrarbændur með svolitla garðrækt árið 1821.[209]

Frá vorinu 1826 var Magnús Ólafsson eini bóndinn sem sat á Eyri en hafði þó aðeins þriðjung jarðarinnar til ábúðar eins og hér hefur áður verið nefnt þau 20 ár sem hann átti þó enn fram undan í búskapnum. Á árunum 1830-1840 virðist bú hans yfirleitt hafa verið álíka stórt og verið hafði 1821, tvær kýr en stundum bara ein, 13-20 ær og 5-12 sauðir.[210] Búnaðarskýrslur frá árunum 1830, 1834 og 1837 sýna að Magnús átti engan bát[211] en ætla má að hann hafi verið í skiprúmi hjá öðrum á vertíðinni.

Með konu sinni, Steinvöru Guðmundsdóttur, eignaðist Magnús á Eyri tvo syni og komst annar þeirra upp, Ólafur Magnússon[212] og tók hann við búi af foreldrum sínum á Eyri árið 1848.[213] Foreldrar Ólafs dvöldust hjá honum til æviloka. Steinvör dó á Eyri 25. júní 1852 en Magnús  3. september 1855.[214]

Ólafur Magnússon, sem hóf búskap á Eyri árið 1848, var fæddur árið 1821[215] og bar nafn afa síns sem fluttist hingað frá Núpi í Dýrafirði árið 1791. Þegar þessi seinni Ólafur Magnússon á Eyri var um 18 ára aldur eignaðist hann barn með Guðrúnu Jónsdóttur sem þá var vinnukona hjá foreldrum hans og var hún nær helmingi eldri en hinn ungi bóndasonur.[216] Guðrún var dóttir hjónanna Jóns Oddssonar og Sigríðar Hákonardóttur sem bjuggu á Kirkjubólshúsum (sjá hér Kirkjuból í Korpudal) og þar fæddist hún árið 1808.[217] Sigríður móðir hennar var systir Brynjólfs Hákonarsonar sem bjó á Eyri frá 1805 til 1809 en seinna lengi á Mýrum í Dýrafirði.[218]

Barnið, sem þau Guðrún Jónsdóttir og Ólafur Magnússon á Eyri eignuðust vorið 1839, var drengur og var skírður Rósinkranz.[219] Árið 1845 var Ólafur enn ókvæntur og þá voru Guðrún barnsmóðir hans og barnið Rósinkranz eina heimilisfólkið á Eyri auk Ólafs og foreldra hans sem stóðu þá enn fyrir búi.[220] Áður en lengra er haldið skal þess getið að fremur illa rættist úr nýnefndum Rósinkranz Ólafssyni því hann náði ekki að sjá sér farborða án stuðnings annarra og var árið 1870 orðinn sveitarómagi á Ytri-Veðrará.[221] Þá um haustið voru lagðar með honum tvær vættir úr sveitarsjóði,[222] það er einn þriðji úr kýrverði. Sex vættir voru þá lagðar með þyngsta ómaganum í Mosvallahreppi[223] svo ætla má að Rósinkranz hafi unnið að nokkru leyti fyrir mat sínum.

Um svipað leyti og Rósinkranz var settur niður á Ytri-Veðrará gaf séra Stefáni P. Stephensen honum einkunnina ódæll letingi.[224] Hér er þó vert að hafa í huga að guðsmaðurinn í Holti var oft harður í dómum um þá sem lítils máttu sín. Að fenginni þeirri umsögn hjá presti, sem hér var nefnd, drukknaði Rósinkranz Ólafsson í Vöðunum 14. janúar 1871.[225] Hann var þá 31 árs gamall og var að koma frá Holti,[226] máske af prestsfundi, þegar ísinn brast fram undan Breiðadal.[227]

Ólafur Magnússon, sem tók við búi á Eyri árið 1848, erfði jarðarhundruðin átta sem faðir hans hafði búið á og stóð hér fyrir búi í röskan þriðjung aldar.[228] Hann var tvíkvæntur. Fyrri konu sinni, Helgu Steindórsdóttur, sem var úr Nauteyrarhreppi, kvæntist Ólafur haustið 1849.[229] Hún dó 12 árum síðar af vatnssýki, aðeins 33ja ára gömul.[230] Með henni eignaðist Ólafur fjögur börn en tvö þeirra dóu úr barnaveiki með fárra daga millibili og Steindór sonur þeirra drukknaði tvítugur að aldri árið 1871,[231] sama ár og Rósinkranz hálfbróðir hans sem fyrr var nefndur. Af börnum Ólafs með fyrri konunni náði því aðeins ein dóttir að komast á miðjan aldur, Ólöf, sem lengi var á Eyri (sjá hér bls. 26 og 32) en dó á Grafargili haustið 1903.[232] Hún giftist ekki en eignaðist börn með þremur mönnum (sjá hér bls. 26 og 32).

Seinni kona Ólafs á Eyri hét Sigurborg Sæmundsdóttir og var frá Selakirkjubóli.[233] Hún var átján árum yngri en eiginmaðurinn og giftist honum haustið 1862, þá 23ja ára gömul.[234] Með henni eignaðist Ólafur þrjár dætur sem allar komust upp en tvær þeirra dóu ógiftar og barnlausar.[235]

Á sínum fyrstu búskaparárum reyndi Ólafur að fjölga fénu lítið eitt og var árið 1850 með 28 ær og 20 sauði að meðtöldum hrútum og gemlingum.[236] Hann átti þá líka eina kú, tvær kvígur, einn kálf, tvo hesta og folald.[237] Árið 1860 hafði ánum hins vegar fækkað niður í sautján.[238] Sauðir og hrútar sem Ólafur átti voru þá sex og gemlingarnir níu.[239] Fleira en fjártalan bendir til þess að Ólafur á Eyri hafi á sínum yngri árum verið framtakssamari en faðir hans og þá einkum það að hann náði snemma að eignast hálfan bát, sexæring eða fjögra manna far, og líka annan minni bát.[240] Árið 1860 átti Ólafur sexæring eða fjögra manna far einn sér og líka minni bátinn.[241] Hann fór líka út í garðrækt. Var árið 1850 með 6 ferfaðma garðholu en tíu árum síðar kominn með þrjá garða sem samtals voru 120 ferfaðmar að flatarmáli ef marka má opinberar skýrslur.[242]

Árið 1870 var Ólafur á Eyri kominn undir fimmtugt og kynni þá að hafa verið farinn að tapa heilsu. Sú er líklegasta skýringin á því að fardagaárið 1870-1871 var hann búlaus en sat þó á Eyri sem húsmaður og var reyndar með eina kú.[243] Hann fór þó aftur að búa næsta ár[244] en dauflegt var yfir búskap hans hér á Eyri hin síðari ár. Þó var hann enn með tvær kýr árið 1880 en ærnar voru þá bara tíu, sauðir og hrútar átta og engir gemlingar.[245] Bóndinn á Eyri átti þá ekki lengur nokkurn bát og stærð kálgarðanna var aðeins einn sjöttu partur þess sem verið hafði tuttugu árum fyrr.[246]

Síðasta árið sem Ólafur Magnússon á Eyri lifði bjó hann með tvær óleigufærar kýr eða kvígur, tíu ær, fjóra sauði og tvo hesta[247] en bóndi þessi andaðist á heimili sínu 11. desember 1883.[248]

Heimili Ólafs Magnússonar, sem hér hefur nú verið sagt frá, var aldrei fjölmennt[249] og líklega hefur fólkið rúmast sæmilega í baðstofunni. Vorið 1861 voru bæjarhúsin á Eyri tekin út en þá var fyrri eiginkona Ólafs, Helga Steindórsdóttir, nýlega látin. Úttektin fór fram þann 1. júní og mældist gólfflöturinn í baðstofunni 6 x 5 álnir,[250] það er 11,8 fermetrar. Loftið í baðstofunni var undir súð og hún í góðu standi.[251] Önnur bæjarhús voru búr og eldhús með um það bil 8 fermetra gólffleti hvort og svo göngin sem voru liðlega 3 metrar á lengd og um 1,25 metrar á breidd.[252] Fjósið á Eyri var líka í góðu standi árið 1861 og þar var hægt að hafa þrjár kýr.[253]

Árið 1877 var Ólöf Ólafsdóttir ein á lífi af börnum Ólafs Magnússonar á Eyri og fyrri konu hans, Helgu Steindórsdóttur. Hún var þá liðlega tvítug og átti heima hjá föður sínum á Eyri. Hér er á öðrum stað sagt nokkru nánar frá Ólöfu (sjá hér bls. 32) en til fróðleiks verður nú gerð grein fyrir viðskiptum þessarar tvítugu stúlku við verslunina á Flateyri þetta ár, árið 1877.

Á fyrstu fjórum mánuðum ársins keypti hún alls ekki neitt en þann 26. maí brá hún sér í búðina og tók út þennan varning:

 

  1. Þrjár álnir af lérefti á ………………… kr.   1,11
  2. Þrjár álnir af nankini á ……………… kr.   1,68
  3. Tvær álnir af dúki á ………………….. kr.   0,92
  4. Svart léreft fyrir ………………………. kr.   0,38
  5. Einn trefil sem kostaði ……………… kr.   1,13
  6. Einn hníf sem kostaði ………………. kr.   0,38
  7. Tvinna fyrir …………………………….. kr.   0,40
  8. Hálft pund af rúsínum ………………. kr.   0,27[254]

 

Samtals kostuðu þessara vörur kr. 6,27 en að auk tók Ólöf út kr. 2,15 í peningum.[255] Allt var þetta tekið út í reikning en þann 29. september um haustið lagði Ólöf inn 82 pund af kjöti og fékk fyrir það 13 krónur og 12 aura.[256] Kjötið nægði því til að borga úttektina frá vorinu og gott betur en í septemberlok átti hún kr. 4,70 inni hjá versluninni.[257] Þann 6. október lét hún kaupa fyrir sig eina alin af lérefti sem kostaði 67 aura og einn brúsa af anilin á 33 aura[258] en það var litarefni.

Þann 24. nóvember kom Ólöf niður á Flateyri í sína síðari innkaupaferð á þessu ári og keypti þá þessar vörur.

 

  1. Eitt pund rjól (tóbak) á ……………… kr.   1,50
  2. Eitt pund kaffi á ………………………. kr.   1,10
  3. Eitt pund sykur á ……………………… kr.   0,60
  4. Eitt parabréf á …………………………. kr.   0,12
  5. Svolítið af tvinna á …………………… kr.   0,28
  6. Ein alin fóðurtau á …………………… kr.   0,46
  7. Ein alin sirs á ………………………….. kr.   0,45[259]

 

Samtals kostaði þessi varningur kr. 4,51 og við úttektina í október hafði innstæðan lækkað um eina krónu svo nú var bóndadóttirin á Eyri komin í 81 eyris skuld við verslunina.[260]

Síðustu viðskipti Ólafar á Eyri við Flateyrarverslun á árinu 1877 voru þau að á skemmsta degi ársins lét hún taka út fyrir sig í búðinni eitt pennaskaft sem kostaði 12 aura og hálft pund af sykri á 30 aura.[261] Við upphaf ársins 1877 hafði hún verið skuldlaus við verslunina en við lok sama árs skuldaði hún kr. 1,23[262] sem ekki gat talist alvarlegt.

Hálfu fjórða ári síðar, vorið 1881, voru auraráð þessarar bóndadóttur á Eyri það rúm að hún leyfði sér að festa kaup á saumamaskínu sem kostaði heilar 50,- krónur.[263]

Þegar faðir Ólafar, Ólafur Magnússon bóndi á Eyri, andaðist á jólaföstunni árið 1883 slitnaði þráður sem spunninn hafði verið allt frá því afi hans og alnafni hóf hér búskap árið 1791 (sjá hér bls. 16). Við andlát Ólafs tók ekkja hans, Sigurborg Sæmundsdóttir, þá ákvörðun að hætta búskap. Hún var þá 44 ára gömul en hin elsta af þremur dætrum þeirra Ólafs rétt liðlega tvítug.[264] Sigurborg dvaldist þó áfram á Eyri sem húskona næstu árin en fluttist til Ísafjarðar árið 1888.[265] Þar var hún enn 1920, orðin áttræð,[266] og þá áttu erfingjar Ólafs Magnússonar enn 6 hundruð í Eyrarjörðinni (sjá hér bls. 10-11).

Vorið 1884 gerðist Kristján Friðriksson frá Mosdal bóndi hér á Eyri og fékk til ábúðar jarðarpartinn sem Ólafur Magnússon hafði búið á og nú var í eigu erfingja hans.[267] Kristján og eiginkona hans, Guðbjörg Sveinfríður Sigurðardóttir, settust þá að í baðstofunni á Eyri og tóku þar m.a. við kamínu með rörum og potti sem var virt á kr. 29,20.[268] Hér hefur áður verið sagt frá Kristjáni Friðrikssyni en hann var fæddur árið 1850 og hafði verið verslunarmaður á Flateyri á árunum 1877-1883 en gerðist þá sjómaður á þilskipum (sjá hér Flateyri). Eiginkona Kristjáns, Guðbjörg Sveinfríður, sem fluttist með honum að Eyri, var tólf árum yngri en hann og því aðeins 22ja ára gömul er þau hófu búskapinn. Hún var fædd í Innri-Hjarðardal vorið 1862, barn ógiftra foreldra, en móðir hennar var Ólöf, fædd 1836, dóttir Jóns Sveinssonar og Dagbjartar Filippusdóttur sem áður höfðu búið á Innri-Veðrará, Vífilsmýrum og í Neðri-Breiðadal[269] (sbr. hér Innri-Veðrará). Faðir Guðbjargar Sveinfríðar, húsfreyju á Eyri, var hins vegar Sigurður Þórarinsson, fæddur 1832,[270] sem fluttist með móður sinni, Kristínu Þórarinsdóttur, frá Látrum í Mjóafirði að Innri-Hjarðardal árið 1853 (sjá hér Innri-Hjarðardalur) en átti árið 1862 heima í Botni í Súgandafirði (sjá hér  Botn og Staður í Súgandafirði). Í sóknarmannatali frá árinu 1883 er Guðbjörg Sveinfríður sögð vera vinnukona hjá Kristjáni Friðrikssyni á Flateyri en árið eftir voru þau gefin saman í hjónaband og fóru að búa á Eyri.[271]

Kristján Friðriksson, sem hér er frá sagt, nefndi sig Kristján Mosdal[272] og mun skýringin hafa verið sú að hann fæddist í Mosdal og ólst þar upp eins og hér hefur áður verið nefnt. Að áliðnum vetri árið 1887 var Kristján ráðinn skipstjóri á skútuna Jeanette, tveggja ára gamalt skip sem þá var gert út frá Flateyri, en það fórst með allri áhöfn í sumarmálagarðinum þetta sama ár (sjá hér Flateyri).

Þegar Kristján Mosdal drukknaði vorið 1887 hafði hann verið bóndi á Eyri í þrjú ár en líka stýrimaður og síðast skipstjóri á skútu á sama tíma. Hann var allra síðasti bóndinn sem bjó hér á Eyri. Allt frá árinu 1826 höfðu tveir þriðju hlutar þessarar fornu bújarðar verið nytjaðir frá Flateyri (sjá hér bls. 22), síðustu 30 árin af Torfa Halldórssyni, og vorið 1887 bætti Torfi við sig þeim þriðjungi jarðarinnar sem Kristján Mosdal hafði haft til ábúðar (sjá hér Flateyri). Þaðan í frá var það eingöngu húsfólk sem hafðist við hér á Eyri.[273]

Tvímælalaust er að Torfi Halldórsson fékk jarðarpartinn sem Kristján og Guðbjörg Sveinfríður höfðu búið á til umráða sumarið 1887[274] en bæjarhúsin á Eyri voru þó ekki tekin út fyrr en 4. júní 1888.[275] Þann dag lét Guðbjörg Sveinfríður Sigurðardóttir, hin unga ekkja síðasta bóndans á Eyri, öll bæjarhúsin af hendi og þá var ástand þeirra metið. Baðstofan virðist þá hafa verið sú sama og hér stóð 27 árum fyrr og áður var lýst á þessum blöðum (sjá hér bls. 26). Að vísu mældist hún nú aðeins mjórri en árið 1861 og munaði þar hálfri alin.[276] Í úttektinni frá 1888 sjáum við að baðstofuhúsið var 6 álnir, það er 3,77 metrar, á hæð frá gólfi og í kjöl [277] og hafa þá nær allir getað gengið uppréttir bæði uppi á baðstofuloftinu og líka niðri. Tveir gluggar voru á þessu húsi er hér var komið sögu.[278] Eldhúsið á Eyri var árið 1888 álíka stórt og verið hafði fyrir aldarfjórðungi en svolítið öðru vísi í laginu.[279] Um búr er hins vegar ekki getið í þessari síðustu úttekt.[280]

Þegar Guðbjörg Sveinfríður skilaði af sér bæjarhúsunum hér á Eyri voru liðin fjögur ár frá því hún og Kristján tóku við þeim. Þá hafði fjárhús fyrir átta ær fylgt með en nú var það fallið að veggjum.[281] Fyrir það sem húsin höfðu gengi úr sér á þessum fjórum árum var henni gert að greiða kr.23,50.[282] Á móti kom að þau hjónin höfðu þiljað eitthvað af baðstofunni og fyrir það töldu virðingarmennirnir rétt að lækka kröfuna á hendur dánarbúinu um tíu krónur.[283] Eftir stóðu þá kr. 13,50 sem bókað var að ættu að greiðast af dánarbúi Kristjáns Friðrikssonar.[284]

Þau Kristján Friðriksson Mosdal og Guðbjörg Sveinfríður kona hans eignuðust engin börn.[285] Hún varð því, að eiginmanninum látnum, laus og liðug ekkja, 25 ára gömul, en kaus að basla hér áfram á eigin fótum, án búskapar við þurrt hús.[286] Reyndar var þess mjög skammt að bíða að hún fengi til sín nýjan sambýlismann sem hér segir síðar frá.

Árið 1888 voru hér á Eyri sex heimili þurrabúðarfólks[287] sem ætla má að hafi fyrst og fremst lifað á sjósókn og þeirri launavinnu sem til féll við fiskverkun á Flateyri. Á árunum 1850-1869 var ekkert af búlausu húsfólki á Eyri nema einn og einn einhleypingur í skamman tíma.[288] Árið 1870 varð breyting á í þessum efnum en þá settust hér þrjár fjölskyldur að í þurrabúð.[289] Þaðan í frá voru hér oftast tvær eða fleiri slíkar fjölskyldur, allt til ársins 1903 en þó ekki nema ein á árunum 1879-1883.[290] Fyrstu 17 árin eftir 1870 var húsfólkið hér í eins konar sambýli við bóndann sem sat á jörðinni en eftir 1887 bjó allt heimafólk á Eyri við þurrt hús.

Á tímabilinu frá 1870 til 1903 bjuggu að minnsta kosti 15 fjölskyldur um lengri eða skemmri tíma í þurrabúð á Eyri en árið 1903 fluttust síðustu íbúarnir burt héðan og settust að á Flateyri.[291] Þegar hér er talað um fjölskyldur er átt við hjón eða sambýlisfólk ellegar einstæða foreldra með eitt eða fleiri börn og sjálfstætt húshald. Á árunum 1888-1899 voru jafnan

fjórar til sex fjölskyldur á Eyri, allar búlausar.[292] Flest var fólkið árið 1893 en þá voru liðlega 30 manneskjur heimilisfastar á Eyri (sjá hér Flateyri). Árið 1897 voru íbúarnir enn 23 en fækkaði síðan ár frá ári (sjá hér Flateyri).

Hér hefur áður verið minnst á gamla bæinn, sem stóð hér á Eyri árið 1888, en í honum virðast einu vistarverurnar hafa verið baðstofa og eldhús (sjá hér 28-29 sbr. bls. 26). Grunnflötur baðstofunnar var aðeins tíu til tólf fermetrar eins og hér hefur áður verið greint frá en í henni var loft svo segja má að búið hafi verið á tveimur hæðum. Auk þessa bæjar, sem síðustu bændurnir á Eyri bjuggu í, stóðu hér við lok 19. aldar a.m.k. þrír aðrir torfbæir eða kofar sem þurrabúðarfólk hírðist í (sjá hér bls. 1-2).

Fyrstu fjölskyldumennirnir sem settust að í þurrabúð á Eyri voru Guðmundur Einarsson, Egill Egilsson og Ólafur Jónsson sem allir komu sér hér fyrir árið 1870.[293] Guðmundur var fæddur á Flateyri árið 1844 og hafði haustið 1868 gengið að eiga Ólöfu Jónsdóttur sem fæddist á Gilsbrekku í Súgandafirði árið 1841.[294] Þau Guðmundur og Ólöf voru í húsmennsku á Eyri í fimm ár og í heimildum frá þeim árum er hann stundum nefndur smiður.[295] Hjón þessi bjuggu síðar á Innri-Veðrará og á Selakirkjubóli (sjá hér Selakirkjuból).

Egill Egilsson var nokkru eldri en Guðmundur, fæddur á Klukkulandi í Dýrafirði árið 1837.[296] Hann fluttist árið 1868 frá Alviðru í Dýrafirði til Flateyrar og kvæntist Guðrúnu Jónsdóttur, húskonu á Eyri, haustið 1870.[297] Guðrún var frá Fjallaskaga í Dýrafirði, fædd þar sumarið 1841, en hafði flust til Flateyrar árið 1866.[298] Þau Egill og Guðrún voru í húsmennsku á Eyri í tíu ár eða allt þar til hann andaðist árið 1880.[299] Ekkjan Guðrún fór skömmu síðar frá Eyri og árið 1882 fluttist hún til Dýrafjarðar.[300]

Þriðju hjónin sem gerðust húsfólk á Eyri árið 1870 voru Ólafur Jónsson og Ragnheiður Björnsdóttir sem þá voru bæði á fimmtugsaldri.[301] Nýnefndur Ólafur var fæddur á Kaldá árið 1830, sonur hjónanna Jóns Ólafssonar og Elínar Eiríksdóttur sem þar bjuggu.[302] Faðir Ólafs Jónssonar, Jón bóndi á Kaldá, var sonur Ólafs Magnússonar frá Núpi sem hóf búskap hér á Eyri árið 1791.[303] Ólafur húsmaður á Eyri og Ólafur Magnússon sem bjó á þriðjungi úr Eyrarjörðinni árið 1871 voru því bræðrasynir.[304] Ólafur Jónsson og Guðmundur Einarsson, sem líka var húsmaður á Eyri og fyrr var nefndur, voru hins vegar hálfbræður því Elín Eiríksdóttir var móðir beggja[305] en hún var dóttir séra Eiríks Vigfússonar á Stað í Súgandafirði og konu hans Ragnheiðar Halldórsdóttur.[306] Kona Ólafs Jónssonar, húsmanns á Eyri, Ragnheiður Björnsdóttir, var aftur á móti bróðurdóttir Elínar og þau hjónin, Ólafur og Ragnheiður, því systkinabörn.[307] Foreldrar Ragnheiðar voru hjónin Björn Eiríksson og Valgerður Benediktsdóttir[308] sem m.a. bjuggu á Mosvöllum og í Neðri-Breiðadal (sjá hér Neðri-Breiðadalur).

Þau Ólafur Jónsson og Ragnheiður Björnsdóttir voru í húsmennsku á Eyri í 18 ár og hann nokkru lengur.[309] Þau munu yfirleitt hafa verið með örfáar kindur og má sem dæmi um það nefna að árið 1883 áttu þau 4 ær og 3 gemlinga.[310] Ragnheiður andaðist á Eyri vorið 1889 og var þá 63ja ára gömul en Ólafur dó sex árum síðar, ekkill á Eyri.[311] Þau voru barnlaus.

Þegar Guðmundur Einarsson fór frá Eyri árið 1875 kom hingað annar tómthúsmaður í hans stað og var það Jón Jónsson, sonur Jóns Sveinssonar og Járngerðar Indriðadóttur sem bjuggu lengi í Fremri-Breiðadal og svo á Hvilft[312] (sbr. hér Fremri-Breiðadalur). Jón þessi Jónsson var fæddur árið 1849 og kvæntist haustið 1873 Arnfríði Þórarinsdóttur frá Stað í Súgandafirði sem var þremur árum eldri.[313] Hún var föðursystir Guðbjargar Sveinfríðar Sigurðardóttir sem varð húsfreyja á Eyri árið 1884 og hér var áður kynnt. Þau Jón og Arnfríður voru aðeins í tvö ár á Eyri og urðu bæði skammlíf.[314] Arnfríður dó haustið 1878, þá húskona á Hóli á Hvilftarströnd, en Jón drukknaði vorið 1882 með Aðalbirni Jóakimssyni, skipstjóra á Ísafirði, þegar jaktin Jóhannes, sem Aðalbjörn stýrði til veiða, fórst.[315] Jón var síðast vinnumaður í Holti.[316] Með Arnfríði konu sinni hafði hann eignast þrjú börn en ekkert þeirra komst upp.[317]

Ekkert nýtt húsfólk settist að á Eyri á árunum 1876-1883 en vorið 1884 gerðist ekkjan Sigurborg Sæmundsdóttir húskona en hún hafði verið gift bóndanum á Eyri, Ólafi Magnússyni sem andaðist í desembermánuði árið 1883.[318] Sigurborg var hér í húsmennsku með dætur sínar í fjögur ár (sbr. hér bls. 27).[319]

Fardagaárið 1885-1886 voru hjónin Bjarni Ólafsson og Helga Jónsdóttir í húsmennsku á Eyri en fóru héðan að Kvíanesi í Súgandafirði[320] og verður þeirra nánar getið síðar (sjá hér Kvíanes).

Við lok ársins 1887 voru heimilin á Eyri fjögur. Húsráðendur á þremur þessara heimila voru ekkjurnar Guðbjörg Sveinfríður Sigurðardóttir og Sigurborg Sæmundsdóttir, sem hér hefur áður verið sagt frá, og hjónin Ólafur Jónsson og Ragnheiður Björnsdóttir sem fyrr var getið. Fyrir fjórða heimilinu stóðu svo Jens Arnbjörnsson og Ólöf Ólafsdóttir sem bjuggu saman ógift með dóttur sína unga.[321] Ólöf var dóttir Ólafs Magnússonar, sem lengi hafði búið á Eyri, af hans fyrra hjónabandi.[322] Árið 1887 var hún liðlega þrítug en sambýlismaðurinn 25 ára eða því sem næst.[323] Jens Arnbjörnsson sem bjó með Ólöfu á Eyri var úr Dýrafirði og stundaði aðallega smíðar.[324] Að Eyri kom Jens frá Ísafirði árið 1887 en fluttist frá Eyri að Bæ í Súgandafirði árið 1891.[325] Árin sem Jens var á Eyri bjó hann jafnan með Ólöfu og saman eignuðust þau tvær dætur en hann fór hins vegar einn til Súgandafjarðar.[326] Jens Arnbjörnsson dó í Hnífsdal vorið 1920, sagður bátasmiður,[327] og verður hér sagt lítið eitt frá honum síðar (sjá hér Bær, Þverá þar).

Ólöf Ólafsdóttir var áfram á Eyri allt til ársins 1896 og eignaðist hér á árunum 1893 og 1895 tvo syni sem báðir urðu skammlífir[328] en áður hafði hún eignast tvær dætur eins og fyrr var nefnt. Faðir að drengnum sem Ólöf eignaðist árið 1893 var norskur og hét Kaspar Nielsen en hinn drenginn, sem fæddist tveimur árum síðar, átti Sigurður Jóhannsson[329] er menn nefndu skurð. Sigurður var viðloðandi hér á Eyri í tíu ár, frá 1887 til 1897.[330] Óljóst er nú hvernig heilsu Ólafar Ólafsdóttur var háttað á þeim árum sem hún var að eignast börnin en árið 1901 var hún komin að Grafargili og er þá sögð vera sinnisveik niðurseta.[331] Hún andaðist á Grafargili árið 1903.[332]

Sigurður Jóhannsson, sem hér var minnst á, kom fyrst í Önundarfjörð svo kunnugt sé árið 1886 og þá frá Bolungavík.[333] Við lok ársins 1887 var hann kominn að Eyri og er þá sagður vera laus,[334] sem merkir að hann hefur hvergi verið vistráðinn. Í sóknarmannatalinu frá 31. desember 1887 er lausamaður þessi á Eyri sagður vera 22ja ára en var reyndar þremur árum eldri, fæddur í Hafnardal á Langadalsströnd 7. janúar 1862.[335] Árið sem Sigurður kom að Eyri hafði síðasti bóndinn sem sat á jörðinni drukknað um sumarmál (sjá hér bls. 28) og má telja mjög líklegt að þessi nýi lausamaður hafi þá þegar verið ráðinn ekkjunni, Guðbjörgu Sveinfríði Sigurðardóttur, til aðstoðar. Svo fór að þau slógu sér saman og hin eldri tveggja dætra sem þau eignuðust fæddist haustið 1889.[336] Sigurður taldist þá vera vinnumaður hjá Guðbjörgu og stóð svo allt þar til hún andaðist en húsfreyja þessi á Eyri kvaddi lífið sumarið 1894 og var þá aðeins 32ja ára gömul.[337] Árið 1896 var Sigurður enn á Eyri, lausamaður með nýja konu, sem líka hét Guðbjörg, en árið 1897 fluttust þau burt héðan.[338] Um Sigurð skurð hefur margt verið skrifað og hér verður síðar gerð nánari grein fyrir þessum eftirminnilega múgamanni og vikið að örlagaríkum atburði sem honum tengdist og við bar hér á Eyri um jólaleytið árið 1891 (sjá hér bls. 39-77).

Árið 1888 settust þrjár nýjar fjölskyldur að í þurrabúð á Eyri.[339] Þar er fyrst að nefna Geir Gíslason, sem fæddur var á Vífilsmýrum 15. júlí 1837, og konu hans, Konkordíu Sigurðardóttur, sem var 30 árum yngri, fædd á Laugum í Súgandafirði árið 1867.[340] Geir var sonur hjónanna Gísla Þorlákssonar og Halldóru Sigurðardóttur sem bjuggu á Vífilsmýrum um skeið[341] en reistu árið 1843 nýbýlið Bethaníu, sem einnig var nefnt Kot, í landi Mosvalla (sjá hér Bethanía/Kot). Með Hallbjörgu, dóttur Jóns Björnssonar er lengi bjó á Tannanesi (sjá hér Tannanes), eignaðist Geir dótturina Amalíu, sem fæddist 4. janúar 1877,[342] en hinni ungu Konkordíu kvæntist hann ekki fyrr en 11 árum síðar, sumarið 1888.[343] Hún fluttist sama ár frá Gelti í Súgandafirði að Eyri en Geir hafði flust úr Súgandafirði í Önundarfjörð árið 1883. Þau Geir og Konkordía nutu samvista hér á Eyri í þrjú ár en haustið 1891 dó þessi unga tómthúskona og var þá að verða 24 ára.[344] Næstu ár dvaldist Geir Gíslason hér áfram í húsmennsku og um skeið var hér líka bróðir hans, Páll Gíslason, einhleypur húsmaður.[345] Þeir bræður voru hér enn árið 1897 en Geir dó á Flateyri árið 1905.[346]

Guðmundur Kristjánsson og Ragnheiður Sigurðardóttir voru ein hjónanna þriggja sem settust að á Eyri árið 1888.[347] Guðmundur var fæddur á Næfranesi í Dýrafirði árið 1853 en Ragnheiður á Kambi í Reykhólasveit árið 1858.[348] Árið 1880 var Guðmundur Kristjánsson vinnumaður á Grafargili en Ragnheiður fluttist til Önundarfjarðar frá Ólafsdal árið 1885.[349] Hún var þá vistráðin á Hvilft en giftist Guðmundi haustið 1887[350] og á næsta ári komu þau sér fyrir í húsmennsku hér á Eyri. Þau Guðmundur og Ragnheiður voru á Eyri í fimm ár en færðu sig niður á Flateyri árið 1893.[351] Þar dó Ragnheiður 25. febrúar 1916 en Guðmundur lifði mun lengur og dó á Flateyri sumarið 1938.[352]

Salómon Jónsson og Guðmundína Jónsdóttir voru þriðju hjónin sem stofnuðu heimili í þurrabúð á Eyri árið 1888[353] en þau voru pússuð saman í hjónaband þá um haustið.[354] Salómon var þá 27 ára gamall eða því sem næst en Guðmundína var sjö árum eldri.[355] Foreldrar Salómons voru Jón Guðmundsson, sem árið 1860 var búandi ekkjumaður í Unaðsdal á Snæfjallaströnd, og bústýra hans Ingiríður Gísladóttir.[356] Annar sonur þeirra var Jón Jónsson, sem um skeið var bóndi á Hrafnfjarðareyri í Jökulfjörðum, faðir Vilhjálms Jónssonar er var skósmiður og bæjarpóstur á Ísafirði.[357] Salómon fæddist norður á Snæfjallaströnd en árið 1864 var hann fluttur þaðan sem sveitarómagi í Önundarfjörð.[358] Þá var hann talinn þriggja ára gamall.[359] Sex árum síðar var hann niðursetningur á Mosvöllum.[360] Fullvíst má telja að Ingiríður, móðir Salómons, hafi verið sveitföst í Mosvallahreppi og þess vegna hefur barnið verið flutt á hennar hrepp. Hún var þó fædd á Fossi í Suðurfjörðum Arnarfjarðar en var árið 1845 komin í Hjarðardal í Önundarfirði, þá 18 ára, og fluttist ellefu árum síðar frá Flateyri til Ísafjarðar.[361]

Þegar Salómon komst á unglingsár gerðist hann vinnumaður, m.a. á Tannanesi en þaðan fluttist hann árið 1880 að Stað í Súgandafirði og aftur frá Stað að Eyri árið 1887.[362] Ingiríður, móðir hans, og Guðmundína Jónsdóttir, sem var konuefnið, fluttust þá með honum hingað frá Stað[363] en eigin heimili virðast þau ekki hafa komið sér upp fyrr en ári síðar eins og hér var áður nefnt.

Guðmundína Jónsdóttir, eiginkona Salómons, var fædd á Mosvöllum 14. júlí 1854, dóttir hjónanna Jóns Jónssonar og Ólafar Björnsdóttur er síðar bjuggu lengi í Neðri-Breiðadal[364] (sbr. hér Neðri-Breiðadalur). Faðir Guðmundínu mun oft hafa verið nefndur Jón stóri til aðgreiningar frá öðrum Jónum Jónssonum en Ólöf, móðir hennar, var eitt barnabarna séra Eiríks Vigfússonar á Stað í Súgandafirði sem nær öll ólu aldur sinn í Önundarfirði.[365] Guðmundína fluttist 1883 frá Hjarðardal í Súgandafjörð[366] og kom þaðan aftur með Salómon fjórum árum síðar eins og fyrr var nefnt.

Hjónin Salómon og Guðmundína höfðust við á Eyri allan tímann sem þau stóðu fyrir heimili en það voru liðlega þrjú ár.[367] Á skemmsta degi ársins 1891 andaðist Salómon uppi á Klofningsdal sem þjóðleiðin frá Eyri að Stað í Súgandafirði lá um. Hann var að koma frá því að fylgja ferðamönnum upp á Klofningsheiði og kom upp sá grunur að einn samferðamannanna hefði orðið valdur að dauða hans. Af þessum grunsemdum spunnust langvinn málaferli og af málaferlunum hin hatrömmustu stjórnmálaátök sem um getur í sögu Vestfjarða á síðari tímum. Frá feigðarför Salómons á Eyri og málaferlunum sem hófust skömmu síðar er sagt hér lítið eitt nánar á öðrums stað (sjá hér bls. 55-67). Um Guðmundínu, ekkju hans, skal þess getið að hún barst norður í Álftafjörð og var árið 1902 vinnukona í Eyrardal en 1910 í Þorleifsbæ (Þorleifsstöðum) í Súðavík.[368] Árið 1923 var hún enn á lífi í Súðavík.[369]

Fyrsta fjölskyldan sem settist að á Eyri eftir 1890 voru Jóhann Jónsson og Jónína Kristjánsdóttir sem fluttust hingað með tvo syni utan af Ingjaldssandi árið 1892[370] og þá um haustið bættist þriðji sonurinn við.[371] Þau Jóhann og Jónína bjuggu í óvígðri sambúð en hann hafði áður verið giftur annarri konu sem hann var fyrir löngu skilinn við.[372] Jóhann var fæddur í Fróðárhreppi á Snæfellsnesi árið 1841[373] og var því orðinn fimmtugur þegar hann gerðist húsmaður á Eyri. Jónína var nítján árum yngri, fædd árið 1860, en hún var norðan úr Sléttuhreppi, dóttir Kristjáns Halldórssonar, bónda á Atlastöðum í Fljóti, og eignaðist hann hana fram hjá konu sinni með vinnukonu sem hét Ástríður Þorsteinsdóttir.[374]

Þau Jóhann Jónsson og Jónína Kristjánsdóttir voru bæði á Brekku á Ingjaldssandi árið 1890 en elsti sonur þeirra, sem var 15 ára árið 1901, er í manntalinu frá því ári sagður vera fæddur í Grunnavíkurhreppi.[375] Þau Jóhann og Jónína áttu heima á Eyri í ellefu ár, frá 1892 til 1903,[376] og í manntalinu frá 1901 er hann sagður vera sjómaður og daglaunamaður.[377] Jóhann og hans fólk ásamt annarri fjölskyldu, sem hér verður síðar sagt frá, (sjá hér bls. 37-38) voru síðustu íbúarnir á Eyri en þau fluttust öll niður á Flateyri árið 1903.[378]

Gunnar M. Magnúss rithöfundur, sem fæddur var árið 1898, kynntist Jóhanni á bernskuárum sínum á Flateyri en faðir Gunnars og þessi síðasti húsráðandi á Eyri voru spilafélagar. Jóhanni lýsir Gunnar á þessa leið:

 

Jóhann á Eyri var roskinn maður, svartskeggjaður og hárprúður. Andlitið var slétt og hreint þar sem sást í enni, kinnbein og vanga. Hann var ekki neinn málrófsmaður en þægilega hýr spilamaður.[379]

 

Þau Jóhann og Jónína bjuggu í nokkur ár á Flateyri en fluttust síðan til Súgandafjarðar og áttu þar heima í þorpinu Suðureyri.[380] Þar mun Jóhann m.a. hafa fengist við smíðar.[381] Í einni heimild er hann sagður hafa verið notinvirkur og hagsýnn smiður og Jónína dugnaðarkona við verk.[382] Þau dóu bæði á Suðureyri og þar áttu tveir synir þeirra heima í marga áratugi.[383]

Jóhann Jónsson og fjölskylda hans var ekki eina fólkið sem settist að á Eyri árið 1892 því þetta sama ár kom hingað ekkjan Rósamunda Jóhanna Guðmundsdóttir með eitt barna sinna.[384] Hér hefur áður verið sagt nokkuð frá Rósamundu en hún var fædd á Sveinseyri í Dýrafirði í desembermánuði árið 1851 (sjá hér Tannanes). Foreldrar hennar voru Guðmundur Guðmundsson norðlenski og Ingibjörg Jónsdóttir sem var bústýra hans um skeið. Að Eyri kom Rósamunda frá Kirkjubóli í Korpudal en hafði áður búið með manni sínum, Bjarna Jónssyni, á Tannanesi (sjá hér Tannanes). Á Eyri var Rósamunda í húsmennsku í þrjú ár, frá 1892 til 1895, og hafði þá oftast hjá sér tvö af börnum sínum.[385] Árið 1898 fluttist hún frá Flateyri til Ísafjarðar (sjá hér Tannanes).

Árið 1893 komu enn tvær nýjar fjölskyldur að Eyri og þar með fór tala íbúanna úr 19 upp í 31.[386] Hjónin Einar Jónsson og Margrét Jónsdóttir, sem settust hér að árið 1893, höfðu með sér sjö börn á aldrinum eins til sautján ára[387] og gat munað um minna. Þessi hjón höfðu búið á Görðum í nærri tvo áratugi og komu þaðan hingað að Eyri.[388] Hér hefur áður verið gerð grein fyrir þeim báðum og nægir að vísa til þess (sjá hér Garðar). Einar Jónsson varð ekki langlífur hér á Eyri því hann andaðist, 48 ára gamall, þann 27. apríl 1894.[389] Ekkja hans, Margrét Jónsdóttir, fór þó ekki héðan fyrr en fimm árum síðar en hún dó á Suðureyri í Súgandafirði árið 1912 og sum barna hennar ílentust þar.[390]

Kristján Guðmundsson og Guðrún Daðadóttir voru hin hjónin sem settust að á Eyri árið 1893 og þeim fylgdu tvö börn.[391] Þau Kristján og Guðrún voru bæði á fimmtugsaldri, hann fæddur í Tungusveit í Steingrímsfirði en hún í Hvammssveit í Dölum.[392] Þessi hjón áttu hér heima í átta ár en fluttust að Bæ í Súgandafirði árið 1901[393] og bjuggu þar í 13 ár.[394] Þau dóu bæði á Suðureyri, hún 1917 en hann 1924.[395]

Fyrsta veturinn sem Kristján var á Eyri var hann kærður fyrir sauðaþjófnað en amtmaður, sem fékk málið til meðferðar, taldi kæruna ekki hafa við fullgild rök að styðjast og mælti fyrir um að málið yrði látið niður falla.[396] Sá sem bar fram kæruna var Kjartan Rósinkranzson, skipstjóri á Flateyri, og í réttarskjölunum er Kristján nefndur einkasmali.[397] Þar má sjá að hann hafði þann starfa að líta til með annarra manna fé sem gekk úti á Sauðanesi langt fram eftir vetri[398] og sú mun vera skýringin á hinu sérkennilega starfsheiti hans í réttarskjölunum. Við réttarhald 13. janúar 1894 viðurkenndi Kristján að hafa flutt skrokkinn af dauðri kind, sem Kjartan átti, heim að Eyri en fullyrti að kindin hefði orðið sjálfdauð og hann ætlað að skila eigandanum kjötinu.[399] Kjartan vildi hins vegar meina að einkasmalinn hefði skorið kindina og ætlað að stela kjötinu.[400]

Síðasta fólkið sem fluttist að Eyri voru tvenn hjón sem settust hér að árið 1896.[401] Þetta voru Sigurður Ólafsson og Dagbjört Jónsdóttir kona hans og Guðmundur Ólafur Jónsson ásamt sinni eiginkonu sem hét Sigríður Júlíana Sighvatsdóttir.[402] Þau Sigurður og Dagbjört voru bæði liðlega þrítug og komu að Eyri frá Sæbóli á Ingjaldssandi.[403] Þau voru búsett á Eyri í fjögur ár en fluttust aftur með börn sín að Sæbóli árið 1900 og áttu þar heima næstu árin.

Hjónin Guðmundur Ólafur Jónsson og Sigríður Júlíana Sighvatsdóttir fluttust árið 1895 frá Bakka í Mýrahreppi til Flateyrar[404] og komu sér fyrir hér á Eyri einu ári síðar.[405] Guðmundur Ólafur fæddist á Læk í Dýrafirði 5. október 1861 og var því um það bil hálffertugur þegar hann tók sér bólfestu hér á Eyri. Ári fyrr var hann ráðinn stýrimaður hjá Ebenezer Sturlusyni, skipstjóra á Flateyri,[406] sem þá stýrði til veiða þilskipinu Flateyri er þeir Torfi Halldórsson áttu og gerðu út (sjá hér Flateyri).

Sigríður Sighvatsdóttir, eiginkona Guðmundar Ólafs, var fædd á Hjöllum í Gufudalssveit 25. júlí 1867 en hún var elsta barn Sighvats Grímssonar Borgfirðings og konu hans Ragnhildar Brynjólfsdóttur.[407] Þegar Sigríður fæddist var faðir hennar vinnumaður á Hjöllum og hafði Ragnhildi konu sína þar hjá sér (sjá hér Höfði).[408] Tveimur árum síðar fluttist Sigríður með foreldrum sínum að Klúku í Bjarnarfirði og þaðan að Höfða í Dýrafirði árið 1873 (sjá hér Höfði). Þá var hún að verða sex ára. Í dagbókum sínum minnist Sighvatur fræðimaður á Höfða stundum á þessa dóttur sína og greinir m.a. frá því er hún réðist í vist hjá Lauritz Berg, norska hvalveiðiforstjóranum á Höfða, þann 22. júlí 1890.[409] Þá voru aðeins liðnir örfáir dagar frá því eiginkona forstjórans og börn þeirra fimm komu til Dýrafjarðar í fyrsta sinn og settust að á Höfða.[410] Í vistinni hjá Berg var Sigríður í tæplega níu mánuði og kom aftur til foreldranna 18. apríl 1891.[411] Þremur og hálfu ári síðar giftist hún Guðmundi Ólafi Jónssyni[412] og vorið 1896 fluttust þau búferlum hingað að Eyri eins og fyrr var nefnt.

Í manntalinu frá 1901 er Guðmundur Ólafur Jónsson á Eyri sagður vera sjómaður[413] en þau hjónin, hann og Sigríður Sighvatsdóttir, höfðu þá verið hér í fjögur ár og höfðu hjá sér tvær dætur ungar.[414] Ásamt Jóhanni Jónssyni, sem fyrr var nefndur, og hans fólki urðu þau síðustu íbúarnir á gömlu Eyri en báðar fjölskyldurnar fluttust héðan niður á Flateyri árið 1903.[415]

Guðmundur Ólafur dó á Flateyri vorið 1909[416] en Sigríður kona hans lifði lengur.[417] Hjón þessi eignuðust tvær dætur sem báðar komust á legg.[418]

 

Hér hefur nú verið gerð örlítil grein fyrir þeim 15 fjölskyldum sem bjuggu um lengri eða skemmri tíma í þurrabúð hér á Eyri á tímabilinu frá 1870 til 1903. Þó að nú (1995) séu aðeins liðin 92 ár  frá því búsetu manna lauk á þessum stað eru fá ummerki sjáanleg um lífið sem áður setti sinn svip á hin fornu tún þar sem sagt er að landnámsmaðurinn Önundur Víkingsson hafi tekið sér bólfestu fyrir 1100 árum. Þurrabúðarfólkið sem hér átti síðast heima bjó allt í torfkofum sem nú eru horfnir af yfirborði jarðar en dálítill partur af gamla Eyrartúninu grænkar enn á hverju vori.

 

Dvöl okkar á Eyri er nú þegar orðin nokkuð löng en áður en lagt verður upp í gönguna fyrir Sauðanes skulum við líta til baka stutta stund og virða nánar fyrir okkur þann heimamann á þessum stað sem þjóðkunnur varð á síðasta áratug 19. aldar og margir kunna enn að nefna, Sigurð skurð. Frægð sína hlaut Sigurður af því að vera grunaður um manndráp sem þó tókst aldrei að færa sönnur á, enda neitaði hann staðfastlega þó að hart væri að honum gengið. Sýslumaðurinn sem yfirheyrði Sigurð var Skúli Thoroddsen, ungur stjórnmálaleiðtogi sem átti miklum vinsældum að fagna hjá meginþorra almúgans í Ísafjarðarsýslu. Svo virðist sem Skúli hafi, eins og margir fleiri, verið sannfærður um sekt Sigurðar og gekk hann því stundum harðar fram en skyldi þá 44 daga sem hann var með þennan tómthúsmann í gæsluvarðhaldsvist í fangahúsinu á Ísafirði. Á þessum árum, rétt eftir 1890, var Skúli af mörgum talinn vera skæðasti andstæðingur landsstjórnarinnar, helsti talsmaður róttækra stjórnmálaskoðana og sá sem lengst gekk í kröfugerð um bættan hag og aukin réttindi alls almennings. Magnús Stephensen landshöfðingi og hans nánustu samstarfsmenn voru því fljótir að reiða til höggs þegar tækifæri gafst til athugasemda við embættisfærslu Skúla og víkja honum úr embætti. Tilefni þess að Skúla var vikið frá var framganga hans í glímunni við Sigurð skurð, hinn meinta manndrápara sem stóð af sér öll veður.

Með hinni opinberu rannsókn á embættisfærslu Skúla og brottvikningu hans úr embætti sýslumanns sumarið 1892 hófust ein þau allra hörðustu stjórnmálaátök sem um getur á landi hér og á Ísafirði lá við borgarastyrjöld. Í þessum illvígu sviptingum þar sem fólk um land allt hlaut að taka afstöðu komst nafn Sigurðar skurðs á hvers manna varir og margir sem lítið þekktu til mála þóttust hafa efni á að stimpla hann sem hinn versta illræðismann og manndrápara. Um Skúlamálin sem svo voru nefnd hefur margt og mikið verið skrifað og því óþarft að segja margt um þau hér. Aðeins skal þess getið að í þeim miklu sviptingum vann Skúli að lokum fullan sigur er hann var sýknaður í hæstarétti í Kaupmannahöfn þann 15. febrúar 1895. Fyrir alla þá sem fræðast vilja um hin margþættu pólitísku átök sem Skuli Thoroddsen var miðpunktur í er best að taka sér í hönd rit Jóns Guðnasonar sem kom út í tveimur bindum 1968 og 1974 og heitir Skúli Thoroddsen. Þar er líka fjallað nokkuð um Sigurð skurð og hann er aðalpersónan í bók Ásgeirs Jakobssonar Fanginn og dómarinn sem út kom árið 1987. Í því litla sem hér verður sagt um Sigurð og lífsstríð hans er stuðst við bæði þessi rit.

Sigurður Jóhannsson, sem menn nefndu skurð, er talinn hafa fæðst í Hafnardal á Langadalsströnd við norðanvert Ísafjarðardjúp þann 7. janúar 1862 en þar voru foreldrar hans vinnuhjú.[419] Faðir Sigurðar, Jóhann Guðmundsson, var launsonur Guðmundar Einarssonar frá Kollafjarðarnesi[420] sem bjó skamma hríð á Kleifum á Selströnd í Steingrímsfirði en dó ungur.[421] Bræður Guðmundar og afabræður Sigurðar skurðs voru alþingismennirnir Ásgeir Einarsson á Kollafjarðarnesi en síðar á Þingeyrum og Torfi Einarsson á Kleifum, Magnús Einarsson, bóndi og varaþingmaður á Hvilft, sem hér er sagt frá á öðrum stað (sjá hér Hvilft), og Jón Einarsson skipstjóri sem um skeið átti heima á Flateyri (sjá hér Flateyri og Sveinseyri).

Móðir Sigurðar skurðs var Sigurlaug Sigurðardóttir sem hét fullu nafni Andrea (eða Andría) Sigurlaug og var úr Bjarneyjum á Breiðafirði.[422] Föðurbróðir hennar var Andrés Björnsson er um alllangt skeið var ráðsmaður á búi séra Ólafs Sívertsen í Flatey[423] og formaður á útvegi hans undir Jökli.[424] Kona Andrésar Björnssonar var Guðrún Einarsdóttir, föðursystir Theódóru Thoroddsen, eiginkonu Skúla sýslumanns, en sonardætur Andrésar og Guðrúnar voru skáldkonurnar Herdís og Ólína Andrésdætur.[425] Þau Theódóra Thoroddsen og Sigurður skurður voru reyndar ekki aðeins tengd með þeim hætti sem hér var lýst heldur líka dálítið skyld því Einar Jónsson, bóndi á Kollafjarðarnesi, sem var langafi Sigurðar skurðs, var systursonur Eggerts Ólafssonar í Hergilsey (sjá hér Hvilft) en Eggert var sem kunnugt er afi Ástríðar Guðmundsdóttur, húsfreyju í Skáleyjum, ömmu Theódóru Thoroddsen og séra Matthíasar skálds Jochumssonar.[426]

Af þessu má sjá að enda þótt Sigurður væri múgamaður þá var hann í ættartengslum við fjölmarga forystumenn á ýmsum sviðum þjóðlífsins, víðkunn skáld og stjórnmálaskörunga.

Ekki er fyllilega ljóst með hvaða hætti Sigurður fékk viðurnefnið skurður, sem snemma festist við hann, en ýmsar sögur voru hafðar uppi því til skýringar.[427] Mjög líklegt má telja að Magnús Hjaltason, sem var góðkunningi Sigurðar, fari með rétt mál er hann ritar um þetta 7. desember 1912.[428] Magnús segir að Sigurður hafi tekið nafnið í arf eftir Jóhann föður sinn sem sagt var að hefði hallast til hliðanna þegar hann gekk.[429] Slíkt göngulag var kallað að skera tóbak – maðurinn hallaðist til hliðanna sitt á hvað eins og tóbaksjárnið þegar menn skáru sér í nefið.[430] Þessa skýringu heyrði Halldór Kristjánsson frá Kirkjubóla líka á ungum aldri þegar hann var að alast upp í Önundarfirði á öðrum og þriðja áratug 20. aldar.[431]

Hér var þess áður getið að Sigurður væri talinn fæddur í Hafnardal á Langadalsströnd við Djúp 7. janúar 1862. Í prestsþjónustubókum mun fæðing hans hvergi vera skráð og engar barnsfæðingar þar í Kirkjubólsþingum á árunum 1860-1865[432] svo taka verður fram að ef til vill er það sem hér var sagt um fæðingarstað, fæðingardag og ár ekki alveg öruggt. Þann 25. nóvember 1895 sagði Sigurður sjálfur fyrir rétti að hann væri fæddur í Hafnardal[433] og má telja mjög líklegt að það sé rétt því árið 1868 greindu foreldrar hans frá því að drengurinn væri fæddur á Langadalsströnd.[434]

Nokkru meiri vafi leikur á um fæðingarárið. Á síðari hluta nítjándu aldar var enn nokkuð algengt að menn vissu ekki upp á hár hvað þeir væru gamlir og alveg sérstaklega átti þetta við um þá sem ólust upp á hrakningum og utan síns fæðingarhrepps. Við nýnefnt réttarhald, 25. nóvember 1895, kvaðst Sigurður vera fæddur í Hafnardal fyrir 35 eða 36 árum og hafa verið fermdur á Stað í Steingrímsfirði árið sem hann varð 14 ára. Ef mark væri tekið á fyrri fullyrðingunni ætti fæðingarárið að vera 1859, 1860 eða 1861 en sé mark hins vegar tekið á þeirri staðhæfingu að 14 ára gamall hafi hann verið tekinn í kristinna manna tölu þá er fæðingarárið 1862 því drengurinn var sannanlega fermdur vorið 1876.[435] Við ferminguna á Stað í Steingrímsfirði er Sigurður sagður vera á 15. ári[436] sem kemur heim við hans eigin orð nítján árum síðar og verður því að telja líklegast að fæðingarárið sé 1862. Magnús Hjaltason, sem var allvel kunnugur Sigurði, segir hann fæddan 7. janúar 1862[437] og má ætla að hann hafi þær upplýsingar frá Sigurði sjálfum. Fæðingarstað Sigurðar segir Magnús vera Hamar í Nauteyrarhreppi[438] en við réttarhaldið, sem fyrr var frá sagt, kvaðst Sigurður vera fæddur í Hafnardal í sama hreppi. Orð Magnúsar nægja ekki til að hrekja þá yfirlýsingu.

Þegar Sigurður Jóhannsson var tekinn í kristinna manna tölu átti hann heima á bænum Sandnesi á Selströnd við norðanverðan Steingrímsfjörð.[439] Út frá þeirri vitneskju er með könnun á prestsþjónustubókum og sóknarmannatölum hægt að sjá í aðalatriðum hvar piltur þessi ólst upp, allt frá þriggja ára aldri og fram yfir fermingu. Þrjú fyrstu æviárin eru hins vegar í móðu.

Hér var áður getið um foreldra Sigurðar, þau Jóhann Guðmundsson, sem var Strandamaður að ætt og uppruna, fæddur í Prestsbakkasókn í Hrútafirði,[440] og Sigurlaugu Sigurðardóttur sem var úr Breiðafjarðareyjum, fædd í Ystubúð í Bjarneyjum.[441] Enginn veit nú hvar leiðir þeirra Jóhanns og Sigurlaugar lágu fyrst saman og ekki heldur hversu langa dvöl þau áttu á Langadalsströnd á árunum kringum 1860. Þegar Sigurður sonur þeirra fæddist var Jóhann um þrítugt en Sigurlaug líklega 27 ára.[442]

Um dvalarstaði þeirra á árunum 1863 og 1864 er allt á huldu en vorið 1865 voru þau komin að Þingeyrum í Húnaþingi og þar fæddist þá á vinnuhjúaskildaga annað barn þeirra sem um er kunnugt, dóttirin Ingunn Guðlaug Valmaría.[443] Við fæðingu dótturinnar eru foreldrarnir sagðir vera í vist á Þingeyrum.[444] Þá er Sigurlaug reyndar sögð vera Guðmundsdóttir[445] sem er augljós misritun prestsins en á sóknarmannatölum frá 31.12.1865 og 31.12.1866 er föðurnafn hennar hins vegar rétt.[446] Hún var þá enn vinnukona á Þingeyrum.[447] Athygli vekur að nafn Jóhanns er ekki að finna á Þingeyrum í sóknarmannatölunum frá 1865 og 1866 en við fæðingu dótturinnar vorið 1865 er hann talinn heimilisfastur þar og saman flytjast þau Jóhann og Sigurlaug, eiginkona hans, burt frá Þingeyrum árið 1867.[448] Hjón þessi voru jarðnæðislaust fólk og með hliðsjón af því sem hér hefur verið sagt má telja líklegt að Jóhann hafi komið konunni fyrir á Þingeyrum en sjálfur hafi hann aðeins verið þar með annan fótinn. Vel mætti hugsa sér að hann hafi róið í Bolungavík eða annars staðar á veturna og verið farinn í verið þegar prestur kom að húsvitja.

Foreldrar Sigurðar skurðs voru fátækt fólk en á höfuðbólinu Þingeyrum gat faðir hans leitað liðsinnis vegna náins skyldleika við Jón Ásgeirsson, hinn unga og umsvifamikla bónda sem settist þar að búi vorið 1863 (sjá hér Hvilft). Þeir Jóhann Guðmundsson, faðir Sigurðar, og Jón Ásgeirsson á Þingeyrum voru bræðrasynir, Jóhann sonur Guðmundar Einarssonar frá Kollafjarðarnesi en Jón sonur Ásgeirs Einarssonar, bónda og alþingismanns, sem bjó á Kollafjarðarnesi til 1861 en síðan á Þingeyrum frá 1861-1863 og frá 1867-1885 (sjá hér bls. 40 og Hvilft). Fullvíst er að foreldrar Sigurðar skurðs komu að Þingeyrum á fyrsta eða öðru búskaparári Jóns Ásgeirssonar.[449] Sóknarmannatal vantar frá árinu 1864 en um miðjan maí vorið 1865 voru þau sannanlega komin á hið forna höfuðból eins og hér var áður nefnt. Þau höfðu áður verið gefin saman í hjónaband[450] en óvíst er hvar þau voru pússuð saman.

Leiðin frá Hafnardal á Langadalsströnd og norður að Þingeyrum er nokkuð löng sé farið fótgangandi en þó ekki nema um það bil 200 kílómetrar ef fenginn er bátur til flutnings yfir Hrútafjörð. Með ólétta konu og þriggja ára barn getur hraustur maður komist slíka vegalengd á einni viku. Við vitum ekki hversu langan tíma foreldrar Sigurðar skurðs voru á leiðinni vestan frá Ísafjarðardjúpi að Þingeyrum. Ef til vill hefur sú ferð verið farin með ýmsum útúrkrókum og tekið þrjú ár en hitt er líka hugsanlegt að þau hafi brotist norður á einni viku vorið 1865. Hvernig svo sem þessu hefur verið háttað er hitt tvímælalaust að drengurinn Sigurður fylgdi foreldrum sínum úr Djúpinu norður í Húnaþing eða kom í slóð þeirra því sama ár og Ingunn systir hans fæddist á Þingeyrum er hann orðinn tökubarn á bæ einum í Vatnsdalnum, það er að segja Miðhúsum,[451] en þangað er um það bil tveggja stunda gangur frá Þingeyrum. Vera má að ungu frúnni á Þingeyrum, sem sjálf var aðeins rétt um tvítugt vorið 1865, hafi þótt nóg að taka við langt að rekinni óléttri göngukonu, kominni að falli, þó að annar barnungi fylgdi þar ekki með. Hinn spræki hestamaður og vísnasmiður, Jón á Þingeyrum, hefur þá sem vænta mátti verið fljótur að finna önnur úrræði hinum unga frænda sínum til handa og komið honum fyrir hjá fólkinu í Miðhúsum. Við skulum vona að þar hafi vistin verið bærileg.

Í Miðhúsum í Vatnsdal var Sigurður Jóhannsson tökudrengur við lok áranna 1865 og 1866 og er bæði árin sagður vera 5 ára gamall í húsvitjanabók prestsins.[452] Sé fæðingardagurinn 7. janúar 1862 lætur nærri að aldurinn sé réttur 31.12.1866. Í embættisbókum séra Jóns Kristjánssonar í Steinnesi verður ekki séð að Sigurður Jóhannsson hafi nokkru sinni átt heima á Þingeyrum en móðir hans og systir voru þar á þessum árum og faðirinn líka, a.m.k. með annan fótinn eins og hér hefur áður verið nefnt. Ætla má að hinn ungi tökudrengur hafi þó dvalist einhverjar stundir hjá foreldrum sínum á höfuðbólinu og þá hafa þeir sést frændurnir, Magnús Einarsson, áður bóndi á Hvilft í Önundarfirði, og Sigurður Jóhannsson en Magnús fluttist úr Önundarfirði norður að Þingeyrum, kominn á sextugsaldur, vorið 1863 og átti þar síðan heima uns hann andaðist vorið 1870 (sjá hér Hvilft). Magnús var afabróðir Sigurðar eins og hér hefur áður verið nefnt og taldist á árunum 1865-1867 vera vinnumaður hjá Jóni Ásgeirssyni, frænda þeirra, sem þá stýrði búi á Þingeyrum. Óvíst er reyndar hvort Sigurður, sem aðeins var fimm ára gamall þegar hann fór úr Þingeyraklaustursprestakalli, hefur munað eftir Magnúsi síðar meir en foreldrar drengsins hafa án efa munað Magnús og sagt syninum eitt og annað frá þessum merkilega frænda hans. Vera má að minningin um Þingeyrar og um Magnús, sem kenndur var við Hvilft, hafi, ásamt með ættartengslunum, átt nokkurn þátt í því að Sigurður gerðist nær 20 árum síðar vinnumaður hjá syni Magnúsar, Finni Magnýssyni á Hvilft, og settist að í Önundarfirði (sjá hér bls. 53).

Vorið 1867 fluttist Jóhann Guðmundsson frá Þingeyrum að Kaldrana í Vindhælishreppi.[453] Norður þangað fylgdu honum Sigurlaug kona hans, dóttirin Ingunn og líka sonurinn Sigurður sem nú fluttist frá Miðhúsum í Vatnsdal að Kaldrana.[454] Hvað valdið hefur þessari ráðabreytni þeirra Jóhanns og Sigurlaugar er ekki ljóst en líklegt er að brottförin frá Þingeyrum hafi með einum eða öðrum hætti tengst húsbóndaskiptunum sem þar urðu þetta vor. Jón Ásgeirsson lét þá af stjórn búsins en Ásgeir faðir hans, sem búið hafði í Ásbjarnarnesi í fjögur ár, settist aftur á Þingeyrar og tók þar við öllum búsforráðum (sjá hér Hvilft). Vera má að Jóhanni hafi samið betur við hinn unga og lausbeislaða frænda sinn, Jón Ásgeirsson, en við Ásgeir föðurbróður sinn, þann gamla alþingismann sem hafa vildi röð og reglu á öllu í kringum sig.

Býlið Kaldrani stóð við Kaldranavík norðantil á Skaga, á sjávarbakkanum að heita mátti. Þetta var tíu hundraða jörð að fornu mati.[455] Næsti bær fyrir vestan eru Hafnir en sé farið í austurátt er styst að Víkum, um það bil 6 kílómetrar. Kaldrani fór í eyði árið 1936 eða því sem næst.[456] Í þjóðsögum er frá því greint að eitt sinn hafi allt fólkið sem þá átti heima á Kaldrana dáið skyndilega og hafði skömmu fyrir andlátið etið öfugugga úr litlu vatni þar í grenndinni.[457] Áður en fólk á næstu bæjum hafði orðið vart við umskiptin á Kaldrana dreymdi mann nokkurn þar í grenndinni að hann heyrði farið með þessa vísu:

 

Liggur allur lífs andvana

lýðurinn á Kaldrana.

Át af óvana, át sér til bana.

Liggur allur lífs andvana

lýðurinn á Kaldrana.[458]

 

Fyrir foreldra Sigurðar skurðs hljóta að hafa verið mikil umskipti að flytjast úr velsældinni á Þingeyrum norður á Kaldrana en í kotinu þar hugðust þau standa á eigin fótum. Líklega hefur Jóhann hugsað sér að róa til fiskjar og tryggja fjölskyldu sinni lífsbjörg með þeim hætti því engin jarðarafnot fékk hann á Kaldrana.[459] Hann komst því ekki í bændatölu og ekki gerðist hann vinnumaður en hafðist við með fólk sitt í húsmennsku.[460]

Á Kaldrana komst Sigurður Jóhannsson aftur í foreldrahús eftir langan aðskilnað. Þá var hann fimm ára eða máske sex. Veturinn 1867-1868 voru þau öll í koti sínu norður þar tómthúsmaðurinn Jóhann Guðmundsson, Sigurlaug kona hans og börn þeirra tvö, Sigurður og Ingunn.[461] Í sóknarmannatali frá 31. mars 1868 er tekið fram að bæði Jóhann og Sigurlaug séu læs en um Sigurð, sem þarna var talinn sjö ára, lætur prestur þess getið að hann þekki ekki stafina.[462]

Ekki brosti gæfan við hinu snauða tómthúsfólki á Kaldrana. Í lok vetrar var móðir barnanna tveggja farin að þykkna undir belti en erfitt að bjarga sér með tvær hendur tómar og engan bústofn. Norður á Skaga voru þau aðkomufólk og hafa því varla átt þar í mörg hús að venda. Um vorið gáfust þau upp á húsmennskunni, kvöddu Kaldrana og lögðu enn af stað í langa ferð, fótgangandi að því er ætla má. Sú ferð var farin út í óvissuna án þess að eiga nokkurs staðar tryggt hæli. Leið hinna fátæku foreldra með börn sín tvö lá um endilanga Húnavatnssýslu því nú var ekki til setunnar boðið á Þingeyrum. Þó má vera að stolt fjölskylduföðurins sem hér var á ferð hafi knúið hann til að leggja leið sína fram hjá garði föðurbróður síns sem nú sat í hárri makt á þessu höfuðbóli. Við sýslumörk fyrir botni Hrútafjarðar var komið í fæðingarhrepp Jóhanns, Bæjarhrepp í Strandasýslu. Þá hafa vanfær konan og börnin tvö verið orðin þreytt og máske lítið um næringu. Hér var um tvennt að velja, að segja sig til sveitar eða leita vistráðningar. En hvaða bóndi tekur hjón með tvö börn og það þriðja augljóslega á leiðinni inn á heimili sitt? Varla margir á þeirri tíð.

Öll fjögur þokast þau út með Hrútafirði vestanverðum frá einum bænum til annars og í hlaðið á Prestsbakka, kirkjustaðnum þar sem presturinn, séra Jón Bjarnason, situr með sinni frú. Þau Jóhann og Sigurlaug eru með öllu ókunnug þessum prestshjónum sem hingað eru komin af Suðurlandi og hafa aðeins þjónað prestakallinu við Hrútafjörð í eitt ár.[463] Líklega hafa þau samt heyrt um prestinn talað á leið sinni út með Hrútafirði og ákveðið að leita fyrir sér hjá honum. Að Prestsbakka komu þau ekki til að beiðast beininga en buðu fram krafta sína til starfa á búinu. Um konu séra Jóns Bjarnasonar, Helgu Árnadóttur frá Hofi í Öræfum, segir í heimildum að hún hafi verið gáfukona og valkvendi.[464] Bæði sáu prestshjónin hvernig ástatt var fyrir þessu langt að komna fólki, barnshafandi konunni og börnunum sem vissu ekki hvar þau fengju næst höfði sínu hallað. Orðin sem féllu á hlaðinu þekkjum við ekki en hver sem þau hafa verið varð niðurstaðan sú að þetta Kaldranafólk þyrfti ekki að fara lengra. Bæði Jóhann og hin ólétta kona hans voru án mikils fyrirvara ráðin til starfa sem vinnuhjú á Prestsbakka og komust þannig hjá því að segja sig til sveitar.

Um ferðalagið sem hér var frá sagt liggja að sjálfsögðu engar heimildir fyrir en víst er að á einmánuðu þetta ár, 1868, voru þau Jóhann og Sigurlaug enn með börn sín norður á Kaldrana en að áliðnu sumri voru þau orðin vinnuhjú á Prestsbakka.[465]

Í lok heyanna varð hin nýja vinnukona þar, Sigurlaug Sigurðardóttir, léttari og þá kom í ljós að hún hafði ekki aðeins borið eitt barn undir belti heldur tvö. Tvíburarnir fæddust 24. ágúst 1868 og á þá völdu foreldrarnir nöfn helstu kappanna í gömlu Njáli, Gunnars á Hlíðarenda og Skarphéðins Njálssonar.[466] Þegar séra Jón Bjarnason skráir nöfn þeirra og fæðingardag í embættisbók sína tekur hann fram að foreldrarnir séu vinnuhjú á Prestsbakka.[467] Annar tvíburanna, Gunnar, dó átta dögum eftir fæðinguna en Skarphéðinn náði að vaxa úr grasi, átti lengi heima í Strandasýslu en síðustu árin í Tröð í Fróðárhreppi á Snæfellsnesi og dó þar eða í Ólafsvík 3. nóvember 1930.[468] Frá honum eru komnir margir niðjar.[469]

Á Prestsbakka hafa þau Jóhann og Sigurlaug að öllum líkindum unað hag sínum vel og þar munu þau hafa dvalist í um það bil tvö ár.[470] Óvíst er þó hvort þau fengu að halda öllum þremur börnunum hjá sér veturinn 1868-1869 því sóknarmannatal frá þeim vetri vantar. Prestshjónin séra Jón Bjarnason og Helga Árnadóttir áttu fjögur börn á lífi þegar hér var komið sögu og voru þau á aldrinum frá eins til tólf ára.[471] Eitt þessara barna var Magnús Blöndal, er síðar varð prestur í Vallanesi, og annað Bjarni sem líka varð þjóðkunnur, þingmaður Dalamanna frá 1908-1926 og háskólakennari með fleiru, en hann nefndi sig Bjarna Jónsson frá Vogi.[472] Líklegt er að Bjarni og Sigurður Jóhannsson hafi átt leiki saman á Prestsbakka því þeir voru á svipuðum aldri en prestssonurinn þó hálfu öðru ári yngri.

Séra Jón Bjarnason, sem hér kemur við sögu, þótti vera nokkuð upp á kvenhöndina[473] og fékk snemma viðurnefnið kerlingadraugur.[474] Í hjónabandi þeirra Helgu Árnadóttur var þó allt með sæmilegum friði, að því er best er vitað, þar til skömmu eftir komu Jóhanns Guðmundssonar og hans fólks að Prestsbakka en veturinn 1868-1869 sauð upp úr þegar stúlka nokkur sem eignaðist dóttur þann 1. mars kenndi prestinum barnið.[475] Svo fór að séra Jón gekkst við faðerninu og fyrir þessa barneign fram hjá konu sinni missti hann hempuna í tvö ár og hrökklaðist burt frá Prestsbakka.[476] Þau Jón prestur og Helga kona hans slitu þá samvistir og fór hvort í sína áttina með börnin.[477]

Ekki verður nú um það sagt hversu löng dvöl Jóhanns Guðmundssonar og hans fólks kynni að hafa orðið á Prestsbakka ef ekki hefði slitnað upp úr hjúskap séra Jóns Bjarnasonar og Helgu konu hans og þau orðið langlíf í Hrútafirði. Um slíkt þýðir ekki að spá eða spyrja en við brottför prestsfjölskyldunnar breyttust allar aðstæður enn á ný hjá þeim Jóhanni og Sigurlaugu. Við lok ársins 1869 voru þau enn vinnuhjú á Prestsbakka og nú hjá Kristjáni Ögmundssyni, bónda sem bjó þar í eitt ár á milli presta.[478] Ingunni dóttur sína höfðu þau þá enn hjá sér en báða drengina, Sigurð og Skarphéðin, höfðu þau orðið að láta frá sér fara.[479]

Frá vegferð Sigurðar verður brátt nánar greint á þessum blöðum en það er frá foreldrum hans að segja að vorið 1870 fóru þau burt frá Prestsbakka og komu sér á ný fyrir í húsmennsku, að þessu sinni í Heydal í sama hreppi.[480] Bær þessi stóð framarlega í samnefndum dal sem einnig er nefndur Víkurdalur og opnast nyrst á vesturströnd Hrútafjarðar. Í húsvitjanabók frá árinu 1870 er Jóhann sagður vera lausamaður í Heydal og þar voru þá líka kona hans og dóttir.[481] Býli þetta, sem fór í eyði árið 1938,[482] var í landi Guðlaugsvíkur.[483]

Árið 1871 fluttust þau Jóhann Guðmundsson og Sigurlaug Sigurðardóttir frá Heydal að Rauðamýri í Nauteyrarhreppi við Ísafjarðardjúp.[484] Dóttir þeirra fylgdi þá foreldrunum vestur að Djúpi. Fyrstu árin við Djúp, eftir brottförina frá Heydal, voru þau Jóhann og Sigurlaug oftast vinnuhjú hjá einhverjum bændanna í Nauteyrarhreppi[485] en gerðust síðar húsfólk út á Snæfjallaströnd og voru þar m.a. í Unaðsdal og á Bæjum.[486] Síðast var Jóhann á Sandeyri í Snæfjallahreppi en hann andaðist 52ja ára gamall 16. nóvember 1883.[487] Sigurlaug kona hans lifði mun lengur en hún dó 14. júlí 1900[488] á Ísafirði.[489]

Hinn ungi Sigurður Jóhannsson, sem var elsta barn foreldra sinna, varð á ný viðskila við þau árið 1869, þegar séra Jón Bjarnason og hans fólk fór frá Prestsbakka. Honum var þá komið fyrir á býli einu í Bæjarhreppi sem í sóknarmannatölum er ýmist nefnt Kvíslar eða Kvíslasel og var í landi Kjörseyrar.[490] Ekkert sóknarmannatal úr Prestsbakkasókn er til frá árinu 1868 og því hugsanlegt að Sigurði hafi verið ráðstafað að Kvíslum strax á því ári en með vissu er vitað að hann var tökudrengur á þessu heiðarbýli við lok ársins 1869.[491] Þá var hann rétt að verða átta ára og hefur skilist við foreldrana að þessu sinni sex eða sjö ára gamall.

Í Kvíslum dvaldist Sigurður eigi skemur en í fimm ár[492] eða mun lengur en á nokkrum öðrum stað á sínum uppvaxtarárum.

Býlið Kvíslar var sem áður sagði í landi Kjörseyrar og stóð alllangt frá sjó, í heiðinni nær beint vestur af Borðeyri. Frá heiðarbýli þessu voru sex til sjö kílómetrar að Borðeyri en aðeins tæplega tveir kílómetrar vestur að sýslumörkum Strandasýslu og Dalasýslu. Kvíslar stóðu rétt austan við gömlu þjóðleiðina, sem lá um Sölvamannagötur frá Fjarðarhorni í Hrútafirði á Laxárdalsheiði, og frá túnfæti heiðarbýlisins var álíka langur spölur niður að Borðeyri við Hrútafjörð og vestur að Sólheimum, fremsta bæ í Laxárdal í Dalasýslu. Frá akveginum, sem nú liggur yfir Laxárdalsheiði, er aðeins hálftíma gangur að Kvíslum ef farið er úr bílnum við sýslumörk og gengið sem leið liggur í aust-suðaustur.

Bær þessi í heiðinni mun hafa dregið nafn sitt af árkvíslum sem þarna mætast og halda síðan áfram í einum streng norður í Laxá sem fellur í Hrútafjörð.[493] Fyrir miðja 19. öld var aldrei búið í Kvíslum svo kunnugt sé[494] en nafnið Kvíslasel bendir til þess að þarna hafi verið sel frá Kjörseyri um eitthvert skeið. Árið 1855 fór jarðnæðislaus húsmannsfjölskylda að bolloka þarna í Kvíslum og næstu 82 árin eða allt til ársins 1937 var þar nær alltaf mannabyggð.[495] Eiginlegur búskapur mun reyndar ekki hafa hafist á þessum stað fyrr en árið 1861 þegar hjónin Helgi Jónsson og kona hans, Jóhanna Jóhannesdóttir, stofnuðu þar til búskapar. Þau bjuggu í Kvíslum í 13 ár og hjá þeim ólst Sigurður Jóhannsson upp frá því hann var sex eða sjö ára og allt þar til hann var kominn á þrettánda ár.[496] Í manntalinu frá 1870 er nafn hans skráð meðal heimafólks í Kvíslum og þar er sagt að hann sé fæddur þar í sókninni[497] sem er misskilningur því prestsþjónustubókin sýnir að ekkert barn með þessu nafni fæddist í Prestsbakkasókn á þeim árum sem til greina koma.[498]

Óljóst er nú með hvaða hætti Sigurði var upphaflega ráðstafað að Kvíslum. Vera má að foreldrar hans hafi átt þar hlut að máli en hitt getur líka verið að hreppstjórarnir í Bæjarhreppi hafi sett hann þar niður. Í sóknarmannatalinu frá 1869 er hann sagður vera tökudrengur en næstu fjögur árin lætur prestur þess jafnan getið að piltur þessi í Kvíslum sé sveitarbarn eða á sveit.[499] Ekki verður því efast um að á þeim árum hafi Sigurður verið niðursetningur hjá Helga bónda og Jóhönnu konu hans á heiðarbýlinu við Sölvamannagötur. Um ævi hans þar mætti láta sér detta margt í hug en erfitt að festa hönd á staðreyndum.

Fáir þekkja nú Kvíslasel og flestir þeirra sem kannast við nafnið láta sér líklega detta í hug að þetta muni hafa verið eitt hið argasta kot í Hrútafjarðarbyggðum og þó víðar væri leitað en svo mun ekki hafa verið. Tíundarskýrsla frá haustinu 1872 sýnir að Helgi Jónsson í Kvíslum var gildur miðlungsbóndi sem bjó með eina kú, þrjátíu mylkar ær og fimmtán geldar, tuttugu gemlinga og fimm hross.[500] Honum var þá gert að greiða 140 fiska í útsvar og í hreppnum öllum voru þá aðeins sex gjaldendur sem borguðu meira til almanna þarfa.[501] Þetta sýnir að fólkið sem Sigurður Jóhannsson átti að húsbændum í fimm ár á bernskuskeiði var bjargálna manneskjur sem ætla má að hafi alltaf eða nær alltaf haft eitthvað að bíta og brenna. Hjónin Helgi Jónsson og Jóhanna Jóhannesdóttir í Kvíslaseli áttu aðeins eitt barn sem komst á legg, dótturina Ólöfu, sem var þremur eða fjórum árum eldri en Sigurður,[502] en fjöldi heimilisfólks í Kvíslaseli á árunum 1869-1874 var yfirleitt um það bil tíu, þar með talið húsfólk og önnur börn.[503]

Vorið 1874 tók fólkið í Kvíslaseli sig upp og fluttist að Tannstöðum í Staðarhreppi við austanverðan Hrútafjörð.[504] Svo virðist sem pilturinn Sigurður hafi farið með húsbændum sínum að Tannstöðum en átt þar skamma dvöl. Í prestsþjónustubókinni er hann sagður flytjast frá Kvíslum að Tannstöðum árið 1874[505] en í lok þess árs var hann farinn þaðan og orðinn smali á Einfætingsgili í Krossárdal í Bitru.[506] Þar var pilturinn kominn í Óspakseyrarhrepp, næsta hrepp fyrir norðan Bæjarhrepp í Strandasýslu. Að hinn 13 ára gamli smali, Sigurður Jóhannsson, sem dvaldist á Einfætingsgili veturinn 1874-1875 sé sá hinn sami og síðar fékk viðurnefnið skurður má teljast fullvíst því að aldurinn sem upp er gefinn passar og enginn annar kemur til greina. Því til styrktar má reyndar líka benda á að við réttarhöld, röskum tuttugu árum síðar, greindi Sigurður frá því að hann hefði dvalist í Bitrunni um þetta leyti.[507] Hjá Sigurði Briem sýslumanni hefur nafnið reyndar brenglast og orðið Bitrunes[508] en enginn bær eða sveit er til á öllu landinu með því nafni. Við nýnefnt réttarhald í nóvembermánuði árið 1895 kvaðst Sigurður ekki geta gert nákvæma grein fyrir dvalarstöðum sínum fram að tólf ára aldri[509] og við því var reyndar varla að búast. Í Bitruna kom hann 12 ára gamall þjóðhátíðarárið 1874 og þar náði hann fyrst að vinna fyrir sér og losna úr hreppsómagaviðjunum.

Sumarið 1874 smalaði Sigurður Jóhannsson kvíaánum á Einfætingsgili í Bitru og þar var hann enn þegar nýtt ár gekk í garð. Síðla vetrar eða snemma vors árið 1875 hefur hann að líkindum farið að Tannstöðum í Hrútafirði til hjónanna Helga og Jóhönnu, sem hann hafði alist upp hjá í Kvíslaseli, en staldrað þar aðeins við í fáar vikur eða mánuði. Til marks um það má nefna tvennt. Í skýrslu um ómaga í Bæjarhreppi frá árinu 1875 er Sigurður sagður dveljast á Tannstöðum[510] og í prestsþjónustubók Staðar í Hrútafirði er hann sagður flytjast burt frá Tannstöðum á því ári.[511] Í nýnefndri ómagaskýrslu Bæjarhrepps sjáum við að fardagaárið 1874-1875 voru Helga Jónssyni, sem nú var orðinn bóndi á Tannstöðum, enn greiddir 80 fiskar með Sigurði.[512] Þá hefur drengurinn, sem varð 13 ára 7. janúar 1875, verið farinn að vinna fyrir sér að mestu leyti því með flestum ómögunum voru borgaðir 200 fiskar eða meira og allt upp í 280 fiska.[513] Lægst var greiðslan hins vegar með Sigurði og einum öðrum ómaga Bæjarhrepps, aðeins 80 fiskar eins og hér var nefnt.

Þegar Sigurður Jóhannsson fluttist endanlega frá Tannstöðum árið 1875 segir séra Brandur Tómasson að hann hafi farið að Hamri.[514] Ekki er alveg víst hvaða Hamar þar muni vera átt við en Gautshamar á Selströnd í Kaldrananeshreppi kemur einna helst til greina því tvímælalaust er að árið 1875 barst hinn fyrrverandi sveitarómagi í Kvíslaseli norður á þær slóðir.

Sjálfur sagði Sigurður síðar að hann hefði verið á Bjarnarnesi þegar hann var 13 ára og svo á Sandnesi.[515] Þar átti hann vafalaust við bæina tvo í Kaldrananeshreppi sem bera þessi nöfn því staðfest er í annarri heimild að við lok ársins 1875 var hann á Sandnesi,[516] þá rétt að verða 14 ára. Líklegt er að ferð hans frá Tannstöðum snemma sumars þetta sama ár hafi verið heitið að Gautshamri en mál skipast svo að hann hafi ráðist sem smali að Bjarnarnesi, nyrsta bæ á Selströnd norðan Steingrímsfjarðar en milli Gautshamars og Bjarnarness er aðeins tveggja klukkustunda gangur. Á Bjarnarnesi hefur Sigurður varla dvalist nema fram á haustið því fyrir lok ársins 1875 var hann kominn að bænum Sandnesi á Selströnd[517] sem er nær beint á móti Hólmavík en þó aðeins nær fjarðarbotninum. Þar var hann léttadrengur þegar hann náði 14 ára aldri á fyrstu dögum ársins 1876.[518] Séra Bjarni Sigvaldason, sem varð prestur á Stað í Steingrímsfirði sama ár og Sigurður Jóhannsson kom í þann fjörð,[519] segir piltinn hafa komið úr Bæjarhreppi[520] sem er ekki alveg rétt því þaðan fór hann einu ári fyrr eins og hér hefur nú verið gerð grein fyrir.

Vorið 1876 var Sigurður Jóhannsson fermdur af séra Bjarna í kirkjunni á Stað í Steingrímsfirði[521] og þá brá svo við að þessi hrakningspiltur reyndist vera býsna vel að sér. Les og kann dável, hegðar sér vel, skrifar presturinn við nafn hans í bók sína[522] en einkunnin dável hafði þá sömu merkingu hjá prestunum og orðin mjög vel hafa nú. Um góða greind þessa fyrrverandi ómaga á heiðarbýlinu við Sölvamannagötur þarf því vart að efast og séra Bjarni á Stað, sem áður hafði verið prestur í Dýrafjarðarþingum og setið á Gerðhömrum, segir líka að hann hegði sér vel. Talsverðum kröftum mun strákur þessi, sem foreldrarnir skildu eftir í Hrútafirði sex eða sjö ára gamlan, hafa náð að safna hjá Strandamönnum og virtist fær í flestan sjó þegar hann kvaddi á Sandnesi og hélt vestur yfir Steingrímsfjarðarheiði sumarið 1876 eða máske þá um haustið.

Að Sigurður Jóhannesson hafi dvalist á Sandnesi síðasta vetur sinn í Strandasýslu og fermst þaðan vorið 1876 vottar séra Bjarni Sigvaldason á Stað í sínum embættisbókum og segir að frá Sandnesi hafi drengurinn flust að Rauðamýri við Djúp sama ár og hann var tekinn í kristinna manna tölu.[523]

Hvernig Sigurði Jóhannssyni hefur liðið á Sandnesi vitum við ekki en líklegt má telja að hann hafi átt þar góðu að mæta. Frá Sandnesi eru aðeins tæplega fjórir kílómetrar út að Kleifum á Selströnd en þar sat þá enn að búi sínu Torfi Einarsson, alþingismaður Strandamanna frá 1867-1877,[524] sem var afabróðir Sigurðar. Að Sigurður hafi séð Torfa frænda sinn á Kleifum þarf vart að efa og líklegt er að þeir hafi að minnsta kosti boðið hvor öðrum góðan dag. Tvo aðra bræður afa síns, þá Ásgeir alþingismann á Þingeyrum og Magnús, varaþingmanninn sem áður bjó á Hvilft í Önundarfirði, hafði pilturinn að því er ætla má báða litið augum tíu árum fyrr þegar hann beið þess sem verða vildi í vist hjá Húnvetningum og átti foreldra sína á Þingeyrum (sjá hér bls. 43). Hvort mynd þeirra bræðra hefur vakað í huga hans síðar skal þó ósagt látið.

Um tengsl Sigurðar við foreldra sína á árunum 1869-1876, það er að segja frá því hann var sjö ára og þar til hann var kominn á fimmtánda ár, er nú ekkert vitað. Ef til vill hafa þau engin verið en hann hlýtur þó að hafa munað vel eftir þeim, orðinn sex eða sjö ára þegar honum var nauðugum ráðstafað til vandalausra. Yfir Steingrímsfjarðarheiði kynnu bréf eða orðsendingar að hafa gengið á milli. Þar voru vermenn oft á ferð, Strandamenn sem reru í Bolungavík.

Væri farin alfaraleið úr Staðardal í Steingrímsfirði yfir heiðina var Lágidalur fyrsti bær sem komið var að handan heiðar. Veturinn 1875-1876 var Sigurlaug Sigurðardóttir vinnukona þar og hafði hjá sér dótturina Ingunni Guðlaugu Valmaríu sem orðin var 10 ára.[525] Þá var Sigurður, sonur Sigurlaugar, á Sandnesi og má ætla að þangað hafi honum borist fréttir um veru móður sinnar og systur á bænum handan heiðar. Nú var hann orðinn fleygur og fær, kominn á fimmtánda ár, og gat unnið fyrir sér. Engum var hann bundinn norðan heiðar. Leiðin frá Sandnesi að Lágadal, yfir Steingrímsfjarðarheiði, er um það bil 45 kílómetrar, hæfileg dagleið fyrir ungan mann sem fundið hefur kraftana styrkjast dag frá degi þetta sumar.

Dag einn, þegar sumri er tekið að halla, leggur hann af stað snemma morguns og stefnir með léttan mal vestur yfir heiði til fundar við móður sína og systur sem hann hefur ekki séð í mörg ár. Eins og fuglar himinsins svífur hann yfir heiðina eða rennur sem dýr merkurinnar og stendur að lokum á hlaðinu við lágreistan bæ í kvöldhúmi við sólarlag. Engin boð hafði hann gert á undan sér en nú er hann kominn. Um móttökurnar sem hinn ferðlúni piltur fékk í Lágadal veit nú enginn. Um gleði móðurinnar á stund endurfundanna þarf víst ekki að efast og svo mikið er víst að Sigurður sneri aldrei til baka yfir Steingrímsfjarðarheiði en ílentist við Djúp fram yfir tvítugt og var þá stundum undir sama þaki og foreldrarnir.[526]

Við réttarhald, sem fram fór á Ísafirði 25. nóvember 1895, gerði Sigurður grein fyrir dvalarstöðum sínum við Ísafjarðardjúp á árunum 1876-1883 og nefndi þá Hamar, Lágadal, Fremri-Bakka, Gjörfudal og Múla í Nauteyrarhreppi og einnig Unaðsdal, Bæi og Snæfjöll í Snæfjallahreppi.[527]

Sóknarmannatöl frá þessu skeiði úr kirkjusóknunum við norðanvert Ísafjarðardjúp eru mjög slitrótt og líklega ekki mjög vönduð. Þar má þó sjá að haustið 1879 var Sigurður Jóhannsson heimilismaður hjá Otúel Vagnssyni, bónda á Snæfjöllum, og er sagður vera smali.[528] Snæfjöll eða Staður á Snæfjöllum eins og bærinn var líka nefndur var gamla prestssetrið á Snæfjallaströnd og hafði líka verið kirkjustaður en síðasti presturinn sem þar sat fékk lausn frá embætti árið 1860 en þjónaði til fardaga vorið 1861.[529] Frá Otúel, skyttunni góðu  á Snæfjöllum, mun Sigurður hafa farið til foreldra sinna, sem þá voru húsfólk í Unaðsdal, því hjá þeim átti hann heima 1. október 1880 og um næstu áramót þar á eftir.[530] Í manntalinu frá 1880 er tekið fram að faðir Sigurðar, Jóhann Guðmundsson, sem þá var tæplega fimmtugur húsmaður á Snæfjöllum, lifi á fiskveiðum.[531] Í Unaðsdal voru þeir feðgar síðast undir sama þaki svo kunnugt sé. Jóhann andaðist á bænum Sandeyri á Snæfjallaströnd haustið 1883 (sjá hér bls. 47) en þá hefur Sigurður líklega verið kominn að Lágadal í Nauteyrarhreppi því þaðan fluttist hann árið 1884 til Ísafjarðar.[532] Næstu tvö árin mun hann hafa verið að mestu á Ísafirði[533] en eitthvað þó í Bolungavík því þaðan fluttist hann að Hvilft í Önundarfirði árið 1886 ef marka má það sem skráð er í prestsþjónustubók séra Janusar Jónssonar, sóknarprests í Holti.[534] Líklegt er reyndar að á árunum 1877-1886 hafi Sigurður stundum róið í Bolungavík á vertíð en hversu oft vita menn ekki.

Þegar Sigurður skurður sló sér niður á Ísafirði árið 1884 var hann 22ja ára gamall og hafði þá, síðustu 20 árin, átt heima á að minnsta kosti 15 bæjum í Húnavatnssýslu, Strandasýslu og Norður-Ísafjarðarsýslu eins og hér hefur þegar verið rakið. Opinberar heimildir liggja fyrir sem staðfesta veru hans á tíu af þessum fimmtán bændabýlum en hin fimm nefndi Sigurður sjálfur í æviferilsskýrslunni sem hann gaf við réttarhald á Ísafirði haustið 1895.[535] Vera má að öll þessi vistaskipti á uppvaxtarárum hafi sett nokkurt mark á piltinn og vakið óróa í blóðinu. Á misjöfnu þrífast börnin best, segir máltækið og bærilega gekk Sigurði skurð að hrista af sér ómagaorðið þó alinn væri upp á sveit. Skelin sem hann kom sér upp kann reyndar að hafa verið nokkuð hörð því einn og óstuddur varð hann að mæta hverri raun sem að höndum bar í barndómi og á æskuskeiði. Móður sína náði hann að vísu að hitta á ný á unglingsárum en samvistir þeirra urðu ekki langar. Hún var þó enn á lífi árið 1892 þegar nafn þessa kæra sonar komst á allra varir og mun ekki hafa dáið fyrr en 14. júlí árið 1900.[536]

Hér var þess áður getið að Magnús Einarsson frá Kollafjarðarnesi, sem lengi bjó á Hvilft í Önundarfirði, hefði verið afabróðir Sigurðar Jóhannssonar skurðs. Vorið 1886 voru liðin sextán ár frá því Magnús andaðist norður á Þingeyrum en tvö af börnum hans, þau Finnur og Þuríður, stóðu þá fyrir búi á Hvilft ásamt mökum sínum (sjá hér Hvilft) svo þar átti Sigurður nánum ættingjum að mæta. Ekki er ólíklegt að þau ættartengsl hafi ráðið nokkru um að hann gerðist vinnumaður á Hvilft.

Þegar Sigurður kom að Hvilft vorið 1886 var hann 24 ára gamall ef rétt er að hann hafi fyrst séð dagsins ljós í janúarmánuði árið 1862 eins og líklegast hefur verið talið. Svo undarlega vill til að báðir bændurnir á Hvilft, þeir Finnur Magnússon og Friðrik Jónsson, mágur Finns, luku ævi sinni í desembermánuði árið 1886 (sjá hér Hvilft) en þá voru aðeins liðnir nokkrir mánuðir frá því Sigurður skurður fluttist þangað. Við andlát bændanna tveggja breyttust hagir á Hvilft og má vera að dvöl Sigurðar þar hafi fyrir bragðið orðið skemmri en ráð var fyrir gert. Hann ílentist engu að síður í Önundarfirði og var fyrir lok ársins 1887 kominn laus og liðugur hingað að Eyri (sjá hér bls. 32-33). Skömmu síðar hóf hann sambúð með ekkjunni Guðbjörgu Sveinfríði Sigurðardóttur á Eyri sem misst hafði mann sinn í sjóinn vorið 1887 eins og hér hefur áður verið gerð grein fyrir. Guðbjörg Sveinfríður var á líkum aldri og Sigurður og bæði munu þau hafa verið 27 ára gömul þegar hin eldri tveggja dætra þeirra fæddist haustið 1889.

Sambúð Sigurðar Jóhannssonar og Guðbjargar Sveinfríðar Sigurðardóttur mun hafa hafist árið 1889 og bjuggu þau saman á Eyri í fimm ár[537] en í sóknarmannatölum er hann reyndar sagður vera vinnumaður hjá henni.[538] Sigurður og sambýliskona hans höfðu ekkert jarðnæði og höfðust því við í þurrabúð hér á Eyri. Á þessum árum voru jafnan fjórar til sex fjölskyldur þurrabúðarfólks í húskofunum á Eyri en jörðin var þá nytjuð frá Flateyri (sjá hér bls. 32-38). Nær fullvíst má telja að á þeim árum sem Sigurður átti heima á Eyri, 1887-1897, hafi hann einkum haft sitt lifibrauð af sjósókn en sagt er að hann hafi líka verið við fjárgæslu fyrir Torfa Halldórsson á Flateyri.[539] Á þessu skeiði ævinnar var hann stundum við róðra norður í Bolungavík á vetrarvertíðinni. Reinald Kristjánsson, sem lengi bjó á Kaldá, segir Sigurð hafa verið með sér í skiprúmi hjá Níelsi Níelssyni, formanni í Bolungavík, veturinn 1889[540] og í febrúarmánuði árið 1896 var þennan tómthúsmann hér á Eyri að finna í einni verbúðinni í Bolungavík.[541]

Haustið 1891 var Sigurður kominn fast að þrítugu og hafði þá búið með Guðbjörgu Sveinfríði nokkuð á þriðja ár. Þau áttu þá eina dóttur barna, Kristjönu Ólöfu Andreu, sem var tveggja ára, fædd 13. september 1889.[542] Allt virtist þetta vera með eðlilegum hætti. Hann hafði aldrei komist í kast við lögin[543] en vorið 1889 komst þó á loft einhver orðasveimur um að hann hefði orðið manni að bana í verstöðinni Seljadal á Óshlíð, milli Hnífsdals og Bolungavíkur.[544] Sigurður hafði þá verið á ferð frá Ísafirði út í Seljadal ásamt þremur mönnum öðrum og var einn þeirra Guðmundur Jónsson[545] sem skömmu áður hafði eignast barn með Gróu Finnsdóttur frá Hvilft, frænku Sigurðar.[546] Í þessari ferð hafði Sigurður með sér rommspritt og drukku þeir allir úr flöskunni á leiðinni út eftir.[547] Þegar þeir komu í Seljadal veiktist Guðmundur og dó nokkrum klukkutímum síðar.[548]

Frá slarki Guðmundar Jónssonar, daginn áður en hann dó, er sagt lítið eitt í blaðinu Þjóðviljanum 13. maí 1889 en þá voru aðeins liðnir fjórir dagar frá því maður þessi andaðist.[549] Fyrsta línan í þessari frétt Þjóðviljans hljóðar svo: Maður drakk sig í hel 9. þessa mánaðar … .[550] Í blaðinu er síðan frá því greint að Guðmundur hafi lagt sætkenndur af stað frá Ísafirði út í Seljadal en á leiðinni út eftir hafi hann svolgrað í sig á að giska pott af rommspritti því sem ýmsir hafi áður nefnt manndrápsromm í spaugi.[551] Að sögn blaðsins fékk maðurinn rommið hjá tveimur góðglöðum kunningjum sínum er hann hitti á leið sinni út í Seljadal.[552] Nöfn þessara kunningja nefnir blaðið ekki en ætla má að annar þeirra hafi verið Sigurður. Ekkert í frétt Þjóðviljans bendir til grunsemda um illvirki. Einhver orðasveimur um að Sigurður hefði ráðið Guðmundi bana fór þó á kreik[553] en engan fót er unnt að festa á því kvisi, enda kom málið aldrei til kasta réttvísinnar. Sagan sýnir hins vegar að til voru þeir sem töldu Sigurði trúandi til eins og annars, enda var hann að sögn hávaðasamur og nokkuð illorður ef hann komst í sterka drykki þó friðsamur væri hversdagslega.

Á skemmsta degi ársins 1891 bar þrjá menn að garði á Eyri í rökkurbyrjun.[554] Tveir þeirra voru Súgfirðingar á heimleið frá Flateyri og hétu Eiríkur Egilsson og Pétur Guðmundsson en sá þriðji var Álfur Magnússon, barnakennari á Vöðlum, sem ætlaði með þeim til Súgandafjarðar[555] (sbr. hér Vaðlar). Ferðamennirnir komu að máli við Salómon Jónsson, kvæntan húsmann á Eyri, og báðu hann að fylgja sér áleiðis upp á Klofningsheiði til skemmtunar og til að létta þeim burðinn.[556] Þeir Eiríkur og Pétur voru heimamenn á Stað í Súgandafirði og þar hafði Salómon líka verið vinnumaður um alllangt skeið fyrir fáum árum svo honum voru þeir vel kunnugir.[557] Úr varð að Salómon slóst í förina og líka Sigurður skurður sem eins og fyrr var getið var þá búsettur á Eyri.

Eiríkur Egilsson, sem hér var á ferð, var 35 ára gamall húsmaður á Stað en Pétur Guðmundsson, sem fylgdi honum í kaupstaðarferðina til Flateyrar, var 18 ára vinnupiltur á sama bæ.[558] Álfur Magnússon, barnakennari á Vöðlum, sem hugðist rölta með þeim yfir heiðina, var tvítugur fyrrverandi skólapiltur af Suðurnesjum er hafði borist til Önundarfjarðar árið 1890. Hefur hér áður verið frá honum sagt (sjá hér Vaðlar) og líka gerð grein fyrir nýnefndum Salómon Jónssyni, húsmanni á Eyri, sem var þrítugur að aldri árið 1891 (sjá hér bls. 34-35).

Að nær jöfnu báðu, nóns og miðaftans, stóðu þeir allir fimm ferðbúnir á Eyrarhlaði. Svo lögðu þeir af stað og fylgdu þjóðgötunni út hlíðina.[559] Bar Salómon poka Eiríks en Sigurður þann sem Pétur átti.[560] Veðrið var mjög gott, hægviðri og ekkert frost en lítilsháttar regnúði öðru hverju.[561] Jörð var alauð á láglendi en snjór í fjöllum.

Þegar lagt var af stað voru Salómon og Sigurður algáðir, Súgfirðingarnir rétt hýrir en Álfur þéttölvaður.[562] Utan við Eyrarhjallana námu þeir fyrst staðar og þar dró Eiríkur þriggja pela flösku af brennivíni upp úr poka sínum.[563] Var flaskan látin ganga og aftur supu þeir á þegar komið var miðja vega milli Hjallaendans og Klofningshryggs[564] en tóku síðan, að sögn Sigurðar, stefnu á kverkina í hryggnum[565] (sbr. hér bls. 81). Vegalengdin frá Eyri og út að Klofningshrygg er eitthvað á annan kílómetra. Þegar komið var upp á hrygginn supu þeir enn á flöskunni og sungu lag.[566] Þá voru fylgdarmennirnir tveir frá Eyri orðnir hýrir því þeir tóku jafnan væna sopa þegar flaskan var opnuð enda þurrbrjósta þegar lagt var af stað.

Ofan við Klofningshrygg lá þjóðgatan í átt til heiðarinnar um Klofningsdal fyrir innan ána og yfir urðina framarlega í dalnum en hlykkjaðist síðan á snið upp ytri hlíðina, skammt frá dalbotninum (sjá hér bls. 81). Þeir sem nú voru á ferð slepptu hins vegar þjóðgötunni um miðjan dal og tóku beina stefnu vestan hennar upp á heiðina.[567] Sigurður skurður sagði síðar við yfirheyrslu að af Klofningshryggnum hefðu þeir farið upp  Holtin og þaðan að grjótrúst nokkurri í Klofningsá en síðan á skafli upp í miðja heiðarbrekkuna.[568] Síðasta spölinn upp á heiðarbrúnina höfðu þeir ýmist aur eða snjó undir fæti.[569]

Á leiðinni fram dalinn og upp heiðarbrekkuna var flaskan látin ganga öðru hverju og þegar komið var upp á brúnina var Salómon orðinn talsvert ölvaður en lítið sá á Sigurði.[570]

Klofningsheiðin, sem liggur innan við  fjallið Sauðanesi í um það bil 620 metra hæð, er slétt og auðveld yfirferðar. Um hana lá alfaravegur frá Eyri í Önundarfirði að Stað í Súgandafirði og gátu röskir göngumenn farið þessa leið á þremur tímum ef færið var gott. Norðan heiðarinnar er komið niður í botninn á Sunddal og þaðan eru aðeins liðlega fjórir kílómetrar heim að Stað. Leiðin yfir sjálfa heiðina er stutt, um það bil 1200 metrar. Á fyrri tíð var heiðarvegur þessi vel varðaður því villugjarnt gat verið á hásléttunni í myrkri, þoku eða dimmviðri. Talið er að um 1890 hafi verið 18 vörður á heiðinni, hlaðnar úr fjallagrjóti.[571] Bilið á milli tveggja varða ætti þá að hafa verið um 70 metrar að jafnaði. Þess má geta að sumarið 1995 voru enn 17 eða 18 vörður á þessari sömu leið, flestar hálfhrundar, en þær munu síðast hafa verið hlaðnar upp árið 1927. (Og aftur um 2000. E.A.).

Þegar hópurinn sem hér var á ferð þann 21. desember 1891 kom upp á heiðina fór Salómon fljótlega að abbast upp á Sigurð skurð, fyrst í orðum og með því að rjátla við pokann sem hann bar.[572] Litlu síðar, þegar þeir voru komnir um það bil þrjár vörðulengdir yfir miðja heiðina, þreif hann í handlegg Sigurðar, hristi hann og kvað réttast að þeir reyndu afl með sér.[573] Ætluðu þeir í hár saman en Pétur, sem með þeim var, gekk á milli.[574] Nú héldu þeir áfram enn um stund en þegar þrjár vörðulengdir eða því sem næst voru eftir að norðurbrún heiðarinnar snaraði Salómon af sér pokanum og ætlaði umsvifalaust að ráðast á Sigurð en hann kvað þá rétt að þeir reyndu með sér.[575] Álfur gekk þá á milli en Salómon flaug á hann og svipti treyju hans sundur á öxlinni.[576] Tókust þeir nú á, Álfur og Salómon, og féll sá síðarnefndi tvisvar, að minnsta kosti á hnén.[577] Uppi á heiðinni var snjór á jörð og varð þess ekki vart að Salómon yrði fyrir meiðslum í átökunum við Álf.[578] Einn samferðamannanna sagði síðar fyrir rétti að þegar hér var komið sögu hefði Sigurður skurður haft á orði að réttast væri að stinga Salómon af og hefði hann skilið það svo að Sigurður teldi maklegt að skella Salómon flötum þar sem hann húkti á hnjánum.[579] Ekki vildi Sigurður kannast við þetta.[580]

Nú var búið úr flöskunni og þegar Salómon stóð á fætur kvaddi hann Súgfirðingana og lagði af stað til baka, vestur yfir heiðina.[581] Hann sýndist þá vera vel ferðafær þó að kenndur væri.[582] Tveir tímar voru nú liðnir frá því lagt var af stað frá Eyri og komið fram yfir miðaftan.[583] Er Salómon sneri við yrti hann ekkert á Sigurð skurð en þegar Sigurður kvaddi samferðamenn sína nokkrum mínútum síðar lét hann í veðri vaka að færi Salómon að áreita sig á heimleiðinni myndi hann taka hraustlega á móti.[584]

Við yfirheyrslur, sem síðar fóru fram, bar mönnum saman um að Sigurður hefði lagt af stað til baka 5-10 mínútum seinna en Salómon og þá hafi sá síðarnefndi verið horfinn sjónum.[585] Vel var ratljóst því einhver birta var af tungli og snjór á jörð á fjöllum uppi.[586] Menn sáu því alllangt frá sér og mátti greina mann þó að fjarlægðin á milli væri 50-100 faðmar.[587]

Sigurður skurður gekk sem leið lá vestur heiðina en hafði skammt farið þegar él datt á.[588] Niður af heiðarbrúninni fór hann að eigin sögn nær 100 metrum vestan við þjóðleiðina og kom niður í Klofningsdal álíka langt frá þjóðveginum.[589] Við yfirheyrslur sýslumanns síðar kvaðst hann svo hafa fylgt Klofningsánni ofan undir Klofningshrygg og síðan farið bakkana heim að Eyri.[590]

Um klukkan átta þetta sama kvöld barði Sigurður Jóhannsson að dyrum hjá Guðmundi Kristjánssyni, húsmanni á Eyri.[591] Bað hann Guðmund að finna sig en þegar bið varð á því að Guðmundur kæmi ofan bætti Sigurður við þessum orðum: Þú þarft ekki að vera hræddur um að ég drepi þig eins og þeir segja að ég hafi drepið hann Guðmund Jónsson.[592] Að svo mæltu gekk Sigurður upp á baðstofuloftið hjá Guðmundi og tók sér þar sæti.[593] Hann var þá greinilega undir áhrifum áfengis og virtist húsfreyju gesturinn nokkuð svaðalegur.[594]

Guðmundur Kristjánsson spurði Sigurð nú hvort sá sem með honum fór væri líka kominn heim en hann sagði svo ekki vera og kvað líklegt að Salómon myndi ríða Klofningnum í nótt.[595] Dálitla stund sat Sigurður hjá þeim Guðmundi Kristjánssyni og Ragnheiði konu hans. Ekkert gerði hann þar illt af sér en sýndi hnefann og sagði að hver sem reyndi að ýfa sig í kvöld skyldi fá að kenna á honum þessum.[596] Svo fór hann aftur ofan og heim til sín þar sem Guðbjörg Sveinfríður og hin unga dóttir þeirra biðu hans.[597]

Við yfirheyrslur síðar staðhæfði Sigurður að hann hefði aldrei séð Salómon á heimleiðinni og stóð jafnan fast við þann framburð.[598] Orðin sem hann lét falla við Guðmund Kristjánsson um að Salómon væri ekki kominn heim og myndi ríða Klofningnum í nótt skýrði Sigurður svo að hann hefði verið þess fullviss að Salómon yrði lengur á leiðinni en hann hafði sjálfur verið.[599]

Nóttin leið án þess að Salómon skilaði sér til baka heim að Eyri.[600] Þegar nýr dagur reis var eiginkona hans orðin mjög uggandi um hag bónda síns og vakti þá Sigurð til að inna frétta af Salómon.[601] Um áttaleytið að morgni 22. desember lögðu þeir Sigurður skurður og Guðmundur Kristjánsson svo af stað frá Eyri að leita hins týnda en veður var þá enn hreint og milt.[602] Frostlaust hafði verið í byggð um nóttina en föl á jörð.[603] Nú er ég viss um að mér verður kennt um að hafa drepið Salómon ef við finnum hann dauðan, sagði Sigurður við meðleitarmann sinn skömmu eftir að þeir lögðu af stað og virtist daufur í dálkinn.[604] Leitarmennirnir tveir fóru sem leið lá upp á Klofningsheiði en komu hvergi auga á Salómon eða nein ótvíræð ummerki um ferðir hans.[605] Hins vegar sá Guðmundur spor sem lágu frá heiðarbrúninni og niður á auða jörð, austar en fimmmenningarnir höfðu farið daginn áður.[606] Þessi spor voru, að hans sögn, eftir lítinn fót og sýndu að þar hafði maður hlaupið.[607] Á leiðinni niður dalinn gengu þeir hvor sínum megin við ána, Guðmundur með innri hlíðinni.[608] Um miðjan dal sá hann enn spor og lágu þau frá austri til vesturs rétt við þjóðveginn.[609] Þessi spor rakti hann um 300 faðma í vesturátt og taldi sig sjá að þau væru eftir smáfættan mann og hefði sá verið á hlaupum.[610] Virtist Guðmundi að þetta gætu verið spor eftir Sigurð en ekki Salómon sem var útskeifur og fremur stórfættur.[611]

Um hádegisbil þennan sama dag lagði annar leitarflokkur af stað frá Eyri. Í honum voru þeir Kjartan Rósinkranzson, skipstjóri á Flateyri, Níels Níelsson, húsmaður frá Bolungavík, og Jón Friðriksson, vinnumaður á Hvilft.[612] Þeir skiptu sér til leitar og þegar Kjartan var kominn þangað sem vegurinn liggur upp á heiðina sá hann suð-suðvestur þaðan spor sem lágu frá suðvestri eða vestri í norðaustur eða austur.[613] Þau voru eftir fremur lítinn fót og greinilegt að hratt hafði verið gengið.[614]

Skömmu síðar kom Níels auga á lík Salómons, sem lá neðarlega á allstórum skafli uppi í hlíðarhallanum fremst í Klofningsdal, þar sem gatan lá upp á heiðina en þó nær 100 föðmum austan eða suðaustan við hana.[615] Salómon lá á grúfu, þvert á hallann, og sneri höfuðið í vestur.[616] Var það sokkið í snjó svo að rétt sást í bláhvirfilinn.[617] Við brottför sína frá Eyri daginn áður var Salómon klæddur í snjáða úlpu eða treyju, í tvennum sokkum, með stormhúfu á höfði og steinbítsroðskó á fótum.[618] Í þessum fötum var hann líka þegar hann skildi við samferðamenn sína uppi á heiðinni.[619] Við líkið var húfuna hins vegar hvergi að sjá, annan skóinn vantaði líka en slitrur af hinum héngu á þvengnum.[620] Nauman helming vantaði líka ofan af vinstri boðangi úlpunnar og sást það stykki hvergi[621] en úlpan var heil þegar Salómon fór að heiman[622] og það var hún líka, að sögn samfylgdarmannanna, þegar Salómon lagði af stað heimleiðis eftir átökin við Álf Magnússon uppi á Klofningsheiði.[623]

Á hálsi líksins sáu leitarmennirnir tvo rauða bletti sem voru hringlaga.[624] Blettirnir virtust geta verið eftir fingur og fannst þeim þetta tortryggilegt.[625] Hrein ráðgáta sýndist þeim vera hvernig höfuð líksins var sokkið niður í harðan snjóinn, líkt og gróf hefði verið tekin fyrir það.[626] Er þeir sneru líkinu við var andlitið ákaflega þrútið af blóði og allt svarrautt.[627]

Skaflinn, sem líkið lá á, var svo harður að ekki markaði fyrir fæti þó gengið væri um hann og aðeins fyrir hælbeininu ef stappað var.[628] Engin merki sáust um að Salómon hefði orðið fótaskortur á skaflinum en nokkurt traðk töldu þeir sig sjá við líkið.[629] Einhver spor sáust, að sögn þremenninganna, rétt hjá líkinu en hvergi annars staðar á skaflinum og ekki var unnt að sjá hvort fleiri en einn hefðu gengið þarna um.[630]

Jón Friðriksson, sem var yngstur leitarmannanna þriggja, var nú sendur til að sækja fleiri menn og búnað til að flytja líkið heim að Eyri.[631] Þegar hjálparmennirnir komu var lagt af stað með líkið og farið með það inn á Flateyri. Þar var því komið fyrir í útihúsi.[632]

Á því sem hér hefur verið ritað má glögglega sjá að leitarmennirnir sem fundu lík Salómons hafa talið miklar líkur á því að Sigurður skurður væri valdur að dauða hans. Blettirnir á hálsinum, sporin sem þeir sáu og það hvernig höfuðið virtist hafa verið keyrt niður í skaflinn gat allt bent til þess að Salómon hefði verið kyrktur eða kæfður. Allt voru þetta hins vegar heldur óljósar vísbendingar en orðrómurinn flaug þegar í stað bæ frá bæ og þegar jólin gengu í garð tveimur dögum eftir líkfundinn var því almennt trúað í Önundarfirði að Sigurður skurður hefði orðið Salómon að bana.

Strax á Þorláksmessu skrifaðu Guðmundur Á. Eiríksson, hreppstjóri á Þorfinnsstöðum, Skúla Thoroddsen sýslumanni tilkynningu um líkfundinn og bar fram ósk um að málið yrði rannsakað.[633] Í bréfi sínu til sýslumanns kvaðst hreppstjórinn hafa frétt að Sigurður Jóhannsson segi sitt hverjum um atburð þenna.[634] Sendimaðurinn, sem tókst á hendur að koma bréfi hreppstjórans á Þorfinnsstöðum til Skúla sýslumanns á Ísafirði, sat um kyrrt yfir jólahelgina, máske vegna veðurs, og fór ekki norður fyrr en 27. desember.[635] Þegar Skúli fékk orðsendinguna í hendur sneri hann sér þegar í stað til Þorvaldar Jónssonar, héraðslæknis á Ísafirði, og fór þess á leit að hann færi sem allra fyrst vestur á Flateyri til að skoða líkið.[636] Þorvaldur, sem var harðsnúinn andstæðingur Skúla í stjórnmálum, færðist undan og bar við lasleika en benti á aðstoðarlækni sinn, Halldór Torfason.[637] Halldór var þá 29 ára gamall og hafði útskrifast úr læknaskólanum þremur árum áður.[638] Hann var sonur Torfa Halldórssonar og Maríu Össurardóttur á Flateyri og þekkti því vel til manna og málefna í Önundarfirði. Sama dag og sendiboðinn frá Guðmundi á Þorfinnsstöðum kom á Ísafjörð ritaði Skúli sýslumaður Halldóri lækni bréf og fól honum að skoða lík Salómons, rannsaka úr hverju hann hefði dáið og athuga sérstaklega hvort líkindi væru til að hann hefði látist af mannavöldum.[639] Annað bréf sendi Skúli hreppstjóranum í Mosvallahreppi, bað hann að vera viðstaddan líkskoðunina í sinn stað og fól honum að taka sem allra fyrst greinilegar skýrslur þeirra manna er við þetta mál væru riðnir.[640] Með sama bréfi fól Skúli hreppstjóranum að láta Sigurð Jóhannsson vera viðstaddan líkskoðunina og taka þá nákvæmlega eftir háttum hans og háttalagi.[641]

Dagana 28. og 29. desember 1891 var grenjandi norðanbylur á Ísafirði og talsvert frost.[642] Halldór Torfason lét veðrið þó ekki aftra sér frá því að brjótast vestur yfir Breiðadalsheiði og hálfri klukkustund eftir hádegi þann 30. desember hófst skoðun á líki Salómons og fór hún fram í útihúsinu[643] þar sem líkið hafði staðið uppi í liðlega eina viku. Auk læknis og hreppstjóra voru fjórir menn viðstaddir líkskoðunina, Ebenezer Þ. Sturluson skipstjóri, sem Halldór læknir hafði sér til aðstoðar, Jónas Th. Hall verslunarstjóri og Kjartan Rósinkranzson skipstjóri, sem báðir voru vottar, og svo hinn grunaði, Sigurður Jóhannsson skurður, er mætti hér að boði Guðmundar hreppstjóra.[644]

Á höfði líksins lá hér og hvar músaskítur og ýmis sár, sem lækninum virtust vera eftir mýs, voru sjáanleg á höfði og höndum.[645] Allt líkið var skoðað vel og vandlega, höfuðskelin opnuð og líka bæði brjóstkassi og kviður.[646] Skoðunin tók fimm klukkustundir.[647] Í hnakkagrófinni var bólgulopi sem náði langt niður á hálsinn, rauðu blettirnir á honum, sem áður voru nefndir, sáust enn og milli raddbandanna voru nokkrir harðir kögglar sem virtust geta verið leifar af fiski.[648]

Skýrsla Halldórs um líkskoðunina er ýtarleg og er hún birt í heild í bók Ásgeirs Jakobssonar sem hér var áður nefnd. Niðurstöður læknisins voru þessar:

 

  1. Maðurinn hefur dáið hinum svokallaða apoplectiska dauða [þ.e. heilablóðfall – innsk. K.Ó.], í þessu tilfelli líklega orsökuðum af kulda.

 

  1. Að vísu sjást á líkinu áverkamerki er vel geta verið af mannavöldum en þó er ólíklegt að þeir einir út af fyrir sig hafi orsakað dauðann. Aftur á móti getur hugsast að þeir hafi getað orðið meðverkandi orsök til dauðans, einkum hafi hann verið drukkinn sem ýmislegt sýnist að benda til.

 

  1. Maðurinn hefur að líkindum dáið um kvöldið áður eða nóttina áður en hann fannst dauður.[649]

 

Þessi greinargerð læknisins var ekki vel til þess fallin að auðvelda dómaranum hans verk þegar að því kæmi að skera úr um hvort hinn grunaði kynni að eiga einhverja sök á dauða Salómons.

Í hópi þeirra sem töldu fullvíst að Sigurður skurður væri banamaður Salómons heyrðust snemma þær raddir að með greinargerð sinni hefði Halldór læknir ætlað sér að bjarga Sigurði frá því að hljóta dóm fyrir manndráp.[650] Var látið að því liggja að í raun hefði læknirinn séð skýrari ummerki um dauða af mannavöldum á líki Salómons en fram kæmi í skýrslunni. Kjartan Rósinkranzson, sem var viðstaddur líkskoðunina, bar fyrir rétti að þegar skrifað var undir líkskoðunarvottorðið eða skýrsluna um líkfundinn hefði læknirinn mælt: Flest fer eins fyrir aumingja Sigga.[651] Þessi ummæli Kjartans hafa efalítið gefið nýnefndum orðasveim byr undir vængi og líka það að Guðmundur hreppstjóri á Þorfinnsstöðum hélt því fram að við líkskoðunina hefði læknirinn sagt ýmis merki á líkinu vera ískyggileg.[652]

Halldór Torfason læknir fluttist til Ameríku sumarið 1892[653] og mun aldrei hafa komið aftur til Íslands. Þegar Halldór fór úr landi var hinn pólitíski stormur sem spratt af rannsókn Skúla sýslumanns á dauða Salómons skollinn á og létu ýmsir liðsmanna Skúla þá að því liggja að Halldór hefði flúið land vegna hins falsaða líkskoðunarvottorðs[654] og lifði sá orðrómur lengi. Hér er skylt að taka fram að engin rök virðast finnanleg fyrir því að svo hafi verið.

Þann 2. janúar 1892 fékk Skúli sýslumaður í hendur skýrslu læknisins um skoðunina á líki Salómons[655] og var þá sýnt að honum væri ekki til setunnar boðið. Næsta dag lagði hann af stað til Flateyrar snemma morguns og hafði með sér fylgdarmann.[656] Mikill snjór var á Breiðadalsheiði og voru þeir nær 12 klukkutíma að komast frá Ísafirði til Flateyrar.[657] Næsta dag setti Skúli rétt á Flateyri og tók að yfirheyra Sigurð skurð og alla hina sem hugsanlegt var að veitt gætu einhverjar upplýsingar er að gagni mættu koma við rannsókn málsins.[658] Hann hafði þá m.a. stefnt til Flateyrar þeim Eiríki Egilssyni og Pétri Guðmundssyni á Stað í Súgandafirði, sem Salómon og Sigurður skurður höfðu fylgt upp á Klofningsheiði þann 21. desember, og líka Álfi Magnússyni er þar var með í för.[659] Réttarhöldin stóðu í tvo daga, 4. og 5. janúar, en fátt nýtt kom fram umfram það sem hér hefur nú þegar verið rakið.

Guðmundur Á. Eiríksson hreppstjóri, sem var viðstaddur líkskoðunina 30. desember, taldi sig hafa séð að hinn grunaði skipti litum þegar gengið var að líkinu en kalt var í kofanum þar sem líkið stóð uppi og Sigurður léttklæddur og yfirhafnarlaus.[660] Allir hinir líkskoðunarmennirnir höfðu verið í yfirhöfnum og sumir líka í olíufötum.[661]

Í þessum fyrstu yfirheyrslum Skúla staðhæfði Sigurður að hann hefði aldrei séð Salómon á heimleiðinni, þann 21. desember, og þegar Skúla lét opna kistu Salómons í viðurvist Sigurðar þvertók hann fyrir alla sök og kallaði guð almáttugan til vitnis.[662] Svo virðist sem Skúli sýslumaður hafi hins vegar talið líkurnar á sekt Sigurðar vera mjög miklar og lauk réttarhöldunum á Flateyri með bókun sem var á þessa leið:

 

Með því að skýrsla Sigurðar Jóhannssonar er í sumum atriðum ósamhljóða ýmsum eiðfestum vitnisburðum er fram hafa komið í máli þessu, þá ber að taka Sigurð Jóhannsson fastan og hafa hann í gæsluvarðhaldi fyrst um sinn.[663]

 

Þann 7. janúar héldu þeir sýslumaður og fylgdarmaður hans norður yfir Breiðadalsheiði og höfðu með sér fangann.[664] Sagan segir að fyrstu nóttina á Ísafirði hafi Sigurður gist á heimili sýslumanns en síðan var hann fluttur í fangahúsið þar í kaupstaðnum, gamalt timburhús sem sjaldan var notað.[665] Í dagbók fangahússins er Sigurði lýst með þessum orðum: Meðalmaður á hæð, dökkur á hár, með lítið gisið jarpt skegg. Grunaður um að hafa veitt öðrum áverka er leiddi til dauða.[666]

Varðhaldsvist Sigurðar í fangahúsinu varð býsna löng því þar sat hann í 44 daga.[667] Á þessum liðlega sex vetrarvikum var hann oft kallaður í yfirheyrslu hjá sýslumanni en hvikaði aldrei frá sínum upphaflega framburði.[668] Oft mun Skúla sýslumanni hafa þótt fanginn nokkuð þverúðugur og tvisvar var Sigurður settur á vatn og brauð samkvæmt úrskurði sýslumanns.[669] Stóð sú fasta í fimm til sex sólarhringa í hvort sinn.[670] Allt bendir til þess að eins og svo margir aðrir hafi Skúli verið sannfærður um sekt Sigurðar og þess vegna hafi hann reynt til þrautar að knýja fram játningu en hún fékkst aldrei.

Sigurður skurður var mikill rímnamaður og reyndar ágætlega hagmæltur (sjá hér Gilsbrekka). Í fangahúsinu kvað hann oft við raust og stytti sér þannig stundirnar. En þar kom að nágrannarnir tóku að kvarta mjög yfir þessum hávaða frá fangahúsinu og leiddu þær umkvartanir til þess að sýslumaður svipti fangann bæði ljósi og tóbaki.[671] Tóbakið hefur karlinum þótt slæmt að missa því hann var mikill tóbaksmaður en eitthvað hefur Siggi nú getað kveðið þó ljóslaus væri.

Klukkan sjö síðdegis þann 20. febrúar 1892 taldi Skúli sýslumaður loks mál til komið að sleppa Sigurði lausum úr prísundinni og lét hann fara frjálsan ferða sinna. Fáum mánuðum síðar var meðferð Skúla á hinum rímnaglaða fanga frá Eyri notuð sem átylla til að víkja honum úr embætti og hófust þá hin illvígu Skúlamál sem hér hefur áður verið minnst á (sjá hér bls. 39). Sá þráður verður ekki rakinn hér en frá Sigurði skurði, tómthúsmanni á Eyri, og hans ævidögum er skylt að greina svolítið nánar.

Þegar Sigurður gekk út úr fangahúsinu á Ísafirði fór hann beinustu leið heim til Þorvaldar læknis sem var helsti andstæðingur Skúla sýslumanns í stjórnmálaátökunum á Ísafirði.[672] Ekki mun það samt hafa verið til að taka þátt í ráðabruggi gegn Skúla heldur var ætlun Sigurðar að hafa tal af aðstoðarlækninum, Halldóri Torfasyni, sem hér var áður nefndur, en þeir voru að sjálfsögðu kunnugir og Sigurður að sögn í vinfengi við foreldra Halldórs á Flateyri.[673] Eitthvað munu þeir læknarnir hafa skoðað upp í komumann sem þeim virtist vera nokkuð gugginn en samt ekki lakari en það að næsta dag komst hann yfir Breiðadalsheiði og heim að Eyri.[674]

Móttökurnar, sem Sigurður fékk hjá Önfirðingum þegar hann kom aftur heim til sín, voru ekki vinsamlegar þó að viðhorf manna til hans hljóti reyndar að hafa verið eitthvað mismunandi. Svo mikið þótti ýmsum við liggja að daginn eftir heimkomu Sigurðar var boðað til almenns hreppsfundar og þar samþykkt að skora á hreppsnefndina að fá sýslumann til að tryggja að hinn fyrrverandi gæsluvarðhaldsfangi yrði fluttur burt úr Mosvallahreppi.[675] Undir áskorun þessa efnis, sem send var sýslumannni, ritaði sóknarpresturinn í Holti, séra Janus Jónsson, Guðmundur Á. Eiríksson, hreppstjóri á Þorfinnsstöðum, og bændurnir Bóas Guðlaugsson og Guðmundur Pálsson.[676]

Í bréfi þeirra til sýslumanns segir að tilmælin séu borin fram

 

… þar eð maður þessi [Sigurður] er reyndur að ýmsu miður góðu og meðal annars réðist á saklausan mann í haust á næturþeli og er að almenningsáliti sekur í því að vera að einhverju leyti valdur að dauða Salómons heitins Jónssonar frá Eyri og hefur vakið hjá mörgum nokkurn ótta, enda að sögn haft í frammi heitingar við þá er báru vitni gegn honum við prófin á Flateyri í vetur.[677]

 

Bréfið sýnir vel hversu sannfærður meginþorri fólks í Önundarfirði var um að Sigurður hefði valdið dauða hins títtnefnda Salómons en segir í raun ekkert um sekt eða sakleysi hins grunaða.

Í kofa Sigurðar skurðs á Eyri hljóta útmánuðirnir árið 1892 að hafa verið erfiðir. Vera kann að vísa hans sem ýmsir kannast við sé ort á þeim dimmu dögum.

 

Illt er að róa einn á bát

óhægt mjög að stýra.

Enginn heyri á mér grát

yfir hlutnum rýra.[678]

 

Magnús Hjaltason, sem hér er víða nefndur, skráði vísu þessa í eitt af sínum mörgu handritum en þar er greinilega rangt með hana farið því bæði önnur og fjórða lína enda á sama rímorðinu, – stýra.[679] Magnús segir Sigurð hafa ort vísuna þegar bát hvolfdi undir honum á Súgandafirði árið 1906 og hafi höfundurinn sett vísuna saman er hann hékk á kjölnum.[680] Slíkri sögusögn verður þó að taka með fullum fyrirvara og efni vísunnar bendir ekki til þess að hún hafi verið ort við slíkar aðstæður.

Hvenær drepur maður mann og hvenær drepur maður ekki mann? Þau orð voru lögð Jóni Hreggviðssyni í munn. Úr slíku getur verið erfitt að skera. Héðan af mun varla takast að sanna eða afsanna með öllu hvort Salómon Jónsson varð sjálfdauður á Klofningsdal þremur dögum fyrir jól árið 1891 eða hvort Sigurður skurður, nábúi hans hér á Eyri, átti þar einhvern hlut að máli. Menn geta hins vegar reynt að vega og meta líkurnar. Ekki er því að neita að ýmislegt bendir nú sem fyrr til þess að til átaka hafi komið milli Sigurðar og Salómons á heimleiðinni. Þar má nefna sporin sem Guðmundur Kristjánsson og Kjartan Rósinkranzson sáu og eignuð voru Sigurði, blettina á hálsi líksins, sem líktust fingraförum, og það hversu andlit hins dauða virtist keyrt ofan í harðan snjóskaflinn. Leitarmennirnir sem fundu líkið töldu líka útilokað að Salómon hefði hrapað, að minnsta kost ekki á skaflinum þar sem líkið lá, og fyrst svo var kom þá ekki helst til greina að átök við samferðamanninn hefðu dregið hann til dauða? Trúin á þá kenningu varð ríkjandi og lét margur sannfærast. Sem dæmi má nefna að þegar Skúlamálin komu fyrir landsyfirrétt í Reykjavík lét sá sem sótti málið gegn Skúla, Hannes Thorsteinson málafærslumaður, þau orð falla að varla fyndist hérlendis nokkur maður sem ekki væri sannfærður um að Sigurður hefði orðið valdur að dauða Salómons.[681] Rétt er að undirstrika að það var ekki verjandi Skúla sem mælti þessi orð heldur sá sem sótti málið gegn honum.

En sem betur fer er ekki ætíð allt sem sýnist. Frá þeim fjarlæga sjónarhóli sem við nú stöndum á virðast flestar vísbendingarnar um sekt Sigurðar skurðs, sem menn töldu sig hafa í höndum, harla lítils virði. Engin spor voru sjáanleg frá líkinu þar sem það lá á skaflinum. Fingraförin á hálsinum gat Salómon vel hafa fengið í átökunum við Álf Magnússon uppi á heiðinni og hér var áður frá sagt. Á skaflinum sáust engin merki þess að Salómon hefði hrapað þar en hugsanlegt verður að telja að hann hafi engu að síður hrapað fram af fjallsbrúninni, komist síðan hálf- eða alvankaður á fætur, ef til vill með heilahristing, og oltið síðan út af á skaflinum þar sem líkið fannst og króknað þar. Þó að frostlaust væri í byggð má ætla að frost hafi verið til fjalla.

Sitthvað bendir til þess að Salómon hafi hrapað, m.a. rifin treyja, týndur skór og töpuð húfa. Líka það að hann lá um 100 föðmum, nær 200 metrum, austan við þjóðgötuna en hafi hann komið fram á fjallsbrúnina svo austarlega sem því svaraði var að sögn kunnugra veruleg hætta á hrapi[682] enda er vegalengdin frá hinni gömlu alfaraleið og austur að klettabelti rétt neðan við fjallsbrúnina alls ekki lengri en 200-300 metrar.

Þegar Salómon skildi við samferðamennina uppi á Klofningsheiði var hann þéttölvaður og reikaði í spori.[683] Stuttu áður en hann kom að heiðarbrúninni fékk hann á sig él, sem hér var áður minnst á, og gæti þá hæglega hafa villst úr leið og lent fram af brúninni 200 metrum austar en leiðin lá.

Haustið 1892 var settur sýslumaður enn að rannsaka með hvaða hætti dauða Salómons hefði borið að. Ekkja hins látna, Guðmundína Jónsdóttir, var þá kölluð fyrir og greindi hún meðal annars frá því að Salómon hefði yfirleitt orðið veikur ef hann drakk áfenga drykki.[684] Að sögn Guðmundínu varð hann jafnan fremur fljótt drukkinn, missti þá mátt og hætti til að sofna.[685] Allt gæti þetta sem best stutt þá kenningu að eftir hugsanlegt hrap hafi ferðalangur þessi verið orðinn kraftlítill og oltið um á skaflinum eða lagst þar til hvíldar. Kögglarnir sem fundust í kverkum hans við líkskoðunina og virtust vera fiskleifar benda líka til þess að hann hafi kastað upp og gæti hafa kafnað ringlaður í spýju sinni útafliggjandi á skaflinum.

Ekkert af þessu sannar að Sigurður skurður hafi verið saklaus af því sem á hann var borið en þegar við bætist eindregin og staðföst neitun hans sjálfs þrátt fyrir 44 daga einangrun í gæsluvarðhaldi, við harðan kost á köflum, geta líkurnar á sekt hans ekki talist miklar. Sú varð líka niðurstaða amtmanns, sem fékk í hendur afrit af öllu sem bókað var við yfirheyrslurnar, en hann felldi 2. desember 1892 þann úrskurð að réttarrannsókninni vegna dauða Salómons Jónssonar skyldi hætt og málið látið niður falla.[686]

Sigurður Jóhannsson skurður var á yngri árum hávaðasamur undir áhrifum áfengis og átti þá til að sýna hnefann eins og hér hefur komið fram. Ekkert dæmi er hins vegar finnanlegt um að hann hafi beitt þennan eða hinn alvarlegu ofbeldi og þær fáu kvartanir sem bárust yfirvöldum vegna drykkjuláta hans á almannafæri benda ekki til ofbeldishneigðar. Í bréfi fjögurra Önfirðinga til Skúla sýslumanns 22. febrúar 1892, sem hér var áður vitnað til, segir að vísu að Sigurður hafi ráðist á saklausan mann á næturþeli (sjá hér bls. 65) en sé haft í huga hver megintilgangurinn með ritun bréfsins var má geta nærri hvort þarna hefði ekki verið greint nánar frá árásinni ef um hefði verið að ræða eitthvert það ofbeldi sem áverkar hlutust af.

árás sem hér var nefnd átti sér stað haustið 1891 og mun aldrei hafa verið kærð. Haustið 1895 var Sigurður hins vegar kærður til sýslumanns fyrir óspektir og skemmdir á hurð í húsi á Flateyri.[687] Seint í septembermánuði á því ári hafði hann verið ölvaður og farið inn í hús Ebenezers Sturlusonar, skipstjóra á Flateyri. Var honum skipað að hafa sig á brott en komumaður þrjóskaðist við svo láta varð hann út með valdi.[688] Sigurður undi því illa að vera fleygt á dyr, tók upp stein og kastaði í hurðina svo hjarirnar brotnuðu.[689] Snaraðist húsbóndinn þá út og barði hann en Sigurður fór við svo búið á brott.[690] Athygli vekur að það var Ebenezer sem lamdi Sigurð en ekki öfugt.

Laugardaginn 12. október þetta sama haust keypti Sigurður sér tvær rommflöskur og drakk sig ærlega fullan.[691] Hann leitaði þá inngöngu í Gunnlaugshúsi á Flateyri með hávaða og nokkrum rosta en fékk óblíðar viðtökur og var kastað út.[692] Æstist þá leikurinn og mun sá útrekni hafa látið ófriðlega um sinn og viljað hefna harma sinna.

Ekki er ólíklegt að vísa sem fleyg varð hafi verið ort um þetta leyti. Sumir sögðu að Sigurður væri sjálfur höfundurinn en vísan er svona:

 

Þó heltist meri í harðri urð,

hægt er við að gera,

en að siða Sigga skurð

Satan lætur vera.[693]

 

Árið 1895 var Sigurður Briem sýslumaður í Ísafjarðarsýslu og nær hálfri öld síðar festi hann endurminningar sínar á blað. Minnist hann þar m.a. á viðskipti sín við Sigurð haustið 1895 og segir frá á þessa leið:

 

Þegar ég var á leiðinni frá Dýrafirði um Önundarfjörð kom maður frá Flateyri í veg fyrir mig og hafði meðferðis áskorun um að koma þangað því Sigurður, kallaður skurður, sem Skúlamálið reis út af, væri fullur og bandóður. Hann æddi með stóreflis sveðju milli húsanna með hótunum um að skera fólk á háls eða rista það á kviðinn. Hann barði hús og hurðir með grjóti því að allir lokuðu sig inni til þess að verða ekki á vegi hans.

Ég fór út á Flateyri að finna kauða. Var þá runninn af honum mesti berserksgangurinn. … Hann sagði að allir væru sér vondir og ég komst að raun um að hann var mjög einmana, bjó einn í kofa, reri einskipa á sjó og svo framvegis.[694]

 

Líklegt má telja að frásagnargleðin og ljómi fjarlægðarinnar hafi litað svolítið þessa frásögn sýslumanns því á sveðjuna og hótanirnar um hálsskurð og kviðristu er hvergi minnst í réttarskjölunum.[695]

Einu kvartanirnar sem Sigurði sýslumanni bárust vegna nafna hans, lausamannsins á Eyri, voru þær að hann færi óboðinn með hávaða inn í hús annarra manna. Hjá Ebenezer hafði hann skemmt útidyrahurðina með steinkasti og í Gunnlaugshúsi hafði hann farið í hálfopið koffort uppi á háalofti án þess þó að taka þar eitt eða neitt.[696] Við yfirheyrslur á Flateyri þann 14. október 1895 sagði Ebenezer Sturluson að þegar Sigurður Jóhannsson væri drukkinn ætti hann til að vaða inn í hús með hávaða og ólátum og hræða bæði börn og kvenfólk.[697] Einn íbúanna í Gunnlaugshúsi, Ingigeir Bjarnason, lét þess getið við yfirheyrslurnar 14. október að þegar Sigurður kom þar inn með söng og hávaða tveimur dögum fyrr muni hann hafa ætlað sér að finna stúlku sem hann hefur átt með barn og tók fram að hinn óróafulli komumaður hefði barið á dyrnar hjá stúlkunni en hún verið búin að læsa dyrunum.[698] Stúlkan, sem þarna er minnst á, hlýtur að hafa verið Ólöf Ólafsdóttir frá Eyri en sonur þeirra Sigurðar var á þessum tíma um það bil 16 vikna gamall (sjá hér bls. 32-33). Sjálfur kvaðst Sigurður ekkert muna eftir þessari komu sinni í Gunnlaugshús, síðast myndi hann eftir sér þetta laugardagskvöld hér á plássinu hjá Guðmundi Jónssyni á Görðum eftir að dimmt var orðið en svo hefði hann næst rankað við sér í fjósinu hans Torfa Halldórssonar.[699] Eftir viðskiptum sínum við Ebenezer, allmörgum dögum fyrr, kvaðst hann hins vegar muna og sagðist hafa kastað steininum í hurðina vegna bræði.

Í lok réttarhaldsins á Flateyri, þann 14. október, bauð sýslumaður Sigurði að kjósa sér talsmann í máli þessu en hann óskaði þá eftir því að sýslumaður skipaði einhvern góðan mann til að halda uppi vörnum fyrir sig í þessum málarekstri.

Fjórum dögum eftir yfirheyrslurnar á Flateyri var Sigurði birt opinber stefna og honum boðið að mæta fyrir rétt á Ísafirði og svara þar til saka fyrir óspektir þær sem hér var frá sagt.[700] Á Ísafirði var þingað í málinu 25. nóvember og 6. desember 1895 og 13. janúar 1896 en dómur kveðinn upp 31. janúar 1896.[701] Við þessi réttarhöld voru lögð fram hegningarvottorð sem sýndu að hinn ákærði hafði aldrei fyrr sætt opinberri ákæru eða verið dæmdur fyrir lagabrot en aðeins verið undir rannsókn út af dauða Salómons Jónssonar.[702]

Sá sem sýslumaður skipaði verjanda í máli Sigurðar haustið 1895 var Grímur Jónsson, guðfræðikandidat frá Gilsbakka í Borgarfirði, sem þá var við kennslustörf á Ísafirði.[703] Vörn hans í málinu var lögð fram í réttinum þann 13. janúar 1896 og krafist sýknu, enda sagði Grímur að skjólstæðingur sinn hefði aðeins ráfað í meinleysi inn í hús … og raulað [þar] lag fyrir munni sér.[704] Varnarræða Gríms er skemmtilegt plagg og birt í heild í bók Ásgeirs Jakobssonar sem hér var áður nefnd.[705]

Dóm sinn í þessu óspektamáli kvað sýslumaður upp 31. janúar 1896 og var Sigurður dæmdur til að greiða 5,- krónur í sekt til landssjóðs og líka allan málskostnað.[706] Málskostnaðurinn var 18,75 krónur[707] auk 5,- króna til skipaðs verjanda.[708] Að sektinni til landssjóðs, sem fyrr var nefnd, meðtalinni var Sigurði því gert að greiða kr. 28,75 samkvæmt þessum undirréttardómi sýslumannsins á Ísafirði en sú upphæð svaraði þá til launa fyrir um það bil ellefu dagsverk um heyannir.[709]

Tíu dögum eftir uppkvaðningu dómsins voru stefnuvottarnir í Hólshreppi sendir á fund hins sakfellda til að birta honum dómsniðurstöðuna en Sigurður hafði þá aðsetur í einni af verbúðunum í Bolungavík og hlýddi þar á dómsúrskurð sýslumanns.[710] Kvaðst hann þá myndu una við dóminn og láta vera að áfrýja til æðri réttar.[711]

Svo fór að Júlíus Havsteen, amtmaður í suður- og vesturamti, ákvað hins vegar að skjóta málinu til landsyfirréttar og var Sigurði Jóhannssyni stefnt fyrir þann dómstól með bréfi amtmanns sem dagsett var 4. apríl 1896.[712] Illa gekk að birta Sigurði þessa nýju stefnu með lögmætum hætti. Þann 5. júní 1896 náðu stefnuvottarnir í Mosvallahreppi reyndar að hitta á Sigurð, þar sem hann var staddur í sölubúðinni á Flateyri, og létu hann þá vita af orðsendingu amtmanns.[713] Að réttu lagi mun hins vegar hafa átt að birta stefnuna á heimili þess stefnda og fór því amtmaður fram á að stefnan yrði birt Sigurði á nýjan leik og þá með lögmætum hætti. Sumarið 1896 var Hannes Hafstein orðinn sýslumaður í Ísafjarðarsýslu og í bréfi er hann ritaði amtmanni 17. september þá um haustið gerir hann grein fyrir af hverju stefnuvottarnir áttu svo erfitt með að hitta Sigurð heima og tekur fram að þeir hafi

 

ekki getað orðað vottorð sitt svo að þeir hefðu birt stefnuna á heimili stefnda því þeir þóttust ekki vita hvort Sigurður, sem er lausamaður og hefur verið á amerískum flyðruveiðaskipum og öðrum fiskiskútum í allt sumar, ætti nokkurt lögheimili eða ekki um þessar mundir.[714]

 

Af þessum orðum Hannesar má gera sér nokkra grein fyrir aðstæðum Sigurðar á þessum tíma og þarna sést að hann hefur m.a. verið í skiprúmi hjá amerískum lúðuveiðurum sumarið 1896.

Þann 2. nóvember 1896 var óspektamál þessa lausamanns á Eyri tekið fyrir í landsyfirrétti.[715] Verjandi Sigurðar fyrir landsyfirrétti var Gísli Ísleifsson, sem þá var settur málflutningsmaður við réttinn, en sækjandi var Hannes Thorsteinson cand. jur.[716] Sá síðarnefndi gerði þá kröfu að undirréttardómurinn yrði þyngdur eða a.m.k. staðfestur og benti m.a. á að enda þótt Sigurður hefði aldrei fyrr sætt opinberri ákæru eða hlotið dóm þá hefði hann engu að síður sýnt sig sem miður efnilegan borgara.[717]

Verjandi Sigurðar lagði hins vegar áherslu á að ekkert tilefni hefði verið til málsóknar á hendur skjólstæðingi sínum af hálfu hins opinbera og því aðeins kæmi til álita að dæma hann til refsingar ef einhver, sem teldi sig hafa orðið fyrir skaða eða ónæði af hans völdum, höfðaði einkamál.[718]

Á þessi rök féllust dómararnir í landsyfirrétti. Þeir sýknuðu Sigurð Jóhannsson en gerðu landssjóði að greiða allan málskostnað.[719] Dómurinn var kveðinn upp 14. desember 1896.[720] Sigurður gat því borið höfuðið hátt og hafði nú í annað sinn komist heill og sýkn saka frá viðskiptum sínum við réttvísina. Einkamál vegna óspekta hans á Flateyri höfðaði enginn og var því málið úr sögunni.

Sé litið yfir gögnin frá þessum nýnefnda málarekstri sýnist allt benda til hins sama um Sigurð skurð og hér var áður á minnst. Kæmist einstæðingur þessi í brennivín eða aðra sterka drykki hafði hann hátt, hótaði mönnum illu og lét ófriðlega en þess verður ekki vart að hann hafi veitt nokkrum manni áverka og því síður misþyrmt fólki.

Málareksturinn frá 1895 veikir því heldur líkurnar á því að Sigurður skurður hafi orðið Salómon Jónssyni að bana en styrkir þær alls ekki. Enn eru þó sjálfsagt til margir menn sem telja nær fullvíst að Sigurður Jóhannsson hafi verið mannslagari og með sínum fantatökum hafi hann fyrirkomið Salómon. Í orðræðum um þau efni vitna þeir helst í ummæli höfð eftir Sigurði sjálfum og hann á að hafa látið falla síðar á lífsleiðinni. Þar er um tvær frásagnir að ræða sem báðar hafa það skýra auðkenni að vera í fullu samræmi við almannaróm en hafa upp á nákvæmlega ekkert að bjóða sem bendi til þess að byggt sé á trúnaðarsamtali við Sigurð.

Hina eldri þessara tveggja frásagna af játningum Sigurðar skráði Ingivaldur Nikulásson, fræðimaður á Bíldudal, um 1935 eftir Reinaldi Kristjánssyni, bónda og pósti, sem lengi átti heima á Kaldá í Önundarfirði. Reinald fór margar ferðir yfir Breiðadalsheiði og að minnsta kosti einu sinni varð Sigurður skurður honum samferða.[721] Frásögn Reinalds, sem Ingivaldur Nikulásson skráði, er á þessa leið:

 

Lögðum við svo af stað frá Ísafirði í vökulokin og á Breiðadalsheiði um nóttina fyrir Þorláksmessu. Var þá Siggi mátulega „hress” til að ganga og varð okkur ekkert til farartálma. Þannig héldum við áfram yfir heiðina og ræddum margt. Sagði ég þá eitt sinn meðal annars: „Það þykist ég vita að það hafi verið óviljaverk hjá þér að drepa Salómon, þótt það tækist svona til.” – „Já, það er satt,” sagði hann „ég hafði haldið honum of lengi á grúfu niðri í snjónum svo hann var kafnaður þegar ég sleppti honum en við vorum báðir drukknir.” [722]

 

Reinald heldur frásögn sinni áfram og kveðst hafa nefnt við Sigurð að seigur hafi hann verið að sleppa úr þessu öllu[723] og þá hafi Sigurður gefið þetta svar:

 

Það var nú mínu góða Torfafólki að þakka og Þorvaldi lækni því eins og þú manst voru þeir alltaf upp á kant, Skúli og Þorvaldur, og kom Þorvaldur til mín og bauð mér að skrifa kæru á Skúla.[724]

 

Vafamál hlýtur að vera hvaða mark má taka á þessari sögu sem sögð var þegar um það bil þrír áratugir eða meira voru liðnir frá því ferð þessi yfir Breiðadalsheiði var farin. Að svo langt var um liðið sést á því að í lok nefndrar ferðar fóru þeir Reinald og Sigurður báðir, að sögn hins fyrrnefnda, til Torfa Halldórssonar og Maríu konu hans á Flateyri[725] en Torfi dó árið 1906.

Reinald getur þess að þeir Sigurður hafi ekkert vín drukkið í þessari ferð[726] og um komu þeirra í Torfahús á Flateyri við lok hennar fer hann þessum orðum:

 

Síðan héldum við niður á Flateyri til Torfa og frú Maríu Össurardóttur og skorti þar ekki ágætar viðtökur. Mjög var Siggi auðmjúkur þar. Heyrði ég þá á samtali þeirra frú Maríu að það var satt sem hann hafði sagt mér.[727]

 

Þessi síðasta setning gerir frásögn Reinalds af því sem hann heyrði sagt á Breiðadalsheiði fyrir margt löngu reyndar mjög tortryggilega. Að Sigurður hafi farið að ræða meint dráp sitt á Salómon í tveggja manna tali uppi á heiði og lýsa síðustu viðskiptum þeirra gat út af fyrir sig hugsast. Hafi hann verið valdur að dauða Salómons er hitt aftur á móti nær óhugsandi að hann hafi tekið það sama tal upp aftur við Maríu Össurardóttur þegar komið var í hús á Flateyri eftir stranga ferð. Enn fráleitara er þó hitt að María hafi vakið þá umræðu í áheyrn þriðja manns. Af þessum ástæðum verður öll frásögn Reinalds af orðum Sigurðar að teljast varasöm og hætt við að hann hafi þarna látið ímyndunaraflið hlaupa með sig í gönur eins og stundum hendir góða sögumenn þegar þeir á gamalsaldri greina frá einhverju því sem talað var á löngu liðinni tíð. Fari Reinald hins vegar rétt með mætti ætla að Sigurður skurður hefði í tíma og ótíma og að ýmsum viðstöddum verið að spjalla við Pétur og Pál um endalok Salómons og hvernig hann kæfði hann í skaflinum. Hætt er við að slík lausmælgi hefði fljótlega komið honum í koll og vakið réttvísina af dvala. Annað mál er það að karlinn kynni að hafa haft gaman af að láta skína í eitt og annað þegar hann var við skál til að halda hrollinum sem í kringum hann var við lýði. Vera má að í slíku tali hafi hann fundið nokkra svölun.

Um hina frásögnina af játningu Sigurðar, sem birt er í 3. bindi ritsins Frá ystu nesjum er kom út árið 1945,[728] þarf ekki að ræða því að í 4. bindi sama rits er að finna leiðréttingu viðkomandi höfundar sem sýnir að um algeran misskilning var að ræða.[729]

Óskar Jónsson frá Fjallaskaga er einn þeirra höfunda sem hafa ritað um Sigurð skurð en þeir voru samskipa á mótorbátnum Hjalta sem gerður var út frá Suðureyri í Súgandafirði haustið 1913.[730] Óskar segir að Sigurður hafi aldrei minnst á mál sitt nema hann væri drukkinn og þá hafi frásagnir hans verið alveg sitt á hvað.[731]

Sigurður Jóhannsson skurður bjó löngum við þröngan kost og margt var honum andsnúið síðustu fimm árin sem hann átti heima hér á Eyri, 1892-1897. Vera má að hann hafi þá stundum litið á sjálfan sig sem hjábarn veraldar eða útlaga rekinn burt úr mannlegu félagi. Þó var honum sú gæfa léð að sjá til sólar margan dag. Líklegt er að þar hafi rímurnar og annar kveðskapur dugað honum best en hjálp var líka í þeim fáu manneskjum sem sýndu honum vináttuvott þegar harðast svarf að. Ýmislegt bendir til þess að hann hafi jafnan átt innhlaup hjá Torfa Halldórssyni og Maríu Össurardóttur á Flateyri og þar var ekki í kot vísað. Fyrir þeirra náð fékk hann að minnsta kosti að hírast öll þessi ár í kofunum á Eyri en þau Torfi og María voru aðaleigendur Eyrarjarðarinnar eins og hér hefur áður verið rakið. Um atvinnu Sigurðar á þessum árum og með hvaða hætti hann aflaði sér brauðs er margt á huldu en líklega hefur hann verið eitthvað á skútum og farið stundum til Bolungavíkur í ver.[732] Hann þótti jafnan ágætur verkmaður og þó einkum á sjó[733] (sbr. hér Gilsbrekka). Að öllum jafnaði var hann líka ræðinn og skemmtinn, væri vinum að mæta, eins og hér verður nánar vikið að síðar (sjá hér Gilsbrekka), fróður um margt og oft með söng og kvæðalög á vörum.

Frá sambýliskonu Sigurðar, sem hér var áður nefnd (sjá hér bls. 27-29 og 32-33), Guðbjörgu Sveinfríði Sigurðardóttur, segir fátt. Ljóst er þó að hún hélt tryggð við hann þegar mest á reið og líklega hefur hann virt það við hana síðar því hjá henni kaus hann að liggja dauður (sjá hér Gilsbrekka). Um ástand mála í kotinu hjá Guðbjörgu þegar sambýlismaðurinn sat í varðhaldi á Ísafirði, grunaður um manndráp, veit nú enginn. Með einhverjum hætti náði hún að tóra og líka dóttir þeirra, tveggja ára, sem þar var hjá móður sinni. Síðar á sama ári kom annað barn undir hjá þeim Sigurði og Guðbjörgu og fæddist 2. september 1893.[734] Eldri dóttirin hét Kristjana Ólöf Andrea en þessi hlaut nöfnin Guðbjörg Sveinfríður Konkordía.[735] Því hefur faðirinn ráðið og augljóslega viljað nefna barnið í höfuðið á móður þess og að því er ætla má Konkordíu Sigurðardóttur, hinni ungu tómthúskonu sem andaðist, 24 ára gömul, hér á Eyri haustið 1891 (sjá hér bls. 33). Vottar við skírn Guðbjargar Sveinfríðar Konkordíu haustið 1893 voru foreldrarnir og Helga Þórarinsdóttir á Flateyri[736] en hún var föðursystir sambýliskonu Sigurðar og gift hálfbróður hennar.[737]

Konu sinnar og dætra fékk hinn stolti brotamaður að almenningsáliti ekki að njóta til lengdar. Þegar tæplega tvö og hálft ár var liðið frá því hann kom heim úr varðhaldinu andaðist Guðbjörg Sveinfríður, barnsmóðir hans og sambýliskona hér á Eyri. Hún dó 32ja ára gömul 10. júlí 1894[738] (sbr. hér bls. 32-33). Átta dögum síðar fékk Sigurður annað högg þegar dauðinn hremmdi líka yngri dótturina, Guðbjörgu Sveinfríði Konkordíu, sem aðeins var tíu mánaða gömul.[739] Honum tókst þó að herða sig upp og dótturinni sem eftir lifði kom hann árið 1895 í fóstur hjá Einari Einarssyni, húsmanni á Selakirkjubóli, og Guðmundu Atladóttur, konu hans.[740] Þessum hjónum fylgdi hún fjórum árum síðar að Tannanesi og andaðist þar 18 ára gömul vorið 1908.

Þegar hálfur annar mánuður var liðinn frá andláti Guðbjargar Sveinfríðar, tómthúskonu á Eyri, kom hreppstjórinn að skrifa upp þær eignir sem hún lét eftir sig og til stóð að bjóða upp.[741] Í uppskriftargerðinni er tekið fram að Sigurður Jóhannsson hafi vísað á munina.[742] Þau Sigurður og Guðbjörg Sveinfríður höfðu búið saman í fimm eða sex ár hér á Eyri en aldrei verið gift. Áður hafði hún hins vegar verið gift Kristjáni Friðrikssyni Mosdal, skútuskipstjóra sem fórst í hafi vorið 1887 en hann hafði áður verið verslunarmaður á Flateyri (sjá hér bls. 27-29 og Flateyri).

Eignir Guðbjargar Sveinfríðar, sem hreppstjórinn skrifaði upp, voru þessar:

 

  1. Fimm gamlar skruddur sem ekki voru virtar.
  2. Undirsæng, yfirsæng, koddi og tvö lök …………………. virt á 26,00 kr.
  3. Klæðispils, treyja og þrjú forklæði ………………………. –          22,00 kr.
  4. Vaðmálspils, tvær léreftstreyjur og lífstykki …………… –            5,50 kr.
  5. Tvær kistur og eitt lausarúm ……………………………… –          22,00 kr.
  6. Saumavél og suðuvél með könnu og potti ……………… –          25,00 kr.
  7. Íveruhús og heyhlaða ……………………………………… –          75,00 kr.
  8. Ein ær og eitthvað af matvöru ……………………………. –           18,00 kr.[743]

 

Samtals var virðingarverð þessara fátæklegu muna kr. 193,50 en sú upphæð svaraði þá til launa fyrir 74 dagsverk um heyannir.[744]

Uppboðið á eignum Guðbjargar Sveinfríðar fór fram 22. janúar 1895. Þar fékkst reyndar mun minna fyrir eignirnar en þær höfðu verið virtar á því á uppboðinu seldust þær á kr. 122,10.[745]

Íveruhúsið ásamt tveimur kofum keypti Ebenezer Sturluson á 30,- krónur, yfirsængina keypti Jens A. Guðmundsson á 14,- krónur, ána keypti Kjartan Rósinkranzson á 9,30 krónur en saumavélina hreppti Guðmundur Andrésson fyrir 9,10 krónur.[746] Sá síðast nefndi var reyndar hálfbróðir Guðbjargar Sveinfríðar og áttu þau sömu móður.[747]

Í uppskriftinni, sem birt er hér að framan, er ekkert á það minnst að þessari einu á sem Guðbjörg Sveinfríður átti hafi fylgt lamb. Svo reyndist þó vera og var það líka boðið upp. Lambið keypti Sigurður Jóhannsson og sýnist hafa greitt fyrir það kr. 3,90.[748] Var það hið eina sem hann hlaut af eignum bústýru sinnar og barnsmóður.

Að Guðbjörgu Sveinfríði látinni þurfti Sigurður skurður að hugsa sitt ráð upp á nýtt. Hann fór þá að leita sér að öðru kvenfólki og gekk hreint ekki sem verst. Eitthvað var hann í þingum við Ólöfu Ólafsdóttur, húskonu á Eyri, sem hér hefur áður verið nefnd (sjá hér bls. 32) því með henni eignaðist hann dreng sem fæddist 21. júní 1895.[749] Sá var skírður Ragnar Guðbjartur og náði að verða tíu mánaða gamall, dó 18. maí 1896.[750]

Vorið 1895 mun Sigurður hafa orðið að hrekjast úr íveruhúsinu sem hin látna sambýliskona hans hafði átt á Eyri, enda var þá búið að bjóða það upp eins og hér var frá greint. Að forminu til hafði hann verið vinnumaður hjá sambýliskonunni[751] en skömmu eftir lát hennar ákvað hann að gerast lausamaður og sótti um leyfisbréf til þess.[752] Þegar til kom gat hann hins vegar ekki greitt lögboðið gjald fyrir bréfið og var þá sektaður.[753]

Haustið 1895, þegar Sigurður sýslumaður Briem var sóttur til að taka Sigurð skurð í karphúsið fyrir hávaða og óspektir, hafðist sá síðarnefndi enn við í kofa á Eyri. Um þær mundir mun hann hafa átt hvað daufasta vist og átti þó að heita frjáls maður. Áður var frá því greint að á þessum haustdögum höfðaði nefndur sýslumaður opinbert mál á hendur einbúanum á Eyri fyrir hurðarbrot og óspektir. Í janúarmánuði árið 1896 dæmdi hann Sigurð í 5,- króna sekt (sjá hér bls. 68-71). Svo virðist sem Sigurður Briem sýslumaður hafi fyrirfram viljað tryggja að sektin, sem í vændum var, fengist greidd því með bréfi, dagsettu 14. október 1895, gaf hann Guðmundi Á. Eiríkssyni, hreppstjóra á Þorfinnsstöðum, fyrirmæli um að kyrrsetja allar eignir Sigurðar Jóhannssonar, tómthúsmanns á Eyri, og virða þær til peningaverðs.[754] Í þessum erindagerðum kom Guðmundur hreppstjóri að Eyri nákvæmlega einni viku síðar.

Í uppskriftargerðinni frá 21. október 1895, sem enn er varðveitt, sjáum við hverjar hinar lítilfjörlegu eignir Sigurðar voru og þar standa líka þessi orð: Sigurður vildi ekki vísa á munina og opnaði því hreppstjórinn með vottum kofann og virti það sem hann fann þar.[755]

Munirnir sem fundust í kofa Sigurðar voru þessir:

 

  1. Kamína með katli og þvöru …………………………… virt á   2,00 kr.
  2. Pottur …………………………………………………………..     –      3,00 kr.
  3. Koffort ………………………………………………………..     –      1,00 kr.
  4. Skrúfstykki og hamar ……………………………………. –      1,00 kr.[756]

 

Samtals voru þessir munir virtir á 7,- krónur eins og sjá má og í kofanum var ekkert annað finnanlegt sem Sigurður taldist eiga. Líklega hefur þó einnig verið þar yfirdýna, koddi og teppi og lak, því hreppstjórinn hefur ritað þessi orð í bók sína en strikað þau síðan aftur út.[757] Líklegasta skýringin á því er sú að þessi rúmfatnaður hafi blasað við augum hreppstjórans í hreysi tómthúsmannsins en kofabúinn hafi verið með þann viðlegubúnað í láni frá öðrum.

Sjálfur kofinn var hins vegar eign Sigurðar og var hann virtur á kr. 1,50[758] og hefur því jafnast á við hálft annað koffort. Getur svo hver og einn reynt að gera sér í hugarlund hvernig þau húsakynni hafa litið út en minnt skal á að íveruhúsið, sem Sigurður hafði áður búið í með Guðbjörgu Sveinfríði, var, liðlega einu ári fyrr, virt ásamt heyhlöðu á 75,- krónur (sjá hér bls. 74). Við missi sambýliskonunnar virðist kvæðamaður þessi því hafa hrapað niður margar tröppur í þjóðfélagsstiganum. Enn er þó eftir að geta þess að uppskrift sinni lýkur hreppstjórinn með því að taka fram að reyndar eigi Sigurður 45,- krónur útistandandi hjá Einari Einarssyni á Selakirkjubóli[759] en hvernig á því hefur staðið er óleyst gáta. Vera má að þessir peningar hafi verið móðurarfur dóttur hans sem var í fóstri hjá nýnefndum Einari og Sigurður hafi haft umráð yfir peningunum sem lögráðamaður dóttur sinnar. Slík hugdetta hefur þó takmarkað gildi.

Haustið 1895 var Sigurður skurður 33ja ára gamall og sat þá á köldum klaka. Hina yfirvofandi sekt, sem olli því að hjá honum var gerð nýnefnd eignakönnun, þurfti hann þó aldrei að greiða og var þess áður getið (sjá hér bls. 69-71). Kofaræksni sínu með koffortinu og kamínunni mun þessi sárt leikni tómthúsmaður á Eyri hafa fengið að halda og áður en langir tímar liðu fór að glaðna til á ný í tilveru einbúans því þrek hans var enn óbugað.

Hér var áður minnst á hjónin Einar Einarsson og Guðmundu Atladóttur á Selakirkjubóli sem tóku dóttur Sigurðar skurðs, Kristjönu Ólöfu Andreu, í fóstur árið 1895, skömmu eftir að móðir hennar andaðist (sjá hér bls. 74) og nú hefur verið sýnt fram á að þær fáu krónur sem Sigurður átti eða hafði umráð yfir lét hann fylgja barninu að Selakirkjubóli. Greinilegt er að þar hefur hann átt vinum að mæta og alveg skýrt að Kristjana dóttir hans var fósturbarn hjá þeim Einari og Guðmundu en ekki niðursetningur. Systir Einars hét Guðbjörg Einarsdóttir og var nákvæmlega einu ári eldri en hann, fædd 7. apríl 1863.[760] Þessa konu náði Sigurður að laða til sambúðar við sig þegar flestir reyndu að loka hann úti frá mannlegu félagi. Varla hefur hún þó gengið til liðs við hann í gustukaskyni en hitt líklegra að í æðum hennar hafi runnið vænn skammtur af ævintýrablóði er komist gat á hreyfingu við þá fögru kveðandi sem einbúinn á Eyri hafði upp á að bjóða bæði í sæld og þraut. En hvernig sem því hefur verið háttað er alveg víst að fyrir lok ársins 1896 var hún komin undir hans þak hér á Eyri,[761] líklega í kofann sem nýlega hafði verið virtur til sama peningaverðs og hálft annað koffort. Í stað hinnar fyrri Guðbjargar hafði Sigurður skurður nú fengið nýja Guðbjörgu og saman ákváðu þau að bjóða heiminum byrginn.

Árið 1897 virðast þau hafa farið frá Eyri og burt úr Mosvallahreppi[762] og sumarið 1899 voru þau komin að Stakkanesi við Skutulsfjörð[763] en ekki er alveg ljóst hvar þau höfðust við næstu eitt til tvö árin þar á undan. Veturinn 1899-1900 voru þau á Stakkanesi með Hlöðve son sinn sem þá var á fyrsta ári.[764] Sigurður var þá lausamaður og Guðbjörg ráðskona hans.[765] Stakkanes, sem stundum mun hafa verið nefnt Stekkjanes eða Stekkjarnes,[766] var gömul hjáleiga frá prestssetrinu Eyri í Skutulsfirði[767] og stóð nær beint á móti verslunarhúsunum í Neðstakaupstað á Ísafirði, undir hlíðinni hinum megin við Pollinn og aðeins nær fjarðarbotninum, skammt ofan við fjöruna og um það bil einum kílómetra fyrir utan Grænagarð. Lendur þessarar gömlu hjáleigu eru nú fyrir löngu orðnar partur af kaupstaðarlandinu. Á Stakkanesi undu þau Sigurður skurður og fylgikona hans lífinu um skeið og þar fæddist hið elsta af fjórum börnum sem þau eignuðust. Aldamótaárið 1900 fengu þau síðan ábúð á kotbýli í Súgandafirði[768] og þar munum við hitta Sigurð skurð enn á ný þegar staldrað verður við á Gilsbrekku (sjá hér Gilsbrekka).

Við höfum nú um sinn verið á sveimi í túninu á Eyri í Önundarfirði, hjá kartöflugarðinum þar sem Eyrarbærinn stóð á fyrri tíð (sjá hér bls. 1), en þar rétt hjá voru fáeinir torfkofar, sem þurrabúðarfólk hafðist við í á síðasta þriðjungi 19. aldar, eins og hér hefur áður verið gerð grein fyrir (sjá hér bls. 1-2, sbr. hér bls. 29-39).

Héðan frá Eyri munum við nú, eftir örskamma stund, leggja upp í gönguna fyrir Sauðanes, að Stað í Súgandafirði, en lítum þó fyrst enn einu sinni yfir sviðið, hið næsta gamla Eyrartúninu. Um Eyrarfjall, sem rís hömrum krýnt ofan við Eyri og þorpið á Flateyri hefur áður verið rætt (sjá hér bls. 2 og Flateyri) en fjallið nær utan frá Klofningsdal og inn undir landamerkin milli Eyrar og Hvilftar sem eru skammt fyrir innan Sólbakka.

Dálítið innan við Eyri en utanvert við Sólbakka er svolítil hvilft rétt neðan við klettana, sem ná að efstu brún, og heitir Skollahvilft.[769] Sinn hvorum megin við hana eru neðan við klettana dálitlir hjallar og heita þeir Skollahvilftarbelti ytra og innra.[770] Uppi í hamrabeltunum neðan við fjallsbrúnina er manngeng hilla sem heitir Breiðhilla og er hún víða grasi vaxin.[771] Snjóflóðið mikla sem féll á Flateyri aðfaranótt 26. október 1995 kom úr Skollahvilft. Tuttugu manneskjur týndu lífi í þeim hamförum.

Frá gamla bæjarstæðinu á Eyri og inn að landamerkjunum á móti Hvilft er aðeins tæplega einn og hálfur kílómetri. Þessum landamerkjum hefur áður verið lýst (sjá hér Hvilft) en þau liggja í fjallshlíðinni rétt fyrir innan Litlahrygg og Litlahryggsgil en þar fyrir utan er Miðhryggur og Miðhryggsgil.[772] Innst í landi Eyrar og rétt ofan við þjóðveginn stóð lengi íbúðarhúsið Sólvellir, sem nú er horfið, en það var reist á fyrri hluta 20. aldar. Þarna inn við landamerkin voru á fyrri tíð Eyrarengjar[773] og náðu út að Eyrargili sem er niður undir bökkunum rétt fyrir innan Sólbakka.[774] Í nánd við íbúðarhúsið, sem nú ber það nafn, er talið að verið hafi á fyrri öldum hjáleigan Bakkhús eða Bakkahús, sem hér hefur áður verið getið um (sjá hér bls. 3), en árið 1710 var hún fallin í eyði fyrir langa löngu.[775] Land er hér vel gróið en grýtt hið efra vegna hruns úr fjallinu

Skammt utan við Sólbakka er Eyrarhryggur, sem einnig er nefndur Eyrarleiti, en í hlíðinni utan við leitið er Merarhvammur.[776] Efst í hvamminum er svolítill grasbali sem heitir Drúldubali.[777] Utan við Merarhvamm er Innri-Bæjarhryggur, aðeins spölkorn innan við Eyrarhjallana en rétt neðan við þá var gamla Eyrartúnið.[778] Gamla skipalægið innan við Flateyri heitir Bót eða Innri-Bót en utantil við Flateyri er annar bugur við ströndina sem ýmist er nefndur Eyrarbót eða Ytri-Bót.[779] Hvalsteinn, sem hér hefur áður verið getið um (sjá hér Sólbakki), er innst í Bótinni,[780] skammt fyrir utan Sólbakka. Bakkarnir ofan við Flateyri heita Fjósbakkar og ná á milli Bóta.[781] Um þá lágu Melagötur er svo voru nefndar.[782]

Við röltum nú niður Eyrartúnið, ofan í fjöruna rétt fyrir utan Flateyri. Í hinu forna Eyrartúni var áður flöt ein sem nefnd var Kornbakur[783] en hér er nú margt umbreytt og óvíst hvar í túninu hún var. Eyrarbót eða Ytri-Bót er nafn á bugnum við sjávarströndina, rétt utan við Flateyri.[784] Innan við hana er Brimnes, örskammt frá nýja íþróttahúsinu á Flateyri, en bótin nær frá Brimnesi út að Skipakletti[785] sem blasir við í fjörunni lítið eitt utar. Á síðari hluta 19. aldar voru Eyrarmenn með uppsátur fyrir báta sína hér í Ytri-Bótinni þó að lending sé betri innan við Flateyri og auðveldara að koma þar bátum undan sjó.[786] Óskar Einarsson læknir segir reyndar að lending Eyrarmanna hafi verið utan við Skipaklett[787] og skoðun á staðnum gefur ekki tilefni til að rengja þá fullyrðingu því alveg rétt utan við klettinn virðist vera þokkaleg lending. Úr Innri-Bótinni var sjávargatan heim að Eyri talsvert lengri en héðan frá Skipakletti og héðan var líka styttra á miðin. Af þessum ástæðum hafa Eyrarmenn kosið að vera með báta sína í Ytri-Bótinni sem er því sem næst beint niður af hinu forna bæjarstæði á Eyri. Líklegt má telja að aðallending Eyrarmanna hafi alla tíð verið hér. Á fyrstu áratugum tuttugustu aldar var eitthvað af gömlum tóttum á sjávarbökkunum hér ofan við Eyrarbót en þær eru nú horfnar, enda var hér allmikið landbrot áður en hafist var handa því til varnar.[788]

Héðan úr Eyrarbót er um það bil þrír og hálfur kílómetri út að Kálfeyri, hinni fornu verstöð Önfirðinga, sem er í landi Eyrar. Í Jarðabók Árna og Páls frá árinu 1710 segir að Eyrarmenn láti skip sín stundum ganga frá Kálfeyri á vorin til að stytta róðurinn en annars sé róið úr heimavör árið um kring.[789] Lending var þá talin sæmileg í heimavörinni sem ætla má að þá hafi verið hér í Eyrarbót. Sumir tómthúsmennirnir sem höfðust við á Eyri á árunum 1870-1903 munu einnig hafa róið héðan til fiskjar í viðlögum. Síðasti bóndinn sem sat á Eyri drukknaði árið 1887 eins og hér hefur áður verið nefnt (sjá hér bls. 2 og 27-29) og þaðan í frá var aðeins tómthúsfólk á Eyri. Um bátaeign tómthúsmannanna er ekki vitað með vissu en Jón Guðmundsson búfræðingur, sem átti heima á Flateyri árið 1889, segir í dagbók sinni að 6. mars á því ári hafi Guðmundur Andrésson á Eyri farið á sjó og fengið 160 væna þorska.[790] Á þessu má sjá að Guðmundur hefur haft ráð á bát en hann var þá ungur vinnumaður hjá hálfsystur sinni, Guðbjörgu Sveinfríði Sigurðardóttur, sem hér er frá sagt á öðrum stað (sjá hér bls. 27-29 og 32-33), ekkju síðasta bóndans á Eyri.[791] Ætla má að í þennan róður hafi Guðmundur farið héðan úr Eyrarbót en þá var þess skammt að bíða að róðrar frá hinni gömlu heimavör Eyrarmanna legðust algerlega niður. Búsetu fólks á Eyri lauk árið 1903 og um svipað leyti komu vélar í bátana á Flateyri.

Eyrarbótin nær út að Skipakletti sem er stakur klettur er skagar í sjó fram.[792] Talið er að þar við klettinn hafi skip og bátar lagt að landi, allt frá fornu fari.[793] Frá sjávarbökkunum ofan við Skipaklett lítum við sem snöggvast upp til hlíðarinnar. Urðin mikla sem tók við fyrir utan túnið á Eyri er enn á sínum stað. Hryggurinn sem liggur þar upp fjallshlíðina heitir Ytri-Bæjarhryggur og upp af honum er Bæjargil.[794] Utan við nýnefndan hrygg er Votihvammur og nokkru utar Töðuhvammur sem er skammt fyrir innan Klofningshrygg.[795]

Frá Skipakletti tökum við síðan strikið út fjöruna og göngum á einum stundarfjórðungi út að Klofningnum sem brátt verður sagt nánar frá. Nú er bráðum komin háfjara og Brimnesskerin komin upp, skammt undan landi.[796] Spölkorn utan við Skipaklett er stakur klettur í sjávarbökkunum og heitir sá Skjólklettur en vík sem er skammt fyrir innan Klofning ber nafnið Hættuvík.[797] Við nálgumst nú Klofning sem er allstór klettahamar er skagar í sjó fram svo ganga verður fyrir ofan hann.[798] Hamar þessi er sundurklofinn að framan eins og nafnið bendir til og munu bátar geta stungið stafni í hann án þess að kenna grunns.[799]

Á fyrri tíð töldi ýmsir að í Klofningnum væri álfakaupstaður.[800] Sást þar bregða ljósum fyrir og þaðan heyrðist bæði strokkhljóð og barnsgrátur, segir á einum stað.[801] Piltur frá Eyri sem var í fjárleit við Klofninginn varð þess líka eitt sinn var að þar voru menn að kasta upp afla úr fjögra manna fari, bæði þorski og steinbít.[802] Með þessu fylgdist pilturinn svolitla stund en er hann hrasaði hvarf sýnin.[803] Ein smálúða lá þó eftir í fjörunni. Hana tók hann heim og hafði til sannindamerkis um það sem fyrir hann hafði borið.[804] Hér við Klofninginn heyrðu þeir sem einir voru á ferð líka stundum mannamál, þó hvergi sæist nokkur maður, og áraglamm bar fyrir eyru á lygnum síðkvöldum þó að enginn sæist báturinn.[805]

Við Klofninginn er gott að eiga dvöl en eftir dágóða stund þokum við okkur upp úr fjörunni og virðum fyrir okkur það sem hér er að sjá.

Ofan við Klofning gengur Klofningshryggur nær þráðbeint í átt til fjalls og stefnir á fjallsöxlina rétt innan við Klofningsdal.[806] Að innanverðu er Klofningshryggurinn nokkrar mannhæðir á hæð en fyrir utan hann liggur landið hærra svo þar rís hann ekki jafn hátt.[807] Innan við hrygginn er á stóru svæði gróið land á sjávarbökkunum og teygist gróðurinn alllangt upp í bratta hlíðina. Utan við Klofningshrygg opnast Klofningsdalur, sem er hálend dalskora, aðeins liðlega hálfur kílómetri á breidd við dalsmynnið. Fyrir botni dalsins er Klofningsheiði en um hana lá á fyrri tíð alfaravegur frá Eyri í Önundarfirði að Stað í Súgandafirði.

Var þá farið fyrst út Eyrarhlíð eða sem leið lá út sjávarbakkana fyrir utan Eyri og stefnt á Klofningshrygg. Á þessum slóðum er nú (1995) ruddur vegur mun hærra í hlíðinni og mun vera jeppafær yfir hásumarið.[808] Sá vegur var lagður árið 1957 eða því sem næst í tengslum við vatnsveituframkvæmdir.[809] Á því sem hér er ritað á öðrum stað má sjá að fimmmenningarnir, sem lögðu upp frá Eyri 21. desember 1891 í ferð yfir Klofningsheiði, gengu fyrst út með hlíðinni og stefndu á kverkina (sjá hér bls. 55-56). Kverkin, sem þarna er nefnd, er í Klofningshrygg og blasir við þegar komið er innan að, alllöngu áður en komið er að hryggnum. Hann slitnar þar nær alveg í sundur á svolitlu bili og á hann kemur lítilsháttar bugða eða hlykkur. Ætla má að menn sem lögðu upp frá Eyri og ætluðu yfir Klofningsheiði hafi mjög oft stefnt á þessa sömu kverk við upphaf ferðar. Frá henni lá reiðgatan í hlykkjum upp utanverðan Klofningshrygg og sér þar enn móta fyrir henni víðast hvar. Frá hæstu brún hryggsins lá gamla þjóðleiðin síðan fram innanverðan Klofningsdal og yfir urðina sem þar er framarlega í dalnum. Þegar komið var yfir hana var lagt á brattann og lá heiðarvegurinn upp ytri hlíð dalsins skammt frá dalbotninum. Þar er klettalaust en klettagirðing fyrir botni dalsins. Víða á Klofningsdal er enn hægt að fylgja hinni fornu reiðgötu en í brattri fjallshlíðinni, neðan við heiðarbrúnina. er hún líklega að mestu horfin vegna árennslis. Vegurinn yfir sjálfa Klofningsheiði liggur í liðlega 600 metra hæð yfir sjávarmáli og honum hefur áður verið lýst á þessum blöðum (sjá hér bls. 56) svo og þeirri ferð yfir heiðina sem frægust hefur orðið á síðari tímum (sjá hér bls. 55-59, sbr. bls. 60-66).

Yfir Klofningsheiði var farið bæði fótgangandi og á hestum en ríðandi menn urðu þó að fara af baki og teyma hestana upp mesta brattann áður en komið var á heiðarbrún. Stöku sinnum var farið yfir heiðina með aðra stórgripi eins og saga sem Magnús Hjaltason færði í letur sýnir.[810] Hann segir þar að eitt sinn hafi Hallgrímur Lárentíusson, sem bjó á Gelti í Súgandafirði um 1840, ráðist í að kaupa kú af Nikulási Nikulássyni er þá bjó í Tungu í Valþjófsdal.[811] Reyndar segir Magnús að Nikulás hafi búið í Dalshúsum sem er rangt[812] en breytir engu um efni sögunnar þar sem m.a. er frá því greint að kýrin hafi verið flutt úr Valþjófsdal yfir á Flateyri og síðan hafi þeir Hallgrímur og Nikulás lagt af stað með hana yfir Klofningsheiði.[813] Frá þeirri ferð segir Magnús Hjaltason svo:

 

Nikulás fylgdi Hallgrími með kúna allt norður á heiði en áður þeir skildu heimti Nikulás fylgdarkaup en Hallgrímur vildi eigi láta. Nikulás ætlaði þá að skera halann af kúnni en Hallgrímur galt þá fylgdarkaupið og skildu þeir svo.[814]

 

Að þessu sinni förum við ekki yfir heiðina en munum þess í stað ganga sem leið liggur með ströndinni fyrir Sauðanes. Áður en lengra verður haldið er þó rétt að staldra við hér í mynni Klofningsdals og svipast um. Innan við dalinn rís sem áður sagði Eyrarfjall en utan við hann tekur við fjallið Sauðanes sem skilur að Staðardal í Súgandafirði og ystu strendur við norðanverðan Önundarfjörð. Fjallið er sjö til átta kílómetrar á lengd og víðast hvar liggja klettabrúnir þess í 500-600 metra hæð. Uppi á Sauðanesi er mikið sléttlendi eins og svo víða á fjöllum uppi hér um slóðir. Hásléttan uppi á Sauðanesi er hvarvetna einn til tveir kílómetrar á breidd nema yst þar sem Kleifarskál skerst inn í fjallið norðanvert svo það mjókkar verulega. Innst á Sauðanesi er ytri brún Klofningsdals. Hjallinn á fjallsöxlinni, utanvert við dalinn, heitir Urðarhjalli en gilið framan við hjallann Andrésargil.[815] Brekkurnar, sem ná þvert yfir dalinn við mynni hans, heita Dalabrekkur.[816]

Niður Klofningsdal rennur árspræna sem heitir Klofningsá og til sjávar skammt utan við Klofning. Neðst í dalkvosinni er svolítið gróðurlendi og brekkurnar upp frá ströndinni ágætlega grónar, beggja vegna árinnar. Í Jarðabókinni frá 1710 er getið um fornbýlið Klofninga og tekið fram að selið frá Hvilft sé nú þar sem býli þetta stóð áður.[817] Nánar ritar Árni Magnússon svo um þetta í nýnefndri bók:

 

Klofningar heitir fornt eyðiból hér í landinu þar sem nú stendur Hvilftarsel út með sjónum, langt fyrir utan Eyrarbæ. Þar sjást ljós byggingamerki af tótta- og girðingaleifum. Ekki má hér byggja fyrir vatnsbrest og heyskaparleysi þó að túnstæði sé nokkurt.[818]

 

Árni Magnússon lætur þess einnig getið að Kálfhólar, sem eru ofan við Kálfeyri, séu út lengra með sjónum en þar var líka talið að búið hefði verið í fyrndinni.[819] Bæði þessi býli hafa þá verið hjáleigur frá Eyri og líka Hvannakrar sem eru talsvert utar og síðar verður frá sagt.

Frásögn Árna bendir eindregið til þess að í Hvilftarseli, þar sem áður stóð fornbýlið Klofningar, hafi búsmali enn verið nytkaður árið 1710. Um miðja 19. öld var selið hins vegar ekki lengur í notkun en Magnús Einarsson, sem þá bjó á Hvilft, vissi vel hvar það hafði verið, kippkorn fyrir utan Klofningshrygg eins og hann kemst að orði, og tóttirnar voru þá enn nefndar Hvilftarsel (sjá hér Hvilft). Sú hugmynd Magnúsar að selið frá Hvilft hafi enn fyrr verið út á Kálfeyri (sjá hér Hvilft) virðist hins vegar ekki studd neinum gildum rökum. Vera má að hann hafi átt við Kálfhólana, sem eru rétt fyrir ofan Kálfeyri, en þar voru tóttarústir að sögn Árna Magnússonar.[820] Um hin margvíslegu ítök Hvilftar í landi Eyrar fyrir utan Klofningshrygg hefur áður verið fjallað og skal til þess vísað (sjá hér Hvilft).

Með orð þeirra Árna Magnússonar og Magnúsar Einarssonar í huga virðist mega slá því föstu að selið frá Hvilft hafi verið skammt frá Klofningsánni og ekki langt frá sjó því Árni segir það hafa verið út með sjónum eins og hér var áður nefnt. Ólafur Olavius, sem ferðaðist um Vestfirði árið 1775, segir reyndar að fornbýlið Klofningur hafi verið í Klofningsdal[821] og hið sama nefnir séra Tómas Sigurðsson í sóknalýsingu sinni frá 1840[822] en hann hefur líklega tekið það upp eftir Olaviusi. Óhugsandi má þó kalla að býli hafi verið uppi í sjálfum dalnum því þar mun ætíð hafa verið lítið um gróður en um brekkurnar og sjávarbakkana neðan við dalinn gegnir öðru máli.

Af orðum Magnúsar Einarssonar á Hvilft verður ekki ráðið hvorum megin við ána sel Hvilftarmanna og fornbýlið Klofningar muni hafa verið því hann segir aðeins kippkorn fyrir utan Klofningshrygg. Selhólar eru skammt frá sjó, rétt utan við ána, og þar skulum við svipast um. Inn í hið ágæta rit Óskars Einarssonar læknis, Aldarfar og örnefni í Önundarfirði, hefur slæðst sú villa að Selhólar séu innan við Klofningsá[823] en þeir eru alveg tvímælalaust utan við ána eins og Snorri Sigfússon tekur fram og Gunnlaugur Finnsson, bóndi á Hvilft, staðfestir en hann er nú (1995) allra manna kunnugastur á þessum slóðum.[824]

Sé gengið um Selhólana koma strax í ljós tvennar seltóttir og eru báðar mjög skammt fyrir neðan akveginn en svolítið ofan við brúnina á allhárri brekku sem liggur niður í fjöruna. Mjög skammt er á milli þessara tveggja selja. Í öðru þeirra er nú (1995) um það bil 7 metra löng tótt og virðist húsið sem þar stóð hafa verið þrískipt. Þessi tótt er innst og sýnist vera  eldri en þær sem eru nokkrum metrum utar. Þar er stærsta tóttin um 5 metrar á lengd en í grennd við hana eru svo nokkrar smærri tóttir. Athygli vekur að við þessar síðast nefndu tóttir má sjá greinilegar leifar af fornum túngarði en í Jarðabókinni frá 1710 lætur Árni Magnússon þess getið að í Hvilftarseli, þar sem áður stóð fornbýlið Klofningar, séu ljós merki af tótta- og girðingaleifum (sjá hér bls. 82). Mjög líklegt verður því að telja að túngarðsbrotið sem enn stendur hér séu girðingaleifarnar sem Árni talar um og staðurinn sem við stöndum á sé hið gamla Hvilftarsel.

Á þessum slóðum mun Eyrarsel líka hafa verið á fyrri tíð og hugsanlegt er að það hafi um eitthvert skeið staðið hér aðeins innar þar sem nú er þrískipta tóttin sem fyrr var nefnd. Um slíkt er þó ekki unnt að fullyrða eitt né neitt því enn einar fornar seltóttir eru hér á næstu grösum, það er að segja um það bil 100 metrum utar en þær sem nú hefur verið sagt frá. Hér út frá er stærsta tóttin um það bil 3 x 4 metrar að flatarmáli og rétt hjá henni er grjóthlaðin kví sem mælist vera 2 x 5 metrar eða því sem næst. Vel má vera að á fyrri tíð hafi Eyrarselið verið hér um lengri eða skemmri tíma.

Þegar Torfi Halldórsson á Flateyri og kona hans, María Össurardóttir, hófu seljabúskap seint á 19. öld var langt um liðið frá því hætt var að mjalta ær Eyrarbænda í hinu forna Eyrarseli. Þau Torfi og María komu hins vegar upp nýju seli eins og frá er greint á öðrum stað í þessu riti og völdu því stað mjög nærri hinum fornu tóttum (sjá hér Flateyri). Með vissu er vitað að María Össurardóttir hafði hér ær í seli á árunum 1895-1897. Vel má vera að þau Torfi hafi byrjað seljabúskapinn talsvert fyrr en hins vegar ólíklegt að þau hafi stundað hann eftir 1897, nema þá í mjög skamman tíma. Selhús Torfa og Maríu mun hafa verið timburskúr því í bréfi frá sumrinu 1896 talar María um að hún hafi þurft að líma pappír á rifurnar í selinu (sjá hér Flateyri).

Ekki er alveg ljóst á hvaða bletti þetta yngsta selhús muni hafa staðið en einna líklegast má telja að það hafi verið reist á svolítilli flöt rétt utan við Klofningsána og skammt fyrir innan og neðan gömlu tóttirnar. Þar er grasið nú grænna en á þúfunum í kring. Þau Torfi og María á Flateyri voru síðasta fólkið í Vestur-Ísafjarðarsýslu sem hafði ær í seli og sumarið 1896 voru kvíaærnar hér í Selhólunum 60 að tölu (sjá hér Flateyri). Í einni heimild er frá því greint að hér út frá hafi málnytan verið stórum meiri en heima á Eyri[825] og má ætla að sú hafi verið helsta ástæðan fyrir því að þau Torfi og María tóku upp seljabúskap þegar slíkir búnaðarhættir voru fyrir löngu aflagðir víðast hvar annars staðar.

Á þeim árum sem búsmali var síðast nytkaður hér í Eyrarseli var mikið athafnalíf í hvalstöðinni sem Norðmenn komu upp á Sólbakka, skammt innan við Eyri árið 1889. Mikill fjöldi Norðmanna og Svía störfuðu þar á hverju sumri og stundum fylgdi þessum erlendu farandverkamönnum þó nokkur órói. Frá Sólbakka var ekki nema liðlega hálftíma gangur út að selinu og til er rituð frásögn af óförum tveggja Svía sem hugðust notfæra sér varnarleysi selstúlknanna kvöld eitt sumarið 1897. Guðmundur Einarsson refaskytta, er síðar bjó mjög lengi á Brekku á Ingjaldssandi, var þá í vinnu á Sólbakka en lá þó stundum fyrir tófu úti á Sauðanesi. Frá viðskiptum sínum við Svíana tvo hér í Eyrarseli sagði hann síðar á þessa leið:

 

Torfi Halldórsson á Flateyri átti sel úti á Sauðanesi. Þá voru fráfærurnar tíðkaðar. Öll mjólk var unnin í selinu. Þar voru tvær stúlkur oftast og sváfu þar. Torfi sagði mér að koma við í selinu þegar ég væri á greni á Nesinu og þakkaði ég honum fyrir boðið.

Nú bar svo við eitt laugardagskvöld að ég kom af greni utan af Nesi. Ég hugsa mér að nú skuli ég hitta stúlkurnar og fá mér nóg skyr og mjólk því ég var búinn að hafa langa útivist.

Þegar ég nálgaðist selið heyri ég óvanaleg öskur og óhljóð. Mér fannst það strax vera í stúlkunum og flaug samtímis í hug að nú væru þær í vanda staddar. Ég hraða því för minni eftir mætti. Þegar ég nálgast sé ég fljótt ástæðuna. Það eru tveir Svíar að brjótast inn í húsið því stúlkurnar höfðu lokað sig inni. Þeir voru búnir að brjóta glugga og á góðum vegi með að brjótast inn til þeirra.

Á löngu færi öskra ég til þeirra og dró víst ekki af. Ég skipaði þeim að hætta þessum leik samstundis. Þeim brá illa við er þeir sáu mig og létu blótsyrðin rigna á móti því þeir voru búnir að hafa kynni af mér áður þótt þetta væru ekki þeir verstu. Þrífur annar þeirra þá umsvifalaust talsverðan staur sem lá þar og veður á móti mér. Ég snara skoti í byssuna og segi Svíanum að stoppa, annars vaði skotið í hann á stundinni. Ég hef sjálfsagt hvorki verið blíðmáll né árennilegur því hann henti staurnum og hljóp burtu eins og fætur toguðu. Ég sá líka að hinum féllust hendur. Með skipandi rómi sagði ég þeim að nú ættu þeir aðeins um tvo kosti að velja. Annar væri sá að snauta strax heim eða ég myndi skjóta undan þeim lappirnar á svipstundi. Sýnilega þótti þeim hvorugur kosturinn góður en tóku þó umsvifalaust þann fyrri.

Ekki þáði ég mjólkina hjá stúlkunum að þessu sinni. Var þeim þó víst ljúft að svala þorsta mínum. Ég sagðist ætla að fylgja Svíunum heim. Ég þyrði ekki að eiga það á hættu að yfirgefa þá. Þeir gætu lagst í leyni og ég farið fram hjá þeim. Þá mættu þær alveg eins búast við heimsókn þeirra aftur.[826]

 

Guðmundur refaskytta greinir síðan frá því hvernig hann rak Svíana á undan sér alla leið inn að Sólbakka og þurfti þá öðru hvoru að hnippa í þá með byssunni svo að þeir snerust ekki á hæl og færu á ný til fundar við selstúlkurnar.[827]

Allhátt í fjallinu fyrir utan og ofan Selhóla eru ufsir sem heita Seljanef [828] og bendir allt til þess að þær dragi nafn af Eyrarseli og Hvilftarseli sem hér hefur áður verið rætt um. Seljanefin eru utan við mynni Klofningsdals og taka við þar sem Urðarhjalla þrýtur[829] en á hann var áður minnst (sjá hér bls. 82). Frá Eyrarseli er aðeins skammur spölur út að Kálfeyri en þaðan var flestum sjófærum bátum Önfirðinga haldið til veiða á hverri vorvertíð í margar aldir. Þennan spöl skulum við ganga löturhægt. Hið gróna land ofan við sjávarbakkana heitir Faxavellir og ná þeir frá Selhólunum út að Kálfá,[830] lítilli ársprænu sem fellur til sjávar rétt innan við Kálfeyri. Fjallshlíðin ofan við Faxavelli heitir Kolviðarhlíð[831] og hefur ugglaust verið skógivaxin á fyrri öldum eins og nafnið bendir til.

Á sumardegi er hægt að aka í bíl frá Flateyri og nær alla leið að Kálfeyri en við höfum kosið að ganga. Við röltum fjöruna frá ósi Klofningsár að Kálfá. Kletturinn, sem stendur upp úr sjó fram undan Selhólunum eða rétt utan við þá, heitir Stapi.[832] Hér er mikið um sker fyrir landi, alveg innan frá Klofningi og út að Stapa.[833] Eitt þeirra heitir Tólfkarlabani og er út og fram af Klofningsá.[834] Sker þetta liggur litlu dýpra en táin á Klofningnum.[835] Sú skýring er gefin á nafninu að eitt sinn hafi tólf vermenn á Kálfeyri tekið sig saman um að fara inn að Holti og vekja þar upp draug úr kirkjugarðinum en við upphaf ferðar hafi þeir strandað á þessu skeri og farist, allir sem einn.[836] Nýnefnt sker kemur aðeins upp úr sjó um fjöru.[837]

Kálfá, sem fyrr var nefnd, er svolítill lækur og kemur upp í mynni Kálfeyrardals sem er lítill fjalldalur ofan við Kálfeyri.[838] Dalskora þessi nær niður á ufsirnar, sem blasa við augum, en hlíðin neðan við þær heitir Kálfeyrarhlíð.[839] Hólarnir uppi á sjávarbökkunum ofan við Kálfeyri munu nú oftast vera nefndir Kálfeyrarhólar en hið gamla nafn þeirra er Kálfhólar.[840] Í Jarðabókinni frá 1710 er getið um tóttarústir í Kálfhólum og þau munnmæli að þar hafi verið býli í fyrndinni.[841]

Tóttir þessar í Kálfhólum eru enn mjög greinilegar og virðast lítið hafa breyst á síðustu 300 árum. Þær liggja í svolítilli lægð, skammt fyrir ofan bakkabrúnina og beint upp af Kálfeyri. Innan við lægðina sem tóttirnar eru í er hár hryggur en annar lægri fyrir utan hana. Tvær stærstu tóttirnar eru samliggjandi og snúa út og inn. Sú efri er um það bil 10 x 3 metrar að flatarmáli en sú neðri 9 x 2,5 metrar eða því sem næst. Utan við neðri tóttina og áföst henni er lítil tótt og virðist grunnflötur hennar vera um það bil 2 x 2,5 metrar. Svolítið utar er fjórða tóttin, 2 x 4 metrar að flatarmáli og snýr frá fjöru til fjalls. Fleiri smátóttir kynnu að hafa verið hér en eru nú orðnar ógreinilegar. Árið 1710 töldu Önfirðingar að hér í Kálfhólum hefði verið fornbýli eins og áður var frá greint og má segja að stærð tóttanna bendi til þess að svo hafi verið. Án marktækra rannsókna er þó ekki hægt að fullyrða neitt um þetta. Minnt skal á að Magnús Einarsson, sem bjó á Hvilft fyrir og um miðja 19. öld, taldi að löngu áður hefði selið frá Hvilft verið á Kálfeyri (sjá hér Hvilft) og hefur þá líklega haft í huga þessar tóttir í Kálfhólum. Sú tilgáta að hér hafi aðeins verið sel getur þó ekki talist mjög sannfærandi því húsakynnin hafa greinilega verið mun stærri en venja var um selhús bænda í Önundarfirði og á nálægum slóðum. Vegna stærðar húsanna verður líka að teljast heldur ólíklegt að þetta séu fornar verbúðir, enda eðlilegra að reisa slík hús á grundinni, fyrir neðan bakkana, þar sem enn standa rústir búðanna sem vermenn á Kálfeyri höfðust við í og hér verður síðar sagt nánar frá (sjá hér bls. 109-110).

Svo mátti heita að Kálfeyri væri eina verstöðin í Mosvallahreppi um mjög langt skeið og héðan reru a.m.k. nítján bátar á vorvertíð þegar flest var[842] en á nítjándu öld voru bátarnir oft tíu til fimmtán.[843] Frá Kálfeyri var sjór sóttur á bátum úr öllum Mosvallahreppi en þeir sem bjuggu í Valþjófsdal reru þó stundum frá Dalssjó á vertíðinni (sjá hér Kirkjuból í Valþjófsdal) og heimamenn á Eyri munu ýmist hafa róið frá Kálfeyri eða úr sinni heimavör.[844] Allir sem áttu heima fyrir innan Valþjófsdal og fyrir innan Eyri reru hins vegar jafnan frá Kálfeyri á hinni árlegu vertíð, a.m.k. frá því um 1650 en fyrir miðja 17. öld mun tveimur eða þremur bátum hafa verið haldið til veiða frá Hvannökrum sem eru utar á Sauðanesi.[845]

Skýringu á nafninu Kálfeyri þekkja menn ekki en þess má geta að svolítið sker sem liggur hér fyrir landi heitir Kálfur.[846] Vera má að það hafi fengið nafn á undan eyrinni. Um Kálfeyri er reyndar varla hægt að tala sem eyri í hinni venjulegustu merkingu þess orðs því hér er enginn lágur tangi sem skagar fram í fjörðinn, aðeins svolítil undirlendisræma eða sjávargrund ofan við fjöruna. Á þessari sjávargrund standa búðarústirnar en bakkarnir fyrir ofan ganga hér aðeins lengra fram en innan við Kálfána og af því mun eyrarnafnið vera dregið.

Í varðveittum heimildum er Kálfeyrar fyrst getið í máldaga kirkjunnar á Kirkjubóli í Valþjófsdal sem henni var settur af Sveini biskupi spaka Péturssyni þann 11. september árið 1470.[847] Þar eru talin upp eignir og ítök sem Halldór Hákonarson hafði nýlega gefið kirkjunni og m.a. getið um hundraðs eign í skóginum á Eyri … og

 

eldiviðarstöðu á Kálfeyri til þess er hann má vel fluttur verða heim til títtnefnds Kirkjubóls og þar til þeirra hrossa beit á hverju ári sem greindur eldiviður er á fluttur til áðurnefndrar Kálfeyrar svo lengi sem þar stendur þörf til.[848]

 

Skógurinn í landi Eyrar, sem þarna er minnst á, var í Barðsurðum[849] en þær eru í hlíðinni ofan við Stóra-Barð sem gengur í sjó fram yst í Bjargavík,[850] tæplega einum kílómetra fyrir utan Kálfeyri. Í Gíslamáldaga frá árunum upp úr 1570 er getið um þetta skógarítak[851] en árið 1710 var skógurinn í Barðsurðum sagður gjöreyddur og það fyrir löngu því elstu menn minntust þess ekki að einhver not hefðu verið að honum.[852] Í máldaganum frá 1470 sést ekkert um verstöðina á Kálfeyri því þar er staðarins aðeins getið vegna nýnefndra réttinda Kirkjubólskirkju til að safna þar saman hrísinu úr Barðsurðum til geymslu meðan það biði flutnings yfir í lendinguna við Dalssjó, handan fjarðarins. Svo má heita að Kálfeyri sé beint á móti eyðibýlinu Mosdal, sem áður var ysti bær í Mosvallahreppi, en þaðan eru um það bil þrír og hálfur kílómetri inn að lendingunni við Dalssjó, heimavör þeirra sem bjuggu á Kirkjubóli í Valþjófsdal. Fljótlegt hefur verið að róa með hrísið yfir fjörðinn í góðu veðri því vegalengdin frá Kálfeyri að lendingunni við Dalssjó er aðeins tæplega fimm kílómetrar sé farið beint.

Þó ekki sé getið um verstöðina á Kálfeyri í máldaganum frá 1470 má telja mjög líklegt að útróðramenn hafi komið sér hér fyrir alllöngu fyrr. Í þeim efnum skortir þó öll sönnunargögn. Árið 1775 voru helstu kostir þessarar verstöðvar, auk nálægðar við miðin, taldir vera trygg lending og góð möl en mölin var þó í grófara lagi.[853] Hér á Kálfeyri var lendingin rétt utan við skerið sem nefnt er Kálfur og áður var getið um.[854]

Fyrstu ótvíræðu heimildirnar um verstöð á Kálfeyri eru frá því á 17. öld og er þar helst að nefna orð Bjarna Bjarnasonar frá Hesti í Önundarfirði sem rekinn var úr Skálholtsskóla árið 1664 vegna galdrablaða sem hann hafði með sér í skólann og léði þar öðrum pilti (sjá hér Hestur). Við yfirheyrslur í Skálholti greindi Bjarni frá því að þessi galdrablöð hefði hann skrifað upp í Kálfeyrarveiðistöðu fyrir þremur árum eftir kveri eins vermannsins þar en á blöðunum var m.a. að finna stafi sem ætlaðir voru til að gera konur lauslátar og til að komast að því hvort þessi eða hin kvensnipt muni vera hrein mey (sjá hér Hestur). Ekki er ólíklegt að margur vermaðurinn í þessari veiðistöð hafa haft hug á að afla sér þekkingar í slíkum fræðum og því verið freistandi að grípa til galdrastafanna.

Það var vorið 1661 sem strákurinn Bjarni frá Hesti var að tileinka sér galdrakúnstina hér á Kálfeyri og færa í letur forna stafi. Rösklega tveimur áratugum fyrr mun vermönnum sem héðan reru hins vegar hafa orðið tíðrætt um þá undarlegu fiska sem rak á land í Önundarfirði haustið 1637 ef marka má frásögn Gísla Þorkelssonar á Setbergi við Hafnarfjörð sem í annál sínum segir frá á þessa leið:

 

Um allraheilagramessuleyti [árið 1637] rak upp þess háttar fiska eður sjóorma í Önundarfirði vestur á Vestfjörðum. Þessir fiskar voru alin að lengd og þaðan af styttri en á digurð að jafna við lítinn þorsk. Búkurinn allur sléttur án ugga en á halanum hvass spaði, því líkast sem atkershlýri. Taug ein mjó sem strá eður digur þráður var á milli bols og höfuðs svo sem fyrir hálsinn en út úr höfðinu allt um kring voru angar eður angalíur, mótlíkt og kóngulóarklær, með liðum mörgum, og þær voru langar. Meina menn að ormar þessir með þeim syndi. Rak þessa sjóorma nokkrum hundruðum saman í Önundarfirði og víkunum og voru allir dauðir. Svo var sem húðin ætti ekki skylt við kroppinn, heldur hvapti utan á eins og hvelja á grásleppu.[855]

 

Elsta heimild um verstöðina á Kálfeyri sem einhver verulegur veigur er í er Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns en í henni er byggt á upplýsingum frá árinu 1710. Þar segir svo:

 

Kálfeyri heitir við sjóinn niður frá Kálfhólum. Þar er verstaða góð á vor frá sumarmálum og til Maríumessu. Halda þá sveitarmenn almennilega skipum sínum úr allri sveitinni fyrir innan Valþjófsdal og hafa hér gengið flest 19 skip, oft færri, í vor gengu þar 16.

Vertollur hefur hér áður almennilega verið 2 fjórðungar fiska af hverjum manni en nú nokkur ár hefur hér miðlun á verið, að þá lítið hefur aflast hefur vertollurinn verið nokkuð minni, svo sem fjórðungur eða hálfur annar fjórðungur af hverjum sem á skipunum reru. Vertollana hefur landsdrottinn sjálfur uppborið en leiguliði ekki.

Búðirnar hafa skipeigendurnir uppbyggt að viðunum en torfristu og stungu hafa þeir haft í Eyrarlandi.[856]

 

Um vertollinn skal þess getið til skýringar að 5 kíló voru í hverjum fjórðungi og því hefur tollurinn verið 10 kíló af hverjum vermanni undir lok 17. aldar. Ætla má að þarna sé miðað við hertan fisk eða skreið. Í Jarðabókinni frá 1710 sjáum við að á árunum kringum 1700 var þessi tollur lækkaður niður í 5 eða 7,5 kíló þegar illa fiskaðist. Sé miðað við tvo fjórðunga, það er 10 kíló af fiski, af hverjum vermanni og gert ráð fyrir 90 vermönnum (15 x 6) þá hefur heildargreiðslan til landeigenda verið 900 kíló á ári eða 900 fiskar því gert var ráð fyrir að hver gildur fiskur við kaup og sölu á skreið væri eitt kíló.[857] Í kaupsetningu sinni frá árinu 1618 lagði Ari Magnússon, sýslumaður í Ögri, 30 harða fiska í hverja vætt[858] en 6 vættir voru í hverju kýrverði samkvæmt landaurareikningi. Sé miðað við kaupsetningu Ara hafa því verið 180 kíló af skreið í hverju kýrverði og ættu þá tekjur landeigenda af vertollunum frá Kálfeyri að hafa numið sem svaraði 5 kýrverðum á ári á sautjándu öldinni. Í byrjun 18.aldar munu dönsku einokunarkaupmennirnir, sem hér versluðu, hafa gefið 3 ríkisdali og 32 skildinga fyrir hvert skippund af hörðum fiski,[859] það er einn skilding fyrir pundið, sem sýnir að fyrir 900 kíló af hörðum fiski mátti fá 18 ríkisdali og 72 skildinga væri hann seldur kaupmönnum. Í innanlandsviðskiptum var hver ríkisdalur yfirleitt metinn á 30 álnir frá því á 15. öld og fram á 19. öld[860] og kýrin sem jafnan var virt á 120 álnir kostaði því 4 ríkisdali. Með þá viðmiðun í huga verður niðurstaðan sú að í byrjun 18. aldar hafi landeigendur fengið sem svaraði 4 og 2/3 úr kýrverði á ári í vertolla frá Kálfeyri. Útkoman má því heita sú sama og þegar miðað var við kaupsetningu Ara í Ögri frá árinu 1618.

Eins og áður var getið voru vertollarnir lækkaðir skömmu fyrir 1710 og urðu þá einn til einn og hálfur fiskafjórðungur af hverjum manni í stað tveggja fjórðunga. Sé gert ráð fyrir minnstu greiðslu, það er einum fiskafjórðungi af hverjum vermanni, ættu árlegar tekjur landeigenda af vertollunum þó ekki að hafa farið niður fyrir 9 ríkisdali sé reiknað með óbreyttum fjölda vermanna, það er 15 bátum með 6 mönnum í hverri áhöfn. Með hliðsjón af því kemur nokkuð á óvart að í jarðabók frá árinu 1805 eru vertollarnir frá Kálfeyri aðeins sagðir nema 5 ríkisdölum og 64 skildingum á ári.[861] Líklegasta skýringin á þessu er sú að tollurinn af hverjum manni hafi lækkað enn frekar áður en 18. öldinni lauk eða um aldamótin 1800, því vitað er að vorið 1811 gengu t.d. 13 bátar frá Kálfeyri (sjá hér bls. 92) og munu flestir þeirra hafa verið sexæringar eða áttæringar (sjá hér bls. 94). Óhætt mun því að gera ráð fyrir að á fyrstu árum 19. aldar hafi tala vermanna oft verið í kringum 90 eða álíka fjöldi og verið hafði hundrað árum fyrr.

Á árunum kringum 1880 þurftu þeir sem reru á Kálfeyri enn að greiða nokkra fjárhæð í vertoll eins og sjá má í verslunarbókum frá verslun Hjálmars Jónssonar á Flateyri. Sem dæmi má nefna að árið 1881 greiddi Guðmundur Pálsson, sem þá bjó á Vöðlum en síðar á Kirkjubóli í Bjarnardal, 3,33 krónur í vergjald[862] og má ætla að það hafi verið Kálfeyrartollur. Til samanburðar við fjárhæðina sem Guðmundur greiddi í vertoll skal þess getið að árið 1881 var eitt dagsverk um heyannir virt á 2,45 krónur.[863]

Hér hefur áður verið frá því greint að tekjur af vertollunum frá Kálfeyri skiptust um mjög langt skeið milli eigenda Eyrar og Hvilftar og þá þannig að þeir sem áttu Eyri fengu þrjá fimmtu hluta (sjá hér Hvilft). Sú regla var í fullu gildi árið 1805[864] og var staðfest með dómi árið 1852 (sjá hér Hvilft). Skýringin á þessu og fleiri réttindum Hvilftarmanna í landi Eyrar, fyrir utan Klofningshrygg, var sú að á 15. og 16. öld hafði bænhús, sem þá stóð á Hvilft, átt fimm hundruð í Eyri eða liðlega fimmtung allrar jarðarinnar en um hin ýmsu réttindi Hvilftarmanna á Kálfeyri og Sauðanesi mun hafa verið samið er þau jarðarhundruð voru látin af hendi (sjá hér Hvilft).

Í Jarðabókinni frá 1710 segir að vertíð hafi staðið á Kálfeyri frá sumarmálum og til Maríumessu, það er frá því um og upp úr 20. apríl til 2. júlí því þarna hlýtur að vera átt við Þingmaríumessu. Um miðbik 19. aldar mun vertíðin hafa staðið heldur lengur, a.m.k. sum árin, því séra Tómas Sigurðsson í Holti segir í sóknalýsingu sinni frá árinu 1840 að hún hefjist um sumarmál og endi í 12. viku sumars,[865] það er í sumarvikunni sem hefst á bilinu frá 4. til 10. júlí. Guðmundur Á. Eiríksson, hreppstjóri á Þorfinnsstöðum, sem fæddur var árið 1853 og ritaði um atvinnuhætti Önfirðinga eins og þeir voru á árunum kringum 1860, segir hins vegar að yfirleitt hafi vertíðinni á Kálfeyri lokið 10 vikur af sumri [866] sem kemur alveg heim við orð Árna Magnússonar í Jarðabókinni frá 1710.

Í varðveittum heimildum frá síðustu áratugum 19. aldar sést að á því skeiði byrjuðu menn stundum róðra frá Kálfeyri allmörgum dögum fyrir sumarmál. Þann 10. apríl 1889 var til dæmis farið á sjó frá Kálfeyri.[867] Í dag fóru flestallir í verið, skrifar Jón Guðmundsson frá Grafargili líka í dagbók sína 10. apríl 1894[868] en hann átti alla ævi heima í hinum forna Mosvallahreppi. Þann 13. apríl 1890 voru menn komnir í ver á Kálfeyri því þann dag skrifar sami maður: Þrennir komnir í ver … nú erum við á leið líka.[869] Jón frá Grafargili greinir líka stundum frá vertíðarlokum og heimferð manna úr verinu á Kálfeyri. Þann 28. júní 1890 segir hann menn vera að flytja sig úr verinu og 9. júlí 1888 getur hann þess að menn séu komnir úr veri.[870] Eru Kálfeyringar að flytja sig heim úr verinu, skrifar sami maður 4. júlí 1895.[871]

Af öllu þessu má sjá að enda þótt hinn fasti tími sem Önfirðingar voru í veri væri 10 vikur, frá sumarmálum til Þingmaríumessu, þá gat komið fyrir að menn lengdu vertíðina í annan endann eða báða og gat hún því staðið allt upp í 12 vikur en varla lengur, þó ef til vill kynnu að finnast einstök dæmi um það. Á árunum upp úr aldamótunum 1900 munu einstaka menn líka hafa stundað sumarróðra frá Kálfeyri utan hins hefðbundna tíma sem ætlaður var fyrir vertíðina.[872] Oft var köld aðkoma á Kálfeyri þegar byrjað var að róa snemma á vorin. – Þegar við fórum í verið urðum við að moka skörð í móðinn til að koma skipunum upp, skrifar Jón frá Grafargili vorið 1887.[873]

Fjöldi bátanna sem reru frá Kálfeyri var nokkuð breytilegur. Á síðari hluta 17. aldar eða árunum kringum aldamótin 1700 urðu þeir 19, þegar fjöldi þeirra var mestur, en voru 16 árið 1710 eins og hér var áður nefnt. Árið 1811 gengu 13 bátar frá Kálfeyri og 5 aðrir bátar voru þá gerðir út af bændum í Mosvallahreppi á vertíðinni.[874] Ætla má að þessir fimm hafi róið úr heimavör bændanna í Valþjófsdal og e.t.v. frá Mosdal og Eyri. Hér hefur áður verið sagt frá mannskaðanum mikla sem Önfirðingar urðu fyrir vorið 1812 þegar sjö bátar úr Mosvallahreppi og af Ingjaldssandi fórust með allri áhöfn á einum og sama deginum (sjá hér Mosvallahreppur, inngangskafli). Á bátunum sjö voru 49 menn og drukknuðu þeir allir eins og hér hefur áður verið rakið en áhöfninni af áttunda bátnum sem týndist í hafi tókst að bjarga (sjá hér Mosvallahreppur, inngangskafli). Af bátunum sjö sem fórust með allri áhöfn 6. maí 1812 voru þrír af Ingjaldssandi en fjórir úr Mosvallahreppi og má ætla að a.m.k. þrír þeirra hafi róið frá Kálfeyri en verið getur að Ólafur Jónsson, hreppstjóri í Mosdal, sem var formaður á einum þessara báta, hafi róið úr heimavör.

Við hið mikla áfall sem Önfirðingar urðu fyrir vorið 1812 dró mjög úr sjósókn þeirra og næstu árin voru bátarnir sem reru frá Kálfeyri mun færri en áður hafði verið. Í bréfi sem prestarnir séra Þorvaldur Böðvarsson og séra Ásgeir Jónsson skrifuðu biskupi 12. júlí 1822 greina þeir frá því að þá um vorið hafi aðeins þrír bátar gengið til veiða frá Kálfeyri í stað þrettán ellefu árum fyrr og úr öllum hreppnum hafi sjö bátar verið gerðir út á síðustu vorvertíð í stað átján fyrir ellefu árum.[875]

Ekki er kunnugt um að nokkur bátur hafi farist frá Kálfeyri á þeim árum sem liðin eru frá mannskaðanum mikla árið 1812 en frá þessari fornu verstöð var róið allt fram undir 1930. Í dánardálkum prestsþjónustubókanna frá Holti er aldrei minnst á bátstapa frá Kálfeyri eftir 1812[876] og þeir Önfirðingar sem drukknuðu í sjó á árunum 1813-1930 voru ekki hér við róðra er þeir lögðu upp í sína hinstu för. Nefna má að Jón Jónsson, hreppstjóri á Kirkjubóli í Bjarnardal, sem drukknaði í fiskiróðri ásamt tveimur öðrum Önfirðingum 25. maí 1871[877] reri þá frá Súgandafirði. Vitneskjan um að svo hafi verið kemur reyndar ekki frá prestinum í Holti en í annál Hjálmars Jónssonar, kaupmanns á Flateyri, þar sem hann gerir grein fyrir helstu atburðum ársins 1871, stendur skýrum stöfum að báturinn sem Jón var formaður á hafi farist í fiskiróðri úr Súgandafirði, seint í maímánuði.[878] Að vísu nefnir Hjálmar formanninn Jón Jónsson á Mosvöllum en getur ekki um búsetu hans á Kirkjubóli. Greinilegt er þó að hann á þarna tvímælalaust við sama slys og prestur segir hafa orðið 25. maí 1871, enda hafði nýnefndur Jón Jónsson búið lengi á Mosvöllum áður en hann fluttist að Kirkjubóli undir lok ævinnar.[879]

Flestir Önfirðingar sem drukknuðu í sjó á síðari hluta 19. aldar týndu lífi er þilskip fórust í hafi. Með þeim hætti misstu Önfirðingar 18 menn úr Mosvallahreppi á árunum 1880-1887.[880] Sex þeirra fórust með skonnortunni Agli Skallagrímssyni haustið 1880 (sjá hér Flateyri), fjórir með skútunni Jóhannesi frá Ísafirði vorið 1882,[881] sex voru á Jeanette og tveir á Skarphéðni[882] en þau skip fórust bæði með allri áhöfn vorið 1887 (sjá hér Flateyri).

Hér var áður frá því greint að vorið 1822 hefðu bátarnir sem gengu til veiða frá Kálfeyri aðeins verið þrír. Þrjátíu árum síðar hafði þeim fjölgað verulega á nýjan leik því vorið 1852 reru héðan 15 bátar[883] eða álíka margir og verið hafði á fyrstu árum nítjándu aldar. Af bátunum sem reru frá Kálfeyri vorið 1852 voru tveir frá Eyri og Flateyri og þrír frá bæjunum í Valþjófsdal.[884] Svo virðist sem allir bátar úr Mosvallahreppi sem sóttu sjó á þessari vertíð hafi þá róið héðan frá Kálfeyri því aðeins 14 skip voru til í hreppnum haustið 1852,[885] einu færra en róið höfðu frá Kálfeyri þá um vorið. Í hreppsbók Mosvallahrepps eru 14 skip sögð hafa verið til í hreppnum haustið 1852 eins og hér var nefnt en með orðinu skip mun átt við sexæringa eða þaðan af stærri báta.[886] Um minni báta er hins vegar ekki getið þetta ár í nýnefndri heimild.

Fimm árum síðar, 1857, voru skipin álíka mörg, 13 samkvæmt hreppsbókinni[887] en 15 samkvæmt skipaskýrslu sem dagsett er 1. október þá um haustið.[888]

Á bátunum sjö úr Önundarfirði, sem fórust með allri áhöfn vorið 1812, voru 49 menn eins og fyrr var getið og af því má ráða að sumir þeirra hafi verið áttæringar en flestir hinna sexæringar. Orðalag hreppstjóranna í fyrrnefndum skýrslum frá árunum 1852 og 1857 bendir til þess að sexæringar hafi þá enn verið uppistaðan í bátaflotanum sem reri frá Kálfeyri en seinna urðu bátarnir smærri. Í opinberri skýrslu frá árinu 1885 er frá því greint að þá hafi 30 bátar fyrirfundist í Mosvallahreppi og skiptust þannig eftir stærð: Einn áttæringur, þrír sexæringar, fjórtán fjögra manna för og tíu tveggja manna för.[889] Segl voru til á um það bil helmingi þessa flota, á áttæringinn, á einn sexæring og á tólf fjögra manna för.[890] Óljóst er nú hversu margir þessara báta frá árinu 1885 hafa verið gerðir út frá Kálfeyri en tólf árum síðar, seint í apríl árið 1897, voru hér 12 formenn við róðra.[891] Síðar á því sama vori fjölgaði þeim svo um einn.[892]

Í varðveittum heimildum má sjá að á síðari hluta 19. aldar kusu ýmsir formenn úr Valþjófsdal að róa frá Kálfeyri á vorvertíð[893] þó að einnig væri róið frá Dalssjónum (sjá hér Kirkjuból í Valþjófsdal). Með hliðsjón af því sem hér hefur verið sagt má ætla að flestir eða allir  formenn á hinum stærri bátum hafi róið frá Kálfeyri árið 1857 en þeir voru:

 

Ólafur Magnússon á Eyri,

Jón Örnólfsson á Flateyri,

Guðlaugur Þorsteinsson á Hóli á Hvilftarströnd,

Kristján Vigfússon í Neðri-Breiðadal,

Jón Sveinsson í Fremri-Breiðadal,

Kristján Sæmundsson í Tungu í Firði,

Andrés Hákonarson á Hóli í Firði,

Jón Arnfinnsson á Kirkjubóli í Bjarnardal,

Rósinkranz Kjartansson í Tröð,

Friðrik Pétursson Busch í Holti,

Jón Sigurðsson á Vöðlum,

Kristján Jónsson á Kirkjubóli í Valþjófsdal,

Halldór Eiríksson á Grafargili,

Guðmundur Jónsson á Grafargili,

Sturli Jónsson í Dalshúsum.[894]

 

Á árunum kringum aldamótin 1900 fór bátum að fjölga á Flateyri en þar hófst myndun þorps upp úr 1880 eins og hér hefur áður verið lýst. Bjarni Sæmundsson fiskifræðingur ferðaðist um Vestfirði sumarið 1901 og greinir frá því að þá um vorið hafi 12 bátar stundað róðra frá Flateyri en alls hafi Önfirðingar gert út 25 báta á vorvertíðinni.[895] Bjarni nefnir ekki Kálfeyri en nær fullvíst má telja að flestir af bátunum þrettán úr Önundarfirði, sem ekki gengu frá Flateyri, hafi róið frá hinni fornu verstöð hér á Kálfeyri vorið 1901. Á þessu fyrsta ári nýrrar aldar voru bátar Önfirðinga, að sögn Bjarna fiskifræðings, ýmist sexæringar ellegar þriggja eða fjögra manna för.[896]

Frá Kálfeyri var að öllum jafnaði eingöngu róið á vorvertíðinni en á sumrin og haustin var róið úr heimavör frá ýmsum bæjum við utanverðan Önundarfjörð. Frá sjósókn Önfirðinga um síðustu aldamót greinir Bjarni Sæmundsson á þessa leið:

 

Menn stunda sjó frá því snemma á vorin og fram að jólaföstu en aðalvertíðin er haustið. Menn róa út í fjörðinn, þegar fiskur er þar, en annars út á haf og afla þar steinbít. Veiðarfærið er nálega eingöngu lóðir. Menn leggja 15-20 lóðir í einu en beita oft út aftur (leggja aftur). Til beitu hafa menn fiskbeitu, krækling, sem er mikill og stór í Holtsós, kúfisk, sem er víða í firðinum, og smokk, sem þykir besta beitan. … Síld er og beitt þegar hún fæst. … Þorskur fer fyrst að ganga í fjörðinn um sumarmál en vanalega ekki fyrr en í maí. … Ýsa kemur fyrst í júlí. Fiskur fer vanalega úr firðinum í nóvemberlok.[897]

 

Þessa lýsingu á sjósókn Önfirðinga skrifaði Bjarni fiskifræðingur árið 1901 en á allra næstu árum hófst vélvæðing bátaflotans sem á skömmum tíma olli byltingu í allri útgerð og fiskveiðum. Á hinum hraðskreiðu mótorbátum skipti ekki neinu verulegu máli hvort menn voru fáeinum mínútum lengur eða skemur að komast á miðin og aldrei gat komið til greina að gera þessa vélknúnu báta út frá Kálfeyri því þar var engin höfn. Aftur á móti var Flateyri mjög hentugur staður fyrir slíka útgerð, ekki síst vegna hafnarinnar. Með vélvæðingu bátaflotans á fyrsta áratug 20. aldar og á árunum upp úr 1910 færðist miðstöð bátaútgerðarinnar í Önundarfirði því frá Kálfeyri og inn á Flateyri. Ýmsir bændur gerðu þó árabáta sína út frá Kálfeyri á vorin enn um sinn en eftir 1920 munu aldrei hafa verið hér fleiri en sex bátar.[898] Síðast var róið frá Kálfeyri árið 1928[899] og á árunum 1925-1927 var hér aðeins einn bátur við róðra að öllum jafnaði en þó kom fyrir að þeir væru tveir.[900] Formaður á áraskektunni sem jafnan reri frá Kálfeyri á árunum 1925-1927 var Kristján Bjarnason í Hjarðardal en auk hans voru þrír menn í áhöfninni.[901] Kristján reri þá héðan í nokkrar vikur á hverju vori.[902]

Af því sem hér hefur verið rakið má ráða að á liðnum öldum og allt fram undir aldamótin 1900 voru mjög oft um það bil fimmtán bátar við róðra hér á Kálfeyri og allt upp undir tuttugu þegar flest var. Í byrjun 19. aldar voru flestir bátarnir sem héðan reru sexæringar eða áttæringar eins og fyrr var nefnt og má telja líklegt að svo hafi verið um langt skeið.[903] Óhætt virðist því að fullyrða að hér hafi margt árið um 100 vermenn hafst við í þær 10 vikur sem vertíðin stóð og sjaldan færri en 50 allt fram að aldamótunum 1900. Enn eru a.m.k. 14 búðarústir sjáanlegar í þessari fornu verstöð en búðirnar kynnu að hafa verið fleiri því nokkurt landbrot hefur orðið á þessum slóðum.[904] Líklegt er að stundum hafi verið tvær skipshafnir í sumum þessara verbúða. Lúðvík Kristjánsson segir í Íslenskum sjávarháttum að verbúðirnar á Kálfeyri hafi verið mjög líkar Hraunsbúð við Sæbólssjó á Ingjaldssandi og búðunum í Kollsvík og Breiðavíkurveri í Rauðasandahreppi.[905] Hraunsbúð við Sæbólssjóinn á Ingjaldssandi hefur áður verið lýst á þessum blöðum (sjá hér Sæból á Ingjaldssandi) en öðrum búðum sem líktust mjög þeim á Kálfeyri lýsir Lúðvík svo:

Veggir voru úr grjóti en torf haft til þéttingar.[906] Innra vegglagið var eingöngu úr grjóti og átti að dragast saman að ofan og neðan en bunga út um miðjuna.[907] Í þaki voru sperrur og langbönd en þar ofan á voru lagðar skaraðar hellur.[908] Tyrft var yfir hellurnar.[909] Dyr voru oft á þeirri hlið sem vissi til sjávar.[910] Dyrnar voru lágar og karmar og hurð úr óplægðum viði.[911] Stundum var hvalbein haft yfir dyrunum.[912] Undir lok 19. aldar voru oft tveir tveggja rúðna gluggar á þessum verbúðum, sinn á hvorum gafli.[913] Moldargólf var í búðunum.[914] Búð sem hýsti 4-5 manna áhöfn var yfirleitt 2-2,5 mterar á breidd en lengdin sem því svaraði að vinstra megin dyra kæmist fyrir eitt rúm en hins vegar rúmlengd og rúmbreidd fyrir gafli.[915]

Guðmundur Ingi Kristjánsson, bóndi og skáld á Kirkjubóli í Bjarnardal, sem fæddur er árið 1907, var við róðra á Kálfeyri 1922 og 1923.[916] Hann segir búðirnar þá hafa verið úr torfi og grjóti og átti þakið að vera vatnshelt.[917] Guðmundur Á. Eiríksson, bóndi og hreppstjóri á Þorfinnsstöðum, sem fæddur var árið 1853, skrifaði um 1930 dálitla ritgerð um aldarhátt í Önundarfirði á 19. öld og getur þar vorróðranna frá Kálfeyri.[918] Í ritgerðinni fjallar hann fyrst og fremst um ástand mála á árunum kringum 1860 og segir meðal annars:

 

Bændur og vinnumenn reru frá Kálfeyri að vorinu, mest á sexræðingum, eingöngu með handfæri og fiskuðu mest steinbít og þorsk. Allt var þá hert. Það stærsta af þorskinum var látið til svokallaðra „spekúlanta”, hitt var notað til fæðis á heimilunum. … Kálfeyringar komu heim á hverri helgi með soðmat fyrir heimilin. Hirtu þeir alla maga úr þorskinum. Voru þeir kallaðir kútmagar en úr steinbítnum buddur. Þeir hirtu og lifrina úr þorskinum. Létu þetta í poka og geymdu í rennandi vatni sem nóg var af á Kálfeyri, enda var það sjaldan skemmt. Þetta var verkað á heimilunum og það sem ekki var borðað strax var geymt í sýru og borðað síðar og þótti ljúffengur matur.

Vermennirnir suðu og fyrir sig fisk á hverjum degi, oftast ferskan. Frá heimilunum höfðu þeir til hverrar viku mjólkurdúnk eða flösku hver, smjör og eitthvað af brauði og harðfiski. Hverjum vermanni var líka ætlað krof (afturpartur af kind) eða skammrif (frampartur af kind) upp á vorið. … Formennirnir, sem oftast voru bændur, skömmtuðu hásetum sínum, þó ekki væru heimilismenn, á sumardaginn fyrsta hálfan magál og heila köku, drepið þykkt lag af smjöri ofan á, og hangikjöt líkt og heimilismönnum og væru þeir heimilismenn fengu þeir tvöfaldan kjötskammt.[919]

 

Við þessa lýsingu á mataræði vermanna á Kálfeyri á árunum kringum 1860 má bæta því að hlóðir munu hafa verið í verbúðunum frá fornu fari.[920] Um 1920 notuðu menn hins vegar kamínu eða prímus við alla eldamennsku í stað hlóðanna.[921] Þá suðu menn jafnan fisk og kartöflur í verinu og hituðu sér kaffi.[922] Sumir elduðu líka graut, einkum í landlegum.[923]

Í ritgerð sinni lýsir Guðmundur á Þorfinnsstöðum gerð sjóklæða fyrir þá sem reru frá Kálfeyri á árunum kringum 1860 en skinnklæðin sem þeim voru ætluð voru ætíð búin til á heimilunum að vetrinum. Um þá iðju kemst hann svo að orði:

 

Karlmenn bjuggu til sjóklæði og voru þau gjörð þannig að skinnin voru elt svo að ekki skimaði í gegnum þau. Í brókina þurfti fjögur skinn, tvö hrúts- eða sauðskinn í skálmarnar, eitt ærskinn í ofanásetur og kálfskinn í setann sem níddist mest á þóftunum. Í stakkinn þurfti tvö ærskinn og tvö lambskinn í ermarnar. Ætíð var haft seymi í skinnklæðin. Í brækurnar fjórföld skinnræma. Saumað var með margföldum þræði er kallaður var renningur. Við fyrirsauminn voru hafðar fjaðranálar en seinni sauminn sívalar nálar. Öll voru skinnklæðin tvísaumuð. Leggir voru og notaðir við sauminn. Það voru tveir framfótarleggir úr roskinni kind, festir saman á neðri körtunum og hafðir bæði til að ýta inn nálunum og draga þær út. Í þá voru boraðar smáholur fyrir nálaraugað að sitja í þegar ýtt var inn nálinni. Svo var margborin á skinnklæðin lifur úr þorski eða skötu og gátu þau verið bæði mjúk og vatnsheld.[924]

 

Að sögn Guðmundar voru sjóskór jafnan gerðir úr sútuðu leðri og oft fengin gömul leðurstígvél hjá Fransmönnum til að búa til úr þeim sjóskó.[925]

Merkileg er sú staðhæfing hreppstjórans á Þorfinnsstöðum að um 1860 hafi allur fiskur, sem kom á land á Kálfeyri, verið hertur og ekkert saltað. Á árunum kringum 1830 hafði Friðrik J. Svendsen kaupmaður þó lagt mikið kapp á að kenna Önfirðingum góða verkun á saltfiski (sjá hér Flateyri). Þá kennslu tók Hjálmar Jónsson upp að nýju þegar hann byrjaði að versla á Flateyri árið 1865[926] eða á næstu árum þar á eftir (sjá hér Flateyri). Um hina miklu breytingu sem þá varð á Kálfeyri kemst Guðmundur á Þorfinnsstöðum svo að orði:

 

Þá fóru Kálfeyringar að salta þorskinn. Kenndi Hjálmar þeim að verka fiskinn, víst að undirlagi Jóns Sigurðssonar og er efasamt að á árunum frá 1870 fram yfir 1880 hafi nokkurs staðar á landinu verið betur verkaður saltfiskur en hjá Kálfeyringum. Fór þá líka að lifna yfir efnahag manna.[927]

 

Reyndar er Guðmundur hreppstjóri á Þorfinnsstöðum ekki einn um þá skoðun að á árunum milli 1870 og 1880 hafi saltfiskurinn frá Kálfeyri verið betur verkaður en almennt var á þeim tíma því Tryggvi Gunnarsson, alþingismaður og framkvæmdastjóri Gránufélagsins, sagði árið 1876 að á Bíldudal og í Önundarfirði væri saltfiskurinn betur verkaður en annars staðar á landinu.[928]

Eins og nærri má geta var það þorskurinn sem var saltaður og seldur til útflutnings en steinbíturinn var hertur alla tíð og fluttur heim á bæina sem búsílag. Í heimferðum sínum um helgar hljóta vermennirnir líka að hafa tekið með sér nýjan steinbít því oft var þörfin fyrir nýmeti orðin mikil þegar loks fór að vora eftir langan vetur. Óskar Einarsson, sem var læknir á Flateyri á þriðja og fjórða áratug 20. aldar, hefur ritað á þess leið um þátt steinbítsins í lífsstríði Önfirðinga:

 

Í aprílmánuði ár hvert gengur steinbíturinn í þéttum torfum upp á grunnmið Önfirðinga og þrátt fyrir allsleysið munu þeir jafnan hafa náð þó nokkrum afla til þess að seðja hungur sitt. Steinbíturinn var vitaðsgjafi þeirra, stytti útmánaðahungrið og lengdi lífið.[929]

 

Þau orð hins merka læknis munu seint verða hrakin.

Á árunum kringum 1920 var svipað lag haft á við fiskverkunina á Kálfeyri og verið hafði í tíð Hjálmars Flateyrarkaupmanns á árunum kringum 1880, þorskurinn saltaður og seldur óþurrkaður til fiskverkunarmanna eða útflytjenda á Flateyri en steinbíturinn hertur og hafður til heimilis.[930] Guðmundur Ingi Kristjánsson, sem reri á Kálfeyri 1922 og 1923, segir að þegar steinbíturinn fór að þorna hafi honum verið hrýgjað, sem kallað var, það er hengdur á ás eða þunnan grjótvegg í margföldum röðum.[931] Á þessum árum var steinbíturinn svo hertur í hjöllum sem stóðu á malarkambi fyrir framan búðirnar[932] en nú hefur gengið á landið svo lítið er eftir af þessum malarkambi.[933]

Um miðbik 19. aldar var allur afli sem kom á land á Kálfeyri veiddur á handfæri.[934] Í dagbók Jóns Guðmundssonar frá Grafargili má hins vegar sjá að vorið 1888 reru að minnsta kosti sumir formennirnir á Kálfeyri með lóðir.[935] Vera má að slíkir línuróðrar frá Kálfeyri hafi hafist nokkru fyrr. Í skýrslu sinni frá árinu 1901 segir Bjarni Sæmundsson fiskifræðingur að Önfirðingar rói nær eingöngu með lóðir[936] og var það mikil breyting frá því sem verið hafði 40 árum fyrr þegar handfærin voru eina veiðarfærið á Kálfeyri. Bjarni telur upp fimm tegundir af beitu sem Önfirðingar notuðu við fiskveiðar á árunum kringum aldamótin 1900 (sjá hér bls. 95). Í línuróðrum, sem farnir voru frá Kálfeyri vorið 1888, var grásleppa notuð í beitu[937] og á fundi sem haldinn var á Þórustöðum í febrúarmánuði árið 1896 komu menn sér saman um að brúka ekki kúfisk fyrr en 3 vikur af sumri.[938]

Ólafur Olavius, sem var við rannsóknir á Vestfjörðum sumarið 1775, spurðist m.a. fyrir um helstu fiskimið og nefnir í Ferðabók sinni nokkur helstu mið Önfirðinga og Súgfirðinga er hann segir vera þessi: Atlastaðastekk, Eldingar, Hamar, Kvíarhæl, Kvíarauga, Hundahæl, Stiga, Víking, og Rit.[939] Öll þessi mið segir hann liggja tvær til fjórar mílur á haf út.[940] Séra Tómas Sigurðsson í Holti samdi sóknalýsingu sína 65 árum síðar og getur þar um sjö af þessum níu miðum, öll nema Rit og Atlastaðastekk.[941] Miðið sem Olavius nefnir Hamar kallar prestur reyndar Hamra og Kvíaraugað nefnir hann bara Auga.[942] Séra Tómas nefnir svo nokkur fiskimið Önfirðinga sem Olavius getur ekki um, það er að segja Völlur, Mel grynnri, Mel dýpri og Hnúu.[943] Prestur getur líka þrettán hákarlamiða Önfirðinga sem hann segir vera þessi: Kögur, Sund grynnra, Sund dýpra, Axlir, Sóknaskarð, Grynnrihlíð, Dýprihlíð, Björg, Tálkna, Fyrstu Hvilft, Aðra Hvilft, Þriðju Hvilft og Fannaskarð.[944]

Um aflabrögð bátanna, sem reru frá Kálfeyri á fyrri öldum, eru engar upplýsingar í boði en ærið misjöfn munu þau hafa verið því sú var reglan um land allt. Í heimildum frá fyrri hluta 19. aldar má finna einstaka vísbendingar um aflabrögðin sem þó eru engan veginn nægilega traustar til þess að af þeim megi draga skýrar ályktanir. Dæmi um vísbendingu af því tagi er að finna í skránni sem hér er birt í kaflanum um Flateyri (þar bls. 44-45)  og sýnir hvað út var flutt frá Flateyri með skipi sem lét í haf seint í ágúst árið 1836. Með þessu skipi fóru 4637 kíló af saltfiski og 4129 kíló af skreið eins og sjá má á nýnefndri skrá. Líklegt er en þó ekki alveg víst að allur saltfiskur og öll skreið sem út var flutt frá Flateyri það árið hafi farið með þessu eina skipi. Nokkrum áratugum síðar var talið að 140 þorskar færu að jafnaði í hvert skippund af verkuðum saltfiski[945] en í hverju skippundi eru 160 kíló. Þessi viðmiðun gefur til kynna að í þau 29 skippund af saltfiski sem út voru flutt árið 1836 hafi þurft liðlega 4000 þorska. Sé hins vegar ráð fyrir því gert að stór hluti aflans hafi verið smáfiskur hækkar tala fiskanna verulega því talið var að í hvert skippund af verkuðum saltfiski þyrfti 270 stykki af smáþorski sem oft var nefndur þyrsklingur.[946] Hafi helmingur þorskaflans verið smáfiskur gæti því látið nærri að þurft hafi um 6000 fiska í þau 29 skippund sem út voru flutt af saltfiski.

Í hvert skippund af skreið þurfti 160 gildingsfiska, það er þorska sem fullhertir vigtuðu eitt kílo, en til að ná þeirri þyngd þurfti fisk sem vigtaði 10 kíló upp úr sjó.[947] Vel má hugsa sér að meðalþyngd hvers einstaks fisks, sem færður var að landi á Kálfeyri árið 1836, hafi hins vegar ekki verið nema sjö kíló eða þar um bil. Sé ráð fyrir því gert að svo hafi verið hefði augljóslega þurft um það bil 6000 fiska í þau tæplega 26 skippund af skreið sem send voru frá Flateyri á erlendan markað seint í ágúst það sama ár.

Með skírskotun til þess sem hér hefur verið sagt mætti þá láta sér detta í hug að giska á að um 12.000 fiskar hafi verið fluttir út frá Flateyri árið 1836 ýmist sem skreið eða saltfiskur. Líklegt er að mjög verulegur hluti þessara afurða hafi komið frá Kálfeyri og mætti nefna 10.000 fiska. Sé nú gert ráð fyrir 15 bátum við róðra (sbr. hér bls. 93), sex mönnum í hverri áhöfn og tveimur dauðum hlutum hjá hverjum bát, gerir þetta 83 fiska í hlut en þá er eftir að telja allan þann afla sem menn fluttu heim til eigin nota, þar á meðal allan steinbítinn. Niðurstaðan er þá sú að skráin yfir útfluttar afurðir frá Flateyri árið 1836 gefi vísbendingu um að meðalhásetahlutur á Kálfeyri þá um vorið hafi verið um það bil 100 fiskar og er steinbíturinn þá ekki talinn með. Hér verður þó að ítreka og leggja áherslu á að um mjög óljósa vísbendingu er að ræða því forsendur útreikninganna byggjast að verulegu leyti á ágiskunum. Mörgum kann að virðast þetta rýr hlutur en þess má geta að samkvæmt mun traustari heimild var hæsti hásetahluturinn á Kálfeyri vorið 1884 aðeins 120 fiskar og 30 kíló af riklingi.[948]

Allskýr vitneskja liggur fyrir um aflabrögð á Kálfeyri undir lok nítjándu aldar og á árunum í kringum aldamótin 1900. Helstu heimildir um fjölda báta í Önundarfirði á árunum 1880-1900 er að finna í hreppsbókum Mosvallahrepps og í opinberum skýrslum um þilskip, opin skip og báta frá árunum 1875-1899[949] en þær skýrslur eru reyndar líka komnar frá viðkomandi hreppstjóra.

Oftast ber upplýsingunum sem í boði eru í þessum tvenns konar gögnum allvel saman en því miður ekki alltaf. Á árunum 1880-1885 var einn áttæringur til í hreppnum en enginn á árunum 1887-1889.[950] Sexæringar og fjögra manna för voru oftast á bilinu frá 13-21.[951] Minnstu bátarnir, þeir sem aðeins voru tveggja eða þriggja manna för, eru yfirleitt ekki taldir með á árunum 1880-1889 í þeim gögnum sem hér er byggt á en stöku sinnum er þeirra getið og má sem dæmi nefna að árið 1885 eru þeir sagðir vera 10.[952] Nær fullvíst má telja að 20-30 bátar hafi því oftast verið til í hreppnum á þessu skeiði en hversu margir þeirra hafa róið á Kálfeyri er erfiðara að segja.

Algengasta bátstærðin á þessum árum var fjögra manna far. Í Mosvallahreppi voru 10 slíkir bátar árið 1880, 12 árið 1883, 16 árið 1885, 9 árið 1887, 16 árið 1888 og 13 árið 1889.[953] Í hreppnum voru hins vegar bara 2 sexæringar árið 1880, 3 árið 1883, 3 árið 1885, 6 árið 1887, 4 árið 1888 og 8 árið 1889.[954]

Árið 1897 hafði fjöldi og stærð bátanna lítið breyst frá því sem verið hafði að jafnaði á árunum 1887-1889. Enginn áttæringur var þá til í hreppnum en 5 sexæringar, 13 fjögra manna för og 2 tveggja manna för.[955] Við athugun fiskaflaskýrslunnar frá 1897 má sjá að af þessum 20 bátum voru 13 við róðra á vorvertíðinni. Sú ályktun er dregin af því að þessir þrettán bátar fá allir 300-800 fiska hver af öðrum tegundum en þorski og ýsu[956] og er það steinbíturinn sem þar segir til sín. Hinir bátarnir sjö voru hins vegar, hver um sig, með aðeins 50 fiska eða minna af öðru en þorski og ýsu[957] og hafa því ekki stundað róðra á vorvertíðinni. Í hinni opinberu fiskaflaskýrslu frá árinu 1897 er að finna nöfn formanna á öllum bátunum í Mosvallahreppi og þar sést hvað hver og einn fiskaði á því ári. Hjá þeim þrettán formönnum, sem hér er talið að hafi verið við róðra um vorið, var meðalaflinn 2643 fiskar ef allt er talið en hjá hinum sjö var meðalaflinn aðeins 1260 fiskar yfir árið.[958]

Í annarri og óskyldri heimild, dagbók Magnúsar Hjaltasonar, eru reyndar taldir upp þeir tólf formenn sem komnir voru til róðra á Kálfeyri þann 25. apríl 1897[959] og þar er að finna nöfn allra nema eins af þeim þrettán formönnum sem nefndir eru í hinni opinberu fiskaflaskýrslu og hér hefur verið sýnt fram á að voru við róðra á vorvertíðinni.[960] Sá eini sem vantar í hópinn er Steinþór Jónsson, bóndi í Dalshúsum, enda má gera ráð fyrir að hann hafi róið frá Dalssjónum. Með báðar þessar heimildir, fiskaflaskýrslu hreppstjórans og dagbók Magnúsar, virðist óhætt að slá því föstu að vorið 1897 hafi 12 bátar róið frá Kálfeyri. Staðfestingu á því að svo hafi verið er líka að finna í formannarímu sem Magnús Hjaltason orti á Kálfeyri í júnímánuði þetta sama ár.[961] Á töflunni sem hér verður nú birt eru nefnd nöfn formannanna, stærð bátanna og afli hvers og eins en tekið skal fram að þarna er um að ræða heildarafla yfir árið svo hugsanlegt er að sumir formennirnir hafi náð einhverju af sínum afla eftir vertíðarlok og þá í róðrum úr heimavör. Allar upplýsingar sem fram koma í töflunni eru byggðar á hinni opinberu fiskaflaskýrslu. Nöfn bátanna vantar en þess má geta að bátur sem Rósinkranz Rósinkranzson í Tröð stýrði til veiða frá Kálfeyri árið 1889 hét Blíðviður ef marka má vísu eftir Símon Dalaskáld.[962]

 

                                                                 Tafla 1[963]

Formenn, bátar og afli á Kálfeyri vorið 1897

 

Nöfn formanna       Stærð báts                               Heildarafli                                Tala fiska

þorskur     smáþorskur     ýsur    aðrar fiskteg.

Eyjólfur Jónsson

Kirkjub. í Valþj.d.     Sexæringur         350              1500         1400           900                 4150

 

Vigfús Eiríksson

Tungu í Valþj.d.       4ra m. far            300              1250         1200           900                 3650

 

Jóhann Guðm.son

Fremri-Breiðadal      4ra m. far            350               950         1125           750                 3175

 

Kristján Bjarnason

Þórustöðum             4ra m. far            350               950         1150           450                 2900

 

Salómon Jónsson

Kirkjub. í Bj.dal       4ra m. far            320               800           850           800                 2770

 

Guðm. Halldórss.

Hóli á Hvilftarstr.     4ra m. far            400               800         1000           550                 2750

 

Kristján Guðm.son

Flateyri                   Sexæringur         270               650         1000           580                 2500

 

Jón Jónasson

Holti                      4ra m. far            325               800           625           650                 2400

 

Jónatan Jensson

Efstabóli                 Sexæringur         300               850           860           350                 2360

 

Rósinkr. Rósinkr.s.

Tröð                       4ra m. far            300               775           825           450                 2350

 

Kristján Halldórss.

Vöðlum                  4ra m. far            275               725           525           500                 2025

 

Guðm. Bjarnason

Hjarðardal               4ra m. far            225               550           600           300                     1675

Eitt af því sem lesa má út úr töflunni hér að framan er að af bátunum tólf, sem reru frá Kálfeyri vorið 1897, voru níu fjögra manna för en þrír voru sexæringar. Vermenn hafa því að líkindum verið 54 og því talsvert færri en þegar flest var. Magnús Hjaltason, sem sjálfur var í skiprúmi á Kálfeyri þetta vor, segir reyndar að þeir hafi verið 60[964] en ekki er víst að sú tala sé alveg nákvæm. Taflan sem hér var birt sýnir að ársafli bátanna sem reru frá Kálfeyri vorið 1897 var 3765 vænir þorskar, 10.600 smærri þorskar, 11.160 ýsur og 7180 stykki af öðrum tegundum. Sé miðað við fjölda fiskanna voru 11,5 % heildaraflans vænir þorskar, 32,4 % smærri þorskar, 34,1 % ýsur og 22,0 % aðrar fisktegundir. Ekki liggur fyrir hvar þyngdarmörkin lágu milli þorskanna og þyrsklinganna. Hugsanlegt er að viðmiðunin hafi verið 10 kíló því svo þungur þurfti hver þorskur að vera upp úr sjó til að geta talist gildur fiskur þegar búið var að verka hann í fullherta skreið (sjá hér bls. 101). Málfiskur, sem svo var nefndur, þurfti hins vegar að vera 18 þumlungar (47 sentimetrar) á lengd, hið minnsta, og má vel vera að sú hafi viðmiðunin verið þegar skilið var á milli þorska og þyrsklinga.

Af þorski og ýsu veiddu bátarnir tólf sem reru á Kálfeyri vorið 1897 25.525 fiska samtals. Hér var áður nefnt að líklega hafi 54 menn róið á Kálfeyri þetta vor og sé gert ráð fyrir tveimur dauðum hlutum á hvern bát hefur heildaraflanum verið skipt í 78 staði. Meðalhásetahlutur hefur þá verið 327 fiskar fyrir utan steinbít og annan trosfisk. Af öðrum fisktegundum en þorski og ýsu veiddust alls 7180 fiskar og sé miðað við sama fjölda vermanna og sams konar skipti hefur meðalhlutur hjá hásetunum verið 92 fiskar af þessum öðrum tegundum. Til frekari glöggvunar má hafa í huga að vorið 1893 var hæsti hásetahluturinn á Kálfeyri 155,- krónur, það er nær hálft annað kýrverð, og um það bil 200 steinbítar að auk.[965]

Í hreppsbók Mosvallahrepps má sjá að sjö af formönnunum tólf sem reru frá Kálfeyri vorið 1897 áttu sjálfir hálfan eða heilan bát.[966] Þeir Eyjólfur á Kirkjubóli, Jóhann í Fremri-Breiðadal, Jón Jónasson í Holti, Jónatan á Efstabóli og Rósinkranz í Tröð áttu allir einn bát, sexæring eða fjögra manna far.[967] Kristján á Þórustöðum átti einn og hálfan bát og Vigfús í Tungu átti hálfan bát,[968] líklega á móti Guðmundi bróður sínum á Þorfinnsstöðum sem átti líka einn bátshelming.[969] Kristján Halldórsson á Vöðlum, sem líka var formaður á Kálfeyri, hefur líklega verið með bát sem faðir hans átti því hreppsbókin sýnir að Halldór Bernharðsson á Vöðlum, faðir Kristjáns, átti bát árið 1897.[970] Aðeins þriðjungur formannanna hefur því verið með báta sem ekki voru í eigu þeirra sjálfra eða þeirra nánustu ættingja.

Einn vermanna á Kálfeyri vorið 1897 var alþýðuskáldið Magnús Hjaltason eins og hér hefur þegar verið nefnt og var hann í skiprúmi á bátnum sem minnst fiskaði[971] (sbr. hér bls. 103). Í dagbók sinni frá þessum vormánuðum segir Magnús sitt af hverju frá lífi vermannanna en sjálfur var hann sem kunnugt er lítið gefinn fyrir sjóróðra og lætur illa af vistinni.[972] Veturinn 1896-1897 hafði dagbókarritarinn verið heimiliskennari á Brekku á Ingjaldssandi (sjá hér Brekka) og á Mýrum í Dýrafirði og var búsettur á Brekku er hann reri frá Kálfeyri.

Kennslunni á Ingjaldssandi lauk Magnús nokkru fyrir sumarmál og þann 18. apríl var hann við messu í Holti.[973] Þar hitti hann Guðmund Bjarnason í Ytri-Hjarðardal og réð sig í skiprúm hjá honum.[974] Guðmundur var þá ókvæntur vinnumaður í Hjarðardal en trúlofaður Guðnýju, sem síðar varð kona hans, dóttur Arngríms Vídalín Jónssonar, óðalsbónda í Ytri-Hjarðardal.[975] Ákveðið hafði verið að Guðmundur yrði þetta vor formaður á fjögra manna fari sem hinn tilvonandi tengdafaðir hans átti og hét báturinn Ágúst.[976] Þeir Guðmundur Bjarnason og Magnús Hjaltason voru á líkum aldri. Vorið 1897 var Magnús 23ja ára en Guðmundur þremur árum eldri, fæddur  29. september 1870.[977]

Þann 21. apríl 1897 voru þeir Guðmundur og Magnús, háseti hans, báðir í Hjarðardal og unnu að netabætingum.[978] Gera má ráð fyrir að þeir hafi þá verið að bæta grásleppunet því þannig net voru þeir með á Kálfeyri og veiddu eitthvað af grásleppu[979] en hún var oft notuð í beitu. Sunnudaginn 25. apríl fluttu þeir sig í verið á Kálfeyri en í skiprúmi hjá Guðmundi voru auk Magnúsar tveir vinnumenn úr Hjarðardal, þeir Ólafur Bjarnason, 72ja ára, og Einar Jensson sem var 19 ára eða því sem næst.[980] Ekki þótti Magnúsi mikið til þessara skipsfélaga sinna koma. Formanninn segir hann hafa verið svívirðilegan hrotta, Ólaf gamla afarheimskan og Einar óstaðfestan heiðingja sem ekki kunni að signa sig.[981] Í sóknarmannatali frá árinu 1897 er þó tekið fram að Einar þessi kunni boðorðin en þar er hann sagður vera illa stautandi.[982] Allt bendir til þess að hásetar Guðmundar Bjarnasonar á bátnum Ágústi hafi verið aumasta skipshöfnin á Kálfeyri þetta vor, Ólafur karlinn á áttræðisaldri, heiðinginn ungi, sem ekki gat lært að signa sig, og svo alþýðuskáldið sem jafnan þótti lítt fallið til erfiðis og lifði í draumaheimi. Aflatölurnar, sem hér hafa áður verið birtar (sjá hér bls. 103), sýna líka vel hvernig ástatt var um þessa vesælu skipshöfn.

Fyrsta daginn á Kálfeyri lögðu þeir á Ágústi netin, ruddu vör og byrjuðu að byggja sér búð.[983] Dagbókarskrif Magnúsar sýna að þessi skipshöfn á bátnum frá Hjarðardal hafði enga verbúð fyrir sig á Kálfeyri og urðu þeir að skipta sér niður á búðir hinna.[984] Þeir Guðmundur formaður og Magnús fengu að sofa í búð Rósinkranz Rósinkranzsonar, bónda í Tröð, a.m.k. fyrstu næturnar, og undir vertíðarlok voru þeir enn ekki búnir að koma upp búðinni sem þeir byrjuðu þó að byggja fyrsta daginn.[985] Síðustu dagana í apríl var farið daglega á sjó en þeir á Ágústi fiskuðu lítið, 20-40 fiska í róðri, og voru þó bæði með handfæri og lóðir, auk grásleppunetanna.[986] Sjálfur var dagbókarritarinn hlífalaus í þessum sjóferðum, átti hvorki brók né skinnstakk og varð að yrkja sér til hita.[987]

Vertíðin stóð að þessu sinni frá 25. apríl til 2. júlí en dagana 2.-5. júlí voru Magnús og félagar hans að flytja aflafeng sinn inn á Flateyri og yfir í Hjarðardal það sem þangað átti að fara.[988] Ekki er fyllilega ljóst í hversu marga róðra Magnús Hjaltason fór frá Kálfeyri á vertíðinni vorið 1897 en athygli vekur að á þessu tíu vikna tímabili fór hann yfirleitt á hálfsmánaðarfresti út á Ingjaldssand.[989] Hann var þá oftast samferða Jóni Guðmundssyni fingralausa, sem einnig var vermaður á Kálfeyri, og fóru þeir jafnan gangandi fyrir Hrafnaskálarnúp eða yfir fjall frá Mosdal[990] sem er nær beint á mót Kálfeyri, handan fjarðarins.[991] Þetta voru erfiðar ferðir og fyrir kom að þeir töfðust lengur á Sandinum en ráðgert hafði verið.[992]

Þann 1. maí var að sögn Magnúsar sviðrandi sortabylur.[993] Þann dag varð bátur úr Súgandafirði að hleypa inn á Önundarfjörð og var skipshöfnin á honum fimm klukkustundir að berja inn með Sauðanesinu uns þeir náðu landi á Kálfeyri.[994]

Í lok maí segir Magnús Kálfeyringa vera hætta að fara til hafs en þess í stað leggi þeir nú lóðir í fjörðinn og beiti kúfiski.[995] Seint í júní reru þeir á Hjarðardalsbátnum samt ofan á Kvíarhæl og lögðu þar 12 lóðir.[996] Kúfiskinn sem beitt var sóttu vermennirnir á Kálfeyri inn undir Hjarðardal og var plægt frá landi við beituöflunina.[997] Að sögn Magnúsar gátu sex menn náð 6-8 þúsund kúskeljum á einni fjöru.[998] Þegar kom fram í júní fóru sumir að beita síld, sem sækja varð norður á Ísafjörð, og þeir sem henni beittu fiskuðu mun betur en aðrir.[999]

Einna best virðist fiskiríið hafa verið í síðari hluta júní hjá þeim sem reru frá Kálfeyri vorið 1897.[1000] – Klukkan eitt um nóttina komum við af sjó og höfðum fiskað 30-40 lóur, 60 ýsur, 11 steinbíta og eina skötu, skrifar Magnús í dagbók sína við laugardaginn 26. júní.[1001] Á heimleiðinni úr þessum róðri var hann lagður á land undir fjallinu Sporhamri, innan við Mosdal, og þaðan gekk hann út á Ingjaldssand með fimm fjórðunga (25 kíló) byrði.[1002]

Magnús Hjaltason þoldi illa allt það vos sem fylgdi sjóróðrum og verbúðalífi, enda lætur hann illa af vistinni hér á Kálfeyri. Þann 19. júní var hvergi vært inni í búðunum fyrir leka[1003] og skáldið kvartar yfir því að hjá flestum vermannanna sé kurteisin ekki á háu stigi.[1004] Verst fannst honum þó að allflestir í þessum hóp gerðu … gys að öllum bókmenntum.[1005] Þægilegasta og raunbesta segir Magnús hafa verið þá Kristján Bjarnason á Þórustöðum og Jón Jónasson, ráðsmann í Holti,[1006] sem báðir voru formenn á Kálfeyri þetta vor. Svo skemmtilega vill til að einmitt þessir tveir voru hér manna síðastir við róðra á árunum 1925-1928 en Jón var þá háseti hjá Kristjáni[1007] (sbr. hér bls. 95-96).

Verbúðalífið átti illa við Magnús Hjaltason eins og vænta mátti um svo veikbyggðan mann og viðkvæman. – Óskemmtilegra vor hafði ég ekki lifað frá því ég var á Hesti, skrifar hann í dagbók sína 5. júlí 1897 en þann dag fluttu þeir Hjarðardalsmenn allt sitt frá Kálfeyri því komin voru vertíðarlok.[1008] Flestir aðrir undu sér betur á þessum stað í glöðum félagsskap hraustra drengja sem nutu þess að stæla kraftana og draga björg í bú.

Árið 1898 fækkaði bátunum í Mosvallahreppi út tuttugu í tíu ef marka má hinar opinberu skýrslur.[1009] Af þessum tíu bátum var einn áttæringur en eigandi hans var Rósinkranz Rósinkranzson í Tröð.[1010] Árið 1899 fjölgaði bátunum aftur um einn svo þeir urðu ellefu.[1011] Í þeim flota var einn áttæringur eins og árið áður en eigandi hans var nú Sveinn Rósinkranzson á Hvilft.[1012] Fjögra manna för voru sex en fjórir af þessum ellefu bátum voru tveggja manna för.[1013] Vera má að ekki sé greint alveg rétt frá fjölda bátanna í hinum opinberu heimildum en þar getur varla skeikað mjög miklu. Ætla má að bátarnir sem reru frá Kálfeyri 1898 og 1899 hafi því verið mun færri en verið hafði 1897. Sé nú gert ráð fyrir að öll fjögra manna för, sem til voru í Mosvallahreppi árið 1899 og um er getið í hinum opinberu skýrslum, hafi róið frá Kálfeyri þá um vorið og líka áttæringur Sveins á Hvilft verður heildartala bátanna þar sjö. Líklegra er þó að Kálfeyrarbátarnir hafi bara verið sex þetta vor því ætla má að Steinþór Jónsson í Dalshúsum, sem átti einn þessara sjö báta,[1014] hafi róið frá Dalssjónum eins og hann gerði vorið 1897.

Formenn á bátunum sex, sem telja má víst að hafi róið frá Kálfeyri vorið 1899, voru þessir: Sveinn Rósinkranzson á Hvilft, Guðmundur Jónsson á Görðum, Kristján Bjarnason á Þórustöðum, Jón Jónasson í Holti, Eyjólfur Jónsson á Kirkjubóli í Valþjófsdal og Jónatan Jensson á Efstabóli.[1015] Aflinn var sem hér segir:

 

Hjá Sveini         2000   þorskar og     600   af öðrum tegundum.

Hjá Eyjólfi        1500          –             750                 –

Hjá Guðmundi  1500          –             700                 –

Hjá Jónatan       1200          –             750                 –

Hjá Kristjáni      1000          –             900                 –

Hjá Jóni             1000          –             900                  –                  [1016]

 

Allir þessir sex formenn, sem ætla má að hafi róið frá Kálfeyri vorið 1899, áttu sjálfir bát, ýmist einir sér eða hálfan á móti öðrum.[1017]

Í opinberum fiskaflaskýrslum eru íbúar Mosvallahrepps sagðir hafa átt 16 báta árið 1900 og 14 árið 1901.[1018] Bjarni Sæmundsson fiskifræðingur, sem kom í Önundarfjörð sumarið 1901, segir hins vegar að þá um vorið hafi Önfirðingar gert út 25 báta[1019] og ber þarna ærið mikið á milli. Vera má að Bjarni telji með báta frá Ingjaldssandi því Sandmenn eru Önfirðingar þó að byggðarlag þeirra sé í Mýrahreppi með norðurströnd Dýrafjarðar. Sú tilgáta dugar þó engan veginn til að skýra muninn á tölunum 14 og 25 svo þarna hljóta að vera einhverjir maðkar í mysunni. Hætt er við að aflatölurnar, sem sýndar eru í opinberum fiskaflaskýrslum frá árunum 1897-1901, séu líka svolítið varhugaverðar en samkvæmt þeim var árlegur heildarafli bátanna í Mosvallahreppi sem hér segir:

 

1897       43.170    fiskar

1898       25.850        –

1899       50.040        –

1900       41.414        –

1901       52.711        –      [1020]

Hér eru allar tegundir sem upp eru gefnar í fiskaflaskýrslunum taldar með. Fróðlegt væri að vita hversu stór hluti þessa afla hefur fengist á Kálfeyri en svör við slíkri spurningu liggja ekki á lausu. Þess má þó geta að árið 1897 var afli bátanna sem reru frá Kálfeyri 32.705 fiskar að öllu meðtöldu (sjá hér bls. 102 og 103) ef marka má taka á hinni opinberu fiskaflaskýrslu. Ársafli allra bátanna í Mosvallahreppi var hins vegar 43.170 fiskar þetta sama ár eins og hér var nýlega nefnt svo Kálfeyrarbátarnir hafa verið með liðlega þrjá fjórðu af heildaraflanum það árið. Tveimur árum síðar virðist hlutdeild þeirra í heildaraflanum hafa verið um 80 %.[1021]

Um hlutaskipti í verstöðinni á Kálfeyri á liðnum öldum skortir ótvíræðar upplýsingar en líklegast er að á sexæringum hafi aflanum verið skipt í átta staði en sums staðar annars staðar á Vestfjörðum og við Breiðafjörð var skipt í sjö staði eða níu.[1022] Í mörgum verstöðvum tíðkaðist lengi sú venja, þegar veitt var á lóðir, að hásetar fengju alveg óskiptan allan þann afla sem kom á stúfinn, það er að segja á þá fáu öngla sem samkomulag hafði orðið um að þetta frávik frá almennri reglu næði til. Á Kálfeyri var eingöngu róið með handfæri uns mjög langt var liðið á nítjándu öldina (sjá hér bls. 97 og 99). Um sérafla af stúf gat því ekki verið að ræða í þessari veiðistöð en þess í stað var tekin upp sú regla að enginn skipshlutur var tekinn af lifrinni.[1023] Sú skipan mála var tvímælalaust á höfð á árunum í kringum aldamótin 1900[1024] og líklegt má kalla að hún hafi verið tekin upp þó nokkru fyrr. Vegna samlíkingar við lóða-stúfinn var einnig talað um stúf-lifur í Önundarfirði.[1025]

Hér hefur nú verið fjallað um ýmsa þætti er tengjast sjósókn frá Kálfeyri á fyrri tíð og kominn tími til að líta nánar á tóttirnar sem hér eru enn sjáanlegar og aðrar mannvistarleifar. Búðatóttirnar á Kálfeyri eru annað hvort 14 eða 15 en álitamál er hvort ein rústin muni vera verbúðartótt eða gamalt fiskstæði. Hugsanlegt er að verbúðirnar hafi um eitthvert skeið verið lítið eitt fleiri því hér hefur orðið dálítið landbrot af sjávargangi og hefur sjórinn brotið framan af veggjum tveggja þeirra búða sem enn standa (18.8.1995). Ólíklegt verður þó að telja að búðirnar hafi nokkru sinni verið fleiri en 15-20 því ekki er kunnugt um að fleiri en 19 bátar hafi róið frá Kálfeyri á einni vertíð (sjá hér bls. 87 og 92-96) og verið getur að stundum hafi tvær skipshafnir verið í einni og sömu búðinni.

Þrjár innstu búðarústirnar eru mjög skammt fyrir utan Kálfá en lækurinn sem svo heitir á upptök sín í mynni Kálfeyrardals eins og hér hefur áður verið nefnt (sjá hér bls. 86). Veggir allra þessara þriggja búða eru orðnir ellilegir og greinilegt að þær hafa ekki verið notaðar síðustu áratugina sem róið var frá Kálfeyri.[1026] Um 150 metrum utar kemur svo fjórða búðarrústin og er hún aðeins hálf því sjór hefur brotið framan af veggjunum. Utan við hana gengur dálítill berggangur fram í fjöruna en utan við hann koma tíu eða ellefu búðatóttir í röð og jafnan mjög stutt á milli. Allar standa þessar búðir á sjávargrundinni innan við Búðanes sem gengur fram rétt utan við ystu búðina og skilur að Kálfeyri og Bjargavík.

Þrjár innstu búðatóttirnar fyrir utan nýnefndan berggang í fjörunni eru allar mjög stæðilegar og sú ysta af þeim virðist unglegust. Líklegt er að hún sé búð Kristjáns Bjarnasonar í Hjarðardal sem var hér síðastur manna við róðra ár eftir ár skömmu fyrir 1930 (sjá hér bls. 95-96 og 107). Þessi búð er líka einna stærst allra búðanna á Kálfeyri en grunnflötur hennar mun vera um það bil 4,5 x 6 metrar. Gólfflötur margra annarra búða á Kálfeyri er 3 x 4 metrar eða því sem næst en sumar þeirra eru nokkru stærri og allt upp í 4 x 6 metra. Skammt utan við búðina sem hér var talin nýlegust er lítill lækur og aðeins ein búð á milli hennar og lækjarins. Í þennan læk hafa vermenn getað sótt allt vatn sem þeir þurftu á að halda. Í innri vegg búðarinnar, sem stendur rétt innan við lækinn, er svolítið útskot og hefur líklega verið notað sem eldstæði. Leifar af fáeinum fiskstæðum eða fiskbyrgjum eru líka sjáanlegar á Kálfeyri en um önnur mannvirki er vart að ræða í þessari fornu veiðistöð.

Hér hefur áður verið minnst á skerið sem liggur hér fyrir landi og heitir Kálfur. Rétt utan við Kálfinn var lendingin (sjá hér bls. 87-88) og þar var yfirleitt gott að lenda. Um hálffallinn sjó og á fjörunni blasir Kálfurinn við en fer í kaf um flæðar.

Dvöl okkar á Kálfeyri lýkur nú senn en áður en haldið verður af stað skulum við minnast þeirra sem fóru héðan í sína hinstu för og hlutu vota gröf. Frá mannskaðanum mikla í Önundarfirði 6. maí 1812 hefur áður verið sagt í þessu riti (sjá hér Mosvallahreppur, inngangskafli) en af bátunum sjö sem þá fórust með allri áhöfn má telja víst að þrír eða fjórir hafi róið frá Kálfeyri. Um fjölda þeirra sem týnt hafa lífi við sjóróðra frá þessari veiðistöð er ekkert hægt að fullyrða en eftir 1812 virðist lítið hafa verið um slysfarir hjá þeim sem héðan reru á vorvertíð Önfirðinga.[1027]

Þrír Önfirðingar drukknuðu í fiskiróðri 25. maí 1871 en þeir reru úr Súgandafirði (sjá hér bls. 93) og lögðu því ekki upp héðan frá Kálfeyri í sína hinstu för. Engir Súgfirðingar drukknuðu í sjó þennan sama dag[1028] svo ætla má að þessir þrír Önfirðingar hafi verið með sinn eigin bát við róðra í Súgandafirði. Einn þeirra var Jón Jónsson, hreppstjóri á Kirkjubóli í Bjarnardal (sjá hér Kirkjuból í Bjarnardal), og líklegt að hann hafi verið formaður.

Í varðveittum heimildum er stöku sinnum getið um slysfarir við sjósókn úr Önundarfirði fyrir 1812. Forgekk áttæringsskip úr Önundarfirði á djúpsjó þann 17. júní 1698, segir til dæmis að taka í annálsgreinum frá Holti og tekið fram að enginn sem á því var hafi komist af.[1029] Áttæringur þessi hefur líklega verið í hákarlalegu því tekið er fram í sömu frásögn að í veðrinu sem honum grandaði hafi mörg skip hrakist með sína hákalla.[1030] Aðfaranótt 2. júní árið 1784 týndu þrír menn lífi hér á Kálfeyri þegar aurskriða féll á eina verbúðina. Frá þeim atburði er sagt með þessum orðum í Vatnsfjarðarannál yngsta:

 

Í sömu sýslu [Ísafjarðarsýslu] gjörði svo mikið hríðarúrfelli nóttina millum þess 1. og 2. júní að víða hlupu skriður úr fjöllum til stórra skemmda. Á Kálfeyri, verstöðu í Önundarfirði, hljóp þá ein skriða úr bökkum ofan yfir eina verbúð. Þar fórust inni 2 menn giftir og 1 ógiftur. Sá fjórði komst lífs út um þakið.[1031]

 

Nú er líka júnínótt og við röltum um fjöruna neðan við búðatóttirnar. Oft var farið snemma í róður. Fórum á sjóinn klukkan 2 um nóttina en komum kl. 8 um kvöldið, skrifar Jón Guðmundsson frá Grafargili í dagbók sína 20. apríl 1888, en hann var þá hér við róðra.[1032] Átján tíma tók sú veiðiferð og þótti víst ekkert lengri en góðu hófi gegndi. Flestum þótti vissara að biðja fyrir sér áður en lagt var í róður. Kunnugur maður, sem fæddur var fyrir aldamótin 1900, sagði Lúðvík Kristjánssyni að í Önundarfirði og Dýrafirði hefðu menn oft farið með sjóferðabæn séra Bjarna Arngrímssonar á Melum í Melasveit við upphaf sjóferðar[1033] en þess má geta að séra Bjarni á Melum var faðir séra Arngríms Bjarnasonar sem um miðbik 19. aldar var um skeið prestur á Stað í Súgandafirði (sjá hér Staður).

Sjóferðabæn séra Bjarna var fyrst prentuð árið 1798.[1034] Hún er löng en byrjar svo:

 

Almáttugi guð. Þú ert sá vísi og góði höfuðskepnanna herra og undir eins minn faðir. Í trausti þinnar náðarríku handleiðslu byrja ég nú, veik og hjálparþurfandi mannskepna þessa hættusömu sjóferð. … [1035]

 

Síðar í bæninni segir:

 

… Banna þú þínum skepnum, vindi og sjó, að granda mínu og vor allra lífi, þá hlýða þær. Gef oss forsjállega að geta séð við öllum fyrirsjáanlegum hættum af blindskerjum, boðum, grynningum og öðru en afvend sjálfur þeim óþekktu. … Bjóð sjávarins afgrunni að opna sitt ríka skaut til að uppfylla vorar nauðþurftir. … En sé það þinn náðugur vilji að þessi reisa skuli verða vor dauðagangur, ó, svo gef mér og oss öllum vel viðbúnum að mæta voru síðasta. … [1036]

 

Vera kann að þessi bæn hafi verið flutt þann 6. maí 1812 framan við landsteinana hér á Kálfeyri, við upphaf þeirrar sjóferðar sem lengst verður í minnum höfð og farin var frá þessari veiðistöð. Þann dag fórust í mannskaðanum mikla nær 50 menn sem allir eða nær allir reru frá Kálfeyri og Sæbólssjó á Ingjaldssandi.

Víða á Vestfjörðum mun bænalestri við upphaf sjóferðar hafa verið hætt á fyrsta áratug 20. aldar en einhver dæmi voru um að þessum gamla sið væri haldið allt fram undir 1960.[1037] Ýmsar fornar siðvenjur sem kenna má við bannhelgi þótti gömlum mönnum sem síðastir reru héðan frá Kálfeyri líka sjálfsagt að virða. Til dæmis að nefna var með öllu bannað að kasta fiski yfir þvert skip[1038] og ef þorskhausar voru breiddir til þerris á malarkambinn varð að gæta þess að láta alla trantana snúa á land upp en tálknin til sjávar.[1039] Öll tálkn til sjóar, voru fyrirmælin sem gamall vermaður á Kálfeyri gaf unglingi sem í fyrsta sinn raðaði hér þorskhausum á kamb vorið 1925.[1040] Með þau orð í eyrum þokum við okkur af stað út fjöruna og stefnum fyrir Sauðanes.

Rétt fyrir utan Kálfeyri er Búðanes sem skagar lítið eitt fram í fjörðinn.[1041] Ætla má að nafn þess eigi rætur að rekja til verbúðanna á Kálfeyri því engar búðir eru á Búðanesi.[1042] Utan við nesið tekur við Bjargavík og nær út að Stóra-Barði en það er hár klettur sem skagar fram í fjöruna.[1043] Ofan við fjörukambinn í Bjargavík eru þverhnípt hamrabjörg sem í daglegu tali eru nefnd Björgin en heita fullu nafni Kálfeyrarbjörg.[1044] Þau eru dökk að lit og setja sterkan svip á landslagið þegar horft er til þeirra úr fjarska. Undir Björgunum, innst í Bjargavík, fórust þrír menn frá Flateyri í snjóflóði þann 27. október haustið 1934.[1045] Þeir hétu Bjarni Sveinn Guðnason, 43ja ára, Gunnar Benediktsson, 41 árs, og Ásgeir Kristjánsson, 20 ára.[1046] Frá þessu hörmulega slysi segir séra Jón Ólafsson svo í prestsþjónustubókinni frá Holti:

 

Þessir þrír menn fóru í aftaka stórhríð að leita fjár út á Sauðanes og fórust í snjóflóði sem féll úr svonefndu Búðagili. Lík Bjarna og Ásgeirs fundust nóttina eftir í flæðarmáli út á Búðanesi. Gunnar var kvæntur systur Bjarna en Ásgeir var bróðursonur Bjarna. Lík Gunnars fannst rekið úr sjó 10.nóvember sama ár, skammt frá því sem hin líkin fundust.[1047]

 

Annað slys varð á þessum slóðum 111 árum fyrr, nánar til tekið þann 5. október árið 1823.[1048] Fjórir menn, sem allir voru á sama bátnum, týndu þá lífi undir Kálfeyrarbjörgum og var talið líklegast að þeir hefðu farist á landboða.[1049] Mennirnir fjórir voru þessir: Jón Andrésson, 24 ára vinnumaður á Hvilft, Sigurður Þórðarson, 26 ára lausamaður á Flateyri, Jón Jónsson 26 ára vinnumaður á Flateyri, og Andrés Guðmundsson, 27 ára vinnumaður á Hvilft.[1050] Sá síðast nefndi var sonur Guðmundar Jónssonar á Selakirkjubóli sem týndi lífi í mannskaðanum mikla vorið 1812.[1051]

Þegar 100 ár voru liðin frá drukknun Jóns Andréssonar og félaga hans undir Kálfeyrarbjörgum kunni Jón Jónasson á Þórustöðum, sem fæddur var 14. janúar 1851, frá því að segja að þessir ungu menn hafi verið að koma úr sköturóðri og róið í myrkri upp á Flöguna, innarlega undir Björgum.[1052]

Búðagil er beint upp af Búðanesi og því rétt utan við Kálfeyri.[1053] Nokkru utar er Deildargil sem nær alveg upp á fjallsbrún og þar fyrir utan Svaðsgil sem nær ekki nema upp undir klettaufsirnar í fjallinu.[1054] Innri-Ófæra, sem svo heitir, í fjörunni undir Björgunum er niður af Deildargili eða því sem næst.[1055] Fyrir hana er nær alltaf auðvelt að komast en verður þó ófært á stórstraumsflæði.[1056] Ytri-Ófæra er niður undan Svaðsgili og fyrir hana er yfirleitt hægt að komast um hálffallið og eitthvað lengur.[1057] Þeir sem koma að Ytri-Ófæru þegar háflæði er í nánd þurfa varla að bíða lengur en tvo klukkutíma eða svo eftir því að fært verði fyrir klettinn og enn styttri tíma ef ekki er stórstreymt.[1058] Kæmu menn innan að gátu þeir séð á Kálfinum, skerinu fram undan Kálfeyri, hvort fært væri fyrir Ytri-Ófæruna.[1059] Væri útfall og Kálfurinn farinn að sjást mátti treysta því að unnt yrði að komast fyrir hana og fjöruleiðin undir Björgum væri fær.[1060] Þeir sem komu að utan áttu hins vegar vísa greiða leið undir Björgunum ef þannig stóð á sjó að fært væri fyrir Stóra-Barð, sem áður var nefnt, og er við ytri endann á Bjargavík.[1061] Þeir sem gengu fyrir Sauðanes þræddu líka oft kindagötu ofan við Björgin. Var það talin sæmilega örugg sumarleið en stundum gat þó verið nokkuð erfitt að komast yfir Svaðsgilið því þar má heita að gatan hverfi.[1062] Að vetrarlagi ættu ókunnugir að velja fjöruna því oft eru svellalög á efri leiðinni og geta menn þá hrapað fyrir björg ef óvarlega er farið. Snjóflóðahætta er líka mikil á allri leiðinni frá Kálfeyri að Sauðanestá.[1063]

Þess var áður getið að Bjargavík endi við Stóra-Barð, klett sem gengur alllangt fram í fjöruna. Nokkru innar en utarlega í víkinni er annar klettur sem heitir Litla-Barð.[1064] Að honum er þó enginn farartálmi því hann nær aðeins mjög skammt fram í fjöruna. Fyrir Stóra-Barð verður aftur á móti ófært á hverri flæði[1065] en vegfarendur þurfa þó aldrei að bíða lengi eftir því að fært verði fyrir klettinn.

Brúskulág heitir hvolf í fjallinu upp af miðjum Björgum og er þar klettalaust alveg upp á efstu brún.[1066] Ofan við Stóra-Barð eru hins vegar Barðsurðir og innst í þeim eða rétt innan við þær er graslendi sem nefnt er Gilsteigur.[1067] Í Barðsurðum var landið áður viði vaxið og þar var skógarteigurinn sem kirkjunni á Kirkjubóli í Valþjófsdal var gefinn árið 1470 (sjá hér bls. 88 og bls. 6-7). Í byrjun 18. aldar var þessi kjarrskógur hér í urðunum gjöreyddur fyrir löngu að sögn þeirra Önfirðinga sem Árni Magnússon hitti að máli sumarið 1710.[1068]

Við Stóra-Barð, sem er yst í Bjargavík, er gott að nema staðar og hvíla lúin bein. Klettur þessi, sem fyrr var nefndur, er láréttur að ofan og báðar hliðar hans sléttar sem veggur.[1069] Um klettabríkina Stóra-Barð var sagt að það væri annar endinn á brú sem tvær tröllkonur höfðu ætlað sér að byggja yfir Önundarfjörð.[1070] Sú þeirra sem bjó í Sauðanesinu byrjaði svo myndarlega hér að norðanverðu[1071] en hin, sem átti heima handan fjarðarins, hafði rétt lokið við að hlaða upp bergganginn Hlein, í fjörunni undir Sporhamri innan við Mosdal, þegar hana dagaði uppi (sjá hér Mosdalur).

Skammt fyrir utan Bjargavík og Barðsurðir taka við grasi grónir geirar sem ná milli fjalls og fjöru. Allt þetta svæði, frá Barðsurðum og út á Hvannakraleiti, heitir Hvannakrar en rétt utan við nýnefnt leiti er Breiðagil.[1072] Upp af Hvannökrum eru tvö skörð eða slakkar í fjallsbrúninni og eru nefnd Ytra- og Innra-Hvannakraskarð[1073] en klettaufsirnar neðan við fjallsbrúnina heita Hvannakraufsir.[1074] Á Hvannökrum er öll fjallshlíðin vafin gróðri og sumarbeit fyrir sauðfé eins og best verður á kosið. Hér er víðast hvar nokkuð bratt en svolítið undirlendi á brúninni ofan við háa sjávarbakka þar sem nú heitir Hvannakratún.[1075] Þangað er aðeins 15 mínútna gangur eða því sem næst úr fjörunni við Stóra-Barð.

Ólafur Olavius, sem ferðaðist um Vestfirði sumarið 1775, segir Hvannakra vera fornt eyðibýli[1076] og séra Tómas Sigurðsson í Holti, sem ritaði sóknalýsingu árið 1840, kannaðist við sögur af því tagi.[1077] Vel er hugsanlegt að búið hafi verið á Hvannökrum um eitthvert skeið í fyrndinni en engar heimildir liggja fyrir sem skorið geti úr um hvort svo hafi verið. Í Jarðabókinni frá 1710 eru Hvannakrar ekki sagðir vera eyðibýli. Þar er hins vegar frá því greint að hér hafi á árum áður verið verstaða en hana hafi enginn notað eftir 1660.[1078] Í Jarðabókinni er þetta orðað svo:

 

Hvannakrar heitir örnefni út með sjónum fyrir utan Kálfeyri og eru þar björg á milli. Þar hefur áður að fornu verstaða verið og gengið fáein, 2 eður 3, skip og galt hver maður sem á skipunum reru einn fiskafjórðung í vertoll. Lending var hér stórgrýtt og brimsöm og því hefur þessi verstaða ekki brúkast í næstu 50 ár. Tollana tók Eyrareigandi.[1079]

 

Ef marka má þessar upplýsingar úr Jarðabókinni hefur tollurinn sem greiddur var af hverjum vermanni verið helmingi lægri á Hvannökrum en á Kálfeyri á 17. öld (sbr. hér bls. 89). Skýring á því gæti m.a. verið sú að hér var lendingin mun ótryggari. Eftir 1660 mun aldrei hafa verið róið frá Hvannökrum.

Hér úti á Sauðanesinu þótti löngum gott til beitar fyrir sauði, bæði sumar og vetur, og allar líkur benda til þess að stærsta tóttin sem nú er sjáanleg á Hvannökrum sé gamalt sauðabyrgi. Hér verður síðar vikið nánar að tóttunum sem enn sjást á þessum stað en fyrst er vert að minna á að bændur á Eyri og á Hvilft létu fólk sitt stundum heyja hér út frá. Staðfest dæmi um þetta má nefna frá sumrinu 1846 en þá lét Magnús Einarsson, bóndi á Hvilft, heyja á Hvannökrum (sjá hér Hvilft). Hvilftarmenn höfðu þá ekki sent hingað fólk til heyskapar í allmörg ár og þegar Magnús hófst handa sumarið 1846 vefengdu eigendur Eyrar rétt hans til þessara slægna. Úr varð dómsmál sem frá er sagt á öðrum stað í þessu riti (sjá hér Hvilft). Niðurstaða í því máli varð sú að forn beitarréttindi Hvilftarmanna á Sauðanesi og hlutdeild þeirra í tekjum af vertollum frá Kálfeyri voru viðurkennd en áður en dómur var kveðinn upp féllst Magnús á að sleppa öllu tilkalli til slægna og reka á nesinu.

Óvíst er nú hversu oft var heyjað á Hvannökrum á nítjándu öld en tvímælalaust er að Snorri Sigfússon, sem var skólastjóri á Flateyri frá 1912 til 1929, var hér við heyskap sumarið 1913. Frá því segir hann sjálfur í öðru bindi ritverksins Ferðin frá Brekku.[1080] Snorri átti þá hálfa kú á móti Halldóri Georg Stefánssyni, sem þá var læknir á Flateyri, og þurfti að afla fóðurs fyrir hana. Um miðjan júlí átti skólastjórinn að mæta til starfa við síldarmat norður á Siglufirði og þurfti því að ljúka við heyskapinn fyrir 12. júlí[1081] sem ekki var einfalt mál því víðast hvar var lítið um gras í slægjulöndum svo snemma sumars. Sjálfur segir Snorri frá á þessa leið:

 

Tók ég nú að íhuga möguleika á að ná í slægjur er snemmsprottnar kynnu að vera og færði þetta í tal við Ásbjörn gamla garðyrkjumann. … Þótti honum einsætt að hvergi myndi svo sprottið í júnílok að gerandi væri að ná þar upp heyi nema úti á Hvannökrum. Þar myndi áreiðanlega vera vellandi gras innanum skriðurnar, enda væri þar gamalt sauðabyrgi og því gömul rækt í jörð. Þar hefði stundum verið heyjað lítilsháttar en fyrir löngu hætt sökum erfiðleika að ná heyi þaðan. Samt væri þetta áreiðanlega reynandi.[1082]

 

Í kringum 20. júní fóru þeir Snorri og Ásbjörn garðyrkjumaður út á Hvannakra að skoða sprettuna og sýndist þeim báðum að þarna væri hægt að ná allt að því 2/3 kýrfóðurs ef vel væri að unnið.[1083] Fáum dögum seinna byrjaði Snorri svo slátt hér á Hvannökrum við annan mann en hinn sláttumaðurinn var Ólafur Árnason, kaupmaður á Flateyri,[1084] sem hér hefur áður verið nefndur (sjá hér Flateyri). Lágu þeir við í 3 daga en síðan var heyið flutt á báti inn á Flateyri og þurrkað þar.[1085] Árið 1915 heyjaði Snorri aftur á Hvannökrum[1086] og vera má að enn síðar hafi verið borinn hér ljár í gras. Hér á vestanverðu Sauðanesi liggur öll fjallshlíðin mjög vel við sól og í norðan- og norðaustanátt er hér ágætt skjól af fjallinu sem má heita að sé óslitinn veggur, innan frá Klofningsdal og út á ysta annes. Gera má ráð fyrir að þetta tvennt valdi mestu um gróðursældina á þessum slóðum.

Hér var áður minnst á hinar fornu tóttir sem enn halda velli á Hvannökrum. Allar eru þær í Hvannakratúni sem svo er nefnt, mjög skammt ofan við brún sjávarbakkanna þar sem landið er best gróið. Stærsta tóttin er hringlaga og ummálið liðlega 40 metrar. Fullvíst má telja að þetta séu rústir af sauðabyrgi en þau voru yfirleitt hringlaga og sjást slíkar tóttir allvíða á Vestfjörðum þar sem sauðir gengu á beit að vetrarlagi. Skammt frá þessari stóru tótt eru þrjár aðrar sem allar eru miklu minni. Ein þeirra er nálægt því að vera hringlaga og ummál hennar er um það bil 15 metrar. Hinar tvær eru átta til tólf fermetrar að flatarmáli og gætu það verið verbúðatóttir (sbr. hér bls. 115).

Allar þessar tóttir á Hvannökrum eru enn mjög greinilegar en engin þeirra bendir sérstaklega til þess að hér hafi í fyrndinni staðið bær eins og Ólafi Olaviusi var sagt þegar hann ræddi við Önfirðinga sumarið 1775 (sjá hér bls. 115). Samt sem áður virðist hyggilegast að útiloka hvorki eitt né neitt í þeim efnum en hafi einhverju sinni verið búið á Hvannökrum er nú orðið býsna langt síðan.

Skammt utan við túnið er Leitið eða Hvannakraleiti sem við höfum lengi haft fyrir augum á þessari gönguför fyrir Sauðanes. Frá hinum vallgrónu tóttum ofan við sjávarbakkana færum við okkur nú aftur niður í fjöruna. Það fellur út og bráðum komin háfjara. Nær beint fram undan hinum fornu tóttum stendur allstór steinn upp úr sjónum, mjög skammt frá landi. Hann er á gömlu róðrarleiðinni út með Sauðanesi og var jafnan talinn varasamur því yfir hann fellur á hverri flæði.[1087] Steinninn heitir Þormóður og segir sagan að hann beri nafn vinnupilts sem forðum daga þjónaði bóndanum á Hvannökrum.[1088] Piltur þessi komst í kærleika við dóttur húsbónda síns og varð hún þunguð af hans völdum. Þessu reiddist faðir hennar svo mjög að hann réðst á Þormóð og náði að færa hann í bönd.[1089] Bandingjann flutti hann síðan út á steininn og reyrði hann þar fastan. Þegar sjór féll að færðist pilturinn í kaf en mátti sig hvergi hræra.[1090] Lét hann þar líf sitt en nafn hans færðist yfir á steininn.[1091]

Vegalengdin frá Kálfeyri út að Hvannökrum mun vera tæplega tveir kílómetrar en frá Hvannökrum eru liðlega fjórir kílómetrar út að hreppamörkunum við Gathamar sem er í nánd við ystu tá á Sauðanesinu en þó hérna megin við hana. Á leiðinni frá Hvannökrum að Gathamri og fyrir Sauðanes er sjálfsagt að fylgja fjörunni.

Fram undan Hvannakraleitinu og rétt utan við það eru skammt undan landi nokkur sker sem koma sjaldan upp.[1092] Innst þeirra er Hlóðaflaga, þá Ketilsskerin og þar fyrir utan Breiðagilsflaga.[1093] Rétt utan við Hvannakraleiti er gil í fjallinu og heitir Breiðagil.[1094] Skerið Breiðagilsflaga er aðeins spölkorn fyrir utan gilið.[1095] Fyrir utan Breiðagil eru í fjallshlíðinni grasteigar sem nefndir eru Klofteigar.[1096] Á móts við miðja Klofteigana komum við að Drangsvík sem er allstór bugur hér við ströndina, kenndur við stakan klettadrang sem stendur upp úr sjó.[1097] Áin sem fellur í Drangsvík heitir Hundsá.[1098] Hún kemur ofan úr fjalli og fellur um klettastalla sem heita Hundsárskorur.[1099] Þetta er eina áin sem stendur undir nafni á leiðinni fyrir Sauðanes og er stundum nokkuð vatnsmikil. Ofan við fjöruna fellur hún í boga fram af allhárri bakkabrún. Sé flæði í nánd eða lítið fallið út sleppa menn aðeins naumlega fram hjá bununni án þess að vökna því svo má heita að áin falli þá í fossi beint niður í flæðarmálið. Grasteigur í fjallshlíðinni, skammt utan við Hundsá, heitir Bolateigur[1100] og uppi á fjallsbrúninni, ofan við Hundsá, er allmikið graslendi.[1101] Þetta graslendi er stórþýft á kafla og nær frá Hundsárdrögum út á ystu brún Sauðaness.[1102]

Eins og fyrr var nefnt fellur Hundsá til sjávar í Drangsvík. Skerin utan við víkina heita Mossker en leitið í hlíðinni þar fyrir utan heitir Mosskerjakambur.[1103] Hærra í fjallinu eru svo Mosskerjaufsir.[1104] Frá Flateyri sést út á Mosskerjakamb, að minnsta kosti frá Brimnesvegi sem er utantil á eyrinni.[1105]

Við Mosskerin eða innantil við þau strandaði togarinn Júní frá Hafnarfirði í aftakaveðri 1. desember 1948, sama dag og breski togarinn Sargon frá Grimsby strandaði undir Hafnarmúla innan við Örlygshöfn við vestanverðan Patreksfjörð. Björgunarsveit frá Suðureyri og skipverjum á togaranum Ingólfi Arnarsyni tókst að bjarga allri skipshöfninni á Júní en þessi ágæti togari frá Hafnarfirði liðaðist sundur hér í brimgarðinum. Sumarið 1994 mátti enn sjá járn úr honum í fjörunni innan við Mossker.

Síðasta spölinn á langri gönguferð um hinn forna Mosvallahrepp röltum við með sjó fram í Gathamarsvík en hún nær frá Mosskerjum að Gathamri.[1106] Í hlíðinni ofan við víkina skiptast á grasteigar og skriðurunnin gil en svipsterk hamrabelti prýða fjallið hið efra. Hér yst á Sauðanesi er hlíðin brött, enda heita teigarnir ofan við Gathamarsvíkina Bröttuteigar.[1107] Enn hærra í fjallinu og beint upp af Bröttuteigum eru svo Stútteigar er svo hafa verið nefndir vegna þess að þeir eru flöskulaga og snúa stútarnir upp.[1108]

Í fjörunni rétt utan við Gathamarsvík er sjálfur Gathamarinn en það er stór klettur sem áður bar nafn með réttu því þá var á honum stórt gat sem menn gátu farið í gegnum.[1109] Á árunum kringum aldamótin 1900 náði sjórinn hins vegar að brjóta það mikið úr klettinum að gatið hvarf.[1110]

Við Gathamar eru landamerkin milli Eyrar í Önundarfirði og Staðar í Súgandafirði og hreppamörk milli hins forna Mosvallahrepps og Suðureyrarhrepps.[1111] Mörkin milli hreppanna tveggja hafa að líkindum verið hér allt frá því að landinu var skipt í slíkar einingar á tíundu eða elleftu öld. Í vísitazíugerð Brynjólfs biskups Sveinssonar frá árinu 1639 stendur skýrum stöfum að prestssetrið Staður í Súgandafirði eigi land millum Dalsár og Gathamars[1112] og í annarri vísitazíugerð frá árinu 1689 er þess getið að Skálholtsstiftis prestagarða registur frá árinu 1583 segi Stað í Súgandafirði eiga land millum Dalsár og Gathamars.[1113] Hér er því ekki um að villast. Annað mál er það að um miðbik nítjándu aldar virðist þó nokkur ruglingur hafa verið kominn á hugmyndir manna um þessi landamerki og mörk hreppanna. Í lýsingu Staðarsóknar í Súgandafirði frá árinu 1839 segir séra Andrés Hjaltason á Stað að hreppamörkin séu við Gathamar en lætur þess jafnframt getið að sumir telji þau vera við Mossker[1114] sem hér hafa áður verið nefnd. Séra Tómas Sigurðsson í Holti fullyrðir aftur á móti í sinni sóknalýsingu, sem skrifuð var árið 1840, að mörkin séu við Sauðanestá.[1115] Þeir Torfi Halldórsson á Flateyri og séra Janus Jónsson í Holti virðast líka hafa verið sömu skoðunar og séra Tómas um þetta. Í landamerkjalýsingu, sem þeir skrifuðu undir 6. júní 1891 og þinglýst var 13. febrúar 1892, segir að merkin milli Eyrar og Staðar séu í Rauf á Sauðanesi og þaðan eins og nesið gengur lengst út til sjávar.[1116] Örnefnið Rauf, sem þarna er nefnt, má rekja til máldaga Staðarkirkju frá árinu 1324 en þar segir að kirkjan á Stað eigi reka millum Dalsár og Raufar.[1117] Um Raufina sem þarna er nefnd er fjallað hér nánar á öðrum stað (sjá hér Staður í Súgandafirði).

Við Gathamarinn var löngum talið reimt og þegar Magnús Hjaltason var að alast upp í Hestþorpinu á árunum kringum 1880 fékk hann að heyra hjá fóstru sinni sem fædd var árið 1822 þessa sögu:

 

Kona ein fátæk var í Önundarfirði. Hún átti barn, stálpað nokkuð. Hún fór kynnisför til Súgandafjarðar „til að reita sér”. Það var að haustlagi og kominn snjór mikill til fjalla. Gekk konan því fyrir Sauðanes. Barn hennar var með henni. Konan varð naumt fyrir og var komið niðamyrkur er hún kom að Gathamrinum. Lét hún því fyrirberast undir hamrinum, í gatinu, um nóttina. Þar hjúfraði hún barnið að sér og sofnaði það skjótt. En svo hafði konan síðar frá sagt að þetta hefði verið hin leiðinlegasta nótt sem hún hefði lifað. Hefðu svipir ýmsra er drukknað hefðu umhverfis Sauðanesið ásótt sig og látið öllum illum látum, skælt sig og hrist, sumir höfuðlausir og sumir handleggjalausir og sumir þá fótalausir en sér hefði viljað til að barnið hefði sofið. Um dægramótin hurfu ósköpin. Konan vakti þá barnið og hélt svo áfram til Súgandafjarðar og sagði sína för ekki slétta.[1118]

 

Frá Gathamri er skammur spölur að ystu tánni á Sauðanesi þar sem strandlengjan sveigir til norðausturs og síðan áfram inn með Súgandafirði.Frá hreppamörkunum við Gathamar eru um það bil sex kílómetrar að Stað, fyrsta bænum sem komið er að í Súgandafirði þegar gengið er fyrir Sauðanes. Nú hallar sumri og orðið skuggsýnt því langt er liðið á kvöld. Við flýtum því för okkar heim að Stað og látum skeika að sköpuðu en munum síðar velja bjartan dag til að skoða strönd og hlíð á þessari sömu gönguleið.

 

 

 

 

 

 

– – – – – – – – – – o o o o o – – – – – – – – – –

[1] Íslensk fornrit I, 186.

[2] Snorri Sigfússon 1969 II, 104.

[3] María Jóhannsdóttir. – Viðtal K.Ó. við hana 5.7.1995.  Sbr. Kristján G. Þorvaldsson 1951, 64.

[4] María Jóhannsdóttir. – Viðtal K.Ó. við hana 5.7.1995.

[5] Jóhanna G. Kristjánsdóttir. – Viðtal K.Ó. við hana 5.7.1995.

[6] Gunnlaugur Finnsson. – Viðtal K.Ó. við hann 5.7.1995.

[7] María Jóhannsdóttir. – Viðtal K.Ó. við hana 5.7.1995.

[8] Sama heimild.

[9] María Jóhannsdóttir. – Viðtal K.Ó. við hana 5.7.1995.

[10] Sama heimild.

[11] Sama heimild.

[12] Ólafur Þ. Kristjánsson / Önfirðingar. Sbr. hér bls. 22-25.

[13] Sama heimild.

[14] Kristján G. Þorvaldsson 1951, 64.

[15] Gunnlaugur Finnsson. – Viðtal K.Ó. við hann 5.7.1995.

[16] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[17] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.  Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Mosv.hr. 5. Hreppsbók 1883-1912.

[18] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[19] Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns VII, 125. J. Johnsen 1847, 196.

[20] Kristján G. Þorvaldsson 1951, 62.

[21] Snorri Sigfússon 1969 II, 55 og 103.

[22] Jarðab. Á. og P. VII, 126.

[23] Kristján G. Þorvaldsson 1951, 64.

[24] Einar Oddur Kristjánsson. – Viðtal K.Ó. við hann 5.7.1995.

[25] Jarðab. Á. og P. VII, 126.

[26] Sama heimild.

[27] Kristján G. Þorvaldsson 1951, 64.

[28] Jarðab. Á. og P. VII, 126.

[29] Sama heimild.

[30] Kristján G. Þorvaldsson 1951, 64.

[31] Jarðab. Á. og P. VII, 126.

[32] Ólafur Olavius 1964 I, 177-180.

[33] Sama heimild, 178.

[34] Sama heimild.

[35] Jarðab. Á. og P. VII, 127.

[36] Rtk. Jarðabækur V. 16, Ísafj.sýsla 1805.

[37] Jarðab. Á. og P. VII, 125-126.

[38] Sama heimild.

[39] Sama heimild.

[40] Rtk. Jarðabækur V. 16, Ísafj.sýsla 1805.

[41] Sama heimild.

[42] Jarðab. Á. og P. VII, 125.

[43] Rtk. Jarðabækur V. 16, Ísafj.sýsla 1805.

[44] Sama heimild.

[45] Sama heimild.

[46] Sama heimild.

[47] Sóknalýsingar Vestfjarða II, 101.

[48] Fasteignamatsskjöl. Gjörðabók undirmatsnefndar í V-Ís., löggilt 26.3.1919, bls. 192. Gjörðabók

fasteignamatsnefndar í V-Ís., löggilt 9.3.1916, bls. 89.

[49] Sömu heimildir.

[50] Kristján G. Þorvaldsson 1951, 64.

[51] D.I. IV, 683-692.

[52] D.I. V, 215-217 og XI, 17-19.

[53] Sömu heimildir.

[54] Sömu heimildir.

[55] D.I. VI, 141-142.

[56] Sama heimild.

[57] D.I. V, 579-580.

[58] D.I. V, 579-580.

[59] D.I. XV, 574.

[60] Jarðab. Á. og P. VII, 96.

[61] Sama heimild.

[62] D.I. VIII, 772-773 og 775-777.

[63] Sama heimild, 776.

[64] D.I. VI, 509-510.

[65] D.I. XV, 572.

[66] D.I. XI, 739.

[67] Sama heimild.

[68] Íslenskar æviskrár V, 265-266.

[69] D.I. XI, 739.

[70] Sveinn Níelsson 1950, 193.

[71] Alþingisbækur Íslands II, 250.

[72] Ísl. æviskrár IV 57-59.

[73] Ísl. æviskrár IV, 58.

[74] Sama heimild I, 174.

[75] Rtk. I. 4. Jarðaskjöl úr Ísafj.sýslu, skjal nr. 17.

[76] Sama heimild.

[77] Sama heimild.

[78] Menn og menntir IV, 610-611.

[79] Sama heimild.

[80] Ísl. æviskrár I, 18-19.

[81] Lbs. 7974to, Jarðaskrá úr Ísafj.sýslu 1658.

[82] Lbs. 7974to, Jarðaskrá úr Ísafj.sýslu 1695.

[83] Jarðab. Á. og P. VII, 123-125.

[84] Ísl. æviskrár V, 46-47.

[85] Manntal 1762.

[86] Ólafur Þ. Kristjánsson 1948, 65 (Frá ystu nesjum IV).

[87] Sama heimild, 65-68.

[88] Sama heimild.  Sóknarskjal Magnúsar Einarssonar á Hvilft í máli hans frá árunum 1851 og 1852 gegn

eigendum Eyrar. Skjalið er óundirritað og ódagsett en af efni þess má ráða að það er samið árið 1851.

Skjalið er varðveitt hjá Gunnlaugi Finnssyni á Hvilft.  Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Mosv.hr. 1. Hreppsbók

1786-1819.

[89] Sama Sóknarskjal.

[90] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. IV. 10. Dóma- og þingbók 1848-1854, aukaþing í Holti 31.1.1852.

[91] Fasteignamatsskjöl. Gjörðabók undirmatsnefndar í V-Ís., löggilt 26.3.1916, bls. 192.

[92] Fasteignamatsskjöl. Gjörðabók undirmatsnefndar í V-Ís., löggilt 26.3.1916, bls. 192.  Sbr. Ól. Þ. Kr.   1948, 65-68 (Frá ystu nesjum IV).

[93] Rtk. 2. 1. Stríðshjálpin 1681.

[94] Manntöl 1703 og 1762. Bændatöl og skuldaskrár 1720-1765, eftirrit, Ísafj.sýsla um 1735.  Jarða- og

bændatöl 1752-1767, Ísafj.sýsla 1753.

[95] Jarðab. Á. og P. VII, 125.

[96] Manntöl 1801, 1835, 1840, 1845, 1850, 1855, 1860, 1870 og 1880.  Rtk. Jarðabækur V. 16. Ísafj.s. 1805.

[97] Manntal 1816.

[98] J. Johnsen 1847, 196.  Sbr. Manntöl 1845 og 1850.

[99] Lbs. 7974to, Jarðaskrár úr Ísafj.sýslu frá árunum 1658 og 1695. Jarðab. Á. og P. VII, 125.

[100] Jarða- og bændatöl 1752-1767, Ísafj.sýsla 1753.

[101] J. Johnsen 1847, 196.

[102] Lbs. 7974to, Jarðaskrár úr Ísafj.sýslu frá árunum 1658 og 1695.  Rtk. Jarðabækur V. 16, Ísafj.sýsla 1805.

Jarðab. Á. og P. VII, 125.  Jarða- og bændatöl 1752-1767, Ísafj.sýsla 1753.  J. Johnsen 1847, 196. Rtk. 2.1. Stríðshjálpin 1681.

[103] Þorvaldur Thoroddsen / Lýsing Íslands III, bls. 46.

[104] Rtk. 2. 1. Stríðshjálpin 1681.

[105] Vestfirskar sagnir III, 69.

[106] Manntal 1703.

[107] Jarðab. Á. og P. VII, 125.

[108] Annálar III, 378-379.

[109] Sama heimild.

[110] Sama heimild.

[111] Sama heimild.

[112] Annálar III, 378-379.

[113] Manntal 1703.

[114] Sama heimild.

[115] Sama heimild.

[116] Sama heimild.

[117] ÍB 144to, Ættatölubækur Jóns Espólín, dálkur 5332 og 5333.

[118] Manntal 1703.

[119] ÍB 144to, Ættatölubækur Jóns Espólín, dálkur 5333.

[120] Jarðab. Á. og P. VII, 125.

[121] Jarðab. Á. og P. VII, 125.

[122] Bændatöl og skuldaskrár 1720-1765, eftirrit, Ísafj.sýsla 1735.

[123] Sama heimild.

[124] Jarða- og bændatöl 1752-1767, Ísafj.sýsla 1753.

[125] Sama heimild.

[126] Sama heimild.

[127] Sama heimild.

[128] Ól. Þ. Kr. 1948, 81-83.  Sami 1949, 97-98 (Frá ystu nesjum IV og V.).

[129] Ól. Þ. Kr. 1948, 81-82.

[130] Sama heimild.  Manntal 1762.

[131] Ól. Þ. Kr. 1948, 81-82.

[132] Sama heimild.

[133] Sbr. sama heimild.

[134] Manntal 1762.

[135] Manntal 1762.

[136] Ól. Þ. Kr. 1948, 83 (Frá ystu nesjum IV).  Manntal 1816, 695.

[137] Manntal 1762.

[138] Sama heimild.

[139] Sama heimild.

[140] Sama heimild.

[141] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[142] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Mosv.hr. 1. Hreppsbók 1786-1819.  Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[143] Prestsþj.b. Holts í Önundarf.

[144] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Mosv.hr. 1. Hreppsbók 1786-1819.

[145] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Mosv.hr. 1. Hreppsbók 1786-1819.

[146] Sama heimild.

[147] Sama heimild.

[148] Sama heimild.

[149] Sama heimild.

[150] Sama heimild.

[151] Ól. Þ. Kr. 1948, 63 (Frá ystu nesjum IV).

[152] Manntal 1801.

[153] Ísl. æviskrár II, 43-44.

[154] Ól. Þ. Kr. 1948, 65 og 67 (Frá ystu nesjum IV).  Manntal 1816, bls. 668.  Manntal 1801, vesturamt, bls. 289.

[155] Manntal 1801, vesturamt, bls. 289.

[156] Ól. Þ. Kr. 1948, 65.

[157] Sama heimild.

[158] H. Henkel 1799, tafla sem fylgir bls. 68 í ritlingi hans Nödvendig Replik ……. (sjá hér Þingeyri).

[159] Sama heimild.

[160] Rtk. Jarðabækur V. 16, Ísafj.sýsla 1805.

[161] Rtk. Jarðabækur V. 16, Ísafj.sýsla 1805.

[162] Manntal 1801.

[163] Ól. Þ. Kr. 1948, 67-68 (Frá ystu nesjum IV).

[164] Sama heimild.

[165] Sama heimild.

[166] Manntal 1801.

[167] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[168] Sama heimild.

[169] Ól. Þ. Kr. 1948, 65-66.

[170] Annáll nítjándu aldar I, 12-13.

[171] Sama heimild, 25-26.

[172] VA. Bréfabók amtmannsins í vesturamti 25.11.1804 – 21.12.1805. Mál nr. 136 árið 1805.

[173] Sóknarm.tal Holts í Önundarf. frá árinu 1808.

[174] Ól. Þ. Kr. 1948, 66 (Frá ystu nesjum IV). Sbr.  Rtk. Jarðabækur V. 16, Ísafj.sýsla 1805.

[175] Ól. Þ. Kr. 1948, 66.

[176] Sama heimild.

[177] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[178] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Mosv.hr. 1. Hreppsbók 1786-1819.

[179] Annáll nítjándu aldar I, 117-118.

[180] Ól. Þ. Kr. 1948, 69-73.

[181] Sama heimild.

[182] Sama heimild.

[183] Ól. Þ. Kr. 1948, 69-73 (Frá ystu nesjum IV).

[184] Manntal 1816.

[185] Ól. Þ. Kr. 1948, 69-73.

[186] Sama heimild.

[187] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Mosv.hr. 1. Hreppsbók 1786-1819.

[188] Manntal 1816.

[189] Manntal 1801, vesturamt, bls. 289.

[190] Ól. Þ. Kr. 1948, 66-67.

[191] Sama heimild.

[192] Sama heimild.

[193] Sama heimild, 65-78.

[194] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Mosv.hr. 1. Hreppsbók 1786-1819.

[195] Manntal 1816.

[196] Sama heimild.

[197] Prestsþj.b. Holts í Önundarf.

[198] Sama heimild.

[199] ÍB 7838vo, Bændaríma kveðju Anno 1815.

[200] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Mosv.hr. 2., 3. og 4. Hreppsbækur 1819-1835, 1835-1847 og 1849-1883.

[201] Ól. Þ. Kr. 1948, 65-78 (Frá ystu nesjum IV).

[202] Sama heimild.

[203] Sama heimild.

[204] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1, búnaðarskýrsla Mosv.hr. 1821.

[205] Sama heimild.

[206] Sama heimild.

[207] Sama heimild.

[208] Sama heimild.

[209] Sama heimild.

[210] Sama askja búnaðarsk. Mosvhr. 1830 og 1834.  VA III, 407, búnaðarskýrslur 1837.

[211] Sömu heimildir.

[212] Ól. Þ. Kr. 1948, 67-69 (Frá ystu nesjum IV).

[213] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Mosv.hr. 3. Hreppsbók 1835-1847 og 4. Hreppsbók 1849 og 1883.  Sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[214] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[215] Sama heimild.

[216] Ól. Þ. Kr. 1948, 67-69 (Frá ystu nesjum IV).  Manntal 1845, vesturamt, bls. 282.

[217] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[218] Sama heimild.

[219] Ól. Þ. Kr. 1948, 67-69.  Manntal 1845, vesturamt, bls. 282.

[220] Manntal 1845.

[221] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Mosv.hr. 4. Hreppsbók 1849-1883.  Sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[222] Sama hreppsbók.

[223] Sama hreppsbók.

[224] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[225] Sama heimild.

[226] Sama heimild.

[227] Ól. Þ. Kr. 1948, 68-69.

[228] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[229] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[230] Sama heimild.

[231] Ól. Þ. Kr. 1948, 68-69.

[232] Ól. Þ. Kr. 1948, 68-69 (Frá ystu nesjum IV).

[233] Sama heimild.

[234] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[235] Ól. Þ. Kr. 1948, 68-69.

[236] VA III, 412, búnaðarskýrslur 1850.

[237] Sama heimild.

[238] VA III, 417, búnaðarskýrslur 1860.

[239] Sama heimild.

[240] VA III, 412, búnaðarskýrslur 1850.

[241] VA III, 417, búnaðarskýrslur 1860.

[242] VA III, 412, bún.sk. 1850.  VA III, 417, bún.sk. 1860.

[243] VA III, 421, bún.sk. 1870.  Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Mosv.hr. 4. Hreppsbók 1849-1883.

[244] Sama hreppsbók.

[245] VA III, 424, búnaðarskýrslur 1880.

[246] Sama heimild.

[247] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Mosv.hr. 4. Hreppsbók 1849-1883.

[248] Ól. Þ. Kr. 1948, 68 (Frá ystu nesjum IV).

[249] Manntöl 1850, 1860, 1870 og 1880.

[250] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Mosv.hr. 6. Úttektabók 1835-1874.

[251] Sama heimild.

[252] Sama heimild.

[253] Sama heimild.

[254] Hsk. á Ísaf. Kassi 240. Verslunarbækur frá verslun Hjálmars Jónssonar á Flateyri. Höfuðbók nr. 5, bls. 22.

[255] Sama heimild.

[256] Sama heimild.

[257] Sama heimild.

[258] Hsk. á Ísaf.. Kassi 240. Verslunarbækur frá verslun Hjálmars Jónss. á Flateyri. Höfuðbók nr. 5, bls. 22.

[259] Hsk. á Ísaf.. Kassi 240. Verslunarbækur frá verslun Hjálmars Jónss. á Flateyri. Höfuðbók nr. 5, bls. 22.

[260] Sama heimild.

[261] Sama heimild.

[262] Sama heimild.

[263] Sama askja. Verslunarbækur frá verslun Hjálmars Jónssonar á Flateyri. Cladd, 1881.

[264] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[265] Sama heimild.  Sbr. Vestfirskar ættir I, 236-237.

[266] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[267] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Mosv.hr. 7. Úttektabók 1875-1905, bls. 33.  Sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[268] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Mosv.hr. 7. Úttektabók 1875-1905, bls. 33. Sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[269] Eyjólfur Jónsson 1967, 49.

[270] Sama heimild.

[271] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[272] Eyjólfur Jónsson 1967, 49.

[273] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.  Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Mosv.hr. 5. Hreppsbók 1883-1912.

[274] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Mosv.hr. 5. Hreppsbók 1883-1912.

[275] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Mosv.hr. 7. Úttektabók 1875-1905.

[276] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Mosv.hr. 7. Úttektabók 1875-1905.

[277] Sama heimild.

[278] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Mosv.hr. 7. Úttektabók 1875-1905.

[279] Sama heimild.

[280] Sama heimild.

[281] Sama heimild.

[282] Sama heimild.

[283] Sama heimild.

[284] Sama heimild.

[285] Eyjólfur Jónsson 1967, 49-50.

[286] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[287] Sama heimild.

[288] Sama heimild.

[289] Sama heimild.

[290] Sama heimild.

[291] Sama heimild.

[292] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[293] Sama heimild.

[294] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[295] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[296] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[297] Sama heimild.

[298] Sama heimild.

[299] Sama heimild.  Sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[300] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[301] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[302] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[303] Sama heimild.

[304] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[305] Ól. Þ. Kr. 1945, 157-158 (Frá ystu nesjum III).

[306] Sama heimild, 146-158.

[307] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[308] Sama heimild.

[309] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[310] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Mosv.hr. 4. Hreppsbók 1849-1883.

[311] Ól. Þ. Kr. /Önfirðingar.

[312] Sama heimild.

[313] Eyjólfur Jónsson 1967, 111.

[314] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.  Eyjólfur Jónsson 1967, 111.

[315] Eyjólfur Jónsson 1967, 111.

[316] Sama heimild.

[317] Sama heimild.

[318] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[319] Sama heimild.

[320] Sama heimild.  Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[321] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[322] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[323] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[324] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[325] Sama heimild.

[326] Sama heimild.  Sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[327] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[328] Sama heimild.

[329] Sama heimild.  Prestsþj.b. Holts í Önundarf.

[330] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[331] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[332] Sama heimild.

[333] Sama heimild.

[334] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[335] Jón Guðnason 1968, 226-227.

[336] Eyjólfur Jónsson 1967, 49-50.

[337] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.  Eyjólfur Jónsson 1967, 49-50.

[338] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[339] Sama heimild.

[340] Sama heimild.  Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[341] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[342] Sama heimild.

[343] Sama heimild.

[344] Sama heimild.

[345] Sama heimild.  Sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[346] Sömu heimildir.

[347] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[348] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[349] Sama heimild.

[350] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[351] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[352] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[353] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[354] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[355] Sama heimild.

[356] Sama heimild.

[357] Lbs. 22314to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 25.6.1913. Sbr. Lýður Björnsson 1992, 130 og 242

(Grunnvíkingabók II).

[358] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[359] Sama heimild.

[360] Sama heimild.

[361] Manntal 1845, vesturamt, bls. 290.  Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[362] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[363] Sama heimild.

[364] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[365] Ól. Þ. Kr. 1945, 146-161 (Frá ystu nesjum III).

[366] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[367] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[368] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[369] Sama heimild.

[370] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.  Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[371] Manntal 1901.  Sbr. Vestf. ættir II, 433.

[372] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[373] Sama heimild.

[374] Sama heimild.  Kristinn Kristmundsson og Þórleifur Bjarnason 1971, 131.

[375] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.  Manntal 1901.

[376] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[377] Manntal 1901.

[378] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[379] Gunnar M. Magnúss 1978, 81.

[380] Sami 1977, 369.

[381] Sama heimild.

[382] Sama heimild.

[383] Sama heimild.

[384] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[385] Sama heimild.

[386] Sama heimild.

[387] Sama heimild.

[388] Sama heimild.

[389] Eyjólfur Jónsson 1967, 96 (Niðjatal Sveins á Hesti).

[390] Eyjólfur Jónsson 1967, 96 (Niðjatal Sveins á Hesti).

[391] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[392] Gunnar M. Magnúss 1977, 100.  Manntal 1901 → Bær í Súgandafirði.

[393] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.  Manntal 1901.

[394] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[395] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[396] VA-J. D. nr. 430.

[397] Sama heimild.

[398] Sama heimild.

[399] Sama heimild.

[400] Sama heimild.

[401] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[402] Sama heimild.

[403] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Holts í Önundarf. og Dýrafj.þinga.

[404] Lbs. 23754to, Dagbók Sighvats Grímssonar Borgfirðings 13.3.1895.

[405] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[406] Lbs. 23754to, Dagb. S. Gr. Borgf. 13.3.1895.

[407] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[408] Sbr. Björn Jónsson 1961, 148 (Ársrit Sögufél. Ísf.).

[409] Lbs. 23744to, Dagb. S. Gr. Borgf. 22.7.1890.

[410] Sama dagbók 16.7.1890.

[411] Sama dagbók 18.4.1891.

[412] Lbs. 2375,4to  Dagbók  S.Gr.B. 16.10.1894.

[413] Manntal 1901.

[414] Sama heimild.

[415] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[416] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[417] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[418] Sama heimild.

[419] Jón Guðnason 1968, 226.

[420] Jón Guðnason 1968, 226.

[421] Séra Jón Guðnason 1955, 367.

[422] Jón Guðnason 1968, 226.  Ásgeir Jakobsson 1987, 19.  Sbr. Manntal 1845, vesturamt, bls. 209.

[423] Sömu heimildir.

[424] Lúðvík Kristjánsson 1953, 32.

[425] Sama heimild.

[426] Ísl. æviskrár V, 304-305.

[427] Jón Guðnason 1968, 227.

[428] Lbs. 22304to, Dagb. M. Hj. 7.12.1912.

[429] Sama heimild.

[430] Jón Guðnason 1968, 227.

[431] Sama heimild.

[432] Prestsþj.b. Kirkjubólsþinga í N-Ísafj.sýslu.

[433] VA-D. I, nr. 84. Réttarhald á Ísafirði 25.11.1895. Útskrift úr dómsmálabók Ísafj.sýslu.

[434] Sóknarm.tal frá Hofi á Skagaströnd 31.3.1868, viðbót aftan við sóknarmannatalið.

[435] Prestsþj.b. Staðar í Steingrímsfirði.

[436] Sama heimild.

[437] Lbs. 27364to, bls. 56-57.

[438] Sama heimild.

[439] Prestsþj.b. Staðar í Steingrímsfirði.

[440] Manntal 1870, Heydalur í Bæjarhreppi í Str.sýslu.  Manntal 1880, Unaðsdalur í Snæfj.hr. í N-Ís.

[441] Sóknarm.tal frá Hofi á Skagaströnd 31.3.1868, viðbót aftan við sóknarmannatalið.

[442] Séra Jón Guðnason 1955, 587.  Manntal 1870, Heydalur í Bæjarhr. í Str.sýslu.

[443] Prestsþj.b. Þingeyraklaustursprestakalls.

[444] Sama heimild.

[445] Sama heimild.

[446] Sóknarm.töl Þingeyraklausturspr.kalls.

[447] Sama heimild.

[448] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Þingeyraklausturspr.kalls.

[449] Sömu heimildir.

[450] Sömu heimildir.

[451] Sóknarm.tal Þingeyraklausturspr.kalls 31.12.1865.

[452] Sóknarm.tal Þingeyraklausturspr.kalls.

[453] Prestaþj.b. Þingeyraklausturspr.kalls.

[454] Sama heimild.

[455] Jarðab. Á. og P. VIII, 478-479.

[456] Martin Schuler 1995, 119.

[457] Jón Eyþórsson 1964, 70 (Árbók Ferðafél. Ísl.).

[458] Sama heimild.

[459] Sóknarm.tal frá Hofi á Skagaströnd 31.3.1868, viðbót aftan við sóknarmannatalið.

[460] Sama heimild.

[461] Sama heimild.

[462] Sama heimild.

[463] Séra Jón Guðnason 1955, 92.

[464] S. Gr. Borgf. / Prestaæfir IX, 478-485.

[465] Sóknarm.tal frá Hofi á Skagastr. 31.3.1868, viðbót aftan við sóknarmannatalið.  E. 49, 8. Prestsþj.b.

Prestsbakka og Staðar í Hrútafirði 1762-1966, fæddir sveinar, afrit séra Jóns Guðnasonar.

[466] E. 49, 8. Prestsþj.b. Prestsbakka og Staðar í Hrútafirði 1762-1966.

[467] E. 49, 8. Prestsþj.b. Prestsbakka og Staðar í Hrútafirði 1762-1966.

[468] Sama heimild.  Séra Jón Guðnason 1955, 124.  Sóknarm.töl Nesþinga á Snæfellsnesi 1923-1929.

Manntal 1920, Tröð í Fróðárhreppi.

[469] Tröllatunguætt 1991, III, 1178-1213.

[470] Sóknarm.tal Prestsbakka í Hrútafirði 31.12.1869.

[471] Björn Magnússon 1971, 303 (Vestur-Sk.fell. II).

[472] Sama heimild.

[473] Hannes Þorsteinsson / Æfir lærðra manna.

[474] Sögn Rannveigar Magnúsdóttur sem fædd var á Fossi á Síðu 1885.

[475] Hannes Þorsteinsson / Æfir lærðra manna. Lbs. 2366.4to  S. Gr. Borgf. / Prestaæfir IX, 478-485.

[476] Björn Magnússon 1971, 303.  Séra Jón Guðnason 1955, 93.

[477] Ísl. æviskrár III, 70-71.

[478] Sóknarm.töl Prestsbakka í Hrútafirði.

[479] Sama heimild.

[480] Manntal 1.10.1870.  Sóknarm.tal Prestsbakka í Hrútafirði 31.12.1870.

[481] Sama heimild.

[482] Séra Jón Guðnason 1955, 126.

[483] Jarðab. Á. og P. VII, 436-437.

[484] Sóknarm.töl Prestsbakka í Hrútaf. og Kirkjubólsþinga í N-Ísafj.sýslu 1870 og 1871.

[485] Sóknarm.töl Kirkjubólsþinga 1871, 1873 og 1875, sjá þar Rauðamýri, Kirkjuból og Lágadal.

[486] Sóknarm.töl Staðar á Snæfjöllum, sjá þar Unaðsdal 1879 og 1880 og Bæi 1881.

[487] Séra Jón Guðnason 1955, 587.

[488] Sama heimild.

[489] Prestsþj.b. Eyrar í Skutulsfirði.

[490] Sóknarm.töl Prestsbakka í Hrútafirði 1869-1873. Séra Jón Guðnason 1955, 57-60.  Jóhann Hjaltason

1952, 36 (Árbók Ferðafél. Ísl.).

[491] Sóknarm.töl Prestsbakka í Hrútafirði.

[492] Sama heimild.

[493] Jóhann Hjaltason 1952, 36 (Árbók Ferðafél. Ísl.).

[494] Séra Jón Guðnason 1955, 57.

[495] Sama heimild, 57-60.

[496] Sóknarm.töl Prestsbakka í Hrútafirði.

[497] Manntal 1870.

[498] E. 49. 8.  Prestsþj.b. Prestsbakka og Staðar í Hrútafirði, afrit séra Jóns Guðnasonar.

[499] Sóknarm.töl Prestsbakka í  Hrútafirði.

[500] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Strandasýsla XXVI. Sveitarskýrslur 1871-1878, tíundarskýrsla úr Bæjarhreppi

frá haustinu 1872.

[501] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Strandasýsla XXVI. Sveitarskýrslur 1871-1878, tíundarskýrsla úr Bæjarhreppi

frá haustinu 1872.

[502] Séra Jón Guðnason 1955, 58.  Sóknarm.töl Prestsbakka í Hrútafirði.

[503] Sóknarm.töl Prestsbakka í Hrútafirði.

[504] Sóknarm.töl Prestsbakka og Staðar í Hrútafirði 1873-1875.

[505] E.49.8. Prestsþj.b. Prestsbakka og Staðar í Hrútafirði 1762-1966, afrit séra Jóns Guðnasonar.

[506] Sóknarm.tal Prestsbakka í Hrútafirði og Óspakseyrarsóknar 31.12.1874. Sóknarm.tal Staðar í Hrútafirði

1.1.1875.

[507] VA-D 1, nr. 84. Réttarhald á Ísafirði 25.11.1895, útskrift úr dómsmálabók Ísafj.sýslu.

[508] Sama heimild.

[509] Sama heimild.

[510] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Strandasýsla XXVI, sveitarskýrslur 1871-1878. Skýrsla um ómaga Bæjarhrepps

árið 1875.

[511] E. 49. 8. Prestsþj.b. Prestsbakka og Staðar í Hrútafirði 1762-1966, afrit séra Jóns Guðnasonar.

[512] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Strandasýsla XXVI, sveitarskýrslur 1871-1878. Skýrsla um ómaga Bæjarhrepps

árið 1875.

[513] Sama heimild.

[514] E. 49. 8. Prestsþj.b. Prestsbakka og Staðar í Hrútafirði 1762-1966, afrit séra Jóns Guðnasonar.

[515] VA-D I, nr. 84. Réttarhald á Ísafirði 25.11.1895, útskrift úr dómsmálabók Ísafj.sýslu.

[516] Sóknarm.töl Staðar í Steingrímsfirði.

[517] Sama heimild.

[518] Sama heimild.

[519] Ísl. æviskrár I, 191.

[520] Prestsþj.b. Staðar í Steingrímsfirði.

[521] Sama heimild.

[522] Sama heimild.

[523] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Steingrímsfirði.

[524] Séra Jón Guðnason 1955, 367.

[525] Sóknarm.töl Kirkjubólsþinga í N-Ísafj.sýslu.

[526] Sóknarm.töl Kirkjubólsþinga og Staðar á Snæfjöllum.

[527] VA-D I, nr. 84. Réttarhald á Ísafirði 25.11.1895, útskrift úr dómsmálabók Ísafj.sýslu.

[528] Sóknarm.töl Staðar á Snæfjöllum.

[529] Sveinn Níelsson 1950, 201-202.

[530] Manntal 1880.  Sóknarm.töl Staðar á Snæfjöllum.

[531] Manntal 1880.

[532] Prestsþj.b. Kirkjubólsþinga í N-Ísafj.sýslu.

[533] VA-D I, nr. 84. Réttarhald á Ísafirði 25.11.1895, útskrift úr dómsmálabók Ísafj.sýslu.

[534] Prestsþj.b. Holts í Önundarf.

[535] VA-D I, nr. 84. Réttarhald á Ísafirði 25.11.1895, útskrift úr dómsmálabók Ísafj.sýslu.

[536] Séra Jón Guðnason 1955, 587.

[537] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[538] Sama heimild.

[539] Ásgeir Jakobsson 1987, 193.

[540] Reinald Kristjánsson / Ingivaldur Nikulásson 1936, 5-6.  Sbr. Sömu 1932, 37-62.

[541] VA-D I, nr. 84. Bréf tveggja stefnuvotta í Hólshreppi 10.2.1896 til sýslumannsins í Ísafj.sýslu.

[542] Jón Guðnason 1968, 227.

[543] Ásgeir Jakobsson 1987, 199.

[544] Jón Guðnason 1968, 148.

[545] Sama heimild.

[546] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[547] Jón Guðnason 1968, 148.

[548] Sama heimild.  Þjóðviljinn 13.5.1889.

[549] Þjóðviljinn 13.5.1889.

[550] Sama heimild.

[551] Sama heimild.

[552] Sama heimild.

[553] Jón Guðnason 1968, 148.

[554] Jón Guðnason 1968, 143-144.

[555] Sama heimild.

[556] Sama heimild.

[557] Sama heimild.

[558] Sama heimild.

[559] Sama heimild, 144.

[560] Sama heimild.

[561] Sama heimild.

[562] Sama heimild.

[563] Sama heimild.

[564] Sama heimild.

[565] Ásgeir Jakobsson 1987, 155.

[566] Jón Guðnason 1968, 144.

[567] Jón Guðnason 1968, 144.

[568] Ásgeir Jakobsson 1987, 155.

[569] Sama heimild.

[570] Jón Guðnason 1968, 144-145.

[571] Halldór Guðmundsson / Vestfirskar sagnir III, 211.  Jón Guðnason 1968, 145.

[572] Jón Guðnason 1968, 145.

[573] Sama heimild.

[574] Sama heimild.

[575] Sama heimild, 146.

[576] Jón Guðnason 1968, 146.

[577] Sama heimild.

[578] Sama heimild.

[579] Sama heimild.

[580] Sama heimild.

[581] Sama heimild.

[582] Sama heimild, 147.

[583] Sama heimild., 146.

[584] Sama heimild, 147.

[585] Sama heimild.  Ásgeir Jakobsson 1987, 129, 132 og 135.

[586] Jón Guðnason 1968, 147.

[587] Ásgeir Jakobsson 1987, 131 og 134.

[588] Jón Guðnason 1968, 147.

[589] Sama heimild, 147-148.

[590] Sama heimild.

[591] Sama heimild.

[592] Jón Guðnason 1968, 147-148.

[593] Sama heimild.

[594] Sama heimild.

[595] Sama heimild, 148-149.

[596] Sama heimild.

[597] Sama heimild.

[598] Sama heimild, 158.  Ásgeir Jakobsson 1987, 160-163.

[599] Sömu heimildir.

[600] Jón Guðnason 1968, 149.

[601] Sama heimild.

[602] Sama heimild, 149-150.

[603] Sama heimild.

[604] Sama heimild, 150.

[605] Sama heimild.

[606] Sama heimild.

[607] Sama heimild.

[608] Jón Guðnason 1968, 150.

[609] Sama heimild.

[610] Sama heimild.

[611] Sama heimild.

[612] Sama heimild.

[613] Sama heimild, 151.

[614] Sama heimild.

[615] Sama heimild.

[616] Sama heimild.

[617] Sama heimild.

[618] Sama heimild, 147.

[619] Sama heimild.

[620] Sama heimild.

[621] Sama heimild, 152.

[622] Ásgeir Jakobsson 1987, 139.

[623] Sama heimild, 70-73.

[624] Jón Guðnason 1968, 152.

[625] Sama heimild.  Ásgeir Jakobsson 1987, 152-153.

[626] Jón Guðnason 1968, 152.

[627] Sama heimild.

[628] Sama heimild, 151.

[629] Sama heimild.

[630] Sama heimild.

[631] Sama heimild.

[632] Sama heimild, 154.

[633] Sama heimild, 153.

[634] Sama heimild.

[635] Sama heimild.

[636] Sama heimild.

[637] Sama heimild.

[638] Ísl. æviskrár II, 273.

[639] Jón Guðnason 1968, 153.

[640] Sama heimild, 154.

[641] Sama heimild.

[642] Sama heimild.

[643] Sama heimild.

[644] Sama heimild.

[645] Sama heimild, 154-155.

[646] Ásgeir Jakobsson 1987, 52-57.

[647] Sama heimild.

[648] Sama heimild.

[649] Ásgeir Jakobsson 1987, 57-58.

[650] Jón Guðnason 1968, 157.

[651] Sama heimild, 156.

[652] Sama heimild.

[653] Sama heimild, 223.

[654] Sama heimild.

[655] Sama heimild, 157.

[656] Sama heimild.

[657] Sama heimild.

[658] Sama heimild, 158-159.

[659] Jón Guðnason 1968, 157.

[660] Sama heimild , 154.

[661] Sama heimild.

[662] Sama heimild. 159.

[663] Sama heimild.

[664] Sama heimild, 160.

[665] Sama heimild.

[666] Sama heimild.

[667] Sama heimild, 160-165.

[668] Sama heimild.

[669] Sama heimild.

[670] Jón Guðnason 1968, 160-165.

[671] Sama heimild, 163.

[672] Sama heimild, 165.

[673] Sama heimild, 165. Sbr. þar bls. 224-225.

[674] Sama heimild, 165.

[675] Sama heimild.

[676] Sama heimild.

[677] Jón Guðnason 1968, 165.

[678] Ásgeir Jakobsson 1987, 193.

[679] Lbs. 22364to, bls. 9.

[680] Sama heimild.

[681] Jón Guðnason 1968, 223-224.

[682] Ásgeir Jakobsson 1987, 167-168.

[683] Jón Guðnason 1968, 145-146.

[684] Ásgeir Jakobsson 1987, 139-140.

[685] Sama heimild.

[686] Jón Guðnason 1968, 222-223.

[687] VA-D I, nr. 84. Útskrift úr dómsmálabók Ísafj.sýslu, réttarhald á Flateyri 14.10.1895.

[688] Sama heimild.

[689] Sama heimild.

[690] Sama heimild.

[691] Sama heimild.

[692] Sama heimild.

[693] Ásgeir Jakobsson 1987, 225.

[694] Sigurður Briem 1944, 132-133.

[695] VA-D I, nr. 84. Útskrift úr dómsmálabók Ísafj.sýslu, réttarhald á Flateyri 14.10.1895 og á Ísafirði

13.1. og 31.1.1896.

[696] Sama heimild.

[697] Sama heimild.

[698] Sama heimild.

[699] VA-D I, nr. 84. Útskrift úr dómsmálabók Ísafj.sýslu, réttarhald á Flateyri 14.10.1895 og á Ísafirði

13.1. og 31.1.1896.

[700] VA-D I, nr. 84. Útskrift úr dómsmálabók Ísafj.sýslu, réttarhald á Ísafirði 6.12.1896.

[701] Sama askja. Útskrift úr dómsmálabók Ísafj.sýslu frá réttarhöldum á Ísafirði 25.11. og 6.12.1895 og

13.1. og 31.1.1896.

[702] Sama heimild.

[703] Sama heimild.

[704] Sama heimild.

[705] Ásgeir Jakobsson 1987, 199-202.

[706] VA-D I, nr. 84. Útskrift úr dómsmálabók Ísafj.sýslu, dómur 31.1.1896.

[707] Sama askja, bréf landshöfðingja 10.4. og 6.5.1897 til amtmannsins í vesturamti.

[708] Sama askja. Útskrift úr dómsmálabók Ísafj.sýslu, dómur 31.1.1896.

[709] Stjórnartíðindi 1897 B, bls. 41-42.

[710] VA-D I, nr. 84. Yfirlýsing tveggja stefnuvotta í Hólshreppi, dagsett 10.2.1896.

[711] Sama heimild.

[712] Sama askja. Stefna amtmanns, Júlíusar Havsteen, dagsett 4.4.1896.

[713] Sama askja. Yfirlýsing tveggja stefnuvotta í Mosvallahreppi dagsett 5.6.1896.  Skj.s. landsyfirréttar,

askja nr. 148. Dómsskjöl í málinu nr. 37/1896 og bréf Hannesar Hafstein, sýslumanns á Ísafirði, 17.9.1896 til Júlíusar Havsteen amtmanns.

[714] Sama bréf Hannesar Hafstein 17.9.1896.

[715] Skj.s. landsyfirréttar, askja nr. 148. Dómsskjöl í málinu nr. 37/1896.

[716] Sama heimild.

[717] Sama heimild.

[718] Skj.s. landsyfirréttar, askja nr. 148. Dómsskjöl í málinu nr. 37/1896.

[719] Landsyfirréttar- og hæstaréttardómar í íslenskum málum. V. bindi, bls. 358-359.

[720] Sama heimild.

[721] Reinald Kristjánsson / Ingivaldur Nikulásson 1936, 19-20.

[722] Sama heimild.

[723] Reinald Kristjánsson / Ingivaldur Nikulásson 1936, 19-20.

[724] Reinald Kristjánsson / Ingivaldur Nikulásson 1936, 19-20.

[725] Sama heimild.

[726] Sama heimild.

[727] Sama heimild.

[728] Kristján Jónsson frá Garðsstöðum 1945, 88 (Frá ystu nesjum III).

[729] Sami 1948, 163 (Frá ystu nesjum IV).

[730] Óskar Jónsson 1956, 33-35 (Á sævarslóðum og landaleiðum).  Sbr. Gunnar M. Magnúss 1977, 292-294.

[731] Sama heimild.

[732] Sbr. Ásgeir Jakobsson 1987, 193.

[733] Jón Guðnason 1968, 228.  Ásgeir Jakobsson 1987, 217-219.

[734] Jón Guðnason 1968, 227.

[735] Jón Guðnason 1968, 228.  Ásgeir Jakobsson 1987, 217-219.

[736] Prestsþj.b. Holts í Önundarf.

[737] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[738] Jón Guðnason 1968, 227.

[739] Prestaþj.b. Holts í Önundarf.

[740] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[741] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Mosv.hr. 7. Úttektabók 1875-1905, bls. 142.

[742] Sama heimild.

[743] Sama heimild.

[744] Stjórnartíðindi 1895 B, bls. 29-30.

[745] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Mosv.hr. 7. Úttektabók 1875-1905, bls. 144.

[746] Sama heimild.

[747] Eyjólfur Jónsson 1967, 49-50.  Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[748] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Mosv.hr. 7. Úttektabók 1875-1905, bls. 144.

[749] Jón Guðnason 1968, 227.

[750] Sama heimild.

[751] Ásgeir Jakobsson 1987, 198.

[752] Sama heimild.

[753] Sama heimild.

[754] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Mosv.hr. 7. Úttektabók 1875-1905, bls. 125.

[755] Sama heimild.

[756] Sama heimild.

[757] Sama heimild.

[758] Sama heimild.

[759] Sama heimild.

[760] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[761] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[762] Sama heimild.

[763] Prestsþj.b. Eyrar í Skutulsfirði, fæddir sveinar 1899.

[764] Sóknarm.töl Eyrar í Skutulsfirði.

[765] Sama heimild.

[766] Jarðab. Á. og P. VII, 160.

[767] Jón Þ. Þór 1988, 225-227.

[768] Jón Guðnason 1968, 228.  Manntal 1901.

[769] Óskar Einarsson 1951, 50.  Gunnlaugur Finnsson. – Viðtal K.Ó. við hann 3.7.1995.

[770] Óskar Ein. 1951, 78-79.

[771] Sama heimild.

[772] Gunnlaugur Finnsson. – Viðtal K.Ó. við hann 3.7.1995.

[773] Óskar Ein. 1951, 79.

[774] Sama heimild.  Gunnlaugur Finnsson. – Viðtal K.Ó. við hann 5.7.1995.

[775] Jarðab. Á. og P. VII, 126.

[776] Óskar Ein. 1961, 78-79.

[777] Sama heimild.

[778] Sama heimild.

[779] Óskar Ein. 1951, 78-79.

[780] Óskar Ein. 1951, 78-79.

[781] Sama heimild.

[782] Sama heimild.

[783] Sama heimild.

[784] Sama heimild.

[785] Sama heimild.

[786] Kristján G. Þorvaldsson 1951, 66 (Árbók F.Í.).

[787] Óskar Ein. 1951, 78.

[788] Sama heimild, 65.

[789] Jarðab. Á. og P. VII, 126.

[790] Lbs. án safnnr. Gögn úr fórum Jóns Guðmundssonar, búfræðings á Veðrará. Dagbók hans 6.3.1889.

[791] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.  Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[792] Óskar Ein. 1951, 78-79.  Halldór Guðmundsson / Vestf. sagnir III, 211.  Vestf. þjóðsögur III. 1, 58.

[793] Vestf. þjóðsögur III. 1, 58.

[794] Óskar Ein. 1951, 78-79.

[795] Sama heimild.

[796] Sbr. Óskar Ein. 1951, 51.

[797] Óskar Ein. 1951, 78.

[798] Halldór Guðmundsson / Vestf. sagnir III, 211.

[799] Óskar Ein. 1951, 50.  Kristján G. Þorvaldsson 1951, 64.

[800] Vestf. þjóðsögur III. 1., 35-36.

[801] Sama heimild.

[802] Sama heimild.

[803] Sama heimild.

[804] Sama heimild.

[805] Vestf. þjóðsögur III. 1., bls. 35-36.

[806] Óskar Ein. 1951, 50.  Kristján G. Þorvaldsson 1951, 64.

[807] Óskar Ein. 1951, 50.

[808] Gunnlaugur Finnsson. – Viðtal K.Ó. við hann 4.7.1995.

[809] Sama heimild.

[810] Lbs. 27364to, bls. 137-139 (Magnús Hjaltason).

[811] Sama heimild.

[812] Manntöl 1840 og 1845.  Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[813] Lbs. 27364to, bls. 137-139.

[814] Sama heimild.

[815] Óskar Ein. 1951, 78.

[816] Sama heimild.

[817] Jarðab. Á. og P. VII, 126.

[818] Jarðab. Á. og P. VII, 126.

[819] Sama heimild.

[820] Sama heimild.

[821] Ólafur Olavius 1964  I, 178.

[822] Sóknalýsingar Vestfjarða II, 105.

[823] Óskar Ein. 1951, 78.

[824] Snorri Sigfússon 1969 II, 56. Gunnlaugur Finnsson. – Viðtal K.Ó. við hann 5.7.1995. Sbr. Halldór

Guðmundsson / Vestf. þjóðsögur III. 1, 59.

[825] Halldór Guðmundsson / Vestf. þjóðsögur III. 1, 59.

[826] Theodór Gunnlaugsson / Guðmundur Einarsson 1960, 82-83.

[827] Sama heimild.

[828] Óskar Ein. 1951, 78.

[829] Sama heimild.

[830] Sama heimild.

[831] Sama heimild.

[832] Sama heimild.

[833] Sama heimild.

[834] Sama heimild.

[835] Gunnlaugur Finnsson. – Viðtal K.Ó. við hann 5.7.1995.

[836] Óskar Ein. 1951, 78.

[837] Sama heimild.

[838] Sama heimild.

[839] Sama heimild.

[840] Óskar Ein. 1951, 78.

[841] Jarðab. Á. og P. VII, 126.

[842] Sama heimild.

[843] Ársrit Sögufél. Ísf. 1986, 97-98.  H. Kr. 1987, 64 (Ársrit S.Í.).  Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. B. 2. Verslunarskýrslur 1850-1878, skipaskýrsla úr Mosv.hr. frá árinu 1857.  Lbs. 25604to,   Formannaríma Magnúsar Hjaltasonar, ort á Kálfeyri 21.6.1897.

[844] Jarðab. Á. og P. VII, 126.

[845] Sama heimild.

[846] Sóknalýs. Vestfj. II, 104.

[847] D.I. V, 579-580.

[848] Sama heimild.

[849] Jarðab. Á. og P. VII, 96.

[850] Óskar Ein. 1951, 77-78.

[851] D.I. XII, 296.

[852] Jarðab. Á. og P. VII, 96.

[853] Ól. Olavius 1964 I, 185.

[854] Gunnlaugur Finnsson. – Viðtal K.Ó. við hann 5.7.1995.

[855] Annálar IV, 87-88.

[856] Jarðab. Á. og P. VII, 126.

[857] Gísli Gunnarsson 1987, 28.

[858] Jón J. Aðils 1971, 368.

[859] Sama heimild, 393.

[860] Gísli Gunnarsson 1987, 258.  Jón J. Aðils 1971, 418-420.

[861] Rtk. Jarðabækur V. 16. Ísafj.sýsla 1805.

[862] Hsk á Ísafirði, kassi 240 (aðfanganúmer 1052 ).Skiptabók 1881-1886 frá verslun Hjálmars Jónssonar á Flateyri.

[863] Stjórnartíðindi 1882 B, bls. 32-33.

[864] Rtk. Jarðabækur V. 16. Ísafj.sýsla 1805.

[865] Sóknalýs. Vestfj. II, 105.

[866] Guðm. Á. Eiríksson 1957, 66.

[867] Lbs. 45824to, Dagbók Jóns Guðmundssonar frá Grafargili 10.4.1889.

[868] Sama dagbók 10.4.1894.

[869] Lbs. 45824to, Dagbók Jóns Guðmundssonar frá Grafargili 13.4.1890.

[870] Sama dagbók 28. júní 1890 og 9.7.1888.

[871] Sama dagbók 4.7.1895.

[872] Gunnar M. Magnúss 1978, 101-104.

[873] Lbs. 45824to, Dagbók Jóns Guðmundssonar frá Grafargili vorið 1887.

[874] Halldór Kristjánsson 1987, 64-65 (Ársrit S.Í.).

[875] Halldór Kristjánsson 1987, 64-65 (Ársrit S.Í.).

[876] Prestsþj.b. Holts í Önundarf.

[877] Sama heimild.  Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[878] Lbs. án safnnr. Gögn úr fórum Hjálmars Jónssonar, kaupmanns. Annálar Hjálmars 1869-1885, ár 1871.

[879] Sbr. Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[880] Prestsþj.b. Holts í Önundarf.  Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.  Eyjólfur Jónsson 1967, 111 (Niðjatal Sveins á Hesti).

[881] Prestsþj.b. Holts í Önundarf.  Eyjólfur Jónsson 1967, 111.

[882] Prestsþj.b. Holts í Önundarf.

[883] Ársrit Sögufél. Ísf. 1986, 97-98.

[884] Sama heimild.

[885] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Mosv.hr. 4. Hreppsbók 1849-1883.

[886] Halldór Kristjánsson 1987, 65 (Ársrit S.Í.).

[887] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Mosv.hr. 4. Hreppsbók 1849-1883.

[888] Sama skj.safn  Ís. XX. B. 2. Verslunarskýrslur 1850-1878. Skipaskýrsla Kristjáns Vigfússonar, hreppstjóra í Breiðadal, dags. 1.10.1857.

[889] Sama skj.safn Ís. Mosv.hr. 5. Hreppsbók 1883-1912, bls. 54.

[890] Sama heimild.

[891] Lbs. 22174to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 25.4.1897.

[892] Lbs. 25604to, Formannaríma Magnúsar Hjaltasonar, kveðin á Kálfeyri í júní 1897.

[893] Ársrit Sögufél. Ísf. 1986, 97-98.  Lbs. 22174to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 25.4.1897.

[894] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. B. 2. Verslunarskýrslur 1850-1878, skipaskýrsla úr Mosvallahreppi,

undirrituð 1.10.1857 af Kristjáni Vigfússyni, hreppstjóra í Neðri-Breiðadal.

[895] Bjarni Sæmundsson / Andvari 1903, 101-102.

[896] Sama heimild.

[897] Sama heimild.

[898] Guðmundur Ingi Kristjánsson / Jólablað Ísfirðings 1981.

[899] Guðmundur Ingi Kristjánsson / Jólablað Ísfirðings 1981.

[900] Halldór Kristjánsson 1990, 42-48 (Í dvalarheimi … .).

[901] Sama heimild.

[902] Sama heimild.

[903] Sbr. Lúðvík Kristjánsson 1982, 104-105.

[904] Sbr. Guðm. I. Kristjánsson /Jólablað Ísfirðings 1981.

[905] Lúðvík Kristjánsson 1982, 422-423.

[906] Sama heimild.

[907] Sama heimild.

[908] Sama heimild.

[909] Sama heimild.

[910] Sama heimild.

[911] Sama heimild.

[912] Sama heimild.

[913] Sama heimild.

[914] Sama heimild.

[915] Lúðvík Kristjánsson 1982, 422-423.

[916] Guðm. I. Kristjánsson / Jólablað Ísfirðings 1981.

[917] Sama heimild.

[918] Guðm. Á. Eiríksson 1957, 64-71 (Ársrit S.Í.).

[919] Sama heimild.

[920] Guðm. I. Kristjánsson / Jólablað Ísfirðings 1981.

[921] Sama heimild.

[922] Guðm. I. Kristjánsson / Jólablað Ísfirðings 1981.

[923] Sama heimild.

[924] Guðm. Á. Eiríksson 1957, 67.

[925] Sama heimild.

[926] Sama heimild, 69-70.

[927] Guðm. Á. Eiríksson 1957, 67.

[928] Skútuöldin II, 249-251.

[929] Óskar Ein. 1951, 24.

[930] Guðm. I. Kristjánsson / Jólablað Ísfirðings 1981.

[931] Sama heimild.

[932] Sama heimild.

[933] Sama heimild.

[934] Sóknalýs. Vestfj. II, 104-105. Sbr. hér bls. 97.

[935] Lbs. 45824to, Dagbók Jóns Guðmundssonar frá Grafargili 21.4. og 19.5.1888.

[936] Bjarni Sæmundsson / Andvari 1903, 101.

[937] Lbs. 45824to, Dagbók Jóns Guðmundssonar frá Grafargili 9.5. og 19.5.1888.

[938] Sama dagbók 22.2.1896.

[939] Ól. Olavius 1964 , 189.

[940] Sama heimild.

[941] Sóknalýs. Vestfj. II, 104-105.

[942] Sama heimild.

[943] Sama heimild.

[944] Sama heimild.

[945] Landshagsskýrslur fyrir Ísland 1901, 382.

[946] Landshagsskýrslur fyrir Ísland 1901, 382.

[947] Lúðvík Kristjánsson 1982, 111-112.

[948] Lbs. 45824to, Dagbók Jóns Guðmundssonar frá Grafargili 5.7.1884.

[949] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Mosv.hr. 4. Hreppsbók 1849-1883 og 5. Hreppsbók 1883-1912.

Skj.s. landshöfð. Séröskjur nr. 24, skýrslur um þilskip, opin skip og báta 1875-1899.

[950] Sömu heimildir.

[951] Sömu heimildir.

[952] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Mosv.hr. 4. Hreppsbók 1849-1883 og 5. Hreppsbók 1883-1912.

Skj.s. landshöfð. Séröskjur nr. 24, skýrslur um þilskip, opin skip og báta 1875-1899.

[953] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Mosv.hr. 4. Hreppsbók 1849-1883 og 5. Hreppsbók 1883-1912.

Skj.s. landshöfð. Séröskjur nr. 24, skýrslur um þilskip, opin skip og báta 1875-1899.

[954] Sömu heimildir.

[955] Skj.s. landshöfð. Séröskjur I. Fiskaflaskýrslur 1897.

[956] Sama heimild.

[957] Sama heimild.

[958] Sama heimild.

[959] Lbs. 22174to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 25.4.1897.

[960] Sama heimild.

[961] Lbs. 25604to, Formannaríma ort á Kálfeyri 21.6.1897.

[962] Lbs. 22364to, bls. 118-119.

[963] Skj.s. landshöfð. Séröskjur I. Fiskaflaskýrslur 1897.

[964] Lbs. 22174to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 30.4.1897.

[965] Lbs. 45824to, Dagbók Jóns Guðm.sonar frá Grafargili 29.8.1893.  Sbr. Stjórnartíðindi 1894 B, bls. 37-38.

[966] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Mosv.hr. 5. Hreppsbók 1883-1912.

[967] Sama heimild.

[968] Sama heimild.

[969] Sama heimild.

[970] Sama heimild.

[971] Lbs. 22174to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar apríl – júlí 1897.

[972] Lbs. 22174to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar apríl – júlí 1897.

[973] Sama dagbók 18.4.1897.

[974] Sama heimild.

[975] Sama heimild.

[976] Sama heimild.

[977] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[978] Lbs. 22174to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 21.4.1897.

[979] Sama dagbók 13.5.1897.  Sbr. þar 26.4. og 29.4.1897.

[980] Sama dagbók 25.4.1897.  Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[981] Sama dagbók.

[982] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[983] Lbs. 22174to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 26.4.1897.

[984] Lbs. 22174to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 26.4., 27.4. og 30.6.1897.

[985] Sama dagbók 27.4. og 30.6.1897.

[986] Sama dagbók 27.4. – 30.4.1897.

[987] Sama heimild.

[988] Sama dagbók apríl – júlí 1897.

[989] Sama dagbók 12.6.1897.

[990] Sama heimild.

[991] Sama dagbók apríl – júní 1897.

[992] Sama heimild.

[993] Sama dagbók 1.5.1897.

[994] Sama heimild.

[995] Sama dagbók 30.5.1897.

[996] Sama dagbók 28.6.1897.

[997] Sama dagbók 30.5.1897.

[998] Lbs. 22174to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 30.5. 1897.

[999] Sama dagbók 6.6.1897.

[1000] Lbs. 22174to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar apríl – júlí 1897.

[1001] Sama dagbók 26.6.1897.

[1002] Sama heimild.

[1003] Sama dagbók 19.6.1897.

[1004] Sama dagbók 30.4.1897.

[1005] Sama heimild.

[1006] Sama heimild.

[1007] Halldór Kristjánsson 1990, 42-43 (Í dvalarheimi … .).

[1008] Lbs. 22174to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 5.7.1897.

[1009] Skj.s. landshöfð. Séröskjur nr. I, II og III. Fiskaflaskýrslur 1897-1899.

[1010] Sama heimild.

[1011] Sama heimild.  Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Mosv.hr. 5. Hreppsbók 1883-1912.

[1012] Sömu heimildir.

[1013] Skj.s. landshöfð. Séröskjur nr. I, II og III. Fiskaflaskýrslur 1897-1899.  Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Mosv.hr. 5. Hreppsbók 1883-1912.

[1014] Skj.s. landshöfð. Séröskjur nr. I, II og III. Fiskaflaskýrslur 1897-1899.  Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís.

Mosv.hr. 5. Hreppsbók 1883-1912.

[1015] Sömu heimildir.

[1016] Skj.s. landshöfð. Séröskjur III. Fiskaflaskýrslur 1899.

[1017] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Mosv.hr. 5. Hreppsbók 1883-1912.

[1018] Landshagsskýrslur fyrir Ísland 1901, bls. 390-391 og 1902, bls. 196-197.

[1019] Bjarni Sæmundsson / Andvari 1903, 101-102.

[1020] Stjórnartíðindi 1898 C, 290-291.  Landshagssk. f. Ísland 1899, 304-305, 1900, 264-265, 1901, 390-391,

1902, 196-197.

[1021] Skj.s. landshöfð. Séröskjur III. Fiskaflaskýrslur 1899, sbr. hér bls. 108.

[1022] Eggert Ólafsson 1975, 200 og 268.  Lúðvík Kristjánsson 1985, 188-189.

[1023] Lúðvík Kristjánsson 1983, 314.

[1024] Sama heimild.

[1025] Sama heimild.

[1026] Sbr. Guðm. I. Kristjánsson / Jólablað Ísfirðings 1981.

[1027] Prestsþj.b. Holts í Önundarf.

[1028] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[1029] Annálar III, 175.

[1030] Annálar III, 175.

[1031] Annálar V, 412.  Sbr. Annálar VI, 264.

[1032] Lbs. 45824to, Dagbók Jóns Guðmundssonar frá Grafargili 20.4.1888.

[1033] Lúðvík Kristjánsson 1983, 215-216.

[1034] Sama heimild.

[1035] Sama heimild.

[1036] Lúðvík Kristjánsson 1983, 215-216.

[1037] Sama heimild, 220.

[1038] Halldór Kristjánsson 1990, 44 (Í dvalarheimi … .).

[1039] Lúðvík Kristjánsson 1985, 388.

[1040] Halldór Kristjánsson 1990, 44.

[1041] Óskar Ein. 1951, 78.  Halldór Guðmundsson / Vestf. sagnir III, 211.

[1042] Gunnlaugur Finnsson. – Viðtal K.Ó. við hann 5.7.1995.

[1043] Óskar Ein. 1951, 77-78.

[1044] Sama heimild.  Halldór Guðmundsson / Vestf. sagnir III, 212.

[1045] Snorri Sigfússon 1969 II, 29.  Prestsþj.b. Holts í Önundarf.

[1046] Prestsþj.b. Holts í Önundarf.

[1047] Prestsþj.b. Holts í Önundarf.

[1048] Sama heimild.

[1049] Sama heimild.

[1050] Sama heimild.  Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[1051] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[1052] Sama heimild.  Halldór Kristjánsson 1994, 132.  Sbr. Sami 1990, 42-43 (Í dvalarheimi … .).

[1053] Gunnlaugur Finnsson. – Viðtal K.Ó. við hann 5.7.1995.

[1054] Sama heimild.

[1055] Sama heimild.

[1056] Sama heimild.

[1057] Sama heimild.

[1058] Sama heimild.

[1059] Sama heimild.

[1060] Gunnlaugur Finnsson. – Viðtal K.Ó. við hann 5.7.1995.

[1061] Sama heimild.

[1062] Sama heimild.

[1063] Kristján G. Þorvaldsson 1951, 63 (Árbók F.Í.).

[1064] Gunnlaugur Finnsson. – Viðtal K.Ó. við hann 5.7.1995.

[1065] Sama heimild.

[1066] Sama heimild.

[1067] Óskar Ein. 1951, 78.

[1068] Jarðab. Á. og P. VII, 96.

[1069] Kristján G. Þorvaldsson 1951, 63 (Árbók F.Í.).

[1070] Sama heimild.

[1071] Sama heimild.

[1072] Óskar Ein. 1951, 77.

[1073] Gunnlaugur Finnsson. – Viðtal K.Ó. við hann 5.7.1995.

[1074] Óskar Ein. 1951, 77.

[1075] Óskar Ein. 1951, 77.

[1076] Ól. Olavius 1964 I, 178.

[1077] Sóknalýs. Vestfj. II, 105.

[1078] Jarðab. Á. og P. VII, 127.

[1079] Sama heimild.

[1080] Snorri Sigfússon 1969 II, 55-58.

[1081] Sama heimild.

[1082] Sama heimild.

[1083] Sama heimild.

[1084] Sama heimild.

[1085] Sama heimild.

[1086] Sama heimild, 67.

[1087] Halldór Guðmundsson / Vestf. sagnir III, 211-214.  Sami / Vestf. þjóðsögur III, 1, 58-64.

[1088] Sömu heimildir.

[1089] Sömu heimildir.

[1090] Sömu heimildir.

[1091] Sömu heimildir.

[1092] Óskar Ein. 1951, 77.

[1093] Sama heimild.

[1094] Sama heimild.

[1095] Sama heimild.

[1096] Sama heimild.

[1097] Sama heimild.

[1098] Óskar Ein. 1951, 77.

[1099] Sama heimild.

[1100] Óskar Ein. 1951, 77.

[1101] Þorvaldur H. Þórðarson. – Viðtal K.Ó. við hann 26.6.1996.

[1102] Sama heimild.

[1103] Sama heimild.

[1104] Sama heimild.

[1105] Gunnlaugur Finnsson. – Viðtal K.Ó. við hann 30.6.1996.

[1106] Óskar Ein. 1951, 77.

[1107] Sama heimild.

[1108] Sama heimild.

[1109] Sama heimild.

[1110] Sama heimild, 74 og 77.

[1111] Kristján G. Þorvaldsson 1951, 60-62 (Árbók F.Í.).  Óskar Ein. 1951, 77.

[1112] Bps. A. II, 6. Vísitazíubók Brynjólfs biskups Sveinssonar. Staður í Súgandafirði 15.8.1639.

[1113] Bps. A. II, 11. Vísitazíubók Þórðar biskups Þorlákssonar 1675-1695 B. Staður í Súgandafirði 9.9.1689.

[1114] Sóknalýs. Vestfj. II, 111.

[1115] Sama heimild, 97.

[1116] Kirknaskjöl XVII. Lýsing á landamerkjum Staðar í Súgandaf., dags. 6.6.1891, þinglýst 13.2.1892.

[1117] D.I. II, 575.

[1118] Lbs. 27364to, bls. 113-115 (Magnús Hjaltason).

1000-1900

Guðmundur Justsson

Á fyrri hluta 20. aldar var Guðmundur Justsson, sem fæddist á Gemlufalli haustið 1841,[1] einna kunnastur þeirra sem búið höfðu á Dröngum, a.m.k. utan Dýrafjarðar,

LESA MEIRA »
1000-1900

Krossadalur

Í Krossadal var löngum tvíbýli á fyrri tíð, Hærri- og Lægri- (eða Neðri-) Krossdalur, og voru þetta ystu bæir við Tálknafjörð. Stundum var reyndar þríbýli

LESA MEIRA »
1000-1900

Arnarstapi

Arnarstapi og Krossadalur voru tvær ystu jarðirnar á norðurströnd Tálknafjarðar og hafa nú báðar verið í eyði frá því um 1940.[1] Frá verbúðatóttunum í Arnarstapavík

LESA MEIRA »